[ Mér finnst það vera fólskugys að fara niður til helvítis og eyða aldri sínum innan um brennu illan geim ólíkan drottins sólarheim, svo hrollir huga mínum. Skötubarðvængjuð fjandafjöld flaksast þar gegnum eilíft kvöld, glórir í glóðir rauðar, þar er ei nema eldur og ís, allt í helvíti brennur og frýs, Satan og sálir dauðar. ] [ fátt er auðveldara en að raða orðum á blað rjúfa flæði textans stöku sinnum með línubilum sem auka svigrúmið fyrir tilgerðina og persónulegar tilfinningar skáldsins sem það deilir með öðrum af knýjandi innri þörf best er að spara við sig orðin (ekki segja kúkur) og uppröðun þeirra æskilegt er að rugla minnst einu sinni (sjá tilgerð) gott er að beita knöppum myndum sem hafa víða skírskotun yrkisefnin skulu vera hafin yfir tíma að lokum skulu orðin hnýtt saman í spurn því ljóð geyma engin svör og allt skal svo pakkast utan með titli en ef enginn vill lesa ef engum finnst gaman er það bara betra og staðfestir dýpt ljóðsins sem stendur í beinu línulegu samhengi við dýptina á nafla skáldsins ] [ (ferja) himinninn vekur mig með höggi milli augnanna * himinninn vekur mig enginn máni engar stjörnur vísa mér veginn hálfopnar dyr nálgast mig * himinninn vekur mig á ferjunni hún snýr í hafnarmynninu skugginn af höfði mínu fer um salinn andlit af andliti uns stefnan er tekin suður að hann staðnæmist á manninum andspænis mér og við siglum aftur á bak til borgarinnar frá borginni * himinninn vakti mig um kvöld á þilfarinu fjöllin voru gegnsæ og hafið slétt ekki eins og núna (og farþegi) ] [ Gagntekinn, hrifinn, utan við mig enn af æsku þinnar fyrstu munarkossum ég finn í hjarta ást og ótta senn slá undarlega saman heitum blossum. Þú ert svo björt, svo ung og blíð og góð, önd þín er gljúp, sem mjúk er höndin ljúfa. En ég á dökkt og órótt ólgublóð, og ungur sló ég sigg á mína hnúa. Það stingur mig í hjartað eins og ör: Felst, ef til vill, í bylgjum sálar minnar eitthvað, sem kynni að setja fingraför á fagurhreinan spegil sálar þinnar? ] [ Vei, vei, yfir hinni föllnu borg! Hvar eru þín stræti, þínir turnar, og ljóshafið, yndi næturinnar? Eins og kórall í djúpum sjó varst þú undir bláum himninum, eins og sylgja úr drifnu silfri hvíldir þú á brjóstum jarðarinnar. Vei, vei! Í dimmum brunnum vaka eitursnákar, og nóttin aumkvast yfir þínum rústum. Jóreykur lífsins þyrlast til himna, menn í aktygjum, vitstola konur í gylltum kerrum. - Gefið mér salt að eta, svo tungan skorpni í mínum munni og minn harmur þagni. Á hvítum hestum hleyptum við upp á bláan himinbogann og lékum að gylltum knöttum; við héngum í faxi myrkursins, þegar það steyptist í gegnum undirdjúpin; eins og tunglsgeislar sváfum við á bylgjum hafsins. Hvar eru þau fjöll, sem hrynja yfir mína sorg, hálsar, sem skýla minni nekt með dufti? Í svartnætti eilífðarinnar flýgur rauður dreki og spýr eitri. Sól eftir sól hrynja í dropatali og fæða nýtt líf og nýja sorg. ] [ Í dag syngur hrafninn válegan söng og blóðugur rekís í fjöruborðinu vitnar um helstríð Í dag var tekin gröf í klöppina með dínamíti Í dag koma margir með glamrandi poka úr kaupfélaginu Í dag verður mikill veiðimaður grafinn ] [ Af öllu bláu, brúður kær! hið bezta þér í augum hlær; svo blár er himinbláminn ei, svo blátt er ekkert gleym-mér-ei. Hvað gaf þeim blíðu-bláma þann, sem bindur, töfrar sérhvern mann? Þín elskan hlýja, hreinust sál og hjarta, sem ei þekkir tál. ] [ Orðið garður hleraði ég úr munni nágranna míns eitt síðdegið við opinn stofugluggann. Vafalaust átti hann við baklóðina hjá sér: grýtta blettinn með öskutunnunum sem ég ímynda mér alltaf að sé samskonar landslag og hann klöngrast yfir á hverjum degi í höfði sínu. En þennan dag var hann að útskýra fyrir öðrum manni þessa auðn, þennan litla skika, sem hann vissulega drottnaði yfir, engin spurning. Og til þess notaði hann hendur og fætur: fæturna til að róta í mölinni; hendurnar til að sýna fram á að þrátt fyrir allt væri hann lifandi, þetta væri ekki sín ómerkta gröf. ] [ Maðurinn við næsta borð er líklega að kafna. Hann blánar í framan, fellur á gólfið og engist eins og maðkur á heitu járni. Akurhænubiti er fastur í hálsinum á honum. Dyrunum er svipt upp og inn stikar kona um sextugt. Hún er klædd í silfraðan kjól og hálsmálið er svo flegið og flaksandi að það glittir í sogin brjóstin. Konan er drukkin og málningin hefur runnið eins og aurskriða niður eftir vöngunum. Hún slagar að líkinu á gólfinu og virðir það fyrir sér smá stund, segir síðan: gvuð, hann er dauður. Þá set ég vasabókina í brjóstvasann, stend upp og fer. ] [ bláar stelpur eru yndi mitt með blátt hár og bláar hendur þær skilja mig eftir þær taka mig með þær stinga uppí mig brjóstsykri og banna mér að hreyfa mig þangað til þær koma aftur ég er nakin í hvítu herbergi og inní mér tifar eitthvað þær koma aftur og draga prikið með brjóstsykrinum útúr mér nú má ég hreyfa mig ég hreyfi mig þær þvo hendur sínar tilað lita þær uppá nýtt hvenær er dagurinn búinn, spyr ég því það er svo bjart en þó þær liti margt blátt tekst þeim ekki að sjá við himninum: þegar dimmir leysast þær uppí dökk fljúgandi korn sem um síðir leggjast eins og lausofið lak yfir klæðlausan líkama minn ] [ Þar sem stígar og slóðar bögglast hverjir ofan í annan og hið staka glæsta gullregn sáldrar lífi sínu ofan og blað fyrir blað þekur jörðu sína sólu á milli stórra og smárra hjá ríkum og snauðum - jafnt gleymdum og gröfnum við endastíg í lokuðum botnlanga í friði fyrir rápi og róli þar undir handskrifuðum borða liggur minn friður ] [ Langt fljúga stálnefin vísan veg í nóttinni snemma teygja sig varkárir vængir í brákinni fáeinir dropar af logandi sól í skurninni. ] [ Ég get ekki lifað við eintóman ís innst inni í hjörtum og lengst úti á töngum. Kulsára hjartað mitt kólnar og frýs, í kuldanum sit ég í öngum og leik mér við fallegar frostrósir löngum. Það verður nú bráðum að vora hjá mér, svo völlurinn iðgrænn við sólinni hlæi, en stormurinn mig út á blágaddinn ber, ó, bara ég götuna sæi heim á gestrisna, góða bæi. Á meðan ég sé hvorki sól eða bæ, þá syng ég með veikum og klökkvandi rómi. Ég veit, að ég aldrei til fullnustu fæ að fara með ljóð mín í tómi. Röddin bilar í rokviðra hljómi. Ef að ég dey svo að aldrei ég sé ylmildan himin og blómgaða grundu og finn aldrei vesalings hjartanu hlé, uns hrekkur mér stafur úr mundu, þá þakka ég öllum, sem eitt sinn mig fundu. ] [ Bylur úti ylur inni svona fjúkandi veður í mars þegar fjallið verður ekki séð og áin ekki heyrð veður einsog þau sem annálar muna sögðum ekki margt þetta kvöld og af hverju sosum orð einsog þau skipti sköpum horfðum meir en þorðum virtumst meir en vorum og bylurinn þú hélst að hönd mín væri akkerisfesti og annað ekki nærri ? það sem við erum erum við með öðrum erum þeim lífið erum þeim orð og tákn sem skreyta staði og stund vissa fylgja festa ? krosslagðir fætur á stól hönd undir vanga og hönd um aðra og væg ljós hugstilla segjum ekki margt sjáum ekki margt erum ekki margt. ] [ Ég kasta glóandi geislabaugnum eins langt og ég get en hann lætur eins og búmerang. ] [ Í andleysi brýstu gegnum þykkan bláma djúpanna Skjálfandi og vatnseyg reikarðu um sokknar borgir Í volgu flæðarmálinu spriklar spegilleit vonartorfa ] [ brenni dagar líði glóð og nætur um dúnfylltar sængur líði ský falli regn rísi sól og setjist komi morgunn héluð birta líði vindur sveiflist tré komi sígarettur dagblöð og bollar af kaffi lesist bækur opnist augu og lokist klekist púpur rísi loftbólur og springi spretti blóm falli lauf blikki sjónvörp opni búðir klingi kassar glennist fætur svitni lófar streymi blóð grenji börn opnist kistur og lokist rísi haf og hnígi hjarta og þenjist fólk og deyi ] [ Bak við endamörk alls sem ég skil er allt sem ég vil Það bíður á bak við augun á bak við augun þín, og þegar ég kann ekki að leita þau leita þar augun mín. ] [ Þú sagðir að Guð vildi að allir menn lifðu í kærleika. Ég fann að nafn mitt var ekki á lista Guðs. ] [ Er það undir kaleiknum eða upprúllað í horni einhyrningsins getur verið að það sé öðrum megin við regnbogann kannski er það í táradalnum þar sem guðirnir verða til veit um konu sem grætur einu sinni á ári getur leynst í einu tári hennar guð leitaði og það brann á vörum hans hið óorta ljóð. ] [ Láttu þér ekki bregða þótt ég sendi þér þessar línur frá tólfta þingi Esperanto- sambandsins. Hér stendur allt í blóma, náttúran bókstaflega suðar af kæti, og ég kom sjálfum mér á óvart morguninn eftir setningu þingsins; ég kramdi litla flugu með vísifingri og þumli og þeirri hugmynd laust niður í koll mér að leggja mér hræ hennar til munns. Þú ímyndar þér eflaust að hér ríki stríðsástand, enginn sé sammála um ekki neitt, og að pappírsflóðið í salarkynnunum sé slíkt að leggi ég sjóngleraugun frá mér sé þegar í stað búið að hylja þau með glænýrri reglugerð um breytingar á fall- beygingu lýsingarorða. Þetta er reyndar rétt hjá þér, svona er ástandið á tólfta þinginu, en það er ekki þaðan sem ég sendi þér þessar línur. Þetta með náttúruna og suðið í henni er auðvitað uppspuni frá rótum; ég er staddur svo að segja í næsta húsi við þig, þú veist: að lokum munum við bæði deyja, og það eina sem skilur okkur að er prentsmiðjan vestanmegin við húsið mitt, barnaleikvöllurinn, Klapparstígurinn, miðbærinn eins og hann leggur sig, ökuleiðin að Seltjarnarnesi og Atlantshafið. Atlantshafið með viðsjárverða strauma sína og samviskubitið yfir að hafa gleypt svo marga heilbrigða og efnilega unga menn eins og mig. Nú er ég ekki viss um að þessi kveðja berist þér á því skeiði ævinnar sem ég kysi, en þegar hún berst þér inn um bréfalúguna ? ég veit að hún á eftir að beyglast í mjórri rifunni ? skaltu leggja hana á eldhúsborðið og slétta úr henni. Eins og sjómaðurinn sléttir úr seglinu eftir að hann velur sér ákvörðunarstað. ] [ Jörðin hefur dregið fjallið fyrir sólina samt eru skýin ennþá rauð kolin sem glóa þegar eldurinn slokknar ég spái þessu: á morgun verða þau öskugrá ] [ á morgnana drekk ég darjeeling te tvo eða þrjá bolla með hunangi og stundum laga ég tvo bolla af kaffi handa vinkonu minni sem stundum gistir og rista beyglu sem við skiptum á milli okkar áður en ristavélin bilaði nú hita ég beygluna í ofninum vinkona mín er læst úti hún er búin að vera læst úti í þrjá daga og þess vegna er ég búin að laga bæði kaffi og te þrjá morgna í röð ] [ Það blæs að venju bölvuð norðanáttin og blásvört skýin raða sér á jötu. Þá himinn opnast; hellir Guð úr fötu því Hann á regnið, dýrðina og máttinn.. Á rassinn sest og reyni að horfa á þáttinn um rannsókn máls í landi vesturþýskra. Er vindurinn og veggir saman pískra: "Er Werner sekur?" staulast ég í háttinn. Tennurnar bursta, tek upp næsta þátt. Trítla upp stigann, þreyttur, leggst í rúmið. Vitundin sofnar. Frá vökulöndum ber. Hrekk upp við dynk sem drepið væri hátt dyrnar á. Rís upp. Fölur stari í húmið. Þrastarblóð rennur rauðmyrkt niður gler. ] [ Það síðasta að sjá er hvítt ský í mynd risavaxins manns. Hann liggur á bakinu með hendur á brjósti og svífur yfir borgina glitrandi og skjálfandi fjársjóð ljósa. Hvítur líkami einn á mjög hægu flugi Hreinleiki veltur bersýnilega á fjarlægð, hugsa ég andartaki áður en vélin fer að hristast augnabliki áður en flugstjórinn viðurkennir að hann hafi enga stjórn og sekúndubroti áður en umræðan um dauðann hefst ] [ Burt er dáin bernskuþrá, bliknuð gleðin hjarir eins og strá, sem fellur frá fyr en nokkurn varir. Kvíðinn þjáir þreytta lund, þung mig beygir stritið, ég hef fáa yndisstund á ævidegi litið. ] [ Gleð þig særða sál, lífsins þrautum þyngd. Flutt er muna-mál. Inn er helgi hringd. Minnstu komu Krists, hér er skuggaskil. Fagna komu Krists, flýt þér tíða til. Kirkja ómar öll, býður hjálp og hlíf. Þessi klukknaköll boða ljós og líf. Heyrið málmsins mál. Lofið guð, sem gaf. Og mín sjúka sál verður hljóma haf. Flutt er orðsins orð, þagna hamarshögg Yfir stormsins storð fellur Drottins dögg. Lægir vonsku vind, slekkur beiskju bál. Teygar lífsins lind mannsins særða sál. Kveikt er ljós við ljós, burt er sortans svið. Angar rós við rós, opnast himins hlið. Niður stjörnum stráð, engill fram hjá fer. Drottins nægð og náð boðin alþjóð er. Guð er eilíf ást, engu hjarta' er hætt. Ríkir eilíf ást, sérhvert böl skal bætt. Lofið Guð, sem gaf, þakkið hjálp og hlíf. Tæmt er húmsins haf, allt er ljós og líf. ] [ Kom milda nótt er mýkir dagsins sár, kom morgunsstund er færir ljós og yl, ég bíð þess eins að brátt ég liggi nár, ég beiddist aldrei þess að verða til. Kom þunga starf og þreyt hinn aldna mann er þekkti vel hve lítil var hans dáð. Feyk stormur tímans öllu sem ég ann, lát arð minn jafnan því sem til var sáð. Kom ljúfa gleymska, leið mig þín á vit, kom langa myrkur, vef mig þínum hjúp. Kom alda sterka hönd, lát hvert mitt rit og hvert mitt kvæði sökkt í neðsta djúp. ] [ Kæri vinur eins og þú kannski veist ræð ég ekki ein í þessu hjarta. Við erum tvær og sitt hvorum megin við okkur hólf sem fyllast og tæmast á víxl. ] [ Ástkæra, ylhýra málið og allri rödd fegra! blíð sem að barni kvað móðir á brjósti svanhvítu; móðurmálið mitt góða, hið mjúka og ríka, orð áttu enn eins og forðum mér yndið að veita. Veistu það, Ásta! að ástar þig elur nú sólin? veistu að heimsaugað hreina og helgasta stjarnan skín þér í andlit og innar albjört í hjarta vekur þér orð sem þér verða vel kunn á munni? Veistu að lífið mitt ljúfa þér liggur á vörum? fastbundin eru þar ástar orðin blessuðu. ?Losa þú, smámey! úr lási? lítinn bandingja; sannlega sá leysir hina og sælu mér færir. ] [ Hún kemur ekki nakin til dyra. Föt hennar skýla henni. Og hvílík föt! Hvílíkur vefnaður ólíkra þráða! Það samansafn lita sem prýðir hana! Bjallan ómar líkt og neðansjávar; gangurinn þekkir svo ólíkt fólk að einum finnst að sér þrengt á meðan öðrum líður hvergi betur. Drengurinn með stúlkutárin hangir þarna ennþá í rammanum; hversu oft varð ég ekki ástfanginn innan þessara veggja! Og ennþá elska ég þig sundurgerð og þau nöfn sem þú berð. Þær óteljandi dyr sem rísa upp af gólfinu, þögnin sem vaknar við að klút er brugðið um hálsinn, augun sem mætast á leið sem þau þekkja ekki. Það er hér sem hún - svo nýflutt inn og svo ný í augum nágranna - vaknar eina nótt -eins og glitrandi hafflötur gárist - og yfirgefur rúm sitt til að ná sér í náttslopp inni í stofu. ] [ stundum er bylur í fólki sem byrgir því sýn stundum er stormur í fólki sem feykir því úr húsum stundum rignir í fólki svo lækir renna úr augum þess og þá stundum losna litlir steinar og ef það rignir lengi falla skriður ] [ Heimurinn liðast í sundur á næturnar breytist í ótal örsmáar flísar sumar sjóblautar, aðrar vaxnar grasi eða malbikaðar, málaðar og sögufrægar Þær æða um geiminn einsog mökkur reiðra geitunga í svartamyrkri eða maurildi réttum megin sólar Því hefur verið spáð að einn morguninn muni flísarnar ekki raðast saman í fyrri mynd einsog þó hefur gerst undantekningarlaust allar götur síðan jörðin tók þessa þungu sótt Og þá verði kannski afrísk sandalda við hlið íslensks smalakofa og brim skelli á efstu hæðum upplýstra skýjakljúfa Þennan morgun, skömmu fyrir dögun, vil ég halda fast í hönd þína nývaknaða. ] [ Björt mey og hrein mér unni ein á Ísa- köldu -landi; sárt ber ég emin fyrir silkirein, sviftur því trygða-bandi. Það eðla fljóð gekk aðra slóð, en ætlað hafð´ ég lengi. Daprast því hljóð, en dvínar móð; dottið er fyrra gengi. Stórt hryggðar-kíf sem stáladríf stingur mig hverju sinni. Það eðla víf, meðan endist líf, aldrei fer mér úr minni. Það sorgar-él mitt þvíngar þel, við þig ég hlýt að skilja. þó finni´ ég hel. þá farðu vel, fagurleit hringa-þilja. ] [ Bjargið alda, borgin mín, byrg þú mig í skjóli þín. Heilsubrunnur öld og ár er þitt dýra hjartasár. Þvo mig hreinan, líknarlind, lauga mig af hverri synd. Heilög boðin, Herra, þín hefur brotið syndin mín. Engin bót og engin tár orka mín að græða sár. Ónýt verk og ónýt trú, enginn hjálpar nema þú. Titrandi með tóma hönd til þín, Guð, ég varpa önd, nakinn kem ég, klæddu mig, krankur er ég, græddu mig, óhreinn kem ég, vei, ó, vei, væg mér, Herra, deyð mig ei. Þegar æviþrautin dvín, þegar lokast augun mín, þegar ég við sælli sól sé þinn dóms- og veldisstól: Bjargið alda, borgin mín, byrg mig þá í skjóli þín. ] [ Dagur var kominn að kvöldi, kyrrð og svefnró í bænum, lognöldusöngvar frá sænum, sumar í blænum. Gott kvöld, hvað er klukkan? Röddin var ljúfmál sem lognið, létt og flögrandi bros um varanna rósreifað flos. Hárið blakaði í blænum, bjart eins og vorið á sænum. Í augunum hillti undir ungan dag, þar sem allt var fætt - nema sorgin. Og enn var komið að kvöldi og koldimmt í bænum - og náhljóð frá niðmyrkum sænum. Gott kvöld, hvað er klukkan? Röddin var grátklökk, sem hálfstilltur strengur, steingjörður íshlátur svall um varanna grástorkna gjall. Sem vængur með flugslitnum fjöðrum flökti strý undir höfuðdúks-jöðrum. Í augunum drottnaði alvöld nótt, þar sem allt var dautt - nema sorgin. ] [ Skáld er ég ei, en huldukonan kallar og kveða biður hyggjuþungan beim. Mun ég því sitja, meðan degi hallar og mæddur smali fénu kemur heim, þar sem að háan hamar fossinn skekur og hulduþjóð til næturiðju vekur. Þrumi eg á bergi, þýtur yfir hjalla þokan að hylja mig og kaldan foss. Nú skal úr hlíðum hárra Tinnufjalla, svo huldumeyjar þægan vinni koss, óbrotinn söngur yfir dalinn líða eins og úr holti spóaröddin þýða. Þú, sem að byggir hamrabýlin háu, hjartanu mínu alla daga kær, sólfagra mey, djúpt undir bergi bláu, bústu að sitja vini þínum nær. Döggsvalur úði laugar lokkinn bleika, ljós er af himni, næturmyndir reika. Hvers er að dyljast? Harma sinna þungu. Hlægja þeir öld, er ræður þeim ei bót. Hvers er að minnast? Hins, er hverri tungu, huganum í svo festa megi rót, ætlanda væri eftir þeim að ræða, sem orka mætti veikan lýð að fræða. Að fræða! Hver mun hirða hér um fræði? Heimskinginn gerir sig að vanaþræl. Gleymd eru lýðnum landsins fornu kvæði. Leirburðarstagl og holtaþokuvæl fyllir nú breiða byggð með aumlegt þvaður. Bragðdaufa rímu þylur vesall maður. ] [ Augað mitt og augað þitt, og þá fögru steina. Mitt er þitt, og þitt er mitt, þú veist hvað ég meina. Trega ég þig manna mest mædd af táraflóði. Ó, að við hefðum aldrei sést, elsku vinurinn góði. Langt er síðan sá ég hann, sannlega fríður var hann. Allt sem prýða mátti einn mann mest af lýðum bar hann. Engan leit ég eins og þann álma hreyti bjarta. Einn guð veit ég elskaði hann af öllum reit míns hjarta. Þó að kali heitur hver, hylji dali jökull ber, steinar tali og allt hvað er, aldrei skal ég gleyma þér. Augað snart er tárum tært, tryggð í partast mola, mitt er hjartað sárum sært, svik er hart að þola. Bestan veit ég blóma þinn, blíðu innst í reitum. Far vel, Eyjafjörður minn, fegri öllum sveitum. ] [ Athvarfið mitt er: óhreyft ból, úrræði: gráturinn, myrkur hússins: mín sálarsól, sætleiki: skorturinn, aðalmeðulin: örvænting, andagiftin: freistingar, leirpollavatnið: lífhressing, læknirinn: þjáningar, huggunartölur: hræsni og spé, hjúkrunin: þögn og fúllynde, trúnaðarstyttan: tálgirðing, tilfluktið: dómurinn, framfærsluvonin: foreyðing, fyrirheit: rotnunin. Vinirnir sitja sjúkan kring: Satan og veröldin. ] [ Ellin að gerir hallast, aftrast fyrri kraftar, hrukkar hörundið blakka, hærur á kolli nærast, tennur taka úr munni trosnaðar að losna, dvínar dugur og ræna, dregið hold sígur að moldu. ] [ þú í vatninu eins og ég syndir blind með mér og málum myndir tíminn málar engar lengur ] [ Innum dyrnar gæti það gerst og yfir borði hugsanlega hefði tíminn verið annar og ákefð og veður og heppni okkur lætur vel að efast fyllum fylgsni hugans af eigulegum efasemdum eignumst hillumetra af hálfkveðnum vísum og sýnum þær fólki sjö daga lífsins einsog börn í aldursröð og efumst nógsamlega efumst ævinlega þar til ekkert verður víst. ] [ Snati minn! snjalli vinur þú ert víðsjárverður svona laflaus á rásinni! svona kallinn leyfðu mér að þrengja sjóndeildarhringinn aðeins betur um hálsinn (jæja þá í þetta sinn) en farðu ekki langt yfir skammt (eða var það skemmt?) því eftir næstu skilaboð kemur HUNDAKEX! já hann borgar sig hlýðniskólinn og ég lofa að verða fyrstur til að selja þér jólin ] [ Trúir þú því að hér sé allt morandi í óhreinum öndum sem skjótist útúr hverju skúmaskoti hjáróma galandi í kór: Sjáðu mig - sjáðu mig! Þetta eru púkar og fjandar og einn glóandi andi sem er bleikur á hörund og gengur á iljunum, trúirðu því? Og þeir halda því fram að ég hafi hóað þeim saman á safnaðarfund - ég get svo svarið það! Samt er kirkja á hverri einustu hæð, í hverjum einasta hóli, trúirðu því! ] [ Hendurnar byrgja náfölt andlit þvöl augnhárin vísa í allar áttir vot rúmklæðin vafin um krepptar fætur hversdagslegt hljóð vekur litla athygli en þó kannski bréfið sé að koma sem ég aldrei sendi. ] [ Á kvöldin les hann fyrir mig úr eglu eða laxdælu strýkur lærin þegar segir frá akuryrkju og útreiðum fer með dróttkvæði undir sænginni og grúfir sig yfir brjóst mitt þegar kappi er veginn þessi kvöld þegar blikar á gráa gafla undir gömlu tungli langar mig að heita guðrún eða ásgerður til þess að heyra hann segja nafnið mitt sögulega oft. ] [ Gefðu, að móðurmálið mitt, minn Jesú, þess ég beiði, frá allri villu klárt og kvitt, krossins orð þitt út breiði um landið hér, til heiðurs þér, helzt mun það blessun valda, meðan þín náð lætur vort láð lýði og byggðum halda. ] [ Í tungsljósi á ís yfir Tungufljót ég reið, teygða ég þar hestins á snarpasta skeið; en viðsjált, viðsjált er á vetrardegi vötnin að ríða. Hart greip hann sprettinn og sparði ei afl, spegilhált var svellið og stæltur var skafl. En viðsjált, viðsjált er á vetrardegi vötnin að ríða. Allt í einu fældist og frýsaði hátt fákurinn og öfuga snerist í átt. Því viðsjált, viðsjált er á vetrardegi vötnin að ríða. Gat ég að líta, hvar álfa fimur fans fetaði út í vatnið og sté þar í dans. Já, viðsjált, viðsjált er á vetrardegi vötnin að ríða. Hver um annan kyrpingur kænlega hljóp, köldum geislum stafaði fölvan á hóp, svo viðsjált, viðsjált er á vetrardegi vötnin að ríða. Annarleg sveif mér þá löngun í lund, lysti mig að sækja þann kynlega fund; en viðsjált, viðsjált er á vetrardegi vötnin að ríða. En ei fékk ég hestinum otað úr stað, og lof sé Guði fyrir, hann bannaði það, því viðsjált, viðsjált er á vetrardegi vötnin að ríða. Því þar sem álfar frömdu sinn feiknstafaleik, feigðarhylur gein þar, og spöngin var veik, svo viðsjált, viðsjált er á vetrardegi vötnin að ríða. ] [ Rís heil, þú sól, sem enn oss færir ár, það ár, sem þjóð vor lengi muna skal! Rís heil, með sigurmark um bjartar brár og bjarma roðin upp af tímans val. Þú ljóssins drottning! blessa berg og dal, þín birta læsi sig um fólksins hug, til starfs og þroska vek þú hrund og hal, á horfins tíma meinum vinn þú bug, og vektu traust og trú og forna dáð og dug. ] [ Volaða land, horsælu hérvistar slóðir, húsgangsins trúfasta móðir, volaða land! Hafísa land, ískrandi illviðrum marið, eilífum hörmungum barið, hafísa land! Vandræða land, skakkt eins og skothendu kvæði skapaði guð þig í bræði, vandræða land! Drepandi land, búið með kjark vorn og kjarna, kúgandi merg þinna barna, drepandi land! Vesæla land! Setið er nú meðan sætt er, senn er nú étið hvað ætt er vesæla land! Hrafnfundna land, mun þú ei hentugast hröfnum? Héðan er beint vorum stöfnum, hrafnfundna land! ] [ Hver á sér fegra föðurland, með fjöll og dal og bláan sand, með norðurljósa bjarmaband og björk og lind í hlíð? Með friðsæl býli, ljós og ljóð, svo langt frá heimsins vígaslóð. Geym, drottinn, okkar dýra land er duna jarðarstríð. Hver á sér meðal þjóða þjóð, er þekkir hvorki sverð né blóð en lifir sæl við ást og óð og auð, sem friðsæld gaf? Við heita brunna, hreinan blæ og hátign jökla, bláan sæ, hún uni grandvör, farsæl, fróð og frjáls - við ysta haf. Ó, Ísland, fagra ættarbyggð, um eilífð sé þín gæfa tryggð, öll grimmd frá þinni ströndu styggð og stöðugt allt þitt ráð. Hver dagur liti dáð á ný, hver draumur rætist verkum í svo verði Íslands ástkær byggð ei öðrum þjóðum háð Svo aldrei framar Íslands byggð sé öðrum þjóðum háð. ] [ Land míns föður, landið mitt laugað bláum straumi eilíft vakir auglit þitt ofar tímans glaumi. þetta auglit elskum vér, - Ævi vora á jörðu hér brot af þínu bergi er, blik af þínum draumi. Hvort sem krýnist þessi þjóð þyrnum eða rósum hennar sögur, hennar ljóð, hennar líf vér kjósum. Ein á hörpu ísa og báls aldaslag síns guðamáls æ hún leiki ung og frjáls undir norður ljósum. ] [ Á morgun ætla ég að snúa þróuninni við og vaxa afturábak. Æfa vel og lengi til að verða minni ég og meiri ég. Í hvert sinn sem ég finn mig týni ég mér aftur. Komin í höfn til að sjá hana færða lengra í burtu og ég skil ekki tilganginn. Skil ekki guð. Eins og að komast upp á fjallstopp nær dauða en lífi, aðeins til að sjá aðra brún. Og ég er viss um að hún var þar ekki fyrir. Viss um að guð hafi hnoðað í eina væna þegar ég sá ekki til, svo aðra og aðra. Ekki það að ég sé eitthvað að kvarta - ég elska líf mitt...á köflum. Samt fæ ég það oft á tilfinninguna að þarna úti (helst í fljótandi formi) sé einhverjum persónulega í nöp við mig, svo gleymist ég og ég brosi eins og barn sem kann ekki að blygðast sín. Þá er slegið og slegið á hendurnar svo jafnvel bossinn, ósnertur, roðnar. En ég var góð hvísla ég á milli samanbitinna tannanna (samviskan segir annað) uns ég er farin að öskra. Það er einmitt þá sem ég týni mér og þarf að klifra nýja brún með bólgna fingur og blóðuga samvisku. Á morgun ætla ég að snúa þróuninni við. Á morgun verð ég lítil til að stækka aftur. ] [ Yfir bæði eitt skal ganga, ung ég mær var gefin Njáli, honum samhent lífs um langar leiðir eins og segull stáli. Nokkuð hans á hugfró brysti, hjúkrun væri hann sviptur minni, og sæti ég eftir sár á kvisti, saknaði hann mín í eilífðinni. Vil ég ei sem ösp á hóli angaslitin, greinabrotin, standa uppi ein á auðu bóli, yndisvana, máttarþrotin. Lífs það væri vesæl nefna vonarlaus að þreyja kona, míns og eigi mega hefna makans spaka og hraustra sona. Reidd er sæng á rauðu báli, rýkur upp af baði heitu; hlakka ég til við hlið á Njáli að hvíla mig af dagsins þreytu. Hinzti skal oss svefninn svala, þótt svíði reykur, öndin kafni. Hanann rauða heyri ég gala, háttum þá í drottins nafni. ] [ Þat mælti mín móðir, at mér skyldi kaupa fley ok fagrar árar fara á brott með víkingum, standa upp í stafni, stýra dýrum knerri, halda svá til hafnar, höggva mann ok annan. ] [ Viðkvæm logandi týra varpar svargráum sannleik um helli Lágt snarkar eldsins kveikur Í skrjáfi laufnætur fálmar stirður armur orðsins ] [ (augu) þú sást mig í garðinum eins og engil ég gaf börnum sykraða snúða (og augu) ] [ Eins og raketta skýst ástin upp hratt springur deyr og skilur eftir sig útbrunna spýtu og árið er liðið. ] [ I Hryglur í höfgu gnauði -hljóðin í eyrum mínum dynkir á dauðu gleri dropar á þyljum. Doði í gömlum draumum draugar í hverju horni. Sefur í hússins sálu söngur frá vori -söngur frá liðnu vori. II Í dýpsta hluta huga míns er kæti sem heldur að hún kunni að þrá og sakna. Í leyndum kima mykrar sálar minnar er minning sem að stundum fær að vakna. III Læðist milli þilja þögull vindur -þytur undan hvítri hurð að nóttu- Hringar sig sig um höfga fingur mína heldur mér með döpru hvísli sínu IV (Ljúfur vindur í laufi trés lindarniður á hljóðum degi hönd þín hári mínu) ] [ Manstu þegar við fengum okkur göngutúr fyrir um það bil viku. -Það var frost, já manstu? Þá sagðirðu að þér þætti vænt um mig. Og leiðir okkar skildu. -Jú,jú, það snjóaði aðeins... Mig langaði bara að segja: "Takk, sömuleiðis". ] [ Undirförul fæðist fyrir innan. Útum allt liðast hún og læðist þangað sem hjartað slær. Í lifur og görnum gerjast gólfið verður valt. Barátta að berjast ofan úr hvirfli í tær. ] [ Eitt skref enn og áfram gakk. Til hvers, spyr hermaðurinn ekki, því þá er hann skotinn. Ég freistast hins vegar til þess að spyrja því að hver ætti svo sem að skjóta mig. Röng beygja fyrir löngu síðan hefur gert gönguna um völundarhúsið að grámyglulegri martröð. Eins og völundarhúsi sæmir er hver einasti gangur eins, ekki einu sinni mannnautsskrímsli til að tikka upp hversdagsleikann fyrir mann. Ég er handviss að það eru fleiri hérna en ég, ég heyri raddir, stunur og gnístran tanna. En ég sé engan. Eitt skref, bíddu, ætti ég kannski að fara aftur á bak. Til hvers, þú dreifðir engum perlum fíflið þitt, urra ég á sjálfan mig í myrku völundarhúsinu. Eitt skref áfram og enn gakk ] [ Vont að vakna með ókunnug augu á vetramorgnum Sé bláleita kjóla allt í kringum mig og er skyndilega orðinn æði fjarsýnn. Ekkert vit að setja upp nærsýnisgleraugun. Staulast á fætur, horfi mig út úr herberginu. Sé gömlu augun úr mér liggja á eldhúsborðinu. Tek þau varlega upp og pakka þeim niður í skúffu, merkt minningar, og hugsa með mér að ég geti kannski notað þau seinna.Gæti þurft að skipta um sjónarhorn. Engu hent tautar konan mín oft. Enda á ég fullt af gömlum skoðunum í skúffunni, sem ég nota örugglega ekki aftur. Þetta er róttækar skoðanir frá því að ég var ungur og eiga ekki erindi við mig í dag. Annars kann ég vel við þessi augu, en voðalega fara bláleitu kjólarnir í taugarnar á mér. ] [ \"Virkilega\", ég er góður í því að hlusta. hún elskar að tala, ég hlusta. Síðan get ég líka verið sammála, samþykkt allt. \"hann kom svo illa fram við mig\" \"mig langaði bara að eignast barn\" \"svo hélt hann framhjá mér\" \"karlmenn eru svín\" Og ég kem með frasa ættaða úr sjálfshjálparbókum. þeir hljóma vel. Hlustar ekki á hvernig ég vinn þig á mitt band, þú veist hvað ég er, ég er svín, ætla að fara illa með þig, langar ekki til að eiga með þér barn og held framhjá þér ef mér býðst það. Ég er allt sem þú vilt að ég sé, ég er að hjálpa þér...... Núna ertu búinn, fullnægð, þarft ekki lengur hjálp og okkur líður vel. Við erum svín. ] [ Smá peð og mig langaði, að læra á hljóðfæri, foreldrar mínir voru svo ánægðir með mig. Ég var skráður í tíma hjá orgelleikaranum og gerð framtíðarplön: -nótnabók -statíf -hljóðfæri. Ég var svo glaður og kátur þegar pabbi fór til Reykjavíkur að versla framtíð mína. Ég velti því stundum fyrir mér hvað hann var að hugsa í þessari ferð. Vinur minn spurði mig í dag hvort ég spilaði á hlóðfæri, ég sagði honum að blokkflauta væri ekki hljóðfæri. ] [ Ég var stopp á rauðu ljósi enda er ég með eindæmum heiðarlegur ökumaður, nýstúdent í pallíettukjól ákvað að misnota sér heiðarleika minn og skvapaði sér að glugganum og brosti þessu brosi sem átti að bræða allt og redda henni fari heim. \"hvert eruði að fara\"? spurði hún eins og að henni kæmi það eitthvað við. Hvað getur maður sagt við nýstúdent í pallíettukjól sem er búinn að tjalda til sparibrosinu, \"við erum að leita okkur að stúlku sem vill fara með okkur heim að ríða\" fannst mér vera rétta svarið. \"ertu til í smá akksjón?\" Það kom grænt ljós meðan hún hugsaði sig um. ] [ "Já við samþykkjum, að senda börn annarra heim ef þau fylgja ekki settum reglum" og í fáránlegri afneitun trúa að barnið þeirra geti aldrei orðið að morðingja. Taktu á honum stóra þínum mamma, barnið þitt drap mann... ] [ Gónið. Lítið á mig. Afhverju lítið þið á mig svona oft? Afhverju setjist þið ekki bara saman í hóp beint fyrir framan mig og GLÁPIÐ? Ég tek alveg eftir ykkur, ekki af neinni annarri ástæðu en þeirri að þið eruð eins og hópur af smástelpum. Stingið saman nefjum, beint fyrir framan mig....flissiði aðeins meira..formúlan er röng. Kannski er ég of mikið fyrir ykkur? Kannski eruð þið of lítið fyrir mig? Kannski eruð þið litlir karlar með litla reynslu og lítið typpi? Afhverju farið þið hjá ykkur? Ég hef ekki gert neitt til þess. Ég sit bara hérna. Ekki er heimurinn svona lítill hjá ykkur? Er hann svona lítill Á ykkur? Eruð þið hræddir? Er ég of nálægt ykkur? Er ég ekki eitthvað sem þið þekkið? Verðiði svona asnalegir ef þið eruð ekki virtir viðlits? Ég er þess eðlis að þurfa að skilja ykkur. Því ef ég gerði það, yrði ég kannski ekki eins reið útí ykkur. EN..ef ég næði að skilja ykkur, yrði ég þá ekki jafnlítil og þið? Mér finnst þið ekki litlir....Ég sá ykkur ekki. Ekki fyrr en þið fóruð að gera ykkur breiða í návist minni. Þið hafið greinilega ekki haft í huga að fliss fer ekki stórum köllum.....Það fletti ofan af ykkur.... Ég þoli ekki svona taugaveiklaðar kerlingar eins og ykkur... Hélduði að þið kæmuð mér til? Einhverntímann? Kannski? Nei....raunveruleikinn eyðilagði fyrir ykkur þegar hann potaði í ykkur ....lét ykkur flissa. Hann eyðilagði fyrir ykkur... ég er eina konan sem hef ekki áhuga.... ] [ Að lifa af lýsi á tungubroddi er að eiga við krónískt klofbragð. Stígið við myntukeim bragðbættrar dagrenningar. Vísifingur rýfur meydóm morgunsins, hælkrókur í gluggatjald, leið fyrir stúrið auga hefur verið rudd. Winston sendir reykboð til þess sem eftir lifir dags ? afboðar sig vegna veikinda. Dagur er vítisengill ? bandíti með skítugt hár og illan ásetning: ,,hí, hí, hí á þig, nú væri betra að vanda sig?. ] [ Vindurinn leikur um hliðar húsanna og smýgur milli rimanna í grindverkinu hann skekur trén og leikur um laufin. Þetta eru hljóðfæri hans. Hvernig líður vindinum þar sem ekkert er? Þar er dauðaþögn í brjáluðu roki og engum skemmt. ] [ Inni í mér eru kantsteinar, þeir eru gráir og grjótharðir, kantsteinar eru gjarnan þannig. Ég ræð þessu ekki sjálfur. Þú biður mig um að geyma þessa kantsteina og þeir hlaðast upp. Bráðum verður ekkert bil á milli þeirra, þá verður ekkert lengur sem skilur þá að. Bráðum rennur þetta allt samann. Ég orðin að kantsteininum þínum og verð skilinn eftir. Þess vegna er ég orðinn svona þungur. Kantsteinar eru alveg djöfullþungir. ] [ Stólarnir í garðinum steypa sér. Kettirnir hímdu letilega í þeim í sumar. Það rignir vonandi úr þeim kattarhlandið núna. Það er of seint að bera á þá einhverja vörn. Þeir glíma við þetta sjálfir. Hmmm...........................? Hver veit nema hlandið verði þeim til lífs í þessari tíð. Jæja..........................! Nú getur ekkert haldið þeim í garðinum lengur. ] [ ást mín hefur ei fundist til hins þurfandi kynslóðar einmanna er ég því ávallt ekki hef ég fundið þann rétta og ekki hef ég verið sú rétta fyrir hins þurfandi kynslóðar sem nýtur þess sem þarf og endurnýjun er þeirra mottó ó elsku faðir minn beittur hefur þú verið með orðin þín hvern sem ég hef stígið væng í hefur þér aldrei líkað hér með bið ég þig tjá skalt þú ekki með a´lit þín sem særa hefur mitt hjarta þegi þú nú skaltu og lofðu mér að finna ] [ Brosi lárétt í gegnum trefilskramdar kinnar. Stjörnur synda í sykurlegnum augum. Kannski nokkur gerfitungl líka. Svaf lengi á himnum með hönd undir kinn. Langaði aldrei að líta niður. Fékk aldrei náladofa í hjartað. Kuldi er frískur að sjúga upp í nefið, með láréttu brosi... ...og spegilmynd sjálfs míns á hvolfi. ] [

Ef heimurinn hryndi af einhverjum ástæðum þá ætlaði ég alltaf að flýja norður á Melrakkasléttu og lifa af landinu kringum eyðibýlið eins og forfeður mínir höfðu gert í þúsund ár en þá rann upp fyrir mér að í verkfærakassanum var ekkert nema 7 sexkantar sem fylgdu með IKEA húsgögnum og ef ég kæmist yfirleitt norður þá stæði ég með þessa sexkanta innan um svamlandi selinn og gaggandi mávinn og vaxandi grasið og ég myndi öskra á selinn og mávinn og grasið og læsa tönnunum í rekaviðinn og deyja hægt.

] [ svertingjar dansa svo í grundinni dynur dynkirnir heyrast um gervalla byggð nasistinn sorgmæddur í einsemd hann stynur sú hugsjón var fölsk - er hann hélt að var dyggð... við höfum losnað við rótgrónar syndir væla djöflarnir sárt í manna sjálfum minning um sorg prýðir eldgamlar myndir en munaður ríkir aðeins í heiminum hálfum... við gleymum oft þeim sem að þurfa ást sárast því velmegun hér slekkur vorkunnareld meðan barn eitt í fátækt - sveltur og fárast fellur gullregnið niður á oss fram á kveld... dýrin öll gervöll syngja saknaðarsöngva og sótugar plöntur hljóma dimmt undir þeim í gróðafíkn og blindni við höfum samúð öngva í sóti og drullu við spillum okkar heim... ástin sem eitt sinn fyllti línur allra ljóða liggur og bíður því hún er horfin hér úr myrkviðum dags fellur blóð á menn rjóða marða eftir barsmíðar sem enginn sér... það haldreipi sem að trú eitt sinn var er trosnað og slitið og mun ekki duga krossinn sem kristur í þjáningu bar má kallast senn marklaus í mínum huga... metnaðarleysi fylgir tækjum og tólum tuggin er ofan í oss hver einasti biti heilar tæmast fljótt hjá fáráðum fólum en það fækkar einnig frumunum í snillingaviti... ... lausnir hef ég engar og ég kvíði þess að heyra óhljóðin öll þegar heimur mun farast við áttum þetta skilið - við vildum alltaf meira velmegun og eilífð ná aldrei að skarast... gullregninu styttir upp og geimur nú dökkur góðærið dvaldi þó lengst hjá oss ríkum stór og breiður bólgnar heimsins gráturkökkur báturinn siglir fram af jarðar hæstu bríkum... ...... en þangað til veröldin fellur í dá og ókunnt afl okkur frá jörðu mun lyfta þá verð ég samt glaður ef þú verður mér hjá því engu mun þá blóðugur heimsendir skipta... ] [ úr rústunum skjögra brott sálirnar góðar svífandi fölleitar upp - þar skín ljós í duftinu hvíla enn púkaverur óðar en á botninum kafnar ein útsprungin rós... í háloftum hljómar englavængja þytur horfi ég upp þar sem ástvinir fljúga en fyrir hvaða sök skal ég sitja hér bitur? mín synd var sú að ég vildi ei trúa... guðleysisverur og synduga fólkið situr hér eftir og sér eftir því að hafa ekki hlustað og vera ei hólpið og horfin er von um að lifa á ný... úr himnum í fjarska heyrist fallegur hljómur og hörpurnar englarnir hlæjandi strjúka hér niðri í víti svo hroðalega tómur hugsa ég aðeins um engilinn mjúka... ] [ ...ef stálið sterkt í sýrubaði minnkar og upp tærist og jarðarkringluhlunkurinn á ógnarhraða færist dýrin sem að urðu til þau anda enn og dafna í dýpi heitu allar syndir óviljugar hafna hvar er þá þessi guð okkar - sem öllu þessu stjórnar ...þegar meinlætissál í hefndarhug - saklausum börnum fórnar?... ...hvert snýr minn hugur til - ef þessu ég ei trúi? og horfi upp á dauðasorg - í lífveranna búi? hverf frá kristni? afneita guði? á mig sjálfan treysti ...í trúleysið ég færði mig - sem úr fjötrunum mig leysti... ...í blíðu og stríðu anganrósir hugga hvers manns huga horfir hver þar maður til - ef dópið vill ei duga í náttúrukjöltu finn ég frið - ef þarf ég á að halda ...því funheitur ég dvel þar æ og forðast heiminn kalda... ...ég þarf ei bænir - orðagljáfur - til að ósk mín rætist í fjallasölum sál mín aum - lifnar við og kætist loftið ferska og lækir tærir - anda lífi í hjörtu ...ligg ég heitur á kaldri grundu - í næturskini björtu... ...hér ligg ég heitur - fjarri veröld ...í næturskini björtu ...ef tilveran er dimm og köld ...blæs náttúran lífi í hjörtu... ] [ ...kvöld sólin sígur niður og lætur skuggana lengjast bak skýjanna myrkraverur vakna upp og tengjast ég læt vindgustinn strjúka mér létt um hár meðan augu mín blotna og renna saknaðartár... áður ástin í hjarta mér sat sofandi og máð en nú hlýju frá þér er mín litla sál háð þó röddin þín rétt áðan nærði mín eyru vill hugur minn endalaust taka við meiru... fiðrildin í maganum þjóta til og frá þegar brosir þú til mín og dvelur mér hjá en nú liggja þau kyrr og sofa svo vær því stúlkan mín fagra kemur ei nær... tímar munu breytast og menn allir með á taflborði lífsins er ég agnarlítið peð alltaf sami leikur og svartur minn litur en er þú komst til mín er ég ei lengur bitur... ...morgunn eftir hugleiðslu mikla gegnum tómleikanótt byrjar lítill fugl að syngja fagurt en hljótt í fjarskanum geislar gegnum svartnættið smjúga og fiðrildin í maga mér taka að fljúga... er ég heyri hvar hljóð glymur í nálægum síma byrjar mín daglega og undurgóða víma í maganum fiðrildin trítilóð sveima við rödd þína - allri sorg - tekst mér að gleyma... ... ...ég er ánægður en hissa yfir því ...að vera ástfanginn að engli á ný ] [ Aleinn á ferli um miðdimma desembernótt Allt er svo kyrrt, andrúmsloftið svo hljótt Stjörnurnar blika í fjarska - eilífir kertalogar Og í fjarska er eitthvað - eitthvað sem togar... Norðurljósin blika svo skært í kvöld... Ég finn leiðina yfir myrka steina - tyrfnar brautir Kem um síðir inn í dimmar grenitrjáalautir Þar sem ástirnar fornu áttu sér stað - í laumi Og skuggar gamalla vera - líða fram í draumi... Norðurljósin blika svo skært í kvöld... Ég finn eitthvað elta mig - hljótt en andar heitt Ég skimast óttasleginn í kring - en sé ekki neitt Eyk hraðann - fætur mínir lyftast jörðu frá En það nálgast mig samt - og starir mig á Norðurljósin blika svo skært í kvöld... Tárin leka niður kinnar mínar og svitinn bogar Í hjarta mínu brennur hræðslan - skærir logar Allt í kring rennur út í eitt og ég hrasa um stein Nístandi sársaukinn sker holdið - inn við bein... Norðurljósin blika svo skært í kvöld... Það hikar og andar svo hátt - síðan það kemur Skrímslið sem tekur börnin - sparkar og lemur Ég gægist til baka - býst við að deyja fljótt En augun grípa í tómt - og allt er orðið hljótt... Og norðurljósin blika enn skært í kvöld... ... Fuglarnir byrja að hljóma - syngja sín litlu ljóð Skíman við sjónarrönd - birtist falleg og rjóð Ég vakna með stírurnar í augunum - í fögru rjóðri Ég minnist eltingarleiks - undan skepnu óðri Hristi svalann úr mér - rís svo hægt á fætur Brosi - hugsa um drauma þessarar nætur Drauma er birtust mér - þegar ég svaf svo vært Undir norðurljósahimni - sem blikaði svo skært... ] [ mig langar að standa fyrir utan glugga þinn í kulda og vætu þar til þú hleypir mér inn starir aftur í augu mín og brosir við mér skært ... bros þitt er mér kært ... mig langar að faðma þig að mér og finna þitt hár grafa mig djúpt inn í þig og þerra mín tár sú tilfinning að finna húð þína strjúkast við mína ... ég áður vildi sárt týna ... mig langar að vakna upp um nætur til að sjá að allt það góða í lífi mínu - er enn mér hjá draga þig að mér og sofna aftur kátur ... laus við minn grátur ... en ég stend hér enn fyrir utan gluggann í snæ og enga inngöngu í sálu þína nokkurn tíma fæ inn um gluggann ég stari á þig faðma hann ... stúlkan sem ég eitt sinn ann ... ég hreyfi mig úr sporunum sem ég hef staðið í því ég sé að þú aldrei gætir elskað mig á ný þó hafi ég staðið hér svo mánuðum skiptir ... tókstu mínar ástartaugar - og klipptir ... ... gamall draugur bankaði á hjarta mitt kátur vakti upp hjá mér löngu gleymdan hlátur hann er nú horfinn aftur - kemur ei meir ... og ást mín til hennar trosnar og deyr ... ... óskir um gleði og kæti ég til þeirra sendi og vona að hamingja þeirra aldrei endi því þó ég sé núna örlítið leiður og sár ... vonandi lifið þið sæl - ókomin ár ... ] [ sýktur og brenndur eftir varganna nag tærist og hrapa hvern einasta dag í myrkrinu horfir þú á mig og hlærð augað á himnum - þú hatar mig særð þú varst allt hér allt fyrir mér... þú lýstir mér fögur í rökkursins dimmu og barst mig burt eftir bardagans rimmu nú ligg ég eftir á vígvelli dofinn sálin hún grætur - köld og klofin þú varst allt hér allt fyrir mér... en augað á himnum hverfur mér sýnum myrkrið tekur við í huga mínum þessi stund milli tunglskins og birtu þegar djöflarnir sál mína hirtu þú varst allt hér allt fyrir mér... dagur rís og sólin hún brennir reynslan hún mig særir og kennir ég aldrei mun aftur á tunglið líta vera sterkur og á jaxlinn bíta þú ert ekki hér ekkert fyrir mér... ] [ ég ranka við mér liggjandi með andlit mót hvítum himni steinar allt í kringum mig en enginn liggur ofan á mér snjónum kyngir niður og hljóð hans það eina sem heyrist er lifandi frostrósunum dettur í hug að lenda á höfði mér... ég er ómarinn – óbrotinn – ósærður – og lifandi mjög ég veit ei hvar ég er staddur og sé hvorki fram né aftur svo ég stend upp og geng af stað með spurul augun stefni á hvítsortann minnislaus en glaður... er ég villtur? spurningarnar teygja úr sér á vörum mínum er ég dáinn? efinn blómstrar í frjórri mold hugar míns hvert skal halda? áttirnar hverfa líkt og styggar rjúpur svo ég stefni á það sem ég tel að sé rétt... það rofar til þegar ég held lengra niður hlíðina fjöllin gnæfa yfir mér – frosin tár á bröttum hlíðum sólin rífur af sér huluna og brosir við mér er hún vaknar geislarnir hitta mig og hita upp ískalda hörund mitt... refir skjótast undan steinum rjúpur skríða undan leynum örninn flýgur hátt yfir mér öll náttúran á lífi hér... ég stend á bjargi og sál mín hlý hef ei hugmynd hvert ég sný austur? norður? suður? vestur? hvert skal halda er minnið brestur??? en fegurðin svo djúp og ég stari sé að engu skiptir hvert ég fari því ég man ekkert hvort eð er og gæti allt eins háttað hér.... hlýr meyr ástfanginn gagntekinn af fegurðinni hér ég stari áfram dáleiddur og dofinn fjöllin sofa því þögnin er ei rofin vindurinn hvíslar og árnar skríða hljótt andvarinn blæs í eyra mér “góða nótt” hérna get ég að eilífu gleymt mér dvalið að eilífu í kyrrðinni hér hvernig get ég verið villtur þegar ég ligg hér rólegur – stilltur stari þögull – orðlaus upp í hljóða geima aldrei villtur... því hér á ég heima... ] [ ég segi öllum hversu illa mér líður í myrkri hugarskots míns ég rita ljóð um tilfinningar þær er éta mig að innan svik stríðni einelti og depurð liggja milli lína minna en þið lítið á það sem innantóm orð á blaði... líðan mín er sönn en þær persónur sem ég þekki þekkja hana ekki hamingjan streymir í kringum mig en ég næ ei dropa af henni vinir og ættingjar brosa er ég kreisti upp úr mér hlátri og telja að allt sé í lagi hjá mér... loks fæ ég nóg og segi mína skoðun - mína líðan um eyru mín streyma orð huggunar og loforða um betri framkomu ég brosi og treysti á það að þið efnið þau en við svikin fell ég enn lengra niður... togaður upp og hrint aftur niður lengra og lengra er ég drukkna hér botninum náð og tárin þau svíða og kinnarnar rauðar sem brennandi bál... líðan mín versnar með degi hverjum ástarsorg söknuður svik og einelti stríðni hunsun tár og blygðun eru allt sem ég get hugsað um nú... dagarnir langir renna í eitt næturnar andvaka móki ég kyrr með sársauka í hjarta og skjálfta í höndum strýk ég yfir haus minn sem springur brátt... því segi ég bless við þá alla sem skilja að mín líðan er rituð í þessu síðasta ljóði botninum náð og ég drukkna í tárum sálin er horfin á veg undan mér kannski ég komi aftur á ný til að sjá hvaða þýðingu það hafði að ef einhver bar sanna ást til mín hvort felli hann tár yfir gröfinni minni... ég bið að heilsa öllum þeim er hlusta ég bið að heilsa öllum þeim er ég unni þó þið hafið sært mig og dregið mig niður þá held ég að ég brátt muni fyrirgefa það... farinn með sorg og söknuð í hjarta trúi á tómið sem tekur við mér kannski ég ferðist upp í himnana bjarta en jafnvel helvíti er skárra en það sem er hér... ] [ Ég sest upp í rúminu og stari á blettina á veggnum dökkir líkt og allt annað í kringum mig það er ennþá nótt. Ég stend upp og geng örfá skref um á ísköldu gólfinu teygi hendur mínar í blindni ofan í skúffuna þú ert ennþá þar. Ég opna bókina og fletti þvalur síðunum í myndaalbúminu skoða allar þessar ljúfu minningar aftur þú ert ennþá þar. ... Ég geng um götuna sem og svo oft áður aleinn og einmana stari ég á strikin í stéttinni ímynda mér hvernig við héldumst í hendur föðmuðumst innilega kysstumst hlýlega. ... Ég lít upp til himins hann er blár og fagur sólin skín niður á mig úr litlu sætu skýjunum. ...og þú ert ennþá þar. ] [ ...skýið yfir fjallinu byrjar að gráta og tárin leka niður gróðurlausar hlíðarnar saltvatnið safnast saman í djúpu sári sem verður dýpra með hverri stundu... ...að lokum jafnast fjallið við jörðu leifarnar skolast út í kalt og blátt hafið skýin hlæja yfir vel heppnuðu verki en hlíðarnar rísa aldrei að nýju... ...ný grasstrá vaxa á auðri jörðinni þar sem áður var skjólið mitt... ] [ Geng í gegnum gráa eyðimörkina grátandi, skiljandi litla dropa eftir á þurrum sandinum. Sest á hné mín, horfi niður og hugsa hugsa um þá einu ást sem ég fór frá þá einu ást sem ég vildi. Horfi stíft á lítinn, þurran, kaldan sandstein tek upp lítið, hart og oddhvasst grjót hugsa um illsku mína sé eftir öllu þessu hegg mitt hjarta í steininn. Ég veit, ég sé að hjarta mitt er hart og kalt ég vildi, ég vona að hjarta mitt væri mýkra og betra en hjartað fyrir augum mínum hjartað sem ég sker út er hjartað sem ég úr mér missti hart sem steinn kalt sem grjót. Sýrutárin úr augum mínum renna enn niður er ég tek upp bjarg og geng stutt aftur fleygi því á litla steininn, litla hjartað og sé strax það sem ég vissi áður að hjarta mitt er steinn að hjarta mitt er hart en hjörtu úr steini brotna líka. ] [ Hatrið býr í brjósti mér, nartar, rífur, bítur. Hatrið geymi handa þér, dóminn minn þú hlýtur. Enda skalt þú dapur, snauður. Samviskan mun fanga þig. Óska munt að værir dauður, veist ei hvað kom fyrir þig. Aldrei munu augun þín aftur fá að særa. Dimm munu augun mín myrkrið þér færa. Á gröf þinni mun ég ganga, dansa, syngja og hoppa. Fagna þér sem satansfanga, aldrei mun ég stoppa. ] [ Við rætur hugsana minna situr þú og sáir frjókornum ástarinnar sem á leið sinni gegnum tómið breytast í bitur blóm sem anga af reiði og seinna meir munu þau lifa góðu lífi í listigarði brostinna vona ] [ Hversu ljúft var að hlusta á þína fögru hljóma. Dreyma drauma sem aldrei fá í deginum að óma. Hljómarnir þínir hrífa mig með óþekkta heima að kanna. Heima sem ég hef aldrei séð en hljómarnir þínir sanna. Tónarnir áfram mig teyma, upp úr djúpinu toga. Gullin þín viskuna geyma, tendra gyllta loga. Ljóðin þín lokka og tæla. Þau leika við huga minn. Um sál mína flæðir sæla er heyri ég sönginn þinn. ] [ Hlýr ofninn virðist brennheitur er ég snerti hann létt með mögrum fingrum... einn ískaldan janúarmorgun... ... stari fram fyrir mig á hnakka langþreyttra sálanna týndra dvelur hin sama hugsun í heilum þeirra og mínum? fölleitur kennarinn útbýtir verkefnum með sorg á vörum en viðarklætt borðið mitt hverfur ei sýnum... á glugganum lenda stórvaxnir droparnir með hvelli þögnin hér inni orðin óbærileg líkt og áður í neonupplýstum hornum má heyra einstaka snöggt því draumurinn um betra líf er þegar orðinn máður... ... köld bifreiðin tekur á móti mér með opnum örmum og dynjandi bassatónlist... er ég lífga stálið við með ryðfríum lyklinum... ... inni í viðarklæddu sjónvarpsholi sest ég örmagna niður menn lifna við á skjánum er ég ýti á einan takka æðisgengnir skotbardagar í hrynjandi háhýsum hljóma en ég heillast ei og læt huga minn afskiptalausan flakka... þar sem graslendið, vötnin stór, fjöllin há gnæfa stend ég ímynduðum fótum og læt mig dagdreyma regnið kalt, loftið tært, dýrin öll og tárin mín ég græt því að sálin mín - á í raun hér heima... ... ég opna vot augun og geng hægt að ísköldum glugganum... útsýnið inn er eitt samansafn byggða og jarðarmeins... krabbameins... ... ég vildi að ég gæti flúið út og leitað frelsis upp tindana þar sem að draumar mínir rætast yfir skóglendið þar sem ég glaður myndi villast faðmandi dýrin - þá myndi sál mín brátt kætast... en sakborinn í heiminn sem deyðandi ógnarafl get ég aldrei snúið aftur með samviskubit á hjarta feður reknir voru áður úr lífsins paradís í sjálfum mér heldur samviskan áfram að narta... ... en til fjandans með auðæfi peningasjúkra manna allir vilja að nám mitt klárist með prýði en til hvers að vita svo margt um ekkert þegar frelsisþrá hjarta míns er að brjótast úr hýði? út úr borgarhel þar sem að gleði öll tapast held ég heim þar sem fögru ævintýrin skapast við munum á endanum hvert og eitt andast en sem lík vil ég ei fjöldanum blandast!!! ... hvers vegna að læra öll þessi fræði þegar niðurbundin sál mín er aldrei í næði? til hvers að vinna sér inn ógnarmikið fé þegar peningaleysið í óbyggðum er það eina sem ég sé? til hvers að kasta á braut minni paradís þegar sýktur af baldni að lokum ég frýs? farið þið menn til fjandans með tækni ég held fast í frið ...og náttúrurækni... ...á fjöllum ég dvel brátt ...undir himninum hátt ...hef allt sem ég hef þráð ...þegar frelsi mínu er náð... ] [ Jæja mér finnst heimurinn vera dulítið skringilegur þessa dagana þegar allir bomba alla og litlu sætu dýrin horfa á blessuð litlu börnin og alla þessa hryðjuverkamenn leika sér með bomburnar sínar og önnur leikföng sem sköpuð eru í þeim tilgangi að myrða saklaus börn og gamalmenni sem hlaupa um í göngugrindum og reyna að forða sér undan bílum sem keyra alltof hratt og innihalda manneskjur sem að eru að drífa sig til að sjá einhverjar myndir í kvikmyndahúsum þar sem að þeir upplifa sælustundir séðar í gegnum augu leikara sem fá svo miklu meira í árslaun heldur en allir forstjórar tölvufyrirtækja í veröldinni þar sem einræði er smám saman að ná tökum á litlum og sýktum heilum stjórnmálamanna sem einnig laumast til að níðast á litlum krökkum og halda framhjá í gríð og erg líkt og þeir fengju borgað fyrir það en það er einmitt málið sem að allir spyrja sig um hvort að þeir væru virkilega eitthvað hamingjusamari ef þeir ættu peninga og þyrftu að hafa áhyggjur af því að einhver rosa drjóli með haglabyssu sem framleidd er af barnaþrælkurum í Asíu myndu ráðast inn í stóra húsið sem reist er af sama fyrirtæki og lagði alla þessa olíuborna vegi um löndin og choppaði niður trén í þeim tilgangi að rækta meiri dóp fyrir aumingja sem nenna ekki að vinna og sitja þess í stað í einhverjum gatslitnum sófa undir sæng og horfa á ofbeldisfullt sjónvarpsefni sem kennir einmitt öllum börnum þessa heims að ríða eða kýla alla aðra krakka í andlitin sem að vaxa senn upp í fullorðin smetti með bólum og tilheyrandi sem að þau meika yfir með farða sem búinn er til úr sandinum sem tekinn var úr hlíðunum austan við fjall og orsökuðu það að stór hola er komin inn í landslagið sem mun aldrei bíða þess bætur og verður þannig um aldur og ævi hvers einasta manns sem óskar þess verða gamall en reykir samt og drekkur áfengi í von um það að finna hamingju í þessu "vonandi" langa lífi sem hann vill upplifa og drekkur þess vegna appelsínudjús á milli mála í von um betri heilsu... Fuck it... Ég er farinn í sturtu ] [ Ég henti skel í ósk minna drauma leitandi að þér... Ósk mín með öldu rann til sjávar "óljós er stefnan þín" Sólin kvaddi settist niður hljóð hún svaraði minni bón ljúfur draumur... Enginn veit hvernig fer enginn veit hvernig fer... ] [ Með hvítvoðung í fangi liggur hún stofunni í ljósbleikt hörundið roðnar.... Um nótt varst þú birta gargandi her ómældan sársauka, skapaðir mér.... Í enda er upphafið að leita nú liggur þú hér vafinn af brjóstinu heita... Fingur um mig grípa starandi undrandi á sjáðu hvað ég hef skapað já sjáðu hvað ég á..... ] [ Á Myrká bjó djákni einn Átti hann lífsbitan seigan Í jólaboðið var hann seinn Því dauðinn vildi hann feigan Yfir brúna djákninn ríður djarfur Veit ekki að brúin er að bresta Er hún brestur djákninn stendur stjarfur Hefur engan stað í hönd að festa Fölur upp á bakkann djákninn flýtur Ástríðufullur lifnar við Þegar hann svo spegilmyndina lítur Hefur hann snúið aftur í draugalið Djákninn kemur ríðandi á bæinn Fær þar koss á kinn Hún segir honum hvað gerst hafði um daginn Á meðan hann hemur hestinn sinn Á leiðinni upp í hallann Kemur Kári fljótt Gúðrún sér í hvítan skallann Úff það var ljót Er þau koma aftur heim á Myrká Ætlar djákninn að spyrja: Viltu ekki vera mér hjá, Ástarævintýrið er rétt að byrja? Guðrún því með öllu neitar Hún hleypur burt og beint Að griðarhúsi Guðrún leitar En það er því miður of seint Djákni ætlar að þrífa hana niður En Guðrún hringir bjöllum Á bænum myndast mikill kliður Og Guðrun er að fá hjálp frá nokkrum köllum Við þetta verður djákni smeykur Hann hleypur yfir torfin Þá kemur mikill reykur Og púff djákninn var horfinn Alla ævi mun þetta á Guðrúnu bitna Og aldrei mun hún djákna gleyma Hún hefur stundumm sést mikið svitna Er hún segist sjá djáknann sveima. ] [ Manni litli karlinn sá Er snýtti sér í föt Heldur betur honum brá Þegar hann fór af sinni Flöt Hvað var orðið um hann Þennan lærða og snjalla mann Var eitt sinn ánægður, Eða svo hélt hann Hann var orðinn einmanna Átti engan að Varð að búa í öskjuhlíð Fór aldrei í bað svo var það einn dag er hann var að spræna í krús að sá þennan séstaka hvorki mann né mús hann sagði hvorki nafn sitt né hvaðan hann væri það eina sem hann sagði var \"ég vil gefa þér annað tækifæri Manni kinkaði kolli var orðinn ægi spenntur það næsta sem gerðist var að hann var aftur á Flötina lentur hann sá sína konu og litla strákinn sinn, sagði ekkert en huggsaði \"þakka þér Guð minn\" ] [ Nú sit ég einn í svölum aftan-kalda og silfurhvítum horfi eftir linda, sem bungar fyrir blástri sunnanvinda, þar blá og dimm sig reisir fjarðar-alda. Heill sértú, blær, og vonarljósið valda, sem veit ég af að baki dökkra tinda, og heill sértú, þú hreinust allra mynda, sem hylst mér nú á bakvið jökulfalda. Þig skal ég, mey, í mínum huga geyma, og aldrei muntu mér úr minni líða, þú munarskæra, sem ég unni lengi. Um þig mig skal á dimmri nóttu dreyma, og þegar ljómar fagrahvelið fríða, þá fyrir þig ég hreyfi gígjustrengi. ] [ Liljur hvítar í ljósum draumi lyft mót geislum brá; í glugganum mínum þær ungar anga sem elskunnar sæla þrá. Ég sit og horfi á sumarljómann, er svífur um loftin blá, og hugsa um augu, er á mig litu með undrun og bæn og þrá. ] [ Úr krystal-glasi gullið drakk ég vín, og gleðin kyssti varir mér. Í djörfum leik sér lyfti sála mín, sem lausklædd mey í dansinn fer. Ég skæru glasi hélt í hendi fast, sem hönd það væri á kærum vin. En, minnst er varði, bikar sundur brast og brotin skáru æð og sin. ] [ Einn sit ég yfir drykkju aftaninn vetrarlangan, ilmar af gullnu glasi gamalla blóma angan. Gleði, sem löngu er liðin, lifnar í sálu minni. Sorg sem var gleymd og grafin, grætur í annað sinni. Bak við mig bíður dauðinn, ber hann hendi styrkri hyldjúpan næturhimin helltan fullan af myrkri. ] [ Ég er hraustur, ég er veikur, ég er hryggur, glaður þó; ég er óhræddur, ég er smeykur, ég er snauður, ríkur nóg. Ég elska gjörvallt, allt þó hata, allt ég veit og neitt ei skil; öllu bjarga´ og öllu glata í augnabliki sama´ eg vil. Ég er fús og ég er trauður, ég ber glaður votan hvarm, ég er lífs og ég er dauður, ég er sæll og bý við harm. Ég er óður, ég er hægur, ég kýs allt og ekkert vil; ég um alla jörð er frægur, ég hef aldrei verið til. ] [ Bjössi litli á Bergi, bróðurlaus á jörð, hljóður fram til fjalla fylgdi sinni hjörð. --Stundum verða vorin vonum manna hörð. Bjössi litli á Bergi bjó við stopul skjól. Hálsinn hamarsavrtur huldi vetrarsól. Inni jafnt sem úti einstæðinginn kól. Einn með öllu gömlu unga sálin hans þoldi þunga vetur, þögn og myrkur lands. Löng er litlum þroska leiðin upp til manns. Kæmi hann í kirkju klæðin bar hann rýr. Hryggð í hvarmalogum huldu þungar brýr. Enginn veit hvað undir annars stakki býr. Þegar byggað börnin brugðu sér á kreik, glettnir gleðihlátrar gullu hátt í leik, Bjössi litli á Bergi burt úr flokknum veik. Hljóðumr heim að Bergi harma sína bar. Afl og heppni hinna honum minnkun var. Orð, sem einhver fleygði, inn í kviku skar. Bjössi litli á Bergi, bróðurlaus á jörð, hljóður fram til fjalla fylgir sinni hjörð. --Stundum verða vorin vonum manna hörð. ] [ Sofðu, unga ástin mín, - úti regnið grætur. Mamma geymir gullin þín, gamla leggi og völuskrín. Við skulum ekki vaka um dimmar nætur. Það er margt sem myrkrið veit, - minn er hugur þungur. Oft ég svarta sandinn leit svíða grænan engireit. Í jöklinum hljóða dauðadjúpar sprungur. Sofðu lengi, sofðu rótt, seint mun bezt að vakna. Mæðan kenna mun þér fljótt, meðan hallar degi skjótt, að mennirnir elska, missa, gráta og sakna. ] [ Nú er frost á Fróni, frýs í æðum blóð, kveður kuldaljóð Kári í jötunmóð. Yfir laxalóni liggur klakaþil, hlær við hríðarbyl hamragil. Mararbára blá brotnar þung og há unnarsteinum á, yggld og grett á brá. Yfir aflatjóni æðrast skipstjórinn, harmar hlutinn sinn hásetinn. Horfir á heyjaforðann hryggur búandinn: ,,Minnkar stabbinn minn, magnast harðindin. - Nú er hann enn á norðan, næðir kuldaél, yfir móa og mel myrkt sem hel. Bóndans býli á björtum þeytir snjá, hjúin döpur hjá honum sitja þá. Hvítleit hringaskorðan huggar manninn trautt; Brátt er búrið autt, búið snautt. Þögull Þorri heyrir þetta harmakvein gefur grið ei nein, glíkur hörðum stein, engri skepnu eirir, alla fjær og nær kuldaklónum slær og kalt við hlær: ,,Bóndi minn, þitt bú betur stunda þú. Hugarhrelling sú, er hart þér þjakar nú, þá mun hverfa, en fleiri höpp þér falla í skaut. Senn er sigruð þraut, ég svíf á braut. ] [ Gakktu varlega, vinur minn. Vel getur skeð, að fótur þinn brotni, því leiðin er ógurleg. Enginn ratar um þennan veg, því lífið er leiðin til dauðans. ] [ Þér leiðist að bíða eftir boðunum þeim, sem búið er sjálfsagt að skrifa, að þú skulir fara oní Hadesar heim og hætta því fáræði að lifa, því bið þín er örðug og óhæg. En þeir eru fleiri, sem þola þá kvöl -og þykir ei heilbrigðum undur- að liggja með örkuml á urð eða möl og allir tætast í sundur. Það deyja svo fáir á dúnsæng. ] [ Hvað mun það undra, er ég úti sé, - þrúðgan þrætudraug um þveran dal skyndilega skýi ríða? Svartir eru möskvar, sígur með hálsi fram slunginn þrætuþinur. Sé ég á dufli dökkum stöfum E. T. illa merkt. Ertu, afi, endurborinn og ferðu kvikur að kynngi? Illar stjörnur veit ég yfir þig ganga grimmlega úr ginu. Hættu! hættu! áður að hálsi þér sjálfum verði snara snúin, því sá varð fanginn, er und fossi hljóp, lax inn lævísi. ] [ Við elskuðumst fram undir morgun þar til döggin blandaðist svita okkar í drykk tilhlökkunar gærkvöldsins og samviskubits morgunsins. Ég lét vinstra augað hvíla á brjóstum þínum meðan það hægra skyggndist inní framtíðina þar sem ég stend við grafarbakkann þinn með börnunum átta sem við áttum saman með öðru fólki. ] [ Þér tókst þá að fylla tugina þrjá, teigar nú ölið konunni hjá. Æskan að baki og ókomin ár ungdóminn taka og enn meira hár. Nú áttu að standa á fótunum einn, óstuddur vera í bakinu beinn. Máttu þó aldrei missa af þeim sem máttinn þinn efla og í sækja heim. Svo bregðast krosstré sem bolti og ró, blokkirnar falla, ei bifuðust þó. Leiðirnar skiljast, á lífinu sér; langbest er traustið á sjálfum þér. Nú gleðjumst við saman gleðistund á, í glasið er notalegt vínið að fá. Vinir og fjölskylda vanda sig nú, svo verði hér gleði, \"hey búggalú\"!. ] [ Það fennir yfir fólkið sem fór eitt sinn um grund og fól okkur að hafa sig í huga litla stund. Við verðum samt að reyna að vekja upp minningar og verma okkur við þær sem birtast hér og þar. Við viljum að við munum hvort annað, mig og þig; mundu mig, ég man þig, hugsar hver um sig. En vonin vill sinn tíma og vonin hefur völd; við viljum verða fræg og rík, núna strax í kvöld. Svo hægist tímans asi, þá uppgötvar þú það; engin börn né hjálparhönd, þú komst ekki á blað. Það fennir yfir fólkið sem fer um þessa grund og felur ekki neinum að minnast sín um stund. ] [ Þó örfáum skrefum frá mér finnst mér þú gljúfur að stökkva. Hvort samsett bros þitt úr niðurlagi andlitsins og björtum sumardegi verði að þessari miklu mannraun fæ ég ekki að komast að því maður með kalda fætur stekkur ekki langt. ] [ Blik í augum, á meðan hún gengur á milli - matar þá gleðilegum ótta. Dágóð stund í þögninni, þá kveikja þeir á bílnum og keyra burt. ] [ Stundum tekur tíminn, í tönn mína og togar. Rífur upp með rótum og skilur eftir tómið. Eina litla holu, sem þó erfitt er að fylla. En hún fyllist þó. Í tímans tönn ] [ Með tæpri tungu tala ég tæpitungulaust og hlýt ámæli fyrir Því viðmælendur hræðast að gagnrýnin sé sönn og finnst það neikvætt Þeir eru svo vitlausir ] [ Stöðugt þær í sífellu tungumál sitt þreyja. Ég hafði ekki hjart'í mér að skipa þeim að þegja Hlusta þó með hálfum hug að það er þær mér segja og hugga mig við það að heyrn mín mun fljótt deyja. Stanslaust mas, stöðugur kliður. Það er ekki stundarfriður ] [ Fellur í stafi vetur konungur gríp þessa frostrós þetta snjókorn þennan klakabunka og bind í orðahríð. ] [ Malbikið úti margfaldur stjörnuhiminn stjarna við stjörnu eins og bústaðir austan við fjall ekkert rými lengur ekkert einkalíf og regnið hrynur niður og ber sér leið gegnum stjörnudýrðina heim í sinn rétta farveg ] [ ...þá kleifst þú klettótta slóða með slíðrað sverð í farteskinu leiðin lá á tinda og faðmaðir himinn í friði jöklar og eldfjöll risu til þín á hæsta tindinn tré í skógi hafa lofað þúsundir þig hrópað þig velkomna fræ þeirra falla til jarðar og vaxa með minningu þína ...nú stend ég einn í skógi miðjum í iljarnar kitlar af iðandi fræjum þar undir hrópa svo undir taka tré: af myrkri þínu stafar birta þess sem lifað hefur dáið og valið að lifa... ] [ Hvort hægt er að vita hvert leiðin liggur hvert á að líta og hvenær að líta undan hvenær að beygja og hvenær að beygja af hvenær má gráta og hvernig hvenær að staldra við og týna upp steina hvort vindurinn ber mann af leið og að vita aldrei hvert leiðin liggur til að vita hvort vindurinn ber mann af leið eða hvort hann er leiðin ] [ Ég stóð í sandinum og sjórinn gróf hann undan mér þegar hann renndi sér upp sandinn, í gegnum mig og áfram upp fjöruna þá heyrði ég þarann velta því fyrir sér hvort hvalir væru stór dýr. Pappírinn velktist innan um hann með kúkalykt, "er kúkalikt af hvölum?". Hafðu þig bara hægan á meðan lestin skríður hér um hlaðið og sýgur upp öll sporin okkar, en ég veit að hún nær aldrei þeim sem við fórum með í feluleik. Hvernig sem ég spurði hann þá virtist sem vagninn fjarlægðist miðjuna oftar en ef þú værir hættur þessu. Rígfullorðin? ] [ Inn í skápum eru ósýnilegar eigur mans. Skápar gera hluti ósýnilega. Hús, gardínur, sængin mín, herbergið mitt, stóri frakkinn minn næstumþví, gera mig ósýnilegan. Já, straujárn þyngjast með aldrinum. ] [ við hvellan söng vorboðanna hniprar nóttin sig saman hvít rúmföt blakta einmanna í vorgolunni og síðustu kossarnir þorna hægt í sólargeislunum á meðan eineygðir borgarbúar gæða sér á ís í álfheimum og saltfiskbreiðan stækkar við laugarbakkann sit ég bergnuminn og stari á útbrunnið kerti bíð þess að nóttin herði upp hugann á ný ] [ varlega tókstu mig úr hulstrinu stilltir mér upp milli fóta þinna og hallaðir höfði þínu að mér bogi þinn strauk strengi mína blíðlega framkallaði tóna sem aldrei áður höfðu heyrst nú hljóma þeir stöðugt í eyrum þínum ] [ stundum þegar allir í nóttinni sofa vært vakna ég horfi á andlit þitt finn ilminn af líkama þínum hlusta á rólegan andardrátt þinn en rétt áður en fyrsti sólargeislinn læðist inn í herbergið á gulum inniskóm loka ég augunum svo þú getir vakið mig með vörum þínum og ég litið bláar perlur komandi dags ] [ Friday afternoon And then he was gone and fragmented images fell with the invisible dust on my furniture ] [ Höfuðstafa stafsetning, stuðlar beint að rími. Það mátti vera meining með, mér gafst bar'ekki tími ] [ Hún étur mig að innan þessi óvelkomna tilfinning ég er berskjölduð og veikburða frammi fyrir þér ég get ekki lengur þóst vera einhver önnur einhver önnur en ég er ég hata mitt innra eðli hvernig ég er þegar hún hefur tekið sér bólfestu innan í mér eins og ótímabær þungun í landi þar sem fóstureyðingar eru bannaðar ég er stjórnlaus barnaleg asnaleg allt út af henni ég ræð ekkert við hana inn í mér er glundroði ég er glundroði hún er spilling og ég er spillt eins og George Bush á ekki skilið að vera forseti á ég þig ekki skilið. ] [ Ég sit hér á himninum er sólin að setjast fuglarnir eru að syngja sína síðustu söngva fyrir nóttina Í næsta herbergi við mig eru hlæjandi börn að leik Útundan mér heyri ég fréttir af stríði út í heimi Börn verða munaðarlaus Börn deyja saklaus Ég finn tárin kítla kinnar mínar, hugur minn fer í ferðalag Þegar ég sný aftur er sólin sest Fuglarnir eru þagnaðir Börnin eru sofnuð ] [ Ég vildi ég væri fugl, Og flogið gæti um. Flúið allt það rugl Sem fylgir manninum. Ég myndi flögra um heiminn Og eitthvað út á haf, Og ef mér svo sýndist Ég styngdi mér á kaf. Ég flygi yfir borgir, Svifi þar í ró, Ofar jarðar torgi. Því ég hef fengið nóg . Nóg af illsku mannsins, Og stríði út um allt. Nóg af hatri heimsins, Þar sem allt er falt. Því maðurinn er dæmdur Til að tortíma sjálfum sér Stríðsins tign er sæmdur, Hann mun aldrei þrífast hér. Sem fugl þá get ég frjáls, Gert það sem ég vil, Án þess þó að þurfa Að spila mannsins spil. ] [ Hvað er ég að gera hér Ég finn aldrei réttu leiðina réttu leiðina að veginum að veginum til þín Til hugsanna þinna og hugarheims Ég stend hér á veginum Já, ég fann hann Hér er dimmt þú mætir mér á miðri leið En vísar mér veginn að annarri leið að öðrum vegi ] [ Út á hvað gekk það? Grámygluleg karlálft vappar um og finnur sér fórnarkindur. Altúnga heitir hann. Ef þú átt leið hjá skaltu liggja vel fyrir höggi, því þá verður þú og líkami þinn lúlaminn. Það rignir, það rignir mikið, en bara núna. Altúnga reisir upp bendifingurinn og etur honum að rigningunni með ásakandi spékoppaglotti. Dauði og djöfull, þetta gerir ekkert gagn: sama hvað Altúnga potar í mikinn hluta rigningarinnar hættir hún ekki að bleyta heiminn. Því næst, fer hann að hrópa ókvæðisorð að rigningunni. Fellur enn. Svo þétt og víðáttumikil að Altúnga sér varla putta minna skil, svo mikil er hún orðin að hann fær innilokunarkennd. Þorir ekki að hreyfa sig. Blotnar í gegn og bráðnar einsog ísstytta, samt ekki. Út á hvað gengur það? Konan sem gat ekki gert tvo hluti í einu. Sú eina sem heyrir án þess að hlusta. Sú eina sanna. Menn eru líka konur. Hvar er Altúnga? Konan sem hleypur út nakin í hvert sinn sem himininn grætur. Konan. Tárin eru aumingjar, þau gera ekkert annað en að gráta. Altúnga, sannkölluð dvergadrekka. Allt í kringum okkur, en bara þegar henni hentar. Endurvinnsla, við erum ekkert annað en aumir unglingar að flokka dósir. Þeir sem eru hugrakkir láta þær detta á gólfið svo þær geti endurnýjast fyrir fullt og allt. En af þeim fær enginn heyrt. Hugsjón, málstaður, baráttuandi, meira en flokkandi. Konan, kona sem Altúnga eltir. Hún ráfar því í eymd og volæði um Afríku svo fólkið geti fundið rakann. Blotnar í gegn og bráðnar einsog ísstytta, samt ekki fyrir málstaðinn. Út á hvað skal það ganga? Helst sem minnst. Kannski garðrækt, en ekkert endilega. ] [ fætur mínir bogna lítið eitt furðulega og maginn lætur sem fljúgandi fjaðrakoddi kitlandi tilfinningin er furðulega heit og hugur minn tileinkaður þér... ...ég vildi að þú værir hér... varir mínar kyssa út í autt loftið og hendur mínar þurfandi þrífa í tómt mig vantar þín orð og mig vantar þig alla og að láta mig falla - í faðm hjá þér... ...ég vildi að þú værir hér... en nú hefur draumur um þig mér ræst og hugur minn barmafullur af gleði í háloftum hátt uppi á háfjallatindum mun ég dvelja ætíð í faðmi þér... ...það er svo gott að hafa þig hér... ...nú dvelur fögnuður í hjarta mér ...og kætin svífur yfir staðinn hér ...því staðurinn sá ...er fullur af þér... ...og loksins hef ég þig hér... ] [ So many days have I flown over oceans above the comforting ambience of the extreme freedom that cradles my joy So many nights have I lain in the shadows beneath the flickering lightspots on the darkened sheet that covers my sorrow In the twilight the day meets the night they fall in love and part together leaving only faint traces of daybreak ] [ Ljós er þjóðfélagsins stéttaskipting, stöðu þinnar ertu fangi. Því lífið sem taflsins píslarpynting, peð ekki verður að kóngi. ] [ Af hverju er hann að snjóa núna, ég var búinn að sjá fyrir mér svo milt haust, með rómantískri birtu frá láréttum sólargeislum og niðurlútum hundum sem stelast til að kúka í garðinn hjá mér, skömmustulegir greyin. Ekkert prívat eftir að laufin fölnuðu og slitu sig laus. Eftir standa alsberar greinarnar og hundur að skíta. En ég, bara sný prikinu á rimlagardínunni einn hring og þá er ég horfinn. En það besta er að á sama augnabliki hverfur snjórinn og hundurinn líka. Ég sný við. Kem mér notalega fyrir í hlýjunni og örygginu fyrir innan rimlagardínurnar, dreg teppið alveg upp að höku. "Það snjóar víst drjúgt". Það blæs inn með óþéttum glugganum, rimlarnir vagga þar varlega í böndunum. Það er bara notalegt og róar mann. "Hvað ætlarðu að lesa fyrir mig núna elskan". ] [ Hvað var það sem gerðist Hvað var það sem breyttist. Var það eitthvað sem við gerðum. eða var það kannski eitthvað sem við gerðum ekki? Hvað er það sem getur freistað þin svo mikið til að yfirgefa okkur. Þetta var það sem við spurðum okkur alltaf að en fengum aldrei svar. Við leituðum að ástæðu um hvað hefði gerst. Þú hafðir breyst svo mikið, við vorum hætt að þekkja þig. Þú hættir að hringja þú hættir að koma til okkar. þú þekktir okkur ekki lengur. Við sem vorum alltaf til staðar þegar þú þurftir okkur. Við stóðum hjá þér í gegnum gott og illt gegnum brosin og tárin Ég vildi að Þú hefðir bara sagt mér frá þessu. Ég hefði kannski getað hjálpað þér eitthvað. Það gat ekki verið svona slæmt að Þú þyrftir að hanga fyrir það. Það er engin sæmd í því Ég man það ennþá þegar við vorum lítil að leika okkur úti. Það var svo gaman þú varst svo full af lífi, að ég skil ekki hvernig það gat horfið svo fljótt. Það var eins og að lífið hefði verið sogið úr þér og að djöfullinn hefði náð tökum á þér allri. Ég vona að þú heyrir í mér þegar ég segi að ég elska þig og mun alltaf sakna þín og við gerum það öll.............. ] [ hver hefur ekki heirt einhverja gamla konu segja með tímanum lagast allt eða þetta grær áður en þú giftir þig.. En þessi heilræði eiga alsekki heima á hausum á fólki því að timin lagar ekkert fyrir þig það ert þú sem lagar það það þíðir ekkert að skella skuldini á tíman því að það er ekkert sem hann getur lagað það eina sem hann gerir er að grafa það leingra inní hausin á þér.. ] [ þar sem að vitleysan er mín þá er hún ekki þín. En vitleysan er það sem vitleysan er en vitleysa er ekkert annað en hugarástand hvers og eins. Þessvegna getur það verið vitleysa í þínum augum það sem er snilld í annarra. Þannig að ég get verið snillingur í annarra augum en vitleysingur í þínum. En það er allt í lagi því að mér er sama hvað allir haldi því að ég er ég í mínum augum og það er það eina sem skiptir máli... ] [ Hvað varð um heiminn? Hvað varð um landið? Hvað varð um fólkið? Hvað varð um hamingjuna? Hvað varð um ástina? Hvað varð um mig? Hvað varð um allt sem vert var að lifa fyrir? Vonleysið náði tökum á því. Vonleysið yfirgnæfði það. Vonleysið tók öll völd. Sorgin ríkti sorgin og vonleysi, var það eina sem menn sáu og fundu, svo fóru þeir að hverfa einn af öðrum, þar til ég stóð einn eftir átti engan að, hafði ekkert að fara það voru allir búnir að gefast upp og horfnir héðan, Það hafði ríkt vonleysi of lengi. Ég sá ekkert nema sorg mína sorg og mitt vonleysi. ] [ Tilveran hefur sýnar góðu hliðar. Tilveran hefur synar verri hliðar. Því miður hef ég bara séð þær góðu í stuttan tíma en lifi alltaf í þeim vestu. líf mitt er í rúst síðan þú fórst frá mér, ég er ekki maður ég er ekki mús heldur. Ég er bara vonlaus vera í vonlausum stað. Og lifi vonlausu lífi....... ] [ Þúsund manneskjur í kringum mig allar á þörfinni fyrir að tjá sig svo byrjar allt allir ofan í alla þetta er einsog að vera í helvíti og komast ekki neitt þessar tjáningar renna saman og hljóða eins og tímasprengja TIKK-TAKK TIKK-TAKK og allt í einu hættir tikkið og allt springur ég slátra öllu sem lifir hér á jörðu og skít ] [ Ég sat úti einn dagin sólin var að setjast á sjóinn, rauður blærin lá yfir öllu tetta var svo fallegt en þrátt fyrir það jafnast það ekkert á við þig. ] [ Afhverju er lífið mitt svona flókið afhverju er það svo stutt ég næ ekki að greiða úr flækjuni á svona stuttum tímaég finn sálina flæða burt.bless............ okkar leiðai liggja kanski saman aftur.. ] [ Tárin renna niður kynnina á mér ég reini að þerra þau en það dugar ekki. Því að þegar ég hugsa um tímana okkar og að þú sért ekki hér leingur þá græt ég. ] [ Ljósið læðist innum rifuna á hellinum. Ég sé það speglast í pollinum sem myndaðist um nóttina. Það birtir örlítið til ég sé næstum í hinn endann á hellinum. Ég reyni að færa mig nær en þá finn ég hvað keðjurnar eru stuttar. Ég næ ekki einusinni að standa upp. Ég grúfi mig niður og brest í grát. Afhverju hafði ég endað svona? Ég hafði aldrei tekið feilspor í lífinu. Ein mistök, eitt spor útaf línunni og allt varð svona, dimmt, kalt og drungalegt. Ég hefði aldrei átt að taka þessa töflu, sama hvað þeir sögðu oft að þetta væri í lagi. ] [ Ef ég væri þú væri litið á geðveiki mína/þína sem snilligáfu. Ég/þú skrifaði/r ljóð um ekkert. Um lífið um þig og mig um okkur. Eða ekki. Ég/þú myndi/r gera það í nógu mörg ár. Þar til að einn daginn væri það öllum ljóst, að ég/þú er/t Snillingur. ] [ Truflaður hugur minn spyr spurninga En fær engin svör ] [ Mynd af þér í huga mér sífellt er á sveimi. Er við hittumst forðum ég með fögrum orðum, hana í hjarta mínu geymi. Þá fékk ég fyrst varir þínar kysst, því ég aldrei gleymi. Eitt er víst og þér rétt líst, þú ert besta kona í heimi. ] [ ...himininn þekur sýn okkar í kvöld inn í nóttina svörtu við störum hjúfrandi okkur að hvoru öðru horfum við á stjarnanna fall... ...fallandi hratt inn í svartholið dökka lýsa þær upp andlitin okkar andlitin okkar mæta hvort öðru... ...með stjörnur í augum rafmagnaðar varir við eltum stjörnurnar og föllum að hvoru öðru... ] [ ...doðinn sleikir innanvert hjarta mitt skjálftinn þýtur upp í heilarætur hugsanir mínar vaxa nú hægar og útlimir allir staðna... ...olían streymir um rósar stilk storknar vökvinn í köldum rótum krónublöð rauðleit þau kafna og hníga og þyrnirnir allir linast... ...veikindi valda öll hægari vexti og athafnir okkar hægjast um stund blóm dýr menn og guðirnir deyja þegar mengunin flæðir um lifandi grund... ...þó blómin séu þau einu sem falla... ...mun mengun að lokum drepa okkur alla... ] [ Yfir dal, yfir sund, yfir gil, yfir grund hef ég gengið á vindléttum fótum. Ég hef leitað mér að, hvar ég ætti mér stað, út um öldur og fjöll og í gjótum. En ég fann ekki neinn, ég er orðinn of seinn, þar er alsett af lifandi og dauðum. Ég er einbúi nú og ég á mér nú bú í eldinum logandi rauðum. ] [ Þið þekkið fold með blíðri brá og bláum tindi fjalla og svanahljómi, silungsá og sælu blómi valla og bröttum fossi, björtum sjá og breiðum jökulskalla ? Drjúpi' hana blessun drottins á um daga heimsins alla. ] [ "Þar sem háir hólar hálfan dalinn fylla" lék í ljósi sólar, lærði hörpu að stilla hann sem kveða kunni kvæðin ljúfu, þýðu, skáld í muna og munni, mögur sveitablíðu. Rétt við háa hóla, hraunastalli undir, þar sem fögur fjóla fegrar sléttar grundir, blasir bær við hvammi bjargarskriðum háður. Þar til fjalla frammi fæddist Jónas áður. Brosir laut og leiti, ljómar fjall og hjalli. Lækur vætu veitir, vökvast bakka halli. Geislar sumarsólar silungsána gylla þar sem háir hólar hálfan dalinn fylla. ] [ Eldgamla Ísafold, ástkæra fósturmold, Fjallkonan fríð! mögum þín muntu kær meðan lönd gyrðir sær og gumar girnast mær, gljár sól á hlíð. - - - Eldgamla Ísafold, ástkæra fósturmold, Fjallkonan fríð! ágætust auðnan þér upplyfti, biðjum vér, meðan að uppi er öll heimsins tíð. ] [ Þú nafnkunna landið sem lífið oss veittir, landið sem aldregi skemmir þín börn! hvört þinnar fjærstöðu hingað til neyttir, hún sé þér ódugnaðs framvegis vörn. Undarlegt sambland af frosti og funa, fjöllum og sléttum og hraunum og sjá; fagurt og ógurlegt ertu þá brunar eldur að fótum þín jöklunum frá! Fjör kenni? oss eldurinn, frostið oss herði, fjöll sýni torsóttum gæðum að ná; bægi sem kerúb með sveipanda sverði silfurblár Ægir oss kveifarskap frá. Þó vellyst í skipsförmum völskunum meður vafri að landi, ég skaða ei tel; því útfyrir kaupstaði íslenskt í veður ef hún sér vogar, þá frýs hún í hel. Ef læpuskaps ódyggðir eykjum með flæða út fyrir haf vilja læðast þér að: með geigvænum logbröndum Heklu þær hræða hratt skalt þú aftur að snáfa af stað. En megnirðu? ei börn þín frá vondu að vara, og vesöld með ódyggðum þróast þeim hjá, aftur í legið þitt forna þá fara föðurland! áttu, - og hníga í sjá. ] [ Fýkur yfir hæðir og frostkaldan mel, í fjallinu dunar, en komið er él, snjóskýin þjóta svo ótt og ótt; auganu hverfur um heldimma nótt vegur á klakanum kalda. Hvur er in grátna sem gengur um hjarn, götunnar leitar, og sofandi barn hylur í faðmi og frostinu ver, fögur í tárum, en mátturinn þverr - hún orkar ei áfram að halda. ,,Sonur minn góði! þú sefur í værð, sérð ei né skilur þá hörmunga stærð sem að þér ógnar og á dynja fer; eilífi guðssonur! hjálpaðu mér saklausa barninu´ að bjarga. Sonur minn blíðasti! sofðu nú rótt; sofa vil eg líka þá skelfingar nótt; sofðu! ég hjúkra og hlífi þér vel; hjúkrar þér móðir, svo grimmasta él má ekki fjörinu farga." Fýkur yfir hæðir og frostkalda leið, fannburðinn eykur um miðnæturskeið; sjóskýjabólstrunum blásvörtu frá beljandi vindur um hauður og lá í dimmunni þunglega þýtur. Svo, þegar dagur úr dökkvanum rís, dauð er hún fundin á kolbláum ís; snjóhvíta fannblæju lagði´ yfir lík líknandi vetur - en miskunnarrík sól móti sveininum lítur. Því að hann lifir og brosir og býr bjargandi móður í skjólinu hlýr, reifaður klæðnaði brúðar - sem bjó barninu værðir, og lágt undir snjó fölnuð í frostinu sefur. Neisti guðs líknsemdar ljómandi skær, lífinu bestan er unaðinn fær, móðurást blíðasta! börnunum háð, blessi þig jafnan og efli þitt ráð guð, sem að ávöxtinn gefur. ] [ það er svo margt sem liggur óklárað á milli okkar sonur allar þær skýjahallir sem við ætluðum að reisa timbrið liggur fúið á jörðunni og grotnar niður... það er svo ansi margt sem ég hugsa um þegar ég sofna allar þær stundir sem við áttum saman í gleði og friði gleðin liggur nú yfirgefin í herbergi þínu og grætur... rúmið liggur tómt og autt grasið sölnar gult og rautt í lífi okkar skríður inn hið kalda haust ég held þá leið er þú sonur minn kaust... skólabækur í skúffu liggja og safna ryki um ókomin ár lampinn varpar enn daufri skímu á borðið þitt á alla þá hluti sem þú skildir eftir... hlíðin sem við gengum saman virðist ei vera svo græn blátt vatnið sem við stóðum við litast núna grátt því skýin þar sem þú hvílir varpa skugga sínum um allt... húsið hljóðnar og allt er farið sárið grær smátt blátt og marið en þú kemur aldrei aftur niður og aldrei aftur sé ég þig hlæja því himnarnir eru svo langt í burtu... við stöndum yfirgefin á grasinu yfir gröfinni þinni regnið rennur niður brotinn hjartalaga legsteininn líkt og blóðið sem rann um æðar þínar... hlýtt sýkt sorgmætt og líflaust faðir til sonar vissa til vonar vagga til lífs sorg til hnífs blóðið rennur enn hættir það senn??? þú aldrei hverfur mér úr minni sonur kær einn veikur á sinni ég bið til guðs að taka við þér og hugga alla sem elska þig hér... sonur góður dáinn fyrir aldur fram tók sitt líf og skildi við okkur einn sit ég eftir og skil ei neitt og fæ ei lengur neinu breytt... engin orð hann mig ei kvaddi engin ást frá þeim er mig gladdi enginn hlátur lengur aðeins tvítugur drengur... ] [ Að sakna einhvers er sárt ég hlýt að eiga eitthvað bágt, en við höfum ekki um það hátt hvað ég á bágt ég sakna þín bara svo sárt. ] [ Stundum minnist ég löngu liðinna daga okkar þokukenndar minningar um hlátur og fyrstu ástina Og þó að þessum minningum hafi lokið með tárum sem nú eru löngu þornuð Þá kenndirðu mér að ástin er ófullkomin ] [ Á réttum stað, á réttri stund hví ríkir myrkrið hjá þeirri hrund? Komin langt á leið, með, að létt?á sinni lund, nú vill hún segja frá... Hún er fugl í búri föst, fær ei losað um sinn löst. Ef vill hún út, sinn eigin hnút, losar sjálf. Svo segir hún, sumum frá sinni hegðun og innstu þrá. Allir skilja, því, nú allt má. En léttist hennar lund? Hún var fugl í búri föst, fékk svo losað um sinn löst. Enn hún var, bundin þar, til eilífðar. Nú sjálfa sig, hún sjálfsagt spyr: ?Sé ég mig, á annan hátt en fyrr? Er ég á sama stað, við sömu dyr? Hví var ég ekki kyrr?? Hún var fugl í búri föst, fékk svo losað um sinn löst. Enn hún var, bundin þar, til eilífðar. Enn hún var, bundin þar, til eilífðar. ] [ Sit ég hér einn út í sveitinni ég er umvafinn engu mannlegu bara ég og náttúran Það rignir en mér er alveg sama Því ég elska hana í dag á morgun og alltaf Sit ég hér ásamt öðrum í borginni ég sé ekki neitt fyrir húsunum bara ljótir steinveggir Það er slydda og ég þoli hana ekki því ég hata hana í dag í gær og að eilífu Sit ég hér einn í þögninni sé bara eitt skært ljós svo bjart að mig svíður það er ekkert hugur minn er tómur í dag í gær og á morgun ] [ Í heimspekiþönkunum heilann hann brýtur hugsanir komast af stað. Og allt sem að brennivínsbokkunni lýtur böl? ja, það er nú það, Með sálfræðikenningum sífellt hann reynir, að sýna fram á það, að kerlingarkroppurinn, hann á sér leynir að kúra hjá veiti unað. Og sálinar pólana sendast á milli sækjast víst eftir því Í norðri þær eldri líkama fylli; í suðri þær fæðist á ný En þú ert bara trúlaus, hvað ertu að reyna? þú kemst ekki á æðra svið. Þú verður að vita hvað þú vilt meina annars bíður hin eilífa bið; þú kemst ei um hið gullna hlið. Ei vilja vottanir trúlausum veita virðulega himnavist viljastyrk verður þú, kallinn að beita ef vilt geta drottins tær kysst. Kristnir, þeir ganga með krossinn í keðju, keikir ei spyrja að því: Ef drepið þeir hefðu son drottins með sveðju, hefð\'ann dýrðlegur risið á ný? En þú ert bara trúlaus, hvað ertu að reyna þú kemst ekki á æðra svið. Þú verður að vita hvað þú vilt meina annars bíður hin eilífa bið; þú kemst ei um hið gullna hlið. ] [ Háskólamenntaður heimspekingur handritaskáld, höfuðpaur Bévítans kaffihúsabóhem, sem aldrei nokkurn tímann á aur Víðlesinn á Shakespeare og Kiljan, Þórðarson og Hemmingway Hlustar grand á Nýdönsk og Dylan. Djöflast dag og nótt á sinni mey Hvernig sem á því stendur, hvernig sem í það er spáð. Þá hefur hann, Hannes Ingvar Stúdentsprófinu náð. Fræðast vill um fyrri tíma fræga menn á fornri grund. Egil skalla og Njál í brennu. hetjudáð og fagra hrund. Þegar þú svo lífið lætur, sem kannski er á næsta leyti, þá verður enginn sem að þig grætur og ég lofa að halda heljar teiti. ] [ Þegar vegirnir liggja víða, ei vandalaus er sú þraut að velja honum stæði, veginum blíða og valda svo þeirri braut. Er ?áfram? leiðin eina, eða er hún ?afturábak?? Til hliðar má og hægri reyna. Er hin hefbundna tómt úrhrak? En stöldrum nú við á staðnum og stígum ei skref um stund. Hvers er að vænta, hver verður á staðnum, hvar situr þú næsta fund? Mun í fræðunum leynast sú flóra sem færir þér bættan hag? Kannski finnur þú steininn stóra, sem sindrar svo skært í dag. ] [ Í þrjátíu ára einsemd eldast sérðu mig hokinn, hrísi barinn haltrandi upp stig. Ljósið er þar lítið, það langa vegu fór að ilja mér um andlit en ég það af mér sór. Þrjátíu árum áður ungur maður var í hjarta mér brann bálið og bölið var ei þar. Lífið mig átti allan og ekkert illt á mig fékk ei hikaði við hallann hafið yfir gekk. Þá lagðist yfir löngun að leggja allt á skjön að gera eitthvað annað en við erum vön Ástríðu og ástúð ég vildi sveipa þig en örlögin tengdu ekki unaðinn við mig Því særði ég þig og setti sverðið djúpt á kaf en gætti ei að gráti sem gróf sig í hjartarstað. Þá magnaðist allt myrkur og margan vininn hreif svo einn ég stóð í endann á Einmanastaðarkleif. ] [ Ég var einn á ferð og þú komst þar að mér sagðir: ?Ég verð að sofa hjá þér, vilt þú vera með, með mér til eilífðar?? Ég brást seint við, vildi ekki finna á fótum mér þunga hlekki. Því er ég hér og þú þar til eilífðar. En þú ekki mátt, misskilja mig; ég leggst ei svo lágt, að hitta þig. Ef þig vantar far, máttu bíða til eilífðar. --- Ef ég, geng á þinn veg ég skal ei nema staðar, ekki vera fyrir þér og þú þarft ei að heilsa mér til eilífðar. ] [ Aldrei sagði hún mér að hugsa ekki um demantinn sem hann geymir í frystinum. Yfirleitt talaði hún um mikilvægi einstaklingsins Í samskiptum kynjanna, og kynhlutverk framtíðar. Þegar byrjaði að rigna lá ég inní henni, rann af mér járnið sem veraldarsmiðjan hafði hamrað á mig. Hún sagði mér frá eldinum sem bjó innra með sér, hún þráði skilning. Hún sýndi mér sár sem koma þegar hún er að brenna. Á þessari stundu sá ég eldglæringar í endalausu augum hennar og ég sagði “ég sé eld hennar brenna í augum þínum” þegar ég eyði demöntum. ] [ Svartsýni Það er feitur bóðir inni hjá mér, breiðist yfir líf mitt eins og veira. Feitur og frekur, hann er alltaf hér, hef aldrei tíma til að leira, Því þetta er veira sem aldrei fer, stundum get ég ekki meira. Kastali þolinmæði minnar brotnar, hef engan leir til byggja. Ég finn lykt, eitthvað rotnar, ég sé sjálfan mig liggja, dáinn, fallinn til botnar. Veiran mun þér dauðan tryggja. Ljósið Ég vakna, ég sé ljós, sé veg, allt verður auðvelt, ég er á lífi. Bróðir minn, veiran, er falleg ég spyr hvernig honum líði segi honum frá Guði, glaðleg. Daginn eftir er sem hann svífi Það er sannur bróðir inni hjá mér, svífur yfir mig eins og engill. Ég vil hafa hann hér, hann hjálpar mér að byggja stóran turn. Ég vil innilega þakka þér.. Guð, fyrir að gefa okkur ljósið. ] [ Fjallið handan flóans dregur hina afmarkandi línu skerpir hana á skínandi björtum köldum sumardögum svo í höfði mínu hljómar: Innan þinna veggja vil ég vera. ] [ Hatrið brennur, blóðið lekur blasir við mér opinn skurður tárin leka, titra varir týndu lífi, þú heimsins burður. Brostið hjarta, brotinn hugur blóðið lekur stríðum straumum ligg á gólfi, læt mig deyja lokuð augu, líkt og í draumum... ...er þetta hann, hinn eini sanni hefst ég nú til Guðs á loft? Kramin sálin, skælir óðum sker þig tík,já, sker þig oft. Örin opin, blóðið storknað aldrei mun ég brosa á ný útaf hverju, ekki spyrja útlit, það er útaf því. ] [ there was joy there was fun i had the beast on the run i trembled with fear subsiding my pain would it be here there was nothing to gain the earth stood still hoping and waiting no one to kill no one i was hating i was fulfilled my beast was asleep it had no one to kill no where to creep i understood beauty but was pretty shaken dying of fear that my beast would awaken ] [ Ást okkar er allsstaðar hér: kaffibolli á hvolfi á ofni snjáður spilastokkur kámug kristalkúla: allsstaðar komum við við sögu aftur og aftur höfum við elskast og munum gera það aftur og aftur um ókomna tíð í eftirlífum og eftirlífum þeirra. Í þessu lífi vil ég styðja þig á meðan þú styður mig gleðja þig meðan þú gleður mig frelsa þig undan mér, frjáls undan þér. Við erum ekki eitt við erum tvennt, en við ferðumst áfram sama veginn. ] [ Mjer í öllum önnum smærri, öllu því, sem snertir friðinn, hversdagslega' er Kristur kærri; --- kýs ég heldur forna siðinn í stórræðum og styrjarferðum, er stáli' er beitt og höggvið sverðum, og eigi' er tóm að gefa griðin; --- þá er betra' á Þór að heita, þar er meira trausts að leita. ] [ Hvað er nú tungan? - Ætli enginn orðin tóm séu lífsins forði. - Hún er list, sem logar af hreysti, lifandi sál í greyptu stáli, andans form í mjúkum myndum, minnissaga farinna daga, flaumar lífs, í farveg komnir fleygrar aldar, er striki halda. Tungan geymir í tímans straumi trú og vonir landsins sona, dauðastunur og dýpstu raunir, darraðarljóð frá elztu þjóðum. Heiftareim og ástarbríma, örlagahljóm og refsidóma, land og stund í lifandi myndum ljóði vígðum - geymir í sjóði. ] [ Undarleg er íslensk þjóð! Allt, sem hefur lifað, hugsun sína og hag í ljóð hefur hún sett og skrifað. Hlustir þú og sé þér sögð samankveðna bagan, þér er upp í lófa lögð: landið, þjóðin, sagan. ] [ Við hafið eg sat fram á sævarbergs stall og sá út í drungann, þar brimaldan stríða við ströndina svall og stundi svo þungan. Og dimmur var ægir og dökk undir él var dynhamra-borgin, og þá datt á náttmyrkrið þögult sem hel og þungt eins og sorgin. "Þú, haf! sem ber tímans og harmanna farg, þú hugraun mér vekur, í hjarta mér innst, þá þú brýzt um við bjarg, það bergmála tekur". "Þinn niður er hryggur, þinn hljómur er sár, þú hrellir svo muna, sem brimdropinn hver væri beiskasta tár, hvert báruhljóð stuna". ] [ Vagga, vagga, víða, fagra undurbreiða haf, ástarblíðum blævi strokið af, vagga, vagga, allar sorgir svæf og niður þagga. Húmið hnígur hægt og blítt um endalausan geim. Stormur felldist fyrir eyktum tveim. Húmið hnígur. Hægt í öldudali skipið sígur. Aldnar vakna endurminningar, en sofna um leið; hugann dregur aldan blökk og breið. Draumar vakna; duldir þræðir upp í sálu rakna. Bernsku draumar, blíðir eins og ljúfrar móður hönd, andann leiða inn í blómskrýdd lönd. Ljúfir draumar líða um sálu eins og heitir straumar. ] [ Reykjavík Svo grá að eðlisfari að íbúarnir mála þökin sín eins og prufuspjöld í málningarvöruverslun. Reykjavik Svo köld að það er Guðs lukka og ekkert annað að þú situr á ódýrustu hitaveitu heims. Reykjavík Svo fjarlæg að þú teygir þig í allar áttir svo að við sem búum hér þurfum sem sjaldnast að hittast. Reykjavík Hvort ertu ofvaxið barn eða fullþroskuð yngismær? Enginn virðist vera viss, hvorki þú né við gestir þínir. ] [ Mætumst á veg eilífðar stoppum segjum hæ.. Horfumst í augu segjum svo margt sem aldrei var raunverulega sagt. Kveðjumst lítum undan blind á okkar braut.. vonum við hittumst aftur þó vonin virðist dauf. Allt í draum breytist í tímans takti... Platónsk ást í stutta stund sem aldrei rættist. ] [ ...deyfðin lukti augum mínum votum – mínum huga hvert einasta hljóð í kring – öskur sárt í rökkri snertingar lausar til fótfestu – náðu ekki að duga ég dvaldi lengi kyrr – í depurð minni dökkri... ...reis hraustur upp og nýr – með hjálp ókunnugra afla styrktist – andríkur og hlýr – með vonir í hjarta höggin dundu lengi á mínum tilfinningastafla en drunginn gafst brátt upp og hætti fljótt að narta... ...ég var eitt sinn hrokafullur gikkur og leit á mig sem guðlega veru en tilverunnar lærdómsríki grikkur kveikti á minni skilningsperu... ...verur sem að áður voru í augum mínum aumar skipa núna bólstruð sæti á pallborðinu mínu augu mín veiku blinduð – þar runnu hrokataumar vanþekking mín var orsökin – fyrir minni pínu... ...engu skiptir útlit og engu skiptir geð ég sýni mitt rétta andlit það fagra sem ég hef... ...opna augun á ný.... ... á bjartsýni og vonum ég læt mig fljóta niður og lifi núna uppleystur – í lífsins ólgusjó hroki manna engu skiptir – í hjarta mínu friður því allt það slæma í sálu mér – fór á brott og dó... allir mega hlæja sem þá lystir hátt að mér því hugur minn er lokaður gegn því ég horfi yfir heiminn – sem öll við höfum hér og fagna honum vonríkur á ný... ...ég læt mig fljóta ...og glaður skyggnist ...yfir heiminn ljóta ...og deyfðin lygnist... ] [ Þegar að daginn þrýtur þreyttur í bólið fer. Margt sem að ljóðum lýtur læðist þá hljótt að mér. Þungt hugsi verð ég þá. Svo milli svefns og vöku safna ég mér í stöku flestu er flýgur hjá. ] [ Um Internetið vafrað hef ég víða en veit þó sjálfur aldrei hvert ég stefni og þjóð mín öll er fróm í fastasvefni. Mér finnst að tíminn mætti hægar líða. Á Yahoo fundin loks er leitarsíða sem lætur mér í té allt sem ég nefni, jafnt pólitík sem pornógrafískt efni og prestar þar úr fylgsnum sínum skríða. En dagsbrún nálgast hljóð úr austurátt er augum sljóum rýni ég í skjáinn og finn úr skrokknum fjara allan þrótt. Að verða átta hringir klukkan hátt. Ég horfi rauðum glyrnum út í bláinn, til vinnu held og sofna sætt og rótt. ] [ Nú þegar sól er runnin upp í austri og inn um lokuð rimlatjöldin skín við gluggann syngur lítill fugl í flaustri með fölskum rómi morgunljóðin sín. Úr næstu götu heyrist hávært geltið frá hundi sem þar æðstan telur sig. Ég klæði mig og bumban yfir beltið þá bylgjast svo það hverfur inn í mig. En við því getur ekki nokkur amast þótt iði líf og vaknað sé nú flest. Í næstu íbúð heyrist karlinn hamast á henni sem hann fyrirlítur mest. Og hægt en öruggt skapast borgarbragur því bensíngufur menga loftið tært. Já, upp er runninn unaðslegur dagur og eiginkonan sefur djúpt og vært. ] [ Elskuleg kæra móðir mín minnist ég góðrar æsku, ástrík og hlý var höndin þín, hjarta þitt fullt af gæsku, svo að ég festi sætan blund söngst þú hjá mér á stokknum, síðan fórst þú á sellufund í sósíalistaflokknum. Brestir í Viðreisn heyrðust hátt, heimsbyggðar auðvald læddist veggjum með fyrir vopnum grátt, vasklegan flokk þinn hræddist, en ef að þar í odda skarst illa fór margur kratinn, sigurreif heim komst svo og varst sjaldan með fisk í matinn. Aumlegt er núna austan tjalds, auðvaldið tökin herðir, til er ei neinn til trausts og halds, tekjurnar íhald skerðir, vinstri menn engum veita hlíf, vilja til hægri brokka, nú eiga valdsmenn náðugt líf, nú ertu utan flokka. ] [ Sjá! Frúin, hún ryksugar, fægir og þvær og flest sem að húsverkum lýtur hún leysir, sá starfi er konum svo kær og kvenlega eðlið sín nýtur. Af alúð og natni hún undirbýr jól svo ekki er mikið um næði, en skáldið er hugsi í hægindastól og heillast af ósömdu kvæði. ] [ Ég óska þér heilla, þú austfirski Björn, þótt undan nú fari að halla og sókn þín að tindinum verði að vörn, en vafalaust seint munt þú falla. En Elli er glímin, sú grálynda frú, svo gættu þín aldeilis drengur minn nú, því kerlingin knésetur alla. Þín æska er horfin og orka þín þver og ýmislegt bilað og slitið í fimmtugum skrokknum, en ótrúlegt er samt ennþá í kjaftinum bitið. Þótt skartir þú haustlitum, örvæntu ei, því ennþá fær byrinn í seglin þitt fley, það vex í þér þroskinn og vitið. Ég þekki hann Björn sem hinn mætasta mann og mannkostum hlaðinn og traustan, sem hagyrðing snjallan sem Austfjörðum ann, sem Íslending sterkan og hraustan. Og hann mun nú búa við batnandi hag, því barnsfaðir heitmeyjar Jósefs í dag mun blessa hann Björn fyrir austan. ] [ Ó, kirkja Lúters, járnbent steypan sterka, þú stoðin trausta, ljósið skæra, merka og helgidómur hundrað spakra klerka. Þér kennimenn og mætu viskubrunnar sem munu allar Herrans traðir kunnar, ó, séra Torfi, Flóki, Flosi og Gunnar. ] [ Vindurinn á glugga gnauðar. Glamra lokuð rimlatjöldin. Allar flugur eru dauðar. Það er reimt og kalt á kvöldin. Konan mín er ekki heima. Ofsahræðsla hrifsar völdin. Úti klámsöng kyrja breima kettir sem að vekja alla. Draug við rúmið sé ég sveima. Einn ég heima sit og svalla. Sækir að mér þögult húmið. Aftur tómleg augun falla. Aleinn skríð ég loks í rúmið. ] [ Eitt stundarkorn á ævi ungra manna er undarlega langt í minni drengja sem hafa notað tímann til að kanna hvað tómleg kornin vetrarnætur lengja. Því vegna allra veraldlegra anna að vinarþeli fer nú brátt að þrengja; þó hverfur aldrei kanntur, hús og grunnur sem kunnuglega reynist mikill brunnur. En kaldir vindar vaða yfir löndum þótt veröld færist nær á okkar dögum. Þótt handverkið af heilindum við vöndum þá heillast ég sem fyrr af okkar sögum. Ég finn nú sífellt betur fyrir böndum sem blóðug treystum við með okkar lögum; því lengi mun ég lifa á okkar minnum og leitast við að halda okkar kynnum. ] [ Ég læðist um og lífið heilsar mér. Ég legg mitt traust á þig í heimi hér. Ef þreytan bugar mig og þungar draumfarir sá fræum frostgolunnar í fylgsni hugarheimsins. Þá heyrast orðin þín og hjálpin bíður mín. Svo blítt þú sefar mig, ég syng um þig. Þú fóstrar mig. Þú leggur hönd á lítið barnatár og leiðir mig um öll mín æskuár. Þó blási mótvindar og megnar spurningar þjóti um lendur mínar og lami hugsjónirnar. Þú opnar hjarta þitt það hefur þrautir stytt. Aldrei ég þarf að þjást ef móðurást heldur um mig. ] [ Og svo kom vetur. Og fólkið fann kulda og krap á götunum og bleytu í báruðum fötunum. Flestir gengu feykihratt að flýta sér inn úr kuldanum. En ég hægði á mér því ég heyrði tónlist hennar og hlustaði um stund. Þetta var tónlist svo taktföst og hrein hún talaði mikið um vorið. Ég gat ekki annað en gengið heim. Dansandi eftir djúpum takti hennar. Og ég sá þig brosa. Þá rufu skýjin þögnina og hleyptu þúsund dansandi sólargeislum silfurtærum niður á grundir mínar. Og hrímið hjaðnaði um þungan frostavetur. Sjaldan hefur svo lítil hreyfing leikið sér eins djúpt í huga mínum. Hvað er sá maður sem mikill er en missir af fræum vaxa? Þessi vetur var mitt heitasta sumar, allt mitt æviskeið. - Og svo kom sumar. Og þetta sumar kom heitt inn í hjörtu mannana sem hlógu og skríktu og skemmtu sér. En í mínu sumri féll eik á opnum vegi. Ég sá þig svo oft en sjaldan ég fann þig. Og sjaldan ég heyrði tónlist þína hljóma. Góð voru grösin sem visnuðu og fundu mín fölnuðu lauf. Ég rifjaði upp og reyndi að muna brosið og þá bárust til mín tíu sólargeislar en ekki þúsund eins og áður fyrr. Bjartir voru hellar bak við mig en myrkvuð eru fjöllin framundan í mánaskini djúpu. Þetta sumar var minn kaldasti vetur, allt mitt æviskeið. Hvenær kemur veturinn með vetrarsól? Hljóð er þessi freisting og hættuleg í huga mínum öllum. ] [ Um langan tíma leitað hef ég heitt um lítilfjörleg Reykjavíkurstræti og gengið sumar götur vítt breitt í góðri von um að stíga niður fæti. Mitt farg var það að finna aldrei neitt sem fangað mína hugarelda gæti í daufri birtu drap þá myrkrið svarta djúpa þrá sem bjó í mínu hjarta. Mér finnst ég hafi fundið nýjan heim sem fyllir mig af undraverðum mætti. Þú glæðir huga minn með geislum þeim sem glaðlega ég vildi að ég ætti. Mig langar svo að leika höndum tveim um þína lindartæru andlitsdrætti því ljúflega þú lýsir upp mitt hjarta í lífi mínu ert þú ástin bjarta. ] [ Standing in front of the forever young who faded away with his loneliest song had never a place in the natural throng along with my soul embraces. Touching a stone is a tragical kneel is telling my world that I can still feel. The magical seed is making us heal and wheeling my sight for tomorrow. Those years in the fame when I found out your name my footprint at home was never the same. My home was the sound when the harmony came I just have to admit when I hear you. ] [ Vertu hér Nú Þögult vitni Horfðu á heiminn skapast og endurskapast frá augnabliki til augnabliks Það sem var og það sem verður skiptir engu máli Þetta augnablik er líf þitt ] [ Á þriðjung ævi þinnar hef ég séð hvað þróttur mikill býr í huga þínum sem örugglega ýmsum þáttum réð um allt það besta er lenti í höndum mínum. Ef stillast vegir, veröld mín og geð þá varkár hönd þín vakir yfir sýnum; Þó fjarlægð sýnist fylla heima mína er fjarska gott að finna um hlýju þína. Hljóðlega fór heilmikið á blað af heilræðum sem frá þér voru valin. Þau standa mörg sem mér fannst best við hlað á mörgum slíkum var ég eitt sinn alinn. Ef lítil þokuslæða læðist að sem leggur sig svo hlýlega um dalinn þá gleymast hvorki gullkorn þín né mildi þau gefa lífi mínu aukið gildi. ] [ Það birtir um nón Á hæðinni heyri ég kallað "Elóí, Elóí, lama sabaktaní" Ég horfi upp í rauðan himin og spyr: Yfirgafstu hann fyrir mig? ] [ Efst uppi á hæðinni og örlítið ofar stend ég í námunda við almættið. Fyrir neðan mig húsin líkt og staðfastir tindátar á leikborði Esjunnar ] [ Ég rís upp við dogg faðma daginn og kveiki á hugsunum mínum. Þú brosir eins og sólin og horfir á mig morgunbjörtum augum. ] [ Eins og þjófur um nótt læddist tunglið uppá stjörnuhimininn og seildist eftir hornmyrkrinu. ] [ svo lengi voru þau geymd ónotuð í skápnum með lausan fald og söfnuðu ryki á hlífðarplastið nú standa þau fyrir framan mig ný pressuð og falleg með rós í barminum og draga gylltan baug á fingur mér ] [ í ofvæni bíð ég þess að heyra fótatak hans nálgast í kyrrðinni þrái að finna mjúkar hendur hans sníða af mér síðustu þyrnana stundum leggst hann í grasið við hlið mér og segir mér sögur af ókomnu sumri þá drekk ég í mig orðin og blómstra á ný ] [ tíminn söng tregafullt síðustu tónana í haustgulli trjánna spegluðust spor okkar á slóðinni og ég fann sólina snerta hörund þitt ] [ Á dimmustu stund hinnar dimmustu nætur mun ég elska þig án enda og hverfa svo aftur inn í myrkviði hugar þíns En á björtustu stund hins bjartasta dags verð ég aðeins minning um draum hlátur í hjarta von í brjósti Ég bíð alltaf næturinnar, djúpt inni í myrkviðum hugar þíns ] [ Er ég geng þessa götu hugsa með mér hvað hún var hvað hún hafði verið áður. Ekkert sem kom mér upp annað en þetta hafði verið gata, gata, stypt af mönnum í skrítnum göllum. Á haustdegi, þyrping yfir hana, ei held ég að henni þyki það á einhvern veg gott, þar sem gata hefur tilfinningar, grætur af lífs og sálar kröftum meðan stór farartæki, líkt öpum, valtar yfir hana, en enginn heyrir, enginn nema hinn einmana drengur, sem situr á gangstéttinni og hugsar lífið frá byrjun tíma. ] [ Ég legg eyrað þétt upp að hvítri brjóstvörninni og hlusta á eirðarlaust fótatak blóðbandingjans ] [ Ég var að vona að þú dveldir lengur hjá mér Ég bar bekkinn að vesturveggnum svo við gætum setið þar í kvöldsólinni En þá kom kallið og þú varðst að fara Nú sit ég á bekknum og strýk í huganum yfir höfuð þitt ] [ Ég reyndi að móta mynd þína í leir og á léreft En mistókst Svo ég krossfesti þig fyrir ofan rúmið mitt Og þar hangirðu drjúpir höfði í þögn Á kvöldin sit ég í rökkrinu og dái fegurð þína ] [ Flugbeitt rek ég þau á kaf eitt af öðru í varnarlaust andlitið tár þín eru blóðlit ] [ Í tvíátta hugstormi ein á gráum sandi Þreifa á þokuveggnum og leita þín ] [ Dauðinn grét í gær, en verður meinlaus á morgun, því Dauðinn hann deyr, í dag. Dauðinn grét í gær, biksvörtum og þykkum tárum yfir öllum sínum sárum, en það er bara svona, sem greyið hlær. Á morgun verður meinsvanur, áður þakinn þyrnum stráðum mun hleypa hömum bráðum, Ljáberinn er þessu ekki vanur. Já, í dag mun Dauðinn deyja, vild´ei lengur lífið þreyja, hugarstríð þarf hann að heyja, en lífsins galdur mun Ljái geyja. Hér verða brögð í tafli, hvernig skal hann bregða fyrir sjálfan sig fæti, til að falla á eigin bragði? Hefst þá annar kafli? ] [ Hver hefur sinn djöful að draga og ég mína dönsku, það bætir & kætir kaffið Braga barmana frönsku. Sannlega spyr Skilur þig einhver Við dauðans dyr Drap þig amerískur her? Mannaforráð með mælir af speki. Af östfersköm seð að sker kereð leki Kvikt yndi allra þjóða Öngvum gleymir Mammon og bakkus bjóða Barn ekkert þá dreymir Frelsi og líf, jafnvel víf vilja strákar. Vatnið ekkert því skákar nema skjól eða hól, komist veikur á ról, fyrir jól, kviknar sól í kotbænda hjörtum, finnast ei hákar. Mungát mun kæfa fát Morgunverðurinn, gerður bætir ei manns lát Þetta var bara blóð lækur ekki foss bjóddu mér koss þetta var kækur, ert ekki sprækur? Er ég gerður brott rækur? Þú ert sýrður og illa settur ef stjórnarskrárvarinn er þinn réttur Hátt er að þér hlegið greyið og harkalega að þér vegið Ný búinn að koma sér fyrir, kann ekki spönsku kauði verður að gæta sín Þó eymd hans nái ei til þín, Grunar þig eigi hví ÞÚ lærðir dönsku? ] [ Ég var kátur, ég var glaður. Ég brosti við lífinu. lífið brosti við mér. Þú varst ekki kát, ekki glöð. Þú brostir ekki við lífinu. ég var sá eini sem brosti við þér. Þú vildir hætta, ég dó. Ég var ekki kátur, ég var ekki glaður. Ég hafði ekkert til að brosa yfir meir. Ég var dáinn, ég var ekki til. Ég er draugur í dag. eins og Casper, sá vinalegi geri allt til að þér líði vel. ég er samt einn, og svíf í einmannaleikanum. Lífið er búið, og nú bíð ég eftir því að komast áfram. ] [ Ljósin loga, lokka, toga, svala, seiða, sundra, leiða. ] [ Echoes of emotions embracing my mind repeated requests replayed in my life Destroying distortion downward my sanity goes pitfalls of pleasure playing my heart Glimmer of glory gives hope a chance of living life with love by your side ] [ She has sixteen roses on the floor one for every year she's got Don't know why ? She feels so old Knows she's all alone Don't know why she feels this way knows she has is all up made knows she is one of those that never find their way back home Got no lovers got some friends but they won't ever make it better 'Cause how are they to know what troubles her little head and soul They don't ever see inside the life I live and noone ever will I am frightened I'm alone I got noone in this world 'cause this world is full of fools Welcome to my world ] [ Cloudy sky obscuring the stars The signal lost How do I know where you are? Although night and almost dark the alit sky, the colour of orange-aide Makes me wonder how you are The feelings exploding A comet appears It's my emotions Can you see from afar? ] [ Ég dreg út skúffurnar og róta hratt í leit að einhverju til að gefa þér. Vona að ég finni eitthvað sem stoppar þig. Finn ekkert, allt verðmæti hefurðu þegar fengið. Þú lýkur við að klæðast, brosir til spegilsins en lítur ekki á tómar hendurnar sem ég rétti fram. Strax og þú opnar dyrnar stekkur golan til og hrærir glaðlega í hári þínu og ákveður að fylgja þér á leið. ] [ Lýstu mér leið þú ljósa svo ég geti komist heim. Þú mátt ekki vera lengi og þú mátt ekki vera sein. Leið mín lá til alls sem að ég nú vil fá. Hver ertu hvaðan komstu ertu kannski ekki til. Tvær sorgir inni í einni tvö hjörtu endalaust bil. Einn rifinn tón Hvers vegna er það alltaf slíkt flón. ] [ Neyti doða svo tíminn sé með mér Reyni að skoða hvað býr í huga mér Hugsanleg sóun býr í mér Svíf yfir gatinu rauða Vil fara þangað sem ekkert er Og reyna að lifa í Fljótsdauða Ekki koma Það er til mun betra stef Vaka / Sofa Og safna í lungnaher Hugsanleg sóun býr í mér Svíf yfir gatinu rauða Vil fara þangað sem ekkert er Og reyna að lifa í Fljótsdauða ] [ Neyddist þrautinn þunga taka konu unga Sannleikann frá lygi alltaf henni hlýði Nei, alls ekki, hvernig dettur þér það í hug Út af láði sínu þurfa að bera grímu Heimska aumingjanna viska vitra manna Nei, alls ekki, hvernig dettur þér það í hug Hafði allt til að bera margt mátt betur gera Endað löngum vetri er ég eitthvað betri ? ] [ Sjúkleiki heimsins nötrar, blekking valdsins hylur, augum lokað fyrir morðum eitthvað sem enginn skilur. Barn kastar grjóti það er drepið,skotið í hausinn, enginn það sér, þótt í blóði fljóti því hagsmunirnir eru engvir. Stórar þjóðir myrða um allan með glotti, mannréttindi engin virða ömurleiki heimsins er stjórnað með plotti. Stríðsdómstóllinn í hag dæmir einn en ekki júða, hjá Ísrael eru morðin fag stríðs-tóla salar elska þessa lúða. Hver er munurinn á drápi og morði? pólitíkin skiptir megin máli, allir til hægri lýgin í orði allir til vinstri dæmdir fyrir morð!... 09-04-2001 ] [ Með ryðgular sundblöðkur, syndir hann í hæfilega frosnum pollinum og hrífst af ástarlífi svifdýra og fiðurmiklum úthafsfuglum, sem höggva niður í svifsein smádýrin. Hann trúir á hringina í vatninu, velþóknun marflónna og margþætti mýflugnanna, sem fljúga oddaflug yfir höfði hans, þar sem hann hringsólar í slímugum sjávargróðrinum, sem togar hann sífellt dýpra niður. ] [ Það er til staður fjarlægt land á hjara veraldar á hjara veruleikans draumur Þetta land er ósköp fallegt eins og stjörnubjört nótt norðurljós eins og sólsetur í logni bleikur himinn eins og þú fullkomið Það er minn draumur þangað leita ég þegar lífið er líflaust og vonin er vonlítil þegar skuggar skyggja á sólina og fegurðin felur sig bakvið fjöllin En þetta er ykkar draumur líka þið þekkið hann öll hann er okkar leyndarmál við tölum ekki um hann en við sjáum hann í augum hvors annarrs finnum hann í hjörtum hvors annarrs Það er til staður fjarlægt land á hjara veraldar draumur... draumur... ...veruleki ] [ gatan grá af rigningu, í silkimjúku hári þínu myndast litlir lækir og drjúpa á rjóðum kinnum ferskur haustilmur blandast við sætan angan þinn og í mér kraumar frumstætt blóð heit gufa stígur af grárri götu ] [ loftið úr austri er fjarlægt sólinni finnst ég sitja á bláum skýjum ég vil þína jarðnesku ást og ég þrái að vera inní þér ég elska himnesku hugmyndina flýt fjarlægt veruleikanum í rauðu regni loftsins er ég falin í fegurð fótataksins og ég flýg í hlýju logninu það er gott að vera til ] [ Verð að pakka niður Þarna er taskan Sokkar, sokkar en hvar er peysan? Ohh, hnútur verð að leysa´n. Legg af stað Þarna er fjallið Labba, labba enginn endir Fer í áttina sem hugurinn bendir. Upp á fjallið kominn er Þarna er tjaldið Tjalda, tjalda í hita og sól Verð að komast í notalegt ból. Orðinn þreyttur, stefni heim En hvar eru lyklarnir? Leita, leita, finn þá falda Ætla í mitt rúm að halda. ] [ þú birtist mér í draumi í nótt raunverulegri en nokkru sinni í vöku -ó svo langt síðan- og ég elskaði þig skilyrðislaust ó þú Baldurs kona þremur árum of seinn píni ég sjálfan mig hryggbrotinn eins og þú þremur árum of fljótt þú elskaðir mig þá en ég ekki þig fyrr enn löngu seinna en þá varstu hólpin í örmum annarrs já vatnið er djúpt og kalt nakinn sekk ég dýpra og dýpra ég er villtur í huga þínum en þú ert efst í mínum dreymi þig vel mín kæra ] [ Ég er venjulegur maður. ég bý í venjulegu landi, í venjulegri borg, í venjulegu húsi, í venjulegu herbergi. Ég er umkringdur venjulegu fólki sem gerir venjulega hluti. Lífið er venjulegt. Mín bíður venjulegt líf. Vakna á sama tíma alla daga, raka sig, setja á sig bindið, fara í vinnuna, níu til fimm, koma heim, hlusta á nöldrið í krökkunum rífast við konuna setjast fyrir framan sjónvarpið og líða út af með bjór í hendi. Ég verð að eiga allt: Tvo bíla, jeppa, einbýlishús, sumarbústað, nuddpott, heilsurækatarkort, ljósakort. Ég verð að vera venjulegur maður, leiðinlegur maður. Ég verð. Ég verð að vera eins og þið. ] [ Ég færi fregn flestum er um megn hér um bil kl. hálf tólf streyma bátar í þetta hólf Í ballar Barentshafi Er rækja á bólakafi kjaftfullir dallar í Kolluál kallarnir segja rækjan sé ekki strjál ég held samt í Skagadýpi þó símboðinn pípi Rækju regn Rokkurum er um megn það er sama hvar okkur niður ber rækjan allstaðar er Færist þér of mikið í fang Getur þú flutt rækju á Hólmadrang engin leið er þessu að lýsa ljúfur, aflann verður að ísa Fékk þessa fregn Um feikna rækjuregn sjóveiki tjóir ei að sýta svo vel má rækjuna nýta talningarnar taka öllu fram taktu frá fyrir Þormóð Ramm\' Fyrirlestrum fiskifræðinga gegn Fréttist um rækjuregn Flykkjast á Flæmska hatt Fley kennd við GATT Engum skal hlífa, hífa, Hér má ei trollið rífa Ég færi fregn um feikna :;rækjuregn:; Rækjan safnast bara í bing Básafelli hjá Sendum óðar á Skagstrending svo förum miðin á Þökkum guði þetta rækjuregn í þrusu stuði lesum fregn um þetta líka :;rækjuregn:; ] [ Bitlingamaðurinn þiggur ríkisstyrki Þarna er merkur fundur hann verð ég að sækja þar má leita skækja verð dólgur í vélinni sef undir ræðunum lýg svo heima að hræðunum ég flý ekki úr skelinni Bitlingamaðurinn kominn er á spenann ríf ei kjaft á meðan gleymd er frelsis senan Bitlingamaðurinn betlar fleiri styrki Risna, dagpeningar, bílastyrkur, laun allt fer þetta í súginn Bitlingamaðurinn bölvar þér öryrki Bitlingamaðurinn þiggur svaka styrki Þarna fer hann utan, á stóra fundinn finnst mér betra, að senda hundinn Bitlingamaðurinn betlar fleiri styrki Bitlingamaðurinn er alkinn virki Bitlingamaðurinn kostaður af mér & þér ei gagn af honum höfum vér Bitlingamaðurinn þiggur svaka styrki Þarna fer hann utan, á fína fundi sá til að orðspor okkar erlendis hrundi á þessum fundi. Mislitir sokkar, mæddur eftir fyllerí með magakveisu í mórauðri lopapeysu. Útlendingar með endalausar bendingar, þreyttan & þrútinn þekkja kvenmanslausan hrútinn. Bitlingamaðurinn þiggur af þér fé Bitlingamaðurinn keypti sér hóru & hóran hún minnti -ekki á frú Þóru Þetta fá að vita þeir sem fundi sitja Þetta fá að vita þeir sem fundi sitja og óttast hækkandi hita Að vera Bitlingamaðurinn það er ekkert spé Því Bitlingamaðurinn þiggur af þér fé ] [ árla vetrar ökuteppa lagði æðarhnúta borgar stræti fræsar rauðum skónum fröken út í æsar óðarmála svanni enn þá þagði tjörnin vaknar vorsins til af bragði varnarlausrar reykjavíkurgæsar en upp til hópa allar eru næsar endur fæddar borgarskáldið sagði kvosinni djúpt í kraumar þungur blús kviðurinn víkur fótum troðinn niður þar liggja súlur þínar höfuðborg glennir upp skjáinn skækja tekin fús sköpum má eigi renna loks er friður hvíslar þá meyjan hrein ó fögur torg ] [ Einhverntíma fyrir margt löngu orti ég fallegt ljóð sem hófst einhvernveginn svona: Hvar er ljóðið sem orti ég forðum... Hvort orti ég það eður ei? Hvaða ljóð er það sem rífur í minnið, drukknandi ljóð, aðeins höfuðið uppúr kaldri skömminni? Segist vera óort. Hver orti það ? hvernig var það? Hef ég gleymt því? Var það gott? Eða á ég eftir að yrkja það? Einhversstaðar týndi ég því- fann það aftur - og týndi á ný, síðan hef ég verið að finna það, aftur og aftur í ljóðabókum annarra skálda og líka í þinni! ] [ Þreyttur á Þorra, og þori ekki út. Hættur að borða, og hlaupinn í kút. Þakka þér boðið, það var aldeilis fínt. Vona þó að soðið, verð-ei uppá mig klínt. Harðfiskur og hrútspungar, heitir það allt. Magáll og nautstunga, borða skal kalt. ] [ "Hver telur gesti á öllum bæjum. Hver telur hraðast með fínum græjum. Hver telur allt, nema ys og þys. Hver nema teljari.is?" ] [ Að fávísum frelsisvanda, fleygja heilögum anda, lepja samkeppnis landa, lögmál gilda þar handa. Um málstaðinn mæta má eflaust þræta, eigi eitthvað að bæta ekki mun það alla kæta. Þó kommar vilji þín gæta muntu sængina þína væta. Því er gott að vera góður og greinilega dáldið fróður, selja skaltu föður þinn og móður svo stækki þinn sjóður, borðaðu besta kjarnafóður, bara ef eykst þinn hróður og lítill er á því ljóður, ljúfi í vöngum sértu rjóður. Ef keypti ég allt, og metið var kalt, kunni að vera svalt, kannski ef, svefni réttlátra ég sef, sjálfur sem fyrir það galt. Að standa fyrir sjálfum sér, og sínum, fyrir mér leikur einn er, að tíma mínum, fylgi ég, sama hvert fer, línum fínum. ] [ Efndir eru bestu björg, blessuð dæmi þekkjum mörg, að borgun gildir minna. Sama má segja um álit hinna, sem vilja allt til vinna, aðra glepja og ginna, en gleyma réttu að sinna. ] [ Hríslur í hrjóstrugu landi hrikaleg gljúfur langt frá sandi. Bærinn brann þar brunahraunið rann. Jökull ei jórturdýr elur jafnvel þau kvelur. Sagan ljúfa segir sönnu okkar sögu, fólkið Þorrann þreyir, þá má semja bögu. Treystu tryggðarbandið, taktu þátt og efldu landið. Með sól í sinni sjálfstæður innst inni. Batnar nú hagur og blómgast tún. Íslenski fáninn blaktir við hún. Frekar þykir þar svalt, þá hrópa menn: Íslandi allt! ] [ Fyrst skulu fróðir ræða, fyrr en menn velja, hvað skal selja og sýnist gott að einkavæða fólk þarf víst að fræða fyrir hughvarfi að telja við óþarfa ei má dvelja svo allir þekkji kosti gæða og auðvelt reynist að hagræða allt má með því græða. ] [ Fljóðin fleiri fögur ég heyri búi á Akureyri, ég þangað strax keyri, svo möguleika í meyjarleit, eigi ég meiri, en í minni sveit. ] [ Freystingar marga fella fólk vér víða sjáum úr heljar staupum hella af stéttum háum, lágum með miklum látum skella mæddir verða að náum Glas gleður suma guðaveigar auðga anda vín hrellir hruma hér er glímt við vanda margra landa Með víni og veglegum krásum vel þú gjörir við mig, með hálsi fölskum og hásum hver þakkar fyrir sig. ] [ Náttfarinn læddist með dimmum veggjum, manngarm hann lamdi og hló með hneggjum, upp stál hann dró og í háls hans tróð, hnífnum hann henti og hólkinn hlóð. Að lögreglumanni hann byssunni beindi, blýið gat á hnakka hans sprengdi, heilinn hálfur úr höfðinu stóð, úr rifnum æðum rann blóðið sem flóð. Náttfarinn burtu í laumi læddist með sálina í taumi sá geðveiki fæddist, á vegum satans hann vildi ei vinna aðeins hugarró vildi sá vitskerti finna. Upp á hæðsta tind mannauminginn kleif og gegnum myrkrið niður hann sveif, úr djúpi rökkursins heyrðist hátt vein og smellir er minntu á brotnandi bein. Á frosinni jörðinni líkami hans lá, leyfar af manni er hamingju ei sá, sálin búknum flogin var frá, friður var það sem að hann vildi fá. ] [ Það er stórhættulegt að fara í eltingaleik á róluvöllum. . Ég vissekki af slánni. Þegar við rekum hausinn í á fullri ferð (maður verður alltaf jafn hissa) er ekkert víst að maður standi upp aftur. En ef svo fer þá er víst að við erum fljótlega komin í eltingaleik. Það er dásamlegt hvað við erum fljót að læra, við getum bara verið helvíti glöð, með gat á hausnum og þykjumst sjá allt fyrir. ] [ Að sitja og íhuga stríð Er ekki mitt fag Því ligg ég hérna og bíð Og sem þetta lag. Ég trú því statt og stöðugt Að baráttuni fari að linna Fólkið gæti orðið gjöfgugt Því allt of mörgu hér er að sinna Að lokum verður víst Að minnast þeirra sem liggja hér Ég gleymum þeim síst Sem að voru náir mér Á endanum við jarðsetjum þá Og komum þeim í mold Eitt skref við tökum frá Og veit ég þá að ég er hold.. ] [ Stundum er rigning á nóttinni, tungl og stjörnur skína. Í útlöndum er stjarna sem heitir Herkúles. Ég fer að sofa. ] [ Augun þín eru eins og demantsperlur og varirnar eins og flauelsfeldur,ég ástinni er ofurseldur,ég vona að ég verði aldrei geldur. "Ég er hættur að reykja". ] [ Tunglið Þessi skæri silfursteinn sem fest hefir sig í silki næturinnar Hve mörg eru þau leyndarmál sem á þér hvíla svo þungt að gígar myndast Tunglið Fast í satíni óendanleikans Hve mörg eru þau augu sem á þér hvíla svo þungt að ekkert líf hjá þér þrífst Tunglið Fast í þögn geimsins Hve margar eru þær óskir sem á þér hvíla svo þungt að þú hverfist stundum Enginn veit ] [ Hugur minn lokaður sem peningaskápur. Skerpa mín dauð sem pappírinn sem ég pára þetta á. Vitund mín er í heild í djúpu dái. Þetta eru mánudagar! ] [ Þú þarna! Þú sem stendur á brúninni og ert að fægja pistilinn! Láttu verða af því hleyptu af... Þú þarna! Þú sem stendur á brúninni og ert að fægja pistilinn! Hættu þessu grenji lifðu...! Fljótur, ákveddu þig! Ég hef ekki tíma fyrir þetta kjaftæði ] [ Það grefur í sári lítillar stúlku, en hún grætur ekki tárum. Það urrar í maga lítllar stúlku, en hún grætur ekki tárum. Það eru brestir í hjarta lítillar stúlku, en hún grætur ekki tárum. Af hverju grætur hún ekki tárum? Hún kennir svo til að hún getur ekki grátið ] [ Sólin varpar ljómandi geislum sínum á ljósa lokka lítils drengs. Hann pírir augun og skríkir eins og lítll söngfugl að vori. Hann krípur niður, slítur upp smáblóm og réttir það í áttina að sólinni. Að launum skín hún enn skærar. ] [ Ástin dettur, fellur, hrapar, smellur. Ástin bleytir, þreytir, rennur, grætir. Ástin kælir, bælir, svalar, svælir. Ástin skapar og deyðir. Ástin er blaut ... eins og rigning ] [ Hann situr í sálinni og þenst út Hann þrýstir svo á hjartað að ég kenni til Ég reyni að bæla sársaukann niður en í hvert sinn er eins og eitthvað láti undan inni í mér og ég græt .......söknuður ] [ Að eiga hjarta fullt af ást en engann til að gefa hana er líkt og að eiga penna fullan af bleki en engar pappírsarkir til að skrifa á Hálf tilgangslaust ] [ Það eru frostrósir á augum mínum, þetta er svo fallegt. Ég hef legið hér lengi, alveg í friði. Alein í náttúrunni. Við hlið mér er frostbitið strá Það sendir mér hugskeyti: „þú ert dáin“ ] [ Ég horfi á þig lengi, lengi, lengi Ég reyni að átta mig á þér lengi, lengi, lengi Ég reyni að finna þig lengi, lengi, lengi Ég reyni að elska þig lengi, lengi, lengi Ég lít undan lengi, lengi, lengi Ég elska þig ekki lengi, lengi, lengi ] [ Dimmblá nóttin þrýstir sér yfir allt eins og barmgóð ástkona. Sumir gráta hana aðrir tilbiðja hana hinir elska hana. Hún breiðir úr sér svo hljóðlega með svo mikilli nærgætni að jafnvel þeir skörpustu taka ekki eftir því Sumum er hún móðir, veit svar við öllu Sumir hræðast hana eins og sjálfan djöfulinn En hún sjálf hugsar bara um það að dreyfa kyrrðinni, rónni og myrkrinu. Hún er bara að vinna sína vinnu ] [ Sjá! Það færist ljós inn um mjóa skímuna. Það er að birta til í helvíti. Kannski er verið að sækja mig, kannski á ég núna eitthvað betra skilið. Kannski hefur heimurinn fyrirgefið mér syndir mínar. Fyrirgefið að ég fæddist! Ég valdi það ekki. Engin afsökun? Víst er það afsökun! Ég valdi ekki að vera hunsuð af öllu og öllum í kringum mig. Kannski eru þið núna búin að læra að ég er allt ég á allt og ég ræð öllu. Enginn er merkilegri en ég! ] [ Ég sit á götunni, enginn er sjáanlegur. Ég heyri ekkert. Svo finn ég fyrir stingandi sársauka í brjóstinu, ranka við mér og sé að hellingur af fólki er á þönum í kringum mig. Ég byrja að gráta en enginn hjálpar mér því ég þekki engann. Ég er.........einmana ] [ Rétt fyrir skólann: Betra líf segja þau Skemmtilegra fólk Engar áhyggjur Bara endalaus hamingja Endalausar skemmtannir Mánuði seinna: Þetta er yndislegt Við erum frjáls Bara eintómar áhættur Eintóm partý og ljúfar freistingar Hálfu ári seinna: Við erum einmana Öllum er sama Freistingarnar Partýin Áhætturnar Ofmetið ] [ Ég verð að koma þessu frá mér! Þú er mesti blórarböggull sem sest hefur á mig frá því að ég komst inn í mitt móðurlífi!! Það versta er að ég get ekki hrakið þig í burtu. Þú ert bara hérna í manni eins og versta plága!! Ég hef fengið mig full sadda af þér og þínum óvæntu uppákomum, sem að eru oftast nægar til að drepa mann! Það er full ástæða fyrir þig að taka þetta nærri þér! Takk! ] [ Ég er búinn að stökkva yfir þúsund stökk með lokaða fallhlíf. En ég finn það í dag hversu miklu það munar að hafa hana opna. ] [ Í gegnum sár sálna okkar flæðir hatur inn í þennan heim Myndar ný sár í sálum annarra, nærist á sjálfu sér Magnast En inn um opin hjörtu okkar streymir ástin og græðir sárin Rýfur vítahringinn Ja, hver skrambinn! Lennon hafði rétt fyrir sér! ] [ It was the word on the street, a new couple had arrived in town they seemed very happy, and their skin colour was brown. Soon their love grew a fruit, a new baby was born. Something just wasn´t right, the dad was out from dusk ´till dawn. He cheated on his wife repeatedly, almost every night the only sound heard from their house were the noises of their fight. One night the neighbours heard no more, he had lost control, called his wife a whore. For the beautiful young mother, there was no turning back finally she had realized, their lives were seriously off track. As she thought of happy they used to be, while she tried to take a breath, she couldn´t see it coming, but the next thing for her was death. Her last thoughts were all about how one man could chance so fast she heard her murderers baby crying as she took her last gasp. It was the word on the street \\\"´till death will do us apart\\\" didn´t he feel anything in his heart ? ] [ Snjórinn er farinn. Rigningin kom og tók hann með sér í endurvinnsluna. Hann hvarf svo tígulega, hljóðlega á braut. Þú tókst ekki eftir því. Einsog sönn dama hvarf hann af sjónarsviðinu án vitundar okkar. Hreina lyktin , sem ætíð fyllur loftið eftir rigningu, er svo mögnuð og ljúf. Hreinleiki umhverfisins er þó vafasamur. En samt er allt svo fallegt. Ég sit hér og átta mig á hve lífið getur verið yndislegt. Magnað í einfaldleika sínum. Við vitum öll hve lífið getur verið erfitt, grimmt. En hamingjustundirnar! Svona stund einsog þessi. Rétt eftir rigningu. Þegar heimurinn stendur kyrr, í virðingu. Virðingu fyrir kraftaverki lífsins. Undarleg þögn sem einungis er hægt að finna á svona stundu. Og einfaldleiki lífsins heillar mig, gleður mig. Gerir mig máttvana, orðlausa. Og með gleði í hjarta teygi ég hönd mína niður í blautt grasið. Fylli mig, ölvuð af tilveru þess, og segi: \"Já, lífið er dásamlegt!\" með tárin í augunum. Það byrjar aftur að rigna og í skelfingu átta ég mig á því að ég hef ekki regnjakka og bölsótast út í þessa ömurlegu íslensku veðráttu endalaust! ] [ Sagt er að þú ert sem þú borðar, þá hlítur þú að hafa borðað eitthvað fallegt. ] [ Mállaus-..... Málhaltur-.... Orðlaus-.... Tunguslappur-.... Engin orð, ekkert mál, engin orð um þig. ] [ Gleym mér ei Fallega rós þú blómstrar svo vel lætur mig falla fyrir þér nafn þitt svo fallegt þú ert fallegasta rós sem ég hef séð falleg að innan sem að utan ástin kviknar í mér þegar ég sé þig. ] [ Þú litla drusla sem veldur ursla í mínu hjarta svo lítið um að kvarta þú ert drusla. ] [ Coming of Age house of blue, house of red, house that bled. r(d)epressed wife, broken will, dressed to kill. posessive man, state of main, has been slain. ] [ Much Ado About Something "No, the world must be peopled!" Those are the words from the lips of a man by the name of Benedick from Padua. I think he does not understand the perturbation of human sanctuary by speaking them and believing in them. For the people speak poniards towards true scholars, conjure up massive wepons to destroy each other and are close to infecting the north star. People have transgressed, lied and denied universal wisdom. They are only blocks of life with nothing inside. But they are tolerated \\\"for a man is a giddy thing...\\\" ] [ Nothing left but the fish You are gone, gone. My world is broken into two parts. One wants to go with you on your hitchhike through the Galaxy. The other is stuck in the dimension you created here on Earth. You were the one that changed my Life, my Universe, Everything. You have ripped my towel apart, and I will never be able to mend it. A part of it is gone with you on a journey that will never end. A journey that you started inside your head, and touched so many people, including me. But now you are gone on your way, finding your true meaning of life. And I’m alone trying to find mine. The world is filled with copies of your thoughts and ideas. Original thinking died a bit when you started your space trip. There is nothing left but the fish that you gave us. So long, and thanks for all the fish. I will never forget 42, never. Thank you Douglas Adams, thank you. ] [ ástin ei spyr um aldur. gagnrýnin þau láta sem vind um eyru þjóta. hver er þessi myrkravaldur? ferðast á sínum svarta fararskjóta. ó hve heimurinn öfundar ykkur. fuglarnir koma og fara. en ást ykkar sem fastur hnykkur. rómatík ykkar mun aldrei þvara. þið elskist undir birkitré langar stundir líða fljótt og látið sem ekkert sé vilduð vera saman í alla nótt tæknin leyddi ykkur saman. sálir ykkar tvístrast aldrei. hjá ykkur er alltaf svo gaman. í myrkrinu hvílir saklaus mey. ljósin slökkna allt er dimmt. en vænumþykjan dvína ekki má. hvað er svona stinnt?? þið verðið hvort annað að fá. allt gekk vel og enginn spurði með cheerios skál í hönd ástin ekki uppþurði sláðu hann með bolluvönd! sárin gróa hægt og bítandi ástin læknar öll mein lítil \"mús\" bíður nartandi í honum brotnar hvert bein. spákonan brosir blítt vetrarnóttin kallar okkur verður hlýtt. fordæmingarnar eru allar. enginn má í þeirra mál hnýsa það sem okkur ekki kemur við rauðleitu hárin fara að rísa hví er ást mín ekki líkt og þið. ástin er ófyrirsjánanleg........... þetta ljóð fjallar um ást tveggja einstaklinga sem eru fordæmdir af samfélagi kristinna manna. eins og áður sagði; ástin ei spyr um aldur.... þau unna hv0rt öðrum mjög heitt . og á því liggur enginn vafi... (beebeeogpardus....this is detikateid for jú gæs :*) Enginn getur stígjað ykkur í sundur og ef eitthver mun reyna það.... sá hinn sami mun hljóta verra af ! ] [ Sérðu brúnina? Ég sé hana, mig langar ótrúlega að gera það en þá verður allt svart þá sofna ég þá missi ég allt missi hæfileikan til að lifa. Ég þarf þá heldur ekki að þykjast lengur þykjast að brosa þykjast að sofa þykjast að vera hamingjusöm. Þá sér fólk loksins hvernig mér líður ILLA ILLA þessi orð bergmála í höfðinu mínu. Það er mjög freistandi að taka hnífinni eða hoppa af brúninni. Tilgangurinn í því er meiri en tilgangurinn í að lifa. ] [ Þú mæddi bróðir kross þinn lagðir á herðar mér en ekkert við fætur mér Þú máði skuggi líf auðna þinna forðum speglaðist ekki í augum sem minntu á mosa og gróanda fjalls æsku minnar Þú dapra sál ég trúði á mátt minninga og ilms bergs minnar bernsku sem blési burt kólgu gráma og sveipa myndi litum með ljóði hjarta míns ] [ Liggur í leyni bakvið stein Lævís teygja lipurra lima Augun loga, eyrun næmu Eðli sínu afturkvæmu Leynir djúpt í lífsins kima Læðir efa í mín bein Hljóðlaus ráfar, hleypur rennur Rými gegnum, ofar tíma Eirðarleysi felur slyng Ávallt streymir lífið hring Engin vinnst við köttinn glíma Hvæsir, glottir...skína tennur Veit að þolinmæði vinnur Skuggaköttur alla finnur ] [ Þegar veröldin var barn veifuðu álfarnir í hamrinum Klettarnir úti fyrir urðinni voru hvalir í felum Steinninn uppi í hlíðinni var Willísjeppi. Skrýtni hóllinn fyrir ofan húsið var óheppið náttröll. Hrafnarnir krunkuðu leyndarmál í næmt barnseyra. Og morguninn boðaði æfintýri sem biðu eftir að gerast. Rauða stúlknahjólið með skakka stýrið var tryllitæki, tímavél farkostur með óendanlega möguleika Skaust léttilega austur fyrir sól vestur fyrir mána, útfyrir endamörk alheimsins og til baka, fyrir hádegisverð Í morgun skein sólin í fullorðnum heimi Samt glottu skórnir og sokkarnir ærsluðust Rauða peysan frá ömmu var pell og purpuri Vatnið í sundlauginni hló Og ég brosti þegar ég veifaði til Esjunnar Og álfarnir veifuðu til baka :) ] [ Ég vaknaði í regninu eftir síðustu helsprengjuna. Það eina sem ég mundi voru mánuðir, ár ófriðs. Ærandi þrumur sem skáru lygar úr eyrum mínum. Hvítglóandi eldur sem brenndi vanann úr húð minni. Svíðandi stormur hreif með sér síðustu slitrurnar af því sem augun vildu aðeins sjá. Ég vaknaði nakin, húð mín rifin og viðkvæm, hreinsuð, ný. Hversu lengi lá ég í rústum tilvistar sem aldrei átti stað? Þegar óvarin augu mín vöndust nýju ljósi og ókunnum formum, reyndi ég að standa í óstyrka fætur. Þeir höfðu misst sinn gyllta fótbúnað, sem áður hefti för með þungu prjáli. Hvasst grjót skar mjúkar iljar, en bar með sér létti. Aflausn. Ég ráfaði lengi um og skildi ekki hvers vegna borgin hrundi eins og undan eigin þunga. Lengi rótaði ég í brotnum speglum sem varpað höfðu afskræmdri mynd og leyft mér að sofa. Loks þegar ég fann, djúpt í rústunum, spegilmynd sjálfrar mín afskræmdrar, heftrar, falinnar, fullrar af ótta, fann ég fræið sem öllu kom af stað. Og það spíraði í raunveruleika mínum. Líf! ] [ Kona þú, sem ólst ást þína Eilífð gafst og gleði Sköpun þinni aldrei gleymi Sár þín, gyðja sem grætur, gróa senn þótt sárt nú blæði, sindri tár og stirni á hvarma. Þú sem þreyttir dimmar nætur þöglu myrkri í og næði, hulin mjúkri þoku vorra harma. Móðir buguð, heyrðu bæn mína: Bros þitt blítt sem öllu réði, fegurð aftur færi þessum heimi. Þessi ein er öll mín þrá: enn þitt andlit rétt að sjá. Svo ég gömul fræði forn finn í mínu minni magna seiðinn sorgareiðinn frið í hjarta svo ég finni frelsi, kyrrð og sannleikskorn. Allur mun þinn miski bættur mistrið, tómið hverfa Yndislega undravættur aldrei mun að aftur sverfa. Legg ég á og mæli um að megi ljós þitt skína með heita ást í huganum Ég yrki um móður mína. ] [ Í dag dansaði sígaunastúlkan sinn villta dans. Ölvuð af hamingju víðáttunar og ilmi vindsins á sléttunni. Í fjarska líta fjöllin til himins og út yfir sléttuna. Dansinn dunar í hjartanu og dynur þungt í söng þagnarinnar. Yfir hvolfist endalaus himininn, heiðskýr eða skýjaður. Regn og sólskin, stormur eða logn saman snúast í hyldjúpu hljómfalli. Hring eftir hring eru stigin spor sem ávallt áttu tilvist. Og sléttan gleðst með fráum fótum, frelsi hugar, fegurð lífsins. Víðáttan tekur aldrei enda og vindurinn er alltaf ferskur. Vakir yfir ástin, sem allt gefur en ekkert á. ] [ Tíminn rennur burt í tómi sem hennar eigin hendur skópu aumkunnarvert krafs í þurra mold ófrjó jörð löngu urin aldrei gjöful Andlit sem áður geislaði hulið, atað, skýlt af leir mannlegs botnfalls öngstræti betur látin ókönnuð hún fór alla leið ] [ Mín eru áform um heimsendir að liggja rólegur í fagurri laut er sólin eða tunglið á jörðinni lendir sjá líf mitt áhyggjulaust hverfa á braut ] [ we as people are fresh the path is yet to be made the top and nothing less is where we start to fade but how can we surely know wether progressing or stop we are our own simple fo when we finish eartly crop ] [ She takes me with her trough all her emotions I follow her like the shadow as the shadow that intervines I have the choice i tell myself trough all her emotions I give in to all her temptations temptations i can´t even see trough all her emotions the ending I havent written becouse it has not happened I still swirl around inside I lurk behind her actions here is my home here i live trough all her emotions ] [ I always had women left and right I faked afecction I held them tight I always made sure they stay in sight Love hated me with all its might They left me this thing and i had a look They thougt I was happy- No I was shook They wanted back their haerts thatI took Love was the title of this book Love took life and stirred in a boul Love had definitly changed my role Love had filled my haert and soul Love woke me up and made me hole ] [ What if I were everything Everything that lives Everything that dies What if I were nothing Nothing that lives Nothing that dies What if I could choose When to be everything When to be nothing What if I could choose To have nothing To have everything What if nothing were to choose Nothing would be everything Everything is everything ] [ Lestu á milli línanna í bókum og ritum sanninda hvar eru takmörk mannréttinda að bera út lygar og rógburða ] [ ligg ég hér í öðrum heimi augnlok þyngjast hægt allskyns myndir eru á sveimi þetta er víst oft og frægt En nú tek ég mér tak nú ætla ég að muna undirvitund oft ég rak í draumaheim ég bruna ] [ Have you ever known a love so sweet that tickles all your toes A love that lives when all else dies but softer then any rose Have you ever known a love so strong it breaks down any steal I love you my child my flesh and blood and this is how I feel ] [ >Oft bakvið við grímu leynist >hversdagsleikan, ys og þys >mjúkur, blíður- kjarni reynist >torséður sem skipsins blys > >Oft hann skín skær sem gull >á andlit þeirra fögru og fáu >af kærleika með hjörtun full >svo feginn þau sem sáu ] [ Tíminn stöðvast bræðin brennur verndarhjúpur við mér tekur klukkan tifar reiðin rennur líf í rúst en hver er sekur Í sálinni sárið grefur og grefur hjartað í uppgjöf og neitar að slá líkaminn lúin og heilin sefur blóðið drýpur úr von minni og þrá Ég græt þó ekki tíma liðna því í raun og veru var reynslan mér góð ísvafið hjartað mun á endanum þiðna og beina mér aftur á rétta slóð Nú þangað er komin og heilin að vakna græðandi sál mína hjarta og bein nú örlög mín stækka breikka og rakna fyrir drottins náð kom lækning ei sein ] [ I wait for the gatekeeper slowly with a pure haert I blindfold my concience with the blood from my vains I reach for my throat to save it and to strangle it I put on my tefflon suit and stand face up in the storm I wait for the liquid swords to pierce through my heart I hope for the holder to drop himself upun me Everything for nothing and Im Still standing face up I try to balance my fall on the finly sharpened spikes I know I was for somthing and my knowledge dies with me I rush to take a peak at my slowly festering bodily remains I see them sinking into the soil with their new meaning Everything for nothing and Im still standing face up ] [ Each step longer Each cry for help waeker Each reason for escape further Each solution more distant Each outcome more terrifying Each breth heavier Each breth more sufficating Each haertbeat more quiet Each concern more distant Each love more pressious Each smile more sad Each day more lost ] [ Now life showes you its deepest pool The questions are coming, dont worry ,just keep your cool You know the answers you always did You got them from your mother ,when you were only a kid I know its hard to think about them I dont no when, but I know you\'ll ,see all your treasures again They will thrive,prosber and finally die They will go on the journey you took ,and then they ask me why This is probably hard for you to see your blindness has a reason so I askyou ,dont cry for me After all we are all just Gods sinners on this earth untill we reach the pool ,and finally become winners ] [ My life is now ready for all it takes my future my destany said I would drop the words broke my shoulders dried my lakes but i will fight untill i reach the top This will be hard and i will be weak but that is a price i will gladly bleed for controlling my fate and raising my peak to flower like forrests made from one seed ] [ (Dauði Förufálkans) Hann kom til mín að vori. Sveipaður í kufl brostinna vona, sem hlotið höfðu endurskírn í eldi augnabliksins. Lokkaði og seiddi með ósögðum loforðum, horfnum helgidómum æsku minnar. Og ég minntist fornar myndar sjálfrar mín og klæddist grófofnum kyrtli eyðimerkurvindanna sem forðum léku um goðsögn horfinna heima. Eloin! Ómaði rödd pílagrímsins úr gleymdum fylgsnum veru minnar. Og ég mundi aftur hvert leið mín lá. Hlekkirnir brustu. Og ég tók staf minn og hélt áfram förinni. ] [ vesen ef maður togar trosnar í höndunum brennir mig bandið kemur með slakanum óvartið færir manni fötu af silfri betra sleipara meira alvöru ef það er hending dottið um & á strengirnir byrja í maganum enda úti um allt harðsperrur í höfði ] [ fara í nækskóm nýjum hvítum sanka að sér & sitja um stelpur í bleyti hreyfill: snýst nógu hratt, sjást ekki spaðarnir spaði: snýst nógu hratt, sérð ekki litla manninn kastar upp brakinu, vísifingur sem er vonandi á leiðinni eitthvað annað líka leggst á óklæddar axlir af handahófi ef athyglinni náð er vonast til þess að punktalínunum sé beint á hárréttu augnabliki að fyrrnefndu og það bogmaður í augunum og það bogmaður sem sést, bogmaður í buxurnar seinna - uppköst skapa þreytu - þreytan þorsta fólk felandi sig í fimmtán einsmannsröðum við barinn eins og til að lesa af úrvalinu eitthvað til að segja eftir að það er búið að fá uppgefna heimsóknartíðni fórnarlambsins eða öfugt reynir svo (og ég) að innbyrða sannleikinn skiptir á honum og öðru mikilvægu sín á milli forðum áðan rúlluðu - skola, endurtaka löðrun skola endurtaka: löðrun ] [ Lifa, deyja hver er munurinn á því? Meðan maður lifir deyr maður smátt og smátt Þegar maður deyr lifnar maður við smátt og smátt. Og lífið byrjar aftur og við byrjum að deyja aftur. Hringrás lífsins. ] [ Ef þú horfir á hafið sérðu kannski lygnan, spegilgljáandi flöt þess. Svo fallegt, svo róandi, svo traustvekjandi. Þig langar kannski að sigla á því til enda veraldar. Ef þú horfir á hafið sérðu kannski úfinn, ólgandi flöt þess. Svo villt, svo ógnandi, svo tælandi. Þú getur kannski staðið og horft dáleidd á seiðandi öldurnar endalaust. Að elska þig er eins og að elska hafið. Mig langar að stökkva í það. ] [ Þar sem ósnertanlegur raunveruleiki verður, munt þú alltaf vera þar. Ef uppfyllingin sem fyllir drauma mína hyrfi, myndi ég hafa það sem ég virði lífið fyrir? Hvar sem við höfum leitað og ekki vitað hverju við höfum leitað að höfum við alltaf fundið það sama uppfyllinguna í drauma okkar Hvort annað ] [ Kæri heimur,opnaðu augun allt sem þú sást ekki sem var þér hulið undir augnlokum blekkingarinnar Fyrir þá sem hafa látið lífið er þeir opnuðu augun skaltu líta tvisvar á þá sem byrgðu þér sýn. Á þá sem keyptu af þér sjálfan þig, skaltu hrækja, líta lengi á Kæri heimur,við höfum mátt þola margt og látið okkur fátt um finnast En við eigum þetta ekki skilið Taktu í hönd mína og opnum augun saman ] [ Bjartur eins og sólin sem skein í morgun inn um gluggan minn skein lífið inn um lífsgluggann hjá þér fyrir ári Embrek litli embrek, lífið áttu allt eftir allt áttu eftir að sjá og mikið áttu eftir að læra Máni þú lýsir mér á næturnar líttu út í lífið stattu upp og gakktu hinn langa veg og ég skal vera orkugjafinn svo þú haldir áfram að lýsa mér ] [ Undir auðninni sem starir bláköldum augum út í veruleikann, og svíður fyrir hvað útlit hennar er fábrotið, og öðruvísi en aðrir staðir í kring býr neisti hugsanir skjóta upp kollinum í annars líflausu landslagi hugsa um hvort það sé annar staður þarna úti sem kannski er að hugsa það sama og vonast eftir sameiningu.. Risið í landslaginu breytir um lit eftir því sem ofar dregur frá litlausri sléttunni yfir í himinbláa klettana sem umkringja allt augun glennast upp munnurinn rekur upp óp og eldurinn brýst út úr faðmi lífsins en svo vakna ég og fatta að þetta var bara draumur.. ] [ Í augunum endurspeglast ljós frá himnatákni, ljósboga.. lifir sig inn í fullkomnun lífsins, ung vera, hugfangin af þrá. Speglast minningar til skamms tíma, í tilfinningaleitinni sál, langar að sökkva sér inn í hana, loka augunum og anda henni að sér Ef það væri nú hægt að rísa upp, gera tilfinningar að ryki, og leyfa voninni að anda þeim að sér, og finna hana láta sig dreyma, Væri þá hægt að sameinast henni, rísa upp í sál hennar og svífa um í henni, ef það væri nú möguleiki? Þá myndi þessi vera sem stendur og horfir á ljósbogann loksins opna augun aftur og finna fyrir fullkomnun ] [ Og ég horfði upp í himininn, fékk Atlandshafið í andlitið. Og ég drukknaði örstutta stund við þá hugsun að kannski var þetta dropinn sem fyllti mælinn? ] [ Your ion movements assist me when my lustrous heart is weak Such sensous touches heal my hurtings Your calmness emphasizes on your violent nature deep down You risk your unconscious heart for me. ] [ I feel your intimate touches they make me curious you are invading my privacy but I kind of like it I offer my luminous heart to you and fall asleep smiling My scarred soul rests my body feels no pain I wander to another world as you lay beside me at night when no one can see us. I feel safe. ] [ First comes taste then comes intelligence put the cat in the bin and you have got yourself a killer laugh until you bleed feed your children with agony step back and follow yourself put reality on t.v and you have got yourself a unison but stop forget yourself for a minute you drunk heartless outcast search your senses cry for help throw yourself on the ground feel that road on the side of your face put yourself in those shoes and you have got yourself a job. your job is to be able to tell what is real and what is not, be able to know who you are. Find a cure. ] [ It can litterally taste you without you ever knowing it is so gentle covered with sweetness I rest my mind let my fingers fall asleep for a while I carve myself in your responses each time you respond differently for I am never the same at each look I change but on the inside I do not move at all. ] [ Not today not tomorrow instead I will cry and live in sorrow Not tomorrow not today I am not willing but I have to stay Not next week not this year I am so sad Because you are not near Not this year not next week I lost my temper I am getting weak Not now not ever I am a volcano in stormy weather Not ever not now I erupt my lava flouts around Not dead not alive still I know I will get by Not alive not dead what I always feared is in my head ] [ Smátt og smátt fyllast vasar okkar af grjóti Sundtökin verða þyngri og loks stöðvumst við - getum aðeins troðið marvaðann Við fyllumst ótta við að sökkva- böðum út öllum öngum, þrjóskumst við En komumst svo að því, er við sökkvum, að við getum andað í kafi, Ótti okkar við drukknun reyndist óþarfur ] [ Þegar borgin rumskar læðist Steinolíustrákurinn inn í grátómu húsin. Tifar á strengjasteypunni og safnar sprekum í eldinn. Þegar borgin sprettur á fætur með sírenuvæli, hrópum og skarkala og gráir bólstrar teygja sig til himins þá veit hann að þeir njóta eldanna best sem kveikja þá ] [ Það er ein stjarna sem skýn hún varpar birtu beint til mín sæl er sú stund sem líður þegar ég get litið hana blíður hún er björt og hlý hún vekur hjörtu á ný þessi stjarna er póllinn minn með hana verð ég ekki villtur um sinn hún er hornsteinn sem situr fast á himninum hún segir þú gast þessi stjarna setur brag sinn á þessi stjarna mun hér líf mitt fá hátt á himni felur stjarnan mín öll sorg og sút hverfur er hún skýn þessi stjarna skapar fjársjóð í mér sem enginn nema ástin fær séð ég elska þessa stjörnu heitt hún fær mína hamingju leitt framtíð bjarta hún mér sýn geislandi svo heit og fín fegurðin ber hún innra með sér sem leikur sterkt við hjartað í mér geislandi og skemmtileg við mig stjarnan mín ég yrki um þig ] [ Og þannig munu stjörnurnar skína, fölskini, þegar þú flýgur með síðustu vélinni yfir hafið. Með ritþyrstum blýöntum skrifar þú niðurlag dagbókarinnar og hugsar um augun sem lesa þessi orð tugum ára seinna. Á hafinu siglir báturinn sem þú komst með í gær en hann fer í gagnstæða átt við þig. Um borð eru nýir farþegar, hafa rétt lokið við fyrstu síðuna og skilja ekki enn sólarblikið á hvítfextum sjávardropunum. Flugfreyjan færir þér tíu dropa sem leka hægt ofan í bollann einn af öðrum og þú lygnir aftur augunum, hyggst sofa þar til vélin lendir á völlunum grænu. ] [ Laufblaðið svífur til jarðar. Augun lokuð, hárið blóði storkið. Regnið flytur sína hinstu kveðju og skolar burtu lífinu. Minningar seytla niður í jörðina, samlagast mold í þúsunda ára einingu. Þarna mun vaxa kræklótt hrísla en um hana leika fimir fingur. ] [ birta og húm heilsast glettnislega dragast saman í óræða mynd grasið gefur frá sér sinn hinsta ilm lyngið roðnar af rómantík haustgolan strýkur gulnuðum puntstráum létt um vangann og berin tína sig sjálf til sultugerðar ] [ Í myrkrinu paufast hann á milli legsteina. Legsteinar eru eins og tröllaaugu í tunglskini. Honum finnst óþægilegt að láta tröllin horfa á sig. Finnst eins og þau muni eftir því að hann gerði gys að tröllkarlinum er varð að steini í gilinu heima. Kannski breyta þau honum í legstein og gera hann að auga. Hann hættir að hugsa um tröll og fer að grafa eftir rótum. Veit að einhvers staðar hér eru rætur hans og finni hann þær þá finnur hann líka upprunann. Skófla í mold og mold á gras. Skófla í stein og steinn á gras. Skófla í við og? Fölblik á himni. Það er kviknað í kirkjunni. ] [ Kvöldið ber mig með þrálátum rigningaskúrum að bárujárnsklæddum kofa fjörubúans. Saggakennt loftið háir eilífa baráttu við ilm nýlagaðs kaffis. Drukkið úr haldalausum skipstjóraföntum. Skeggið litað tóbakstaumum liðinna tíma. Augun eru full af lífi og stangast á við angurvært hummið er rýfur þögnina taktfast en hopar á ný. Hrukkótt höndin tekur í mína, mál að halda af stað. Engu nær en mettur af kaffi er hafði yfir sér kynngimagnaðan kraft. Tek stefnuna upp eyrina og inn í bæ. Regnbogi. ] [ fram undan skyggninu ég stíg fram í élið snjórinn hefur aukist til muna síðan í dag lítill fugl leggur hvítt höfuð undir stélið en ljúfsárar raddir raula angurvært jólalag... hinum megin götunnar gengur önnur sál gónir sem vanviti á bifreiðir þjóta hjá eitthvað er að og ég skynja hennar mál og undan tötrunum stingst höndin blá... fátæk fögur en feig hún gónir mig á... eitthvað við augun snart mig svo fljótt ég sá allt við hana svo sorgmætt og lúið eitthvað við minningar hennar svo ljótt en á svipstundu verður það allt saman búið... ég vildi að ég gæti ekki skynjað þessa huga og ég vildi að ég gæti lukt mínum augum en á vegginum er ég ætíð örlítil fluga og verð að fylgjast með öllum þessum draugum... skyggn sorgmæddur og sjáandi hún tekur mig á taugum... ég stari enn á konuna og ég sé grilla í grát styrkist enn tilfinningin - og ég tek að kalla hún gengur í átt til mín - en það kemur á mig fát því stórgerðar bifreiðar munu kremja hana alla... ég hleyp á móti konunni með angistarhljóði svipurinn á andliti hennar breytist ekki neitt hún hverfur undir bíl - og liggur nú í blóði en á munni hennar lifir nú brosið svo breitt... laus frjáls deyjandi hún hvarf frá sorgunum svo greitt... ] [ Glitrandi flötur lokast yfir höfði mér og vekur spurningar um ljósbrot lífsins sem fellur að ofan og tvístrast yfir djúp þagnarinnar Silfraðar perlur dansa til móts við ljósið Þegar ég þrýsti síðasta loftinu úr lungunum og læt mig svífa niður í myrkviði eilífðarinnar ] [ Situr og horfir yfir auðnina sem verndar og græðir Situr og horfir og vindurinn blæs kaldur yfir auðnina Of stutt til að gleyma of langt til að snúa aftur og auðnin öskar í þögninni Situr og horfir inn í öskrið dregur hnén upp að höku og vefur sig örmum eigin einsemdar ] [ Góðan dag, litla barn. Dagur rís úr húmi nætur. Andlit þitt, geyslar af, lífsins draumi frá í gær. Brosið þitt, lifnar við, svona eins og lífið gengur. Stundum tár, stundum bros, fallvalt lífið. Ég var eitt sinn eins og þú, svona ofurlítill drengur, þegar allt var svo yndislegt og aðvellt. Faðirinn er ég nú, hin hliðin blasir við, að horfa á barnið vaxa úr grasi, eins og við hin. ] [ Skrítið, af hverju ungt fólk þarf að deyja, í blóma lífsins siglir það í burt. En eitt skal ég ykkur með sanni segja, að lífskrafturinn berst aldrei á þurrt. Guð minn kæri góði, viltu sýna, Kraft þinn og þor í nótt. Trúnni mun ég aldrei, aldrei týna, meðan englar þínir vaka, er mér rótt. Og þegar beyskjan grípur mig, og sorgin bærist um sjálfa sig, skal ég horfa í átt að sumaryl, allt breytist þá mér í vil, með trú, á líf eftir þetta líf. Stundum bærast í mér brostnar myndir, af framtíðinni, spurning hvernig fer. Og læðast aftanaðmér gamlar syndir, en eitt er víst, ég geng í gegn með þér. Og þegar beyskjan grípur mig, og sorgin bærist um sjálfa sig, skal ég horfa í átt að sumaryl, allt breytist þá mér í vil, með trú, á líf eftir þetta líf. ] [ Ég er maður sem á fullt af draumum, og ég vonað þeir bíðeftir mér. Allar vonir ég dreg þær í taumum, sálartetrið falið, það enginn sér. Ég hef látið falla beyskjutárin, yfir hlutum sem ég ei skilið fæ. Eina ást í mínu lífi er farinn, þangað sem ég til hennar aldrei næ. Hugur minn leitar inn til þín, ástin mín eina sem bíður mín. Hugur minn leitar inn til þín, ástin mín eina sem bíður mín. Ég leita þar sem enginn sér, ég krafsí aumingjann á mér, ég reynað komast inn, en ég kemst bara ekki neitt! Þegar horfin er sú blíðvora æska, og sársaukinn hann stígur á stokk. Þá bíðum við bara eftir því næsta, sem að almáttugur tekur á brott. Hugur minn leitar inn til þín, ástin mín eina sem bíður mín. Hugur minn leitar inn til þín, ástin mín eina sem bíður mín. Ég leita þar sem enginn sér, ég krafsí aumigjann á mér, ég reynað komast inn, en ég kemst bara ekki neitt! ] [ ef huganum væri líkt við geyminn væri minn stjörnuþoka í hverri andrá skella hugsanir eins og leiftur norðurljósanna sem hríslast um himinhvolfið í leit sinni að jarðsambandi það verður spennufall ef huganum væri líkt við geyminn væri minn stjörnuþoka og hugmyndir fæðast líkt flugu sem þroskast í púpu sem síðan flýgur út eins og fullvaxta ávöxtur er hefur sjálfstætt sinn feril ef huganum væri líkt við geyminn væri minn stjörnuþoka hin mesta áreynsla getur falist í hugsunum þar sem alheimurinn rennur innann vébanda hugans og á sér engin takmörk ef huganum væri líkt við geyminn væri minn stjörnuþoka í leik og starfi er krafan um virkni í hávegum höfð en endalok hvers og eins á sér allt sinn tíma ef huganum væri líkt við geyminn væri minn stjörnuþoka hvað eru endalokin? þegar svefninn sækir mann? þegar lífið fjarar út? þegar lítil fluga flýgur á flugnaspaða? þegar bíllinn fer ekki í gang? ef huganum væri líkt við geyminn væri minn stjörnuþoka ég held að flugan hafi rétt fyrir sér! ] [ hvað segirðu stúlkan mín leikur sér svo fín ljósa lipurtá með lokka og fína brá þú segir mér svo margt þótt húmið kynni svart þá ertu hýr og kát þú ert þá stúlkan mín heppin ertu í dag syngur fallegt lag á meðan sólin skýn ] [ Sólargeislar veraldar eru undur. Undur sem fá hjörtun til að brosa. Brosa á móti þessum skæru bláu þessum dimmu brúnu þessum mógrænu og gráu þessum björtu augum sem á þig horfa og hrífast með. Sólargeislar veraldar lýsa okkur í gegnum þrautir og sorgir. Kynna okkur fyrir nýrri veröld sem kennir okkur að staldra við að líta til baka og skilja tilgang veraldar okkar. Þessi skæru bláu þessi dimmu brúnu þessi mógrænu og gráu þessi björtu augu þessi augu barna okkar. ] [ sólin á enga miskun hún gælir við mig svalandi hafgolan kemur inn í garðinn leikur sér í leiftrandi gusum líkt öldunum sem klappa ströndina í rólegheitum góð afslöppun ég nýt þess að vera hér engar áhyggjur eins og lítið barn gæti allt eins sofið engin truflun nema niðurinn frá hafinu hvíslar seyðandi orðum vaknaðu, vaknaðu! en ég sef.... ] [ ...ég varð gráðug...mmm... mig langaði að nota fingurnar, en ég var með svo langar neglur. ...ég hafði varalitað mig. -Þessvegna varð ég að setja stút á, þegar ég tók hann upp í mig. Ég fann af honum lyktina þegar varirnar að innanverðu lukust um hann ósjálfrátt lyngdi ég augunum og eitthvað hríslaðist um mig þegar munnvatnið tók að streyma tungan tók við að bleyta hann allan, hann varð svo mjúkur, sleipur... Ég velti honum upp í mér fann hvernig holdið gaf eftir milli tannanna... sprakk... Ég kyngdi. Mig langaði að gera þetta aftur... Með vísifingri og þumalfingri mældi ég ummálið. -Spurði: Fröken, geturðu fært mér annan svona stóran svepp? ] [ ef mér er órótt ég get ey sofið þá reyni ég ávallt að hugsa um það góða sem í kringum mig er í stað alls þess leiða sem mig dregur niður og áður en varir út frá fallegum hugsunum þá sofna ég rótt í nótt ef mitt þakklæti dvín minntu mig á það að hugsa til þess þegar ég átti ekki neitt því aðeins þá skýrast ég sé að ég á allt ég á þig... og áður en varir út frá fallegum hugsunum þá sofna ég rótt í nótt ég hugsa um lítið herbergi í huga mér horfi á lítinn koll með hrokkið hár fallegt brosið sem til mín snýr engillinn minn? og áður en varir út frá fallegum hugsunum þá sofna ég rótt í nótt ef þér er órótt og þú getur ey sofið þá elskan mín hugsaðu um það góða sem þú átt sem ég vil gefa þér í stað alls þess leiða sem dregur þig niður og áður en varir út frá fallegum hugsunum þá sofnar þú rótt í nótt ég hugsa oft um lítil herbergi í huga mér horfi á litla sæta kolla með hrokkin hár falleg brosin sem að okkur snýr englarnir okkar og áður en varir út frá fallegum hugsunum þá sofnum við rótt í nótt ef okkur er órótt og við getum ey sofið þá skulum við tvö hugsa um það góða sem við eigum að og gefum hvort öðru í stað alls þess leiða sem dregur okkur niður og áður en varir út frá fallegum hugsunum þá sofnum við rótt í nótt ef að mér gleymist að þakka þér fyrir allt það góða sem þú gefið hefur mér þá langar mig nú vina að gefa þér hér lítið ljóð sem, litla þakkargjöf og áður en varir út frá fallegum hugsunum þá sofnum við rótt í nótt saman..... ] [ Stjörnukort hugans Krossgáta óleyst á hverjum laugardagsmorgni ] [ Þú. Þú, sem aldrei varst, en ég þráði samt svo heitt. Þú varst ætíð til staðar, en samt ég fékk aldrei notið návistar þinnar. Ég sakna þín og syrgi,vegna þess sem þú varst í huga mínum . Enginn heyrir eða skynjar grát minn og söknuð vegna þess sem þú varst aldrei, en samt fyrir það sem þú varst. Á koddann minn græt ég hljóðum tárum. ] [ Ég horfi í augu þín sem eru full af lífi og visku Augu þín ljóma og birtir gleði og gæfu Augu þín brosa skært eins og sólargeislar um sumar Mér finnst ég verða að horfa í augu þín og njóta þeirra. ] [ Skýrsla landlæknis 1993: Ég frétti að Véhildur veira í vatnsnuddi hitti hann Geira. Hún gaf honum kvef og kláða í nef með krónískri bólgu í eyra. Frumvarp til búvörulaga: Þegar bændurnir bera skít á það borgarbúarnir líta\' á. Skældir í framan í skemmtiferð saman að skoða Gullfoss í Hvítá. Frumvarp til kvótalaga: Gunnvör í Hnífsdal var gátlaus en Guðný í Ólafsvík látlaus. Gunnvör lauslát en Guðný kaus gát því bæði var kvóta og bátlaus. Gunnar: Gunnar bauð gestum í geim en gaf engar ölveigar þeim. Vakti það furðu og fjölmargir urðu fúlir, og héldu heim. Hundabúskapur: Á Hóli bjó Finnbogi fundvísi, en Stefán bróðir hans stundvísi. Byrjaði í Mýsundi búskap með vísundi og bar síðan nafnið: Hinn hundvísi. Tina Turner: Austur í Tungum ég sá Tínu Turner, sofandi á dínu. Í vaxbornum frakka af Valda á Bakka og vakti það talsverða kátínu. Sumarstemma: Hjörleifur grillaði humar hala með lauk í sumar. Með gamanmál fór og gaf öllum bjór. Glöddust þá fjölmargir gumar. ] [ Einmanna maður dansar í vindinum. Finnur regnið kyssa votar kinnarnar, blíðlega- í myrkrinu Varir hanns titra taktfast í kyrrðinni. Hendurnar reisir til himins og horfir, með tómlegum augunum. Allt sem var- horfið. Hversvegna framdi hann morðið? ] [ Langt í burtu get ég snert ljósið sem leiðir mig inn- inn um dyrnar að óendanleikanum.... Hugansdýpi kallar mér að koma hitta sig í undirmeðvitunni dansa á skýi litanna endalaust í algleymi. Vindar alheimsins rigna yfir mig. Ég set hendurnar út hrópa \"TAKIÐI MIG AÐ EYLÍFU\"!! Og sólin skýn á mig í myrkrinu yljar mér, langt langt í burtu frá byrjun dropanna sem falla einir út í auðnina. ] [ Er myrkrið læðist um götur bæjarins og skýtur sér inn í öll skúmaskot, flýta allir sér heim í faðm hvers annars á meðan ég kúri í einmannaleikanum. Nakin hönd mín leitar út í tómið og þráir heitt að verða snert, þráir heitt að verða kysst svo undurblítt og svífa á valdi ástarinnar. Er geislar sólarinnar hrekja myrkrið á brott og flæða um lífsins lindina tæru, skríða ástfangnar sálir úr fylgsnum sínum og sameinast fegurð móður jarðar. En ég kúri áfram, fjötruð, í faðmi svartara og sterkara afla en sjálfra myrkravaldanna. ] [ Lítið barn liggur nakið framan við autt blað. Því er fært pensill í hönd og gert að mála fegurð heimsins. Gamalt barn hokir framan við fullkláraða mynd af litrófi lífsins. Sjá, hvað það hefur málað! Það hefur málað þig, því þú ert fegurð heimsins. ] [ Í dimmri vetrarhríð glampar í köld augu sem stara út í tómið og óttast ekki þess er þeirra bíður ] [ Lífið okkar er leikur einn því eigi máttu gleyma áður en þú verður seinn því upp muntu sveima Löng er þessi mikla á en straumurinn er hraður vissi að þetta mundi sjá nú er ég glaður Fjallið erfitt er að klífa veldu leiða réttu því einn dag þú munt upp svífa úpps, þarna er klettur ] [ Þess ég sakna að geta vaknað því nú er ég sofandi svefninum væra Guð ég mundi kæra En hann þá mundi særa Ég honum þákklátur á að vera fyrir lífið mér að færa Þetta ég valdi þjáningu mína faldi ég var eins og fangi í haldi ég var að keyra þú vilt ekki heyra meira Gott er að vera ekki þetta gera þó, hér mér líði vel þá varð mér ekki um sel að þurfa lífinu að fórna ] [ PÚNTUR PÚNTUR PÚNTUR komma 2000 Púntur kom 2000 Púntur kom 2000 púntur púnktur púntur ..þá veistu það allt þú færð vitneskju um allt .com .is .net .allt saman LEITAÐU AF PÚNTINUM FINNDU PÚNTINN VERTU PÚNTURINN FÁÐU ÞÉR PÚNT PÚNTUR PÚNTUR PÚNTUR ELSKAÐU PÚNTINN LIFÐU MEÐ PÚNTINUM LIFANDI PÚNTUR SJÁÐU SKJÁINN ALLSHERJAR SÝN PÚNTUR PÚNTUR PÚNTUR ÍMYNDAÐU ÞÉR PÚNT FRÓÐLEIK púnt . ] [ öndvert sumar æðar sláttar vélin andardráttinn reykjavíkurtjarnar hvetur villt en dætur ingólfs arnar ótrúlega rauðar laga stélin geðveikt fönn er fannhvít vetrarélin flykkjast suður hvelið býst til varnar gramar nætur gefa undan farnar glerbrotin leynir á sér þunna skelin verpi frá bakka bregður sér skrið baksvartur líður yfir fjarskalega hábjalla glymur undan rennur rauð vorfaðir daglega ekki gefur grið goggsæta mötu neytir laus við trega náunga dauði er annars andabrauð ] [ Á barmi geðveilu Ég ligg samanhnipruð - í lítilli kúlu Kúlan veitir öryggi - hún varpar öllu burt Það er svo auðvelt að sleppa takinu Láta sig bara fljóta í litlu kúlunni sinni Heyra ekki - sjá ekki - finna ekki Hvílík dásemd Geðveik - fallegt orð um nálægan frið! ] [ Tárin svíða - þau draga úr mér mátt Þau gera mig örmagna, hjálparlausa En dag einn, þá hættu þau að koma Þegar örvæntingin og þörfin á tárum var sem mest Þá brugðust þau mér Þau eru þurrausin tárin mín Nú græt ég bara yfir öðrum Minn kvóti er búinn ] [ Lærdómur minninganna Ekki alltaf af hinu góða brjótast fram neyða mann til að standa augliti til auglitis við napurleg orð, þröngar og nærsýnar athafnir sem vekja óþægilegar tilfinningar hjartslátt og rússíbanablóð Best er að horfa fram á við En án þess að horfa aftur hvernig getur maður þá lært af reynslunni? ] [ Ef ég væri heigull þá myndi ég skríða inn í litlu holuna mína aldrei framar líta þá augum sem ég hef svikið eða hneykslað Ef ég væri hetja þá myndi ég skríða inn í litlu holuna mína og forðast augnaráð þeirra sem betur vissu Ég er mannleg og það er hluti lífsins að skríða ekki inn í litlu holuna mína heldur takast á við raunveruleikann ] [ Smásmugulegheit og sjálfsdýrkun tvö orð sem lýsa nútímakonunni orðin til vegna þröngsýnna nútímamanna ] [ Fiðrildin fljúga sakleysislega í maganum spenningurinn nær hámarki í herðunum þorstinn er óyfirstíganlegur löngunin er sterkari en andskotinn öll hugsun snýr að einum tímapunkti tilverunnar og morgundagurinn geymir útkomuna ] [ Sunnudagsmorgun vil ekki vakna byltist um reyni að sannfæra sjálfa mig um góða heilsu og þörf fyrir meiri svefn maginn argar, snýr upp á sig knúinn til þess að fara fram úr og horfast í augu við árangursleysi gærkveldsins enn á ný á þeirri skoðun að þetta sé ekki besta leiðin til að leita sér að lífsförunaut ] [ Eins og yfirgefin alda, ein að berjast við rokið braustu þér leið inn í lokaða sál mína án boðskorts raskaðirðu ró minni og í hafrótinu sem þú orsakaðir myndaðist flókið samspil flóðs og fjöru sem ég er enn að reyna ráða í ] [ Innstu tilfinningar annarra manna skipta ekki máli fyrr en þær snerta sál þína þá fyrst verður þorstinn í vitneskju til Áhuginn á að kanna leyndustu hugsanir einhvers annars en halda þínum eigin sem ókönnuðum landsvæðum ] [ Ég verð að sjá þig reglulega líta í augun þín og finna að allt sé í lagi finna hvernig togað er í spottann sem festur er í hjartað á mér finna öryggið sem felst í bláleitum gimsteinunum sem grandskoða mig í leit að nýju sjónarhorni ] [ Ertu helmingurinn sem ég leita að? Ertu það sem fullkomnar mig? Geturðu gefið mér það sem ég þarf? Öryggi, þrótt og frið. Geturðu gefið mér svör? Við spurningum gærdagsins og elífðarinnar. Geturðu leiðbeint mér og stýrt? Geturðu fyllgt mér til endimarka heimsins? Geturðu gefið af sjálfum þér? ] [ Nístandi sársaukinn kvelur mig þegar þú reynir að klóra í bakkann þekki ég þig nógu vel til að lesa úr blæbrigðum raddar þinnar? Lygin er öflugt vopn og kvalafullt sem smýgur inn á milli steinanna í fjöruborðinu og litar allt sem hún kemur nálægt það sem áður var fagurblátt og lyngt er nú öskrandi grænt og órólegt Djúpir hafstraumar sem taka sínar eigin ályktanir ] [ Hvernig má leyna stormi bak við logn og blíðu? Hvar býr ófreskjan í englinum? Eru engin takmörk fyrir falsi einstaklingsins? Hvað er það sem getur skemmt eina manneskju svo mikið? Innri skemmdir eru mun verri en ytri við gleymum alltof oft að andlegu skemmdirnar eru ekki eins sýnilegar og hinar og föllum oftar en ekki fyrir fótum englanna... ] [ Örvænting útrás kvalinnar sálar tjáning hugans á endimörkum þolinmæðarinnar takmarkalaus þjáning sem bíður þess að verða svipt lífi ] [ Gestur í baðkarinu litlaus fjandi í húmi nætur tekur öll völd og vatnið gusast sérkennilega upp um alla veggi hin helgu vé eru brostin og auðmjúkur eigandinn stendur angndofa með tusku í hendi ] [ Maðurinn í speglinum kannast við mig eins og ég kannast við hann löngu horfnar langanir líða eins og vofur um spegilinn meðan við gjóum augunum á hvort annað Og er eiginkonan birtist og sest við hlið hans liðast vofurnar hægt og sígandi út um opinn gluggann ] [ hingað kom hún Bína hún fór mig að rýna svo vildi hún sýna mér einn síma þá fór ég og setti fetti mig og bretti fésið ég gretti það hræddi ketti þeir hlupu til Óla sem drakk kóla fór svo að hjóla beint í skóla í ríminu ég er ruglaður vankaður og truflaður kolvitlaus og kalkaður eins og fóli fatlaður gekk fram tanga það var kvöldið langa sá ég stúlkuna svanga hanga hún vildi litla Manga fanga en var það gaurinn sem átti aurinn í vasann hafð´ann maurinn hann gekk á staurinn stoppaði við hús þá hoppaði upp ein mús eins og lítil lús hræddist hún allt knús ] [ Framtíðin er misbrigðul kona og stundum þegar við horfumst í augu myndast kvíðahnútur í iðrum sálar minnar hnútur sem er illa leysanlegur vegna óvæginna mynda sem ég sé í augum hennar Áður fyrr voru myndirnar bjartar og saklausar foreldrahlutverkið breytir myndunum gerir þær flóknari, alvarlegri og dauðlegar þægilegast væri að loka augunum og forðast konuna en óumbeðin ábyrgðarkennd neyðir mann til að galopna augun ] [ Freistingar lífsins eru of miklar fyrir svo stjórnlausa konu sem mig Einhversstaðar á lífsleiðinni týndi ég bremsunum mínum og þar með var öll sjálfsstjórn fokin út í veður og vind nú þræði ég öngstræti sálar minnar í leit að glötuðu bremsunum ] [ Fegurðin liggur í augum áhorfandans myndast af þröngsýnum viðhorfum uppeldis og umhverfis stjórnast af þekkingarleysi og viðgengst vegna norma samfélagsins Ef við aðeins stöldruðum við eitt andartak og litum í kringum okkur þá gætum við kannski séð að fegurðin umlykur okkur eins og púpa lifrunnar Ef við gætum lært að njóta andartaksins. ] [ Brostin bönd bernskunnar hanga niður úr loftinu og ef ég stend á tám þá rétt næ ég að snerta þau með fingurgómunum þannig að um mig fer fiðringur æsku og sakleysis. Ég vildi að ég hefði stól til að standa á svo ég næði betra taki á áhyggjuleysinu og hlátrasköllum horfins ungdóms. ] [ Hlý sjávargolan leikur ekki lengur um andlit mitt blekkingin kom upp um sig og ég áttaði mig á því hversu kalt var orðið Þessi strönd er ekki fyrir mig og sama hversu hlýleg hún vill líta út fyrir að vera þá verður hún alltaf ókunnug fyrir mér ] [ Ég reyndi margoft að útskýra fyrir þér afstöðu mína til samskipta okkar en þú vildir aðeins heyra jákvæða hluti og eyru þín neituðu að taka við neikvæðum athugasemdum og skoðunum Í staðinn bjóstu þér til nýja ímynd og í hvert skipti sem hún splundraðist sastu og sleiktir sárin í nokkra daga en kommst alltaf aftur eins og tryggur rakki sem ekki á í önnur hús að venda Ég vona að þú áttir þig áður en verr fer því eigingirni mín vill ekki verða rennvot af blóði þínu ég afhenti þér reglurnar áður en leikurinn kommst á lokastig en þú áttaðir þig samt ekki á því hvernig gæti farið Vaknaðu... ] [ Kvenfólk þráar, þrjóskar, undirförlar, óvægnar, vergjarnar, óréttlátar og fjandanum frekari það er ekki að furða að þær séu kallaðar veikara kynið ] [ Elsku moðir min kær ætið varst þu mer nær. Eg sakna þin goða mamma min ja mild var þin hönd, er um vanga þu straukst ef eitthvað mer bjataði a. Eg minning´um þig geymi og aldrei eg gleimi, Hve trygg varst þu ætið og goð eg kveð þig min mamma, og geymi i ramma, i hjarta mer,minning´um þig. 1975 G,V,O höfundarrettur,gylfi valberg oskarsson ] [ Þegar ég verð reið bresta allar stíflur innra með mér og öllu óréttlæti heimsins er beint að sálu minni ég berst fyrir blóðrisa sálinni og blárri og marinni virðingunni og tárin svíða í augntóftunum en þjóskan og réttlætiskenndin gefast ekki upp heldur eflast við hverja hnífstunguna af annarri og þótt það sjást ekki vætlar klístrað blóðið úr sárunum og er ég loksins finn öruggt skjól sit ég og sleiki upp hvern dropa til að ég tapi ekki næstu orustu ] [ Kefluð við minningar úr æsku berst ég um til að reyna að losa fjötrana og sjá út fyrir kvalarfulla herbergið sem ég er læst inni í öðru hvoru opnast hurðin og ég sé bjartari veröld og á hverjum degi kemmst ég aðeins nær hurðinni ] [ Tregablandin tár leka af hvörmum mínum ætluð þér og tilveru þinni hetjulegri báráttunni og árangurslausum endalokunum Við vorum aldrei ætluð hvort öðru aðeins fengin að láni stutta stund til að læra þá lexíu sem enginn annar gat kennt okkur nú er lánstíminn á enda runninn og sektir greiðast fyrir yfirdrátt blóðugar og þungar sektir einmannaleikans og vonarinnar um að handan við hornið liggji ný og betri lexía ] [ Þegar blákaldur veruleikinn færist yfir og augun opnast upp á gátt tekur hyldýpið við baðandi út höndum leitaði ég stuðnings en fann engann í staðinn fann ég fyrir flótta og samt reyndirðu að sannfæra mig um sterkar tilfinningar en í barnaskap þínum áttar þú þig ekki á að það sem ég leita að er félagsskapur, stuðningur og umhyggja ekki einstefnu-sinnaðri ást mig vantar festu og breitt bak bak sem getur tekið hluta af áhyggjunum og látið þær líta út eins og fjaðrir sem svífa um í golunni í stað steinsteypunnar sem mér finnst sliga axlir mínar mig vantar sálufélaga sem skilur mig og mína einkennilegu hvatir og siði mig vantar lífsförunaut sem er tilbúin að annast mig eins og ég er tilbúin að annast hann mig vantar mann með bein í nefinu og skýra hugsun mig vantar ekki þig þú ert eitthvað sem ég greip úr hillinni sanfærð um að þetta gæti ég notað en eins og svo margt annað sem ég hef gripið og talið sniðugt þá ertu bara enn eitt dæmi um dómgreindar- og þroskaleysi mitt það var aldrei ætlunin ] [ ég hlusta á niðinn vatnið brotnar í þúsund mola eins og krystall sem glitrar skært líkt sólarljósi í dögginni rósemdin vekur mann endurnærir og hleður það er samt kalt hrollur fer um mig þolinmæðin þreytir mér finnst eitthvað vanta er það kannski þú ] [ sólin skín skært í skugganum perlast svitinn eins og svalandi tár sem safnast upp og rennur sína leið droparnir falla hver af öðrum tíminn er endalaus og þú slakar á, en hugsanir leiftra eins og neistaflug ljóssins sem springur í myrkrinu golan gælir við mig ilmurinn er freistandi það vakna upp spurningar er þetta of gott? ] [ hann eg kveð þig kæra vina,og sigli burt fra þer með söknuði,til hafs mig baran ber. Kæra vina,biddu min,eg bið þig,uns eg aftur sny, eg hvila vil i faðmi þer a ny. hun,, Kæri vinur,eftir þer eg ætið bið, þo eg þyrfti að biða um ar og sið, Ameðan mun mig um þig dreima og astarylur um mig streyma elsku vinur,komdu fljott til min. hann,, O hjartans fagra,astvina min goð eg skrifa til þin þennan litla oð einmana eg er og þrai, þa einu ast sem að eg dai, að hugs´a um þig,það eykur astargloð hun,, Hjartans vin,eg þakka þennan oð hja mer það eykur einnig vonargloð, að senn þu komir aftur til min, heitt eg þrai faðmlög þin astin min til þin,hun aldrei dvin. hann,, elsku kæra vina,aftur kominn er, eg aldrei aftur fara mun fra þer. BÆÐI,, Nu tilveran er dasamleg við saman erum aftur her, nu ganga skulum saman lifsins veg höf,G,V,O höfundarrettur,gylfi valberg oskarsson ] [ Að lýsa því með orðum Hvers virði það er mér Að eiga svo góðan bróður Sem gefur svo mikið af sér. Er erfiðara en nokkurn gæti grunað Því enginn er líkur þér. Því veit ég ei hvað ég skal segja En annað ég veit fyrir víst Að ég elska þig svo mikið Að orðin því fá ekki lýst. ] [ Eitt ljóð, það segir meira, en allt sem segja þarf. Orð mín, þau endurspegla, allt sem hjartað geymir. Þú hefur breytt lífi mínu um alla tíð, ég er betri í dag en í gær, þolinmæði þín svo mikil til mín og elska þín unaður hreinn og tær. ] [ Alltaf til staðar er hún elsku mamma mín. Stolt ber ég þess merki að vera dóttir þín. Þrjá fæðingarbletti í röð á hægri hendi minni. Alveg eins og þeir sem eru á öxlinni þinni. ] [ Ég gleymi því aldrei, því verður víst ekki breytt. Þessi dagur, á sér stað í mínu hjarta, um alla tíð. Ennþá heyri ég hljóðið, andardráttinn þinn elsku bróðir. Hvernig líkaminn barðist, við að halda í þér lífi. Bara eina stund í einu, bara eina stund enn. Ég þakka Guði föður, fyrir nítján ár með þér. En þakklátust er ég þó fyrir að þennan dag, af öllum, hafi ég verið hjá þér. Á meðan lífið iðaði úti, fyrir utan gluggann þinn. Áttum við góða stund saman, ég og þú, bróðir minn. Það saknar þín stöðugt hjartað, það breytir því víst ekkert. En þegar sársauki og söknuður eru við það að brjóta mig, minnist ég þess fyrirheits, að við hittumst aftur, seinna. Ég hef kvatt þig að sinni elsku Þorri, stóri bróðir minn. Ég kvaddi með þremur orðum og andardráttur þinn þyngdist. Þú heyrðir víst þrátt fyrir kvalirnar að litla systir elskar þig. Ég var farin þegar þú skildir við, ég skrapp þó bara aðeins frá. Ég vissi ekki að þú yrðir farinn þegar ég kæmi á ný. Eins erfitt og það var, þá hélt lífið mitt áfram á meðan þitt líf fjaraði út. Eftir allt sem á undan var gengið þá tapaðist orrustan í þetta sinnið. En við unnum stríðið, stóri bróðir og við sjáumst, í eilífðinni. ] [ Ég man við lítinn fjörð við litla jörð þú söngst þitt lag. Frá þér ljómaði og ómaði það sérhvern dag. Saklaust lítið barn um dimma nótt ó allt of fljótt. Tók þig Faðirinn í arminn sinn ó sæla barn. Snjórinn, óvinurinn tók þig, vinur um vetrarnótt. Syngur himni á gleði mín féll í dá þú dóst meðan svafst þú rótt. Aldrei ég þér gleyma vil því ég man þegar þú varst til. ] [ Eins og sólarljós morgunsins komstu inn í lífið mitt elsku engillinn. Frá Guði þú komst og bjargaðir mér en hann einn veit hvernig allt fer. En hjálpi mér himnarnir engillinn minn ef tekst mér að bregðast þér enn eitt sinn. ] [ Svo fjarlægur, þú ert, svo óralangt í burtu, en nálægur, þú ert, mínu hjarta, alla daga. ] [ Thank you Lord for everything for everything thats good for all the happy times. And thank you Lord for being there for me when everything goes bad for all the sad times. Because with you I will never be alone youre always there for me through the good and bad. It makes no difference if Im wrong or right you will be there. ] [ Það sefur lítill engill í rúminu hjá mér, Það besta sem að mamma veit Er að kúra hjá þér. Ég var nú ekki gömul þá, Bara barn er ég átti þig. En það efldi mig og þroskaði, Því þú fullkomnaðir mig. Þú ert guðdómleg sköpun Skaparans Sem fær um stund að dvelja hjá mér. Og Guð ég gef þér alla dýrð Ég get ekkert nema þakkað Þér. Fyrir allt sem þú hefur gefið mér Og fyrir alla þína náð, Fyrir að leiða mig um hinn rétta veg Og að kenna mér þín ráð. Ég er ekki alltaf barnanna best, Það verður nú eflaust seint sagt En ég þakka þér alla mína daga Og fyrir að hafa þetta allt á mig lagt. Því ef þú hrasar aldrei, þá verðuru aldrei upp reist sem sterkari hermaður Drottins sem undan okinu er leyst. Ég þakka þér Guð fyrir allt sem ég á Og allt sem ég hef glatað, Allt sem veitt hefur mér gleði ó Guð Þó að það sé mér nú tapað. Ég bið Þig að varðveita barnið mitt, Fjölskyldu mína og vini Og ég þakka þér að þeir sem farnir eru burt Eiga líf hjá þér, þökk sé þínum syni. ] [ ...og kofinn hrundi til grunna kóngulærnar mega spinna sína vefi illgresið má vaxa óáreitt í rústunum okkar... en naflinn minn bíður eftir að þú klárir að syngja þitt karókí því rykfallin minning hnerraði í gær ] [ margt er skrýtið í apakettinum órangútan flýgur eins og kíttispaði og syngur sem regnhlíf í rigningu ég gleymdi stígvélunum mínum þegar magdalena, túrban og atsjú rændu völdum í musteri vitundar þinnar sprotinn hangir þó áfram á veggnum til skrauts en ég nota hann stundum til að hryggbrjóta vonbiðla og hræra í kakóinu mínu heitt kakó gerir kraftaverk ] [ svefnenglasöngur hljómaði þegar allar horfnu 17. júní blöðrurnar stigu niður af himnum og risu upp frá dauðum á meðan sátum við í grasinu og horfðum á sólina setjast í blöðruhafinu og ég bauð þér bita af eplinu mínu næstum eins og í paradís ] [ vængbrotinn engill situr veðurtepptur upp í flugstöð og bíður eftir vélinni til Boston óveður úti tár Guðs leka niður glervegginn svo mörg, svo ótt Hví grætur Guð? öll erum við veðurteppt - hugsa ég og læt tár Guðs skola burt mín eigin tár ] [ óveður úti klingir í peningunum vösum þeirra í tveir útigangsmenn á hraðferð um nóttina vindurinn ber þá feykir þeim á brott fangar kapítalismans finna hvergi skjól hvaðan kom´essar kynjaverur sem læðast? gleymdar á morgun þyrlast burt rykið í óveðrum sem þessum nakinn sannleikur fárveður úti klingir í kóktöppunum vösum þeirra í ] [ 18 vikur vænti þess að storkurinn sé í viðbragðsstöðu hef aldrei séð svona kynjadýr hef alltaf varað mig á varúlfum og frenjum af öllu tagi áður en hún gleypti mig þessi frenja í gær eða fyrradag ég vaknaði með sólsting og far á hjartanu sem ég náði ekki af geri aðra tilraun á morgun svo gefst ég upp vænti engrar hjálpar veit bara að sálin er bjartari á sumrin en á veturna og óendanleikinn er til samkvæmt stærðfræðinni einn plús einn eru tveir en ekki þrír ] [ Þetta er allt svo fallegt og undur merkilegt, skil ekki suma sem finnst lífið tímafrekt. Stundum svo fallegt að ég fæ ei afborið meir, æ þeim sem sjá þetta ekki, ég er sælari en þeir. 10.jan. 2002 ] [ Ég opna gluggann, inn í nýja veröld, þar sem bátur siglir í loftinu, uppfullur af sólargeislum sem hann hefur veitt í netið. Sólin brosir. Þrátt fyrir sólargeislana en fuglarnir í trjánum tístu saman, ég loka glugganum, og sé aðeins myrkrað herbergið sem er uppfullt af draugum. ] [ Sólin brosir á heiðskírum himninum, Rauðhetta hoppar um í skóginum, og Hans og Gréta eru að borða piparkökuhús. Trén eru leið er úlfurinn bankar á hurðina, Þyrnirós sofnar í hundrað ár, og kóngsdæturnar tólf gatslíta skónum. En úlfurinn étur ekki ömmuna, Hans og Gréta fá far heim á Svani, og Þyrnirós vaknar. ] [ Það er sólríkur sumarmorgunn og fuglarnir syngja í trjánum, en hjá mér er þögn, þögn sem ekkert getur rofið, nema hjarta þitt. Það er birta frá sólinni og ljósastaurarnir lýsa enn, en hjá mér er myrkur, myrkur sem ekkert getur lýst upp, nema augun þín. Það er talað á hverju götuhorni og dýrin tala líka, en hjá mér talar enginn, enginn, nema hjarta mitt. ] [ Útlínur eins og á tignarlegum Hlébarða, Brosið eins og sólin sem kemur undan skýjunum. Hreyfingarnar fimar eins og hjá fimleika garp, Augun stór og gul eins og appelsínur. Hún er hröð sem vindurinn, Þokkafyllri en Venus. Ég vakna úr dagdraumunum og sé að hún er aðeins köttur, Svartari en allt svart. Ég mjálma og held leið minni áfram heim að húsinu og inn um kattalúguna. ] [ Fyrirgefðu að ég er ekki lítill þjónn sem gerir allt fyrir þig, Fyrirgefðu að mér finnst ekki gaman að hlusta á hvað þú ert fullkomin. Fyrirgefðu að ég er ekki einhver annar, einhver sem þú þekkir ekki, Fyrirgefðu að vinum þínum líkar ekki við mig. Fyrirgefðu að ég á ekki alltaf pening þegar þú ert peningalaus, Fyrirgefðu að ég er ekki það sem þú vildir. Fyrirgefðu að ég vil ekki hlusta á sömu tónlist og þú, Fyrirgefðu að ég get ekki verið fullkomin. Fyrirgefðu að ég get ekki gert allt í einu og verið allstaðar, Fyrirgefðu að ég er misheppnuð. Fyrirgefðu að ég hleyp ekki um eftir öllu sem þú byður mig, Fyrirgefðu að ég lifi fyrir mig en ekki þig. Ég er bara eins og ég er, ef þú vilt einhvað betra fáðu þér hund. ] [ Sýndu mér tilganginn, Tilgang lifsins, Tilganginn með því að vera hérna. Tilgang þess að fæðast, Vaxa úr grasi, Tilgang þess að gera einhvað yfir höfuð. Tilgang lífsins. Af hverju erum við þau sem við erum? Hver er tilgangur þess að vera? Af hverju erum við menn en ekki mýs? Hver er tilgangur þess að vera? Af hverju vöxum við og stækkum? Hver er tilgangur þess að vera? Sýndu mér tilganginn, Tilgang þess að vera, Tilgang þess að gera, Tilgang lífsins. ] [ Sólin gæist út á milli svartra skýjanna, Rigningar dropunum fækkar með hverri mínútunni. Loks stittir upp og sólin skýn á björtum himni, Grasið byrjar að grænka og fuglarnir fljúga. Lóan tístir og hoppar um grasið, Það er komið vor. Sólin hverfur á bak við skýin, Skýin verða dekkri og dekkri. Laufblöðin fölna og verða gul og rauð, Og loks koma fyrstu snjókornin. Litlir krakkar hlaupa fram og til baka í snjónum ] [ Þegar ég var lítil hélt ég að lífið væri alltaf auðvelt, bara leikur og skemmtun, en þú kenndir mér hvernig lífið er, að lifa því með ást og opnum örmum. Þú varst alltaf þar ef einhvað bjátaði á hjálpaðir mér gegnum erfiða tíma, varst mín stoð og stytta, með endalausa ást, þess vegna þakka ég þér, fyrir þína ást og styrk gegnum tárin, þakka þér fyrir mig og mitt líf. ] [ Þegar ég var lítil Varstu alltaf hér Studdir mig gegnum fyrstu skrefin Hjálpaðir þegar ég þurfti hjálp Alltaf gat ég treyst Að þú vaktir yfir mér Nótt sem dag. Aldrey þurfti að vera hrædd Meðan þú varst hér Því ég vissi að þú hjálpaðir mér Og því þakka ég þér nú Og veit að ég get alltaf Leitað til þín. ] [ Í skólanum ég læra verð og lítið má ég tala annars fer ég í langa ferð í skammakrók mun fara Kennarinn á erfitt líf að kenna þessum börnum hann biður um heyrnarhlíf hlífa vill eyrum förnum Nú er komin tími til talfærum að loka þetta er orðið mikil bið út ég vil mig moka ] [ Af hverju hættum við að vera saman fyrst það var svona gaman þú vilt ekki sjá mig lengur ég er gleymdur Ég er reiður ég er leiður en lífið heldur áfram hjá þér, ekki hjá mér það getur þú séð En nú er ég glaður því nú hef ég þér gleymt þetta er ekki illa meint en það er orðið alltof seint að segja fleiri orð ] [ Ég hugsa til baka og segi við minn maka hér átti ég heima því mun ég aldrei gleyma Núna er ég orðin stór síðast man ég þegar ég fór út í búð fyrir mömmu að kaupa mjólk úr könnu nú mín börn kalla hana ömmu Ég var óttalegur trítill ég vil aftur verða lítill en það er orðið of seint en þetta er ekki gleymt ] [ Tu eres mi amigo tu eres rico yo soy pobre para tu novia puedes comprar flores yo no, pero ette no es important La (el) amistad es important ] [ The sea is blue and the sea is green when the sea is blue I think about you when the sea is green I think I have seen the problem og polution I think about Green peace ] [ Nú! ..er að gerazt. -nú var stutt. ] [ Þú heyrir andardrátt og gengur að hljóðinu. Þú ert ekki viss hvaðan hljóðið kemur né hver framleiðir það. Þú stansar, þú hlustar, þú skimar í allar áttir og kemst að raun um það að þetta var aðeins andardráttur þinn sem yfirgnæfði þögnina. ] [ Í myrkrinu heyri ég óp og ég þreyfaði mig áfram í myrkrinu eins og blindur maður en fann ekkert. Enn heyri ég óp og reyni að ganga á ópið en án árangurs. Ég standsa og hlusta og uppgvötvaði að ópið kom frá hjartanu. Hvað vildi það? Mér er það hulið og óskiljanlegt með öllu. ] [ Eg kveðju til þin sendi og hugsa,blitt til þin. Minn æðrimattur,bendi þer inn,i bjarta syn Kæri,vinur goði hver svo sem þu ert. Eg kveð,með þessum oði sem best, þu kvaddur serst. 26.02.2002 höf,G,V,O höfundarrettur gylfi valberg oskarsson ] [ Það kviknaði lítill lífsneisti í móðurkviði mínum. Á haminjustundir ég treysti en sorgarskuggi mér birtist og andvana soninn fæddi. ] [ kannski sál mín liggji í skuggabergi brotinn Kannski sáði ég eitri í minn farveg Er ég kannski lifandi dáinn Tár mín falla á þurrt land ég skrifar í sandinn eru þetta endalokin ] [ Eins og steinsteyptir veggirnir líður mér eins innan í mér svo köld viðkomu og eitthvað svo hart sem þarf að koma við Það tæki langan tíma að brjóta það niður Það þarf að fara varlega svo að ytri byggingin skemmist ekki ekkert er eins sorglegt að sjá falleg hús hrynja vegna lítils viðhalds ] [ I Við blámann af deginum þegar sólin byrjar að skína og allt verður svo bjart að mig fer að svíða í augun þá vilja smáatriði týnast eins og þú sérð ekki fuglinn sem sækist eftir ásjónu þinni II Augað þitt aflagast í frostauga svo pírð af birtunni að það fer ekki í rétta mynd fyrr en það fer að vora. og fuglinn sem tætir ónýt reyniberin af trjánum er pirraður yfir afskiptaleysi þinu hann gæti viljað sá gulldrifin korn á glitrandi snjónum. III En vitneskja þín nær ekki lengra svo fremur eins og það sé sjálfsagt að hann viti meira um þig en þú um hann þið eigið það eitt sameiginlegt að þola það ekki þegar snjórinn þyrlast svona rétt fyrir framan ykkur þannig þið blindist og sjáið ekki neitt ] [ Vorkvöld við sæinn Hér glitrandi úthafsins öldurnar gæla við steina og gjálfrandi leika við þarann og fjörunnar sand. Nú blikandi í dansi og léttleika brotnar við hleina, sú bára í kvöldsólar geislum er mynnist við land. Þegar sunna á himninum lækkar og sígur í hafið eftir sólríkan dag út við glitrandi lognkyrran fjörð falla kvöldroða geislar á kristallað lágskýja trafið en kyrrðin er algjör og friður um gjörvalla jörð. Nú sestur er fuglinn og söngurinn hljóðnar í bili, það sígur á höfgi og hvíldin er kærkominn senn, þó leikur sér blærinn og lækurinn hjalar í gili, því látlaust hann vakir á vegferð til sjávarins enn. ] [ Í dag sungu fuglar frá suðlægum löndum er svifu yfir höfin á vængjunum þöndum. Þeir færa okkur vonir um frjálsari daga með fögnuð í hjörtum og blómum í haga og firra okkur vetrarins helköldu böndum. Þeir færðu okkur vorið á friðsælum degi. Þú frjálsborni vængfari á farandans vegi ert vorboðinn ljúfi, nú vetrinum lýkur og vondöprum hugsunum burtu þú víkur svo vorkomu í hugann og fögnuð ég eigi. Þú víðförli fugl er á væng þínum svífur, um vordægrin löng, ofar jörðu þú klýfur þá vinda er blása oss vonum að brjósti og vernda okkur ávalt gegn veraldar gjósti. Þín vegferð um háloftin ávalt mig hrífur. Er vorþeyr um greinarnar varlega líður og vermir þær sólin, en sumarið bíður til lífsins að vakna og litskrúði klæðast. Sjá, ljósið að nýju er loksins að fæðast. Í lengd og í bráð verður andvari þýður. Þessi byrjandi öld vekur bjartsýni og þrár. Þetta blómgandi vor gleður vaknandi brár og hin geislandi sól gefur guðdómleg heit. Þannig gróandi vor sem að fegurst ég leit er hið guðlega tákn, vorrar heitustu þrár. ] [ kraftmikill seiður hafsins sem brotnar í þúsund mola á klöppinni sem þreytist, breytist kallar á þig, kallar á þig þá hrollur fer um mig sem rennur í gegn droparnir hrynja, stynja leka niður, leka niður þú blikkar augum ótt býst við öllu, en færð ekkert herðir vangan, langan endalaust, endalaust en svo finnur þú að lífið er til með kulda og fjarlægð þegar straumur hafsins, krafsins togar í þig, togar í þig þú vaknar upp og sérð svo vel í gegnum mig, þig þú vaknar, þú vaknar og skilur loksins allt ] [ sælureitur, opnar augun við dyr minninganna sem leika um hugann rómar hlátur hugsana eins og vakning lífsins, á braut tímans þegar vorið, vekur sumarið af dvala dansar tíminn, líður áfram eftir bylgjum líkum skýjahnoðra með seguláhrifum sólargangsins sem drekkir sér í roða blikunnar þetta er nýr dagur ] [ Þú ert mitt ljós , minn friður Fögur að sjá , fögur ég finn. Ég er ei þinn , því miður Ástfanginn er , verð senn þinn. Við tunglsljósið göngum saman Armana saman við vindum. Við fjöruborðið er gaman Þar hjónabandið við bindum. ] [ Nú kúri ég í sænginni minni það er nótt ég hlusta á vindinn hvína það er kalt ég heyri minn eigin andardrátt það er þögn Ég vakna og opna augun það er sól ég hleyp fram til mömmu það er hlýtt ég fæ mér að borða það er bjart ég hleyp út, mér líður vel það er komin dagur ] [ Þú ert uppáhaldsstundin mín sú fegursta af öllum alla tíð minnir líf mitt á þig. Minningin í huga mér brýst út á dimmu vetrarkvöldinu þar sem þú varst vanur til að vera til hjálpar mér. Ég sá þig í fjallinu ásamt hinu liðinu þú veifaðir mér frá heimkynnum þínum og brostir. Ég brosti til baka, ánægð vitandi um það að þú hafðir það gott. Þú hafðir verið að lesa dæmisöguna um hann Magnús í fjallinu sem hafði drukkið sig í hel, hann var ekki á meðal ykkar og það bentirðu mér á. Svo frá staðnum í myrkrinu sveifstu yfir fjörðinn og kvaddir mig á þinn hátt með kærleika og hlýju og ruddir um leið nýja braut í hjarta mér ] [ Það er vor ég geng meðfram ánni, einn það er kalt og ennþá klaki í ánni ég er þyrstur og drekk úr ánni Allt í einu byrjar áin að tala ég var orðin áhyggjufullur vinur segi ég, en núna þarf ég að fara áin kveður mig og ég geng burt ] [ Hugsa um þig allar nætur Heyri hvernig veðrið lætur Á þaki dropar drjúpa blítt Tárin renna ótt og títt Hafið tók þig nú í haust Skipið átti að vera traust Reiður sjórinn dund\'á þér Ég fann þú vildir vera hér Það sem eftir lifir nætur Niðri við sjó sálin grætur ] [ Sveitasælan dýrleg er, í litla dalnum heima hjá þér. Fögur áin, mjúkir straumar, einsog mínir fegurstu draumar. Sitjum tvö út á túni, fáninn dreginn hálfur að húni. Við tvö loksins aftur saman, eftir líf sem ei var gaman. ] [ Ég vild\'að ég væri önnur en ég er, því lífið mitt er einsog krækiber. Svo fagurt að utan og fallegt að sjá, ei þorir að snerta né koma með ljá. Ef þú smakkar á því þá bregður þér við, því bragðið af því er verra en svið. Eftirbragðið er allra verst, þurrt einsog gamall viður með pest. Við fyrsta bita þú hættir við allt, og hendir mér út í frostið kalt. Yfirborðskenndin var yfir mér, og ýtt\'öllu frá mér, líka þér. En nú kem ég aftur og alls ekki hálf, því nún\'er ég orðin bara ég sjálf. ] [ Þú ert mitt bros, þú ert mín kæti, þú ert það sem ég þrái mest. Sama hvað ég breyti og bæti, alltaf þekkir þú mig best. Er allt í kringum mig er myrkur, sendir þú þitt ljós til mín. Þú ert mín von, þú ert minn styrkur, ég veit ei hvar ég vær\'án þín. Þótt orðaskiptin séu oft hörð, ég ber sama hug til þín. Jafnvel þó að skilji heil jörð, alltaf ertu systir mín. ] [ Bátur marrar hálfur í kafi. Færist nær ströndinni. Vonin sem bjó í honum, horfin. Allt traustið sem á hann var sett, dáið. Draugar minninganna sýna örvæntingarfullt fólk. Fólk sem flýr heimaland sitt, í leit að hamingju. Það fann hamingjuna, í öðrum heimi. ] [ Bólgið andlit, bláir blettir Úti veina gráir kettir Hugsa með mér aldrei aftur Það er bara stólpakjaftur Blaðabunki vinsæll er Við að berja allt líf úr mér Hugur vafrar aftur heim Til að draga úr sársauka þeim Er nístir gegnum merg og bein Svo lét ég loksins af því verða Og fór að búa mig til ferða Barsmíðar frá hnefum tveim Horfnar, því ég fór aftur heim ] [ This is a little lovepoem, only for your eyes. Cause I have a special love for you, a love that never dies. It started with a little crush, but early began to grow. Until it was so really big, it was hard not to let it show. It brought us together one lovely night, to forget it I never will. Cause the moon was full and the stars shined bright, and the wind was completely still. Now we\'ve been one for a while or so, and our hearts, they beat together. With this poem I just want you to know, I\'ll love you forever and ever. ] [ Farðu núna, farðu fljótt, ég vil fá að sofa í nótt. Taktu þína illu strauma, en skildu eftir fagra drauma. Út með þig þú illi andi, ég er ei á þínu bandi. Farðu núna, farðu fljótt, svo ég geti sofið rótt. ] [ Staring into the darkness I see nothing My soul hurts Ever since that day You said you were leaving I felt the tears Running down my face Feeling so empty Ever since that day The day you said goodbye ] [ I feel the tears go down my cheak From my eyes there is a leak Cause you are gone out of my life And I don\'t know if I\'ll survive In my mind I think of you And all the things that are so true Noone can say when end is near Not even the ones who see and hear When I had troubles you took my hand And lead me through it until the end Remember the good times I hear them say And I think of the fun we had in may It won\'t stop the tears I miss you so much Cause you were mine whom noone could touch \"Now she\'s an angel\" says my father You were always an angel you were my mother ] [ karlmenn; stollt, sjálfsumgleði og sorg. Adam gerði allt sem hann gat. ] [ The Boy who was The Boy was, is and will. one day he was born, the next he is living and someday he will be dead. No one would be surprised if he shot himself in the head. ] [ Þegar alli halda að þú sért ekki þess verður Þegar allir halda að þú sért ekki þess verður þá verður þú að standast það. Því ef ekki þá verður þú aumingi Eins og Ég. Þér finnst þú ekki vera núll, sem þú ert. Engin vill þig en þú reynir, að vera eins og allir halda að þú sért í raun og veru en það ert ekki þú. Höfnunin, löngunin, viljinn, ásækja þig. En þú ert ekkert. Því ekki að deyja. ] [ Það ymislegt böl,fylgir mansbarn\'i a jörð lifsbarattan oft reynist hörð. En yfirleitt blessast,hja serhverri sal þott lifsins braut oft reinist hal. Ef truir a jesu,hvert mansbarnið her með brosi,það ahyggjur ber. Það syn\'a a i verki,hve truin þess er ja hve tru þess,og traust er a þer. O jesus,hve þjaðist,þu krossinum a er harðstjorans synir,þig voru að hrja. Nei,kvörtunarorð,eigi heyrðist þer fra til föðurs a himnum,nu leiðin þin la. Nu augu þin bliðu,þau mansbarni fylgja um þa sem að trua,fer unaðsleg bylgja. O,jesus,minn kæri,eg trui a þig eg bið þig,minn kristur,að blessir þu mig. Höfundarrettur gylfi valberg oskarsson. 1978.G,V,O, ] [ Nu sit eg her,og vonast eftir brefi fra moður minni,kæru heiman fra. Þvi burtu hef eg verið nokkuð lengi mig langar til að fretta henni fra. Kæra mamma,þin eg sakna þvi i fyrsta sinn að heiman fer. Heitt eg þrai,að fa að sja þig og hvila sæll,i moðurfaðmi þer. Nu se eg her,hvar postur kemur i moti eg veit það nu,aðgleimdur er eg ei. Þvi bref hann rettir,og brosir glaður við mer eg glaður retti hendi moti þvi. Eg allur titra,af eftirvænting hvaða frettir,brefið færi mer. Ifriðsæld vil eg,og aleinn vera loks,að lesa ,hvernig liði þer. Eg opna nu her,bref sem eg hef fengið og les her sorgarorð,þar heiman fra. Kom heim minn sonur,það faðir þinn um biður þvi moðir þin,er dain vinur minn. Elsku mamma,heitt eg þraði moður faðm,er kæmi aftur heim. Hryggur er eg,örvinglaður enga moður að faðma,höndum tveim. EG ei gat sofnað,fyrir sarum grati eg aldrei aftur,mömmu fæ að sja. Þökk mamma,fyrir allt það er þu gafst mer takk,mamma,aldrei skal eg gleima þer. Ja eitt það a eg,sem ætið geimi og það er,minningin i hjarta mer. Sem enginn getur,fra mer tekið þa fögru mynd,sem að eg a af þer. Hann faðir minn,er einnig gamall orðinn og fljotlega,eg missa mun fra mer. Þa sitja mun eg,einn og yfirgefinn uns fæ eg aftur,a himnum þau að sja. Elsku faðir,elsku moðir eg mun sakna ykkar,alla tið. Einn eg sit her,öllum gleimdur uns til ykkar,aftur guð mig ber. 1979 G,V,O höfundarrettur Gylfi Valberg Oskarsson ] [ Maður drap mann merkur varð hann sögu sína í bók varð að setja svo ei dæi sú hetja til limlestinga ei gekk að letja, lítið þurfti að hvetja. Högg hér, höfuð fýkur af, högg hér, hinn sekkur á kaf. Innyflin öll í klessu, ekki kemst svona til messu, hvern dreymdi fyrir þessu? Orð og orð úr varð vísa, orð, ei meir, skyldi nokkur skvísa, orðhákinn enginn vildi hýsa. Leikur aumingja létt er verk, liggur úti í blóðugum þræls serk. Hann var á hrakhólum, hann þekkti ei karla í kjólum, um Vestfirði villtist af varfærnum ótta fylltist en aldrei verulega trylltist. Högg hér, höfuð dettur af, högg hér, hann upp öndina gaf. ] [ Borðaðu bruður, bölvað pakkið fer suður, sýnist því gott að setjast þar að, sjálfsagt fer aldrei í bað. Bölvað basl, að versla með bévað drasl. Léttum líf úlpufólks, með losun byssuhólks. Þegar þú ert lítill, já þokkalegur trítill, allir þurfa í skólann alltaf hreint að mæta, það er engin andskotans glæta. Svo sérðu stelpu sæta, strax byrjaðu fötin þín að bæta, ekki tjóir fyrir það að þræta, að þú vilt þig í svefni ekki væta. Að kveðast á kannski var gaman, þegar enginn kunni að þvo sér í framan, svo sungu þau saman, sagði kennslu-manna daman. Framtíðin er fögur, fortíðin var mögur, þar finnast þó sögur; um kappa sem kölluðu ekki allt, gamla kerlingu sem valt, eða með staf staulaðist pakkið halt, og stráka sem þekktu löðrið salt. Lífið sitt gáfu ljúflingarnir er sáu fallið litla þágu. Gleymt það verður og grafið, brátt getur enginn af því skafið, grænaljósið verður ekki tafið, gengið sekkur e.t.v. í hafið. ] [ tár á hvarmi tunga bundin tregaþrunginn nótt og dag þreytt á harmi þunga lundin þráir sunginn blámannsbrag hljóma stef á streng og dapur dagur dansar við glaða nótt ] [ eitt slær hjarta mitt án þín í nóttinni niðadimmri nóttinni hlýgræn augu þín lukt í hljóðu myrkrinu grafarhljóðu myrkrinu þíður söngur þinn dó í kaldri þögninni kaldri grafarþögninni ] [ undan gráum feldinum glittir í eldana bílarnir læðast milli húsanna og vökular kirkjur vopnaðar spjótum bíða átekta í björtum loga siglir jökull á hafinu ] [ með sandinn í kverkunum kúrir barnið í mörkinni sem fyrr er frelsinu borgið ] [ ég rakti spor mín alla þessa löngu leið og fann sjálfan mig helsærðan í valnum í fjarska vopnagnýr undir hjarninu bíða ungar villtar vonir og draumar bjartra daga harðir undir tímans tönn ] [ Okkar kynslóð var hugumstór hugsjónakynslóð, hjartahrein, alvarleg, ölvuð af fullvissu og greip á lofti fljúgandi fiðrildi meðan lítil dugga sigldi inn sundin. Seinna breyttist allt og sumir tóku upp á því að borða baunir og grjón; einhverjir riðu um á reiðhjólum, geymdu bækur í bakpokum, berfættir í sandölum, brostu umburðalyndir og fullir samúðar með seinþroska ofsamönnum sem ennþá fálmuðu með kamelgulum fingrunum í leit að nýjum hljóm við gömlu stefin og höfðu ekki áhyggjur af hægðunum. Þó málmhríðarbyljirnir lemji sjónvarpsgluggana öll kvöld, þó grátur barnanna flysji heilabörkinn utan af samviskunni og flóttamennirnir striplist í eyðimörkinni milli þess sem þeir frjósa á fjöllum uppi, - þá mun það vera vandi, mikill vandi að vera Íslendingur. Rykið smýgur í nefið, svíður í nefið þar sem ég stend hér í búðinni og blaða í gömlum bókum. Fiðrildin rekin á hol, pinnuð niður með prjónum lífvana í kassa undir gleri innan um brúna koparaurana og gömul blöð. Flaska full með duggu uppá skáp. Í leit að gömlum rímum rek ég augun í kunnuglega kili. Þarna stendur hún steigurlát og storkandi torræð, bókin eftir þýska ungverjann sem þú lést hafa lesið. Við fætur mér híma ljóðin þín hnípin og verðlögð á neðstu fjölinni. ] [ brosið þitt og blíðan þín brúnu augun skær ástin mín og yndið mitt eru mér svo kær ] [ láttu tárin lina þraut og lauga hjartans und ég syrgi mína hrund þegar náttar næði gefst ég nýti hljóða stund til að yrkja ástin mín örsmá stef til þín ] [ Þýfður hugur, þungur og sljór. Þreyttur eftir daginn. Latur maður, langur og mjór, lemur saman braginn. ] [ Í lífsins ólgandi reiði, ryðst þú fram. Felur í þér brjálæðið, berst við vott af geðveiki. Gengur um sem fótalaus maður, marinn og blár í framan. Forljóta ryðgaða sálin, sem alla vill drepa. Dauður þú fæddist, frosinn inn að kjarna. Kaldur og hrár, huglaus einstaklingur. Ekki hæfur til að gráta, getur þig ekki tjáð. Tilfinningalaus að lífi og sál, stjórnast af dýrsegum hvötum, Heiðursgestur Heljar. ] [ Þetta er dagur þar sem ég finn ekki neitt. Allar mínar hugsanir verða að engu, deyja út þegar á reynir. Tilfinningar mínar liggja í dvala þreyttar á stöðugu áreiti utanað. Og ég bara finn ekki neitt. Dofin á líkama og sál stari fram á við og sé ekki neitt. Á borðinu, stendur kertið að heyja sína töpuðu baráttu. ] [ Ég finn það nálgast, ég finn það læðast um, ég finn að ég er að missa völdin. Þyngra og þyngra, hjartað slær. Dýpra og dýpra, hugurinn færist fjær. Ég öskra innst inni, ég öskra upphátt, ég öskra svo hátt að það heyrist ekki. Þyngra og þyngra, hjartað slær og slær. Dýpra og dýpra, hugurinn færist fjær og fjær. Ég get ekki barist, ég get ekki varist, ég get ekki lengur þessu staðist. ] [ Þann dag sem þú fæddist, opnaði ég augun og varð stór. Í hönd þína ég held, og við göngum glöð um borgina. Götur borgarinnar, brosa ei, er við göngum okkar rólegu skrefum. Við göngum ei meir, við sitjum í herbergi, hvítu. Og ég græt, græt ljós rauðum tárum. Ég græt að við erum ekki velkomin, Ég græt að ég sé það, en ekki þú. Ég græt því þú tekur utan um mig og mig huggar, en starir beint fram fyrir þig á vegginn. Ég græt tárum úr sandi sem safnast í hrúgur tvær á gólfinu. Eigum við að gráta saman því heimurinn samþykkir ekki, fólk eins og mig og þig. ] [ Hún horfir sorgar augum upp í himinninn. Eitt sinn hafði hún verið hluti af þessu öllu saman. En nú, útskúfuð frá umheiminum. Þar sem hún situr, er hún umvafin himinhvolfi einmannaleikans. Hún sér ekki neitt. Hún starir blint fram á við og bíður þess sem koma skal. Allt sem átt hefur sér stað í hennar lífi, hefur þeytt henni lengra niður í hyldýpið. Þar sem hún bíður, ekki lengur hrædd, viðbúin að taka á móti öllu því myrkri sem fylgir. Hún situr og horfir fram á við og sér ekki neitt, því augu hennar eru eins og steinar, köld og hörð, og hreifast ei. Hjarta hennar hætti að slá sökum þunga, fylltist af óhreinum sandi. Og líkami hennar situr sem fastastur, kaldur og harður, sem klakastytta, og hún starir áfram án þess að sjá. Draumar hennar og vonir eru litlar frostrósir sem hanga utan á henni, þekja líkama hennar. Draumar sem hafa staðnað með tímanum. ] [ Þau sjá ekki mikið, blinduð af stjórnleysi og þreytu sökum of mikillar vinnu. Hlekkjuð við staðlað líf, líf háð straumnum, tískusveiflum og veraldlegum gæðum sem stjórnar tilfinningaástandi þeirra. Hægt þau líða áfram, á færibandi, troðið fólki. og allir stefna í sömu átt, á sama stað, með sama tilgang í huga. Nema þau fáu sem standa fyrir utan færibandið og hlæja, hlaupa svo í allar áttir út í víðáttuna, hvert svo sem það stefnir. ] [ my memory of you is vague, a hero that could do it all. I never knew how much your escape could wound me, so now... you are lost to me, lost as a human, blurring between a myth and a story ones told. ] [ I rest my hands on the ground. The rough surface cuts me I bleed. I gently smile and look away. If you do not see your pain, you can not feel it. I lie there with my hands before me. Smiling. Dedicated. I try to hide my pain with blood stains on my shirt. ] [ Regnboginn er brúin og samt heyri ég grasið ekki vaxa. Vísar mér ekki á gull en húsið er gult eins og túnfífill á grænum lundi. Hún er ung en samt ævaforn, eilíf í rósóttum kjól og gúmmístígvélum. Fer með stöku úr Íslendingasögunum um leið og hún kastar steini í París. Spyr fleiri spurninga en ég fæ greint. Talar ekki heldur hlær. Hlær við mér. Gefur mér egg og kyssir mig á kinnina. Horfinn úr garðinum og fylgi sólargeislanum. ] [ Fullkominn, lítill brosir út að eyrum saklaus í fasi rólegur í skapi er litli guttinn minn. ] [ Allt er rólegt, velbúnir menn fylgja skjalatöskum á þönum. Allt er rólegt, konur með útskorin brjóst sitja við skriftir á kaffihúsum. Allt er rólegt, svartir hjólbarðar sleikja malbikið og sólina. Allt er rólegt, auglýsingar vinna kappsamlega að auknum vinsældum. Allt er rólegt, umferðarskilti kljúfa steina og gangstéttarhellur. Allt er rólegt, steyptar byggingar haggast ekki. Allt er rólegt - allt er rólegt undir Esju hlíðum. ] [ Þú, sem aldrei varst en ég þráði svo heitt. Draumar mínir hafa ætíð verið bundnir þér, þú ósýnilega vera, þú sem alltaf varst svo fögur og gefandi í draumum mínum. Þú varst aldrei til staðar, en samt, þú varst alltaf þar. Ég geng einn á vit örlaga minna, með þér, ósýnilega mér við hlið. Örlögin ætluðu okkur aldrei að mætast, en samt það verður alltaf þú, og engin önnur en þú. En þó, þú sem aldrei varst, þú ert ætluð mér að eilífu. ] [ vinur þegar fáfróður hugur þinn dæmir ásjónu mína þegar hatursfull augu þín særa hörund mitt þegar forhert hjarta þitt smánar uppruna minn þegar krepptur hnefi þinn misþyrmir tilveru minni þegar eitruð tunga þín hæðir ást mína mundu þá að ég er faðir þinn og bróðir systir þín og móðir manneskja eins og þú ] [ eftir augnagotur í birtu neonljósa fylgi ég þér heim með hjartaásinn í huganum í hita leiksins spila ég út hæstu trompunum fell í ómegin af unaði ranka við mér stuttu eftir endalokin með lágspil á hendi klæði mig í fötin flýti mér út og man ekki lengur hvað þú heitir stokka spilin að nýju ] [ aleinn í fjölmenni á fremsta bekk angurvær tónn fjórradda í fjarlægð ævin þín í hvítan sal flýgur í möttum huga er ég fáninn sem faðmar þig við hinstu kveðju vöknar rauður borði við brjóst mér ] [ Tunglið okkar fallegt er upp nóttina það lýsir það gæti lýst upp heilan her og hlýjar draumadísir Úti er nú víða bjart er það tunglið okkar nú er ekki lengur svart ef tunglið okkar lokkar Tignarlegt er tunglið mitt tákn er það um tíma taka skaltu tunglið þitt tæpast munt því týna ] [ Þegar stjörnur braga á Himni og ég er einn staddur einhvers staðar á mörkum hins raunverulegra. Himininn stirnir og Norðurljós dansa á mörkum þess sem er. Þá ligg ég úti á hjarninu, uppnuminn frá hinu jarðneska og stari á þann Guðdómleika í undur þau sem sem enginn mannlegur máttur fær skýrt. ] [ ég heng í stálkrókum, þræddur á streng, heng á sinunum með að toga í strengina er mér stjórnað, skipað hvernig skal lifa lífinu þess vegna er ekki ein hugsun raunverulega mín eigin því viss gildi og sjónarmið eru manni taminn frá fyrsta degi en ég vil stjórnvöldin, sama þótt það passi ekki inní púsluspil örlaganna og mér til lukku voru krókar ryðgaðri og strengirnir þynnri en annarra svo ég fer að berjast um, reyni að losa um öll höftin sætti mig ekki við að aðrir semja lífskeið mitt og kalla það örlög mín hvað gefur þér rétt á að stýra lífinu og semja handritið en brúðumeistari, eitthvað hefur þér förlast er þú samdir mitt því mitt líf er bara mitt, ég ræð sjálfur hvernig ég haga því ég berst um hræddur um framhaldið, hvernig lífið mitt gat farið blóðið seytlar úr sárunum, mér flökrar, er sárin opnast berst gegn grát mínum, ég öskra, reyni að losna ég Losna, hryn hratt niður á ískalda jörðina reyni að standa strengjalaus og óstuddur, hunsa kvölina jörðin er hörð og köld og enginn er öruggur kominn hingað niður en nú er ég allavega orðinn minn eigin gæfusmiður Við erum Öll strengjabrúður en látum mismunandi vel að stjórn Við erum Öll í eins fötum, göngum, tölum, hugsum öll í kór við erum Öll hluti af áætlun sem engin okkar samdi þó en þessi strengjabrúða örlög sín í eigin hendur tók nú er ég strengjalaus strengjabrúða, horfinn er stjórnandinn þoldi ekki örlögin ég fékk nóg af því, en nú verð ég sjálfur að fóta mig reyna að standa upp en hef ekki vald á einum einasta útlimi finn engar tilfinningar og sviplaust er útlit mitt en hvar er ég? sé bara myrkur en finn minn kalda andardrátt er tilfinningalaus, og nálykt af holdi mínu er að verða vandamál á margan hátt. er þetta þá staður strengjalausra, einungis auðnin eru krókar þá lífið og lífið þá fjötrar og frelsið þá dauðinn ég hefði átt að sætta mig við það sem ég hafði á hendi, ekki svindla á þeim sem gefur spilin upp komst um svindlið, ef ég hefði vitað hvað það ylli, hvað refsingin yrði mikil, hefði ég aldrei reynt svikinn Brúðumeistari, fyrirgefðu, gefðu mér aflausn syndanna gefðu mér von og hamingju, gef mér líf mitt til baka krækið í mig krókana, festið á mig fjötrana strengjabrúða er ekkert án strengja, já ég öskra það en ekkert heyrist og hvortsemer var enginn að hlusta. og verst synd mín var að kannski hefðu strengirnir beint mér á braut dásemda, en stolt kom í veg fyrir það ég vildi sjálfur stýra mér, vildi að strengirnir slepptu mér en örlögin er oft kaldhæðinn svo flóttanum hefði ég betur sleppt því nú stjórnar mér enginn, ekki einu sinni ég sjálfur, enginn mér stjórnar ég bara ligg hérna, strengjalaus strengjabrúða, leikfang liðinna jóla. Við erum Öll strengjabrúður en látum mismunandi vel að stjórn Við erum Öll í eins fötum, göngum, tölum, hugsum öll í kór við erum Öll hluti af áætlun sem engin okkar samdi þó en þessi strengjabrúða örlög sín í eigin hendur tók ] [ Sakna, sakna, sakna þín sálin er að springa hugsarðu ekki oft til mín ég um þig er að syngja Þín ég sakna alltof mikið en satt að segja er ein leið svikin var ég fyrir vikið vænti þín og beið Nú ertu komin hingað heim hvar hefurðu nú verið mér finnst þú vera frekar sein færðu mér nú kverið ] [ ég litast yfir lífið sem ég hafði löngum þráð sýn sú dofin fyrir augum - gömul og máð því allt hefur breyst í skyndi - of fljótt ... örlaganornirnar ófu mig of skjótt ... móðan milli mín og ykkar - hún mun aldrei rofna minninganna minna sýn - hún mun aldrei dofna því þó ég hvíli handan allra fjalla - allra skýja ... í dauða mínum var engin hlýja ... hinn mjói gangur til guðs var lokaður mér og þess vegna sit ég enn og hvíli mig hér syndir mínar þungar inn í herðarnar skerast ... áfram mun ég með skýjunum berast ... horfi niður úr lofti - hvorki engill né vofa útlagi heljar og himna - ég má hvergi sofa of slæmur fyrir drottinn - fyrir vítið of góður ... í lífi og dauða - æ þungur minn róður ... ... hrifinn úr örmum minnar fjölskyldu og vina krabbinn dreifðist heitur milli vöðva og sina allt sem var mér kært kom til mín strax ... dvaldi hjá mér - til dauðadags ... horfði inn í augu föður - arma móður faðmaði litlu systur - stóra bróður en viku seinna var ég farinn á brott ... framhaldið var aldrei gott ... ... horfi enn niður með lítið bros á vörum æska minna barna nú senn er á förum fylgist spenntur með þeirra ástarmálum ... glaður yfir gleði í þeirra sálum ... en þegar komið er að endi þeirra lífa safnast þau saman - og framhjá mér svífa upp til himna þar sem þau sjást á ný ... meðan ennþá ég dvel - skýjunum í ... vængjalaus engill með óhreint hjarta hornalaus púki með sál hreina - bjarta hvíli milli himna og heljar - hissa mjög ... furðuleg virðast mér - drottins lög ... ] [ Ég bý í húsi við Bústaðaveg og blómin mín vökva í næði. Ég kaffinu helli á könnuna, í kyrrþey við blómin ræði. Í útvarpinu er ekkert gott, allt er um stríð og dauða. Þá sest ég niður við saumana og sýsla við dúkinn rauða. Er báturinn sökk með hann bónda minn og börnin að heimana fóru, ég seldi búið og settist að fyrir sunnan í borginni stóru. Ég vænti´ekki lengur vinanna, vísast ég tel þá dauða. Því sit ég hér ein við saumana og sýsla við dúkinn rauða. Er kólfurinn slær í klukkunni ég kenni einhvers trega. Hugurinn reikar á heimaslóð, -mér hitnar svo einkennilega. Mín er æfin mæld til fulls á mörkum lífs og dauða. Ég kvíði´ekki því sem koma skal er kveð ég dúkinn rauða. ] [ Einn morgun í júní við mættumst í skini sólar, ég man hverja stundu. Þú færðir mér blómin er fyrst voru sprottin en fölnuð um haustið með ást þinni og öllu sem lifði ei af þetta sumar. Á septemberkvöldi ég sat ein og horfði í eldinn en sá ekki ljósið. Og skugginn minn flögrndi skeytti því engu en skaust milli horna er golan úr glugganum opnum gældi við logann. Í nóvember eru næturnar dimmar og kaldar, það nístir að beini. Þú kramdir mitt hjarta og kastaðir frá þér, það kelur sem fuglinn er flaug ekki suður að hausti og feigur hann bíður. ] [ Það eru komnar hundasúrur, hundasúrur, hundasúrur. Það eru komnar hundasúrur í garðinum bak við hús. Þær eru grænar, þær eru súrar. Þær eru grænar, þær eru súrar. Þær eru grænar, þær eru súrar í garðinum bak við hús. ] [ Horfðu hús á mig heimulegum augum. Ekkert innan bjó, algjört þeirra tóm. Lengi fátt ég fann, flest var lítils virði. Með ljósi leitaði að lífi sem að var Ráðvillt reikaði um, rýndi inn um glugga. Ósk um annað líf einkenndi þessa ferð. Vonlausum á veg vakti margar nætur. Ein, með öðrum þó, átti litla von. Með augun bæði blind ég barðist við að horfa. Lítinn gaum því gaf að gættu aðrir mín. Svo kom að hjálparhönd huga mínum náði. Og lét í lófa minn lítinn viskustein. Og litlir logar hans lýstu gegnum blindu. Og þá fékk sálin sjón og sátt í hjarta gaf. ] [ Bíddu mín í garðinum þar sem blómin hennar dóu. Beðin eru horfin sem voru þau í forðum. En stígðu ekki á græðlinginn er stakk hér einhver niður, hann stefnir upp til himins úr sínu veiku skorðum. Fyrirgefðu móðir mín að ég moldinni ekki sinnti. Mér hugnaðist öðruvísi verja mínum tíma. Arfinn fékk að vaxa því engin lengur reytti og öll þín vinna sýndist að lokum töpuð glíma. Að lokum, einhverntímann, hér liggja sporin mín. Ég lífið fel í moldu, því jarðvegur er nógur. Er kem ég mér að verki, ég kann öll störfin þín og hver veit nema vaxi hér stór og mikill skógur. ] [ Á kvöldin þegar kyrrð færist yfir mig hugsa ég oft til þín. Þú sem svo löngu ert horfin. Ég ætti að vera hætt að hugsa til þín nema endrum og eins samkvæmt bókunum. Samt get ég ekki hugsað samkvæmt bókunum. Því þú mótaðir líf mitt og ert hluti af því. ] [ hérna sit ég, með samviskubit... yfir því að ég er ekki að vinna vinnuna mína!!! Engin orka eftir. Hún fór öll í samviskubitið!! Samviskubitinn ] [ Það er hvítur veggur í kompunni þar sem ég bý, í kjallaraholu dimmri vestur í bæ. Bólið mitt er beint á móti þeim vegg, í bættum sófa hvíldinni minni næ. Á veggnum hvíta var einu sinni mynd, ég veit, því að á honum er far. Ég læt mig dreyma um listamanninn þann sem léreftið strauk og skapaði minningar. Farið á veggnum er fullt af sögum um það sem fyrrum gerðist í lífi málarans. Atburðir sem eingöngu ég sé, þau atriði sem mótuðu verkin hans. Eitt sinn var hann ungur maður í leit að einhverju sem hann vissi ekki hvað var. Markmiðin voru meiri en gerðist hjá þeim sem meta ei kunnu háleitar tilfinningar. Í fjarskanum beið hans frelsi, virðing og ást og framtíðin var opin, greið og fær. Listin að skapa lotningar verð og hrein, lífið var uppspretta hennar, fersk og tær. En harður er þessi heimur skapandi sál og heftir þann straum sem renna vill annað skeið. Raunveruleikinn riðst eins og vægðarlaust flóð og rífur með þá sem finna´ekki betri leið. Í kjallaraholukompu vestur í bæ, hann kynti sinn ofn og skapaði listaverk. Setti á strigann sögur um konur og menn er sáu þó aldrei pensilsins förin sterk. Sjúkur og loppinn hann seilist í nýjan lit, sárt er að nærast á eigin blóði og synd. Upp er nú fuðruð öll hans vinna og strit, í ofninum brennur líka sú næsta mynd. ] [ Vakti ég löngum um vetrarnótt, veittist mér erfitt að sofa rótt. Reikaði um í rökkrinu hljótt og reyndi að finna gleði. Að fara í burtu, mér fannst það ráð, er færði mér gleði og hamingju´í bráð. Því ekki hafði ég öllu náð sem átti af færa mér gleði. Fór ég inn í fornan skóg, fann þar tré sem niður hjó. Átti mér hús og í því bjó, samt enga fann ég gleði. Síðan ég gekk á suðurpól, sat í tjaldi þar ein um jól. Í fönninni átti mér fagurt ból en fann samt enga gleði. Kleif ér alls konar kynleg fjöll, kannaði næstum löndin öll. Eignaðist prins sem átti höll þar enga fann ég gleði. Sár var minn fótur og særður skór, sá þá skip og um borð ég fór. Veiddi mér fisk sem víst var stór en vantaði alla gleði. Arkaði´að lokum aftur heim, ætlaði varla að trúa þeim er sögðu mér rólega sofa í nótt, í sál minni findi ég gleði. ] [ Ég er lítil ögn sem langar að vera korn á lágri strönd við bláan djúpan sjó. Njóta þess að næstum vera ei neitt og nýta hverja stund í friði og ró. Ég er lítið korn sem langar að vera steinn á lækjarbakka í grænum fjalladal. Og dreyma meðan döggin baðar mig daga og nætur við einfalt blómahjal. Ég er lítill steinn sem langar að vera bjarg á leiðinni sem gengur margur enn. Sjást í fjarska setja víða um jörð svip er þekkja allir förumenn. Ég er lítið bjarg sem langar að vera fjall úr leirnum rísa og gnæfa yfir sand. Í blámóðu ég birtist öllum sýn og ber við himin hvert sem ferð á land. Ég er lítil ögn sem langar að vera korn á lágri strönd við bláan djúpan sjó. Njóta þess að næstum vera ei neitt og nýta hverja stund í friði og ró. ] [ Víst má vininn skjalla nú við lifum mikið saman finnum uppi fuglabú feykna er nú , þá gaman ] [ Vinkona mín,vestan af fjörðum við mig skiptir í hvert sinn leiðir gott af hennar gjörðum gleði og ást ég ávallt finn Ástarkveðju færð frá mér finnst þú eiga\'na skilið sátt og sælu finn frá þér styttum á mill\'okkar bilið ] [ Góðan daginn , mín dásemdar vina dreymdi þig vel í nótt þér sem þrautir mínar vilt lina þakka að mér er rótt Komin á fætur , hin fegursta mær falleg að nóttu sem degi tjái ei öðrum , hve ertu mér kær en hvenær ætli ég\"það\" megi ] [ Ykkar andans auðlegð-gaf mér allt er á í þessum heimi ef gæti ég goldið-þá þúsund falt þakka guði í leyni fyrirtaks foreldra -svo aldrei valt fátækur ef þeim gleymi ] [ Ástjörn, Ástjörn í mér átt afar sterka strengi veittir bæði mennt og mátt muna vil það lengi Ástjörn hefur alið mér ást á drottins sköpun hefur fjandinn hugsað sér henni koma í glötun Illa er nú að þér sótt allt það get ég svarið mér mun ekki verða rótt að mega þig ekki varið Sá er níðir land og lýð leita skal sér varna því að nú ég birgin býð baráttan skal harðna ] [ Mági mínum ljósið lýsi á leið sem enginn sér góða drenginn guð minn hýsi því gekk svo veginn hér ] [ Ég er lítil kelling í koti sem kúrir niður við sjó. Þar sem pabbi pípuna reykti og plóginn mammma dró. Hann pabbi var maður mætur sem margan daginn stóð og kennd´okkur konum að hlusta á kvæði, vísur og ljóð. \"Ég er í sokkum settum röndum, sef með húfu prýddri böndum. Þegar sólin sest að kveldi ég sofna vært í gömlum feldi.\" Hann pabb´átti hest við hæfi er hugðist´ann drekka vín. Þá reið hann með sóma um sveitir með söng og hlátur og grín. Er gestir að garði bárust þá gladdist hann pabbi við. Þeim höfðingjum hafði að bjóða sitt heimil´að góðum sið. \"Ég er í sokkum settum röndum, sef með húfu prýddri böndum. Þegar sólin sest að kveldi ég sofna vært í gömlum feldi.\" Það er satt að ég sakna hans pabba er sit ég við gröfina hljóð. Og allar í huganum heyri hans gömlu vísur og ljóð. Með titrandi tár á hvarmi ég tek undir söng þessa manns, þótt mömmu í móðu ég sjái eitthvað mædda við legsteininn hans. \"Ég er í sokkum settum röndum, sef með húfu prýddri böndum. Þegar sólin sest að kveldi ég sofna vært í gömlum feldi.\" Með stolti ég stari til fjalla, þau stæltu hann pabba minn. Í auðninni frelsi sitt fann hann er ferðaðist einn um sinn. Og það munu ættliðir ótal eiga hér samastað, við hliðin´á honum pabba sem heiminum þetta kvað: \"Ég er í sokkum settum röndum, sef með húfu prýddri böndum. Þegar sólin sest að kveldi ég sofna vært í gömlum feldi.\" ] [ Í augnaráði ýsunnar sá hann andlit sinnar heittelskuðu birtast. Niður bringspalirnar rann strigakennd vellíðunarbylgja, hnitaði hringi - hringi kringum naflan - hring eftir hring. Þegar þorskur og ýsa voru slægð og komin niður í lest fór hann á fötuna sem hafði beðið hans þögul og velviljuð fyrir aftan stýrishús. Á meðan hann naut fötunnar, reykti hann sér cígarettu, horfði á fuglana og skýin og reykinn upp úr skorseininum. Hugurinn hvarflaði til og frá, reis og hneig eins og skipið á öldum hafsins. En þegar hann var rétt stðinn upp og var að troða skyrtunni ofan í buxurnar, slitnaði blökkin niður úr gálganum og eyðilagði fötuna. Þetta þókti mönnum snotur tilviljun og hengdu fjárans blökkina upp í gálgann aftur. ] [ Hvernig varstu, vorið mitt bjarta varla man ég þig grænu grasi, blómum vilt skarta glæða lífi mig fuglasöng, frið að mínu hjarta finn gleði í því vondi vetur og nóttin svarta víki þér á ný ] [ Í andans hæstu hæðum held ég við eina sál ber eld að gráum glæðum guð búi úr því bál ] [ Ráðlegt er að hafa í hakk hagfæðinga og skítapakk. Hafðu víst sósu og salat með súrkál baunir og fleira ógeð. En fái menn þrautir af þessum rétt þá skulu þeir bara taka á sprett ok hlaupa til fjalla hvar fegurðin ríkir frelsið er algjört og mófuglinn skríkir. ] [ Ég sé steinhnullug og ég hendi honum í mig allt í einu er ég horfin um litla rifu. Fyrir mér mótast veggir lífsins, saga forntíma, leifar líkamans. Blautur mosi hlúir að sárum mínum, hann smýgur inn í eyrum mín og ég heyri ekki neitt. Ég verð uppiskroppa með orð og litlir steinálfar toga augnlokin mín niður. -Ég er dáin. ] [ Þú stormur er stórvirkin fremur og sterklega þýtur um dalinn. Með framandi ferskleikann kemur og feykir því sölnaða í valinn. Þinn stiykleika stöðugt ég þrái er sterklega vanga þú strýkur. Þú þeytir brott þróttlausu strái og þokunni burtu þú víkur. Þú mjöllinni þyrlar og þeytir og þrekleysið burtu þú máðir. En lognmollu látlaust þú breytir í logandi ólgu og dáðir. Þú stormur ert styrkleikans merki þig stöðvar ei hik eða hroki. Já sýndu nú vald þitt í verki svo verðirðu að hífandi roki. ] [ Þú ert sem hinn eilífi eldur, aflið sem skapar og eyðir, skinið sem skúrinni veldur skautið sem lífgar og deyðir. Barnið sem blóminu heldur, báran sem fleyinu ruggar, bálið sem brunanum veldur, blærinn sem sefar og huggar. Röddin sem réttlætið boðar, ráðið sem dáðina brýnir, hugur sem heildina skoðar, höndin sem styrkleikann sýnir. Húmið sem hylur og deyfir, hafið sem lokkar og hrífur, gæfan sem gersemar leifir, gyðjan sem huganum flýgur. ] [ hóf úlpuna eins og segl yfir höfuð sér og beitti henni upp í vindinn sæstrokinn og frískandi vindinn drengurinn hló og hrópaði en vindurinn var hraustur og hrakti drenginn upp fjöruna drengurinn felldi úlpuna sína og gekk á ný til sjávar ] [ mjúk, ólgandi moldin fólg leyndardóminn svört moldin við pabbi klofuðum yfir girðinguna og hófum vígreifir verkið svört, sorfin moldin hripaði milli fingra gaffalsins litríkar kartöflur spruttu fram og öðluðust annað líf í rauðu plastfötunni jarðfarar á ljóshraða ] [ um okkur þá við gengum austurstræti hvert skref - nauðung en hvað má gera? er hægt að stöðva sól og mána á sinni miskunnarlausu göngu um himingeiminn? nú er ég geng vesturgötuna og þessa skefjalausu eilífð ] [ Fórum, flugveg borin, fundum suðurgrundir. Nam þar höll við himinn, háreist virki Mára. Sunna gladdi sinni sannarlega manna. Viðsmjör sá ég víða Vandala í landi. ] [ Hér sýnir sólin sitt rétta andlit heit og þung. ] [ ...í sótsvartri eyðimörkinni mun ekkert gróa nú ríkir drepsótt í litlu örkinni hans nóa í brennheitu helvíti mun enn á ný snjóa og á ísköldum himnum undir hásæti guðs mun hatrið senn glóa... fögur dyggð í persónum rýkur út í geim og forljót fryggðin skekur þennan heim í skímunni dvelja allir álfar í felum og í vímunni áfram í greddu við kelum... endir alls þess góða byrjun alls þess óða nálgast enn og kemur senn... fögur yfirlitum brúðurin klæðist svörtu á kjólnum dökkrauð útsprungin hjörtu ástin heit í brúðkaupi fínu til fjár laus við allt væmið tilfinningafár... á höfuð mitt fellur grámöskvamjöll í munn minn og hindrar öll varnaðarköll á himnum liggja vængir í brotum og tæjum en áfram í blindni við brosum og hlæjum... endir alls þess góða byrjun alls þess óða nálgast enn og kemur senn... við skópum okkur brynju til að verjast illum öflum en hið illa í sögubókum - býr á þúsund köflum þegar brynjan mun loksins á endanum flagna munu mennirnir gráta - og hið illa mun fagna og heimurinn dvelur í syndinni röngu... endir alls þess góða og byrjun alls þess óða er komin fyrir löngu... ] [ ...á tjaldinu hreyfast stórar persónur og kyssast með ástúð og hlýju hvert sem ég lít má sjá bros á vörum og ánægjukurr fer um salinn... ...í rómantísku rökkri ég tek um þig og horfi á þig stara á myndina örlítil brosvipra færist upp kinn þína og augngot þitt vermir sál mína... ástaratriðin á risastórum skjánum eru leikin fyrir ógnarhá laun myndin því uppfull af kjánum meðan ást mín til þín er í raun kvikmyndin klárast og viðkvæmir tárast en glaður ég fylgi þér heim þó myndin sé krúttleg og sagan svo falleg þá er þetta í plati hjá þeim ...þó myndin sé leikin í veru og raun má sjá sniðugar aðferðir hjá þeim ég læri því allar þessa kúnstir á laun og kyssi þig með \"frönskum\" hreim... ] [ 1.72 Þolir ekki ljós, lýsir ekki frá sér. - 1.80,6 Afstillir draugaganginn og hlær hlýjunni yfir herbergið. - Klárlega klúðrast mómentið og rafmagnsleysið undirstrikar árangurinn. - 1.57 Finnur til vanmáttar ] [ Hnigna tekr heimsins magn. Hvar finnur vin sinn? Fær margur falsbjörg, forsómar manndóm. Tryggðin er trylld sögð. Trúin gerist veik nú. Drepinn held eg drengskap. Dyggð er rekin í óbyggð. ] [ Þá eg vil feginn þú fljúgir sem valur, sem fjöllin og jöklarnir stendurðu þá, hvíldarlaust næðir þinn helkuldinn svalur, svo hjartað í brjóstinu finnst eigi slá, þú leyfir mér að eins að líta til baka á lífið, er eg hef mátt eyða í sekt, að knýja þig fram eða í taumana taka, og tefja þig, það er jafn-ómögulegt. En þegar svo dregur frá sólunni um síðir og sólgeislinn boðar mér himneskan frið, og þá eg vil helzt, að þú bíðir og bíðir og bið þig með tárum að standa nú við, Þá held eg Andskotinn færi þér fjaðrir, svo fljúgir þú skjótt með þá unaðarstund. Já, þú er mér bölvaður allt eins og aðrir, ónotagepill og kaldur í lund. ] [ Sólskins fagur sumardagur sinnið hressir, vermir blóð, léttir geð og lífgar gleði, lyftir huga og kveikir móð, er skýja drungi og skúra þungi skugga slær á sálu mín vonin bjarta vor í hjarta vekur, innra sólin skín. ] [
   Ég lá uppi í sóffa, og las skáldskap eftir ungan og efnilegan rithöfund. Ég naut þess, að hafa ekki skrifað bókina sjálfur, og tautaði fyrir munni mér:    Aumingja maðurinn. Og þetta er víst allra vænsti piltur.    Síðan lagði ég frá mér bókina og brosti.    Ég veit ekki hvort á mig hefur runnið svefnmók, en margt kom mér undarlega fyrir. Ég horfði á skrifborðið, og kinkaði kolli til skúffu, sem er verð þunga síns í gulli. Ég sá ekki betur en hún væri opin, og upp úr henni flaug eitthvað svart.    Ha - ? Hvað - ? Flugur.    Hamingjan góða. Og ég sem var að vona, að ég væri í bindindi.    Flugurnar flykkjast að mér, sópast í kring- um mig, sveima um höfuð mitt. Þær hafa mig að háði og spotti.    Flugur, segi ég, og banda þeim frá mér með fyrirlitningu.    En þær eru þráar og þrjóskufullar. Ein flýg- ur inn í eyra mitt, og suðar þar með sínu lagi: Aumingja maðurinn. Og þetta er víst allra vænsti piltur.    Nú er mér nóg boðið. Ég sprett á fætur, stíg fram fyrir spegilinn, set mig í stellingar, og tala á þessa leið:    Þið fávísu flugur!    Hvað hef ég gert ykkur? Hví ofsækið þið mig? Hver bað ykkur að setjast að í höfði mínu? Vissuð þið ekki, að heili minn er flugnapappír? Hvers vegna tókuð þið ekki mark á lagaparagröffunum, sem aðvöruðu ykkur með kurteisi? Hvers vegna suðuðuð þið í kringum þá, og gerðuð þá taugaveiklaða eins og ástfangna unglinga?    Hvað átti ég að gera? Þið haldið ef til vill, að það auki lánstraustið, að ganga með flugur í höfðinu? Hvað átti ég að gera annað en það, sem ég gerði, losa ykkur, og láta ykkur fljúga? - Ekki grípa fram í. - Ég sé, að sumar vantar vængi. Skríðið þið þá. - Þögn á fundinum. - Ég veit, að aðrar vantar fætur, en ég ber enga ábyrgð á því. Þið hafið ekki hugmynd um, hve erfitt það er, að losa flugur af flugnapappír, því ekki eruð þið ungar stúlkur í kökubúð. Það er ég ekki heldur, að vísu, en ég elska ungar stúlkur í kökubúð, svo það kemur út á eitt.    Nú vil ég vera í friði. Ég gegni því engu, þó þið heimtið falleg föt. Þakkið þið guði fyrir, að ég er ekki saumakona, úr því ég er ekki skraddari. Þakkið þið guði fyrir, að ég færði ykkur hvorki í lífstykki rímsins né vað- málspils sögunnar.    Áheyrnartíminn er úti. Verið þið sælar. Ég hef verið að losa nýja flugu af pappírnum. Hún skal vera leiðsögumaður ykkar.
] [
   Ég fylgdi stúlkunni heim, og hún bjó bak- dyramegin. Annað meira eða merkilegra var það nú ekki.    Verið þið sælir, og þakka yður kærlega fyrir fylgdina, sagði hún.    Sælar, sagði ég.    Hatturinn yðar!    Hann hefur gott af því, sagði ég, og hélt áfram að kveðja stúlkuna.
] [
   Ég ligg í rúmi mínu, og er í góðu skapi. Það er frost á Grímsstöðum - 20 stiga frost. Seinasti mómolinn er orðinn að ösku, það er jarðbann og heyleysi, presturinn vill ekki hjálpa, hefur nóg með sig, nær að setja betur á.    20 stiga frost á Grímsstöðum framleiðir 20 skáldsögur. Tímaritin verða fljótlesnari.    Ég klæði mig, fer út, og sé skósmið. Ég hleyp til hans, og hringsný honum:    Það er frost á Grímsstöðum - 20 stiga frost.    Hann tekur upp blað og bendir.    2 stig, segir hann, og fer leiðar sinnar.    Ég spyr þig, ó, skósmiður.    Ert þú í heiminn kominn, til þess að þú berir sannleikanum vitni? Hvar er vitnastefnan þín? Hver áminnti þig um sannsögli?    Ólánsgarmur ertu. 20 menn skrifa skáld- sögu í dag. 20 menn trúa því, að 20 stiga frost sé á Grímsstöðum.    Mikil er ábyrgð þín.    Ég þakka þér, skósmiður. Þegar tímaritin koma út, gerist ég ritdómari. Ég skrifa:    Pappír og prentun í besta lagi. Frágangur allur góður, og bækurnar hinar eigulegustu - einkar hentugar til tækifærisgjafa. En það skal tekið fram, að sögurnar eru byggðar á misskilningi. Umræddan dag var aðeins 2 stiga frost á Grímsstöðum.
] [
   Elskar hann mig? spurði hún, og lagaði á sér hárið.    Elskar hann mig? spurði hún, og púðraði sig í flaustri.    Elskar hann mig? spurði hún.    Spegillinn brosti.    Já, sagði spegillinn og brosti.
] [ I. Það var fallegur kettlingur með silkiband um hálsinn. Hann hefur stolist út á götu, og þykist geta veitt mýs. Varaðu þig, kisi. Rotturnar sitja um þig. Bölvaður kettlingurinn. Ég varaði mig ekki á honum. II. Ég geng um göturnar, og mæti mörgum stúlkum. Ég heilsa þeim, sem ég þekki, og horfi á hinar líka, og það vaknar í mér eitthvað skrítið og skemmtilegt. Það er fiðrildi í lokuðu blómi, og þráir sólskinið. Ég er eirðarlaus á daginn, og andvaka á nóttunni. Á kvöldin ligg ég hljóður og hlusta. Ég sit um það, en það sér við mér. Ég tel upp að 300, það ásækir mig. Það er freistandi og lokkandi, eins og ókysst stúlka. Það ögrar til sóknar. Í gær las ég faðirvorið, en í kvöld þuldi ég nafnið þitt. Á morgun ber ég í borðið. Nei, segi ég, og ber í borðið. Á morgun suðar það og flögrar, og þráir sólskinið. Ég kyssi þig. Eitthvað flýgur fram á varir mínar. Það er nakið og blygðunarlaust, æsandi og kitlandi, hamstola af fjöri og sigurkæti. Það er ástarkvæði, og ég flyt þér það óort í löngum, heitum kossi. Ég kem ekki kl. 8, því fiðrildið er flogið. Ég á enga óskrifaða sögu um hjónaefni í húsnæðisleit. III. Hlustaðu á Jakob. Hann hringsnýr hattinum sínum, og talar um þessa kveljandi óvissu. Sólargeislinn kyssti ölduna. Þannig bað hann hennar, en hún hryggbraut hann. Sólargeislinn kyssir ölduna. Þannig biður hann hennar, og heimtar ákveðið svar. IV. Þú lagðir handlegginn um hálsinn á mér, og ég hallaði höfðinu aftur á bak. Þú elskar mig ekki, sagði ég. Þú elskar aðeins ást mína, en hún elskar sjálfa sig. Helltu bensíni á stein, og berðu að eld. Steinninn elskar hitann, en hann brennur ekki. Horfðu á bálið hans Jakobs. Þú eyddir engu bensíni til þess að kveikja það, því Jakob á nógan hálm. Hann ber alltaf meira og meira á bálið. Hann á nógan hálm. Hættu að gráta. Steinninn elskar heit tár, en hann brennur ekki að heldur. Veturinn er í nánd, og klakahúð kemur á steininn. Þá tæmist brúsinn þinn, en Jakob á nógan hálm. Ég hitti þig á dansleik og hneigði mig. Klakahúð er komin á steininn, hvíslaði ég. En Jakob á nógan hálm, sagði þú, og skaust inn í dansandi þvöguna. Hann á líka nóga peninga, æpti ég á eftir þér, og vakti hneyksli. Nú ber jakob hálminn sinn í borðstofuofninn, og stelur undan í eldavélina, þegar konan er úti í bæ. En brúsinn þinn liggur tómur í sorpinu. ] [
   Hún var formáli að ástarævisögum manna. .  Hún var innskotskafli.    Hún var kapítulaskipti.    Og nú er hún ástarævisaga mín. En það hefur gleymst að prenta orðin: Öll réttindi áskilin.
] [ Hún er að gifta sig, og ég er boðinn í veisluna. Hafið þið nokkurn tíma heyrt aðra eins ósvífni? En þeim skal ekki verða kápan úr því klæðinu. Heiðruðu brúðhjón! Ég get ekki talað af eigin reynd, og verð því að styðjast við reynslu annarra. Og þá er ekki í kot vísað, þar sem eru vorir ágætu forfeður. Kóngur er í herferð, og stjúpan lokkar kóngssoninn út í veglausan skóg. Þau koma í rjóður, og í rjóðrinu er kista. Á botni hennar glampar og gljáir forkunnarfagur hringur. Kóngssonurinn ágirnist hringinn, og hver láir honum það? Stjúpan kinkar kolli. Velkomið, ef þú nennir að ná honum. Kóngssonurinn teygir sig, en kistan dýpkar. Kóngssonurinn teygir sig. Stjúpan hrindir honum á höfuðið, og skellir kistunni í lás. Og þarna má kóngssonurinn dúsa. En hringurinn? Það getur verið, að hann sé úr gulli, en oftast er hann ekki gull, þó að hann seljist sem gull. En það getur verið, að hann sé úr gulli. Ég þori ekki að fortaka það. ] [ Vonin var eiginkona mín, en veruleikinn kokkálaði mig. Ég hata hann. Ég geng upp í kirkjugarð, og leiði lítið barn. Við komum að grafhvelfingu, sem ég hef sjálfur reist. Og ég tala við barnið, sem ég ekki á: Haltu í höndina á mér, því inn í þessa hvelfingu kemst engin ljósglæta. Hnjóttu ekki um kistur systkina þinna. Áður en dagar, rísa þau upp, og sækja að mér. Vertu góða barnið, og sestu hérna á kistuhornið hjá mér. Ég ætla að reyna að hafa af fyrir mér örlitla stund. Móðir þín er farin. Það var bjartklædd stúlka, sem brosti. Hún kemur aldrei aftur. Hún kom í síðasta sinn, og leiddi þig. Kysstu pabba, sagði hún. Ég spratt upp, og kreppti hnefana: Ég á hana ekki, hann á hana - hann, sem ég hata. Hvernig á ég að vita, spurði hún. Skækja, öskraði ég. Þú tekur barnið að þér. Hún huggar þig, þegar ég er farin. Og hún brosti, eins og hún væri að gera góðverk. Þegar þú ert farin, sagði ég, og huldi andlitið í höndum mér. Hún kemur aldrei aftur, og börnin okkar liggja í þessum kistum. Áður en dagar, rísa þau upp og sækja að mér. Þú ert einkennilegt barn. Þú klappar ekki, þú klórar. Þú kyssir ekki, þú bítur. Og grátur þinn er kuldahlátur. En samt elska ég þig - elska þig vegna hennar móður þinnar, sem er farin. ] [ Það rignir rósum. Englarnir klappa og hrópa. Guð almáttugur hneigir sig og brosir. Ungur, óreyndur engill stenst ekki mátið. Hann veifar vængjunum og æpir: Lengi lifi Guð almáttugur. Hann lifi. Himinninn skelfur af húrrahrópum, en Guð almáttugur bítur snöggvast á vörina. Hann er eilífur. Svo brosir hann og hneigir sig. Gabríel erkiengill hefur boð inni og heldur aðalræðuna. Honum mælist vel að vanda. Leikararnir hafa þvegið sér og haft fataskipti. Þeir eru sóttir, og þeir strjúka hendinni um augun. Guð almáttugur stígur niður úr hásæti sínu, og slær kumpánlega á öxl aðalleikarans: Þú varst óborganlegur, segir hann, og lítillækkar sjálfan sig. Ég skil þetta ekki, segir leikarinn. Hér er glaumur og gleði, en ég kem frá landi hörmunganna. Já, þú varst ágætur, segja englarnir. Ég efast um, að aðrir hefðu leikið það betur, segir Gabríel erkiengill, og hann ber gott skyn á slíka hluti. Leikarinn setur hnykk á höfuðið og hlær. Það var leikur, segir hann og blístrar. En segðu mér eitt, Guð almáttugur. Af hverju vitum við ekki, að við erum að leika? Þegar þið vitið það, leikið þið ekki. Þið setjist bak við tjöldin og horfið á. Þetta sagði Guð almáttugur og veislunni var haldið áfram. ] [ Í kvöld er ég Tómas. Ég bíð eftir því, að ólgan í sál minni sefist í næturró náttúrunnar. Ég bíð og ég finn: Hann einn getur sefað hana - Jesús sonur Jósefs. Hann verð ég að hitta. Ég stend upp, en átta mig svo allt í einu. Jesús sonur Jósefs, segi ég við sjálfan mig og brosi. Hann kom í dag. Hann kom gangandi yfir eyðimörkina, og hafði hvorki hatt né staf. Hann þurrkaði svitann af enni sínu með handarbakinu, settist við brunninn, og bað um vatn. Síðan beið hann, þar til fólkið hafði lokið störfum sínum. Þá stóð hann upp og talaði. Hann var konungurinn, sem koma á - Jesús sonur Jósefs. Ég heyri fótatak. Einhver er að koma. Ég sný mér ekki við. Ég hef ekki tekið eftir því. Komumaður nemur staðar við hliðina á mér, og ég lít á hann rétt sem snöggvast. Hann brosir og kinkar kolli - Jesús sonur Jósefs. Við þegjum stundarkorn. Hann segir: Þú trúir mér ekki, Tómas. Nei, þú trúir mér ekki, Tómas, segir hann aftur, og er að fara. Ég gríp í skikkjuna hans: Farðu ekki, meistari, farðu ekki. Ég trúi. Ég trúi. Þú getur það ekki. Ég trúi. Ég trúi. Ég vil trúa. Þú getur það ekki. Ég sleppi skikkjunni og endurtek: Þú getur það ekki. Hann leggur höndina á höfuð mitt, horfir framan í mig og spyr: Hver er ég? Ég þegi. Hann brosir og spyr: Er ég ekki Jesús sonur Jósefs? Ég hrekk við: Hvers vegna ofsækir þú mig? Vertu óhræddur. Einhvern tíma trúir þú mér, Tómas. Ég vil vera einn. Ég skal fara, segir hann. Ég hef fundið þig, Tómas. Þú átt eftir að finna mig. Og hann fer. Ég ætla að hlaupa á eftir honum, en hætti við það. Ég ætla að kalla, en ég get það ekki. Ólgan í sál minni sefast ekki í næturró náttúrunnar. Ég horfi inn í myrkrið, og hef upp fyrir sjálfum mér: Jesús sonur Jósefs? ] [
   Ég er ung stúlka, sem dansa eftir veginum og syng. Þegar ég mæti honum, hætti ég og hlæ.    Hvers vegna hætti ég og hlæ?    Ég dansa eftir veginum og syng. Þegar ég mæti honum, hætti ég og hlæ.    Hvers vegna hættið þér að syngja?    Ég veit það ekki.    Hvers vegna hlæið þér?    Ég veit það ekki.    En ég veit það. Þér eigið gimstein, sem þér ætlið að gefa.    Ég dansa eftir veginum og syng. Áður en ég mæti honum, sný ég við og flýti mér. Hann nær mér og réttir fram hendurnar:    Gimsteininn.    Ég skil yður ekki.    Þér elskið mig.    Hann tekur utan um mig og kyssir mig.    Hann tók utan um mig og kyssti mig.
---
   Ég er gömul kona, sem geng eftir veginum og græt. Ég mæti honum aldrei oftar.    Hvers vegna geng ég eftir veginum og græt?    Ég á gimstein, sem ég get ekki gefið.
] [ Úti er dagurinn blár og bjartur, en inni situr sorgin og segir fanganum sögur. Skuggarnir þyrpast í hornin og hlusta. Sólin hækkar á lofti. Geislarnir, sem skjótast dansandi gegnum járnvarinn gluggann, kyssa burt myrkrið úr klefanum. Einn þeirra vogar sér lengra en aðrir. Hann dansar eftir gólfinu, og kyssir á fótinn á Oscari Wilde. Fanginn lítur upp og undrast. Sorgin hættir að segja frá og brosir. Oscar Wilde stendur upp og gengur að glugganum. Hann horfir á litlu, bláu röndina, sem fangarnir kalla himin. Og hann sér hvítt ský þjóta eftir himinhafinu. Undarlegur söngur vaknar í huga hans. Hann er útlagi, sem á heima handan við hafið. Þar bíður hans eitthvað, sem hann elskar. Þú, sem ég elska. Ég hrindi bátnum úr nausti, því ég er sjúkur af heimþrá. Og ég hrópa til þín yfir hafið: Með hvítum seglum stefnir hann að ströndum þínum, útlaginn, sem elskar þig. ] [ Stormur og illviðri, skógarnir nötra. Flóðgáttir himinsins eru allar opnar. Þrumur og eldingar öðru hvoru. Í litlu rjóðri liggja menn, konur og börn í einni kös. Mennirnir yst, börnin innst. Öll eru þau klædd í skinn, en skjálfa þó af kulda. Mennirnir halda um óhöggna viðarlurka og skima í allar áttir með angist og árvekni. Úti í skóginum ýlfra úlfar. Þetta eru náttúrunnar börn, glöð þegar nóg er að éta og sólin skín, hrædd og hnípin þegar myrkur og kuldi setjast að völdum. Sálir þeirra eru auðar og tómar, en stundum kasta þeir sér þó til jarðar í ótta og lotningu fyrir leyndardóminum mikla. Maður kemur inn í rjóðrið. Hann heldur á logandi kyndli. Fjöldinn rís upp og undrast. Maðurinn hefur upp kyndilinn. Sigurbros leikur um varir hans. Hann storkar guðunum. Himneski harðstjóri, hrópar hann. Sjá, ég heg hrifsað vopnið úr höndum þér. Þig höfum við tilbeðið. Þér höfum við lotið. Eigðu nú sjálfur þína himna. Ég er konungur jarðarinnar. En þegar hann mælir þetta, kemur elding af himnum ofan, og lýstur manninn til bana. ] [ Uppi í Kákasusfjöllum liggur Promeþevs í fjötrum. Mennirnir beisla náttúruöflin, og verða þeim undirgefnir. Mennirnir smíða vélar og stjórna þeim. Sjálfir eru þeir vélar, sem þeir kunna ekki að stjórna. Mennirnir eigna sér alla hluti. Sjálfa sig eiga þeir ekki. Mennirnir krjúpa á kné og hugsa um jarðnesk og himnesk hlutabréf. Þetta er þeim leyndardómurinn mikli. Mennirnir opna gnægtabúr náttúrunnar. Hún ofmettar líkama þeirra, ástríður og skynsemi. En sálir þeirra svelta. Mennirnir eignuðust eldinn. En allt, sem eldurinn hefur skapað, er orðið að hlekkjum. ] [ Uppi í Kákasusfjöllum liggur Promeþevs í fjötrum. Hann liggur í kross, og hlekkir hans eru úr járni og gulli. Og járnið er atað blóði. Örninn situr á bringu hans, og heggur lifur hans dag og nótt. Ungur, fallegur maður fer að hitta Promeþevs. Hann vorkennir honum og spyr: Viltu að ég leysi þig? Og Promeþevs segir já. Maðurinn horfir á örninn, og örninn hefur sig til flugs. Síðan leggur maðurinn höndina á herðar Promeþevs og segir: Fylgdu mér. Og Promeþevs stendur upp og fylgir honum. Þeir ganga lengi yfir urðir og auðnir. Að lokum koma þeir að eyðilegri hæð. En þá er maðurinn horfinn. Promeþevs verður litið upp á hæðina. Hann sér kross, sem ber við himin, og á krossinum hangir sá, sem leysti hann. Promeþevs segir: Þú ert sjálfur í fjötrum. Já, ég er sjálfur í fjötrum. Mig gastu leyst. Sjálfan þig geturðu ekki leyst. Hvernig á ég að skilja það? Ég elska mennina. Ég skil þig ekki. Þú varst í fjötrum, af því að þú elskaðir sjálfan þig. Ég hangi á krossi, af því ég elska aðra. Promeþevs, Promeþevs, leystu mig. Stígðu upp á krossinn og leystu mig. ] [ Ungi maðurinn leitar dýrmætu perlunnar. Ég er fátækur, segir ungi maðurinn. Gef mér. Ég ætla að kaupa dýrmætu perluna. Og mikið er honum gefið. Svo mætir hann þunglyndu stúlkunni. Gef mér, segir ungi maðurinn. Ég ætla að kaupa dýrmætu perluna. Þá segir þunglynda stúlkan: Vei þér, maður. Ég er þjáningin. Ég á aðeins undarlega blómið. Gef mér, segir ungi maðurinn, og hann þiggur gjöfina. Þetta er undarlegt blóm, segir ungi maðurinn. Mig verkjar í brjóstið. Og hann heldur áfram, og mikið er honum gefið. En hvað ég er ríkur, hrópar ungi maðurinn. Nú skal ég kaupa dýrmætu perluna. Og hann leitar og leitar, en perluna er hvergi að finna. Að lokum heyrir hann um vitringinn, sem á dýrmætu perluna, og hann leitar uppi vitringinn. Sjáðu, hvað ég er ríkur, hrópar ungi maðurinn og fagnar. Ég ætla að kaupa dýrmætu perluna. Hún selst ekki, segir vitringurinn. Þá nýr ungi maðurinn hendur sínar og hrópar: Hvað stoða mig auðæfi mín, ef ég get ekki keypt dýrmætu perluna. Og hann heldur á brott, þunglyndi maðurinn. Gef oss, segir fjöldinn, og þunglyndi maðurinn gefur. Gef oss, segir fjöldinn, og hann gefur stórar gjafir. Svo fer hann aftur á fund vitringsins. Sjáðu hvað ég er fátækur, segir þunglyndi maðurinn. Gef mér dýrmætu perluna. Hún gefst ekki, segir vitringurinn. Þá lítur þunglyndi maðurinn undan í þöglum harmi, en vitringurinn deplar öðru auganu og spyr: Gafstu allar gjafir þínar? Já, segir þunglyndi maðurinn. Gafstu líka undarlega blómið? Þannig spyr vitringurinn. Þá grætur þunglyndi maðurinn. Hann elskar undarlega blómið. Jæja, jæja, eigðu það þá, segir vitringurinn. Ég elska undarlega blómið, hrópar þunglyndi maðurinn. En hvað skal ég með það? Sjá, einnig það vil ég gefa. Og hann tekur fram undarlega blómið. En vei, það er vaxið inn í brjóst hans. Engu að síður kippir hann út undarlega blóminu. Og sjá, milli róta þess liggur dýrmæta perlan. ] [ lofa að skipta mér ekki af því lofa að vera falleg og lofa að halda kjafti lofa að verða ekki feit lofa að tala ekki, lofa þér að tala lofa að hlusta á þig, lofa að koma hérna lofa að leggjast með þér lofa þér að fá´ða lofa þér að sofna og/eða æla lofa þér að sofa úr þér lofa að vekja þig ekki (ALDREI) lofa að fyrirgefa þér allt lofa að allt verði gott og svo lofa að fara með þér til helvítis aftur og aftur og aftur... ] [ Á sólríkum degi við vatnið sitja menn og veiða gular geislavirkar bröndur rétt upp í nös á ketti sem fær ekki neitt því hann var étin á sunnudagin síðasta á vonlausum degi við vatnið sitja menn og bíða eftir hruni helvítis komúnistans ] [ Hvert liggur fótatak hamingjunnar í gegnum helvíti og tilbaka eftir gjábarmi örvæntingarinnar og öngstrætum lífsins upp á fjalsbrún ástarinnar og í frjálsu falli fram af brúninni niður í fúlan pitt hversdagsleikans ] [ Lygin ljót og lævís fylgir mér um langan veg ekki orð frá munn ég mæli heldur til þess fengnir menn orðaflaumurinn ornar mér orðin þreytt og pirruð hvenær finn ég mælskann mann sem ratast satt orð frá munni? ] [ The truthless begining of a new era devours our sacralidgous notions of becoming what we were ] [ Í táradalnum er nóttin eilíf umvafin glitrandi gimsteinum sem falla hver af öðrum í óendanlegt djúpið Í margslungnum pollinum drekkja þeir hvor öðrum í tilfinningahita og af lauginni lýsir eins og fljótandi hrauni Í rauðgulri birtunni dansa minningarnar hæðast að föllnum dropunum og með ágirnd, kalla fram fleiri sem falla ofan í glitrandi iðuna ] [ Skeytingaleysi við sköpunarverkið leiðir til innri baráttu sem brýst út í græðgi einstaklingsins til að verða fullkominn ] [ Ljúfsári verkurinn sem líður um hjarta mitt vekur upp minningar horfinna stunda augun fyllast tárum söknuðar en þau fá ekki að renna vegna samviskubitsins sem herjar á hugann komið til vegna norma samfélagsins og blekkingu hugans siðgæði gengur af mér dauðri ] [ Það er ekki öllum gefið að vera vonlaus ráfandi örvita sál - það er sleipt og erfitt að feta sig á brúninni og það getur brugðist til beggja vona - skyndilega blasir hyldýpið við og baráttan við að halda boltanum og blekkingunni á lofti verður flóknari, margræðari og næstum vonlaus - fullkomnunaráráttan ræðst með blóðugum rýtingi á næsta fórnarlamb og dregur úr mér allan mátt, rænir mig friðnum og með gagnrýnina að vopni, brýtur niður öll orð allar hugsanir, allar gjörðir mínar þar til ekkert er eftir nema efi þakinn sótsvörtu blóði mistakanna ] [ Ég er eyðilögð manneskja á litlri eyðieyju. Enginn sér mig, engum langar að sjá mig Mér finnst ég þurfa að brosa en það kemur ekkert bros Mér finnst ég þurfa að gráta en gráturinn er búin. Ég er særð kona en skiptir það máli? varst það ekki þú sem sagðir að ég væri einstök? Gráturinn segir svo margt nú veistu það sem ég vissi allan tímann. ] [ Manstu þegar steinarnir í fjöruborðinu vögguðu með æstri öldunni taktfast með rihiðma inní okkur slógu hjörtun í takt. Í takt við lífið sjálft. Og við sátum í hásæti klettsins horfðum niður hlustuðum. Og óskuðum okkur þess að vera fuglar fjörunnar. Og veistu.... að síðan þá hef ég verið það. ] [ Andartak finnst mér þú vera andi þess sem þú varst áður en þú varðst þú og varst hér hjá mér. ] [ Blóðsúthellingin er byrjuð tímasprengjan sprakk. Mánuð eftir mánuð. Ár eftir ár. Verkirnir njóta þess að minna á sig. Köldum svita bíð ég velkomin og þakka honum fyrir síðast allt fer í taugarnar á mér jafnvel ég sjálf að vera kona með blóð. Því þrátt fyrir pottþéttu dömubindin þá líður mér ekki vel. ] [ Ég held ég skynji þig. Viti hver þú ert. Þekki huga þinn. Skynja vonir þínar og þrár. Ótta þinn, hræðsluna. Finn undirtóninn. Leitina og lífsþorstann. Kraftinn. Ég þekki og skil, hikið og óstignu sporin. Ég sé blíðuna, fordómaleysið. Þrjóskuna, já og afneitunina. Ég skynja skil og þekki þig held ég !? ] [ Ég er friðarbyltingarsinni og byltingin er mín eigin hér ræður enginn því hér ráða allir. Ég er friðarbyltingarsinni og leið mín er ótroðin hún er ekki bundin inn eða farin með hjálp tölvu. Ég er friðarbyltingarsinni og mig langar að sjá heiminn hvorki penni né blað getur stoppað mig. Ég er friðarbyltingarsinni og ég er týndur fólkið og lífið munu verða mitt landakort ] [ hlífðu mér við sannleikanum firrtu mig ábyrgð leyfðu mér að lifa eitt andartak í eigin óskhyggju. aftengdu raunveruleikann frá blæðandi tilfinningum þess hjarta sem aðeins vill gleyma. gefðu mér nýtt upphaf auðan pappír i myndasögu lífs míns málaðu á hann nýjan dag, sól, regnboga og fugla sem syngja um frelsið málaðu mig fyrir miðju brosandi lausa úr viðjum einmanaleikans. ég, á landamærum firringar og veruleika, finn er þú sleppir takinu og ég bið Guð í örvæntingu að taka frá mér hræðsluna, óttann sársaukann og kvíðann áður en þú breytist í þinku eða móral því ég vil ekki vera húsgagn í helvíti. ] [ gatan er auð ég horfi undir ljósastaurinn þar sem þú stóðst í kuldanum og beiðst þú bíður ekki lengur og ljósið á staurnum er slokknað ég held áfram ] [ ef ég gæti lifað á ný löngu horfnar stundir ef ég gæti ferðast tilbaka ég gæti séð bros þín og geymt þau í hjarta mér ásamt prakkarastrikunum þínum ef ég gæti breytt því sem Tíminn hefur innsiglað ég gæti margfaldað minningarnar um þig og mig og ef ég gæti safnað saman tárunum sem féllu hvert sinn er þú fórst ég gæti fyllt heila sundlaug fyrir þig til að leika í en ég get ekki breytt því sem ég gerði og gerði ekki þess vegna verðum við, elsku vinur að fara vel með daginn í dag ] [ Hún. Ekki. En hann situr enn Situr í honum hún í gær, hún í morgun þankastríð Koss á veggnum hann skilur ekki af hverju að skilja eftir varir sínar á skítugum klósettvegg. Af hverju ? Einmana koss. Hver átti þessar varir ? Hann leggur eyrun við kossinn hlustar á orðin sem dóu síðast. Hún. Hún átti þessar varir. Hann leggur munn sinn við kossinn upplifir hana innra með sér. Hann situr enn. Hún. Ekki. ] [ Andlit hans í augum andanna Blóðugt minnið grefur undan hugsuninni Draugagangur í sálinni Eilífðin bíður átekta í skugganum Frostrósir prýða bláar varirnar og Geðveikislegt glott afmyndar ásjónuna er Hann gengur á glerbrotum brostinna væntinga Í vefi örlaganna leynast endalokin Jafnvægislaus línudans yfir hyldýpi hugans Kveðjustundin er runnin upp Limlestur liggur með kinn við kantstein Með freðið bros og stirðnað glott Nafnlaus miði krýnir líflausar tærnar Óþekkt númer í enn einni skjalaskrá Presturinn kemur og blessar holdið Rólegur biður hann hinstu bæn og Signar andlaust jarðargervið, hverfur svo á braut Tilvist mannsins er lokið hér á jörðu Útförin fer hljóðlega fram Vinir og vandamenn samhryggjast Yfir ótímabærum dauða ástvinarins Þess sama og fyrir stuttu átti allt lífið framundan Æskan glötuð og tækifærin ólifuð Ömurleg lausn á tímabundnu þunglyndi. ] [ blow out the candlelight kill the stars rape the moon and wash out the sun - I don't care blow up the busses shoot the policemen kidnap the president and rob the banks - I don't give a shit hurt your loved ones cheat on your mate be mean and ruthless and sell your soul - I really don't mind burn the books tear up the paintings go for tyranny and become a slave - I don't give a damn but spit in my face or step on my toes dare stealing my heart or punch in my nose - and I'll do you in, punk ! ] [ Þú saknar ekki þess sem þú hefur ekki kynnst það sem þú þekkir ekki getur ekki sært þig þú tekur alltaf fyrst eftir því sem þú átt ekki en samt er það aðeins það sem þú hefur sem getur gert þig hamingjusaman þú hatar ef til vill það sem þú áttir en misstir en elskar það sem er ekki en gæti orðið þú óskar þess að vera annarsstaðar því þú nýtur ekki augnabliksins og ef þú verður ástfanginn þá er það af manneskju sem hefur til að bera allt það sem þú óskar sjálfum þér til handa því þú ert og verður egóisti sem siglir fleyi sínu á öldum óöryggis, nýtur byrs sjálfsánægjunnar og kompás þinn er álit annarra ] [ Orðin : aðeins bergmál hugsananna stöndum við ennþá saman sitjandi hvort í okkar sandkassahorni ? Tilfinningin : greypt í rennandi vatn er það sannleikurinn sem blindar augu okkar þegar við viljum ekki sjá ? og Ástin : aðeins óskiljanlegt hugtak - óskabrunnurinn ] [ Þegar allt er orðið að engu og gærdagurinn gleymist... þegar tárin þorna og sárin gróa... Eftir hverju manstu ? Eftir hverjum manstu ? ] [ Tími - að láta vatnsyfirborð jarðar renna í gegnum dropateljara halda bókhald og gefast ekki upp við talninguna fara með töluna í bankann byrja upp á nýtt tímann í gegnum dropateljara lifa síðan töluna vikurnar, árin án þess að fá í bakið eða sofna í miðju verki ] [ Ástin, já, ástin hún er einföld hún er flókin hún er blossi hún er brjálæði smitberi kitlandi kæti og kiknaðra hnjáliða hún gerir mig kjánalega snýr mér í hringi hún hlær með mér og hlær að mér er mér jafn framandi og túristi frá fjarlægu landi sem spennandi er að kynnast en það er nú svo með ástina eins og túristana að hún staldrar sjaldan lengi við heldur kýs að koma aftur - síðar. ] [ því sem fæddist í nóttinni er áskapað að lifa í nóttinni nóttin er tími töfra og ævintýra rökkrið gefur fögur loforð um bjarta framtíð í myrkrinu en dagurinn verður ekki umflúinn hann veður inn í næturlífið gerir töfrana hversdagslega hann valtar yfir mig og ég hugsa ekki lengur mínar eigin hugsanir já, nóttin hún er sérstök og lífið - hvað er það annað en góður blús, after hours ? ] [ Ertu maður með innihald eða bara tóm skelin ? Hafa orð þín einhverja merkingu eða eru þau aðeins sparsl í sprungur þess ósegjanlega ? ] [ orð þin tvíeggjað sverð brugðið til atlögu markmiðið : að drepa hjarta mitt þrungið viðkvæmni eins og fyrirburi örlög þess : að deyja orrustunni er lokið á vígvellinum : særðar tilfinningar glataðar vonir hvorugt okkar bar sigur af hólmi ] [ ekki koma of nálægt mér ég myndi ekki meika það að þú stæðir fyrir framan mig horfðir í augu mín og litir sársaukann í þeim breytast í táraflóð sem myndi drekkja þér og augun mín yrðu þín þar til takinu sleppti og fjarlægðin yxi á Sorgartrénu eins og forboðinn ávöxtur sem ég nærðist á ] [ ég set upp grímu þegar ég hitti þig virðist sterk og kát - eins og mér standi á sama set upp grímu til að fela sjálfa mig og hvernig mér líður - því ég elska þig enn set upp grímu svo þú sjáir ekki hversu heitt mig langar til að brosa til þín ] [ Ástin er dul og yndisleg og af ástinni hef ég leitað og að lokum fann ég hana falda hjá þér og gat henni ekki neitað ] [ Vorið kom með vindinum Vonin bundin í moldinni Brún brekkan tældi, blekkti, neyddi mig til að níðast á arfanum, nýsprottnum, montnum spírunum. Þær uggðu ekki að gírugum gúmmíhönskunum sem vöktu yfir grænu illgresinu. ] [ Ég er bútasaumsteppi marglit hjörtu raða sér á hjáleita grunna sum dálítið skökk næturlangt vaki ég yfir hjónunum vernda herbergið á daginn. -- Ég er ekki bútasaumsteppi. Þó mjakast bútarnir saman misjafnir að lengd raðast segja þegja mynda heild að lokum ] [ Ljósin kvikna eitt af öðru í gluggum húsanna á þökum húsanna í trjánum við húsin. Marglit ljósin lýsa upp vetrarmyrkrið Það birtir inni Það birtir úti Það birtir í hjörtum okkar, vegna jólanna sem eru hátið ljóssins. Guði sé lof, fyrir jólin. ] [ það var ekki ætlunin að fórna þér á altari kviklyndis míns það er aldrei ætlunin ] [ Ég Talaði til hans, hann heirði ekki. Ég veifaði til hans, hann sá ekki. Hann gekk bara framhjá mér, eins og vindurinn þegar hann þítur framhjá ljósastaurunum. hvað á maður að gera, hvað á maður að segja, Heimurinn..... Alein í heiminum. Útilokuð. SÉR EINGINN ? HEYRIR EINGINN ? Heimurinn...... ] [ samanlögð eining tilverunnar, sest á stólinn og svarar spurningunni, Hvaðan erum við? einangruð sameind sorgarinnar, felur sig í skugganum, Feimninn. hefur vald á lilverunni, og sorginn hefur vald á feimninni, Hvar endar þetta? heimspekinn nær ekki nógu langt, hún getur ekki útskýrt allt, hún gefst upp. maðurinn í skugganum, ræður öllu, við viljum hann burt, við viljum stjóran sorginni, feimninni, sameindinni allri, Sigrum. ] [ hallo, þetta er mikil sýn, ort eru ljóð á hvít lín. ég er lítil, sæt og fín, vill eitthver yrkja ljóð til mín. SVAR: bræðandi hugmyndaflóðið hugsandi mannverukrílið menningar snilldarsýnir systir mín hugar og handar hugsana fjarlægðarlanda förin er löng finndu þér hald í heimi heillaósk mín í vasa mundu að lifa af afli litla systir mín ] [ In a world of hunger, in a world of war, in a world of violens, as a cloud under the stars, If you wanna live through it, if you wanna see through. You better have strength and know what you want, gife what you have and, take what you want. It´s not always easy, it´s not always right. But the thing is to feel it the thing is to see, be what you are, to see what you feel. In a world of hunger, in a world of war, in a world of violens, . . . . . . . . . . . . is a caios. ] [ The emptiness must be filled the longing, overwhelming the desires of being alone The hope for joy the need for love surprising, unarmed heart open to all Asking now to hold it softly it?s bruised and not too trusting The bleak glimmer dimmed by hate Will you be the one to unlock the desire the desire to be at one with all to have more than a glimmer To have it all ] [ Hvur veit? en varla þó, vilji menn horfa á stórkostlegt sjó, ég held ég hafi af slíku fengið nóg; élbörðu andskotans bulli og róg. Öfgar mót öfgum vanda ekki leysa, öngvu skiptir þó menn láta gamminn geysa, menn sem á málamiðlun ekki geta sæst, minna út úr slíku fæst, Sé vitleysan með öfgum æst, Enda er það bara hneisa. ] [ En hefur sú þjóð á meðal þjóða upp á þess konar tækifæri að bjóða? Því einungis er samsafn sóða, sem býr á landinu góða, og les bækur ljóða. Lengi hefur vergirnin gert langförula rjóða og langflesta siðprúða menn óða. Sögur um þá þarf að dulkóða, því mikið er um sukk sjóða. ] [ Þau sækja að mér sökkva sér inn ég ræð ekkert við þau hrúgast heimta röðun reglur kalla á minningar sætar sárar súrar. ] [ Ég þrýsti nefinu þétt að rúðunni finn titringinn. Engin rúða milli mín og regndropanna. Tár féllu í gær. Regndropar í dag. ] [ Þú ert minn eini sanni farangur svo stór og þétt pakkaður þótt þú hafir týnst mun ég geyma þig í hjarta minu ég og þú að eilifu Þú ert eílíft ljós i minningu andans þú varst mér hjálp þegar bjátaði á án þín hefði ég ekki verið neitt í ljósi hins endanlega ] [ kvar er han? þesi endanlegi maður sem hefur enga trú á öllu sem hreyfist í djúpinu hreyfist allt svo hratt kvar er han nú? hver er villan í lífinu? ] [ Við löbbum á ströndinni hönd í hönd. Þú faðmar mig. Ég vildi að þú værir hér núna. ] [ Einum þér ég aldrei gleymi augnablik. Ljúfa kossa leynda geymi logakvik. Að hafa þig í hugardraumi huggar mig. Ég alltaf mun í ævistraumi elska þig. ] [ Grundin hörðum hulin snævi hrímuð skín. Spillt á jörðu spanna ævi sporin mín. ] [ Ég leggst á koddann, ligg þarna og mig langar að sofna. Mig langar að flýja þennan heim og inn í annan. Inn í þann ljúfa heim sem býr allur inn í mér. Allt sem ég þrái verður að veruleika, mínum veruleika, í mínum heimi! En svo er eitthvað, heimurinn minn verður eins og ruglað sjónvarp. Heimurinn er að hverfa, ég reyni eins og ég get til að halda í hann, en ég verð að sleppa takinu og horfast í augu við veruleikann. ] [ There ones was a flower Who went to a shower The shower went cold So the flower got old There ones was a bee Who lived in a tree The bee needed to pee So the tree went hihi These are my poem’s They are realy bad So don’t go showing them Then people wont get sad Author: Vera.D.S ] [ You are my friend For that I’m grateful. You’ll be there to they end For that I’m thankful. I love the time We spend together How very kind You where in the bad weather. I hope I’m gone be there when you need me the most. I realy do care You are my foremost. Höf.Vera D.S! ] [ sit ég hér og skrifa ljóð með símann mér við hlið bíð eftir að heyra frá þér því sum orð, þau þola enga bið. fólk skrifar ljóð í ýmsum tilgangi, semur níð, grín eða tjáir sína ást, en flestir fá víst einhverntímann við þessa list að fást. mismunandi eru ljóðin eins og mennirnir eru margir. \"blómin sem hverfa\" samið um sorgir \"af hverju menn myrða\" samið um stríð. \"ótrúleg tilfinning hér inni\" samið um ástir \"það sem leynist undir skinni\" samið um vín. ...\"ég vildi að þú værir hér\"... ...var einu sinni samið til mín... ] [ Þó að bylji brimarós berst ég móti straumi, Það er eins og lífins ljós lifi bara í draumi. Þrumugný ég gnaka finn gnauða vindar heljar, steigurlátur stormurinn stíft á lífsfley herjar. Steilurnar ég stórum klíf storka máttarvöldum. Eigra mun ég allt mitt líf, ein á lífsins öldum. ] [ Vísna þinna vígabrand verður þungt að beygja, orðagnóttin alveg strand ekkert til að segja. Streyma hjá mín bernskubrek brimrót heljar gnauðar, úr mér kraftur þorrið þrek, þrár og vonir dauðar. Senn mun enda orðalist andans kraftur dvínar, nú hefur skáldið málið misst mitt í hendur þínar. Ég hími og tímans trega veg töpuð æskugleði. Valt er salt þá vega ég á visku minni og geði. ] [ Hver þerrar tár að trega linni og tendrar ljós er birtan dvín? Hver græðir sár í sálu þinni er sorgin fyllir hugann pín? Hver leiðir þig um lífsins vegi er lokuð virðist sérhver braut, og napurt er á nótt sem degi nístir hugann kvöl og þraut. Hver elskar þig og áfram leiðir alla vegi lífið gegn? Drottin ásjár bitur beiðir, baráttan er þér um megn. Hver verndar þig og veikan styður og vakir yfir beði hljótt? Ljásins heyrist leiður kliður lífið er á enda fljótt. Hver yljar þér á ævikvöldum öllum gleymdur, hrakinn sár? Senn mun lygna á lífsins öldum, lokið göngu, kaldur nár. ] [ Ef ég gæti elskað miklu meira, myndi ég elska allt af lífi og sál. Ef ég gæti gert allt sem mig dreymir, hverjir yrðu draumar mínir þá? Ef ég gæti fundið allt svo fallegt, yrði ég þar alla mína tíð því ef ég gæti ort um allan heiminn hvernig yrði heimurinn í því? En hvað ef allt það vonda myndi hverfa, ást og allir yrðu glaðir þá. Þá held ég nú að einhver myndi segja; Verði allt aftur eins og það var þá ] [ Lífsins nauðsynjar garðinn minn skreyta Ég beit á og veit nú að hverju leita. Augun á skjánum, hljóðin hlustina þreyta, Heltekinn, ofseldur, krásanna verður að neyta. Holur að innan held ég í keiminn, Af háværum Mammons stemmum dreg seyminn, Allt það sem áður gerði mig dreyminn Ærir nú sálir um gervallan heiminn. Tærður og særður treð ég í mal, Tæki, klæði, ferðir, flug Fáum nautnum vísa á bug. Himnekst er mitt hal, vísast á ég mikið val, Ó, guð ég elska kapital. Ég sé nú eftir að kortið var klippt Og krónunnar samningum af bankanum rift Að geði og lundu ég ekki fæ lyft Með lántökum, neyslu og yfirborðs stift. Hamingju galdurinn kvuð vera sá Að holuna fylla skal innanfrá. Einbeita sinni að einföldum dyggðum, Elska og sofa í fámennum byggðum. Keyptu fátt en hyggðu hátt Liggðu lágt sem lúðan. Hógværð rækta í auðmýkt, sátt, Ei sækja skalt í yfirdrátt Því strengjalaus er brúðan. Trúðu á tækifærin öll Trúðu á eigin dreyrahöll. Treystu á aðra tvisvar á dag Treystu á hamingju og þjóðarhag. Að því búnu ætla má Að unaðsþankar fari á stjá. Þá stendur eftir staðreynd merk Þú stendur eftir: Kraftaverk. ] [ Legg höfuð mitt við brjóst þitt votur vangi sorgar. Tínist ótti hjartans í mjúkum höndum þér. Bið sem vekur kenndir tiplar stóri vísir komið er nú myrkrið á eftir mér þú lýsir. Mótar skýja sólir stjörnuaugað vætist tregur vilji tómsins leggst til hinstu hvíldar. Í hinsta sinn ég mæti við dyrnar þínar.... ] [ Fjölskyldan mín á fermingardaginn færir þér kveðju og bæn gæfa og gengi fylgi þér veginn með guði þá verðurðu væn Farðu að frænda ráðum fetaðu þrönga braut því fullorðin ferðu bráðum að fást við lífsins þraut ] [ Síðasti sólargeislinn skein inn í kalt steinhúsið. Autt. Stóll í grjótauðninni. Maður. Gleraugu. Bók. Les fornkínverskt letur og reykir mahónílitaða pípu. Blár reykurinn er fortíðin og hverfur upp í myrkrið handan ljósaperunnar. Tungan ei hrærist en eyrun heyra. Dánarfregnir og jarðarfarir er eini dagskrárliðurinn. Tunglið tekur mig. ] [ ein dagur, brot úr sekúndu, og heil mannsæfi verður til. ein dagur brot úr sekúndu, mistök, og heil mannsæfi deyr. gættu að þér góði(a) minn/mín, vertu stilt(ur) og góð(ur), því eitt brot úr sekunu, eitt lítið augnablik, getur breitt öllu. ] [ svo ómerkileg að ég hef engann skugga þið dustið bænir mínar af ykkur eins og skítablett á fallegri vordrakt ] [ Trjónir hátt yfir borginni beru, rammleiki hennar skal alla styrkja. Þar syndir þínar skráðar eru fögur er Hallgrímskirkja. ] [ Sú rödd var svo fögur, svo hugljúf og hrein, sem hljómaði til mín úr dálitlum runni. Hún sat þar um nætur og söng þar á grein svo sólfögur ljóð um svo margt sem ég unni, og kvöld eftir kvöld hóf hún ástarljóð ein - ó ef að þú vissir hvað mikið hún kunni. En fjarri er nú söngur þinn, sólskríkjan mín, og sumur þíns vinar hin fegurstu liðinn. Hann langar svo oft heim á Þórsmörk til þín, hann þráir svo ljóðin og vornæturfriðinn, - hann harmar í skógunum hrjósturlönd sín, hann hlustar sem gestur á náttgalakliðinn. ] [ Hvar eru fuglar þeir á sumri sungu? Þeir suður flugu brimótt yfir höf. Hvar eru blómin sæl frá sumri ungu? Und snjónum hvíla þau í vetrar gröf. Hvað er nú söngva? vindgnýr hærri og hærri um fölnað land, en þung með drunuhljóð. Þar þögull sjófugl þyrpist brimströnd nærri, hinn þrúðgi gýmir kveður stirðan óð. Hvað er nú blóma? helblóm hörku viður, sem hrímhvít skarta frosnum rúðum, og geislablóm, sem glitar máni niður á glerskyggð blásvell vetrarheiði frá. Nei! sönglíf blómlíf finnst nú aðeins inni, þar andinn góður býr sér sumar til, með söng og sögu, kærleik, vinakynni, á kuldatíð við arinblossans yl. Svo dvelji söngfugl hver einn fyrir handan og hylji fönnin blómið hvert sem dó. Vér eigum sumar innra fyrir andann, þá ytra herðir frost og kyngir snjó. ] [ Viltu fá minn vin að sjá? Sveininn þann sem ég ann? Fríðari engan finna má, sem fögru sverði brá. Ég hefi brosaðaugu mín af unaði brosað hefi ég augu mín af unaði blá. Viltu heyrahans ljúflingsljóð? Röddin skær, blíð sem blær. Við hans fyrsta ástaróð í æðum brann mér glóð. Varir mínar vinurinn kyssti rauðar, vinurinn kyssti varir mínar rauðar sem blóð. ] [ Þey, þey og ró. Þögn breiðist yfir allt. Hnigin er sól í sjó. Sof þú í blíðri ró. Við höfum vakað nóg. Værðar þú njóta skalt. Þey, þey og ró. Þögn breiðist yfir allt. ] [ Jeg hverf til ykkar, helgu rökkurstundir, í hópinn únga kríng um fróðan gest, því gott var forðum ykkar vængjum undir og enn er laungum þetta skjólið best, þið vinir ástar, vinir allra ljóða og verndarenglar huldulandsins góða. Þið kunnið ennþá allar mínar sögur og alt er geymt, sem mjer var forðum kært, og orðin streyma ennþá létt og fögur og allar raddir kveða hreint og skært, og jeg er sjálfur, ungur eins og forðum og alt er það í sínum gömlu skorðum. Jeg man hve fyrri fyrir sjónum mínum í fögrum ljóma álfabygðin stóð, er hæðir Saga drap úr dróma sínum og dularhamur leið af bjargaslóð og sem úr móðu háar hallir runnu, þar sem hulduljósin öllum kvöldum brunnu. Er napur vetur nístir jörðu bera og næturvindur pínir ýlustrá, hjá þjer er, Hulda, værast þá að vera og vor og sólskin þínum grundum á; þá festir æskan fyrstu rætur sínar sem fjallablóm við silfur lindir þínar. En sögum sínum börnin einlægt breyta, uns bæði þau og sagan verða ný, og tvö og tvö, þau loks úr hópnum leita og leynast þínum bjargafylgsnum í, hið fyrsta sinn, er orðið best að eyra, sem aungum nema þjer er leyft að heyra. Og oft til þinna álfasala gánga jeg aldinn vin á fögru kvöldi sá, og æskubrosin vitja grárra vánga er vinum horfnum fyrir sjónir brá; það voru álfar úr hans bernskusögum og yndisnætur frá hans þroskadögum. Þar áttu, Hulda, bjarta bygð og fríða í bláum hömrum yfir sljettri grund, og upp hjá grænum hæðum þinna hlíða, þar hef jeg forðum setið marga stund, er vorið fagra blóma blæju sína þar breiddi yfir töfrasali þína. Og laungum hef jeg fundið sældar sæti um sumarstund í þinni blómalaut, og undrast þá, hvar útlegð dulist gæti og ævi kvöld við þetta móðurskaut; við ráðum fyrst með sjónum seinni ára, hvað Saga markar rúnum blóðs og tára. Og eins var stundum út frá þínum hæðum, sem að mér lindir bæri huldaróð; þar fjekk jeg ungur ást á fögrum kvæðum og orti sjálfur fyrst mín bernsku ljóð, og títt mjer skáldin tár á vánga súngu með tign og afli minnar dýru túngu. Og einatt sat jeg inst við fossinn bjarta og unaðstóna hörpu þinnar naut; þar saungstu mig að þínu heita hjarta og hug minn allan lagðir þjer á skaut, og mjer er síðan þraut við þögn að una og þrái æ að heyra fossa duna. Hver gleymir þjer, sem úngur einu sinni með æskuvini hefur skjól þitt sótt og drukkið hjá þjer allra álfa minni í ástarkossum síðan marga nótt? og mörgu þú að honum hvíslað lætur um horfinn vin og bjartar sumarnætur. Í öllum löndum helgar huldur búa, er heilla oss um fögur sumarkvöld, en þær ei nema æskuástum trúa og armlög þeirra verða síðan köld, og þá er eins og allar raddir hljómi frá öðrum verum bæði að svið og rómi. En þegar vorið gamla neista glæðir, sem geingin ævi djúpt í huga fól, þá leita jeg um hóla, skóg og hæðir og hvar sem álfar geta fundið skjól, en eingin hulda hefur í þeim búið, sem huga mínum gæti frá þjer snúið. Það er sem bjarmablik af ljósum þínum mjer berist stundum enn á fjarra grund og eins og birti yfir huga mínum, er einn jeg sit um kyrra rökkurstund, og mjer finnst þá jeg hulduóminn heyra sem hvíslar eins og forðum ljóði í eyra. ] [ Líf, dauði, sorg, gleði svo undarlega samofin. Í einni andrá slokknar líf. Í næstu andrá kviknar líf. Svo óbærileg sorgin yfir dauða. Svo dásamleg gleðin yfir lífi. Líf, dauði, sorg, gleði svo undarlega samofin. ] [ Óróinn færist nær truflar sálarlíf Sjónarspil leikur létt heldur þér niðri Veröldin spillir þér komdu með mér burt Við svífum hátt gleymir sér uppí skýjunum Enginn veit um okkur við erum sálhreinsar Alheimur biður um okkur Heimsfriður veltur á að ég og þú sigrum ranglætið við verðum að flytja boðskap minn ] [ Heimurinn þarfnast mín til að gefa ást Komdu með taktu mig og ég skal sýna þér lykil heimsfriðar Sálirnar sameinast til að gefa ást Við springum brátt sálirnar rigna yfir jörð Með regninu kemur heimsfriður Án kærleiks erum við glötuð Komdu með sýnum þeim öllum hversu ljúft er að gefa ást ] [ Lítill fugl sest hjá mér faðmar mig svo fast að sér Alsælan fylgir því móðurleg hlýjar mér svo þægilega hlýtt Ekkert er merkilegt Náttúran fagnar mér ég er kominn heim Svíf í burt Englarnir kyssa mig Hugarró loksins finnur mig Hlýja mér hjá hjartarót móðir náttúru Ylurinn svo undurtær leysir mig héðan ] [ Íklæddur ástarbréfi mjakast ég innum lúguna og lendi mjúklega á nýbónuðum ganginum þar sem ég renni mér fimlega fram og aftur á meðan ég bíð þess að þú komir. ] [ Klóraðu kisa og leptu mjólk mína ef það svalar þorstanum ég hef ekkert betra við blóð mitt að gera. ] [ Alheimur treystir þér fyrir gullinu börnin mín vilja elska þig slepptu nú öllum fordómum Þú fæddist elskandi alla jörðina fordómar illska og heift sýna ekki sál Ég sé þig og sál þína þið eruð svo falleg Elskaðu alla sem búa á móður jörð ] [ Til þín ég rispuð sálin syng og syng í leit að svarinu en nálin hamast hring á eftir hring í sama farinu. ] [ Kristaltær náttúran opnar brjóstið sitt sýnir mér börnin sín Englarnir vilja leika sér Perlurnar sem hún geymir opna nýja sýn Loftleysið frelsar mig frá viðjum mannheimsins Góða nótt litli fugl við hittumst senn hjá móðir náttúru Hann einn veit Af hverju við erum föst hérna ] [ Ég og þú leiðumst burt Alheimurinn með því meiðum við hvort annað þegar við erum systkyni Stríðið sem þeir berjast er nafli illskunnar þess vegna verðum við að leiða alheiminn til heimsfriðar svo börnin mín og börnin þín fái rótt sofið Leiðum þá í átt til vitundar Guðirnir standa með svo við getum sofið ekkert er merkilegt nema heimsfriður ] [ Skapaðu innri frið slepptu sálinni frelsaðu andann þinn og komdu með mér burt Hlýjaðu jörðinni með ást þinni opnaðu augun þín og sjáðu ástina mannfólkið þarfnast hlýjunnar Lyftu þér uppfyrir alla fordóma Ég elska þig komdu til ljóssins við verðum að sýna heiminum rétta leið ] [ Hvert reykar þú hugur? -Ég reyka um allt, um allt. Ég fer gegnum ástina ég fer gegnum vonina Ég fer gegnum hatrið og ég fer gegnum sorgina Ég lít við í sálinni og kíki á fögnuðinn Svo líð ég í dagdrauma dagdrauma... dagdrauma... ] [ sit hér einn fólkið hleypur eða er það að dansa það sést ekki því það situr allt kyrrt þetta er undarlegt það sem áður var, er nú horfið og það sem er horfið, mun sennilega aldrei koma aftur því skal því merkilega gleyma seint því þegar því hefur verið gleymt sést það aldrei aftur samkomur á efrihæðum blokkanna eru eins og diskótek í kjallaraíbúðum parhúsanna ] [ af hverju eru allir vondir við hvorn annan af hverju er hatur í heiminum af hverju eru stíð af hverju er ekki friður í heiminum af hverju standa menn ekki saman gegn hinni endalausu illsku alheimsins af hverju svíkja menn hvorn annan er það vegna peninga eða valda hvað dugar það þegar þú þarfnast vina ] [ ferðalag til framandi lands sól og blíða yljar upp líkamann sandurinn sest að í allar skorur hví er fólk að sanda sig svarið felst í fullkomnun og ef guð er fullkomnun þá finnst svarið í guði ] [ Mér líður ekki. svo mikið er víst. Stendur mér í stað? Fer mér aftur? Eða: [Skýringarmynd teiknuð af mér þar sem pílur liggja frá umgjörð minni innávið. Í kring liggur hringur, yfir liggur x.], [Skýringarmynd teiknuð af mér þar sem pílur liggja frá umgjörð minni útávið. Í kring liggur hringur yfir liggur spurningarmerki]. Hvað geri ég til ef ég finn ekki? Hvert finn ég ef ekki til? ] [ Í dag spáir skúrum úrhelli sorga og depurðar í sálarinnar einskismannslandi, eitruð gleðiský á stöku stað en áframhaldandi sút sorg og súld síðdegis. Stormur minninga úr ýmsum áttum herjar á óvarða huga, skyggni lítið. ] [ hugsa um þig dag og nótt því svararðu ekki mínum köllum sit hér og hugsa verð ég einn alla ævi eða verður þú með mér hvað er sönn ást, felst hún í hlýju og kærleika eða felst hún í sannleika hvað er ást, hvað er kærleikur, hvað er sannleikur, hvað er alheimurinn hvað er það að vera ástfanginn er hægt að verða ástfanginn af öðrum eða er maður bara raunverulega ástfanginn af sjálfum sér, hver veit kannski er til sönn ást, kannski ekki ] [ Ég fann andardrátt þinn við hlið mér þegar ég vakna. Eins og sólin sem skín inn gluggann minn. Í stað stjarnanna sem ég sakna. Hljóðið sem fyllir tómið tómið sem fyllir mig. Ég lifi í gegnum daginn, dagurinn lifði fyrir þig. ] [ Ég hef aldrei öskrað svo hátt í hljóði ég hef aldrei áður heyrt hjarta mitt hljóðna ég hef aldrei lifað, aldrei lofað. Öskur í djúpi djúpt inn í skugga skugga sálar sem sefur. Raddir í myrkri myrkrið svo hlýtt svo mjúkt eins og vitund mín. Svo hljóðnar allt og ég rek út öskrin, hljóðin og raddirnar svo að vitundin fái frið til að lifa. ] [ þetta er mín ástarljóðatjáning þetta er um stelpu sæta við þessari ást er engin ráðning fyrir mig því ást á að kæta hvað á ég að gera ég er ástfanginn ástin étur mig og byrjar innst hvar er ástarráðningin þetta ljóð verður um mig minnst ] [ hvað er líf er líf það að vinna, borða, anda og sofa eða er líf eða er tilgangur lífsins sá að hlaða endalausa græðgi mannsins fyrir völd og peninga, það að lifa er ekki tilgangslaust, því ef það væri tilgangslaust þá myndum við ekki lifa ] [ Eg ungur var,að arunum þa lek eg,oft að barunum þær fellu,ljuft og lett við fjörusand. Mig dreymdi,stora drauma um það er kæmiað þvi,eg heldi af stað ut i lifsins,barattuna við hafið. Er flairi arin,liðu hja eg sterka löngun,for að fa að taka þatt,i striðinu við hafið. Þar kom að þvi,eg fekk að sja og marga þunga,hildi ha ja oft gaf ægir,sjomanni kalt baðið. Oft er sjomannsævi ströng ogæði oft,hun verður löng. þvi oft dvelst mönnum,ævilangt i starfi. Og þo oft skapgerð,virðist hrjuf þa er hun oftast osköp ljuf ef leita munum,innst inn fyrir barðið. höf/rettur,Gylfi Valberg Oskarsson ] [ Í Hleininni var hlúð að bát sem hlaðinn kom að landi, ef aldan var þeim eftirlát og ekkert varð að grandi. Er klöppina yfir kæna dróst, kjölurinn særði steininn. Ummerki það enn er ljóst sem öldruð geymir Hleininn. Þarna út tók afa minn sem oft við brimið háði baráttu um bátinn sinn er barðist fyrir láði. Sitja varð hans sonur hjá er sunnan brimsins löður, hjálparvana honum frá hrifsaði gamlan föður. Menn hafa til sjávar sótt síðan fyrr á öldum Dæmdir verið um dimma nótt og dáið á beði köldum. Brotið hafa bátinn sinn er bjargið kaus þeim mæta, þegar leyfði ekki lendingin lagi þeim að sæta. En þrátt fyrir að þungur sjór oft þreytti sterkar hendur, línuafli og lúða stór í lokin eftir stendur. Soðning þegar sultur að svarf, í litlum kofa. Og gleðin við að gefa það sem Guð þeim vildi lofa. ] [ hugsanir eru ekki alltaf alveg eins þær eru misjafnar hver og einn er sá sem næstu hugsun hugsar Enginn getur vitað hvað sá næsti er að hugsa að hugsa sér ef einhver gæti gert það heyrt hvað einhver er að hugsa eða íhuga um lífið og hans einkamál, shitt að geta þetta væri draumur allra manna geta vitað allt t.d leyndarmál annarra ] [ Tvær mannverur á plánetunni jörð. Horfa, hugsa og hungrar í ást. Leitandi augu fálmandi hendur tvö hjörtu. Tveir hugar sem sameinast í eitt. Endalaus þrá sem samt er takmörkuð. Minnir á síðustu ferð í rússíbananum. ] [ hví er fólk alltaf að tala um ást við eitthvað annað það ætti að fást þegar fólk sést úti að kyssa fara sumir að því að flissa af þessu er gaman þegar fólk er saman það er að kela út um móa og mela svo eignast þau börn sem drekka úr pela Það væri gaman að semja um menn, sem konur sína lemja ég lengur nenni ekki þessu að halda yfir ykkur þessa messu ] [ ef öllu væri hægt að eyða þá allt miklu betra væri þá væri fólk ekki hvort annað að meiða þótt fólkið hvort annað særi þá væri því hægt að eyða sama hvað við myndum gera ekkert illt myndi frá því leiða allt sem fólk myndi hlera þá væri því hægt að eyða því það myndi fólk ekki reiða ] [ hví trúir fólk á guð? er það vegna þess að því þarf að finnast sem einhver drottni yfir þeim gætum við ekki lifað ef við myndum ekki trúa á neitt eða það væri ekki neitt sem er valdameira eða öflugra en við sjálf það er skrítið hvernig fólk lifir í þeirri trú að einhver einn maður eða vera skapaði allt líf ] [ nú ég augun mín legg aftur sef hér vært og rótt í mig safnast mikill kraftur brátt allt hér verður hljótt heimurinn allur verður svartur nú ég bið þig góða nótt ] [ Hver segir að ljóð eigi að ríma? Er einhver regla um það? Hver fann upp á ljóði spyr ég mig oft ljóð er sjálfsagður hlutur eins og loft afhverju er himinninn blár afhverju verð ég aldrei sár er það útaf ljóðinu er ég einn af þeim með ljóðið í blóðinu spyr mig oft að þessari spurningu eflum ljóð og gerum ljóðabyltingu ] [ Frelsishugsjón sem fengum við í arf fleytti áum í gegnum \"þrengingar og neyð\" líklega leiðir hún okkur við framtíðar starf löng, farsæl og íslensk verður leiðin greið Margur mun þá eflaust ótrauður segja. Mikla bölsýni þurftum við að þreyja, því hin þokkaprúða íslenska meyja, sem þrjóskan átti tarf, þess löng vetrardægur þolinmóð beið þá Ísland yrði fremst meðal byggðra eyja ] [ Lífs er stríðið stundum hart streða lýðar beygðir, aumra bíður ekki margt af ótta og kvíða teygðir. Lúmskur gjarnan lasprar hinn lætur kvarnir flauma, hæst vill gaspra heimskinginn háðskur lastar auma. Harmi sleginn, hugsun köld haltra ég veginn þjáður, áfram þreyi ævikvöld í elli dey ég smáður. Lífs í stríði styrkur þverr straumur lífsins þagnar, nóttin líður, niðjaher nýju lífi fagnar. ] [ Mín gleði mín þrá hvert bros og hvert tár er tileinkað þér. Hver hreyfing hver hugsun hvert fótmál hvert spor er gengið til þín. Hver saga hver bæn hver söngur hvert ljóð er skrifað til þín. Hver staður hver stund hver dagur hver nótt er draumur um þig. Þú ert allt mitt líf. Þú ert lífið. ] [ Vorið er komið og móarnir anga. Ég kem auga á fosss er seitlar nidur brekkuna. Þetta er yfirnáttúrulegt, ég sé syndandi furðufugla........ og sest. Ég stend upp..... Mig kitlar í iljarnar. Dagur er að kveldi kominn. Eg er ei hér lengur. ] [ Af hverju er hafið stundum rólegt en stundum reitt. Það sýnir reiði sína á fólkinu. Það er grimmt og hlýfir engum en getur líka verið kyrrt og rómantísktog fengið fólk til að hugsa um tilgang þessarar ferðar sem við erum stödd í. ] [ Sveitin mín er eins og grænn blettur, grænn blettur í umhverfi friðar, friðar sem allir ná til, til þess að öðlast innri frið. Friður sé með yður sem og ykkur öllum, öllum þeim sem biðja. ] [ Veröldin býr í hjarta mínu, ætli hún sé líka í þínu. Ég mæni út um gránn gluggan það úti er bölvuð myglan. Ég held nú til veiða í þeirri veröld sem fögur er, fögur sem allt sem fagurt getur orðið. ] [ 1. Bjargið er dökkt og selurinn syndir í djúpinu sjómenn syngja. En kaupmaðurinn er áhyggjufullur hann situ í stól og fuglin flýgur en bílstjórinn er reiður vegna sýslumannsins en bjargið er hátt og lundin dimmur 2. Lundin flýgur vegna fryðsins og maðurinn hleipur vegna ástarinnar kannski munu þeir eiga samleð um heimsins dimma veg 3. Kaupkmaðurinn saknar ást barnanna og friðnum sem þeim fylgir. Er fuglinn kannski kominn til að syngja fyrir hann lag. Er fuglinn kannski kominn til að veita houm frið frá öngulreiðu hversdagsins 4. Bílstjórinn og sýslumaðurinn funda vegna ágreinings en sættast þegar það tekur að kvölda. ] [ allar mínar stundir ég hugsa um þig mitt líf mín sál er tileinkuð þér mínar hugsanir mín orð eru öll um þig mitt líf mín tilvera er öll vegna þín ég anda, borða ég lifi allt vegna þín ] [ Þatta ljóð um hús fiflið er sá sem ætlar að giftast mér hann oft gleimir að skeina sér Þegar af klóinu hann fer stundumm fer hann út að lita myndi helst vilja við Það sita ljóðinn niður ég óður rita Þetta er mesta fifl allra manna Með Þessu ljóði ég hef hér sannað að hann sé mesta gjæða blóð Þegar hann mælir við mér móð ] [ Þegar dagur er að kvöldi kominn, og ekkert lítur út fyrir að virka. getur maður rekst á ljósið í myrkrinu, og maður fyllist von. þessari skrítnu tilfinningu, sem nartar í mann að innan, notalega.. og maður fer að hugsa, horfa, og finna. Og maður verður glaður. sáttur við sjálfan sig, og hissa á öðrum. Þangað til maður dettur aftur inn í myrkrið. og þá byrjar maður upp á nýtt. einginn tekur eftir manni, eða einginn heirir í manni. afhverju berst maður, afhverju lætur maður sig ekki bara fljóta inn í myrkrið. Á vald þess sem maður þarf, minst að hafa fyrir að eignast. einmannaleikan, sorgina, sárinn og nóttina.... ] [ ef ég gæti ferðast í tíma færi ég aftur/ ég sé eftir miklu fortíðin er of mikill kraftur/ ég sit fastur/ ég sakna þín svo mikið/ síðan þú fórst ég hef verið ringlaður og þunglyndur fyrir vikið/ ég veit að þetta voru örlög/ bara get ekki sætt mig við það/ mig langar að fara út sjálfur með sög/ guð tók allt sem ég hafði að missa/ ég er hissa/ samt mest af öllu er ég tómur/ er þú fórst fór hluti saf mér með þér þetta er verra en dauðadómur/ heyrist ómur?/ mér er sagt að ég heyri ekkert en reyni þó að hlusta/ mér er sagt að ég sé klikkaður en ég læt það sem vind um mín eyru gusta/ get ekki ímyndað mér að ég sjái þig ekki framar/ ég er eins og fluga oná steini og fyrir ofan mig er hamar/ ég get reynt að fljúga burt og sleppa þessu frá/ en ég ákvað að verða að klessu steininum á/ er það satt að himnaríki sé til? guð svarar mér ekki/ get ég flúið sorgina ef ég bara sjálfan mig blekki/ þetta hefur gengið of langt ég græt mig í svefn kvöld eftir kvöld/ ég reyni að berjast á móti en sjálfstortímingarhvötin tekur fljótlega öll völd/ það er seinasti kosturinn en líklega sá besti/ ég get þetta ekki lengur fer og bið um syndafyrirgjöf hjá mínum presti/ akkuru þurftiru að fara?!?/ ég öskra upp í myrkan himininn/ það rignir í andlitið á mér svo er sagt að jésús sé besti vinur minn/ ég hef lent í ýmsu mína ævi en í þetta sinn/ gekk það of langt ef himnaríki er til kemst ég vonandi þar inn/ ------------------------------------------------------------------------------------ eftir slysið ég hef ekki verið með sjálfum mér/ get ekki einbeitt mér lengur ég sit einn að skjálfa hér/ í hvert skipti sem bíll keyrir framhjá, ég vonað þú sért komin/ en á meðan dauðinn og lífið skilur á milli okkar hverfur öll vonin/ er ég pæli í ástæðum tilað haláfram að lifa/ finn ég enga gera ekkert annað en horfa á klukkuna tifa/ ég reyni að skrifa/ bréf til þín en veit ekkert hvert á senda/ póstkarlinn skildi ekki neitt er ég reyndi til himins að benda/ ég veit ekki hvað ég á að gera ég er ekki mönnum sinnandi/ brennandi/ ef óheppni væri týndur hlutur væri ég finnandinn/ ég hleyp í hringi óskandi að kvölunum sé lynnandi/ vildi óska við værum saman þinn og minn andi/ en hvað er ég að hugsa, ég veit að ég hef tapað þér eilífu/ þú ert sú sem komst uppúr en ég drukkna í sýkinu/ ég á engann að lengur öllum er sama hvernig mér líður/ mig svíður/ hvern einasta dag sársaukinn eftir mér bíður/ martraðir hverja einustu nótt ég erað tapa þessu stríði við sjálfan mig/ eftir eitt erfitt kvöldið ég sest niður og les bréfið/ sem ég ætlaði að senda þér en gat ekki komist til skila/ ég felli tár og ákvað að lengur skildi ég ekki lifa/ ég lagði bréfið á borðið og fór niður í kjallara/ það er best fólk sér mig varla þar/ örvæntingafullur á báðum áttum hataði ég lífið/ ég var endanlega við það að tapa þessu sálarstríði/ ég barði í alla veggi hvolfdi húsgögnum og öskraði/ ég reyndi að eiga gott líf en mér illa blöskraði/ hljóp upp í herbergi að ná í allt draslið sem ég þurfti/ ætlaði að lýta einu sinni en á bréfið en þá var það horfið/ ------------------------------------------------------------------------------------ ég hlaut að hafa misst það og leitaði um allt herbergið/ eftir stutta leit rakst ég á lítinn blaðsnepil/ skrifaður með skrautskrift og af blaðinu fann lykt af hennar ilmvatni/ þar stóð að sár þeirra gróa sem halda í vonina um að þeim batni/ undireins ég fattaði hvað var að ske/ bros færðist á brotið hjarta og ljósið skein úr augum mér/ ég hneig niður á hné/ og allur líkami minn fraus/ ég starði á vegginn er ég virkilega loksins laus?/ mér leið ekki lengur illa þó mér hafi ekki heldur liðið vel/ þetta bílslys sem hún lenti náði ég ekki úr hausnum á mér/ ég gleymdi öllu sem varað gerast í kringum mig/ gleymdi að ég hafi ætlað að drepa mig/ ég gleymdi að ég hélt á kjöthníf í hægri hendi/ ég var nýsloppinn úr óveðrinu en get ég spjarað mig á nýju lendi/ ég horfði útum gluggan og sólin var að koma/ þá fékk ég góða tilfinningu og fattaði að lífið var bara svona/ lagðist upp í rúmið yfirbugaður af þreytu/ vissi að hún yrði alltaf hjá mér sama hvað ég gerði mikla steypu/ mér hafði aldrei liðið svona áður en nú var ég sáttur við lífið/ ég vissi að ég hafði unnið stríðið við sjálfan mig/ ] [ Þú birtist smátt og smátt úr hjúpi jarðar svört þúst sem enginn sá fyrir. Grænklæddir steinar á bláum feldi leirparadís úr barnungu hraunteppinu fjallasýn sem umvefur, bindur og byrgir sýn. Fljúgandi fuglar, prófastar, flugvélar fleytur á leið úr faðmandi kyrrðinni út í harða víðáttuna. Mýmargar línur stálþilja og steinsteypu þétt þyrping lifandi hvítra veggja sem bera samofinn dúk bárujárns. Flóð sálna eftir öskugráu malbikinu og ásjóna mín í spegilmynd á skítugri bílrúðu. ] [ Ofar flýg skýjum vef mér flos og smakka kyssi sólina kjassa hitar mitt hörund Ofar flýg sólu dansa plánetur í kring í nýföllnum snjó vetrabraut vafinni stjörnum Ofar flýg veröld vitund minni og sjálfi ofar dags flaumi flýg um í draumi. ] [ Sólin gyllir þína veggi þínar götur, sem allar götur síðan hér ég fann frið og hefur fóstrað mína drauma. Bergmálar fuglasöngur í sumrinu bergmál sem dofnar og verður að skrjáfandi laufskrúð hausts. Veröldin verður loks sykurhvít og sæt. Eins og í glerkúlu leika sér börnin við snjóflygsurnar er falla á brosandi andlit og sólbjartar sálir. Klæða sig trén hvítum pels, glitra og roðna vegna athyglinnar við dagslok. Húsin lifna við og baða spegilmynd sína í tjörninni og faðma að sér mannverurnar sem eins og snjókornin svífa inn í nóttina. ] [ Hví vill fólk fara út í geim? Er það vegna þess, að því líður eins og það sé eitt í heiminum en vill það ekki? Eða er það vegna þess að það vill að það sé annað fólk eins og það sjálft? -- Þegar fólk deyr fer það þá til himna eða sekkur það niður í endalaust vonleysi alheimsins og stoppar aldrei? Hvað er himnaríki? Er það sælustaður þar sem maður lifir vel eftir dauðann eða er það staður þar sem sálir manna eru hnepptar í endalausan þrældóm um alla eilífð? -- Er þá helvíti eithvað verra en himnaríki? Eða jafnvel betra? Voru þessar sögur um djöfulinn bara tilbúningur til að ná fólki til himna svo hægt væri að hneppa sálu þeirra í endalausan þrældóm? Er helvíti kannski himnaríki eða er himnaríki jafnvel helvíti, hver veit? Það veit aðeins sá sem hefur dáið. -- Hvað er Guð? skapaði djöfulinn í sinni mynd og fór svo og skapaði djöfullinn manninn í sinni mynd? Það myndi breyta allri daglegri hugsun. Til hins betra?Það veit enginn. Til að komast að þessu þarf maður að deyja og þegar maður deyr er engum hægt að segja frá þessu nema þeim sem nú þegar eru dánir. -- Ef Guð er til, hjálpar hann ekki þeim sjúku? Því ætti hann að hafa hjálpað einni þjóð fyrir langa löngu og svo hætt. Þetta stangast á við orð biblíunnar að Guð hjálpi hinum sjúka og fyrirgefi syndaranum. -- Ef Guð fyrirgefur syndaranum til hvers er þá helvíti? Er það fyrir menn sem Guði líkaði ekki við í lífinu? Ef Jesú er hægri hönd Guðs þá hlýtur Guð að vera örvhentur því Guð færi ekki að runka sér með syni sínum. Hví er fólk að trúa á einhverja veru sem lætur náttúruhamfarir ríða á jörðinni og lætur stríð gossa eins og endalausa fossa lífsins í þessu endalausa ferðalagi mannsins. ] [ stjörnur þú settir í augu mín tvær græneru þvímiður eiblá & tær þær eru tíu á fótum mér furðu valdið að ekkiðær ellefu urðu ] [ Er sýnilegt utanfrá sjúka mitt geð? Sést kannski í mitt örvaxna peð? Það langar að vita, á enni, sjá svita: Birti ég útvortis alltsemér með? ] [ Ég veit um brúnan bangsa sem dag einn í desember, var tekinn úr hillu verslunar, því hann hafði verið valinn af þér. Bangsa var falið stórt hlutverk, að gleðja litla frænku þína en hana kallar litla systir einmitt dóttur sína. Við höfum passað bangsa vel og í dag ber hann nafnið þitt sem þakklætisvottur fyrir það að hafa stelpuna kætt og hjarta mitt. Við fengum bangsa að gjöf um jólin en grunaði ekki þá, að bangsi myndi geyma minningu um þig sem farinn værir okkur frá. Þegar ég ligg með brúnum bangsa og lítilli stelpu, í stóru rúmi, minnist ég þín og man hvað þú elskaðir okkur mikið Við elskum þig líka enn og gleymum þér aldrei. ] [ Á nöprum fallegum degi, fyrir ári, sátum við saman við rúmstokkinn þinn en innst inni blundaði sá ótti hjá mér að þetta gæti verið síðasti afmælisdagurinn sem haldið væri uppá fyrir þig, síðasta afmæliskakan bökuð handa þér og síðasta skipti sem við glöddust saman á þessum degi því þann 12.mars, nú ári seinna, ertu ekki lengur hér. ] [ Við kaupin á nýjum og notuðum bíl skal spenna upp hólfin og annað með sýl. Þar leynst geta púkar og forynjur jafnt, lofa þér griðum en bíta þig samt. Hyskið a tarna það virðir ei neitt! Jú: krossmarkið bjarta og brennandi heitt. Sjúkrabíll sýnu af ófreskjum fyllstur: lík-andinn sjálfur er langtum þar illstur. Dekkjunum gefa skal vandlegan gaum, varast skal sólaðan spúandi flaum. Í radía torinn skal vígðvatni hella: óblessað hátveiro það þykir della. Mundu: ef farið er bíldags um helgi túr um að keyra á bensínsins svelgi: Blessa skal utanvið, drottni sé dýrð, innaní líka og illskan mun rýrð. ] [ Andvari klisjanna nuddar nýstrokinn hýjung minn ég sit hér í tóminu helli upp á kaffi handa angistarfullum línubilsbrimurunum sem sitja hér með mér Kallast á með einsogum, innsoguðum og á soginu út Sandur angistarinnar brosir við mér tífalt undir nöglum mér Fingur skefur fingur ] [ Úti að reykja, nístingskaldur vindurinn færir mér kvefpest. ] [ Ó, flugur vorsins, allir flugnaspaðarnir eru ónýtir. ] [ Í háum hælum vafraði um einn hrímkaldan dag og leitaði þín Kallaði með vörum kulnuðum kallaði lágt, komdu til mín Af mér rann regnið blautt er rýndi í virtist vonlausri leit Náföl snót með nefið rautt Kuldinn nísti, samt var ég heit Niður vangann vatnið rann inn varir læddist beiskt og salt Ég leitaði og loksins fann Lítið hjarta, hrætt og kalt Einn dag ég gleymdi að þessa dýrð Drottinn skapaði handa mér Þú ert barnið hans og í mér býrð Blessun hans er yfir þér ] [ Lék á sína börðu landa lýðræðið ei kaus að vanda með brellum Mugabe marga sveik í Simbave spillti góðum vinar anda ] [ Dagsljós með dásemd allt baðar drjúpa smjör fái af hverju strái Unaður og yndisþokki til staðar ævintýrin ég spái þau það þrái. Þeim sem spjót að beinist stundum erfitt reynist að segja sinn hug en sýna þó dug engum slíkt leynist. ] [ Tölvukennslu tímar allir líða Með tækni þrusu góðri Æsku okkar besta fóðri Ó hve vel prentast þessi síða. Hér er tölvukerfið hraðvirkt og hundrað milljón póstar hugbúnaðurinn ekki hóstar þó hér sé svæsið klám birt. Gagnaflutningar góðir og geymir mikið dót netsamband nú er stöðugt netstjóri, kæri bróðir, lítið held ég leikjamót ljúfur, það er öruggt. ] [ Tunglið setti mig út í rósagarðinum. Eitruð býfluga sýgur sykursætt blóðið úr mér. Rósailmurinn. Grasið syngur mjúklega við fætur mínar. Hæsta greinin er gálginn. Ljóshærði pilturinn bíður í trjátoppunum. Óhrein börn Guðs þvegin hrein í dögginni. Einn líkami og tvær sálir. Myrkrið ] [ Hve sorgin köld kemur ofurhljótt með sín villtu völd á vetrarnótt Hún sækir í sálir er svengja í ást Duflar, dregur á tálir þær sem draumurinn brást Hún happi hrósar hlær svo dátt Sál rauðrar rósar hníf í rekur brátt Hún fyrir víst veit að vesæl mey Ein bíður hljóð heit henni neitar ei Ó þú sorgin svarta sæktu mig fljótt Þetta hálfa hjarta vill hverfa í nótt ] [ Mér finnst þú vera fífukollur sem fokið gæti við minnsta vind. Ég óttast mest að einhvern tímann ég andi þér á braut. Samt veit ég að þú ert sterkur og ótti minn ástæðulaus, ef ég blæs ekki fast, ef ég slít þig ekki upp og blæs svo þú hverfir mér. Þú grærð í hjarta mínu svo eftir yrði sár, þar sem aldrei framar yxi fífa eins og þú, eilífðarfífa. ] [ Reynið að hugsa hlítt til mín þó héðan ég flýti för. Bænin hefur brugðist mér, mér berast ei lengur svör. Þið hafið enga þörf í dag á því að dvelji ég. Guð hann tók sem gaf mér styrk, því geng ég sama veg. Ég vildi fljúga, fljúga um loftin blá. Ofar láði og legi, litast um og sjá allt það sem ég átti aldrei hér að fá. Því fékk ég mér vængi, vængina þá sem veittu mér frelsi að fljúga um loftin blá. ] [ Er fortíðin myndast og framtíðin ógnandi birtist og felmtruð ég reyni að standa mig gegn þessum straumi, mín freistar að láta mig falla í þá lygnsstreymu móðu sem flytur það burt og gerir að ljótum draumi. Ég rýni í myrkrið og reyni að átta mig í því, þótt raunveruleikinn sé beiskur og mig langi að fara. Ég kemst ekki hjá því að kynnast því ókomna lengur, þótt kalt stundum næði og allt sé mun torveldara. En hvað skyldi unnið í kvíða og ótta og skelfing, að kvelja sig sjálfan þótt að manni þyki sorfið. Því burtflúinn maður sem berst við að gleyma og lifa bíður og vakir þótt allt sé burt löngu horfið. ] [ Ég er ógnandi afl Ég er beljandi skafl Ég er allt sem þú óttast en þráir Ég er eiginleg synd Ég er satan ímynd Þeir forðast Mig mennirnir smáir Ég get allt sem Ég vil Ég bý aðstæður til Ég ræð oftast hverjum skal fórna Ég orkuna hef Ég ýmislegt gef en Ég kann þessu tæplega að stjórna Að innan Ég brenn Ég elska alla menn Ég kela við sólina og vorið Ég fæ engan byr Ég á endanum spyr Ég get þetta vald varla borið ] [ strengur úr nafla: samband er rofið kumpána viðkynning, félagslíf dofið týndur er sími: næstbindmeð lími sauma skal trygglegí klofið ef hengir í húfuna og finstða á gætt spotta í síma, þér komið er hætt: ef óhepplegt sím, næst jarðfarar rím! (hengst gætir sjálfur ef illerað gætt) en móðir mín saumkona þykist æ snjöll vandamál viðhugmynd húnhugði öll: Festa með spotta! (sjá: hali, rotta) forðastskal næstmunég eignar öll föll ] [ Þú sem ratað hefur rangt nú þegar lýstu ekki leiðina með þeim því ljósin eru mín þú þarna sem ferð villur vegar stígðu laust niður því ég á beinin undir fótum þér ] [ bíta ekki á mig blómin, lúðrarnir þvælast fyrir mér blöðrurnar, gasið velti því fyrir mér hvort ég nenni að synda hérna í undiröldunni þetta fer allt beint í augun undir lokin sem ég hélt að væru barnheld vantar tíkall til að opna þau sjálfur er ekki með staðsetninguna á höndunum á hreinu málið vandast sífellt snýr upp á sig flækist skýtur út þráðum (ekki gráta elskan vor þó þig vanti vit og þor) ég í gær og á morgun tíni þá af trjánum týnist á milli þeirra í dag ] [ hætti ekki strax fyrr en mig svíður í hálsinn og augun taka undir sofna ekki strax fyrr en það og ég og allt snýst eftir endilöngu síðan þversum vakna ekki strax hendurnar & ég og allt þyngra en það sem heldur mér niðri efri hluti minn fer hraðar af stað en sá neðri læt hann hlaupa vona að mótstaðan snúi á þyngdaraflið vogun vinnur vogun tapar tapar augun lokuð axlirnar á undan lenda á einhverju sem gefur ekki eftir kvarnast úr spái ekkert í mylsnunni læt aðra um að þrífa upp ] [ ef rotin getur ríma ruglað fólk um tíma þá dugir ei að segja nei við frægðar rauða síma! ] [ allt mun verða að gómsætu mauki millum tímans tanna næstum puðað við umbreytingu í grjót stein bein svo manni verði spýtt út aftur kannski sett til hliðar á diskinn í allra augsýn vona það verði ekki þvegið upp alveg strax ] [ Finnst sem eitthvað skríði innundir mínu skinni, sælan skríður, ert það þú sem ég finn? Aldrei séð þig fyrr, en þú ert í mínu draumamynni. Dásamlegasta draumasýn, sonur minn. Þú fæddist af engli vissiru það? Á fiskeríi mig hún veiddi sem jónas úr hval... Hreyfði mig, ég stóð í stað. Þó snjórinn hvíli þungt, virðist sem grár blautur leir, er alltaf hlítt,hamingjuríkt og bjart hjá ykkur. Ég fæ aldrei nóg af ykkur, vil alltaf meir og meir. Ég veð snjóinn til ykkar þó´ann sé kaldur og þykkur. ] [ Skólinn er hvítur, líkt og barnaskítur. Skólinn er dáinn, líkt og maðurinn með ljáinn. Skólinn er snobbaður, líkt og nemendurnir. Skólinn er Versló. ] [ Túnin, móarnir, engin og dalirnir skarta sínu fegursta, í morgunroða sólarinnar. Sjórinn, vötnin, lækirnir og fossarnir skarta sínu fegursta, í skínandi norðurljósum. ] [ Grámiglan leggst yfir dalinn er ferðamenirnir leggja þangað leið sína um hábjört sumur. Það rignir og rignir. Að hugsa sér, þeir eru bara þarna og stara á fjöllin og hlusta á fossin sem er hár og tignarlegur. Þeim er kallt en láta sig hafa það og halda áfram leð sinni um dalinn. Regndroparni dynja á vatninu líkt og maður sem er læstur úti og kemmst ekki inn. Venjulega er það speigilslétt þannig að sólin speiglar sig í því. En nú er skýjað og ferðamennirni fá ekki að njóta þessarar fegurðar, fegurðar sem aðeins er hægt að verða vitni af í dalnum. Dalur friðarins. ] [ Hann gengur um bæinn og lítur inn um glugga. Það er rigning svo að hann áveður að fara inn. Þessi búð selur blóm. Hann kaupir 3 rósir og gefur unnustu sinni þær. Að launum fær hann koss. En að ári liðnu hætta þau saman og rósirnar eru löngu dauðar ] [ Þýskur ferðalangur röltir um skóginn. Hann kemur auga á hús, Hús sem englar vaka yfir. Ferðalangur ber að dyrum, dyrnar opnast............. Og út kemur maður, maður sem líkast til hefur yfirgefið jarðneska heima. Ferðalangur segir: Á allri minni ævi hef ég gengið um dimma dali en aldrei litið augum á veru eins og þig. Maður nefnir: Eigi skal höggva. Ferðalangur lítur upp og sér að öxi kemur æðandi í átt til hans. Þögn. Þögn. Þögn. Ferðalangur hefur yfirgefið. Gengur um dimma dali og lítur yfir farinn veg. Þögn.................. ] [ Lífið er brosandi. Lífið er Hamingja. Lífið er sorg. Lífið er grátur. Lífið er hlátur. Lífið er lifandi. Lífið er dautt. Lífið er þú. Lífið er ég. Lífið er það sem við gerum úr því. Lífið er of stutt lil að eiða því í vitleisu. Lífðu því á meðan þú getur því þú veist ekki hvenar það er tekið frá þér. ] [ Það var stundum sárt að þurfa bera þyrnikórónuna ég fann svolítið til þegar þyrnarnir stungust í ennið á mér svo að formsatriðin færðust til. Ég var spæld að hugsa til þess að þetta mundi hafa varanleg áhrif á andlitsfall mitt. Eins og það yrði einhver skömm að sýna svart sjálfið eins og það á sér að vera. Týnt og tröllum gefið..... ] [ hvað er rigning er Það tár hinnas hverljandi manna eða er það eru Þetta tár guð vegna Þess að við höfum brugðist honum og hans boðorðum. ] [ Situr við gluggan og spyr um þig hvar ertu búin að vera? Í draumi þínum sástu mig? Hvað á ég nú að gera? Marga daga sitið hef og dagurinn er lengi að líða en það er þess virði að vera hér það er eftir þér sem ég er að bíða. ] [ Brostið hjarta brostnar vonir, aðeins minning í hjarta mér. Ég þráði að finna, fyrir litlu höndunum þínum. Mjúkum kinnum þínum. En hér sit ég ein. Svo óra, óra langt í burtu. Ó, elsku litla barn, bara að ég gæti komið og faðmað þig. Haldið á þér, huggað þig. Litla barn, ég mun alltaf elska þig. ] [ Ég horfi á myndir, minningarbrot liðins tíma hugurinn fer aftur á bak til liðins tíma. Fangar brot og brot minninga sem lifa í huga mér. Mörg andlit, fallegt fólk á mynd. Atburðir sem urðu í leik og starfi fyrir aftan eru fjöllin mín svo blíð. Hætti að horfa á myndir ­- liðinn tími! ] [ Ef ég veit hvað ég vil, fýsir mig öðrum, að segja, minn hug og sýna minn dug, annars ætti ég að deyja. Ef þá einhverju skiptir, þó önd mín upp sér lyftir, og ei skoðanir skil, skömmin ég hyl, fyrir mér, hví ég dyl minn vilja, ætti enginn að skilja. ] [ Nú leikur sérb lærinn í laufguðum greinum án léttleika hugans ei leifist hér neinum að líta hið silfraða skrúð. Hann dansar í trjánum svo dillandi glaður í dagrenning þýtur svo dæmalaust hraður um döggvuðu laufhvolfin prúð. Við upprisu sólar í árdagsins ljóma allt iðar af lífi og alsnægtum blóma og angan í loftinu býr. Hver árrisull lítur sem augnabliks leiftur þann almáttga frið sem í auðnu er greiptur hvers orkar þá sólgeisli hlýr. Sjá blómin sig opna við blikandi sólu, sem brugðust með lokuðum bikar við njólu, þau baða sig ljósinu í. Af döggvotu grasinu drekkur svo jörðin er dropar svo ljúffengir drjúpa á börðin og dalurinn blómstrar á ný. Hvert árroðans sindur á öndverðum degi sem augnablik hugans á óförnum vegi er andanum svölun og fró. Hver örlítill geisli er árblik þér sendir er athygli verður og áfram þér bendir að andlegri íhygli og ró. Er hækkar sig röðull á himninum björtum svo hlýnar í lofti, með hamingju í hjörtum við höldum mót lífinu glöð. Nú dagurinn brosir svo dæmalaust fagur og dísirnar kveða, hve dýr er sá bragur en dulúðug stundin og hröð. Með sólblik í auga og sindrandi hjarta af syngjandi gleði, í sólskinið bjarta og sumarið göngum við inn. Við gleðina finnum á guðlegum degi og gæfuna föngum á gjörvöllum vegi með geisla í huga um sinn. ] [ Í rauðgula myrkrinu Kristallast tárin Í rauðgula myrkrinu Heyrist blóðið frjósa Í rauðgula myrkrinu Heyrist hjartað stoppa Í rauðgula myrkrinu Heyrist sálin deyja Í rauðgula myrkrinu Ligg ég og stari Föst kemst ekki út ] [ Svarta ljóðið, sem ég samdi á svörtum degi og sendi þér í svartri öskju var svartur koss til þín frá mér. ] [ Í miðju skógarins þar sem alheimurinn endar fann ég hjarta mitt ] [ Ég kasta tilfinningunum út um gluggann, stend nakin á gólfinu. Ég vil ekki vera ég, Þess vegna drep ég sjálfan mig Þetta er fullkomin leið að hamingju. ] [ -ég er að verða brjáluð -ég vil hitta þig -ég vil vita hvort þú varst bara svona fullur eða hvort þú meintir eitthvað -ég verð að heyra eitthvað frá þér -ég verð ! -ég get ekki borðað -ég get ekki sofið -ég get ekki lært -ég get ekkert, nema hugsað um þig -ég verða að heyra eitthvað frá þér -ég verð ! HRINGDU !! ] [ Svo hljótt. Skot mitt til þín er svo hljótt. Falið inn í heimi sem enginn sér. Sem enginn kemst til nema ég ein. Sem enginn býr í nema ég og þú. Falið inn í draumi sem í er við tvö. Inn í draumi sem enginn sér nema ég, þegar ég svíf á snæhvítu skýi inn í draumaheim - eftir dag með þér. ] [ Mamma Það varð árekstur. Lítið barn var við leik með boltann sinn. Það kom stór trukkur. Boltinn rann út á götu og barnið hljóp á eftir. Bílstjóri trukksins flautaði - það var of seint. Unglingsstúlka sem stóð hjá reyndi að grípa barnið - það var of seint. Kona ein reyndi að ná þeim - það var of seint. Það varð hljóðlaust högg. Barn, stúlka og kona liggja á götunni særð. Viltu hjálpa þeim? Mamma Það var árekstur. Litla stelpan þín var að leika sér með lífið. Dauðinn kom. Lífið rann úr litlu höndunum og litla stelpan þín hljóp á eftir. Guð reyndi að vara hana við - það var of seint. Unglingurinn í henni reyndi að grípa í barnið - það var of seint. Konan í henni reyndi að taka völdin - það var of seint. Það varð hljóðlaust högg þegar litla stelpan þín og dauðinn skullu saman. Hún er særð. Viltu hjálpa henni? ] [ Ég er búin að sitja hér og bíða í 3 daga og 3 nætur, en eftir hverju er ég að bíða, það veit ég ekki. Kannski er ég að bíða eftir því að einhver komi og tali við mig, kannski er ég að bíða eftir því að einhver komi og sæki mig, kannski er ég að bíða eftir prinsinum á hvíta hestinum og kannski er ég að bíða eftir því að Guð gangi hér inn um dyrnar, rétti mér hönd sína og leiði mig upp til himna þar sem ég mun alltaf vera hamingjusöm. En skyldi það vera satt að hamingjuna sé aðeins að finna í himnaríki ? Ætli ég verði ekki að leita ? En eitt er víst að hún er ekki í höndum mínum, hún er ekki í fótum mínum. Er hún kannski bara eitthvað sem maður ýmindar sér að maður hefur fundið - í laumi í höfðinu á sér ? Það liðu 4 ár, þá kom ég aftur og settist við sama borð og 4 árum fyrr, fékk mér kaffitár, og þá, ég uppgvötaði að mér hafði aldrei dottið í hug að leita í hjarta mínu, ég var of upptekin við að leita utanfrá. Ég beið í 4 ár, og nú var ég búin að finna hamingjuna, á staðnum þar sem hún hafði alltaf verið, í hjarta mínu. ] [ Fyrst varstu eins og lítið tré sem ég gekk fram hjá á hverjum degi. Tré sem enginn tók eftir. Seinna stækkaðiru í sjónum mínum og ég veitti þér athygli en samt var ekkert sjálfsagðara en að ganga bara fram hjá. En síðar lágu leiðir okkar saman og við urðum góðir vinir, vinir sem treystu hvort öðrum, vinir sem voru hvor öðrum til halds og trausts, vinir í raun. Ég verð að segja það um þig að þú huggaðir mig þegar ég var döpur, þú lést mig hlæja þegar ég var gráti nær stóðst með mér þegar allt var mér andsnúið, leyfðir mér að tala þegar orðin vildu flæða, stóðst með mér í blíðu og stíðu. En nún þegar þú ert dáinn, hver huggar mig þá og hlustar ? Þú lékst aðalhlutverkið í lífi mínu, hlutverk sem þú vissir þó lítið um en þú varst vinur í raun. ] [ Hér sit ég ein og hugsa. Ég hugsa um allt á milli himins og jarðar. Ég hugsa um lífið og tilveruna. Ég hugsa um tilgang lífsins. Til hvers að lifa þegar maður deyr hvort sem er á endanum. Til hvers að deyja ef maður fæðist aftur. Svona get ég haldið áfram endalaust. En líf mitt er ekki endalaust - og ekki hugsunin heldur og brátt er tími minn á enda og ég fell frá. Hvað verður þá um fjölskyldu mína, vini mína og ættingja. Ætli þau syrgi mig það sem þau eiga eftir lifað. Ætli þau hætti að lifa - eitthvert þeirra. Nei, lífið hefur sinn vanagang og ef maður lifir ekki með lífinu - þá deyr maður. ] [ 1.dagur Þú opnaðir dyrnar og tókst um hönd mína. Þú hélst í hana í dágóða stund þar til þú slepptir henni snögglega og skelltir dyrunum - beint á andlit mitt. 2.dagur Þú opnaðir smá rifu á dyrnar og hleyptir smá hluta af mér inn. 3.dagur Enn var hurðin smá opin og hélt ég að nú myndu þær opnast, en ég var of blind til að sjá þær lokast hægt og hljóðlega og nú beint á hjarta mitt. ] [ Tárin renna niður gyllta hvarma - stjórnlaust. Hugurinn fer af stað, aftur til liðinna ára. Aftur til þess þegar allt var svo áhyggjulaust og frjálst. Aftur til þess þegar allt virtist leika við mig. Aftur til þess þegar þetta mátti en ekki hitt. Aftur til þess þegar ég var svo mikið barn. Aftur til þess þegar dauðinn var svo fjarlægur. Á einu augnabliki, á örfáum sekúndum, á stuttri stundu hvarf þetta allt. Kæruleysið flaug í burt og dauðinn nálgaðist á ógnvekjandi hraða. Á einu augnabliki, á örfáum sekúndum, á stuttri stundu gerðist svo margt. Sírenur, köll og þögn deyjandi manns. Svo ógurlega margt, á einu augnabliki, á örfáum sekúndum, á stuttri stundu fékk tárin til að renna niður gyllta hvarma - stjórnlaust. ] [ Ung stúlka stendur á ströndinni og horfir út á hafið. Golan leikur við dökka lokka hennar. Sjórinn gælir við bera leggi hennar. Hún er að hugsa, hugsa um fortíðina - nútíðina - framtíðina. Hún hugsar um ungan dreng sem gekk eitt sinn eftir ströndinni og lét öldurnar gæla við líkama sinn - vindinn gæla við hár sitt, þar til þau mætast á miðri leið, hann og hún stúlka og drengur ] [ Myndin er hreyfð og ljósop þín leka. Augnablikið fimmtán mínútur að flatarmáli en samt hittirðu ekki. ég snerti hana, ég skar gat á þau, ég færði það til en það var óvart ] [ Ég yrki til þín kveðju ljóð sem ég svo tileinka þér ég leita djúpt í minninganna sjóð og hugsa um gleðina sem þú gafst mér. Víst er hún stutt þessi lífsins braut og aldrei ljóst hvar endirinn er stundum er leiðin mikil þraut og enginn veit hvað hann úr bítum ber. Alltaf var gleði og hlátur við hönd þegar við vorum saman þannig við tryggðum okkar vinar bönd það fannst mér alltaf gaman Nú eru þessar stundir farnar frá en þú hverfur ekki úr huga mér bros þitt og hlátur ég alltaf mun þrá og rifja þá upp stundirnar með þér. ] [ í kvöld fellur rauður snjór á frosinn svörð kaldlyndur febrúar kreistir fram bros ] [ myndin af þér gatslitin bíómynd í svart-hvítri móðu þar sem heilu þættirnir hafa máðst út myndin af þér rykfallið málverk er man sinn fífil fegri af tómri órækt myndin af þér óttaleg ómynd ] [ augun þín glitra sem glansmynd að nóttu með blá-hvítum fákum sem tindra í fjarska og mána fullum af trega yfir heimi horfnum og mér sem horfi í hyldýpið og fell án afláts fyrir þér ] [ þótt himinn og haf skilji okkur að og frá mér til þín séu óravíddir milli norðurs og suðurs ertu samt svo nærri ég loka aðeins augunum og finn vanga þinn við vanga minn svo angan af þér liggur í loftinu eins og fjarlægt sólarlag úti við sjóndeildarhring ] [ hélt þú værir prins í álögum sem hélst mér hugfanginni lamaðri dauðahaldi prins sem var svo lítill að ég mátti beygja mig niður til að kyssa þig þá varstu bara venjulegur maður í froskabúningi og ég var sjálf í álögum ] [ horfi á túlípanana stinga upp höfði í garðinum þrátt fyrir kuldakast páskanna þrátt fyrir að vorið sé komið drúpi ég höfði og held áfram að bíða ] [ þögul dagrenning læðist inn í draumana og vekur með mjúkum kossi vindurinn býður uppí dans meðan skýin leika á létta strengi í gráskímu morgundagsins það rignir mánudegi sem aldrei fyrr ] [ meðan heimurinn breytti um mynd varst þú önnum kafinn að reyna að gera upp við þig hvort þú ættir að koma eða fara ] [ þrír í öðru veldi eða margfeldi af summunni tveir? línuleg bestun staðalfrávik núllpunktur? útkoman aldrei heilög tala ] [ völundarhús vitfirringar valdamanna vesældarmanna - veröld á enda? helli meira kaffi í bolla held áfram að lesa blaðið með hægð ] [ Komdu til mín! dönsum í alla nótt þegar rignir og dimmir förum við til New York Ljósaskilti og glansandi götur taka á móti okkur svo vafasamar en fallegar Ég dáist að þér og bíð eftir að þú komir í heimsókn Koníak í sultukrukku við gleymdum okkur og vöknuðum með bros á vör sitt hvoru megin í heiminum en áttum þessa einstöku nótt saman. ] [ Við lifum í voninni við lifum í hatrinu við böðum okkur í ástinni en reynum allt til enda okkar tíma að skilja veröldina........ ] [ Ef ég væri ekki ég, þá myndi ég ekki þola þig, ég myndi öskra úr mér lungun og beina orðum mínum til þín. Ég myndi siga hundunum á þig og leika mér í pollinum, blóðpollinum sem þú skildir eftir á götunni. Þú er tákn alls þess sem ég hef hatað, og merkið sem þú berð á brjóstinu er tákn fyrir illskuna sem þar býr. Þó fæ ég það ekki af mér að hata þig, því þú hefur búið þér stað í hjarta mínu. Nú þegar ég minnist þín drjúpa sölt tárin og ég sakna þess að vera vinur þinn og vildi að ég gæti hjálpað þér. En ég veit að það er ekki á mínu valdi. Þú ert óstöðugur og óáreiðanlegur, það er það eina sem þú kannt. En þú hefur gefið mér svo margt því ég veit að innra með þér býr sál sem er fegurri sólarlaginu og nýsprottnu brumi trjánna á vorin. Nú veit ég að það varst þú sem kenndir mér að elska. ] [ ...annarlegu andlitin með sígræn tár í hvörmum brosa við mér skært og taka mér opnum örmum ég nálgast himinn hraðar og í alsælu ég svíf því núna hef ég fundið mitt raunverulega líf... ...tindar allra hárra fjalla sýnast núna nær sorgir allar áður slæmar færast lengra fjær seiðingurinn kitlar mig og nuddar heila minn því fyrir einni stundu - ég sprautaði efninu inn... ...lengra upp svo léttur fugl um allan heiminn sé og kyrja núna lofgörð mikla - um efnið ell ess dé ég gæti aukið skammtinn strax - og ennþá hærra flogið og gleðivökvann úr himnum þá - með svalaröri sogið... ...nú upplifi ég fullkomlega Ljúfustu Stund hans Danna með sprautustungu tekst ég á loft - og geima alla kanna hví skal ég falla aftur niður og draga úr minni neyslu? þegar efni þetta er það eina sem drífur mína keyrslu? ég vil ei hætta - fram ég þýt upp milli skýja ég svíf því þegar ég allar reglur brýt þá upplifi ég mitt líf... ] [ í hnjáliðum hefi ég kiknað ei nó hrifning mín ekkjertil staðar ef gengur á eftir mér grænum í skó jé gangamun umsviflaust hraðar ] [ Hvað sem þú gerir á þinni lífsins leið þá kemur að skulda dögum. Vertu því viss hvað er ei greitt því þú verður dæmdur af annarra sögum. Þannig mun skuld þín við kóng eða prest ekki fyrnast heldur safna vöxtum huga þú skalt að því er gert hefuru best og gæta þannig að eigin högum. Leiðin um lífið er ljúf bæði og sár sögu þína skaltu rita sjálfur og tryggja þannig sem best þú mátt hvort þú komir út heill eða hálfur. En hvað sem líður öllum góðum ráðum er það undir okkur sjálfum komið að taka af skarið og ganga af stað og grípa gæfuna með höndum báðum. ] [ Finn á mér, finn að fjandinn er laus, dreg sængina upp fyrir haus. Fel mig, flý ofan í hlýjuna, bægi burt draumnum um glerið, sem brotnaði. Sem stakkst inn í öxlina, rann niður handlegginn en særði mig ekki. Ósæranleg, sef ég vært. ] [ felur andlit sitt í lófa sér finnur engan frið hugsanir um hvað gerðist gefa henni engin grið það var svo dimmt, engin ljós sem lýstu þessa leið og allt í einu stóð hann þar í hjartanu þar sveið það hafði gerst og ekkert gat þessari martröð breytt sama hvað hún öskraði ekkert fékk minningunni eytt og enn hann stóð í huga hennar sagði aldrei orð starði bara fram á við augun sökuðu hana um morð fingur hennar hvítnuðu og dofinn fór um allt blóðið hvarf úr höndunum myrkrið var svo kalt hún sat og beið eftir því sem að koma vildi og vissi að að aldrei kæmi neinn sem hana skildi þessa stúlka situr enn við illa lýsta leið og hann sem þarna stóð vissi ekki hvað sín beið því eru þau tvö saman en hvort annað ekki sjá hún situr á jörðinni hann starir á hana himni frá hans líf hvarf út í myrkrið og eftir varð minningin ein sem situr föst í sál hennar og verður hennar bana mein. ] [ Nú þegar fyrstu sólargeislarnir kíkja inn um gluggan minn og fylla herbergið mitt birtu opna ég augun og finn gleðistrauma hríslast um sál mína og huga. Vorið er að banka og brátt mun veturinn opna hurðina og hleypa inn sólinni. ] [ Dauðinn kemur fyrirvaralaust þótt maður sé ekki tilbúinn en hjarta mitt sem þú braust en síðar mun koma dagurinn minn nú ertu farinn og kominn af braut og ég sit hér niðurbrotin nú renna tárin blaut nú er sál þín hlotin Þú sem tókst ákvörðun um líf þitt og framdir sjálfsvíg það mun ég ekki gera við líf mitt í staðin í vandamálin ég síg ] [ Ó elsku pabbi minn ég sakna þín svo mikið ég veit að ég er einn engillinn þinn þótt ég hafi þig eitthvað svikið Þú vakir yfir mér alla tíð þar til ég hitti þig á ný tárin falla eins og hart baráttustríð og þú ákveður hvert ég sný Það sem ég erfði er útlit þitt alltaf er sagt við mig \"þú ert alveg eins og hann pabbi þinn\" ég er svo þakklát fyrir líf mitt sem er gjöf frá þér og mun alltaf vera eign mín ] [ Líf mitt er í skorðum ég veit ekki hvað ég vil hjarta mitt er fullt af sjálfsmorðum og tilgang lífsins ég ekki skil Ég átti einu sinni bjarta framtíð en nú orðið lifi ég í ótta og sé ekki neitt það er komin hríð ég gæti flúið og farið á flótta Ég er hrædd við allt ég treysti ekki neinum lífmitt er ekkert einfalt ég get ekki farið eftir brautum beinum ] [ Ég get ekki fyrirgefið allt ekki það sem hefur skemmt hjarta mitt skemmt æsku mína, mér er kalt líf mitt er langt frá því að ver eins og þitt ég hleyp til að flíja meiri skemmdir ég kemst ekki langt því þá kemur eitthvað nýtt ég get ekki hjálpað með því að nota hefndir að fá hjálp kostar peninga það er ekki frítt ] [ Kristnitaka Kappa Þorgeirs vaka Þá rann hraun Þessi raun Að setja sið Er lútum við Barmi á Baráttu þá Þjóð í tvennt Þáði sent Boð og bönn Björg í lífsins önn Þingvöllum á Þjóð sat hjá Hlýddi Honum er ei orðum skrýddi Betri lög Bætt lífs drög Neyddi Noregs konungur eyddi Von þeirra er skilja Vilja Lýðfrelsi Laust við helsi Viðskiptum skal halda Vil ei kreppu valda Eitt yfir alla skal ganga Alla stutta og langa Litil drög Lög eru lög Annars er Óvíst hvort hér Siður Sama er og friður Mætur guð Minna puð Barna útburður Bless og Urður Kjömsum ei Klárakjöt - svei Heiðin blót Hættum með slík mót Nema gert sé í leyni Nágranninn ei slíkt reyni Svona sið Skulum við Temja okkur nú Treysta okkar bú Heim þeir héldu Höfðingjar skírðust í keldu Sína fornu vini Sjálfa Óðinn og syni Kastaði í fossinn Kristni fyrsti Þorgeirs kossinn ] [ 50. sálmur Um varðhaldsmennina 1. Öldungar Júða annars dags inn til Pílatum gengu strax, sögðu: Herra, vér höfum mest í huga fest, hvað sá falsari herma lést. 2. Eftir þrjá daga ótt fyrir sann upp rísa mun ég, sagði hann. Við slíku er best að leita lags, lát geyma strax þessa gröf inn til þriðja dags. 3. Máske líkið með leyndum hljótt lærisveinar hans taki um nótt og lýðnum segi það lygaskin. Þá líst ei kyn, þó verði sú villan verri en hin. 4. Pílatus víst þeim varðhald fékk, vaktin strax út af staðnum gekk. Gröfinni blifu herrans hjá og svo til sjá, settu innsigli steininn á. 5. Gyðinga hörð var heiftin beisk, hjartans blindleiki og villan treisk. Þeim kunni ei nægjast kvöl og bann sem Kristur fann. Líka dauðan þeir lasta hann. 6. Forðastu svoddan fíflskugrein framliðins manns að lasta bein. Sá dauði hefur sinn dóm með sér, hver helst hann er. Sem best haf gát á sjálfum þér. 7. Gyðingar vildu veita rýrð vors lausnara upprisudýrð. En drottins vald og vísdómsráð þess vel fékk gáð, verk sitt framkvæmdi víst með dáð. 8. Hefði ei vaktin geymt og gætt grafarinnar, sem nú var rætt, orsök var meiri að efast þá hvort upp réð stá drottinn vor Jesús dauðum frá. 9. En þeir sjálfir, og er það víst, upprisu drottins hafa lýst þó kennimenn Júða af kaldri styggð, kvaldir í blygð, keyptu þá til að bera lygð. 10. Öll svikráð manna og atvik ill ónýtir drottinn þá hann vill. Hans ráð um eilífð stöðugt stár og stjórnin klár, slægðin dramblátra slétt forgár. 11. Hvíli ég nú síðast huga minn, herra Jesú, við legstað þinn. Þegar ég gæti að greftran þín gleðst sála mín, skelfing og ótti dauðans dvín. 12. Sektir mínar og syndir barst sjálfur þegar þú píndur varst. Upp á það dóstu, drottinn kær, að kvittuðust þær, hjartað því nýjan fögnuð fær. 13. Þú grófst þær niður í gröf með þér, gafst þitt réttlæti aftur mér. Í hafsins djúp, sem fyrir spáð finnst, þeim fleygðir innst. Um eilífð verður ei á þær minnst. 14. Svo er nú syndin innsigluð, iðrandi sála kvitt við Guð, eilíft réttlæti uppbyrjað í annan stað. Trúuð manneskja þiggur það. 15. Dauðinn þinn, Jesú, deyði hér dárlega holdsins girnd í mér. Gröfin þín hylji glæpi mín fyrir Guðs augsýn. Efli mér styrk upprisan þín. 16. Steinþró míns hjarta úthöggvin sést, heilagur andi vann það best. Líndúk trúar ég læt í té, minn lausnari. Ilmandi smyrsl iðrunin sé. 17. Svo finni ég hæga hvíld í þér, hvíldu, Jesú, í brjósti mér. Innsigli heilagur andi nú með ást og trú, hjartað mitt svo þar hvílist þú. 18. Dýrð, vald, virðing og vegsemd hæst, viska, makt, speki og lofgjörð stærst sé þér, ó Jesú, herra hár, og heiður klár. Amen, amen, um eilíf ár. Amen Fyrir Jesú náð iðrast syndarinn. Fyrir Jesúm náðast iðrandi syndari. Lofaður sé Guð og blessað sé hans heilaga nafn að eilífu. Amen. Amen. ] [ Um herrans Kristí útgang í grasgarðinn Innleiðslan 1. Upp, upp mín sál og allt mitt geð, upp mitt hjarta og rómur með, hugur og tunga hjálpi til, herrans pínu ég minnast vil. 2. Sankti Páll skipar skyldu þá, skulum vér allir jörðu á kunngjöra þá kvöl og dapran deyð sem drottinn fyrir oss auma leið. 3. Ljúfan Jesúm til lausnar mér langaði víst að deyja hér. Mig skyldi og lysta að minnast þess mínum drottni til þakklætis. 4. Innra mig loksins angrið sker, æ, hvað er lítil rækt í mér. Jesús er kvalinn í minn stað, of sjaldan hef ég minnst á það. 5. Sál mín, skoðum þá sætu fórn sem hefur oss við Guð, drottin vorn, fordæmda aftur forlíkað. Fögnuður er að hugsa um það. 6. Hvað stillir betur hjartans böl en heilög drottins pína og kvöl? Hvað heftir framar hneyksli og synd en herrans Jesú blóðug mynd? 7. Hvar fær þú glöggvar, sál mín, séð sanna Guðs ástar hjartageð, sem faðir gæskunnar fékk til mín, framar en hér í Jesú pín? Textinn 8. Ó, Jesú, gef þinn anda mér, allt svo verði til dýrðar þér uppteiknað, sungið, sagt og téð, síðan þess aðrir njóti með. 9. Að liðinni máltíð lofsönginn las sínum föður Jesús minn. Síðasta kvöldið seint það var, sungu með hans lærisveinar. 10. Guðs sonur sá sem sannleiksráð sjálfur átti á himni og láð þáði sitt brauð með þakkargjörð þegar hann umgekkst hér á jörð. 11. Þurfamaður ert þú, mín sál, þiggur af drottni sérhvert mál fæðu þína og fóstrið allt. Fyrir það honum þakka skalt. 12. Illum þræl er það eilíf smán ef hann þiggur svo herrans lán drambsamlega og dreissar sig. Drottinn geymi frá slíku mig. 13. Eftir þann söng en ekki fyrr út gekk Jesús um hússins dyr. Að hans siðvenju er það skeð, til Olíufjallsins ganga réð. 14. Lausnarans venju lær og halt, lofa þinn Guð og dýrka skalt. Bænarlaus aldrei byrjuð sé burtför af þínu heimili. 15. Yfir um Kedrons breiðan bekk blessaður þá með sveinum gekk. Sá lækur nafn af sorta ber. Sýnir það góðan lærdóm mér. 16. Yfir hörmungar er mín leið æ meðan varir lífsins skeið. Undan gekk Jesús, eftir ég á þann að feta raunaveg. 17. Horfi ég nú í huga mér, herra minn Jesú, eftir þér. Dásamleg eru dæmin þín, dreg ég þau gjarnan heim til mín. 18. Þú vildir ekki upphlaup hart yrði þegar þú gripinn varst. Út í grasgarðinn gekkstu því, gafst þig í manna hendur frí. 19. Af því læri ég að elska ei frekt eigin gagn mitt svo friður og spekt þess vegna raskist, þér er kært þolinmæði og geð hógvært. 20. Sorgandi gekkstu sagða leið, særði þitt hjarta kvöl og neyð. Hlæjandi glæpa hljóp ég stig, hefur þú borgað fyrir mig. 21. Vort líf er grasgarðsganga rétt. Gröfin er öllum takmark sett. Syndugra leið ei leik þér að, lendir hún víst í kvalastað. 22. Iðrunartárin ættu vor öll hér að væta lífsins spor. Gegnum dauðann með gleði og lyst göngum vér þá í himnavist. 23. Þá Jesús nú á veginum var við postulana hann ræddi þar, henda mundi þá hrösun fljót. Harðlega Pétur þrætti á mót. 24. Frelsarinn Jesús fyrir sér þá fall og hrösun er búin mér. Hann veit og líka lækning þá sem leysa kann mig sorgum frá. 25. Aldrei, kvað Pétur, ætla ég á þér hneykslast á nokkurn veg þó allir frá þér falli nú. Fullkomleg var hans lofun sú. 26. Sú von er bæði völt og myrk að voga freklega á holdsins styrk. Án Guðs náðar er allt vort traust óstöðugt, veikt og hjálparlaust. 27. Gef mér, Jesú, að gá að því, glaskeri ber ég minn fésjóð í. Viðvörun þína virði ég mest, veikleika holdsins sér þú best. ] [ Um Kristí kvöl í grasgarðinum 1. Jesús gekk inn í grasgarð þann, Getsemane er nefndur hann. Af olíuþrúgan sá auknafn bar. Olíutréð rétta herrann var. Olíum hjálpræðis allra fyrst af hans lífi þar pressaðist. 2. Í aldingarði fyrst Adam braut aftur Jesús það bæta hlaut. Aldingarðseikin ávöxt gaf, eymd, synd og dauði kom þar af. Í aldingarði ljúft lífsins tréð lífgunarfrjóvgun veita réð. 3. Júdas þekkti vel þennan stað, þar hafði hann lengi umhugsað, helst mundi pláss það hentugast, herrann mætti þar forráðast svo fæstir hefðu að segja af því og svik hans lægju svo hylming í. 4. Satan hefur og sama lag. Situr hann um mig nótt og dag, hyggjandi að glöggt hvar hægast er í hættu og synd að koma mér. En þó í þeim stað allra mest sem á ég drottni að þjóna best. 5. Heimsbörnin hafa list þá lært, lygð og svikræði er þeim kært, fótsporum djöfuls fylgjandi, falsráðin draga þó í hlé. Frá hans og þeirra hrekkjastig herrann Jesús bevari mig. 6. Oft hafði Jesús í þann stað áður gengið, því veit ég það. Hefur sannlega herrann minn hugsað um pínu og dauða sinn, fulltingis beðið föðurinn þar svo fengi hann staðist píslirnar. 7. Jurtagarður er herrans hér helgra Guðs barna legstaðir. Þegar þú gengur um þennan reit þín sé til reiðu bænin heit. Andláts þíns gæt og einnig þá upprisudaginn minnstu á. 8. Lærisveinana lausnarinn kær lét suma bíða nokkuð fjær, þrjá tók þó með sér hjartahreinn. Hann girntist ekki að vera einn. Sála mín, þar um þenkja skalt, þér til lærdóms það skeði allt. 9. Guðs kristni er grasgarður einn. Guðs sonar ertu lærisveinn. Sittu hvar sem hann segir þér, sönn hlýðni besta offur er. Til krossins ef hann þig kallar þar kom þú glaðvær án möglunar. 10. Freisting þung ef þig fellur á forðastu einn að vera þá. Guðhræddra selskap girnstu mest, gefa þeir jafnan ráðin best. Huggun er manni mönnum að, miskunn Guðs hefur svo tilskikkað. 11. Hjartanlega varð harmþrunginn herrann Jesús í þetta sinn. Holdið skalf við það feikna fár, flutu í vatni augun klár. Sagði grátandi: Sál mín er svo allt til dauða hrygg í mér. 12. Hartnær steinsnari frá þeim fór. Féll strax til jarðar drottinn vor flatur sitt blessað andlit á. Ógnarleg kvöl hann mæddi þá, hjartað barðist í brjósti heitt, bæði var líf og sálin þreytt. 13. Samviskan mig nú sjálfan slær, sé ég það gjörla, Jesú kær. Mín synd, mín synd, hún þjáði þig, þetta allt leiðstu fyrir mig. Aví, hvað hef ég aumur þræll aukið þér mæðu, drottinn sæll. 14. Mér virðist svo sem mín misgjörð sé meiri að þyngd en himinn og jörð því Jesús það föðurins orðið er sem allt með sínum krafti ber. Flatur hlaut þó að falla þar þá fyrir mig bar hann syndirnar. 15. Hjartans gleði og huggun traust hér gefst þér, sál mín, efalaust. Það gjald fyrir mína misgjörð er meira vert en himinn og jörð. Hans sorg, skjálfti og hjartans pín hjá Guði er eilíf kvittun mín. 16. Fram þegar Jesús fallinn var fegurstu bæn hann gjörði þar: Abba, faðir ástkæri minn, af mér tak þennan kaleikinn, þó svo sem helst þú sjálfur vilt, sagði herrann með geðið stillt. 17. Úrræðin best er auðmjúkt geð, angrað hjarta og bænin með. Hvenær sem þrengir hörmung að, hugsaðu, sál mín, vel um það. Óþolinmæði og möglun þver meiri refsingar aflar sér. 18. Óbljúgur skaltu aldrei neitt útheimta sem þér girnist veitt til holdsins muna hentugt þér. Hugsa jafnan að drottinn sér hvað lífi og sál til liðs er nú langtum betur en sjálfur þú. 19. Eins líkaminn og sálin sé sannauðmjúklegt í bæninni. Á lítur drottinn innra hitt. Ei að síður skal holdið þitt fyrir Guð með blygðun ganga fram. Gjörði svo forðum Abraham. 20. Jesú, þín grátleg grasgarðspín gleður örþjáða sálu mín. Þitt hjartans angur hjartað mitt við hryggð og mæðu gjörði kvitt. Því skal míns hjartans hjartaþel heiðra þig, minn Emanúel. ....................................... Amen ] [ Um herrans Kristí dauðastríð í grasgarðinum 1. Enn vil ég, sál mín, upp á ný upphaf taka á máli því: Upp stóð Jesús þó þreyttur sé þrisvar sinnum frá bæninni. Lærisveinarnir sváfu fast. Sankti Pétur því ávítast. 2. Til og frá gekk hann þrisvar þó. Þar fékkst ei minnsta hvíld né ró. Undanfæri því ekkert fann, alls staðar drottins reiði brann. Gegnum hold, æðar, blóð og bein blossi guðlegrar heiftar skein. 3. Himnaljósið var honum byrgt, helst því af nótt var orðið myrkt, ástvinahuggun enga fann, allir sváfu um tíma þann. Jörðin var honum óhæg eins, engin fékkst bót til þessa neins. 4. Í þessum spegli það sé ég, þeim sem drottinn er reiður mjög hvorki verður til huggunar himinn, jörð, ljós né skepnurnar. Án Guðs náðar er allt um kring eymd, mæða, kvöl og fordæming. 5. Framar sést hér hvað fárleg sé fordæmdra kvöl í helvíti. Frá einni plágu til annarrar í ystu myrkrum þeir hrekjast þar. Ó, hvað syndin afskapleg er, allt þetta leiðir hún með sér. 6. Í þriðja máta af þessu sést, það lær þú, sál mín, allra best, Guðs reiðield og eilíft fár útslökktu og lægðu herrans tár. Allt honum því til ama var svo allt verði þér til huggunar. 7. Hryggðarsporin þín, herra minn, í himnaríki mig leiða inn. Í næturmyrkrum lá neyð á þér, náðar og dýrðar ljós gafst mér. Vinir þér enga veittu stoð, svo vinskap fengi ég við sjálfan Guð. 8. Þar kom loksins á þeirri tíð þreytti Jesús við dauðann stríð. Andlát mitt bæði og banasótt blessaðist mér þá sömu nótt. Dauðinn tapaði en drottinn vann, dýrlegan sigur gaf mér þann. 9. Á gekk svo dauðans aflið ríkt, ekkert dæmi má finnast slíkt, allur líkami lausnarans litaðist þá í blóði hans. Sá dreyrasveitinn dundi á jörð, drottins pína því mjög var hörð. 10. Í Adams broti var blóðskuld gjörð, bölvan leiddi það yfir jörð. Jesú blóð hér til jarðar hné, jörðin aftur svo blessuð sé. Ávöxtur, gróði og aldin klár oss verða að notkun sérhvert ár. 11. Sárkalda dauðans sveitabað um síðir þá mér kemur að, sárheiti dreyrasveiti þinn sefi og mýki, Jesú minn. Angistarsveita eilíft bál aldrei lát snerta mína sál. 12. Mér er svo kvöl þín minnileg á morgni hverjum þá upp stend ég. Fyrst ég stíg niður fæti á jörð færi ég þér hjartans þakkargjörð. Blóðsveitinn þinn mér bið ég sé blessun og vernd á jörðunni. 13. Hörmung þá særir huga minn hef ég mig strax í grasgarð þinn. Dropana tíni ég dreyra þíns, drottinn, í sjóðinn hjarta míns. Það gjald alleina gildir best hjá Guði fyrir mín afbrot verst. 14. Upphaf alls mesta ófögnuðs, áklögun ströng og reiði Guðs bætt er, friðstillt og forlíkað, faðirinn lét sér lynda það. Sonurinn bar hans bræði frí, borgaðist þrællinn út með því. 15. Þess meir sem pínan þrengdi að því innilegar Jesús bað. Heilagur engill himnum frá herra sinn kom að styrkja þá. Enn hefur þú hér einn lærdóm, iðka og lær hann, sál mín fróm. 16. Ef hér verður sem oft kann ske undandráttur á hjálpinni, bið, styn, andvarpa æ þess meir sem aukast vilja harmar þeir. Föðurlegt hjarta hefur Guð við hvern sem líður kross og nauð. 17. Sjá þú að engill sendur var syni Guðs hér til huggunar. Þeir góðu andar oss eru nær alla tíma þá biðjum vér, helst þá lífs enda líður að. Lasarí dæmi kennir það. 18. Heiður, lof, dýrð á himni og jörð, hjartanleg ástar þakkargjörð, drottinn Jesú, þér sætast sé sungið af allri kristninni fyrir stríðið, þig þjáði frekt. Það er vort frelsi ævinlegt. ......................................Amen ] [ Samtal Kristí við lærisveinana 1. Postula kjöri Kristur þrjá í kvölinni sér að vera hjá, bauð þeim: Vakið og biðjið víst, bráðleg freistni svo grandi síst. 2. Strax sem Jesús um steinsnar nær sté fram lengra, þess gætum vér, allir sofnuðu sætt með ró. Sjálfur herrann einn vakti þó. 3. Áður var svoddan um þig spáð, ásett fram kom nú herrans ráð. Þú hlaust Guðs reiðiþrúgu einn þreyttur að troða, Jesú hreinn. 4. Ef ég skal ekki sofna í synd, svo er náttúran veik og blind, um steinsnar máttu eitt mér frá aldrei, minn Jesú, víkja þá. 5. Næturhvíldin mín náttúrleg nóg er mér trygg þá veit ég þig hjá mér vaka til hjálpræðis. Hvert kvöld vil ég þig biðja þess. 6. Þrisvar Jesús til þeirra fór því að hann mæddi pína stór. Hann bað Petrum með hýrri lund hjá sér að vaka um eina stund. 7. En hann sofnaði æ því meir svo ekki vissi hann né þeir hverju svöruðu honum þá. Herrans pínu mjög jók það á. 8. Mig hefur ljúfur lausnarinn leitt inn í náðargrasgarð sinn, vakandi svo ég væri hér. Vitni skírnin mín um það ber. 9. Ungdómsbernskan, sem vonlegt var, vildi mig of mjög svæfa þar. Foreldrahirting hógværleg hans vegna kom og vakti mig. 10. Aldurinn þá mér öðlaðist á féll gjálífissvefninn mest. Kennimenn drottins komu þrátt, kölluðu mig að vakna brátt. 11. Fullvaxinn gleymskusvefninn sár sótti mig heim og varð mjög dár. Dimman heimselsku dróst að með, dapurt varð mitt til bænar geð. 12. Þá kom Guðs anda hræring hrein í hjartað mitt inn sá ljóminn skein. En í heimskunni svo ég svaf, sjaldan mig neitt að slíku gaf. 13. Fárlega var mín fíflskan blind. Forlát mér, Jesú, þessa synd, hvar með að jók ég hugraun þér en hefnd og refsing sjálfum mér. 14. Láttu þó aldrei leiðast þér, ljúfi Jesú, að benda mér. Hugsi til mín þitt hjartað milt, hirtu mig líka sem þú vilt. 15. Vil ég nú hjartans feginn fá, frelsari minn, að vaka þér hjá. Andinn til reiðu er í stað, of mjög holdið forhindrar það. 16. Jesús unnti með ljúfri lund lærisveinum að hvíla um stund því hann vorkenndi þeim og mér. Það eitt mín blessuð huggun er. 17. Síðast allra þá sá hann þar svikaralið fyrir hendi var, bauð þeim: Vakið og biðjið best, burt er nú værðartíðin mest. 18. Svoddan áminning, sála mín, sannlega skyldi ná til þín svo þig ei skaði svefninn vær. Svikarinn er þér ekki fjær. 19. Dauðinn forræður fjörið þó, fyrr en varði því margur dó. Hann er í nánd þó sjáist síst, sérhvern dag er hans áhlaup víst. 20. Dauðinn þá mætir dapur þér, dóminn hefur hann eftir sér. Djöfullinn bíður búinn þar, í bálið vill draga sálirnar. 21. Sjá þú vel til að svoddan her sofandi komi ekki að þér. Í hreinni iðran því hvern dag vak, herskrúða drottins á þig tak. 22. Bænin má aldrei bresta þig, búin er freisting ýmisleg. Þá líf og sál er lúð og þjáð lykill er hún að drottins náð. 23. Andvana lík til einskis neytt er að sjón, heyrn og máli sneytt. Svo er án bænar sálin snauð, sjónlaus, köld, dauf og rétt steindauð. 24. Vaktu, minn Jesú, vaktu í mér, vaka láttu mig eins í þér. Sálin vaki þá sofnar líf, sé hún ætíð í þinni hlíf. ......Amen ] [ Um komu Gyðinga í grasgarðinn 1. Meðan Jesús það mæla var mannfjöldi kom í garðinn þar, Júdas, sá herra sinn forréð, sveinar prestanna og stríðsfólk með, skriðbyttur báru, blys og sverð, búnir mjög út í þessa ferð. Um það ég framar þenkja verð. 2. Verður það oft þá varir minnst, voveifleg hætta búin finnst. Ein nótt er ei til enda trygg, að því á kvöldin, sál mín, hygg. Hvað helst sem kann að koma upp á kjós Jesúm þér að vera hjá, skelfing engin þig skaðar þá. 3. En Júdas hafði áður sagt auðkenni þeim og svo við lagt: Hvern ég kyssi, handtakið þann, höndlið með gætni og bindið hann. Varastu, sál mín, svik og prett þó sýnast megi í hylming sett, drottinn augljóst það dæmir rétt. 4. En Jesús áður allt fornam hvað átti við hann að koma fram. Því gekk hann sjálfur þeim á mót, þannig ræddi með kærleikshót: Að hverjum leitið hingað þér? Hópur illmennis aftur tér: Jesúm naddverska nefnum vér. 5. Ég er hann, sagði Jesús þá. Júdas sjálfur stóð flokknum hjá. Öflugt var drottins orðið það, allir til jarðar féllu í stað. Hvað hans óvini hrelldi mest huggar nú mína sálu best. Í allri nauð það auglýsist. 6. Þá ég fell eður hrasa hér hæstur drottinn vill reiðast mér. Þá segir Jesús: Ég er hann sem endurleysti þann syndarann með mínu blóði og beiskri pín, bræði, faðir kær, stilltu þín. Eflaust er það afsökun mín. 7. Djöfull, synd og samviskan ill sálu mína þá kvelja vill. Eins segir Jesús: Ég er hann sem afmá þína misgjörð vann, líka sem vindur léttfær ský langt feykir burt og sést ei því. Á mig trú þú, svo ertu frí. 8. Þegar mig særir sótt eða kvöl, sorgleg fátækt og heimsins böl, ég veit þú segir: Ég er hann, Jesús, sem lækna vill og kann. Auðlegð á himnum áttu víst, eymd þín og hryggð í fögnuð snýst, heiminn sigraði ég, hræðstu síst. 9. Á dauðastund og dómsins tíð, drottinn, það skal mín huggun blíð. Orð þitt er sama: Ég er hann sem inn þig leiði í himnarann. Þjónn minn skal vera þar ég er, því hefur þú, Jesú, lofað mér. Glaður ég þá í friði fer. 10. Ég segi á móti: Ég er hann, Jesú, sem þér af hjarta ann. Orð þitt lát vera eins við mig, elska ég, seg því, líka þig. Eilíft það samtal okkar sé uppbyrjað hér á jörðunni. Amen, ég bið, svo skyldi ske. .............Amen ] [ Um Júdas koss og Kristí fangelsi 1. Frelsarinn hvergi flýði fjandmenn þó lægi senn. Herrann beið þeirra, hinn þýði, þeim leyfði á fætur enn. Hvern helst þeir hyggi að finna, hann spyr, sem ljóst ég get. Jafnt sem fyrr Júðar inna: Jesúm af Nasaret. 2. Ég er hann, aftur sagði annað sinn Jesús hátt, lærisveinunum lagði líknarorð þetta brátt: Ef mín yður lystir leita þá látið þessa frí. Búinn var hann að heita hjálpræðisorði því. 3. Hér af má heyra og skilja herrans vors Jesú makt, ekki gat án hans vilja á hann neinn hendur lagt. Við mig þó hatri hreyfi heiftarmenn illgjarnir, enginn kann, utan hann leyfi, eitt skerða hár á mér. 4. Föðurnum hjartahlýðinn hann gafst á þeirra vald. Sál mín, því sért ókvíðin, sjá, þitt óhlýðnisgjald viljugur vildi hann bæta. Víst er þín skylda auðsén, ást og auðsveipni mæta áttu að leggja ígen. 5. Júdas kom fljótt sem kunni kyssandi Jesúm nú, mælti fláráðum munni: Meistari, sæll vert þú. Herrann hógværðarríkur, hann sagði: Þú, minn vin, með kossi son mannsins svíkur. Síst mun því hefndin lin. 6. Evu munn eplið eina aumlega ginnti um sinn. Falskoss því fékk að reyna, frelsarinn, munnur þinn. Blíðmælum djöfuls bægðu svo blekkist ég ekki á þeim, heimshrekki líka lægðu, líf mitt og æru geym. 7. Auðsén eru augum þínum öll vél og launsvik hér. Hritt þeim úr huga mínum, hreint skapa geð í mér. Virstu mig vin þinn kalla, verða lát raun þar á, holdsbrest og hræsni alla hindra og tak mér frá. 8. Í hryggð og háska mikinn hefur mig satan leitt. Æ, hvað oft ég verð svikinn, ei get ég hjá því sneitt. Son mannsins svikum mætti sannlega upp á það, svikanna háskinn hætti hjá mér ei fyndi stað. 9. Munnur þinn, að ég meina, minnist við Jesúm bert, þá hold og blóð hans hreina hér fær þú, sál mín, snert. Guðs vegna að þér gáðu, gef honum ei koss með vél, í trú og iðrun þig tjáðu og tilbú þitt hjarta vel. 10. Þangað þegar að stundu þusti illræðislið, ljúfasta lamb Guðs bundu, lokið var öllum frið. Harðsnúnum reipum reyrðu, ranglætis míns hann galt, drottin í dróma keyrðu, dofnaði holdið allt. 11. Júðar þig, Jesú, strengdu, ég gaf þar efni til. Syndir mínar þér þrengdu, þess nú ég iðrast vil. Glæpabönd af mér greiðir og gef mér frelsið þitt, andlegum dofa eyðir sem á féll hjartað mitt. 12. Guðs son var gripinn höndum, gefinn svo yrði ég frí. Hann reyrðist hörðum böndum, hlaut ég miskunn af því. Fjötur þung og fangelsi frekt lá, minn herra, á þér. Djöfuls og dauðans helsi duttu því laus af mér. 13. Bið ég þín böndin hörðu bindi nú hvern minn lið frá alls kyns glæpagjörðum og göldum heimsins sið. Laus og liðugur andi, lífs meðan dvelst ég hér, þér sé jafnan þjónandi. Þessa bæn veittu mér. ..................Amen ] [ Um vörn sankti Péturs og Malkus eyrasár 1. Lausnarans lærisveinar þá líta atburð þann og Júða athafnir einar, allir senn spurðu hann: Eigum vér ekki að slá óvinasveit með sverði svo hér ei þyngra af verði? Sál mín, þar gjör að gá. 2. Ef þú áforma vildir eitthvað sem vandi er á þarfleg ráð þiggja skyldir og þig vel fyrir sjá. Af því oftlega sker, sá sem er einn í ráðum, einn mætir skaða bráðum. Seint þá að iðrast er. 3. En með því mannleg viska í mörgu náir skammt, á allt kann ekki að giska sem er þó vandasamt. Kost þann hinn besta kjós. Guðs orð fær sýnt og sannað hvað sé þér leyft eða bannað. Það skal þitt leiðarljós. 4. Pétur með svellu sinni sverð úr slíðrum dró, hans trúi ég bræðin brynni, og beint í flokkinn hjó. Malkus hlaut hér af tjón, hann missti hið hægra eyra, höggið tók ekki meira. Þessi var biskups þjón. 5. Lausnarinn ljóst nam svara lærisveinunum fyrst: Látið þessa fram fara frekast að sinni lyst. Pétri svo sagði nú: Sverðdauða sá skal sekur sem sverð án leyfis tekur. Sverð slíðra, Símon, þú. 6. Meinar þú faðirinn mildi mundi ei senda hér ef ég þess óska vildi engla til fylgdar mér fleiri en tólf fylkingar? Eða mun skylt ég ekki áskenktan kaleik drekki sem mér þó settur var? 7. Svo mun uppfyllast eiga hvað er í ritning tjáð og síðan sannast mega hvað sést fyrir löngu spáð. Svo eftir sermon þann eyrað þjónsins áhrærði sem áður Pétur særði og læknaði að heilu hann. 8. Sál mín, lærum og sjáum með sannri hjartans lyst, tvenns slags sverðs glöggt við gáum, greina skal þar um fyrst. Sverð drottins dómarinn ber, sverð eigin hefndar annað sem öllum verður bannað. Það kennir Kristur hér. 9. Bið ég hér glöggt að gætir góð valdstjórn heiðarleg, saklausan síst þú grætir né sjálfan meiðir þig. Virð sverð Guðs vandlætis. Blóð skaltu ei því banna, burt sníddu grein lastanna, merk dæmi Móisis. 10. Þitt sverð, sem þitt er eigið fyrir þína eigin sök, skal ekki úr skeiðum dregið, skýr eru til þess rök. Jesús það bannar bert. Honum er skylt þú hlýðir, hógvær umberir, líðir það móti þér er gjört. 11. Ræn ei Guð sínum rétti því reiknast hefndin hans, valdstjórn til verndar setti víða um byggðir lands, ellegar að því gá: Sverð drottins sem hér nefnist sannlega á þér hefnist, tjón þitt tvöfaldast þá. 12. Malkus sem missti eyra merkir þá alla frí sem orð Guðs ekki heyra, eiga þó kost á því. Heyrn er þeim hægri sljó. Vinstri hlust heilli halda, háð og spélni margfalda nóg geta numið þó. 13. Skálkamark mátti kalla Malkus hér fengi rétt. Á Guðs óvini alla auðkenni slíkt er sett, orð hans ei akta hér. Ég bið og jafnan segi: Jesú minn, láttu eigi þau merki sjást á mér. 14. Enn finnur þú hér framar frelsarans dæmið best. Hörmungar hættusamar á honum lágu mest. Sitt traust þó setti hann á Guðs föður gæsku ríka. Gjörðu það, sál mín, líka ef kross þig henda kann. 15. Kvöl sína Jesús kallar kaleik áskenktan sér. Kross þinn og eymdir allar eins máttu nefna hér því drottinn drakk þér til fyrir þig þá hann píndist svo þú, mín sál, ei týndist. Gjör honum gjarnan skil. 16. Þú mátt þig þar við hugga, hann þekkir veikleik manns, um þarftu ekki að ugga ádrykkjuskammtinn hans, vel þín vankvæði sér. Hið súrasta drakk hann sjálfur, sætari og minni en hálfur skenktur er skerfur þér. 17. Heift mína og hefndarnæmi hefur þú, Jesú, bætt. Mér gafst manngæskudæmi þá Malkum fékkstu grætt. Ég þarf og einnig við eyrað mitt læknað yrði svo orð þitt heyri og virði. Þýðlega þess ég bið. 18. Hjálpa mér, herra sæli, að halda krossbikar minn svo mig ei undan mæli né mögli um vilja þinn. Ég bið almætti þitt vorkenni minni veiki ef verða kann ég skeiki. Hresstu þá hjartað mitt. ...................Amen ] [ Prédikun Kristí fyrir Gyðingum 1. Talaði Jesús tíma þann til við óvini sína sem komnir voru að höndla hann. Heyrum þá kenning fína. 2. Sem til illvirkja eruð þér útgengnir mig að fanga. Áður gat enginn meinað mér í musterinu að ganga. 3. Daglega hef ég sýnt og sagt sannleikans kenning mæta. Enginn gat hendur á mig lagt, ættuð nú þess að gæta. 4. Yfir stendur nú yðar tíð uppfyllt svo ritning verði. Myrkranna geisar maktin stríð, mæla svo Jesús gjörði. 5. Ljúflyndi blessað lausnarans líttu hér, sál mín kæra. Sá vill ei dauða syndugs manns, svoddan máttu nú læra. 6. Jesús þeim sýndi í sannri raun sálarheill, náð og frelsi. Guðs syni Júðar guldu í laun grimmd, hatur og fangelsi. 7. Furða það, sál mín, engin er, ei skalt því dæmi týna þó veröldin launi vondu þér velgjörð mjög litla þína. 8. Gyðinga dæmi skynja skalt, skil þig við ódyggð slíka. Þakklæti fyrir góðgjörð gjald Guði og mönnum líka. 9. Ég læt mér þessu jafnframt sagt, Jesú, af orðum þínum: Enginn gat hendur á þig lagt af eigin vilja sínum. 10. Þann takmarkaða tímans punkt tilsetti faðirinn mildi nær það ánauðarokið þungt yfir þig ganga skyldi. 11. Eins upphaf líka og ending með allrar hörmungar minnar, faðir himneski, er fyrir séð í forsjón miskunnar þinnar. 12. Þessi nú tíminn yðar er, óvinum Jesús sagði. Herrans ég þetta máltak mér í minni og hjarta lagði. 13. Nú stendur yfir mín náðartíð. Nauðsyn er þess ég gætti. Líður mig drottins biðlund blíð brot mín svo kvittast mætti. 14. Ef ég þá tíð sem Guð mér gaf gálaus forsóma næði drottins tími þá tekur af tvímælin öll í bræði. 15. Því lengur sem hans biðlund blíð beðið forgefins hefur þess harðari mun heiftin stríð hefndar þá drottinn krefur. 16. Guðs vegna að þér gá, mín sál, glæpum ei lengur safna. Gjörum iðran því meir en mál mun vera synd að hafna. 17. Í dag við skulum skipta um skjótt, skal synd á flótta rekin. Hver veit nema sé nú í nótt náðin í burtu tekin. 18. Talar Jesús um myrkra makt. Merkið það, valdstjórnendur. Yður skal nú í eyra sagt: Umdæmið heims tæpt stendur. 19. Ljósið myrkrin burt leiðir frí með ljóma birtu sinnar. Varast að skýla skálkinn því í skugga maktar þinnar. 20. Minnstu að myrkra maktin þverr þá myrkur dauðans skalt kanna í ystu myrkrum og enginn sér aðgreining höfðingjanna. 21. Myrkri léttari er maktin þín, minnst þess fyrir þinn dauða, þá drottins hátignar dýrðin skín hann dæmir eins ríka og snauða. 22. Fyrst makt heims er við myrkur líkt, mín sál, halt þér í stilli. Varastu þig að reiða ríkt á ríkismannanna hylli. 23. Drottinn Jesú, þú lífsins ljós, lýstu valdstjórnarmönnum svo þeir sem ráða yfir oss eflist að dyggðum sönnum. 24. Jesú, þín kalda kvalastund kvalatíð af mér svipti. Guðs barna gafst mér gleðifund, góð voru þau umskipti. 25. Myrkranna þrengdi maktin þér mig svo leystir úr vanda. Kvalanna ystu myrkur mér mega því aldrei granda. .....................Amen ] [ Um flótta lærisveinanna 1. Þá lærisveinarnir sáu þar sinn herra gripinn höndum og hann af fólki verstu var vægðarlaust reyrður böndum, allir senn honum flýðu frá, forlétu drottin hreinan í háska einan. Að svoddan skulum við, sál mín, gá, sjáum hér lærdóm beinan. 2. Án drottins ráða er aðstoð manns í engu minnsta gildi. Fánýtt reynist oft fylgið hans sem frekast hjálpa skyldi. Hver einn vill bjarga sjálfum sér ef sýnist háskinn búinn, að hendi snúinn. Far því varlega að fallvölt er frænda og vina trúin. 3. Í sama máta sér þú hér, sál mín, í spegli hreinum að hryggilegar sé háttað þér en herrans lærisveinum. Þeir höfðu leyfi lausnarans lífi að forða sínu frá sárri pínu. Nauðugir misstu návist hans. Nú gæt að ráði þínu. 4. Hvað oft, Jesú, þér flúði ég frá frekt á mót vilja þínum þá glæpaveginn gekk ég á, girndum fylgjandi mínum. Forskuldað hafði ég fyrir það flóttamaður að heita til heljarreita. En þú virtist mér aumum að aftur í miskunn leita. 5. Einn varstu, Jesú, eftir því í óvina látinn höndum, einn svo ég væri aldrei í eymd og freistingum vöndum. Allir forlétu einan þig, allt svo mig hugga kynni í mannraun minni. Ég bið: Drottinn, lát aldrei mig einsamlan nokkru sinni. 6. Lærisvein, sál mín, sjá þú þann sem Jesú eftir fylgdi. Ranglát ungmenni rændu hann, rétt nakinn við þá skildi. Bersnöggur flótti betri er en bræðralag óréttinda í selskap synda. Ávinning lát þig engan hér í þeirra flokki binda. 7. Burt þaðan Jesúm færði fljótt flokkur illræðismanna. Lamb Guðs saklaust þá leið að nótt leiddu þeir til kvalanna. Miskunnarlaus sú meðferð bráð mér virðist eftir vonum í náttmyrkrunum. Þeir hafa bæði hrakt og hrjáð, hrundið og þrúgað honum. 8. Í dauðans myrkrum ég, dæmdur þræll, dragast átti til pínu en þú tókst, Jesú, son Guðs sæll, saklaus við straffi mínu. Þannig tilbjóstu ljóssins leið ljómandi sálu minni þó líf hér linni. Andlátskvölum og kaldri neyð kvíði ég því engu sinni. 9. Hröktu því svo og hrjáðu þig, herra minn, illskuþjóðir, hér svo nú bæru á höndum mig heilagir englar góðir. Mæðusöm urðu myrkrin þér, mæta létu þig hörðu og hindran gjörðu, Guðs dýrðar ljós svo lýsi mér á lifandi manna jörðu. 10. Kvalaför, Jesú, þessi þín, sem þá gekkstu einu sinni, veri kraftur og verndin mín svo veginn lífsins ég finni. Lát ekki djöful draga mig í dofinleik holdsins blinda til sekta og synda. Ég bið af ást og alúð þig ákefð hans burt að hrinda. .....................Amen ] [ Um það fyrsta rannsak fyrir Kaífa 1. Til Hannas húsa herrann Krist harðráðir Júðar leiddu fyrst. Beisk, frá ég, bönd hann særi. Honum strax þaðan vísað var, viðtekt fékk ei né hvíldir þar mjög svo þó mæddur væri. 2. Burt sendi því með beiskri pín bundinn Kaífas, mági sín, Hannas vorn herrann sæta. Höfuðkennimanns hæstu stétt hafði sá þetta árið rétt, Guðs lögmáls átti að gæta. 3. Úr himnaríkis hvíldarstað höfðum við, sál mín, forskuldað út rekin víst að vera. En Jesús tók nú upp á sig ónáðan slíka fyrir þig. Lof sé þeim ljúfa herra. 4. Hjartað bæði og húsið mitt heimili veri, Jesú, þitt, hjá mér þigg hvíld hentuga. Þó þú komir með krossinn þinn kom þú blessaður til mín inn. Fagna ég þér fegins huga. 5. Kaífas hafði hér um spáð, hentugast mundi þetta ráð að dæi einn fyrir alla. Embættis mælti andinn þar af því hjartað ei vissi par, sannleik Guðs sinnti varla. 6. Balaams dæmi eins var eitt, andagift sú var honum veitt, spaklega tungan spáði. Hann hafði í sinni hrekkjaráð, hjartað fékk ekki sannleiks gáð því hann fégirndin þjáði. 7. Ó, Jesú, láttu aldrei hér anda þinn víkja burt frá mér. Leið mig veg lífsins orða svo hjartað bæði og málið mitt mikli samhuga nafnið þitt, holdsgirnd og hræsni forða. 8. Til Kaífas voru komnir senn kennivaldið og stjórnarmenn. Biskupinn þegar að bragði leitar andsvars til lausnarans um lærisveina og kenning hans en Jesús aftur sagði: 9. Opinberlega en ekki leynt í musterinu kenndi ég beint. Hvað spyrð þú mig um þetta? Kunngjöra mega þar um þér þeir sem lærdóminn heyrðu af mér, þá láttu þig leiðrétta. 10. Gæt að, mín sál, og sjáðu þar, sonur Guðs undir rannsak var krafður það kvöldið eina. Á kvöldi hverju því koma skalt, kvöldreikning við þig sjálfan halt með kvöldoffurs iðrun hreina. 11. Þú Guðs kennimann, þenk um það, þar mun um síðir grennslast að hvernig og hvað þú kenndir. Að lærisveinum mun líka spurt sem lét þitt gáleysi villast burt. Hugsa glöggt hvar við lendir. 12. Jesús vill að þín kenning klár kröftug sé, hrein og opinská, lík hvellum lúðurs hljómi. Launsmjaðran öll og hræsnin hál hindrar Guðs dýrð en villir sál, straffast með ströngum dómi. 13. Vangæslan mín er margvísleg, mildasti Jesú, beiði ég þig: Vægðu veikleika mínum. Forsómun engin fannst hjá þér, fullnaðarbót það tel ég mér. Styrk veittu þjónum þínum. 14. Eins er hér öllum einnig rétt alvarleg kenning fyrir sett að orð Guðs elski og læri. Trúin innvortis efli geð, einarðleg játning líka með ávöxt hið ytra færi. 15. Biskups þjón einn í bræði þó blessaðan Jesúm pústur sló, svo það ritningin segir. Hógværlegt forsvar herrann gaf, honum, sál mín, það lærðu af, um sakleysi þitt ei þegir. 16. Óvart samviskan Adam sló, illan kinnroða fékk hann þó í fyrsta falli sínu. Þess vegna Jesús höggið hast hlaut að líða og roðna fast allra fyrst í hans pínu. 17. Drottinn Jesú, ég þakka þér, þetta leiðstu til frelsis mér. Ég bið ástsemi þína: Samviskuslögin sviðaskæð á sálu minni þú mýk og græð, burt taktu blygðun mína. ...................Amen ] [ Um afneitun Péturs 1. Guðspjallshistorían getur gripinn þá Jesús var, allir senn, utan Pétur, yfirgáfu hann þar og lærisveinn einn annar álengdar gengu hljótt herrans hryggðarbraut sanna. Harla dimmt var af nótt. 2. Kaífas kennimanni kunnugur lærisveinn inn gengur ört með sanni, úti stóð Pétur einn. Ambátt upp ljúka beiðir, ókenndan Petrum þá í forsal til lýðsins leiðir. Lærdóm hér finna má. 3. Krossferli að fylgja þínum fýsir mig, Jesú kær, væg þú veikleika mínum þó verði ég álengdar fjær. Þá trú og þol vill þrotna, þrengir að neyðin vönd, reis þú við reyrinn brotna og rétt mér þína hönd. 4. Koleld, því kalt var næsta, kveikt hafði þrælalið, Pétur með sturlun stærsta stóð hjá þeim logann við. Ambátt hann ein sprogsetti, af sér það heyra lét: Mun þessi mann, hún frétti, með Jesú af Nasaret? 5. Hann neitar hratt að bragði, hræddur við orðin byrst, þann sig ei þekkja sagði, þá gól nú haninn fyrst. Ætlar sér út að rýma, önnur þerna hann sá, talar í annan tíma til þeirra er stóðu hjá: 6. Frá Nasaret nú er þessi nýkominn Jesú með. Hinna geð trúi ég það hvessi, hver maður spyrja réð: Ertu einn af hans sveinum? Enn Pétur neita vann, sagði með eiði einum: Aldrei þekkti ég hann. 7. Þriðja sinn þar til lögðu þjónar Kaífas bert. Málfærið, sumir sögðu, segir til hver þú ert. Frændi Malkus réð mæla: Mundi ég þig ekki sjá, get ég síst grun mig tæla, í garðinum Jesú hjá? 8. Pétur með bljúgu bragði bráðlega sagði nei, sór sig og sárt við lagði, svoddan mann þekkti hann ei. Glöggt þegar gjörðist þetta, gól haninn annað sinn. Síst mátti sorgum létta, sút flaug í brjóstið inn. 9. Sál mín, þér fári forða, freklega hættu síst án leyfis drottins orða, óstyrkt er holdið víst. Þykistu stöðugt standa, stilla þinn metnað þarft. Hver sér vogar í vanda von er sá falli snart. 10. Áður í aldingarði óhræddur Pétur var. Karlmennskuhugurinn harði hans sig auglýsti þar. Auðvirð ambátt hann hrelldi, of mjög því skelfast vann, frá sannleik síðan felldi. Sama þig henda kann. 11. Koleldi kveiktum jafnast kitlandi veraldarprjál. Þrælar syndanna safnast saman við lostabál, fullir með fals og villu. Forðastu þeirra glys. Ætíð er með þeim illu einföldum búið slys. 12. Ambátt með yggldu bragði er þessi veröld leið, mörgum meinsnöru lagði, mjög á spottyrðin greið. Þýið með þrælum sínum þjóna Guðs lastað fær. Styrk mig með mætti þínum mót henni, drottinn kær. 13. Eftir afneitun eina út vildi Pétur gá. Hugði hann braut sér beina búna þeim solli frá. Þá kom eitt öðru verra, umkringdu þrælar hann, af sór sinn sæla herra sér og formæla vann. 14. Hægt er hverjum að stofna í hættu og vanda spil, forvitnisdælskan dofna dregur þar margan til. Ógæfugildran þrönga greip þann hún kunni að ná, útkomuvon fékk enga. Að því í tíma gá. 15. Oft má af máli þekkja manninn hver helst hann er. Sig mun fyrst sjálfan blekkja sá með lastmælgi fer. Góður af geði hreinu góðorður reynist víst. Fullur af illu einu illyrðin sparar síst. 16. Hryggileg hrösun henti heilagan drottins þjón, syndin mjög sárt hann spennti, sálar var búið tjón. Hvað mun ég máttarnaumur mega þá standast við, vangætinn, vesæll og aumur, vélum og hrekkjasnið? 17. Í veraldar vonskusolli velkist ég, Jesú, hér. Falli það oft mér olli, óstöðugt holdið er. Megnar ei móti að standa mín hreysti náttúrleg. Láttu þitt ljós og anda leiða og styrkja mig. .................Amen ] [ Um iðrun Péturs 1. Pétur þar sat í sal hjá sveinum inni. Tvennt hafði hanagal heyrst að því sinni. 2. Búinn var þrisvar þá þvert hann að neita sér Jesúm sælan frá. Sorg má það heita. 3. Drottinn vor veik sér við, víst um það getur, ljúfur með líknarsið og leit á Pétur. 4. Strax flaug í huga hans, hvað þó síst varði, lausnarans orð og ans í aldingarði. 5. Blygðaðist brátt við það brjóst fullt af trega, gekk út úr greindum stað og grét beisklega. 6. Sjá þú með sannri trú, sál mín ástkæra, hvað framar hefur þú hér af að læra. 7. Hátt galar haninn hér í hvers manns geði drýgðar þá syndir sér sem Pétur skeði. 8. Sárlega samviskan sekan áklagar, innvortis auman mann angrar og nagar. 9. Fær hann sig frjálsan síst þó finnist hrelldur sem fugl við snúning snýst sem snaran heldur. 10. Víkja þó vilji hann frá vonskuhætti, orka því ekki kann af eigin mætti. 11. Upp þó hér ætli brátt aftur að standa fellur hann þegar þrátt í þyngri vanda. 12. Lögmál Guðs hrópar hátt, hanagal annað, segir og sýnir þrátt hvað sé þér bannað. 13. Það þvingar, þrúgar með, það slær og lemur, sorgandi, syndugt geð særir og kremur. 14. Það verkar sorg og sút þeim seka manni, hjálpar þó engum út úr syndabanni. 15. Holdið þar þrjóskast við og þykir illa. Eykst á þann syndasið svik, hræsni og villa. 16. Enn Jesú álit skýrt anda Guðs þýðir. Sá gjörir hægt og hýrt hjartað um síðir. 17. Lætur hann lögmál byrst lemja og hræða. Eftir það fer hann fyrst að friða og græða. 18. Orð Jesú eðla sætt er hans verkfæri. Helst fær það hugann kætt þó hrelldur væri. 19. Hann gefur hreina trú, hann fallinn reisir, hann veikan hressir nú, hann bundinn leysir. 20. Ekki er í sjálfs vald sett, sem nokkrir meina, yfirbót, iðrun rétt og trúin hreina. 21 Hendi þig hrösun bráð, sem helgan Pétur, undir Guðs áttu náð hvort iðrast getur. 22. Heimska er versta víst við það að dyljast, þú megir þá þér líst frá þrautum skiljast. 23. Ef Jesús að þér snýr með ástarhóti líttu þá hjartahýr honum á móti. 24. Gráta skalt glæpi sárt en Guði trúa, elska hans orðið klárt, frá illu snúa. 25. Ónýt er iðrun tæp, að því skalt hyggja, ef þú í gjörðum glæp girnist að liggja. 26. Pétur þá formerkt fékk fallhrösun slíka úr syndasalnum gekk. Svo gjör þú líka. 27. Ó, Jesú, að mér snú ásjónu þinni. Sjá þú mig særðan nú á sálu minni. 28. Þegar ég hrasa hér, hvað mjög oft sannast, bentu í miskunn mér svo megi ég við kannast. 29. Oft lít ég upp til þín augum grátandi. Líttu því ljúft til mín svo leysist vandi. ...................Amen ] [ Um falsvitnin og Kaífas dóm 1. Foringjar presta fengu falsvitni mörg tilsett, fúslega fram að gengu, fullir með svik og prett. Samhljóða urðu eigi, uppdiktað margt þó segi. Jesús þá þagði slétt. 2. Lærðu, ef lygum mætir, lífsreglu, sál mín, hér: Með forsi og þjóst ei þrætir, þrálega svo til ber, hógvær þögn heiftir stillir, heimskorður sannleik spillir oft fyrir sjálfum sér. 3. Hirð aldrei hvað sem gildir að hætta á ósatt mál, hvort verja eða sækja vildir, verður það mörgum tál. Munnur, sá löngum lýgur, frá lukku og blessun hnígur, hann deyðir sína sál. 4. Sannleiksvitni þó segi sekan mig Guði hjá óttast þarf ég nú eigi, afsökun hef ég þá: Ljúgvotta lygi megna leið Jesús minna vegna, klögun mig frelsti frá. 5. Kaífas frétti fyrstur falsklega herrann að sjálfur hvort sé hann Kristur og svo enn framar kvað: Við sannan Guð þig ég særi, ef sonur hans ertu hinn kæri segðu oss satt um það. 6. Jesús játar að stundu, jafnframt því svo nam tjá, son mannsins sjá þeir mundu sitja þaðan í frá til kraftarins hægri handar og hér eftir komanda skærasta skýi á. 7. Kennimann reif sín klæði, kvað: Slíkt guðlöstun er. Að spyr með ógnabræði: Um það hvað haldið þér? Allt ráðið undir tekur: Er hann víst dauðasekur, svoddan samþykkjum vér. 8. Jesús ei ansa hirti áður þá logið var en Guðs nafn gjarnan virti, gaf því Kaífas svar. Lygð heims þó lítið sætir, lausnarans dæmis gætir, leita Guðs lofdýrðar. 9. Hygg að og herm hið sanna hvenær sem til er reynt, hræðst ei hótanir manna, halt þinni játning beint. Gæt vel að geymir þetta, Guðs orð og trúna rétta meðkenndu ljóst og leynt. 10. Kaífas lögsögn leiða lært hafa margir enn. Hvað sem höfðingjar beiða hinir álykta senn, vinskap sig villa láta, viljandi röngu játa. Forðist það frómir menn. 11. Sú er mín huggun sama sem þín var, Jesú minn, krossinn þá að vill ama, ofsókn og hörmung stinn. Hjá þinni hægri hendi, hér þó nú lífið endi, fagnaðarnægð ég finn. 12. Þér til guðlöstun lagði ljúgandi kennimann, dauðasekan þig sagði. Sannlega úrskurð þann átti ég að heyra heldur, hart með réttu sakfelldur, víst ég nóg til þess vann. 13. Andlegt vald einum rómi úrskurðar dauðann þér. Drottinn í náðardómi dæmir því lífið mér. Þakka ég elsku þinni, þú keyptir sálu minni fríun og frelsi hér. ...................Amen ] [ Um þjónanna spott við Kristum 1. Eftir þann dóm sem allra fyrst andlegir dæmdu um herrann Krist hafa þeir því að þá var nótt þegar til hvíldar gengið skjótt. 2. Drottinn vor eftir þreyttur þar þrælum til gæslu fenginn var. Gjörði að honum gys og dár guðlausra manna flokkur þrár. 3. Háðung, spottyrði, hróp og brigsl hver lét með öðrum ganga á víxl, hræktu og slógu herrann þar, hann þó á meðan bundinn var. 4. Sjáðu og skoða, sála mín, saklausa lambsins beisku pín. Hugsa vandlega um það allt af þessu hvað þú læra skalt. 5. Hann sem að næturhvíld og ró hverri skepnu af miskunn bjó í sinni ógna eymda stærð engan kost fékk á neinni værð. 6. Hvíldarnótt marga hef ég þáð, herra Jesú, af þinni náð. Kvöl þín eymdum mig keypti frá, kannast ég nú við gæsku þá. 7. Nær sem ég reyni sorg eða sótt, seinast að kemur dauðans nótt, næturkvala sem neyddu þig njóta láttu þá, Jesú, mig. 8. Samviskuslög og satans háð sefi, Jesú, þín blessuð náð. Ofboð dauðans og andlátspín af taki og mýki gæskan þín. 9. Margur, og víst það maklegt er, mjög þessum skálkum formælir. Þó finnast nokkrir hér í heim að hegðun allri líkir þeim. 10. Hvað gjöra þeir sem hér á jörð hafa að spotti drottins orð, lifa í glæpum ljóst til sanns, lasta og forsmá þjóna hans? 11. Sá sem Guðs náð og sannleikann sér, þekkir, veit og skynja kann, kukl og fjölkynngi kynnir sér Kaífas þrælum verri er. 12. Soninn Guðs ekki þekktu þeir. Því syndga hinir langtum meir sem kallast vilja kristnir best, Kristum þó lasta allra mest. 13. Hræsnarar þeir sem hrekki og synd hylja þó undir frómleiksmynd líkjast þessum er lausnarann lömdu blindandi og spjöðu hann. 14. Hverjum sem spott og hæðni er kær hann gengur þessum selskap nær. Forsmán guðrækins, fátæks manns fyrirlitning er skaparans. 15. Ó vesæll maður, að því gá, eftir mun koma tíminn sá, sama hvað niður sáðir hér, sjálfur án efa upp þú skerð. 16. Ef hér á jörð er hæðni og háð, hróp og guðlastan niður sáð, uppskorið verður eilíft spé, agg og forsmán í helvíti. 17. Ætla þú ekki, aumur mann, af komast muni strafflaust hann sem soninn hefur hér hætt og spjað, horfi faðirinn upp á það. 18. Hvað Jesús nú um næturskeið nauðstaddur hér af mönnum leið, óguðlegur um eilífð þá af illum djöflum líða má. 19. Ókenndum þér þó aumur sé aldrei til leggðu háð né spé. Þú veist ei hvern þú hittir þar heldur en þessir Gyðingar. 20. Sjálfan slær mig nú hjartað hart, hef ég án efa mikinn part af svoddan illskum ástundað, auðmjúklega ég meðgeng það. 21. Sáð hef ég niður syndarót, svívirðing mín er mörg og ljót. Uppskerutímann óttast ég, angrast því sálin næsta mjög. 22. Herra minn, Jesú, hörmung þín huggun er bæði og lækning mín. Sakleysi víst þú sáðir hér, sælunnar ávöxt gafstu mér. 23. Blóðdropar þínir, blessað sáð, ber þann ávöxt sem heitir náð. Þann sama Guð mér sjálfur gaf. Sáluhjálp mín þar sprettur af. 24. Hæddur varstu til heiðurs mér, högg þín og slög mín lækning er. Aldrei má djöfull eiga vald á mig að leggja hefndargjald. 25. En þér til heiðurs aftur á mót iðrast vil ég og gjöra bót, holdsvilja gjarnan hefta minn, hjálpi mér, Jesú, kraftur þinn. .......................Amen ] [ Um ráðstefnu prestanna yfir Kristó 1. Mjög árla uppi voru öldungar Júða senn, svo til samfundar fóru, fyrstir þó kennimenn. Í ráðslag létu leiðast, líkar það öllum vel, hvernig þeir gætu greiðast Guðs syni komið í hel. 2. Heimtu með heiftarlundu herrann vorn til sín brátt, orsök því enga fundu, allir senn mæltu hátt: Seg oss, ef ertu Kristur, einasti son Guðs sá. Græðarinn gæskulystur gaf andsvar þar upp á: 3. Þó ég það yður segi, ekki samt trúi þér, andsvarið mér og eigi ef ég spyr nokkurs hér. Mannsins son sjáið sitja senn hjá Guðs hægri hlið, í skýi mun einu vitja aftur með dýrðarsið. 4. Ertu Guðs son? þeir sögðu, svaraði drottinn: Já. Djarfir þann dóm á lögðu: Dauða maður er sá. Upp stóðu strax að stundu, stríð þeim í hjarta brann, frelsarann fjötrum bundu, færðu Pílató hann. 5. Hér máttu, sál mín, sanna svo gengur það til víst, ástundan illvirkjanna umhyggju vantar síst. Árla þeir blundi bregða, binda fast öll sín ráð, klóklega hrekkjum hegða hver sem þess fengi gáð. 6. En þú sem átt að vera útvalinn drottins þjón, verk hans og vilja að gjöra og varast þitt sálartjón. Andvara engan hefur, umhyggjulítill sést, við glys heims gálaus sefur. Guð náði svoddan brest. 7. Margir upp árla rísa, ei geta sofið vært, eftir auð heimsins hnýsa, holdsgagnið er þeim kært. Sálin í brjósti sofnuð sýnist að mestu dauð, til allra dyggða dofnuð sem drottinn helst þó bauð. 8. Forsjónarverkmenn vísir víngarði drottins í fyrst þá dagsljóminn lýsir ljúft bið ég gái að því. Um sitt embætti hyggi, árla gjörð bænin sé, iðjulausir ei liggi í líkamans gjálífi. 9. Hatursmenn herrans vaka, hugsandi að gjöra tjón. Eftir því áttu að taka ef ertu hans tryggðaþjón. Viljir þú við þeim sporna og varast þeirra háð, árla dags alla morgna við orð Guðs haltu ráð. 10. Þenk nú í þínu hjarta, þar næst í annan stað, hvar um herrann réð kvarta, hyggja máttu þar að. Orðum hans ekki treystu illgjarnir Júðar þeir, úr spurning engri leystu, æ því versnuðu meir. 11. Hver trúir nú hart þó hóti herrann forhertum lýð? Allfæstir inna á móti iðrunarsvörin blíð. Hirtingar hjálpa ekki, heimur versnandi fer. Blindleikinn trúi ég oss blekki, búið straff nálægt er. 12. Víst er ég veikur að trúa, veistu það, Jesú, best, frá syndum seinn að snúa, svoddan mig angrar mest. Þó framast það ég megna þínum orðum ég vil treysta og gjarnan gegna. Gef þú mér náð þar til. 13. Mér er sem í eyrum hljómi úrskurður drottins sá, árla á efsta dómi upp þegar dauðir stá. Afsökun ei mun stoða, andsvör né spurningar. Sá stendur víst í voða sem verður sekur þar. 14. Hér er nú kostur að heyra herrann talandi í náð. Jesús opni mitt eyra svo að því fengi ég gáð. Hógvær vors bata bíður, blessaður þessa tíð, annars heims er hann stríður öllum forhertum lýð. 15. Árla úrskurðinn lögðu á þig Gyðingar þó, Jesú, og sekan sögðu, seldu þig Pílató. Árla á efsta degi afsökun gildir sú, til dauða ég dæmist eigi, drottinn, þess minnist þú. 16. Árla dags uppvaknaður ætíð ég minnist þín. Jesú minn hjálparhraður, hugsa þú æ til mín. Árla á efsta dómi afsökun vertu mér. Minnstu þá frelsarinn frómi hvað fyrir mig leiðstu hér. ...................Amen ] [ Um Júdasar iðrun 1. Júdas í girndargráði af Gyðingunum fyrst þrjátíu peninga þáði, því sveik hann herrann Krist. Ljóst þegar líta vann, drottinn var nú til dauða dæmdur og þungra nauða, iðraðist eftir hann. 2. Greitt í musterið gengur, greinir svo ritning frá, um silfrið sinnti ei lengur, senn vill það prestum fá, sagði með sárum móð: Ó, hvað ég gjörði illa þá yfir mig kom sú villa að sveik ég saklaust blóð. 3. Liðsemd prestarnir lögðu litla, sem von var að, harðlyndir honum sögðu: Hvað eigum vér með það? Þú mátt einn sjá um þig. Silfrinu á gólfið grýtti, gekk þaðan, mjög sér flýtti, og hengdi sjálfan sig. 4. Ráðstefnu herrar héldu, hættu þar síðast við, fyrir akur sjálfir seldu silfrið leirkerasmið. Áður sagt um það var í spádómssögnum sönnum. Sá var vegferðarmönnum gefinn til greftrunar. 5. Sjá hér hvað illan enda ótryggð og svikin fá. Júdasar líkar lenda leiksbróður sínum hjá. Andskotinn illskuflár enn hefur snöru snúna snögglega þeim til búna sem fara með fals og dár. 6. Ótrú sinn eigin herra ætíð um hálsinn sló. Enginn fékk af því verra en sá meinlausum bjó forræði, fals og vél. Júdas því henging henti, hann fölskum til sín benti eins og Akítófel. 7. Fégirndin Júdas felldi, fyrst var hans aðtekt sú. Guðs son Gyðingum seldi, gleymdi því æru og trú. Svo til um síðir gekk. Kastaði keyptum auði þá kvaldi sorg og dauði, huggun alls enga fékk. 8. Undirrót allra lasta ágirndin kölluð er. Frómleika frá sér kasta fjárplógsmenn ágjarnir sem freklega elska féð. Auði með okri safna, andlegri blessun hafna en setja sál í veð. 9. Annaðhvort er í vonum, auðurinn fagur nú hafnar þér ellegar honum hryggur burt kastar þú þá dauðinn þrengir að. Ágirndin ótæpt svelgir, af því sálina velgir í köldum kvalastað. 10. Falsi og fégirnd rangri forða þér, sál mín blíð, svo mætir ei ógn né angri þá að fer dauðans tíð. Virð lítils veraldarplóg. Hver sem sér lynda lætur það lénar drottinn mætur, sá hefur allsnægta nóg. 11. Oft Jesús áður hafði áminning Júdas gjört. Hrekkvísin hjartað vafði, hann hélt það einskisvert. Nú kom þar einnig að, tilsögn hataði hreina, huggun fékk því ei neina. Varastu víti það. 12. En hvað framleiddi hann illa áður lífernið sitt. Þessi þó var hans villa verri en allt annað hitt að hann örvænting með sál og líf setti í vanda. Synd á mót heilögum anda held ég hér hafi skeð. 13. Í drottni ef viltu deyja, drottni þá lifðu hér. Til ills lát ei þig teygja, orð Guðs sé kærast þér. Sæll er sá svo við býst. En ef þig ófall hendir, aftur í tíma vendir, undan drag iðrun síst. 14. Brot þín skalt bljúgur játa en bið þó Guð um náð, af hjarta hryggur gráta en heilnæm þiggja ráð. Umfram allt þenktu þó: Son Guðs bar þínar syndir og svo þú miskunn fyndir, saklaus fyrir sekan dó. 15. Drottinn, lát mig ei dyljast dárlega syndir við þó hér um stund megi hyljast. Herra trúr, þess ég bið: Nær heimi fer ég frá örvænting ei mér grandi, orð þitt og sannleiksandi hjartað mitt huggi þá. .......................Amen ] [ Um leirpottarans akur 1. Svo sem fyrr sagt var frá silfurpeninga þá, hverjir loks Júdas hrelldu, höfuðprestarnir seldu. 2. Og keyptu einn til sanns akur pottmakarans. Þar má fullt frelsi hafa framandi menn að grafa. 3. Þar finnst ein þýðing fín, þess gættu, sála mín, af Guðs ásettu ráði um það Sakarías spáði. 4. Líkist leirkerasmið líknsamur drottinn við sem Jesajas fyrr sagði, sjálfur það rétt út lagði. 5. Af leir með lífsins kraft lét hann mannkynið skapt. Hrein ker til heiðurs setur, hin önnur lægra metur. 6. Drottinn einn akur á, er honum falur sá. Minnstu, hann miskunn heitir, mæddum lýð huggun veitir. 7. Jesús er einn sá mann sem akurinn keypti þann, en hans blóðdropar blíðir borgunargjaldið þýðir. 8. Framandi fólkið það sem fékk ei neinn hvíldarstað erum vér sorgum setnir, af syndugu eðli getnir. 9. Illskunnareðlið vort útlenda hefur gjört oss frá eilífri gleði. Í Adams falli það skeði. 10. Sálin í útlegð er æ meðan dvelst hún hér í holdsins hreysi naumu, haldin fangelsi aumu. 11. Dauðinn með dapri sút dregur um síðir út hana þá hreysið brotnar, holdið í jörðu rotnar. 12. Eins og útkastað hræ, ef ég rétt skynjað fæ, hjálparlaus sál má heita, hvíldar ei kann sér leita. 13. Hættu og hörmung þá herrann minn Jesús sá, önd vora af ást og mildi úr útlegð kaupa vildi. 14. Faðirinn falt það lét, friðarstað sálum hét ef sonurinn gjald það greiddi sem Guðs réttlæti beiddi. 15. Opnaði sjóðinn sinn sonur Guðs, Jesús minn, húðstrýktur, kvalinn, krýndur, á krossi til dauða píndur. 16. Blóðdropar dundu þar, dýrasta gjald það var. Keyptan akur því eigum, óhræddir deyja megum. 17. Hér þegar verður hold hulið í jarðarmold, sálin hryggðarlaust hvílir, henni Guðs miskunn skýlir. 18. En þú skalt að því gá, akursins greftrun þá engir utan þeir fengu í Jerúsalem gengu. 19. Kristnin Guðs hér í heim heitir Jerúsalem. Í hana inn komast hlýtur hver sem miskunnar nýtur. 20. Í henni hver einn sá er, á Jesúm trúir hér, skírður og alla vega iðrun gjörir daglega. 21. Ókvíðinn er ég nú af því ég hef þá trú, miskunn Guðs sálu mína mun taka í vöktun sína. 22. Hvernig sem holdið fer hér þegar lífið þverr, Jesú, í umsjón þinni óhætt er sálu minni. 23. Ég lofa, lausnarinn, þig sem leystir úr útlegð mig. Hvíld næ ég náðarspakri nú í miskunnarakri. 24. Þú gafst mér akurinn þinn, þér gef ég aftur minn. Ást þína á ég ríka, eigðu mitt hjartað líka. 25. Ég gef og allan þér, æ meðan tóri ég hér, ávöxtinn iðju minnar í akri kristninnar þinnar. 26 Eins bið ég, aumur þræll, að unnir þú, Jesú sæll, liðnum líkama mínum legstað í akri þínum. 27. Hveitikorn þekktu þitt þá upp rís holdið mitt. Í bindini barna þinna blessun láttu mig finna. ...................Amen ] [ Sú fyrsta áklögun Gyðinga fyrir Pílató 1. Árla, sem glöggt ég greina vann, með Guðs son bundinn fara prestarnir svo að píndist hann til Pílatum landsdómara. Í þinghús inn það sama sinn sagt er þó enginn kæmi svo ekki meir saurguðust þeir. Sjá hér hræsninnar dæmi. 2. Inngang um húsdyr heiðingjans héldu þeir synd bannaða. Saurgast á blóði saklauss manns sýndist þeim engan skaða. Heimsbörnum hér óvirðing er aumstöddum hjálp að veita. En Guðs orðs forakt, ágirnd og prakt, engin misgjörð skal heita. 3. Pílatus sem það formerkt fékk fyrst ei þeim metnað sætti, án dvalar sjálfur út því gekk, embættisskyldu gætti. Sakargift þá vill fulla fá fram borna af þeirra munni. Dáryrði fljót drambsemi á mót dómarinn gefa kunni. 4. Lát þér ei vera afmán að, ef þú vilt frómur heita, af Pílató ljóst að læra það sem loflegt er eftir að breyta. Ranglætið hans, þess heiðna manns, halt þér minnkun tvöfalda. Þeim miður fer en honum hér, hver vill þann kristinn halda? 5. Álitið stórt og höfðingshátt hræðast skyldir þú ekki. Sannleiksins gæta ætíð átt, engin kjassmál þig blekki. Ærugirnd ljót, hofmóðug hót, hlýðir síst yfirmönnum. Dramblátum þar þú gef andsvar, þó byggt á rökum sönnum. 6. Öldungar Júða allra fyrst upp báru sök þrefalda: Fólkinu þessi frá snýr víst, fyrirbýður að gjalda keisarans skatt, það segjum vér satt, sjálfur vill kóngur heita og Kristur sá sem koma á kvittun og frið að veita. 7. Hér koma fram þau réttu rök ræðu og þanka minna: Þér, Jesú, gefin var þreföld sök, það kann ég glöggt að finna. Þrefaldleg sekt mig þjáði frekt, þar um ég klagast mætti. Þrefalda styggð og þunga lygð þú leiðst með sögðum hætti. 8. Frásnúið Guði allt mitt er eðli og líf fáneyta. Öðrum því gef ég oft af mér illdæmi svo að breyta. En hér á mót með elsku hót öll Guðs börn rétt því trúa, frá bölvan, deyð, djöfli og neyð drottinn réð lýðnum snúa. 9. Guði átti ég að greiða frí gjald, hlýðni og þakkarskyldur. Ranglega hef ég haldið því, höndlað sem þræll ógildur. Auðsveipnin þín fyrir öllum skín, ástsemdarherrann kæri. Þú bauðst: Gefið, gafst sjálfur með hvað Guðs og keisarans væri. 10. Sannlega hef ég hrokað mér hærra en vera skyldi, boð og skipun míns herra hér haldið í minnsta gildi. Kóngdóm í heim og heiðri þeim hafnaðir þú og flýðir. Hátignin þín á himnum skín, hún mun birtast um síðir. 11. Rægður varstu fyrir ranga sök, réttláti Jesú mildi. Upp á það öll mín illskurök afplánuð verða skyldi. Áklögun sú sem þoldir þú, þess bið ég, herrann frómi, sé mitt forsvar þá finnst ég þar fyrir þeim stranga dómi. ..........Amen ] [ Um Kristí játning fyrir Pílató 1. Gyðingar höfðu af hatri fyrst harðlega klagað Jesúm Krist, sem áður sagt er frá. Landsdómarinn gjörði að gá glöggt hvað þýðir framburður sá. 2. Áklögun fyrsta andleg var, um það Pílatus sinnti ei par, önnur um skylduskatt. Hann vissi vel þeir sögðu ei satt, svoddan málum þegjandi hratt. 3. En sem þeir nefndu kónginn Krist kom honum þá til hugar fyrst hvað fyrri heyrði og nam af Júðum mælt um Messíam, ef mætti ske það kæmi nú fram. 4. Pílatí sinni í sumum finnst sem um Guðs dýrkun hugsa minnst, höfðingjum hræsna títt, undirsáta frelsið frítt fjárplógsgjarnir rækja nú lítt. 5. Hirðstjórinn spurði herrann þá hvort hann sé Júða kóngur sá, en Jesús aftur tér: Talar þú svo af sjálfum þér eða sögðu aðrir þvílíkt af mér? 6. Þá varð Pílatí þelið kalt. Þig hatar, sagði hann, fólkið allt. Hvað illt hefur þú gjört? Aftur Jesús ansar bert, er það næsta þenkingarvert: 7. Mitt ríki er ekki héðan af heim. Hart mundi annars móti þeim stríða minn máttarher sem nú mig seldu í nauðir hér svo næðu ekki Gyðingar mér. 8. Pílatus aftur ansa vann: Ertu þó kóngur? sagði hann. Játaði Jesús því: Hingað kom ég heiminn í svo herma skyldi ég sannleikann frí. 9. Hver af sannleiknum sjálfur er, sá mína röddu heyrir hér. Hæðnissvar hinn til fann: Hvað er sannleikur? sagði hann. Svo gekk út með úrskurðinn þann. 10. Hér máttu, sál mín, heyra fyrst, herrann Jesús er kóngur víst, þó ekki að heimsins hátt. Svoddan vel þú athuga átt, það eykur gleði hjartanu þrátt. 11. Kóngstign þín, Jesú, andleg er. Allir hafa sín völd af þér höfðingjar hér um heim. Þú lénar, gefur, lánar þeim löndin, ríki, metorð og seim. 12. Fyrir þinn kraft og frelsishönd forsvara kóngar ríki og lönd sem er þeim undir lagt. En móti djöfli og dauðans makt dugir engin höfðingjaprakt. 13. Þú hefur sigrað synd og deyð, sjálfan djöful og vítisneyð, háðir eitt herlegt stríð allan svo þinn leystir lýð. Lof sé þér um eilífa tíð. 14. Andlegt þitt ríki og eilíft er, orð sannleiksins því rétt stjórnar hér, þinn veldisvöndur sá óvini slær mér alla frá. Í þeim krafti sigra ég þá. 15. En fyrst þitt ríki andlegt var um það heimurinn sinnti ei par. Hann fann ei hofmóð sinn hjá þér, Jesú, herra minn, hataði allan góðvilja þinn. 16. Undrast því, sál mín, ekki þarft þó aðkast veraldar líðir margt, þar um þér þenkja ber: Ertu enn í útlegð hér, annars heims þitt föðurland er. 17. Sannleikakóngsins sannleiksraust sá þarf að elska hræsnislaust sem er hans undirmann því slægð og lygi hatar hann, hreinhjörtuðum miskunnar ann. 18. Ef þú, mín sál, í Guði glödd girnist að heyra kóngsins rödd, gættu þá gjörla hér hvað boða drottins þjónar þér. Þeirra kenning raustin hans er. 19. Rannsaka, sál mín, orð það ört, að verður spurt: Hvað hefur þú gjört? Þá herrann heldur dóm hjálpar engum hræsnin tóm. Hrein sé trú í verkunum fróm. 20. En sökum þess þú ei saklaus ert sjálfur spyr þig: Hvað hefur þú gjört? Á hvern umliðinn dag iðran gjör og grát þinn hag. Guðs son bið það færa í lag. 21. Allt hef ég, Jesú, illa gjört, allt það að bæta þú kominn ert, um allt því ég kvittur er. Allt mitt líf skal þóknast þér, þar til, bið ég, hjálpa þú mér. .................Amen ] [ Önnur áklögun Gyðinga fyrir Pílató 1. Pílatus hafði prófað nú píslarsök Jesú gefna. Klén virtist honum kóngstign sú þá Kristur sannleik réð nefna. Heims sannleik heiðra lést, hæddi Guðs sannleik mest. Sannindin elska ber. Orð drottins láttu þér kærast þó allra efna. 2. Jafnótt þá ganga jarlinn réð til Júða út að bragði. Enga sök þessum manni með má ég finna, hann sagði. Gyðingar heldur hart herrann klöguðu um margt með æði, ógn og dramb, en rétt sem meinlaust lamb lausnarinn ljúfur þagði. 3. Hann hefur upp æst lýðinn lands, lengi mjög víða kenndi, frá Galílea og svo til sanns um síðir allt hingað vendi. Pílatus hugði hér hrinda þeim vanda af sér. Heródes hafði því hirðstjórn þeim parti í, til hans því herrann sendi. 4. Fyrir mig, Jesú, þoldir þú þjáning og beiska pínu. Hjartað gleðst því ég heyri nú hrósað sakleysi þínu. Syndin lá sárt á mér, sök fannst engin hjá þér, svo er sakleysið þitt sannlega orðið mitt. Við málefni tókstu mínu. 5. Lögmál drottins þá hefndum hart hótar mér eftir vonum, aftur minn Jesús ansar snart: Engin sök finnst hjá honum. Sakleysið mitt til sanns segi ég nú orðið hans. Engin áklögun fljót orka skal neitt á mót mínum þollyndisþjónum. 6. Ónytjuhjal og mælgin mín mér til falls koma ætti, en, Jesú, blessuð þögnin þín það allt fyrir mig bætti. Skylda mín aftur er eftir að breyta þér, þegjandi í þýðri trú þola nær líð ég nú, þörf er ég þess vel gætti. 7. Pílatus meinti mannvitsslægð mundi óbrigðul standa, koma vill því með kænskunægð kóng Heródi í vanda. Kunna þá aðferð enn allmargir veraldarmenn. Bið Guð og gæt þín vel, gjarn er heimur á vél. Gálausum svikin granda. 8. Krossgangan, Jesú, þessi þín þar fyrir eflaust skeði svo hvílast mætti sála mín sætt í eilífri gleði. Embættisómak langt oft þó mér finnist strangt, til lofs og þóknunar þér það vil ég gjarnan hér líða með ljúfu geði. .................Amen ] [ Um Heródis forvitni og hvíta klæðið 1. Þegar Heródes herrann sá hann varð mjög glaður næsta. Af honum heyrt hafði og helst vill fá hans ásýnd líta glæsta. Forvitinn mörgu frétti að, fýsn holdsins kapp á lagði með byrstu bragði. Jesús tók ekki undir það, við öllum spurningum þagði. 2. Margir finnast nú hér í heim Heródis líkar réttir. Guðs orð er skemmt og gaman þeim sem glens eða nýjar fréttir. Holdsins forvitni hnýsir þrátt í herrans leyndardóma með fýsn ei fróma. Aumri skynsemi ætla of hátt aldrei til skilnings koma. 3. Mannvitsforvitni og menntaglys margir þá vilja reyna. Að orði drottins gjöra gys, gaman loflegt það meina. Varastu, sál mín, vítin reynd, virtu í hæsta gildi þá mestu mildi. Alvarlega með góðri greind Guð við þig tala vildi. 4. Guð gjörir ekki að gamni sér glæpamönnum að hóta. Kallsmælgi honum og engin er að þú megir miskunn hljóta. Auðmjúklega með allri gát áttu um slíkt að ræða og fleiri fræða, en af þér heyrast aldrei lát orð drottins skulir þú hæða. 5. Heyri ég um þig, minn herra, rætt í hjálpræðisorði þínu, allt sýnist mér þá búið og bætt bölið í hjarta mínu. Í sakramentinu sé ég þig svo sem í líking skærri með náð mér nærri. Ó, hvað gleður sú ásýnd mig, engin finnst huggun stærri. 6. Heródis fýsn var holdleg sú, hann réð forvitnin ginna, en mín sála af ást og trú andvarpar þig að finna. Lofsamleg er sú lukkustund þá lít ég þig, herrann þýði, í þinni prýði. Gef mér loksins þann fagnaðarfund þó fyrst um sinn hér bíði. 7. Það kennir herrans þögnin fróm þar næst í annan máta: Hann vill ei sínum helgidóm fyrir hunda kasta láta. Drottinn forsmáir drambsamt geð, dárlega margs þó freisti og frekt sér treysti. Hugstoltum niður hrinda réð, hógværa sál við reisti. 8. Heródes og hans hoffólk lítt um herrann akta vildi, færði hann í eitt fatið hvítt, forsmán það heita skyldi. Til Pílatum síðan sendur var. Svo komst í friðarstilli ofstopinn illi. Drambsöm öfundin áður bar óvinskap þeirra á milli. 9. Hvítt klæði gjörði háðung þér, herra minn, Jesú sæti, dýrðarskrúða svo skenktir mér, skínandi Guðs réttlæti. Sakleysismerki þetta þitt þíns föður gæskan hreina þá þekkti alleina. Hann sér og prófar hjartað mitt, hvað sem illgjarnir meina. 10. Heilagra sálna hópur skær á himnum með skikkun fríða til heiðurs þér, Jesú, herra kær, hvítum klæðum sig skrýða. Eins hér á jörðu upp frá því, eflaust í minning slíka með röksemd ríka, birtust snjóhvítum búning í blessaðir englar líka. 11. Veittu, Jesú, þá miskunn mér, meinleysis skrýddur klæði, þjóni ég tállaust í tryggðum þér með trú, von og þolinmæði. Réttlætisskrúða skartið þitt skíni á sálu minni þó líf hér linni. Eins láttu holdið einnig mitt afklæðast þrjósku sinni. 12. Forlíkast gjörðu fjandmenn tveir þá fórstu þar, Jesú, milli. Ég veit mér gefst því miklu meir miskunn og friðarstilli. Hjá Guði föður svo til sanns sést engin reiði lengur né styggðarstrengur. Daglega milli mín og hans minn trúr frelsari gengur. 13. Hvar sem ófriður hreyfir sér af holdsins veikleik bráðum millum kristinna manna hér móti Guðs vilja og ráðum, gakktu þar, Jesú, milli mest með þínum friðaranda og varna vanda. Hjálpa þú svo vér hugsum best í hreinum kærleik að standa. ................Amen ] [ Um krossfestingarhróp yfir Kristó 1. Frá Heróde þá Kristur kom kallar Pílatus snjöllum róm Gyðingalýð og ljós gaf rök, lausnarinn hefði enga sök, samþykkur væri og sér til þess sjálfur kóngurinn Heródes. 2. Sannlega drottinn sakleysið sér, elskar bæði og styrkir með. Hjarta og munnur hvers eins manns hlýtur að þjóna vilja hans. Málefnið gott fær góðan róm. Gæt þess, mín sál, og vertu fróm. 3. Siður Gyðinga sá var þá, sakamann einn þeir skyldu fá um páskatímann frá píslum frí, Pílatus átti að gegna því, í frelsisminning úr Egyptó. Aldrei bauð drottinn svoddan þó. 4. Sjá til, mín sál, að siðvaninn síst megi villa huga þinn, forðast honum að fylgja hér framar en Guðs orð leyfir þér. Góð minning enga gjörir stoð, gilda skal meira drottins boð. 5. Pílatus Júðum sagði svo: Sjáið nú glöggt um kosti tvo. Ég býð hér Jesúm yður fram eða morðingjann Barrabam. Hann meinti yrði helst með því herrann frá dauða gefinn frí. 6. Þú færð nú glöggt af þessu séð, þar sem drottinn er ekki með í verki, áformi og vilja manns verða til einskis ráðin hans. Sérviska holdsins svikul er svo sem Pílatum skeði hér. 7. Yfirmennirnir allra fyrst óskuðu að drottinn krossfestist. Almúgann svo í annan stað eggjuðu mest að biðja um það. Barrabas útlausn skyldi ske, skilinn Jesús frá lífi sé. 8. Veraldardæmin varast skalt. Voga þú ekki að gjöra það allt sem höfðingjarnir hafast að þó heimurinn kalli loflegt það. Þá blindur leiðir blindan hér báðum þeim hætt við falli er. 9. Hver þig eggjar á illverk bráð, aldrei gakktu með þeim í ráð. Vinn þú það ei fyrir metorð manns að missa Guðs náð og vinskap hans. Hvorugur annars bætir böl þó báðir rati í straff og kvöl. 10. Yfirmönnunum er því vant, undirsátarnir hnýsa grannt eftir því sem fyrir augun ber, auðnæmast þó hið vonda er. Hvað höfðingjarnir hafast að hinir meina sér leyfist það. 11. Ill eftirdæmi á alla grein eru samlíkt við mylnustein. Viljir þú vera af fári frjáls festu hann aldrei þér við háls. Í Guðs ótta frá þér glæpum hrind. Góð vertu öðrum fyrirmynd. 12. Húsfrú Pílatí holl gaf ráð. Hefði hann betur að því gáð. Góðar kvinnur þess gæti mest, gjarnan ástundi dæmin best. Abígail fær æru og sæmd, illa Jessabel verður ræmd. 13. Set ég það nú í sinni mér, sæti Jesú, að gá að þér. Allir hrópuðu allt um kring yfir þig dauða og krossfesting. Sem lamb meinlausast þagðir þú. Þar af stendur mér huggun trú. 14. Lögmálsins bölvan bitur og sterk, banvænn djöfull og öll mín verk þó hrópa vilji nú hvert um sig hefnd og fordæming yfir þig, nýt ég, minn Jesú, þín í því, frá þeirra klögun verð ég frí. 15. Áfellisdómsins ógnahróp, ystu myrkranna vein og óp aldrei mun koma að eyrum mín. Eyrun blessuð því heyrðu þín kalls og háreysti kringum þig, frá kvöl og angist það frelsti mig. 16. Hrópar nú yfir mér himinn og jörð helgun, frið, náð og sáttargjörð. Hvort sem ég geng nú út eða inn í þínu nafni, Jesú minn, bænarhróp mitt í hreinni trú himneskum Guði þóknast nú. 17. En þér til heiðurs alla tíð englar drottins og kristnin fríð hrópar nú bæði á himni og jörð hósanna, lof og þakkargjörð. Amen segir og upp á það önd mín glaðvær í hverjum stað. .............Amen ] [ Um Kristí húðstrýking 1. Pílatus herrann hæsta húðstrýkja lætur þar. Nakinn við stólpann stærsta strengdur þá Jesús var, stríðsmenn með svipum hröktu hann. Sál mín, hér sjá og skoða hvað sonur Guðs fyrir þig vann. 2. Helgasta holdið fríða frá hvirfli iljum að drottni varð sárt að svíða, svall allt af benjum það. Hver hans líkamalimur og æð af sárum sundur flakti. Sú hirting mjög var skæð. 3. Blessaður dreyrinn dundi drottins lífsæðum úr, sem regn það hraðast hrundi himins í dimmuskúr. Blánaði hold en bólgnaði und. Sonur Guðs sárt var kvalinn saklaus á þeirri stund. 4. Ég var sem fjötrum færður fangelsi þungu í, á önd og samvisku særður, syndin mín olli því. Sú dauðleg sálarsóttin hér um hverja æð út sér dreifði. Ekkert fannst heilt á mér. 5. Svipan lögmálsins lamdi líf og sál heldur frekt. Óttinn kvalanna kramdi, kominn var ég í sekt. Banvænlegt orðið mitt var mein, hjartað af hryggðum stundi, hvergi fékkst lækning nein. 6. Sástu þá, Jesú sæli, sár mín óbærileg. Til lausnar þínum þræli því léstu binda þig. Gekkst svo undir þá grimmdarkvöl að ég kvittaður yrði við eilíft hryggðarböl. 7. Sjúkdóm minn sjálfur barstu, svo varð ég heill með því. Hörmungum hlaðinn varstu, frá hryggðum er ég nú frí. Hegning þú leiðst svo hefði ég frið. Benjar þínar mér bættu, bót sú þar átti við. 8. Hræðslan vill hjartað krenkja með hörðum sorgarsting þegar ég gjöri að þenkja um þína húðstrýking. Aví, ég gaf þar efni til. Þú einn galst þrjósku minnar, þess nú ég iðrast vil. 9. Því fell ég nú til fóta, frelsarinn Jesú, þér. Láttu mig nafns þíns njóta, náð og vægð sýndu mér. Ég skal með hlýðni heiðra þig nú og um eilífð alla, þá huggar þú, herra, mig. 10. Gleðstu, mín sál, mig græddi Guðs sonar heilagt blóð. Þó synd og sorgin mæddi, sjá hér er lækning góð. Náð fyrir reiði nú er vís. Brot þrælsins herrann bætti, bar því síns föður hrís. 11. Skoða þú skyldu þína skýrlega, sál mín, nú. Sonur Guðs sig lét pína svo læknuð yrðir þú. Heilbrigð þjóna þú honum rétt með trú, hollustu og hlýðni. Haf gát á þinni stétt. 12. Þóknist honum að þjaka þitt hold örkumslum með, þýðlega því skalt taka. Þolinmótt hjartageð á sér drottinn og elskar best. Lausnara að líkjast þínum lof er þér allra mest. 13. Ekkert má sóma síður, síkátur þrællinn er þá herrann hörmungar líður. Haf slíkt í minni þér. Hryggðarmynd hans er heiður þinn. Lát mig það læra og halda, ljúfasti Jesú minn. ..............Amen ] [ Um purpuraklæðið og þyrnikórónuna 1. Illvirkjar Jesúm eftir það inn í þinghúsið leiddu, afklæddu fyrst og fljótt þangað fólkið allt koma beiddu. Purpuraklæðis forna flík, fást mátti varla háðung slík, yfir hans benjar breiddu. 2. Helgunarklæðið hafði ég misst, hlaut því nakinn að standa. Adam olli því allra fyrst, arf lét mér þann til handa. Syndanna flík ég færðist í, forsmán og minnkun hlaust af því með hvers kyns háska og vanda. 3. Burt tók Jesús þá blygðun hér, beran því lét sig pína. Réttlætisklæðnað keypti mér, kann sá fagurt að skína. Athvarf mitt jafnan er til sanns undir purpurakápu hans. Þar hyl ég misgjörð mína. 4. Þyrnikórónu þungri þeir þrengdu að herrans enni. Báleldi heitum brenndu meir broddar svíðandi í henni. Augun hans bæði og andlit með allt í blóðinu litast réð. Slíkt trúi ég kvala kenni. 5. Fyrir óhlýðni Adams var öll jörðin lýst í banni. Ávöxt því slíkan af sér bar, orð Guðs trúi ég það sanni. Þessum bölvunar þyrnikrans þrengt var að höfði lausnarans til huggunar hrelldum manni. 6. En Jesú hlýðni aftur hér allri jörð blessun færir. Heilnæman ávöxt hún því ber, hverja skepnu vel nærir. Fyrir gæskunnar gjörning þann gjarnan lofi og prísi hann hvað sig um heiminn hrærir. 7. Bölvan mér yfir höfði hékk hótuð í lögmálsbræði, en Jesús hana undir gekk svo aftur ég blessun næði. Guð minn kórónu gaf mér þar gæsku og dýrðar eilífrar hér og á himnum bæði. 8. Reyrstaf honum í hönd með spé hirðstjórans þrælar fengu. Heilsuðu kóngi og krupu á hné, kallsorð á víxl þá gengu. Reyrnum hröktu um höfuð hans, hræktu í andlit lausnarans með kvala kappi ströngu. 9. Þá þú gengur í Guðs hús inn gæt þess vel, sál mín fróma, hæð þú þar ekki herrann þinn með hegðun líkamans tóma. Beygðu holdsins og hjartans hné, heit bæn þín ástarkveðja sé. Hræsnin mun síst þér sóma. 10. Sjálfs míns verðskuldan sé ég hér, svoddan átti ég að líða um eilífð þá sem aldrei þverr með ógn og sárum kvíða, hefði mér ekki háðung þín hjálpað, Jesú, frá þeirri pín. Blessað sé nafn þitt blíða. 11. Öll þín læging er upphefð mín, ástkæri Jesú mildi. Heiður er mér að háðung þín, hver sem mér niðra vildi. Höggin sem leiðstu hressa mig, á himnum verð ég nú fyrir þig metinn í mesta gildi. 12. Meðan lífsæð er í mér heit ég skal þig, drottinn, prísa, af hjartans grunni í hverjum reit heiður þíns nafns auglýsa. Feginn vil ég í heimi hér hlýða og fylgja í öllu þér. Lát mér þína liðsemd vísa. ............Amen ] [ Um útleiðslu Kristí úr þinghúsinu 1. Landsdómarinn þá leiddi lausnarann út með sér, Gyðingum andsvör greiddi glögglega og svo tér: Þér sjáið þennan hér. Sannlega yður ég segi, sök finnst með honum eigi sem dauðadóms verð er. 2. Þá gekk Jesús út þannig, þyrni og purpurann bar. Sagði: Sjáið hér manninn, sjálfur dómarinn þar. Gyðingar gáfu svar: Burt með hann, svo þeir segja, sá skal á krossi deyja. Ósk þeirra ein sú var. 3. Orð og afsökun gilti engin í þessum stað, heiftin svo hugann fyllti, hjartað varð forblindað. Síðast þeir sögðu það, ljóslega lífsstraffs krefði lögmálið því hann hefði gjört sig Guðs syni að. 4. Rétt lög sem rituð finnast rangfærðu Júðar hér. Oss ber þar á að minnast, ill dæmi forðumst vér, dómurinn drottins er, hinn þó með heiftum klagi og hreinan sannleik aflagi. Sjái valdsmenn að sér. 5. Þá ég heyri, minn herra, hversu þú kvalinn varst, gjörvöll vill gleðin þverra, galstu mín næsta hart því ég braut mikið og margt. En þá mér guðspjöll greina glöggt þitt sakleysið hreina, hjartað fær huggun snart. 6. Athuga, sál mín, ættum útgöngu drottins hér svo við rétt minnast mættum hvað miskunn hans veitti þér. Hyggjum að hann út ber þyrnikórónu þétta, þar með purpurann létta, blár og blóðugur er. 7. Með blóðskuld og bölvan stranga, beiskum reyrð kvalahnút áttum við greitt að ganga frá Guðs náð rekin út, hrakin í heljarsút, íklædd forsmánarflíkum, fráskúfuð drottni ríkum, nakin og niðurlút. 8. Ó synd, ó syndin arga, hvað illt kemur af þér? Ó, hversu meinsemd marga má drottinn líða hér? Þitt gjald allt þetta er. Blindað hold þig ei þekkti þegar þín flærð mig blekkti. Jesús miskunni mér. 9. En með því út var leiddur alsærður lausnarinn gjörðist mér vegur greiddur í Guðs náðarríki inn og eilíft líf annað sinn. Blóðskuld og bölvan mína burt tók Guðs sonar pína. Dýrð sé þér, drottinn minn. 10. Út geng ég ætíð síðan í trausti frelsarans undir blæ himins blíðan blessaður víst til sanns. Nú fyrir nafnið hans út borið lík mitt liðið leggst og hvílist í friði, sál fer til sæluranns. 11. Dýrðarkórónu dýra drottinn mér gefur þá. Réttlætisskrúðann skíra skal ég og líka fá upprisudeginum á, hæstum heiðri tilreiddur, af heilögum englum leiddur í sælu þeim sjálfum hjá. 12. Svo munu Guðs englar segja: Sjáið nú þennan mann sem alls kyns eymd réð beygja áður í heimsins rann, oft var þá hrelldur hann. Fyrir blóð lambsins blíða búinn er nú að stríða og sælan sigur vann. 13. Þá muntu, sál mín, svara syngjandi fögrum tón: Lof sé mínum lausnara. Lamb Guðs á hæsta trón sigur gaf sínum þjón. Um blessaðar himnahallir honum segjum vér allir heiður með sætum són. 14. Son Guðs ertu með sanni, sonur Guðs, Jesú minn. Son Guðs, syndugum manni sonararf skenktir þinn, son Guðs, einn eingetinn. Syni Guðs syngi glaður sérhver lifandi maður heiður í hvert eitt sinn. .........Amen ] [ Samtal Pílatí við Kristum 1. Hér þá um Guðs son heyrði heiðinn landsdómari, hann spyr, því hræðast gjörði, hvaðan vor drottinn sé. En Jesús þýður þagði, það og vel maklegt var. Pílatus brátt að bragði byrstist og aftur sagði: Viltu ei veita svar? 2. Mín er, það máttu játa, maktin svo tignarleg. Ég má vel lausan láta og líka krossfesta þig. Jesús svarar og segir: Síst áttu vald á mér ef þér væri það eigi að ofan gefið svo megir heiðri þeim halda hér. 3. Sá hefur synd enn meiri er seldi mig þér í hönd. Pílatus hygg ég það heyri, hann grundar efnin vönd. Gjörði strax griða að leita, gáfu prestarnir ans: Vægð ef þessum vilt veita, víst máttu ekki heita kær vinur keisarans. 4. Heiðingjar halda gjörðu hjáguðir þeirra senn börn ættu alin á jörðu eins og holdlegir menn. Hann óttast hér ef væri herrann goðanna kyns, hugði því helst að bæri, hentuglega fram færi rannsókn réttdæmisins. 5. Skurðgoð sín heiðnir héldu hafandi í mestu akt, forgefins hug sinn hrelldu, hræddir við þeirra makt. Ó, hversu framar ætti einn sérhver kristinn mann óttast drottins almætti með ást og blygðunarhætti sem stoltum steypa kann. 6. Af stórri makt sig réð stæra stoltur Pílatus hér. Rétt mál til rangs að færa reiknaði leyfilegt sér. Kann vera margan megi meining sú villa þrátt, þó lögin brjóti og beygi bannað sé þeim það eigi, fyrst vald þeir hafa hátt. 7. Guð er sá völdin gefur, gæti þess æðri stétt. Sitt léni hver einn hefur hér af drottni tilsett. Hann lét þig heiður hljóta, heiðrast því af þér vill. Virðingar vel mátt njóta, varastu drambsemi ljóta, róg og rangindin ill. 8. Yfirvald einn Guð sendi, undirmenn gái þar að. Sverð drottins hefur í hendi, heiðra skulum vér það, hlýðugir friði halda, hlífð og forsvari ná. Þverlyndisþrjóskan kalda þunglegri hefndargjalda að vísu sér vænta má. 9. Eins sem hver einn misbrýtur eftir því straffast hann. Harðari hefndir hlýtur hinn, sá meira til vann. Þeim mun ei plágan þverra sem þrjóskast í illskurót. Sá þjón á von hins verra sem vilja þekkir síns herra, þó gjörir þvert á mót. 10. Varðveiti valdsmenn alla vor Guð í sinni stétt svo varist í vonsku að falla, vel stundi lög og rétt. Hinir í hlýðni standi, hver svo sem skyldugt er. Hrein trú og helgur vandi haldist í voru landi. Amen, þess óskum vér. ..............Amen ] [ Pílatí samtal við Gyðinga á dómstólnum 1. Pílatus heyrði hótað var honum keisarans reiði þar. Út leiddi Jesúm annað sinn, upp sest þegar á dómstólinn. 2. Gyðingum síðan sagði hér: Sjáið, þar yðar kóngur er. Þeir báðu: Tak þennan burt frá oss. Bráðlega lát hann deyja á kross. 3. Skal ég krossfesta kóng yðvarn? kallar Pílatus hæðnisgjarn. Engan kóng, segja þeir aftur hér, utan keisarann höfum vér. 4. Guðspjallshistorían hermir frá heiti sá staður Gabbatá. Háa steinstræti þýðir það. Þar máttu, sál mín, gæta að. 5. Vei þeim dómara er veit og sér víst hvað um málið réttast er. Vinnur það þó fyrir vinskap manns að víkja af götu sannleikans. 6. Pílatus keisarans hræddist heift ef honum yrði úr völdum steypt. Þetta sem helst nú varast vann varð þó að koma yfir hann. 7. Ó, vei þeim sem með órétt lög umgangast og þau tíðka mjög, sannleiknum meta sitt gagn meir. Svívirðing Drottni gjöra þeir. 8. Huga sný ég og máli mín, minn góði Jesú, enn til þín. Pílatus kóng þig kallar hér. Krossfesting Júðar óska þér. 9. Víst ertu, Jesú, kóngur klár, kóngur dýrðar um eilíf ár, kóngur englanna, kóngur vor, kóngur almættis tignarstór. 10. Þó stóðstu bundinn þar fyrir dóm, þó leiðstu hróp og kvalaróm. Afsegja gjörðu allir þig. Undrar stórlega þetta mig. 11. Ó Jesú, það er játning mín: Ég mun um síðir njóta þín þegar þú, dýrðar drottinn minn, dómstól í skýjum setur þinn. 12. Frelsaður kem ég þá fyrir þinn dóm, fagnaðarsælan heyri ég róm. Í þínu nafni útvaldir útvalinn kalla mig hjá sér. 13. Kóng minn, Jesú, ég kalla þig, kalla þú þræl þinn aftur mig. Herratign enga að heimsins sið held ég þar mega jafnast við. 14. Háa steinstrætið heimsins sleipt hefur mér oft í vanda steypt. Þangað lét Jesús leiða sig svo líknin hans kæmi yfir mig. 15. Jesú, þín kristni kýs þig nú. Kóngur hennar einn heitir þú. Stjórn þín henni svo haldi við, himneskum nái dýrðarfrið. .......................Amen ] [ Um Pílatí rangan dóm 1. Pílatus sá að sönnu þar sín ráð máttu ei gilda par. Upphlaup sér búið hræddist hann, hugði að stilla vanda þann. Fullnægja vildi fólksins bón, fá skyldi Jesús dauðans tjón. Sannleika engum sinnti meir, svo dæmdi allt sem beiddu þeir. 2. Hendur í vatni þá nam þvo, þar næst við Júða mælti svo: Sjálfir um yður sjái þér, saklaus við réttlátt blóð ég er. Allur almúginn upp á það andsvarar greitt í þessum stað: Hans blóð þó nú hann kvelji kross, komi yfir börnin vor og oss. 3. Pílatus hafði prófað þar píslarsök drottins engin var. Fyrir og eftir eins réð hann úrskurða Jesúm saklausan, þó mót samvisku sinni þvert sjálfur viljandi dæmdi bert. Guð gefi að yfirvöldin vor varist þau dæmin glæpa stór. 4. Hvað margur nú í heiminum hér fyrir lastar Pílatum sem þó elskar og iðkar mest athæfið hans og dæmin verst. Óttinn í dómi oft fær sess, yfirherrarnir njóta þess. Almúgans hrósun olli því, illgjarnir skálkar hlaupa frí. 5. Ábatavon og vinahót verkin dylja þó séu ljót. Líka kemur sú fordild fram sem forsvarað getur Barrabam. Gefst þá raunin hvað gilda skal gulltungan sú sem Akan stal. Máske og þiggi mútur hinn meir en Pílatus þetta sinn. 6. Ég spyr hvað veldur, ódyggð flest eykst nær daglega og fjölgar mest? Umsjónarleysi er orsök hæst, eigin gagnsmunir þessu næst. Miskunn sem heitir skálkaskjól skyggnist eftir um fánýtt hól. Óttinn lögin svo þvingar þrátt, þora þau ekki að líta hátt. 7. Fyrir fólkinu þegar þar þvoði Pílatus hendurnar, fyrir Guði sér þann gjörði grun, gilda mundi sú afsökun. Varastu, maður, heimsku hans. Hér þó þú villir sjónir manns, almáttug drottins augsýn skær allt þitt hjarta rannsakað fær. 8. Viltu þig þvo þá þvo þú hreint þel hjartans bæði ljóst og leynt. Ein laug er þar til eðlisgóð, iðrunartár og Jesú blóð. Grát þína synd en set þitt traust á sonar Guðs pínu efalaust. Lát af illu en elska gott, allan varastu hræsnisþvott. 9. Blóðshefnd á sig og börn sín með blindaður lýður hrópa réð. Efldist svo þessi óskin köld, enn í dag bera þeir hennar gjöld. Athugagjarn og orðvar sért, einkum þegar þú reiður ert. Formæling illan finnur stað, fást mega dæmin upp á það. 10. Drottinn Jesú, sem dæmdur varst, dómari kemur þú aftur snart. Dómsmenn láttu til dýrðar þér dómana vanda rétt sem ber. Þvo þú vor hjörtu og hendur með. Hrein trú varðveiti rósamt geð. Þitt blóð flekklaust sem flóði á kross, frelsi það börnin vor og oss. .................Amen ] [ Um Barrabas frelsi 1. Seldi Pílatus saklausan son Guðs til krossins dauða. Upphlaupsmaður sá víg eitt vann, þá frelsi fann, fékk líf en missti nauða. 2. Í myrkvastofu sá bundinn beið, Barrabas frá ég hann heiti. Má hér finnast ein merking greið um mannkyns neyð mjög skýr að öllu leyti. 3. Barrabas frá ég að föður og nið flestir lærðir menn þýði. Adam líkist þar eflaust við og allt hans lið sem á féll dauðans kvíði. 4. Upphlaupsmaður hann orðinn var þá eplið í munn sér leiddi. Sjálfs Guðs boðorði sinnti ei par og síðan þar sig og allt mannkyn deyddi. 5. Í djöfuls fjötrum fastur lá fanginn til eilífs dauða. Allir hans niðjar út í frá með eymd og þrá áttu von kvala og nauða. 6. Hér þá Jesú var helið kalt af heiðnu dæmt yfirvaldi, fékk Adam sjálfur frelsið snjallt og fólk hans allt sem fagnar því lausnargjaldi. 7. Nú fyrst ég Adams niðji er, nær mér gengur það dæmi. Sál mín, set slíkt fyrir sjónir þér og sjáðu hér sannferðugt lærdómsnæmi. 8. Ó, hvað oft hef ég aumur gjört uppreisn mót drottins anda. Daglega því hans boðorð bert svo braut ég þvert, mér bar þó í hlýðni að standa. 9. Mun ég ekki við manndráp frí, mína sál þrátt ég deyddi. Ill dæmin gáfust af mér ný og nauðir í náungann þar með leiddi. 10. Ófrægður er ég orðinn mest, allar skepnur það sanna. Fáráðum ekkert forsvar sést, fangelsið verst fyrir því hlýt ég að kanna. 11. Í myrkvastofu ég bundinn bíð, bölvan lögmáls mig hræðir. Dapurt nálægist dauðans stríð og dómsins tíð, daglega sorgin mæðir. 12. Heyri ég nú þann hjálparróm að hafir þú, Jesú mildi, fyrir mig liðið líflátsdóm. Þín líknin fróm lausan mig kaupa vildi. 13. Sú heilaga aflausn hryggð og sút af hjarta mínu greiðir. Syndanna leysir hlekkjahnút og hér með út úr hörðu fangelsi leiðir. 14. Hvað dauðasaknæmt sást á mér, svoddan miskunn ég þekki, til dauða allt var dæmt á þér, minn drottinn, hér. Dóminum kvíði ég því ekki. 15. Líf mitt og sál þig lofar nú leyst frá dauðans fangelsi. Ég lifi eða dey, það er mín trú óbrigðul sú, í þínu, Jesú, frelsi. 16. Himneskri páskahátíð á hef ég nú þess að bíða. Myrkvastofunni frelstur frá ég fagna þá í flokki útvaldra lýða. 17. Svo er nú Barrabas orðinn frí, Adam og ég, hans niðji. Hver kristin sála heimi í vorn herra því heiðri, lofi, tilbiðji. ..........Amen ] [ Um Kristí krossburð 1. Stríðsmenn Krist úr kápunni færðu og klæddu hann sínum búning í. Sollnar undir sárt við hrærðu, þær sviðu og blæddu upp á ný. Á blessuðu sínu baki særðu hann bar sinn kross og mæddist því. 2. Skeði svo á samri stundu, Símon nokkurn bar þar að, framandi maður er gekk um grundu, gripu Júðar þann í stað. Krossinum á hans herðar hrundu en hann gekkst nauðugur undir það. 3. Þeir sem, sál mín, syndir drýgja samviskunni þvert á mót undir drottins endurnýja ef ekki gjöra á löstum bót. Við skulum frá þeim flokki flýja og fyrirgefningar biðja af rót. 4. Upp á heimsins óþakklæti er hér dæmi ljóst til sanns. Margan læknaði son Guðs sæti sjúkan meðal almúgans. Nú var ei neinn sá bölið bæti og bæri með honum krossinn hans. 5. Símon bæði og syni hans báða sjálf hér nefnir historían, því guðhræddur skal njóta náða og niðjar margir eftir hann. Miskunnsemd við menn fáráða minnast Guð og launa kann. 6. Framandi maður mætti Kristi, með honum bar hans þunga kross. Hér má finna, hvern það lysti, hreina þýðing upp á oss. Gyðingafólk þá Guðs náð missti, gafst heiðingjum dýrðarhnoss. 7. Syndaundir ýfist mínar oft á hverri stundu nær, samviskunnar sár ei dvínar, sviðameinið illa grær. Blessaðar, Jesú, benjar þínar bið ég mýki og lækni þær. 8. Þessi krossins þunga byrði þér var, drottinn, lögð á bak svo fyrirmyndin fyllt sú yrði þá fórnarviðinn bar Ísak. Sá þinn gangur sorga stirði af sálu minni tók ómak. 9. Minnist ég á þjáning þína, þig sú mæddi byrðin stríð. Sannlega fyrir sálu mína svoddan leið þín gæskan blíð. Vegna þess mér virstu að sýna vorkunnsemi nær ég líð. 10. Hold er tregt, minn herra mildi, í hörmungunum að fylgja þér. Þó ég feginn feta vildi fótspor þín sem skyldugt er, viljinn minn er í veiku gildi, þú verður því að hjálpa mér. 11. Elskugeð svo þitt ég þekki þjáðum viltu sýna lið. Láttu mig, drottinn, einan ekki í ánauð minni og þess ég bið, nafnið mitt þó nauðir hnekki náð þín blessuð kannist við. 12. Komir þú undir krossinn stranga, kristin sála, gæt þess hér, ef holdið tekur að mögla og manga minnstu hver þín skylda er. Láttu sem þú sjáir ganga sjálfan Jesúm undan þér. 13. Undir krossi illvirkjanna aldrei hér þig finna lát. Varast glæpi vondra manna, á verkum þínum hafðu gát. Iðkaðu bæn og iðrun sanna, elska gjarnan hóf og mát. 14. Hafðu, Jesú, mig í minni, mæðu og dauðans hrelling stytt. Börn mín hjá þér forsjón finni, frá þeim öllum vanda hritt. Láttu standa á lífsbók þinni líka þeirra nafn sem mitt. ................Amen ] [ Prédikun Kristí fyrir kvinnunum 1. Fólkið sem drottni fylgdi út fylltist margt angri hörðu. Kvinnurnar grétu sárt með sút sem hans kvöl aumka gjörðu. 2. Sneri til þeirra son Guðs sér, sagði þá herrann mætur: Grátið þér ekki yfir mér, ó, Jerúsalems dætur. 3. Sona yðar og eigin eymd eflaust þér gráta megið. Nálgast sú tíð sem nú er geymd, nær þér harmandi segið: 4. Sæl nú óbyrjan barnlaus er og brjóst þau ei sogin voru. Hrynji yfir oss hálsarnir, hæðir og björgin stóru. 5. Ef gjört er svo því græna tré, geta hver til þess næði, hvað hið þornaða þá mun ske, það frá ég Jesús ræði. 6. Ó, hvað veraldar virðing er völt og svikul að reyna. Gæt þess, mín sál, og sjáðu hér sannprófað dæmið eina. 7. Á pálmasunnudag sjálfur inn son Guðs í borg nam ríða. Ástvinir hans það sama sinn sungu lof án alls kvíða. 8. Fám dögum síðar sjálfur út særður með kross nam ganga. Það hlutu hans vinir að sjá með sút, sorg hjartans báru stranga. 9. Hafi svo verið völt og flá veröldin herra sínum, hvers má sér vænta þrællinn þá? Þess gæt í huga þínum. 10. Þeim sem hún býður blíðleik sinn búin er sorgin mesta. Hirtu því aldrei huga þinn við hana, mín sál, að festa. 11. Sannlega skyldugt segi ég mér sára þá kvöl að gráta sem, drottinn Jesú, þungt að þér þrengdi í allan máta. 12. Samt er þér ekki þént með því þó ég þig aumka vildi. Eilífa hátign ertu í upphafinn, Jesú mildi. 13. Þar má nú heldur aukast af angur samvisku minnar, orsök ég til og efni gaf allrar hörmungar þinnar. 14. Erfiði hef ég aukið þér of þungt með syndum mínum. Glæpanna sem ég gjörði hér galstu á holdi þínu. 15. Hræðist ég mér sé hulin geymd sú hefnarpínan stranga, því ég vann til að eilíf eymd yfir mig skyldi ganga. 16. En þó gleð ég mig aftur við ávöxtinn kvala þinna. Þar af öðlast ég frelsi, frið og forlát synda minna. 17. Angistin sár og sorgarlát er sál helst þjáði mína, snýst í fögnuð og fegingrát fyrir þá miskunn þína. 18. Bið ég nú, Jesú blíði, þig, sem bót mér gjörðir vinna: Lát engan gjalda eftir mig illsku né synda minna. ...........Amen ] [ Um það visnaða og græna tréð 1. Greinir Jesús um græna tréð, getur hins visna einnig með. Við skulum, sál mín, skoða á ný skýran lærdóm í máli því. 2. Frjóvgunareikin vökvuð, væn, vel blómguð stóð með laufin græn þegar á jörðu sást til sanns son Guðs íklæddur holdi manns. 3. Lífsins ávöxtu ljúfa bar, læknaði Jesús sóttirnar. Frá djöfli leysti og dauðans pín, daufum gaf heyrn en blindum sýn. 4. Af hverri grein draup hunang sætt, hjálpræðiskenning fékk hann rætt. Öll hans umgengni ástúðleg angraðar sálir gladdi mjög. 5. Guði var þekkt það græna tréð, glöddust himnar og jörðin með. Í hans fæðing það vitnast vann og við Jórdan þá skírðist hann. 6. Réttlætis allan ávöxt bar, inn til krossdauða hlýðinn var, saklausa lambið, son Guðs einn, af synd og lýtum klár og hreinn. 7. Þó mátti ei það eðla tré angurlaust vera á jörðunni. Guðs reiðistormur geisa vann, gekk því refsingin yfir hann. 8. Ef þú spyrð að hvað valda vann, vildi Guð láta saklausan soninn komast í sorgir þær, sem honum þó var hjartakær. 9. Þú skalt vita að visnað tré var mannkyn allt á jarðríki. Ofan að rótum uppþornað ávöxt ranglætis færði það. 10. Skaðsemdartréð sem skemmdi jörð skipaði drottins reiði hörð upphöggva svo það ekki þar akrinum sé til hindrunar. 11. Vor Jesús mönnum vægðar bað, vinnast mátti ei að fengist það, utan hann tæki upp á sig illvirkjagjöldin hryggileg. 12. Herrann íklæddist holdi þá, hingað kom til vor jörðu á. Visnaðri eik gafst vökvan góð þá varð úthellt hans dýra blóð. 13. Saklaus því leið hann sorg og háð syndugt mannkyn svo fengi náð. Hið græna tréð var hrakið og hrist, hér af það visna blómgaðist. 14. Guðs dýrðarsæti sitt hold í sonurinn mátti ei hefja því fyrr en í heimi harða neyð hafði þolað og krossins deyð. 15. Ó, hvað manns hold er heimsku fyllt, hræðilega úr máta villt. Viljandi í löstum liggur það, leikur sér alls kyns glæpum að. 16. Margir ætla fyrst ekki strax á fellur hefndin sama dags, drottinn þá aldrei muni meir minnast á það sem gjörðu þeir. 17. Því góða trénu þyrmt var síst, þurrum fausk mun þá bálið víst. Hafi faðirinn hirt sinn son, hefndar mun þrællinn eiga von. 18. Ef nú Guðs mildin ástsamleg, óhegnda, sál mín, líður þig, hans þolinmæði haltu hér, hjálpræðismeðal gefið þér. 19. Visnað tré ég að vísu er. Vægðu, réttlætisherrann, mér. Gæskunnar eikin græn og fín, geymdu mig undir skugga þín. 20. Von er að mér sé mótkast víst. Mun ég umflýja dauðann síst. Holdið má ei fyrir utan kross eignast á himnum dýrðarhnoss. 21. Tæpti ég mínum trúarstaf á tréð sem drýpur hunang af. Sjón hjartans öllu angri í upplýsist nær ég smakka á því. 22. Þegar mér ganga þrautir nær, þér snú þú til mín, Jesú kær. Hjartað hressi og huga minn himneskur náðarvökvi þinn. .................Amen ] [ Um Kristí krossfesting 1. Kom loks með krossins byrði Kristur í Hausastað. Örþjáður trú? ég hann yrði. Edik galli blandað honum þeir héldu að. Drottinn vor dýrðar mildi drekka þó ekki vildi þá hann smakkaði það. 2. Fals undir fögru máli fordildarhræsnin ber. Vinátta tempruð táli, trúarlaus iðrun hér, edik gallblandað er. Svoddan súrdreggjarvíni þó sjáist glyslega skíni herrann hrindir frá sér. 3. Það tek ég víst til þakka þá þú vilt, drottinn kær, súrt með þér sjálfum smakka. Sé þín miskunnin skær í hverri neyð mér nær. Gallbeiskju bölvaninnar og bikarinn heiftar þinnar burt settu frá mér fjær. 4. Nakinn Jesúm á jörðu Júðar krossfestu þar með heiftarsinni hörðu. Hendur og fæturnar teygt allt og togað var. Gekk svo járngaddur nistur gegnum lófa og ristur, skinn og bein sundur skar. 5. Tveggja morðingja á milli miskunnarherrann hékk. Spádóminn frá ég að fylli sem fyrr meir um það gekk. Ræðir svo ritning þekk. Þjónn minn, sá einn útvalinn, er með spillvirkjum talinn, forsmán mjög þunga fékk. 6. Nú ég minnist á næsta nakinn þá Adam stóð við tréð með hörmung hæsta, hjartasorg, böl og móð, því verk hans voru ei góð. Innvortis angrið kvaldi, undir trjánum sig faldi. Þess galt öll heimsins þjóð. 7. Nú aftur Jesús nakinn negldur á trénu stóð, píndur, húðstrýktur, hrakinn, hjartans bar sáran móð. Þó voru verk hans góð. Einn fyrir engum faldist, opinberlega kvaldist. Þess naut öll heimsins þjóð. 8. Horfi ég á hendur þínar, herra minn, Jesú kær. Fyrir misgjörðir mínar meinin slík liðu þær. Blóðdreyrinn dundi skær. Saurgun sálar og handa sem mér oft kom í vanda af hreint með öllu þvær. 9. Fús var ég fram að halda ferli glæpanna hér. Þess fætur þínir gjalda, það varð til líknar mér. Drottinn, ég þakka þér. Fram á friðarins leiðir fótspor mín jafnan greiðir héðan af hvar ég fer. 10. Guð gæfi að mitt hold mætti með þér krossfestast nú frá öllum illskuhætti. Ósk mín er dagleg sú, minn herra, það veist þú. Upp á það önd mín kynni óhindruð gæsku þinni þjóna með þýðri trú. 11. Einn með illræðismönnum allir þig héldu þá sem í heilagleik sönnum sjálfur komst himnum frá. Nú ég þess njóta má af því ég er útvalinn einn með Guðs börnum talinn, þar treysti ég eflaust á. 12. Ég mun meðan ég hjari minnast á krossinn þinn. Heimsins ljúfi lausnari, lífgar það huga minn. Hvort ég geng út eða inn, af innstum ástargrunni ætíð með huga og munni segjandi hvert eitt sinn: 13. Jesú Kristí kvöl eina á krossinum fyrir mig skeð sé mín sáttargjörð hreina og syndakvittunin, af sjálfum Guði séð. Upp á það önd mín vonar í nafni föður og sonar og heilags anda. ...........Amen. ] [ Það fyrsta orð Kristí á krossinum 1. Þegar kvalarar krossinn á keyra vorn herra gjörðu, flatur með trénu lagður lá lausnarinn niður á jörðu. Andlitið horfði í þeim stað og augun hans blessuð himnum að. Hann stundi af angri hörðu. 2. Sinn faðm allt eins og barnið blítt breiddi mót föðurnum kæra. Blóðið dundi og tárin títt, titraði holdið skæra. Hér skoða, maður, huga þinn, hvað kunni meira nokkurt sinn drottin til hefndar hræra. 3. Óvinum friðar blíður bað brunnur miskunnarinnar. Hann vill þeir njóti einnig að ávaxtar pínu sinnar, sagði: Faðir, þeim fyrirgef þú, forblindaðir ei vita nú sjálfir hvað vont þeir vinna. 4. Lausnara þínum lærðu af lunderni þitt að stilla. Hógværðardæmið gott hann gaf, nær gjöra menn þér til illa. Blót og formæling varast vel, á vald Guðs allar hefndir fel, heift lát ei hug þinn villa. 5. Þótt þú við aðra saklaus sért sannlega skalt þess gæta, samt fyrir Guði sekur ert, sá á frjálst þig að græta. Illir menn eru í hendi hans hirtingarvöndur syndugs manns. Enginn kann þess að þræta. 6. Óvinum ills þó óskir hér, ei minnkar heiftin þeirra, óþolinmæði eykur þér, afrækir boð þíns herra. Þú styggir Guð með svoddan sið, samviskan mjög þar sturlast við. Böl þitt verður því verra. 7. Upplýstu hug og hjarta mitt, herra minn, Jesú sæti, svo að ég dýrðardæmið þitt daglega stundað gæti. Þeir sem óforþént angra mig óska ég helst að betri sig svo hjá þér miskunn mæti. 8. Heimsins og djöfuls hrekkjavél holdið þrálega villa, þess vegna ekki þekki ég vel þó nú margt gjöri illa. Beri svo til ég blindist hér, bið þú þá, Jesú, fyrir mér. Það mun hefnd harða stilla. 9. Ég má vel reikna auman mig einn í flokk þeirra manna sem í kvölinni þjáðu þig, það voru gjöld syndanna. En þú sem bættir brot mín hér, bið þú nú líka fyrir mér svo fái ég frelsun sanna. 10. Fyrst þú baðst friðar fyrir þá er forsmán þér sýndu mesta, vissulega ég vita má, viltu mér allt hið besta, því ég er Guðs barn og bróðir þinn, blessaði Jesú, herra minn. Náð kann mig nú ei bresta. 11. Allra síðast þá á ég hér andláti mínu að gegna, sé þá, minn Guð, fyrir sjónum þér sonar þíns pínan megna, þegar hann lagður lágt á tré leit til þín augum grátandi. Vægðu mér því hans vegna. ...................Amen ] [ Um yfirskriftina yfir krossinum 1. Útskrift Pílatus eina lét yfir krossinum standa: Jesús nefndur af Nasaret, nýr kóngur Gyðingalanda. Drottni með sann dómarinn fann dauðasök enga hærri. Margur las það í þessum stað því hann var borg svo nærri. 2. Það var ritað og þannig sett í þrennslags tungumáli. Valdsmenn Júða það vissu rétt, vilja því Pílatus brjáli. Hann ansar greitt, ei skyldi neitt umbreytt og framar tjáði: Hvað skrifað er, skal standa hér. Svo skeði af drottins ráði. 3. Þar nú á krossi herrann hékk, hér að, mín sála, gætum, virðingartitil fagran fékk með forprís sakleysis mætum, að hjálparfús heiti Jesús heimsins lausnarinn góði, hver djöfli frá oss frelsa má flekklaus með sínu blóði. 4. Nasarenus hann nefnist þar. Náttúruspilling manna fráskilinn einn að vísu var. Vel þekka hlýðni sanna sýndi hann hreint, ljóst bæði og leynt lifandi Guði einum, hans tignar son, trúr, forsjáll þjón, tryggur í öllum greinum. 5. Kóngur Gyðinga klár og hreinn í krafti guðlegum drottnar. Sá Davíðs stól skal erfa einn, aldrei hans ríki þrotnar. Ísraels hrós, heiðinna ljós, heitinn forfeðrum lengi. Svoddan titil sómdi rétt vel, sál mín, þinn herra fengi. 6. Svoddan virðingu vildu hann vondir Gyðingar sneyða. Heiftaröfundin í þeim brann, af því Pílatum beiða orðtak það brátt á allan hátt úr færa settum máta. Hann kvað við nei, því það vill ei þeim drottinn veitast láta. 7. Dramblátum setur drottinn skammt með djörfung þeirra og hrekki. Þeim líðst svo sem hann lofar framt, lengra komast þeir ekki. Allt skal mitt traust efunarlaust á hans makt jafnan standa. Hvað munu mér þá mennirnir mega í nokkru granda? 8. Í þrennslags tungum var þetta skráð því að vor herrann mildi vildi sín elska, ást og náð allri þjóð boðast skyldi. Hvert tungumál með huga og sál heiðri þig, Jesú góði, sem kvölin þín og krossins pín keypti frá syndamóði. 9. Gefðu að móðurmálið mitt, minn Jesú, þess ég beiði, frá allri villu klárt og kvitt krossins orð þitt útbreiði um landið hér til heiðurs þér, helst mun það blessun valda, meðan þín náð lætur vort láð lýði og byggðum halda. 10. Handskrift var ein yfir höfði mér, hver mína sálu grætti. Önnur stóð, Jesú, yfir þér sem angrið míns hjarta bætti. Jesú, þú ert útvalinn bert. Undir kóngsstjórnan þinni árla og síð um alla tíð óhætt er sálu minni. .................Amen ] [ Um skiptin á klæðunum Kristí 1. Stríðsmenn þá höfðu krossfest Krist klæðnað hans tóku snart, skiptu í staði fjóra fyrst, fá skyldi hver sinn part. Á kyrtil prjónaðan ljóst með list lögðu þeir hlutfall djarft. Fólskuverk meðan fullgjörðist fólkið á horfði margt. 2. Ritning sú eina uppfyllt er, áður var þar um skráð: Skrúða mínum þeir skiptu sér, skýrlega svo er tjáð. Hlutfallið yfir fat mitt fer, fæ ég þess einnig gáð. Set, maður, slíkt fyrir sjónir þér, sjá drottins miklu náð. 3. Nú máttu skilja, nakinn var negldur drottinn á kross. Opinbert sáu allir þar út runninn dreyrafoss. Svoddan forsmán Guðs sonur bar sannlega fyrir oss. Hér bauðst öllum án hylmingar himneskt miskunnarhnoss. 4. Kalla ég merki klæðin hans kristnina í heimi hér. Um fjórar álfur foldarranns flokkur sá dreifði sér. Lífskyrtill þessi lausnarans líknarorð blessað er. Vilji því skipta skynsemd manns skilning sannleiksins þverr. 5. Ei lét vor drottinn auðlegð há eftir í þessum heim: Klæðin sem hann bar holdi á en hvorki gull né seim. Þó mátti ei hans móðir fá hið minnsta af öllum þeim. Illir menn hendi yfir þau slá, aldrei því dæmi gleym. 6. Safna hóflega heimsins auð, hugsýkin sturlar geð. Þigg af drottni þitt daglegt brauð, duga lát þér þar með. Holdið þá jörðin hylur rauð hlotnast má ýmsum féð. Svo þig ei ginni girndin snauð, gæt vel hvað hér er skeð. 7. Stríðsmanna heift og harðýðgi herrans kvöl gat ei mýkt, þó viti nóg hann særður sé, sinnið var illsku ríkt. Þeir sem fátækan fletta fé fólskuverk drýgja slíkt. Guð láti þig ekki glæp þann ske að gjörir annað þvílíkt. 8. Nakinn á krossi hékkstu hér, herra minn, Guð og mann. Fullnaðarborgun fengin er fyrir mig syndugan. Þá fórn drottinn og sál mín sér, sú gleðst en blíðkast hann. Brullaupsklæðnað til bjóstu mér, þann besta ég girnast kann. 9. Hentuglega féll hlutur sá, herra minn, Jesú kær. Þú lést mig auman finna og fá fagnaðarorð þín skær. Þeim klæðafaldi þreifa ég á þegar mig hryggðin slær. Straumur eymdanna stöðvast þá, styrk nýjan hjartað fær. 10. Hér þó nú skipti heimurinn hlæjandi auði sín, endast sá glaumur eitthvert sinn þá ævin lífsins dvín. Láttu mér hlotnast, herra minn, hlutfall næst krossi þín, svo dýrðar fegursti dreyri þinn drjúpi á sálu mín. ..................Amen ] [ Annað orð Kristí á krossinum 1. Uppreistum krossi herrans hjá hans móðir standa náði. Sverðið, sem fyrr nam Símeon spá, sál og líf hennar þjáði. Jóhannes einnig, Jesú kær, jafnt var þar líka staddur nær. Glöggt sá að öllu gáði. 2. Sinni móður hann segja réð: Son þinn líttu þar, kvinna. Við lærisveininn líka með lausnarinn blítt nam inna: Sjá þú og móður þína þar. Þaðan í frá, sem skyldugt var, sá tók hana til sinna. 3. Sá sem hlýðninnar setti boð sinni blessun réð heita þeim er foreldrum styrk og stoð stunda með elsku að veita. Svoddan dyggðanna dæmið hér drottinn vor sjálfur gaf af sér börnunum eftir að breyta. 4. Girnist þú, barn mitt, blessun fá, björg lífs og gæfu fína, foreldrum skaltu þínum þá þóknun og hlýðni sýna. Ungdómsþverlyndið oftast nær ólukku og slys að launum fær. Hrekkvísa hefndir pína. 5. Ekkjurnar hafa einnig hér ágætis huggun blíða. Jesús allt þeirra angur sér, aðstoð þeim veitir fríða, ef þær með hreinum hug og sið halda sig drottins pínu við og hans hjálpræðis bíða. 6. María, drottins móðir kær, merkir Guðs kristni sanna, undir krossinum oftast nær angur og sorg má kanna. Til hennar lítur þar herrann hýrt, huggunarorðið sendir dýrt og forsjón frómra manna. 7. Það reynist oft í heimi hér hlutfall drottins ástvina, hörmungarsverðið sárt þá sker, sæld lífsins gleður hina, hverjir þó Kristum hæða mest. Hefur svo löngum viðgengist, lítt vill því angri lina. 8. Enn þeir sem Jesúm elska af rót undir krossinum standa, herrans blóðfaðmi horfa á mót, hvern þeir líta í anda. Trúar og vonar sjónin sett sár hans og benjar skoðar rétt, það mýkir mein og vanda. 9. Jesús einnig með ást og náð aftur til þeirra lítur, gefur hugsvölun, hjálp og ráð, harmabönd af þeim slítur. Aðgætin föðuraugun klár öll reikna sinna barna tár, aðstoð þau aldrei þrýtur. 10. Ég lít beint á þig, Jesú minn, jafnan þá hryggðin særir. Í mínum krossi krossinn þinn kröftuglega mig nærir. Sérhvert einasta sárið þitt sannlega græðir hjartað mitt og nýjan fögnuð færir. 11. Þá ég andvarpa, óska og bið, augunum trúar minnar lít ég hvert einast orðið við upp til krosspínu þinnar. Strax sýna mér þín signuð sár, syndugum manni opinn stár brunnur blessunarinnar. 12. Gleðistund holds þá gefur mér Guð minn að vilja sínum, upp á þig, Jesú, horfi ég hér hjartans augunum mínum. Auðlegðargæðin líkamleg láttu þó aldrei villa mig frá krossins faðmi þínum. 13. Jónas sat undir einum lund, engra meina því kenndi, hádegissólar hitastund hann ei til skaða brenndi. Jesú krossskugga skjólið hér skýlir þó langtum betur mér fyrir Guðs heiftarhendi. 14. Hvort ég sef, vaki, sit eður stá í sælu og hættum nauða, krossi þínum ég held mig hjá, horfandi á blóð þitt rauða. Lát mig einnig þá ævin þverr út af sofna á fótum þér, svo kvíði ég síst við dauða. ............Amen ] [ Um háðung og brigsl sem Kristur leið á krossinum 1. Þeir sem að Kristí krossi senn komu og fram hjá gengu, hristu með háðung höfuðin, honum til brigslis fengu, heitorð sín hefði hann haldið lítt, herrans musteri að brjóta, á þremur dögum annað nýtt efna með bygging fljóta. 2. Tveir lugu svoddan falsmenn fyrst fyrir Kaífas dómi, af því hafði það út borist eftir fjölmennisrómi. Þessir þó hafi heyrt og séð herrans jarðteiknir fríðar, lygin þeim betur gafst um geð. Gengur svo enn til víðar. 3. Öldungar landsins, fólkið flest og flokkur heiðinn stríðsmanna herrann vorn Jesúm hæddu mest með höfðingjum prestanna, sögðu: Ef ertu son Guðs kær, sá þig með krafti styður, kom þú hér svo það sjáum vér sjálfur af krossi niður. 4. Hann sá er öðrum hefur hér hjálpað og læknað marga, megnar nú ekki að sönnu sér sjálfum úr neyð að bjarga. Svoddan háðyrði, hróp og dár hlaut þá Jesús að líða. Stóð það yfir um stundir þrjár. Stutt var andláts að bíða. 5. Þá fram hjá Kristí krossi nú kallsandi held ég ganga sem ekki af hjartans ást og trú elska hans pínu stranga. Heilagleik sínum hrósa frí, við holdsins fýsn sig binda, síðan falla örvænting í eða forherðing synda. 6. Að þínum krossi, Kriste kær, kem ég sem einn framandi. Gef þú mér leyfi að ganga nær, geð mitt styrki þinn andi svo ég hugleiði hvað til kom. Háðung, briglsorð og pínu leiðstu, manngæsku mildin fróm, móti andláti þínu. 7. Sál mín og líf þær sæmdir hlaut sjálfs Guðs musteri að heita, í skírninni því ég þín að naut, það nam Guðs andi veita. Síðan hefur það syndin mörg sárlega gjört að brjóta. Holdsnáttúran mjög elskar örg athæfið heimsins ljóta. 8. Á þremur dögum þar á mót því hét ég mörgu sinni, með iðran, trú og yfirbót aftur það bætast kynni. Æ, hvað veitir slíkt erfitt hér, efnin og dug vill þverra. Brigslið sem til var búið mér bar nú Jesús, minn herra. 9. Í velgengninni ég hrósa hátt hraustleika trúarinnar, í mótlætinu hún bilar brátt, brest finn ég stóran hennar. Enginn fullkominn á mér sést ávöxtur dyggða sætur. Bar því fyrir mig brigslið verst blessaður Jesús mætur. 10. Hjálpa læst ég með heilnæm ráð hinum sem illa breyta, sjálfs míns lýta þó síst fæ gáð, svoddan má blindni heita. Mér var þar stærsta minnkun að, mátti háðyrðum kvíða. Burt tók nú Jesús bölið það, brigslin því vildi hann líða. 11. Jesú, í þínu andláti yfir þig brigslin dundu, að svo í friði önd mín sé á minni dauðastundu. Hæddur varstu af öllum einn, alla frá háðung leystir. Aldrei tapast sá nokkur neinn sem nafn þitt upp á treystir. 12. Nær sem hrekkvísra háðung ný hjartað mitt sárt vill stanga undir þinn kross ég feginn flý, fram hjá skal eigi ganga. Þar stend ég kyrr þó kalls og spé kveiki mér heims óblíða. Upp á þig, Jesú, einn ég sé, allt vil ég með þér líða. 13. Fyrst þú varst hæddur, herra, þá harmakvöl leiðstu slíka svo heiðri þig nú héðan í frá himnar og jörðin líka. Allir englar og öll heimsmynd undir þitt vald sig hneigi og ég þar upp á, aum mannkind, amen af hjarta segi. ..................Amen ] [ Um ræningjans iðrun 1. Annar ræninginn ræddi, sem refsað í það sinn var, herrann vorn Jesúm hæddi, hann gaf þetta andsvar: Ef þar von er til nokkur að þú Guðs sonur sért, hjálpa þér og svo okkur úr þessum kvölum bert. 2. En hinn þar upp á gegndi: Ekki hræðist þú Guð. Hverjum straffsheiftin hegndi, hún var rétt forþénuð. Við megum vel meðtaka verkabetaling þann, en þessi er alls án saka. Eftir það sagði hann: 3. Hugsaðu til mín, herra, þá heldur þú ríkið þitt. Ást drottins ei nam þverra, andsvar lét heyra sitt: Sannlega þér ég segi, sú er huggunin vís, þú skalt á þessum degi mér þjóna í Paradís. 4. Sjá hér fyrst straffið synda, sála mín, hryggilegt, forherðing hjartans blinda þó holdið kveljist frekt. Gefðu mér, Jesú góði, ég gegni vel hirting þín, með trú og táraflóði tjái þér brotin mín. 5. Ræningjans iðran eina athugum líka með, hann gjörði iðran hreina, hataði illverk skeð. Því sagði hann væru að vonum verðlaunin ranglætis, ávítun veitti honum, sem vildi ei gæta þess. 6. Hann trúði, á himnaríki hefði vor Jesús ráð, þó syndugra sýndist líki svo treysti upp á hans náð. Með blygðun og hrelldum huga herrann sín minnast bað, ljúflega lét sér duga, loforð ef fengi það. 7. Hróp og háreysti gjörðu heiðnir og Júðar þar kringum krossinn á jörðu með kalls, brigsl og háðungar. Svaraði ei son Guðs neinu þó sjálfan það gilti hann en syndugs manns orði einu án dvalar gegna vann. 8. Sætt mér fyrir sjónum skartar, sæll Jesú, gæskan þín. Þér gekk heldur til hjarta hans neyð en sjálfs þín pín. Sama hefur þú sinni við syndugar skepnur hér því aldrei elsku þinni aftur, minn herra, fer. 9. Illvirkinn hafði unnið ódæðaverkin stærst, götu glæpanna runnið greitt fram í dauðann næst. En Jesús ekki vildi á það neitt minnast nú, svo var mikil hans mildi, mín sál, það hugleið þú. 10. Enginn örvænta skyldi þó iðrast hafi seint, söm er Guðs sonar mildi sé annars hjartað hreint, því hvorki við staði né stundir stíluð er drottins náð, allt fram andlátið undir oss býðst hans hjálparráð. 11. En þú skalt ekki treysta óvissri dauðastund né Guðs með glæpum freista gjörandi þér í lund, náðartíminn sé næsta nógur höndum fyrir, slíkt er hættusemd hæsta, henni Guð forði mér. 12. Svo margt ég syndgað hefi, sorgin mig sturlar nú. Iðran Guðs náð mér gefi, glóandi von og trú. Herra Jesú hjartkæri, hugsa þú til mín þá dapur er dauðinn nærri og drag mig kvölum frá. ................Amen ] [ Þriðja orð Kristí á krossinum 1. Upp á ræningjans orð og bón ansaði Guðs hinn kæri son: Þú skalt, sannlega segi ég þér, sæluvist hafa í dýrð hjá mér. 2. Sjáðu með gætni, sál mín kær, sönn iðrun hverju kraftað fær. Upp á það dæmið er hér rétt öllum til lærdóms fyrir sett. 3. Reiði drottins þá upp egnd er yfir ranglæti mannsins hér, iðranin blíðkar aftur Guð, ei verður syndin tilreiknuð. 4. Þó komi höstug hefndin bráð hrein iðran jafnan finnur náð. Mitt í standandi straffi því stillist Guðs reiði upp á ný. 5. Samviskuorma sárin verst sönn iðran jafnan græðir best, hugsvalar sál og huggar geð, heilaga engla gleður með. 6. Bæn af iðrandi hjarta hýr, hún er fyrir Guði metin dýr, herrann Jesús á hverri tíð henni gaf jafnan andsvör blíð. 7. Sem Móises með sínum staf sætt vatn dró forðum steini af, eins fær iðrandi andvarp heitt út af Guðs hjarta miskunn leitt. 8. Játning mín er sú, Jesú minn, ég er sem þessi spillvirkinn, já, engu betri fyrir augsýn þín, ef þú vilt reikna brotin mín. 9. Kem ég nú þínum krossi að, kannastu, Jesú minn, við það. Syndanna þunginn þjakar mér, þreyttur ég nú að mestu er. 10. Alnakinn þig á einu tré, út þínar hendur breiðandi, sárin og blóðið signað þitt sér nú og skoðar hjartað mitt. 11. Þar við huggar mín sála sig, svoddan allt leiðstu fyrir mig. Þíns hjartadreyra heilög lind hreinsar mig vel af allri synd. 12. Krossins burtnuminn kvölum frá kóngur ríkir þú himnum á. Herra, þá hér mig hrellir pín hugsaðu í þinni dýrð til mín. 13. Segðu hvern morgun svo við mig, sæti Jesú, þess beiði ég þig: Í dag þitt hold í heimi er, hjartað skal vera þó hjá mér. 14. Í dag, hvern morgun ég svo bið, aldrei lát mig þig skiljast við. Sálin, hugur og hjartað mitt hugsi og stundi á ríkið þitt. 15. Eins þá kemur mín andlátstíð orðin lát mig þau heyra blíð: Í dag, seg þú, skal sálin þín sannlega koma í dýrð til mín. 16. Herra minn, þú varst hulinn Guð þá hæðni leiðst og krossins nauð. Þó hafðir þú með hæstri dáð á himnaríki vald og ráð. 17. Dauðanum mót mér djörfung ný daglega vex af orði því. Í dag þá líður ei langt um það leidd verður önd í sælustað. 18. Ó Jesú, séu orðin þín andláts síðasta huggun mín, sál minni verði þá sælan vís með sjálfum þér í Paradís. .................Amen ] [ Það fjórða orð Kristí á krossinum 1. Um land gjörvallt varð yfrið myrkt allt nær frá sjöttu stundu, sólin því ljóma sinn fékk byrgt senn til hinnar níundu. Guð minn, Jesús svo hrópar hátt, hvar fyrir gleymdir þú mér brátt? Svoddan, mín sál, vel mundu. 2. Enginn skal hugsa að herrann þá hafi með efa og bræði hrópað þannig né horfið frá heilagri þolinmæði. Syndanna kraft og kvalanna stærð kynnir hann oss svo verði hrærð hjörtun frá hrekkjaæði. 3. Sólin blygðast að skína skær þá skapara sinn sá líða. Hún hafði ei skuld, það vitum vér, þess voðameinsins stríða. Ó, hvað skyldi þá skammast sín skepnan sem drottni jók þá pín með hryggð og hjartans kvíða. 4. Aví, hvað má ég, aumur þræll, angraður niður drúpa þá ég heyri, minn herra sæll, sú harmabylgjan djúpa gekk yfir þig þá galstu mín. Gjarnan vil ég að fótum þín feginn fram flatur krjúpa. 5. Í ystu myrkrum um eilífð er óp og gnístran tannanna. Hefndarstraff það var maklegt mér fyrir margfjöldann glæpanna. Frá því, Jesú, þú frelstir mig. Frekt gengu myrkrin yfir þig, svo skyldi ég þá kvöl ei kanna. 6. Í svörtu myrkri það sama sinn sorgarraust léstu hljóma, þá hrópaðir þú mig, herra, inn í himneskan dýrðarljóma. Í því ljósi um eilíf ár úthrópa skal mín röddin klár lof þinna leyndardóma. 7. Synda, sorga og mótgangs með myrkrin svo oft mig pína að glöggt fær ekki sálin séð sælugeislana þína. Jesú, réttlætissólin sæt, syrgjandi ég það fyrir þér græt. Harmaraust heyr þú mína. 8. Guð minn, segi ég gjarnan hér, geyst þó mig sorgin mæði, Jesú, ég læri nú það af þér, þau skulu mín úrræði. Gjörvöll þá heimsins gleðin dvín, Guð minn, ég hrópa vil til þín, Guð minn, allt böl mitt græði. 9. Yfirgefinn kvað son Guðs sig þá særði hann kvölin megna. Yfirgefur því aldrei mig eilífur Guð hans vegna. Fyrir þá herrans hryggðarraust hæstur drottinn mun efalaust grátbeiðni minni gegna. 10. Þá sólarbirtunni ég sviptur er, sjón og heyrn tekur að dvína, raust og málfæri minnkar mér, myrkur dauðans sig sýna, í minni þér, drottinn sæll, þá sé sonar þíns hróp á krossins tré. Leið sál til ljóssins mína. ................Amen ] [ Það fimmta orð Kristí á krossinum 1. Í sárri neyð | sem Jesús leið sagði hann glöggt: Mig þyrstir. Svo ritning hrein | í hverri grein uppfylltist ein. Um það mig ræða lystir. 2. Strax hljóp einn að | sem heyrði það, hitta njarðarvött kunni, lét á reyrprik, | drap í edik með ill tilvik og bar Jesú að munni. 3. Forundrast má, | mín sál, þar á maðurinn, hver þess gætir, að hann sem ráð | hefur með dáð á himni og láð, hörmung þvílíkri mætir. 4. Hann, sá sem vín | af valdi sín úr vatni sætt tilreiddi, með sorgarskikk | fékk súrt edik fyrir svaladrykk þá sárt hann þorstinn neyddi. 5. Því mundi ei hér | til hlífðar sér herrann edikið líka sem vín ágætt | gjöra vel sætt, fyrst gat það bætt hans guðdómsmaktin ríka? 6. Komin var tíð, | kraftaverk fríð Kristur ei gjöra skyldi. Hin stundin þá | fyrir hendi lá, hryggð, kvöl og þrá herrann vor líða vildi. 7. Kraftaverk hrein | kenndu þá grein að Kristur Guðs sonur væri. En kvölin hans | sýndi til sanns að syndugs manns sektir og gjöld hann bæri. 8. Guðs einkason | gjörðist vor þjón þá græddi hann mein og kvíða. En offurlamb best | hann orðinn sést fyrir utan brest, í því hann kvöl nam líða. 9. Af stríði því | sem stóð hann í, styrkleiki mannsnáttúru, þreytast mjög vann | því þyrsti hann, þáði vökvann þó af ediki súru. 10. Í annan stað | merk, maður, það og minnst þess hverju sinni, að herrann Krist | hefur mest þyrst af ást og lyst eftir sáluhjálp þinni. 11. Ó maður, nú | þenk þar um þú, þinn hugur blygðast skyldi. Guð þyrstir hér | að hjálpa þér en hjarta þitt er óþyrst eftir hans mildi. 12. Heyr þú, sál mín, | talar til þín tryggðabrúðguminn góði: Þyrstur ég er | í hryggðum hér, svo hjálpi ég þér úr hættu kvalanna flóði. 13. Ber honum síst, | þess bið ég víst, beiskan drykk hræsnisanda. Orðin hans hrein | á alla grein fyrir utan mein óbrjáluð láttu standa. 14. Upp á orð þín | svarar sál mín, sorgin þó málið heftir: Sjálf þyrsti ég nú, | þýði Jesú, og það veist þú, þinni miskunnsemd eftir. 15. Ekki er hjá mér | það þyrstum þér þori ég nú fram að bjóða, nema fá tár, | trú veik, þó klár, sem til þín stár. Tak það og virð til góða. 16. Lof, dýrð sé þér, | lausn fékkstu mér og lést þig svo miklu kosta. Hjartað á ný | huggast af því að ég er frí frá eilífum kvalaþorsta. ...................Amen ] [ Það sjötta orð Kristí á krossinum 1. Eftir að þetta allt var skeð edikið Jesús smakka réð, þrótt og lífskrafta þverra fann. Það er fullkomnað, sagði hann. 2. Orð þíns herra með ást og trú athuga skyldir, sál mín, þú. Ef þeirra grundvöll sannan sér, sæta huggun þau gefa þér. 3. Fyrst skaltu vita að Guð út gaf greinilegt lögmál himnum af. Hann vill að skuli heimi í hver maður lifa eftir því. 4. Algjört réttlæti ljóst og leynt, líkama, sál og geðið hreint, syndalaus orð og atvik með af oss lögmálið heimta réð. 5. Hugurinn vor og hjartað sé í hreinni elsku rétt brennandi, fyrir utan hræsni, bræði og bann bæði við Guð og náungann. 6. Hver þetta gæti haldið rétt honum var lífið fyrir sett. En ef í einu út af brá, eilíf fordæming við því lá. 7. Enginn maður frá Adam fyrst, eftir þann tíma hann syndgaðist, fullnægju gat því gjört til sanns. Gengur það langt yfir eðli manns. 8. Óbærileg varð allra sekt. Eftir því drottinn gekk svo frekt, annaðhvort skyldi uppfyllt það eða mannkynið fortapað. 9. Jesús eymd vora alla sá, ofan kom til vor jörðu á, hæðum himna upprunninn af, undir lögmálið sig hann gaf. 10. Viljuglega í vorn stað gekk, var sú framkvæmdin Guði þekk. Föðurnum hlýðni fyrir oss galt, fullkomnaði svo lögmál allt. 11. En svo að syndasektin skeð sannlega yrði forlíkt með og bölvan lögmálsins burtu máð, beiska kvöl leið og dauðans háð. 12. Þá hann nú hafði allt uppfyllt, sem oss var sjálfum að gjöra skylt, og bæta öll vor brotin frí, berlega vildi hann lýsa því. 13. Þess vegna herrann hrópa nam hartnær á krossi stiginn fram, að oss í voru andláti öll hans verðskuldan huggun sé. 14. Svoddan aðgættu, sála mín, sonur Guðs hrópar nú til þín hvað þér til frelsis þéna kann. Það er fullkomnað, segir hann. 15. Fullkomnað lögmál fyrir þig er, fullkomnað gjald til lausnar þér, fullkomnað allt hvað fyrir var spáð, fullkomna skaltu eignast náð. 16. Herra Jesú, ég þakka þér, þvílíka huggun gafstu mér. Ófullkomleika allan minn umbætti guðdómskraftur þinn. 17. Hjálpa þú mér svo hjartað mitt hugsi jafnan um dæmið þitt og haldist hér í heimi nú við hreina samvisku og rétta trú. 18. Upp á þessi þín orðin traust óhræddur dey ég kvíðalaust, því sú frelsis fullkomnan þín forlíkað hefur brotin mín. .....................Amen ] [ Það sjöunda orðið Kristí 1. Hrópaði Jesús hátt í stað, holdsmegn og kraftur dvínar: Ég fel minn anda, frelsarinn kvað, faðir í hendur þínar. 2. Þú, kristinn maður, þenk upp á þíns herra beiskan dauða. Að orðum hans líka einnig gá, eru þau lækning nauða. 3. Jesús haldinn í hæstri kvöl, hlaðinn með eymdir allar, dapurt þá að kom dauðans böl drottinn sinn föður kallar. 4. Herrann vill kenna þar með þér, þín ef mannraunir freista, góðlyndur faðir Guð þinn er, gjörir þú honum að treysta. 5. Fyrir Jesúm þú fullvel mátt föður þinn drottin kalla. En þó þig krossinn þvingi þrátt, það mýkir hörmung alla. 6. Eins og faðirinn aumkar sig yfir sitt barnið sjúka, svo vill Guð einnig annast þig og að þér í miskunn hjúkra. 7. Einnig sýna þér orð hans klár ódauðleik sálarinnar. Þó kroppurinn verði kaldur nár, krenkist ei lífið hennar. 8. Hvar hún finnur sinn hvíldarstað herrann sýnir þér líka. Hönd Guðs þíns föður heitir það. Hugsa um ræðu slíka. 9. Viljir þú eftir endað líf eigi þín sál þar heima, undir hönd drottins hér þá blíf, hans boðorð skaltu geyma. 10. Láttu Guðs hönd þig leiða hér, lífsreglu halt þá bestu. Blessuð hans orð sem boðast þér í brjósti og hjarta festu. 11. Hrittu ei frá þér herrans hönd, hún þó þig tyfta vildi, legg heldur bæði líf og önd ljúflega á drottins mildi. 12. Hér þegar mannleg hjálpin dvín, holdið þó kveini og sýti, upp á hönd drottins augun þín ætíð með trúnni líti. 13. Að morgni og kvöldi minnst þess vel, málsupptekt láttu þína: Af hjarta ég þér á hendur fel, herra Guð, sálu mína. 14. Svo máttu vera viss upp á, vilji þér dauðinn granda, sála þín mætir miskunn þá millum Guðs föður handa. 15. Hún finnur ekkert hryggðarstríð, hörmung né mæðu neina, í friði skoðar ætíð blíð ásjónu drottins hreina. 16. Eftirtekt mér það einnig jók er ég þess gæta kunni, andlátsbæn sína sjálfur tók son Guðs af Davíðs munni. 17. Bæn þína aldrei byggðu fast á brjóstvit náttúru þinnar, í Guðs orði skal hún grundvallast, það gefur styrk trúarinnar. 18. Vér vitum ei hvers biðja ber, blindleikinn holds því veldur. Orð Guðs sýnir þann sannleik þér, sæll er sá, þar við heldur. 19. Vertu, Guð faðir, faðir minn, í frelsarans Jesú nafni, hönd þín leiði mig út og inn svo allri synd ég hafni. 20. Höndin þín, drottinn, hlífi mér þá heims ég aðstoð missi, en nær sem þú mig hirtir hér, hönd þína ég glaður kyssi. 21. Dauðans stríð af þín heilög hönd hjálpi mér vel að þreyja. Meðtak þá, faðir, mína önd, mun ég svo glaður deyja. 22. Minn Jesú, andlátsorðið þitt í mínu hjarta ég geymi. Sé það og líka síðast mitt þá sofna ég burt úr heimi. ....................Amen ] [ Um Jesú dauða 1. Þá frelsarinn í föðurins hönd fól nú blessaður sína önd, niður sitt höfuð hneigði fyrst herrann í því hann sálaðist. Drottinn vor þannig dó á tré, dásemd kunni ei meiri ske. 2. Sankti Páll segir, í sannri raun syndarinnar sé dauðinn laun. Banaspjót hans eru brotin ljót, boðorðum drottins gjörð á mót. Sá skal deyja sem syndgar hér, svoddan úrskurður réttur er. 3. En það hér heima átti síst af því Jesús er saklaus víst. Af helgum anda með hreinum sið hann var getinn í meyjarkvið. Guðs föður veru fegurst mynd frjáls lifði og dó af allri synd. 4. Hvorki refsing né heljarbað hafði nú Jesús forskuldað. Hvað kom þá til að herrann leið harða pínu og beiskan deyð? Eða hvar fyrir hirtist hann, hirtingar til sem aldrei vann? 5. Guðs andi þar á gjörir skil, greinir þvílíka orsök til: Vegna misgjörða vorra hér vissulega hann særður er því drottinn lagði svo fyrir sann syndirnar vorar upp á hann. 6. Sjá hér, mín sál, fyrir syndir þín sonur Guðs líður kvöl og pín. Hann dó fyrir þig sem dauðans bað dárlega hafði forskuldað. Hann lét sitt líf svo lifðir þú, lífs eilífs von því áttu nú. 7. Á mig var fallin þyngsta þraut því að ég drottins lögmál braut, samvisku særði synda gráð, svo fékk dauðinn sterk yfirráð. Til fordæmingar mér fjötrin hans fastlega héldu víst til sanns. 8. Lögmál safnaði sektum mér, sektinni dauðinn eftir fer, dauðinn til dómsins dregur snar, dómurinn straffið úrskurðar, straffið um eilífð aldrei dvín, eilíf því var hin þyngsta pín. 9. Lögmálið hér sig forgreip fyrst, felldi það dóm yfir herrann Krist. Það bauð að sá bölvaður sé sem bana líður á einu tré. Djarflega eftir því dauðinn gekk, drottin frá lífi skilið fékk. 10. Sekt þá sem lögmál setti mér saklaus borgaði Jesús hér. Það missti sína makt í því, mig verður nú að láta frí. Dauðans broddur var brotinn þá burt hans fangelsi slapp ég frá. 11. Eilífur dauði deyddur er, dauðinn Jesú það vinnur hér. Dýrt metur drottinn dauða minn. Dauði, hvar er nú broddur þinn? Dauðinn til lífsins nú stutt er stig, stórlega því dauðinn batar mig. 12. Dauðinn því orkar enn til sanns, útslokkna hlýtur lífið manns, holdið leggst í sinn hvíldarstað, hans makt nær ekki lengra en það. Sálin af öllu fári frí flutt verður himnasælu í. 13. Í þínum dauða, ó Jesú, er mín lífgjöf og huggun trú. Dásemdarkraftur dauða þíns dreifist nú inn til hjarta míns, upp á það synd og illskan þver út af deyi í brjósti mér. 14. Þú hneigðir þínu höfði ljóst, herra, þá þú á krossi dóst. Með því bentir þú mér það sinn að minnast jafnan á dauða þinn. Eins, þá ég dey, skulu augun mín upp líta, drottinn sæll, til þín. 15. Fyrir þann deyð, sem þoldir þú, þig bið ég, Jesú, um það nú að gefi mér þín gæskan blíð góða kristins manns dauðatíð. Hold mitt lát hvílast hægt í frið, hönd þín sálunni taki við. .....................Amen ] [ Um teiknin sem urðu við Kristí dauða 1. Þegar Kristur á krossins tré kannaði dauðann stríða, teikn og stórmerki mestu ske, mælir svo ritning fríða. Musteristjaldið mjög umvent í miðju varð að rifna í tvennt, hristist jörð harla víða. 2. Sundur klofnuðu björgin blá, byrgð leiðin opnast fóru, líkamar dauðra lifna þá. Lít hér þau undrin stóru. Eftir lausnarans upprisu inn í borgina vitjuðu, af sumum þar séðir voru. 3. Hvað hér historían hermir rétt, hygg að því, sál mín mæta. Þér til lærdóms er það fram sett, þess áttu vel að gæta. Jörðin sjálf þegar Jesús dó, jafnvel þeir hörðu klettar þó sýndu meðaumkun sæta. 4. Steini harðara er hjartað það sem heyrir um Jesú pínu, gefur sig þó þar ekki að, ann meir gjálífi sínu. Kann nokkuð svoddan kalt hugskot Kristí dauða að hafa not? Guð stjórni geði mínu. 5. Það má undra, hin þunga jörð þreyði ei kyrru að halda. Blágrýtis einnig björgin hörð bresti liðu margfalda. Holdið þó ei né hjartað manns hryggist við pínu skaparans sem hans þó hlaut að gjalda. 6. Fortjaldið sýnir sannleik þann, sundur þá rifna náði. Aftakast skyldi öll fyrir sann, eftir Guðs settu ráði, Gyðingakynsins kóngleg stjórn, kennivaldið og lögmálsfórn, sem ritning sjálf um spáði. 7. Hindrun réð öllum ærið stór inn í Guðs ríki banna, því veldur syndasektin vor og saurugleikinn verkanna. En fyrir Jesú dýrstan deyð drottinn tilbjó oss opna leið héðan upp til himnanna. 8. Hér í kristninnar helgidóm höfum vér frelsi að ganga. Þar boðast náð og blessun fróm, burt er þá sorgin stranga. Sálin vor hefur búna braut beint í Abrahams gleðiskaut eftir heims hörmung langa. 9. Frelsarans dauða einnig að önduð líkin hér njóta. Guðlegur kraftur gjörði það, grafirnar opnast hljóta. Því drottins Jesú dauði á kross dauðann sigraði fyrir oss, afl hans og brodd nam brjóta. 10. Merk að úr jörðu mátti ei neinn maður frá dauðum standa fyrr en tjáði vor herra hreinn hold sitt aftur lifanda. Fyrstur allra því upp reis hann af eigin krafti og þar með fann endurlausn oss til handa. 11. Höfðinginn krossi herrans hjá, hér með allt fólkið líka, jafnsnart er svoddan jarðteikn sjá játning þeir gjörðu slíka: Sannlega hefur saklaus hann og sonur Guðs verið þessi mann, brjóst slá og brátt heim víkja. 12. Fólkið sem harða krossins kvöl Kristó fyrst óska náði, fann nú hið þyngsta í brjósti böl, beiskleg samviskan þjáði. Of hastarlegan úrskurð flý ef þú vilt vera af sorgum frí. Hætt er rasanda ráði. 13. Dauðinn þinn, Jesú drottinn, þá dýrlegan kraft út sendi, heiðnum manni svo hér við brá, hann þig, Guðs son, meðkenndi. Ég bið gæskunnar geðið þitt, gefðu við lifni hjartað mitt, að svo frá illu vendi. .................Amen ] [ Um Kristí kunningja sem stóðu langt frá 1. Kunningjar Kristí þá krossinum langt í frá stóðu með þungri þrá, þessa tilburði sjá. 2. Var þar og viðstatt með að vísu margt kvenfólkið, sár Jesú fengu séð, sorgandi báru geð. 3. Af þessu, mín sál, þú sérð sannlega hversu er valt allt í heimi hér. Haf slíkt í minni þér. 4. Dvínar og dregst í hlé á dauðastundunni vinskapur, frændur, fé. Fallvalt hygg ég það sé. 5. Þó vildu vinirnir veita hjálp nokkra þér, vörn þeirra ónýt er, enginn dauðanum ver. 6. Lífinu hjúkrar hönd þá herðir sóttargrönd. Hjálpa þó engin önd upphugsuð ráðin vönd. 7. Vinskap í synda sið, sála mín, þess ég bið, bittu ei veröld við, viljir þú sofna í frið. 8. Hreinan vinskap halt þú við herrann þinn Jesúm nú. Í helgri hjartans trú frá heimsins elsku þér snú. 9. Hann einn má hjálpa þér þá hjástoð mannleg þverr, heim þig á höndum sér í himnasælu ber. 10. Það hér í sannleik sést er sonur Guðs andaðist, sorgin þá særði mest sem hann elskuðu best. 11. Krists börn eru krossbörn, við Kristum hlýðnisgjörn. Hann sýnir þeim hjálp og vörn þó hörð sé sútarkvörn. 12. Þú skyldir þar að gá, þó þeir stæðu langt frá allir samhuga sjá son Guðs kross festan á. 13. Komið svo, konur og menn, að krossinum Jesú senn. Þó nauðin þrengi þrenn þar fæst nóg lækning enn 14. Kom þú, sál kristin, hér sem kross og mannraunir ber. Settu fyrir sjónir þér son Guðs sem píndur er. 15. Upp á hans heilög sár horfi þín trúin klár, það mýkir trega og tár, temprar allt sorgarfár. 16. Sértu, syndugur mann, særður um hyggjurann, horfðu beint upp á hann sem hjálp þér á krossi fann. 17. Hver sem eirorminn leit af Ísraels manna sveit, eitrið ei á þann beit, öll stilltist plágan heit. 18. Svo stór synd engin er að megi granda þér ef þú iðrandi sérð í trúnni Jesúm hér. 19. Sé ég þig, sæll Jesú, svo sem álengdar nú, von mína og veika trú við bið ég hressir þú. 20. Þá ég sé sárin mín særir mig hjartans pín, en sárin þá sé ég þín sorg öll og kvíðinn dvín. 21. Lát mig, ó Jesú kær, aldrei svo vera þér fjær að sjái ég ei sár þín skær þá sorg og eymd mig slær. 22. Veit mér ég verði og sé vin þinn og kunningi. Þó hverfi heilsa og fé, hjálp mun þá nóg í té. 23. Ég fel í sérhvert sinn sál og líkama minn í vald og vinskap þinn, vernd og skjól þar ég finn. .................Amen ] [ Um Jesú síðusár 1. Að kveldi Júðar frá ég færi til fundar greitt við Pílatum og þess beiddu að ekki væri önduð lík á krossinum því hátíðin var harla nærri. Hér svo ritning greinir um. 2. Stríðsmönnum hann bauð að brjóta beinin þeirra og svo var gjört. Heljarstund því hrepptu fljóta hinir tveir, sem greini ég bert. En Jesúm létu síns lífláts njóta, limina hans ei fengu snert. 3. Stríðsmann einn með heiftar hóti harðlyndur gekk krossi að, í lausnarans síðu lagði spjóti, lagið nam í hjartastað, blóð og vatn þar frá ég út fljóti. Fyrir var áður spáð um það. 4. Umhugað er einum drottni allra sinna barna lík, í jörðu hér þó holdið rotni, huggun traust mig gleður slík, hann vill ei týnist bein né brotni. Blessuð sé sú elskan rík. 5. Guð drottinn með gæsku ráði gjörði Adams síðu af fríða kvinnu fyrst á láði, fast hann þó á meðan svaf. Vaknaður þess að vísu gáði og veglegt henni nafnið gaf. 6. Sofnaður á sinni síðu sárið drottinn Jesús bar, svo af vatni og blóði hans blíðu byggðist heilög kristnin þar. Náði hún eðla nafni fríðu, nær til himna stiginn var. 7. Skoðaðu hvernig skírnin hreina skiljast nú með réttu á. Að vísu jafnan vatnið eina vor líkamleg augu sjá, en trúarsjónin, svo skal greina, sonar Guðs blóð þar lítur hjá. 8. Æ, hvað má ég sælan sanna sankti Tómas, postula þinn, þá síðu mátti hann sár þitt kanna, sína hönd þar lagði inn. Þú munt ei mér þjáðum banna það að skoða, Jesú minn. 9. Allar Jesú æðar stóðu opnaðar í kvölinni. Dreyralækir dundu og flóðu um drottins líf og krossins tré. Nægð af lausnargjaldi góðu Guðs son fyrir mig lét í té. 10. En svo ég skyldi sjá og játa sanna elsku drottins míns, vildi hann ekki læstar láta lífsæðarnar hjarta síns. Því er, sál mín, mikil úr máta miskunnsemi lausnara þíns. 11. Opnar dyr á arkarsíðu inn um gengu skepnurnar sem sjálfur drottinn bauð með blíðu bjargast skyldu inni þar fyrir vatnsins flóði stríðu. Frelsi og líf þeim gefið var. 12. Lífsins dyr á síðu sinni setur Jesús opnar hér svo angruð sála aðstoð finni, öll þá mannleg hjálpin þverr. Hver sem hefur þar athvarf inni frá eilífum dauða leystur er. 13. Nói um sinn arkarglugga upp til himins litið fékk, haldinn dimmum hryggðarskugga, hátt þá vatnsins flóðið gekk, svo hann mátti um síðir hugga sólarljóma birtan þekk. 14. Gegnum Jesú helgast hjarta í himininn upp ég líta má. Guðs míns ástarbirtu bjarta bæði fæ ég að reyna og sjá. Hryggðarmyrkrið sorgar svarta sálu minni hverfur þá. 15. Guðs var máttug mildin prúða, Móises þá steininn sló. Út til allra Ísraels búða ágætt svalavatnið dró, hressti þyrsta, þjáða, lúða, þeim svo nýja krafta bjó. 16. Þá sjálfur Guð á sonarins hjarta sínum reiðisprota slær, um heimsins áttar alla parta út rann svalalindin skær. Sálin við þann brunninn bjarta blessun og nýja krafta fær. 17. Við þennan brunninn þyrstur dvel ég, þar mun ég nýja krafta fá. Í þessi inn mig fylgsnin fel ég, fargar engin sorg mér þá. Sælan mig fyrir trúna tel ég, hún tekur svo drottins benjum á. 18. Hjartað mitt er, herrann góði, hryggilega saurgað mjög. Þvo þú það nú með þínu blóði, þess af auðmýkt beiði ég. Vinni mér bót á mæðu og móði miskunnsemin guðdómleg. 19. Hjartans innstu æðar mínar elski, lofi, prísi þig, en hjarta, blóð og benjar þínar blessi, hressi, græði mig. Hjartans þýðar þakkir fínar þér sé gæskan eilífleg. .................Amen ] [ Um Kristí greftran 1. Jósef af Arimathíá, eðalborinn ráðsherra sá, Gyðinga svik við son Guðs skeð samþykkt hafði þeim aldrei með. 2. Hann var lausnarans lærisveinn, lífernisfrómur, dyggðahreinn. Gyðinga hræddist hefnda raun, hélt sig að Kristó því á laun. 3. Þessi um kvöldið þangað gekk, þá af Pílató leyfi fékk að mætti Jesúm andaðan ofan taka og jarða hann. 4. Jósef tók strax af krossi Krist, keypti þó nýjan líndúk fyrst. Nikódemus kom þegar þar, þangað kostuleg smyrslin bar. 5. Jósef gröf eina átti þar, útklöppuð sú í steini var í aldingarði allskammt frá. Enginn fyrr dauður í henni lá. 6. Dýrlega smurðu drottins lík, dæmin má önnur finna slík, byrgðu með steini búna gröf, burt gengu strax fyrir utan töf. 7. María, Jakobs móðir ein, Magdalena á sömu grein, Salóme einnig sat þar hjá, sáu vors herra greftrun á. 8. Í þeirra selskap, sál mín blíð, settu þig niður litla tíð. Greftrun þíns herra gæt vel að, gagnslaust mun ekki vera það. 9. Við Jesú greftran ég fæ séð Jósef og Nikódemum með. Áður þorðu þeir ekki Krist opinberlega að játa fyrst. 10. Nú fá þeir næsta nýjan dug, nóga djörfung og styrkan hug, augljóslega svo allir sjá elsku sem drottni höfðu á. 11. Rjúkandi trúarhörinn hér helgur andi svo viðnærir, ljómandi þar af ljósið skín, lífgar hann allt með krafti sín. 12. Huggist þeir nú sem hjartað deigt hafa og trúarmegnið veikt, biðji um styrk og stöðugt geð, stundi og læri Guðs orð með. 13. Veittu, Jesú, að veik trú mín vaxi daglega og elskan þín eflist svo með mér innvortis, ytra góð sjáist merki þess. 14. Annað þú líka minnast mátt, mislíkar drottni á engan hátt þó heiðarleg sé hér á jörð holdi útvaldra líkför gjörð. 15. Mætast Guðs anda musteri manns var rétt kristins líkami. Því má honum veitast virðing rétt, vel með hófi og stilling sett. 16. Erfisdrykkjur og ónýtt prjál ekki á skylt við þetta mál. Heiðingjaskikkun heimskuleg hæfir kristnum á engan veg. 17. Ætíð þá sérð þú sálað hold sett vera niður í jarðarmold, hryggur þú vert og hugsa brátt hér við þú líka skiljast átt. 18. Lagt þegar niður líkið sérð, láttu sem dauðinn hvísli að þér: Langt máske ekki líði um það, legg ég þig eins í slíkan stað. 19. Góði Jesú, fyrir greftran þín gefðu síðasta útför mín verði friðsöm og farsæl mér, frelsuð sál nái dýrð hjá þér. 20. Í þriðja lagi huggun hrein hér veitist mér á alla grein. Guðs sonar hold því greftrað var greftrun minni til virðingar. 21. Helgum Guðs börnum herrans hold helgaði bæði jörð og mold. Gröfin því er vort svefnhús sætt, svo má ei granda reiðin hætt. 22. Svo að lifa, ég sofni hægt, svo að deyja, að kvöl sé bægt, svo að greftrast sem Guðs barn hér gefðu, sælasti Jesú, mér. ...................Amen ] [ sæl fiðrildið mitt eina þú sem leikur þér í andvaranum þar sem döggin þéttist og leitar sér náða í grasinu leitandi frelsis þar sem geislar sólarinnar laða fram hita tími og rúm sem leyfir dögginni að leita til himins laus við allar hindranir! þegar þetta gerist læðir tilfinning ein um þig sem vekur upp gæsahúð og vellíðan eina. ] [ ég stend við tjörn svo tæra hún er gegnsæ svo hrein sem skýn ástin leitar til mín ég hugsa um þig gæsahúð fer um mig allan fer hér um hörund mitt á ný eins og rafmagn leiðslunni í ég hugsa um þig ég finn til snertingar þinnar sem leið hefur fundið inn í mitt hjarta hún opnar mér veröld svo bjarta ég hugsa um þig hugsunin tekst hér einni hún kemur títt til mín svo hug minn dregur til þín ég hugsa um þig ef dapurð til þín leitar ég ávallt hugga vil þig knúsa, faðma og kyssa, þú átt mig ég hugsa um þig hrein ást til þín þessi tilfinning í mér ég vil segja þér ég hugsa um þig um þig eina...... ] [ Kyndill í krafti ástar logar í vitund minni um nótt steinrunnið hjarta blæðir á ný smyrsl kærleikans sorgina græðir lítill þröstur snýr við laufi lífsins engill með frétt fyrir mig hamingjan er þín þau fögru orð er flugu með spörfugli til mín og vonarinnar ljós er kyndillinn kveikti logar glatt vonin glitrar á ný við fjarlægan sjóndeildarhring ástin nú þegar er þín ] [ Siglir fley, fyrir þey, fram það stefnir sér. Menn það ber, sem betur fer, beint að Íslands strönd. Í heimi nýja, helsi flýja, hetjur er stýra rétt. Frelsi vilja, vel sem skilja, vættir allar góðar hér. Verkin frækin, fræg skyldurækin, framkvæmir iðin hönd. Einn Arnarson, Ingólfs von, allt er hans niðjum létt. Hefðir lög, lítil drög, lifum eftir öðru vér. Magna ei ekka, mikið þeir drekka mjöð, kveða og nema lönd. Háreist bú, byggja hjú, býr hér stétt með stétt. ] [ situr einn, særður, maður, sífellt. tóm, til að tína hugsanir, tjóðraðar. talar tungum, tímunum saman, tæmir. tálgar tómið, týnda blómið, fundið? ] [ Vinur komdu hér, ég skal þerra þín tár því þú sorgmæddur ert nú. Ég skal veita þér skjól og róa þinn hug svo áhyggjur hverfi á braut. Ég skal vera þinn vinur, ég skal vera þín stoð. Komdu nú vinur við skulum leggja af stað, því löng er leiðin og lífið svo stutt. Vinur vertu mér hjá og við finnum saman réttu leiðina... að hamingjunni. ] [ A Good Deal a crown on my head my kingdom for a horse the booming voice a hat on my head my joy for a break the muffled cry a rope around my neck my life for a second chance the silent scream ] [ ...efi - blóðþyrst meindýrið nagar innviði sálar með oddhvössum pensli furðuveröld mína málar þessi púki þessi nagandi stórkjafta skolli ég hata hann fyrir það sem hann mér olli... ...ég veit aldrei fyrir víst framtíð mína í raun og nú finn ég fyrir óvissunnar sífellda daun allar hugsanir mínar þjóta hingað og þangað líkt og bandóður rakki sem enginn getur fangað... ...óvissan truflar mig í lífi sem og starfi og metnaður dvelur og felur sig í hvarfi hvernig get ég ákveðið hvað ég vil stunda þegar efinn mun ætíð hér inni í mér blunda??? ... ...nú verð ég bara að stökkva á ákvörðun strax upp fossinn mót straumi sem sterkbyggður lax finna nýjar leiðir og láta efann ekki stjórna ég vil taka mínar áhættur og örygginu fórna... ... ...aldrei mun ráða aftur lífi mínu efinn nú er ég áhættum og upplifun brott gefinn... ] [ ...úr sótsvörtu ginnungargapinu hljóma dunur múspellssynir raula þar sinn tryllta ógnarsöng hér niðri á jörðu gefa dýrin frá sér stunur því að biðin eftir naglfari er ekki lengur löng... ...loki situr kátur og glottir út í bæði komin er stundin sem hann þráði svo heitt úlfurinn hans sonur slefar strítt í bræði æsirnir hörfa - þeir er hræðast ekki neitt... ...maðkurinn úr undirdjúpum gleypir í sig menn er hann ryðst upp á fjöruna og gengur á land surturinn eldhjúpaður bregður sverði senn og valhöllin glæsilega breytist í sand... ...en þá kemur grímuklædd fljúgandi hetja sem stundar jafnan köngulóar-lifnaðarhætti spædermann mun illskuna í hel aftur setja og vernda þar með heiminn og alla góða vætti... ...svo spinnur hann vef og fangar það slæma heimsendir verður bara\'ð koma aftur síðar örlaganornir - löngu hættar að dæma spædermann sér um að vernda verur fríðar... ... ...hið vaxandi gláp á sjónvarps sterku kappa gerir okkur dofin og veik nú að lokum því með aulalega lúðablesa og mannheri knappa erum við viðkvæm fyrir surtsins logastrokum... ] [ matur hungur brjóstamjólk og sorg skapa eitt allsherjar ungbarnaorg en hvernig veit barnið hvað er á borðum þegar það kann ekki að tjá sig í orðum? blómin fögur hafa sína yndislegu angan og ljósastaurarnir búk einn svo langan í ungum hugum þeirra orðin öðlast myndir hvað þá um morð og mannanna syndir? ... mamma og pabbi eru best og ráða yfir mér þau útvega allt sem er á boðstólnum hér ef þau rífast mikið og ofbeldi hrjúfu beita hvað mun það þá á tungu minni heita? pabbi ber í borðið með öskrum og látum saman við mamma föðmumst og grátum hann rýkur á dyr og þær lokast með hvelli dúkkurnar mínar detta í gólfið með skelli! með andlit mitt hallandi undir flatt segi ég mjóróma og skelkuð: \"datt!\" en önnur vera í horninu truflar mína sýn grátandi þar liggur blóðug mamma mín! mín líðan er annarleg - veit ekki neitt blóð hennar rennur enn þunnt og heitt brátt bresta mínar gáttir og tárin flæða mínar agnarsmáu hendur ná ekkert að græða! mamma horfir á mig hinsta sinni brestur eitthvað lítið í sálu minni úlnliður hennar svo blautur og aumur og líftími hennar nú virkilega naumur! ... ég kann engin orð til að tjá mína sorg nema táraflóð mitt og mín angistarorg drukkinn pabbi kom heim en fór svo á brott á vörum hans eitt stórt allsherjarglott! ég ligg enn með mömmu og á engin orð banhungruð skríð ég ein undir borð þar er mitt skjól - svo fer ég til mömmu á himnum hitti ég hana - og ömmu. nú er ég þögul því að tárin eru búin ég sofna ein snöktandi saklaus og lúin vakningarhróp mín til mömmu dugðu ei nú fer ég til hennar - sofna og dey. ... það kann að vera satt að orð mín heyrast ekki en samt get ég blótað öllum þeim sem ég þekki þó hugsanir mínar séu í einföldum myndum hatast ég enn - yfir ljótra manna syndum... ] [ svefninn lúrir í sjálfum mér öllum stundum og deyfðarský hreyfist yfir mannanna grundum við viljum vera löt og njóta þess að lifa ...undir sæng og heyra tímann tifa... sofandi í hjarta mér hvílir metnaður og þrá um að ná langt í draumum sem ég eitt sinn sá en hugur minn dofinn af undarlegum hvötum ...hendir mér í rúmið - þægilega lötum... af hverju að vinna til að auðga fjármagn hinna? af hverju að þræla fyrir kapítalista með stæla? nei!!! ég ligg ennþá latur í alsælunnar hýði og brott flýgur metnaðardraumurinn fríði allsber undir sæng með jónu mér til handar ...inn um eyru mín letipúkinn brandörum andar... ég hlæ upp úr þurru og víman á mig svífur sálin mín brott frá heimi upp á tinda drífur þar sit ég loks hátt yfir þrælakyns maurum ...sem vinna fyrir annarra aurapúka aurum... öllum er sama þó ég sofi nú heltekur mig - þessi þægilegi dofi ég mun ekki vinna til að auka fjármagn hinna ég elska þennan dofa svo láttu mig sofa!!! ] [ ég hef skorið skorið dýpra en ég mátti það blæðir og tárin falla neitað um vist í drottins björtu tindum... tárblandað flóðið rennur áfram í flýti fagurrautt fellur það æðum mér frá skrönglast ég áfram í leit að blaði til að rita síðustu hugsanir á... en ég hef skorið skorið dýpra en ég átti höndin skelfur og orðin kalla neitað um andagift í luktum vörum mínum... dofnaður líkaminn skríður hægt á gólfi í leit að mynd sem í huga mér dvelur ég faðma hana að mér og loka votum augum minningin ein öllum þrótti mínum stelur... ég hef dáið dáið yngri en ég átti ég hrapa og sálin skelfur neitað um hamingjuvist í alltof daufu lífi dáinn, farinn brott frá öllum enginn grætur og allir sjá að tilvera þeirra er frjálsari þegar ég er fallinn frá... ] [ úr hráslaga kvölds eins í gleðimánuði margra stíg ég hægum skrefum upp í lítillátt fjölbýlið klæði mig úr skónum og geng áfram inn lít á mig í speglinum ...í síðasta sinn... stari djúpt á sjálfan mig í endurskini glerbrota augu gamals vinar stara angurvært á móti í nótt þar sem minningarnar dökkar hætta að vaka ég kveð mig sjálfan með léttum kossi ...myndin kyssir mig til baka... ég held upp í herbergið þar sem ljóðin mín fæðast og gleðin gömul undir þungum hlutum kafnar skuggar bak húsgagna laða mig til sín og ég kveiki á dýru reykelsi ...meðan lífið mitt dvín... ljúfsárir tónar frá fólki utan úr heimi streyma í takt við reykinn sem að dansar litast um í kringum mig - eitt stundarkorn efins er þetta rétta leiðin út úr sorg? ...en svörin fást ekki gefins... ... ...hinn síðasti drykkur og minn síðasti unaður ...víma með hjálp gerviefna var minn eini munaður ...hendur mínar titra og skrifa þennan leir ...senn blaðið litast blóði - og penni minn deyr... ...hendur mínar hvasst hnífsblaðið strjúka ...reykelsið kalt og hættir að rjúka ...aðframkominn vill ég lífi mínu ljúka ...svo ég sting hnífnum inn í hjarta mitt sjúka... ... og þegar ég ligg skjálfandi í eigin blóði heyrast sársaukavein úr gömlu ljóði: \"farinn með sorg og söknuð í hjarta trúi á tómið sem tekur við mér kannski ég ferðist upp í himnana bjarta en jafnvel helvíti er skárra en það sem er hér...\" ] [ Hvernig sem ég lít á þig og hugsa með mér – vinur Verð ég tómur hérna inni í mér – ástarengill – linur Þú fagra stelpa munt líklega aldrei vita Um mitt berjandi hjartapúl og sálarsvita Við það eitt að líta á hvernig þú situr Á kinnum mér kemur – rauður roðalitur... Ég skreið upp úr dýpstu Niflsheims kjallarakitrum Reif mig upp á hárinu – með hjálp frá sálum vitrum Ég sór þess eið að fara aldrei þennan slóða Sem kærleiksþræll í heimi ástfanginna og óða En þar stóðstu og eyðilagðir allt fyrir mér Með því að vera fögur – og vera hér... ... Ástin tekur allt – dregur hjörtun niður í dá Hjarta mitt falt – þegar þú gengur mér hjá Ég vildi vera kaldur – lifa að eilífu einn Þú ert örlagavaldur – og ég get ei staðið beinn... Hné mín kikna – grunnsæu augu mín stara Aðrar stúlkur blikna – gefast upp og allar fara Því þegar þú talar og orðin renna út sem silkiflaumur Ég vona... ég vona... að þetta sé ekki bara draumur... ... En spurningin brennur á mínum vörum... sjóðandi heit Sálin mín bíður í ofvæni – enginn sér – enginn veit Hvaða tilfinningar berast um í brjósti þínu? Veist þú að þú átt – helming í hjarta mínu? Mun ég vakna upp og sjá þig hjá mér? Muntu lesa þetta ljóð og fara frá mér? ... Bara vinir – ekki misskilja – það er víst eina leiðin nú Þó að í hjarta mínu gisti sál – og þú er fagra sálin sú... ... Ástarsorg ef þú faðmar mig og ferð svo grunlaus frá Hjartasorg ef þú kyssir mig og dvelur svo mér hjá Söknuður ef ég heyri ei í þér Sorg ef ég hef þig ei hjá mér Hjarta mitt er opið sem dyr Fallinn fyrir ástinni – sem fyr... ... Ég hef fundið mína einu réttu nú Hvern hefði grunað... Að það værir þú...? ] [ ...óvarfærni og hrokaglefsur hrista mig allan til ...hreyfingar hugans upp og niður - hlaup til vinstri og hægri ...andvaka ligg ég á gróðurbeði - seint um miðnæturbil ...í sortanum undir mér standa sálir mér lægri... ...þögnin hér drepur snöggt vanlíðan og deyfð ...djúpt í mínum hugsunum - ég reyni að leita leiða ...út úr mínum ógöngum - en sál mín óhreyfð ...mun aldrei fá grið - frið í ríki guðsins reiða... ...þungbrýndir í vítisdvöl - menn hafna út af löstum ...og syndir þeirra fast skráðar - í heimsins stóra kveri ...en hérna ligg ég friðsæll mjög - í fanginu á skógarþröstum ...af friðnum ég svo gagntekinn - hlýja í heimsins freri... ... en ég get ekki ákveðið líðan sem að ég helst kýs ef hjarta mitt er freðið og sálin mín hún frýs þá lýst mér ei á blikuna ef líðanin helst ei út vikuna ... ...sönnun þess að ég er á lífi er klár ...og til vitnis um það hrópa ótal hjartasár ...á meðan ég hlæ og á meðan ég tárast ...mun lífsandi minn ei á svipstundu klárast... ...brosi og tárast en af holdi og blóði ...bugðóttur er þessi langi lífsins slóði ...ég veit það nú loks að í mannanna raunum ...leynist æ gleði - frá sorginni - að launum... ] [ ...skuggi krossins teygist er glóandi eldhnötturinn leitar niður ofan á kaldri jörðunni má sjá ævifornar sálirnar biðja enn horfandi upp til hins vanþakkláta drottnara sem dó fyrir menn og er dauður enn... ...við höfum dáið og beðið í þínu nafni skriðið á hnjánum grátandi um náð í aumu lífi - svo að í himnaríki hafni sú einmana sál - sem í kristni er skráð... ...förum eftir boðum og bönnum í trú um að við taki skýjaborgir og sæla en hvernig mun bregðast við veröld sú ef öll guðs góðu orð eru eintóm þvæla??? ... á krossinum hangir hann enn sá frelsari er dó fyrir menn við tökum hann niður senn... ... ...öll mín sorg sem áður sál mína grætti hefur nú gert mig að píslarvætti ég trúi ei lengur á að ofan hjálp berist allt það slæma er ég vænti - bara gerist... ...svo ef ég stíg framar og læt mig falla mætti ég sjálfan mig píslarvott kalla? því ef þunglyndi sorgin sál mína deyða og líf mitt er uppfyllt af trega og leiða hvert skal benda fingri - hverjum er um að kenna? þegar saklausar sálir niður í vítisdvöl renna... ...orðinn að sorgarinnar píslarvætti kæmi niður aftur ef ég mætti en nú hangi ég í blóðugum reipum fastur í dauðans sterku greipum... á krossi í dauðans sterku greipum... ] [ Í nótt mig dreymdi þig við vorum að kela saman þar fór margt fram, þú æstir mig okkur fannst svo gaman. Viðvorum einu sinni ástfangið par en það var allt búið við hættum að tala samna, hittumst hvorki hér né þar til baka við höfum snúið. Þetta var ekki raunveruleikinn þetta var bara draumur ég elska þig samt og er til í leikinn afhverju kvikna ekki okkar á milli sterkir straumar. ] [ Hendi sem reynir að finna vini Mjúka snertingu, hjálp leið út úr myrkrinu Tár sem brotna á harðri jörðinni ] [ Það er kvöld og ég horf´ á hafið leika sér í myrkrinu. Það er eins og ég standi á steini og sjái yfir heiminn -í sólinni. Ég ímynda mér að ég sé hér að lýsa í nætursólinni sem skín í kvöld. En þú ert sólin, heit og skær í myrkrinu. Að eilífu ] [ Tvo krumma sá, ég þá. Út úr kletti komu þá, en maður sá, kom auga á. Krummar sáu, þeim hætta lá, og flugu frá. Þó auga beini, ei ég sá. ] [ Sumarið er skemmtilegt, þá get ég vaðið í drullu. Blómin spretta, rigningin hefst. Nú er gaman að fara út á róló, róla sér í rólunni, horfa á heiðbláan himin. Nú er ekki tíminn til þess að hanga inni, tölvuleikir og sjónvarp, það er af og frá. ] [ óróinn er mjög smartur, en samt soldið svartur, og líka blár, ekki himinblár, en samt er hann flottur. ] [ Vont er að vera fullur, fyllibyttur gera mistök. Eitt vínglas getur skaðað góðan mann. ] [ Smár í faðmi, þú lást sofandi svo falleg sál. Kræktir þér stað í mitt hjarta kræktir þér stað í mig. Trúir sá sem elskar á ást til dýra og barna? Að sakna þess sem deyr að sakna þín mitt grey. Þú áttir, þér stað í faðmi er þig valdi. þó dáinn þú sért ég gleymi þér aldrei. ] [ Skein yfir landi sól á sumarvegi, og silfurbláan Eyjafjallatind gullrauðum loga glæsti seint á degi. Við austur gnæfir sú hin mikla mynd hátt yfir sveit, og höfði björtu svalar í himinblámans fagurtærri lind. Beljandi foss við hamrabúann hjalar á hengiflugi undir jökulrótum, þar sem að gullið geyma Frosti og Fjalar. En hinum megin föstum standa fótum, blásvörtum feldi búin, Tindafjöll og grænu belti gyrð á dalamótum. Með hjálminn skyggnda, hvítri líkan mjöll, horfa þau yfir heiðarvötnin bláu, sem falla niður fagran Rangárvöll, þar sem að una byggðarbýlin smáu, dreifð yfir blómguð tún og grænar grundir. Við norður rísa Heklu tindar háu. Svell er á gnípu, eldur geisar undir. Í ógna djúpi, hörðum vafin dróma, skelfing og dauði dvelja langar stundir. En spegilskyggnd í háu lofti ljóma hrafntinnuþökin yfir svörtum sal. Þaðan má líta sælan sveitablóma, því Markarfljót í fögrum skógardal dunar á eyrum. Breiða þekur bakka fullgróinn akur, fagurst engjaval þaðan af breiðir hátt í hlíðarslakka glitaða blæju, gróna blómum smám. Klógulir ernir yfir veiði hlakka, því fiskar vaka þar í öllum ám. Blikar í lofti birkiþrasta sveimur, og skógar glymja, skreyttir reynitrjám. Þá er til ferðar fákum snúið tveimur, úr rausnargarði háum undir Hlíð, þangað sem heyrist öldufalla eimur, því atgang þann ei hefta veður blíð, sem voldug reisir Rán á Eyjasandi, þar sem hún heyir heimsins langa stríð. Um trausta strengi liggur fyrir landi borðfögur skeið, með bundin segl við rá, skínandi trjóna gín mót sjávar grandi. Þar eiga tignir tveir að flytjast á, bræður, af fögrum fósturjarðar ströndum og langa stund ei litið aftur fá, fjarlægum ala aldur sinn í löndum, útlagar verða, vinar augum fjær. Svo hafa forlög fært þeim dóm að höndum. Nú er á brautu borinn vigur skær frá Hlíðarenda hám, því Gunnar ríður atgeirnum beitta búinn. Honum nær dreyrrauðum hesti hleypir gumi, fríður og bláu saxi gyrður, yfir grund. Þar mátti kenna Kolskegg allur lýður. Svo fara báðir bræður enn um stund. Skeiðfráir jóar hverfa fram að fljóti. Kolskeggur starir út á Eyjasund, en Gunnar horfir hlíðarbrekku móti. Hræðist þá ekki frægðarhetjan góða óvina fjöld, þó hörðum dauða hóti. "Sá ég ei fyrr svo fagran jarðargróða, fénaður dreifir sér um græna haga, við bleikan akur rósin blikar rjóða. Hér vil eg una ævi minnar daga alla, sem guð mér sendir. Farðu vel, bróðir og vinur!" - Svo er Gunnars saga. - - - Því Gunnar vildi heldur bíða hel en horfinn vera fósturjarðar ströndum. Grimmlegir fjendur, flárri studdir vél, fjötruðu góðan dreng í heljar böndum. Hugljúfa samt ég sögu Gunnar tel, þar sem ég undrast enn á köldum söndum lágan að sigra ógnabylgju ólma algrænu skrauti prýddan Gunnarshólma. Þar sem að áður akrar huldu völl, ólgandi Þverá veltur yfir sanda. Sólroðin líta enn hin öldnu fjöll árstrauminn harða fögrum dali granda. Flúinn er dvergur, dáin hamratröll, dauft er í sveitum, hnípin þjóð í vanda. En lágum hlífir hulinn verndarkraftur, hólmanum, þar sem Gunnar sneri aftur. ] [ ...úr bláskugganum í horninu sé ég afmyndaða grímu sveiflast til sem furðumynd hjá fíkli í djúpri vímu gengur fram hjá mér og skyggnist út um gluggann en kiprar sig svo saman til að hverfa inn í skuggann... ...í forvitni með spurn á vör ég læðist inn og leita spenntur líkt og rafmagnsstaur - á enninu svitableyta ég stend nú inni í persónu - sem reynir sig að hylja með höggum þungum reyni ég - grímuna ljótu að mylja... ...högg mín dynja á sálarveggnum - hendurnar litast blóði ég fæ ekki inngöngu - af baráttunni enginn gróði gríman stendur pikkföst enn - á vörum hennar gretta því aldrei mun mér takast að - mylja vegginn þétta... ... ...ég sný tilbaka vonlítill - grímurnar sterkar æ standa og persónurnar inni í þeim - ná aldrei sínum anda því loftið mun á endanum innan í grímunum tæmast og fólk allt mun til einveru - af mannanna rétti dæmast... ...en ef við brjótum niður vegginn - munum við komast út fjarlægjum okkar grímu strax - þennan ljóta gaddavírsklút brosum við hvoru öðru - þá fullkominn friður mun fást einmanaleiki hverfur þá - gleðin ríkir... og allsherjarást... ] [ Af hverju, af hverju gerðir þú það sem þú gerðir afhverju fórstu frá mér afhverju flúðir þú það líf sem þú lifðir hér afhverju skildir þú mig eftir og láta mig lifa lífinu án þín þú varst mér svo mikils virði mér þótti svo vænt um þig Þó að þú hafir yfirgefið allt og alla, þá ertu samt ennþá pabbi minn og það verðu þú alltaf ég mun alltaf sakna þín þangað til einn dag þá kem ég til þín en það verður ekki strax það verður ekki fyrr en tíminn er runnin upp sem mér var ætlaður ] [ We had our ups and downs but the sun always shone through, cause the darkness never could stand too much of the light. Without the storm there can be no stillness in our hearts, if it wasn?t for the clouds we couldn?t rest in the shade and without the pouring rain there will be no morning dew. Cause all those little things play their little parts I pray our love will never fade because I know that there is no me without a touch of you. ] [ It’s all slipping away I said some things I shouldn’t have, a reaction way to harsh to the facts that now stare me in the face. When I left you I was nearly in tears, cause you had confirmed my worst fears that after we were both set free I had lost a part of you and a part of me. I felt I didn’t know you anymore and partially it was right, but I had no right to call you a whore, it was an unfair fight. ] [ Það hvílir svo þungt á þér kellan mín, miklu þyngra en það ætti að gera, hvað hún er oft erfið og ósanngjörn, þessi skelfilega tilvera. En Guð leggur ekki á þig svo þunga byrgði, að þú náir ekki að standast þá þraut, því þó erfitt sé oft að fara Hans leið, þá liggur í glötun hin beinasta braut. Við eigum það sameiginlegt kellan mín, að hafa einhvern elskað sem við höfum svo misst, og báðar höfum við upplifað að, hafa í síðasta sinn góðan vin kysst. Hvert vinur þinn fór eða hvar hann nú er, því verður ei svarað af mér, en náð Guðs er óendanleg og seinna, í eilífðinni, svarar hann þér ] [ ...þegar hjartað hamast við að spýta út úr sér blóði gerist eitthvað merkilegt bak við rifbeinarimlavirkið mitt... ...hvað það er veit ég eiginlega ekki en ég finn alltaf hvernig blóðvökvinn streymir hraðar í hvert einasta skipti sem ég sé þig... ...kannski er það bara tilviljun að roðinn hleypur fram í kinnar mínar - einungis líffræðileg ástæða fyrir því hvernig hnén mín kikna - röddin brenglast og augu mín geta ekki fest sig á neinn hlut nema þig... ...einhver gæti túlkað það sem þriggja orða ástand eins og \"ást\" eða fjögurra orða sálfræðihugtak líkt og \"feimni\"... ...ég er reyndar kominn með nýja tillögu og um leið nýja skýringu yfir þetta - \"löngun blóðsins til að blandast hjarta þínu\"... ...eðlisfræðilegt hugtak hlýtur því að eiga rétt á sér í þessu tilviki - þegar þú gengur framhjá hlýtur blóðið að brjótast um til að losna úr líkama mínum - hitinn hækkar í mér - roðinn hleypur fram í kinnarnar - hjartað slær hraðar og í kjölfarið kikna hnén undan of miklu hjartsláttarálagi - hlýtur að vera...? ...bara pæling... ] [ gegnum nasir munn og lungu mín - kuldinn leitar fanga frostþokan í heimi rís - vetrarnóttin langa kári vindur - kaldur púki - blæs mér nú í kinn frostbitnar rósir á vöngum sitja - hrímið kemur inn ég á hart með að anda - öndunarfærin frjósa og brátt held ég inn - inn í framhaldslífið ljósa... aleinn á ferli og klifra upp hnífbratta tinda engin tré - engin kol - eftir til að kynda lopavettlingar og peysan köld - frosin af gömlum svita og rauðbirknir sólargeislar - vangana mína lita... ... fell að lokum uppgefinn niður - í herðadjúpum snæ taugaveiklun - kaldhæðni - að lokum nú ég hlæ deyjandi kaldur í óbyggðum hvítum - einn á ferð á ný flýg ég upp til skýjanna léttra - þar sem veröldin er hlý... ... köld frostþokan mig umlukið hefur líkaminn minn er dofinn og sefur sálin flakkar létt yfir fögrum dölum flýgur yfir djúpum og snæviþöktum sölum þar sem náttúran sín best nýtur og friðurinn blundar og hrýtur ég er hamingjusamur dauður hér þó frost hafi að lokum kálað mér... fegurðin er hér... ] [ svíf um í algleymi - týndur í algeimi og allt virðist vera svo bjart flögrandi á sveimi - í ógnarfleymi stari á himnanna skart... fljótandi kærulaus - þá leið sem ég kaus hvert sem ég lít er gleði þegar sálin mín fraus - féll neðar minn haus og ég lagði líf mitt að veði... sigraði sorgina - yfirgaf borgina og þandi út vængina - sem fugl fljúgandi hærra - milli stjarnanna skærra laus við allt jarðarinnar rugl... hversu sárt sem þú biður kem ég aldrei aftur niður hér lifi ég hlýr við hlið sólanna húki upp við alheiminn geimpúki - dreyminn og rekinn á brott úr hirð fólanna... ... að sofna ég fer - þar til sólin er hér og ég vakna hlýr við hlið þér lokuð eru augu þín - alsælan dvín glaður ég veit að þú ert mín... að lifa með þér einn í heimi þá er sem mig dreymi að ég þenji út vængi og svífi villtur á sveimi í stjörnubjörtum geimi við hlið þér er ég loksins á lífi... ] [ Skíman frá eldinum varpar birtunni á svefnpokann litlar flugur flögra um loftið og flýja er ég hreyfi mig fjallið bak við mig er svart að lit líkt og himinninn í fjarska. Grasið lyktar sem náttúrunnar ilmvatn lækurinn liðast áfram með lágum stunum sem halda fyrir mér vöku í nótt meðan fuglarnir sofa í bjarginu. Ég stari aðeins út undan mér og sé hvar maður kemur mikilfenglegur líkami hans brenglast í hitanum frá eldinum andlitið er stórskorið og hendurnar hrjúfar jörðin nötrar undan skrefum hans sem berast til mín. Skyndilega hverfur hann og ég stari upp í tjaldhimininn draumurinn sækir að mér líkt og her að virki ég sest upp og teygi úr mér faðma stúlkuna við hlið mér. Askan hefur fokið í burtu frá eldstónni og grasið er vott undan dögginni fjallið er grænt á ný himinninn er blár að vanda ferskt loftið lífgar upp á mig ég stari út í græna náttúruna. Og fótsporin eru þar enn. ] [ Rauð skýin hrannast upp á bláum fletinum Dökkt fjallið gnæfir yfir köldu húsinu Grasið bleytir fætur mína og festist á mér. Stend fyrir utan á dökkgrænni dyramottunni Horfi stíft á dökkbrúnan dyrakantinn Döggin lekur niður kálfa mína og sál mín grætur líka. Hvernig get ég komist nær takmarki mínu? Heyri umgang inni í hlýju herberginu Sýnin skríður inn um augu mín og heilinn brotnar saman. Þú brosir... Þú ert glöð... En ekki ég... Ég sakna þín... Ég vil þig nú... Þú grætur eigi tári... Yfir mínu hjartasári... Ég sný við og held heim á leið í kalt autt rúmið Átta mig á því að þetta mun aldrei ganga Hugsunin kæfir huga minn að lokum og sálin reynir hart að anda. Þessi eina nótt milli okkar hefur ekki skipt þig máli Þetta bros á andliti þínu skýrir svo ansi margt Að söknuður þinn er ekki dýpri en svo að ég heyri enn hlátur þinn hljóma. ........... Enn sit ég og hugsa... Þori aldrei að nálgast aftur... Þú hélst ég meinti ekkert með þessu... Ást mín féll á grýttan jarðveg... Tilfinningar gleymast aldrei... Einnar nætur gaman þýðir allt... Hjarta mitt er ekki lengur kalt... En köld þögnin sem tekur við af ástarorðum okkar Gefur mér tíma til að átta mig á einu Að ég er aðeins einnota elskhugi tómur líkt og pizzakassi. Einnota elskhugi... Einnota trúnaðarvinur... Einnota fullnæging... og einnota sál... ...aðeins umbúðirnar eftir. ] [ Steinninn starir á mig gráum djúpum augum Stjarfur stend ég og læt mig leka í grasið Leggst niður og læt draumana flæða inni í mér Loftið skríður inn um hverja vitund mína. Hamingja Friður Ró Skriðan skekst undan köldum fótum mínum Skakkur skríð ég á sleipu stóru grjótinu Niðurinn í fossinum færist nær og nær Nú finn ég hvernig steinarnir lifna við og hreyfast. Áhyggjur Æsingur Ótti Syngjandi skellirnir í hörðum hnullungum Sjúga um síðir úr mér allt mitt kalda hugrekki Finn ég hvernig þunginn leggst á líkama minn Liggjandi reyni ég að finna leið fyrir loft. Liggjandi Kafnandi Deyjandi Blóði drifinn í bergi köldu ligg ég særður Berjandi hausverkur magnar loftleysi og ótta Hver taug í líkama mínum skelfur af sársauka Sökkvandi dýpra, líf mitt leggur á flótta. En hvernig svo sem líðan mín versnaði Hvernig svo sem lífið mitt hörfaði Hélt ég ávalt í von þá er barðist inni í mér. Slasaður Særður Dauður Höndin var heit Andardrátturinn skjálfandi Ljósið kom fljúgandi Gegnum grátandi grjótið. Andlit þitt lýtalaust Hárið þitt gullslegið Sólin bak við þig Og rödd þín róandi. Þú togar mig upp Þú dregur mig að þér Þú dróst mig úr dauða mínum Þú bjargaðir mér... ] [ Dögun Laufið fellur niður líkt og fljót í klettabelti kettirnir ganga um mjálmandi til að einhver hleypi þeim inn en þrútnuð andlitin á gluggunum eru þunnindisleg bleytt upp úr vínanda og eiturlyfjum gærkvöldsins stara út og inn í eilífðina blönk og innantóm dauð fyrir mér. Morgunn Fólkið lifnar við og gengur út í sólríka kyrrðina sumir kveikja á sínum fyrstu sígarettum og stynja hljótt horfa um spekingsleg en samt svo tóm í höfðinu taka lítil skref og sopa af sterku kaffinu spáir í myndina á botninum á bollanum hvort þau verði hamingjusöm í framtíðinni. Dagur Bílar keyra um göturnar líkt og maurar í grasagarðinum fylltir af fólki sem hlustar á alltof háa tónlist og hugsar bara um gosdrykkinn og farsímann í höndum sínum hlustar á farþegann við hlið sér í bílnum sem talar einungis um kvöldið sem kemur hvort það verði ekki gaman í gleðskapnum í miðbænum. Rökkur Hálftómar göturnar óma af köllum og hlátri örfárra unglinga þau svíkjast um að koma í matinn til móður sinnar sem röflar bara um herbergisþrif og matartíma en þeim er sama og halda áfram á hjólum sínum borðandi sælgæti sem þau hnupluðu úr búðarhillunum taka mynd á leigu, fara heim og leggjast upp í rúm og prófa sig áfram á kossunum. Kvöldhúm Örfáar hræður týnast inn á götur miðbæjarins og drekka úr flöskum þær virðast svo einmana þarna án allra gamalla elskhuga leitandi sér að nýjum sálufélögum til að hlusta á sorgir þeirra og finna sig að nýju í faðmi einhvers til að elska og þrá örvæntingin í augum gamalla karla sem misst hafa konur sínar eykst með klukkustundunum sem líða en ekkert gengur í lífinu. Nótt Göturnar fylltar af innantómum sálum sem fylla sig með áfengi röltandi um göturnar og vona að einhver falleg kona sjái sig en ekkert gengur sem skyldi og leigubílarnir græða meira tínandi upp glataðar og tíndar sálirnar úr lífsgæðakapphlaupinu sem ekkert hafa misst og munu ekkert græða að lokum hugsandi það sama og allir miðaldra karlmenn hugsa að ekkert líf er skárra en að sitja heima og gráta og vita að einhver gerir það sama. Dögun Ég kem heim frá skemmtilegu kvöldinu í faðmi vinahóps og ástarinnar en finn samt hvernig þessar sýnir skríða inn í huga minn fyllandi mig vorkunnsemi og kvíða fyrir framtíðinni að kannski verður einhver eftir mörg ár sem mun hugsa það sama hugsar um mig, hvernig ég missti ástina mína og geng um strætin einmana og leitandi að einhverjum að nýju einhverjum til að elska og fylla framtíð mína. Ástæðulaus kvíði á skemmtilegu kvöldi. ] [ englar heimsins fljúga um og spila á strengi hjarta okkar eftir þeirra eigin hentisemi þeir eru ósnertanlegir og þú getur ekki ráðið við tónlist þá er þeir spila þú verður bara að hlusta sumir eru sjáanlegir en það eru þeir sem valda hjartasorgum þeir spila á hjörtu okkar og skilja okkur svo eftir með tóninn í eyrum og við verðum að hlusta áfram þú ert svoleiðis engill, þú spilar þungarokk með hjartað mitt og sparar ekki kraftana þó þú vitir ekki af þessu, þá gerir þú það ósjálfrátt með því að vera til, vera hér og ég hlusta og ég hlusta áfram og hjarta mínu blæðir út af ofreynslu það er kallað hjartaáfall hjartasorg eða ástarsorg englar heimsins eru ósnertanlegir og það ert þú líka ] [ Grátur getur verið sár en nú græt ég af gleði, því nú held ég á seðli, nú er ég ríkur, ég er ekki fátækur. Fátækum gef ég ei, nei fussum svei, ég á þetta allt saman, já, nú er gaman. ] [ Ljúft er lífið, dans á rósum ligg ég hér, ástfangin, ung fyrir nokkrum dögum, þá dó ljósið dimma myrkurs var svo þung. Í dökkum skugga, svartur hundur sál hann beit og nartað\' í nú skín ljósið, engill ástar aldrei mun ég gráta á ný. Ég sá ei sólu fyrir skugga svaf ei ei vel, því hatrið brann þú sólskins ástar, aldrei fara ástarengilinn ég fann. ] [ Líðum áfram í unaðsdraumi... hönd mín á þinni og augu okkar mætast. Þú grípur um mitti mér og leiðir mig áfram. Óstyrkir fætur mínir elta skref þinna. Þú sveiflar mér hring eftir hring og brátt styrkjast skref mín og fylgja takti lagsins ósjálfrátt. Augu mín elta þín og óttast ekkert, því ég fell ekki á meðan armar þínir umlykja mig... ] [ ?Faðir minn átti fagurt land?, fyrir það er ég hrelldur. Nú er það grafið í svalan sæ. Seiðurinn veldur, seiðurinn þessu veldur. Köld eru norna reiðiráð. Rammt hefur stjúpa galið, flögra ég um eins og hræfús hrafn. Hefur mig kalið, hefur á fótum kalið. Þó eru óbreytt augun mín, en álagagervið blekkir. Það eitt getur bætt um ósköpin, ef einhver þekkir, ef einhver svipinn þekkir. En enginn kannast við augun mín, í álögum má ég þreyja og seinast á hjarni hælislaus í haminum deyja, í haminum mínum deyja. ] [ Krummi svaf í kletta gjá, - kaldri vetrar nóttu á,    verður margt að meini; fyrr en dagur fagur rann freðið nefið dregur hann    undan stórum steini. Allt er frosið úti gor, ekkert fæst við ströndu mor,    svengd er metti mína; ef að húsum heim ég fer, heimafrakkur bannar mér    seppi´ úr sorpi´ að tína. Öll er þakin ísi jörð, ekki séð á holta börð    fleygir fuglar geta; en þó leiti út um mó, auða hvergi lítur tó;    hvað á hrafn að éta? Á sér krummi ýfði stél, einnig brýndi gogginn vel,    flaug úr fjalla gjótum; lítur yfir byggð og bú, á bæjum fyrr en vakna hjú;    veifar vængjum skjótum. Sálaður á síðu lá sauður feitur garði hjá,    fyrrum frár á velli. ?Krúnk, krúnk! nafnar, komið hér! krúnk, krúnk! því oss búin er    krás á köldu svelli?. ] [ Fósturlandsins Freyja, Fagra Vanadís, móðir, kona, meyja, meðtak lof og prís! Blessað sé þitt blíða bros og gullið tár; þú ert lands og líða ljós í þúsund ár. ] [ Noregs fornkóngur frægi frílega ríður Þorri enn, skola vill byggð og bæi, bændur lika og hýbýlin. Skjallarhvítt hár um vanga, hangir sítt skeggið langa, furðu lítt fellur honum að ganga. Viðtektir vill hann hafa veglegar rétt sem herramann; hvorki þarf söl né safa að setja á borðið nú fyrir hann. Kjötið feitt fellur honum, flotið heitt eftir vonum, spað tilreitt sparar hann ei hjá konum. ] [ Vindurinn þýtur og veggina ber. Komdu til hennar Hervarar kveðju frá mér. Segðu henni Hervöru, að hún sé stúlkan mín, og biddu hana að geyma vel barnagullin sín. Segðu henni Hervöru, að ást mín lifi enn, en hjartað sé að þreytast og hætti víst senn. Segðu henni Hervöru, að hún hafi það átt og heyri í stunum þínum þess síðasta slátt. Og segðu henni Hervöru að signa mína gröf, það verði mér látnum sú þægasta gjöf. Ef Hervör mín var draumsjón og hún er ekki til, kastaðu þá kveðju minni' í kolsvartan hyl. Vindurinn þýtur og veggina ber. - Bráðum fær hún Hervör mín boðin frá mér. Vindurinn þýtur og veggina ber. - Finnið þið ekki kuldann á fótunum á mér? ] [ Þegar hnígur húm að Þorra, oft ég hygg til feðra vorra, og þá fyrst og fremst til Snorra, sem framdi Háttatal Áður sat hann skýr að Skúla, og þar skálda lét sinn túla, bæði um hann og Hákon fúla, sem hirti frelsi vort Fögur knáttu gullker geiga, sem að gaman væri að eiga, full af safa sætra veiga, er sveif á alla drótt Snorri kallinn kunni að svalla, og að kæta rekka snjalla, þegar húmi tók að halla, í höllu Skúla jarls Og hann þoldi að þreyta bögur og að þylja fornar sögur, já, allt fram til klukkan fjögur, þá fór hann í sitt ból Samt frá hilmi heim hann stundar út til helgrar fósturgrundar og sitt skip að búa skundar það skáldmæringa val Þá kom bann frá herra Hákon, sem var harður eins og Drákon. "Ég er hákon -," sagði Hákon, "ég er hákonservatív" "Ég vil út! Ég vil út að bragði! Ég vil út", þá kempan sagði. "Ég vil út," og út hann lagði til Íslands sama dag. Af því beið hann bana síðar, fyrir buðlungs vélar stríðar. Síðan gráta hrímgar hlíðar og holt um Borgarfjörð. ] [ Hvílíkur hljómgrunnur! Hlustaðu á huga þinn stilla strengi hjartans til að skapa samhljóm með ímyndaðri veröld sem á ekki samleið með raunveruleikanum og hljómar hjarta þíns verða falskir, spilaðir eftir rangri uppskrift. ] [ Húmir í rökkrinu ljósvera. Geislar hreinleikans kljúfa myrkrið. Hún er birtan í svartnættinu. Ein. Í fjarska er ljósið, ljósið eina, sem hún ein sér. En í rökkrinu húmir hún ei ein. Því að úr kviksyndi óttans glampar á fleiri augu, glampar á klær. Kræklóttar krumlur fálma eftir fölsku sólskini. Þyrstar í von streitast myrkraverur á móti ljótleikanum og hrifsa til sín ljósglætuna. Sem ljósdropi í myrkri flýr hún svartnættið. Gegnum dimman dal skríður hún í átt að ljósinu. Þegar hún kemur í ljósið, ljósið eina, hefur vonleysið stolið birtunni. Í fjarska er myrkrið sem umlykur allt og hún ein sér. Og hún er aftur ein, skuggi af gleðinni, myrkur í ljósinu. ] [ Laufið grænkaði í ár og lítil von óx til þess eins að deyja. Sársaukinn kom eins og trjákróna sem stendur nakin í myrku veðri. Og þú sem gekkst af stað út í lífið varðst þetta tré. Þú gengur um í örvæntingu og spyrð \"afhverju ég\"? Og svo mun vera þar til þú rífur tréð upp með rótum. Ef þú hlustar á svarið er það allt annað en þig grunar. ] [ Valhoppa glöð gegnum garðinn sest niður og tíni tvö blóm hugsa mig um og held áfram tíni fleiri, þau eru fallegri þarna Amma verður glöð Hvíli mig, held áfram Úlfar eru ekki til ] [ Ég legg bölbæn á líðan þína alla, að enginn heyri ef þú ferð að kalla. Þér til handa vona ég þú kveljist og öllu illu sálin þín seljist. Sjálf þitt skal rotna upp að innan og svartasta dag muntu finnann. Þinn persónuleika svo sjúkan, að þú skelfist yfir að brúkann. Þú átt eftir að svitna og svíða, af sálarangist ætíð líða. Þín vitund skal dæmd á vítis bál, viðþolslaus sársaukinn fylli þína sál. Þín innri grimmd er þér sjálfum hulin, en mín bölbæn er engum dulin. Þú skalt gegndarlaust gráta og veina, og biðja Guð um að fá að gleyma. Það verður kvöl sem lýsir veginn þinn, enginn lifandi mun bjóða þér inn. Allir víkja vegi þínum úr, sárt er horfinn vinurinn trúr. Enginn saknar né vill vita af þér. Þú skalt visna í sálinni á þér. Brotinn ertu og skemmdur orðinn maður, öllum sama þó þú sért aldrei glaður. Enginn vill verja slæman mann, með einum vísifingri dæma hann. Vansæll og vinlaus í hegningu sértu, á ævi þinni lifandi, dauður vertu. Spegillinn sýnir brotinn mann, þú sjálfur kannast ekkert við hann. Þú munt líða og lúta innri manni, loksins sálarangist verður þá með sanni. ] [ Ég ólst upp í vosbúð og vesölum heimi, þar sem vorið er hvergi að sjá. Pabbi var stöðugt á stanslausu geimi, hann vildi mig ekki sjá. Ég reyndi að verða stór og sterk, en vonleysi og skítur bugar mann. Reyndi ég einhverju að koma í verk, var mér tjáð að ekkert ég kann. Ég fór að vinna við saltfisk og slor, en vegna þrælkunar hraktist á brott. Mót hungri og sora greikkaði spor, það var betra en háðung og spott. Ég höndina kreppi um gullnar veigar, legg varir við blautan og hlýjan stút. Vöðvar og vit, löngum það geigar. Ég veit fara á undan mér fæturnir út. Ég ákalla Drottin, grafin og dauð, í fúnum beinum lítinn fæ frið. Í holdlegu lífi gekk ég um snauð, nú grafin í moldu gefið mér grið. Síðan hrópaði hún úr gröfinni: Hárið er horfið, úldin og blá. Í líkkistu árum saman lá. Kjöt frá beini kasúldið og kistulokið maðksmogið. Höfuðkúpan orðin gul og ber. Ormar á líkamsleifunum gæða sér. Fataræflar fyrir löngu horfnir. Svona verða þeir, sem til moldar eru bornir. Breiðavík 1975 ] [ Gefa mun ég þér ei grið, því það bætir fátt. Það mun öðrum færa frið, þú leikur engan grátt. Lestu Biblíunnar bók, þar boðað er að maður sé getinn. En Biblían birtir lagakrók, þar er barnaníðingur drepinn. Framtíðin er þér forboðin, en fríðindi þú getur um beðið. Eftir vetur kemur vorboðinn. Með vönun er fyrirgefið. ] [ Þungur er dómurinn samt er hann vægstur þú ræðst alltaf á garðinn þar sem hann er lægstur. Þig ég gjarnan vildi sjá rotnaðan á kjúkum því þú eitrar allt þér frá með heilasellum sjúkum. Með liminn í réttstöðu biðjandi börn um káf helst villt óþroskaða ósnerta stúlku láf. Að spjalla ungar stúlkur og fá svo úr því kikk finnst þér ekki sjálfum þú vera eitthvað sikk? Breiðavík 1975. ] [ þarna stóðstu eins og engill uppí grænu hlíðinni, ekki var það þengill sem sýndi mér blíðunni gott. þú ert mér vinur í raun, minn besti vinur ekki minn versti heldur besti, það var eins og ég óx úr baun er þú komst í heiminn til mín og ég varð besti vinur þinn og þú minn. ég vona að þú farir aldrei frá mér að við verðum eitt, ef þú ferð þá kem ég með þér því þú getur mig ei neitt að verða eftir. þú ert minn engill minn vinur, við verðum eitt að eilífu... ] [ Ef ég legg höndina á brjóstið þá finn ég dingi... Þeir verða alltaf örari og örari... Það er eins og að líkaminn... sé að reyna að segja mér eitthvað... eitthvað áríðandi... Því sem hjartslættirnir verða örari... eru skilaboðin meira áríðandi... Ef ég stend kyrr er hjartssláttur ör... Ef ég geng er hjartsláturinn örari... Ef ég skokka er hjartslátturinn örari... Ef ég hleyp er hjarslátturinn örari... Svo loks... stöðvast allt... allur hjartslátturinn deyr út... og ég dey líka... Sumir halda að þetta sé hjartslátur... en ég er ekki viss... Hvernig geta dingir af hjartanu komið... ef hjartað er undir húðinni... inní rifbeinunum... þakkið lífærum sem vernda það... Þetta er ekki hjartað... þetta eru áríðandi skilaboð frá líkamanum... næst þegar þú finnur þessa dingi skaltu spyrja... Hvað viltu mér, líkaminn minn? Af hverju er ég annars að spá í þessu? ] [ I can give you my other eye... Just so I can be sure a you will never leave me... I can give you my heart... Just so I can be sure you will always be with me... I´ve kissed the moon a million times... I´ve danced with angels in the sky... I´ve seen snowfall in the summertime... I´ve seen the world from the highest mountain... I´ve even seen miracles... I´ve seen the sun make love to the sea... But I haven´t still seen anything... That amazes me quite like you do... ] [ When I wake up... When I am eating my breakfast... When I am siting in scholl and learn... When I am with me friends... When I am geting the high... When I am eating my dinner... When I am trying to fall asleep... Then all i can think about is... killing myself... go to a better place... there everything is so beautiful... no murder... no fright... no cruelty... just high spirits... When I get there I will tell you about it... all the beauty... If you want... you can come with me... See your future... see your assignment... see your reason... see you purpose on the earth... I will let you know when I get there... there will be soon... ] [ Í dag spáir skúrum úrhelli sorga og depurðar. Brosmild sólin mun taka völdin yfir gráu fölnuðu skýjunum. En áframhaldandi sút sorg og súld síðdegis. Stormur minninga úr ýmsum áttum herjar á óvarða huga. Skyggni lítið. ] [ My life is like a wildwood... no happiness... no people... no life... just woe and unhappiness... If I walk a while, I am lost... I can´t find any people to help me... I can´t find any track... I can´t find any way to go back... I can´t find any way to live this life.... My life is like a sad story... A litlle girl is try to survive... She is alone outside trying to warm up with her matchsticks... She dream about the rich people... How it is to be rich... and can do everything... To be inside and sit by with the fireplace... But her life is not so easy... Her life is so difficult... though she is just a litlle girl... This girl is me... This litlle girl wiht painfull past is me... Sometimes I can´t stand up... When I lie down the floor... I start scream... I start shake... And a feel like there is someone behind me... He is steping in my back with knif... He steping and steping... and I screaming and screaming... I can hear him say... Give me alchohol... Give me drugs... I start to screaming higher... and shake faster... I scream.... No, Leave My Alone! finally I fall in revere... When I wake up... with syringe in my hand... You think that your life is terrible... but my life is most terrible than yours... Envision your life as ten times more painfull. You have envisioned my life... If you envisioned your life is one thousand times more painfull. Then you have envisioned my past... Don´t say that yours life is terribly... ´cause my life is more terrible then yours... ] [ Þau spruttu við tjarnarbakkann Eins og vorblómin fögru Streimdu óstjórnanlega Líkt og kristallar Sem féllu loks til jarðar Með þungum ekkasogum Hvernig getur nokkuð svona sorglegt Verið svona fallegt?? ] [ Þú komst til mín og gafst mér brosið bjarta ég bauð þér mitt og svo kom nóttin svarta er hvítir armar hlekkjuðust mitt hjarta við hjarta þitt. ] [ I don’t know why.... but I love blood... I love watching it run down my hand... and come alive... I love the way it makes me feel... strong. Coz I am strong... I don’t cry... I’ll never cry again... the blood is my cry... the blood drops are my tears... red tears... It’s all your fault... you make me cut... every time you hurt me... you get a few cuts... every single cut on my hand has an assignment... a name... a purpose... a reason... sometimes it’s you... sometimes it’s just life… I don’t know why... but it helps me survive... Most the time I’m just in my room... I love my room... that’s where my knife lives... he has his special place... he’s my best friend... he’ll never leave me… he’ll never let me down… you let me down. that’s why I don’t trust you… you failed… you hurt me… I hate you… my knife hates you to… that’s why he’s my friend… Why… why do you do this… why do you hurt me… I never hurt you… I’d never hurt you… my knife might…. but not me… I swear… well no I don’t… but I’ll try my best... not to kill you… even if you killed me… inside… you killed my heart… you killed me. I don’t sleep… I hate sleeping… I hate trying to fall asleep… Then I have to think… And all I can think of… Is you… You… That’s why I don’t sleep… That’s why I cant sleep… That’s why I wont sleep… It’s all your fault… My whole life’s your fault… ] [ Finn á mér, finn það, sem ég leitaði að, rígheld í það, sem var glatað. Loka augunum, grábláum, dreg andann djúpt og kannast við lyktina. Ilmur af fortíð, angan af mér, fyrrum framtíð gleymd er. Augað sér sem vill, endurheimt hef vitið, loksins, loksins, velkomin aftur. ] [ Ég geng um torg myrkra lífs míns og skugginn minn er grafinn í gröf sálar minnar, mín eigin aska hefur fuðrað upp í endalausu vonleysi, augu mín eru tóm eins og viska hafsins, líf mitt gefur engu gildi fyrir sársauka fortíðar minnar og líf mitt tekur andköf yfir ainmannaleika alls sem fyrir finnst. ] [ Skuggar vonleysins hylma yfir sálu minni og sár erfiðar æsku byrja að grafa sannleikurinn er sá að ég er ein án hamingju og ástar ég geng um torg myrkra lífs míns í leit að gleði og smá sælu líkami minn byrjar að brenna af þrá mig langar svo að geta.... mig langar svo að geta.... mig langar svo að geta verið til án skammar afhverju þarf ég að vera svona afhverju er ég öðruvísi en aðrir mér líður illa hjálp einhver hjálp er ég einhvers virði eða er ég að visna upp??? ] [ Takk fyrir það þegar þú hélst mér Takk fyrir það þegar þú kysstir mig Takk fyrir það þegar þú sagðist elska mig Ég er hjá þér alltaf en samt ferðu Ég hlusta á þig alltaf samt segirðu ekkert Ég hugga þig alltaf samt græturðu ekki Afhverju er þetta svona flókið? Afhverju get ég ekki skilið þetta? Afhverju gerist ekkert? Er þetta allt ímyndun? Er mig að dreyma? ] [ Not knowing dont knowing I will never know how it feels to be alive I lie alone here in my room my mind is emty like my life all i have is all i have is to wait untill the one comes to get me take me away away from the pain the pain that wrists so hard in my heart Only the one can take it away by bringing me hate that one is the death ] [ Why does the thought of death The feeling of ending this life The torture, the pain, the hurt The discomfort I cause, Why does it feel so right? But the thought of the pain The mechanics, the method The hows and wherefores.. Why is that so beyond me, my abilities, My confidence? I know I would be better dead All I care for is others All I do is hurt others All I want to do is leave others To their lives away from me Is my inability from caring? Knowing the final act of hurt The final ability to screw others To give those who truly care A pain even I haven\'t done before? But they would recover And they could see it was done Maybe not consciously, but truly For the best for them And therefore the best for me. Is it fear that stops me? The inability to take the pain I couldn\'t inflict on myself The yellow man I am, The quitter, never finishing the Job So I carry on to conceal the feelings Trying to do all I can for all And still I hurt and give pain Cause confusion wherever I go That is why I pray to die. ] [ Jafnvel útsprungin rós er ekki jafnfalleg og þú Jafnvel Romeo elskaði Juliu ekki eins og ég elska þig Jafnvel besta ilmvatn ilmar ekki jafnvel og þú þó þúsund aldir líði þá með hverjum degi elska ég þig meira en hugsa alltaf...... ] [ Með hendurnar marðar minnist ég gærdagsins. Svitinn sprettur fyrst volgur en kólnar síðan á söltu hörundi mínu. Þar sem ég sit og finn eitrið yfirgefa mig finn ég að marið hjartað vill aldrei gera þetta aftur. ] [ Í slitnum gallabuxum og peysu sem ætti að fleygja stendur hann og starir. Reynir að finna tilganginn með þessu lífi á meðan hann reynir að muna hvenær hann svaf síðast. Baðleysið farið að segja til sín og lyktin orðin eftir því. Hugurinn reikar, dettur inn og út. veður úr einu í annað. Flestir segja hann vonlausan, jafnvel klikkaðan, en hún veit betur. Það vonar hún allavega því að undir yfirborðinu, drulluga og harða, býr stórt hjarta sem þráir að vera frjálst. ] [ Vitundarlaust um eigin takmarkanir, steypa sér til glötunar þegar sumarið kemur. Svampskórnir burt og flíkirnar með, fíngerð umgjörðin opin fyrir hættum umhverfisins sem það smíðaði sjálft. Fegurðarskyn þess steypi því til glötunar. Fyrsta skrefið og brotin byrja að kvarnast úr löppinni, og það næsta. Brotin þyrlast um götuna og hver á fætur öðrum fellur til dauða síns, hvert á fætur öðru áttar það sig á hryllingnum sem bygging steinsteypuborga hafði í för með sér. Allt þetta, því þau vildu sýnast meiri en þau eru í raun og veru. ] [ Milli þilja leynast minningar sem gleymdust í algleymingi nútíðarinnar Milli þilja leynast bergmál radda sem dofnuðu í síbylju sjálfhverfunnar Það var milli þilja sem ég gleymdi minningunum sem þú baðst mig að geyma Það var milli þilja sem ég glataði þínum dýrmætustu eignum ] [ Ljós myrkra daga læða fingrum sínum um líkama minn... Sefandi leysa þeir dofann... ] [ Ómur af píanói, húsin tala sig í svefn, reykhringir út um munninn, ljósamergðin ærandi í myrkrinu en, þegar út í andvarann er komið, gleymist allt. ] [ Andstæður heimanna beggja hindruðu langþráða snertingu Í litrófi heimsins fannst enginn staður fyrir grátt Á öngstrætum ímyndunar minnar gekk ég hnarreist þér við hlið Á breiðgötum raunveruleikans óskaði ég oft að þú værir ekki til ] [ Í birtunni frá kertaljósinu breyttust tilfinningar mínar Ég sá fyrir endann á byrjuninni Löngu gleymdar hugsanir urðu orð, áður ótöluð nú öskruð En hljóðlega samt Frá bjarma götuljósanna vörpuðu yfirséðar lausnir á yfirlýstum vandamálum sér í fangið á mér Fumlaust og gætilega lagði ég þær til hinstu hvílu og hélt minni ferð áfram ] [ Ég man þú talaðir til mín eins og ég væri lítið barn. Litla barn í vöggu grætur. Tárum bláum, gráum. Og þú vaggaðir mér í svefn, mér þótti það svo gott. Þú sagðir alltaf að ég væri blómarós, rósaljós, ljós á rós. En ég vissi alltaf að hún væri blóðrauð, dökkrauð... dauð. Þú kastaðir á hana ljósi sem gerði hana að blómi, nýju, lifandi, lofandi, falleg en ég vissi að hún væri í raun visnuð, köld og dauð. Þú sást það aldrei, sem betur fer, því þá hefði hulunni verið lyft og allir hefðu séð beint inn í sálu mína. Þú varst vatnið sem hélt blöðunum grænum og litnum dökkrauðum svo hún yrði ekki alveg svört, visin, þurr. Lífins vatn. Dauðans haf. Hremmdu ekki sálu mína. Taktu hana ekki í þurrausnar bárur þínar í svartri nóttinni. Ég hef ekkert annað en lífsins vatn að næra mig á, þessi visna svarta rós. Og þetta haf með eilífum hótunum hokir yfir mér eins og þurs. Svarta myrkrið hremmir litla barnið grátandi. Tárum bláum, sáran grætur. Og hlátur þess bergmálar á milli skýjaborganna, berg í gulu og rauðu, berg sem kasta ekki spegilmynd, spilaborgir, spilaberg. ] [ með kipp, horfir út um gluggann, sem farþegi. líður hjá, undan horfir - annars staðar, á öðrum stað. nemur staðar, langt frá, farin ekki flúin. finnur ekki löngun lengur og andar léttar. með kipp, hikstast fram hláturinn, endurheimtur. horfir á nýstárlegt útsýnið þjóta hjá. ] [ orðaleikur um hvern einasta þumlung af líkömum fagurra hnáta einkennir þennan heim sem kenndur er við ljóðaskrif og bókmenntir. stundum sest maður niður með ljóðabókina popp gosdrykk og undir sæng og ætlar að njóta sín allsvakalega vel hlæja og tárast en þegar fyrstu síðurnar eru fullar af hreint út sagt viðbjóðslegri væmni þá get ég ekki meir loka bókinni og byrja á næstu kvikmynd. fullkomlega ótrúlegt hvernig sum ljóðin hljóma fáránlega og viðurstyggilega ófrumleg og leiðinleg - yfirfull af sömu orðunum sömu uppsetningunni og sömu sykurpúða og hunangshúðaða málinu. nei ég loka bara bókinni og gleymi mér yfir heilalausri hasarmynd. en bíðum nú við. stundum fellur tár úr mínum hvörmum og rafstraumur fer um í mínum örmum þegar hún er hér og umlykur allt er heili minn tómur og hjarta mitt falt. ég gerist einnig sekur um að skrifa undir áhrifum ástarinnar og get því alls ekki einbeitt mér að frumleika orðaforða og gríni. ljóð mín geta því stundum einnig verið væmin líkt og ljóð allra hinna og þess vegna ætla ég hér með að koma út úr skápnum með allt mitt hafurtask og viðurkenna glaður: ég er viðbjóðslega væminn. vegna ástar er litli heili minn tómur og í honum er aðeins bergmálandi ómur um nafnið sem dvelur í hjarta mér nú hljóðið er skýrt og það ert bara þú. þegar ljóð eru skrifuð undir áhrifum ástar eru pælingar þær í fáum tilvikum skástar en þó orðaforði skáldanna virðist oft á tíðum bila þá kemst meiningin um tilfinningar ætíð til skila. því hvet ég alla þá sem eiga við sömu vandamál að stríða líkt og ég [þora ekki að vera væmnir en eru það samt innst inni] að opna sig upp vera stoltir af sjálfum sér og tilkynna öllum þeim sem kemur það við: Ég er væminn og ég er stoltur af því! þetta kann að vekja mikilli hneykslan í vinahópnum eða jafnvel hjá ykkar nánustu fjölskyldu en verið ekki hrædd - þið eruð ekki ein um þetta vandamál. komið út úr skápnum verið þið stolt og verið þið væmin! ] [ líf og dauði eru tvö fyrirbæri sem gjarnan er talað um í fjölskylduboðum námsbókum sjónvarpi útvarpi og á internetinu. enginn veit fyrir víst af hverju við fæðumst inn í þessa rugluðu fáranlegu ósanngjörnu veröld sem gleypir okkur í bernsku og hrækir okkur svo út með sársaukafullum hætti í lokin. margir hafa pælt í tilganginum fyrir sorginni eftirsjánni gleðinni greddunni og þessari sífelldu endurnýjun á nýjum jarðarbúum. enginn hefur komist að hinu rétta svari en engu að síður tel ég mig hafa nálgast það á nokkuð skemmtilegan hátt fyrir skömmu. guð er vissulega til og til að sanna það ætla ég að koma með nokkur dæmi sem algjörlega er ómögulegt að véfengja og reyndar enn ómögulegra að sanna með öllu. guð er bóndi. þegar við fæðumst erum við lítil korn á andliti plánetunnar sem við köllum \"jörð\" [mismunandi eftir hinum aragrúa tungumála sem til eru í heiminum en af sama indóevrópskastofni engu að síður]. guð tekur svo kornin [okkur] upp frá yfirborðinu - veðrar okkur svo aðeins til í lífinu [leyfir okkur að þroskast og dafna] og tekur okkur svo loks á endanum og lætur okkur aftur niður í jörðina [það kallast \"jarðarför\" á okkar tungumáli en eitthvað annað þarna uppi hjá honum]. þegar við höfum svo dvalið í jörðinni í þó nokkurn tíma þá hefur moldin [áburður guðs] tekið upp í sig allt kjöt af beinunum okkar og skilið eftir sig algjörlega einskisnýta beinagrind. út frá kjötinu og áburðinum vaxa svo ávextir sem að lokum eru nýtt sem kóngafæða uppi á himnum og englarnir þar gæða sér á þeim [og auðvitað hinn drottnandi guð líka]. eftir að hinar guðlegu verur hafa kjamsað á aldinkjötinu þá taka þeir upp bók og skrifa í hana athugasemdir um gæði ávaxtarins. 1. ef ávöxturinn bragðaðist vel þá mun persónan sem áður hvíldi innan í korninu [nota bene: sem síðar varð að þessum ávexti] hljóta ríkuleg laun og dvelja með englunum uppi á himnum. 2. ef ávöxturinn bragðaðist sæmilega en var engu að síður ekkert sérstaklega góður á bragðið [eins konar hlutleysisbragð] þá fer persónan niður til jarðar að nýju sem nýtt korn og fær þannig annan möguleika til að sanna sig fyrir bragðlaukum Himnaríkis. 3. ef englarnir og guð kúgast á ávextinum og nánast æla honum út úr sér er honum [eða bitanum sem eftir er réttara sagt] fleygt á risastórt bál sem brennur í arinofni skýjanna [það útleggst \"að lenda í \"Helvíti\" á okkur tungu]. niðurstaðan er sem sagt þessi: *guð er bóndi og við erum fæða hans. *okkar tilgangur er að hljóta mikla reynslu í lífinu og þroskast því og dafna eins og mögulegt er - ávöxturinn hlýtur því að verða meyr undir tönn og bragðmikill líka [þá brosa englarnir skært og skrifa góðar athugasemdir í bókina miklu] *og loks má nefna að ávextir þeir sem við [\"mannfólkið\" - \"kornin\" eða hvað nafn við höfum svo sem] borðum sjálf [epli - bananar og appelsínur til að mynda] voru í raun upphaflega geimverur frá mars - þar sem allir vita að þessir ávextir eru mjög gómsætir þá má vissulega finna ástæðuna fyrir því að engar geimverur er lengur til á plánetunni mars. við höfum einfaldlega skrifað of mikið af lofyrðum um þá í bókina okkar og þeir hafa allir hlotið þau örlög að koma hingað í sitt framhaldslíf. ... þetta er nú allur tilgangur lífsins og nú vona ég ykkar vegna að þið munið bragðast vel að lokum. ] [ Hvað viltu meira frá mér þegar þú hefur tekið allt til að ylja þér? Þú fórst yfir mig eins og rússneski herinn; Sviðin jörð Moldarbörð Hér gætir uppblástra vegna þinna ásta... ] [ Líttu niður, Sjáðu svarið. Enginn hefur áður farið þessa leið. Hugsaðu, þá veistu hvar allar heimsins gersemar eru faldar Langt í burtu nær en þar hvergi þar og allstaðar Djúpt í huga mér ] [ Á Íslandi eru boð og bönn lög eru sett á allt og alla, fólkið fyrir það líður önn máttur frelsisins er farið að falla Eftir margra ára Kvöl hefur alþýðan fengið nóg, Davíð og hans stjórnar böl gengur um með lygi og róg. Hvað er fyrir fólkið gert? það er kúgað daga og nætur, kúgunin er bara hert og hert að endingu undan það lætur. Hvað hann hangir lengi með harðstjórans óstjórn, það væri gaman ef lágstéttin fengi allt sem hún á þótt það kosti fórn. Lýðræðis kjaftæði alla daga sljóvgar hugasanir okkar, frelsi okkar er gömul saga því harstjórnin neitar lífið að laga. Við verðum að rísa upp gegn valdi sem er að drepa okkar stétt, verkamaður er í haldi gjaldþrot hans er ekki frétt. Ef þú ætlar eitthvað að gera leyfi verður að fá að hafa eitthvað til brunns að bera getur skuld þín orðið há..... 18/7-1995 og 11/2-2001 ] [ Ég elskaði þig svo heitt... Kannski glóir enn í hjarta mínu. Kannski er það svart, sótið eitt. Enginn veit... Ég veit það eitt að ég græt á næturnar. En hvort ég gráti þig eða ástina eða brostna von, Enginn veit... Í gegnum tárin stara augun á gamla mynd af okkur tveimur. En hvort tárin falla vegna þín eða mín, Enginn veit... Augu mín svíða af söltum tárum, hjartað verkjar og maginn engist sundur og saman, líkt og ég og þú. En hvers vegna, Enginn veit... Er augu okkar mættust varð neistaflug líkt og þau væru stjörnuljós og ragettur þeyttu hjörtum okkar til himna. En hvort þau snéru aftur, Enginn veit... En þó elskan hafi flogið sinn veg, hatrið tekið við og slæmir hlutir gerst, hvíslar mitt litla hjarta enn að þínu: „Ég elska þig...“ En hvort vindurinn beri þér það til eyrna, Enginn veit... ] [ Hún í þunga hjarta mínu er Henni myndi ég gefa sálu mína Ég vil aðeins elskunni minni sýna að aldrei í lífinu ég vil fara frá þér Dimm er nóttin og dagurinn kaldur sem ís dauðinn mig sækir ef þú vilt mig ekki því þú hefur fangað mitt hjarta og sett í hlekki og hjarta mitt án þín getur ei verið og frýs Regnbogastelpa ekki sálu mína meiða mundu mig og vertu með mér undir fögrum himni í fjöldamörg ár Því ástin ég vil ævi minni með þér eyða eiga með þér margar sælustundir og verða með þér gamall og grár ] [ ég elska þig alltaf endalaust svo sárt ] [ Endalaust alltaf með hugann við eitthvað annað, hjartað í þversögn við hugann. ] [ ég vildi ég gæti skolað þig af mér undir heitri vatnsbununni nuddað þig burt úr huga mér með sápunni þess í stað svamlaru um inni í mér kreistir í mér líffærin ] [ mig langar bara að þrýsta þér að mér fast FAST og ÞÉTT og HEITT og ÁKAFT þangað til ég verð örugg og þú líka alltaf mig langar bara að mála handa þér heim sem þig langar að lifa í og þú tekur í höndina á mér og leiðir mig út í hláturinn ] [ Hann stóð völtum fótum fyrir framan mig, ég skildi ekki fyrr en ég fann lyktina af honum, ég gleymdi að anda. Starði í augu hans, sá ekkert sem ég þekkti, hann reyndi að segja að hann væri leiður en ég gat ekki huggað þennan ókunnuga mann sem ætlaði að klappa mér á kinnina en hitti ekki. ] [ ég geymi þig í brjósti mínu hlúi að þér gleðst aðeins þegar hlýjan fyllir brjóst mitt þú í brjósti mínu ] [ what I see in the mirror makes me wanna cut myself out of this life I am the only monster in this world that I truely fear truely hate ] [ Í björtu tunglskini svífur yfir vötnum mánadís, endurkastar birtunni, blindar hjörtu sem láta tælast af söng hennar. Ljúfir tónar liðast um loftið og laufin bærast af fögnuði. Lýsandi af hamingju tilbiður hún móður sína sem í fullum blóma breiðir ást sinni yfir heiminn. En þegar gyðjan leggst í hvílu sína og rökkrið svífur á braut fellur dulúð næturinnar í skuggann af nýjum degi. Óttinn við myrkrið hverfur og hjörtun fá sýn á ný. Huldan svífur á þokuskýi aftur til himna, grætur söltum tárum til mannanna. Því enginn man hver sefaði óttann er myrkrið byrði þeim sýn og flauelsmjúk dimman lagðist yfir jörðina. Hún var aðeins draumur. ] [ Með stjörnur í augum líkt og dimmblár himininn hugsa ég um þig. Í draumi dags líð ég áfam, stjörnur augnanna berast með vindinum sem og nýfallin lauf, fallin af blómstruðu tré. Og þú ert horfinn. ] [ Öldurnar brotna í flæðarmálinu. Úr brotinu stígur vængbrotinn fugl, stígur í sandinn þungum skrefum sem skilja ekki eftir sig spor. ] [ Að spila á lífið er eins og að plokka strengi hjarta síns. ] [ sólin virðist kúra löt undir þykkri og grámöskvasaumuðu skýjaábreiðunni. út úr litlu rifunum má sjá geisla hennar sem hljóðlátar hrotur - og ég veit nú að hún mun seint vakna. ljósið allt í kring er framkallað úr rafmögnuðum perum - sem megna sín lítils gagnvart skammdegisins árás. vindurinn byltir sér í mókinu sínu og hreyfingar hans kalla fram lítillátan en greinilegan gust. hár okkar dansa í takt við hægan andardrátt kára og á húð okkar sest döggin sem runnu úr hvörmum andrúmsloftsins. trén syngja bakraddirnar. á götunum hlaupa til örlítil sandkorn sem nýta sér tækifærið og leika hróka þessa lágstemmda fagnaðar. plastpokarnir og svalafernurnar sem duttu úr fangelsum heimilanna leika sér fljúgandi um loftið - sem hrafnar í háloftum. í fjarskanum má heyra tónlist úr fjarlægum búðarglugga: í mókinu dvel ég og í þögninni sef vetrarárstíðin er laus við allt þref náttúran tekur undir sönginn svo tær og í hlutleysisveðri er ég værukær. milli vetrar og vors líður furðulegur tími. tími sem einkennist af skringilegu veðri. ég læt skammdegið seitlast inn um hverja frumu mína. eftir örskamma stund mun myrkrið loks dvína. ] [ Ég átti mér drauma er ungurég var hélt að gæfan fyldi mér til enda en endaði sem róni á óþekktum bar já ég endaði sem drasl sem mátti henda. Með ást og hatur sem endaði með draum með draum sem endaði illa og fúll, ég gat ekki skilið að lífið hafði saum sem fór út af sporinu og hélt mér sem núll. Ég hef reynt að meika það lengi, mér gengur bara illa úr þessu alltaf ef ég reyni þá sjálfan mig rengi, lífið í rúst,fjármálin komin í klessu. Uppgjöf hefur hrjáð mig stíft og hljótt því draumnum get ég ei bjargað, mér hefur ekki í lífinu verið rótt ég kemst ekki frá þessu:róninn hefur mér fargað! 0207-1997 ] [ ...þið vitið ei að það er fátt sem kemst í gegnum netið og fáir hafa þol svo gott til að brjótast gegnum hretið í fræðum öllum leiðinlegum má lesa um sálarhreysi sem líkt og ég eru mettaðar af menntuðu metnaðarleysi... stútfullur af námsleiða - bugaður af leti nenni ei að lesa neitt - fastur í þessu neti kemst ei fram og kemst ei tilbaka ég get ekki haldið áfram að vaka... ...sofna með bókina undir kinn ...búinn er litli metnaður minn! ] [ Eftir langdregna nótt þá er setið var að vínum kom dögunin fljótt sem einn geisli gegnum ský móðan fyrir augum mér hvarf mér brátt sýnum og fætur mínir verkuðu sem ógnarstórt blý... Ég nennti ekki að ganga - þá leiðina heim skotraði mér inn í bílinn og kveikti á ég hlustaði ekki á vælið í öllum þeim því svífandi gatan var það eina sem ég sá... Ég keyrði svo hægt og rólega af stað og passaði að lookið mitt væri svalt bakkaði út um eitt örmjótt ljótt hlað stýrið rann ljúft í höndum mér kalt... Ég veifaði flottur á sportbíl og keyrði en áfengið fór brátt að rugla mig smá brosti breitt er ég öskrin öll heyrði svo hvarf það glott úr feisi mér frá... Ég hafði bakkað á fjandans vegrið og nú heyrði ég hláturinn hljóma kúlið var farið og skömmin tekin við og ég bölvaði haus mínum tóma... Ég steig út úr kagganum og hvarf á braut ég hafði eyðilagt flotta bílinn minn um skóreimar á göngunni ég niður hnaut og heyrði hláturinn í síðasta sinn... ] [ tunglið rís hærra á himinhvolfinu horfir yfir myrkvaða veröldina sofa grár bjarminn fleytist á vatnsfletinum er það ferðast um skýin felur sig bak við skýin og njósnar um mig... augað alsjáandi - dómarinn eilífi flakkar hér um til að sjá inn í mig hlustandi á hugsanir - vitandi langanir og veit allt um það sem að dvelur í mér... ég leita skjóls - en ljósið nær til mín syndir mínar opinberast senn ekkert flýr - þegar sterkt máninn skín um himinninn flýgur hann enn... menn eru blindir sjá ei mínar syndir og svik gagnvart hverjum vini trúleysi máttleysi ódyggð baktal stríðni og fryggð í feluleik undir mánaskini tunglið rís hærra á himinhvolfinu syndir mínar opinberast senn ég verð að hverfa í flýti til að fela sálarlýti því syndir mínar drýgi ég enn... ... í felum þar sem tunglið nær aldrei að sveima og ég gref mig ofan í botnleðjuna þar sem ég á heima... ] [ með gullið hár og augu sem stara svo djúpt - brúnt hörund silkisléttar rauðar varir sem glotta hæðnislega að hinum gengur hann beinn í baki - stoltur af tilveru sinni hér á jörðu ástfanginn af sjálfum sér - þessi \"myndarlegi\" - þessi \"sæti\" myndi riðlast á sjálfum sér og speglinum ef hann gæti... ég er þreyttur á hræsni og hroka þessa heims sem við búum ég er þreyttur á tilveruleysi þess drottins sem við trúum blind við göngum þann veg sem fyrir okkur er lagt gerum það í sannri hlýðni - allt sem okkur er sagt... leggjum á okkur erfiðisþrautir og eyðum miklu fé til að hindra það sem annars myndi kannski ske verða ekki útskúfuð sem fólk - litin hornaugum við drögumst inn í hópinn - með tilveruleysisdraugum... ... til fjandans með meik og til fjandans með gel ljótum og asnalegum líður mér helvíti vel til fjandans með brúnku og til fjandans með þig ég þarf ekki að þykjast er ég hef fundið mig til fjandans með hössl og til fjandans með vín drykkfellda gervistelpan mun aldrei verða mín til fjandans með trú og til fjandans með pólitík til fjandans alla og hverja einustu silkiflík til fjandans með hroka hræsni flón og klón meikaðar gervipersónur - chockoa - gerviblóm til fjandans með gleði ef ég er slappur og leiður til fjandans með allt ef ég er æstur og reiður til fjandans með sorg og til fjandans með lyf ég vil ekki upplifa fjandans gervialsælusvif til fjandans með ljóð og til fjandans með blíðu til fjandans með blóð og aðra fylgikvilla stríðu svo heyrðu minn óð og fylgdu mér eftir svo ekki verða aðrir asnar frelsisheftir!!! ... ég er ég sjálfur og ég mun verða það æ sama hvað ég lifi - og sama hvað ég fæ ég mun geta litið aftur og við mig sagt þessa lífsins braut - hefurðu sjálfur lagt því þó ég gangi í slitnum fötum og skórnir allir alsettir götum ég sé ekki dáður í veislum öllum dýrkaður af frægum gerviköllum þá mun ég lifa það sem ég vil upplifa sjálfur og vera til... ég er ekki gervimaður - dökkklæddur lúði ég er ekki inni - né draumaprinsinn prúði ég er ekki úr plasti - ekkert sálnameik fjandinn hafi það... ég er ekki feik!!! ] [ lítil stúlka - lömuð neðan höfuðróta - getur sig hvergi hreyft blind - mállaus - en getur samt heyrt hvað þau segja hvernig þau hæðast að henni - hlæja í skjóli heimsku hún grætur þöglum tárum - snöktir þögul æ í myrkri og ekkasogin kafna í líflausum líkamanum... haldið á lífi - sem sýningargripur - tilfinningalaus og sætur situr alein á heimili þar sem ofbeldi og harðræði ríkja faðirinn drykkjuhrútur - móðirin bæld og barin systkinin brosmild - en á líkömum litlum marin fyrirbærið í horninu vekur hjá þeim hlátur... hendur lamaðar - hún mun aldrei skrifa ljóð um sínar sorgir fætur látnir - hún getur aldrei losað sig - og hlaupist brott búkur dofinn - hún skynjar aldrei hlýju varir þögular - hún getur aldrei öskrað augu lokuð - og hún sér aldrei fegurð... en hjartað mun engjast og hristast... ... hún er voodoodúkkunálapúði fjandans örlaganorna hjartað troðið af stikum - sorgarblóðið nær aldrei að þorna hún hugsar um allt - sem hún hefði getað skrifað hún sér eftir öllu því - sem hún hefði getað lifað í eilífu eilífi - er sem hún svífi í skuggum dimmum þar sem myrkrið hvílir - og hún berst í heljarrimmum... við ímyndaða djöfla - sínar sköpuðu hugsanir horfir aftur til svartholsins - það eina sem hún man það eina sem hún sér og það eina sem er hér... ... hjartað engist og hristist... en líkaminn situr æ kyrr... í horninu þar sem hún hvílir... fangi... í búri... sálin... í búri... hjartað engist og hristist... en engin er leiðin út... lömuð föst - en hjartað heldur brott úr líkama hennar og stefnir þangað þar sem lífið er gott í draumunum þar sem allt annað er gott... ] [ Rotið eplið fellur sjaldan langt frá fötunni fíflar eins og ég vaxa villt í sléttu götunni sem lirfur verða fagrar og illgresið að blómi í taktleysi fell ég ei að samfélagsins hljómi... Sem illa lyktandi sápa er áður dvaldi í laugum ligg ég núna ofnotaður á tilverunnar haugum uppsoginn brjóstsykur og ónýttur úrgangur viðbrenndur kalkúnn og burtskorinn \"botnlangur\" \"Ég er andskotans fituklessa í hjartans miðjutaugum!!!\" Tómur að innan og tilfinningalaus fjandi tjara fyrir heila og hjarta úr sandi ónýtur þegn og vítt þekktur fyrir leti þekkjast mín brögð í mínu svikamylluneti... Það er helvíti skítt ef sáðlát hefur það skárra og skýjableik hamingjan er í höndum svo fárra því þó ég sé hvorki fæddur né dauður og fátækur í lífi - minn þekkingarauður þá hrökklast ég undan augum svo grárra... Og ástlaus eind í rósarinnar þyrni í frumum mér hatandi meinlætiskirni á hugum ykkar er ég nagandi naðra nú hlustið þið ei ef ég tek að blaðra og þó ég hafi ekki fæðst í þennan heiminn enn þá skuluð þið hlusta - þið værukæru menn: \"Ég er drottnari í vítum öllum títtnefndum og öskrandi af þrá - mitt hjarta nær hefndum við áróðri mínum þið haus hafið hrist en brátt munið þið sjá: nýjan Antikrist!!!\" ] [ ég er viss um þá tilfinningu sem ég hjarta mér dvelur það þýðir ei að læðast nú og fara í felur fullkomni engill - ég hef gefið þér fögur nöfn en í birtingu sé ég ei - ást okkar í höfn... hamingja við það eitt að heyra þig anda er þú sofnar og samtölin okkar stranda ég þori ekki að leggja niður tólið og hlusta því lengur og forðast bólið... ég sit einn og stari á vegginn - ekkert hljóð vil eyða öllum tíma - í að skrifa þetta ljóð því í lampaskímu einn í vöku - ljúfa jólanótt vil frekar hugsa um þig - en sofa vært og rótt... gefðu mér gefðu mér frið vaktu með mér og vertu mér við hlið því ég er fangi í búri og einmana kúri með símann mér við hlið... mér er sama um alla og gagnrýnisraddir því þú tókst allt mitt dimma - og gladdir ég myndi frekar dvelja með þér en hinum því að á toppi trjónir þú - af öllum mínum vinum... sæla - af því einu að þekkja þig svo mikið og um leið dafnar allt annað hér fyrir vikið sæla - af því einu að heyra þig tala við mig ég er ekki feiminn - ekki í felum... ég elska þig... svo gefðu mér frið og gefðu mér frelsi vertu mér við hlið undir hamingjunnar pelsi... taktu þátt í tilveru minni trúi ekki á engla - en trúi á þig gríptu mig - lokaðu mig inni svo haltu mér föstum og frelsaði mig... haltu mér föstum og frelsaði mig... ] [ Í morgun sá ég minningu gamla - sem visið gras á sléttunni kalið Hver var hún þessi fallega sýn - sem í huga mínum hefur dvalið? Gegnum ísað hjarta mitt - ofsóknaræði - og minn sýkta, brjálaða huga Hafði hún geymt sig - gleymd - og þar sem hún mátti mér ei duga... Ég starði og barði í kollinn minn gáttaður - hvar hafði hún verið? Því ei gat ég séð hana - blindaður af tárum - séð þar bak við glerið Hún var ætíð þarna - ég leitaði aldrei - ég gleymdi mér agnarögn Hjarta mitt sýkt - gleði mín týnd - mín eigin ragnarrögn... En nú horfi ég stoltur á spegilmynd mína - hún er örlítið þreytt Baugu undir augum - fölleit - skeggjuð - að öllu leiti breytt En bak við augun - þar sem ég leitaði aldrei - leynist ennþá hlátur Og minningar um hinn gamla mig - kalla fram gleðigrátur... Með hlæjandi tárunum ég horfi á mig - ásýnd mína fríða Allt hefur breyst á örskotsstundu - þó biðin var lengi að líða Ég fann mig sjálfan að lokum - rataði inn á hinn rétta veg Þessi fyrrum týnda sál - frelsaðist nú - ég er aftur orðinn ég... Spegilmynd - þú getur teymt mig héðan brott Bak við glerið - þar sem lífið er glatt og gott Dragðu mig burt - þar sem draumar mínir bíða Sýndu mér staði - þar sem tíminn er lengi að líða Þar sem fagrar meyjar - fríðir piltar - hlæja dátt Stíga dans inn í ljósdökka nótt - og syngja hátt Þar sem við kúrum undir teppi - fyrir framan arininn Ég stari á sjálfan mig - brýt spegilinn - og hoppa inn... Hjarta mínu er hætt að svíða Og ég læt mig inn í draumana líða... ] [ öll rauð blóðkorn... ósynd öll hvít blóðkorn... blind sýklar sleppa inn - í líkama minn og fullkomna brátt þessa hryggðarmynd... allar vöðvafrumur... rýrar og dofnar allar sinar... slitnar og rofnar lífið út fjarar - ég bíð himnafarar um leið og augun lokast og hann sofnar... veikur í rúminu... dofinn aleinn í húminu... ósofinn því ég innbyrti eitur - slappur og feitur nú fell ég frá leiður og klofinn... ] [ blátt fleymið sem liggur latt fyrir ofan höfuð mitt reykir mariúana og skilur eftir sig hvít ský þau rofna og leka niður á mig... björt sólin svíður dökksvarta augasteinana í höfði mínu blindast og ég skjögra sveittur um líflausa borgina fell í tárpolla náttúrunnar á köldu malbikinu... lít upp til þess eins að horfa á grasstráin dansa í roki horfi niður til að sjá sandkornin flýja undan stormi en ég stend hérna kyrr til að mæta mínum örlögum... þreyttur eftir næturinnar drauma latur eftir lífsins löngu göngu rifinn sundur milli stríðra strauma brotinn í sundur fyrir svo löngu... í freistingar frelsi ég lifi glaður fíknin er svo góð hérna niðri í hel fyrrverandi engill og góður maður nú loksins líður mér vel... gatan kólnar undan árás tunglsins og sólin flýr senn skýin litast svört og gluggar húsanna gráta enn líkt og gluggar sálna okkar allra... kúlan sem við skríðum á jörðin sem við yrkjum ástin sem við hörfum frá og gleðin sem við kyrkjum... börnin að leik í menguðum ám kókaín í nösum fyrirmynda saklausar sálir horfa nú á klám allir hérna á jörðu syndga... en eitt lifir að eilífu og það er sú ást sem við finnum lífið öðlast tilgang um leið og hún kemur sama hvaða leið hún kemur hlaupandi... farinn á vit draumanna farinn á vit ástarinnar ég held þá leið er ég kýs meðan tunglið ennþá rís tek mitt dóp og drukkna í mér því öll mín ást er einmitt hér ég þarf ekki að leita lengur fundinn er minn ástarfengur fundin er mín bjarta skíma hérna rétt við hliðina á mér... lífið mitt er víma... meðan það er við hliðina á þér... ] [ Ég ligg og horfi uppí himininn á stjörnunar og reyni að ímynda mér að þú sért ein stjarnan og horfir niður til mín.Þá er eins og eldhnöttur fari um svartan himininn og ég óska mér að fá að sjá þig einu sinni enn,snerta þig og finna andardrátt þinn í eyra mér hvísla ég elska þig.Þessi ljúfsári sársauki sem ég finn eins og eldhaf í hjarta mínu.Og í hvert sinn sem ég lít til himins og sé stjörnu þá hugsa ég til þín. Agnes. ] [ Ég finn hvernig hugur minn hvarflar til þín, ég hugsa um mjúka húð þína, augun og fallega brosið. Ég ligg á víglínunni og reyni að útiloka sársaukann í brjósti mér með því að hugsa um þig. Svart myrkrið gleypir mig, ásjóna stríðsins tekur sér mynd í huga mér sem tilgangslaus leikur valdasjúkra manna. Ég finn að ég er að deyja, salt tár rennur niður svit og blóðstorkinn vanga mér og mynd af þér er þú komst að kveðja mun alltaf fylgja mér. Beisk tárinn runnu niður vanga þinn er þú reyndir að hugga börnin, sú mynd er sem greypt í huga mér og mun fylgja mér inni svartnættið og um alla eilífð. Agnes. ] [ Ég geng um borgina í leit af lífi, ég svipast um en það eina sem ég sé eru rústir sem áttu eitt sinn sögu, tómar augntóftir rústana stara á mig með kaldhæðni hins bugaða manns. Á götunni liggur líkami lítils barns, kaldur og líflaus. Sakleysir ristir rúnir sínar í andlit þess sem skín af sársauka og vantrú yfir grimmd þess er deyði það. Borgin gleypir sársauka og örvæntingahróp mín þar sem ég sit með barnið í fanginu og grátbið um hjálp, en það eina sem mætir mér er hæðnishlátur hinnar þögulu borgar. Agnes. ] [ Þegar ég geng um svartar götur, í myrkrinu og einmanaleikanum þá hugsa ég um þig, ást þína, bros þitt og það sem við áttum saman, þessa ást sem var svo falleg og mjúk eins og lítið barn.Ég finn sársaukann skerast í hjarta mitt eins og hníf í hvert sinn sem ég minnist þín. Þessi fallegu augu sem ég minnist sem mín eigin sem ég sé er ég lít í spegil.Þegar ég kem að gröf þinni rennur tár niður vanga minn og ég hugsa um óréttlætið í þessum heimi og formæli guði fyrir að leiða þig undir hans verndarvæng, en um leið þakka ég honum fyrir að leifa mér að njóta ástar þinnar þennan stutta tíma sem við áttum saman. Agnes ] [ Ég krýp á gröf þinni og öskra nafn þitt, blóð mitt litar grasið er hnífurinn fellur úr hönd minni á legstein þinn. Ég horfi á sundurskorinn úlnlið minn og brosi beiskt yfir ósanngirni lífsins. ] [ Ég stend á kletti og horfi á hafið fyrir neðan berja að klettinum eins og það fyndi angist mína, sorg og reiði yfir örlögum þeirra sjómanna sem koma ei heim, heldur liggja á botni hafsins með angist deyjandi manns í augum. ] [ Ég horfi út á hafið og sé sólina kasta geislum sínum á þennan endalausa haflet og mynda skugga djúpt í bláum sænum, þar sem milljónir sjómanna liggja í votri gröf með koss aldana á vörum.Í brostnum augum er vonleysi drukknandi manns sem skynjar að hann mun aldrei framar bragða af vörum ástar sinnar,finna faðmlag barna sinna eða sjá sólina setjast. Agnes ] [ englar anda með hjartanu hugsa með sálinni aðeins ég veit hver engill englanna er ] [ Hrá eymdin í maganum æli upp hatri og volæði úr garnagaulinu heyrist uppgjöf fjöll einsemdarinnar eru eyðileg eyðimörk - hráslagaleg og köld Þangað var okkur hent fáar sálir á ferð horfast aldrei í augu talast aldrei við snertast aldrei mannlegi þráðurinn veikist og slitnar og hvar sem við leitum finnum við hann hvergi vonleysið verður til úr einsemdinni hungrið eftir snertingu ergir og æfir og það eina sem við heyrum er garnagaulið. ] [ Ég finn tárin renna niður vanga minn þegar ég horfi á eftir kistu þinni niður í svarta gröfina, samviskan nagar mig og ég hugsa hví ekki ég? Afhverju þú sem varst svo saklaus og hrein líkt og barn sem lítur heiminn augum í fyrsta sinn. Ég öskra og steyti hnefum mínum að drottni og spyr afhverju en þögnin ein mætir mér, líkt og veggur sem aðeins þeir dauðu komast gegnum. ] [ Lífið heldur áfram, þótt þú sért ei lengur hér.Það líður hjá í þoku og gráum dögum og ég bíð þess eins að komast til þín. Agnes ] [ Ég ligg í myrkrinu og hlusta á tár mín drjúpa á koddann, og reyni að hugsa ekki um tómið við hlið mína. Á næturna vakna ég við að vera að teygja mig eftir þér en aldrei finn ég þig, og alltaf er það jafn sárt að finna kalt tómið í staðinn fyrir mjúka og heita húð þína. Ég ýminda mér að þú sért hérna hjá mér og haldir utan um mig líkt og þú gerðir forðum, en það eina sem umlykur mig er kaldur veruleikinn sem er að þú munt aldrei koma heim. Hann Guð leggur okkur lífið, og þitt líf sem átti að vera svo miklu lengra varði stutt. Þú varst hrifsaður frá mér er ég þarfnaðist þín mest, sem mun alltaf hafa verið. Þarfnaðist faðmlags þíns, ástar þinnar, rödd þinnar og fyrst og fremst þín. Þegar ég ligg hérna í myrkrinu og hugsa hve heitt ég hata örlög þín þá faðma ég koddan þinn og reyni að finna einhvern vott af lykt þinni í honum og á endanum sofna ég úti frá hugsunum um þig,og dreymi að þú sért hér hjá mér en um leið og ég vakna mun ég finna myrkran sársaukann koma aftur til mín og umlykja mig að eilífu. ] [ Vefðu orð þín varlega inní væng fuglsins og sendu hann til austurs til allra vænglausu fuglanna sem þar hýrast. Segðu honum að breiða út væng sinn og sá fræjum ástarinnar og kærleikans í hvert kramið fuglshjarta og þá, munu kraftaverkin gerast. Því orðin ein munu færa þeim vængi á ný. ] [ Yfir mig hleður hamar hörmungum næsta dags hugsun á herðum mér stamar hörfar til sólarlags meðan sfenleysið berst í bökkum bíður það boða frá mér ég sé aldrei sfninnn sem sefur sem umlykur sálina og sér Dauði og djöfull margt næra depurð í hugan fer sem í voninni vilja allt særa vill svo í gröfina hér. Kallin verður kátur þá kemuur logans einn margan manninn hefur á messuni orðið of seinn. 0203-2000 ] [ Hugsa \"kræst\" hvar er hún? Dyngjan tóm, tel hana af. Hugsanir velgjast upp, svelgist á ælunni. Sé hana fyrir mér, lúffa fyrir ímyndunum, vörpuðum í huga minn. hryllingsmyndir... hryllingsmyndir... ] [ Tíminn er ferðalag án upphafs án endis Lestin brunar enginn veit hvert Aftast í lestinni sést hvar lestin var en ekki hvert hún fer Tíminn er ekki skráður fyrr en hann er liðinn hjá Hvers virði er ein sekúnda í endalausum tíma líðandi stundar Eitt orð ein setning ] [ Á meðan ég stóð og horfði út yfir dimmblátt vatnið flaug tíminn framhjá. Og í vatninu synti fagurgrænn fiskur og hann sagði við mig. Hirtu ekki um þau tíminn og vatnið eru eilíf en ekki við. ] [ Gamalt fólk, með lúinn svip gengur hokið eftir götunni sem það hefur gengið í fimmtíu ár. Gatan þekkir skóhljóð þess rétt eins og niðinn frá bílunum þegar gamla fólkið gengur götuna sína brosir gatan við því. En friðsæld götunnar er rofin af skarkala götustráka sem sumir henda gaman að gamla fólkinu þá hættir gatan að brosa. ] [ Þar er straumurinn mestur og áin svo stór og hún stendur í vatninu stúlkan sem fór ástina sína að finna. Þó þau hrópuðu á hana og kölluðu í kór þau fengu engu breytt því stúlkan hún sór ástina sína að finna. Svo hreif hana straumurinn sterkur og stór hreif hana með sér hana sem fór ástina sína að finna. Þeir fundu? hana neðar svo létta á brún og brosandi í framan því búin var hún ástina sína að finna. Og þú sérð þau á himnum sem stjörnurnar tvær þær lýsa upp nóttina því nú eru þær búnar ástina sína að finna. ] [ Ég vissi aldrei hvað gerðist. En allt í einu stóð örin föst í hjarta mér. Hún lýsti upp gráan hversdagsleikann eins og sól á júlídegi og fólkið gretti sig móti mér. En hvað átti ég líka að gera ganga burtu eins og ekkert hefði í skorist eða brosa, lifa og leika mér. Og örin haggaðist hvergi og mér leið vel og fólkið fékk leið á að gretta sig. ] [ Á morgun gerist það sem við höfum öll óttast. Það sem við höfum ekki þorað að hugsa um í hljóði Á morgun verður fingri stutt á hnappinn! ] [ Draumur um sannleika sannleika sem er svo óralangt í burtu. - Hví er hann þar? ] [ Á braut míns lífs þér brá, svo björt og kvik á stund. Nú horfin ert mér frá, mín kæra góða hrund. ] [ Þú blekktir mig tilgangur, öld fram af öld nýttir þú þér trúgirni mína. Hver kynslóðin af annarri fórnaði sér fyrir þig. Satt mælir þú, þú óhamingjusami maður, ég gerði það fyrir þig svo þú þjáist minna, svo þú gætir gleymt sjálfum þér. Taktu á móti mér þú sem rumskar og kvíðir. Ég er draumur þinn og Guð. Sofðu, sofðu með mér áfram í blekkingunni. Gleymdu mér þú nývaknaði kjarkur, ég var hvor eð er aldrei til. Lifðu lifðu lifðu meðan enn er tími. ] [ Der var en mand, sem átti kanilsnúð, sem minnti á fjöllin, sem í fjarska stóðu, og hugsuðu, hversu fagur, er kanilsnúðurinn ] [ Hér sit ég grár og einbeittur og starist í augu við heiminn við höfum sitið hérna svo lengi að ég man ekki lengur af hverju af hverju ég stari í augu heimsins. Einbeittar og þráar tvær grámyglur engin lætur undan hvasst augnaráð eins og eldingar eða pílur endalaust skjótist í augu mín en ég depla varla auga og ég læt ekki á neinu bera ég hefði heldur lifað lífinu en hér sit ég og starist í augu við heiminn. Svo þenur hann sig og heldur að ég sé of gamall of særður ofur lítið hrærður en ég læt ekki á neinu bera þó ég heldur vildi hlaupa um eins og unglömbin þessir litlu kroppar sem vita ekki að baráttan upp á líf og dauða hófst áður en þau voru í vöggu áður en sólin skein áður en jörðin blánaði. Og hér sitjum við grámyglur tvær og ekkert getur skilið okkur að engin veit - engin trúir engin skilur og við horfumst í augu eins og elskhugar að nóttu ég og heimurinn andstæður og óaðskiljanlegir og kropparnir litlu sem áður trúðu trúa ekki lengur vita ekki lengur sjá ekkert lengur. Ég er grár og gugginn en læt á engu bera, þangað til allt í einu skák mát! ] [ Ég læt mig of dreyma, dreyma í vöku. Þú kemur til mín, kemur bara til að vera. Eins og þú gerðir , og þú kenndir mér að gera. Þú sagðir ekkert sérstakt bara fékkst þér kaffi og sígó, kíktir í blaðið, tékkaðir á tívíinu við slöppuðum af saman og hlustuðum á þögnina. Svo þegar það er um seinan fatta ég að þú, þú varst besti vinur minn! ég hafði aldrei tækifæri á að segja þér það því þú ert ekki lengur! ] [ Sársauki og söknuður hjarta mitt kvelur. Því minningar um gærdaginn í hjarta mínu dvelur ] [ Lífið, þú sem ég elska, hugur minn hefur hríðir. Komdu ljósmóðir og taktu við nýfædda ljóðinu mínu. ] [ Þú hefur skipt um heimilisfang! Himnastræti 19 330 Englaborg. Tekurðu á móti pósti ? ] [ SKELLURINN Hurðin fauk upp henti mér í gólfið var að reyna að skilja, skilja hvað gerðist Mér fannst ég stungin og skorin hjartað barðist um, barðist um af ótta, en við hvað? Ég kallaði \"hver er þetta?\" það var hvíslað \"SORGIN\" ] [ Ef ég ætti stein einn lítin óskastein óskin væri sú já óskin væri þú ] [ Heldurðu að af lífi geti bara sprottið líf líf sem hverfur undireins með þessum beitta hníf ? Eða liggur meira að baki,til dæmis brostið hjarta brunninn ástareldur eignast framtíðina svarta ? Vonir horfnar, farnar, virðast hverfa sína leið vex í brjósti hugsun sem á fyrri tímum beið hugsun um að enda, hylja sorgir kvaldar hugsun um að eyða þessu, sorgum svo vel faldar ? Ég mundi gefa heiminn fyrir hamingju á ný en hatur bindur líkama í myrkurs dekksta ský gefðu mér þá kraftinn, hverfa burt af jörðu kasta út mínu hjarta, illa förnu og mörðu. Láttu þetta enda, þetta helvíska líf- loks gríp ég til eigin ráða- ég hef minn eigin hníf. ] [ Dauðinn og ég við vorum vinir ferðuðumst um lendurnar eins og maður og hans skuggi svo tók að rökkva og skyggja á vinskapinn. Nú sit ég hér ein og býð mér færis í ruggustól með sjal innan um eld og brennistein heitt og notalegt annað en þessar snjáðu heiðar og votu grafir sem hann skilur eftir sig. Og nú vona ég að hann komi heim kyssi mig á kinnina eftir gott dagsverk og ég býð og ég býð notalegt í myrku koti og ég býð kannski að eilífu með beiskan kutan harðan í hendinni. Og þegar hann loksins kemur og kyssir mig á kinnina eftir gott dagsverk fær hann að finna beiskt bragðið í munninum stingandi verkin í síðunni hver kemur þá og sækir hann? ] [ Einu sinni hló hún alla daga en ekki nú, hún hafði hrasað og átti svo erfitt með að ná áttum. Þá var bros glampi í augum, en ekki nú , augun voru mött. Sorgin hafði sett svip á hana, sem hún þolir ekki. Oft er hún ein , hugsar til baka eða áfram. Silfruð tárin tindra, falla niður vanga hennar en bara þegar hún er ein, þá þarf hún ekki að vera sterk. Þá kemur litla hnuggna stúlkan fram. Stúlkan sem bað Guð um að passa, af hræðslu við að missa! Hún vissi samt að færum við öll, en henni þótti svo vænt um lífið. Hún er orðin hvekt, hrædd við að elska, gefur og gefur en þorir ekki að þiggja. ef eitthvað kemur fyrir þá þarf hún ekki að sakna. \"Þegar ég verð stór\" sagði litla stúlkan ætla ég að passa Pabba,mömmu,afa,ömmu og systkini mín fyrir öllu illu í heiminum. \"Það skulu allir bara passa sig. En nú er hún orðin stór. Þrír af sex farnir án þess að hún gæti nokkuð gert. Hjartað löngu brostið , en það veit það engin því út á við brosir hún og heldur yfirborðinu sléttu. ] [ Á bænanna vængjum burtu hann fer er englarnir komu með himnanna her. Kvaddi ég kæran bróðir. Tárin þau voru dýr, frá okkur er hann farin. Því nú á himnum hann býr ] [ Innra með mér græt ég, græt þessa grimmu veröld innra með mér græt ég, græt alla þá er fara of fljótt Draumar og vonir hrynja. Er tilgangur með þessu? Innra með mér græt ég, Bið góðan Guð að vaka yfir okkur ] [ Með laskað hjarta og sár í sinni kvalir í mig narta ó! að ró ég finni með daga góða og bjarta ] [ Fari allt í heitasta Helvíti bölvun á mér liggur þungt þótt á björtu hliðarnar líti mér finnst þær í mig bíti. Þegar ég kom hingað vestur til að losna úr viðjum sálarinnar nú held ég að í það sé kominn brestur og ég sé fallinn aftur á vald sálar minnar. Að finna að allt sé komið aftur eins og það var áður en ég kom, mér finnst ég vera orðin heftur hér hélt ég ætti von. En vonin var ekki til ég nenni þessu ekki lengur ég er að flippa svona hér um bil þetta endar sjálst eins og gengur. Eina vonin kæri vinurinn að deyja,vera í framan hvítur hafa það ljúft líkt og dauður við barinn prestur á eftir kistu lítur. Undir moldar hrúgu fer og verð laus úr þessu basli engin sér á eftir mér ég er bara byggður úr drasli. Ég sit og horfi á fólkið brosa þegar skarna er yfir gröfina breitt það er sig loksins búið að losa sig við mig,og minningum um mig eytt. 03-05 til 20-05 1997 Tóti Ripper ] [ Hví forast fólk hvort annað, er Það vegna Þessa að Það er hrætt um að næsti maður sé fullkomnari en hann sjálfur.Heimurinn er eins og stækkuð mynd af maurabúi Þar sem mennirnir iða inní eilífðina.Hvað er fólk að elltast við, er Það frægð, frami eða jafnvel ást.til hvers er fólk að standa í öllu Þessu svo Þegar maður nær takmarki sínu er líf mans lokið.sú endarlausa Þrá mansins á fullkomnun gerir hann að sálarlausum vélmennum. Þegar sólinn sest og mirkrið dregur yfir Þá fynnur maður í smá stund fyrir fryð sem er orðinn að sjaldséðasta fyrirbæri heimsins. En hvað hjálpar manni Þessi innri kyrð Þegar maður Þarf að fara út í sama brjálæðið eftir góðann nætur blund. ] [ Örmagna ungmenni um öngstræti borgar, ráfa um í villu og sorg. Eilífur bústaður lífsins og fjörs, virtist tómur, þeim er grét. Hve sáran ég grét, hvaða sorg mig hrjáði, er féllu mín 2000 tár. Þar sem sólin rís ekki og sorg yfir ríkir, er geisli vonar sem vex. Ykkur ég á að þakka þá lífgjöf mér veittu, englar af himnum ofan. --- Touching Evil, with me drinking that Day, Drowning my sorrows, I did, -Okay! Almost 2000 years from His death, on That day, an Angel came by, to say me a Pray(er). ] [ ég er... ímynduð rödd frá tunglsljósinu spegla mig i skrifaða glugga hugans í dag er ég viljastyrkur sem hefur flúið myrkur og hof sljóleikans í dag er ég ljóð að myndast út úr hughvarfi skuggans. ég var... afvegaleiddur skuggi sjálfs míns, andi pípunnar sem leitaði á bakkann niðrí fjöruna þar sem kistan lá í fjörugrasinu. veiddi kríuna kalda og ruddi steinum ímyndunar, hverfuls hugar annars hugar annars vegar. ég hef hvatt þig \"ég var\"!!! því \"ég er\"... í dag,... án skuggans. ] [ fryður er bara annað orð yfir samstæðu félagana og ferðalög embættismannana til framandi landa. er Það okkur að kenna að Þeir géti ferðast um allan heim án Þess að borga krónu fyrir eða er Það eigum við að kenna foreldum okkar eða börnunum um Það. ] [ Ég stend útí kuldanum og horfi á stjörnunar, ég læt kaldan vetrarvindinn bera burt hug minn langt langt í burtu, burtu frá þér. ] [ ljóðið óð í hljóðið og varð að tónverki. ] [ Ég sendi til þín óskaóm á þessum gæfudegi, svo yndisleg fögur sumarblóm megi vaxa á þínum vegi Ef ég hefði á óskum vald og þær ég mætti gefa ó þú fengir allar þær mín kæra Fanney Eva Hjartans kæra systir mín af gleði nú tæmast hjörtu megi sólin skína inn til þín með kveðju, frá Elínbjörtu. 07,03.\"02 ] [ Vorum \"VIÐ\"> Sátum Hlustuðum \"VIÐ\" vorum við sjálfar \"VIÐ\" sátum saman til að vera Og \"VIÐ\" hlustuðum á þögnina \"VIÐ\" þörfnuðumsthvor annara til þess að geta orðið það sem \"VIÐ\" erum til þín frá mér 09,02.\"02 EH ] [ sleginn í andlitið með óttanum augun full af ryki, líkt og hellt hafi verið sýru í sjón mína rífur upp sofandi líkama minn, horfi fram á veginn þokuljós, mistur finnst eins og draumurinn sé holdgerður fyllist af ótta, berst um í gráti stíg út úr holdinu, lít á lífvana líkamann finn fyrir hljóðum sem berjast um sál mína enn sé ég myrkrið umlykja mig á ferð minni finn hvernig óttinn læsir mig í greipar sínar get varla andað, get aðeins haldið í vonina um að brátt.. nái ég að kveikja ljósið ] [ Sofnaði á verðinum, sársaukinn beit Hætti að horfa á meðan ljósið var kveikt, myrkur fyrir ljós dimma fyrir birtu bundið fyrir augu mín ljós. Blekkingin sést ei ef gáð er ei að, djúpt þarf að horfa til að sjá. Það sem þeir segja þér það sem þeir kenna þér kenna þeir þér.. til að lærir þú að trúa lyginni.... En opna skaltu fyrir lífinu Því lífið veitir þér rétt... Sannleikurinn sýnir sig best þegar brotin er orsök lyginnar þegar loks lítur þú við og sérð hvar byssuhlaupi er beint í bak þitt Hvasst skalt þú brýna neglur Hvasst skalt þú líta á svikarann og hvass skal þú beina egginni Því ei skal þig svíkja Því ei skal þig leyna og burt skalt þú brjóta af þér höftin... ] [ Nóttin hefur sungið mig í svefn og sofandi brosti ég við þér. Nóttin hefur sungið mig í svefn og sofandi grét ég útaf þér. Nóttin hefur sungið mig í svefn og sofandi sé ég allt svo vel. Nóttin og hennar endalausu dimmu gluggar, þar fyrir innan sef ég rótt. Nóttin hefur mig svæft. ] [ ég loka fyrir einbeitinguna, og stari annars hugar á gervibláan himininn. - ég varpa sjálfri mér, inn í sjálfhverfa veröld, þar sem skórnir passa, ögn betur en venjulega. ] [ Undir Hornafjarðarmána er lítið ljós, í litla ljósinu situr lítil vera. Það er lítil telpuhnáta. Litla telpuhnátan grætur, undir Hornarfjarðarmána. ] [ For memories are never ending You will be with me till the end of time or until we meet again Whatever comes first hardly matters cause true feelings never end they only start again You are my heart so please take care for you and I are forever one ] [ Áður en ég sofna, leggst meðvitundarlaus á tárvotan koldan og svíf þangað þar sem engin sársauki er, hugsa ég... draumarnir voru kaldir á meðan vorið svaf. Ég kallaði á þig. En heyrði aðeins dauft bergmál af svari þínu. Víddir viskunnar eru fjölmargar. Risastórt herbergi fullt af dyrum, Og þar sá ég þig. Þú varst alltaf að kalla á réttlætið, Sem þú þóttist hafa svarið fyrir. Á meðan ég sef. Umbyltir þú heiminum. ] [ Gamli grálindi maðurinn mætir mér. Með gust í tárvotum augunum. Í gegnum glærhvita móðuna hann sér, gagnsæa spegilmynd með augu í laugum. Þar stend ég búinn á líkama og sál. Visnandi kuldinn kallar á sátt milli þess sem var og er. Tærandi sjálfstraustið yfirbugar mig. Var þetta virkilega ég? Ég sem lofaði, ég sem brást? Eða var sagan að endurtaka sig. ] [ Vakna. Opna augun og horfi á heiminn milliliðalaust. Nakin barnsgráturinn stappar stálinu í mér harðari menn. Allt sem var er horfið, í framtíðinni. Allt sem er, er óvelkomið. Er þetta heimurinn sem við viljum. ] [ Ég ákveð mig, á meðan hinir stóru herða sig upp, svara kallinu. Engin er viðkvæmur nema hann kjósi. Valið er laust við fordóma, en ekki verknaðurinn. Sömu svörin lyfta alltaf augliti mínu. Alltaf sömu svörin, en ég þekki ekki spurninguna. Ef heimurinn væri stór, bara ef... Ef allir væru stórir, bara ef... Þá rynnu þessi tár ekki niður kynnar mínar. Sami gráturinn vekur mig alltaf upp um nætur. Alltaf sami gráturinn. En ég veit ekki hver er að gráta. Ef heimurinn væri litill bara ef... Ef allir væru litlir Bara ef... Þá hefði Davíð ekki þurft að kaupa ölið. Þess vegna tárast ég... Þess vegna vakna ég... ] [ og sjá, það varð ljós. Ljós sem gaf af sér lif. Líf sem gaf af sér mann. Mann sem gat af sér guð. Guð sem gat af sér ljós. Stoltur leit faðirinn yfir brennd börnin sín, og rétti þeim aðra eldspítu. Um leið og ljósið slokknar, þá mun ég dansa, á gröf þess guðs, sem Nitsche drap. Þegar rigningin mikla, Hefur skolað myrkrinu, skitnum og óþveralýðnum, niður í hin huldu ræsi eilífðarinnar. Þá mun ég krjúpa niður, við fætur hinns mikla, og biðjast glottandi vægðar. ] [ If you´d look at your life with my eyes, you´d see that the path of your lifetime isn´t marked with any footsteps. -Why? Because your an ANGEL! -That´s why! ] [ Hefurðu einhverntímann fundið svo hræðilega til, en ekki haft sýnileg sár? Hefurðu einhverntímann verið einn í heiminum, innan um fjölda fólks? Hefur þér fundist þú vera ekkert, en samt vera hundrað kíló? Hefurðu einhverntímann brosað framan í heiminn, en verið að gráta innra með þér? -Það hef ég. ] [ Þegar ég dó, var dauði lífs míns ótímabær fráför tóms sem hafði verið en samt án þess að vera, vera. Það voru sennilega haustlaukarnir í garði nágrannans sem fengu mig til að fella tár og brosa í gegnum tárin. Ég get samt ekki séð, sé ekki hvað er að, hvort að það er eða hvar það var nema vera verulega veruleikafirrtur. Tóm komandi sumars nagar sál mína, það er bara minning mín um misheppnaða æsku sem fær mig til að skjóta mig ekki. ] [ Where the sun never shines, where love is never felt, where lonelyness is only known, where the darkness covers all, where a tiny voice calls out: HELP ME! Where the walls are made of me, black, rocky, harsh and steep. Where no one can enter, but me... That place is my soul, where all feelings are combined into little flames, that unite in an ocean of fire, burning me inside, happy for my sufforing... Those flames are my doing, but to conquer them, I must fight. That I can begin with looking into a child´s eye, and realize that I´m not the only one, not understanding the world. -I´m not alone....! ] [ Bíbí pípir úti, vekur mig klukkan fimm! Ég vil að þessu slúti, því ég þarf svefninn minn! -Nú hleypi ég af og haltu svo kjafti, ljóti fuglinn þinn! -Pæng! Pæng! Og haltu svo kjafti, ljóti fuglinn þinn! ] [ Því ertu mér svo góð? Ég á það eigi skilið. Þú snertir mína strengi, með mildri hönd. Þú gefið mér svo margt, svo mikið, stórt og hlýtt. Ég vildi þér geta endurgoldið. ] [ I love you so dearly, that it kind of fears me. But it will bring a tear to me, if I may not kiss thee. ] [ Leggðu aftur augun þín, því nú er komin nótt. Allir komnir inn til sín, allir sofa rótt. Og ef þú sefur nógu og vel, þá stækkar þú og stækkar. Úti er bjart á himninum, því stjörnur skína þar. Stjörnuhröp og norðurljós, eru allstaðar. En ef þú munt sjá stjörnuhrap, þá skalt þú óska þér. (Vantar þriðja erindið, kemur brátt!) ] [ Ekki ást við fyrstu sýn áttumst lengi við, hún að spila á dragspil ég sjálfur að éta svið. Ástin lætur að sér hæðast eignast við það vini tvo, dýrð í byrjun ei skal hræðast ..hvað svo? ] [ Sultan á brauðinu er sæt, sæt eins og þú þú þrífst ekki án brauðs en brauðið er ekki ég, það veit ég fyrir víst. Myndir þú sætta þig við kex? ] [ Ó Drottinn minn og lífgjafi, ég á þér allt að þakka. Þú sérð mér fyrir mat og vatni, ást, umhyggju og gleði. Heimurinn er grimmur, en þú verndar mig. Heimurinn er fyrir aðra en mig. Heimurinn vill láta svæfa mig. Þú gerir lítið úr þér til þess eins að hugsa um mig. Þú kyngir aðdróttunum og vorkunnsemi. Þú ert faðir minn sem ég aldrei átti og mun aldrei eignast. Það er mér heiður að fá að deyja þér við hlið í þessum garði. ] [ Helvítis stelpuasninn, gefur mér vitlaust tilbaka. Skyldi hún vera á lausu? ] [ Að vera hnoðaður og barinn er ekkert mál. Að vera síðastur í röðinni er bara lífsins gangur. Að vera síðan brenndur lifandi er hluti af starfinu. En að þurfa snúa baki við fjölskyldunni allan tímann er erfiðast. ] [ Þegar ég var þrettán þá reif ég úr mér hjartað, - bara til öryggis. Syndir það í krukku með króatískum plómulanda, - bara til sýnis. Ekkert fær mig sært og depurð finn ég enga, - því ást er ekki til. ] [ Hugfanginn hlusta ég á blóðrautt hár hjartans en hunsa ljóst hár viskunnar. Þó veit ég að viskan veitir mér fé og frama, en hjartað einungis sólahringa ástríðu. Samt hefur það aldrei slegið hraðar. ] [ Í Reykjavík stóð gluggi einn sat fyrir innan jólasveinn rimlar fyrir hlera og teinn og dýna gólfi á. Hvað er ég að gera hér? Börnin bíða eftir mér, fæ brauð og vatn en ekkert smér og fötin eru grá. \"Haf þig hægan sveinki minn réttu mér nú handlegginn færðu snöggvast skammtinn þinn svo slakir betur á.\" Brosandi á gólfi ligg dofna tungu ég nú tygg allt er ekkert að ég hygg og húmið horfir á. Loka augum burt ég fer sleði, gjafir, dýraher svíf um himinn sem mér ber svo allir nú mig sjá. Hvað er tungl og hvað er sól? hvað er frelsi um þessi jól? skríð á fjórum í mitt ból og sef mér sjálfum hjá. ] [ Eru þá gengnir allir dagar: dvínar glóaldin gráhimni á og gín við þeim sem iðrast gapandi sár? ] [ vorperlan sem glitrar hleypir krafti inn í kaldar sálir, sem eftir erfiðan vetur vakna, rísa upp! við heyrum hlátrasköll ég sest niður og dæsi tíminn virðist standa í stað ég get ekki hennt reiður á hvað það er, en ...., sú tærasta tilfinning sem ég hef fundið er sú ást, sem, hæglega væri hægt að týna sér í, tilfinningin er á sjálfstýringu mátturinn er óviðjafnanlegur hugurinn sækir í sig veðrið hvað getum við sagt ein lítil fluga vaknaði í morgun fljótlega hefur hún áttað sig! hún var ein í heiminum hvaða ástæða skyldi vera fyrir því að hún ein skyldi vakna? er þetta tilgangsleysi eða er hún kanski sú fluga sem leggur undir sig heiminn? ljósið tælir hana fram hitinn gefur loforð, en, eylíf sæla er ekki til því þegar ég slekk ljósið fellur skugginn yfir og flugan skynjar að svefninn sækir á hana mun hún vakna aftur? ] [ Það er búið að þjófa mig. Hún hefur eld í hári, roða í kinnum og augu sem lýsa upp nætur. Misþyrmir mér með ástum og hlátri og heldur mér föstum í örmum sínum. Er einhver til í að bjarga mér, eftir svona þúsund ár? ] [ fjölskylduboð...ég hata fjölskylduboð, maður stendur og reynir að vera sætur fyrir framan hálf skorpna ættingja sen eru ekkert annað en litlar mýflugur sem reyna að halda uppi áhugaverðum samræðum um ekki neitt né neitt. hvað ef ég væri frá Númebíu myndi ég frekar fara eða væri ég bara að gera það til að þóknast veður-tal-sjúkum-íslendingum. það væti miklu skemmtilegra ef maður færi í þessi boð til að gera eitthvað spennandi eins on að berjast með leisetsverðum eða byggja hús úr klósettpappír og láta svo fræku reyna að komast upp á toppin á húsinu án þess að brjótaþað niður..þetta er víst bara svona sampt, fjölskylduboð...ég hata fjölskylduboð ] [ Sá er þetta skrifar er margklofi. Ekki trúa honum, mér eða kettinum. ] [ Afi laug eitt sinn að ömmu. Hún páraði stjörnu á enni hans og sendi til Schwerin með skipi. Fékk síðar bréf með gulltönnum, keypti sér tól fyrir tennur og hvíslaði - þessi heldur þó kjafti. ] [ Í blautum draumum mínum, djúpt í þanginu. Mjúkt hár þitt, eitt með sjávargróðanum. Og þú svarar blítt en hálfflissandi spurningum þarakattarins. Kúskeljar í perlufestum. Það elska þig allir. Allir stökkva á djúpið eftir þér og róa að því öllum árum að fanga þig í faðmi sínum, en þú ert liprari á sundinu. Og ég sem er ósyntur stend á öskrandi blístri í flæðarmálinu, af nötrandi þrá. Þú ert svo helvíti töff á baðfötunum; bobbingar í kúskeljum og perlufestum. ] [ Mig langar í þig. Kannske svolítið eins og örninn langar í básúnu. Ekki það að hann kunni að leika á hana, hún er bara svo flott. ] [ Angan hennar hékk enn í loftinu og ég raunar líka og ég lamdi höfðinu við af einskærri gleði. Þá tók náttúran við. Ó við hugsaði ég og nær kulnað bálið gladdist og gerði atlögu að umhverfi sínu. Sársaukastunur fjallana bergmáluðu veröldina rauða um stund. Sjálfur hnoðaði ég krókódíla úr skýjunum, en þegar þeir tóku að éta björgunarsveitarmenn ástarinnar var mér nóg boðið og hugsaði mér til heimferðar. Angan hennar hangir enn í loftinu, og ég raunar líka. ] [ I. HEL Allt eins og krepptur hnefi. Grýlukerti í sleflausum sleik við allt. Of kalt til að æpa og Hel á bláum kjól. Frostið bitvargur blómlauss stálsins. Rekkjudauðir menn. II. VÍTI Sárt að anda og súr reykurinn sprengir augun. Hlakkar í púkum og hlátur myrkrahöfðingjans. Eldur, sót. ,,Ágætis uppstreymi\" hlær Lúsifer og dustar af vængjunum. III. HELVÍTI Temprað loftslag. ] [ Gæti ég gefið þér sál mína og hjarta, glöð ég myndi færa þér allt. Í stundarkorn að sýna þér veröld bjarta, svipta sársaukann burt og verma hjartað kalt. Heimurinn hefur svo margt að bjóða, harmurinn þarf ekki að stjórna þér. Þú getur séð allt hið góða, gleymdu, þjáningin á ekki heima hér. Trúðu á lífið, treystu mér. Takmarkalausa ást er hægt að finna. Það er svo margt sem augað ei sér, en flestir því aldrei sinna. Ekki halda að ég viti svarið, ég hef mínar flækjur að leysa. En ég veit að lífi þínu er illa varið, ef þú heldur áfram múra að reisa. Múra um hjartað, lokað og læst. Lyklinum kastað í hafið. Ástin er grafin, hvað er næst? Lífið undir koddanum falið. ] [ Fuglar himins og Faðirinn Flóðhestur frá Níl, skellihlær við Skógarfoss skagfirðingur á bíl. Satúrnus og stjörnur tvær krjúpa í grænni sveit æpir á og andskotast útúrdrukkin geit. Regn úr gulli og gersemum guða á tröllin sjö, berumst við í brekku brosandi við tvö. Sólir okkur syngja sálma um ást og trú, eygi þér í augu og veit að þú ert sú. Verkinu skal vanda til ennþá við það sit, vilt þú með mér eiga þessa mynd í lit. ] [ Það er eins og tónlist lífsins sé alltaf hálftón ofar en ég. Það verður til þess að það myndast felskja í Samfélaginu Hin laglausa ég er litin hornauga. Ég er nefnilega Felskja í Samfélaginu ] [ Sannanir um tilveru mína eru brigðular En ég er hér án þess að ég efist Finnuru það? Ég kem við þig, ég strýk vanga þinn Já! Þetta er ég Ekki hræðast því ég er hér ] [ Tónar bylja í eyrum mér taktfastir og einstaka sinnum falskir Grænbrún augu fleygja sér til sunds í djúpt haf tára Stíflan er að bresta og tárin mynda foss sem steypist fram af og hrynur niður í kjöltu mér Ég vildi að ég væri ekki vængbrotin og gæti dansað við taktfasta og einstaka sinnum falska tónana ] [ Mér var sagt; ?Vogum vinnur vogum tapar? ?Hver er sinnar gæfu smiður? ?Shit happens? Allt þetta orsakaði fæðingu lítils barns ] [ án þín er ég ekkert með þér er allt þú heimsins fegursti fengur. mín svölun í hita minn hiti sé kalt þú drottins dýrasti drengur. þú ert mín gleði þú ert mín sorg þú ert minn háværi hlátur. þú ert mín stytta og stoð hér í borg en einnig minn sárasti grátur. er dimmir á kvöldin og tekur að syrta þá loks hvílir sólin sig. ég held að bros þitt sé mín eina birta, og ég held að ég elski þig. ] [ syngdu fyrir mig söngvana þína svo sefist minn ótti fljótt syngdu, þá mun mér í hjartanu hlýna og hræðsla mín hverfa skjótt. syngdu um fallegu fuglana þína sem flugu til mín svo oft syngdu fyrir sálina mína svo sjálf hún komist á loft. syngdu um næturnar björtu og blíðu hve bálhvasst rokið var reitt. syngdu um ástina yndisfríðu og hversu ég unni þér heitt. syngdu ástin mín, ástin mín eina syngdu burt tárin þín, sorg þinni burtu skalt beina svo björt verður minning mín. syngdu við sængina mína þá sátt mun ég verða við flest, rödd þín mun yfir mér skína sem ódauðleg týra. En í himnanna salnum dýra fallega, fína, ég ávalt mun sakna þín mest ] [ sjö svartir svanir sátu á grein sungu um sumar er sólin björt skein. þá var ég ein. ský voru varla vindur ei neinn hló þá í hljóði heimurinn hreinn. þá var hann einn. hittumst um haustið hann, ég og við sæl þá við sungum sváfum hlið við hlið. að elskenda sið. alla ungana okkar elskuðum heitt urðum samt átta að kveðja því enginn gat breytt, né örlögum eytt. tvö nú við tórum tæplega þó saman í skafli af nýföllnum snjó. eldgömul hró. saman við vonum að vakna vont myndi hins að sakna hjörtun vor myndi það kvelja. en í garðinum grundu ofar heilagur guð okkur lofar til eilífðar dagsins að dvelja. ] [ I\'m locked up in here threw away the key now I\'m stuck in here for eternety my mind id gone away I\'ve got lots to say but noone\'s here to hear not even you, my dear now I\'m all alone noone here but me every one is gone there\'s darkness, I can\'t see I wan\'t you here with me I need someone to fuck I wish that you could be just as insane as me I was once as sane as you are but now I\'m fuckin\' crazy now I fighht my own war I\'m the captain and the general take away my pride and joy take away my little boy take away my family take my sanity I don\'t wanna go away I don\'t wanna have to stay theres darkness in my cell noone hears my yell I have gone insane theres nothing in my brain being fucked up is just something I did ] [ sitjandi í stjörnuryki næturinnar hugsandi um dauðann skilja ekki tilganginn taka kylfu, drepa mann missa alla siðferðiskennd vera djöfullinn sjálfur og taka yfir heiminn finnast maður vera álfur engin sér mann eyða plánetunni þetta er mannkynssaga þetta eru Ragnarrök ] [ tjöruflóð í höfðinu streimir hugsunin hvefur í svartann sæ maður sér, gleymir og deyr útaf heimsku sinni svífur til himna og gleymir tilgangi lífsins sem hann aldrei vissi dofnar og verður að engu minnigin er gleymd og maðurinn grafinn þetta er grimmd ] [ darkness fills my soul inside evil creeps behind me the devil takes me for a ride in hell I meet my brethren I am not of the godly kind I am devilish too now I leave you all behind to out what is true is the world a good place to be is the world what it seems is there more than we can see is there a meaning to it all now I come back dumb as before lay down my sack it is tattered and torn like my soul has become ] [ ligg í grasinu og toga af þér hedurnar svo þú getir ekki haldið á glasinu og drekkir ekki vatnið ég þarf það til að vökva blómin en þú hugsar um þig frekar en aðra hvar er sóminn hættu að anda ég þarf þetta loft þettað líf er erfitt án handa þú kafnar á sjálfum þér og ég hlæ og vökva blómin finn blásturs blæ og nota lík þitt tilað skíla blómunum svo fer ég inn ] [ I am judged by other people they say I\'m evil they say I don\'t care but who are they to judge they weren\'t there I didn\'t mean for him to get killed I\'m sure he was supposed to live now my blanks are filled I remember I shot him in the head snuck up on him in bed he was screwing my girl I killed them both I made an oath not to tell a single soul what had happened then my heart became a hole I didn\'t care about anything or anyone I had to hide, but where I was dommed to be jailfood doomed to die slow I never ment to be rude just wanted to lay low but I have failed lost the game oh man how lame ] [ talk about this world grows loud I can\'t hear any words still I stand upright and proud ready to faace the rest of the world I feel like I am dominant I feel so in control People say I\'m arrogant but I\'m just realistic the world today is cold and cruel and chaos governs the people but still I long to rule want to save the people bring light into this life not with a gun or a knife belive in justice roll gods dice ] [ the red sun shines down on me it fades like all the world dieing, of course, is not a sin but many have I done allways to me have people been nothing but tools for my atvantage I killed them with my heart of tin and never looked back in regret I hate myself and have allways done cause I\'m a sore fuckup now I know I\'m not the one cause now I\'m dead ] [ sit í snjónum og hugsa um morð hata svo mikið að ég kem því ekki í orð ég vill drepa allt og alla hatrið grefur sig í hausinn á mér ofbeldið brýst út á meðan ég riðlast á þér þú þolir mig ekki en umberð mig samt ég lem þig til óbóta þú lokar þig inni ég heyrir þig öskra og blóta ég hlæ að þessum aumingjahætti ég má allt því ég er í embætti ] [ tár renna niður kinnarnar og segja mér að ekki er allt með felldu ég sit inní herbergi því frammi eru öskur og læti ég vildi að ég mundi hverfa vera hvergi því pabbi er göltur og mamma er herfa ég hata þau bæði vill að þau hverfi svo ég fái smá næði vill vera einn því allir hata mig þeir segja það ekki en ég veit það því að pabbi fór og það er allt mér að kenna því ég er heimskur og sljór ég þarf upplyftingu sniffa kók og drekka bjór ég dey hægt og rólega en af hverju ég vill að allt gerist strax finn reipi bind það um hálsinn að lokum fram af þaki ég mér steipi ] [ I feel alone my heart is broken and so is my neck say not a single tone I\'m suck a wreck my wings are broken my harp has no strings I have fallen I miss my wings cause now I can\'t fly I\'m just a mortal still I can not tell a lie I\'m a saint still I am hated I see the world collapse and can\'t do a thing my voice is gone so I can not sing my divine powers have faded I\'m a loser I have failed I drop I die ] [ Moonshine fills my eyes with sadness makes me cry filling my soul with darkness makes me scream I hate my life I wan\'t to die I wan\'t to kill you too but I dont know why my head full of shit my eyes filled with hate when I see you my hate for you rises with my heart rate my heart stops I drop and lay in the grass but my head keeps on going and I see insects eating my body my death is not the end now I\'m all bloody but I feel no pain but my hate for you still remains ] [ I\'ve got a fucked up freaky mind I deserve to be burned to ashes and blown off with the wind like a raging storm in the desert with the sun shining bright down on me but the suddenly total darkness it\'s so dark, everything seems to be invisible, I can\'t see it\'s like the world is at it\'s apocalypse dieing would be an unexpected plesure like a huge christmas package while living forever would be a total failiure pian is just apart of being alive ] [ I don\'t know what the meaning of life is I wan\'t my head stuck on a spike I don\'t wanna go on with this life shit I wanna be disected in every way I wan\'t my life to be taken n\' bended I wan\'t my life to be cut up n\' ended now I know that god has surrendered now I know that religeon has ended this whole world is fucked up n\' twisted this funckin\' life will make me unhappy my shit life is gonna be wasted shame on every priest in the country I have lived a log life of lies a lie you\'re gonna help me untie set a snare and leave me to die you will regret this and wonder why gonna help me kill myself gonna place my head on a shelf gonna tear my body apart my death is a fuckin\' piece of art ] [ hausin á mér er einsog svampur léttur og rakadrægur ég skil ekki góðmesku ég er aldrei þægur vill bara brjóta og bramla ég er fífl eða það segir sú gamla ég á ekki skilið þetta líf ég ætla að enda það skera sundur púlsinn með hníf liggja á gólfinu í eigin blóði það blæðir svo mikið það liggur við flóði en ég veit ekki af því því ég er dauður líkaminn þurr hausinn auður ég sé svart og fatta hvað ég var mikill sauður ] [ heimurinn er heimskan ein samansettur af hálfvitum þó að gatan sé þráðbein þeir ná að keyra útaf hversvegna er ég gáfaðri hversvegna er ég guð ég er samt ekkert fágaðri ég er ruddi einsog hinir ég hata þig og allt sem þér tengist ég þoli ekki sjálfan mig sama hversu lífið lengist ég enda það á næstunni ] [ ég sit inní tómu herbergi finnst erinsog þerna séu milljón manns ég get hreeift mig hvergi því ég er kraminn get ekki andað get ekki séð finnst einsog hjartað hafi verið blandað í rafmagnsblandara ég er alveg að deyja en skil samt ekki neitt ég hef ekkert að segja sé lífið þjóta framhjá á nokkrum augnablikum ég dey en dett ekki niður því allt fólkið heldur mér uppi samt er ég einn ég veit hvert ég er að fara minn vegur til helvítits er mjög beinn ] [ get lost in the shadow of the past cannot hide what I\'ve done with everything moving so fast I get lost in chaos can\'t help being slow with this burden of sinds I hide and lay low don\'t wan\'t anyone to see how bad I\'ve been but what do you wan\'t me to be I can\'t be an angel I have no wings but although I\'m alot of things I am no devil I ain\'t that bad ] [ sitjandi í sýrupolli frægðar allir vilja mig snerta ég bið guð vægðar því ég ræð ekki við þennan farald ég vill bara vera venjulegur og geri það sem ég get en ég veerð bara heimskulegur og sötra himinninn uppum nefið held að ég sé að deyja vill að svo sé veit ekki hvað ég á að segja ég hata allt og alla því allir eru fávitar og ég þurrka þá burt einsog svitan á enninu sem myndast þegar það er heitt og þurrt ég ætla að drepa þá alla sem mig elta því ég ætla að labba með fiskum svona fiskum sem gelta því hausinn á mér er að bráðna ég er settur í klefa þar það er dælt í mig lyfjum og ég byrja að slefa ég ræð ekki við mig heilinn deyr á undan líkamanum ] [ labbandi í mannþrönginni og taka ekki eftir einstaklingum heldur bara fjöldanum finna allar hvatirnar sem við þvingum höludm þeim inni og hleypum þeim ekki út þangað til að við springum og látum frumhvatirnar ráða byrjum að drepa mann og annan því þettað er ekki lengur feumhvatir heldur hrein geðveiki sem springur úr með tilheyrandi sveppaskýi við hömumst og hömumst þangað til að hausinn líkist blýi þungur og ofnæmisvaldandi við reynum að hugsa en blýið er of þykkt við hættum að finna til hættum að finna lykt öndum að okkur reyknum köfnum.... deyjum.... hverfum.... ] [ ofbeldi heimsins er óendanlegt alheims friður er eitthvað ómögulegt friðarsinnar not ofbeldi til að stoppa það er þetta fólk ekki lagi í höfðinu á þeim er augljóslega eitthvað að skilja ekki góðmennsku heldur bara græðgi tala ekki íslensku heldur tala í peningum vilja engum gott vilja bara græða og eiga það sem þykir flott en skilja ekki að gómennska er töff og að þeir eru bara nördar ] [ með geislabaug og hörpu ég hefst á loft til himna en lykla-Pétur hafnar mér ég hrópa, vængbrotna og hrapa lendi við hásæti satans og mér líður líkt og apa með geislabauginn um hálsinn ég græt við glóandi steina vængirnir teknir og hófar taka við af tám ég er púki ég er dæmdur í eilífð í helvíti enginn vill að ég strjúki svo ég er settur í læstan klefa að ég strjúki núna það ég svo stórlega efa ég er fastur hér það sem eftir er og þykir það frekar súrt því að botn helvítis er bað af blóði og ég er að drukkna í því ég dett niður og dey ] [ ég sit á gangstéttinni með snjóinn uppað höku horfi uppí stjörnurnar skil ekki tilganginn slæ við slöku hætti að anda vill deyja held það leysi minn vanda leggst á bakið og sé svart finn hvað malbikið er kalt og hart brjálast og öskra en enginn heyrir í mér öskrið deyr með mér ] [ ég held í höndina á þér leiði þig til helvítis held aftur af mér og brosi til þín ég gríp um hreðjarnar á þér og ég geldi þig því það er nóg af þér í helvíti ég lít niður til þín frá skýjahnoðrunum veit ekki hvað þú hugsar en ég veit þín spor þú hatar mig ég skil ekki afhverju útaf því að ég geldi þig hvað meinaru tók frá þér kynkvötina ég bjargaði þér ] [ hvað er eð gerast hvers vegna viltu mig ekki er ég að sturlast eða er þetta eðlilegt að vera fullur alla daga og berja þig til óbóta þettað er ekkert sem ekki má laga þú veist þú losnar ekki við mig því hver hefur sinn djöful að draga og ég er þinn djöfull og þú mín tík ég hætti ekki að berja þig fyrr en þú ert orðin lík þá kemur löggan og þá brotna öll beinin því að þeir berja mig í spað og henda mér svo í steininn og ég er fastur þar ævilangt ] [ I think I\'m blind can\'t see you not going to find what I seek my search for purity will never end for all humanity it serves well I\'m lost in lies lies of mine I brake all ties ties with you now I\'ve died and gone to heaven there I hide never to be found free from you and all your violence how could I know that I\'d end up hateing you ] [ sætið er ennþá volgt þegar ég sest niður og horfi þessi mynd er um mann sem drepur alla með orfi þettað er leiðimleg mynd enda er leikstjórinn fífl það er dauðasynd að hafa þurft að borga enn það er mín mannlega heimska sem ég þarf að torga þettað er einsog að horfa á möguleikhúsið á tjaldi ég skil ekki af hverju það var þessi mynd sem ég valdi það er komið hlé og ég labba út einsog ég ætli að fá mér sígó og drekka kók af stút en ég fer heim, hef fengið nóg leggst uppí rúm og ég fer að sofa til að fá myrkur ýti ég á slökkvararofa daginn eftir frétti ég að maður hafi dáið á þessari sömu mynd og ég var á kvöldið áður af hverju segiru að ég fái ekki endurgreitt þegar ég kom inn var sætið ennþá heitt ég fór út í hléi og maðurinn við hliðina á mér dó borgaðu mér helvítis miðan, ég hef sagt þér nóg ég labba út og reyni þessu að gleyma svoleiðis er best að gera í sófanum heima ] [ my hands are tied I\'m stuck in this cave my sword so far away and I have more than myself to save all I have is a rose maybe it\'s magical nobody knows where I am I hear the dragon coming untie myself get my sword have to hide and slay the dragon to save my bride jump out and kill the beast and on its flesh I feast ride back to my kingdom where my servants scream in despair cause their king was gone but where noone knew but now I\'m back coutinue to rule and try to be fair and not cruel ] [ the taste of your touch yur tender lips the look in your eyes and the way you wiggle your hips I hold you so close smell your hair you are my rose so sweet and tender you trat me so bad you drive me away what we could have had you have ruined just like my soul my heart is crushed in my chest, a hole around my neck, a rope kick away the chair suicide is my last hope I long for death ] [ í þessum öfugsnúna heimi lög þeirra kremja mig ég aldrei gleymi hversu mikið þeir lömdu mig hvernig það var að ranka við sér í eigin blóði sálin með stórt mar þó líkaminn sé sár kvelst sálin meira öll mín ár virðast lítil við hlið atburða þessa dags ] [ my eyes are open but the world ain´t gray it´s just black not a good place to stay I see no good everything is bad and here I have lost everything I had and now I stand alone and pray to die my will to live is gone ] [ you are inside my head I can\'t see whats bad I can see your eyes in my eyes in the mirror you are not like me but still we are the same what do I have to do to make you go away! GO AWAY! I don\'t need thst shit you give me every day all day I can see that youre not gonna go away people are lookin\' at me like I\'m some kind of freak please go away so I can be saine again! FREAK! you are in me we are the same still I hate you get the fuck away! GO AWAY! why won\'t you leave me alone you know I\'m too paranoid I can hear footsteps by my bed at night I clear my head of all thoughts but you are still inside why won\'t you go away so I can keep my pride GO AWAY! I am sorry that I blaimed you I can feel you slippin\' away from me! GO AWAY! FREAK! ] [ this person inside me trying to break out people cannot see makes me scream and shout hate me life more and more each day want to slit my throat with a knife cause noone will hear what I have to say cause of this I\'m lonly and have no friends only the pain of others makes me happy when the life of another ends I see myself as a monster that terrorises all destruction is my only skill my grasp is gone now I cannot kill ] [ whats the point of living this life whats the point of dieing why do we endure this pain why do we endure so long how can there be a god why can\'t we see him who want\'s money when you can have love am I any more important than a dove why can\'t everyone be pleasant why do we ever lie why can\'t I just die ] [ söngur verður að gráti í hálsi ungs manns ofbeldi og hrylling má sjá í huga hans sjálfstjórn verður engin sár djúpt í sálina fullur bati verður ekki auðfenginn mörg ár hafa liðið í sálarsárin hann lengi hefur sviðið hann vildi að hann hefði aldrei fæðst og kemur seint til með að skilja það vald sem er æðst að hata fólk eftir barsmíðar og læti hann mundi forðast það ef hann gæti skilur ekki tilganginn innan eiginn huga er hann eini fanginn ] [ I hate this feeling I\'m filled with shame ashamed of my actions ashamed of my name I feel like life is changing it does\'t feel like a game but more like a process filled with torture and pain I\'ve gotta go this has gotta end there is a long road ahead and I\'m not trying to be bad when I say that death is our final destination ] [ when I was a little kid nobody liked me I ran and hid in my own little world but now I\'m stuck inside my own head I have no luck in trying to get out I hate myself and I wan\'t to die but nobody knows why cause I can\'t tell them from inside my head life doesn\'t look real so why go on life is of no use to me this is something only I see for that everyone is blind I go to heaven and leave you all behind ] [ ég er sem tyggjó fast undir skónum hjá þér þú mundir skafa mig í burtu og henda mér ef þú vissir að ég væri þarna það er þá þegar búið að tyggja mig og spíta mér út en ég elska þig og fatta ekki að þú sért að traðka á mér en allir aðrir sjá það að það er eitthvað að en minns ekki sér því ég vill vera hjá þér vill að þú haldir mér þangað til að ég sofna því mér finnst einsog hausinn á mér sé að klofna ] [ I was the new kid nobody liked me no matter where I hid they couldn\'t let me be I saw that red head coming at me he didn\'t like me I knew ho would beat me this has left a hole there\'s a scar in my soul you will see me standing outside your door you will hear me knocking on your door you will see me holding a huge fucking knife you will know me I will kill you I had to move far away from that place my mind was filled with pictures of his ugly face so I decided to seek vengence right away that decicion has been made to stay his fate has been made he will fall in my shade you see me standing outside your door you hear me knocking on your door you see me holding a huge fucking knife you know me I am killing you now I\'ve killed him now my plan to escape I have decided to face my actions and stay I will be busted and I will confess still I will be fried cause noone belives me people hate me for beliving in justice you saw me standing outside your door you heard me knocking on your door you saw me holding a huge fucking knife you knew me I have killed you now I\'m locked up and await my death execution by a lethal injection but I\'m okay with it my scars are healed I feel the poison my fate is sealed now I\'m dieing but I\'m still smiling now that I\'m dead I won\'t stop smiling cause you are dead my life is complete I taste your blood on my cold lips now your dead and gone away, motherfucker! ] [ sé lítið blóm gægjast uppúr grasinu svo lítið, fallegt og sakleysislegt svo ég hleyp að því og ríf það upp því þetta litla blóm er frekt það tók plássið frá grasinu svo ég ríf það í pínulitla bita þegar fólk sér mig heldur það að ég sé geðveikur eða með fjögurtíu stiga hita en svo er ekki ég var bara að lita ekki í eina pínulitla bók heldur heilt tún og það átti að vera grænt haf með engri bleikri eyju og núna segja fullt af mönnum í hvítum sloppum að það eigi að setja mig í spennitreyju en mér er sama hvað þeir vilja ég vill bara lita þeir verða að skilja að ég veit mínu viti og ég vill mína liti ] [ a dagger twists so deep in my head my blood is flowing as I drop on my bed I hate this life and just want to die you need not know why I\'ve been this way since I was born before I could talk a christian sworn I never said yes I belive in god I didn\'t even try to nod now I am dead and not going to heaven I\'ve benn wanting to die since I was seven but I\'m not going down to hell now that I\'m rotting I feel well ] [ I fear I have come to an end for that my sword is so hard to mend I can nolonger be a hero for that my strength is close to zero I try to act as I am fine but I blurt it all out with wine so now I\'m but a peasant this life is not pleasant or maybe it just not for me for that a hero I was made to be I cry myself to sleep at night for that I am no longer a knight I\'ve tried to ride my cow but I allways manage to fall somehow as I grow older my heart gets colder and I feel my life slipping away and I realize that heros come and go they are not here to stay ] [ look how far I\'ve come becouse of you I am what I wanted to be therefor I am no longer blue and finaly I see that you did so much I know now that I need your touch to be complete I act like you and talk like you I\'m apart of you I love you thank you dad.... ] [ Beat me, eat me, treat me bad I can feel me going mad youre a fool and youve been had you fuckin stupid redhead I hate your guts and hope you die a slow and painfull death no I do not tell a lie I have just altered the truth now youre dieing at my hand your blood is on my hands holding a knife, I´m on my knees in the sand I lough outloud and hope you hear the sickness in my voice cause your existance has been annoying youre just an irritateing noise and now I turn down your volume ] [ Locked up, tied and gaged Stuck in my own imagination I\'ve been told I\'m not like them I\'m like an infestation I cannot be driven away I cannot be hidden you better know I\'m here to stay I\'m gonna haunt your soul I am not a normal guy I\'m not just a human I allways was a little shy but now I\'m out in the open I will soon have all the souls the it will all be over ] [ being called wierd by the freaks of the circus it is very unpleasant and haveing to live there when in your eyes I am but a peasant piked on for being myself not following the commands of others going my own way no matter whom it bothers we are not alike even thought we are brothers I will not bow and bend just becouse you say so this has got to come to an end before we loose our star attraction then noone will come to see us and noone will care nad thus we cannot take part any more ] [ I\'m all alone in a crowded mall my sun has shone but it shines no more I\'ve been abandoned left to die still I don\'t wonder or ask why cause I understand the feeling of hate cause I hate myself and for death I wait but this wait is long and without pleasures I lay on the floor and hope to be crushed by all the people walking by but they seem to avoid me I understand why cause I am repulsive and deserve to be helpless I just wait and hope I die of hunger ] [ sit allsnakinn úta umferðareyjunni leifi öllum að sjá hinn rétt mig en ég get ekkert gert í kvölinni sem fylgir því að vera ég ég skil ekki hvað fólk er að glápa ég er maður alveg eins og það fólk virðist bara vera að rápa eins og það sé ekki að fara á neinn sérstakan stað ég sit um stund og velti fyrir mér bílunum og og byrja að dæma útfrá þeim þessi er í tölvinni í öllum frístundum þessi vinnur hjá kaupþing þessi hlustar bara á FM og rúntar um með litlar stelpur þessi er að fara að horfa á HM ef það er þá sýnt og þessi er með lítið typpi og reynir að bæta það upp með dekkjum jæja það er komið nóg af þessu flyppi ég klæði mig og rölti heim ] [ Lonelyness and emptyness fill me up inside I feel abandoned, deserted I hvae my eyes wide open still I see noone cause noone is there I start to cry and run don\'t know where I\'m going or where I\'m coming from then I start to feel weak and I collapse in the sand how long have I been running? a day? a week? it doesn\'t matter I just lay there motionless waiting for it all to be over all this trying is pointless ] [ Þegar um málbeinið losnar á öðru ári barnsins sem á allt lífið framundan er sem skriða losni úr læðingi og það hljóðnar ekki fyrr en þrýstingurinn hefur hjaðnað. ] [ Mamma sagði við mig þegar ég var ungur að ég ætti alltaf að spara og passa mig á bílunum og alltaf að skeina mig og bora ekki í nefið og klára alltaf matinn og borða kartöflur jafnt sem pizzur og vera alltaf kurteis og læra heima og mæta á réttum tíma og tala ekki lengi í síma og fara snemma að sofa. Heldurðu að ég sé vitlaus? Að vera ekki enn búinn að ná þessu. ] [ Skrái skilning lífsins niður á blað núll núll núll ég get ekki skilið það. Skrái skepnuskap huga míns niður á blað fjórir, fimm, sex, eykst, en ekki hvað. Skrái hamingju niður á blað þrír, tveir, einn, Deyfðin rennur í hlað. Eins og lítill krakki í rólu. Sveiflast upp og niður, en alltaf á sama stað. ] [ Veist þú hvernig er að vera ekki neinn sérstakur og hlaupa um nakin, en samt tekur enginn eftir þér. Að hlaupa um og finna frelsið með brett upp á forhúðina þannig að allir mega sjá þig. Að stökkva upp í loftið og þykjast skjóta lenda í jörðinni og velta sér um og enginn tekur eftir þér og manni líður eins og - kuski í nafla alheimsins. Og maður er einhvernveginn - kusk í nafla alheimsins. ] [ Ég flýt í jörðu, stend á vatni, sé ekki örðu, vona að mér batni. Er byggður á sandi, heng á ryðguðum nagla, tilbið þig - heilagur fjandi, og vísu saman bagla. Ég er viður í skútu, í símanum og aldrei við, hjólbarði af rútu, þoli litla bið. Svona gæti maður, haldið áfram - líkt og ódauðlegur fugl, en blaður er blaður, og það er nákvæmlega ekkert vit í því að semja þetta rugl... - samt ert þú enn að lesa þetta. Þýðir það að ég eigi að halda áfram; hrinda merkingunni fram af bjargi, ofan í óskiljanlegt haf og láta þig drukkna þar í tilgangsleysi, því þú - við öll munum falla með merkingunni. Kannski er það tilgangurinn. ] [ ég sit uppi í sófa einmana máttlaus dofinn og gramur hlusta á Pink Floyd og hennar angurværa gítarglamur þó hljóðin séu ljúf og hrollur hríslast um bakið og textar um sorgir hafa tárakirtlana vakið þá er ég fyrst með þér - sjálfum mér samur. \"shine on you crazy diamond\" hljómar í eyrum mér en hrollurinn eykst mjög með \"wish you were here\" því þegar textarnir fjalla um ástir gleði og hlýju og tilfinningar sem ávallt kvikna að nýju þá mun hugur minn æ í raun dvelja hjá þér. fyrst þegar \"comfortably numb\" brýst inn í mitt eyra tekur söngvarinn að syngja um sorgir og fleira þegar röddin þín er hljóðnuð - þögnin ekki rofin sit ég uppi í sófa með heyrnartólin dofinn. öll þessi ástarlög ná að fanga mig því í raun og veru fjalla þau um þig. ] [ úr skuggahornum herbergis skríður hún fram dauðskelfd og gráti nær í varnaðarstöðu skrímslið í stofunni sefur enn vært skrímslið sem nýtti sér sakleysið hennar. úr tárakirtlum fegurðar renna demantstár blóðrauð þau lenda á litlum mjúkum vöngum skrímslið í stofunni sefur enn vært skrímslið sem nýtti sér líkama hennar. úr fötunum fer hún og læðist í bað óhreina sálin skolar syndir á brott skrímslið í stofunni rumskar og byltist skrimslíð sem óhreinkaði æskuna hennar. úr baðherbergi heyrist einmana snökt fallin er depurð á ásjónu sálar skrímslið í stofunni opnar augu sín skrímslið sem nálgast og bíður í leynum. úr baðherbergi heyrist svo sársaukaóp fallinn er dauði á sakleysislíf skrímslið í stofunni - lítillar hnátu faðir skrímslið sem endaði stutta lífið hennar. ] [ í skuggaskiptum ljóss og myrkurs springur út eitt blóm skjótt mun hver í blindni sinni kæfa hennar hljóm því hvar sem hver mun halda sig er ætíð illska þar og hverfur góðvild úr heimi þeim sem að Atlas bar. guð er dauður og sleppir taki heimur ferst hér brátt til að fólkið lifi og vaki haldið alla sátt. heimur hvílir á vorum herðum friðinn hátt við halda verðum. ] [ lítill dropi stekkur fram af brúninni endar í hylnum og blandast fjöldanum ferðast fram svo tær og fagur en skiptir svo litlu máli. í hitanum bráðnar hann og deyr ferðast á vængjum upp til himna en hann missir senn flugið og fellur til heljar niður til jarðar á ný. lendir á auga eins reiðhjólakappa missir hann gripið á kornóttri möl þeysist á vegrið og þýtur á loft kremst undir trukki og deyr. lítill dropi sem eitt sinn í hyl einum dvaldi reyndist beittur í raun og heila fjölskyldu kvaldi. ] [ the white coloured cotton cloud over the mountain starts to weep the tears roll down the empty hills water comes together in the wound which grows deeper by the moment... eventually the hills come down the rest is flushed out into the sea the cloud is laughing with pleasure as the hills will never grow again... new grass will grow on the ground where once the hills protected me... ] [ Sýndu mér sálina. Segðu mér söguna um sársaukann, syndina og sólina í þér. Þú þekur minn huga. Þú þráir mitt hjarta en þekkir ei þörf mína og þrá eftir þér. Fallin á tíma. Við fáum ei framar að faðmast og finna þá fallegu ást sem forðum við fundum og bundum í þögn sem ástinni brást. ] [ Lifandi skulum við lífinu lifa og leikandi á hörpunnar strengina slá. Ævinnar frá okkur árin þau tifa og eigi er ljóst hve mörg hér munum fá. En tregir þá hörpunnar tónarnir titra er tilveran virðist vonlaus og köld. Strengirnir stirðna af slættinum bitra en sorgirnar taka í hjartanu völd. Sagt er að sorgin og gleðin þær ferðist samferða og skiptist á strengina að slá. En harmurinn heilsar svo hugurinn herðist en ei til að hjartað hægt leggist í dá. Sorgir því sigrum með sterkara hjarta. Stirðir strengir þeir hrökkvar við smátt. Snúum svartnætti í sumarnótt bjarta og spilum á strengi hörpunnar dátt. ] [ Að standast þær þrautir sem lagðar eru hér að forðast þær snörur sem þvælast fyrir mér hefur reynst mér þrautin þung því syndin hefur fylgt mér allt frá því ég var ung. Ég hlust\'ekki á eldri og vitrari menn því ég hef talið mér trú um að ég viti allt betur og geri það enn því við syndina ég elska að daðra en afleiðingarnar elta mig og að lokum hún heggur sem naðra. En hvenær ég læri og hvenær ég sé að raunveruleikinn bíður mín handan við hornið, stendur hann og bíður mér að koma til sín. Ég færist sífellt nær því en mun ég takmarkinu ná áður en það er um seinan og Guði ég farin er frá? ] [ Orð.... Svart-hvítir deplar augna minna Þau endurspeglast af skjánum Innihaldslaus og vanabundin Rödd.... Ljúfir hljómar raddar þinnar Fá tíman til að hverfa og góða byrtast Trúin á traust vex Fegurð.... Punktar fá líf Og myndin grefur sig í vitundina Hjartalagið skín í gegnum þessa fallegu þig Þú.... Þúsund, þrjátíu, tvær mínútur líða ekki án þess að þú sért viðfangsefni hugsana minna Heldur mér föngum ] [ Kvalarfullur kvíðinn kitlar kjarklítið hjartað\\ Ungur drengur gengur ekki lengur, hann hengur út af hverju? það er svo margt að\\ kalt kvöld kveður kalda kvalda sál sem gat ekki kvartað\\ út af hverju? Það var allt að\\ ] [ þegar þú hefur vini glatað\\\\ geturu elskað eða hatað\\\\ matað sjálfan þig á reiði\\\\ grátið þykkum tárum yfir leiði\\\\ þegar þú hefur vini glatað\\\\ geturu elskað eða hatað\\\\ séð það að allt sem hann gerði\\\\ var keypt allt of dýru verði\\\\ ] [ Orð mín eru gleypt af loftinu\\ Að týnast í sjálfum mér var aldrei inn á kortinu\\ Ég er sorgmæddi maðurinn sofandi í portinu\\ Ég er maðurinn sem gruflar í sorpinu\\ Ég er skíturinn í þorpinu\\ Dýrið í víninu\\ þetta hvíta í trýninu\\ veiran í sýninu\\ heyri fólkið tala um mig er ég læst sofa\\ segja að ég deyji vonandi úr kulda í þessum pappakassakofa\\ þau slökkva ljósin þegar að mín kveikna\\ ég kunni eitt sinn að teikna\\ ég kunni eitt sinn að reikna\\ en nú talar fólk um mig sem hinn illa leikna\\ ] [ ég týni því sem ég finn tapa því sem ég vinn hent út er aðrir fara inn fæ högg á kinn rifið af mér skinn er enginn vinur minn eða er ég bara óheppinn ] [ Ég finn víbraðan óminn\\\\ Ég heyri ljúfan en viðkvæman hljóminn\\\\ Nú er það sterk melódían sem er dóninn\\\\ Ég sé blóminn\\\\ ég finn þegar þau lita tóninn\\\\ Trommurnar öskra eins og svöng ljónin\\\\ Nú eru þær orðnar dóninn\\\\ Melódían hækkar og hefur hátt eins og róninn\\\\ Sem sönglar með sjálfum sér ég er dóninn\\\\ Hann hækkar ekki djúpan róminn\\ Hann hvíslar\\\\ eins og hræddir gíslar\\\\ Hann daðrar við hið óþekkta\\\\ Gerir melódíuna svekkta\\\\ Svo hún hækkar\\\\ eins og á sem rennur yfir bakka sína\\\\ Svo hún stækkar\\\\ eins og rónanum sem tókst sál sinni að týna\\\\ hún fækkar\\\\ trommunum sem voru sig búnar við melódíuna að líma\\\\ róninn drukknar í sinni synd\\\\ deyr eins og bassabox sem tókst ekki að leysa allan sinn vind\\\\ tónlistin er bara tóm\\\\ með holan góm\\\\ bara ímynd\\\\ klassískt\\\\ tíst\\\\ sem enginn býst við\\\\ hið tóma orð\\\\ fremur þjóðarmorð\\\\ því þú rónann kýst\\\\ tónlist var gerð fyrir jésú krist\\\\ fyrir rónann sem hafði fjölskyldu sína misst\\\\ síðast en ekki síst\\\\ fyrir innantómt tíst\\\\ ] [ Maginn slappur, hausinn sljór Smér í fótum báðum Djöfuldóm ég drakk af bjór dauður ligg ég bráðum ] [ Bíbí blakar vængjum, háum vængjum. Bíbí blakar mínum vængjum. Hann Bíbí er fagur fugl og hann er minn fugl og enginn annar á þennan fugl nema ég ] [ Ég, þú núna í þessum heimi elska ég þig en í næsta heimi elskar þú mig. Ást er ódauðleg og óaðfinnanleg. Ég, þú þá ] [ Heima sit ég við tölvu ekkert að gera nema fara í CM og það er ég í tímunum saman tíminn flýgur hjá og næsti dagur rennur upp. ] [ Blekið er búið Sagði skáldið Og andvarpaði Skáldið er búið Sagði penninn Og hló ] [ Gullgerðarmaðurinn er þreyttur Viskusteinninn ekki í sjónmáli Lífselexírinn ósamsettur Leiður á blýi og gulli Salti Brennisteini Kvikasilfri Leiður á að bræða Eima Hreinsa Og brenna Leitin var gagnslaus Bjó til amfetamín í staðinn ] [ Mynd þín var mér gefin Öðru bætti ég við sjálfur Og ég elskaði þig Og allt sem var þitt Allt sem ég gaf þér sjálfur Ég elskaði mynd þína Og sjálfan mig Þú varst víst aldrei til ] [ Eitt orð og fylling tímans Vitund þín og verund sveitir blóði Andspænis rökum tilveru þinnar Frumspekileg Óumflýjanleg Tómið horfir í tómið Herbergi án glugga Án hurðar Fullkomið lokað rými Í tíma Fullkomið lokað tóm Í rúmi Svört glerkúla Og tilvera þín sveitir blóði Andspænis rökum vitundar þinnar ] [ Eyða í andrýminu Án hniggnunar Án aukningar Andefni Afoxast auðveldlega Þrýstiloftsflugvél Í innra eyranu Syndandi án kafarabúnings Í þvottaskál eilífðarinnar Hóstasaft Guðanna Og gömul hugmyndafræði Gengur aftur ... Uppreisn lifrar gegn heilaberki ] [ Með dóttur á fundinn fór faðir og móðirin stór með andakt hann hlustaði þótt um hlustir hans gustaði rammfalskur káeffúká kór og leikþættirnir þar þránir og töluvert skar frá Friðriks tíma með boðskapinn fína og síðan, enn meiri káeffúká kór sem skánaði ekkert, svo að ég fór. ] [ Rosalega rjóðri kvensu renndi ég í í Róm velktist um í viku, í flensu fárveikur af post-orgasmic illness syndrome ] [ Á Heiðarfjalli við húktum hermenn í ókunnu landi Og nú kvarta þeir yfir að við kúktum í kamar úr íslenskum sandi. ] [ Sársaukinn sem yfirtekur mig og allt í kring, eykst hægt eins og til að láta mig vita af sér. -Ég titra- Þegar hann nær hámarki staldrar hann við, augnablik, eins og til að láta mig finna nályktina af sjálfri mér. -Ég græt- Er hann nær lægð og hættir svo, finnst mér eins og ég liggi í sæluvímu, hamingjusöm, ég svíf, ég flýt, ég flýg!!! -Mig svimar- Þá tekur þreytan við, lamar mig frá toppi til táa, augnlokin þyngjast, limirnir linast... -Ég missi stjórn á bílnum og ek inn í kyrrstæðan trukk. -Ég dey.- ] [ Í hyldýpi sálarinnar, í svartholi hugans, í deyjandi hjarta, á ég tár... En ekki eitt, heldur fljót tára. Mig langar að flýja, að deyja, ég get ekki meir, Því mér finnst ég vera að drukkna... -Í fljóti tára. Þú sveikst mig og særðir, -Þú drapst mig... Hvergi get ég leitað, því svik þín eru hulin öðrum. Ég hef beðist vægðar, ég hef kallað á hjálp... -En svo virðist sem ég hrópi út í tómið... Ekkert svar! Ég gæli við veiðihníf, snerti blaðið sem er svo beitt Ég sker mig óvart... Þá fatta ég að þetta er ekkert mál, bara loka augunum og bíta á jaxlinn... Það verður gott að deyja, að finna lífið fjara út... -Að finna ekki lengur til. Því ég vil ekki drukkna í fljóti tára... -Tára minna. Elsku Guð! Gefðu mér styrk, til að finna ekki til, til að deyja ein, eins og ég er alltaf... -Því ég veit, að svartholið mun grípa mig. ] [ Guð skapaði fílinn en ekki bílinn Guð skapaði lús en ekki hús Guð skapaði jörð og einnig fjörð. Guð skapaði hestinn, líka prestinn. Guð skapaði tré en ekki herðatré. Guð skapaði tennur en ekki spennur. Guð skapaði dúfu en ekki húfu. Guð skaparði ljósið en ekki fjósið. Guð skapaði Adam og Evu. Guð skapaði hnöttin og líka köttinn. Guð skapaði fiskinn en ekki diskinn. Guð skapaði sól en ekki kjól. Guð skapaði Jesúbarnið og þess vegna eru jól. ] [ það rignir á mig á þessum litla hól akkurat á þennan litla hól. það rignir og rignir svo að ég fer heim og horfi á hólinn úr glugganum, en rignir. Á endanum fer ég út og breiði laki yfir. ] [ Á 5 öld fyrir Krist kennir Indverski heimspekingurinn Gautama að: ?Allt er tóm? og að ? Það er ekkert sjálf ?. Á 20 öld eftir Krist er Barbie sammála honum, en veltir fyrir sér hvernig maður með svona stóra bumbu geti setið fyrir brosandi og ber að ofan. Denise Duhamel Í þýðingu Lofts Kristjánssonar Smára ] [ Móðir mín, tengdamóðir og amma, hugumstór líf hefur látið lokið hefði átt lífsins píslargöngu fyrir löngu andlátið að brátt barst, fékk ei grátið því útför þurfti að kanna Þreytt var hún orðin á þessu fári og örlaga sinna kvala kvörn og með sínum stæl án þess að vera með væl kveðja nú dóttir og barnabörn og Loftur Kristjánsson Smári ] [ Næst mold, gras. Nærist, vex, dafnar. Fyrir sterkar taugar til moldar, teygir sig til sólu, ákveðið að láta taka eftir sér. En Það er ekki til neins þar sem sláttumaðurinn hefur reitt ljáinn til höggs. Í fullvissunni yfir að grasið sé grænna hinu megin deyr það drottni sínum í moltukassanum. ] [ ..bíddu aðeins, ekki fara alveg strax. Má ég horfa í augun þín aðeins lengur og mála á varir þínar með blóðugu hjarta mínu? Það tilheyrir þér en ég bið þig um að bíta ekki of fast því ég gæti sofnað. Eftir þann svefn yrði lítið eftir af okkur annað en keimur af frostþurrkaðri rós. ] [ Sælkerinn öskrar af ánægju. Ostakakan búinn og allt er gleymt. Þig langar að detta í það, en klukkan nagar þig. sæta ljóskan sýgur í þér hjartað, hverjum er ekki sama. Reiðhjólið skiptir um gír og þú kemst í annan heim. Alltaf gaman nema kannske á morgun. ] [ Þar sem sólirnar eru þrjár og þar sem rauðar sóleyjar hneigja sig í bláu túninu, þar hneigi ég mig líka, vopnaður fjaðurpenna. Og þegar þú kemur upp úr kafinu böðum við okkur sólum og lemjum himininn hlátri. Synir Pegasusar á mæninum og þú undrar þig á því hvernig þessi flykki geta flogið. Grasblámi í grænum buxum. ] [ Himininn sekkur, ég sekk líka Jörðin stekkur frá fallegri sýn yfir í opið sjálfsmorð, lygi verður að staðreyndum, staðreyndir verða að lygi svo ég tek þrjú valin orð úr rigningu heimsinns ég elska þig..... ] [ Um grýtta mela og gróin holta börð sér glöggt á forna löngu troðna slóð við úfið hraun og illfær fjalla skörð hvar einn af öðrum áfram leiðir tróð. Þá götu en má greina um langa hríð hvar gengu lúnir fætur heim á leið úr kaupstaðnum er komið var um síð með klif á baki, ei var sú förin greið. Þar langa mátti oft lest í ferðum sjá er liðaðist um hraunsins grýttu slóð en fyrir gjótur sneiddi og djúpa gjá, nú greindi heimahaga augans glóð. Í björtu veðri um blíða sumars daga oft brosti náttúran á leiðum manna en mörg hér skeði og merkileg oft saga svo margt er augað gældi við að kanna. Í byljum vetrar, bráð var hætta búin er barist var í kulda og myrkri nætur þá gerðust mörg á göngu sinni lúin, hér greri yfir landsins syni og dætur. Svo merkileg er mörgum gamla sögnin og mikilvægt að enginn hennar missi, en marga hluti og merka hylur þögnin og margt er það sem aldrei nokkur vissi. ] [ Hann er kominn aftur sagði hún og hjarta mitt tók kipp, það barðist um af gleði því ég hef saknað þín. Ég trúði þessu varla, það var næstum því of gott, að hugsa sér að hann væri kominn aftur til mín. En hún reyndist skammvinn þessi gleði, það á það til með þig, því að þú virðist ekki vita, þó ég segi þér að, ég elska þig og það breytist ekki neitt og sama hvernig þetta fer þá áttu alltaf í hjarta mínu stað. Ég vona að við hittumst aftur kallinn minn þó ég viti ei hvar þú ert eða hvað þú ert að gera ég veit bara að þú ert að flýja, en maður flýr nú seint sjálfan sig því þetta er harður heimur og skrýtin tilvera, sem þú lifir í vinurinn minn, en ég vona að þú vaknir einn daginn og minnist mín. Því að ég mun alltaf vera þín, vinur þinn um alla tíð og einn daginn skiluru kannski hvað það þýðir. Ég verð að trúa því og treysta, að þetta hafi ekki verið í síðasta sinn sem að við kvöddumst um helgina, því þó annar fóturinn sé kominn í gröfina, þá neita ég að sleppa þér þangað ofaní, alla leið. Ekki þú líka, ekki fleiri, ekki aftur, snúðu við, bara einu sinni enn, ég elska þig ennþá, þú ert vinur minn, kannski skiluru það einn daginn, kannski er það nú þegar orðið of seint. ] [ Ég fann í kvöld gamalkunna lykt sem ég bjóst ekki við að finna aftur eins og angan af gamalli minningu var lyktin sem við nefndum eftir þér. Þegar ég gekk út frá þér þefaði ég af höndunum og þær geymdu minninguna. Við strukum þér öllum og klöppuðum vonandi líkaði þér það en eftir sat þessi sterka lykt sem einkenndi þig vinur. Eftir að ég strauk hár þitt síðast gat ég ennþá fundið ilminn af þér, á hendinni minni, í að ég hélt, síðasta sinn. En nú fann ég hana aftur og minntist þín og þó eigandinn sé ólíkur þér þá er hann góður, eins og þú varst og þegar ég strýk hár hans og ber hendina upp að nefinu man ég eftir stundunum sem við áttum á meðan nærveru þinnar naut ennþá við. ] [ Skuggar hugsana minna elta mig uppi, ég bið þess að þeir finni mig ekki , ég reyni að fela mig en það stoðar ekkert, ég reyni að hlaupa en það hjálpar mér tæplega úr þessu. Þig geymi ég í hjartanu, hugsanirnar geymi ég með sjálfri mér og elskuna tjái ég engum nema þér, því það er lítið gagn í að segja þeim, þau skilja ekki, enda skil ég það ekkert betur, af hverju ég er fallin, fyrir þér. Ef þau þekktu manninn sem þú hefur að geyma þá þyrfti ég ekki að bíta frá mér og verja þig þá þyrfti ég heldur ekki að fela þig innra með mér. Ég vil ekki að þú sért leyndarmálið mitt, því ég vil að allir viti, að sama hvað verður, þá áttu þér stað hjá mér, hér í húmi hjartans. ] [ Hversu mikil sem elska þín er, ó Guð þá sný ég mér samt frá. Sný bakinu í Jesú minn og eltist við eigin girndir og þrár. Eilífur Guð þú fylgist með og grípur mig, hrasi ég. Horfir á þó að snúi ég frá þinni elsku og eilífðar náð. ] [ Ég þakka þér, alla þá daga sem á ég hér, á þessum stað. Ég þakka þér, fyrir öll tárin því að þú, þú ert alltaf með. Ég þakka þér, fyrir lífið því að það, það gafst þú mér. Og ég þakka þér, að enginn annar getur tekið þig frá mér. Því þú, þú einn ert Guð. ] [ Undan frosti skreið mitt nakta hjarta berskjaldað af einskærri þrá að stilla strengi saman við þína og svífa burt frá þungri brá. Hjartað tók kipp, er það sólargeisla sá, brjóta sér leið gegnum skýin. En sólargeislinn fagri, er hjartað sá, sér fegurri jarðveg fann. Nú slær mitt hjarta dauðslög í takt við frost og hret. Mín ísilögð þrá til eilífðar er dæmd frá birtu og yl. ] [ Landið, sem mín vígð er vinna, vöggustöðin barna minna! Ég hef fellt í lag og línu ljóðið mitt í grasi þínu. Yfir höfuð yrkir mitt aftur seinna grasið þitt. Hjarta og hugur er heimabundið þér. Met ei við milljón dali mætur, sem á þér ég hef, stuðla ei í stef hrós þitt í hundraða tali. Sé ei rík þú sért - syng, að slík þú ert: Allslaus undi eg mér, ás og grund, hjá þér. Einkunn er þín sú, yndi mér varst þú! Myndi í fjarlægð þér frá fluttur út í heiminn víða eftir þínu sólskini sjá, sakna þína hríða.- Bert og bófest land, byls og skjóla land, hvamms og hóla land, húms og sólar land! Landið, sem mín vígð er vinna, vöggustöðin niðja minna! ] [ Þú manst að fátækt var af náð oss veitt af vorum drottni. Það er gömul saga. En Guð og menn og allt er orðið breytt og ólíkt því sem var í fyrri daga. Því fyrr var vissast vegi drottins á að vera af hor og örbirgð nærri dauður. Því hærra nú sem herrans þjónar ná því hærri laun, því meiri völd og auður. Í fátækt skortir bæði náð og brauð, því bendi guð þér veg með þjónum sínum: þú verður vinur fyrst að fá þér auð, þá færðu líka náð hjá drottni þínum. Því hafi þér ei heppnast ?stöðu? að ná og heldur ekki lánast vel að búa, þá mun þér veröld vera gæðafá og vinir drottins að þér baki snúa. Þó drottin sjálfan þekkir ekki þú, þá þekkjast allir best af vinum sínum. Og gáðu að hverjum hlotnast virðing sú að hafa sæti næstir presti þínum. Og eins er drottinn auði vorum hjá og allar vorar syndaflækjur greiðir, og börnin okkar verða voldug þá, þó vitið skorti, náðin guðs þau leiðir. Og eins er það að þá sem eiga gull, frá þjófnað verndar náðarherrann blíði, en þúsund svarthol á hér fjandinn full af flökkuþjóð og öðrum sultarlýði. Þú félaus maður mátt hér líða nauð og munt í Víti síðar kenna á hörðu. En takist þér að eiga nógan auð, þig englar geyma bæði á himni og jörðu. ] [ Þér frjálst er að sjá, hve ég bólið mitt bjó, ef börnin mín smáu þú lætur í ró. Þú manst, að þau eiga sér móður. Og ef að þau lifa, þau syngja þér söng um sumarið blíða og vorkvöldin löng. Þú gerir það, vinur minn góður ] [ Heyrðu snöggvast, Snati minn, snjalli vinur kæri, heldurðu ekki hringinn þinn ég hermannlega bæri? Lof mér nú að leika að látúnshálsgjörð þinni; ég skal seinna jafna það með jólaköku minni. Jæja þá, í þetta sinn þér er heimil ólin. En hvenær koma, kæri minn, kakan þín og jólin? ] [ Fyrr var oft í koti kátt, krakkar léku saman, þar var löngum hlegið hátt, hent að mörgu gaman. Úti um stéttar urðu þar einatt skrítnar sögur, þegar saman safnast var sumarkvöldin fögur. Eins við brugðum okkur þá oft á milli bæja til að kankast eitthvað á eða til að hlæja. Margt eitt kvöld og margan dag máttum við í næði æfa saman eitthvert lag eða syngja kvæði. Bænum mínum heima hjá Hlíðar brekkum undir er svo margt að minnast á, margar glaðar stundir. Því vill hvarfla hugurinn, heillavinir góðir, heim í gamla hópinn minn, heim á fornar slóðir ] [ Merki Kaíns á enni og brjósti en þú varst samt besti drengur hér áðurfyrr Kilfan réði kasti í leit þinni og örvænting hungurs í kaldri nóttinni eins og úlfurinn krafsar í svörð og eggjárn innanklæða maðurinn sjálfur var ljárinn Í hendi Dauðans blæðandi sár á enni þínu og brjósti ] [ tragedía (með kómísku ívafi) Leikin á tæpum 60 árum Langdregin illa stúktúreruð lítið um frumleika Búningar lélegir Aðalleikarinn litlaus aukaleikarar áhugalitlir Samtöl andlaus aðalleikarinn lést í lok verksins Lítill missir fyrir leikhúsið (hafði einnig leikið aukahlutverk í öðrum uppfærslum) Hálf stjarna fyrir viðleitni ] [ Einn fallegan dag var engill á sveimi, raulaði lag þó í djúpinu eimi, þá blossaði upp, aska og eldur, með brunninn væng var engillinn felldur. Með sviðinn væng og annan brotinn, lá engill á sæng, niður skotinn. Skotið frá víti hæfði hans hjarta, hann ríkir nú kóngur í eldinum svarta. Engill, engill með brotinn væng. Engill, engill á eldsins sæng. Engill, engill með brostinn baug. Engill, engill sjá dauðans draug. Í hrímhvítri höllu hörpunni gleymd\'ann, sem leikið var á í gleði eitt lag, of marga vonda draumana dreymd\'ann nú Djöfullinn vakir jafnt nótt sem dag. ] [ Munurnn varð að lóðréttum miskilningi augnanna. Þægilegur gormlaga skilningur fyrir ofan á misskilningnum. Blá eplalaga fjöll inn í honum með hvítri ísingu en inn í henni ekkert nema eitt lítið ástfang. ] [ Við stóðum tvö saman en samt sá mig engin. Var ég kannski dáin? mér finnst það afar líklegt annars hefur þetta alltaf verið svona,ég ósýnileg. ] [ Tárin segja allt, það vill bara engin hlusta. Einmanaleikinn gerir mig hrædda. Ég hef ekki sjálfa mig lengur. Mér er svo kalt. Hvernig gast þú eyðilagt allt? Nú höfum við ekkert. Ég vil ekki hlusta lengur, ég vil að einhver hlusti á mig. ] [ ..16.júní Fagur dagur feður vinna með sonum sínum mæður heima með dætrum sínum þar skulu þær vera 17.júní Fagur dagur feður fagna með sonum sínum mæður fagna með dætrum sínum veislu vorrar þjóðar 18. júní Fagur dagur feður vinna með sonum sínum mæður heima með dætrum sínum þar skulu þær vera 19. júní Fagur dagur feður heima með sonum sínum mæður fagna með dætrum sínum kosningarétt kvenna 20.júní.. Fagur dagur feður vinna með sonum sínum mæður heima með dætrum sínum þar skulu þær vera ] [ Sit hér einn og læri hausinn steiktur er nú vantar bara snæri utan um hálsinn á mér. ] [ Heart-dust Who ever wrote ?It?s better to have loved and lossed, than ever to have loved at all? never knew love The loss is greater Than love can ever be The numbness that follows Overtakes the possibility, love ever offered Numbness and stagnation Offer solitude and peace Lost love offers little But a reminder of ?never again? Lost love though offers encasement of feelings That will never be felt again It?s closed of, turned to ruins The sole reminder That we ever existed Closed of forever Never again ] [ Ég hata fólk sem reynir að vera meira en það er ég hata fólk sem þykist vera betra en ég, ég hata fólk sem nauðgar börnum og líkar það vel. Hvar ertu drottinn er ég þarfnast þín mest? Ertu kannski bara lygi sem fólk skapaði til að geta kennt þér um allt sem illa fer? Getur fólk ekki lifað eitt og óstutt þarfnast það þín? En hvar ertu afhverju ert ei hér! Sjáðu stríðin sjáðu allan heiminn, hversu ógeðslegur hann er? Hversu grimm við erum! Allt þetta fólk sem ég hata sem mest, morðingjar nauðgarar og fólk sem setur sig á háan hest. Það er sama hvað ég segi hvað ég öskra hátt ég fæ ei svar frá þér drottinn er þér alveg sama? Kannski að maður ætti að binda endi á þetta allt, eflaust fer maður ekki til helvítis fyrir það, þar sem maður hefur verið þar áður en þessu öllu lauk, en drottinn þú ert ekki til! ] [ Heyr, himna smiður, hvers skáldið biður, komi mjúk til mín miskunnin þín. Því heit eg á þig, þú hefur skaptan mig, ég er þrællinn þinn, þú ert Drottinn minn. Guð, heit eg á þig, að græðir mig, minnst, mildingur, mín, mest þurfum þín. Ryð þú, röðla gramur, ríklyndur og framur, hölds hverri sorg úr hjartaborg. Gæt, mildingur, mín, mest þurfum þín helzt hverja stund á hölda grund. Set, meyjar mögur, máls efni fögur, öll er hjálp af þér, í hjarta mér. ] [ Sortnar þú ský! suðrinu í og síga brúnir lætur; eitthvað að þér eins og að mér amar; ég sé, þú grætur. Virðist þó greið liggja þín leið um ljósar himinbrautir; en niðri hér æ mæta mér myrkur og vegaþrautir. Hraðfara ský! flýt þér og flý frá þessum brautum harma; jörðu því hver of nærri er oft hlýtur væta hvarma. ] [ what is love and do we need it what is above why can\'t we see it these feelings inside me tie me down please set me free ris me of these emotions then I could do as I please instead I\'m set in a certain mode pushed to my knees just to please you I\'m sick of it but I like it I\'m sick of you but I love you -The Poet ] [ Það var einn fagran sumardag að ég opnaði augun mín. Ég dró andann djúpt og fyllti vit mín unaðsangann er lék um allt. Gróðurinn straukst við nakinn líkama minn og hlý golan lék um brjóst mín. Um mig fór unaðshrollur. Ég reis á fætur, teygði fingurnar í átt að regnboganum og hóf mig til flugs. ] [ Líf kallaði ég uppyfir mig og reyndi að snerta himininn. Varðlega voru orðin sögð og hún grét ekki en svipurinn sagði mér allt sem ég þurfti að vita. Ef þú ákallar viðkvæma sál á meðan breytingin á sér stað mun uppskeran henni það fela orð sem engin vill gefa. Blendnar eru tilfinningar Hormónabreytinga Sem umbylta hennar heimi Og gefa lif. ] [ Bergmál hvellsins endurtekur sig, aftur og aftur, í huga mínum. Og afleiðingin var þögn. Eftirvæntingin sem beið eftir fréttunum, einsog köttur í músaleik þagnaði. Yfirbragð himinblás vatnsins gáraðist þegar draumurinn særðist og öll heimsins fegurð visnaði í gárunum. Ég vissi það þá en ég veit það þó enn betur núna. Við móðurmissir er sárast í tárum að búa. Því þótt líf eitt hann taki mun hjólið samt áfram snúast. Það er verra að gefast upp en að lífinu hlúa. ] [ Hvítir vængir bera hana Hærra og hærra. Yfir alla heimsins óvætti Inn í heim drauma minna Þeir lofa betrun Með hægri hendi En kvitta fyrir með þeirri vinstri Stálbúrin umkringja þorpið fólkið er að deyja Haturfull ásýnd lifir í striði sem þeir heyja Hvitir vængir bera hana en ég veit ekki hvers vegna. ] [ Stundum eru dagarnir langir. Hræddur við það óþekkta, niður sest, en þrái samt þessi fjarðlægu lönd. Þá hvisla ég að sjálfum mér, ekkert skil ég eftir mig. Það er ekkert sem ég get sagt, Stoltur við sjálfan mig Þetta byggði ég! Þetta vann ég! Þetta fann ég! Þetta eru dagarnir, Þegar stutt er í breytingar. ] [ mér er sagt að nýi heimurinn hafi misst áhugann. Að hún maki krókinn Og hann er að einangrast En ég lit undan Og tala um eitthvað annað. ] [ Á hverju kvöldi eftir langan dag, leggst ég niður á koddann og hef mitt ferðalag... -Inn í draumaheiminn. En ef kók ég drekk að kvöldi, vill ei svefninn taka völdin. Þá á mér óreglan dynur, sá vítahringur er minn óvinur. En svo er orkan tekur að dala, vill líkaminn leggjast í dvala... -Oft þá í heila daga! ] [ Pétur Gautur fór á ról og hann var með ól. Pétur Gautur hann sá sól því hann var í kjól. Pétur Gautur fór á hól og var með spangól. Loks sá hann Sólveig en fór á sjó. Hann sá dós í Morokkó. En hann dó með sitt ból Og hann var með góm í Róm. ] [ Á jólunum, á jólunum Er skemtilegt að vera Við förum öll á jólaböll Við dönsum alveg fram á kvöld Og opnum síðan pakkana Og förum svo að sofa. ] [ Þetta er sagan af Bergi dvergi, hann var lítill dvergur í bergi. Bergi var oft strítt það fannst honum skíttt. Einn dag kynntist hann Dóru,Dóru stóru. Dóra var dvergur eins og hann Bergur. Þau urðu vinir, fóru að búa, ég er ekki að ljúga. Þau eignuðust syni og fleiri vini. Þetta var sagan af Dóru og Bergi, Bergi dvergi. höf. Gunna og Íris ] [ Laufin lifnuðu á trjánum í litlausum vetrarhjúp, og himininn horfði á mig, á hjartans dimmu djúp. Fuglarnir sungu um friðinn sem fagnar hverri sál, um dagsins ljúfu drauma, um dansandi ástarbál. Hamingjan hvarf frá mér, hamingjan elti þig. Veturinn var kominn er vorið kyssti mig. Með eitrað angur í hjarta, ég eftir sumrinu beið, en lífið leit ekki við mér, því leita ég enn að leið. Ég leita enn að lífi sem lifir fyrir mig. Ég vona að vorið komi, að vorið kyssi þig. ] [ Það er sem döggin grafi djúp í döpur augun sár og andlit þitt sveipað huliðshjúp er hylur sorgar tár. Ásjóna þín og svipur sker í syrgjandi huga minn sár. Af hverju hafnaði hjarta mitt þér? Hví kvaldistu öll þessi ár? Ég stari í brostin augun blá í brosinu birtist mér nár, því hugur minn vita ei vildi fá um vonlaust hjartans fár. Hugur þinn áður mér gleðina gaf og gyllti hvert lífsins ár. Ég ætíð syrgi að hjarta mitt svaf, og svefninn dró að þér dár. Nú martröðin versta vakti mig þú vina í draumnum sem nár. Að ég hafi aldrei elskað þig því einmana felldirðu tár. Ég horfi á andlit þitt hverfa frá í hjarta mér blæðandi sár. Nú einmana sit ég einn við skjá og upplifi tár þín og þrár ] [ Þegar að hausta fer, birtist litadýrð, en fellur sem vera ber. Hún hverfur með vindinum, sem þýtur framhjá eyrum okkar, hörputónlist, sem hvorki hefur byrjun né endi. ] [ Það er búið get ekki flúið... mig sjálfan. Get ekki neitt langt hef ég leitt... mig sjálfan. Aðeins svört ský fer inn í ... mig sjálfan. Þoli ekki leiða ákveð að deyða... mig sjálfan. ] [ Stjörnur halda veislu, og skemmta sér vel. Þær eru gylltu blöðrur næturinnar sem færa birtu í hið myrkra rúm. ] [ Lífsleiðin er löng, lengst af mjög ströng, en svo kemur hvíld, í kistunnar þröng. Guð drottin er máttur, máttu þá vera sáttur, þegar þú fellur frá eins og lítið strá, við gras sláttur. ] [ Í upphafi var orðið og orðið var guð Í upphafi voru samanþjappaðar eindir Og eindirnar urðu fyrir þennslu Í upphafi voru samanþjöppuð orð Og orðin sprungu í guð. ] [ Eins og ég með þér Þegar ekkert er eins og það var Og við erum þau sömu, ávallt. Eins og þegar svarblár himininn Þokast yfir vanga minn Og bræðið gleypir sjálft sig af reiði. Eins og þungir steinar á hafsbotni Sem reyna í margar aldir að komast uppúr, En drukkna í öldugangi lífsins Og falla í gleymsku. ] [ Hugsa um allt liðið og því hve ég hef kviðið framtíð vorri sem allur þorri hefur gjörsamlega sviðið. ] [ Ef ekki tveir þá þrír þá einn þá einn, greinarnar eru óteljandi Aflþungi á úrkynjun kapítalismans, gólfkerra Ef ekki tveir þá þrír þá einn þá einn, sköpun er ekki til aðeins tilbúningur Dauðinn er hlaupastingur löðrandi í svartri olíu Ef ekki tveir þá þrír þá einn þá einn, keyri tilbúninginn í löðrandi svartri olíu Ef ekki við þá þið þá þeir þá þeir. ] [ Í lyngmónum kúrir hér lóan mín, hún liggur á eggjunum sínum. -Nú fjölgar þeim,fuglunum mínum.- Hve brjóstið er hreint og hver fjöður fín og fegurð í vaxtarlínum! Það fara ekki sögur af fólkinu því en fegurð þó eykur það landinu í, í landinu litla mínu. Í hrjóstruga, litla landinu þínu og mínu. ] [ Á páskunum, á páskunum er rosalega gaman. Við brjótum egg og borðum það. Fáum svo í magann verk. Á páskunum, á páskunum er rosalega gaman ] [ Sumar, sumar nú borða ég humar. Ég þruma humrinum ofan í maga og það verður gaman. sumar, sumar þá fæ ég mér ís. Ég hendi ísnum ofan í maga já, það er nú saga. ] [ Gáfuleg fegurð Með þjósti þær stíga á sviðið þrútnar af andlegum þokka Mér sýnist að sú í miðið sé með greindarlega tilfinningalokka. Ég held aðhún fái atkvæðið mitt hugsar WajePorn Raviwanpong (hér er rétt að staldra við og velta fyrir sér hvort að maður að nafni Porn sé trúverðugur stjórnandi fegurðarsamkeppni) hún er auðsjáanlega andlega fitt og svo er hún auðvitað í þong Og stjórnandinn sjálfur, Raviwanpong slær sigurbjölluna, dong See, I haven\'t done anything wrong though she was only wearing a thong so, thank you very much and so long ] [ Ég er bestur það vita það allir en ég er ekki hestur þó ég sé bestur þetta viðurkenna allir því þetta er auðvitað mál það segja allir við þessu dóri er bestur,skál, ] [ life is over it has come to an end I cannot go any lower I feel like shit my head filled with crap I cannot think straight I\'m about to snap going insaine or thats what my doc says that I\'m loosing it I wait and count the days that I have as a saine person its not long now I feel reason slipping away my imagination is taking over paranoia is here to stay I\'m one psychotic motherfucker ] [ Yfir mér vakir andlit hlýtt engill með sægræn augu hendurnar styðja á öxl mína blítt vísa mér rétta veginn. Sá stuðningur hjálpar mér hörkunni í hemur mitt skap og heldur í skefjum hugleysi, hatri og heiftúð af því andinn er horfinn úr höndunum mínum. ] [ Það þarf svo lítið til Þá brotna ég niður milli okkar er svo langt bil ég get ekkert gert, því miður Ég hræðist og reiðist ég fæ ekki að ger það sem mér far leyft þessi litlu sár náðu tökum á mér, mér leiðist ég vildi ég væri föst og gæti mig ekki hreyft Ég held að ég missi sambandið við ykkur en samt, þú segir aðp þú elskir mig ég held þér sé sama um mig, þvílíkur myrkur en mér mun alltaf þykja vænt um þig Ekki er langt síðan við vorum svo nánar við vorum einsog bestu vinkonur en svo kom fjarlægðin, bráðum fer ég að grána þú munt gleyma mér og líka þinn fagri sonur Ég heyri stundum í þér í síma þú gerir mér greiða er ég bið þig en þú hefur valla tíma ég vildi að þú sæir mig ] [ Liljur og rósir þær skreyta þitt beð með þeim er barrtré sem blómstrar þar með Allt er svo litríkt svona rétt eins og þú því beðið er líf þitt en því lokið er nú Nú amma er hjá þér og þið saman á ný um litfagra dali hönd í hönd haldið í Ég bið bara að heilsa því lítið annað get gert vona að líf þitt á himnum verði yndislegt -Ég elska þig Afi minn! ] [ Ekkert Myrkur Rembist Tómahljóð á orðalagernum Gjaldþrot hugmyndabankans Verð að skipta um kennitölu og byrja aftur ] [ Andlit án orða, augu án tára, ein spurning til þín. Og orðin þau drápu sárin þau grétu rauðlitum safa sem græðir. Og þú horfir ennþá særður og sár því þó sárin grói... ertu merktur að eilífu. ] [ Hann er dreki drekinn sá freki drekinn sá er frekur frekar drekinn freki frekasti dreki frekari en aðrir drekar ] [ Himinn er að hrapa heimur að farast. Menn gugnast og gapa en Guð þá inn skarast. Á harðri leið niður hratt hverfur þín sál. En strax kemur friður Guð stoppar allt stál. Hamingja hratt dvínar hremmingar skellast yfir. Illar eru skoðanir þínar Guð einn á himnum lifir. Hefur þú snöggar hendur heldur þú í við mig. Guð einn eftstur stendur ég lifi og mala þig. ] [ Gakktu með mér veginn, gakktu veginn þann er bjargar okkur frá syngdum og frelsar vorar þrár. Á meðan gangan kvelur okkar þreyttu vit, segðu mér þá sögu já, segðu mér þá frá. Fylltu líf mitt litum er lýsa upp brostna sál, hjálpaður mér að ljóma svo Guð mig fái að sjá. Gakktu með mér lengur, fylgdu mér alla leið, segðu sögu mína, bjargaðu mér dauðanum frá. ] [ Þegar undir skörðum mána kulið feykir dánu laufi mun ég eiga þig að rósu. Þegar tregans fingurgómar styðja þungt á strenginn rauða mun ég eiga þig að brosi. (Stefán Hörður Grímsson). ] [ í svörunum felst spurningin og svörin eru alltaf eins úr hjarta mínu seytlar sannleikurinn sem varð fyrsta fórnalambið guð gefi mer visku til að skilja hver ertu? í rauninni ertu kannski sá sem gefur spurningunum tilverurétt eða ertu sjálfur spurningin í svörunum felst spurningin og svarið er alltaf nei og þó? ] [ þau léku sér að steinum í þokunni var lif. steinar standa á heimum sem hlíðinni gefa líf. Blómið stolt sig tegir hærra og hærra Um loftið berst ilmur Nú er blómið visnað á snævi þaktri hliðinni Og börnin hlaða steinum Á steinum blómið vex ] [ Mínir vinir fara fjöld, feigðin þessa heimtar köld, ég kem eftir, kannske í kvöld, með klofinn hjálm og rifinn skjöld, brynju slitna, sundrað sverð og syndagjöld. ] [ Gelur nú gleði við glasmunna, dunar fjöl und fæti gljáum, gengur roka með rokna blæstri níðings nösum frá. Brettar eru brýr, bendist ofurmjög kátur kúluvambi. Rymur rámur háls af rembilæti. Það er kaupmanns kunn. Strax er stafs vant, er af stað færist, fara hendur í hlaði. Enni það, er áðan að ölbollum laut, er leirugt allt. Mælir þá munnur, þótt mál þvæli: "Veit ég vínkaup verst í heimi. Gjalds er vant við gleði vora. Skal það bændum af baki fláð. End ekki orð þín né ummæli. Það er gömul gróðaregla. Sú er og önnur, þótt örðug sé: Stel ekki svo að stóru nemi. Sefur samvizka, svæfði ég hana, svo hún aldrei um aldur vakni. Sá var ormur óduglegum vörusölum verst um gefinn". Baulaði þá, brá upp grönum, þjór þverhöfði, er á þambi stóð, um fætur hins að foldu hrotinn: "Orm þann, orm þann, óduglegum vörusölum verst um gefinn, samvizku, seldi eg við silfri fyrr. Henni varð ekki varið betur". ] [ Tinda fjalla, áður alla undir snjá, sín til kallar sólin há, leysir hjalla, skín á skalla, skýi sem að brá og sér fleygði frá. Tekur buna breið að duna björgum á. Græn því una grundin má. Viður hruna vatna funa vakna lauf og strá. Seinna seggir slá. Snjórinn eyðist, gata greiðist. Gumar þá, ef þeim leiðist, leggja á, hleypa skeið og herða reið og hrinda vetri frá. - Hverfur dimmu dá. Prúðir sækja lón og læki laxar þá. Sumir krækja silungsá. Veiðitækir, sporðasprækir, spretti hörðum á fjalli fýsast ná. Fjaðraléttir flokkar þéttir fugla þá synda ettir sumará, eða mettir strönd og stéttir stika til og frá, kæta loft og lá. Ærin ber og bærinn fer að blómgast þá. Leika sér þar lömbin smá. Nú er í veri nóg að gera, nóttu bjartri á hlutir hækkað fá. Grænkar stekkur. Glöð í brekku ganga kná börnin þekku bóli frá. Kreppir ekki kuldahlekkur, kætist fögur brá, búa blómum hjá. Rennur sunna. Sveinn og nunna sér við brá. Sízt þau kunna sofa þá. Sælt er að unnast. Mjúkum munni málið vaknar á, fegurst höldum hjá. Ekkert betra eg í letri inna má. Svo er vetri vikið frá. Uni fleti hver, sem getur, heimskum gærum á. Önnur er mín þrá. ] [ Á landamærum lands og sjávars skyggnist ég yfir það ógnþrungna land er nefnum við haf í dag er það blátt sumstaðar grænt þar sem skerin drottna og geislarnir brjótast úr óravíddum til botns þaðan sem tími og rúm afneita mennskum hugtökum og kristallast í dans ljóss og lífs við horfumst í augu ég og selurinn landamæraverðirnir á mótum lagar og láðs hvað villt þú upp á dekk landkrabbi spyr hann hlæjandi vilt þú fræðast um vorn heim okkar ógnþrungna heim þar sem baráttan situr í fyrirrúmi og drottnar upp á líf og dauða hvort er hann að koma eða fara sá sem býður mér leiðsögn um þá votu sali spurnin lifir í augum okkar beggja hann hverfur án þess að svara einsog allt sem hafið gleypir á meðan blíðlyndar ránardætur gæla við fætur mínar í flæðarmálinu og blærinn kyssir mitt eyra ég lít yfir hafið á sjóndeildarhringinn í fjarska vakna við vélarskelli er bátskel er haldið til lands hæruskotinn maður í skuti gerir að afla og fuglinn fylgir í kjölfarið þöndum vængjum hann gaf sig til sá guli og gleðin í öndvegi þanghafið iðar og þarflaust að segja í dag ríkir gleðin og orðlaus dýfi ég hendi í gin hafsins þó býr í gleðinni bergmál af brothljóðagný frá liðnum vetri er særinn herjaði í ofsa og heift lagði í rúst hjáleigur þangsins en er ekki allt fyrirgefið á þvílíkum degi. ] [ Hrungjörnu haustlaufin og litaskipti þeirra fara að angra mig þegar ég treð á þeim á heimleiðinni þau minna mig á fallvaltleika lífsins stunur sköpunarinnar er þráir endurlausnina og paradísar heitið einsog ég. ] [ Bátarnir flutu rauðir á firðinum bundnir legufærum angan spyrðings úr hjallinum skektan á kambinum fjarlægar minningar þanghafið í dansi aðfalls í takt við öldulagið fuglinn í fjörunni flýgur upp svífur þöndum vængjum og skoðar gestinn sem kominn er að líta þorpið spurnaraugum. ] [ Láttu hvern dag hafa sína þjáningu svo að kveldi þú getir látið hverja þjáningu kveðja sinn dag í uppgjöri daganna. ] [ Mjallhvítu snjóhengjurnar í fjallsbrekkunni ofan við þorpið dökknuðu í rökkrinu uns þær klæddust felulitum myrkursins svo enginn sæi þær þegar réðust til atlögu við sofandi húsin. ] [ Ung kona í leit að lífi í hjarta sínu veit hún að hún segir satt horfir á skipið sigla burt hver veit nema blóðið bragðist af sorg hvernig ætli sé að eiga traust sem lýgur og svíkur fyrst sigli, sigli burt..... ] [ Stendur kyrr eins og vatnið allt sem þú sagðir var sárt stakk mig eins og frosin rós í líkamanum, en þú hvarfst ekki vildi getað vaknað á nýjum degi þar sem þú stæðir í birtunni.... ] [ Bryggjan bátarnir sjórinn tilveran öll hafið gegnsætt með fátt sporða í djúpinu á því sigla lítil fley með drjúpandi karla í skuti kyrja trega söng með miðin að baki. ] [ Drauma skipið í örmum hafnarinnar með möskvalaus metin niður lögð tilbúið að leggja leita djúpfiska sigldi í miðin stöng í nasa sól í nánd talaði bergmál við botninn taldi í föðmum kom aftur með rauðgult sólarlag á dekkinu. ] [ Guð... Guð er hjá mér með bjarghring ef ég fell í djúpið Því óttast ég ekki á leiðinni þótt ólgi hafið. ] [ Sjaldan varð honum nokkuð úr raunveruleikanum lifði að samaskapi í draumi rótfastur í hægindastólnum horfði á fólk ganga til verka út og suður og á fréttir sjónvarpsins ekki ganga upp rann í skap óréttlætið tók snerrur í símanum skerpti minnið tilbúinn að mæta ráðherrum morgundagsins gamall, góður vinur er gaf mér skilning á eðli hans. ] [ Þegar lognið opnar leiðina út á miðin í skammdegis myrkrinu þá rísa sjómenn úr rekkjum stefna á djúpbankann til að taka út kvótann sem þeir höfðu keypt á ofurverði og selja fyrir lítið Á sama tíma ganga um á sundskýlum á sólarströndum þeir sem seldu kvótann og láta sér fátt um finnast þótt landslög segi að kvótinn sé eign þjóðarinnar því þeir vita nefnilega hvar Davíð keypti ölið og að hann slöngvar þann sem eitthvað ybbar sig. ] [ Þær vísuðu mönnum veginn í vetrarbil. Þar gengu menn framhjá en aðrir stöldruðu við. Á hennar vegum lífið var, við krossgötu lífs og dauða. ] [ Ég minnist vordaganna þegar fjörðurinn strengdi heit að ekki myndi hann gefa rúm fyrir bárur að við strákarnir rérum eftir því á skektunni og kúrsinn var tekinn misvísandi þangað til þess að hoppa í land handan fjarðarins þar sem ævintýrin biðu í klettadröngum nessins sem annars stóðu einsog hillingar í hversdagsleika þorpsins það var ekki fyrr en sólin hafði nær sokkið í djúpið að skektunni var snúið heim þangað sem mömmurnar biðu í flæðarmálinu með skammirnar ] [ Það var morgunn og hann sat í fjörunni lét sólina verma sig og dáðist að fjöllunum er fjörðurinn skartaði í spegli sínum trillan stóð á fjörukambinum og hann búinn að mála Fríða frá öðrumegin á skutinn þegar hásetinn kom léttur á fæti og kampakátur með brennivínsflöskur í báðum höndum gerðust þeir fljótt skrafhreifir og sungu hástöfum uns flæddi að þeim um hádegisbilið viku síðar fréttist af þeim í höfuðborginni mánuði síðar komu þeir aftur sjósettu Fríðu frá og réru til fiskjar án þess að gera grein fyrir því hvaðan hún væri. ] [ Ef ég legg höndina á brjóstið þá finn ég dingi... Þeir verða alltaf örari og örari... Það er eins og að líkaminn... sé að reyna að segja mér eitthvað... eitthvað áríðandi... Því sem hjartslættirnir verða örari... eru skilaboðin meira áríðandi... Ef ég stend kyrr er hjartssláttur ör... Ef ég geng er hjartsláturinn örari... Ef ég skokka er hjartslátturinn örari... Ef ég hleyp er hjarslátturinn örari... Svo loks... stöðvast allt... allur hjartslátturinn deyr út... og ég dey líka... Sumir halda að þetta sé hjartslátur... en ég er ekki viss... Hvernig geta dingir af hjartanu komið... ef hjartað er undir húðinni... inní rifbeinunum... þakkið lífærum sem vernda það... Þetta er ekki hjartað... þetta eru áríðandi skilaboð frá líkamanum... næst þegar þú finnur þessa dingi skaltu spyrja... Hvað viltu mér, líkaminn minn? Af hverju er ég annars að spá í þessu? Tinna B ] [ Erum við dýrin sem vita meira eða dýrin sem hafa gleymt mest? Við seigumst elska frið. Seigumst vilja vera góð en samt berjumst við. Stríð er okkar aðalgrein Við berjumst og drepum og fögnum sigri okkar á drápum. Til hvers? Til hvers erum við að berjast og drepa? Við vitum hvað er vont Við vitum hvað er gott eða teljum að við vitum það samt elskum við eyðilegingu Elskum að færa öðrum sorgir. Kanski við vitum ekki neitt. Kanski er gott vont og vont gott. Kannski er ekkert rétt eða rangt. hvað vitum við? Hvaða vald höfum við til að skilja á milli? Hverjir höldum við að við séum? ] [ When I wake up... When I am eating my breakfast... When I am siting in scholl and learn... When I am with me friends... When I am geting high... When I am eating my dinner... When I am trying to fall asleep... Then all I can think about is... killing myself... go to a better place... there everything is so beautiful... no murder... no fright... no cruelty... just high spirits... When I get there I will tell you about it... all the beauty... If you want... you can come with me... See your future... see your assignment... see your reason... see you purpose on the earth... I will let you know when I get there... there will be soon... ] [ My life is like a wildwood... no happiness... no people... no life... just woe and unhappiness... If I walk a while, I am lost... I can´t find any people to help me... I can´t find any track... I can´t find any way to go back... I can´t find any way to live this life.... My life is like a sad story... A litlle girl is try to survive... She is alone outside trying to warm up with her matchsticks... She dream about the rich people... How it is to be rich... and can do everything... To be inside and sit by with the fireplace... But her life is not so easy... Her life is so difficult... though she is just a litlle girl... This girl is me... This litlle girl wiht painfull past is me... Sometimes I can´t stand up... When I lie down the floor... I start scream... I start shake... And a feel like there is someone behind me... He is steping in my back with knif... He steping and steping... and I screaming and screaming... I can hear him say... Give me alchohol... Give me drugs... I start to screaming higher... and shake faster... I scream.... No, Leave My Alone! finally I fall in revere... When I wake up... with needle in my hand... You think that your life is terrible... but my life is most terrible than yours... Envision your life as ten times more painfull. You have envisioned my life... If you envisioned your life is one thousand times more painfull. Then you have envisioned my past... Don´t say that yours life is terribly... ´cause my life is more terrible then yours... ] [ There is person living in my head. She comes to visit me every night in my bed. I fight the demon, but he always win. The voices in my dungeon start calling. I can´t stand it anymore. They come and visit me every night, the voices, the demon, the ghost. The voices are telling me lies. The demon is trying to control me. But the ghost, she is telling me things I don´t know. I believe her. But you don´t. She smile to you, you can´t see her. She speaks to you, you can´t hear her. She is right behind you, you can´t sense it. She is real, you don´t know it. But I can see her, I can hear her, I can sense her, I believe her. The princess of the dark has made my mind her home My haunted head won´t leave me alone The demon dances in my heart with fire in my soul I hate that feeling when I´m loosing control. I wish I could wake up from this nightmare. I wish I could leave this all and live my life. But the voices is drive me crezy. I´m losing my mind. I wish I could sense the feeling that you have. Because I hate to feel love to someone who doesn´t love me back. ] [ Ég er einn á báti því engin skilur mig, þótt suma daga ég gráti þá geri ég allt í fáti. Ég var einn af ykkur mér gat liðið vel þó oft væri í huganum myrkur ég minningum það fel. Ég átti oft góðar stundir inn í hópinn féll ég þá þótt oft betur en ég mundir allt sem ég gerði og vildi fá. Ó ég sakna frelsisins sem var að vera nú eins og fangi í sal en vilja ekki falla í sama far mig langar svo að hafa frelsi og val. Hvernig lífið heldur áfram er þjáning hvers dags ég get ekki hugsað né fundið því allt of breitt mér virðist sundið. Mér líður ekki vel út í lífið er svo bitur hugann öll sárin sel þjáningar bak við augun fel. 08-07-1999. Tóti Ripper ] [ vakna ég án þín verst við draumanna hlátur þeir hópast að hjarta mér hæðast að hvernig það berst og þrátt fyrir þrálátan grátur hylja þeir fyrir mér sýn svo ekkert að endingu sé ég nema fallegu augun þín fer ég á fætur ein flest mér til ama verður dagurinn einmana deyr til einskis af draumunum gerður. ] [ Mild orð fágæt orð skapandi orð valin af kostgæfni að færa þau í efndir ég lagði orðin á minnið tilbúinn á lyklaborðinu og liðkaði fingurnar einsog píanóleikarinn fyrir einleikinn en þá helltist hún yfir mig þögnin hún sem alltaf kemst að kjarnanum segir sannleikann umbúða lausan í þagnar ljóði ] [ Níu blóm féllu til jarðar eitt og eitt á jörðunni fuku níu blóm burt úr þessum heimi - dauðinn hafði kveðið dyra. ] [ Ef ég blikka augunum, breytistu þá? Verðuru sá sem ég sakna? Mun allt verða einsog það var? Eitt augnablik tekst mér að blekkja sjálfa mig. Mér finnst einsog ég liggi með honum og ég er hamingjusöm. En raunveruleikinn rennur fljótt upp fyrir mér er ég heyri andardrátt þinn, finn að þú heldur vitlaust utan um mig og hreyfir þig öðruvísi. Þú lyktar líka öðruvísi. Á þessu augnabliki veit ég að ég hef gert mistök. ] [ Helvítis danskan djöfulsins kjaftæði alls ekki skriftar né lestrarhæf bin laden námsins sem synir iðka Til hvers að lesa þennan ósóma jarðar frá satani sjálfum komið til jarðar til vorrar þjóðar að lesa og læra Satan stoltur stígur dans þegar fólki förlast við að lesa dönsku Því satan lifir á óánægju manna Óánægja manna vex á meðan danskan pilta pínir því skulum vér aðeins gefa skít í dönsku og iðka Íslensku betur Því Íslenskan er ei vel töluð meðal manna hér á landi landi Ísa landi sem lifir Íslenskan lifi að eilífu og deyi danskan strax í dag ei degi lengur má hún pilta pína ] [ (þungt, létt, létt) (þungt, létt, létt) ég dansa til þín (þungt, létt, létt) (þungt, létt, létt) þú vefur þig um mig (þungt, létt, létt) (þungt, létt, létt) við fléttumst saman (þungt, létt, létt) (þungt, létt, létt) við svífum burt ] [ Sólin snertir sjóinn og bráðnar í kyrrð hans. Hún rennur út í ljósveg í roðnuðu ljóstrafi. Ljósvegurinn flýtur á glampandi gárum. Dimman sveimar yfir, en friður ríkir. Ljósvegurinn flöktir, og tíminn nemur staðar. Ég sé fyrir mér svip himnaríkis. Dagurinn er liðinn, eilífðin er eftir. ] [ Tannburstinn minn er lítill og mjór, meir að segja skrítinn og sljór, samt er hann ekki vitlaus né verstur, vegna þess hann er minn og bestur. Tannburstinn þinn er grænn og góður, glansar meira en minn, mega frábær fínn og flottur, en hann er samt bara þinn. Minn kann að tala, minn kann að mala, minn kann líka að sitja og þaga. Þinn kann bara að bursta, þinn kann ekki að frussa, þinn kann ekki að slefa né öskra né hlusta. Tannburstinn minn sá litli og mjói, meir að segja skrítni og sljói, samt ekki þessi vitlausi og versti, hann er þessi sniðugi og besti ] [ Söngur svananna minnir mig á Stað er sólin gyllir og fuglarnir laðast að. Hjá fossinum mínum liggur lítil tó þar maríuerlan í steinrétinni hvað. Á þessum Stað ríkir alltaf ró en mikill höfðingi þar býr og bjó. Þarna ég á mér gott skjól ljóðin mín ég gref undir hól. Þarna stendur steingröf ein og kirkjuna gömlu vermir sól, eftir öll árin stendur hún bein, Guð lætur ekkert vinna á henni mein. Áin renur niður í opinn Breiðafjörð um hann standa Njörður og Ægir vörð. Svo ekki bændur drukkni sænum í ef aldan reynist bátnum of hörð. Snögg eru að koma kulda-ský hugsun mín þangað verður alltaf hlý. ] [ Ég sest stundum niður og hugsa um það, hve létt það er að láta sig dreyma. Nú sest ég niður, rita á blað, því dramunum mínum ég vil ekki gleyma. Og í bjartri framtíð ég vonandi kætist, því ég vona svo sannarlega að draumarnir rætist. ] [ Í gátunni slær Fram Aftur og Aftur slær Fram og Fram slær Aftur tvisvar og Aftur slær Fram þrisvar og Fram dettur og Aftur stendur en hver er gátan ef svarið er Aftur? ] [ Kaldir vetrarmorgnar sitja fyrir mér og bíða á meðan ég geng niður tröppurnar úti er allt hvítt nema göturnar svartar af núinu helvotar af slyddu veturinn brakar undir fótum mér ennþá klukkutími þar til lömbin vakna og fara að kasta snjóboltum götuljósin eru kviknuð ennþá klukkutími þar til hitt ljósið vaknar hitalaust skýlið hlýjar mér þangað til strætóinn bjargar mér hann er með miðstöð svo okkur verði ekki kalt svo góðhjartaður er maðurinn ég hleypi þeim á undan góðvild fyrir vanþakklæti stjórinn heilsar án þess að sjá mig hann sér aðeins silfrið brauðið hans á köldum vetrarmorgni. ] [ I Allur dagurinn líður hjá augun bíða og bíða eftir að myrkrið skelli á þá loksins munu þau skína og lýsa upp tilveruna beina vatninu í réttan farveg þau sjá aðeins stutta stund því sumarið geymir annað auga II Nóttin er löng snjórinn hylur augun en þau skína gegnum kornin ljósið skýst á milli myrkursins starf augnanna er langt en þeim er vel stjórnað þau halda út í myrkrið með birtu að vopni seint að morgni fjara þau út og bíða þangað til lífsins augu sofna þá fara þau aftur á kreik og horfa á okkur ] [ Drasl í herberginu mínu afhverju er ég alltaf svona óheppinn? Fréttir í sjónvarpinu vá hvað ég er heppinn ] [ Ég ligg og horfi á hana þar sem hún liggur hreyfingarlaus á móti mér liðað hárið lekur niður axlirnar einstaka hár fellur fyrir munninn og þýtur upp aftur í takt við lífið mig langar að snerta hana strjúka hár hennar faðma hana að mér kyssa hana en þá vek ég hana hjartsláttur minn eykst allt í einu augnlokin hennar byrja að hreyfast varirnar hreyfast hún er ekki lengur hreyfingarlaus ekki vakna góði guð ekki láta hana vakna bara eina mínútu í viðbót leyfðu mér að faðma hana einu sinni enn ekki vakna hún er vöknuð á móti henni er kaldur veggur sem þarf að mála ég er vaknaður ] [ Er þú sefur værum svefni Sit ég og horfi. Þvílík værð, þvílík ró. Bið þess í hljóðri bæn Að þessi stund, eilíf verði. ] [ Englar lífs míns, Hinar heilögur meyjar, Vaka yfir mér og gæta, Lýsa mér leiðina í gegnum lífið, Að eilífu. ] [ Vaki englar þér yfir í nótt. Því gæta þarf að ljósi lífs míns. ] [ Vakna af illum draumi sé spegilmynd mína birtast hún hefur grátið frosið blóð tár mín lita jörðina hún byrjar að fjarlægast mig þokan heltekur mig dregur mig burt frá henni hún liggur kyrr sem þögnin hún hverfur bak við skýin brotinn spegill brotinn draumur ] [ Færðu sálina úr spennitreyju hversdagsleikans Hægt og rólega svo engin heyri hægt og rólega svo þú særir hana ekki opnaðu svo hvíta bólstraða hurðina með hárnálinni sem gleymdist í kjöltu þinni það getur tekið tíma það getur tekið ár hlauptu svo í gegnum ganga raunveruleikans þangað til þú kemst út í galna veröldina þangað til þú kemst út í tóm vitleysunnar. Passaðu þig bara á endurtekningum í hvítum sloppum þær eru þá komnar til að spenna þig á ný. ] [ í blettóttum sófanum situr hann, svefnlaus, og syngur fyrir sjálfan sig. - hann veit ekki enn, að fyrir utan, þar sem sumarið er komið, saknar hans enginn. - hann veit ekki enn, að hann er löngu gleymdur, löngu látinn. löngu grafinn. ] [ Ég stend fyrir framan spegilinn og stari á spegilmynd mína. Augun skína af sársauka og hatri. Glerbrotinn eru allt í kringum mig þarsem ég ligg á gólfinu, ég finn blóðið spýtast úr hálsi mínum með hverjum hjartslætti. Hurðin opnast, öskur. En það skiptir ekki máli, það skiptir ekkert máli lengur. ] [ Ég heyrði klukkuna tifa ég vildi ekki lifa, á lífinu lúin og lítil var trúin. Þá var fortíðin helsi nú er framtíðin frelsi. Ég trúi á Guð. ] [ ég horfi á sjálfan mig þvert yfir hálfan heiminn þar sem ég var alin upp í kúgun púðurlyktin í þurru eyðumerkurloftinu ertir vitund mína krossviður samvisku minnar morknar í sólinni og með hverju skrefi léttist sprengiefnið ... fórust í dag, í sjálfsmorðsárás... ] [ Ég man, ég man, þegar ég sat við stýrið, og hugsaði. Hvað það væri auðvelt, aðeins örlítið til vinstri. Ég vil ekki muna. ] [ Á meðan ég stari á lyklaborðið og hugsa um hvernig ljóð ég ætti að skrifa.. Verður mér litið á geirvörtur mínar sem eru orðnar orðnar stinnar. Vegna þess að það er einhverskonar kaldur gustur sem fer um íbúðina. Það að ég hafi nefnt geirvörtur mínar í ljóði fær mig til að hlægja. Það að glotta hérna alein Fær mig til að sannfærast um að í kvöld var ekki kvöldið til að semja ástarljóð. ] [ Ég er fastur. Í holu sem ég gróf sjálfur. Ég þarf hjálp, en ekki í formi lyfja. Einmanna ligg ég, og íhuga. Um ástina, vináttuna, og hvernig ég, hef aldrei kynnst þeim. Ég ligg og hugsa, hugsa of mikið. Um allt sem ég þrái en aldrei fæ. ] [ úr myrkviðum heljar nálgast hann hratt horfir yfir yfirborð heimsins svo flatt og lætur sig falla með skelli á grund. konungur þessi hefur margan manninn kvalið með ofríki miklu í hjörtum flestra dvalið sýgur gleði úr sálum - eykst með hverri stund. sviti og tár - nú veist\'að hann nálgast nagir þú neglur - senn hugur þinn sálgast og þú getur ei fest hug\'á skapaðan hlut. á sjónarrönd sérðu hvar skipið hans kemur sjúkur á taugum þú í hausinn þinn lemur hroðalega ljótur hann stendur þar í skut. hann mun dvelja með þér - alla þessa törn haus þinn mun engjast í níðþröngri kvörn þegar slær hann þig með sínum vendi. hann mun standa yfir þér fyrir öll þessi próf þessi prófkvíði mun ei stilla höggunum í hóf grátandi þú bíður þess að þjáningin endi. en þegar síðasti stafur er ritaður á blaðið og sigur yfir fögunum rennur í hlaðið mun djöfullinn strax hverfa á braut. með bros á vör - sumarið nú fyrir augum í alsælu á sólarströnd þú slakar á taugum og áhyggjuleysi - með framtíðina í graut. ] [ stór himinn og gleypandi ofurstirni blasa við mér er ég ligg í þægilegu móki á ströndinni hér á sólarströnd þegar sólin er hnigin til viðar og víman í galtómum heilanum iðar. áfengi og amfetamín vindlar og eðalvín víma og brengluð sýn tilveran er skratti fín. á borðinu hvíla diskar hlaðnir skelfisk og humar á móti mér hlæjandi eiturhressir gumar kvöldið er ungt og alkóhól um æðar rennur úr augum mér neisti og lífsþráin brennur. áfengi og amfetamín vindlar og eðalvín víma og brengluð sýn tilveran er skratti fín. undir morguninn söngvarnir í eyrum mér óma meðan byggðin í kring er lögst í dróma ég hef vakað frá morgni til morguns í vímu á sólarbekk ligg ég í morgunsólarskímu. áfengi og amfetamín vindlar og eðalvín víman er skratti fín tilveran er brengluð sýn. ] [ Allt er svart og erfitt um gang því það svarta er sandur. Á leið til þín með alla vasa fulla af feimni. ] [ Eftir að ég varð vonlaus fékk ég óslökkvandi áhuga á blómum og hef strokið plasthurðir og skoðað gróður ókunnugra. ] [ Húmir inni fimbulvetur til dauða hann hvetur herjar óvenju lengi á endanum hefur hann betur bara ef hann burt gengi áður en höfuðið hengi. ] [ Hún er með þurrkaða krabba á loftinu sínu ég veit ekki hvort þeir hafa einhverja þýðingu þeir anda ekki þeir finna ekki til hreyfingarlausir safna ryki ] [ Peran sprungin, það kemur ekki að sök, því skammdeginu er lokið og húm næturinnar er nú sem fjarlæg minning. Þegar nóttin lýsir upp herbergið og vísar mér veginn. ] [ Nú þegar ég ligg við brjóst þitt hlýði ég á dyn hjartans, strýk hár þitt og legg hendi mína í lófa þinn. En ég veit að ég verð að bæla löngunina sem býr innra með mér. Því ég þekki afleiðingarnar og veit að það gæti kostað mig allt. ] [ Empty rooms, hollow and dark, shrilling ache, uncovering rage. All tranquil thoughts gone, just the unpleasant mist of hate. As the sun retires and bows for the night, my fears are unleashed. I scream into the chaotic darkness, my sound is muted. I want to conceal, my being is fading. My own innate, choking on your words of eternal bitterness. Soul of torment needs serene silence and horizons clear. You subdue me, I succumb. All life strangled out of the body, brutal shiver, my mentality gone. ] [ Blue clouds, I want to be, alone, just me and the only one. Soft blowing wind,gentle seabreeze. Smell the sent. I stand, as an individual. Sandflakes of an old time, running smoothly through my fingers. A timeless beeing, a worthless memory. White sheets and flying feathers. Sunsets and a tear. Another minute, a broken heart. A past of us, you and our love. I listen...to the sea sing. As my tears fall lightly, and unite the ocean. ] [ Norðurljósin,lýsa á landi elds og ísa, eldur gýs, landið rís, rennur glóðin. Saman þjóðin stendur nótt og dag við,Íslands,sólarlag ] [ Það voru geislandi augun glaðlegt brosið rauði hársterturinn sem hún sveiflaði til og frá og bústni rassinn í rokkgallabuxunum sem vöktu athygli mína er ég hitti hana fyrst í gagnfræðaskólanum þá nýkominn að vestan í of stórri úlpu og hnéháum stígvélum hvað hún sá við mig skil ég ekki enn því hún átti allra kosta völ kannski var það töframáttur dreifbýlingsins og að ég stamaði sem gerði það að verkum að hún féll fyrir mér. ] [ Í öllum ljóðunum eru úlfar. Öllum nema einu, Því allra fegursta: Á milli útkrotaðra steina, í svefnlausu borginni sem Amor kyssti, vex litið hampsblóm. ] [ Krýnið mig svefngrasi salar drauma, ljúfir ljósálfar! langar mig að blunda; ill og ókyr óróar gríma mæðir manna sveim fyrir mold ofan. Lykja vil ég augum, líta vil ég þangað, sem að glaðir ei geislar deyja, þar er eygló ósýnileg bjarma blundstafi björtum vefur. Lykja vil ég augum fyrir lífi manna, líða vil ég burtu frá ljósheimi; hverfa vil ég huga inn í hug sjálfan og með honum heims hrelling byrgja. Heilar hugsjónir himinrunnar! horfnar horfnum frá heimsins öldum! unnt er ei í vöku yður að halda, en þér annars heims óðul byggið. ] [ i Bergstaðarstrætið er lengsta gata á Íslandi, þetta vita allir sem áhuga hafa á stórborgarmenningu. ii Þegar Bergstaðarstrætið var malbikað, var fluttur inn sérstakur trukkur, sem áður hafði verið notaður m.a. við að reisa stíflurnar í stjórnartíð Rosvelts. Þetta sagði mér maður sem vann að verkinu. iii Einu sinni kom upp sú hugmynd, að setja upp hverfispöbb í Bergstaðastrætinu. En karlmennirnir lögðust gegn því konur tveggja þeirra voru eitt sinn drykkfeldar og höfðu verið í ástandinu. ] [ Veröldin er vond og ljót, vart er því að neita og ekki þýðir hætis hót henni neitt að breyta. ] [ Skýin líða svo lokkandi um himininn eins og til að bjóða þig velkomin velkomin á þennan ókunna stað en það breytir engu þessi hryllingur hefur læðst inn læðst inn í hversdagsleikann og hótar nú að sitja hérna að eilífu sitja hjá mér verða hluti af mér ég læt á engu bera ég veit það hjálpar ekki að æpa en hrópin í huga mér kæfa hugsanirnar og tilfinninguna af að ég eigi hvergi heima tilheyri engu og engum ópin þau deyfa hugann og dreifa athyglinni. En að lokum verð ég að sætta mig við það ég er hérna aðeins tímabundið hversdagsleikann hef ég bara að láni þangað til það er tími til að deyfa hugann endanlega. ] [ Hvað hefur þú læknað margar sálir með hlýjum kærleika þínum? Hvað hefur þú hlýjað mörgum hjörtum með björtu brosi? Hve mörgum hefur þú fært þýðingu lífsins með hreinni hugulsemi? Særðar sálir finna stað til að hvílast. Þurr hjörtu fá raka og þeir sem villst hafa, rata sína leið. Allar sálir fagna þér og dást að. Þær kalla þig sólina sína, sól sálnanna. Hverjir vita um endimörk krafts sólarinnar? Hvaða spámenn segja fyrir um að dagurinn muni koma, dagurinn þegar sólin veiklast og máttinn dregur úr henni? Vindar úr vægðarlausum stormi berja þó sólina og bylgjur úr köldum sjávarfjöllum þjóta enn til hennar. Sólinni bregður en hún brennur ekki lengur. Sólskin týnist í köldu myrkri og jörðin kólnar. Allir á jörðinni vita, að þeir eru að tapa sólinni sinni. Á svörtu köldu hrauni sitja sálirnar og bíða eftir sólinni. Þær sakna hennar og gráta hana sárt. Sálirnar heyra fjúk í hrauni en fá engin svör. Þær hníga af kyrrð, því þær þekkja ekki orð til að gefa frá sér. Sólin heyrir sálargrátinn og hún grætur sjálf. Þótt hún leiti til skaparans heyrast engin svör. Á kaldum vatnsspegli finnur sólin sjálfa sig og horfir á. Hún hnígur til kyrrðar, því hún þekkir sig ekki, sólina án ljóss. Hvar eru stórir lófar sem taka á móti sólinni og víkja henni úr hyldjúpu köldu myrkri? Hvar eru hlýjar hendur sem halda í hönd sólarinnar og leiða hana í róandi grænan dal? Hvar eru sterkir armar sem faðma sólina að sér og kveikja hjá henni brennandi heitt líf á ný? Sólin fer í ferð til leitar, hún leitar að honum, skaparanum. Yfir drauglegan hraunvöll fer sólin alein. Hún spyr alla sem hún mætir á leiðinni um skaparann. Enginn veit hvar hann er, enginn þekkir hvaðan hann kemur. Þótt vonbrigði séu þung á fótum sólarinnar, dregst hún áfram. Í dimmum dal kemur hún í þorp hinna særðu sálna. Þar hittir hún margar sálir, sem þarfnast lækningar og umhyggju. Sólin lítur í andlit hverrar sálar og kyssir þau. Þar á meðal sér hún sál sem er að deyja. Það er enginn litur í andliti hennar, og það er ekkert líf í augunum. Á höfðinu sést stórt gat eins og tunglið. “Æ, hvað kom fyrir, stúlka mín?” Undir þungum andardrætti svarar dauða sálin: “Sólin mín.... ég er sál þín, elsku stelpa.” Á svörtu köldu hrauni hnígur sólin niður grátandi. Eigin sál sólarinnar liggur þar eins og aðrar særðar sálir. Engin sál þar er ómeidd, engin án sorgar. Hún snertir kinnar stúlkunnar með lófum sínum og kyssir þær. Hún heldur í hendur stúlkunnar, mjúkt en fast. Lófarnir á sólinni eru stórir og hendurnar hlýjar. Hún faðmar sál sína með sterkum örmum. Hún stendur upp og segir: “Förum heim, elskan mín.” Allar sálir skynja að jörðin hreyfist undir niðri, og að um himininn geysast vindar. Öll vötn á jörðinni veltast í hringiðu, og myrkrið skerst með eldingu sem fer ofan himininn. Þær heyra gleði skaparans: “Þetta er líka mitt elskaða barn, sem ég hef velþóknun á.” Skaparinn álítur það gott að sólin skíni einu sinni enn, að sólin skíni með særða sál sína. Þú kemur upp á morgnana eins og sjálfsagt er, en allir skynja hlýrra og mýkra sólskin en áður. Sálirnar fagna þér og dást að. Þær kalla þig sólina sína. Sálnasólina. ] [ Þegar ég labba götuna þarf ég að passa mig því mér finnst bílarnir horfa til mín ] [ Strikum yfir stóru orðin, standa við þau minni reynum. Skjöllum ekki skrílsins vammir, skiljum sjálfir, hvað vér meinum Fleiprum ei, að frelsi höfum, fyrr en sjálfir hugsa þorum. Segjum ekki að vér hlaupum, er í sömu hjökkum sporum. Frelsið er ei verðlögð vara, veitist ei með tómum lögum. Það er andans eigin dóttir, ekki mynd úr gömlum sögum. Enginn verður frjáls, þótt fari feikna-hring í tjóðurbandi. Myldur fúnum trúar-taumum teymist hvergi frelsis-andi. Hugsið ei að það nægi efst á blaði "frelsi" að stafa. Háleit orð sem heimskir fleipra, hefna sín og verða' að kafa. Gjálfurandinn sæði sáir. Sumar líður. Fólkið trúir. Væntir eikur upp þar spretti. Allt um haust í netlum grúir. Ryðjum akur! Arfann slítum upp með hleypidóma rótum. Hismin út úr útsáðstrogum! Allt, sem sáð er, kanna hljótum. Byrjum innst í eigin hjarta, allt, sem sáð er, kanna hljótum. Gjálfurfræin út úr anda, út með gamals þrældóms rótum. Burt með holu hismisorðin, hrokareiging, froðuspenning. Burt með raga skríldóms-skjallið! Skiljum heimsins sönnu menning. ] [ Gott er til grafar ganga einsaman, yfir henni enginn augu þá vætir. Græturat ekkja ókvæntan ver, börn trega aldrei barnlausan hal. Ef mér ei vilja ástir ljá meyjar mjúkhentar, né mig við hjala, unna mér aptur ýtar hugdjarfir, og kappar varir mig kveðja rúnum. Kvíði ég ei dauða, konulaus maður, vesæll verður enginn þó við eg skilji. Hlægir mig að ganga geigvænu myrkvu dyrnar að degi kvöldlausum. ] [ Æ hversu sætt þeir sálugu hvíla að hverra bústöðum hugur minn leitar, æ hversu sætt þeir sofa í gröfum djúpt til rotnunar í dupt of sokknir. Og syrgja ei lengur þar sorgir flýja allar, og gleðjast ei lengur þar gleði flýr öll, og blunda cypressum sorglegum undir, unz þá engillinn upp mun kalla. ] [ Örvast elsku blossar æ þá mjúkir kossar manns og konu mætast fyrst á vörum, snertir sálu sál, sést því elsku bál brjótast upp í blossanum snörum. En það þó illa fer, út þegar brunnið er ástar það hið eldfima tundur; ekkert sést eptir þá nema askan föl og grá, en bogi Amors brostinn er í sundur. ] [ Við lifum öll í draumalandi\\ Við lifum öll í óvissunni\\ Raunveruleikinn býr ekki á íslandi\\ Við erum skotin í hvellettubyssunni\\ Draumar eru draumar, draumar eru draumar\\ Raunveruleikinn við yfirborðið kraumar\\ Þegar við sofum og það fara um okkur straumar\\ Straumar eru stjórnin sem stýrir ef engar taugar eru aumar\\ Gærdagurinn er sagan sem draumana saumar\\ Morgunn dagurinn er skáldskapurinn sem guð inn laumar\\ Við lifum á tímum sem sífellt koma á óvart\\ Ef útlitið er dökkt dreymir þig bjart\\ Ef lífið er hart dreymir þig vonina\\ Líttu á fallegu draumana\\ Sem græðandi vinina\\ ] [ Ég hef ekkert, ég er ekkert, ég verð ekkert\\ Það sem hinir leika sér að fæ ég ekki snert\\ Ég á ekkert ég má ekkert enginn föt svo holdið bert\\ Ég vildi að þið dæjuð öll sæjuð öll kvöl mina\\ Lifðuð dvöl mina, upp í glersal himna\\ ] [ \"Words unspoken\" Echos, in the hidden corners of my mind. Words unspoken, words that never came alive. I have covered every range of emotion, cut to the truth and watched it bleed. I could come on as strong and willfull, but im waiting for my sky to fall. I am a woman, fragile but not breakable. Growing wiser by the day. Busy holding on and keeping together. I still have words unspoken, waiting to be given life. ] [ The grass always seems to be so much greener on my neighbours grave But he doesn’t have the view I’ve got, Over on my left hand side You see, there’s this Really cute blond with a lovelyskeleton, Just lying next to me And the dirt around her smells so nice, On her grave there are no rats or mice She has only got one vice, And that is she’s got lice On her skull. When I stroll around in the park of graves I always follow her, in a haze She has me in a daze They say that Jesus saves But they’re lying In death the devil is your only hope for salvation But I think I have found a new way to redemption And that is The girl in the grave on my left hand side The girl in the grave on my left hand side I keep looking at her, she’s sleeping so sweet And the thigh bones are so beautifully shaped, the bones in her legs all are-all the way down to her feet She has got the nicest shaped skull I have ever seen, In a love affair with her the downsides that I can see are only one And that downside is: I was buried alive ] [ Ég fór út í búð að kaupa rjóma þar varst þú, að afgreiða á kassanum í horninu falleg, eins og rós í blóma Mér finnst, Í hvert sinn sem ég sé þig Að ég sjái inn í paradís, Inn í paradís, og þar ert þú Dýrkuð af öllum hinum englunum Meir en sjálfur Guð Og ljósa hárið þitt minnti mig einna helst á tunglskin, Tunglskin sem endurspeglast á kyrru vatni Á niðdimmri, stjörnulausri nótt Þú veist ekkert hver ég er, Bara einhver lúðalegur gaur með gleraugu. Ég vild’ég þyrði að tala við þig, En ég er svo feiminn Svo feiminn Læt mér, því miður, Nægja að dást að þér Úr fjarlægð Get ekki annað en látiðsjálfan mig þjást Svo feiminn Og auk þess lamaður af ást ] [ Hví finnst mér sem nú sé eilíf nótt? Hvers vegna er sem ég sé fastur í vondri martröð? Fæ ég aldrei aftur sólina að sjá, má ég ekki lifa áfram? Ég heyri, ég sé, Heyri og sé allt sem gerist utan huga míns, En líka innan Get ei greint á milli Hvað gott og hvað er fallegt Hvernig veit ég hver ég er Hvernig veit ég hver mum svíkja mig og í bakið stinga Geng um með rýting milli herðablaðann Hef leitað í bak og fyrir að þeimer getur hjálpað Skildi við þann er stakk mig í heimi illra manna, En þaðan kom ég Í dimmum skógi drauma geng ég hraðar og hraðar Vill að einhver Finni sama sársauka og ég Finnur nokkur til með mér? Hraðar og hraðar, er farinn að hlaupa Sársaukinn nístur, ég heyri sarg og reyni að átta mig á hvaðan það kemur Sársaukinn magnast, bein skellur við beinn, nuddast, ég heyrir sarg Hef hlaupið meir en ég hélt að væri hægt Hvert er ég í raun að fara, Lykillinn í vasa mér þyngist og þyngist og ég tek á mig stóran krók Vegna þess að dimmur djúpur hylur Er í veginum Hleyp upp á hæð, horfi á vatnið,dökkblátt,næstum svart, Rýni í það, sé það breytist, verða að orðum þarna stendur ÞÚ DEYRÐ Hleyp áfram... Vakna Það er dimmt, reyni að setjast Rek hausinn í, þreifa á umhverfinu Er í líkkistu, finn hún sígur Veit að nú er ekkert meir af mér ] [ Haltu fast, fallega fljóð Ég vil ekki halda áfram að falla, Féll fyrir þér Vil meira og meira af þér, Á endalausar myndir af þér Allir eiga sér draum, Einn draum sem er sérstakur, minn Snýst um friðsælt líf með þér í stóru húsi. Vil að börnin okkar sleppi við allt illt, Þurfi ei að þola Það sama ogég hef þurftað þola Haltu fast, Elskan mín, ekki missa mig Haltu í hjarta mitt, Haltu fast Haltu mér fast, knúsaðu mig, faðmaðu mig að þér Svo fast að ég viti að þú munir aldrei sleppa Haltu fast, fallega fljóð Ég hef fallið nógu langt, fer bráðum að lenda í jörð Löngu fallinn fyrir þér Fæ aldrei nóg Af minni yndislegu draumadís Verð að kaupa fleiri filmur Fleiri spólur í vídjókameruna Við erum hvors annars helsti draumu Haltu fast, Elskan mín, ekki missa mig Haltu í hjarta mitt, Haltu fast Haltu mér fast, knúsaðu mig, faðmaðu mig að þér Svo fast að ég viti að þú munir aldrei sleppa Haltu fast Í mig Faðmaðu mig að þér Vefðu mig inn í hlýja brosið þitt, Haltu fast Í mig Leyf mér að bragða á frumskógarvörum þínum Haltu fast Í mig Bræddu mig með heitum súkkulaði líkama þínum ::;Haltu fast, haltu mér fast;:: Haltu fast, Elskan mín, ekki missa mig Haltu í hjarta mitt, Haltu fast Haltu mér fast, knúsaðu mig, faðmaðu mig að þér Svo fast að ég viti að þú munir aldrei sleppa Haltu fast Í mig Faðmaðu mig að þér Vefðu mig inn í hlýja brosið þitt, Haltu fast Í mig Leyf mér að bragða á frumskógarvörum þínum Haltu fast Í mig Bræddu mig með heitum súkkulaði líkama þínum ] [ As he turned out the lights Bill said goodnight to his healthplan that flopped and the bombs his planes dropped and to \"don\'t ask,don\'t tell\" and pants that fell goodnight lies goodnight fries goodnight softmoney with chinese ties and to Newt and to Tripp andbiting his lip and blowing his \"sax\" \'cause he thought it was \"hip\" goodnight Drudge and Monica\'s thighs goodnight loans goodnight Jones goodnight \"cigar\" and goodnight Ken Starr goodnight trials and goodnight files goodnight \"feel your pain\" goodnight Hussein and goodnight to the DNA stain that is still damp goodnight socks goodnight loot goodnight George goodnight David\'s camp goodnight first lady goodnight lamp goodnight, house of ill repute ] [ ef ég væri ef ég væri ég og ef þú bara værir til ef ég nú bara væri tilbúinn reiðubúinn hér nei: hér, og þar ef ég bara ætti þykkt eðlisávísunarhefti (þá væri eðli mitt annað og meira en tilvísun) ] [ Ég er hræddur... ...hræddur við fólk Ég er fangi... ...fangi hugar míns Ó hve heitt ég þrái að sigra óttann og sleppa burt En ég þarf hjálp en þori ekki að biðja kemst ekki burt frá fælninni ] [ Ég þarf... hlustandi eyra, augu til að horfa í, öxl til að gráta á, útrétta hönd, ...vin. En hvernig spyr ég? Hvað segi ég? Hver? Það er ein... en ég þori ekki! afhverju íþyngja henni? ...of góð. ] [ Tilfinningar... Vinátta? Ást? kannast ekki við það. ] [ Nú er einum kafla lokið við hverfum öll á braut tíminn hefur í burtu fokið þetta var á tíðum erfið þraut Sárt mér það þykir að hún skyldi ekki vera lengri en áður enn þið tímann syrgið munið þið að ekkert þessa minningu gerir að engri. ] [ svarti sauðurinn er kominn á beit í mínum heimahaga í mínum áður fagra og græna haga nagar hann grösin ofan í rót en þar sem hann fer vex nýtt og betra gras upp af misgjörðum hans ] [ Ég sit og stari út um glugga. Útsýni mitt er yfir eimskipasvæðið í aðra áttina en samskipahöfnina í hina. Ég get líka séð Grafarvoginn. Það hefur engin komið að heimsækja mig núna í tvo mánuði. Ætli þau séu búin að gleyma mér? Í þrjú ár hef ég setið hér við sama gluggann. Áður var ég fóstra. Hvernig ætli krakkarnir sem voru á grænudeild líti út í dag? Þau eru eflaust byrjuð í skóla. Ég heiti Sigríður Bjarnadóttir. Ég er búsett á kleppi. Ég er ógift og á engin börn. Raunar hef ég aldrei verið gift en þó ekki nema sólarhring frá því. Mér finnst lífinu hafa lokið um leið og það var að byrja. Ég er lifandi dauð. Ég horfi út um gluggann. Sömu hlutirnir aftur og aftur. Gámarnir á planinu eru 2702. Ég taldi þá í gær. Ég taldi þá aftur í morgun og aftur, núna. Skipið kom með 307 gáma í fyrradag en fór aftur með 240. Það fjölgaði á planinu. Það fannst mér gaman. Þá gat ég verið lengur að telja. Ég heiti Sigríður Bjarnadóttir. Ég er 27 ára í dag og þetta, er mitt líf. ] [ Í Grikklandi, vakandi, sólin var steikjandi, gróðurinn ylmandi, konurnar töfrandi, hundarnir slefandi, moskítóbitin ergjandi, hóstinn kæfandi, tónlistin lifandi, maturinn fyllandi, bjórinn gefandi , og Tómas sofandi. ] [ Ást er það sem allir þarfnast. Ást er fyrir mig og þig. Ást er fyrir viðkvæm hjörtu, sem að eru að finna sig. Ástin hún er voða viðkvæm. Ástin hún er voða sár. Ástinni mun alltaf fylgja brostin hjörtu og opin sár. ] [ Sitting alone, forgotten, left behind, my dreams are like ruins a yesterday gone by. The once powerfull river of emotions now frozen, cold and dead. I try to brake it, crack it, defrost it. Nothing! Desolate isolation intense despair. Bright light raging heat playfulness joy and laughter temperature rising starstruck eyes the earth awakens My glacier crying, shaking. Breath of life roaring thunder a flowering rose Birds flying singing I´m crying. Shackles of old gone no more cold Frost retreating streams are forming runing gently in a single path power building earth erupting volcano showing rainbow and butterflies the song of whales sweet sound of water walls crumbling down The sun rising everything awakes I smile I laugh having fun the world is different brighter more colourful feeling lighter can I fly? I stand up flap my wings and slowly very slowly I rise above the ground climbing ever so slowly towards my sun towards my lifegiver towards happiness towards you? ] [ Fagrir þjóhnappar þínir svífa yfir hnökróttu teppinu. Ég stend upp og gyrði bumbuna ofan í brókina og horfi á heiminn í gegnum fingraför mánans á rúðunni. Létt andvarp ískápsins í eldhúsinu læknar fáránleikann og hér erum við niðri við jörð á ný. Ég bíð upp á kaffi. Við sötrum seyðið og lítum undan hvort öðru af mikilli sannfæringu, önnum kafinn við að sótthreinsa sárin. Og þegar þú ferð, set ég upp gleraugun og sting mér í hákarlabúrið. ] [ Mér finnst það leiðinlegt, að leggja þetta á þig. En ef þú treystir þér ekki. Segðu bara til. Ég þarfnast hjálpar. En ég vil líka hjálpa þér. Eigum við að hjálpast að? Segðu bara til. ] [ Ég stend á hengflugi tilbúinn að stökkva. En lofthræðslan, er að taka völdin. Ef þú vildir vera svo væn að ýta við mér. Og vera til staðar, til þess að grípa mig. ] [ Afsakaðu, ég kann enga aðra leið, til þess að tala við þig, til þess að spyrja, hvort þú viljir. Kenna mér um vináttuna, Kenna mér um lífið, Sýna mér ljósið, Og leiða mig í burtu frá myrkri holunni. ] [ Varð hugsað til Palla. Svona ein í heiminum. \"Hér sér hver um sig\" (þrátt fyrir fögur fyrirheit) -Og hver hefur sinn djöful að draga (ótrúlegt hvað hann streitist á móti!) Staldra stundum við: Ég ekki nógu sterk? Hann of? Bít á jaxlinn geymi \"þú átt mig að\" á öruggum stað. Horfi þakklát á hugsanlega bjargvætti Veit að þau munu lífga mig við ef ég dey. ] [ Verð að... Mér finnst sem allir, horfi, dæmi, séu að hlæja. Ég fyllist alltaf kvíða, ótta, hugsunum um flótta. En ég kemst aldrei langt því hugsanir mínar ná mér alltaf á kvöldin. Hvað heldur fólk? Hvað gerði ég rangt? Af hverju líður mér svona? ...komast burt ] [ Ekkert er eins og það sýnist enginn veit hvað er gjört. Mjólkin í myrkrinu er ýmist mött, hvít eða svört ] [ Ég er tugginn og misnotaður á allan mögulegan hátt svo kastaður í götuna til að verða traðkaður á. Ef bara ég væri sleikjó... ] [ sólin kastaði yfirþyrmandi skugga yfir kalda borgina sofandi íbúarnir dreymdu sorg um miðjan dag leifar af stolti innviðin rotin glataðar sálir sætti sárana gaf von á meðan það rigndi í eyðimörkinni. Frjór jarðvegur. Ótímabært hatur. seinna fundust þeir faðmandi hvorn annan með fingurna á gikknum. ] [ þú kvaddir mig með orðunum sem mig dreymdi um að heyra. Fagra veröld Óttinn kastaði skugga yfir minningarnar og orðin voru köld. Þú kastar steinum í átt að réttvísinni smávölur sem villa fyrir á meðan sólin fyrirgaf. Í fjarska hljómuðu lúðrarnir Smalandi saman lýðnum Þýðir þetta að við erum óvinir. ] [ Örlitla stund Augnablikið er stjörnumerkt Á þessum tímapunkti slær hjartað mitt í takt við þitt Og það er kannski þessvegna sem þú veist... (Þú veist) ] [ Málaðu, systir! menn og dýr milli blómstra vanda; missirin gefa mörg og skýr munstrin þér til handa. Bústu svo við bónda þinn, bezt um pent að keppa, drag upp sögur og dæmi svinn og dikti fræga greppa. ] [ Þegar ég heyri góðs manns getið glaðnar yfir mér um sinn. Þá er eins og dögun dafni, drýgi bjarma um himininn; Vonum fjölgi, veður batni, vökni af döggum jarðar kinn. Jafnvel þó í fótspor fenni, fjúki í skjólin heimaranns, gott er að signa göfugmenni, gjalda blessun minning hans, dreifa skini yfir enni, ilmi um brjóst hins fallna manns. ] [ Blekkti ég mig? Hvað hélt ég? Var ég að lifa í voninni? Eða er ég einfaldur? óreyndur og vitlaus? í hringiðu lífsins kann ekki reglurnar. Hverjar eru reglurnar? sem fólk lifir eftir, hleypur um í amstri dagsins, óafvitandi um flækjur lífsins. Ég vil læra reglurnar, en enginn getur kennt mér, því enginn segist kunna þær, eða vita um þær. Það er erfitt að vera einfaldur. ] [ þú varst ljósið hlýtt og elskulegt komst öruggt til mín en fórst svo fín lífið er brigðult lífið er leikur þakklátur, auðmjúkur er að geta sest niður hugsað smá það sem átti að verða það sem varð aldrei við höldum samt áfram einstakt hvert og eitt ég er einn minningin fylgir en ekkert meir.. ] [ Þegar þú hvarfst þá hvarf ljósið ég kvaldist þegar við tók myrkrið Því án þín eigi sólin á himnum skín því þú ert ástin mín ] [ með eigur sínar í þvældu sængurveri snarar hann sér í land með hnýttan skrokk sigg í lófum sunnudagshetja undir stólparæðum þar sem fánar blakta börnin dreymir í rigníngunni að bera sverð og skjöld svo nál fálkaorðunnar fái hvergi stungið í hjartastað hann brosir við örlögunum þegar eigin skósólar klappa lof í lófa fyrir gamla tryggð er hann gengur upp ormétna bryggjuna ] [ Sitjandi starandi & hugsi Af hverju? Hví hlýðir munnurinn ei? Hvar er hljóðið? Hvert fóru orðin? Ertu að forðast mig? Var þetta of mikið, of mikið á stuttum tíma? Segi með sjálfum mér Næst.. Næst þegar við hittumst þá heyrast hljóðin orðin flæða fram og munnurinn hlýðir. Næst get ég talað Næst er ég sé þig Næst? ] [ Ástin er sem lítill fugl sem þenur sig og flöktir. Skrítið er nú allt það rugl en áfram allt samt höktir. Ástin hefur blíðan blæ en veldur gjarnan trega. Sér stingur niður á hverjum bæ og fólk sér hegðar furðulega. Furðuleg er ástin ein og ei ávallt endurgoldin. Heyrast mörg þá harmakvein ríkir gjarnan sorgin. Sorgin hún er ansi sár, er von þá hjartað bresti? Og koma fram þar mikil tár svo og áherslur á lesti. Hjartað þagnar, sálin grær mildast verstur treginn. Ef að fólk í friði fær að horfa fram á veginn. ] [ Nóttin er björt en hvergi sé ég Geira. Er Geiri farinn? Hvert fór Geiri? Kemur Geiri einhverntíman aftur? Klukkan er Þrjú og síminn vekur mig. Það er Geiri sem er að hringja! Gleðin tekur völdin. En Geiri er ekki kominn. Geiri er ónýtur. Geiri þarf að fara að sofa. ] [ Einokun dana og einveldi, engan fýsir, frændinn vöru falska seldi fanga hýsir. Drepsóttir drjúgan skerf taka, danir reyna nú stjórn. Smitsjúkdómar landið skaka, samskot eru dana fórn Fólk fellur úr hor, fær alls ekkert að éta. bara þeir sem beiðið geta blessað lifa sögu vor. Land suður af laka, hrauni ælir, landskjálftum með, móða, mistur, aska, út svælir Meðallands líf og geð. Steingrímsson Jón mikli séra, sjálfs eldsins klerkur, mánuði síðar á messa að vera dagur sá verður merkur. Hallærishjálp hún er svarið, helvíti dýr, fólkið, fátækt, veður barið frægðin rýr. Fólk fellur úr hor, fær alls ekkert að éta. bara þeir sem beiðið geta blessað lifa sögu vor. Á Jóskarheiðar fólk af Fróni, flytja allt nú á, ei kemst til leiðar, kýtir róni, kóngur hummar þá. Biskupsstóla báða forna kveðjum, byltum þingi í lík, rötum öll og reyndar veðjum, á Reykjavík. ] [ Eitt sinn arkar, öngum baðar, sá er ætíð þjarkar aldrei laðar. Betra er fátt að tala en mala, mala og mala. Sitthvað mig langar nú að segja sjálfsagt verð ég þó að þegja. Því hér öll heimsins orð hafa verið sögð á vorri storð. Eitt sinn las og les enn ljóð er varðar konur, menn. Lifa ég lengi vil, lífið þá betur skil. Tíminn ei tregur bíður taumlaus hjá ég sit. Misskilningur, mikill, víður meira hafði áður vit. ] [ Hví grátið þér þanns í gröf hvílir, ungan elskuson? Örðug ganga var oftar geymd mörgum mæðudögum. Helgur engill hjarta saklausu í yðar faðmi felst. Sá mun trúfastur, unz tími þrýtur, lítill verndarvinur. Tár þau trúlega, er tryggð vakti, söfnuð sjóði í góðverka yðar fyrir guð flytur, sem elskar einlægt brjóst. Þær munu skærstar, er þér skýi borin líðið til ljóss sala, fagurt skart yðar friðarklæðis, gljáperlur glóa. ] [ Mín er meyjan væna mittisgrönn og fótnett, bjarteyg, brjóstafögur, beinvaxin, sviphrein. Hvít er hönd á snótu, himinbros á kinnum, falla lausir um ljósan lokkar háls inn frjálsa. ] [ Þegar ég labbaði í burtu Horfðirðu á eftir mér? Því þegar ég snéri mér við til að sjá þig í síðasta sinn Þá sá ég þig lita undan. Þú veist ekki hvað mig langaði mikið til að heyra þig kalla á eftir mér Langaði þig til þess? Því ég smá saman hægði á mér og beið, eftir að þú myndir kalla. - En þú kallaðir ekki. Mig langar svo til þín aftur Sjá brosið þitt, og heyra hlátur þinn En allra mest að finna hlýju þína ylja mér Ég sakna þín! - Saknar þú mín? ] [ Ristabrauð með Dieselolíu. Olían brennir varir mínar. Ég finn hana streyma niður háls minn, skiljandi eftir opin sár og blæðandi vefi. En ég get ekki hætt. Hver brauðsneið á eftir annarri. - Óstöðvandi. - ] [ Þann sjöunda júní sit ég súr í bragði, fyrir Sigurðsson Jón ég vil flytja ljóð. En leiðin þangað er löng, og litlum fótum ströng. Öllum fært að flytja hetjunni sinn óð Í ferðalagið, ég því miður ei lagði Austurvelli á, alltaf kætast má. Kveðjur ljóða kærar sendi, á kappa sanna frekar bendi, Akureyri frá. ] [ Ligg í rúminu einn fullur af þrá tómur. Rúmið hitnar hægt og líkaminn er leiður á sjálfum sér. Hugurinn hræðist tilfinningar annarra og kvelur því sínar. Hjartað heldur sig frá enda hálf virkt eða óvirkt. Komið er að því að liggja einn og kaldur hlægjandi tómur. ] [ Gamall maður við gamlan staf fetar blautt stræti, í gegnum regnið. Áhyggjulaus köttur þrífur sig og brosir til mín. Hellulagðar stéttir í borg sem ber nafn, líkt og hver önnur. Og léttur andvarinn golast áfram, líkt og tvær kyrrstæðar sekúndur, í borginni Reykjavík. ] [ Einsleit andlit. Gagnslaust vit. Heimurinn og ég, erum báðir úr lit. ] [ Þú, sem blíður blær hafi liðið hjá, dregið fingurgóma þína eftir strengjum hörpu, líkt og hrynjandi sláttur hjarta míns er þú strýkur líkama minn... Ég, sem lítið feimið fiðrildi, kitla í þér hláturtaugarnar með vængjaslætti mínum, líkt og kossar þínir kitla mig er varir þínar snerta mig... Við, sem hamingjusamir einstaklingar, og eiga framtíðina saman í hvors annars örmum, líkt og tvístirni á himninum er eyða ævi sinni saman... ] [ ...og ást mín er líkt og lína umhverfis Kína. Kvöld eitt í hinu fjarlæga austri. Og ást mín er líkt og krítarlína, hvítkölkuð um veru sína... ...mín elskulega stúlka með sægrænu augun í Norðurmýrinni. Já, þess vegna er ást mín líkt og lína dregin umhverfis ást þína. Kvöld eitt í aftanhúminu, meðan sólin vermir hjörtu þeirra sem... ] [ Einu sinni sem oftar Lyfti hún pilsinu, Engill með rotnandi vængi. Söngur hennar ómstíður skar í eyrun en virtist gefa líf. Inn dimm húsasund Fylgdi ég henni óaðvitandi, dáleiddur. Augun blíð syndu mér heiminn, En eitthvað, eitthvað bylti sýn minni það sem ég sá ekki var lifið. það sem ég sá... var ekki. ] [ Augun yndisleg, húðin mjúk sem silki, líkaminn fullkominn. En það sem mestu máli skiptir það sem eigi sést með augum það sem ósnertanlegt er. Sálin, hugurinn. Það sem þú hefur og ert, fagurt og fullkomið. ] [ Þegar þið sátuð mér hjá, mig hugguðu og héldu, hjálpuðu mér, og stöðvuðu flóðið. Ég var einmanna, hræddur. sorgmæddur, langt leiddur. Þá komuð þið, ein af annarri. Tókuð mig upp á arma ykkar. Þið sýnduð mér ljósið, gáfuð mér von. Þessa kvöldstund urðuð þið mínar heilladísir. ] [ Vinátta okkar, Svo gömul en svo ung. Svo mikil en enn vaxandi. Þessi bönd sem við bindumst eilíf en brothætt. Sannari en allt sem satt er, Traustari en allt sem traust er. Mig langar til að faðma þig, þér halda þétt og fast, Að eilífu. ] [ Eins og dropar sem falla um hríð. Er ég einn á meðan ég bíð. Og regnið rignir einsemd minni, líkt og eitthvað sem rímar við -íð. ] [ Að lækna eða lömbin skera, látum slíkt vera. Hendur mót höndum, hylja ei vöndum heitt er í hamsi ei hættir gramsi Bóndinn á bænum atarna er svín blessuð Dóttirin hrín Hann verð ég að berja Það skal ég sverja Svo stal hann hrúti og hálfum brennivíns kúti. Að mæðast og skera er mikil leti, mælti Jón forseti, fé skulum frekar lækna, var ræða Jóns frækna. Lækning lamba er dýr, langdræg og árangurs rýr. Sumir höfðu á réttu að standa, að sínum gamalgróna vanda. Þó þurftu að lúta í lægra haldi, það var í Jóns forseta valdi En Ljótur ei leiður varð ljúfur gekk þar um garð Gerum ei grín að köllum góðum undir Eyjafjöllum. Róstur voru á fundi og reiði Runnin var af mönnum leiði Ber bylmyngsfast mann Sá er berja kann Hér tókust menn hraustlega á, helvíti gaman var þá. Sá sem ei slóst er blauður, sluppum vel, enginn er dauður. Upp er runninn annar dagur Á enda er Eyfellinga slagur ] [ Ég hitti konu um helgina. Hún er eitthvað eldri en ég, lítur samt skikkanlega út. Ég bauð henni heim eftir að ég var búinn að láta blæða í tvö glös handa henni, hún afþakkaði, sagði ekki einu sinni kannski seinna. Ég held samt mér sé að fara fram, ég bauð henni ekki borgun og ég kallaði hana ekki einu sinni hóru. Það er framför.... held ég. Ég mun aldrei ná af mér þessum 10 aukakílóum hárið á mér mun aldrei vaxa aftur og ég á aldrei eftir að ná mér í konu. Þetta eru þeir þrír þættir í lífu mínu sem ég á auðveldast með að sætta mig við. ] [ Nú hef ég gleymt, hver fyrst mjer frá því sagði, og fráleitt hef jeg verið gamall þá; það var í hverju horni bænum á og stal oft því, sem fólkið frá sjer lagði. En þó var annað margfalt meiri skaðinn því mart eitt barn, sem frítt og gáfað var, það huldufólkið burtu með sér bar og lagði annað ljótt og heimskt í staðinn. Það kýtti svona kararfauskum sínum og klæddi menskum hömum til að blekkja; það var mjer sagt, um sannleik ei jeg veit; en síðan fjölga fór á vegi mínum, mjer finst jeg stundum skiftíngs augun þekkja - nú getur hver einn skygnst um sína sveit. ] [ Þú sæla heimsins svalalind, ó, silfurskæra tár, er allri svalar ýta-kind og ótal læknar sár. Æ, hverf þú ei af auga mér, þú ástarblíða tár, er sorgir heims í burtu ber, þótt blæði hjartans sár. Mér himneskt ljós í hjarta skín í hvert sinn, er ég græt, því drottinn telur tárin mín,- ég trúi´ og huggast læt. ] [ Það sem ég sagði það var allt satt þó ég væri drukkinn ég meinti það allt. Þú sast og horfðir í augun á mér og ég uppgötvaði augun í þér. Orð mín til þín þetta kvöld. Þau voru svo falleg og voru svo sönn. Vinátta okkar hún varð til fyrir alvöru þetta kvöld. ] [ Þú ert yndislegur, vissuru það? Mig langar að kúra hjá þér, elska þig og virða. Ég myndi gera allt fyrir þig! vissuru það? Ég myndi synda í sjónum að vetri til, elska þig alla nóttina, og allan daginn, bara fyrir þig. Færa þér heiminn á silfurfati, bara fyrir þig! vissuru það? Ef þú bara leyfir mér að elska þig.. ] [ Ég er yndislegur, vissuru það? Mig langar að hafa þig hjá mér, láta þig kúra hjá þér og láta þig elska mig og virða. Gerðu það allt fyrir mig, bara fyrir mig! Syntu í sjónum að vetri til og elskaðu mig alla nóttina, allan daginn! bara fyrir mig. Færðu mér heiminn á silfurfati, bara fyrir mig! og þá skal ég hugsa málið... ] [ Með hjartað í buxunum lít ég niður með hjartað í buxunum roðna ég niður í tær með hjartað í buxunum stend ég orðlaus með hjartað í buxunum heyri ég ekkert nema hjartslátt minn og hlátur þinn ] [ Hleypur yfir öldur drottning hafsins um allar aldir öldur fossa kringum hana létt og glatt árin líða án sults og sára ein hún klífur öldur alda. Áður hafði hún kóng og krónu, króga lítin og kolsvart hár nú særir hún og svertir hafið sver við kletta, æfir öldur ein hún bíður ragnarraka. Ljósa hárið bylgjast við brá bláu augun, blítt, hún logar áður hafði hún svarta þrá nú lýsir dauðans sakleysi þar frá hleypur yfir öldurnar ástinni hjá. Á hafsbotni liggja kóngur og króna klettabjörgin - skrikaði fótur króganum, í fallinu, reyndi að bjarga nú liggja þau bæði botninum á hún bölvar og ragnar beinunum hjá. Hár hennar svarta lýstist og logar eldur í augum, brakandi dauðaþrá um allar aldir öldur fossa árin líða án sults og sára bíður hún ein beinunum þeirra hjá. ] [ Hvínandi hamarhljóð fylgja uppreið minni úr myrkri skellir á hörðum köldum fleti gljáandi flötum fleti stál í stál loðin manneskja löngu dauð hefur enn á ný hrist úr vösum mér alla smámynt og hlegið vingjarnlega að fátækum fjársjóði mínum nú er mitt að enn á ný moka saman því sem ég á og vilja kaupa upp heiminn ] [ Þú ert... ...sú sem mér er kærust af öllu. ...sú sem færir mér dagsins birtu þegar ég er í nóttinni villtur. ...sú sem færir mér kraft til þess að brosa í gegnum tárin. ...vinur minn. ] [ Muniði? þegar við vorum lítil, lékum okkur á grænum fótboltavöllum og vorum svo upptekin við leik okkar, að við tókum aldrei eftir bláum himninum eða græna grasinu og laufblöðum trjánna í kring. En núna, tek ég eftir grænu grasinu, laufblöðum trjánna og aldri mínum, leik barnanna og því, að æska mín, horfin er og himininn er þungskýjaður. ] [ Sendi SMS, sagðist vera forvitinn, í reynd leiddist mér, þráði að heyra í þér. Þú svaraðir, guð hvað mér létti, þú varst ekki farin, samt varð ég stressaður. Vantaði afsökun, sagðist vera forvitinn, vissi hvað það pirraði þig, varð stressaðri. Þú svaraðir, sagðir mér að hætta að afsaka, við værum vinir, vinir afsaka sig ekki. Mér létti, við erum vinir, það er það sem ég þrái, vildi bara staðfesta það. Með lélegri afsökun. ] [ Hvinur í ljá og glamur í méli og Dauðinn býr í Rauðadal. Eilífðarskórnir þramma yfir sviðið og bitvopnið bitnar á fólki hægri vinstri en ekki af neinu handahófi. Maðurinn með ljáinn veit vel hvað hann syngur: Dauðarokk að sjálfsögðu. Hann hefur aldrei pælt í því af hverju honum er ekki skaffað skárra verkfæri en ljárinn til dæmis garðklippur, heykvísl eða handsprengja. Skrítið. Vinnuveitendur? Gott im Himmel og hinn vondi að sjálfsögðu, en deildarstjórar eru þær Urður, Verðandi og Skuld. Þegar dettur inn dauður tími hjá okkar manni, strýkur hann snoppuna á Bleik eða hendir í vél. Og stundum strýkur hann hvítt hárið frá beinaberu andlitinu, beinaberum fingrum og hugsar aftur til eftirminnilegra manna sem hann sótti. Svo sem Adam og Davíð, Búdda, Baldur og Halldór Laxness. Hann botnaði ekkert í dauða Jesú fyrr en hann las Bókina. ] [ Hvar er skynjun þín vinur, til er fólk sem saknar. Og vænglausir englar syngja bláa sálma um gengna lifendur. Þú stendur í hliðinu. ] [ hversu margir hafa fæðst og dáið síðan upphafs mannanna? hvað gerir þig að sérstöku sandkorni í þessum mannlega sandkassa? öll sandkorn eru eins tekur enginn eftir ef eitt hverfur vatnsins dropar rigna og þiðna, einn hverfur þá annar úr himnum sendur hvað hafa verið til mörg sandkorn og hversu margir dropar fylltu upp haf tímans, og síðan hefur hýst þá nokkra síðan eru mörg ár, margar ár runnið til sjávar, það fer ekki á milli mála lífið er tímaglas sem sífellt bæði fjarar út og fyllist á það eins og til stóð standa allir einir er þeir reyna að standa sig þótt að þéttsetin sé sandkassinn, eru allir einir á báti í þessu mannhafi þótt öllum gangi verr, í öldugangi er lífið alltaf kviksyndi, það er alltaf einhver sem mun sjá til þess sama hvað þú syndir og syndir geturru ekki flúið þínar syndir sekkur stöðugt neðar og neðar, meðan þú förlast í fólksins minni þó það væri skýrt í þínu eigin minni þegar kristninni var skvett á þig nafn fest á þig, þá fljúga fiskisögur fljótt en fólkið gleymist ennþá fyrr og hvort sem þú eyddir lífinu með Kveldúlf eða edrú með Jesú þá sést nú að það eru alltaf fleirri fiskar í sjónum og flestir eru uppá fleirri fiska en þú ] [ Bank Lyfti hægt hausnum upp af koddanum. Bank Bank Hugsa málið. Standa upp eða ekki? Bank BANK Áræð að standa á fætur. Valtir fætur, myrkur. Leita að nærbuxum. BANK BANK Kallað pirraðri röddu \"ég er að koma!\" BANK BANK BANK Hleyp til dyra. Ban...ískr í hurð opna og.. ...bjóst ekki við þér... ] [ Dauðinn er ekki allt viltu skilja mig, ekki yfirgefa mig með þessum dauða. Ég skal hjálpa já hjálpa þér, svo lengi sem þú yfirgefur mig ei. Dauðinn hefur ekki fleirri svör en lífið, dauðinn er bara hugarástand sem ég vil ei að þú lifir í. stoppaðu bara smá líttu á kannski á sólina eða hafið, þá færðu kannski að skilja undur lífsins og taka þennan dauða burt. Ég gæfi mikið bara já bara við að sjá þig glaðan, glaðan eins og lítið barn sem aldrei hefur litið dauðan á, hvað þá vandamál eins sem það veit er \"vá hvað þessi heimur er góður\" ] [ Þetta fólk skilur okkur ekki. Við erum öðruvísi samt ekki við erum öll lík en enginn af okkur eins. Hvað fær þetta fólk til að dæma okkur til dauða. Við þolum ekki meir bara látum okkur hverfa í heim þeirra þöglu. Þetta fólk dæmir okkur til dauða hvaða vit er í því? Hvað getum við annað, en að vera hérna í þessum heimi þar sem við fáum ei frið. Við þolum ekki meir, öll marin og blá á líkama og sál við fáum einga hjálp. held okkur se ekki ætlað að lifa í þessu, hvað sem þið kallið þetta alveg örugglega ekki líf. ] [ Í þúsundmanna yðu ég þreifa mig áfram, fólkið púar ég veit ekki afhverju. Ég fattaði þetta ekki strax, ég fatta það núna. Þetta fólk púaði á mig. Ekk veit ég afhverju enþá og kannski fæ ég aldrei að vita. Svona er bara lífið stundum gerist þetta bara svona ] [ Óralangt í burtu svíf ég á milli manna. Engin tekur eftir mér enginn furða, Ég er hér samt ekki ég er þar samt hér. Enginn leið að skilja allur skilningur er, er hvar? Óralangt í burtu. Þetta er nútíminn fortíðin er farin, nútíminn gengur í garð. Samt óralangt í burtu og aldrei kem ég aftur. ] [ Köldu blóði blæðir mönnum sem dauðan þrá. Með köldu blóðinu sálin hverfur og hugurinn förlast. Hjartað þeirra fyllist af ótta um heimi lifandi sálar. Dauðan þeir þrá dauðan skulur þeir fá. ] [ Tveir á heiði hittust reiðir, hverr á móti öðrum feigur sneri, nornin kalda grimman galdur galið hafði þeimog vélar. Illum tárum augun fylltust, annarlega brostu gamni, fann hver bana í brosi annars, brugðu hjörvum, týndu fjörvi. ] [ Gert hef ég margt glappaskotið gasprað um of - skammast mín. Vansa þessum væri borgið væri ég að skammast þín. ] [ Ó, guð vors lands! Ó, lands vors guð! Vér lofum þitt heilaga, heilaga nafn! Úr sólkerfum himnanna hnýta þér krans þínir herskarar, tímanna safn. Fyrir þér er einn dagur sem þúsund ár og þúsund ár dagur, ei meir: eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár, sem tilbiður guð sinn og deyr. :; Íslands þúsund ár, ;: eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár, sem tilbiður guð sinn og deyr. Ó, guð, ó, guð! Vér föllum fram og fórnum þér brennandi, brennandi sál, guð faðir, vor drottinn frá kyni til kyns, og vér kvökum vort helgasta mál. Vér kvökum og þökkum í þúsund ár, því þú ert vort einasta skjól. Vér kvökum og þökkum með titrandi tár, því þú tilbjóst vort forlagahjól. :; Íslands þúsund ár, ;: voru morgunsins húmköldu, hrynjandi tár, sem hitna við skínandi sól. Ó, guð vors lands! Ó, lands vors guð! Vér lifum sem blaktandi, blaktandi strá., Vér deyjum, ef þú ert ei ljós það og líf, sem að lyftir oss duftinu frá. Ó, vert þú hvern morgun vort ljúfasta líf, vor leiðtogi í daganna þraut og á kvöldin vor himneska hvíld og vor hlíf og vor hertogi á þjóðlífsins braut. :; Íslands þúsund ár, ;: verði gróandi þjóðlíf með þverrandi tár, sem þroskast á guðsríkis braut. ] [ snjórinn úti slettist niðrá götu svarta kaffið rennur oní maga reyndar var ég rétt í því að laga raunamæddur hlusta ég á plötu pabbi var að selja sína Lödu sovéskan bíl en það er önnur saga ég fer að sofa svei mér alla daga svefnguðinn færir mér þorláksmessuskötu draumurinn er að drífa sig af stað ég dottandi reyni\' að koma mér á fætur til vökunnar ég vakna ekki strax ráðið er að bregða sér í bað bardaginn hefst og slenið undan lætur síðan er að setja gel í fax ] [ himininn glitrar sem fegursti steinn vegurinn þangað virðist svo beinn leiðin ekki löng hvorki flókin né ströng ... vegurinn virðist svo beinn ] [ \"Bless\" sagðir þú og leist á mig. \"Bless\" sagði ég á móti. Þú leist í augun mín ég leit í augun þín Við vissum hvorugt hvað væri í gangi því allt í einu kysstumst við. ] [ Við endimörk sjálfs mín hvílir köttur í sólbaði. Og hálfhræddar rottur gægjast útum grásteypt húsin og bíða færis. Þær hlusta á mal kattarins, horfa á hann þrífa sig í hitanum og bíða eftir því að hann sofni. Loks hlaupa þar framhjá honum, á léttum löppum syndarinnar. ] [ Við erum komin að leiðarlokum klæðumst nú hvítum kollum höldum nú sæl og glöð öll í sína átt. Þetta er hamingjustund en skap mitt samt trega fyllt því við höfum þolað svo mikið bundist böndum sem munu endast ævilangt. Þið 2. 3. og 4.G voru og munuð ávallt vera mín ljós, englar, dísir og vinir. Að eilífu. ] [ Konur, mæður, meyjur, mætar fósturlandsins freyjur fagrar stelpur, stúlkur stoltar frúr, gleðja okkur. ] [ Er ég lít á þig þá sé ég tvennt augun djúp og dökk en þó tvílit. Brún og ljósblá dularfull en samt svo skýr endurspegla sál þína sem ekki hægt er að útskýra. En það sem mig einnig grípur, hárið, gyllt og herðasítt, mjúkt og fallegt, ilmar. Eigi er hægt að lýsa þessum ljósu lokkum þínum sem bjóða hverri lýsingu birginn. Þessi fegurð bliknar þó við þann samanburð er mestu máli skiptir. Því ljósir lokkar og augun brún eru aðeins gluggar, að þeirri fegurð er innra leynist sem er persónan þú. ] [ Hugurinn hljóður, hvítur,dofinn. Sé hvernig allt snýst í andhverfu sína, ástin,tilfinningarnar,lífið. Horfi í draumsýn minni og einfaldleika á tilveru okkar í gegnum pússað gler. Sé okkur sitja frjáls, hamingjusöm,ástfangin í skuggsælu hverfi einfaldleikans, áttlaus,sátt og fullnægð. ] [ Þú komst til mín litla barn með hendurna þínar hvítu, lagðir þær að vanga mínum og ég fann að þú gast læknað öll heimsins sár. Ó,hve tilvera þín er dásamleg. ] [ Október. Maður með ritþunga hönd dregur mosagróin gluggatjöld frá tröllauknu leiksviði dagsbrúnar. Flugurnar virðast spretta upp úr jörðinni í bylgjandi vetrarkvíða. Lágur gangur sólar lýsir upp flugurnar Valhoppandi stúlku sem leikur sér að því að þyrla upp logandi rykkornin sem svífa hér inni í skuggunum sem lengjast og lengjast og krakkana í hverfinu sem eru lýstir raunverulegum árum. ] [ Glóandi gospillan sem aldrei virðist eyðast í skýjuðu glasi augna hans og heldur virðist hún ekki ætlað setjast fyrir vestan Snæfellsjökul. Hann hlustar á eldri píanóverk Liszts, meðan ljósið penslar baráttu sína í rofnandi skýjafar einsog Biblíugat. Heiðarnar koma í ljós næstum lárétt lýsing margra vasaljósa niðrúr þykknandi þaki. Ljósgulir hnoðrar stakir í fjarska, fjólubláar slæður einsog peysa valhoppandi stúlkunnar. Endurkast hafflatar, ljósið leki indígóbláum olíulitum saman við blágrænt þörungaslím á steinum við mörk sjávar. ?Hver segir svo að ljósið hafi ekki myrkur, héðan í frá lita ég myrkrið allt öðru ljósi.? ] [ Á náttborðinu undir glugganum í norðurherberginu liggja þykk bindi af ævi Jóhanns Kristófers eftir Romann Rolland. Útí porti teygja kolsvartir drangstromparnir sig upp í stirndan himininn. Yfir Esjunni blaktir silkislæðan geimverugræna. Úr Dúalgrammifóninum leikur Reinbert Gymnopédiur Saties svo hægt að hann er seinn tónleikagestur sem heitir Regn, heldur niðri í sér andanum hætti að rigna og breytir sér í súld sem úðast yfir áhorfendur í þakklætisskyni. ] [

Svart og hvítt kringum mig fellur, dagblöð glataðra minninga fyllir upp einmanaleikann. Líkami minn fellur fyrir snertingu þinni, þeir segja að það sé sumarið en ég held að ég sakni þín bara.

] [ Æ, orðin gúlpast útúr mér líkt og taktlaus hviða yfir saltan sjó. Og á gömlum bát róir gamall maður í áttina að engu. Já, orð mín drukkna líkt og gamli maðurinn í gamla bátnum, á meðan sólin gyllir hafið eitt tímansbrot. ] [ Einóma gleði mín bylgjast líkt og gára í læk. Tvíhneppt bros mitt teygar ljósið líkt og svangur broddgöltur. Léttleiki minn svífur líkt og stillt ský í glæru roki. Og sólin kyssir vanga minn, sem ég geng inní Vesturbæinn raulandi mitt gleðiljóð. ] [ Eina með öllu, takk! Segir maðurinn og andvarpar. Hvað segirðu: Eina með öllu? spyr afgreiðslumaðurinn. Jaaaá, hikar maðurinn. Þá tók afgreiðslumaðurinn eina tælenska, skellti á hana börnum og burum og sagði; Gjörðu svo vel. Úti er reykvískt ævintýr. ] [ Föndrið er sjálfsfróun leiðra húsmæðra sem vantar að finna tilgang með lífinu. Föndið selur blekktar rósir og gervilistamenn hinni nútímalegu manneskju sem vildi, hefði, ætti að gera eitthvað TIL AÐ LIFA Ekki föndra ekki lifa ekki neitt ] [ Hann er skítugur, saurugur, sorglegur. Hann er ljótur, leiðinlegur, lygalaupur. Hann er stoltur stór og sterkur. Hann biður um pening og hlær að fólkinu með bindin. Hann er flottari en þau, betri og klárari...betlari. Hann hlær hátt, hótar lífláti og hlær. Brosið eru ekki vængir svansins, brosið eru vængir snjótittlingsins sem svífur ekki heldur flögrar um, óöruggur, aumur og lítill. Í glaðværu augunum er dögg...sem kemst ekki út, hann kreppir hnefana og vill ekki rigningu. Innst inni sér hann eftir öllu og vill vera eins og þau, með bindi og skjalatösku,konu og börn. Hann vill stækka og breytast í svan en hann getur það ekki...flaskan kallar! Þess vegna þykist hann vera stoltur, stór og sterkur, hlær og hótar lífláti en hann getur það ekki..hann er ekki svanur bara lítill aumkunarverður snjótittlingur. ] [ Neisti ....neisti... veistu hvað neisti er? Ekki stingur í maganum heldur fiðringu í öllum líkamanum. Adrenalínið flæðir um líkamann. Hendur leiðast ekki... senda bara strauma... kynæsandi strauma.... maður brennir sig en vill ekki kólna............ég vil brenna... augnástarsamband..án leiðinda, rifrilda og samskipta...augnástarsamband er betra en TANTRA..það er á vissan hátt kynlíf án snertingar. Neisti...neisti... sofnar með bros á vör, brosið er stærra en vængir snansins... Neisti... veistu hvað neisti er. ] [ Ég er rasisti! það hlýtur að vera vegna þess að ég þoli ekki hvíta fólkið. Það er alltaf með fordóma, senda þá með augunum, brosinu og hrokanum. Jakkaklæddu menninrnir sötra bjórinn á hvítum breskum stað. Svarti maðurinn kemst ekki inn, en hann passar bara ekki inn, hann finnur það strax, þegar hann sér augnaráðið, brosið og hrokann á svnaninum sem sötrar bjór með hinum svönunum...stoltur, ríkur og konunglegur með sína stóru hvítu vængi. Svertinginn veit að hann er litli ljóti andarunginn...sem svífur ekki heldur flögrar...Hann fyllist reiði og kallar svanina rasista. Ég hlýt að vera rasisti, en ég er hvítur, ég er einn af svönunum sem glotti og sötra....en ég vildi óska þess að heimurinn væri fullur af sáttum hvítum og svörtum svönum... en því miður eru svanir bara hvítir. ] [ Ó þú laufblað hvaðan ertu?.. ertu frá einhverjum stað fjarri mínum menningarheimi. Varstu skraut í hári konu sem var misnotuð, nauðguð og drepin fyrir að hylja ekki andlitið sitt. Eða... Ertu úr garði kínveskrar hefðarkonu sem eignaðist strák og seinna stelpu en bar hana út sökum offjölgunar mannsins. Eða... Ertu laufblaðið sem Eva notaði til að hylja píkuna sína og kallast Evuklæði. Eða... ertu úr bandarískum garði sem finnst í 978.778, nákvæmlega eins görðum. Eða... Ertu laufblaðið af eina eykartrénu í óbyggðum Afríku þar sem feðurnir selja dætur sínar í atvinnuskyni frá því að þær eru 10 ára gamlar. Eða... Ertu laufblaðið sem indjánastelpan notaði sem leikfang í Argentínu, daginn sem faðir hennar var drepinn af hvítum argentískum mönnum. Eða... Ertu kannski bara laufblaðið af trénu hér fyrir utan, trénu sem róninn er núna að pissa á. Sama hvaðan þú ert þá ertu laufblað, fallegt, konunglegt pg átt þína sögu sem enginn veit hver er. ] [ Í dag tók sársaukinn af mér öll völd, því sit ég ein í bílnum, þreytt og köld Ég finn hvernig dauðinn læðist eins og þokulæða, allur heimsins hiti nær ekki frostið innra með mér að bræða. Ég er kalin í gegn og hjartað hægar slær endalok mín færast nær. Ég vona að bráðum birtist maðurinn með ljáinn, segjandi með djúpri röddu sinni \"þú ert dáin\" Því þá yfirgef ég þetta líf og fer á annað svið, lít aldrei til baka og sný ekki við Ég veit ég hefði getað verið betri vinkona, dóttir, systir, frænka og kærasta. Ég gerði mitt besta en passaði ekki í þessi gerfi, ég veld aðeins vonbrigðum svo það er best að ég hverfi. En hvert ég fer, ég veit það ei, kemst að því þegar ég dey. Ég loka augunum, allt byrjar að dökkna. Ég loka augunum, tárin renna og ég er að klökkna. Ég loka augunum, hræðslan er að buga mig. Ég loka augunum, og ég sé bara þig. Ég loka augunum, dreg minn loka andardrátt. Ég loka augunum, fjara út smátt og smátt Ég loka augunum, nú birtist mér einhver dýrðarkraftur Ég loka augunum, og opna þau aldrei aftur. Sál mín tekst á loft, ég er skýjum ofar, vona að ég sé á leið á góðan stað ef guð lofar. Ég svíf hátt yfir jörðinni eins og fugl og horfi á fjölskildu og vini kljást við þetta sorgarrugl. Ég horfi niður á mömmu þegar hún fréttir þetta, andlit hennar afmyndast af sársauka. Hún reynir að öskra en það koma engin hljóð og augun svo dökk að þau gætu allt eins verið mitt blóð Ekki syrgja mig mamma, ég er á leið á betri stað mér mun líða miklu betur þar því þar er ekkert að. Kannski verður næsta líf ekki betra en þetta hér en ég gat bara ekki meira, sálin takmörkuð sár ber Þetta er ekki stundarbrjálæði, þetta er ákvörðun, ef ég get ekki stjórnað lífi mínu þá stjórna ég dauðanum. Aldrei framar raddir sem hvísla ljótum orðum til mín, aldrei framar myrkur, því sólin stanslaust skín. Ég er frjáls, og finn hve mikið mér hlýnar. Ég er frjáls, og finn að sársaukinn dvínar. Ég er frjáls, og heyri englaraddir. Ég er frjáls, allir mínir djöflar kvaddir. Ég er frjáls, sakleysið endurheimt. Ég er frjáls, allt hatur í hjarta mínu gleymt. Ég er frjáls, sé birtuna björtu og góðu. Ég er frjáls, komin yfir hina miklu móðu. Fegurðin í kringum mig er ólýsanleg, og aðeins ætluð þeim sem ganga þennan veg. Við munum öll mætast aftur, þetta er ekki í hinsta sinn. Ég vona bara að ykkur verði hleypt hingað inn. ] [ Engist til og frá. Get ekki borðað, get ekki sofið. Maginn kominn í einn hnút á erfitt með að standa upprétt. Tikk takk - tikk takk Tíminn líður, en líður þó ekki Vá hvað mig hlakkar til Ég hugsa til að róa mig. \"Á morgun!\" ] [ Að lifa eða deyja er það stór mál? Þolir hún þetta, mín littla sál? Get ég valið, bætt og skoðað? Eða verður í himnaríki eftir mér boðað? Dey ég í dag eða dey ég á morgum? Næ ég að drekkja öllum mínum sorgum? Segja \"bless\" eða \"sjáumst seinna\" Verður lífið eitthvað beinna? Munu beygjurnar nokkurn endi taka? Hefur guð eitthvað á mig að saka? Mun ég kveljast eða verður þetta gott? Er himnaríki lélegt eða er það flott? þarf ég af þessu áhyggjur að hafa? Þarf ég í þetta lengra að kafa? Á ég að spyrja, eða bara giska? Verður líf mitt uppá marga fiska? Þarf ég í kringum mig massaða verði? til að passa að enginn sál mína serði? eða er nóg að hætta í þessu að pæla? því líf mitt er nú eintóm sæla! ] [ Allir eru alltaf að spyrja og leyta: Mun þetta hamingju veita? Af hverju líður hver dagur svo fljótt? og hví þarf lífið að enda svo skjótt? Af hverju er ég hér? Hvers vegna er ég sú sem ég er? Hví er lífið svo flókið fyrir mér en allt svo auðvelt hjá þér? ] [ Finnst þér eins og öllum á sama standi þótt þér illa líði hvort þú grátir eða lendir í klandri og þótt undan orðum þeirra svíði? Finnst þér eins og enginn taki eftir þér hvað þú gerir eða hvert þú farir finnst þér þú ósýnileg og ekki hér og sem enginn heyri þótt þú svarir? Leynist oft leyndur grátur á bak við bros þitt og hlátur? Ýttu þessum hugsunum burt, á undan regni er oft fyrst kalt og þurrt takirðu vel eftir sérðu að þau elska þig enn brátt kemur gleðin, það birtir til senn. ] [ Orð eru beittari en hnífstunga, þau fast stinga þá ekkert svar hrífur í hjartanu sprunga. Orð skilja eftir opin sár, þannig að í sálinni svíður, erfitt er að halda í við tár, lækningin að tíminn líður. Orð má nota á margan hátt til góðs, svo hjörtu fáist brædd þá á ný skapast sátt hin dýpstu sár fást grædd. ] [ Oft reynist það erfitt að vera sterk en lífið og dauðinn vinna áfram sín verk ef þú uppgjöf velur þá lífið þig kvelur þú verður að keppa að markinu og aldrei sleppa á lífinu takinu. Ekki leyfa dómgreindinni að dofna innst inni vilt´ei eilífa svefninn sofna þú færð ei allt, þarft að velja og hafna krafti og þreki á ný skaltu safna taktu eitt skref í einu og veldu leiðina beinu. ] [ Elskir þú einhvern gefðu þér þá tíma, ást og umhyggju skaltu sýna. Ekki hugsa á morgunn,oft er það of seint þetta hefur margur reynt. Ef þú eigi elsku af þér gefur, rætist það að enginn veit hvað átt hefur fyrr en hann það hefur misst. Oft sýnist tími nægur þá stund er stysst ] [ Gleðin af þolinmæði hefur nóg, en er þér illa líður verðurðu að leggja hönd á plóg, annars situr hún bara hjá og bíður. Ef þú ekki á björtu hliðarnar lítur þú munt vandræði þér bara baka, ýttu burt þeim áhyggjum sem hugann þjaka þá vex gleðin og sársaukan burt þú slítur. Viltu gleði eða sorg? þitt er valið allt er gaman ef þú aðeins vilt, hugsirðu lífið ömurlegt verður það galið. Þú velur viðhorf þitt, lífið reynist sumum hart en öðrum milt. ] [ Stundum er eins og öllum á sama standi þótt mér illa líði, hvort ég gráti eða lendi í klandri og þótt undan orðum þeirra svíði. Stundum er eins og enginn taki eftir mér hvað ég geri eða hvert ég fari. Stundum er ég ósýnileg og ekki hér, ekki jafn mikilvæg og allur þessi skari. Á bak við hláturinn og brosið leyndur grátur geymist. Oft er sem ég gangi ein hvert lífssporið , en þá man ég að Jesú alltaf með mér leynist. ] [ Við marga grimmur þú ert, hremmingar aukast en þeir fá ekkert gert Við aðra þú ert alltof góður og stöðugt eykur þeirra hróður. ] [ Ég elska hafið sem byltist á steinunum, það úfið er. Líkt og laufið sem fellur af greinunum, það heyrir og sér allt er fyrir augu ber. Margir hafa farist hafinu á, þeir koma aldrei aftur. Hafið sér um þá og Guð og hans náðarkraftur. ] [ Í hóp látinna hefur bætst, yfir því hafa illir menn kætst. Hvernig getur fólk glaðst er aðrir ástvini hafa misst? og hvers vegna vilja sorgmæddir gera líf fleirra sem stysst, með hefnd og enn meiri sorg? Þá eru bara fleiri saklausir hrifnir á brott úr þessari jarðarborg. Það færir þeim ekki ástvini sína aftur til baka! Af hverju látum við ekki með frið´og kærleika til okkar taka? ] [ Allir þurfa á hverjum degi að vakna. Sumir nýjan dag ei vilja líta, því hjá þeim mun ekkert batna, heldur mun sársaukin þau bara bíta. Með hverjum degi stækkar þeirra sálarör. En þú!Hví gleymirðu að vakna með bros á vör? ] [ Án samskipta væri lífið ekki neitt, því án þeirra gætum við ekkert af okkur leitt og lífið yrði eflaust lítilsvirði, gerum góð samskipti að okkar skilyrði. Því slæm samskipti geta illt af sér leitt, þá biturleikinn ekki bíður, og þér illa líður. Aldrei gleyma að þá getur eitt bros öllu breitt! ] [ Við hyldýpi sjálfs míns liggur gleði mín og sorg líkt og tvílitt blóm. Yfir slitin stræti gekk ég í sólríkri þögn, á gatslitnum skóm. Og tvílitt blómið fauk í fjarskann, sem ég gekk inní borgarinnar tóm. ] [ Í bílkeyrðum vafa líktog rör í trópísafa: Sit ég við sjóinn og sötra í mig saltaðan vindinn. Einsamall máfur syndir baksund við Kollafjörðinn og leyfir sólinni að gylla gogg sinn. Skyndilega kemur tryllt ær, hlaupandi niður Sæbrautina og stingur sér ofaní hafið, svo Esjan skellihlær. Ég veit lítið um ólympískar dýfingar, en ég myndi gefa henni 9,36. ] [ Á göngu meðfram lágreistum bárujárnshúsum. Til mín kemur hlæjandi köttur með köflóttan feld (og biður mig um eld) Ég kveiki í vindlinum og fæ mér blund (en kötturinn fer í sund) En sundlaugavörðurinn meinar kettinum að fara ofaní laugina, því hárin stífla niðurfallið. Þeir rífast, uns þeir dansa inní hvorn annan, líkt og bollinn og bláa kannan. ] [ Hvað er vinur? Sá sem mann styður, sá sem maður treystir, hún er kraftur og spýtir í mann adrenalíni, hún er sterkari en umhverfið en minni en fólkið. Það skín af henni kraftur sem segir ég get! Hnefinn sem gullhamar, brosið sem vængir svansins. Ég er kraftur og spýti adrenalíni út í umhverfið, því ég er sterkari en það, ég er minni í mér en þú heldur. En af mér skín kraftur sem segir, ég get og þess vegna er HÚN vinur í raun. ] [ Þegar stelpur tísta í stað þess að hlægja þá er maður að senda neista... brenna þær... mig langar að kveikja í öllum heiminum, en bara með neista senda frá mér glóð, glóð út um allt, tíst... ef ég kveiki í þá á ég hættu á að fá kynsjúkdóma... ég er meira fyrir tístaneista. ] [ Brosið er að hverfa, svanurinn lækkar flugið. Þetta er ekki oddaflug heldur einstaklings swing...eins og píla. Píla sem hittir ekki í mark. Pílan er í biðstöðu á meðan hinar lenda, biðin eftir lendingu. Vonandi verður lendingin góð. Ég vil ekki flugslys. ] [ Heimþrá...? veistu hvað heimþrá er? að skoða barnaföt án penings? gefa betlara með ungbarn allan peninginn sinn...! Drekka pind og skrifa ljóð um heimþrá.. Horfa á sama skemmtikraftinn aftur og aftur og kunna trixin betur en hann! horfa í kringum sig með Glóeyjarfilter í augunum. Heimþrá...! veistu hvað heimþrá er? ] [ Augun geisla af fegurð. Brosið flýgur til tunglsins. kinnin biður um knús. munnurinn muldrar fallegustu tóna veraldar. Búkurinn ber og bjartari en hinn bjartasti dagur. Bossinn blautur en fagur. Lappirnar laglegar en mjúkar. tærnar tindrandi boltar.... meiri fegurð þekkist ekki....... .....GLÓEY..... ] [ Hvar verður maður meira einmana en í fjöldanum. Einmana innan milljón manns... flestir eru einmana í stórborginni. gráttu..það sér það enginn! ..það gráta svo margir. öskraðu..það heyrir það enginn! ..það öskra svo margir. ef þú deyrð, þá skiptir það ekki máli, það deyja svo margir! ] [ Í augum flestra er dögg... laufblaðið lætur hana ekki falla... græna laufblaðið heldur stolti sínu, með dögginni. Í raun er laufblaðið, gult, brúnt og rautt, en fólk sér það grænt.... horfir ekki á döggina, vegna þess að í augum þeirra er líka dögg sem þau hylja með brosi svansins. ] [ Ég flet kerlingar á götum Londonar. reykurinn og mengunin meiðir almúgan... sem fletur feitar kerlingar í sveittu göngulagi.... undir bolunum er sviti almúgans innikrógaður eins og mengunin, sviti Londonar sem kemst ekki út úr bolnum. ] [ hver er betri vinur en mín fyrrverandi? ef ég segi mín fyrrverandi þá mun döggin falla og laufblaðið gulna og svanurinn lækkar flugið og breytist í snjótittling, en ef ég veit að hún er minn besti vinur þá hækkar svanurinn flugið og breytist í BOING 747 og flýgur beina leið í litla húsið niðri í miðbæ, og kyssir hana beint á munninn. En það er ekki auðvelt, því hún hefur fundið sér nýjan svan. ] [ Löngu nefin hafa gefist upp og auglýsa lýtaraðgerð og kalla það The northern Look. Hvar er stoltið, hvar er svanurinn, ekki í betlaranum, heldur í svaninum sem er stór....hvítur...sterkur víkingur sem sveiflar vængjunum og ÉG brosi og veit að ég er svanurinn. Svanurinn sem á fjölskyldu. Svanurinn flýgur upp, kyssir snjótittlinginn bless og lætur döggina falla í Atlantshafið á leið sinni til Íslands. ] [ A. Aldur alda, líða og líða, afi, amma, pabbi og mamma, aldur alda líða og líða, kynslóðir bætast við og við. En núna í nútímanum eru: B. Brjálæðingar, bombur, blis og bull, brenna, borgir, björg og börn, biðja, bíða og borga fyrir blindan böll, bílar, búðir, bæir, burstir, brenna brjáluð börn, brynjur bresta og brjáluðu börnin búa til BlÓÐ..BLÓÐ! C. Cresendo, cresendo, centilítrar, centímetrar sökkva í djúpan sæ. Coloradofljótið hverfur, kristnir menn kalla: Credo, credo , sem er upphaf biblíunnar, centa já milljónir centa af mannkyninu drukkna en það er um seinan. D. Drepnir, dánir, dauðir eru, dátadyr dauðans ná, detta dauðir dátar djöfuls, dýrðlegt dautt dýr drepst á slá. E. Dyrnar eldast, en ellin er ekki til, eldur ergist og endur missa il. F. Fæðist frelsari, frelsar fíflin, friðinn fær fallegu liðin, fer fjörðinn, fer firðina, fer fingri fram, og frelsar frelsarinn stríðin. G. Finnur góðan grán grána, gengur á grána yfir ána, góður gráni gullið gefur, gamli gaurinn gott málefni hefur, galdurinn geymist er hann sefur. H. Hatur hitnar, hiti hlínar. Hefur hjarta slokknað og óhlínað, hendur haldast saman, fastar, fastar og fastar. og hatur hitnar, hiti hlínar, detta dauðir dátar djöfuls, drepnir dánir dauðir eru. I. Illur imbi inn i yfirvöldin kemst, yndi, ilmur og yndisleiki skemmist, ilmur dauðans eykst. J. Jólin, já jólin í Júgóslavíu jörðuð eru jólin þar ei haldin eru. K. kaldur kuldi kólnar og kólnar, kælir kommúnistana til bana, kveiknar þar kveikur til kaldra kola, komið, komið, það kemur friður! Fæðist frelsari færir þeim friðinn og kalda landið heitir Króatía. L. Lánsamt lýðveldi, lokaðar dyr, leikur einn að mynda frið, en leiknum lýkur, ljósið lokast. M. Meiðir , miðar, molna myndir, MENGUN! missir móðinn, MYRÐIR, með meira, meira stríði myndast móða á lýðveldisdyr. N. neitar, nöldrar neðar og neðar, nær alla leið niður á endan. Nýnasistar nota nýjar leiðir, nota ónotalega nútimann, til að gera heimsendi. O. Olgur ormur, inn í húðina kemst, opnar og rífur, nú hafa inneflin skemst. P. Píka, pussa, pungur, orðbragð versnandi fer. R. Reynir að rífa roð í ríkið, roðnar, roðnar og refurinn slítur. S. Staddur siður sýður og sýður, sofnar sefur, sefur lengur og lengur. T. Tíminn tefur, tjónin tendra, togandi áhrif á tímann: Nýja tímann. U. Undur undra urðin eyskt, undir þyngslunum mannfjöldinn er, undir er maður sem ekkert sér. V. Vont, verra, verst, vondur vetur verri er. Þ. Þungt, þyngra, þyngst, heimur versnandi fer. Æ. Ærin skælir ei, ærin ælir ei, ærin drepst, æ,æ lífið ei hefst. Ö. Öndvegi alda líða og líða, eitt sinn var líf sem gat lifað og lifað. Ísöld, fornöld, steinöld, nýöld, tækniöld, heimstyrjöld. ..............HEIMSENDIR! ] [ Eilífðin er þar sem sól og haf mætast! ] [ Af ást og alúð ég aðhylltist þig algjörlega, ábyrgur sem arkitekt lífsins, ástfanginn sem áhrif áfengis. Blóm og Biblíu ég bauð þér, í blómabaði þú baðaðist, ballet dans, bajó tónar, brauð, blóm, biblíu, líkama, ást og trú. Billjón, blessun, blíðu, bragð, brjóst og fallegt brost þú gafst mér. Ég beið og beið, eftir endalausa bið, endaði mín bið eftir þér, eilífðar eitur þig erti og tók frá mér. því þú fallega Freyja, sem fögur fórst með bros á vör, ég finn ei mikið er að segja, en frúin skyldi eftir sig ör, ör sem er föst í mínu þunga djúpa hjarta. Gaman var glaumur og dans, greiða gafstu, en þú, þú fórst til hans og eigi vel svafstu. Hvorki hatur né góðan hug hann þér gaf, heldur hatur, hatur sem henti þér í dauðanshaf. Ilmur af yndilsegri mey sem fór á ranga braut, sey, þey, sey nú þú sefur köld og blaut. Já á járnbrautarstöðvum undir jörðu niðri, baðar þig í skítaböðurm ei ertu síðri. Komdi, komdi ég kallaðir ætíð til þin, ástin hví komstu aldrei til mín? Þú varst lokuð bakvið lás og slá lögreglan þig tók. Reyndir að leyna lífinu, leikur hans í slitinni brók. Meira, meira, eitur etur, meiðir sjálfa þig eins og þú getur. Öskrar og æpir : HANN ER SEKUR! já hann er sá er líf þitt tekur! Neitaðir og nöldraðir sem norn í myrkri fórst og föndraðir fíkn úr birki. Olgur ormur, inn í húð þína kemst, opnar og rífur, nú hafa inneflin skemmst. Reynir að rífa roð í líkið, roðnar, roðnar og líkið slítir. Líkið sefur, sefur vært, suðar hljóð og loft er tært, ástin nú hef ég þig sært, og stóran stóran grikk þér fært. Tíminn tifar og tortryggir mig, tómur, ómur hvíslar: ÉG DRAP ÞIG! Ung og unaðsleg meyja undir urðum sefur ég sem reyndi ást mína að túlka þú varst bara lítil stúlka. Voðaverkið virðist unnið, vont og skelfilegt, bráðurm verður líkið brunnið, þetta er hræðilegt! Æ,æ,æ,æ,æ,!!!! Öldin er búin, lífið er búið, nú er ei aftur snúið, en ég hlæ! hví skyldi ég hlægja? Þú fórst og síðar dóst! Sá hlær best sem síðast hlær, hugsaði ég vitur maður, hver hlær í dag, hver hló í gær? Hver fær að deyja glaður? ] [ Er sá sem er segir hann drottinn konungur kristur hann valdið hefur og veit það vel því konungurinn er jesus kristur himninum hærri eru þeir hugsanir þínar og vegir allt skal undir hans fætur lagt því hann er hæstur sá sem sigrar allt jesus kristur heitir hann náðarkóngurinn góði hinn eini sanni drottinn minn er hirðirinn góði ég vona að þú finnir hann sjálfan frelsis höfðingjann þá opnast munu augun þín fyrir kærleika og þekkingu. ] [ Þetta er svo skrítið ég hugsa til baka þetta var annað og allt öðruvísi, en ég bjóst við. Fyrst langaði mig, þér að segja: \"Þú er sú sem ég dýrka og dái, lýsir upp tilveru mína, ég þig held að ég þrái, má ég ganga að eiga hönd þína?\" En þetta er ekki það sem bjóst ég við. Þetta er rólegra, óskiljanlegra en samt sem áður einfalt. Þetta er líka betra svona öðruvísi. ] [ Í gegnum silfurgráan reykelsisreyk speglast eitt regnboga andlit. Með varir hins saklausa barns, nef hinnar follkomnu konu, augu alheimsins, enni eyðieyjunnar, hár hafmeyjunnar, hús silkisins, bros hinnar vængjuðu hugsunar, losta kynhvatarinnar, ósk hinnar barnslegu hugsanar, traust sálfræðisngsins, fullkomnun fallegu ímyndanna, í gegnum silfurgráan reykelsisreyk sést mynd úr fókus... reykelsið brennir niður og myndin sem ég sé öðlast fullkomnun hins dásamlega fallega lífs, myndin sem ég sér ert þú. ] [ Hugsið ykkur ef allt breytist og fyrirsætur væru ekki 12-20 ára heldur 70-90 ára. Myndi maður ekki hlakka örlítið meira til elliáranna? ] [ Dropinn drýpur, sorglegt andlit, í vatninu flýtur, og speglast þar, barns andlit ] [ Í miðbænum býr köttur sem spilar vist. Og gömul kona sem hugsar um það sem hún hefur misst. Í miðbænum búa skrítnir álfar og moldarbrún tröll. Og líka einmana páfagaukur í gylltri höll. Í miðbænum festast flugurnar í krómuðum vef á meðan ég ligg á götunni og sef. ] [ Þó það sé aðeins athöfnin sjálf. Það að endurskapa. Fæða hlutina inn í formið. Ráða í rúnir umhverfisins og láta augun liggja þétt að líkama þínum. Í þínum heimi, handan glersins þar sem hreyfingar eru bundnar áföstum ramma eðlislögmálsins. Orð mín, sem ég hvísla, berast aldrei hálfa leið heldur farast langt frá hugsýn þinni. Þú ert útreiknanleg eins og einföld formúla. Og jafnvel þó þú sért ljót ertu tilvonandi, verðandi, vonandi hugmynd. Skýtur upp kollinum. Dregur til þín svifið í einum andardrætti. Horfin úr ramma. Varstu sköpun mín sjálfs? Óræð og leiðinleg á leið niður Bankastræti. Áföst myndinni frá eirðarlausum degi. Helgimynd hins óskírða. Dropi lostans. Og slangan sem færði hreyfingar sínar í sandinn. ] [ Þegar fyrstu droparnir féllu og gárurnar báru óm hafsins að eyrum hans dró hann upp netið og lagði af stað í átt að landi ] [ Einn daginn velti ég því fyrir mér hvers vegna hlutir eru kallaðir þessum nöfnum. Ég ákvað að hefja uppreisn og vera dálítið öðruvísi. Þegar ég vaknaði þá ákvað ég að kalla rúm, hús. Því næst fékk orðið klukka nafnið rúm. Ég settist niður og kallaði stólinn vekjaraklukku. Síðan klæddi ég mig í fötin sem hétu þá stólar. Ég gekk um gólfið sem ég kallaði dyr, opnaði dyrnar sem voru þá gólf og gekk út úr húsinu sem hét þá rúm. Svona leið dagurinn og vinnufélagarnir urðu órólegir. Seinna sendi fjölskyldan mig á Klepp. Dagarnir liðu og ég gafst ei upp, þetta var stríð, ég gegn hinu hefbundna máli. Á Kleppnum er minn hefbundni dagur svona: Ég vakna á húsinu og slekk á rúminu. Síðan sest ég á vekjaraklukkuna og klæði mig í stólana. Ég geng um dyrnar og opna gólfið og geng út úr rúminu. Má maður ekki vera öðruvísi? ] [ Án þín er ég ekki neitt. Þú ert mitt bensín. Þegar þú ert langt í burtu þá sit ég og ég er stóllinn. Aðgerðarlaus. ] [ Hjarta mitt er rauðara en rós, ný útsrpungin. Hjarta mitt er líka útsprungið! Passaðu þig... Ég sái ástarfræjum, glampi í augunum, ó, þú, ó, ást, breitt bros, breiðara en vængir svansins. Bros bara upp í loftið. Loftið opnast út í hið óendanlega. Ég svíf af stað í náttfötunum mínum, upp í stjörnuhulinn himininn. Baða mig í norðurljósunum, tennurnar sjást því brosið er svo breitt. Ég horfi niður til jarðar og sé húsið mitt verða minna og minna, og loks verður jörðin minni og minni. Ég svíf hærra og hærra. Hálfóttasleginn! Loks dett ég út úr himinhvolfinu, niður á eldhúsgólf þar sem risavaxin hjón eru að skoða kúluna..himinhvolfið....ykkur. Vúbbs, elskaði ég of mikið? Það mikið að ég flaug frá ykkur! En hvar ert þú ástin mín? Elskaði ég þig sem sagt meira? Loks dettur rykkorn af kúlunni. Þetta ert þú. Við knúsum og náum ekki andanum vegna gleði. Núna erum við bara tvö í okkar örveruheimi. En það er allt í lagi. Ég elska þig. ] [ Hræðsla og innilokun, hjartað slær hraðar, kennarinn hlær,.. ...hlær af mér.. Ekki láta mig svara nú, já þú! Ekki gera lítið úr mér, hvað finnst þér, er ég ömurlegur nemandi? Að fela sig er óþægilegt, það er óbærilegt, að komast undan, ég umbreytist í maur svo þú sérð mig ei, en ég kemst ei undan, þú sérð mig! Maður sést alltaf í litlum hóp, því miður! ] [ Sefgrænt eyðiland undirdjúpanna velkist með straumunum í máðri ljósbirtu öldutoppanna Mitt á milli má sjá steinana þar sem þeir flöktandi kastast til og frá Óraunverulegir líkt og þú sem starir oní hyldýpið og býrð til heim ósnertanlegra orða ] [ Þegar nóttin sækir á fara tröllin á stjá. Drepa menn og kindur þjóta um sem vindur. Klífa fjöllin há til mannabyggð sjá. Galdra fram feiknar byl, senda fólkinu til. Þjóta niður hlíðar stórar og víðar. Hoppa yfir gil rífa upp húsa þyl. Bóndi griða biður þau berja hann niður. Öllu gulli stela stinga börn og fela. Aldrei kemur friður, þetta er þeirra siður. ] [ Á morgun mun ég losna, mála bæinn rauðan, kyssa jörðina, kólna og frosna, kyssa sjálfan dauðan. leggjast svarta steypu á, sjóðandi að þorna, heit seypa sem hitna má, henda sér í hana nýáborna. Ekkert segja, bara þegja, og deyja. ] [ Þegar nóttin kyssir svefninn og augnlokin eru dregin niður verður bæði dimmt að innan og utan. En skyndilega kveiknar ljós í hjarta sem vasaljós og leiðir mann út úr myrkrinu. Þá fyrst færðu almennilega hvíld frá realisma samfélagsins. Þá ertu ekki að reyna að koma þér á framfæri, heldur snýst allt um þig. Þú ert miðdepill draumaheimsins í súrri náttúrunni með öllum þeim sem hjartað tekur utan um. Vonandi rætast allir þínir draumar og hið súra verður að veruleika. ] [ Kertið brennur sem sál að svitna. Vaxið rennur sem nál að stinga. Kertið minnkar eins og lífið að líða. Kertið brennur út og lífið slökknar og manneskjan deyr. ] [ Augnlokin eru opin upp á gátt, augnlokin ei fara niður, í hausnum mínum er gargið hatt, hávaði og eilífðar kliður. Af hverju í fjandanum ætíð friður, friður alla tíð? þetta er skrítinn fáránlegur siður, ég vil stríð! Ekki ætíð vera að færa gjafir og gefa, þið þurfið öll að læra, það að berjast með hnefa. Blóð og brynjuklæddir menn, rautt blóðbað, einn og einn kveður í senn, að kynnast sorg, lærið það! Grátið og kveljist í sorg, gleymið hinum tíma í Reykjavíkurborg og lærið lífið að glíma. Grátið í kvalarhungri, hermenn munu berja og slá, neuðga telpu ungri, af henni lífið hrifsa frá! Lærið að sjá fegurð í hinu illa, berjist, drepið ég vil blóð. Hið góða mun ætíð spilla, hættið að vera góð! ég er sjúkur, ég er auðmjúkur, ég slekk og ég STEKK! ] [ Það horfir bara sísvona á okkur úr lítilli sundlaug eða reyndar litlum heita potti. Ótrúlegt að líf geti myndast og orðið að fullþroska manneskju sem gæti seinna íhugað það sama. Einn punktur sem sannkorn alheimsins. Seinna má greina höfuð, búk, hendur og fætur. Vikur líða og nú má greina andlit, brjóstkassa, fingur, og tær. Tárin sem mynduðust er fréttirnar bárust þornuðu á borðinu sem ég sit nú við brosandi! Þvílík gleði, ég held ég sé að springa sem kjarnorka, springa úr spenningi, hven´r lærir hún að synda og syndir til okkar. ] [ Upplífgar, Upphefur, Upp dimmuna dregur, sál líkama kveður á meðan þú sefur. Hiti og kuldi í húminu blandast, meðan þú lifir þegar þú andast. Þegar þú stendur við dauðans dyr, verður erfitt að lifa og vera hér kyrr. Líkaminn slokknar og leggst undir jörð, nú sál syndir í andanna hjörð. Þú leitar að ljósi í himninum svarta, En verður að finna það í þínu hjarta. ] [ Líttu á auðinn sem inní þér býr og sjáðu hvað dauðinn er kaldur og dýr. í lífinu gildir það satt best að segja að betra er að lifa en auðnum að fleyja nú styrjöldin hefst við sjúkdóminn skæða hann kannski tefst en skjótt fer að blæða sálin hún hvefur með vaxandi húmi því sigur er unninn og nár er á rúmi ] [ Ég lifi í dag en ég dey á morgun, huganum drekki í eintómum sorgum. í syndanna flóðið ég sokkinn er djúpt, lífið sem áður var fallegt og ljúft. Vonin er horfin því líf mitt er farið, sýkinnar djöflar hafa sál mína barið. Mér leiddist að lifa í heiminum sjúka á endanum ákvað ég lífinu að ljúka. ] [ Ávalar línur á líkama þínum blíðar og mjúkar með yljandi brýnum útbreyddir dúkar við drottningu krýnum svo ástin stemmi ei að ósi ] [ þú átt líf þú átt hníf þetta er alltof einfalt ?????????????????????? ] [ hjúskapur er kvöl og pína ekki hentar öllum vel ungum meyjum ætla að sýna ekki sjálfan mig ég kvel ] [ Sá bjarmann af brosinu Blíða og skæra Sá mynd af minngu mjúka og tæra en við þetta atvik þá tókst mér að læra að betr´er að elska en sjálfan sig særa Ég huga um andlit Sem áður ég hafði Og ást sem í hjarta mér hugsunum vafði hitinn af brosinu bjarta var endir á myrkrinu svarta þú tókst mig til baka og sýndir mér ást mig gerðir að maka en blekkingin sást þú!! skalt svara til saka ] [ Ástin er eitt hatur er annað Ástin er heit hatur er bannað Ástin er minning liðinnar stundar Hatur er styrjöld sem inní þér blundar ] [ Í LÍFINU ER ÁST ÁSTIN LÆTUR FÓLKI LÍÐA VEL MÉR LÍÐUR VEL VEGNA ÞESS AÐ ÉG Á HJARTA ÉG Á ÁST MEÐAN ÉG Á ÞIG ] [ Ég geng um götuna með hjartað mitt í fötu og leyfi fólki að skoða það, strjúka því. Sumir eignast meira að segja hlut í því... stundum taka stúlkur hjartað mitt upp úr fötunni, faðma það og kyssa blautum safaríkum kossum. Það ratar sem betur fer alltaf aftur til baka ofan í fötuna....nema.... um daginn þá var ég að ganga niður bankastrætið, það kemur stúlka á móti mér og án þess að spyrja tekur hún hjartað mitt og hleypur í burtu. En það er allt í lagi því að ég tók hjartað hennar úr fötunni sem hún var með. Ég vona samt að ég finni hana aftur þá getum við sett hjörtun í eina fötu. Sameginlega fötu og sett á hana lok lífsins. ] [ Saknirðu mín þá er ég tárið sem glitrar á kinn silfruð morgundöggin á rósarblaði þýður sunnanblærinn á sumardegi sólargeyslinn sem læðist inn um gluggann þinn ég er allt í öllu og allt í kringum þig. ] [ Sofðu sofðu húm að jörðu hnígur hýrleg stjarna tindrar himni frá hljóðlátur næturprins af dúni stígur dreifir mánasilfri þér um brá. Mildir draumar mjúkt um hug þinn líði meðan nóttin tefur dagsins ljós en er morgunsólin gyllir vötn og víði vakna ljúfa,vak mín hjartans rós. ] [ Mild og fögur morgunsól mót þér faðminn breiði ég henni ástargeislann minn fól svo veginn þinn lýsi og leiði. ] [ Kvöld kyrð dapurs manns, kvelur sorgmætt hjarta. Tár tímans, tifar, hylur hið svarta. Sviti sorgarinnar, sálina skelfur. Leikur lífstíðarinnar, lynast og hverfur. Hjartsláttur heimsins, hemlar, staðar nemur Söngur svefnsins, sofnar, sefur. Sefur lengur og lengur. ] [ Lengst í leyndardómaveröld, lýsir halastjarna. hingað hún skín, HALE BOB. Fyllir hjörtu allra barna. Hún geysist um geiminn, gul og fegurðarrík, ljós sem lýsir heiminn, er þó liðið lík. Fyrir mörgum milljónum árum, úr óendanlegri fjarlægð, fylltist stjarnan tárum og fær nú fyrst sína frægð. Nú fjölskyldurnar á bílunum þjóta, út í sveit og kyrrð, þau fegurð hennar njóta, við mannskepnan, stjörnunar hyrð. Halinn langur, stjarnan skær, halinn langur gangur, og lífsins kær. Maður fyllist löngun, í að vita meira og meira, við með fjölmiðlaböndum, vitum fleira og fleira. ] [ Þegar lífið slokknar, þá sorgin inn skýst. Oft þá andlitið blotnar, því sorginni engin orð fá lýst. Sorgin eftir skilur í hjartanu holu, sem ekki er hægt að fylla upp í með vind golu. Maður getur ekki verið hennar þegn en þó vill hún fylgja manni lífið út í gegn. Loks kemur gleðin, þá birtir til, svo jafnvel við dánarbeðin, er hægt að kunna á því skil. Gleðin sorginni burt víkur, þannig að henni um tíma lýkur. Bros og hlátur hlutar af gleðinni eru og hún er stór þáttur í okkar tilveru. ] [ Vonin og draumurinn eiga margt sameiginlegt bæði byggjast á að einhvern langar, en veit að ekki er víst að rætist nema ef til vill og kannski, einhvern tíma. Þetta orð sem kemur aðeins upp í huga fullan af draumum og vonum, því það er svo fjarlægt að aðeins í draumi það virðist nálægt en aldrei í þessum annars harða heimi. ] [ Vinir eru eitt af því sem aldrei má aðskilja, vináttu má aldrei í mola mylja. en vináttuna styrkja þarf, svo aldrei myndist milli vina skarð. Þeir sem vin sinn vilja særa, þurfa margt í lífi að læra. Vinir þurfa traustir að vera allan sársauka þeir saman þurfa að bera. Sannir vinir alltaf hvorn annan að eiga þurfi þeir að þola margt, geta þeir frá öllu við hvorn annan sagt. Þá þeir saman standa,óvinir þeirra geiga. Vinir eiga góðar stundir saman sem í minningunum geymast, þeim þykir það mjög gaman, ef þær ekki gleymast. Ég þakka allt sem þú fyrir mig hefur verið að gera, vonandi get ég verið jafn góð við þig og þú góður vinur ert búin að vera. ] [ Í dag er Dagurinn hans sem öllu breytti Hægt, en markvisst á stuttum fimm árum hefur þroski hans þroskað mig fullorðið barnið Við tveir eigum afmæli í dag ] [ sestu hjá mér, leyf mér að halda í þig neita að sleppa þér fyrr en þú hefur hlustað. horfðu í augu mín tárvot af depurð yfir því að mér finnst sem þú viljir mig aðeins í öðru formi leyfðu mér að gráta í faðmi þínum leyfðu mér að fá útrás fyrir tilfinningar mínar leyfðu mér að segja þér hve mikið mig langar að láta þig hætta leyfðu mér að segja þér hvernig mér líður leyfðu mér að biðja þig að opna þig aðeins leyfðu mér að biðja þig að mæta mér á miðri leið sú ósk sem ég get aðeins gefið þér og engri annarri er sú ósk sem ég get engan veginn fengið af mér til að óska hættu að líkja mér við aðra hættu að biðja mig að vera svona hættu að biðja mig að vera hinsegin hættu að reyna að breyta mér ég er sá sem ég er, og enginn annar og ég elska þig fyrir það sem þú ert ekki það sem ég vil að sé sért Mættu mér á miðri leið og við finnum vonandi eitthvað út úr þessu ] [ ég andaði á glugga teiknaði myndir af fiðrildum á flugi í móðuna tók mynd af þeim sendi þér ef þér líkar hún ekki láttu mig vita þá mun ég stroka þau út ] [ Tvíhenntur, þvermóðskan skyggir á heimssýn mína. Ákafur, klifra mér leið inn í heim dirfskunnar. Sólin skín, á bak mitt og brennir. Ég er fyrndin. Sífellt ærnari. Sífellt háværari. Sífellt verri og betri á sama tíma. Klukkan tifar og sekúndurnar fjara út. Ég og eilífðin eigum ekki samleið. ] [ Fell, jörðin nálgast óðum. Fell, ég hef enga stjórn. Fell, ég hef enga björgun. Fell, ég sé líf mitt í Fast-Forward.. ..fjara út. ] [ Murgóar frá landamæri til landamæris, þeir koma fyrir hönd Kal-Toraks, Afhverju? Dugir blóð Thullanna ekki lengur? Dauðinn fylgir þeim. En heimska þeirra tryggir andstæðingum þeirra sigur, nú sem endranær. Grolim, Grolim, Grolim. Fórna eigin hershöfðingjum á altari græðginnar. ] [ Ónæði, frá mér til þín! Ég sel sálu mína djöflinum, fyrir skitnar 700 krónur á tímann. Ég er illur. ] [ Í rökkrinu rjáfar þú, reiður en samt ekki, veist ekki hvert vegur liggur, ætlar bara að finna þig, sjálfan þig. Tíminn virðist standa í stað, stingandi í þitt hjarta, veist ekki hvert vegur liggur, ætlar bara að finna þig, sjálfan þig. Að lokum springurðu í loft, lítur í allar áttir, Þá sérðu hvar vegurinn liggur framundan, Þú finnur þig, sjálfan ÞIG: ] [ Í húmi nætur heyrist hlátur, stúlkan segir sögur. Söguna af vindinum og laufblaðinu sem stóð á sama. Söguna af barninu sem trúði ekki á sorgina. Söguna af húsinu sem sólin elskaði og tunglið þráði. Sögur af gleðinni sem var nauðgað af einmanaleikanum. Og það dagaði. ] [ Ég stóðst ekki lækjarniðinn og leyfði læknum að faðma mig, ég vissi að sólin myndi þurrka mig. Þú kastaðir steininum en hittir ekki og veröldin breyttist í ljóshaf úr gylltu regni. ] [ Skildu betur, gerðu betur, úti ríkir dimmur vetur. Uppúr hel hugsanir kaldar skríða og segja að tilfinningar kvaldar betur séu færðar í letur. Bullar í pirruðum taugum, gín við sárþreyttum augum svart á hvítu að ég er api. Því margniðurskorinni og veltri upp úr forinni, vitglóru ég held ég tapi. ] [ Með kalið hjarta geng ég grýttan veg torskilinna hugrenninga og brenni að baki mér brýr. Krossfest af eigin kynhvöt, bak mitt flakandi sár eftir svipuhögg dómharðra augnaráða. Gef Barbie fingurinn, ég mun aldrei búa í Grafarvogi! ] [ Það var einu sinni uppspretta sem úr streymdi ilmandi Ekkert. svo fíngert og hrífandi, svo einstakt. Þúsund augu fylgdust með Engu, agndofa af aðdáun á nýstárleikanum, þau höfðu aldrei séð Neitt þessu líkt. Ekki neitt óx og óx og mátturinn og dýrðin máttu sín lítils, blindandi ljómi skyggði á allt sem var þar til enginn sá lengur Neitt sem varð að engu. ] [ Ein lítil tilfinning í tilveru, dauðadæmdri af vonlausri þráhyggju. Eitt lítið ósagt orð, sker hljóðhimnurnar að innan. Held fyrir eyrun, held því föngnu í hausnum á mér. Ein lítil manneskja ófær um að treysta, dreymir um tilfinningar úr tefloni og taugar úr latexi. ] [ Þögulla en mig minnti, herbergið sofnaði víst rétt á eftir mér. Veit það vaknar um leið og þú. Ég vaknaði við hávaðann, í draumnum mínum. Heyrðiru hann líka? Ætlaði ekki að vekja þig, heldur einungis leyfa augnaráðinu að leika um þig. Strýk lausu hendinni yfir hárið á þér. Fel hina hendina sem heldur ennþá í drauminn. Ef ég byði þér, skyldiru vilja hann líka? ] [ Í óræðum lit birtist hálfgleymdur heimsendir æskunnar sem sena í lélegri bíómynd. Hljóðið sem dó þegar ég öskraði því afturábak gleypti það í mig, kyngdi. Það sveið mig í hálsinn og ég táraðist þá. Horfi í spegilinn í dag, hann tárast ekki. Horfi í spegilinn og grátbið um fyrirgefningu syndanna. ] [ Hugurinn, þoku dulinn. Þeysir, stjórnlaust afram þó. Ég sé, þig í draumi hulinn. Yfir mig, fellur ljúf sálarró. ] [ tíu mínútur án þín eru eins og 12 mínútur 12mínútur án þín eru eins og heil eilífð ..komdu aftur ] [ Hvert á fætur öðru bítur dreyra neytir nægju fær. Skugga lifir ætíð undan sólu hverfur aldrei sér. Daga langa dvala bíður nóttu eftir þráin langa. ] [ Innan um tignarleg bárujárnshúsin stendur gleymdur tindáti. Og dreyminn köttur sem tilbiður guð sinn læðist þar hjá. Gömul hjón með gamla poka ganga varlega upp gamalt stræti. Á meðan döpur stúlka drýpur höfði og skoðar litlu-tá. Og andgustur andvarans hreyfir vart við hári tindátans; einn stakan morgun í borginni reikjavík. (ég meina reykjavík) ] [ Hvert skref tekið í örvæntingu. Í voninni um að fóturinn gefi ekki eftir, en vonin er laus við traust. Brátt mun hann gefa eftir og við munum steypast í jörðina. Í þúsund brotum, munum við liggja í jörðinni og óska að við hefðum aldrei tekið okkar fyrsta skref. ] [ orð bara eitt, hvíslað gefur lífinu tilgang. á meðan næturnar kólnuðu sendir þú mér skilaboð sem ég misskildi. Stanslaus niðurinn af vatninu heldur fyrir mér vöku, á meðan ég hefði átt að dreyma Um þig. Orð, Bara eitt, hvíslað, hverfur inn í almannaróm. ] [ Nálin sem snerti eldinn Glansaði einsog tignalegur gestur Þegar hún sótti blóð Úr æðum mínum. Blaktandi kertaloginn kastaði skugga, Yfir mín fegurstu ljóð. Skrifuð með lífsvökva, orðiðvilltar fantasíur, um reiðan Guð, og eitt andartak var ég þátttakandi. Aðeins eitt skref. Eitt skref og... Eitt skref fyrir hina lifandi. Eitt skref fyrir þá dauðu. Eitt skref fyrir mig. Og ég faðma vindinn. Útbrunnið kerti, brotin sprauta, og ég... ] [ Langt er nú liðið síðan ljós mitt skein, lést þú mig falla eins og ógæfu stein. Ekkert gat ég gert, þú vildir vera ein, grét ég mikið en þú sefaðir mitt kvein. Ég vissi það strax þegar ég þig sótti, þú varst ekki eins, það lagðist að mér ótti. Augun þín voru tóm, eitthvað hafði dáið, efinn hafði klárað síðasta ástar stráið. Ljós var slökkt. Ljós var slökkt. Ljós okkar var nú að eylífu slökkt. Ekkert var eftir nema óttans ómur, æpti mitt hjarta því kveðinn var upp dómur. Sál mín var særð, ég sá ekkert meir, svona hlítur það að vera þegar ástin deyr. Hvað hafði gerst svo þú fórst að horfa annað, hafði ég ekki ást mína fyrir þér löngu sannað? Ég þráði þig þá og ég þrái þig enn, en þegar ég sé þig þá ég að innan brenn. Þú varst mín ást, því ég þig geymi. mitt fegursta blóm í þessum heimi. Ljós var slökkt. Ljós var slökkt. Ljós okkar var nú að eylífu slökkt. Ekkert var eftir nema óttans ómur, æpti mitt hjarta því kveðinn var upp dómur. -Drengurinn 1999 ] [ Þessi veröld í dag, þessi dauða ganga, við höldum áfram sem hlekkjaðir fangar. Hvert lífsins barn sem fæðist hér, ekkert þess býður nema eyðinga her. Himinninn er fallinn, fór hann af braut, fjandinn sjálfur, þetta er hin versta þraut. Hið síðasta blóm ber hið síðasta fræ, allt verður búið ef það sekkur í sæ. Þá skal berjast, þá skal þjást. vont verður að koma, þá þekkir þú ást. Sýnum samstöðu, sameinumst öll, siglum áfram og vinnum okkar völl. -Drengurinn 1999 ] [ Fjandans fíknin yfir mig tók, fékk mér í haus og síðan kók. Keyrði ég af stað en á krakka ég ók, hvað kom fyrir, þetta var allt djók. Steig ég út úr skuttlu minni, sá ég þá, þetta var hann Binni. Blóðið rann, búkurinn varð rauður, guð minn góður, bróðir minn er dauður. Eitrið engum gott hefur gert, gloprar þú niður hver þú ert. Víman nú er orðin minn vani, var það þess virði, ég er bróður bani. Dreymdi mig oft um betri daga, dásamlegt líf þar sem ekkert þyrfti að laga. Ég reyndi og reyndi en alltaf ég hljóp, raunin var sú, líf mitt var orðið dóp. Er ég nú einn, fjölskyldan farin, fölur og magur, sálin öll marin. Þetta eina skipti, það að hafa prófað, það var nóg, ég hef öllu sóað. -Drengurinn 2000 ] [ Ég er sú mikla birta sem þú skynjaðir, er þú sást barnið þitt í hið fyrsta sinn. Ég er hræðslan sem þú fannst í brjósti þínu, er jörðin gleypti barnið þitt. Ég er reiðin sem logaði í augum þínum, er jörðin gleypti barnið þitt. Ég er sorgin sem braut hjartað þitt, er jörðin gleypti barnið þitt. Ég er tárið sem þú grést er þú vissir, að þú hafðir séð barnið þitt í hið síðasta sinn. Því ég er dauðinn, ég er barnið, ég er þú. Endalokin eru kominn -Drengurinn 1997 ] [ Og ormarnir skriðu um sál mína líktog liturinn grænn umhverfis grasið þeir nörtuðu hana í sundur á meðan bláeygð stúlka krítaði á vota stéttina. Þeir átu sálina í tvennt ásamt salti og ýmsum kryddjurtum og stúlkan krítaði mynd af mér með tálbláu augunum sínum. ] [ Þegar rigningunni slotar og sólin skín í augun á mér veit ég að ég þarf ekki að vita, ég þarf ekki að spyrja. Það eina sem ég þarf, er að skilja að þú ert mín. ] [ Á altari þeirra, blóðugar líkamsleifar Fólkið berst fyrir Guði sína Væri kærleikur ekki meiri hér ef enga Guði hefðum vér Fólkið þyrfti að treysta á gjörðir sínar og þrár Tapað orðið þykir mér að fólk einatt skipti sér á milli velda tveggja Palestína, Ísrael. ] [ Villtir draumar brjótast um inní mér. Mér er sama um allt. Ríf af mér hlekkina og brýst burt. Burt frá þessum hversdagsleika. Svíf á vængjum frelsis. Brosi til sólarinnar. Horfi á hina þrælanna á jörðinni vinna eins og skepnur. Svíf til tunglsins og kissi kallinn í tunglinu. Veifa stjörnunum og fer rúnt á halastjörnu. Hamingjan blossar inní mér. Ég er á hátindi veraldar öskra ég. Svo allt í einu missi ég vængina. Fell til jarðar á ógnahraða. Aftur í hlekki hversdagsleikans. ] [ Í dökkum skúmaskotum hugans eru hræðilegar hugsanir. Hugsanir sem ásækja mig líkt og draugur sem á einhverju ólokið í þessari veröld. Ég reyni að bægja þeim frá mér en þær koma alltaf aftur. Lítið barn sefur sakleysislega. Hann kemur og tekur frá því sakleysið. Eyðileggur sál þess. Það er djúpt tómarúm í hjarta þess. Grimmur heimurinn skilur barnið ekki. Enginn veit hve kvalið barnið er né hve hrottalegt það er fyrir það að dreyma. Hann tók burt sakleysið og skildi eftir rotnandi sál. ] [ Fólk segir að Tíminn lækni öll sár, en sál mín er eitt sárabindi. Hvað hef ég gert til að verðskulda þetta, allann þennan sársauka. Hjartað mitt þolir ei meir, það brotnað hefur nóg. ÉG bið þig Tími læknaðu mig, ég get það ekki sjálf. Kraftur minn er á þrotum, ég er að gefast upp. Hvað get ég gert til að lifa þetta af. Ég grátbið þig Tími læknaðu mig. ] [ Það kraumar sársauki í sál minni. Ég kvelst dag og nótt, mér svíður inní mér. Sársaukinn reynir að brjótast út, en ég loka hann af. Kvelst enn meir, þegar ég hleypi honum ekki út. Ég er að springa inní mér, allt er á tjá og tundri. Það er ekki stundarfriður fyrir sársauka. Að lokum gefst ég upp og spring. Græt þangað til ég hef ekki fleirri tár. Mér líður betur í smá tíma, en svo byrjar þetta allt aftur. ] [ Komdu út að leika við mig, elsku ástin mín. Ég skal gera hvað sem þú vilt, ef bara ég verð þín. Ég skal segja þér mína drauma og þrár, ef þú segir ei frá. Kisstu mig á kinnina, munninn ef þú villt. Líkaminn minn mun tilheyra þér, ef þú kærir þig um. Seinna fylgir sál mín með, ef þú verðskuldar það. Komdu nú og leiktu við mig, elsku ástin mín. ] [ Tjáðu þig sagði penninn. Skrifaðu með mér. Lýstu hvað þú finnur. Hvernig þér líður. Ég tek hann upp. Byrja að tjá mig. Skrifa mínar innstu þrár. Skrifa um ynnri baráttuna sem tilfinningar mínar herja. Skrifa um allt og ekkert. Ég stend upp og mér líður mun betur. Þakka þér penni fyrir að vera til. ] [ HJÁLP! Þetta skerandi orð berst að eyrum þeirra, en enginn kemur til hjálpar. Það er kallað aftur en annað orð. NAUÐGUN! Enginn þykist heyra í þessari rödd, sem öskrar þó svo hátt. Allri labba framhjá, þeir hvorki heyra né sjá. Þögn! Það er um seinan. Röddin er þögnuð að eilífu, lítið saklaust líf hefur verið numið á brott á hrottafengin hátt. Hvar var miskunarsami samverjinn? Hvar var Guð? Ég bara spyr! ] [ Ein ég sit og bíð, bíð eftir einhverjum eða einhverju. Vonsvikinn stend ég upp, labba niður með sjó. Finn hve sjórinn á auðvelt með að tjá sig, þar sem hann gælir við klettinn undir fótum mér. Ég finn til með sjónum, þegar hann segir sögur sínar. Sögur af þeim sem hafa þurft eða kosið að lifa með honum. Ég finn volg tárin streyma niður kinnarnar. Ég fell niður. ÉG og sjórinn sameinumst. Verðum eitt, ég og sjórinn. Er ég kveð þennan heimskulega heim hugsa ég: Loks er ég komin heim. ] [ Kallaður á heiminn, æptu framan í himingeimið. Öskraðu á fólkið. Lifðu í þínum eigin hugarheimi. Skemmtu þér að vild, vertu þú sjálfur. Elskaðu, njóttu ásta. Fáðu það útúr lífinu sem þú óskar. Lifðu því útí ystu æsar. ] [ Ég sit og pæli. Pæli í öllu sem er nálægt, pæli í pælingunni. Er ég sit og pæli flýgur sú spurning í gegnum huga mér, hvað er pæling? Ég pæli í spurningunni, kemst að niðurstöðu. Leti, pæling er afsökun fyrir leti. Því ef þú pælir aðeins í þessu ljóði ertu ekki að gera neitt. En nennir samt ekki að standa upp. Gera eitthvað. Ég stend upp og fer út. ] [ Orðin klingja í eyrunum á mér, andlag frumlag og umsögn. Hvað er hún að röfla þetta kerlinga fífl. Ég veit ekki hvað ég á að gera við minn haus. Ég held að hann springi, og þá verður andskotinn laus. En áður en það gerist, rölti ég út. ] [ Ég er einmanna og leið. Mig vantar félagsska, og þú einn getur hjálpað mér. Mér þykir vænt um þig, ég get ekki lifað án þín. Augun svo þung, þau lokast og ég sofna. Vakna í örmum þínum, átta mig á að þú ert indislegasti vinur sem ég hef átt. Bara vinur. Samt elska ég þig. ] [ ÉG vil hlaupa út, fara burt. Eithvað heldur mér aftur, líkt og fjötrar. Kemst ekki nær, nær frelsinu. Tek eitt skref framávið, færist fimm aftur á bak. Ég öskra á hann, en ekkert heyrist. Spyr Guð hvað hann meini. Allt snýst, umhverfis mig. Loks brotna ég, brotna og hverf inní myrkrið. ] [ Þung og dimm þögn, ekkert. Ég verð hrædd, sé bara svart. Fikra mig áfram, leita að ljósarofanum. Hvar eru allir? Er ég ein? Finn hurðina, opna. Sé hvar allir liggja, dauðir. Allir sem ég hef elskað, farnir. Hvernig gerðist þetta? Græt mig í svefn. Vakna við öskur, það er hann. Hann hleypur í átt að mér, en stoppar. Fellur niður, blóð hans rennur til mín. Ég sé glitra í hníf, skríð í átt að honum. Sting honum í hjartað, fell niður. Allt er búið, við horfin. ] [ Þögn, það ríkir þögn í sálu minni. Endalaus dofi flæðir um mig, og líf mitt verður að engu. ÉG sofna, en vakna aftur á öðrum stað. Líkami minn er fullur af einhverju, sem ég kannast ekki við. Þó virðist það sjálfsagður hlutur, að líða svona vel og fallega. Engin þögn bara fallegur söngur. Engin dofi bara indisleg tilfinning. Ég hef fundið sjálfa mig á ný. ÉG sofna en vakna í venjulegu umhverfi. Svo endurnærð og uppfull af sælu. ] [ Tilfinningar heltaka mig alla, góðar og slæmar. Hatur og ást, vanlíðan og hamingja. Allt þetta berst um yfirráð yfir sál minni og hug. Ég ræð engu lengur, hef enga stjórn. Allar tilfinningarnar vilja koma upp á yfirborðið í einu. Ég brest í grát, æpi og öskra úr mér lungun. Ég vildi að ég væri ekki með tilfinningar. Ekkert virkar, þær berjast enn. Þetta er stríð sem enginn getur unnið. Ekki einu sinni Guð. Því án haturs er engin ást og án vanlíðan er engin hamingja. Þess vegna getur enginn unnið. Þær berjast enn... ] [ The pain on your face is my pain too. The tear in your eyes is my tear too. Your sorrow is mine. Every time you feel blue I´m sad. I wanna make you feel better. But I can´t. I don´t know how. But you have to know I´ll do everything to make your pain go away my love. ] [ Blóm lífs mins og hjarta míns sál ert þú. Þú steigst inní líf mitt og tókst mig úr myrkrinu. Þú hlustaðir á raunir mínar, tókst mér eins og ég er. Ég veit ekki hvernig ég á að þakka þér, en ég reyni þó. Þú ert vinur í raun ástin mín og aldrei missa þig ég vill. Vertu hjá mér alltaf og ekki vikja mér frá. Því þú ert vinur í raun og missa þig ei ég má. ] [ Rósirnar fölnuðu og sólin hætti að skína þegar þú fórst. Líf mitt féll eins og stjarna af himnum, brotlenti og brotnaði í þúsund bita. Sál mín gerði uppreisn, vildi ekki vera til án þín. Hjartað vill ekki lengur slá. Hvað gerðist er mér hulin ráðgáta. Ég veit aðeins eitt, ég er glötuð án þín. ] [ Þú fórst og tókst hjartað mitt með þér. Skildir það síðan eftir í ruslagámi, í þúsund molum. Traust mitt verður aldrei meir en þegar við vorum við. Nú er það ekkert til þeirra sem ég vil treysta. Sálin vill bara þig. Þú skildir mig eftir til að rotna, líkami minn er að gefast upp. Ég vill þig aftur... ] [ Ég fann sætan ilminn af rósunum. Sólin skein inn um gluggan minn. Þann dag varðst þú minn. Kirkjuklukkurnar ómuðu er við gáfum það heit að vera saman. Saman að eilifðu sögðum við. En nú er það allt búið, sólin skín ekki lengur. Rósirnar eru fölnaðar og hættar að ilma. Komdu aftur. ] [ Sólin skín inn um gluggan, en hjá mér er alltaf myrkur. Myrkrið heltekur mig alla, frá toppi til táar. Ég græt af hræðslu við myrkrið. Skelf af ótta við tilhugsunina, hvað ef sólin mun aldrei skína hjá mér... ] [ Þú lofaðir mér því að þú myndir aldrei yfirgefa mig. Að þú myndir aldrei særa mig. Ég gaf þér sál mína, elskaði þig af öllu hjarta. Einn daginn breyttist allt, þú hættir að elska mig. Það er ennþá sárt. Þú sveikst mig, ég er bæði særð og yfirgefin. ] [ Sársauki fortíðarinnar kemur uppá yfirborðið, heltekur mig alla. Sál mín er orðin veikburða af áreynslu við að loka fortíðina inni. En að lokum brestur hún. Sársauki byrjar að streyma upp á yfirborðið. Endalaust táraflóð rennur niður kinnar mínar. Ég verð svo uppgefin að ég sofna. Vakna með smá orku, sem endist ekki lengi. Þetta byrjar allt saman aftur. ] [ Það er stórt gat í hjarta mér, stórt tómarúm. Þessi tómleiki er það eina sem ég hugsa um. Hvernig get ég fyllt gatið? Afhverju kom það? Fer það einhverntíman? Hvernig sem ég reyni og hvað sem ég geri er gatið þar enn. Það fylgir mikill sársauki þessu gati. Meir en ég höndla. Tárin sreyma niður vangana. Ég öskra af sársauka, andlegum ekki líkamlegum. Ég er niðurbrotin af tómleika. Ég vil fylla uppí gatið með ást, hamingju og gleði. Hvernig fer ég að því þegar tómið myndaðist vegna ég elskaði og mikið? Svo mikið að ég þori ekki að elska aftur. Þetta er einn alsherjar vítahringur, gatið stækkar. ] [ Ég þrái það eitt að vera ekki hér Í örmum þínum liggur mín von Það er ekki neitt sem heldur mér hér Drottinn gefðu mér von von um einkvað sem heldur mér hér Bara einkvað, einhverja von ] [ Halló ertu að hlusta ég er ekki frægur en ég nota tíma minn samt í samræmi við fræga fólkið ekki svo að tímar okkar samræmist heldur til þess að ég fái það loft sem ég þarf ég er nefninlega smáborgari og þegar að smáborgari er orðinn uppfullur af heilnæmu súrefni og kominn með háa einkunn á öndunargræjuprófum þá verður sálin í honum tóm og augun syndandi líkt og fjöldinn allur af blaðsíðum stórskáldanna. Já smáborgarinn hann tekur mengaða loftið og magnar það upp, gerir sér úr því mat síðan innbyrðir hann það sem er næringarríkast en skilur hitt eftir handa fræga fólkinu þangað til það hættir að vera frægt og hættir að anda en ég anda ég anda með Bjögga og Didda Sibbu og Lóló Simma og Gústa pústa og hlusta á Kidda síðan hnykkla ég öndunarfærin og skrifa um sólina börnin og blómin kjólana lömbin og jólin fer út í búð og kaupi mjólk og kók sígarettur og svitaeyði og greiði mér í takt við nútímalegan jass. ] [ Einhvern veginn þá dregur hafið mig ekki til sín heldur er eins og ég verði frekar með skipstjórastæla í þægilegum sófum víðs vegar um borgina. Götuvitarnir segja mér oft hvert skal stefna einnig segja þeir mér stundum hreinlega hvar ég er. Öldur ljósvakans gera mig stundum sjóveikan en stundum sofna ég værum svefni við veðrið og hinar ýmsu fréttir af því. Já ég er svo sannarlega fæddur kapteinn því þegar ég ákveð eitthvað þá labba ég fyrst yfir tjarnarbrúna og læt síðan hina ýmsu háseta borgarinnar hreinlega stjana við mig reyndar er ég ekkert sérstaklega vandvirkur með höndunum, en hef afar næmt auga svo að þegar ég fer að fiska þá tek ég yfirleitt með mér tvo til þrjá þaulvana netamenn. Svo drekkum við náttúrulega tvöfalt á við landkrabbanna til þess að gleyma því hvað sjórinn getur verið ískaldur. Ástin hrellir mig ekki frekar en helvítis steinbíturinn en stöðumælavörðurinn sér oft um það að beina mér frá brautum þessarar ástar sem landkrabbarnir fá gjarnan á hvor öðrum. Ég get þó gengið hnakkreistur um í líki frændans og fæ þá gjarnan póstkort úr pakkaferðum fjölskyldunnar. Já sjómannslíf er ekkert grín. ] [ Bréf til mömmu (ennþá ópóstsett) Sæl móðir mín veistu það að áðan þá lá ég í götunni og braut í mér tvær tennur. Veistu afhverju? Það var af því að ég hélt ég hefði rekist á hliðarspegil á bíl, handan við hornið, svo þegar ég fór að pæla virkilega sá ég að það gat ekki verið að það væri ekki neitt sár, svo ég hélt í skyndi að vonda moldvarpan í ævintýrinu um Þumalínu ætlaði að nauðga mér í vetur og selja svo framtennurnar í mér á moldvörpumarkaðnum í Moldritz. En veistu hvað ég gerði? Ha han han ha ha ha ha Nú ég lagðist, eða réttara sagt lét mig dúndrast á hnakkan þannig að ég fann hvernig aumt olíusetlagið dúaði undir gatinu , sem myndaðist, um leið og gusturinn feykti svolítilli sandflygsu upp í það. Eftir þetta þá fór ég á hnén og gerði tvö brunagöt í jakkafötin mín svo öskraði ég “Hitler er sódavatn sem var goslaus af klámi”. Síðan fór ég úr fötunum skjálfandi og titrandi, en þó rólega og tók síðan afar skyndilegar ákvarðanir Hróp á við JÖBB! JÆÆLSKÚBBERÍANAÐÓ! Og RÚSSLÍAPORRALIMMIDÍ ! Ohh það var þá sem að pirringurinn stoppaði mig því ekkert er meira pirrandi fyrir ósköp venjulegan mann sem situr allsber á öngstræti heldur en útvortis blæðing rétt handan við fitukeppi hjartans. Ég engdist til af hræðslu og óróleika og í skyndi ákvað ég að ef að einhver helvítis moldvarpa í peningaleit ætlaði að slíta úr mér framtennurnar þá skyldi það aldrei verða. Ég rak út úr mér tunguna, beygði mig að malbikinu, og sleikti pínulítið. Það var ekkert saltbragð, eins og kindunum finnst svo gott, heldur var eins og að hundrað mínir líkir hefðu ælt á jörðina. Ég sleikti betur en var ekki viss svo að ég sleikti enn einu sinni. Nú kom það. Auðvitað var mín fyrsta hugdetta rétt því rétt eftir að mér varð ómótt eftir seinni sleikinn þá kom að mér gömul hóra og bauð mér tott með jarðarberjasmokk fyrir þúsund kall. Ég öskraði á hana eitthvað í líkingu við “Veistu það vina að sá viðskiptajöfur sem prísar ekki sinn eigin bisness gengur ekki upp heldur gefur sálu sína sem undirdráttarheimild og leggur við það fingraför sín.” Hún hló (, en einungis vegna þess að hún skildi ekki orðin,) þó ég reyndi að gera mig skiljanlegan á þá vegu að hún þyrfti í raun ekki að hafa meira en 4-5 sekúndna minni til þess að skilja mig ekki. En víst hún hló þá fór ég að tala við hana. Ég: Hvaðan ertu? Hún: Ég er frá þeim stað er hringsnýst í hausnum á þér Ég: Hvert ætlarðu? Hún: Nú til baka, aftur heim Ég: Ooogghhhh Ég: hefurðu séð einhvern æla hér í nágrenninu? Hún: (allt í einu birtist henn lítill samverji í sjiffon kufli) Hún: já passaðu þig maður-sumir eru vægast sagt ósnyrtilegir frá höfði niðrí tær og aftur upp í djúpi sálarinnar. Já það var það sem ég hélt, þessar vændiskonur eru einar þær hjálplegustu sem völ er á, um leið og þær leiða hugan að því hvaða gjaldmiðlar séu sterkir og hvar mennirnir eru veikir. Mamma eftir að þetta hafði átt sér stað þá byrjaði ég að brjóta þessar líka stóru og hvítu tennur með því að brosa líkt og Bandaríkjamaður á meðan ég barði þær í þúsund parta á ókunnugri stétt í fjarlægu landi. Æi mamma annars er bara allt gott að frétta. Kær kveðja. Barnið þitt. ] [ Sitjandi við lampan allur þreyttur laus við glauminn lunkinn við dömurnar, óraunverulegar með skuldir í skónum og bólur í hausnum naga skít af óþekktum íslendingum af nöglum mínum annars staðar annar eins önnur eins, vonandi sæt ég verð að fá gleraugu sitja og standa með þeim segja já auðvitað og þurrka af þeim móðuna djöfulsins sjónin fuglarnir sem ljúga halda að ég noti gleraugu því þeir lesa aðeins óskir mínar en þeir vita ekki að það eina sem ég sé er að þeir eru að ljúga Afhverju get ég fullur af andagift hlaupið í æðiskasti upp skólavörðustíginn bara vegna þess að ég held að ég sé loksins orðinn frjáls svo kemur Hallgrímskirkjan á móti mér og segir: Í mér geturðu grátið, hlegið, legið og látið lífið en frjáls verðuru ekki ekki nema að þú hættir að hlaupa svona eins og einhver djöfulsins asni. Ég sný við og leyfi hjartanu að jafna sig á meðan ég hamast við að elska skólavörðurstíginn Svo kem ég heim og fer í bað þar sem ég fleyti mér á andagiftinni um stund þangað til ég sturta henni niður og þurrka af mér sjarman sest niður og fer að hugsa á ný um leikni mína við óraunverulegar konur. ] [ Fyrirgefiði væmnina en er ekki kominn svolítill tími for ðí klassíks Hentu ðí á fóninn og blastaðu öjnene I væggen ] [ Fyrirgefðu mér Elsku penni Ég reyndi að nálgast þig Ég speglaði mig í diskókúlunum Ég tilrakaði á mér yfirvaraskeggið Ég losaði mig við kynferðislegar fýsnir En ég hafði ekki hugmynd um þig Og af virðingu við þig þá þorði ég ekki að labba beint upp að þér og spyrja. Hver ertu og hvað viltu að ég geri við þig, viltu að ég geri eitthvað við þig? Þess vegna datt mér í hug að spyrja kaffið, og kaffið var sko alveg til í að tala en það vildi ekki svara mér strax svo það endaði með því að við skeggræddum um þig þangað til ég gjörsamlega kláraði kaffið. Þá vissi ég hvað þú vildir Þá vissi ég hvernig ég gæti lagt þig í bæli mitt Þá vissi ég hvernig væri hægt að spyrja þig og fá speglun En það var of seint Kaffið sat eins og djöfullin sjálfur í fórum mínum og sagði Ég er með svörin Ég er með svörin Þú ert með mig Þú ert með mig Og þú ert með svörin og mig Og þú ert með svörin og mig Elsku penni fyrirgefðu mér Ég haga mér eins og listfræðingur Eða prestur Ég veit allt um pensilinn Ég veit allt um drottinn minn En ég fæ bara ekki fest hendur á þá Heldur sit ég hríðskjálfandi á meðan þessi póstmóderníski djöfull, kaffið æðir um hendur mínar og meinar þeim aðgang að þér. ] [ Hvíldardagurinn Það er sunnudagur í dag Á sunnudögum fer alkahólistinn á neðri Hæðinni út í búð og kaupir korn handa smáfuglunum Á sunnudögum býður amma allri familíunni í hrygg og brúnaðar kartöflur. Á sunnudögum er gott að spóka sig í miðbænum og horfa á helming landsmanna aka drekkhlöðnum fjölskylduvögnum niður Laugarveginn. Á sunnudögum er alltaf sól fyrir hádegi Þar er sunnudagur í dag og verkamennirnir sem fóru út á galeiðuna í gær þurfa ekki að mæta fyrr en átta þrjátíu að því að allir verða jú að halda hvíldardaginn heilagan. ] [ Í steríógræjum stórmarkaðarins er verið að flytja fréttir. “Í fyrsta sinn í sögu landsins standa konur nú jafnfætir körlum. Það er liðin tíð að karlinn sitji á rassgatinu og bíði eftir matnum. Við getum hrósað sigri kæru systur” Kona sem stendur aftast í biðröðinni við kassan lítur sigri hrósandi á næstu konu fyrir framan sem gerir slíkt hið sama og svo koll af kolli þangað til þær vakna allar fimmtíu við það að konurnar við kassana segja þeim að gjöra svo vel og þá muna þær allt í einu eftir þvi að þær eru að verða of seinar heim í matinn og grípa því í hendingu súkkulaðistykki í sárabætur. ] [ Í gamla daga þá voru allir miklu stærri og vinnutíminn lengri og frítíminn fór sko ekki í neitt djöfulsins bull! Ég man líka eftir því hvernig við lékum okkur það var með joði. ] [ Þær eru margar meirar ennþá Þótt börnin séu út úr þeim Sumar eru montnar aðrar mattar en flestar eru mömmurnar þó moldríkar. ] [ Nokkur vísubrot Þessi dagur fær mig dapran til að doka við og hugsa Í engu skal ég finna skil og skyldu mína slugsa Um Einar Jónsson Einar barði grjót í göng og fljót með gullpening í vasa aldrei sást Ævi hans var litrík ekki ljót þótt leggðist stundum niður til að þjást. Um valkostina Mikið verð ég eldri þegar eigin leiðir fer angurværð mín virðist geta tært mig inn að skinni Samviskan hún rotnar hugsun reiðir upp sinn her rífur sundur allt er farsælt stóð í mínu minni Æfing Ég reyni nú að binda saman bálka því bæði er sálin ung og nokkuð liðug Þó fyrst ég kveði úfinn eins og álka þá æfingin er bæði þörf og sniðug. ] [ Það að þola hláturinn er eins og að kunna að hlægja. Þú leggst undir sáralítinn og auman höggstokk sem að þú bítur í þúsund parta með viðhöfn og stolti. Svo deyrðu og tekur upp molana af honum og af þér og þú raðar þeim upp á þann hátt að leikfangið sem að myndast verður sett á himinháan bannlista. Þannig grefur þú harðan vetur undir þitt hlýa og lifandi hreiður vorsins og sumarið er þitt. ] [ 1. Ég steingleymdi að segja ykkur frá manninum sem glataði æskunni í anatomíunni í háskólanum. 2. Ég steingleymdi að segja ykkur frá manninum sem glataði hjartanu á varðskipinu þar sem hann lá á hnjánum og skrúbbaði smurolíulegið dekk eins og sólin ætlaði að hætta að skína á hann. 3. Ég steingleymdi að segja ykkur frá veðurfræðingnum sem að varð svo samdauna veðrinu að hún fór stundum út á veröndina nakin eftir að maðurinn hennar var sofnaður og bað lægðirnar um að biðja hæðirnar um hret og hörmungar. 4. Ég steingleymdi að segja ykkur frá logsuðumanninum sem var skáldið sem forðaðist ljósið og hitan í sundlaugunum 6. Ég steingleymdi að segja ykkur frá barnanauðgaranum sem að vildi alltaf eignast son sem liti upp til hans og þæði hamingjusamur ferð með honum á þrjúbíó. 6. Öllu þessu steingleymdi ég vegna þess að ég er maðurinn sem stend fyrir framan spegilinn fram úr hófi meðvitaður og ákveð að pissa í ruslafötuna kl 19:26 ] [ Please can you listen for a moment can you taka an advise from a 22year old, firmly, shivering drunk. Because you are a nice little clean girl can you listen to a 22year old, firmly, shivering drunk for a moment. Just for a moment because I´ve had a few of those you little girls call moments. 1. FIRST Never leave a place wher you can get clean underweare. 2. SECOND Never write when you drink because than you are facing the risk to leave your clean underwear. 3.THIRD Never be a posture in your own head. 4.FORTH If you see that some eyes are looking old you have to run like hell and thank some god or yourself for the escape because all those old eyes are filled with pictures and stories so that they can´t listen. Those old eyes never listen. 5. FIFTH When you see something filthy do at no point try to understand it, because if you change your filthy scale you might get your hands filled with dirt, blood and love for all the filthy ones do not change your filthyness 6.SIXTH Be sure about your healings because they´re not always sexual. Sometimes they appear like pictures of cold, stupid stones and dirty waterfalls. Belive me sometimes they are appearing like pictures of long dead musicians, excuse my spelling. 7.SEVENTH EXCUSE ME I HAVE TO GO AND PISS AT MY FINGERS! 8.EIGTH When you have the desire to fuck never fuck a 22year old drunk because you will never get out of there satisfied and you will always try again. 9.NIENTH Never read the todays newspaper because than you will never be aware of what is going to happen tomorrow 10.TENTH If you want a drink go to the movies If you want to fuck go to the movies If you want some love go to the movies. If you want to get out being cool go to the movies (they also have the godamn porn) ] [ Nú á dögum þá er mér kalt á hægri hendinni. Yfirleitt slæ ég hægri hendinni á móti ranglætinu og öllu því vonda sem að hendir mig. En núna þá er mér kalt á hægri hendinni. Hægri höndin sá yfirleitt um þétt og traustvekjandi handabönd. Hægri höndin sá yfirleitt um tittlinginn á mér. En nú finn ég aðeins fyrir kulda á hægri hendinni. ] [ Það var þegar að poppið kom og sótti mig þá voru sár mín svo hlý og grunn að þau höfðu ekki hugmynd um seltu poppsins og reynlsugetu kroppsins. Ég poppaðist eins og fluga föst í steikjandi rússíbana smíðuðum af hitasljóum Spánverja. Ég poppaðist, hugsandi um sprengingarnar eins og franska ást er klórar manni á bakinu, þægilega, líkt og austulenskt vændi. Vaknaði síðan sem risapopp í ókunnugri skál niður í bæ bíðandi eftir glefsum Íslendingsins. ] [ Finndu hvernig hjartað í mér slær og finndu hvernig það slær fyrir þig. Finndu þegar það slær ört eins og trumbur sem barðar eru í sífellu til að vekja fallandi her. Finndu þegar það slær hægt eins og þegar hafið fellur hljóðlega á ströndina eitt stjörnubjart haustkvöld. Finndu þegar það tifar eins og tímasprengja sem gæti sprungið á hverri stundu. En hvernig sem hjartað slær, þá slær það fyrir þig. ] [ Mig langar ekki að skrifa þennan texta en ég bara verð/ því andúð mín á þér er að stinga mig eins og sverð/ í síðu minni og á þessa síðu ritast orðin niður svo hratt að það er eins og ég sé í píptesti/ og þarf að skipta um penna á 5 mínútna fresti/ Hvernig fékkstu það af þér að segjast elska mig/ en jafnóðum elska þennan durt og blekkja sjálfa þig/ Ég veit að þú varst einmana en hví valdiru þessa leið/ þú hrindir frá þér ástvinum og þú ert hissa að við séum reið/ Hvað varstu að hugsa manneskja? Mér þykir það leitt/ en sama hversu oft þú munt þig afsaka. Orð þín vega ekki lengur neitt/ Þú hefur misst allt mitt traust og trú/ og ég trúi varla að það sért þú/ sem fékkst mig til að jánka öllu bullinu/ öllu fjandans ruglinu/ um ástlausa hjónabandið/ 20 ára sambandið/ sem fór útum þúfur/ er hann betri þessi litli stúfur?/ að hugsa sér að ég hafi ekki séð í gegnum lygarnar/ allar þessar látlausu sms sendingar/ Þú ert meiri gelgja en 15 ára stelpa/ með stjörnur í augunum og strákana að elta/ En hey, þetta er þitt líf og þú kemur mér ekki við/ ég vona þín vegna að þess virði sé þetta strið/ Aldrei hélt ég að ég myndi blygðast mín fyrir mitt blóð/ en sálfræðingstími er dýr og með þessum illa áróð/ er ég að reyna að komast yfir sorgina/ án hans myndi ég eflaust brenna hálfa borgina/ Hugsaðu aðeins, ég er 23 og svona bregst ég við/ hvernig vítiskvalir ætli hinir lifi við/ En æ, ég gleymdi því, þetta er ÞITT LÍF/ þessi heimskulega setning er þín eina varnarhlíf/ Þetta hefur áhrif á okkur öll/ en þú ert víðs fjarri og heyrir ekki okkar köll/ Ég vil að þú vitir að með þessu áframhaldi/ muntu sitja ein yfir þínu jólaborðhaldi/ frekar myndi ég éta skít en að brjóta brauð með ykkur/ sárin enn of djúp og skrápurinn ekki orðinn nógu þykkur/ Ég stífna öll upp af reiði er ég skrifa þessa rímu/ Til hvers var ég að fæðast inní þessa lífsins glímu/ Var það til þess eins að brjóta mig niður/ líður ykkur betur, er þetta ykkar siður/ Ég er of góð fyrir þig og þetta/ og nenni ekki lengur fingur mína útí þetta að fetta/ Ég verð að sætta mig við að þú ert farin/ og reyna að jafna mig því að innan er ég marin/ Í hvert skipti sem ég heyri í þinni röddu/ þá græt ég innra með mér, en að svo stöddu/ þá er ástandið þannig að við tölum ekki saman/ það mætti halda að okkur þætti þetta gaman/ og á meðan hann er ennþá til í þínum heimi/ þá verð ég víðsfjarri þér, eins og stjarna út í geimi/ Þú valdir þetta sjálf og ég vona að það sé þess virði/ því á meðan hann er með þér þá ég ekki á þig yrði/ eru öll þessi ár ekki dágóður slatti/ til að sýna þér að það er ekki þessi patti/ sem þú átt að velja/ hvort okkar viltu fá hjá þér að dvelja/ Ekki saka mig um dramatík eða tilgerð/ því sum orð þurfa að vera sögð og sum verk þurfa að vera gerð/ ] [ Í haglinu heyri ég nauða, hver vindkviða um mig fer, sem hugsun um hamingju dauða, harminn í brjósti mér. Mig umlykur þokunnar mistur, myrkrið og mjallhvít fönn. Heillaði hrafnsins systur, Heljar náhvíta hrönn. Hugur minn hulinn skýjum, hrímuð er dögg á brá. Huggun í armi hlýjum, hjörtu sem saman slá. Döpur augu Dauðann sjá, dekkri en myrkrið svart. Dimmuna deyða augun þín blá, í drunganum allt er bjart. Þér má þakka gleði mína, þróttinn sem býr í mér. Í sálinni innst mun alltaf skína, sú ást sem ætluð er þér. ] [ Í flýti leið hin ljúfa nótt er lífgaði hjartans bál. Í myrkrinu bærðist undur rótt brjóst þitt hjá minni sál. Úti fangaði frostið allt, fannhvít var jörðin af snjó, í fangi þínu ei var kalt, hlýjan í hjartanu bjó. Ég aldrei gleymi þeirri nótt, í huganum oft aftur sný, þá hjarta mitt sló í friði rótt er birti af degi á ný. Gluggann fyllti frostsins rós og stjörnubjört var sú nótt. Augu þín eru mér lífsins ljós, þó líði það undur fljótt. ] [ Í myrkrinu vakir hann veikur og vonsljór um betra líf við mennina hræddur svo smeykur með sár eftir illskunnar hníf Þeir áttu hans andvökunætur þær ætlar hann þeim öllum að gjalda því að hatrið með grimmdinni grætur og geldur því skuldina þúsundfalda Eftir háðung og spott í lífinu stutta skal ferðinni heitið yfir í annað endapunkt smellt á með einum putta paradís fundin og landið þar kannað ] [ Endir allra manna er dauðinn leiðir margra skilur hann niður votar kinnar streima minningar um dáinn mann ] [ þegar ég loksins staulaðist út úr brennandi flakinu hrúgunni af snúnum, beygluðum kenndum skyrpandi, fnæsandi, sjóðbullandi af bræði útí þig, hvert þú stýrðir okkur og hvernig ég sem enga stjórn hafði ekkert val nema þitt val skildi ég mér til mikillar furðu að það var ekkert stýri á lífinu okkar að hendurnar þínar voru brotnar en neyðarlegt fyrirgefðu ] [ Að eilífu englarnir yfir þér vaki, í augum þér sólin skín. Kvöl er í hjarta, kuldi og klaki er kveð ég þig ástin mín. Að hausti þú fangaðir einmana hjarta, sem hreyfðist í brjósti mér, það ætlar þér gæfu, framtíð bjarta, það aldrei mun gleyma þér. Nú heiminn í hinsta sinn augu mín líta, hugur minn allur er þinn, að endingu mætumst á himninum hvíta, nú hverf ég þér vinur minn. ] [ Ólgandi hugsanir en fáar festast á blaði/ því þær dvelja aðeins augnarblik og hverfa svo með hraði./ Nýjar áhyggjur birtast og gömul sár opnast á ný/ mig dreymir um að ég fái frá þessu öllu frí./ Ég hef reynt að deyfa huga minn með hinum ýmsu brögðum/ sum þeirra fengust í Lyfju en önnur uxu í grænum görðum./ Pillurnar gerðu mig daufa og lina/ en grasið varð til þess að mér varð sama um alla hina./ Ég hætti að reyna að hafa samband við fólk/ mín eina hugsun var að sjúga þykkan reyk í gegnum hólk/ og finna augnalok mín þyngjast og heilan í mér sjóða/ fattaði ekki hve mörgum ástvinum mínum ég var að misbjóða./ Kynntist fullt af fólki í sömu aðstöðu og ég/ hélt að þetta væru vinir mínir en það fór á annan veg/ því í þessum heimi er vinátta aðeins viðskiptabrella/ ef þú hrasar ekki sjálfur þá munu vinir þínir þig fella./ En þar sem undartekningin sannar ávalt regluna/ þá þarf ég að segja ykkur frá einum þessa vina minna./ Hann var sprautufíkill og dópsali í dágóðan tíma/ en þrátt fyrir allt eitrið þá missti hann aldrei æru sína./ Hann sá strax í gegnum mig og bjargaði mér/ og kallaði saman sinn sprautufíklaher./ Þau hópuðust í kringum mig og drógu upp ermarnar/ og ég varð svo hrædd að ég datt niður á skeljarnar/ sundurstungnar æðar og flest þeirra með blóðeitrun/ þau sýndu mér líka nálarförin á hálsinum./ Á svipstundu voru sprauturnar eitrinu að dæla/ ég hvítnaði upp og byrjaði að háskæla/ einn þeirra hitti ekki svo hann reyndi á ný/ og eftir 2 tilraunir rann eitrið blóðinu í./ Þau sögðu að þetta væri framtíðin/ og ef ég hætti ekki núna yrði ég eins og öll hin./ Þau berjast fyrir lífi sínu sérhvern dag/ en líf þeirra snýst um að redda pening í slag./ Sumir halda að allir englar hafi vængi hvíta/ þið ættuð öll nefi ykkar lengra að líta./ Minn hafði enga vængi/ hann bauga undir augunum bar/ án hans hjálpar þá væri ég ennþá þar./ Ekki láta blekkjast af útlitinu einu því það er/ ekki hægt að bera sálina utaná sér ] [ Ég sit í sólinni umkringd fólki á Austurvelli/ lífið svo dýrlegt og ég bjórnum í mig helli/ Ótrúlegasta fólk úr öllum þjóðfélagsstéttum/ safnast saman hér í friði yfir friðarsígarettum/ Rónahópur til vinstri og bissnesmenn til hægri/ hér er enginn einn hópur öðrum lægri/ Hér gerum við allt sem okkur langar/ því sólin fær okkur til að gleyma að við erum vinnunnar fangar/ Og á meðan bjórinn flæðir/ og von okkar glæðir/ um að dagurinn í dag muni aldrei taka enda/ og sólin hætti aldrei sólargeisla sína að senda/ þá er mér minnisstætt/ hvað það var frábært/ þegar ég var lítið barn og líf mitt var einfalt og útpælt ] [ Ískur um nóttu, skrölt í dökku myrkrinu. Hamstrarnir hjóla. ] [ Á harða hlaupum, keppir maður við vindinn... Kollan kemst undan. ] [ Á meðan Glúmur ei hrýtur heldur vakir og brýtur mun angist mín vara, hvíla á mér eins og mara, heimsáþján stækka og sælustundunum fækka. Á meðan fólkið ei lærir og hvert annað enn særir mun hjarta mitt kveljast, vestur í helvíti dveljast, grætur minn hugur í heimi hvergi finnst dugur. Glúmur er sterkur eins og sárasti verkur, fyrir misgjörðir manna heldur heiminn að kanna, sólu hann dekkir því hann mennina þekkir. Glúmur er löstur, manna sjálfra bálköstur, muni þeir allir brenna er það engum öðrum að kenna því ef Glúmur er óður Þá er maðurinn góður. Læri maður að þegja þá fer Glúmur að deyja, veröld að batna, Illskan að sjatna, Sólin að skína Og allt að hlýna. Að lifa er pína Þó ég vilji ei lífinu týna. Heimur að hrynja en hvergi skammirnar dynja. Ég vil Glúm hvorki þekkja né sjálfa mig blekkja. Sjálf er ég enginn engill frekar en Fáfnir og Þengill, en hjarta mitt grætur þegar ég vaki allar nætur, og hugsa um ragnarökin á meðan okkar er sökin. ] [ Í gegnum hljóðið heyrði ég, nístandi þögnina sem endurgalt greiða, þá skildi ég... Frumgerð, Enn, fyrstur En ekki einmanna. (blekking) Síðan stormur, Félagi, maki. epli. Öll blómin í garðinum visnuðu En dáleiddur af fegurð þinni, tók ég ekki eftir því. Frelsið kostar. En ég veit ekki hvað, og nú er ég einmanna. með hugsunum mínum og þér. ] [ einu sinni sem oftar hugsa ég um þig og.... viltu, villtu reyna einmanna skuggar byrgja þyðuna og ég, ég er... ekki þú. ég sekk í bráðnandi malbikið en ekki þú af hverju ekki þú. ég er ekki þú og vil ekki vera. ] [ Hringur! Afhverju hefur þetta svo mikla þýðingu? ég þrái viðurkenningu frá þér. Þú þorir ekki, ég bít ekki. Gefðu mér, gerðu það. Sýndu mér, ég bið þig. Ég vil ekki, nema þú viljir. Sýndu mér, ef þú vilt. Ég vil ekki, nema þú viljir. Ég elska þig, hvort sem þú þorir eða ekki. ] [ Döggin glitrar og geislar en grátandi stúlkan ein situr og sorgina beislar svikin, heyr tregakvein. Bitrum og brostnum augum í bálið starir mey „í sæng með dauðans draugum, Djöflinum seld, ég dey“. „Þú vinur, er áður mig áttir, elskan mín, góða nótt. Mér er sama þó náist sáttir sæl ég sef nú rótt“. „Ég syrgi mjög að manni brást og bið að fyrirgefi mér, þú sem átt mína dýpstu ást, sem ávallt er tileinkuð þér“. ] [ Sjávarföll hjartans stjórnast af tungli lífsins ástinni. ] [ Ég geng einn eftir kvöldhimninum við sólsetrið mæti ég þér. Þú gengur ein eftir kvöldhimninum við sólsetrið mætir þú mér. Heillandi augu þín skjóta til min agnarsmáum stjörnum í myrkrinu. Þegar birtir á ný stend ég á hvítu skýi og hjarta mitt er fullt af stjörnunum þínum. ] [ Og í helvíti ringdi frostmolum ?friður og farsæld á jörðu? Og himininn hvolfdist yfir okkur ?elskaðu náungan eins og sjálfan þig? tíuþúsund englar allir í einu vildu sjá ?virða skaltu föður þinn og móður? sjá þessa friðsæld á jörðu sem skapast hafði ?þú skalt ekki aðra guði hafa? vonbrigðin lýstu úr svörtum engla andlitinum ?bræður munu berjast? þeir héldu sig hafa haft rétt ?Surtur svíður jörðina? og þrátt fyrir að hafa skapað helvíti á jörðu ?heimili þitt er í dal dauðans? halda þeir sig ennþá hafa rétt ?heyrir ekkert illt? og halda stóru svörtu bókinni í minni ?þú skalt ekki aðra guði hafa? þrátt fyrir að þykjast ekki trúa ?þú skalt ekki aðra guði hafa? trúa þeir heitara nú ?þú skalt ekki aðra guði hafa? og skapa okkur hinum helvíti á jörðu ?þú skalt ekki girnast konu náunga þíns? með boðum sínum og bönnum Og nú haglar í helvíti og himnarnir steypast og guðirnir svelta og djöflarnir dansa um í borgum bræðra okkar og við snúum okkur að nýju guðunum og við þykjumst ekkert heyra við þykjumst ekkert sjá við þykjumst ekkert vita og það haglar í helvíti og himnarnir steypast og gömlu guðirnir deyja úr hungri og djöflarnir dansa í borgum bræðra okkar og nýju guðirnir ganga um eins og vélmenni og við þekkjum ekki andlit bræðra okkar. ] [ Í frosti og nístingsvindi, tvær sofandi sálir. Vermdar af ást, og vakna. Dragast saman, í hringrás, sem verður ekki flúin. Draumur í okkar eigin heimi? þá vil ég ekki vakna. Hrekk svo upp við draum sem við eigum saman ein, bara við tvö ein. svo frysti aftur. ] [ Tilfinningar svansins er kjötsúpa. Kjötsúpa með nautakjöti, brauði, brokkolí, sveppum, tómötum og ýmsu fleiru. Ósorteruð, og enginn veit hvernig hún bragðast, ekki einu sinni svanurinn sjálfur. ] [ Samviskubit... það gerist þegar maður hefur afrekað eitthvað en veit ekki hvort það er rétt eða rangt. KOSS GLEÐI SAMVISKUBIT. Samviskubit... það gerist þegar svanurinn lækkar flugið eftir að hafa náð tindinum. samviskubit... það gerist þegar svanurinn veit ekki hver hann er. ] [ Millistig..veistu hvað millistig er? Þegar maður veit ekki í hvorn fótinn maður á að stíga. Fer til vinstri en vill fara til hægri. Þegar maður verður hrifinn af einum, tveimur eða þremur stelpum en er samt ekki hrifinn af neinni þeirra. Þegar maður vill fá koss en vill ekki kyssa. Þegar maður vill snerta en snertir ekki. Þegar maður vill elska en elskar ekki. Þegar maður hugsar en hugsar þó ekki neitt. Þegar maður sefur ekki heldur vakir en sefur þegar maður vakir. Þegar maður vill allt en vill samt ekkert. Millistig...veistu hvað millistig er? ] [ there´s no place to go. when hearts are lost and so on. the memory of you is so pure and true. i will live for you, stay strong for you, so just let go and say goodbye. i love you, you are the best. you were my big brother. it will be strange to never see you again, but my heart is full of pictures of you. i will miss you, i may cry, but they are not tears of sorrow,but tears of joy, because i know that you are save tonight. ] [ til hvers að tala um tárin sem brenna kinnarnar, þegar hjartað er harðlæst út í rigningunni. ] [ ég elska það þegar hann tekur fast utan um mig. ég elska það þegar hann strýkur mér. ég elska glampann sem kenur þegar hann horfir á mig. ég elska hvernig hann lætur mér líða vel. ég elska þegar hann kúrir í mig eða kallar á mig upp úr svefni á næturnar. ég elska þegar hann segir mér hvers virði ég er honum. ég elska það þegar hann skilur mig. og ef hann gerir það ekki, hvernig hann tekur utan um mig án þess að segja orð. því þá verður allt í lagi. ] [ when i say no, i really mean yes. im just questioning how much you really want to be here with me. i got you were i want you now, and im never letting go. because after three years of saddness you got me smiling with the words i never thought i hear again. with all my soul, with all my heart, i love you more than anything, tough sometimes it is hard to let go of the love i never had. i am so used to dreaming about you, that sometimes i don´t belive that you are really here, so i act sometimes like i don´t care. ] [ when all has gone quiet and you don´t hear a word, i will die peacefully.... with the darkest night. for all i love is you, but i don´t know were im going. show me how, tell me when. and i will try... ] [ god please kill me, so i can bring him back to life. god please kill me, so i can hold him again. cut out my heart and give to him, so i can hear his heartbeat. cut out my tounge and give to him. so he can speak of beauty again. take off my skin and give to him, so i can look at his face without scars. take off my lips and give them to him, so he wont have to go with stiches in his. take out my teeth and give them to him, so i can see his beautiful smile again. at last take out my soul and give it to him, so he can say that he loves me again. god please kill me, so i can bring him back to life. god please kill me, so i can hold him again. ] [ Draumur eins og draumur um nóttu komstu eins og ljós í myrkri eins og plástur á sár og ég dansa í dögginni dansa í myrkrinu þarf ekkert ljós þarf enga næringu rifin upp með rótum og nú dansa ég og dansa meðal drísildjöfla og fallinna meyja og ég flýt um flýt um í geymi gnægtar og alsælu draumur um þig sem komst til mín um nóttu ] [ Í myrkrinu fann ég að höndin þín heit hægt og rólega hóf sína leit. Hún snerti streng og hjarta mitt spilar nýjan tón. Í myrkrinu heyrði ég örlítil orð ofurhægt læðast um huga míns storð. Þau nefndu streng og hjarta mitt spilar nýjan tón. Í myrkrinu sá ég að lifnaði ljós, lýsti og litaði frostsins rós. Það lýsti á streng og hjarta mitt spilar nýjan tón. Í myrkrinu vermdu varirnar tvær, vanga sem nú er bjartur og tær. Þú kysstir streng og hjarta mitt spilar nýjan tón. ] [ Lygin sssvertir hjarta mitt og eitur sssnákar nærast á sssorg minni - en í djúpum krrrikum undirheimanna er ómögulegt að flýja! ] [ Vinátta okkar ótrúleg er Kynntist ég ykkur, sem betur fer Því án ykkar væri ég ekki neitt Allaveganna væri ég eitthvað feitt!  Þó við séum ekki alltaf sammála Og stundum hvor aðra langi að kála Þá elskum við hver aðra ósköp heitt - og við þetta ljóð ég er orðin sveitt! En án alls grins þá eruð þið æði Og TAKK PABBAR, fyrir fráááábær sæði! Þið viljið alltaf hjálpa mér - og ef þú hringir, þá hjálpa ég þér! En hvað á ég að gera í sumar? Engar stelpur og enginn?humar? :D Ykkar mun ég sakna, án alls efa - og engum mun takast sorg mín?að sefa!! Ég von?að í sumar við hittumst allar Og vonandi verð?ekki komnir margir kallar! Þið vitið þið velkomnar eruð í mitt hús - hérna er líka engin lús :D Guðný með sinn sexy dans Og Helga alltaf í sama trans Linda gella á bláu þrumunni - og Hann?á Tuma, drununni!! Hehe Saman erum við svaka físur Ég tala nú ekk?um BRYNJU SKVÍSUR En látið ykkur líða vel, lofið mér því - Og ég loaf að hugsa um ykkur æ og sí! En stelpur ykkur ég verulega fíla Og fyrir ævi með ykkur ég við djöfulinn díla Plís bara ekki gleyma mér - því ég mun ALDREI gleyma þér! ] [ Með depurð í hjarta nístir sorgin gegnum littla brotna hjartað hennar enginn veitt hinn sjúklega sársauka sem sorgin veldur. ] [ Barnið berst fyrir lífi sínu og tilverurétti í fjandsömu umhverfi sem ann því ekki friðar. Óþekkt umhverfi og siðalögmál sem ekki hefur lærst á réttann hátt í gegnum uppeldið. Barningurinn styrkir sálina en um leið brýtur hann niður og er aldurinn færist yfir vaknar spurningin um hver hafi vinninginn. ] [ Nóttinn getur verið grimm eins og norn í vígaham spinnur hún örlagavef sem umlykur þátttakandann og í baráttunni við að losna herðist á örfínum þræðinum uns ekki þýðir annað en að horfast í augu við staðreyndir morgundagsins. ] [ Hvíldin veitir lúinni sálinni frið Með mjúkri slæðu minninganna strýkur hún mér um vangann En öðru hvoru rispa þyrni vanga minn og er blóðdropinn vætlar niður eftir sál minni opnast gleymdar minningar ] [ Gull og grænir skógar bíða mín handan við hornið örsmá skrefin bera mig nær og í hvert skipti sem ég er borin burt af efasemdum sjálfsins eflist einbeitnin og skrefin verða ákveðnari og þroskaðri ] [ Nóttin geymir væntingar morgundagsins og eins og kviksyndi hverfa þær allar inn í myrkrið og gleymast öllum nema þeim er syrgir ] [ Vegir minninganna mætast, myndir fortíðar mér birtast, þegar að ég þögul um öxl horfi og sé þig brosandi veifa hendi. Tíminn tifar áfram hratt. Hjartað slær taktinn sært. Söknuður sæfir huga minn. Sölt tárin renna á kinn. Myrkrið þrengir sig að mér, ég teygi mig út að þér. Þú stendur í stað og veifar, brosandi þú sjónum hverfur. Eftir sit ég í myrkrinu ein með þér hvarf ljósið er skein. Minningin um þig lifir enn tær, þú fórst frá mér að eilífu í gær. ] [ You are my one and only mother and no matter what happends you will always be my loving mother and nobody can change the facts. You are my best and greatest teacher that I can count on and believe forever and I know that you will always be there when ever I need you, no matter of time. The times comes when I almost hate you but the times when I love you are stronger because I know that I have no reason not too and I know that you will love me whatever. I guess what I´m trying to say dear mother that I will always deeply love you forever and what ever happends in the coming future you can always believe that my love to you is true. ] [ Hönd í hönd snerting sem hrífur styður... Móðir og barn eilíf eining vernd í neyð... Með orðunum þínum þú lyftir mér yfir hugsanir mínar... Móðir er aðeins sú sem maður velur... ] [ þegar kvöldið nálgast og húmið vaknar ástar sinnar einmana unglingur saknar þegar stjörnurnar lýsa mér leiðina heim sé ég andlit þitt speglast svo fagurt í þeim. þegar komið er kvöld og horfið er húmið tómur ég kaldur án þín leggst í rúmið nú vona ég að draumarnir færi mér þig því að draumur með þér - varmur róar mig. ... þegar kvöldið kemur og ljósið dvín heimurinn þagnar og nóttin hún fagnar finn ég það mest að ég sakna þín. ] [ vil ekki vera sem ástlaus rakki einmana sál á eilífu flakki þegar heimurinn krefst annars af mér. samkvæmt öllum reglum: \"ekki enda einn!\" vegur þinn út lífið - þarf að vera beinn og spilaðu vel úr því - sem örlítið er. ... ekki naga neglur - ekki keyra of hratt ekki borða matinn þinn með höndunum einum ekki ljúga neinu - segðu alltaf satt og haltu öllum líkamshlutunum hreinum. ekki eyða neinu - græddu meira fé ekki tala of mikið - hleyptu engum inn ekki flakka um - ekki klifra upp tré og ef þú ert kýldur - þá bjóddu aðra kinn. ekki vera latur - vertu alltaf iðinn vertu alltaf stilltur - hlýddu öllu strax safnaðu ei of miklu - af fitu í kviðinn borðaðu hollan mat - gúrku - skyr og lax. ekki hrósa sjálfum þér - þó vel gangi að vinna heimurinn fyrirlítur allra manna mont er þú finnur streitu - mun þreytu aldrei linna harkaðu þá af sjálfum þér - þó það sé vont. ekki reykja - ekki drekka - trúðu á þinn guð á almannafærinu má alls ekki kela taktu til - lækkaðu tónlistina - ekkert tuð haltu kjafti - vertu kurteis - ekki stela. ekki skaltu í skólanum skrópa skjóttu ekki litla og saklausa fugla þótt freisting sé mikil - máttu alls ekki dópa því þá mun hausinn þinn um alla tíð rugla. ekki hlusta of mikið á almannaróm slúður er verkfæri þess sem er illur ekki kvarta - en treystu æ á Drottins dóm engar fleipur - engin mistök - engar villur. ekki fara í trekant - ekki stunda munnmök rúmið er eini staðurinn til að ríða sixtínæn - doggý - rimdjobb = stórsök! kynlífið skal fram að giftingu bíða!!! ... ósanngjörnu reglurnar rotnar lífsglöðu sálirnar skotnar boðorðatöflurnar brotnar! ... ÞÚ! sem vaknar upp á hverjum morgni situr svo og fárast hvern einasta dag ÞÚ! sem situr aleinn úti í horni lifðu og komdu sálartetri þínu í lag! Bældur í horninu - þú ert einmana flón stattu upp og lifðu - hleyptu öllu út fáðu þína útrás - hlustaðu á lífsins tón vertu þú sjálfur - drekktu tilveruna af stút! ... vil ekki vera sem dauðdofinn karfi bældur og dvelja á botni í hvarfi þegar heimurinn býður mér svo mikið. samkvæmt mínum reglum: \"lifðu lífi hratt!\" ég fæ ekki annað - því miður er það satt svo því vil ég lifa - fyrr en ég hverf bak við rykið! ... ósanngjörnu reglurnar rotnar boðorðatöflurnar brotnar!!! ] [ hef horft lengi - í eilífðarinnar djúp reynt að brjóta leið gegnum lífsins harða hjúp. árum saman mistekist á vegginn harða rekist hruflað mig til blóðs. ... veggurinn stendur þarna enn og hæðist að þeim sem undir honum í leit að götum læðist. styrkist við hvert tár stækkar meir hvert ár veggur sem byrgir sýn. ... götin á veggnum svo smá sár orðin gömul og grá í horni hver einn situr einmana og bitur enga ást að fá. ... auðn undir veggnum og hinum megin skárra leiðin í gegn er fær fótum svo fárra ekki fótum mínum lífið glatast sýnum og veggurinn stendur hér enn. ... en nú sé ég gat eitt mjótt og flýti mér þangað fljótt skríð með herkjum inn kemst undir vegginn og mér er orðið rótt. bak veggsins hinum megin þar sem draumarnir rætast skjótt. ] [ Ástin er augnablik í huga þér minning liðinna tíma. Ástin er skönuður. Ástinn er hitinn í hjartanu sem yljar eitt augnablik þegar tvö hjörtu slá í takt ] [ Því fórstu frá mér, Áður en ég gat talið þig á að vera, Það síðasta kveld er ég sá þig, Þú varst böðuð mánaskin, Sú mynd af þér mun ávalt vera í minni mér, Ó elsku mánaskin, Þín fullkomna ýmind er grafin, Minni mér um alla eilífð. Nokkur árin liðu og ég elska þig enn, Þó ég reyni að halda áfram, Munt þú alltaf vera mín eina sanna, Ó mánaskin hve ég sakna þín. ] [ Hálfhræringur í mig hellist hélt mér væri sama þótt það kvefpest kallist þykir mér ekki gaman Hnerrar hérna hálfir fjúka henda að mér gaman þernur og þjónur að mér rjúka og þurrka mér í framan ] [ Mollan í Kaupmannahöfn er erfið þegar maður þarf að burðast með tvo krakka -sem eru ágætir, þannig séð, en þegar maður á þá sjálfur, fylgja þeim allt of miklar skyldur. Svo vilja þau vera svo sjálfstæð, svo ég lét eftir og leyfði þeim að fara til lands færitækjanna TÍVOLÍ. Sjálfur tók ég leigubíl til lands minna eigin færitækja, míns eigin frelsis. Mamma þeirra sagði áður en ég fór: Passiði vel hvort upp á annað! Svo það var ekki mér einum að kenna hvernig fór. ] [ Mest allur tími flóttamannsins í fjallahéruðunum fór í að vona að einhversstaðar í grænni hlíð leyndist lítið hóruhús. ] [ Atvik Það verður að stoppa Vagninn Það er gömul kona hérna sem að hefur ekki hitt barnabörnin sín í sjö mánuði. Þar sem að þau eru afar tímabundin þá ætlar sú gamla bara að taka sér skreppitúr til þeirra með kakó og nýprjónaða ullarsokka. Vagnstjórinn: Því miður verður hún þessi vinkona þín bara að fara í ullarsokkana og súpa svolítið á kakóinu vegna þess að næsti strætó kemur ekki fyrr en eftir tuttugu mínútur Og það er fjandans rigning úti. ] [ Oft þá lék ég mér að byssum Ég hljóp upp í kletta um rjóður og skóga. Ég hvíldi mig í vari frá hinu liðinu, móður og másandi. Því næst tók ég á rás og skríkti af kátínu, því stundum vissi ég að ég væri sá eini sem væri eftir. Þá varð ég skyndilega svo spenntur að ég varð að hægja ferðina svo að hitt liðið gæti ekki heyrt hjarta mitt slá. Svo faldi ég mig gætilega og rannsakaði steinana, grasið og veðrið. Síðan hljóp ég um hraunið skógivaxið. Stundum þurfti ég að pissa. En ég skaut aldrei Mér fannst áhættan einhvern veginn aldrei þess virði ] [ Ég veit margt um lífið þannig að ég held að spilakassarnir hafi bara nokkurn veginn rétt fyrir sér þegar þeir segja leik lokið settu pening í! ] [ In fact as soon as your dance has been set off you are already cold again. But you struggle with your fingers through the ice and you spell an unknown name to the audience And they can´t do anything because they´ve paid for the seats and they will have to swallow almost anything that is warm because they feel pain from the cold sounds of the ice. You don´t have to struggle anymore because your face and the sound of your smile is making everyone silence. So now you have a minute just for yourself. Take the orange circle, take the foolwalk Do whatever you desire The audience have paid their tickets to see your show and you are fooling them with very old tricks. Tricks that remind yourself of your great grandmother. You can have a total blackout on the stage because you are a charmer that will always remind people of death. You are a long dead bad smelling rat. ] [ þó þykir okkur síst gaman að þræta en ég bara skil hann ekki alltaf t.d. er hann alveg afskaplega stórgerður en ég ekki þannig að ég hreinlega get ekki sett hann í mynd þar sem hann stendur á sturtugólfinu rennandi blautur eftir steypibaðið eins og virðulegur steypireiður og þurrkar sér fimlega án þess að komast einu sinni nálægt því að bleyta baðmottuna á meðan sit ég með hjartað í maganum uppi í sófanum allur útklíndur í súkkulaði þó er eins og mér vaxi kvenhyllin hraðar þessa dagana stundum skil ég líka ekki hvernig allt stritið safnast saman í rándýr jól full af ást og hamingju á meðan ég velti krónum og fimmköllum blíðlega, fram og aftur í vasa mínu, kringum getnaðarliminn laus við alla reisn nema þá sem undir honum er komið en pabbinn er miklu sterkari en reisn limsins t.d. þá er vonlaust að halda þeirri reisn á meðan rætt er við hann maður nánast bregður burtu fæti og kannski er það rangt kannski er hægt að túlka eitthvað sniðugt kannski er hatrið sterkari en ástin kannski eru hugsanir manns, sem hugsar of mikið um ríðingar, eigingjarnar og svívirðilegar kannski ætti maður að forðast sjálfan sig meira og safna fyrir einhverri hátíð dauða frelsarans eða upprisu hans eða bara fara kurteis á fyllerí með vini sem sigraðist á andstæðing sínum á einhvern hátt kannski eru konur til þess að frelsa kannski er frelsi alls ekki fólgið í einhverju skemmtilegu kannski er ég ekki nógu nákvæmur í orðavali en þegar allt kemur til alls þá er mér skítsama skítsama um konurnar ríðingarnar liminn og sjálfan mig en ekki um hann því ég veit það sem hann veit og það sem ég veit að hann veit ekki veit ég nákvæmlega og þá verður mér vitanlegt að ef hann væri ég þá væri hvorugur okkar víst lengur til í þeirri mynd sem að við birtumst veröldinni í dag en samt sem áður get ég sagt að mörgum gæti ég ætlað þann sama skít og ég ætla stundum honum og mörgum hef ég gefið fölskvalausa ást en sjálfur hef ég ekki list á skít og lítið vit á fölskvalausri ást. ] [ hérna stend ég hofi niður hugsa um fréttirnar og hvað fólkið segir Ég fæ bitrandi sektarkennd þegar ég horfi niður hugsa um mömmu og pabba og systur mínar 3 Ég hugsa hvað þau segja hvað þau taka til bragðs hvort þau sakni mín eða standi á sama Ég læt það vaða hoppa niður hugsa ekkert hundrað metrar kaldur skellur sársaukin eykst um of vil hætta við.... Lungun fyllast yfirborðið hverfur svartur skuggi liggur yfir Ég get ekki hugsað finn lífsmáttinn dofna finn það koma hérna er hann að sækja mig ....Dauðinn Ég horfi niður mér líður illa þau gráta öll ...eftir að ég fannst Uppi á himnum ég sit sendi fingurkossa og blessa þau Ég er engill ] [ Kvöld sóli í myrkri föl og svo dökk gengur úr skugga að nú sé nóttin öll Dagur brýst um yfirráð yfir skugganum á endanum vinnur hann með sólina sér við hlið sólin með kjafti bræðir allt hun bítur sig í margan fórmarlömbin lyggja stolt og segjast \"brúnku\" fá ] [ Vatnið drýpur Sullið kemur seint jónan sígur djúpt í mig en getur engu breitt Í helli hugsa ég hvað geri ég rangt ekkert kemur þrátt fyrir það Nú veit ég hvað var að það var ekki jónan núna mun ég deyja hægt úr hugsjón minna vina Hún situr með mig seint um nótt hún veit ég er að deyja ég óska þess ég hefði hætt þá væri ég ekki hér Ég vissi ekki hvað ég hugsaði þá ég sé eftir því núna á dánarbeðinu lygg ég nú með lífslítin lið Í nóttina tárin dofna seint í hugsjón systur minnar ég særði þaug öll sem eitt þaug syrgja en í dag ] [ Fugl flýgur fyir Og skimar eftir bráð Soltin kjammi Staðfest þrá Ég hleip í burtu Frá fuglinum stóra Hann nær mér samt Og hremmir mig Hann flýgur hátt til himins Og lætur mig svífa Um stundarsakir er það gott Svo lætur hann mig falla Þetta allt áfall er Þótt áður hafi hann tekið mig Því fallið er það eina hér Sem særir mig að innan! ] [ Minningargreinin birtist fljótt ég sá mynd af þér tárin flæða ofurskjótt og ímyndin af þér ÉG sit hér ein og hugs\'um þig hversvegna þú fórst gætiverið að lífið var ekki það eina sem þú tókst pabb\'og mamma gráta sárt ég spælinguna sé við stóðum öll grátandi með myndina af þér ] [ The music has stopped. It is silent. I look around, and all I see is people, but no faces. I look up into the sky. The clouds are setting in, the sun is rising. The city lies behind me, the mountains below me, I hear empty conversation, and words mean nothing to me. Not any more. I feel that I am without a home, a hope. I feel less and less alive, more and more hopeless... ...and less. The sky is filled with clouds, rain is pouring, it is morning. I\'m not feeling happy, not feeling sad, but empty. The clouds make me lose - and gain - hope, love and confusion. The rain washes away my silent tears, and the clouds live forever in my heart. ] [ Don\'t talk to strangers, my dear. Remember the little girl in the pink dress who accepted candy from the big, strange man? She\'s dead now, raped and mutilated in the alley where they found her three days later. Remember the boy who just wanted a ride home? The man seemed friendly enough, but now that boy is in a wheelchair. He drools, and sometimes falls asleep into his supper. So don\'t talk to strangers, love. You might wind up wishing you had just kept on walking in the cold, maybe you could have done without that candy. But what you really have to remember, dear, is that the biggest, scariest stranger, is you... ] [ As the smoke from our final confrontation slowly faded away, we looked each other in the eyes and saw the damage we had done. We made a promise to ourselves that day, not to let this happen again. This is not the first time. Let\'s not lie to ourselves anymore. ] [ One more step. Just one more step into the light, and I can see. One more step that begins an endless journey. A journey of a million miles begins with this one. One more step into the exposing light shows me heaven and I am born again. And this one step, into oblivion, I want to take with you. ] [ As the sun sits down into it\'s cold bath and the waves kiss the shore and the seagulls sing their nighttime tunes- I sit down beside you on the darkening beach serenade you, with my nighttime tunes- and I kiss you. ] [ Please play your music for me beautiful angel for I am weary. My day has been so busy and now it is night. You have played for my friends and my family, now play for me for I am weary. ] [ had but seven odd days to carve out this valley. People tend to blame the glacier for the poor shapes of these rocks, but he only had seven days. ] [ Sleep, my love, sleep. Sleep through the noise and the racket. I shall watch over you, and watch your precious gold. Sleep, my love, sleep tight. Sleep through this fog that surrounds us. Don\'t think my love, just sleep. I will run my fingers through your hair, and sing for you, until you sleep. Sleep, my dear love, for today there is no existance, nothing can harm you. Sleep today, my love, and I will watch over you until you wake. ] [ Skáldið horfði í augun á ljóðinu og allt í einu sá það að ljóðið var svikult. Ljóðið horfði á skáldið og glotti við tönn því það hafði blekkt skáldið. Skáldið leit niður og tók eftir því að jörðin var að snúast. Ljóðið leit á jörðina og hætti að glotta því það þeyttist út af jarðkringlunni. Skáldið horfði á eftir ljóðinu og glotti við tönn þegar það skildi að ljóð skilja ekki einföldustu lögmál eðlisfræðinnar. ] [ Augun í honum eru fölblá, líktog tveir dauðir fiskar. Þau stara andvana yfir iðandi stórborgina, sem hreyfist fram og aftur í gráu miðdagsregninu. Fólkið hunsar blauta dropana og flýtir sér til síns heima. Úr hæð mannsins minnir mannlífið á erilsamt maurabú, og hávaði þess er engu hærri en hol vindhviða. Maðurinn tekur síðasta sopann af köldu kaffinu og hoppar útí ímyndaða birtuna. ] [ Dimmann er fjarri sólinni, myrkrið hylur ekki bæinn. Kyrrðin leggst yfir nóttina og fyllir götur og stíga. Hlýja hvers heimilis flýtur í lygnu lofti, og út i kyrrðina síast hvíld að liðnum degi. Mjúkur og tær er blærinn. Sál mín gengur til loftlaugar og hreinsar sig af aurnum orðum manna og hugsunum. Sumarnótt, ljúfa nótt, þér fæðist nýr morgunn. ] [ Grafðu þig dýpra í gjána, gjöf mín í djúpinu´ er falin. Myrkur hins glottandi mána, mætir þér niðdimma nótt. Mörkin á illskunni er alin; angurvær meyja við ána, vitjar um von sína dána, vindurinn þýtur svo hljótt. Grafðu þig dýpra í gjána, gjöf muntu hljóta að launum. Þorstinn er vekur upp þrána, þjaka mun vonina skjótt. Reynslan er falin í raunum, roði þíns hjarta mun blána. Gæfa þín litrík mun grána, í nístandi helkaldri nótt. ] [ Ég finn rósarilm og sleiki varnirnar, ég strík rauða kjólnum og smelli kossi á varalitinn. Rósarblað fellur, fellur hægt til jarðar. Hjörtun slá í takt og syngja fyrir rósarblaðið sem fellur framhjá rauðum brjóstarhaldara sem er að springa og finnur ilminn af lostanum,rósarblaðið fellur framhjá rauðum nærbuxum sem brosa og falla með því neðar í takt við lostann. Rósarblaðið fellur og tillir sér á tær með rauðu naglalakki, tær kreppast saman þar til þær slaka á og tærnar finna ilminn af rósarblaðinu og brosa í takt við hjartsláttinn sem syngur nú lokastefið og fiðlur, selló og heil sinóníuhljómsveit tekur undir og spilar lag rósarinnar. ] [ Oft og tíðum ég vildi muna en eitthvað því einatt tálmar, ég verð að viðra spurninguna: Hvar var Bólu grafinn -Hjálmar? ] [ Spyderman er flottur fýr, flýgur um og argar. Búningurinn bara hýr, en bandamönnum bjargar. ] [ Eitt lítið hjarta, Kramið af hugsunum, Tilfinningum, Sorg, Enn samt sem áður skilur enginn Þetta litla hjarta Sem á svo erfitt Og þarfnast hjálpar Það hvíslar, Hjálp Það kallar, Hjálp Það öskrar, Hjálp Enn samt kemur enginn Það hefur ákveðið að binda enda á líf sitt, Útaf sorginni, hugsunum um að það sé ekki nógu gott fyrir heiminn Enn eitthvað stoppar það, Tilfinningar brjótast fram Mamma, pabbi, bræður, amma og vinir Enn litla hjartað veit að þegar það verður farið líður öllum betur Enn samt vill það ekki fara frá þeim Enn samt vill það fara, það vill ekki lifa í sorg og alltaf að líða illa Enn það hefur ekki ákveðið enn, hvað það ætlar að gera............... Hvað ákveður það?????? ] [ Þegar ég gekk um torgið, Sá ég þig ásamt vinum þínum Ég gekk til þín og þið störðuð allir á mig Ég sagði hæ Strákarnir fóru að hlæja Enn þú sagðir hæ Ég spurði þig hvort ég mætti tala við þig Þú sagðir ég get það ekki Ég spurði þig af hverju? Þá sagðir þú Þú ert ekki nógu svöl fyrir mig Ég fór að gráta enn þið gerðuð grín af mér Ég hljóp heim henti mér upp í rúm Ég hágrét, hugsaði ljótar hugsanir sem ég hefði ekki átt að hugsa Næsta skóladag varst þú uppi þar sem lúðarnir voru Þú sást mig og gekkst til mín Þú baðst mig fyrirgefningar Ég sagði af hverju ætti ég að fyrirgefa þér? Þú sagðir útaf ég elska þig Ég sagði þér að fara burt og að þú myndir aldrei geta fengið mig eftir hvað þú gerðir Ég væri hvors sem er alltof ömurleg fyrir þig eins og þú sagðir sjálfur Hann gekk burt og stelpurnar hlupu til mín og spurðu mig hvað gerðist Ég gekk bara inn í stofu Næstu viku sá ég hann ekkert Einn morgun sat ég og las bæjarblaðið ?Ungur drengur fannst látin heima hjá sér? ég skoðaði myndina af drengnum og það var HANN ég fór að hágráta........! ] [ Ég get ei lifað þessu lífi, það er svo erfitt Hef engan kjark til þess að binda enda á lífið Langar svo mikið að vera hér hjá fjölskyldunni minni, og vinum. Enn mig langar ekki að líða lengur illa Mig langar að finna vellíðan inn í mér Og guð gerir ekki neitt til að hjálpa mér Mamma og pabbi skilja mig ekki neitt Ohh hvað þetta líf er erfitt Öllum stundum þarf ég að berjast við að gráta ei Og öllum stundum þarf ég að berjast við að ýta hnífnum ekki niður. ] [ Ef hugrekki teldist til sigurs Værir þú sigurvegari Ef ástin rataði ávallt réttar leiðir Myndi ég vera hamingjusöm Kanski í næsta lífi Getum við deilt ástinni saman Ef við hittumst þá? Guð ætlar sér eitthvað með okkur Annars væri lífið ekki svona Stríð, Friður, Blóm, Ást, Illgresi og Hatur Hvort velur hann í lífi mínu? Eða þínu? Núna hefur hann valið Stríð, Illgresi og hatur í mínu lífi Enn þá er Friður, Blóm og Ást eftir Kanski notar hann það eða ekki Ef líf mitt verður ömurlegt, þá er það útaf guð ákvað svo Ef að líf þitt verður fallegt er það útaf guð ákvað svo. ] [ Take me back when i understood the light, Take me back when everything fell´d so good Take me back when the earth had some meaning Take me back when everything was green Take me back when i belived in god Take me back to the sound of the birds Take me back to happiness Take me back to LIFE................! ] [ Ég óska mér að lífið sé æðislegt, Ég get gengið um með bros á vör og gleði í hjarta, Enn í raunveruleikanum, Geng ég um með hausinn niður reyni að brosa, Enn óttast að krakkarnir byrja að hlæja, Hlæja að mér, Ojj sjáiði hvað hún er feit, Sjáiði hvað hún brosir ljótt, Sjáiði hvað hún er ógeðsleg, með járnbrautarteina á tönnunum, Ég reyni að gráta ekki, Þegar skólinn er búin hleyp ég heim, Stekk upp í rúm og fer að hágráta, ég hugsa stöðugt um að fara ekki í skólann, Þori ekki að horfa framan í krakkana, Hrædd um að þau byrja aftur að hlæja að mér, Ég ákveð að fara ekki aftur í skólann, Ég ákveð það að, Taka mitt eigið líf Ég hleyp fram í eldhús, tek beittan hníf Fer inn á klósett og horfi á sjálfa mig og fer að hágráta, Ég lem mig í höfuðið, Ég vil að þessar hugsanir hverfi, Að ég geti gengið um án þess að þurfa að vera brotin niður, Svo ég fer og skila hnífnum, og fer að sofa Vakna um morguninn og fer í skólann, Er ég labba á ganginum, Gengur stelpa fram hjá mér og segir OJJ hvaða lykt er þetta? Þá kemur önnur stelpa, þetta er af ógeðslegu stelpunni Þá koma meiri krakkar og fara að hlæja að mér, Ég hleyp í gegnum krakkanna, ýti þeim frá og hleyp alla leið heim Þar sé ég hnífinn á borðinu frá því í gær, ég tek hann og sker djúpt á púlsinn Ég dett niður, blóð út um allt Mamma og pabbi koma heim, ganga inn í eldhús, sjá mig Hlaupa til mín, og ég heyri að mamma hágrætur og heldur mér í kjöltu sér Pabbi hringir á sjúkrabíl, hann segir að bíllinn komi bráðum Ég reyni að tala og mamma segir HA Ég segi henni, að ég elski ykkur svo mikið enn ég var orðin þreytt á lífinu Mamma öskrar, ekki deyja, ekki fara frá mér, ég þarfnast þín. Þá kemur sjúkrabílinn tekur mig upp, Og mamma og pabbi keyra á eftir upp á spítala Læknirinn segir að ég eigi ekki eftir að lifa, Mamma grætur enn meir, Ég segi laust, mamma og pabbi ég elska ykkur svo mikið enn ég verð að fara núna Ég sé ljós og heyri fallega tónlist, Ég geng upp gylltan stiga enn er þá komin inn í skólann minn, Þar geng ég á ganginum og sé krakkana sem að alltaf stríða mér, Ég ætla að labba burt, enn þau ganga á eftir mér og Segja Hæ hvað segiru? Ég segi allt fínt og síðan hringir bjallan, þá allt í einu sef ég á hvítu skýi og falleg tónlist svæfir mig og mér líður yndislega í fyrsta sinn;) ] [ Um kvöldið er ég gekk úti, Sá ég þig. Þú varst sem goð fyrir mér Ég varð strax ástfangin af þér Ég fór að tala við þig og ég gaf þér símann hjá mér Síðan fór ég heim og annað kvöld, hringdiru í mig Ég var ýkt ánægð Þú bauðst mér í mat og bíó Þú sóttir mig klukkan hálf átta Við fórum í bíóið klukkan átta og út að borða eftir það Síðan fórum við heim til þín og drukkum Vodka og Baileys, Ég varð mjög drukkin og einnig þú Við byrjuðum að kyssast og kela og það endaði upp í rúmi hjá þér Er ég vaknaði horfði ég á þig er þú svafst Þú varst svo sætur, Eftir það byrjuðum við saman og á sjötta mánuðinum okkar saman, Kom ég heim eitt kvöldið og sá að það var allt í drasli, Ég kallaði á þig enn þú svaraðir mér ekki, Ég gekk áfram og inn í eldhús og þar var einnig allt út í drasli, Og þaðan fór ég inn í svefnherbergi, Ég kveikti ljósið og þar lást þú, það var búið að skera í hendur þínar, fætur og út um allt, Það var mikið blóð Ég hljóp til þín og spurði hvað gerðist? Þú sagðir? elskan ég elska þig svo mikið? Segðu fjölskyldunni minni að ég elski hana líka? Ég sagði að hann myndi bara segja þeim, það sjálfur útaf hann myndi ekki deyja Hann sagði við mig? Gerðu það fyrir mig?? Ég sagðist ætla að gera það og ég kyssti hann og sagðist elska hann og stökk fram. Þegar ég kom fram hringdi ég á sjúkrabíl og náði í tuskur Ég gekk inn í herbergi, þá var ástin mín dáin Ég brast í grát og lagst hjá honum upp í rúm og beið eftir sjúkrabílnum, Á meðan ég lá þar, sofnaði ég Maðurinn sem hafði drepið hann var ennþá inni í íbúðinni og Læddist að mér og stakk mig beint í brjóstið og á háls Ég lést samstundis, Síðan kom sjúkrabíllinn og bar okkur út í sjúkrabíl Ég er samt fegin, ég gat verið hjá ástinni minni að eilífu ;) ] [ Þegar ég gekk eftir götunum sá ég ekkert nema lítil börn Algjörar dúllur, Ég stóð kyrr og horfði á börnin Allt í einu sá ég mann með riffil, Hann skaut á eitt barnið, ég öskraði Litlu börnin grétu, ég reyndi að sussa á þau Enn maðurinn hélt áfram að skjóta börnin þá allt í einu sá ég dóttur mína Ég hljóp til hennar og greip hana og hljóp út í skóg Maðurinn elti mig, Fyrst heyrði ég, eitt fótak síðan fleirri og fleirri Ég sá litla holu Ég lét dóttur mína í holuna, útaf ég vissi að ég gæti ekki meir Og hljóp áfram Nokkrum mínútum seinna, Datt ég og mennirnir náðu mér Og drógu mig á hárinu, Þeir drógu mig framhjá holunni Ég sendi fingurkoss og hvíslaði\\\" Ég elska þig\\\" Við vorum komin aðeins framhjá holunni Er ég heyrði barnsgrátur Og byssuskot, og komið var með lítin líkama til mín Og spurt mig hvort það væri mitt? Ég leit á barnið og öskraði hátt Þetta var litla, fallega dóttir mín..DÁIN.. Síðan féll ég niður, Mennirnir höfðu skotið mig Ég vaknaði kósveitt og grátandi, Ég hljóp inn til dóttur minnar, Og þar lá hún svo falleg og lítil Þetta var þá allt bara draumur......! ] [ Að vera vinur er að treysta, Að vera vinur er að hjálpa, Að vera vinur er að gleðja, Að eiga vin er manni allt Að eiga vin að vera aldrei einn, Að eiga vin er lífsins fjársjóður Vinir gera allt saman, Þeir deila öllu saman, Hlæja saman og gráta saman, Vinir elska hvorn annan. ] [ þögn... heyri nálina detta, heyri þungan hjartsláttinn, alveg hljóð, tóm. þögn... spyr mig hvers vegna, á allt, á samt ekkert, alveg galtóm. þögn... kemst ekki í burtu, verð að fara, er límd við gólfið. get ekki hreyft mig. föst. ] [ reyni að finna, finn samt ekkert. reyni að snerta, snerti samt ekki. reyni að sjá, sé samt ekkert. reyni að treysta, get það ekki. reyni að skilja, botna ekkert í þessu. ] [ þegar allt er orðið hljótt á ný, skjóta þær upp kollinum. hugsanir sem ég hafði grafið, yfirtaka þögnina sem er svo góð. læðast um allan líkamann og trufla mig. láta mig ekki í friði. skil ekki ástæðuna fyrir þeim. hvernig manneskja getur grafið sig svo djúpt, og maður losnar ekki við hana, sama hvað maður vill. truflar ástina, truflar svefninn. skríður inn í draumaheiminn þar sem hún er ekki velkomin. Og setur hugmyndir í kollinn þegar raunveruleikinn tekur við af myrkrinu. hún eitrar allt eins og plága. heldur sér svo fast í, vill ekki sleppa takinu. sama hvað er, þá er það hún sem ég mun hræðast. hún leikur sér að mér, stríðir, hefnir sín. spyr mig afhverju ég yfirgaf hana, spyr mig hvort ég vilji koma út að leika ég slekk á mér svo aðrir sjái hana ekki. segji bara góða nótt. ] [ see how he smiles, how he crys how he laughs how he hides look what he fears what he hears what he sees what he knows love how he cares how he holds how he shares how he loves ] [ his first smile, his first laugh, his first giggle. his first words, his first steps, his first dinner. the smell of his hair, the touch of his hands, the soft kisses on my cheek, these blue eyes that stare. my closest thing, my first fear, my first happy tears, my real life, my first newborn son. ] [ Guð er gæðablóð hér væri gott að láta orðið \"syndaflóð\" það passar, og rímar. Hann fer í sama blóðbanka og Gróa gamla. Hann er í sama blóðflokki og Gulli Gallsteinn. Þegar Gulli hnerrar segir Gróa: Guð hjálpi sér! - Gulli er með berkla (ÞEIR HJÁLPA ÖÐRUM SEM HJÁLPA SÉR SJÁLFIR) Guð er enn að læra, hann er svo illa af ... manni gerður. ] [ Einmanna ég geng í gegnum lífið og hugsa um þig. ég velti fyrir mér hvers virði ég er, hvers virði ég er þér. Þú kveiktir í mér bál, bál sem ég hélt að væri orðið að ösku, En bálið logaði ekki lengi með okkur, heldur með mér einni. Sár mín hylja reiðina í hjarta mínu því ekki er þetta í fyrsta sinn. Ég hef því lokað hjarta mínu, og óvíst er að það opnist aftur. ] [ Það er dagrenning í göturæsunum vætlar vatn; ég er atvinnulaus, léttur á því og ég elska þig með hár úr þér vafið í naflakuskið –dreg hárið úr flækjunni, set það upp í mig bít í sundur og gleypi þó hvorki sé það gott né þægilegt Hún las aldrei bækur en hann þuldi fyrir hana valda kafla og góð ljóð –heilu vagnhlössin af húslestrum– hún sofnaði ekki annars heldur lá andvaka –henni blæddi stundum með augun blómguð; blæddi rauðsprungnum vakandi glyrnum drafandi svefnblálituðum vörum í morgunsárið og þegar eilífðin pírði augun sást merla á kistulokið marargrænt og jarðarfararsöngvar ræsktu sig –hún var ekki feig sjáðu til– þegar svartholið féll saman inní kulnaðar taugar nýhilistans, hins nýja sveins –féll þar tómið inní og um sjálft sig– og þau (tómin) gerðu ekki lengur upp við sig hvenær kona lifir og kona lifir heldur skelltu glösum framræstu blóði Appolons –því dó nokkru sinni kona? Ég man ekki lengur hvernig ljóðið endar. . . Og hvað er ég svo við enda dags? þegar rokið hefur skriðið aftur oní gjallarhornið og nætur í lestum með konum á lendum eru alheimurinn og allt að rassskella skáldið með fjaðurbrúskum í indælu –það stirnir á blómið í hári þér –hunang drýpur hunang og þú dóst ekki lengur heldur lifðir en þér leiddist stundum og veltir við steinunum í fjörunni hvar skrifað stóð í þarann: „Var hvað ekki hvenær hvers virði?” Æið í lok mánaðar klýfur fjöllin í herðar niður með berum handarjaðri –andartak við andlok og kistan sunkar niður til helvítis –brennur viður brennur! maður brennur! kona! og augnablikið drukknar í eilífðinni þegar enginn drýpur höfði í sorg dýfir höfði í hafið þar sem hafið lognar og ruggar; rennur ekki því hvergi sést til lands Það er ekki slæmt það er Gott og Gott og Gott –jafnvel Betra svona fyrst á morgnana en síðar er náttar og maður/kona liggur eitt á koddanum í nýfallinni horardögg –því það er svo ljúft að gráta í myrkrinu þegar maður/kona heyrir ekki handa sinna skil fyrir skítalyktinni; æ það dropar á og gárar óþrifið dagstofugólfið. Þvaður! Bull! Þvæla! Tvatl og ófrjóir spádómar! Gröf? eða Dauði? eða Eilífð? Ekki orð! Engin orð að ætlast minna skilninga tíma til að átta sig . . . Rugl! Lærði aldrei að heyra þessi orð utan hugtaka aðal abstraksjóna (sé ekki í sjálfum mér hugsun, kem að landinu handan svartholsins þar er ekkert ég sé ekkert hafi ég nokkru sinni kunnað það kann ég það ekki lengur; erum við villtir, vinur? það er margt að hræðast en hafðu samt ekki áhyggjur því hér er hvorki ég né þú til að gera okkur mein.) –(deyðu) Sagðist skyldu yrkja mig í örmum þínum og elska mig í ljóðum þykkpúlsandi stríðljóðum enda heimsenda bara fyrir mig þegar ég var hjá þér – (hvíslaðu, hvíslum) – svo blikkaði ég augunum og þú tókst oní þig typpi og tussur með slef og sæði krampasafa orgasmíska gleði gleiða drusla niður kinn niður höku niður háls niður brjóst niður kvið oní nafla þar sem hvíldi hárið í naflakuskinu. . . –(hvíslaðu) Hér er þrotinn dagur. Hér er síðasta orðið í ljóðinu sem enginn man hvernig endar. Hér er ég kominn aftur uppúr gjallarhorninu. ] [ I Snemma morguns þegar drykkjunni lýkur skríðurðu heim niður hlíðarnar og skjálfandi (hvers konar eiginlega helvítis skáld höndlar ekki nokkurra daga drykkjutúr???)– þegar ég mæti aftur til vinnu viku síðar nýrakaður baðaður geðklofinn og sofinn kurteis bendi túristunum á fjall sem frægur íslendingur reisti hér í denn, nýkominn úr fylleríistúr frá Noregi, reisti fjall og reið sjálfum sér í rassgatið með því– Ekkert gamanmál þetta að ganga upp í mót með bokkurnar á bakinu uppljómaður framkvæmdum upp hjalla þessa glaða fjalls – Við kýldum hvor annan í mesta bróðerni, frussuðum hvor á annan í mesta bróðerni, ultum niður brekkurnar og lágum hálfgrátandi við fjallsrætur öskrandi ástaryfirlýsingar í mesta bróðerni– klífum ekki fjöll því okkur líður betur sitjandi en standandi og beinlínis herfilega gangandi uppímót (Robert Bly mælist til þess að karlmenn skeyti skapi sínu á jörðinni en skilur ekki að eigi höggin að innihalda merkingu verða þau að skella á kjömmum þeirra sem okkur þykir vænst um–okkur verður að standa á sama) Vindurinn rekur ekki kýrnar heim það verðum við að gera sjálfir vindurinn rekur öldurnar upp bæjarlækinn gefur landinu gúmorren og hvæsir „Þú lítur út eins og róni! Hvað á ég að fara með þig svona útlítandi? Sjálfur treysti ég mér ekki inná Kaffi Austurstræti” skrúfar niður bílrúðuna veifar keyrir aftur heim það rýkur úr púströrinu eins og salti núið í sárið –(eftir situr þú og enginn til að keyra þig heim) Og þér líður eins og Anton Helgi hafi ort þig, kjánalegt að vera ljóð en ekki sköpunarverk vera fjall en ekki málverk víðáttubrjálað mar og ísaldarbólga á kinnbeini landsins– uppí rassgatinu á íslenskum víkingi! strand úti á landi II Komdu uppí sveit kysstu brönugrösin og drekktu te úr grjóti því Stúlkur borgarinnar eru bara gulir sleikipinnar þegar sól rís og ég rís bara svona líka stæðilegur á fætur með geirvörtur í augunum– út af barnum sem er yfirgefinn eins og fjöllin– hleyp út og sting mér oní gjótu til að vera þar alltaf núna –kem aldrei aftur– ég nálgast aldrei dyrnar að kompunni minni án þess að gnísta tönnum þess sem vildi sjá endalok næturinnar önnur Aftur til náttúrunnar, sný aftur til náttúrunnar og ligg á hnjánum eins og Whitman: dái fíngerð blöð yðar ó Náttúra þegar tíu sentimetra hátt vatnsfallið glutrar sér milli grjóta– rúlla mér upp á tvo fætur í svefnpokanum og hoppa samfættur fyrir hornið til að vera viss; vera viss að ég sé nú einn nema svanirnir og nema blaðlúsin og vatnsfallið nema rólegheiturnar og nema grasmaðkurinn og moldin og nema tunglið nema ég ] [ Bróðir minn komst í kast við lögin, braut rúður í slökkvibíl. Pabbi kom askvaðandi inn á stöð beint úr vinnunni tók drenginn í faðm sér og sagðist skyldu slá allar löggurnar í rot ef þær létu sér nokkurntímann detta í hug að angra fjölskylduna aftur. Stuttu seinna stal ég klámblaði úr bókabúð í trausti þess að pabbi stæði við gefin loforð. ] [ Að öllum líkindum gæti þetta ljóð verið betra. Ég ætti í það minnsta að láta eins og það væri betra. En svona er það stundum, ljóðið. Ég ætti líka að vera meiri með mig en ég er. Drekka meira en ég geri, ríða meira en ég geri, missa mig í áflogum og skáldlegu málfari. (í það minnsta annað veifið) Ég get ekki gert að því þó þér finnist þetta ljóð ekki gott, get ekkert við því gert þó þér finnist skáldið ekki drekka og ríða nóg. Og ég kæri mig ekkert um að missa mig fyrir þig. Hvorki andlega né skáldlega. Ég skrifaði þetta ljóð heldur ekki fyrir þig, ég skrifaði það fyrir mig, eins og alltaf. ] [ 1 Dunar dansinn dagur er rís gott er greppi’ að gjalda degi náðarhögg með næturgagni. Lifir nóttin? Nóttin lifir. 2 Stoltur ljóði strýkur kviðinn Óðins gróður æptur sunginn anginn fældur fleygur banginn. Kyrja kverið, kaldar varir. 3 Bjórum af bognar borðið undan sleppa lausum skáldataumum. Trítla neistar tarfur miðar sekkur svarta sigur vís. 4 Nýir morgnar næturgaman tæmt úr glasi trega blandað þambað súrt þegið klúrt. Eilífð drykkur? Eilífð drykkur. 5 Grætur greppur gnístir ristum tanna á millum taktinn leistur berg í leynum barið grjótið fleytir kerlum finnur ströndu. 6 Leigjum vagninn leið til bæja tjaldborg reisum tryggum höndum læðumst inn og leggjumst fyrir. Sofa greppur? Sofa greppur. ] [ Afar fríð er ásýnd þín öllum framar vonum enda berðu ástin mín af öllum öðrum konum. ] [ Hversu lengi sem þú leitar, þú fynnur hana aldrei. Hversu oft sem þú reynir að búa hana til, þér tekst það aldrei. Því hún er ekki fullkomin, hún er ekki raunveruleg. Hún er bara ekki til. ] [ Er kvölda tekur og nóttin skellur á, finn ég til frelsis. Er kvölda tekur þegar heimurinn sefur, skipti ég um ham. Ég umbreytist í skepnu, einhverskonar dýr. Dýrslegar hugsanir mínar brjóta sér leið út. Það sem sorglegast er, þó að sannleikur sé, þá er þetta hugarburður einn. Því hvað sem ég er, þá ég aldrei verð, annað en bara aumingja ég. ] [ Inní hjartanu á mér, geymi ég nafnið þitt, sem ei verður gefið í skírn. Því þá sorg sem ég ber, fyrir þér, elsku barn, vil ég eigi finna aftur til. Sá sársauki er, einna verstur í mér, vegna örlaga þinna þá nótt. Er líkami hafnaði þér, sem að tilheyrir mér, grét ég sárast af öllum stundum. Ef að værir þú hér, værir þú mér, eina lán mitt í lífinu nú. Því að faðir þinn, sá, sem deyddi þig einnig, skemmir líf annarra í dag. Það að losna við hann, þó að sárast var þá, gleður mig meir, hvern einasta dag. Ef ætti þig nú, augasteinn minn værir, svo langt í frá ástarsnautt. Við myndum leika okkur saman, bara þú og ég, ein, horfin sársauka frá. En mig tekur það sárt, að tilkynna þér, að þú verðir aldrei til. Því eitthvað innra með mér, býður eigi upp á slíkt, á því mun ég ei gera skil. ] [ The heat and passion, these past days, Have coused the world to weep around me. Though the breeze can sweep those tears away, The cold hurt will still remain...! ] [ Í kringum bláan bolta barnið skríður. Má hann aldrei stoppa? Barnið bíður Upp og niður inn og út. Hvert hann mun nú fara Málar,maskar setur stút inn á milli vara. ] [ Birtan brýst Hún þýtur yfir landið Í átt að mér Hún nálgast mig Ég finn hvernig í vakna, alveg eins og allt í kringum mig vaknar þegar birtan nálgast en þegar hún kemur...þá ég loks lifna við. ] [ Saklaus ganga þau niður götuna það veit eingin neitt þau vilja það en það má ekki það er bannað...það er ljótt sumir gera það sem er bannað og þau líta upp til þeirra þau verða ekki lengur ekki minotu lengur það eru þau sem geta snúið hlutum við og gera það sem er bannað...það sem er ljótt við gerum það sem þarf því við vitum að það er ekki ljótt og ekki bannað ] [ Alls staðar eru skilaboð Þau bíða þess að vera lesin sum verða lesin...önnur bíða lengur en sum verða aldrei lesin ég er skilaboð sem verður ekki lesið. ] [ Hann hefur hlegið Hann hefur grátið Hann hefur fengið Hann hefur misst Hann hefur öskrað Hann hefur þagað Hann hefur elskast Hann hefur kysst Hann hefur sofið Hann hefur vakað Hann hefur fundið Hann hefur girnst Hann hefur fangað Hann hefur ást Hann hefur fangað ást Hann er ástfanginn ] [ Skorinn marinn blóðugt hár móður más og æstur falla munu engin tár fyrr en ég fer næstur Sólin sokkin fyrir land hann stendur upp í myrkur kona og krakkar fyrir strand sorgin mesti styrkur Armar hafs og aldan köld annar staður bíður þráin vaknar þúsundföld á hafsin botn hann sígur. ] [ Nótt hafðu hægt um þig nótt og láttu ekki börnin þín vænta of mikils af þér. Víst hefurðu huggað svæft og sefað og táldregið marga meyju og sveina. Víst hefurðu huggað svæft og sefað. En dagurinn kemur og væntir svo mikils af börnum sínum. Hann sviptir þig líka þeim dulúðarklæðum sem þú hefur sveipað þig nótt í nótt. ] [ legó-grá víðáttan breidd yfir gólfið og hugurinn hleður hana höllum sem brotna við bank á glugga í brjáluðu rokinu andrúmsloftið er fast fyrir einsog augun full af möllum ískrandi freðinn sársaukinn hjartað í kokinu og önd mín öll hún emjar fjötruð hér á þessum stað bandar frá sér í kófinu rétt svo tórir en pína þessi týnist skjótt því minni mitt er sviði blað draumarnir í hausnum alltof stórir plast trén einsog hráviði rauða lestin liggur var aldrei á sporinu og fuglarnir hættir að tísta það er legó-nótt í vændum aftur í vorinu ] [ Geymdu það sem göfugt er gakktu á drottins vegi það mun farsæld fylgja þér fram að hinsta degi. ] [ Allt þetta líf snýst um veraldarvafstur. Ég horfi á trén þau hrista greinar sínar eru ekki sammála. Og ég sem yrki þetta á bakhlið upplýsingabæklings um húsbréf segir þér að ég er skáld með veraldarvafstrið á herðunum. ] [ Við erum tvær týndar og litlar sálir. Villtar í skógi hjartans. Rötum ekki réttu leiðina. Týndar,villtar .......gleymdar. Syndum í hafi fullu af tilfinningum. Gleði,sorg, hlátur,grátur. Erum hálf einmana. Því enginn virðist skilja okkur. Fiskarnir vilja ekki taka eftir okkur frekar en mannfólkið. Við erum hræddar við okkar eigin hugsanir. hugsanir sem eru oft svo ótakmarkaðar og endalausar. Við erum pláneta föst í miðri loftsteinahríð. Allavega líður okkur stundum þannig. Mun einhverntímann einhver skilja okkur? Eða verðum við alltaf týndar,villtar ........gleymdar! ] [ Við vorum ung, svo ósnortar fiðlur að feta hamingjunarveg Hljómur okkar sameinaðist í hjörtunum, ástin var okkar mein. Við vorum tvö, húsið, fjaran og við tvö Lífið spratt í kring, loforðin voru svo mörg, svo full af von. Mánuðir liðu án vitneskju um þær breytingar er á eftir stigu Hann kom inn í líf okkar, tónninn sem sameinaði okkur að eilífu. ] [ Hún stendur úti, ein. Í heitri rigningunni, rétt eftir storminn sem geisaði, okkar á milli í nótt. Andar yfirvegað að sér nýju betra lífi, sem grær í garðinum hennar. Hún reytir illgresið, og fleygir því í dallinn sinn, þar sem við liggjum með berar ræturnar. ] [ Litla minnisbókin mín hefur að geyma eitt ljóð um Lúnu Lúnu mánagyðju hún hefur einn gylltan lokk í hárinu og varir rauðar og lokkandi hef ekkert annað að gera í kvöld en að horfa á Lúnu, Lúnu mánagyðju þegar ég staldra við á brúnni í Litla-skógi og hlusta á lækjarniðinn í logninu brátt næ ég kannski augnasambandi ] [ Í barnæsku minni man ekkert ljóð nema kannski sofðu unga og augun voru lokuð fyrir öllu þessu ljóta þessum óhugnaði í minninu sem seinna meir birtist mér og greip sig og gróf í minni gleymskunnar gleymskunnar sem að fæ ekki breytt ] [ Hve oft ætli mörgæsir hafi séð þig sveitta ofan á mér er við nutum ásta á suðurpólnum í engu nema vettlingum ] [ Morgundöggin er tár sársauka og eymdar. Sólin lækkar sig og lokar augunum fyrir heiminum. Trén sveiflast í takt við dansandi vindinn, og syngja með. Djúpt í skógi jarðarinnar liggur sálin, grátandi af örvæntingu. Reiðin frá náttúrunni lifir í andrúmsloftinu og öskrar á jörðina og íbúa hennar. Árnar renna rauðar af blóði frá fórnalömbum dagsins. Einmanna tár rennur niður andlit lítillar stúlku, sem liggur við hlið líkama látinnar móður sinnar. ] [ Dúkka sem grætur og segir mamma, situr á hillu upp á vegg í tómu herbergi þar sem einu sinni, lék sér barn. Nú er barnið horfið og allt sem eftir situr er tár og blóð frá drukkinni reiði föður hennar. ] [ Maginn á mér er á ferð og flugi, og það heyrist hljóð... Merki þess að ég hafi drukkið í gær... Þetta er bara ömurlegur dagur til að vera til. ] [ As we awaited your arrival something went terribly wrong. Somewhere along the line your heart missed a beat, never to start again. You lived within me for only 7 weeks, but it was long enough for me to love you, to long for you and miss you, now that you are gone. I know I never met you but I know that I can never forget you. ] [ Tvær hlussur skurði mynda kinnar mínar á, í kappi niður synda frá hvörmum ofan í tá. Hver saknar þeirra tára, mennsku minnar mynd? lýsing veikra sára á auma stúlkukind. Ljótan glæp að játa er léttir á sinn hátt eins er það að gráta Þegar leikin var ég grátt. ] [ Lífið er dýrmætt Lífið er gott Lífið er sorgmætt Lífið er vont Lífið er sætt Lífið er skrítið Lífið er tætt Lífið er lítið Lífið er ágætt Lífið er ýtið Lífið er skondið Lífið er findið Lífið er sárt Lífið er mjög erfitt, skemmtilegt og skrítið. Þetta er nú lífið svona laust á litið. ] [ það er blóð á gólfinu í dag er dagurinn á undan öllu í dag er dagurinn sem ég veit allt í dag er dagurinn sem þetta allt endar tækifærin sem gærdagurinn hrifsaði af mér liggja á jörðinni. ertu týndur í orðunum? það er blóð á gólfinu ] [ Himintunglin og lífið. Skrítin blanda af þráhyggju örlaganna til að sanna sig og grátbroslegri tilraun lífsins til að lifa. Vér hljæum að örlögum örlaganna. Þau villast í hjátrú mannsins sem er veldi þeirra og virki, sem oftast falla undan ofankomu blekkinga mannsins sjálfs sem neitar að trúa að á sjálfan sig. ] [ Ljósið við sjóinn ljósið sem skín mikið er fallegur flóinn og þessi bjarmi sem ég finn. ] [ Vildi að það væri svona en það er hinseiginn, en samt ég vona en áfram er það svona. Ég vona ég græt ég er að vona ég er ágæt ég er kona. Ég dreymi ég gleymi ég reyni ég er á sveimi í öðrum heimi. ] [ Hér sit ég og hugsa en hugsa þó ekki neitt þunga er með þanka það rennur allt í eitt. Mér líður ekki sem allra best en vona að það lagist það er eins og er með flest sem með tíð og tíma lagist. Mátt farinn ég er og þrótturinn búinn ég veit ekki hvert ég fér og glötuð er mér trúin. Komdu og vertu mér hjá en samt vil ég að þú farir en veit ég að það líður hjá fyrr en tíminn varir. ] [ Líf Hvað er það Eitthvað stríð hver bauð þessum lýð inn í mitt líf bauð einhver þeim eða átti þetta að verða svona líf eilíft stríð. ] [ Unga snót ég áðan sá ósköp var hún feimin. Og mér vakti ástarþrá unaðsleg og dreymin. ] [ Give me a reason not to die, give me a reason to fly. Sing me a song, dont treat me wrong. Learn what my soal is, that you dont wanna miss. Feel me like i feel you. My friend my soal mate my life! ] [ Það eru til menn, þau flokkast í, Kvenkyn og karlkyn, í kvenmann og karlmann. Þau eru svo ólík í hegðun og hugsun. Hún... er stór og sterk, lítil og veik, en hún getur allt bara ef hún vill. Hann... ég held að það sé engin spurning hvers vegna orðið HEIGULL er karlkynsorð í eintölu. ] [ Þú tekur þér góðan tíma í að mála þig. Vanda þig, við hverja línu í andliti þínu. Meðan þú sminkar þig ertu rólega að breiða yfir þig. Þú hverfur á bak við máluðu grímuna. Þú klæðir þig í fötin og klæðir þig í þá týpu sem þú vilt vera. Hver dropi af ilmvatninu færir þig fjær þér og þú hverfur fyrir nýrri mynd. Þegar þú gengur út um dyrnar á heimili þínu, ertu ei lengur stúlkan sem vaknaði í morgun, heldur konan sem mætir í vinnuna. ] [ Skýin hópa sig saman og sólin tekur sér hlé frá amstri dagsins. Himinninn sendir kossa sína á vatnsflötin, sem vaknar til lífsins, og hlær, við hvern kitlandi koss. Meðan Grasið og blómin, teygja sig þyrst til himinsins og keppast um ástúð þess. ] [ regnboginn, sólin og tárin það sem gerir hana af því sem hún er, sérstök og óendanleg, alltaf í okkar huga. hún er hverful eins og lífið, hún er hverful eins og við hin. hún á allt gott skilið því hún, er ástin. ] [ Gráttu mig eigi, þó ég bíði þess að þú komir frá sólinni og kyssir mig, faðmar mig og gefir mér heiminn. Gráttu mig eigi, þó ég standi hinum megin við glerið og græt þig, horfi á þig í fjarska og kalla þögulli röddu á þig sem ég þrái. Gráttu mig eigi, þó þú heyrir óm af minni rödd, sjáir mína hönd leita þinnar og tár mín falla vegna þín. Gráttu mig eigi, þó þú getir ekki stigið skrefin til mín eða rétt mér þína hönd. þó þú sveipir þig skikkju og gangir burt. Gráttu mig eigi því ég elska þig. ] [ Algerlega fullkomin spegil-mynd af mér, sem er ekki ég. Með vanþóknun á henni, því hún grætur sig í svefn, lít ég undan. Rauð um augun með bauga sem undirstrika ljótleika hennar. ] [ Með andlitið klesst upp við rúðuna, blóðið lekur úr stórum skurði þvert yfir andlitið, sem starir á þig með stjörfum augum. Röddin er dauð, hjartað grætur dauða þinn. Eina stúlkan sem þú elskaðir, systir þín hún bíður þín hinumegin... Í huga þínum er öskrað, þú hefðir kannski átt að keyra hægar!!!! ] [ Er tárin tindra svo skært mig blíðlega hann huggar, einhver hefur hjarta mitt sært í örmum sínum, hann mér ruggar Hann yfir mér heldur verndar hendi sem dregur úr mínu falli, hann ávalt við hlið mér lendir um leið og heyrist í mínu kalli Hann alltaf situr mér hjá hann er stytta mín og stoð sem ég legg traust mitt á einskonar átrúnargoð. Hann brosir svo blítt breiðir út faðminn sinn, í fangi hans er svo hlýtt hann er elsku pabbi minn. ] [ Ég og þú í ástríðufullum dansi ég, sem dansfélagi þinn. Við snúumst í hringi um hvort annað í brjálaðri sveiflu haldandi takti með fyrir fram ákveðnum sporum, svo er dansi lýkur ferð þú heim í faðm fjölskyldunnar sem ég tilheyri ekki. ] [ Hún segir að ég sé sæt og svo ofsa klár ef ég græt þurrkar hún í burtu mín tár ef eitthvað fyrir mig kemur utan um mig hún tekur sál mína og hjarta hemur og lætur mér líða betur hún hefur gert svo mikið fyrir mig vænt um það mér þykir mamma ég elska þig. ] [ Birtan svarta í dökka ljósinu, heila rifna peysan lögð á dökka ljósið, kviknar smá bál þar sem kaldir logarnir læsast um allt, brenna óbrennanlega hlutir, sem hafa enga sál. ] [ Í svarta skugganum maðurinn bíður sterkari en hún og á honum síður. Ólgandi ofbeldi á hana dynur óundirbúin á hjálp hún stynur. Í neikvæðu húmi næturs neðar í götunni grætur, saklaus ung stúlku undur utan og innan rifin í sundur. ] [ Skilin eftir í rósargarði, himinháar rósir þéttar saman. Þyrnarnir stinga og særa. Lítið pláss , ekki hreyfa sig engin áhætta, enginn sársauki, lifðu, líkt og allir hinir. ] [ Ljúktu við orðin þín þó þau særi mig ekki treysta því að ég berji þig ekki. Þú veist að ég hata þig, rjóð í kinnum af reiði rota þig með kúpunni. Þú átt það skilið, fyrir að blekkja mig ég líð það ekki að svona sé komið fram við mig, því ég er yfir þig hafin nú ert þú dauður og grafinn. ] [ Fögur augun ljóma fullkomið traust, saklaus og góð sál er horfir af aðdáin á mig, það tók sinn tíma að fæða þig. ] [ Bjallan hringir þú vannst þessa lotu en ég þá fyrstu, þú í öðru horninu og ég í hinu og á milli okkar endalaus slagsmál ] [ loforð rifin reiðin rís bíttu mig berðu mig með kylfum svo ég ligg dauð dauðadæmd af sárum hoppaðu , traðkaðu á mér þurrkaðu líf mitt upp með handklæði snýttu þér svo í það leyfðu mér að deyja ein ekki gera mér meira mein ég vil ekki vera sein á fundinn sem þú stjórnar ekki þar er ég ein. ] [ frosin tjörn þykkur klaki kaldur og harður líkt og hjarta þitt hvassur vindur og snjór sem skellur í andlit mitt og inn að hjartanu líkt og orð þín stormurinn sem fylgir þér rífur mig upp og þeytir mér burt líkt og lítið blóm sem á engan stað í þessum heimi ] [ Í kvöldmyrkrinu jökul kalda kyrrlátt og hljótt, þurfti þess viljandi að valda vonin hvarf svo fljótt. Stefnulaus stendur og grætur sækist eftir öllum svörum, líkt og allar aðrar nætur aðeins hjartað allsett örum. Hverful hugsun fyllti skálina hungrið villta saddi, þegar rifið var í rótlausa sálina reis hún upp og kvaddi. ] [ Þegar ég var lítill drengur í vorgolu og lóusöngli þá sór ég þess eið að byrja aldrei að reykja síðan þegar ég var unglingur sem þráði ástina undir músíkinni þá sór ég þess eið að vera ástinni aldrei ótrúr síðan þegar að ég var maður sem átti afborganir og alls kyns afsláttarmiða þá velti ég mér á bakið eftir drátt sem ég fékk mér með viðhaldinu og fékk mér sígarettu og velti fyrir mér alls kyns prinsippum ] [ Úti í horni kúrir hrædd vera með tárvot augu skjálfandi líkama óbærilega sorg brostið hjarta og fær aldrei frið. Máninn skín í augu hennar og úr augunum skín \"hvers vegna\"? En enginn svarar og stóru augun lokast en þó glóir tár á kinn. ] [ Þú ert mér eitt og ert mér svo mikið því getur eingin breitt því vinir erum við miklir. ] [ Ég er svo þreytt ég er svo sár get ég þessu breytt og orðið loksins sátt. ] [ Leyfðu mér að synda í hafsjó ástar þinnar. Láttu mig aldrei finna sker, leyf mér að drukkna. Fylltu hjarta mitt af marglitum fiðrildum sumarsins. Láttu mig vita að ást okkar sé svo sterk að ekkert geti brotið hana niður. Því ég þarf að vita að ást okkar sé einhvers virði í einskismannslandi. ] [ Ég er ekki til Ég er skuggi gærdagsins sem þú eitt sinn gast ekki litið augun af Ég er ekki til Ég er skuggi gærdagsins sem þú eitt sinn hélst utan um á kvöldin Ég var þér eitt sinn allt en núna er ég þér ekkert Ég er ekki til Ég er skuggi gærdagsins ] [ Ég ástfangin er eða er mjög hrifin mig langar að hafa hann hér en ég er hrædd um að verða svikinn. ] [ Við erum hin þöglu orð sem sjaldan eru sögð. Við erum hin þöglu orð sem rista svo djúpt. Við erum hin þöglu orð sem færa fram ótta. Við erum hin þöglu orð sem færa fram gleði. Við erum hin þöglu orð sem lifa í andrúmsloftinu milli elskenda. ] [ Hugsa og hugsa en dettur ekkert í hug sem er nógu gott nógu flott til að skrifa niður á blað. Hugsa og hugsa Afhverju ekki þetta Allt svo ómögulegt þegar allt sem ég get skrifað er um það sem ég get ekki skrifað? ] [ Húsin í garðinum hafa leka kjallara. uppá von og óvon, opna ég hurð, og vatnið mætir mér. Þegar ég vakna uppgvöta ég, að ég er að synda í blóði. ] [ Í þokunni getur þú heyrt grátur, grátur ungbarna sem hafa dáið. Þau eru hrædd við nóttina, myrkrið sem þau voru skilin eftir í og þeirra þegar töpuðu baráttu. ] [ Þú hefur elt mig uppi og hrint mér til jarðar. Þú rífur mig í sundur og nærist á holdi mínu. Það er ekki svo sárt því sál mín situr ekki svo langt frá og skýlir hjarta mínu. ] [ Stundum þá held að ég sé eitthvað sem ég er ekki og þá eyði ég kannski heilu mánuðunum í það að ranka reglulega við mér sem nýr maður! ] [ Þögnin er það eina sem ég heyri. Ég heyri ekki í þér, ég heyri ekki orð þín, ég heyri ekki reiði þína, ég heyri ekki sorg þína, ég heyri ekki sársuka þinn, ég heyri ekki grát þinn, ég sé aðeins tár þín og mér er alveg sama. ] [ Út úr skugganum kemur myrkrið, og ég líka. Ég kem úr skugganum, fylgi myrkrinu. ásamt áleitnum með geislum tunglsis. Vara mig á ljósinu, Hrekki montna mennina. Þeir eiga það skilið hvaðan kemur þú? ] [ Ég fann fyrir þyt eitt ljúft kvöld við lygnan eld. á meðan sporin fuku burtu og ný mynduðust, hofðist ég í augu við eldin. valið stóð á milli valds og auðs, ég valdi völd. Völd til að breyta skít í peninga. ] [ Hefur þú einhverntímann setið við gluggann þinn, og velt því fyrir þér hvað fólkið sem gengur fram hjá er að hugsa??? Hefur þú einhverntíman setið í strætisvagni og ímyndað þér að þú sitjir í eðalvagni -með James Bond??? Hefur þú einhverntíman skrifað ljóð -sem hefur mistekist?? ] [ Í náttmyrkrinu flýgur dúfa eins og hvítur sendiboði yfir gömlum húsum í miðborginni. Hjá sumum táknar þessi dúfa frið. En hjá öðrum sem uppteknir eru af raunveruleikanum er hún bara venjulegur fugl með vængi. Lítil börn heillast af hæfi þessa fugls þau vilja fljúga eins og súpermann, eða flugvél. Er dúfan bara þarna út af engu eða er hún að flýja einhvern?? Er hún sjálfsagður hlutur, eða undraverð sköpun? ] [ Tómas hefur brotna sjálfsmynd. Hann gefur sig vonleysinu, og sér ekki sorgina, ég er hanns villta martröð, ég villi honum sýn. ég er hanns brotnu loforð, mitt líf er ég mitt mín. ég er hanns rotnandi gleði mím gjöf er brennivín. ég er hanns undirferli, jafn fölur á lit og lín. Tómas hefur brotna sjálfsmynd. en honum vegnar vel. ] [ Þú komst inn í líf mitt sem ljúfur leiði, laugst að mér, lamdir og reittir til reiði, að endingu hjarta mitt lagðir í eyði, því of seint mér skildist hvað hér var á seyði, - ást okkar óx ei af sama meiði Í upphafi vildi alla veröld þér gefa, þú varst ástin mín eina og ég var þín Eva, uns kvöld eitt þú kvaddir með krepptum hnefa, ég sorgina og sársaukann reyndi að sefa, - en verund mín fylltist af ótta og efa Hvað var það sem gerði okkar sambúð að víti ? Kannski hún hófst í of miklum flýti, já furðuleg voru'okkar síðustu býti, full heiftar og reiði og óþverratríti, - þú hlýtur að skilja'að mig frá þér nú slíti Of lengi ég bjó við háð orðanna þinna, og senn varð mín lund hrafnsvört sem tinna, uns upp hófst mín raust "þessu verður að linna", og ég lagði af stað til að leita og finna, - kjarkinn og trúna'í höll draumanna minna ] [ Hringrás. Í sæluvímu náðin yfir mig færist. Kyrrðin Það eina sem ég heyri er ölduniður, ljúft blakið í vindinum Fegurðin Minnir mig á augu hennar lífsorkuna og mína björtu framtíð með henni. Skýin fela sólina fyrir mér minna mig á óvissu mína um lífið framundan ástgrátur þeirra til jarðarinnar og lífið sem þau færa mér. Framtíðin en líkt og ég veit að vatnið fjarar út og heldur í hringrásina veit ég að einn daginn held ég aftur á braut inn í mína hinstu ferð héðan en held inn í nýja. Nálægð þín við mig í hinum efnislausa heimi fyllir mig tárum en um leið gleði Hringrásin tekur mig inn í vatnið aftur og ég held aftur á braut inn í óvissuna ég mun falla inn í þig ég mun sameinast þér og ég verð eitt með þér í hringrásinni okkar. ] [ Það er erfitt líf að vera lúinn, liggja einn og ekkert um að vera, ekki vera að höndla heimsins læti. Um heiminn myndi ferðast ef ég gæti og marga hluti merkilega gera, en minn er tíminn nú að verða búinn. ] [ Dræverinn og mærin djörf voru og grimm, drukku mikið samann áttatíuogfimm. Er líða tók að hausti, leiða urðu skil og lá svona í orðunum að meira stæði til. Pínulitlu síðar mærin hitti mann, og mínútunni seinna varð´ún ólétt eftir hann. Dræverinn flakkaði um og flutti hér og hvar, í flöskuna hann lagðist og dvaldi lengi þar. Mærin löngu seinna manninn skildi við og á markaðinum sýndi á sér blauta gleðihlið. Maðurinn í sjokki margra kvenna bað, molaðist á geði og skaut sig eftir það. Dræver frétti að mærin döpur sæti við, og drakk með henni sprittið að gömlum vina sið. Dræver vildi að mærin með sér kæmi heim, en mærin trúði ekki á framtíð handa þeim. Því mærin vildi pening prívathús og bíl, og pressaði á alla sem hún fann með þannig stíl. En dræverinn hann breyttist í dapran fylliraft. sem drattaðist í útlegð og hætti að rífa kjaft. Mærin tókst að eignast fullar hendir fjár, fékk allt heila draslið, leið samt ekkert skár. Dræver gerðist bölsýnn, að brölti fólksins hlær brýtur heilan stöðugt en verður engu nær. Bæði gleyma engu og oft þeim virðist bál áður hafa brunnið í þeirra köldu sál. Svo hitnar gjarnan loftið er hittast þau og sjást, en hrökklast hvort frá öðru og trúa ekki á ást. ] [ Frostið er bölvun sem veturinn sem veldur en veðrið er fagurt, snjólaust og bjart. Ég brosi ekki í dag og bölva ekki heldur bind engar vonir, hugsa svo margt. Kirkjan er grá og kjaftfull af sálum konurnar snökta við prestvalin orð það er raunalegt hjóm í ranglætis málum hvað er réttlæti guðs, slys eða morð ? Ekkjan er föl allt að því brostinn af eilífum vökum, gráti og sorg svo laumast ég burt, tek langversta kostinn leita að skjóli í volaðri borg. Ég reiti í mig steik og renni í staupið rauðvínið þamba, minningarskál. Á barina skrölti og brenni upp kaupið bít frá mér gleði og hamra í stál. Eftir lítra af whisky ég laumast í klámið ligg bara og seðlarnir hverfa í brjóst gellan frá rússlandi með gagnslausa námið grætur á öxl mér með hárið svo ljóst. Svo er nötrandi þynnkan í nístandi frosti nýtekin gröfin mjög stingur í stúf. Þetta er hundaskíts líf með hörmungar kosti ég hrylli mig dapur og myndin er hrjúf. ] [ Ég ákvað að hitta dauðann. Ég ákvað að hitta dauðann og sigra hann og verða þannig mestur allra sem lifað hafa. En ég var seinn eins og alltaf. Dauðinn sagði: það er áliðið dags, kuflinn minn er blautur, ljárinn minn er bitlaus. Og það kemur ekki til greina að vinna yfirvinnu vegna svona skítseyðis sem þú ert ! Og mér fannst ég hafa tapað. Samt lifi ég. ] [ Ég spurði veginn: hvert liggur þú ? Vegurinn svaraði mér engu. Þá varð ég algerlega brjálaður, stóð á veginum miðjum og sagði honum að fara til helvítis. Samstundis ók á mig trukkur og ég fór beint til helvítis vegna síðustu orða minna. ] [ Mig langaði að finna ástina Ég leitaði í húsum, bílum, skipum, bæjum, sveitum og borgum. En ég fann ekki neitt. Sjónvarpið segir að ástin sé blind. Og finnur mig trúlega ekki þess vegna. ] [ Þetta yfirgnæfir þessar tilfinningar til þín sem ég skil ekki ósköp er sárt að þurfa hafa þetta hangandi í loftinu án þess að það trufli þig eitthvað ] [ Uppsnúinn hænsni og kvikindslegir mávar og allt oní drullupoll svo verður bara flogið með fjöllinn á herðunum svo kemur Nato og skýtur pakkið bara niður eins og þeir væru bara ekki þarna, andvana máttvana , spúandi, sjúgandi og með öllu fram ljúgandi svo eitthvað sem ég skil ekki því ég vil ekki heiminn fatta, hann lætur mig gráta, get ekki haldið andanum öllu lengur inni , minnið þurrkast út og ég má ekki við því. Ég sem var bara alltaf leitandi að höndinni á þér á meðan þú stóðst þarna við hliðina á mér. sökkvandi skipulega eins og kafbátur og það rauk úr þér eins og þú værir að senda mér skilaboð að hætti indjána. Ég vildi að ég hefði skilið þig en fáfræði mín kom mér þarna um koll, hrinti mér beint á stafinn A sem sýndist fagur og svo fór ég bara heim og reyndi að hugsa en af einum þessum morgnum vaknaði ég bara ekki neitt og tilfinningin hvarf sem ég hafði fundið svo lengi... 1000 árum seinna leitaðir þú loksins af mér en þá mun ég vera farin ] [ Við erum svo viðkvæm líkt og lauf í vindi sem hendast um förum þangað sem vindurinn ber okkur. Ég vissi það ekki fyrr en ég leit upp og sá að lífið er að þjóta framhjá mér Á meðan ég sit inni í mínu eigin Fangelsi Kvöl Myrkri En það er alltaf Frelsi úr prísund Lausn úr þjáningum Ljós við endann Von í vonleysinu ] [ agnarlítill dropi - sem veldur heilu flóði ein örlítil setning - í ádeiluríku ljóði einn neisti getur endað í ógnarmiklu báli! ein örlítil stjarna sem á jörðu vora fellur vala sem á höfðum okkar úr ógnarhæðum skellur hvað er svo smátt í okkar heimi að það skiptir ekki máli? ein fluga sem úr fögrum blómum færir hópnum mat í Hollands stíflum hættulegt - reynist lítið gat einn maður getur með hnappa einum - heim í hættu látið! ein líðan getur á örskotsstundu - lífi manna breytt myrkur getur úr hugum skotist - þó þar leynist ekki neitt hvað er svo smátt í okkar heimi að það getur ekki grátið? ... litlu tárin sem að féllu frá þér skildu eftir - svo stór sár á mér orð eru smá í öllum heimsins orðaflaumi breyta þó öllu í lífs míns stutta straumi. ... ein agnarlítil vera sem að hugsar bara um ást leitar hennar lengi - þó mun hún aldrei sjást bara þriggja stafa orð sem í hugum okkar dvelur. ástin hefur dregið margan góðan mann til leiða en gert hefur enn fleirum manneskjunum greiða hvað er svo smátt í okkar heimi að það enga huga kvelur? ... allt er á lífi ef þú horfir bara betur fer eftir því hversu smátt þú hluti metur en munið það einnig að hin örlitla fluga hefur augu eyru sál og ríkan tilfinningahuga. ] [ trén varpa skugga á sálarlausa maura en nýtast svo bara í veggi og staura eldivið til að hita upp ískalda menn. andlit svo sorgmædd, máð og grá eiturský hylja nú himinhvolf blá sýndu mér náttúru sem lifir enn. hendurnar blóðugar af endalausum syndum brosin skekkjast á gömlum myndum eitraður arfinn á samviskunni grær. forfeðranna sök - yfir heiminn lekur smákrakkinn ákærður - dæmdur - sekur sýndu mér manneskju sem ennþá hlær. í sjálfum mér blóðið blandast við sýru meðan útlit mitt hylst af silkinu dýru fátækar þjóðirnar deyja úr hungri. áfengispeningur minn gæti fætt heila þjóð en heldur bara áfram að menga mitt blóð drekkir allri samvisku minni svo þungri... sýndu mér gleðirík og hamingjuljóð. yfirborð jarðar er brunnið vítislogum samviskan nú - skiptir engum togum að snúa hringrás nú - er orðið of seint á mengun við höfum - börnin okkar matað svo við höfum á enda öllu sakleysi glatað sýndu mér mann með hjartað enn hreint. sýndu mér... hlýjaðu mér... sýndu mér það fagra ef það finnst enn... sýndu mér það fagra áður en ég brenn... ljótleikinn hér hleypir tárum í mín augu eykur og dekkir mín gríðarstóru baugu ég veit að hér finnast enn góðlyndir menn. augu mín lokuð - orðin of veik opnaðu þau aftur á nýjan leik sýndu mér fegurð áður en ég brenn. ] [ Á grasinu hindir með hófaskellum þjóta Fjöllin í kring með drunum þau hrjóta Og ekkert getur raskað þeirra ró. En maðurinn með sinn gáfaða heila Kann ekki heimi með dýrum að deila Miskunnarleysið heggur hvern skóg. Virkjanir rísa sem holdið á gröðum Á fögrum og friðlýstum skóglendisstöðum Forstjórar orkunnar með leyfi upp á arminn. Um lúkurnar sveittir þeir höndla seðla stóra Og óhræddir með vaselín þeir fara á fætur fjóra Láta græðgispúka - taka sig fast í þarminn. Stjórnast af hvötum sem enginn maður fattar Þessir gemlingar á hæðinni – eiginhagsmunapattar Byggja sér höll þar sem syndirnar fæðast. Ef samviskan fer að narta í þeirra gríðarmiklu fitu Friðþægjast með skógrækt á stærð við hænsnaskitu Flissandi og brosandi þeir undir lögin læðast. Gemlingarnir á hæðinni – prakkarar með völd Þeir skrifa upp á skemmdir hvert einasta kvöld Þegar náttúran er dauð og þeir sjá eftir því Er heimurinn hvort eð er löngu fyrir bí. ... Á brekku einni nærri okkar fegurstu jökulám Læðast gamlingjar með völd – djöflapúkar Drepa alla náttúru – en banna svo sjálfir klám Og sjáið þið til – það verða aðrir Kárahnjúkar. ... Látum ekki stjórnast af fíflunum á hæðinni Gerum okkar uppreisn – látum stýrast af bræðinni Þegar karlar með okkar peninga - náttúruna myrða Er komið að okkur til að standa upp og yrða Mótmælum nauðgun á náttúrunnar yndi Drekkjum allri mengun – í djúpu kviksyndi Stöndum upp og öskrum í nafni náttúru og friðar Sjáum þá hversu vel náttúrumorði miðar... ...uppreisnarþráin í hjarta mínu iðar. ] [ Úti í heimi geisar stríð – svo hart og ljótt Og konungar reyna að leysa það fljótt En græðgin verður mönnum að falli. Náttúran brýst um í dauðans reipum Sálirnar syndugar í Satans greipum Á jörðu fellur kvikasilfurssalli. Áhyggjur margar sem verður að leysa Lífið er orðið ein allsherjar hneisa Veröldin bráðnar í syndunum hér. Þegar hvergi er skjól fyrir öflugu áreiti Og sálina vantar sárt enn meira eldsneyti Finn ég strax frið í hlýjum örmum þér. Streitan í vinnunni bugar mig að lokum Yfir eldgamlar syndir við hulunni mokum Hinu slæma og gamla er strax orðið gleymt. Rifrildi þjóða um landrými og aura Allir vilja ráða ríki heimskingja og maura En í fanginu á þér – þar getur mig dreymt. ... Í faðmi þér með ljóshraða hlýjan hún þýtur Í sálu mér brynjurnar kaldar hún brýtur Því glaður ég hleypi þér þar inn. Í faðmi þér meinin öll læknast svo skjótt Í faðmi þér er ekkert lengur svo ljótt Óhamingjupúkinn í sjálfum mér farinn. Í faðmi þér önnur veröld þar dafnar Meðan umhverfið ástlaust í syndum það kafnar. ] [ Barnið lúrir þarna einmana og á sér ekki samastað Úr himnum heyrist dynkur svo náðarlaus og sterkur Rigningin fellur harðar á brúna pollana og andlit þeirra Sem sitja og stara út í eilífðarinnar myrkur... Barnið stendur upp og hreyfir sig nær skuggunum Snertir dauðar flugurnar sem liggja kyrrar í gluggunum Kjallaraíbúð í Sólvallagötu – þar sem sólin skein áður Nú heimilisfaðirinn drykkfelldur – óhamingjufjáður. Barnið leikur sér að rauðum rispuðum leikfangabíl Lætur dekkin renna hratt yfir vatnið og moldarhæð Mamma kallar það brátt inn í súpu og kartöflur Mamman sem áður var glöð – ánægð – vel stæð. ... Barnið er faðmað kært af glottandi föður Fallið er stoltið niður í gleymskunnar löður Úr vitum hans annarleg lyktin hún svífur Hryllileg skerandi og beitt sem kaldur hnífur. Barnið kann ekki að skilgreina áfengisangan Í raun vill það núna fæða litla magann svangan En mamma virðist skilja betur pabba skrítnu rödd Skilur að þaðan var hamingja þeirra bráðkvödd. Barnið sefur vært eftir máltíðina góðu En foreldrar þess aldrei upp frá borðum stóðu Þar rifust þau endalaust um skuldir og vín Þá daga sem tilvera þeirra var fín. ... Mamman handleikur götóttan mölétinn kjólinn Sem áður var skínandi fagur nýr og gljáandi Minningarnar um hamingju kalla fram sáran ekka Og hún hugsar um daginn sem að hann fór að drekka. ] [ Þegar veröldin leikur okkur illa og hlær Og dansinn er hægari í dag en í gær Fuglarnir flögra um daprir og þaga Flaggið er fallið og erfitt að laga Depurðin ríkir sem einvaldur strangur. Skýin þau grá um grámöskvann fljúga Goðin svo náðarlaus að okkur ljúga Segja okkur ósatt um Himnaríki og gleði Ánægjan liggur veik á köldu dánarbeði Ég get fullyrt að veturinn verði mér langur. ... Kannski lausnirnar finnist í lyfjum og víni Líðanin ógeðfelld í sjálfum mér dvíni Brosin breikki og hláturinn lengist Bullandi þráin í sjálfum mér engist Til að finna lausnir á mínum vanda. Þegar vindurinn gnauðar úti við kaldur Vil ég þegja og hlusta á örlagaskvaldur Reyna að komast að endinum – finna leið En lausnin er erfið og engum manni greið Mun ég deyja og missa minn anda? ... En í rauninni veit ég að þetta mun líða Eina sem ég geri er að setjast og bíða Veturinn fer brátt og vorið mitt byrjar. Þegar leiðinn í sjálfum mér verður of sterkur Sé ég brátt að hann er aðeins tímabundinn verkur Fuglinn brátt í góðu veðri enn á ný kyrjar. ...þegar veröldin kólnar og ég finn enga hlýju veit ég að gleði mín kemur að nýju... ] [ Báturinn vaggar við mannlausan sandinn Veturinn kaldur er kominn til að vera Kuldinn sest niður og brýnir beittan brandinn Báran frýs og vindarnir kinnarnar skera. Húsin hvít af hrími standa auð í gráu hlíðinni Horfir gamli maðurinn á einmana fjallið Kvótinn kom og kvótinn fór í peningahríðinni Konungdæmið á fjörðunum – er núna löngu fallið. Borgin heillar með hillingum um meira frelsi Horfin úr þorpum þangað streyma sveitabörn Draumurinn um fé – hús og hlýju undir pelsi Hefur tekið yfir hugsunina um útgerðartörn. ... En hvað er í borg sem að býður upp á hlýju? Bilun og stress sem að hryggir fólk að nýju Brátt hugurinn leiður að nýrri hlýju leitar En horfinn er vegurinn langi til sveitar. ... Báturinn tómur við bryggjuna vaggar Brjálaður púki sigurfánanum flaggar Fjallið er fallið og snjórinn frystir bæinn Frostbitinn maðurinn horfir út sæinn Á miðunum bárurnar bærast nú einar Brimbitin húsin hrunin – nú steinar. ... Draugarnir ráfa stórstígir um strætin Stundir hamingju og ríkidæmis liðnar Bryggjan - þar áður glumdu gleðilætin Gengur í sundur – undan sorginni gliðnar. ] [ Hvaða rétt hafa ráðherrar til að gramsa í þessum málum? Þeir reyna að leika guði til að ráða yfir sálum Og drekkja í blindni öllum ósnortnum stöðum. Heimsins náttúra á sér ekki yfirmann eða stjóra Hún mun aldrei gefast upp og leggjast á fjóra Hún hefnir sín ef við menn í græðgi hana sköðum. Jarðskjálftar – eldgos – harmakvein og dauði Munu ríða yfir okkur eftir sárafá ár. Sólin – lífsgjafi alls og eldhnötturinn rauði Mun falla og þá verður heimsendisfár! Eins og litlir maurar á feisi snoppufríðs manns Sem strax enda í mauki á húðinni hans Munum við klessast á yfirborði jarðar. Við gerum okkur ekki grein fyrir eigin smæð Gráðug, ljót og aðeins millimetri á hæð Sem örlítill skítur á haug heillar hjarðar. Þegar ég hugsa til mannsins koma í huga mér krakkar Hver og einn á milli stórra í leit að athygli flakkar Maðurinn er eins í meginatriðum aumur. Hoppum og skoppum og þykjumst svo stór Drepum og sköðum og syndgum í kór Fólk er aðeins klístraður ljótur flugnaflaumur. Í fjarskanum heyri ég mjög djúpan hlátur Sem berst í gegnum mengun læti og grátur Þar er náttúran stödd í bið – megnug og sterk. Reiddur til höggs þarna stendur hennar hnefi Í augum hennar vissa og alls enginn efi Í huga hennar vilji til að skapa okkur verk. Hefnd hennar kemur eftir sárafá ár Þá verður það við sem munum sleikja okkar sár Eins og hún hefur horft upp á mengun og stríð Er ég viss um að hefnd hennar verður ei blíð Hún mun drekkja okkur í olíu, salti og ösku Troða okkur niður í þrönga og litla flösku Og selja okkur dýrunum sem pulsur og hakk ... þey! Ég heyri náttúruna fara á flakk. ] [ Laufgað tré stendur æ í fullum skrúða sterkt það í vindinum aldrei brotnar en kyrrlátt og þagmælt sem látin brúða á endanum deyr og á sama stað grotnar. Grasið grær á sama stað – friðsælt en troðið gráturinn hleypur fram í ljósblárri dögg vatn er þess líf - það eina sem því er boðið það mun aldrei ferðast – né reisa sín flögg. Hólpinn er maður sem dvelur á sama stað skelfilegar hættur úti í heimi aldrei sjást en með persónu flata sem mjallarhvítt blað mun í lífi hans aldrei sönn hamingja nást. ... Til að sjá og fá sanna gleði í líf skal renna sér hratt eftir blaði á hníf þó fallið sé hátt hvoru megin sem þú lítur þá er lífið þitt ei tómur ljótur hænsnaskítur. ... Áhætta í lífi er nauðsyn til að lifa lítið er annars að lokum til að skrifa ég vil geta horft úr himnunum látinn á hamingjuminningar sem og grátinn og vitað það með vissu að ég var til viljandi hoppað og hrapað niður gil til þess eins að upplifa allt í kring í stað þess að sitja og stara í hring... ...lífið er upplifun sem vel skal njóta svolgra í sig gleðina – leggina brjóta þó ekki sé lífið alltaf rósarinnar dans er gleðin aldrei langt undan... ...í lífi sérhvers manns. ] [ Utan við sig, snökktandi dúkkulísan. Í klipptum sjöunda áratugar samfestingi. - Upp stigann, hökktandi, svo hrædd, svo afskaplega hrædd. - Það vill enginn leika meira. ] [ Ég hef staðið við glerið og horft á tilveru speglast hinumegin gljáans hreyfing fylgir minni í afleiddu ferli með tíma og hægð get ég andað og horft í augu spegilsins og inn í sjálfa mig og í sekúndubrot hætti ég að anda ég hreyfi mig ekki því þá líður það hjá og splundrast í holdinu ] [ Í hásölum skýjanna englarnir þagna á hvítfleymið stór skugginn fellur nú komin er stundin, endalok ragna inn ríða morðingar, mellur. Himnaríki breytist í Sódómu svarta siðurinn breytist úr lofgjörð í fryggð englarnir sáran í angist þeir kvarta eldskýin ríða um Drottins byggð. Skaparinn vaknar frá værasta blundi vondur í skapinu stígur hann út sem dillandi skottið á stressuðum hundi sýpur hann kveljur og hrekkur í kút. ... Brunnin er höllin sem áður var stærst sót birtu í loftinu hylur í illan hóp púkanna Satan senn fæst svartur og kaldur sem bylur. Blóðrauð nú litast strax himinn og haf horfin er sól bak við skuggann sokkið er Ríkið í gleymskunnar kaf og hægt siglir svört næturduggan. Að morgni til Himinn á endanum rís englarnir Drottinn sinn hylla prúðbúin sól heitum geislunum gýs geislar sem jörð fagra gylla. ... Þegar sól sekkur djúpt að kveldi stríð rísa kraftmikil, óð himinninn hylst rauðum feldi hafið er dökkrautt sem blóð. Hringrás hvern einasta dag himnarnir breytast og hafið sem fögur orð fullkomna brag fast í lög er þetta grafið. ] [ Andvarp mitt er heimsmet, það er svo langt og ég á svo bágt Tár mín eru hrein ég á allt svo rétt og með tárum mínum þvæ ég af mér ranglætið Blankur undir götunni ég er of blankur til þess að ganga um í dagsljósinu enda dagsljósið varla mikið mér til dýrðar Sjálfsvorkun mín er heilög hún er litla systir mín og hvaða drullusokkur sem er reynir nú alla veganna að vera góður við litlu systur sína Já og svona er að vera ég með mínar hugmyndir fáar en rómantískar ] [ Aflituð tútta varla blússa varla maður varla kona samt svoldið ég ] [ Þegar að ég syndgaði þá brast ég í grát og bar gamlan klút upp að vitum mínum og hugsaði til Meryl Streep Og viti menn þau keyptu það og ég fór bakvið hús og fékk mér rettu og blés samviskubitið í burtu. ] [ Hann er einn af þessum mönnum sem lætur í fyrstu ekki mikið yfir sér með feimnislegt bros innan og utan svo þú sviptir upp dyrunum býður honum að eendilega gang\'í bæinn og láta eins og heima hjá sér Og þegar þú vilt ekki að hann fari strax áttarðu þig á hver hann raunverulega er: Hættulegasti Maður Í Heimi ] [ Geng um strætið yfirfullt af fólki sem kann sér ekki hóf Það ekur um á glæsikerrum, þó aldrei ánægt með líf sitt Það vantar eitthvað upp á – eitthvað til að kóróna gleðina Útlit ekki gott – kynlíf ekki gott – óánægja í starfi Þetta fólk er sori – óreittur arfi “Þegar líf manns er uppfullt af sorgum minnkar meining í annarra orgum.” Geng um strætið uppfullur af óhamingju stríðshrjáðra landa Hef samúð með þeim litlu börnum sem deyja að óþörfu Geng framhjá búðarglugga þar sem ég sé spegilmynd mína Hár mitt er orðið of sítt – gleymi stríðinu – ég er ljótur Veð inn á rakarastofuna skjótur. “Úr fylgsninu stúlkan lágt stundi er steininn fast á hana hrundi hún barðist um lífvana brotin brosti - hún heyrði á ný skotin.” Heyri fréttirnar fljúga inn um annað eyrað og út um hitt Sé fátæktina á strætunum – inn um annað augað – út um hitt Einblíni í staðinn á spegilinn – er rakarinn að gera mistök? Því hárið mitt verður að vera fínt – ég verð að vera sætur Hætti að hugsa um styrjaldardætur. “Stúlkan komst út en fljótt fönguð fast við vegg nauðug sárþröngvuð bak brjósta hennar stundi stór dátinn bráðgraður heyrði ekki grátinn.” Orð þessi hljóma í höfði mér sterk sem stálstaur Og fylla mig ýmsum óvanalegum kenndum Lít út yfir bólstraða stólana – Séð og Heyrt rit – út um gluggann Sé ég þar standa fagra stelpu með gítar – tóman peningahatt Mynd þessi kemur upp á mig flatt. “Kefluð hún reyndi að æpa í andliti náföl sem næpa fljótt í mold niður fast barin fagur líkaminn orðinn svo marinn.” Stúlkan heldur áfram að syngja – greinilega blind Ég veit ekki fyrr en ég stend þarna með henni Ímynda mér hvernig tilfinningin er – að sjá ekki neitt En sjá í raun svo margt... “Í fjarskanum fast glumdu skotin faðir hans týndi upp brotin myndir af minningum – gleðiár með brotunum komu fram tár.” Eitt andartak gleymi ég hárinu – sköttunum – bílnum tölvukaupaláninu – yfirdrættinum – símreikningnum erfiðleikunum í hjónabandinu – eigin útlitsóhamingju ...öllu sem skipti mig svo miklu áður... “Blóðrauður litaðist hvítur kraginn í keng engdist matvana maginn...” Hún stoppar og lítur á mig – sér mig ekki – sér mig samt Hún sér innar í mig – vandamálin – mínu eigin langanir Hvernig mér var sama um hana – hvernig mér var sama um allt nema útlitið – eigið líf – peninga – að komast hátt í stigann... ...mála nafn mitt á velgengnisstrigann... “Mér sjálfri var einu sinni sama um allt sál mín og sinni var djöflinum falt en daginn sem augu mín brugðust mér um skoðun ég skipti – og syng nú hér” Þessi lína hitti hjarta mitt – hvað ég lenti í því sama? Yrði blindur og allslaus – fátækur sem þessi dama? Ég fór brott og kökkurinn stakk sem beittir pennar En ég breyttist smá – skildi eftir aur í hatti hennar. Og úr fjarskanum heyrði ég sönginn svo óma: “Ein lítil blind manneskja – getur öllu breytt komið sýnum í fólk – sem sér aldrei neitt því þó líf þess sé uppfullt af sorgum má það aldrei gleyma – annarra orgum...” ] [ Ég sit hérna ein útí horni með lítið rakvélablað í hendinni. Mér líður svo óendanlega illa, mig langar ekki að lifa. Ég hugsa um alla þá sem þykja vænt um mig. En fatta þá að þeir eru engir. Ég er lítil stelpa, gleymd og yfirgefin. Enginn vill með mig hafa, því ég er ógeð. Ég sker mig á púls og horfi á blóðið leka. Ég finn að ég er að líða útaf og mér líður svo vel. Því að núna fæ ég loksins það sem ég hef þráð svo lengi. Dauðann ] [ I wanna fly up to the sky, so high, look into your eye and say goodbye and then fall down and die, becouse i feel so bad and thats why. ] [ ...stiginn sem liggur upp skýjanna bláma orðin sem fjúka úr munninum ráma krabbinn klípur fast í holdsveikt skinn djöfullinn brosir og bíður þér inn brjóstin hér blasa við fögur og stinn... ...myndirnar brenglast svo skrambi hratt andlit þitt birtist mér litríkt og flatt fiðringur firrist um maga minn sterkur í höfði mér þægilegur seiðandi verkur og augu mín rápa um kaldar eyðimerkur... ...tónlistin dýpkar og doðinn fljótt dafnar draumur í vætunni myndríkur kafnar allt hérna brosir við orðunum mínum og setningar koma í aðskildum línum er illska í glottum og aðfinnslum þínum? ...er illska í bitum og barsmíðum þínum? ...er illska í stungum og líflátum þínum? ...kaldur ég finn hvar ég hleyp um nakinn ég vona að blóðslóð mín verði ei rakin veggirnir hlæja og setja fyrir mig fætur marinn ég dett niður í ræsisdrullurætur svona líður mér flestallar föstudagsnætur... ...másandi ringlaður ég kemst í lítið skjól langar samt meira heim í eigið litla ból úr sálu minni víman er byrjuð að flýja tekið við vont bragð og ælunnar klígja milli vara minna lyktandi lekur þar spýja... ...staulast heim kaldur og blóðinu drifinn veit að um tólf að ég verði á fætur rifinn alkóhól í mixtúru með sýru og heróín blandast ekki vel við aumt amfetamín yfir sjálfum mér verkurinn hærra hann gýn... ...ég lofa guð: “aldrei aftur mun ég drekka” segi það sannast með djúpsárum ekka en veit það svo sjálfur að það er stór lygi því til himnanna liggur hinn endalausi stigi... ...þangað verð ég að fara fyrr eða síðar því ekki að stytta sér leiðina upp hlíðar...? ] [ Lengst úti í horni, út af fyrir sig. Hún krossleggur fætur sínar þeigjandi og fjarlægir sjálfa sig varlega úr mannþrönginni. ] [ Hæg umbrot í krafti kyrrðar ég er ekki söm ] [ Stundum finnst mér eins og ég sé ein í þessum heimi. Það er eins og allir hafi látið niður í ferðatösku og yfirgefið mig. Á nokkrum augnarblikum hurfu allir. Og hér stend ég ein og köld, köld eftir sannleikan sem sló mig svo fast að það blæddi blóði illskunnar og einmannaleikans. Nú hef ég áttað mig á Að ég er ein á báti um sinn. ] [ Getur einhver sagt mér hvers vegna lífið er svo ósanngjarnt? Ef þið hafið ekki svar á vörum ykkar þá er það allt í lagi. Þið getið skrifað mér bréf, sent mér hugboð, jafnvel skrifað það í snjóinn eða hvíslað það að vindinum. Ef ég fæ ekki svar strax er ég ráðalaus. ] [ Í lítilli veröld með litlum manneskjum fæðast minni manneskjur. Þær fæðast eins og lítil blóm, en deyja líka eins og öll blóm. Þegar maður lítur yfir blómahafið þá sér maður hið sanna. Á endanum deyja öll blóm veraldar. ] [ Ég geng um lífið og velti því fyrir mér, hvort að allt þetta fólk sem ég ber augum og velti fyrir mér sé að velta mér fyrir sér. Stend ég uppúr?? Eða er ég bara enn ein persónan í mannhafinu? ] [ Fljóta og glampa hundruð kertaljósa á vatnsspegli. Þögul biðja hundruð hjartaljósa í kvöldhúmi. Friður umfaðmar mannfjöldann huggar og róar. Hugur minn er staddur á heilagri stund hjá Galíleuvatni. ] [ Tvo engla þekki ég. Annar er á Íslandi, hinn er farinn til Afríku. Þeir vaka yfir öllum heimi. Tvenns konar fólk erum við: sem sjáum englana, og tökum ekki eftir þeim, hugsum aðeins um okkur. Tvenns konar gleði er til: að þiggja þakklæti, og að gera öðrum gott. Þetta tvennt mætist sjaldan. Tvo engla elska ég. Líf þeirra er ekki létt, samt býr hamingjan með þeim, því þeir elska allan heiminn. ] [ Lítill fugl, flýtur í lofteindunum, sem við lifum á. Fljótandi stefnir á geisla sólarinnar, sem við lifum á. Oh, hvað litli fuglinn er heppinn, að geta svifið í gegnum lífið sjálft. ] [ 25 ár upp og niður eftir götunni alltaf sama gatan mismunandi veður 25 er ungt ég er ungur samt ef að ég tæki typpið á mér og setti það í krukku og myndi síðan hafa hana til sýnis á bensínstöð eða bókasafni þá liti áletrunin einhvern veginn svona út 15.09.1977-15.09.2002 íslenskt reður 25 ára. Ég meina tökum eitthvað jafn stórt 25ára japanskur snákur eða nýsjálensk eðla kommon 25ár eru hellings tími ] [ Blekking óttans He is sitting in a sofa, trying to keep his eyes open, the pipe is right in front of him, and the mirror is screaming to him, common pussy!!! Try to catch the snow, remember when we where friends, i was good to you. I gave you new friends, excuse me, I GAVE YOU FRIENDS I didin have any before me. The sweat startid to run, he crap his chest the heart where exploding he kneeld down and asked God for help, he cryed out to Him, take this pain if your there. He fealt like a breeze coming down his neck, and something crap his hear, and pulled his head. The pain was unbearable, he was passing out. That something let go of his hear, and gave him a stroke down his spine Suddenly he could stand up, the pain was gone. A white big light was in front of him, and he perceived great love and integrity, You are my savior, he said. Then suddenly the light chanced into a big shaddow. I fooled you there, use what i gave you I gave you power and money, girls, drug, what more do you whant, and i´ll give you that. I want real love, from my savior Jesus Christ, and i´ll tell you that, that i dont want your money, drugs or the girls. Go away, satan, you can have your drugs but you will never ever have forever life. Þetta ljóð er samið í einhverji fílingu sem Guð veitti mér. Það eru villur og allt það, en ég vil ekki heyra um villur mínar heldur endilega kommentiði á ljóðið sjálft. Gagnrýni ef hún er góð á alltaf rétt á sér ] [ neonbleikur texti hljóð í vatni bleykt plastparket og minibar sem nær til mín á persónulegum nótum hún er eins og Herðubreið sefur tignarlega hrein eins og lindin og ég finn hvað ég er skítugur í návist hennar Ég stugga við henni og rétti henni tíu dollara seðil hún reisir sig við og segir \"Thanks honey, had a good time big boy?\" ] [ Í gær dreymdi mig svefn í vöku Trén á leið í háttinn. Sum lík ærslafullum börnum í flónelnáttfötum. Rósaruninn þokkafull og fáguð í svífandi silki. Hlynurinn, gamall og hlýlegur í flókainniskóm, setur gómana í glas. Öll þreytt en ánægð að loknum annasömum degi. Í gær sá ég þau hátta meðan litrík sæng haustsins kúrði sig hægt og blíðlega yfir garðinn Í gær dreymdi mig ástina Seinna mun vetur syngja þeim hvínandi vögguljóð stormanna um hetjur og hugrekki. Og um leið heyrist óma fegurð svefns og drauma dásemd hvíldarinnar ótakmörkuð von ókominna morgna Í gær átti ég frelsi og elskaði. ] [ Í brekkunni hér fyrir neðan situr Guð og sonur hans Jesús að sötra bjór þeir þora ekki til himna strax María Mey er að þrífa íbúðina ] [ Góðlátlegt bros, viðkvæm augu, kærileysislegt glott. svo stormur. Ræturnar rifna, Jörðin sklefur, og dalirnir fyllast af tárum. minnið verður sýnilegt. Ekkert bros, blóðsokkin augu, sviplaust fölt andlit. og tærð æska. ] [ Þetta er allt saman að sjatna hættur að sakna farinn að safna hári syndi hleyp stæla mig upp hún er hins vegar í rusli með barnið og neyðaraðstoðina ég er með helgarpabbaglott annan hvorn föstudag því borgin er full af dagmömmum um helgar síðan þegar jólin nálgast þá kaupi ég hörðustu jólapakka í náttúrunni og skola þakklæti til mín niður með bjór I see a red door and I want it paint in black síðan hengi ég mig eftir að hafa klárað afsakanirnar og þegar ég flýg á englavængjum mínum í átt að einhverju sem ég hélt að væri ekki neitt þá sitja fáklæddir Indverjar uppi í tré og hlæja (þarna fer einn af þessum heimsku helgarpöbbum frá Íslandi aftur á byrjunarreit) ] [ Baða mig í himni augna þinna, aðeins of snemma á áfengum morgni, gestir næturinnar hafa tygjað sig heim. Þú ert við hliðina á mér hlýrri en sólin. Ást okkar hefur kollvarpað heiminum. (ég horfi út um gluggann og sé snjóinn falla) Þú leggst mjúklega aftur, hvílir höfuðið vel á koddanum og sofnar í hundrað ár. Vaknar upp við lúðraþyt samviskunnar, hellir upp á kaffi, skolar af þér lyktina af mér. Gleymir. ] [ Á öðrum stað er nýtt líf að myndast, bjart líf að fæðast og lítill hugur að þroskast. Á öðrum stað eru tár að streyma, reiði að magnast og sár að gróa. Á öðrum stað er ást í loftinu, þörf fyrir tjáningu og ljóð líkt og þetta. ] [ Ég veit þú munt tortíma mér, líkt og svartholið mun tortíma jörðinni. Þú vökvar hjarta mitt, færir því síðan þurrk. Rífur mig upp frá rótum og setur mig á stall, fyrir alla til að sjá... en enginn skilur. ] [ Þú finnur aldrei tón, þeirri tíð við hæfi. Allt kom nær, varð meira en mynd og grunur: líf, á göngu; þú manst hverja spurn, hvern spöl ... Hann dylst í því sjálfu sem fram fór: orð tók orði! Og síðan mörg systurleg, trygg spor. ] [ Fullt af leiðinlegum börnum í röðum. Planta á borði kennarans, fölnar og deyr. Þunglyndur kennari, gengur í átt að skólastofunni. "Þessi dagur verður búinn bráðum". Hljóðlega sest í óþægilega sætið, við borðið með fölnandi blóminu, í stofu, með fullt af leiðinlegum börnum. ] [ Að leggja í ofvæni orð á streng: þráðinn sjálfan sem þaninn skelfur svo mjög! Hve torvelt reyndist að finna þeim örvum festu og miða úr málstað ... ] [ Líttu á þessi kvæði blað fyrir blað. Á meðan vildi ég helzt fá að halla mér aðeins. Það verður komið rökkur þegar ég rumska og drífan þéttari. Gatan mér ókunn úti. Við þokumst, færumst með húsinu hægt úr stað. ] [ Viðkvæm sál í augum þér, það sem innra býr enginn sér. Dag og nótt hún minningarnar flýr, en veit að á morgun kemur dagur nýr. ] [ Aðeins eitt atvik, ekkert verður eins og það var. Smán og ótti, hún finnur hvergi svar. Jafnvel sálin er skítug og hún veit ekki hvort hún sé óhult... né hvar. ] [ Hugsa auðveldlega rangar hugsanir og þek hugann með myndum af óæskilegum aðstæðum og ímynduðum sannleika. Smeygi mér svo óvart inn í eina mynd og út í heiminn þannig lýg ég ekki að sjálfri mér. Og bara vegna þess að ég er löt. ] [ Hugmyndinni slær niður líkt og eldingu og ég skrifa.... skrifa....skrifa.... skrifa í nótt. Á morgun kemur út ljóðabók. ] [ Tíminn er að kominn, böndin hægt að rofna. Ég sit hérna dofin, og mig langar bara að sofna. En ég má ekki sofna, ég verð að reyna að vaka, ég horfi á heim minn klofna. En mig er ekki að saka, þó svo heimur minn klofni, og allir bendi í átt að þér. Af því ég er lífið, lífið inní sjálfri mér. ] [ Það að vakna of seint getur haft dúpstæð áhrif á allan framgang lífs míns. Það að vakna of snemma getur líka haft áhrif. Það eru til svo margar kenningar um þetta. Sumir vakna snemma, sumir vakna seint, sumir eru hreinlega alltaf vakandi og sumir vakna aldrei ] [ Þegar ég var lítill bjó ég á Eskifirði, áður en ég fór út í eyðimörkina og gresjan hvíslaði að mér að ég skyldi aldrei framar svara nafninu Þóroddur Ríkharðsson heldur heita Todd, Todd Richardsson, stóð ég oft á bryggjusporðinum og horfði ofan í dýpið fyrir neðan. Á þessum tíma hélt ég að eilífðin væri til og hugmyndaflugið ætti sér engin takmörk. Skopskyn mitt hefur breyst mikið síðan þá. ] [ I want to find all those pieces of my mind, that have floated away when I was blind. I hear crack inside of my head, I guess I\'m still not seeing, and I just can\'t get out of bed. Splash, I hear splash when I dive into the cold water. Naked, here I feel safe. ] [ Hugur minn er ávallt hjá þér Nærvera þín hún styrkir mig Elsku Elín vertu alltaf hjá mér Því ástin mín ég elska þig ] [ Angist, líðan, hugsun, óró Orðin dynja i huga mér dökkur, bjartur, kaldur, heitur skynjavitin sánka´ð sér víður, síður, langur, strangur til helvítisins þett´allt fer. ] [ Í draumum mínum dansa ég eins og glitrandi ljós sem litar heiminn með loforðum. En ég stend aldrei við neitt nema helgarferðir, fyllerí og svefn. ] [ ?ritningin fullmótuð, en samt ókláruð !? mér finnst alveg rosalega rómó að fara út við stjörnubjart kvöld horfa upp og sjá jafnvel norðurljósin líða áfram allt er heiðskýrt það er logn stjörnuhrap af og til alger kyrrð hrein rósemd allt er frosið en enginn snjór það er þykk hula yfir öllu hulan eru hrímaðir ískrystallar sem glitra við hverja andrá ekkert er eins náttúran liggur í dvala svo þegar maður andar að sér hressandi lofti sem sumpart stingur mann þannig að maður veit að maður er lifandi þegar maður andar frá sér gufar maður upp í tindrandi lofti sem brotnar út í eilífðina alger ró færist yfir mig mér finnst ég vera eilífur þá loka ég augunum hvílist eitt andartak meir en ég geri með 8 tíma svefn það sem magnar þetta upp er þegar ég er vel klæddur í þykkri lopapeysu eða dúnúlpu mér er mjög hlýtt en það er samt ákveðinn hrollur í mér ég leggst þá niður á hrímaða jörð horfi upp anda rólega loka augunum, en sé samt áfram störnurnar skyldi ég geta talið þær allar? eru þær endalausar? hver veit? ég held samt áfram og sef........ ] [ Morgunn. Ég sit með sígarettuna. Blæs þykkum, drepandi reyknum og horfi á hann liðast út í loftið. Lítill dordingull unir sæll við sitt á handriðinu. Kem auga á hann og blæs hugsunarlaust á hann. Spennandi. Hann stirðnar í eiturgufunum í dauðateygjunum forðar hann sér bak við handriðsbrúnina. Ég glotti og verð ekki vör við risavaxna mannhæðarháa köngulónna sem stendur yfir mér. ] [ Þú ert fallegur þegar ég þarf á því að halda. Þú heillar mig þegar ég þarf á því að halda. Við elskumst innilega þegar ég þarf á því að halda. Við leiðumst um bæinn þegar ég þarf á því að halda. Þú huggar mig þegar ég þarf á því að halda. Ég veit hvað þú hugsar þegar ég kæri mig um það. Þú þarft ekki á mér að halda. ] [ -Landið var fagurt og frítt- Ég horfi á fyrstu geislana kyssa sofandi landið og finn það vakna í mér. Náttúran sem hristir af sér slenið fuglarnir sem skipta um nótnastatív við sterkari geisla bæinn sem sefur enn því vísarnir á klukkunni segja að það sé nótt og gamlingjanna sem vakna fyrstir allra. Landið er sannarlega fagurt og frítt ] [ Allir horfa á mig en sjá ekki það sem bara ég veit. Enginn fær að vita hver það er sem hjarta mitt þráir. Ekki einu sinni ég sjálf. Sá leyndardómur er of stór fyrir heiminn sem er svo lítill hérna. Hjörtun eru svo lítil þau rúma aðeins eina ást. Mitt hjarta hefur mörg hólf eitt fyrir hverja ást. Svo dreg ég þríblöðkulokuna frá og leyfi mér að elska og dreyma ] [ Tær nú fylla augun tár töpuð lífsins vinna. Hjartað er eitt opið sár ást er ei að finna. ] [ Hann er ávallt heims míns ljós hjartað er hjá honum. Elskan mín góða, hin eilífa rós efstur af Adamssonum. ] [ Þekki ég þig? Í alvörunni, undir orðunum, undir húðinni, inni í beinunum -þekki ég þig þar? Þekki ég þig? Utan hversdagsins, uppi í rúmi í andardrættinum, á morgnana -þekki ég þig þar? Þekkirðu mig? Innsta hugsun mín, þrár og draumar, Skopskynið, gleðin, hégómagirndin -þú þekkir mig... ] [ Hvernig geturðu fengið það af þér að vera þú? Hvernig er það mögulegt að vera þú? -Veistu ekki að við erum jafnskítugar?? ] [ Þeir hafa allir skrifað. Það sem þeir skrifa eru hugrenningar og áróður. En þegar hnefi ritstíflunnar rekst niður í kok á þeim er ekkert að gera nema að deyja. Það er líka hægt að skrifa um það. Væmna klisju. ] [ Þú, ert mér allt, ég get fengið þig til að loga af ást til mín með einu handtaki -Og þú logar, þráir mig. Án allrar vitleysu, misskilnings og rifrildis. Ég hef fullkomið vald yfir þér, þú ert peð í höndum mér en ég misnota ekki vald mitt. Því ekkert í heiminum kemur í þinn stað. -Og þú logar, þráir mig. Þrá þín brennir þig upp þar til þú verður að engu, fuðrar upp sem reykský. -Og þú logar, þráir mig allt þar til ég ákveð að slökkva í þér. Þegar þú ert farinn sakna ég þín. ] [ Litli heimurinn þinn er rofinn friðhelgi sinni. Jafnvel þó að þú hafir búið þér öruggt skjól í hæstu toppum trjánna og telur hreiðrið og hina ungu úr allri hættu, verður tjónið hrottalegt. Hinir þrestirnir fljúga um og syngja, grunlausir. Gruna ekki að ógnin er komin til að vera. ] [ Ég lít í kringum mig... einhvern tímann á þessi síjórtrandi og sljóa, svitastorkna og sjálfdauða, síríðandi og skvaldrandi, tískueltandi og tækifærissinnaða, taugaveiklaða og tilkippilega, innantóma og eyðilagða, heiladauða kynslóð eftir að verða foreldrar. ] [ Það er ekkert sárara í heiminum en konan sem grætur í skýlinu. Bíður eftir vagninum, vel dúðuð með Hagkaupspoka. Og grætur. Ég þekki ekki sorg hennar, kannski ber hún allar sorgir heimsins kannski ekki. En sína sorg ber hún í hljóði. Sígur þegar lítið ber á uppí nefið og lítur hrædd í kringum sig. Hrædd um að einhver hafi heyrt eða séð. Full mótþróa streyma tárin niður kinnarnar um hábjartan dag. ] [ Tilfinningunum leyfðu að streyma því tilfinningunum þú ert að gleyma haltu þeim opnum og hættu að reyna því veruleikanum ert þú að gleyma. ] [ Ég sigli í höfn hjá þér undir fölsku flaggi. Landa persónuleika mínum á bryggju hugar þíns. Fæ að skýla mér hjá þér þegar það er bræla í lífi mínu. Hrædd um að þú takir af mér kvótann ef þú kæmist að því hver ég er í raun ] [ Ef ég ætti eina ósk þá myndi ég óska þess að allir í heiminum myndu loka augunum. Bara eitt augnablik. Þú líka. Þá myndi ég ganga til þín og kyssa þig kveðjukoss og fara síðan. Þig myndi ekkert gruna og héldir bara áfram að lifa. Án mín. ] [ Hvílík tilfinning að ræna sakleysi og hreinleika einhvers sem má sín lítils og er auðsæranlegur vegna lítillar reynslu -Og vilja gera það allt aftur. ] [ Glóð frá öðrum, læðast inn á hjartað mitt. Neistar í smástund. Svo brennur það í gegn. ] [ Það sem aldrei hefur verið svikið áður hefur nú svikið mig þú sem öllu góðu lofaðir stóðst ekki við neitt á meðan ringulreiðin í höfðinu skapaði nýjan heim fullan af þér sveikstu mig ] [ Þá,í skammdeginu, brendu brúnu augun þín sig inn í vitund mína. Og torgenginn þyrniskógurinn og myrkur sálar minnar, véku, fyrir brennandi brúnu augunum þínum, sem lýstu mér veginn. ] [ Augun opnast um leið og klukkan hringir Augun lokast um leið og þreytan nær völdum Hugsanir fljúga um heilann fara í hringi og sumar villast hugsanirnar breytast í drauma og svo vaknar maður með höfuðverk ] [ Hver einasta stund sem ég lifi án þín Hvert einasta skref er niður á við Hver einasta hugsun er tileinkuð þér Hverja einustu stund langar mig að vera í faðmi þínum Hvert einasta tár sem ég felli, fellur til þín Hver einasta gleðistund mín er vegna þín Hver einasta minning um þig fyllir mig þrá Hvert einasta bros mitt er brosað fyrir þig Hver einasta snerting mín ætti að snerta þig Hver einasti partur í líkama mínum er tileinkaður þér sem ég þrái sem ég elska Hver einasti söknuður minn fer til þín ] [ Svarta náttmyrkvið bítur Kuldalegur iður nætur Kliður vænir um sítur Hafðið á´ykkur gætur Dauðaþyrstur um þýtur Djákninn á þeim svarta Geysist á ferð um grýtur Drepur án þess að kvarta ] [ Lítill strákur sterkur er sem berst við líf og ótta úti í garði að leika sér hann stundum leggst á flótta Í hamingju og gleði hann unir sér þær stuttu stundir líða svo kemur rökkrið og sólin fer í næstu er langt að bíða Guð minn gefi þér æru og trú vertu sterkur og þraukaðu nú það verður ei aftur snú í blóma lífsins ferð þú ] [ Farinn ertu jörðu frá og sárt ég þín sakna stundum þig ég þykist sjá á morgnanna þegar ég vakna Ég veit þér líður vel, afi minn vertu nú hress og kátur innra með mér nú ég finn þinn yndislega hlátur Fyrir sál þinni ég bið og signa líkama þinn í von um að þú finnir frið og verðir engillinn minn Hvert sem ég fer ég mynd af þér í hjarta mér ber ] [ virkir dagar? allir dagar eru óvirkir. mánu-, þriðju-, miðviku-, fimmtu-, flösku-, laugar-, og sunnudagar. óvirkar nætur? allar nætur eru virkar. mánu-, þriðju-, miðviku-, fimmtu-, flösku-, laugar-, og sunnunætur. (trúleysingjar kalla þetta ekki helgar) ég fékk pungstuð áðan, eða, betra að kalla þetta hausverk ég hugsa með tippinu. (kerlingar hugsa með tánum) ] [ Rokin út í vindinn, tilbúin að sleppa af takinu, er ég með allt? Er ég með hugmyndaflugið, blað og penna? Syngjandi allt sem heilinn býður upp á, skrifandi allt sem mér dettur í hug, en er það nógu sniðugt? ] [ Hann er þreytandi. Hann er illur. Hann er kúgandi. Hann er dimmur. Hann er pirrandi og minnkar sjálfstraustið. Hann er særandi og kallast ótti. ] [ Hann er dauður, hann er gleymdur. Ég veit ekki hvar hann er geymdur. Honum er sama, um allan þann ama, sem hann gerði okkur, bæði mér og þér. Hann er villtur, hann er stilltur, og hann heldur að hann sé gylltur. En það sem hann veit ekki, er að ég mun koma, til hans og allra hinna, sem ekki eru ég. ] [ Hve ljúft væri að vera útsprungin rós - full af lífi og angan blómstra - án þess að fá hrós og lifa fyrir sig, en ekki náungann. ] [ Að sjá þig í dag kom hjarta mínu til að slá hraðar. Dökk húðin, mýkri en minnið sagði mér. Augun bjartari. Þú ljómaðir allur. Eins og sólin væri komin í sína efstu stöðu. ] [ Þú birtist mér eins og uppljómun. Ég vissi af þér en hafði þó aldrei séð þig, ekki þannig. Augu þín glóðu, skoðuðu mig, skoðuðu brjóstin mín. Þú varst karlmennskan uppmáluð. En þó varstu tregur. Augu þín glóa, skoða mig, skoða brjóstin mín. Þú ert karlmennskan uppmáluð. ] [ Marga siði kenndi mér búum rúm og ganga frá hér með vil ég þakka þér hingað vil þig aftur fá Fórst burtu í fússi, væna depraðir niður mitt hjarta komdu hingað aftur hæna Þú veröldina gerðir bjarta ] [ Um bjartann dag ég á þig breiði Allskyns glitrandi stjörnum Með von í hjarta þær´í þig leiði Líf í sex litlum börnum Þessar stjörnur sem úr augum þínum Komu hér og vitjuðu mín Ég blandaði saman með óskum mínum Og sendi þær aftur til þín ] [ bjartur er minn blýantskraftur bjartur sem fiðlustrengur ég fyrir þessu fallega finn því ég hef kynnst ástinni aftur svartur innri sálhagur minn er sosum ekki lengur ] [ Finnst eins og heimurinn brotni finnst eins og allt hverfi frá mér líkt og óbrotinn blómavasi bjuggum við föst við hvort annað en svo feykti vindhviðan okkur á gólfið og braut okkur í tvo aðskilda parta.. Þú varst límd inn í listaverk mér var hent í hálfklárað verk En það vantar eitthvað í samhengið í verkinu sem ég er í Það vantar þig. ] [ Ég er ennþá aðeins saklaus. þú ert eitthvað meira. Ekki reyna að eiðileggja mitt þá skal ég ekki eiðileggja þitt. ] [ Það gerist frekar hægt Ég er einhvers staðar Undir yfirborðinu Líklega neðansjávar Læt mig fljóta um djúpin Mig þarf ekki að dreyma þar Stundum þegar nóttin siglir yfir hafið þá mælum við okkur mót Það eru slædsmyndir Norðurljós frost og froðukenndar öldur hríðarbylur og mér verður kalt (á sama tíma í bandaríkjunum birtist frétt í tímariti eftir þekktan franskan vísindamann) Nú þykir sannað með genarannsóknum að ljóðskáld séu ekki einungis haldin ranghugmyndum, heldur séu þau sú tegund manna sem einni mestri leikni hefur náð í því að vorkenna sjálfum sér og sér til halds og trausts styðja þau sig við hina fallegu ranghverfu sannleikans, myndlíkinguna. Engin veit í raun hvað fyrir þeim vakir en rannsóknir hafa sýnt að enginn veit minna um skáldið sjálft heldur en ljóðið. ] [ Komdu vina, leiktu við mig Liggjum saman, föðmumst hér Ég skal gera hluti við þig Svo vinan ei þú gleymir mér Þú mátt mér halda eins og raftur Er ég kyssi þig um kroppinn sæta Nuddumst við svo fram og aftur Með hamingjunni ég skal þig græta ] [ Hallar sumri hausta tekur húmið tekur völd. Hljóðar nætur huga vekur hamingjunnar kvöld. Kvöldsins roði kveikir bál kyrrðin landið vefur. Lífgar andann litar sál lífsins neista gefur. ] [ Menn og konur vísast sváfu vært varla sáu það sem fyrir bar. Ótal hnettir, skinu margir skært skrautleg himinhvelfing var. Norðurljósin sýndu listir sínar liðu hratt í bylgjum hátt. Tendruðu líka tilfinningar mínar og töldu í mig hulinn mátt. ] [ Nóttin er komin það er dimmt. Ég vakna við lágan einmannalegan grát. Ég kveiki á kerti og mér til undrunar situr þarna lítill einmanna drengur. Hann horfir á mig með saklausum en tómum augum og tárin renna. Ég tárast fæ kökk í hálsinn. Mig langar að gráta faðma hann fast að mér. En ég geri það ekki heldur sit hljóð í myrkrinu þar til ég er ein. ] [ Það snjóar. Það er kalt. Hún hleypur eftir köldum götunum. Hún er hrædd og hræðslan skín úr fölu andliti hennar. En við hvað? Hvað hræddi hana? Hvað var hún að flýja? Hún lagði mig niður í dimmt þröngt sund. Hún hvíslaði að mér að henni þætti þetta leitt. Svo hvarf hún út í myrkrið og kom aldrei aftur. Allt varð hljótt. Ég var ein. ] [ Hatur er sterkt og öflugt orð. Sem ég hélt ég myndi aldrei nota. En þú sveikst mig. Þú særðir mig. Ég veit ekki hvort ég á að öskra eða gráta. ] [ Andlit hans er eins og sumarnóttin. Hlý, björt og fögur. Augu hans eru eins og glitrandi stjörnurnar sem vísa mér leið. Bros hans kemur fuglunum til að syngja og bíða ei lengur eftir sólinni. ] [ Þið gáfuð mér líf og færðuð mig í þennan heim. Þið óluð mig upp og gáfuð mér ást. Þið kennduð mér allt sem ég veit í dag. Og hjálpuðuð mér upp þegar ég datt. Eins og tveir klettar þið stóðuð mér hjá. Og veittuð mér stuðning þegar illa stóð á. Ef ég átti í vanda við saman fundum lausn. Þið eruð bestu vinir sem völ eru á. ] [ Mér er kalt og ég er hrædd. En ég verð að halda áfram. En hvað hræddi mig? Hvað var ég að flýja? Einmannaleikann. Ég er að flýja burt frá hinum kalda og tóma einmannaleika. Ég hleyp hraðar og hraðar. En hann eltir eins og skugginn. Ég þreytist kemst ekki lengra. Fæturnir gefa sig hætta að virka. Ég lít við en hann nálgast. Ég píni mig áfram reyni að flýja. En það er of seint. Hann náði mér og ég næ ekki að hlaupa. Allt verður tómt og ég sekk lengra og lengra inn í heim einmannaleikann ] [ Hvíldin er engin, hamingjan lág, svitinn mikill. Fer taugum á. Veit ekki, kann ekki, skil ekki. Hvað viltu fá? \"Fór yfir prófið, fékkst bara tvo\". Fallinn, aftur, fór taugum á. Veit ekki, kann ekki, skil ekki. Hvað viltu fá? Þriðja skiptið, lærði nú allt. Strita og puða, iðinn ég var. Veit þetta, kann þetta, skil þetta. Hvað vil ég fá? Ha! Féll ég aftur? En ég kunni þetta allt. \"Skiptir engu máli þú færð samt fall\". Veit þetta, kann þetta, skil þetta. En get það enn. Skipti um skóla, dúxaði þar. Kellingarbeyglan, ekki elti mig. ] [ Hvað myndirðu segja ef ég segist vera skotin í þér, að ég muni elska þig svo undurheitt, ef þú myndir vilja leyfa mér það? Sömuleiðis vona ég. ] [ Ég er teknóvera innst inni ég bið læknana gjarnan um að skreyta röntgenmyndirnar af hjartastoppunum mínum með nýjum þýskum yfirstrikunarpenna Ég fer stundum í göngutúra með vasadiskó og hugleiði hversu hratt sé hægt að þrífa rauðan bíl í myrkri og ímynda mér að ég eigi fyrir snotru bassaboxi Já ég er teknóbolti sem vinn hörðum höndum að vísinda og þróunarkenningum Ég er lifandi sönnun þess að maðurinn er kominn úr vöggu siðmenningarinnar og út fyrir hliðarlínur formsins Ég kannast við eitt og eitt lið í ensku deildinni en ég er teknóbolti. ] [ The beauty of your face, so precious to me, the sound of your laughter, the best sound I ever hear, lying here with you, it\'s where I wanna be, I want to have you here with me, forever to hold you near. ] [ Let me lift your name on high, oh Lord, give me strenght to stop asking, why? Because I long to walk down your path and throw away all my wrath, though the path is narrow, your love stays strong, if I only stay close to you, I know I can\'t go wrong. So please dear Lord let me follow in your steps, so there can be no more regrets. ] [ Ég elska þig..... þessi 3 orð eru svo lítil, en samt svo stór, Ég elska þig... þessi 3 orð eru það sem allir vilja heyra, enn öllum verður ekki af ósk sinni. Ég elska þig... þessi orð lýsa þeirri tilfiningu, sem ég ber til þín. ] [ Ekki veit ég vitrann mann vinalegan og góðan. Því ei ég við þig kann, því ég vil haf\'an fróðan. ] [ Ég þekkti eitt sinn stelpu sem var eitt sinn kát og glöð. En núna er hún leið og sár. Hún fékk allt sem hún vildi en ekkert var nóg Það eina sem hún þráði... ...var að vera frjáls ] [ Eitt sinn varstu lítið barn með bleiu stóra og fingur smáa. Þú óxt úr grasi og fórst í skóla. Af stelpum fórstu að skoða. Kynntist stelpu félst fyrir flatur. Fluttist burt með henni glaður. Árin líða æskan líka. Því miður gammlingi þú ert orðin fimmtugur. ] [ Hvar er ég? Hver er ég? Hvernig komst ég hinga? Bjart ljós Fólk í hvítu Og bragð af blóði. Ég get ekki hreyft mig Ég næ ekki andanum Endlausverkur. Allt er svar En ég veit að þú ert hér Að halda í höndina á mér. Ég reyni að opna augun Ég reyni að tala En endlausverkur. Ég heyri raddir önnur titrar Ert þetta þú mamma? ] [ notagildi mitt er mælt í samþykki mínu jákvæðu viðhorfi og hlýðni síðan get ég fengið að stöðumæla líka ef ég vil eða það held ég ] [ Satan liggðu kjurr Satan hoppaðu tíu sinnum upp í loftið já húrra, gerðu þetta 12sinnum Satan svona keyrir maður bíl Passaðu þig! Satan sestu við borðið svona já Og farðu nú í þessi föt ekki skíta allt út Satan Já svona flott Hringdu nú nokkur símtöl (þú ert maður nokkuð sjarmerandi hugsa ég) Ok flott þá sjáumst við. Og Satan lærði heima, vann á kvöldin og lærði að nota jakkaföt og sushi. Satan finnst gott að ríða og hann borgar fyrir það og þú veist ekki að þú ert að fá pening um leið og hann kitlar þig djöfullega í endaþarminn. Hann knúsar okkur, hann hringir í okkur, hann rekur okkur, hann hrósar okkur. Satan er oft á tíðum vinur okkar og við sitjum í kjöltunni á honum og horfum á saklaus börn svelta og hlægjum við Mikið eru negrarnir skrýtnir þeir virðast kunna voða illa að bjarga sér. Satan segir líka að rauðhærðir séu ekkert ljótir, en hann myndi nú borga slatta fyrir að fá að sleppa við þess konar slikju. Já Satan er gjöf frá okkur og við geymum hann í rassinum og brosum. ] [ Að sakna einhvers... er sárara en allt. þá er ekkert hægt að gera nema að hugsa, ég sakna þín... saknar þú mín?? Ég sit hér og hugsa, um liðnar stundir. Ég horfi út um gluggann og brosi, brosi eins og bjáni er ég hugsa um þig... Hugsar þú um mig?? Mig langar svo að sjá þig aftur, að heyra hlátur þinn, að horfa í augu þín, mig langar að faðma þig... langar þig að faðma mig?? ] [ Ég er einn, aleinn. Skoða allt sem ég sé, sætar stelpur allt í kring, ég brosi til þeirra. Þær setja á sig ljótan svip, líta fljótt undan. Ein þeirra lítur beint á mig. Hún horfir á mig, á mig! Brosir, byrjar að hlæja, bendir á mig, allir hlæja. Ég er nakinn, kviknakinn. Ég er einn, aleinn. ] [ Sviðnandi lík liggja fótum troðin á heitu malbikinu. Einstaka hjarta er kramið í holræsunum. Og það rýkur úr höfðum látinna systkina þinna. Þú gengur hratt um. Örvænting grípur þig. Meðan þú leitar að foreldrum þínum, passar þú þig að stíga ekki á tætta ættingja annarra, Það er erfitt, og þú hrasar um blóðugan fótlegg, lendir á grúfu ofaná einhverju mjúku Og þegar þú opnar augun og stendur upp, sérðu látinn föður þinn Augu hans eru stirð og opin. Áður en þú heldur áfram í leit að móður þinni, lokar þú augum föður þíns með annarri hendinni og biður guð að gæta hans. Þú finnur fyrir máttleysi í fótunum, og sárum sting í bakinu. En þú heldur áfram Sérð konu á grúfu og stjakar við henni, hún veltur yfir á hina hliðina. En andlitið vantar, það hefur verið sprengt af Máttleysið í fótunum verður sífellt meira og brátt ertu farinn að skríða Þú reynir að halda áfram Skimar í kringum þig Brunarústir falla og lyktin er óbærileg. Þér finnst þú skyndilega heyra móður þína kalla á þig í myrkrinu ?Hún er á lífi? hugsar þú og styrkur þinn eykst. Þú heldur áfram og nálgast hana óðum. nú sérðu hana loks. Ykkur er báðum létt. Aðeins nokkur skref eftir. En þá heyrir þú drunur, lítur upp, og sérð að húsveggur, beint fyrir ofan þig hrynur Sársaukinn í bakinu er farinn þú ert komin eitthvert annað þú sérð systkini þín og föður en þú skildir hana eftir. Móðir þín lifði sprengjuna af. En ekki sakna hennar. Það verða fleiri sprengjur, og hún kemur brátt. ] [ Tveir fuglar fljúga, í flauelsmyrkri. Örlaganorn á syllu situr. Veit hún gjörla, hvaða leiðir, fuglar fljúga. Flýgur fugl, mót firru. Heimska honum, hylur sýn. Annar flýgur, í faðm opinn. Brosa örlög, og æska við. Hvað rökum ræður, veit enginn. Að rata til róta, enginn kann. Örlaganorn á syllu situr, sindra í augum sannleiksneistar. Aðspurð víkur, vanga undan. Orð hennar búa, englum hjá. ] [ blóð...allsstaðar, stór pollur á gólfinu... og hann í miðjunni. Ég verð hrædd, veit ekki hvað ég á að gera, brest í grát. Þá kemur þú. þú faðmar mig og segir að allt verði í lagi, en það verður ekki allt í lagi, þvi hann er dáinn, liggur í sínu eigin blóði, kaldur, ég ýti þér í burtu, og sýg niður á gólf hjálparvana, get ekki hætt að gráta. Hann er dáinn... ] [ Ég sit í tíma, og skil ekki neitt. Osmósa og hvatberi, í mínum huga bull! Ég horfi út um gluggan, á fólk sem gengur framhjá. Ég byrja að hugsa, og enda hjá þér. Ég byrja að brosa, jafnvel að hlæja. Tek saman dótið mitt og labba út...brosandi :) kennarinn talar spyr hvort ég komi aftur, ég svara nei... og skelli á eftir mér. Geng brosandi í burtu... ] [ ...dúnmjúkir faðmarnir með sakleysisblæ freista mín meir en Drottins mikla ríki heldur vil ég dvelja þar dögunum saman en daga upp sem engill í ástarinnar sorg... ] [ ...sjálfar geta sálir sent skugga á braut sýking í huga er ímyndun ein ég ráðlegg þér: sestu í framtíðar skaut sorgirnar hverfa og hljóðna öll vein... ...ef fiðringur leynist í hjarta þér sterkur á ljóshraða boðin til heila þá fara þar skaltu þau greina sem sekúndu verkur því lengi þau aldrei í rauninni vara... ...ef veltir þú einmana grátbitnum vöngum yfir vælinu veiku sem heyrist í þér þá skaltu ekki staldra á sjálfsvorkunn löngum styrktu þig maður – sorgin hún fer... ...þó kannski þú sjáir ei leið út úr vanda þýðan mun koma að lokum að vori engin ástæða er til að hætta að anda æ leynast mun demantur í tilveruslori... ...gleðin er þarna ef þú nennir að bíða í raun er löng biðin ei svo löng í raun þó angist virðist vond og lengi að líða venstu fljótt sjálfur lífs eilífðar daun... ...allir finna fyrir sorg á sinni stuttu ævi sinnið er þó ekki slæmt fyrir því sjáðu! þú finnur brátt líf við þitt hæfi þá verður sveitt biðin – ei fyrir bí... ... ...haustið það kemur og þá fjölgar þeim mikið þurfandi mönnum sem finna fyrir sorg þó peningaveski mitt þyngist fyrir vikið þá gleðst ég ei yfir að heyra þeirra org... ...ég er sálfræðigutti – í einmana borg... ] [ Kaldir og blautir í djúpum fenjum úr vosbúð við örmagna grenjum í fjarskanum heyrast há skotin. Trjágreinar skera vor andlit svo djúpt öskur enn heyrast í kjarri óljúft þar liggur ein hnátan fótbrotin. Byssurnar þyngjast með þrepi hverju þunnklæddir göngum án verju óvinir leynast í sérhverju kjarri. Við læddumst um votir og hljóðlátir mjög en greinarnar brotnuðu og sungu sín lög úr þykkninu flýgur upp starri. Senn komu þar óvinir þungvopnaðir tólum við gátum ei varist þessum Satans fólum því loppnir við gátum ekki fingurna hreyft. Byssuskot glumdu þar og dóum við sárir óvinir reyndust okkur einum of klárir í berginu blóð okkar stendur enn greypt. Stríð þetta var ekki mikilvægt neinum sendir við vorum af forseta einum sem vildi ná olíu úr annars lands fenjum. Látnir við erum en ráfum þar enn einmana dauðir og illvondir menn úr vosbúð við örmagna grenjum. ] [ Áhyggjur, hræðsla.. hún bíður, síminn hringir, hún svarar. Örvænting... hún reynir reynir að sannfæra manneskjuna um að gera það ekki. hún segir að lífið megi ekki taka, endurtekur það þrisvar Öskra það í þriðja skiptið! ekkert svar... Sambandið slitnar, hún hrinur niður á kalt gólfið byrjar að gráta, hvað nú? Hugsanir streyma, skildi hann hafa gert það? skildi hann hafa farið frá mér? án þess að kveðja... Hvað nú? ] [ Góða nótt, ó ljósið mitt fagra sem lýsir mér leið mína í gegnum dimma og kalda vetrarnóttina líkt og norðurljós á stjörnufylltum flauelshimninum. ] [ Mig langar... ...til að njóta þín ...til að snerta þig ...til að elska þig ...til að horfa á þig ...til að kyssa þig ...til að eiga þig Ég hef... ...vináttu þína ...virðingu þína ...stuðning þinn ...kærleik þinn ...fegurð þína ...traust þitt En ég ætla... ...ekki að tapa þér ] [ dagur 0: ligg ég hér brotinn í blóði og tætlum brennandi sviðinn og get ekki andað lögreglubíllinn við líkamann stendur og líta þar mennirnir niður á mig... furðunni lostinn ég get ekki hreyft mig á götunni horfi ég á sól skína sterkt blindast en get ekki lukt mínum brúnum bilaður uns þeir loks færa mig brott... í bílnum þeir reyna að senda mér stuð sorgmæddir gefast þeir upp og hætta brátt heyri ég rennilásinn renna hratt upp ringlaður sé ég brátt alls staðar svart... dagur 1 djöfulsins kuldi er nú kominn í mig kall mitt á hjálp á vörunum hljóðnar kyrrðin er kósí en fyrr má nú vera kolruglaður veit ég ei hvað skal gera... dagur 8 loksins kom einhver og leysti mig út lúkkið hans reyndist mér furðulegt mjög í sloppnum hann skellti mér hart á borð sletti þá meikklessum hratt í feis mitt... dagur 9 nú hefur mér hætt að lítast á blikuna hefur mér verið fljótt komið í kistu ég er ekki dauður þó hjarta mitt vanti í huganum enn eru taugar sem hugsa... dagur 10 förin til jarðar var mjög sæt og falleg faðir minn felldi tár og ræddi um mig það sem ég heyrði voru ýkjur og lygi en það er í lagi því ég kem ekki aftur... dagur 14 nú hef ég tíð eytt í líkkistu mjög lengi ljúf er löng þögnin en einhæf í raun ef þetta er tilveran sem tekur við af hinni treginn mun magnast innan nokkurra daga... dagur 59 augu mín sjá ei í þessu dökka svartamyrkri svona djúpt undir niðri er heyrnin mín dræm en samt get ég fundið fyrir krílunum koma köngulóm, möðkum og lirfum gegnum mig... dagur 246 nú hef ég ráðið í kenningar Einsteins á svipstundu gæti ég þrautir allar leyst hvað skal nú bralla að eilífu bundinn? bilaður finn ég fyrir geðveikinni koma... dagur 897 hef ég nú fundið fyrir mjög aukinni heimsku finn ég hvernig taugarnar smám saman fara stærðfræðiþrautirnar sem áður ég leysti styrkjast svo nú get ég þær ekki ráðið... dagur 2.376 nú hef ég fengið það fullkomlega staðfest funinn í helvíti og Drottinn eru ekki til hér hef ég dvalið á eilífðarinnar biðstofu en hugsa nú dapur að biðin mun lengjast... dagur 9.567 vita vinirnir að afmæli mitt er í dag? villtur á sinninu syng ég minn söng þeir gætu nú komið og grafið mig upp gera það ekki því þeir hafa gleymt... dagur 63.982 nú hlæ ég sem geðsjúki maðurinn glaður gaurarnir uppi hafa ábyggilega drepist því eru það mín örlög að hýsast hér lengur hugsa um það sem ég hef hugsað áður... dagur 492.631 krummiiiii svaf í klettagjááááá!!! kaldriiiii vetrarnóttu ááááá!!! það eina sem ég man úr þessu kvæði pirrandi að vita ekki meira en það... dagur 5.362.974.122 nú hefur dregið til tíðinda hérna heyri ég skvaldur í fyrsta sinni kannski eru menn að grafa mig upp með tárin í tóttum gleðst ég happí... dagur 5.362.974.123 guð hvað ég hlakka til að sjá heiminn aftur hefur gæfan mín snúist mér viljug í vil? bara að ég gæti við þá mennina spjallað en tal þeirra dugar til að hugga mín eyru... dagur 5.362.974.124 kannski ég hafi eitthvað misskilið mjög mennirnir voru ekki að grafa eftir mér því í raun væri það frekar ólíklegt núna þessi hiti gæti brætt alla muni í vökva... sólin hafði stækkað og brætt af mér mold með trega ég sætti mig við orðið hlutskipti nú finn ég mig fuðra upp í hitanum allur fyndið hvað kaldhæðnin gerir mér grátt... fimm milljarðir ára sem ég dvaldi hér niðri á þessum tíma hef ég hugsað og pælt hvernig það væri að sjá þjóð mína aftur því gæti ég grátið – ef ætti mín tár... af moldu var ég kominn og í moldu fór á ný úr moldu kom ég aftur en bráðnaði svo hlýr... ] [ Hausverkur, nístandi inn að beini. Stanslaust suð, ekkert virkar... hvorki parkodín né asperín, ekki neitt... Finnst sem hausinn er að springa allt verður svart... ] [ Ég var að fara en sakna þín strax. Hver mínúta verður að sári, án þín hjá mér. Hvert ár yrði að tári, það óhugsandi er. Mitt blóð er þitt, þú mótast af mér. Í byrjun varst þú, ég. ] [ Heavenly creature, you´re dying beneath my feet. I pray for your inner strength and follow it up the mountain steep. You look me in the eyes as you leave your warmth for the earth to keep. Your eyes captured my heart, the soul beneath I will again ...meet. ] [ Kaldur, þreyttur hún styttist bráðum leiðin heim vona að það bíði mín vatnið volgt kinn við kinn skinn við skinn sofum við saman kaldur, þreyttur læt mig dreyma um betra líf og hún styttist bráðum leiðin heim. ÞP 2001 ] [ Ég tel stjörnurnar í gegnum skýin bjartari en í gær nálægar, nær og nær get ekki náð þeirri réttu Ég finn hjörtun slá allt í kring eitt, eitt og eitt heyri ekki neitt get ekki fundið það rétta Ég loka augunum og horfi á mig hugsa þarna inni svo skýr málrómurinn hlýr get ekki myndað það rétta ÞP 2001 ] [ Engil ég sá með svartan hjálm bláar og hvítar rendur hann kom hann fór Á hverju kvöldi fellur eitt tár ég safna þeim saman vona að eftir þúsund ár ég geti þvegið mig burtu og þú komir aftur syngir fyrir mig einu sinni enn áður en ég sofna. ÞP 2000 ] [ Ég spyr þig hver þú ert hver þú heldur að þú sért. Ekkert svar.. Enginn þar.. Utan - eigið andlit bert (brotin liggja alsstaðar) Ég spyr þig hve mörg tár hafa saltað öll þín sár. Þung er brá.. Svarar þá.. \"Engin fallið þetta ár\" (veröldin var svört og grá) Fyrnd að baki fortíð sú sem felldi barnsins von og trú. En ég er til.. Og nú ég skil - Að framtíðin er ég og þú. (Eða helmingurinn um það bil) ] [ Öll skiptin sem ég gat, kysst þig, missti ég af. Öll skiptin sem ég hafði, til að elska þig, sá ég ekki. Öll skiptin sem ég var, hjá þér, klúðraði ég þeim. Öll skiptin sem ég talaði, við þig, vissi ég ekki hvað ég gat sagt. Almar ] [ Neyddu mig til að sjá sjá fegurðina í sjálfum mér. Neyddu mig til að brosa brosa svo ég brosi með mér. Neyddu mig til að gleyma gleyma óþarfa áhyggjum. Neyddu mig til að þora þora að lifa lífinu til fullnustu. Neyddu mig til að elska elska sjálfan mig meira en þig. Neyddu mig til að finna finna fyrir þörfum mínum. Neyddu mig til að gera gera sem ég þarf að gera. Neyddu mig til að vera vera betri maður en ég er. ] [ Hvernig er það eiginlega með tímann og mig Erum við ekki eitt Eða erum við að vaxa frá hvort öðru Ég sem var svo ástfangin og vildi allt fyrir okkur gera En svo sveikst þú mig Djöfuls aumingi! Ég vil fá skilnað ] [ Vaknaði í morgun Og fann hvernig rifrildi Gærkvöldsins Hafði gert mig varnarlausan Gagnvart sjálfum mér Það er eins og tíminn geti ekki Gert mig heilbrigðan á ný Aðeins rammgerðir veggir Byggðir úr þúsund hauskúpum Gærdagsins Varlega skrifa ég þessi orð Til þess að koma einhverju Frá mér En frýs í augnabliki eilífðarinnar ] [ Dagur er ekkert annað en það sem við mennirnir höfum skapað og drögum á eftir okkur, alltaf nema á nóttunni því hún er notuð til annars t.d. að sofa eða læðast með hinu kyninu upp í rúm, nú eða sama kyninu, fer eftir smekk. Svo ég drekk og hvað með það? Er eitthvað athugavert við það, ekki finnst mér það. Alla vega ekki í dag. En á morgunn þegar þynkan bankar bomm bomm og vekur upp blóðuga fugla sem berja á hurðina mína og öskra á mig að koma út, og þú veist að bak við læstar dyrnar bíður ískaldur raunveruleiki sem nístir eins og frost í tennur, eins og eitthvað sem festist bara á manni og vill ekki fara. Mig langar mest að enda þetta líf en ég hef ekki hugsað út í það enn. En......það kemur að því, það kemur með tímanum og blóðinu. sængin er minn flótti ég kúri undir henni og gref í sundur á mér hjartað til að blóðga sjálfan mig, því ég er hatrið í sjálfum mér, ég er bankið á hurðinni, ég er klórið á bakinu, ég er blóðið í augunum. Sálirnar sem ég hef skotið öskra í kringum mig, svartir baugarnir hanga undir augunum. Þær eru að gefast upp og vilja ekki lengur fylgja þessari nótt inn í myrkriðm, vilja hlaupa til baka og faðma daginn eins og barn faðmar móður sína í leit af ást. Margir dagar , vikur mánuðir. Ég hef fengið nóg af sorgum og trega til að fylla mína ævi. Ég er að spá í því að fara burt og sökkva mér í hyldípi fensins, hverfa inn í myrkrið. ] [ Leyndarmálið sem kom í gær hugmyndin var fjærri öllum þeim hugsunum sem áttu sér stað. Líkamar snertust og byrjuðu að svitna, lostinn var orðinn óbærilegur, blóðstreymið olli ekki vonbrigðum, vökvar streymdu um allt. Nágrannar roðnuðu. Fuglarnir sungu, sungu um ástina og fegurðina, fegurðina bakvið ástina. Og ástina bakvið fegurðina. ] [ Þegar ég er settur í bláan jakka og á mig er hnýtt svart bindi þá leiðir það óneitanlega af sér þá atburðarrás að ég klæðist í snatri hvítri skyrtu svörtum buxum og svörtum skóm. Ef það eru herðapúðar á jakkanum þá kinka ég kolli um leið og ég brosi, sama hvað verið er að segja við mig. Ég á í frekar litlum erfiðleikum með að sýna almenna kurteisi og næ jafnvel að sjarmera taugaveiklaða milljónamæringa með snaggarlegum, útpældum, svörum um notkun á landakortum, tækjabúnaði, menningarlegum mannvistarleyfum og sjónvarpsleiðbeiningum. Stundum öðlast ég vinalegheit sem bestum er lýst í heilögum ritningum helgigosanna. Ég er ekki í vasabillíard í þessum borginmannlegu klæðum. Ég lít afar sjaldan út fyrir það að vera blankur. Það sést ekki á mér að ég rúnki mér í tíma og ótíma. Það veit enginn að stundum stari ég út í loftið í marga klukkutíma, bara til þess að reyna að drepa tímann. Það heldur enginn að ég tali stundum upphátt við sjálfan mig og dansi nakinn og kreysti á mér magann þannig að uppsöfnuð fita liggi milli fingra mér. Nei ég er stundum staðsettur í annarri veröld Þar sem ég er í BLÁUM JAKKA,SVÖRTU BINDI,HVITRI SKYRTU,SVÖRTUM BUXUM OG SVÖRTUM SKÓM þá sér enginn í gegn því herðapúðarnir eru í raun svo háir að enginn kemst yfir þá nema fuglinn fljúgandi. ] [ Ahverju afi? Nú drengur minn af þvi að við sungum bara twist í gamla daga og ekki voru kellingarnar minna graðar þá! Afhverju afi? Af því að þetta er fullkomlega óeðlilegt að karlar séu eitthvað að dedúera í skítagatinu á hvor öðrum, hugsaðu þér að vera með slíkum manni til sjós! Afhverju afi? Nú vegna þess að við áttum bara ekki kost á öðru( smá downsveifla í kallinum, andlitið einsog Monalisumálverkið eða eins og stillimynd af meðaltalsvip þjóðverja við lok síðari heimsstyrjaldarinnar) ] [ Naglakall skutlubani beygludroppari Allt þetta ætla ég að verða þegar ég er orðinn stór pabbi minn (framtíðarstjarna á tali við föður sinn sem liggur á banabeðinu) ] [ Draumar koma, hlutir fara að sjást, ímyndin skýrist í óreglunni. Lífið flækist, stelpan fær sjokk, hún er næstum nakinn. fuglarnir skelfast. Sú ímynd er svo köld svo köld að mér er heitt. hörundið breyttist, í litla teiknimynd. Hún fjallar um mig og þig. ] [ Háværar raddir heyrast. Mig svimar af öllu þessu rugli. hvað er það sem er svona erfitt? Skilningur á réttu og röngu. Getur brjálæðin farið með menn svona svo að fólk hlaupi upp húsveggi á köldum sumardegi. Raddirnar ætla aldrei að hætta, hætta öskra, pískra og hlæja. Hlæja að mér. Fyrir það eina að vita, vita um hugsanir. Hugsanir sem áttu að deyja, deyja út úr sér. ] [ Þær dönsuðu að vori. Og blómi vorsins blundinn vann blærinn vangana sló svo taumlaus ástin taktfast brann titrandi vorið hló. Þær blómstruðu að sumri. Í sálum okkar sólin var sendi geisla sína og fegurðin gaf fólkinu svar fellt í ásjón þína. Þær elskuðu að hausti. Við saklausar öllu sungum ljóð sindrandi voru þau hjörtu sem gáfu úr sínum gullna sjóð geymdu draumana björtu. Þær dreymdi að vetri. Við léðum öllu lífinu til langar voru þær nætur sem brosin tæru brúuðu bil bræddu lífsins dætur. ] [ Augun þín svo björt svo hlý fegurð þín gagntekur mig, ég skelf jafnt inní mér og utan, ég sekk inní ógleymalega fegurð. Fegurðina inní hjarta þínu. Ég vil halda um þig gleyma öllum syndum lífsins, elska þig í gegnum hjarta mitt. ] [ Allt í einu upp úr þurru verður ljóða flóð. Upp og niður, út og suður, en aldrei eru þau góð. ] [ Ó mitt barnið besta berstu árfam í nótt. Það er víst þrautin versta, að vaka og missa þrótt. Ó mitt barnið besta bankaðu ljúft á dyr. Það er víst þrautin versta að vera hér sem fyr. Ó mitt barnið besta bíddu eftir mér. Það er víst þrautin versta að vera ei með þér. ] [ Mér finnst gott að lesa ljóð og lygni aftur augun góð. Þetta gerði öll mín þjóð, þegar hún hímd\'inn um vetur. Og svo fór að síg\'á hina verri hlið, og sumir réru á ókunn mið. Ljóðin fengu lengra snið, en ljóðskáldin gerðu ei betur. Það gerist æ sjaldnar segja menn, sumir halda að það sé nú enn að ljóð líkast þeim sem ort voru í denn lifi og deyi allt í senn. ] [ Sólin jafnt á alla skín, svona er það yndin mín. Hún skín ætíð inn til þín elsku besta sólin mín. ] [ Ó lífsins birta lýstu á mig, svo ég geti sagt við þig: Ég á þér allt að þakka, gjafirnar allar í góðum pakka. ] [ Ef ást mín til þín væri metin til fjár, væri ég ríkasti maður í heimi. ] [ Er Loki Angurboðu sá, Varð ásum ekki um sel. Hann gat með henni miðgarðsorm, Fenrisúlf og Hel. Þeir hentu ormi hafið í, Í Niflheima fór Hel En sáu aum á úlfinum Og ólu hann upp hjá sér. Er úlfur óx þá æsirnir, Óttast fóru hann, Því úlfur vill nú hljóta frægð Og sýna hvað hann kann. Fjötur bjuggu æsir til, Til að binda úlfinn þann. Tók úlfur sig til og spyrnti við Og úr Læðingi losnaði hann. Annan fjötur gerðu þeir Til að binda úlfsins gap, Dróma æsir kölluðu hann En úr Dróma hann sig drap. Urðu þá æsir hræddir mjög, En prófuðu enn á ný, Fengu hjálp frá dvergunum Og Gleypnir varð úr því. En Gleypnir var bara langur og mjór Og úlfurinn grunsemdir fékk, Að galdrar væru í spilinu, Það eitthvað á snærinu hékk Úlfur treysti ei æsum þótt Þeir hétu að losa hann, Hann vildi sína tryggingu En hræðsla í ásum brann. Úlfurinn vildi hendi fá, En enginn þorði því, Að hætta á að missa hönd Svo það kom niður á Tý. Þeir bundu úlfinn fast og vel, Og úlfurinn spyrnti fast, En hann losnaði ekki úr böndunum Og það heltók hann reiðikast. Hann skellti saman skoltunum, En æsirnir hlógu að því. Það sást að hjá þeim gleði ríkti, Hjá öllum nema Tý. En úlfurinn reyndi að glefsa meir, Og brugðu æsir á það ráð, Að skjóta í munn hans sverði nokkru Og láta það duga í bráð. En sverðið festist í gini úlfs, Með hjölt við neðri góm, En oddinn upp og enn í dag Má heyra hans skelfingar óm. Æsir bundu endann vel Sem festi hella stök, Og þar má úlfur liggja þar til Koma ragnarök. ] [ ...dúnmjúkir faðmarnir með sakleysisblæ freista mín meir en Drottins mikla ríki heldur vil ég dvelja þar dögunum saman en daga upp sem engill í ástarinnar sorg... ...brennheitt fang mitt er tilbúið þér búin er biðin en ég bíð þín enn hérna hvar ertu ég spyr út í loftið sem asni á svipstundu rennur upp fyrir mér ljós... ...ef bíð ég þín svona sem einmana dáti sé ég þig aldrei því þú munt ei koma heimska mín stórefld í huganum dafnar hef ég ei kveikt á hinni einu réttu peru... ...við sitjum æ hissa og bíðum og væntum en hlessa við sjáum ei upp í hendur koma allt sem við viljum og bíðum leið eftir við ættum að akta og ná í það sjálf... ...bið er aðeins framkvæmd af fáfróðum mönnum ferðu að leita kanntu að finna allt sjálfur ef lúrir ei kona í þínum mjúku heitu föðmum á flakk skaltu fara og finna hana sjálfur... ...hamingja kann ekki að stökkva né ganga leitaðu því sjálfur og reyndu hana að fanga... ] [ Sirrý góða Sirrý sofðu vært og rótt ekkert skal í elífðinni ergja þig í nótt. Englarnir góðu vaka og líta eftir þér ég sendi þá alla til þín með litla kveðju frá mér. Heyrt hef ég sagt af mönnum þeim er trúi ég best, að fegurstu laufblöð trjánna þurfi að líða mest. Ekki taka því ill þó enginn sjái þig nú einhver mun yfir þér vaka og elsk\'upp á ær og trú. Sirrý góða Sirrý sofðu vel og rótt ekkert skal í elífðinni ergja þig í nótt. ] [ Hugurinn reikar burt frá þér í eina mínútu. Og ég reyni að gleyma þér. Enn alltaf kemur þú aftur, skríður um allan líkama, stingur svo hnífi í hjarta mér. Ó hve sárt er að vera með þér. Ó hve sárt er að vita að þú ert að fara, fara frá mér að eílífu. Kanski átti þetta að vera svona. Kanski vorum við bæði of feiminn, feiminn til að vera saman. Mér líður samt eins og þetta átti að vera. Saman á morgun, saman að eilífu. ] [ Hér er ég, er kominn kominn til að segja þér, að þú ert, til kominn. Aldrei muntu liggja hér. Að þóknast, bara ljúga það sem enginn íllur sér. Hvernig get ég, ég séð bara ef ég gæti meir. Ekki segja, mér að fara mér þótti vænt um þig. Ég hræddur, að finna finna fyrir lífinu. Þó ég væri orðinn hundrað, myndirðu þá elska mig. ] [ Með bumbuna út í loftið, geltir mig á. SMS í hrönnum, fæla mig frá. \"Hann er að dissa mig núna\" heyrist í þér hljóma. Ef hún telur hönd hennar snúna er ekkert að tvínóna. Kleópatra nútímans, baða skal hana í mjólk. En þó töffari sé hún, sálin brothætt er. Verndari ljóssins, boðberi lífsins. Vini líkt og þig, vil ég sko eiga. ] [ Hann spjallar við fólkið eignast nýja vini kyssir stúlkuna sem hann ann mest Hann er bara lánsamur strákur sem talar við fólk kynnist því á kortéri vingast á einum degi. Ef þetta væri ég.... Myndumst við ekki þekkjast ég hefði ekki setið aleinn og lesið. Kannski ég sé eftir allt lánsamastur manna því að eftir allt þá kynntist ég Þér. ] [ Rónarnirnir hlógu að mér fannst eitthvað skrítið við að vera svona feiminn hlustuðu á mig syngja horfðu á mig hlægja um nóttina buðu þeir mér sæti drukkum blóma lífsins af stút og mér fanns ég vera orðin gamall um morguninn þegar ég vaknaði var kominn nýr dagur ÞP ] [ Hvað er vinátta... Ást? Væntumþykkja? Virðing? Traust? Eða er hún... Allt þetta? Svarið liggur ekki á lausu Sama hver er spurður margar formúlur til Svarið er kannski svona Sönn vinátta er það sem við viljum að hún sé. ] [ Ég vil þér kynnast sjá þig að innan sem og utan vita það sem jafnvel þú ekki veist um þig ] [ Þú kvaddir snemma stoppaðir stutt litla Óskin bjarta en ávallt lifir minning þín í fjölskyldunnar hjarta ] [ eitt kvöld var ég fullur af hugsanafjöld um fall mitt á æskunnar tilveruprófi ég sá eftir mörgu sem gert hef ég áður og fátt var þar verkið sem fór fram í hófi... ég hef drukkið og reykt og líkamann skaðað en heili minn virkur hann byrjaði að muna hvernig líf mitt var áður en ruglið mitt hóf sig endinn mig dreymdi en tókst ei að gruna... sem barn eitt í byrjunarskóla míns lífs bókin var vinur sem dugði mér æ en nú veit ég meira um lífið og mig með bók verður reynsla mín lítil sem ég næ... því settist ég niður þetta breytingakvöld þreyttur en glaður ég ritaði ljóð hvernig líf mitt skildi verða mér betra og meira um manninn sem reynsluveg ánægður tróð... ... ef vildi ég vita um samband tveggja vina væru sálfræðikenningar eflaust mér nægar en bókin myndi aldrei kenna mér kærleika hvernig tiltal frá vini gerir kvalirnar þægar... ef vildi ég vita um mjúka snertingu ástar væru bækur um rafboð mér líklega nægar en með þeim finn ég ekki fiðringinn koma né friðinn í mér þegar hjartað slær hægar... ef vildi ég vita um mér ókunnug lönd væru landabréf nægileg uppsláttarrit en landslagið lyktin og líðan þar úti liggja ekki í bréfum né kortanna lit... ef vildi ég finna hve náttúran er falleg faldar í bókum eru ótalmargar myndir en þrívíða sýn mín á fjallanna fegurð finnast ekki í ritum um ferskleikalindir... ef vildi ég kynnast fleira fólki í heimi finn ég rit mörg um fjölbreyttar þjóðir öll fögru ritin færa mig ekki til þeirra frekar vil ég dvelja við hirðingjahlóðir... ... margt er hægt að lesa út úr bókanna bleki en brúin milli bókar og reynslu er breið viljir þú upplifa heiminn og hans speki hafðu þig á loft og gakktu lífsins leið... ] [ minnsta fegurð séð frá orðsins skapara upphefst miklast og fullkomnast minnsta: gras hljóð lykt mannvera snerting minnsta fegurð sem fánýt er almennum augum fegrast og stækkar í orðsins skapara ] [ stjörnublik óðar en stjörnurnar rísa stjarfar þær sökkva í gleymskunnar mar norðurljós norðar en lands milli ísa niður þau ferðast er sól vaknar þar... blá milli brúna dvelja einmana augu blásin af veðri þau þurfandi leita sjómannsins sýn skapar grámöskvabaugu hann sendist sem rakki til hafsins óheita... dvelur þá gjarnan við girndarinnar þrá gömul er minning um hlýfaðma frú tárin í augum þau stingast sem strá stúrinn en má ekki hugsa um hjú... ... konan beið lengi og þráði sinn þröst þrúgandi biðin varð fljótt eitt of löng þrösturinn sigldi sína eilífu röst seint varð svo kerlingin manninum ströng... hún rak hann á dyr er duggan kom aftur dulítið rifrildið heyrðist um bæinn dögunum saman hann varð drukkinn raftur dró sig svo upp er hann sá á ný sæinn... ... sem fyrr nú sækir hann harðlynda hafið horfin er löngun um hlýtt frúarfang á endanum lík hans í hafi finnst grafið harðlega bundið í kalt sjávarþang... ] [ Ég sit ein og niðurbrotin, spái í hvað þú viljir. Öskra, kalla og æpi en ekkert gerist. Þrái að finna fyrir nálægð þinni. Finna fingur þína snerta nakinn líkama minn. Finna augu þín afklæða mig, láta bros þitt bræða mig. Ég vil hafa þig hjá mér alltaf. Svo við getum kúrað,hlegið,verið saman. Láta ást þína umvefja mig alsælu og gleði. Heyra andardrátt þinn er ég sef. Ég þrái þig svo heitt. En sumt verður aldrei og kaldur veruleikinn kemur aftur. ÞÚ ERT Í BLÓMA LÍFS ÞÍNS FÍFLIÐ ÞITT, kallar hugur minn til mín. Ég fatta að þú sért ekki þess virði að eyða dýrmætum tíma mínum í. ] [ Er ég hugsa til þín fer maginn í hnút og bros byrtist. Stundirnar sem við áttum saman munu aldrei gleymast. Þótt þú sért óralangt í burtu finnst mér þú alltaf vera nærri. Þegar þú fórst myndaðist tómarúm en ég fyllti uppí það með minningum um þig. Bros þitt og hlátur kemur mér í gott skap. Rödd þín kemur mér til að skjálfa. Knús þitt bætir fyrir allann þann sársauka sem ég finn. Aðeins örfáir mánuðir í viðbót þangað til ég fæ að hitta þig og halda í örmum mér aftur. Ég get varla beðið. ] [ Milli svefns og vöku ég hugsa um þig. Læt mig dreyma um okkur. Hvernig það væri að liggja í örmum þér. Koma þreytt heim og hafa þig þar. Hvernig það væri að vera elskuð af þér. að vera þín. Þetta er allt sultusætur draumur sem ég vil ekki vakna upp af. Semt tekur daglegt líf við og ég held áfram að dá þig og elska úr fjarlægð. Hræðslan við höfnun er svo sterk að hún yfirbugar alla löngun um að vera þín. ] [ Örlögin voru okkar og allt gekk vel. Ást okkar var sterk. Tíminn sem við áttum saman var indislegur. En fólk breytist, við breyttumst. Við uxum frá hvort öðru, loks skildu leiðir. Vegna þín og ást þinnar á mér kann ég að elska og vera elskuð. Þú gafst mér svo mikið, meir en þig grunar. Það er erfitt að kveðja fortíðina, en minningarnar um okkur er ekki hægt að taka frá mér. Ég mun aldrei gleyma, vonandi þú ekki heldur. Takk ástin mín, takk fyrir allt. ] [ Mér líður vel og illa. Hrædd við tilfinningar mínar. Hvað mun gerast næst, mun ég fara yfir um? Ein stór tilfinnga flækja er í hausnum á mér. Veit þó að ég elska hann. Ekkert annað veit ég. Því tilfinnga flækjan er svo flækt, ég skil ekki meir í þeim. Ég veit þó að ég elska hann. ] [ Sit hér ein, skrifa. Um allt, og ekkert. Aðalega um ekkert, en þó um eithvaðþ Veit ekki hvað ég á að skrifa. Bull og vitleysa, skrifa ég. Fer fram, horfi á sjónvarpið. ] [ Labbaði hún inn, settist niður. Sofnar. Dreymir draum, fallegan draum. Er skyndilega vakin, kennarinn reiður. Bjargað af bjöllunni, skríður út um dyrnar. Inn um næstu dyr. ] [ Hljótt svo hljótt það er engin á ferli. Göturnar eru auðar og kaffihúsin tóm. Hvar er ég? Allt svo hljótt. Er þetta veruleikinn eða er þetta draumur? Ég fæ ekkert svar. Ég sé engan. Er einhver hér, kalla ég. Ekkert svar. Ég verð hrædd og brest í grát. Ókunnugur maður kemur að mér, spyr mig hvað sé að. Ég á engan að ég er ein, svara ég. Hann tekur utanum mig og alltí einu hverfum við. Við komum aftur og þá er allt eins og það á að vera. Nema ókunnugi maðurinn er horfinn. Hver er hann? Hvar er hann? Hvert fór hann? Það veit enginn, engin nema þögnin. ] [ Þú ert að rústa mér. Ég er ung og fjörug, ekki gömul og vel alin tík. Ég er manneskja. Þú traðkar ofaná mér. Þú kremur hjarta mitt. Ég grátbið þig um að hætta. En þú traðkar bara meira. Þú leikur þér að mér, eins og ég sé tuskubrúða. Ég er brothætt. Ég vil fara frá þér. En kemst ekki, hvernig sem ég reyni. Þú ert búinn að fjötra mig niður. Ég vil fljúga fráls um himininn, en er bundin inní búri. Búri sem á að kallast samband. Þú ert að rústa mér! ] [ Þú getur keflað mig niður, skorið úr mér tunguna. Tekið burt af mér allt frelsi, skorið af mér fingurna. Sprengt í mér heyrnina, og læst mig inni. En þú getur ekki tekið af mér frelsið til að tjá mig. Tjáning er neflilega svo miklu meira en orð, stafir eða tónar. Þú finnur hana inní þér, ef þú sérð, finnur eða heyrir það inní þér geturu alltaf fundið leið til að tjá þig. ] [ þú ert morgunsól sem rís. þú ert blóm sem springur út. þú ert sími sem hringir ekki. ég hata þig! ] [ súpan mín er köld og ég er búin að bíða í allt kvöld eftir þjónustu. Vill einhver gjöra svo vel að drullast til að kúka framan í mig. ] [ laugardagur, klukkan er sjö að morgni ég er á leiðinni heim og það er enginn að bíða eftir mér, nema kannski einmanaleikinn ] [ ljóð, þú ert ljós lífs míns. án þín dey ég og visna eins og krumpað gamalmenni. Þú fyllir sál mína af gleði, hamingju og von um að það sé eitthvað stærra, meira, betra og fallegra en brjóstin á mömmu ] [ Vaknaði og sá tómið. Það huldi mig það tók mig. Ég hvarf í þögnina og hugur minn leitaði... leitaði í Endurvinnsluna. ] [ Einkamál er fulgl á flugi Kemur, fer. Stundum sest ann. Og situr og situr, uns hann flýgur síðasta flug þá er hann horfinn? Ég get engum sagt frá! Málið situr í mér. ] [ Mér líður svo vel í dag lífið bjart og framtíðin fögur. Á morgun ég get spilað lag og eldri um fortíðina get sagt sögur En í dag er ég samt einmanna sit og skrifa, einn heima. Á morgun ég innilega vona að mér við hlið liggi fögur kona ] [ Fyrst var ég og þú. Og fuglar yfir og sól. Áður en þetta gerðist. Eldur og brennisteinn holuðu mig að innan og eftir stend ég og er ekkert nema hylkið utan af sjálfri mér. Viltu ekki gefa mér lífið aftur, viltu skila sálinni úr mér, viltu fyrirgefa mér? ] [ Innst inni í mér ég helst vil og vona Þú komir hér til mín og gerist mín kona En til þess það geti svo mögulega orðið Þarf ég minn manndóm að leggja á borðið Mér sárt þótti mjög að við þig skilja En lifi í von þú munir mig vilja Er ást þína traust og hjarta þitt unnið Og margt sem á leið okkar frá okkur runnið Með hnút í maga ég skrifa þér ljóð Með hjartans von þær kveik\'í ástarglóð Í gegnum daginn þú lifir með mér Í hjarta mínu sem ég eitt sinn gaf þér Í huga mínum þú situr sem fastast Í veröld stórri sem brosir sem bjartast ] [ Var úti í kuldanum og hugsaði: Hvers vegna bölvaði ég rigninunni? Hvers vegna er allt betra sem var? ] [ Á bláan sandinn, við sæbarinn stein hann særður og máttvana hneig, með velktan og brotinn hinn bjarta væng, í brjóstinu dauðans geig. Og augu hans brunnu af ótta og kvöl og aflvana frelsisþrá, er báran teygði sinn blikandi fald að brjósti hans sænum frá. Hans bræður og systur þau svífa brott á svanhvítum, léttum væng og vagga á brjóstum hins bládjúpa hafs í bylgjunnar hvikulu sæng. Hann aleinn þreyir á unnarströnd við ógnir og dauðastríð, og kennir sér enga í kvölum fró, þó kvöldsólin vermi blíð. Þar breiddi nú hafið sinn bjarta faðm, og bláloftin hvelfdust heið. Ó, aldrei framar á örskreiðum væng, að eiga? um þau djúpin leið! - Eg krýp á sandinn, ó, sævarbarn, mín sorg og mín aumkvun er heit. Að líkna þér engin, engin ráð önnur en dauðann eg veit. Þú hraðfleygi sonur hins ljósa lofts, svo léttur og hreinn og frár, yfir þinn brotna og blóðuga væng brennandi falla mín tár. Hvern mátti það gleðja, að grýta þig? Yfir góðu þú eflaust bjóst, - að fella þig kvalinn á svartan sand og saurga þitt hvíta brjóst? Þú leiðst svo fannhvítur, frjáls og hreinn, og fegraðir haf og strönd og barst okkar útþrá til himins hátt yfir höfin í ókunn lönd. Hver átti svo grimman og gálausan hug? Hvern gladdi þín dauðakvöl? Hver fann ei, að léttan og frjálsan væng að fella er synd og böl? ] [ Svanurinn minn syngur. Sólu ofar hljóma ljóðin hans og heilla helgar englasveitir. Blómin löngu liðin líf sitt aftur kalla. Fram úr freðnum gljúfrum fossar braut sér ryðja. Svanurinn minn syngur sól í undirheima. Kyrrast kaldir vindar. Kætist allt, sem lifir. Björgin þungu bifast, bergin undir taka. Alein aldan stynur, afl sitt finnur þverra. Svanurinn minn syngur sumarlangan daginn. Svífur sælli en áður sól um himinboga. Ein er þó, sem unni of heitt til að kætast; svansins löngu leiðir laugar hún í tárum. ] [ Eg sé þig, Guð, í sólargeisla ljóma, eg sé þig, Guð, er stjörnubirtan skín, eg sé þig, Guð, í bikar vorsins blóma, í bládögg hverri lýsir dýrðin þín. Eg sé þig, Guð, í silfurskærum bárum, eg sé þig, Guð, í kristalstærri lind, eg sé þig, Guð, í sorgardjúpum tárum, og sál mín geymir ljós frá þinni mynd. Og rödd þín, Guð, sem bergmálsómur blíður mér berst að eyrum, friðarmild og skær, er himinblærinn hlýtt um vanga líður og hafsins bylgja létt við ströndu hlær, er ómar fuglinn út um geiminn bjarta, og ungbarn hjalar vögguljóðin sín. En innst og dýpst í helgri kyrrð míns hjarta eg heyri ljúfust kærleiksorðin þín. ] [ Sléttur víðir gljár sem gler. Gull á hlíðar sólin ber. Sama blíðan enn þá sér. Ekki tíðin breytir sér. ] [ Oftast svellin örlaga illum skellum valda. Fyrir brellum freistinga fáir velli halda. Við skulum láta lán og þraut lífsins glímu herða. Ýmsir mát á ævibraut alla tíma verða. ] [ Bjart er yfir láði? og legi, léttum skýjum Esjan faldar. Töfrablæjum yls og ástar allan bæinn vorið tjaldar. Kæra vornótt, vertu hjá mér, vef þú mig í faðmi þínum, hverf þú síðan aldrei, aldrei, aftur burt úr huga mínum. ] [ Jónsmessunótt, þú mátt ei flýja frá oss, fjöldinn þótt hylli þig með ys og gný. Undranótt slík, þú átt að dvelja hjá oss, eins og þú lifir fornum sögnum í. Lækninganótt, með lyf í daggartárum, ljósálfanótt, með dularbros á kinn, minninganótt frá björtum æskuárum, albjarta nótt, þig tignar hugur minn. ] [ Burt er dáin bernskuþrá, bliknuð gleðin hjarir eins og strá, sem fellur frá fyr en nokkurn varir. Kvíðinn þjáir þreytta lund, þungt mig beygir stritið, eg hef fáa yndisstund á ævidegi litið. ] [ Friður dáinn, menning mær mænir hljóð í sárum. Niður sáir öldin ær eitri, blóði, tárum. ] [ mig klæjar svo í píkunni en ég er ekki með neina putta. þeir hurfu um árið í trésmíðinni. ] [ Ísland, farsældafrón og hagsælda, hrímhvíta móðir! Hvar er þín fornaldarfrægð, frelsið og manndáðin bezt? Allt er í heiminum hverfult, og stund þíns fegursta frama lýsir sem leiftur um nótt langt fram á horfinni öld. Landið var fagurt og frítt og fannhvítir jöklanna tindar, himinninn heiður og blár, hafið var skínandi bjart. Þá komu feðurnir frægu og frjálsræðishetjurnar góðu austan um hyldýpishaf, hingað í sælunnar reit. Reistu sér byggðir og bú í blómguðu dalanna skauti, ukust að íþrótt og frægð, undu svo glaðir við sitt. Hátt á eldhrauni upp, þar sem ennþá Öxará rennur ofan í Almannagjá, alþingið feðranna stóð. Þar stóð hann Þorgeir á þingi, er við trúnni var tekið af lýði. Þar komu Gissur og Geir, Gunnar og Héðinn og Njáll. Þá riðu hetjur um héruð, og skrautbúin skip fyrir landi flutu með fríðasta lið, færandi varninginn heim. Það er svo bágt að standa í stað, og mönnunum munar annaðhvort aftur á bak ellegar nokkuð á leið. Hvað er þá orðið okkar starf í sex hundruð sumur? Höfum við gengið til góðs götuna fram eftir veg? Landið er fagurt og frítt og fannhvítir jöklanna tindar, himinninn heiður og blár, hafið er skínandi bjart. En á eldhrauni upp, þar sem ennþá Öxará rennur ofan í Almannagjá, alþing er horfið á braut. Nú er hún Snorrabúð stekkur, og lyngið á Lögbergi helga blánar af berjum hvert ár, börnum og hröfnum að leik. Ó, þér unglinga fjöld og Íslands fullorðnu synir! Svona er feðranna frægð fallin í gleymsku og dá! ] [ Fanna skautar faldi háum fjallið, allra hæða val, hrauna veitir bárum bláum breiðan fram um heiðardal. Löngu hefur Logi reiður lokið steypu þessa við. Ógnaskjöldur bungubreiður ber með sóma réttnefnið. Ríð ég háan Skjaldbreið skoða, skín á tinda morgunsól, glöðum fágar röðulroða reiðarslóðir, dal og hól. Beint er í norður fjallið fríða. Fákur eykur hófaskell. Sér á leiti Lambahlíða og litlu sunnar Hlöðufell. Vel á götu ber mig Baldur. Breikkar stirnað eldasund. Hvenær hefur heims um aldur hraun það brunað fram um grund? Engin þá um Ísafoldu unað hafa lífi dýr. Enginn leit þá maður moldu, móðu steins er undir býr. Titraði jökull, æstust eldar. Öskraði djúpt í rótum lands, eins og væru ofan felldar allar stjörnur himnaranns, eins og ryki mý eða mugga, margur gneisti um loftið fló. Dagur huldist dimmum skugga, dunaði gjá og loga spjó. Belja rauðar blossa móður, blágrár reykur yfir sveif, undir hverfur runni, rjóður, reynistóð í hárri kleif. Blómin ei þá blöskrun þoldu, blikna hvert í sínum reit, höfði drepa hrygg við moldu. Himna drottinn einn það leit. Vötnin öll, er áður féllu undan hárri fjallaþröng, skelfast, dimmri hulin hellu, hrekjast fram um undirgöng. Öll þau hverfa að einu lóni, elda þar sem flóði sleit. Djúpið mæta, mest á Fróni, myndast á í breiðri sveit. Kyrrt er hrauns á breiðum boga, blundar land í þráðri ró. Glaðir næturglampar loga, geislum sá um hæð og mó. Brestur þá og yzt með öllu í undirhvelfing hraunið sökk. Dunar langt um himinhöllu. Hylur djúpið móða dökk. Svo er treyst með ógn og afli alþjóð minni helgað bjarg. Breiður, þakinn bláum skafli, bundinn treður foldarvarg. Grasið þróast grænt í næði, glóðir þar sem runnu fyrr. Styður völlinn bjarta bæði berg og djúp. Hann stendur kyrr. Hver vann hér svo að með orku? Aldrei neinn svo vígi hlóð. Búinn er úr bálastorku bergkastali frjálsri þjóð. Drottins hönd þeim vörnum veldur. Vittu, barn, sú hönd er sterk. - Gat ei nema guð og eldur gjört svo dýrðlegt furðuverk. Hamragirðing há við austur Hrafna- rís úr breiðri -gjá. Varnameiri veggur traustur vestrið slítur bergi frá. Glöggt ég skil, hví Geitskór vildi geyma svo hið dýra þing. Enn þá stendur góð í gildi gjáin, kennd við almenning. Heiðarbúar! glöðum gesti greiðið för um eyðifjöll! Einn ég treð með hundi og hesti hraun - og týnd er lestin öll. Mjög þarf nú að mörgu að hyggja, mikið er um dýrðir hér! Enda skal ég úti liggja, engin vættur grandar mér. ] [ Þá var ég ungur, er unnir luku föðuraugum fyrir mér saman. Man ég þó missi mínn í heimi fyrstan og sárstan, er mér faðir hvarf. Man ég afl andans í yfirbragði, og ástina björtu, er úr augum skein. Var hún mér æ, sem á vorum ali grös in grænu guðfögur sól. Man ég og minnar móður tár, er hún aldrei sá aftur heim snúa leiðtoga ljúfan, ljós á jörðu sitt og sinna. Það var sorgin þyngst. Mjög hef ég síðan til moldar ganga ættmenni bezt og ástvini séð. Þá vill hugur harma telja, þegar böl búið er brjósti nýtt. Sá ég hinn góða, er guði treysti, ungan og öflgan, ættjarðar von, Lárus á bana- bólstur hniginn, líki líkan, er ég land kvaddi. Sá ég með Dönum í dauðra reit Baldvin úr bruna borinn vera, fríða, fullstyrka frelsishetju. Söknuður sár sveif mér þá að hjarta. Sá ég Torfa, tryggðreyndan vin, hraustan, hreinskilinn og hjartaprúðan, lífi ljúka og lagðan vera ættjörðu fjær, er hann unni mest. Átti eg eftir enn í heimi ungan og fagran ættarblóma. Vel mundi kæta, vel mundi bæta, laufgrænn kvistur lágan runna. Það man ég yndi öðru meira, er við Skafta skilning þreyttum, eður á vænum vinafundi góða, geðspakur, á gleði jók. Sá ég þig, frændi, fræði stunda og að sælum sanni leita, þegar röðull á rósir skein, og bládögg beið á blámi sofanda. Er þú á hæsta hugðir speki og hátt og djúpt huga sendir. Of eru myrk manna sonum, þeim, er hátt hyggja, in helgu rök. Brann þér í brjósti, bjó þér í anda, ást á ættjörðu, ást á sannleika. Svo varstu búinn til bardaga áþján við og illa lygi. Nú ertu lagður lágt í moldu og hið brennheita brjóstið kalt. Vonarstjarna vandamanna hvarf í dauðadjúp, en drottinn ræður. ] [ Skjótt hefur sól brugðið sumri, því séð hef ég fljúga fannhvíta svaninn úr sveitum til sóllanda fegri. Sofinn er nú söngurinn ljúfi í svölum fjalldölum, grátþögull harmafugl hnípir á húsgafli hverjum. Skjótt hefur guð brugðið gleði góðvina þinna, ástmögur Íslands hinn trausti og ættjarðar blóminn! Áður sat ítur með glöðum og orðum vel skipti. Nú reikar harmur í húsum og hryggð á þjóðbrautum. Hlægir mig eitt, það, að áttu því uglur ei fagna, ellisár örninn að sæti og á skyldi horfa hrafnaþing kolsvart í holti fyrir haukþing á bergi. Floginn ertu sæll til sóla, er sortnar hið neðra. Glaðir skulum allir að öllu til átthaga vorra horfa, er héðan sá hverfur, oss hjarta stóð nærri. Veit ég, er heimtir sér hetju úr harki veraldar foringinn tignar, því fagna fylkingar himna. Kættir þú margan að mörgu, svo minnzt verður lengi, þýðmennið, þrekmennið glaða og þjóðskáldið góða. Gleðji nú guð þig á hæðum að góðfundum anda. Friði þig frelsarinn lýða. Far nú vel, Bjarni! ] [ Ástarstjörnu yfir Hraundranga skýla næturský. Hló hún á himni, hryggur þráir sveinn í djúpum dali. Veit ég, hvar von öll og veröld mín glædd er guðs loga. Hlekki brýt ég hugar og heilum mér fleygi faðm þinn í. Sökkvi eg mér og sé ég í sálu þér og lífi þínu lifi. Andartak sérhvert, sem ann þér guð, finn ég í heitu hjarta. Tíndum við á fjalli, tvö vorum saman, blóm í hárri hlíð. Knýtti ég kerfi og í kjöltu þér lagði ljúfar gjafir. Hlóðstu mér að höfði hringum ilmandi bjartra blágrasa, einn af öðrum, og að öllu dáðist, og greipst þá aftur af. Hlógum við á heiði, himinn glaðnaði fagur á fjalla brún. Alls yndi þótti mér ekki vera utan voru lífi lifa. Grétu þá í lautu góðir blómálfar, skilnað okkarn skildu. Dögg það við hugðum, og dropa kalda kysstum úr krossgrasi. Hélt eg þér á hesti í hörðum straumi, og fann til fullnustu, blómknapp þann gæti eg borið og varið öll yfir æviskeið. Greiddi eg þér lokka við Galtará vel og vandlega. Brosa blómvarir, blika sjónstjörnur, roðnar heitur hlýr. Fjær er nú fagurri fylgd þinni sveinn í djúpum dali. Ástarstjarna yfir Hraundranga skín á bak við ský. Háa skilur hnetti himingeimur, blað skilur bakka og egg. En anda, sem unnast, fær aldregi eilífð að skilið. ] [ Man ég þig, mey, er hin mæra sól hátt í heiði blikar. Man ég þig, er máni að mararskauti sígur silfurblár. Heyri ég himinblæ heiti þitt anda ástarrómi. Fjallbuna þylur hið fagra nafn glöð í grænum rinda. Lít ég það margt, er þér líkjast vill guðs í góðum heimi: brosi dagroða, blástjörnur augum, liljur ljósri hendi. Hví hafa örlög okkar beggja skeiði þannig skipt? Hví var mér ei leyft lífi mínu öllu með þér una? Löngum mun ég, fyrr hin ljósa mynd mér úr minni líði, á þá götu, er þú ganga hlýtur, sorgaraugum sjá. Sólbjartar meyjar, er ég síðan leit, allar á þig minna. Því geng ég einn og óstuddur að þeim dimmu dyrum. Styð ég mig að steini, stirðnar tunga, blaktir önd í brjósti. Hnigið er heimsljós, himinstjörnur tindra. - Eina þreyi ég þig. ] [ Nú andar suðrið sæla vindum þýðum. Á sjónum allar bárur smáar rísa og flykkjast heim að fögru landi ísa, að fósturjarðar minnar strönd og hlíðum. Ó, heilsið öllum heima rómi blíðum um hæð og sund í drottins ást og friði. Kyssið þið, bárur, bát á fiskimiði. Blásið þið, vindar, hlýtt á kinnum fríðum. Vorboðinn ljúfi, fuglinn trúr, sem fer með fjaðrabliki háa vegaleysu í sumardal að kveða kvæðin þín! Heilsaðu einkum, ef að fyrir ber engil með húfu og rauðan skúf, í peysu. Þröstur minn góður, það er stúlkan mín. ] [ Enginn grætur Íslending einan sér og dáinn. Þegar allt er komið í kring, kyssir torfa náinn. Mér er þetta mátulegt, mátti vel til haga, hefði ég betur hana þekkt, sem harma ég alla daga. Lifðu sæl við glaum og glys, gangi þér allt í haginn. í öngum mínum erlendis yrki ég skemmsta daginn. Sólin heim úr suðri snýr, sumri lofar hlýju. Ó, að ég væri orðinn nýr og ynni þér að nýju! ] [ Hvað er svo glatt sem góðra vina fundur, er gleðin skín á vonarhýrri brá? Eins og á vori laufi skrýðist lundur, lifnar og glæðist hugarkætin þá. Og meðan þrúgna gullnu tárin glóa og guðaveigar lífga sálaryl, þá er það víst, að beztu blómin gróa í brjóstum, sem að geta fundið til. Látum því, vinir, vínið andann hressa, og vonarstundu köllum þennan dag, og gesti vora biðjum guð að blessa og bezt að snúa öllum þeirra hag. Látum ei sorg né söknuð vínið blanda, þó senn í vinahópinn komi skörð, en óskum heilla og heiðurs hverjum landa, sem heilsar aftur vorri fósturjörð. Já, heill og heiður, Halldór okkar góður! Þú hjartans beztu óskum kvaddur sért, því þú ert vinur vorrar gömlu móður og vilt ei sjá, að henni neitt sé gert. Gakktu með karlmannshug að ströngu starfi, studdur við dug og lagasverðið bjart, og miðla þrátt af þinnar móður arfi þeim, sem að glata sínum bróðurpart. Og heill ag heiður, hinir landar góðu, sem hólmann gamla farið nú að sjá, þar sem að vorar vöggur áður stóðu og vinarorðið fyrst á tungu lá. Hamingjan veiti voru fósturláði, svo verði mörgum deyfðarvana breytt, allan þann styrk af ykkar beggja ráði, sem alúð, fjör og kraftar geta veitt. Það er svo tæpt að trúa heimsins glaumi, því táradöggvar falla stundum skjótt, og vinir berast burt á tímans straumi, og blómin fölna á einni hélunótt. - Því er oss bezt að forðast raup og reiði og rjúfa hvergi tryggð né vinarkoss, en ef við sjáum sólskinsblett í heiði að setjast allir þar og gleðja oss. Látum því, vinir, vínið andann hressa og vonarstundu köllum þennan dag, og gesti vora biðjum guð að blessa og bezt að snúa öllum þeirra hag. Því meðan þrúgna gullnu tárin glóa og guðaveigar lífga sálaryl, þá er það víst, að beztu blómin gróa í brjóstum, sem að geta fundið til. ] [ ég sit á borðinu á móti þér og horfi. mig langar til þess að snerta þig strjúka þér og finna fyrir þér, en ég get ekkert fundið; Trésmíðin þú manst. ] [ Það eru til englar með sár á nefinu og svo fljúga þeir útum glugga vængbrotnum vængjum stundum geta þeir varla stoppað blóðstreymið ef það fer að blæða úr sárunum þegar það gerist halda þeir um nefið með öðrum vængnum missa jafnvægið og hrapa niður þess vegna eru þeir oft vængbrotnir ] [ undir bláum bjarma birtist þú um nótt. Hugurinn fer að harma allt sem sagt var ljótt Ótamin orðin streyma yfir þig óvarða. innihald illt geyma skilja þig eftir barða. þögnin þrúgir yfir eftir orðarimmu. ekkert eftir lifir nema glóðin í augunum grimmu. ] [ Ausa hvítum auri, baðmi Ásgarðs, yfir grænum Urðarbrunni. ] [ Vann í dag, ég vann! Hvort ég hafi unnið nokkuð ekki gott að segja, en ég vann en vann þó ekki. Því vinnan er ekki, ekki alltaf sú vinna sem leiðir til vinnings. ] [ Ég öfunda þá alla sem þig hafa fengið ég öfunda alla sem einhvern eiga Ég vildi að ég gæti átt einhvern annan og það sem meira er að einhver myndi eiga Mig... ] [ Sumt sem ég hugsa held ég að aðrir viti tel mig ekki þurfa að útskýra. En svo þegar allt til fjandans er farið þá sé ég það að enginn vissi neitt. Enginn gat mér hjálpað því ég sagði ekki neitt og enginn spurði mig Því engin hélt að ég gæti útskýrt. Endilega mig spyrjið um allt eða ekkert Bara ekki leyfa mér að loka að mér. Því ég vil ekki vera einn. ] [ Dauðinn hrinur yfir mig ég er ekki að meika þetta líf Ég verð að fara að hleypa af þessara byssu, því að ég verða að gera heiminum greiða Ég er ekki að gera neitt hér. Ég er á kafi í dópi, ég er að sprauta mig á hverjum degi, ég lem hvern sem ég kem nálægt Ég er smitaður af ollum veirum sem til eru Ég er útskúfaður úr þjóðfélaginu, ég verð að láta þessu linna. Ég verð að hafa kjark í að taka í gikkinn, ég er að gera heiminum gott. Ég er að gera það svona nú þú getur þett............................ Nú er ég farin, ég er á milli himins og heljar Ég veit ekki hvert ég á að fara ég get ekki valið hvort ég vill. Ég á kost á því að fara til guðs eða djöfulsins en ég veit ekki hvert ég á að fara Ég á ekki skilið að fara til guðs. Ég er ekki búinn að vera það vondur að ég þurfi að fara til heljar Ég verð hér endalaust því að ég er útskúfaður í dauða líka Ég sé ykkur ganga um jörðina og ég sé allt það fólk sem er á himnum og það sem er niður í heljum En kemst ekki neitt. Ég er lokaður inní glerkúlu, sem er á stanslausu flugi í kringum allt og ekkert Ég hefði átta að þurrka mig upp á taka lífmitt saman þá hefði ég ekki lent í þessari kúlu á leiðinni allt og ekkert til eilífðar......... ] [ Saman við göngum tvö ein úr smiðju hjartans í gegn um drauminn, eitt örstutt augnablik. Áin flæðir yfir bakka sína líkt og hendur að faðma heiminn, eitt örstutt augnablik. Lukt augun byrgja mér sýn. Eins mun nóttin svæfa drauminn, eftir örstutt augnablik. ] [ Ég er bara lítil snót með litla fætur lítill engill stendur mér við hæl þegar ég er sár hann grætur en brosir þegar ég er sæl Þessi engill minn er bara lítill drengur lítill drengur með svo litlar hendur í gegnum heiminn með mér gengur og guðs míns engill með mér stendur Saman tvö þá göngum yfir allan heiminn yfir fjöll og vötn og ár og sjó og þó ég ætti allan geiminn ég gæti ekki elskað hann nóg ] [ Legg ég lófa minn i þinn lófa, minn vilja í þinn vilja. Verði þér í beinum sem þú brennir öll, nema þú unnir mér sem sjálfri þér. Svo heit verði þér þessi orð, so megn og sterk sem eilífðin er. ] [ Verndi þig englar, elskan mín, þá augun fögru lykjast þín, líði þeir kringum hvílu hljótt á hvítum vængjum um miðja nótt. Nei, nei það varla óhætt er englum að trúa fyrir þér, engill ert þú og englum þá of vel kann þig að lítast á. ] [ Láttu brenna logann minn, lof mér enn að skoðann, horfa í ennis eldinn þinn, inn í kvenna voðann. ] [ Tilfinningar mínar líkt og vatn sjóða ég reyni að halda lokinu á. En þær þrýsta svo fast og mér finnst sem ég sé að springa viltu slökkva undir mér? Verð að finna annan farveg til þess að hella mínum tilfinningum í. Leit mín er erfið og ég er bara pottur sem ljótur og illa er farinn en einhver þarf mér úr að hella. Bara má ekki vera þú. ] [ Hvert ertu farin? ef þú yfirgefa mig ætlar segðu mér þó frá því. Ekki fara án skýringa ekki skilja mig eftir án ljóss, í myrkrinu. Kannski ertu bara lítil ljóstýra, við endann. Komst þér útúr myrkrinu til þess að birta þín nyti sín á meðan ég reyni að rata út. Beindu þó að minnsta kosti geislum þínum að mér af og til líkt og viti mér til hjálpar sem sýnir mér alltaf, leiðina heim. ] [ Hugsanir þjóta um hugsanir sem ekki má nefna hugsanir sem ég... afneita en þrái vil en ekki munu verða geta ekki orðið mega ekki verða hugsanir sem stjórna verður, hugsanir sem eyðileggja allt. Hugsanir um mig og þig. ] [ Láttu þér batna mitt ljúfa ljós því ég þín sakna mín eilífa rós. ] [ Mökin góð um miðja nótt meðan telpan sefur. Syphilis og sárasótt snátan litla gefur. ] [ Ég sit hér, ásamt þremur öðrum einhverjum sem ég þekki ekki. það er það góða við strætó. Ergilegur bílstjórinn, tekur við við drukknum manni sem stóð ekki í fæturna. TVÖ HUNDRUÐ KRÓNUR! ha? saggdiru tvöhudrkronur? Rrrrán öskrar hin drukkni, mér til skemmtunar Loks sest hann fyrir miðjan vagnin Óþefurinn ætlar allt að drepa. Tvær ungar stúlkur koma inn næst, klæddar eins og hórur á góðum degi, eru 16 en líta út eins og 12 Flissandi, kafnandi úr gelgju, talandi um helgina og Erp og nýja kærastan sem er 22 og er ekkert eins og Bent. Smá tími líður, kafnandi úr óþef og fáfræði stend ég upp, fer. Frekar vil ég ganga í rigninguni með sköfuna á lofti og bensínbrúsa í hinni. ] [ vakandi sveima ég yfir borginni, upplýstur af götuljósum sem hlífa engum. það er eins og þau elti mann, Þegar dimmir og maður vill bara fá að vera í friði og Þá, já einmitt þá lýsa þau eins skært og þau meiga þannig að allir sjá hvernig manni er innanbrjósts; berskjaldaður. flótti er ómögulegur þó það sé það fyrsta sem að kemur upp í hugann. Það er engin leið út nema í gegnum rörið sem liggur í gegnum nóttina og inn í daginn. ] [ Á blárri blaðsíðunni blakaði vængjum á blárri blaðsíðunni vængirnir slógust við síðurnar og orðin tóku byltingu uppí loftið og svo niður aftur en þegar háflugið var sem hæst lét ég mig hrapa í fallinu hugsaði ég um smáfugla lenti með gogginn í gegnum bókina ] [ Rífandi hugsprenging algleymi tímaleysi örþrotinn af veiklu keyrir í gegn hugsanir fullar af angist sestur niður í vagninn vissan er tekin við rólyndið angurværðin ég er loks á réttri leið ] [ Áskrifandi, hagar sér sem slíkur, alltaf flissandi, telur okkur trú um að viðmælendur hafi gleðina að leiðarljósi. Eins og að það væri endir og upphaf alls. Telur sig vera áskrifanda að gleðinni. Allir halda að hann eigi að vera það. Ef við bara vissum hversu ömurlegt er að vera álitinn gleðigjafi en vera það ekki, nema stundum. ] [ Einstök, ótrúleg og frábær Veist hvað þú þarft að segja til þess að ég vilji ei deyja þó fólkið sem ekki þig þekkir hlær þá er mér ekki hlátur í huga mig langar til að þér launa nú þegar þú fórnina hefur fært en líf mitt verður þér að duga þannig að ég þér lofa, því svo lengi sem Ásgeir ég heiti þá mun þig aldrei neitt skorta. ] [ Frá náttúrunnar hendi hef ég náðargjöf, svo sterka nefnist þessi gjöf að elska, ást gaf hann Drottinn Guð mér kosti slíka að geta elskað, en af völdum þess, að þjást. Til hvers yrði tilfinning, svo sterkleg til að valda sársauka og kvöl ? Nei, til að þjást, þá verður þú að elska þó með því kallir yfir þig þá böl. Vertu ein, og aldrei vertu ánægð verið tvö, og finnið samkennd þá þó þetta endi, allt mun taka enda er það þess virði, trúðu mér, ójá. ] [ Stundum langar mig til þess að vera eins og fuglinn, frjáls óháður og geta farið hvert sem er þegar mig langar til þess. Það eru forréttindi að geta flogið. Í hrifningu hugans yfir þessum mætti sem ég hef ekki, gleymast staðfastir þættir veruleikans og heimurinn verður aftur í lit, hjartað mitt sveipað regnbogaslæðu og andardráttur án takmarkanna. Tilvistarkenning, ég er hér tvífætt og horfi á aðra njóta sín í listflugi lífsins. ] [ Nú hætti ég að innbyrgja næringuna. Hef ekkert heyrt svo lengi, ef það kæmi ein lína, myndi andardrátturinn færast yfir á æðra stig. Himinhvolfinn geisla af grænum ljósgeislum. Ljósin í norðri. Ég vona að þú sért að fylgjast með þeim. Hjartað í mér nefnilega dansa með þeim fara oft útaf sporinu. ] [ Þú ert svo sætur, Sætari en sólin. Og betri en vindurinn sem þýtur hér. Þú vilt kannski ekki mig. En ég vil þig ] [ Haustið fýkur í húmið með vindunum. Stillt er tunglið, hvítt og mjúkt, brosir við hjörtum manna í hófi. ... svo hugsa ég til þín. ] [ Ár, mánuðir dagur klukkustund mínútur sekónta þetta líður allt hratt, hægt dagur morgun dagur og aftur morgun, allt lífið heldur áfram stundum hægt rosa hægt að maður getur ekki beði, stundum hratt að allt flýgur í burt. Allt heldur áfram hratt sem hægt allt heldur áfram. ] [ ég kom ég kom inn en kemst ekki út kvartað og kveinað hér hver er ég hvernig komst ég hér? fólk útum allt allt á fullu ekkert rugl hvar hvar er ég kemst ekki burt það var mjög fúlt að komast ekki burt allt verður hljótt, hvert hvert skal fara ekkert til að rata vælið og skælið er hér nú hvert sal fara út. ] [ vinir vinátta hvað er ekki hægt að hafa betra en það að vera með góðan vin, vinur er alltaf hér já mér og þar hjá þér, hver er hér með mér sem er vinur í raun vinur sem ég á en ekki þú sem er hjá mér en ekki þér, ég læt mig dreyma um fullkomin vin en er hann hér hjá mér eða þér. hver veit um það hver er hér hjá þér ef ekki hjá mér slæmt og ekki að eiga vin en í raun er það ég sem er vinur þinn. ] [ Þú er sætur hver veit ekki um það en hvað um það hver vill þig meira en ég kannski hún eða sú eða ert það bara þú ég er hér ástfangin af þér ég elsa þig en elskar þú mig, ég vil þig en vilt þú mig? ] [ Ruða rósin hér er skorin úr hjarta mér. lifandi hjarta mitt fylgir með ástin mín til þín er í þessari rós ó hver hver vil fá rós frá mér hér? ég vildi að þú kæmir hér og fengi hana frá mér en ekki þér. Því ástin til þín frá mér lifir í þessari rauðu rós ef rósi deyr þá dey ég en ef ég dey á undan þér haltu þá rósinn fast hjá þér. ] [ Ég sendi þér ástar ljóð ljóð um ást frá mér til þín ég sendi líka eitt lítið blóm sem springur út og verður að rauðri ást. ] [ Stjarnan mín ó stjarnan mín blikar stór og skær hver sér hver sér ég á mér eina stjörnu hér, bikar og blikar hér og þar óhver fögur stjarna skæra vertu hér allt sem ég ætla þér er að vera hér hjá mér. ] [ Ef ég særði þig þykir mér það leitt. Hafði það ekki í huga. Ég reyndi að segja að mig liði ekki vel. En birjaði að ljúga. Lýgi er vefur föst í honum er. Og traustið í þúsund molum. Ég ætlaði ekki að særa og þykir það leitt. Ég hafði það ekki í huga. Ef þú finnur stað í hjarta þér. Geturu þá fyrirgefið mér? ] [ Ég elska augun. Ég elska brosið. Ég elska hláturinn. Ég elska þig. Ég sé þig horfa á mig. Hvað ertu að pæla? Sérð þú mig eins og ég þig? Það fæ ég aldrei að vita. ] [ Ef þér líður illa. Þá líður mér verr. Ef þú tárast. Þá græt ég með þér. Viltu segja mér hvað er að? Svo ég get hjálpað þér á réttan stað. ] [ Ég er kvalin af sársauka. Þú keyrðir yfir sál mína, á gömlum Trabant. ] [ Sál mín er brotin, sjö ár af ógæfu bíða mín. Bros þitt er sem svartur köttur, sem læðist við fætur mína. Gleði þin er stigi, sem ég get ekki forðast. Þú ert mín eilífa ógæfa, en þú ert mín. ] [ Kynlíf þótti karla sök, konan erfða-syndin. Ekkert var um ástarmök, ætíð valin kindin. ] [ Spor í snjónum eitt og einmanna Hvert það leiðir veit nú enginn Ég elti en ekkert fann Það hvarf og fannst ei aftur Hvert fórst þú á lífsins göngu ] [ Einmannaleikinn og myrkrið því allt er svo tómlegt þegar birtan er farin eitthvað annað og rúmið er kalt og ég líka og ekki laust við að þig vanti svo ég kveiki ljósið fylli upp í myrkrið sný mér á hina ] [ Orða vant þegar þú loksins komst búin að bíða á klukkunni með munninn fullan vissi um leið og ég sá þig að það var ekki til neins... Ætli maður geti elskað einhvern alltaf? ] [ lífið er ekki alltaf létt það ætti ég best að vita ég var í neyslu sem var frekar þétt og foreldrar mínir vildu ekki af mér vita að bæta lífið er ekki auðvelt þó margir haldi það þeir bara vita ekki neitt hversu slæmt lífið getur verið núna er mér loks að takast það að breyta mínu lífi núna fer ég daglega í bað og engann mann ég kýli ég lifði sem dóphaus og díler og fannst það bara frekar töff að berja menn sem kölluðust \"skvíler\" en var ekki að fatta að lífið er röff núna er ég búinn að fatta það að lífið getur verið betra ég fór í meðferð og fattaði það ] [ ég hélt að ég væri að deyja úr ást af stelpu sem ég var með en ég var bara að rugla eins og þú sást fattaði síðan að hún var með bilað geð en allt snerist um kynlíf en ekki alvöru ást ég hélt að það væri alvöru líf en auðvitað það brást ástin er það sem maður þarf inní lífið sitt láttu mig þekkja það því núna er ég með ást ] [ Örsmár geimur í blómvendi. Fegurð fullkomnast í andartaki og birtir svip eilífðar í höndum mínum ...fyrir þig. ] [ Jú mannkynið ráfar aleitt um kalt eyðilandið. Guð farinn og tra la la. En mér líður samt alveg fine. Halla mér aftur, lygni aftur augum, nýt bara lífsins, drekk meira wein glugg glugg glugg jörðin á ruslahaugum! glugg glugg glugg jörðin á ruslahaugum! syng ég lágt og lygni aftur augum. ] [ ég brosi ekki á daginn, heldur í svefni vegna þess að í draumunum á ég heima. ] [ Hún er skolhærð, með slétt hár, sítt og slétt eins og kaldur sjórinn sem skellur á landið fyrir utan húsið þeirra. Hún gengur oft um í fjörunni vegna þess að henni finnst þægilegt þegar sjórinn kyssir tærnar hennar í köldum sandinum, hvenær fær ég að kyssa þær. ] [ stundum fæ ég hugdettu sem kviknar en dettur síðan aftur út úr huganum. ] [ ég er bókaormur og skríð í gegnum bækurnar á litlum tíma. ] [ Einmanaleikinn flögraði um í óvissunni Ég var dapur þá Ég var lokaður inni Í dag er ég hinsvegar hamingjusamur Með von í hjarta og öllu vanur Framtíð er björt og lofar góðu Ég vona að´etta far´ekki allt í móðu Ef blessuð börnin birtast senn þá verð ég glaður og viti menn Óvissan mín, hún er nú svo pent flögrandi áður en er nú lent ] [ ömurleg þögn þrúgir yfir herberginu, rykug húsgögnin þunglynd og mædd yfir örlögum sínum. það er engin tuska til þess að þurrka þennan viðbjóð burt og okkur er að blæða út. Mamma! viltu lána mér þúsundkall ] [ Lambakjöt á diskinn minn lambakjöt á diskinn þinn og líka framann á heimilisbílinn ég var að aka þú veist til baka, þegar allt í einu klessist á bílinn eins og kaka rolludrusla veginum á hafði ekki vit til að hlaupa frá. Ég varð að beygja, bílnum frá að sveigja, ég vildi ekki að rollugreyið myndi deyja. hún gæti alið af sér lömb sem gætu kýlt út heila vömb svo bílnum á veginum velti svo landinn ekki svelti. já bóndadurgur djöfull nennir ekki að girða um rollur sínar að hirða, nei fjandanum var nær, eftir veltuna konan mín dó í gær já dýrt er lambaketið, þegar það er etið, já dýr er bitinn góði velt uppúr mannablóði ] [ Why wasn´t it meant to be, just tell me and I´ll change, Why wasn´t it meant to be, just tell me and I´ll change. What do you wan´t me to do, just tell me and it will be, you have been so nice to me, always showed me what to see. Maybe there is hope for us, I´ll try my very best, I know if we just try enough, we´ll get there in the rest, I´m sorry love I know it´s true, I just don´t want to believe, In my heart your the one, and will always be. I know there is no hope for us, I tried my very best, We never tried enough, and didn´t make it in the rest. ] [ Ég vil komast á tindinn Sjá yfir allan heiminn Láta mér líða vel Og þú lofar mér því Það mun allt gerast En þá man ég allt í einu Af toppnum er fallið ávallt mest Og ég vil ekki meiða mig Þess vegna sit ég hér Einn. ] [ Myrkrrið augun hafa vanist því ljósið orðið of skært dreg fyrir gluggann vef mig inn í vonleysið til að hlífa augunum. Hef enga von til að gefa ekkert nema vonleysið sem ég baða mig í verst öllum björgunartilraunum líkt og sá sem upplifar síðustu sælutilfinningar drukknunar. ] [ Ég þori ekki að trúa því að ég geti orðið normal átt vini, kynnst stelpum jafnvel eignast....kærustu? hjalparhönd að mér er rétt á ég að grípa í og halda þéttingsfast? Nei, ég þori ekki, ég er of hræddur hef reynt að klifra upp áður og það er svo vont að detta. ] [ Vil stundum bara kúra í myrkrinu einn. Þar sem enginn finnur mig og ég finn engann. ] [ Dimmt, kalt, einn Björt, heitt, vinir Hvað kom okkur saman? Hvernig kynntumst við? Var þér ætlað að hjálpa mér mig úr myrkrinu draga og öll mín vandræði laga Eða var þetta tilviljun tvær sálir sem um lífsins götur líkt og ókunnir vegfarendur rekast saman í örskotsstund. Kannski er lífið bara sekúndubrot í hringiðu alheims sem líður hjá í skipulögðum glundroða að eilífu. ] [ Tvær verur saman komnar enginn gærdagur enginn morgundagur bara nú Tvær verur verða eitt að eilífu Samt bara núna ] [ Aldrei einn aftur alltaf bjart ljós glaðar raddir í kring ást, von og umhyggja mjúkt og hlýtt umhverfi Ég og Hún Ég og Allir Ég sáttur... ] [ Skuggarnir eru skrýtnir og skemmtilegir í kvöld, því nú ráða þeir ríkjum og rammleg hafa völd, svona hafa þeir látið í meira en heila öld. ] [ Ekkert vildi ég frekar, en vera einn með þér og vita að heimurinn stendur með mér. Stinga saman nefjum, eiga góða stund sem lyftir okkar geði og gleddi okkar lund. Ómæld yrði hamingjan að eiga slíkan fund. En tíminn virðist horfinn hann týndist í gær, og enginn var í holti, heyrandi nær, nema lítil stjarna, blikandi, skær, sem stundum virðist nærri en oftast er hún fjær því engum virðist líka hennar stóru klær. Ég bíð nú enn og vona að byrti yfir þér, svo vítiskvalirnar allar fari burt frá mér. ] [ Stendur í hafsauganu og vitnar um faðmlög okkar þar sem við laugum okkur í sinni hvorri einsemdinni á bláu blómsturengi hann brosir, því hann sér hvernig við skýlum okkur bak við alla nektina ] [ Mjúkar gælur og feimið hörund svarar treglega spyrjandi snertingu líkaminn eins og yfirfullt lón bíður þess að verða dynjandi flóð sem þrumandi hrífur burt allt sem á vegi þess verður í ljósaskiptum lostans ] [ Langar til þess að fara út til þess að skemmta mér eignast vini og kynnast fólki tala við stelpur og fleira gera það sem ykkur finnst venjulegt langar bara að vera venjulegur En í staðinn sit ég einn inni í stóru húsi frá morgni til kvölds og geri ekkert nema að langa ] [ Flekar tveir færast í sundur dag frá degi, viku til viku víkkar bilið á milli hafið stækkar og tíminn líður meira vatn rennur til sjávar uns bilið verður svo stórt að ekki er hægt það að brúa uns við sjónar missum hvort af öðru. ] [ Í gær dó dagurinn og var jarðaður með viðhöfn sungur fuglar sorgarmars blésu vindar í veðursins lúðra á meðan kistan var lögð í nývígða næturmoldina milli deyjandi geisla sólar. ] [ Eitt lítið tóm og myrkrið svo mjúkt áður en nótt dagar uppi og skýin hátt og snjallt tilkynna komu sólar. Eftir rauðum dregli er lagður er snjóföl gengur svo sólin með hirð sinni niður heiðina og heilsar hneigjandi húsunum. ] [ Þegar stjörnur falla af himninum og stíga dans á svellinu, við stöndum frosin og horfum hugfangin á Þá er þægilegt að vera til ] [ Ég horfi út um gluggan ég sé lítinn fugl heimili hans er tréð fuglinn horfir á mig og syngur hann er sáttur þó heimilið mitt sé stærra en hans Hann syngur ég dáist að honum ég á 100x stærra hús (með milljón skrilljón húsgögnum) en ég syng ekki en hann syngur og hann á heima í tré Það byrjar að kólna mig vantar eldivið ég hegg niður tréð og set það í arininn og mér er heitt og ég lít út um gluggan og þar er fuglinn dauður.. ..það er víst kjúklingur í matinn í kvöld ] [ I keep telling myself, it´ll be alright So I can go to sleep, at night But deep inside, I can feel that for real, I have no idea and all that I´ve got for certain is fear. ] [ I´m a soldier, fightin\' a war The enemy, is my fear My weapon is jammed and I\'m out of ammo My enemy closes in and all I have is my knife and a choice, torture or death? ] [ Hrúðurkarl ljótur, festir sig við hvalinn. Harður og kaldur, næst ekki af. Heldur fast og lifir af hvalnum. Lifir með öðrum en lifir samt einn. Þráir kannski frelsi en ekki fyrir það gerður. Mun ávallt vera háður öðrum, háður þér. ] [ My fear is always near tear that are fighting through even with you here I do not know, how to be true Because I fear you too. ] [ I long to be free to soar through the sky like the eagle flying high to free the chicken inside of me ] [ Fegurðin flýgur um loftið, sýnir sig og sér aðra, hugsar mikið um útlit sitt. Hún bara skilur ekki. Sönn fegurð kemur að innan. ] [ Um daginn mætti ég tunglinu hálfu með pípuhatt og bjór, haltrandi með staf og tunglið sagði mér að undan sér gengu stjörnur og ein þeirra væri svo stór að tunglið væri eins og götóttur margsniðinn ostur miðað við hana enda var tunglið aðeins hálft með pípuhatt, haltrandi með staf og þarað auki timbrað þannig að ég bara gekk í gegnum það ljósastaurarnir brostu við blik ] [ Himnaríki heillar enn, helvíti er verra. \"Hið efra\" fyrir helga menn, \"hið neðra\" fyrir perra. ] [ Af fjöllum óma gólin, nú koma \"jóla-fólin\". Yfir snæ, í byggð og bæ. og hafa með sér jólin. Sögur eru til af þessum sveinum, frá eldri tíð að þeir ullu meinum. Hlupu um grund, hrekktu hal og sprund. Skyldir \"Leppa-lúða\" karllegg beinum. Nú á seinni tímum eru frægir, fyrir bara að vera nokkuð þægir. Ekki lengur hrekkja, eða nokkurn klekkja. En gefa \"gott\" sem öllum börnum nægir. Í dag þeir sveinar arka yfir snjó að gefa gjafir í þægra barna skó. Inn og út um opnanleg fög, raula á meðan jóla-lög. Meðan börnin dvelja í draumalandsins ró. Við ættum öll að þakka stemminguna er njótum við um jóla-hátíðina. Þakka þrettán strákum og prakkara þeirra látum. Og dveljumst meðal fjölskyldu og vina. ] [ Ei grátum við neinu tárinu þó við vöxum upp úr hárinu. Því mikið vit í kollinum er það sem veldur skallanum. ] [ Ég geng um bjartan dal, í gleðikasti dansa við úlfinn syng hástöfum með hrafninum. Þá sé ég konu í hvítu, sem hvíslar að mér blíðlega \"Palli svakalega ertu sætur\" Skógurinn fellur yfir mig. Úlfurinn bítur af mér fæturna, hrafninn plokkar úr mér augun. Konan í svörtu tekur röddina og öskrar með henni \"Palli drullaðu þér á fætur\" ] [ Syndsamlegt líferni mitt nær hámarki ég brosi í fermingarstellingu svara kurteislega líkt og sonur embættismannsin. Ég segi henni hvað klukkan sé. Skilningur minn á breytingarskeiðinu er ágætur. Ég er nátengdur móður minni svo að ég veit hvað hún meinar þegar hún útskýrir tilfinningar sínar fyrir mér. Mér finnst fyrrverandi maðurinn hennar skemmtileg týpa en hann hefði mátt koma betur fram við hana. Ég er stoltur af syni hennar, sem er útskrifaður úr KB bankanum og innskrifaður á Wall Street. Ég skoða myndina af honum og segi henni að hann sé næstum jafn myndarlegur og hún. Ég kyssi hana nautnafullt bless, þó svo að ég kunni illa við að taka í rass á fyrsta deiti. ] [ ég þoli ekki þessa helvítis druslu, hún hafði hann einu sinni, en ég á hann núna! og ég á hann alein. Eða kanski ekki? ég er ekki viss, það er einhver efi í mér og óvissa um að hann vilji kanski hana frekar en mig. aaaaarrrg ég er að verða brjáluð á þessu. Andskotinn ég segi honum bara upp. Hann getur allt eins farið að ríða þessari rauðhærðu druslu. það er hvort sem er það sem honum langar mest og hann skal bara fá það. ] [ vinnan mín er leiðinleg, það eru menn að stríða mér þar alla daga. þeir gera grín að hárinu mínu, nefinu og því hvað ég er feitur. en ég er ekkert feitur, ég er bara venjulegur maður, með fallegann stóran mallakút og djúpan nafla. ] [ Það kurrar í brjósti mér bergmál biturð liðinna daga. Sögur sem seint fá að gleymast og leggjast á samviskuna. Sá er einn sem getur læknað og lagað öll sár. Sagt er að það sé tíminn ég hef ekki séð\'ann í mörg ár. Ég vona að\'ann villist hingað velkominn hann er. Bara að\'ann muni að koma með lækningu handa mér. ] [ Dimmir dagar svartur himinn sálinni troðið í kaf. Skuggar gluggans reyna að teygja anga sína út á haf. Spegillinn hann lýgur lýgur og logarnir teygja sig út. Inn í hann samt þú stígur glöð en samt niðurlút. Spegillinn hann lýgur lýgur Talar ei sannleikann. Inn í hann samt þú stígur eltir lygarann taktfastann. En tíminn hann tapar takti fjarar stundum út. Sál þína hann burtu hrakti svo hjartað hrökk í kút. Þú vaknar ein á víðavangi og vofur sveima um. Með blóðugt hjarta í þínu fangi og stírur í augunum. Heim þú gengur ósofin, dofin í draugfínu dressinu. Kjóllinn hann er sundurrifinn og þig verkjar í klofinu. Láttu þér nú líða betur og legstu upp í rúm. ég finn að það verður kaldur vetur og mikið um blásvart húm. ] [ Vindurinn hvín, hvítt brúðarlín rósfagra dís, eitt sinn var mín. Örlagaöfl tóku öll völd sit ég hér einn kvöld eftir kvöld. Blóðið það rann, kuldann ég fann fjaraðir út fanginu í. Ekkert ég gat sagt neitt við því nema að ég elska þig. Í augnabliks tíð vitið það vék ég fyrir það líð það sem eftir er. Æ gefðu mér grið, ég grátbið þig Ég þrái ró og dauðans frið. Ekkert nú er eftir hér og sektin hún er orðin óbærileg. Ég lifað ey get hverja einustu stund án þess að dreyma okkar seinasta fund. Blóðbragðið finn, kinn við kinn gerðu það vina, hleyptu mér inn. Ég deyfi mig vel, svo verkurinn fer fyrir vikið ekkert eftir af mér. Allt sem ég man, man ég svo vel hverja einustu nóttu ég græt mig í svefn tárin ég vel og vandlega fel sorgin hún er undir grímunni hér. ] [ Kannski, sagði ég aldrei satt. kannski, þá leið tíminn allt of hratt. Og ef til vill var ég engum til góðs sem á endanum leiddi til táraflóðs. Hjörtun þau brenna innst í sálinni. En ég ætlaði engan að særa ég vildi aðeins fá að synda í vatninu tæra. En ég endaði allur á bólakafi fastur á botni, í lífsins djúpa hafi. Hjörtun þau brenna innst í sálinni. Dökkir skuggar læddust yfir allt bjart dregið fyrir og hjartað í mér varð svart Og í höfðinu ógnarverk ég finn raddir sem reyna stanslaust að komast hér inn. Hjörtun þau brenna innst í sálinni. Það er svo vont að finna svona til fannst bara, mér hafa verið gefin röng spil. og vildi aðeins fá endurgjöf en endurgjöfin endaði í eigin gröf. Hjörtun þau brenna innst í sálinni. ] [ Við viljum efla vort land við viljum mala gull við viljum drekka sull við viljum sökkva skipum við viljum ljótum söndum við viljum skinku á brauðið við viljum afslátt við viljum fara á námskeið í fjöltækni við viljum vita hvað guð heitir við viljum ríða konu náungans við viljum syngja erlendis við viljum fá frið við viljum vera borginmannleg við viljum að eftir okkur sé tekið við viljum fleiri störf við viljum harða jólapakka við viljum íbúðir,bíla,börn,banka,tussur,homma, skólabyggingar, sementspoka, samsæriskenningar, vesturbæjarlaugina, lynghálsheiðina, öskubakka, skyndilausnir, sérábátifólk En við viljum ekki hætta að vilja ] [ það fór aldrei. Ég gekk svo langt ég gekk svo lengi skildi eftir mig svo mörg spor leit aldrei til baka hrasaði datt það blæddi og ég hélt ég gæti ekki haldið áfram skildi svo margt eftir ætlaði ekki að líta til baka hvern langar svosem að sjá þennan fjandans banatind eina ferðina enn? ég gerði allt nema að hlaupa en helvítis fjallið fór aldrei. ] [ Ég heyrði óhljóð eins og endalaust óp úr víti haturs öskur og volæði. Ég komst að því seint um síðir að þetta var bara hljóðið frá skósólunum þínum þegar þú gekkst á braut. Ég legg við hlustir en bergmálið virðist koma frá mínu eigin hjarta. ] [ Allt er svo hljótt, allir sofna nú, ekki ég, bara þú. Allir sofnuðu þegar ég taldi þrjú, það er satt ég segi jú. Allt er svo rótt, og ofsa hljótt. Um þessa dimmu nótt, þar sem engin dreymir ljótt. Þú dreymir eigin vinaheim, líka jörð uppí geim. Og sýndir öllum þeim, þinn fagra óskastein. Þú áttir hann ein, þú óskaðir að engin gerir mein. Í þessum blíða heimi, og guð þér aldrei gleymi. Nú er dagurinn, stirður á þér leggurinn. Sefurðu eins og steinn, enginn dreyndi ljótt, ekki einu sinni einn. Þú ert ekki vöknuð enn, samt ég vek þig seinna senn. Nú þú ert úr rúminu að renna, og allir ljótir draumar brenna. ] [ Englar uppí himnum, eru fallegir og dást. Eins og guð verndar, jörðina af ást. ] [ Ef ég væri þú, þá myndi það verða ég, í loftinu þá varst það þú, eða ég. Um skýjin blá, fuglar hjá, með mér eða þér. Í vindunum ég flaug, um háan geim. ] [ Það sprakk ekki í loft upp ein og í bíómyndum En það sprakk Það var sárt að missa svona mikla ást Mín stóra ást sprakk ó á hverju tókstu hann frá mér Guð? Hvað hvað gerði að mér Æ ó Guð á hverju hann? hann sem var mín stóra ást Ég elskaði hann svo mikið á hverju tókstu ekki mig? En hann átti ekki að fara Ég dey ég dey það er ekki hægt að lifa með enga ást. ] [ Ég á fjölskyldu sú er stór við erum 10 en ekki 9 viltu vita það sem gerist ein dag? við vorum 8 að leita af 9 9 og 10 voru í hlýju Minna og Linna voru að tína Stína var lítil og voða stritil Er voða mikið að vera 10 en ekki 9 Ég vil hlýju en ekki Mínu. ] [ Ár er síðan ég sá þig fyrst, sveipaður gylltum bjarma. Fékk ég þínar varir kysst, og mína vota hvarma. ] [ Man ég síðan sá ég hann, Í útlandinu forðum. Fiðring um mig alla fann, er á hvort annað horfðum. ] [ fer daglega í vinnu oftast er það ágætt stundum fer ég í klemmu út af sjálfum mér ég lýg oft að sjálfum mér ekki tek ég eftir því á meðan aðrir gera það til hvers að lifa spyr ég og þá segir fólkið þú verður að lifa einn og sér en ekki með áhyggjur af öðrum er eina svarið sem ég fæ kannski seinna þessu ég næ staðreyndin er sú að ég er ég ég er ég ] [ það er um svo marga vegi að velja svo margir vilja þér hamingju selja vegir til hægri og vinstri handa en gættu þín þú skalt valið vanda vegur ástarinnar sætur er en þar er svo margt sem miður fer því þegar ástarinnar sælu þrýtur hún læðist burt og hjarta þitt brýtur menntavegurinn er virtur mjög hann býður upp á fjölmörg fög á honum liggur mikil viska nú er ei lengur neitt á að giska framabrautina margir vilja ganga þar um og ekki margt skilja búa um sig á háum stalli enda þó flestir á miklu falli bakkus býður góða leið fram hann magnar undraseið margan manninn til sín lokkar alla orku svo úr þeim plokkar einn er vegur þyrnum stráður en er hinn rétti samt sem áður ef þú hann velur verður þú hólpinn því þar er Jesús Kristur stólpinn ] [ mér finnst bara svindl að ég lendi í BUM-inu standandi á gólfinu á kaffibarnum, hallandi um 10° áfram með munnvatnsbununa alla leið niður meðan hún situr og veit ekki neitt reykir sígarettu (\"ég er líka með sígarettu\") ] [ eftir að þessi ég hafði ákveðið að þetta væri málið, algjörlega málið og ekkert nema málið ég kynnist öllum hinum keppendunum sama daginn gaf meiraðsegja í skyn að það *hefði verið keppni* sumstaðar þegar mér fannst ég geta treyst því að mæta skilningi og forðaði mér frá því að fá yfir mig ógæfu með því að spyrja um hana í heilan dag ] [ Veistu mín vina hvað gerðist i nótt ? Á vængjunum rótt til okkar i bæinn yfir úrsvalan sæinn, kom vorið svo indælt, svo hljótt. Órofin kyrrð og vorsins angan vitin fyllir og vetur rétt tyllir tánum á fjöll, þar ennþá er mjöll og sólin öldur á sundunum gyllir. ] [ Eitt gamalt tungl dvelur í silfruðum skýjabakka. Þurrmjólkaðar eru allar nætur og rökkurvísurnar kveðnar. Það hrímar undir bleiku morgunsárinu. Sólbreyskin dagsláttan bylgjast í túninu. Blágrænar vindstrokur hörpunnar boða dagvist í Nýdölum. ] [ Dag einn kom fuglahjörð á litla pollinn framanvið Glugghús. Ég hafði verið að saga hjólbarða niður í ræmur í sólskinsskúlptúrinn þegar vængjasláttur
barst mér til eyrna. Ég kvikaði söginni í geislanum og lét í vestisvasann. Skýjaglamur heyrðist frá Glugghúsum og fölbleikum bjarma sló á mæninn.
] [ Letilega hvílir mjöllin á þaki hússins eftir stormbeljanda og stórhríðar eftir drungalega viku. Heit og svört kemur nóttin til hússins eftir þungar andvökustundir og óttunnar blik og dægrin þreytt. ] [ Þar sást til hans síðast í urðinni vestanverðri slaga áveðurs á tindinn. Nú sitja dömur við með stramma handa á milli og krosssauma í dúkinn mynd af dýrlingi. Þar sést hann. Ungur maður með ljóst liðað hár krýpur við sýrualtarið og tendrar cillumi. ] [ Sætt er vínið vina á milli. Tár í glasi glaumur í kring stíga dansinn hindurvættir. ] [ Neyðaróp úr sálardjúpinu náði eyrum hinna stríðandi fylkinga. Rimlarnir hvítna. Það skröltir tómlega í skráargötum þegar lyklum er snúið. Andlit varðanna sem upplituð dula. Það barst neyðaróp úr sálardjúpinu í nótt. ] [ Fólkið hylur spor sín og vængi í dufti sannleikans í andartaks birtu. Hvít lygin skín innum glugga og bræðir hjörtun. ] [ Form og litir, hugans litir. Engir stafir geta myndað orð sem lýsa mínum tilfinningum og hugsunum. Svartholið gleypir allt innra með mér... og ég er frosinn. Það gleypir, gleypir og gleypir... þar til það springur og tilfinningar og hugsanir mínar slettast á striga. Verða að formi og litum, mínum lífsins litum. ] [ Til hvers? Hvert er mitt hlutverk? Hví þessi vanlíðan? Hvað hef ég í fyrri lífum gert? Til þess að hljóta þessi örlög? Endalausar þjáningar, sóun súrefnis. Eilífur ósigur... ] [ Feiminn lítill strákur er en vill bara við einhvern tala en það sem meira er einmanna og tilbúinn að láta sig fara, engan tilgang með lífi hér sér, vill loks fram af bjarginu vaða. ] [ Hví hef ég hlotið þessi örlög? að hýrast í þessari skel? óbrjótanleg, ógegnsæ og hljóðeinangruð hún er En aðeins á minn veg Kannski, einhver fyrir mig gæti hana brotið og upp á arma sína mig tekið við mig talað og eftir mér horft En því miður heppni mín ekki svo mikil er að einhver í þessum heimi hér að sér þetta verk geti tekið. ] [ Langar bara að tala við hana allan daginn út og inn jafnvel alla nótt en veit bara ekki um hvað vil í raun bara af henni vita mér við hlið ávallt og að eilífu. ] [ Id, ego, superego Hver er hin rétta blanda? Hvert er mitt frumeðli? Sjálf eða yfirsjálf? Hver er ég? ] [ 1 year 12 months 52 weeks 365 days Alone in every way for far too long ever since that faithful day. ] [ Taktu mig lagaðu mig gerðu mig að manni gerðu mig eðlilegan ljáðu mér þann hæfileika til að kynnast fólki og eignast vini. ] [ Single white male seeks someone to spend his lonely nights with. Please be gentle For he is a very fragile little boy who has been alone for a long time. ] [ Tilveran er undarlegt fyrirbæri Sykursæt á tímum En stundum er hún bitur og mjög oft bara súr Vildi samt óska að nammidagarnir væru fleiri ] [ Margir í sögunni skilja eftir sig spor og hafa áhrif á hana Ég kom og mun fara án þess að nokkur taki eftir án þess að snerta nokkurn án þess að skilja neitt eftir nema kannski legstein og jafnvel kistu. ] [ Horfi út í biksvart tómið, hvergi er glætu að sjá. Hugurinn reikar um minningar barnæsku; -Getur þó ekki gleymt hinum nýjustu vandræðum, er þungt liggja hjarta á. ] [ What kind of love is it, if you have to pay for it in tears? What kind of hate is it, if you embrace it with your heart? What kind of respect is it, if you get hated in return? What kind of fear is it, if it makes you laugh? -What kind of life is it, if you don´t get to live it? ] [ Fullkomið andartak. Ég þú, og ævarandi trú, á kerti og olíur. Fullkominn koss. Varir losti, þrá og þorsti. Fullkomin útreið. Stunur sviti heitt, tvö rennum saman í eitt. Áköf. Andköf. ... Brosum týnd í Fullkomnu andartaki. ] [ Ég sitt hér og skrifa þér Við kerta ljós hugsa ég um þig ég þrái þig elska þig Hví fórstu frá mér Hér er bréf til þín frá mér minni söknuð og ást komdu aftur til mín ég þrái þig Ég mun bíða hér eftir þér Æ komdu nú aftur hér því ég sandi þér ástarbréf. ] [ Ég var ástfangin af þér í 6 löng ströng ár ástfangin af þér hér en aldrei tókstu eftir mér Ég reyndi og ég reyndi en ekki tókstu eftir mér Á hverju gat ég verið svona lengi ástfangin af þér Þú þagðir svo lengi að segja mér að þú vast ástfangin af mér En þá var ég ástfangin af þér og þú mér en eig er hægt að segja orð nú því þú ert úr. ] [ Hvert er þitt takmark trúlausi maður og telur þú málstað þinn réttan? Himnaríki, helvíti, hvar er þinn staður? Hefur þú ekkert að seigja? Trú mín er tál, því hugur og sál Eru takmörkun manna á valdi. Því hugurinn breytir valdi í bál sem brennur trúna með galdri. Minn staður er hér á helvíti á jörð. Hér sem kapítalistar um reika þeir klekja á lýðnum, nota klæki og brögð - kaldir segjast hjúkra þeim veika. Í umvörpum koma og eigna sér alsnægðaforða. Engin dýrð né miskunn, öll þeirra hugsun er tál. Hér er ekkert nema ískalt auðvald með bláan borða og baráttan um auðinn sem fyrnir þeirra sál. Sálin verður sjúk, sjúk í bæði völd og auð og í sigurvilja hans býr þrotlaus kraftur. Að endingu mun hún ekki vera lifandi né dauð og aldrei mun hún þangað snúa aftur. Eldur læðist út um allt endalausir logar. Hörundið er hrjóstrugt þvalt er helvíti í þá togar. ] [
Þegar ég var lítil átti ég dúkku. Þetta var falleg dúkka í bláum kjól með ljóst liðað hár. Í hárinu voru tvær himinbláar spennur. Ég söng fyrir dúkkuna: Dansi, dansi dúkka mín, dæmalaust er kjóllinn fínn... Núna heyri ég öðru hverju þetta lag og hugsa til þess tíma þegar heimurinn snérist aðeins um þessa dúkku, í litla bleika herberginu mínu uppi á lofti. Þá var ég áhyggjulaus yfir að nokkuð slæmt gæti hent mér og sannfærð um að það væri gott í öllum. Smám saman rann svo upp fyrir mér hvert eðli mannsins er, það er vont vont vont.           Dag einn var bláu spennunum stolið. Það var eftir heimsókn eldri leikskólasystra sem vildu sjá fallegu dúkkuna, sem hafði gimsteina spennur! Ég fattaði ekki að spennurnar væru horfnar fyrr en vinkonurnar voru farnar. Mér varð þungt fyrir brjósti og fór að svíða í maganum þegar ég áttaði mig á því að stelpurnar hefðu komið undir fölskum forsendum. Dúkkan var ekki söm eftir þetta. Í hvert sinn sem ég horfði á hana mundi ég eftir því, að eitt sinn hafði hún fallegar spennur í hárinu. Síðan hef ég oft hitt þessar stelpur. Þær heita bara öðrum nöfnum og líta öðruvísi út en við fyrstu kynni. En alltaf bera þær sömu kveðjuna.
] [ Það kom mynd á skjáinn en tárin fylltu hvarma fljótt, hendur titra og skjálfa. Því á undan var maðurinn með ljáinn og sónarinn sagði allt er hljótt Ég fæddi þig í þennan heim vikuna eftir að mamma dó, hríðarbylur úti var. Tárin huldu alla sýn ég vissi samt að þú varst mín. Svo falleg og húðin slétt með aðra hönd undir kinn, ég kyssti þig og signdi. Friðsæl í framan sem sofandi barn það nægði mér um sinn. Í fangi ömmu hvílir vært það mikla huggun veitir, líf þitt stutt eins og kertaljós en hjá mér þú alltaf verður Auðbjörg litla mömmu Rós ] [ Ef þú veist ekki hót og það er þér fjötur um fót, opnaðu þá augu þín og upplifðu nýja heimssýn. ] [ Það er hægt að hafa yfir heilar bögur án þess rímið þekkist, þegar þær eru nógu alþýðlegar. ] [ Á sætastri blómrós er sárust þyrniflís og snákurinn sér leynir í fríðleiks paradís. Hið gullnasta ský verður skúraflóki grár, og skemmtun vorra drauma snýst upp í vökutár. Það vissi ég áður, en nú ég fyrst það finn, þú fríði, falski svanni, með tálarbros á kinn. Ég kveð þig og fer með hug sem hryggðin knýr, en hyggnari' af skaða þótt fræðslan væri dýr. Sá himinn sem er hruninn ei byggist brátt á ný, nú búi hvort að sínu sem ræður viljinn frí. Þín leið er til fjöldans, en mín er fyrir mig, við mætumst aldrei framar, því sundur liggja stig. Ég hælist ei um það, með hryggð ég finn og veit þíns hégóma forlög í glaumsins trylltu sveit: þitt gull verður aska, þín gæfa moldarryk, í grát snýst þín léttúð, í slys þín eiðasvik. Ég get þig ei hatað sem áður unni' eg mest, en oft hef eg óskað: við hefðum aldrei sést, ég get þig ei elskað, fyrst ást þín reyndist tál, en ævilangt þinn skuggi mun hvíla' á minni sál. ] [ Niðar foss í djúpum dal dimmum fram úr hamrasal þar sem bláu blómin dreyma - heyrðu, daggardropi skær, dvöl hjá blómi var þér kær þegar gullnir geislar streyma - svo er ástar yndisró, öll þar gleðiveröld hló, hvítir svanir syngja, leikur bæði líf og sál, leikur tunga, hjarta, rödd og mál, allt er fagurt eins og stál, álfaskarar ástarklukkum hringja. ] [ Sjambalei syngdu mey Sjambalei Djabbírisúmm vertu svo búmm Djabbírisúmm Blabbídíbleim farðu svo heim Blabbídíbleim Pjansktalaplaftur komdu ekki aftur Pjansktalaplaftur Mambadamorga hættu að orga Mambadamorga ég vil ekki borga slímroddatorga ] [ Eitthvað á mér hvílir þungt, veit ég ei hvað veldur. Inn í mér brennur ástarljóð, er enginn mér endurgeldur. ] [ Ást ég á í hjarta mikla, álög eru það á mér. Því enganveginn fæ ég lykla, er opna hurð að hjarta þér. ] [ Gígaraðir gnæfa yfir sanda grátt er hraun um öræfanna svið. Ógnartungur eldsumbrota valda eyðilegging, um þúsund ára bil. Gróinn var hann grasi dalurinn handan gulli sleginn sóleyjum og trjám. Loftið þrungið ljúfum birki angan lyngið bærðist, fiska vöktu í ám. Sem hendi snöggt um vanga þér sé strokið svo brátt varð myndin fagra að svörtum reyk. Grasið brunnið, allt í gjósku sokkið grafnir dalir, lækir og brennd hver eik. Árin líða áfram, hraunin kólna öskulögin gróa smátt og smátt. Ljótir gígar af litlum grösum bólgna lifnar allt er fyrr laut dauðans mátt. Meðan sól og máni á jörðu glóa mun landsins saga endurtaka sig. Hæðir, dalir, hlíðar aftur gróa (og)hæst þá ber, mun hraunið streyma um svið. ] [ Mér þykja þeir kaldir, þessi stjórnmálasvín. Þeir eru illa upp aldir, og snúa öllu upp í grín. ] [ Himinhvelfing, himin sýn halastjarnan bjarta. Fyrst svo skær, en svo hún dvín sem mitt brostna hjarta. ] [ Lóan hefur lipra hönd, leysir marga hnúta, selur vefur sokkabönd, svínið vefur klúta. Eg sá hest með orf og ljá úti á túni vera að slá. Hátt í lofti heyrði eg þá hund og tófu kveðast á. ] [ Í eld er best að ausa snjó, eykst hans log við þetta, gott er að hafa gler í skó þá gengið er í kletta. ] [ Mér er orðið stirt um stef og stílvopn laust í höndum, í langnættinu lítið sef, ljós í myrkri ekkert hef, kaldur titra, krepptur gigtar böndum. Húmar að mér hinsta kvöld, horfi eg fram á veginn, gröfin móti gapir köld, gref ég á minn vonarskjöld rúnir þær er ráðast hinumegin. ] [ Ísland ögrum skorið, eg vil nefna þig sem á brjóstum borið og blessað hefur yfir mig fyrir skikkun skaparans. Vertu blessað, blessi þig blessað nafnið hans. ] [ fyrirgefðu að ég sjái ekki sólina eins og þú. fyrirgefðu að ég sé öðruvísi. fyrirgefðu að ég taki ekki þátt í neinu. ég er að reyna. ég er föst í myrkrinu, kemst ekki burt. fyrirgefðu að ég dregst saman þegar þú snertir mig. fyrirgefðu að ég sé ekki eins og þú. fyrirgefðu að mér líður alltaf illa. ég er að reyna. fyrirgefðu að ég sef ekki bara græt. fyrirgefðu að ég afsaki mig, ég vil bara ekki að þú vitir sannleikann. fyrirgefðu að ég láti þig hlusta á mig þegar það kemur ekkert nema rusl út. fyrirgefðu að ég ljúgi, ég kann bara ekki að fela mig öðruvísi. svo lengi sem ég er einhver önnur, þá þarf ég ekki að vera ég sjálf. fólk vill ekki þekkja það sem það ekki skilur... það skilur mig enginn. enn ég reyni að hanga í leiknum. þks ] [ Friður ríki í augum þínum. er nóttin kemur inn. Umvafinn ertu ást minni Sem dvín inn um gluggann þinn. Skinn þitt kalt, blóð þitt heitt, dauðinn þig ei getur meitt. ef þú týnist, leitaðu mín. Og ég mun sjá um þig. Sofðu nú, hvíldu styrkinn. óttinn mun leiða þig burt. þks ] [ Horfi í augun þín, sé mig. horfi i gegnum þig, finn frið. Sé inn í þig, held á þér. Sé huga þinn, finn hitann. Veit þú elskar mig, finn þig. Ekki segja neitt, ég veit. þks ] [ falskar vonir streyma... gegnum mig. hugurinn í molum og svartur. vindurinn inn í mér reynir að komast út. veggirnir blina á mig og kæfa mig. reiðin, sorgin, sakleysið rífa mig í sundur. vindurinn verður að stormi og æðir um allt. særir allt, bullar og hverfur síðan. síðan stend ég upp alein og man ekkert. ] [ geng niður götuna. gráu götuna... sé fyrir mér daginn, þennan ódauðlega dag. þegar allt var í lagi, þegar þú varst hér, þegar tárin komu ekki niður. Nú streyma þau eins og foss, niður vanga mína týnast. ofan í hyldípið ég læðist og sofna. geng niður götuna og man eftir þér, alla daga, hverja stund, get ekki gleymt þér. Eitthvað sem er bannað að fá. eitthvað sem ég fæ ekki að njóta, eitthvað ekki ætlað mér... þú. ] [ hausinn á mér er að springa, alveg galtómt, get kallað endalaust. fæ ekkert svar. allir farnir, var alveg að ná þeim...en datt. missti stelpuna, brotnaði í þúsund mola. reyni að púsla henni saman, það bara vantar suma bútana. of lítil birta, sé illa. get ekki einbeitt mér. vantar lungun, nær ekki að anda. vantar tjáninguna, ein súpa. ein. ] [ mér var hvíslað, fann hlýjuna, fann ástina. leit í augun og sá sorgina, sá reiðina. opnaði mig,sá tár. er blaut á öxlinni. ég finn. ] [ Lifðu lífinu. Láttu þig dreyma. Láttu þig dreyma um hvernig þú ætlar að láta drauma þína rætast. Lifðu lífinu fyrir sjálfan þig, engan annann. Lifðu lífinu í hamingju og sælu . Láttu þér líða vel. Hafðu markmið að stefna að. Findu þinn tilgang. Uppgötvaðu hæfileika þína, nýttu þér þá. Vertu ánægður með sjálfan þig. Ef þú hefu ekkert af ofantöldu, þá ertu í djúpum skít. ] [ Skuggar sveima fyrir augum þínum, hringsnúast. Dökkir, óskýrir, renna saman. Hvaðan koma þeir? Léleg eftirmynd upprunans. Vantar skýrleika, birtu, liti. Þú felur þig í skuggunum. Forðast sannleikann. ] [ Ósvaraðar spurningar hugurinn er fullur af þeim. Engin svör fáanleg þú leitar finnur ekkert bara fleiri spurningar. Eru það svörin sem eru svo mikilvæg? Eða er það leitin að þeim sem skiptir máli? ] [ Dauðinn er of góður fyrir þig. Ekki rétt gagnvart öðrum. Lífið er fyrir þig, það er rétt en hvað með þá sem gáfu þér lífið. Þau sem elska þig, bera umhyggju fyrir þér. Því þurfa þau að þjást fyrir þig? ] [ Er arfur okkar ekki nema bergmál úr fortíðinni. Hljómur sem við heyrum aftur og aftur án þess að að taka eftir. Hljómur sem skiptir okkur ekki máli hann er bara þarna. ] [ Litir sólarinnar dansa fyrir framan augu mín. Svífa yfir skýin varpa fögrum sjónum sínum á þau. Eldroði sólarinnar slær bjarma sínum yfir heiminn. ] [ Rigning dropar falla pollar myndast lækir vaxa vöxtur eykst lífið kviknar skiptir litum ferskur andblær raki í lofti lífið er ] [ When your mind starts to cloud and fog settles in When the voices you hear stop making sense When the ache in your head starts to scream through your ears When the strength that you have is replaced by fatigue When the burden you bear starts to bear you down It\'s time to stop and go home to a warm comfy bed I\'ll even throw in a cuddle or two ] [ The way you know me I stair at loss for words not knowing what to think or feel Exhilarating and comforting to know that maybe there is someone who knows me like I do And yet I\'m afraid I do not understand how can this be? is this perhaps love? ] [ Nútíminn leyfir ekki mikinn tíma til að stoppa og velta fyrir sér undrum veraldar. Að setjast niður og fylgjast með lífinu í kringum sig. Fugl tístandi á trjágrein, sólargeislum sem snerta heiminn allt í kring, snjókorni sem svífur til jarðar, skýjum sem ferðast yfir himinhvolfið, börnum að leik, hrafni sem flýgur yfir höfuð manns, listinn er óendanlegur. Lífið er ekki bara að komast frá einum stað til annars, þeytast um í hraða nútímans. Að slappa af og leyfa andanum að lifa. Fara út í náttúruna og njóta undraverka hennar eða bara hlusta á hæfileikaríkan tónlistarmann tjá sig í gegnum tónlistina, lesa gott ritverk, sem maður hefur ánægju af. Eitthvað sem gefur andanum tækifæri til að slappa af. Hvort sem það sé í rólegheitum heima, úti með móður náttúru eða þar sem manni líður best, að gera það sem maður hefur ánægju af. Mín skoðun er sú að ef maður ræktar ekki sjálfan sig tapar maður hluta af sjálfum sér til hraða umhverfisins. Það er nauðsynlegt að leggja jafn mikinn metnað í andlegu hliðina og veraldlegu hliðina. Að halda sjálfum sér við til að geta tekist á við umheimnn. Ef ekki, visnar maður upp og endar sem tómt hulstur í lífsins ólgu sjó. Viltu það? ] [ Ég sit hér og horfi á rigninguna út um gluggann. Myrkrið umlykur mig eins og teppi. Myrkrið er vinur minn, sá eini sem ég á eftir. Það er bara ég myrkrið og rigningin. Það er eins og hún sé að gráta fyrir mig, því ekki hef ég felt eitt einasta tár. Svo ég fylgist með myrkrinu gráta og græt með því þó engin tár sjáist. Þau renna inn á við, í stríðum straumum í hjarta mitt. Það þyngist og þyngist. Ætli ég sökkvi ekki til botns ef ég stykki í sjóinn. Ég veit um frábæran stað, hár klettur og brimið beljandi hvítt fyrir neðan. En ég geri það ekki. Því lífið er þjáning sem við verðum að þola því ef við gerum það ekki hvað erum við þá? Svo ég sit hér í myrkrinu og horfi á rigninguna, umvafin myrku teppi. ] [ Svarta ljósið gerir augun mín græn kannski hjálpar það að fela hver ég virkilega er, því án ljósins er ég öll blá. Ég er orðin leið á því að ?næstum falla í sundur? mig langar miklu meira að búa inní þér og drekkja mér oní heillandi himinbláa skýkljúfa. ] [ Hann eltir mig alltaf, hversu hratt sem ég hleyp. Þessi skuggalegi, svarti maður. Í húsasundi sá ég hann fyrst, fyrir þrjátíu mínútum síðan og hann eltir mig enn. Ég sný mér snöggt við en hann er horfinn. Núna er hann fyrir aftan mig og alveg sama hvernig ég sný mér alltaf er hann þar þessi svarti maður. Þegar ég kem svo í birtuna hverfur hann. Þetta var þá bara skugginn. ] [ ást mín til þín hefur engin takmörk. engan endi. en hún hefur upphaf. hún byrjaði daginn sem ég sá þig fyrst. það er ekkert sem hægt er að segja, það er ekkert sem hægt er að gera til að ég hætti að elska þig. ég hélt ég hefði allt sem ég gæti óskað mér. en það sem vantar er þig. þú ert hlekkurinn sem getur fullkomnað keðjuna. ] [ Einmannaleikinn er hræðilegur. Eyrun heyra ekkert, augun sjá ekkert, hausinn verður tómur, veggirnir þrengja að manni líkt og þeir ætli að kremja mann. Þögnin er ærandi. Ekkert hljóð. Allt er tómt. Ekkert heyrist nema rödd mín - sem kallar á hjálp út úr einmannaleikanum. Augun eru sem blind. Sjá ekkert - skynja ekkert. Hausinn er tómur. Engin hugsun, enginn draumur sem flýgur í gegn. Ekkert. Veggirnir koma alltaf nær og nær - þar til ég krems á milli þeirra og einmannaleikans. ] [ Þegar fluga flýgur inn í heiminn er hún óhrædd og flýgur suðandi frjáls um allt, þar til hún kemur að glugga og flýgur þar inn. Þar er hún drepin og svo rygsuguð. ] [ Væri ég frjáls eins og fuglinn. Þá myndi ég fljúga til þín því þá gætum við verið saman. Við myndum hlaupa um allt eins og lítil börn, við myndum hjóla út í sveit í lautarferð eins og unglingarnir, við myndum faðmast og kyssast eins og fullorðið fólk. Væri ég frjáls. ] [ Bara þú vissir hve mikið ég sakna þín. Bara þú vissir hve mikið mér þykir vænt um þig. Bara þú vissir hve mikils virði þú ert mér. Bara þú vissir hve heitt ég vildi að þú værir hér hjá mér, svo ég gæti sagt þér - hvað ég var að gera í skólanum - hvernig mér gekk að keyra - hvað það var vandræðalegt þegar ég datt fyrir framan skólann - þegar sætur strákur sagði hæ við mig og allt hitt sem á daga mína ber. Ó hvað ég vildi að þú værir hér hjá mér og héldir utan um mig þegar mér líður illa, gæfir mér góð ráð í sambandi við - stráka - föt - skólann bara þú værir hér, þá myndi ég senda þér uppáhalds lagið þitt í útvarpinu með systrakveðju. Ó bara þú kæmir fljótt til mín, og þegar þú kemur ætla ég að faðma þig og kyssa þig og ætla aldrei, aldrei að sleppa þér aftur, svo ég þurfi ekki að upplifa þennan sára söknuð aftur. ] [ Fyrst elskaði ég hann ekki en svo byrjaði ég að elska hann en þá byrjaði hann að hafna mér. Ég elskaði hann meira og meira, dýpra og dýpra og hann hafnaði mér. Ég elska hann enn og hann hafnar mér enn. Afhverju ? Elskar hann mig ekki ? ] [ Horfist í augu við ástina, ætli hún sé mín? Hún hlær og segir: Æi,Palli láttu ekki svona, við erum bara vinir. ] [ Nú er mál að linni - að sinni Klukkan enn þögul Ég á milli svefns og vöku ekkert rýfur þögnina annað en borhljóð að ofan sný mér á hina dreg sængina upp fyrir haus fyrirfram tapað spil Skyndilega! Borhljóðið ekki lengur eitt - nú færist fjör í leikinn hamar - bor bor -hamar með hárið úfið og krumpuð í framan skrifa ég bréf og lauma því undir hurðina á næstu \"Elska skaltu nágranna þinn\" Dettur allt í dúnalogn í hvítum náttkjól svíf ég á vit ævintýranna... Klukkan tíu - byrjaðir að nýju ] [ Táp og fjör og frískir menn finnast hér á landi enn, þéttir á velli og þéttir í lund, þrautgóðir á raunastund. Djúp og blá blíðum hjá brosa drósum hvarmaljós. Norðurstranda stuðlaberg stendur enn á gömlum merg. ] [ Heyrið vella á heiðum hveri, heyrið álftir syngja í veri:    Íslands er það lag. Heyrið fljót á flúðum duna, foss í klettaskorum bruna:    Íslands er það lag. Eða fugl í eyjum kvaka, undir klöpp og skútar taka:    Íslands er það lag. Heyrið brim á björgum svarra, bylja þjóta svipi snarra:    Íslands er það lag. Og í sjálfs þín brjósti bundnar blunda raddir náttúrunnar:    Íslands eigið lag. Innst í þínum eigin barmi, eins í gleði og eins í harmi    ymur Íslands lag. ] [ Eigi er ein báran stök. Yfir Landeyjasand dynja brimgarða blök, búa sjómönnum grand, búa sjómönnum grand, magnast ólaga afl - einn fer kuggur í land. Rís úr gráðinu gafl þegar gegnir gafl þegar gegnir sem verst, níu, skafl eftir skafl, skálma boðar í lest. Eigi er ein báran stök, ein er síðust og mest, búka flytur og flök, búka flytur og flök. ] [ Þeir eltu hann á átta hófahreinum og aðra tvenna höfðu þeir til reiðar en Skúli gamli sat á Sörla einum svo að heldur þótti gott til veiðar. Meðan allar voru götur greiðar gekk ei sundur með þeim og ei saman, en er tóku holtin við og heiðar heldur fór að kárna reiðargaman. Henti Sörli sig á harða stökki, hvergi sinnti hann gjótum, hvergi grjóti, óð svo fram í þykkum moldarmekki, mylsnu hrauns og dökku sandaróti. Þynnast bráðum gerði fjandaflokkur, fimm á Tröllahálsi klárar sprungu, og í Víðikerum var ei nokkur vel fær nema Jarpar Sveins í Tungu. Ei var áð og ekkert strá þeir fengu, orðnir svangir jóar voru og mjóir, en - þótt miðlað væri mörum engu, móðurinn þó og kraftar voru nógir. Leiddist Skúla, leikinn vildi hann skakka, ljóð við Ok úr söðli fastar gyrti. Strauk hann Sörla um brjóst og stinnan makka, sté á bak og svo á klárinn yrti: ?Sörli minn! Þig hef ég ungan alið og aldrei valið nema besta fóður. Nú er líf mitt þínum fótum falið, forðaðu mér nú undan, klárinn góður.? Það var eins og blessuð skepnan skildi Skúla bæn því háls og eyru hann reisti, frýsaði hart - og þar með gammurinn gildi glennti sig og fram á hraunið þeysti. Á kostum Sörli fór í fyrsta sinni, furðar dverga hve í klungrum syngur. Aldrei hefur enn í manna minni meira riðið nokkur Íslendingur. Tíðara Sörli en sendlingur á leiru sinastælta bar í gljúfrum leggi, glumruðu Skúla skeifurnar um eyrum, skóf af klettunum í hófahreggi. Rann hann yfir urðir eins og örin eða skjótur hvirfilbylur þjóti. Ennþá sjást í hellum hófaförin, harðir fætur ruddu braut í grjóti. Örðug fór að verða eftirreiðin, allir hinir brátt úr sögu detta. En ekki urðu fleiri Skúla skeiðin, skeið hans fyrsta og síðasta var þetta. Hann forðaði Skúla undan fári þungu, fjöri sjálfs sín hlífði klárinn miður - og svo með blóðga leggi, brostin lungu á bökkum Hvítár féll hann dauður niður. Sörli er heygður Húsafells í túni, hneggjar þar við stall með öllum tygjum, krafsar hrauna salla blakkurinn brúni, bíður eftir vegum fjalla nýjum. ] [ Þögnin hangir á bláþræði á milli okkar, raunveruleikinn gerir okkur öll svo svartsýn en með þér finnst mér nóvember líta út eins og maí. ] [ Okkur samdi illa mér og Magga Hann kýldi mig í andlitið Ég reið konunni hans í morgunskímunni í kjallaratröppum í Súðavoginum. Hún hatar mig líka. Ég er í góðri vinnu. Mamma segir að hún myndi ekki vilja skipta á mér og einhverjum öðrum. Hrein skyrta og hreinar buxur eru minn stíll. Ég keyri ekki fullur. En ég er með vonda samvisku því að ég man að ég bað hana um að gleypa, en ég bara man ekki hvort hún vildi það. ] [ Óværu sígur í brjóst. ] [ Fáa vini á ég á jörðu hér og gæta þarf ég þeirra vel sem ég finn. En þó sérstaklega að þér því að þú er fallegi engillinn minn. ] [ Ritskoðun getur verið ágæt. Fegurðarsamkeppni getur líka verið ágæt, en vissulega má deila um það. ] [ Tásur tennur tagl og tjásur Terry vinur okkar. Terry leiðinlegt að hafa droppað út áður en við kynntumst, en þú ert alveg svakalega sætur. ] [ Já. Ég er. Hér. Eftir mig ] [ Furnishing the insides of my mind carresing the idea Touching the matter lightly I find it fitting Hinted, that my head is subjected to clemency I beg for mercy But my brain is bashed and beaten I fight ... but I will not be the victor Lost Lone Insane ] [ Í þessi litríka ástandi, sit ég hér. Einblín á sjónvarpið Sekk ofaní sófan og ferðast um stafræna drauma. Þvílík martröð. ] [ Trying to refrain myself from spouting vile poisouns bile against the TV-shows, nowadays. Is this REALLY what the public wants to see? Is this REALLY like the public wants to be? This may seem a bit repeated - the questions I ask...that is... But what the public wants today... I mean, you know, It´s, you know ... it´s REALLY disturbing. I mean, REALLY REALLY disgusting Repeated this may seem a bit - But still I wonder - you know The infuriating urine-soaked piece of old ... erm ... EXCREMENT that they fill the brains of the innocent... This horrible piece of multi-million dollar (pound, yen or euro depends on where you are, you know) that they thrust into your ears and eyes! (Fornicating with your senses) May this seem a bit repeated? It´s a bit too much - it´s true Ooooh, I forgot but do I not tell the truth? I don´t know... hand me the remote (off) afraid to miss some fantastic show or an excellent music video listening to it in stereo on a digital 56\" television screen A bit repeated - this may seem (just in time for a new rhyme) But.. I must contain myself But I can´t resist... WHY NOT SPENT THIS MONEY TO MAKE US FREE! JUST STOP THIS MADNESS, AT LEAST FOR ONE DAY! please? ] [ Having trouble to communicate some problem with my linguistic expertise Words try to form Sentences erupt from the front of my lobe But what my mouth tries to ejaculate Is gibberish; But I try... to say... to shout... and cry. But I smile. Extremely satisfied with this change of mine. ] [ það sem sem ég sjái lík mörghundruð manna brennd sviðin sundurtætt sem voru eitt sinn manneskjur lifðu önduðu glöddust og hefðu öll orðið eitthvað hefði ekki verið fyrir tilstilli fámenns hóps fávita sem kalla sig ríkisstjórn og studdu drápsstjórnina og morðsambandið þau voru gerð að skotmörkum svo að við gætum flutt hergögn í nafni friðar ] [ mitt ljós það lýsir þér leið þín hún liggur rétt því þú finnur það á þér guð hefur verið hjá þér leiðin er löng og erfitt er að segja þér hvernig fer eitt þú veist þó allaf hér þú ert eins og gull fyrir mér svo kær þú ert sko fyrir mér þó sjáum við þetta ekki hér en við vitum hvort af öðru hér ó guð blessi þig barnið mitt ég finn þú sofnar í fanginu á mér ég finn ástríki og kærleika frá þér ] [ Ekki skæla sóldogg mín það er ég sem finn til enda gerir það ekkert til því þú ert vinkona mín mér hlakkar svo mikið til þegar þú vaknar á ný segir góðan daginn kona mín þá byrjar dagurinn á ný ] [ Það situr í mér svo sárt að finna ekki þessa ást þó kalt tali milli tára og móðir verður sár þá finn ég í minni sál hamingjan er rétt að byrja hér við fylgjumst með hvernig fer lukkudýr þið verðið með því ástin getur ekki setið á sér við óskum ykkur framtíðar hér munið að hamingjan er til og hana nú og guð blessi ykkur þrjú ] [ Titrandi ást og ástfangin hausinn er orðinn geðklofinn horfi út um gluggann minn veit ekki fyrr en þú ert komin þá loka ég augunum mínum og ei ég gleymi þér sé þig allaf fyrir mér eins og ég skildi við þig seinna mun ég segja þér hvar þú leitar að mér við höfum allt til þess mikla gleði að vinna ] [ Kuldi úti haustið ber næst eru það jólin þá er vetur kominn hér þá lætur hann heyra í sér hvirfilbyl og vitlaust er eftir það kemur vorið og þá heyrist í þér enda sumarið komið ] [ Nú er nýtt ár komið á ný hvað þarf að gera til að gefa því líf gæfan fylgir ykkur upp frá því sumir þurfa að byrja upp á nýtt en hvert sem farið er og hvar sem þú ert þá er þetta ár allaf hjá þér gefðu þér tíma því landið er ekki stórt því hamingjan er nær en þú heldur annars fjandi getur verið laus ] [ enginn veit hvernig mér líður ást og umhyggju ég bíð eftir hana vil ég fá að þiggja samt hennar verð að bíða ] [ Vinarþel, allir brjótast út úr skel ef þú bara hingað mætir, þér mun líða vel. umhverfið þér veitir loks innri frið inni á vistinni, blasir loks ástin við ] [ hamingja er fyrir öllu Lusie ætlar að borða eins og hestur enda ætlar hún að vera gestur vil ég bara óska þér nú til hamingju með daginn, borðaðu eins og gestur ] [ þið eruð dauð og leiðinleg, ekkert gaman að hözzla horfið bara á skjáinn enginn má af neinu missa til að eitthvað skeði, fer ég að bulla þetta irk er til þess gert að hafa gaman af því að kynnast. ] [ Síðan þín verður síðan mín svo er þér að þakka þar er alltaf eitthvað nýtt svona til að fylgjast með þú setur þetta í einn pakka ] [ Æ mér leiðist svo mikið en ef ég fletti af mér klæði.. hvað mun þér þá finnast fengi það þig til að fara úr allt vil ég til þess vinna ] [ við hér viljum óska þér, til hamingju með síðuna þína. það er ofsa fjör sem ríkir hér, þú einhvern veginn umturnast, og æðislegt vertu hér meira ] [ hver á ekki einn daginn eftir að eldast enda er það heppni að sjá þenna dag okkar líf er allaf best, það ber að passa enda eldumst við MagnumPI, óli skans góða anda í glasi er að finna hér, góður aldur hér ég mun allaf þín minnast, eða þarf ég að leita af þér enda ertu ekki eldri en þú heldur mundu það ég ung er við viljum óska þér hins besta enda er ekki slæmt að eldast hér elsku hjartans framtíð bjarta, mundu við elskum M.p. ] [ Hver hefur sitt að bera ekki láta það vera hvernig lífið er skrítið er það okkur að kenna fordómar og margt fleira tökumst á við lífið hérna er nokkuð hægt að gera því stutt er milli dauðans guð þinn nú gaf ég þér þessa góðu hjartans sál notað þú það rétt hér þá finnur þú hvað það er lífið hefur okkur að bjóða elskum friðinn það gefur ylinn ] [ þegar ég fann þig út á götu var eins og maður væri stjarfur horfðir beint en ekkert sást hvar er Dísa og mér brá þarna var hún hress og kát hvernig átti ég að vita það þá geislaði af henni svo maður sá hvar hennar hjarta var þá út og suður höfin hún er líklega að leita að mér hennar ósk var sú að hún mundi mig finna ] [ mér þykir það verst þegar dóttir mín er ástfangin, hún ung er hvað getur móðir gert horfin leka tár hjartað er sárt því ung hún er er ástfangin af þér æ gefðu tíma í það ] [ Mína þakkir ég sendi þér þær færð þú oft að finna þú hefur oft hjálpað mér með skriftina mína ég vona ég hafi gefið þér ljós í þínu hjarta lampinn er til þess gerður finna lífið hið bjarta :) hamingju mun senda þér lífsins förunaut en mundu það hún ber mikið í sér þraut :) njóttu hennar eins vel þú hefur hana í hendi gættu þess nú vel missa ekkert úr bandi :))))))) ástin og kærlegur er sko til líka hægt að finna ef það hjálpar þér þá allt til þess að vinna :)))))))))) lífið er leikur einn það er bara á að reyna þú heldur rétta leið vertu bara heima ] [ 9/10 2001 því er ég hér er maður hættur að nenna þessu irckja er mikið rugl og bull einkamál og einelti fólk barðist við að ná því tár lekur niður kinn fólk finnur mikið til sárt er að horfa á það þetta skuli vera til ] [ 10/10 2001 Sárt er að sjá þau völd, sem við þurfum að hafa. Níðumst á öðru fólki, okkur finnst það gaman. En eftir situr þessi sál, ísköld og blá níðumst á næstu sál, gerum alveg það sama Við höfum týnt okkar sál, stendur orðið alveg á sama Tökum okkur vel á, finnum þeirra góðu sál. ] [ 21/11 2001 er farin undir sængina ef þú vilt mig til að strjúka hættu þá að ircka vinurinn því þig er að fara að nudda hann harður er orðinn eins og steinn ég óð er, ekki vera seinn þetta sagði kona svo heit og mjúk allt er það henni að þakka hún tekur af honum rykið :)))))))))))))))))))) ] [ ást 20/11 2001 Glaður hann fer til baka því konan hans er nú vöknuð hvaða ást mun hann finna hana vil hún fá að vinna hjörtu mætast á miðri leið svo hamingju þau finni ] [ 20/11 2001 :)))))))))))))))))))) Ílla mér nú brá mús var ofan á hjartað mitt tók kipp svo brjóstið hoppaði við það æsti músin sig horfði sæt á mig undir rúm hún fór samt við það fann ég til kisa mín undir var beið eftir að ná henni þar vitið þið hvað gerðist þá mús var mannvera:)))) ] [ Lau. 1. des. Blessuð sé minning \"elinaj\" Elínu Önnu sem lést í hörmulegu bílslysi við Kúagerði kveðja til elinaj einn morgun við áttum spjall sterk varstu mín kona gæfan og hamingjan var að koma nú kveð ég þig, það er mjög sárt því guð þinn er kominn tárin renna og renna guð, því þurfti þetta að fara svona ] [ hér er partý, hér er stuð jólarós jólaköttur, voru þið að bjóða góða nótt höfum við jólaljós ] [ mín bæn var sú að ég mundi vera þér hjá sú ósk rættist ei því gef ég þér frið en í huga mér verðurðu allaf til, vona að þú hafir fundið þann yl því hjartað mitt var allaf til og helgað þér oft fann ég til nú sárt ég kveð mína bestu bæn guð minn verður alltaf hjá þér. ] [ leiðin er löng hjartað er sætt brosin eru mild hugurinn er eins það segir eitt, við erum eins höfum ekkert þurft að segja neitt ] [ þó tár falli vel í á það segir eitt þú átt að kalla á hjálp guð þinn ávalt er hér verður hér til að hjálpa þér ] [ Gefðu mér gull í skó gefðu mér það sem ég ekki á gefðu mér þrá og traust gefðu mér allt þetta þá kem ég til að vera því ég er jólasveinn góði guð, minn góði vertu bara ekki seinn ] [ þú mig aldrei finnur sama hvar þú vinnur ég er þar sem engin er það hefur hjálpað mér að vera ekki hjá þér enda kemur það af sjálfu sér ] [ Árin liðu og gott var það, getum ekki farið til baka. Hjörtun sakna þess, við finnum það, gaman að við skulum hérna vaka. Munið þið eitt, það sem við höfum reynt, kemur aldrei til baka. Svo gleðjumst þá og gleðileg nýtt ár, ég þakka ykkur til baka ] [ þar sem er gott að vera þar hef ég allt að bera yndi, ást og huggun þarna vil ég fá að vera ] [ Flutt ertu á þinn stað líkar það nokkuð vel gætir þú beðið um eitthvað betra en þetta handa þér nú ertu komin á staðinn lítur út um gluggann þinn sérð að úti er ylur og friður hvar er nú vinur þinn guð mun þetta passa hér ríkir ást og friður honum þarft þú, og allir á að halda þú bíður alla velkomna ] [ Gæfan þér fylgi hana þú átt skilið gefðu líf í þitt hjarta hamingju í nýja húsið þetta eru bara vísur sem ég sendi hér og nú ég gæti boði betur þú gætir klætt mig úr :)))).... ] [ #iceland40+ var oft gaman á tala við perra eins þig þegar hittust við öll saman fór ég að hlægja perri minn ] [ ég vil ekki rífast börnin mín góð ég vil freka yrkja lesa fyrir ykkur ljóð ] [ sofðu aftur, sofðu rótt AB allaf bjóða góða nótt hinir verða að hafa sig því Ab er sofandi ] [ blá og marin, illa barin hvað hefurðu gert af þér fullur ertu, illa farinn endar svona þetta ár hjá þér:)))))))) ] [ þó fjarlægðin væri svolítið löng þá var ástin og hugurinn allaf hér á irck, þú þó segðir mér Ísland væri nú þitt ríki hugðist ekki fara að koma þér því Ísland mun allaf vera hér hverfur ekki í burtu frá þér en þú elskar samt föðurlandið ] [ Nú renna tár mín niður á kinn mér finnst það svo sárt missti þig í þetta sinn elsku vinur minn hvernig verður án þín ég þurrka mér um kinn einhvern tímann hittumst við þótt ekki sé það í þetta sinn guð minn geymir þig og besta engilin þinn ég allaf mun minnast þín elsku kæri vinur minn ] [ minning til Thor0102 mitt hjarta er brotið vinur minn það streyma upp miklar sorgir það streyma líka mínar góðu minningar þú gafst mér oft þitt góða hjarta og gafst þér tíma til að kjafta um þitt líf, góða bjarta framtíð með barn þitt í fanginu þú varst þakklátur með bros á vör þú sagði mér þetta ?ég á svo mikið henni að þakka? ] [ lesnukvöld og lessubi er eitthvað handa mér langþreytt tussan mín er renniandi blaut og allt í steik svo verð ég að leita að þér hvar ertu, viltu koma í sleik :)))))):))))))))))))))))))))))))) ekki handa börnum ] [ það hvílir friður, ennþá svo mikil ró en helvítið hefur betur þurfum þó að gæta þess betur því þetta boðar ekki gott lífið hefur margt að bjóða við höfum allt í höndum hér en kunnum ekki að njóta hvernig væri að gæta sín víni og djammi er oft gaman á eftir sitjum við rauð í framan tár full af sorg, ekkert verður gaman hvernig væri að lifa því, fara að hafa gaman ] [ Sóldogg þú veitir mér frið og eitthvað innra með mér segir mér hvað mér þykir eða hvað sem það er, oft finnst mér ég hitt hafa þig átt einhvers staðar varðstu fyrir mér þótt það bæri ekki á því, þá varstu allaf hjá mér og hamingja þín er mér allt þú ættir að fara að leggja af stað ] [ Aldey þú ert lokuð mér eins og hulinn dalur eitt þó finn á mér við höfum lent á réttum stað ] [ typa mín hún sér vel finn að hún gefur af sér eitthvað er að brjótast út henni er ekki um og ó ] [ Fantagott trúir því það sé til annað líf sama hvað maður reynir þú allaf munt heyra þú veist hvað ég meina ] [ Heiðmörk er staðurinn hittumst við með sólina falleg tré og fugla söngur fantagott er að grilla þar komum okkur í sólskinsskap setjum upp góðan bar skáldið mikla hér útum allt og njótum okkar ásta þar ] [ geggjaðaaðan kall svala á óvart hann kemur þá eitthvað gott hann á enda sértu á svölu ó já ] [ Sb Hössl hér og þar vekur ykkur vonina fer alveg upp í sex enda fer það henni vel:) svo er bara að við höldum það Sb sé kannski orðin kona man Sb ekki við erum bara hress förum aldrei neitt sem byrjar á sex ] [ Tunglið mitt segðu mér eitt ertu örugglega kona eitt er svo leitt ég skuli vera við þig svona eitt er ég alveg viss um eitthvað var á milli vinátta og góðmennska var næstum að koma en horfið er allt hér sem ég var að vona en vináttan heldur sér en þú ert góð kona:) ] [ þreytt er ég og barin illa er ég farin eitthvað er þó eftir illa hef ég það fengið ] [ Úti í húsi við dönsum gaman væri dísa mín að dansa við þig PARÍSARDANS heldurðu ekki að þú verðir þar þegar þú reynir, þá veistu það ég met hann mikils þennan dans ] [ ég rugla öllum ættum þá finnst allir vera vestan frá enginn má segja frá hvert afi fór á grána sínum þá austur, norður,suður yfir á er hann fór vestan frá ] [ Nú er komið 17. júní kaffi þegar 17. júní er nú farinn við frjáls hönnum þetta land huga okkar langar til að labba þökkum Jóni Sigurðssyni fyrir allt en fá brú yfir Atlandshafið þá getum við heimsótt allan heiminn heimsk, óþolinmóð en þroskumst þó Ísland, okkar góða og hreinláta land augljóst við mun allaf þar vera árstíðir hefur margar að bera, ekkert stríð þetta land hefur augljóst stolt að bera enda mun landið allaf verða friðarland ] [ ég bið drottinn að blessa þig þar sem engin tár eru til þar er gott að hefja líf á ný þar verður allt til ekkert verður sárt, þú finnur ekkert til friðurinn er kominn til að veita þér yl það sem þú gafst það pössum við það sem þú gerði þess minnumst við góður guð minn, hún er komin til þín ] [ ég fór á þetta ball börnin voru þar lítið gaman að sjá þau e-pillu voru á öll svo út úr þessum heimi eins og þau væru ekki til augun starandi og stjörf þau allaf tilbúin að slást hvað er að ske hjá þeim mér varð sko um og ó ég sat sorgmædd og horfði á hugur minn var hjá börnunum mínum þá er þetta þá þeirra framtíð guð minn góður hjálpaðu þeim ] [ Mér er illt og mikið í muna að tjá það sem mér grunar að þú gafst mér undir fótinn það gerðist um áramótin illa brá og illa gengur ég fatta þetta ekki lengur þessa tilfinningu nú illa ég ber hugsa um þig, ástfanginn af mér svo aftur til baka ég nú fer hugsa mér þig á eftir mér þá vaknaði von ég fann það vel hjartað hoppaði og stoppaði í mér ég hrópaði \"ég er ástfangin að þér? ] [ Heyri andadráttinn þinn falla september fær okkur alltaf til að gleyma sumrinu. Pakkaðu mér inn í rassvasann þinn þegar það fer að dimma, farðu varlega þegar þú sest niður því líf mitt er trukkur fullur af bortum af þér og þú ert [bjargvætturinn//andadrátturinn] ] [ Þegar typpið mitt hóf upp raust sína í fyrsta sinn fór konan frá mér ásamt börnunum - en gagnrýnendur vöknuðu af værum blundi: Aldrei hef ég heyrt jafn fagurlega ort um lífið og fjöllin í þessu hrjóstuga landi, sagði einn þeirra. Nú gráta guðirnir ábyggilega, sagði annar og lyfti höndum til himins. Fortíðin er komin aftur, hélt hann áfram, en nú með nýja rödd. Sjálfur sagði ég ekkert. Þetta kom að neðan. Þú veist… Hvötin úr klofinu píndi mig áfram og… Þögull leysti ég beltisólina og sleppti buxunum. Það ómaði í salnum þegar sylgjan small í gólfið. Og þettaþarna tjáði sig um fjöllin og guð. Ég líð upp í skýin af nautn, hrópaði einn til og stóð á fætur. Ég svíf…ég svíf! Hvílík ánægja! Hann blakaði höndunum og hljóp út úr salnum. Ég sagði ekkert, en lokaði augunum og ímyndaði mér að ég stæði á grasbala milli grárra hraundranga fjarri mannabyggðum ásamt konu minni og börnum... ] [ lítið blóm fýkur yfir hæðina þar sem sævaldur stendur einn sævaldurinn hinn smái blómið fýkur það fýkur fljótt ég er foli foli ástarinnar ástarinnar foli ég er foli en samt fýkur blómið langt í burt og lífið endar með tárum ] [ Á ég að Segja þeir hvað allt er Tormelt hér á fróni Aðallega samt Rónarnir sem Liggja í strætinu Og berjast um Gullið. Innst inni nei nei .... ] [ Leiðin hver veit leiðina hina bestu hver veit hve lengi það er hvernig við munum þá heilsast hvernig verður það hjá mér og þér vona að vinátta þar muni ríkja tilfinngar við finnum að líf er hér því besta gjöfin er vinátta okkar hennar leitum við hjá þér þótt leiðin sé svolítið löng stríð um alla heim hægt leysir þennan vanda með einu orði segja þeir hér erum við, viljum lifa halda frið á þessari jörð þakka guði fyrir að fá að lifa njóta þess að vera til þá skaltu þess minnast vináttu þú átt hjá mér hana varðveiti ég allaf sama hvernig þetta fer ] [ Hjartað slær ég missi völdin dýpra hugurinn færist nú, varir þínar finn ég við mínar finn það læðast um mig, það nálgast um lærin þín ég færist nú nær ó hvað hvað væri gott að hafa þig á milli fóta finna þig svo með ástarþrá og njóta mín góða hvað ég hugsa mikið til þín ] [ það er eins og ástin hafi fokið hvað sem vindurinn reynir að segja þá verður það mitt að berjast vel á móti því ástin mín, ég aldrei sleppi þér, kreista brjóst á stórþrýstinni snót sem gefur mér svo hjartað sitt, því hefur vindurinn ekkert að segja elsku vinan, ég elska bara þig ] [ núna við undir sæng förum að sofa hvað það er sem veldur því finna þig, ó ástin láttu ekki svona því hendur þínar lykjast um mig aftur þú byrjar upp á nýtt þá finn ég við verðum að njótast fullnægja drauminum sem þú ert í þá var heimurinn og vindurinn stormur, allt var bara ekki til ] [ Hver er það sem er bitur. hver var að vekja manndjöfullinn! hann er illur eða dauður hlutur. stendur hann ekki nær þér, illt af honum getur þú fengið. ef þú skammar hann nú hér, !!!!!!!ég fer !!!!!!!!!! ] [ Allvel Aldey aldurinn ber ungleg sýnist mér til norðurlanda hún fer. öldruð viljum við hún verði hér en árin líða ekki eins fljótt því situr hún bara hér ] [ Féll á bakið bölvaður byltist um og vældi, virtist vera ölvaður veikur flestu ældi ] [ Í messu blessun margir fá morguninn orgar prestur frá hressir í athöfn þeir eru þó ekki þiggja boðið hérna þá hafa þeir vín drukkið með mér prestur skál! fyrir góða rauðvíninu ... ] [ Hjá þér ásýnd skrattans skín skilningslausi minn vinur. Þú ert bölvað svikasvín. vona að þú svífir ekki niður en ef þú svífur vinur minn til heljar eða þar um bil skaltu muna orðin mín skrattinn sendi rásina niður.... ] [ Lítið vit og léleg sjón latur ertu drengur elsku vinur þú fæddist flón og flýrð það ekki lengur en auðséð er að þú ert nú flón hér ég vil ekki tala við þig lengur hafðu þetta hann séra gull Jón biður ekki fyrir þér lengur ] [ Eikur leik og alúð ég fann eða gleði sanna hreykin steikja kleinur kann kallar þetta á eitthvað annað ] [ Féllst á bakið og bölvaðir vinurinn byltist um og vældir, skældir virtist vera ölvaður maðurinn veikur vinurinn þú bara ældir ] [ Hnútur þetta er eins og hnútur, það er inni í mér engir læknar sáu, að hnúturinn gerði svona ljótt af sér, þetta fallega litla sæta ber. Veik alla daga, sár sit hér sátt við allt og alla það er eins og þetta litla ber hafi allt um líf mitt að segja, hvað viltu mér elsku ber er ég nú að fara að deyja eða fæ ég að vera hér ] [ hvert líf hefur sitt að bera, hver sorg sem við komum okkur í þótt eitt og annað standi uppúr, þá er allaf hamingja í því. svo nú er bara að gera gott úr öllu, lifa lifandi, glöð með þetta líf. því hamingju okkar ber okkur að finna, því þetta er bara okkar líf. ] [ Hver er ég hver ert þú hverjir erum við hverjir vita hverjir við erum hvernig komust við að því ég veit lesum Biblíuna komumst að því hverjir við erum hann veit allt er allt hver er hann hverjir vita hver hann er veit ég hver hann er hann er Jesús hann er Guð hann er drottinn alls sem er hér Jesús er drottinn ] [ Mér er kalt í mínu hjarta, úti er frost, ískur hljóð. hver er þá inni í sínu hjarta, berst þaðan þetta góða hljóð. Væntum mér þykir þá um alla, hvirfilbylur má koma mér nær. því í mínu góðu hjarta, er þetta alltaf gamla góða hljóðið. ] [ þeir sem eiga þig sem vin, elsku Manni minn. ríkari verða þeir, að hafa þig alltaf hjá sér. þú gefur ekki öllum, þitt góða hjarta. þegar þú gefur, þá gerir þú okkur að þínum vin. enginn er þér líkur, þú ert alltaf tilbúinn. geymdu þitt góða hjarta, ég er vinur þinn þú ert einn af þessum mönnum,sem finnur til. hjálpar að finna brosið bjarta,leyfa þeim að vera til þetta er ekki öllu mönnum gefið,að finna þennan frið. svo vill ég þér þakka, að hafa þig sem vin. ] [ hvernig helduru að þetta sé þú hefur ekkert gefið mér annað en hræðslu, lítið þrek mundi ég vilja nú fara frá þér ég hata þitt ljóta nef svo ekki sé talað um allt þetta hér sem hefur ekki sést á þér leitin bar ekkert með sér svo góði farðu vertu ekki hér mikil hamingja tók við þá fann hana þó rétt áður en ég dó ] [ Hún labbaði inn í ein dimmanskóg Ég vatr bara lítil stelpa kunni ekkert og skildi ekkert nema mamma og pabbi Ég sá hana labba það varð dimmra og dimmra Hún labbaði lengra og lengra inn í dimmuna í burtu frá mér og þér Ó pabbi hvernig leit hún út? og hvernig var hún? Hún var með dökkt hár eins og mirkrið mað blá augu eins og hafið var alltaf blíð og góð En áhverju fór hún frá mér Hver veit ástin hvarf í björtu báli eða eða bara brast en hún mun áfalt elska þig hvar sem hún er. En munt þú áfalt elska hana? Já hún kveikti fyrir mig ljós Gaf mér þig og ég mun alltaf fera þakklátur fyrir það að ég fékk þig að gjöf. ] [ Ég er mánin sem er hér á nætur gerir allt bjart og sléttan sjó stjörnur filgja mér á næturnar kvöldin eru alltf skíra gull hjá mér en þá er ég hér yfir þér Systir mín er sólin hún skín en er ekki eins björt og ég hún er hér á dagin þegar ég sef þá vakar hún yfir þér skýjin filgja henni en ekki mér Þegar ég og hún hittumst hér þá verður allt gult og skín hjá þér en stjörnurt elta mig skýjin elta hana við föðmust þá er allt skjært allt friðsælt og hljót því við gerum það því við erum systur ] [ Ef ég ætti ekki Ef ég ætti ekki sóldogg að hvernig væri það fyndist allt tómlegt hér og væri ekki þar hennar geta, hennar gáfur, hafa hjálpað mér hún hefur farið með þetta betur enda er hún með vísurnar alltaf að hjálpa mér :) ] [ Við erum staðföst, Rétt eins og náttúrunnar blóm. Þetta er fyrsti dagur lífs míns, Í fyrsta sinn er ég viss, Að þú ert sú leið sem mér langar til, Engin þörf á vitneskju um annað en þig, Engin þörf á yfirgefningu, Því ég þarf ekki meira en þig. Okkar framtíð er svo skír. Vegna þess að allt er hér. Inn í mér, Svo djúpt inn í mér... Við getum séð heiminn eins og við viljum sjá hann... ] [ Bjargaðu mér, Eins og regnið bjargar regnboganum, Særðu mig eins og stormur. Ég sný mér til þín, Því margt er svo ósagt, Síðan lítur þú svona út, Ég gleymdi að gefa þér annað tækifæri... ] [ Ég er rödd hinnar vatnskenndu plánetu skýjanna, Til að færa þér skilaboð: Komdu nær, Svo ég sjái ljósið í augum þér. Ég er hér til að bjóða þér í ferðalag, Til heims ástar og frelsis. Slakaðu á, Opnaðu huga þinn í átt melódískrar innlifunar. Melódían er eina leiðin að hinni vatnskenndu plánetu skýjanna. Komdu nær, Svo ljósið í augum þér nái að skína. Dansaðu með mér og finndu melódíuna taka yfir þig. Fylgdu mér til hinnar vatnskenndu plánetu skýjanna. ] [ og þegar ég er týndur, þá mælir þú af vorkun, og þegar ég er þreyttur, færir þú mér líf, og þegar ég er særður, þá tekur þú utan um mig, og þegar ég er kaldur, þá finnur þú hitann inn í mér. ] [ Ást í rökkri, Eins og náttúrunnar víma, Engu betra. Hugsandi um þig ástin, Eins og náttúrunnar vímu, Engu betra. Og þessi sól skín. Er ég ástfanginn, er ég enn í söknuði? ] [ Mannstu mig, uppgötvaðu og sjáðu, Um heim allann er hún þekkt sem stúlka. Til þeirra frjálsu, skal huginn vera lykill, Gleymdur sem fortíð, því sagan skal endast. Guð er stúlka, hvar sem þú ert. Trúir þú, tekur þú? Guð er stúlka, hvað sem þú segir. Trúir þú, tekur þú? Guð er stúlka, hvernig sem þú lifir. Trúir þú, tekur þú? Guð er stúlka, hún er aðeins stúlka. Trúir þú, tekur þú? Hún vill sig signa, í algleymingi tímans. Hún er svo þreytt, hún er ávalt mín. Hrein og frjáls, hluti af okkar framtíð. Eins og stúlka fyrir mér. Himinninn gerir út um okkur, einhver þarna úti, Sem við trúnni treystum. Þarna er regnbogi fyrir mig og þig, Sólarupprisan eilífa. ] [ Hve lengi þarf að bíða fólk farið að skilja fólki sem líður illa að taka þátt í að elta gerir það ekki svona leyfir sér ekki að vona bið því hugsum betur stöndum okkur nú betur getum ekki staðið í þessu því eftir situr þessi sál með stórt sár ör og tár líklega bara eftir okkur guð minn hjálpi okkur ] [ Ég man hvernig þú komst mér að brosa. Jafnvel þegar ég var leið. Hvernig þú ljómaðir fullur vonar Að allt gangi vel. En nú ertu farin. Og vonin flaug með. Engin ástæða að lifa. Engin ástæða að brosa. En upp fyrir skýin Og upp í stjörnu heim. Vakir þú yfir mér. ] [ Glugg Glugg Rop Glugg Glugg Rop Glugga glugga rop rop ] [ Góður guð, hér í mikilfengleik þínum Allir heimarnir, eru nafni þínu til minja Á Stjörnurnar ég horfi, ég heyri þrumurnar í huga mínum Kraftinn yðar gegnum heiminn ég skynja Þá syngur sál mín, frelsari guð til þín Hve mikill þú ert, hve mikill þú ert! Þá syngur sál mín, frelsari guð til þín Hve mikill þú ert, ó hve mikill þú ert! Þegar gegnum skóginn, já gegnum skóginn ég labba Og ég heyri fuglasönginn ljúfan meðal trjánna hér Þegar ég lít niður frá háum hæðum fjalla Og sé öll undrin, fersk golan á andliti mér Þá syngur sál mín, frelsari guð til þín Hve mikill þú ert, hve mikill þú ert! Þá syngur sál mín, frelsari guð til þín Hve mikill þú ert, ó hve mikill þú ert! að hugsa sér guð, sinn son fórnaði til mín einkason sinn fórnaði, nú þekki þetta allt á krossinum, mínar syndir tók til sín blæddi og dó, fyrir syndir mínar hann galt Þá syngur sál mín, frelsari guð til þín Hve mikill þú ert, hve mikill þú ert! Þá syngur sál mín, frelsari guð til þín Hve mikill þú ert, ó hve mikill þú ert! Þegar frá kristi mun koma, þá kallinu mikla ég sinni Mig heim tekur til sín, ó með hamingju í hjarta af aðdáun, ég mun hneygja mig í auðmýkt minni og þá ég lýsi: minn guð, hve mikill þú ert! og þá syngur sál mín, frelsari guð til þín Hve mikill þú ert, hve mikill þú ert! Þá syngur sál mín, frelsari guð til þín Hve mikill þú ert, ó hve mikill þú ert! ] [ Aðeins horfa á lífið eins og það er það hefur allt farið fram hjá þér þú talar mikið en ég nota ljóð svo alltaf verður eitthvað til enda ertu hulinn mér hver sem þú ert eftir að ég kynntist þér hef ég þurft að þola það vera á milli ótta og friðar, geta ekkert að gert einkamál og bullið þitt ertu að draga okkur á skiluru ekki við viljum friðinn fá ] [ kisa mín er irckju góð henni á ég mikið að þakka enda hefur hún gefið mér bros í sínu hjarta austan hún sagðist vera frá held hún sé að norðan en eitt veit þó hún er fyrir sunnan ] [ Ísland er kalt að vera en Ísland hefur margt að bera landið er handa okkur á fallegum stað það er á margt er hægt að skoða eins og ESJU, HEKLU, gullfossinn þó það hafi allt þetta mannskapurinn fallegur en ást og tryggð þeirra var Ísland þess vegna til hverju er að þakka það okkar drottin vinur minn ] [ ef ást mín er alltaf hjá þér þá veistu um, hvernig mér leið með þér að horfa í augun þín svo blá er eins og að finna til í minni sál hjarta mitt það hoppaði þá ég fann gat ekki stoppað mig þá tók ég þig, í fangið mitt ó bara vill elska þig þá fórstu frá og skildir mig ég sat þá, þar með hulið tár reyndir segja að þú elskaðir mig ég heyrði ekki þitt kall þá svo lifa þarf ég nú ein á báti hvað sem hverjum nú langar að segja eitt þá fá þau öll að vita ég elska þig á hverjum degi mun allaf vera hér vera til og mun lifa annast þig ] [ Hnífur fer illa í hendi leggja hann til að drepa mann óttast er dauði illu andi því er gott að forðast hann þarft að geta beitt honum betur gott væri að nota við brauð engin skal þá hnífinn óttast því alltaf er hægt að nota hann ] [ Ég læt mig dreyma að hendur þínar strjúki mig að varir þínar kyssi mig að þú þráir mig Ég læt mig dreyma að þú sofnir með mér að kvöldi að þú vaknir með mér að morgni að þú elskir mig Ég læt mig dreyma því ég þrái þig því ég elska þig ] [ Í ljósi þess að líf er hér þá set ég þetta saman alltaf gott að vera hress geta talað um allt saman en gleymum við ekki því að tilfinngar okkar berum sama hvernig þetta líf þú þarft að taka þig saman ] [ Hún situr og starir starir á þessi dauðu hús, sem samt eru svo full af lífi. Grá og gömul reyna að lifna við og taka hana, troða henni inn í tilgangslaust líf þar sem ekkert gerist. Líf sem aldrei var hennar. ] [ Brimi berjumst með, birtir framtíð yfir. Glæðum hag og geð, góða þjóðin lifir. ] [ lítil dúfa er eins og húfa en samt ekki... því dúfan á líf en húfan á ekki víf við elskum öll en aðeins Jón Ólafs á höll hlustaðu á þögnina og þú færð hávaðan beint í æð málið er að hlusta bara að hlusta ] [ á suðurhimni undir fullu tungli. sími hringir, í svefni, hún svarar. og ég vakna. hvar eru börnin? ] [ Johnny Cash Snillingur ] [ the serpent speaks to me i fell armageddon coming near the serpent yells. i will fuck the virgin mary i will be fucked by the virgin mary ] [ Þótt það taki tíu árin tíminn læknar ætíð sárin þerra skaltu þungu tárin þjáning burtu fer. Á þér hef ég miklar mætur mun ég á þér hafa gætur alla daga og allar nætur áttu vin í mér. ] [ spor í snjónum þúsundir talsins öll liggja í sömu átt en hvert? spor í snjónum í einni þvögu á leiðinni beint til glötunar spor í snjónum stór sem smá djúp eru skrefin beinustu leið í Ríkið. ] [ Óreglusamur, vaknar þunnur Órakaður, fer á fætur Ólaglegur, ekki sætur Ósofinn, fer á rúntinn. Óökufær, startar bílnum Óábyrgur, leggur af stað Ólöglegur, yfir á rauðu Ótillitssamur, nema hvað? Óheppinn, bremsan bilar Óttasleginn, orðinn rauður Óspenntur, keyrir á Óviðbúinn, vaknar dauður. ] [ tómaturinn sem beið beið aðeins lengur en enginn keypti hann tómaturinn sem beið beið aðeins lengur var orðinn einn í rekkanum tómaturinn sem beið beið aðeins lengur farinn að efast um tilvistarstig sitt tómaturinn sem beið bíður ekki lengur hann myglaði og dó ] [ í rúminu liggur hún látin lætur ei á sér bæra í myrkrinu dapur er dátinn drunginn er´ann að æra blóði drifinn drengurinn dregur hníf úr maga illa farinn fengurinn fljótt nú þarf að saga fjötraður í forna hlekki fallni dátinn grætur vonar að vofurnar ekki vekji sig um nætur ] [ Himnarnir brenna yfir vannærðum sálum þegar lífvana laufblöð bjóða sumrinu góða nótt senn er dagur hniginn og frostið tekur myrkrið í fangið ] [ það eru fótspor eftir þig á heilanum mínum ekki svona slóð sem hægt er að fylgja eftir heldur svona óregluleg spor út um allt það eru fingraför eftir þig á sálinni minni eins og barnslegt kám á spegli ekki eftir einn og einn fingur hér og þar heldur þétt fingraför allsstaðar. ] [ Í mosagróinni laut lygni ég aftur augunum hugleiði dagana sem ég átti með þér dagana sem þú sveikst mig og dagana þegar gleðin faðmaði okkur baðaði okkur bleikum bjarma í loftinu svífa ósögð orðin yfir og við slítum þau niður eitt og eitt eins og safarík epli og neytum þeirra saman. ] [ Hví græturðu, tungl? Döggin geislum þínum varpar um grundina fuglar baða sig í birtu þinni ástfangin pör dást að fegurð þinni rökkrið víkur fyrir ljóma þínum hví græturðu,tungl ? ] [ ég klauf hafið í kringum þig gáraði vatnið til að ná til þín synti í straumnum til að snerta þig og þegar þú snertir mig vissi ég að það var allt þess virði ] [ Ef þú eigi satt segir þú sál annars beygir þá trúnaður er rofinn dyggðin þín horfin. Sannleikurinn getur þess krafist að fyrir honum sé barist að þér fylgi sannleikans styrkur ei veggur lyginnar þykkur. Við höfum skyldur við aðra allir sýna á sér hlið harða þótt á kærleika og trausti þurfi að halda við höfum því miklu að valda. Lygin af sér illt leiðir einhver sig á þig reiðir ekki svíkja og undan þinni skyldu víkja. Sé traust brotið getur vinsapur þrotið án vinar ertu einn þér hjálpar ei neinn. Að veita öðrum gleði hjálp gegn heimsins streði og koma í gegn því sem öðrum er um megn veitir meiri hamingju en nokkuð annað. Veðlaun veitt úr gleðinnar pyngju þetta hefur reynslan fyrir mér sannað. ] [ Hefurðu prófað að líta heiminn á með augum annars manns allt í öðru ljósi muntu sjá hulan svipt af lífsins glans. Það sem okkur virðist létt erfitt öðrum reynist bugðótt líf virðist slétt að baki grímu maður leynist. Það sem gleði okkur veitir annan hryggir þú finnur ei sál annars, þótt leitir margt er það sem á lífið skyggir. Sýnum skilning, þótt skiljum ekki búumst við því að aðrir blekki. Ég get ei vitað hvern í raun ég þekki við sjáum ei annara hlekki. Aðeins sannra vina ást virkar sem græðsla í sár linar þjáningar þess sem er að þjást og hindrar mörg tár. Ekki aðra dæma það er ekki á okkar valdi ekki brott flæma þá sem hafa lent í klandri. Lítum í eigin barm fullkomin ei við erum. Hugleiðum annara harm hvort við á hlut þeirra gerum. Verum ei sjálfselsk líkt og þér skaltu öðrum gjalda við erum öll mennsk og þurfum á því sama að halda. ] [ Við erum undir öðrum háð en þurfum þó að vanda okkar ráð ef við þessa lífsbaráttu ætlum að heyja við þurfum nei að kunna að segja. Nei getur verið jákvætt fólk við að það að segja er þó hrætt. Það skiptir máli að hafa þetta þor því mikilvægt er hvert lífsspor. Oft viljum við segja nei en þorum ei af ótta við álit hinna sem í mistökin okkur ginna. Ef þú í einhverju slæmu ert liður er erfitt að fá aftur allt á hreint því miður er það oft of seint. Því minningar aftan að þér læðast þær gleðja og græta stundum að þér hæðast við þær er ei hægt að þræta. ] [ Jesús ég þakka fyrir þína náð þótt ég syndug og hrjáð hafi frá þér villst og mig burtu hrakið þá er leiðin til þín alltaf stysst og þú yfir mér hefur vakið. Jesús ég get aldrei skilið kærleik þann að deyja fyrir sérhvern mann. Ég þakka þá von sem þú gefur og allt sem þú gert fyrir mig hefur. Jesús ég bið þig að sýna mér hver þinn vilji fyrir líf mitt er. Hjálpa mér að hlusta eftir orði þínu og láta af öllu stolti mínu. Jesús gef mér djörfung til að segja frá og gef mér eftir orði þínu þrá fylltu mig af þínum anda og hjálpa mér stöðug að standa. Jesús lát mig eigi villast veginn víða hjálpa mér heldur vilja þínum að hlýða. Að ég megi skína fyrir þig sem stjarna skær, haldast hrein og tær og dragast til þín nær. Jesús hjálpa mér að lifa fyrir þig hvern dag og gleyma heimsins striti mér í hag. Hjálpa mér með lífi mínu að syngja þér lofsöng og leið mig gegnum eilífðarinnar þröngu göng. ] [ Myrku skammdegi í, á jólum minnumst við frelsarans sem steig niður úr konungsstólnum sitt líf lét fyrir syndir hvers manns. Hann lifir enn það ég með vissu veit jafnt elskar alla menn það sanna hans fyrirheit. Hann sanna gleði gefur, von um eilíft líf vissu ég hef, sannað hann hefur verið minn skjöldur og hlíf. Hann kom hér á jörð með birtu sem aldrei dvín verndar sína hjörð vill vera þér ljós sem í myrkri skín. Hann gefur mikla von hverju hefurðu að tapa treystu á Guðs son það mun gleði með þér skapa. Við sjáum ei vindinn sem um okkur fer vitum þó að þetta afl er til eins er um Jesú hann við hlið þér er ekki er allt sem við kunnum á skil. Tilgangur jóla er ei að skreyta borða góðan mat og gjafir gefa. Heldur að Jesú þér vill veita eilífa gleði, taka burt allan efa. ] [ Örfáar brúnar og bláar bragðgóðar, sumar hráar stökur stórar og smáar streyma sem vatn til sjávar. Ómurinn ljúfur lætur léttur í eyrum og sætur ástfangnar Evudætur enn hafa á piltum mætur. Myndin minningu geymir marga um fegurð dreymir, úr glóðinni ennþá eimir ef til vill enginn gleymir. Bárurnar földum falda freyða við stinningskalda því skal til heiðar halda á harðferðinni jökuls tjalda. Þar ríkir fullkominn friður fegurð sem gagntekur yður og íslenskur sveitasiður að setjast þar snöggvast niður. ] [ Að kveða til þín kíminn brag í kærleiks ríkum anda. En labba eftir liðinn dag leið til draumalanda.
Eiga síðan óskastund efst á fjallatindum. Þar sem golan léttir lund laugaður hlýjum vindum.
Satt er best að segja þér sem og öðrum konum. Ísland verður undir mér þó annað bregðist vonum. ] [ Taugarnar brosnar, hendur og líkami skjálfa, kuldinn smígur inn, skelin brotnar, tárinn renna, ­- búinn! ] [ Hjartað skreppur saman við afneitun sjálfs míns tilfinning sem ég þrái að finna þú verður brátt farinn ég lýg að ég held uppí opið geðið á fólki um tilvist áhugans á þér Segi ekki sannleikann Ristir of djúpt Lífið er að leita lystisemdum eftir leikur ekki lengur lítið hjarta við spyr ég sjálfan hugann hvað að honum harmi finnur ekki svar vona að allir draumar þínir rætist ] [ í sófanum ligg ég enn nenni ekki að standa upp skipti eitt tvö þrjú og það var ekki ég mig syfjar nenni ekki að sofna langar en nenni ekki að reyna ég horfi eitt tvö þrjú og það var ekki ég ] [ Ástros þig ég fæ upp rúm að njóta það kalla bara á eitt þarf þina að blauta Kannski annað á hún þá uppá til að bjóða öldung gott sem alltaf er hætt fara nota,njóta ] [ burger dúlla vinurinn greddan tekur völdin þjáist og komið að kvöldi klár í klípa konu í rassinn þráir konu svo heitt holdið stinnt hjúfra þér í fangi set blautan koss svo limur á þér stinnt standi hann verður svo sár konu þú ekki fengir segðir síst við vitum allt sæðið verður konu sprauta leggstu bara ljúfur minn og láttu konu taka völdin ] [ I haven´t felt alive in years. My head is empty, as well as my heart. I see my life go by, without feeling it... -I just know! Feeling all dead inside, makes me wonder... -Wonder if Death is coming to claim my life, with a grin on it´s face. Will I die soon??? -May I PLEASE! Lurking around in my mind, I still feel it, -I still smell it. My brain will soon stop functioning My heart will soon stop beating, My last breath will soon be taken, maybe not today, -But soooooon! ] [ Norður mín leið lá til að horfa þar á lífið og sál við stoppuðum nokkrum stöðum á með vin minn mér við hlið góð var þessi stundin við töluðum sögðum frá Á Akureyri fórum við húsi stoppuðum við þar vinur okkar bjó og kaffi fengum þó klukkan orðin meira en 12 þá ræddumst við þarna við dúllu tókum okkur líka með austur fórum við bjó elskuleg kona bauð okkur upp á glös föðmuðumst við öll svo heitt mikinn kraft konan gaf ég gleymi ekki þessari ferð allt þetta hafði jú gerst þakka ykkur sem gáfu mér kost þakka þessa æðislegu nótt ] [ Ég titraði af ást til þín hjarta mitt það mætti þínu endurgalt þú þá, svo mér illa brá heitt mér var fann ekkert til að missa svona mikla ást sem var mín stóra stundina þá ég gleymi ekki vinur minn varst mér fullkominn sem vinur þarna sátum eins og lík svo köld við vorum þessa nótt þú kvaddir mig með þessum orðum engin er eins fullkomin ekkert loforð sem er til haltu þér við þitt strik ástfangin verð allaf af þér en dauðinn náði sínum tökum því þarf ég að kveðja nú aftur hittumst ástfangin svo mundu þú ert alltaf mín ] [ Lífið er sem langur vegur, sorgir og sigrar skiptast á. Tár falla, hlátur kveður, geymd í hjarta leyndarmál. Lífsins hnífar oft rista sár, harmatíðir oft dynja á. Stundum lífið við þig leikur, og þig kitla hamingjunnar strá. ] [ Cruewl is cruewl, Blue is Blue. How come we always have, To have the same rule. Believeing in god, Is like believeing in you. Do you know what´s true ] [ I ask many questons And never get an awnser. Is it not there any more, Or is it hiding, behinde that trapp doore. How come peopel hide, And run away. How come we never, deal with our pain Is it becous we are affraid, Or just a little mad, Over the way things go today. ] [ If love is so strong, Why does it fade away. If hate is so long, Why does it leve me in pain. If i could choose between love & hate. Of cours I would chose love, And let it fade. ] [ Days go slow, Sometimes they just don´t go at all. Even if we try, They just stay and make you pay. ] [ I don´t own the world, Not even a tiny tree. Even the world doesn´t own me, That´s why it ha NO controle over me. ] [ Wondering if this is all true, Not a dream to be, for every one but me. Yes, It´s true, This is not a dream, Or a lie so crewl. You really mean that lot to me Never thougth we, We could be friends. Now look at us, Forever i hope, This vill never end my friend ] [ Darkness takes over all, By the way it´s christmasday. Have you wondered why it´s this way, Not by the way we act today. What if santa is true, Is he really as good as they say. So really tell me, Why is it so dark on Chrismasday? ] [ Did you know love fades away, No really it doesn´t stay. Why is it that way. Are there true love, Or only true pain. This is what i wonder, Every god damn day. ] [ If we had no feelings, Would we fade away. And never wonder, Why he died today. Yes if we had no feelings, Would we fade away? ] [ I never get your attencion, And never got your love. Why is it I alway whant, Things that i can´t afford. This is how i feel, This i how i try, To get the afection, from you my dear lad. ] [ Why do we stop living , Why do we live at all. Can´t God just spair us, The agony of it all. Why is there pain, And why is the joy, Where can we, Comeplete it all. If we would be angels. Would er have to go, Through it all. If we would be Devils, Would ther be pain, Waiting for us all. ] [ Wondering is life is a lie, Or should i just die. Maby people thing i´m suiside, But really trying to find, A purpos to life. Is life about love & affection, Or is it abour Hate & betrail, All i know is death is a coinsidens, But life is meant to be. But life is a thriller, You never know, What will happen to the, ] [ Running through the woods, Never knowing why. Am i dreaming, Or is this real life. How come there is madness all around, & fire every where. Where is the coolness, & the water so clear. Is there such a dream, Is there such life, ] [ Spennan magnast, blóðið streymir. Stressið verður mér að gagnast! Skíthrædd,sting mér út í breimið. Með viljan að vopni, fram ég æði. Vona\'ð þrjóskan ekki þrotni, og ég ekki saman brotni. Síðasta ferðin, -er að springa af mæði. Reiðin núna tekur völd, áfram skal ég, þótt laugin sé köld. Nálgast bakkann -gnísti tönnum. Allir hrópa, hvetja krakkann! Þú skalt, þú skalt, hugurinn hvetur. Áfram, áfram, þú getur betur. Örmagna í bakkann ber, sigurinn unninn! Brosandi uppúr lauginni fer, Nú er mál að skemmta sér! ] [ Hafið það var himinblátt og hlýir austan vindar, léku létt um græna jörð og hvíta fjallatinda. Dýrin bæði stór og smá öll þau voru saman, manninn ekki þekktu þá og lífið það var gaman. En ávallt vildu aparnir reyna nýtt að kanna, og eftir nokkur milljón ár þeir fylgdu siðum manna. Var þar kominn maðurinn sem strax á fyrstu dögum braut öll heimsins boð og bönn og hlýddi ekki lögum. Hann hneppti allt í þrældóm sinn og vildi ríkjum ráða og hugsaði ei um annað en að borða, sofa og fáða. Með heila yfir önnur dýr og viljann til að eyða það tók hann ekki langa tíð dýrin öll að deyða. Hann ruddist yfir skóg og tún og flatti landið niður dag og nótt hann hafðist við svo ei var stundarfriður. Hann byggði þar upp borgirnar þær himinháu strýtur sem dýrum jarðar flestum fannst allra versti lýtur. Næst skal líta í eigin barm því nútíminn er gleymskur og efast ekki um staðreynd þá hve maðurinn er heimskur. Því mest er heimskan nú í dag er ófriður angana teygir og ekki má sjá hér friðsælt land svo langt sem að augað eygir. Allir eltast við annan mann sama hvað um er að ræða þó eitt er þar skilyrði sett með því að öðrum verður að blæða. Því fávís er sérhver fylking hér sem fetar í kanans sporin og sér ei hið illa á eftir er spillingin og sorinn. Allt hefur staðla og númer í dag ekki er um annað að ræða. farsímar, tölvur og nýjasta glans en sú ógnar mæða. Þrátt fyrir allt sem að hér er nefnt má ætíð í það vísa að ekki er alslæm mannana dvöl á plánetu elda og ísa. Menn eru máské flestir eins en sumir úr hópnum skera, Gandhi og Lama svo eitthvað sé nefnt vildu allt fyrir alla gera. Ef minnst er á marga merkismenn er þó eitt sem að einkennir alla að eftir allan þann frægðarfans niðrávið tekur að halla. Ég gæti eflaust grátið það og greypt í sorgardalinn hve feikilega fræknir menn fallið hafa´í valinn. En engu´að síður er mér tamt að minnast þeirra manna sem eyddu sínum æviveg vísindin að kanna. Gleymum ekki mönnum þeim er dyggðir sínar tömdu og gáfust ekki upp á þeim sem voðaverkin frömdu. Því er ekki allt svo slæmt sem einkennir mannanna setu því flestir hafa sér til halds framsækni ,dugnað og getu. Þrátt fyrir nýskeðar hörmungar mun helförin eigi þverra í komandi tækni framtíðar munu æ fylgja vopn til hins verra. Því fátt er það góða í heimi hér sem vegur minna en skildi, en kærleikur, gleði, ást og sorg eru sannlega lífsins gildi. ] [ Eitt sinn var ég eins og þú eðlilegur sveinn. Lék við knött og kindalegg aldrei var ég einn Það var gömul gleðitíð að mér flykktust víf en fast í greipum nornanna var framtíð mín og líf Mig óraði aldrei fyrir því að örlög myndu senn gera mig að grænmeti sem núna er ég enn Það þótti kúl það þótti töff að testa bara smá en eigin heimska sendi mig samstundis í dá Nú ligg ég hér og kvelst og kvelst og öskra inn í mér ég vona bara að djöfulinn sigrist ekki´á þér ! ] [ Stopp skal nú tíminn og árinu breytt aftengdur síminn og jörðinni eytt. Hljóðfærin skulu ei strengina slá líkkistan máluð og prestinn skal fá. Flugvélar alheimsins fljúgið um geim og skrifið í skýin: ,,Hann farinn er heim? sleppið til himins þar skjannhvítri dúfu og látið sveinka fá kolsvarta húfu. Norður og suður, austur og vestur allt sem ég á hann manna var bestur hvað sem að gerist og hvernig sem fer innst inní hjarta mér ætíð hann er. Stjörnur og tungl, sólin svo skær hverfðu á braut svo fögur og tær. Þurkkað´upp hafið og því sem þú sást mundu svo orð mín: ,,að eilífu ást ] [ Vissirðu ekki að leiðin, hún er lengri en í gær og langt í næsta gangnamannakofa? Og hver veit nema þú sért núna orðin álfamær og ef til vill er ég þá bara vofa. Ullarlagð á gaddavír þú fannst og færðir mér í fyrsta sinn er þú komst upp á heiði. Tófurnar þær gögguðu, við tíndum hrútaber við tjörnina hjá bæ sem var í eyði. Og aldrei færðu að vita hvað ég hef lengi leitað þín og lagt að baki marga kindaslóða en þokan hefur vængi sem hún vefur sporin mín og vex á milli þín og minna ljóða. ] [ Lengi hefur ljóðið lónað á naglfari, legið suður á sundum, borið af vestanvindum, hrakið af austanöldum, norður að náköldum storðar ströndum. ] [ Í fjólubláu þurramistri þess sem er löngu horfið, þar situr hún móðir mín. Hún er að rista torfið. Kom ég þar að kveldi. Kelling sagði: ?Gestur! Þeim varstu löngum bestur er þótti þú manna verstur!? Hæglátlega svaraði, í horninu sestur: ?Ég heiti ekki Pegasus. Því ég er sko sebrahestur. Löngum hef ég lykilinn... Löngum hef ég lykilinn... Löngum hef ég lykilinn við langeldinn sorfið. Ljárinn, hann er týndur. Ég er maðurinn... með orfið.? ] [ Einusinni átti ég bók, hún taldi: Einn, tveir og þrisvar. Ég svaraði henni ekki og sagði henni að hoppa, en hún spurði hve hátt. Ég sagði henni að hoppa þrisvar. ] [ Ég veit vel þú ert ekki til, í alvörunni bara plastvinur. Tilvera þín ómarktæk, rétt eins og mín. Þú ert bara plastvinur, tjáning þín er ekki sönn og engin merking liggur að baki orðum þínum. Túlkun svipt tilveru okkar sem hýrumst í draumkenndri ótilveru í rafgeimum. ] [ ÖRVÆNTING Það er öll örvæntingin sem er örvaxinn. Eins og hún geti hertekið mig miklu heljartaki. Mikil er ógnin. Óttinn tekur mig færir mig til annars lands lands hugaróra minna Hræðslan hendir mér til og frá hátt í loftið, langt niður aftur Mun óttinn vera hér, alltaf? Mun ég aldrei öðlast frið? Sogast inni í storminn snýst með hringiðunni. Lendi ég einhversstaðar Það veit enginn. Loks er ég lendi leitast mér ekkert. Tárin tindra, allur tíminn sem farinn er. Nú, þegar friðs ætti að njóta nýtur enginn þess Friðsins mun aldrei vera notið, örvæntingarinnar verður fagnað. ] [ Á NÝ, GLEÐI Er ég hélt að allt væri hrofið að þú myndir aldrei sjást hér aldrei aftur. Vaknar þú aftur til lífsins engillinn minn Allt sem þú færðir mér en tókst aftur með hvarfi þínu þarfnaðist ég. Nú finnst það aftur þvú þú mér yfir vakir og mín gætir ] [ Burger dúlla vinurinn greddan tekur völdin þjáist og komið að kvöldi klárt að klípa konu í rassin þráir konu svo heitt holdið stinnt hjúfra þér í fangið set blautan koss svo limur á þér stinnt standi hann verður svo sár ef konu þú ekki fengir sagðir síst við vitum allt sæðið verður sprautað leggstu bara ljúfur minn og láttu konu taka völdin ] [ Ástros þig ég fæ upp í rúm að njóta það kallar bara á eitt þarf þín að blotna Kannski annað á hún þá uppá til að bjóða öldungis gott sem alltaf er hætt farin að nota,njóta ] [ ég mun alltaf soldogg mín líta á þig sem barn mitt þú ert mér svo kær og koss á þinn nebba engin eins finnur það nema þú sem átt nú það svo passa ég þig svo vel enda ertu irc elsku dúlla mín ] [ telpa mín þig vill ég fá ekki til að njóta heldur ætla ég biðja þig bara að sópa vertu fljót telpa mín margar götu þarftu að sópa allt þarf að vera fínt svo ekki komi á mig ryk ] [ Koma jólin bráðum, okkur ber að þakka öll þessi jólaljós, krakkar fá pakka eitt er oft sem gleymist þó þetta er JESÚ okkar, á himnum að þakka hann ávalt gefur okkur allt þetta Gleði,Tár,Kærleika,Framtíð bjarta sorg getur komið við, þá falla okkar tár en okkur er ekki ætlað að gefa upp á bát þó lífið sé stundum sárt og mikil reiði vitum öll um jólin verðum við að vera eitt á himni guð okkar bíður með bros á vör sitt hjarta svo brosum öll á þessum degi hann JESÚ á afmæli þá óska ég landi mínu og þjóð gleðilegra jóla og bið ég guð að gefa, ykkur góð og dýrðleg jól ] [ Stríð er blóð um allt skotið er fólk niður bölva ræfilskapnum þá mætti pakka niður hörmung er að sjá það fólk hendur, fætur,vantar eftir situr engin sál bara djöfull og aftur hatur sárt ég finn til erfitt á þetta að horfa en hvað get ég gert ein af þúsund mönnum fallin er í þessu stríði af þessum hræðilega mönnum ] [ í djúpu laugina einhverjar fara förum ekki að missa vonina en ég held að ég sitji hjá svo þið getið gert betur þið eru ekki með grá hár ekki feitar og gömlu sál þig eruð dýrlega sætar ó já þetta væri gott fyrir ykkur ] [ Fullt tungl ég finn það á mér brjóstin upp hjá mér blása finn hvað orðin rök er verður einhver mín að njóta mjúkan sleik,ljúfan leik Ég vildi ég gæti gefið einhverjum alla þessa ást það er ekki öllum gefið að halda í höndina á þér mér mundi líða illa hjarta mitt um leið fer ég vil bara nota og njóta ] [ Þegar ég finn andardrátt þinn læðast um hálsakotið mitt, sterkar hendur þínar snerta mig og þrýsta mér upp að þér, þá þori ég loksins að loka augunum ] [ Herjólfur: Stundum þrái ég að sjá stjörnurnar. Þrái kitlandi sindur þeirra óþrjótandi í augunum. Við sjáum aldrei stjörnurnar. Rannveig: Nei. Herjólfur: Ekki lengur. ??? Ekki lengur. Einu sinni. Désirer. Ég þráði þig. Einu sinni. Einu sinni sáum við stjörnurnar. Einu sinni. Ég man. Fyrir löngu þegar við gengum heim eftir götunni okkar í upplýstu myrkri borgarinnar. Hjörtun staðföst í ást sinni augun ístöðulaus leitandi. Ég man fyrir löngu sagðirðu: það er stjörnubjart. Og það var stjörnubjart. Fyrir löngu. Skærustu stjörnurnar brutu sér leið gegnum ljósmengunarhjúpinn sem lá yfir borginni gróf okkur í birtu. Og við stönsuðum og þú horfðir upp í himinn. Hálsinn þinn fagri sveigður og augun. Augun. Fyrir löngu horfðir þú á sindrandi stjörnurnar á næturhimninum. Þekkirðu stjörnurnar, spurðirðu. Nei, svaraði ég, bara Karlsvagninn, kannski Óríon. Já, sagðirðu og horfðir. Fyrir löngu. Ég sá aldrei stjörnurnar á himninum þetta kvöld. Ég sá aðeins hvernig þær spegluðust í augum þínum. Þessi skæra, sagðirðu, þessi skæra, hvað ætli hún heiti. Venus sagði ég fyrir löngu. Nei, sagðir þú, Pólstjarnan. Þetta er Pólstjarnan. Skær. Í norðrinu. Ég horfði bara áfram í augun þín Venus sagði ég Venus. Fyrir löngu. Í myrkri þungu mætast kannski varir og magna lífsins slátt í þöglu brjósti og eins og sækir aldan heim að landi er öldugjálfrið ríslandi við hjartað. Og nóttin breiðir næfurþunna slæðu af nærfærni yfir höfuð okkar beggja og stjörnur himins öfunda mig allar því augu þín í mínu hjarta sindra. Í myrkri þungu mætast varir okkar og magna lífsins slátt í þöglu brjósti; þá verður kyrrðin klökk af fegurð þinni og kossar okkar stjörnublik á himni. ] [ Rófulaus köttur ráfar í rigningunni. Þú spyrð: \"hvers vegna\" Hann svarar: \"Ég er að leita að rófunni minni\" En líklega hefur hann ekkert betra að gera. ] [ Heimurinn okkar er eins og risastór öskubakki. Fullur af ösku og öðru rusli. Stöku sinnum birtist glóð á stöku stað. Eins og ögn af guðdómlegum neista. En hún er samstundis slökkt. Því öfund heimsins leifir engum að bera af. Heimurinn okkar er eins og flaska. Sem var opnuð í gær og jafnvel þótt nóg sé eftir Þá verður sífellt minna til. Því eins og þorstinn leifir ekki þyrstum manni. að horfa á fulla flösku, leifir græðgin okkur ekki, að horfa á heiminnn án þess að vilja meira af honum. Heimurinn okkar er eins og snákur. Sem bítur í halann á sér án þess að vita af því. Og án þess að stoppa, étur hann sig upp til agna, og skilur ekkert eftir. Því þetta er miskunarlaus heimur. ] [ Lítil börn leika sér úti. Þá kemur lítill maður og lemur þau. Vegna þess að honum var sagt að gera það. Ekki með orðum. Heldur var hann alltaf laminn þegar hann var lítill. Vegna þess að hann var minni en allir hinir. ] [ Í tómu húsi býr tómt fólk. Sem líður illa. Það reynir að fylla húsið af hlutum. En uppgötvar sér til skelfingar að húsið var fullt af engu. ] [ Þú veist án þess að hugsa, og þú veist allt. þú hatar án þess að þekkja, og þú gerir það samt. Þú talar án orða sem enginn vill heyra. Þú framkvæmir án afleiðinga, því þú sérð þær ekki. Og ég er ekkert betri því mér er alveg sama. ] [ lítið blóm, vex lítið, vill lítið, fær lítið. Skiptir ekki máli það er nóg til af blómum. ] [ Þar sem hún sat við gluggann, beið eftir komu hans. Fann hjartað hamast er bíllinn rann í hlað. Þóttist ekki vera að horfa er hann leit í átt að glugganum. Hún hélt hún yrði\'ekki eldri, hjartað tók aukakipp við hljóm dyrabjöllunnar. Vitund hennar af hröðum skrefum sínum hurfu við eftirvæntingu kvöldsins. Augu þeirra mættust, milli þeirra var skítug, sjóþvegin rúðan. Útidyrahurðin opnuð. Hné kikknuðu er hormónar skullu á vitund þeirra. Nóttin er ung, við skulum koma. Karlmannleg röddin átti við hana. Hún steig inn í kaggann. Þau brunuðu af stað. Leiðin lá inn í fallegasta sólarlag ævi þeirra. Þar sem hún er ég og hann ert þú og þau verða við áfram. ] [ Fuglinn flýgur frjáls um allan heiminn hann dreymir jörðin eins og ég þekki hana er bara draumur fuglsins ég er bara draumur fuglsins tilhugsunin er ógnvænleg að vera draumur einhvers annars og geta allt í einu hafa aldrei verið til ] [ Hversu einmanna getur sál orðið, jafnvel þótt hún sé ekki ein. Hugsanir mínar reika til þín, hvar sem þú ert staddur. Hvernig getur ástin valdið svona nístandi sársauka, sársauka sem kallast söknuður. Líður þér eins ástin mín? Hjarta mitt þráir þig, sál mín orgar eftir þér. Tár mín renna niður kinnarnar, það er flóð í augunum á mér. Líkami minn er máttlaus, vill varla úr rúminu. Líður þér eins engillinn minn? Himinninn er bjartur hér, er nokkuð þoka hjá þér? Tunglið brosir til mín, sefur það hjá þér? Það er komin nýr dagur, er gærdagurinn enn hjá þér? Söknuður er skrítinn, vekur upp margar spurningar. Hann heltekur mann allan, líkt og þráhyggja. Það er samt góð tilfinning, að sakna þín. Líður þér eins krúttið mitt? ] [ Svartur sjónvarpsskermur starir inn í tregafullt herbergi. Herbergi dubbað upp með skuggum frá líflausum íbúum þess. ] [ Mörgum mánuðum og ári seinna lít ég til baka, á hrædda, litla mig. Mörgum mánuðum og ári seinna horfi ég á gamla glerbúrið mitt. Mörgum mánuðum og ári seinna stend ég hér án þungra hlekkja Mörgum mánuðum og ári seinna sé ég hve ótti minn hefur þig sært. Mörgum mánuðum og ári seinna finn ég, það var rangt að hræðast ást þína. Mörgum mánuðum og ári seinna get ég sagt, að ég sakna þín. Mörgum mánuðum og ári seinna vil ég gjarnan segja fyrirgefðu. ] [ Tendruð tár brenna á vörum mínum á meðan svefndrukkin sálin situr í felustað sínum... Gagnlaus grátur vill frelsa sálina sökkva sorginni sem safnast hefur... en... Hér eru bönd til að binda hlekki um hjartað ...ef í spottann er togað þrengist að og verður hnúturinn óleysanlegur... svartur skuggi situr rólega og bíður meðan huglaust lífið brosir við mér. ] [ hann sá hana og hún sá hann gekk nær henni þar sem hún stóð við barinn lostinn lá í loftinu hún glotti grunsamlega hann var dáleiddur kannski það hafi verið bjórinn hann hallaði sér nær augun mættust varirnar nálguðust og að lokum barkakýlin. ] [ Öll erum við að leyta svara, ég hef fundið frelsara sem svör og gleði gefur mig gegn myrkri heimsins umvefur. Flestir telja hann skáldskap einn að þeim hjálpa muni ei neinn Líklega ert þú líka í þeim sporum engu hefur að tapa ef teystir honum. Þótt flestir segi hann látinn hann gefur þig ei upp á bátinn hann jafnt elskar alla menn, vill þú vitir að hann lifir enn. Ef þú bara leyfir þér að trúa hann mun að þér hlúa þótt myrkur sé yfir lífi þínu hann bíður þér af ljósi sínu. Hví þurfa menn að gera allt svo flókið hann er til og heyrir hjartans hrópið. Við lifum í myrkum heimi en þótt margir honum gleymi hann lifir og tilgang gefur veit að við spyrjum, svarið hann hefur. ] [ Ég vildi að regnið myndi breytast í blóm sem féllu hljóðlaust á einmana axlir mínar. ] [ stjórnin okkar öll þessi ár erum við að lifa þetta er orðið svo sárt við höfum ekkert að gefa stjórnin okkar tekur allt og eyðir bara þessu nú finnst mér orðið hart við getum ekki gefið gestum ] [ Minn sonur útlöndum er þar liggur hans leið ég óska svo heitt að drengurinn komi heim þrá mín er svo heit finnst hann vera einn ó elsku drengur minn Æ komdu núna heim hinn sonurinn líka farinn er til unnustu elskar heitt Æ komið báðir nú heim svona nú líður mér ] [ typa nú þarna stóð og einhver af henni tók öll völd varð um og ó þá brást þessi von brast í þúsund mola að sjá og grátur heyrðist voða hátt, skýrt þessi ekki velkomin andinn gafst þá upp þá opnaði hún augun sín þetta er vinkona mín ] [
 
Nú er sólin affjalla en þarna kemur tunglið niður.
] [ Á svarta fiðlu seiði ég dimmuna fram svarbláa nótt hamraþil og straumvatn - sveifla þar daufri ljósrák ...ég held maður rölti aftur niður að sjó og leggi sig á bakkanum Líklega verður gott að sofa lengi - sjá til, hvað mann dreymir og hver maður vaknar ] [ Ástin er eins og rós, sem dafnar á ást. Ef ástin kólnar, visnar rósin, verður grá eins og skýin sem vindurinn feykir burt eins og ryki. ] [ það er eins og hafið hafi tekið mig langt í burtu frá yður vinur minn eftir situr þú sár með tárin þín grátandi kallarðu á sálarhjálp þú setur stein í hjarta þitt enginn kemst nú þarna inn allt er orðið lokað eins og stál enginn til að opna þetta sár þá birtist þessi fallegi söngur ég var að hvísla þessi orð þá stóðstu upp og kallaðir já ég vissi að þú elskaðir mig hamingjan fór öll af stað ætla ég að þakka þér þetta var okkar fyrsta ást hana færðu aftur að sjá. ] [ Gæti ég bara dansað við þig dúfan mín á torginu dansað við þig daginn langan dansað úr þér sorgina draumabarnið smáa gæti ég bara huggað þig og hrakið kvíðann burt gefið þér lífið sem lifnaði forðum með lýsandi orðum gæti ég bara snert þig snaróðum orðum og ljóðum sem lækna gæti ég bara gefið þér ljóðin sem lækna ... ] [ Var hún lögst til svefns meðal blómanna hvítu? Var hún hvíslandi lind var hún smáfugl á grein? Var hún týnd í skógi af skáletruðum orðum? Var hún ef til vill orðin að ljóði úti í skógi? ] [ Með húminu kemur mýktin raddirnar fá flauelsáferð sjáöldrin verða fjólublá í húminu er enginn sannleikur engin trú ekkert stríð aðeins þessi mjúki dökki friður augnanna aðeins þessi kyrra mjúka dýpt andartaksins áður en myrkrið skellur á ] [ Í fimbulmyrkur fleytir okkur fallvölt stund óumflýjanleg óræð: Urðar galdur. ] [ Óræðan er fugl fjaðralaus og flýgur einatt óséður jafnt um innri heim sem ytri. ] [ Tár einn dagin grét ég því ég var svo Hamingjusöm annan dagin runu bara öll tárin niður kinarnar mína en þriðja dagin grét ég því ég var sorgmæt útí ástina mína hún hvarf frá mér í alheiminn en ég grét og grét en hún kom ekki aftur ég sat við gluggan minn og beið og beið en ekkert skeði En ég fékk bréf frá þér sem er hér ég las og las en gat ekki séð á hverju þú fóst frá mér hví hví fóstu frá mér ég var hér alltaf hjá þér en þú sendir mér rós sem þýdi ást en ekki ást til mín frá mér Ég grét því ég fékk þig ekki ég sá þið með annari í draumum ég grét og grét þú vast mín stóra ást en þú gast bara ekki sé að ég elska þig en ég mun vera hér að bíða eftir þér ] [ Óræðan nýtur í náttstað hverjum nafnlauss unaðar. Gestur í senn og gjöfull veitandi gistir hún hverja sæng. ] [ Návist þín góð hún er, Hjá Ömmu minni gaman er, Gamla frúin í Hásölum er fín, því afmælið þitt í dag það er. Húsmóðirinn þú ávallt er, Tíma frá Aðbrekku að Hásölum alaðir þú fjögur börn og líka mig, svo lengi sem þú lifir ertu ávallt duglegasta húsmóðirinn. ] [
Konan á næsta borði situr nær mér en nokkur veit. Ég horfi útí veðrið sem er ekki meir en logn og hún einsog hugsi yfir glasi af rólegum kír. Tvö ein í borg sem veit ekki af okkur. Tvö ein og tungl og haf og lönd á milli þess sem finnst. Tvö. Þegar klukkuna vantar ekkert nema orð biður hún mig um eld. Og þegar ég kveiki finn ég kjarkinn.
] [ Í fyrra haust hafði hún verið hér staulast gangstíginn í leit að framtíð þráð að sjá aðeins enn eitt blóm Nú hafði blómstrað á ný Og í dag ætlaði hún að byrja á.... Einnig rifja upp herbalife eitthvað... ] [ Hún var sátt eftir hressandi göngu í hálkunni Gengið snurðulaust Ekki dottið hvergi hrasað kom heil heim samt Konan sem hún mætti gat ekki brosað þá rifjaðist allt upp.... ] [ Kossar hans og snerting  áfram í huga á líkama og bleikur tvinni vefst mjúklega júlínótt nótt kossa og blíðu þögul þrá mjúkt hörund vafið bleikum tvinna ] [ Við horfðum bæði á skjáinn í gærkvöldi, tvö ein saman Hún sjálfa sig þar mátti sjá var feimin - en fannst samt gaman Þátturinn var um Íslands börn veikleika þeirra og styrki í sínum vanda þau eiga stoð - um stoðina þá ég yrki Foreldrar, kennarar, hjúkkur allir vilja að hjálpast rauður kross og sálfræðingar þeim sem út af leið álpast Sálfræðing einn ég þekki sem nær til barnanna vel hjálpar þeim að finna sig og komast út úr sinni skel Vonir mínar við æsku Íslands ég sterklega og innilega bind að þeir sjá sama og ég gerði - þeir geta fengið hjálp við sína sjálfsmynd Hjálpin er til staðar í lærðu fagfólki yndislegu og léttu á brá og brún af þessu fólki þykir mér vænst um stúlkuna sem ég kalla Sólrún ] [ Hver fær lýst furðu manna ... Vatnið er til þess að ganga á! Þurrum fótum, öruggum skrefum ... Eins og ljós yfir höfnina, andblær um trjálaufið, stjarna yfir himininn barn heim í kvöldmatinn með mömmu og Mána, Sunnu og systu ... Sólin gengur á vatninu í gulum sandölum, þurrum, öruggum skrefum, tiplar rjóð yfir tjörnina, smellir kossi á gamlan forarpoll efst í Norðurgötu. Hann sér hana ekki; augu hans brostin, löngu læst af blýi og grómi, rusli og hrákum. Hún kyssir hann hlýlega á hroðann: ?Komdu nú með!? En hann sér ekki, blindur, en skynjar samt sindur: ?Æ, hlýja vina, gefðu mér vatn, mig þyrstir, þyrstir í hafið og hreinsandi saltið. Enginn, alls enginn grætur í mig svo ég geti séð.? Sólin rjóð eftir leiki dagsins, rauður bolti í ljómandi höndum himinsins, sólrauður bolti í fumlausum bláhöndum himinsins. Hún kyssir hann aftur: ?Æ, vesalings gamli pollur, senn muntu gufa upp, hverfa upp í skýin, veltast og kitlast og hreinsast og hreinsast og svífa yfir jörðu á tærbláum himni og rigna svo aftur á tárbláa jörð, tær, nýr og ferskur í augu barnanna, kúnna og blómanna, í augu vatnanna.? Hver fær lýst furðu vísindamanna? Vatnið er til þess að ganga á! Þurrum fótum, öruggum skrefum. Rafvolgt sjónvarpið trúir því ekki en maðurinn þráir Guð. Tölvurnar glotta en manninn þyrstir í ást. Afskræmt af elsku reikar fíflið um borgina, dreifir samúð í allar áttir en fólkið hæðist að: ?Bjargaðu sjálfum þér, bjáni! Til hvers að ganga á vatni þegar nóg er um gangstéttir?? Uns fíflið gengur í sjóinn til að hverfa til fulls köldum heimi - en þú réttir mér höndina og dregur mig upp úr vatninu og dregur mig upp á vatnið, segir: ?Komdu upp á vatnið" og við stöndum á vatninu. Ég stama forviða: "Við stö-stöndum á vatninu!? Hver fær lýst furðu manna? Í dropatali leka bílarnir úr Mjóstrætinu út í lækinn sem murrar við Geirsbúð og rennur í marglitum bílum hraðar og hraðar út í umferðarflauminn hraðar og hraðar í Sæbrautarána út í Kringlumýrarelfuna, hraðar og hraðar og hraðar í Reykjanesbeljandann; komast að ósnum hverfa í hafið og þögnina ... Hver bíll dropi gulur, rauður, grænn eða blár dropi, hjúpur, himna um lítinn dropastjóra, æstan, sveittan, rennblautan af æsingi yfir umferðarflaumnum og dropanum á undan: ?Blauti bjáninn, kemst hann ekki örlítið hraðar, hraðar og hraðar, hraðar, hraðar, hraðar? Fer hann ekki að gufa upp og líka ég, og rigna rigna r i g n a heim í Mjóstræti?? Hver fær lýst furðu manna, ómældri og ómælanlegri furðu vísindamanna, töframanna? Ný halastjarna á leið til jarðar úr djúpgeimnum dimma ... Þeir sáu hana nálgast í kíkjunum, glerstóru augunum. ?Nýtt ljós á himni og þó ekki alveg: kom fyrir 2000 árum ef marka má útreikninga - skrítið: það eru engar heimildir ...? Þeir sáu hana stækka í kíkjunum og fólkið leit hana birtast um síðir milli LJóns og Tvíbura, beint úr Jötu Krabbans - Sjá, hún nálgaðist, stækkaði, ljómaði skærar og skærar ... Hver fær lýst furðunni: Stjarnan var MAÐUR á geislandi reiðhjóli! - tunglsljós á luktinni og sindraði stjörnum af teinunum. Hann lenti á Times Square á ljómandi reiðstjörnuhjóli, íklæddur bragandi Norðurljósum og hjálmur hans geislandi sól. Hann lenti á torginu innan um þúsundir manna sem biðu, og mannkyni horfði á í sjónvarpinu í stofunni heima og hélt niðri í sér andanum, sá hann taka af sér sólina líta kringum sig haukmildum augum og mannkynið steinþagði en hann sagði himneskum rómi: ?Ó, Jarðarbörn, synir og dætur Himinsins, ég færi ykkur hvatningu og kærleika frá Lifandi Föðurnum Eina - verið góðu börnin nokkur ár enn, aðeins nokkur ár enn, og þá verðið þið alltaf góð ...? Þeir settu hann í búr gláptu á hann daga og nætur, mældu og reiknuðu, tóku sýni og sáu ekki neitt, spurðu aftur og aftur alls sem þeim datt í hug en hann svaraði alltaf því sama: ?Vatnið er til þess að ganga á, himinninn til að hjóla á, hoppsá og skoppsá, velta sér kollhnís á, syngjá og dansá, fara í höfrungaleik á. Og jörðin, jörðin er til þess að elska á jörðin er til þess að elska á jörðin er til þess að elska maðurinn manninn. Hann þyrstir.? HANN ÞYRSTIR! ] [ Í miðjum dauðans hönd þín mýkri en vatn og armur þinn sem ljóstaug upp á þurrt. Lokuð sund - en opinn lófi þinn ber Ísafold úr greipum dauðans burt. ] [ Tunglið veður í skýjum upp að hnjám til að verma á sér tærnar og þorpið sefur í faðmi einhvers sem það þekkir ekki. Hátt yfir lágum þökum og símastaurum blikandi ljós í rofum skýjanna. Stjörnur yfir Stokkseyri: augu englanna, náð yfir mönnunum. Allt er ákveðið allt löngu ákveðið - einnig þessi nótt. Og þorpið sefur vært í hlýjum faðmi hans sem það þekkir ekki. ] [ nú eruð þið horfnar einsog lýsispillurnar sem þið gleyptuð í upphafi annarrar kennslustundar horfnar einsog krítin af töflunni enginn til að hlýð'ykkur yfir eldhúsverkin innkaupin og kílóin
á vigtinni en þó hefur borið svo við að ég hef séð ykkur á innsíðum blaðanna þar sem veruleikinn árnar heilla í hvítu skarti með rótlaus blóm & hringa sem eitt sinn glitruðu í gullnámu
og þegar þið hittist eftir margra ára fjarveru yfir götóttum minningunum í ullarkápunum vinsælu getiði séð að þó vegir lægju til allrar átta lentuð þið allar á sama stað
í einsemd eyðublaðanna í friðsamlegri sambúð raðhúsanna þar sem hugur ykkar í sófasettinu framkallar myndir sem aldrei voru teknar
] [ Þú sem býrð með eyju í hjartanu og víðáttur geimsins stétt undir iljunum: Réttu mér norðurljósin! Ég ætla að dansa við unglinginn sem heldur á stjörnunum. Við roðflettum myrkrið og afhausum eymdina. ] [ Eitt regnþungt síðdegi, á skipi úr víðförlum draumi, kom sagnaþulurinn Hómer til Reykjavíkur. Hann gekk frá hafnarbakkanum og tók leigubíl sem ók með hann eftir regngráum götum þar sem dapurleg hús liðu hjá. Við gatnamót sneri sagnaþulurinn Hómer sér að bílstjóranum og sagði: ?Hvernig er hægt ímynda sér að hér í þessu regngráa tilbreytingarleysi búi söguþjóð?? ?Það er einmitt ástæðan,? svaraði bílstjórinn, ?aldrei langar mann jafn mikið að heyra góða sögu og þegar droparnir lemja rúðurnar.? þegar droparnir lemja rúðurnar og þokan sem liðast inn flóann hylur jafnt fjöllin og hafið, ekkert í frásögur færandi nema krapið á götunum, enginn seiðandi söngur, engin syngjandi sól, aðeins fótspor sem hverfa einsog regnið í hafið, í tómið og vindinn sem syngur og blæs . . . Sveipaður gráma líður tíminn um stræti, einstaka fugl svífur draumlaust um bæinn, regnslæður skýja herpast um hálsinn og náttmyrkrið hellist sem net yfir heiminn. Maður siglir í bát út á hafið, það er syngjandi alda, það er sofandi hús, segl sem er undið í draumi, heimurinn bylgjast um svartan sæ og ljósin líða sem logar um stræti. ] [ hver ert þú, ert það þú sem skyggnist inn í sál mína. hún er brotinn, hver braut hana? þú kemur og lemur á hjarta mitt ég heyri ekki neitt. er ég búinn að glata þér. sakir þessa mun ég alltaf muna þig muna að þú sást mig fyrst sást mig en alltaf til staðar. er það ég sem fell um mig, er ekkert til lengur sem eru sár mín. er ég blindur er ég frjáls er ég einn hver ert þú ] [ Öll þið eflaust þekkið Unnar hann var trésmiður í den síðan þingmaður að austan og hann dreymir um það enn. En þingið gerð\'ann oft svo æstan að honum engin héldu bönd og í einum af sínum ræðuhöldum sleit hann axlabönd. Hann var þekktur fyrir sín ræðuhöld og þegar hann sá ræðupúlt hann stóð þar fram á kvöld. Svo var það um eitt árið hann fór að skrifa í blað já, kratamannaflokkurinn hann hafð\'ann út í það. En þar gerði hann allt vitlaust og æddi um ritvöll og eftir eina æsigrein þá heyrðust hróp og köll. Hann var þekktur fyrir sín greinarskrif en eftir eina helgina þá sneri hann sér við. Árið fimmtíu og níu þá fann hann sambandið og fór að skrifa fundargerðir fyrir stjórnarlið. Og vinnan gerði hann oft svo æstan já, fram á kvöldin dimm og núna eru vinnuárin orðin þrjátíu og fimm. Já, hann er þekktur fyrir heilbrigða sál og sex sinnum á ári kom\'út Sveitarstjórnarmál. ] [ Þvílíkar breytingar verða á þér söngurinn sigrar þig - fótboltinn fer framabraut bíður þín gatan liggur greið röddin mun leiða þig - á framtíðarleið. Sönginn þinn ? sönginn minn saman syngjum við sama hvernig lagið er við hlustum á þig. Syngdu því sönginn þinn - syngdu þitt lag hérna er hljóðneminn - hafðu hann í dag syngdu með, Siffa mín saman hlustum við yndisleg röddin þín er allt sem ég vil Sönginn þinn ? sönginn minn saman syngjum við sama hvernig lagið er við hlustum öll á þig. Að sjálfsögðu treð ég upp - með talent svo flott að syngja í míkrafón - mér finnst það gott En af hverju svona seint - hvers vegna ekki fyrr? fyrst ég er komin hér - þá verð ég hér kyrr. Sönginn þinn ? sönginn minn saman syngjum við sama hvernig lagið er við hlustum öll á þig. Að sjálfsögðu treð ég upp - með talent svo flott að syngja í míkrafón - mér finnst það gott En af hverju svona seint - hvers vegna ekki fyrr? fyrst ég er komin hér - þá verð ég hér kyrr. fyrst ég er komin hér - þá verð ég hér kyrr. ] [ Ég kafa djúpt inní minn hugarheim, snerti geðveikina með köldum fingurgómum. Ég er hlýnandi hraunsteinn er ég nálgast höfuðstöðvar undirmeðvitunarinnar. Yfirvofandi dágeðhverfsýukinar birtast mér í æðagöngunu. Það er ekkert sem ég get gert. Ég bræði málma til yfirbyggingar, það fer nú ekkert hingað inn. Ég tengi víra frá undirmeðvituninni inní glöggt auga hýbíli míns. Brenni æðarnar saman. Skapa mitt eigið kerfi. Það er ekkert sem ég get ekki gert. ] [ ég fann að tilfinningarnar voru að gefa sig. og úr þreyttum augum kreistust fram tár sem fundu hvergi jarðveg. þú býrð í húmaskoti hugsanna minna og ræður gangi ljósins. eitthvað sem ég mun ekki gleyma var þegar þú kveiktir þau í fyrsta sinn. ég fann hvernig þú lýstir upp heimkynni mín og ég varð sátt. Hvernig get ég fundið réttu leiðina án þín? þar sem það er enginn til að spyrja til vegar. ] [ Mús lítil inná geðdeild fer depurð mikil skín augum úr hugsanir um kattanna gin hafa sótt á huga hennar Mýsla ekki á heima hér segir læknirinn súr Er hún uppá 2. hæð dregin áfengisráðgjafinn bíður víst þar. en mýslan drekkur ekki...... og er áfram þung á brún..... ] [ Tilfinningar berjast um þær Hrinda, ýta, klóra... Mér langar að öskra, hlæja, gráta Get ekki ákveðið neitt sorg, hatur, ást Uppgefin ég loka augunum og allt verður svart... ] [ Óskahallir aldrei mun ég byggja um ævi framar þreyttum ferðalang. Okkar leiðir aldrei saman liggja, önnur kona gista mun þitt fang. Ef gæfan ætíð brosir við þér bjarta og bestu óskir færir þér í skaut, af þinni gleði hlæja vill mitt hjarta þótt hryggðin um það leggi sína braut. En vilji sorgin veg þína troða, ég vildi megna að bægja henni frá og hvert þitt fótmál ástarrósum roða svo reynist braut þín ei jafn hörð og grá. Þótt fallvalt reynist flest í vorum heimi og fölni að lokum bæði vangi og rós, innst í hjarta alla tíð ég geymi þá ást til þín sem varð mitt gæfuljós. ] [ Kysstu mig, ljúfa ljósið mitt og leyf mér að sofna við brjóstið þitt. Þig elska ég einan manna. Því veistu að einungis friðland ég finn í faðminum þínum, ó vinur minn, við dulbjarma draumsýnanna. ] [ Vínið fossar, veitast kossar ljúfir. Glaður blossar hjartans hyr, hlýjar oss sem löngum fyrr. ] [ Þú sagðist elska mig í gær Ég hata þig í dag Alltaf er maður deginum vitrari í dag en í gær ] [ Fallegur lagstúfur sem minnir á þig snjóhvítar bréfdúfur hertaka mig Svo sakleysislega þær fljúga afstað enginn þér sagði að ég vissi það hvert dúfurnar færu endastöðin sú þar sem alls enginn væri og þarmeð enginn þú Á leiðinni söng ég lagið á enda og kveið þess svo sárt þarna að lenda ] [ Ég stari í tóm þitt þar sem augu þín birta eldhaf syngjandi máva og einmana söng ískaldrar haföldu þú starir í veruleikafyrrt augu mín og sérð ekkert þó hafaldan skipti litum með náttúruna emjandi í bakgrunninum ] [ Ef ég tíndi þig upp eins og blóm í skógi og setti þig í vatn í eldhúsinu mínu til að dást að fegurð þinni, myndirðu fyrirgefa mér? ] [ gamli maður -þegar þú átt leið fram hjá bænum mínum á gulli hjúpuðum vagni þínum taktu mig með inn í daginn skreyttu íbúð mína ilmandi blómum. ] [ þú virðir mig fyrir þér eins og hillu fulla af vörum velur hluta af mér eins og barn að velja bland í poka japlar á hjarta mínu svolgrar í þig sálinni borgar ekki og ferð. ] [ þú kristallaðir tímann saltaðir það sem öllu máli skipti sveipaðir um þig hjúp sem ég gat ekki nálgast og ég í grátandi vindinum horfði á þig án þess að snerta þig. ] [ Tjaldið fellur Áhorfendurnir Eru farnir Heim Ennþá með Leikskrárnar Samanvöðlaðar Milli handanna Ljóskastararnir Standa heitir Í myrkrinu Og varpa skugga Á veggina loksins er þögn Og augu þín Skipta litum ] [ Þér blæðir Móðir brjóstin þín Blóðmjólkuð Fætur þínir Lúnir og við Uppkomin Vel fægð Eins og Erfðagóss Með gæfuna Í rassvasanum ] [ Heyr vorar bænir, öræfaandi óspilltra fjalla. Gef þú oss mátt til að geyma þinn fjársjóð um grundir og hjalla. Laufgaðir bakkar, lágvaxinn gróður, lindir sem kliða, burkni í skoru og blóm í lautu, biðja sér griða. ] [ Forboði sumarsins birtist við brún bráðnandi fannir við lækina hjala. Laufblöðin vakna, lit slær á tún lífsandinn strýkur um grundir og bala. Bíður í ofvæni brosandi landi, bárurnar leika við klappir og sand. Víkur úr huganum vetrarins grámi vaknar í hjörtunum frelsisins þrá. Léttur er fóturinn, lokið er námi langþráðu takmarki hægt var að ná. Bjartur er dagurinn, brjóstið er rótt björt er hin vökula heimskautanótt. Tíminn í áföngum lokkandi líður læðist um vonanna stræti og torg. Framandi ósnortin framtíðin bíður færandi hamingju, gleði og sorg. Lífið er brothætt, lánið er gjöf leiktu þér aldrei á tæpustu nöf. Hér hef ég dvalið um daga og nætur drukkið minn fróðleik af nægtanna skál. Hér hef ég svefndrukkinn farið á fætur fagnað og kviðið mín leitandi sál. Hér hef ég setið, lesið og lært líf mitt að ákveðnu takmarki fært. Ég flyt ykkur þakkir með fögnuð í hjarta framtíðin blasir svo jákvæð við mér. Ég man ykkur ætíð sem minningu bjarta og mannlífið allt sem ég upplifði hér. Því margt hef ég lært hér og lifað og reynt og Laugum í Reykjadal gleymi ég seint. ] [ Blikar á lóni, bjart er nú til fjalla, bræðir nú sólin kaldan jökulskalla. Þýtur í lofti þíður sunnanvindur, þverhníptur gnæfir brattur fjallatindur. Framundan hlykkjast götuslóði gróinn, grámosinn lágvaxinn breiðir sig um móinn. Niður með kletti lækjarspræna líður, leiðin er ströng sem göngumannsins bíður. Göngumannsins freista fjöllin há er frelsisins í náttúrunni leitar. Hann vill ætíð hæsta tindi ná hugdjarfur klífur þverhnípt björgin blá, blik í augum, afl er í taugum. Viðlag: Sæl eru þau hjörtu er sigri ná og svala í náttúrunni innri þrá. Blikar á lóni, bjart er nú til fjalla, bræðir nú sólin kaldan jökulskalla. Þýtur í lofti þíður sunnanvindur, þverhníptur gnæfir brattur fjallatindur. ] [ Ég tileinka þér þetta ljóð þú sem ert ekki til þú sem ég sé ekki heyri ekki finn ekki Fyrirgefðu mér fyrir hvernig ég var í gær hvernig ég er í dag og hvernig ég verð á morgun Því ég veltist um af sársauka og grátbið þig um að hætta að vera til ] [ In the darkest night I feel you pain. In the deepest jungels I feel it to. We are the same we have more hate than love inside os. Nothing goes our way, nothing as we want it to go. But I´m so sorry I have to leave you, we aren´t the same anymore. I have found the love and the happyness and that´s somthing that won´t go away. Even thoug i have left you I´m somewhere around, just for you and nobody else I´m here to help you finde the same feeling that i have found the peace. ] [ Clouded mind of sorrow no reason for happy thoughts. But try to pull you self together Leave the sorrow let it go, hear our call your not alone. Join the army of broken trust and fight the battel we where used to lose. Now we are stronger, now we win this battel is forever so lets stay strong. ] [ Ef POTTASKEFILL pottum nær af potthlóðum, í gleði' hann rær - best af öllu viðbrennt var - og vel þá skefur, ægisnar! ] [ Um sveinana þú muna mátt sem mættir voru' um hverja nátt fyrir jól úr fjöllum lands: þeir fara eftir lítinn stans og heima bíða annað ár uns aftur gerir jólafár. Á jóladag fer STEKKJARSTAUR og strax á annan GILJAGAUR, á þriðja stingur STÚFUR af, þeim stutta enginn frestinn gaf. Já, það er á þeim ógnar span - allir farnir sjötta jan. ] [ KERTASNÍKIR karlinn sá, kann ei lengur í sig fá, því tólgarkerti tíðkast ei. Tárast má því, veslings grey. Um þrettán sveina' eg þulið hef, og því skal botna lítil stef. En gæt þín vel, er sígur sól, ef seggir glettast nú um jól! ] [ Mig langar lofsöng að yrkja til lífsins sem mig ól því nú á ég heiðríkju hugans og hjarta sem aldrei kól Því lífið er eilífur leikur og lífið er eilíft og sterkt. Ég lifi í lífinu miðju og lífið er kraftaverk. ] [ gabbaði þig ] [ Gerum eitthvað róttækt! lifi byltingin! ekkert hálfkák! breytum sjálfum okkur! breytum heiminum! gerum eitthvað róttækt, FÖRUM ÖLL AÐ SOFA. (góða nótt, rauðra drauma) ] [ Vilt þú mig? ef ég væri ekki svona Vilt þú mig? Nei. Nei. Ég er of djúpur fyrir þig. Tussa. ] [ láttu vindubrúna falla vatnið er engum vörn hvítklædd kem ég yfir með fangið fullt af mosa gullinmuru og mjúkum steinum hvísla að þér ljóði svo máttugu að virkisveggirnir molna í mosasænginni er allt sem þú syrgir augu, gróandi saga sem lifir handan við hafið alls staðar þar sem augnablikin brenna láttu vindubrúna falla og sárinu blæðir án þess að brandi sé brugðið í varnarleysi vatnsins vefjum við nýja strengi og dimmrauðar myndir djúpt, djúpt þar sem ljóðið fellur til botns af brúnni ] [ Hún logar yfir hálfan fjörðinn hamingja þess sem hverfur haustrauð laufglóð í auga angan sem deyr einn dag þegar stillunum lýkur ] [ hvað hún hefur verið fótsterk formóðir þeirra úr víkinni hamhleypa með ómegð í pilsum stökkvandi yfir skörð og heiðar vor og haust að afla fanga og þraukaði svo langan vetur í myrkri og snjó hvað hún hefur verið fótsterk fann það þegar ég stóð lafmóð í Uxaskarði í sumar og horfði yfir víkina umkringda háum fjöllum fann hvað hún hlaut að hafa verið glöð daginn sem hún kom heim úr kaupstað og sá úr skarðinu hvíta fláka í túni lúðuflök úr sjó og flaug heim í bæ án þess að finna fyrir strengjum vissi að hvergi annars staðar átti hún heima allt var þetta fyrir tíma þolfimi og teygjuæfinga ] [ It doesn\'t matter what you do, I will always remember you. I love you, but you hate me, and that\'s the way it\'s going to be. You dissapeared, where did you go? I tried do call, but you thought \"so.\" Tell me now what I can do So I can be there next to you. ] [ Hvílir á mér sem þoka. Heltekur mig. Sólin sér mig ei. Fuglarnir syngja ekki. Ég er lokuð. Lokuð í hugsunum. Hvenær sér birtan mig? Hvenær fæ ég að blómstra? ] [ það sem er ofar er líka undir og hringurinn verður alltaf ófullkominn það er kyrrðin innan formanna og hægar hreyfingar skugganna sem setja okkur mörk. snertu ekki löndin gráfiðraður ekki heldur þessi löngu og mjóu sem eru eins og eyðisker undan austurlandi hvíldu þig á ókleyfum logatindum ofar hvítri festingunni og drekktu úr bláu himinauga þar sem tíminn markar engin spor og kannski, fangar þú vindfolann og frænkur hans allar kannski stökkva þær allsberar út úr þokunni hrópandi; taktu okkur ef þú þorir þarna efst í hvelfingunni verða skýin alltaf á hvolfi og gersemin grafin í salt ] [ Tvístrandi heimur heyrnarlaust orð staurblint auga hjartalaus sál. Heimurinn blindar mig orðin þau særa mig augað horfið og sálin fer Mig langar að hverfa gufa upp frá þér losna undan sárum og kvala þel Þú getur stoppað alla mína sál lokaðu augunum á meðan ég stekk ] [ Ég sá þig um daginn með sól broslegt glott þú horfðir beint á mig það var nú gott Ég dáleiðist alltaf við sólskinsbrosið þitt notar það oftast ef þú vilt fá þitt Ég ætla þér að hafna meira en í gær Ég vil ekki sjá þig vil ekki fá þig ] [ Þú skín hvernig sem viðrar bros þitt alltaf svo blítt hvort sem þú ert falin eða sést ofur lítt þú sínir þig á sumrin ekki skúra veður má um miðjan vetur ég vil þig fá. ] [ Snýst í hringi fágað hljóð sýndarmennska lítur upp hvorki líf líf né friður misnotkun inní mér hver það er myglað halló sýnir mér hver þú ert og hvað þú villt Hunsar mig þykist vita allt sem er getur hvað sem er ekki talað við mig nú nýjan vin hefur þú ] [ Ég get ekki hugsað hjarta mitt fyllist af þrá píningin leitar að stoltri bráð Hvert sem ég fer ég leita að þér þráin hún fer á eftir þér orð eru öll lífið er eitt hver ertu nú hvar ertu þá? Þráin mín leitar beint uppá við leitar og leitar að eilífðar frið ] [ Hlutum við mankynið hrærir í mér stend ein sálin við innangin Ég læt mig falla Tröppunum hjá tárin þau falla dansgólfið á Ég veit þú ert farinn og kemur ei aftur sásaukin kremur trú mína á þér Stend hér á gólfinu þú liggur kyrr með tárin í augum horfi á kistuna. ] [ Stjarna blikar í tómarúm sólin brosir til einskis veru vonin hlýtur haturs ráð Ég vildi bíða og kvölin mun mig nú svíða leitin að þér í augum hverra manna Dauðinn ásækir mig eins og hann ásótti þig hann mun ekki ná mér þótt hann náði þér Ég er svo sterk get þetta vel horfi á þig undirlagðri kvel Ég kom og sá, brast í grát kistu sá með hvítri ljá lítil var augnastað lástu þar einsamall ] [ Með tár í hjarta fer ég hugsa um þig sárara gæti ei verið að hafa ei þig get ég andað get ég lifað hvernig þá mitt hjarta berst og sleppur ei Þrá er sár Sárari en allt ég get ei fengið mína stærstu þrá Gæti verið að þú viljir mig líkt og ég vildi þig Sárið dofnar þú sofnar líkt með það þarf ég ekkert ekki þig ekki neitt Hjartað hverfur hjartað fer slær ekki til þín ! ] [ Fyrir hugi Ljóma lind í lífsins krafti öskrar hátt Enginn heyrir hljóðið hér hversu hátt hversu oft enginn veit Einn maður deyr annar lifnar við svona er hringrás lífsins ] [ Fyrir heitin hljóð í huga mér fær heimin til að gráta sorgin grípur umfram mér og gefa heimild til að láta Blæs í allar áttir horfi hvert sem er lýt til allra manna svo fyrir ber Sorgin bugar stóra menn hvað þá aumt hjarta fellur niður gjótu í grefur gleði þar ] [ Fyrir hvað er það? fyrir hvern er það Afhverju gerum við þa? afhverju viljum við það? Tilhvers þolum við það tilhvers höldum við í það Þennan hlut kallað ást!! ] [ Hugsunin kæfir og tilhugsun bælir tónlist glimur í huga mér og spilar hátt hljóð úr myndum ástar myndum með þér þú varst eitt hjá mér en gufaðir upp brátt fer ég sömu leið i væntingu sé þig þar á himnum búa væntingar væntingar sem aukast sársauki liggur við hliðina á mér því þú ert ei hér ] [ Hér er fótur og fit jólin nálgast óðum fólkið fer í flóðum og pakka blóðum Græðgi eignast glænýtt nafn og ljómar í allra augum enginn tekur eftir því en hér er djöfla sauður hvítur líkami liggur kjur fótur hans er dofin ískiggileg ráð tilkoma hans hann mun vera látin jólaandin drap hann snökt ] [ Hún pípir á mig dag frá degi raus er hennar fag mig langar að sparka duglega í rafsnúruna hún hleður sig með minni og úrhellir vírusum kóngurin horfir agndofa eins og í ævintýrum ég ræsti hana dag einn hún svaraði ei ég þorði ekki að sparka hún látin var í dag hennar er saknað hún farin er burt ástin mín og indi Fúdidsjú var þitt NEIM! ] [ I don\'t know why but when you stept in side my life you changed all things i used to live for now my goals all reach for good but never used to would Now i sit and write about you cause you mean alot i have no idea how to show just how much i feel for you if i would loose i just would die i\'d lye in bed all day long and wonder how you feel i don\'t think that i\'d be strong whit this poem i say to you my love i don\'t show or due not as much i\'m supose to for the way i feel for you! ] [ Opnast Dyr Að mínu hjarta er það fer að bjarta að lokum kemur þú og brýtur niður allt það sem ég byggði upp ] [ Ég er þrotin Líka brotin Inst Í minni sál Ekkert sést Samt ef ég brest Þetta er illa brotið og fast og fest inst í minni sál Ég en lifi Þótt þú villt mig ekki sjá ] [ Söknuður er hjartans sár Þar eru tilfinningar að finna Oft eru þar mörg tár Uns því fer að linna ] [ Hugmyndina er að lifa Fólk mun sjá Hugmyndin er að vera til Fólk mun finna Hugmyndina er að láta sjá sig Fólk mun þurfa Hugmyndin er að sjá aðra Fólk mun vilja ] [ Am C Gangandi maður um götuna fer G amoll gnístandi tönnunum þrjóskur og þver Am C Vont er að vita það hvort að hann er G Am villtur og ráfandi innan í sér. C G Hann notar ey augun því nóttin er blind Am F nærist á því sem að við köllum synd C G finnur sig fjarlægjast skaparans mynd F C færir sig neðar af tind niðr´af tind G niðr´af tind. Am C Hann kannast við hrukkótta harðgerða menn G Am heilsar þeim oft sem að eru hér enn Am C þegar ég sé hann í sálinni brenn G Am við sátum oft hlæjandi í sólinni í denn C G Ég leyni því ekki að lygin er góð Am F leið fyrir þá sem að fá aldrei lóð C G nema í helvíti heiftugri glóð F C- G glóð sem að heimtar manns ævi og óð. Am C En viskan hún velur ei mennina rétt G Am né vísar á einhverja ákveðna stétt Am C þýtur um loftin freyðandi og létt G og lýgur því hlæjandi að jörðin sé slétt C G Hann notar ey augun því nóttin er blind Am F nærist á því sem að við köllum synd C G finnur sig fjarlægjast skaparans mynd F C færir sig neðar af tind niðr´af tind G niðr´af tind. ] [ Sýndarveruleikinn er svart hvítur hvatir á móti skynseminni hvatirnar dobbla skynsemina síðan í smók og plata inná hana smá aukavinnu. Skynseminn framleiðir langanir fyrir hvatirnar og hvatirnar borga henni, í næstu reykpásu, með fölsuðum seðlum. Skynsemina grunar ekkert og framleiðir í kæti sínu nokkra bunka af vellíðan Þetta gengur síðan svona í nokkurn tíma Hvatirnar eru farnar að reykja stóra Havanavindla og bjóða skynseminni upp á einn og einn smók á meðan þeir klappa henni á bakið fyrir vel unnin störf og framleiðsluhæfileika. Síðan sofna hvatirnar einn daginn eftir árshátíð hvatavinafélagsins. Þegar þær síðan vakna á ný þá kemur lítill skynsamur gleraugnapúkalegur skynsemisstarfsmaður í heimsókn til hvatanna með yfirlit og segir. \"Þetta lítur hálf illa út.\" Hvatirnar segja \"Nei nei okkur sýnist þetta bara vera flott hjá þér fáðu þér bara vindil og slappaðu af.\" Næstu fimm árin þá framleiðir skynsemin ekkert nema vantanir endalausar vantanir af ýmsu tagi Hvatirnar koma einn daginn inn í fyrirtækið með látum íklæddar bleikum fallegum pelsum úr sjalgæfri dýrategund. \"Hva hvað er málið Við erum hér með pantanir, ég endurtek, pantanir, alls kyns pantanir, síðan fær maður ekkert nema einhverjar helvítis vantanir þetta getur nú ekki talist mjög skynsamlegt er það og það frá skynseminni sjálfri komið ] [ standa aðeins utar rétt á mörkunum í snertingu en hlusta og verða saddur í huganum af endalausum sögum sem kumruðu á eldavélinni að sjóða sögur með hálfvelgju eða fullum straumi instantflóru ] [ Hvað boðar nýárs blessuð sól? Hún boðar náttúrunnar jól, hún flytur líf og líknarráð, hún ljómar heit af Drottins náð. Sem Guðs son forðum gekk um kring, hún gengur ársins fagra hring og leggur smyrsl á lífsins sár og læknar mein og þerrar tár. Ó, sjá þú Drottins björtu braut, þú barn, sem kvíðir vetrarþraut, í sannleik hvar sem sólin skín er sjálfur Guð að leita þín. Því hræðst þú ei, þótt hér sé kalt og heimsins yndi stutt og valt, og allt þitt ráð sem hverfult hjól, í hendi Guðs er jörð og sól. Hann heyrir stormsins hörpuslátt, hann heyrir barnsins andardrátt, hann heyrir sínum himni frá hvert hjartaslag þitt jörðu á. Í hendi Guðs er hver ein tíð, í hendi Guðs er allt vort stríð, hið minnsta happ, hið mesta fár, hið mikla djúp, hið litla tár. Í almáttugri hendi hans er hagur þessa kalda lands, vor vagga, braut, vor byggð og gröf, þótt búum við hin ystu höf. ??? ] [ Fullvel man ég fimmtíu ára sól, fullvel meir en hálfrar aldar jól, man það fyrst, er sviptur allri sút sat ég barn með rauðan vasaklút. Kertin brunnu bjart í lágum snúð, bræður fjórir áttu ljósin prúð, mamma settist sjálf við okkar borð; sjáið, enn þá man ég hennar orð: ?Þessa hátíð gefur okkur Guð, Guð, hann skapar allan lífsfögnuð, án hans gæsku aldrei sprytti rós, án hans náðar dæi sérhvert ljóð. Þessi ljós, sem gleðja ykkar geð, Guð hefir kveikt, svo dýrð hans gætuð séð; jólagleðin ljúfa lausnarans leiðir okkur nú að jötu hans.? Síðan hóf hún heilög sagnamál, himnesk birta skein í okkar sál; aldrei skyn né skilningskraftur minn skildi betur jólaboðskapinn. Margan boðskap hef ég hálfa öld heyrt og numið fram á þetta kvöld, sem mér kveikti ljós við ljós í sál, - ljós, sem oftast hurfu þó sem tál. Hvað er jafnvel höndum tekið hnoss? Hismi, bóla, ský sem gabbar oss, þóttú vinnir gjörvallt heimsins glys, grípur þú þó aldrei nema fis! Ársól hver, sem öllu fögru hét, ætíð hvarf á meðan rósin grét, vorið hvert, sem bauð mér betri hag, brást mér löngu fyrir vetrardag. Lukkan sagði: ?Vind upp mína voð: veröld alla gyllir sólarroð, fyrir stafni leiftra sérðu ljós, lukku þinnar frægð og sigurhrós.? Hvað varð úr því öllu? Last og hrós, óró, blekking, grufl og villuljós! Hafi nokkur hreinan sálarfrið hjartafeginn skipti ég hann við. Þessi fáu, fölu lukkublóm fælast lífsins kalda skapadóm, allt vort hrós í hreggi veraldar hrekst á milli drambs og öfundar. Loks er eitt það ?evangelíum?, er oss býðst hjá tímans vitringum: ?Trú er hjátrú, heimur töfraspil, himinn, Guð og sál er ekki til!? - Ljá mér, fá mér litlafingur þinn, ljúfa smábarn; hvar er frelsarinn? Fyrir hálmstrá herrans jötu frá hendi ég öllu: lofti, jörðu, sjá! Lát mig horfa á litlu kertin þín: Ljósin gömlu sé ég þarna mín! Ég er aftur jólaborðin við, ég á enn minn gamla sálarfrið! ] [ Jól, kertaljós í bláum fjarska, bak við ár, æskuminning um fegurð. Stíg ég hreinn upp úr bala á eldhúsgólfinu, signdur af þreyttri móður, færður í nýja skyrtu. Jól, fagnaðartár fátæks barns - ] [ Ég lítið barn svo langt í burtu fór, - og ljótt er margt, sem fyrir augu ber. Ég rata ekki heim til hjarta míns, að halda jólin, móðir, enn hjá þér. Og hvar er rótt í heimi stríðs og blóðs? Er hægt að lesa vers í slíkum gný? - Á litlu kerti er ljós, sem aldrei deyr, mín ljúfa móðir vakir yfir því. ] [ Ég reikaði' um efans ólguhöf    og áttir ei sá né daginn, því kertinu', er var mín vöggugjöf,    ég varpaði út í sæinn. Ég vissi', að ég gat ekki fundið frið,    uns fyndi ég kertið aftur, því titrandi hjarta hrærði við    í húminu Drottins kraftur. Í sogandi iðu út á kaf    á eftir því mér ég henti, en sá ekki', að Guð með geislastaf    á glataða kertið benti. Því ginningaljósin mér glöptu sýn    frá glórunum heimsins barna, uns bjarmann í djúpið bar til mín    hin blikandi jólastjarna. Þá sá ég mín gömlu sólskinsbönd,    og sál minni þreyttri létti, og frelsarans blessuð bróðurhönd    að barninu kertið rétti. Og Guði sé lof, nú er ljósið kveikt    og ljómar við helgar tíðir; þótt skarið sé lítið, lágt og veikt, -    það lýsir mér heim um síðir! ] [ Sé þig brosa Læðist straumur um mig Saklaus Leitt að líða illa Hvað gerðist? Fæddist reiði? Verð að segja þér Fylgdist með þér Loforðin sáust í brosi þínu Nú ertu ný aftur Sárt að sjá blóm fölna En við erum hér,fyrir þig Man er ég kom aftur Ofan af landi í bæinn Bros þitt minnti mig á að Englar eru til Sé það í þér Sál þín vill komast út Svo komin til að vera Dagar eru komnir Töfrar í loftinu Svífðu með ] [ Lít inn Sé glugga þinn,spegilinn Góð þoka á fjarlægum degi Huglæg hamingja með von Þín ást,mín ást Meikar fyrsta sinn sens Er eins,við erum eins Gleðin læsist hér Færumst áfram inní daginn Hátindur meðalmennskunar Jafnvel ógæfumaðurinn skín Tréið í Fichersundi lifnar við Breiðir út vængi sína með sjarma Búllan skítug minning Það er gott að tala Það er fólk sem býr þarna Skil að við viljum öll það sama Sjá meira,upplifa meira Misjafn árangur,misjafnar leiðir En það er til leið Margir hafa farið hana Hættu þessum spesisma Finndu ljósið,hoppaðu með Eins og Hafið,nóg til Eina sem þarf er að líta inn,hlusta Elska þig Vil þig Þrái þig Er hér fyrir þig Samt efitt að horfa á fólk svala blekkingu um helgar Sunnudagar tómir Hlöllar fylla götuna Kál,sinnep og jafnvel tómatsósan lýsir örvæntingunni Undarlegt fólk með grímur tínir upp 7 krónurnar En hinn daginn er allt orðið gott aftur Skil þig Skynja þig Dái þig ] [ Að lita á laufblöð,morgunblöð gefur sálinni séns á að ferðast á þá staði sem aðeins blaðlís,ríkt fólk kemst á. Þarna inni,kemst það út? Molnar í geisla? Þá fyrst,aðeins þá hverfur sársaukinn. En það var vonin áður,nú ábyrgðin en samt fokkin örvænting,Tjörnin. Sé mig skera,bíta kinn af helvítis smáborgurunum því ég veit að handan útrás er alsæla,drotnun. Fann glasið brotna á kinninni samt þagnaði hann ekki,tvö högg á ská Ahhh,ekki nóg,tók upp stólinn og reif hársvörðinn. Þeir reyna að ljúga að það sé nóg að gera það sem stendur en hvað ef það sem stendur var aldrei skrifað? Það er til séns! Hvernig það virkar! Vinna með öðrum! AAAAAAAAAAAAAAA. Hata það. Leita af striki til að skjótast í gegn um hausinn en alltof löglegt. Verð að breytast,verð að rífa! Sá þá segja við hana á ensku: \'\'You icelandic girls are so fuckable\'\' Hún brosti og leyfði öðrum þeirra að káa á rassinum. Hefði átt að rífa barkann af,skalla hinn Hefði átt að gera svo margt,svo oft. þetta myrkur er í kviðarholinu,aðrir segja tóm enn aðrir mein en what the fuck, eitthvað verður að gerast. ] [ Heims um ból helg eru jól, signuð mær son Guðs ól, frelsun mannanna, frelsisins lind, frumglæði ljóssins, en gjörvöll mannkind meinvill í myrkrunum lá. Heimi í hátíð er ný, himneskt ljós lýsir ský, liggur í jötunni lávarður heims, lifandi brunnur hins andlega seims, konungur lífs vors og ljóss. Heyra má himnum í frá englasöng: ?Allelújá.? Friður á jörðu, því faðirinn er fús þeim að líkna, sem tilreiðir sér samastað syninum hjá. ] [ Nóttin var sú ágæt ein, í allri veröldu ljósið skein, það er nú heimsins þrautar mein að þekkja hann ei sem bæri. Með vísnasöng ég vögguna þína hræri. Í Betlehem var það barnið fætt sem best hefur andar sárin grætt; svo hafa englar um það rætt sem endurlausnarinn væri. Með vísnasöng ég vögguna þína hræri. ??? Lofið og dýrð á himnum hátt honum með englum syngjum þrátt; friður á jörðu og fengin sátt, fagni því menn sem bæri. Með vísnasöng ég vögguna þína hræri. ] [ Í dag er glatt í döprum hjörtum, því Drottins ljóma jól. Í niðamyrkrum nætur svörtum upp náðar rennur sól. Er vetrar geisar stormur stríður, þá stendur hjá oss friðarengill blíður, og þegar ljósið dagsins dvín, oss Drottins birta kringum skín. Oss öllum mikinn fögnuð flytur sá friðar engill skær: Sá Guð, er hæst á himni situr, er hér á jörð oss nær. Sá Guð, er ræður himni háum, hann hvílir nú í dýrastalli lágum, sá Guð, er öll á himins hnoss, varð hold á jörð og býr með oss. Guðs lýður, vertu? ei lengur hræddur og lát af harmi og sorg. Í dag er Kristur Drottinn fæddur í Davíðs helgu borg. Hann fjötrum reifa fast er vafinn, í frelsi barna Guðs svo þú sért hafinn. Hann þína tötra tók á sig, að tign Guðs dýrðar skrýði þig. ??? Ó, dýrð sé þér í hæstum hæðum, er hingað komst á jörð. Á meðan lifir líf í æðum, þig lofar öll þín hjörð. Á meðan tungan má sig hræra, á meðan hjartað nokkuð kann sig bæra, hvert andartak, hvert æðarslag Guðs englar syngi dýrðarlag. ] [ Gleð þig, særða sál, lífsins þrautum þyngd. Flutt er munamál, inn er helgi hringd. Minnstu komu Krists, hér er skuggaskil. Fagna komu Krists, flýt þér tíða til. Kirkjan ómar öll, býður hjálp og hlíf, þessi klukknaköll boða ljós og líf. Heyrið málmsins mál. Lofið Guð, sem gaf. Og mín sjúka sál verður hljómahaf. ??? Kveikt er ljós við ljós, burt er sortans svið. Angar rós við rós, opnast himins hlið. Niður stjörnum stráð, engill fram hjá fer. Drottins nægð og náð boðin alþjóð er. Guð er eilíf ást, engu hjarta er hætt. Ríkir eilíf ást, sérhvert böl skal bætt. Lofið Guð, sem gaf, þakkið hjálp og hlíf. Tæmt er húmsins haf, allt er ljós og líf ??? ] [ Stafa frá stjörnu storðar börnum enn þá blessaðir barnafingur; sjáið ljós loga um lága jötu ? Jesú jólaljós jarðarstráum! Bjartara, bjartara yfir barni ljúfu hvelfast Guðs hallir á helgri nóttu; og herskarar himinbúa flytja Guðs föður frið á jörðu. Hlutar húm, hlusta þjóðir, hlustar alheimur, hlusta uppsalir; hlustar hvert hjarta, því að heimi brennur ein óþrotleg ódauðleg þrá ... ??? ] [ Yfir lífsins svörtu sanda sendu náðarbrosið þitt. Eftir villu, brot og blekking blessa, Drottinn, hjarta mitt. Drottinn, vægðu, dæm þú eigi, Drottinn Guð, ég trúi á þig. Jesús, þínum jólum fagna, Jesús Kristur, heyr þú mig. ] [ Nú árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka, nú gengin er sérhver þess gleði og þraut, það gjörvallt er runnið á eilífðar braut, en minning þess víst skal þó vaka. En hvers er að minnast? Og hvað er það þá, sem helst skal í minningu geyma? Nú allt er á fljúgandi ferð liðið hjá, það flestallt er horfið í gleymskunnar sjá. En miskunnsemd Guðs má ei gleyma. Hún birtist á vori sem vermandi sól, sem vöxtur í sumarsins blíðum, í næðingum haustsins sem skjöldur og skjól, sem skínandi himinn og gleðirík jól í vetrarins helkuldahríðum. Hún birtist og reynist sem blessunarlind á blíðunnar sólfagra degi, hún birtist sem lækning við böli og synd, hún birtist þó skærast sem frelsarans mynd, er lýsir oss lífsins á vegi. Nú Guði sé lof fyrir gleðilegt ár og góðar og frjósamar tíðir, og Guði sé lof, því að grædd urðu sár, og Guði sé lof, því að dögg urðu tár. Allt breyttist í blessun um síðir. Ó, gef þú oss, Drottinn, enn gleðilegt ár og góðar og blessaðar tíðir. Gef himneska dögg gegnum harmanna tár, gef himneskan frið fyrir lausnarans sár og eilífan unað um síðir. ] [ Komdu hérna, krílið mitt, komdu, litla morið; enn er liðið ekki þitt æsku blíða vorið. ] [ Bí, bí og blaka álftirnar kvaka, ég læt sem ég sofi, en samt mun ég vaka. ] [ Erla, góða Erla! Ég á að vagga þér. Svíf þú inn í svefninn í söng frá vörum mér. Kvæðið mitt er kveldljóð, því kveldsett löngu er. Úti þeysa álfar um ísi lagða slóð. Bjarma slær á bæinn hið bleika tunglskinsflóð. Erla, hjartans Erla, nú ertu þæg og góð. ] [ Ég fel í forsjá þína, Guð faðir sálu mína, því nú er komin nótt. Um ljósið lát mig dreyma og ljúfa engla geyma öll börnin þín, svo blundi rótt. ] [ Kristín litla komdu hér með kalda fingur þína; ég skal bráðum bjóða þér báða lófa mína. Eitthvað tvennt á hné ég hef, heitir annað Stína. Hún er að láta lítið bréf í litlu nösina sína. Fuglinn segir bí, bí, bí, bí, bí segir Stína. Kveldúlfur er kominn í kerlinguna mína. ] [ Ungum er það allra best að óttast Guð, sinn herra, þeim mun viskan veitast mest og virðing aldrei þverra. Hafðu hvorki háð né spott, hugsa um ræðu mína, elska Guð og gerðu gott, geym vel æru þína. Foreldrum þínum þéna af dyggð, það má gæfu veita, varast þeim að veita styggð, viljirðu gott barn heita. Hugsa um það helst og fremst, sem heiðurinn má næra; aldrei sá til æru kemst. sem ekkert gott vill læra. Lærður er í lyndi glaður, lof ber hann hjá þjóðum, hinn er ei nema hálfur maður, sem hafnar siðum góðum. Oft er sá í orðum nýtur, sem iðkar menntun kæra, en þursinn heimskur þegja hlýtur, sem þrjóskast við að læra. Vertu dyggur, trúr og tryggur, tungu geymdu þína, við engan styggur né í orðum hryggur, athuga ræðu mína. Lítillátur, ljúfur og kátur , leik þér ei úr máta; varast spjátur, hæðni, hlátur, heimskir menn sig státa. Víst ávallt þeim vana halt: Vinna, lesa, iðja; umfram allt þó ætíð skalt elska Guð og biðja. ] [ Fjúga hvítu friðildin fyrir utan glugga; þarna siglir einhver inn ofurlítil dugga. ] [ Ó, faðir, gjör mig lítið ljós um lífs míns stutta skeið, til hjálpar hverjum hal og drós, sem hefur villst af leið. Ó, faðir, gjör mig blómstur blítt, sem brosir öllum mót og kvíðalaust við kalt og hlýtt er kyrrt á sinni rót. Ó, faðir, gjör mig ljúflingslag, sem lífgar hug og sál og vekur sól og sumardag, en svæfir storm og bál. Ó, faðir, gjör mig styrkan staf að styðja hvern sem þarf, uns allt það pund sem Guð mér gaf, ég gef sem bróðurarf. Ó, faðir, gjör mig sigursálm, eitt signað trúarlag, sem afli blæs í brotinn hálm og breytir nótt í dag ] [ Bráðum koma blessuð jólin, - börnin fara að hlakka til. Allir fá þá eitthvað fallegt, - í það minnsta kerti og spil. Hvað það verður veit nú enginn, - vandi er um slíkt að spá. Eitt er víst, að alltaf verður ákaflega gaman þá. Máske þú fáir menn úr tini, - máske líka þetta kver. Við skulum bíða og sjá hvað setur - seinna vitnast hvernig fer. En ef þú skyldir eignast kverið, ætlar það að biðja þig að fletta hægt - og fara alltaf fjarskalega vel með sig. Hér má lesa um hitt og þetta, heima og í skólunum, sem þau heyrðu, afi og amma, - ekki síst á jólunum. ] [ Babbi segir, babbi segir: „Bráðum koma dýrðleg jól.“ Mamma segir, mamma segir: „Magga fær þá nýjan kjól.“ Hæ, hæ, ég hlakka til, hann að fá og gjafirnar. Bjart ljós og barnaspil, borða sætar lummurnar. Babbi segir, babbi segir: „Blessuð Magga ef starfar vel, henni gef ég, henni gef ég hörpudisk og gimburskel.“ Hæ, hæ, ég hlakka til hugljúf eignast gullin mín. Nú mig ég vanda vil, verða góða telpan þín. Mamma segir, mamma segir: „Magga litla ef verður góð, henni gef ég, henni gef ég haus á snoturt brúðufljóð.“ Hæ, hæ, ég hlakka til, hugnæm verður brúðan fín. Hæ, hæ, ég hlakka til, himnesk verða jólin mín. Litli bróðir, litli bróðir lúrir vært í ruggunni, allir góðir, allir góðir englar vaki hjá henni. Hæ, hæ, ég hlakka til honum sína gullin fín: Bjart ljós og barnaspil brúðuna og fötin mín. Alltaf kúrir, alltaf kúrir einhvers staðar fram við þil kisa lúrir, kisa lúrir. Kann hún ekki að hlakka til? Hún fær, það held ég þó, harðfiskbita og mjólkurspón, henni er það harla nóg, hún er svoddan erkiflón. Nú ég hátta, nú ég hátta niður í, babbi, rúmið þitt, ekkert þrátta, ekkert þrátta, allt les „Faðirvorið“ mitt. Bíaðu, mamma, mér, mild og góð er höndin þín. Góða nótt gefi þér Guð, sem býr til jólin mín. ] [ Grýla hét tröllkerling leið og ljót með ferlega hönd og haltan fót. Í hömrunum bjó hún og horfði yfir sveit, var stundum mögur og stundum feit. Á börnunum valt það, hvað Grýla átti gott, og hvort hún fékk mat í sinn poka og sinn pott. Ef góð voru börnin var Grýla svöng, og raulaði ófagran sultarsöng. Ef slæm voru börnin varð Grýla glöð, og fálmaði í pokann sinn fingrahröð. Og skálmaði úr hamrinum heldur gleið, og óð inn í bæina - beina leið. Þar tók hún hin óþekku angaskinn, og potaði þeim nið'r í pokann sinn. Og heim til sín aftur svo hélt hún fljótt, - undir pottinum fuðraði fram á nótt. Um annað, sem gerðist þar, enginn veit, - en Grýla varð samstundis södd og feit. Hún hló, svo að nötraði hamarinn, og kyssti hann Leppalúða sinn. Svo var það eitt sinn um einhver jól, að börnin fengu buxur og kjól. Og þau voru öll svo undurgóð, að Grýla varð hrædd og hissa stóð. En við þetta lengi lengi sat. Í fjórtán daga hún fékk ei mat. Þá varð hún svo mikið veslings hró, að loksins í bólið hún lagðist - og dó. En Leppalúði við bólið beið, - og síðan fór hann þá sömu leið. Nú íslensku börnin þess eins ég bið, að þau láti ekki hjúin lifna við. ] [ Segja vil ég sögu af sveinunum þeim, sem brugðu sér hér forðum á bæina heim. Þeir uppi á fjöllum sáust, - eins og margur veit, - í langri halarófu á leið niður í sveit. Grýla var þeirra móðir og gaf þeim tröllamjólk, en pabbinn Leppalúði, - það var leiðindafólk. Þeir jólasveinar nefndust, - um jólin birtust þeir. Og einn og einn þeir komu, en aldrei tveir og tveir. Þeir voru þrettán þessir heiðursmenn, sem ekki vildu ónáða allir í senn. Að dyrunum þeir læddust og drógu lokuna úr. Og einna helzt þeir leituðu í eldhús og búr. Lævísir á svipinn þeir leyndust hér og þar, til óknyttanna vísir, ef enginn nærri var. Og eins, þó einhver sæi, var ekki hikað við að hrekkja fólk og - trufla þess heimilisfrið. Stekkjarstaur kom fyrstur, stinnur eins og tré. Hann laumaðist í fjárhúsin og lék á bóndans fé. Hann vildi sjúga ærnar, - þá var þeim ekki um sel, því greyið hafði staurfætur, - það gekk nú ekki vel. Giljagaur var annar, með gráa hausinn sinn. - Hann skreið ofan úr gili og skauzt í fjósið inn. Hann faldi sig í básunum og froðunni stal, meðan fjósakonan átti við fjósamanninn tal. Stúfur hét sá þriðji stubburinn sá. Hann krækti sér í pönnu, þegar kostur var á. Hann hljóp með hana í burtu og hirti agnirnar, sem brunnu stundum fastar við barminn hér og þar. Sá fjórði, Þvörusleikir, var fjarskalega mjór. Og ósköp varð hann glaður, þegar eldabuskan fór. Þá þaut hann eins og elding og þvöruna greip, og hélt með báðum höndum, því hún var stundum sleip. Sá fimmti, Pottaskefill, var skrítið kuldastrá. - Þegar börnin fengu skófir hann barði dyrnar á. Þau ruku' upp, til að gá að hvort gestur væri á ferð. Þá flýtti 'ann sér að pottinum og fékk sér góðan verð. Sá sjötti, Askasleikir, var alveg dæmalaus. - Hann fram undan rúmunum rak sinn ljóta haus. Þegar fólkið setti askana fyrir kött og hund, hann slunginn var að ná þeim og sleikja á ýmsa lund. Sjöundi var Hurðaskellir, - sá var nokkuð klúr, ef fólkið vildi í rökkrinu fá sér vænan dúr. Hann var ekki sérlega hnugginn yfir því, þó harkalega marraði hjörunum í. Skyrjarmur, sá áttundi, var skelfilegt naut. Hann hlemminn o´n af sánum með hnefanum braut. Svo hámaði hann í sig og yfir matnum gein, unz stóð hann á blístri og stundi og hrein. Níundi var Bjúgnakrækir, brögðóttur og snar. Hann hentist upp í rjáfrin og hnuplaði þar. Á eldhúsbita sat hann í sóti og reyk og át þar hangið bjúga, sem engan sveik. Tíundi var Gluggagægir, grályndur mann, sem laumaðist á skjáinn og leit inn um hann. Ef eitthvað var þar inni álitlegt að sjá, hann oftast nær seinna í það reyndi að ná. Ellefti var Gáttaþefur, - aldrei fékk sá kvef, og hafði þó svo hlálegt og heljarstórt nef. Hann ilm af laufabrauði upp á heiðar fann, og léttur, eins og reykur, á lyktina rann. Ketkrókur, sá tólfti, kunni á ýmsu lag. - Hann þrammaði í sveitina á Þorláksmessudag. Hann krækti sér í tutlu, þegar kostur var á. En stundum reyndist stuttur stauturinn hans þá. Þrettándi var Kertasníkir, - þá var tíðin köld, ef ekki kom hann síðastur á aðfangadagskvöld. Hann elti litlu börnin sem brostu, glöð og fín, og trítluðu um bæinn með tólgarkertin sín. Á sjálfa jólanóttina, - sagan hermir frá, - á strák sínum þeir sátu og störðu ljósin á. Svo tíndust þeir í burtu, - það tók þá frost og snjór. Á þrettándanum síðasti sveinstaulinn fór. Fyrir löngu á fjöllunum er fennt í þeirra slóð. - En minningarnar breytast í myndir og ljóð. ] [ Í Betlehem er barn oss fætt, barn oss fætt. Því fagni gjörvöll Adamsætt. Hallelúja, hallelúja. Það barn oss fæddi fátæk mær, fátæk mær. Hann er þó dýrðar Drottinn skær. Hallelúja, hallelúja. Hann var í jötu lagður lágt, lagður lágt, en ríkir þó á himnum hátt. Hallelúja, hallelúja. Hann vegsömuðu vitringar, vitringar, hann tigna himins herskarar. Hallelúja, hallelúja. Þeir boða frelsi og frið á jörð, frið á jörð, og blessun Drottins barnahjörð. Hallelúja, hallelúja. Vér undir tökum englasöng, englasöng, og nú finnst oss ei nóttin löng. Hallelúja, hallelúja. Vér fögnum komu frelsarans, frelsarans, vér erum systkin orðin hans. Hallelúja, hallelúja. Hvert fátækt hreysi höll nú er, höll nú er, því Guð er sjálfur gestur hér. Hallelúja, hallelúja. Í myrkrum ljómar lífsins sól, lífsins sól, þér, Guð, sé lof fyrir gleðileg jól. Hallelúja, hallelúja. ] [ saklausu lömbin í biblíunni eru lærisneiðar á jólunum ] [ Að einu ég þig þarf að spyrja og það er hvar ég mína leit skal byrja Til að finna kassann þann sem konfektmolar líkt og þú, koma úr. Því mig langar mjög á þeim að smakka. ] [ Klukkan sex að morgni var ég hæfileikaríkur, kærleiksríkur, þolinmóður, alsjáandi, auðmjúkur, iðrandi, allsgáður, andríkur, andlegur, ósjálfráður, yndislegur, áframhaldandi, göngumaður, innihaldsins. Klukkan 06:15 langaði mig rosalega til þess að keyra fjarstýrðan kappakstursbíl og að hafa samfarir við konu sem að er framan á einu blaði. ] [ Viljinn sáttur Sjúk skuld Falskt bros Vongleði morguns ] [ Stendur á gátt Drunur hrynja Himinneldur Dauðann elur Sá æðri drengur Trompet og Hörpur Armageddon syngur Englar dansa Dýfa skuggans Ljósaglæta lýsir Vættir hörfa Hrópin slokkna Fyrir Miðju Ofan frá Guði Andans Heilagleiki Drottnar lýðnum ] [ þú komst, kemur aftur til mín sagan alltaf endurtekur sig þetta kallast vinátta okkar þá miklir dimmir dagar eru þá svo sestu niður hér vinan mín ég ætla reyna tala þig til enda er þetta hamingja þín sem um er að ræða saman ég finn hve fljót þú ert á þér heldur að lífið fari burt frá þér þá er mér ekki orðið sama stattu við hlið hjá þér í myrkri sérð þú þitt ljós andaðu djúpt segðu ekki orð þá finnuru að hamingjan er til ] [ Við engann fáum snjóinn þessi jól og áramót. Því nú sést á vorri fold bara urð og grjót. ] [ Núna er víst komin blessuð jóla-hátíðin. Margir orðnir þreyttir eftir allan atganginn. Nú er valið jóla-fæði, rennur senn af kaupa æði. Og síðan eftir eina viku áramóta-sprengingin. Margir sjá nú fram á enn eitt þrotið gjalda. Það eru yngstu JÓLARNIR sem að þessu valda. Okkur Seðla-Snýkir strýkir svo Korta-Klippir skríkir. Svona stundum er það víst eyðslu-jól að halda. N.B. JÓLAR = Jólasveinar. ] [ veggir mínir eru mjúkir og gólfið er heitt. þar lá eitt sinn einhver og bað mig, að ekki væri við sér hreyft. ég bað hann fallega um að fara þar sem ég var orðin þreytt.... á að vera óbreytt. ] [ endilega lokaðu öllum gluggum áður en ég geng útum hurðina, slökktu ljósin svo þú sjáir ekki mig ekki, áður áttavillta, finna mína leið út. ] [ Karlmenn óskast -helst einn á dag (já og snjóbretti -má vera notað) hjarta -þarfnast viðgerða þó enn barmafullt af trú, von og kærleika fæst gefins á sama stað gegn því að verða sótt ] [ Hvernig er hægt að vita hvar maður hefur fólk? Allir ana áfram endalaust Enginn sem stöðvar og hugsar, sem opnar sig, sem talar um tilfinningar sínar Það þorir enginn að ganga fyrstur á plankann Og þess vegna, erum við ringluð ] [ tveir englar sita hér filgast með mér og þér ein er lítil annar stór þessi er minn hinn er þinn minn filgist með mér og þinn filgist með þér þeir eru góðir og blíðir við mig en þig ] [ Er við hugsum gjafir um í huga kemur glingur og glys tengist gjarnan jólunum þá í búðum er ys og þys. Góðar gjafir verða ei metnar til fjár að kærleik´þú hafir en látir ei leka tár. Að rétta hjálpar hönd, fá hungraðan satt styrkja vinabönd geta annan glatt ljá eldra fólki eyra og brosið breitt mun metið meira en gjöfin gulli skreytt. Þú hefur eftil vill eytt slíku að fjárhag það mun skerða en hafirðu sanna gjöf greitt gjafmildur þá fyrst muntu verða. Guð blessar glaðan gjafara þú munt allt fá margfallt til baka það er margt í lífi þarfara en það sem með fé er hægt að taka. ] [ Hafirðu fúlgur fjár en sitjirðu á þeim þá mundu að er slær þig lífsins ljár og þú hverfur í annan heim að eftir féð mun sitja seðlar munu mölna enginn mun þín vitja en minning þín mun fölna. Þú getur þessu breitt áður en það um seinan verður að fá öðrum hjálp veitt sýna úr hverju þú ert gerður. Þá í staðinn þú færð gleði, hlátur, hamingju hjörtu munu hrærð er þú sýnir umhyggju. Margt mun á lífið skyggja þú gætir veitt björg sælla er að gefa en þiggja á þig vona hjörtun mörg. Að veita hjálp sálum, fá hungraðan satt betra er en auðæfi ausið úr skálum þig í raun það gæti glatt. Frá himnum séð við maurar erum í stærðar hrúgu, lítil peð hefur áhrif hvað við gerum. Viljirðu væntumþykju fá sýnda þá er ei um að gera að sitja og bíða heldur að fá með vinum gæsku sýna krýnda en ei láta tímann brott líða. Inn um dauðans dyr, ei auður kemst með en eitt er það sem gleður meir en fúlgur fjár gæska, góðvild og gott geð lifir í hjörtum um ókomin ár. ] [ Venjulegur dagur sem líður hjá eins og allir hinir. Fæðist,deyr og hverfur eins og mennirnir sem nutu birtu hans. Smá ljósgeisli sem smaug í gegnum myrkrið, og yfirbugaði það að lokum. Lýsti allt upp gæddi allt litum,lífi, dó svo hægt út og slökknaði. Bak við hann liggja margir dagar, framundan enn fleiri. En hver þeirra breytir öllu hjá einhverjum kaktus ] [ Fortíðin er fyrir mér, framtíðin því bíður. Mestu völ í heimi hér, hamslaus gleymska býður. ] [ Í geislandi birtu þessara nátta; gríp ég tunglið með augunum, melti það með hjartanu, og í huga mér fæðist sú hugsun, að hér eigi ég heima. ] [ Afhverju? er himininn blár? og grasið grænt? og styttstu ljóðin alltaf best? Af því orðin fæst segja mest og enginn getur lífi þínu rænt en alltaf hægt er að skilja eftir sár. Þessvegna. ] [ Skrái mig inn tjái mig mikið um þennan daginn og fæ fyrir vikið netskammmtinn minn og í kladdann enn eitt prikið ] [ hvernig gat ég haldið að ég gæti plantað mér á einn stað rifið mig svo upp með rótum og haldið að ég gæti blómstrað aftur á nýjum stað í nýrri mold? ] [ Hvernig er lífinu púslað saman Er eitt stykki lagt fyrirfram niður í þeim tilgangi að verða seinna að mynd Birtist myndin eftir að hún verður til eða jafnóðum Getum við endurskapað liðinn atburð þannig að hann hafi ekki átt sér stað Eða að atburður hafi átt sér stað sem gerðist aldrei Hversu mikilvægur er sannleikurinn eða lygin? ] [ Everytime I think of you, I just can?t help it feeling blue. You?re hurting me so much that I, just can?t find the reason why. ] [ Hann sat með sígarettu á rúmstokknum, hugsandi með buxurnar á hælunum, nýbúinn að ljúka munngælunum, við stúlkuna sem stundi enn af fryggð. Í hjarta hans var hryggð og djúpur ótti, nóttin svört og grimm var skollin á. Hann vantaði bara einhvern til að sofa hjá, en nú var eins og samviskan vildi hann lifandi flá. Hann hafði fundið þessa litlu lipurtá á dimmum bar, hann starði á hana, vildi fá hana, og vissi um leið að hún vildi hann. Hún fann að eitthvað brast og sast við hlið hans; pantaði sér í glas. Hann drakk bjór og þjóraði hann í sig, greddan var að ríða honum á slig. Þau fengu bíl og fóru heim til hans; rauðvínsglas og rólegur dans. Hún var full af þokka, með ljósa slöngulokka og vangarjóð. Hann vissi að hún yrði góð þegar blóðið byrjaði að streyma í hans vin. Þau afklæddust og læddust inn í rúm og nutu ásta; stutta stund, getan brást honum. Hún var ólík flestum öðrum konum, framar öllum vonum en það var ekki nóg. Honum langaði að endurfæðast með nesti og nýja skó, drekka sig til dauða og stökkva út í sjó. Hann gat bara ekki meira, var það kannski eitthvað fleira sem í honum bjó ? Klukkan sló eitt, honum var skyndilega óstjórnlega heitt þó nakinn væri. Hvað myndi hún gera ef hann stæði upp og færi ? Hann leit á hana og sá ekkert nema kvenmannslíkið gleitt. Hún spurði hvort að eitthvað væri að, hann vildi ekki tala um það, hataði þessa stund og þennan stað, vildi stroka út þetta blað í sinni sögu. Hann vissi vel að slíkt var ómögulegt, hann gat engan blekkt. Það vissu þær allar sem hann höfðu þekkt. Hún leit á hann hvekkt; þetta spendýr með sinn rana, hana langaði að ráða honum bana, eða elska hann allt sitt líf. ?Njóttu mín í nótt eða ég hjartað úr mér ríf?; hrópaði hún skyndilega upp úr tómu hljóði, þreytt og einhvern veginn full af viðbjóði. ?Heldur þú að ég nenni að liggja hér og bíða ? Viltu hugsa eða ríða ? Mínúturnar líða og það er laugardagskvöld?. Hann þagði og starði út í loftið, hún sagðist vera farinn; rauk í diskófötin og aftur beint á barinn. Enn var nóttin ung. Hann sat eftir einn í fjólubláu myrkri, teygði sig eftir flöskunni með hendinni styrkri og drakk af stút, glaður yfir því að hún væri farinn út, samt fullur af trega. Það var eiginlega ekki hún, heldur hann sem gat ekki uppfyllt kröfur kvöldsins. Kröfur um ást og algleymi, í þessum vonlausa og öskrandi skyndikynnaheimi. Honum fannst hann ekki samkeppnisfær, í keppninni um þessar kýr og ær, sem fylla alla staði, í falskri von um stundarást með hraði með dularfullum fola sem golan skolaði inn. Nei. Hann gat þetta ekki lengur, Hann sem hafði alltaf verið sætur mömmudrengur, var orðinn þessi gosi sem enginn vildi sjá. Veröldin virtist ömurleg, kuldaleg og grá. Allt er fullt af sjúkdómum og einskisnýtri þrá. Hann þurrkaði af sér leifarnar af henni og henti handklæðinu frá. Hann gekk inn í bílskúr vonsvikinn og súr og náði í reipi. Klukkan sló þrjú. Hann hafði ungur lesið sögu um eldgleypi frá Tæwan sem hengdi sig útaf ótrúrri frú. Hann hafði aldrei skilið það en skildi það nú. Þetta líf er ódýr hóra, aðeins snaran er trú. ] [ Sjaldan séð, það sem klukkan gefur. Drifið af fýsnum feigðar. Ferðast um sjóndeildarhringinn á skipum skýjanna. Er nóttin dregur fyrir sjónarspil himanna. ] [ Um ganga hljóður gengur, í grafhýsi hugans. Hvísl kveina undan fótsporum hans, Langanir sem standa við mörkin, hugleiða hvaðan þær komu. Sitja á greinum í garði vetrar, þar sem snjóar minningum. ] [ Og augun lokast og árin líða burt. Enn á ný í gömlu rúmi, gömul saga er sögð á ný. Andlit skrýtt kertaljósi býr til orð sem ég faðma. Síðan ástúðleg kveðja sem bíður góða nótt. Hönd er snertir höfuð, blíð augu horfða á mig enn um sinn. Í draumum mínum, til þín ég brosi. Mig dreymir að þegar ég vakni þá mun ég sjá þig aftur. ] [ Á ísuðum sléttum fjarlægðarinnar, seitlar ljós í myrkri. Og þótt naprir vindar um það reika, logar það ennþá. Gætt í þínum glugga, glóðir kærleikans. Löngun til lífsins, lifir í þessum loga. En í fjarlægð leynist sál mín. Og slóð mín seilast hægt áfram og mín spor eru slíðruð í snjóinn er tíminn teigir veg minn áfram. ] [ Hjarsláttur er býr til orð, grátur er græðir. Tungumál kærleikans sem aðeins ástin skilur. Það ómar frá þínum hæðum. Þar sem draumar byrja sem tár, Stjörnumerkjum stráð í snjóinn. Andartak, er breytir augnabliki í ár. Því sérhver hugsun býr til spor. Og ein von getur breytt vetri í vor. Því nú er bundin, sál við sál. Og hlýr vindur, blæs yfir lífsins glóðir. Því dauðleg vera, er orðin móðir. ] [ Og sólin sleikir sár sín, og slíðrar sína birtu. Kveikir lítið ljós við hliðina á orðum mínum. Les stafi sem blöðin eru orðin þreytt á að bera. Og ber mína ósk, að dyrum þínum. ] [ Legðu leið þína um ókomin ár. Staldraðu við af og til. Því hver stund er sár í síðu tímans. Svo greftraðu andartökin í hugann Og meitlaðu minningar í augnlokin. Því að jafnvel sólskynið hverfur að lokum. ] [ Máttur minn er mikill og óskiljanlegur ég óttast ofar öllu mig ] [ Hvar hafa dagar lífs þíns lit sínum glatað, og ljóðin, er þutu um þitt blóð frá draumi til draums, hvar urðu þau veðrinu að bráð, ó barn, er þig hugðir borið með undursamleikans eigin þrotlausan brunn þér í brjósti, vinur? Við svofelld annarleg orð, sem einhver rödd lætur falla á vorn veg ? eða að því er virðist vindurinn blæs gegnum strætin, dettur oss, svefngöngum vanans, oft drykklanga stund dofinn úr stirðnuðum linum. Og spunahljóð tómleikans lætur í eyrum vor lægra. Og leiðindin virðast í úrvinda hug vorum sefast. Og eitthvað, er svefnrofum líkist, á augnlok vor andar, vér áttum oss snöggvast til hálfs, og skilningi lostin hrópar í allsgáðri vitund vor sál: Hvar! Ó hvar? Er glatað ei glatað? Gildir ei einu um hið liðna, hvort grófu það ár eða eilífð? Unn þú mér heldur um stund, að megi ég muna, minning, hrópandi rödd, ó dvel! En æ, hver má þér með höndum halda, heilaga blekking! Sem vængjablik svífandi engla í augum vaknandi barna ert þú hverful oss, hversdagsins þrælum, og óðar en sé oss það ljóst, er undur þitt drukknað í æði múgsins og glaumsins. Svo höldum vér leið vorri áfram, hver sína villigötu, hver í sínu eigin lífi vegvilltur, framandi maður; og augu vor eru haldin og hjörtu vor trufluð af hefð og löggrónum vana, að ljúga sjálfan sig dauðan. . . En þei, þei, þei, - svo djúpt er vor samvizka sefur, oss sönglar þó allan þann dag við eirðarlaus eyrun eitthvað þvílíkt sem komið sé hausthljóð í vindinn, eitthvað þvílíkt sem syngi vor sálaða móðir úr sjávarhljóðinu í fjarska. Og eyðileik þrungið hvíslar vort hjarta hljótt út í bláinn: Hvar? . . . Ó hvar? ] [ Allt fram streymir endalaust, ár og dagar líða. Nú er komið hrímkalt haust, horfin sumars blíða. ] [ Yfir kaldan eyðisand einn um nótt ég sveima. Nú er horfið Norðurland, nú á ég hvergi heima. ] [ Við skulum ekki víla hót, það varla léttir trega. Og það er þó ávallt búningsbót að bera sig karlmannlega. ] [ Þegar illa á mér lá og ornuðu tárin hvarmi, til mín komstu, kisa grá, og kúrðir mér að barmi. Margir segja að söngur þinn sé af verra tagi. En þú heldur samt í sál mér inn sungið dýra bragi. Ekki eru að vísu öll þín hljóð eftir réttum nótum, en þau koma kær og góð frá kattarins hjartarótum. Mér finnst enginn efi á því, þótt aðrir vilji ei trúa, að kattarþeli þínu í þöglar ástir búa. Best þú skilur börnin smá sem bera þig sér á örmum, við þau mjúkt þú malar þá og mænir á þau í hörmum. Mig hafa glatt þín ljóðin löng og látið tárin þorna, er þú kvaðst þinn kattarsöng kát um bjarta morgna. Þegar loksins líkaminn leggst að föllnum baðmi, kýs ég að verða, kisi minn, köttur í meyjarfaðmi! ] [ Kvöldblíðan lognværa kyssir hvern reit, komið er sumar og fögur er sveit. Sól er að kveðja við bláfjalla brún, brosa við aftanskin fagurgræn tún. Seg mér hvað indælla auga þitt leit íslenska kvöldinu í fallegri sveit! ] [ Ég berst á fáki fráum
fram um veg. Mót fjallahlíðum háum
hleypi ég. Og golan kyssir kinn. Og á harða, harða spretti hendist áfram klárinn minn. Það er sem fjöllin fljúgi
móti mér, sem kólfur loftið kljúfi
klárinn fer. Og lund mín er svo létt, eins og gæti ég gjörvallt lífið geisað fram í einum sprett. Hve fjör í æðar færist
fáknum með! Hve hjartað léttar hrærist!
Hlær við geð að finna fjörtök stinn! Þú ert mesti gæðagammur, góði Léttir, klárinn minn! Hve hátt'ann lyftir hnakka,
hvessir brá og hringar hreykinn makka.
Horfið á! Sko, faxið flaksast til! Grundin undir syngur söngva slétt við Léttis hófaspil. En læg nú sprettinn, Léttir,
líttu á, við eigum brekkur eftir,
hún er há. Nú æjum við fyrst ögn, áður söng og hófa hljóði förum rjúfa fjallaþögn.
] [ Þú kveiktir í mér og ég hlýt að vera vera galin því logandi öll stíg ég út á ísinn ] [ Þrútið var loft og þungur sjór,
þokudrungað vor. Það var hann Eggert Ólafsson,
hann ýtti frá kaldri Skor. Gamall þulur hjá græði sat,
geigur var svip hans í, hann mælti við Eggert Ólafsson:
?Mér ógna þau vindaský?. ?Ég sigli' ei skýin, ég sigli sjá!?
svaraði kappinn og hló. ?Ég trúi á Guð, en grýlur ei,
og gleð mig við reiðan sjó?. Gamall þulur frá græði hvarf,
gegndi með þungri lund: ?Þú siglir ei þennan sjó í dag,
þú siglir á Guðs þíns fund?. Það var hann Eggert Ólafsson,
hann ýtti frá kaldri Skor, vindur upp segl og sjálfur við stjórn
settist með formanns þor. Knúðu rastir knerrir tveir,
komið var rok um svið. Síðasti fugl úr fjarri Skor
flögraði' á vinstri hlið. Á búlkanum situr brúður ung,
bleik var hin göfga kinn: ?Ó, Guð! sú báran er brött og há,
hún brotnar í himininn inn!? ?Hækkið þið seglin!? hetjan kvað,
en Helja skjótari varð. Boðinn skall yfir bárumar -
í búlkann var komið skarð. Það var hann Eggert Ólafsson,
frá unnarjónum hann stökk, og niður í bráðan Breiðafjörð
í brúðarörmun sökk. ?Það var hann Eggert Ólafsson?
- Íslands vættur kvað - ?aldregi græt ég annan meir
en afreksmennið það?. Ef þrútið er loftið, þungur sjór
og þokudrungað vor, þú heyrir enn þá harmaljóð,
sem hljóma frá kaldri Skor.
] [ Láttu hug þinn aldrei eldast eða hjartað. Vinur aftansólar sértu, sonur morgunroðans vertu. ] [ List er það líka og vinna lítið að tæta upp í minna, alltaf í þynnra þynna þynnkuna allra hinna. ] [ Ástríða sem gæti fyllt höfin. Ljósið sem lifir í augum ólík öðrum. En myrkrið og djúpið eru í fórum mínum og enn enn eys nóttin stundum af þínum degi. Og af skýjum drjúpa syndir sætari en hungang og vonin litar þau silfurblá. En kannski mun þögnin veita mér skjól eða fjarlægðin feykja mér í burtu. Þegar skáldið setur upp dimma sól og hengir upp myrkvað tungl þá uppljóstrar lýgin því er syndin veit. Þegar regnið sprettur upp úr viðjum jarðar og skolar skuggum burt. Eins og þegar minn engill býr til bros í iðrum minnar sálar. ] [ Jólin eru að búinn á þessu erum orðinn lúinn henda þessu jóla tré og draga allt skrautið í hlé. þegar sveinki kmr á kreik lítill var ég þagar hann mig sveik. munu krakkar fá í skóinn svo þau fari ekki i klóinn á jóla kettinum ljóta en jólin hjóta. að koma aftur en ekki fyrr en að ári. ] [ Ljóðstafir lýsa mér veginn glampa í skini kvöldsólar glitrandi. Bergmála sögur sem ég hef heyrt einhversstaðar og sögur sem ég hef aldrei heyrt og kannski sögur sem ég mun aldrei heyra. Ó, þeir eru svo fallegir í fjarska. ] [ éG þÚ viÐ ] [ ljúfa er eins og ljón Samt svo ljót innræð Hún er eins og flón Hefur ekki neinu gaman Einelti fólk bulla bara svo Segði sér sér orðin sama Hennar orð hún man ei Hún heldur sé annar að tala Ég held bara hún elska mig Við skulum bara vera saman Ég gætin koss á þina hönd Breytt þér í voða sæta ljúfu Komdu mín kæra og ,vertu fljótt Enda sérðu við gætum dúllast saman Á rásin þú kalla á konan43Rvk Þá sérðu hvað þú ert ástin getur breytt þér Ó ljúfa min mér ei ekki farin vera saman Svo heldur þú ná sóldogg ,hér Sem geislar hér vináttu ,kærleika,frið þú skalt fara halda,kjafti þinum sko saman ] [ Man ég okkar fyrri fund forn þó ástin réni. Nú er eins og hundur hund hitti á tófugreni. ] [ Ég var álfaprinsessa kjóllinn minn var hvítur og saumuð á hann pappírsblóm álfaprinsinn kyssti mig og bauð mér sæti við hlið sér áhorfendur klöppuðu og við hneigðum okkur áðuren tjaldið féll seinna vildi álfaprinsinn kyssa mig í húsasundi og fékk að launum kinnhest sem allur bekkurinn hló að. ] [ Einsog mara liggur á borginni blautri blýgrár þrúgandi himinn hvers mega sín þá marglit þökin æpandi á sól á ljós á örlitla miskunn? ] [ Eftir sumarlanga dvöl meðal blómanna er ég komin heim bústin og borginmannleg í rauðum gallabuxum sem oftar en einusinni fengu að vökna í bæjarlæknum þá ber svo við að snorrabrautin hefur þanist út og harðnað í gráu ryki gnæfa húsin uppúr steinmörkinni og hvergi sér í gras allt hefur stækkað nema kytran okkar í kjallaranum. En einnig þar hafa stórmerki gerst: undrandi horfi ég á kringlótt slefandi andlit lítils bróður sem himnarnir hafa sent okkur og mamma hefur búið um í kommóðuskúffu. ] [ Hélstu, veslings vinur minn, að vorið kæmi í annað sinn þó að sólin kyssti í kvöld kollinn litla þinn? Unga, fagra fíflið mitt, frostið myrðir blómið þitt, vetur prýða með þér mun mjallhvítt hárið sitt. ] [ Báran kyssir sandinn sandurinn kyssir goluna golan kyssir sveininn sveinninn kyssir meyna og nú ætlar sólin að fara að hátta og kyssir okkur öll. Svo dettur allt í dúnalogn - hvítt segl úti á vognum roðnar og segir niðurlútt við árarnar: ég er alveg að sofna. Síðan er róið í land. ] [ Snjótittlingur sníkir, ? snjórinn er svo mikill, ? út um allt hann skoppar eins og lítill hnykill. Þögull þraukar móti þykkum hríðarmekki; svona sár af kulda syngur maður ekki. Bara að trítla um túnið, tína korn úr moði, ? - ekkert athvarf bíður, allt er tómur voði. Undarlega Íslands ævifugl er gerður: seinna, þegar sumrar, sólskríkja hann verður. ] [ . . . Svo lifna blómin einn ljósan dag og lóan kvakar í mónum. Og fjallið roðnar af feginleik og fikar sig upp úr snjónum. Og börnin hlæja og hoppa út með hörpudiskana sína. - Og einn á skel yfir fjörð ég fer, að finna vinstúlku mína. . . ] [ Óskiljanlegt er grasið: maður treður það undir fótum sér en það reisir sig jafnharðan við aftur. Óskiljanlegt er grasið: skepnurnar bíta það og renna því niður og skila aftur hinu ómeltanlega - en viti menn: á því nærist svo nýtt gras. Já óskiljanlegt er það hið græna gras jarðarinnar: auðmýktin og uppreisnin í senn. ] [ María Jesú móðir góð, mild og rjóð á vanga, hún á litlu erluna með hefðarstélið langa. Máríuerlan mín, mín, mikið hef ég saknað þín, varstu úti í Danmörku að drekka mjöð og vín? Erla góða Erla, englabarnið mitt, lof mér nú að skoða betur langa stélið þitt. ] [ Hlustaðu nú á kveðju, köldum kistubotni frá. Rofinn róm sem bergmálar og svífur hjá. Ofar, hvíla geislar, grafarbakka á. Umlukktir englum sem aðeins hinir dánu sjá. Englar sem krjúpa og biðja, biðja um fleiri andartök að fá. Biðja um fleirri stundir, festingunni á. Þessi ljósblá, ljúfu augu skáru svartnættið. Földu mínar sorgir og færðu mér frið. Voru sem speglar, er sönnuðu að ég var til. En þarna drukknuðu draumarnir, í hamingjunnar hil. Nú kemur þú og kveður, og kissir kistur tvær. En í þeim hvíla trú og von, á meðan kærleikurinn færist fjær. Þreyttur á að bíða, að bíða eftir þér. Nú er hann loks farinn, í leit að sjálfum sér. Svo hverfum við í húmið og ekkert fær því breytt. Við verðum alveg agnarsmá og síðan ekki neitt. ] [ Ég hlustaði ég reyndi skilningur varð að engu. Ég horfði þóttist sjá veit þó ekki hvar er hvar. Ég tjáði mig einlæg orð mín svo feimin við viðbrögð þín þú þagðir... ] [ Æ ögrar feigðin oss farandsveinum. Oft segja forlögin fátt af einum. - Mín hræðsla er komin á hæsta stig, að tröllin komi og taki mig. Ég geng hjá óðali illra vætta. Hver veit, hvað andar þar innan gætta. - Ég veit ei hót um það, hvert ég fer. Ó, hamingjan góða hjálpi mér! Nú opnast helsvartur hamraveggur, og móti mér illan ódaun leggur. - Mitt hjarta er lamað, mín hönd er köld. Ó, drottinn minn! Það er dimmt í kvöld! Nú heyrist gaulað, - ég geng á hljóðið og stefni í voðann, með staðnað blóðið og viljann brotinn. - - Þau vaða að mér! Í greipar þeirra ég genginn er! Þau búast mögnuð til myrkraiðju, með blóðrautt auga í enni miðju. Með sterkum krumlum þau krækja í mig, og opna kjaftinn og yggla sig. En fyrir dagsbrún í fjarska roðar; sá fagri ljómi mér lífið boðar. - Þau fælast bjarmann og forða sér, og frá sér hamstola henda mér. Ég þakka guði hvern geisla, er brennur, og blóð mitt aftur um æðar rennur. Ég þakka mildinnar morgunsár, og greini sólina í gegnum tár. ] [ Í djúpum friði hnígur sól að sænum, sko, svona loga gluggarnir á bænum, úr lágum strompi stígur hvítur reykur, um stafn og burst hinn góði andi leikur. Og vinnukonan, veslingurinn bogni, hún vappar sæl í þessu blæjalogni - það anga blóm við hennar grýttu götu og geislinn skín á stóra mjaltafötu. Og ærnar hiklaust inn í kvíar renna og allra snöggvast móðurtregans kenna en lygna síðan augum angurblíðum, þær eiga draum um lömb í grænum hlíðum. Og smali að dyrum æskurjóður eltir og ungur seppi af tómri kæti geltir, því grun um líf sem aldrei enda tekur, það aftanskinið glatt í brjósti vekur. Á vegginn leggst hinn litli, góði hirðir og ljósblá augun hvarfla um órafirðir og sálin spyr: Hve stór er himnahöllin? Og hvað er annars þarna á bak við fjöllin? ] [ Kolsvört læða, lipur veiðikló, labbar með mér út um grund og mó: elsku litli anginn hennar dó - oft er torvelt börnin sín að geyma. Hún er friðlaus, finnur hvergi ró, flýr nú skelkuð tóma bólið heima. Ó, hve loppan hans var fim og fín, fallega hann sperrti eyrun sín, allt hans líf var leikur, saklaust grín, létt og mjúkt og fullt af skrýtnum vonum. Vertu róleg, veslings kisa mín - við skulum bæði reyna að gleyma honum. Kisa-kis mig horfir hissa á, - hennar sára, eymdarlega mjá stígur upp í himinhvolfin blá: hvað má vorum dýpsta trega eyða? - Kannski er barn þitt góðum guði hjá gullfugl eða silfurmús að veiða. ] [ Stelkurinn með rauða fótinn stráin ber í sæng, hann er eins og vant er með hvítt undir væng. Voða þykir þér gaman að vaða út í sefið - gefðu mér nú góði vin grænt korn í nefið. Stelkurinn með stinna nefið stjáklar lengra út í sefið. Það er karl sem óttast ekki ólukku kvefið. ] [ Horfumst í augu fögnum morgunhvítri sólinni laugum iljar okkar í dögginni biðjum um frið leggjum grasið undir vanga okkar vermum frækornið í lófa okkar stígum varlega á moldina biðjum um frið borum fingrinum í sandinn sendum vísuna út í vindinn speglum okkur í hylnum biðjum um frið reikum um fjárgöturnar teljum stjörnurnar hlustum á silfurbjöllurnar biðjum um frið göngum að leiði móður okkar göngum að leiði föður okkar minnumst hins liðna biðjum um frið tökum í hönd systur okkar tökum hönd bróður okkar lyftum því sem er biðjum frið lítum í vöggu dóttur okkar lítum í vöggu sonar okkar elskum hið ókomna biðjum um frið horfumst í augu horfumst í augu gegnum fjarlægðirnar horfumst í augu gegnum aldirnar biðjum um frið. ] [ Lítill drengur lófa strýkur létt um vota móðurkinn, - augun spyrja eins og myrkvuð ótta og grun í fyrsta sinn: Hvar er amma, hvar er amma, hún sem gaf mér brosið sitt yndislega og alltaf skildi ófullkomna hjalið mitt? Lítill sveinn á leyndardómum lífs og dauða kann ei skil: hann vill bara eins og áður ömmu sinnar komast til, hann vill fá að hjúfra sig að hennar brjósti sætt og rótt. Amma er dáin - amma finnur augasteininn sinn í nótt. Lítill drengur leggst á koddann - lokar sinni þreyttu brá, uns í draumi er hann staddur ömmu sinni góðu hjá. Amma brosir - amma kyssir undurblítt á kollinn hans. Breiðist ást af öðrum heimi yfir beð hins litla manns. ] [ og enn skín hún yfir eggjunum þótt kulið sé byrjað að næða bíllinn sem þyrlar rykinu utar í firðinum mun brátt renna í hlað með tíðindin í farteskinu svartur síminn á veggnum í holinu enn í lagi þó fáir hringi í hjónin nú til dags og tréhesturinn standi óhreyfður í skápnum undir stiganum - - - enn nálgast hann óðfluga fréttirnar munu senn gnæfa yfir rökkvuðu hlaðinu og bera við gráan himin upp af fjórum svörtum sólum ] [ Ég elska og þess vegna er ég Ég hugsa og þess vegna verð ég Ég kann og þess vegna veit ég Ég vill og þess vegna fer ég Ég fell og þess vegna rís ég Ég reyni og þess vegna kemst ég Ég hata og þess vegna þjáist ég Ég lifi og þess vegna dey ég ] [ Undir fötunum ertu nakin Bakvið brosið hikar þú Undir meikinu felurðu þig bakvið augun grætur þú því undir fótum þínum er líka bara jörð og bakvið tjöldin ertu þú ] [ Það rignir & rignir, rignir alveg rosalega. Ég er að hugsa, um að hlaupa út -með sjampóbrúsa- og þvo á mér hárið ] [ Veturinn er eins og nótt, og bráðum kemur frelsarinn skjótt. Vorið er eins og morguninn, og Jesú er löngu upprisinn. Sumarið er eins og dagur, já dagurinn er mjög fagur. Haustið er eins og kveld, og skátar sitja uppi við eld. ] [ ljúfa er eins og ljón Samt svo illa innrætt Hún er eins og flón Hefur ekki af neinu gaman Eineltir fólk bullar bara svo Segir sér sé orðið sama Hennar orð hún man ei Hún heldur það sé annar að tala Ég held bara hún elski mig Við skulum bara vera saman Ég gæti kysst á þína hönd Breytt þér í voða sæta ljúfu Komdu mín kæra og vertu fljót Enda sérðu við gætum dúllast saman Á rásinni þú kallar á konu43Rvk Þá sérðu hvað þú ert, ástin getur breytt þér Ó ljúfa mín, mér er ekki farið að standa á sama Svo helduru að þú náir Soldogg hér Sem geislar hér af vináttu, kærleika og frið þú skalt fara að halda, kjafti þínum sko saman. ] [ Ég veit um telpu sem kann að hekla hún á klukku í merkingunni nærkjóll og svefnstæðið hennar er þjóðfáninn en hún liggur þó ekki langsum á rauða krossinum nema á sunnudögum & hvítu rákirnar óspjallaðar sjá alla jafna hniprar hún sig á bláhorninu til vinstri þar sefur hún best og hreyfir sig ekki og hún hrýtur en á morgnana telja sumir að hún drekki flot úr ausu sjálf hefur hún aldrei neitað því en hið rétta mun vera að litla telpan stillir kransaköku á stofuborðið og starir ] [ Grikkland er svarthvítt ég sá það í myndinni um Zorba þar rignir líka með slíkum ofsa að ferjunum seinkar til klukkan tíu hins vegar er ekki rétt sem margir halda að þar deyi fallegt fólk við ærandi fögnuð hinna ljótu slíkt gerist reyndar oft en aldrei hér ] [ Haustið er eins og bið, bið eftir einhverju sérstöku en samt kemur það ekki. Ef þú bara gæfir mér smá meiri tíma til að finna þig, þá myndi ég, með bros á vör, leita að þér, sérstaka haustið mitt. ] [ Sjónlaus ég sé ekki neitt, svart og myrkur út um allt. Blindur ég er og ekkert fær því breitt, bara að mér væri ekki svona kallt. Ef ég aftur sjónina ég fæ, einhvern tímann þá seinna. Þá sé ég að lífi mínu ég kastaði á glæ, en samt verður allt örugglega hreinna. ] [ Allt er ekkert, ekkert er allt. Ef allt er ekkert, hvernig er þá ekkert allt? MUNA: Einu sinni er ekki alltaf alltaf... ] [ Sólin, hún skein yfir fjöllin, sæt, hún kom og teygði sig eftir mér. Heyrnarlaus, ég heyrði ekki köllin, hreyfingalaus, ég beið eftir þér. En af hverju komstu ekki? ] [ Hugsandi stefni ég haltrandi burt, hóandi hleypur karl og fylgir. Á ég líf? hef ég mig spurt, ég veit að á endanum enginn mig syrgir. Hvað varð um lífshamingjuna, sem fylgdi mér hvert sem ég kom? Var hún kannski ekki til? Ég veit samt að eitt sinn hún veitti mér von, en þá var lífið eitt gleði spil. ] [ have you ever seen the rain? poorin down my window lookin\' like a star glansing upon where you are It is cold and blue fallin\' on my head while i walk in dispair it is in my hair people don\'t notice it runs through the drains comes through the pipes and into our vains canser is so close now it\'s getting upon me i drank the whater that once was rain ] [ Að ganga um í myrkri að hugsa um líf og tilveruna að geta bara gengið gengið lengi áin birtist til hér ég get ekkert sagt vona að hún fljóti ei yfir bakka sína hún fer brátt að ná mér köldu flóðar kvöldi á að labba framhjá henni var mín náðar öll ] [ Allt er svart, ég er hvergi enginn kemur, hér er enginn mig langar heim, mig langar aftur koma til þín, vera partur ] [ The world is in my hands i wish i handn\'t seen your hans upon my own feelings gooing deep i see this all around me i feel inside of me growing for the fortnight it comes out of me unhappy and i\'m lonely whit a child upon my arm my husband has his own grave i\'m shearching for mine to be ] [ Heimurin stendur með mér mig langar samt heim engin stendur gegn því að ég komist ein Mig langar að sjá þig snerta þig smá svo kemr heimurinn og tekur þig mér frá ] [ Ef ég mundi telja fjöldan ef ég gæti það vildi hann kannski sjá velfarna leiðina Við gegnum langt, svo durtin dó að engum datt í hug kannski hugsa, hugsa smátt vil ég þig fá ] [ Heimurin ferst með drungalegu lofti engionn sér hvað gerist hér ég tók hann fast, fast og þétt og kramdi í greipum mér Fólkið grét, sárbændi mig bað mig um að sleppa en reiðin kvödd til lífs og steins þeir skulu nú deyja síðasti dagurin örsnemma kvölds pökkuðu í töskurnar í gervallri veröld ég tók hann niður og hennti við veröldin tók og trampaði til Heil veröl var mér í greipum tók hana og sökkti í fenjum engisprettur tóku á rás gróðurinn til árans fór þá mannkynið nú vonlaust er komin tími að töksuna litlu tæki ég með fyrir smá von og tendrandi baugu stráði vonar ryki í þeirra augu innan 10 daga ég var komin aftur til að eiða öllu lífi hér tek mig til og strái um svörtum dauða um algeimum sit hérna og horfi á heimin hann í molum og fullt af holum skríður þá lítil vera út en á lífi en með fulls tek hana upp og hristi vel spyr hann vel hvaða lífsins þel hann velur mér til betrunar hann horfir hátt og hreikin er glottir og segir einn er þó staður á lífi hér, tak hann og krem er menntaskóla vel á torfnesi lifir og ei lengur hér ] [ Spurningarnar banka í hausnum á mér á meðan rauðu augun mín hanga opin fyrir framan stigaganginn minn. Ekki örvænta, er þriðji í röðinni inn í mig. ] [ Tosa mig eftir línunni; dag frá degi. En missi stundum áhugann, -brot úr degi. Brotið hamrar á sálinni. Sá þig í dag. ] [ Til þess að sjá mig þá verður þú að ganga fram hjá mér. til hvers að fara? Gekkst aldrei nálægt mér. -skil það samt alveg ég gekk fram úr þér. ] [ Jafnvel þótt hjarta mitt söng af ánægju inní sögu 203 um tilhugsunina um frí allar helgar, þá leið mér illa seinn um kvöldið sitjandi við borðið með appelsínugula dúkknum borðandi prins póló vitandi að ég myndi aldrei sjá þessi sorglegu andlit [sem virtust vera ánægð] aftur. En lífið hefur meira upp á að bjóða en svart appelsínugult og hvítt og jafnvel þótt ég muni verða aðgerðalaus í smá tíma finn ég mér alltaf eitthvað. ] [ Þegar varirnar renna til veður skrítinn svipur á verðgildi fjárins. Fjárinn verður ósýnilegur ef við kreppum lófann og hugsum okkur vel fram hjá flestum bátunum sem vagga og vagga og nú fer mig að sundla ef pottarnir eru of heitir fara gamlar konur að dæsa, kýr dæsa, konur dæsa, hryssur dæsa og súkkulaði er dísætt. Hvar koma tennurnar inn þegar frumsýningargestirnir gapa út ganginn gangandi og verða svo til við endann. Ef við komum nógu mörg á sýninguna þá hverfum við öll að lokum og þá er þetta búið. ] [ ég kaupi poka af grjónum... ég horfi milli grjóna prjóna ó þessi tamning ljóna ég ætla að pússa skóna súkkulaðigerðin móna er þarsem ég bý ég á hvergi heima ég stal þessari tölvu frá heim****i ég er gamalt kvikindi ] [ Þú munt aldrei vera hamingjusöm... Þér er fyrirgefið líka... ] [ ég reyni að hætta að brosa ég hætti að ganga í bleiku ég lita ekki lengur í litabækur ég er á móti pleimó en það er sama hvað þú segir ég mun alltaf svara með málshætti eða orðatiltæki ég er girt og með belti ég er vatnsgreidd ég svara spurningum kennarans rétt og allir hata mig ég hef svo oft reynt að verða svona en málshættirnir eru misheppnaðir og orðatiltækin aulaleg og alltaf á vitlausum stöðum ég get ekki hætt að ganga í bleiku ég elska að lita í litabækur pleimó er lífið punktur ] [ þið haldið að ég sé skolhærð hvít ung stúlka í mr en það er bara gervið ég er vitfirrt pleimópleimópleimó spank me jóhannes við sáumst eitt sinn og ástin var real en við sáumst aldrei framar þó þú værir lama- dýr kamarkamarkamar ó endalausa æska og ótakmarkaða ást djassdjassdjass pleimópleimórass sáuði hvernig ég braut upp mynstrið öllum að óvörum þið haldið að þið þekkið mig en það er ekki rétt því ég er vörðurinn í vitanum ég er myndhöggvarinn í mílanó og pleimópleimópleimó að eilífu! ] [ Jónína kemur sér fyrir þegar hún kemur fram, verða áhorfendur alveg stjarfir af kulda sem er einsog byggt hafi verið utan um hvern annan til að komast hjá því að lesa upp allan kaflann aftur. Birtan verður örugglega of skær ef við klippum för í pappírinn og konurnar raða sér óskipulega framan við stórt tjaldið þar sem við héldum aftur og aftur og svo fram af okkur. Fyrirlesturinn hefst ekki fyrr en búið er að hugsa málið og flytja kindurnar ef þær eiga ekki að vera blautar í lappirnar. Nú hópast þær inn hver af annarri og kliðurinn eykst," það er einhver með krakka"..!.?#* "hvað er hún að hugsa?" koma engir menn eða er ekkert pláss fyrir kindunum, ég held að þetta hafi sloppi með þær þegar þær hlæja. Hvar á að kveikja á þessu með samstarfskonu. Heilög þrenning og svo sefur hann og ég get bara ekki haldið mér vakandi ef hún heldur áfram að tala en glaðvakna svo þegar hún þagnar. ] [ Mig langar smá að vera ofurhetja bjarga öllum og vera stælt og flott með skikkju Ég vil samt ekki vera í svona nærbuxum utanyfir sokkabuxur mér finnst það eiginlega frekar hallærislegt Þið getið öll verið róleg ég kem og bjarga ykkur og sjálfri mér og öllu heimsins súkkulaði ...ég verð feitasta ofurhetjan og samt verð ég best... ] [ Liggjandi gólfinu á: þrjú horn. Á hliðinni: þrjú horn. Uppá endanum: Ennþá þrjú horn. HÆTTU AÐ HUGSA DRENGUR!!!! Þetta er alltaf þríhyrningur. ] [ Fallegasta útsýnið er úr flugvélum eins og ég hef margsagt en árétta að þá á ég ekki við stórbrotna fjallgarða og ljómandi borgir heldur vængina (eins og þennan) silfurgrá börðin sem skellast við eyrun blikkandi ratljósin í nóttinni og sólgulan krókinn þar sem ég festi nú línuna úr björgunarbátnum og finnst leitt að vera ekki með vatnshelda myndavél ] [ Vorið er komið og grundirnar gróa, gilin og lækirnir fossa af brún, syngur í runni og senn kemur lóa, svanur á tjarnir og þröstur á tún. Nú tekur hýrna um hólma og sker, hreiðra sig blikinn og æðurin fer. Hæðirnar brosa og hlíðarnar dala, hóar þar smali og rekur á ból, lömbin sér una um blómgaða bala, börnin sér leika að skeljum á hól. ] [ Vetrarjómfrú með langar fléttur, rólur handa englum, stráir örsmáum rúsínum á hlaðsteinana: Kandíshjarta, gullterta, silfurkleina, stjörnubjart jólabrauð. Uppi í norðurljósaskýjunum kindur á fjörubeit. ] [ Lífið er hvergi nema hér kvíslaði hann að morgni sunnudags þegar hann parkaði fyrir utan bæjarbúðina og tók stóran sopa af orku. Og ég ímyndaði mér okkur tvö saman og eina sem ég fékk út var sársauki, vísindarlegt ofbeldi og tilgangsleysi. Og í hvert skipti sem hann setti Breakbeat Era á leið mér eins og illa farinn plastpoki sem átti þann heiður að fjúka útí buskann. ] [ Milt í morgunsári mætast nótt og dagur. Hlær í vorsins heiði himinbláminn fagur. Einn er ég á erli, uni niður við sjóinn. Blæjalogn - og bátur burtu sérhver róinn. Litlar bláar bárur brotna upp við steina. Æður fleytir ungum inn á milli hleina. Ennþá man ég eftir æskubjörtum stundum, á kolaveiðakænum krakkarnir við undum. Bárum við í búið býsna margan dráttinn, fórum árla á fætur, fengumst seint í háttinn. Fólkið bregður blundi og byrjar starfa nýja. Senn mun þögnin þoka, þarna flýgur kría. ] [ Börnin fæðast litlum systkinum sínum eins og ljós sé kveikt, eins og fyrstu blóm vorsins vakni einn nmorgun.
Ef þau deyja
hverfa þau til guðs,
eins og draumur
sem aldrei gleymist. Í sorginni mætast foreldrar og börn og verða ekki síðan viðskila. Lítill drengur liggur í vöggu sinni og hlær þegar við grúfum okkur niður í ullarflókann á brjósti hans. Þegar mamma situr með hann í fanginu
og gefur honum brjóst, horfum við hugfangin á
hve hann er öruggur og sæll. Svo einn morgun er hann dáinn. Það er um vor. Hann er lagður í hvíta kistu
með Passíusálmana hennar ömmu
á brjóstinu. Pabbi gengur á undan og ber kistuna í fanginu. Seytl lækjanna, sem renna til götubakkans
í leysingu vorsins,
verður að gráti, lágværum harmþrungnum gráti. Nokkrar konur koma itl þess að votta okkur samúð, presturinn til þess að kasta þrem rekum, tvær stúlkur og forsöngvarinn
til að syngja: Allt eins og blómstrið eina. Síðan er allt hljótt og við stöndum ein eftir hjá litla leiðinu okkar. Móðir og börn fara að gráta, þungt og sárt. Pabbi horfir þögull á flakandi sár jarðar, klæddur lánaðri treyju og hvítri skyrtu
sem er of þröng í hálsmálið. Á rauða moldina leggjum við þau blóm sem læknisfrúin hefur sent okkur. Snúum svo aftur heim í hús tómleikans þar sem hlátur og gleði eiga ekki lengur samastað. Mamma geymir barnafötin sín í litlum kistli
undir höfðagafli hjónarúmsins.
Þar eru skórnir hans,
hans sem aldrei sleit sólum þeirra. Ég fæ stundum að láta þá standa í lófa mínum. Kannski fæðist bráðum nýtt barn til að fara í þau föt sem þarna liggja. Feiminn horfi ég á móður mína festa nýja vindinga í gömul kot.
] [ Nú er barnið sofnað og brosir í draumi, kreppir litla fingur um leikfangið sitt. Fullorðinn vaki hjá vöggu um óttu, hljóður og spurull hugsa ég mitt. Það glepur ekki svefninn er gull sitt barnið missir úr hendinni smáu og heyrir það ei. Þannig verður hinsta þögnin einhverntíma. Ég losa kreppta fingur um lífið mitt og dey. ] [ Stillt vakir ljósið í stjakans hvítu hönd, milt og hljótt fer sól yfir myrkvuð lönd. Ei með orðaflaumi mun eyðast heimsins nauð. Kyrrt og rótt í jörðu vex korn í brauð. ] [ Hve undur hægt vaggast bátur þinn við landsteina eigin bernsku. Í mjúkum silkispegli, bak við langa ævi, horfist þú í augu við litla telpu, slegið hár hverfist í leik smárra fiska, í sólskini fljúga þeir á gullnum vængjum inn í laufgrænan skóg. ] [ ?Sjá, ferðamaður, sigurmerki vort, og sjá hve fagurt það við himin ber. - Til heiðurs föllnum hetjum reist það er.? Og hækjumaður horfði í augu mér. ?Vill herann láta bursta sína skó?? Og upp úr poka öskju og bursta dró. Úr hægra auga hljóðu bliki sló, en hitt var gler. ?Ég barðist líka í lýðveldisins her, en lítil hetja samt ég talinn er. - Ég féll - en hjarði þó - og því er ver.? Og hækjumaður horfði í augu mér. ?Vill herrann láta bursta sína skó?? ] [ Þegar ég skúra í Gucci Og það verða hestar á tunglinu Það er framtíðin Pleimó Pleimópleimópleimópleimó En það er Fortíðin Nútíðin Framtíðin Pleimómenn í hvítum sokkabuxum Alvöru karlmenn í sokkum Brjótum jólakúlur og fylkjum liði Pleimómenn!!! ] [ Gulir sokkar Djöfullegar tölvur með vígtennur Gulir sokkar hlaupa undan tölvunum Frelsum heiminn! Frelsum heiminn! Tölum dönsku á sunnudögum Og lifum í því sem er en ekki í því sem var Við öðlumst frelsi að lokum Pleimó Pleimó Pleimó ] [ G eðsleg E lskuleg L júf D reymin O rðvör F ögur ] [ Litlir ullarsokkar sitja í berjamó Litli ullarsokkur, það er verið að skemma landið! Mótmælum Kárahnjúkavirkjun! Stöndum saman, Ullarsokkar og Menn Göngum fylktu liði til sigurs ] [ Ég veit ekki hvort við hittumst aftur Því þú ert svo feiminn og ég svo pirruð Því þú ert eitthvað svo latur og ég er eitthvað svo æst Og við fílum hvorugt dans Undarlegt að við skyldum byrja að dansa ] [ Kallið er komið, komin er nú stundin, vinaskilnaðar viðkvæm stund. Vinirnir kveðja vininn sinn látna, er sefur hér hinn síðsta blund. Margs er að minnast, margt er hér að þakka. Guði sé lof fyrir liðna tíð. Margs er að minnast, margs er að sakna. Guð þerri tregatárin stríð. Far þú í friði, friður Guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt. Gekkst þú með Guði, Guð þér nú fylgi, hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt. Grátnir til grafar göngum vér nú héðan, fylgjum þér, vinur. Far vel á braut. Guð oss það gefi, glaðir vér megum þér síðar fylgja' í friðarskaut. ] [ Þó missi ég heyrn og mál og róm og máttinn ég þverra finni, þá sofna ég hinzt við dauðadóm, ó, Drottinn, gef sálu minni að vakna við söngsins helga hljóm í himneskri kirkju þinni. ] [ Allt eins og blómstrið eina upp vex á sléttri grund fagurt með frjóvgun hreina fyrst um dags morgunstund, á snöggu augabragði af skorið verður fljótt, lit og blöð niður lagði, - líf mannlegt endar skjótt. Ég lifi' í Jesú nafni, í Jesú nafni' eg dey, þó heilsa' og líf mér hafni, hræðist ég dauðann ei. Dauði, ég óttast eigi afl þitt né valdið gilt, í Kristí krafti' eg segi: Kom þú sæll, þá þú vilt. ] [ Í huga mér, þeir eru silkilagðir stígarnir, þar sem hún gengur. ] [ Myndin þín á baksíðunni Forvitnileg Þú brosandi Myndin þín á baksíðunni Svarthvít Sé ekki lit augnanna Myndin þín á baksíðunni Ópersónuleg Uppstill Mér líkar betur við þig þar sem ég get ekki séð þig Í tóminu er engin baksíða því tómið hefur aðeins eina vídd Þar ertu hlýr heillandi einlægur En þegar ég fletti blaðsíðunum finn ég þig þar inni Og þegar ég kíki aftur á baksíðuna ertu kominn í lit ] [ Eitt var það er þú kenndir mér og það var þessi gullna regla. ,,Það er svo gott gjafir að gefa miklu betra en þær að þiggja\" Hún var þín gjöf til mín. Er við kynntumst hér um árið. Vilt þú vina mín þó ekki í þetta eina skipti breyta? og nú þiggja frá mér mínar gjafir til þín? ] [ Hann er hávaxinn hnokkinn sem ég hugsa til herðabreiður og hugulsamur Dálítið dulur drengurinn sem mig dreymir um djarfur samt og drífandi Passar hann mér vel pilturinn sem ég pæli í pottþéttur og pínu á taugum Ég er snót stelpa, stúlka Stjörnur í stórum augum ] [ Hér er sögu að segja en hvar ætti ég nú að byrja? En ætti ég að spyrja? því ég veit ekki alla söguna. Um undravert dýr er að ræða, já, þannig má nú orða það. Það mjámar eins og læða, en það fer oft í bað. Það klæðist eins og maður, en hundaskott er með. Og heyrist stundum blaður, enn heyrist það sem séð. Einu sinni fór það í skóla, en allir hræddust það og sögðu úff, því á andlitinu var ljót bóla, en það sagði, ég er MARAKÚFF !!! ] [ Þótt form þín hjúpi graflín, granna mynd, og geymi þögul moldin augun blá hvar skáldið forðum fegurð himins sá, ? ó fjarra stjörnublik, ó tæra lind ? og eins þótt fölni úngar varir þær sem eitt sinn þíddu kalinn hlekkjamann, þær hendur stirðni er ljúfar leystu hann og lyki dauðans greip um báðar tvær, það sakar ei minn saung, því minning þín í sálu minni eilíft líf sér bjó af yndisþokka, ást og mildri ró, einsog þú komst í fyrsta sinn til mín; einsog þú hvarfst í tign sem mál ei tér, með tár á hvarmi í hinsta sinn frá mér. ] [ í litlu þorpi hanga lánsföt af Elvis í stofuglugga parið sem ber inn úr bílnum hlær í nóttinni í litlu þorpi skína stjörnur og norðurljós í portinu bak við frystihúsið læðist minkur neðan gilsins er einskismannsland fleinn í hjarta bæjarins þar standa auð hús bifreiðastöður bannaðar á bryggjunni svo jeppar mala í lausagangi meðan skroppið er í heimsókn um borð í litlu þorpi lokar barinn klukkan níu eða hvenær sem hentar börnin rata ein heim í myrkrinu sem glóir af sjónvörpum í fjörukambinum hímir rislágt hús með saltbarða veggi hér búa draugar ] [ Í rjúkandi ráði rak ég mig úr einu orði í annað og strauk mér á kinn á engjum uppsprettunnar átti drauma sem dreymdu hugsanir sem geymdu hugmyndir af ósögðum orðum tilfinningu fyrir frelsi í laufguðum trjáskógum trítlaði á tám tætlur af sálarbrotum ljóðanna og niður árnar runnu orðin full af þrá um að einhver gripi þau að einhver kæmi þeim á land að einhver þurrkaði þeim, ljúft í yli trjáhúsanna það voru blaut orð sem báðu mig um líf, blaðsíður um frelsi ] [
Atlantshafið ég einatt fór
einsog að drekka vatn.
Einn ég sat bakvið aðra menn
in the smoking room.
Og einginn tók eftir mér.
Það tala allir um eitthvað stórt,
- allir nema ég.
Hér reykir í hljóði saklaus sál
sígarettuna smáu.
Mjóg er ég hrifinn meyjunum af.
Manikjúr, pedikjúr.
Börnin smáu blikka mig,
blessuð verið þið kjur.
Ósköp leiðist mér ykkar grenj
ýmist í moll eða dúr.
Vanur er ég að vagga á sjó,
vanur er ég á sjó.
Í útlandshöfum uni eg mér
við annarra þjóða fólk.
Laungum tignaði eg mannsins mynd
meira en guð föður almáttugan skapara himins og jarðar og hans einkason jesúkrist vorn drottin ásamt heilögum anda.
I'm the happiest Charleston man on board.
Mannabörn eru merkileg,
mikið fæðast þau smá.
Þau verða leið á lestri í bók,
en lángar að sofa hjá,
og vaxa óðum og fara í ferð
full af söknuði og þrá.
Við fótatak þeirra fagna ég,
þá finn ég hjarta mitt slá.
] [ Lífið er andartak fullt af óandukt sem markar komandi kynslóðir en er mótað af fyrri kynslóðum. Lífið er aukaatriði en ég er aðalpersónan. ] [ Ein ákvörðun margir möguleikar óteljandi afleiðingar endalaus vandræði Bíða með að ákveða? ] [ Nú köldið kveður, veifar og gengur burt frá mér. Svikul skýin hopa, og sólargeislar snúa sér að þér. Engill regnsins vekur upp liðnar aldir á meðann svefninn reifar fleirri drauma inn í myrkrið. Rödd úr tóminu spyr mig og svarar. Viltu koma með mér, og opna vonarinnar hlið. Viltu sitja mér hjá, er óskir okkar lifna við. ] [ Þú varst alltaf eins og garnagaulið í rafmagnslínunum. Fæ ég ennþá þetta hálfa volt eða er strengurinn búinn að slitna einhvers staðar á leiðinni? ] [ Ligg eins og falsaður aðgöngumiði sem var ekki hægt að nota. Notaði ostskera til að flétta af mér sektina -sem var aldrei mín. Lofaði mér góðum degi sem varð að litlum svörtum punkti. Vitkaðist og sá að ég var aldrei neitt annað nema óhreint handklæði í þínum augum. ] [ Í sál minni geysti stríð nú er þar friður og elska hans fríð. Ég stefndi í uppgjöf hann er mín lífgjöf. Í sál minni var hart hatur í stað þess kom hans kærleikur. Þar var reiði bál nú er fyrirgefning í minni sál. Ég var af sorg að bugast nú mér hefur gleði auðnast. Hann mig úr fjötrum leysti ég honum að fullu treysti. Ég var full af vonleysi hann gaf sál minni frelsi. Ég lifði í stöðugum ótta hann hefur stöðvað minn flótta. Nú á ég vörn gegn áhyggjum og streði ég á frið og sanna gleði. Þá er áhyggjur mig buga hann hreinsar til í mínum huga hjálpina hann alltaf hefur hvíld frá heimsins stressi hann gefur. Nú ég óttast ei neitt því fær ekkert breytt. Þú spyrð hver hann sé þetta sama hann vill þér láta í té. Nafn hans eilífðarfaðir, undraráðgjafi og friðarhöfðingi er það sama og mér hann einnig býður þér. Hann ríkir á himnum og í heimi hér hann einn, sannur vinur er. ] [ Nóttin er skollin á og hendur vindsins dynjar á rúðunni. Ég er hrædd og mér er kalt en þú ert hjá mér. Það logar lítið ljós og hræðslan flýr frá björtum loga þess. Vindurinn þreytist og hverfur smátt og smátt. Allt er hjlótt. En mér líður vel því þú ert hér með mér. ] [ Stóðum í sturtunni, -þangað til ég fór niður á þig. Það sást í tennurnar á þér á meðan ég spilaði á dauðann á litla hljóðfærið þitt. ] [ Litla stelpan leikur sér, lipur á fæti sínum. Barnið var að bera þér, Boð í fjórum línum. ] [ Flýgur lóan hátt og lágt, um lund í skógi grænum. Flögrar stundum frekar hátt, Föst í himin blænum. ] [ Hún opnast Þú kemur Hún lokast Hún spyr Þú svarar Hún brosir Hún svarar Þú spyrð Hún hlær Hún brosir Þú hlærð Hún neitar Hún opnast Þú ferð Hún lokast ] [ Hér ég sit ein, enda allt svo hljótt. Engin mér gerir mein, megi ég sofna skjótt ] [ Kerfisbundin niðurröskun og trúin á betri heima gerði mig að sorglegri lús. ] [ Á bak við mig er voðaveröld vargar margir og illur þefur. Farir þú þangað þú ei aftur kemur. Æ, er ekki skaðinn hvort sem er skeður? ] [ Hve mannlega tómt tómlega mannlegt Uppfylling lífs fylling í jaxl sársauki í rót rótarsár Tómlega sárt sárlega tómt Að vakna fylla uppí hreinsa rykug horn viðra sængurföt á köldu vori Vorið komið Að ganga frá tíminn líði Hve mannlega tómt tómlega mannlegt Að líða... tíminn að líða degi nær nær þeim degi Degi sem fyllir upp í bera rót Rót sásaukans Hið kalda vor Að viðra sæng sína kodda Leggjast í myrkrið Lyktin minnir á ferskan vind Draumurinn tekur við af vöku Uppfylling ] [ Vil skapa til að geta afborið Kaktusar stinga forlagablóm fagurt jasmínan ilmar mímósan hörfar Vil mála mig frá spurningu þar sem ei fæst svar skrifa mig frá tilgangsleysi  - eigin tilgangsleysi - skúra burt stífni hugans hlusta eftir músahljóði tísti í fugli kul við opinn glugga Í huga komandi jarðskjálfti hvort hann er liðinn eða ókominn Að skapa afbera vera Er það ekki bara í lagi? ] [ Að finna ekki tilgang finna ei farveg Duga eigi Að vilja finna tilgang farveg duga Um það snýst málið mál kraftsins orka sálarinnar gleði ástarinnar Finna straum renna farveginn lækjarspræna straumþung á samræmið Samræmið Mjakast fram og duga ] [ Herra guð í himnasal, haltu mér við trúna. Kvíði eg fyrir Kaldadal, kvölda tekur núna. ] [
Litla lausholda mellan á langa kaktusbarnum í New Orleans tók mig varlega tali við þreytulegt barborðið. Yfir sveif uppblásin flaska af léttum Bud. Þegar nokkuð var liðið á slitrukennt samtalið kom í ljós að hún var íslensk, ofanúr Kjós. Býst við að brúnir haf lyfst en fór að tala um ættir. Einsog það hæfði stundu og stað. Ekki kvaðst hún vera af Knudsætt og varla af Bergsætt og því síður ættuð af Ströndum í norðri eins og ég en pabbi sinn ynni hjá Bræðrunum Ormsson. Hún var undarlega stuttklippt með hárið gult og flugsflúr á þéttum hálsi. Sagðist hafa farið utan í kvikmyndanám en söðlað um. Ég kvaddi hana með þeim orðum að alltaf væri gaman að hitta Íslendinga erlendis. Hún hélt það. Og blikkaði auga. Yfir sveif flaska af léttum Bud.
] [ Tíminn er afstæður. Og það er hugsanlegt að sá sem horfir tilbaka sé að horfa fram á við. Og sá sem horfir fram á við sé að líta tilbaka. Það eina sem segir til um það sem var og það sem mun verða er núið. Það sem gerist hér og nú skiptir öllu máli. Lifðu því vel hér og nú og þær fortíð og framtíð munu vera þér góðar. ] [ hjartað slær langt inn\'í mér ekki grær sárið frá þér líkt og tómur dalur fullur af sorg gustur svalur feykir mér burt frá þér ] [ Mér líður svo óskup vel vera nálægt þér heimurinn snýst kringum okkur tvö ein Sérðu hve við erum sköpuð fyrir eitt armarnir halda okkur svo fast að sér Ef þú vilt opna ég leyndarmál geymsins skrifa nafn í stjörnurnar Náttúran skapaði svo fallegan heim okkar verk er að boða ást ] [ Dúnmjúkur skýjahnoðri efst uppi í himingeimnum svífur um á vængjum breiðum Þvílíkur glæsileiki og dýrð ósigrandi mætir örlögum sínum. Of nærri hlýjum lífgjafa sínum fer hrapar til veruleika síns fósturjarðar hörð lendingin úr slíkri sæluvímu er og of oft niður lengra hann fer sígur niður í djúpið dimma. En að lokum hann til hinna skolast að taka þátt í lífinum þeim með þangað til að hin næsta upp með hann fer. ] [ Kanski var það hann, sem var að leita og fann. Þetta sem hann kann, gerir hann með sann. ] [ Ég er unginn í egginu óútsprungið blóm Það tímabil sem brátt mun hefjast og breyta mér slær mig óttanum í augun.. Kvalir Spenna Hræðsla Þær tilfinningar sem ég finn veit ég innst inni að til eru komnar af ótta við breytingar. Þó ég viti að breytingarnar geri mig sterkari og færari seinna meir til að takas á við: vandamál gleði sorg ástina.. Ég bíð eftir að klekjast út Ég bíð eftir að springa út Ég er loksins að verða að manni. ] [ Þegar ég þarfnast mest að láta halda um mig að fá þegar ég hef ekkert að gefa þá kemurðu til mín lætur mig halda um þig tekur og lætur mig ekkert hafa ] [ Þriðjudagsmorgun og í skólanum er, en hugur minn allur hann er hjá þér. Þú skildir mig eftir, nú er ég alein, þvílíkt pein, sorgarvein, eitt risastórt mein. Af hverju að fara hví viltu mig ei? Lítið grey? Sey sey nei. Ég er stór ég mun kópa, ég mun meika það feitt, seinna meir. Samt mér þykir það leitt að sjá brosið þitt breitt. Er þú brosir til mín... Þá hleyp ég til þín ? Þá hleyp ég til þín En svona er lífið, ég get ekkert gert. Skil ekki hvernig ég hjarta þitt fæ snert. Ég veina og veina en ?what?s done is done? Til einskis ar reyna er það sem ég meina. Augun þín skæru ég man eftir þeim. Það var sem þau væru úr allt öðrum heim.Ó, hve andlit þitt skín er þú horfir til mín... þá hleyp ég til þín ? Þá hleyp ég til þín. Ég vil ekki þurfa að sakna þín, en allt minnir mig á þig. Ég hreint verð bara að fá þig. Ég vökna um augun og tárin streyma. Ég vil? mig væri enn að dreyma. Þá indælu drauma er við áttum saman. Mannstu ekki? Þá var svo gaman. Göngulag þitt svo fokkin? nett. Er þú gengur frá mér... Ég hleyp eftir þér ? Ég hleyp eftir þér. En nú mun það breytast, ég er farin að þreytast á að hlaupa á eftir þér. Ég eltist við draum sem aldrei mun rætast, yfir engu að kætast. Þetter ömurlegt líf, en þó þú færir mér hníf ég fer ekki að enda það! Ég er sterk enginn aumingi! Nú er komið að þér. Er þú hleypur að mér... Ég geng burt frá þér ? Ég geng burt frá þér. ] [ Í kyrrð nætur skríð ég upp á fætur í leit að þér þar sem ég týndi mér öllu er gleymt og þó - samt er allt geymt mér í hjarta tómi mínu svarta ] [ Get ekki gleymt þessu. Því miður; það er eins og að klippa á tvö segulstál. Það er bara. -Er. Því miður. ] [ Lofa mér góðrar setu, lygni aftur augunum. -Líð undir lok, ferðast neðanjarðar. Opna augun. Fæturnir orðnir að rótum, hausinn blómstrar. Opna hausinn og það rignir út úr mér óskynsemi. ] [ Upplit í himininn leitast eftir bjarmanum sem fellur á húð mína þegar flygildið sem flytur þig yfir hafið flýgur yfir mig og gerir söknuð minn að veruleika ] [ Lokaðu augunum og sjáðu heiminn. Því hann er horfinn en ennþá til líttu tilbaka og sjáðu framtíð þess heims sem er lygi og var aldrei til. Lífið og dauðinn eru hvorugt þar því enginn getur dáið án þess að nokkurn tíma lifað og lifað einn og sér án dauðans og gráta hjörtu því þau eru ekki til og biðja til guðsins sem er ekki sjálfur en hlustar því hann veit það ekki ] [ Út með þennan kall hann hefur ekkert til að bera hann lætur eins og lítið barn hvað hefur þú með það að gera þér sko vantar einmann svo stattu upp, segðu hátt út skaltu hér með fara losnar þú þá við hann komdu með þann nýja bjóddu honum á ball ] [ Leiðin er löng líf þitt er stutt Hjarta er sárt þú ert köld Tár rennur eins og á Þér langar að segja farðu frá En orð geta ekki komið þér frá Þú fellur í fang svo sár Og gefur þér ekki þá kosti Að finna, sem þú þráir heitt Lokar allt bitur þú ert orðin, reið Gleymdu ei að biðja um innri frið Enginn getur bjargað þínum tárum Nema þú segir þeim þitt hjartans mál Að treysta þeim er kærleiksvert biðja Guð að blessa leið þína um leið hann einn veit þá bestu leið svo gefðu þér tíma finndu á ný því hamingja er sem við leitum í svo góður kostur að gera það ein vertu viss þú ert ekki og aldrei of sein ástin er rétt hjá á réttum stað nær þér svo haltu þig á jörðinni þú finnur leið fljótfærni þá vinnst ekki neitt ég veit þú finnur þessa einu réttu leið ] [ Ljóð lífsins var eins og mitt hjarta Hvernig er best að get tjáð sig Orðin þau koma bara og fara Eftir situr þetta fallega góða ljóð Og oftast er ljóð um ást, framtíð bjarta Sem felur sig bakvið leyndó orð ljóssins Engin skilur þau eins vel og við sá sem setur þetta hugur fór á þetta blað Þá hugsar maður um það gæti betur Hvað lífið er einskis virði ef ekki er hægt gera ljóð Svo hjarta mitt segði mér ljóð er hið besta mannsmál Því þakka ég fyrir þetta set það bara á blað ] [ Kellur allar koma samman, kaupa allt sitt og hvað. Körfur fylla kátar gaman, kæla VISA og fara í bað. ] [ Skýin : rekaviður. Á endalausu flakki um fimmtíu metra laugina: Dagdreymi eins og tuttugu og sjö blaðsíðna tímarit. Hrekk upp eins og gamlingi. Horfi á mig eins og blóðnasir. Skrítnar blóðnasir. ] [ I enn að auka hraðann þetta kvöld bjarmi appelsínuleitra ljósa rétt að baki - alltaf jafn fjarlæg hugsunin um einbreiða brúna á blindhæðinni - tíminn hunang er mórauð skella birtist í öndverðum enda lágrar keilunnar heyri varla öskrið við eyra mér meðan barðarnir svörtu bráðna ofan í bikið (-hvað í veginum alltaf eitthvað í veginum allt-) dynkirnir undir mér staðfesta síðustu brúarferð skepnunnar - - - kjökrið við hlið mér ámátlegt vælið í gilinu mun þagna um síðir - haustlyktin hverfa með hnúkaþeynum - en rákirnar svörtu við brúna verða þar enn í dögun ] [ Þegar lokin tvö niður falla ljósið hverfur á braut ein veran í heimi sínum er í eitt andartak. Þar til birtast salir nýrrar hallar sem létta af henni hverri þraut og gleði sem og ótti til verður hér í eitt andartak. Þar til allt þetta hverfur samt bara í eitt andartak. ] [ Langar svo til að finna það aftur með vörunum og hvísla því að þér með andardrætti mínum. ] [ Er sofandi. Vakandi. En langar að sofna aftur. Er það kannski að ég hef gengið á orðin sem brjóta á mér? ] [ Kvöldið var eins og lifandi gröf. Stundum náði ég ánægjustigum tilverunnar en inn á milli skrapaði ég botninn. ] [ Venjulega er ég ekki hér. Ég vil ekki syngja en geri það samt. Ég geri ekkert annað. Spinna, sauma, vefa... Ég vildi aldrei læra að prjóna. Vaknar veröldin af værum svefni, vaknar hún til að sofna aftur? Lifum við lífinu til að sofa í gegnum það? Stundum erum við svo blind. Eru martraðir til að vekja okkur, eða er lífið sjálft kannski martröð? ] [ Sleep isn\'t what we think. It\'s not rest into which we sink. Instead it\'s reality in a way where the small people have a say, where that baby didn\'t die, where that small girl didn\'t cry, where his son didn\'t fail, where her husband didn\'t go to jail, where Jesus was black, where he actually did get her in the sack. Sleep is reality where dreams come true, everyone can make it through. Yes, even you. ] [ bæði haf og heimsálfa okkur skilja að. ég horfi samt í austurátt, dreymi um þinn stað. þar stendur þú við glugga ein, böðuð bjartri sól berast hlýjar vindkveðjur, þér færa frá mér hól. rjóða kinn og varirnar, kyssir gegnum gler kára önd og fýkur burt -en ekki langt hún fer. dökkbrúnt hárið hrærist til, augu opnast blá og horfa lengst í vesturátt, kannski mig þau sjá? þá veistu að borinn á andarbaki flaug hugur minn til þín. til að dansa ósýnilegur á andlitinu, leika flissandi við hárið, og blíðlega -opna augun. ] [ mér sýndist vera sátt, samt lékstu mig svo grátt. mér hentir frá í haust og hjartað í mér braust. skein þá sól í gegnum ský er skyndilega komstu á ný hamlaust kysstumst við svo heitt að hurfum bæði tvö í eitt. en eftir það... ég heyrði frá þér ekki neitt. ] [ Tregasálma tölvur syngja. Skjárinn áhöfn skarpur huggar. Sex menn stýra, sorgir bera, kistu úr stáli. króm og hvítt. Hrapar máttlaus himni ofan. Björgun fjarri er bálför hafin. ] [ Enn reyna langeygir vitgrannir ljósastaurar að sigrast á sortanum. Neonskiltin blikka litla varnarsigra. En samt drukkna húsveggir í hyldjúpum skuggum. Einmana gul risaeðla skríður sjóndöpur milli stoppistöðva í leit að mannfórnum. Næturhiminninn grætur myrkri og tárin flæða gegnum hávaðann ofan í glös borgarbarna sem teyga með bestu lyst til að halda upp á góðu tíðindin: ,,Það er enginn dagur á morgun!'' ] [ Gangi mér vel að ganga sem minnst, svo gangi ég hreint ekki af göflum. Á puttanum hef ég oft skít-kaldur kynnst kappsömum náttúruöflum. Og auðvitað alltaf helst vildi það vera annarra skylda að stöðva. Og áfram mér aka á áfangastað í ylnum þá hvíli ég vöðva. En raunin er önnur, og reyndar sú að rætist seint minn draumur. þá hugsa ég upphátt, alveg eins og nú: ,,Helvíti er náunginn aumur\". En fer alltaf ferðin á sama veg og fingurinn heim skilar sínum. Á endanum örþreyttur loksins er ég hjá áfangastaðnum mínum. ] [ Gránar úti veröld grimm grjót og mold trékistu hylja. Veinar nóttin, dökk og dimm. Dauðann er þungt að skilja. Fjarlæg er minning í móðu ég missi nær alla von. En vill einhver væluskjóðu uppvaxna fyrir son? Ég huldi hryggðartárin svo hugrakkur ég sýndist. Innst inni grét öll árin eftir að pabbi týndist. ] [ Hann setti upp sjóndeildarhring -á miðbaugsfingur. Hún setti upp sólarhring -á vísifingur. Allir stóðu á öndinni meðan dimmblár Himinn kyssti hvítklædda Jörð svo djúpum kossi að hún bráðnaði næstum því. Í veislunni varð Tunglið fullt og Sólin grét. Stjörnum prýdd dönsuðu Himinn og Jörð langt fram á Nótt. Þau voru sköpuð fyrir hvort annað. ] [ Leik mér létt að endarími. Línur nokkrar saman lími Stöku sinnum höfuðstaf set og stuðla kvæðið ef ég það get. Verða úr því vonlaus kvæði. Væri betra að gleyma bæði bragarhátt og boðorðunum og sleppa málinu lausu leyfa orðunum að eignast saman setningar. ] [ Mitt á milli aftur upp ég dett niður, þú ferð burt. Að sjá alla hræðsluna! Meiddir þú þig? Langar þig í það sama og mig? ] [ Líkt og blikið við bjarmann ég bundinn þér er, straumarnir stingast í storð. En að lokum ég veit að burt héðan ég fer, breyti hugsunum mínum í orð ] [ Sólargeisli þýtur hratt um loftið reynir sálum sem flestum að hlýja en fer ljósinum stundum fram úr og ylinum ei kemur til skila birtan þó alltaf til staðar er í örskotsstund. Á eftir geislanum sál ein kemur hefur gott eitt í hyggju þeytist geislanum á eftir með poka í hendi. En það má ekki lífgjafann fanga. En það má reyna. ] [ Inn í hringiðu heimsins starir þorir ei að stökkva finnst hann samt vera að falla Eftir harðri lendingu bíður starir botninn á, líkt og fyrr og í sárin gömul svíður Úr ímyndun sinni hrifinn og draumi hans slökkt á af annarri rödd er í svefni sínum segir: ,,...ekki taka allt svona alvarlega, þetta verður allt í lagi...\" Ímyndaða ógn sína þarf að byggja upp á nýtt, enn einu sinni. ] [ Úti - með goluna í hárinu gróft faxið strýkur hendur mínar og hófadynur glymur mér í eyrum áhyggjulaus finn ég frið ] [ Góður strákur Gull af manni Bráðgáfaður maður Hefur alla þá burði sem þarf Falleg orð og hughreystandi Frá dísunum mínum þremur En samt er ég ennþá einn þori ekki að reyna sit því alltaf einn Í myrkri einsemdarinnar Samt svo einfalt að reyna En á leiðinni er klettur sem þarf að klífa Og það sem meira er það þarf líka að stökkva fram af hinumegin við hann Of oft hef ég klifið þann klett Tekist á við það ógnarbjarg til þess eins að horfa fram af hinumegin og uppgötva það að ég er lofthræddur Núna sit ég því einn á toppi tindsins og sé yfir allt og alla leika sér og gera allt saman. ] [ Augun hverfa undan augum þínum, vegna þess að heimurinn minn kramdist og hann átti erfitt með að vakna á ný. Á ég að opna augun, bara fyrir þig? ] [ Vasaljósin í hausnum glóa út á við. Geng hægt upp -skil allt eftir í kjallaranum. (15 mín seinna). Ég, sem horfi á litrófið þyrlast um á veggnum og vin minn naga símann sinn, hlýt að vanta eitthvað? Annars væri ég ekki hérna. ] [ Það eru ekki til fyrirmyndaforeldrar, þó þeir hugsi um okkar tennur og bein þó þeir klæði okkur vel hér og þar og þó þeir hugsi um okkur hrein. Þau eru alldrei fullkominn, líka af því þeir troða okkur út af mat. Mamman þeitist um en svefnpúki er pabbinn og borðar á sig gat ! Við förum í skólann, og sitjum í tíma og gleymum þeim við skrópum, tökum gsm og líum á kóðann þau hugsa blítt til okkar en við: þau eru leim ! ] [ ég sé gamlan mann í hrörlegu koti í afskekktum dal, einmana og gleymdur ásóttur af draugum fortíðar það voru grá fiðrildi sem flögruðu um í höfði hans og þau tóku hann á loft með sér og þá flaug hann um í alsælu sinnar eigin sjálfselsku en ávallt féll hann til jarðar aftur og í hvert sinn varð fallið harðara og loks þau skildu hann eftir í dal einum þar sem hann hrörnaði og dó aftur og aftur og aftur ] [ Staðreynd: bóka mér far með framtíðinni. Staðreynd: sofna á verðinum. Staðreynd: allt búið. ] [ EnglarNir fljúga uM á skærrauðri stjörNuNNi þeir brosa. AlheiMuriNN þýtur fraMhjá, eN gullið hárið sveiflast aftur. Í hiMiNgeiMiNN. StjörNuþokaN Nálgast húN keMur æðir fraMhjá líkt og vatNsdropiNN. StjörNuryki er slegið í augu Mér ég bliNdast. dey Verð loksiNs eiN af þeiM. BrosaNdi Með gullið hár ] [ Hann í gullroðnri birtunni telur stjörnurnar alheimsvandamálið er ég og hann. Allar hans vonir og þrár verða að raunveruleika en um leið mínar vonir og þrár að sýndarveruleika. ] [ Svo óendanlega stórt, ógnandi. Það tekur á móti mér blátt, grænt, grátt. Með opna arma sína. Vill fá mig ég neita. Vil ekki. Mun aldrei ganga til liðs við þig en æðri máttarvöld hafa áhrif. Hann segir mér að fara. Fara með Honum inn í eilífðina. Lofar bót og betrun. Get ei sagt nei. Læt undan þrýstingi. Hafið ] [ Veldu hamingja til að verða hamingjusaur veldu breyta til að breyta þér veldu reiði til að reiðast mér Veldu eyða EF ÞÚ ERT LEIÐUR Á ÞESSU TILGANGSLAUSA LÍFI ! ] [ Mig dreymir oft allt of oft Mig dreymir gott líka vont Mig dreymir ást stundum hatur Mig dreymir gróða líka glötun Mig dreymir hann stundum hana Mig dreymir þig og mig ] [ Sólin lítur dagsins ljós, horfir upp á sig sjálfa. Svo undurfögur, hún fær mitt hrós, svo falleg að hún fær mig til að skjálfa. En seinna um tíma, hún sér sig ei meir, svífa um himinsins völl. Því einhvern tímann allt lifandi deyr, en gerum við það ekki öll? ] [ Hittumst, kyssumst, afklæðumst og sjáum svo. ] [ kolsvart fljót af malbiki endurspeglar djúpan næturhimininn. skreytt með ótal leiftrandi ljósum sem æða á móti mér í stanslausu stjörnuhrapi klukkutímum saman. ég sigli í þögn. tómur maður í tómum bíl. ] [ ég ei hugsað get, um land mitt og þjóð. Mjög lítið set, minni enn ljóð. Landið mun drukkna, hví gerir enginn neitt. Mörgum muna vökkna, því það elskaði það heitt. Allt mun þá breytast, fólk mun flytja. Þó landið muni skreytast, en fólk mun bara sitja, og bíða þessa dags. ] [ Þú varst sól lífs minns, hjarta líkama minns, ástæða hamingju minnar. Samheitið við ást en andstæðan við hatur. En svo breytist allt, hvítt varð svart og svart varð enn þá svartara. Allt varð dimmt. Þú ert martröð drauma minna, tár sorgar minnar, verkir sálar minnar. Andstæðan við ást en samheitið við hatur. ] [ Vakna og reyni að ganga í röðina því brotna púslið bankar aftur. Allt væri betra, ef við værum ekki svona bensínlaus. Sofna og neita að ganga í röðina. ] [ Egóistar bestir,flestir, brosa breytt í spegilinn. En spegilmyndir flökta og ef við horfum dýpra inn, brak og brestir. Sundurskornar sálir hökta. ] [ þarna er það þetta æðislega þarna er það þetta hræðilega þarna er það þetta sem ég einn sé þarna er það þetta óskiljanlega ] [ Ég er rétt vaknaður fer að klæða mig á meðan hugsa ég um þig ! ég geri það alla daga eins þetta væri saga, og dagurinn heldur áfram á meðan ég hugsa um þig ! geng í skólann með úthangandi drjólan klóra mér þar og reyndar allstaðar heng yfir borðinu held ekki orðinu uppí kjaftinum á mér \"fokk hvað mig klæjar í punginn það mætti halda að hann væri sprunginn\" fer heim að gera ekki neitt já það var nú leitt, seinna á kvöldin tekur hann völdin og segir mér að fara að sofa meðan ég reyni að leggjast flatur þá brýst út þessi mikli hatur, ég róa mig niður og þá kemst á mig friður á meðan ég hugsa um þig ! ] [ er þú hélst mér í fangi þínu fannst mér í fáránleika hugans allir heimsins vegir alltaf hafa legið til þín en ég átti eftir að uppgötva að örlögin stíga ekki dans í takt við lífsins dans, og um skeið flæktist ég um í rósarþyrnum þessa eina kvölds okkar þögn þín var óbærileg þangað til ég skyndilega sá að þú varst bara klofvega öngstræti sem ég villtist um í stutta stund takk samt fyrir þægilegheitin ] [ Víst hef ég gengið veginn um vonlausa nótt, hlustað á þögnina þjást og iðjagrænt engið kvíða kolbláum ljánum. Með hjartað fullt af falinni ást þegar andvarinnbar með séróttann frá gömlu trjánum. Nú skil ég fyrst hve skammt er til sólarlags þó skíni morgonroði á hæðstu tinda og ást sem brann svo óraóraheit var aðeins mánablinda. Ásjón. ] [ Vegi marga geta flestir tekið og mismunandi slóðir farið en fyrir suma aðeins ein leið til er og oft gegn vilja þeirra hún ákveðin er Mín slóð er líkt og fáfarinn fjallvegur. ] [ taldi orðin ekki áhættunnar virði þröngva þeim í hlekki þung er mér sú byrði þung eru ósögð yrði ] [ syndir iðrast sál sem hún fær aldrei bætt. bak við hjartað logar bál brunarúst sem fær ei blætt. fyrr en fæ ég þína sátt mér fyrirgefðu þessa nátt. ] [ eitt sinn stóð hér stjarna streymdi þá héðan ást. því mátti því miður ei varna er mátturinn hennar brást. eigin féll undan þunga orðin er niðdimmt hol. stálköld var sú stunga sem stakkstu í minn glóandi bol. ber ég nú svarthol í brjósti með byrði dreg andann inn. þrátt fyrir það, með þjósti þrái ég fjanda minn. ] [ Til þín er þessi jólakveðja til þess ort að ylja og gleðja. Í míns hugar smiðju samin, hituð í hjarta, með penna lamin fast á flatan pappírssteðja Loks er liðið enn eitt árið og líka hafið jólafárið. Í glys og glaum og jólaæði glæðist lítil von um næði. En öll við þurfum stundum smá frið. Því megið þið alls ekki gleyma því að jóla andann geyma. þó virðist sumra viðmót frosið hvergi á ykkur bifist brosið. leyfið heldur hlýju að streyma. Ég sendi ykkur öllum frið hverjum og einum að eigin sið ættingjum og öðrum vinum (án þess þó að gleyma hinum). Góðar gefi oss vættir grið. ] [ II verður ekki um sel þarna í farþegasætinu sé brynjaðan vígamann með brugðið sverð bera við rokkinn himin efst á hæðinni léttir er við nálgumst og hann ummyndast í hokinn ferðalang sem kvöldþreyttur leiðir drekkhlaðinn fák sinn upp brattasta hjallann skapi næst að bölva pollaleysinu er hann birtist slefandi í baksýnisspeglinum ] [ Þá er hann kominn með grýlukerti í skeggi og hríðarbagga á herðum. Þungstígur gengur hann um garð, hvassyrtur. Glaðbeittir stika Frosti og Snær í fótspor. Draga helslóða yfir auðnutefta menn á ögurstundum. Þolgóð bjóðum við hann velkominn með átveislum til árs og friðar. Ásjón. ] [ Í hringiðu tímans með hráslaga dauðans við hnakka og andvaraleysi æsku í fölnuðu grasi, berst hann á bleikum fák með brjóst við makka, bros á vör og heldur á óminnis glasi. Stormfölar bylgjur steypast að ystu skerjum, straumlúnar elfur hníga að fremstu ósum. Hvetur hann fák því kulið leitar á hnakka. Kleyfar andvaraleysi úr óminnis glasi. Ásjón. ] [ Ef ég gæti horft í spegil þinn svo mynd mín sæti eftir og birtist alltaf þegar þú speglar þig þá værum við eilíf ] [ Drýgðu aldrei smokklaus hór, drekktu ekki of mikinn bjór. Láttu vera að ljúga að hinum, lífsins njót með góðum vinum. Gráttu ekki glötuð færi girnast skaltu sérhvert læri. Takist þetta, ertu stór. ] [ Ég oft njósna um borgara, en ekki vita þeir um mig. Ef þeir sjá mig þeir bara fara, en sumir hugsa ekkert um sjálfa sig, og ekki gera annað enn öskra bara. þeir segja mig vera að hnísa, ekki kveikti ég í neinu, þó þetta land sé milli els og ísa. ] [ moldu drifinn faðirinn horfir á rauðan himininn bitur þurrkar tár á kinn ...skyldi hann koma aftur? ég vona að hann komi aftur... blóði drifinn sonurinn hæglát öndun - náhvít kinn grætur sárt í hinsta sinn ...skyldi hann hugsa til mín? ég vona að hann hugsi til mín... ... stríðið ávallt sorglegt er hetjusonur harður fer með sálu sinni land sitt ver ...þeir hittast að nýju á himnum þeir faðmast að nýju á himnum... ] [ Orð er eitthvað og ekkert er orð. Því er ekkert orðið eitthvað og ef ekkert er eitthvað, hlýtur eitthvað að vera ekkert. ] [ gráðugir bensarnir slást um eldvatnið sem verkamennirnir sjúga upp með rörum hú is búss? ] [ Í litlum lundi tveir álfar sér leika ljósið skín þeirra augum úr. En engu má hjá þeim skeika ella annar þeirra verður súr. ] [ Sjáið hvað ég sjálfur orti og sendi ykkur með jólakorti átta línu ágætt kvæði og erindin þykja stórgóð bæði. Ég vildi aðeins góðra jóla ykkur óska og á það stóla að gæfa og gleði ykkur blessi getur þá endað vísa þessi. ] [ Er verður öll mín veröld köld því veldur ársins ævikvöld. Með höfuðverki vonleysið vinnur af mér allan frið. Mál er þá að minnast jóla og mega í smástund gleyma skóla, Hreinsa úr huga liðnar tíðir sig herða undir næstu hríðir. Saman munum safnast þá sæl í jólaveislum. Kuldinn víkur, kveikt er á kærleikshitageislum. ] [ Undir hjúp af hvítu hjarni hátíð ríkir við Esjugrund. Litli bróðir, mamma og Bjarni bíða ársins tvö þúsund. Andartökin klukkan telur tíminn læðist með djúpri ró. Eilífð gömlu árin felur, öll þau hverfa undir snjó. Hugsa oft til ykkar heima horfi í norður yfir haf fjarri því að fari að gleyma fjölskyldu sem allt mér gaf. Hugsa enn til ykkar heima héðan stendur vindur hlýr. Gæti þess að aldrei gleyma: gamalt ár ei aftur snýr. Nýjum degi geng að djarfur duglega stunda hvert mitt fag. Gamla ársins gjöf og arfur er glænýtt ár sem hefst í dag. ] [ Spámenn spakir vita betur, spurðar voru völvurnar: Í klessu keyrast nú í vetur kjarnatólin, tölvurnar. Með hrikalegum heljarasa hrynur allt í heiminum. Slægur var ég, slapp til NASA og slaka á í geiminum. ] [ Finn ekki fyrir regninu slá andlitið og fossa niður. Ég finn ekki fyrir kuldanum bíta húðina og gefa mér skjálfta. Ég finn ekki fyrir rokinu lemja búkinn mér hrinda til og frá. Ég finn bara fyrir litlu tári --bruna niður, svölu augnliti --frysta beinin og einum andardrætti --sem bar orðin. ] [ Í frumskógi undir sænginni liggur mannæta á veiðum. Hungruð augun skína í stíl víð glaðbeittar tennur sem brjótast út gegnum blóðblautar varir. Hún sleikir kaldan svitann af heitri jörðinni meðan blóðið spýtist upp titrandi trén. Hún er aldrei södd, mannætan mín undir sænginni, --fangið fullt af kjöti. ] [ er einhver hérna inni? nei nú er ég bara ekki viss gái inn í skáp kalla: ,,er einhver hér sem vill koma út úr skápnum?\" enginn þar kíki með kertaljós á öskuna í arninum kalla: ,,er einhver hér sem vill koma úr öskunni í eldinn?\" enginn þar leita bakvið hurðina kalla: ,,er hér einhver frá mínum bæjardyrum séð?\" enginn þar leita í hársverði mínum kalla: ,,ef þið eruð þarna detti mér þá allar dauðar lýs úr höfði\" enginn þar gjugg í borg sagði brauðristin og ristaði horfnar sálir ] [ það var þessi saga sem ég heyrði þetta hljóðláta kvöld í japan sagan um japani og öll brostnu hjörtu drottningar dauðinn hafði brotið þau með hamri og þessi samvinnuþýði ísskápur vissi ekki að hann var japanskur hann hélt hann væri rússi sem litaði með tússi æskuminningar sínar í vitund mína ] [ Hrjúft nefhljóð Siggi böðlast áfram á traktornum með lúpulega ferðamenn í kerrunni Gargandi kokhljóð Siggi heldur áleiðis upp höfðann með göngustaf í hendi og ferðamennirnir fylgja eftir þungum sporum upp sandinn með tíbrá í huganum Skáskýtur sér eftir árangursríkt einelti við svartfugl skýtur skotum og dritar niður alla nema Sigga orðinn hluti af sandinum ] [ Frá unga aldri var hann í læri hjá föður sínum eða þeim sem gegst við honum ef rétt skal mæla Og hann mundaði spýturnar flísföstum fingrum og barði í þær hefilþungum hnefa en virtist ekki geta neglt nagla án þess að negla í lófann lét föðurinn reka smiðshöggin því hann var of dofinn í lófunum alls óviss um framtíðina ] [ Spegill spegill herm þú mér hver á landi fegurst er? Hver á landi megrust er? Spegill, kæri spegill, herm þú mér hver á landi barmastærst er? Vit og viska rennur út í sandinn Ó kæri spegill sýndu mér sannindin. Megrunarkúrar og tæknibrellur fyrirsætur á blöðum blaða krem, klæði og vísdómsmellur Ó kæri spegill, spegill hver er bestur? Spegill spegill herm þú mér hver á landi fegurst er? Spegill spegill herm þú mér hver á landi megrust er? Ó spegill, spegill herm þú mér af hverju nægi ég ekki eins og ég er? ] [ Sól þú sem gerir allt svo fagurt leyf mér að ganga í geislum þínum. Sól þú sem töfrar regnbogann fram úr tárum mínum. Sól sjáðu mig eitt lítið laufblað á lífsins tré. Sól þú sem lýsir inn í líf mitt leyf mér að hvíla í faðmi þínum. ] [ Amanda stendur á brúnni og starir ofan í svartan strauminn. Að baki bylting, blóð og eldur. Horfið allt sem hún elskar, hún sjálf dæmd til dauða. Ákveður að endurfæðast undir öðrum stjörnum. Amanda stendur á brúnni og straumurinn kallar hana til sín. Að baki líf, tár og sorgir. Horfin er æska hennar, hún sjálf að drukkna. Ákveður að lifna við löngu seinna. Amanda ferðast með fljótsins dökka straumi, gegnum tímann. Út á haf og aftur að landi. Með sér ber hún myrkrið. Myrkrið í sálu minni. ] [ Minningar um minningar löngu týndar tilfinningar skuggi af skugga mynd af mynd orð um orð sem aldrei voru sögð ] [ Í ringlandi Kringlu ég æði um svæðið kaupandi á hlaupum gortandi með korti ég ruglandi þrugla um heima og geima fæ bullandi drullu af þreytandi streitu ] [ Ljóð, ljóð lifnaðu við þú liggur í dvala í fylgsni þínu Ljóð, ljóð læðst þú fram þú liggur í leyni í hjarta mínu ] [ Haustið er komið í hundrað þúsund litum með heiðbláa daga, jarðneska dýrð. Laufin þau dansa svo léttstíg með vindum og landið er fagurt, hvar sem þú býrð. Aldrei getur hinn grimmi grái vetur, bætt um betur. ] [ Draumur, einmana við hafið... - atlantis líkt og sólin, sem skín í öllum regnbogans litum. Líkt og máninn, sem rís yfir þúsund blikandi stjörnum. Rís úr sæ ríki drauma minna, - atlantis. Einmana, draumur við hafið... ] [ Allt sem ekki fengið hef, ég gjarnan vildi öðlast. Fyrir það ég allt mitt gef, svo áfram geti böðlast. ] [ Það berst mér úr bláhorni hugans, bjagað og skortir allt rím. Samt ég læt ekki bugast, og úr verður ambaga fín. Svo leiða á leirinn á blað, en leiðin er bugðótt og ströng. Þegar penninn sem sjá á um það, hefur sungið sinn svana söng. Svo þegar á blaðinu birtist, bláritað lítið vers. Þá finnst mér sem að ég firtist, og flegi því út undir vegg. Já skelfing er skáldsins braut, skelfilegt alsherjar flóð. Ekki er auðveld sú þraut, að yrkja eitt lítið ljóð. ] [ Margir yrkja atómljóð, og einstaka sig telja. Þeir í opin sækja sjóð, sig alltof ódýrt selja. Ferskeytlan hún formföst er, fellur að mér dálaglega. Við limrur einnig líkar mér, en læðist að þeim varlega. Persónulegt mat mitt er, að misjaflega fólki gengur. Bundið málið binda sér, bara æfa sig því lengur. ] [ Veröldin hún virðist mér, voða orðin úr sér gengin. Níðst hefur á sjálfri sér, sloppið burt með illan fenginn. Upp úr iðrum sínum dælt, eitrinu sem hausinn kvelur. Hún aldrei hefur í því pælt, hversu ódýrt sig hún selur. Ef gaumgæf lega að er gáð, glöggt er hægt að finna. Hverjir þeim fræjum hafa sáð, sem hörðust meinin vinna. ] [ Ímynd næturinnar, ljómaði í augum mínum þegar ég leit í spegilinn í dag. Með úfið hárið og klórför á bakinu horfði ég undrandi á sjálfa mig beit í vörina og brosti útí annað. Og loksins fann ég það, ég er kona. ] [ Hendur mínar aumar handjárning köld ég er nakin og háð ólin um hálsinn keðjan er föst. Hendurnar aumar í keðjuna kippt á endanum dynur höggin þau særa stunurnar æra. Hendurnar leita augun þau þrá hárið fellur strítt axlirnar berar svipan dynur. Andlitið lútið barmurinn liftist svo lítur hún upp augun svo dofin köld og rofin. En þetta andlit... þetta angurværa andlit bros hennar og blíða kvalalostans glott þetta andlit... hún er ég. ] [ Vonin er í fjarska, þar sem grátur grípur orð. Allt sem geymt er í þínu hjarta er nú sett hér á borð. Sumt bragðast eins og óttinn. Sumt sem nýfallin mjöll. Sumt svíður eins og nóttin sem gleypir þín hróp og köll. En ljósið leynist víða. og ljúfir tónar heyrast einnig hér. Í sál þar sem tíminn fær ekki að líða. Í minningum um andartak með þér. ] [ Dag einn tók líf mitt skjótan endi. Það var daginn sem ég heyrði flautað fyrir horn. Ég dó úr hlátri. ] [ Ljósir lokkar Blá augu grannt mitti Tvírætt augnráð Dökkt hár Græn augu breitt mitti Fjarrænt augnráð á túr skapvond brosandi elskar mig ] [ Ég stóð í logninu og horfði allt um kring. Það var kjurrt, það var hljótt. Það var. Nú stend ég í storminum og varla sé úr augum. Allt á ferð, allt um kring Það er. Á morgun. Hvar stend ég á morgun ? ] [ Tuttugu og sjö og tuttugu og níu sátu við borðið og einbeittu sér að hvor annarri. Tuttugu og níu leit stundum undan. Tuttugu og sjö leit þá stundum á mig. Fann lífsmark en skeytti ekki um það. Áður en ég vissi af sat ég þarna við borðið. Ég var drukkinn. Þær voru drukknar. Þær voru saman; þetta kvöld og öll önnur. Við hlógum, reyktum og drukkum. Þær gerðu mér tilboð. Þetta var gott tilboð. ] [ 1. a. hæ a. bæ 2. a. hæ a. bæ 3. a. hæ b. veistu... a. bæ 4. b. bæ ] [ Í hvert skipti sem samtal okkar er lengra en 2 línur Bondum við Og í hverti skipti sem við tölum saman á næturnar Söknu við hvors annars En við munum aldrei eftir hvort öðru næsta dag.... ] [ Ég bjó þig til í huga mínum 55,555 sek síðan þú fórst Og það eina sem ég spurði var.... Númer hvað er ég á lista þínum? 27 ] [ Hann sofnar til að fá draumanna sína aftur. Draumarnirrugla hann í ríminu. Þegar hann vaknar sér hann ekkert. Hann fer á fæturen sofnar aftur. Hann fer sjálkrafa í draumanna sína En hann vaknar svo aldrei aftur. ] [ Það er svo undarlegt en ég er alveg rosalega hrifin af einum strák. Hann er með gullfalleg grá-blá augu og skollitað hár. Það er rosalega gaman að vera nálægt honum, að vísu verð ég alltaf voða nervös þegar hann er nálægt - sérstaklega ef við erum bara tvö ein. Ég verð eins og blind - finn ekki það sem mig vantar, ég get ekki einu sinni keyrt bíl ef hann er inní honum - fer beint úr 1.gír í þann 3ja :o) Ég er pínu feimin við hann. Það er dásamlegt að njóta ásta með honum, við spjöllum um allt á milli himins og jarðar. Við tökum okkur allan þann tíma sem við viljum - erum ekkert að stressa okkur, njótum bara þess að vera saman - tvö ein ! En það er eitt sem mér finnst sárt - það er þegar hann er ekki hjá mér; það er of oft. Ég vil vera í örmum hans - alltaf. Ég vil vera hans og ég vil að hann sé minn. Við verðum að vinna saman í sumar. Það verður æðislegt. Hitti hann á hverjum morgni - og kannski, einhvern daginn, verðum við bara tvö ein. Ég vona að það verði sem oftast, því þó svo ég geti ekki sagt honum það þá ... ... elska ég hann ... ] [ Himininn er heiðskýr og blár, áin rennur hljóðlega í logninu og sjórinn liggur dauður. Klettasnösin er böðuð í sól og snjórinn í fjöllunum er eins og rjómasletta. Börnin hlaupa um hamingjusöm og glöð. Allt er svo fínt og með bjarta framtíð þrátt fyrir aldur heimsins og fyrri störf. ] [ Þú rosalega vondur ert átt skilið spark í rassin skýjin vilja rigna á þig og henda þér í hornin. þú skammir fær og ekkert meir því ritstíflu þú veldur í heila mínum tókstu burt mína bestu gerð Að semja ljóð er mitt indi ég veit ekki um þitt en þín vegna get ei gert ljóð um fæðingar dag þinn Heimurin er orðin reiður ég róa hann niður knúsa þig og kissi á kinn og óska góðra hljóða Á góðum degi, sé þig ljóma geng til þín, bið góðan dag, ég veit þú átt afmæli en segi ekki neitt um það! ] [ Ég get ekki hugsað hjarta mitt fyllist af þrá píningin leitar að soltnri bráð hvert sem ég fer ég leita að þér þráin hún fre á eftir þér orð eru öll lífið er eitt hver ertu nú? hvar ertu þá? þráin mín leitar beint upp á við leitar og leitar að eilífðar frið. ] [ Hjartað þér ég gag og vildi bara gott þú hentir því á brott en og ekkert væri Ég stóð í rigningu, var rosa sa´r rogningin flæddi um mitt hár líka nokkur tár þú hafnaði mér á versta veg hvernig ég þar fyrirgef aldrei get. ] [ Pabbi minn var góður hann var líka flott tók mig á fína staði og gerði allt svo gott Aldrei var ég sátt við að hann bítti mig alltaf seint á kvöldin sársaukin yfirgnæfði mig mér var snar sama þegar ísin kom hann var alltaf góður, nema þegar nóttin kom Ég á nýjan pabba nú hann er ekki flott samt fæ ég nó af ís og hann kemur ekki í tunglskinið ] [ People used to tell me how lofe comes and goes never would think i\'d love you so You lie here beside me i listen to you breathe i can no longer sleep for the thing that is bothering thea You woke up this morning put up an emty smile the pain goes right through me like hunded stabbing knifes Your home has no meaning you know you\'r leaving soon the docktor wants to see you about that thing that bothered thea where walking on the shore we finally know the truth your final day is comming soon i wake up in the night your having trouble to breathe we know that the thing bothering you has come to an end You lie in my arms having trouble whit air i know it you last night you wisper in my ear i\'m lookin at your cofin trying to haim my tears they flow whitput willing i miss thea I sit alone in the living room think about the last thing you said you said to me, whit sadnes of tears i love you my little thing now he is not alive canser took his lif away he smoked 3 times a day his life was never a good thing. ] [ love is a time love comes whit pain love comes whit pleasure love comes whit happyness love comes whit guilt love does many things but the worst of all that comes whit love is betrayal of the one and all. ] [ Þú glitar, tindrar skýn og skær greinar grænar útum allt Jólin koma aldrei án þín pakkar stóri hvíla við hlið þín Jólatré, jólatré komdu með jólin til mín sýndu mér kærleik sýndu mér frið. ] [ Þokan er þétt, læðist læðist inn í huga minn mig langar ekki að hugsa hugsa um þig Ég gekk um í kvöldsólinni hágrátandi vonaði að þú kæmir og huggaðir mig þú kemur víst aldrei aldrei til mín ég er svo einmanna án þín Hann hoppaði í sjóinn með blóð bundin lóð um þig ég skrifa min allra bestu ljóð. ] [ Just as a tear I feel the fear Of falling away and losing you And not obay How can I stop Stop myself from fallin Falling away from you And losing you.. forever ] [ Ég vild? ég gæti sagt einhvað Til að fá þig til að hætta við Ég vildi að þú vissir Hve mikið ég elska þig Ég vild? ég gæti bætt þér upp Það sem ég gerði ekki fyrr Hvernig get ég sagt þér það Að ég veit hvað er að ske Ég vona?ð það sé ekki satt Að allt verði sem fyrr Þurfi ekki að vera endalok .. fyrir mig og þig höldum beint áfram, lifum ei í fortíð verum björt sem bál látumst ekki bugast, yfir hlut sem kallast yfir ást. ] [ Ég ræktaði eyðimörk þína sáði vökvaði bar á og læknaði sár en á meðan gleymdi ég að mín eyðimörk var enn sú sama uppþornuð og óræktuð ] [ Fífilbrekka, gróin grund, grösug hlíð með berjalautum, flóatetur, fífusund, fífilbrekka, smáragrund, yður hjá ég alla stund uni best í sæld og þrautum, fífilbrekka, gróin grund, grösug hlíð með berjalautum. Gljúfrabúi, gamli foss, gilið mitt í klettaþröngum, góða skarð með grasahnoss, gljúfrabúi, hvítur foss, verið hefur vel með oss, verða mun það ennþá löngum, gljúfrabúi, gamli foss, gilið mitt í klettaþröngum. Bunulækur blár og tær, bakkafögur á í hvammi, sólarylur, blíður blær, bunulækur fagurtær, yndið vekja ykkur nær allra best í dalnum frammi, bunulækur blár og tær, bakkafögur á í hvammi. Hnjúkafjöllin himinblá, hamragarðar, hvítir tindar, heyjavöllinn horfið á, hnjúkafjöllin hvít og blá, skýlið öllu, helg og há, hlífið dal er geisa vindar, hnjúkafjöllin himinblá, hamragarðar, hvítir tindar. Sæludalur, sveitin best, sólin á þig geislum helli, snemma risin seint þú sest, sæludalur, prýðin best. Þín er grundin gæðaflest, gleðin æsku, hvíldin elli. Sæludalur, sveitin best, sólin á þig geislum helli. ] [ Prúðir sækja lón og læki laxar þá. Sumir krækja silungsá. Veiðitækir, sporðasprækir spretti hörðum á fjalli fýsast ná. ] [ Ein er upp til fjalla, yli húsa fjær, út um hamrahjalla, hvít með loðnar tær. Brýst í bjargarleysi, ber því hyggju gljúpa, á sér ekkert hreysi útibarin rjúpa. Valur er á veiðum, vargur í fugla hjörð, veifar vængjum breiðum, vofir yfir jörð. Otar augum skjótum yfir hlíð og lítur kind sem köldum fótum krafsar snjó og bítur. Rjúpa ræður að lyngi - raun er létt um sinn ? skýst í skafrenningi skjót í krafsturinn, tínir, mjöllu mærri, mola sem af borði hrjóta kind hjá kærri, kvakar þakkarorði. Valur í vígahuga varpar sér á teig, eins og fiskifluga fyrst úr löngum sveig hnitar hringa marga. Hnífill er að bíta. Nú er bágt til bjarga, blessuð rjúpan hvíta. Elting ill er hafin, yfir skyggir él, rjúpan vanda vafin veit sér búið hel. Eins og álmur gjalli, örskot veginn mæli, fleygist hún úr fjalli að fá sér eitthvert hæli. Mædd á manna besta miskunn loks hún flaug, inn um gluggan gesta guðs í nafni smaug. Úti garmar geltu, gólið hrein í valnum - kastar hún sér í keltu konunnar í dalnum. Gæðakonan góða grípur fegin við dýri dauðamóða, dregur háls úr lið. Plokkar, pils upp brýtur, pott á hlóðir setur, segir: happ þeim hlýtur ? og horaða rjúpu étur. ] [ Efst á Arnarvatnshæðum oft hef eg fáki beitt; þar er allt þakið í vötnum, þar heitir Réttarvatn eitt. Og undir norðurásnum er ofurlítil tó, og lækur líður þar niður um lágan Hvannamó. Á engum stað eg uni eins vel og þessum mér; ískaldur Eiríksjökull veit allt, sem talað er hér. ] [ Ó, blessuð vertu, sumarsól, er sveipar gulli dal og hól og gyllir fjöllin himinhá og heiðarvötnin blá. Nú fossar, lækir, unnir, ár sér una við þitt gyllta hár, nú fellur heitur haddur þinn á hvíta jökulkinn. Þú klæðir allt í gull og glans, þú glæðir allar vonir manns, og hvar sem tárin kvika á kinn þau kyssir geislinn þinn. Þú fyllir dalinn fuglasöng, nú finnast ekki dægrin löng, og heim í sveitir sendirðu æ úr suðri hlýjan blæ. Þú frjóvgar, gleður, fæðir allt um fjöll og dali og klæðir allt og gangirðu undir gerist kalt, þá grætur þig líka allt. Ó, blessuð vertu, sumarsól, er sveipar gulli dal og hól og gyllir fjöllin himinhá og heiðarvötnin blá. ] [ Listir fækka, letin eykst, land er fátækt, rúið, agann vantar, illskan leikst, er við háska búið. ] [ Forlög koma ofan að, örlög kringum sveima, álögin úr ýmsum stað en ólög fæðast heima. ] [ Yfir heimi er hjarn. Húmnótt á vegi. Ég er birtunnar barn ? býst enn við degi. ] [ Fúl og hveimleið þykir þér þokan okkar fósturlands ? veistu ei, maður, að hún er efasemdir skaparans? Hann er þá sem þú að leita þess hvað veðrið eigi að heita, báða reiti ragur við: rigninguna og sólskinið. ] [ Fjórir ganga, fjórir hanga, tveir veg vísa, tveir fyrir hundum verja. Einn eftir drallar, sá er oftast saurugur. ] [ Sá ég sitja sytur tvær á sandi, nógar eiga nöfnur þær á landi. Kúra þær fram við kaldan sjá með bökin blá, hvorug þungt þenkjandi. ] [ Systkin erum tvö, samt ólík næsta, hún systir er dökk en sólbjartur ég. Hún þykir helköld, ég heitur næsta, bæði þjáum við brautfarendur. Hvort okkar flýr fyrir hinu, henni ég fylgi hún mig eltir. Erum þess vegna aldrei bæði undir sama seggja þaki. ] [ Sofi, sofi sonur minn. Sefur selur í sjó, svanur á báru, már í hólmi, manngi þig svæfir, þorskur í djúpi. Sofðu, ég unni þér. Kýr á bási, kálfur í garða, hjörtur á heiði en í hafi fiskar, mús undir steini, maðkur í jörðu, ormur í urðu. Sofðu, ég unni þér. Bjór hjá vötnum í björgum skarfur, refur í hreysi, reyr í tjörnum, álft á ísi, önd í bökkum, otur í gljúfrum. Sofðu, ég unni þér. Seiði á flúðum en í sundi murtur, björn í híði með breiða hramma, vargur í viði en í vatni gedda, áll í veisu. Sofðu, ég unni þér. ] [ Fagrar heyrði eg raddirnar við Niflunga heim. Eg get ekki sofið fyrir söngvunum þeim. ] [ Fagurt syngur svanurinn um sumarlanga tíð. Þá mun lyst að leika sér, mín liljan fríð! Fagurt syngur svanurinn. ] [ Senn kemur sumarið, sólin blessuð skín, víst batnar veðrið þá veturinn dvín. ] [ Sunnudagur til sigurs, mánudagur til mæðu, þriðjudagur til þrifa, miðvikudagur til moldar, fimmtudagur til frægðar, föstudagur til fjár, laugardagur til lukku. ] [ Bandaríkin og Írak 50% -vs- 50% líf eða dauði Írakar þora að deyja fyrir góðan málstað munu þeir vinna? Eina þjóðin sem hefur notað kjarnorkusprengju á aðra þjóð vill fara í stríð sigur? Arabar og múslimar -vs- Frakkar og Bretar Heimskur -vs- Heimskari og íslendingar eru Heimskastir ] [ það snjóar, kuldi, það snjóar, oj ansvítans vindurinn öskrar á sjóinn sem ærslast til baka og maldar í móinn ó boj, ó boj myglaður himininn málaður svartur skýtur eldingum, hagli og vatni mannfólkið vonar að hamstríðið batni sveitin á að lifa aftur dagar líða, meiri snjór frostið birtist, frekt og frosið fáviðrið geysir en þá kemur gosið hver mun sigra, syngur fólkið í kór rauðleit molla rigsar um allt bræðir hverfandi snjóinn ræðst á hvítfrussandi sjóinn og tapar, hjaðnar og allt verður kalt vorið kemur og reiðist við vetur þau ráðast saman með sól og snjó angandi ilminn og ískaldann sjó vorið hefur auðvitað betur ] [ læðist eftir götunni glápir á fólkið sem hrópar á hana: hundskastu í burtu! ein og yfirgefin gefst upp og felur sig ... dag eftir dag hún situr útí horni hungruð og köld einhver kemur hendir hálfétinni pylsu hún gleypir hana ... hálfdauð úr hungri hún skríður að næstu veru stamar hásri röddu: hjálp! maðurinn slær hana gengur í burtu ... hún kallar það hærra svo allir heyri en enginn stoppar nema ein kona sem stansar aðeins til að þagga niður í henni ... blóðug stelpan heyrir ysinn í kringum sig en hann er ekki út af henni það var maður sem missti hattinn og hann fauk út í vindinn ] [ svínslegt? sv.í.n.s.l.e.g.t.? skammstöfun fyrir hvað? svar: í næsta skrítna ljóði eftir guðmar teitsson ] [ Vitinn í lífinu, gefur honum von en um leið eitraður þyrnir í síðu hans fastur. Sólin sem færir trjánum líf en um leið hárbeitt öxin, sem þau fellir. Hluturinn sem þráin snýst um en örlögin aldrei munu honum færa. Lyfið eina sem getur hann læknað en um leið líkamann drepur. Syndin sú er hann vill brjóta en refsingin er dauði. Stúlkan sem strákurinn vill njóta en ást hennar mun aldrei hljóta. ] [ Andargiftin enginn er, í höfði mínu loka. Taka þyrfti til hjá mér, og taðinu út moka. ] [ III deginum langa lokið ekki lengur aginn heldur einskær vani hins úrvinda sem heldur augunum opnum einn þessa nótt bregður ögn er straumur punktanna gulu utan úr myrkrinu rofnar og hraðar en augað fær numið ekkert -ekkert ] [ Ég vil fara á sjó keyra rallý verða forstjóri verða frægur hestamaður pissa standandi sýna þér að ég er kona ] [ Það var gaman að kynnast þér í fyrra þetta hefði farið öðruvísi hefði ég bara verið ég sjálf ég er aldrei ég sjálf Og ég sendi pakkann í pósti því ég vil ekki deyja á afmælisdeginum þínum... ] [ Eyjafjalls grætur ásinn þar ísa frá toppi hám og hrynja lætur hvarmskúrar haglið úr mekki blám, af því að fætur Fljótshlíðar fljótið sker uppað knjám ? Yggdrasils rætur við svo var vættur með hvofti grám. ] [ Ríkismanns mig rak að setri, ráðin engin þekkti betri, af sulti kominn mjög í mát. Sá ég vera soðið slátur, sál mín rak upp skellihlátur, og gufuna með græðgi át. Einmitt var það allur greiði ég sem hlaut af krásar seyði. Dró ég mig á beisla bát. Sál mín vön við sultarhaginn samt af slórði þennan daginn og vonir sínar allar át. ] [ Leggðu þig á láðið, hvar lækjarbunur hvína. Farðu svo að þenkja þar um þig og sköpunina. Horfðu á jörð og himinsfar, hafsins firna díki. Gættu að rétt, hver þú ert þar í þessu stóra ríki. Við þá skoðun, vinur minn, verður lyndið hægra, og daginn þann mun drambsemin duftinu hreykja lægra. ] [ Myrkt er af kvíða. Meybarnið fríða menn frá mér taka. Faðumur er snauður, alheimur auður, oft mænt til baka. Samt má ei gleyma að sonurinn heima semur mér yndi. Augað hægt grætur, til alls liggja bætur, ef hver það fyndi. ] [ Lítil stúlka stendur á götunni og grætur. Lítil stúlka grætur stórum tárum. Lítil stúlka sem grætur stórum tárum yfir líki móður sinnar. Lítil sorgmædd stúlka. Lítil stúlka sem misst hefur móður sína. Lítil stúlka sem ekkert veit. Lítil stúlka sem ekki veit hvað gerst hefur. -hvers vegna- Hvers vegna var móðir tekin frá lítilli stúlku? Faðir tekur í hönd lítillar stúlku. Faðir leiðir litla stúlku í burt, í burt frá líki móður. Lítil stúlka fær aldrei að vita sannleikann. Lítil stúlka fær aldrei að heyra sannleikann um dauða móður. -hvers vegna- Lítil stúlka má ekki heyra um hatur föður er tók í burtu líf móður. ] [ Ég þakka fyrir köttinn sem elskar allan hnöttinn hann er svo ofsa sætur hann aldrei illa lætur hrýtur þegar hann sefur mörg aukakíló hefur fer endalaust úr hárum mörg tonn á fáum árum sleikir á mér nefið mér fullt af músum gefið er hræddari við snjóinn en jökulkaldann sjóinn étur eins og hestur er allra katta bestur smjattar uppúr svefni hans ég alltaf hefni hann er með flösu og flær en er mér samt svo ógeðslega kær ] [ Hvar eru ljósin logaskæru er ég lít um ljóra? munu það blikandi, blíðmálugar, heimasætur himins? Eigi er það, ? en annað fegra svífur mér að sjónum: það eru augu unnustu minnar, þau í svartnætti sjást. ] [ Ríðum, ríðum og rekum yfir sandinn, rennur sól á bak við Arnarfell, hér á reiki er margur óhreinn andinn, úr því fer að skyggja á jökulsvell. Drottinn leiði drösulinn minn, drjúgur verður síðasti áfanginn. Þey þey! þey þey! þaut í holti tóa, þurran vill hún blóði væta góm, eða líka einhver var að hóa undarlega digrum karlaróm. Útilegumenn í Ódáðahraun eru kannske að smala fé á laun. Ríðum, ríðum, rekum yfir sandinn, rökkrið er að síga á Herðubreið, álfadrottning er að beisla gandinn, ekki er gott að verða á hennar leið. Vænsta klárinn vildi eg gefa til að vera kominn ofan í Kiðagil. ] [ Hjartað slær örar kaldur sviti um hörund rennur sjónin úr fókus fer fæturnir ekki skipunum hlýða í einum hnút er maginn. gefst loks upp kvíðinn sigrar óttinn eilífur lifir sár mjög er eymdin skömmin sárust þó er því að ég var bara að hugsa, bara að hugsa um að reyna. ] [ Þungbær situr vetrarkvíðinn á herðum, eftirhreyta nætur sligar sálina í morgunsárið. Lýsisflaskan starir sljóum tappa á hollustkornið. Náttfölir menn ígrunda morgunblað á eldhúsborðiðinu. Köldum hjólum norpar fjölskylduvinurinn við rennusteininn, hóstar veikburða þegar lykillinn snertir ertingafærið. Af gömlum vana stígum við upp í hringekju komandi dags með hráslagan milli skinns og hörunds. Ásjón. ] [ Ef hann þú frá mér tekur fyrir dómi ertu sekur í fangelsi þú ferð fyrir þína gerð þinn ofsafengni kraftur kemur aldrei aftur nema þú skilir mér ketti hann til jarðar detti kúri hjá mér heitur sællegur og feitur hann á að lifa lengi vappa um öll engi við færum svo saman kötturinn og daman skoðuðum allan heiminn veröldina og geiminn lífið yrði leikur gleðivíma og reykur ] [ Þú gleðja myndir krakka þér myndu allir þakka hlusta þú á þetta kvæði þú veist nú að það væri æði þú létir okkur alveg vera og ekkert myndir okkur gera við færum snemma að sofa við viljum þessu lofa ef þú ekki neitar við bökum lummur heitar bjóðum þér í kaffi og kökur bragðgóð brauð og ljúfar bökur við viljum fá að lifa þó hjartað hætti að tifa vertu sæll minn kæri guð nú hættir þetta eilífa suð Amen ] [ Þau koma eins og votir stormsveipir, rjúfa hljóðmúrinn og þrengja sér inní sviðsljósið. Lítil umbúðalaus börn með örlög heimsins í farteskinu. Snæða af skilningstré góðs og ills, vaxa yfir höfuð og verða að foreldrum. ] [ Um undrageim í himinveldi háu nú hverfur sól og kveður jarðar glaum. Á fegra landi gróa blómin bláu í bjartri dögg við lífsins helgan straum. Þar dvelur mey hjá dimmu fossa tali og drauma vekur purpurans í blæ og norðurljósið hylur helga sali, þar hnígur máninn aldrei niður í sæ. Þar rísa bjartar hallir sem ei hrynja og hreimur sætur fyllir bogagöng en langt í fjarska foldar þrumur drynja með fimbulbassa undir helgum söng. Og gullinn strengur gígju veldur hljóði og glitrar títt um eilíft sumarkvöld, þar roðnar aldrei sverð af banablóði, þar byggir gyðjan mín sín himintjöld. Og harpan skelfur, hátt í andans geimi, af höndum veikum snert um dimma tíð, hún truflast fyrir undarlegum eimi því andinn vekur sífellt furðustríð. Og upp af sjónum feiknastjörnur stíga og ströngum augum fram af himni gá og eldi roðnar niður í hafið hníga en hljómar dauði fjarrum vængjum á. Ég kný þig ennþá, gígjan mín, til gleði. Hvað gagnar sífellt kvein og táraflóð? Hvað gagnar mér að gráta það sem skeði? Hvað gagnar mér að vekja sorgarljóð? Hvað gagnar mér að mana liðna daga úr myrku djúpi fram í tímans hyl? Ég veit að eilíf alltaf lifir Saga og allar stundir nefnir dómsins til.
??? Því lyftist ég á léttum himinvæng um ljósan geim á silfurtærum bárum og bý mér mjúka, háa, helga sæng sem haggast ei af neinum sorgartárum.     Slengdu þér duglega, sál mín, um geiminn,     sjóðandi kampavíns lífguð af yl!     Kærðu þig ekkert um helvítis heiminn,     hoppaðu blindfull guðanna til!
] [ Án vinar get ég ei brosað. Án vinar get ég ei grátið. Án vinar þekki ég ei tilfinningar mínar. Án vinar þekki ég ei annarra sorg, annarra gleði, annarra ást. Án vinar þekki ég ekkert. Án vinar hefði ég ei þig, þína ást, þinn skilning, þína gleði, þína sorg. Án þín ætti ég ekkert. ] [ Stjörnurnar upplituðust þetta kvöld, þegar við lofuðum hvor annarri að vera eins og prúðar styttur. En í staðinn féllu við niðrí marga búta fyrir framan matsöluna illa farnar og týndar. ] [ stundum er ég svo ógeðslega einn, sortanum ég þá er í og lífinu aldrei ég sinni, aldrei venjulegur alltaf óhreinn, því ég banaði móður minni... En áður en það gerðist hljóp ég hratt, allsber á líkama mínum. Þú ræður hvort þú trúir en þetta er dagsatt, ég svaf hjá systrum þínum... Öllum þremur ] [ Úr fylgsnum laumast hrægammarnir með hatur í hjarta og beina flugvélum að World Trade Center. Himinninn logar er hinir voldugu risar falla og þúsunda manna er saknað. Óendanleg sorg er í hjörtum okkar sem eftir lifum. Og við syrgjum einnig örlög hins frjálsa heims. ] [ Þú söngst daga langa svo fögur ástarljóð, að hugur minn til skýjanna mörgum sinnum fór. Ég þreyttist aldrei að hlusta á þinn fagra söng, tilbað allar stundir, þar til hinsti tónninn dó. Uppi í tréi dvaldi alla daga jafnt. Þú hafðir byggt þér hreiður úr grasi og fjöðurstaf. Allt í einu þagnaði þinn fagri ástaróður. Því köttur sönginn kæfði með kjafti og hvössum klóm. Nú sárt ég hef þín saknað söngfuglinn minn góði. Og tréð laufið fellir til minningar um þig. ] [ Ætti ég eina krónu, ég ávaxta myndi hana í verðbréfum og húsakaupum, það er alveg satt. Þá yrði ég fjarska ríkur, örugglega milli. Því milljónirnar streymdu inn á bankareikninginn. Út á lífið færi og lúxusvillur keypti, en fengi allt að láni, við segjum upp á krít. Svo er ballið búið, því krónan upp var étin. Er nú illa staddur, í verulegum skít. ] [ Í votlendinu vætukjóinn verpti, og spóinn vall í mýrinni sinni glaður og mófuglarnir um móana hlupu. Nú þagnað hefur mófuglanna kliður og lóan syngur sitt dirrin dí ekki lengur. Því votlendu móarnir þornað hafa upp, því langir gröfuskurðir um mýrina voru lagðir og kýlræsisplógurinn þurrkaði hana upp. Þar dvelja nú kýr í haga og sauðkindur á beit, því bóndinn færði út kvíarnar og bætti jörð í sveit. ] [ Jón Arnar Magnússon tugþrautina æfir, stekkur og hleypur, kúluna þæfir, hungrar og þyrstir í að vera svo frægur, að heimurinn standi og gapi. Gísli Sig biður: Vertu nú þægur! Teymi þig fetið, eitt skref í einu. Þú kemst á pallinn, það er á hreinu. Hann æfir og æfir hlaup, stökk og köstin, var eins og gæðingur, hafði engan löstinn. Sidney er að rísa, Olympíuárið. Þá fer Jón Arnar að mála á sér hárið. Gullið er mér glatað, lauk ekki þraut. Gat ekki meira, gekk því á braut. ] [ Hann kollhúfu lagði, meðan línuna dró, og upp kom fiskur með slóg. Hann pípuna reykti, í munnstykkið beit, og múkkinn gargaði og skeit. Heimurinn var hafið og lífið fiskiríið. Þar dvaldi alla ævi. En fríið? Hann datt dauður niður, geymdur var í ís á milli fiskikara. Hans Paradís. ] [ Sólin fetar sig upp á himininn, líkt og lítið barn, sem tekur sín fyrstu spor út í lífið. Guðbjörg Efemía er afabarnið, sem gefur birtu og yl, og augun hennar segja að það sé gaman að vera til. ] [ Klukkan á veggnum tifar svo létt. Svo gengur hún á réttum tíma. Í vinnuna fer, en vandinn er að klukkan sem tifar í höfðinu á mér er stillt á rangan tíma. ] [ Öryrkinn hinn allslausi á engan griðastað. Annan lífsstíl eflaust kysi, oft hann bað um það. Öryrkjans ævi líður, öllum ami að. Dánardægur bíður, dauður fyrir það. ] [ ,,Mamma, gyðingarnir segja að þeir séu hin útvalda þjóð.\" ,,Það er svo margt sagt, barnið mitt.\" ,,Af hverju skutu þeir pabba og litla bróður minn?\" ,,Þeir síðustu verða oft fyrstir,\" sagði móðirin. Hún brosti móti byssuhlaupinu sem var beint að þeim. ,,Hittum við pabba og litla bróður núna?\" Um leið gelti byssan! ] [ Ó systir Man ég þegar klettarnir voru stórir fjaran svo löng og trítlandi tásur litlar, systir Ó frænka man ég þegar við rifumst, hlógum sættumst, slógum, frænka ó vinkona ég sé í þér traust kærleik og fegurð og mundu vinkona; Að fátt er fallegra en fegurðin sjálf ] [ Öll viljum við vita svarið Fyrst skal þó vita hver spurningin er en munum við þá skilja svarið? ] [ Eitt kalt november kvöld. Skjálfa skal allt frá himnum til heljar. Skjálfa skal allt af mannana völdum, svo aldrei skal jörðin vera söm.. ] [ Ég elska þig, en nú gefst ég upp. Hvort þú elskaðir mig kemst ég líklega\'aldrei að. En það breytir engu, því ég veit að þú hélst það. Aftur og aftur hefuru hjarta mitt brætt, kramið það svo og skilið eftir sundurtætt. Ég mun alltaf elska þig, þann hluta af þér sem fæstir fá að kynnast. En eins og er, er sársaukinn sem ég ber, orðinn ástinni yfirsterkari ] [ Skera himin skuggar skorinna steinblómsstilka. Helhandarfingur finna dólg og benda. Bæklaður bláhrafn nú bíður banahöggs. Skuggarnir skýla; skálm nýrrar aldar, haukum gæddum guðlegri skynjun, eitruðum runnum hvar millum smjúga velklæddir vampírar sem vilja sjúga svart blóð jarðar bland rauðu barna og bjarglausra. Í fjarskanum bíður ungur björn og grætur, sverð úr gömlum skugga særir öðru sinni, sker á lygarætur. Hvar ertu Fróði? ] [ Hvað meinaru, helvítis beljan þín! Ég veit ekki hvað þú ert að tala um. Mannstu þegar við fórum að veiða? Það var svo gaman. Komdu með mér og skoðaðu kofan þar sem ég bý. Það er svo fallegt. Yfirnáttúranar hendi er veifað: ?Komið öll og gangið í lið mitt sem mun berjast á móti sólinni og hinum reikistjörnunum?, sagði röddin úr runnanum. ?Já hver vill það? Pant ég! Við fáum skildi og leysibyssur. ? ?Skjótt´ann!? öskrar maðurinn sem stendur bak við manninn sem stendur 30° suðvestan megin við hliðina á mér. Sólin springur og vetrar brautin fellur öll saman og eyðist, en við björgumst... \"Eruð þið ánægð núna??!!\" Þið vitið það í sjálfra ykkar hugarheimi... En stríðið er ekki búið, við flýjum öll í annað sólkerfi. Þar eru bara tvær plánetur o- g ein sól. ?Jibbí okkur er bjarg- að.? Ég held ekki. Þarna eru geimverur! ?BANG!? Kúlur- nar hristast og allt farið í skít. ?Þarna er heilagi þríhyrn- ingurinn sem mun bjarga okkur!? ?Við vinnum pláneturnar á vald okkar!!!!? Ég er orðinn konung- ur hugsana ykkar... ] [ Þá mun ég þrá, þetta. Að Drumban dágóða muni, detta ] [ Dvergurinn dansaði rosalega vel, Dolfallinn horfði ég á hann. Mikið mér brá og varð ekki um sel, meðan dansgólfið eftir hann brann. ] [ Maðurinn mokar upp í mót, malandi kötturinn tárast. Drífðu þig Drífa og vertu nú skjót, dalurinn annars þá klárast. ] [ Það kom andlát í fjölskylduna mína. Andlát varð í fjölskyldunni. Við fjölskyldan sáum andlát þjóta framhjá okkur. Andlátið fór um fjölskylduna. Með látum andaðist einn úr fjölskyldunni og með látum andaði fjölskyldan án andláts eftir að lát varð á öndun þess fyrrnefnda. Já það gerðist margt þennan dag og það er margt hægt að segja um það. Þó veit enginn hvað gerðist í raun og veru því að sá vinkill, sem bar með sér sönnurgagn eða gagnleysu, hvarf einhvern veginn á svipstundu, án þess að láta eitthvað spes og andlegt frá sér áður. Dauðinn birtist okkur í jafn mörgum formum og grjónagrauturinn birtist í mismundandi pottum í mismundandi húsum. Hann er kannski líka eins og bragðið. Stundum er hann beiskur, stundum er hann súr, stundum er hann tilvalinn og smekklegur en stundum þá er hann bara alls ekki við hæfi. Hver sem hann er, hvort sem hann er eða hvert sem hann kemur eða fer þá er hann hér hjá mér og hjá þér, en hann bara heldur sig svolítið sér. ] [ Ég hef aldrei haft unun af neinu nema tilbúnum rósum og regnbogum sem að afskræma hugan líkt og sólarlagið gerir stundum innum gluggan á kristalvöruversluninni. Ég elska ekki en hef þó ekki taugar í það að hata,ég tala nú ekki um tíma. Það væri hugsanlega hægt að kalla mig letingja eða aumingja en ég kýs að hlusta ekki eftir þvílíkum köllum því ég kom ekki hingað til þess að svara einhverju því að ég er hið raunverulega svar. Á þessu stigi málsins kann sumum að finnast það depremerandi sjón að sjá \"Svarið\"fara út í vídeóleigu og leigja nýju myndina með Van Damme, en jú vissulega vekja öll svör stundum upp spurningar, sumar þeirra eru stórar en aðrar litlar. Sumir eru bara svör en aðrir finna sig sem spurningar. Síðan eru til upphrópunarmerki og spurningarmerki sem eru í raun mjög merkileg án þess þó að marka nokkurs staðar djúp spor. Ósýnileg spor eru hins vegar oft vandfundin og því örugglega þaulerfitt að feta þau og má kannski líkja því við samfarir við huldufólk og drauga. ] [ Elskaðu engan og treystu engum það mikið að hann geti sært þig þegar hann fer ] [ Féll á einmannalegu júróvison kvöldi með sárin hangandi útúr mér og hjartað kramið í ruzlatununni ] [ Besta óskin er að vinna sjálfur vel, en láta óskir annarra rætast með hjálp frá þér. ] [ Ræktaðu sjálfan þig sem litla jurt, hristu kílóin þau auka í burt. Skokkaðu um, það styrkir lungu, æðavef, þá færðu síður hósta og kvef. Þú heldur línunum betur í lagi, andinn er léttari í meira lagi. Þótt þú eldist, létt er lund, ef þú áfram ræktar þitt eðalpund ] [ Sigurður Kópavogi stjórnar af miklum skörungsskap. Frúin í Reykjavík ræður, það er sko ekkert frat. Í Garðabæ kvenkynið hrífur og við stjórnvölinn er. Á Seltjarnarnesi Sigurgeir ríkir hartnær í hálfa öld. Í Hafnarfirði stjórna bláir og grænir, og hunang drýpur af hverju strái. Á Álftanesi Forsetinn situr, svona er Ísland í dag! ] [ Veður blítt, en býsna kalt og biturt frost má finna. Bæjarstarfsmenn bera salt og bræða slóðir hinna. ] [ Hengiplantan heldur ei haus né blöðum. Þrotin kröftum þetta grey, þreytt af stöðum. ] [ Grönn í mitti, há til hnés, heiðurskonu þekki, næstum sagði ?ókey, yes,? en hún sagði ?ekki.? ] [ Áttu vin sem styður þig í gegnum þykkt og þunnt. Hann er gulls ígildi, en það gull er ekki til. ] [ Ég horfi á þig dag eftir dag og dagarnir verða að árum. Þú stöðugt stendur og bíður mín þar, sumar sem vetur. Þú af öllum bar. Árin líða svo ógnar hratt. Stofn þinn feyskur og fúnar. Minningin um þig, ó mitt indæla tré, er geymd í hjartanu mínu. ] [ Þegar óveðrið geisar vex hér vandinn, venjulega æðir brimið upp sandinn. Siglt í var, beðið þar, meðan brotsjórinn berst eins og fjandinn. ] [ Ég settist í stólinn og sat þar svo fast að rassinn festist þar niður. Síðan er stóllinn mitt athvarf og traust. Þar sit ég nú öllum stundum. Ég skil ekki lengur hvernig menn fara að, að setjast alls ekki niður. Samt virðist líf þeirra leikandi létt, en letilífið eftir þeim bíður. ] [ Á skýjabólstrum sátum, sáum hvað amaði að. Guð risti dular rúnir um drengskap og hann ákaft bað. Hann vildi að við leystum málin, bægðum hatrinu frá, veittum öldruðum stuðning, öryrkjum jafnrétti að ná. Hann vildi minnka bilið milli ríkra og snauðra hér, því munurinn á himnum uppi er enginn eins og vera ber. Þeir ríku verða að venjast að verða snauðir senn, því allir eru hér jafnir, það vita Guð og menn. Brátt ríkir hér alheimsfriður, því auðurinn er ykkar sál, þá verðum við í góðum málum, laus við allt fals og tál. ] [ Svínið í stíunni hrein svo hátt, hélt að það gæti lifað í sátt. Það var alið, ekki kvalið. Lífið er fallvalt, það sannaðist brátt. ] [ Áður fyrr giftust karlar konum. Nú er þetta breytt. Konur velja sitt eigið kyn. Og eignast börn sín eingetin, líkt og María mey. ] [ Friðardúfan flýgur hátt, frelsið lifir, verum sátt. Hana lít, hún er hvít. Trúum á hennar töframátt. ] [ Kveðju mína sendi þér á englavængjum mínum. Þeir svifið geta yfir lönd og hæstu fjöll, og einnig munu þeir fara með ljóssins eldingshraða. Nú berð þú harm í hljóði, sem brátt úr minni líður. Líkt og dögg af blómi móti suðri og sumaryl. Þegar englavængir mínir vefja þig sterkum örmum, þá mun þér í brjósti vakna innri ró og friður, og að lokum muntu skilja að þú ert lífið sjálft. ] [ Togari togar á karfamiðum og bobbingarnir bryðja hraunið og valta yfir allt sem lifir. Karlinn í brúnni fær skipun. Engan undirmálsfisk í land! Þegar smákarfinn fyllir trollið er honum sturtað í hafið. Þar flýtur hann uppblásinn eins langt og augað eygir. Nái þorskurinn ekki milli skorana á aðgerðarborðinu, er hann undirmálsfiskur sem fer í svelginn og skilar engum arði. Rányrkja, túr eftir túr, ár eftir ár rýrir spá fræðimannsins. Múkkinn, hafið og sjómennirnir þegja og njóta hins skammvinna gróða. Það er sagt: ,,Sjómenn bera lífrænan áburð í hafið, líkt og bóndinn sem ber húsdýraáburð á túnin.\" Í landi híma trillukarlarnir. Að sögn Sægreifanna hafa þeir eyðilagt fiskimiðin innan landhelginnar með rányrkju. Greifarnir eiga nú kvótann og fiskinn í sjónum. Þess vegna geta þeir selt kvótann til þeirra sem róa og byggt fyrir gróðann fleiri Kringlur fyrir landann. ] [ Hann lifði fyrir að éta, því hann var aligrís. Hann fitnaði mikið og hljóp í ofsa spik. Hann svitnaði og mæddist við minnstu hreyfingu. Svo hrein hann alla daga og bað um meiri mat. Bóndinn sá í honum mikla gróðavon. Hann stöðugt var að þyngjast, því hann át lon og don. Svo fékk hann magakveisu og lagði mikið af. Hann hafði étið yfir sig, þetta mikla matargat. Þá táraðist bóndinn, líf hans var lagt í rúst, því grísinn féll í verði, varð alveg verðlaus eign. Brátt róaðist bóndinn er grísinn fór að éta. Hann át meira og meira og varð aftur að fjárfestingu. Nú er grísinn allur, á veisluborð hann fór. Margir átu yfir sig og fengu magakveisu, líkt og grísinn forðum sem át lon og don. ] [ Halldór er lítill strákur, sem heimsækir afa sinn. Hann vappar um stofu og ganga og eltir köttinn minn. Við byggjum brýr og vegi og sandkastala á strönd. Við treystum hvor öðrum og styrkjum vinabönd. Dagarnir verða að árum, nú hleypur hann um allt. Afinn er orðinn hrumur, og líf hans vegur salt. Sagan er um þig, Halldór, og gamla afa þinn. Mundu meðan þú lifir að hann var og er vinur þinn. ] [ Mamma, af hverju er Guð ekki giftur. Hún leit undrandi á son sinn: ,,Ekki giftist ég pabba þínum.\" Barnið leit upp til móður sinnar og sagði: ,,Og samt varð ég til!\" ] [ Andspænis landvættum þjóðarinnar og kjörinni ríkisstjórn spyr ég: Eru fiskimiðin þjóðareign? Landvættirnir þögðu. En hinir réttsýnu sögðu: ,,Þjóðarauðurinn er ekki til skiptanna!\" Þá varð mér hugsað til bóndans sem sagði: ,,Hvað munar oss bændur um eitt karað lamb!\" ] [ Skáldafákurinn hefur runnið sitt skeið á enda. Það er dimmrauð nótt, vindurinn gnauðar og kveður við krossinn: ,,Hvíl þú í friði. Þú verður brátt að moldu!? ] [ Akurhænan gargandi um skóginn flaug, en ungarnir í grasinu kúrðu. Þá kom Lordinn með byssu og hundinn sinn og skotið í hjartastað hæfði. Lordinn, hann upp ungana ól, og ungarnir ást hans unnu. Gargið er orðið að fögrum söng, og byssan vegginn skreytir. Akurhænan stendur á skáp, hana Lordinn í hjartastað hæfði. ] [ Fimmtán ár af ævi þinni er ekkert mál. Þinn þroski hefur margfaldast í þinni sál. Þú lærir vel í skólanum, og æfir stíft. Þú lóðum lyftir og hleypur grimmt og engu hlíft. Þú Ain færð en ekkert B, það er flott. Til sóma ertu landi og þjóð, það er gott. Þín ævi verður björt og góð, það segi ég satt. Sólargeisla sendir þú, sem hafa glatt. Atburðir margir um liðin ár eru í minni mér. Óskir góðar sendi þér, sem vera ber. ] [ Hilmar ætlar að hjara, hér með farinn að spara. Gengur hægt, andar vægt, fékk sér hjarta til vara. ] [ Móðir þú verður brátt, og hamingjan mun ríkja. Skrítin sú tilhugsun, þú að verða mamma. Það er eins og það hafi verið í gær, þegar við lékum okkur saman. Okkar skerf af lífinu, fengum við oft saman. Þó það hafi ekki alltaf verið sniðugt, gerðum við hlutina samt. Ég óska þér heilbrigðs krílis, og nógan nætur svefn. Af allri minni sál óska ég þér, aðveldari unglings en við vorum. Hjarta mitt vonar að það verði hún, samt er því eiginlega alveg sama. Ég mun spilla því hvort sem það verður, hey til þess er ég nú. Þá er bara eitt eftir að segja, svona í bili allavegana. Loksins,loksins, haha ég er með minni bumbu en þú ;o) ] [ Ég kem úr ykkur, blóð ykkar rennur í mér. Andlit mitt speglar ykkar. Ég er litla barnið ykkar, sem er orðið stórt. Þessi bönd sem binda okkur, fær enginn rofið. Ég á ykkur svo margt að þakka, kannski líka eithvað til að álasa. Þið leidduð mig í gegnum lífið, ef til vill leiðið þið mig enn. Það er sárt að sleppa, en stundum er það nauðsynlegt. Ég óðum vex úr grasi, ég er að verða stór. Takk fyrir allt, sér í lagi mitt líf. Ég er enn litla barnið ykkar, en pabbi og mamma ég er orðin stór. ] [ Hús þitt ávalt opið er, fyrir minn maga. Hann allavega segir mér, að mat þú kunnir að laga. ] [ Með hlátri sínum, færir hlýju í lítið hjarta. Með skrítlum,knúsum og krumpum í framan, hann gerir lífið betra. Stundum hélt ég að hann væri Sveinki, kominn af fjöllum. En hann er víst ekki til. Með stóra hjartað sitt bauð hann mig ávalt velkomna í hús sitt. Björt blikandi augu hans færðu ró á sál mína, og skrípalætin bros á varir mínar. Með nokkrum línum hvetur mig áfram, í annríki minns lífs. Það er bara eitt sem brennur á mínu hjarta. Ertu viss um að þú sért ekki Sveinki?? ] [ Bíll, myndavél, rúðuþurrkur, selfoss, kaffi, rok, myrkraherbergi, rautt hús, stúdíó, hraðbanki en þó aðallega þú. ] [ ég sá þig aftur í gær það þyrmdi yfir mig eins og hægvirk mænurótardeyfing ég stóð fyrir framan þig dofin hjartað mitt sló hægar en nokkrum sinnum áður við vorum allt í einu saman bara tvö föst í blárri sápukúlu augun þín sögðu allt sem segja þurfti deyfingin smám saman hvarf sápukúlan sprakk ég stóð ein eftir og brosti bjánalega allt innan í mér hrundi með ryki og sandi hóst.....hóst.... ] [ Vináttan er væn og ljúf vini ég ávallt treysti án hans væri veröldin hrjúf sem vesæll blautur leisti ] [ Dagsbrún við dimma nótt leikur sér. rekur dökka slikju næturinnar hægt, svo undurhægt undan sér. Ljósgeislar teygja sig fyrst í roða við brún himins lengst í austri eflast svo undurhægt, vaxa. Nýr dagur mótast birtan vex fuglar himins fljúga úr náttstað. Sólin rís svo undurhægt, vermir. ] [ Með ljúfum koss á kinn, mjúkri snertingu, blíðum orðum í eyra, með hlýju faðmlagi. Augu mín leggjast aftur, líkami minn titrar, blóðið þýtur um æðarnar, varirnar opnast smá. Hjartað býður þig velkominn. ] [ Einu sinni var arfakóngur sem rak bakteríu.Aðalviðskiptavinirnir voru afturvirkir. Þegar þeir notuðust ekki við handrið ríkti ætíð ringulreið á bakteríunni. Einn af þeim var náungi. Hann var afhentur. Meinlokurnar dugðu ekki og þegar hann lést var farið með hann á nábýlið.Vinur hans, öryrkinn, var ekki lengi að yrkja ljóð náunganum til heiðurs og að launum fékk hann dráttarvél og veiðivatn. Dag einn kom kvenmaður inn á bakteríuna. Kúnnarnir voru allir skautahlauparar svo að úr varð glasabarn (kvenmaðurinn var sko ekki að hafa fyrir því að ganga með riðvörn!!). Konan var gift og var því eftir þennan samdrátt orðin að kópíu. Enginn vissi hver faðirinn var og því neyddust þeir allir til að greiða dráttarvexti. Eitt skiptið á leið sinni heim af bakteríunni kom arfakóngurinn við í sambúðinni. Eftir að hafa spjallað eilítið við búðingin fór hann heim að elda pottorma. Hann fékk matareitrun og hleypti brúnum og iðraðist á víxl það sem eftir var vikunnar. ] [ Nornirnar spinna sem mest þær mega, örlagavefi vesælla mannvera. Er líf þitt uppspuni? ´87 ] [ L eyndardómur lífshamingju á star og unaðar, r æðst í djúpi sálar þinnar, a ðeins þar bíður lausnin, lausnar. 1991 ] [ p b j m f l h ö í orð d k g e ú ó a æ t u þ á n v s é i. ] [ Karakter: frá sér numinn, gerist sjaldan að hann reki upp stór augu. En í dag, einhverra hluta vegna, er hann orðlaus. ] [ Þú að vilja sleit þetta upp á yfirborðið og það væri svo líkt mér að tárast í heilt ár sagði hann og ýtti á send ] [ Eins og dýrið hennar Fríðu kemur þú og ég er Fríða. Þarf ég að líta aftur á þig til að skilja að þú ert líka vera? Að þú ert kanski lítil sál? Eða þarf ég að líta aftur á sjálfa mig, skilja að ég er ekkert frábrugðin þér? ] [ Þrátt fyrir fólkið sem segir mér að þegja held ég áfram að tala ég þarf að skapa minningar því minningarnar eru eldurinn og mér er alltaf svo kalt. Hver skildi gluggan eftir opinn? Hver gleymdi að setja rúðu í rammann? Rangt fólk verður fyrir rangri sök Þú getur ekki bara falið þig undir teppi. Eldurinn er heitari. Þú verður samt að varast að brenna burt heildina, heildin er það sem heldur í okkur í lífinu. Hvað með hálfa fólkið? Er eldurinn þeirra ekki jafn heitur? ] [ Lýsnar skrýða og skordýr. Skondnar myndir í blöðum. Við ökum um í bílum sem skipta ekki um gír, siglum á óþekktum stöðum. Taktu upp úr töskunum, tappana úr flöskunum, bækurnar eru brenglaðar, bókahillurnar seinlegar. Hringeggjurnar hætta að snúast börn hamingjunnar við öðru búast. Sólin skýn um nætur- skugginn grætur. Fiskur í fötu, ormur í sjó farinn að heimaní áttina að ró. Flækist um á föstudögum gleymir sér í flestum fögum Endirinn er í dögun. ] [ Brot úr sálinni Því að gamla fólkið á ekki dauðann skilinn og unga fólkið átti aldrei að fæðast fólkið átti aldrei að hittast. Við erum ekki hér. Af því að við erum frjáls því við vorum aldrei fangar nema við setjumst ekki niður við stöndum bara endalaust. Þá þvældist ég til þín í heimsókn Þú sagðir að ég væri heimsk En ég veit meira en margir aðrir... Blómin blómstra ekki þegar þau eru dauð. ] [ Ég horfi með vatnsbláum augum, en skynja hvorki fegurð náttúrunnar né lífið sjálft. Sé aðeins himin og haf og grasið með sína vaxtarbrodda. Skildi hvorki fegurðina, né lífið sjálft. Því spyr ég: Til hvers varstu að skapa fagra veröld fyrir þá sem skynja ekki tilveru sína. Hann svaraði og sagði: Það lærist. ] [ Ætla út að ganga, ævintýrin seiddu, leið um götu langa, leðurskórnir meiddu. Haltra nú á hækjum tveim, hælsár, blóð mun vætla upp úr skónum, ég kem heim, örugglega ætla. ] [ Vor í lofti, vinur nýr, vindar blása hlýju. Grösin vaxa, vetur flýr, vonin vex að nýju. Ýlustráið örmjótt hér, ótal rósir anga. Lífið úti leikur sér, létt er hér að ganga. Rósin fölnar, féll í mold, flögra blöð til skýja. Ólgar lífið, elur fold aftur rós upp nýja. Skýjabólstrar bregða á leik, blása vindar þíðir. Smalinn aftur kominn á kreik, krækilyngið og víðir. Sólin hækkar sífellt meir, senn við fögnum vori. Vindar blása, vona að þeir vetri blása þori. ] [ Í búri hvalurinn kallaður Keikó kvaldist af leiða og hafður að leikó. Hornið bogið, engu logið, að hann væri svolítið veikó. ] [ Þokan læddist niður dalinn og sveipaði hann gráum feldi, sem var gatslitinn, hélt hvorki vatni né vindi. Sólin þokaði sig upp yfir fjallsbrúnina og hellti geislum sínum yfir þokubakkann sem flosnaði upp í miðjum hlíðum. ] [ Ég minnist litla trésins, sem stóð við Austurstrætið. Stofninn var svo grannur og krónan ekki stór. Ár og dagar liðu, krónan og stofn þess gildnar. Úr jörðu rætur vaxa líkt og þreyttar hendur í skauti móður sinnar. Nú er tréð fallið, féll af mannavöldum. Þar stöðumælar standa og borðaklæddir menn. ] [ Laus er ég við glaum og glys, og greið mun leiðin vera. Leiðin upp er létt sem fis, því enga synd mun bera. ] [ Hann ferðast vildi og sigra allan heiminn. Hann vissi afar lítið, hvað heimurinn var stór. Hann hafði aldrei ferðast né farið frá heimahögum. Heimurinn hans voru þúfnabörðin og litla kotið hans. Árin urðu að tugum og ellihrumur varð. Að lokum kom sá dagur, er kistan fór í jörð. Þá varð andi hans svo léttur, því sálin hans gat flogið, og óðara var hún þotin inn í annan heim. ] [ Rugguhesturinn ákaft stökk á stofugólfinu. Eftir mikið rugg og veltur að lokum hægði ferð, en uppgötvaði sár og leiður að hann var á sama stað. Á hestinum barnið ljómar, er það af baki fer, því í heimsreisu það hafði farið, en var þó á sama stað. ] [ Fossinn fellur og stynur, því fallið er feykilegt, það afl sem úr læðingi leysist er ljósið sem hann gefur þér. Þú kveikir og slekkur á rofa, skynjar ekkert meir, en fossinn stanslaust stynur og orkuna gefur þér. ] [ Að elska og vilja njóta alla daga jafnt. Þá breytist þinn innri maður, þá breytist lífið sjálft. Þú ferð að meta aðra og aðrir að meta þig. ] [ Við elskuðumst í hlýju sólskininu. Við elskuðumst í svölu tunglskininu. Við elskuðumst í mjúku skini kertaljóssins, og loks þegar við skynjuðum tilveruna aftur, sáum við að jafnvel skuggar okkar höfðu sameinast í einn! 1997 ] [ Ég flaug yfir haf, til að sjá þig þar, ég hjóp þinn veg, til að þá þér, hafið var blát eins og augun í þér, ég sit hér og bíð eftir þér, en ei komst þú. En af hverju ég, að bíða eftir þér, ei komstu þú að bjarga mér, en hver er hér þegar ég fer, lítil ást hvarf frá mér og þér. ] [ það er ekkert sem ég hef að segja. Allt stopp............ Engin hreyfing á vitund minni. Ef til vill er ég dauður núna Ekki hef ég hugmynd um það. fastur við skákborð tómleikans og ég er skák og mát. ] [ Lá við að heimurinn hrundi Í milljón þúsund búta Þegar slitnaði á línunni Og Það eina sem þú skildir eftir Var Du du du du ] [ Þegar fingri er bent er með hendi slegið. Reiði, neitun, æsingur...Sársauki.. Ég er þreyttur... ] [ Ég negli í púðan.. Finn sjokkið læðast upp handlegginn, móðganir, svik, lifi í þunglyndi... Ég negli í púðan.. Finn sjokkið læðast upp handlegginn, reiðina, ásakanir, lifi í þunglyndi... Ég negli í púðan.. Finn sjokkið læðast upp handlegginn, sársaukan, heimskuna, lifi í þunglyndi... Ég negli í púðan.. Finn sjokkið læðast upp handlegginn, tárin, skjálftin, lifi í þunglyndi... Ég negli í púðan.. Finn sjokkið læðast upp handlegginn, kýli vitlaust, heyri brotið, lifi í þunglyndi... Ég sest niður.. Finn sjokkið læðast gegnum líkaman, brotin hendi, brotið hjarta, dey úr þunglyndi... ] [ ég geng í eldlínu augna þinna sé þig sjá mig ekki og brotna saman í laumi ] [ Þú minnir mig á skugga, skugga sem ég losna ekki við. Þú ert alltaf þar, hvert sem ég sný, þú ert alltaf þar. Á nóttinni er ég loka augunum, finn ég til léttis. Þar er enginn skuggi bara draumar og friður. ] [ Fyllist hjarta, fljótt af gleði. Friður ríkir, það er von! Lífið sjálft er sett að veði, sjá; With the wind, I am gone. ] [ F relsaðu mig, Í gegnum þig, K omdu til mín, N áðaðu mig. ] [ I´m sitting here by the window and thinking of you. I´m watching the raindrops fall from the sky. I wish you were here for my eyes are so blue. Sometimes I think that life is a lie. I light up a candle and pray for you. For God was selfish when he took you away. Now you are asleep and you´ll never wake up. But the love that we had is alive today. Tomorrow will come and the sun will shine. The candle has faded but the memorie is mine. My love for you is kept in my heart. And while it is there we will never be apart. ] [ Hjarta mitt fyllist af gleði. Sál mín fyllist af von. Ég geng eftir erfiðri braut, en ég mun komast þangað, þangað sem ljósið er, þangað sem lífið er, þangað að lokum. ] [ I said a lot of things to you, they were bad and of corse not true, and now I am fealing really sad, for all the stupid thing I earlier said. In these words I am telling you why, why I hate my self and I want to die... So when I finally drop down dead, with a 22.caliber bullet in my head, and beside me there\'s lieing a note, a note I crying to you wrote, and when you read it you will know why, why I hated my self and I wanted to die... Becouse of us... ] [ Ekkert felst í hafi hugans, þar sem frelsið flögrar milli ryðgaðra greina. Og ekkert dylst í ljósi skuggans, nema ástin sem hefur meiri þrá að geyma. En þinn stígur seilast undir vitund mína og þinn vegur yfir stundir mínar. Því þessi andardráttur klæðir tómið litum, rauðar varir skrýddar perlum vetrar. Þar eru orð sem fanga hug minn og festa sálina við bergmálið sem lifir hér. ] [ Féll ofan í rúmið týndist viðurkenndi mistökin og fór heim ] [ Dreymi mig um fagurt fljóð, svíf um draumaheima. Kona falleg ljúf og góð, í minningunni vil geyma. ] [ Hafið úfið ýfir sig, lemur kletta og steina. Kona fögur geymir mig, hún er ástin mín eina. ] [ Hamast hjartað inní mér, af unaðs ástar hita. Alltaf mun ég standa með þér, í gegn um blóð,tár og svita. ] [ Aðfluttur anskoti kallinn er, situr við tölvufjandann. Hlær,röflar og skemmtir sér, við að spjalla við landann. Konan við imbann skemmtir sér, bíður eftir kalli. Og huxar er hann búinn að gleima mér, á þessu tölvu bralli. ] [ Lífs er orðinn lekur knör, líka ræðin fúin, hásetanna farið fjör og formaðurinn lúinn. Því er best að vinda' upp voð, venda undan landi og láta byrinn bera gnoð beint að heljar sandi. Þar mun brim við bláan sand brjóta' um háa stokka. En þegar ég kem á lífsins land, ljær mér einhver sokka. ] [ Ei vitkast sá er verður aldrei hryggur, hvert visku barn á sorgar brjóstum liggur.
? Á sorgarhafs botni sannleiksperlan skín, þann sjóinn máttu kafa, ef hún skal verða þín.
] [ Lítil mær heilsar löndum sínum, ung og ófróð, en ekki feimin. Leitar gestrisni góðra manna föðurlaust barn frá fátækri móður. ] [ Mér var undarlega innanbrjósts og fór á grænu krána. Flaug í hug hending og skrifaði á servéttu. Þá stóð hún yfir mér stúlkan með þrýstinn barm í þunnum flauelskjól og stríðni í augum. Það var á vörum mér að biðja um skinku og brauð með smjöri án þess þó vita hvað ég vildi. En hún spurði hvort ég væri skáld. Ég hikaði, og hún sagði: Það kom hér eitt sinn skáld, hann var mjög ungur, veistu hvað um hann varð? Ég svaraði: Hann hætti að yrkja og fór til Afríku. Hann dó á besta aldri. Enn trist, sagði hún, hann hafði svo djúp augu. Ég bað um glas af freyðandi öli. Klukkan var liðlega fimm. ] [ Hann kisi minn var vinur minn merkur köttur var sá en engan vildi hann flá ] [ þú tekur sjálfan þig of alvarlega sagði hún, af hverju losarðu ekki aðeins um hömlurnar, slakar á skrúfunum? komdu, fáðu þér bjór og slappaðu af seinna - þegar hún hafði riðið honum sitjandi í sófanum - grét hún við öxl hans, nei grét kannski ekki en táraðist - - - hún sagði honum frá stúlku sem eitt sinn deildi með henni götu, óbyggðri að slepptum þremur húsum, tveimur að rísa og einu skrifli sem hafði staðið um aldur og ævi og fylgst með borginni mjakast nær varasamar þessar nýbyggingar sagði hún, faðir minn gekk fram á hana í myrkrinu neðan við stigaopið síðar þetta sama kvöld, blóðið á steypunni- - - - og hann áttaði sig á að þótt hann hlustaði með báðum eyrum var hann enn með hugann við brjóst hennar: hvernig þau bifuðust ] [ Þá saknaði ég mömmu hendi hennar á enni mínu hvernig hún hjúfraði að mér sat hjá mér var hjá mér Það var fyrst þá sem ég fann hvað ég saknaði mömmu ] [ Ég er guð, dýrkið mig. Ég er mátturinn, ég er dýrðin. Ég er skapari alls, ég á þig. Ég skapaði þig, ég get eytt þér. Ef þú óhlýðnast, þá muntu brenna. Ef þú syndgar, þá skaltu iðrast. Ef þú breytir rangt, þá mun ég þér eyða. Ef þú trúir ekki, þá mun Satan þig eiga. óklárað ] [ Bergmálaðu rödd mína, fjall og berðu öllum heima kveðju mína. ] [ Ég eitt sinn átti engils rós en sorgin nú mig kvelur argur af reiði amor jós angist sem í hjarta mínu dvelur ] [ Vera-fara valið er mitt vansældin mig pýnir enda ég í fúlum forarpytt fagnandi strákar mínir? Barist við að lesa boðorðin, bölvanlegt er að muna allir þessir glæpir og raðmorðin trúirðu virkilega á biblíuna?? vansældin-vorkunnin-eilífðin ] [ Til hvers er lífið svo erfitt það að lifa er erfitt maður veit aldrei hvenær maður deyr maður lifir í efasemdum hvenær deyr maður ??? ] [ Bækur opnar sem lokaðar lifandi eða dauðar skemmtilegar eða leiðinlegar það er spurning ] [ Hreppti hnossið hneppti frá hrekkti hrossið heyktist á ungfrú Afríka ei-lítið ríka snót slíka sá líka. Þeir sem vilja allt skilja, ekkert dylja, lygi sig hylja. í lögum öllum ferða menn verða sig herða ábyrgð bera sinna gerða ] [ .... Var það ég sem sat með þér á barnum og reykti 13 sígarettur; drakk flöskubjór, sem var borgaður með öllum mínum peningum? Nei. Það var í gær. Gefst upp. Man þetta ekki. ] [ (friður) barn á hjóli blóm í glugga bros á vör glampi í augum hlátur (stríð) lík barns brotin rúða tár móður sorg í augum byssur - dauði saklausra sprengjur - eyðilegging (friður) móðir stendur út í glugga, finnur ilminn af nýútsprungnum blómum, heyrir hlátur barns síns sem er á hjóli í garðinum. hún fær glampa í augun, hjarta yfirfullt af ást á saklausu lífi. (stríð) skyndilega þagnar hláturinn, rúðan springur, blómin hverfa, augu móður fyllast skelfingu er hún sér að saklaust barn sitt fær skot í hnakkann, hjartað yfirfullt af sorg eftir saklausu lífi. ] [ Þú sagðir að val þitt væri einfalt þú vildir algjörlega//fullkomlega aðskilja þig frá mér, með það í huga að eftir 10 ár munt þú þekkja mig alveg jafn vel. Núna er ég virkilega að reyna að forðast einmannaleikann með því að standa í símaklefanum í leit að nýrri addressu. Vælandi ástarjátningar á óskýru tungumáli rifjandi upp að við hefðum átt að hlaupa burt þegar við sögðumst ætla að gera það. Þú sagðir, \"ég held við séum alltaf tvö föst saman á endanum\" Ég sagði, \"mjög líklega\" Þú sagðir, \"ég veit ekki hvað ég á að gera, ég gæti skrifað nóbelsverðlaunabók um þig\" Ég sagði, \"hmmm\" Ég hringdi í þig til að heyra andadráttinn komast að því að þú þarfnaðist mín ekki, ég misskildi orðin. Væri til í að segja þér að þú fékkst mig til að segja ekkert í svo mörgum orðum og þú fékkst mig til að trúa að trúa yrði ótrúlegt. Vild við hefðum farið burt þegar við sögðumst ætla að gera það... ] [ 12:51 Horfi á þau með forskrúfuð augu. 12:52 Dreymi um sterka raflostinn. 15:09 Missi hjartsláttinn. ] [ Glamrr... Það glamrar í tönnum mínum. Veturinn er kominn. Ahhh... Komin inn í hlýjuna frá kuldanum. Fæ mér heitt kakó Veiiii... Bruna niður brekkuna sólin glampar á heiðskýrum himninum. Þetta er æðislegt Æææææ... Fór of hratt. Mér skikaði fótur, fer á kollhnísum niður brekkuna. Skíðin eru brotin. Breeeest... Svellið brestur undir fótum mér. Ég kemst ekki upp -sekk dýpra. Vatnið er kalt. HJÁLP!!! HJÁLP hjálp ... ] [ Ég er hnefi hermannsins reiði hans og vilji og þú; þú ert öruggt skotvopn andstæðings ] [ Þessi tilfinning, djúp og dökk hún togar sleppir ekki. Hjartað hverfur í hyldýpi myrkurs. Ég finn fyrir dimmunni. Ljótar myndir í höfðinu á mér. Ég vil ekki vera svona. Ég neita að vera svona. Er svona samt. Af hverju hættir þetta ekki? Draugar fortíðarinnar þeir ásækja mig. Reyna að segja mér fyrir verkum. Sólin skín ekki í hjartanu. Hún þykist skína í brosinu. En glampinn af gervi ljósi glæðir ei varma í sál. ] [ Öskraðu. Fólk heyrir. Það er löngu hætt að gera nokkuð í því. Á vit einmanaleikans á vit þagnarinnar. Hver á að koma færandi hendi þegar fingurnir eru hættir að grípa. Þegar fingurnir eru hættir að vera. ] [ Þegar ég læsti dyrunum var ég viss um að það væri ástæða fyrir því. En þegar ég sá að lykillinn var úti mundi ég að það var engin ástæða Og nú þegar ég er læst inni næ ég ekki samhenginu ] [ Fyrir löngu var maður krossfestur, hengdur upp á spítu og negldur þar við. Á jörðunni var hann álitinn einhver gestur, sem fór ekki saman við margra manna sið. Þessi einhver var ekki sá er við sáum, sí betlandi um pening og sleikjandi ryð. Heldur var hann maðurinn sem á himninum bláum, situr við Hans hægri hlið. En eftir að hyggja var hann góður maður, fórnaði sér fyrir sína. Þótt margir hafi trúað að orð hans væru þvaður, þá hitar hann upp sálu mína. Guð blessi son sinn... ] [ Er við siglum saman yfir blóðrauðan sjó, sofandi og blinduð af ást. Vid vitum ekki að í nótt einhver dó & við sorg við brátt munum kljást. ] [ Missti kjarkinn, táraðist á götunni. Andadrátturinn lyktaði eins og dauðinn, augun öskruðu morð. ] [ nei ] [ Búin Útafhverju? Hætta þau? Hvað græða þau á því? Út úr kú marr! ] [ þrútin augu stara inn í sál mína þau stinga mig, og brenna göt á mig það flæðir út ljós og þú drukknar í tilfinningaflóði ] [ Þú dróst upp myndir og sagðir: Þetta er ég. Lítil og góð. Ég leit ekki einu sinni á þær. Ég veit að þú ert ekki lítil og góð. Þú otaðir myndunum að mér og sagðir: Sjáðu mig. Litla og góða. Ég lokaði augunum. Mundi þegar þú hafðir komið heim með blóðugar hendur sakamanns og nauðgaðir mér með orðunum sem flóðu úr kjafti þínum eins og hugtök tíð í helvíti. Þú ert ekki lítil og góð! ] [ Og þó svo skýin falli? Ég sá hvað himininn var blár þegar ég kynntist þér. Ég fann lyktina af grasinu þegar ég kynntist þér. Ég heyrði fegurðina í regninu þegar ég kynntist þér. Ég fann titrandi snertingu vindsins þegar ég kynntist þér. Þú gafst mér þetta og hljópst svo í burtu. Þú sagðir að þó svo skýin falli, þá finnum við samt. Ég finn. Og þó svo skýin falli, þá kynntumst við samt. ] [ Ekki lækna mig með þessu. Þá verð ég meira veikur. Veikur asni á stultum sem heldur að hann sé herra almáttugur og dettur svo niður og deyr. Úr veikindunum. ] [ EF orð væru bara til á morgnanna ÞÁ myndi ég ekki skrifa LIFA ] [ Stundum er jörðin hvergi nálæg, það er eins og himininn sé ekki til. Mýktin er algjör, blanda af bómul og hlýjum sjó. Góðlegur hlátur, einlægur grátur, hlýleg og dúandi ró. Þú kemur í kvöld, og ert fram á morgunn, síminn hringdi og draumurinn dó. ] [ þú stalst mér þú stalst hjarta mínu ég stal vinu þínum en fyrigefðu mér! ] [ Snjókornin falla niður úr skýjunum þau eru firverandi regndropar þegar það fer að snjóa þá er himinninn fullur af skýjum. Þegar sumarið kemur þá hverfur snjórinn og verður aftur af regndrodum. ] [ Afhverju að vera að rembast við að semja ljóð? Af því það er búið að semja öll bestu ljóðin. ] [ Við sátum stíf hvort öðru hjá, sæt eins og nýgift hjón. En eins og dögg fyrir sólu þú fórst mér frá, & sagðir: "Ég vil þig ekki Jón"... Hjarta mitt brást og sálin ónýt, er þú sagðir þetta við mig svo köld. Og svo þegar til baka ég lít, þá verð ég að segja að ég dó þetta kvöld. ] [ að drýgja déskoti flott dánumanna verk nokkuð gaman var og gott gerðist fræg og merk frúin er þyggja þurfti þjónustu þá er henni lá á Gaf sig á tal með durti. ] [ Hér sést ei sjór Hér syndir ormur stór Hér í tíð og tíma Hér töluðu í síma Hér er mikil mennt Hér mikið getur fennt Hér synda á sundi Hér sitja marga fundi Hér gættu menn fjár Hér lækna menn sár Hér búa fögur fljóð Hér fræg voru ort ljóð Hér eru hin helgu vé Hér ei langt frá KHB Hér eru góðir læknar Hér og betri meinatæknar Hér senda sumir póst Hér líta sáralausir á hóst' Hér eru líka leysi hjóna Hér var lítil stofa prjóna Hér er líka laglegt skass Hér lék Ísleifs Árni djass Hér fara margir menn ferða Hér minna sig passa verða Hér hýrast á hótelum gestir Hér hreppa menn engar pestir Hér grær landsins stærsti skógur Hér situr mannsöfnuður nógur Hér virkja menn vatnið Hér vona allir að þið batnið Hér um skóga geta menn skokkað Hér hafa menn rjómann strokkað Hér skín oftast sól og sæla Hér sjást engir væla ] [ Nú má sjá, þá er þyggja en ekki byggja, hvað þá bæta land. Treysta má það tryggða band. Reisa rönd, rétta upp hönd, fá á bossann vönd að launum, hlúa að gömlum kaunum. Allir vilja eitthvað skilja, milli gilja, vísur þylja, hestar hryssur fylja. Éta mat, á sig gat, æla í fat eftir hrossaat, þar við sat. vefja verðlausa bleðla sem peninga seðla, sífelt sig eðla. ekki lamast, heldur hamast það er tamast. Hættu að væla, farðu að pæla, engum sem skæla, má hæla. flík af fleginni tík fæst ei slík á hverri brík, sért ei rík. ] [ Að langa í og láta eftir sér, leyfislaust hafa á brott leika þá á minni mátt Hafa svo um það hátt hrekkja þannig, er ekki gott En hvað þykir þér. Að láta lítið fyrir mikið létt má teljast svikið. ] [ Að vilja vel, vinarþel, ágætt ég tel, aldrei sel. Umhuguð ýmsum er afdrif vina sinna ] [ Viltu fara að koma, eigum við að fara að jæja? Bíddu aðeins, eitt augnablik, bara uns ég er til. Dokaðu við, dveljum eilítið lengur. Hérna er gaman, að sitja saman, förum ekki fet. Okkur liggur ekkert á! Vil ég vera, hér fyrir víst og ekkert gera. Jamm og jæja, jæja já. Leggðu af stað, leggðu af stað láttu ekki bíða eftir þér. Flýttu þér, strax, flótt, fljótt, farðu nú að koma. Drífðu þig, ekki drolla við þetta, déskotans tafir endalaust. Ekkert hangs, endilega komdu nú, einskis til slórið er. Hana nú, Haskaðu þér af stað, Hræðilega ertu lengi. ] [ Öll þau orð sem ég vil hafa sagt ekki einnungis við þig, heldur allan heimin, komast ekki að. Því ekki einnungis þú heldur allur heimurinn grípur frammí fyrir mér. og ýtir orðum mínum burt svo ég komist ekki að Það er svo margt sem gengur á ekki einnungis þú og allur heimurinn, einnig ég ] [ Blóðrissa hendur þíg bár\'u inní heiminn, burtséð frá foreldra pínu og kvöl. Frá barnæsku hefur þú kannast við keiminn af hversdagsins armæðu, veraldar böl. ] [ Tek L-ið og læt það aftast. Þá standa þeir þrír saman en þó óskiljanlegir. Aftasti kyssir miðjuna og fær á sig nýja mynd. Nýja myndin er talin átta sinnum á eftir hinni gömlu, þ.e. í hinu alíslenska. ] [ Veggjakrot og gaddavír máluðu götur Vancouver með gylltum og stórum stöfum. Reið æska hafði skrifað \"born dead, i dont care\", eina sem ég tók eftir var ég sjálf sitjandi í bílnum. ] [ Við fyrstu sýn þú freistaðir mín ég vil fá þig en villt þú mig? ] [ Ég flaug yfir haf til að sjá þig þar ég hljóp þinn veg til að ná þér hafið var blát eins og augun í þér ég sit hér og bíð eftir þér en ei kemur þú En af hverju ég að bíða eftir þér ei komst þú að bjarga mér en hver er hér þegar ég fer lítil ást hvarf frá mér og þér. ] [ Hér er rós til þín @->->-- frá mér hún er fyrir ástina mína til þín ég vil að þú eygir þessa rós @->->-- um miningu um mig en ég mun deygja þá veistu að ég er hjá þér og gæti þín ef það ringnir er ég að gráta til þín ef þú ert dapur sendi ég vind til þín ef hamingjan er með þér sendi ég brosandi sól til þín. Þegar þú ert orðin eldri þá gleymuru mér þá verð ég döpur en þegar þú er að fara degja rifst þetta upp fyrir þér að ég er engill sem vendaði þig í lífinu þegar þú dóst varð fólk dapurt en ég bíð eftir þér Þú verður engill, engillin minn þegar þú komst varð ég glöð en þú varst dapur að deyja hér ] [ Með nætursaltaðar varir þá gengur hún upp að andliti mínu. Hún er með reykmettaðar tennur og flúorlituð brjóst. Tónlistin sem hljómar er eftir erlendan höfund, sem að lifir víst hressandi lífi við bága heilsu. Þegar ég spyr hana hvort hún vilji koss, þá hlær hún og segir ha, síðan fer hún að pissa. Ég borga leigubílinn með herkjum og kem henni undir sæng en sofna þó ekki því við og við þá þarf hún að æla. Tuttugu og tveimur árum seinna þá þá skýst ég með sama áhuga út í apótek fyrir hana og sæki beinþynningarlyf sem hún tekur reglulega. ] [ Þegar ég syndi þá skiptist ég á að telja ferðirnar og að telja þær ekki. Þegar ég tel þær þá líður mér líkt og ég sé að fara í próf í þýskum háskóla. Eftir slíka sundferð þá fæ ég mér yfirleitt hrökkbrauð með osti og hálft mjólkurglas og sofna síðan klukkan þrjár og hálfa mínútu yfir níu. Stundum þá gleymi ég að telja ferðirnar. Þá finnst mér eins og lífið sé til í alvörunni og finn þá að tíminn er það ekki, því þegar maður ruglar tímanum saman við lífið þá tapar maður yfirleitt sjónum á hvoru tveggja, hins vegar þegar maður telur ekki mínútur eða ferðir þá eru oft teljandi líkur á því að maður verði hamingjusamur uppúr þurru. ] [ Kinnar mínar verða rjóðar þegar þú segir - ég elska þig. Fiðrildi fljúga um í maga mínum þegar þú kyssir mig. Hjarta mitt slær ofurhratt þegar þú heldur utan um mig. Er ástin ekki dásamleg. Svíf um á rósrauðu skýi og held í hönd þína, hjúfra mig að þér. Þú ert svo mjúkur - samt svo harður, verndar mig. Stjörnur himinsins skína í augum mínum þegar ég lít á þig. Það þarf engin orð - augnráð og snerting segja það sem þarf. Það þarf enga sól í okkar heimi - þú ert sólin í hjarta mínu. Kinnar mínar verða rjóðar þegar ég segi - ég elska þig. ] [ Ljáðu mér eyra, sagði gamli maðurinn sem var í brúnu jakkafötunum og sat í ruggustólnum. Hann saug fast upp í nefið og ég sá þegar tóbakið þyrlaðist upp eftir nasagöngunum, upp í höfuðkúpuna. Ég skar af mér eyrað og ljáði honum. ] [ hrátt kjöt hrynur fellur af himnum ofan það rignir blóði hellidemba af hverju verða allir rauðir nema ég? ] [ Hjá ögrun stend ég á reiðiskjálfi. Á ég eða ekki? ] [ Grúfðu í greipum mínum, gráttu söltum tárum. Breiddu úr barmi þínum og bættu úr mínum sárum. Fórnar fögrum dögum, frama, valdi og ríki, miðar mildum lögum mædd frá barnsins líki. ] [ Sætur ilmur hugans læðist um vit mín og grefur sig djúpt í fylgsnið. Ég get ekki hætt að hugsa. Ég get ekki hætt að hugsa um hugsunina um þig! ] [ Stingdu, skjóttu, starð´á mig, settu hatrið oná mig. Hræddu, hrjáðu, hreytt´í mig, hristu myrkrið yfir mig. Ég-get-þolað-allt. Máðu, meiddu, myrtu mig, muldu eitrið uppí mig. Kýldu, kreistu, kremdu mig, kræktu augun úr mér. Ég-vil-finna-allt. Vertu ég og haltu svo áfram. ] [ Mig dreymdi draum sem var martröð. Ég lifði draum, sofandi, lifandi. Hann var aleinn, grýtti steinum í glugga í dægrastyttingum. Sat í stól á næturnar og las Biblíuna aftur á bak. Hann býr í draumnum mínum. Ég átti draum sem var martröð. Ég lifði draum, vakandi, blindandi. Ég hitti hann eða hann hitti mig. Hann brosti til mín og hélt áfram að kasta steinum í glugga. Hann býr í götunni minni. ] [ áðan núna seinna hlæ ég græt ég norður niður langt hleyp ég skríð ég bláar litlar flugur fljúga suða ] [ Viltu koma með mér í ferðalag? Ég fer í dag með poka sem er bara lítill. Ég geymi allt sem við þurfum, í litlum poka. Húfu, skó, hamingju, brauð og von. Viltu koma með? Við skulum gifta okkur og eignast tvö lítil börn. Eða er einhver önnur? Börnin okkar eignast líka húfu, skó, hamingju, brauð og von. Þau verða glöð, eins og við. Giftast og lifa góð til æviloka. Eða er það einhver önnur? Sendu mér bréf með svari. Viltu koma með? Það verður ljós hjá okkur alla daga og líka nætur. Ljósið kemur úr litlum poka. Það skín hjá okkur, á öllu ferðalaginu. Við förum í dag og komum aldrei aftur, nema bara næst. Eða er það einhver önnur? Ég fer núna. Viltu koma með? ] [ Gat ekki. Þannig að sálin mín strauk; og ég tók hænuskref út í myrkrið. ] [ eins og teygja draga þeir í mig hvor í sína áttina koma, fara, lifa, deyja hlaupa, hoppa, dansa, stoppa útteygð, kengbeygð langþreytt, sísteytt STOPP! komið að mér hvað ég vil hvar ég vil hvern ég vil á meðan ég enn get ] [ Dulítill hvolpur frá Skáni varð fyrir óvæntu láni er konu hann fann brátt af honum rann þá þeystu þau burtu á Fráni ] [ rýni gegnum þokumistur gráar mýs á götu saltstólpar standa vörð um valinkunn stræti þú falin bak við bros gærdagsins von morgunsins tár dagsins ég hræddur kvalinn falinn kanski við gætum farið, verið, gengið saman? ] [ Ástin hún er blind. Hún er eins og lítil mynd Sem er málað á rauðar slettur Og í miðjunni er klettur Klettur sem að stendur í vegi fyrir mér Stendur og heldur þér. ] [ Þegar ég horfi á þig, þá brosi ég, þegar þú brosir, þá brosi ég. Ef þú hlærð, þá hlæ ég, ef þú segir brandara, þá hlæ ég. Þegar þú skammast þín, þá sé ég það á þér, þegar þú segir \"fyrirgefðu\", þá finn ég það. Þegar ég hitti þig, þá brosi ég, þegar þú heilsar, þá fyllist ég gleði. Þegar við tölum saman, þá fyllist ég gleði, þegar þú hlærð að mér, þá finn ég að þér er alvara. Þegar þú horfir á mig, þá verð ég ánægð, þegar þú ferð, þá brosi ég, því ég veit að þú kemur aftur. ] [ Boðskap drottins víst sér völdu, virtu í öllu þjóðar hag, vopnin bitur fljótt þeir földu, friðinn héldu þennan dag. Þorgeir goði kaus þar krossinn, kynnti lögin snjöllum róm, sínum goðum fleygði í fossinn, fól í elfu heiðindóm. Kirkja Drottins, þú sem þekkir þúsund ára gönguferð, þöglir muna þínir bekkir þjóð sem deildi smáum verð. Löngum þó að mistök manna marki spor á hreinan skjöld, blessun veitti sífellt sanna, sárin græddi á hverri öld. Kirkja drottins, ár og aldir örugg reis sem bjarg á jörð, orðið heilagt ótrauð valdir alltaf þinni breysku hjörð. Friðarboðskap Krists þú kenndir, kveiktir trú í hjarta manns, ávallt fyrr og enn þú bendir öllum leið til frelsarans. Kirkja drottins, hrelldum, hrjáðum, huggun ert í hverri raun, og af kærleik öllum smáðum ávalt boðar sigurlaun. Vertu stöðugt ár og aldir, athvarf þess sem veikur fer svo þú sterk og staðföst haldir stöðu guðs á jörðu hér. ] [ Þegar lygna ber við báru blóðrautt sólarlag, ryðst hér framm úr rústum dagsins rökkurbandalag. Sveipar dalinn dularslæðum, drýpur þögn af grein. Sefur brim á svöluvogum, sorg mín vakir ein. ] [ inní hugarheim sem ég ekki þekki lít ég nú sem aldrei áður, þjáður hrökklast frá sem hræddur maður, glaður fer til baka sem breyttur piltur, villtur ] [ snjórinn féll eins og frosið vatn niður á hann sem lét snjóinn falla á sig eins og frosið vatn hann horfði á tunglið í sitt hinsta sinn og tunglið skein á hann líkt og það væri hans hinsta sinn hann brosti við köldum örlögum sínum er hann fann lífið fjara smám saman út og lífið brosti við köldum örlögum hans fjarandi smám saman út eggvopnið lá blóðugt við hlið hans og notandinn löngu farinn skiljandi eggvopnið blóðugt við hlið hans löngu farinn snjórinn féll eins og frosið vatn niður á hann hann horfði á tunglið í sitt hinsta sinn og brosti við köldum örlögum sínum er hann fann lífið fjara smám saman út á meðan eggvopnið lá blóðugt við hlið hans var notandinn löngu farinn ] [ ég er viðkvæmur í dag og ég veit að ef ég verð fyrir áfalli mun það svarta og myrka sem hefur falið sig bakvið geðheilbrigði mitt sleppa út og mun ég þá kynnast matnum á kleppi ég er viðkvæmur í dag og vil ekki heyra svona kjaftæði frá þér láttu mig bara fá alla peningana úr bankanum og þá getum við báðir haldið lífi okkar áfram eins og við lifðum því í gær heilbrigðir ] [ í gegnum tárin sé ég glitta í bros fyrir ofan brosið renna droparnir og hverfa niðri á borðinu er skorinn laukurinn ] [ Ísland æviskeiðið; Reykjavík, upphaf og endir á leiðinni kemur maður við í stórum merkilegum bæjum; stóru viðburðunum í lífinu en samt bið ég þig að gleyma ekki litlu sjávarþorpunum ] [ Við ætluðum alltaf að vera saman En ég sé að það gekk ekki vel Alltaf átti að vera svo gaman Ég dagana tel Ég bíð eftir að síminn hringji Ó bara ef hjarta mitt syngji En það gerir það ekki Mér finnst hjarta mitt bundið við hlekki Ég get þér alls ekki gleymt Þú hjartað þitt hefur hjá þér geymt Ég elska þig enn þá alltof heitt mér þykjir það afskaplega leitt. ] [ Hvort sem sólin rís eða sígandi hnígur, golan kyssir eða vindurinn gnauðar. Hvort sem droparnir falla eða rigningin lemur, fuglarnir syngja eða þegjandi hvílast. Þá vil ég hafa þig hér við hliðina á mér, því ég fann þig og neita að sleppa. ] [ í heimsins bál hert eru stál styr er háð, bygging afmáð skugga sprengju í skipt er um stjórn skuldin greidd upp með blóðugri fórn munt þú sjá varandi frið? vilt þú fá varandi frið? rústunum í rís upp á ný með hatur rautt líf gleðisnautt öldur ofbeldis breiðast út enn brimið skvettist á saklausa menn bjóstu við varandi lausn? býrðu við varandi lausn? ] [ Hann sér mig ekki Horfir í gegnum mig Ég er ekki nógu Grönn Sæt Vinsæl Nógu róleg Skemmtileg Og undirgefin Hann heyrir ekki í mér Ég er ekki nógu Gáfuð Skemmtileg Fyndin Nógu afslöppuð Er of opin Hann sér mig ekki Horfir í gegnum mig ÉG ER HÉR - SJÁÐU Ég er kannski ekki Sæt Grönn Vinsæl Fyndin Og undirgefin EN ég er Góð Elskandi Traustverð manneskja Kannski er það ÉG sem er OF GÓÐ FYRIR ÞIG ! ] [ Horfði útum gluggann í leit að spegilmynd af þér sá norðurljósin og þokuna fjúka fram og tilbaka með vindinum og mér var skít sama. Allt sem ég sagði fyllti uppí ófylltu eyðurnar og þú blaðraðir og blaðraðir, bað til guðs að þú myndir bara þegja. Á döpru sunnudagskvöldi keyrandi reykjanesbrautina í leit að ást ] [ Sérðu ljósið þarna í glugganum? Já; oftast er það samt slökkt. ] [ Múlar gætu hentað ágætlega á málverkin sem þið skapið svo ofboðslega á hverjum morgni. ] [ knobobobknobobobknobobobknobobobknobobobknobobobknobobobknobobobknobobobknobobobknobobobknobobobknobobobknobobobknobobobknobobobknobobobknobobobknobobobknobobobknobobobknobobobknobobobknobobobknobobobknobobobknobobobknobobobknobobobknobobob ] [ Eins og reiður nashyrningur göslast ég áfram og horfi beint fram á veginn Eins og reiður broddgöltur bruna ég heitur áfram og leiði umhverfið hjá mér Eins og reið skjaldbaka staulast ég áfram síðustu metrana án þess að taka eftir því Fjörutíuogtvöþúsundeitthundraðníutíuogfimm metrar eru liðnir ] [ ér að springa, það rótar inní mér taumlausar tilfinningar sem þeytast til allra átta, brátt ég fer því þessi tilvist hér er eins og ver að ber. Verð að yfirstíga óttan, þótt að það þýði flótta. Hverfvult brosi ég og í háana skima um þróttlausar sálir sem mig biðja um stoðir. Ég hef ekkert að bjóða nema endurspeglun á það sem engin þolir. Forvitni mig dregur áfram inni súrealísk frávik. Er ég látin bíða eftir öryggi og frelsi, til læra allt sem hugur minn girnist. Ég man eftir krullóttum sporðdreka sem mig dáði en svo hæddi, án þess að fá mig til að kikna. Ég í brjálæði girndist að fá það sem ekki mig vildi. Ef örlögin hefðu aðeins fengið sínu fram þá hafði hjartað mitt lifað lengur en það brann. ég mundi aldrei elska annan mann. Sporðdrekar bíta en í vatnsbera mundi ég drukkna. Hvað var ég að hugsa! útí djúpa endan ég stökk, frökk um að verða ekki sökkt af mótbárum kúlistans þótt með visku sé rausn. Klókóttu hálfvitar, er ekkert þar, hvar er þetta kort sem er talað um svo oft. Er raunverulega ekki til neinn raunveruleiki, er það ekki óraunverulegt? Hvernig einveran hefur okkur blekkt, ekkert hefur verið fjallað um þjálfun hugans. Afhverju leyfum við þeim, að halda okkur heimskum. með þessum lúmsku prettum þeir halda okkur í skefjum, hefjum byltingu gegn takmarkaðri fjölmiðlun, hagstæðari tilvist er í seilingu, ef við stöndum saman í einingu, allt sem er tengir okkur. ekki einn flokkur, allt sem er ekkert og ekkert sem er allt. ] [ Samfarir í sólinni skýin sáu það samfarir í sólinni og hvorugt fékk það ] [ Hálfi guli máni ég sá þig fljóta á tjörninni í skóginum. Ég lagði mig í frosið grasið og horfði. Horfði á þig sigla fram hjá mér, fljóta eins og í draumi. Ég henti mér útí og hélt í þig dauðahaldi eins og kona sem hefur verið kastað í drekkingarhyl nornir þær fljóta og ég hafði jú þig ó tærguli máni, þú hálffulla tungl bjargvætturinn í hylnum helblái máni ég þekkti þig svo vel þessi guli vinur í nauðum. Meyja, litla stúlka, syndug og svört tunglið tunglið taktu mig og þarna flaustu eins og í draumi þú sýndir mér stjörnur og ókunnug lönd þú sýndir mér annarra nauðir þú sýndir mér syndir, þú sýndir mér þrá og mannanna eilífu raunir. Þú hálfguli máni ég sá þig fljóta í tjörninni í skóginum forðum. Ég lagði mig í frosið grasið og hugsaði. Ímyndaði mér ég væri þín að eilífu ó tærguli máni ég sökk eins og steinn syndir eru þungar nornir þær fljóta en ímynd þín var aðeins spegilmynd stjörnurnar hurfu mér sýnum á endanum bara þetta hálfdauða tungl sem sökkti syndum mínum. ] [ Eitt skref. Myndavélar smella af í gríð og erg. Leikkonan er komin út um dyrnar, fjölmiðlarnir biðu eftir henni. Hún brosir í gegnum tárin, en finnur innra með sér fyrir sársaukanum. Órafjarlægð í burtu, degi seinna, skoðar ung stelpa tímarit. Sér mynd af konunni, segir: Rosalega vildi ég vera fræg. ] [ pisssa búið bless! ] [ Hvar er draumurinn. Hvar er glaumurinn. Er þetta allt lygi. Eða bara tóm lygi. Ég veit ekki af hverju. Ég veit ekki hvernig. En það bara gerðist. En hvernig.. Ég bara veit ekki. Eða... Eða var þetta bara draumur. ] [ Ég skil ekki Ég bara veit ekki Ég bara fatta ekki hvernig gat það gerst eða gerðist það kannski en af hverju hvernig hvers vega það gat gerst í gær eða bara hinn eða gerðist það ekki Jú það gerðist. ] [ Þú borin ert úr kirkju eins og dánumanni ber nú þjóðin grætur þögult við minninguna af þér. Og ég sé það gegnum tárin að jörðin grætur með stóðhestarnir stoppa og borgin lútir þér. Þeir þrautsegir nú munu yrkja erfiljóð um þig litlu börnin munu minnnast og syngja um sína hryggð. Mín kveðja og mitt loforð til sjálfrar mín og þín er minningin um skáldið manninn og verkin þín. ] [ Í Írak dvelur andskoti og liggur sem ormur á fé í USA er bjáni einn sem lét honum vopnin í té sýklavopn, tundurdufl og kjarnorkukraftur ...núna vill hann fá vopnin sín aftur... Í norðurhluta Kóreu er rannsókn ein í fullum gangi ríkisstjórnin þar bera gereyðingarvopn í sínu fangi Bandaríkjastjórn er hjartanlega sama um það ...dreymir bara um olíu Íraks og peningabað... Í Serbíu liggur einn ráðherra í líkkistunni kaldur til Íslands ferðast hans illgjarni reiði dánarvaldur hefndin sæt í lofti fyrrum Júgóslavíu liggur ...meðan herinn í USA alla peningana þiggur... Í austurhluta Íslands mun allt fyllast upp af mold þegar virkjun verður reist á okkar ?óspilltu? fold eftir eina öld og fjárlagahrun mun hún svo hrynja ...en við höfum samt drulluna miklu til minja... ... Ég er hættur að hugsa um þetta helvítis mál læt ekki annarra manna klúður eitra mína sál farinn að hugsa aftur um minn eigin hag ...Bagatello og Heineken voru á útsölu í dag... ... Þó heimur vegna nokkurra fífla falli bráðum saman reyni ég samt að hafa það helvíti gaman fyrir framan imbann með kertaljós og teppi ...horfi á stríðsglaða vitlausa bandaríska eiginhagsmunasekki og fitukeppi... ] [ orð eru einum of fá til að lýsa minni ástarþrá... ég gæti skrifað um stjörnur í augunum neistana í taugunum um brosið þitt æpandi fagurt... er ég sit hér við borðið og reyni að finna orðið er málfar mitt alltof magurt... ekkert vit er að finna í mér þegar ég lýsi ást minni á þér... enga setningu mun ég sýna sem fangað gæti fegurð þína... ] [ ?bagdad? mínus ?gda? myndar orðið ?bad? ?usa? mínus ?u? plús ?d? myndar orðið ?sad? ríkisstjórn bush er skipuð afturhaldsköllum með putta og nef sín í rassgatinu á öllum... þó írak hafi vopn eru það vopn frá bandaríkjum þau er kannski falin í byrgjum eða djúpum síkjum kanar leita reiðir að nálum í stórum heystakki finna ekki neitt því vopnin sjálf eru á flakki! evrópuþjóðir hlusta í blindni á bush og hans ræður fáir mótmæla ? bara frakka- og þjóðverjahræður innrás í írak er greinilega á döfinni ? gerist fljótt ég ætla að loka mínum augum ? því þetta verður ljótt! innrásir hér á landi tíðkast einnig í miklu magni alcoa platar alla ráðamenn heimska með lagni náttúran á ekkert val ? er kæfð í nokkrum skjölum mótmælendum þagna en með miklum sálarkvölum... vesturbæjarmæður ræða málin fram og aftur en í setningum þeirra er mjög lítill kraftur sumir vilja stríð og mengun ? aðrir vilja frið aðrir segja að þetta komi okkur ekkert við!!! kannski á maður bara að loka eyrum og þegja? á morgun kemur allt í ljós ? hverjir munu deyja náttúran í kárakúkum liggur á dánarbeði veik málefnin í miðausturlöndum eru löngu farin í steik... fyrir mitt leiti og fjölda annarra ljóðskálda hér segi ég: ?djöfull er kominn mikill hiti í mér!!!? mér gæti ekki verið sama um morð á saklausum eða heimskuna í andvana ráðuneytishausum!!! ég mótmæli virkjun ? ég mótmæli stríði reiði mín getur ekki dvalið lengur í hýði ég verð að segja mitt álit ? og segja það hátt ég vil frið, ég vil náttúru og ég vil sátt!!! innrásir hér, innrásir þar, innrásir allstaðar! hvergi kemst maður í skjól og öruggt var látum ekki heimsku nokkurra ráða öllum löndum alheimsvald á ekki heima í svona fáum höndum!!! ] [ hvert sem vindurinn blæs mér blítt berst ég með honum í allar áttir hvar sem ég enda ? kuldi eða hlýtt eru opnaðar upp allar gáttir... bóheimskur berst ég með straumum byrja á stöðum sem ég fer aftur frá fylgi minni líðan ? fylgi mínum draumum feykist um og snýst sem lítið strá... listirnar stunda ég stundunum saman sterkt er listamannseðlið í mér með breitt bros og málningu í framan mun samt ei dvelja að eilífu hér... ... hjarta mitt er létt sem lítill fugl lyftist og feykist ljóshratt um allt fer ekki aftur ? í vanafesturugl þar sem persónufrelsi mitt er falt... ... þó bóheimskur sé ég og feykist um allt er ég aðeins mennskur sem aðrir menn þó hjartað sé létt ? er hjarta mitt falt hef ég æ elskað ? og elska þig enn... bóhemskur fáviti væri ég að fara fara burt frá þínum hlýju höndum en hugur minn heldur áfram að stara hvernig er lífið í fjarlægum löndum? þó vindurinn feyki mér hingað og þangað finn ég hvernig rætur mínar halda mér þó burtu mig langar ? og hefur æ langað liggur hjarta mitt glatt í návist þinni hér... ... stórborgin Bóhem ? sem aldrei situr kyrr sterk eru áhrif hennar á tilfinningaverum býður mér blítt inngöngu inn um hennar dyr og bólstruð rúm í hennar vistaverum... en ég get ekki farið... ekki frá þér... tek því af skarið... og dvel lengur hér... bóheimski hugur minn gefst upp og þagnar hefur myndin af þér í hjarta mér unnið ég staldra enn hér og hjarta mitt fagnar hugmynd um Bóhem hefur kviknað og brunnið... ] [ Sárt er að sakna, einhvers sem maður hefur ekki fengið að kynast. En ég var svo heppin. Ég fann þig sparka, ég heyrði hjarta þitt slá og ég sá andlit þitt bjarta. Það fékk mig til að gráta. ég hélt í hönd þína, ég óskaði að þú héldir í mig. Hún varð heit. Mig langaði að taka þig í fangið og ylja þér allri. En það var ekki hægt Ég sakna þín svo sárt. ] [ Í gegnum sár sálna okkar flæðir hatur inn í þennan heim Myndar ný sár í sálum annarra, nærist á sjálfu sér Magnast En inn um opin hjörtu okkar streymir ástin og græðir sárin Rýfur vítahringinn Ja, hver skrambinn! Lennon hafði rétt fyrir sér! ] [ Vertu hér Nú! Þögult vitni Horfðu á heiminn skapast og endurskapast frá augnabliki til augnabliks Það sem var og það sem verður skiptir engu máli Þetta augnablik er líf þitt ] [ Á dimmustu stund hinnar dimmustu nætur mun ég elska þig án enda og hverfa svo aftur inn í myrkviði hugar þíns En á björtustu stund hins bjartasta dags verð ég aðeins minning um draum hlátur í hjarta von í brjósti Ég bíð alltaf næturinnar, djúpt inni í myrkviðum hugar þíns ] [ Smátt og smátt fyllast vasar okkar af grjóti Sundtökin verða þyngri og loks stöðvumst við - getum aðeins troðið marvaðann Við fyllumst ótta við að sökkva- böðum út öllum öngum, þrjóskumst við En komumst svo að því, er við sökkvum, að við getum andað í kafi, Ótti okkar við drukknun reyndist óþarfur ] [ Vindur flýgur í austur, vindurinn fýgur í suður, hann fylgir mér hvert sem er, hann fylgir mér norður og í vestur, í allar áttir hann fer með mér. Þar til allt í einu hann stoppar og hverfur mér frá. ] [ Draumsýn Ég bít í rautt, eitrað epli og fell í dá. Ég sé prins á hvítum hesti hann kyssir mig blítt á heitar varirnar. Ég vakna. Tálsýn ] [ Litlir englar ærslast um á grænu skýi uppi í himninum. Þeir pískra, pota og skríkja. Í látunum dettur sá stærri, þó ekki langt, bara einu ári neðar, á bleikt ský. Hinn fylgir á eftir, ári seinna. 1 dagur ] [ Ég trúi ég trúi á guð en ekki hið góða. Ég trúi á soninn en ekki að hann hafi verið til. Ég trúi á boðskapinn en ekki að hann sé til nokkurs. Ég trúi líka á hræsnina ég er hræsnin. ] [ Vindurinn rífur af mér fötin. Fólk sópar fötunum mínum saman og setur þau í endurvinnslukassa. Krakkar taka þau upp og föndar með þau. Margir dást að því hversu falleg þau eru. Aðrir trampa á þeim í hugsunarleysi. En mér er kalt og ég er berskjölduð og vindurinn hlær að mér. ] [ Ég finn hvernig tíminn trampar á undan mér, algjörlega laus við tillitssemi. Flíttu þér! Já, flýttu þér! Ég hleyp og hleyp keppist við að halda í við árans tímann. Hann er bara of fljótur fyrir mig er ég bara svona lengi? Ég bið hann að stotta eða allaveg hægja á sér. Nei! Hann hefur ekki tíma. ] [ Það hvarflaði að mér að gera mér mein en ræddi svo við þig um kosti og NEI! En það sem að ergir og reiðir mig mest er að ég hefði allt eins getað talað við stein. ] [ Það hrörnar kona í húsi og hún veit það. Hún veit líka að enginn annar veit það. Það hrörnar sál í barni og því blæðir að innan. Það veit það en enginn annar veit það. Það hrörnar heimur í geimi og ég veit það og ég veit líka að þú veist það. Það hrörnar líf í heimi og við vitum það en við vitum líka að enginn annar vill vita það. ] [ Heimurinn er orðinn þróaður. Við kunnum að meta það og Við leikum Okkur með líf Okkar. Það er mun skemmtilegra en að hugsa, Við látum Okkur bara um það. Stundum erum Við vond og eyðum og skemmum aðeins meira af heimilum Okkar. Þá verðum Við líka öskureið við Okkur, þó Okkur sé nákvæmlega sama. Við heitum Jóna Sólveig! ] [ Ég nota dóp og ég fæ þessa tilfinningu Ég er hamingjusöm ég nota dóp. Ég eyði mér og ég fæ þessa tilfinningu Ég er fullkomin ég eyði mér. Ég er ónýt og ég fæ þessa tilfinningu Ég er sigruð ég er ónýt. Ég er falleg og ég hef enga tilfinningu Ég er dáin ég er falleg. ] [ 1.Sjá mig mikli andi sjá mig sitja hér. Sjá mig til þín biðja sjá! Ég trúi þér. 2.Hvernig kemst ég undan hvernig kemst ég hjá. Hvernig má mér líða hvernig fell ég frá. 3.Leyf mér læra meira leyf mér skilja allt. Leyf mér sjá og heyra leyf mér reyna heitt og kalt. 4.Kenndu mér að lifa kenndu mér að deyja. Kenndu mér að tapa kenndu mér stríð að heyja. 5.Má ég vera frá þér má ég vera hér. Má ég vera heima má ég víkja undan þér. 6.Ég þrái lífið ég þrái ást. Ég þrái visku ég vil ekki þjást. 7.Í dag vil ég lifa í dag vil ég sjá. Í dag vil ég læra í dag vil ég fá. 8.Seinna vil ég koma seinna þreytt ég verð. Seinna mun ég skilja seinna verð ég hjá þér. ] [ Sólin varpar hlýjum geislum sínum á vanga lítillar stúlku. Stúlkan er í gylltum kjól og brosir. Hún brosir framan í grett andlit samtímans. Hún brosir framan í heiminn og brosir framan í mig. Það er hún sem hlýjar grettu andliti samtímans um þjóðarsálina. ] [ Í sama mund og Kolla reytir sig á Vigri sigur Grágæsamóðir í makindum við Tjörnina og virðir aðvífandi skáldkonu ekki viðlits. Hún reytir sig alla svo næðingurinn smígur inn í holótt beinin en Grágæsamóðirin setur verndarvæng yfir ungana og þykist ekki sjá flugþrána í göngulagi skáldkonunnar. Á sama tíma stígur Skarfur upp á stein við Stykkishólm, breiðir út vængina og messar yfir ógreinum sálum svartfugla Hann minnist Súlunnar sem mistókst lending á Eldey og Geirfuglabeinsins undir fit Lundans á skeri skammt frá. Hann varar við ofbeldishneigðum Störrum sem slást í þakskeggi við Óðinsgötu á meðan einmana Himbrimi syndir um Kleifarvatn í leit að slagsmálum. Lofsamar varnarlist Fýlsins sem spúði á ferðamenn við Krísuvíkurberg og dyggðir Ritunnar sem veitti syndugri Álku sáluhjálp á næstu syllu. Að lokum minnir hann á að Haftyrðillinn er farinn fyrir fullt og allt, flúinn undan skítugum hugsunum fugla á útskerjum. Og þegar Skarfurinn setur vængina niður hvísla öldurnar amen og ungi sleppur undan væng Grágæsarinnar. Á Vigri brýtur goggur gat á heiminn og skáldkonan gengur um með hugann við sprungur í himninum og stígur á einn lítinn. ] [ Vakinn og sofinn, daufur og dofinn. Á ystu nöf, við eigin gröf, gengur hann. Skyggnist um, með stjörfum augunum. Hann ferðast einn, hér er ei neinn. Það veit hann vel, en þandar taugar flytja huga boð, um hættur og vonda hluti, illa menn. Óræðir skuggar flökta inn á augnlokunum, í hvert sinn sem hann blikkar augunum. Útlínur martraða sem bíða færis. Hann man ekki hvers vegna hann kom hingað eða hvaðan, en það er eins og hann rámi í, að hann sé á leiðinni eitthvað. ] [ fyrir e-mail: ´Þú ert grimmur þú ert úlfurinn í Rauðhettu þú ert vatnaskrímsli slímugur og ljótur, þú særir mig með þögn þinni´ eftir e-mail: ´Blóðið rýkur upp í haus hjartað slær hraðar mér verður mál að æla hendin á mér skelfur augun mín leita lesa bréfið sem loksins kom...´ ] [ Þú fékkst það inn í hjarta mitt skildir sæðið eftir þar til þess að harðna, það festist við æðarnar mínar huldi blóðkornin þegar að hjarta mitt berst við að pumpa blóði mínu fer hluti af þér með í hringferðina aftur og aftur hring eftir hring Núna ertu hissa á að ég hugsi um þig ég get ekki að því gert þú ert orðinn hluti af mér.... ] [ ég sit í gulum strætó leið 15 Hlemmur - Grafarvogur Blái himininn verður absúrd og breytist í lítil monster sem hoppa á gluggann minn hlægjandi Gamla konan fyrir framan mig talar við sjálfa sig ég lít niður, snjórinn er að bráðna ég er blaut í fæturnar geng út kalda loftið hoppar í rússíbanaferð niður lungun mín ] [ Rigningin kítlar mig létt ég finn dropana leka niður hálsinn minn fæ hroll ég er ein fyrir utan gluggann þinn horfi upp ekkert ljós nema smá birta frá götuljósinu á horninu hurðin er lokuð ég dingla... ...ekkert svar bíð samt aðeins rigningin hlær að mér slær mig utan undir ég fer ein í burtu niðurlút ] [ Þetta byrjaði eins og að kveikt væri á eldspýtu Fyrst var hún heillengi í eldspýtustokknum margar voru á undan henni þær enduðu allar eins Síðan var hún valin Hann renndi henni kröftulega eftir hliðinni á stokknum Það blossaði, neistarnir skutust í allar áttir Síðan kviknaði loks á henni Loginn var svo fallegur svo kröftugur og heitur það smám minnkaði - brann út meiddi hann í hendinni hún var útbrunnin Hann fleygði henni án þess að hugsa um það í öskubakkann fleygði henni tilfinningasnauður á svip Hún lá þar í hnipri í nokkra daga og lét sig dreyma um ´glory times´ á næsta tiltektardegi var henni hent út í tunnu þar lá hún á milli bananahýðis og myglaðs brauðs Ruslabíllinn kom og tók hana, keyrði hana upp á hauga og þar bjó hún það sem eftir var..... ] [ Hann situr einn skjárinn kastar á hann ljósi í myrkrinu hann lítur út um gluggann sér að það er farið að birta sólin er farin að kíkja rauð og glaðleg augu hans eru rauð og döpur sorgmædd stóri líkami hans þreyttur hann felur andlit sitt í stóru höndunum sínum grætur táralausum gráti stendur upp í hjarta hans hringla þúsund litlir steinar hann drattast áfram leggst í rúmið sitt klukkan er orðin korter yfir þrjú hver getur lagað brotið hjarta? ] [ Ég elska 3 menn ég veit - það er bannað ætti að vera brennd á báli eins og norn á miðöldum Ég reyni að rökræða við hjarta mitt En það snýr upp á sig og ullar á mig Hleypur í burtu án þess að ég fái nokkru ráðið Skýin sigla tignarleg í beinum röðum fyrir ofan mig Ég horfi upp, kalla á guð en fæ ekkert svar Ég vildi geta klónað mig í 3 persónur Lifa 3 lífum með mönnunum mínum 3 Hittast síðan árið 2047 á Hrafnistu og bera saman bækurnar Hver var sá rétti ? ] [ ég sé hvernig þú horfir á mig sé hvernig þú þráir sé hvernig þú vonar finn heita andardráttinn þegar að þú hvíslar í eyra mitt finn fyrir hjartslættinum í hendi minni ´þú ert með þokka´ sagðirðu ég veit hugsaði ég og glotti get gert menn brjálaða sendi þeim skilaboð með efnafræðilegri blöndu sem engin kann, engin skilur en allir vilja held utan um þig þú ert sofnaður finn lyktina af þér finn bragðið af þér kyssi varir þínar kyssi enni þitt (þú ert svo fallegur) strýk þér öllum breiði sænginni yfir þig horfi á þig læðist síðan út tómleikatilfinningin tekur völdin étur sig í gegnum hjarta mitt skilur eftir holu ] [ Dökki skugginn í lífi mínu eltir mig hvert sem ég fer ert í draumum mínum ert í vöku minni fyrir framan mig dökkur yfirlitum eins og Lúsífer brosandi með úfið hár minnir á villidýr sem mig langar að temja í röndóttri peysu hendur í vösum málingarslettur á buxunum þínum Setur þig í stellingar sýnir í þér tennurnar hoppar á mig fellir mig ég reyni að flýja get það ekki hverf inn í heim þinn ] [ Þú beist í vörina mína hvíslaðir í eyra mitt klæddir mig úr straukst hendinni niður eftir líkama mínum ég skalf eins og hrísla fann fyrir unaðstilifinningum sem streymdu upp og niður æðarnar Þú horfðir í augun mín sagðir´pældu í þessu - ég er inní þér! fann fyrir þér þegar að limur þinn fer inn í mig fæ ég fullnægingu við hverja hreyfingu líkami minn grátbiður um sæði þitt vill fjölga sér læt næstum því verða að því ranka síðan við mér og bið þig um að kippa honum út fyrir sáðlát rómó ha? ] [ Loka mér algjörlega upp á gátt og hendi mér fram af og upp í skýin. ] [ Ímynda ykkur eiginlega hvergi, nema í blessuðum rólunum. Eigum við að leika? ] [ Guð minn greinilega ekki nógu-máttugur; þær eru allt í kring. ] [ Það kom eins og elding, og það myrkvaði snögglega. Ljósið beindist að mér, en ég vissi að þú værir nálægt. Svo rankaði ég við mér, og þú varst farinn. Morguninn eftir varstu fundinn, aleinn, í fjörunni. Allir söknuðu þín. Allir gera það enn. Einn sólbjartan dag, er möguleiki, á að sjá þig aftur. En þangað til, bíðum við, full sorg og reiði, bíðum eftir að sjá þig, því sólin skín ekki alltaf. ] [ Ef þú hefur ekkert betra að gera einn góðan veðurdag leiktu þér þá með líf mitt Ef þú hefur ekkert betra að gera þegar þokan leggst taktu þá líf mitt og púslaðu því Ef þú hefur ekkert betra að gera þegar rignir úti taktu þér þá smá tíma til að leita af púslinu sem þig vantaði þarna um daginn ] [ Það var nótt, úti var rigning Ilmur sumarsins í loftinu Senn myndi haustið skella á En mér var alveg sama Þú varst mér við hlið ] [ Ég sit hér einmana og sár Þú ert farinn, ekkert eftir Ekkert nema tár Minningar af þér og mér Sækja að, særa mig Ég vildi að þú værir hér Síminn hringir, er þetta þú? Ég drífi mig í að svara; Hæ Fyrirgefðu... Þetta ert þú. Þú kemur heim til mín Tekur utan um mig og kyssir Allt er í lagi núna, ég er þín. ] [ Niður kinnar mínar renna tár Tár sársaukans Tár eymdarinnar Tár einmanaleikans Tár sem kvelja Tár sem enginn strýkur burt ] [ Þú komst inn í líf mitt eitt sumarkvöld Breyttir öllu, gerðir lífið einhvers virði Lést þrána taka af mér öll völd En skyndilega allt kyrrði Þú varst farinn... ] [ Brúnu fallegu augun þín heilluðu mig Svo hlý og dreymandi, Fagurt brosið fékk hjartað til að slá hraðar Svo stríðið og heillandi Ég man dagana þegar þú hélst mér í örmum þér Þá hélt ég að allt yrði í lagi, þú myndir mig bera Yfir dagana þegar allt yrði svart hér Án þín er ekkert eins og það á að vera ] [ Ég vildi að ég hefði vitað það Vitað allt um tilfinningar þínar En þú faldir þær eins og fjársjóð Lést mig ei vita að þér liði eins Af hverju sagðirðu mér það ekki? Af hverju faldirðu tilfinningar þínar? Af hverju gast þú ekki sagt það? Ég ennþá þig þrái og elska En veit að ekkert verður Þú verður aldrei minn Nema í mínum bestu draumum ] [ Ég hrópa til ykkar, en þið heyrið ekkert. Hrópa eins hátt og ég get, en hljóðið má ekki yfirgefa varirnar. Græt svo sárt, en ekkinn má ekki snerta eyru ykkar. Lítið í augu mín. Sjáið þið ekki þungu sorgina? Heyrið þið ekki óttann í andardrætti mínum? Í guðanna bænum, opnið skilningavitin. Sjáið hvað ég er að berjast við. Ég veit ekki hvað ég á að gera. Ég get ekkert gert. Ég vil ekki lifa svona. Ég vil ekki lifa. Hjálpið mér, spyrjið mig, gerið eitthvað áður en það er of seint. Ég get ekki látið orðin heyrast, þá hefur hann sagt að eitthvað hræðilegt muni gerast. ] [ Af hverju er allt svona en ekki hinsvegin ? Af hverju göngum við ekki í loftinu og sofum undir rúmi ? Hvers vegna syndum við ekki í loftinu og af hverju frystir eldurinn ekki ? Hvað er ást, og hver veit það, veit það einhver betur en annar ? ] [ Ég stend inni í risastórum sal með milljón dyrum Ég valhoppa um og kíki inn um sumar þeirra Vel loks einar og geng í gegnum þær Ég kem inn í stórt herbergi með mörgum dyrum Ég vel einar Geng í gegnum þær Loka á eftir mér Ég er litlu herbergi með einum dyrum sem hafa skollið í lás á eftir mér En þegar ég finn óttann byrja að læsast um mig hringir síminn og ég tek upp tólið \"Lykillinn er í hjarta þínu\" segir kunnugleg rödd \"Vertu samt viss um að þér líki ekki herbergið áður en þú notar hann\" Þá sé ég að herbergið er hið notalegasta, enda hefði ég að öðrum kosti ekki gengið inn í það Kannski ég doki við Ég veit að ég get fært mig í annað herbergi þegar mér hentar ] [ Mig dreymir oft um betra líf, líf sem aðeins ég hef séð, þar er ekkert að óttast, enginn kvíði engin sorg. Mig dreymir oft um þig í þessu lífi, þar situr þú við lækinn bláa, og horfir á mig með skærum augum. Mig dreymir oft um okkur tvö, við tvö við lækinn bláa með skær augu starandi á hvort annað. ] [ Sjá þig svona sjá mig svona starandi af undrun báðar Hvað gat ég sagt með þig í fanginu grátinn í hálsinum og óvissu í huga? Sjá þig koma í heiminn og ég hataði þá sem hlakkaði til Þú; alsaklaus og gast ekkert sagt Mikið vildi ég að þú gætir skammað mig ] [ With a sense of wonder and childlike awe he?ll many questions ask For he knows the process of growing up is a never ending task A ray of light in our dreary lives, a fountain of wisdom and joy This grey haired guy who reminds us all of an energetic boy He never really shuts his gob He laughs like no one can I hope I?ll do as good a job of becoming an older man ] [ Í hjarta mínu býr gleðin og mér finnst ég heppnasta kona í heimi - að hafa þig hjá mér. Svo ég geng um með bros á vör. Í hjarta mínu býr efinn er lífið of gott til að vera satt? - en þú ert enn hjá mér. Svo ég geng um með bros á vör. Í hjarta mínu býr sársaukinn ég er týnd í alheiminum - þú ert ei lengur hjá mér. Og ég geng um af gömlum vana. ] [ Áður fyrr hann verk sín vann, varð á sjaldan skyssa. En nú er hætt að nota hann, nema til að pissa. ] [ Segðu mér bróðir minn vindur ó vindur sögu hennar er ég þekki ekki segðu mér bróðir minn vindur ó vindur ber hún á sálinni einhverja hlekki segðu mér bróðir minn vindur ó vindur dansar hún stundum í dögginni um nætur ó segðu mér bróðir minn vindur fær einhver að sjá þegar hún grætur Má ég segja þér hvað ég held Ó bróðir minn vindur ó vindur Ég tel að þá eitthvað gleður það hjarta Þá hlæi hún og dansi frá kvöldi út nóttina bjarta En þegar allt er farið er hún auðsærð Í hjartanu lítil Hún getur brosað en samt ekki sorgina falið. Svo held ég ó bróðir minn vindur ó vindur Að hörð geti hún verið og grimm Já köld líkt og vetrar nótt dimm Ó bróðir minn vindur ó vindur Þú sem fylgir henni hvert sem hún fer Ó bróðir minn vindur Verndaðu vel. ] [ Sometime. Me Will. Love. Fish. Fish & love. Beat. (en) ] [ Kannski bjargaðir þú mér frá sorg yfir í gleði frá áhyggjum yfir í ást frá þreytu yfir í bros Kannski það óhugsanlega hafi gerst kannski bjargaðir þú mér ] [ Því gerir þú mér lífið svo leitt, þar sem hver dagur er armæða augnabliksins og hvergi get ég gleymt mínum hugsjónum og fengið frið í hjarta mínu. Því gerir þú mér lífið svo leitt að aldrei fæ ég sálarfrið og hugmyndir mínar renna um huga minn, á örskömmum tíma og aldrei næ ég tökum á þeim né skil neitt í neinu. Því gerir þú mér lífið svo leitt, þar sem ég botna í engu og hvert brot púsluspilsins hleðst upp í stafla sem ég get ekki ráðið úr. Því gerir þú mér lífið svo leitt og sársaukann svo yfirþyrmandi í brjósti mér og vitund minni, að ég hreinlega tapa glórunni og missi sjónir á takmarki lífs míns. Þú gerir mér lífið svo leitt að andinn minn fjarlægist stöðugt og fer á fjarlægar slóðir, þar sem hendur mínar ná ekki til og gæfan hættir að vera mér hliðholl. Ó því leggur þú þetta á herðar mínar og lætur mig ganga í þessar þolraunir lífsins, þar sem ég missi sjónir á lífinu og tilverunni. Er þetta allt leikur til að styrkja sál mína og vitund eða hrekkur einn? ] [ Mér var sagt að fyrir langa löngu hefði verið styrjöld sem binda ætti enda á allar styrjaldir. Í dag sit ég með systkini mín í fanginu og bið til einhvers yfirnáttúrulegs krafts að hlífa okkur í þessarri 5. heimsstyrjöld. Öll höfum við lesið frásagnir af forfeðrum okkar sem prísuðu sig sæla yfir að búa á Íslandi í þeirri þriðju. Ekki getum við verið jafn sæl nú. Það eitt ef eyjan okkar héti enn Ísland væri fagnaðarefni út af fyrir sig. Hvernig datt fólki hér áður fyrr í hug að hægt væri að leysa ófrið með því að stofna til slíks? Hvernig dettur fólki í hug að láta ágreining sinn í trúmálum, bitna á okkur trúleysingjunum í dag? Fólk segi ég, nei, réttast væri að kalla þetta börn. Börn sem rífast um leikföng og hver eigi stærra herbergi eða fleiri vini. Eina sem ég bið um er að fá að vakna á morgun á þessarri eyju í norðri sem ósonlagið hlífir enn, með systkini mín í örmum mínum. ] [ Við tvö í myrkrinu Ein alein í myrkrinu Þú svo lítil liggur í fangi mínu Við göngum fram og aftur Ein alein í myrkrinu uns augun þín litlu leggjast aftur ] [ Birtast á himni myrk andlit guðanna Glotta til þín sem stendur á veginum og horfir á skýin hella úr sér ] [ Rennir höndum gegnum hárið grásprengt og brosir vingjarnlega við spegilmynd konunnar fyrir aftan ] [ U.S.A. lussa loðin tussa ] [ Ég þekkti eitt sinn sjómann með vilja sem forðaðist konur að gilja með að hugsa um Guð og flatlúsug skuð og dveljast öll kvöld neðan þilja ] [ Kallinn er svipti þig sjálfræði sekur í gröfinni liggur ofsjónir, ofheyrnir og gríðarleg bræði ofsækja þig, er hann hryggur? Hvaða viðrini hugsar sér harm sínu eigin barni elsku amma segðu mér er skrítið að hjarta þitt harðni? Afi hefur stutt þig í gegnum súrt og sætt verið þín stoð og stytta það er víst að þetta fær ekkert bætt þessi kall var bara fyllibytta. Hvernig hefði ævi þín atvikast hefði henn látið þig vera, við skulum slá því á fast sektarkenndina hefðurðu ekki þurft að bera..!! -Amma ég skil svo vel afhverju þú ert eins og þú ert. Vonandi er heitt í helvíti...!!! ] [ Hafið ólgar klettum í, fjörur manna lemur. Ekki skulum gleima því, hvaða öfl manninn temur. ] [ Sólin heit á himni skín, svo yndislega björt. Lítil stúlka svo sæt og fín, leikur sér við ungann hjört. ] [ Ungann , fráann , fjörugann , folann , smáann , hnellinn. Legg ég á þó hamist hann , hlær þá gráa ellin. ] [ En lognið leynir hvaðan orðin koma. Þegar eitthvað kraumar í grasinu þá seittla orð úr munni mánans. Eitthvað sem aðeins döggin skilur. Ekki orð og ekki söngur, Eitthvað sem lýtur öðrum lögum. Eitthvað sem lýsir og býr til skugga. Eitthvað sem lýsir upp hirslur hugans. Eitthvað sem orð ná ekki að beisla. Eins og þegar regnið blíðkar þína sólargeisla. ] [ Andrá, sem stundum, eins og nú, virðist varla ætla sér að enda. Þá persónugeri ég tímann, kötturinn verður trúnaðarvinkonan mín og tunglið fjarlægur staður sem vert væri að heimsækja. Flóttinn kallar, hvert kemstu núna, lengra frá þessum minningum svo það verði enn lengur að bíða eftir næstu andrá. Hvaða minningum, sumar held ég séu bara minning um líðan sem tengist ekki stað né stund, allavega ekki í þessu lífi, líðan sem þá var of sterk til að ég gæti meðtekið hana og viðurkennt. Því kallar líðanin nú sem oftar aftur á mig og sárbiður um viðurkenningu sér til handa. Ég er hrædd, held samt fast í vonina um að ég standist þetta, bít á jaxlinn og bíð, leiði hugann að einhverju öðru, hvernig ætli veðrið sé á Flórída núna, hvernig ætli það væri að búa í Danmörk, hvers vegna á ég í svo miklum erfiðleikum með að hleypa morgninum inn í líf mitt. Þar kom það aftur, minningin, eða skyldi ég segja áminningin, um að eitthvað er ógert í kotinu, eitthvað sem ég hefi sópað of vel undir teppið því nú finn ég það ekki. Skyldi mér takast að lyfta mottunni nógu vel og lengi? Skyldi ég læra að þakka fyrir sólina frekar en að sakna tunglsins? Er þetta kannski afsökun hjá mér til að horfast ekki í augu við það sem er mér næst. Hvað er mér næst? EBM ] [ Hví svo þrúðgu þú þokuhlassi súldanorn um sveitir ekur? Þér man ég offra til árbóta kú og konu og kristindómi. ] [ Þegi þú, vindur! þú kunnir aldregi hófs á hvurs manns hag, langar ro nætur þars þú inn leiðsvali þýtur í þakstráum. ] [ Ég ætlaði mér að yrkja einhvern fallegan brag en þegar til á að taka ég tími því ekki í dag. Ég verð að bera á báru það besta sem mér er veitt og seinast sofna ég frá því, og svo fær enginn neitt. Og það er þér að kenna sem þrái ég alla stund, þú áttir ekki að eiga þenna úlfgráa hund. Þú áttir ekki að ginna mig á því að segja þú skulir muna mig aftur þegar þú ferð að deyja. Nú er þér bregst í brjósti blóðið og slokknar fjör þá er ég þreyttur að lifa, á þína kem ég för. En hvernig heimskir náir með hjúp og moldarflet "unnast best eftir dauðann" ég aldrei skilið get. ] [ Ó, þú jörð, sem er yndi þúsunda, blessuð jörð sem ber blómstafi grunda, sárt er að þú sekkur undir mér. Hef eg mig frá þér hér og hníg til þín aftur, mold sem mannsins er magngjafi skaptur; sárt er að þú sekkur undir mér. ] [ Segja ekki ennþá augun þín, að við þráum bæði, litla vísnavinan mín, vor og bernskukvæði? Mér finst aldrei myrkvist lund meðan æskuþráin getur svona stund og stund stokkið út í bláinn. Bæði vilja vita af því, er vor og ástir kalla. Við erum sjálfsögð saman í sumarleikina alla. Þó er alltaf yndið mest okkar tveggja gaman. Vorið það, sem verður best, við eigum bæði saman. Þegar svölu andar að eða jeg leita að vinum, fer jeg beint að finna það fram hjá öllum hinum. Eins og þú á sumu sjerð, sem þig tæpast varði, heilsa jeg þar í hverri ferð heim að biskups garði. Sætin urðu á sama stað, sól þegar fór að ægi, þótt að hjeldum heiman að hvort í sínu lagi. Bæði munu um ást og óð eiga fegurst minni, þar sem mjer var lítið ljóð launað fyrsta sinni. Þá er bjartast bros á kinn, best að muna róminn, þar sem litla lækinn þinn lángaði að kyssa blómin. Hjer er ljúft að gánga um grund, gruna, þrá og dreyma alt, sem fögur aftanstund á að sjá og geyma. Hún hefur lagt í vorsins völd viljana okkar báða, hvert það börnin ber í kvöld blær og vængir ráða. Brosir undir sól að sjá sveitakvöldsins næði. Það er að hvísla endann á okkar sumarkvæði. --- Brekkan þín með blómin öll, bæinn litla fríða, fuglasöng og sólskinsvöll - svona á alt að bíða. Sætið mitt í salnum þeim sumrin glita mega, meðan leik við líf og heim lángar mig að eiga. Hýrar sveitir horfa við hlíðum sumarbúnum vestr í aftans ysta hlið austan af morgunbrúnum. Það er fáum fylgt í höll fegri en þá á kvöldin, þegar hin háu fornu fjöll fest eru í bláu tjöldin. Þennan glæsta heiðahríng hjer er kærst að skoða, eldi læstan alt um kríng út í fjærsta roða. Svona bjart um sælu þá, sem við fundum bæði, þegar inst í augað sá undir bros og kvæði. Vorið þitt á þennan stað, þegar önnur deyja. Hjerna skal jeg hitta það, hvað sem stormar segja. --- Hingað stundum heim til þín hafa legið sporin, þegar ljettu ljóðin mín leika sjer á vorin. ] [ Ég leitaði' um fold og sveif yfir sæ, því að sál mín var hungruð í brauð,´ en ég gat ekki neins staðar gulli því náð, sem oss gefur þann lifandi auð. Og svo varð ég uppgefinn, sál mín svo sjúk, að hún sá ekki líkn eða fró, því allt traust á mér sjálfum með trúnni var burt, og af tapinu sorglega dró. En þá var það eitt sinn á ólundarstund, að ég eigraði dapur á sveim; og ég reikaði hljóður um víðlendisvang, því ég vildi' ekki í tómleikann heim. Þá heyrðist mér rétt eins og hvíslaði rödd, svo að hjarta mitt greiðara sló: "Ef þú horfir með ólund á himin og jörð, þá hlýtur þú aldregi ró!" Þá leit ég í kringum mig, loftið var allt ein logandi kveldroðaglóð, meðan sólin mér heyrðist við sæflötinn yzt vera' að syngja mér óminnisljóð. Og fuglarnir, lyngið og lækir og grjót og lömbin og fjöllin og hjarn fékk aftur sinn heilaga samelskusvip, og ég sjálfur? - Ég lék eins og barn! ] [ Minn friður er á flótta, mér finnst svo tómt og kalt; ég geng með innri ótta, og allt mitt ráð er valt. Ég veit ei, hvað mig huggi, og hvergi sé ég skjól; mér ógnar einhver skuggi, þótt eg sé beint við sól. Ég spyr mig: hvert skal halda? en hvergi flýja má; ég hrópa: hvað skal gjalda? því hvergi neitt ég á. Því stenzt minn styrkur eigi, sem stormi lostin björk mitt höfuð þreytt ég hneigi á hryggðar eyðimörk. Þó lýsir líknarvonin, ég lyfti trúar staf; ég er í ætt við soninn, sem eta girnist draf. Ég sé mitt frelsi, faðir, ég fylgi sveini þeim; ég þekki ráðið, það er: til þín að hverfa heim. Þú breiðir arma bjarta og barnið faðmar þitt, ég finn þitt heita hjarta, og hjartað fagnar mitt. Ég vil ei við þig skilja, ég vel þitt náðar-skjól; mitt veika líf er lilja, þín líkn er hennar sól. ] [ Þú. Þú bankaðir uppá, komst færandi hendi með nýtt líf í farteskinu. Þú. Þú ert svo bjartsýn með þitt agnarsmáa hjarta og ég, einsog ég er get ekki feisað þig fyrr en eftir nokkur ár. Þú. Þú ert svarið við spurningunni sem ég þori ekki að spyrja. ] [ Efst ofar flestu blundar myndavélin í fjórar millisekúndur á milli síðustu og næstu töku Skimandi í kringum sig læðist hann út úr skugganum og tekur á rás milli hindrana Vökult linsuauga nemur hreyfingar hans í tunglskininu ] [ Hví, ó bróðir sæll, hví þreytist þú? Er ekki lífið of stutt? Hví ekki að sofa í draumi dagsins? ] [ Í kvöld, var tunglið ekki til & tilgangur sólarinnar enginn. Magn tilgangsleysunnar jóks til fulls & tíminn stoppaði í andardrætti alheimsins. Í kvöld, rigndi blóði yfir heilaga jörð & sár hjörtu okkar dóu. Því kaldur veturinn syrgir sína ást í kvöld & lætur það bitna á okkur. Í kvöld, fraus Jörðin og hætti að snúast & sjúkleikinn náði hámarki. Menn létust af völdum bræðra sinna í kvöld & á meðan skapari okkar grét. Í kvöld, vanvirtum við gjöfina frá föður okkar & svívirtum vald hans með illu. Það er svo skrítið að hann skuli ekki reiðast, í kvöld & eyða þessari sköpun sinni. ] [ Andans mál. Ritað sem hugsanir, gefnar út af vörum þínum sem metsöluverk. Þú manst, þú hafðir heila, ónotaðan, óeyddan, hér áður. Sumur koma, tjáning þín blómstrar og springur út undir regnboga. Frosin mynd steypt í kjallaratröppunum. Varir þínar hafa þagnað að eilífu. ] [ Hvernig heilinn sér leikur að hindra framgang hamingjunnar, eitt tár, eitt sár, endalaus niðurrif, engist líkaminn, mölbrotinn maðurinn, mætir skaparinn, ein sál, ein lítil falleg sál. Sorglegar staðreyndir sýnast svo erfiðar, en í lautu leynist gleðin, góðum manni gefin, ein stund, ein lund, betur fer honum brosið, bætir allt það sem er frosið, sigurinn sæli er fenginn, sársaukinn lengur er enginn. ] [ Ég leitaði hans í æsku, ég leitaði hans í uppvexti, ég gat hann ekki fundið sama hvar ég leitaði, en þá, eitt kvöld er ég gekk út við sjóinn í vonlausri leit að honum, þá kom þar einn undurfagur og sveimaði yfir. Er ég skoðaði þann, þá vissi ég það var hann, hann sem yfirgefur hreiðrið og leitar að þyrnitré og hvílist ei uns hann finnur það. Þegar hann svo finnur það fer hann syngjandi milli beittra blaðanna og þrýstir fast, þrýstir sér á lengsta og hvassasta þyrninn... Svo rís hann í sárum sínum með söng, söng sem er fagurri en söngur næturgalans. Á meðan, allur heimurinn hljóðnar og hlýðir á. Guð brosir á himnum. Brosir yfir fagurleik fórnarinnar. Einn undurfallegur söngur, sem hann geldur sjálfu lífinu fyrir. ] [ What is this, what is that? Sitting in the dark I ask my self this question over and over again... This is this, and that is that. I hear comming from the walls... But there isn´t anybody there. So I hold my breath down, hoping I can kill my self that way but every time I do it someone interups me... Little, purple, shining creature, who are you? Are you the one, the one who gets me there in the end? Then why don´t you let me do it? Just let me die! Let me end it, like everyone else who are locked up in this white room! Ooohh! I can´t take it any more! I want it so badly, to die... The next morning the dark is darker then dark and death is deader than dead... ] [ Þá þagna karlmenn og vöknar konum, þá fella hraustar sálir tár. Þá falla burt laufin og grasið sín blygðast, þá náttúran nýja mynd sig tekur á. Er hverfur burt brosið úr augum þínum sem ávallt var tileinkað mér að sjá. ] [ Lítil hönd í mína leggur Líf sitt tryggur' á móðurást Broshýrt andlit bræðir kulinn Færir gleði, trú og þrá Í dag við skulum vera saman Mamma, bara þú og ég Leika, hlaupa, hafa gaman Já og njóta tímans vel Hönd í hönd við göngum saman Út í lífsins æfintýr Gleði' og sorgum deilum saman Og þú blómstrar ástin mín Já í dag er fátt sem áður Líf þitt snýst um fleira' en mig Vinir góðir, sætar stelpur Snúast nú í kringum þig Áhyggjur þær vaxa með þér Ertu tryggur vinur minn Vannstu verkin fyrir skólann Komdu' á réttum tíma inn Já það kemur stundum fyrir Að ég hugsi um þann dag Er þú sjálfur passar líf þitt Og ég kannski slappa af En alltaf gott við eigum saman Getum rætt um lífsins veg Og ei mínútu ég minnist Sem ég vildi missa af Þú brátt velur eigin lífstíl Og þá braut er hjartað sér Stolt ég fylgi þér í huga Og í hjarta hvert sem fer Svo kemur kannski stóra ástin Flýgur þú á skýji burt Eignast fjölskyldu og framtíð Ykkar trygg í faðmi hér Þá ég amma verð nú gjarnan Lítil hönd í mína fer Hjartað fær nú fleiri' að gæta Ei það líkar mér nú ver ] [ Hver hefur meira af öllu á móti manninum samkvæmt hverjum og við höfum meira af öllu á móti svínum og ekki erum við lík svínum á þann háttinn, þó svo að sældin hjá hverjum og einum sé örlítið óhreinni? ] [ Taktu mark á tilgangslausu málunum, tjáðu þig aftur á bak. Vertu ekki alltaf á nálunum, ekki tala um þetta skak. ] [ Er aftur kominn á ról, viltu koma með mér? Jesú kristur veri mitt skjól, hann lýtur eftir þér. ] [ Ég hitti tvo hrafna í nótt. Þeir sögðu mér hluti sem ég trúði fljótt. \"Það var einu sinni kuti,\" sögðu hrafnarnir tveir, \"sem drap marga menn, það er satt, líka ritað í leir, og hann gerir það hiklaust enn.\" Þeir töluðu líka um það, að stundin hún rynni upp fljótt. Það byrjar þá borða allir tað, já, kannski byrjar það í nótt... ] [ Ég man fyrsta augnaráðið Ég man fyrsta kossin, Ég man fyrstu nóttina Ég man fyrstu mánuðina, fyrsta barnið Ég man gleðina, hamingjuna og ástina. En ég man líka Fyrstu móðgunina Fyrsta ömurlega augnaráðið, þegar þú kallaðir mig ónytjung og ég man fyrsta höggið, fyrsta blóðið, fyrsta glóðuraugað. ég man þegar ég fór í fyrsta skipti og ég man líka þegar ég kom aftur en mikilvægast af öllu man ég þegar þetta gerðist allt saman aftur! ] [ Heilinn minn er ofvirkur ég er með hann í beisli búin að smíða girðingu svo að hann sleppi ekki út negldi fyrir gluggana svo að hann hoppi ekki niður gef honum jarðaber róa hann niður nudda hann og segi ´rólegur núna´ ] [ Trégluggatjöld, nei ég meina trérimlagardínur eru í tísku allir sem eru ´eitthvað´ eiga svoleiðis Jeppar eru í tísku, allir sem eru ´eitthvað´ eiga einn dekkjastóran skriðdreka Að fara í helgarferð til Prag er í tísku, ´Ertu ekki búin að fara til Praha? guð þú ert lúser.... ] [ ég undirbjó þetta mjög vel valdi besta hnífinn mánuðum áður sótthreinsaði öll áhöldin þreif herbergið tók símann úr sambandi fór í nýja hvíta náttkjólinn minn blúndurnar stungust í mig geirvörturnar hörnuðu settist við hvíta borðið með allt tilbúið fyrir framan mig leit upp í ljósið tók hnífinn í hægri hendina stakk honum hratt á milli brjóstanna kippti hjartanu út skellti því á hvíta diskinn blóðið skvettist út úr líkama mínum litaði allt í kringum mig tók hnífinn upp aftur hreinsaði blóðið af honum skar hjarta mitt í bita einn fyrir þig..... einn fyrir þig.... ] [ Í heilanum mínum er partý sumar frumurnar eru alltaf fullar aðrar með móral sumar alvörugefnar nokkrar þunglyndar flestar eru alltaf hlægjandi renna sér niður æðaveggina með hraða tilfinningar verða til ] [ ég stóð í strætóskýlinu í morgun sá lurk á götunni fyrir framan mig langaði að taka hann upp og berja honum í skýlið myndi ég lenda á geðdeild fyrir það spurði ég sjálfa mig og brosti örugglega var svarið, þannig að ég stóð bara kjur eins og alvöru kona og brosti daðurslega ] [ sit við skrifborðið langar til að æla á það illt í maganum illt í hjartanu ´tipptipptipptippklapptipp tipptipp´ heyrist allsstaðar í kringum mig litlausar verur að vélrita einhver hringir ´vúmm vúmm´ heyrist í viftunni fyrir ofan mig leiðinlegi læknirinn strunsar framhjá með geðvonskulátum ´tipptipptipp primm primm primm´ heyrist allsstaðar í kringum mig, verður hærra og hærra hleyp inn á klósett æli þessu litlausa lífi ] [ allt fyrir framan mig breytist í form gangstéttin breytist í abstrakt málverk himininn sogar mig að sér sýnir mér myndir af liðnum tímum spýtir mér síðan út aftur ég hlæ, langar að gráta ég geng, langar að hlaupa nostalgíutilfinningar ráða ferðinni ] [ Augun mín eru svo þreytt maginn minn er á mótþróaskeiði hárið mitt í uppreisn kynfæri mín í sorg legið mitt í söknuði hjartað mitt í útlegð.... ] [ Ó þú kvalarfulla ást. Þurfti ég endilega að verða ástfanginn. Ég er farinn að þrá hana en vil ekki að hún taki eftir því. Ó þú kvalarfulla ást. En þegar hún talar, þá brosi ég, ég brosi breiðar en nokkru sinni fyrr. En þessi tilfinning brennir mig allan að innan, líkt og syna brennur hey. Hví er ást mín svo fljót að blossa, sprenging sem kjarnorkuvopn. Hví er ást mín svo fljót að gossa, sem vatn úr foss. Ó þú kvalarfulla ást. Ég vil ekki vera ástfnginn aftur, en ég er það svo ég brosi breiðar en nokkru sinni fyrr, á sama tíma og ég er að drepast úr áhyggjum. Ó þú kvalarfulla ást! ] [ Við komum heim klukkan 4:10. Við sofnuðum klukkan 7:16. Við vöknuðum klukkan 11:44. Þú fórst klukkan 12:37. Ég sofnaði klukkan 12:39. Ég vaknaði klukkan 18:22.. ...eða eitthvað. ] [ Ég horfi á hann, hann er eins og engill með svo blá augu og svo fallegt hvítt hrokkið hár, getur hann elskað? geta englar elskað? ] [ Sit á stól á móti mér og hlusta á suðið í kvöldinu fara fram hjá mér á fjögurhundruð og ellefu kílómetra hraða. ] [ Ég er skórinn sem passar en ekki dísin sem hann klæðir aðlagast við notkun slitna og er svo skipt út hvorki meira né minna ] [ Ég verð að vera hluti af einhverju; Fasta og borða ekki í sex daga það væri ekki erfitt. Einungis myndu litlir smáhlutir valda truflunum, gefa í skyn að ég væri á barmi sjálfsmorðs. Ég þekki fólk sem þætti þetta glæpsamlegt ] [ Sorglegt? Ó, ég veit ekki. Þó að ég gæti rétt út höndina og gefið henni vitið aftur, þá mundi ég ekki gera það. Hún er miklu hamingjusamari eins og hún er. ] [ Mig langar að sofna sofa inn í eilífðina þegar eilífðinni er lokið vakna ég í upphafi nýs lífs þú við hliðina á mér því ást mín á þér er eilífanleg og það erum við líka ] [ Dóra Mjöll er sniðug snót snarar hún ungan drengin Stulla húkkar heldur fjót hann er betri en enginn. ] [ Hann bað mig um að redda sér hassi. Ég hringdi nokkur skuggaleg símtöl. Nokkru seinna hringdi ég hneykslaður í lögguna og bað þá um að handtaka dópista sem væri alltaf að angra mig. Þeir gerðu það. Hann var ekki með efnið á sér og þeir spurðu hann hvar það væri. Hann sagðist ekki vera með það á sér. Þeir tóku hann og sett´ann inn fyrirbyggjandi aðgerðir sögðu þeir. Þegar hann kom út þá bönkuðu þeir og spurðu hann hvar hassið væri. Hann varð dálítið pirraður og sagðist hafa gefið vinkonu sinni með sér og að þau hefðu fyrir löngu reykt það upp til agna. Þeir tóku hann aftur. Þeir tóku konuna hans og börnin hans, helvítis hassbörnin. Sögðu að það væru fyrirbyggjandi aðgerðir. Þau streittust á móti því þau voru frekar ósátt við þessa undarlegu atburðarrás, þó þau viðurkenndu fúslega að þeim líkaði alls ekki við það þegar að pabbi gamli væri að smóka. Þeir hristu hausinn og skrifuðu bréf. Kveiktu á blysum. Vopnuðust og reyktu sig bóluskakka áður en þeir fóru og tóku þau. Eftir að hafa útmáð hassfólki þá voru þeir sáttir einir í sinni margumtöluðu vímu. ] [ Diplómatíska hugmyndin um stríð er kannski ekki aðgengileg, en hún er gáfuleg og lætur manni liða líkt og maður þurfi ekki að muna hvernig það er að fá blóðnös, enda oft lítið um blóð og jakkaföt á diplómatískum stöðum. Diplómatíska hugmyndin um stríð er sú að maður verði að gera einsog stóri bróðir, af því að hann sé svo gáfaður og duglegur að vinna og borga reikninga, sérstakleg af því að hann býður manni stundum á barinn. Diplómatíska hugmyndin um stríð er sú að það sé hollt, réttlátt, næringarríkt, uppbyggjandi, fyrirbyggjandi, upplífgandi og fullnægjandi og ég tala nú ekki um hvað það getur verið skemmtandi á leiðingjörnum síðkvöldum að sitja yfir sjónvarpinu með popp og stríð í gangi. Diplómatíska humyndin um stríð er jafn fullkomin og ljósaperan en um leið verður ekki þrefað lengi um það að ekki er í nokkru falli hægt að skipta höfði mannsins og hjarta út fyrir fáeinar ljósaperur. ] [ Í stundarbrjálæði Og ég dreg þig Dreg þig frá mér Á augnabliki Og ég missi takið Er ég gríp það Á studarbroti Og ég græt Öfugum tárum Óljóst, án tíma Vinn ég ykkur Í keppninni Keppninni að tapa ] [ Tunglið bliknar undan augnaráði þínu og stjörnurnar forðast ásjónu þína en á köldum febrúar morgni, ert þú það eina sem fólkið á klakanum þráir að sjá! ] [ Ég sá þig gegnum glerið gægjast hingað inn. Afaverju kemur þú ekki inn í bústað minn.. Ég hef beðið og beðið bakvið þetta gler, þú hefur skinið og skinið skammt frá mér. ] [ Þung eru skref um þessa ganga, á þerrisnúrum margir hanga. Vogun vinnur, vogun tapar, af vogaskálum margur hrapar. Sveinn og mey í sálartogi, saman lentu inná Vogi. ] [ Við ljóðvana kyrrð í láreistu húsi bjó andi minn Og andi minn flaug uns hann lenti að lokum við launstíg sinn. Með brothættan reyr hinna staðlausu stafa studdist ég þá, því andi minn átti sér ókleif takmörk en eilífa þrá. ] [ Nú heggur mánasigð í skýjaskjöld sem skugga ber á lönd og höf. Sær við ystu boða ber upp tjöld, hin björtu ránartröf. Stormanótt þá strengi óttans slær svo stynur allt sem lifir,veikt og smátt. Í gegnum rofið starir stjarna skær á sturluð jarðar börn sem skilja fátt.. En fyrir ofan sortans skýja skjöld skín þrotlaus stjörnu merð. Um óra víddir alheims, þúsund föld orka þreytir ferð. Enginn máttur ólma beislað kann og enginn stjórnað fær. á augnabliki upp þar hnöttur brann og annar reis í gær. ] [ Gaman er að gánga í úðanum og rýna niðurí göturæsið Í leit að perlum eða krónkalli eða bara vindlíngsstúf Í úðanum, laugaður tárum guðs Á vit ástar sem vafasamar heimildir telja sterkari en dauðann Fárast ekki yfir grátnum í honum guði Dást að því, hve haglega götusóparar hafa sópað föllnum laufum saman í hrúgur ] [ Hví vantar mig þrótt til að lifa og sýngja? Hví geing ég sljór um götur og torg? Hví sparka ég til húsveggjanna? Standa þeir í vegi fyrir róttækum hugmyndum mínum? Mig vantar félaga og förunaut. Blóð mitt er geislavirkt. Í lendum mínum fara fram kjarnorkuspreingíngar. ] [ Stór og feit og stolt troðjúgra komst þú á stöðulinn Hönd mín hvíldi á herðum þér Júgur þitt logaði í kvöldsólinni Þú mændir á húsfreyju stórum bláum augum mændir og beiðst Ég strákpattinn þakka þér skjöldótta fóstra mín volduga móðurtákn ] [ Ég og þú við erum höfuðskepnurnar Ég sat til fóta þér Sígarettan stinn milli fíngra mér var viti, og ég var sætröll Sængin var jökull Fellíngarnar voru gjár og sprúngur Þú varst eldurinn eilífi undir jökulbúngunni Við vorum höfuðskepnurnar Svolitla stund sat ég hljóður Glóðin í sígarettunni huldist ösku. Það fennti á glugga vitans Skjótt skipast veður í lofti: Særinn ruddist á land Ég og þú Við erum höfuðskepnurnar ] [ I Iða af prúðbúnu fólki litríkum blómum sem berast með straumnum Fögur er fjallkonan níveabrún á hörund með kolgeitarbros á vör í blóðrauðu knésíðu pilsi "I'm awfully sorry for ya I know ya haven't focked for months" II Ríkisstjórnin úthlutar bjargránum einsog móðir sem gefur barni sínu snuð túttu í staðinn fyrir brjóst: Ó elsku almúgamaður Færðu fórn vegna atvinnuveganna (vegna braskarans á Snápahæð Konu hans lángar í nýjan pels) Almúgamaður, framvegis borðar þú færri kleinur með kaffinu Sættu þig vinsamlegast við hlutskipti þitt vegna atvinnuveganna og haltu ó elsku almúgamaður kjafti III Pabbi gefur litla dreingnum sínum blöðru bláa einsog Esjuna eða rauða einsog pils fjallkonunnar Fögur er fjallkonan með svarta bauga undir lífsþreyttum augum "I'm awfully sorry Buy me roses won't ya" Drengurinn gleðst meðan blaðran er ósprúngin Fjallkonan hefur reynt öll fegurðarlyf nema heilbrigt líf ] [ Tortíming! Sól, hiti, blár himinn, gleði. Markaðstorgið iðar af lífi. Öskur. Eins og þruma úr heiðskíru lofti. Sprengjuþotur æða yfir himininhvolfið. Hamingja markaðstorgsins er rifin upp af hræðilegri sprengingu. Fólk á hlaupum! Ógn! Skelfing! Fólk dettur. Er troðið undir af þrumandi hjörð óttaslegins múgs um leið og ?ÞEIR? koma upp götuna á jeppum, með vélbyssur. Morðin eru hafin! Öskur! Byssuskot fylla loftið! Vein! Grátur! Örvænting! Saklaust fólk fellur um allt. Göturnar, Sem fyrir andartaki voru baðaðar sólskini. Gleði. Eru nú þaktar blóði. Angist! Grimmd. Sakleysingjar falla í hrönnum. Gamlir: Dánir! Ungir: Dánir! Menn og konur: Dáin! Börn: Dáin! Hræðileg blanda byssuhvella og hrópa fyllir loftið. Morðin halda áfram. Veinandi fólk. Skotið. Drepið. Hundruðum slátrað. Hlaupa! Veit ekki hvert! Bara hlaupa! Skyndilega verður allt rautt, svo svart. Ég æpi. Angist. Ég heyri enn byssuskot, örvæntingu, skelfingu! Svo þögn!!! ] [ Ég ligg og horfi á þig þú ert svo fríður þú andar þungt þú sefur Í myrkrinu hugsa ég \"elskar mig,elskar mig ekki\" sama hversu oft ég spyr þú elskar mig ekki Hvers vegna? Hvað gerði ég? Ég klæði mig og fer út Ég flýtti mér svo mikið að ég gleymdi, merkasta hlut lífsins hjartanu mínu það lá og svaf við hliðina á þínu ] [ Ég geng eftir einmanna götu eitt sinn gengu þar ég og þú í saklausri æsku við vorum saman en hvar ertu nú? Ástin er kulnuð og gleðin er horfin ekkrt eftir nema krot á vegg sem engin skilur Stundum hverf ég til baka og hugsa um þig en aldrei get ég hugsað svo lengi til að elska þig. ] [ Ég vildi ég væri tár í þínu auga ég vildi ég væri koss á þinni kinn Ég vildi ég væri hár á þínu höfði Ég vildi að þú værir bara minn Ég vildi ég væri fluga í þínum glugga ég vildi ég væri lukkusteinninn þinn Ég vildi ég væri sýn í þínum huga ég vildi að þú værir bara minn. ] [ Í sálu þinni er myrkur í hjarta þínu sorg þú ert einn og innantómur líkt og hrunin spilaborg Ástin mín eina hugsaðu um mig því í lífinu er skepna sem er að leika á þig Ef þú passar þig ekki endar bara á því að þú hrasir um sjálfan þig og hverfur mé á ný Það er ein leið til baka að hætta hér og nú svo við getum orðið að eilífu ég og þú. ] [ Ég ráfa um gleymda geyma græt! en finn ei svar ég veit ég á hér ei heima en spurningin er hvar? Allt sem í kringum mig er minnir mig á Hvernig var að vera þér hjá Sólin skein á mig ég átti líf,ég átti þrá ég átti þig en þú fórst mér frá í gleymdum heimi reyni ég að sjá minninguna sem ég geymi þegar ég var þér hjá ] [ Hjartað mitt er hjartað þitt erfitt er það að geyma en ég veit og þú veist að það á hvergi heima Eina nóttina vildi það fara það fór frá mér ég næ því ekki aftur það vill vera hjá þér Ég hugsaði þá ef það vill ekki vera hjá mér þá métt þú taka það og hafa hjá þér En ég sá stax eftir því sem ég sagði vissi ekki hvaða bölvun á mig lagði nú ég ekkrt kann nú ég ekkert man ég kann ekki einu sinni að elska mann ] [ í miklum harmleik æsku þarfnast maður eins mikillar gæsku annars ekki neins Þegar engin gefur grið mann vantar ekki neinn sálin, hún fær aldrei frið mann vantar að vera einn Lífið leggur þessa braut maður verður að takast á við það það er til lausn á hverri þraut en síðan hvað? ] [ Brautin liggur bein og breið vísar þér á stað en farðu ekki þessa leið því þú veist minnst um það Þessi leið er röng þeir reyna þig að taka farðu ekki þessi göng það er engin leið til baka Brautin liggur ljót og stór reynir þig að hylla en síðan eftir að hún fór hún reynir þig að trylla. ] [ Einu sinni voru hjón sem hétu Ásta og Pétur. Þau áttu heima við lítð sætt setur. Þau áttu tvö börn og einn kött. Enn Pétri fannst það gjörsamlega út í hött. Enn Ásta elskaði Pétur samt sem áður, og Pétur var Ástu líka háður. ] [ Þega ég lít í spegil, hugsa ég með mér: Er þetta blekking ? En svarið er alltaf : ég veit það ekki . ] [ skál reykjavík skál harðsoðna hálfmelta brúðuborg skál esjan skartar snjóhettunni en veðurstofan spáir þíðu á morgun koma krónur undan snjónum verðlausar krónur undan snjónum skál fyrir peníngalyktinni í austurstræti skál mér slær fyrir brjóstið norðanmegin skál í botn skál ] [ Ég veit ekki hvort fer þér betur skyrta gyðjunnar eða pils nornarinnar en fallegust ertu ber Ég elska þig af öllum kirtlum og öllu rafmagni í taugum mínum og heilaberki Ef þú svíkur mig ferst ég úr sjálfsástarsorg ] [ Næturnar eru blásvört móða með snöggum rauðum blossum Ég snerti þig með augunum káfa á þér með augunum kreisti þig með augunum Svo loka ég augunum og horfi á þig með húðinni ] [ Hvaða dóni smíðaði hugtakið: köld skynsemi? Skynsemin er ekki köld. Hún kyndir upp hús okkar. Hún fitar börnin okkar og yljar okkur um hjartað. Hver sagði að bókvitið yrði ekki látið í askana? Bókvitið reisir diskaverksmiðjur og gerir askana úrelta. ] [ I Köttur. Sól. Hús. Uppúr strompinum liðast reykur. Pottblóm teygir sig útum gluggann. Bóklestur. Skurðgröftur. Bláeyg kona með slegið hár og köflótta svuntu heingir upp þvott. Tré. Faðmlag. Fjall. Lítil stelpa með ljósgula tíkarspena og faungulegan bángsa. II Yfir öllu þessu: ofurhvítt ský. Ofar skýinu: þyrpíng af spreingjum. ] [ Sól skín í heiði. Appelsínur ánga. Elskan mín hefur falleg brjóst. Svart sykurlaust kaffi laukstertur dageftirdag og vikeftirviku einglabellir í hveitisósu franskbrauð með. Í gósenlandi aldingarða spýtum við mórauðu af vítamínskorti. Sól skín í heiði. Svona fer fyrir þeim sem vill ekki selja brjóstin á elskunni sinni fyrir kíló af appelsínum. ] [ Spóka sig spikfeitir spekúlantar bissnessbossar og byssufantar við glósur, glys og glasa val. Lúsgræn ljósin lýsa upp sal. Striplast strípaðar stelpur um svið stæltar stúlkur með stoltan kvið. Speiglarnir speigla spaugilegt líf: impótintáta og útglennt víf. ] [ Ég elska þig, ég elska þig og drulluhjallinn, Dísa. Að dúsa hér í ljósleysi er unaðslegt með þér þótt hitinn af sé tekinn og tuggin öll vor ýsa. Ég tileinka þér kvæðisstúf sem betri er en smér. Sælt er að vera fátækur og fyllitúnglin borða í fúkka og rottugángi, ó elsku Dísa mín næra krakkasubburnar á sólarlagsins forða og sýngja hátt í klæðleysi um ástir gull og vín. ] [ I ég besta orðið mitt égégégégégég égégég ég skrifa það í hlykkjótta runu með krúsídúllum þvers og kruss á síðuna bandorm miskynjaðra bókstafa éið er kvenkyns géið er kallkyns ég flétta úr því óreglulega mynstraðan púkakrans sætljótan einsog sjálfan mig ef ég hataði sjálfan mig hvernig gæti ég elskað aðra II aðrir þær þeir þau hann hún það skikkanleg ópersónuleg orð lítt æsandi og meinlaus á pappírnum III þú þú þú þú ó þú viðkvæmt brothætt eldfimt orð sem ég kveinka mér við að rita ég vil heldur hvísla því í eyra þér öskra það uppí opið geðið á þér IV þið þið þið sum þið þið þið þið öll orð sem sveiflast yfir blaðið gunnfáni knýttur á lensu við ykkur vil ég rífast með ykkur vil ég vinna hjá ykkur vil ég vera og leika við ykkur þið án ykkar væri ég ekki til V ég þú þið við heyrðannars við er besta orðið mitt ] [ I Brjóst handa mér brjóst sem fylla lófann brenna lófann og spreingja lófann spreingibrjóst handa mér eða lítil skjálfandi brjóst sem kitla lófann þótt maður nái ekki taki einsog á stelpunni þarna sem sötrar kók gegnum strá og mænir á gluggann brjóst handa mér og höndum mínum mér í hendur í hendur mínar brjóst að mínu flata brjósti stinn ilmandi mjúk heit brjóst handa mér og geirvörtur blóðríkar viðkvæmar bleikar ljósbrúnar dökkbrúnar gulbleikar brúnbleikar geirvörtur handa mér að erta og sefa. II Sonur minn fimmnáttagamall yglir sig og glefsar útí loftið í draumi um geirvörtu og brjóst. Sjálfur er ég ekki kominn mikið leingra eftir þrjátíu ára basl við að skilja heiminn og lífið, og innst innstinnstinnstinnstinnstinni er ég sammála strákskömminni um að alheimurinn sé í eðli sínu ein aftakastór úngamamma formóðir formæðra formóður með alla kviði og kviðlínga í sínum kviði og sjálfan mig ýmist við brjóstið eða inni. Kannski er geirvörtuplantekran mín víðfeðmari og fjölskrúðugri en garðholan stráksins er alger og yfirþyrmandi. ] [ Svelgi ég harðan sjóinn. Sætur braggðast flóinn. Blóð er grænt og gall er rautt glóbjart myrkrið funablautt. Yfir volgan svartan snjó sums og gums og korriró þögnin öskrar þokutær þúng sem fis og haturskær. ] [ The untouched the pure is the faerest of all the frozen the still does not speak if you go there and listen you will hear the call the whisper of the frozen is pale and weak the frozen will sound if silence is broken the silence of the sound is struggling to hold the outburst will leave the frozen, awoken and all that is living will turn to cold ] [ Ég skil mig eftir hjá öllum hinum furðu-sjálfunum og átta mig á því, að það er ekkert svo erfitt að opna þessar umbúðir. ] [ Á grænni grundu stóð ég einn, grúskandi í höfði mínu með nál. Hugsandi um hvort það sé betra að vera steinn, eða lifandi maður með sál. Ég veit ekki hvort er betra, eða best, enn þann dag í dag. Þó maðurinn sjálfur deyi fyrir rest, þá vil ég frekar vera steinninn í dag. ] [ Tími minn er dýrmætur, hann er í útrýmingarhættu. Ég hika samt ekki við að eyða honum án eftirsjár. ] [ Eftir að hugsanir mínar fóru að snúast um ljóð þá fóru ljóðin að snúast í hausnum á mér. Núna er ég ekki viss um hvað snýr upp og hvað snýr niður enda eru slíkar staðsetningar illa marktækar þegar maður er ekki viss um hvort maður sé ljóðskáld eða haus á hvolfi. ] [ Afsláttarmiðarnir í póstkassanum mínum eru einsog fólkið sem er að deyja í stríðinu. Maður veit að þar fer mikið fyrir lítið þó maður kæri sig kollóttan um bragðið. ] [ Fullur af synd legg ég mig í líma við að púsla þessu öllu saman þannig að úr verði mynd. Mynd sem ég skil og get úskýrt fyrir mömmu og ástinni. Sneyddur synd stend ég upp með óskilgetið bros á smettinu og legg hugaður af stað í enga átt þar sem enginn endir býður mér góðan dag og ekki neitt . ] [ Sjálfumglaði galgopinn hringar sig utan um míkrafóninn og eys úr skálum sínum sandblásnum minningum liðinna daga. Fólkið í salnum horfir á hann og man eftir sjálfum sér í rútum, tjöldum, rúmum, móum og stórmörkuðum. Síðan fer sjálfumglaði galgopinn heim og hengir sig á heimatilbúinn snaga laus við alla yfirborðsmennsku. Fólkið mætir hins vegar í salinn reglulega og minnist þess að til eru ævintýr og óraunveruleiki á mánudögum og miðvikudögum en hina dagana eru til lífeyrissjóðir, innvextir og útvextir, barnalán og barnabætur, bílalán og bankar. Sjálfumglaði galgopinn kemur hins vegar bara í salinn á mánudögum og miðvikudögum og ef vel er að gáð má glöggt sjá far eftir snaga á jakkakraganum hans. ] [ Himinn og rætur, gufuðu upp, vonin fór frá mér, allt varð þurt. Blíðu fékk ég forðum, í blóma lífsins, en vonin fór frá mér, veröldin mér brást. Ást þín mig gladdi, mitt hjarta ómaði, uns vonin fór frá mér, þín ást þornaði. Skýjin hafa farið samt er engin sól því vonin er horfin framtíðin burt fór. ] [ Þú ert líkn Þú ert fíkn Þú ert Þú ert há Þú ert vá Þú ert Þú ert þín Þú ert fín Þú ert Þú ert vor Þú ert þor Þú ert Þú ert æt Þú ert sæt Þú ert Þú ert góð Þú ert fróð Þú ert Þú ert fyndin Þú ert syndin Þú ert Þú ert fljót Þú ert skjót Þú ert Þú ert draumur Þú ert glaumur Þú ert þú ert líf þú ert víf þú ert Þú ert Þú ] [ Öll mín harmatár megna ei að lífga við dauða blómið mitt ] [ Ég horfi á hana berjast við tárin, hún er of stolt til að sýna það að hún muni sakna mín, hún þykist vera orðin stór. Allavega nógu stór til að gráta ekki, fyrr en útidyrahurðin skilur okkur að. Er ég geng í burtu, lít ég í augun sem eru svo undurlík mínum eigin. Hún kreistir fram bros sem á að gefa til kynna að allt muni vera í góðu lagi. Ég kvíð þessarar stundar, því við verðum alltaf að kveðjast, og innst inni veit ég að það brýtur hana smám saman niður að horfa á öryggisnetið fljúga af landi brott. Hún er hrædd við að það fari fyrir henni eins og fuglunum sem fljúga á rúðurnar í sveitinni. Þeir deyja einir. Ég held henni fast að mér, og kyssi hana á ennið,einsog þegar hún var lítil, hvísla svo að henni einhverju fyndnu til að reyna að lina sársaukann um stundarsakir, eða eiginlega bara til þess að ég haldi sjálfur andlitinu er ég loka dyrunum, því ég hef ekki það val að gráta, ég er orðin stór. ] [ Ég hélt ég elskaði þig, en það reyndist ekki gagnkvæmt. Svo ást mín á þér gufaði upp, reyndar ástin sem aldrei var til. Ég gerði mér ei hugarlund, hversu augljóst þetta var, að sá sem ég hélt mína ást, var í raun aldrei svo merkileg. 2.des. 2000 ] [ Tuch my hand and let me feel, the pain you suffer of. I can see you are hurt, because the pain belongs to me. You are hurt because of me, it is all my fucking fault. I am always asking my self, why i did this to you. You know that i take, the sponsebility of all this. I am angry with my self, because it's wrong what i did. I know that you are angry, angry with me. And i'm not gonna blame you for this, and you have right to be angry with me. But life goes on, and we can just forget this. Even thoe it will be, alife in our thoughts. ] [ Allt í rústi líf mitt er, öll mín hamingja úr hjartanu fer. Ekkert eftir nema sorg og reyði, og ekkert get nema ég mig særi. Hnífur í hönd á slagæð legg, sker af stað eða á hendina hegg, blóðisð læðist útí gegn, eða spítist út eins og heljar regn. ] [ Ég fann að þú nálgaðist mig, þú komst nær og nær. Hvað vildirðu með mig, ég vildi ekkert með þig hafa. Þú kallaðir á mig, komdu, komdu. Ég kem, en vildi það ekki. Þú dáleiddir mig, svo ég kæmi. Afhverju?? 6. nóv. 1999 ] [ Ég er umkringd reiði, getur hún ekki farið, farið burt frá mér. Mér leiðist þessi reiði, Öll þessi reiði, þessi reiði sem umlyggur mig. Umlyggur mig, svo að ég verði reið. Svo mér líði illa, og sjái engann tilgang með neinu. Er tilganguinn sá, með lífi mínu, að mér líði illa. Eða á ég bara að deyja..? 6.nóv. 1999 ] [ Lag. Finnskt þjóðlag. Allar mínar sorgir sindra í snjá, er sólblik frá himni fellur hann á. Ekkert get ég fundið að fela þær í, ég bið þig, drag fyrir dökklokkað ský. ] [ Hádegi. Mygluð sólin berrassar sig. Svarta myrkur á miðnætti. Gref mig inn í innyflin. Hádegi. ] [ Guð þinn gefur þó gætur, og þér hlýnar um hjartarætur, en Guð vildi fá hann núna, og við skulum halda í trúnna. Tárin þorna en minningin lifir, þú sérð að þú kemst sorgina yfir, en elskaður er hjá Guði nú, og geymist svo minningin sú. 1996 ] [ Brosir þú, brosi ég, ef þú grætur, þá græt ég, ef þú brekst mér, brekst ég þér. Allt sem þú gerir, geri ég, það er ég. Sál þín. 28.feb. 1998 ] [ Ég lifi inní þér, þú finnur stundum fyrir mér. Ég læt þig vita að þú, ert til. Stundum nem ég staðar, allt í einu. En stundum held ég áfram, lengi lengi. En á endanum hverf ég, inní nýtt líf. 28.okt. 1999 ] [ Lífið kemur, og lífið fer. Lífið berst um, í hjarta mér. Lífið vekur draum, í hjarta og sál. Lífið er ást, og lífið er hatur. Lífið er þraut sem þú getur ekki hafnað. 28.okt. 1999 ] [ Ég heyri þungar drunur, fyrir eyrum mér. Ég heyri að þú hvíslar að mér, vertu óhrædd, ég er hér. Ég heyri í vindi dauðans, hann glymur fyrir eyrum mér. Ég heyri að þú hvíslar að mér, vertu óhrædd, ég er hér. Ég finn fyrir lofti, lyfta mér upp. Ég finn fyrir því, að ég flýg. Ég flýg inní djúpann dauðann, sem flýgur með mig, inní annann heim. Og enn heyri ég rödd þína, vertu óhrædd, því ég er hér. 28.okt. 1999 ] [ ég sé það á annan hátt fyrir mér er allt grátt kanski horfi ég í aðra átt mér finst allt svo hrátt fyrir mér er bara kjarni allt annað er um of einsog hjá barni guði sé þér lof náttúrann er mér allt hvar byrjar þessi heimur er þetta bara einfalt endalaus geimur en þegar þú að mér gætir seigir þú mér sögur þar eru draugar,vættir og prinsessa fögur þessvegna lít ég yfir rökhyggjunar múra og hugsa málinn er til yfirnáttúra og hvað er sálinn finst þér ekki skrítið þú ert ekki frjáls lífið er ekkért lítið taktu til máls heimurinn er okkar sameiginlega hjarta við erum eitt hættu að kvarta til visku,þú getur okkur leitt ] [ í stofu út í bæ brennur jólatré brennur jólatré í stofu út í bæ sviðnaðar grenigreinar asbesteiturlyfjagufur umlykja feita miðaldra frænku og svæfa hana værum svefni í stofu út í bæ bæítúufotsí brennur jólatré kjarvalmálverk umbreytast mahóní Picasso Erró error rorre brennur bumba á gömlum manni gusast blóð niður granir granir niður blóðgranir varalitur flagnar af hita af vörum ungrar móður blá augu gulna springa gulna agnirps anlug jólatré miðaldra bumba móðir augu springa jesús kristur í rúst á gullkrossi Jens rass á lambi verður eldtungum að bráð óráð grátandi barn barn grátandi óráð faðir aska öskur ískur snark í pilluætufrænku grasgrænkubuxur við nýja þvottavél leikur holdfnykur um háa hæla við útidyr babúbúbabúababúb gobbedígobb jólakort handrituð í hundruðum brenna í stofu út í bæ stirðnuð bros á jólahamingjuóskandi andlitum jólagjafanýútgefnum sundfitum kjöt af nýslátruðum nautgripum brennur í einhverri helvítis stofu út í bæ brennur helvíti í bæ brennur helvíti í bæ ] [ Ég vildi að ég gæti hugsað, um hvað ég er að meina, en við það að vona, hef ég slugsað, og því er ég ekkert að leyna. Þó ég hafi aldrei hugsað skýrt, þá hef ég á því gætur, að hugsa alltaf eitthvað hýrt, á meðan að sólin grætur. Ekki er nema von að þér verði heitt, við að reyna að skilja mitt mál, því það sem ég segji er ekki neitt í skilningi vorar íslensku þjóðarsál. ] [ dimmir dagar, dökkar nætur læðast hægt og hljótt lífð lifir og á sér rætur rís hægt upp um nótt Dagur líður skjótt dimman færist yfir lífið verður hljótt á meðan allt vonda lifir Dagur rís úr bláu djúpi dimman farinn er lífið er falið í huliðshjúpi það býr ekki lengur hér ] [ I look down on myself from a pink little cloud made of vodka. it sways rounds and rounds in the sky, circling the cities and soon enough dissolving into a rain of reality biting me in the morning after. ] [ Vandfúsir guðir neituðu mér foreldrar gráta yfir hvernig þar er Hún hljóp yfir götu hnátan sú yfir kom bíllin og hana nú Allt var hvítt allt var svart hnátan liggur allt er kalt Guðs mans ótti það er svo kalt líf hennar styttist fyrir fullt og allt Kistan var lítil förin var stór allir muna sakna þessa fljóðs Hvað þá segja okkur má ökumaður bílsins fullur var þá. ] [ Réttur reiðskjótinn fljóti ræðst fram heykist hvorki á urð né grjóti heldur fram Ei sá vænsti séra Vídalín, valinkunna forseta Blöndalssýn Betra er að aka brúna birta tekur núna. Besta brautaval beint um Kaldadal. Þokkalega Jónas má Þóru sína kyssa Þegar við brunum hjá, sakleysið missa Tenging verður traust taktföst, sumar, vetur, hraust nokkuð nærri slysalaust nú eða eitthvað í þá veru býsna er hún breið brautin alltaf greið. lykkjur sem voru á leið löngu horfnar allar eru. ] [ Lokaðu augunum og leyfðu vindinum að feykja þér þangað sem engir vindar blása ] [ Veistu? Nei. Þú veist það ekki. Ekki ég heldur; samviskan léttist þó um þrjú kg, hugsunin: + fimm. ] [ Nú ríkir bara eintóm eimd og vonleysi hjá mér, þar sem ég er í algerri niðurvinnslu... Sakna þín geggjað mikið, svo mikið að ég festi vart svefn. Ásamt því að þjást af alvarlegu harðlífi, vona að þú sért sáttur... ] [ rósin lét undan þungbærum skugga drekans skýjin dökknuðu ] [ þessar tvær hendur vildu bjarga heiminum þessar tvær hendur reyndu að semja frið þessar tvær hendur tóku utan um þig en gripu í tómt ] [ Lokaðu dyrunum hljóðlega ég sef skildu ekkert eftir engin orð engin loforð ég mun vakna af kærum draum hella uppá hafa gleymt sárinu ] [ Segðu ekki þú elskir mig ef þér búa svik í huga segðu ekki þú þarfnist mín megi ég ekki annast þig sýndu mér ekki tár þín fái ég ekki huggað þig segðu ekki þú elskir mig eigi ég ekki hjarta þitt ] [ Þú stóðst svo nærri svo órafjærri ég fann ekki slóðina gula stíginn mundi ekki töfraþuluna er enn handan regnbogans í eyðilandi ráfandi, leytandi að hjarta mínu eitthvað þeytti mér burt uppí hæðir fáránleikans burt, burt frá þér örygginu þar sem hjartað fann frið í faðmi þínum þú stóðst svo nærri en samt fann ég sem afhjúpað hafði lygina ekki leiðina heim til þín ] [ Sástu mig hlaupa um stíga dans hlæja vissirðu það var blæja sem huldi sárið hjarta sem grét sástu við mér? ] [ Hverf aftur í hellinn til þinna mín veröld óttast konung eins og þig hverf aftur kom aldrei meir ég mun sögur segja ævintýr um álfa og tröll álög og höll forboðna ást og hlæja dátt ] [ Ég hélt það dyggð þagði mætti ógninni ein meðal nartandi hrægamma sat ég hljóð sigldi milli skers og báru veðurbarið andlit mitt hert af söltum tárum var hetja þögnin sú andstyggðar dyggð bjó til hetju skildi okkur að ] [ Suðurlandið mitt með sorgarböndin hlíðar þínar sandur hólar strönd hjá þér vil ég dvelja meðal minninganna láta hugann reika ef ég má þar til bein mín verða mold sameinuð þér hlíð þinni og á ] [ Leiktu fyrir mig lagið þræddu nóturnar hægt lát hvert tregatár berast til mín þar til ég finn tóninn aftur sálina, mig líkt og forðum áður en ég missti kjarkinn samhljóminn þig ] [ Ég vil tala en verð að þegja orðin finna mig ekki örmögnuðust á leiðinni gegnum torfærur óttans eldfjall reiðinnar eyju sársaukans dal sorgarinnar við rökstól viskunnar sit ég hljóð og bíð ] [ Sorgin heldur mér fanginni vakir yfir hverju fótmáli hverri hugsun löngun þrá togar mig út úr samræðum úr gleðskapnum hrellir yfir sjónvarpsmynd þröngvar sér inn í drauma vakir yfir minningu þinni fæ ekki að gleyma lokar hjarta mínu fæ ekki að elska dregur úr mér þrótt nenni ekki að lifa vill ekki sleppa mér því þá hverfur þú ] [ Hvernig ætti ég að afneita mér? innsta eðli mínu hugsun án þess að týnast hjartanu án þess að veslast upp? Ég myndi ráfa um í svart hvítum heimi án litbrigða veslast upp í einmanna veröld án ástar án þess að finna til vera til ] [ Ég gekk inn í hús, búnu dýrum skrúða. Mjúkar ábreiður silkis í fögrum litum, syntu um fætur mínar, gullslegnir órórar bærðust er ég gekk um meðal marmaraklæddra súlna. Ylmur reykelsis færði mér fögur fyrirheit um hvílu úr hvítu líni. Ég gekk upp stiga albúnum ísköldum demanti sem skar, við enda hans var laug ylmandi myrru, þar sem ég laugaði blóðstökktan líkama minn. Á borði lá kyrtill úr bleiku líni sem ég íklæddist, kom auga á stálhurð merktri nafni mínu og gekk inn. Fálmandi í dimmu, köldu herbergi fann ég loks fyrirheitið, gatslitna dýnu undir fúnu þakskeggi sem hló. Þreytt, köld og særð lagðist ég út af og lét mig dreyma um önnur hús. ] [ Ég lagði upp í ferð, tróð gamla illfæra slóð úr alfaraleið. Kunnulegar vörður hlaðnar viskusteinum báru mér tíðindi af sannleika. Heróp bak við dimm ský bergmálaði um völlinn, úr launsátrum í gráu virki flugu kristalsörvar úr öllum áttum sem skáru andlit mitt og augu. Blóðtár flóðu um kristalsbrot á særðri jörð. Í jötunheimum fallinna, útskúfaðra sálna, var þingað undir berum himni. Titrandi rödd bað sér griða, sál sem vildi lifa, ég. ] [ Hvað stoðar að eiga trú sem flytur fjöll styrkir leysir hugum breytir en trúa ekki á sjálfan sig? ] [ Ég leggst til hvílu þar sem sorgin hefur búið sér hreiður. Draumar æða áfram líkt og tryllt hjörð í þreyttu höfði. Þráin berst um líkt og villt dýr í veiku hjarta. Eftirsjáin hringar sig líkt og nöðrufangi í sálarbúri. Sársaukinn skolar öllu burt og eyðir. Eftir situr tómleikinn tignarlegur sem örn og bíður þess að sér vaxi vængir á ný. ] [ Að finna blóðið ólga í lífæðinni sem flytur sögu mína sögu þína, samofna finna áningarstað undir fornri eik vera kysst af sólinni sem elskaði sérhvern reit kítluð af mánanum sem lék við hverja grein lauguð í dögginni tárum laufblaðanna hvísla að moldinni sem þekkir rótina ég man hver ég er ] [ Meðal fagurkeranna á safninu, sat einmana verk á hillu. Sprungið og máð, án forms og stefnu. Nafnlaust verk án höfundarréttar. Margþætt og löngu gleymd saga, bundin í leirbrotum og ryki. Saga listamannanna mörgu sem það mótuðu. ] [ Sannleikurinn bíður hljóður undir orðum óttinn sefur í þögninni svo lengi sem sár mitt hvílir í ómerktri gröf ] [ Þó prestinn hafi vantað votta og undirskrift stendur jáyrði mitt ritað gilt og innsiglað í vígðu hjarta ] [ Ég elskaði sál ónæma gagnvart uppruna sínum fortíð ást án veldis tilbúnum væntingum laus frá þarflausum kynnum sagnarhefð íþyngjandi myndum af æsku og draumum ég elskaði sál án kjarna sjaldgæf gjöf óflekkuð lýtalaus skuldlaus óbæranleg ] [ Dagar líða mánuðir, ár streyma hjá vonlaus bið engin sátt nóttin er mín líkn hvílir hjartað deyfir sorgina ögurstund áttum við kvöddumst aldrei elskumst nóttin er mín ] [ Ég syrgi svo margt orðin sem umvöfðu snertinguna sem róaði röddina sem gladdi brosið sem sefaði augun sem fönguðu faðminn sem huggaði sálina sem elskaði allt syrgi ég nema að hafa elskað þig ] [ Hann kyssir okkur sama kossi hvert kvöld býður hann upp í dans fylgir okkur heim hvíslaðu að honum hvar þú ert með hjarta mitt ljúfur svo ég megi finna mig ] [ Hver reisti þennan múr þennan ósýnilega hljóðmúr? Við stöndum hlið við hlið þú heyrir ekki hjartsláttinn hjartað kalla hver reisti þennan vegg þennan kalda, brothætta vegg? Við horfum í gegnum hann þú sérð mig ekki finnur ekki hitann frá líkama mínum skimum eftir glerinu svo brothætt finnum kulda þess hörfum göngum varlega framhjá hver reisti þennan múr, þennan vegg? hver gaf leyfi, hver fyrirskipaði það? Ég er viss um að það var ekki ég ] [ Þú náðir mér afhjúpaðir ég varð sú er ég fyrirleit betlandi kona ekki þín ] [ Hjúpuð dulúð draumheima ein í návist hins yfirskilvitslega heilaga þar sem spekin vill rökræða fræða sviðinn óbæranlegur frá logandi runna missis ] [ Léttvæg fundin meðal hirðarinnar missanlegt peð á röngu taflborði léttbær fórn fyrir konung þungbær fyrir peð sem lætur lífið til einskis ] [ Drag sverð þitt úr slíðrum á ný legg til mín sting á hol einu sinni tvisvar ég mun ekki hörfa ekki finna til broddur þinn mun hæfa draug veginn af sama sverði ] [ Helsára barst þú mig upp hólinn, að dyrum eyjunnar, grafhýsi mínu. Óhuggandi himininn tók undir angistaróp hjarta míns, sem fékk ekki flúið banaspjót örlaganna. Þú lagðir mig blíðlega á beðið og bjóst til greftrunar. Laugaðir andlit mitt söltum tárum, líkama minn beiskri olíu, smurðir varir mínar sætu hunangi, vafðir mig hlýju skinni. Þar sem hjarta mitt lifnaði, fékk það að slá í hinsta sinn og svífa á lausnarorðum inn í algleymið. Þar mun kveðja mín og loforð bergmála um eilífð. ] [ Slökk þennan eld áður en ég fuðra upp og hverf segðu mér sögu ljúgðu ef þarft þar til hjartað kólnar fyrir fullt og allt ] [ Andspænis hvoru öðru ráðþrota mælum vegalengdina sem skilur okkur að náum í verkfærin hefjum byggingu brúar yfir pollinn ] [ Myndirnar leyfar eftir storm gærdagsins Lyktin af peysunni ilmur þess liðna, rétt til að minna á örstutt Bréfin söknuður á blaði Rósin akkeri fortíðar Regndropar ég bið ykkur strjúkið mér eitt skipti enn líkt og þið gerðuð síðasta sumarið ] [ Löngu seinna þegar ég sá þig næst þín var svo fínleg hún tók ekki eftir hvernig augu okkar mættust. Við fundum bæði minninguna um saltsveittan núninginn og það sem aldrei varð. Um leið og við gengum þegjandi framhjá hvort öðru var það aftur búið. Ég fann að þú leist við, en við næsta horn staldraði ég aðeins við og saknaði þín. ] [ Nú baðar jörð í blóði, og barist er af móði, og þessu litla ljóði mun lítil áheyrn veitt. Og þótt ég eitthvað yrki um Englendinga og Tyrki, má telja víst það virki sem verra en ekki neitt. Ég ligg hér einn og lúinn, úr lífsins harki flúinn, og vilja og vopnum rúinn á vinsamlegum stað. Manns hug ei hátt skal flíka, ég hefi barist líka og átt við ofraun slíka. En ekki meira um það. Vort líf er mikil mæða og margt vill sárið blæða, og knappt til fæðu og klæða er kannske nú sem þá. En samt skal sorgum rýma, þótt sækist hægt vor glíma, því eflaust einhverntíma mun einhver sigri ná. Og berjist þeir og berjist og brotni sundur og merjist, og hasli völl og verjist í vopnabraki og gný. Þótt borgir standi í báli og beitt sé eitri og stáli, þá skiptir mestu máli að maður græði á því. ] [ 1 Tíminn er eins og vatnið, og vatnið er kalt og djúpt eins og vitund mín sjálfs. Og tíminn er eins og mynd, sem er máluð af vatninu og mér til hálfs. Og tíminn og vatnið renna veglaust til þurrðar inn í vitund mín sjálfs. 2 Sólin, sólin var hjá mér, eins og grannvaxin kona, á gulum skóm. Í tvítugu djúpi svaf trú mín og ást eins og tvílitt blóm. Og sólin gekk yfir grunlaust blómið á gulum skóm. ... 9 Net til að veiða vindinn: Flýjandi djúpfiski hlaðið glæru ljósi einskis. Sólvængjuð hringvötn búin holspeglum fjórvíðra drauma. Týnd spor undir kvöldsnjó efans. Net til að veiða vindinn: Eins og svefnhiminn lagður blysmöskvum veiðir guð. 10 Frá vitund minni til vara þinna er veglaust haf. En draumur minn glóði í dulkvikri báru, meðan djúpið svaf. Og falin sorg mín nær fundi þínum eins og firðblátt haf. ... ] [ Hin mikla leiksýning var loks á enda. Eins og logandi blys hafði leikur minn risið í hamslausri gleði og friðlausri kvöl, uns hann féll á ný í skoplegri auðmýkt til upphafs síns. Það var lífið sjálft, það var leikur minn. Og ég leit fram í salinn og bjóst við stjórnlausum fögnuði fólksins. En þar var enginn. Og annarleg kyrrð hvíldi yfir auðum bekkjunum. ] [ Vorblaut sunnangolan tekur á mót mér einn morguninn og gerir mig hlægilega á þorraþykkum klæðunum. Glaðlegur regnbogi tekur af mér trefilinn og húfuna, vetrargráu hárin fagna og safna örsmáum dropunum. Hjáróma heyrist í álftunum kvaka er þær fljúga þar undir regnbogann hratt til heiða og allt, en er ekki eins og ég vakni frekar en hitt? ] [ Hvað er ást? Hvað er hatur? Hvað er kærleikur? Hvað er vellíðan? Hvað er lífið? Hvað er ég að gera hér? Hver er tilgangurinn? ] [ Ljósið er svo skært, ég því verð að fylgja. Ég fer ei frá þér, bara á annan stað. Ekki verða sár, því ég hjá þér verð uns þú kemur til mín á ný. Mun þá verða fjör, knús,kossar og eilífðar líf í faðmi hvors annars. ] [ Fólk segir að ástina finni maður aldrei. En ég var svo heppin að finna hana hjá þér. Ég sleppi þér aldrei, ástin má ekki dofna. Þó fari ég í burtu, mundu mig að eilífu. Ef þú gleymir mér mun rigna englatárum svo lengi sem þú lifir. Já..ég mun gráta, en bara þar til þú kemur til mín yfir móðuna miklu. ] [ Vertu þú sjálfur. Vertu góður. Vertu hamingjusamur. Vertu yndislegur. Vertu sá sem ég elska. Vertu það að eilífu. ] [ Elsku ástin mín ég er bara þín Þú ert mér allt en það er orðið kalt hér án þín ] [ Ég fylgist með þér, þú sérð mig ekki. Ég veit hvað þú gerir, ég veit hvað þú hugsar. Þú hefur gleymt mér... Þetta er erfitt en engin má sjá er vangar mínir blotna. Ég er alein núna að eilífu... Sólin er hætt að skína, vatnið er hætt að renna, birtan er horfin, nóttin tekur við löng,dimm og erfið... ] [ Þú særir mig, þó ég elski þig. Því ertu svo vondur? Komdu aftur, verum saman, vertu hjá mér, elskumst á ný. Afhverju ekki? Hvert hvarf ástin? Ég hverf... Ég er farin. ] [ Það er svo skrítið, hvernig það getur kviknað \"ást\", útfrá litlu sem engu. Það er svo skrítið, hvernig það getur kviknað í sígarettu, útfrá litlum sem engum eldi. Svo þegar á heildina er litið, er svo skrítið hvað þær eiga sameiginlegt... Þær eru bara yndislegar í 5 mínútur... ] [ Hæ afi engill. veistu hvað ég hef saknað þín. Sorgin er að buga mig, ég veit af þér hjá mér, en það er samt alltaf eins og einhvað vanti. Þú varst alltaf svo hress og kátur alltaf svo góður, en samt svo stríðin ég fékk ávalt að vera litla afa stelpan þín. en svo kom krabbameinið og tók þig í burtu frá mér svo rosalega snögt ég náði aldrei að seigja bless þú varst farin áður en ég kom á spítalan til þín í heimsókn þú varst farin 14ár, og ég sirgi þig enþá þegar ég geri mistök veit ég að þú passar mig þegar ég er að falla í eimdina, kemur þú og kippir mér upp. þegar ég sakna þín kemuru til mín ég finn fyrir þér á öxlum mínum eins og lítill púki þú varst alltaf svo stríðin þegar þú slekkur á sjónvarpinu mínu þegar ég horfi á fréttirnar, veit ég að þú ert að stríða mér. Láttu þér líða vel hjá guði Mundu mig ég man þig Elsku afi þótt þú sért engill veit ég að ég er en þá litla afastelpan þín. Kær kveðja Ellen Rós ] [ Hvert eitt spor í mjúkri fönninni vísar þér leiðina til mín. En ef þú ert of lengi á leiðinni, verður fennt í sporin og ég horfin. ] [ Ekkert án þín, allt með þér. Svo mikill munur, svo langt bil, en samt svo stutt á milli. Ein stund með þér, næsta án þín. Tómarúm í hjarta, en í senn að springa. Syngjandi gleði, grátandi sorg, hvar er millivegurinn? Hönd í hönd, hjarta við hjarta, óralöng fjarlægð, en slá samt saman. Ár liðin, ár framundan. Þetta er bara þú, það er ekkert nema þú. Allt er þú, Ekkert er án þín. Eylífðin er endalaus, fortíðin eru foreldrarnir okkar, framtíðin eru börnin okkar, nútíminn er í dag, nútíminn erum við. Ég elska þig. ] [ Hjartað kramið því við gatum ei samið Ég þrái þig heitt, þykir það svo leitt að fá þig aldrei aftur Það er of seint þú úr lífi mínu lést þig hverfa. ] [ Gúndi! upp ég Flýg það lýður ekki að löngu þar til við hittumst á ný! ] [ Farinn? Farinn hvert? Farinn til hennar? Farinn út á land? Farinn úr landi? Farinn til himna? Farinn úr lífi mínu? Farinn en ég kem líka. ] [ Vil eignast þig, vil strjúka þér, vil kyssa þig, vil halda þér. Vil ei missa þig, vil ei særa þig, vil ei svekkja þig. Vil bara ÞIG. ] [ Þú komst birtunni inn í líf mitt, svo fórstu. Tókst birtuna aftur í burtu. Allt varð svo dimmt og hljótt á ný. ] [ Í hjarta mínu er sár, sár sem aldrei gróir, því þú skarst í hjarta mitt með nýstandi orðum og gjörðum. Það mun ég ei fyrirgefa. ] [ ...Sólin skín svo skært ég blindast af tárum, tárum sem blandast saman við tómarúmið sem er innan í mér. Núna hef ég misst ástina mína sem ég elskaði svo undur heitt. Já ég hef misst þig... ] [ Hugs´um þig Hlæ af þér vil þig sé þig faðma þig kyssi þig *Ég elska þig* ] [ Ó hve rautt hár þitt fagurt er, eins og silki sem nýbúið er að spinna. Leifðu mér nú að leifa mér, lyktina góðu að finna. Leggjumst niður, hlið við hlið, hlægjum saman gegnum nætur. Láttu hár þitt snerta minn kvið, á meðan gítarinn grætur. Snertu mitt, ég snerti þitt fléttum það svo allt saman. Í leik við veltumst um rúmið mitt, oh, hvað það verður gaman. Þegar við giftumst og eignumst börn, þrjú, eldumst við saman svo fljótt. Svo það er bara að duga eða drepast nú, því við höfum bara nóttina í nótt. Til að halda stofni rauðhærðra Íslendinga lifandi. ] [ Á annars tilbreytingarsnauðum þriðjudegi grípur hann byssuna og beinir að stúlkunni. Hlæjandi hleypir hann af; Bara aðeins að fokka í henni. Stúlkan verður að geta tekið gríni. ] [ . Fremst á nesi fornu rís fannakóngur ægibjartur. Reistur var af eldi og ís, eygló roðinn, frosti hertur. Bárðarhof, hvar heldur vörð heillavættur fyrri tíða. Gnæfir yfir fold og fjörð. fjallið glæst, í augsýn lýða. Snæfalsjökull, frægð þín fer fleyg til jarðar ystu stranda. hljóðum vængjum hana ber hugans sjónir stórra anda. Finna glöggt og fránir sjá frá þér orkustrauma geisla. Forvitrir þeim furðum spá, framtíð muni afl þitt beisla. Um þig hafa sögur sagt sagnaskáld með frægðarljóma. Til þín margur leiðir lagt langa vegu og fellt þá dóma að þú værir, fjallið frítt, fremst af þeim er augu sáu. Fagurmótað, flestu prýtt, fannhvítt móti heiði bláu. Ásjón. ] [ Elsku Snælda, fallega kisan mín Í hjarta mínu verður þú alltaf til staðar Minningarnar af þér, svo mjúkri og góðri Munu ætíð fylgja mér hvað sem gerist Dagarnir þegar þú kúrðir hjá mér og malaðir Eru vel geymdir og minningarnar aldrei hverfa Án þín húsið tómlegt er, engin hvít kisa liggur og sefur En fyrir árin 10 er ég þakklát og ég mun þér aldrei gleyma Ég sakna þín, mjúka kisan mín... ] [ Þú hugsar of mikið þessa dagana; og hlustar of lítið á .... Þú sefur of lítið þessa dagana; og ýmislegt meira eða minna. ] [ Dropar eru fallegir, enn af hverju ? af hverju eru dropar vatn ? af hverju eru dropar ekki demantar ? það er óskiljanlegt. ] [ Hvað er ást? Ást er aðeins hugarástand, sem getur ekki enst. Er hún ekki æðisleg? ] [ Ef ég vildi vita hver þú værir, þá myndi ég koma því í king. - þess vegna geri ég það ekki - ] [ Það er stormur í huga mér hugsanir mínar fjúka um í óreiðu Eg reyni í ofboði að fanga, eins og eina bara eina... Sem ég get staldrað við í þeirri von að storminn lægi Eg fálma en hef ekkert hald hugsanirnar renna úr greipum mér hjartað hamast í brjósti mér vonleysið nær tökum... og ég hugsa þá hugsun sem ekki má... ] [ Allt, ekkert... Það er svo skrítið, hvað það er þunn lína, á milli þess að vera mikið & lítið. En allt er þú átt þarftu að sýna, til að vera til í þessum heimi. Lítið, mikið... Oft á tíðum hef ég haft, á þann vana að sinna. Að nota allan lífsins kraft, til þess eins að vinna, til að fá meira en minna. ] [ Það er rigning hjá þeim núna og þeim líður vel. Veðrið er búið að vera \"dálítið of mikið\" undanfarið og það er ágætt að það sé farið að rigna á aðeins á þá. Ástarkveðjur; Donald Rumsfeld. p.s. Drápum sex hundruð Íraka í gær. ] [ Á berar dyrnar barði, blés og frysti ótt. Þá varð mér ljóst hvað varði, mig vantaði þig í nótt. En baninn bar að garði, birgði snjó þig fljót. ] [ Nátthrafnar myrkursins hnita hringi vofveiflegir atburðir hafa gerst í skjóli nætur-engin veit allir sofa lyngið skelkað, blóðið rennur. ] [ Augun þín draga mig til sín, gleipa mig, soga úr mér allan mátt,- á eftir er ég eins og innantóm brúða köld, hörð og langar bara í meira af þér. ] [ smábörn öskur og bleyjur pelar og pissublautar treyjur unglingar slangur og stælar make-up og háir hælar fullorðnir rauðvín, hvítvín, hangs á bar dansiböll og kvennafar gamalmenni lélegt minni, hekl og prjón ruggustólar og slæm sjón ] [ einu sinni ég var á göngu þá hitti ég lítinn kálf ég sá að hann varð hálf- hræddur við menn fyrir löngu ég gekk til hans og sagði viltu bera mig heim á bakinu mér er illt því ég datt af þakinu hann hvarf á einu augabragði ég elti hann djúpt í dimman skóg hann hljóp um tré og greinar allt í kringum hann voru steinar að lokum sagði ég þetta er nóg ég dró hann heim og í rúmið lagði hann sofnaði strax og fór að hrjóta mér fannst ég frekar ill örlög hljóta það var þess vegna sem ég sagði þú ert illgjarn og ljótur ég elti þig allan daginn gegnum skóg og víðan bæinn svo hopparðu uppí rúmið fljótur hann svarar, ekkert leiður ég átti mína ævi hún var mér vel við hæfi nú er ég orðinn reiður því það elti mig vondur maður elti mig vel og lengi út um grös og skóg og engi ég hlusta ekki á þitt blaður nú hleypur kálfur burt en ég sit eftir sneyptur hann hverfur líkt og leiftur en ég liggja læt það kjurt ég skömmina niður gleypti, og því sit ég sæll og glaður ég hegðaði mér eins og maður því í dag ég kálfinn keypti ] [ ef allir í heiminum væru hamingja, þá væru allir þú ] [ það er vetur snjórinn þýtur um himininn það er hvasst ég blikka augunum mót vindi lítið augnhár dettur niður í lófann *ég óska mér* ég hugsa mér hvað það væri gaman ef eitt augnhár á dag myndi detta í lófann það væri gaman --- ég er á gangi um hávetur mjöllin breiðist yfir jörðina þvílíkt rok augun mín lokast fyrir hríðinni smátt augnhár fellur niður á jörðina ég lít upp þú kemur gangandi á móti mér þú brosir ég brosi við göngum saman áfram í storminum ég hugsa með mér hver þarfnast eiginlega þessara augnhára? ] [ Það er svo skrítið, samt er það satt. Þó ég þekkti þig minna en lítið, þá féll ég hraðar en hratt. ] [ Morguninn, blautur þynnku skítur, hann svíður, ríður á stað og eftir engu bíður. Skitan mín lyktar betur en næsta manns því ég drekk Carlsberg. Ég sef út, með hnút í maga, alla daga, áfengismagn blóðsins fær ekki að fara. Skitan mín lyktar betur en næsta manns því ég drekk Carlsberg Að kvöld tekur, mér líður betur, gel í hárið, að fela sárið, fólk mig lemur.. En eins og alltaf.... Þú hefðir bara átt að sjá hinn gaurinn. Skitan mín lyktar betur en næsta manns því ég drekk Carlsberg ] [ Ég man eftir þessu kvöldi það var flipp flipp flipp flipp flippað kvöld ég flaug þetta kvöld Ég man að það byrjaði á því að ég sat úti í garðinum og var að rífast við tré Ég var að segja við tréð að ástæðan fyrir því að það sæi ekki neitt væri ekki vegna þess að það væri myrkur úti eða vegna þess að tréð hefði engin augu heldu vegna siðblindu þess Tréð var ósammála mér Ég hafði þó sigur að lokum Ég man að ég stóð upp og hneygði mig fyrir rigningunni sem klappaði fyrir mér og bað um meira Og þá og þá og þá og þá og þá og þá þá varð mér litið á þig ég sá þig inn um glugga á næsta húsi og það var þá sem ég flaug Ég flaug að glugganum og horfði inn ég horfði á þig þar sem þú klæddir daginn af þér og klæddir þig í nóttina og ég hef ekki getað hætt að fljúga síðan þá ] [ Ormaþing á tárvotum strætum sálar minnar. Engin leið að greiða úr flækjunni. Engin leið að sjá hver er að koma, hver er að fara. Svarið svo óralangt í burtu. ] [ og þú hafðir lagt vangann á moggann og fallegu brúnu augun þín voru hálfopin líkt og þú vildir segja ég er svo þreyttur ] [ Veröldin er þjóðvegur, við erum bílarnir... Hver er þinn farþegi? Má ég slást í hópinn? Ég skal lofa að vera góður, á meðan þú keyrir. Hvert er ferðinni heitið? Eitthvað útá land? Það er komið myrkur, við erum langt frá öllum ljósastaurum. Ég lít útum gluggan, hvað heldurðu að ég sjái? Heldurðu að það sé ekki allt lífið þjóta framhjá. Afhverju kom ég með? Hví var ég ekki eftir? Nú þegar ferðin er búin, erum við komin á leiðarenda, allt er búið... Afhverju varð ég ekki eftir heima í kvöld? ] [ Satt: Stór heimur, lítið líf, lítil sál, lítil hlíf. Stór veröld, lítið magn, lítil ást, lítið gagn. Mikið um hatur, fátt um frið, falleg stúlka féll í dag, með skotsár á kvið. Ósatt: Lítill heimur, stórt líf, stór sál, stór hlíf. Lítil veröld, mikið magn, mikil ást, hefur gagn. Lítið um hatur, mikið um frið, falleg stúlka fæddi í dag, fallegan dreng úr sínum kvið. ] [ Það var mín vissa.. eða kannski ósk.. eða kannski örvæntingarfull þrá að sólin fylgdi hjarta mínu inn í nýja tíma. Með bros á vör átti ég að dansa inn í nýja öld, með hamingjuna og ástina og sólina og tunglið og allt fallegt og allt gott sem dansfélaga. Hláturinn átti að fylla huga minn og líkama... Og ég átti að elska alla og elska mig ..og elska þig... En dag eftir dag, nótt eftir nótt, breytist ekkert. Sólin vill ekki rísa.. sólin vill ekki skína.. sólin vill ekki elska mig. Gleðilegt ár. ] [ Ég felli niður skóginn til að fá betra aðgengi að lindinni helgu því hver vill fá sprek í drykkjarvatnið sitt? ] [ Litlar tær? barnshjartað slær? augun opnast?.. ?sýndu mér vatnið sem flæðir um allt, fossana sem falla og höfin djúp og blá? ?sýndu mér moldina, hina frjósömu jörð, rósir, fjólir, liljur og tréin sem fella sín lauf? ?sýndu mér sólina skína um allt, fuglana sem fljúga og töfra eitt lítið lag? ?sýndu mér lífið sem iðar um allt, pöddur undir steinum og dádýr inni í dal? ?sýndu mér stjörnurnar, sem sínum töfrum strá líkt og glimmeri út í nóttina og lýsa upp dimma nátt? ?sýndu mér fólkið, tár þeirra og bros, tóna, dansa, leiki, hugrekki, dug og þor? ?sýndu mér hatrið, hinn blóði drifinn heim, og vonskuna sem kraumar í iðrum þessa heims? ?sýndu mér ástina, hennar kraft og mátt, og kenndu mér að elska og faðma hverja sál? ..sýndu mér þig og sýndu mér mig, sýndu mér hana og sýndu mér hann? ?sýndu mér heiminn er þú fæddir mig í? ] [ 10 sekúndur að horfa 10 sekúndur að anda 10 sekúndur að snerta 10 sekúndur að finna 10 sekúndur að kyssa 10 sekúndur að elska eitt augnablik af eilífri ást ] [ öll ljóðin eru farinn þau eru farinn heim í brennheitann arinn þangað sem við fleygðum þeim við ritum hugsanir okkar á blað og gefum þeim líf með orðum munum hvað var að frá óttanum börnum okkar forðum framtíðarhyggja má ekki skyggja á núið því þá er lífið búið ] [ Ljósin endurspeglast í höfninni. Borginni blæðir og úr sárinu vellur menningin. Ljósin kastast frá hafinu inn í vitund mína. Þar geymi ég ljósin frá borginni minni. Ég endurspegla myndirnar þegar ég fæ heimþrá. Myndir teknar að nóttu í huga mín sjálfs. Og ljósin þau endurspeglast í bláum augum mínum. ] [ Donk! (Bjórdós kastað í rúðu...) X: Er þessum gaur boðið? Y: Er þetta gaur með sítt rautt hár? X: Já... Y: Nei, honum er ekki boðið! ] [ Regnið bylur á rúðunni með stanslausum err hljóðum, droparnir leika sér með ljósið úr fjarskanum, fanga það. Hugfanginn fylgist ég með doppóttu og rákóttu útsýninu renna letilega niður glerið. ] [ Tíminn er aðeins endalaus röð augnablika, sem líða hjá hvert af öðru. Lítil veröld greipt í hvert og eitt - handa þér. Tíminn er líkt og tár sem falla, heit og sölt þau tala um gleði og sorgir. Á einu augabragði verða þau til og hverfa og aðeins minningin ein verður eftir. Tíminn er gjöf guðs til mannanna. Lifandi sál í kviku holdi - sólundaðu ekki gjöf þinni. Tíminn er gjöf guðs til mannanna - en skyldi hann ekki óska þess að hafa gefið hana einhverjum öðrum. ] [ Í augum drottningarinnar, er býr í öllu mínu veldi, er ég ekkert nema einn demantur af hundruðum. Og í augum kóngsins, í ríki mínu, er ég aðeins hirðfíflið, sem skemmtir eftir þörfum. ] [ sjaldan fillir gleðinn þennan bæ en sorgin er heimilisgestur tíður ef lífinu má líkja við kolmyrkan sæ þá þessi fjölskilda botnin skríður í örvæntingafullri leit að yfirborðinu sameinast fjölskildan í hrilling ekkért vermir kvöldverðarborðinu engin maga filling ríkissjónvarpið á kvöldinn einsog gluggi inn í draumaheima ef einhver einhvenntíma hafði völdinn eru allir því búnir að gleima svo tekur nóttin við börninn á hörðum bedda sofa foreldrar biðja guð sinn um grið og sindlausu lífi lofa ] [ Lítið glerbrot situr í litlu hjarta fast, stingur við hvern slátt, brot af gamalli sjálfsmynd, sem endur fyrir löngu sprakk, í helkulda höfnunar. ] [ We are trying to reach you... 12 day supply on us... no other can compete Earn your college degree Online Save a bunch of money Have an Idea? Sell today ] [ Í óendanlegu djúpi augna þinna, finn ég sjálfa mig ástleitna heita sólstafi líðandi stunda. Seiðandi andartakið fangar sál mína, eins og veiðimaður bráð sína. Ég gef þér bros mitt augun skína í átt til þín, krefjandi svars um örskamma stund. ] [ Hver er óvissa mín? Sprottin í und hjartans ólgandi efinn lamar, hverja taug inn að beini. Það er enginn sem skilur, hvernig tíminn líður í löngum skugga sínum. Ég er tvær persónur skipti um andlit, eftir hentugleika fell flöt um sjálfa mig. Mig langar að vera til. ] [ Ef ég ætti gull og græna skóga gæfuríka framtíð þér við hlið. Alltaf ætti ástarelda nóga en ást þína eina ég um bið. Ljóssins vegur ávallt okkur leiði gegnum lífið ferðumst hönd í hönd. Ástin fylgir hverju aldurskeiði okkar haldi ávallt tryggðarbönd ] [ Í nótt var ég mávur og flaug í þúsund daga til að sjá þig ] [ Þar sem orðin deyja óheyrð ljóðin ólesin læðist ilmur upp að kertinu, hvíslar því logar þú svo glatt án hans? ] [ Sálin brýst um, þungur ekkinn kæfandi. Hjartað frosið, sprungið.. Reykjarmökkur í stað hugsana. Krumla læstist um innyflin, sölt tárin þrengja sér niður kinnarnar. Máttlaus líkaminn hættur að streitast á móti, uppgefinn.. Þú horfir á mig með heift í augum. Tilfinningalaus, vélrænn. Dæmdur til að deyða saklausar sálir.. ] [ Ligg og hugsa, hugsa um þig. Tilfinningarnar, sem umlykja mig. Hvað þú ert að hugsa, hvað þér finnst um mig.. Hvað sem þér finnst, mundu að ég elska þig.. ] [ Faðmaðu ljósið gefðu lífinu litfagurt ljóð. Þá veraldarheimur hylur hjartans glóð. Þrumur þá drynja eldingar lýsa himinn á heljarslóð. Daggir þá drjúpa á krossinum helga englar þögulir krjúpa lúta í lotningu, Lausnara vorum biðja,friður á jörð. Særún. Ágúst 1994. ] [ Eg lifi án afláts ] [ Þú og Ég Erum... Ein, einn, eitt, i öllum föllum i versta falli tvö ] [ Eitt risastórt sandkorn. Fyrir almættið ] [ Þú ert ? ] [ Eru stjörnur sem kveikja ljós í hjarta mínu. Birtan skín frá sál þinni verma bústað minn. Helgur reitur einveru þinnar birtist mér. Mig langar að telja stjörnur sálar þinnar finna nálægðina. Ég þekki þig þú ert ég brot af heiminum. ] [ Bláu sorgmæddu augun Allt er kyrrt og allt er hljótt Svo langt frá mér ] [ Eftir allan þennan tíma öll þessi orð öll þessi ljóð elska ég þig líkt og drukknaður sjómaður elskar hafið ] [ Löngu gleymdar nætur í miskunnarleysi hörunds þíns drepa mig þegar tunglið minnist ferða minna ekki þar sem norðurljósin þylja nafn mitt afturábak í hljóði og án þess að skynja sársaukann Hversu fjarlæg er dögunin hversu björt er nóttin og óstundvís Hvernig hörund þitt drepur mig svo blíðlega í draumi svo blíðlega í mínum sárasta draumi ] [ Á ísilögðum morgni hinkra ég við leiðin út er ekki mín frekar en hinna ] [ Árla morguns um miðja nótt í kvöldkyrrunni vitjaðu mín ] [ Ég spyr þá fregn að ég sé liðið lík. Ég spyr þá fregn að bæði sé sorg og gleði. Ég spyr þá fregn að ég hafi gengið of langt. Ég spyr þá fregn að ég átti ekki lífið mitt sjálfur. Ég spyr þá fregn að börnin mín gráti. Ég spyr þá fregn að ég er hér enn. Ég spyr og svarið er loðið?. ] [ Í öndverðu var sól í heiði og meira segja sólin söng Í öndverðu var gleði og ekkert er gleðina drap Í öndverðu í áhyggjuleysi þú brostir? og brostir? En hvað brast? Hvað brast með brosinu bjarta? Brosinu sem allir þekktu Hvað dó? Ég óska þess elsku vinur að líf sé í lífinu þó? ] [ Þegar maður er búin að bíða Nógu djöfull lengi Þá deyr maður ] [ Það er erfitt að vera Kotbóndi sem ferðast á Saga ] [ Ég veit að stundum er eins og öllum á sama standi hvort þú grátir eða lendir í klandri þótt þér illa líði eða undan orðum þeirra svíði. Þér finnst sem enginn taki eftir þér líkt og þú sért ósýnileg og ekki hér öllum sé sama hvað þú gerir, hvert þú farir og enginn heyri þótt þú svarir. Þér finnst þú í stórum hópi týnd það er sjaldan nokkur miskunn sýnd aðrir hugsa bara um velferð sína en mín ást mun aldrei dvína þótt þeir gleymi kærleik að sýna þá mun mitt ljós gegn myrkri skína. Þér finnst þú öllum gleymd en ég lít á þína eymd þú veltir þér upp úr þínum göllum heldur þig hataða af öllum. Telur að sköpun þín hafi verið mistök veist ei að í raun ertu einstök ég sé ekkert nema fegurð þína því ég sé dýrmætu sköpunina mína. Þú ert mikilvæg eins og þú ert ég get allt fyrir þig gert ef þú lætur ekki aðra rífa þig niður heldur bara trúir og biður . Þú hefur ætíð um tilvist mína efast og ert dauðanum nærri búin að gefast. Ég veit hvað býr á bak við hláturinn og brosið En veistu ei að þú gengur ei ein neitt lífssporið Sá grátur sem þar geymist mun er þú manst að ég alltaf með þér leynist. huggaður verða ekkert mun þá gleði þína skerða. Leyfðu mér að komast að mitt boð er beittara en hvert hnífsblað sem skilur milli dauða og lífs það býður breytingu til góðs en ekki ills veistu eitthvað hvað býr að baki stungunnar myrka hafsins, hlykkju reipisins eða pillunnar eilífðar böl. ef til vill mun meiri kvöl en það sem þú lifir við núna, ef þú bara vissir um fullvissuna á bak við trúna og allt sem ég vil gefa þér þar á meðal hamingju í þessum heimi hér og um eilífð alla þú mátt ætíð til mín kalla ég mun svara, gefa gleði og frið ég veit að það þolir enga bið ég vil koma inn í þitt hjarta bjóða þér framtíð bjarta ekkert það mun þig kosta þú færð loks að seðja þinn þorsta í sannleika, fyllingu í tómarúm þú munt sjá móta fyrir brúm frá myrkri til ljóss, einmannaleika til eilífrarvináttu og kærleika þinn vinur Jesús. ] [ Húsið brennur en þú situr kyrr og horfir í eldinn. Sveipuð sjali með dáin augu og hvíslar: Af hverju heyrirðu ekki fiðrildin syngja? Af hverju heyrirðu fiðrildin ekki syngja? Augu þín lokuðust því sál þín yfirgaf þig. Andinn tók þig, bar þig yfir hæstu fjöll, dýpstu vötn og straumhörðustu ár. Á áfangastað ykkar lagði hann þig á altari og reyndi að þýða freðið hjarta þitt. Þú ert farin. Ég mun aldrei sjá þitt svipsterka andlit, heyra þína hlýju og björtu rödd eða þinn gáskafulla hlátur. Sál þín fór. Skildi líkamann eftir fyrir eldinn, og á nóttunni heyri ég sorgmædda rödd sem spyr: Afhverju heyrðiru fiðrildin ekki syngja? ] [ Lokaðu augunum barnið mitt góða, raulaðu lagið, hvíslaðu það. Gefðu mér ást þína, enga ég á. Sorgin dulbúin sem stjörnubjartur himinn knýr á dyr hjarta míns, krefst þess að koma inn. Lokaðu augunum barnið mitt góða, raulaðu lagið, hvíslaðu það. Berðu eld að lífsþrár minnar kerti- manstu; eldurinn dó út um nóttina fyrir nokkru? Snerting þinna litlu handa, Ekkert skiptir máli nema lagið okkar og við. ] [ Með tárvot augu sagðir þú mér að sál þín væri dáin. Og að þú kæmist ekki til himna því syndir þínar hlekkjuðu sig við trén.. vængir þínir eru ekki nægilega sterkir til að slíta þig frá hlekkjunum. Sorg þín smaug inn í huga minn og ég fann ylinn frá hverju einasta tári. Fann hitann ,beiskleikann og sorgina. Fyrirgefðu mér, fallni Engill.. ég get ekki hjálpað þér.. Það eina sem ég get gert er að strjúka vanga þinn og þerra tárin.. Fyrirgefðu mér.. ] [ Ég spyr þig: \"Var vont að falla frá himnum?\" Og þú, Engillinn minn fríði, horfir á mig með vonleysi í augum; tár þín eru þitt svar. Fyrirgefðu að ég sá ekki útrétta hendi þína, fyrirgefðu að ég heyrði ekki þöglu hróp þín á hjálp. Fyrirgefðu að ég skildi ekki. Fyrirgefðu að ég sá ekki myrkrið sem vafði sig um saklaust hjarta þitt. Núna veit ég að þú brosir. Og þú blakar fölbláum vængjum þínum í takt við hjartslátt minn. Og ég er róleg núna. Innst inni veit ég að þú fyrirgefur mér, og þú segir mér í draumum að þú elskir mig enn.. og þú brosir.. ] [ Líkt og ljósmynd í framköllunarvökva birtist umhverfið smátt og smátt þegar morgunninn sameinar nótt og dag í löngum, hægum kossi ] [ Langlundargeð kennara hefur brostið á vordögum og þolinmæði barna er þrotin opnir gluggar hleypa vorinu óbærilega inn í sálina á meðan lífsglaðir ánamaðkar teya sig borubrattir upp úr moldinni. ] [ Bakvið þennan langa vetur býr vonin í snjóhúsi og bíður eftir geislum sólar. Komdu út veika von, kvíslar vorið og andar á gömul snjóhús sem klökkna af þrá eftir fallandi lækjum. ] [ Dimmrauðar sorgir úr dauðsmanns blóði drjúpa í nótt. Lífið og dauðinn leika að tafli lengi er sótt. Á skákborði daganna leikfléttur lífsins lítt höfðu gát, en dauðinn í einsemd leikur leikinn og lífið er mát. ] [ Í rauðum náttfötum sólin kyssir mig góða nótt Eftir stutta vögguvísu hvíslar vindurinn sofðu rótt Þykka sæng myrkrið yfir mig breiðir Töfrastjarna til draumalandsins míns leiðir ] [ Þykkar eldrauðar strokur Hvassar svartar útlínur Dimmir skuggar Ljósir geislar Hún fer út að veiða ] [ Kaffivélin grætur alveg eins og ég Grætur kaffitárum sem safnast inn í mér ] [ jafnvægi er stjórn stjórn er árátta árátta er geðveiki missum jafnvægi höldum sönsunum ] [ Lítið blóm í eyðimörkinni horfir upp í himingeim Það vex upp að sólinni gleypir hana og brosir geislum ] [ Fiðluleikarinn dansar við ástina sína Hún titrar við snertingu hans Hún singur, stynur og skrækir Þegar dansinum lýkur þagnar hún þangað til... hún finnur sig aftur í örmum hans ] [ Afhverju lokar þú augunum þegar ég held á hjarta mínu blóðugu, titrandi og glansandi fyrir þig að sjá? Af hverju hlustar þú ekki þegar ég segi þér frá draumum mínum? Í huga mér varstu alltaf svo fullkominn. Það gat ekkert sært þig, því þú varst með stórann glervegg í kringum hjarta þitt, hjarta þitt sem pakkað var inní litríkan pappír svo enginn gat séð, þar af leiðandi ekkert skemmt. Þú varst eins og klettur, sama hvað á gekk. Þú varst verndari, huggari Þú gættir mín hvert einasta skref á leiðinni, þerraðir tárin, en vildir ekkert í staðinn fyrir þína ómetanlegu hjálp Þú birtist sem engill þegar hjarta mitt brast og hindraðir í að því blæddi út. Þú varst græðari. Þó ollir þú mér minni mestu sorg.. ] [ Margrét og Guðrún huga að kaffinu hella því rjúkandi í fanta og segja rösklega ,,kom inn!\" um leið og bankað er á búðarhurðina afgreiða vörurnar mjúkum, ósprungnum fingrum aldeilis hlessa yfir mýkt fingranna löngu hættar að hnoða úr rjómanum ,,Danish Butter\" Rekja upp úr vösunum draumgarn tvinnað fuglum Í gær dreymdi Guðrúnu Stelk í móa en Margréti Keldusvín undir sænginni Ráða í draumana glæsta framtíð sína og minnast þess um leið og þær sötra á kaffinu og kreppa kaldar tærnar að Guðrún á frænda sem á vin sem ræður veðurspána af söng Lóunnar á lágnætti af votum þúfum En það er sama hvort þær dreymir Jaðrakan eða Spóa móðan á rúðunni gefur þokuna úti til kynna svo þær brosa stimamjúkar til sveitunga sinna og kreppa mjúkum fingrum um fantana ] [ Bak við myrkur lokaðra augna við hliðarstræti heimsgötunnar þar sem gluggar gægjast inn hjá hvor öðrum, spyr ég til vegar. Við byrjun heimsins þar sem krossfestir draumar deyja fyrir fæðingu þar sem óbornir dagar leika sér, svolítið frómir þar sem ljóð lífsins svífur af veraldar vörum ungum stendur bústaður skáldsins. Ó bjarta nótt sem hjörtun brennir ég er aðeins dropi á þinni leið. ] [ I Heimurinn er fullur af orðum í ýmsum hlutverkum. Flest hafa eitthvað fyrir stafni sum atvinnulaus í bili en margt kemur þó til greina. Þau finna afstöðu í heild af einskærri reglusemi eða af hreinni tilviljun. Oft er vit og jafnvel ásetningur í verkahring orðanna oft fallega sett saman af viðkvæmu fegurðarskyni og nauðsynlegu forræði formsins. II Orðin eru álík mannfólkinu gleyma stundum að þau eiga vængi að fljúga með að þau eru ekki bundin þessum tíma og þessum stað. Þau flýta sér í kjölfar daganna mynda áhyggjufullar setningar sögur eldri en tíminn en trúa ekki eigin orðum. Héldu kannski að þau væru ekki sjálfstæð, væru ekki til án bóka eða hugmynda að þau kæmu ekki frá landi kyrrðarinnar, væru ekki tilbrigði við áður óþekkt stef væru ekki skyld innbyrðis eins og bylgjur hafsins eins og skrúðganga skýjanna. III Já, orðin eru eins og manneskjurnar. Stundum leggjast þau við fætur skáldsins, makindalega, eins og lífið sé eitthvert föndur einhver leikur að orðum ellegar nýtt og notað karma. Að þau þyrftu ekki sjálf að raða sér niður í setningar eftir fyrirfram ákveðnum reglum ekki sjálf að hugsa um hljómfræði, setningar og föll. Gætu hreinlega verið áhorfendur að eigin lífi, gætu verið einskonar skiptiborð fyrir öldur ljósvakans án þess að spyrja hver er ég? hvaðan kem ég? IV Þau heyja orustur á síðum bókanna, og metast um hver er best bundin inn hégómlega klædd, í nýjasta skinn. Fylgja náttúrunnar lögum heyja daglegt strit en þjáningar þjóðanna snerta ekki þetta litla vit. Önnur lítil, auðmjúk strik gefin saman augnablik í sérhljóð og samhljóð af og til af heilögum anda, hérumbil. V Þau eru full áhuga á ýmsu en þekkja ekki sjálf sig né aðra til fulls. Vita ekki að ættbálkur þeirra er eldri en veröldin sjálf að mikil bókmenntaleg virki voru reist, að engu var til sparað af iðnaðarmönnum ríkisins, það sést. Að heimkynni nafnlausra orða finnast ekki í alfræðibók eins og ýmislegt annað að hringrás þeirra og tilbrigði láta aðeins í ljós hina fyrstu þrá að Guð skapaði í upphafi orðin í sinni mynd. VI Í brjóstinu búa seiðandi söngvar, öll heimsins orð en varirnar þegja. Þessa nótt í forgarðinum lótusblómið grætur hjartavinur lífs og dauða rifinn upp með rótum. ] [ Ket var í kvöldverð hjá okkur um daginn kjötbúri Guðjóns það ættað var frá. Yndislegt bragð og saddur varð maginn stundir úr sveitinni muna ég má. Á leið heim úr skóla í nóvember stillu friður og fjöllin og féð út um allt. Reykur í kofa og án nokkrar villu, ketið var etið - já heitt bæð´og kallt. Sumir vilja vera á stalli og þykjast nokkuð til verka kunna. En kofareykt verður á verðlaunapalli, hjá þeim er sönnum veislumat unna ! ] [ Með bílsætin niðri gátu við séð allt glitrandi stjörnur myndir af okkur í framrúðunni fingraförin á speglunum Fyrirgefðu; Ég var ekki að hlusta þegar þú talaðir um að hafa upplifað þetta allt áður... ] [ Þú segir mér að þakka guði fyrir þessa gjöf, en frekar myndi ég þakka honum fyrir að grafa mína gröf. Það sem þú kallar engla kýs ég að kalla drauga, því þeir hafa enga vængi og ekki neina geislabauga. Svo ekki dirfast að yrða á mig með svona kjaftæði, ég hef margoft beðið um frið en fæ aldrei næði. það skiptir ekki máli hvort ég vaki eða sef, þeir þykjast allir mig eiga, ég engan valkost hef. Fjölskyldan mín hræðist mig og vinir mínir horfnir, þeir einu sem ég umgengst nú eru til grafar bornir. Mig langar ekki að lifa en mig langar ekki að deyja, svo gerðu það fyrir mig að láta mig vera og þegja. Ef þú sæir það sem ég sé myndirðu hræðast það sem ég sé en fyrst þú sérð ekki það sem ég sé þá skaltu ekki tala um það sem ég sé. Það þýðir ekki að flýja þeir munu mig alltaf finna, tilgangslaust að berjast þeir munu alltaf vinna, þeir hafa engu að tapa en vitund mína að græða, svo þeir halda áfram að angra mig, pynta mig og hræða. Verstu martraðir þínar eru grín í mínum augum, ef þú sæir sýnir mínar myndirðu fara á taugum. Ég óskað þetta sé draumur en það er engin leið að vakna, af öllu því sem ég hef misst, geðheilsunna mest sakna. Ef þú sæir það sem ég sé myndirðu hræðast það sem ég sé en fyrst þú sérð ekki það sem ég sé þá skaltu ekki tala um það sem ég sé. Einu sinni var ég venjulegur eins og þú, svo byrjuðu þessar ofsóknir og líttu á mig nú, hristist allur og skelf því við myrkrið er ég smeykur, er einu skrefi frá sturluninni, er orðinn geðveikur. Dauður mun ég ofsækja ykkur sem töldu mig ljúga, taka ykkar geðheilsu, þið neituðuð að trúa, sögum mínum, tárum mínum, öllum mínum ótta, hefðuð átt að sjá að ég var ætíð á flótta. Ef þú sæir það sem ég sé myndirðu hræðast það sem ég sé en fyrst þú sérð ekki það sem ég sé þá skaltu ekki tala um það sem ég sé. Ég heyri hljóð innan frá, grátur vitundar minnar. Annað hljóð hækkar ótt, hlátur geðveikinnar. Ég heyri hlóð mér innan frá, grátur vitund minnar. Annað hljóð hækkar ótt, hlátur geðveikinnar. Ef þú sæir það sem ég sé þá myndirðu hræðast það sem ég sé en fyrst þú sérð ekki það sem ég sé þá skaltu ekki tala um það sem ég sé. ] [ Æpandi dimm augu sem kvöddu kvöldið með heitum kossum, sá hann færast fjær mér í leit að undankomuleið. Mig langaði að vera lengur en ég vissi að ég var ekki velkomin og mig langaði að tala við hann en ég vissi að ég var tóm. Vaknaði; lá á miðju gólfi braut glas týndi eyrnalokkunum og fór. ] [ MARGUR MAÐURINN UM BORGARFJÖRÐINN MIKLA FER STÓRKOSTLEGUR STAÐURINN SEM VIÐ OKKUR BLASIR HÉR . SVEITIN MÍN SÆLA ER SÉR ÞAÐ HVER MAÐUR SEM UM STAÐINN FER AÐ ÞETTA ER FRÁBÆR STAÐUR. FÖGUR ER FOLDIN HÉR SÉST TIL FJALLA VÍÐA SKESSUHORN OG SKARÐIÐ VER HAFNARFJALLIÐ FRÍÐA. GÖTURNAR ÞÆR GEGNA HÉR GÓÐUM HLUTVERKUM ALLAR ÞÆR NÖFN SÍN BERA VEL ÚR GÖMLU SÖGUNUM. ] [ Að þú sért til Er það eina sem skiptir máli TAKK ] [ Dyr opnast Hugurinn opnast Hjartað opnast Heimurinn opnast Draumarnir rætast - vegna þín - og aðeins vegna þín Við verðum eitt - við verðum fjögur - vegna okkar - aðeins vegna okkar, og Hans Vegurinn opnast Við göngum hann hönd í hönd Í átt til sólarlags Dyr Paradísar opnast - fyrir okkur - að eilífu ] [ Sólin gneistar og skín í ljósu hárinu. Vindurinn gælir, blíðlega við vangana mjúka, bjarta sem tunglskin á næturhimni. Augun himnabrot tvö, skínandi sátt við lífið, og óreynd ævintýr æskunnar. Blómstur varanna ósnert, ennþá hjúpað af sakleysi og leyndardómi púpunnar. Ég á þessar línur með þér elsku Myrra Rós mín, en þig hef ég aðeins að láni að vilja Guðs. ] [ In angels true identity you never loose or win, believe Gods eternity there is no blame or sin. Angeles bring you harmony so soft and tenderly, your only father high and strong can heal you weak or wrong. The everlasting light above will show you\"Path of life\", your heart will fly on wings of love now and forever more. ] [ Í síðustu geislum alheimsguðþjónustunnar glitra krómhúðaðar eldflaugar járnvörusalans og skríkjandi skriðdrekar taka undir - járnklædd beltisdýr með þungan gang. Við Fæðingarkirkjuna deyr vonin hvað eftir annað, tíma eftir tíma, auga fyrir auga, tönn fyrir tönn. Við dögun bergmál frá víðóma fallbyssusöng. Í stjórnklefa stríðsins í valdsins sólar plexus sitja ofvitar ofbeldis aðeins aðskildir af tvístrandi áhrifum táragassins og heilagri skrift skotvopnanna. Þar er hefndarguðinn í hávegum hafður og sjálfsmorðsbomburnar táknmál hjá öðrum. Eru þeir lyf fyrir deilur eða friðartoxínur iðnaðarmenn dauðans með sveinspróf þjáningarþjófar með leyfi fyrir morð? Við Fæðingarkirkjuna deyr vonin hvað eftir annað, tíma eftir tíma. Sársaukinn skyldurækinn innheimtir fallbyssufélagsgjald kastið síðasta steini stoppið terrorsins tilviljunartákn. ] [ Hundur í Reykjavík postuli í Pragh einn og hálfur maður reykjandi tað. Kashmír í húsbát í Delhi bað kóngur í Katmandu og eilífðin kvað. Reykjavík, þú ert öndergránd í stórborgum þjóða kyrrlát vík, lítil höfn við hafið. Í regnvotu ræsi við Austurstræti liggur líkblár máni. Augu þín mörg geðklofin og þung neonljósin skína á andlitin ung. Dreymin dansa tangó með meksíkönskum stíl brosandi líkþorn í næturparadís. Við ysta haf fuglar kvaka fara í kaf dagar vaka. Við sundin standa fjöllin stillt forvitin fótspor nakin augnablik. Í klaustri Katrínar á Sínaiskaga ligg ég veikur hugsa tilbaka. Eddugamla borg mín vagga stóð við þín torg og þín epísku stræti. Þú varst unnusta mín á árum áður lítil álfabyggð á almannafæri. Þegar ég fæ nóg af útlenskum sið munu kvöldbláir hljómar veita mér grið. Gangstéttum fjölgar í litla bænum musterismenning með tískubúðum. Brosandi villimenn í sunnudagsfötum bjóða ýmist afnot eða sölu. Steinrunnin hjörtu á eftirlitisferð komandi kynslóð sefur vært. En Drottins dagur safnar völdum háttlaus viðskipti vaxandi misrétti. Þú ert höfuðborg í Hvergilandi engin hús en alltaf herbergi. Þegar önd þín er öll og blóm við þitt leiði vakna sólstafir dagsins og fara á seiði. ] [ Vegalaus vík kyrrlátir dagar ráðstefna nætur við röð augnablika. Þess konar þögn sem tárin þekkja. Af hverju hafði hún fullkomnar kúrfur sem Skaparinn af óskiljanlegu örlæti hafði rétt henni meira en öðrum kannski í hugsunarleysi kannski af yfirlögðu ráði. Hafði strákurinn kannski við sama tækifæri fengið eitthvert forrit einhverja sérstaka vitneskju um að hún vildi deila með honum holdi deila með honum þessum guðdómlegu línum þessari stærðfræðilegu fullkomnun? Var hún afsprengi einhverrar formúlu einhverrar formskapandi veru einhvers mótandi eðlis eða hönnuðar búninga stjórnanda leiksviðs lögmanns hreyfinga eða vefarans mikla. Við þessa opinberun þessa hugmynd ástarinnar var eins og veruleikinn væri á reglubundnu iði að andardráttur lífskonunnar stæði einhvernveginn í sambandi við titrandi alheimsskautið að lífið þráði upphaf og endalok alls. Hann sér varir hennar bærast í svefni sólstafi leika í hári og skugga flýja. Hann sér hana vakna koma aftur til lífsins finnur aftur ilminn af líkama hennar skilar erindi sínu fljótt og horfir á hana klæðast. Eins og ekkert hafi gerst eins og heimurinn sé enn á sama stað eins og stjarnfræðilegar vegalengdir væru ekki komnar til móts við endamörkin þessir fimmtán milljarðar ljósára ekki á enda runnir. Seinna sáust þau á götu kannski á kaffihúsum svona eins og af tilviljun eða kannski alveg óvart. Þá opnaði hann textabókina með helgirúnum Egyptalands sem lektorinn hafði áritað svolítið annarshugar eins og einhver sjálfskipaður fulltrúi mannspekinnar. Hann sýndist upptekinn áttavilltur yfir hagsýni ástarinnar langaði mest að hrópa á eftir henni. Var hún búin að gleyma hugmynd ástarinnar þegar orðin missa kjarkinn þegar hvert andartak er þrungið og örlögin ráðin? Vegalaus vík kyrrlátir dagar ráðstefna nætur við röð augnablika. Þess konar þögn sem tárin þekkja. ] [ Blekkt af endurhljómi varahljóðanna sefur sólin bjartsýn. ] [ Hvar er mjólk þinna mjallhvítu brjósta móðir Evrópa, meðan kynslóðir kveljast? Meðan silfurkúla liggur í leynum og morðvélar vaka meðan náklukkur hringja og örlög þjóða eru ráðin meðan kornhlöður þrútnar eru brenndar á báli. Meðan stríðsmenn dansa er jörðin bölvuð skítug andlit með tannlausa góma. Þegar til samninga er sest er landið hérumbil horfið. Við neyðaróp nætur menningin stynur friðarfjölleikahús á endanum kemur. Hún var fjórtán ára á fermingarkjól. ] [ ...sá fegursta hring sem ég hef nokkurn tíma séð fyrir einu og hálfu ári síðan... ...alsettur rúbínum, smarögðum og safír í silkimjúkri satínöskju í búðarglugga... ...leit á verðmiðann ...of mikið fyrir mig ...fór samt inn ...stal honum... ...hringurinn féll vel að breiðum baugfingri mínum búðareigandinn hlyti að sakna hans... ...ég bar þetta gull í fjórtán yndislega mánuði og fann hvernig aðrir störðu í öfund... ...kannski einhver steli honum? ...tók hann aldrei af mér ...passaði upp á hann ...elskaði hann... ... ...gleymdi honum eitt kvöld þegar alkóhól tók sín völd leitaði grátandi í angist og kvöl tilveran missti sín lit og varð föl... ...auglýsti oft og vildi hann finna leitinni ætlaði aldrei að linna þar til ég sá hann á annars manns fingri hringurinn dvaldist þar með öðru glingri... ... ...hringurinn virtist fegurri en nokkurn tíma áður skein mun bjartar svo birtan skar í augu... ...sá hann um daginn... ...sá gimsteinanna glans ...og ég saknaði hans... -Daníel- ] [ Þegar vorsins ljóðaleikur lætur óma þíða strengi, þegar frjómagn fyrstu grasa fer að lita tún og engi, er sem þúsund klukkur kalli: komdu vinur útí bláinn, leggðu frá þér vanaverkin; veturinn er löngu dáinn. Framundan er sól og sumar sjáðu, lífið herðir tökin, enn á vori landið ljómar, lítum hátt og réttum bökin. Gleymum stormi,kulda og klaka, komum vinir útí bláinn. leiðir okkur langa vegu ljósið bjart og ferðaþráin. ] [ Ég finn. Ég er. Hvaðan kom þessi birta? Þessi von? Hver opnaði hjarta mitt? Áður fannst mér tilgangurinn enginn, það var sárt að anda- finna hjartað slá. Fortíð mín fylgir mér, og mun ávallt gera..en ég verð að læra að skilja hana.. og sleppa takinu. Ilmur vorsins fyllir vit mín. Sólin vermir líkama minn, þar sem ég ligg í grasinu- vermir mig að innan. Hugsa ekkert- tæmi hugann. Leyfi mér að vera- leyfi mér að anda. Því ég finn. Því ég er. ] [ Erfiði ástar samfarastrit gefðu upp sjálfið nú um hríð á meðan ég færi þér heiminn um stundarsakir. Í úthafsgrænum augum hvílir andblær án orða vélrænt tempó við port minna vona. Undir húðinni við blóðugar brautir ertist hver fruma tekur niðri hver taug búkurinn óháður tíð og tíma. Í kyrrþey nætur þar sem orsök lífsandans dvelur mókir frumgerð heimsins. Við smávægilega tognun í tíma finnum við fótfestu sem snöggvast erum ekki framandi í ókönnuðu landi. Aðeins aðskild í tíma og rými aðeins ókunn undir sól aðeins ólík í slikju mánans. ] [ Brosið er blítt í dag. Óveðurský í augunum á morgun. Sonur minn er ég. ] [ There is always time to turn around and higher learning to be found. From heavens door celestial sound for rich and poor on holy ground. Walk the path of life with care there is so much that we can share. On earth is strive perhaps not so fair but all worthwhile when we get there. Flowers,trees and clear blue sky there is no better way to die in arms of loved ones the last goodbye. Then spirits slowly come to you nothing more on earth to do. Angeles great your arrival there thru open door you hear the sphere playing music loud and clear of love and light there is no fear. You have reached the home of joy and dreams that life on earth now only seems a part of puzzle that truely means the reason why to love gods will. He touches us in different way to me and you He wants to say love each other every day and teach your children about my way. ] [ Gefðu mér nú smá séns. Kann ekkert á þetta. ------ Þú leggur gula kubbinn við þann rauða og límir þá síðan vandlega saman. --- Og hvað síðan? ---- Kemur í ljós. ] [ Ég geng eftir þröngstígu strætinu, Virðist sem ég sé sá eini á þessari leið. Straumurinn kemur á móti mér. Allt í einu er friðurinn rofinn í huga mér, Óttinn heltekur mig, læsist um mig, ég greikka sporið. Hleyp við fót. En það er of seint? Öskur stríðsmanns.. Hníg svo niður. ] [ Það er óró í loftinu. Ég horfi yfir reykjavík og ég finn fyrir jörðinni mótmæla. Reiðin yfir gjörðum okkar kraumar taktfast undir yfirborðinu. Það er hræðsla í loftinu. Ég horfi á fólkið flýta sér, bregða fótum sínum hvert fyrir annað í eilífu lífsgæðakapphlaupi. Og á endalínunni stendur með útbreiddan faðm, drekkhlaðin fölskum vonum, Glötun. Það er angist í loftinu. Ég horfi til himins, og ég sé vindinn reka illa reytt skýin áfram. Hann veit það sem ég veit, að þau vilja ekki lengur stoppa við, því börn náttúrunnar sviku lit, og við lítum varla lengur til himins á harðahlaupunum í gegnum þetta handmataða líf. Því hver heldur þú að trúi enn á sanna fegurð? ] [ augnablikið sem það tekur augu þín að blikka tár þín að renna hjarta þitt að slá varir þínar að bærast hugsanir þínar að eyðast von þína að deyja út lífsneistann að slokkna er augnablikið sem skipti engu máli, í lífi allra hinna.. ] [ ég er föst kemst ekki út kemst hvergi innilokuð um óákveðinn tíma til eilífðar? ég sé engan allir sjá mig aðhafast ekkert hvar er ég? ég þreifa mig áfram engin undakomuleið tárin byrja að renna mun ég enda líf mitt svona? ] [ Eftir langa skóla önn er pásu gott að taka á jörðinni er engin fönn og heldur engin lauf að raka. Já, betri pásu er ekki hægt að finna ekki neitt að læra og gamanið mun aldrei linna líkamann á gosi ég mun næra. Og gleðinni var ekki líst Því Ása var svo fín og eitt ég veit fyrir víst þetta var ást við fyrstu sýn Þessi pása endist vel á meðan í manni er kraftur en eftir pásuna ég æskilegt tel að fara í skólann aftur. Pásunni er lokið ég hitt aldrei Ásu laufið af trjánum er aftur fokið en spenntur bíð ég eftir næstu sumar pásu. ] [ Í baksæti bíls þíns verð ég að muna að línurnar sem ég elti leiða mig hvert sem er bara ekki til þín ] [ ég geng berfætt í döggvotu grasinu. heyri þungan andardrátt einhvers sem eltir mig. ég hleyp hjartað brýst um berst við grátinn. fótunum er kippt undan mér ég fell til jarðar grúfi mig niður hnipra mig saman bíð þess sem verða vill.. ] [ Ég sé þögulan sársaukann í augum þínum, velti því fyrir mér hvað get ég gert eða sagt? til að lina kvalið hjarta þitt. Mig langar að næra sál þína með kærleik, sem vex af ljósi og bæn um bjarta framtíð þér til handa. Stigin úr púpunni viðkvæm,eins og vængir fegursta fiðrildis, þessarar jarðar sláttur þeirra er hjarta þitt. ] [ Þú horfir á lífið ástleitnum augum sakleysisins, tilbiður það af öllu hjarta. Hvert sem þú ferð skynjar fólk gleði ástar þinnar,svo blíða. Þú litli frjóangi lífsins teigar dögg kærleika míns, þyrst af leikgleði æskunnar. Ég er þakklát Guði, fyrir blessun hans. ] [ Ó! Hvað mig langar til að sjá þig. Hvað mig langar til að sjá hvað þú hefur stækkað. Hvað mig langar til að heyra hvað þú getur orðið talað. Hvað mig langar til að taka þig í faðminn og finna lyktina af þér. Ó! Hvað mig langar til að heyra þig hlægja. Hvað mig dreymir um að heyra þig syngja. Hvað mig dreymir að fara með þig í fjöruna. Hvað mig langar til að heyra þig segja, ´pabbi minn´ Ó! Hvað mig langar til að heyra ekki alltaf...NEI! Og við verðum aftur saman. ] [ Manstu kvöldið þegar þú náðir í mig og við gengum að vitanum. Manstu. Við vorum stundum jafningjar. ] [ Regnið fellur af himnum ofan, kemur okkur að óvörum. Fegin var ég. Himnatárin, tár englanna runnu niður vanga mér.. huldu mín eigin. Og ég fann að í augnablik, aðeins eitt augnablik, gat ég gleymt.. Lét regnið líða niður andlit mitt.. og naut þess.. Svo rann það upp fyrir mér, að eftir hvern rigningaskúr kemur sólin, bæði í náttúrunni sem og í hjarta mér. Guð biður englana að gráta svo að ég muni það. ] [ Þú ert meir en fallegt bros.. meir en umhyggjusöm augu. Þú gengur um í eldhafi, og í gegnum logana heyri ég óminn af undurfagurri rödd þinni. Engill í eldi. Í syndum mínum baðar þú þig.. reynir að frelsa mig frá hugsunum mínum og sjálfri mér.. Engill í eldi. Taktu ör mín, brenndu sársaukann.. gerðu mig heila að nýju. Sýndu mér himnana, sýndu mér Föður okkar.. taktu mig í eld þinn.. ] [ þessi drungalega þoka skammdegisins með draugagangi og votviðri sem sjálfhverfist í augnabliki hugsana minna andhverfa lífs samhverfa eilífðar ] [ Hversu ljúft vær\'að ljá hverju landi og strönd styrka hjálpandi hönd þannig hamingju nyti. Ef við frið myndum fá mun það festa vor bönd heimsins legir og lönd mikla lánsemi hlyti. Fari stjörnur á stjá við það sturlast hvert strá sjálfar öldurnar á er við göngum mót glaum og svo eyðum við nóttinn\'að eilífu saman því að við erum eitt og veröldin ný. ] [ Úr rökum sköpum sjóðra barma rennur ilhlý Hvítará. Úr augum bláum, ungra hvarma unað, sælu lesa má. Í roðahelli risinn flanna rekur inn hans þrútna nef. Úr takti föstum, tveggja manna tónar fallegt lítið stef. ] [ dregur andann stynur þungan tár á hvörmum kaldur sviti dregur andann lygnir augum sýpur hveljar losar takið dregur andann ekki meir ] [ Skuggar andláta umlykja barn alþýðunnar Í skjóli dauðans varð það til Í skjóli hans mun það deyja ] [ þurrkuð vínber skorpna og verða að litlum rúsínum þegar safinn er allur burt þannig varð ég þegar þú sem vökvaðir mig eins og lítið viðkvæmt blóm með gleði þinni og hlýju hættir og fórst frá mér út í kuldann og stormurinn buldi á glugga mínum ] [ Ég mætti sólinni með glitrandi augu hamingjusöm, brosandi þegar ég horfði á hár þitt fjúka í vindinum. Fyrirgefðu Núna man ég hvernig ég hélt þér gangandi. Það voru aðeins gagnlaus orð í hausnum mínum, ég baðaði mig í sviðsljósi, þögn og ekki mér sjálfri þessar vikur? ] [ Hallandi húsveggir of lágar dyr þröngur gangur of mikið strit Andlitið undið kroppurinn stór fætur mislangir hlandgult hár Lítil fjölskylda engin ást fáir vinir miklar skuldir Síminn hringir bankinn að rukka því miður - segi ég enginn vinningur ...en þegar ég halla aftur augunum verður veröldin gul af hamingjusólinni svo skær - svo björt Falleg - utan sem innan fötin passa sleiki útum - eins og köttur við rjómaskál ] [ Þreifuð á í þokukenndum glaumi þrjóska leynda þráin í þinn garð. Ég fanga þig og fjötra fast taumi fyrirgef mér því ég bara varð þú verður minn í vöku eða draumi. ] [ Ég stend á helga fjallinu krossinn á móti var himinhár Heimurinn í kringum mig Ljósið kom með Englana þeir mig leyddu í byrtuna Af dýrð ég var umvafin þar friðurinn lá Hlýjunar ég sakna þegar ég segi frá Að ég vakna Og finn Að þetta var bara Draumur mér hjá Rós... ] [ Falleg ég er því tekurðu ekki eftir mér Hvað er fegurð Fegurð með fagran hljóm Sem skín eins og Blóm Hvað þá Ef ekki það Misskiljum við Hvað það er Að teljast fallegur í heimi hér Að innann við komum öll Að utan hann ekki fegurð sér Hver leyfir þér að dæma hér Fegurð er dæmd Fyrsta,annað sæti Þær skipa hver aðra í sæti Ég þar stíg aldrey fæti Enda fegurð ekki dæmd eftir ynnra ágæti ] [ Kvalin ég er hvað gerðist hvar eru öll þessi ár farin í sæin en aldrey ég fór í bæinn ég alltaf beið heima í von en vonin varð að engu þvi aldrey hann kom ] [ þú ólst mig upp Eða það átti að vera þannig En þú engan elur þegar þú hann lemur Hjartað þú kremur Misbýður mér þegar þú tekur bara eftir mér þegar illa fer Innri mann þú hefur að geyma Eins og flaska Sem er farinn að kasta Enginn mig skilur Að þú mig enn kvelur Ég þrítug er En sárin aldrey fara af mér ] [ Bíllinn brunar Um hugann allt fer Sem illa fór hjá mér Hvað er að mér Get ég ekki Ekki fengið lífið sem þú gafst mér Allt í blóma Langt síðan ég fann það hjá mér Hvað er að allt svo erfitt Sér þetta enginn Ég finn það Í augunum mínum ég það hef Sár eins og fuglinn Sem sat á sillunni hjá mér í gær Hann syngur Glaður hann er Hann hefur ekki alist upp hjá þér ] [ Að eilífu Ég reyni ad vera ég lífinu guðslifandi feginn i nútíðinni er ég allt annar áhyggjufullur ad eilífu ] [ Ef lífið væri einn Stór sleikjó Þá langaði okkur Í súkkulaði ] [ Að passa þig er sem að halda á innihaldslausu tuskudýri; Þú ert ekki viðstaddur predikunina fyrirgefningarnar ástarorðin ekkert frekar en þú ert viðstaddur þegar ég sleppi þér og þú brýtur öll loforð ] [ Þegar eitthvað er þungt, endalaust sem þú ræður ekki við. Langar þig þá ekki til að berja einhver í höfuðið með hamri? ] [ Take your youth away, and give it to the man who walks alone, alone down a dark road. Take your breath away, and give it to the lady who gives her word for eternity, eternity to the valley of the dead. Take your time doing these things, for I will give your sole piece, by burying my axe in your head. ] [ grátum saman og horfum á tárin falla niður í ræsið þar blandast þau straumnum og tárum frá öðrum renna út í sjó og falla til botns sem kristallar ég vildi að ég gæti kafað nógu djúpt til að finna einn frá þér... ég myndi kaupa mér auðan gullhring af dýrustu gerð skera nafn þitt og hjarta inn í innanverðan gripinn gera holu í miðjunni og setja tárið þar bera hann alla tíð til að gleyma því ekki að þú varst það besta í öllu mínu lífi... -pardus- ] [ Magnþrungin og drungaleg grá eins og hatur gnæfa skýin yfir mig í allar áttir eins langt og augað eygir Hóta rigningu á hverri stundu líkt og óvinaher sem getur ráðist til atlögu hvenær sem er Í örvæntingu leita ég um alla skýjaþyrpinguna að smá glætu þar sem einn lítill sólargeisli getur sloppið í gegn en ég finn ekkert Svalt lognið er stillt en rafmagnað Er stormurinn væntanlegur? ] [ Take your stolen time, use it to draw a picture. A picture of a time, that doesn´t exist. Becouse the time we know, is the part of the world, that hates us the most. By the end everything we know, will be his own playground. ] [ Ég heyri hljóðin, hlátra skelli langdregið öskur og barnagrát hún ærir alla er um hún hleypur en er hana sérð þá hljóðnar snöggt. Áður var hún í miklum metum nú hreyfast lokkarnir ormum líkir hellir hennar kaldur og blautur galið brosið hræðist lýður. Horfðu, horfðu litli maður líttu fagra meyju, nakin ormlíkar hreyfingar, fögur húðin andlitið sorgmætt eins og dauðinn. Ég leit hana augum, ég var forvitin mey falleg, svo falleg, með sorgmæddu augun ég fann hvernig líkaminn hægt breyttist nú horfi ég að eilífu á. Í helli hennar hlátrasköllin ægileg ópin frá hugsunum manna þeir segja'ana dauða þeir segja'ana ljóta. Ó fegursta vera jörðinni á augun svo sorgmædd, brostin og fá horfir hún stöðugt á steinana þá sem breittust er litu hana augum. Ó fallega vera ég horfi þig á gegnum steinbrostin augun frosið nýtísku hjartað fallega kona hví græturðu þá? Snertingu ei færð, né bros þegar mennirnir festast í steingerðum limum er ægilegt öskur vörunum á steinvölurnar einu merkin um hræðslu og vá. Tárin í augum þínum vekja lotningu í steingerðu brjósti mínu ég stari á brjóst þín og herðar ó fallega kona hví græturðu þá? Einhvern tíma höggva nútímamennirnir af þér þitt fallega höfuð setja það á safn með skotheldu gleri svo allir geti séð.. ódýrsfegurð. ] [ í leit að visku voru brattir stígar troðnir einhverstaðar þar fann ég dirfsku þar sem við vorum óboðnir í leit að einhverju með sál stefni ég á mið nýra brauta ílla skóaður,gatan svo hál í eilífri glímu við stóra sterka fauta í leit að tilgangi sní ég mér að byrjunarreyt þar sit ég lítil drengangi við minn eigin grafreyt ] [ Í glampandi rökkrinu á götunni minni skima ég alltaf aðeins eftir sporunum þínum man þegar við gengum hér hönd í hönd milli þessara sömu húsa eitt sinn - eins og í draumi Þá var lífið líf og hamingjan jafnvel á vappi án þess að ég muni það skýrt nú birtist þú ógreinilega sýn úr öðru lífi En gatan liggur fram á við og jafnvel fetum framar hefur vindurinn máð spor þín á brott ] [ Þú komst inn í líf mitt og slepptir fiðrildi lausu inn í huga mér Alltaf þegar ég reyni að hugsa um eitthvað annað byrjar fiðrildið að flögra Það fangar athygli mína blíðlega og færir hana aftur að þér ] [ Ef ég mætti yrkja til þín hálfgildings ástarljóð sæi ég blikið í augum þínum fimar hendurnar eirðarleysið í fingrunum augun hvarfla burt ] [ Við vorum börn í gær svo frjáls skýin mjúk á bláum himni. Við erum ung í dag full af draumum skýin mjúk á rauðum himni. Við verðum fullorðin á morgun bundin af frjálsu draumunum skýin mjúk á fjólubláum himni. ] [ Ég brosi ekki? Ég hugsa ekki? Ég finn ekki? Ég sef ekki? Ég hreinlega er ekki? ?. Hef ég tilverurétt? ] [ Mér fannst ég kominn heim og ég upplifði þig eins og konu þú varst fersk og fjörug en samt eins og svolítið sveitó þú varst í gömlum kjól en samt eins og sígild þú heillaðir mig upp úr skónum og ég vil hreiðra um mig, inní þér ] [ Þegiðu, farðu, deyðu ég elska þig, hata þig ég vil eiga þig, missa þig en ég hef hvorki fengið þig né átt þig svo ég þegi, fer og dey ] [ Ónæm fyrir vængjablaki fuglsins eins og daginn fyrir hjartaáfall bíð ég þess að falla, hefja svo blakið á ný ákafara en áður og svífa inn í aðra veröld ] [ 76 og hugsa til baka 56 og hugsa um gæruna 36 og hugsa um börnin 26 og hugsa um ástina 16 og hugsa um sjálfsmorð hugsa til baka með eftirsjá ] [ Uppgötvun mannlegrar hræsni oft á dag aldrei á sunnudögum þá er ég tilfinningalaus fyrirfram ákveðið því ég sit heima með brynvarna vörn sjálfsvorkunnar e.s. skrifað á sunnudegi ] [ Á feiknahraða fer gengum lífið hér á fáki þú kemur á eftir mér skilurðu ekkert hvað það er sem fer í gegnum hugann á mér ég stend í stað nótt sem dag spegill spegill herm þú mér hvað það er sem þarf að gera hér svaraðu þegar ég tala eða farðu bara í dvala eins og mér sé ekki sama enda vön að standa í því sama ] [ Ég vaknaði í dag og fann hvað mér leið vel fanst það skrítið hafði ekki liðið vel lengi fór að hugsa hvað væri að þá fann ég að skugginn sem var buin að vera yfir mér árinn öll fjögur var farinn og í staðin var komið ljós mikil birta sem ég hafði saknað lengi, þá vissi ég að hann var farinn ekki farinn þannig, heldur farinn af sálinni minni hann hafði verið þar of lengi ég gat lifað aftur þetta var eins og að vera frjáls, frjáls eins og fuglinn sem svífur yfir okkur og hefur engar áhyggjur engar kvaðir ekkert bara að vera til, allt var orðið gott þannig leið mér þennan dag þetta var eins og ég hefði aldrey verið ástfanginn mér leið vel var orðin frjáls ] [ Hvað er það sem tefur því kemurðu ekki hingað og semur gæði sem eru kvæði annað eins þú hefur samið kvæðin öll eru æði hvort sem ég vel þau eða vil vera í næði þau öll eiga von um að verða bæði flott og mikil kvæði ] [ Það er komin tími til að rísa uppúr stólnum láta hendur standa framúr ermum og sópa ruslinu undir teppið. ] [ Nú hnígur sól á bakvið djarfan draum sem dulin von í hjarta áður skóp. Útí tómið skerast hæðnishróp og hugsjón skolast burt með tímans straum. Yfir rústum rís hin nýa öld með ránfuglsklær í holdi smælingjans. Helvegsþjónar hefja villtan dans og heimta til sín gjöld og æðstu völd. Tilhvers var barist bróðir minn í sorg, bárum við aðeins hjóm á mannlífs torg? ] [ Listina ég hef í hjarta mér því vil ég trúa að hér sé enginn að ljúga ég hvorki samdi þetta né annað enda hefur það aldrey verið sannað að kvæði sé bæði list og mikið af öðru sem í hjarta mér ég hef handa þér því engu ég hef að tapa saman við skulum skapa listir þessar sem aðrar hvort sem mér fer betur að apa þetta letur eða skapa annað sem oft hefur verið bannað þá læt ég mér það duga að yrkja ekki oftar heldur fara miklu betur með hæfileikana sem okkur var gefið því hætti ég að tala og læt sem ég heyri að þetta kvæði sé algjört æði ] [ Tæknin er eins og vín, bætist með tímanum. En eins og öll vín verður tæknin drukkin úr vínkjöllurum vitundarinnar. En vín er hollt fyrir heilann, en tæknin eitrar hann. Bráðlega verður hætt að setja vín í geymslur... Því það er verið að höggva regnskógana og þá deyjum við úr súrefnisskorti. Mér verður svosum sama, það verður hvortsemer ekkert kaffi eftir. ] [ Hvar er guð? Er hann undir steini. Eða úti í geimi. Eða kanski annarsstaðar í leyni. Ráðgátur hylja huga minn. Spurningarnar banka a dyrnar. Meðan aðrir hunsa þær bara, býð ég þeim inn í kaffi. ] [ Pensilinn ég dreg eftir þér finnst þér ekki notalegt að láta strjúka þér þennann dag sem annan við höfum hvort annað ég stundum mér gleymi að þú ert það sem ég hef til að styðjast við nótt sem dimmann dag ég myndina geri hvernig sem fer veit ég að sálina mína þú berð þegar ég ekki hér verð myndina þau skoða og finna von og doða ást þau finna þegar þau sja að alla mína daga fékkstu fyrir því að finna hvað sem á mina daga fékk að draga lífið þú vekur þegar fólkið eftir þér tekur skoðar og skoðar ástina í þér frá mér sem aldrey var sóuð hér ] [ Rotnaðar minningar, í huga mínum, vilja ekki fara. Myndir úr fortíð minni, skera í samvisku mína og endurspegla mistök mín. Ég gróf þær djúpt í hjarta mínu, samt heyri ég ávalt öskur þeirra, bergmála í hausnum á mér. ] [ Ein ég er heima hér þegar hausta fer eldur kveiktur er upp í arinn hja mér komdu nú og hlýjaðu mér því sálinn orðin köld er hvers vegna fórstu fórstu frá mér lalli minn komdu nu og njótum þess sem okkur var ætlað hér þetta er ekki líf ekki líf nema þú sért hér eitt ég veit sem okkur saman ber dóttir sem þú gafst mér manstu hvað það var gaman að ala hana saman ] [ löng röð þoka yfir grasvelli hvítt hús í fjarska Næsti! ertu geðveik? spyr feit kona og glottir almenningsselernisfýla yfirgnæfir vit mín ég sast á blauta grasið passaði pilsið enginn má sjá undir það loka augunum og gleymi hver ég er ] [ Nú brennur kvíði í brjósti þó brosti sól að morgni og gróandinn gekk um tún. Ég sá yfir Svörtufjöllum svifhraðan skíaflota feykast fram af brún. Bakvið blámóðu vorsins bylti hálofta skýjum kólguröst komandi dags. Er sem ólmur hlaupi ákaflega brúna Sleipnir með flaksandi fax. Enn ríkir vetur á vori, vindbólginn neitar að hörfa, grána því gömul fjöll. Læðast úr leyndum kima, ljósfælin bakvið tjöldin, kuldans brigðatröll. Þó stormveður steypist af fjöllum og strjúki burt ilm á vori, vakir von og þrá. Upp mun aftur rísa algróin jörð og gefa blómangan barmi frá. ] [ Þú hefur beðið eftir henni í þrjátíu og fjórar mínútur. ] [ Afhverju ertu svona grimmur? gerði ég eitthvað rangt? Þú horfir á mig dimmur og gengur í burtu langt Ef ég bara vissi hvað væri að góðan vin ég missi því ég um það bað! Er þér alveg sama að tár mín stanslaust renna? sit ég hér og stama og allt er mér að kenna!? viltu ekki stinga fastar inn í litla hjartað mitt? Tekur það og út því kastar haltu fast um hjartað þitt! ] [ Einn tveir þrír fjórir fimm sex sjö átta níu tíu ellefu tólf þrettán fjórtán fimmtán. Vil þig. Nítján næstum því tuttugu. ] [ Tárin streyma nótt eina eða var mig að dreyma að hér sé draugur öllu er vön og læt sem ekkert sé hann lætur mér í té að hann sé komin með rétt hér hér átti hann heima hann fær mig til að gleyma stað og stund um tíma svona rétt til að átta mig að hér hann býr ég segi góðan daginn og býð honum í bæinn spyr hvort honum sé sama hvort við búum saman hann verður ofsa glaður og spyr hvort þetta sé nokkuð bara daður satt að segja vil ég ekki ljúga og segi því að hann verði mér bara að trúa því traust sé eitt sem hann verður að hafa ef við saman eigum að búa ég spyr hvort hann vilji kúra hann segist elska að lúra ] [ Sometimes I feel lonely And pain inside my heart My true wish is only That we won?t be apart Why did you have to go? So far away from me? Don?t you see I need you so? But I have to set you free My tears are running down my chin I?m angry, I?m so sad Did I do some kind of sin? To deserve to feel so bad? I know you?re watching over me I know you miss me too And in my heart you?ll always be No matter what, it?s true! ] [ Ég gleymi ekki góðum stundum Og yndislegum endurfundum Komdu og taktu hönd mína Láttu hönd þína á mína Sérðu ekki hvað þær eru líkar? Af ást og væntumþykju ríkar Alltaf vil ég hafa þig hér Hér nálægt og við hlið mér En ekkert get ég gert Nema grátið og böndin hert Vertu glaður og ég vona og bið Að þetta verði ekki alltaf svona og við Hittumst á ný, ég littla hnáta Og þú besti pabbi ] [ Ást er eins og kaffi ég verð háð. ég bæti það með molum. mér er sama um litinn, ég vil bara gott bragð. ef ég helli útfyrir koma oft erfiðir blettir. ] [ útigangsmaður. ég skrifa til þín í huganum og velti fyrir mér, hvort okkar sé meira fífl. segðu mér, finnst þér ennþá grasið grænna hinu megin? ] [ nei, leiddu mig leiðina heim ég og hugur hlaupum og hrindum þeim Róleg lít ég í báðar áttir... hey, leiddu mig leiðina heim ég og hjarta höltrum og hrósum þeim ] [ Tilhugsunin ein, við að þurfa að borða. Ég get ekki lýst því, mig skortir orðaforða. Við bara einn bita viðbjóður læðist. Maginn á hvolfi, ég sjálfa mig hræðist. Afleiðingarnar bíta, líkaminn ofursmár. Ég vil ekki meira, augun fella tár. Andlega og líkamlega, stelpan er búin. Líður ekki vel, orðin voða lúin. En nú er þetta búið, hef lært mína lexíu. Ég kýs nú að velja lífið og segja bless við anorexíu! ] [ Alla dreymir drauma.... sem þeir ekki skilja og drekka úr tómum bikar... sem þeir gera og ekki vilja sumum reynist betur að... sig drullunni að dylja aðrir sannleikann opinbera naktann... sýna\'ann og ei hylja en þeir sem ráða ráða og sýna vilja sinn í verki vandvirknin á undanhaldi eins og trúin lausum klerki stefnuleysi hrjáir þann sem trúlaus tryggur þegir téður velur leið þá sem eru endalausir vegir sumir segja \"kjósið mig því hann sig vart má hræra hans er sagan þykkjuþung sem senn verður að kæra veljið ei þann sem eirir og er af viti og sálu ærður\" af vitsmuna- og greindarleysi er þessi maður kærður Þessir mættu sofa þegar sólin dagsins nýtur og sjá ei hvernig lífið fyrir dauðum orðum lítur Þessa mætti dreyma drauma sem þeir ekki skilja og skilja að skilja suma drauma ættu þeir ekki að vilja ég hef nú lesið það sem vegur þungt í texta þínum og þykist vita að fylgi fjöldans ei fylgir orðum mínum að finnast og þykja orð þín hjóm, hviða úr vindsins æði og vona að orð þín og meining öll til svefnins dauða blæði það ætíð verður styrkur þinn, og nagli að sigri þínum seigur sá nagli verður og er, kjölfestan að ritdauða mínum sá nagli er blaður og opinbert raus, mér snærið að hálsinum þrengdu hver maður er saklaus uns sök hans er sönn, án sannanna ritandann rengdu ] [ Hjartanlega til hamingju með yndisaukann ljúfa Heyra má brátt barnagælur kvöldkyrrðina rjúfa Í þeim má skynja himinsengla vængjum sínum blakta Höfgur móttak kveðju mína, gæfuóskum þakta Það má vart gefa meiri gæfu né frið í lífið færa en að geta fundið líf og leiki, rúmstokk barnsins bæra Af lífsins bikar dropa dreypa, draum úr smiðju bera Að sjá sitt barn í fyrsta sinn - er þúsundföld uppskera Göfugri móður berðu kveðjur og færðu ást og hlýju með gát svo dýrra niðja hlotnist guðsblessumum að nýju ] [ Þú þrýstir vörum þínum að mínum, til þess eins að þagga niður í mér. Ég skal ekki segja orð. ] [ Ég sit á steini og horfi á ljúfa, fallega hafið sem hefur tekið mig að sér. Ég hlusta á söng regndropanna, þeir snerta húð mína fullir leyndardómum. Tár mín speglast í silkimjúkum sjónum angurværðin örvæntingin líður hjá er rödd sjávarins hvíslar að mér. ] [ grunsemdavakning leið á eilífum ferðum sem gefa ekkert af sér. þarafleiðandi liggur ekkert að mér Og endirinn á það skilið að verða breyttur stundum snýst þetta aðeins um hvor fótstigið sé fyrir rétta il átta augu og eiturnaðran skallar byrjun er snúin og löngu búin ] [ Á hverri sekúndu... eru pör að kyssast eru pör að elskast eru pör að kúra eru pör að tala eru pör að rífast eru pör að þegja eru pör að skilja er fólk að sakna... ...ef ég gæti myndi ég stoppa hverja sekúndu með þér til að njóta hennar til fulls til að horfa á þig lengi til að læra á þig betur... ...stoppa hverja sekúndu með þér til að hafa þig hjá mér... ] [ ...þín orð eru lög sem aldrei má rjúfa annars mun ég blóðgast undir vendi þínum hrjúfa með bugað mitt bak og tárin í hvörmum ég fell í faðm þér - þínum gaddavírsörmum... ...þú stjórnar heilu ríki án snefils af náð þínir þegnar aldrei öðlast - það þeir hafa þráð við grátum í skugganum og skjálfum í mók því þín sanna lögregla - hlýjuna okkar tók... ...með lögum skal land byggja og með fasisma almúgann hryggja því þegar okkar þróttur er brotinn niður mun harðræði - alræði verða hér siður... ...í horninu hvílir ein von um tilveru skárri uppreisn fjöldans gegn alríkjandi hirðinni fárri tökum upp sverð - við heyjum stríð í nafni friðar og í blóðbaðinu fasistinn sjálfur leitar griða... ...við höfum loks unnið - nú fáum við næði laus við alla illsku og innantómt harðræði en hver skal ráða? það veit enginn kjaftur og nú verri barátta um völdin byrjar aftur... ...hluti af eilífu hringrás lífsins - eru blóðug stríð við reynum að koma á fót friði - en erum sjálf óblíð með tíð og tíma - í stöðugri baráttu í nafni friðar munum við sjá - uppgötva skelkuð - að ekkert miðar... ] [ Auðveldara og auðveldara að muna; Ég sakna þín, þú veist jafnvel þegar þú varst hér.. ] [ Karlmaður konuna lemur - sálina temur - tilfinningar kremur Ríkisstjórnir drottna harðar - undir fölskum fánum varðar Guðir á skýjatoppunum standa - börnum granda - eitri anda ...og í heiminum sálirnar liggja dauðar og marðar!!! Saddam Hussein - Bin Laden - Fidel Castro - ógnarstjórn!!! Adolf Hitler - Júdas Lærisveinn - Satan og ég... Atli Húnakonungur - Nero Rómarkeisari - mannafórn!!! Morðingi - nauðgari - ræningi og trúlaus... ég... Við hindrum ei blóðbað - sökkvum í drullusvað - gungur Ég er syndugur - blóðugur - hef gert svo margt - ungur Ég stöðva ei ofbeldi - berst ei gegn blóðveldi - sál mína seldi ...dauður að innan - blauður að utan - rauður af blóði... Ég er engu skárri en allir þeir - er heimurinn deyr - guð dæmir Ég leit til hliðar - er barnið dó - heimurinn riðar - ég hló Því engin var hér sorg - engin sársaukaorg - hljóðlítil friðarborg ...en í leynunum - annars staðar - hvíla enn mennirnir slæmir... Þið getið gert svo mikið - en hikið - og sitjið kyrr fyrir vikið Ekkert er gefið - þið slefið - og steikurnar étið - svo feit Barnið kafnar - í fjöldagröf hafnar - meðan magi ykkar dafnar Hvenær erum við næst? Getum við sæst? Enginn veit... Í næsta húsi ofbeldi ríkir!!! Og dynkir engu líkir!!! En við sitjum kyr og heyrum ei hljóðið Líkið er burtu borið - og við sjáum ei blóðið... Augun lokuð... eyru lokuð... afskiptaleysi Lifum södd... deyjum gömul... með farða á feisi Ég blandast í hópinn - geri ekkert einn Og enginn hjálpar til - ekki neinn... ...og ég sé brátt að aurar mínir eru ekki til neins... ...okkar hjálp er lítil sem engin - veikburða - engin furða... ...því allir hér í heimi hugsa eins: ...\"ÉG skipti öllu máli\" ] [ þú tælir allt til þín - sem segull að járninu köldu þegar þú lyftir brúnum koma gimsteinar í ljós dýrmætu smaragðarnir heilla gráðuga mennina sem þyrstir í ást og vilja snerta þig... er þú opnar upp varirnar - hljómar sannleikurinn betur köld veröldin öðlast hlýju í orðum þínum angan hörunds þíns laðar fögur fiðrildin að þér og fiðrildin í brjósti mínu - lifna við og fljúga... er þú lokar augum - slakar á taugum og sefur þá tekur guð sína fegurð - þér gefur kyrrðin í kringum ásjónu þína bjarta tælir mig - líkt og segull að stálhjarta... hjarta mitt ryðgar - ef þú lásinn ei opnar og ástin mín til allra - deyr og dofnar fiðrildi mín fljúga aðeins fyrir þig þú ein hefur lykilinn - svo opnaðu mig hleyptu þeim út - þá þau stefna til þín svo þau umkringja þig - og þú verður mín... ...hjarta mitt málmur - sem hvílir í mér... ...segull þinn sterkur - það dregst að þér... ] [ hversu lengi skal ég bíða þess að veröld verði sönn? er frelsið enn svo óþroskað - barn með enga tönn? lýðveldi er stjórnað hart af hræsnurum og svikum þjóð er voodoodúkka - nálapúði - úttroðin af stikum... ógnarstjórnir ríkja enn í heimi sem er \"frjáls\" en það er engin leið að sjá - hvern skal skera á háls sökin liggur ekki í flokkum - né spilltum einvaldssinnum hún liggur hér í mér og þér - undir fölskum skinnum... við lifum hér í heimi döprum - leynumst undir meiki ég veit þú lýgur sjálfur - hef spilað þessa leiki brögð í tafli og ekkert er satt - hver erum við í raun? með bros á feisi - útávið - og grátum svo á laun... verum sönn og opnumst upp - líkt og blóm á engi frelsið sem við þráum svo - hefur falið sig svo lengi með réttu hugarfari - ástúð - við getum skilið hvort annað og lifum svo í einni heild - þar sem ekkert gott er bannað... ] [ gömul minning bankaði upp á hjarta mér einn daginn hún spurði hvort hún mætti koma inn og gista smástund hún fór þremur dögum seinna og skildi sinn farangur eftir fór á ný til annarra landa og gleymdi þessari dvöl hjá mér ...en ennþá sit ég einn eftir í hjarta mínu og skoða hennar minjar græt yfir stúlkunni sem kom og fór svo snöggt horfi á myndir sem hún teiknaði handa mér og hengi þær upp í miðju hjartans... ...þar sem þær hanga enn... ] [ sálirnar kafna - í Helvíti hafna og hatrið eykst með hverri stundu djöflarnir safna - logarnir dafna er mennirnir í bálköstinn hrundu... blindir menn trúa - í myrkrinu búa og guð þeirra gerir ei neitt börn eitrið sjúga - prestarnir ljúga undir iljum mér gapir Hel heitt... jarðvegur rofnar - undir mér klofnar og neðar til Satans ég fell sálin mín dofnar - sársaukinn sofnar er ég á gaddavírsgrundina skell... illt við gerðum - drápum með sverðum og ljóðskáldið vonsvikið - leitt nú bera við verðum - veröld á herðum niður í Hel sem er heitt!!! ] [ rökkrið sveipar um sig skýjahulunni og leggst til svefns kúrir í skjóli undan skerandi ópum og blindandi birtunni skærguli eldhnötturinn á heiðbláum himninum rís hærra og speglar sig í vatni fljótanna tærra... sálirnar ferðast um saklausar - nautheimskar - grunlausar blindar þær sjá ekki dauðann - sorgina - hætturnar kyssandi hvort annað - með tár í augum þær hlæja dátt en um Satan frá helvíti - þær vita fátt... ég stend á hæðinni - grátandi - snöktandi - starandi á alla þessa feigu - dansandi - syngjandi - hlæjandi senn mun ég rísa og enda þessa skemmtan snöggt þá sálirnar vitlausar vita það glöggt... ég er djöfull að starfi og hata þá iðju ég fel mig í hvarfi í jarðarmiðju... börnin leika sér lítil - svo saklaus og undurfríð dýrin hlaupa um gresjurnar - svo fögur og tignarleg en í rökkrinu ríki ég og skapa öll þessi stríð hatrið í heiminum dafnar meðan andann ég dreg... en ég tek mín lyf og hætti að stara ég geng í átt að þessum skara sálir þessar í hel munu fara og hatrið hér mun áfram vara... ég drep alla þá er á Drottinn trúa myrði alla gleði - sem í sálunum búa dreifi sorginni í fólksins aragrúa tárunum mun ég um nasir þeirra núa... ég er djöfull að starfi og hata þá iðju ég fel mig í hvarfi í jarðarmiðju... ... rauðbleika sólkringlan á dökkum himninum hnígur dagurinn lítur í grasið og nóttin hún nálgast líkin liggja köld á strætum - blóðið lekur sem fljót tunglið speglar sig í vökvanum - ofan veröld sem er ljót... heimsendir kominn og nú ég sit þreyttur halinn og hornin á líkama mínum stækka sýktur og leiður með eftirsjá - sveittur og gleðiský mín á himninum lækka... enginn er alslæmur - hvorki ég né þú og allir hafa sinn djöful að draga hvort sem góð eða slæm - þín er trú er allt þetta - eina og sama saga... ég er djöfull að starfi og hata þá iðju ég fel mig í hvarfi í jarðarmiðju... ] [ droparnir á malbikinu leka hraðar í átt að ykkur í átt að ræsunum illa lyktandi í stórborg auðæfanna neðar í þjóðfélagsins stiga þar sem kuldinn ríkir og þar sem þið eigið heima... starið upp á móti flúorljósinu á veggjum baranna yljið ykkur upp við loftræstigöt skemmtistaðanna litlar flíkurnar á þunnum líkömum ykkar feykjast undan útblæstri mengandi bifreiðanna... þið bíðið eftir rétta tækifærinu og rétta bílnum sem mun rífa ykkur upp frá hrollkaldri götunni mennirnir ljótfölir og sorgmæddir finna í ykkur hlýju sem þeir finna hvergi annars staðar... með andlitin litrík líkt og nýútsprungnar rósir starið þið með fagurbláum augum og tælið þá til ykkar líkamar grannir líkt og þyrnum prýddir stilkar slitna létt frá jörðu þar sem þeir áður uxu... allar eruð þið án föður og móður allar eigið þið harðan lífróður skrapið þið saman örlitlu fé fallið niður á ykkar mjóu hné veitið ókunnugum sælu og gleði liggið svo á götunnar beði fyllið æðar af eitri slæmu til að sljóvga sálina næmu... slitnar upp og hent á hauga glímið þið við gamla drauga einar fyrirlitnar en þið standið enn beinar... þið haldið í reisn þá er konunni er tamið og bakið er upprétt þó andlitið sé lamið vondir menn eru fæddir ykkur til að meiða og sjúkdómum milli ykkar þeir breiða... varir rauðar líkt og rósir látnar liggja á götu drósir með trosnaða stilka og blóðug blöð... vændiskonulíf er hin versta kvöð... ] [ haltu í arminn feitan og þvalan bíddu íhugaðu ákveddu klíptu svo í hann og vittu bara til þig mun ekki sárna við þann hlýja il ] [ ég les og skil loksins loka bókinni og leggst útaf ligg og hugsa ég hugsa og skil enn betur loka augunum og sef dreymi og hrýt (hafðu samband við mig seinna og við munum útkljá þessi deiluatriði án þess að rugla aðra, bara við þrjú ég, þú og þessi ranghugmynd þín) ég vakna og skil ekkert stend upp og ét vaki og gleymi ] [ Ég er ástfangin af þér ókunnugi maður. Tilfinning í poka með slitnu handfangi, fullur af flöskum og innantómum hugsunum um framtíðina en þó aðallega hvar mig er að finna ] [ rúmið gleypti mig og spítti mér uppí vegg sat límd við loftið eins og slímug hráka úr 8 tonna skrímsli sem fannst ég ekki nógu góð, bragðgóð og safarík eins og horugar beljur sem mjólka súrt ] [ það horfir alltaf á mig, ég var allt en er ekkert þegar þau horfa, aðeins útjöskuð sýn villtra sála sem hafa ekki vit á að líta í eigin barm ] [ sjúk alþýðan æsist í harmi annarra sála sem eru allt annað en þeim bar að vera hvernig líður þér við þessar fréttir? .........hlærð og bendir........... handleggsbrotnar og engist eftir að karma kemur og klípir í rassinn á þér ] [ þrjár ponodil einn spikugur og diet í súper tvær sígó og mér líður eins og mér finnst að öllum ætti að líða þegar þau spá í því sama og ég var að spá áður en ég kynntist þér ...á næstunni ] [ ég kynni nútímamanninn latan og fáfróðan fyrir landnemum Íslands í draumi þeir hlógu og skoruðu mig á hólm ég tapaði fyrir þeim viljandi vitandi það að ég mun endurfæðast í draumi þar sem ég er sjúklingur sem skipta þarf um bleyju á ] [ ég græt þegar tvö börn leiðast frábrugðin hvort öðru en fatta það ekki, síðan vaxa hvassar tennur á þau sem eru brýndar fyrir orrustu fullorðinsáranna sem koma aðeins fyrir þá útvöldu ] [ glóðin geymir bráð sína í huga mínum þegar ég hugsa til baka hvaðan fékk hún þá vitneskju að ég væri aðeins padda sem hún brenndi líka í gær? ] [ tíminn ákvað að við yrðum þreytt og gæfumst upp tíminn ákvað að við lægjumst niður og gleymdum því sem við gerðum tíminn læknar jú en drepur ] [ lærin mjó eins og visnar trjágreinar um haust fæturnir tættir eins og slitinn sandpappír með skítuga og ryðgaða járnfötu milli handanna labbar að tómu vatnsbóli snýr við til þorpsins með slæmu fréttirnar: nýju buxurnar í Sautján voru uppseldar ] [ mig dreymdi óendanleikan í nótt. áður hugsaði ég um sandkorn og stjörnur, peninga og illmenni ég var andvaka í draumi sem aldrei lauk langt í fjarska sé ég eyju er ekki viss hvað tímanum líður en giska að hún sé tvö um dag eða nótt eyjan stækkar sjórinn minnkar eyjan var ekki ég ] [ \"Sykur og salt,\" sagði hún \"er mesta uppáhaldið mitt í öllum heiminum!\" og dró svo djúpt að sér andann. \"Því sykur er sykur og salt er salt og það er ekkert plat einsog hjá sumum.\" sagði hún og dró svo djúpt að sér andann. \"Þess vegna ætla ég að kafa til guðs, því þar er amma og því þar er afi, og amma vill sykur í kaffið, og afi salt í grautinn,\" sagði hún og dró svo djúpt að sér andann. \"Því guð, hún er góð, passar upp á pabba, afa og ömmu en hún gleymdi greyid mömmu og mamma gleymdi mér\" \"Því að fólk er ekki fólk, heldur bara það sjálft og það er bara plat einsog hjá sumum\" sagði hún og drjó djúpt að sér andann. ] [ Í visku sjónstjörnu þinnar birtist lífið sjálft. Útsprungið lótusblóm við lygna tjörn sálar þinnar. Geislandi baugur ljóss þíns baðar vitund mína hreina. Ég dansa í bláma birtunnar frá lífsins lind. ] [ Skýin eru eins og listaverk, nákvæm og falleg. Þau fljúga fyrir ofan okkur, vaka yfir okkur. Þegar skýin fara, er okkur kalt, við erum hrædd, og viljum ekki vera ein. ] [ Það er langt um liðið en ég man það svo vel þú sendir mér kveðju í gegnum augun ég þagði særður eins og þú fullur vonar brenndur á sál það særir mig enn vonin er það eina sem ég á og gefur mér líf. ] [ Í dag ert þú fermd svo ung og hlý svo falleg og glöð þú ert með Kristi í gegnum storma og gný það er ekkert jafn mikilsvert. ] [ Þú hefur alltaf ætlast til, aðeins of mikils, af litlu mér. En varðst samt svo ofur hissa ef ég ætlaðist til einhvers af þér. Alltaf hefuru komið tilbaka skríðandi til mín á hnjánum. En um leið og ég tók þig aftur varð ég að tipla á tánum. Ég lifði of lengi í þeirri von að ef ég gerði allt fyrir þig, þá myndiru vera edrú, þó það væri bara fyrir mig. En þú áttir það bara ekki til, að geta elskað mig. Því það elskar enginn annan nema geta elskað sjálfan sig. ] [ After all is said and done, you are the only one, the only one who makes me feel this way and here is what I have to say. You are the only one who can make me feel this bad, the only one who\'s kicked me when I\'m sad. And the only one who has ever made me feel this mad!! I wanna spit in your face, for making me a disgrace. Never gonna buy another lie and you\'re never gonna see me cry, no more. I see now, this is the best way, and without you I will stay. Cause now you have made me see that you\'re so not right for me. And I thank you for making me strong, I?m just suprised it took so long. But now I\'ve stopped being your whore, cause I dont need you anymore. So now I thank your for being so cruel, from now on I will be nobodys fool. And now I\'m saving all my love for someone capable, of loving me too. ] [ Líf mitt stendur í stað allt gott kemst brátt að allt batnandi fer hér tækifærin munu bjóðast mér eða svo er mér sagt.... ] [ Þegar allt er glatað vonin köfnuð í myrkri er sólin löngu sest tunglið í skýjunum hulið þá koma norðuljósin skær leikandi um allt finna leiðir um svartnættið komast í gengum mótlætið þar til sólin rís á ný ] [ Það sem eitt var markmið nú löngu gleymt er vonir eigi brostnar heldur það sem verra er minningar um þær hafa horfið og á vit eilífðar farnar ] [ Get ekki fundið orðin líkingarnar klúðrast hugsanir ekki í samhengi stafsetningin hryllingur hendurnar skjálfa augun þornuð upp svefnvana og lykta hlusta á algjöra steypu sem kallast tónlist Löngu búinn að bilast en ekki geðveikur. ] [ Andvarinn segir mér að hopa, það er kalt að skilja að á óútskýranlegan hátt er ég að týnast í heiminum! -ég vona að ég fái tækifæri á að koma aftur -einhvern tímann.... ] [ Hann þreyttur leggst á koddann sinn, Með sín tár Og fína hár Hjá móður sinni grætur hann í nótt. Með fínar hendur fálmar hann Finnur ei neitt Hjartað er hreint Pabbi getur drenginn sinn ei sótt. Mamma mín ég elska þig Þú verður mér kær Komdu mér nær Pabbi viltu hald\'utan um mig. Það munu englar passa mig Sýna mér allt Nú er mér kalt Held ég sé að fara kveðja þig. Ó mamma mín ég fagna ykkur Er kemur þú inn Í himininn Ég sit á skýjabólstri þykkum. Er horfir þú á skýin blá Veldu þá mitt Það verður þitt Og saman, saman líðum við hjá. Þá þarftu ekki að óttast neitt Ég passa þig hér Með englaher Við saman stöndum sem eitt. Sveinn Hjörtur. 17/12.2002. ] [ 1. Lítil viðkvæm rós áhuga minn veiddi strax í byrjun sumars 2. Ég málaði mynd af þér í huga mínum það var regnbogi ] [ Hefði getað meika það ef það er einhver staður fyrir síðasta kraftaverkið fallegasta hljóið í heiminum er endir kvöldsins og kannski er hún bara partur af mér sem þú gafst þér aldrei tíma til að sjá. ] [ Gegnum nóttina svæfil ég faðma, Greinar á trénu slást gluggann minn í. Hræddur þú barnið þorir ei að kanna, Rólyndis svefn - unnin fyrir bí. Það er svo margt sem nóttin hylur, Margt sem skuggar skapa sér. Úti er stormur og brjálaður bylur, Náttskynið það eina sem iljar þér. Bráðum mun dagur og geislar ljóma, Sýna sig blómin og elska þig. Ástarsýn þína ég ber með sóma, Og alls þess góða er gafstu fyrir mig. Sveinn Hjörtur. ] [ Von Er húmar að kveldi og kyrrð yfir bæ, Leitar þar drengur, út yfir sæ, Með loga í hjarta og storminn í sál, Veit ei lengur hvaða landi er náð. Sér skipið koma og óskar svo heitt, Allt getur skipið vonum hans breytt, Með kul í hjarta og vindinn á kinn, Leitar að pabba, sem ég ekki finn. Öldurnar brotna ströndinni á, Gengur þar drengur einmana hjá, Hryggur í sálu og einn hann fer, Engan pabba á skipi sér. Hvað á þessi drengur að gera með sig, Þetta er atvik sem varðar þig, Best er að trúa og treysta á hann, Sem foreldra skapar og jörðina fann. Drottinn er sá sem líknar og grær, Sárin sem sverfur hinn kaldi sær, Hann veitir von og treystir á þitt, Hann elskar og trúir á barnið sitt. Sveinn Hjörtur. ] [ Ótal grímur gerðar úr grjóti, halda sér fast á andliti mínu. Ein fyrir hverja stund, ein fyrir hverja tilfinningu. Þær birtast þegar það á við. Undir þeim öllum er hin sanna ég- en ég vil ekki sjá, vil ekki að þú sjáir. Safna að mér ótal grímum, fölskum grímum gerðar úr grjóti. ] [ Hvert sem ég fer, hvað sem ég geri, í lífi sem dauða, mun mynd af þér endurspeglast í augum mér. Gylltur rammi. Og bros þitt og hjarta gert úr demanti. Og birtan sem umlykur þig færir mér yl. Allt þetta mun ég varðveita djúpt í huga mér, og minningin um hlátur þinn og gleðina sem þú færðir mér mun fylgja mérhvar sem ég er, hvert sem ég fer.. inn í eilífðina... ] [ Draumar fæðast til að gefa þér von; tli að kenna þér að lifa, til að kenna þér að elska. Draumar fæðast til að kenna hjarta þínu að syngja, dansa. En flesir draumar ljúga, Hvert einasta blóm og hver einasti sólargeisli er hylling. Og þú gengur um á brostnum draumum. ] [ Sumarið er að koma, ný byrjun, líf fæðist. Sólin lýsir upp myrkustu afkima. Vonin er eins og sólin. Hún brýst framhjá skýjunum, og lýsir upp líf mitt. Ný byrjun- líf fæðist. Mín byrjun- mitt líf. Vonin titrar í hjarta mínu.. ] [ Hróp þín líða á vatninu ennþá, Þó tíminn hafi liðið er sem sorg þín hafi fryst hann. Ég hlusta og heyri grátinn, margrar aldar gamlan, því hann líður enn á vatninu og hjarta mitt grætur með þér.. 01.06.02 ] [ Hann kallaði á mig svo undurblítt, með ást í röddu og fangið fullt af ást, bara fyrir mig að þiggja. Ég hlustaði á hann syngja vögguljóð, og sár mín gréru, því nær sem ég kom að honum. Ég settist í fang hans og hann sagði mér frá draumum mínum sem ég var búin að gleyma. Ég fann söknuð. Blásvört augu hans horfðu djúpt í mín, og ég sofnaði loks. Fann að ég myndi aldrei framar vakna, aldrei framar finna til. Hann ætlar að halda mér í örmum sér til eilífðar.. og ég er þakklát. ] [ Ókunni maður, með augun mín, bros mitt, vanga minn. Hjörtu okkar gerð úr því sama, hendur okkar gerðar úr því sama. Hlátur frá sömu uppsprettu og tárin úr sömu lind. Ókunni maður sem ég mun aldrei sjá, aldrei snerta, aldrei heilsa. Ókunni maður. Hve heitt ég þrái að heyra rödd þína, sjá bros þitt. Ókunni maður.. ókunni bróðir minn... ] [ Með tilkomu þinni hefur allt breyst. Þú hefur fyllt hjarta mitt - bergmálið er horfið. Mér finnst sem loksins hafi allt þetta þýðingu, og að allt hafi verið þess virði. Rödd mín hefur loksins öðlast hljóm, loksins- eftir margra ára bið. Ég er meðvituð um hjartslátt minn.. hann er- aðeins fyrir þig. Ég spyr ekki lengur hver tilgangur lífsins er. ] [ Það eina sem heyrist í tóminu í hjartanu, er reiðiöskrið sem er að æra mig. Allt er svart..allt er tómt. Allt jafn sorglegt og vængbrotinn hrafn sem berst fyrir lífi sínu, vitandi að Dauðinn sveimar yfir og bíður þolinmóður eftir síðasta krunkinu. Til atlögu leggur hann, og skilur ekkert eftir nema glitrandi fjaðrirnar -löðrandi í blóði. Hendur mínar titra, reyrðar fyrir aftan bak.. það blæðir úr sárunum. Ég get ekki losað mig. Berst um þar til ég missi andann, missi viljann, missi trúna og missi vitið. Birtan dvínar, nóttin kemur. Sálin hverfur og lífið deyr. Ástin er yndisleg- ástin er ömurleg. Kannski er ástin ímyndun ein, lygi svo við höndlum daginn, - höndlum nóttina - höndlum okkur sjálf. Er það líf að lifa í lygi frá fyrsta andardrætti til hins síðasta? Mér er spurn... ] [ Það var lítið ljós, lítið bros og blik í augum, sem kveikti ástina umhyggjuna, fórnfýsnina og draumana. Ljósið virðist vera að dofna.. sýnist brosið vera að hverfa. Augun eru að opnast, og maður vaknar upp af ljúfum draumi, aftur inn í gráan hversdagsleikann ] [ Á borgarstrætum á björtu vori þar vindar leika svo létt um kinn. Það er sem fjörið úr fylgsnum þori og þrengi sér inn um gluggann minn. Og ég vil syngja í sunnanblænum er sólin rauðgyllir ráðhúsvegg. Það verður fagur hver skúr í bænum, ég horfi á ástfanginn andarstegg. ] [ Sitjum hér saman og horfum á guð, Ekkert truflar nema býflugnasuð, Sestu hjá pabba ég sýni þér það, Sem náttúran treysti og Guð okkur gaf. Dalurinn gleypir hvert einasta hús, Svo er bara vona að hann sleppi okkur fús. Værðin er komin yfir stúlkuna mína, blessa og breiði yfir þig sængina þína. Ég hugsa um framtíðarvonir og þrár, Vona að drengur minn verði það knár. Að vitsmuni hafi og passi sig á, Víni sem spottara og óvini þá. Sem eitur bjóða og drepa allt líf, Og undir mína verndarvængi hlíf. Svo er að vona og Guð minn að biðja, Að eflist og styrkist lífsvilja iðja. Drengur og stúlka til pabba leita, Ég mun minni kænsku og brögðum beita. ] [ Ljóð eru sálarspegillinn Viskan eigin brunnur, ljóð eru hugarheimurinn Vitneskjan traustur grunnur. ] [ Ég gekk í kapellu Krists í dag, grét þar. Hrópandi í hjóðri bæn. Hjálp,hjálpaðu mér Kristur. Örvænting. Bið. Biðin er á enda, tárin mín, perlur fallandi ,skínandi á fótskör þína. Vonin. Settist ofur hljóðlega, á axlir mínar. Gælandi, dúnmjúk. Í himneskri þögninni, gengum við út. Vonin og ég. ] [ Min bedstefar bor på et plejehjem han har en kørestol. Den er sej. Kedeligt at den gamle ikke kan bruge den. Han sidder i den og stirrer med tomme øjne ,langt væk eller sover. Engang, for nogle dage siden tændtes dog et lille lys i hans øjne. Han kiggede på mig og spurgte: Hvor er min mor? ] [ Svartar nætur gengnar eru hjá hörmungartímar konu kveðja ljósir dagar renna upp - og sjá kunnugir draumar verða að dagsins veruleika. Draumar eru - einfarans leiðir að sjá ljós - í myrkri nótt máttugur draumurinn seiðir til daga upphafs - vaggar rótt. ] [ Kristur kom til mín ég krossa mína ber. Sára sorgin dvín syndin burtu fer. Eilíf elska þín endar áþján oss. Falla tárin mín á þinn helga kross. Ég bið svo bljúgt um frið bænheyr hjarta mitt. Gef sálu minni grið Guð blessa barnið þitt. ] [ fíknin teygði sig eftir mér stakk mér upp í sig kveikti í saug á mér lappirnar á meðan höfuð mitt brann framm hjá lækurinn rann og þangað var mér fleygt þegar ég var næstum allur ] [ Hann kemur inn færandi hendi, mat-mjólk-brauð, svo elda ég matinn. Við borðum. Um kvöldið liggur hann í sófanum, værðarlegur, eins og hann eigi heima hér. Nýtur lífsins og horfir á sjónvarpið, meðan ég sit við tölvuna. Næsta morgun er hann horfinn. Ekkert eftir nema Mjólkin-brauðið og ég. Og ég - læt mér það nægja. ] [ Sá í þögninni styggð þótt um léki þig kyrrð er sætann ég angan þinn teyg\'ði Sá í óværð þinna handa líkt og úfnar öldur stranda veg að þínu hjarta ég eygði Er ljúfur morguninn grét daggartárum, ég hét að helga líf mitt þér yndanna efni í því er dagur brast á á þínum vörum var já ég vaknaði af þessum dýrlega svefni ] [ Har du set stjernerne på himlen om natten? Hvis du lytter kan du høre dem synge. -KAN DU? - En sang kun for dig. Det er godt for sjælen - at lytte på stjernerne. Jeg ville gerne forstå hvad de siger - til hinanden. Om os - de fjollede mennesker. - Måske.- Har du stået oppe på et fjeld og lyttet til vinden? Enten er den så stille , strejfer forsigtigt din kind og hvisker blidt i dine ører eller den kommer susende og brøler som en løve. Den ligner vores indre, vores sind eller følelsesliv. Har du siddet imellem to andre og prøvet at deltage i deres samtale? De har så travlt med at snakke om sig selv og deres interesser. De lytter kun på sig selv. Sådan er vi mennesker, vi lægger ikke mærke til andre men os selv. Vi glemmer at lytte. ] [ Býsna flínkur seggur klár Járnsleginn harður stilltur Öllum hættum að dregur dár Rengir engann né fellir tár Nefndur er góður piltur Hrokafullur ekki er Allur af vilja gerður Léttilega syngja fer Lítillátur verður Dróttinn kveður manna best Ósk hvers konu hjarta Réttilega veit vel flest Seggsins hugsun bjarta Sagan er að hálfu sögð Olli því nafnsins linni Náttúran er undirlögð af nefndum í bögu minni ] [ Eins og smellt af fingrum, á sama augnabliki flutt í annað land. Ölvuð af áhrifum, full af vonum, reikandi ráfandi fálmandi í ókunnu hverfi. Reynir að \"meika það\" talandi framandi tungumál. Leitar að sjálfri sér -vitandi- hinn hlutinn er - heima - ] [ Fimmtán saman í litlu húsi. Út í horni nokkrir saman; sama klipping og falsaðir taktar. Þrír undir og segja ekkert. Einn á förum, kem ekki aftur. ] [ Þegar sólin sest í lygnan sæ sofa dalsins börn í rökkurró. Djúpir draumar setjast að í bæ dætur lífsins veita hugarfró. Þær dansa inn í draumaheiminn þinn í djúpi sálar þinnar leita svars. Stjörnuglitri strá á okkar kinn syngja inn í huga sérhvers barns. Ljóðin þeirra lífga hverja sál ljósagyðjur hofs í heimi fjær. Tendra okkar hjartans ástarbál tilfinningum okkar traustið ljær. Í lífsins ljós þær bjóða okkur inn leyndardómsins salur opinn er. Heilun hjartna okkar þar ég finn sorgarinnar harmur burtu fer. ] [ Sem óraunverulegir draumar virðast gömlu dagarnir og ég efast um að þeir hafi átt sér stað Með hverjum degi efast ég meira -sakna þeirra meira Kannski vildi ég bara að þeir væru ekki sannir svo ég þyrfti ekki að finna svona til ] [ Ó, þú yndislega kona, leyfðu mér að vona, ég hvíli í örmum þér. Ástin, þá sem að við eigum, söfnum saman steinum, sem körfu set ég í. Birtu og gleði finn ég þína, Brosið þitt það fína, Hlátur mildur þinn. Og þú, sýnir mér og sannar, að það er engin annar, ég hlýju hjá þér finn. Nú hef ég þig í mínum örmum, laus frá öllum hörmum, dimma kemur nótt. Nóttin, senn fer hún að koma, leggst á koddann kona, kæra sofðu rótt. ] [ Mig dreymdi að við hefðum sungið saman, Ég og Bó, og höfðum gaman, \"sestu hér í besta stólinn\" sagð´ann, Flottan vindil mér gaf hann, Drukkum Jack Daniels með klaka, Ætluðum alla nóttina að vaka. Ég trúði ekki sjálfum mér um stund, Þarna sat ég og Bó með fund, Ræddum um Elvis og \"love me tender\", Rúnar Júl með bassa-fender, Hljóma, Brimkló og Há-Ell-Há, Og hvernig standa var sviðinu á. Hann sagði \"Sýndu og gerðu alltaf það besta, Það virkar og dugar á flesta, Syngdu svo af innlifun og trú, Bransinn hann er erfiður nú, Sjóvið er möst og Bandið líka, Við viljum hlusta á þannig slíka\". Hann byrjaði að syngja sem ungur drengur, Rétt eins og fiðla og þíður strengur, Frægðin og allt að fótum sér bar, Hugsar sjaldan um það sem var, Fullur af krafti og elegans, Those are all my Bó Hall fans. Fólkið í salnum það lætur hann vita, Og enni hans perlar af svita, Þau eru ófá stóru sviðin, Þau ár eru að mestu liðin, Ennþá með fallegu röddina laðar, Ennþá sig í sviðsljósinu baðar. Úlfurinn með mér Elvis syngur, Enn hvað þessi meistari er slyngur, Röddin hans er engri lýk, Þíð og tær er hún slík, Af blíðu og brosi hefur gnótt, senn er hún liðin þessi draumanótt. ] [ Marglita rennur í fossa, Hugur og hjarta allt vill fanga, Hverfa mun allt með leiftur blossa, Fljótið sem svarf í og bjó til dranga. Blómin sem aldrei færðu að sjá aftur, Horfir hugsi og spyrð þig af því. Þeir láta það hverfa uns ekkert er eftir, Hver lætur svona með okkar líf. Við verðum að treysta að ekki sé hatur, Ekki sé vonska sem knýr þetta afl. Sá sem ekki vinnur - deyr latur, Leikur sér með valdið líkt og lífsins tafl. ] [ Skákar þar drottning og drepur lýðinn, ekkert eftir nema blóðið eitt. Gröfurnar mættar og stutt var biðin, senn ekkert er eftir - ekki neitt. ] [ Ég elska þig af öllu hjarta, -ljósið bjarta- -nærir mig- ei krefst þú neins á móti, hugur minn í róti, -ei til neins- -að stía oss- í sundur þú -ERT- undur -ljósið mitt- -leiðin mín- ég er þín til enda börnin til þín benda -ljósið mitt- -heiðin mín- eg man þig,mundu mig alla leið til enda. ] [ Hjarta mitt bráðnaði og varð að söltum sjó sem flæddi út í augu mín. Frostrósirnar bráðnuðu sem áður létu móðu yfir saklaus augu mín. Tinnudökkt hárið kolsvart, Sæbláu augun steingrá. Fallega brosið háðslegt glott, heillandi röddin ískrandi, skær. Unaðslega ástin leikur einn, Framtíðin okkar sjónhverfing. ] [ ekkert endist verður eilíft ekkert getur verið traust ekki hugsa ?bara aðrir? ekki hugsa ?ekki ég? ekkert lifir alla framtíð vertu aldrei aldrei viss bráðum lenda lenda skýin bráðum hrapar dettur þú ekki yðrast haltu áfram ekki stoppa stoppa neitt vertu sterkur fljúðu áfram reyndu ekk?að skilja neitt. ] [ langar aftur i timann eyða með þér deginum þegar við rúntuðum alla nóttina og týndum okkur með sígarettu í kjaftinum og tónlistina sem yfirgnæfði allan heiminn þegar við töluðum saman um tómleikann og fylltum hvort annað af lífi endurhlóðum sálina vorum fullar rifumst eins og hundur og köttur já,ég vildi að ég gæti spólað til baka. ] [ Dreymdi draum í nótt þar lukum við því sem við byrjuðum á í draumaheimi ég tilfinningalaus alveg eins og þú í lifanda lífi ] [ Ég þrái það eitt ad vita ekki neitt um þína ást Ég veit aðeins það að um það sem ég bað var ekki uppfyllt Reyndi ad sjá fegurð i sól og sjó Reyndi ad elska land og þjóð En allt saman hvarf vegna minningararfs um ást þína löngu horfna ] [ Orð þín.. það sem þú sagðir.. hversu smá sem þér fannst þau vera, gáfu mér styrk, og þor.. Ég er önnur núna.. Vegna orða þinna hef ég loksins náð því að skilja.. Ég er aldrei ein.. Máttur orða þinna er ólýsanlegur.. þú átt örugglega ekki eftir að skilja.. en með endalausri þökk, slær hjarta mitt..og það er ekki sárt lengur. Þú gerðir mér grein fyrir því, að það er allt í lagi að vera ekki fullkomin.. að það er allt í lagi að vera ekki best í öllu.. þú gerðir mér grein fyrir því að það er í lagi fyrir mig að vera bara Ég. Það er bara til ein Ég.. Og Ég tileinka þér þessi orð.. með endalausri þökk.. Þú opnaðir augu mín.. Þakka þér. ] [ Á flugi gengum heim og geima líf mitt leiðir mig. Lífsins fegurð stendur þar og kallar blítt á þig! Komdu til mín, vertu kyrr Rödd mín kallar hvellt en eins og alltaf ferðu frá mér yndisblómið mitt!! ] [ Vorblóm í haga stendur eitt og autt! Enginn vill neitt með það hafa bara alls ekki yfirleitt! En þegar ég sé það lifna ég við og mín hugsun beinist til þín! Ég átta mig á því að þú ert blómið þú ert litla vorblómið mitt! ] [ Sólin teigir anga sína þennan fagra sumar dag. Blómin vakna úr vetrardvala grasið fer að grænka. Samt er eins og eitthvað vanti er það kanski andvarinn? En þegar ég fer að hugsa út í það þá sé ég að það vantar sólarljósið í lífi mínu! Síðan þegar þú fæðist skín sólin bjartara en nokkrun tíman því þú ert sólarljósið í lífi mínu! ] [ Í tindrandi ljósadýrð morgunroðans Sé ég daginn færa sig fram -Fet fyrir fet- fífillinn breiðir út blöðin sín, teygir sig skjálfandi af ákefð og gleði mót nýjum degi. Sólskríkjan situr á steini Og syngur af öllum mætti -lofandi Guð- Þakklát af öllu hjarta Og gleðin er stór Fyrir enn einn töfrandi dag. Hvert andartak dagsins Skal notast sem gjöf -til allra- því tíminn er talinn og veginn og skoðaður vel og fyrr en við vitum, liðinn. ] [ Skólinn splundrast heimurinn undrast að enginn lifði af allir fóru á bóla kaf í bókum og blöðum. Við hlæjum á himnum við lok skólans. ] [ Hvers dags sólskín Er svo glatt hví vill Hver vera inni Öll börninn glöð Og kát úti þau eru á hversdagssólskinsdegi út þau fara með bros upp að eyrum og syngja sitt sólarlag engin tár falla því hversdagssólskinsdagur er svo glaður hver vill vera fýlupúki á hversdagssólskinsdegi ei ég trúi að engin vill vera því hversdagssólskinsdagur er svo glaður. ] [ ég yrki ljóð fyrir þig sem ég vona að ég skil fimm dúkkur tvær bækur tvö hálsmen einn lokk ég kem til þín og mig annt um þig einn lokk tvö hálsmen tvær bækur fimm dúkkur ég kveð nú tveir bolir og ég heilsa nú. ] [ vinátta sem ég segi þér frá sú vinátta er ekki til, ég veit ekki hvaða vinátta það er en ég á samt vináttu. þessi vinátta veit ég ekkert um eða hvaðan hún kemur, ég veit bara þessi vinátta er ekki til ég á samt vináttu. ég vona að þú vinátta skiljir mig svo ég viti hvar eða hvort þú ert til, ég veit að vinátta er til en ég veit ekki hvort vinátta er til. ] [ Stórasystir eður ei Ég á eina litla systur Það er svo erfit Sjö ára er hún Sumir segjast hún lík sér Eins og hún er En þetta er systir mín Engum hún líkist nema mér Ég á hana ein ekki er hægt Að telja hversu há ást mín Er á henni litlu systur minni Eins og við báðar erum Sjö og fjórtán ekki er hægt Að fá því breitt Stórasystir eður ei Ekki lengur er til Á litla systur Svo ég er stóra systir ] [ Ég sit í mínum Hægindastól Og hvíli mig Ég finn fyrir kulda Og dreifi teppi yfir mig Þá kemur hér maður Og hvíslar að mér Ég geymi þig og verndi en ég orð ekki skil ég sest aftur niður en þá ég heyri ég geymi þig og verndi en ég orð ekki skil. ] [ Blómin blómstra Alltaf hér fyrir utann Húsið hjá mér Það vill aldrei Hverfa úr augum mér 11 ára ] [ Að yrkja ljóð Er skemmtilegt Ei get ég sagt Orð sem ég á mér ein, hver stafur hvert orð hver setning er þýðing fyrir mig. ] [ Fagur ert þú Í augum mér , Hverfa skalt þú ekki Þótt þú ferð frá mér, Eða ég frá þér , Ef svo er Vertu alltaf í hjarta mér. ] [ að sakna er orð sem ég skil að elska er orð sem ég skil en að kveðja er orð sem enginn skilur en til þess að aldrei að kinnast því skaltu aldrei kveðja heldur alltaf heilsa. ] [ bestu vinir þrjú við vorum Hjörtur Þórhallur og Þurí tvö við nú erum enn í hjarta okkar hinn þriðji býr ávalt í hjarta okka og eilíft mun gera minn ástkæri vinur en í raun bróðir við þekktumst vel og lengi þótt þú sért þú farin frá okkur ei munum við aldrei gleyma þér prakkara strik við gerðum og þeim munum við aldrei gleyma því þú ert okkar vinur og ávalt mun vera. ] [ Fagut er kvöldið Þegar sólin sest Fagur er blái sjórin Að kveldi Fiskarnir segja góða nótt Við þennan góða dag Og syngja sitt kveldarlag. ] [ Fjöllin er það sem Gerir náttúruna fallega, náttúran er það sem skapar líf á fjöllum er snjóhvítur snjór snjórin gera alfuru jól, snjórin ert það sem gerir veturin að alfuru vetur snjórin er það sem gleðjir krakka og tilfinningar í fólki, snjórin kemur og fer alltaf aftur og aftur.fjöllin geta verið mjög misjöfn 11 ara ] [ Timburmenn berja trommur stórar æra og velgjast í stórsjó ég heyri sálu mína hrópa en óveðrið gleypir orðin og allt kemur öfugt upp. Ég heyri í trommum timburmanna taktfast berja bomm bomm bomm ég heyri þá ærast og kveljast og hugurinn neitar að aðhafast neitar að fara á stjá þú getur sjálfri þér um kennt og allt kemur öfugt upp. Ég finn trumbusláttinn hjartað hamast í takt bomm bomm bomm ég finn hvernig eyrun lamast líkaminn þurrausinn, orkusnauður og allt kemur öfugt upp. ] [ Sit hér með harm í huga, Lífsins leið, mér er týnd. Læt mér það einatt duga, Er minningar mynd er sýnd. Móðir mín, þú sem fæddir mig, Og vinur varst mér góður. Man ég það er ræddum við, Um ást og traust frá móður. Nú vegur okkar skilinn er, Árin farin að sölna. Í sálu standa blómin ber, Og blöðin sem farin eru að fölna. Í hjarta mínu er mikið sár, Sem erfitt er að græða. Um vanga renna ennþá tár, Úr sári er enn að blæða. Vona að þú eignist hugans ró, Og allt þér í haginn gangi. Ég yrki um samband það sem dó, Og vin á víðavangi. ] [ Ekki er að finna hríðarbyl, Eða vetrarveður versta. Nú er bróðir í sumaryl, Kveðju fær hann besta. Þótt þú ferðist um haf og lönd, Og kannski út í geym. Tökum á móti með trygga hönd, Verið velkomin heim! ] [ Ef bakkus verður þinn bróðir, Tapast kærleikur sá. Læknarnir verða óðir, Og ólmir vilja þig fá. Klæddur í klæðin grænu, Geng ég um dag og nótt. Útskrifast með fulla rænu, Kröftugan og aukin þrótt. ] [ Léðar mér eru til ljóðasmíða valtar og stopular stundir. Rykfallin harpa, ryðgaðir strengir nú verða leiknir lítt. Undrastu ekki, að mér verða stuttorð ljóð og stirfin. Hljóma þó innst í hugardjúpi fegri lög og lengri. ] [ Kæri Hnýsinn minn, til mín miðinn spurning benti: hvort að bréfið það til þín þyrði að sjá á prenti. Ekki þarf í það að sjá -þér ég aftur gegni - ég er bóndi, allt mitt á undir sól og regni. Þó að einhver þykkist mér, það er smátt að tapi. Veðuráttin aldrei fer eftir manna skapi. Mér var heldur aldrei um að eiga nokkru sinni málsverð undir embættum eða lýðhyllinni. Bóndamanni er bótin sú við brestum skrauts og náða: fleðuskapinn heimahjú hann þarf síst að ráða. Eins er hitt: hvort ókvíðinn ég sé við þá prentun, sem þó skorti skilyrðin, skólaganginn - menntun. Örðug verður úrlausn hér, illa stend að vígi. Hálfsannleikur oftast er óhrekjandi lygi. Það er satt, að menntun mér mislögð víst er fengin. Ef við hámark hana ber, hún er næstum engin. En ef þú ert aðgætinn - á þó minna beri - sérðu víðar, vinur minn, vondan brest í keri. Hámenntaða virðum vér vora lærdómshróka, sem eru andleg ígulker ótal skólabóka. - Þitt er menntað afl ög önd, eigirðu fram að bjóða: hvassan skilning, haga hönd, hjartað sanna og góða. Frá því marki manninn þann ég menntaðastan dæmdi: flest og best sem var og vann, það vönduðum manni sæmdi. En í skólum úti um lönd er sú menntun boðin: fátt er skeytt um hjarta og hönd, hausinn út er troðinn. Jafnvel þessi stefna sterk stundum heppnast illa. Það kvað undur örðugt verk ýmsra koll að fylla. Hún er í molum menntun enn - um mína ei ég senni - hitt er fjandi, að færir menn flaska líka á henni. Ég gat hrifsað henni af hratið, sem hún vék mér, meðan lúinn makrátt svaf, meðan kátur lék sér. ] [ Þó þú langförull legðir sérhvert land undir fót, bera hugur og hjarta samt þíns heimalands mót, frænka eldfjalls og íshafs! sifji árfoss og hvers! dóttir langholts og lyngmós! sonur landvers og skers! Yfir heim eða himin hvort sem hugar þín önd, skreyta fossar og fjallshlíð öll þín framtíðar lönd! Fjarst í eilífðar útsæ vakir eylendan þín: nóttlaus voraldar veröld, þar sem víðsýnið skín. Það er óskaland íslenskt, sem að yfir þú býr, aðeins blómgróin björgin, sérhver baldjökull hlýr, frænka eldfjalls og íshafs! sifji árfoss og hvers! dóttir langholts og lyngmós! sonur landvers og skers! ] [ 1. Vestur fór ég of ver, en ég Viðris ber munstrandar mar, svo er mitt of far; dró ég eik á flot við ísa brot, Hlóð ég mærðar hlut míns knarrar skut. 2. Buðumk hilmir löð, þar á ég hróðrar kvöð, ber ég Óðins mjöð á Engla bjöð; lofað vísa vann, víst mæri ég þann; hljóðs biðjum hann, því at hróðr of fann. 3. Hygg, vísi, að vel sómir það, hve ég þylja fet, ef ég þögn of get; flestr maðr of frá, hvat fylkir vá, en Viðrir sá, hvar valr of lá. 4. Óx hjörva glöm við hlífar þröm, gunnr óx of gram, gramr sótti fram. Þar heyrðist þá, þaut mækis á, málmhríðar spá; sú var mest of lá. 5. Varat villr staðar vefr darraðar fyr grams glöðum geirvangs röðum. Þá er í blóði í brimils móði völlr of þrumdi und véum glumdi. 6. Hné fólk á fit við fleina hnit. Orðstír of gat Eiríkr of þat. 7. Fremr mun ég segja ef firar þegja. Frágum fleira til frama þeira. Æstust undir við Jöfurs fundi. Brustu brandar við blárrar randar. 8. Hlam heimsöðul við hjálmröðul. Beit bengrefill, það var blóðrefill. Frá ég að felli fyr fetilsvelli Óðins eiki í járnleiki. 9. Þar var eggja at og odda gnat. Orðstír of gat Eiríkr of þat. 10. Rauð hilmir hjör. Þar var hrafna gjör. Fleinn sótti fjör. Flugu dreyrug spjör. Ól flagðs gota fárbjóðr Skota. Trað nift Nara náttverð ara. 11. Flugu hjaldrs tranar á hræs lanar. Vorut blóðs vanar benmás granar. Sleit und freki en oddbreki gnúði hrafni á höfuðstafni. 12. Kom gríðar læ á Gjálpar skæ. Bauð úlfum hræ Eiríkr of sæ. 13. Lætr snót saka sverð-Frey vaka en skers Haka skíðgarð braka. Brustu broddar en bitu oddar. Báru hörvar af bogum örvar. 14. Beit fleinn floginn. Þá var friðr loginn. Var álmr dreginn. Því varð úlfr feginn. Stóðst fólkhagi við fjörlagi. Gall ýbogi að eggtogi. 15. Jöfur sveigði ý. Flugu unda bý. Bauð úlfum hræ Eiríkr of sæ. 16. Enn mun ég vilja fyr verum skilja skapleik skata. Skal mærð hvata. Verpr ár bröndum en jöfur löndum heldr hornklofa. Hann er næst lofa. 17. Brýtr bógvita bjóðr hrammþvita. Muna hodd-dofa hringbrjótr lofa. Mjög er honum föl haukstrandar möl. Glaðar flotna fjöl við Fróða mjöl. 18. Verpr broddfleti af baugseti hjörleiks hvati. Hann er baugskati. Þróast hér sem hvar, hugað mæli ég þar, frétt er austr um mar, Eiríks of far. 19. Jöfur hyggi at hve ég yrkja fat. Gott þykjumk þat er ég þögn of gat. Hrærði ég munni af munar grunni Óðins ægi of jöru fægi. 20. Bar ég Þengils lof á þagnar rof. Kann ég mála mjöt um manna sjöt. Úr hlátra ham hróðr ber ég fyr gram. Svo fór það fram að flestr of nam. ] [ 1. Mjög erumk tregt tungu að hræra eða loftvægi ljóðpundara. Era nú vænlegt of Viðris þýfi né hógdrægt úr hugar fylgsni. 2. Era auðþeystr, því að ekki veldr höfuglegr, úr hyggju stað fagnafundr Friggjar niðja, ár borinn úr Jötunheimum, 3. lastalaus er lifnaði á Nökkvers nökkva bragi. Jötuns háls undir þjóta Náins niðr fyr naustdurum. 4. Því að ætt mín á enda stendr, sem hræbarnar hlinar marka. Era karskr maðr sá er köggla ber frænda hrörs af fletjum niðr. 5. Þó mun eg mitt og móður hrör föður fall fyrst of telja. Það ber eg út úr orðhofi mærðar timbr máli laufgað. 6. Grimmt varum hlið það er hrönn of braut föður míns á frændgarði. Veit eg ófullt og opið standa sonar skarð er mér sjár of vann. 7. Mjög hefr Rán ryskt um mig. Er eg ofsnauðr að ástvinum. Sleit mar bönd minnar ættar, snaran þátt af sjálfum mér. 8. Veist ef þá sök sverði of rækag var ölsmiðr allra tíma. Hroða vogs bræðr, ef vega mættag, færi eg andvígr og Ægis mani. 9. En eg ekki eiga þóttist sakar afl við sonar bana því að alþjóð fyr augum verðr gamals þegns gengileysi. 10. Mig hefr mar miklu ræntan, grimmt er fall frænda að telja, síðan er minn á munvega ættar skjöldr aflífi hvarf. 11. Veit eg það sjálfr að í syni mínum vara ills þegns efni vaxið ef sá randviðr röskvast næði uns her-Gauts hendr of tæki. 12. Æ lét flest það er faðir mælti þótt öll þjóð annað segði, mér upp hélt of verbergi og mitt afl mest of studdi. 13. Oft kemr mér mána bjarnar í byrvind bræðraleysi. Hyggjumk um er hildr þróast, nýsumk hins og hygg að því 14. hver mér hugaðr á hlið standi annar þegn við óðræði. Þarf eg hans oft of hergjörum. Verð eg varfleygr er vinir þverra. 15. Mjög er torfyndr sá er trúa knegum of alþjóð Elgjar gálga því að niflgóðr niðja steypir bróður hrör við baugum selr. 16. Finn eg það oft, er fjár beiðr.... ......... 17. Það er og mælt að engi geti sonar iðgjöld nema sjálfr ali enn þann nið er öðrum sé borinn maðr í bróður stað. 18. Erumka þekkt þjóða sinni þótt sérhver sátt of haldi. Bur er Bileygs í bæ kominn, kvonar sonr, kynnis leita. 19. En mér fens í föstum þokk hrosta hilmir á hendr stendr. Máka eg upp jörðu grímu, rínis reið, réttri halda 20. síð er son minn sóttar brími heiftuglegr úr heimi nam, þann er eg veit að varnaði vamma var við vámæli. 21. Það man eg enn er upp of hóf í goðheim Gauta spjalli ættar ask þann er óx af mér og kynvið kvonar minnar. 22. Átti eg gott við geira drottin. gerðumk tryggr að trúa honum áðr vinan vagna rúni, sigrhöfundr, of sleit við mig. 23. Blætka því bróður Vílis, goðjaðar, að gjarn sé eg. Þó hefr Míms vinr mér of fengnar bölva bætr ef hið betra tel eg. 24. Gafumk íþrótt úlfs of bági vígi vanr vammi firrða og það geð er eg gerði mér vísa fjendr af vélöndum. 25. Nú er mér torvelt. Tveggja bága njörva nift á nesi stendr. Skal eg þó glaðr með góðan vilja og óhryggr heljar bíða. ] [ Lausa mjöll á skógi skefur, skyggnist tunglið yfir hlíð; eru á ferli úlfur og refur, örn í furu toppi sefur; nístir kuldi um næturtíð. Fer í gegnum skóg á skíðum sköruglegur halur einn, skarlats kyrtli sveiptur síðum, sára gyrður þorni fríðum; geislinn hans er gambanteinn. Eftir honum úlfar þjóta ilbleikir með strengdan kvið; gríðar stóðið gráa og fljóta greitt má taka og hart til fóta, ef að hafa á það við. Hefur hann á mörkum marga munntama þeim gefið bráð; sjálfs hans ævi er álík varga, einn sér verður hann að bjarga, hefur safnað ei né sáð. Með ráni og vígum rauna hnútinn reið hann sér og auðnu tjón; á holtum og á heiðum úti hýsa hann eikar stofn og skúti; hvergi er honum frítt um frón. Ýmsar sögur annarlegar Arnljóts fara lífs um skeið; en - fátækum hann þyrmir þegar, og þeim, sem fara villir vegar, vísar hann á rétta leið. ] [ Víða eru vörður reistar á vegum sögu þessa lands, úr fornöldinni fljúga neistar framtaksins og hraustleikans. Rétt er vörður við að hressa, veginn svo að rati þjóð, og bindini í að binda þessa björtu neista úr fornri glóð, svipi að vekja upp aftur alda, andans rekja spor á sjót, og fyrir skyldum skuggsjá halda, ef skyldu finnast ættarmót, hvort lífs er enn í laukum safinn, laufguð enn hin forna þöll, eða blöðum bóka vafin blóm eru sögu þornuð öll. ] [ Sá er nú meir en trúr og tryggur með trýnið svart og augun blá, fram á sínar lappir liggur líki bóndans hjá. Hvorki vott né þurrt hann þiggur, þungt er í skapi, vot er brá, en fram á sínar lappir liggur líki bóndans hjá. Ef nokkur líkið snertir, styggur stinna sýnir hann jaxla þá, og fram á sínar lappir liggur líki bóndans hjá. Til dauðans er hann dapur og hryggur, dregst ei burt frá köldum ná, og hungurmorða loks hann liggur líki bóndans hjá. ] [ Ég er óveðursbarn, barn hamfara... Nú sit ég og skrifa ljóð, úti geisar stormur, mér líður vel... Elsku móðir mín, þínir björtustu sumardagar. Þínar svörtustu nætur. Stjörnurnar eins og þú hafir hellt niður úr glimmer boxi. Svo fallegt. Þú ert fegurri en allt, er þú kyssir mig blautum kossi hafsins, er þú hvíslar að mér leyndarmálum. Rödd þín, þyturinn í trjánum.. ] [ Hvar ertu? Hvar ertu litli fugl? Fuglinn sem hvíslar leyndarmálum. Þarna er hann, segðu mér sögu, litli fugl. Litli fugl, þú sagðir mér sögu, núna veit ég. Ég vissi margt en núna veit ég þetta, þetta er ljótt. Ég ætla ekki að segja neinum... ] [ Ég horfi á einmana stúlku. Það er ég... Ég skrapp útúr líkama mínum um stund og horfði á sjálfa mig. Hafið hafði vaggað mér til djúps svefns. Ég fylgdi mér eftir er hann bar mig uppá ströndina.. Ég heyri hróp og köll úr fjarlægð. En allt í einu er sem togað væri í naflann á mér. ÉG sameinaðist líkamanum og hjarta mitt tók kipp. \'Eg vakna og hósta upp sjó, ég labbaði upp eftir ströndinni, settist hjá móður minni og sagði \"Mamma, ég drukknaði\" Hún hrópaði og hélt ég væri draugur... ] [ Nóttin er dimm þá sofa öll börn ei þó, draumur er góður og svefn þau þurfa að fá, í draumaheim þau svífa öll og góða nótt. ] [ Við sátum á gangstéttinni horfandi á fólk fara í gegnum líf okkar, við áttum sameiginlegan hlátur og orð. Í boxi í huga mínum geymdi ég leyndarmál okkar, en hvert þú fórst veit ég aldrei.. ] [ Margt er í myrkrinu,nema bílljós og ljósastaurar,byrta húsana og tunglsins eða stjarnana. En myrkrið er ríkjandi ástand , en hitt fallvalt.Svo hafðu nú varan á. ] [ Óska eftir eignum í Hafnarfirði og nágrenni. Er með kaupendur að 2ja, 3ja og 4ra herbergja íbúðum. Og hesthús á heimsenda fyrir þá þrjá sem sitja eftir. ] [ Sú besta gjöf er gefst um heimsins svið er góður maki hvar sem búa þjóðir. En mesta plága, er flestum spillir frið er flá og grimm og kjöftug tengdamóðir. ] [ Lífið er tafl og teningaspil tefla allir þar sér í vil eftir viti og vilja. En oft þeir leika einna verst sem ætla sér að tefla best en skákina ekki skilja. ] [ Þú ert drifkraftur sá er drífur mitt hjarta dróst mig að landi er neyðin var mest. Gafst mér ást svo yndæla og smarta í augum mínum ertu sætust og best. Í tilefni þess og áranna tveggja þakka ég tilveru þína og návist. Blessun fylgi lífi okkar beggja Björt og hlý og laus við angist. ] [ ...myndast úr tveimur frumum fæðist sem agnarsmátt barn vex upp og þroskast smám saman og uppgötva lífsins hjarn... ...klára minn skóla og kröfur eltist við jafnaldra hnátur senn heyrist á heimili mínu lágróma fagur barnsgrátur... ...vinn mér inn virðingu og fé svo nægur sé barnanna auður sest svo í helgasta steininn og enda svo uppi sem dauður... ...frá legi til manns frá manni til Hans... ...amen -pardus- ] [ Það er eins og tíminn vilji ekki með nokkru móti staldra við og bíða. Ég hef þó beðið hann og sagt að hann fari of hratt -fyrir mig. Hann hlustar ekki, en hamast við að láta sig líða hann myndi kannski hinkra við og bíða -fyrir þig? ] [ Ventetid Hun ligger der i sengen Og venter på sin død. Jeg ved ej hvad hun tænker men tror det er om vejen som gik hun med sin mand. Det skærer i mit hjerte at sjælen snart går bort men hun er jo blevet gammel. Har spillet sine kort. Med høflighedens nejen og videnskabens lænker. Som hendes tid jo var Hun gik igennem livet med flid sin gerning gjorde med børnene som små. Hun interesser havde og tro på livets gaver og den almægtige gud. Jeg tror i nat hun går Og håber så gud venter og ta`r hende i hånd Og viser hende verden som vidunderlig er og lindrer hendes træthed. Det... fortjener hun. ] [ Allt er svo grátt og tómt en skyndilega kemur grænn jeppi og lífgar uppá útsýnið Merkilegt hvað gamall ókunnugur Land Rover getur vakið upp mikið af gömlum góðum minningum Skyndilega er lífið í lit ] [ Hann syndir með augunum gegnum staðið vatnið. Hallar höfðinu og gárar vökvann með hálftómum huganum. Heldur niðri í sér andanum. Hans er enn sárt saknað. ] [ Hittu mig á veginum heim þar sem sólin hnígur blóðug bak við fjöllin þar sem vindurinn blæs fyrsta snjónum yfir gula mold þar sem grátandi máni fellir silfurtár á gljáða steina þar sem stjörnurnar glitra í freðnum pollum tærum. Hittu mig á veginum vinur minn. ] [ Milli dags og nætur í venjulegri draugasögu, drepur dauðinn á dyr. Engir galdrar, enginn flótti. Á nýjum næturstað, staðnar allt. ] [ Um leið og báturinn leggst að sofandi ströndinni sjáum við fyrstu pensildrætti sólarinnar á gáróttum haffletinum. Dökkklæddir fiskimennirnir bera afla sinn í átt til bæjar en einn þeirra verður eftir til að festa bátinn. Svo gengur hann upp götuna með fangið fullt af rifnu þorskaneti. Hann er stærstur þeirra allra, rauðskeggjaður og þrútinn í andliti. Við þekkjum öll þennan mann. Þekkjum afl hans og virðum það og óttumst í senn. Samt getum við ekki annað en hlegið þegar við komum auga á tóbakshornið á götunni, um leið og hann lokar bæjardyrunum. ] [ Við fylgjumst með leikjum sólargeislanna í perlunum á enni mannsins og dansi vöðvanna undir æðaberu hörundi hans þar sem hann bindur baggana upp á klárinn okkar gamla. Börnin ganga lotin heim til bæjar og draga á eftir sér hrífusköftin. Við fylgjum þeim eftir, hlaupum á þúfum og togum öðru hverju í sköftin en börnin eru hætt að líta um öxl. Yngsta stúlkan skilur sína hrífu eftir upp við galta og fær að sitja klárinn heim. Á meðan bóndinn og börnin horfa á ljósan reykinn úr eldhússtrompinum bera við svartan kambinn handan lækjar stöldrum við ögn við og virðum brosandi fyrir okkur þennan nýfengna dýrgrip. ] [ Svo margslungin manneskja mikil og góð. Þú gefur og gefur ötul og fróð, lífinu lifir og slakar ei á. Frið hjartað þráir æji-hlustaðu á! ] [ Ryðst þú áfram full af krafti knúin orku ofsa hraði hleypur hraðar hrædd að hrasa heldur kannski gæti gefið gull og steina skilur enginn hvað þú meinar sífellt særð og rifin niður brotnar meira enginn friður þráir flugið hærra ,hærra hrapar aftur aldrei meira manstu alltaf þarf að gleyma gat mig ekki verið að dreyma? lifa í dag duga daginn aflið þrotið þorsti þreyta þrífa í mig verð að stoppa setjast niður hugsa hraðar aldrei friður ÞORIR ENGINN AÐ SETJAST HJÁ MÉR! halda í mig hugga hjartað hrifsa í mig haltu fastar ekki sleppa ég þarfnast hjálpar vertu hjá mér lífið læknar leggstu niður hvíldu augun slitin sálin slakaðu á þá kemur sólin í bjartari dal þar líf þitt bíður rétt handan við hornið bara situr og bíður og veit hvernig þér líður þá allt verður betra sem vindur þýður. ] [ Svo örlát og gjöful ein persóna er, svo kær hún er mér oft svo blind og lífið ei sér. Er að bíða -á morgun þá bjarga ég mér! En lífið ei bíður burtu það brunar og eftir hún er en bíddu -á morgun þá bjarga ég mér! Svo slitin og notuð heldur hún áfram því fólk oft heldur-hva hún, Hún heldur áfram! En sál eins og hana höndla skal með silfurhönskum í björtum dal. Því margbrotið hjartað míglekur og sært. Berið virðingu fyrir lífinu því lífið þú velur en ekki lífið þig. Hún í hjarta ykkar dvelur hún gefur en ekki selur. ] [ Ég lofaði sjálfri mér Að hætta að gráta þig Þegar þú breyttist Og lokaðir á mig En ég get ekki annað En fellt beiskjutár Eftir allan þennan tíma Er ég bara of sár Til að geta hætt að gráta Til að vera stór og sterk Því að hjarta mitt er brostið Þú skildir eftir verk Ég veit þó að það lagast Og verkurinn mun dvína Og hatrið og reiðina Ég hætti að sýna Þú átt mig ei lengur Og í rauninni hélstu það bara Því í á mig sjálf Og ég varð að fara Ég vildi óska að þú skildir En það var bara ekki það sem þú vildir Því þú vildir bara stjórna ég átti öllu að fórna Og til að vera með þér Fórnaði ég meiru, en bara sjálfri mér En það gengur ekki lengur Því annar er við stjórn Og að missa hann Er of alltof mikil fórn Hann heitir Guð Og ræður öllu hér Og öllu ég myndi fórna, Fyrir Hann, líka þér. ] [ Finnist gullið fjalli í fæst það út með viti möglar eigi maður því mundin vön er striti Leiðir yfir lög og láð leikandi hann finnur geimi í er einnig gáð glæsta sigra vinnur Raunin önnur reynist er rök um sköpun gefast fundvísin á brott senn fer frekar vill hann efast ] [ Reikistjörnurnar 9 snúast kringum sólu. Stjörnufræðingar skoða þær allan daginn. Út og inn upp og niður hingað og þangað og út um allt. Krakkar á leið í skólann. Fólk á leið í vinnu. Allir að flýta sér allan ársins hring. ] [ Ég hugðist fögrum fiski ná og flýtti mér niður að á en í þessum asa ég byrja að hrasa unz á árbotni niðri ég lá. Flýtirinn gerði að fallið var hart og fyrir mér sýndist allt svart en það sá ég þó að fiskurinn hló, þegar hylurinn tæmdist í fart. ] [ Þótt sólin sé horfin í haf dregur hún ekki gullrauðan feld sinn í djúpið með sér, heldur breiðir hann yfir himinhvolfið svo við fáum notið ljóssins svolítið lengur. Frá bænum sjáum við börnin ganga og vitum að nú ætla þau til berja eftir strangan sumardag. Við fylgjum þeim á hlaupum, stökkvum yfir læki og klifrum upp á steina. Við nælum okkur í bláber úr ílátum barnanna en þau veita því sjaldnast athygli þótt eitthvað hverfi. En við vitum af skýjunum bak við fjöllin í austri. Dökkum óveðursskýjum sem læðast mjúkum þófum eftir himinhvolfinu uns þau steypa sér skyndilega yfir kambinn og æða niður hlíðina með leiftrandi tennur í kolmyrku gininu. Við verðum að fylgja börnunum bóndans, því að í kvöldstormunum erum það aðeins við sem þekkjum leiðina heim. ] [ Á morgnana ég vakna og man strax eftir þér Þú einasta eina sem ég hef. Þú dregur mig að þér sem eldur að viði Seiðmögnuð þrá. má ekki gefa mér leyfi til gamans -í vinnuna verð - Svo augunum loka , geng hljótt framhjá þér. Í augnabliks óstjórn , Opna þau aðeins - sé strax eftir því - Þarna ertu , svo falleg og fín Ég skelf og titra af löngun til þín. Að snerta og gæla -við þig - Kanna allt það þú getur gefið finna hitann, frá þér ,verma mig. Mitt hjarta er bundið við þig Mín hugsun er bara ?Við? Ég er vitskert af ást til þín Og nýt þín þegar eg get. Ég hef það ei gott þá daga sem þú ofhlaðin ert - biluð og brunnin - og getur ei verið saman með mér. Elsku Talvan mín. ] [ tár mín glitra í birtu kertaljósanna haustið í sál minni endurspeglast í óteljandi litbrigðum laufblaðanna sem falla líkt og logndrífa fyrir utan gluggann í vetur þegar trén standa nakin í storminum og lífið verður aðeins í svarthvítu blika ískristallar á vanga mínum ] [ Snjórinn beinir sólargeislunum í augu mér blinduð skynja ég fegurðina birtuna friðinn úr augum mínum skín sól. ] [ hálffullt tungl á heimleið í þungum þönkum hversu langt er til fjarlægra landa? ] [ Ég er eins og spegilmynd af mér því í speglinum hafa hlutirnir aðeins framhlið. ] [ Eins og vin í eyðimörk bíð ég þess að einhver nemi staðar og svali þorsta sínum. Eins og vin í eyðimörk verð ég eftir þegar þeir kveðja. Eins og vin í eyðimörk er ég ein í auðninni. ] [ Þetta var skrýtið kvöld. Eins og kanna af brennheitu kaffi, helltist angistin yfir mig. Og kvölin að vita að þú ert farinn, var dýpri hafinu og hærri hinum hæsta tindi, og einfaldlega meiri en orð fá lýst. Minningar gærdagsins streyma, eins og fljót sem flæðir yfir bakka sína. Og ásamt tárum mínum renna þær niður holdvotar kinnar mínar. En þegar einar dyr lokast, þá opnast aðrar um leið. En það versta er að dyrnar hjá þér, loka dyrunum að sjálfri mér. ?Þeim var ég verst er ég unni mest?, var eitt sinn ritað í bók og ég vona að þetta sé staðreyndin hjá þér því ef svo er ekki, þá unnirðu mér, aldrei. ] [ Er allt virtist tregablandið og lífið þungt sem blý komst þú sem sólskin í þokubakka og lyftir hulunni af lífi okkar Þú, björt og brosmild kurrandi hlátur og blíð orð hugulsemi og umhyggja allt þetta pakkað inn í fallegar umbúðir Draugasagan nú spennubók með óvæntum endalokum hvers dags Öll þeytumst við upp að morgni vitandi að dagurinn verði ljúfur Er þú hvarfst skyndilega dimmdi yfir augnablik en svo birtist leiðarljós við fætur okkar er minningarnar um þig brostu við okkur Leiðir okkar lágu saman þá og gera það aftur í Nangijala ] [ ég veit ekki hvernig ég á að komast nær þér ég veit ekki hvort ég má hvort ég á ég veit mig langar Það er svo fallegt að horfa á þig með augun opin með augun lokuð Mig langar svo í þig. ] [ þú gefa getur aðeins það þú átt -gáðu betur- hvort þú hefur mátt til að ríma gæðakvæði fyrir bæði þig -og mig- einstök ljóð sem eru eins og -perlur- geta aðeins bestu skáldin gert -Bara- gera það þú getur er mest um vert. ] [ Oh my love! What am I to do If you don't love me The way I love you? I can't imagine Days without needing your touch How come I feel this way Why do I miss you so much? I'm dying to tell you all this And soon I will burst But incase I don't Just know that you were my first 5.júlí, 2002 ] [ Við töluðum saman með augunum hljóðunum sem andvörpuðu þungum þögnum brutu öll bönd leystu heiminn úr læðingi ný endimörk skilningsvitanna sem breyttu heiminum sköpuðu hann upp á nýtt meðan heimurinn hringsnérist stöðvaðist tíminn og eilíft andartak hélt okkur í greipum sínum upphaf af einhverju ótrúlegu sem að eilífu stóð en aldrei varð því orðin vöntuðu ] [ Ég finn það svo vel, á svona dögum ég sakna þín mest, að þú gleðjist ekki hér með mér það finnst mér allra verst. En ég veit, englar himinsins fagna í dag og skila því kannski til þín að hér stendur með stúdentshúfu litla systir þín Og þó hjartað sakni þín marga daga þá er af sem áður var. því nú fæ ég glaðst að vita\'af þér hjá Guði og veit, við hittumst að lokum þar. ] [ Það leið eitt sinn ekki sá dagur, að ég hugsaði ekki til þín, velti fyrir mér hvar þú værir og hvort þú skilaðir þér aftur til mín. Ég veit, ég get aldrei vitað fyrir víst hvort þú ert lífs eða liðinn og það erfiðasta var alltaf tvennt, að vita ekkert og biðin. Ég bið að þú megir lífi halda, meðan ég leyfi dögunum að líða. og þó elskan sé enn til staðar þá er þessi stelpa hætt að bíða, eftir þér.... ] [ Eftir að hafa dreymt um ókomna daga í margar nætur þá vaknaði ég í sífellur í eins konar desja vú Í vöku minni hugleiddi ég hvort ég væri kannski betra eintak en flestir aðrir því það gat varla verið að fólk væri yfir höfuð að lifa drauma sína í svo miklum mæli og ég. Á kvöldin gleymdi ég þessu oft því þá var svo oft eitthvað í sjónvarpinu sem fékk mig til þess að gleyma snilligáfum mínum. Þegar ég svo lá á banabeði mínu, umkringdur barnabörnum og barnabarnabörnum þá rann upp fyrir mér ljós. Mér varð litið útum glugga á spítalanum, sem hýsti mig, og sá þá sólina koma upp inn á milli tveggja öskutunna í bakportinu. Líf mitt var ekki lengur draumur um mig og mína daga. Það var gjöf sem ég fékk og ég næstum gleymdi að segja takk. Síðan sagði ég takk og dó. Jarðarförin var tekin útaf reikning og öllum skildubundnum tárum var hellt yfir kistu mína. Takkið mitt fauk þó út í veður og vind því ég vissi ekki að takkið er ekki hugmynd eða gjöf. Takkið mitt var sá lífsins kraftur sem ég gleymdi að skilja eftir í hjörtum þeirra sem vantaði takk. Takk fyrir mig sagði einhver og fór og sigraði heiminn. ] [ Jeg står her i et værelse jeg ikke kender. De siger at jeg har Været her længe. Men det kan jeg ikke huske. Og tror heller ikke -på det.- Det må da være løgn. Jeg ser døre og åbner dem, kigger forsigtigt , og ser en lang gang. Hvad er det for noget? Jeg har aldrig set den før. -Jeg vil hjem. - Jeg sniger mig efter gangen og prøver at finde vej ud af det her forfærdelige hus Jeg føler som jeg er fanget. Nu kommer en kvinde Hun har en hvid kirtel på. Hvad laver hun her? Hvor skal du hen? Hun kigger så mærkeligt - på mig - Jeg skal jo hjem, siger jeg , og er pludselig blevet vred Hvorfor jeg er vred , ved jeg ikke. Ja, men du er jo hjemme, siger hun smilende Du har boet her længe. Så ta`r hun om min arm og vi vender om. Hun går med mig ind i det værelse der som jeg ikke kender plaserer mig i en stol og siger jeg skal sidde der til det kommer middagmad. Hun lukker dørene efter sig Og jeg? Jeg græder og tårene triller, hjertet banker , hjernen forstår ej noget. JEG forstår ikke noget. Jeg vil så gerne hjem? ] [ Slengja saman gullna þræði ljóðs og kvæða háttur er. Einhverskonar sálarfræði Kveðskapurinn ber með sér. Væri ég ekki í stand til þess Mér þætti eitthvað vanta. Held ég yrði ekki hress og myndi reyndar panta ferð til Timbúktú. Sá staður út í veröld er. Þangað enginn maður fer Nema brýna leið þar eigi. Hamingjan mér hliðholl er Því notað get ég kvöldin, párað orð á pappírsblað með samviskuna góða og hugaraflsins heim. Skáldakraftur sterkur er það ætíð tekur völdin á óskráð blöðin skálda um allan jarðar geim. Sem betur fer. Ég syng og fagna. Því fangað er vortími ljóða ] [ Ég er alki og ég drekk bjór ég hef mikið af kalki enda er ég orðin nógu stór til þess að drekka einn stóran bjór. ] [ Mig langar til að muna daginn langa mamma dó,og draumar mínir með. Heldur áfram hjartans dimma ganga heltekin af sorg get ekkert séð. Hjartasárin, tóku lífsins löngun hendi himnaföður leiddi heim. Alla leið, að sálarlífsins göngum ástvinirnir biðu eftir þeim. Ég sakna hennar elsku mömmu minnar elsku hennar, aldrei fann né sá. Tárin seytla niður mínar kinnar töfralausn ég þyrfti helst að fá. Hvert sem lítur harmi þrungið hjarta heilsteypt sálin líður burt um nótt. Allir þrá að eiga framtíð bjarta ástarinnar vegi finna fljótt. ] [ Ég dáði þig fyrst er ég sá þig, þú stóðst við ljósastaurinn og horfðir á ljósu lokkana á mér. Þú stóðst þarna alla tíð. En svo fórstu. Ég leitaði að þér, en þú varst hvergi. Hugur minn fann það á sér að þú varst horfinn. Þú varst horfin. Ég grét, ég fann þig aldrei ég grét af sorg. ] [ If I could be the stars I would shine for you, So brightly that your walk Thru life could be easyer. If I could be the sun I would shine on you Warm up your heart, And melt the ice away. If I could be the rain I would sprinkle my drops On your tired soul So it could bloom again. If I could be mother earth I would take you in my arms Embrace your being, So you felt secure again. 2003-05-10 ] [ Ég þér ljóð sendi af gerð minni hendi síðan gef ég þér blóm í vendi þetta var það sem amma mín kendi ] [ Ég læt þitt ljós skýna bjart og skjært inn í veru mína ljúft og vært ] [ Máninn merlar vatni á myndar silki ljóðabrá. Lífið leikur ofaná ljóssins álfar horfa á. ] [ Sólin kyssir kaldan vanga sunnanblærinn strýkur kinn. Kraftur ljóssins ,blómin anga komdu kæri vinur minn. ] [ Myrkrið skellur á í huga hvers manns er það eitt að fá sem aldrei hann hafði þá að kynnast þér Lítil stelpuhnoðri þú varst klár ég sá á augum þínum hvað þú varst sár þegar þú felldir þín þungu tár og munnrómurinn orðin of hár Ég gekk til þín fölur og móður hafði í hugleiðingu að vera þér góður því mig svimaði og sveimaði um rætur róður að kynnast þér ] [ Við erum lífið ljúfa vina mín vinátta sem liggur yfir höf. Alltaf áttu ljóð sem eru fín Jóna mín þetta er sko gjöf. ] [ Ég lá þögul og lét mig dreyma um það sem ég hafði gert Ég hafði aldrei orku í að geyma hugsanir því ég stefndi ei hvert Ég var vonlaus og ég gat ekki neitt mér fannst ég vera svekktur því sem ég gat breytt voru orðin sem mig vantaði, ég var blekktur Það var sárt að finna til mér fannst sem ég væri sjálfur kærður að vita að um það bil að ég væri orðinn svona særður Mér fannst þetta ekki ganga lengur ég varð að mig treysta og sætta á því sem gerist og gengur ég vað að hætta ] [ Vetur, sumar, vor og haust alltaf af því nemur svona væri það strit endalaust ef aldrei af því kemur ] [ Stundum rennur á mig þoka Trygg af því ei skal loka Játa á sig, því ég vona Áður enn þetta verður svona Njóta skaltu ástina við mig Innst inni ég elska þig ] [ Ég er lítill strákur blindur í göngutúra ég fer upp í hæstu fjalla, himinns tindur ég ávalt skemmti mér Ég finn fyrir hafsins myldu golu ég er ekki lengur einn ei ég röllti lengur, er ég hef stigið í holu ég verð því miður seinn Nú hef ég fundið vindsins suðs hér er gleitt og bratt mér langar að fara upp til Guðs ég verð því að flýta mér hratt ] [ Árni Jonsen syngja má slagara úr eyjum. Brekkusöngnum stýrir frá í fanginu á fögrum meyjum. Árni syngur lögin sín með fólki og fögrum meyjum. með tjarnardúk er lóðin fín á Óðalssetri í eyjum. Nú er Árni horfinn frá þingi og öðrum vertum. Sakna hans margir svei mér þá og kveðja með kökum og tertum. En hvað mun Árni gera í því er hverfur hann frá eyjum. Þá vantar mann dyrnar í handa súlustaðameyjum. Hvort Árni dansi óla-á-skans er ekki gott að halda. heldur vel ég súludans og kveðju frá Ístak kalda. Ef Árni segði af sér nú frá pólitík hann færi. Í burtu færi með börn og bú og dúkara í læri. Árni er ekkert annað en saklaust grey sem kölski hefur notað. Kölski notaði strippi-mey og í buddu hafði potað. Kölski vildi Árna ná og kenna ljóta siði. Kallaðu sjálfan Drottinn á og farðu burt í friði. Drottinn kenndi Árna-dreng að tala blítt til manna. En Kölski hafði þar góðan feng og Drottins brögð lét banna. Kölski var óhress með Árna-dreng og sagði honum að stela. Drengur náði í \"heitan\" feng sem síðan þurfti að fela. En Drottinn sagði; segðu satt þú mátt ekki stela. Árni datt í svo kylli flatt með flösku af Vodka-pela. Árni sér eftir öllu nú og biður Drottinn um friðinn. Vertu góður og segðu; Jú því lengi verður biðin. Árni sagði Drottni frá um dúkinn og óðalssteina. Kölski horfði vondur á með gaffal og glóðarteina. ] [ Á einum góðum sumardegi er við flugum upp í himinn blá að fórna þessum litla vegi sem um okkur verður þá Við fórum til Vestmannaeyja hvað við gerðum af okkur þar um það er ekkert að segja þið fáið ekkert svar Nú rennur upp sú stóra stund við erum á leiðinni heim í flugvélinni við tókum okkur smá blund til að vera einn af þeim Í loftinu var mikil neyð við stefndum út í haf við komumst ekki alla leið við héldum að við mundum ekki lifa það af Í blóðinu var ennþá búsið í súrefniskúta við lifðum í við komumst þó á sjúkrahúsið en þangað ei ég aftur sný Líkami okkar er ekki í lagi en við munum hátt upp tifa við viljum ekki endurtöku af þessu tagi við viljum bara fá að lifa ] [ Í rugluðum heimi ég í huga mér það geimi að syrgja mína sál og brenna það eins og stórt bál ég hugsaði bara um afleyðingar mínar en ekki hvað fólki varðaði um sínar ég rústaði algjörlega mínu lífi en nú ég hátt upp mig hífi að rífa mig up úr þessu og ég stefni á góða messu svo líf mitt fari ekki aftur í bolvaða klessu ] [ Ég ligg upp í rúmi og hugsa til þín flottu augun dökku augabrúnirnar krúttlegu kinnarnar þæginlegu tunguna hitann frá líkamanum og ekki má gleyma því besta kúlulegu kinnarnar og langa nefið Þú veist það sem alla dreymir um. Leyfðu mér að snerta ] [ When I was in hi my whish was that I can fly like a bird up to the sky there I can say good by whit my life ] [ Við misstum öll einn góðan vin við gátum ekki kvatt hann og syrgjum öll við hin um þennan yndislega mann Hann vildi láta taka mark af sér það var eins og hann stefndi í liði við vildum bara að hann yrði jarðaður hér og hvílist einn í friði Þegar við erum öll komin saman þá skulum við ávallt á hann minna og höfum lífið okkar fjörugt og gaman því þetta er sorgarsagan um hann Binna. ] [ Ég heyri hjartað mitt tifa mig langar ekki til að lifa allt í bull og þvælu byrjuð að poppa og drekka eigin ælu sker mig svo á púls og dey í hevý sælu ] [ Ástin getur verið blind allt verður eins og í svartri mynd í mikillri þoku, rigningu og vind getur það verið hin versta synd. Ef um tvo stráka er að ræða og hvorugt þeirra að hræða verður maður að tæma hugsunina og bræða til að finna þráðinn og hann þræða. Maður getur hvorugt um valið engum af þeim kvalið verður að þrasa við þá um malið svo ekkert af því verður falið. ] [ Þið hlaupið um svæði þið sitið þið vitið þið eruð þarna tvö bæði Þið gerið margt gaman þið helgist þið elskist þið verðið ætíð saman ] [ sólin er Gul eldurinn er Rauður grasið er Grænt himininn er Blár myrkrið er Svart snjórinn er Hvítur Allt fyrir sérhvers manns þetta eru litir regnbogans ] [ Ég hugsa um þig þegar ég sef Ég hugsa um þig þegar ég þig hef. Ég hugsa um þig þegar ég er sæt Ég hugsa um þig þegar ég græt. Ég hugsa um þig þegar ég vakna Ég hugsa um þig þegar ég þín sakna. Ég hugsa um þig þegar ég vil mig filla Ég hugsa um þig þegar mér líður illa. ] [ Ég er lítill ljótur fugl ég hef hvorki móður né föður í stað allt sem ég vil eiga er mesta rugl svo ég spái ekki mikið í það Ég á einn góðan vin sem ég treysti á hann er stór og mikill björn hann segir alltaf rétt frá meðan við leikum okkur í lítillri tjörn Hann er mesta gæða skinn við höfum þekkst í mörg góð ár ég er hans og hann er minn við stöndum saman því hann er klár Einn daginn gekk illa á ég varð fyrir skoti það var það sem gerðist þá ég lá þarna í roti ] [ Skipið siglir, sjómenn syngja allt er sett í fullan gír ekki er farið út með útlendinga á vit ævintýr Konur heima bíða elda, sauma og baka tíminn lengi er að líða þegar hver um sig hugsar um sinn maka Slæmt veður skellur á allir reyna sitt besta reyna þeir að lifa lífinu þá áður en það breytist í hið versta Nokkrir komast út í báta allir með vonina í höndum konur þeirra allar gráta og bíða þar heim að ströndum Sjórinn grípur alla með sér allir á bátnum drukkna þar konur líta, gá þar og hér en því miður fá þær ekkert svar ] [ Fræ mold gras blómin í túnum blómin í beðum sólin skín á blómin regnið dempir á blómin blómin vaxa og blómin deyja ] [ Á jólunum er glens og gaman því þá kætast allir saman. Allir taka upp pakka svo það er til einhvers að hlakka. Matur er settur á borð svo upp spretta nokkur orð. Allir hlæja hátt rifrildi ekki tekin í sátt. Engum á að vera um og sel því öllum á að líða vel ] [ Brennandi ást Játa skalt þú að Aldrei þarftu að þjást Reyndu heldur á það Njóta skaltu hitann í vonum Inn skalt þú fá það hjá honum ] [ Ef þú sérð tún, staura og engi og heyrir mikinn hvell ekki hugsa of lengi heldur líttu við á Klukkeufell. ] [ Kettir mjálma hundr gellta fuglar kvaka kindur jarma kýrnar baula hestar hneggja Fólk talar til hans því þetta eru dýr skaparanns. ] [ Norðurljósin lýsa skær upp i himnum eru þær ég vil koma og finna þig passaðu því plássið fyrir mig ] [ Ánetjuð er ég fíkniefnum allt á fleygi ferð hér í kring þetta er ekki úr tölvuvefnum því ég er komin í vítahring ] [ Ég ligg í rúminu afslöppuð og fín en svo allt í einu hrekk ég við það er eins og einhver sé að kalla til mín \"þú skalt fara út um næsta hlið\" Ég skil ekkert í fyrstu svo hugsa ég um málin pæli í hverrjir hinir misstu því brotin er í mér sálin Mér líður ofboðslega illa er byrjuð að drekka, reykja og dópa vil setjast niður og sálina tilla því hátt, hátt vil ég hrópa \"Góði Guð, viltu vernda mig fyrir illum öndum ég vil fara þína leið og rata ég fer í faðmið og veifi út mínum höndum því það eina sem ég vil er að ná bata\" ] [ Rödd flýgur og byrjar við mig tala hún segir mér hvaða sálir séu næstar kennir mér að byggja upp sál mína og þjálfa því mér finnst ég vera að kæfa mig sjálfa. allar dyr harð læstar því sálin mín er löngu lagst í dvala ] [ Eigðu við mig staðinn og stundina hér fylgstu með hvað augað sér kafaðu djúpt inn í mér og sjáðu svo fyrir sjálfum þér ] [ Við hlaupum um nakin finnum okkur gott skjól elskumst þangað til ég er vakin meðan þú klæðir mig í nýjan kjól Ég vil vera kona þín svo við eignumst okkar næði var þetta ást við fyrstu sýn því við elskum hvort annað bæði Mér langar að kynnast þér betur hjartað mitt er þér merkt vita svo hvað þú mig metur því þú ert frábær eins og þú ert ] [ Á björtum degi í desember komst ég að því hver ég er eina hugsunin var víma svo ég þarf að skipuleggja mig á tíma ég vil gera allt sem ég þarf að gera og þungum hugsunum að bera telja i hljóði upp á tíu og byrja að lifa lífinu að nýju... ...edrú ] [ Ég svíf á skelfilegum ótta reyni að forðast allt á mínum flótta. Geri ekkert sem ég má og tapa því öllu sem ég á. Eitthvað hræðilegt var framið því hjartað mitt er kramið. Óskin mín var: \"ekki smokkur\" en ég eyðilagði allt hjá okkur. Það var tvennt sem mig langaði að gera kona þín og mamma vildi ég vera. Misst hef ég þig fyrir fullt og allt ég vildi að ég gæti bætt þér það upp tvöfalt. ] [ Dagar með þér ég aldrei gleymi Aftur vil ég sjá þig í þessum heimi Vinna mig upp á ný Í ævintýri ég aftur vil sný Dagana ég ávallt geymi ] [ Ég skríð inn í fjallið sest á stóran stein reyni að hlusta á kallið en hugsa svo, ég er bara ein. Það er allt æðislegt í þessum heimi nokkrir fuglar hér og þar á sveimi ekkert hljóð heyrist frá náttúrunni en ég lít við og sé þig hér inni. Nóttin er svört ég hef þó eignast vin hjrtað mitt slær ört Ó, ég elska þig kæri Baldvin. ] [ Þarf ég að leita lengi eftir sætum gæja eða á ég að láta hina nægja. Hvað er það sem ég vil og hvað er það sem ég ekki skil. Er ég komin framhjá hinum eina sanna eða þarf ég að fara til baka og málin mín kanna. Hvar er mín ást ekki láta mig þurfa lengi að kljást. Ég vona að ég finni þig og ég vona að þú finnir mig. Ef margir mig neita þá verð ég samt að halda bara áfram að leita. Ég sé þig kannski ekkert á minni ævi og ég finn ekki neitt við mitt hæfi. Allt er bjart og allt er hljótt og ástin mín hún er göldrótt. ] [ Ég vil, aðeins vera til, og dópa eins og ég vil. Ég vil vera í minni vímu, og taka niður þessa frosnu grímu. Ég vil ekki vera neinum sár, því þá falla niður kinnar mínar tár. Ég vil sjá gleði og ást, vil ekki lengur þurfa að þjást. Ég vil vera óttalaus, og reykja minn haus. Óvissuna langar mér að fara í og rata en engann vil ég þó AA-bata. ] [ Sorgmæddir dagar í mínu lífi, Ég sé allt svart Ég sé skuggan sem hleypur á eftir mér Lífið snýst um að rata út en ég virðist ekki ná neinum áttum. Ég er hrædd Ég er hrædd við að kynnast sjálfri mér Ég er ringluð, það er allt að snúast eins og í hringeggju. Ég geng með grímu svo enginn þekki mig. Lífið mitt er eins og versta martröð. En mig langar að þrauka þar til æðri máttur hefur náð tökum á mér og vísar mér leiðina að bata, hamingjuna og lífsglegðina sem ég þrái í líf mitt. Ég er einmanna, ég vil bara vera ein, ég sé lífið eins og svört þoka pirringur ótti og þráhyggja ber ég inni í mér og þori ekki að leyfa neinum að finna hvernig mér líður. Það er þessi frosna gríma sem lifir inn í mér. Ég er hrædd við að taka hana í burtu, þori ekki að sýna neinum hver ég er. Því ég er bara hrædd Ég er hrædd við að lifa Ég vil ekki lifa í þessum heimi. Fel mig bak við skuggann minn en samt er ég hrædd við skuggann því hann eltir mig hvert sem ég fer. Það eina sem ég vil fá aftur í mitt líf er ég sjálf. ] [ Hvað er meining? er það að meina eitthvað þýða eitthvað eða er það bara meining? ...auðvitað vita allir hvað meining er!!! ] [ Mér langar að vera frjáls engar áhyggjur ekkert stress Langar að vera þetta litla peð þarna í þjóðfélaginu sem stjórnar lífi sínu sjálfur ] [ Að vera lögga og sinna lögum handtaka þá sem verða þeim í óhögum. Slökkviliðsmenn að slökkva niður eld þótt myrkrið skellur á og það er komið nýtt kveld. Læknar sem allt geta lagað kjafta öllu og engu geta þagað. Presturinn syngur sálma og talr um guð meðan allir í kirkjunni heyra ekkert annað en eitthvert suð. Fíklarnir reyna að vera ekki fyrir neinum en ef það er ekki hægt þá fela þau öll sín vandamál inn að beinum ] [ Ganga um í furðulegum fötum og vera öllum til skammar. Sofa nærri hálfa ævina en restina púla og leika sér. Hlaupandi um eins og asni því hollustunni vill hann vera í. Anda inn og út um nefið því annars er maður dauðvona. Hver er tilgangur lífsins? Afhverju getur maður ekki svifið um og haft tilganginn eins og haft tilganginn eins og manni dettur í hug. Enginn lög og regla aðeins minn tilgangur til lífs míns. ] [ Öskur og óp, við viljum frið sprenging og ótti og heljarinns lið skriðdrekar og ofbeldi þeir segja það sem sið að ekki væri neinn friður í bið. Við viljum vita hvar er komið að því að við berjumst og komumst í burtu á ný þið farið allir í langt sumarfrí og veitið friðinn sem okkur langaði í ] [ Sterkt afl tosar í mig Litlir álfar í líkamanum sem taka á móti sms-um senda boðin á alla staði líkamanns Byrjar hjá tánum en svo ná litlu álfarnir í ryksugu og sjúga öllum þeim skilaboðum sem um þær leiðir fara Og nýta sér alla hæfileika sem verða í boði hveju sinni þar inni ] [ Ég rölti að skógi og sé þar stíg Fuglarnir syngja og ég með þeim flýg Ég vil finna mér góðan stað þar sem ég er óttalaus tilfinningalaus Í mínum heimi jafnvel þótt ég væri út í geimi Búin að finna staðinn áður fyrr var þar allt í blóði allt í skít Hálfdauðir hermenn allt í kring og þyrlurnar búnar að koma sér fyrir í hring Mér líður vel þegar ég er búin að taka reykinn. Laufblöðin svífa og allt verður þyngdarlaust og ég spái í öllu því vindurinn hefur blásið inn haust ] [ Ég er illa leikinn eftir misnotkunn efna og er bara að mig hefna búin að eyða sex árum í ekki neitt samt er ástandið enn óbreitt Vínið get ég lítið á bera en dópið vil ég ekki láta vera hassið er minn stærsti vandi því bíð ég bara eftir lögleiðingu á þessu landi Dýrt er að vera efnum háður og heilasellurnar komnar í núll gráður ég hef farið í alls konar dóp gerðir og þar af leiðandi farið inn í þrjár meðferðir ] [ Lífið er ekki eins og vídjóspóla maður getur ekki spólað til baka. Lífið er ekki eins og spiladós maður getur ekki snúist í endalausa hringi. Lífið er ekki eins og á færibandi maður getur ekki fengið allt upp í hendurnar. Lífið er ekki eins og poppkorn maður getur ekki verið sem lík-elli smellir-og síðan verin étinn upp til agna. Lífið er eins og fiskar maður syndir í sjónum, rekst á kletta og er síðan veiddur. ] [ Ég stend við læk fiskarnir synda allt er hljótt og sólin skín Á augabragði hristist jörðin all svakalega.. jörðin skelfur og ég líka hún er að fara að taka mig borða mig éta mig upp til agna svo ég verði að engu Í þann mund sem jörðin er að fara að opnast, vaknar prinsessan upp við slæman draum ] [ Ég er búin að malla tæki og tól á sínum stað allt er klárt. Set í feitan haus kýli fötuna finn reykinn allt svífur hugsa öðruvísi hægist ögn á mér loka augonum fer í heim paradísarinnar Það er allt æðislegt í þessum heimi og ég er frjáls. ] [ Stórt tún, vötn og blár himinn hjá blómin liggja fallega grasinu á finndu ilminn, athugaðu hvað má aldrei skaltu blómunum reyna að ná ] [ Er borinn ert á brott, ei lengur bærist, þetta litla hjarta. Brádögg brennur vanga á, og bljúg harmatárin fallvölt, brotna, á börmum kistu þinnar. Farinn í friði,lífsins ljós Við megnum ei, að missa þig. ] [ Núna sit ég og hugsa um morð Hver verður sá sem vill hlýða mér Kannski sonur þinn sem segir ljót orð Ég ætla mér að skemma fyrir þér Hver veit hvenær ég mun ná í þig Ég veit allt um þig og þína syni Þú hefur ekki völd til að drepa mig En ég get náð í þig og þína ástvini Ég er sá sem vill vera öllum til voða Sá sem vill að þú verður mjög vondur Sá sem brosir þegar ég sé eld í húsi loga Sá sem drepur og skemmir fyrir föndur Ég vill sjá fólk drepa stela og slást Sjá fólk skemma og gera veröldina ljóta Mér líður vel þegar þú ert að þjást Ef þú sérð mig þá skaltu taka til fóta Hlauptu og reyndu að komast lángt Reyndu ekki að bjarga þessum í kringum þig Reyndu ekki að sjá mig sem gerði rángt Allt það ílla sem þið gerið styrkir mig Hver er ég og hvað vill ég frá þér Ég er allt það slæma sem kom þér fyrir hendi Ég er til staðar sem allir geta séð hér Ég er til nafns sem heitir FÍKNEFNI ] [ V innan mín með ykkur I nnleiðir visku N ærða af reynslunni N ánari kynni A lltaf að læra N áungann að elska M una að virða Í mynd annarra N eikvæðni hundsa O rð geta mildað G remju eða grát E rfið er gamals leiðin L ífsandinn enn streðast við D auðinn nálgast með ljáinn R eyna þau að neita ..... I nnileikann enn eiga eftir. B ýð góðan daginn O g brosa þeirra til R eyni að halda þeim við G rína og gantast. A ldraðir gumar R enna hýrum augum A ldraðra kvenna til R ennandi blóðið er enn ekki storknað. ] [ Hjartasárin getum ekki tekið að lifa með þeim ,okkar eina völ en helst af öllu er að finna vininn sem getur lindrað okkar sálarkvöl. ] [ Hvorfor har jeg aldrig hørt om dig? Du er den jeg har tænkt så meget om. Du er den jeg vil dele livet med. Du er den jeg elsker Jeg tror du gemmer dig i nattens skygge og leder efter mig. Min ven. Kom i lyset der er jeg. ] [ Ég man þá nótt er dimmbláar tuskur himins felldu létta dögg sem dansandi fylgdi mér heim droparnir á kinnum mínum endurköstuðu þokukenndu ljósi tunglsins ég var viss um að þær grétu allar með mér ] [ Er ég sá þig fyrst þú í augum mínum byrst falleg og sæt því ekki ég græt ] [ Ég þér yrki ljóð því þú ert svo sæt og rjóð ekki betra ef þú værir góð þá myndi ég setja þetta á spari sjóð ] [ Ég ýminda mér stundum að ég sé lítill álfur, geisist á ofsa hraða framhjá veruleikanum og inn í lítið hús. Í húsinu búa fullt af fólki en það eina skrítna við fólkið er að ég þekki þau ekki neitt. Ég fikra mig áfram í leit að einhverju, veit samt ekki að hverju ég er að leita. Allir í húsinu segja að ég sé vinur þeirra. Mér finnst það ekki sannsögulet því mér finnst eins og ég hafi aldrei séð þau áður ég finn ekki fyrir þeim líður hálf undarlega mér líður eins og ég sé ekki til. Allt fer að snúast í kringum mig ég sé skrítna hluti í annarri sjón ég heyri skrítnar raddir í hausnum á mér ég finn hluti miklu mýkri en venjuleg. Þetta er ekki ég Mér líður illa og mér líður vel ég vil vera svona og ég vil vera eins og áður ég vil lifa og ég vil deyja ég vil vera ég og ég vil vera einhver annar. Svarið er fundið sem var hér ég er að leita að sjálfri mér. ] [ ...í miðju eldsins dansa bláir logar litbrigðið heillar og hitinn togar hætturnar boðnar velkomnar heim stefni ég hratt inn í neistasveim... ...eitthvað til að láta mig þiðna láta kulið í sjálfum mér gliðna hleypa hlýju inn í frosið hjarta því frostið hættir aldrei að narta... ...eldurinn læsist um innviði sálar á ískalda veggina hlýjuna málar hjartklakinn bráðnar - kuldinn fer finn hvernig hlýjan eykst í mér... ... ...stökk inn í funann með bros á vörum kuldinn er núna einmana á förum brunasár og sviði ? til að betur mér liði eldurinn kulinn ? en sársaukinn hulinn... ...sálin er núna hlý hiti í hjartanu á ný... -pardus- ] [ Lítið ljós sem berst við skugga þegar þú ferð mun ég slökkva veit þá ekki lengur hvað geymir manninn sem hjartað mitt tók að sér að geyma Myndin svo undarleg í minningunni fagurleikin og gleðin leiða mig í föstum danssporum um gólfið sem ég og þú höfum tileinkað okkur hönd mín það frjáls ] [ Þú sífellt huga seiðir minn sem ég fyrir töfrum finn. Ætíð brennur koss á kinn kossinn mjúki, ljúfi þinn. --------- Elsku hjartans yndið mitt, ástar ljúfa kona. Enga hef ég áður hitt sem í mér kveikir svona. -------- Þú ert rósin, rósin mín rós í mínu hjarta. Ávallt betur, skýrar skín skæra ástin bjarta. ----- Yndisfalleg rauða rósin er roða slær á blöðin sín kemur til þín, kærleik ber kossa sendir, ástin mín ----- Rósirnar eru farnar að fölna og fella blöðin sín. Allt sem lifir, um síðir mun sölna seinast þú, ástin mín. ----- Á meðan fölur máninn skín merlar endurminning. Um þig eina ástin mín okkar fyrsta kynning. ] [ Ég er ennþá ekkert nema litli krakkinn sem hlakkaði svo til sumars á hverju ári Ég er ennþá ekkert nema litla stelpan sem beið svo eftirvæntingarfull eftir Íslandi Ég er ekkert nema Nema hvað að núna ofsækir mig söknuður og þrá og ég fæ aldrei aftur að hlakka til í friði Ég sakna svo litlu stelpunnar ] [ Hvaða blóm ertu, fegurst? Ertu björt og glöð líkt og sólblóm viðkvæm og hrein eins og lilja ástríðufull og tælandi rétt eins og rós er fegurð þín lík engri annarri falinn í þinni sál hver ertu, ég hugsa sem kveikti í mér bál ] [ Það er þoka sem þykknar fyrir utan gluggan minn gífurlegt svæði fyllt upp af engu Ég reyni að muna eftir landslaginu en allt sem ég man er kalda faðmlag snjósins sem faðmar húsið mitt, heldur mér inni grafinn með hlýjum minningum mínum ] [ Ég vildi að ég væri dauður enn á lífi með bergmálið sem vin og tómið ] [ Góða nótt að eilífu Ég bíð eftir sólinni Góða nótt Sofðu þar til morgun rís geislar lífsins Góða nótt hverfðu vertu þú að morgni ] [ Á milli alheimsins og míns er ekkert ég hætti með henni ] [ Ég opna upp sál mína með kúbeini stórt sár sem blæðir tárum og brosum rændum af ást ] [ er ég lít í augu þín vildi ég helst borða þau er ég snerti varir þínar langar mig mest að kyssa þig er ég pikka í kinnar þínar ljúft með gaflinum vætast kverkarnar er ég tygg tungu þína minnist ég sumarsins með söknuði ] [ mjúklega færði hann sér nær svo nálægt að hann fann fyrir síðum lokkunum og hlýju skegginu lyktin var góð andrúmsloftið rafmagnað þeir horfðust í augu kossinn var staðreynd þetta hefði getað endað öðruvísi ef að helvítis rómverjarnir hefðu ekki beðið átektar ] [ þú varst alltaf svo skemmtileg þú varst öll svo fullkomin þú varst mjög svo falleg þú varst oft svo fín þú varst svo góð þú varst mín þú varst þú ég ég er ég er fínn ég er oft sár ég er stundum einn ég er farinn að gleyma ég er byrjaður að hressast ég er viss um að ég jafni mig ] [ Lýst mér á að heiminn að sjá sólin hátt á lofti er og sjórinn dregur þig út á haf með sér regnið hleypur af stað fyrir smá jurt og vindurinn blæs, svo allt verður þurrt fæ jafnvel smá í glasið mitt vín á meðan ég er fín þá hugsa ég sko vel til þín ] [ Það hvín það skelfur það andar og það er dimmt Það þyngist það kólnar það hvílist og það er dimmt Það öskrar það hleypur það grætur og það er dimmt Himnarnir eru svartir steinarnir ey bjartir skógurinn er langur og stígurinn er rangur. ] [ Ég hjólaði hægt frá vinnunni heim Eftir örlitlum stíg gegnum skóginn. Stór voru trén og tjörnin svo lygn Fuglarnir kepptust að búa sér hreiður -Og sjá, - mitt í öllu þessu sá eg ósjálegan runna sem reyndi að þenja sig út milli trjánna Greinarnar snérust og engdust í ofsa af ákefð að vaxa sig stærri og meiri. -Í ljósið að ná - Þyrnarnir margir og smáir, þá hafa fáir Eitraðar, yddaðar, örlitlar agnir Já..............andstyggilegt... Ég sá hann aðeins sem snöggvast, og hjólaði framhjá...Ég stoppaði snöggt. -Í glimti -. hafði ég séð......................blóm? Fjólublátt sem draumur á vornótt Og hvítt sem fegursta mjöll. Ég varð hrifin og heilluð,undraðist mikið. Stóð þarna lengi, horfði á runnann Og þótti hann ekki svo ljótur við nánari kynni. -? Merkilegt - að einn svona ósjálegur runni ber skógarins fegursta blóm. ] [ Beittar tennur á hörundi mínu mjallhvítu & viðkvæmu; grófar neglur marka eldspor á bak mitt & læri. Heitt & salt rennur blóðið þunglega yfir nakta líkamina. Á rauðum beði er samningurinn innsiglaður: Ást allt til dauðans! ] [ Myrkrið aðeins rofið af mánans geislum. Í flauelsmjúkri nóttinni fara skuggarnir á stjá, stíga dans eftir löngu gleymdu lagi; undir fótum þeirra fordæmdar stjörnur. ] [ Mínar nætur eru ekki bláar, þó sumar þeirra þekki ekki svefninn. Nei, ekki bláar. Grænar ? Eins og gras að sumri, haf um vetur. Eins og augun hans eru mínar nætur. ] [ Í villugjörnum ranghölum lífsins tekur þú í hönd mína og leiðir mig heim. Í biksvörtu djúpi næturinnar kveikir þú mér kertaljós og vísar mér veg. Í botnlausum hyljum sorgarinnar heldur þú mér sem fastast og ég læt huggast. ] [ Syndum prýdd eru augu þín, brosið hlaðið djöflum. Aðeins í nótt mun ég dansa við lostfagran líkama þinn; á morgun er glötuð mín sál. ] [ Svefnmjúk er nóttin sem geymir okkur bæði. Kaldur er geislinn sem sker morgunbleik skýin. En fagurt er þó bros þitt í fyrstu birtu dagsins. ] [ Heimahagarnir ætíð svo litfagrir í síkvikri birtu minninganna. Stundum sveipaðir skærgrænum hjúpi með hágulum blómum á dreif. Stundum brakandi hvítir, ósnortnir, flekklausir. Í verunni vorar þar seint & vetrar illa; bernskuslóðin klædd móskulegum kufli. ] [ Ég sé hvernig veðrið þyngist og þyngist, hvernig nóttin dökknar og dökknar, á meðan himinninn grætur og grætur. Þungar eru þær dimmu nætur, er hjartað ei lengur fer á fætur. Ég finn hvernig hugurinn þyngist og þyngist, hvernig sálin dökknar og dökknar, á meðan hjartað grætur og grætur. Þungar eru þær dimmu nætur, er hjartað ei lengur fer á fætur. ] [ Traust mitt er vatn í glasi sem stendur á bjargi En dag einn fellur steinn úr bjarginu og splundrar glasinu. Traust mitt dreifist um bjargið og gufar upp. Svo fellur það í annað glas á öðru bjargi langt frá þér. ] [ Inní hyldýpi hugans ég fer Í gegnum hugarheima og geima ég ferðast um og sé, undur og stórmerki af mínu eigin ímyndunarafli. Ég lít í kring og hugsa; Upp kemur nýr kafli. Hver er munurinn hér og þarna úti? Hvað er ég sosum að hanga í þessum poka af kjöti, beini og líkamsvessum? Hvaða gagn hef ég af þessu? Minn heili er mín blessun! Svo ég ætla bara að vera hér. Fer ekki fet frá mér! ] [ þú ert holdgetinn draumur með silkimjúk sköp munaðarleg með mjúka nöf þú ert mín drottning ég ýti úr vör bylgju þína sigli ör. Úr legu er látið með öngulinn þrútinn að lóða í þitt djúp já sæt er þín ára Lára og gæfturík þín mið kvöldroðinn leikur við klöpp. Við bifandi brjóst er ég endurfæddur þegar fley þitt titrar ungdómsbárum í stafni þínum helgidómur. Þú ert klettur í hafi brjóst þín dulmál ég fitla við þína spöng með tárin í skefjum við sælubjargið í alheimsfuglaþröng. Þú ert lilja vorsins á iðgrænum völlum blómstrandi viðja í ölvuðum vitum í skugga þínum vil ég ætíð dvelja. Undirlandið frjósamt ég plægi þinn akur risti þín leirljósu lönd með stöngulinn þrunginn silfurstrenginn geymi þessa nótt. Ég er Freyr, þú Freyja ég faðma þína fold heilagt brúðkaup á grænum velli þar titrar lítil brá. Í jarðhelli fínum smyrsl þín sæt ég drep á þínar dyr lífsrjómann og dropa sælu, geymi við unaðs hlið. Þú ert gróðurinn í dalnum, bunulækur lítil klettaskora. Við þinn munaðarreit vil ég halda hjörð minni til haga. Þú ert brunnur lífsins unaðshóll, venusarhæð og fagrabrekka. Við altari þitt dvelur þrá mín oft við aftantíðir. Við titrandi túnið sjö hestar, sjö kornblóm sjö sólstafir dala yfir búk í bylgjum huliðsmáttur handa skjálftinn horfinn. Þú ert myrra og balsam við seiðandi strönd ljósmóðir ljúf með svimandi þokka í huganum þekki ég öll þín lönd. ] [ Ég reyni að hlusta eins og náttúran bauð mér í fyrstu. Hlusta á fuglinn sem svífur í vindi og regni. En hugur minn núna er bundinn í kapphlaupi og stressi. Skyldi fuglinn aldrei falla úr tísku , eins og hugur minn núna í komandi framtíð? ] [ Síðan gullhamrar þinnar gæsku hættu að koma, mitt hjarta er í sorg,en þó ég vona, því augu þín voru sem af himnum send, nema þegar þú varst reið. Engin spyr fuglanna,því þeir kunna ekki að tala, og orð mín voru ekki nóg,til að gera þig fala, en í heysátum fögrum leynist leyndarmál okkar, já,með fuglunum,manstu,fjólubláir sokkar,. ] [ Ég hef aldrei litið þig augum, þó ég þekki þig mætavel, því ég veit það varst þú og þinn sonur sem frelsuðu sál mína\'úr Hel. Ég þrái hönd þína\'að leiða, og fylgja þér hvert sem er og hætta\'að hlaupa á undan eða drolla á eftir þér. Því í vonlítilli sál minni þú tendrað hefur bál. Þú gefið hefur mér von á ný og lýst upp dimma sál. Þú einn átt þökk mína skilið fyrir framtíð langa og bjarta því lausnina þú færðir mér og breyttir mínu hjarta. ] [ Ég segi þetta gott og er farinn. ] [ Ég sá þig þar sem þú lást í blóði mínu, starðir og öskraðir. Ég öskraði líka: \"Hvar er andskotans læknirinn ?\" Það fallegasta sem ég á. ] [ Litlar hendur þínar, Samt svo stórar, Snerta andlit mitt, Hugga mömmu sín Og gefa henni von Um betri morgundag. Skyndilega, svo stór, Svo miklu stærri En þann dag Sem þú komst í heiminn Til að færa mér Betri morgundag. Svo skemmtileg Og svo skýr Svo miklu vitrari stundum En hún mamma þín Og þín vegna, á ég alltaf von, Um betri morgundag. ] [ sól mætti tungli með krafti sínum hvarf kolsvört út í buskann í skuggadansi á næturhimni birtist síðan aftur bjartari sem aldrei fyrr ] [ Ég er leikari á sviði nútíma og fortíðar það er ástæða afhverju ég er til... hún er sú: að láta mig ekki standa í myrkrinu og stara á sviðið því ég er búin að stara á sviðið alla mína ævi, en nú vil ég komast upp á sviðið Maður verður að hafa sér klett í lífinu svo maður villist ekki af leið og þarf því aldrei að óttast Ég held mér á kerti þangað til loginn deyr því þá er leikrit mitt búið og ég komin í ból jarðar ] [ Eitt sinn fór ég hestbak á.. Það var rosa gaman.. En einhver þar hljóp hinum frá.. æjæ.. þeir voru ekki lengur saman..:( ] [ Eitt slag sem hljómar svo lengi, svo lengi, og heyrist þó að lagið sé búið. ] [ ...rökkrið sígur yfir líkt og slæða um hefðarfrú þegar sólin hnígur niður bak við hæðina hún dregur þó seiminn og varpar hinstu geislum til að lýsa upp heiminn og andlitið þitt... ...skýin skjótast um líkt og refir í rjúpnaleit rofna og brjótast til að hleypa birtu að þau roðna við sönginn sem þú syngur til þeirra og koðna niður í blámann bak við sjóndeildarhringinn... ...allt fyrir þig mín þokkafulla borg þú hýsir mig og kæfir mína sorg sumarnætur í Reykjavíkurbænum kynþokkadætur baða sig í sænum... ...Esjan yfir öllu gýn ? Reykjavíkurmóðir við klifrum upp til þín ? synir allir rjóðir og horfum yfir borg sem þú í æsku fæddir og öll hennar torg sem þú í hana klæddir... ...ég elska þessar Reykjavíkursumarnætur meðan myrkrið í burtu einmana grætur... ] [ Ef allt er dimmt Og sérð ei ljósið bjarta Þú lokar augum þínum Og leyfir fyrri tímum -Að koma fram.- Frá barnæsku þú manst. Bjartar stundir Þótt nú um mundir Þú eigir bágt. Frá innstu glóð -Sálar þinnar- Þú geymir ljóð Sem reynslan hefur Fært þér Það ysta lag er harðgert Sem bergið sjálft En kjarninn er sem blóð -Lífsorkunnar þinnar- En ef svo er að engir Góðir dagar voru -Þá barn þú varst- Þá beindu huga þínum Til ljóssins lindar orku Og biddu um bjartan Vonarstreng og vernd Því af alhug ef þú -Biður ? með sál og hreinu hjarta Það rætist, vertu viss, Því sálin er jú liður Í alheimsvitundinni. ] [ Hnötturinn er eins og brjóstsykur sem er allskonar á litinn. Hann snýst í munninum og stoppar aldrei. Sólin er eins og tungan sem sleikir brjóstsykurinn. En á nóttunni stoppar hún en þá tekur tunglið við. Skýin eru sem slefið sem flækist fyrir og stoppar tunguna við að sleikja brjóstsykurinn. ] [ Ég reyndi að skrifa um þig og mig saman í kvöld en orðin virðast ekki vilja koma út... Kannski verð ég að sætta mig við... ímyndina af þér og þessa ímynd af mér saman... ] [ Töfrandi nætur með seiðandi hljóm sem eiga sér rætur í alsherjar óm frá himinhvolfi Stjörnur og Vetrar brautir Kveða sinn tón Fyrir mannanna börn. Og vona þau skilji Að flytja þau áfram Til barnanna sinna. Og börnin þau syngja Með sálu sinni Til baka Til himins Til stjarna og vetrar brauta. Þannig verður Hringrás tónanna til Með einstaka frávikum Meðal manna ] [ Allt sem ég hef um þig að segja Verður ekki komið á blað. En skömminni skárra er það Að tjá sig eitthvað, en að þegja. Það er svo margt hefur þú gefið mér. Þú gafst mér ör sem aldrei grær Og hjarta sem aldrei hlær. Ó hvað er ég heppin að hafa kynnst þér. Ég þekki þig strákur, betur en þú veist. Og sál þín er svartari en hún er ljúf Og mýkri en hún er hrjúf En veit ég vel að þú getur breyst. En þú vilt það bara\'ekki Því þú kýst ekkert annað En að gera það sem er bannað Og þú einn, færir sjálfan þig í hlekki Hlekki dauða og dapurleika Sem ekkert okkar vill sjá En þú virðist hinsvegar þrá En ég veit betur, því þú kannt ekki?að feika. Stór kall með lítið hjarta Er það eina sem þú ert En það er umhugsunarvert Að þú sjáir dag einn, ljósið bjarta. ] [ Að elska þig Er eins og að Vega salt Við sjálfan sig. Það er eins og Að leika sér Með frisbídisk Einn. Og eins og að Kasta boomerangi Útí loftið. En í stað þess Að skila sér Lendir það Á hindrun Og verður eftir þar. Því að elska þig Er eins og Að kasta perlum fyrir svín!! ] [ Gatan er sem dimmur gangur þögn þakin dropahljóðum eins og doppur á svörtum steini Eins og steinsofandi fólkið í bárujárnskumböldum sofa þau sjálf þessi blessuðu hús raða sér eftir götunni eins og áhorfendur í skrúðgöngu en það verður engin skrúðganga í nótt. Aðeins þögn sem rispast af hvínandi vindi er læðist frekar klaufalega á milli runnanna. Í litlum polli speglast einmana ljósastaur og hristir hausinn ósköp niðurlútur yfir þessum næðingi. Það er of kalt! hvæsir sjónvarpsloftnet fyrir ofan mig ég samsinni því og fer aftur inn, það verður engin skrúðganga hvort eð er. ] [ Hei ég sé myrkur alli í kringum mig. Nei sko..... þarna kemur smá birta frá hjarta hans. Hann hefur þá tekið inn lifid sitt sem hann uppgötvaði sjálfur. Það er . . . .amfó. ] [ Við dönsum og dönsum við erum á lifi. Það er gaman að deyja í kjöltu þér. Við dönsum ofan á líkum allt er í blóði. Við syngjum um að drepa Þig. ] [ Þar sem áratuga neysla fæ ég fólk þá til ad hneigsla sig á tjáningunni minni. Ekki brenna núna inni. Því að þetta er mitt kerfi ég er enginn focking negri. Þar sem graffið lífið er með bombum hvorri öðrum fegri. Láttu ekki buga þig. Því sama mun þá henta mig löggan mun þá elta oss. Það er í lagi, hún fær þá koss. En neyslan hún er búið spil. Ég brúa ekki þetta bil. Sem graffið hefur gefið mér. Og hverfið ennþá hérna er. ] [ Ég finn til mig langar ég er heillaður Svo- lítið af Heimsmenningu í bollann ... heitt ... stóran Biðin er ei líf Þar til menningin kemur rjúkandi ilmandi fagnandi kitlandi smakkandi sopandi ofan í maga Yndislegt innlegg Alheims menningarinnar Kaffi ] [ Er lífið til þess eins að lifa? Lifa, heyra klukkuna tifa? Þetta var einn svona dagur, Svona bara bjartur og fagur. Hinar lögðu á flótta, Hún hló að þeirra ótta. Hann gaf henni skó, Og enn að hinum hún hló. Og ég lifi og lifi, Lifi á klukkunnar tifi. Og þetta ansvítans fól, Notaði allskostar tæki og tól. Það heyrðist hávært öskur, Svo var henni troðið í töskur. Þarna gerðist margt, Á mínútum var allt orðið svart. Ertu viss um að þú viljir lifa? Lifa, hlusta á klukkuna tifa? ] [ Þú borðar of mikið. Nart. Þú ert of feit. Kvart. Hvað ertu að borða? Margt. Ég finn, ég skell í gólfið. Hart. Ég finn, allt í kring um mig. Svart. ] [ Án lífs er ei líf, Án lífsins ég svíf, Líflaus svíf, Víflaust líf. ] [ Maður þarf dug, Til að segja sinn hug, Mikið er sagt, Og meir á mann lagt, Erfitt að komast á flug. Dagurinn dimmur var, Dimmur,hún ekki var þar. einmannaleikinn nísti, Og tönnunum gnísti, Ég spurði,en fékk ekkert svar. Að eilífu á hún stað í mínu hjarta, Það hjarta, sem án þess að kvarta, Mun syngja hennar lag, Og um hvern dýrðar dag, Lifir sú minningin bjarta. Án hennar er hver dagur eins, Alveg eins og ekki til neins. Það er enginn munur, En að mér læðist sá grunur að hjarta mitt kenni sér meins. Þann dimma daginn hún hvarf, En eitt ég segja henni þarf, Að vera hún sjálf, þótt veröldin hálf, skilji eftir sig annan arf. En hver þarf að hugsa um sig, Hugsa um sig, en ekki um mig, En ástin er mikils verð, Og orð eru máttugri en sverð. Mundu: mér þykir vænt um þig. Tilfinning söknuðar slík, sú tilfinning í mér er rík Um það vil ei þegja, og verð henni að segja: Að hún er ein allsherjar tík. Það getur verið erfitt að skilja, Að nauðsyn er að sýna sinn vilja, Og þó af verði sár, Þá oft renna tár, Sem er mesti óþarfi að hylja. En það sem hún hefur dulið, Falið og heiminum hulið, Þarf ekki að vera týnt, Hún getur mér sýnt, Og vegginn í milli okkar mulið. Allt sem ég vildi var svar, En svarið það var ekki þar, Ég tönnunum gnísti, og í þeim tísti, aldrei mun verða áður sem var. ] [ Ég hlusta ekki né tala Ég horfi hvorki né er horfður á Ég finnst ekki né er týndur Ég lifði aldrei því mun ég aldrei deyja Ég elska ekkert eða hata Ég er ástæðan en þó ekkert Ég er skugginn og sólin Ég er vinur óvinarins Ég er ótæmandi tóm Ég er einn meðal vina Ég er skylda anarkistans Ég er orðin ........... Ég er Hugmynd að einhverju nýju ] [ Hún stráir hveiti yfir deigið og skellir síðan lófunum á ljósbrúnt fjallið. Hún pírir augun, blæs hvítu duftinu yfir eldhúsbekkinn. Og hún hlær á meðan hveitið svífur um í eldhúsinu. ] [ Vatnið er skítugt En fullt af lífi Örlitlar agnir Á ferð og flugi Kaos og kæti Grátur og gnístran tanna Eilíf hringiða Villtra eininga Forma sig -Einkennilegt - Eg hef séð vatn Sem var svo tært Og fagurt á að líta Að í botninn sá En ekkert líf Bara gegnsær spegill Án spegilmynds Af neinu Hvernig getur Svo tært vatn verið tómt? Það er einkennilegt ] [ Sem í draumi, ég upplifði Að ég væri dauð Farin frá jörðu uppstigin Samofin öreindum Eilífðarinnar, Hóphyggjubúa. Kyrðin var magnþrungin Yndislega Seiðandi Og þó yfirbugandi. Magnþrota hrópaði á hjálp Vanmátta, einmana Í öllum þessum aragrúa Af sameindum, fléttandi saman einn söng Sem ég ekki skildi. ] [ Í garðinum heima,eru álfar að sveima, og hreyfingin mælist. Því grassið það bælist og kötturinn fælist, og amma er viss í sinni trú. Þeir ýtu burt hólnum og amma stólnum, grimm eins og ýta. Þeir mundu hefndina nýta,illum forlögum flýta, sagði amma og dæsti við gluggann. En hefndin kom ekki,hún hvarf í mekki, og erli og látum,og nútíma gátum, Um fljúgandi diska og ömmu. ] [ Hve dýrðleg er sú vissa að vita að Jesús er sá vinur sem á himnum biður fyrir mér. Hann fyrirgefur misgjörðir sjúka læknar sál. Hann sér og skilur ávallt hin leyndu hjartans mál. Hann elskar, mig Hann elskar Hann elskar mig svo heitt. Hann veit hvað hjartað þráir og synjar ekki um neitt. Hann frá mér voða víkur og vota þerrar brá ég veit um eilífð alla ég uni Jesú hjá. Kristrún Soffía Jónsdóttir ] [ Ég horfi yfir Dalinn og hugsa um liðin sumur, þá varst þú hér og fórst með okkur uppá fjöll. En nú ertu bara minning í Dalnum, heldur þig alltaf heima við og gætir krakkana. Litli engillinn brosir við lífinu og talar oft um ömmu, ömmuna sem á hitt húsið heima. Ömmuna sem alltaf gaf henni kleinur og súkkulaði alltaf þegar hún fór yfir með póstinn eða bara að heimsækja ömmu sína. Prinsinn sem alltaf var ljósið hennar ömmu, talar alltaf um það hversu hann saknar þín. Hann saknar þess ætíð þegar hann gat farið yfir, já yfir til ömmu bara til að spjalla og sníkja nokkrar kleinur. Dísin okkar bara brosir við öllu bæði slæmu og illu, það er þó eitt sem hún saknar já og mun alltaf sakna. Það sem dísin okkar saknar mest, er að fara í göngutúr með ömmu uppá fjöll og um firnindi. Nafnan sem alltaf hefur haft sína erfiðleika, hefur brosað í gegnum tárin síðan þú fórst. Hún minnist ætíð reiðtúrana með ömmu, þessa löngu reiðtúra, einnig góðra ráða hefur hún alltaf að minnast Ég sit hér og horfi inn í Dalinn, ég hugsa um það sem liðið er. Það sem liðið hefur og það sem líða mun, hvernig lífið mun vera án þín. ] [ Síminn hringir Ég lít við Tárin í augunum Hnífurinn á borðinu Vil ekki svara Vil ekki lifa Er lífið þess virði Að deyja eða lifa Tek hann upp Munda honum Finn kalt stálið Renn yfir hönd mína Heyri kallað Ertu heima Vil ekki heyra Ei meir Sker Sársauki Finn vilja til að lifa Hringi á hjálp ] [ There is something sacred here, maybe it's my words. A sacred word has been spoken, but what is it that has been spoken. A word has been spoken, spoken with an open mind. ] [ Silent is the moonlight The moonlight makes my way so clear So easy to travel through to unseen worlds To the worlds that only exist in my lonely life The Moonlight keeps me company by being so silent There for I need to be alone But I am to afraid to walk my way, my path alone You silent moonlight helps me to face my world My followers and all my shadows ] [ -By all means By hope and death -Love for all Love for the small -Find the flame Find yourself -Flame of love Flame of hate and hope -Hide your feelings Hide your hopes -Shadows are my sorrows Shadows are my followers -Being loved Being followed and wanted -Wanted by the past Wanted dead or alive -Death is not an option Death you shall not fear -Flaming life Live in eternal joy and entertainment- ] [ I feel like a shivering leaf There has been an intrusion to my existence I do not like feeling like this I do not like have to do this I do not want to talk about it I do not like to think about it Why did I not protect me Why did I not run away Why did I not save myself Why did the not leave me There is a savior A savior I trust I cannot save myself I turn to you ] [ All the suffering that I have gone through I have gone through them all because of you You made my life way to hard to live What gives you the right to do that You have been here from before days You could have chose another But you made me to take this into my life All you suffers are now mine When you visited my mother in her dreams You knew that she would have one for you One that was born in love but in vain You had to get one of children of the rainbow I believed that I could get free But it would have been to easy I must finish some of that you begun But am I strong enough to finish it all for you ] [ I am stuck in a web of lies and suffers I was given a gift the day I was born I can see more then a normal person can I can hear more then a normal person can This gift hasn't always been for good There have been so many things that have hunted me I am not ready for my responsibility but I must I have made a promise I attend to keep mine ] [ Somewhere in my mind, there is a memory of you. Somewhere in my life, there is you. My memories are so deep inside, so deep in my mind. A memory in my mind, hidden so deep inside. ] [ Þú ert svo yndislega sorgmædd dauðadrukkinn djúpfryst utan fyrir skemmtistað Þú ert svo yndislega leiðinleg þvoglumælt þvara ælandi í öðru hvoru skrefi Situr svo sæt og prúð stífmáluð stolt í vinnunni hálf heiladauð eftir yndislega helgi ] [ Hvað vitum við um höfin Þau dularfullu djúp Þau geyma marga dýrgripi Sem perlurnar og rafið Og eðalsteina fagra Sem okkur í munar Því við eigum ekki neina Sem varið er í, að okkur finnst. Við köfum í hafið En finnum ekki neitt Reynum að kafa til botns En er kastað til baka Því djúpin hafa ekki Samþykkt komu okkar En samt við viljum gjarnan Grennslast ögn um þau Forvitnin er okkur í blóð borin Við yrkjum um þau kvæði Og sögur hugljúfar Og getum okkur til. En hvað djúpin geyma Fær enginn að vita Til fulls ] [ Hey! Þið upptekna fólk sem hlaupið í hringi í lífinu eins og hundar á eftir eigin rófu til þess eins að ná taki á eigin afturenda Af hverju stoppið þið ekki í smá stund og njótið rigningarinnar? ] [ Ég gaf þér S jó K letta Í s T úndru í vöggugjöf ] [ Vinur skal ég segja frá Að ég vil alltaf vera þér hjá Lífið leikur við mig Draumarnir verða æ meiri um þig Ilmurinn frá þér ég elska ] [ Það þyknar upp sólin er sest og máninn stígur fram. Ég sit með englunum mínum á stórum steini við hafið. Hafið er spegilslétt og fagurt eins og englarnir mínir. Mér þykir vænt um mína engla ég tala við þá þegar ég er ein því þeir hlusta á mig kalla þeir hlusta á mig anda þeir hlusta á mig alla tíð þeir hlusta á meðan ég bíð ...eftir þér á sprotum hafsinns ] [ Fastur í búri en hugur minn er þó frjáls í faðmi þínum ] [ Ég teygaði drykkinn á maga við vatnið, og lét höfuð mitt blotna um leið, er brjóst mitt nam við döggvott grasið, ég tengist náttúru um skeið. Þá augu mín lukust í augnabliks leik, að staður og stund varð eitt, að náttúran vildi að ég væri með, þótt í huganum ég gerði ei neitt. Hún var bara þarna á þessum stað, og beið þess á líðandi stund, að ég þessi vera gæti vitnað um það, að við hefðum átt saman fund. ] [ Það væri fyrir einskæra tilviljun, ef svo vildi til að ég væri að skrifa Ljóð núna. Þá hlýtur jörðin að hiksta, salt hafsins að syngja, bókin að lesa og blindur að heyra (einsog venjulega). Hvað sem því líður, þá hlýtur eitthvað stórmerkilegt að eiga sér stað. Því þegar þú lest þetta Ljóð þá verð ég búinn að skrifa það - annað er óhugsandi - og þess vegna er ég ekki að skrifa þetta Ljóð núna. (þú ert líklega að lesa þetta, nei, þetta) Hefurðu séð fljúgandi hálku? ] [ sorgin skríður inn á köldum kvöldum skjálftinn hreykir sér að sínum völdum vindur gólar hæst á mínum glugga geð mitt stendur greipt í svörtum skugga... myrkrið sýnir máttinn þessar nætur með hjartasting ég staulast æ á fætur sumrið hefur horfið burt úr trjánum höfugur ég bið um náð á hnjánum... Guð minn hvar er griðin sem þú átt? geturðu opnað ríkið upp á gátt? ég kem þar brátt og ber á háar hurðir brotinn eftir lífsins úfnu urðir... ...ég kem þar brátt og ber á hæstu hurðir brotinn eftir lífsins úfnu urðir... ] [ Í margar dimmar nætur Þú vekur mig af svefni Með sálarangist þinni. Þótt langt í burtu sé. Það sker í hjartarætur Að hlusta grátinn á. Brostnar vonir, eftir lætur Auðn í sálu ,horfna von Eins og búkur með enga fætur Eða verða af með son. Ég veit þú grætur ,vina mín Langar hljóðar nætur Bilað sjálfið, bæta verður tálsýnum og brostnum vonum mistökin öll sem urðu til, í gleymskunnar djúp, allt það hverfur Horfirðu fram á við. Hertu upp hugann, vinkona Finndu þér,sterkan vonarstreng Sem bundinn er í ljósið Mundu að þú ert aldrei ein Um að bergja af brunni vona Og nota til þess mistiltein ] [ Hun var så naiv, og nem at skue Som et hus med åbne døre Menneskernes nemme due Intet kunne hun tilsløre - Til sidst - Hendes hus blev tømt alle ting og sager væk nu intet var tilbage det var ej så skønt - Men - Til fornuft nu hun kom Dørene smækkede i Begyndte at samle igen Denne gang?.andre ting. Pragtfulde sager , men dog ikke nødvendigvis de rigtige, eller de forkerte. - Værdier - Hun er ikke den som hun var Men hun tabte det vigtigste Tilliden og troen til andre Nu er hun den som hun ikke var Heldigvis ??..Uheldigvis ] [ Hvað stoðar hatur ef það veldur þér vanlíðan. Hvað gerir menn grimma og versta sjálfum sér. Hvað gefur illskan annað en eftirsjá. Hver er svo vondur að honum líði vel. ] [ Þegar máninn skín eins og stór hleifur af osti á köldu vaskahússgólfi. Þegar nóttinn er dimm eins og sál mannsins sem stal sakleysi þínu. Þá flögra ég inn um gluggann þinn og bít í fallega hálsinn þinn ] [ Í mín tuttugu ár hef ég verið pabba mínum sár því ekkert vill hann mig hafa á meðan stend ég í miklum vafa Þegar árinu liðu, ég varð eldri, safnaði ég tárum því hann synnti mér ögn á mínum yngri árum hann segist nóg með þrjú börn svo ég geri ekkert nema setja mig í vörn Á þessum árum hefur mig dreymt um pabba hafa góðan mann til að við mig rabba ekki einhvern ömurlegan seið sem vill ekki fylgja mér rétta leið Á ég alltaf sök á öllum málum? ég stend á ísi hálum best er fyrir mig að tala ekkert við þig því ekkert samband vilt þú hafa við mig Ég kynntist pabba númer tvö árið 1990 og fékk ég þar mjög góða hlýju hann reyndi að vísa mér á gott líf en ég varð óörugg, treg og stíf Ég er sátt með nýjan pabba og aldrei ég hann gabba ást og vináttu hann mér kann því hreinskilin er ég við hann. ] [ Ég er lúxus kerra ég get verið alls konar á litinn þó aldrei rennur af mér svitinn Ég er lúxus kerra fjögur dekk undir mér og nóg af sætum handa þér Ég er lúxus kerra með stóra og glæsilega vél yfir hana er húddið sem skel Ég er lúxus kerra elska að bruna á miklum hraða en þó vil ég engann skaða Ég er lúxus kerra vil gera allt fyrir minn herra Ég keyri á götum í miklum ham því ég er Pontiac trans am ] [ I det sølvagtige måneskin Sidder jeg og tænker Over mit liv Der var engang lænker Så lange som siv Og skarpe som knive Som en træl Fanget i frygt Og kedsomhed Det fortærede min sjæl Men det var før?? Du kom og lærte mig At stole på mig selv Jeg har valgt at leve Uden frygt jeg vågner hver morgen og tænker på dig Frisk som et blomst I naturens frihed. Nyder livet som det er Og glæder mig Hver dag. ] [ Myrkraborgar sálir kvelja Hann sem var í mót Vildi bara sjálfur velja Þó sömu götu tók Á móti eigin hjarta Sem vildi ljósið bjarta Ægir látlaust dynur Þarna úti við Hálar eru brautir lífs Á stundum Úrhrak mannsins kynntist Illskunnar botni náði drengjadrauma minntist það sem sálin þráði þá hjartað skelfdist Og þverskan efldist Ægis reiði dynur Þarna úti við Kaldar eru brautir lífs Á stundum Ei áfram æðir stefnulaust Er með hjartað kalið Stormur æðir,senn er haust Vel er tímatalið valið Fótatakið dynur Í ána brú og maður hrynur. Ægir ennþá dynur Þarna úti við Ég græt þig elsku vinur Á stundum ] [ Hrópandi sál Eg er hrópandi sál Í tómið horfi Blindum augum Vonleysi sé Örmagna bál Glæður Gef magnvana eftir Glitrandi skýjaborgir Uppleysast Í morgundögginni Nýr dagur Brostinna vona Upp rennur Dag eftir dag Ár eftir ár Til lífsneistinn Slokknar. Hver man mig? ] [ Ég bý í boxi, það er 40 fermetrar að stærð, steypt og klætt burstuðu stáli... Á gólfinu er ég, sitjandi í fósturstellingu, með eitt lítið sprittkerti fyrir framan mig, ...alveg að slokkna. Ég finn myrkrið læðast upp að mér í tómleikanum..! -Ég hlæ! Og heyri það bergmála fram og til baka, eins og hlátrasköll í börnum... Yfir mig læðist smá glott; Hugsanir um æskuna renna í gegnum hugann... -HVAÐ VARÐ UM sakleysi og áhyggjuleysi æskunnar?!? ] [ Lýst er eftir hjarta; Það er vínrautt að lit og veiklulegt í útliti. Inni í því er lítil, brostin sál, dimmblá að lit... Eigandi þess er látinn, en hans nánasta fjölskylda vill fá að vita hvað um það varð... -Það týndist nákvæmlega fyrir 15 árum síðan, er eigandinn missti sakleysi sitt og viljann til að lifa áfram!!! ] [ Við hafið ein,og vindur strýkur slæðu, vökul þrá í dagsins önn og mæðu, og hár þitt ljóst,rysjótt strýkur vanga, ofar fjöllum við sjáum þig eina ganga. Lútið höfuð,lætur jörðu blikna, leifar þrá,sem aldrei aftur kvikna. Það finnst í lofti,þegar slitna taugar, þegar tóm og auga sig saman laugar. ] [ Lýstu mér garðálfur að gleym mér ei, þar gróf ég fimmaur forðum daga. Hann er falinn fjársjóður, er gleður gamalt hjarta mitt, meira en allt prjálið þar á eftir. ] [ Þegar mig dreymir þig er það sem lífið yirgefi mig þú ert fullkomnun á jörð. Þegar mig dreymir lífið er það eins og sápukúla sem gæti sprungið þá og þegar bara allt í einu. Þegar mig dreymir drauma er ég allt önnur en ég er ég er fullkomin í draumunum. ] [ Lengi las ég mig inn að kjarna þínum, lánaði mér oft í hugarflugi þig í leiki, fjöregg tekin og brottin upp úr ranni sínum, með söguformið breytt og atburðir oft á reyki. Með Íslands trölla skara að baki drekar flúðu, og leikar langir stóðu strangir fram að degi. Þá hönd mín stór fyrir sól tröllin grúðu, Svo engir steinar lægju eftir á valarvegi. Ég fylgdi heim að helli hverjum bandamanni, og risahendur urðu smáar er kiljan luktist. Reynið ekki,meinið ekki,eða gerið það að banni, Því hugarflug gerir barn að betri manni. ] [ Það riðlast stundum setlegt lífið, laumast löngun að unaðs stundum. Og þið af öllum kröftum dýfið, í djarfan leik á kvöldsins fundum. Þið ríðið yfir allt í stundaræði svo svipinn ykkar getur engin leikið. Brenndar þrár þrykkja skininn bæði nakin þylja berbakt,hverfur meikið. Hófför rista djúpt í þeirri dimmu, dettur tungl á svipinn ykkar allan. Frussar hann og þú í grimmu, Fáið það bæði , er tekur hallan. ] [ Rísa og hníga aldir í takt við sköpun, breyta lögun grasvarða við smáa glugga, innan berir veggir blaka skuggum fugla, hrjúfur hljómur kveður við á þessum stað. Sýgur á höfgi er hurðin af hjörum opnast, hleypur um tímans vindrof við mannlegt rót. Þú vaknar í bláu lofti og gyltum stjörnum, blasir göfug vina úr rekvið á hverri þjöl, innst þar inni í tímaleysi og þolinmæði, enn blasir mynd þín við okkur föl. ] [ Ef ég er húfa og vetlingar ert þú trefilinn sem myndar heildina Ef ég er skór ert þú vegurinn sem ég geng eftir Ef ég er galakjóll ert þú hálsmennið sem fullkomnar hann. Ef ég er eitthvað er ég allt með þér. ] [ Sólin er glöð eins og lítið barn og breiðir geisla sína út um allt. En vindurinn vill ekki að sólin skíni, honum finnst hún trufla sitt ýl og væl. Hann er að kenna laufblöðunum að syngja, syngja fyrir þig. En þú sérð ekki bros sólarinnar, heyrir ekki söng laufblaðanna. Þú stígur þungstígur til jarðar og hugsar um kennarana sem eru eins og fálkar í leit að bráð. Þeir skella yfir þig hafsjó af heimaverkefnum og skamma þig ef þú reynir að grípa í brakið af sumarfríinu til að drukkna ekki. En brátt kemur sá dagur þar sem þú sérð sólina brosa, og heyrir laufblöðin syngja. Við skulum bara vona að þá rigni ekki. ] [ Hvers vegna er ég ein, ein í þessum fólksfjölda? Ég spyr fólkið sem gengur framhjá, með Pampers bleyjur undir hendinni, leitandi að efni í hið fullkomna líf. En ég fæ ekkert svar. Hvers vegna læðist einmanaleikinn að mér, þegar að ég treð mér í sófann? Ég spyr fólkið sem gengur framhjá, með tannkremstúbur í vasanum, jórtrandi leður með stjörnur í augunum. En ég fæ ekkert svar. Hvers vegna strýkur enginn tárin burt af vanga mínum? Ég spyr sjálfa mig þegar ég geng framhjá, með augun negld í gólfið. En ég fæ ekker svar. Og ég liðast í sundur, líkt og reykur. ] [ Í síðasta skipti er slátrið á þínum borðum. Það er Jónsmessa og spekin lýsir í fáeinum orðum, að björgun sé vís,ef þú stekkur nakinn á öðrum fæti, með miðnætursólinni í kringum hús þitt með hóflegri kæti. Þá mun allt gull sem grafið er í bergið lenda í þínum höndum, en þá máttu ekki segja neitt í návist hjá komandi öndum. Þú framkvæmir verkið,og móður leggst svo í ilmandi grasið. Þá þú upplifir mikið,og heyrir í jörðinni náttúru masið. Svo uppspretta ljósar verur með augun blá og fara að kvísla. Mennskur maður,nú er bjargræðistími.Hvað ertu að sýsla? Þú réttir fram lófann,en heldur þér annars saman. Þeir dansa mikið og hafa af þér allskonar gaman. En ekki sést björgin,sem þeir áttu þér að bjóða, og ef fram heldur,þarftu í haust aftur slátrið þitt að sjóða. Þá byrjuðu þeir að henda í þig gulli ,og þú með enga vasa, og fjöregg þín döggvot um hendur þínar hrasa. Þú vaknaðir upp með andfælum og steytir hnefa í steina, og kaldur norðan gusturinn þakkaði þér fyrir að reyna Verst er í heimi,þegar spekin vitlaus fær að líðast, þú vesæll maður munt alltaf þannig koma síðast. ] [ Sagan forðum með almennum orðum, kúgun í öldum,lentu í Öxará fossinum köldum,með nornunum töldum. Aðeins þeir fáu auðbrekku sáu og fákanna fráu, hinir með auðmýkt lágu,með augu sín smáu, á hrauninu gráu. Draumur í lundi,náðu fjallkonu fundi,og tröllkonan rumdi, áfakonan stundi í Hreggviðs blundi,og fjallið dundi. Djúp er alda,dauð er Skjalda ,hirð að gjalda, Dreyri á stefnið kalda,með landvætti falda. lifir það smáa.Túnfífl og sóley við fjallið háa,af einskærum þráa. uppfylla velli og engi,þótt slegið sé lengi,lengi. Dugur tekur völdin,vættir höndla skjöldinn.kúgun fellir tjöldin. Nú er það þessi öldin,sem rita ber á spjöldin. Hvar finnast firðir að nýju,í aldanna Íslensku hlýju? Hversdags hugljúfar raddir,Hrafnarnir fljúgandi saddir? Lofgjörð un lindann þann bláa,ljósmenið í himninum háa? Lyftist úr hamrinum höfgi,eilíft hróp um göfgi. ] [ Þegar ég var yngri og flutti út í heim sagðist vera Íslendingur þá var vel á móti mér tekið en er ég kom heim sagðist vera útlendingur þá var traðkað á mér. ] [ Hvers vegna er páskahátðin haldin meðal manna það væri vert að kanna er það til að gefa tannlæknum auknar tekjur eða svo súkkulaði framleiðendur þéni betur horfa á hoppandi héra, með egg í körfum eða svala öllum okkar sælgætis þörfum guli liturinn á skrautinu er bjartur andstæða hans er myrkursins svartur gulur birtu boðar birtu vorsins og mannkyns við upprisu Guðs sonar. Líf hans lagt í háska við fögnum sigri hans og enn höldum páska. áttum við svo gott skilið? hann milli heljar og himna brúaði bilið hann átti ekki skilið neitt svo slæmt nú getur djöfullinn ekki dæmt Kristur einn hefur völdin Guðs hægri höndin. Kemur til með að dæma lifendur og dauða. Hann sem var og er frelsari snauðra og hirðir sinna sauða. Að fylgja honum er það besta sem er hægt við líf sitt að gera þú gætir margt prófað að vera en ekkert í staðinn kæmi engan ég dæmi en ég veit að í lokin er um tvo staði að velja annar mun þig um eilífð kvelja en hinn gefa ólýsanlega gleði sá einungis býðst vegna þess sem hann gerði hann tók á krossi skuldabréf vort og nam fyrir fullt og allt á brott skuldabréf er allt sem við gerðum rangt já það hefur eflaust verið mis langt en öll erum við jöfn fyrir hans augliti þú kemst ekki til himna með góðgerða striti nei það er ekki hægt að vinna sér það inn aðeins ef inn í hjartað kemst sonurinn aðeins í gegnum hann sönn hamningja er í höfn hann sem þekkir hverja hugsun og öll okkar nöfn þú gætir verið svo ríkur að þú hefðir allt sem með fé er falt en hvað stoðar það ef í hjarta enn er skarð það vantar alltaf í tómarúmið fyllingu ef hann kemst aldrei að með sína lækningu fyrirgefningu hamingju og aðhlynningu með trúnni þú hefur engu að tapa ef ég hef rangt fyrir mér og við erum í raun komin af apa þá áttirðu pottþétt ekki verra líf með trúna sem þína hlíf en ef án hennar þú hefðir lifað það með vissu ég get skrifað reyndar er ég viss um að ef þú lætur á þetta reyna getirðu fullvissuna aldrei kallað seina ef ég hef rétt fyrir mér að um tvenn öfl sé að ræða í heimi hér hart sé að vera mitt á milli en einn þig hvern dag með boðum gylli sá þig blekkir fýsn og veikleika mannsins vel þekkir hann reynir okkur á ýmsan hátt að tæla ég kann aðeins eina leið, hann burt að fæla með Jesú þér við hlið honum þú gefur engan grið. Ef sannleikann ég segi hvaða leið heldurðu að sál þín beygi erfiðast er að fara beint frá þeim vegi er þó greint sem hinum eina rétta leiðin þó ekki talin sú mest slétta hvert ferð þú er dauðinn kallar þar sem konungur illgjörða ráð sín mallar þar sem ríkjum ræður eilíf kvöl meiri en allt það böl sem í líf þitt mögulega kæmist hvert ferðu er líf þitt tæpist ég valdi hverjum ég vil fylgja og veit án þess að dylgja að ég fer þar sem gleði ríkir um eilífð alla er ég heyri minn ástríka föður kalla Með honum þú ert betur settur en án hans hann sem elskar líf hvers manns ef hann er til er þá ekki betra að lifa með hann sér við hlið ef ekki þá breytti þetta engu þú áttir allavega líf sem var gott bjart og hamingju hlið hollt en ef hann er til og þú honum hafnar þú hittir þann sem í kvölina hvern dag safnar. Hvers vegna að taka áhættuna er það þess virði að leika sér með hættuna. Þá gætirðu ekki til baka snúið vítið aldrei flúið. Hvers virði er að þurfa allt að sanna vera of stoltur mál þetta til að kanna? ] [ Er það hamingja eða vonleysi að koma að rúmi sínu tómu á hverju kvöldi og finna fyrir ótrúlegum tómleika sem étur upp alla ástarþrá sem býr innst inn í mér? Er það hamingja eða vonleysi að kynnast honum betur hverja helgi og finna fyrir yfirþyrmandi áhugaleysi sem étur upp hjartað mitt á 10 mínútna fresti á laugardagskvöldum? Ef svo er þá er ég áhugalaus... ] [ Ég get orðið eins og manneskjan í næsta húsi við þig. Ég get orðið eins og manneskjan sem ber út blaðið í hverfinu þínu. Ég get orðið eins og vinufélagi þinn,þessi skemmtilegi. Ég get orðið eins og söngvarinn sem heyrist í útvarpinu Ég get orðið eins og sá sem fer að heiman og heim. Ég get orðið eins og manneskjan sem varð fyrir stríðinu, Ég get orðið eins og sá sem er í bútum við vegkantinn. Ég get orðið eins og sálin sem yfirgaf heit malbikið og brunnið grasið. Ég get orðið eins og þú,sem bíð og vona,að það komi ekkert fyrir mig. ] [ Ogedslegt og passar ekki i pusluspili Guds komdu ut og læstu a eftir ter leyfdu teim ad horfa leyfdu teim ad dæma leyfdu teim ad drukkna og deyja i villu sins eiginn hugar. ] [ vid hugsun birtist tilfinningin longun til ad opna hjartad uthysa ollu sem tad ber til ad fegra huga hennar vid sjon birtist freistingin longun i snertingu og astridu til ad gefa henni mig alla og fa hana til baka vid sorg breytist asrtidan i hatur longun til ad breyta ollu tessu goda taka tad i burtu tvi nu, nu eydileggur tad hjartad nu vef eg um mig hugsanir sem gleypa huga minn og breyta mer nu geymi eg biturd og hatur eg stend ein eftir med tad besta sem eg atti, brotid milli handa mer hjarta mitt tomt og heilinn i fokki ] [ Fallegt ljós skein inn um gluggann minn eftir að ég hitti þig. Og ég vissi að það ljós var komið til að vera. À því augnabliki var eins og þungi og dimma fortiðar hirfi. Þú togaðir mig upp á yfirborðið og bjóst til manneskjuna sem ég er í dag. Allt var fallegt og gott og þú gerdir mig ad fallegri Blómarós sem þú ein áttir. En síðan komu þykk rigningarský yfir þig sem ég reyndi að toga þig út úr. En þú vildir standa ein í rigningunni sem aldrei hætti, og þú stóðst þar ein þótt ég var þar. À meðan við stóðum í rigningunni kom skært ljós sem þú blindaðist af og þú gekst í burtu. Þú eltir og eltir en vissir ekki hvers vegna. Og ég horfði á eftir þér. Að lokum gekst þú inn í hús sem þér þótti svo fallegt. En allt í einu varstu lokuð inni og allt varð grátt. Og ég stóð úti og drukknaði í rigningunni sem aldrei hætti. ] [ Have you ever had an glimp in your eye? - from watching the sun? I have, ´cause you are the glimp, made of fun you're like an angel, from the sky ] [ Nærvera þín fær blóð mitt til að hitna Fegurð þín veldur augum mínum glýju Kossar þínir fá hörund mitt til að svitna en orð þín.. ..orð þín valda hjarta mínu óumræðanlegri hlýju ] [ ...........Ég sé mig sitja á móður jarðar skauti ilmur hennar róar mig endurnýjar sálartetur leysir flækjuhnúta. Sólin skín og vermir Inn að hjartarótum Alsæl er ég, á þessu andartaki. Einstaka ský sem siglir -Í bláma himins. Andvarans blær sem snertir Ljúflega hár mitt Sindrandi vatn sem líður niður hlíðina hvíslandi til mín: ?hvenær kemurðu heim?? Fjöll islands gnæfa yfir Staðfesti, styrk og trú Krafturinn er þar Sem hvergi annarstaðar Island er land kyrrðar Orku og þroska -Landið mitt Fuglarnir syngja gleðitóna Þakkargjörð skaparans til Ég er sem í draumi Samtvinnuð öllu sem ER - Gamla Frón Hve lengi enn verð ég Að láta mér nægja að dreyma? ] [ kaldhæðni lífsins er... með ólíkindum misjafnlega heppnuð eins og gengur. Tillitsleysið og grimmdin Ganga á víxl Um götur ánægjunnar Þegar síst er von. Slá um sig með Tvíeggja sverðum Tálvona og svikum Armæðu fátæktar gatslitin loforð á gullnu fati ríkidæmis og gljálífis mannhraka metnaðars botn tilverunnar illskunnar leðju - er náð. - ] [ Í fjölbreytni ykkar eru þið flestir af okkur, og þótt annað klikkar,var guð þar góður kokkur, og hann kolli kinkar til ykkar, þegar ekkert er eftir af okkur. ] [ Það er hátt,svo klifur getur brugðið til beggja vona, og efst blásvartar brúnir,sem úr fjarlægð sem eru svona og svona, en keppa samt við húmið um myndir. Þar eru óskasteinar,þar eru stórir klettar,og skriður. sem hátt og stórbrotið renna á leiðinni niður. en inn á milli aðrir steinar er fela allar syndir. En þar er líka kyrrð til að leita inn á við, og unaðs lækur sem gefur hverri sálu frið. fyllir orku,setur hvern á miklu hærra svið en farið hljót í berginu til að trufla ekki samræmið. Hvar er ekki fegurð þín á hverjum fleti, sem blóm er lifnar stöðugt,í hverju feti milli ljósa í kletti. Loft þitt var fjalli blandað, Og æðar þess þrútið bermál,sem ég að mér anda,sem víddin þín inn í mér ] [ Eftir að ég sá veröldina í lit kom skuggi fortíðar yfir mig. Tilfinningarnar sem ég hélt að væru horfnar komu fljuandi eins og dökkt ský yfir mig. Ég blindaðist af skæru ljósi sem ég hélt að væri til mín en elskan mín það var til þin. Þegar ég hugsa til þín, er aðeins eitt sem í mér hvín og það er fyrirgefðu ástin mín. ] [ Til Afríku skal Aðalsteinn! í öllu sýnu veldi flýgur að morgni alveg einn og lendir seint að kveldi. Í Afríku er góður siður að innfæddra manna mati! túrista að brytja niður og bera þá á fati. Með Aðalstein gosa gætu þeir! lent í heljar miklum vanda þeir þyrftu að vera þrjátíuog tveir ætli þeir tröllinu að granda. Með hvalskurðarhníf og spjót að vopni þeir brytjað gætu hann niður! þó óttast ég mest þeir magann opni svo grúturinn flæði niður. Þá drepsóttir fljótt myndu landinu eyða þótt í dauðanum Aðalsteinn suði! hættið mig nú að skera og meiða og gerið mig heldur að GUÐI!! ] [ Eldurinn hér inni logar dauðar rósir þú til mín togar ekki fara þar inn á stjá viltu heldur vera mér hjá Það gæti komið sprenging og mikill kraftur og að þú komir aldrei út aftur ég vil ekki þurfa horfa upp á þig deyja því þögnin hefur ekki mikið að segja Bíðum þar til bálið deyr ég hef ekki orku í meir ég stend og upp til guðs bið því rósirnar mínar gætu lifnað við ] [ Í krampa grænum,og götuljósin gráta Grípur um sig tilvistakreppa Á gatnamótum alls er við skiljum Viljum við þessa sjón í kuldalegum trekki, fjarri öllu sem nýtilegt er? ] [ Ó mamma mía Þú ert pabbapía Og þegar ég borða þína pizzería Flýg ég upp til skýja Dadamm... Þú lest fyrir mig bækur Og þú lest fyrir mig ljóð En að berja mig er orðinn kækur Og að kalla mig viðbjóð Dadamm... Óóó, óóó, óóó Austin Powers Come and rescue me Because I need your powers Too set me free Dadamm... En árið 1971 Gerðist dálítið Kenny kom og barði mig út í eitt Og þú komst og bjargaðir mér (skrýtið) Dadamm... Óóó, óóó, óóó Austin Powers Come and rescue me Because I need your powers Too set me free ] [ Ég sit við gluggan, Götuljósin varpa daufri birtu á fölt andlit mitt. Ég trúi vart því sem ég sá! Glataður ertu mér, farin mér frá! Sú daufa von um ást frá þér víkur hjarta mínu úr, sú daufa von um umhyggju víkur sálu minni frá! Sú daufa von um veika ást er löngu glötuð mér. Líf mitt tekur nýja stefnu um hinn langa lífsins veg, og það eina sem til huggunar ég hef, er ljósið frá götuljósunum, sem varpa daufri birtu inn um gluggann minn! Aldrei aftur mun ég öðlast þessa tilfiningu! Aldrei aftur mun ég sjá þig! Aldrei aftur heyra þýðan málróm þinn, heldur útiloka mig frá ummheiminum! ] [ On the rainbow sit an angel this angel is whatching you he carries about you want to do enything just for you he loves your eyes he loves your tongue he loves your taste he loves your body he loves you more than everything in the whole world because this angel is... ...ME ] [ rennur mér úr greipum sem vatn úr blautum reipum vil ekki ennþá gleyma því læt ég mig alltaf dreyma... um... þig... ... sætasta brosið á jörðu kveður mig bless furðulegt hvað þú virðist enn svo hress eins og þú hafir ekki saknað mín neitt ...ég man þá tíð þegar við vorum eitt... sál þín fögur kallar mig til þín enn á ný en hvernig sem ég reyni er allt fyrir bí sorgin hljómar enn um svartar nætur ...ég kvíð þess að vakna og fara á fætur... til að... uppgötva að þú ert ekki hér þú hefur ennþá hjartað í þér ...meðan hjartað er hálft í mér... ... sofðu sætlynda ástarsorg skríddu yfir borg og torg upp til mín í mikla hlýju... ég hugsa enn svo mikið til þín vona að þú ratir leið til mín aftur og enn að nýju... elska þig og sakna þín svo mikið og myrkvast aftur fyrir vikið. ...uppgötva alltaf að þú ert ekki hér hvern morgun hvílir sorgin í mér meðan hjarta mitt sefur í þér... ] [ ...konan hallar sér að manninum á afskekktri strætóstoppistöð og hvíslar undurlágt í eyra hans. heit ástarorð, loforð um nýjabrum í kynlífinu og ferskleika í matreiðslu. maðurinn brosir, hallar sér að konunni til baka, lofar hreinleika í bílskúrnum, alnuddi á kvöldin og rósum á fimmtudögum. þau brosa. í bland við fögur fyrirheit og rómantík í loftinu svífur fersk kvöldgolan um hörund þeirra, svo þau hjúfra sig saman og halda í sér hita. strætisvagninn kemur eftir fimmtán mínútur en þeim finnst það of stuttur tími. þau vilja gleyma sér í faðmi hvors annars og ímynda sér að giftingarloforð þeirra verði loksins að veruleika. ...strætisvagninn kemur. á rúðunni sést lítill feitlaga krakki fletja nef sitt á henni og glápa opinmynntur á parið haldast hönd í hönd inn í vagninn. hann er aðeins tólf ára gamall, hefur séð sitthvað á þessum fáu árum og hefur fetað sín fyrstu spor á lífsbrautinni. foreldrar hans hafa skilið að borði, sæng og börnum, kuldi ríkir í ættinni gagnvart honum, því einkunnir hans og líkami hafa bæði hrapað síðustu mánuðina. hann finnur ekki rómantíkina í loftinu, kvöldgoluna sem skríður ísköld inn í vagninn, né hlýjuna í hjartanu. hann veit að ástin mun aldrei endast. ást sem hann mun aldrei fá. ...bílstjórinn brosir breitt við andlitum turtildúfnanna. hann veit fyrir víst að þau munu fara heim, kveikja á kertaljósum, hlusta á huggulega tónlist og elskast á þann hátt sem hann sjálfur hafði gert forðum. ekki lengur. í huga hans kemur upp minning um ljóshærðu konuna, konuna sem vaknaði upp með honum á morgnana, kyssti hann svo ofurljúft, lagaði örin á hjarta hans og gaf honum allt sem hún átti. allt það stutta líf sem hann endaði sjálfur eina kalda haustnóttina. lítið tár í hvörmum hans kólnar og rennur út kinnina í kvöldgolunni. hann þurrkar það af og harkar sorgina af sér. keyrir enn og aftur af stað út í kólnandi haustnóttina. sömu nótt og áður. ...strætisvagninn rennur ljúft áfram. byggingar þeysast fram hjá og einstaka tírur berjast veikar við myrkrið sem hratt skellur á. díselfnykur vagnsins hverfur í fjölbreyttri lyktinni af hinum farþegunum, ilmvatnslyktinni af dömunni fyrir framan, hestafnyknum af gamla karlinum til vinstri og andremmunni af skrifstofumanninum fyrir aftan. öll eru á leiðinni heim. heim til konu og barna, heim í kakó og tertur, heim í einmanalega íbúð eða heim til ókunnugs daðrara. ...ég horfi á háls fögru konunnar fyrir framan mig. hár hennar er ljóst og liðaðir lokkarnir eru bundnir saman í gylltum kambi. hún snýr sér við og brosir við mér. opnar munninn og segir undursamlegri röddu: ?ég var hérna líka fyrir 40 árum?. ...skyndilega breytist bros hennar í angurværan svip, hrukkur sem voru ekki áður dýpka og setja svip sinn á þetta sorgmædda og fagra andlit. hún snýr sér við og horfir fram í vagninn. döpur ýtir á bjölluna og stendur varlega upp. aflvana gengur hún áfram, á stirðum og viðkvæmum fótum, kyssir bílstjórann létt á kinnina, stígur út í myrkrið og hverfur. ...sé að parið er byrjað að kyssast og strákurinn farinn að spila leik í nýja gemsanum sínum. gamli hrossabóndinn og andfúli skrifstofumaðurinn hafa horfið en ég sit hugsi og kaldur eftir. kvöldgolan hefur aukist til muna síðustu andartökin og framkallað frosttár í hvörmum mínum... ...síðustu andartökin fyrir slysið heyrði ég auman grátur fremst úr bílnum. svo man ég ekki meir... ] [ til hliðar við raunveruleikann ráfa ég núna eftir að hafa brennt enn eina fjandans brúna til viðbótar við öskuhaugana að baki mér... styrktarbitar í sálinni löngu farnir að fúna og haldreipið slitnað eftir að ég missti trúna og hlýja sólin skín ekki lengur hér... vonaðist eftir að finna slóðina til baka en efasemdir í huga mér ennþá vaka til þess eins að kvelja mig og pína... hleyp yfir gil og hoppa milli þaka vona að svartnættið muni mig taka til að ég muni sorg minni týna... máninn skríður á himninum ? bjartur og skær virðist svo glaður ? brosandi fagur og vær en hann er aðeins endurskin sólar... sólin skapar allt ? allt líf frá henni orku fær fegurð ? norðurljós ? stjörnur ? hún skapaði þær norðurljósin dansa sem bláir kjólar... ... nú er sólin farin ? sál mín situr marin því ég var máninn ? heimski bjáninn og helvítis fáráðlingsdrullufól ....þegar þú varst mín eina sól... án sólarljóss mun máninn aldrei skína framar dvelur í myrkrinu ? sem um leið allt lamar þú varst mín sól ? þú varst mín gleði nú ertu farin ? og ég er farinn á geði ég skein aðeins vegna þín nú kemurðu ekki til mín ...nú er myrkur á Mánafold... ... norðurljósin skína áfram fyrir aðra en ég var alltof mikil helvítis naðra fyrir mér mun myrkrið ríkja hér æ þangað til langþráðan frið ég fæ þann dag sem að ég mun sökkva í sæ... norðurljósin hættu að skína í kvöld myrkrið er eilíft ? og tilveran köld... ...og þunglyndið fær á ný sín völd... spegilmynd mín virkar ljótari en hún var því breiða bros mitt er ekki lengur þar á hjartanu blóðríkt og fjólublátt mar... ... norðurljósin skína aldrei framar þunglyndið gleðina lamar... ég sakna þín svo mikið... ...og myrkvast fyrir vikið... ] [ I. Ekki er enn komið hádegi en bekkurinn er þétt setinn og kennarinn í essinu sínu. II. Ef það hefur ekki fúnksjón þá mun það ekki fúnkera segir fúnkrektorinn sem var klipptur úr Godardmynd ? ég veit hvað er þung lykt inni hjá honum, eins þegar er vor í lofti, ég veit hvað eru þung húsgögn inni hjá honum, eins þó þau væru öll fjarlægð, ég veit hvernig hann hefur murkað sálina úr konunni sinni. Það eru ekki augun sem ljóstra upp um hann, enda merkingarlaus eins og annað, það er samhengið sem þau standa í. III. Hvers vegna finnst mér eins og pabbi sé að ávíta mig? IV. Við töfluna stendur kennari, veður ask og eld fram og aftur og útskýrir sálarkrísur sínar fyrir nemendum, sem reyna að tileinka sér þær. ?Mér finnst ég sjálfur svo lítils virði,? segir kennarinn, reyndar í öðrum orðum, ?mér finnst ég svo lítils virði og tekst aldrei að úti- loka að ég hafi alveg rangt fyrir mér og sé í þokkabót vondur maður. Nú er ég hættur að drekka og ef til vill farinn frá konunni minni en finn samt engan frið.? Hann mun engan frið finna, sálarhvalirnir, heilahvelin og Ahab skipstjóri þurfa hvert á öðru að halda. V. Gættu þess bara, strákur, að hleypa ekki öðrum inn í ljóðin þín. Þú ert nógu andskoti margir sjálfur. VI. Krakkarnir vilja þóknast kennaranum. Konan hans valdi jakkann á hann. Hann er stríðinn til augnanna og nærvera hans er hrekkjabragð því hann er nákvæmlega á þann hátt meðvitaður um eigin kynþokka. VII. Ég stekk upp á borð gríp flúrperu, brýt í tvennt og rek prófessorinn á hol með báðum helmingum, næ valdi á kennaraborðinu og kem hinum í opna skjöldu. Við munum rústa raunvísindamönnunum, haha! Rústa þeim! VIII. Áhugaverð glæra og áhugarvert handapat, herra kennari prófessor, áhugaverð kenning ef um kenningu er að ræða en fer það fram hjá öllum nema mér að fallegasta manneskjan í heiminum er hér inni og nú er hún að laga til á sér frumspekilegt hárið? IX. ?Er ég að þreyta einhvern, eigum við að taka okkur pásu?? ? enginn svarar enda heiður og frami í húfi og enn er samband fólksins hér inni eins og nýfallin fönn og enginn hefur stigið í hana svo best að segja ekki múkk enn og kennarinn brosir. ?Ljómandi þá höldum við áfram? og það kyngir niður snjónum. X. Hann er að móta mig, hann er að gera mig, hann er inni í mér og ég vildi að yrði getnaður en augun í honum eru eins og hann hafi látið taka sig úr sambandi. En ekki hætta. XI. Neinei, þú veist, það skiptir ekki öllu máli að ég, þú veist, að fá fullnægingu. Mér finnst fínt að hjakkast bara svona með úreltri hugmynd í einn og hálfan tíma, hugmynd sem reyndar stendur ekki ? ég er hérna bara til að drepa tíma. Geturðu samt farið úr jakkanum í næstu viku, mig klæjar svo undan ullinni. XII. Kynþokkafulla miðaldra ítalska prófessoran í leðurstígvélunum, sem kenndi Bergson og útskýrði í fyrsta tíma að andmæli yrðu ekki leyfð því heimspeki hennar væri persónuleg og andmæli væru því persónulegar aðdróttanir ? ég hefði aldrei þorað að ríða henni en stofan var mettuð af ferómenum og testó- steróni og stelpurnar voru hundvotar líka. Ég kom samt aldrei aftur þangað enda hlynntur því að beina kynhvötinni í aðrar áttir, frjórri. XIII. Spurningar? Og nemendurnir setjast ofan á ? þeir eru samt feimnir, setjast ofan á og bæra sig með lokuð augun, taka í örskotsstund svolítið stórt upp í sig en leggjast aftur um leið og það er af- sakanlegt, kannski á fjóra fætur og biðja: Farðu inn í mig. ? Ekki upphátt, segjum ekkert upphátt, kennarinn dokar við og einhverjir óttast hann hafi lyppast niður. En það er öðru nær þegar hann snýr stoltur aftur, ryðst af áfergju fram, rífur meira að segja svolítið í holdið, glottir þegar nemendurnir kveinka sér, tekur hann út og stingur í munn nemendunum þar sem hann fær það ? glottandi því hann gefur sig ekki ? nemendurnir kúgast en kyngja. Fátíður er getnaður í gómi. XIV. Neyðarútgangur. Slökkvitæki, óáhugaverð kenning, neyðarútgangur, getum við ekki gert gott úr þessu? XV. Cunnilingus. Ég man einn kennara sem lagði mig í keng með tærnar yfir haus og gerði á mér cunnilingus. Mér, ég er strákur. Ástúðlegt? Nei en fagmannlegt. Vel gert, svo vel að ég hélt um hríð að ég væri ófrískur en það var náttúrulega fjar- stæða. Og þetta fór aldrei lengra, hann er ekki sambanda- maður. XVI. Reynum að sitja hér í heilan dag og læra ekkert sem við höfum lítinn áhuga á heldur segja bara það sem hvert okkar hefur brjálaða, hamslausa, gagnsúra ástríðu fyrir. XVII. Til er nemandinn sem þykist vera sömu skoðunar og þú í hverri samræðu, eða þykist í öllu falli skilja og samþykkja sjónarmið þín og rök en er alltaf, þegar ána ber að ósi, þegar til kastanna kemur, sömu skoðunar og kennarinn. Hann útskýrir fyrir stúlkum úr öðrum faggreinum að afbygging sé áhugaverð en því miður alltof helvíti súbéktíf. XVIII. Kennarar kunna þeim vel sem ætla að verða næstum alveg eins og þeir. XIX. Ha!? Skrifaði ég undir yfirlýsingu um að hafa áhuga á þessu!? Ég er nú hræddur um ekki. XX. Það þarf ekki styrjöld til að leggja alla tilveru manns í rúst. Settu hann bara niður í samfélagi þar sem ætlast er til að hann geri eitthvað allt allt annað en hann er góður í ? XXI. og vaknaði einn morguninn í hópi annarra barna sem hrópuðu ?stórfiskur? og hlupu fram og aftur. Sjálfur var ég góður í skák eða svona ágætur. Hljóp samt, reyndi að fóta mig. XXII. Verð að halda hæð, verð að hreyfa mig lóðrétt, dey ef ég hugsa bara lárétt, dey. XXIII. Það er ekkert pláss fyrir bleyður í mínum her. XXIV. Feiti kennarinn í fráhnepptu skyrtunni virðist líka geta gleymt líkama sínum og flytur fyrirlestur eins og hreinn andi skinka. XXV. Skilningur! Jibbí! Ég fann skilning! Manneskja! Hér! Ljúflingur Yndisson frá Skíri, líffræðingur og heimspekingur, starfar merkilegt nokk, sem manneskja, á sömu sviðum / bylgjulengdum og ég. Semsagt, nógu margt var áþekkt til að um raun- verulegan skilning væri að ræða. Það var nógu sameiginlegt landslag í okkur til að við vorum í raun að lýsa sitthvorri reynslunni þegar ég talaði um að finna kraftaverkapunkt en hann um þörfina á að halda hreyfingu. Hvar fundum við skilninginn? Þar sem við höfðum báðir stungið af sama fyrirlesarann og undið okkur út fyrir. XXVI. Eins og Íslandsvinurinn Ludwig Wittgenstein kenndi þá er farsælasta lausnin á virkilega erfiðu vandamáli að hunsa það. ] [ Alfarið ein á gullsleginni strönd Endurminninga. Hvert andartak er sem ofið í sekk Hins undarlega sem á eftir mér gekk á óvissunnar engi, þar sem ég fékk Víðáttubrjálæði, hins einmana Förumanns. Himinninn gleypti mig Björgin ógnuðu mér Lækirnir reyndu Að drekkja mér ...Ég hætti að minnast Mundi allt í einu.... Að strönd minninga minna var einu sinni grá. Eg hafði bara, Málað hana gullna. ] [ Þegar örvar sársaukans hitta sem harðast, og splundrast í þúsund örlitlar agnir og hjarta þitt engist af kvölum. Þá ertu ekki langt frá sjálfri þér, eitt andartak og þú munt sjá fortíðarinnar braut í heilu lagi. Tær sem spegill sálarinnar eða sem lindin djúpa og dulúðga. Vertu hugrökk og flúðu ekki Af hólmi sjálfsþekkingar. Mættu sterk andliti sjálfs þíns Framtíðin skorar á þig og bíður viðbragða þinna. Því líf þitt liggur hér og orsökin fyrir því hver þú raunverulega ert.. ] [ með brjóstið á röngunni og þig hvílandi á því eins og dauðan fugl tek ég daginn af brotthættri nákvæmni í veikri von um endurvakin vængjaþyt ] [ Eitt andartaks gáleysi Er nóg........Eitt orð til að eyðileggja heilt líf. Heilt líf sem tekur að þurrka út eitt orð. Hvílíkur máttur. Eitt augnatillit sem Uppörvar eða dregur niður Eitt orð sem blessar eða bölvar. Við höldum að við getum ekki neitt. Höfum engin áhrif. Eða séum ekki völd að neinu. Opnum augun og sjáum, Hlustum og heyrum Tölum orð sem óma. Gjörðir okkar birtast Í fótspori okkar. Við sjáum þær ekki alltaf Því við hröðum okkur áfram En þeir sem koma á eftir Sjá þær og hnjóta yfir þær. Við höfum máttinn Og kraftinn til . En nýtum það ekki sem skyldi. ] [ Fallinn er ég í stríðinu langa, og mitt rauða blóð lekur um mína vanga Svo hraustur herdáti var ég og stoltur af mínum heiðri og aga. En núna ligg ég dauður á jörðinni með sverð í maga. ] [ Í helli ég bý og brugga þar seiði og flýg á mínum galdrakúsi langt fram á heiði. Ef ég er reið, ég get breytt þér í hross og ef þú vilt læknast þá gefðu mér koss! ] [ Karlinn í tunglinu situr einn og veiðir, og horfir niður á jörðinna þar sem fólkið vanda greiðir. Karlinn í tunglinu kann sitt fag og tautar með sjálfum sér: veiðin gengur ekki vel í dag. ] [ Ef þú hefur kærleika og ást skaltu ekki kveljast, því einn af þjónum Drottins Guðs skalt þú þá einnig teljast. ] [ Hann gengur eftir götunni, með úfið hár og er í óhreinum fötum. Heldur á flösku í hendinni, hann brosir, hann er glaður. Hann veit ekki hvert hann fer eða hvar hann endar, því hann á ekki heimili, samt syngur hann. Hann á engan síma, það hringir enginn í hann. Hann á enga fjölskyldu, hann er einn, samt syngur hann. Kannski er hann glaður glaður því hann vaknaði í morgun, vaknaði og fær að lifa enn einn dag. Það vill enginn sjá hann allir líta undan enginn talar við hann, sumir hlægja að honum, sumir eru hræddir við hann, Samt er hann glaður. \'Eg horfi á hann og hugsa kannski átti hann konu líka kannski börn. Kannski var hann einu sinni eins og ég og þú. Kannski þarf bara lítið skref, lítið hliðarskref og tilveran hrynur. Kannski var það missir, kannski var það skilnaður, kannski var það fíkn, kannski eitthvað annað. En ég veit að einu sinni var þessi maður lítill, lítill í vöggu eins og hin ungabörnin, þá var hann kannski líka glaður. ] [ Lækjarbakkavísa Ljúft niðar Lækur um grund Lýsir himininn sólin Straumurinn gleypir mig um Stund Stíflast öndunartólin Ég sé þig, ég sé Og stjörnur glitra bjartar Ég sé þig, ég sé Öll sjón mín sér svartar Klettur á botni, Kallar til mín Kerlingin bíður heima Leiðinleg, Ljót, bitur í sýn Langar mest að gleyma Ég sé þig, ég sé Opna arma mína af löngun Ég sé þig, ég sé Haltu mig í þínum öngum Heima Hef ég stúlku og strák Hvolp, kött og dreka. Ekki Bætir Bíllinn úr skák Bilaður og með leka. Ég sé þig, ég sé Kalt vatnið um mig þýtur Ég sé þig, ég sé Kuldinn í vatninu bítur Þið þarna yfirborðsfólk Þiggið mína kveðju! Best væruð Brennd eða skotin af hólk Eða Bituð sundur af sveðju Ég sé þig, Ég sé Ég sé ekki mikið lengur Ég sá þig, Ég sá Svona eins og gerist og gengur. Drukkinn ég Datt út í hyl, Djöflar að mér hlógu. Mér Finnst það Fínt og segi nú skil Við Líf mitt Líkt og aðrir sem dóu. ] [ Ég dansa!!! Ég... Ég dansa! Ég dansa við ljósin! Ég... Ég dansa! Ég dansa við ljósin! Ég dansa við ljósin! Ég dansa við ljósin! Taktur!... Ljós!!!... Grípur mig!!!... Og ég dansa!!!... Ég dansa við ljósin!!!! Ég dansa við ljósin!!!! (á einhver E?) Ég dansa við ljósin! ] [ Heppnin mín er Humar Heppnin mín er humar Og hún fór frá mér í sumar Svo ef þú Lánar mér Lukku ég skal Launa þér með tómri krukku. Gull ég gæfi fyrir svo gætu blásið byrir Brennisteina og kalt blý ef þú búta vilt mig niður á ný. Þú skapar, þú eyðir þannig skilja vorar leiðir Ef þú vilt þá get ég riðið En það getur jú þannig séð biðið. Ég elska og því er ég var og ennþá er ég hér. Ég hata, hví er ég þá enn? Hata ég og elska alltaf í senn? Ég er krufinn, klofinn Og úr klettum saman ofinn En innra mjúkur og vel marinn, mikið og oft verið laminn, barinn. ] [ Ljúffengt Leyndarmál Tómt og þögult, Tímalaust Í Tómleikanum hóf hann raust, Hristi Höfin og skapaði Himininn sem stendur enn En hann Trylltist og hann Tapaði Tilvistinni fyrir menn. Eldinn sem að Undir býr Og tímann sem að heimin snýr, Kraftinn sem í Klettum er Kaldan ís sem frystir oss Og Logandi Ljós sem aldrei fer Líka mig, hans allramesta hnoss. Í Djúpu myrkri ég Dvel Í Dimmum stað þið kallið hel Fyrir það sem Ég Einn veit En hvorki menn né mannabörn, Því Þegar ég fyrst hans andlit leit Þá vissi ég að viskan var vörn. Guð vildi fylla Geiminn Og Gerði því allan heiminn En Brotabrot var það Besta Byggingin tók ekki meira, Segi það Satt, þetta var það mesta Sannleikan má þó enginn heyra. Shhh... og hlustaðu á Ljúfeng Leyndarmál í myrkrinu ] [ Með Ljóðum Úr Ljóðum fæði ég Líkama Með orðum Menn fá vit Hugan geri úr Hugsunum Hjartað úr rauðum ástarlit. Frá Skilning kemur mín Sköpun Í Bragarhátt fær Bit Afglapar úr eftiröpun Endurtekningin gefur hnit Með Hrifningu verða Himnar Úr Líkingu er Ljóð Tímin ljáir Taugarnar Takturinn er þess heita blóð. Ég Hef með Höndum gert nýtt líf Ég Fæ Fram Sorg og Sátt Varla mín mesta snilldarsmíð Megir þú vita hvað við er átt. -------GÆOERIGE------ Persónugervingin er fyrir Píkur Myndgervingin Málhelt Rómantíkin er fyrir Rónaklíkur Raunsæjið er steingelt Afl mitt er orðið Ég legg það á borðið Ég er ekki nýr en ekki gamall Ekki fátækur og ekki aðall En í Bókmenntastefnum þar Bý ég ei Við slíku Bulli ég segi nei... -------algjeijgfa----- Þú ert Hauslaus Hungurálfur Hugur þinn er trylltur kálfur Með Trompi ég Teygji Tímann ég beygji... En sjálfur er ég rétt svo hálfur. Þú ert Álka á hálum ís Áttir þú að éta grís En Gúmmí ég Gleypi Gullið er reipi Ég á nokkrar mýs og eina dís. Fokka þér Merking (Fukka þér Fátækt) Fokka þér stíll (Fukka þér þú) Fokka þér kerling (Fokka þér heilsurækt) Fokka þér skríll (Fokkuð ertu nú) Fokka þér tík (Fokka þér staður) Fokka þér rómantík (Fokka þér stund) Fokka þér ef þú ert rík! (Fokka þér maður) Fokka þér pólitík (Fokka þér grund) Fokka þér sjónvarp (Fokka þér enska) Fokka þér skáld (Fokka þér gagngríni) Fokka þér útvarp (Fokka þér franska) Fokka þér eitthvað sem rímar.(Fokka þér kímni) Fokka þér karlar (Fokka þér danska) Fokka þér konur (Fokka þér list og Elín hirst) Fokka þér hópar og tíska og allt milli himins og jarðar!!! Fokka þér orð Dag aeoig oaieh eoifg aowief iawfg eoifjaæ isoejffjfjjfæaoeirtj Kljæliajekrljgæoaijseijgoiajoeijgoieajægoijaeæoijgíaejw Eoigjeæowijgeagodigáwjeæoigjeaiojgeóijgæeoawijg Eælakdgiealkdfaipoejgáweljgíajsgoiejrogijeaigjeáiogaei´jg Oiejgæoieiæéjgoiejgoijegoiéjagæoijewgæoijeaæogijeaæiogjeaofgpije+gego Egioehagæiehgoieagæoihjraeeieieieieifoiejhfgoiæehafoie... ] [ Næstum því ljóð eftir næstum því mann Á miðju íslenska hálendinu þar sem hraunbreiður mæta jökulsvatni og rauð fjöll standa einmanalega upp úr fjallasandinum er staður sem heitir Hvergihér. Fyrr á öldum hittust tröllin þar við Hvergivatn á mökunartíma sínum þar sem yngri kynslóðin fann sér sína ævilöngu maka og gömul tröllahjón hittu gamla tröllavini. Síðan grilluðu þau kindur og staka menn á grillteinum upp við ströndina áður en þau héldu heim. Á eyjunum úti við vatnið hittist huldufólk hulið af ósýnileika-skikkjum á huldufólksþingi þar sem teningar voru kastaðir til að kveða á um dóm, umbun og refsingar. Eftir nokkra daga sneru allir heim ýmist kátir eða sárir og hittust ekki aftur á þinginu fyrr en fimm hundruð árum seinna. Undir sandinum eru smiðjur dverga sem nota eldfjöll sem fýsibelgi og smíða undraverða hluti úr skeggi konunnar, rótum fjallana, anda fisksins og hávaða kattarins. Þeir sinna pöntunum frá ýmsum guðum úr ýmsum trúarbrögðum og búa til eldingastafi, hamra, silfurboga, kerrur, míþrílbrynjur og margt fleira. Yfir himnunum þar sem sólin slokknar aldrei á sumrin en hverfur yfir veturinn búa fuglmenni í svífandi klettum sem eru holóttir að innan til að rúma hallir þeirra og híbýli. Þeir eru mennskir í útliti, bara stoltari, sterkari og stærri. Þeir svífa um á hafernavængjum og inn á milli skjótast þeir niður á þrjúhundruð og sextíu kílómetra hraða á klukkustund til að ræna mennskum meyjum sem hætta sér of langt frá byggð. En eins og Hvergi land og Hvergier og Hvergisést þá er Hvergihér hvergitil í dag og þess vegna ekkert meira heldur en drungalegur samhljómur í undirmeðvitund okkar allra. Í rauninni ættu þessir staðir að heita Áðurvar eða Ekkitil en þau nöfn eru þegar frátekin og í notkun af stöðum sem við getum heimsótt annaðhvort með sálarflakki, sterkum lyfjum, skemmdum mat eða með línudans á milli landamæra lífs og dauða. ] [ Með þér Líður mér eins og eggi Of þunn skurn Þú hefur brotið niður alla mína varnarveggi Og allt traust mitt horfið er Þú tekur mig upp Kyssir á báttið Ég brosi Geri allt fyrir þig Síðan þegar þú vilt Kastarðu mér aftur Vilt mig ekki lengur Ég bíð þarna brotin niðri í von Saklaust bros gegnum tárin En þú sérð þau ekki Þú heldur að ég sé ánægð Og tekur mig upp á ný Kyssir á báttið Svo ég brosi Hef fengið þig aftur Þar til þú kastar mér aftur Endurtekur leikinn þinn Sem ég ræð ekki við Þú heldur að þú sért svo góður En þar skjátlast þér Ég brotna bara í smærri mola Ég er ónýt ] [ Ísland. Fjörusteinn og fjallasteinn, frosið þang og fífils fang. Fiskurinn minn og ilmurinn þinn, vonin mín og ástin þín. Fjörusteinn,frosið þang fiskurinn minn,vonin mín. Fjallasteinn,fífils fang, ilmurinn þinn,ástin þín. ] [ Víkingur. Lúsugt hár,bruggað tár,höggvið sár. Litur grár,hugur smár,bitlaus ljár. Augun tóm,mikinn róm,kvenmanns klóm. Hjartað króm,tóman hljóm,landsins óm. Lúsugt hár,litur grár,augun tóm,hjartað króm. Bruggað tár,hugur smár.mikinn róm,tóman hljóm. Höggvið sár,bitlaus ljár,kvenmanns klóm,landsins óm ] [ Framtíðin er eins og stefnulaust fley. Einhverstaðar út á hafi Fortíðin eins og sokkið skip djúpt í kafi. Það veit eingin hvert fleyið fer næst. Hvaða höfn verður fyrir valinu? En skipin í djúpinu hreyfast ekki. Við göngum að þeim vísum. ] [ svartblár flöturinn undirstrikar dýpið olíubrákin sýnir alla liti í einu sólin endurspeglar síðustu geislunum á óhreinum haffleti ? neðan við mig... fölleit húðin undistrikar þreytuna hegðunin sýnir hvernig mér líður brosið endurspeglar síðustu gleðina úr óhreinu hjartanu ? horfnu úr mér... kemst aldrei til botns ? botns í mér dýpið er kalt ? þori ekki að stökkva hangi á brúninni ? skoða úr fjarska manninn sem ég hef að geyma... stefni á botninn kemst þá kannski að því hver ég er... stefni á botninn brosi þá kannski þegar ég syndi upp... nóg komið af því að hanga á brúninni tími til kominn að stökkva í dýpið faðma að mér þarann og ruslið á botninum tími til kominn að breyta þessu öllu... tími til kominn að breyta mér aftur... tími til kominn að ná mér aftur... gamla mér aftur... því ég sakna mín... tími til kominn að sökkva í dýpið... tími til kominn að synda aftur upp... ] [ Eins og sólin brosir þú. Eins og skær stjarna glitrar þú. Eins og rós í heiði blómstrar þú og dafnar. En þú veist ekki... Þú ert í blóma lífsins. Eins og elding hrapar þú niður á kalda jörðina. Eins og nótt að morgni hverfurðu burt. Eins og dagar lífs þíns deyrðu út. Og þú fattar ekki... Þú varst í blóma lífsins, fíflið þitt. Eins og gleði gærdagsins minnumst við þín. Eins og birtu morgunsins söknum við þín. Eins og öldur hafsins hvarfstu á brott. Og við vitum... Þú varst í blóma lífsins, elskan mín. ] [ Lífið hefur fjölmarga liti ljúft eins og eimaður hiti en eitthvað er það sem þekkist í þessu riti ekki með fullu viti. ] [ Dreymin langar að draga þig að mér og hlúa að hug og hjarta með augnaráðinu einu saman. Kraumandi hugur og hjartans sál þrá það svo mikið að taugarnar nötra undir feimnu óstyrku brosinu. En ég get ekkert nema beðið. Þrjóskast við og vonað, að þig dreymi líka. Vonandi dreymir þig líka. ] [ Hjartað sló mig út, og datt úr takt. Skyndilega birtist engill, og blés í mig lífi. ] [ Það var svo undarlegt Og það var svo innilega skrítið Ég hrópaði út í myrkrið Ég hrópaði... og ég hrópaði... Ekkert augnablik trúði ég því að eitthvað myndi gerast En allt í einu birtist lítil vera með vasaljós og spurði... Áttu 9 volta batterý? Ég teygði mig í reykskynjarann og sló brottför minni á frest... ] [ Hún gekk til mín að ljósastaurnum og sagði: Ég er systir þín Hún var stór, falleg, með ljóst hár en ég lítill feiminn strákur og kunni ekki á stórar konur. Ég skildi ekki orð af því sem hún sagði -- Hann gekk til mín og sagði Hún er systir þín Ég var stór, fullorðinn maður, og ég skildi hvert orð sem pabbi minn sagði Á einu augbragði skildi ég afhverju mamma öskraði á pappa úr bílskúrnum og vildi ekki hleypa honum inn... ] [ Til eru fræ, sem fengu þennan dóm: Að falla í jörð, en verða aldrei blóm. Eins eru skip, sem aldrei landi ná, og iðgræn lönd, er sökkva í djúpin blá, og von sem hefur vængi sína misst, og varir, sem að aldrei geta kysst, og elskendur, sem aldrei geta mæst og aldrei geta sumir draumar ræst. Til eru ljóð, sem lifna og deyja í senn, og lítil börn, sem aldrei verða menn. ] [ Blundaðu nú barnið vært og rótt, þú svífir um draumaheima. Eitthvað fallegt þig dreymi í nótt, er guðirnir hjá sér þig geyma. ] [ Sofðu nú anginn litli, sofðu vært og rótt, hver veit nema draumadísir þig heimsæki í nótt. Ef til vill dreymir þig eitthvað sem enginn í vöku sér, megi það verða englar og fríður álfaher. Í faðminn hún mamma þig tekur, huggar og þerrar þín tár. Hún myrkrið burtu hrekur, þig geymir um ókomin ár. Í fanginu hans pabba þú hvílir, kúrir í frosti og byl. Í kuldanum hann þér yljar, og leggur að hjarta síns yl. ] [ Gott er að eiga góðann að, einhvern sem að hefur hjartað sitt á réttum stað og trausta hönd þér gefur. ] [ Silent stillness floating through my vains, that bright new feeling only god explains. My chains surrenderd,fell firmly on the ground, they went with shame,are nowhere to be found. No longer bound i walk to brighter days, and the rocky road i finally dare to face. Embrace that stillness if it comes to you, and to your god be faitfully loyal´n true. ] [ horfi skelfdur niður dökku djúpin dreymi um að komast undir hjúpinn finna hvar ég hvíli undir skinni hvort ég leynist ennþá þarna inni... stend við sjóinn sorgmæddur og sár sendi niður bryggju lítið tár horfi kaldur út á hafið rauða hrollinn sem olli mörgum dauða... hafið hefur margt sem ég hef núna helling sorga sem að eru að fúna dýpin öll sem eftir er að skoða sjálfur hef ég úr litlu að moða... tek mér tilhlaup ? bruna fram og stekk titra er ég finn kuldann og sekk undir býfum botninn hraðar nálgast byrja sundið áður en ég sálgast... skríð upp bakkann ? titra mig til hita tennur glamra nánast niður í bita þó húðin mín hafið nánast frosið held mér takist ei að fela brosið... kuldinn sem að þekur staðinn hér kveikir lítið vonarbál í mér þurfti kulda til að þiðna á ný bíð þess nú að sálin verði hlý... ... finn hvar svitinn bogar fram og frýs funinn undir skinni mínu rís hitinn bræðir litla hjartað frosna held að litla sálin sé að losna...? ...hitinn bræðir litla hjartað frosna veit að litla sál mín er að losna... ...þurfti að stökkva ? til að vera laus nú er öll sorg horfin úr mínum haus... ] [ blóm sem drýpur krónu í grjóti vöxnum haga býr kalt við depurð og rigningardaga... brosir meira en maður sem í kistunni sefur svartnættið kalda er það eina sem hann hefur... ef sálin hvílir þunglynd í sorgum ofnu lífi hugurinn leitar að köldum hnífi... skaltu muna það maður að svartnættið tekur en enginn þig úr því að eilífu vekur... ... lífið er harðlynt og gleðin oft dofnar en ekkert vinnst aftur ef lífið þitt sofnar... ] [ J a ð l a k ó r Jaðlakór Jóðlakór fanbur Jaðlandi tanbur Gillingó Gammanó híó Galandi súkkúlú tríó Trinidad Tóbagó Trinidad Tóbagó Kerslandi Kaxandi issi Kuxlaró missi Felanbur Fanbur danóda Fúrlaki símó þatóta Trinidad Tóbagó Trinidad Tóbagó Somumbær Saxanda erre Solborronerre Skatta Matta Marakara Melkórí klammanþa lara Trinidad Tóbagó Trinidad Tóbagó ] [ Músík fæðir Menn á ný Maðurinn lifir henni í Henni vil ég vera Hjá Henni sem er fögur og frí. Músík Glæðir Gulli lit Gefur öllum orðum vit Vekur Viljans stundarþrá Vindinum Ljáir sinn Ljúfa þyt. Músík vil ég hlusta á Músík vil ég Dýrka og Dá Í Dauðanum ef ég má. ] [ Hjartað þitt Í Skuggalegu Skarði Skildi ég eftir hjartað þitt. Þú Þagðir og ég beið Þú sagðir þitt er hjartað mitt Og gerðu það sem þú vilt. Og tíminn leið... Í Myrkri og undir Mold Mældi ég kosti og galla Þú Brostir og ég Beið Þú Bauðst mér að eiga þig alla Þó, Þú meintir það varla. Og tíminn leið... ] [ Dramatík.... ,,Sekúndurnar, dagarnir, mánuðurnir og árin dragast saman í eitt augnablik sem virðist vara að eilífu? En er það ekki full dramatísk lýsing á því að mér leiðist? ] [ Draumar Mig dreymdi að ég henti augum mínum út í haf og kastaði mér framfyrir kletta. Furðulegt finnst mér núna í dag. Þegar ég vaknaði var ég enþá að detta. Mig dreymdi Rauðan himinn sem Rigndi bláum skóm og Rifsber sem flugu óra lengi, mér Leið eins og ég væri Lítið blóm, og allur alheimurinn grænt og stórt grasengi. Svo mætti ég á leiðinni skapara minn og guð og spurði hvernig drauma hann dreymdi? ,,Um eilífð og amen, strit og puð? Svaraði hann. Ég vaknaði, velti mér, gleymdi ] [ Smásagnarljóðið Mannhöggvarinn Blá augu þín Blika í tunglskini Eins og Bárujárnsþak Gert úr tini Bundnar Hendur Þínar Heilla mig mjög Og Hárið þitt rennur Sem sjávarlög Hví Tárastu Þú Tindrandi ljós? Þegar Tunga þín Er sem alparós Ég elska þig Með öllum mínum kraft Með orðum einum brýt Ég þitt meyjarhaft En... Oft reynist Flagð Undir Fögru skinni Feiknamargar eru Mér í minni Ég hef Rifið Rakað, brennt, bitið Reynt að kafa ofan Í mannsvitið. Bein þín eru Berg Til að Brjóta Og Hold þitt Er leir til að móta...... (Ég er ekki myndhöggvari, en ég er listamaður) Ég Teikna á Þetta Titrandi skinn Þar til rauður vökvinn Rennur út ekki inn. Beittur er minn Bráði töfrahnífur Í Birtunni sérðu Hvernig hann svífur Ég Klippi og Klóra með þessum hníf Klýf þig og rífi Og gef þér nýtt líf. Oft reynist Flagð Undir Fögru skinni Hvað í Fjandanum er Þarna inni? Nú opna ég Þig sem sardínudós Og að eilífu Geymi þína hjartarós. ] [ Ástaróður til framhjáhalds Vertu vitstola!!! Vertu frík! Skelltu á þig skrípafés! Skolla ertu lík... Seldu Sál þína! Slepptu þér! Hugsaðu um Hórdóma! Haltu þér að mér... Við Skulum pissa í Skurði! Við Skulum hlaupa frjáls á urði! Við Skulum passa Skrattan! Við Skulum eignast Manhattan! Við Skulum svífa án Skrokks! Við Skulum ríða án smokks! Og ef við gerum allt þetta Þá verður þú mín Svo má nú hver passa sín. Stuðlarnir stíga dans Í ástaróði til framhjáhalds. ] [ Ég bý yfir mínímalískum takti og ég hef svolítið mónótónískar hugmyndir Vinir mínir segja að ég sé straight forward (blátt áfram) Stundum þá fer ég í náttföt sem ég á ekki og tek upp hljófæri sem ég fel inní veggnum heima(það veit enginn að ég spila á hljóðfæri) Ég varalita mig og trúiði mér tónlistin er þannig að ég er með bóner allan tímann á meðan ég spila, sem er gott, svona myndrænt séð því ég geri þetta ávallt einsamall þannig að það getur verið hálfgerður félagsskapur fyrir mig að horfa á mig kastast í tilfinningar mínar úr speglinum. Spegillinn endurkastar mér án hljóðs en þegar ég horfi í hann þá verður það sem ég sé svo ótrúlega magnþrungið að ég hugsa að hljóð myndi aðeins gera það óviðráðanlegt og ærandi. Ég skjalfesti þetta allt á teip(segulbönd(myndsnældur með hljóði) Skúffan sem ég geymi teipin í er vel falin í kistu sem er grafin í heiðmörk Sumum kann að finnast þetta spennandi en ég er bara svona straight forward náungi sem nenni sjaldan í ræktina og á ekki pening fyrir jeppa. ] [ Um daginn þá var ég að hlusta á viðtal við djassara Hann hlustar á Argentískan undergroundtangó á meðan hann eldar nýsjálenskt rísottó fyrir konuna sína, sem er mannfræðingur frá Venesuela. Um daginn þá var hann í afmæli hjá Serpa, sem er mikill vinur hans síðan hann var að taka upp plötuseríu með hellamunkum frá Norður Tíbet. Hann gaf honum tónverk eftir sig sem hann tók upp á Bahamas í fyrra með Ítölskum bassaleikara, sem óverdósaði víst í fyrradag í eftirpartýi í Vín. Um næstu helgi þá ætlar hann að spila undir gjörningi við gullfoss þar sem forseti Íslands og Mimbalanó Keisari ætla að leiða saman hesta sína í vinsemd og tala um hertan fisk á milli þess sem tónlistin stelur hjörtum þeirra og snitturnar hvísla\"við erum namminamm við erum namminamm\" Já hann er djassari þessi náungi og mig langar svo að eiga með honum kvöldstund. Hann getur sagt mér frá lífi sínu og ég get leyft honum að heyra hvernig ég myndi vilja hafa kassagítarútgáfuna af tónlistinni í Die Hard 2. ] [ Guðlaugur er ekki syndlaus maður og það er Guðrún líklega ekki heldur heimsmarkaðsverðið hefur fyrir löngu upprætt alla synd og gefið upp á bátinn merkingu hennar. Synd er ljótt orð um eitthvað ljótt og í heimi best, súper, ultra og 100%free þá viljum við ekki að hver sem er sé að hafa í flimtingum einhver ljót orð einsog synd Þegar trúarbrögðin(litabókarhugmyndir um GUÐ) og pólitíkin(litabókarhugmyndir um MAMMON) leiða saman hesta sína þá er ekki laust við að tískan taki við sér og skíri okkur inní söfnuð með stæl. Ef maður trúir því að maður sé í tísku samkvæmt heimsmarkaðsverði þá getur maður sofnað merkingarlaus og syndlaus maður. ] [ Da laden brændte og flammerne stod højt op i himlen så røde Kom tjenestepigen grædende til betjenten på vaklende ben. Hun havde sit lommetørklæde i hånd og kjolen var krøllet og snavset, hun kiggede på ham med bedende øjne og tårerne faldt ned på kind da hun sagde med skælvende stemme: ?Det er min skyld at laden den brænder.? Undrende betjenten så stille på hende og sagde så sagte og blidt: ?Hvorfor det? min lille Marie? ?Jo, ser du. Johannes sagde han ville pule mig så, at de blå og røde flammer ville stå ud af roven på mig. ] [ Barnið mitt er vaknað Hlær og grætur hátt Nágrannarnir hrista Reiðiþrungnir hausa Með vanþóknunarsvip. ?Láttu það nú þagna Það hefur alltof hátt Það montar sig of mikið Af svona stóru barni Það fíflalegt jú er Að vilja leika sér.? Ég horfi bar`á fólkið Læt mér á sama standa Því ég er virkilega glöð Að það er loksins vaknað Barnið mitt í mér. ] [ H afið er sem hugarrót sjálfs míns A flstöð reiði minnar knýr F angelsi óttans burtu S ynir jarðar falla I ðunnar faðmlög í N akinn nyflungur S undurkraminn H art lætur í hafinu reiðu U rðin rótast upp G ljáfægðir steinar kastast A ldarlöng bið á enda R ánarfaðmur opnast H eljar hugarburður E flist við hafsins gnauð I nní mér eitthvað slitnar M inningum drekki U ndir yfirborði R eiðinnar ] [ þó að eigi báru bornum pura eigi eru andlit föl úti í skógi öldruð fura aldiraðir sem borða möl ] [ Á gólfinu eru glerbrot, ég reyni að púsla þeim saman, svo komst ég að því, að glerbrotin á gólfinu var mitt eigið líf með brotna sjálfsmynd. ] [ Þrái að sofna eftir hörmungar dagsins en ligg andvaka, góni upp í loftið, fylgist með flugu labba í loftinu, kötturinn sefur, malar hátt, heyri suðið í vélinni og þyngslin á andlitinu mínu eru að gera mig gamlan fyrir aldur fram. ] [ vonandi getum við orðið nánar aftur talað um gömlu dagana ég sakna þín svo mikið að ég fæ verk í brjóstið þegar ég kemst ekki með. á fjölskyldu, gamanið minna en áður loka augunum og sé klær þær rífa mig sundur fékkst mig alltaf til að hlæja með grettu, já hinu einu og sönnu grettu. þegar tómleikurinn varð svo mikill að maður sá ekki neitt, skildir þú mig ] [ þegar vinnan er orðin grundvöllur illsku er best að hætta. þegar ein besta vinkonan þín stingur mann í bakið. fallega vinkonan, þegar fólk kemst á snoðir um eina litla lygi sem verður að sprengju. stelpan sem eyðileggur mannorðið. stelpan sem er veik. og þú að verja ekki vinskapinn. tala ekki við mig, of hátt sett fyrir byrjendur. ég mun aldrei gleyma því hvernig þú leist á mig, komst svo heim til mín í heimsókn, á minn leikvöll og vissir alveg hvað ég var að hugsa. hélst að þú værir velkomin eftir öll ljótu orðin, eftir að hafa staðið með óvininum. ekki tekið mig inn þetta er ekki vinur þetta er sjálfselska þessi ár sem ég hélt að væru góð vinaár horfinn út um gluggann bara tvo nett orð: FALLEGA GELLAN. ] [ litill drengur sem kallaði á mömmu sína en sást ekki lítill drengur sem stækkaði og valdi vitlaust, var hafnað. lítill drengur sem elskar mig og enginn sér hann. drengur sem á allt gott skilið, gengur ekkert upp. tíminn læknar öll sár.....kjaftæði. ] [ ég mundi rífa tæta drepa, gæti ég fengið þessi orð aftur. þessi orð sem þú hvíslaðir að mér í símanum. þetta laugardagskvöld sem ég var sokkinn í hyldýpið. bjargaðir mér frá dýrinu sem skreið inn í mig þegar ég var á flöskubotninum. ef þú gætir aftur litið svona í augun mín þegar ég var niðri að leika við djöfulinn. þú gafst mér upprisu þegar sálin krossfesti mig. þessi fallegu augu sem sögðu svo margt án orða. afhverju fórstu svona snökkt frá mér. gat ekki klárað að segja þér mitt. gleymi aldrei þessum orðum sem þú sagðir. þau eru það eina sem ég á handa mér einni. afhverju ertu ekki hérna þegar ég segji hluti sem meika ekki sens. afhverju varstu ekki hérna þegar ljósið mitt kom í heiminn. sakna þín svo. veit þú situr stundum hjá mér þegar ég kalla á þig. stundum fell ég en fæ bara skrámur sem gróa ekki....svíður. svíður gat á hjartað, brotna stundum og græt. ] [ Í kvikmyndinni sagði einhver \" Ekki taka þetta persónulega Joey, hvorugur okkar er sá maður sem hann vill vera\" Í dag framdi sonur einhvers vopnað rán að verðmæti 15.000 krónum. Í morgunn þá seldi dóttir einhvers sig fyrir einn skammt af amfetamíni. Kostirnir í hennar stöður eru nokkurn veginn þeir að amfetamín er jú hennar efni. En á hinn bóginn þá hefur það örvandi áhrif á hana og þar sem að líf hennar er fyrir löngu orðið að martröð þá má alltaf deila um hagsæld þess að kaupa sér aukaskammt af uppvakningu í þegar að svefninn væri líklega dýrmætur sem gull. Í gær þá hengdi félagi minn sig. Hann sá enga leið út. Ef maður lifir í raunveruleikanum þá ætti maður að hlægja sig máttlausan yfir þvílíkum ranghugmyndum. En ef maður lifir á mörkum góðs og ills þá endurfæðist maður oft á dag. Stundum sem heilagur Lúsifer og annað slagið sem frelsarinn. ] [ Eg vildi ad eg elskadi tig ekki svona mikid Eg vildi ad eg væri ekki ad springa utaf ter Eg vildi ad verøldin væri falleg utaf einhverju ødru en ter Eg vildi ad eg vildi ekki missa tig svona mikid Eg vildi ad mer væri sama Ta slægi hjartad mitt ekki svona hratt nuna. ] [ Ég röllti um í stóru fjósi í leit að mínu skæra ljósi Afhverju þarf ég að vera þessi kona og hvers vegna þarf þetta að vera svona Afhverju sætti ég mig, ekki við mig hvað er það sem ég sé við þig Afhverju byrjaðir þú að mig elta nenni ekki að láta tilfinningar mínar svelta Vinnu alki ég veit þú ert ýmindun mín er illa skert Vildi aðeins líta á þig og sjá því ég vildi bara kúra og vera þér hjá Þetta var allt eintóm villa mér líður hræðilega illa Ég í marga hringi sný og vona bara að við sættumst aftur á ný ] [ Er tetta sem kallast: gløtud ast? Ast sem er ennta bara ekki vidurkennd? Ast sem eg veit er til Sem fyllir huga minn en eg verd ad hreinsa. Tvi tetta er of hvad? erfitt, vanskapad, fordæmt? Ja tetta er glatada astin -forbodna astin- -synduga astin- -leynda astin- Astin endalausa Astin min astin min sem grætur. ] [ Það er svo gaman að við syngjum sama sönginn -þó það sé ekki upphátt Það er svo gaman að við göngum sömu götu -þó þú sért hinum megin Við gerum þetta fyrir okkur því enginn annar veit því enginn annar sér því þá getur enginn stoppað okkur. ] [ Einmana og einn starir utum gluggann. Madurinn sem gekk framhja, gæti verid vinur tinn en hann er tad ekki. Tu gjoar augunum til min og eg hætti ad stara i mer serdu dotturina sem tu eignadist aldrei. Glasid er ad tæmast, hvad svo? Enginn bidur eftir ter, ekkert kallar a tig. tu borgar med peningunum ur vinnunni sem ter tykir ekki vænt um. Og tegar tu gengur ut um dyrnar heilsaru myrkrinu sem tekkir tig best. ] [ Eg se okkur i solinni sitjandi i grasinu grafandi tanum i jordina andlitid mot solinni og augun lokud eg vissi af ter samt tvi fingur minn snerti tinn bara ørlitid, svo enginn sa Tetta var besti dagur sumarsins. ] [ Sarsaukinn i augum tinum færir minum tar tilfinningarnar eins og ogroin sar umhyggju tig langar ad vefja og sarsaukann ad sefja en mattur minn er litill gagnvart ognarvaldi hugans. ] [ Liggdu med mer i minutu og latum sem ar lidi hver andardrattur er manudur og hver hreyfing tekur viku uti syngja fuglarnir a ognarhrada, keppast vid timann sem inni hja okkur lidur vid liggjum og vonum ad tegar vid voknum verdi timarnir adrir og timi til kopminn fyrir mig og tig ] [ Ferskur sumarblær þeysir um ærslafullur beint í opið flasið á mér. Ég fæ fiðring í magann og orðin byrja að para sig saman á blaðinu.. Eitt af öðru stíga þau sinn fyrsta dans, feimin valsa framávið um hvíta örkina. Stefnuleysið uppmálað. situr hjá, eilítið undrandi á varamannabekknum fast í sömu sporum og veltir því fyrir sér hvert skuli haldið héðan af. ] [ Vestur um voga fór ég að vetri til, til þess að sjá heimsins sólarboga og líka að sækja þig. ] [ Svanurinn syndir á tjörninni með snjóhvíta vængi. En í raunnini er þetta engill að dansa tangó. ] [ drunginn drýpur af loftinu digrum dropum svartnættis draga þeir til sín fagurlita veggina umbreyta þeim í þykka skugga stórt og áður bjart herbergið þrengir að mér fyllir mig bláum tómleika með hverri hreyfingu málningapensilsins hviss hvass svartir blóðdroparnir ráða niðurlögum lífs míns framtíðin flýgur út um gluggann ] [ Ég þekki eina stúlku sem veit ekki hvert vegur hennar liggur. Hún eyðir dögunum í skugga einmannaleikans. Hún elskar engan og engin elskar hana. Hún missti alla frá sér og tók engan að sér. Hún lifir engu lífi Því líf hennar er dautt. Einn daginn vaknar hún upp við martröð lífsins og áhveður að ganga inn í sólina. En myrkrið eltir hana og hvíslar að henni að hún sé dæmd til að sofa allt sitt líf. Ári seinna sá ég hana við gröf móður sinnar að biðja um hjálp. ] [ Stundum er ég ekkert nema stefnulaus stúlka í stórsjó lífsins, á bát sem er byrjaður að leka! ] [ Þung ber fram að ystu brún, þeysir ótrauð áfram. Bjargarlaus er sál á hugans flugi. ] [ Klukkurnar hringja svo hægt og hljótt. Ég mun sakna þín sárt því burt þú fórst of fljótt. Enga fleiri gleðidaga mun ég eiga, og heldur enga brandara mun ég segja. Þó ég væri út í Róm eða jafnvel Kína. Þá mundi ég alltaf setja ný blóm á gröfina þína. Þótt þú sért ekki hér heima, þá mun ég samt alltaf góðu minningarnar af þér í hjarta mínu geyma ] [ Lífæri mín full af illsku, hugur minn fullur af hreinskilni og ég bjargaði þér á tímabili en ég gafst upp. ] [ Ég rogast með þunga skapið hvert sem ég fer. Og allann þungann á andliti mínu ég ber. Því þessi árans skítaheimur gerir engum gott, því allir lenda í pirrelsi þótt það týnir bara einum sokk. ] [ Að lyfta höndum getur verið erfitt en samt hægt. Skelfur hún ? Já Geturu haldið á kaffibollanum ? Nei Hvar er hugur þinn ? Jákvæður En líkami þinn ? Neikvæður eða? ] [ þungur pokinn á herðunum þreytir er ég þeysist um ókunnar sveitir í leit að stað sem veitir mér skýli... pokinn þyngist með fleiri árum er hann gleypir hrátt við nýjum tárum pokinn er stórt sorgarbýli... eftir dágóða leit ég dett inn um dyr drunginn er samur og kaldur sem fyr króknandi skríð ég í skuggann... lúinn finn ég minn líkama dofna ligg hér blautur og við það að sofna þá heyri ég bankað á gluggann... vakna við bankið á gluggann stend upp og yfirgef skuggann veit ekki hvert ég mun fara en veit að ég verð að svara... ... gleymdi pokanum í skugganum hver skildi vera í glugganum? ] [ Hjartað kramið, tár renna niður, sparkað og lamið, engin er miskunin. Blóðið streymir og sömuleiðis tár, því sá sem lendir í þessu er bara reiður og sár. ] [ Elsku hjartans Eva mín ofsalega ertu fín eins og lítið fallegt blóm og þetta eru ekki orðin tóm. ] [ Nína mín svo sæt og fín séð hef ég eigi fagurra fljóð. Er það einlæg óskin mín að yrkja um þig lítið ljóð. ] [ Tilfinningar mínar eru villtar og svo kemur hugurinn og ýfir allt upp það þarf að koma ró á hugann og tilfinningar Tilfinningarnar þurfa að vera góðar því hugurinn skapar úr þeim því efni sem það hefur og allt er þetta þroski allt innra með manni er verkfæri hvers annars Ég er smiður bæði með hamri og huga sköpunarverkið ræðst af því efni sem maður hefur ] [ hver er hjá mér þegar ég geng í gegn um mesta sársaukann...þú hver er það sem passar að hann meiði mig aldrei aftur...þú hver hvetur mig áfram þegar allir slíta mig niður...þú hver er hjá mér þegar heimurinn fellur og ég dett í myrkur af og til...þú hver er það sem brosir til mín þegar ég er pirruð...þú hver er það sem hringir á klukkutíma fresti vegna söknuðar...þú hver heldur utan um mig þegar mín versta martröð gengur yfir...þú hver kyssir mig góðan daginn hvern morgun...þú hver rekur mig áfram þegar ég sekk í mitt mánaðarlega dýpi...þú hver skylur mig þegar allir eru ráðalausir...þú hver sýnir mér ást þegar ég þarf og veit hvenær hann á ekki að gera það... jú, það ert þú. þú snertir mig á alla vegu og veist um alla mína góðu staði. þú hefur vakið upp hliðar og tilfinningar sem ég hélt að væru glataðar að eilífu... ég elska þig ] [ vorum nánar, hugsa enn um minningarnar, hvernig gat ég hjálpað þér þegar ég var að drukkna sjálf, og hvernig þú ýttir á eftir þögninni í vinnunni lokaðir á allann þráð sem til var...kom þangað til að geta verið nálægt ykkur vinkonunum en það gerði bara illt verra. reyndi að ná sambandi en mér kom ekkert við. var umkringd snobbpíkum sem voru alltof uppteknar af sjálfum sér..helduru ekki að hjartslöginn hafi þagnað vegna þín til hvers væri ég svona reið ef hjartað á mér myndi ekki slá svona fast. minning falleg sem heldur fyrir mér vöku sjakeglösin og partýin. má ekki vera með lengur,er ekki einu sinni boðið. þegar ég stóð upp og rankaði loksins við mér sá ég mína einu sönnu vináttu og það var mín gamla góða sem er flogin burt í augnablikinu. sú eina sem kom,sú eina sem hringdi. sú eina sem heldur áfram að reyna. sú eina sem er traust. ég veit að við bondum alltaf á þessu stigi en ég held að allt annað sé dautt. við munum hittast við munum talast en ég mun aldrei gleyma hvernig var skitið á mig. og ég veit að þú veist að ég stend við það. ] [ Bíddu eftir mér í dag og í nótt og thá kem ég á morgun. En thó ég verdi ekki komin eftir nóttina ekki byrja ad sakna mín. Búdu til morgundaginn med mig i huga, -ekki gráta thangad til á morgun. ] [ Hugljúf tónlist, lagid teirra kunnuglegur ilmur, ilmvatnid hennar lagt á bord fyrir tvær thær tvær. Myndin af theim í hillunni. Stendur og søkkvir sér inní hana. Man augnablikid, saknar thess thó tad lifi innra med henni. Hún hefur setid tar alveg sídan. Hún geymir tad sem best hún getur endurlifir og endurskapar. Sami ilmur, sami matur sømu føt og sama tónlist. Nú er tad eina sem hún tarf ad gera loka augunum. ] [ Af hverju ertu farin eftir þennan eina dag? Þú gafst mér eitthvað sem ég aldrei gleymi. Þessi flugferð á skýinu, í gegnum regnbogann. Fórst með mig þangað sem ég hef aldrei komið. En var þetta þín fyrsta ferð, er ég þér einnig sérstök? Segðu mér tað svo ég viti, svo ég geti farid lengra inní þennan draum ] [ Èg er thakklát fyrir thig og thad sem thú hefur gefid mér, en nú máttu fara, thví ég hef fengid mitt engin thørf fyrir thig lengur. Thví thú kenndir mér thad, thad ad vera eigingjørn. ] [ Svört þoka læðist til þín blómin fölna hamingjan dvínar allt að ösku blóð litar jörðina mannlífið hrynur Auðn, allt sem áður var, líf, von, rigning allt horfið Án hamingju, ástar og friðar endar heimurinn í klóm auðnar! ] [ Hvernig virkar það? Að vera leikstjórinn í strengjabrúðu heimi? Sú sem togar í hina og þessa spotta? Myndar sambönd,ást,hatur og kannski dramatískann dauðdaga, svona rétt til að reyna að endurvekja hrifningu áheyrenda? Og reyna, alltaf rembast við að reyna að láta ævintýrið enda vel? -Ljáðu mér eyra vinur aðeins í örskamma stund. Því nú mun ég segja þér Að það sem fæstir vita er að leikstjóri í strengjabrúðu heimi, hann er einn, í sínum. ] [ Ég hafði svo margt að bjóða..hafði svo margt að gefa... ..orð mín ..tifinningar..sannleikann..tárin. Ekkert af þessu vildir þú sjá..engu af þessu vildir þú af vita.. Hver er ég?? Ég er dauðadæmd í lifanda lífi.. -í lífinu þar sem fólk lifir lifandi..ég er- en mínu lífi lifi ég látin... ] [ Sólin sest kvöldlitirnir lýsa upp himinninn Þeir endurspeglast í húmbjörtum snjónum eins og vindurinn sem blæs á vit örlaganna. Þau finna hana í loftinu, hún svífur um líkt og laufblað sem bærist um í andvaranum hún hrífur með sér ungar sálir sem njóta hvers andartaks í faðmi hvers annars. Myrkvið færist yfir, hún leggst í dvala hatur og öfund geysast yfir hana, eins og eldur í sinu laufin fölna og þrestirnir þagna. Hún lætur ekki bugast í harðri baráttunni svífur á ný í rafmögnuðu andrúmsloftinu. lífið tekur við sér litirnir koma fram Dagur rís, blómin blómstra þau finna hana snúa aftur í ljósi lífsins sem hjartsláttur í vatni þau njóta hennar, Hún hefur sigrað. ] [ Það er svo rosalega mikið að gerast, en samt finnst mér lífið tilgangslaust. minningar um þig allstaðar felast, en ég brást víst því sem kallað er traust. Það er svo margt sem ég get brosað yfir, en í staðin koma tár tár sem skilja eftir sig ör og ólæknandi sár. Orð sem þýða ekki neitt, skrifuð á blað og gleymast svo. En þó þú hafir skrifað og gleymt þá les ég og orðin brenna hjarta mitt. ] [ Ég heiti Ariana, viltu kyssa sárið mitt? Ég heiti Ariana, ég elska alla, elskarðu mig? Ég heiti Ariana, ég á 27 unnusta, viltu giftast mér? Ég hika í stutta stund, stutt, örstutt, minna heldur en það tekur að lesa þetta, eða þetta. Í raun hikaði ég ekki, andartakið fraus. Já. Ég heiti Ariana, ég á 28 unnusta, viltu giftast mér? ] [ Spegill lligepS ] [ Sveiattann svili Sveiattann frænka Sveiattann frændi Sveiattann systir ... Sveiattann sjálfur ] [ Ef ég er þreyttur ... þá sef ég. Ef ég vakna ... þá vaki ég. Ef ég er svangur ... Þá borða ég. Ef ég drekk ... þá dey ég. ] [ Það er skárra að sofa en vaka Skárra að lyggja en sitja Skárra að sitja en standa Skárra að standa en ganga Skárra að ganga en að hlaupa Skárra er að tapa en sigra. ] [ ég skildi þetta ekki af hverju ég ég gerði ekkert af mér er það? þú komst aftan að þér ég bjóst ekki við þessu ég er svo meidd þú meiddir mig ég er enn meidd farðu burt ég vil þig ekki sárin eru að gróa ] [ ég finn sting ég finn verk er hann að lækna eða er hann bara enn einn enn einn enn einn sem ég kann ekki að nefna sem kemur fram tárunum sem ræðst á mig með hnífi og tætir það enn aftur eða er henn vinur vinur til að hugga til að græða til að þurrka burt tárin og segja að allt verði í lagi og að ég sé falleg og að hann fari aldei burt burt frá mér eða...? ] [ ég er við sjóinn hann er svo fallegur svo máttugur svo stór og mer finnst ég svo lítil er það ekki best? að vera ekki of stór vera bara maður sjálfur vera bara ég mig langar að stinga mér í hann og týnast í smá stund koma svo aftur og sjá hvort eitthvað hafi breyst.. ..ég held að ég hafi minnkað ] [ Farðu varlega! þú talar við mig Og treður í mig fróðleik Sem ég mun ef til vill Aldrei gleyma ] [ Uppsilon i og i og joð Hver er eiginlega munurinn? á jkkur, ikkur, ykkur og okkur? Hver jkkar, ikkar eða ykkar er hið sanna hljóð og hver fer með flejpur, fleipur eða fleypur? ] [ Eltir skugginn mig, eða elti ég hann? Þegar ég er í myrkri, er hann þá í ljósi? Það vona ég svo sannarlega. ] [ Sannlega segi ég yður Svo sannarlega get ég það. Yður ] [ Nú mæni ég Plag fyrir Mexallon Mest mig langar í Jaspet. En ég er einn í Blam-e-ston Færist ekki fet. ] [ Vor að sumri varð hitinn bráðnaði blautur Haust varð að Vetri ] [ Virði í blindni Fegurð í gjafaumbúð Sannleikur fjarri ] [ Fyrir langa löngu síðan þá var orðið framorðið. Nú er framorðið eina orðið. Allt hefur orðið fyrir framorðið, því er framorðið síðast orðið. ] [ risavaxin rís reist úr þungri bið faðmar ljóta sem fagra fremst allra er á líta. ] [ Ég heyri sál þína gráta meðan þú brosir framan í heiminn. Ég veit hvað þú hugsar þegar þú hlærð. Ég sé hvernig þú berst fyrir töpuðum leik. Ég fylgist með þegar þú lætur þig dreyma um betra líf, nýja fortíð og aðra nútíð. En á sama tíma sé ég óvinina berja að dyrum og þú býður þeim inn. ] [ Engin von við eymdarhlið. Eina leiðin niður á við. Lengi mér sný, lengi ég vitna. Lengur og betur mun svitna. Tungan þurr og kverkar tættar Tregur rek í holur vættar Illa lykta loðin sárin Inn með trega, teiga ég tárin Í gegnum taugar gneistar fljúga Úr báðum holum fer að sjúga Bragðið illa burtu horfið Blautir rjúfa barmar hárið Hendur grípa sveittann hnakkann Hald'í andnauð þétt við makkann Ógnar læti engu hlífa Armar hárið af mér rífa Þenjast holur þrútna barmar Þróttur brestur en sleppa armar Tungan dofin titrar lúin Teiga loftið, er lotan búin? ] [ hjarta mitt er steinn hjarta þitt er silki steinninn minn er rispaður silkið þitt er trosnað steinninn minn er kaldur en silkið þitt er hlýtt ... geturðu vafið þínu silki utan um steininn minn? og haldið á honum hita? ] [ I hate the way you talk to me And the way you cut your hair. I hate the way you drive my car I hate it when you stare. I hate your big dumb combat boots and the way you read my mind. I hate you so much it makes me sick It even makes me rime. I hate the way you?re always right I hate it when you lie. I hate it when you make me laugh even worse when you make me cry. I hate it that you?re not around and that you didn?t call. But mostly I hate the way I don?t hate you not even close, not even a littel bit NOT EVEN AT ALL. ] [ -\"Góði guð. Ég hef bæn sem ég get varla farið með. Hún er......... -\"Þú ert komin/nn í samband við himnaríki. Hugsið einn til að heyra bæn dagsins. Hugsið tveir til að leggja inn bæn. Hugsið þrír..... Þú ertkomin/nn í samband við bænamóttöku himnaríkis. Hugsið einn ef bænin er um fyrirgefningu. Hugsið tveir ef bænin...... Þú ert komin/nn í samband við fyrirgefningarþjónustu himnaríkis. Hugsið einn ef þú hefur guðlastað. Hugsið tveir ef þú ert samkynhneigð/ur. Hugsið þrír ef.....\" -\"Djögulsins rugl er þetta\" Ágúst Magnússon Fæddur 15. Júlí. 1966 Dáinn 24. Desember 2003 ] [ Heitt er undir jörðu eldurinn kraumar drepur allt lifandi Döggin fellur á landið okkar allt er blautt En þá lifnar dauðinn við og allt verður eins fagur og áður og Íslandið okkar ] [ Ég þarf að ákveða líf mitt á það að vera svart eins og þögnin? rautt eins og dauðinn? hvítt eins og óskrifað blað? marglit eins og blaðra? eða kannski gult eins og ljósið? ] [ Halló! Ég kalla til þín þú ert á röllti, en lítur við og stoppar andartak Halló! Ég kalla hærra til þín þú rölltir áfram lítur ekki við né stoppar Þú rölltir miður götuna þekkir mig ekki skrefin þín fara hraðar og hraðar þar til þú hleypur þú gerir hlé á þínum hlaupum og stoppar loks Ég hleyp til þín hvísla til þín Halló! gríp um axlir þínar og spyr þig hvert ferð þinni er heitið ] [ Flókið er mitt líf á vængjum mínum ég svíf inn í heim minna drauma því enginn eldur er þar að krauma Ég vil stefnu og öruggan heim en ekki vera ein af þeim sem eiga um sárt að binda því líf þeirra flækist á milli mynda Ég vil sjá um þetta allt ein því leið mín liggur aldrei bein ] [ kleinurnar hennar ömmu bragðast vel Alltaf kemur hún færandi hendi færandi mér kleinurnar sínar Ég jappla á þeim í dágóða stund Þar til allt er búið en þá bið ég ömmu mína um að baka meiri kleinur ] [ Dagar og nætur verða ein tár Ég stend undir trénu fuglarnir fljúga og lækurinn rennur Hinu meginn við árbakkann stendur þú Ég syndi með fiskunum yfir til þín og felli tár Það eru táraflóð í augum mér því þegar ég klifra upp bakkann er enginn þar þú varst aðeins ýmindun mín ein og ég græt ] [ Í hausinn minn ég ávallt er að bralla tóbak og hass ég í álpappir malla að ljósastaurnum ég mig halla á meðan ég set í feitan skalla þá ég til skrattans kalla og bið um nokkra stóra dalla því nú er tímabært að láta mig falla verð í dílerinn minn að bjalla heilsa upp á kunningja mína alla hafa góðan tíma til að við þá spjalla Ég hleyp um á milli nokkra grasvalla því þá sé ég alla mína slæmu galla ] [ Lítill fugl flýgur um loftin blá foreldrar hans eru farnir honum frá Byssukúla skýst honum frá lendir í vængi greyinu á Fuglinn hrapar niður í tjörn þar sem leika sér lítil börn Strákur einn er kallar sig Björn skelkaður lítur á fuglinn í vörn Hræddur, því fuglinn er kominn í hlekki og flýgur því greinilega ekki Hleypur að lækni sem er tékki og bíður fyrir utan á litlum bekki Meðan tímanum líður situr strákurinn og bíður kemur fuglinn út heill og fríður kveður strákurinn og á hesti sínum í burtu hann ríður ] [ Harpen er i himmelen Og sangene så flotte Englene de er der Og flyver elegant. Jeg ville gerne harpen Så jeg også kunne spille Nogle muntre sange Jeg kunne måske flyve Og hente sådan harpen Men jeg gider næsten ikke Det er jo alt for langt. Jeg har også fået tilbud Om at flytte mig derhen Men har da ikke lyst ] [ Til allra sem hlut eiga að máli. Ég bý í stóru húsi, en ég þekki það vel, og frá blautu barnsbeini hef ég sífellt tekið á mig sökin fyrir ykkur, ræningjana, því ég vissi ekki betur. En ég vissi og veit enn að það var ekki ég, nei, en í meðvirkni minni var ég blóraböggull ykkar helvískra. En ekki lengur! Ég lýð ei meir að hylma yfir með ykkur, helvískum, og ég lýsi því hér yfir að ég er ekkert leikfang! Ónei! Leikið ykkur eins og þið viljið, en í þetta sinn, spilum við eftir mínum reglum. Ég lýsi hérmeð yfir stríði á hendur ykkur huldufólk. Komið og takið þessu með stæl. Ef að á hinn bóginn þið neitið að berjast.. ..þá lýsi ég bara yfir ótrú á tilvist ykkar. ] [ Ég elska þig því þú ert gölluð og veik eins og ég Ég elska þig fyrir veikleikana og þreytuna sem gefur mér afsökun fyrir leti Ég elska þig því þú ert mannleg yndisleg og þrátt fyrir allt einstök ] [ Vetrarkonungur ég bíð þér í bardaga Sumardrottningin ] [ FRIÐUR Að ætlast til þess að heimsfriður ríki er ekkert annað en sjálfselska! Því hvernig gæti ég ætlast til þess að einhver gerði það sem ég vildi!Það sem mér þykir rétt gæti öðrum þótt rangt og svo öfugt.Fólk er mismunandi langt komið og með mismunandi bakgrunn og reynslu.Margt fólk þarna úti vill gera marga hluti sem mér finnst ekki boðlegir og sem tilheyrir ekki mínu uppeldi, en tilheyrir e.t.v. þeirra. Sumt sem ég myndi fordæma, finnast ógeðfellt og sem myndi ekki einu sinni fyrirfinnast hjá dýrum.Ef ég ætlaðist til að einhverjir lokuðu augum sínum fyrir reynslu, sem þau gætu öðlast, því mér finnst hún ekki boðleg þá er ég að traðka á hugmyndinni um frjálsan vilja og útiloka hann!!! ] [ Vindurinn þýtur, sólin skín og regnið bilur á gluggunum. Íslenskir vindar, Íslensk sól og Íslensk rigning sem rennur niður andlit mitt. Íslenskur snjór sem liggur eins og fannhvítt helgilín yfir fallegu Íslandi. Þess vegna er ég stolt af því að segja að Ísland er landið mitt! ] [ Jafnvægi andans er styrkur minn. Orð andans er vegur þinn. Fótspor feðranna er reynsla okkar. ] [ Víst er það rökrétt að þú viljir frið, jú þú hefur nú öðlast allt veraldlegt í heimi hér,svo friður er þér eðlis- lægt.En hvað með þann sem á ekkert af þínum auð eða þann sem hefur eignast en misst.Ertu viss um að þeir vilji þinn frið. ] [ Það hæsta fær lýst í gegnum mig á leið í þig,ó mín óendanlega þögn sjálfsins upprunnin úr engu. ] [ \"Ég\" finnst gott að sitja hér og hugsa um hugsunina á bak við hugsun. ] [ Friður mun eigi ríkja fyrr en maðurinn hættir að berjast við sjálfan sig. ] [ Þegar spurningar þínar fela í sér meiri sannleika en svörin. Þá ertu á réttri leið. ] [ Margar eru brýrnar yfir lífsins fljót og hver velur sér sína.Því þær vísa allar leiðina heim. ] [ Þú hlóst er ég reyndi að verjast kúlnahríð þinni með grjóti. Þú hlóst hærra þegar þú sást að ég gat ekki varist.Þú hlóst hæst er ég bað um frið.En hverskonar friður er það þegar þú hefur tekið allt mitt og gert sem þitt. ] [ Þið áttuð alla mína samúð og aðstoð skilið, er þið voruð arðrænd og myrt. Heimurinn kom ykkur til hjálpar er hann heyrði grátur ykkar. En þegar þið farið að gera það sama við aðra, eiga þeir þá ekki alla samúð mína og aðstoð skilið. Á þá heimurinn ekki að koma þeim til bjargar líka eða gildir það aðeins um ykkur. ] [ Ég hef hafið mig til flugs, skil allt eftir þarfnast einskis. Ekkert til að halda aftur af. Svíf frjáls yfir öllu án alls. Hátt, hærra, hæst á leið til mín sjálfs í öllu sem skiptir engu. ] [ Ég er aðeins hugmynd að lífi. ] [ Ástæðan fyrir því að við reynum að útskýra allt, er aðeins svo við sjálf skiljum það. ] [ Satan stígur villtan dans í húsi mínu, en nú verð ég að henda honum út því partýið er búið. ] [ Undarlegt hvernig Bjartsýnin kemur..kitlar mann í magann og segir svo margt fallegt.Ekki snúa þér við, Grimmdin...systir hennar mun bíta þig í hálsinn. Ég veit þér þykir blóð fallegt. Hjá mér lekur það...stríðir straumar af vörmu blóði...niður hálsinn, hlýja. Kannski sú eina sem ég mun finna hér. Ylurinn af mínu eigin blóði? En fagurt er það ..rautt sem eldur..lokkandi. Ég má ekki hugfangast af fegurðinni. ] [ The strokes of the brush touch my soul not in time nor in space corners within never before touched by color or light engulf the new sensations Forgotten feelings are stirred memories with few ties left embroider a new quilt to warm my insides I´m not alone Someone has been here before time and space don´t exist only the awareness of recognition ] [ Bólstraður skýja bakki liggur yfir tjörninni. Svífa í hægð sinni yfir landið. Hvít og grá á víxl, Maður gengur eftir skítugri götunni og horfir á skýin fela sólina í sínum bólstruðu örmum. Hvert er hún farin? Hafa þau gleypt hana? En skýin hlæja bara af þessarri heimsku athugasemd, Hlátur þeirra er djúpur og dropar byrja að detta einn á fætur öðrum. Maðurinn blótar í ofvæni og skammar skýin, En skýin bara líða áfram á bólstruðum vængjum sínum. ] [ Svífandi um hugarhvolf mitt, hugmyndaskutlur í biðflugi. Öngþveiti á jörðu niðri og þær fá ekki að lenda. Eldsneytisskortur þvingar margar í Krass! Bang! Clash! En þær stærri halda flugi lengur, og þær allra stærstu.. ..jafnvel svo lengi að þær fá afgreiðslu á annars ofmettuðum flugvelli. ] [ horfði á mig með augun full af síld glitrandi sílfur hafsins fullfermi syndir viljalaust í net næturinnar silfurfiskur á svartri ermi ] [ Meðan sólin svaf Skinu guleygð ljósin skært Með fullum mána. Svo yndislegt vor Í blautum andvara trjánna. Ilmandi regndropar. Vaknaðu. ó vaknaðu Vængjað vor í vetrarlok Fljúgðu fagnandi. ] [ Vertu stilltur…. -sagði hún og hegðaðu þér almennilega. Hvernig gat hann verið stilltur. Hann sem hafði aldrei verið stilltur -almennilega. ] [ Vonglaðir vindar Visnuð laufblöð endurfæðast Gulgræn af öfund Svartir stafirnir Leggja lykkju á leið sína Orðin hafa villst ] [ Ég hitti einu sinni mær við hana langaði að segja, ég held að það hafi verið í gær, ég sagði henni að hún væri meyja. ] [ Hvað þú ég um það heilsa alla gjörið mér detta niður falla eins og alla malla ég þú hringur minn eins og hver annar þú hús kisan mín eins og þú sérð hver er ég niður skaltu falla eins og mér ber sam eins hver og annar hvað þú ég um það ég skal sjá um það ] [ mig verkjar og ég get ekki hugsað. Mig langar að sofna ... ... vakna þegar mér er batnað. Samt gerist það ekki og ég get það ekki sjálfur. ] [ Afar fögur er hún Heillandi og lokkandi Hún segir mig ekki skilja sig Ég fái ekkert fyrr en ég skil En það er hún sem ekki skilur Það er hún sem svíkur loforðin Loforðin sem útlit hennar og augnaráð lögðu á mig eins og álög Ég er ekki lengur frjáls Heldur fjötraður svo gott sem dauður ] [ Öllu líkur einn daginn. Einmitt daginn í dag Endir og allt bú... ] [ Hefur læst sig eins og sinueldur Í hug og hjörtu manna Nú er ekkert heilagt lengur. ] [ Hvernig ætli lífið sé án vonar? vonar sem kemur manni á flug yndisleika og ástar sem stundum verður að engu og þú hrapar niður á kalda og hrjúfa jörðina. Þú byrjar að leita að nýrri og betri von sem lyftir þér upp aftur. ] [ Ég get ei sýnt þér hver ég er, ég get ei tjáð þér ást. Ég get ei grátið, ég get ei séð, ég get ei legið í faðmi þér. Í söltum sjónum, sál mín hvílir. Lifir en þó ekki enn. Grætur svörtum tárum niður, niður vanga þinn. Birtan horfin, myrkrið hvílir, lokar hurðum, lokar vegum. Ég get ei losnað, ég get ei farið, ég get ei beðið eftir þér. Tárin losna, augun lokast, hví að bíða eftir þér. Í svörtum sjónum synda tárin, tár iðrana, tár sorga, tár hefnda. Ég get ei grátið, ég get ei séð, ég get ei legið í faðmi þér. ] [ Geðshræring! Hugur minn er geðbilaður og veikur. ÉG keyri í hringi. Skil ei hvað ég geri. Niðurnídd hverfi, gömul hús. Ekkert skjól frá illsku hafsins. Ekkert skjól frá skelfingu lífsins. Hamrarnir háir og fagrir, draga mig til sín í illsku sinni. Stríðir straumar, dropa niður. Kinnar mínar, blautar og votar. Fram af hömrum rennur bíll. Glötuð sál sem kemst ei neitt. Ég get ei verið hér, ekkert líf sál mín sér. Eylíf breyting ætluð þér, situr fast í sálu mér. Get ei lifað, verð að hverfa. Djúpið mikla taktu mig. Geðshræring. Minn hugur er geðbilaður og veikur. Taktu mig með örmum þínum, eigðu mig til æviloka. Ég á ei annað skilið... ] [ Hafa orð einhverja merkingu? Merkingu sem líkaminn segir ekki, með augngotum, snertingu, og framkomu. Afhverju að taka mark á orðum, þegar við sjáum meiningu í verkum og augum. Hvaða orð geta tjáð ást og hatur betur en hegðun og augnráð. Hvað eru orð? Eitthvað sem líkaminn getur ei tjáð? Eða eitthvað sem ætti að hverfa? Getum við sagt það sem við viljum, án orða? Orð tjáningar. Hvað eru orð? ] [ Hefuru staðið í myrkrinu og fundið þessa orku, alla þá orku sem kemur frá hafi og landi. Þú finnur hana ef þú leyfir myrkrinu og vindnum leyka um húð þína. Þá finniru hversu yndislegt myrkrið er. Þá finnuru orkuna, þá finnuru þinn innri mann, þá finnuru lífið. ] [ Regnið fellur í stríðum straumum niður niður niður götur og torg og endar í hafinu. Vináttan er eins og regnið. Fersk, fallandi fellur í hafið. Hafið er óendanlegt líkt og vináttan. Vináttan er allt um kring Það þarf aðeins að horfa á til þess að sjá það að hún er til staðar að hún er óendanleg. En þó þarf einnig að vera varkár því hafið getur varpað yfir þig öldu og á svipstundu er allt farið þar á meðal þú sjálf. Vináttan er ýmist óendanleg, eða svikul. Líkt og hafið mun ávallt vera. ] [ Nakin kona stendur við fjörðinn, starir á hafið. Sér engann tilgang, Þráir dauðann. Það er skjót lausn. Nakin kona liggur á hafsbotni. Enginn af henni veit. Enginn veit um hana. Hennar er ekki saknað. Nakin kona hvílir lúin bein á hafsbotni. Aldrei finnst hún. Henni mun alltaf vera kalt. Því hún er nakin kona á hafsbotni. ] [ Sorgin nagar þessi yfirþyrmandi tómleiki hvað get ég gert hvað get ég gert Ég vona að þetta sé ekki satt Ég sé þig aftur á morgun Ég ætla að hringja í þig bara til að vera viss En fæ bara talhólfið Þá loksins uppgötva ég að þú ert farinn farinn að eilífu Sorgin nagar hjartað ég hefði getað hjálpað ef ég hefði hringt ef ég hefði komið ef..... svo mikið af ef.... svo mikil sorg.... svo mörg tár..... svo mikill söknuður.... hvað get ég gert hvað get ég gert ] [ Snjórinn er svo djúpur og leiðin er svo löng á þessu dimma vetrar kvöldi. Frostið er svo mikið að mig svíður í augun og tárin sem leka niður kinnarnar eru svo köld. Ég finn ekki fyrir fingrum mínum sem ég get ekki hreyft. Ég heyri ekki lengur brakið í snjónum því vindurinn hvíslar stöðugt að mér að mér sé ekki ætlað að fara lengra. Augun mín lokast og ég fell niður í snjóinn. Ég finn ekki fyrir líkama mínum þótt hjarta mitt sé svo heitt af þrá í það sem ekki er til. Tár mín eru að frosna og hugsanir mínar þurkast út. Það eina sem ég veit er að í kvöld mun ég deyja. ] [ Þig dreymir um útgöngu úr hellinum sem þú hefur verið í svo lengi. Hellirinn sem þér finnst svo dimmur og kaldur er að gera þig brjálaða. Lyktin og hárin af birninum sitja á þér. Þú bíður og bíður eftir að dyrnar opnist og að þér verði hleypt út. En innst inni veistu að það eru engar dyr á helli. ] [ Ég sakna alls þess sem stendur í reglunum ég sakna barnsins míns ég sakna ástarinnar og ég sakna ríkissjónvarpsins og ég sakna þess að hafa ekki lekið sem hraun niður fjallshlíð. Gallinn er sá að ég sakna alltaf áður en ég legg af stað og síðan gleymi ég. Stundum þá er ég svo upptekinn við það að gleyma þegar ég legg af stað að þegar ég kem til baka aftur þá man ég ekkert hvert ég fór eða til hvers og gleymi því algerlega hvernig það er að sakna ] [ Sem betur fer eru reglur um ljóð annað hvort ekki til eða heimskulegar. ] [ Þegar maður gengur inn á ljóðvöllinn þá er eins og maður plati sjálfan sig líkt og aldrei fyrr. Maður fer að tína rusl með ánægjuna eina í fyrrirúmi. ] [ Áður en guð varð til þá var tíminn í fleirtölu. Hann var í gær, í dag og á morgunn. Áður en guð varð til þá var ég skáld. Eftir að guð varð til þá er ég tími en ekki skáld. ] [ Stærðarinnar vélþrjótur á fleygiferð eftir veginum í einhverntímann-löngu-eftir-miðnætti-sólinni. Við stýrið situr morðingi og við hliðina á henni, sit ég. Í húsasundi eru kisur að kela hún er stríðin og hleypur hist og bast mmmjáðu mmmjér! Kisi ætlar ekki að lát'ana sleppa þessa og þýtur á eftir. Hún stefnir heim til sín.. Hann líka, hehe. En flest þess í stað út eins og vaffla, nýkomin úr járninu. Og sýrópið lekur af brenndum köntunum. ] [ Það er af engu að missa, allt hefur sinn tíma án tíma.Því allt er eilífðin eins og þú. ] [ Ég horfi aftur og sé hvernig "vinir mínir" fóru að. Ég með tryggðina að leiðarljósi lét margt yfir mig ganga fyrirgefning alltaf til staðar kannski voru þeir eingvir vinir heldur eitraðir snákar nærðir af skemmdum eplum tilbúnir að nota sér mig sér til framdráttar. ] [ Gerðu það hættu. Ekki særa mig meir. Ég elska þig, treysti þér. Leyfðu mér að vera ég sjálf. Ekki öskra á mig - það særir mig. Ekki lemja mig - þá verð ég hrædd. Ekki þröngva þér inn í mig - þá meiði ég mig. Ekki fara frá mér - þá verð ég einmanna. Gerðu það hættu. Ekki særa mig meir. Ég vil bara að þú elskir mig, sért góður við mig. Gerðu það hættu. Ekki særa mig meir. ] [ Þegar skór þínir sópuðu ryki, og þú sparkaðir aldrei í hiki, var vissan þó aldrei trú, að veröldin væri þú, enda varstu bara skítur á priki. ] [ Ég sofnaði eitt kvöld við skjáinn, og sjónvarið hélt að ég væri dáinn, svo út úr skerminum sveif, andi þess og inn mig dreif, og eftir það þá erum við náin. ] [ Það var einu sinni þöngulhaus, þremillinn,hann úti fraus, þýddur var og þar með laus, þökkin er,hann sama kaus. ] [ Bára hér, og bára þar, bára sér, og bára bar, bára er, salt sem fer, um allt í mér. ] [ Það er rétt,þú ert brúnn pollur, þar með óhrein,svo um mig fer hrollur. Svo þú hefur þá tilgang? Er það ekki skrítið?Í gær varstu mikið, en í dag bara pínulítið. ] [ Blóðið í æðum mínum býr til svartan poll á götunni Ég er dálítið opinn fyrir sárunum mínum Þau einhvern veginn liggja þvers og kruss yfir andlát mitt Liggur það í augunum seinasta andartakið það starir ] [ Augun þín blíðu brosa til mín, brosið þitt færir mér geisla inn í sál mína, sem er einmana, malið þitt gefur mér frið og ró í hjarta mínu. ] [ Margur er harmur kveðinn að heimi huggun er litla að finna. Minninguna um gæði þín geymi og gagnsemi okkar kynna. Nú ertu farin í hinstu för ferlegt er því að una. Blaðskellandi með bros á vör tel ég þig best að muna. ] [ Þegar ég vissi ekki, drakk ég. Þegar ég vissi, var ég efins. Þegar ég ákvað, var ég sorgmædd. Þegar ég skipti um skoðun, var ég hamingjusöm. Þegar ég gekk með þig, var allt svo gott. Þegar ég var að fæða, vildi ég verkjalyf. Þegar ég fékk þig í hendur mér, Gleymdi ég öllu öðru. Þegar þú drakkst fyrst úr brjósti mínu, fylltist ég gleði. Þegar þú svafst, fylltist ég ótta. Þegar þú stækkar, tek ég myndir. Þegar þú brosir, snýst hjarta mitt í hringi. Þegar þú knúsar, get ég aðeins hugsað um það hversu mikið ég elska þig. ] [ Einn daginn er eins og allt sé fyrir bí, litið er um öxl og teknar ákvarðanir særa djúpt, hvenær lærir maður, hvenær þroskast maður, hvað vill maður, hvernig er hægt að afvegaleiða sig svona mikið og telja sér trú um að maður sé annar en maður er, hver veit, hver getur hjálpað manni að finna sinn innri mann, enginn nema maður sjálfur, hvernig eða hvenær, veit ég ekki ] [ Það er auðvelt og létt, enginn getur snortið mann, ég geri það sem að ég vil, án tengingu við nokkurn annan mann, en er það styrkleiki, eða kanski veikleiki ? Hver veit ekki ég ] [ Ég taldi mér trú um að ég gæti veitt mér þá hamingju sem að þurfti, að bara hleypa engum of nálægt væri það eina rétta, en viti menn í dag líður mér eins og ég sé ein í heiminum ] [ H er óstöðvandi í hugsunum H getur platað mann H er ekki sammála H þarfnast hvíldar Hjartað vill ákveðna hluti Hjartað gefst ekki upp Hjartað vill ráða för Hjartað er flókið ] [ Hvert fór sálin þegar heiminn þú ákvaðst að flýja? Situr þú á skýi, hlærð að okkur hinum? Eða situr þú einn á hörðum stól í myrkvuðu herbergi? Kannski situr þú hjá mér og horfir á mig rita þessi orð, syrgir mína sorg..? Einn daginn fæ ég að vita þetta allt.. öll svörin við öllum mínum áleitnum spurningum... ] [ Orð milli vina, gera heiminn betri. Þau gleymast ekki, en búa í okkur, sem lítil fræ er vasa upp og verða löngu seina handa öðrum manni, á vegamótum. það er gott að skjóta slíkum rótum. ] [ Þú ert svo falleg -ástin mín. Þú ert svo yndisleg -ástin mín. Með rósailm í hári þínu Bíður þú mér góðan dag. Hjarta þitt segir -Góðan dag. Augun mér fylgja -Sérhvern dag. Í tilveru þinni er allt eins og gull Bíður þú mér góðan dag. Inn um dyrnar kemur þú inn Söknuð er fer þú, það ég finn Tómlegur verður þá dagurinn Hlakka til að faðma gimsteininn minn. Fagurt er brosið sem -bræðir mig. Og magnað er skapið sem -hræðir mig. Þú ert það allt sem ég óskaði mér Fylgir mér sérhvern dag. Inn um dyrnar kemur þú inn Söknuð er fer þú, það ég finn Tómlegur verður þá dagurinn Hlakka til að faðma gimsteininn minn. ] [ Í huga mér er hús, sem ég byggði handa þér, læsti þig þar inni, þú bíður eftir mér. Ég ætla aldrei að opna, aftur fyrir þér, ætla adeins að geyma þig, þar sem enginn sér. Nú stundum opnar þú gluggann, og öskrar 'ég elska þig', ég læt sem ég ekkert heyri, þú ert ekki að öskra á mig. Nú brátt munt þú breytast og hverfa úr huga mér því midur ég verð að segja, því ég er ástfangin af þér. ] [ Ég á þig og elska, en elskar þú mig. Þú tæmdir mitt hjarta, er þú fórst mér frá. Lífið er staðnað, er þú ert ei hér. Ég sé þig í anda, þú situr hjá mér. Nú lifi í draumi, draumi um þig. Ég vil ekki vakna, án þín mér við hlið. En klukkan hún hringir, nýr dagur að hefjast. Ég vona að þú komir, seinna í dag. ] [ Þú færð mig til að brosa Þú færð mig til að vilja lifa Þú færð mig til að vona Þú færð mig til að þrá Þú færð mig til að elska Þú færð mig til að gráta Þú færð mig til að hlæja Þú færð mig til að sakna Þú færð mig til að sjá Þú færð mig til að vakna ] [ Þú yndislegasta systir Þú hleypur brosi á mínar varir, fyrir að vera bara þú Þú ert svo ung og full af orku, Þú hikar ekki við að deila með þér, til mín Þú hleypir sól inn til mín, fyrir að vera bara þú Hlæja,brosa, gráta saman getum við, en þegar við erum saman þá er alltaf gaman :) ] [ Þú ert yndislegur svo blíður svo góður Ég er svo heppinn að eiga þig sem bróður. Manstu þegar að við vorum yngri öðru hvoru við rifumst, en ávallt vorum við snögg að sættast, við hlógum og höfðum gaman saman, Nú erum við fullorðin ég á Íslandi og þú erlendis, en við heyrumst oft, og það er alltaf gaman. ] [ Þú ert mamma mín Þú gleðst með mér Þú hjálpar mér Þú ert til staðar fyrir mig Þú leiðbeinir mér Þú ert mér allt Ég elska þig ] [ Þú hlustaðir á mig Þú styrktir mig Þú hlóst með mér Þú grést með mér Þú varst til staðar fyrir mig Þú hjálpaðir mér Þú ert yndislegur ] [ Nú ligg ég í rúminu og stari upp í loftið. Bjarminn frá lampanum skellir skuggamyndum á veggina. Glugginn er opin og ég anda að mér fersku lofti, er rótgrónar tilfinningar bæra á sér og neita að liggja í frekari dvala. Tíminn sem við eyddum saman í dag... í það að spjalla, segja ekki neitt og bara sitja hlið við hlið... hefur truflað dvalatímann. Tvö ár í dvala, og í dag, er eins og einungis mínúta hafi liðið. Í von og óvon hvísla ég út í vindinn... "Ég elska þig." ] [ Þú fékkst stórann hluta af mínu hjarta sem er enn skráður í þinni eigu. Ég borga leigu fyrir afnot þess og viðhald þess fæ ég í frádrátt... Ég er nýbúin að mála og taka til og því gamla fleygt út. Þó er eitt herbergi sem ég læt óhreyft, skilið eftir í minningu um þig. Ég safna og safna, til að kaupa þig út. \"Ertu til í að selja?!\" ] [ Hjarta hennar er ótamið og lætur öllum illum látum meðan tár hennar syngja, Sorgarsöng sinn takt fast í ekkasogum hennar. Þungir droparnir þorna á húðinni saman með svörtum línum maskaranns sem breytt hefur hinni fögru grímu sem áður sat svo glöð. Kristal dropar sitja kyrrir í augunum og byrgja sýn hennar. Er hún horfir án þess að sjá á líflausan líkama nýfæddrar dóttur sinnar. ] [ Í kvöld er myrkrið svo bjart þó er hugurinn svo þungur því hjartað lagði inn uppsagnarbréf hjá yfirvöldum. Hjartað sagði upp þetta bjarta kvöld þó yfirvöld buðu betri og betri kjör, allt kom fyrir ekki, þau fengu eingöngu afþakkandi svör. Hugurinn settist þá þunglega niður tilfinningarnar í einni þvögu, vonsvikinn og reiður, blótandi yfirvöldum fyrir lélega frammistöðu. þung er sú byrði farangur hjartans, með hinstu kveðju hins sofandi þræls, töskurnar við hönd, kveður hjartað, - Verið sæl... ] [ Hver mínúta er einskins virði án bros þíns. Hver mínúta er skuggi án augna þinna sem horfa til mín. Hver mínúta er svefnlaus nótt án andardráttar þíns. Án þín... Hver mínúta er aðeins klukkutími sem stendur kyrr. ] [ blöðin kyssa og elska ilmandi ástin stunginn með þyrnum lífsins. ] [ stykkin úr púsluspilinu liggja óhreyfð á hrjúfu borðinu... manneskja gengur framhjá byrjar að setja þau saman... fær leiða að lokum og hendir stykkjunum út í ískaldan skuggann í horninu... ... önnur manneskja gengur framhjá týnir upp illa farin stykkin og byrjar að setja þau saman... fær leiða að lokum og hendir stykkjunum út í hálffullan vaskinn í eldhúsinu... ... stykkin bíða þess ennþá blaut og klofin að falla saman í eina heild... stykkin bíða þess ennþá blaut og klofin að rétta manneskjan meðhöndli þau... ] [ bra bra sögðu endurnar án þess að vita hvað ég sagði við þær árangurslausar samræður okkar urðu til þess að ég náði aldrei að taka ákvörðun varðandi okkur -með efirsjá ] [ Seint í marsmánuði nótt myrkur og kuldi heiðskýt og stjörnur hún lá í röku grasinu hugsaði heim heima heima og himingeima hún hló ] [ Ég var svikinn af guði, þeim sem öllu á að ráða. Ég bý á Íslandi það á að vera kalt hér. Nú er ekki kalt, nú er kæfandi hiti. Því svíkur þú mig guð, sem öllu átt að ráða. mér var lofað kulda en við það er ekki staðið. Ég er ekki hannaður fyrir þetta Ég er ekki með loftkælingu eins og stóru bílarnir Er ég kannski bara lítill lítils verður bíll. Ég vil fá kuldann sem mér var lofað við fæðingu. Ég vil gamla Ísland. Því sveikstu mig Guð sem öllu átt að ráða. Ræður þú kannski ekki neinu ? ] [ Það var gleiði í mjúkum móanum, við svitnuðum bæði í lófanum, og hneyksluðum augun í spóanum, með fangbrögðunum þeim. því Það þagnaði í þeim hrófunum, þegar þú komst heim. ] [ Hve ungur ég var,og gat ekkert gefið, nema hugann minn,sem rann eins og bráðið gull í hjarta nisti, og innst þar inni var lítill kærleiks neisti, sem ég gaf þér,fyrir vinarþel og skilning. Ég skynjaði tíman okkar saman, sem hvítan hest,sem rann fram í geislaflóði, og undir fótum hans unni sér vegurinn góði, sem við skildum hvorugt,en leiddi okkur saman. ] [ Það var þá að ég lifði í vondeyfð og þreifst betur í skugga minnar nætur en annarstaðar, því barnið grætur. Það var þá að ég sá, að líkt og vötn leita sjávar og fólk tekur trú á sjálft sig, ást og örlög, að sólin, tók upp nýja trú á mig órög. Það var þá að ég fluttist um set inn í skinið því hvort sem mér líkar sól eða dimma, þá líkar mér vonleysi fram yfir vonina minna. ] [ Þú ert að hugsa heiminn, vonandi okkur í vil. Því ef þú skildir nú líta annað, þá gæti allt hætt að vera til. Guði sé lof,að þú sért þú sjálfur, en ekki einhver ofvaxinn álfur. ] [ Til eiginkonu minnar Ég þekki augu svo dökk og dreymin, dul og heit og finnst þau stundum svo frökk og geymin á fyrirheit. Ýmist eru þau ósköp feimin og undirleit eða þau segja: "Við sigrum heiminn, hvern sólskinsreit". Ég þekki augu svo dökk og dreymin dul og heit. Í þeirra hyl ég þóttist finna þrá til mín. Var það kraftur vona minna er villti sýn, voru eldar augna þinna ímyndun mín eða speglar óska minna augun þín. Í þeirra hyl ég þóttist finna þrá til mín. ] [ Ég á þig leit nakta, mitt ólgaði blóð, svo einfalda, hvíta og netta. Eitt auglit til þín vakti ástríðuflóð og efsta í hug mér var þetta, að taka þig, strjúka og tendra' í þér glóð, taumlausa löngun að metta. Eitt andartak skammt þessi unaður stóð, svo aflvana lét ég þig detta. Að endaðri nautn hafði á þér viðbjóð, andskotans sígaretta. ] [ Tileinkað AA Samtökunum. Guð, gef mér þrek til að þreyja það, sem ég fæ ei breytt, þor til að þrýsta á breyting, þegar slíkt gæti leitt til bóta og betri vegar, sem betra líf gæti veitt. Um eitt bið ég öðru fremur, yrði mér bónin veitt, vit til að velja á milli, vit sem mig gæti leitt að skilja, hvað þarf að þrauka frá því, sem mætti fá breytt. Án þess yrði þor lítils virði og þreki í fánýti eytt. ] [ Hugrekki' er nauðsyn ef hræðslu' á að buga og hættu skal mæta sem hjá er ei sneitt. Ef hræðslan er engin, hart til að bjóða hættunni birginn þarf hreint ekki neitt. Kyssir þú konu og kunni' hún því illa, hún kallar þig rudda kauða' eða svín. Ef kossinn hún þekkist, þá kennir hún hugrekki karlmennsku' og hreysti og konan er þín. ] [ Að Adam gæti allt eins verið kona. Ýmsir leyfa sér að bulla svona. Víst þótt margir vilji þetta meina, ég veit það kemur hreint ekki til greina. "Þótt hafir, Drottinn, hundinn gert og apa og hljóti æfing meistarann að skapa, að hoppa beint í hápunkt sköpulagsins hefði verið strembin skipun dagsins. Ef falleg kona fyrsti væri maður, fjarska hefðir þú þá orðið glaður, ó, Drottinn minn ég veit þú hefðir varla verið að fúska við að gera karla." ] [ Kom ég með konunni minni í Kántrýbæ einhverju sinni, svo skrapp ég smá út og skálaði' af stút, en skjótt var ég aftur þar inni. Með ljúfu og léttkenndu sinni ég leit yfir salinn þar inni. Ég litaði' hann rauðan, er leit ég einn kauðann káfandi' á konunni minni. Hnefann úr vasanum þreif ég svo helvítis buxurnar reif ég. Ég gaf honum á hann og auðvitað lá hann, en síðan á konuna sveif ég. Ég sneri' henni snarlega, bráður, snöktandi, mæddur og þjáður, en ekkert ég tafði, af því ég hafði aldrei séð konuna áður. ] [ Er tilgangur lífsins tóm helvítis tjara. Einn er að spyrja, annar að svara. Einn er að sóa, annar að spara. Niðri' er sá gamli í glæður að skara. Einn er að bíða, annar að vona. Það er bara svona. Hví eru allir að koma' eða fara? Sumir í hundana, aðrir sig spjara. Þessu er öldungis auðvelt að svara. Af því - Af því bara. ] [ Til stúlknanna í eldhúsinu á Reykjum. Ástin tekur á sig ýmis gerfi og oftast nær hún veldur hjartaþraut. Samt er það svo að einhvern veðurdaginn algerlega rokin er á braut. Núna þegar kominn er með kransa kemur oftlega í huga mér Hver er ástin einasta og sanna, ástin sem að stöðugt fylgir þér? Ástin ber á dyr með ýmsum hætti og engan um það spyr hvar inn hún fer. Rakleiðis um magann liggur leiðin sem líklegust að hjarta mannsins er. Ástin er á kreiki' í ýmsum myndum. Af þeim myndum sem að fyrir ber er matarást sú eina sem að endist og eftir lætur merki' í hjarta þér. ] [ Ljóð af ljúfri sögu Tileinkað syni mínum, Stefáni Ingimari. Nótt eina dreymdi hann drauminn, hann dreymdi' að hann gengi á strönd. Hann dreymdi' að hann gengi með Guði. Þeir gengu þar hönd í hönd. Hann leit um öxl og líf sitt gat lesið af sporum þeim, sem geymd voru' og greypt í sandinn, og gengin af báðum tveim. Hann sá þau samhliða liggja og sólin í heiði skein. Þá sá hann á spotta og spotta að sporin voru ein. Það vakti' honum vafa og furðu, það virtist oft gerast þar, sem sorti á líf hans sótti og sorgir að höndum bar. Hann leit aftur líf sitt yfir, og litla stund hann beið, en eftir það yrti á Drottin eitthvað á þessa leið: "Þú hafðir mér heitið forðum, ef hlýða ég vildi þér, og þér myndi þjóna og treysta, að þú skyldir fylgja mér. En hví sé ég spor þín hvergi, þá harmi sleginn var?" Drottinn brosti að bragði: "Barnið mitt ég var þar. Þar sem í fjörunni finnst þér fótsporin vera tvenn, við hönd mér þig löngum leiddi, líkt og ég geri enn. Þar för eftir eina fætur fjaran einungis ber, það var á þrautastundum, þegar ég hélt á þér." ] [ Um vanga líður vindur þýður, vaknar jörð. Vorið blíða vætir börð. Og á valla fjölmörg falla fagurgrænan svörð lítil lambaspörð. Ljós að nýju lofar hlýju, laufið grær. Vonin nýja vængi fær. Viðjum spillir, vitin fyllir vorsins angan blær, tindrar lækur tær. Allt er betra er sem letrað öndvert svið. Leið er vetrar langa bið. Lítur sólin laut og hólinn, loftið ómar við, af fögrum fuglaklið. Manngi dúsi' í myrku húsi, meðan allt þakkar daginn þúsundfalt. Hljóðnar kliður, kyrrð og friður krýpur yfir allt. Hljótt er húmið svalt. Hjörtun ungu hlátri þrungin hefjast brátt. Hátt er sungið, hlegið dátt. Og í skjóli undir njólu af þeim segir fátt. - Í það minnsta hátt. Og að morgni engar sorgir eru til. Heimi' er borgið, hér um bil. Aftur sólin sveipar hólinn, sanda, laut og gil, vermir, veitir yl. Litka heiðar blómabreiður, baula kýr. Frjáls sér hreiður fuglinn býr. Kvikna tíðum kann hjá lýðum kærleikurinn nýr. Úti' er ævintýr. ] [ Vonin okkur verðmæt er, hún vermir mannsins hjarta gegnum vonarglerin sér hann giftu' og framtíð bjarta. Þó að syrti álinn í alltaf samt hún færir þrekið jafnt sem þrótt á ný og þolinmæði nærir. Vonin mig á vængjum ber víst hún margan laðar. Þegar annað þrotið er, þá er hún til staðar. ] [ Á vegi sannleikans vandratað er, varla er því að leyna og ýmsan honum út af ber, þótt ætli hann sér að reyna af fremsta megni að feta hann, finnst honum erfitt að þegja, þá þráfalt er verið að þýfga hann um það sem hann vill ekki segja. Reyndu samt, svo að sofir þú rótt, sannleika' að halda þig nærri. Segðu það satt sem segir, þótt séu orðin færri, því allt, sem þú lýgur, efst og fremst upp frá því þarftu að muna og ekkert þú græðir og ekkert þú kemst áfram á nýjum spuna. Hreinskilnin er því happasæl, þótt hollt sé á stundum að þegja. Allan sannleik frá ufsum að hæl er ónauðsynlegt að segja. ] [ Margan vitið manninn eflir, mikið er þó til í því, að flestum sé það fótakefli, sem fengu meira' en nóg af því. Í það eru æ að stíga, á ýmsa lund það pirrar þá, upp í vindinn ávallt míga og enginn virðist skilja þá. Um það gildir eins og fleira, allt er best í hófi nú, vera hlýtur vitið meira, ef vit í hófi hefur þú. Ef varla neitt af viti hefur, vertu ekki' að sýta það, það vart er meira' en guð þér gefur, en gættu þess að nýta það. ] [ Enda þótt reyni á allan hátt að ímynda mér að bleikt sé blátt það bölvanlega gengur. Við konur reynist klakklaust þrátt, kynlaust að eiga samneyti, en sjái ég konu ég kenni brátt kynferðislegt áreiti. Nú sé ég fram á betri tíð með blóm í haga. Aldurinn þetta á að laga, svo innan tíðar ei mun baga - lengur. ] [ Þá höftum í ríms ei hangir föst, er hugsunin létt í spori. Hún bregður á leik með botnaköst, eins og belja sem leyst er á vori. Hefur nú margra sem hnoða leir hugur að órími hnigið, en frelsið í hugsun sem fengu þeir flestum til höfuðs er stigið. Þá orðið er ljóðsins innihald órímuð hugsanaveila, biðjum þá heldur um borað spjald úr biluðum rafeindaheila. ] [ Ef öldin er liðin, þótt enn vanti ár, upp á það hundrað sem skyldi. að tíu' yrðu níu og tapaðist ár, tugurinn efalaust þyldi. Um framhaldið ótta samt fyllist ég og forðast að hugsa til enda, hvar allir þessir, sem þennan veg þræða nú, muni lenda. Flest, sem er talið fjær og nær, fara hlýtur í klessu. Því allir sjá hvaða örlög fær einingin eftir þessu. Milli' einhvers, sem til er og er ekki til er agnarsmátt bil, sem núll við köllum, að tala um núllið sem tímabil, tæpast er bjóðandi öllum. Hvert tímabil á sér upphafsstað og einhversstaðar enda, ef upphafið er þar, sem endar það, endarnir saman lenda, Í raðtölukerfi vort ártal er, þótt ei skilji núllistar blíðir, þótt núllum þeir raði og raði sér, reynast þau núll um síðir. _ _ _ En eitt er víst, að eftir áramót eiga margir næsta víst í húmi að eiga þrátt við einhvern stefnumót, ekki í sama tíma, en sama rúmi. ] [ Tileinkað syni mínum og elskunni hans Heyrst hefur gjarnan, þar hamingjan fer, heimsæki' hún útvalda fáa, en gættu þess vandlega' að gerlegt það er að gleðja sig yfir því smáa. Aðstaða mannanna ólík víst er, efnin, umhverfið, vinnan, en hamingjutilfinning hugurinn ber og hún kemur bara að innan. Í núinu lifir, hve naumt sem það er þess nýtur, ef ekki er kviðið því ókomna, ellegar obbi þess fer í eftisjá þess sem er liðið Forskrift að hamingju fólgin er í fjölskrúði sólarlagsins, að hlúa að minningu hlýrri og því, að hlakka til morgundagsins. ] [ Ef hægt er á vogskálar tilgangi' og meðali' að tylla og takist að láta hið góða þá vega' upp hið illa. Verður hér vafalaust fljótlega skortur á fólum, þá fremja menn ódæðin bara með fallegum tólum. Kalli' einhver þetta þá lógikk, sem kennd er við hunda, kyngi ég þessu því slíkt vil ég alls ekki stunda, og ætlunin var ekki beinlínis nokkru að neita. Nú nýt ég þess bara að lifa og sannleikans leita. Að hafa' upp á sannleika' er helvíti erfitt í veru. Það heppnast svo fáum að leita hvar hlutirnir eru. En byggir þú skoðun á bjargfastri sannfæring þinni, ber það glöggt vitni um uppgjöf í sannleiksleitinni. Þeir sem að skreyta sig skilningstrésnáttúrunni skammist sín bara og fletti' upp í biblíunni, en trúi þeir samt á hið magnaða epli má geta, að Mendel neitar að arfgengt sé það sem menn éta. Til markmiða' er sáð með mörgum og misjöfnum fræjum og mikið er til af ólíkum tólum og græjum og Einstein sagði um leið og hann steig o'naf stólnum. "Menn standa' ekki allir á einum og sama hólnum." Þið trúðar og loddarar túlana þenjið og belgið. Með tilgangi ykkar þið meðalið fegrið og helgið. En meðan af málgleði' um markmiðsins gildi þið þrætið, má ég þá spyrja, hver skipa á dómarasætið? ] [ Hamingju- og hlýjukennd, í hjarta finn, Er hjartkær minning hvarflar létt um huga minn. Í kvöldsins værð þú komst til mín, með kærleik þinn. Atlot þín og ilminn af þér ennþá finn, ég man hve hár þitt mjúkt þá straukst um mína kinn og varir þínar votar fann, við vanga minn. Við áttum saman einnar nætur unaðsstund, allt of stutta, ungur sveinn og ástblíð hrund. Hún merlar enn í minningunni' og mýkir lund. ] [ To my daughter and my son in law Love can make you happy, love can make you glad love can make you lonesome and love can make you sad Some are even sorry for love they've never had Love is a thing to cherish. love is a thing to share. Let your love not perish, lend it extra care, so love stops you being lonely, so love will make you whole. Such love will enhance your gladness, such love will make you rich. Such love will lessen your sadness. Such love will lessen your itch, for something that doesn't matter, or something that doesn't exist. ] [ Nú sit ég hér ein(n) með söknuð í hjarta og syrgi þig stúlkan mín. Nú er mér horfið brosið þitt bjarta og blikandi augun þín. Ég sé ei né skil það svartnættismyrkur, er setti á hug þinn mar. Hefði það orðið þér huggun og styrkur, hefði ég verið þar? Hvað gerðist, hvað brast, og hvert var þitt kífið, að hvelfdi þig örvænting slík, að gæfir þú frá þér gjörvallt lífið? Nú geymir jörðin þitt lík. Endalaust spurningar að mér leita um ólifuð árin manns. Átti' ekki lífið eftir að veita þér umbun sársaukans. Í hvert sinn sem veröldin við mig leikur og voninni vængi lér. Hvarflar að spurning, hverful sem reykur. Hvers vegna ertu ei hér? Ég vildi að eg gæti þig vafið örmum og vermt þig við hjarta mitt, svo grátið þú fengir og gleymt þínum hörmum, sem gæfi þér lífið þitt. ] [ Ég átti mér eins konar trú, en afhuga henni er nú, því trú mín var sú að þú yrðir mér trú, en þú brást mér og þegiðu nú. ] [ Zu ein kleines Mädchen in Stuttgart. Du fliegst dorther, dorthin wie ein Falter zwischen Blumen. Deine Augen sind von Neugier, Trost und Hoffnung voll. In deinem Lächeln die Zukunft des Menschengeschlechts man lesen kann. ] [ Aldurinn leikur ýmsa grátt, þótt afbrigði finnast kunni. Ég tel að konan komist þrátt klakklaus frá breytingunni. Undir karli oft hún lá, einatt blá og marin. Engin er nú eftirsjá, því áhuginn er farinn. Auman karl að aðlaga öllu verr þó gengur, því enn langar til að iðka það, sem ekki getur lengur. ] [ Vísindamenn telja sig geta fært sönnur fyrir sameiginlegri samvitund manna. Þeir fundu líka lífveru sem er hvorki dýr, sveppur, planta eða örvera. Strætóinn minn, sem er gulur, kom of seint í dag og kærasta mín hélt fram hjá mér. Ég sit í tilverusyndaflóði sem tekur engan endi og ég hlakka til að sjá hvað kemur næst. ] [ Er horfi ég upp til heiða, horfi' á hvar sólin skín, þá litbrigði' í mosanum minna á mógrænu augun þín. Loft fyllist ljúfri angan, leikur sér vorþeyrinn hlýr. Hann bærir í brjósti mér kenndir, þá birtist mér mynd þín skýr. Ég sé þína ljósu lokka leika um andlitið frítt, þá finnst mér sem mundin þín mjúka minn strjúki vanga blítt. ] [ hefurðu einhvern tímann fengið hausverk við vangaveltur um tilgang lífsins? Hefur þér einhvern tímann fundist myrkur tilgangsleysis vofa yfir eigin lífi? Ég get ekki sagt þér hver tilgangur lífsins er en ég get sagt þér hvað lífið er Lífið er hugarástand Þegar það er komið á hreint verður spurningin um tilgang eða tilgangsleysi ekki hin mikilvægasta heldur þessi: Stjórnar þú huganum eða hann þér? Ef hugurinn stjórnar þá á hann það til að hlaupa með þig út í nóttina og þannig verður lífið dimmt og kalt En stjórnir þú huganum geturðu alltaf fengið þér göngutúr til baka í sólríkan daginn ] [ Ég hljóður sit og handleik feyskinn kvist. Hann var eitt sinn grænn í þinni mund. Hver trúir því að tilgang geti misst tilveran á einni morgunstund. Ég vaknaði og virtist þá um sinn sem voðalegan ótta setti' að mér, bældur koddi' og brotinn kambur þinn báru vitni dvalar þinnar hér. Þú hafðir komið kvöldið fyrr til mín. Ég kenndi ei það mein er gekk að þér. Nú skildi ég hvað þunglynd augu þín þögul höfðu reynt að segja mér. Augun þín sem aldrei voru hörð. Svo óháð virtust tímans þunga nið. Í hyldýpt þeirra himnaríki' á jörð hafði ég svo oft séð blasa við. Og ég sem hafði' að heimsmannssið mér hælt af hirðuleysi' um lífsins skrum og skarn fól andlit mitt hvar fiðrið hafði bælt þitt fagra hár og grét sem lítið barn. ] [ Ég gekk inn í herbergi hálffullt af reyk, þar hampaði fólkið glösum. Ég mjúkan sá aðeins þinn yndisleik. Akkúrat svona við hrösum. Ég varla þig þekkti, víst er um það, né vissir þú deili' á mér heldur, en neisti kviknaði, nema hvað, nær væri' að segja eldur. Og áður en varði og ósjálfrátt í örmum hvors annars við stóðum. Eitthvað sem nær ekki nokkurri átt, nema í sögum og ljóðum. Ég fann ekki nálægð fólks sem kom inn firrtur var öllu ráði. Að finna þinn flosmjúka munn við minn, fullnaðarsælu ég þáði. Hve kossinn var langur, ég lítt veit um það, en leiðir eftir hann skildu. En víst er erfitt að yrkja á blað allt sem menn segja vildu. Í minningasafninu margt er um hnoss, þótt mörg séu föl og tekin, en eitt af þeim skýru er einstakur koss, sem aldrei var endurtekinn. Kannski það gæti komið til ég kalli' hann ei réttu nafni. Ef til vill er hann ennþá til í öðru minningasafni. ] [ Aldrei er bundin angri þín ljúfa lund, ástblíða hrund þér ann hverja stund. Logandi undir læknar þín mjúka mund, léttstígur skunda ég á þinn fund. Ljúfan við endurfund lifi ég óskastund, léttstígur skunda ég á þinn fund. ] [ Gegn vírus eru tölvur tryggðar, tekst það bara nokkuð oft, en tölvan mín, mér títt til hryggðar, tánum vendir upp í loft, því höfuðvírus heimsins byggðar heitir Microsoft. ] [ Þú allt átt til að bera sem fær eina konu prýtt, óháð því sem aðrir segja kunna. Ég ávallt finn í fari þínu eitthvað ferskt og nýtt, sem finnst mér vera virði þess að unna. Þótt ekki geti leyft mér núna ást mína að tjá og efalaust þú ekki henni kynnir, þá eldheit stundum brennur, svo áköf er mín þrá, ég ætlast næstum til þú ylinn finnir. Ég ekkert nú að bjóða þér hef, utan þögla ást, sem einhvernveginn þrjóskast við að lifa, eins og lítil melkorn sem ekkert um það fást, þótt illir stormar reyni þeim að bifa. Viðmótið þitt hlýja hana vökvar af og til og veitir líf, sem döggin melkorninu. Nú virðist henni duga að vita' að þú ert til og verðir áfram hluti' af lífi mínu. ] [ Ég gekk um þröngann göngustíg, gleymdi öllum mannanna ríg. Leit á sólar ljúfu geisla, lífið varð nú gjöful veisla. Engann gat þó órað fyrir, ósköpum sem dundu yfir. Því eftir veðrið elsku ligna, einhver lét þá fara´að rigna. Mér fýsti nú að finna skjól, það findna var að þá kom sól. Skildi ekkert saklaus drengur, spáin aldrey eftir gengur. Snéri við og spígsporaði, heim í sveit með ofsa hraði. Í steikar hita´og sturtubaði, fann snjókommu í mínu hlaði. SvaBja ] [ Borgarbarn Þú forðar þér frjáls um stræti og torg, til frelsis frá helsi illa lyktandi götunar barna. Sum glöptust á stéttum við gleðinar dorg, frá sannleika týndust til neonsins stjarna. Þau fikra sig fálmandi um stræti og torg, og gleyma sem fljótast þeim er út vísa. Í skuggum þess lífs býr þrá, von og sorg, þar skærustu ljós ná ei myrkrin að lýsa. Ef stigir þú fæti um sömu stræti í borg, hvar ógæfubörn sýna vítin til varna. Þér færðist að yndi frá hverri einsemd og sorg, því spor þeirra skrifa sögu olnbogabarna. Ef gengir þú götur um þessa borg, í sambúð með betlara á götunar stéttum og hjarni. Að gjöf gæfist þér trúin frá einsemd og sorg, sem lifir í gleymsku hjá ræsanna barni. ] [ Glampandi skær en smá, skínandi baugunum á. Fallandi þraut þinni frá, fanginni innstu þrá. Speglandi sakleysis tær, sölt sem úthafsins sær. Angur augna tárið þvær, sorgina sem elskaði í gær. ] [ Ég vil að þú vitir að þrátt fyrir allt sem hefur gerst eða verið sagt Þá elska ég þig en þann dag í dag :) ] [ reyndi að semja ljóð um eftirsjá ...hætti að skrifa þegar blóðið var farið að leka undan nöglunum... reyndi að semja ljóð um þunglyndið ...hætti að skrifa þegar reykur var farinn að skríða upp úr tölvunni... reyndi að semja ljóð um eineltið ...hætti að skrifa þegar tárin voru farin að blinda mig of mikið... ...hætti bara að skrifa... ... stóð upp frá tölvunni og starði í forundran “hvað hef ég endað við að hripa niður? hef ég breyst í helvítis gelding og Tregadrottningu? hef ég breyst í fjandans vælukjóa og fylliraft? hef ég breyst í aumkunarvert áráttufífl?” ... ákvað það á þessari stundu að ég ætlaði að fremja Sjálfsmorð... ákvað það á þessari stundu að ég ætlaði að murrka lífið úr Sjálfinu... ákvað það á þessari stundu að ég ætlaði að fæðast aftur að nýju... því ég get aldrei aftur orðið glaður nema ég fæðist aftur sem nýr maður... ... tek af mér 100 kílóa bakpokann sem var orðinn samgróinn bakinu og fleygi honum með háum skelli á steinhart gólfið... tæmi úr honum og skoða innihaldið: eineltið... þunglyndið... vonbrigðin... sambandsslitin... samviskubitin... ástarþrána... og eftirsjána... og dreyfi því á steinhart gólfið... ... byrja að traðka á einelti... byrja að mylja þunglyndið.. byrja að henda vonbrigðunum... byrja að slíta sambandsslitin... byrja að bíta samviskubitin... byrja að brjóta ástarþrána... og blinda svo eftirsjána... ... eftir nokkrar stundir af bullandi svita og tilfinningahita tryllingslegan hlátur og sársaukagrátur... horfi ég á duftið fyrir framan mig duftið sem áður var stærsti hlutinn af mér... ... sæki eldspýtu kveiki í og horfi á bálið skríða upp tjöldin... hitinn eykst óðum finn friðinn gleymskuna og gleðina taka völdin... ... friðþægingu er ekki hægt að fá frítt... myrti sjálfið og öðlast núna nýtt... ] [ Ég átti´eitt sinn ágætis konu, sem átti að ala mér sonu. Hún gaf mér fyrst ást en lét mig svo þjást. og eyddi´allri barneignar vonu. Ég ráðvilltur ráfaði´í villu og réði mér ókunna frillu, sem vildi´enga ást bara´í rúminu kljást nú var ég á rándýrri hillu. Ég áttaði mig á þeim fjanda sem búið var mér í að blanda. Nú sá ég það þar, að næstum ég var í fjármálum búinn að stranda. Nú konur ég kaupi ey lengur karlinn varð saklaus drengur. Með tvinna og nál af lífi og sál. hnýttur var buxnastrengur. SvaBja ] [ Strætið tónar hraðstíg spor, sögur koma og dvína. Bráðum verður komið vor, með byr undir vængina þína. ] [ Svæfðu mig snemma sorg. Þreyttu mig þrungin þrá. Berðu mig burt brostinn. Vefðu mig vængjum visku. Gefðu mig guði gæsku. Eigðu mig einan ein. ] [ Steinsins mitt hjarta mig stingur í dag, stálslegin er ég ei lengur. Brestur og brotnar lag fyrir lag, á brott er minn hamingjufengur. Steinhjartað slær og mig grætir á ný, sólin er farin úr heiði. Dofi og dáleiðsla allt fyrir bý nú er sit ég á öndverðum meiði. Annarra angist er komin á mig. Andskotans óttinn magnast. Margur þá aftur heldur mig sig, meira hvað djöfullinn hagnast. ] [ Lífið hafði smám saman málað veggina í herberginu mínu svarta. Það var bara ég með öllu þessu myrkri. Þó ég hefði aldrei heyrt í þeim áður, vissi ég að fuglarnir væru hættir að syngja. Og það var skrítið hvað klukkan var hætt að tifa. Höggin sem dundu á hurðinni orðin samóma hjartslætti mínum og óp þeirra aðeins síðustu öskur sálar minnar Þegar heimurinn í kringum mig litaðist rauður. ] [ Góðar stundir gafst þú mér og gleði færðir mér. Brosið þitt svo blíðlegt er, bjart í heimi er. Litla hendin ljúfa góða, leiðir hið góða. Undirfögur augun þín ennþá ljóma til mín. Góðar stundir gafst þú mér og gleðin er hjá mér. ] [ Rauðglóandi himininn blæðir rauðum tárum blóðfórn almættisins fyrir heiminn Leikur hægan vals eða ausir reiði sinni við strendurnar Storknar á landinu kaldar ábreiður yfir hálendinu Fossblæðir úr ánum æðum landsins milli fjalls og fjöru Blæddu fyrir okkur himnafaðir blæddu þar til við blæðum út ] [ Í mynd skrjáfandi hausts horfir hlustar íklætt grænum lit vonarinnar brosir bíður kossa lituðum loforðum roðnar hnígur tígulega fölt til jarðar snertir strýkur brúnar hendur trjánna kyssir faðmar með lokuð augun gráa götuna bíður vonar eftir vindi og nýju vori. ] [ The life i choose to walk, the paths i choose to stalk, the way i hide my face, the way i face the life i mock. Happyness is something that eludes me, confuses me, the way this life chooses to abuse me. Complications, therapists talking about institusions.. Its all an illusion. Listen to my inner voice, the anger and fear, my eyes closing, hiding a tear. Circle of sorrow, recepy of hate... Sometimes i feel i have gone to far, sometimes it feels like im to late. People talk about time healing, talk about the heart returning feeling. Hope is the sister of Lie, Lie the brother of Jealousy, and im father to my own Mistakes. ] [ Regn í myrkri þungt það fellur máninn fallinn stjörnur sokknar í sand sólin að eilífu myrkvuð huginn vísar mér blóðugar myndir af manneskjum sem sökkva sökkva í heitt hraunið. Sýndu mér myndir af sól og sumri eða maí regni og birkilaufum lyktin var alltaf svo góð þessi sterka birkilykt. Brennisteinslyktin yfirgnæfir allt festist fyrir vitunum og kæfir ég heyri ekki angistaróp hinna ég sé bara að hvíta dúfan hún situr enn á grein sinni og bíður. ] [ Sjáðu sjáðu hvernig allt snýst snýst. Sjáðu hvernig hvernig þú sérð mig. Æi ég veit ekki veit ekki... Á eftir. ] [ Klemmdi löngutöng í fyrradag. Ertu búin að eyða í burtu þessum vondu minningum? Caps Lock á tilfinninguna. 59 dagar á ári? Sirka eitthvað svoleiðis. ] [ Kveðja á Sumarmorgni Þvílíkur sorgardagur, er myrkrið skellur yfir svo svart af depurð. Því með sorg í hjarta, og söknuð í huga kveð ég þig. Ei skaltu samt gráta, fyrr en varir sný ég aftur. Þvílíkur hamingjudagur, með hækkandi sól svo björt gleði. Því með gleði í hjarta, og endurfund í huga föðumst við. Loksins eftir svo langa bið hlæjum við aftur og erum saman ] [ Þegar trén hafa grátið og öskrað ósigur sinn. Liggur jörðin vot og bíður eftir sólinni, sem getur með sínu fagra brosi bundið enda á sársaukann. ] [ öll þessi samtöl við þúsundir manna gegnum lífið... milljarðir orða við þúsundir manna gegnum lífið... ... ég ætti að muna eitthvað af því en út allan daginn út alla vikuna mánuðinn og árið hugsa ég bara um 3 orð sem hrukku af þínum vörum... ] [ After all those sleepless thoughts, and all the pretty things i´ve bought. I have in me this strangest feeling, that all this time i´ve been steeling. I have broken my family´s trust and stolen my own life´s lust. Uncertain about my future fights, praying, that there wont be more sleepless nights. ] [ In the palm of my hand you are...white, round - beautiful. I close my eyes..wish you had aroma... With my eyes closed..I can feel you as you run down my throat..now everything is going to get better. I feel you in my blood..in my vains.. I feel it when you stop the nonsence in my head...so grateful. Now I´m not scared anymore... you help me ease the pain..so grateful. My head doesn´t scare me anymore, not for now atleast...and I´m grateful. Like the Master said: "I have become comfortably numb" And I´m grateful.... ] [ Á bleiku skýi situr rauðklædd stelpa og horfir á heiminn í gegnum gul gleraugu. Stelpan tekur niður gleraugun skýið leysist upp og hún stendur eftir allsnakin í köldum heiminum. ] [ Á dauða mínum átti ég von, en ekki því, að fyrir utan mínar dyr stæði Amor sjálfur og rétti mér hjartalaga ör. Á henni hangir örlítill merki-miði merktur mér og þér og má ekki fara í þurrkarann. ] [ Þráin logar í þegjanda hljóði, og þreyjandi bíður endaloka sinna. Löngun í æðum verður að ljóði, látnir kveinstafir minninga minna. ] [ ég er agnarlítið sandkorn í eyðimörkinni sem hafði þann heiður að sitja næst þér fyrir mörgum mánuðum síðan... stormsveipur tók okkur og færði okkur í sundur... ... bíð enn eftir næsta sandstormi til að finna þig aftur... ... mun bíða að eilífu eftir réttri vindátt... ] [ Þegar ég fer að sofa á kvöldin, lít ég alltaf upp í stjörnubjartann himininn. Og þegar ég vakna á mornana lít ég upp í heiðbláann himininn. Um daginn vaknaði ég ekki eins og vanalega, því þegar ég vaknaði leit ég niður úr himninum en ekki upp í hann. ] [ Sól og máni syngja dag, sitt af hvoru tagi. Sólin raular sólarlag, svo máninn haldi lagi. ] [ Hví er sólin alltaf hlýrri í hinum garðinum hví er rigningin alltaf meiri hjá mér hví er hamingjan alltaf hjá nágrönnunum hví er gleðin alltaf hjá þér hví líður hinum alltaf betur hví ert það þú sem betur getur. hví er grasið allaf grænna hinum megin hví er allaf betra að vera önnur en ég er hver segir hvað er fegurð hvar er eiginlega þessi hamingja tálsýn og blekkingin ein það líður engum betur út af því sem hann getur öll hugsum við eins allt þetta strit er ekki til neins ef ég er sátt við hver ég er þá fyrst er hamingjan hjá mér þá er það ég sem er hinum megin. ] [ þykjumst öll vera sjálfstæð göngum kanski í gömlum fötum en janfvel það er tíska höfum hinar og þessar skoðanir en erum við nógu sjálfstæð til að berjast gegn nútímavæðingunni útvarp sjónvarp gemsar tölvur það eru ekki tölvurnar sem eru forritaðar í raun eru það við. ] [ Farðu fram og fylktu liði, í forsvari fyrir nýjum siði. Því trúin er okkar tryggðaband, treystu okkar fagra land. Böndin okkur bræðrum haldi, blítt og nærri þess fjallafaldi. Landið er okkur landnemum allt lítið þó sé og oftast kalt. Frá því við stigum fyrst hér á storð, styrjaldir háðum á bæði borð. En stilla við skulum þingheim um stund og styrjaldir forðast á helgaðri grund. Ef slítum við trúnni þá slitna vor lög, til slíkra verka er þjóð vor rög. Því þjóðin án laga þykist ég sjá að þrautlegan endi hljóti að fá. Ljósavatnsgoði leggst undir feld. Liggja mun þar nú tvö næstu kveld. Heiðninni mun hann þar heilshugar hafna og heiðra skal kristni svo megi hún dafna. Þó séu ei allir þig sáttir við, þolgæði sýndu minn vin, ég bið. Þínir menn á þingi standa þétt og nærri til beggja handa. Sú trú sem upp er tekin hér traust mun fylgja mér og þér. Eins hún fylgi okkar þjóð og verði hennar söguljóð. ] [ Sólarupprásin og sólsetrið, slá í takt við hjartað sem situr á klettabrún og horfir hugfangið á hafið. ] [ Af hverju dó hann í lífsins blóma? Hví sá hann aldrei hamingjunnar ljóma? Einn mesti skrúður sem hafði sést, en svo endaði allt á því að fuglinn, hann lést. ] [ ( ) ] [ Sólin rís, lífið tekur við sér, blómin vakna, þögnin dvínar, gleðin er ríkjandi. Í blíðunni, börnin leika, frjáls eins og ástin, sem spilar á vit örlagana. ] [ í heysátunni er nál í flatlendinu fjöll í bálinu spíta í blokkinni fólk í göllunum kostir í gríninu alvara í manninum frumur í óskipulaginu skipulag í árinu dagar í fólksfjöldanum einstaklingar í mannmergðinni manneskjur í efanum von í myrkrinu skín ljós. ] [ Sólin sígur afar hægt en örugglega til sjávar og varpar roðagylltum bjarma á bárurnar og skýin. Lítil börn leika sér í svartri fjörunni með bjarmann í bakgrunni líkt og lifandi skuggar sem kallast á í kyrrðinni. Lágvær rödd lítillar stúlku hvíslar þegar sólin er sest í hafið: svona er sólbað ] [ Sem þú nöldrar og í minningu nagar, og óþægindi mín aukast í neyðinni. Og kinnhestinn mig jagandi klagar, kreistast tár mín fram í reiðinni. ] [ Alltaf þegar ég hugsa til þín heyri ég hjarta mitt slá Þegar þú kemur til mín þjappast allt í eina þrá. Tónar tímans,þessarar ástar tjá mínar hugsanir. Hjarir hurðar hallast,þá byrja samfarir. Núna er komið það nýja níu mánuðir. Ekki er hægt að lýsa þú ert orðinn faðir ] [ Nú fyrsta tönnin komin er sem lengi var beðið eftir. Nú er komið að þér og mér að bursta,svo ekkert sitji eftir. 15/6.00 Nú pínulitlar perlur tvær príða brosið þitt bjarta. Elsku krílið mitt,sonur kær kexið þú getur farið að narta. 3/7.00 ] [ Til skírnar barn er borið í blessun, von og trú, þess líf í herrans hendur við höfum falið nú. Við biðjum guð að gefa því gæfu, styrk og þrá til þess að efla og auðga allt sem bæta má. Hér saklaust barn við sjáum á sinni þroskabraut, en vandamálaveröld í vöggugjöf það hlaut. Við berum á því ábyrgð það öðlist þrek og mátt, svo ávalt staðfast standi og stefni í rétta átt. Við skírn þess skulum heita að skila betri arf, og vondum öflum verjast, því veröld bæta þarf. Þess framtíð er þar fólgin og farsæld hverja tíð að allt hið góða grói, en glatist vá og stríð. Ásjón. ] [ Örmagna af villuráfandi hugsunum geng ég lengra og lengra inní vitund mína í leit að tíndum orðum ljóðsins sem aldrei varð til. ] [ Þeir sem geta látið tárin streyma geima lífið í hjartanu. ] [ Dósahnífurinn sker lokið ofanaf tilverunni og í ljós koma niðursoðnir draumar. ] [ Ég kveð þann reit er gaf mér gæfu og yl, þar gleðin við mér hló. Nú haustar að og héla sest á grein og hrollur fer um skóg. Dulið afl um daga og nætur æ dregur tímans plóg Það er kvíslað þungum, dimmum róm: þér er skammtað nóg. ] [ Ég gekk útá veginn og gleðin brann mér í hjarta því góðir vinir leiddu mig útí vorið Maínóttin andaði ilmi frá ungum gróðri, ástin og lífið virtist endurborið. Í gáleysi vorsins gekk ég hratt um veginn og gleymdi að sjá mínum ráðvilltu fótum forsjá. Á örskotsstundu var ég af veginum sleginn og vegurinn drakk mitt blóð með opnum munni. Ásjón. ] [ Baráttunni er lokið bróðir kær brostu!því nú ertu kominn í heiminn þinn Friðurinn kom og bar þig fjær "Fljúgðu" því þú ert fullkominn. ] [ Ástin er farin mér frá. Ferbúinn með böggul á baki, samt vil ég haf´ann mér hjá hjá mér á sama laki. ] [ Þú ert svo harður í þér og ég er samt skotin í þér. Þótt þú viljir mig ei lengur Þá geturu samt vitað hvernig gengur. ] [ Manstu ekki þá yndislegu daga? þegar sálir okkar sameinuðust og svo fékk ég stóran maga og son okkar við eignuðumst. ] [ Upp rennur bjartur dagur ástin er svo sterk svo dimmur ertu og fagur þú ert eins og heimsins meistaraverk ] [ Vitlaus ertu vinur minn vínið drekkur óður. Kynlíf fær þá kokkurinn konunni frá,ef ann er góður ] [ Pilturinn minn með pelann sinn sefur, inn í drauminn ekkert hann tefur Dansar þar í draumalandi með dírindis dót með sér. Samt sefur hann hjalandi sefur hér hjá mér. ] [ Jésús,Búdda,Óðinn eða er það Þór? að ákveða er að gera mig óða nú veit ég hvað það er sem framm hjá mér fór það ert "Þú" sem ert það góða! ] [ Að horfa!! Laufin á trjánnum feykjast um Trén vagga til og frá Félagslynd blómin baða sig í sólinni Fuglasöngur ómar í fjarska (Raddirnar berast með vindinum) ] [ Svo reið og svo sár margbrotin og falin! bæld og særð,lurkum lamin og full söknuði og eftirsjá! MISTÖK... ] [ Skundar nú á skemmtifund skagfirðingur glaður sönghneigður með létta lund ljúfur kvæðamaður. ] [ Today is gone, But i won´t see tomorow. Left alone , No one came with me. No light at the end of the tunnel. Darkness struck , I´m stuck , Can´t get out. I can´t get out . No light at the end , no gates of Heaven no freefall into Hell. Nothing , Nothing ........ ] [ lindin forboðna efst á fjallinu upp í mót ég arka endalaust í skriðunni skorinn á fingrum sár á fótum klifra klöngrast kemst, þó hægt fari feginn andvarpa kominn á tindinn lindin lifandi uppspretta (ástar) bíður mín í berginu ég bragða hið forboðna lindarvatn... ...ljúft mér eins og forðum sviplega varpað burt úr paradís ] [ Hver er sá sem kallar upp úr djúpinu Falinn fjarsjóður í hjarta mér ] [ Finn það í loftinu Andardrátt Finn það í jörðinni Fótatak Finn það í vatninu Hjartslátt Finn það í eldinum Nærveru hans ] [ Ástin er eins og vængbrotinn fugl sem getur ekki flogið ] [ Aim for the stars If you land on the moon atlest you made it somewere ] [ hjartað mitt, ég meina hvaða hjarta, ekkert hjarta hjartað er þitt. hjartað mitt er tínt hvergi það fynn, en hvaða hjarta því að hjartað er já þitt, ástin mín, hvaða ást, eingin ást, ástin er þín. ástín mín er tínd, og hvergi hana fynn en hvaða ást, ástin er þín elskar mig, hver elskar mig, eingin elskar mig, elskan er þín. elskan mín er tínd eins og ástin og hjartað mitt hvergi þetta fyn því að þetta allt er þitt. ] [ Þú leiðir meiningu þína að þraut minni, mjúklega hrífst ég af lífsgaldri þínum. Eins og dauðaþreytu í taugum ég finni, og skilji eilífðina loks í huga mínum. Hann líður tíminn um æviminningar mínar, einatt um langanir mínar þú dvelur. Andartak gef ég voninni þjáningar þínar, þínar meiningar og hleyp svo í felur. ] [ Sú sem talað hefur til mín talað mínu máli með sömu hugsun og sannleika sú sem ég bíð eftir ég mun biðla til og leggja mig fram við að elska bara hún komi brátt þessi með vængina! ] [ BANG... hurðin skelltist á eftir þér Og við vorum ein eftir bara ég og þúsund glitrandi tár ] [ Menn í kjólum hjóla á hjólum kringum lík af litlum dreng sem liggur á gulum sandi ] [ Ekki snerta mig því að fingurnir á þér eru svo heitir. Ég er hrædd um að þeir brenni mig og þá fæ ég brunasár á húðina… ekki koma við andlitið… ekki snerta mig… þú ert með svo heita fingur. En snertu hjartað mitt, því það brennur eins og hjartað í Jesú… út af sársaukanum og út af ástinni, út af sársaukanum sem kemur með ástinni og út af óttanum sem kemur með ástinni og út af áhættunni sem kemur með ástinni og út af rauða litnum sem rennur í gegnum hjartað með blóðinu sem rennur í gegnum hjartað litað af tilfinningunni sem kemur með eldinum sem brennir hjartað sem er fullt af ást og fullt af sársauka út af eldinum. Hjartað þolir þessa heitu fingur, en ekki andlitið, ekki það sem þú sérð… ] [ Orðin þín fara niður á mig og ég roðna þegar þau svona endalaust mjúklega renna sér um mig eins og blautir kroppar í leðjuslag á hippahátíð ] [ opið sár blæðandi bráð bráðin mín bráðum kem ég aftur bræði þig renni þér upp í mig inn í mig og aftur út úr mér svo ég sjái þig betur betur með þessum bláu ] [ Vaknaði morguninn eftir one night stand og var komin inn í líkama hans. Með morgunstandpínu og fulla blöðru opnaði ég augun og sá sjálfa mig liggja sofandi við hlið mér. Flýtti mér í fötin og fór ekki einu sinni inn á klósett að pissa. Fann lyktina af því sem hafði verið líkami minn kvöldið áður á þessum nýju höndum og bar þær að vitum mér þar sem ég gekk upp götu í vesturbænum. Hvernig skyldi ég hafa það? ] [ Gaman að sjá nýjar glufur Gaman að sjá ljósið brjóta sér leið inn um sprungurnar og renna röndum yfir dimmuna Gaman að sjá gult ljós sem segir Góðan dag! Það er bjart þar sem ég stend, ferskt loft, gott, þetta er góður dagur, góður dagur! ] [ Það spretta rætur á draumana og þeir munu byrja að vaxa Fyrst út úr enninu síðan út úr brjóstinu Skringilega litrík, fíngerð og kræklótt draumatré eiga eftir að teygja anga sína úr líkama þínum í gegnum augu, nef og munn. Þegar þú keyrir í vinnuna á morgnana mun fólk stara á þig þegar þú stoppar á rauðu því þú verður súrrealísk eins og hugmynd úr höfðinu á Fridu Kahlo. Þú átt eftir að horfa á fólkið á móti og þér á eftir að vera alveg sama þó að þú sért öðruvísi en þau -því draumarnir þínir eru að rætast. ] [ Snati lá dauður í bakgarðinum. Þetta var grimm svört skepna sem ég hafði alltaf verið logandi hrædd við og að sjá hann liggjandi þarna steindauðann veitti mér ánægju og öryggistilfinningu. Sólin skein Flugurnar sveimuðu Feldurinn var allur þurr og klístraður Augun sokkinn Ég potaði í hann með priki og velti honum bakið. Steig ofan á hann í nýju rauðu gúmmí stígvélunum mínum sem þoldu allt og hoppaði fast á bringunni. Hann gelti! Mér krossbrá og stökk til baka. Velti þessu aðeins fyrir mér og áttaði mig á því að loftið þrýstist upp í gegnum lungun, á milli raddbandanna og út um barkann. Þetta var eins og pumpuorgelið hans afa. Ég steig aftur Því léttar sem ég steig, því lægra var geltið. Því þyngra sem ég steig, því hærra varð það. -Þetta var tónlist! Ég gleymdi mér alveg og skemmti mér við að búa til lög úr dauðu geltinu þegar nokkrar stelpur komu aðvífandi. Um leið og ég sá skelfingarsvipinn á andlitum þeirra steinhætti ég tónsmíðunum og steig á grasið. Leit undan og fannst ég finna hvernig stelpurnar horfðu allar ásakandi á mig. Hoppandi ofan á dauðum hundi! Beið eftir því að þær segðu eitthvað en þær sögðu ekki neitt. Pískruðu bara eitthvað. Þetta var ekki í fyrsta sinn sem ég gekk fram af þeim. Svo allt í einu var pikkað í öxlina á mér. Sigga litla sem átti fyllibyttu pabbann stóð vandræðaleg og hikandi á svipinn, horfði á mig með stóru augunum sínum og stamaði... “Ma ma ma má ég prófa?” ] [ Við vorum villingar þú með spýtu og ég í gúmmístígvélum bæði með úfinn hnakka illa upp alinn stungum okkur inn um glugga þræddum myrkrið ókunn hús undarlega kjallara hjörtun á fullu í brjóstunum klístraður brjóstsykur sætar raddir svo 1977, 1978,1979, 1980, 81, 82, 83, 84, 85 og þú fórst að elska mig horfa á mig biðja mig um að brenna þig sleikja sárin skilja þig ekki eftir en auðvitað skildi ég þig eftir og öllum þessum árum síðar... hætti ekki að hugsa um þig augun þín tunguna þína hendina þína að stinga sér undir gallabuxnastrenginn heitann lófann þögnina okkur að stinga af brjótast inn aftur í löggubílum úfið hárið hitakompuna og tárin sem flæddu í augun þín þegar ég sagði “ég get þetta ekki” og fór ] [ Einmana snjókorn lendir aleitt á stóru fjalli uppi á hálendi enginn veit um þetta snjókorn sem er einstakt í sköpun sinni fíngert og fallegt inniheldur regnboga og meistaralegan stærðfræðilegan strúktúr samið af skaparanum eins og lítil nóta flaut sem enginn heyrir flýgur niður af himni og stefnir á risastórt fjall lendir leggst á stein og liggur þar í örskamma stund bíður þess að bráðna horfir til himins og sér trilljónir einstakra snjókorna flæða á móti sér úr myrkrinu ] [ Ég ligg í rúminu og úti fellur hvítur snjór af svörtum himni. Herbergið mitt er málað í hvítum litum. Morgunhvítir veggir, antíkhvítt loft, marmarahvítar hurðar, reykhvítt gólf. Inni í mér er beinhvít hauskúpa og ótalmörg beinhvít bein, málarahvítar tennur, antíkhvítar hugsanir, marmarahvítur andi, hrímhvít sál. ] [ Horfi á fréttirnar. Fréttir af manni sem ætlar að elda fisk handa fleiri þúsund manns. Maðurinn talar íslensku. Það eru bara við sem tölum íslensku. Við og kannski einhverjar fimmtíu manneskjur úti á meginlandinu sem hafa einhversskonar þráhyggju á eyjuna líkt og eitthvert okkar gæti fengið þráhyggju á eyju sem heitir Eldland. ] [ Þegar þverrandi fer trú eins manns og fækkandi fer tækifærum teknum fegins hendi leiðin til hins fyrirheitna lands opnast líkt og fyrir handarbendi. ] [ Ég sá glóð í augunum á þér sem, þegar betur var að gáð, var funheitur eldur. Ég lék mér við eldinn. Eldurinn lék sér að mér. Brennt barn forðast eldinn en þetta er bara ljóð og ég læri aldrei. ] [ Hvernig það er að lifa á þessari jörð. Það er helvíti, í hnotskurn. En mér hefur lærst að taka ekkert nærri mér. Vertu viðbúinn, reyndu hegða þér eins og maður. Ég er búin til úr stáli, eitruð sem svarta ekkjan. Hver sem kemur nálægt, verður bitinn til bana. Vef mér utan um þig, og kreisti úr þér allt líf. Vertu viðbúinn, ég er að koma. Lærðu að láta mig í friði, Ég er að koma, er óstöðvandi. Ég gerði þig vitstola í gær, hvað geri ég í dag? ] [ Hugarþránni hef ég lært að gleyma, henti henni í hyldýpisgjá og tárin tóku að streyma. Vindurinn þaut og mér versnaði sóttin, vandræðin skildu ekki við mig né óttinn. Eins og minningin er mínum vonum, sótti hún mig seint um martraðarnótt. Skelfing og vonleysi sem hitasótt, skrefin stirðnuðu föst á flóttanum, enginn má við kvölinni né óttanum. Þó fyrirgef ég þránum og óskunum þínum, í tillitssemi við þinn lífsins gang. Því þú fékkst aðeins þrautina að förunaut, er fangaði allar þínar óskir á ævibraut. ] [ I found a wishingwell and I made a wish. Time went by and my wish came true. For a while life was wonderful, so I thougt -my sick mind told me so. But I was living in a lie. Lies I told myself, lies wich to me were told. And all those lies I believed. But the time came, and I broke down the well before I would drown in all those lies. And now I have learned to never to make a wish... they might all come true.... ] [ Tilhlökkun sem afturkallar alla löngun að hafa samband og jafnvel þótt nóttin mun falla stend ég hér báðu megin með armana opna bíðandi eftir þér... ] [ Manon whispers to me while I sleep. Soft voice...kind voice. The sort of voice that makes you listen even thouf you don´t want to. He asks me: "Who painted your heart black..who made it stop beating? Who took away your abilty to love and trust another human-being?" "You, like all that breathes, you are my child. With all my heart and all my soul I love you all. "And now..from this day forward..I´m going to heal you. I´m going to take the darkness away..and give you strength. "It wont happen straigt away..but I will succeed..for I am Manon... The God of all that breathes. And I love you" ] [ Sat þarn' inní stofunni með altzheimers og fleira. Sjónlaus, blindur aumingi og vantaði á hann eyra. Með hvítan kött í fanginu sem kallaður var Rauður, kannski löngu búinn að gleyma því að kötturinn var dauður. ] [ Lá í leyni lítil ljót, langaði að gráta. Í hnipri bakvið gamalt grjót, geðveik lítil hnáta. Lengdi eftir ást og frið, ætlaði sér takmarkinu að ná. Gekk í átt að fossaklið í von um að komast öllu frá. Stóð upp á hamrinum, hugsandi, hvers skyldi hún sakna? Henti sér niður, fljúgandi, hvar skyldi hún vakna? ] [ Aumkunarvert líf okkar er bara hugarburður. Allt tilbúningur skrýtinar konu sem heitir Urður. Sem ber bara út moggann á föstudögum og þess á milli safnar skordýrum og furðusögum. Hún ferðast um á fjallageit sem hún fann í nærliggjandi sveit. Og geitin étur sultukrukkur því hún vill ekki fá hrukkur. En Urður borðar þistilhjörtu, kransakökur og halakörtu. Svo hleypur hún um heiminn nakin og líkaminn verður mosaþakinn. Hún fer að sofa klukkan níu en geitin klukkan tíu. geitin sefur til fóta og þær sælar saman hrjóta. hugrenningar tilbúingsins... .... Elsku gyðja, elsku Urður. er ég bara þinn hugarburður? Er allt líf mitt bara feik sem þú samdir með þinni geit? ] [ Viskusmælki vissi best, vonarvisku átti. Vissi samt varla fyrir rest varast hvað það mátti. ] [ Þegar þú ert lítil, smá, engar hömlur hugann binda. Englar dansa himni á og norðurljósin mynda. ] [ Sólskinsbjartar hugarflugur sveima kringum hausinn minn. Reyna finna litlar smugur til að komast inn. ] [ Ég veit ekki hvenær, hvernig né hvar, ég fékk eina hugmynd og gekk inn á bar. Þar sátu tveir rónar, einn með neftóbaksdós. Hinn útí horni, úr maganum jós. Angandi ilmur af ælu og bjór, ég gat ekki meira, gekk út og fór. ] [ Mér er sama um mest flest, hvar er annar skórinn? Mér er sama, hér ég sest og þamba fandans bjórinn. ] [ Burtu með þig bjálfurinn! Og láttu mig í friði. Þú ert nú meiri kálfurinn og kannt ei mannasiði. ] [ Angurvær rödd þín, hugans bergmál. Dillandi hláturinn sem kveikt í mér bál, er nú orðin sálarkvöl, vonleysi og böl. Í myrkum heimi andans svíf ég um stund. Sálartetrið öskrar á einnar næturfund. Í örmum þínum,algleymi, trúi ég að, ef kúra þar ég fengi, ég gleymdi stund og stað. ] [ Myrkur og þögn, hún þá ekki sá, þrykktist grýtta götuna á. Lafandi hrædd, liggur, henni brá, ljóti kallinn henni var búinn að ná. Haldið niðri, gat sig hvergi hreyft. Ógnað með hnífi, blaðið hárbeitt. Sá sér enga von, sagði ekki neitt. Þeir sigri hrósandi höfð' ana meitt. Marin og sár, stóð upp skjálfandi. Þetta gat ekki verið satt, óhugsandi. Hún gekk um göturnar, grátandi. Þeir ganga um lausir, nauðgandi. Minningin inn í drauma hennar skerst. Í svefni hún enn við þá berst. Með andköfum vaknar, upp í rúmið sest, óskar af öllu hjarta þetta hefð' aldrei gerst. ] [ Engum þykir vænt um mig!? Ég sem var að vona. En þau hugsa bar' um sjálf sig, þetta er víst bara svona. ] [ Atlaga þín var fólskuleg. Þögn þín er þrjóskuleg, baráttan fáleg, ástin varanleg, tilfinningin ferleg. ] [ Uppgjörið.Hann söng fyrir sig í sturtu, og tilfinningar spruttu og runnu sem þurftu. Úðinn felur öll hans tár. Bassasöngvarinn er í lífi okkar, raddsterkur,hár,og mikið skokkar. þó hann sé hér,er hugurinn samt langt í burtu. ] [ Hún er kona í hyllingu nú, litróf er fæst ekki að gjöf. Lundin og fótsporið létt ljósmynd er þú festir í sál. ] [ ég bið til þín mín ástkæra móðir. gerðu mig litla aftur, áður en steinarnir féllu á mig. áður en hann rændi mig ungdómnum. áður en himinninn varð svartur og fuglarnir hengdu sig í honum. þá get ég kanski orðið eðlileg. ég bið til þín minn ástkæri faðir. taktu mig aftur í tímann og syngdu fyrir mig lítið lag, áður en kvöldið hræddi mig, áður en lögin urðu af sálarpínu, áður en hann fangelsaði mig. þá get ég kanski orðið góð við mig. ég bið til þín minn ástkæri unnusti. verndaðu mig frá tímanum, áður enn hann gleypir mig, áður enn ég missi takið og dett, haltu mér bara fast eins og þú gerir, og kanski verður þá allt í lagi. ] [ ´þegar ég sekk í svörtu holuna, þegar rödd þín skiptir mig engu, þegar ég loka heiminn úti og mig fast inn í mér. þá festist ég og kemst ekkert burt. þegar ég loka herberginu og kem ekkert út, þegar dagarnir eru ekkert spennandi. þegar ég sé bara móðu og myrkur til skiptis, þegar ég anda að mér þunganum. eitthvað sem ég veit að er komið til að vera...verður alltaf. þegar mig verkjar í líkamann að einveru, þori ekki að vera ein,gæti sokkið. þegar skinnið brennur við snertingu, þegar þú berst við það að hjálpa mér en nærð engu taki, það verður alltaf. hættu að reyna að bjarga mér, mér verður ekki bjargað, eitthvað sem kom til að vera fer aldrei. ég lifi með þetta hvern dag og reyni að fela þetta hvern dag, verður alltaf. þegar þú botnar ekkert í mér, vertu þá. þegar ég sé ekki sólina, sé ég samt þig. þegar ég dofna, finn ég samt fyrir þér. þegar ég dregst saman og visna, farðu. hann situr hjá mér, ég veit það. þegar sársaukinn er mestur, heldur þú mér...verður alltaf haltu mér fast. ] [ kæri guð... ég veit að þú ert kannski upptekinn við að sinna öllum þessum alheimi öllum þessum milljörðum einmana trilljörðum sólkerfa... ég veit að í hverju sólkerfi eru þúsund milljón hnettir með mögulegu lífi og kannski eru milljarðir sálna á hverjum hnetti sem biðja til þín... ég veit að allar þessar sálir hafa óskir óteljandi margar mismunandi óskir sem þú þarft að fara yfir grannskoða og lesa neita eða veita... hmm... kæri guð vildi bara biðja um eitt fyrir mig... ehmm...sko ég vildi... æææiii... sleppum þessu... amen ] [ heyri þögnina blása í eyrað á mér sé myrkrið vefja sig dularklæðum skynja regnið á vanganum renna og spennu í brjóstinu brenna... heyri grasið ýfast undan fótum mér sé myrkrið stara í angist á ljósið skynja skordýrin undir skóm kremjast og heilann í höfðinu lemjast... heyri raddirnar hækka í huganum sé myrkrið flýja undan birtunni skynja andardrátt þeirra skríða nær og óttann forða sér niður í tær... heyri bíla á sæbraut keyra framhjá sé myrkrið við sundin hrasa um stein skynja fagurt húsið kalla hærra “það er einum sjúklingi færra...!” ... heyri feitu læknana stynja mér hjá sé myrkrið dotta og falla í dá skynja treyjuna falla vel að höndum og ég er aftur í Kleppsins böndum... ] [ Milli svefns og vöku liggur gamall maður upp á líkamanum. Hann sem veit ekki af sínum sökum Ó guð hve barist er á móti honum. Þessi þungi sem vill komast í ljósið. Tárin vilja streyma en hverfa í tómið. Ó guð hve barist er við það að öskra en ekkert heyrist. Kæri Guð. Leiddu hann yfir heiðina lof mér að fara óttalaus að sofa. Því villtur hann er og veit ekki leiðina. Skal vera trú ég þér lofa. ] [ kk22:Hæ kvk48:hæ kk22:Ask kvk48:48kvk norðuland kk22:22kk rvk kk22:? kk22:? kk22:Ertu þarna? kk22:Finnst þér gott að ríða yngri? kk22:Það þarf enginn að vita það. kk22:Halló! kk22:Hefurðu prófað það? kk22:Halló! kk22:Ertu farin? KK22:Ok bæ ] [ Ef gæfi mér gæfan að lifa í sér, í gleði minni eftirleiðis. Þá gæfi ég gæfuna mína þér, og gleðina sömuleiðis. ] [ Oft er sem lífið hylji myrk ský mörg dagsins verk virðast unnin fyrir bí Allir á sífelldu iði, ei tími fyrir fjölskyldu og vini gleymum því sem máli skiptir í hugann kemur "enginn mig hittir" þótt það séum við sem ei samband höfum finnum ei neitt sem fær svalað okkar þörfum. Við tilgangi lífsins ei virðist neitt svar Margir halda hann búi á bar Við lifum öll í stressi,setjumst nær aldrei niður En ég veit um einn sem kemur ef þú biður. Við göngum öll með grímu Þótt stundum glitti í sólarskímu Alltaf er hún þó okkur fjær við teljum ranga hluti fær’ana nær Ef við bara ynnum vinning Eða bara aðeins meiri pening En það er sama hversu mikið þú átt Það færir þér enga sátt. sá er ég veit um vill þér allt gefa já allan ótta sefa vinur minn er ætíð mér hjá hefur kennt mér ótal leiðir sig til að sjá hann vill einnig vera vinur þér hann sem ætíð er við hlið mér já að nóttu sem degi svo góður ég skammast mín ef þegi. Lífið virðist einungis af sorgum fyllt Og margt er það sem manninum fær spillt Við lifum sífellt í dýpri gervi heimi Finnst sem allir okkur gleymi Tölvur taka yfir sjónvarp skipar fyrir Hví erum við svo blind og stolt Hugsum ei um það sem fyrir sál er hollt Leitum sífellt á röng mið Gleymum þeim sem er ætíð við okkar hlið. Við virðumst aldrei hafa tíma Ekki einu sinni kærleik til að sýna Vinna sofa borða Já þannig mætti líf margra orða en ég er ei ein og sannfæring þess er aldrei sein í orðaforða mínum ei "ég" nei "við" ég og hann sem gefur sálar frið hvers vegna ekki að gefast þeim sem mun að þér hlúa, leyfa sér í einlægni trúa Þú færð mig ei til að þegja Því ég vil svo gjarna frá þessu segja Það besta sem ég hef upplifað Ég þrái einnig þína sál fái friðað. ] [ Ég veit um stráka sem klæðast kjólum, setja púður og varalit. Í glæstum kjól þar drottning gengur, svo mæður standa og verða "bit". Þeir hneyksla gamla karla og unga, sem horfa á þennan undraheim. En engin veit það hvað er bakvið, litríkt andlitið á þeim. Áfram götuna gengur, áfram niður Laugaveg, Áfram gönguna gengur, niður Laugaveg. Um kvöldið er dansað, sungið, dragað, og ástin eina fer á kreik. Við barinn standa drottningar og prinsessur sem fara í sleik. Áfram götuna gengur, áfram niður Laugaveg, Áfram gönguna gengur, niður Laugaveg. Áfram götuna gengur, áfram niður Laugaveg, Áfram gönguna gengur, niður Laugaveg. ] [ Má bjóð þér að ganga, og merkið bera hátt. Gleðibros frá okkur fanga, dansa fram á nátt. Öll við erum guðs börn, og teljum okkur vera elskuð. Þá trúarofsans versta vörn, og vilja að við séum frelsuð. En er það betra að fólkið hati, berji á vilja og réttlæti. Ekki er það að okkar mati, við beitum ekki ranglæti. Við virðum allar týndar sálir, alla þá sem finn´ei sig. Því sumir ganga veginn hálir, kalla, hrópa og dæma mig. Ekki er það að Guð ei elski, vona ég hann hvern minn dag. Bið bara um það eilífa frelsi, og lífið verði mér í hag. Grimmt er orðið í þessum heimi, að fela kynhneigð þurfi hann. Vona ég að hjálpist þeim, sem ennþá hrópa og dæma hann. ] [ Ég heyrði dag að þú værir komin heim, og þú ætlaðir ekki að vera sein, að hringja í mig og láta heyra í þér. En það er svo sárt að vita það, að þú gangir ekki beint í hlað, inn til mín og heilsir mér með kossi. Við sömdum um það fyrir tíð, að við mundum vera við það þíð, að skrifast á hringja inn á milli. En í staðinn er ekki bleki eitt, og símareykningurinn er ekki neitt, og ég skil bara ekki hvað hefur komið fyrir. Þótt útlitið sé ekki fagurt, þá getur innlitið verið magurt, af friði, ljóma, fínleika og sóma. Og þú veist að ég geng á eftir þér, eins langt og sjálfur heimurinn er, en þú villt bara ekki taka eftir. En viltu bara vera svo væn, að láta mína heitustu bæn, rætast og verða að veruleika. Því ég hef reynt í mörg, mörg ár, að verða þinn rauðbrúni klár, sem þú getur riðið um garða og háar hæðir. ] [ Í kaldri rigningu dimmrar nætur var mér litið á einmanna ljósastaurinn í sveitinni Þið voruð svo óhuggnalega lík Alltaf stóð hann þarna staðfastur og lýsti upp heiminn fyrir mér ] [ Ef hamingju og ást þú vilt finna djúpt í sál þinni, verður að vinna jákvæðni í hægri, víðsýni í hinni hver og einn hjálpar geðheilsu sinni Hættu að hangsa, bíða og vona hugrekki finnuru ekki svona gleymdu gærdeginum, hann er liðinn gefðu þessu séns, þú finnur friðinn ] [ Lífið var mér óráðin gáta séð í gegnum nálarauga það var ekki fyrr en ég komst sjálfur í gegnum nálaraugað að ég sá heiminn í þeirri mynd sem hann er og lífið í nekt sinni gott var að sjá sannleikann og enn nú betra að ég var ekki úlfaldi því þröngt var það. ] [ Ég sest ofan á heiminn hægindastóll eilífðarinnar flattur út ég er þyngdin sjóndeildarhringur raunveruleikans og óendanleikans ] [ Heimta virðingu heimta ást og svo þegar ég dey bið ég um lífið sjálft ] [ Hvíldu stillt hjarta mitt, horfið er á braut. Jörðin snýr nú aftur, ég er kominn heim á minn stað þar sem veröldin snýst um mig. Ég snýst sem hringekja kynlífsfíknar minnar. Hljóðið tært sem kristalkúlan sem í hjarta þínu snýst að eilífu. ] [ Blóm. Kertastjaki. Hilla. Glerborð. Fánastöng. Flugvél. Dvergur. Eldriborgari. Gúrka. Sandur. Fugl. Kátína. Hörpuskel- Paradís. ] [ Bremsuljós sem logar í kafi, sjaldan sér sjálft sig í frjósemi kaffitáranna sem eru afgreidd við gluggan við hliðina á klósetsetuverksmiðjunni í Argentínu. ] [ niður laugarveg í rauðum anorakk með húfu í stíl flæði áfram í gulum tai buxum og köflóttum boxers á lækjatorgi hrósar mér róni seigist líka litina í klæðnaði mínum um leið og hann stelur af mér orkunni ég hörfa undan spurningunni -viltu ekki tala við mig? svar mitt liggur í flótta yfir götuna frá frökeninni frá astró skaranum með vælu tónlist í eyrunum ég afsaka ekki neitt hvítir kollar spurja mig um metnað, nýútskrifaðir úr peningamaskínu skólum drottnarana útsprungnar sílikon rósir horfa á mig undrandi þar sem ég sit fyrir framan Deli ásamt penna og bók með fullu viti ] [ Hverfvult brosi ég og í háana skima um þróttlausar sálir sem mig biðja um stoðir. Ég hef ekkert að bjóða nema endurspeglun á það sem engin þolir. Forvitni mig dregur áfram inni súrealísk frávik. Er ég látin bíða eftir öryggi og frelsi, til læra allt sem hugur minn girnist. Ég man eftir krullóttum sporðdreka sem mig dáði en svo hæddi, án þess að fá mig til að kikna. Ég í brjálæði girndist að fá það sem ekki mig vildi. Ef örlögin hefðu aðeins fengið sínu fram þá hafði hjartað mitt lifað lengur en það brann. hélt ég mundi aldrei elska annan mann. Sporðdrekar bíta en í vatnsbera mundi ég drukkna. Hvað var ég að hugsa! útí djúpa endan ég stökk, frökk um að verða ekki sökkt af mótbárum kúlistans þótt með visku sé rausn. Klókóttu egóistar, er ekkert þar, hvar er þetta kort sem er talað um svo oft. Er raunverulega ekki til neinn raunveruleiki, er það ekki óraunverulegt? Hvernig einveran hefur okkur blekkt, ekkert hefur verið fjallað um þjálfun hugans. Afhverju leyfum við þeim, að halda okkur heimskum. með þessum lúmsku prettum þeir halda okkur í skefjum, hefjum byltingu gegn takmarkaðri fjölmiðlun, hagstæðari tilvist er í seilingu, ef við stöndum saman í einingu, allt sem er tengir okkur. ekki einn flokkur, allt sem er ekkert og ekkert sem er allt. ér að springa, það rótar inní mér taumlausar tilfinningar sem þeytast til allra átta, brátt ég fer því þessi tilvist hér er eins og ver að ber. Verð að yfirstíga óttan, þótt að það þýði flótta ] [ tuttugu ástæðurhugsa ósjálfrátt allt sem þarf að hugsa en skorti metnað til aðvframkvæma, krókódílskinns stígvél skilin eftir vð sundlaugabakkan hjá f´im, tíu miljona kúnnanum þrífa tweety nærbuxur á klóstinu í miðri öngþveiti sveittra latínskra kvenna á ferðalagikeyra með ketling og búslóð í dós, rauðri og ryðgaðri auðvitað til að fylla dall undir fersku þaki kaupa grænan kristalaðan sprota af úturkóluðum lögregluþjkóniá land-mærum þriggja landa.vera ein með hafinu eftir 7 mánaða aðskilnaðskyndja strauma rafsegulsviðs allraí kring til elska eitthvað svo mikið að geta sleppt því og lifa það af ] [ Ég sé þig.. Þú situr á rúminu..tárin svört.. ég sé þig... Í gegnum þig sé ég þig... Þú ert marin, hjartað svart..slær hægt..þér finnst það vera að deyja... þú vera að deyja.. Líkami þinn skorinn...sársaukinn hverfur á meðan það blæðir... þú gleymir sorginni og horfir á blóðið renna...og þú brosir..."Fegurð". Lökin eru ekki lengur hvít..."Fegurð...." En í tómum augum þínum sé ég eitthvað sem ég get ekki skilið... Þó augu mín séu lokuð..þá sé ég þig. Þú og ég... Ég sé þig... því þú ert ég... ] [ Ímyndun mín er að ímyndun þín sé mynd af ímynd minni eins og ímynd mín er að sinni Mín ímynd þín hugmynd Meistari elds og ísa bar sig upp við þjón Hver er mín eilífðar ímynd? Þú mjög fagur ert í sjón Ímyndaðu þér þig fyrir mig. ] [ Þú ert mín þú barnagrind Heilög kind Me. HAha he Þú allt meðal Meðal Je Ólé Allt þetta læt í té T Malt minna dekkstu bjóra. ] [ Á meðan riffilkúla kólnar klesst í veggnum og veltir því eitt eilífðar andartakfyrir sér hvers vegna hún sé svo vansæl í tilverunni Hvort næsta skot skipti hana einhverju máli; Á meðan, áður en málmdauðinn er algjör, hvinur í þyt hinnar næstu uns hún umlykst mjúku holdi með holum dynk sem boðar sælu hins sameiginlega með uppfyllingu hins leigða takmarks sem er æðra öllu. ] [ Ég og Mamma erum ein heima við erum svöng Mamma og ég förum út í búð við kaupum í matinn hann er í brúnum pokum Ég og Mamma tökum lyftuna við erum heima Mamma ber poka ég er með lyil kisi er svangur hann borðar allan matinn Ég og Mamma förum út í búð við kaupum í matinn Mamma opnar hurðina ég ber pokana kisi er svangur hann stekkur oní magann á mér kisi og Mamma þær eru heima ég er ekki svangur ] [ Varast ber vaxmyndum drauma um yl. Þær eiga bara að vera vera til að vera til. Gleðja eitthvert auga sem engin vaxmynd sér. Vera bara vera með vaxtóm inni í sér. ] [ Á nær hverjum degi er eitthvað sem minnir mig á þig.. Rakspírailmur..grá jakkaföt..tónlistin.. En það er eitt sem ég mun aldrei sjá framar í lifanda lífi.. Þitt ómetanlega bros..enginn getur brosið svona líkt og þú gerðir. Bros þitt var sannleikur... Nú situr þú kannski á skýi..bíður eftir mér..? Ég veit þú brosir.. Á móti mér muntu taka..en ég kem ekki strax..þú munt leiða mig um himininn...sýna mér uppáhaldsskýin þín. Við munum leiðast um himininn..og aldrei sleppa takinu framar... ..og ég veit þú brosir.. ] [ Af hverju leitum við af hamingjunni í slagsmálunum um peningana. Af hverju erum við að keppast um ástina þegar við getum fundið hana hjá hvort öðru. Til hvers að krefjast réttlætis þegar við þurfum að biðja fyrir þriðja heiminum. Af hverju að mótmæla stríði þegar engin hlustar. En hvar værum við ef við hefðum allt þetta? Er þetta ekki það sem við lifum fyrir? ] [ Tvær verur, í tímaleysi dansa Um stjörnubjartan himinn fljóta Forboðin ást þeirra var Hún vissi það en eigi hann Sorg hennar varð að tárum Fögur tárin falla að eilífu niður Vegna styrk ástarinnar, sem sigrar allt Þá er þessi barátta eilíf. Endalaus saga Um það sem eigi má verða En það sem verður samt Að lokum. Að Eilífu. ] [ ef einhver spir þá er ég veiðimaður ég veiði bæði Wolkswagen og Bmw puttaferðalangur er ég,hress,glaður stundum er vegkanturinn þröngur og gríma skeifunar uppivið í huga mér ávalt sá sami söngur löng getur verið vegarins bið þegar kári á móti blæs ég berst í gegnum meingun og myrkur einstaka ökumaður er næs og þar er minn stirkur en ég hef áfangastað grafinn í huga mínum svo djúpt fyrir svefninn hripa ég nyður á blað allt um það hvé lífið sé ljúft ] [ Þau hittust á dansleik og stigu dans, dönsuðu heillengi saman. Í sæluvímu féll hann í trans, oh, hvað honum fannst þetta gaman. Því lengi hefur hann þráð hana heitt, meira en helming ævi sinnar. Þessi augu og brosið svo gleitt, og þessar sætu mjúku kinnar. ] [ Ómæld er sú sorg er saklausir hljóta, ávallt til taks þegar illa fer, einstaka þó fá lífsins að njóta, með skilyrðum þó eins og vera ber. ] [ Stundum fæ ég bara nóg hulin áhyggjum líkum skóg nenni ei neinu vil þó hafa allt á hreinu vil ei vera eins og aðrir vilja allt sem þarf að gera og aðra sífellt skilja nenni ekki að vera góð nenni ekki að yrkja ljóð orðin af hversdagsleika móð langar að fara ótroðna slóð. flýja burt í annað land eiga af seðlum sand en það leysir engan vanda Aðeins Guð mér fær hjálpað á ný að anda svo eigi á skeri vonleysis muni stranda. Hann sorgum mínum mun granda. Já það hefur hann þegar gert og nú fær ekkert friðinn skert. ] [ þu sólin sem kemur upp i morgun rofan lætur þig svo hverfa i kvöld og hitar upp manna börnin og jördina paradís. ] [ lífshjólid mitt ég hugsa um tig ég á lidin tíma elsku lífshjólid mitt tar ertu tar hef eg tig til nú. ] [ elsku dagur enn hvad þu ert bjartur i dag hvad þu ert heitur i dag já svona eru dagarnir misjafnir. elsku dagarnir minir. ] [ vindurin ég heiri i þér húhú og þad fer hækkandi stig hækkandi eg ligg og hugsa um hvad þú ert öflugur vindurinn vinur minn. ] [ sólarlag. eg horfi a tig bjarman sem ert svo fallegur sem vermir salina og nærir ég vil ekki ad tu hverfir aldrei aldrei. ] [ ó ljósid mitt fagra þökk að þú ert til elsku ljósid mitt ] [ o hvar ertu hamingjan min eg leita á svo mörgum stödum en aldrei fann eg þig hamingja hamingja hamingjan min ] [ dokkn næsta ekkert ju andardrattur rensli i ofni og iskapurinn. ] [ ef þu vilt vita eitthvad ad sitta hvoru tagi taladu þa vid mig i himinn geimnum. ] [ eg sit og horfi a þig borgina i allri þinni ljósadirð med tindrandi ljósum logandi sem endur speiglast i hafinu ] [ eg horfi yfir þig svo tignarlegan og slettan og ég sogast med þer i undirdjupin ] [ eg horfi a þig andlitid i speglinum spegill spegill seigdu mer hvada kona er þetta. ] [ ó þu bjartasta von vonin min elsku besta von vertu áfram hjá mér. ] [ tárin streimtu nidur kaldar kinnar kinnarnar a húsinu andlit husins ó gud hvi grætur þú svo mikid yfir okkur mannana börnum sem eru þer ekki samboðin. ] [ tunglid tunglid taktu mig inn i þinn himneska heim. ] [ eg ferdast inn i himneskan heim sem eg óradi ekki ad væri til þar til eg sá dig betur i háloftunum sat og sameinadist þer og gud. ] [ eg labbadi nidur i bæ þar varst þu sálar tetur i lifsins olgu sjó þu hvarfst á braut hallo hallo hvar ertu sálar tetur. ] [ eg er bara madur eg er ekkert medal vid gud ped er eg gud er almattugur. ] [ gærdagar mínir hrúgast upp allt bara í einu og farið að dimma á kvöldin uppúr tíu einu sinni í viðbót við enn og aftur veit ég ekki hvort ég vil muna lóuna í eyrunum lyngið í nefinu auðveldara að höndla haustið frekar í vetur horfa ekki á sinuna í köntunum... -bláberjasulta er nú voða góð ] [ Orð sem læðist eftir gangstétt hugans varlega án þess að stíga á strik Orð sem er varla orðið orð. ] [ Núna ertu þú. Það ert þú sem ég þekkti aldrei, þú sem ert týndur, og fyrirfinnst ekki lengur. Þú hörfar. Við fleytum kellingar á yfirborðskenndri þögninni, þú gengur grænu míluna í huga mér og ég horfi í gegnum þig vonsvikin, já í gegnum þig því nú ertu ekkert! Dauðadæmdur gengur, óöruggum skrefum að því sem næst var kosið með stælgæjabrosið, ég gæti ælt! Þú ert "All man" einsog þær segja. Með vel vaxna, óseðjandi karlmennsku í skauti þér. Sem vísar þér leiðina í gegn um hallærisklisjuna sem þú kallar líf. Augun stíf og stöðnuð og brosið æft úr blaði. Þó svo þig langi, þá veistu ekki hvað það er að langa. Þú lifir ekki lifandi. Dauður milli eyrnanna. Steiktur eftir ljósabekkjaprótíndrykkjubílagræjuæðið Og stelpurnar!! Hinar stelpurnar sem ég sá ekki, þú veist að svona má ekki. ] [ Flugan rembist í síðasta skipti við glugga, spyrjandi haustið og fær kalt svar á köflum. Hún hræðist þennan nýja langa skugga, sem haldinn er svo annarlegum öflum. ] [ Ástæða hvers þíns gjörnings er fyrirfram ákveðinn. Um háls þinn hangir lífklukka þín - í silkiþræði - ósýnilegum... ..og hún telur niður. Uppáhelling morgunkaffisins, hvert orð sem þú segir, hverju sem þú lofar, í hvert sinn er þú biður. Það er ástæða fyrir öllu. Líf þitt er fyrirfram ákveðið. Hver gleði þín er ákveðin - hver sorg og hvert tár og hvert bros. Lífið hefur gert fyrir þig skipulag. Síðasta skipti sem þú sérð sólina setjast, þitt síðasta bros, síðasta tár..þinn síðast andardráttur. Allt er ákveðið. Lífklukkan telur niður... "Lifðu hvern dag sem hinn síðasta" 20.08.03 ] [ Finnst ég vera bundin. Tilfinningarnar hlekkja mig - þær eru sterkar..get ekki slitið mig lausa. Fortíðin hefur grafið holu í huga mér - ég get ekki gleymt... Ég þrái Lífið.. - að geta verið frjáls...óhlekkjuð. Finna ilminn af grasinu..án hræðslu.. Finna þessa dásamlegu Vetrarlykt. Að geta andað án sársauka.. að geta lifað frjáls.. Er það of mikið um að biðja? 18.08.03 ] [ Aleinn á úthafi, aleinn er líkami. Engin veit hvar maður er -aleinn á úthafi. Hverfur hægt líkaminn, með öldukoss á kinn. Engin veit hvar maður er -aleinn er líkami. Sál sem vætt er sjó, manni sem að dó. Engin veit hvar maður er -aleinn á úthafi. Í landi grætur kona, um manninn sinn að vona. Engin veit hvar maður er -aleinn á úthafi. Bátnum ei landi næ, veltur á báru og sæ. Engin veit hvar maður er -aleinn á úthafi. Ef gæt´ hún kysst sinn mann manninn sem hún ann. Engin veit hvar maður er -aleinn á úthafi. Sálin finnur ró, hjá manni þeim er dó. Engin veit hvar maður er -aleinn á úthafi. ] [ Hvenær kemur sú stund er við þráum svo heitt Þegar allt er við þráum er veitt Þegar allt er við þráum við fáum hjá páfum í dag fyrir ekki neitt Og þó að ég deyi fyrir hlöðu af heyi þá er mér ekkert greitt Því ætla ég að saga á fastandi maga því sagið fer vítt og breitt ] [ Urðarljóð um innri sjón ómar sinkt og heilagt fiski ljómar sjómannadagurinn af páfans predikunarstóli þeir skjóta koddum á filmur og svo drukknar dagurinn á botninum á koggaglasi með hafmey sér til kynsvalla engan áhuga á Þingvalla vita valla snjalla kalla kristrekna kúrekan á olíubomsunum Bombsadeisí á sjómannadaginn þunnir feður með börn vinna blóta þræla blóta kvóta hljóta að blóta og æla ] [ Ég gekk eftir götu eða gata eftir mér ég hefi það ei ennþá skilið Við gengum saman gatan og ég og hrösuðum bæði á litlu brosandi blómi Ég gjörðist bráður og skipti ekki lit af ákafa stappaði á blómið Mér fannst ég vera eltur og leit snöggt við og þarna stóð tunglið glottandi ég vældi eftir hefnd "Bara ég gæti stappað á tunglið" STAPPAÐ á tunglið stappað TUNGLIÐ Stappað á tunglið ] [ Hann býður víst ekki úr þessu bætur, að vera bronsstytta með skakkt eyra og útskeifar fætur. Því mikið seina hugsa kannski menn. Var þetta líkamslýti,var hann getinn svona,eða höggvin í flýti? ] [ Fölnast mér vit svo að myrkrið ég skilji því það er í senn bæði napurt og falt en þó ber það stjörnurnar hátt undir himni þótt sólin þær kveðji hvern dag eftir nótt Og þó hún svo birtist svo hvöss undir hól og geislarnir ná til hvers myrkvaða bóls þá fer hún samt aftur uns nótt kemur til og hefur þá með sér sinn ástkæra yl ég fæ engu breytt þó að blóminn þau visni og mennirnir breiði helsæng yfir þau, en óska þess heitt að heimurinn skilji að tíminn hann líður við heimskunnar dans. ] [ Allt frá þinni vegleið ungri, hefur þráin verið í stöðu hungri, að regnboginn láti þig hætta þessu klungri, og gæfi þér eina ósk. En regnboginn varð ekki á vegleið þinni, heldur ávalt úti þegar þú varst inni, og þegar þú reyndir hverju sinni, þú gast aldrei þangað náð. En þegar þú gafst upp,hann að elta, og lést þér nægja, í lífinu að gelta, eins og hinir í brekkunni velta, þá bauð hann þér loks eina ósk. en þá var komin á þér önnur hliðin, og þroskinn var orðin eins og biðin, hann og þú elskuðu bæði firðin, og því var heiminum gefin þessi ósk. Og þegar nýárssólin nældi í fyrstu húsin, spilaði einhver nálægt friðarblúsinn, upp á nýtt skildi byrja maður og músin, fyrir náttúrunnar innstu rök. ] [ svartasta nóttinn bauð okkur velkomin ferskleiki morgundaggar forleikur sameiningar hæddi svo og hló við höfðum beðið svo lengi sameiginleg þjáning óskilin tjáning skilning til að breyta ótta í ást skil eftir sönnun fyrir sannri ást, við vaskinn komdu að leika, elska lygna tunga afskræmdu varir strýkur bakið titrandi hjarta, lakkaðar neglur klóra, strjúka, gæla sagan skálduð hörfar burtu frá raunveruleikanum sluppu augað blekkt hjartað hrekkt klofin tunga, brotnar neglur aðskilin við sameingingu hverfum við aukna fjarlægð vona, kossa, drauma og breytinga svartasti morgun kom þó kvaddi og dó ] [ Tími, hver hefur tíma? Allir drífa sig áfram Hlaupa til að ná strætó Drífa sig í vinnuna Fara í skólann Tími, hvað er það? Allir eru að drífa sig Tími, hver hefur tíma? ] [ Lítið ljóð sendi ég þér um fallega minningu sem býr í brjósti mér Hún þessi minning minnir mig svo ákaft á þig Hún er bara um mig og þig ] [ Hvert tár sem fellur, verður að tærri morgundögg. Hvert tár er merki sorgar, söknuðar eða ástar. Hvert tár sem þurrkað er, er líkt og þegar sólin þurrkar morgundöggina. Hvert tár sem er merki ástar, er líkt og ný stjarna á himnum. ] [ Kvöldið grætur því að það, hefur engan til að sýna að það þekkir ást. En það veit eigi það að, ég hef hlustað á það þjást. Kvöldið er svo einmanna, stjörnurnar geta ei glatt. En það mun ég sanna, kvöldið elskar það er satt. ] [ Nóttin grætur sáran Hana vantar þig að elska En senn stígur Dagur á stól Nóttin mig kveður Tárin eru morgundögg Sem Dagur þurrkar Bara ef bara Ef Dagur og Nótt sameinuðust Nóttin stígur Dagur sígur Sól og Máni Mætast Þau mættust Fundu ástina Dagur er Máni Sólin er Nótt ] [ Vindurinn leikur létt um vanga mína Svo kemur Stormur mikill og tignarlegur Hann ýtir við mér eins og hann vilji athygli Leitar á mér með fallegum dökkum augunum Tek upp sykurmola og gef Storminum mínum Horfi upp til fjallanna til hestanna og stormsins ] [ Það slær á silfurskærum geisla, ljósið leikur sér að lítilli perlu. Fegurðin er ómælanleg, bókstaflega stórglæsileg. Tár augna þinna, breytast í perlur á himnum. Þær skína sem bjartar stjörnur. fegurðin er ómælanleg. ] [ Brotin postulínsskál með gylltum skreytingum er eins og brostin vonin. Vonin var eitt sinn skreytt fögrum minningum. Svo missir einhver þessa viðkvæmu skál, strengurinn er slitinn, þessi viðkvæmi strengur. Þessi litla fallega von, allt ónýtt. Var máski ei brotin með vilja, einhvern veginn mun það taka langan tíma að laga. Að líma saman skálina, græða strenginn, en það mun ætíð vera sár. Eins og lítill blómknappur dafnar að vori, getur vonin vaknað á ný. Ber þó ætíð hræðsluna í sér, en vonar að allt lagist á ný. ] [ Megi vináttan blómstra og verða svo fögur Að enginn mannlegur máttur geti henni grandað Vinátta sem hin fegursta rós fegurð hjartans fyllir rósina fegurð Sem lítið ljós sem gyllir vonina sem bjarmi sem lýsir upp hinn mikla lífsins veg. Vinátta og ást lýsa upp hinn mikla lífsins veg En óvinátta og hatur myrkja hinn mikla lífsins veg En með sannleika og ást frið og vináttu Má alltaf lýsa upp hinn mikla lífsins veg ] [ Bros lítils ungbarns fær þig til að endurskoða lífið. Þér finnst lífið stundum einskisvirði en þú verður að muna að ekkert er einskis virði. Bros sex ára engils fær þig til að þrá lífið. Þér finnst það vera eitthvað annað þetta eitthvað sem snertir innstu hjartarætur. Bros tólf ára villings fær þig til að langa á ný. Þér finnst þessi villingur vera þú en hugsar þó að þú hafir aldrei verið svona slæm. Bros átján ára unglings fær þig að þrá að vera ungur á ný. Þig langar að þrá og finna allt á ný en týnd æskan mun aldrei koma aftur. Bros tuttugu og fjögura ára einstaklings fær þig til að horfa í átt að því liðna. Þér finnst þú hafa gert allt sem þú hefðir getað gert en nú leggstu í hinsta sinn og sefur vært. Þú vaknar ei meir en bros minningana munu ætíð lifa. Brosað í hinsta sinn og hlegið minningar eru af hinu góða. ] [ Vertu ætíð vinur minn Vertu ætíð vinur í raun Vertu ætíð og ævinlega Ævinlega vinur í raun ] [ Margt er sagt en minna meint um marga tilfinninguna. En stundum er alltof seint að muna minninguna. Stundum standa orðin sterk og öðru hvoru veik. Oft eru þau afar merk ef ekki ertu smeyk. ] [ Tár mín hef ég lengi þurrkað þurrkað í burtu minningar mínar þurrkað í burt minningar mínar um þig. Það er langt um liðið liðinn hefur langur tími síðan ég hef heyrt frá þér. Þú hefur kennt mér allt allt sem ég þekki um ást allt sem er þess virði að vita um ást. En var það þess virði var það þess virði að sjá mig þjást þjást vegna ástar minnar á þér. ] [ Endurfæðing 1.V Regn votar götur, stræti og stígar... ég finn fyrir fólkinu sem gengur mér hjá Það er erfitt að vera leikmaður í þessu lífi sem rennur fólkinu frá... 2.V Ég vill gefa, fá og þykkja og lifa af eilífu þessari jörð á En gröfinn hún dýpgar árunum með, og líkaminn rotnar innaní sér 3.V En blómið það endurfæðist út úr sjálfum sér Og sonur minn mun halda áfram að ganga þessa jörð, með hluta úr mér í sjálfum sér 4.V Hluta af skapi og útliti frá mér, ég gef þér í þína vöggu... 5.V Ég vonanst að hún nýtist þér, í göngu sporum mínum í, sem marka mína fyrir dvöl Stígðu úr spori sonur, veldu þér braut 6.V Lífið er erfitt, lífið er gott, lífið breittist dag frá degi 7.V Blóma röð lyggur af mínu leyði, tákn fyrir minni tilfinninga för... 8.V Dagbók mín er fullskrifuð er, loka blaðsíðan er tileinkuð þér... ] [ Þegar ég sá þig fyrst kviknaði í mér blossi Ég vildi kyssa þig hinum eilífða kossi Ég sá bara hafið í augunum þínum Og í því vildi ég sökkva huga mínum Ég kalla þetta ást við fyrstu sýn Og vona að þú verðir ávallt mín. Að þú hverfir ekki eftir sekúndubrot Því hjartað mitt fékk í sig skot Skotið var fast og skotið af boga Hann Amor lét þessa ör loga Ég vona að þér sé ekki sama Um að ég verði þinn herra og þú mín dama. ] [ sólin reis kát í dag eins og aðra daga. hún sigldi yfir bláan himininn í gylltum sparikjól. endalaust hátt yfir grá hversdagsskýin hafin, dansaði hún við tunglið á leiðinni í háttinn. fyrir henni er sérhver dagur sunnudagur. ] [ kvöldin rauðu, te, sígó og blöðin auðu heimurinn málaður með gulu ljósi á stjörnurnar horfi, sama þótt sólin sofi skrifaðu nú penni svo um tilfinningarnar losni sama þótt hjartað brenni svo lengi sem það ekki frosni draumurinn brosni, þessi óseðjandi þorsti, losti í týnda sál. inní mér brennur bál, þrár í ófegðar minningar. nú hverfular hyllingar svona nú penni stoppaðu gleymdu orðinu ´farðu´ ] [ Ég þurfti á öxl að halda Hurðin var opnuð að mér fannst um stund, svo skellt af krafti á mig, ég tók skellinn, hann var fastur. Hvíld, hvað get ég sagt, hvað get ég gert, ástæðan fyrir að enginn svaraði, hvíld, hvað nú veit ei. Ég get ekki haldið áfram að hringja, verð að halda áfram á nýrri braut. En það er sárt !!!!! ] [ ég þú við hún þú þið ég og þú þú og hún þið og ég. ] [ drýp dauðum draumum úr hálf lokuðum augnlokum Tala upphátt úr svefni um eilífan anda opna augun fyrir ljósið sem var dimmt í samanburði við þig ] [ Tími fyrir mig og hugsanir mínar ] [ Vindurinn hvín og Queen rokkar. ] [ Titrandi, skjálfandi stend ég upp hiksta, ræski mig, tek til máls hratt og ófaglega hrynja orðin af vörum mér Róa mig niður loka augunum og sé ekkert hægi á talhraðanum hlusta á hjartsláttinn Brosi sleppi því sem ég ætlaði að segja segi það sem mig langar til að segja og þið hlustið Hægt og sígandi átta ég mig á hljóðinu umhverfis mig áhuganum sem skín úr þögninni Ég, ég hafði eitthvað að segja sem þið vilduð heyra Og ég opna augun, en sé ekkert ] [ Á leið heim get ég ekki varist mali sem köttur við rjómaskál mér hafði tekist það og allir voru sáttir Síminn hringir klögumál og kjaftagangur Hvað gerðist? Hvaðan kom þessi óánægja? Allir voru svo glaðir með sitt í gær Ef þú gætir bara sagt það sem þú meinar og meinað það sem þú segir yrði líf mitt einfaldara og við bæði hamingjusamari Taktu það með þér út á hraðbrautina Palli var ekki einn í heiminum ....hann hélt það bara ] [ ,,Gærkvöldið var þrusumagnað, held ég" hugsaði ég eitt andartak er ég opnaði augun. Hélt enn ég væri dauður, sá ekki sénsinn á að hreyfa nokkurn skapaðann, lamaðann líkamspart fyrr en ég fattaði: ég var bara þorskþunnur og rotin kartafla. En furðulegt.. ég vissi ekki ég ætti sófa Aldrei fyrr í sögu mannkyns á Íslandi, í þessum sófa sem ég á ekki, hefur nokkur maður nokkurntímann fyrr upplifað aðra eins þrusumagnaða þynnku. Ég stökk út úr sófanum, hrundi í gólfið því þar átti ég heima, sá gleraugun í gólfin’og setti’ðau á. Og óóó, af hverju þarf þessi heimur að vera svo bjartur og skýr..? og hvers vegna þarf sólin að skína svo glaðleg og hýr? ..og af hverju þarf ég að flatmaga örmagna, orkulaus, lifandi-dauður… Færi mig og forðast skinið, hnífskarpt skinið í skimandi augu og sé þá hvar úti í horni húmir skeggjaður, síðhærður timburverkjamaður með tístandi augu hlæjandi að yðar timbruðum. ] [ Ég loka augunum en þú hverfur ekki. Ég hugsa um fortíðina en þar ert þú. Ég lít á nútíðina en hristi hausinn. Ég horfi á framtíðina en hana sé ég enga. Ég loka augunum aftur og hverf. ] [ I sit at the window looking out. See people walking, happy, laughing. I close my eyes and see my life and what it’s about Honestly, I feel like crying. ] [ Í fjarlægri þoku langt í burtu, er lítil stúlka vilt í fölskum draumi. Hún stendur ein þar sem allir sjá hana en hún sér engan. Hún sér ekkert nema freistinguna sem er að vinna samviskuna. Hún óskar þess að þokan verði meiri og meiri svo hún sjái ekki þegar veruleikin hleypur í burtu. Hún á ekki lengur neitt nema minninguna af því góða sem hún átti, Samviskuna. ] [ Heyrirðu hljóð aldanna hendast yfir mannölduna gefur svo eftir og hverfur rétt áður en hún birtist aftur. ] [ Þú ert kyrrlátur, og verður aldrei samkeppni, verður aldrei dáður, hvað þá hataður. Þú verður bara sá sem fer lengra og lengra þar til það hættir að fréttast af þér. ] [ ef aðeins þú værir þar sem ég er og ég væri þar sem þú ert ef aðeins svart væri hvítt og hvítt væri svart værum við eitt ef aðeins heitt væri svalt og kalt væri volgt værum við hamingjusöm ef aðeins þú og ég værum VIÐ ] [ 000000-0000.Vinsamlegast taka kortið til baka. Tímabil.Líf mitt eru tölur. <<< Ég bað bara um einn viský á barnum, og þjóninn hann klippti af mér bindið. ] [ Þetta er þriðja ljóðið mitt um ástina. En af hverju tel ég? Það mætti halda að ég skammaðist mín.. Þetta er fyrsta ljóðið mitt sem inniheldur spurningu. ] [ Ég er hætt að heyra stend dofin heyri nafn mitt endurtekið en ég heyri ekki. Ranka við mér. ,,Viltu endurtaka þetta?!", samt trúi ég ekki röddinni í símanum. Ég sting símanum ofan í töskuna. Stari útí loftið. sé ekki fólkið sem gengur framhjá mér. Eðli fólks kemur sífellt á óvart. ] [ Líkt er mitt líf og bílferð ég er farþegin en vel mér ökumann. Ég veit að best er að þú keyrir þú mitt líf leiðir um hamingjunnar veg en þó vil ég svo alltof oft skipta um bílstjóra þeir leiða mig villur vegar til sorgar og trega þar til þú sest í sætið á ný. ] [ ATHUGIÐ! Sálin mín er á uppboði þessa vikuna! Hæstbjóðandi fær afnot af henni til lífstíðar og getur notað mig á allan þann hátt sem honum/henni dettur í hug. Hingað til hafa borist 5 tilboð: 1. Satan bauð mér 10 kílógrömm af heróíni og haglabyssu. 2. Bakkus bauð mér 21 lítra af 18 ára Ballantine’s whiskey. 3. Amon-Ra bauð mér 16 vikna sólarlandaferð til Jamaika. 4. Drottinn bauð mér fyrirgefningu 38% synda minna. 5. Amor bauð mér 10 mánaða villt kynlífssamband. Enn hefur ekki verið tekin ákvörðun. Býður einhver betur? Tekið er við boðum í síma 848-**** Daníel. ] [ kæri guð... ég veit að þú ert kannski upptekinn við að sinna öllum þessum alheimi öllum þessum milljörðum einmana trilljörðum sólkerfa... ég veit að í hverju sólkerfi eru þúsund milljón hnettir með mögulegu lífi og kannski eru milljarðir sálna á hverjum hnetti sem biðja til þín... ég veit að allar þessar sálir hafa óskir óteljandi margar mismunandi óskir sem þú þarft að fara yfir grannskoða og lesa neita eða veita... hmm... kæri guð vildi bara biðja um eitt fyrir mig... ehmm...sko ég vildi... æææiii... sleppum þessu... amen ] [ í sjónum sé ég hugarangur og latínskar ballöður um drauma sem aldrei rættust. gef þér orð og líkama minn fyrir ekkert, auk þess sem þú bara tekur. horfnir partar af mér leynast í þrálausri nostalgígu. ef ég hverf nokkurn tíman aftur mundu finna mig niðrá höfn. fetandi í átt jafnvægis, að skjóli gullna vitans. í leit að vitinu. þar týni ég til ástæður og ný sjónarhorn með rvk alla, fjarska bláa, liggur hún fyrir mér, saklaus á svip. byður mig að gefa sér meir af mér. aðra raun. aðra ástæðu til að lifa inní mér. annan lærdóm. svefnlaus ég vaki. svo aftur ég mun vakna og aftur ég skal reyna. þó sífelt draumarnir brotni inní þér. borgin mín bláa. finndu mig á höfninni. aldan mín háa. ] [ Gefðu mér 6 ástæður til að anda.. þær eiga að vera 7..ég hef eina til. Flótti var það sem heltók huga minn..hræðslan..vonleysið. Ef ég væri ein, án ábyrgðar í garð annarra..þá væri mér sama um þessar ástæður..því ég veit að þær eru ekki til. Allavega er ég þá svo blind að ég sé þær ekki. Sé ekkert.. finn ekkert .. vil ekkert.. er ekkert.. Gefðu mér 6 ástæður... ] [ laufblaðið féll hægt til jarðar og afhjúpaði leyndardóminn hálfnakin stúlkan hló sig veika og benti á 5 sentímetra orminn íbygginn pilturinn glotti til baka og sagði: "þú færð ekkert skárra" ] [ fas hans fellur fölt á glæran gluggann forljótur hann starir inn í skuggann fangi sinnar samvisku – syngur ekki meir sorgmæddur og linur og frá öðrum deyr... forðast annað fólk og grefur sig niður flóttinn er stuttur inn í sjálfs síns iður augasteinar breiðir og sjá aldrei birtu bjallan glymur honum í sálinni fyrrtu... ferðin er byrjuð - til baka ekki snúið blóðið er búið og sinnið svo lúið í skugga huggun skríður inn og sefar kaldan hugann minn... í skugga huggun mun ég finna sársauka mínum mun þá linna... ] [ ég hleyp áfram í blindni... stari á svartnættið gýna dökkt yfir augasteinum mínum... ég hleyp áfram í blindni... heyri svartnættið kalla hátt yfir mjóar axlirnar mínar... ég hleyp áfram í blindni... skynja svartnættið strjúka laust yfir stutthært höfuð mitt... ... ég stöðvast í blindni svartnættið stöðvast líka... nokkur hænuskref í viðbót... finn hitann frá ljósinu... finn hlýjuna streyma inn... ... göngin eru á enda runnin göngin eru á enda hrunin... stari gegnum lítið gatið og kemst ekki milli steinanna... ... þarf að ganga til baka... ] [ í rúmt ár óx fögur rós í garðinum mínum hún dafnaði vel og rætur hennar dýpkuðu uns þær náðu ekki lengra inn í moldina... í byrjun ársins gerði tryllt slagveður rósin slitnaði upp og fauk sinn veg og lenti í garðinum hinum megin við götuna... rósin dvaldi þar lengi á yfirborðinu en núna hefur hún skotið þar rótum meðan ræturnar standa enn djúpt í mér... ræturnar standa enn djúpt í mér en blómið er farið og kemur ekki aftur hinum megin við götuna stendur það fagurt fegurra en áður og brosir við mér... ... daglega sé ég eigandann annast sína dáðu rós... ] [ “guð upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið...” sagði presturinn við sóknarbörnin rétt áður en sonur hans var barinn til bana... ... “sælir eru fátækir – því þeirra er guðsríkið...” “sælir eru hungraðir – því þeir munu mettir verða...” sagði presturinn við sóknarbörnin rétt áður en faðir hans var soltinn til bana... ... “elska skaltu náunga þinn eins og sjálfan þig...” sagði presturinn við sóknarbörnin rétt áður en hann var skotinn til bana... í guðs útvalda ríki... ... lygar og brotin loforð í guðs útvalda ríki dauði og hefndarhatur í brosmildu englalíki... ] [ minningar frá því fyrir mörgum árum skjóta upp kollinum naga mig að innan og skilja eftir sig svöðusár... minningar frá því fyrir mörgum árum stinga upp spjótinu skera mig að innan og lita mína sýn á lífið... ... minningarnar halda mér í sterkum böndum minningarnar elta mig á röndum minningarnar leggjast sem ský fyrir sólu minningarnar halda mér í óttans þröngu rólu... ... ef ég gæti horfst í augu við ótta minn minningarnar köldu og deyðandi myndi ég ekki vera svona sjálfseyðandi... ... verð að horfast í augu við þær og berjast til að losna úr óttans þröngu rólu ef mér tækist að vinna að lokum hyrfi þunglyndið sem dögg fyrir sólu... þegar mér tekst að vinna að lokum festist sorgin í gleymskunnar ólum ónæmur fyrir sorgarinnar strokum og sneiði framhjá óttans rólum... ] [ ég hugsa að allt væri betra ef líf mitt væri vídeóspóla og tilveran myndbandstæki... ... ég gæti þá ýtt á pásu þegar hamingjan er á skjánum spólað áfram þegar leiðinlegu kaflarnir koma eða til baka til að upplifa eitthvað aftur... ... en í augnablikinu langar mig bara að leigja aðra spólu... ] [ aleinn í horninu situr hann feiminn sköllóttur og bólugrafinn spikfeitur og dreyminn og líflaus líkt og stytta... fær sér sopa af ódýrum bjórnum reykir eina rettu blæs frá sér reyknum með wannabe cool grettu... ... rífur af sér flöskubotnagleraugun með fitugum höndum og blæs frá sér andfýlunni... tekur af sér úrið og hringana teygir sig ofan í buxurnar og spilar vasabilljarð í mínútu... ráfar upp frá einmana borðinu borgar fyrir bjórinn og pakkann og hendir fimmhundruðkalli á dansgólfið... ... fer út af nektardansstaðnum og inn á næsta klósett tekur í hurðarhúninn... lýkur sér af á klósettinu þrífur sér ekki um hendurnar tekur í hurðarhúninn... drífur sig skömmustulegur út af skemmtistaðnum tekur í alla hurðarhúna... ... ...nokkrum sekúndum seinna kem ég inn til að skemmta mér og pissa... ... ...og tek í alla hurðarhúna... ] [ sá spegilmynd mína úti á götu í gær hún þóttist ekki sjá mig gekk hraðar og hljóp loks við fót... sá spegilmynd mína í glugga í morgun hún sneri í hina áttina dofnaði smátt og hvarf loks alveg... ... talaði ótt og títt við sjálfan mig í gær ég fékk engin viðbrögð talaði hærra en gafst loksins upp... ... sjálfið mitt fékk leið á sjálfum mér... ] [ undir votu þakinu hvílir lítil stúlka með örlitla dós og safnar aurum... undir hlýjum augunum hvílir mikil angist með hárbeitta nál og stingur hjartað... undir skökku brosinu hvíla ósögð orðin með miklum þunga og komast hvergi... ... undir þykkum jakkanum hvílir troðfullt veski með marga seðla og bíður eyðslu... undir klipptu hárinu hvílir nískur heili með löngun í bjór og dýran vindil... undir augum mínum hvílir lítill djöfull með horn og hala og enga samúð... ... undir votu þakinu hvílir látin stúlka með örlitla dós og lokuð augun... ... undir votu þakinu hvílir drukkinn alki með áfengisdós og troðfullt veski... ] [ Sál þín súr og bitur af svikum og prettum er þú aumkar þig líklegast mjög þegar enginn sér. Unir þér best mykjufjalli á þar sem á toppnum trónir þú enginn annar bita af því má fá. Auðurinn þig á kvelur og pínir harmar mjög ef einum, tveim krónum þú týnir. Þú ert mannanna mestur yfir heiðarlegan almúga hafinn drottnari undirheima hrikalega kvalinn. En þú neyðist til að umgangast oss snauðan almúga mann ég vil þig ekki dæma hart Guð það einn getur hann. En samt get ég sagt að mér læðist sá grunur að til heljar farir þú nema auðnum þú deilir með mér hér og nú. Og að þá frið munir þú fá í þitt sinni verða Guði þóknanlegur og í himnaríki fá inni… ] [ Strætin tóm og litlir sviptivindar þjóta. Ég er þar, en það er þar engin nema vindurinn, malbikið og sements byggingarnar… Því ég er vindurinn... sem heimkyni á í hinu eilífa dýrðar alfa og omega Guðs, sem engan endi hefur, og er á eilífum reit upphafsins… Þar sem ferð mín hefst og endar, endar og hefst í fullkomnu tímaleysi, án þess þó að ég taki spor... ] [ Þetta er sumarið '93 Sumarið er við unglingarnir héngum niðrá torgi með hanakamba í þröngu streds gallabuxunum drekkandi menntholspritt sem við keyptum í gamla Reykjarvíkurapóteki sem var þar niður frá Þetta sumar var líf okkar ekki raunverulegt. Við bruddum pillur eins og okkur væri borgað fyrir það. Veruleikinn varð að skrítnum draumi og af svefni okkar við vildum ekki vakna. Þetta sumar horfðum við á riddara götunnar líða hjá eins og hermenn eftir orrustu þetta sumar þráðum við að verða eins og þeir verða ósigrandi hermenn líka Þetta var sumarið er við vorum ung og óreynd líf okkar krakkanna var öruggt, bein leið í átt að ólyfjan þetta sumar föðmuðum við að okkur nóttina og liðum útaf í faðmi Dauðans, þetta var sumarið 1993. ] [ Einn morgun mér birtist sýn. Dökkhærð dís líkust engli- býður mér góðan dag. Ég umla og segi: ha. Ég horfi á hana í svefnrofunum. Hún getur ekki verið raunveruleg! Ég sofna á ný og held áfram göngu minni um draumsins sléttur. En þennan morgun á fögrum grundum ég henni mæti englinum með dökka hárið. En ég er vakinn áður en snerting næst því það er kominn hádegismatur. Ég bíð í röðinni og á endanum kemur að mér. Og viti menn það er hún sem matarbakkann réttir. Ég snerti hana. ] [ Grasið græna er farið að fölna, einnig er hugur minn farinn að bresta… Kannski það hausti líka í huga mér? ] [ Dansar ber - fætt nýtur andartaks og dásemda Dansar fram yfir sumar fram á haust Augna blikið ´*´* varir svo lengi að það mætti kalla það *-eilífðarblik-* Og mér dettur í hug spurning ein sem er svo: Drottning dansar þú svona fyrir alla eða er þetta aðeins okkar stund? ] [ Ungur maður bjó í húsi út við sjó, björg sína úr því hann sér dró. Hann óttaðist fátt, fann sjaldan vanmátt. Við Guð hann lifði í sátt. Að óttast afkomu hann þekkti ekki sinn eiginn herra, laus við hlekki. vann á sínu eigin dekki. Gjöful mið alltaf hann fann. Guð er góður, sagði hann á meðan hann vann. En svo hætti sjórinn að gefa og við Guð hann byrjaði að steyta hnefa og í hjarta kveiknaði ótti er hann náði ekki að sefa. Guð hann getur ekki verið góður, ef hann lætur mig fara tilgangslausan róður. Láta mig draga þyrsklingsfull netin er ég er þreyttur og lafmóður. Nei slíkur Guð er ekki góður. Í húsinu árin liðu og hjartað brann. úti við sjóinn hvar hann miðin sín fann. Einn áfram þraukaði hann. Og á bana beði sínu leið hann kvöl og pínu hugsandi um gömlu miðin fínu. Jafnvel ekki rétt áður en hann dó gat hann í hjarta fundið frið né ró. En Guð vitjaði hans þó. ] [ Tungumál eru að deyja út sömuleiðis þjóðflokkar. Gömul indíánakona, meir í ætt við Inka heldur en amríku indíánann talar við sjónvarpið dauðri tungu. Enginn lærir af- né hlustar á hana. Hún er ein eftir og sjónvarpið svarar ekki til baka. ] [ Þögnin er gullin sagði gömul kona mér. Ég sagði: Sjálfvera verður að tala vilji hún vita eitthvað sem önnur veit... Þögn... Skilningur...,..., Við skulum halda áfram þessari ferð... Ef þögnin er gulli skrýdd er þá visku nálægt henni að finna? Er hún gætt frásagnar hæfileikum? Undrum og dásemdum. Skilurðu hvað ég er spyrja um? Hefur þú upplifað visku lífsins? Hefurðu sannleikann í huga þér? Þögnin er fyrir mér sögumaður. Lífið er hinn mikli listamaður „kunstner elegans“. Ég hugsa, þess vegna er ég til og ég hugsa, það sem ég er. Ég reyni ekki að vera né vil ég vera annað en það sem ég er. Ég er... Stundin heldur áfram. Ég er blankur. Ég hef skoðanir. Ég er jákvæður með afbrigðum. Og ég drekk vín og á góðar stundir. Og verð ekki kjánalegur af sopanum, þó ég standi á nöfinni á stapanum þar sem ég les visku lífsins og er að hugsa um að láta mig svífa fram af huglægt. Endir...,..., ] [ Galdramenn bálið logar líður stund senn lífið togar Orðleysi almúgans ber vott um fáfræði bjóðum því upp í dans og seljum honum lífsgæði Því það er okkar háttur í dag að versla og pranga Selja steríótæki og sjónvörp ofan í alþíðumanninn svanga ] [ Ég lagði eyra mitt upp að veggnum og heyrði rödd þína hvísla til mín allri þinni visku. Ég sneri andliti mínu upp í hvassan vindinn og fann þá reiði þína út í okkur öll. Ég lagði höfuð mitt á hart grjótið, þar fann ég snertingu þína strjúkast við vitund mína, ég horfði á bláan himininn og fann þá ást þína skilyrðislausa. Ég lygndi aftur augum mínum og sá þig. En er ég opnaði augu mín aftur varst þú horfin… ] [ Um kvöld við kertaljós kom hlýjan til okkar, sem kom frá ljósinu og inn í sál okkar. Það var okkar lífsljós, ljósið hélt í okkur lífinu. Því þökkum vér fyrir það að eiga kertaljósið að. ] [ Blóminn vöknuðu með vorinu, við sáum þau fæðast, eitt og eitt. Sjálf til lífsins við fórum að vakna, við vorum og lengi í hýðinu. Svo komu fuglarnir og flugu um loftin, fjöllin tóku á sig ferskan blæ. Grösin urðu græn, eitt og eitt og eins og græn teppi urðu túnin. Flugur sóttu af sínum mætti strax á okkur mannfólkið. Stundum virðum við ekki náttúrunnar blæ og skemmum hana alltof mikið. Nú skulum við vakna til lífsins og vera kát eftir okkar hætti. ] [ Því eru oft þessi stríð? því er svona mikið um heimsins kvöl? Hungruð börn þau deyja sínum drottni og dagurinn blikkar ekki einu sinni auga. Ógnir stríðsins, ógnun við mannfólkið, ógnun við hinn frjálsa heim. En við fólkið sofum, sofum og sofum við ennþá þyrnirósarsvefni. Og þegar við munum vakna morgunin eftir með stýrurnar í augunum, sjáum við svo margar myndir og martraðir yfir því að hafa ekkert gert. ] [ Ég nota hvorki höfuðstaf né stuðla. Og hverju býttar það? Ég nenni hreinlega ekki að læra bragfræðina. En ég er samt micro skáld. Og mér líkar mín fáu ljóð, á góðum degi. Sem er gott á meðan er. Sit og læt mig dreyma um hið fullkomna. kvarta ekki í Guð og ásaka ekki Djöfulinn, sem birst hefur í hundslíki með veðmál og samning í farteskinu tilbúinn til þjónustu oftar en einusinni, um ekki neitt sem aflaga er. Ég les ljóð eftir Sigfús Daðason sem mér líkar ágætlega. Hann er greinilega vel gefinn, menntaður maður sem lesið hefur gríska goðafræði. Ég kemst ekki með tærnar þar sem hann hefur menntaða hælana í ný pússuðum skónum. Hverju býttar það svosem? Hvaða máli skiptir að ég komi ekki mínum ljóðum á framfæri vegna þokkalegrar stafsetningar Hverjum er ekki sama ? Ég er bara orðsnápur sem ræðir við sjálfan mig um heimsins gögn og nauðsynjar? Ég er öngur ritsnillingur. Ég er engvin, ég er minna en ekki neitt. Það eina sem ég get með nokkuð góðu móti er að lesa. Og hvaða fífl getur ekki lesið sig til upp á eigin spítur? En þá hlít ég einnig að vera fífl þar sem ég skil ekki einu sinni allt. Svo sem latínu rumurnar í Íslandsklukkunni, (hef ekki fengið færi á að læra latínu) kaflann í Atómstöðinni, goðafræðina í Fást, og þá vegna þess að ég hef ekki lesið gríska goðafræði. En brjálæði Strindbergs skil ég vel. Því sjálfur er ég brjálaður og mér finnst Þórbergur kjáni. Já, ég geng heill en haltur um veraldarinnar skóg. En hann er brunninn, höggvinn niður. Ekki af illra manna höndum. Nei, heldur kveikti ég eldinn sjálfur og var með mína eigin öxi. Einn í nóttinni og skreið í felur á daginn með brunasár... Allt svo var mér talin trú um það. Og svo sá ég að öfundsýkin og græðgin sem voru þau óhæfu öfl sem hjuggu niður mín tré og kveiktu elda mína svo ég yrði hvergi hultur. Hverju skiptir það? Hverjum er ekki sama? Ekki kvarta Ég í Guð og ásaka ekki Skrattann um neitt sem aflaga er. ] [ querio decirte que nunca voy a olvidarte te encuentro en mis suenos veo en la cara de mi vecino que anida external de un amor eternal ] [ Dý Dí Díana Díana það eru ill örlög að vanta í hana karl innanum kóngana náði ekki að hlýjana Ó eðla Díana bara Ég hefði komizt íana áður en þú náðir að þrífana. ] [ Hver var krossfestur á Colgate ? ] [ Maður hefur ekki tölu yfir orð þín í sölu frelsi þitt veitir mér uppsölu reisn þín á útsölu öskrar í gjallarhorni á opnum báti þar sem forréttindi eru að drepa þorska í sólarhita og hvergi er mengun nema þú og Freyja Æj. ] [ Þorir þú - að hengja hugsanir þínar til þerris á snúru í allra augsýn. Láta viðrast í vindinum, fyllast ferskri angan. ] [ Að morgni rís úr beði kona, miðaldra og dómara sínum mætir, kvíðin. Hann er fínn og fágaður, fallega innrammaður. Hiklaust og hnökralaust, tilfinningalaust, hann kveður upp sinn daglega dóm. Miðaldra, komin af léttasta skeiði, ennþá falleg, áður fegurri. Þú tekur þessu vel, grætur aðeins lítið, og bara í hljóði. ] [ Hrjóstrugir og harðbrjósta, berangurslegir, horfa á okkur kuldalegir, þögulir. Melar. Eintómir, endalausir. Ekki stingandi strá. Klettóttir dálítið, lengra frá. Jafnvel loftið líka, án þess að kveðja, hraðar sér burtu, sem mest það má. ] [ Ég samdi eitt sinn ljóð um brennda ást en það var aldrei birt ástareldurinn var kulnaður ljóðið fuðrað upp ] [ Frjáls ég fell niður í drugar heim Gegnum myrkur og loftið gleit Mikill hjartasláttur milljón og ein Ó hve eð ég fell í drugar heim Aldrei tekur þetta enda Tíu tug óg fimm skref Ég bið þess að snerta þig Áður en enda að kemur Svo ljós ég fæ Frjáls ég fell niður í drugar heim Gegnum myrkur og loftið gleit Höndin svört ei ekkert sé Mikill hjártsláttur milljón og ein Loftið stríg gegnum mig Aldrey tekur þetta enda Ég bið þess að snerta þig Áður en enda að kemur Svo ljós ég fæ Gegnum myrkrið og loftið gleit Og er ég snerti þig ljós kom Ég er lent hví ósköp Í armir þínar, og er Ég sé hönd mína þúrtin og blóðug ég fell í drugar myrkur og málus er einginn orð komast út hví...! hví ég spyr ekkert orð eingan enda tekur þetta. Ég bið þess að snerta þig Áður en enda að kemur Svo ljós ég fæ ] [ Hver er þín saga gamli maður því siturðu hér hvern dag og drekkur kaffi ég forvitnast um hvað þú hugsar, hvers þú saknar, en nú ég veit þú komst frá Færeyjum sem ungur piltur ætlaðir alltaf aftur heim en villtist villu vega í áfengi og böli það er liðin tíð gamli maður alltaf kemur þú aftur og drekkur kaffi kannski þig langi heim ] [ Í gamla daga þegar flautað var úr bíl ég sneri mér við. Ég hugsaði einhvervegin þannig að það hlaut að vera flautað á mig. Ég var á gangi niður Öldugötu þegar ég heyrði í þér kalla. "Hey sæta!" og hamast á bílflautu ég tók ekki eftir því. Því lífið hefur gert við mig það sem ég bjóst alls ekki við. Mitt fas er ekki það sama og þá þegar það snerist allt um mig. ] [ Þér er misboðið í jarðvist þinni, og líður eins og hverjum öðrum þurfandi rindli. Á meðan stendur sá vamlausi út á verönd, og reykir af risastórum vindli. Hann er að horfa á sólarlagið, sem er eins og guð sem heldur á marglitum kyndli. EN þér má vera sama,því þetta er aðeins ljósbrot, í einu allsherjar alheims svindli. Við eru öll stödd ásamt hinu á annarri stjörnu, í einu hári á lambsins dindli. Og vonandi er sekúndan þar billjón ár, ef það skildi vilja hjá mömmu sinni tár. ] [ Ljósgular kúlur dansa í náttmyrkri. Þær eru í lausu lofti,svífa yfir götunni,eftir nýslegni flötinni,og þykjast vera.Styggja aðeins við ketti,og kynnast róna á einu bretti,og vilja eitthvað með honum gera. Svo hann dreif þær ljósgulu á ball. Þeir í hurðinni urðu hissa,þegar þær fóru að flissa,en hleyptu þeim þó inn,það gekk í mannskapinn,en þegar þær gulu og róninn fóru að dansa, kinn við kinn,þá föttuðu þeir í hurðinni ,að þessi grúpa hafði ekkert borgað sig inn. ] [ Hún er eins og tóma járntunnan sem eitt sinn átti að fylla af olíu og flytja í burtu en gleymdist í hita og þunga leiksins,og nú er lok hennar notað sem eldunnar panna,spennugjörðin sem leiktæki barnanna,og tunnan sjálf fyrir rigninguna ,sem kemur einu sinni á ári,og þegar skuggar næturinnar speglast í eldinum ,eru barðir járntónar úr henni út yfir þorpið.Járntunnan sem fékk mörg hlutverk sem átti bara að vera eitt í upphafi að flytja olíu á milli tveggja staða. ] [ Það ert bara þú, alltaf bláu augun þín, horfa enn á sálu mína snerta enn hjarta mitt. Get ekki sleppt þér, gefið þér frelsi, frá hugsunum mínum. 'Arin líða svo hratt, mikið breytt í mínu lífi, nema þú, bara þú, alltaf. ] [ ljóð mín fuku líkt og snjóflygsur um lágan furuskóginn lyftu sér yfir trjátoppana og hurfu inn í alltumlykjandi eilífð himinblámans ský flögraði austryfir ] [ Rafmagnsstaurinn syngur, en vegstikan þegir,pískrar kannski í myrkrinu þegar bílljósin fara hjá.Vegstikan,hratt, vegstikan, hraðar,vegstikan,svartklæddur maður,vegstikan, maðurinn með ljáinn. Hann speglaðist í hraðbónuðu húddinu, sem nú er fullt af rauðum lækjum sem hafa leyst úr læðingi þúsundir biðukolla ,svífandi í leit að nýju lífi.Skyldu þær sem á bílnum lentu finna tilgang,þegar rauði lækurinn hættir að renna? ] [ ég þekki mig ekki lengur hugur minn leitar enn á ný á þínar slóðir freistandi sem aldrei fyrr og þú stendur kyrr eins og klettur harður og án hitans sem innra með mér brennur ég fæ aðeins að snerta þitt ytra borð renni fingrum mínum yfir kaldheita húð þína reyni að ná dýpra en fæ þó aðeins notið til hálfs ] [ I. risavaxinn tanngarður gleypir sólina smátt og smátt hér á ég heima II. hversu gott er hér að ganga með þér arm í arm við endamörk veraldar ] [ ég geng um móann fiðrildin í grasinu fljúga upp og svífa sem litlir hvítir englar um allt galdraverk kraftaverk undursamleg náttúrunnar verk færa mér boðskap um fagran tilgang lífsins fljúga og fanga mig hjarta mitt og sál en í augum þeirra er ég eflaust bara ógnarstór og hættuleg skessa sem veður í skeytingarleysi um öll þeirra lönd án nokkurs tillits til lífs þeirra og tilveruréttar ] [ fiðrildin í flóanum eru undarlegt tákn um tómleika míns lífs án þín hljóðlaust flug þeirra ómur þess sem aldrei felst í brosi þínu eins og grátleg spegilmynd flögrandi um hagann í endalausri von um það sem ekki fæst fiðrildin í flóanum eiga mig eins og þú átt mig heilla mig er þau svífa létt úr vegi mínum ] [ ég er ströndin veðruð og sorfin sem lognstilltur sjórinn gælir við á góðviðrisdögum létt eins og hljóðlausum orðum sé hvíslað á andvökunóttum og bíðandi myrkrið ber með sér hafsins kraumandi þrá þegar hvessir í ólgandi ástríðuþunga með höndunum hvítu mér öldurnar strjúka og ofsafullt brimið mig dregur í freyðandi fang sitt fyllt af ærandi von svo ákaft sem ástþrungnum orðum sé hvíslað á eldheitum nóttum ] [ ómskuggar dagsins fögur jörð spegilmyndin mín við sandinn horfin inn í ljósið sé sjálfa mig á ný upp á nýtt hleyp í tryllingi gleðiær algleymið er nærri ég hef uppgötvað það innsta skrín fyllt gersemum sjálfsins hleyp um sandinn og skrifa þar full játninga feimnislaus ströndin þakin nýju ljósi ] [ Þú straukst mér um vangann dapur á svip. Með hálfum huga hoppaði ég yfir lækinn, heim á leið. Brottför þín dó út í fjarska. ] [ I dreamt of you last night an unwanted ghost of the heart coming to me in the darkness of dreams claiming the rights of a memory not easily dismissed Felt your tongue on my breasts heard your breath filled with promises ran my hands through your hair warmed by your sweat on my lips your skin against mine And as I woke I remembered your words on that day so solemn and cruel and full of your self-justification crushing our future of sweet possibility Ghost of my heart I can still see the blue of your eyes ] [ Eating melons after midnight a sort of aftermath to making love. I taste their sweetness moist as your tongue on my neck soft as your hand on my breast. Their succulent sap falls from our kiss. Their tender flesh delicious—strange melts in my mouth. Melons after midnight: an exotic touch of love’s embrace sweeter than all. ] [ Það var sem í draumi er ég sá þig fyrst, ósnertanlegur, klæddur í brúnan leðurjakka. Ég dansaði til þín með augunum og fleygði mér í fang þitt. Frá þeirri mínútu varð heimurinn okkar heimurinn okkar frá draumum mínum til augna þinna. þar liggur heimurinn okkar. ] [ þetta virðist vera kunnuglegt... ég hlýt nú að fara að nálgast... þetta virðist vera kunnuglegt... ætli ég fari ekki að nálgast... þetta virðist svo ansi kunnuglegt... hugsar litli gleymni gullfiskurinn meðan hann syndir hring eftir hring innan um kúkaklepra og klósettpappír... í holræsunum í leit að búrinu sínu... ] [ hvenær munu þessi ský öll hverfa hvar er sólin falin bak við dimmu? innar sorgin reynir sig að sverfa og sigrar stórt í okkar miklu rimmu... hvenær munu brosin aftur hvetjast hvert skal halda nú er sálin dofnar? hermenn mínir munu allir letjast með brothljóðum heilabúið klofnar... til hvers að berast á banaspjótum í birtingu verð ég ennþá myrkur sorgin hefur landað sigri skjótum sýktur og búinn minn smái styrkur... ... fyrir tveimur árum stakan samin síðan hef ég lifað lífi betur þó sorgin sé ekki ennþá tamin er ég laus við minn versta vetur... “með kveðju til allra hér á jörðu... bless” ég samdi og sýndi öllum grátinn tveimur árum síðar er ég hress og þakka fyrir að vera ekki látinn... ] [ Einu sinni lifði ég Lifði bara, og spáði ekki í það Nú lifi ég Og spái ekki í annað en Hvað það var gaman Er ég lifði ] [ útrás ég fékk í þunglyndisljóðum en lekans varð vart í sorgarflóðum þá flæddi allt slæmt inn í sálina bitru... samviskan hélt strax áfram að narta skrapaði leið sína inn að hjarta og áfram ég dvaldi í herbergiskitru... hamingju fékk ég með ástarljóði endaði glaður hjá fögru fljóði þá fylltist ég andagift aftur að nýju... efnivið sótti ég æ til hennar í blíðunni mínir heitu pennar í blindni skópu á blöðum mínum hlýju... en núna er fang mitt frosti vafið fljótur hef ég gleði mína grafið lífið mitt er ekki ennþá hafið en sorgin hefur myrkrið lengi tafið... kannski væri skást að sefa hjartað svo ég geti ekki lengur kvartað ég held því á brott til að forðast allt frostið... þíða þegar ég mun snúa aftur þá mun aftur eflast hjartans kraftur elding getur ei á sama manninn lostið... ljóðin þjóna sálu ei sem áður sefa ekki hjartað ef ég bráður þarf að losa útrásina þjáður... vil ei vera ljóðum mínum háður... ] [ I walk through the empty desert crying with a heartful of secrets and feelings behind me teardrops on sand are lying... go down on my knees and think think about my one love the love I left in haste the love that went to waste... I look in agony at a nearby sandstone the stone is little, cold and dry just like my dried up heart weak and about to die... I sculpt a heartlike figure in the stone with a sharp but rusty knife cold like my pointless life... I watch the figure – see my heart just there I know my heart is cold and hard I wish my heart was better and warmer but the heart before my eyes the heart I made with stone is the heart I lost cold as knife hard as bone... from my eyes the acid tears still ooze now I know there’s nothing more to lose I take up the heartlike figure throw it on the ground with a breaking sound... I can see the truth now but I already knew it my heart made a mistake my heart is a stone my heart is hard but hearts of stone can also break... cannot go back to the life I knew cannot go back to you cannot make the smile grow back wanna paint my blue eyes black so I won’t see the beauty I lost the beauty I miss the most... will not give up this long-lost fight fight myself and memories every night I know you’re gone and will forever be never giving up and coming back to me while I live in a room that’s dim I know you’re loving him... I can see the truth right now The truth I already knew never again loving you my stupid heart made a fucking mistake this bone-hard-muscle can also break if I could just take something back to mend my life – this wreck i’d take back the kiss of the poisonous kind so I could be the man again the one I left behind... my heart made a little mistake my heart will die and finally break all alone... my little cold heart of stone... ] [ Við þvældumst hljómríkar hviður þú með þennan líka Gibson í kringum okkur þvældist þessi líka brundfreki steggur það var leiðinda köttur þá segir þú en ekki þegir einu sinni átti ég graðan kött sem vældi einsog góður Gibson í Marshall það fannst mér alltaf skást þegar hann skaust í Ríkið fjandans kötturinn úðar á okkur úðar á aðra er aldrei hlandblautur bara hann færi nú fyrir okkur Í andskotans Bessastaði og skiti í pelsana en helvítið lætur sér ekki segjast er bara leiðinlegi kötturinn sem var skástur þegar hann fór í ríkið ] [ Ráðvillt með þandar taugar Stress og eilíf kvöl, daginn langan Horfi í allar áttir,að von sem ekki er. Líflaust bergmál, kveljandi tómleiki. Eða hvað. Löngun verður oft að veruleika. Skyndilega. Silfurslegnir geislar víðáttunnar Alheimsins margbreytileiki Leikur sér í flóði framtíðar. Undurfagrir tónar hljóma Þýtt í eyrum mér Hve undarlegt Og þó Blóm skarta sínu fegursta Börn og dýr að leik Fullorðið fólk sem gleðst Vonin vaknar Einmanaleikinn gufar upp. Sem dögg fyrir sólu Hve yndislegt er ekki lífið Þrátt fyrir allt. ] [ Elsku pabbi minn. hvað gerðist afhverju ligguru enn ekkert segir Ég helt að tetta væri í seinasta skiptið sem ég gæti seð tig enn hvað gerðist. eftir mánuð gastu brosað. þá brosti eg svo varstu farinn að tala þá fór eg að tala svo hreyfðuru þig og ég hreyfði mig lika enn svo gastu faðmað mig og þá gat ég tað lika enn pabbi hvað hefði skeð ef þú hefðir ekkert gert þá hefði ég ekkert gert hvað þá það skiptir eingu þvi nú geturu allt ég er stollt af þér ] [ Ég var ekki dapur þegar ég leit í augu þín eða þegar þau litu á mig. Máttvana af þreytu og gleði. Ég var ekki dapur þegar rósrauðar varir þínar léku sér að mínum. Þegar líkami þinn hné örmagna niður og bauð góða nótt. Ég var ekki dapur næsta morgunn, þegar þú hallaðir þér á öxl mína og brostir til mín. Ég var heldur ekki dapur þegar þú varst fastagestur í mínum draumum. Né þegar mynd þín birtist mér í hvert sinn sem augu mín lokuðust. Nei, ég var ekki dapur. Ekki þá. ] [ Borðið þakið kökudiskum, bollum, ljósum líkt og kjóll brúðarinnar sem gekk eftir löngum gangi til síns heitelskaða. Sem stóð í dökkum fötum við altari og kinkaði kolli til allra krikjugesta. orðinn stífur af kinkukolli. Skeiðar, klingja klingediklang á borði þar sem kirkjukór syngur hástöfum lag til tertunnar á borðinu sem bíður eftir að verða étin. Bragð kremsins, sem er dísætt líkt og parið sem gónir augum til hvors annars á háborði og dreymir um nóttina sem kemur síðar, líkist suðrænum ávexti, sem er ekki óvitlaust því í æðum hjónanna rennur suðrænt blóð, með heitu skapi. ] [ Ég á litla rottu sem er voða ljót liggur bara á mottu og vantar á hana fót. ] [ Ég Sigga litla stelpan er ég er að sitja hér ég er búinn að bíða eftir þér nokkuð margar stundir. ] [ Ég á litla rottu sem er voða ljót liggur bara á mottu og vantar á hana fót. ] [ Í skóginum stóð kovi beinn sat við gluggan risaeðla hann sat við gluggan mjög oft einn og taldi sína seðla hann heitir nú víst Jósafat, allt í einu herði hann garnagaul þá fór hann leita sér að mat hann heirði úr belju hátt baul og beljuna hann réðst svo á og beit í hana og klóraði svo datt hún niður dauð og lá og ekki matarlistin slóraði svo fór hann Jósafat því ekki lengur svangur hann var og fór í sófan og sat og hann er bara þar. ] [ OOOO þessi árans tá næst sker ég þig bara af ég verð þér strax af að ná því þú meiddir mig meðan ég svaf. ] [ Tóta á hest hún kallar hann herra,Prest. einu sinna bakaði Tóta á meðan var herra prestur að tína ber tóta kallaði kökuna klessan ljóta og þá bjóst til úr því klessuker og Tóta hlóp þar út útaf skrímslinu og herra Prestur hætti berja tínslinu þaug fóru saman í langan göngutúr að lokum mættu þau hinum fræga kínamúr og klifruðu upp hann og hittu kína mann svo sagði han Sing song fong þá svaraði Tóta ping long tong svo varð maðurin skrítinn á svip og hrinti þeim niður og það heirðist ekki klip svo hef ég ekki heirt um Tótu sem bjó til klessuna ljótu. ] [ Hvítar eru varir þínar andlitið sem snjór hér á jörð eitt stórt táraflóð og þú svífur yfir engill stór. Nú þú ert farinn oní jörðu grafinn. Er orðin ekkja bara ef einhver væri mig að blekkja. sárþjáð ástin afmáð. sorgin ein stór köflótt borg og nú ráfa ég um þau dimmu torg. ] [ Löngun í lífið löngun í Dauðann, Tvístígandi milli tveggja heima. Hlátur og Grátur sitja saman á vegasalti.....hlátur heldur SORGINNI uppi. ] [ línan sem ég þræði flæðir inn í sig í hring því allar brenndar brýr að baki mæta mér á ný og ekki verður hjá því komist að brúa liðna framtíð ] [ Dead rose, black and stale. My love has gone dead and pale. Heavens cry, hell howls. Hellish beast prays on my bowls. I drop to my knees, scared and alone, Scared of you being for ever gone… Bitter morning rises soon. After howling blood red moon. Fogy existence clouds my mind, Terrified of what I might find. Trying to convince my self: “this isn’t true”, I have over seen one important clue. I failed to see, this isn’t my reality. I struggle to wake, trying to fight this horrible fake. Silent scream, In this dream. Terrible sweat, struggling to forget. Forget this synthetic reality That showed my love’s fatality. I woke up screaming. Discovering I was only dreaming. What was this dream trying to hide? Over taken of fear I looked to my side. I turn on the light, To see better what gave me a fright. Cold shivers crawl down my spine. There my love lies in her blood, red as wine. ] [ Bjuggum til hljóð sem leyddu mig inn í hluta kvöldsins sem ég hafði aldrei séð, ljósin ferðuðust á skrítnum hraða útskýrðu samband mitt við hann. Borgin svaf eins og minnig sem ég hafði gleymt, gaf frá sér hljóð sem ég hafði aldrei heyrt áður... Fyrirgefðu; Ég vil bara fara, kasta of oft upp brotum af minningum og hugmyndum af þér sem hafa fúnað og staðnað með liðinni óhamingju... ] [ Ég sé þúsund fiska synda í sjó mig fer að þyrsta ég er orðin mjó fer ég ekki að fá þá fiskana þrjá ég heiri í kisu sú kisa segir mjá Fiskarnir stara á mig með bláu augun sín sem skína af forvitni oní þessum sjó ] [ bráðum veit ég að rósablöð fæðast aldrei grá, tunglið mun loks þrá og augun mín gul breytast í blá. öldurnar þurrar hættað hrapa og himinhvolfið loks fá að skrapa. taka ferskvatnsdropa úr eldinum, týna byrjun í endinum. koma heim á skýjum finna fyrir nýjum, draum á vatnslausri eyju. með óþreyju spyr vígspá hvort við sjóndeildarhringin sé ikvað að sjá. þótt í þurran farveg þarf að sá, samt inní mér von um frið að fá. ] [ ésé agnarögn af heildinni, geri mér grein fyrir hversu ögnin er smá. blæs á óttan við stormsveipi tilfinningana. horfi á eftir egóinu hrapa í gleymsku fortíðar minnar. þrálátar áminningar um vinda sem ekki linna verðað finna ér ekki nálægt brotarbroti af agnar parti endaleysis. ... óupplýstur sannleikur inní mér dvelur. elur af sér óþekkta þróun, suma kvelur en aðeins mér gefur von um svarið sem aldrei kom. ] [ Ég ligg stundum andvaka stari á stjörnurnar og ímynda mér að þær sé augu þín. Mér líður betur eitt auganarblik en svo, átta ég mig á því, að þær jafnast ekkert á við fegurð augna þinna. Tár mín falla í myrkrið og gufa upp líkt og ást mín til þín þegar þú ert í faðmi hans. ] [ Han døde i går – vores ven Blevet glemsom – demens Men altid optimist. Hans dejlige smil og sjove latter Er falmet bort På en mystisk vis. - Personalet græder - Hans kone lever endnu Hendes øjne hvilede altid på ham, Hendes støtte og styrke hendes eneste ene. Når de så på hinanden kunne man - Så tydeligt se - Forelskelsens bånd som var blevet så stærkt af alle de år som de boede sammen. I dag har hun siddet så stille i sin stol. Med tomme øjne - kigget på det plads som altid var hans. - Hun græder ikke - Hun er allerede langt væk. Det kan vi se. På vej til ham. ] [ Við dönsuðum á flóðinu, kysstum síðhærða hrúðurkalla, og létum ölduna flétta okkur klæðum, ef einhver vildi horfa. Þetta var þungur róður,og mölin lék undir,.. Það var ekki fyrr en að útfallinu kom að við vorum viss,að við vildum ekki bjargast,fallega marglitan mín. ] [ Lítil fiðrildi og kanínur duttu niðrúr loftinu, meðfram gardínunum, bleikum með rauðum rósum og grænum laufum í og ultu yfir rósrauðu sultuna sem ég var að borða í hreintæru kvöldinu. Ég taldi allt niðurstreymið og skrifaði svo töluna í dagbókina strax svo hún gleymdist ekki; 273. Um kvöldið fór ég svo útí búð og keypti gulrætur fyrir kanínurnar og perur fyrir fiðrildin og hleypti þeim svo útúm svalardyrnar. Á hólnum á móti var skáld að hlúa að orðum í vornóttinni. Ég leit aðeins á götuna og rölti svo inn og las Morgunblaðið eftir sturtuna og skrifaði svo atburðina í dagbókina. Sofnaði svo með kanínum úr garðinum og fiðrildum úr skýjunum. Í nótt koma konur niður gardínurnar. ] [ Í kína er fólkið flest í Kína er sungið og sest Í kína er Stína best hún Stína á stóran hest hún stína á mann og arnar hetir hann hún stína í kirkju fer til þess að tína ber svo fer hún í kirkjuna og sest og hlustar helgan prest ég segi ekki meyra því þú villt ekki meyra heyra með þínu eyra. ] [ Reikingar eru það vitlausasta íheminum Þau reikja sko ekki í geiminum reikingar eru skaðlegar fyrir fólk þær eru skaðlegar þótt þú drekkur mjólk. ] [ Augun brenna og tárin renna. Nú er það krossinn áður var það kossinn Minningarnar streyma aldrei þeim mun gleyma. Ótti endalaus flótti.... ] [ Niður vegginn. Hugsandi um hvernig ég ætti að bila á næstunni. Ætti; að klessa á morgundaginn. Vofa: nakin? Usssss. Ég er ennþá vakandi. ] [ Jóhannes skýrari - Öskrari Hann Jóhannes skýrari gat nú öskrað og var duglegur að skýra. Vondir menn báru út um hann lygi og róg. Sögðu að inn í hausnum á honum væru vafasamar hugsanir. Flestir sem mættu skildu ekki orð úr munni öskrarans. Þá vantaði bara bað. En fíflið hélt alltaf að hann væri að skýra sannkristna. Enda endaði hann með hausinn sinn á fati. Kjaftaskur og kjáni ] [ Í fyrstu hélt ég að ég elskaði þig. Taldi þig riddarann á hvíta hestinum, sveipaður ævintýraljóma. Þú namst mig á brott, og þáðir hjarta mitt að gjöf. Seinna, miklu seinna, komst ég að því, að það enda ekki öll ævintýri vel. ] [ hugsanirnar svo flæktar að mér tekst ekki að koma þeim í orð. ... ] [ Lítið ljós í svartamyrkri berst fyrir lífi sínu. Vindinn hvessir, himininn grætur. Ljósið dofnar, rennur út. Eftir að því er virðist endalausa, vonlausa baráttu lægir vindinn. Litla ljósið teygir sig til himins, fagnar miskunnsemi skaparans. Himinninn sefur djúpum svefni.. ] [ Laufblöð falla, dansa um garðinn. Og yfir alla kemur haustkyrrðin. Á laufblaði sé ég, grátbólgin augu augu sem horfa á það sem gerist. Ég labba áfram, læt laufblaðið liggja, en laufblaðið deyr, í sínum eigin tárum. ] [ Púkinn á öxlinni á mér hvíslar orðum í eyra mér. Engillinn reynir að hafa vit fyrir mér. Einhver þarf að gera það. "Ekki láta vaða yfir þig!" "Elskaðu friðinn!" "Auga fyrir auga!" "Sá vægir sem vitið hefur meira" Ég slæ báðum í burtu eins og flugum. Ég ákveð þetta sjálf! ] [ Dimmum augum horfir tómið í Kaðall brugðinn, tilbúinn í hendi Finnst sem ætíð, allt er fyrir bí Enn og aftur er sem myrkrið bendi Á flóttans gamla veg. Sálarinnar myrkur endurspeglast Í dimmum næturhimins kjarna, sem seiðir sálartetrið viljalausa. Himinhvolfsins gullna stjarna blikkar ákaft, til að sýna honum viljans sterka veg. Hvort hann kemur til að gera Það hann vill, við vitum eigi Verðum að bíða þar til ........ rétta stundin rennur upp. Því að dagurinn er ekki liðinn og vegurinn er hulinn myrkri enn ] [ Hverfult er allt heimsins tál og heimska að sækja í, það seður aldrei mannsins sál þótt sumir trúi því. Horfðu á það sem himins er en hugsaðu ekki um þann fjársjóð sem að burtu fer er feigðin sækir mann. ] [ rétt áður en hún fór fleygði hún lyklunum á gólfið í metersfjarlægð frá rimlunum ... bara ef ég hefði lengri hendur... ] [ alheimurinn er inní sjálfum sér, hvert atóm fyrir sig. gerir mig, þig og allt sem er til. hugurinn er inní tóminu á milli efnis, ether, kannski hið svokallaða bardó eða "ekkert" ] [ þú ert.. síðasti dropinn í glasinu súkkulaðið á kökunni rúsínan í pylsuendanum rétta talan í hnappagatið reimin á skónum fallegasta rósin í búntinu fríið frá erfiðinu marsípanið utan um lakkrísinn mandlan á jólunum boltinn í leiknum brosið í sorginni hljómurinn í hátalaranum hlýjan í kuldanum hláturinn í þögninni trompið í spilinu tónninn í laginu stýrið á bílnum sólargeislinn í myrkrinu vegurinn í auðninni vinurinn í einmannaleikanum þú ert allt það besta sem ég veit allt sem ég get ekki verið án þú ert ómissandi í mitt líf verð aldrei fullkomin en bættari með þér þú ert.. vinur minn. ] [ Ég reyni að ýminda mér okkur. þegar fiðlur brotlenda og píanó falla. í kvöld, mun ég láta þessa hluti sem skipta okkur máli vera ósýnilega. og stundum þegar ég er ekki með þér þykist ég vera með þér. ] [ Ég hef aldrei þekkt slíkan mann áður. Ég hélt alltaf að þeir væru menn og að menn væru í hinu liðinu á móti mér. Ekki þó svo að skilja að mér þætti brotið á mér með einhverju móti. Nei það vantar í mig allt keppnisskap. Hins vegar var ég frelsaður inní hitt liðið líkt og maður sem tekinn er til skírnar í sértrúarsöfnuði ellegar ástfanginn Presley sem giftir sig í Vegas fyrir 18dollara. Við vorum að ræða pólitík og mér tókst að sjá barnið í honum, síðan ræddum við um konur og hlógum báðir líkt og þroskaheftir gera þegar þeir verða glaðir yfir litlu. Þar næst tókum við tal saman um trúarbrögð og aðhylltumst báðir Búdda þó svo að við værum ekki alveg með neitt á hreinu en það sem við höfðum heyrt og séð í bíó svínvirkaði þannig að samtalið var bæði gefandi og fjölmenningarlegt. Frelsunin. Frelsunin átti sér stað þegar ég viðurkenndi fyrir honum að ég hefði oft lent í því að pissa á buxurnar mínar inná klósettum kaffihúsa. Hann horfði spyrjandi í augu min, líkt og hann væri að sannreyna trúverðugleika tryggingarsala, síðan glaðnaði yfir honum og hann tók, léttur í spuna undir. Já það er alveg óþolandi maður gengur inn i einhvern sal með vonarglampa í augum og lifsneistann brennandi í brjóstinu. Áður en maður veit af læðist maður hins vegar meðfram veggjum angandi af sígarettum bjor og þvagi. Pissudropar á buxum, ljósum sumarbuxum, slökkva á hjartanu í þér og myrkva sálina og þú horfir á heiminn líkt og gyðingur yfir fjöldagröf. Klaufaskapur er eitthvað sem veldur kátínu. Pissudropar á buxum fullorðins manns bera þess glöggt vitni að maðurinn sér úrhrak. Og viti menn ég er kominn í hitt liðið eða heita liðið, þar sem allir pissa á buxurnar sínar og setjast þegjandi í sætin sín og leyfa veröldinni að halda áfram að snuast. ] [ kvöldhúmið streymir af himnum eins og dökkt sitt hár í blænum eins og bros í huga þér töfrar síðsumars ] [ Því forðast þú hugurinn minn, að heimurinn sé ótti þinn? Þú veist að öðrum þykkir vænt um þig, og hjálpa þér að skilja mig. En þú veist þetta eina er hrjáir allt að vitlaus hugsun gerir lífið valt. ] [ Margur dagur verður að mæðu, magnast oft í ergilegri ræðu, í umgengni við þig. En á punktinum ég ákvað að þegja, og árangur þess,að ekkert að segja, þá skyldi ég betur sjálfan mig. ] [ Hálmstráin eru að hverfa burt, það eina sem hald er í. Farðu sumar,farðu sól, sönglaði það með vindinum, og komdu næsta vor. ] [ Lífið rennur framhjá mér svo hratt - svo hratt. Ég næ ei til að bergja á því svo mikið sem ég vil. Það smakkast líka örugglega illa. ] [ Ég er sá sem hverfur smátt og smátt ég vil allt fyrir þig gera og geri það sem ég get allir vilja kroppa í mig sölumenn liggja á mér og þykjast gefa eitthvað nútíminn er að sliga okkur öll allir ætla að græða eftir sömu uppskrift þegar ég hef fjarað út skuluð þið minnast mín sem mannsins sem gaf of mikið af sjálfum sér hann var étinn innanfrá og samviskan át restina. ] [ Takk elsku Sibbi fyrir allt sem þú hefur gefið mér!! Mér þykir óendanlega vænt um þig,ég vona að þú vitir það, þótt ég hafi ekki alltaf sýnt það nema á sýnum tíma!! Þú varst fyrsta ástin mín og varst alltaf góður við mig!! Þótt að þetta gekk ekki allveg upp hjá okkur þá kom eitt mjög gott út úr þessu öllu saman!! Hann Grétar Rafn sonur okkar!!Gullið okkar,sem ég þakka þér þúsundfallt fyrir að hafa gefið mér!! Lífið mitt öðlaðist tilgang þegar að hann kom í heiminn!! Villtu gera það fyrir mig að vaka yfir honum og passa hann í framtíðinni,því þú veist að hann er svo líkur þér hann er með svo brothætt hjarta!! Ég sakna þín afar mikið,ég vildi óska þess að þú kæmir aftur vinur! Því þú ert svo góður vinur!! ] [ Hrund er systir mín Hrund er sæt og góð Hrund er sko ekki systir þín Hrund er rjóð og móð. ] [ það gerðist eitthvað hjá mér lífið var eins og nýtt fyrir mér svo hlýja blíðu þú sýndir mér það gaf mér orku og lifandi tár það vaknaði eitthvað inn í mér kom þá þessi mikla ástarþrá heimurinn fær ei að vita það ég sé lifandi annars með þér hjá ] [ Ég opna fyrir mína þjóð Og öskra það er komið nóg Fínt að vera bí ,það er skoðun mín Svo sjáið þetta er ekki bara grín Þetta er sko alvaran mín Svo gefðu mér einn koss Þá færð þú stóra krús ] [ Að missa sínar tær, er eins og þær séu ennþá á, að missa sínar hendur, þá veit maður ekki hvar stendur. Að missa sitt hjarta. Verður sárt að þakka Að missa sína sál Þá hverfur maður frá. ] [ hey er hætt að fara út ég er að drekka bjór kút vill hér einhver dansa nú þá dansa ég alveg í hnút svo upp á borð þú ferð ég er hér sko með þér vinur stökktu á borðin því ég er alltaf hér hjá þér gættu að taka eitt stórt spor þá endar þetta þó nokkuð vel ] [ Afmælið hennar ellu er komið, henni verður vel fagnað þennan dag hennar aldur er ekki hér uppgefinn enda er það miðaldra mál þó maður mæti ekki á staðinn halda á uppi frábæru fjöri þá vil ég þér allt ella þakka óska þér alls hins besta mundu þetta er ekkert mál aldur er það allra besta þó miðjan aldur þú sért komin á þá hefuru það bara betra Til hamingju með daginn þá og bjarta framtíð allt það besta guð verður með þér af lífi og sál ] [ blá í fram engin tár ekki hreyfist falleg sál það sagði manni svo margt þá hvað dásamlegt er að deyja saman friður yfir þeirra fallega brosi allt fara þau saman þetta er þeirra friðar heimur í bráð á himnum þau allaf verða saman svo er guði að þakka ég er að segja frá ] [ hey er hætt að fara út ég er að drekka bjór kút vill hér einhver dansa nú þá dansa ég alveg í hnút svo upp á borð þú ferð ég er hér sko með þér en vinur hittist vel á því ég er alltaf nú hér gættu að taka ekki stórt spor þá endar þetta ekki nóg vel ] [ ástar ég mun njóta best með þér hana mun ég hafa milli fóta á mér njóta alls sem þú gefur mér með þér gefa þér safann sem rennur af mér og undir allt þá gleymir þú þér færð þú að njóta alls með mér svo skýrt ég finn ástina hjá þér þá rennur af mér og þú nú fer ] [ Hvernig gat það gerst. ég var þér einskins verð, þú sem hélst í hendina á mér fannst það sem þú leitaðir af hvernig gat þetta gerst ennþá lifi ég á þinni ást þú sem hefur alltaf mína þrá hvernig gat þetta gerst því var ég einskins verð við sem nutum okkar vel því er þá allt einskins virði þann tíma sem við áttum ást varst þú sú eina mér hjá allt gleymdist nema þínir kossar hvernig gat það þá gerst að ég var þér einskins verð þó við runnum í það eitt ást okkar var orðin svo heit hvernig gat þetta gerst því var ég einskins verð við sem nutum okkur vel því er þá allt einskins virði gefðu mér raun og þol til fá að skilja meira þig því ég get ekki hugsað mér hvernig þetta gat gerst því er ég einskins verð ég sit hér og hrópa á þig hátt allur heimur heyra má ástfangin og elska bara þig hvernig gat þetta gerst því var ég einskins verð við sem nutum okkur vel því er þá allt einskins vert ] [ Ástin kemur ástin fer hvernig er þetta með mig á bara að sitja hér bíða eftir þér helduru ekkert annað sé að gera vaskaðu upp hættu að gefa mér von leyfðu mér að lifa lifandi vera til reyndu að standa einu sinn mér við hlið annars fer ég að drekka, djamma meir drekka úr pela sem enginn getur séð finna einhvern til að sofa ofaná og mér við hlið svo villtar ástarsögur af mér allt fer allir fá að vita ég hætt sko með þér svo nú er kominn tími, ráð fyrir þig þú veist sit ekki hér bíð eftir þér sama hvernig allt þetta núna fer ] [ ljúfa er eins og ljón Samt svo illa innrætt Hún er eins og flón Hefur ekki af neinu gaman Eineltir fólk bullar bara svo Segir sér sé orðið sama Hennar orð hún man ei Hún heldur það sé annar að tala Ég held bara hún elski mig Við skulum bara vera saman Ég gæti kysst á þína hönd Breytt þér í voða sæta ljúfu Komdu mín kæra og vertu fljót Enda sérðu við gætum dúllast saman Á rásinni þú kallar á konu43Rvk Þá sérðu hvað þú ert, ástin getur breytt þér Ó ljúfa mín, mér er ekki farið að standa á sama Svo helduru að þú náir Soldogg hér Sem geislar hér af vináttu, kærleika og frið þú skalt fara að halda, kjafti þínum sko saman. ] [ Skipti um skoðun í dag! Sú gamla fór mér ekki lengur. Orðin hálftuskuleg og hentaði hreint ekki í þessu veðri, enda ræfilsleg og tætt og löngu komin úr tísku. Sú nýja - næstum feimnislega fín - venst henni bráðum. ] [ ég á mömmu og hún á ömmu ég á pabba sem kann að labba ég á systir sem þú kysstir ég á bræður sem halda ræður ég á afa sem drekkur safa ] [ Hjarta mitt og sál standa í mínus og ég veiti ekki fleiri lán sem aldrei verða borguð ] [ einu sinni var stína stína var alltaf að tala í síma þótt hún væri í tíma hún kunni ekki að ríma heldur bara að líma og tala í síma í tíma systir hennar bína þykist heita lína hún kann bara ekki að grína þótt hún heyr svínin hrína með háa hæla sína sem stína keypti í kína því seinna flutti stína alla leið til kína þar sem hún lærði að ríma kenndi að líma og að lokum hætti að tala í síma í tíma en ekki gat hún bína farið með til kína því þar var nafnið bína þýtt sem mandarína og þessvegna hætti bína við að ferðast til kína samt breyttist ekki bína meðan stína var í kína hún lærði ekki að grína né var kölluð mandarína hún horfði á svínin hrína og hlustaði á vindinn dvína en aftur flutti stína til heimabæja sína og þar beið hún bína með krakka sína fína manninn sinn kallaði hún gríma og stína hélt hún væri að grína þótt stína vissi að bína kynni ekki að grína þá fannst henni nafnið gríma vera svaka skrítið og nú hætti ég að skrifa því ég er hætt að nenna að ríma ] [ sagan af kára eða klára kára og konan hans lára sem fundu smára þennann smára fjöguralaufa smára gaf hún lára vinkonu sem heitir bára bil á milli sára á honum klára kára á hans nára settist hún lára síðar dó lára og gráturinn hans kára þá kom bára og gaf honum kára þennann fjöguralaufa smára en brátt endaði líf kára og þá kom aftur bára og tók hans smára og óskaði að hún væri lára ] [ Ein í myrkri ég heyri rödd í fjarska hún segir bíddu,bíddu,bíddu ég sný mér við og sé þig þá standa þar og segja þú særðir mig heit tár renna niður kinnar þínar og BRENNIMERKJA þig að eilífu. Allt vegna mín. ] [ Handan við fjöllin þar stór og mikkill hellir þar bergmála köllin þá bíst til risa kvellir. Þar er leiðin til djöfulsins leingst inni í gili þar er dauði mansins ég held þetta sé nóg í bili. ] [ Gott mér þótti að gilja píku, gleymi eg aldrei hnossi slíku héðan frá, undir voðar værri hlýku vafinn skarti elskuríku, dillilká. Krenktur af gigt með köldu sinni kúri eg nú á gæruskinni hundum hjá, þó er ætíð mér í minni máluð upp á lífstíðinni gullhrings Gná. Þegar genginn er eg aftur og ellibelgur minn er taptur, látum sjá! Endurherðist amors raftur, af því eg var þar til skaptur að liggja hjá. Nú þó eg sé þrekkur þjóða og þvaga saurug meðal fljóða, gnæp og grá, síðar einhver trefla tróða tekur mig í faðminn góða, hana þá! Gott mun vera á Gimli búa, glaðværum að fljóðum snúa, æi já! Mjúkum saman mögum núa og mega velja úr hópnum frúa. Gloríá! Hvað er mér í skrítni skrafa, skakkrössuðum druslulafa; þrautir þjá. Mig ei vilja hrundir hafa, hnýta mér við dýraklafa og fljúga frá. Kreppi eg undir kviðinn fætur, kaldur og frosinn allar nætur; þrautir þjá. Ofan á mig enginn lætur af sér pilsið svanninn mætur, svei mér þá! Væri eg skáld og kynni kviður, kveða skyldi eg ykkur niður allar já jafndjúpt mér á fletja fiður, svo fangið sneri mjúkt á yður að mér þá. Út frá mínum eymdum deyja eg fer bráðum. Skal eg þegja og slöku slá. Í björtum flokki blíðheims meyja betri mun eg ljóð fram segja. Amen, já. ] [ Morguninn kom óumbeðinn og honum var ekki fagnað að minnsta kosti ekki af minni hálfu ] [ vandlega geymt - gullið skrín með öllum gullkornunum ekki gleymt - en verra er að lykillinn er týndur ] [ droparnir sem féllu skoluðu doðann í burtu eftir skúrinn urðu litirnir skyndilega svo skærir ] [ Það var stúlka einn í huga mér sem kemur og fer, hún leiddi mig út í myrkið til að horfa á stjörnurnar með sér. Svo gaf hún þeim frelsi með sinni mjúku rödd, eins og hún væri sjálf guð hjá stjörnum stödd. Hún leiddi mig um sandinn og hönd hennar var mjúk, umhverfið varð sæla lagt með hvítum dúk. Og þegar fætur hennar berir stigu úr sandi á grýta fold, þeir hættu að snerta hana en urðu andans hold. Ef húmið leggst á bæinn og á hugans rótið mitt, þá lít ég upp til stjarnanna og hugsa um brosið þitt. þá andvarinn hann segir að sál þín sé hjá mér, og stjöruhröpin komi í slóðina frá þér. ] [ Nú er hann Þórshamar hættur að ríða húsum, því húsin hafa yfirgefið hann. Í lausu lofti yfir móðuna miklu hann brenndist á tánum,því skrattinn honum ann. það þykkir okkur hinum súrt í broti, að vera lúsug skilin eftir hér. því það var honum svona mest að kenna, hann tímdi ekki að gefa af sjálfum sér. Arftakaliðið legsteininn eina það signir, hraðar sér burtu með það sem eftir er. Og fótsporin hverfa og fjörðurinn af bátunum lygnir, með þrúgandi þögninni máfurinn syngur með sér. En Þorpsfíflið borar í nefið og kyngir hori, og útgerðarskiltið ryðgar hægt og hljót. þetta er ekki lengur spurning hvort einhver þori, heldur hversu þú kemst burtu nógu fljót. ] [ Komið er að leiðarlokum, lundin hrekkst og lýkur ást. Sinnaskiptis orðin notum, sárt að enda ást er brást. Elsku ástin burt er flogin, bjarta vornótt sér ei meir. Hvar er meyjan, hvar er loginn, er í hjarta brann en nú brátt deyr. Vildi feginn vera glaður, horfa fanginn inn til þín. Nú er liðinn þessi dagur, sem var svo ljúfur ástin mín. Ég kveð þig vina, votum augum, með von um hólf í hjarta þér. Ætla sjálfur í ljúfum línum, að ljá þér lofsöng í hjarta mér. Hjálp mín ást, hjálp mín elska, farðu burt mót lífsins hól. Lærðu lífið allt að elska, unns hnígur ljúft þín hjarta sól. ] [ þegar þessi stóri föngulegi fiskur slapp úr greipum mér losnaði úr netinu og synti út á fjörð var það svipað því þegar stóru tækifærin verða ekki nýtt nema hvað að hann var lifandi af holdi og blóði eins og ég ] [ Allir fæðast með sinn tilgang, ég er fæddur til að þjást. Líkt og fjara fylgir flóði, fylgir sorgin minni ást. Vandamál á hverju horni, þau mér gefa aldrei frið. Skiptir engu hvað ég geri, eru þar er ég sný mér við. Lífið mitt, eitt stórt klúður, misheppnað allt í gegn. Myrkrið alltaf hjá mér ríkir, stanslaus vindur, eilíft regn. ] [ í kvöld er tunglið stytta sem ætlar að detta oná höfuðið á þér ef það væri fullt tungl litli íkorninn er refaskytta sem gengur um með næturlukt lítið ljós í glerhauskúpu ef að hrekkjavökur væru á Íslandi ] [ Sumarið er mín mesta gleðistund, þá sé ég lítil börn leika sér í sólglampanum, ég sé sjóinn brosa blítt og varmann streyma um líkama minn. Veturinn er ekki svo slæmur, börn úti í snjókasti, skautar, frosinn sjór, síðan nálgast jólin sem eru yndisleg, pakkar, steik og konfekt. ] [ Í hvert sinn sem ég lít í græn augun þín. Verð fyrir þægilegu áreiti af þínu kastaníubrúna hári sem rennur til mín líkt og áin Adigi rennur yfir bakka Verónu, borgar elskenda. Eða finn fyrir sætu kirsuberjabragði af vörum þínum. Veit ég að þú ert sú sem hjarta mitt þráir. ] [ ég er grá sem mosi köld sem klaki þögul sem gröfin ég er hér þar allstaðar bíð átekta með kaldann rýting örðanna sverð sting mér ef færi gefst fylli þig vonleysi umlýk þig depurð drep lífsneistann ég er uppgjöf ] [ eg heyri i þer gusast afram eftir gotuni og hjolin snuast i slabbinu eftir þig rigninuna sem gusast afram eftir gotunum ] [ eg hlusta a ykkur hvad var það nissan eda var það bens jeppi sportbill hmm kanski velhjol já biladur hljod dunkur en su muzik. ] [ eg finn þig sla bumm bumm ekkert bumm sofnin i drauma landid aftur bumm bumm vakna en hvad það er gott ad heyra hjartans mál Bumm. ] [ Andlit þitt sýnir mér afturkallaðar myndir af okkur í huga mínum, gefur mér gæsahúð í hvert skipti sem ég hugsa tilbaka... Ég andvarpa og spyr hversu lengi ég ætla að halda þessu áfram? Hversu lengi? Ég veit ekki... ...Mér líður eins og ég hafi verið slitin í sundur, rifin í tætlur. Vona að leifarnar sem hafa verið sendar til þín hafa skilað sér... Fyrirgefðu, ég sendi aðeins myndir með... Fyrirgefðu, ég leyfði þér að finna fyrir samsetningu fingurgóma minna... Fyrirgefðu, ég svaraði ekki tilfinningunum... Fyrirgefðu, ég köttaði þig í búta... Allar mínar fyrirgefningar hafa fallið niður í ræsið, ég hef troðið þeim á þig í svo langan tíma svo nú skynja ég tilfinningaleysi... Og ég gleymdi að minnast á að ég finn enn lyktina þína á tissjúinu... ] [ Ég teiknaði fíl 5 ára með ósköp ljótan rana. Hann gerði mig svo ósköp sára, að ég krotaði hann til bana ] [ Hamrandi tilfinningin sest að í líkamanum. Eyðandi afl óvissunnar streymir með hraða, fossins í gljúfrinu. Á þverhnípi ástríðna stend ég nakin. Fyrir því sem enginn getur forðast, HRAPIÐ. Fyrir þig er hrösun aðeins ljúffengt bragð, ávaxtar,týndum í leyni í garði mínum. Þú ert ástríða mín. Svipt skynsemi og vissu um daginn í dag. Biðin tærir, hverja taug lamar vitundina. Firrt kærleika sjálfs sín. Þú ert tímabundin KJARNORKUSTYRJÖLD sálar minnar. Eftir stendur skipsbrot tilfinninga minna. ] [ Ég lagðist á jörðina til að hlusta á andardráttinn. Frá undirdjúpi hennar heyrði ég hjartsláttinn óma. Hann færðist nær. Og nær, þar til loks ég varð slátturinn, þungur óminnislög endurómuðu í hjartanu. Ég gekk inn í fortíðina full af gleði. ] [ Í hjarta mínu er landakort, það leiðir mig veg, slóða,fjöll og straumharðar ár. Oft hef ég villst í skógi tálsýna, en hraður slátturinn vekur mig upp af draumi glapræðis. Mjúkt og hlýtt flæði hjartans, sendir strauma til ástvina minna nær og fjær. Sorgin þiðnar sem vetrarmjöll, í sólinni. Örfínn þráður sálarinnar vefur örlög mín til framtíðar í ljósi vonar og kærleika. ] [ Þú varst allt sem ég þarfnaðist sálufélagi,elskhugi og vinur. Líf mitt auðgaðist af nærveru þinni. Nýfædd ást og umhyggja blómstraði í faðmi þínum. Heitar hendur ,snertu líkama minn sem dýrmætt hljóðfæri. Kossar þínir voru heitir krefjandi,leitandi. Silfurstrengur sálar minnar vafði sig um hjarta þitt hlýtt og verndandi ég gaf mig alla. ] [ Ég horfi inn í þögult hjarta þitt. Einmana og sært bíður það aflausnar sorgarinnar. Dagarnir líða hver af öðrum í tilgangslausu tómi. Hrjúfar hendur tímans kæfa von þína hægt og rólega. Endastöðin nálgast og friður færist yfir ásýnd þína, þú ert loksins kominn heim. ] [ Hjartað hjalar ljúfum rómi hræðslan löngu horfin er. Löngum sagt að augun ljómi lífsins átarblómi hér. Sílið. Sofðu litla sílið mitt sætt í næturblóma. Best þó finnst mér brosið þitt blítt þá augun ljóma. ] [ My soul is soaring high above floating in the sky Colors shining like the rainbow it is my time to die. I´ll leave this earth so silently show up at heavens door I´ve waited "oh so patiently" and figured out "what for" My role is over -the play is done no need for helping hands In the morning I will be gone into the angels land. ] [ Eins og tréð í skóginum felli ég laufblöð, erfiðleika og þjáninga. En með hverju vori laufgast nýjar þrár, draumar betra lífs. Rætur trésins verða sterkari stofninn harðari, sem árin líða. Í laufskrúði þess vaxa nýir sprotar reiðubúnir að skarta sínu fegursta sólarblómi. Með hverju brumi leynist eitthvað nýtt, eitthvað gott. Án sólar og regns án sorgar og gleði, lifir hvorki tréð né ég. ] [ Ég upplifi anda þinn sem forna vitneskju Móður náttúru. Græn kærleiksbirta talar til framtíðar. Ég er tré í örum vexti rótgróin til kjarna móður minnar. Algefandi faðmur þinn nærir mig, fyrirgefur fortíðardraugana. Andi þinn ,er minn í eitt augnablik verður allt tært sem ljósið í enda ganganna, inn í alheims augað. ] [ Ljóssins tæra leyftursýn leiðir mannsins hjarta. Bljúgt þá biður sálin mín blessun hans svo bjarta. Opnist okkar sannleiksauga ómur lífsins auðgi sýn. Tilfinninga tárin lauga, traustið komið-sorgin dvín. Blessun þín,til barna þinna berst til okkar hér á jörð. Allir ást og kærleik finna alheims-flyt ég þakkargjörð. ] [ Hún fór ein hrædd og kvíðin í gegnum hlið örlaga sinna. Eftir sárar kveðjur við vini og ástvini. Tár og tregi voru nesti hennar í átt að flugvelli nýrra drauma. Ein í flughöfn tilfinninga, afskipt af mergðinni, svo undarlega ein. Á leið til komustaðar vonar og hamingju. ] [ Í kristalstæru ljósi þínu liggur leiðin heim, hvar eru perlur táranna sem ég grét sem barn. Hvítvængjaður hestur bíður mín ,fullbúinn. Hann ætlar að fljúga með mig út fyrir líkamann, inn í samvitund himnanna. Til allra þeirra sem bíða eftir sambandi við hinn sofandi heim. Milli svefns og vöku stend ég við endamörkin sogast inn í ævintýri lífsins. ] [ Í vöggu mánans hvíla ófædd börn framtíðarinnar. Geislar þeirra dansa í andvara næturinnar. Mjúk sem mánaglitið bindast þau draumum, verðandi foreldrum sínum vonum þeirra og þrám. Kitlandi hláturinn ómar í þögninni. ] [ Ef ég væri stjarna myndi ég skína fyrir þig, lýsa þér leiðina gegnum lífið. Ef ég væri sól myndi ég hita þig, bræða ísinn sem fyllir hjarta þitt. Ef ég væri,rigningin myndi ég úða dropunum á þreytta sál þína svo þú gætir blómstrað á ný. Ef ég væri,Móðir Jörð myndi ég halda þér í faðmninum þangað til þú værir öruggur. ] [ Ég er barn og gömul kona á mér óskastjörnu fulla fyrirheita. Langt í burtu,er maður sem hlustar á bæn mína. Gamall eins og jörðin syngjandi alheimur er heimili hans. Alsjáandi faðir alheyrandi sonur lagviss sameind,þess eina. Hann býður mig velkomna í ríki sitt og segir mér, að svarið liggji í hjartanu eins og demantur í flauelsöskju. Í honum er stjarnan, sem ég óska á frá vöggu til grafar. ] [ Töluð orð í tíma og rúmi tæta þreyttan huga minn. Næring mín í næturhúmi nemur mjúka faðminn þinn. Svölun finn í sálartetri syngur ljóð um himininn. Skrýðir framtíð stjörnuletri sólarljósið streymir inn. ] [ Í ljósi augna þinna skynja ég brennandi þrá. Í blómstri hjarta þíns vex ástin svo heit. Sólstafir okkar sameinast í heitu faðmlagi kvöldroðans, við leysumst upp í skýjunum, og berumst til ókunnra stranda morgundagsins. Þar er enginn nema við. Hvert erum við komin vinur? Getur þú sagt mér eitthvað, um framtíðina eða er allt, stýrt af sólbráð okkar beggja. Hörund mitt er marglitað svitinn kristallast fyrir þig. ] [ Æðapúls haustsins slær hraðar í dag. Litir gleðinnar falla einn af öðrum við hvert fótspor mitt. Laufblöðin svífa svo létt mynda rauðan dregil eins og það vilji segja, hér er ég,lífið sjálft njóttu mín barn náttúrunnar. Ég anda að mér ilminum af móður Jörð. Skynja visku hennar strýk moldina,leggst í hlýjan faðm hennar,sofna. ] [ Ég upplifði kraftaverkið í sjálfinu. Hrædd og örmagna eftir langa leið. Blóðrauð sprengingin, einn sjóðandi hver, og allir geislar sólarinnar dönsuðu í skjálfandi líkama mínum. Út úr hitamistrinu steig nakin,óvarin sálin. Ósjálfbjarga eins og nýfætt barn án fyrstu snertingar. Hægt,já svo ofurhægt mættumst við,svifum svifum á braut í algleymis andartaki endurfundanna. (1992) ] [ Ég horfi inn í hjarta mitt HRÍMKALLT hugarangur þitt var mitt og mitt var þitt þar endar lífsins gangur. Allt sem átti ég með þér andartak í leyni hjartað sundurbrotið gler ég græt, þér aldrei gleymi. Ef ég ætti leyndarmál enn það myndi snúast allt um þig og þína sál það mér þætti ljúfast. ALLT tekur enda "efalaust" ein um veginn reika sumar kveður,komið haust kærleiks hætt að leita. ] [ Ég stend á brún lífs og dauða. Gömul viðhorf drukkna,hverfa í sæ hreinsunar. Nýfædd hugsun fær næringu af umburðarlyndi hjarta míns. Ég er á krossgötum lífsins, andi minn er áttaviti,framtíðin leiðarljósið. ] [ Við erum hætt að taka við kvörtunum en hver sem telur sig geta gert betur má skapa sinn eingin heim. ] [ Hleypur Héðinn höfuðísa Blöðin heggur herða Þráins Klýfur kroppinn klauföx ramma Brostinn bitgarð blóðgan nemur Brátt gjöra jaxlar bileygan Gunnar Dreyrugar Héðins hendur af vígi Svíður grund sáran Surtarlogi örlög sér kusu Undan komst Kári ] [ Ekki er ég að biðja um handayfirlagningu til þess að blessa burt syndir mínar og enga þörf hef ég fyrir bannfæringu á mannlegum hugsunum mínum. En er það hrein og tær mannvonska í mér að biðja faðirvorið í leynum þar sem faðirinn sér mig en leita ekki ásjár mér heilagri manna sem þurfa ekki að biðja í leynum heldur gaspra hátt upp í himininn svo jafnvel fuglarnir heyra óskir þeirra? Jesús sagði biðjið í leynum, inní herbergi þar sem enginn sér nema faðirinn sem sér í leynum og ekki verðið þið bænheyrðir fyrir mælgi ykkar. Hví ætti ég þá að biðja hátt og í tungum þar sem allir heyra þegar mennirnir geta hvort sem er ekki bænheyrt mig þó þeir heyri. Og hvort sem ég er Gyðingur eða Íslendingur, og hvort sem ég á biblíumyndir úr sunnudagaskóla og hvort sem mér finnst ég vera heilagur eða syndugur og hvort sem ég hef borgað skatt eða tíund og hvort sem ég hef predikað einn sunnudag eða tvo mun þá ekki drottinn heyra mig segja: vertu mér syndugum líknsamur; án þess að ég eigi eitthvað inni hjá Guði eða hann eigi inni hjá mér. ] [ Hjartað slær ótt en yfirvegað meðan nýjar víddir sannleikans ljúkast upp augljóst eins og við hefðum alltaf vitað. Hvað með það þó við séum nakin! Nóg er til af laufinu. Eins og saklausir yrðlingar rífa í sig hrátt kjöt og slefa úr blóðugum skoltum í áfergju sinni, svo sökktum við syndlausum tönnum í forboðna ávöxtinn. Bragðið það var eiginlega eins og af skýi dúnmjúkt og svífandi, líkast því að það hefði aldrei verið til að þetta hefði aldrei gerst. ,,en af skilningstrénu góðs og ills mátt þú ekki eta, því að jafnskjótt og þú etur af því skalt þú vissulega deyja.” Óviss í sinni sök þó viss um sökina og óvissan... Þetta var eiginlega ekki synd ef maður pælir í því. Hugsanir hljóma svo hátt í þögninni í óvissri biðinni. Við eru ekki dáin! Bragðið loðir við tunguna eins og froða. Svarthol í hjartanu, óp sem langar í meira veit bara ekki hvað veit bara það að nú er það komið á bragðið. Það er eitthvað horfið en ef við myndum borða bara aðeins meira... xxxxxxxxxx Eins og hundur án húsbónda villtur og týndur maður í heiminum guðlaus og ráfandi útlagi sem tilheyrir ekki lengur þeim stað þar sem hann var skapaður. Hvaðan kom ég? Trúi varla eigin minningum sem á daginn eru eins og næturdraumar en á nóttunni dreymir mig aðeins það sem ég geri á daginn. Bragðið? Hvaða bragð? Það er horfið og gleymt að fullu. Hungrið er blindað í myrkrinu og hleypur á veggi í sálinni eltandi torskilið en kunnulegt bergmál: Eden! Eden! Guð! Heim! Heima! ] [ Quintus kvalinn kyns síns leitar Ráf hans loks til Rómar leiðir Sólguð segir þau sjá ei muni, ,,skunda heldur á skáldanna braut" ,,Ber þér, Quinte, kviður semja gyðjur lista lof sem mig eigi er ráð við rögn að stríða eg þig annast arka veg Rómar" ] [ Löngun vor í lærða skólann sýnist sitt hverjum hittast á hólmi halir og snótir vel er vinafundur Þó hrímkalt élið slái blánaða hvarma lauf blæs í myrkrið Sameinast þau flæðinu vatnið glitrar í mána ] [ Sorgin sveininn ergir snópir mæddur glópur Utanför ég ætla eigi muni þreyja Ruglingur á reglum réði klúðri téðu híma verð ég heima helvísk villa olli Kreddan ein að kraftur Guðs Veg vísi á vinafund Megni með mætum lýðnum Glaumi við Glösum klingja ] [ Vonin var hún falleg eða var hún ljót þegar hún kom með sín blíðuhót Þegar dagar í sálu þinni veistu þá um þinn vin þeim sem þú treystir kletturinn sem verkamennirnir reystu fyrir vonina múrbrjóturinn sem ber þig fyrir syndir samviskan sem sálu þinni ann dvergarnir hafa hlegið með álfunum og konan hefur kist brúðgumann en blómið getur aðeins fæðst þegar það er sumar og þú getur dáið af því að það er komið vor ] [ Þegar augu mín lokast hér- í hinsta sinn, og síðasta andvarpið heyrist- létt, munu augu mín opnast á ný. Sólin vekur mig og allt í kring er ekkert- nema sjórinn og sandurinn og einstaka mávur. Þar er ég- ein með sjálfri mér og læt sjóinn leika um mig þar sem ég ligg nakin í sandinum. Mér er ekki heitt..og alls ekki kalt. Þetta er mitt Himnaríki. Á kvöldin sest ég við björgin og hlusta. Það eina sem ég heyri er ekkert og regnið. Róin gagntekur mig.. sál mín öðlast frið.. hér í mínu Himnaríki. ] [ Endalaust afl Náttúrunnar. Finnuru? Ilmurinn? Litirnir? Hljóðin? Þú finnur andardrátt Náttúrunnar, lokaðu augunum..leyf henni að hvísla að þér sannleikanum.. Hlustaðu.. Andaðu að þér því lífi sem Hún býður þér. Hún elskar þig..þó þú hafir ekki uppgötvað kraft hennar enn. Andaðu að þér Lífinu. ] [ Ég var tilbúin að gefast þér... hefði átt að þegja... "Verður það sem verða vill" Vona að minn vilji komi þar við sögu... ..en stjörnurnar ráða. ] [ Hún stóð á ströndinni - alein og hlustaði á gjálfrið. Friðurinn svo mikill..róin yfirþyrmandi. Engin hljóð..nema gjálfrið og mávarnir - og hún velti því fyrir sér hvernig orðið..tilfinningin ást kæmi henni fyrir sjónir, væri hún áþreyfanleg. Hversu lengi hún stóð þarna..ég veit það ekki- en svo sá hún ykkur... Nakin- hlaupandi um í öldunum- hamingjusöm, hlægjandi. Þarna var ástin. ] [ Eftir allt langar mig enn að finna andadrátt þinn við eyrað mitt og upplifa hversu gott það var að finna hjartað slá ] [ Morgunn án saknaðar líður líkt eins og straumur fljóts, rennur að ósi víðum og minnist við saltan sjá. Allt má til upphafs rekja, allt á sín endimörk, allt utan tvennt í heimi; ekkert og allt í senn. ] [ Haustregnið bylur á þakinu næturlangt vær er mér svefninn. ] [ Að yrkja við opinn glugga ekki herbergisins heldur tímans, finna ferskan blæ aldanna leika um sig horfa á gleði kynslóðanna og sorgir og ekki aðeins horfa taka þátt fara vítt um óendanlegar lendur tímans, þess stórbrotna karls eða einfalda barns ekki veit ég hvort heldur er líklega mitt á milli, en að yrkja við opinn glugga tímans Pablo - það er lífið ferskt vín á þurrum vörum manns, sem leitað hefur svölunar og fundið hana loksins. ] [ Þegar ég geng í skólann, mæta mér ótal krakkar, en er ég hugsa út í það finnst mér heimurinn svo lítill hvernig get ég þá, gengið á móti ótal krökkum ? ] [ Öll mistöm mín eru efst mér í huga, sumum get ég aldrei breitt, en samt, það er eins og ég geti enn bætt þau en ég myndi verða að borga mjög mikið fyrir það, og ekki er það mér í hag. ] [ Ég er kjötæta ekki spæta sem að spýta heillar mig að tæta Ég vil kjötkraft ekki ávaxtasaft sem er stöðluð seld gegnum verzlunarhaft Ég vaknaði snemma fór ungur á fjöll fékk snemma tremma varð að klífa þau öll Þoli ekki súkkulaði smokka ] [ beggó er ljót og leiðinleg hún bírtil ljóð um mig ljóðin eru ekki skemmtileg svog hugsar hún bara um sjálvan sig. ] [ Kaninu eg a sem heitir Dumbo hun hleypur stundum fra mer en hun elskar mig samt. Eg saknar hennar thegar eg er ekki med henni, tar i augum, og hjarta minu verdur illt. Eg elska hana eins og gullbolta, hun er mjuk, saet og god. Hun verdur leid ef hun ser mig ekki a hverjum degi, og thess vegna stelst eg stundum til thess ad taka hana ur burinu sinu og leifa henni ad hlaupa inni husinu minu. Thegar hun deyr, aetla eg ekki ad kaupa mer adra, tvi engin verdur mer jafnt kaer og hun. ] [ Thegar eg er ekki hja ther, eg sakna thin mikid, eg elska thig svo mikid, meir en allan heiminn. Eg fae tar i augun ef eg er ekki med ther, heg elska thig svo mikid, ad eg get ekki sagt thad. Thu ert allveg eins og solin thegar hun brosir til min, og fyllir mig af ast. Ef thu myndir deyja, tha myndi eg grata alla daga yfir ther. Thegar eg var litill, tha varst thu ad passa mig, og thu varst svo seat og god vid mig, thu leifdir mer allt sem eg vildi. Eg elska tig i hjarta minu. ] [ Hvessir í dölum, blíða í bæ, sólbaðsveður á svölum, hressilega rigningu í andlitið fæ. ] [ Á kvennaveiðar við förum og djömmum fram á nótt. Með mikinn bjór á vörum, fær enginn að sofa rótt. Um morguninn er ég með eldrauða vanga, því ekki tókst mér að krækja í eina langa. ] [ Þar sveikstu mig tími um tólf hundruð ár. Hvílíkrar gleði hefði ég ekki notið á vínskrafi með Lí Pó í skuggsælum lundi úti á fljótsbakkanum. Ó, þú bikar sem hendur mínar fengu ekki numið - varir ei kysst. Að kvöldi hefðum við stigið um borð í bát og borist niður eftir fljótinu undur vökulu auga himinsins - mánanum, jafn fullum okkur sjálfum uns þú hefðir teygt þig yfir borð- stokkinn til að höndla mánann á vatnsfletinum fallið útbyrðis og drukknað í hvítri mynd hugarflugs þíns. Og ég, þófti þinn hefði horft á eftir þér og kveðið þér harmaljóð og gleði. ] [ Bogi örlagana skýtur niður ör sem slítur í sundur venjubundna leið mannsins og neyðir hann til að breyta um stefnu og halda í aðra átt... ] [ Hún hokin sat á tröppu, en hörkufrost var á, hnipraði sig saman, uns í kufung hún lá, og kræklóttar hendurnar titra til og frá, um tötrana fálma, sér velgju til að ná. Og augað var sljótt sem þess slokknað hefði ljós í stormabylnum tryllta, um lífsins voða-ós það hvarflaði glápandi, stefnulaust og stirt, og staðnæmdist við ekkert - svo örvæntingarmyrkt. Á enni sátu rákir og hrukka, er hrukku sleit, þær heljarrúnir sorgar, er engin þýða veit. Hver skýra kann frá prísund og plágum öllum þeim, sem píslarvottar gæfunnar líða hér í heim? Hún var kannski perla, sem týnd í tímans haf var töpuð og glötuð, svo enginn vissi af, eða geimsteinn, sem forðum var greyptur láns í baug, - en glerbrot var hún orðin á mannfélagsins haug. ] [ Ég er hjartasár valur, er flöktandi fer, fljúgandi snjóský, er stormvindur ber, vindblær, er skelfur á vádimmum sjó vakinn og leitar um eilífð að ró. Ég er snjóskriða, er fellur í hávetrar hríð og hnígur og gleymist um eilífa tíð, stjörnuhrap æðandi um grunnlausan geim, grátandi andi, sem leita vill heim. ] [ Ég er þreyttur af angist - hér eldist mín sál, svo aflvana berst ég með straum; hér slokknar og eyðist allt æskunnar bál við unaðssemd tryllta og glaum. Ég er þreyttur og leiður við götur og grjót og glymjandi stórborgar tál og þessa svo stefnulaust streymandi sjót, sem starir og glápir á prjál. Nei, burtu með hégóma, hræsni og tál og hjarta svo svikult og kalt; ég vil leita og finna´ eina einustu sál, sem ann mér og þekkir mitt allt. Ég vil anda að mér himinsins hreinustu lind á hátind við fossana straum, og líta svo hlæjandi af hájökultind á hégóma lífsins og glaum. Ég vil svífa um hyldjúpan úthafsins ál og una við stormanna flóð, því að trylling þá elskar mín undrandi sál og ógnbjarta leiftranna glóð. Ég vil bindast þér, alheimsins eilífa sál, og anda við náttúru barm, og tala svo hjarta míns helgasta mál og huggast og þverra minn hvarm. ] [ Til einskis er að glápa á gamlar tíðir og gráta frægð, sem nú er orðin hjóm. Hví fá ei skilið dáða-daufir lýðir, á dauðu tré að vaxa ei lífsins blóm? Nei, þyngra´ er verkið. Landsins lýðir vaki og leggi í stritið allt sitt þrek og blóð til þess að lyfta tímans Grettis-taki og til að skapa röskva og nýja þjóð. Sú trú er reist á voru vonarbjargi, að verk það takist heldur fyrr en síð, og þjóðin leysist undan fornu fargi og fagni loksins sinni nýju tíð. Þá fyrst mun vakna lýður landsins fríða úr leiðsludraum og snauðum mælgisklið og teyga hið besta úr brjóstum sinna tíða og bæta nýrri frægð þá gömlu við. Og hvar sem leið vor liggur vítt um geima, þér, land vort, ei vér gleymum nokkra stund, því alltaf áttu´ í huga vorum heima í háreyst dags og kyrrum næturblund. Hvort lífsins blær er ljúfur eða svalur, það landið við oss heilagt tengir band, því þú ert vorrar æsku unaðsdalur, þú okkar bjarta, hjartans, hjartans land. ] [ Segðu mér söguna aftur - söguna þá í gær - um litlu stúlkuna með ljúfu augun og ljósu flétturnar tvær. Var hún ekki fædd úti á Íslandi, og alin þar upp á sveit, og send hingað vestur á sveitarinnar fé - með saknaðartárin heit? Hún var þrettán ára eða þar um bil. - Jú, það voru þín orð. Þú sagðir, að sárt hefði hún grátið, er settu þeir hana um borð. Og þá gusurnar gengu yfir skipið, sem gnötraði og veltist á hlið, þá bað hún svo vel, og þá bað hún svo heitt: „Æ, blessaðir snúið þið við!“ Aumingja barn! Það var ósköp sárt! En átakanlegra var hitt, þegar vestur hún kom til Winnipeg og vildi sjá skyldfólkið sitt, að fólkið hennar var farið - hún fann það ekki þar. Þú sagðir, að þér hefði runnið til rifja, hve raunaleg hún var í innflytjendasalnum, er sat hún svo sakleysisleg og hljóð, og reyndi að hylja með hyrnunni sinni hið heita táraflóð. Var kyn þó væri hún döpur? Og víst var það nokkuð hart, að segja við hana: „Hættu að hrína! - Hestarnir koma nú snart. - Með karlinum keyrir þú út á land og kemst þar í góða vist. Skældu ekki meira! - Skárra er það! - Ég skal nú verða byrst!“ Svo fór hún einhverja langa leið út á land. - Eða var ekki svo? Og fremur gott var fólkið við hana fyrstu dagana tvo. En svo þrutu gæðin meir og meir, og margsinnis var það hún grét, þá kerlingin kreppti hnefann og karlhrófið fólslega lét. Þau börðu hana, trúi ég, svo bólgin hún var, og blæddi undan svipunni þrátt; Þau létu hana vinna, þó væri hún sjúk - já, vinna allt stórt og smátt. Henni leiddist svo mjög, hana langaði heim. Já, láttu mig heyra um það, þegar hún tók til þess barnslega bragðs, að búast um nótt af stað. Hún komst út um gluggann með kistilinn sinn, - en koldimm var nóttin og löng - svo hljóp hún til skógar, eins hart og hún gat. - Hún hræddist ei myrkviðargöng. Hún þekkti enga leið, eins og vonlegt var. Hún villtist. Hún missti þrótt. Og hver getur sagt hvert hún lenti, eða hvað hún leið þá nótt? En líklegast hefur hún lagt sig til svefns, þá lúin hún orðin var, og ef til vill aldrei vaknað - já, andast í skóginum þar. Já, hver getur sagt, hvaða þrautir hún leið, eða hvernig hún lífinu sleit? Oft hefur verið að því spurt, en enginn maður það veit. Æ, segðu mér söguna aftur - söguna þá í gær - um litlu stúlkuna með ljúfu augun og ljósu flétturnar tvær. ] [ Mig dreymdi að dimm varð sólin og dagurinn litum brá, Þá sá ég þitt sólbros á himni og sortanum létti frá. Mig dreymdi ég lægi dauður í dimmkaldri grafarþró, þá komst þú og andaðir á mig og aftur mitt hjarta sló. Ég vaknaði og vissi til hlýtar að voldugri flestum ég er, ég sem ber lífið og ljósið logandi í brjósti mér. ] [ Ég finn að fátæk ertu mín fagra ættarjörð, ég kannast vel við kotin þín og kjörin ströng og hörð. Og heimskir lýðir hlæja í huganum að þér, en ég veit best að auð þú átt sem enginn þeirra sér. Þeir þekkja ekki eldinn sem inn við hjartað slær, og ekki bláa blómið sem, við barm þinn hulið grær. En ég hef sogið eldinn í æðarnar frá þér, og lesið bláu blómin þín þau brosa öll við mér. Lát aðra að þér hlæja, þú ert og verður mér: sá ilmur sem ég anda að mér sá eldur sem ég ber. ] [ Þú lagðir upp í ferðalag yfir nýfallinn snjóinn í huga mínum. Gekkst um víðáttuna, eldsneytið: glórulaus vonin um að skapa við mig litla einingu mitt í auðninni. Hvað ég fann til þegar þú namst loks staðar, leist yfir farinn veg og sást að hvergi í nýföllnum snjónum hafðir þú skilið eftir spor. ] [ Eigi snerta, aðeins sjá ávallt skal ég bíða. Horðu tilbaka og skildu þá að árin munu líða. Hæðstu að mér, berðu mig jarðaðu mig kaldan. Aldrei muntu þekkja mig og skilja lífið sjaldan. Lífið er kalt og snautt og veldur sífellt tárum. Án sársauka er lífið autt og það versnar eftir árum. ] [ Yfir fjöllin rýs svo fögur sól, sýnir sig fyrir allt. Ég sé hana fyrstur, því ég stend uppá hól, og þá varð mér hætt að vera kallt. Með fallegum geislum hún ber sig svo vel, svo allir horfa hana á. Eins og perla sem skín úr sinni hörpuskel, allir vilja hana fá... ] [ Þú ert ljós í myrkri minnar sálar minningarnar ylja á sorgarstund. Er þræddi eg ljósi byrgðar brautir hálar birti upp þín hlýja og góða lund. Þú gafst mér von í veður lífsins dróma, vinur, sem að aldrei gleymist mér, með nálægð þinni hvunndag léstu ljóma lífið varð mér sælla nærri þér. Þú verður hér í draumi dags og nætur ef dreyra þakin hugur kvelur mig, ef sorgir á mig herja og hjartað grætur huggunin, er minningin um þig. Ég kveð þig nú með djúpan harm í hjarta. Þú hefur lagt af stað þín síðstu spor. Til himnaföður liggur leið þín bjarta, liðnar þrautir, aftur komið vor. ] [ Vængir mínir óhreinir geislinn svo mattur, það færi mér betur hversdagslegur hattur. Fæturnir sárir skrefin þung spurðu mig vinur "hvernig varstu ung?" Þá bar ég birtu langt úti tómið lýsti upp svartasta hyl, Bar mig blómstrandi blítt sem rjómi og elskaði að vera til. Nú dugar hvorki bros né snerting, þið hörfið undan hrelld, af stalli ofar skýjum ég felld. Þið sinnið aðeins nýjum glampa étið upp ósnert og ljúft, en hrækið því síðan með ygldum krampa og skiljið við mengað og hrjúft. ] [ Innra logar eldur rauður. utanfrá allt svo heilagt, öruggt eðli skýr innsýni. Þrá eftir snertingu löngun svo hrein, stoltið er sterkara, ég get þetta ein. "Allt í lagi" segi við þig, Öskrandi í huganum "Elskaðu mig"! Skinn mitt brennur varir dofnar, hjarta mínu í stein ég sný blóðug undan kunnu höggi, ég sterk mun standa upp á ný. Innann veggja þinna lifi dæmd en saka mig, því þó þú sálu mína rífir, ég elska aðeins þig. ] [ stundum – ertu Etna eða Katla í sprengigosi - þegar þú ert hamslaus þess á milli - ertu eins og stöðuvatn - stórt og mikið - á heitum sumardegi sólin glitrar í gárunum bakkinn gróinn grænum skógi í loftinu liggur angandi ilman laufsins og vatnið er djúpt veit að þar býr margt undir niðri ] [ Ég átti eitt sinn demant glansandi og flottan en dag frá degi dofnaði glampinn á endanum hann dó Vinurinn dýrmætur er sem dýrasti gimsteinn gættu hans vel því ekkert er eins dýrmætt og vinurinn okkar Ég átti eitt sinn tré stórt og sterkt en vatnið gleymdist það bognaði hægt á endanum það dó Vinurinn er sterkur styður þig ef þarf en mundu eitt það gengur ei ef við gleymum að ræktan ] [ Sólin rís að morgni sönn Sortu leggur landið Kalin sálin kemst ei spönn Kalt er á mér hlandið Stirður staulast á fætur Stekk albúinn af stað Ljósbrandar ljóma við hendur Ljárinn skal tala í dag Djöflar skrýddir djásnum Djöflast húsum [sínum] úr Ég sker þá niður ó skelfing Skankar blæða súr Drýsill svartklæddur dregur Dreyra vættar kylfur Hendur af honum hefur Heitur ljár við ýlfur Stöðugt að mér streyma Strengdur bíð ég böðull Drottinn hættu að dreyma Drepstu óvinur þögull Loksins vinur Lúsífer Lengi beðið þú hefur Frelsun ei lengur frestað er Því frelsi Almættið gefur ] [ Er nema von að manneskjur flýi þetta líf? Er verra að hengja sig heldur en að vakna, vinna, horfa á kassann, sofa og svo ... og svo ... vakna, vinna, horfa á kassann, deyja. ] [ Það var dimmt úti þegar þoka læddist yfir Það var dimmt úti þegar allt varð hljótt Það var dimmt úti þegar englar jarðar grétu Það var dimmt úti þegar heimsendir kom Jörðin hristist Hraunið lekur Fólkið öskrar Endir gerir nýja byrjun. ] [ Þinn harði magi er orðinn slappur Mjólkurglasið hefur breyst í bjórflösku Líkamsræktin og haustleikinn er orðinn af rassaförum á setustólsins fyrir framan sjónvarpið Þitt silkimjúka andlit er þú lagðir við vangann minn er sem harður sandpappír núna Stinnu magavöðvarnir hafa fært sig yfir í fitu sem yfirgnæfir allt Ástin er ég bar til þín er orðin að hatri. ] [ Er ég kyssti þig kossinn, seinasta kossinn Runnu burt tárin og minntu helst á iðandi gullfossinn Var mér þá litið á lokuð augun þín. Augun sem eitt sinn voru bjartari en sólin skín Litlar hendur mínar struku eftir köldu skinni Aldrei kommst það orð að hversu mikið ég þér ynni. Með tár á vanga og brotið hjarta Mun ég ávallt geyma með mér brosið þitt bjarta ] [ Láttu þig hverfa svo ég ónáði þig ekki, ég skal kenna þér að vera ósýnilegur, rétt eins og ég þegar þú birtist.... þá sést ég ekki... En veistu einu sinni sástu mig , bara mig....... heila kvöldstund.... Það er sorglegt hvað nekt blindar þig. ] [ Á fjallstindinum sat hún Sat og horfði á sólina Sólina sem skein Skein svo bjart í augu hennar Á fjallstindinum sat hún Sat og horfði á laufin svífa svífa með vindinum Vindinum sem lék um hár hennar Á fjallstindinum sat hún Sat og horfði á snjókornin falla Falla svo mjúklega til jarðar Jarðarinnar er hún dvaldist á Á fjallstindinum sat hún Sat og horfð á blómin Blómin sem uxu Uxu svo hratt í návist hennar Og hver veit nema hún siti þar enn Á litla fjallstindinum Og horfir á sumarið, haustið, Veturinn og vorið líða hjá. ] [ Ég hitti á vegi kerlingu góða sem sagði mér sögur af stríðinu stóra hún lamdi sér á læri og prísaði landsins gæði. Hún sagðist hafa fundið dauðann særðan undir húsveggnum rauða hann sárt var slaginn og lurkum laminn. Sá særði tók sér taki hörðu og fálmaði eftir kerlingu köldu hún brosandi við skrattan samdi og lifir nú í logalandi. Hann gleymir henni í hverri ferð af listanum var hún burtu keyrð nú lifir hún í leyni undir litlum steini. Ég hitti á vegi kerlingu óða sem sagði mér sögur af dauðanum móða hann særður lá hún læknaði þá. ] [ Endless plesures of not knowing. Tell me if you sense the silk, within my rage the soft is showing, floating down my back like milk. Darkness stings the trembling soal never will us be the same, we seek this heat, this fury, this role, let our sins burn in this flame. ] [ Aleinn ég storma út í myrkrið svo sár, sviftur var ég aleigu og sál. Kuldinn nístir, er allur orðinn blár, en hlínar strax við reiðinnar bál. Helvítis, hann gerir sér svo glatt, að hamast á litlum sálum. Kemur inn og skemmir svo hratt, allir eru æstir, á nálum. Þótt hann taki allt sem þér dýrmætt mun vera, þá þorirðu ekkert að segja. Því ef þú mundir vogar þér það að gera, þá ertu hreinlega að biðja um að deyja. ] [ Ég man mömmu með slæðu og í nælonsloppi, og tíkaspenna stelpur hlæjandi í húllahoppi. Man ég eftir bíó, með apa og Tarzan í fötum, og spýtusverð og tunnulok og styrjaldir á götum. Ég man sól,freknur,kremkex og gult sínaltkó, fimmaura öngla,marhnút og svarta gúmmískó. Man ég "Janka"og lakkskó,og stúlkur í kjól. mjúkar dúfur,og stráka sem eignuðust bara "Möve"hjól. Man ég þegar "mussan"klæddi konur og kalla, og hárbandið sem hárið var eins fyrir alla . Ég man þegar spilað var á útskorinn kassagítar, og hina sem reykti sælu og léku á sítar. Man ég stöðu við útgrýtt sendiráðshúsin, og fullnægðu öskrin um frið við rauða blúsinn. Ég man eftir draumnum sem til var á plötu og "kúringar" undir sæng hjá stígvéla-Kötu. Ég man eftir skrýtnum köllum sem kallaðir voru nöfnum, man ég kátar nætur á böllum í ýmsum höfnum. Ég man kossa,kölnarvatn,og fyrsta sopann, "Klúbbinn"og hegðun sem fyllti dropann. man ég þegar upp var staðið við hverja töku, að besta væri mör með vestfirskri skötu. ] [ Ef ég einhvern tímann gæti snúið við og tekið tvö skref afturábak hvert sem væri héldi ég rakleitt til þín og kyssti þig upp á nýtt. ] [ Baldur hinn góða dreymdi drauma stóra að líf hans í hættu væri því ótta í brjósti hann bæri. Ásar þá báru saman ráð svo ekkert yrði Baldri að bráð. Fékk hann fyrir Fryggjar ráð hjá öllum hlutum náð. En hefði Frygg betur aðgáð líf Baldurs eigi verið út máð. Því hún ákvað einni plöntu að hlífa, gleymdi Loka, þeim ósvífa sem naut þess aðra að meiða, illt til lykta að leiða. Hann sér í konu líki brá, að drepa Baldur var hans þrá. Til Fryggjar fór á fund, hún sagði eina plöntu mynda und á Baldri. Henni hefði hún hlíft við galdri. Plantan sú er mistilteinn, hvarf nú Loki ei svifaseinn, sleit upp plöntu þá, flýtti sér svo á stjá. Æsir brugðu á leik köstuðu að Baldri, þeim er engan sveik hann hvort eð er ei myndi meiðast svo hver og einn lét til leiðast. Einn var sá, er stóð hjá blindur hann var og vopn ei bar. Höður var heiti þess manns, Baldur bróðir hans. Loki nú sá sér leik á borði því Höður trúa myndi hans orði. Loki mistiltein í hönd Höðurs setti sem grunaði eigi hans pretti. Að tilvísun Loka, Höður skaut, líf síns bróður sundur braut. Þetta þótti hin mesta þraut er meðal manna og goða unnist hefur reiði í Ásgarði nú undan grefur. Mörg féllu tár og uxu stærðar sár ásum hjá svo mikið mátti á sjá. Af harmi Nanna sprakk og dó, þá hátt Loki hló. Út á Hringhorna,Baldurs skip æsir færðu hvern hans grip, konu, hann og hest með. Enginn hafði nú gott geð. Síðast var Draupnir á bál settur bálköstur nú var mettur. Frigg til Heljar, Hermóð sendi, skapa hún vildi góðan endi, Baldur sækja frá Heljar hendi. Hel hann eigi vildi láta nema hver hlutur í heimi myndi gráta. Alls staðar nú æsir fóru, flestir að syrgja sóru. Tröllkonan Þökk ein nei sagði og þannig Baldur áfram í Hel lagði. Hún vildi ei gera þeim greiða var þetta Loki sem illt vildi til leiða. Hann í horni sínu hló flúði á kaf í sjó. Í lax sér hefur breytt telur sér granda fái ei neitt. En Þór og goðin hann fengu veitt, líf hans þó ei deytt. Hann nú í helli bundin bíður, undan eitri í sár hans svíður þar til að ragnarökum tíminn líður. Sigyn mundlaug undir eitri heldur er tæma þarf skál, hann verður skelfdur, kippist til svo allt nötrar binda hann járnfjötrar. Þetta jarðskjálfti kallast allavega að þeirri skýringu Snorri hallast. ] [ Lífið getur verið svo grimmt, eins og eithver vilji ekki að við lifum. Ég verð oft hrædd þegar það er dimmt. Og með lífinu sjálfu við með tímanum tifum. Með tímanum verður lífið tært og brosið myndast brátt. Og loksins verður tímabært að hlæja aftur dátt. ] [ Að trúa þér og þínum vörum var ekki til neins. Þú eyðir í aðra miður orðum, og reynist alveg eins. Þú elskast heitt, villt sem úlfur með opna sál svo tæra, orðaflaumur, lygar, bull á öxlum sauðagæra. Vertu hreinn er konur tælir, snúðu ei hjarta til steins og mundu að þær er agnið grípa eru ekki eins. Fermón, fímón, froðu skjall lítið úr mér hannað, ég setti þig á hærri stall en núna sé ég annað. Aðeins til að komast inn vergjarn seint að kveldi. ég hélt þú ættir hjarta innst fullt að hlýju og eldi. Ég vissi rétt framan að um eðli þinna orða, þú leiddir mig um lygavef með fólsku þinna gjörða. Í sálu minni viðkvæm blíð, þú þóttist skilja það. Aum var ég að opna mig, og segðu mér "fyrir hvað"? ] [ Skiluru mig dofni gaur? Skiluru mig litli maur? Skiluru mig unga víf? Skiluru mig grimma líf? Skiluru mig Drottins prestur? Skiluru mig óboðni gestur? Skiluru mig snobbaða tík? Skiluru mig liðna lík? Skiluru mig litli krakki? Skiluru mig FM-hnakki? Skiluru mig fagra fljóð? Skiluru mitt skilnings ljóð? ] [ alla daga... alla nætur... ég fæ aldrei frið. ,,hvar ertu?" ,,hvað ertu að gera?" ,,nenniru að hitta mig??" ,,þú ert eini vinur minn" Skilur ekki nei, skilur ekki neitt! mér líkar ekki við þig... láttu mig vera!! Farðu burt. ] [ Og það er svo erfitt að fylgja þér þegar þú flýgur svona hátt. Því fætur mínir eru ennþá bundnir jörðinni og ég veit ekki hvort væri sárara, að slitna í sundur um miðju eða standa eftir og horfa á þig fljúga út í buskann. ] [ Goðumlíkur smýgur hann um sviðið og flauelskenndar reykjarslæður hringa sig um svitastirnt brjóst hans. Þungur sláttur bassans læðist upp í gegnum gólfið kitlar mig í hlustirnar og skautið. Hugfangin bera ég sál mína, leggst nakin við fætur hans og úr myrkvuðum salnum berast háværar stunur: ,,Meiri munúð! Meiri ástríður!´´ Og þegar frygðarópin nísta bæinn leysist heimur minn upp í eldinum sem hann kveikti með söng sínum. ] [ Að mæta dansandi augum þínum, fullum af örsmáum álfum sem glotta skelmislega og reka út úr sér tunguna, það brýtur alltaf brynjuna mína og ég hlæ þar til ég græt. Þannig er hægt að hlæja með þér. ] [ Í nótt varstu hjá mér þar til órólegar draumfarir þínar drógu þig á brott. Ég þrábað þig að dvelja aðeins lengur, að gera þér hreiður í hugskoti mínu og yfirgefa mig aldrei. Þú brostir undurblítt til mín og varir þínar voru fjarlægur draumur um heitsára kossa: „En sæta, mín er vænst í öðrum draumi.“ ] [ Næturdrottning með eldblóm í hári, norðurljós í augum. Söngvar þínir stjörnur í hylsvörtu tóminu sem umlykur okkur. ] [ Snemma hausts falla laufin blóði roðin til jarðar. Og um nætur vefa grátandi englar laufteppi yfir steinsteypta borg. Eitt lauf fyrir hvern draum sem aldrei rættist, eitt tár fyrir hverja von sem dó. ] [ Mynd þín í öldunum kallar mig til þín í kolgrænt hafið. Sogast inn í svarthol augna þinna og ógnfagurt myrkrið umlykur mig. Aldan kyssir mig, köldum og bláum vörum þínum. Ég sekk í djúpið - til þín. ] [ Í sólinni er bærinn hvítur, grænn & fjólublár eins og þjóðfáni framandi ríkis. Sólhvítar breiður af ilmandi smára sem döggin hefur kysst síðan í morgun. Iðjagrænar standa aspirnar, dansmeyjar með armana teygða til himna. Höfug hnígur anganin um bæinn og veiðir sálir vegfarenda. Í brekkunni stendur lúpínan og glottir við tönn. ] [ Kaupfélagið heima var ógnvænlega stórt, heill heimur af eftirsóttum vörum. Litla stelpan sem missti sjónar á mömmu sinni hélt aftur af tárunum með herkjum og óttaðist það mest að þurfa að ráfa milli rekkanna um eilífð og mamman myndi bara hverfa, rétt sisvona. Ég er enn sama stelpan en kaupfélagið hefur hins vegar minnkað og búið að opna Bónusverslun hinum megin götunnar. ] [ Tár þín löngu þornuð en eftir situr saltbragðið af vörum þínum, hulin sorgin í snertingu þinni. Hvern tregar sál þín svo ákaft? ] [ Upp brekkuna, grasi gróna og alsetta hvítum blómum sem skína eins og litlar stjörnur á grænum himni. Hvað ætli þau heiti? Kannski eru þetta músareyru, eða sjöstjörnur; hvort heldur sem er, eru þau lítil hlið á veruleikanum og opnast inn í annan heim. Áfram, yfir lækinn sem hoppar og skoppar niður brattann eins og lítill drengur að leika sér. Hvaðan ætli hann komi? Kannski úr einhverri silfurtærri fjallalind, sem hefur aldrei gert annað en að spegla bláma himinsins. Áfram, áfram; yfir lynggróna heiðina og dúnmjúkar mosabreiðurnar sem teygja sig jafn langt og augað eygir. Hvert er ferðinni heitið? Kannski upp á fjallstindinn; að finna hinn unga álfasvein sem situr þar á steini og hlær sínum klingjandi og undarlega seiðandi hlátri. Hver veit? ] [ Þar sem dimmgrænir skuggarnir dansa í djúpinu handan ljóssins; þar sem stjörnuþokurnar syngja sindrandi hljóma; þar sem angan þín liggur í loftinu og lostheitur blærinn strýkur hár mit; þar mun ég bíða þín, uns heimur rennur sitt skeið. ] [ Verum eitt um stund. Læstu höndum þínum í perluhvítt hörund mitt - og kreistu. Finndu heitan ilminn af rauðheitri þrá minni - og bíttu. Heyrðu hraðan hvininn í öru blóði mínu - og njóttu. Verum eitt um stund - svo ei meir. ] [ Þungaðar greinarnar bærast mjúklega fyrir léttum andardrætti haustsins, eins og kona í örmum elskhugans. ] [ Draumasmiður; skýjahallirnar sem þú byggðir mér í gær hrundu með hækkandi sól. Verndari sálarinnar; tilverunni umturnað, heimurinn rústir og myrkur á ný. Skapari stjarnanna; gefðu mér örlítinn tunglsgeisla til að fleyta mér gegnum sortann. ] [ Dögunin, köld og föl eins og dauðvona kona, læðir hrímuðum höndum sínum undir sængina. Strýkur frostbitnum fingri yfir háls minn, sjá; ég er deginum mörkuð. ] [ Þú ert bráðin, og mín innri kisulóra læðist gegnum frumskóginn, stekkur á þig og slítur þig í sundur í blóðuga hluta. Þú ert veiðimaðurinn, og særða dúfan í mér skelfur og felur sig í skóginum er þú nálgast og snýrð hana úr hálsliðnum án miskunnar, án tilfinninga. ] [ Ég elska þig heitar en nokkurn áður og hata þig einnig mest. Mitt í ástarsæluvímunni grípur mig löngunin til að bíta þig, sjá þér blæða, heyra öskur þín. Svo vil ég vefja þig líkama mínum og lina kvöl þína, búa um sár þín með ást minni. ] [ Græn víðátta sem bylgjast út í fjarskann, hvít ský sem renna sér niður bláar fjallshlíðarnar, gul sól sem smellir geislakossum á rauð hjörtun. ] [ Ég leit djúpt í augu þér og gleymdi mér um stund. Nú ráfa ég eirðarlaus og áttavillt um ranghala sálar þinnar. Hugsanir þínar hringsóla stefnulaust, umlykja mig, varna mér vegarins út. ] [ Í vindinum klingja silfurklukkur, kallast á við tónlistina í hjartanu í mér. Í haustinu glymja dauðaklukkur, bergmála með þungum hljómi í tómri sál minni. ] [ Ljóminn í augunum lífsgleði sveipar. Litfegurð þeirra er mannanna skraut. Brosið er dýrmætur demantur lífsins. Djásnið sem mannkyn við fæðingu hlaut. Gefðu mér brosið já, gleðina sjálfa. Gjöfina einu sem kostar ei neitt. Gefðu mér djásnið hið dýrmæta eina, demantinn þann sem fær hamingju veitt. ] [ Ljómar í lynginu litfagurt haust með blómlegu berjunum sínum og glitrandi glófögrum línum. Tindrandi tárin tignarlegt róf af litanna leikandi straumum. Unaðsleg ásýnd í auga mitt óf undravert yndi af draumum. ] [ Vatnið er lífsins sæla lind. Vatnið er lífsins kliðmjúkt ljóð. Vatnið er lífsins ljúfa mynd. Vatnið er lífsins bláa blóð. ] [ Fötin hanga hljóð í skápnum. Einu ávextir herðatrjánna. ] [ Læðist þokan þykk og svört hvít og hljóð hlý og björt. Hefur hún hliðar tvær; mistur kalt en mjúkur blær. Frjálsan hug ég fel þér nú í fjötra hann svo færir þú. Uns ég klíf þann efsta tind og ræð þá þína réttu mynd. Veröld þín er vær og djúp sveipuð helgum himnahjúp. Þér helguð er mín hljóða sál þá eignast þú mitt undramál. Með fagran sveip þú flæðir hér og svífur týnd í sjálfri þér. ] [ Sólin sest á silfurstól ilmandi af yndi vorsins og hafsins græna höfuðstól. Særinn sæll við sólar koss. Þau ganga glöð gætilega um ægiströð. Hönd í hönd og hafsins sindrar silfurland: Þeirra er heimsins hjónaband. ] [ Í frjóu foldardjúpi fæðist líf og jarðar sómi. Vex úr grasi grónu hin glæsta jurt með svörtu blómi. ] [ Lífsins vals hin glæsta fagra list: Að sakna alls en hafa ekkert misst. ] [ Þú sem barna minna móðir, móðir ert af lífi og sál. Þig ég elska, þér ég eigna þúsundfalt mitt ástarmál. ] [ Bjarta nótt, þú býður góðan dag og bærinn minn við himinbúann talar. Svo vingjarnlegt er vorsins blíða lag og vær er stúlkan smá er við mig hjalar. Ekkert kvöld, aðeins morgunn vær. Undur sæll er þessi ljúfi dagur. Eilífðin er unaðslegur blær. Eilífðin er þessi mjúki bragur. ] [ Þau sitja í hring tala um sig sleikja sykurinn á vörum sér. Þau sitja í hring tala um þig sleikja tár af vörum þér. Þú finnur blóðbragðið í munni þeirra. ] [ Lágum rómi lítið barn hvíslar yndis orðin sín. Í helgum dómi dvelur og guði allar óskir sínar að eilífu það felur. ] [ Stundum ligg ég hér í leynistaðinum mínum, mér finnst eins og lækurinn hvísli: þú ein mátt vera hér. En þá segir grasið : þú ert hér, ég finn það, þú mátt vera hér, eins og lækurinn sagði, en enginn má vita af þessum stað. ] [ Kúluskítar, eða öðru nafni vatnaboltar. Þetta eru svo fallegar plöntur, svona fagur grænar og svo mjúkar, rétt eins og flauel ég get ekki hugsað mér hvernig þær verða til en samt, þetta eru lifandi dýr og þó, þetta eru plöntur. ] [ Ég verð að játa, lífið er ekki eins og ég vildi. Foreldrar mínir, skildu þegar ég var eins árs. ég var ens og á þráði, Hvar ætti ég að detta ? Ætti ég að detta hjá pabba eða mömmu, þetta er erfitt líf. ] [ Ég er ekki að grínast, ég verð að segja sannleikann. ég segi orð og ég er búin að tínast, í heim ósannindannina og óhreinleikann. ég verð samt að segja eitthvað, en hvað ? ] [ glitrandi regndropar blaktir lauf á trjám í þráðum sólskins ljós og vatn himinsins fléttast niðri á jörðinni í kenjóttri stemningu dag af degi byrjar hver morgunn að anda tæru og kólnandi lofti haustdagurinn hljóður birtir manni stundina umbreytingar lífsins ] [ Sú slóð er hvít sem einum ætlað er að feta langa nótt. Og þó má sjá hvar sáldrast sölnað lauf í gengin spor. Ég fylgi þér svo einn sem hugur þinn. ] [ Hjarta mínu blæðir. Dimmrauðu sorgarblóði. Ligg hér í baðkari. Finn hvernig blóð mitt fyllir karið. Loka augunum. Finn fyrir ylvolgum vökvanum flæða. Sál mín slítur sig lausa. Fer með henni. Svíf yfir máttlausum líkamanum. Horfi á hann hverfa á kaf. Fer út um gluggan. Horfin. ] [ Að vori grisjaðir þú garð sem blómstrar í friðsæld árla hausts ljúft og ilmandi illgresi faðmar að sér og hylur í tíma klippurnar sem þú skildir eftir ] [ Þegar hlið hjarta þíns hrökkva í lás með viðhöfn Vil ég frekar vera fyrir utan en innan Þegar sál þín kólnar og þú leitar hlýju í einsemdinni Mun ég búa mér stað óttalaus bakvið ólæstar dyr ] [ Ég sveif um heiminn án nokkurrar festu, ég greip aðeins í gufu og ský. Lífið fjarar út að mestu, er ég fell til foldar eins og blý Í draumum ég lifði með fölskum vonum, ég heyrði hið brothætta Drottins orð. Syndir feðranna íþyngja sonum, sem svífa hægt að komandi storð. Ég sveif í þögn, regni og rokum, loksins gat ég fallið í kaf. Dýrð í dauða fann ég að lokum, er ég sökk í hið svarta haf. Nú kveð ég ykkur, elskendur, vinir, drukknandi í lífsins ró. Því að syndugra feðra synir hverfa ávallt ofan í sjó. ] [ vil kunna orð að meta, fótum feta í málfari, vera aðeins fágaðri. sjá heildarmynd úr óreiðu, hvílík synd að hafa þessa eyðu. kalla naktan kveikiþráð hentuga bráð hef nú með forvitni sáð, von um hvíta rós, sé í hjartanu leynist lítið ljós. ] [ syngur fugl og kvakar álft þetta gerist alltaf sjálft grær gras í móa og börð skrítin er hún móðir jörð sýnir okkur dýrðarljóm syngur okkur fallegan hljóm ef við viljum hana sá hún uppfyllir okkar þrá ] [ vetrarnóttin köld og dimm vindgnauð við gluggan minn þú lagðist til hvílu í hinsta sinn sársauka og harm í hjarta finn til söknuðar finnur mín sál úr augum mínum renna tár er kveð ég þig Baldur í síðasta sinn leiði þig drottinn vinur minn 5/1 2000 ] [ Sjúkrabíll siglir hraðbyri á öldóttri sírenunni, fyrir utan gluggann. Bendillinn hristir sig agressífur og hrokafullur, fyrir innan skjáinn. Ketillinn veinar í örvæntingu, að suðumarki kominn. Ég stend upp og fæ mér te. ] [ Augun opnast eilítið meir en venjulega. ] [ Ég elska þig bæði sem móður og mey, sem mögur og ástfanginn drengur, þú forkunnar tignprúða fjallgöfga ey! Ég fæ ekki dulist þess lengur. Þú háa meydrottning, heyr þú mig: Af hug og sálu ég elska þig. Sem móðir þú hefur mig faðmað og fætt og frætt mig og skemmt mér við sögur. Í anda mér hefur þú eldsneista glætt sem yngismey töfrandi fögur. Ég grátbæni drottin að gefa mér, að geti ég aftur hugnast þér. Ég veit ekki, hvernig mín ást til þín er, hvað einkum svo til þín mig dregur, hvort móðirin blíð eða mærin í þér á metunum drjúgara vegur. Ég finn aðeins hitt, hvernig hjarta mitt slær, er hugsa ég til þín, sem ert mér svo kær. Ég óska þess næstum, að óvinaher þú ættir í hættu að verjast, svo ég gæti sýnt þér og sannað þér, hvort sveinninn þinn þyrði´ ekki´ að berjast. Að fá þig hrósandi sigri að sjá er sætasta vonin, er hjarta mitt á. Ef verð ég að manni, og veiti það sá, sem vald hefur tíða og þjóða, að eitthvað ég megni, sem lið má þér ljá, þótt lítið ég hafi að bjóða, þá legg ég, að föngum, mitt líf við þitt mál, hvern ljóðstaf, hvern blóðdropa, hjarta og sál. ] [ Hann vex upp í hlíðum, við hóla og börð, við hreinsvala blæinn, í ófrjórri jörð. Þótt ekki sé borin þar mykja í moldu, þá megnar hann sjálfur að breiðast um foldu. Hann vex upp í kjarri og hreykist ei hátt, en heldur við jörðina, blómskreytir fátt, en stendur því fastar og lifir því lengur, og lætur ei buga sig, hvernig sem gengur. Þótt óhjúkrað standi úr ísum og snjó hans ólaufgað bar, þá lifir hann þó. Er hæfur í vendi, að hreinsa með bæi, því hann er mjór, og í stinnara lagi. Er hæfur í vendi að húðstrýkja þá, sem heilnæma tyftingu þarfnast að fá. Þótt fannirnar kyngist hann álnarhátt yfir, samt ímynd hins beiska sannleika lifir. ] [ Ég berst á fáki fráum fram um veg. Mót fjallahlíðum háum hleypi ég. Og golan kyssir kinn. Og á harða, harða spretti hendist áfram klárinn minn. Það er sem fjöllin fljúgi móti mér, sem kólfur loftið kljúfi klárinn fer. Og lund mín er svo létt, eins og gæti ég gjörvallt lífið geisað fram í einum sprett. ] [ Heill sé þér, þorskur, vor bjargvættur besti, blessaða vera, sem gefur þitt líf til þess að verja oss bjargræðis bresti, bágstaddra líknarinn, sverð vort og hlíf. Heyrðu vort þakklæti, heiðraði fiskur, hertur og saltaður, úldinn og nýr! Fyrir þinn verðleika fyllist vor diskur, frelsi og þjóðmengun til vor þú snýr, því ef þú létir ei lánast þinn blíða líkam við strendurnar, hringinn í kring, horaðir, svangir vér hlytum að stríða og hefðum ei ráð til að ala vort þing. Þú ert oss einlægust þjóðfrelsishetja, þú ert sem dreginn úr almennings sál. Mynd þín og fyrirmynd fögur oss hvetja, föðurlandsástinni hleypa í bál. ] [ Ég gæti sagt: Ókei, þú ert kynþokkafyllsti maður í heimi og mig langar til að ríða þér. En þá minnist ég augna þinna sem mig langar að drukkna í, tryllt, frávita af einmanaleika. ] [ Kaffi hátt skal hrósið veitt heims um áttir kunnar; það hefur máttug rétt til reitt ríklund náttúrunnar. Hreinsar blóðið, hita ljær, hroll frá þjóðum tekur, svalar móðum, svita´ út slær, sálir hljóðar vekur. Eyðir doða, aflar mörs; ei hef ég skoðun ranga - mörgum boðar fylling fjörs, færir roða´ á vanga. Hrindir leti, herðir kapp; hvað mun betur þakkað? Kaffi met ég mesta happ, meðan get það smakkað. ] [ Það er eins og þú sért gerður úr þráðum, sem mynda saman hamravegg. Ég spinn þræðina svo kviknar ljós, svo blæðir úr fingrunum. ] [ Þar sem aldrei á grjóti gráu gullin mót sólu hlæja blóm og ginnhvítar öldur gljúfrin háu grimmefldum nísta heljar-klóm, kveður þú, foss, minn forni vinur, með fimbulrómi sí og æ; undir þér bergið sterka stynur sem strá í nætur-kulda-blæ. Kveður þú ljóð um hali horfna og hetju-líf á fyrri öld; talar þú margt um frelsið forna og frægðarinnar dapra kvöld. Ljósgeislar á þér leika skærir, liðnir frá sól í gegnum ský; regnboga-litir titra tærir tröllauknum bárum þínum í. Ægilegur og undrafríður ertú, ið mikla fossa-val; aflrammur jafnt þú áfram líður í eyðilegum hamra-sal. Tímarnir breytast; bölið sára það brjóstið slær, er fyrr var glatt; er alltaf söm þín ógnar-bára ofan um veltist gljúfrið bratt. Stormarnir hvína, stráin sölna, stórvaxin alda rís á sæ, á rjóðum kinnum rósir fölna í regin-köldum harma-blæ, brennandi tár um bleikan vanga boga, því hjartað vantar ró - en alltaf jafnt um ævi langa aldan í þínu djúpi hló. Blunda vil ég í bárum þínum, þá bleikur loksins hníg ég nár, þar sem að enginn yfir mínu önduðu líki fellir tár; og þegar sveit með sorgar-hljóði syngur döpur of ann´ra ná, í jörmun-efldum íturmóði yfir mér skaltu hlæja þá. ] [ Krýndur situr öðlingur konungsstóli á, knéfallandi þegna lítur hann sér hjá; vilji hans er almáttkur, orð hans lagaboð; aldrei beygir sorgin slíkt hamingjugoð. Enginn skilur hjartað! Nær hauður byrgði húm, hátta sá ég gylfa í konunglegt rúm; með hryggðarsvip hann mændi auða sali á, af augum hnigu társtraumar. Hver skildi þá? Í aurasafni miklu ég auðkýfing sá, á ævileið hans hamingjan gulli nam strá; sorgin þeim gullmúr ei unnið fær á, er umhverfis sig hleður mæringur sá. Enginn skilur hjartað, því auðugan hal áðan sá ég reika í gullskrýddum sal; féllu tár af augum á fépyngjur títt; fölvan svip og harmþrunginn hver getur þýtt? Í björtum æskublóma blíða mey ég leit, brosti rós á vöngum, en sálin var svo heit, yngismanna vonandi augu störðu´á snót; aldrei nagar sorgin svo blómlega rót. Enginn skilur hjartað, því unga sá ég mey um engið græna reika í hægum sumarþey gleðisnauða, einmana, grátna með brá; geislar stóðu´af tárunum. Hver skildi þá? Blíða´ og unga móður í barnahóp ég sá, blíða, ást og von skinu augunum frá; móðurhjartans ástarmagn engin bugar neyð, aldrei verður nornin svo fögru blómi reið. Enginn skilur hjartað, því yngsta soninn sinn hún áðan lagði´ í vöggu með rósfagra kinn; hún andvarpaði sáran og alvald hjálpar bað, af augum sá ég tár hníga. Hver skildi það? Glaður situr unglingur góðvinum hjá, glóir vín á skálum, en yndi á brá; aldrei sigrar harmurinn vináttu´ og vín, vonarsól og gleði þar ómyrkvuð skín. Enginn skilur hjartað, því höfðinu hann halla döpru áðan að legubekknum vann, og svipinn hans hinn bjarta sorgar huldi ský sem sólu byrgði hreggflóki. Hver skildi´ í því? Allstaðar er harmur og alstaðar er böl, alstaðar er söknuður, táraföll og kvöl; skilið eigi hjartað vor skammsýni fær, né skyggnst inn í það hulda, sem nokkuð er fjær. Veröldin er leikvöllur heimsku og harms, er hryggðarstunur bergmálar syrgjandi barms. Lífið allt er blóðrás og logandi und, sem læknast ekki fyrr en á aldurtilastund. ] [ Hvar er í heimi hæli tryggt og hvíld og mæðufró? Hvar bærist aldrei hjarta hryggt? Hvar heilög drottnar ró? Það er hin djúpa dauðra gröf, - þar dvínar sorg og stríð -, er sollin lífs fyrir handan höf er höfn svo trygg og blíð. Þú kælir heita hjartans glóð og heiftar slökkur bál, Þú þaggar niður ástaróð og ekkert þekkir tál. Þú læknar hjartans svöðusár og svæfir auga þreytt, þú þerrar burtu tregatár og trygga hvíld fær veitt. Þú griðastaður mæðumanns, ó, myrka, þögla gröf! Þú ert hið eina hæli hans og himins náðargjöf. ] [ Nei, smáfríð er hún ekki og engin skýjadís, en enga eg samt þekki, sem ég mér heldur kýs. Þótt hún sé holdug nokkuð, er höndin ofursmá. Hún er svo íturlokkuð með æskulétta brá. Við eldblik augna kátra skín andlit glatt og ljóst. Við hljóðfall léttra hlátra sem hrannir lyftast brjóst. Hún er svo frjáls og ítur, svo æskusterk og hraust, að hver, sem hana lítur, til hennar festir traust. Og ef ég er með henni, ég eld í hjarta finn. Það er sem blóðið brenni og bálist hugur minn. ] [ Kvað er líf og kvað er heimur? Klæddur þoku drauma-geimur, þar sem ótal leiftur ljóma, er lifna, deyja´ og blika´ um skeið. Hvað er frægð og hreysti manna? Hvað er snilli spekinganna? Það er af vindi vakin alda, er verður til og deyr um leið. Allt, sem lifir, lifa girnir; lífið heli móti spyrnir. Þegar lífsins löngun hverfur, lífið er eðli sínu fjær. Hetjan, sem vill heldur deyja, en harðstjórans und vald sig beygja, lífi sínu´ ei lifað getur lengur, en meðan sigrað fær. Þungskilið er lögmál lífsins; um leiðir huldar gleði´ og kífsins flytjumst vér, sem fyrir straumi fljóti gnoð um sollið gráð. Sama alda allt fram hrekur; ýmsar stefnur lífið tekur; sérhvað eðli sínu hlýðir sínum föstu lögum háð. Ó, hve mjög um ævi-brautir ýmsar lífið særa þrautir, og í brjóstum ekka þrungnum óteljandi hjörtu slá. Ótal hníga angurs-tárin, ótal svíða hjarta-sárin. Ó, hvað þá svo aumum manni ást til lífsins vekja má? Það er vonin blíða´ og bjarta, best er friðar órótt hjarta, himinsæla´ í harma-geimi, helgast lífsins andar-tak, heimsins ljúfust leiðar-stjarna, ljós á vegum foldar-barna, böli mæddan hressir huga og harmi snýr í gleði-kvak. Þú af drauma-himni háum hjúpuð ljóma fagurgljáum o´n á lífsins ægi fellir undurbjartan geisla-staf; að þínum ljóma ávallt allar öldur lífs, sem rísa´ og falla, sækja fram í sjálfan dauða seiddur þínu brosi af. Áfram geisar alda-straumur; allt er lífið myrkur draumur sælublöndnum sollinn hörmum sjónhverfing og leiðsla hál. Allt, sem hefur upphaf, þrýtur; allt, sem lifir, deyja hlýtur; vonin lífs er verndar-engill, von, sem þó er aðeins tál. ] [ Kysstu mig, hin mjúka mær, því þú ert sjúk. Kysstu mig hin mjúka mær, því þú deyr. Glaður drekk ég dauða úr rós, úr rós á vörum þín, því skálin er svo skær. ] [ Fangelsið ber ég líkt og ljón, en fastar járngrindur forlaganna fjörið, viljinn og kraftur manna megna þær ekki að mola í spón. Mig dreymir oft að drottins hönd fangelsið slíti og fjötra sundur, en finn þegar rofnar svikull blundur að svo halda mér hin sömu bönd. ] [ Hefur nú in hvíta mjöll - hörðum fönnum sínum - Hlíðar- grænu falið -fjöll fyrir sjónum mínum. Hún mun eftir stutta stund stakkinn hvíta breiða yfir mína góðu grund og græna litnum eyða. Ef þar mæna ílustrá upp úr snjónum hvíta, norðanveðrin - eftir á - öll þau burtu slíta. Svo mun stytta sólargang, síðan lengjast gríma. Ég get ekki færst í fang að fagna slíkum tíma. Vísna minna vængjum á vil ég burtu leita þessu kalda fróni frá og fljúga í suðrið heita. ] [ Lóan er komin að kveða burt snjóinn, að kveða burt leiðindin, það getur hún. Hún hefur sagt mér, að senn komi spóinn, sólskin í dali og blómstur í tún. Hún hefir sagt mér til syndanna minna, ég sofi of mikið og vinni ekki hót. Hún hefir sagt mér að vakna og vinna og vonglaður taka nú sumrinu mót. ] [ Ástin bægir öllu frá, enda dauðans vetri, af því tíminn er þér hjá eilífðinni betri. Ástin þín er ekki dyggð, ekki skylda heldur, hún er ekki heldur tryggð, hún er bara eldur. Þegar ég hef þreytta lund og þoli stundum ekki við, kemur þú með mjúka mund, mýkir sár og gefur frið. Minnisstæð er myndin þín mér á nótt og degi. Hún er eina unun mín á ævilöngum vegi. ] [ Vor er indælt, ég það veit, þá ástar kveður raustin. En ekkert fegra´ á fold ég leit en fagurt kvöld á haustin. Aftansunna þegar þýð um þúsundlitan skóginn geislum slær og blikar blíð bæði um land og sjóinn. Svo í kvöld við sævar brún sólu lít ég renna; Vestan geislum varpar hún, sem verma, en eigi brenna. Setjumst undir vænan við. Von skal hugann gleðja. Heyrum sætan svanaklið. Sumarið er að kveðja. Tölum við um tryggð og ást, tíma löngu farna. Unun sanna, er aldrei brást, eilífa von guðs barna. Endasleppt er ekkert hér, alvalds rekjum sporið; Morgunn ei að aftni ber og ei af hausti vorið. Oflof valið æsku þrátt, elli sæmd ei skerði; Andinn getur hafist hátt, þó höfuð lotið verði. Æska, ég hef ást á þér, fyr elli kné skal beygja; Fegurð lífs þótt miklist mér, meira en hitt; að deyja. Elli, þú ert ekki þung, anda guði kærum; Fögur sál er ávallt ung undir silfurhærum. Spegilfagurt hneigð við haf haustkvölds sólin rauða. Bólstri ránar bláum af, brosir nú við dauða. Svo hefir mína sálu kætt sumarröðull engi. Er sem heyri ég óma sætt engilhörpu strengi. Fagra haust, þá fold ég kveð. Faðmi vef mig þínum. Bleikra laufa láttu beð að legstað verða mínum. ] [ Tækifærið gríptu greitt, giftu mun það skapa. Járnið skaltu hamra heitt. Að hika er sama og tapa. Sér til happs að hrella mann hefnir sín með árum. Flý sem helið fögnuð þann, er fæst með annars tárum. ] [ Allir krakkar, allir krakkar eru í skessuleik. Má ég ekki, mamma, með í leikinn þramma? Mig langar svo, mig langar svo að lyfta mér á kreik? ] [ Ef byggir þú, vinur, og vogar þér hátt, og vilt, að það skuli ekki hrapa: þá legðu þar dýrustu eign, sem þú átt, og allt, sem þú hefur að tapa. Og fýsi þig yfir til framtíðarlands og finnist þú vel getir staðið, þá láttu ekki skelfa þig leiðsögn hans, sem leggur á tæpasta vaðið. Og þó það sé best hann sé þrekinn og stór, sem þjóðleið um urðir vill brjóta, þá hræðstu það ei, að þinn armur er mjór, því oft verður lítið til bóta. Við þjóðbrautir alda um aljarðar skeið að iðju þótt margir séu´ knáir, þá velta þó fleiri þar völum úr leið, sem veikburða eru og smáir. Og stansaðu aldrei, þó stefnan sé vönd og stórmenni heimskan þig segi; ef æskan vill rétta þér örvandi hönd, þá ertu á framtíðar vegi. Þótt ellin þér vilji þar víkja um reit, það verður þér síður til tafar; en fylgi´ hún þér einhuga in aldraða sveit, þá ertu á vegi til grafar. ] [ Ég reyndi og reyndi, en það er bara ekki hægt. Og þó það sé synd, eins falleg og þú ert. Það væri brot á boðorðunum, að reyna að fegra geisla þinn. ] [ I walk on my path, it goes on and one. darknesss surrounds me. But still i walk. I sometimes see other people, walking on their own paths. They sometimes smile, but it changes, Changes into a horrid face, And they try to show me off my path. Then they continue, and forget about me. I still walk on, still on my path. To where I dont know. I just walk , hoping there is something. Something good, somthing good on my path.. But when the path will start to end, will there be anything there? will I find something or someone? , will I jump? I walk on, on the neverending path, it sometimes get narrow, so narrow I almost fall, I hang on, I somehow drag myself up, and I continue walking,. The path has changed, It isn´t as narrow. And i see people again. People comming near me. But are they the same as before? I try to hide, try to flee. But my path won´t change. IT stayes the same and goes the same path. : is there an end? it hasn´t ended yet... the path hasn´t ended.. the path goes on. I am scaredof them. They seem nice, but the past path, there they seemd also nice. Will they bee the same...? "I fear the worst. I know to well of the past path. A tear escapes my eye, it flows down and lands on the path. I stop on my path. I shake and cry until no tears are left. Remembering is hard, it means pain. Memories are something, something I want to dig and hide forever. Then, a hand is placed on my shoulder I freeze, I can´t move. Memories run before my eyes. I build up courage, look up. THose eyes, so full of kindness and sweet things. He is on his own path, it is a litte bit from mine, but it goes the same way, same way as my path.. He puts out his hand, smiling... his clothes are torn and dirty, but he shines like diamonds in the sun. He doesn´t know it, but I can see it. I can tell, tell how he hates his path, future and past path, but still he see´s, see´s the time to help me. I put out my hand, reaching for his... to be continued... ] [ I sit in my courner with dried tears down my cheeks. I stare from the darkness stare at the others Those others who live in the light They play, laugh and love They life their life. But I don´t belong there I´m different and "wrong" Once I crawled nearer But as a finger touched it entered the light A person saw me the person first smiled and told me sweet things It wanted something something I had so I gave for I trusted But I was a fool The face changed it laughed at me and I realized again I realized I had been used It had taken my treasure and now it was lost forever Frightened, betrayed and lost again I crawled back slowly into the darkness sat in my courner with my head in my chest holding my feet close I started crying Crying the pain and feelings and stupid´ness that once again I had been fooled once again I was shown I belonged alone in the dark. Sometimes I feel weak fat, stupid, boring and ugly people hate me, dispise me they dislike who I am and hate being around me while at other times I feel thin, smart, funny and beautyfull people like me they like the person I am and want to be around me But really... People see me as a wacky girl I talk to much,2 fast, 2 unclear. I say stupid things, catch on slowly and ain´t on the same level as they They tease me in fun think it´s a joke I won´t take closelly but I do. All those things you say all of them are true in eyes. I belive them and my heart it gets another crack which will evantually brake the whole. But i try to stay strong at least on the outside while some think I´m okey think I´m glad and happy they don´t bother to check don´t bother to dig deeper for if they did they would see the real me see how I feel at times but also the true me the part that loves others part that shows friends I care part that shows my honesty part that shows my feelings part that shows how brave I can be part that keeps all the rest But all these parts are locked inside. with a sign onthe door that says: "..Lost the key.." ] [ Things seem at the moment so sad dark cloudy mind hiding the sun with all it's might darkening the soul bringing pain and sorrow eating me alive... Inside it eats nibble nibble nibble eating the good memories leaving the bad momories behind clouding the mind , clouding the happiness happiness that ones ruled the soul But now the curtain is closed THe soul is closed for others but open for sorrow and bugs of darkness He came onces Came into my mind he smiled and took my hand he led me from the darkness that darkness that was about to swallow me he put his arms around me and darkness fell like the theator curtains and behind them was paradise happiness and love We sit on the ground in the arms of true love with our eyes closed hoping it will never end. I sit alone in paradise slowly it withers away my hand is empty and my arms are cold My body feels cold and empty no one around and hasn't been for times He look around, searching is he there? is he comming again? he is gone, not known if he returnes ... old leaves fly through the air into the darksky looking for a better place. ] [ Ástkæri vinnur hvar erum við stött, svo ráðvilt og ráðalaus, vér þótumst lifa um okkar hold og blóði hvað með vors sál sem svo má segja ráðvilt og ráðalausa það sama og við. Tökumst í hendur fynum vord leið leiðum sálar okkar saman svo vinnáta okkar mun aldrei rekast á brott. En hver á að halda þessi heimur vors endalaus er, austur vestur suður eða norður vér snúmst ú hringi og leiðumst þangað sem stopað er. vestur vér stopuðum, þá við göngum á mótti sól að morgini en undan heni að kveldi, vér höldum bara áfram að eilífu sem vonadi endalaus vináta er. ] [ Ég er hrædd við tilbreytingar, ég óttast líka að það sé of seint núna. Að hætta bara á allt eins og í veðmáli, ég meina, ekki er það þess virði, en ég meina ég gæti orðið lukkuleg, jafnvel rík og orðið þannig gömul. En spurningin er sú sama, Er það þess virði ? ] [ ég meina það ! ég gæti ekki orðið hamingjsamari, englarik út um allt, og það besta er að ég er í himnaríki, gjörsamlega áhyggjulaus við allt og alla, nú er það komið að Guði að gæta mín. Ég er búin að lifa lífinu fyrir hann. Þetta er eins og apaglens, englarnir eru eins og apar sem leika við mig, en aparnir eru samt miklu líkari englum heldur enn öpum, þeir geta bara alls ekki verið svona ljósir. Ég vildi óska að einhver annar úr plánetunni Jörð gæti verið með mér núna, nákvæmlega, á þessu augnabliki. ] [ Þetta var svo raunverulegt ! þetta var eins og kvikmynd ens og þetta hefði bara verið t.d. eins og ég hefði verið að drekka vatn. Svo grípandi einhvernveginn. Eins og það hafi verið að neiða mann til a vera áfram í skuggaveröldinni. Lifa í allgjöru myrkri, alltaf með ótta í hjarta. ] [ Himinninn litast dökkblár sjórinn tindrandi svartur Sólin bráðnar í gula línu hnígur undir sjónarrönd Í stinnum sjávarvindum stendur vitinn og horfir á síendurtekið leikritið á stórsviði geimsins Eins og þúsundföld bylgja sem nálgast ströndina birtist og hverfur hversdagsgleði manna Eins og vitinn gamli stendur maður og horfir á síendurtekið leikritið á baksviði mannlífsins Himinninn litast dökkblár eins og flauelsgardínurnar eru nú dregnar fyrir Hvíld eina kvöldstund ] [ Hlýi bær við fjörðinn fríða forn og nýr í róti tíða, blómum krýndur, viði vafinn veitir gesti frið og skjól. Útvið bjarta Eyjafjörðinn aldin fjöll hvar standa vörðinn ávalt börn þín önnum kafin elska ljóðsins höfuðból. Skapað hefur skjól til lista, skáldin hjá þér fá að gista, gróðurreitur máls og mennta Matthías og Davíð hér óspart jusu af andans brunnum ástsæl ljóð sem flest við kunnum. Í brjóstum áttu boga spennta, beindu skeyti að mér og þér. Heill þér gamla Akureyri, öll þín farsæld verði meiri hvort sem vetur ólmast argur eða sól um hauður skín. Megi börn þín vökul verja vígi sitt og stöðugt erja unaðsreit, þá eflaust margur ilsár leita mun til þín. Ásjón. ] [ ég sá heiminn í nýju ljósi hann í augun mín leit rauður á lit eins og eldur í arninum ég settist niður leit á hann á móti en þá fór hann að skyggjast þá áttaði ég mig á því ég hafði sest á hann ] [ Ef ég gæti, elsku vinur. Myndi halda, hjarta þínu. Hlúa að því, hlýtt og rólegt. Sitja með þér, skoða skyggnast. Vinur virðist, flæktur fastur Inná milli, króks og kima. Könnum saman, allt sem leynist hulu dulið inná við. Skoðum betur, aðeins innar. Klórum oss að kjarna málsins. Hver ert þar, hvern ert´að fela? Leynist þú kannski bak við ljósið? ] [ Ég hellti heitu te-i yfir öll okkar einnar nætur gaman, fyrirgefðu ef það særði þig Að minnsta kosti lét ég þig ekki blæða. ] [ I Golan gælir við gulnað hár skógarins vegalaus förumaður stendur í glugganum og hugsar um blóð félaga sinna seytla niður ræsið á Torgi hins himneska friðar. Kyrrð. Þetta gulrauða lauf þessi skilningsvana þögn þessi kviki dauði. II Þegar ég heimsótti förumanninn í dag lá honum útlegðin þungt á hjarta og hann, Kínverjinn gaf mér, Íslendingnum pakka af rússneskum sígarettum þar sem við ræddum málin í Stokkhólmi. Alþjóðahyggjan lætur ekki að sér hæða. ] [ Hendur bundnar orðum - bundnar ómæltum orðum. Slær á þig þögn? Ströndin handan tíma og rúms þig ber af leið þig ber enn af leið Hafreki. ] [ Ég horfi á hana þar sem hún situr. Lygni aftur augunum og hugsa, til þess sem var, þess sem við áttum. Hún er mér allt, en hún veit það ekki. Ég lét hana ekki vita. Ég horfi á hana. Hún horfir til baka eitt augnablik, brosir, roðnar, hlær. lítur jafn skjótt undan. En það nægði mér, þetta eina augnablik, lifandi, hamingjusöm, vær. Ég var manneskja og hugarangrið kæfðist í aðdáun. En langþráð þögnin stoppar ekki lengi. Hún gerir það aldrei. Hjartað mitt krafsar í bakkann, hrópar til hennar: Sara....ég vil, en ég get ekki. Sara....ég vil, en ég má ekki. Hefur þú heyrt,að elskirðu einhvern skulirðu sleppa takinu, því, sé ástin endurgoldin þá skili hún sér? Enda ævintýrin kannski alltaf alltof vel í bíómyndum? Ég veit það ekki, en í mínu ævintýri, höfum ég og eftirsjáin runnið saman í eitt, og ég stend hérna einsog asni. Ein, með fölnaða rós í hjartanu, sem blómstraði aðeins fyrir hana. ] [ Hitinn minn er einnig kaldur, nýstir um allan aldur Bræðir bæði og frystir í senn Úfinn sjór sem brýtur, vindur sem þýtur Byljar í huganum enn Hnefi minn er harður, göddum lagður Brýtur allt sem fyrir finnst Steypist líkt af fjöllum, illur öllum þeim sem honum hefur kynnst Faðmur minn er breiður, þungur og leiður leggst á alla fjarðarbyggð kröftug er hans reiði, kremur allt og meiðir fyllir þorp af stanslausri hryggð Orð mín er sem eldur, bruni samfelldur sem sprengja upp allan frið öflugasta öskur þeytir grjóti og ösku sem gefur engum grið Náttúran mín er svona höguð, illa upp löguð Andskoti ill og grimm ] [ Brotinn Hálfnaður á einhverju fallegu undursamlegu sem ristir skyssu af jörðinni fulla af blómum öngum þeirra og sólinni Hlýjum andblæ faðmlag lífsins söngvum fugla raddaða af ánni Brosið blýða breiða úr sér bíður eftir mér helmingurinn umvafið hjartarótum þeirrar einu sem ég elska ] [ Til hliðar. Heldur á bolta, í hvítri skyrtu. Er ekki skyrta. Svunta yfir dökk- bláum samfestingi. Frekar. ] [ Langar svo stundum að vita hvað klukkan er. Langar svo stundum að borða þig. ] [ Á botninum. Gul önd fyrir ofan mig. ] [ Einn. Kvenkyns skordýr. Vantar þér sundbol? Út á morgun. Ellefu slökkviliðsbílar. Skítugur pottur. Þrjátíu og átta. Næ því aldrei. Fullt af fólki. Fimmtíu og átta og fimmtíu og níu. ] [ Gekk of langt. Steig fram af. Lét þig efast. Þrettán dagar. Langt síðan. Nýir skór? Aldrei aftur. ] [ Hellir í skugga kaldur og blautur skjól eng'að síður. Kom þangað halur hrakinn og kvalinn af hríðinni laminn. Hent hafði gaman að sögum af fjöllum og hjálegu tröllum. Fjarri góðu gamni halur á fjöllum þreyttur á köllum. Einn síðla kvölds af veginum hraktist í myrkrinu lagðist. Í hellisskúta köldum laupar upp lagði vindurinn þagði. Fannst löngu seinna beinin ei falin draugurinn þaninn. Hellir í skugga kaldur og blautur hann gengur þar aftur. ] [ ... í samræmi við áföll ársins hefur nú verið ráðist í viðgerðir á sálinni... minnsti hluti heilans sem áður kallaðist Skynsemi og rekin var fyrir stórbrotinn misskilning úr litlum heilanum hefur loksins komið aftur og beðið um að vera endurráðin til að sinna þessum þörfu störfum sem legið hafa óunnin í alltof langan tíma. hægri hluti hjartans sem áður dældi engu blóði og var látið liggja meðvitundarlaust svo mánuðum skipti hefur loksins verið vakið með snarhasti aftur til lífsins og er það nú að nudda stírurnar úr hálfblindum augunum ...sem falla þó reyndar alltof oft í freistni. ... eftir þessar gagnlegu endurbætur og aðrar nauðsynlegar hreingerningar hefur hlutabréfaverð í Soul 473.820.514.696 inc. hækkað aftur... eftir að fyrrum hluthafi seldi sinn meirihluta er núna beðið eftir nýjum tilboðum og nýju hlutafé til að halda fyrirtækinu gangandi... ] [ loka aftur augum mínum stend upp úr sófanum teygi nokkra vöðva og anda djúpt... hoppa þrisvar á vinstri fæti hneigi mig fjórtán sinnum rykki bakinu aftur og veifa höndunum... sný mér í tólf hringi réttsælis og rangsælis tipla á tánum umhverfis borðið og enda ferðalagið með loftsparki... sest aftur niður í sófann kyrja með áhersluþunga: “9...2002...9...2002...9...2002 úhmmlala... úhmmlala... úhmmlala... heyhopsa HEY!" smelli fingrunum... opna augun ofurhægt aftur færi mig vongóður fram og kíki á dagsetningu moggans á borðinu... ... skakkt brosið breytist í fýlusvip og ég bölva svo þessu gagnslausa ímyndunarafli... ] [ mikið djöfull var hún sexý stelpan sem ég sá á afgreiðsluborðinu í Nóatúni... mig langaði einna helst að smyrja hana með bræddu súkkulaði þeyttum rjóma og skreyta með jarðarberjum... sleikja hana upp og niður bíta laust í forboðnu berin og veita henni blíðu mína... uhmmm...mig langar svo að æsa hana upp uns hún skelfur af fryggð og býður mér ...inn... þá mun ég ryðja mér leið stökkva á hana með beinstífan... -Hurðin opnast og ég hrekk upp úr dagdraumum mínum opinmynntur og eldrauður stama ég upp síæfðri ræðu minni: “G-G-Góðan daginn... ég kem frá Vottum Jehóva má ekki bjóða þér eintak af Varðturninum?” ] [ úr fjötrum skríða þau fögur og ber frostið skapar hlýju kringum hjörtu dansa dátt við skýjanna hvíta her deyja þegar sólin varpar björtu ...mér líður best í nóttinni svörtu... vatnið varpar spegilmynd á kinnar vonin dafnar aftur undir fjöllum ljósið stígur skrefið nokkuð innar sefar hjartað fyrir illum köllum ...mér líður best á fjallsins hvítu mjöllum... norðurljósin lýsa hjartað upp að nýju núna finn ég fyrir fornri hlýju ylur skríður upp og niður sinnið sýnin hressir upp á trega minnið... norðurljósin liggja köld við strendur lágt að baki stynur tapsár sorgin ég fer með þeim – sé þar nýjar lendur þagna loksins gömlu sáru orgin ...mér líður best er nálgast fjallaborgin... norðurljósin sóttu hjartað upp að nýju niðri fann það aldrei fyrir hlýju ylur skríður upp og niður sinnið sýnin hressti upp á uppeytt minnið... ... norðurljósin skinu svo skært í nótt norðurljósin björguðu mér í nótt í fjallasalnum er mér loksins rótt... hér ligg ég loksins aftur í næturskini björtu þegar veröldin okkar er dimm og köld blæs náttúran lífi í hjörtu... gleymdi mér í sjálfsvorkunn gleymdi mér í fjandans sorg núna kemur hún aftur náttúran og sefar mín sársaukaorg... ... norðurljósin skína aftur skært yfir borg... ] [ Ég hélt að mér tækist þetta Hvað kom fyrir? Ég var svo viss. En þá hrundi allt. Ég brosi ey lengur Ég hlæ ey lengur. Það er sárt að þurfa að upplifa þetta aftur. Sárt að kyngja þessum stóra bita. Að þurfa að loka sig af á ný. Helst undir sænginni svörtu, Þar sem engin sér tárin og þunglindið í mér.. ] [ Ég heyri klukkuna tifa. Ég get ekki sofið. Of margar hugsanir. Mig langar að finna þig, snerta þig, kyssa þig, elska þig. Skildi ég einhverntímann finna þig? Ég get ekki hugsað mér lífið án þín, en afhverju? Ég veit ekki hver þú ert. Það eina sem ég veit er að´þú ert þarna úti og þú ert ætluð mér. ] [ drengurinn hann drengurinn minn já barnid fallega er ordid karllegra árin lida eg er ordin 20 ara 30 ara 40 ara 50 ara 60 ara 70 ara 80 ara 90 ara 100 ara 103 ara daudastundin nalgast eg finn það þrystingur undir brjosti drengurinn minn hann er þarna hinu meiginn eg er farinn ad sja hann betur og betur med hverii minutu hann kalla mamma mamma komdu drifdu þig eg byrja ad kolna eg finn það en drengurinn drengurinn minn hann er her. ] [ Hvar ertu Púkinn minn? Hví lætur þú mig bíða hérna út í kuldanum? Þegar þú einn veist hvernig ég þrái mína. Grófa hráa og hömlulausa. Augu mín skjóta í ofboði neyðarblysum þú ert í augnsýn. Tregablandin tilfinningin yfirbugar mig og umturnast í rauðglóandi kviksyndi. Í eins manns höll enn á ný. Þú með lostafullar varirnar að vopni klýfur þér leið neðar niður eftir götunni. Ég horfi á þig koma fyrir hornið, býð þig velkominn á minnsta skemmtistað í heimi þar sem ég er dyravörðurinn. ] [ Nú legg ég augun aftur, ó, Guð, þinn náðarkraftur mín veri vörn í nótt. Æ, virst mig að þér taka, mér yfir láttu vaka þinn engil, svo ég sofi rótt. ] [ Fagurt syngur svanur í saurugum polli sjáðu hafið þar sem það hnyklar brýrnar í logndrífu hversdagsins. og maðurinn heldur að vatnið sé tært Fagurt syngur svanur í saurugum polli vindurinn blæs yfir hæðina og ærnar eru á beit eins og krakkar í Breiðholtinu Fagurt syngur svanur í saurugum polli. og maður með hatt og stífa tösku flytur inn konur sem dansa og duft í nös Fagurt syngur svanurinn Fagurt syngur svanurinn Fagurt syngur svanurinn og maðurinn sýpur á vatninu með sál sinni ] [ Ég sit hérna, stari út um gluggann. Fylgist með þungbúinni skýjaslikjunni, hlykkjast makindalega niður ásfjallið. Og ég stari, út í gráhvítan veruleikann sem á að kallast minn, og þó kannski ekki. Legg höndina á glerið, kalt glerið sem virðist skilja okkur að, mig og hana. mig og raunveruleikann. Ég stari á hana. Ég er hinum megin við gluggann minn.... ] [ Lífið er kvikmynd, leikið af stjörnum. Augu mannanna sem myndavélar, allir vilja vera leikstjórar og skipta sér að gjörðum annarra. Fylgjast með hverri hreyfingu en klippa til það sem þeir vilja ekki sjá. Allt á að vera fullkomið, yfirborðskennt. ] [ Í Vindárshlíð er gaman, og stelpur leika saman. Allan daginn, sveltur á þeim maginn ! Sumir eru kristnir og aðrir eru bústnir. því þeim er gefið allt of mikið af malt, þó sumum finnst það svalt. Stelpurnar eru samtals sextíu og tvær, en það er rosa fyndið ef ein verður ær. Því það er svo gaman, því í vindárshlíð, leika stelpur saman. ] [ Stjörnufylltur himinn brosir við mér. Býður mér heim Og ég gleðst Full af löngun Þrá í hjarta Sorgartár í augum - Því tíminn - er enn ekki kominn. Hvenær? ] [ Ef ég gæti gengið í þúsund ár leggði ég tafarlaust af stað í átt til þín ] [ Ég leit inn í fataskápinn að morgni úrill og sá að góða skapið átti eftir að þvo eftir gærdagsins ólgur og sjálfstraustið lá þarna óstraujað og krumpað af þér Svo ég klæddi mig viðkvæmninni Bara verst að þetta var eilítið eins og að klæðast nýju fötum keisarans það sá þau enginn nema ég ] [ Hugsanir án landamæra búa í skúmaskotum hugans. Hugurinn reikar Raddirnar í höfðinu á mér hafa sjálfstæðar skoðanir, segja mér til, ráðskast með mig og komast engann veginn að samkomulagi. Ég er skilin eftir ráðalaus, fangi í eigin líkama. ] [ Hún er æðisleg, og alls ekki treg. allt þetta gula allt þetta bláta, allt þetta littla allt þetta háa. Ekki er þetta grín, og öll þessi svín. Sem við elskum heitt, en getum ekki á þá reitt. Við gerum margt skrítið, og ekki er það lítið. Við mætum á svæðið, og fáum fævið. Við kynntumst þegar við vorum littlar, og okkur kittlar, enn í bakið, svo förum við uppá þakið. Þar við sömdum við miljón ljóð, um orð og hljóð, um himin og geim, og svo fórum við aftur heim. Þett er ekki búið, og ekki er aftur snúið. ég þarf að klára þetta, því þetta er ein skvetta. tinna þú ert betri en eitt og annað, sumt sem er bannað. Það jafnast ekkert á við þig, og það bætir mig. Allt cokið, allt er þetta flókið. Því þú ert betri en það, þess vegna skrifa ég það á blað. Til að segja þér, hvað mér, þykir vænt um þína sál, og ég set hana aldrei á bál. Aldrei myndi ég það gera, því þig mun ég alltaf bera. allt er þetta vibba flott, og kókið vibba gott. En einn hlutur er betri, hann er stærri en metri. Hann er einn og sextíu, og aldrei fæ ég klíu. Tinna mín, ekki gleyma mér, aldrei mun ég gleyma þér. Allar þessar ástarsögur, þú ert svo fögur. Vinátta okkur mun aldrei enda, nema einhver vilji hana senda. ein hvert annað, á stað þar sem allt er ókannað. Þessi vil ég ey gleyma, því ælta ég að geyma, í hendinni minni, og í hinni, hef ég tak á þinni. ] [ Bandingi hára tinda ,og hvassra vinda, rignandi vanda,eða ásæknara sanda. Líkþorn á fótum,uppskera á ríkisbótum, þrautseigja,þrjóska, og þrotlaus gróska, þolin,þýður,og veturinn býður ] [ Yrði ekki allt betra ef það rynni upp ljós í myrkrinu, þarna í augnablikinu þegar veröldin er sem grimmust og framkvæmdaaðilanum færi að frjósa hugur við framkvæmd gerða sinna?Ég reyndi lengi á torsóttu engi lífsins að lýsa upp með mínu sálarljósi á blóðvöllinn. Það var verst hve batteríin voru fljót að klárast,og hugur minn tæmast í hversdagsleikanum. þá reyndi ég að ganga í merktum bol,segja nokkur vel útlátin orð við alla sem vildu heyra,kasta jógúrt í sendiráðin,en það skeði ekkert. Ég er hér,króaður af minni eigin menningu og get ekkert annað.Geturðu fyrirgefið mér kæri heimsbúi? ] [ Einhvern daginn.... Þegar ég finn þetta eina augnablik, Þá gerast töfrar. Og ég, á eftir að, gefa þér, koss. Það verður MAGNAÐUR koss. Og þú, þú átt eftir að standa, orðlaus, og ég, brosi, og segi, Sagði ég þér ekki. ] [ Kvöldið var tært hugsanir okkar einfaldar þrungnar von. Við vissum ekki að kveðjustundin var framundan eins og hafið. Þú skildir eftir brostið hjarta fullt af kærleika. ] [ Það var vor og ég uggði ekki hvaða mann þú hafðir að geyma. Þegar ég var lítil var vorið fagurt. Ég vildi að ég væri aftur orðin lítil og þyrfti ekki að hugsa um þinn innri mann. ] [ Hún sagði frá hljóðfæri ástarinnar, efst á hálsinum væri stúlkuhöfuð með bundið fyrir augun. Stúlkan væri blind eins og ástin. Svo spilaði hún sónötur og dansa á viola d´amore. ] [ Jæja Guð, hvað ertu að malla Beikon og baunir? Má ég fá smá? Bara agnar ögn? Ekki það nei? Farðu þá heim til þín ... og láttu ekki sjá þig framar. ] [ Ég vissi að þú myndir spjara þig samt sveið mig Ég vissi að við áttum ekki samleið samt vonaði ég Ég vissi að þú myndir brosa á ný samt sá ég það ekki Í smá tíma var ég ekki viss kanski hafði ég breytt rangt En að horfa á þig eignast fjöldskyldu og verða hamingjusamur á ný var allt sem að ég óskaði þér !! Ég samgleðst þér :) ] [ Hugsunin hverfur ekki. Ég veit ég særði hjarta þitt. Því fæ ég ekki breytt. Það er svo margt sem mig langar að bæta fyrir. Ástin sem var svo sterk hvarf um leið og sopin var tekin. Nú treystir þú mér ei aftur. Hvað hef ég gert? ] [ Ást mín til þín er heitari en eldurinn. Þú veist hvað hann er heitur. Þú brennir þig á honum. Ást mín til þín er sterkari en stál. Þú veist hvað það er sterkt. Þú getur ekki beigt það. Ást mín til þín er alvöru. Þú veist hvað það þýðir. Henni er treystandi. Skiluru núna hvað ég elska þig mikið? ] [ Á djúpmiðum kasta ég orðum útfyrir borðstokkinn og hef í togi uns þau hafa teygað í sig hljóm hafsins. Á heimleiðinni er gott að vita gamlan þul bíða á bryggjunni. ] [ Þarna fer Marilyn með ljósa kollinn og dillar sætum bossanum í síðum, aðsniðnum kjól og fær fólk til að horfa á eftir sér suma fulla af girnd, aðra fulla af öfund. ] [ Fæ ekki trúað að eitthvað reynist lyginni sannara. Stúlkurnar við næsta borð ræða ástina, hálsbólgu, vorprófin. Þær eiga langt í land. Strætið gleypir fólkið hellulagt kviksyndi. Regnhlífar beina spjótum sínum að ósigrandi skýjum. Ég liðast með reyknum upp úr pípuhausnum og sest hljóður á blöð blómsins í glugganum. ] [ Morgungeislinn brýtur sig í gegn gluggann minn. Og leggur sinn fagra geisla á mína kinn. Söngur nýja dagsins dansar ljúflega við eyrun mín. Blíðlega opna ég augun úr draumi og lít á þessa guðdómlegu sýn. Þú sem sefur á hliðinni mér svo öruggur og frjáls. Ég kökkna yfir þessari dýrð og gleðitárin renna niður minn háls. ] [ Hvað er betra en samfélagsfræði??? friðarsáttmálinn... endurnýjanlegir orkugjafar... nýja testamentið... Og hvað er betra en tungumál??? enskar málfræðivillur... íslenskar setningaflokkanir... þýskar persónubeygingar... Júúú... það er eitt... Þú ] [ Það kemur svo hratt það gerist svo snöggt. Afhverju erum við ekki látin vita Því gat ég ekki kvatt. Allir á svo stuttum tíma þetta verður svo lengi að líða. Það er allt svo svart án ykkar hér. Svona er lífið við fáum því ekki breytt. ] [ Þegar þunglyndið sækir að sé ég ekki tilgang lengur. Líf mitt er svo innan tómt. Allt það erfiða sem bjátað hefur á er mér nú efst í huga. Ég vil ekki vera ein, get ekki verið ein. Þrái nærveru einhvers sem skilur. Skilur hvað það er að hafa átt erfitt. Komdu, komdu fljótt.. ] [ Svo undrandi komstu inn í þann heim, með örlitlu voli, sem aldrei kom meir, þú brostir þá fallega, blítt og skært, þú varst uppfull af lífi og hjarta þitt tært. Þú varðst svo fimm ára, ljóshærð og sæt, allt var svo mögulegt, já allt var hægt. Það lék allt í lyndi og aldrei seig sól, þú dansaðir á rósum, í rauðum samkvæmiskjól. En svo byrjaði stríðið við eftir fá ár, sál þín var brotinn og þú varðst svo sár. Þú leitaðir hlýju á vitlausum stað, en hvern hefði grunað að það væri eitthvað að? Líf þitt þú helgaðir þinni nýjustu ást, og þú hélst alltaf áfram þótt hún þér sárt brást. Ferðin var löng og lengdist æ meir, en það fattar það enginn fyrr en að lokum þú deyrð. Þó sögur séu skrifaðar, í bækur og rit, þá samt enginn veit um það erfiðis strit, að það sem þú þurftir að þola í mörg ár, það er öllum sama, þú þarft ekki að vera sár... ] [ Hver grætur með þér þegar þú fellir tár Hver grætur með þér þegar þú verður sár Hver grætur með þér þegar þú verður bitur Hver grætur með þér þegar þú í sorginni situr Hver grætur með þér þegar þú verður leið Hver grætur með þér þegar þú verður reið Hver grætur með þér þegar þú ert ein Hver grætur með þér þegar þú ert í lífinu sein Hver grætur með þér þegar þú verður gráhærð Hver grætur með þér þegar þú ekki hlærð Hver grætur með þér þegar þú á dánarbeði bíður Hver grætur með þér þegar þú ert fortíðinni miður Hver grætur með þér þegar þú ert ekki hér Hver grætur með þér nema þú með sjálfri þér ] [ Á að giska er þetta orginal mynd. ] [ hver andardráttur er tækifæri til að segja eitthvað hver sekúnda er þagnarinnar virði -samt vil ég hávaða -því vil ég þögn ég en þú? án þín er ég ] [ Ég heyri ekki lengur lágværu hljóðin, undirspil hugsana minna... Heita vatnið í pípunum eða hroturnar í barninu, bara brestina í huganum. ] [ Hugsa fyrir utan kassann, snýst í hringi, snýst á hvolf, trufla heilann, blikka rangeygð, fell á harðar flísar, ber steypuþakta veggina, lokuð inni. Öskra allar hugsanir út, hristi hausinn, hleyp á veggina, renn niður, sé blóð út um allt, horfi upp í loftið, klukkutímar líða. Hrekk upp, horfi til beggja hliða, sé rauðan penna á flísunum, tek hann upp og krota á veggina, heyri lykil stingast inn í skráargatið, konur í hvítum sloppum taka mig á höndum og fótum, Ég slæ þær í andlitið, þær slá mig. Ég sparka í þær, þær taka upp sprautu, stinga mig, aftur og aftur og aftur og aftur. Aftur og aftur og aftur og aftur og aftur og aftur... ] [ Veröldin víxlast í skjánum vofurnar speglast í gleri grasið sem lítur í ljánum liggjandi böðul á hleri Skjárinn mig rænt hefur skjóli skelfir og reynir að buga myrkrið úr morðingjans tóli mjakar sér leið inní huga Óttinn er lífinu ofinn öfugu meginn við skjáinn lokaður lemstraður dofinn lifandi þótt ég sé dáinn ] [ Í dag mun ég berjast, Berjast við mínar hugsanir, Læt það ekki berast, hvað ég hugsa í dag Það má ekki gerast, ekki núna. Er enn að berjast, Berst við hugsanir mínar, Má ekki segja neinum hvað ég hugsa Eða ég verð lokaður inni, Það má ekki gerast, ekki í dag Ég svitna, það er ekki auðvelt, Ég reyni, en það er ekki nóg, Verð að gera betur, verð að segja, Mínar hugsanir hef ég sagt þér frá Mátt ei segja, ekki í dag Mitt leyndarmál, mín hugsun Hef ég sagt þér, mátt ei segja Ekki láta loka mig inni Vil ei rotna, útaf mínum hugsunum ] [ Það kom í huga minn að, kannski gæti ég skrifað ljóð. það getur verið að ljóðið verði ekkert spes. En það er samt runa, runa af orðum. Og þannig eru ljóð, runa af orðum, sem engin nema ég veit hvað þýða. ] [ Þú spyrð hví ég dvelji á fjallinu græna; með brosi ég þögull svara því frjálst er mitt hjarta: Sem blómknippi berst með straumnum að ókunnum ósi, eins er minn heimur - handan seilingar þinnar. ] [ Ég labbaði mína leið Og enn mér sveið Í sárið littla Og í það var byrjað að fittla Þessar littlu hendur Gerði fallegar rendur Á hendina mína , Og þá fór það loksins að sína Að ég elska enn þig svo heitt, En þú gast aldrei á mit reitt. Ég hitti þig á miðri leið, Og enn var ég reið. En auðvitað hætti ég því, Áður en ég frá þér flý. Því lífið endar ekki svona, Eða það ætla ég rétt að vona. Við hugsuðum bæði, við vildum að ástin ræði, Hún lét okkur tengjast aftur, Þessi ógnarlegi kraftur. Klukkan var orðin mart, Og enda orðið svart. Svo við fórum inn, Og ég það enn finn. Innst inn í hjarta mínu, Og ég inn það í hjarta þínu, Að við eigum enn saman, Vá þetta er gaman. Við áttum slæma tíma, Við töluðum of mikið í síma. Allt er orðið gott í dag, Því núna er þetta okkar fag. Núna við kunnum að ekki á að særa hina góðu, Og alls ekki hina fróðu. Núna endar þetta, Því þetta er ein skvetta. ] [ ég er orðin sorgmædd, og við það hrædd. þetta er ekki lengur gaman, þegar þeir sem elskast eru ekki lengur saman. ] [ Eitt var það, og ekkert svar, Og í lífinu var far. Eftir marga, Því ætla ég aldrei að farga. Því allir voru þetta góðir tímar, Og allt þetta rímar. Ég sakna þessa tíma, Þess vegna ætla ég að líma. Ástina saman, Og þá verður kannski aftur gaman. En kannski bara seinna, Þegar lífið verður allt beinna. En ég reyni bara að vona, Að allt fari svona. Að lífið fari að óskum mínum, Og vonandi með ráðum þínum. Verður allt svo gott, Og vonandi lífið verði flott. En ég þarfnast þinnar hjálpar mikið, Því þú hefur mig svikið. En ekki ætla ég að hætta þér að trúa, Þess vegna ég byrja að ljúga. En það verður aldrei eins og áður var, Og aldrei fæ ég svar. En lífið er ekki búið, Og aldrei verður aftur snúið. Ég sakna þín og þinna, Og á það vil ég þig minna. Að ég er ennþá til í dag, Og það er þitt fag, Að mér að segja, Og lífið heldur aldrei áfram að þegja. Lífið segjir mikið um ástina mína, Og kannski líka þína. Ástin er aldrei búin, Og alltaf er hún snúin. Ástin er það góða, Og ekki eftir neinn sóða. En hvenar hún særir, Það mig færir. Stóru tárin, Og bætir í littlu sárin. Og þá mér líður illa. Og lífið mitt þarf að filla. Af ást og yndi, Og í ást ég oftast syndi. En ekki núna, Því ég gleymdi að mjólka kúna ;) ] [ Þú horfðir í augu mín og straukst sál mína með augum þínum mjúkum, löngum strokum Svo ég hélt að augu mín myndu skera rökkrið og lýsa ] [ Í bleki mínu býr draumur um að streyma inn í þig og leika um bera fætur skilnings þíns Í orðum mínum á lögheimili vera sem fæddist gleði minni og sorg og langar í heimsókn til þín Hugur minn er harðstjóri bleikveita og fangavörður sem telur að blettaðar tær og næturgisting orðvera séu vafasöm Nema í undantekningartilvikum ] [ Dettur á og drýpur, dranga og aðrar gnípur, fyrir landvætti og aðrar týpur Dettur á og drýpur, dilkakjöt og mjólk er sýpur, fyrir saklaus börn og grófar klíkur. Dettur á og drýpur, dreyri og tár er landið grípur, fyrir herraklippta og þær með strípur. Dettur á og drýpur, dýrlingar og aðrar trúar bríkur, fyrir okkur og þann sem svíkur. Dettur á og drýpur, djásn og bættar flíkur, fyrir hinn og þann sem er ríkur. Detta á og drýpur, réttlæti og dæmdar ýkjur, fyrir þig og þann sem lýkur. ] [ Ég leitaði að hinu eilífa ljóði þessu sem allir lesa og dáðst að en það var hvergi að finna. Ég leitaði í hugarfylgsnum mínum svo djúpt að ég hélt ég myndi drukkna í eigin hugarfílu, án árangurs. Ég leitaði á hafi úti í djúpum sjávar svo myrkum að lífið nærist þar varla en ekkert. Ég leitaði á engjum úti í sólarljósi og mánaskini en allt kom fyrir ekki. Ég leitaði í fylgsnum annarra sála í glaðværum börnum að leik og í myrkum sálum sem sjaldan sjá sólina en þar fann ég ekkert. Að lokum þegar ég var hætt að leita og óð um í rigningu og roki þá fann ég það djúpt sokkið í drullupoll. Ég tók það upp og þerraði setti það í ramma upp á hillu verst að stafirnir þurrkuðust út í bleitunni. ] [ ég er orðin sorgmædd, og við það hrædd. þetta er ekki lengur gaman , þegar þeir sem elskast eru ekki saman. Kannski var það 16 mars, eða það kjötfars. sem við átum í gær og þessi unga mær. elskar hann svo heitt , en getur ey á hann reitt. kannski varþað mátturinn, eða litarhátturinn. þetta var allt það sama, og hún vildi hann ey lama, með ástinni sinni, svo hún fór með hinni. og hittir hann, og hún það fann, að hann vissi eitt og annað, sumt sem var bannað. hann hana kyssti, hún hann fryssti, með þessum losta, hve mikið á ástin að kosta og ég vissi að hann var hinn eini rétti, og mér það létti, enn voru örlögin að ráða, og hvort hann vilji bara fáða ' ég held nú ekki, ég hann nú þekki, ekki mikið, en fyrir vikið en ég vissi að hún vildi bara hann, og hann það fann, þetta er um okkur tvær, okkur ungu mær. okkur er létt að særa, og okkur létt að færa, ástina á disk, við borðum hana sem fisk öll þarf ástin að enda, og hana þarf að senda, eitthvert annað, á stað þar sem allt er ókannað hún kannski fær ekki sín að njóta, svo hún nítur þess að fljóta, aftur til mín , svo ég get silgi yfir til þín ] [ Mér líður vel, en mig vantar kel. villtu koma að kúra, eða eigum við kannski saman að lúra. Þú ert sykur sætur, með fallegar fætur. ég er af þér hrifin, og enda ertu þriftinn. við borðum saman snakk, og spilum saman pakk. það var voða gaman, enda vorum við saman. en kannski eigum við að hætta, og við okkur lífið að sætta. því mér líður eiginlega of vel, og vil alltaf meira kel. Það er kannski gott á meðan á því stendur, og ég teygji mig í þínar hendur. þá vil ég kannski ekki meira, og ekkert fleira. En þig ég mun alltaf elska mikið, og ey hef ég þig svikið. en ég ætla þetta enda, og ástina mína senda. á þessa síðu, og í þessari fallegu blíðu. þá líður mér vel, og vantar ekki meira kel ;) ] [ Ég er ein heima ég ligg uppi í sófa og ég hugsa um þig. Það er á svona stundum sem ég sakna þín. Ég sakna þess að hafa þig nálægt mér, ég sakna þess hvernig þú brostir, ég sakna þess hvernig þú horfðir á mig, ég sakna snertingar þinnar ég sakna augna þinna ég sakna þessa að vera með þér á kvöldin ég sakna hlátursins. Ég vildi óska að þú værir hjá mér, ég vildi óska að allt væri eins og áður. Ég vildi óska að þetta hefði ekki gerst og ég vildi óska að þú værir ekki svo langt í burtu frá mér... Ég vildi að ég gæti horft í augu þín... Þó það væri í síðasta skiptið. ] [ Hve þungt mitt hjarta að kveldi leitar út, seiðar ströndin huga úr blárri fjarlægð. Þar lófa legg við löð,í von um fund, sem segir margt ef rétta orkan liggur. Að hvar er hver og hversu hér, haf og land muni verða manni tryggur. En leit frá þér að liðnu heitu sumri, er gára volg við fætur þínar söng. Og bláminn var og hét í þínu hjarta, sem nær og fjær allt á einum stað. Þú trúðir ekki spóahóp í fjöru, sem tvísteig þar og harmaljóðin kvað. það staðnar á fjöllum í þessum kyrra firði, á hvolfi í töfrageislum lágrar sólar. Ó,ég vildi að lófi minn að vængjum yrði, á þessari döpru stund og sólarþurrðar. Ég hópnum fylgdi til nýrrar dagsins skímu, sem lítill fugl með hlökkun eitt til burðar. Þú skynjar skýjafarg á fjallsins toppi eins og mara, en ofar henni fagran bláan himinn. Og við ystu rönd við sólargeisla flóði, þú eltir sumar í kringum sjálfan sig. Það er ekkert betra í svörtu myrkri, en að eiga í huga birtu og draum um þig. ] [ Uppruni okkar er þjóðarinn sómi Þetta mætti líkja við fallegu blómi sem vex og dafnar, opnar krónur sínar og að berja augum náttúrunnar verkar þannig að hjarta okkar hlýnar Best er að haga seglum eftir vindi rétt eins og halda á Olympíu kyndli Það er synd að hætta hálfkláruðu verki og hætta hreinsa illgresi í fallegu lerki Vekjum hug og hjörtu í kringum okkur til umhugsunar, þótt unglingurinn rokkar Stokkum upp spilin og leggjum út slag setjum á fóninn eitthvað fallegt lag ] [ Línurnar á blaðinu þýða ekkert, ljósið sem býr til þessar hugmyndir er orðið dökkt bráðum gefst ég upp að finna réttu leiðina sem mun taka mig burt. Hægri hliðin á flugvélinni er tilbúin í brotlendingu og ég veit ekki hvenær dökka ljósið mun koma aftur, það virðist hverfa í hvert skipti sem þú leyfir mér að opna augun. Veggirnir féllu niður, allt fullt af engu gerði andlit þitt ómögulegt að sjá. Það er oft tímar sem ég missi kjarkinn að reyna að tjá þessar asnalegu tilfinningar og í alltof langan tíma hef ég verið að búa til ónefnd skjöl þau hafa verið vistuð en ekki nefnd, ást tilheyrir ekki lýsingunni. ] [ Fálki flýgur yfir berg, eltir unga sína. Í snjófönninni liggja þeir, og aldrei munu fljúga meir, Blóðugir eftir kúlna hríðina. ] [ Snædrottning kemur dansandi, eins og ballettmær. Kuldaboli ræðst á lítil börn og hlær og hlær. Snjókarl kemur gangandi, með gulrót á nefinu. Förum í snjógalla! Og gerum engla í fönninni, Því það er gaman að lifa, sama hversu blæs á önninni. ] [ En það er ekki ég, því ég er annar. Því miður ] [ Þú sækir mig heim í draumum og ég öskra á þig að hætta þó svo ég viti að án heimsókna þinna væri minnið ekki svona gott- væri tilfinningin ekki svona sterk því eins sárt og það er að sakna vil ég aldrei hætta því ] [ Ég dansa til að gleðjast yfir deginum í dag Á meðan ég hef gaman og lifi syng ég skemmtilegt lag Ég lifi til lifa, og njóta í senn syng og spila, lofa guðs nafn Þó svo mótbárur lífsins vaka enn bæti ég gleðistrengjum inní mitt safn Úr hljóðum sálarkytrum mínum kalla ég hátt Mig langar til að njóta dagsins vera með guði í sátt Nálgast óðum úr austan átt hafgolan og hlýr andvari Ég segi við brimið og segi dátt með guði og mönnum ég lifi í sátt Það segi ég hátt, til að finna mátt Selurinn í fjörunni er kafari ] [ Það var um nótt, ég lá í laut við lygna tjörn, og horfði upp í hvolfþak veraldar. Tunglið óð í silfurskýjum, net úr svölum loga, geislandi þráðum, fínni en silki. Ólýsanleg þrá heltók mig......... Dulin..kvalin þrá eftir sjörnubirtu, fegurð sem vekur ólýsanlegan fögnuð. - Dásemdir alheimsins. - Slæðuþoka á siglingu sinni, útí fjarskann, hvislandi sín hátignarlegu leyndarmál að þeim, sem sigla á hafi geimsins. Straumrás æðri vitundar,full af kærleik hvislaði mjúkri stjörnubirtu í hjarta mitt. Ég heyrði dulda músik stjarnanna. Þá nótt, sem töfrasnerting, rak burt þoku sálar minnar Sem undarlegt laðandi ljós, og dýrlegir litir. Það hrærði sál mína og hinn kosmíski einmanaleiki. - Hvarf inn í ljósið. - ] [ Ég vakna upp, til að lýta glaðan dag reyni að hressa lyndið Syng og æfi, eitthvað fallegt lag og hlægja af þér, þú segir svo margt fyndið Að taka öllu með lyndinu einu og halda jafnaðarró fyrir þér held ég engu leynu af þér fæ ég aldrei nóg Mundu að dagurinn í dag er gjöf frá guði skapara himins og jarðar þótt ég fari á ystu nöf margir dýrka aðra guði þeir fara á fund Njarðar. ] [ ef þú værir ástin mín, þá væriru svo fín, að ég klæddi þig í marga liti, svo af þér læki sviti. Blár væri fyrir ást, gulur fyrir það sem ekki þarf við að fást, grænn fyrir það góða, svartur ef ég þekkti þig sem sóða, rauður fyrir hjartað, bleikur svo ég gæti í þig nartað. Þetta eru litirnir sem ég vil við þér líkja, og vil ekki þig svíkja, kannski eru þetta ekki svo fallegir litir, en mér það þykir. svo hættu að kvarta, ég fer bara í þig að narta. litirnir gera mér gott, og láta mér líða flott. en ég meina, ég er ekki með teina, þess vegna þú getur mig kysst, og mig frysst. og það núna, áður en ég hitti frúna. þetta verðuð hinn innsti endi, svo ég þér þetta sendi, á blaði, og ég vona að þú því raði´r. ;) ] [ ég vil alltaf vera númer eitt, því annars sökkar það feitt. þetta er kannski eikkað hip hop, svo ég segji stop. þetta á nefnilega að vera æði, en ekkert brjálæði. svo þú þarft við þetta að ráða, áður en þú byrjar að fáða. svo það er betra að hætta núna, áður en þú ferð að taka kúna, aftan frá, þá kannski ég hætti að spá. í þér sem manni mínum, svo ég spái í vinu þínum. það er þér að kenna, svo ég fer bara til svenna. það er kannski ekkert betra, svo kannski áður en það fer að vetra. þá ætla ég að eiga mér ást, og þú þarft ekki við hana að fást. ´því þetta er líf mitt, og ekki þitt. það verðuru að skilja, eða þarf ég að uppþylja? ég hélt nú ekki, ég þig nú þekki. en áður en ég þig svekki, og áður en lífið fer í kekki. þá þarf ég þér að segja mikið, því ég hef þig svikið. þú verður þig við það að sætta. og bara að hætta. ] [ Lítil stelpa biður um frið lítil stelpa með stríð sér við hlið hve illa má lítilli stelpu líða þegar hún þarf eftir frið að bíða. Á öðrum stað á hnettinum kvartar fólk yfir heimiliskettinum hve heppin þau eru þau ekki sjá að hús þau eiga og mat þau fá. En þetta litla stelpan skilur um það hún hugsar er hún brauðið mylur að hún vildi á litlu landi eiga hús og kúra þar eins og lítil mús Á því landi er ekkert stríð og engin ömurleg stórskotahríð bara hún fjölskyldan og friðurinn og fallegir sjávarniðurinn. ] [ Þegar úti allt er kalt og grátt þá eitt orð þú segir svo ósköp smátt þá inní mér ég finn fyrir il takk fyrir að vera til. Áhyggjulaus ég alltaf var en þegar ég sá þig standa þar þá fyrir víst vissi ég það fyrst að ég gæfi allt til að geta þig kysst Minni eini draumaprins þú ert og þú einn þetta getur mér gert en það sem ég er að meina er að þú ert ástin mín eina. ] [ lítil stelpa stendur við hlið, og hlustar á fallegan sjávar klið. henni dreymir um eitthvað nýtt, og hlýtt, Litla stelpan hugsaði um það sem hinum megin var, og fékk samt aldrei svar. hún bað ekki um mikið, en fékk ekkert fyrir vikið. greyið litla, það fór einhver í henni að fitla. eitthvað sem hún vildi ekki, ég hana nú þekki. en litla steplan sæta, reyndi sér að uppbæta. en kannski var þetta allt búið, og ekki frá því flúið. en kannski var lífið ekki á enda, og vildi kannski lenda, í hjörtum okkar, og hennar ljósu lokkar. munu kannski aftur skína, þá mun aftur hlína, í hjarta hennar á ný, og áður en það fer í frí. núna er allt orðið hljótt, og nú get ég þig sótt. hinum megin við sæinn, eða bíðuru hinum megin við bæinn. núna þarf ég svar, því ég hef lítið mar.´ á sálinni minni, og það lifir á þinni. núna er verið að spila lagið mitt, og það er líka þitt, við áttum það saman, og enda var þá gaman. litla stúlkan þetta ekki skilur, því hennar bylur, á hjarta, það er verið í það að narta. hún ekki alveg kveikir, heldur mér feykir. langt í burtu, svo ég fer bara í sturtu. þríf af mér þetta vonda dæmi, eins og góðum manni sæmi. en kannski það ekki virki. því hann var ljótur tyrki. þetta eru ekki fordómar, kannski þetta þannig hljómar. en það á ekki það að gera. því þetta hefur sitthvað að bera. littla stúlkan varð glöð, og byrjaði að lesa skemmtileg blöð. um ást og yndi, og vonaði að lífið myndi. kannski enda betur, heldur en í fyrra vetur. það er alveg satt, því þetta liggur alveg flatt. kannski littla stúlkan flytji bara í bæinn, eða rétt niðri við sæinn, það er þetta bláa, og hitt er þetta háa. ] [ í framtíð minni, henni vona ég að ég sinni. ég vil vona, að allt fari svona. ég vil eignast mann góðann, og alls ekki of hljóðann. ég vil eignast börn góð, og ekki er verra ef þau eru fróð. ég vil kannski líka bara eiga ást, svo ég hafi eitt og annað að við kljást. en ef þetta rætist ekki, þá fólk ég þekki. sem ég kalla vini mína, og það þarf ég ekki að sína. ég þarf líka bara knús, því ég er lítil mús. sem vill væntumþykju þína, og ég vona að þú viljir mína. allt þetta skiptir mig mikklu máli, svo heyrðu sáli, ég er hætt að mæta, því ekki lengur þarf mig að kæta. því ég lifi í vonininni minni, og þú lifir kannski í þinni, þá kannski hittumst við á enda okkar seinna, þegar allt verður beinna. kannski eigum við ekki að hittast strax, svo ég hætti við að senda þér fax. ég ætla bara að láta þetta gerast, og láta ekkert berast. en vil lofum bara hvort öðru, um fallega blöðru, fulla af ástinni okkar, og okkar ljósu lokkar. svífa sem band, inní annað land, land lífs og dauða, þú þarft ekki að skilja við kauða. við getum haft þetta allt í leyni því núna hef ég breytt sveini, hreinum í eitthvað ljótt, allt gerist þetta svo fljótt. en uss ég má ekki tala svona, og því ætla ég að vona, að síðan byrti þetta, en bara fyrir mig svo ég þurfi ekki ljóðið mitt að fetta ;) ] [ Orð. Stundum renna þau úr munninum og hafa sjálfstæðan vilja. Orð. Skapa mann að persónu, ímynd sem fólk skilgreinir. Orð. Særa mann og gleðja, hvern einasta dag. Orð. Orð. Orð. ORÐ!!! Helvítis orð. ] [ er eins og hafið veit ekki alveg hvort ég á að öskra falla að eða vera svona gjörsamlega kyrr -kyrr eins og hafið ] [ maður byrjar ungur og saklaus, með lítinn haus. littlar lappir líka, svo ég þarf ekki við þér að líkja. svo kemur fyrsta ástin stóra, sú unga flóra. gerði manni svo gott, og lét manni líða flott. svo koma unglingsárin, og bæta í litlu sárin. þá kemur ástin eina, og situr á bak við steina. svo kemur þetta nýja, og þetta hlýja. sem gerir allt svo skrítið, og lífið hættir að vera lítið. rigningin fellur hratt, og lífið verður matt. margt gerist, og þótt lífið hlerist. á milli staða, og á milli stórra blaða. þá er lífið alltaf á hreyfingu í senn, eins og allir þessir menn. þetta ljóð´á að þýða mikið, og fyrir vikið. þýðir það ekki neitt, og er það líka soldið beitt. kemur beint úr þessu litla hjarta. sem er búið að lítið narta. en samt alveg nógu mikið. því engann hef ég svikið ] [ Þetta ljóð ætla ég að reyna að nota, Sem töfra sprota. Ég gegnum lífið mitt, Og þú getur fengið að nota til að komast í gegnum þitt. Ég vil byrja á ástinni minni, Og líka kannski þinni. Eigum við ekki að hittast aftur, Þessi ástar kraftur. Ég vil þér fá að sofa, Því var ég búin þér að lofa. Eigum við að hafa gaman, Og lofa að vera alltaf saman. Næstu ósk vil ég nota fyrir vini, Og þeirra syni. Og þeirra dætur kannski líka, Þær má ekki svíkja. Ég vil hitta þessa gömlu vini núna, Og ekkert röfl um helvítis kúna. Vinir mínir voru góðir á meðan á vináttunni stóð, Og hún upp hlóð. Minningum úr þeirra æsku, Og þeirra þagmælsku. Lífið vil ég endurvekja, Og vera smá frekja. Og fá að sjá allt aftur á ný, Og þá ég frá lífinu flý. Þá mun ég kannski haldast á sama stað, Og skrifa allt þetta á blað. Næstu ósk vil ég nota til að hitta gamla ættingja mína, Og vona að ég sjái líka þína. Ég vil hitta þá á himinum bláa. Þessum ógnarlega og háa. Ég vil njóta þeirra lífsins með líka, Áður en ég byrja að fríka. Lífið hefði aldrei orðið svona án þeirra svo, Það þarf alltaf tvo. Næsta ósk á að fara í ástina mína einu, Þessari fallegu og hreinu. Er ég kannski að nota sömu óskina aftur og eyða henni í þig, Myndir þú gera það fyrir mig? Ég þarf að fá svar, Annars skiluru eftir mar, En annars er þetta bara draumur, Og lítill saumur. Sem mig langar að setja saman aftur, Og ógnarlegur krafur, Gerir það að verkum, Að ég stend í kverkum. Einum og sér, Að þér. Langar að endurvekja þetta, Því þetta er skvetta. Af ástinni minni, Og örlítið af þinni. Næsta ósk á að fara í það sem mér þykir vænt um í dag, Og það er þitt fag. Að mér að segja. Og láta mig þegja. En halt þú bara áfram að tala, Og hættu síðan að gala. Því ég er orðin þreytt, Og svolítið sveitt. En ég vil ekki eyða óskum, Svo er þetta ekki frá ljóskum. Þetta vil ég fyrir þig spila sem lag, Og það í dag. Því mig langar þér að syna, Ástina mína. Hún kemur kannski ekki vel út, Svo þú setur upp stút. Eg þig kyssi, Ég þig missi. En ekki á gólfið, Heldur inní hjartað. Sem er lítið nartað. Sem er gott, Og ansi flott. Fyrir þá sem hafa elskað áður og hina líka, Og láta það yfir ríkja. Að ástin er ekki það eina sem til er, Svo ég fer. Langt í burtu, Lengra en að fara í sturtu , Svo ég segji pass, Þá lít ég út eins og skass. Mig langar ekki að enda þetta svona. Svo ég ætla að vona. Að lífið fari betur, Heldur en í fyrra vetur. En núna er ég farin, Og eftir ert þú barin. Það er líka eins gott, Þú sagðir að ég væri flott. ] [ ég er af þér hrifin, og sundur rifin. af ást, sem þarf við að kljást. því þú ert það ekki að skilja, og ég þarf að uppþylja. að ég vil þig, og ég veit að þú villt mig. mér var það sagt, og í mig hragt. að ástin er það eina sanna, og ey þarf það að kanna. ég vil þig kyssa, og í þig missa. þessa stóru ást mína, viltu sína mér þér þína. ef þú villt það ekki, þá þig ég þekki. ég veit að þú ert doldið fyrir mér hot, og það er bara gott. því þá erum við á sama róli, svo ég ekki áfram spóli. þá get ég alveg stoppað, og yfir það hoppað. ég vil alla ást mína þér gefa, og villtu af henni þefa? ég setti á hana góða lykt, og ógnarlega þykkt. af ást og yndi, og ég vona að þú í ást syndi. ég hef ekki mörgu að tapa, svo ég bara hrapa. upp og niður, og svo kemur þessi kliður. sem á milli okkar er, og aldrei fer. hann er þessi endalausi líka, og áður en þú ferð að fríka. þá þarf ég þér að segja, að aldrei þegja. við erum sama típan, og ég þarf ey að klípan. því hann er það eina rétta, og ey þarf ástina mína að slétta. þú getur ekki tekið´hana í burtu í dag, og þá ég bara syng lag. um þig og þína, og líka mína. en æji þetta verð ég að enda. og þér að senda. því þú býrð lengst út í móa, og ég þarf á þig að hóa. æji ekki fara, og plís viltu mér svara. ef ég fæ ekki svar innan tíðar, þá fer ég upp í hlíðar. og bíð þar bara, og bíð eftir að þú mér villt svara. en kannski þú viljir það ekki, og þá þú mig svekki´r. ] [ í morgun sárið kúrir þú þig við brjóst mitt bert. Strýkur fingrum gegnum hár mitt hvíslar í eyra mitt " mamma..mamma." Og hvernig er hægt annað en að fagna því að enn einn dag fæ ég að elska þig af öllu mínu hjarta. ] [ Óæskilegum hugsunum reyni ég að sökkva í rykið sem ég strýk af borðum með tusku og ajax express. Viðra þær með hreinum þvotti í hægri golunni. Og jarðset með haustlaukunum í raka moldina. ] [ Aldin hetja höfuð ber hátt með raun og sanni Ég vona að jafn vel takist mér að verða að gömlum manni ] [ Lítla hnátan með ljósa hárið Lýsir um grámann Það er svo gott að elska svo heitt Einhvern sem á mann Augun svo djúp og botnlaust blá, brosið svo skært Ljúft er að leika við börnin smá, það hef ég lært ] [ Með áttavilltan áttavita sálarinnar finn ég skjól undir götuvita í myrkrinu frá myrkrinu Líkt og skip sem fær skjól í vari með leiðsögn frá sjálfsöruggum vita frá skerjunum Úfin þokan mjakar sér leið um myrkrið og sviptir hulunni af eigin andliti í ljósinu frá götuvitanum Stingandi regndroparnir falla ekki af himninum heldur hanga í þokunni í leit að frelsi frá þokunni Sæt lyktin af myrkrinu og þokunni og regninu sníkir sér far með golunni frá götunni Þolinmóð golan ýtir öllu blíðlega á undan sér og ég vona að hún nái að grípa sálina frá mér Eina hljóðið sem berst úr myrkrinu er yfirþyrmandi ýlfrið sem kemur að innan frá mér Þegar ég yfirgef skjól götuvitans vona ég að þú hafir orðið þar eftir í eilífu skjóli frá mér ] [ Í beljandi hvirfilbylnum greini ég ekki eigin röddu ] [ Í Hó´se Ming leika börnin sér meðan mamma sendir mynd af sér Til lengra í burtu en Fjarstakistan alveg þar sem ísinn er býr hann nýi pabbi minn Í Hó´se Ming gráta börnin mín því ein í burtu hún mamma fer Því lengst út í hafi á Ísalandi hann hvíti pabbi vill ekki fá börnin sín Í Hó´se Ming borg eru börnin ber og bíða enn að elsku mamma sæki sig ] [ ég bið um frið, og vona að ég geti aftur legið þér við hlið. ég bið um eitthvað gott, og það þarf alls ekki að vera flott. ég bið um líf, og svo ég svíf. langt í burtu frá öllu saman, kannski þá verði gaman. en ég meina líka að það þarf ekkert að vera betra þar, og ég skil kannski eftir far, í þessu littla landi mínu, en bráðum kem ég og verð í þínu. ég vona að þú viljir fá mig, því mig langar að sjá þig. en þú ert það eina sanna. og ástina mína þarf ey að kanna. ] [ ég á mér lítinn draum, og það þarf lítinn saum. til að festa allt það saman, að aftan og að framan. draumur minn er um lítin dreng, og ég í honum heng, daginn inn og daginn út. og set upp stút. til að hann að kyssa, og láta hann mig missa. inní sitt hjarta, þetta littla og svarta. þessi litli draumur minn, þarf að hætta um sinn. því þú hefur mig hætt við, og ég sem um frið. friðurinn helst ekki lengi, svo ég upp hengi. myndir af fallegum munum, og ástar drunum. sem ég setti á mynd, af lítilli kind. sem lýsir alveg hvernig mér líður, og hvernig mér í litla sárið svíður. ] [ Með æsku í augum votar varir brosa Tælandi dreymir kvöldið Í kvöld mun hún finna riddarann sinn á rauða bílnum Með riddaranum á rauða bílnum keyrði um á allt að ljóssins hraða En ævintýrið með riddaranum á rauða bílnum endaði Á litlum götuvita Svo með óttan í augunum þurrar skelfdar varir brosa fram í rauðan dauðan ] [ Borgarbarn blásvart á að líta gleymt í dagsins amstri eitt það situr í skugga skoti grætur bara og bíður að senn komi nóttin með sinn hlýja heim ] [ Ég læt hugan reika til fjarlægra geima og stroka út fortíð dauðans nið Ég ræki minn boðskap og hugga mig við þína návist og auðmjúka dýrð Nú veit ég ei gjörla hvort framtíðin hlær Fer ég á honum Sörla og brokk' honum niðrí bæ Ég sæki minn poka og honum ég loka Hef hugsað mér að raka inn peninga Ég beiti seglum þöndum og hnýti mínum böndum við vindnum og golunnar frið Ég tek mig taki að í fingrunum braki og huga að lokuðum gleðinnar dyr Ég strík mínum skjöldum eins og við sömdum og þú veist að ég gaf þér grið. Nú hugsa allir um sitt eigið skinn Teljum það á hendinni, fingurnir fimm Þú skalt ei bogna þótt börnin ei sofna Þau tala sitt fallega barnamál Við styðjum við bakið það er úr huganum rakið Af neista verður gneistandi bál. ] [ ég bað til guðs um betri tíð með blóm í haga ég bað til guðs um frið og ró og frjálsan aga ég bað til guðs um gilda vasa og góða daga ég bað til guðs að lækna sár og svanga maga ég bað til guðs og svarið var "það er enginn notandi með þetta símanúmer" ] [ mig langar að troða allri sorginni sem þú hefur valdið mér í svartan pott mig langar að blanda síðan samanvið tárunum sem ég felldi útaf þér mig langar að æla í pottinn öllum áhyggjunum sem þú ollir mig langar að bragðbæta grautinn með brotum úr því hjarta sem þú splundraðir mig langar að neyða þetta oní þig hvern einasta dropa með bros á vör mig langar að líta í augun á þér og spyrja þig pent hvernig þetta hafi bragðast ] [ á bleikum skýjum svíf ég í blautum draumi flýt ég í köldum raunveruleika vakna ég ] [ lostinn var til staðar löngunin líka stemmningin einnig og ég var þar en það vantaði þig ] [ ljómandi af ánægju laumaði hún kossi á kinn mína og þakkaði fyrir nóttina lamaður af ótta laumaði ég mér út um bakdyrnar og reyndi að rifja upp nóttina ] [ svo sæt rétt á undan svo æsandi rétt á meðan svo fullkomin rétt á eftir ] [ með ryðfrítt hjarta og sjálfsplittandi sál tekst ég á við glænýjan dag með silfurbros á vör ] [ sökum ótímabærs sáðláts létu milljónir lífið og enduðu í lakinu tveggja er enn saknað ] [ ég tek lítil skref, því ég hef, enga ástæðu til að gera eitthvað annað, nema ég sé að labba á eitthvað ókannað. þá vil ég ekki fram hjá þér ganga, og hjá þér vil ég hanga. því ég hef stóra ástæðu, já bara hlæðu. þú ert það eina sem ég lifi fyrir núna, nema ég lifi fyrir kúna, sem ég geri nú ekki, ég vil ekki að ég svekki. elskan, þetta er allt að koma eða ég ætla það að vona, að allt fara svona. að við byrjum saman, og þá verður sko gaman. en ef þú vilt ekkert frá mér, þá skal ég samt alveg´gefa þér. en þú verður mér að lofa, að hjá mér sofa. því ekki ég lengur bíð, og ekki lengur lífið líð. því að ég hef margt að gera við tímann, allavega annað en að tala í símann. oki ég er hætt, og við það get ég mig sætt. jæja þú villt mig ekki, ég vil ekki að þú mig ] [ mig langar til að dansa dansa um í snjónum dansa um á hvítri breiðunni dansa ein í kyrrðinni heyra brakið undir fótum mér sjá fótsporin myndast þá skiptir ekkert máli lengur nema snjórinn og ég ] [ lítil tunga og litlar varir sjúga lítinn þumal heiðblá augu og hrafnsvart hár rjóðar kinnar og mjúkur vangi lítill geyspi og lítil augu lokast þú sefur litli engill ] [ þú strýkur vanga minn fitlar við hár mitt og horfir í augu mín þú tekur um hönd mína kyssir mig brosandi á kinnina og heldur mér fast ekki sleppa ekki vakna ] [ ég læt höfuðið hvíla á höndunum það er blek á fingugómunum og neglurnar eru stutt klipptar ég sný upp á hárlokk og stari á töfluna cos(x)= . . . littlir bréfmiðar ganga stelpurnar hvísla strákarnir tala í lágum hljóðum sin(x)= . . . ég bít í vörina og stari á töfluna bjallan hringir og það ískrar í stólunum kennarinn reynir að yfirgnæfa kliðinn ég læt höfuðið hvíla á höndunum og stari út í tómið ] [ Innri rödd mín segir snjallt Taktu í móti sérhverjum vanda Ytri aðstæður segja kalt Þú getur aðeins súrefni andað Fjallið fagra og hlíðarnar bröttu þeim þeytist ég niður kaldur Ég fer uppá hæsta tind uppá silluna svörtu Hver verður minn örlagavaldur Á trjágreinum þröstur syngur lag hann leikur sér með ungunum Hann ávallt lítur bjartan dag byrjar snemma á morgnunum Himinn heiðblár fagur er Ég lít út í blákaldan himingeiminn Í kjallaranum fel ég mig í sýruker þar hýsist ég, kaldur og gleyminn. Spádómstíðindi huldukvenna þær leggja út spilið og lesa í því Þær fá ærlega á örlögunum að kenna kannski þú fáir sumarleyfis frí ] [ Veturkonungur er kominn og heilsar útigangsmönnunum Þeir frjósa í hel, en guð þá frelsar þá frá drykkjukönnunum Þeir hafast af í snjó og kulda drekka á stút sinn góða drykk Stundum í vímu þeir vitleysu muldra heila flösku þeir drekka í rykk Kalinn og svangur, biður um skjól auralaus eins og fjaðralaus svanur Kannski þeir finni sitt fagra ból enginn þeirra er kuldanum vanur. Stríð og friður skiptast á vopnin eru á hendi Castro á Kúbu með eigin augu sá guð hann frá himninum sendi ] [ Sagan endurtekur sig enn og aftur hvernig lífið fer Ég ætla raunverulega að standa mig og þramma eins og í hermaður í heilögum stríðs her Trúin á lífið og framtíðina það er hugsjón og frami í öllu Hvað gerist með eilífðina Ég ætla mér að styðja mína stöllu Frami og frægð er eins og gamalt vín það er sætt og fínt á bragðið Ég ætla mér að tína berin fín´ Ætli íkornarnir hafi það nagið Stundin er mikilvæg milli okkar við erum eins og nýslegið par Ég hef séð þær nokkrar, á hestinum brokkar Í stjörnunum er okkar svar Erfið ákvörðun og dýrmætur hringur ég gef þér mitt hjarta og sál Innri sál mín fallegt lag syngur það neistar hið innra þar er mikið bál. ] [ Regnið bylur á glerinu og ég krýp í gluggakistunni. Ég legg ennið við kalda rúðuna og hugsa um hlýjuna í faðmi þínum. ] [ Ástin kviknaði í augunum og flæddi inn í höfuðið hún streymdi niður handleggina og út í fingurgómana hún fossaði inn í magann og myndaði þar hringiðu í hvert skipti sem augu okkar mættust á göngunum eða á leið að kennaraborðinu hún barst með heitu blóðinu út í fæturnar sem vildu skyndilega valhoppa þegar enginn fylgdist með hún fyllti varirnar lífi og vakti þar bros, jafnvel þó til þess væri ekki annað tilefni en æskan og ástin hún seytlaði inn í hjartað og kveikti þar lítinn loga sem hlaut að magnast eða slokkna og senda stígandi reykjarslæðu til himins. ] [ Fákurinn étur upp malbikið eins og búlimíusjúklingur Ælir því jafn óðum Vetrarmyrkrið grúfir Vindurinn öskrar Regnið lemur rúðuna Áfangastaðurinn er alltaf sá sami Þessi staður dauðans, þar sem þróttur minn fjarar út Þar sem sálin er markvisst undin og vökvanum tappað á flöskur sem svo eru tæmdar í klósettvaskinn ] [ Gefðu þér leyfi að lifa lifandi, núna sjá Það er betra gerðu það núna upplifðu leiðina frá. Á meðan er gott að skrifa skapa eitthvað á blað meira, meira meira. Vera á leiðinni að. ] [ því er ég ein í þessum stóra heimi aðeins peð í tafli alheimsins eingin tilgangur líð áfram l´kt og dáleidd gegnum gleði sorgir og harm felli ekki tár brosi ekki skil ekkert eftir og þegar ég dey man eingin eftir mér verð bara enn einn líflus kross í kirkjugaðinum með hinum hundruðum peða sem voru á undan mér ] [ sveipir alls hins illa fölsk bros frosin tár tilveran grá hjartað kallt sálin tóm kveikji á kerti ekkert ljós bara mirkur hjartað steinn sálin svört horfðu í augun sjáðu þaug eru tóm... ] [ ég sit hér ein og horfi á fjarsjóð hjarta míns sé allt svarthvítt finnst eg vera að kafna reyni að tala ekkert heirist sit alltaf ein hugur minn leitar heim eg var ein af þeim sem ætluðu að sigra þennan heim en nú sit eg bara ein ] [ Stundarkorni síðar er átti ég við þig tal Fann ég til friðar í ljósleitum hátíðarsal Þú fékkst mig til að hugsa hve dýrmætt það væri Að hætta vera að því að slugsa Hún sagði : Þú ert minn kæri Þú skildir eftir op á sálu minni þar sem vindar og lægðir lágu um Þú sagðir mér að allt ég kynni og að ég ætti mér stóran viskubrunn Það var eins og við manninn mælt er þú sagðir þessi orð Þú hafði alla djöfla úr sálum minni kælt Það var eins og að leggja spil á borð Engu hafði ég að kvíða fyrir ókomna framtíðina Kannski ég forsíðu muni prýða og ávarp þingmannsins hlýða það sem Gunnar sagði um Hlíðina Magnaður seiður örlaganorna kom uppá pallborðið Við því ætla ég að sporna og ýrkja um það atómljóðið Framtíðarhorfurnar eru góðar ég sé það í spilunum Eru örlaganornirnar orðnar óðar hjá álaga miðlunum Bjart er yfir þingmannsræðu forseti alþingis hlustar á hans mál Hann álýtur gagn af fuglahræðu í garðinum þar sem ræktað er kál ] [ eitthvað bír í mer eitthvað stærra en ég fékk mig til að hugsa hvað get ég gefið af mer get ekki lengur falið mig gríman virkar ekki lengur reyni að sja raunveruleikan en á langt í land mér langar að gera svo margt hef svo margt að segja en mer hefur alltaf verið kennt að þegja brosi og reyni mig að beigja en langar að öskra og deyja líf mitt líkt og stundar glas ekki korn eftir og eingin tilgangur í að snúa við langar þig að elska en það hræðir mig að hugsa um þig því eg þekki ekki sjálfa mig ] [ Með opin huga fyrir nýjum straumum það gæti opinberast í næturdraumum um nótt huldukona kemur og mælir Þú allar ástmeyjar þínar fælir Það er sannleikskorn í þessum orðum jafnvel þegar forseti deilir fálkaorðum Hann undirbýr daginn með göngutúr og konan hans fer á megrunarkúr Í firndinni höfðust við Víkingar uppruni okkar er þaðan Í þessu ljóði nota ég líkingar Ég ætla að gera þjóðarleiðtogan glaðan Með bros á vör, og jafnaðargeð hann mælir við þjóð sína Hinir frambjóðendurnir eru á tafli peð Nú tekur hann flugið til Kína Ég skil ykkur góðu Kínverjar þið eruð auðmjúkir og góðir Kannski ég fari einnig á fund Rómverja Kardinálarnir eru fróðir ] [ Til að finna traustið mitt, treysta skaltu þínu fyrst. Innsæið og allt það hól, engu skiptir sanna sól. Heiðarleiki er allt sem þarf, ekkert fela, ekkert hvarf. Allar tölur á upp á borð, upplýsingar og hvert orð. Sumir vilja ala efann, en kynda undir vafann. Glymja hæst sem vaða grynnst, um annarra afrek lítið finnst. ] [ Kenndu mér að spinna ull svo úr því verði peysa Förum í námur og gröfum gull fjármálin verðum að leysa Förum til Tíbet og treystum á Guð göngum á fjallatindinn Að klýfa og streytast er mikið puð Þar hýrist á klettasillu geitin. ] [ Stend fyrir allra augum brennandi en einn sér hinir stíga í öskuna á meðan hann tekur flugið með mér ] [ Það lítill þröstur sagði mér, ungur maður næstur fer, annað hlutverk honum ætlað er á æðri stað í heimi hér. Með sálu hans mun ég brátt svífa eigi ber þó neins að kvíða, því skapari vor mun hans bíða og kalli meistarans ber að hlíða. Ég kváði og spurði hver það er sem kalli hans næstur hlíða ber? Best er að vita eigi hver næstur fer þá þrösturinn litli svaraði mér. Og nú ert það þú sem ert allur! Þó eigi lífsdaga saddur, brátt varstu frá okkur kvaddur, ég veit þó hvar þú ert staddur. Sárt mun mér það svíða að þröstur varð með sál þína að svífa bróður minn ljúfa, fagra, blíða. Þú á betri stað munt okkar bíða. Nú söknuð ber að og einsemd. Ég bið þig þröstur með vinsemd, að ástar kveðja verði honum send. Kærleikur og gleði verður við Kristján kennd. Þakka þér bróðir hin ljúfustu kynni. Minning þín mun aldrei líða mér úr minni. Sæl vorum við í návist þinni, ég kveð þig í hinsta sinni. Þröstur litli taktu við kveðju minni…. ] [ Þú vitjaðir mín í draumi tókst í hönd mína svo þétt lést mig vita í laumi að það væri satt og rétt. Ég hitti þig undir bjarginu þú faðmaðir mig svo ljúft ég kvaddi þig við hafið sem er svo breitt og djúpt. Í svarnættinu þú lýstir kærleikur var þín gjöf sorgin enn hún nýstir ég stend við þína gröf. Ef englar eru menn þú ert nú einn af þeim þú hefur fundið friðinn loks þú ert kominn heim. Í vitund minni í nótt þú lagðir hönd á hjarta mér við hittumst allt var hljótt þú ert ennþá hér. Brostið er mitt hjarta því ég sé þig ekki meir sál þín ljúfa bjarta ég veit hún aldrei deyr. Yfir mér þú vakir þú vitjaðir mín í nótt úr hjarta mér takir allt sem ekki er rótt. Þú opnað hefur gáttir úr hjartans fylgsnum streyma sem aldrei grunaði að ég átti en þú veist hvað hefur að geyma. Þú sagðir mér líka í nótt hver veginn vísað hefur þú þurftir að fara fljótt til hans sem allt gefur. Vært þú nú sefur og svífur um alvalds heim í örmum hans sem allt gefur hvílir og felur þeim. Líf þitt og önd samt þú vitjar mín rétt í þann mund þú veist ég sakna þín. ] [ hann vildi sjá, og reyna að fá. eitthvað nýtt í himinn geiminn, svo hann læt konur fæða börn í heiminn. óskin mín rættist enn og aftur, því minn ástar kraftur. lét mig hugsa til baka, og þá ég byrjaði að raka. saman ástinni minni, og gerði hana að þinni. ég setti hana á bát, með gát. svo hún vaggaði ekki of mikið, og hún þurkaði saman rikið. af þessum fallegu munum, sem varð að drunum. ég reyndi þær að stoppa, og byrjaði að hoppa. ég reyndi eins og ég gat, og ég sat, og beið eftir ástinni til að koma til mín, þá kannski kemst ég til þín. guð gerði það að verkum, og sá fyrir klerkum. sem eru bara fyrir mér, og fyrir þér. því við tökum mikið pláss, og liggjum í káss. við viljum það gott hafa, og drekka epla safa. ég reyndi allt mitt besta, og reyndi að festa. ástina mína við hjarta þitt, svo þú sért ávallt við mitt. en ég meina, ég vil þetta bara reyna. svo ef þú villt ekki neitt, þá hef ég bara þessu fleitt. það er í fína lagi, og tómur magi. gerir allt svo gott, og ég meina þú ert nú doldið hot. leið og þú mig snertir, þá þú mig hertir. gerðir mig að betri sálu, og ekki að einhverri gálu. elskan, ég þig elska mikið, og það fyrir vikið. ekki fara í dag, ekki fyrr en ástin er komin í lag. ég elska þig meira en allt annað, og þú munt aldrei geta það sannað. því lífið mitt, er fyrir fram hannað. ] [ Tilvera mín er sem biðukolla á næðingssömum stað. Hún reynir að berjast við vindinn en til hvers er það? Ég er lítið fræ á biðukollunni, einn ókominn dag mun vindurinn feykja mér burt. Þá lendi ég á köldum steini -visna og dey. ] [ Heimur haturs fylltur Kærleiks snauður spilltur. Heimskir menn veröld vora byggja Þeir bara sífellt þiggja Allt frá öðrum taka Ekkert gefið til baka Auðlindir, peningar, líf manna Allir á þönum vegna sífelldra anna. Sjálfselskir menn við völdin Styrjaldir bætast á söguspjöldin Þeim er sama um allt og alla Nema sig og aðra ríka kalla. Drepa , myrða hina Þjáningunum aldrei linna Sífellt stríð hvert hvarf friður? Gefst enginn griður? Enginn af sér elsku gefur Gegnum lífið fjöldinn sefur Við lifum í gervi heimi gríðarstórum geimi Tölvur taka yfir Sjónvarp skipar fyrir Vinna sofa borða Þannig má líf margra orða Mörg stríð háð Líf út máð Þeir stríðin heyja Svo sálir deyja Börn drepinn hvern dag Og við spyrjum hvenær kippist þetta í lag? Margur lífi fyrir frægð fórnar Sjónvarpstjarnan stjórnar Útlit það eina sem menn í pæla Stúlkur væla Éta og æla Svelta sig sem fangar Sífellt svangar Í fegurð langar Sár á hjarta Vantar von um framtíð bjarta Sjá bara það svarta Mun þessi heimur lagast? Eða mun það til heimsenda dragast? Eflaust meðan heimska og hatur ríkir Löndum stjórna Bush og hans líkir Ef bara kærleikur réði Veittist hvíld frá stressi og streði Hvað er að þessum heimi? Hatur á sveimi Sálir sífellt þjást Hvert hurfu kærleikur og ást? ] [ lífið, þetta orð á ljóðið mitt að byrja, og ekki um það spyrja. lífið er það sem ég elska meira en allt, og það þúsund fallt. ég hef mínar fætur, sem ég nota sem rætur. til að tengja allt þetta góða saman, þá verður kannski lífið gaman. ég vil lífið mitt sé ekki eins og annars manns líf, því ég í öðru lífi svíf. ég vil samt líka alveg gráta, og líf annars manns máta. en það er kannski ekkert betra, þá kannski við skiptum áður en það fer að vetra. allt mig á lífir minnir, og allt það aðhlinnir. lífið er það eina góða sem til er, og það aldrei fer. nema þegar kannski einhver sem þú elskar mikið og það ekki lítið, þá kannski breytist lífið og verður skrítið. en aldrei verður lífið verra, og kæri herra. ég elska þig mest af öllu, eins og hljóðið í fallegri jóla bjöllu. ] [ Upphafið er Myrkur-ljós, tóm-efni, kuldi-hiti, líf-dauði, fjölgun-rýrun, þróun-stöðnun, plöntur-dýr, hatur-ást, vonleysi-von að Endinum ] [ Syngdu þú hefur enga ástæðu til að þegja Dansaðu það dæmir þig engin Elskaðu Ástin er of dýrmæt til að sleppa Bara ekki brotna breytast þegja minnka hverfa Þu vilt ekki verða sá sem þú varst ] [ ketillinn blístrar ég sit á eldhússtól með krosslagðar fætur og fletti Morgunblaðinu vatnið rennur í taumum niður rúðuna í fjarska hljóma kirkjuklukkur bílarnir ösla um í slabbinu ég vef að mér kápunni og kræki hjá stærstu pollunum börn með foreldrum sínum horfa hugfangin í búðargluggana dagurinn mjakast áfram, hægt og hægt, og að kvöldi er eins og helgin hafi bara verið draumur ] [ máð kápa og snjáðar síður viskan varir en tíminn líður margir hafa hér huggun fundið og vonir sínar við orðin bundið ] [ Ég var að hugsa ég var að spá að látta þig fara já fara mér frá. Hvað var ég að pæla hvað var ég að spá að látta þig fara já fara mér frá. ] [ Panflauta og hljómur fagur ómar um hátiðarsal Með þér þetta var dásamlegur dagur njóta dagsins í ógleymanlegum dal Laufin falla, og hitinn lækkar Rómantískur vetrarbragur snjórinn í hlíðunum stækkar og breikkar Að njóta og sjá, hve himinninn er fagur ] [ Sérðu stjörnuglitrin á himni fögrum á himninum glampandi stjörnublik Þegar við óskuðum okkur og sögðum "Lokaðu augunum og ekkert hik". ] [ Sérðu í gegnum mig? Stundum finnst mér eins og ég eigi ekkert einkalíf, eins og ég gangi kviknakin um ganga skólans, stíga bæjarins og götur lífsins. Saknarðu mín ekki? Stundum finnst mér eins og öllum sé sama um mig, eins og ég sé ekkert í augum allra. Bara doppa í lífi hvers og eins. Ertu þarna? Stundum finnst mér eins og einhver sé þarna þegar enginn er. Eins og þegar ég faðma blákalt andrúmsloftið. Tala við vindinn. Horfi á vegginn. Heyrirðu í mér? Stundum finnst mér eins og enginn heyri ég mér, ekki einu sinni þegar ég kalla úr mér öll raddbönd. Ekki einu sinni þegar ég stend fyrir framan einhvern og öskra. Ertu þreyttur á mér? Stundum finnst mér ég þreyta manneskjur í kringum mig. Eins og ég sé pirrandi, leiðinleg og... þreytandi. Eins og ég geti ekki látið þær í friði, vilji ekki fara. Hvað get ég gert? Stundum finnst mér ég ekkert geta gert. Ekkert til að laga málin, ég stend bara þarna og stari á vegginn. Ég get ekki lagað það sem er búið og gert. ] [ svefnin skríður bak við augun og togar í augnalokin höfuðið er þungt eins og blý og þráir dúnmjúkan koddan sem hvílir heima í rúminu mínu ég vef þéttar að mér víðum frakkanum og reyni að hugsa ekki um hlýjuna í litla húsinu hinu megin við hafið ] [ Tilveran er full af ófelldum tárum líkaminn alsettur allskonar sárum. Hugurinn geymir minningar ógleymdar eldgamlar þjáningar. Hver einasta einstaka hugsandi sál er það stærsta, heitasta, brennandi bál í sínum eina eigin heimi, í þessum stóra alheims geymi. Hvað ætli alla hina dreymi? ] [ Ég sé upplifi finn fiðring fiðrildi í maganum Bros í bláu augunum hans traust Tár á vanga stálma í brjóstum finn til mín. Mamma. Nýr dagur dóttir með stálma í brjóstum finn til mín. Amma ] [ Hugsun mín er margþætt. Eyrir hvergi Flýgur milli athvarfa nemur staðar eitt andartak en flögrar svo um á ný, gefur mér ekki tíma til að melta það sem fyrir augu og eyru ber. Stundum erum við ekki eitt hugsun mín og ég. Bara ég tóm og hún margþætt flögrandi. ] [ Nú, loks í sátt við sjálfa mig eftir áralanga baráttu, rann upp fyrir mér einn góðan veðurdag að við erum fólkið sem foreldrar okkar vöruðu okkur við... 1997 ] [ Tunga þín er heit og rök. Í tryllingslegri nautn og algeru algleymi læt ég undan öllum hömlum, og eins og brimið sem brotnar á ströndinni tvístrast ég yfir þig og á ekki afturkvæmt. 1997 ] [ Í völundarhúsi hugans, þar sem ranghalarnir eru óteljandi í margbreytileik sínum, er ég fangi. 1994 ] [ Vindurinn hvín snjórinn þyrlast í kringum mig ég geng geng lengi í mörg, mörg ár. Þar til að lokum ég þyrlast upp í kringum þig eins og snjórinn þyrlaðist í kringum mig forðum. 1987 ] [ Einlítil ósk og þú ert farin ílla skreitt hjarta og sáln marin einlitil ósk og allt er orðið gott tárin þurr og allt eitthvað svo flott einlitil ósk og prinsinn er mættur liftir mér upp og allur verkur er hættur einlítil ósk og ég fullkomna fölskylduá hvað ætlar þú væni minn að gera þá ] [ kliðurinn í kringum mig sem hverfur þegar ég horfi á hvítan snjóinn sem liggur svo óhreyfanlegur og fallegur allt fyrir utan þennan stað þar sem klingir í bjórglösum og reykurinn fer í augun á manni svo mann svíður og svo kemur svarti kötturinn og kveikir á kerti (svona til að fá rómantíska stemningu í skammdeginu) og allt verður eins og það var kliðurinn tekur við og snjórinn er allt í einu orðin skítugur og kraminn undir fótum gangandi fólks sem hefur ekki hugmynd um hvert það er að fara þó það viti hver áfangastaðurinn er og ég horfi á það og velti því fyrir mér hvort ég verði nokkurn tímann þeirrar gæfu aðnjótandi að vita hvert ég er að fara ] [ Inni í húsinu Kvelst ég af útþrá Veturinn er kominn. Fyrir utan heimilið kvelst ég af heimþrá Dagsins önn er hafin. Hvar sem ég er fylgir mér óvissan kvöldið er komið. Í rúminu sef Martraðir angra mig Nóttin er hálfnuð. Ég stend við rúmið Brýt það niður Nýr dagur er hafinn. ] [ Óskasteinninn talar týndum tungum tungufossinn teigar óskabrá tælandi tiplar brúnaþungum kossi laumar blítt á augans brá. ] [ „Hljóða nótt - heilaganótt nú ríkir þögn í Betlehem ekki þögn friðarins ekki þögn trúaðra til að vegsama Drottinn. Nei, ekki ríkir hún, þögnin sú. En klukkur kirkjunnar á fæðingarstað Frelsarans þegja, á kikrjutorginu liggur hringjarinn í blóði sínu - ástinni, sannleikanum, já sjálfu lífinu blæðir úr brjósti hans. „Hljóða nótt - heilaga nótt." Skal því trúað að börn helfararinnar fari nú um myrðandi höndum? Skal því trúað? Eða skulum vér stinga höfðinu í sandinn, gefa dauðann og djöfulinn í ástina, sannleikann, - já, lífið sjálft rétt eins og vér gerðum í gær þegar gyðingarnir liðu til himins upp um reykháfana? „Hljóða nótt - heilaga nótt." Hvern ber yfir torgið til hins deyjandi hringjara með blæðandi sár á síðu, höndum og fótum? Skyldu þau, börn helfararinnar reyna að myrða hann líka? „Það sem þú gerir einum af mínum minnstu bræðrum, það hefur þú og mér gert." Já, víst er hún hljóð víst er hún heilög - nóttin í Betlehem. ] [ Vísa dagsins virðist á mínútu fæðast víst er að hugsanir margar að manni læðast svo hverfa þær burt og aldrei er spurt hvort ættu þær frekar að ræðast. ] [ Hún gengur inn ganginn þungum skrefum með blæðandi hjarta í krepptum hnefum, hún þegir sem gröfin og dregur á langinn andardrátt dauðans í vestanvinds höfum. Barn er að utan með líkama ungan snertur í húmi hún stynur svo þungan, blóðug og hrufluð hnipruð í rúmi alein í heimi sálin svo trufluð. Gömul sem jörðin í dómsdagsins eldi berfætt hún gengur brothætt um svörðinn langar að lifa og leika sér lengur lítur til himins á stjarnanna strendur. ] [ Ég er yfirful af þrá, þrá um líf,dýrð,hamingju og ást. Og þráin liggur djúpt í mér, ég hef lært að lifa á henni og hún af mér. Við erum einstök saman... ...þráin og ég. ] [ Ég beið þín í huganum og hugsaði um allt sem við mundum segja. Við vorum ekki nema hold og bein með tálsýnir um eitthvað meira. En tímanir breytast og maðurinn með... ..og ég bíð þín en í tálsýn minni. ] [ Þessir litlu puttar - skilja eftir svo mikið með litlu fingraförum sínum Þessar litlu tær - skilja eftir svo mikið með litlu fótsporunum sínum Þessi stóru augu - skilja eftir svo mikið með augnaráði sínu Þessi litli munnur - skilur eftir svo mikið með litla bablinu sínu Þessi litlu eyru - sem hjálpa þér að læra að hlusta og tala Þessi litli drengur - sem skilur svo mikið eftir sig með hverju hljóði, hverju fótspori, hverri snertingu. Ó hvað ég vildi að ég gæti tekið þig í fang mitt litli drengur og kennt þér um Guð og lífið Ó hvað ég vildi að ég gæti tekið þig í fang mitt litli drengur og verndað þig Ó hvað ég vildi að ég gæti tekið þig í fang mitt litli drengur og sagt þér hversu heitt ég elska þig Ég sakna þín litli drengur ] [ Kjánalega er kvenmannslaust og kalt i bóli Skara. Heimskinginn um þetta haust að heiman vildi fara. Útlönd fögur eygði hann aldrei leit til baka. “Fleiri fræði en ég kann” flónið vildi taka. Doktorsgráðu dreymdi um drjúgur stjörnuglópur féll í gleymsku í flutningnum: fjölskyldunnar hópur. Einnig gleymdist asa í, ein sat eftir heima, elsku Viola -sem er svo hlý, samt aula tókst að gleyma. Uppgötvar að ekki er skóli það eina sem að vit er í. Einkanlega er að bóli auðu kemur æ og sí. Loksins eftir langan vetur leggur Viola í ferðalag. Og vitringurinn veit nú betur: virðir núna hennar hag. Loksins ljós i myrkri glittir leikur lán á ný við hann Þá heitelskuðu brátt hann hittir og hreppir strax í ferðabann. ] [ Lítils virði lífið væri leyndust ekki tækifæri á víð og dreif á tímans vegi. Vænstu þeirra á hverjum degi og lærðu þau að þekkja á færi. Með tugi ára tvo að baki, taktu lífið föstu taki. Óskir þínar uppfyllt getur öll þín takmörk sjálfur setur. Trúðu á sjálfan þig, minn spaki. Þín hún bíður, Þórunn systir. þér að veita sem þig lystir, til Kanada ef kemur fljótt af kræsingum þú finnur gnótt og þrautir allar af þér hristir. Hnoss í þínum höndum liggur Heimur bíður, vertu ei hryggur gríptu daginn, heppni drengur drolla skaltu ekki lengur heimsókn þína veröld þiggur! ] [ Ó þú vesæli tími sem fastur er í smáu sandkorni, gleymdur af framtíðinni. Ó þú vesæli tími sem fastur er í smáu sandkorni, fangi í nútíðinni. Ó þú vesæli tími sem fastur er í smáu sandkorni, þoka í fortíðinni. ] [ Þú komst þegar Fróni reið allra mest á, er aflvana synir þess stóðu og myrkviðrin umliðnu öldunum frá þar eldgömlu skýjunum hlóðu, en hamingja Íslands þá eygði þig hjá þeim árstjörnum fyrstar sem glóðu; og þaðan vér áttum þann fögnuð að fá, sem fæst hefur komið að góðu. Því fátt er frá Dönum, sem gæfan oss gaf, og glöggt er það enn, hvað þeir vilja. Það blóð, sem þeir þjóð vorri út sugu af, það orkar ei tíðin að hylja: svo tókst þeim að meiða´hana meðan hún svaf og mjög vel að hnupla og dylja; og greiðlega rit vor þeir ginntu um haf -það gengur allt lakar að skilja. Hví mundi þó Ísland ei minnast á hann, sem meira en flestir því unni, sem hvatti þess drengi, sem drengur því vann og dugði því allt hvað hann kunni, og hjálpaði að reisa við helgidóm þann, sem hruninn var niður að grunni. Því lætur það börnin sín blessa þann mann og bera sér nafn hans á munni. ] [ Ég tók mér blað, málaði á það. Vissi ekki hvaða lit átti að nota, skipti ekki máli, ætlaði bara að krota. Ég tók mér pensil í hönd og málaði græna rönd. Allt í einu fékk ég kast, ég byrjaði að mála fast og dýfði penslinum hart beint ofan í svart. Út kom mynd af svartri kind. Ég teiknaði blóm og tjarnir í kring Og nokkra svani sem slógu um það hring. Hvítir og flottir voru þeir svanir, Og voru því sko alveg vanir. Kindin var bara svört, en framtíð hennar var björt. En það gat hún ekki skilið svo hún labbaði upp gilið. Hún vildi verða svanur stór og kvaka með í svanakór. En seinna myndi hún skilja hversu mikilvægt er að vilja og geta verið hún sjálf. ] [ Bósi, geltu, Bósi minn, en bíttu ekki, hundur! Ella dregur einhver þinn illan kjaft í sundur. Hafðu ekki á þér heldra snið höfðingja, sem brosa, en eru svona aftanvið æru manns að tosa. ] [ snjóflygsur á blóðidrifnu samúræjasverðinu kona að spila á píanó útí horni haus í gosbrunni ] [ Kristín litla, komdu hér með kalda fingur þína. Ég skal bráðum bjóða þér báða lófa mína. Eitthvað tvennt á hné ég hef, heitir annað Stína. Hún er að láta lítið bréf í litlu nösina sína. Fuglinn segir bí bí bí bí bí segir Stína. Kveldúlfur er komin í kerlinguna mína. ] [ Sofa urtu börn á útskerjum, veltur sjór yfir, og enginn þau svæfir. Sofa kisu börn á klerhlemmum, murra og mala, og enginn þau svæfir. Sofa grýlu börn á grjóthólum, urra og ýla, og enginn þau svæfir. Sofa bola börn á báshellum, moð fyrir múla, og enginn þau svæfir. Sofa manna börn í mjúku rúmi, bía og kveða og pabbi þau svæfir. ] [ lítill hanski, sem hefur kannski, strokið hefur hendur margar mjúkar, og nokkrar illa sjúkar. littlar hendur, stórar hendur, hanskinn er fyrir margt kendur. það er eins stór hola, og oft þar kemur inn sjávar gola. en alltaf vill einhver þar inni vera, hita sér og eitthvað gott með hönskunum gera. stundum gott, stundum illt, og nokkra menn hefur kann kíllt. en littli hanskinn hefur nafn, og þegar hann fer á safn. sjá hann margir sem hann þekkir, og þá myndast hamingju hlekkir. hannskin hefur átt margar góðar stundir, og þú þær allar mundir. því hannskin var einu sinni þinn, og núna er hann, MINN! ] [ Þegar ég verð stór vil ég verða einbúi búa einn í klettum verða einn með engum ] [ snortinn ásetningur náttúrunnar að fegra manninn ] [ Hver er tilgangur flipans? og rannsakandi leit ég í kringum mig bjóst ekki við svari enda ekkert svar og hvers vegna að trúa? er ekki nóg að halda eða að vona enda best bara vita Gafflar eru líka ónauðsynleg munaðarvara skapaður til að gera auðvelt líf auðveldara Skiptir skiptingin máli hún átti aldrei að vera mér erfið en sjáið og teljið mér trú um að svo sé getur val verið þvingað eða er alltaf allt frjálst hvers vegna er allt um fjöllun en ekki bara fjallað Einbeitingin mín er umbreyting mín er afbökun mín er tilhlökkun mín er vonin mín í vonleysinu ] [ Ég held þér fast í örmum mér í allra síðasta sinn, ei veit ég hvernig líður þér en strauma frá þér finn. Þú rennir fingrum um mitt hár og frá þér finn ég hlýju. Brátt fer að myndast hjartasár Sem grær aldrei að nýju. Tár rennur niður vanga minn og enn verða þau fleiri, Tárið snertir þína kinn og hvísl frá þér ég heyri. Þú segist ætíð elska mig og aldrei munir gleyma að ég vil líka elska þig Og við látum okkur dreyma. Einhvern tíma seinna meir munum við hittast aftur, ástin okkar aldrei deyr, né okkar vilji og kraftur. Ég horfi á þig hverfa á brott og horfa á eftir mér, að vera með þér var svo gott en nú þarf ég að gleyma þér. ] [ Ég finn fyrir þrýstnum vörum þínum Sem kyssa svo sætt og blítt, ásjóna þín í mjúkum línum og andlit þitt svo frítt. Þú horfir beint í augun mín græn og strýkur mitt rauða hár, snerting þín svo mjúk og væn þegar byrja að renna tár. Tár rennur niður vanga minn svo hægt en þú strýkur það af í hvelli. Ég hélt að ástarsorg væri eitthvað vægt en samt tárum niður ég helli. Ég kyssi þig í hinsta sinn og hvísla að það verði í lagi en þú strýkur bara mína kinn og fleira af því tagi. Áður en þú ferð þú kveður mig Með löngum góðum kossi Aldrei mun hann jafna sig þessi sterki ástarblossi. ] [ Sumt skilur maður ekki, en samt notar stundum hlekki, aldrei er maður of einmanna, því auðvelt er að sitja á bekki En Aldrei er of erfitt, sem engin skilur er gott, Já, bæði Flott og Skott, sem lífið bjó til handa okkur sem við segjum, að það sé hollt, En nú er tími til að við hneigjum. ] [ Í Húsaskóla erum við og það er voða gaman, Við leikum okkur út og inni Og erum alltaf saman þeir sem horfa á okkur verða grænir í framan í Húsaskóla erum við og það er voða gaman. ] [ Heyrið ekki hláturköllin, hljóma enn og glaðværs höllin þó að þau hljómi, Mundu mig Þú varst alltaf sá eini sem varst með mér í leyni sorgir og sælur Mundu mig einn ég átti þig því margir báðu þín en ég kallaði... Mundu mig, Mundu mig... Sorgir og sælur, Mundu mig. ] [ Bráðum koma jólin, Aldrei kemur sólin, samt gott að hafa snjóinn, og renna og svo, Já,já,já,já,já, óó.. Jólin, Blessuð Jólin Eilífði Kristur blessaðu mig. Jáá, Bráðum koma jólin og börnin hlakka til fá svo mikið sætindi pakka eftir mat. Kemur jólasveinninn ég hlakka mikið til að finna jólateininn. Og babababa BÚ..... Jólin, Blessuð Jólin Eilífði Kristur blessaðu mig. ] [ Þetta er brotið ljóð, sem vill hafa algjört hljóð, því það er þreytt, því lífið er stundum leitt, ég veit ekki hvað ég á að gera, og hvorki heldur að vera, ég sit við tölvuskjáinn og yrki mitt eigið ljóð, og þarna er stúlka ísköld og rjóð, ég lifi á grýlukertum og fæ mér ekki snitti, samt er mér þó sama hvort ég ditti en hvort ég skal í bandið ég kippi. ] [ Blessuð dýrðin er svo fín, sem næturgeimur og sólarskín,- Blómið og sólin sefur. Elsku eilífi blessaði Guð, þetta er dálítið puð, sem endar með tuð,- Sem Guð og Jesú felur. Ilmur góði ilmur, færist á milli húsa, og sérgerðar filmur ég hætti að dúsa,- því án lúsa þvílíkt fjör. Kem heim í góðu skapi og úti er fjörugur api í einhverju kássukrapi,- Aumingja Apa-greyið. ] [ Hér kemur sýning sem kemur til fælingar þarna uppi er línudansarinn ég þori ekki að loka augunum ég verð hræddur og bíð þangað til að hann kemur niður, því hann var næstum dottin núna, ég bíð og bíð og loksins er hann á endanum á einu hjólinu og dettur Búmm.... beint á bakið... Hneigði sig og fór \"Grátandi\" ] [ Ég þeytist eins og regndropi, niður til jarðar, og þessi sérstaki dropi, Dropi einn hann Garðar. Kona ein hét Ragga Ragga var ljót Farðu ljóta tagga. Garðar lék sér á að hverfa hann var að stríða Röggu hann sagði"Herfa, herfa láttu þig hverfa, Garðar sagði hættu að hnerra ljóta búðarkerra. ] [ Hvers vegna líða árin svona hægt..? Af hverju hefur vindinn aldrei lægt? Alltaf stormur og aldrei blíða, Ég sit og bíð með þennan ógnar kvíða.. Hvers vegna eru tvö ár orðin fimm? Af hverju er tilveran svona grimm? Ég verð að tala en þögul ég er, Og ógnar byrgði ég áfram ber. Hvers vegna ekki aðeins fyrr? Af hverju þurfti ég að bíða kyrr? Ég bauð góðan dag alltof seint, Ég reyni og reyni en get varla reynt.. Hvers vegna vil ég ögn af árum þínum? Af hverju eru tár á kinnum mínum? Orð ykkar hafa áhrif á allt sem ég geri, Á allt sem er í mínu gjörðakeri. Hvers vegna ert þú samt sá eini sem skilur? Af hverju vil ég halda að það sé áfram bylur? Þú ert ekki sá sem særir mig með orðum, Það eru þau sem gera það nú og forðum. Hvers vegna vil ég aldrei þig missa? Af hverju eru þau á öllu svona hissa? Ég leyfi þeim ekki að spilla minni ást, Og láta mig af öllu þessu endalaust þjást. Hvers vegna get ég skrifað mikið, mikið meira? Af hverju segi ég eitthvað sem enginn vill heyra? Ég er hætt og er farin að halda áfram að lifa, Sloppin út úr búrinu og hætt að skrifa. ] [ Af hverju þarf þetta svona að vera? Asnalegt,sorglegt og dapurt. Getur maður ekki lifað,lifað vel,skemmtilega, kannski eins og hver hamingjusamur maður. Kannski að þú látir mig vita, þegar þú finnur lykilinn af hamingjunni. Gerðu það vertu svo vænn, bjargaðu mér frá sorginni. ] [ Í húmi nætur um göturnar geng, og virði fyrir mér fólkið. Í húsasundi ég rekst á dreng, og sé að hann er hólpinn. Því hjá honum situr móðir ein, hann liggur á hennar barmi. Ein,saman,tvö alein, í kyrrð í hvor síns armi. ] [ Um stund þá gekk ég og heyrði þar hróp, hróp frá mínum versta óvin.. Ég vissi vel hvað væri að fara að ske.. Ég gekk að honum og spurði.. "Hvað er málið, hvað viltu nú, láttu mig bara í friði ég veit alveg hvað er að ske"?! Hann pírði saman augun og geiflaði sig um stund, leit inní augun mín.. Hvað var hann að kanna? Svo spurði hann mig.. "Hvað er málið? Hvað vil ég nú? Láta þig í friði..? Ég ætlaði að spurja hvað klukkan sé"?? ] [ Ég ligg hér í hrúgu af tilfinningum sem hrjá mig, en allar þær góðu eru tilfinningar sem snerta þig. Ég elska, sakna og hugsa endalaust um þann aðila sem að hjarta mínu á lykil, og það ert þú, þú sem hefur fundið skráargatið þótt myrkrið blindi mann og jafnvel sjálfa mig. Þú hefur lykilinn, og af honum er enginn vara til. Það kemur ekki sá dagur þar sem þú finnur ekki skráargatið, ég vona að ég hafi fundið þitt. Af því er lykillinn geymdur! ] [ Af vinum ert þú sá vinur sem er fremstur. Og allir það sjá, hvað það skín af mér hversu mikið ég elska þig. Blindir sjá það, heyrnalausir heyra það og dánir skynja það. Súrt verður að sætu, slæmt verður að góðu og Ég verð að heillri manneskju. Þegar þú, ÞÚ, Heldur í hönd mína og leiðir mig á vit óvissunnar. Því hjá mér er traustið á þér eins og gler... Auðvelt að brjóta það, En gerist sjaldan, eða aldrei, ef heppnin er með manni. ] [ Ein ég sit hér og bíð eftir þér, En ég veit ei hvað skeður eða hvernig það fer, Hvort þú viljir vera án mín eða vera með mér. En eitt ég veit, og það er hvað hjarta mitt velur, En án allra kosta það vilja minn felur, En hjarta mitt bíður og mínútur telur. Í fjarskanum sé ég það ljós sem ég elti, En byrgði ég ber og treganna belti, Og sit því með sorg, því ást mína ég fellti. En nú er ég nær eftir allan þennan tíma, Eftir að hafa þurft við sorgina að glíma, Og ást inn á líf mitt ég ætla mér að líma. En spurningin um hvort að límið það torgi, Hvort allt verði að lokum að sársaukaorgi. Er spurning sem ég held að ekki sig borgi. Því svörin þau koma með tíma sem mun líða, Og vonandi kulið af hjarta mínu þýða, Því ætla ég að róst, setjast niður og bíða. ] [ Það er eins og allt snúist í hringi. Var þarna og kom svo aftur. Þetta er svo hræðilegt, hvernig allt er. Fyrst hér, svo þar og svo að lokum... ég er allsstaðar. Bæti ég líðan mín, hverfur allt annað. Það er svo erfitt að sætta sig ekki við sjálfan sig. Vilja vera öðruvísi en ekkert hægt. Hvernig sem ég reyni...allt stendur í stað. Flækjurnar flækjast enn meir og að lokum kafnar maður og deyr. En svona er lífið, því verður ei breytt, ég sætti mig við það og geri ekki neitt. ] [ Gef mér tækifæri til að sína þér, eftir allan þennan tíma. Sjáðu hvað þú gerðir mér, og við hvað ég hef þurft að glíma. Ég veit ei lengur þá miklu þörf, að þurfa á þér að halda. Gastu ekki bara sleppt þeirri gjörð, að láta mig þess gjalda. En núna eru liðin ár, veldur mér vonbrigðum. Hamingja og ástrafár, olli bara hrigðum. ] [ Þegar ég sá þig var eins og ekkert í heiminum skipti mig máli. Enginn náði sambandi við mig, það var eins og ég hefði orðið að stáli. Ég sagði ekki neitt, gerði ekki neitt, Sat bara og horfði. Ég hafði aldrei trúað því að við mundum stinga saman nefjum. En ég get sagt að ég er fullkomlega sátt við að enginn hélt því í skefjum. Því að með þér mér finnst ég eiga heima, og ég bið þig, þú mátt aldrei gleyma, að ég elska þig af öllu hjarta, og mun gera það um framtíð, ókomna og bjarta. ] [ Ég sný mér nú við, og sé þar bregða ljósi, geng að því, en næ ei mínum áttum. Er ég blind? Er ég veik? Eða ná tilfinningarnar mínar ekki sáttum? Ein vill þetta, önnur vill hitt, alveg sama hvað ég hugsa.. Ég finn ekki mitt. Mér líður svo tómri, mér líður svo auðri, en af öllu þá líður mér innst inni dauðri. Mitt hjarta það þráir einn ákveðinn mann, en sá maður hann veit ekki skil á sínum vilja. Ég glataði honum um leið og ég hann fann, en nú vilja myrkrið og sorgin hann hylja. En um leið og ég hugsa, hvort hann vilji með mig hafa, þá átta ég mig á, hvar vinir mínir lafa. Lafa og biðja mig um að ég teygji mig að þeim, því hjá þeim ég er víst alltaf velkomin heim. Ég er afar þakklát fyrir vináttu sem slíka, og að ég skipti þá máli eins og þeir gera mér líka. En þessa hamingju sem er stimpluð inn á líf hverra manna, hana finn ég ekki, alveg sama hvar ég kanna. Því spái ég og spyr hvort að lífið sé þess virði, og svarið er já, því allir bera byrgði. En ég veit að mín er þung, og heiftarlegt að bera, en án þinnar hjálpar er lítið hægt að gera . Því bið ég þig að koma og hjálpa mér á fætur, annars mun ég falla og slíta lífsins rætur. Ég elska þig í dag, og mun gera jafnt sem á morgun, þótt lífið sé að pynta mig og drekkja mér í sorgum. En án lífs væri engin ég, og án mín væri ekkert líf, og með þessum trega orðum á bak lífsins stíg. En bakið það ber fleiri og ég pantaði bestu sætin, en sætin eru viðkvæm, svo við verðum að vera gætin. En ef þú fylgir mér á enda og sleppir mér aldrei, þá vona ég svo mikið að í hamingju ég mun lenda. Svo ertu til í að fá þér aðgangskort að ástinni? Og sem vinur með mér ganga, og vinur með mér lifa? Þetta er eigi samningur sem þú þarft að undirskrifa. Heldur einungis í traustið þarf maður að halda, í gegnum þessa tilveru, illkvittna og kalda. Svo gakktu með mér vinur og sjáum svo hvað setur, og lærum í sameiningu að gera hluti betur. ] [ Allt það sem hún sagði,, hljómaði allt í höfði mér hún sagði það akkurat hér, reyni að hrista það úr mér en þetta er svo óréttlátt, allt það sem hún sagði hljómaði í höfði mér næ ekki að gleyma því kví þurfti hún að gera þetta! hún hafði klifrað upp háa kletta, en ég reyni að fletta því úr höfðinu á mér, Ekkert virkar ég reyni að gleyma ég reyna að hugsa annað en þetta andlit sytur uppí mér, allt það sem hún sagði, meðan ég þagði hvað viskar? ekki neitt uns ég dett niður í gólfið! ] [ Hvítur,frosinn,blautur, veturinn er kominn allir fara í snjógöllum út fara í snjókast, búa til snjókall, búa til snjóhús gaman gaman er þá hjá krökkunum en ekki hjá flugunum og blómunum. ] [ Kisi er hvítur, mjúkur og stór hefur hann fitnað síðan síðustu jól, læðist hann niður göturnar brött reynir að veiða þar mýsnar og fuglana færir þeim húsbóndum ströngu verður svo ánægður og glaður heyrist þá mjög mikið blaður Kötturinn verður að fara, nei afhvejru? Bara! Mýsnar hafa streymt hér inn Og því verður kötturinn að fara! kötturinn hleypur upp og felur sig ekki vill hann fara húsbóndinn kemur upp með búr Lætur hann þangað inn keyrir með hann burt reiður og óánægður, á svip. ] [ Nú byrja ég uppá nýtt ljóðin eru málpípa Og þingmannsræðu hef ég hlýtt sem vill gera þjóðina forríka Gegnum hana vill ég ná til allra minna manna Þeir sem vilja um mig spá og upp á vilja sanna ] [ Þegar ég sá þig þú opnaðir dyr haustsins með persónuleika þínum þegar þú nálgaðist þú opnaðir dyr vetrar með galsa þínum Þegar þú talaðir þú opnaðir dyr vorsins með brosi þínu Þegar Þú horfðir þú opnaðir dyr sumarsins með augum þínum Þegar við snertust þú opnaðir dyr hjartans með sjálfum þér ] [ einu sinni lá ég í heitu baði lengi, og ég vildi að ég eitthvað gott fengi, þegar maðurinn kemur heim, þá byrjar the big game. baðið var farið að kólna brátt, og vatnið orðið grátt. því lengi hafði ég þar legið, og sjálfa mig þvegið. ] [ Manneskjan er grimm veröldin dimm uppfull af girnd ég leita áfram blind á vegi sem kallast synd ] [ Daga dagar uppi, ósagðar sögur liggja í hverju skrefi fótumtroðnar Með vindinn í bakið horfi yfir farinn veg. Leiðin framundan liggur svo langt sem augað eygir, fótumtroðin. Vindurinn bitur bítur mig í framan. Dynur undir fótum vegurinn að baki lengist, fótumtroðinn. ] [ Tvær saman þær sátu og lásu allt hvað þær gátu um heima, geima og draumasveina... ...allt til að gleyma. ] [ Í garðinum mínum eru bjagaðir snúrustaurar. Tveir einir standa þeir á móti hver öðrum. að sjá þá álengdar minna þeir á par sem er í þann mundað fallast í faðma. Snúrurnar sem tengja þá saman eru sem tilfinningar vináttu og ásta. Einhvern daginn ná þeir kannski saman eins og í sögu Barböru Cartland ] [ Þú horfir þannig á mig.. að ég verð hrædd við sjálfa mig talar þannig við mig.. að ég verð feimin. Og án þess að snerta mig... Snertir þú mig. ] [ þrotlaus tárin þerra af snæ þaktri kinn umbrot kuls og klaka hleypir varma inn höfuð nýja lífsins ryðja sér til rúms fögur fésins seðja hnígur hún til húms ] [ aftur renna tárin sem oft áður er ég nú samt ennþá meira þjáður sit við tölvu titrandi af sorgum tómið glottir kalt við mínum orgum... stuttu eftir skjálftann brotnar hugur stingandi í heilann hlæja flugur hvísla orðum sjúkum inn í sinnið sýrutárin skera gat í skinnið... finn ég koma kuldann sem og forðum klikkun hleypur inn í mínum orðum endurtekning inn í heila hljómar horfin von í þessum orðum ómar: vildi geta eytt út köldum glósum vildi geta heyrt í fleiri hrósum vildi geta týnt úr huga sárum brosað út úr augum gleðitárum... vildi geta eyðst úr lífi mínu vildi geta tekið þátt í þínu vildi geta horft í aðrar áttir djöflar mínir verða aldrei sáttir... vildi geta horfið burt úr sinni vil ei vera fastur hérna inni vil nú finna hjartaslögin þegja og þagmæltur í róspekt minni deyja. ] [ varir okkar föðmuðust fast og funheitar slepptu aldrei taki augun kysstust blautum kossi og kinnar tóku við tárum bleikum... hendur okkar gláptu glaðar á fingurna anda hraðar neglurnar orðnar graðar... húðin byrjaði að stynja upp orðum en hætti strax því þögnin réði hárið grét af fryggð og funa við fengum samt aldrei nóg... hendur okkar gláptu glaðar á fingurna anda hraðar neglurnar orðnar graðar... ... blóðið sýður og tíminn líður augun þorna og bakið svíður nárakrampi á fullu dampi fullnæging á vaðið ríður... fullnægtir og allsnægtir greddan aldrei hættir fryggðin heitan hugann laðar horfðu á mig anda hraðar... ... sérhver taug í líkamanum sameinast í unaði engin furða að allt ruglist í alltof miklum munaði... fullnægingar flæða fryggðarstunur gnæða líkamspartar villast og getnaðarfæri fyllast... ... blóðið sýður og tíminn líður augun þorna og bakið svíður nárakrampi á fullu dampi fullnæging á vaðið ríður... sérhver taug í líkamanum sameinast í unaði engin furða að allt ruglist í alltof miklum munaði... fryggðin heitan hugann laðar horfðu á mig anda hraðar... ] [ Það sem geri mig að sjálfri mér, er það sama og gerir þig að þér. við vorum búin til af þessum manni sem býr þarna langt burtu, og hann kann að búa til sturtu. Þessi maður hefur allt gert áður, og hefur verið þessu lengi háður. Því lífið er ekkert annað en gott, og hann bjó það til og það finnst honum flott. En auðvitað kemur ástin með tímanum líka, líka tíminn sem gerir menn ríka, nema þeir erfi bara, og þeir þurfa bara því að svara. En ég vil það eitt segja, að lífið heldur ekki áfram með því að þegja. svo halltu áfram þessu sem þú átt, og gerðu það að einhverju sem aldrei verður fátt. ] [ Einu sinni, ég fór einu sinni með Baby hjá ömmu og afa og sumarið birtist og afi setti grillið út, svo fór amma út og grillaði en afi fór inn því það var kalt. Snjórinn kom sumarið var búið ] [ Ástar minnar eldur hreinn, augnaljósi kveiktur þínu lifa skal um eilífð einn óslökkvandi í hjarta mínu. ] [ Það vex, hénna í garðinum heima ég gef því að drekka horfi á aþð vaxa með fögru litina sína, það blómstrar í glugganum mínum, ég hef beðið svo lengi loksins orðið svo stórt nú get ég dást af því breytt yfir það á kvöldin og kisst það góða nótt. ] [ Hvernig náðum við svona langt þú snertir hönd mína og ræstir bílnum, og nú í fyssta sinn í lífinu mínu þá græt ég erum við í sitthvorum heimi enhverstaðar sem enginn kallar það rangt og þar sem stjörnurnar skína skærast, úti í heimi himin geymi. ] [ Náungi hvað ertu að gera, náungi hvað ertu að fela þekkiru mig ekki það er eins og þú ert bundinn við hlekki, ég fæ stundum stóra kekki þegar ég sé þig en þá langar mig að kissa þig við erum aðeins vinir en ekki meira en það þú heldur að við séum saman þer fynnst það örugglega rosa gaman, en hvað á ég að gera? ekki vil ég særa þig en það er það eina sem ég get gert fyrir mig. ] [ Ég sit ein heima, horfi út um gluggann á allar persónurnar úti sem flykkjast í skemmtun Engin eins, ein í fýlu önnur gleði en eiga þó eitt öll saman, sameiginlegt. Þau vita ekki að það ég sit og horfi. ] [ Er kynntumst við fyrst snemma um morgun ég ást þína fann öruggur í þínum örmum Gangan var góð hamingjan réði þú varst mér svo góð ég aðeins þér unni Enn niðdimma nótt örlögin snérust feilskref ég tók ei aftur ég sneri Við kvöddumst jafnfljótt er kynntumst við fyrst með angist í hjarta Fann sálina brotna Ég hugsa þá daga þú brostir til mín með hlýju í huga Með framtíð bjarta. Ég bæti mitt ráð vil ást mína sanna vill vinna þinn hug Falla í þína arma Ég veit það er erfitt og hindranir margar enn ást mín er sönn Hugur og Hjarta. ] [ Úti er niðdimm nótt engin sál á ferð Engill minn : "Hittu mig fljótt" Ég er kalinn Eins og þú sérð Djásn geymist í sál minni Það leynist niðri í djúpinu Ég ætla að finna það Að einhverju sinni Það leynist djúpt djúpt Í sálarfljótinu Komdu djásn "Með þér ætla ég að vinna Og auðævi ætla ég að finna" ] [ Dúr og moll, moll og dúr skiptast á að dansa lag Laghæfur, hljómhæfur Krómískur, Lýrískur Þið ætlið að gefa mér glaðan dag ] [ stundum eins og fiðrildi sem flögrar inn um gluggann kviknar hugmynd í kollinum ég reyni þá að fanga hana flögrandi síkvika en þegar ég er næstum búin að ná henni deyr hún eins og fiðrildið sem barðist lengi um í ljósinu ] [ Þú ert minn eini sanni og ég hleypti þér að en þú lokaðir á mig ég feldi tár en þú hlóst. ég gaf þér hjarta mitt en þú kramdir það! Mér langar að hata þig en ég ei get það, því ástin er svo sterk. Ég þarfnast þín. ] [ Ég reyndi að kyssa þig en þú ýttir mér frá þér hvenar kemur sá dagur að ég fái minn koss..?? Verður það þú eða einhver annar? Framtíðin er ósögð! ] [ Ég mundi mount Evrest klífa ef aðeins þú værir þar bakvið! ég mundi reyna að stoppa stríð ef þú mundir vilja hitta mig! tár ég felli dag eftir dag kvöld eftir kvöld. Eina sem kemst að í mínum kolli ert þú jáá aðeins þú, þú ert mitt yndi, þú ert mitt sár, Þú ert mér allt, Þú ert .að sem ég lifi fyrir, vegna þín enni ég að standa upp á hverjum morgni. ] [ Undan himinbárunnar þunga dynur regnið á landið unga. Dreifist um lendur vænar, auðgar fallegar sveitir grænar. Handan hafsins dökku strandar eru fiskarnir innan þess handar. Bjargað hafa byggð eyjarinnar, byggt upp styrk sálu minnar. Ofan fjallanna tignar tindum fylgjast ernir með vorum syndum. Landsins englar þeir aðvara þá er sökkva í illskunnar djúpu á. ] [ Tíminn líður hjá eins og oft áður eins og alda sem brotnar, brotnar við fætur mínar Tíminn stendur kyrr við hlið mér hann situr við tölum um tímann tímann sem leið enn hann kemur aftur eins og oft áður. ] [ þig væri gott að finna í hjarta mínu áttu stað, ef ég gæti þig tekið þá myndi ég sýna þér það. Það sem gerir mig að manni það sem gerir gott það sem aðrir kunna að meta allt það myndi ég gefa þér. Heimurinn í mínu hjarta ég myndi gefa þér allann heiminn í mínu hjarta en aðeins ef ég get. ] [ Bjartur var einu sinni dagurinn sem sjálfstæðir Íslendingar eyddu í grasi grónum dölum undir söng sólskríkjunnar og með vorboðanum ljúfa teyguðu þeir frelsið úr líðræðisbikarnum, ortu aldýrar og lofsungu land vors guð. Nú býr enginn í sumarhúsum smáblómið rifið upp sett í vasa með stjörnum. ] [ Að fallvalt sé líf og dauðinn sjaldan fjarri má líklegt telja. En ber ei að teyga vín meðan í glasi glitrar? ] [ Hinn gullni meðalvegur er hvorki gullinn né auðfinnanlegur (þótt nafnið bendi til annars) Hann liggur upp bratta fjallshlíð, grýttur, á köflum illfær Við veginn stendur fjöldi auglýsingaskilta sem hvetja þig til að ganga aðrar, auðveldari leiðir Þú sérð stóran hluta samferðamanna þinna villast af leið í leit að móðurkviði Skylda þín, sem fullorðins manns, er að bíta á jaxlinn, stika slóðina og sýna fram á að hún sé fær Ef þér mistekst er áfangastaðurinn Entrópía (sem er, nota bene, ekki land í Afríku) ] [ Þú ert sú persóna sem ég elska mest, og mér vantar frest. Til að leyfa mér að þér að sýna, og ástinni minni upp á þig klína. Því ástin mín lýsir upp bæ og borg, og engin verður það sorg. Því ég vil þér bara eitt það sýna, að aldrei skaltu ástinni minni tína. Þú og og ástin þín, verður kannski aldrei mín. En er ekki í lagi að leyfa mér að reyna, og sýna þér hvað ég er að meina. ] [ Ég er þessi litla, sem öllum finnst gaman að kittla. En ég hef samt minn eigin kraft, og hann hef ég alltaf haft. En ég þarf bara mig svo mikið að tjá, svo aðrir fari mig að sjá. Sem mig sjálfa, og hætti að segja að ég minni á álfa. Því ætla ég að bara þér að sýna, og leyfa þér að upp úr mér tína. Eitthvað sem enginn hefur fengið áður út, því ég alltaf hef sett upp stút. En ég er hætt, og ég er á staðinn mætt. Ég hef alltaf verið hér, og nú er komið að mér. Núna ætla ég að hætta þessum leik, og byrja á því að fara í sleik. Þá kannski einhver sér, að ég er hér. Og aldrei fer, því ég er, bara ég , og aftur ég. ] [ Átti í æsku mikið bágt, af pabba var hann barinn. Fyrir 13 ára afmælið að heiman var hann farinn. Vann við það að gera gott fyrir þá sem bjóða á barinn. "Ef þú, herra, vilt fá tott þá vín vil ég í staðinn." Um fertugt varla varast gat reiði sinni lengur. Fyrir framan stendur hann þessi 10 ára drengur. "Hurðu snáði, komdu hér. Þú ert indislegur fengur. Ef þú segir engum frá þá máttu lifa lengur." Í fréttablaðinu stóð hann fékk 2ja mánaða skilorðsbundinn dóm. Fannst það samt soldið frekt að fá 100.þúsund króna sekt. Gat varla verið mikið mál þótt hann potaði í 10 ára sál. Hugsaði með sjálfum sér hann jafnar sig jú fyrir rest. Svona er lífið, þú lærir það sem fyrir þér er haft. Lítill snáði lærði það að lífið það er kalt. Ef þú grætur, greyið mitt, í sárin færðu salt. Litlir snáðar gera víst fyrir hamingjuna allt. ] [ elska njóta vaxa dafna hverful orð með mikla meiningu eins og lífið hverfult allt til enda ] [ Ljóð dagsins safnast í ljóðasafn ljóðasafn fullu af umsögnum spurningum svarað um tengla og velunnara á upphafsíðunni minni. póstlistinn lengist en hafðu samband, Ég gæti sett bókamerki á þitt heimasvæði ef nýskráningu vantar. Kveðja Guð. ] [ Ég einn hér sit fyrir framan skjáinn rita niður línur um daginn og veginn ég minnist þess eins er ég sat hér áður þú komst í mitt líf og huggaðir mig þeir dagar eru liðnir ég sit hér einn og rita niður línur fyrir framan skjáinn um daginn og veginn. ] [ Titillinn á ljóði þessu er texti textinn segir mér að skrifa meira meira um lífið, tilveruna, heiminn. En hversu mikið er hægt að skrifa?? þú verður að upplifa það sjálfur til að komast að því. ] [ Hér eru til margar kirkjur + en það er samt fleiri virkjur, sumar eru stórar, sumar eru litla, og líka mjög mjóar, líka eins og stytta, eins og fyllibytta. ] [ Ég sit einn hér, og læri mikið, með eitt lítið ber, berið er með ryki. Kennarinn segir mér, og síðan hún sinnir þér, því lítið ég læri og sjáðu þetta fyrirbæri! Ég fer inná sal og sé skrekk með þvílíkan húmor og geggjaðan smekk því ekkert flúor. Skrekkur búið, og ég mjög lúinn, því allt er nú grúið og sagan að verða búin, loksins er ég fundin , og á bandi er ég bundinn, því kaldur er hann lundinn. bandið losnar, og skólinn frosnar, En því miður núna biður hann herra yður. Kemur herra yður, en konu hann styður og biður góðra ferðar. ] [ Ef ég aðeins gæti sagt það sem liggur á mínu hjarta þú aðeins heyrðir það sem þér myndi vanta brot í hjarta þitt svo megi sál þinni batna ég aðeins segði það það eina myndi vanta ef lífið myndi brosa það horfa til þín myndi í dýpstu hugaranga og sál þinni myndi batna ef hugur fylgir hjarta ég leita til þín myndi með bros á vör og hjarta það aldrei myndi vanta. ] [ Baðið er heitt, mjúkt. Ylmurinn sjarmerandi Blautt. Umleikur mig, þuklar mig hreinsar mig og nærir. Afslappað skilar það mér svo... upp í kaldann veruleikann. ] [ Allt sem er, í heimi hér, rímar vel með þér. ] [ Einn í miðjunni og tveir fyrir ofan. Tveir fyrir neðan? ] [ Þú getur gifst konu sem læknar hafa breytt. Þú getur gifst konu sem fyrir fegurð sína hefur greitt. En mundu eitt; ósnert er hennar rót. Börnin ykkar verða ljót. ] [ Ég ætla að klípa þig smá og þú mátt koma og stríða mér góðlátlega en þá ætla ég líka að elta þig og þú mig hring eftir hring en þegar ég loksins leyfi þér að ná mér ætla ég að kitla þig á kitlublettinn - þú veist - og kyssa þig létt á munninn ] [ Líkt og ég sé tóm að innan, drukknuð í vonleysi hversdagsins. Sömu fötin, sama útlitið, allt það sama. Nema í gær var það nýtt. ] [ Svo óviss eða viss um eigið tap, fall sem hvergi stendur skrifað. Það er þessi (ó)vissa sem hvetur mig til dáða án vissu eða óvissu held ég áfram til taps eða sigurs. með vissu eða óvissu. Ég veit það bara ekki. ] [ Þegar ég leggst niður fell ég í draumaheim Þá kemur yfir mig þægilegur friður ég flýg um alheiminn út í hinn mikla geim. ] [ Nokkrir menn komu saman, vildu reyna að hafa gaman, en allt í einu þeir komus að niðurstöðu, og byrjuðu að byggja hlöðu, Hún átti að geyma nokkra hluti, trú , von og kærleika, og enginn átti í henni að kveikja, Þessi hlaða átti að geyma það sem allir þurfa mikið, og líka fyrir þá sem hafa svikið. Því að þessir hlutir er eitthvað sem allir hafa rétt á að hafa, og sumir þurfa langt að kafa. Til þess að ná þessu fram, og við marga þarf að segja skamm. En allir þetta á endanum fá, og allir á endum fá að sjá. Hvað allir geta ekki án þessa hluta lifað lengi, og það við lífið ég tengi. Því lífið þarf alltaf á einhverju góðu að halda, og það þarf ekkert alltaf að margfalda. Allir eru mismunandi, og búa í sitthvoru landi. ] [ Er ég horfi út á hafið, ég fynn að ég eygi þar heima, en svo þegar fer ég að synda, í þessum kalda sjó, þá fynn ég þessa notalegu Kyrrð og ró, En svo allt í einu flækist þarin í hárinu ég reyni að taka hann úr en mig svíður svo mikið í sárinu og sjórinn hann verður svo súr, ég syndi uppá yfirborðið og þurrka mér fer síðan heim og fæ mér heitt Kakó ] [ elskendur sem ekki meiga eigast annað heldur áfram hitt lifir fangað getur ei látið sem ekkert sé fest hníf í hjarta mitt brennimerkt mig horft á mig látið mig elska þig skilið eftir fasta í þínum hlekkjum það hringlar í hlekkjunum hnífurinn í sárinu sárið í hjartanu stækkar og stækkar bið þig að sleppa mér þú heldur fast bundin henni hlekkjar mig með ást öll þrjú fáum að þjást þreytt á að lifa í draumi von vitandi að verður ei viltu sleppa mér leysa mig ? þreytt á að vera áhorfandi á leiksviði lífsins leikari sem leikur ei vil fá að leika langar að lifa á ný. ] [ Ég stend á krossgötum nú eins og svo oft áður. Vitandi hvert ég stefni en ekki hvaða gata ber mig á áfangastað. Kannski er best að stoppa búa til umferðareyju, byggja þar hús, tvílyft timburhús með verönd... heitum potti og hamingju. ] [ Hann er ungur hraustur fallegur af öðrum mönnum ber vövðastæltur ljóshærður og ætlaður er mér. ] [ Hvað er það sem fær þinn sjúka huga til að halda að þú sért sá albesti..? Að allar dömurnar þrá þig því þú ert svo frábær? Ég get ekki svarað því, veit ekki einu sinni svarið... Þú ert bara eitthvað sem engin, allavega ekki ég vil þekkja. Hrokinn er að ganga frá þér og það sem meira er..ganga frá öllum í kringum þig. Ég vona þín vegna að þú sjáir að þér..farir að líta á aðra sem manneskjur..ekki hluti sem þú getur kastað frá þér. Vinir eru ekki á hverju strái og ástin varla á neinu. Hve heimsk ég var að verða hrifin. Kannski var það sterkbyggði líkaminn? Þessi hrikalega svarti húmor? En seinna sá ég að þú ert ekki svo svakalega frábær.... Þú ert bara lítill hræddur strákur sem þorir ekki að taka áhættu í lífinu..né hleypa neinum að þér. Þér er vorkunn..... ] [ Heima hjá mér býr púki lítill skrýtinn púki -sem enginn sér. Þegar ég er ekki heima eða þegar ég er sofandi þá kemur hann fram draslar til og hendir fötunum mínum á gólfið svo mamma verður reið og skammar mig! Þessi litli púki -líkist mér. ] [ Þegar snjórinn lagðist á borgina og mig urðum við báðar í senn kaldar og frjálsar. Ekki lengur litaðar eftirsjá moldarinnar eða gráma vega sem marka leiðir lífsins. Svo mun dagurinn líða. Aftur skerpist á troðnum slóðum og moldin flekkar ósnortna breiðu möguleikans. Kannski rignir á morgun. ] [ Þegar innviðir huga þíns bresta undan eigin þunga þakka ég fyrir að vera ekki bendluð við gerð þeirra. Og þegar þú safnar saman brotunum mun ég beina athygli minni að traustari undirstöðum. Því þó lengi búi að fyrstu gerð mun sá sem ekki hugir að verki sínu verða eigin vissu að bráð. ] [ Það er erfitt að hanga með mér. Eftir að hafa klórað mér til blóðs. Í framan. Hundrað sinnum. Það er svo miklu léttara stundum. ] [ Eftir tvöfalda lokun undanfarið þá leyfi ég mér að segja að ég er ánægður með blómin og þig og kvöldið og sjóinn. ] [ Það er svo erfitt. Stundum inn í langa partýinu. Ímyndaðu þér kaktus. Þrjár myndir? Þetta er ég. Er svo ánægður að við gáfum þessu séns. Við erum ólík. Ímyndaðu þér kaktus. ] [ einhvern veginn held ég að örlaganornirnar hafi verið á breytingaskeiðinu þegar þær ófu minn úfna vef... þá var Drottinn ábyggilega skelþunnur Satan á enn einu sýruflippinu Amor örvalaus og Afródíta á túr... ... en Bakkus minn ástkæri vin var óvenju afkastamikill þennan kalda rigningardag í apríl nítjánhundruð áttatíu og tvö... ] [ var rétt búinn að jafna mig á tveimur djúpum skotsárum er ég sá hann koma askvaðandi yfir sjóndeildarhringinn... andlit hans makað í stríðsmálningu augun glottandi af glettni góndu á mig... þekkti hann svipinn og vopnið sem hann bar á mjóu bakinu... ég hljóp af stað hræddur hugsandi um síðustu skot og örin sem fylgdu þeim... hann hljóp af stað í hefndarhug hugsandi um örvarnar sem töpuðust í líkama mínum... ... gráti nær sem gunga gaf ég allt sem ég átti til að flýja þennan mann... skríðandi líkt og snákur smeygði hann sér þó beint í veg fyrir mig... augu okkar mættust eitt örlítið augnablik... ... hann mundaði bogann miðaði betur sleppti strengnum og hitti beint í hjartastað... hvort örin dreyfði ástareitri? hvort örin lífgi hjartað við? hvort ég hitti hana einu réttu? á öllum svörum verður bið... ... en Amor hefur aftur hitt í viðkvæmt hjarta mitt ekki lengur úr hörðu grjóti og nú getur það tekið á móti... ] [ gegnum hjartað orðin stingast sem sverð sýking ferðast frá lifur til handa hugsa aldrei um reynslunnar rándýra verð ráfa því enn milli kaldra landa... löndin köldu tákn um fornu tárin titrandi sem blautur hundur tárast hugsa hryggur um ónýttu árin og hryggbrotinn einmana ég fárast... en hvernig sem lífið leikur mig enn lifandi ennþá ég svara köstum grýti til baka og ég sigra senn þó samviskan sé nú bundin löstum... ... veit ekki lengur um hvað ég tala í forvitni spyr ég örlög aftur er mér geðheilsan meira að dala? eða bara orðinn fylliraftur? ... veit ekki lengur um hvað ljóðið snýst lekandi von inn um hjartað mitt brýst því ég man ekki ástæðu lengur... hef ort um hitt og ort um allt þetta höfugur tekst mér brynju að þétta er loksins orðinn samlyndur drengur... ... ef ég man ekki lengur ástæðu til hvers að halda enn eina ræðu? sorgin er farin - sorgin er búin sorgin gafst upp og sorgin er flúin... meika nú meira engan sens lengur með bros á vör heilbrigður drengur! sorgarljóð búin sorgin er flúin... ] [ -Hluti I – Vonin úti- kuldinn er kominn til að vera hérna lengi kvöldið er fallið á lífsins gráa engi rökkrið í rjóðrinu dökknar og sofnar rauða sólin felur sig og smám saman dofnar... þrösturinn þegir og vindurinn lægist þruskrið í fjarska efast og hægist hugsi á himninum máninn nú kyrr horfið er ljósið er lýsti honum fyrr... ... myrkur á ískaldri mánafold minni er aflvana sálin mín núna sem strúturinn sting ég hausnum í mold styrkurinn fór við síðustu brúna... hann fór er ég brenndi síðustu brúna brugðinn er brandur í sálinni minni fegurðin fór og ég missti alla trúna falur er ég sorg og kaldri eilífðinni... -Hluti II – Vonin inni- þó þrösturinn þagni og myrkrið á fellur þiðnar allur kulinn um síðir þó komi á sálina svakalegur skellur bara stórvaxnar hamingjuhríðir... fögur fæðist gleðin á ný fjandi sein en kemur þó lífið lifnar við og sólin er hlý ljúf og friðsæl kemur ró... öll él styttir upp um síðir sorgin er bara hamingjuhríðir... fegurðin æ aftur fæðist furðulegt lífið mitt glæðist... ... fegurðin mun aftur fæðast fullur af von er ég núna hljóðlátt mun ég aftur læðast og reisa síðustu brúna... ] [ sendi þau af stað út í fjarlægðina ekkert þeirra hefur snúið aftur... einhvers staðar áttavillt á rangli leita þau ennþá slösuð og bitur... eitt af öðru þau týnast og gleymast... eitt af öðru þau deyja og gleymast... ... litlu ástarljóðin sem ég sendi í leit að henni... ] [ Að leita langt yfir skammt, græna grasið hinum megin við ána. Skoða dauðann reyna að leiða hugann frá fasteignaverði. Er 1. í dag? Ekki grunaði mig það. Paradís, stuttur bolur, fullt af brjostum, boðum, bílum, sætabrauði,magavöðvum. Lyktin af mér er aldrei eins sterk einsog þegar ég hef verið að hugsa mér til hreyfings. Yfirleitt þá hreyfist ég ekki fyrr en jörðin fer að skjálfa. ] [ Að bæta við ljóði er svolítið eins og að fróa sér. Það er oft gott það er aldrei vont stundum er það þétt og matarmikið stundum er það þunnt og fitusnautt. ] [ óviðbúinn fékk ég ör beint í hjarta- stað óvænt skaut ég bogamanninum skelk í bringu því honum brást nefnilega bogalistin í hjarta- stað mínum var grjót ] [ þungum skrefum arka ég dalinn þar eru víst leyndarmálin falin 1,2,3,4,5 dimmalimm loppinn á höndum og í hjartanu kalinn þurrum græt ég tárum kvalinn 1,2,3,4,5 dimmalimm af handahófi voruð þið öll valin kannski var ég illa upp alinn því fór sem fór því fór sem fór 1,2,3,4,5 dimmalimm ] [ Brött og erfið, en samt hægt að klífa þau. Leyndardómsfull og svipmikil og stór og há. Já, svona eru þau, fjöllin. ] [ Ég þekki mann þann þann sem ekkert fann ] [ glitrar á vanga tárin renna tárin brenna breikkar nú bros varir kynnast varir minnast sjaldséð ástin geislar sefur í iðrum oss berst á mót því sem beislar brýst út sem foss blossinn út breiðist berst með vindi og vatni lofað par leiðist lifnar við... ] [ Stjörnur himinsins á gangstéttum borgarinnar blikkandi hvern þann sem gengur þar um Ekki dagur án nætur ekki sól án tungls ekki ást án haturs enginn á ferð Fræknir forfeður okkar fyrirfinnast í skorpu rotnandi jarðarinnar, heimur tímans Kyrrt hafið umlykur þjóðir allra manna erfið barátta við okkar ruglaða líf ] [ Lífið lofar eitt leitin stoðar lítt Verst að vita ekki neitt vonin er eitthvað nýtt. Hver var ástin þá? Verskuldaði ei það að heyra og sjá hvað lygin kvað. Er draumur deyr dofnar allt! Hvorki fiskur né fé fýsir að vita Hver sú kona sé sem fékk mig að líta. Hver sem ég er ef ég fæ ekki að sjá hvert hún fer hana mun ég aldrei fá. Ég horfi hvert sem er og hennar ásjónu sé. Brátt burt ég fer brenn allt mitt fé. Er draumur deyr dofnar allt! ] [ Eldur blaktir í vindi þýtur um loftið hitar upp hjartað Logar þeytast um kveikja í læðast hjá Hvert sem ég fer birtist mér finn fyrir þér í hjarta mér Nálgast mig nær nú brosi ég breitt Flýgur mér fjær fatta ekki neitt Horfi á þig Horfi í augun þín Horfi til þín Horfi á hár þitt... ...þar við blasir rauður logi, rautt hár þitt... ] [ Vaknar nú Lifir þú Hamingjan sú sem mig bar sást mig þar leist mig hvar Hvergi svaf Mig gaf Sleist af mitt hjarta hið bjarta mun narta Ekki mig Heldur þig Hvort um sig látin er ég er þú ber Þig sá Reyndi að ná Ekki má svíkja þann ekkert kann ekki hann EKKI HANN! ] [ Hvað sem vera vill verðskuldar enginn Hvað sem vera vill hvíli hjá þeim Hvað sem allir sjá sér enginn Hvað sem einn erfir elta aðrir Hvað sem einn vill eignast eignast aðrir Hvað sem enginn vill eignast eignast allir Hvað sem gamall geymir girnist ungur Hvað sem aldur aðhefst ansar enginn Hvað sem lífið leikur lifir enginn Það lifir enginn ] [ Sjáðu mig! Stend hér, og tuska ég er fyrir þér. Öll orð sem ég yrði verða þér byrði. Þrífa, snyrta, vaska, þvo vinn það vel vinn fyrir tvo. Bakið brostið er vegna allra verka hér, enginn maður það sér hví ég ekki fer. Ástæðan sú er ástin mín, þú. ] [ Hvert hvarf loginn hvað varð um hann ] [ Hér, langur vegur hann gengur nú, minningarnar dregur aldrei aftur baki snýr. Gengur veginn þann er aldrei sýnist enda, en eitt þó veit hann hve lengi þeir benda. Aldrei aftur tilbaka þó hann vildi færa þá til saka, enginn skildi. Hægist um skref hvert og aldur sígur á, lífið var þess vert að endalokum ná. ] [ Ég? Meðvitaður? Já. Ég er meðvitaður um mig, meðvitaður um útlit mitt, meðvitaður um hegðun mína, meðvitaður um skapgerð mína, meðvitaður um innsæi mitt, meðvitaður um hugsun mína, meðvitaður um hreyfingar mínar, meðvitaður um tilfinningar mínar, meðvitaður um mig og það sem er í kringum mig. Að vera meðvitaður um sig það er að vita hver maður er, hvernig maður er, hvað maður er, hvenær maður er, hvers vegna maður er, og sætta sig við það. Ég er meðvitaður en hvað með þig? ] [ Í nótt myrði ég þig og hina Andlit ykkar eru svört og hæðin Elta mig í sífellu Hrópa þá að mér hákarlar Og ég æli þungum hníf Hjól örlaga minna er bremsulaust Og brátt fer ég í sjóinn Ólíklegt þykir að hjólið verði að bát Ég verð þá einfaldlega að fljúga Á meðan lygar umkringja höfuð mitt Eins og sígarettureykur Smýgur innum eyrun og augun Og þið hóstið lygahóstanum Hærra og hærra og hærra Ég held nú hnífnum mér nærri En hann breytist fljótt í blöðru Sem ég held í hræðslu Og svíf síðan hægt upp til skýja Sem að mynda vax myndir Af drekum fortíðar og sófum framtíðar Reynsluleysið og letin hræða mig En ég slepp ekki, ekki núna Ekki fyrr en ég kem að sólunni Mér verður kalt á höndunum. Furðulegt, ég sem er að sameinast sólinni En sama hvað ég reyni að ylja mér, ekkert dugar Þá síðan uppgvötva ég loks að Miðstöðin í hjartanu er biluð Sólin kýlir mig í burtu með öskri Og ég flýg að tunglinu Karlinn á tunglinu Hver hefði haldið... Hver hefði haldið að ein nótt gæti litað líf manns svona absúrd Hver hefði haldið... Neil Armstrong var ekki fyrsti maðurinn á tunglið Það var ég. ] [ Þú kramdir draum minn Um blátt hafið Sem þarfnaðist míns innilega faðmlags Á meðan ég ligg hérna Hjá þér naktri Skil ég að ferðin er óþörf Þú bregst mér aldrei Þó ég vilji Þig beygja og móta barnslega Þú étur allar tilfinningar mínar Og snýrð vonbrigðum Yfir í blóm og bros Ég sit hér hugsandi Um aðeins þig Og velti huganum Í tóma hringi og táknræn orð ] [ Ég myndi glaður lifa -án snillinga og stjórnmála -án menningar og velmegunar -án tækni og tóla Bara fyrir frið á jörð Ég myndi glaður berjast gegn drekum heimsins. Og glaður þegja, þó ég hefði sitthvað merkilegt að segja. Glaður myndi ég synda á móti köldum straum. Og glaður myndi ég deyja, ef ég fengi einungis ein lítil laun Bara frið á jörð ] [ Gleraugu segja margt um menn mín eru skökk og skítug, falleg en flókin, hjálpandi en heil og helvíti stundum fitug Brotnuðu samt einu sinni skrítin hafa verið síðan blessuð hafa bjargað mér að sjá veðursins blíðan En hvað með þá sem þurfa ekki gleraugu? þjást þeir af gallaleysi? ] [ Ef ég færi til helvítis á jörðu myndi heimurinn samt litast af minningum um þig og vanilludropar augna fullra af söknuði myndu fylla göngustíga heljar og fljótt myndu púkar huga okkar drukkna í flóði væntumþykju Ég myndi stökkva fyrir bíla fulla af myrkri bílstjórarnir kúgaðir af söknuði eins og ég en þeir gætu aldrei tekið handbremsubeygju frá óhamingju yfir til sannrar gleði Ég gæti það, ekki fyrir sjálfan mig ég hef aldrei verið nægilega fullur sjálfdýrkunar en ég gæti það fyrir þig ] [ Er ég fastur í viðjum vanans, hefur hversdagurinn gróið við mig og bundið mig rótum? Nei, ekki samkvæmt þér eða augunum í huga mér nei, samkvæmt ykkur skríða köngulær hugarflæðis míns hraðar og hraðar Í gegnum absúrdískan huga minn Þær vilja komast út úr höfuðkúpu minni reyna að skríða út um augun Og hægt tyggja þær hugsanir mínar, eina og eina hrækja þeim út úr sér og sjá hugsanirnar blómstra sem fallegustu liljur Það hræðir mig Því ligg ég hér og hvílist í vanmætti á rúmi sem er alltaf að minnka og að lokum er engin dýna til að styðja við mig ... aðeins þú ] [ Ég stökk út í á með svörtum englum í fljóti fullu af raunsæjum draumum eltir þú mig Það lætur mig enginn vera, aldrei enginn nema elsta tréð á listaverki barnsins Tréð hefur verið fast á sama stað, í garðfangelsi í 260 ár Tréð hefur verið það eina trausta í lífi mínu; lífi sem hefur séð sjónvarp breytast úr skemmtun yfir í öskrandi mann í jakkafötum lífi sem hefur fundið hunang breytast í blóðbragð og látið býflugur heimskunnar stynga tilfinningarnar til algjörs óttaleysis Í þessum heimi sem ég hef neyðst til að viðurkenna eru öll lög eins, þannig vilja "þeir" það og "þeir" slökkva á öllum kertum En í ánni hef ég loksins fundið nýtt ljós þau liggja þarna í ringulreið Ljósin eru þau sem voru eins og ég og ég mun verða eins og þau með sára fortíð og enga framtíð En tréð verður kyrrt í önnur 260 ár; það hefði framið sjálfsmorðstilraunir ef það bara vissi hvernig á meðan eru "þeir" endalaust að reyna vinna leið til að lifa að eilífu ] [ Hugsun mín var aldrei neitt Var aldrei að þykjast eða stæla Var aldrei að eltast við tíska líðandi stundar Hugsun mín var aldrei neitt Var ekki að gera mig myrkfælinn Var ekki að gera mig glaðan Hugsun mín var aldrei neitt ekki djúp, pólitísk, heimspekileg ekki reið, glöð eða heimskuleg Hugsun mín var aldrei neitt Nema hún sjálf Hugsun mín var þetta ljóð ] [ Ég dó næstum því áðan: ég leit niður á ykkur og þið voruð að gráta ég kallaði úr himnaþyrlunni: Út af hverju? Út af hverju eruði að gráta, ég var að segja ykkur Ég var að segja ykkur að ég elskaði ykkur En þið hættuð ekki Og litla systir mín grét grátri vélsagar, Vissuð þið að vélsögum er bara nokkuð vel við tré? Ég dó næstum því áðan: Var að hlusta á þig, lagið mitt Og ég fann að ég var alveg að fara að verða að punkti þannig að ég hraðspólaði fram á uppáhaldskaflann minn vonandi ertu ekki sár. Ég vildi að ég geta hætt að hlægja en ég get það ekki, Lífið er svo kómískt. ] [ Mitt draumahlutverk hefur alltaf verið píslarvotturinn en í leikriti lífsins hef ég neglt mig sjálfur krossinn við og ég dey fyrir eitthvað ómerkilegt sem aldrei var og þið vitið það. Í stað þess að dá mig sem píslarvætt, sem merkan mann með drauma og vonir, dáiði mig orðlaus fyrir blinda heimsku mína. ] [ Dagsljós birtan skín svo skært Í vetrarljósi sjáum við Barnið litla sefur vært Það finnur Guðs almáttuga frið Fann ég í vetrarþokunni óljósar minningar Allt áður sem ég unni Biskupsins siðabreytingar ] [ Augnlok við augnlok snertust sálirnar, eins agndofa og ástin. Dönsum, dönsum á túninu bak við mánann, túninu sem alltaf er autt. ] [ Mexican truckdriver, that's what he is. He sits all day long, wonders the past what or what not he did wrong that night. Mexican truckdriver Of course that's what he is He dreams up a reason, and distances his self from the real problem which is himself. Mexican truckdriver, of course that's what he is. He drives all night long and sleeps all day through. He cant help himself, can't finish the job. Mexican truckdriver, thats what he is. He’s miserable, he’s bored, doesn’t know what to do... But I guess that's what all Mexican truckdrivers go through. ] [ Köld móða á kinnum mínum kallar, komdu nær, kysstu Ég ætlaði að bjarga heiminum en ég sofnaði Setjumst að í svartri byggð á móti sólinni Strikamerkjafoss staldrar við spyr sjálfan sig ] [ Ég lít í augu hans og sé að hann er æstur, reiður: leiður á einræði mínu Hatur í augum hans ég yrði reiður ef ég fengi sama matinn dag eftir dag leiður á tilbreytingarleysinu Hann liggur í rúminu bíður eftir tækifærinu til að fá útrás leiður á skipunum mínum Hatur í augum hans ég yrði reiður ef ég yrði geldur leiður á getuleysinu Virðist svo hræddur hræddur við að stíga skrefið skrefið til frelsunar Nóttin í nótt er nóttin sem hann mótar landslag andlits míns upp á nýtt meðan ég sef svefn hinna dæmdu. ] [ Hríðarbiljir koma og fara Stormtíðindin nálgast óðfluga Veðurfréttamennirnir svara Hvort að viðvararnir eigi að duga Skin og skúrir skiptast á hagl og snjókoma Mig verkjar kalt niður í stórutá Vetrarkonungur vill það lofa Úti hýrist búfénaður á nóttu sem og degi Á puttanum fer ferðalangur sem ferðast á láði sem og legi ] [ Steinninn hélt mér ósýnilegum höndum hélt mér heljarböndum Engin var undankomuleiðin ófærð var heiðin Eins og sjón frá sjáanda fer sjórinn fjarlægðist mér Ég bjargarlaus og barinn var og bjartur guð: hann var þar Ég brosti honum björtum að og bjáninn spurði: hvað er að? Svarið var stutt og gott Sérðu ekki, ég dey í nótt Þá brosti hann bjáninn sá ,,Barnið mitt, þú ferð til himna þá" En það var ekki satt englanna vegi af ég datt Og minningar nú allar slást og breytast í drauma sem að þjást ] [ mig tekur sárt að sjá hve margir ekki fá huga sinn að tjá því sumir þeirra ná lífið út að má af lífsins skjá ] [ Sagt er að hugur manns geti verið rólegur sem lygn sær minn er sem stórsjór með holskeflum og ölduróti ] [ oft mér finnst ég ver´að sökkva í hinn djúpa dal þó ég muni ekki stökkva í hinn dimma sal ] [ eins og að vera bensínlaus á grænu ljósi leiðin greið en orkan búin ] [ Í barnsins augum sú spurning sést, hví er mér hegnað, hvað hef ég nú gert? En svarið ei kemur og barnið það vex, þolandi skammir, nöldur og rex. Fullorðinn maður að utan, hver sér, að innan allt rifið og eyðilagt er. ] [ (Kveikjan af þessari þulu-bulu (þ.e. órímuðu ljóði er lestur lesendabréfs í Morgunblaðinu 3l. október s.l. ( Guðmundur Guðmundarsson, eldri herramaður) ´Allt frá dögum Egils´ íslensk ljóðagerð stuðluð! skrifaði Guðmundur nokkur reiðilega ´Nú barasta allt til hópa ruglukollar hortittasmiðir kjaftaþruglarar Og ÞETTA birtir Mogginn suss og svei! --- Laxness var óþekkur shakespeare einnig stuðluðu harla lítið sem ekki neitt. Ég ljóðskáld innan gæsalappa eða ekki horfi á þessi háu tré án laufa vetur þau bifast til og frá (kannski má nú ekki segja bifast í þessu samhengi?!) Haglél skellur á bárujárnið það er gott að vera innandyra geng fremur eyrðarlaus um hús mitt grasekkja set upp gluggatjöld full af blómum vermandi ´Það er ekki hægt að bjóða upp á von ljóð´ segir Gerður Kristný Elísabet Jökuls mæðist í mörgu segir margt vill bjarga svoooo mörgu Ég hlusta stundum þegar ég nenni að vekja athygli that is the point! Bónusljóð Andra aftur? 30 prósent meira, -sama alisvínið komið þarna aftur og á allt (Ekki Andri, ég sem er tengd honum gegnum ættir okkar!) Við erum ekkert öðruvísi en Egill, eða hvað aðrir tímar reyndar Hvað á blessuð bókin að heita hortittasmiður heillinn meðgangan var erfið en svona óx þetta ´afkvæmi´ akkúrat svona... ´Að gefa út ljóðabók´ sagði einhver er eins og að kasta rósarblaði ofan af Mont Blanc og bíða eftir bergmálinu (alla vega hjá þeim sem eru ekki færir að fylgja bókinni eftir) Hva, er ekki nóg að skrifa bara bókina, getur ekki einhver annar selt hana!!!! spyr ljúflingurinn Erum við nokkuð í stríði? Kannski ættum að skrifa VEL SKRIFUÐ ljóð gerum það bara! Jú kannski að finna frelsið tjáningarstríð hið frjálsa orð (þulu-bulu ljóð) Niðurlæg é ljóð með athæfi þínu!! Kannski kona fari í göngutúr í myrgrinu mikið af stjörnum norðurljóðum frosti súrefni í lungun Út skal snöggvast að munnhöggvast (rímar! sko barasta!) Ástkæra ylhýra málið Hversvegna fórstu svona fljótt Jónas, fótbrotinn og fullur Hvað hefðir þú hugsað, Munu þeirra (okkar) tímar koma Mun vera hægt að bjóða upp á ´vond´ ljóð í friði, svo verða þau kannski einhverntíman betri (Ekkert veitir slíka yfirburði sem það að vera dauður. Jóh. Sigurjónsson-- Og: Ástin er kannski ekki lengur sterkari en hel, því tímarnir bjóða upp á svo margt. Guðb. Bergss. Hjartað býr enn í helli sínum. 357711 ] [ Þú ert vegur sem liggur ekki neitt. Umlukinn eyðilegu landslagi og dauðum trjám. Undir hvítum stjörnum og svörtum himni er ég dauði fuglinn við veginn. ] [ Í gær batt ég fyrir augun á þér svo þú sægir ekki hver ég er. Á morgun sker ég af þér lappirnar svo þú farir ekki.... ] [ Augu þín virðast jafn dauð og hafið. Það er ekkert sem hreyfir við þér, nema kannski tunglið og 2 högg í huga þér. ] [ Í dag munum við ekki gera neitt, þar sem í dag er góður dagur fyrir brunabíla. ] [ Ég er ekki þú ég hata þig. Þú ert ekki ég sem betur fer fyrir þig. En þrátt fyrir allt og allt sem ég sé í þér þá get ég ekki séð sjálfan mig án þín. ] [ Ég teygi hönd mína upp úr hafi vanlíðunnar, í kringum mig synda ótti og skömm. Á bakkanum stendur reiðin þögul. Í formi skýfalls kemur vonin. Þögul horfi ég á bak tímanum og hef mig til móts við sólar. Í huganum er hafið minning. ] [ Dauð ljóð og ljótar minningar var allt sem ég gaf þér. ] [ Rökkur kvöldsins læðist yfir, sjá, þar er máninn fölur á brá. Hljóðnar nóttin hægist um, verur dökkar fara á stjá. Enginn veit hvar hættur leynast, er glata sólin lífsins þrá. ] [ Hvítar strendur við mér blasa, ómur hafsins til eyrna berst. Þú heldur um mig sterkum höndum, aldrei muntu bregðast mér. Sofnar sólin bak við sæinn, saman liggjum ánægð tvö. Er vaknar dagur fullkomnunar, horfir þú í augu mér. Sameining okkar er sundur vorum, að nýju loksins hafin er. ] [ Hamingjan fallvölt er, fljótar en áður brosið frá þér fer, hugsunin staðföst fylgir þér, að ekki sé allt eins og vera ber. Tíminn líður, allt áður var, gamlir staðir, hvað var þar, dagurinn í gær, alltaf af hann bar, áður en líkaminn var orðinn eitt allsherjarmar. Þú vaknar einn daginn, tómur, dofinn, nakinn, lífslöngun frá þér farin, það eina sem er eftir, hugur ótaminn. Hvar er konan, allur skarinn, skyldu þau öll hafa farið á barinn, hví ertu særður, varstu laminn, hví ertu allur svo illa farinn. Skyldi það vera til eitthvað annað, ekki sem alltaf er sjálfum þér bannað, sumum er það lokað, af öðrum kannað, af sumum viðurkennt, af öðrum skammað. Trúirðu á það, spyr ég þig nú, að getirðu tekið aðra trú, trú sem að byggist á því að þú, haldir í vonina hér og nú. Til er það líf, það segi ég þér, sem færir oss hamingju, þér og mér, því trúir því hver og einn sem hann sér, en trúin er sterk, það sérðu best hér. ] [ Ég hringi í þig frekar oft en það svar aldrei neinn. það getur verið að ég láti hringja of stutt eða ég hafi týnt númerinu hjá þér án þess að taka eftir því. ] [ Fögrum orðum lýsi ég þér, sem hug minn ættir allan. Þú töfrar mig og dáleiðir, þér fylgi í einu og öllu. Þú ert mín hugsun, ástin mín, þig dreymi stundum öllum. Þú ferð mér frá, nú horfinn ert, mitt hjarta nálgast brostnun. Mér líður sem að örlögin ei okkur vilji saman. Því sit ég hér og dagdreymi um stundir okkar geymdar. Sú fregn er kunn að komir þú, vonin á mig kallar. Þig langar til að snerta og sjá, strjúka höndum um þig naktan. Er það draumur eða þrá, að fanga hug þinn allan. ] [ Eitt saklaust barn að leik, eða hvað sýnist þér? Er gleði þess komin á kreik, eða felur það óttann, jafnvel fyrir sér. Hefur sólin nú risið, er gleðin þá sönn? Eða er brosið, af vana, frosið, búið að gleymast, það sanna, í dagsins önn. En sjá, þar er eitt barn að leik, svo saklaust, svo einlægt, svo fylgið sér. Að trúa það tindri enn lífsins kveik, ómælda gleði það gefur af sér. En mundu að barnið það brosir sjálft, það kann ekki ennþá lyginnar mál. Af sjálfu sér gefur það sanna ást, til þess er vill sjá barnsins gleði og tár. ] [ Við erum tvær sálir í krukku á ísskáp í ljótu eldhúsi sem er lítið og illa þrifið en dugar þó oftast. Einn dag verður krukkan tæmd í ljóta vaskinn og kannski þá förum við í aðrar krukkur í öðrum ljótum eldhúsum. ] [ Tussa ! Jussa ! hrópa krakkarnir, þetta gerist á hverjum degi, ég hata það. Það er viðbjóðslegt að horfa á hvernig krakkarnir dúndra hnefunum, sparka fótunum, á alltaf sömu stelpurnar aftur og aftur. Þetta er einelti, bara hreinasta ofbeldi. Þessar stelpur eru þybbnar, en þær eru samt manneskjur, og það á ekki að koma svona fram við þær. Mér langar oft að hrópa á þessa durga: Hunskist þið hingað og sýnið hvað þið getið, Helvíti eru þið heimsk að ráðast á eina og eina stelpu í einu! Enn dugar það ? dugar það að hlaupa bara til kennarans, segja honum allt og vera svo barin í klessu næsta dag? Nei, það dugar ekki. Ég er hrædd. ] [ Hart er stundum í heimi hér helvítis kuldi - sem vera ber en Drottinn er alltaf að dunda sér á daginn við þetta sem miður fer og lagar það eflaust að lokum ] [ Þú hringdir og ég kom til þín á björtu sumarkvöldi. Ég sagði þér frá sorg minni og framtíð, frá Kína, París og syni mínum. Þú gafst mér bros og hlýju yfir tebolla í stofu þinni. ] [ Að fara yfir endimörk alheimsins og hitta herra Guð, er það kannski líkt því að hitta kennarann eftir próf, og fara saman yfir villurnar? Skoða í ró og næði allt það rétta og það ranga. Kannski er einkunnin góð. Fáum við þá kannski baug og vængi til vitnis um að við komumst áfram. Verðum við þá loksins englar? Eða er það kennt í öðrum áfanga? Og ef einkunnin ekki fullnægjandi? Hvað þá? Sendir hann okkur þá til baka, aðra önn, og veitir tækifæri á að taka prófið aftur? Eða erum við send niður í kjallara, Í tossabekkinn? Þar sem tækifærin eru komin langt yfir síðasta söludag. ] [ Ég ER Það er nóg ] [ Þegar ég loksins loksins fann sjálfan mig komst ég að því mér til skelfingar að ég var aleinn og yfirgefinn á miðjum öræfum með bilaðan áttavita og ekkert kort og sólin hló hæðnishlátri þar sem hún var við það að setjast Þegar ég tók fyrsta skrefið í heimferðinni hugsaði ég með mér hve ljúft það væri ef ég gæti bara týnt mér aftur ] [ Eitt sinn var bangsi sem nennti ekki neinu hangsi, hann vildi fara að róla og læra að hjóla. Þó aðeins væri eins vetra, það fannst honum bara betra. En þegar hann róla vildi "af stað" rólan ei skildi. Hann dreymdi um að hjóla, upp hæðir og hóla. En þegar hann fór að hjóla vildi hjólið aðeins spóla. ] [ Eitt sinn var kisa, sem minnti á risa, hún vildi fullt af fjöri og komast áfram í kosningarkjöri. Frökk hún var, það vissu allir þar, það varð henni að falli á kosningarpalli. Þegar hún frétti það reif hún blað, átti bágt og æpti lágt. ] [ Nú sem ég lítið ljóð, um konu sem átti aðeins hljóð, en ekki gott skjól og aldrei var í fínum kjól. Tíminn leið og enga takmarkstindi hún kleif. Vann alltaf sitt verk og í snauð aðeins át berk. Aldurinn kom yfir, án þess að mikið kæmi fyrir. Loks kom svo dauðinn, og tók enda á snauðinn. ] [ Í huganum leynast myndir, af leikjum hrundar og hals. Þar sýnast mér unaðssyndir, sverma í lostans dans. Þar sjást svört og sexy, efnislítil klæði, liðast um mjöðm og leggi, laða fram lostans æði. Lundin lítur við, lostinn tekur völdin, augun taka mið, ala frygðar böndin. ] [ Krakkar úti að leika sér, gaman er hjá þér og mér, kasta snjó í stelpurnar, blautar verða telpurnar. Allir eru að keppa og úlpurnar hneppa, hver hefur mest þor, þetta er ekkert slor. Nú reyna strákarnir hve langt ná hrákarnir og hann verður kátur sem hittir flestar hnátur. ] [ Lampinn minn við rúmið mitt, ég sagði þér þetta og hitt, öll hin heimsins vandræði, þau voru sum algjört brjálæði. Þegar fór að nótta og mig dreymdi um minn mesta ótta, vaknaði ég og kveikti á þér varð þá allt bjart hjá mér. Löngu eftir þetta gekk ég í frakka, átti konu og krakka, þá þú brotnaðir, í ruslinu þú rotnaðir. ] [ í draumum þínum syngja sólskríkjur um nýja veröld þarsem allir elska alla --- vakandi ertu bitinn daglega og í ástarsorg hneigja svanirnir höfuðin og gráta --- á milli svefns og vöku vaka hrægammarnir yfir þér með klærnar svo hvassar að þær gætu rifið gat á hjartað í þér --- það er sárt að blæða ] [ "Já, já vinur" "Margur verður af aurum api", segi ég ábúðarfullur og teigi mig í annan banana ] [ Litla hindin, alltaf fyndin, heillandi og góð, átti gæskusjóð. En einn daginn kom maður, sæll og glaður, með byssu við hendi og glott til allra sendi. Svo heyrðist hvellt hljóð og það kom blóð, hindin var ein, hún var alltof sein. ] [ Máninn svo blár, var alltaf svo sár, varð að bíða meðan árin tóku að líða. Á honum var ei mannvera kát, með allt sitt mannafát, mannvera sem spilaði skák og mát, þar til kom mannslát. Hann einmanna var, en svo kom kar, út úr því komu menn, það fannst honum nóg í senn. ] [ Sjórinn breytist, grænn og blár hann virðist svo undarlega klár. Segjandi frá sögum á öllum dögum. Útsýnið lengra en þig órar. Báran í klettana klórar, gerir myndir í berg, álf eða dverg. Sit í litlum kofa og sjóinn lofa, hann mestur er hér, því hvíslaði hann að mér. ] [ Spiladósin mín, ég hlustaði á lögin þín. Horfði á dansandi ballerínu, sem ég seinna skírði Jósefínu. Í bleikum blúndukjól, sem átti spiladós sem ból. En eina vetranótt varð lagið hljótt. Þú hættir að spila, fórst að bila, söngurinn var fokinn, þetta voru endalokin. ] [ Stelpan með andlitið frítt, var aldrei strítt, alltaf flott, með fallegt glott. Sæt og fín, stúlkan mín. Þó góð væru öll var hún eins og prinsessa í höll. Eins og hún var að vona varð hún kona sem vafði mönnum sér um fingur þar til kom demantshringur. ] [ Sólin er svo skær, ég verð um allt fær, hún er mér svo kær, sú fagra gyðjumær. Hún er góð, svo fróð og verður stundum rjóð, en aldrei alveg óð. Ekki er hægt að taka myndir þegar hún um himininn syndir og öllum vel lyndir, því loftið hún kyndir. ] [ þú brosir og mér hlýnar inní hjartanu ég horfi augun þín og sé tilgang lífs míns 27-11-03 ] [ Svíf í draumaheimi og öllu gleymi. Í draumaheimi mínum kemur prins á hesti sínum. Prinsinn kemur á hvítum draumahesti með brynju og vesti. Sverðið glitrar á leiðinni til mín og ég hugsa "ég er þín". Þegar síðustu skrefin hann tekur og ég sé hann betur, þá vakna ég við köllin frá mömmu, það er komið bréf frá ömmu. ] [ Elsku besta amma mín Allt þér gangi í haginn Hér er hjartans óskin mín Til hamingju með daginn ] [ Nú er ég að semja um strák sem vildi bara lemja. Hann braut öll leikföng, mjó og löng. Hann var ei myndarstrákur, gerði frekar hrákur, ó, sá litli drengur var ódæðisfengur. Mamma hans og pabbi voru út á labbi, töluðu um heima og geima og vildu drengnum gleyma. ] [ Gaddi litli geimvera, þeyttist um allt, og hafði margt að gera, eins og að setja í súpur salt. Hann unni sælgæti, það gott var í maga, hann var alltaf með læti, hann ekki hafði aga. Hann ei í skóla gekk, og hrikalegur var, kæmist aldrei í fyrsta bekk, því allir fengju mar. Hann reyndi oft að fljúga, og þá bara datt, þá þurfti hann að ljúga, því Gaddi litli geimvera sagði ekki satt. ] [ Kurteis, traust og kærleiksrík Kostum prýdda, skarpa Ótrúlega er ég rík Að eiga þig að Harpa ] [ Mér ennþá finnst erfitt að skilja Þín ótrúlega ég sakna Oft skynja ég lífið sem ljótan draum Og leita þín er ég vakna ] [ Ég vona að Guð mér gefi Að gæta ég megi mín Aldrei mér læðist að efi Og ekkert mér villi sýn Að starfinu mikla ég stefni Og styrk öðrum geti veitt Orð mín og loforð ég efni Þess óska og bið ég heitt ] [ Stundum er ég ósátt, við minn æðri mátt Og sorgin mig heltekur, þó langur tími sé liðinn En þó að ég sé vanmáttug og skilji ósköp fátt Ég skil samt að loksins hefur þú fengið friðinn ] [ Ég veit að þú yfir mér vakir Og veitir mér aukinn styrk Sú vissa er vonarljósið Og vörn gegnum élin myrk ] [ Ó fósturjörð sem fæddir mig Þú ert fegurst öllum Alltaf mun ég elska þig Með kostum bæði og göllum ] [ Finnst mér alltaf eilíf jól Er ég kem í Hvestu Finn þar frið og öruggt skjól Hjá foreldrunum bestu ] [ Skal nú vísu skella á blað Um skjaldbökunnar hirði Alltaf skaltu vita að Þú ert mér mikils virði ] [ Ef mig illir draumar hrjá og svefnleysið mig plagar Alla hluti mamma þá Í gegnum símann lagar ] [ Upp vex eins og til er sáð Elsku pabbi besti Marga speki og mörg góð ráð Mér gafst í veganesti ] [ Þú sem gekkst í gegnum Helvíti Þú sem allir fyrirlitu og smáðu Þú sem sligaðist undan áhyggjum heimsins Þú sem nötraðir af ótta Þú sem þráðir að þjáningin tæki enda Þú sem klesstir allstaðar á veggi Mér þykir vænt um þig! ] [ Heima situr sjómannskona Stolt er hún og bein í baki Í illviðrum gætir tveggja sona Sá þriðji á sjó, svo og hennar maki Hún veit að hún verður að bíða og vona Vona að Drottinn yfir þeim vaki ] [ Ég var ekki gömul en samt fannst mér hafa séð nóg, þegar ég hafði í raun alltaf verið blind Heyrt nóg, þegar ég hafði í raun aldrei hlustað Ég var ekki gömul, en samt fannst mér ég verða að kveðja þegar ég hafði í raun aldrei heilsað ] [ Hver ertu? Hvað ertu? - Ég veit það ekki´ en til öryggis ætla ég að ritskoða mig áður en ég treysti þér fyrir því ] [ Á lífinu missti ég tök Er Bakkusar féll ég í vök Því stjórn hans er hörð Stór heggur hann skörð Margt ólánið er hans sök Á hraðbraut til Helvítis ók Og áfram ég neysluna jók Myrkrið það ríkti Og martraðir ýkti Paranoian mig skók Í myrkrinu var engin týra Ég reyndi mig niður að gíra En aldrei það tókst Og firringin jókst Samt hélt ég mig vera að stýra Svo fann ég minn æðri mátt Ég skynjað´ann á minn hátt Eftir áralangt mók Loks leiðsögn ég tók Og sjálfa mig tók í sátt Þótt múrinn mér virðist um megn Ég ætla að komast í gegn Ef ekki ég þreytist´ Að lokum ég breytist Í fullgildan þjóðfélagsþegn Oft lífið er erfitt og grátt Til framkvæmda skortir mig mátt En eitt þó ég veit Að í dag er ég streit Ég stefni í rétta átt ] [ Ó hvað ég nýt þess að horfa á þig, tala við þig, hugsa til þín Það er eitthvað við þig sem lætur mig langa til að verða betri en ég er ] [ Kæri vinur Kærleikurinn er sem logandi þráður Þráðurinn liggur frá mér til þín Og sömu leið til baka Þessi þráður situr ekki bara þarna eins og steinninn Það þarf að búa hann til, eins og brauðið endurgera stöðugt, gera nýtt. Kæri vinur Nýtt ár, Óravíddir framtíðarinnar með nýjum tækifærum Óendanlegir möguleikar í hverju augnabliki. Hvert augnablik innifelur „Nýtt upphaf“ Upphaf þar sem ég og þú getum skapað góðar orsakir fyrir framtíðina, skapað hamingju. Kæri vinur Þessu korti fylgir gullinn þráður veruleikans sem tengir alla hluti saman Mig og þig og alla hina. Leyfðu mér að geta þess líka hvað þú ert sérstök manneskja enginn er eins og þú. Finnst þér það ekki frábært? Án þín væri heimurinn öðruvísi. Án þín væri heimurinn fátækari. Nam-Mjóhó-Renge-Kjó Nam-Mjóhó-Renge-Kjó ] [ einhver hefur hellt myrkri í gluggana aðeins stöku sinnum sigla skipin bakka á milli ] [ Vinur er traustur, en þarf ekki að vera hraustur. Vinur er góður, en ekki endilega fróður. Vinur er heiðarlegur og vinalegur. Sannann vin er ekki hægt að kaupa Vinur þarf ekki að vera fljótur að hlaupa Allir ættu að eiga vin ] [ Draum úr myrku djúpi skanna dragast skýin sólu frá djúpt í móðu minninganna mömmu og pabba er ég hjá. Fram í dalsins fögru hlíðum ferðalag um draumalönd sumardvöl í sveitinni tíðum sælutíð þá fór í hönd. Lítill fugl við lækinn hjalar lóan syngur dirrindí kýrnar baula og kisan malar kærleiksfaðmi er ég í. Þakklátur er ömmu og afa ungur fékk ég ást hjá þeim lífs í nesti létu mig hafa loforð guðs um betri heim. HarHar ] [ Það er mikið líf bara rétt við sökkul sandkassans sem er fullur af eðlum þegar rokið skall á um fermingu og kirkjugestir fóru allir út í buskann eftir að búið var að lesa fréttirnar hægir hann á bílnum og vonar að það dugi til að hann hitti á grænt á næstu ljósum ef birtan er þá næg til að hægt verði að fara að tína samann alla hleypidómana og þykjustuna sem breiðir sig hér yfir allt ef það væri bara ekki þetta helvítis rok. Hvernig er það á þakinu núna eftir að við fórum að renna svona vel og létt reyndist að slokra því niður. Þetta verður allt í lagi. Ég kem bara á morgun og þá getum við séð að þetta er ekki skurður sem var fluttur hingað í gær og enginn vissi hver ætti að borga bílinn. Við vorum öll skítblönk hvort sem var en það skipti ekki máli þetta snýst bara um að gómann. Heldurðu að hann sleppi þegar öllu er á botninn hvolft þá kemur í ljós að myrkrið dugar best þegar kemur að innsta hringnum í garðskreytingunni sem homminn gerði ódauðlega daginn fyrir kosningarnar sem réðu úrslitum um hvort við fengjum að vera fram. Brosið ljómar silalega þegar haft er í huga að framburður er tvíþættur. ] [ hef horft á átta stjörnuhröp og óskað þess að... hef brotið sautján óskabein mér í vil og óskað þess að... hef týnt upp fimm fjögurra laufa smára og óskað þess að... hún verði mín... ... mun líklega halda þessu áfram í nokkur hundruð skipti í viðbót þar til að hjátrúin verði mér marklaus og hugur minn hlustar á ný þegar örlögin hvísla enn og aftur: “it was never meant to be...” ] [ Lífið læðist hjá eins og lækur um farveg sinn meðan ég sef á bakkanum ] [ Horfi á mannlífið á hraðferð gegnum gluggann á strætisvagninum á rauðu ljósi er eins og lífið stöðvist á græna ljósinu byrjar það aftur ] [ Ég bið að heilsa sagði hún og hélt á braut vopnuð stórri ferðatösku ] [ Ein hverfur önnur kemur Ég er einhverfur svo ferð þú líka ] [ Ég var í starfskynningu í dag hjá stóru alþjóðlegu fyrirtæki. Fyrsti starfsmaðurinn grét og grét. Annar hafði mikið ljóst hár sem stóð út í loftið. Sá þriðji hljóp fram og til-baka í allar áttir. Fjórði starfs-maðurinn var samt furðulegastur af þeim öllum. Hann henti grófu salti yfir mig. Þetta var mjög áhugaverð starfskynning, en ég er samt ekki viss um að ég vilji verða veðurguð þegar ég verð stór. ] [ Það var ekki heiglum hent að fást við þá fögru rós sem steypti sér í eigingirni sálar sinnar. Hún lokaði krónum sínum og ætlaði sér að blómstra með vorinu, en þá voru engin skilyrði fyrir hendi og vorið kom ekki. Ísöld var gengin í garð frostrósarinnar sem kól hug og anda mannsins um ókomna tíð. ] [ Úti rignir, hérna inni, maður lítið barn signir. Barnið hefur ótta, það er á lífsins flótta. Maðurinn ekki skilur, hann veit bara að úti er hinn mesti bylur. Barninu hefur alltaf langað að húsið að flýja, og það lengst upp til skýja. Þar eftir barninu bíður fólk með geislabaug, og barnið upp þar strax flaug. Maðurinn þetta aldrei skildi, bara barnið sitt aftur vildi. En svona vildi littla barnið lífið enda, og öðrum engli lífið sitt senda. Hann vildi kannski lifa í dag, þetta var bara ekki littla barnsins fag. ] [ Það er komin snjór í bæ. þá syngja allir húllum hæ. Og svo stinga allir sér í sæ. Svo fer snjórin og allir sega bæ. ] [ eldur brotið niður í eymdir einsog þú lofið eymdina lofið eymdina hún er það eina sem heldur sindseminni í skefjum svefn sofanndi í reyk og ösku drauma þinna þetta er lifið ] [ græðgin læsir sig inni þjófélagið hungraðir, bíða þeir eftir sotasigi en vertu ánægður ef þú ert ekki einn af þeim reiðin berst út sál þeirra dauðin verður viska og masslif verður greindin en vertu ánægður ef þú ert ekki einn af þein sorgin situr í vitund þeirra sem verða undir lifsinns ofsa en vertu ánægður ef þú ert ekki einn af þeim því það eru þeir.... það eru þeir! ] [ Fallega á þig sólin skín sælueyjan er í minni er ég leit í augun þín ungur varð í annað sinni. Víst mér þótti vænt um þig vanga þinn strauk með höndinni ung og fögur þú fangaðir mig flatmagandi á ströndinni. Brúnu augun brostu þín brimið söng um himingeiminn dásamleg sem drottning mín dróstu mig inn í töfraheiminn. Lífið allt svo lifandi var leið í örvandi straumi ánægjustund ég átti þar uns ég vaknaði af draumi. HarHar ] [ nú dögun er horfin að nýju á braut niðdimmt myrkrið hylur mína sál lífið aldrei hefst, horfið í aldanna skaut hef ég engan neista, til að tendra mitt bál... eldurinn kulnar og krafturinn dvín kalt er mitt hjarta og dáið nú horfandi aftur, ávallt til þín og hryggur ég brenni, enn eina brú... vinir í vanda, eru ei mínir vilja þeir aldrei, heyra mín mál aleinn ég stari, á mínar hryggu sýnir alla gleði vantar, í mína aumu sál... vængbrotinn ég skríð í skugga skotið hjartað blæðir blóði enginn hérna, mig til að hugga heyrðu minn grát, í þessu ljóði... nú tek ég stökkið og niður ég fell niðdimmur veturinn er kaldur ei meir enga sorg ég skynja, í grjótið ég skell syngjandi fuglinn missir flugið og deyr... ] [ gangandi um sléttur hugans, þær sléttur sem enn eru ókannaðar hugsandi þær hugsanir sem liggja eftir, ókláraðar, ósannaðar hittir maður djöfla heilans, þá er ráðast til atlögu, fyrirvaralaust þeir niðurlægja þig og segja þeir ljóta hluti, þeir brýna sína raust þú gengur fram á dauðan mann sem glatað hefur sál sinni og hann segir þér hversu illa þér tekist hefur að eyða ævi þinni... sléttur hugans eru með þúfur á stærð við hús og hallir og það skiptir öllu máli, hvort þú standir, eða fallir því fall leiðir til geðveiki og stöðugleiki til góðs lifnaðar og þess vegna skaltu henda öllum gömlum syndum, gæta þrifnaðar því hvers vegna að muna eftir fortíðinni og gleyma sér í ógleði sem aðeins vinnur mein á þínu eigin geði... vertu hamingjusamur, því við enda sléttunnar er hús með kerti í glugga þú nærð hamingju, ef þú nærð að stíga út úr þínum eigin hugarskugga haltu því áfram, gang þú lengra, því til mikils er að vinna ekki falla, ekki hrasa þó aðrir nái að detta, þú verður að komast til hinna ljós í glugga, enginn matur eða vín sem bíður, aðeins hrein sæla komdu hingað, því hér heyrir þú enga djöfla, enga menn, orð af munnum mæla... gangtu aðeins lengra... ] [ Þegar þú segist vera falleg, verð ég alltaf svo hissa. Því þegar ég lít á þig, þá finnst mér þú vera hryssa. ] [ This world was made with good mind, but not all people are that kind. sometimes good is hard to find but when you do hold it tight, cause maybe you can spread what´s right. ] [ Voðaleg'er veðrið gott, væri það alltaf svona, færri myndu flytja brott og fleiri mundu koma. ] [ Ekki skortir orðin nú, því undir nefi hef ég kjaft, bráðum verð ég betr'en þú, - biðþæfingarskaft. ] [ Hagur þykir Lárus lítt, leirburð vondan semur, bragur geymir tálið títt, tildur Lárus gremur. --- snúið við --- Gremur Lárus Tildur títt, tálið geymir bragur, semur vondan leirburð lítt, Lárus þykir hagur. BÞA ] [ Gosaskan þeittist með emjandi gný Glóandi hraunið vall niður bratta hlíð Drunurnar dundu sem drápstól í stríð Dómsdagur kominn með skelfingar gríð Þrístrenda, þrístirnda þrekaða efli Þokar mér lifandi móðuna í Gráhærð sú höfuðskepna situr að tafli Stjórnar mér kolmóðum undan því ] [ Allt hefur sitt upphaf ekkert verður til af engu. Hún veltir þessu fyrir sér alltaf - allstaðar. Hvernig varð upphafið ? Hennar upphaf. Hjá hverjum byrjaði hennar lífssaga hvar byrjaði hennar hjarta að slá ? Henni finnst hún standa á brún þverhnípis hún horfir niður í hyldýpið svart, ægilegt. Þannig sér hún sitt upphaf ekkert, hvergi hún á sér ekkert upphaf í sálu sinni hún veit ekki hvar það hófst. ] [ Mig dreymir um Mozart með hljómsveitina sína Ljúfværir strengir ljá laglínuna fína En mér finnst lang best að drekka kaffi , hlusta á Mozart, borða Mozart súkkulaðikúlur og lesa ævisögu Mozarts. Þá slær maður þrjár flugur í einu höggi, og fær þessa þvílíku listrænu tilfinningu. ] [ "En stor og tyk mand" segir barnið og bendir "Ó Guð, ég vona að hann skilji ekki dönsku. Huxa ég, en held áfram ] [ Byrjuðum sem víkingar montnir sem hel. \"Við fundum land í norðri, ég skipi þínu stel.\" Og fluttu svo hingað á ískaldan mel. Fundu upp glímu, kepptu í því drukku mikið, kveiktu í. Þannig var grunnurinn að bestu þjóð í heimi! Jón forseti var betri leiðtogi en keisarinn í Kína. Hr. Nóbel var mættur með stafsetninguna sína. Jónas skáld úr Öxnadal orti sín fögru ljóð, um land okkar og þjóð. Þannig var næsta skref hjá bestu þjóð í heimi! Byltingin byrjaði er herinn kom og gerði okkur að nútímalandi. Bresku dátarnir gáfu okkur kók og komu okkur úr hættu standi. Síðan komu stjörnurnar á færibandi: Björk syngur best, Jón Páll hafði vöðvaafl mest, svo eigum við okkar fagra hest. Þannig endar frásögn mín um bestu þjóð í heimi! ] [ Frakki í sturluðum heimi með Þjóðverjanum í teymi. Vilja Írökunum gefa frest, því að það finnst þeim best. En Bush og Blair ei hlusta þá á og ætla að koma Hussein í dá. Já, sorglegt það er stríð í bráð. - Er draumur Bush "heimsyfirráð?" ] [ Plánetur og stjörnur langt, langt í burtu, urðu til fyrir löngu löngu. Fóru þá í mikla loftsteinasturtu og hófu sína löngu göngu. Síðan fóru menn að skipta sér af, eins og Armstrong og Júrí Gagarín. Annar fór á tunglið, hinn út í geim og komust báðir í nýjan heim. Og Apolló 13 í vanda staddir, en vildu ekki verða kvaddir. Dundu þá yfir þessi frægu orð: "Hjúston, ví hav a probblem!" ] [ Tilgangslaus ögrun stígur dansinn fær sárið til þess að dansa með upp á yfirborð sannleikans dregur hún fegurð eftir stend ég ég fer Þá ögrunin sekkur og fegurðin með og tilgangur gleðinnar sýnir mér hver hann er falskur skilningur læðist að mér sýnir mér hver hann er Hver er ég? ] [ Tvöfalt líf mitt er lúmskt í sinni niðurbælingu réttlátur unaður er aðeins réttlátur í fylgd með undirförulum þrám Ég hef þrálátan unað unaðslega þrá Þegar þessar tilfinningar viðurkenna tilvist hvers annars þá horfast þær í augu spyrja hver ert þú? Og ég klofna ] [ Litlir guttar í kábojaleik, með hatt, belti og byssu. Skjóta þennann, ræna hinn þeir gera alls enga skyssu. Rólóinn breytist í frumskóginn er Tarzan grípur í kaðal. Jane horfir á með aðdáun. Þessi leikur er aðal. Út á völl, galvaskir mæta "Best og Charlton" með bolta. Leika listir, efnilegir og gera pabba sína stolta. Bíladellan byrjar snemma þá Matchbox bílarnir bruna. Eðalvagnar, svo sannarlega já, þessum leik þeir una. ] [ Lokaðu fyrir mig augunum og finndu hendur mínar leita að andardrætti sálar þinnar, svæfðu efa dagsins í snertingu verkfæra hugans, leystu þínar syndir frá skildum sínum og leyfðu þeim að njóta sín í unaði væntinga minna, finndu fingur mína leika upp eftir þrám nautna þinna, niður eftir líkama þínum, leyfðu mjúkum straumi kossa minna að skjóta rótum í skúmaskotum minninga þinna, lokkaðu hlýju líkama míns inn um glugga gleði þinnar, og elskaðu mig eina nótt, elskaðu mig heila nótt, og á morgun þegar sólin dreifir gulli sínu yfir kofa mannkynsins, efastu þá um sannleika tjáninga tilfinninga minna, vertu þá farin. ] [ Takmörkuð endaleysa á sér stað Þótt endir sé byrjun og byrjun sé endir sem endar á byrjun þá virðist þetta alltsaman enda endrum og eins þegar aftur og aftur er aftur og aftur sem aldrei er alltaf og oftast er sjaldan þá kemur það fyrir stundum að alltsaman stoppar og þá ætíð og endalaust ætíð þá hundraðfalt ætíð að eilífu ætíð sem það stoppi ætíð á þér kona ] [ Afhverju gerðist það Hvað var hér áður Það var ekkert En svo gerðist það Bara sísona Það kom líf Það var lífið en hafði eingan tilgang Svo stækkaði lífið En ekki kom tilgangurinn Svo komum við Stolt og svo sterk Og hvað gerum við Við lifum og deyjum Ekkert annað Það er líf En einginn tilgangur Hvers vegna? ] [ Erum við ein Nei það erum við ekki Það getur ekki verið Afhvreju ættum við að vera einn Kannski vorum við sett hingað Við erum tilraun En hvers og hvers vegna Þessi vísindi Er við Við erum okkar eigin tilraun Til að lifa Við þróum lyf við okkar eigin sjúkdómum Til að lifa lengur Til hvers að lifa lengur Það er einfalt við erum hrædd Við hvað segum við Við það að vera lifandi Því að vera lifandi þýðir að deyja Við hræðumst dauðan Er dauðinn kanski líka hræddur Við okkur Við erum mörg en hann er einn En við þurfum hann Ekkert er eilíft Það vill engin eða ekkert vera eilít Því þá verðum við ein Alltaf. ] [ Góða nótt kæri veruleiki og takk fyrir alla þrálátu draumana Góða nótt kæru syndir og ég vona að þið takið Vísa því sektarkennd er ég alveg búinn með Góða nótt kæra eirðarleysi allar blíðlegu sorgirnar þínar áttu nú sinn part í mínum degi Góða nótt dagur þú heldur utan um þetta alltsaman eins og vanalega Góða nótt mín takmörk ég næ taki á ykkur einhvern daginn Og góða nótt gleði við sjáumst á morgun. ] [ Einhver, eitthvað dregur hring utanum mig, þannig að ég sker mig úr fjöldanum nakinn einsog þegar ég kom úr móðurkvið. Það verður þögn í 32,3 sek.....svo sprenging. Allir benda og benda og hlæja og hlæja....þau ýta mér til hægri, til vinstri niður í götu og engin hjálpar mér upp. Hversvegna geta þau ekki látið sig hverfa og hunsað mig.......hversvegna gleypa þau ekki handsprengju hugsa ég með mér og glotti;) ístaðin fyrir að drullast til að haldaáfram með sitt auma fucking líf, lyga líf. En þau halda áfram á fullum krafti, öskrandi, potandi og sparkandi. Svo einsog hendi hafi verið veifað kemur þetta gullfallega bláa ljós frá himninum og allir eru stjarfir. Vera sem situr mér við hlið bendir mér á að taka fyrir eyrun og loka augunum. Við það kom þessi brjálaða bassadruna og allt hristist. Þegar ég þorði að opna augun eftir lætin var allt fullkomið allt gullfallegt, einsog ég var búin að óska svo lengi. Hvíta veran leiddi mig um. Þessi friður var yndislegur. Skyndileg vorum við komnir að stórri hurð. Hann benti mér að fara inn og það gjörði ég. Allt var fullkomið þarna inni, ég spurði engilinn hvar ég væri hann brosti bara. Er fólkið sem var vont við mig þarna úti? Já sagði engillinn. Eru þau að koma hingað inn? Já einhvern tímann en ekki strax. Ég gerði mig tilbúinn fyrir dýrindismáltíð sem hún og var. Svo eftir matinn hitti ég aftur vin minn. Hvenær fer ég svo aftur heim til mín? Heim til þín það getur þú ekki gert kallinn minn. Haaaa á ég að heima ég hér í þessari fallegu höll, nóg að borða og ekkert að. Ég held að ég sé farinn að sjá hvað er í gangi....... ER ÉG........? Já sonur minn það ertu. ] [ Allt frá dögum Egils íslensk ljóðagerð stuðluð! skrifar Guðmundur Nú barasta allt til hópa ruglukollar hortittasmiðir kjaftaþruglarar Og ÞETTA birtir Mogginn! Suss og svei! -- Laxness var óþekkur Shakespeare einnig stuðluðu harla lítið sem ekki neitt Ég ljóðskáld innan gæsalappa horfi á þessi háu tré án laufa vetur þau bifast til og frá (kannski má ekki segja bifast? Haglél skellur á bárujárnið það er gott að vera innandyra geng fremur eirðarlaus um hús mitt grasekkjan set upp gluggatjöld þakin blómum vermandi Það er bara ekki hægt að bjóða upp á vond ljóð! segir Gerður Kristný Elísabet Jökuls mæðist í mörgu segir margt vill bjarga svooo mörgu Bónusljóð Andra Snæ aftur! þrjátíu prósent meira sama bleika svínið komið enn (ekki Andri, hann hef ég þekkt þá smápolla) Við erum svo sem ekkert öðruvísi en Egill Skallagríms skyldi vera? Hvað á blessuð bókin að heita: Hortittasmiðurinn heillin Meðgangan var erfið en svona óx þetta afkvæmi Akkúrat svona... (jú, það má alveg segja greinarnar bifast!) ´Að gefa út ljóðabók´er eins og að kasta rósarblaði ofan af Mont Blanc og bíða eftir bergmáli sagði hin óþekkti höfundur Hva! Er ekki nóg að skrifa bara bók! Getur ekki einhver annar selt hana! spyr ljúflingur sest í sófann og bíður.... Erum við nokkuð í stríði? Kannski ættum við að fara að skrifa VEL ort ljóð (þulu-bulu-ljóð! Niðurlæg ei ljóð með bulli Norma! -- Göngutúr í myrkri mikið af stjörnum norðurljós Út skal snöggvast að munnhöggvast (rímar!) Ástkæra ylhýra málið Hversvegna fórstu svo fljótt Jónas, fótbrotinn og fullur Hvað hefðir þú lagt til málanna Smávinir fagrir Ástkæra.... Mun vera hægt að bjóða upp á ´vond´ ljóð í friði verða þau svo einhverntíman betri Ekkert veitir slíka yfirburði sem það að vera dauður sagði Jóhann Sigurjóns Vér lifum Yðar tími mun koma..... Þula-bula það er ekki málið ekki alveg málið.... To be or... samt... Heill þér Guðmundur Það er málið ] [ Kveðju skartar kvöldsins sól konung vart má gleyma sæl í hjarta höldum jól hátíð bjarta heima. Út um völlinn vinir þjást víða mjöll á vegi kærleiks föllum fyrir ást fram að höllum degi. HarHar ] [ lýsandi dæmi um ljósið í þér er skýið á himni sem skyggir á þig leifar af angist leifar af þrá þetta ljós ég verð að fá ] [ Keikó Krútt, sagði sjúkk hann hlet að hann mundi deyja því honum átti að fleygja í vestmannaeyjasjó. ] [ Af hverju eru jólin ei sorgardagur Af hverjur finnst öllum hann svo fagur Hann var fæddur í fjárhúsi.. var sársaukinn lintur með búsi?? ó aumingja móðir hans þurfti að þjást en samt var kristur sá eini sem sást. ] [ að yrkja ljóð er eins og að yrkja jörð með smá natni vex kannski eitthvað nýtt klippir trén, tekur út orð eftir rigninguna geturðu svo hlýjað hjarta þínu við orðin, við trén og horft á þau vaxa ] [ Raðir steina, krossa hvítra og hreinna. Hljóðlát birta, kyrrð, þögnin ræður ríkjum. Þó er vindur í laufi sem hvíslar að þeim er hugsa og sjá. Nöfn, dagar, ár, aldir kalla á þá sem leið eiga hjá. Sögur sorgar og trega. Agnar smá gröf, barns, er kvaddi þennan heim fyrir löngu. Eftir varð móðir, tárvot Sálin engdist. Örvænting, sorg, hjartað brostið. Hvers vegna ? spyr hún, en fær engin svör. Saklaust barn er horfið sem engill til himna Þögul gröfin segir nú sögu. Sorgmædd móðir horfin til himinsins hins sama og dýrðleg dóttir, augasteinn allra. Saman þær hvíla. Engin man lengur þá sögu sem veðraður steinninn á gröfinni segir þeim, er leið eiga hjá. ] [ Eitt sandkorn meðal þúsunda líkum þér. Á leið til lífsins. Að baki er kuldinn, myrkrið, dauðinn. Framundan alsnægtir, birta. ylur. Þar dokar þú eitt andartak Snýrð til baka til alls þess sem þú elskar og þráir. Hins kalda lands í fjarskanum Þar sem lífið varð til. ] [ Framundan helgi amstur og erill hverfur rósemd, kyrrð og hvíld eða hvað ? Innan úr innstu sálarkimum æpir einmanaleikinn lífins mesta kvöl. Í ys fjöldans, hávaði öldurhúsanna mannmergð, troðningur Klappað á axlir..hvíslað í eyra Hlegið og kallað Kunningjar, vinir, Innantómt spjall..kveðjur. Amstur og erill daganna hafinn á ný Hvert fór helgin Óljós minning fortíðar Ekkert eftir nema þreyta og þjáning Kannski er besta hvíldin fjarri vinum Fjarri masi um ekkert Athvarf hins einmana er vinnan Þar gengur lífið sinn vanasta gang. ] [ Ég er ekki hér. Þar sem að vindurinn bítur og hálkan reynir að toga undan mér alla fótfestu. Ég er svífandi alein í herbergi þar sem að runnar vaxa á veggjunum. Þú sérð mig hreyfast en það er bara blekking. Ég er hjá runnunum Með fjólubláu blöðunum Og fíflagulu rósunum. Þyrnarnir eru eins og smjör og umvefja mig. Því þeir vilja vernda mig Svo ég svífi ekki stjórnlaust Aftur heim. ] [ þú talar við hannana þú berð þig saman við hannana þú gengur með hönnunum en þú ert samt ekki hann þú ert það þú ert aukahlutur þú ert aðskotahlutur þú ert eining þú ert komma þú ert einn af öllum öllum öllum öllum þú ert lítill þú ert bara lítill ] [ sál mín flýgur gegnum líkamann sem breytist í ösku. Heimurinn snýst, líf mitt er á enda tilverunnar. Fallandi andlit, ég sé skóginn sem er í skýjunum. Sé týndar sálir einsog skugga. Fylgdu mér, ég fer inn í heim hins óþekkta. Flýg hátt, þú finnur staðinn í skýjunum. Svo fallegur, svo rólegur, svo skilningsríkur. Þangað til þá.... ] [ Ég vil sjá tár, þín tár eða hennar tár. Bara tár svo ég viti að þið hafið tilfinningar einsog ég. Ég græt ekki fyrr en ég sé tár. ] [ Rödd mín hljómar einsog og ég á morgnanna, en breytist í aðra á daginn, á kvöldin er þetta einhver ókunnug reykt rödd, með hósta og verki sem aðalmerki sitt. Morguninn er samt minn, hin ferska rödd sannleikans. ] [ Vaskurinn í eldhúsinu, er dropateljari lífsins í seilingarfjarlægð. svarti kötturinn, skýst undir borðið. Kertið á stóra stofuborðinu, er stefið í eyrum hans. Svarti kötturinn kitlar veiðihárin. Regnið á rúðunni, er reiður grátur móðurinnar er missti barnið sitt. svarti kötturinn skýst undan borðinu. - Því svarti kötturinn, svarti kötturinn undir borðinu, Hefur sínum skyldum að gegna. - ] [ Fegurð fjallanna, óendanleg birta sólar, Blámi himins djúpur, tær Silfur sjávar glampar, tindrar. Sálin svífur um lendur himins, gleðin stjórnar för. Heimur hrynur, byltast björg. Það sem kveikti þrá og gleði, Hverfur í óendanleika fjarskans. Ástin fór.. Eftir er myrkur, þögn, tóm. Lífið verður aldrei samt á ný. Dauðans drungi Sorg.. Einmana sál Reikar stjórnlaus um tómið Andinn í fjötrum Fegurð horfin Augun blind Söknuður, tregi. Kannski er gleðin, ástin, í eilífðinni handan þessa lífs. Þá er lífið sjálft handan þessa lífs sem ég þekki. Tilhlökkun, eftirvænting Get varla beðið þess dags þegar ástin birtist á ný í fjarlægri framtíð hins ókomna. ] [ Fór út að hlaupa, hljóp og hljóp þar til ég gat ekki meira. Þá sestist ég niður geðveikt móð og ákvað að semja ljóð. Ljóð sem væri bæði lítið og stórt, þungt og létt. Ljóð fyrir stóra og litla, unga og aldna. Hvernig ljóð semur maður fyrir alla, þetta væri auðveldara ef ég ætlaði að semja fyrir gamla kalla. Ljóð sem allir fíla jafnvel hún Grýla. Ljóð fyrir litla krakka, sem þyrftu helst að fá það í pakka. Ljóð fyrir þau ungu sem tala sýna eigin tungu. Ljóð fyrir mömmur sem seinna verða ömmur. Ljóð fyrir pabba og líka hann Dabba. Ljóð fyrir gamlar kellur enþó ekki fyrir mellur. Ákvað ég um leið og ég stóð en nú myndi ég semja allrahanda ljóð. ] [ Lengi hef ég litið spegilinn í mig langar mjög að vita hvort ég sé fyrir bý Mæni ég og muldra eitthvað með sjálfum mér Mannstu fyrri tíð og tíma sem er ekki lengur hér? Ég loka augum og horfi aftur aftur um aldur og ár Ég sakna þeirra, sorfin í braut úr sjáöldrum læðist tár. ] [ Hver maður Hver kona Hvert barn barn hvert kona hver maður hver maður eignast konu kona eignast mann maður og kona eignast barn barn eignast móður og föður ] [ Þrældómur fyrir sunnan sól Kemst ekki burt Kyrr og hvergi legg né lið hreyfi Fékk nóg hljóp og hvarf úr augsýn kem aldrei aftur ] [ Lítil stúlka leikur sér í sandinum saklaus augu mjúkar hendur sem láta sandkornin smáu smjúga gegn um fingurna stúlkan hlær. Raddirnar. Hræðsla í augum hnefarnir kreppast um fíngerðan sandinn. Raddirnar koma nær, nær þær hrópa; tökubarn, tökubarn, þú ert tökubarn. Litla stúlkan hniprar sig saman grípur um eyrun vill ekki heyra vill ekki sjá. Skilur ekki grimmd mannanna ] [ ást og hatur blandast í blóðinu köldu byrjar þar enn eina tilfinningaöldu sem aftur skapar ljóðafíkn í mér... þarf að losa um látlausa spennuna fljótt lita einhver orð á blað: “lífið er svo ljótt!” en orðin skapa tvískilning í þér... er hann að grínast og sýnast fyrir öllum? eða skal ég fara og svara hans köllum? “úlfur! úlfur!” kalla ég og fólk hlustar á en orð án allra merkinga fælir það frá veit ekki hvað mun svo gerast síðar... þegar þunglyndið bankar á hurðina hér þegir fólkið því þá mun enginn trúa mér og ei verða sorgarstrokurnar blíðar... er hann að grínast og sýnast fyrir öllum? eða skal ég fara og svara hans köllum? þunglyndisljóðin geta valdið mér meinum særa kannski þá sem ég elska í leynum og því gæti ég aldrei bjargað... hörðu skotin lenda ekki bara á mér og gætu jafnvel ferðast inn í hjarta þér vildi að ég gæti ljóðum fargað... er ég að grínast og sýnast fyrir öllum? mun ég einhverjum spjöllum valda? mun einhver fara og svara mínum köllum? þegar þarf ég á því að halda? ... úlfur! úlfur! bara að grínast! úlfur! úlfur! bara að sýnast! ... úlfur! úlfur! hjálp...? ] [ Þegar varðhundar frelsis öskra sig í gegnum skýin. Þegir Bítlabærinn til að fæl´ekki stálfuglinn. ] [ Titrandi strengur í hjarta óviss en sterkur þú veist þú þekkir þú slóst á þennan streng ein manneskja lék á streng - -ekki slá of fast Ekki! Slitinn,falskur strengur - Sláið strenginn sláið lag ykkar sláið fastar! lagið ykkar! ykkar eina lag Einhvað sem hjartað mitt kann ekki. ] [ Ég hvíldi undir væng þínum minn eilífi faðir, mín nærandi móðir. Um hvert kvöld,eftir að sólin hafði gengið til þurrðar þá komstu til mín, minn almáttugi faðir og gafst mér ást þína skilyrðislaust. Hvernig féll ég frá þér mín elskulega móðir. Ég sem var eitt sinn eilíft barn í örmum þínum. Ég sem átti ávallt skjól í hjarta þínu. Hversvegna þurfti ég að slíta barnsskónum og gleyma uppruna mínum. Hversvegna þurfti ég að ganga einn án öryggis þíns og falla út frá þér. Ég sem eilífðin hafði velþóknun á. Þú horfðir á eftir mér þar sem ég ráfaði um í myrkri fávisku og efaðist um eigið ágæti. Og gleymdi mér! Hugurinn tók yfir og þaggaði niður í hjartanu og mér sveið. Tómleikinn tók við með sinn kalda raunveruleika sem nísti mitt fagra hjarta. Ég tapaði mér í hlutum sem ég skapaði. Ég tók upp aðra leið og skapaði mér framtíð sem var til einskis. Óttinn tók yfir með sinn her sem stormaði yfir hjartað mitt, hjartað mitt sem er þitt. Ég gleymdi þér í heimsku óttans. Framtíðin þótti björt,þrátt fyrir fortíðardrauginn sem hvíldi þungt á mér,og hann skilaði sér til viðja minna. Framtíðin varð eins og fortíðin því ég lifði í ótta um allt sem skipti engu. Ég þarfnast þín minn eilífi faðir,lifðu í gegnum mig. Ég er þinn elskaði sonur, ég sem gleymdi mér. Ég þarfnast þín og ég veit þú þarfnast mín. Ég vill lifa í gegnum þig því ég er eilífur í þér. Ég veit nú hver ég er ,ég hef fundið uppruna minn í þér og vil aðeins heim, heim ó drottinn,heim í hjarta þitt. Hvíla á ný í örmum þínum mín elskulega móðir nærandi, ég er kominn heim. ] [ Þurrar tölur, bókhald, rúið tilfinningum, gleði. Úti skín sólin, langir skuggar haustsins freista einmana manns. En skyldan kallar, gleðin bíður. Aftur til baka til veruleika, þess leiða og ljóta. Haustið, sólin, gleðin, horfin, þar til seinna. En kemur andartak aftur ? Því fer fjarri. andartak ! kemur aldrei aftur. Ef það fer, er það horfið í óendanleikann að eilífu glatað þeim sem það ekki tók. ] [ Amstur og ys. Kaupmenn kalla. Á ljósvakans torgum. Hér er lífsfylling að fá. Leyfið börnunum að koma tíl mín. Fyrir tvöþúsund árum var það sama kallað. En þá skyldi útdeilt guðlegri náð og gleði. Mannsandans næring lykli til betra lífs. Nú kallar nútímans guð frá höllum mammons. Komið tíl mín. Hérna er allt sem þú þarfnast Glaumur og glys og hamingja í pökkum. Hvað varð að andlegri gleði og fullnæging andans. Horfin í kapphlaup við nútímans þarfir. Þörf sem græðgi og girnd samtímans skapar. ] [ Inn í heitu húminu þar fæ ég hvíld frá amstri dagsinns, eins og neisti af nýju lífi sný ég mér við og gleymi því liðna..... ] [ Skýið gleypir mig inn í bláann sjarmann og vindurinn heillar mig, í dag er sigurdagur og þess vegna hleyp ég, fleygi mér niður á fallegu túninu, og er ég ligg þarna umvafinn fegurð heyri ég sinfóníukonsertinn óma í takt við stráin sem strjúka mér létt og jafnt sem vindurinn... Þegar uppi er staðið, þá er lífið alltaf mun fallegra en við höldum að það sé..... ] [ Vorilmur í mínum nösum blómin á mig kalla ég finn fyrir sólinni hún er æðisleg ég elska lífið og þig ] [ nú er ég í miklu stuði eftir að hafa verið í miklu puði STUÐ STUÐ STUÐ STUÐ STUÐ STUÐ ] [ Tár. Umhyggja. Móðir. Raunveruleikinn er ekki réttlátur. Móðir. Tár. Umhyggja. Hvað er réttlæti. Hvað er raunveruleikinn. ] [ Hvert sem augu mín leita, sé ég þig, jafnvel í frystiborðinu í Einarsbúð, þar sem ég kaupi inn, sé ég andlit og freðið hjarta. ] [ Mín minning um þig er um glaða stund, tár þú færð fyrir hvern þann fund. Tár ég gef fyrir hvern þann tíma, sem gleymskan fær svo við að glíma. En þó að eilífðin gleypi mig, mun ég ætíð hugsa um þig. Mun mín virðing aðeins dofna, er allir fuglar heimsins sofna. ] [ Helbláar hendur hrifsa mig burt, hrifsa mig inn í annan heim. Ísköld augu egna mig burt, egna mig inn í annan heim. Frosinn faðmur færir mig burt, færir mig inn í annan heim. Dimmur draumur dregur mig burt, dregur mig inn í annan heim. En þú, þú þvingar mig aftur í þennan heim. ] [ Upp á hlemm öryrkjarnir streyma að ná í sína matarmiða misjafnar minningar í huga sínum geyma en löngun til að lifa Þeir áttu líf sem féll í stafi með lífið í lúkunum ganga um strætin því fylgifiskur lífsins er þungur klafi sem fær ekki bestu sætin Og ríkisvaldið reynir þá að pretta að skerða selbitann naumt við nögl nú haustið er napurt en hvað er þetta er ekki lífið nú nógu mikið ströggl Það er ekki auðvelt svo ört að yrkja kvæði um þá sem á brattann ganga en lífið er ljóð sem allt vill syrgja og tárin mörg renna í fjallinu langa ] [ Heyskapurinn hafinn túnin slegin snúið rakað saman heysátur hlaðnar tjaldað yfir Zetorinn líður áfram sem skjaldbaka um sveitaveginn og vélahljóðið rispar þögnina sem yfirleitt yfirgnæfir kyrrðina í sveitinni Hausta tekur síðustu forvöð að ná inn heyinu krakkar með kvísl henda af vagninum bóndinn bograr við blásarann Turnarnir fyllast maurasýran lekur rigna tekur vindgnauðið við fjósvegginn blés sem naut á nývirki Vetur konungur heilsar sumrinu hvar er haustið heppinn bóndinn lofar guð fyrir að bænheyra sig Töðugjöld byrja fengið sér í pela stokkið undir stýri á Landrovernum ekið um ármótin skakkur milli bæja konurnar hlæja Ekið í hlað á Nýjabæ hundarnir urra og gelta dilla síðan skottinu vinalega pissa á hjólkoppinn spilað á harmonikku sungið og dansað drukkið og trallað ekið heim á leið ] [ Í lakkskónum gengur um salinn sveittur í framan af stressi með of strekkt bindið Nasdaq hrundi en kaupréttarsamningur í höfn eitthundrað millu bónus bara tíu prósent skattur sárabót var það Skúringarkallinn sveiflar þveglinum fimlega um gólfin mikið er hann duglegur þessi hugsar bankastjórinn hann svitnar eins og ég hugur hans er á gólfinu og friður samt í sál hans samt fjörtíu prósent í skatt Góðann daginn sagði bankastjórinn um leið og hann rann til á sleipu gólfinu bleyta minna sagði bankastjórinn Sálin mín er á veggnum á Wall Street hengd þar upp eins og undin borðtuska eftir þennan hræðilega dag hugsaði bankastjórinn ] [ Hús fullt af munnum sem hverjir utan í öðrum japlast á orðræðu samtímans, á meðan við þegjum í horninu eins og lokuð ritröð ófullgerðra setninga og okkur gæti ekki verið meira sama ] [ Kvöld, kolsvart myrkur haustsins. Umlykur dáinn gróður liðins sumars. Engin birta. Skammdegi, nóttin tekur völd. Sálin kikknar í fjarska er vorið óraveg í burt. Bresta sálir sorgin tekur völd. Birta hvar ertu ? Þráin í ljósið æpir Hér uppgefast margir og hverfa á braut. Morgun, bjartur og tær Helsi myrkurs og sorgar víkur. Yfir fallinn gróður liðins sumars breiðist voð hins fyrsta snævar. Sorgmæddar sálir lyftast á ný Birta kaldrar mjallar hrekur burt myrkrið. Það er sem vori á ný í myrkvuðum hugum kvalins manns. Hversu mörgum bjargar fyrsti snjór haustsins ? ] [ Lífið er læstur skápur í skápnum liggur leyndarmálið. Leitið og þér munuð finna - til. Lifið sem læstur skápur og þér munuð finna - lykilinn... ...undir legstein handan landamæra lífsins. ] [ Samúðarfullur til Samhjálpar fór félagsmálaráðherra Árni Magnússon hafði lystakokk með sér og sérstakt matarstell jæja vinir mínir Samhjálpar súpan er ekki nógu góð sagði Árni og sötraði þið þurfið betri kokk þessi gamli er slæmur er það ekki nokk? vinir mínir Af postulínsdiski sötraði félagsmálaráðherra súpuna og sagði , jæja vinir mínir það er komið að því skerðing atvinnuleysisbóta hundrað milljónir sparast vinir mínir Sultarólin strekkist skerðingin er varanleg og á næsta leyti launin mín hækka ykkar lækka atvinnulausu vinir mínir Bara þrír dagar sem ég skerði þetta ykkur herðir þá reynið þið meira í þrjá heila daga að fá ykkur vinnu vinir mínir þetta er mín þjóðarsátt Framsóknar vinir mínir ] [ "Sjáðu hvað stjörnurnar eru fagrar" sagði ástfangni pilturinn, við kærustu sína og kyssti hana á vangann. "Sjáðu hvernig vetnisatóm breytast í helíum" sagði stjörnufræðingurinn, við nemanda sinn og lagaði gleraugun. ] [ Fortíðin lifi framtíðin dofnar. Lífið virðist hálf tilgangslaust. sáraukinn eykst, aldrei dvínar. Ástin ei játar ósigur. Minningar ofsækja aldrei fara, vonin orðin ansi þreytt. Tárin streyma safnast saman, að lokum drekkja mér. ] [ Á jólunum er gaman. Þá gleðjast allir saman. Ég fæ marga pakka og mikið til að hlakka. ] [ Fara úr fötunum á föstudaginn langa krossfesta sig og hanga nakin í nöglunum horfa á blóðið fossa úr götunum á höndunum og fótunum halda niðri andanum fara með faðirvorið hundrað sinnum í huganum og telja sig Seif ] [ Ég kom þjótandi niður götuna með bréfpoka undir hendinni. Kötturinn hljóp á eftir mér með glirnurnar spenntar af tilhlökkun. Ég fann ilminn læðast upp úr pokanum, svona sykursætan ilm. Ég hjólaði fyrir hornið og lagði fyrir utan húsið. Drullug upp að hnjám starði ég ofan í pokann, fann tárin leka niður kinnarnar, saug upp í nefið, sleppti pokanum hljóp í burtu. ] [ Þú skreiðst yfir akurinn á hnjánum svo labbaðir þú berfættur á kaktusum í eyðimörkinni. Síðan klifraðir þú upp bjargið á klossum En ég hafði skrifað miða á hurðina Skrapp út í búð! ] [ Þrúgandi veraldleikinn stígandi, blandaður votri ást raunveruleikans. Holaður að innan með plastrenningum, útgrenjaður unaðsleikinn. Blómstrandi ástin hallandi, blönduð mannillsku góðmennskunnar. Holuð að innan en fljótandi, fullkominn guðdómleikinn. Flögrandi mannvera svífandi, blönduð feigðarlyfi almúgans. Holuð að innan af geðveiki, Kryddaður hversdagsleikinn. ] [ Ég stóð nakinn inni í eldhúsi, með blóðugan smurhníf í hægri hendi. Ég er örvhentur. Gömul kona gekk til mín, ég hafði aldrei séð hana áður – held ég, og blés í munnhörpuna sína. Ég skildi ekki alveg af hverju. Áttaði mig þó fljótlega á því hver þetta var. Þetta var dauðinn. Dauðinn er hvorki með ljá né sláttuvél einsog flestir vilja vera láta. Hann er gömul kona sem blæs í munnhörpu; er það ekki alveg eins gott? Þegar hún hafði lokið laginu sem hún var að spila, sem var eitthvað úr Star Wars held ég, rétti hún mér vasaklút og hvarf. Ég vissi ekki hvers vegna hún hafði komið, stakk klútnum í vasann og hélt ótrauður áfram að smyrja brauðsneiðina. Ferskt blóð og ostur; bezta samsetning í heimi held ég. Mjólk og Morgunblaðið; ágætt líka býst ég við. Allt þetta í senn – ótrúleg upplifun. Líf mitt hefur aldrei verið annað en fábrotið og fábreytt, læt t.a.m. varla sjá mig utandyra að degi til, nema þegar það er mjög skýjað og dimmt. Ætli ég sé ekki nokkurs konar nátthrafn. Það var erfitt að vera vampíra í þá daga. Það er það enn... ] [ Heim þá sendi hugur mig Er hugsa um Símon bróður Góðar vættir geymi þig Og greiði lífs þíns róður ] [ Ég bý í breiðu holti á barmi úti gangi. Með löngu látnu stolti latur á krossinum hangi. ] [ Sumar nætur sneri hann augunum við eins og krókódíll Þá elskaði hann þig. Þá spilaði hann sinfoníur á líkama þinn, syndgaði. Á morgnanna áður en hann sneri sorgmæddur heim, elskandi þig eina þá lofaði hann. Þá lást þú eftir með grátstafinn í kverkunum, tár hans á koddanum, krókódílatár á koddanum þínum. Þá vonaðir þú þó þú vissir um leið og hann lokaði dyrunum að hann elskaði aðra af öllu hjarta með hinum augunum. ] [ Heimilisleg lyktin sómir sér vel í íbúðinni. Maður á að vera heimilislegur í sér og passa það vel að svíkja ekki hjarta sitt þegar maður velur sér andrúmsloft. Heimilislegur kötturinn kúrir sig notalega í heimilislega sófanum mínum. Heimilislegt sjónvarpið stendur líkt og stjórnsamur , en vinalegur , eineygður kapteinn úti á miðju gólfi og talar í sífellu um allt og ekkert, á milli heimilislegra auglýsinga. Heimilislegar bjórdósirnar liggja tómar á kómískum og mjög órökréttum stöðum á heimilislegu gólfinu. Heimilslegt kjúklingslæri er farið að ljóstillífast á svalandi eldhúsflisunum á meðan ein og ein frönsk kartafla gefur frá sér lykt, sem að aðeins er á færi lífsreynds myndlistarmanns að lýsa. Heimilisleg eiginkonan dormar í brennivínsmóki við fallega ryðgaðan ofninn með fagurblátt , heimatilbúið glóðarauga. Heimilisleg kúkarönd hefur bæst í hóp tveggja heimilislegra kúkaranda ofan í gulslykjóttu salernisskálinni okkar, henni Miss Gustavsson. Já við erum sannkallaðir heimalingar og kunnum hvergi betur við okkur en heima hjá okkur. Við reynum að bjóða sem flesta velkomna á okkar heimili og þá höfum við eitt mottó í fyrirrúmi "Látið einsog heima hjá ykkur góða fólk, ísinn er í frystinum og glösin uppí skáp, heima er best" Home sweet home skiltið er fyrirtaks öskubakki og ég held að Jói Hnífur hafi verið að reyna að segja mér það í gær þó ég sé ekki alveg viss. ] [ Kuldahrollur, bullurokkur. Slefandi meyjan kíkti stundvís inní bílinn og meyg á liðtækan einstakling sem tók sjáfviljugur þátt í eins konar rölti um svæði. Neðanmálsgreinin hitt í mark hjá ungu kynslóðinni sem virtist ekki kippa sér upp við sjálfumglaðan færeyinginn sem staulaðis niður að ilmsterkri pulsusjoppunni. Skólarnir hafa aftur sannað gildi sitt eftir að stafsetningaræfingar hafa á ný öðlast formfestu öldungsins og því geta breið börn lagt sig í morgunskímu sunnudaganna með nammiglott á vör og beðið eftir fyrstu ástinni. Setningin var þyngdarlaus í fyrstu en færðist í aukana jafnt og þétt eftir því sem á hriplegan daginn leið. Sýndarveruleiki stúlkna hefur verið viðurkenndur af erlendri geimvísindastofnun, sem hefur lagt áralanga stund á rannsóknir á plánetunni Stelpu. Syndir gamla mannsins voru birtar í tímaritinu rétt eftir fæðingu snillingsins og eru þeir nú báðir við hestaheilsu. Kammó rúsína baulaði á eftir skuggalegum bíl eftir að hafa sætt svívirðingum af hálfu klunnalega spjátrungsins. Teprulegur veggurinn hefur ekk verið málaður í slíkum litum síðan að sólin skein í hjarta morðingjans í kjallaratröppunum. Gæjalegur pilturinn öslaði flausturslega uppað svampkenndri stúlkunni og slengdi til hennar eins konar rana við lítinn fögnuð þeirra sem stóðu steinrunnir og dormandi í dökkleitri þögn hryðjuverkskenndra hugsana sinna. Lánsamur lyftingamaður snerti kunningja sinn valdsmannslega án þess að hafa grandskoðað nýstárlega viðkomuna af heilum hug. Guðfaxi og Ýmir voru ýmist ekki fjáðir ellegar áfjáðir í allt ellegar alls ekki neitt nema þegar til kastanna kom en þá lyfti hvorugur þeirra grettistaki þó svo að mögur árin kölluðu stíft í átt að þeirri ógleði sem að olli látlausu og grásprengdu lífi þeirra. ] [ Brosandi stekkur barnið út úr dyrunum á græna húsinu. Leikur sér í gulum sandkassa með rauða fötu. Gul sólin vermir það og golan leikur í hári þess. Litlu brúnu fuglarnir syngja því söngva . Og allt virðist svo gott. þar til hvítu börnin, koma og kasta gráum sandinum í andlit svarta barnsins og brúnu augun þess leka bláum kristalstárum... ] [ Ástin er grimm hún rífur í sig einmanna hjörtu fyllir þau af hlýju en gerir þau ð lokum leiksins enn meira einmanna NEMA í sumum tilfellum þegar ástin er sönn. ] [ Áhugi Ást Sæla Skilningur Traust Takmakralaus ] [ Ánægja sæla tilfinning Samband Sýki Traust saman Ágirnd ] [ Undir fjögur augu þú og ég ég og þú við endamörk þeirra landamæra takmakranna sem aðeins ástin þekkir. ] [ Tikk takk tíminn líður. Hann líður bara ekki nógu hratt. Þannig er nú tíminn, Maður tekur alls ekki eftir honum þegar einskins er að vænta. En þegar maður vildi helst spóla áfram, heilu dagana og vikurnar, þá kemur tíminn og skellir sínum þungu skönkum í veginn fyrir mann. Bara til þess að vera viss um að maður gleymi honum aldrei. "Tíminn flýgur" segir gamla fólkið. Mikið hlýtur að vera vesælt að vera gamall. Loksins þegar tíminn flýgur, þegar tíminn líður. Þegar ég verð gömul ætla ég að skjóta tímann beint á milli augnanna. Áður en hann hverfur yfir fjöllin mín. ] [ Ég dansa hringi í herberginu með rósrautt veggfóðrið í fanginu indiáninn á myndinni kemur hlaupandi ofan af veggnum og elskar mig í speglinum. Mér líður vel og við setjumst niður ég og hvíti örn og reykjum friðarpípuna Mig langar til að dansa meira með gólfteppið í fanginu Ég sé nýja loðna teppið líða upp af gólfinu. upp í faðm minn og ég dansa, enn meira, ennþá hraðar þar til allt í einu að í fagni mínu hangir HANN!!! Marley. Ég elska hann því hann er í faðmi mínum. En hann dansar ekki. Ég legg hann á gólfið týni rósir af veggnum og strái yfir hann. Allan. Og ég gef honum eina rettu að leiðarlokum. Kannski finnst honum ég bara fyndin. Ég tek friðarpípuna milli hvítra handa minna og fæ mér smók, geri það með Bob. Svíf að dyrunum og sogast út úr herberginu mínu. Læðist á tánum framhjá dyrunum hennar mömmu. Hún sefur í bláum svefni. Í skólanum bíður ískaldur kennarinn sem geymið brosið inni á bankabók. Ég skil ekkert í stærðfræðinni, en í sögu, sé eg indiánann minn.. Hann er í stríði við ástina og mennina og mig. MIG!!! Ég stekk á bak hestinum og þeysi af stað ég sé marga indiána og höfðinginn er svartur af reiði. Hann tekur í hárið á mér og dregur mig að klettabrúninni þar sem....... Ég vakna í rúminu mínu og það er myrkur. Ég dröslast á lappir og dett um rifið gólfteppið. Gríp í gluggatjöldin. Myrkur. Mér er óglatt. Ég sé tómt herbergi - tómt pilluglas - tóman líkama. - - - - - - - - Seinna geng ég um á bláu skýi og held í höndina á indiánastráknum mínum. Og í hina hönd mína heldur Bob Marley Marley sem ég gæti dáið fyrir... ] [ Ég er vikur og er búinn til úr kviku og á sjónum stend ég einn. En meðan botninn bíður og tíminn líður þá mun ég sökkva eins og steinn. ] [ Ég stend á miðpúnti veraldar og horfi á allt þetta þvingaða fólk í kringum mig sem allt reynir að líkjast hvert öðru. Við hlið mér liggur lítil einmanna dós sem engin skiptir sér af,nema ég. Það er gott því allir eru aular! Nema ég og draumurinn í dósinni. ] [ Á hverjum degi á hverri mínútu í hverri athöfn er hugur minn hjá þér... Á stoltasta augnabliki lífs míns var hugur minn þrunginn þrá þrá eftir snertingu þinni brosinu þínu augunum þínum... Heitast af öllu öllu í heiminum þrái ég að geta lagt hendur mínar um háls þér og hvíslað: 'Mamma... ég elska þig' ] [ Hvað sem ég ætti, ég gæfi þér allt og aðeins meira ef gæti Lukkan og lífið er hverfult og valt Í lífsreynslu tærnar ég væti Hvenær við hittumst ég man ekki meir né hvernig lífið var áður en hittumst við fyrst Í lífinu dafnar hver maður og deyr en sú dýrðarstund lifir er fékk ég þig kysst Í lífsins harki þú stóðst mér við hlið heitbundin varst þú mér, og ég þér. Ástfangin lögðum við hvort öðru lið lögðumst á eitt bæði þar sem og hér. Börnin, þá ánægju upplifðum við að ánægð þau hlupu og sungu Heim komu skítug að barnanna sið stökkvandi á fótunum ungu. Við búskap og ferðalög bundin í eitt björt framtíðin við okkur blasti Og ástin mín ég vona svo heitt að í lukkunnar teningakasti við eigum hvort annað í sælu og sút á strembnum tímum sem góðum þegar siglir í strand og allt er í hnút við sigrum með elskunnar lóðum... Að loknu ævistarfi ég óska þess heitt að áfram sitjum við saman. Tvö hjörtu slá sama taktinn sem eitt Sjáðu, þá verður gaman. ] [ Mig dreymir um daga ókomna enn meðan döggin vætir grundu. Framtíðin björt og fortíðin senn falin, og ástin mín mundu, ég segi þér, kæri, allt mitt er þitt ef aldrei frá mér þú víkur. Að eiga þig ljúfur er lánið mitt og lukka sem aldrei svíkur. ] [ Er halla fer ári, við förum á stjá. Til nefið að líma rúðurnar á. Skoðum öll verðin, verðum að spá. Hvort fyrir hýruna jólin má fá. Hvort síðan öðru lofum við klár. Við eyðum mun minna, núna í ár. Og síðan byrja ósköpin, líkust "rökum - ragna". Oss ei sleppir Eyðslu - kló, fyrr en erum örmagna. Fyrst "Ragnheiði Brynjólfs" fram við otum. Uns vort lausafé er á þrotum. Svo likt og í æði bara er eytt og eytt Á ljóshraða krítarkorti er þá oftast beitt. Við kaupum og kaupum þótt við vitum sem best. Að fjárhaginn leggjum í rúst fyrir rest. Aðframkomin ,já uppgefin eftir búða - slaginn. Of þreytt til að fagna á Aðfanga og Jóladaginn. Alltaf fer það eins og ekkert um það múður. Síðasti eyrir notaður skal í áramóta - púður. Því það skal vera áfram, líkt og það er nú. Að Jói á móti ekki má, sprengja meira en þú. Svo strax eftir jólin, flestu er svo skipt. Og "kortin" kjá allmörgum sundur eru klippt. Svo að þessi jól sem síðast oss það yfirsást. Að ei er hægt að kaupa gleði vora og ást. ] [ Seinni partinn í janúar, við tölum tungum grísa. Öll við förum þá að hrýna yfir "Jóla - VISA". ] [ Hurða - skellis árs allan tíma tekið hefur brella. Því hann ætlar þessi jól hringhurðum að skella. ] [ Á striga mála ég; heiðan himinn, bjarta sól, lygnan sæ, fjarskablátt fjall. Ilmandi blóm, fagurgrænt gras. þessa mynd vil ég gefa þér. Á striga er málað með sorgarinnar litum; Þungur og grár himinn, þungir regndropar sem berja líkama þinn. Þú, stendur einn, varnarlaus,h hleypur undan regninu sem berja þig. Þú veist ekki hvaða leið skal fara eða getur ekki valið. Ég vildi geta tekið í hönd þér, vísað þér í rétta átt, en aðeins þú veist svarið. Mig langar að leiða þig, úr þrungnu málverki þínu í björtu myndina mína. Myndir okkar eru ólíkar, erum sitt hvorum megin á sama striganum. Önnur lífsmynd. ] [ Tilfinningar mínar eru lokaðar inni Klukkan er sex og ég brosi til að enginn sjái tárin sem sitja og bíða eftir að fá að spretta fram Ég þrái að gráta... Maður grætur ekki á jólunum -svo ég held bara áfram að brosa... ] [ Ég er eirðarlaus, ég vil út. Burt til ókunnugra staða. Sálin þráir að fá snortið klæðafald þess sem blámi fjarlægðarinnar hylur. Ég gleymi því stöðugt, ég hef enga vængi. Hjarta mitt finnur enga hvíld, ekkert skjól ] [ Skemmtum okkur við stóra steina sjáum síðan unga eina. Að klettabrún náum þá að hræða niður kletta sjáum við þá æða. Eftir stund ei sjáum neina. Silumst að sillu það var siður snöggt við litum þangað niður. Náföl í framan og niðurlút nú líf þessa unga hafði fjarað út. Fuglinn flýgur niður fjörðinn fýkur frá vegi förnum. Börn hans liggja við klettabörðin bönuð í morgun af börnum. ] [ Sit úti á túni það er enginn þar ég er í kremju get ekki andað hvað nú? Ligg í kassa fólk horfir á mig engin sorgar tár ég er í kremju hvað nú? Allt er dimmt ég sé ekkert svo allt í einu get ég andað. En ég er samt í kremju...... hvað nú? ] [ Ég er ósýnilegur, enginn sér mig, heyrir í mér né virðir mig. Öllum er sama um það sem er ekki til. ] [ Sorgin mest á sumrin svignar undan vindinum tárin full af söknuði marka sár í sálu Morgun vaknar með brosi valhoppa bráðlát börnin berja lífi í myrkrið ......og sorgin svignar undan vindinum.... ] [ Ég fel mig í þokunni, veit að sólin brosir við mér á bakvið skýin. Bíð eftir að lægðin á veðurkortinu skríði norður á pólinn. Þá er bara að klifra yfir regnbogann. ] [ Far vel Veröld Feikifríða En gagnslaus mér Eigi veit ég Svo gjörla Hversvegna Ég er hér Ég er ein af Leikurum lífsins Án þess að þekkja Hlutverkið Mætti gjarna fæðast Aftur Stálminnug, með Sterkan vilja ] [ Þegar ég var lítil tuggði ég tyggjó úr fjörunni og blés í smokka sem ég héllt að væru blöðrur frá útlöndum. Við klóakið lék ég konu frá Rauðakrossinum að gefa hungruðum börnum brenninetlur að borða. ] [ Ég sá kú, það var sú sem ég vildi. Hún át á hverjum einasta degi, mikið af heygi. En eitt sinn er ég kom út, hrökk ég í kút. Hún hafði eignast kálf! ] [ Haninn galar haugnum á og spígsporar um stræti. En músin horfir hauginn á og sýnir enga kæti. ] [ Húsavik er friðsæll staður þar uni ég mér sæll og glaður. Fyrir handan eru Kinnarfjöll þar búa stór og skrítin tröll. ] [ Hrói höttur var lítill köttur sem kunni allt og drakk mikið Malt. Eitt sinn er hann kom í búð sá hann stóran snúð. Síðan fór hann út þar fann hann kút. Hann fór með hann í sund þar hitti hann hund. Hundurinn sagði ekki neitt því það var óskup heitt! ] [ Það er kvöld tunglið hefur mikil völd og skín yfir bæinn og bláann sæinn. Ég ligg heima og sef. Ég er lítill drengur. ] [ Köttur kúrði tröppum á er mús þar hann sá. Þaut hann upp og stökk á sína villibráð. Hér eru endalok músarinnar skráð ] [ Allir nálægir kóngar; mætti ég biðja ykkur um að tilbiðja glitrandi mánann. Hann er staðsettur fyrir ofan BSÍ og kastar háfleygum skuggum á morgunglaða túristana. Hægt er að komast nær með Icelandair, þeir bjóða upp á mat fyrir tvo á gráu skýi, ekki ýkja langt frá háskólanum. Sólarupprás mun vera frestað fram yfir eftirréttinn, ef fólk er lengi að borða. ] [ svartur skuggi dökkblátt hjarta og illa þefjandi hugsanir. það er í matinn í kvöld. svik hatur blóð tennur allt falið bakvið víggirt augu. Ég brosi, ég hlæ og þykist hamingjusamur. það rennur um hugann bergmál be rgm á l b er gm ál b e r g m á l bergmál be rg mál b e r g m á l ] [ Ég vaknaði í morgun og nennti ekki fram úr því það var svo kalt. Ég opnaði útidyrnar og fann frostið hamast við að reka burt haustið. Ég leit á þéttu, grænu runnana. Þeir voru ekki þéttir og grænir lengur. Þeir voru berir og brúngráir og laufin voru öll á gangstígnum, gul og brún. Gerðist þetta allt í nótt? ] [ Sólin mun setjast, og skýin svört munu skyggja á syndlausa menn sem sofa á sínu græna eyra. Í náttmyrkrinu mætast dimmustu krákur Og björtustu dúfur. Svo ekki loka augunum, þá sérðu mig aldrei aftur. ] [ (Glaðlyndur prófessor, morgunhani) Ég dreg djúpt að mér andann. “Uuummmm...” Ferskt morgunloft. -Slamm!! Hurðin læst, vinnan bíður. Geng af stað, týnist næstum í myrkrinu. Sé varla hársbreidd frá mér. “Guð minn góður!” 4 kringlótt, lítil græn ljós stara á mig. “Geimverur? Ætla þær að taka mig?” Ég færi mig hljóðlega nær. Örsmá hvít hár birtast kringum ljósin. Ég færist nær. Stíf, sviplaus kattasmetti stara á mig. “Fjúff! Bara ofurlítil kattargrey í myndastyttuleik!” Ég held göngunni áfram. ] [ “Oj!” Ömurlegt að vakna svona snemma! “Hvar er koddinn minn?” Svakalegt þetta kolniðamyrkur. Sé ekki baun. “Ég er alltof stór fyrir svona!” Ég hendi kringlótta, harða landsbankaendurskinsmerkinu út í buskann. Örmjótt ískrandi væl dynur í eyrum mér. -Mmmjááá! Ég hrekk við . Bíll ekur framhjá. -Brúúúmmm... Ljósgeisli fellur á enduskinsmerkið sem lýsir upp óhugnalegt fés ófreskju á einu sekúndubroti. Annað væl ómar. Ég fyllist hrikalegri skelfingu. Rýk burt í ofboði. ] [ (Miðaldra heimilislæknir, önugur, veraldarvanur) Ég er heimilislæknir. Fer í húsvitjanir. Er á næturvakt. Á leið til gömlu frk.Møller. Fíni Bensinn minn er ekki gerður fyrir svona þröngar götur, troðnar af hundraðþrjátíuogsjö ára gömlum eikartrjám. Lötrast áfram. “Þoli ekki einstefnugötur! 7,9,13, bíðum nú við? Aha! Þarna! Hús númer 11!” Mjaka Bensinum í þykjustu bílastæði. Losa beltið, stekk út úr bílnum, gleymi að slökkva á ljósunum. -Mjááá! Glymur í hausnum mínum. Man svo eftir ljósunum, Beygi mig inn í bílinn og slekk á þeim. Þau flökta dulítið áður en þau hrökkva af. Gamlar perur, þarf að skipta bráðlega. Í flöktinu sé ég 2 pör af illigirnislegum kattarglyrnum stara á mig. Grábröndóttar kisur með hvíta bringu. “Venjulegir húskettir, hugsanlega með gláp-syndrome” Og ég rölti mjóa malarstíginn upp að húsi gömlu frk.Møller. ] [ “Pála! Petra! Komiði nú inn, litlu perlurnar mínar!” Pála og Petra, kisulórur, líta hvor á aðra. Þær hugsa það sama. “Viðburðaríkur morgunn!” “Satt er það!” “Þrjár furðulegar mannverur!” “Á sama morgninum!” “Viðburðaríkur morgunn!” “Svo sannarlega!” Svo trítla þær tignarlega heim að húsinu. ] [ Snjórinn fellur, varfærnislega, eins og jörðin sé svo viðkvæm, að snerting léttra snjókorna, sé eins og hörð skotárás, skot, aftur og aftur, skotum slegið í jörðina, í sál heimsins. Rigning fellur, harkalega, eins og jörðin eigi ekkert meira skilið, en að vera bleytt margnotuðum regndropum, byssuskot, tundurskot þeytt í eina átt, niður, niður, niður, niður, aðeins niður í jörðina og ekkert annað, þessi jörð sem er svo einstök, á ekkert betra skilið en þetta. ] [ Hjartað í mér slær fyrir svört jól hægt deyr slátturinn út í takt við blikkandi jólaseríur sem vaxa í gluggum með tómum skóm. ] [ Skríða undan skýjasæng skorin klettabelti Í kveldsól kafna undan væng kuldann burtu eltir Gull og grænleit mosahlíð gola út frá sjó Á úr fjöllum ofan, fríð urð úr bergi hjó Strá svífa í ljúfum blæ sinu töfrateppi Skína eins og sól á sæ sannri fegurð hreppir ] [ Vísvitandi tók ég byssuna og hleypti af, hlaðin þungum blýskotum. Eitt, tvö, þrjú og það varst þú sem fékkst þau í bringuna og féllst á gólfið og skerandi óp bergmálaði um herbergið. Ugla sat á kvisti, átti börn og missti... og mamma þín grét. Fyrirgefðu ég sá þig ekki þar sem þú stóðst og hlóst að mér. Íní, míní, mæní, mó... núna var það ég sem hló. ] [ Ég er lítt fögur og ég lifi stutt, hvorki lærdóm né list ég geymi. Og þó verð ég þekkt, líkt og gilitrutt, þvengmjó með hjarta úr steini. ] [ Nissen op paa loftet, er ikke sælig glad. fordi for fjorten dage, ikk´ har faaet nogen "fad" Nissen op paa loftet, fik i nat hektiskt marerit. Han dromte det ad nu til jul han faar intet Akvavit. Nissen op paa loftet, jubler nu og fejrer. For til julegave fik, femten kasse bajer. ] [ Be happy and smile just because. Arriving now is Santa Clause. A handfill of reindeers are towing his cane. Out trough the world in the snow and the rain. He will put a gift under your tree. I´t says: "Merry X-mas" "for you , from me. ] [ Hin stór spurning þetta ár. mun snjórinn land vort skreyta? Eða arka "jólar" votann mó og í fæturna sig bleyta. Jólar = jólasveinar. ] [ Þú ert falleg orðum prýdd einnig í ásýnd. Ég stend sjálfa mig að því að renna fingrunum draumkennt, yfir skjáinn til að reyna að komast nær þér. Því þetta taumlausa vald sem þú hefur yfir orðum heillar mig og hræðir í senn. Samt les ég þig í gegnum orðin og yfir í þennan heim sem þér tekst að skapa allt í kring um þig. Mér finnst ég kannast við hann kannski stundum í andartak. ] [ Ljúfastur ertu ljúfastur þá langar þig að narta vængir þínir vernda mig örþreytta en sátta ] [ Eigi skalt þú tæma viskubrunninn þar er mælska og viska geymd En passaðu þig þegar þú opnar munninn Gakktu með kyrrð og með leynd Opnaðu nýju dyrnar, þar er glóandi gull geimsteinar og drottinskvæði Ofarlega dynja ásakanirnar, er það bull Best er að taka í þinginu æði. Guð fyrirgefi ykkur hverjum og einum kastið ei í þinghúsið steinum Gaman væri að taka ykkur í sátt eftir á heima , hlægja um það dátt Gróa á leyti, brokkar um fjöllin hún þolir ekki frammíköllin Grasið hesturinn hennar bítur hittir Gvend , hann bindishnút hnýtur Á Eyrinni býr hann og mælir sér mót Hvað eiga öryrkjanir að fá í bót Sífellt er að taka á þeirra vanda ætli einhver þeirra leynt, bruggi landa ] [ Til eru leiðir tvær leiðir í lífi þessu Blikar þar stjarna skær sem bendir í átt að lífsmessu Leið 1: Leigðu spólu eina eða tvær liggðu í leti og horfðu Leið 2: Fyrir framan tökuvél stilltu þér upp leiktu þér svo og láttu filmuna rúlla Leiðir tvær til að leiðbeina ] [ Hvers konar maður það er sem hér hjá fer. Sá maður þjónaði mér, þræll til eilífðar, hver og einn sér. Hvurt skyldi hann fara nú, hvert liggur ferð sú sem þessi maður tekur sér með skömm og smán frá mér? Hvur fjandinn gengur að honum sem lék sér að mínum konum? Búinn að safna að sér heilum flokk hann sem drap minn kokk. Hví líst mér ei á svip þann sem hann gefa mér kann? Kannski því hans greppitrýni ég hata og hann myndi ég helst vilja gata. Hve angistin hrópar á mátt og hláturinn hljómar hátt. En hláturinn þekki ég ekki og sjónin hverfur í mekki. Hversu lengi hrópar angistin í þetta sinn því hláturinn er ekki minn. ] [ Barn hamingjubarn brosir hamingjubrosi hlær hamingjuhlátri grætur hamingjugráti gefur hamingjugjöf gefur gleði gefur hlýju gefur tár gefur og gefur ] [ Syndgað hefur sú sem hór hefur drýgt. En guði þakkar þú þegar mig hefur sýkt. Valdið þér viljið verulega skilningssljó Ekki sennilegt að þér skiljið sjóðurinn ei hefur nóg. Auðinn ég afhendi öllum öðrum en þér. Þjófótt þrjóskukvendi þakkar ekkert mér. ] [ Hver mínúta með þér magnar upp tilfinningum sem hlaupa um í hjarta mér, hryndir af stað minningum. Hver sekúnda sem silast hjá setur mark sitt á sál sem situr þér hjá, skilur eftir þrá. Hve tíminn tefur töfra alla sem þú hefur. Sit og horfi er þú sefur, sólina mér þú gefur. Tunglið tifar yfir okkur og tindrar stjarna himni á. Aldrei nýtist tími nokkur nema til að sjá. ] [ Grimmd mannsins byggist á ótta ótta fyrir hinu ókunna því sem er öðrvísi en það sem að manni sjálfum finnst eðlilegt ] [ Það gæti verið gaman að saga af sjálfum sér hausinn og halda út í heim á vit ævintýranna - hauslaus, halda svo heim, líma sig saman aftur og halda áfram þar sem frá var horfið. ] [ Þú og bara þú, þú og ekkert annað. Þú alltaf þú, þú og einginn annar. Þú ætíð þú, þú... ...og kannski ég? ] [ Þig dreymdi þá eftir allt saman. Og áttir þér jafnvel dagdrauma þótt þú færir dult með þá eins og hæfði þeirri kaldhæðni sem þér var tamt að sveipa þig viðkvæmninnar vegna. (Komst enda til manns fyrir daga "mjúka mannsins" eða ætti ég heldur að segja "slepjumannsins"?) En sem sagt, þig dreymdi þó að minnsta kosti þá kumpána Laxness og Jón Helgason og þrátt fyrir allt er ég þess fullviss að þig dreymdi líka um betri heim þótt svona færi. ] [ Kámugur spegill Fimm fingur og fimm tær sinnum tveir Bros með skyr út að eyrum einföld orð eins og pabbi Litlir fætur bera mann hvert sem augað eygir til að sjá öll undrin ] [ Á andvökunótt ég bylti mér í bæli mínu og hugsa og hugsa um allar þær dýrðir sem búa handan meðvitundarinnar í draumaveröld. ] [ Nóttin kemur, myrkrið sækir á Stjarna lífsins horfin handan sjóndeildarhrings lífið drepið í dróma bíður nýs dags. Nóttin hefur gleypt daginn svartnættið hylur storð. Skuggarnir farnir, hrollkaldur vindur æðir um jörð. Þegar allt virðist glatað frostið og myrkrið hafa tekið öll völd. Þá fer lífgjafinn bjarti að lyftast á ný. Dagarnir lengjast skuggarnir birtast, lífsneistinn kviknar frost sleppir tökum. lífsklukkan tifar á ný. Þegar vorið er komið gróðurinn lifnar og loftið fyllist af fuglanna klið. Þá birtan flæðir um myrkvaðar sálir, dauðvona lifna á ný. ] [ Taumlaus fögnuður hlátrasköll, barnsleg gleði kallað, talað, æpt. Sögur sagðar, framtíð hugsuð allstaðar bjart. Það er margt sem að gerist þegar ástin nærir sál. Allt er fagurt, allir góðir. Endalaust sumar kúrt og kelað. Andvökunætur mjúk nóttin af mildi strýkur hold. En allt í einu brestur ástin. Óboðinn gestur á skítugum skónum treður á ást sem var heilög, himnesk varð martröð hins blinda manns. Sorgin bugar áður glaðan hal. Í stað gleði birtist sorgin. Sálarkvöl. Þar sem áður var bjart er nú myrkur. Logi dýrðar kulnar hefndarhugur ljótleikans tákn. Það eina sem er eftir af stærstu ást þessa lífs er minning sem nærir fögur og tær. Fylgir til efsta dags. ] [ Hann var einu sinni ekkert nema brosið, vildi vera eins góður og hann gat. En núna er hjarta hans frosið, og hans sorglega bros bara plat. Hann treystir ekki neinum lengur, hefur brennt sig á ást um árabil. Lítill óöruggur drengur, sem vill ekki vera til. Einhverntímann skal hann ganga með augunn lokuð, yfir á rauðu ljósi, svo hans auma tilvera verði mokuð, af götunni eins og mykja úr fjósi. ] [ Ég er blóm, ég visna. Ég er sól, ég brenn. Ég er alsæla, ég er ávanabindandi. Ég er sætur sykur, ég er óhollur. Ég er hamingja, ég er sjaldgæfur. Ég er ást, ég er ekki til. Ég er svartsýnn, ég er raunsær. ] [ Fljúgðu, fljúgðu hátt, yfir heimsins kvöl og pínu, ég kæmi með þér en ég hef misst allan mátt, úr sálartetri mínu. Ég tæmdi hjarta mitt tilað fylla þitt, ég vildi allt fyrir þig gera, því þú ert yndislegasta stelpa sem ég hef hitt, en ef þú vilt þá skal ég láta þig vera. ] [ Mig vantar hjartayl, ætlarðu aldrei að koma? Ég hef sagt að þú sért ekki til, en ég held samt áfram að vona. Kanski hefuru labbað hjá, en ég var of upptekinn af sjálfum mér ef svo er leyfðu mér þá að fá, annað tækifæri tilað kynnast þér. ] [ munnur minn við þinn brjóst þitt við mitt ég... þú... við urðum ekki neitt þú... ég... ...nema tvö nakin hjörtu sem slóu sem eitt ] [ Látið lítið á ykkur bera og fyrir alla muni farið ekki úr farartækjunum. Því þó mannskepnan sé meinlaus að sjá er hún morðóðasta vera vetrarbrautarinnar. ] [ Svört eða blá Bein eða skásett Blind eða... ...Sjá, augun eru vörumerki sálarinnar - skrásett ] [ gengdarlaus græðgi gjörspilltra og geðvondra, gufuruglaðra guma... með glottið uppsett... yfirboðararnir yfirvaldið yfirstéttin yfirþyrmandi og innilega geðsjúklega gjörsneydd/gerilsneydd því góða... því yndislega... ó, hans hátíðlegi heilagleiki heimaalni heimskingi hortugi og hrokafulli hræsnari hoppaðu upp í... ] [ Stend á stöðugum fótum blekking get runnið lít upp og tegi mig renn gríp í eitthvað missi það dett í hyldýpi ég vakna ] [ Vakna ég hyldýpi í dett það missi eitthvað í gríp renn mig tegi og upp lít runnið get blekking fótum stöðugum á stend ] [ Hver er ég Ég er ég og get ekkert annað verið Hvar er ég Ég er hér og get ekki annars staðar verið Hvaðan kem ég Ég kem þaðan og get ekki frá öðrum stað verið Hvað er ég Ég er fyrirbæri og get ekki annað verið Hvernig er ég Ég er eins og ég er og get ekki öðruvísi verið Hvers vegna er ég Ég er vegna þess og get ekki útaf öðru verið Hvenær er ég Ég er núna, þá og þegar og get ekki á öðrum tíma verið Hvert fer ég Jah, það er nú það! ] [ Brotnir vængir buguð sál þyngd orða minni héldu þér niðri þó að þau svifu um í loftinu þyngdarlaus gast ekki rift álögunum ] [ ég sá ljósið kvikna dimman var björt skuggarnir lengdust og framtíðin svört þú birtst í draumi sem aðskotahlutur fastur í hálsi einskis nýtur ég vill þig í burt þú ert óþarfur aðskotahlutur fastur í hálsi????? ] [ ef ég þig tæki tæki svo fast utan um mig í kakóbollann þér fyndist það sárt þú veinar myndi grenjað og vælt ég hlusta myndi ekki á eitt orð því ég þig tæki tæki svo fast í kakóbollann. ] [ „Ó, grasið mitt græna,“ -grét lækjarspræna. „Ó, grasið mitt gula, góða, nú fer að kula. Grasið mitt góða ei getur grimman lifað af vetur. Grasið mitt góða er farið, í djúpan snjó það er grafið. Ætíð skal ég eftir þér muna,“ -umlaði lækjarbuna. ] [ vertu guð faðir móðir mín í meistara drottins nafni ávallt berji mig höndin þín og kyrkji mig svo ég kafni vertu undir og yfirum með eigingjarnri blessun þinni dansi guðs djöflar í eilífum dansi yfir sænginni minni leiddu mína litlu hendi ljúfi jesú þér ég sendi blóð frá mínu brjósti sjáðu bláedrú og allsgáðu... faðir vor þú sem hátt á himni situr gerðu eitthvað... ] [ hann tifar svo reglulega að hann er kliður og ekkert fær stöðvað þennan takt ...hjartslátt rigningarinnar... ] [ Af himni fellur hvítt sem sál nýfædds barns, létt sem dúnn, snjókorn! Dansar í hægum vindi, fangað af auga einmana fljóðs. Eitt andartak gleymast sorgir og tregi. Tárvot augu horfa á dans þess hins hvíta korns, sem fellur af himni. Andartak er kornið eitt milljóna, í öndvegi lífs þeirrar sorgmæddu, sem situr og bíður eftir hamingju sinni. En allt sem fellur, stöðvast að lokum og hverfur Hamingjan kom ei með korninu hvíta. Allir sem sitja og bíða, eftir lífsgæfu sinni, bíða til efsta dags. ] [ Alhvítar auðnir breiðast til fjarskans Enginn sjóndeildarhringur Bara tóm. Grá ský byrgja sýn..ferðalok nálgast Návindar kaldir skekja farið og hrista. En inni er ylur og bjart. Hvað bíður handan þess sem sést ? Gleði ? sorg ? líf ? dauði ? Því svarar tíminn einn. ] [ lykt bragð snerting sýn hljóð blekking? ást sorg gleði bræði eymd blekking? draumar vonir þrár eignir líf blekking? þú hann hún það ég blekking ] [ Pressaðu bara buxurnar pressaðu bara skirtuna pressaðu bara skóna pressaðu bara sokkana og hattinn pressaðu bara. Ég er svo slæmur í hendinni. ] [ Það er draumur að semja fínt lag svo lifnar í lífsins glæðum Hrynjanda og góðan brag Sem inniheldur draumsýn úr kveranna fræðum Litríka í regnbogans litum semur hann sitt kvæði, en bíddu Þegar upphafið byrjar, úr herbergiskitru Mozart semur sitt andvökuljóð Þegar kemur að enda hann hrypar niður endirinn góðfúslega Hann hjartað konu sinnar biður frá sálu sinni auðmjúklega En þegar skyggir hann heldur í bæinn og skemmtir sér konunglega Hittir vini sína, og spjallar um daginn og veginn Lifir lífinu frjálsmannlega Ungur hann lék á fiðlu og harpsicord og ferðaðist vítt og breitt um lönd Margir keistarar titluðu hann Lord þar til honum var birlað eitur fundinn gravar reitur. Hann var talinn undrabarn mikið því allt lék í höndum hans Með glaum og gaman hann fór yfir strikið hann gerði allt með miklum glans ] [ dáleidd lömuð treystiru augum þínum til að leiða þig ekki í villu? ] [ þú áttir ekkert hlutverk í þessari kvikmynd stóðst ekki einu sinni hæfniskröfur stadista tróðst þér inn í hana og ollir því að hún féll í flokk B-mynda ] [ Ó móðir mín hvar ert þú móðir mín ? Þú sem ég fékk aldrei að sjá aldrei að þekkja. Þú sem gafst mér lífið. Ég heyrði hjartslátt þinn andardrátt þinn skynjaði þína björtu rödd. Ég fékk að lifa í skauti þínu örugg frá kaldri veröld. En svo kom ljósið skært, stingandi. Sterkar hendur nálguðust hrifsuðu mig burt burt frá öruggum heimi burt frá þér. ] [ Í stórmarkaðsþrönginni þú breytingu sérð, þreytulegt þreysandi fólkið að leita. Það leitar af ljósi af vissri gerð, sem "mamon"er löngu búinn að neyta. Og starfsmannastúlkan þér lottóið fær, síðasta von þín um "gullkálfinn"góða. En baugurinn yfir bjargvætti skær, er borinn af ryki gleymskunnar sóða. Já,safnaðarmaðurinn þig hornauga leit, því hornin á honum voru öðrum til sóma. Og kirkjuhljómur og kórkonan feit, sungu um engla og eilífðar rjóma. Og stekkjastaur kallinn þig heilar á ný, sem hoppandi kredit í hvítrauðum ljóma. En klippurnar bíða er aftur ég sný, boðnar og búnar að leggja á þig dóma. ] [ Hvers barn varst þú í fyrstu, þegar heimurinn var ekki þinn? Þú varst upplýstur af stjörnuljósi, í litlu ljótu fjósi. Lætur nær,að guð þér hrósi, bara þetta sinn, því þetta gekk í mannskapinn. ] [ Ég geng um götuna allt er hljótt en samt ekki ég heyri eitthvað í fjarska löngum fjarska langt í burtu ég geng áfram en hjóðið kemur ekki nær ekki fjær ekki neitt það hættir það byrtist við hlið mér ég sé ekki neitt en ég heyri það það hættir það er farið farið fyrir fullt og allt það er ekkert ekki neitt ] [ þú ert farin frá mér það eina sem er eftir af þér er lyktin þín í teppinu sem þú kúrðir þig undir fingraför þín á klósettsetunni ] [ 4/01 '01 Á kvöldin reynir nóttin að taka völdin. Hálfmáni hengir sig á himnum og gerir myrkrinu erfitt fyrir. Svo margs ég sakna þegar ég hugsa til þess sem ég hef núna á meðan ég sef. Það sem ég á er leyfi til ástar. Mín dýpsta þrá er sú að ástin verði endurgoldin. Ekki það að ég efist þó ég hugsi það sem ekki má. Mikið þarf til að hugur minn sefist ástina á ég erfitt með að sjá á stundum ] [ 3/10 '98 Áhyggjuleysi Gleði Hamingja Drunur Högg Sársauki Ekkert Tómt Svart Myrkur Aldrei Aftur Eins ] [ 26/10 '99 Því ertu þar en ekki hér Hjá mér? Við erum eitt saman að eilífu. Ég Þú Við Allt ] [ 27/4 '00 Flóknast af öllu er, finnst mér, að fara ekki fram úr sjálfum sér. Að stoppa sig af áður en eitthvað gerist, að hafa hugmynd um hvað heimurinn snérist, fyrir fyrsta glas, fyrsta reyk, eftir það er allt pís of keik. Að hætta að sukka er meira en bara að segja, allir vita að auðveldast er að deyja… ] [ 17/01 '00 Finnum okkur stað og leitum að ást í augum okkar. Bakvið augu þín sést í sálina, hreina sem stilltu vormorgunn. Af þeim stirnir eins og af slípuðum demanti. Þau eru jafn djúp og dulúðleg og hinn endalausi geimur. ] [ 25/4 '00 Ég skauta með þér eftir stjörnuberum himni, við höldumst í hendur og eigum heiminn. Naktar hugsanir okkar elskast eins og klakar, þú hleypir mér inn í þig og býður mig velkominn. Saman við svífum í veg fyrir sortann, sem aldrei þessu vant er ekki til staðar. Á ógnarhraða stingum við lífið af, og komum inn til lendingar, ennþá hraðar. ] [ 3/7 '00 Þokukenndar hugsanir sýna mér það allt, gleði mín það dýru verði galt, en ekkert sem eftirsjá gæti heitið sýnir sig, svo fordómum yðar breytið gagnvart gleði minni, og grænu grasi, gagnvart frosnum huga og tómu glasi. ] [ 02/01 '99 Þú komst inn í líf mitt jafn sviplega og þú fórst, það brotnaði partur af mér þegar þú dóst. Ég var á gangi einn dag er ég fyrst þig sá og ég vissi um leið að ég varð þig að fá. Ég var þolinmóður og beið með ró eftir þér, en ég var að springa innra með mér. Svo seinna það sumar við fundum hvort annað, og gerðum margt saman sem er bannað. Ég man þann roða sem einkenndi þig, ég man þegar þú sagðist elska mig. Ég mun aldrei gleyma okkar samverustundum og þeim tilfinningum sem við saman fundum. Þú varst árum yngri en það skipti ekki máli, með þér var ég varinn, umvafinn stáli. Ég ætlaði að gera þér svo margt svo gott, áður en það gerðist varstu numinn á brott, burt frá mér, þú lést, það var mín sök, ég dró þig á hálan ís, í gegnum vök. Og enn ég leita að einhverri sem þér líkist, hann er að eilífu veikur sá sem sýkist. ] [ 16/12 '00 Tveir ljósir punktar í myrkri veruleikans lýsa mér leið að hamingju og lífsgleði. Eins og tvö augu kattarins, einstakt kraftaverk náttúrunnar. ] [ 10/7´00 (Stabburet) Alla mína daga ástin mig kvelur magnast að nóttu er mig dreymir þig. En ímynd þína dagurinn felur og ég vona hvert kvöld þú svæfir mig. Kannski ertu hvergi til nema í draumi kannski leitar þú líka að mér Ég leita þín alla daga í laumi, leita þess að fá að vera hjá þér. ] [ 26/10 '00 Drungi, umlukinn myrkri og svartnætti yfirtekur gleði og birtu dagsins sem var svo hlý og skein svo bjart en mun alltaf taka enda. ] [ 10/7´00 (Stabburet) Hún lifir ein í eigin heimi veröld þar sem ekkert vont kemst inn. Gerir ekkert þó hún deginum gleymi ein í myrkri með tárvota kinn. Eilífur ótti býr henni í huga dag hvern sem líður og fram á kvöld. Tekur á öllu svo hann fái henni ekki bugað finnst sem hún hafi lifað heila öld. ] [ 3/10 '00 Það er einhver annar sem andar, í einrúmi kemur og snertir mig. Eins og skip sem á skeri strandar ég sé þjótandi líf og þig. Það er einhver annar sem snertir, strýkur mér án þess að vera. Sál mína og líkama ertir að hafa heim á herðum að bera. Það er einhver annar sem talar, hljómar í höfði sem skerandi vein. Lífið og litir nú dofna og dala og huga minn átt þú nú ein. Það er einhver annar sem sefur, langþráð værð á mér hvílir. Nálægð þín friðinn mér gefur og hugsun þín mér skýlir. ] [ 28/12 '98 Einu sinni enn á hálum ís ég renn, storka lífi og dauða í senn. Atburðarrás er hröð, á mér hvílir sú kvöð, að komast sem fyrst úr þessari martröð. Ég hef lifað of hratt, úr lífinu vatt mér orku til að standa upp er ég datt. Enginn verður biskup óbarinn, rakinn er farinn, og nú eltir mig á röndum syndaskarinn. Komið er að uppgjörsstund, missi alla meðvitund, þetta átti ekki að fara á þessa lund. Myrkur, sverta, allt íkring, allt snýst í hring, eilíft tjón verður afleiðing. Sálarsárin gróa seint, reyndar aldrei, óbeint, alltaf geymt, aldrei gleymt. ] [ 25/4 '00 Orð mín breytast ekki lengur í myndir. Ást mín brennir ekki hjartað sem áður. Hugarróti valda sífelldar syndir. Af raunveruleika er hugur minn þjáður. ] [ 5/10 '00 Engin orð, aðeins ástarinnar tungumál Sýndu mér, tendraðu vort ástarbál Logandi hjörtu hlýja hvort öðru opna þær dyr sem hnúar vonar börðu og brutu niður mótgárur og hindranirnar hörðu sum hug þinn, hjarta og allan heiminn vörðu. Ástin mín, nú á ég þig um alla tíð Vittu til, sjáðu allt og ég þín bíð Ávallt hlýju og hug minn þú átt að lokum veit ég þú munt horfa í mína átt við stígum saman til himna, svífum hátt dagsins fegurð víkur ei fyrir eilífri nátt. ] [ 30/12 '00 Eymd Örlaganna Hann er borinn í borginni og kynnst hefur sorginni sem þar í henni býr. Hún fæddist í sveitinni er í eilífu leitinni að heimi sem er henni nýr. Þau standa í ströngu við leitina löngu en fallast þó ekki hendur án þess að finna hvort annað eftir að hafa kannað það sem til boða stendur. Loks leitinni lýkur asinn var slíkur við þennan fagnaðar fund að til varð ungi og yfir færðist drungi stíga varð á nýja grund. Dreginn var hringur á þeirra fingur og stefnan tekin í aðra átt. Með skuldir á bakinu og ekkert í lakinu fór ekkert í rétta átt. Ungarnir urðu fleiri og skuldirnar meiri og sambandið tók að bresta. Skilnaður og forræði væl og volæði sem kemur fyrir flesta. Hann þekkir því sorgina sem einkennir borgina og kynnst hefur henni í raun. Hún fór úr sveitinni lokið hefur leitinni og vaknað við vondan draum. ] [ 12/6 '00 Fólk og furðuverur fljóta framhjá mér þau sjá mig ekki, og ég er hver sem er. Það rignir eldi úr rauðum skýjum og brennir oss sem syndir drýgjum. Gylltur roði gleymskunnar ræður ríkjum þegar ég hverf inn í sjálfan mig, myrkur. Hvar sem ég kem er mér tekið vel og gjörðir mínar fyrir öllum ég fel. Það sem enginn veit getur engann skaðað og loks getur þá þig í sólarljósi baðað, velt þér upp úr dögg í nýsprottnu grasi og séð mynd af mér í brotnu andaglasi. Grimmd heimsins hefur leikið mig grátt, gengið fast að mér á óblíðan hátt. Svíf yfir sjálfum mér sem ég sé í dái, horfi á það hverfa, allt sem ég þrái. Gylltur roði gleymskunnar ræður ríkjum þegar ég hverf inn í sjálfan mig, myrkur. ] [ 26/12 '00 Ég vildi ég gæti fært þér augu svo þú gætir séð mig. Ég vildi ég gæti fært þér eyru svo þú gætir heyrt í mér. Ég myndi gefa þér allann heiminn ef þú myndir gefa mér þig. ] [ 22/02 '00 Ferðin Heim Ég veit ég mun ei sakna neins sem blasir við mér er ég vaki. Mér finnst sem ferð til draumaheims fullan tíma taki ] [ 31/12 '00 Fíkn Látunum ætlar aldrei að linna, langt hann er leiddur og reynir, sæluna sína að finna, í baði svita hann liggur og dreymir. Sársaukinn hverfur og nístir inn að beini, svimi og sorti er fyrir augum. Enginn annar þjáist, hann er sá eini, öll hornin eru full af draugum. Hann sér ljá, hann sér mann, hann sér dauðann læðast aftan að sér. Hann sér þá sem hann ann, hverfa burt frá sjónum sér. Svo augu hans opnast, og ljósið skín svo skært, honum hefur hlotnast heiminn þar sem allt er svo tært. En skyndilega sér hann skugga, sverta færist í átt til hans. Þar er enginn til að hugga huga deyjandi manns. ] [ 26/10 '00 Helsærður Ég vakna að morgni og klæðist brynju sem ver mig fyrir árásum dagsins Ég fer að sofa að kvöldi og fer úr brynjunni og sé að skotin fóru í gegn. Ég er helsærður ] [ 24/10 '00 Hér átti ég heima Litnum týndu mínir dagar, töpuðust með æskunnar tíma, þegar veröldin var einföld og vakti á nóttunni. Maður sagði við mig: “Mundu þetta þorp, þetta er þitt, hér áttu heima”. Blóm bæjarins sofnuðu, meðan ég eltist og burtu fór. Í viðjum borgarinnar velktist, það vor varð ég stór. Ég sagði við sjálfan mig: “Mundu þessa borg, hún er þín, hér áttu heima”. Dofnuðu, dóu ísalands eldar, draumar að heiman sig teygðu. Greip mig þrá til gjörvallar veraldar sem beið mín, grátandi. Eitthvað sagði við mig: “Mundu þetta land, það er þitt, hér áttu heima”. Fallinn úr faðmi ævintýratrjáa, sem fölnuð felldu lauf. Aftur sneri sem annar maður en heyrði vindinn hvísla: “Manstu þetta land ? Það var þitt, hér áttir þú heima”. ] [ 20/02 '00 Hindrun Óttans Sólin slekkur á myrkrinu með brosi sem kallast dagur. Himinn tær sem augu þín lýsist upp eins og hjarta mitt gerði við okkar fyrstu sín. Hversu mikið ég þrái að snerta þig og finna friðinn sem flæðir frá þér. Tinnusvart hár þitt dýpra en nóttin, líkami þinn brothættur eins og postulín. Að eilífu hindrar mig óttinn. ] [ 4/11 '00 Hún Ein Veit Eins og þokan læðist inn dalinn, hún lext yfir líkama minn. Linar sársauka manns sem er kvalinn, sleikir dropa af tárvotri kinn. Veitir unað sem aldrei áður, án hennar lifi ég ei. Sælunni sætu er ég háður, sem svíður segi ég nei. Skíma ljóss í almyrkvi eymdar seyðir til sín saklausan pilt. Grefur upp minningar löngu gleymdar, grætir sem regnið villt. Kaldri kveðju til mín kastar og kyssir mig á kinn. Slær mig fastar og fastar að ég fái hana ekki um sinn. Læðist ég út að nóttu, laumast ég hennar til. Veit af öllum sem að henni sóttu, en hún ein veit hvað ég vil. ] [ 16/7 '00 Insomnia Gakktu inn í augun mín, í minn eitraða hugarheim. Þar sem hugsun mín er ein í alheiminum. Þar er alheimurinn hugsun í huga mér. Þar hefur mér blætt ég hef svitnað, hef tárast. Þar hef ég séð hluti sem allir sjá en með öðrum augum. Ég sé dag sem nótt og nóttin er minn dagur. Ég sé himnaríki loga og hve Helvíti er fagurt. ] [ 14/08 '00 Insomnia II Í andans vöku ég ligg og náttarinnar værð er stygg. Hún vill ekki koma til mín, hún vill ekki koma til mín. Hún leggst á mig eins og byrði hvernig ætli heimurinn yrði? Ef hún vildi vera hjá mér, ef hún vildi vera hjá mér. Ég ligg og stari út í skuggann og nóttin flæðir inn um gluggann. Hvernig öðlast ég frið? hvernig öðlast ég frið? ] [ 29/01 '01 Í Öskjuhlíð Á niðdimmri nóvembernóttu náðu þeir mér Þeir spurðu mig “Hvað ertu að gera hér?” Þegar stórt er spurt er fátt um svör svo ég sagðist vera að fremja heimskupör. Fjörutíuogtveir gaurar með í mínum bíl, við vorum bara að gera góðan díl Stakkst inn í klefa, fékk nektina að gefa, ég sagðist segja satt en þeir drógu það í efa. Hugsunin heim gerði mig klökkan, ég varð að komast út og hitta gaur og mökk´ann. Þeir slepptu mér út, lengra en þá grunaði, blátt strik í Jálkinn og burtu brunaði. Ég varð að hitta menn til að kveðja menn, Kyssa bless heiminn þar sem minningin lifir þó enn. Þeir segja að lengi lifir í gömlum glæðum Þeir sögðu “Við vissum að þér við næðum” Lengra burtu líður með hverjum degi Magnast meiri blús, meiri tregi. Loksins komst ég yfir þrána Loksins tókst mér til að skána. Blundurinn gæti endað einn daginn Spurning hverjum það er í haginn. ] [ 08/03 '00 Lengi Vel Lengi vel frusi orð á vörum þínum, verk þín og vilji dregin í efa. Sá þig enginn fyrir börnum fínum, þú fórst aðeins fram á að gefa. Þú gefið mér hefur allt sem er gott, aðeins það besta þú geymir. Til fjandans með allt sem er fallegt og flott, fegurst er vináttan sem eigum við einir. ] [ 01/08 '00 Man Á gráu skýi af klístruðum gróðri, ég minnist þín, másandi og rjóðri. Með vín í andaglasi, og grömm af slegnu grasi, ég minnist þín heitri og móðri. Segðu mér þitt, sagði daman, og ég minnist stunda okkar saman, svo vel okkur leið, og samviskan sveið, en við uppskárum gagn bæði og gaman. Og sólin sest þreytt bakvið fjöllin, og ljósaskiptin flytja köllin, og öskrin og ópin, við tvö höldum hópinn, mig langar að spila en ég kemst ekki á völlinn. ] [ 18/01 '00 Mátturinn Í glösin flæðir mátturinn, lyfið sem allir neyta, hann er nú þannig hátturinn, að hamingjan er bleyta. Þeir óðu verða góðir, sem lamb þeir verða ljúfir, en þeir góðu verða óðir, eins og úfið hraun, hrjúfir. Lykillinn að annarri sál, fæst í dýrum flöskum. Seinna tíma vandamál er hugarstarfsins röskun Ógnvænlegt er bleytunnar böl, prósentan sífellt hækkar, ætlaði bara að fá einn öl, nú seðlamagnið lækkar. Snotri mey ég býð af bar, drafandi, í augum rauður. En hver sem tilgangurinn var, ég lognaðist útaf dauður. Vopnaður hamri, nöglum og sög, nú smiðsins vinna er hafin, með látum sem hljóta að varða við lög, er gleði gærdagsins grafin. Dagurinn líður með mikilli eymd því er nú ver og miður. Er húmar að kveldi er kvölin gleymd í maganum ríkir friður. Tilbúinn undir tréverk út ég skunda til móts við gleði nætur hugsanir í huga mínum blunda og vakna er linast fætur. Reikull í spori ég ráfa um, sjónin úr skorðum farin. Staldra við og hugsa um, Hvar er helvítis barinn?!? ] [ 26/09 '00 Dagarnir vaka dimmir, næturnar efla drungann. Unir mér ástrík móðir, hvað hrjáir mig svo ungann? Líðandi stund mig meiðir með djörfum örlagadansi, sjálfsagt þykir að stíga spor í stækkandi freistingarfansi. Æ fleiru fæ ég ekki neitað, fyrir það líður þín sál, Árekstrar eru nú tíðir meðan lífsins braut er svo hál. Gráttu því ekki mín móðir þó að tími minn brátt sé á enda. Af skýjunum ofan mun ég áfram þér ást mína senda. Gráttu því ekki mín móðir þó að vín, víman og konur hafi verið mér vinir of góðir, ég verð ávallt um alla tíð þinn elskandi sonur. ] [ 02/04 '00 Lof sé þér sem ávallt með mér stendur vinur minn sem virkar best brenndur. Aðra leið í annan heim við förum saman í djúpu myrkri okkur finnst samt gaman. Gegnum blámann sem myndast af hita, sjáum við einstaka blöndu lita sem kallar á mig að koma til sín. Að aðskilja okkur er erfiðast verka, finn ég þig líða sem silki um kverkar, og veita mér svör við spurningum daga, mína brostnu sál þér tekst að laga. ] [ 24/08 '00 Í flagglausu skipi þar sem tíminn ekki líður stendur maður í stafni og heimkomunnar bíður. Hér hefur verið gott, hér hefur verið gaman. Hér hafa dagur og nótt ávallt sofið saman. ] [ 26/6 '00 Of Ungur Of ungur til að horfa á heiminn, geng eftir vegi sem enginn sér. Baneitraðar hugsanir, hættuleg orð, í sameiningu vel fær um að fremja morð. Of ungur til að geta átt fortíð, framtíð virðist ekki réttlætanleg. Samviskubit vegna þess sem ég hef ekki gert, samviskubit vegna þess sem þú ekki ert. Of ungur til að velja og hafna, of reiður til að greina mun. Vildi geta snúið við og valið aðra leið, vildi geta fundið eina sem er greið. ] [ 20/07 '00 Þú líður úr lóni nútímans og svíður hjarta saklauss manns sem á einskins að gjalda með deyfð margfalda við stígum dauðans vímudans ] [ 21/8 '00 Í myrkum bíl á myrkum vegi ek ég í öllu öðru en degi. Einstaka skilti kasta af sér birtu og ég nálgast þig sem mest ég megi. Menningarmánar vaka í öðrum löndum ég nálgast botninn og fórna höndum er ég tæmi flösku, klára reyk og þræði vegi eftir norðurströndum. Leiðinni lýkur áður en endanum er náð og er færð veðri og öðru óháð. Og ég brosi fram af háum kletti meðan tilveran mín er útmáð. ] [ 26/10 '00 Henni var stolið af sakleysingja sem þó er sekur bæði af stuld og ásetningi en gerir sér þó ekki grein fyrir alvarleika eða eftirköstum. Henni verður aldrei skilað eins og hún var því það hverfur alltaf smá í hvert skipti og bráðum get ég aldrei elskað meir. ] [ 3/7 '00 Dreymir þig dýr sem að bíta og raska svefnsins ró? Dauðans augum á þig líta og fá ei af kvöl þinni nóg. Sérðu djöfulinn sjálfan í mannsmynd hatrinu holdi klæddan? Langt til baka í myrkri fyrnd, sérðu hvað gerir þig hræddan? ] [ 19/08 '00 Spegill Sálarinnar Í augum þínum sé ég speglun minnar sálar, get ekki bætt í barmafullar skálar reiði minnar gagnvart heimi sem þessum, því segja allir að ástin sé blessun? Í augum þínum sé ég allt sem ég þrái þó að allar mögulegar hömlur mér hái, skaltu skilja, ég mun láta þig sjá, þú ert mín, og einn þig að eilífu á. Í augum mínum sérðu angist og kvöl, brennandi kista hulin moldu og möl, logandi hraun sem salt í mín sár, ég hef fengið að þjást öll mín ár. Í augum mínum sérðu sem aldrei fyrr eilíft myrkur sem flæðir inn um dyr. Þær standa mér opnar alla mína tíð þar stendur maður með ljá og segir “Ég bíð”. ] [ 20/02 '00 Veröld sú sem ég sé er ég vakna er ekki eins og hún var í gær. Tak mitt á tilverunni er farið að slakna, tímaþröng lífsins þokast nær og nær. ] [ 15/01 '00 Ég er á bömmer þú ert á túr. Þú felur þig bakvið flóðið í kjallaranum. Bítur með orðum og hittir á slagæð. Við liggjum á grúfu okkur blæðir út, saman. ] [ 12/06 '00 Og ég vil nálgast þig án þess að að þér komi styggð. Og ég vil þú felir mér alla þína tryggð. Og ég mun veita þér langþráða frygð. Hún óð inn í líf mitt að mér óspurðum án alls tillits til hver ég var. Undrandi á því hvað við urðum, á stað sem einfaldlega var ekki þar. Hún merkti sig inn í huga minn og stimplar sig inn á degi hverjum. Sífellt sterkari löngun ég finn í tímann sem við saman verjum. Og ég vil nálgast þig án þess að að þér komi styggð. Og ég vil þú felir mér alla þína tryggð. Og ég mun veita þér langþráða frygð. ] [ 17/02 '00 Á morgun mun ég vakna og vita fyrir víst, að vellíðan af öllu mér veitist síst. Það fáa sem hélt mér á floti, fyrir löngu öllu er lokið, fer allt eftir við hverju þú býst. ] [ 20/02 '00 Kvöld eitt í ágúst í kúlulaga tjaldi, kneyfa ég veigar sem mest ég má. Orðinn nokkuð viss um að heiminum ég valdi, er villtist þú til mín og ég fékk þig að sjá. Bauð ég þér af birgðum mínum, af búsi hér eigum nóg. Að tveimur flöskum og fleiri tímum, fannst okkur við fær í flestan sjó. Reikul í spori við röltum af stað, ræddum hvors annars reynsluheim. Brátt fundum við sprænu og fórum í bað, fíluðum ekki fötin og gleymdum þeim. Neðannaflaæfingar stunduðum af mikilli þrá, nutum hvors annars undir himni berum. Svo margt sem við gerðum sem alls ekki má, og mér til ama, ég veit við aldrei aftur gerum. ] [ 21/01 '00 Ung kona og barn í senn búa í fögru hylki sem er veðurbarið eftir óveðrin gegnum tíðina. Barnslegt öryggi blandast óvissu í spurningaleik lífsins. Svörin láta á sér standa en áhættan er þess virði; Viltu vinna milljón? Harðstjórinn drottnar yfir akrinum uppsker ekki það sem hann sáði. Gremja og grimmd leika lausum hala og ekkert hindrar hann í að gera öðrum lífið leitt. Á barmi vits hann rambar aðeins varinn hégómleika. Með andlit fyrir hvert tækifæri hið rétta vill enginn kannast við. ] [ 1/10 '00 Hún kemur, fer stríðir mér með því sem ekki má. Leyfir mér að sjá allt sem hún á. Hún æsir mig, snertir sig augun full af ást. Því lætur hún mig þjást við megum ekki sjást. Ég loka mér, ef ekkert er gerist ekki neitt. Ég þrái þig svo heitt svo marga getum meitt. ] [ 18/01 '00 Mig dreymir á daginn um lífið sem ég vil þar sem vandamálin heyra sögunni til. Mig dreymir um heiminn sem aldrei verður mig dreymir um stað þar sem sársaukinn hverfur. ] [ 26/12 '00 Á vegi númer eitt ekið hef ég greitt mænt á malbikið og hugsað ekki neitt. Á fleygiferð tek fram úr einum enn tveimur, þremur og fjórum í senn, við stýrið sit og horfi á mig hverfa bakvið næsta bíl, hraðar en hugann dreymir, á móti sól ökumaður sem land og þjóð ól. Á vegi númer eitt ekið hef ég greitt mænt útum gluggann og hugsað ekki neitt. Þar til ég sé í kantinum standa veru sem líkist anda þeirra sem ég hef alltaf þráð Við hittumst á langri leið þar sem hún eftir mér beið fyrir æðri máttarvalda náð. Nú er tíminn til að hægja mína för koma við í kirkju með vönd og brúðarslör, hús og börn og allt sem að því lýtur og áfram ég ek þar til bensínið þrýtur. ] [ Að nóttu gekk hann einn um götur bæjarins í húsasundum og skoðaði veruleika annars fólks aftanfrá utan til gekk svo heim og sat einn í myrkrinu. ] [ Texti, orð á skjá sem enginn sér nema nóttin og hann. Degi eytt á skrifstofu með annarra manna orðum á skjá. Nóttin hans og hennar. Hann, tölvan hans og orðin. ] [ Oftar en níu sinnum þá hef ég reynt að bæta einhverju nýstárlegu alveg innst innan í veröldina. Það snertir mig samt ekki. Það sem er innst innan í veröldinni það snertir mig ekki þannig að þú snertir mig ekki og þau snerta mig ekki ég er ósnertur. Oftar en níu sinnum hef ég reynt að dreypa á einherju nýju til þess að vakna einsog blautur. Ég blotna samt ekki. Þó ég drekki mér í þvi sem er innst þá blotna ég ekki þú bleytir mig ekki og þau bleyta mig ekki ég er fullkomlega óbleyttur. Oftar en níu sinnum hef ég reynt að endurtaka ekki sama hlutinn oftar en einu sinni. Mér hefur aldrei tekist að endurtaka sama hlutinn oftar en einu sinni. Þú endurtekur mig ekki og ekki endurtaka þau mig. Ég er óendurtekinn. Ég veit að þið vitið ekkert hvernig það er að vera ég. Þegar öllu er á botninn hvolft þá getur slíkt með engu skipt máli. ] [ Eftir að hafa tekið þátt í þvi að láta taka mig í rassgatið nokkrum sinnum þá geri ég mér nú óljóst grein fyrir þvi að ég get ekki notað orðið nauðgun. Ég hef verið gerður að fífli frammi fyrir engu nema því sem öllu máli skiptir lifinu sjálfu. Það eina sem ég hef haft til málanna að leggja er viðleitni til þess að kynna mér eitthvað sem gerðist í gær. Líkt og að klóra sér í rassgatinu þegar maður vaknar eftir naugðun og skoða hvað maður finnur. Síðan skoða ég það sem ég finn og sumt gerir mig ævareiðan. Svo reiðan að ég hringi í vin. Kannski er vinur minn með háan sársaukastuðul eða bara eldri en ég alla veganna þá er hann nokkurn veginn hættur að kippa sér upp við það sem hann finnur í rassgatinu á sér. Hann notar reyndar sumt af þvi til þess að fá hugmyndir af listaverkum. Kannski finnur hann stóran klump af sýktum sæðisfrumum og þá býr hann til ímyndaða pappírshetju sem þolir rigningu og getur blótað á þremur tungumálum. Hann þroskast við hverja nauðgun og eflist. Hann hættir að hugsa um lífið eins og það skipti einhverju máli. Þegar við hittumst í framtíðinni til þess að ræða saman um það sem okkur brennur í brjósti þá heyrum við ekki neitt. Það kemur bara þurr vindur útum munninn á okkur líkt og þegar við prumpum. Rassgötin eru orðin svo víð og sigggróin af storknandi nauðgunarsárum að það blæs allt i gegn án nokkurra hindranna. Við erum ekki teknir alvarlega lengur. Ekki einu sinni þegar við prumpum. ] [ Mér líður ekki vel! Hvernig líður þér? Vonandi líður þér betur en mér! Vonandi þarft þú aldrei að líða þessar vítiskvalir!! ] [ Ást er eins og eldur sem breiðist hratt út. Ást er eins og faðmur sem umlykur mig. Ást er eins og sólin, svo funheit og skær. Ást er eins og koss, svo mjúk og hlý. Ást er eins og þú því þú elskar mig! ] [ Ábyrgðir staflast líkt og skítur í fjósi, ógeðslegar og slepjulegar. Þær hrúgast upp hærra og hærra, en enginn sem mokar flórinn... ] [ Einu sinni var strákur sem átti veiðistöng. ] [ Ísland er land mitt á vorin ferskt og stríðið um sumar býður faðminn hlýtt og bjart um haust hulið þoku og dulúð að vetri kalt og spennandi það er ég og ég er það ] [ það er masókíst myrkur í morknum huga mínum, mölvaðar minningar og meiriháttar komplexar... mcdonalds og mambó-pítsa eða matarboð hjá mömmu þinni... þollitli þurfalingur, þindarlausa útþanda vanþroskaða og ofþrútna þú... þorramatur og þorgeirs-pitsa eða matarboð hjá mömmu þinni... ] [ tveir tregafullir táningar tala tjatta við tryggva tryggva tryggva tryggva tryggva tryllta hvaða andskotans tryggvi skírði barnið sitt tryggva tryggva þarafleiðandi tryggva tryggva tryggvason? helvítis sýruhaus ] [ geðveik gaseldavél við girðinguna í garðinum gulnuð og grútin... gúrkubiti og gulrótarhýði, goritex-galli og gammeldansk-glas, á gaseldavélinni... garðslanga og garðsláttuvél, góðlegur gumi og gasella, glerbrot, gisið gras og geðveik gaseldavél við girðinguna í garðinum hjá guðlaugu hans tryggva tryggva tryggva... ] [ það var köttur í matinn kákasusköttur kolsvartur og kattliðugur náttúrlega en eftir að við kipptum honum úr kápunni var hann ekki eins köttlegur minnti kannski korn á kanínu sko bragðið af kettinum næst höfum við connectikött ] [ hann prílaði uppá payloaderinn pilturinn ég bað hann að passa sig hann sagði: pahh, hef oft gert þetta áður pahh, hugsaði ég og settist inní patrólinn minn purpuralitaða en þetta var bara piltur únglingspiltur minnti mig á pál sem var með mér í polaroidskólanum á patró ég pillaði mér útúr patrólinum og sagði: piltur, piltur, passaðu þig, þú gætir dottið og brotið póstbeinið hann prílaði niðuraf payloaderinum pilturinn sagðist heita pétur að hann ynni hjá póstinum og ætti ekkert í þessum payloader hann hafði rispað pókenskaptið og pallabómuna pilturinn hann lét mig hafa peninga og pillaði sér ég settist uppí patrólinn og pillaði mér ] [ Ég er að visna upp og deyja hef ekki frá neinu að segja hvað get ég gert hugan hert, og búið til nei ! ég ei það vil hvað er að ég finn til sektar ég er veik og mig verkjar segðu mér sögu, já ! segðu mér allt frá annarra misgjörð og sorgum ég segi það öllum á morgun. Ninni. ] [ Hvað hefur þú gert ég felli tár vitund skert hjartað eitt flakandi sár Hjartað ei særist ef ekki veit samviskan þín hefur gosið í blindni ástin var mér heit þögnina hefði ég kosið Eitt þó sárast þykir mér annarra eyru og kjaftur ekki er víst ég taki þér nokkurn tíman aftur. Ninni. ] [ Heimurinn breytist og mennirnir með aldurinn yfir mig færist ekki er allt sem fyrir skal séð og oft sem lífslöngun særist Er ungur ég var, var viðhorfið sterkt til lífs og líðandi stundar í dag eitt er gott en annað ómerkt og enn í mér lífsneistinn blundar Öllum holl er fyrirmynd í hörðum heimi nú fyrir norðan geymd sem gull í lynd já afi það ert þú. Ninni. ] [ vinstri eða hægri einræði eða lýðræði jafnrétti eða frelsi Ingibjörg eða Davíð Castro eða Lincoln ESB eða Nato eða ekki... ] [ Það er eins og fjöllin kalli á mig vindurinn hvísli nafn mitt fljótin umli ástarorð til mín og jörðin stynji af þrá en ég horfi bara á sjónvarpið og læt mig dreyma um betra líf ] [ Allt er svart og engin leið til að þóknast nokkrum. Ekkert lyf eða galdraseyð sem getur hjálpað okkur. Eigi leið þú oss í freistni sagði vitur maður. Ef við mundum trúa á kristni þá skyldum við þetta þvaður. Mjög er það um seinan að gera gott úr þessu að gera manninn hreinan þá fer allt í klessu ] [ Þykkt loft fullt af hugsunum sem svífa um og reyna að brjótast út Enginn gefur þeim gaum en allir girnast að sleppa þeim ] [ Þjónar myrkurs hafa dregið dimmuna að endimörkum norðursins maðurinn beygt sig þolað sálarnauð því eftir hringrás himins tungla fer hugur manns en... meðan jörðin stendur brátt koma ljóssins þjónar að kveikja ljós og líf lýsa nótt sem degi. ] [ Það rann á mér tvær grímur þegar ég leyt framan í frægan mann Ég vildi semja um hann rímur Allur andi og sálarhiti brann Með kosti og kynjum hann sendir út fræga útsendinguna Allir aðdáendur hrökkva í kút eftir sýninguna Maður á mann sá þáttur heitir mannsævin er rakin frá fyrri tíð Frægð og frami þeim öllum breytir Allt sem gert hefur frá ár og síð Það þætti mér gaman að taka af ofan ósýnilega hattinn minn Heilsa kumpánlega og lof'ann Ég gef þættinum stjörnurnar fimm ] [ Er hann ungur var hann tekinn í fóstur Mikla hæfileika hann bar mikið eftirsóttur Hann dróg sig í hlé frá orgel leik og gamani Faðir hans lét honum í té öllu stórtónleikahaldi Um sveitirnar hann naut þess að lifa og spila í kyrrðinni horfa á klukkuna tifa Hann dáðist af skáldum úr fyrndinni Hann hét Muzio Clementi sá dáðardrengur er lék og spilaði fingrum fram þótt hann lifir ekki lengur Mig langar mikið af honum læra þótt lítið ég kann Tónskalarnir og fingrasetningar hann hrypaði á blað Á meðan konurnar í kringum hann léttlindar reyndu að koma honum í svað Hann ruddi veginn fyrir skáldum næstkomandi glæstra tíma Verk hans líktist neistandi göldrum Sem Beethoven þurfti við að glíma Í sveitasælu hann unni að semja skalanna, áttundir, upp og niður Á nótnablað hann galdur vildi fremja Í því var hans fastur liður ] [ Ég elska jólin. Það er það fallegasta sem ég get hugsað mér og það fallegasta sem er til. Jólin eru það dýrmætasta sem er til. Maður gleðst alltaf á jólunum og ég er alltaf glöð þá. Gleður mig að jólin eru falleg. Mig dreymir allt fallegt um jólin. Snjórinn er hvítur einsog gyllt jólakúla og við skreytum jólatréð með fallegri stjörnu. Jólin eru best. Gleðileg jól. ] [ einhversstaðar gæti ég verið ég betur en ég er einhverntímann vek ég upp ástríðu sem ég veit að er til eitthvert fljúga dýrmætar hugsanir einhvernveginn held ég áfram ] [ ómeðvituð lífsfráhverfa þeirra varð að einhverskonar álögum ] [ þögn hennar útskýrðist í baktalinu væntingar hennar urðu að hárbeittri hæðni með styrk þagnarinnar sigrar hún alltaf ] [ í þínum heimi eru skref mín úr takt ] [ Tárin streyma niður margbrotnar kinnar á litlu stelpunni sem saknar mömmu sinnar ofbeldisfullur faðir sem hendur á hana lagði hún var sár, en ekkert sagði lét hann brjóta tilfinningar sínar eins og ekkert væri ef hún myndi verja sig, hvernig ætli það færi Stelpan er áhyggjufull og leitar skjóls yfir nætur hún gengur eftir ganginum dimma og grætur hún vill vera hugguð af móður sinni og að barsmíðum föðursins linni en sársaukinn verður ávallt í hennar minni Hvernig er hægt að særa ungt hjarta svo mikið það er skilið það eftir götótt og svikið er það sanngjarnt að á meðan fólk er með heima við með alla sem þau elska sér við hlið meðan saklaust barn gengur í kuldanum og biður um grið Hvenær er svarað hennar bænum hvenær fær hún að vera með vinum vænum innan um fólk sem elskar hana af öllum mætti og hversu gott henni það þætti vera metin eins og hún er jafningi allra hér. ] [ Ég þarf að játa svolitlu fyrir þér, og hljómar það svona: Innra með mér er játning til þín með von um að þú komir aftur til mín ég sé svo eftir því sem ég sagði ég hefði getað sagt það strax, en ég þagði ég held ég hafi verið hræddur um að missa þig ef ég segði eitthvað rangt, myndiru kannski ekki vilja mig ég vildi aldrei særa neinn, það var aldrei meint ég tel mig vera viss, að núna sé of seint að ná þér aftur, en ég gæti ekki fyrirgefið mér ef ég hefði ekki reynt ég er ekki að biðja um já, heldur að þú fyrirgefir mér alla þá hluti sem ég hef gert þér Allt sem ég sagði sem særði þig allt það sem ég gerði sem fékk þig til að hata mig ég bið þig um að fyrigefa mér allt að ég tók ekki utan um þig þegar þér var kalt þegar ég var ekki til staðar þegar þú þarfnaðist mín mest ég get bætt mig, ég þarf bara lengri frest ég skal bæta mig og vera hjá þér þegar þú þarft ást stríða þér þegar þú vilt slást kitla þig þegar þú vilt kljást hvað sem er, ég verð hér fyrir þig, eina ] [ Hvað hef ég gert til að verðskulda þetta? Get ekki stutt mig við þig og mér finnst ég vera að detta Mistök í lífi mínu svo hundruðum skiptir Ég elska þig svo heitt en þú ást minni sviptir Er í lagi að leggja þetta á aðeins einn mann Að elska þig heitt er það eina sem ég kann Áður var ég einn, áður en þig ég fann. Sorgir buga og sorgir þjá Hvað þarf til að fá þig til að sjá Ást mína í þinn garð Garður, sem fullur er af þrá. ] [ Ég vildi að ég væri eldri og gæti sýnt þér að það er margt gott sem býr í mér kærleikur og ást til allra sem vilja með sjóðheitri ást minni skal ég þér ylja með styrkleika mínum mun ég vernda þig því þeir sem ráðast að þér, þurfa að fara í gegnum mig ég verð þér ávallt trúr hvernig sem á stendur ég verð til staðar fyrir þig þegar þú vilt ekki lifa lengur ég mun elska þig heitt hvernig sem á gengur því ég mun ekki yfirgefa þig á erfiðum tímum ég mun frekar halda þér fast í örmum mínum ég vek yfir þér í svefni og held í þína hönd það sem ég vil er að styrkja þessi bönd elska þig meira, verða hluti af þér vakna og hafa þig við hlið mér er eðlilegt að dýrka manneskju svona djúpt ef við gætum verið saman, væri það ekki ljúft saman að eilífu dáið saman og byrjað að nýju ég veiti þér hlýju ég verð til staðar ég elska þig. ] [ Hæhæ ástin mín Ég skrifa þetta bréf til þín Í von um að þú skiljir mig Og skiljir þá einnig hvað mér finnst um þig Þú ert ástæða þess að mér líður ílla á kvöldin Ekki þín sök, heldur tekur sorgin völdin Ég veit ekki ég á að bregðast við Þegar ég vakna og ekki með þig mér við hlið Get ekki útskýrt tómleikann þegar þú ferð frá mér Komdu aftur elskan, ég er svo hrifinn af þér. Ég tala við sjálfan mig í von um að þú heyrir Því ég hef ekki taugar til að segja þér frá Að ég dýrka þig ekkert smá Þú færð mig til að halda í þá drauma Að þú farir að finna þá strauma Sem hafa gert mér lífið leitt Og hafa aðeins sýnt fram á það eitt Að ég á enga möguleika gegn þér Er það sanngjarnt, þegar þú ert eina ástæða þess að ég er ennþá hér En ekki dáinn einhvernstaðar þar sem enginn sér Væri það svo vitlaust Yrði fólk nokkuð orðlaust Hvað með þig? Myndiru hugsa um mig? Ég veit ekki hvað meira ég get sagt Það er ekki margt fleira til málanna lagt Ég enda þetta bréf Með að segja, ég verð ávallt hrifinn af þér Og ef þú vilt mig, þá veistu hvar mig er að finna Kær kveðja.. Einn heillaður. ] [ Ef þú bara vissir hvaða tilfinningar ég ber til þín Ég vildi að þú gætir hugsað eins til mín Með sömu þrá, og geislar mér frá Mig langar að spyrja, hvort þú hefðir þann vilja Vera með mér, því í kulda mun ég þér ylja Á erfiðum tímum, mun ég halda þér í örmum mínum Ég skal þig hugga, þegar þú hverfur í skugga Gleymist í myrkri, og svartþoku miklri Sama í hvaða vitleysu þú vaðar, ég verð ávallt til staðar Ég geri hvað sem þú segir mér Ég er bara svo hrifinn af þér Vertu með mér uns yfir lýkur Ef þú vilt að ég breyti mér, þá verð ég sem slíkur Þótt ég geti ekki gefið þér allt þá verð ég ávallt, Ástríkur. ] [ Ég er að deyja innra með mér mig langar svo að vera með þér veistu hvernig það er að vilja eitthvað en aldrei fá mér líður þannig, það er eitt sem ég mun alltaf þrá hvað það er, mun ég aldrei segja frá viðkvæmu máli sem er að taka lífsviljann burt en hann hefur verið eina sem ég hef þurft til að anda af eigin vilja og lifa en í fullkomnu lífi er alltaf lítil rifa smáa letrið sem yfirsést er við fæðumst við reynum að halda okkur frá því sem við hræðumst en við fáum ekki ráðið því sem við viljum ráða við leggjumst á hnén og biðjum náða sjaldan fáum við svar. Bænir mínar eru innantómar líkt og líf mitt allir aðrir virðast sáttir með sig og sitt ég leitast eftir nýju, en hvað? losna undan lífinu, stytta það losa sig við skuldbindingar og myrða mig en það er heigulsháttur að drepa sig þótt ég lifi að utan, er ég dáinn að innan ég missti lífsviljann, ég verð að finna hann eða eitthvað sem fær mig til að brosa á ný til að vilja vakna á morgnanna af því að ég þarfnast umhyggju frá þér einhvern til að vaka með mér ef mér líður ílla og gengur ílla að sofna því þegar ég er með þér, fara fætur mínir að dofna vellíðunin þegar ég umgengst þig er engu lík líðan mín til þín er svo mögnuð að ég efast um að það finnist önnur slík ég vil ekki missa þig heldur þróa málin og elska þig meira ég reyni að finna annan tilgang í lífi mínu, en það er ekkert fleira mundu bara að ég er hér til staðar fyrir þig í hvert skipti þú verður leið og vilt hitta mig eða vilt bara einhvern til að tala við. ] [ Það eru lífsklukkur í eyrum mínum tifandi Fæ ég að klára líf mitt, eða verð ég grafinn lifandi? Engin virðing og kæfður í mold, Rotnandi líkaminn og maurar, sem éta mitt hold. Blóðið allt storknað og beinin öll marin Þegar ég ætti að sjá ljósið, verð ég löngu farinn Hinn langa hvíta veg til himna, Verð ég þá einn af mörgum, verndarengla þinna. ] [ Lokaður á fangelsiseyju, afplána ég dóm frá 8-16 5 daga vikunnar. Ég sit í helli og sé skugga heimsins varpast á vegginn út frá ljósi fjölmiðla. En af og til þarf að skipta um peru og þá lít ég við og sé raunveruleikan kaldan og dökkan. Lokaður á fangelsiseyju, færist ég með maurahrúgunni meðan örfáar drottningar háma í sig afrekstur. Hópurinn er barinn áfram af trúarbragðarsvipu sem er beitt af þröngsýnum hálfdrottningum. Hópurinn heldur hugsunarlaust áfram alveg sama. Með byr undir vængi, spilaði ég rétt úr spilunum og síðasta peran er sprungin. Kalt varð heitt og dökkt varð ljóst og hrúgunni vantar einn vinnumaur. En drottningarnar taka ekki eftir því, þær voru að eignast nýjan vin. ] [ Hann er svo asnalegur frá þessu sjónarhorni. Hvað með þetta sjónarhorn? Eða þetta? Má ég bjóða þér út að borða? ] [ Ég þarf ekkert að vakna á morgun hvort sem er; hvað er klukkan núna? Höldum bara áfram. ] [ Vildi að ég gæti málað þig. ] [ Það væri gaman að takast á við ögrandi verkefni Hætta liggja í endalausri bið hætta liggja í eilífðum svefni Reyna takast á við tilveruna safna að sér eigin sjóð Hætta eigast við einveruna og hætta semja falleg ljóð Sumir eiga sér framtíð Liggja á peningum eins og ormar á gulli Þeir agnúast útí iðjuleysingjan Og biðja hann að hætta öllu kaffi-sulli Þeir gagnrýna aðra svo um munar Þannig að þeir missa alla rænu Missa tilgang lífsins Missa tilganginn að vinna Þess vegna vilja þeir ganga um götur borgarinnar og ekki gera neitt. Þú sefur fram á miðjan dag og þykir vænt um koddann mjúka Þykir gaman að semja fallegt lag Vilt reyna öllu að ljúka En samt gerist ekkert ekki neitt Þú lifir dag eftir dag ekkert gerist Þú horfir á sjónvarpið og hlærð í smá stund en ekkert gerist Þú stendur uppúr sófanum og ekkert gerist Þú horfir útum gluggan og sérð bíla fara fram hjá Það eina sem stendur uppúr er þegar þú kemst í hrein föt Þegar þú hlustar á fallegt lag Þegar þú færð góðan mat Þegar þú elskar koddan þinn þegar skyggja tekur þú elskar hann svo mikið Að þú sefur fram á miðjan dag ] [ Að liggja í fleti sínu og dreyma Vakna upp á miðjar nætur fá sér gott að borða sofna aftur dreyma um heim og geima Vakna svo seint og síðar meir enn þá þreyttari en nokkru sinni fyrr Vilja bara dreyma, og sofa og vilja öllu lofa Hvílast Dreyma Sofa lofa ] [ Til fjandans með allt sem þú sagðir Meðan ég varð fyrir árásum, sastu bara og þagðir Komst bara eftir á og hendur þínar á axlir mínar lagðir Helduru að ég sé ódauðlegur og geti allt Blási og þá verður heitt þegar mér er kalt Ég er eins og sár, og þú sem salt Við eigum ekki saman, þótt þú óskir þess Á ég bara að vera með þér og engin ástæða til hvers Látast sem ég elski þig af öllum mætti Ég eyði engu í þig lengur, ekki einum hjartslætti Ó, já. gaman þér þætti Að sjá mig þjást Þú gerðir það og það sást Kvalinn maður í framan og orðinn dofinn Ég hafði góðan persónuleika, en nú er hann klofinn Þú sveikst mig, og traustveggurinn er rofinn Ég mun koma aftur og snúast í vörn Og ég mun troða loforðum ofan í þig langt oní görn Guð, hvað ég vona að þú eignist aldrei börn Því nóg er til að svikurum svo þú þurfir ekki að dreifa þeim Ég er Sykurinn, maðurinn með kókoskeim Maðurinn sem þú skalt óttast við sýn Því þegar ég kemst út, fer ég beint til þín Nú er tími til að hefna sín ] [ Ást er ekki eitthvað sem við finnum Ást er sem sorg, sem rignir af himnum Hatur í kjölfar, ekkert við því að gera Kvalir og þjáningar, komnar til að vera Fáum við grið, fáum við frið? Mundu raddirnar hverfa, sem eru í höfðinu á mér hvíslandi með nístandi röddu um að ég eigi að hlýða sér Ó guð minn (eikkað nafn) ég þarfnast þín hér. ] [ Ég hef verið myrtur líkaminn í líkhúsi og hefur verið snyrtur tilbúinn í gröfina og moldina yfir ég dey aldrei svo lengi sem þú lifir ég anda í gegnum þig er þú horfir á moldina grafa mig langt í jörðu gegnum blauta leðju og lendi á einhverju hörðu grjótin mölva kistuna svo ég slepp út og það er horft er ég svíf uppí loft. langt frá öllum og hverf í skuggann en mundu að í hvert sinn sem þú lítur út um gluggann þá er ég að horfa niður og yfir þig leggst friður þú sofnar fljótt er ég læðist inn til þín hljótt tek þig með mér á flug ég gef þér hjarta mitt og hug ég er þinn svo lengi sem þú vilt mig ég er hér til að halda áfram að elska þig. ] [ Hvernig gastu svikið mig Eftir allt sem ég hef gert fyrir þig Gastu ekki bara sagt mér Að ég væri að þvælast fyrir þér Að ég væri boðflenna, sem ætti skilið að brenna Ég trúði öllu sem þú sagðir frá Ég var við það, sjálfsáliti að ná En nú er ég særður og treysti ekki aftur. Mér þótti svo vænt um þig Og þykir jafnvel ennþá, Tilfinningar mínar brotnar Við þessu, bjóst ég ekki við þér frá. ] [ Hvað á ég að hafa gert Á ég skilið slíka reiði Þegar ég dey, fer ég hvert Og mun einhver koma að mínu leiði. Mun fólk minnast mín Sem allgóður vinur Mun fólk taka dauðann til sín Þegar tilfinningarmúrinn hrynur. ] [ Hvað ef ég sting af Myndi einhver mín sakna? Væri ekki bara öllum sama um það Kannski er kominn tími til að vakna Og líta á heiminn réttum augum Veit ekki hvort að, Ég færi á taugum, En myndi ég þola það? Myndi ég sökkva á kaf í vítiskvölum Heimurinn skýtur á mig, sársauka í röðum Hatur og sorg eru að yfirbuga gleði Og að þú viljir mig ekki, er að taka mig á geði. ] [ Er einhver þolinmæði eftir hjá mér? ég er ekki viss ég er að gefast upp og veit ekki hvað ég get gert það er ekkert lengur athyglisvert ekkert sem vekur áhuga minn á það eina sem heldur mér á lífi er gömul þrá að rætast muni úr mér, en sá draumur er mig að þjá því ég veit, að þeim áfanga mun ég aldrei ná ég var fæddur sem mistök ekki neita því ef þú hefur engin rök en það er samt engra sök ég hef alltaf verið svona sitjandi í myrkri og vona að skýin muni hverfa frá mér og birta skín inn ég hef allt reynt, allt sem ég get í hvert sinn ég fæ mitt tækifæri til að sanna hvað í mér væri en ég fell á öllu sem mér er boðið ] [ Ég held í hönd þína þar sem þú liggur kyrr Ég hefði komið ef ég hefði frétt þetta fyrr Ég trúi ekki að þetta sé að gerast Eitrið er í æðum þínum að berast Í átt að hjartanu, því hjarta sem er mitt Lyfin halda þér hjá mér, en eitrið er að gera sitt Þú verður köld og verður öll hvít í framan Ekki fara frá mér, biðjum heldur saman Biðjum um sanngirni og von um svar Ekki taka þessa manneskju sem ekki finnst á mar En er að deyja að innan Hvar er Guð núna? Ég verð að finna hann Ekki skilja mig eftir einan Ég verð að leita að honum áður en það verður um seinan Sama hvert ég leita, hann virðist ekki við Er enginn séns að biðja um grið Þegar ég kem aftur ertu farinn Í hræðslu minni hleyp ég af stað Veit að þú ert enn á lífi, eða hvað? Hugsanir mínar veltast um í höfðinu á mér Eigingirnin dregur mig áfram í leit að þér Ég er stoppaður og spurður hvað sé að Ég er að leita að þér Þú ert ekki lengur með mér Þú ert farinn yfir, án þess að segja orð Ég varð sturlaður, Guð, þú framdir morð Var þetta nauðsynlegt, var engin annar til staðar fyrir þig Þurftiru þá að ráðast á mig? Hef ég ekki þolað nóg? Ég leggst saman fyrir framan þig og græt í lófann gegnsæum tárum eins og þú ert fyrir mér Mundu að aldrei mun ég hlýða þér. ] [ Ég er einn Búinn að reka frá mér vini og ástina og er of seinn Að ná þeim aftur, það verður ekki aftur snúið Sannleikurinn er sársauki og verður ekki flúið Verð að mætast veruleikanum eins og hann er Raddirnar eru ennþá að berjast í höfðinu á mér Ég hef misst tökin á lífi mínu Er eins og maður sem berst fyrir sæti sínu Fjölskyldan ekki hér, ég drap hana í stuði Nú er hún uppi, langt uppi hjá Guði Horfir niður með andstyggð Að ég skuli hafa brugðist ykkar tryggð Fyrirgefið að ég var aldrei þar Gerið það gefið mér svar, Verður allt eins og það var? ] [ BÆ !!! Ég sé þig eftir jól, ég labba út að flugvélinni. Á ég að fara ? Mér finnst að ég eigi að gera það en er það nóg ? Ójúúú, ég á að fara og þetta á eftir að verða gaman. En ég mun sakna pabba, svo er víst. ] [ Ó, elskur vinur því fórstu svo fljótt Því ég lofa að ég sofi ekki í nótt Því þú átt bæði hug minn og hjarta Litli drengurinn með brosið bjarta Ó, Drottinn hví tekur þú börnin smá Þau sem eiga svo miklu eftir að sá Því tekurðu þau í stað þeirra sem eru eldri og þreyttir Þeirra sem eru orðnir svo voðalega breyttir Drottinn þú kremur mitt hjarta Því þú sóttir engilinn með brosið bjarta Hann sem alltaf var svo blíður og góður Ég sigli nú á ólgu sjó, þetta verður erfiður róður Ekkert getu læknað mitt brostna hjarta Því hann er farinn, drengurinn með brosið bjarta. ] [ Þetta er ekkert mál Því við höfum okkar eigin sál Það er erfitt að vera betri en góður Þó að maður sé mjög fróður En betri en bestur er ekki hægt að vera Það skiptir ekki máli hvað þú ert að gera Maður verður að gera sitt besta Það gengur ekki að vera alltaf öllu að fresta Því illu ef best af lokið Þó að geri ykkur erfitt fyrir rokið Því allir geta nú eitthvað gert Skrúfan er aldrei nógu vel hert. ] [ Ég týndi einhverju um daginn, ég vissi ekki hvað það var né hvernig það leit út, ég vissi bara að það væri týnt. Ég leitaði allstaðar um borgir og bæi, um lönd og strönd, heima og geima. Ég leitaði lengi og leitaði vel en fann ekki neitt, því ég var að leita að sjálfri mér. ] [ Gekk niður í fjöru. Þar voru bárurna í eltingar leik. Fuglarnir kvörtuður yfir veðrinu og sólin var í feluleik bak við skýin. Fjöllin með sínar hvítu húfur teygðu sig til himins í von um að finna sólina. Sest niður og ræði við steinanna höfðu þeir lítið merkilegt að segja nema þó hvað þeim fyndist sandurinn óttaleg frekja. Geng niður að sjónum og skil eftir mig spor sem bárurna í leik sínum sópa burt. Seinna finna fjöllin sólina og hún rennir sér á bak við þau og leggst til hvílu. Stjörnunar birtast ein af annrari og blikka mig allar. Stend upp og rölti heim, þetta var merkilegur dagur. ] [ Lítill, saklaus í þykjustuleik leggur hann aftur augun - eitt augnablik. ... Þegar þau opnast aftur er leikurinn ekki lengur í þykjustunni og augun ekki eins saklaus og áður. ] [ Engla við gerðum í snjónum á jólanótt Allt var hljótt og ljósið skein í bænum Á jólanótt Snjórinn brakaði undan skónum Á jólanótt Leist á mig fljótt og faðmaðir mig í blænum á jólanótt Með dúnmjúkar flyksur í hárinu þú varst með hvíta húfu mín ljúfa Með dúnmjúkar flyksur í hárinu á jólanótt ] [ 1.VERSE There is just ridicoulus amount of money In the bank, in the bank and I just have few penny penny left, penny left 2.VERSE The sun is shining the children are playing in the street, in the street, If I were a stockbroker I would be Rich as a creep Rich as a creep CHORUS Now I am sitting in the sunlight dreaming of you, waiting for you I just hope and pray that My dreams will come true My dreams will come true Sitting in the sunlight and waiting for you Dreaming for you 3.VERSE If there would be any hope I would meet the Pope Meet the pope Give a speech on his balcony and ask God Give me some money Give me some money CHORUS ] [ Náttúrunnar listaverk fjarri mannaferð hljóðlát dýrðarvin. Kolmórrauð Jökla nagar berg og byltist um myrkranna djúp. Árniður, vindsins gnauð fuglanna vængjatök, ljóssins leikur, sálarinnar staður, þar finnur hugurinn hvíld. Fjallanna þögn er rofin. Öskrandi stál, mannmergð, hrynjandi björg. Árniður horfinn, fegurðin farin, fuglarnir horfnir á braut. Mannanna verk, skammsýni, skemmdarfýsn, í nafni mammons hins mikla. En... lítt vitrir stjórnendur þjóðar horfa á líðandi stund. Hörmungar fáviska ríður um garð. Framtíðin dæmir verk þeirra allra sem skammsýni og heimsku. Landið, sem börnin erfa eru rústir þess, sem var. Sköpunaverkið mikla horfið, ónýtt, nauðgað. Landið blæðandi sár það senn mun hverfa í djúpið. ] [ Fagurt er líf þess blóms sem kviknar að vori. Það hverfur í frostkaldan faðm haustsins eftir skammvinnt líf. Þann örskamma tíma hefur það heillað alla þá, sem glaðst geta kraftaverkum. Ef fegurð þess hefur eitt andartak lyft sorgbitinni sál úr viðjum myrkurs hefur það lifað til gagns. ] [ Hjartans ósk Sem rættist Aldrei Var mér kvöl Öll þessi ár Fann frið Endanlega Í þögn Og samþykkt Að finna Aðrar leiðir Nú er óskin að rætast ] [ glatt verður í hjalla, á jólum barnsins gleðibjalla heyrist húsum í blöndum saman geði við jólatré sem glitrar og speglar sig í augum okkar allra:) ] [ Kalda nótt, vetrar nótt, komst þú. Sársauki og ringlureið fólk að flýta sér. Óvissa. Gleði og hamingja, þú komst. Lítil og blá en með sterka rödd og sú rödd er hamingju rödd, röddin þín. ] [ Munkurinn: Ó, mín hjartans ástar baugabrú, til þín, því að engin er sem þú, hugtrú hef eg gefið, heyrðu mig: viltú afmá þann, sem elskar þig? Nunnan: Þó eg nei kveði við ókjassmálig, vil eg ei afmá þann, sem elskar mig. Munkurinn: Samt þín mök hrífa líf á heljarstig. Nunnan: Mín er sök ein ei nein, þótt ærir þig. Munkurinn: Hana þá skemmstu vegu skal fara; eg vil sjá, hvort það er þín alvara. Nunnan: Skil eg þig, að þú níðist á mér frekt, að fella mig, það er æði karlmannlegt. Stattu við. Munkurinn: Má eg eigi, mér er annt. Nunnan: Dálítið. Munkurinn: Hitt skal reyna, hvað þú kannt; eg vil sjá, hvort þér verður við mig bilt. Nunnan: Hana þá, gjörðu við mig, hvað þú vilt. ] [ Ég er í sálarstríði allar vonir eru dánar í mínu lífi ég hangi saman á örfáum þrjóskum lífsþráðum sem eru orðnar uppgefnar og gefast upp bráðum það er skiljanlegt því hver vill hjálpa manni sem vill ekki lifa maður sem átti fullkomið líf en í því var smá rifa rifa sem stækkar og stækkar og hleypir öllu burt ást, væntumþykju og von sem hefði þurft til að draga andann án þess að vilja halda honum niðri deyja og málið er ekki að ég ekki þyrði veit ekki hvernig líf aðra yrði ef ég færi frá, hvað gerðist þá allt í einni spurningu sem ekki fæst svar við leyf mér að segja að mér þykir vænt um þig ] [ Fátt er um fína drætti, nú fáir sinna Netinu. Heim að sofa ef mætti, og húka lengur í fletinu. ] [ Úti í myrkinu undir stórum steini býr álfkonan dula ert þú í leyni Álfakongur hefur leitað að þér útum allt Þú birtist ef lesin er þula "Komdu nú, komdu nú" Þú verður, Þú verður, þú skalt Þegar þú sýnir þig, kemur geisli frá stjörnunum En þegar þú kemur, hver verðu að passa sig þú gætir náð góðu börnunum Hvenær koma Jólin þú spyrð steininn þinn Þegar þau gefa upp gólin Í poka þú grípur börnin fimm Sannkallaður fengur þú hefur náð Uppúr steininum liðast reykur Í uppskrift þinni þú hefur ráð Suðan upp hún kemur bullandi þú happasæl að vanda Börnin smáu í poka skælandi Þau í seiði þínu munu stranda Þau eru hrædd og titrandi í pokanum þínum Þú grípur þau uppur pokanum organdi tilbúin að setja í sérréttinum fínum En hvaða hljóð heyrist í fjarska þegar þú tilbúin ert með suðuna Ætli það sé bóndinn góði Hann frá bænum sér gufuna Álfkonan vonda verður hrædd hún forðar sér í hraði Hún sauðagærum er í klædd Öll börnin hrædd komast heim á leið þau enda öll í baði ] [ Fjallið þakið fjórublárri filmu af himnum vaknar í napurri kyrrð horfir á gagnsæja dögun með þreki Dagurinn byrjar ] [ Hversu oft er ég ekki búinn að reyna að fela mig fyrir svefnleysinu. Ég geng um íbúðina og reyni að hugsa um kindur þvi þegar ég hugsa um kindur þá verður mér kalt og þegar mér verður kalt þá langar mig til þess að sofna. Hins vegar, þegar ég hugsa um kindur þá fyllist ég viðbjóði á sjálfum mér og þegar það gerist þá verður mér flökurt og þá þarft ég að gubba og þegar ég gubba þá standa augun á stilkum, maginn er eins og tómt eldfjall og hugurinn er vakandi einsog drukknandi maður sem sýpur hveljur. Það er gjörsamlega off fyrir mig að hugsa um kindur. Ég hef líka reynt að hugsa djúpt. Fyrst leiði ég hugann að tölunni núll því kvikmyndahyggjuvit mitt segir mér að það að hugsa um töluna núll sér djúpt og gáfulegt. Venjulega finnur líkami minn það fljótt á sér ef eitthvað er gáfulegt því að þá syfjar hann. Hins vegar þá gerist það ekki heldur fer öll orkan í að hugsa um það afhverju það sé djupt að hugsa um núll og ég fæ mjög ört vaxandi gáfumannakomplexa og fer í slopp því mér finnst eins og einhver sé að horfa á mig. Það er fátt heimskulegra en grunnhygginn maður á nærbuxunum um nótt í þykjustuleik af innlifun. Mig syfjar ekki af tölunni null. Eftir ýmsar gáfulegar uppástungur verður mér hugsað til Stellu. Hún var með mér í 6.bekk og fékk mjög snemma mjög stór brjóst. Ég fróaði mér og sofnaði og dreymdi kindur með stór brjost sem stukku í gegnum eldislegna töluna núll. ] [ Mjóir mjókka feitir fitna börnin öskra ættingjar rífast en ég sit útí horni og hugsa, einu sinni á ári? ] [ báturinn rær út í bláinn maðurinn í honum er dáinn hver getur grætt sárinn ef ekkert er eftir nema árinn. ] [ undir djúpinu bláa er óþekkt sála sem ekki er hægt að kála dæmd til að ráfa í djúpinu bláa. ] [ Litir eru það sem við við sjáum allt sem við sjáum eru litir þú sérð blátt ég sé gult þú sérð grænt ég sé rautt en hvað er litur? Litur er bara litur gulur rauður grænn og blár svartur hvítu ekkert annað engin önnur það er liturinn minn ] [ Ef sálin er uppmáluð birtu þá hlýt ég að vera myrkur Ef lífið er sár þá hlýt ég að vera stórslys Ef ástin er góð þá hlýt ég að vera slæmur Ef hamingja er uppmáluð þá hlýt ég að vera málning Ef allt gott er slæmt þá hlýt ég að vera á verri endanum Ef þú ert góð þá er ég þinn. ] [ Léleg ljóð og léttvæg eiga eitt skilið að þeim sé eytt öllum sem einu útrýmt eitt hundrað og eitt útvalið Þú situr eftir með sárt ennið sveitakonan í 320. ] [ Ef líf mitt væri til sölu myndi einhver kaupa það? er það einhvers virði ekki fyrir mig ég er löngu dáinn og ekki aftur snúið ég er aðeins minning í hjarta tónlistarinnar ] [ Hvað er ég í augum þínum? Aðeins minning sem er glötuð En þessi minning, helst í draumum mínum Kvelur mig í svefni Er til staðar þegar ég vakna Þegar allt kemur til alls vil ég ekki losna við þessa drauma þetta er það eina sem ég á eftir um þig og tilfinningar undir húðinni krauma ] [ Vertu mér við hlið um jólin svo við megum eiga góða stund sitjum við tréð, drekkum hvítvín og erum létt í lund eigum góðan tíma um hátíðarnar elskum hvort annað, þráum hvort annað seyðandi þrá, mér frá er ég ligg þér hjá ég finn hita hjá þér þar líður mér vel, ég vil vera þar sem eftir er hjá þér ] [ Í hafinu er vera lítil og sæt vera þessi vera er meinlaus En hefur orðið fyrir áreitni frá heiminum litla veran er særð engin vill hjálpa allir of uppteknir við að bjarga sér sjálfum engin tekur eftir litlu verunni hún er ekki til í augum fólks fólk hefur ekki tilfinningar tilfinning er aðeins sölubrella ástarinnar Ást er tilfinning ] [ Ljáðu ljóðum vængi orða láttu fljúga hátt. Límdu í línu orðaforða ljóðskáldi gefðu mátt. Láttu fljúga um land og fjöll láttu berast um víðan völl. Láttu eigi sannleikann ljúga leyfðu frelsi orða að fljúga. Lát þú frelsi orða ferðast um fjöll og firnindi, í landi vors. Í skini og skúrum lát uppveðrast ljáðu ljóðum vængi, orða þors. ] [ Ó hve dýrðleg er að sjá alstirnd himins festing blá þar sem ljósin gullnu glitra glöðu leika brosa´ og titra og oss benda upp til sín Nóttin helga hálfnuð var huldust nærfellt stjörnurnar þá frá himinboga að bragði birti af stjörnu´ um jörðu lagði ljómann hennar sem af sól. Þegar stjarna á himni hátt hauður lýsir miðja´ um nátt sögðu fornar sagnir víða sá mun fæðast meðal lýða konunga sem æðstur er Stjarnan skær þeim lýsti leið leiðin þannig varð þeim greið uns þeir sveinin fundu fríða fátæk móðir vafði´ hinn blíða helgri í sælu að hjarta sér ] [ Fögur er foldin, heiður er Guðs himinn, indæl pílagríms ævigöng. Fram, fram um víða veröld og gistum í Paradís með sigursöng. Kynslóðir koma, kynslóðir fara, allar sömu ævigöng. Gleymist þó aldrei eilífa lagið við pílagrímsins gleðisöng. Fjárhirðum fluttu fyrst þann söng Guðs englar, unaðssöng , er aldrei þver: Friður æa foldu, fagna þú, maður, frelsari heimsins fæddur er ] [ Tilviljanakennd ringulreið skipulögð áætlun hávær læti döpur hamingja ] [ hvers vegna að halda inni eldinum þegar hann brennur svona heitt hvers vegna að hvísla þegar orðin berjast af krafti fyrir tilvist sinni hvers vegna að taka eitt skref áfram og svo tvö til baka - stígðu út fyrir línuna ] [ Allt í lagi, gef mér smá tíma ég er orðinn ryðgaður við að ríma ég get samt reynt fyrir þig, Hildur, þú ert sérstök, alveg einstök, ég segi aðeins það sem mér finnst þú ert með þeim sætustu stelpum sem ég hef kynnst kallaðu mig ruglaðan en ég hef mína skoðun á þér er eitthvað við þig sem enginn annar sér? ég skil ekki af hverju þú ert ein of margir strákar vilja gera stelpu eins og þér mein þú átt betra skilið en þá strák, sem þú getur reitt þig á einhvern sem er til staðar þegar eitthvað bjátar á einhvern til að kúra hjá þótt ég hafi setið þegar ég sá þig fyrst, lá við að ég datt ég segi þér það, þú ert alltof falleg, ég segi það satt mundu að ég styð þig í öllu þú ert æði, Hildur ] [ Auðmjúkur hugurinn dvelur um stund hjá þér, Þú birtist sem kærasta gjöf og færðir mér gjöf gærdagsins. Umbúðirnar skreyttar með döprum orðum sem yljuðu mér með lyginni. Dag hvern lék ég með, faðmaði svo undurblítt við falsinu sem hringaði sig í kringum stoðina er gaf lífinu það gildi til að lifa því. Skilaboðin dulbúin í tjáningu án orða, birtust mér í óskilgreindri þrá eftir snertingu hins ósnertanlega. Brostin augu,tár, leyfðu þér að umvefja augnablikið án nokkurra skuldbindinga um svikin loforð framtíðarinnar. Leyfðu mínútum dagsins flæða draumkennt með þig í fanginu, áfram veginn að vegamótum hjartans. Þar sem grunlausir fingur fanga það af alúð, varfærni og kærleik. Hristu af þér helsið sem njörvar þig niður með beisli skynseminnar og finndu fyrir þeim krafti sem innsæið getur gefið,ef aðeins þú staldrar við, hlustar, finnur og ferð eftir því. ] [ Hvað er í gangi? Þú ert svo breyttur Ég þekki þig ekki lengur Hver ert þú? Hvað varð um þann gamla? Komdu aftur ] [ Ég vildi að ég gæti farið burt svifið á vængjum og ekki þurft að útskýra fyrir þér það sem er óútskýranlegt það sem ég gerði þér er ófyrirgefanlegt ekki taka mig aftur, ég særi þig á ný ég veit að ef ég fengi tækifæri til myndu tilfinningar særast á ný ég er á vængjum sannleikans langt frá staðreyndum raunveruleikans ég er þar sem ástin er við völd þar sem ástin er aldrei köld, ég er hjá þér ] [ Með tvær í takinu og eina í skottinu En samt er hann ekki sáttur Samt er þetta ekki nóg Því eins og alþjóð veit... Þá er þetta ekki upp í nös á Kallinum ] [ Döpur horfir hún í regnvott strætið í daufri skímu ljósastauranna sér hún blika á tár... ...eitt lítið tár á leið til jarðar þar sem það sameinast hinum og fellur svo aftur á öðrum stað á öðrum tíma ] [ Tveir skuggar (ástarsaga) Tveir skuggar teygðu höfuð sín í átt að hvor öðrum í myrku sundi milli tveggja heima uns þeir runnu saman, fyrst í kossi en urðu svo smám saman sami skugginn. En æðri öfl ætluðu þeim ekki að eigast. Þau toguðu þá í sitthvora áttina og að lokum í sundur. Og á sama stað og þeir snertust fyrst urðu þeir að sleppa takinu hvor af öðrum. Þeir kvöddust með kossi... ] [ Prufa ég er bara að prufa þetta ] [ Stundum sit ég við gluggan og horfi út á snævi hvíta jörðina, horfi á fólkið ganga fram hjá húsinu mínu. Þegar ég sit þarna fæ ég oft tilfinningu eins og hlýju teppi hafi verið sveipt yfir axlir mínar og hlý hönd haldi utan um hjarta mitt meðan lítil fiðrildi fljúga í maga mínum. Mér finnst ég svífa á rósrauðu skýi yfir öllum. Þetta er tilfinningin sem ég fæ þegar ég hugsa um þig. ] [ Að horfa í augu þín er eins og að horfa í tært, blátt vatn. Svo tær, svo lifandi. Hvað varir það lengi? Ég drukknaði í bláma augna þinna. Manstu eftir mér? ´87 ] [ Neonljósin teikna sjálfsmyndir sínar á blautar göturnar. Ljóskeilur bílanna skoppa og leika sér í pollunum. Syfjulegar mannsmyndir reika útúr rökkrinu með stýrurnar í augunum. Þunglamalegir strætisvagnar kjaga stynjandi um þröngar götur borgarinnar. Drunur allskonar farartækja fylla öll vit manns. Ysinn og þysinn eykst og margfaldast uns hámarki er náð á annatíma. ´88 ] [ Ég elska þig, en ég segi þér það ekki, fæst orð hafa minnsta ábyrgð. Ég myndi vaða eld og brennistein fyrir þig, en ég segi þér það ekki, fæst orð hafa minnsta ábyrgð. Mig langar að dásama þig í orðum, en ég segi þér það ekki, fæst orð hafa minnsta ábyrgð. Mig langar að segja þér... en ég segi þér það ekki, fæst orð hafa minnsta ábyrgð. ´90 ] [ Marrið í mölinni. Hvíslið í golunni. Tungumál trjánna. Á bekk í garði minninganna hlusta ég á náttúruna hvísla tilveru sinni í eyra mér. ´93 ] [ Tómir salir, bergmál veggja hvítra, auðra. Sem glampi hins liðna mætir nútímans stund. Hvað veldur. Eru draugar fortíðar, komnir á ný ? til þeirrar stundar sem nú er. Þar skilja þeir eftir svöðusár, sár hins liðna, sem gróa ei. Böl líðandi stundar, nútímans, er kvöl fortíðar Kvöl sem varð til þegar myrkrið tók sálarinnar ró. Horfum eigi um öxl. Framundan er framtíðin, björt, fögur. Rísandi sól við sjóndeildarhring, bjartsýni, vonir, þrá. Svartnætti fortíðar að baki Þokukennd minning, liðins tíma. ] [ Er það leikfimi hugans, eða líkamans kall á nautnir og fýsn. Eða er hún til bara til fyrir holdsins fullnæging ? Er það löngun í eitthvað ? sem engin veit hvað er. Er það viðbragð ófullkomins líkama til fjölgunar stofnsins sem stjórnar því dýri aleitt og sér. Er hún ef til vill himnesk komin frá guði ? Eitthvað sem engin skilur né sér. Eitthvað sem til er í ljóðum og sögum, skáldanna hugfóstur, löngun og þrá. Sú ást sem ég þekki er undarleg skeppna. Tekur öll völd afur og æ. Hún stjórnar öllu, sem ég hugsa og geri. Valdalaus er ég og engu um það ræð. Rekald í lífsins ólgu, fastur í örlaganna margslúngna vef. ] [ Nístandi kvöl. Sjónin farin. Heyrnin dauf. Líkamin engist. Dynur í eyrum. Hugsunin rugl. Horfin er líkamans tenging við sál. Hvað er til ráða? Pillur í glasi? Biðja til guðs? Kalla á almættið? Skríða undir sæng? Hvað sem er reynt virkar alls ekki neitt. Eina sem dugir er svefninn. Bíða og vona, að sáraukans kvöl víki. Það er með pínu, sem annað, að tíminn læknar þá sáru kvöl, sem nístir líkamans hold. Að vakna endurnærður er æðsta nautn nautna fyrir dauðlegan mann. ] [ Gilitrutt,ó Gilitrutt, þig er ekki hægt að ríma. Þú ert tonn,þú ert tonn, bæði í rúmi og tíma. Gilitrutt,ó Gilitrutt, þú ert okkar þjóðagríma. Þú ert tonn,þú ert tonn, sem við aldir glíma. Gilitrutt,ó Gilitrutt, við steininn ert að brýna. Þú ert tonn,þú ert tonn, en tekur ekki þína. Gilitrutt,ó Gilitrutt, ég leysti gátu þína. Vertu steinn,vertu steinn, við götuna mína. ] [ Þú ert í mínum draumi eins og alda sem hvolfist yfir hrífur mig burt. Þú ert mér eins og regn fyrir skrælnaða jörð Sólskin í myrkri, ást gegn hatri, Yndislegt, Ég horfi í augu þín sekk og sekk, dýpra og dýpra vil hverfa í þau vera um alla eilífð, þín. ] [ Lítið hús, fullt af hlýju, og innileika. Óveðursnótt, full af hlýju og innileika Regnið og stormurinn æða í kringum húsið á ströndinni. Örlítið hús sem rúmar svo mikla hlýju, ástúð og innileika. Í myrkrinu, regninu og storminum. ] [ Ég er hamingjusöm, Geng alein úti á nýjum morgni hlusta á þögnina, kyrrðina, horfi á fjöllin, himininn, hafið, húsin sem sofa. Friður og ró, Ég alein á gangi. hamingjan er mín eitt augnablik. ] [ Eftirvænting í barnsaugunum tilhlökkun - jólagjafirnar - loks er klukkan sex, jólabjöllurnar hringja hátíð ljóssins gengin í garð fólkið í sparifötunum gleði og ánægja ríkjandi. En gleði og sorg eru systur sem skiptast á. Þegar fólkið fer að sofa læðist lítil stúlka út að glugga, horfir upp í stjörnubjartan himinn, horfir út í jólanóttina. "þú sem ert þarna einhversstaðar hjá stjörnunum og Guði, kannske líka hjá mér þótt ég sjái þig ekki. Ég kveiki fyrir þig fallegt kertaljós, það er jólagjöfin mín til þín." ] [ Sunnudagsmorgunn svo bjartur og fallegur vekur mig upp með fögrum klukknahljóm af værum svefni vínandans sem svæfði mig síðustu nótt. Um leið og ég vakna stilli ég á rás eitt til að hlusta á messuna sem mér varð á enn og aftur. ] [ Sorgin fillir út í hvert horn í lífi þínu skömmin er skuggin sem læðist um lífið hræðslan eru manneskjurnar sem koma þér ekki við og Reiðin er þetta allt tilsamans. Reiðin er það sem vill eyða því. Það er að éta þig upp að innan. Þú vilt ekki vera þú. Þú vilt vera allt annað en þú ert. ] [ Kemur hann valhoppani, littli, sæti, engillinn hann Amor. Eða hvað, er hann engill? Verður maður ekki oftast fyrir vonbrigðum. Við viljum elska, en það endar oftast með ósköpum. Allt littla djöflinum Amori að kenna. ] [ Frá þeim litla bletti sem ég stend á virðist himininn stjörnubjartur og tunglið fullt. En þar sem þú stendur innan um hvítu liljurnar 2 lengdarbaugum og 3 breiddarbaugum í burtu er sjónarhornið öðruvísi. Og þú kannt ekki að dansa Sorgmæddur yfir að lífið tók enda, öll þessi innihaldslausa væntumþykja. Djöfulsins fáviskan sem hrjáir meðalmanninn var að éta úr þér miltað og egóistarnir sátu um hjartað eins og hrægammar yfir látinni rollu. Og þú kannt ekki að dansa. Barnið í mér braust út þegar fullt tunglið óð í skýjum Ég hljóp um eins og asni með tárin í augunum. Blautt hár mitt fraus, stóð út í loftið eins og grýlukerti. En þegar ég hreyfði mig, hristist hárið og hljómaði líkt og klukknabjöllur á hátíðarstundu. Og þú kannt ekki að dansa Þú lést örugglega ekki eins og fífl sast í votu grasinu í agaðri stellingu og fórst með bænir fyrir guð þinn. Mjallahvít mjúk ábreiða, gæsahúð gerir vart við sig æskudraumur með mjólkurfroðu Og þú kannt ekki að dansa. Þú steigst ofan á mig auðmjúk hörfaði ég til hliðar. Stundum var eins og fiskiaugun þín horfðu beint á varnarlausan líkama minn beint á garnagaulið í maganum á mér. Og þú kannt ekki að dansa. Já eitt sinn elskaði ég þig án tékkaheftis og tékkaábyrgðar án skilyrða og eftirsjár En þegar korktappinn var tekinn úr flöskunni steig alkahólið upp og bauð góða kvöldið. Þetta varð til þess að rifja upp allt sem ég hafði gleymt. En ég mun alltaf muna eftir því að þú kannt ekki að dansa. ] [ Það er dásamlegt að lifa Ef næg ástæða er til En í jafnvel fullkomnu lífi er rifa Sem þarf á milli að brúa bil Sjaldan hafa kvalir þagnað Ráðast gegnum sál og húðin flagnar Kvalir eru eins og sjúkdómur Eins og veiki Yfir mér er dauðadómur En ávallt mun sál mín vera á reiki. ] [ Ég er einn, ég er dapur.... Ég vil vakna við hliðina á þér Ekki með koddan klesstan við andlitið á mér Ég vil halda um þig í nótt Hef fengið leið á einmannaleikanum Tómleikanum. ] [ Ég upplifði annan dag Ég veit ekki hvort ég ætti að þakka fyrir það Er það gjöf, eða er það byrði Ég er á báðum áttum Ég veit reyndar ekkert lengur Ég læt draga mig áfram af máttugum kröftum dauðans ] [ Það var maður fyrir utan þegar ég gekk þar hjá Hann var fátæklingur og heimilislaus, augljóslega að sjá Þrátt fyrir skítug fötin og moldugt andlit, sá ég fegurð berast honum frá Fegurð kemur að innan og við metum ekki aðra á þann hátt Við vitum af þessu fólki sveltandi og við það að deyja, en gerum fátt Til að gera gagn og standa upp fyrir heiðri fyrir alla Heiður til þeirra sem vantar hjálp og þá sem kalla og kalla En fá ekkert svar því aðrir eru of uppteknir við sín eigin vandamál Sumir sem eiga margt og þykjast hafa þjáða sál Meðan fólk sveltur og enginn hugsar um það Þau hafa tilfinningar líka og geta særst Því vil ég hvetja alla sem hafa sál að hjálpa nauðstöddum Gerum svanga og soltna maga þeirra að söddum Látum þau ekki sofa hjá sýklum og pöddum Tökum þau að okkur líkt þau væru okkar eigin Þetta fólk á möguleika, það þarf bara að sýna þeim veginn ] [ Bráðum koma blessuð jólin börnin fara að hlakka til en afhverju er Sveinki ekki mættur getur verið að kallinn sé hættur. Krakkarnir orga og mömmunar hugsa var ég ekki örugglega búin að borga hvað ætli kallinn sé að sluksa. Jólaballið er búið að vera og ekkert fyrir börnin að gera en að jólakökunar borða og hugsa þegar Sveinki fór á bak sinna orða. ] [ Það er komið vor, það er belti á borðinu. Anginn fyllir loftið af gamalli steik, mamma stígur léttan dans í augum gamalls manns. Það er komið vor, Það er belti á borðinu. Vonandi stöðvar það heimstríð númer 3. ] [ ég fékk mér pulsu í brauði en ekki venjulegu brauði, því þetta var undrabrauð. Wonderbread eins og kaninn sagði brauðið byrjaði að dansa og fékk sér að sopa, ég spurði, hvað heitir þú undrabrauð? ég heiti duarb og kem frá plánetunni "Bónus" ] [ Einvaldurinn liggur í stólnum fram á rauða nótt, með hendina sína í laumi í gegnum buxnaklaufina. Einvaldurinn liggur í stólnum fram á rauða nótt, með hendina í laumi í gegnum buxnaklaufina. Einvaldurinn liggur í stólnum fram á rauða nótt, með hendina í laumi í gegnum buxnaklaufina. Einvaldurinn liggur í stólnum fram á rauða nótt, með hendina í laumi í gegnum buxnaklaufina. Einvaldurinn liggur í stólnum fram á rauða nótt, með hendina í laumi í gegnum buxnaklaufina. Einvaldurinn liggur í stólnum fram á rauða nótt, með hendina í laumi í gegnum buxnaklaufina. Einvaldurinn liggur í stólnum fram á rauða nótt, með hendina í laumi gegnum buxnaklaufina. ] [ Einhver sleit upp blómið mitt í dag grænt og nýtt og ilmandi þar sem það gægðist upp úr snjónum og leitaði sólskins í nývaknaðri von undir þungbúnum himni En blómið sem deyr í auga lífsins boðar vor komandi morgna Elsku morgnar komið fljótt Elsku blóm gleddu augað og hjartað Meðan líf þitt fjarar út ] [ Ein í flæðarmálinu þar sem brimið faðmar svartan klettinn Finn ég salt úthafsins á kinnum mínum eins og forn tár sem blandast mínum Og þegar ég bragða mín eigin hlýju tár blönduð köldum tárum eilífðarinnar Verður brjóstið gegnheilt af öryggi einverunnar í flæðarmálinu ] [ Hrynjandi og laglína þarf að pússa lítilega Þú konsert þarft að sýna spila svo snilldarlega Fingurnir snerta fimlega allan skallan upp og niður Þú spila virklega liðlega hið innra myndast mikill friður Hljómurinn berst milli veggi og upp á aðra hæð Ég dáist að þér, lagið vekur mikilla hylli þú munt njóta mikla frægð Sérðu hvernig verkið er spilað Clementi sýndi það og sannaði Það er svo innlifað Undraheima alla hann kannaði ] [ Kæri lærimeistari. Ég skrifa til þín vegna verkefnisins sem þú stettir fyrir. Verkefnið felst í því að fæðast inní þennan heim og yfirgefa hann svo þegar lífinu er lokið. Ég var að byrja á meginmálinu þ.e.a.s. tilgangnum, lífinu milli fæðingar og dauða og ég lenti í smá vandræðum. Vandamálið er að ég finn ekki neinar áreiðanlegar heimildir um tilgang lífsins og hlutverk mannsins hér í þessu jarðneska lífi. Meina, það hlýtur að vera að það sé til einhvers ætlast af mannkyninu og einhver uppskrift hlýtur að vera til. Þegar verið er að tala um að leyfa hjartanu að ráða þá verð ég alveg ráðvillt því að í þessu stóra verkfni þá treysti ég ekki alveg þessum vöðva inní mér til að ákvarða fyrir mig lífið. Þegar þú settir okkur þetta verkefni fyrir voru leiðbeiningar þínar um fullkomna hamingju ekki alveg nógu skýrar. Er það tilgangur lífsins að vera fullkomlega hamingjusamur? Ég er alveg á krossgötum en ég vil standa mig vel og þess vegna leita ég til þín. Vonandi tekurðu vel í þetta, afsakaðu ónæðið. Kær kveðja Nemandi í skóla lífsins. ] [ Eftir hálfa klósettrúllu lítra af pepsímax sextán sígarettur og kíló af kartöfluflögum drap ég í rettunni dæsti og hugsaði þeir eru allir bleikir glansandi grísir með krullaða rófu og komplex svo kveikti ég í annarri meðan ég drap í ókviknaðri ástinni ] [ Enn eitt árið er horfið í grámóðu fortíðar. Í mistrinu eru milljónir annarra ára sem liðu og hurfu og engin man lengur. Af hverju er ár eitthvað sem skiptir máli? Þrjúhundruðsextíuogfimm eða þrjúhundruðsextíuogsex dagar og þrjúhundurðsextíuogfimm eða þrjúhundruðsextíuogsex nætur hvert öðru lík, raðað í einfalda röð og kallaðir ár. Áramót er augnablik búið til af mönnum, en er aðeins eitt andartak af óteljandi andartökum. Það andartak er eins og öll hin sem farin eru, og eins og þau sem eru ókomin. Framundan er nýtt ár alveg eins og öll hin sem farin eru. Örlög þess eru þau sömu og allra hinna. Að hverfa í gráma fortíðar og gleymast. Núið.. er andartak sem ekki er til Það er bara til horfin fortíð og ókomin framtíð. Allt annað er mannanna verk og hugarsmíð. ] [ Svo rís um aldir árið hvert um sig, eilífðar lítið blóm í skini hreinu. Mér er það svo sem ekki neitt í neinu, því tíminn vill ei tengja sig við mig. Eitt á ég samt, og annast vil ég þig, hugur mín sjálfs í hjarta þoli vörðu, er himin sér og unir lágri jörðu, og þykir ekki þokan voðalig. Ég man þeir segja: "Hart á móti hörðu", en heldur vil ég kenna til og lifa, og þó að nokkurt andstreymi ég bíði, en liggja eins og leggur uppi í vörðu, sem lestastrákar taka þar og skrifa, og fylla, svo hann finnur ei, af níði. ] [ Gleði, hamingja, hrifning, tárin flóa, sálin titrar, er streyma fram tónar tónverks. Einlægir, bjartir, fagrir. Dýpsta tjáning frá fagurri sál saklauss barns. Þeir græða sár ástar sem aldrei gleymist. ] [ Leika í sandi leika í fjörusandi, bárur um langvegu komnar. Sunnanblær blíður kveður lífinu óð. Fljótið að ósi streymir fram - fram að tímans hafi. Og við, þessi litlu börn í fjöruborðinu. ] [ Tókst úr mér hjartað með sveðju og gaffli kreistir það og kramdir svo úr flæddu tárin og opnuðust sárin skarst það svo í þúsund mola ofan í þig horfu þeir svo einn og einn, hægt, hægt og hægt Svo sál mín fengi kvalafullan dauðdaga. ] [ Ég er dofinn tilfinningar farnar og lífsviljinn horfinn hvert get ég leitað, hverjum get ég treyst ég gæti horfið eða dáið,og þá er vandamálið leyst Að vera, eða ekki vera, það er málið ef ég reyni að gera gott, er sem ég fleygji olíu í bálið allt sem ég segi og allt sem ég geri, er rangt ástarmál mín ganga ekki langt er það vegna mín eða er ég að gera rétt ég hef ávallt gert það sem ég tel gott, en það er ekki létt ég fæ ekkert í staðinn, ég er dauður fyrir almenningi og hefur það varið nokkuð lengi ég er vanmetin af öllum í kringum mig allir vilja fá allt, en hugsa bara um sjálfan sig hvenær kemur að mér? Hvenær er minn tími? ég er ekki feiminn, ég þarf bara mitt rými eins og allir aðrir þurfa sitt pláss allir þurfa að fá að hugsa sinn gang við erum mannleg og framkvæmum eftir vilja gerum oft vitleysu, en reynum þær að hylja við erum tilfinningaverur og getum særst við erum.... Dofin ] [ Hann vaknar að morgni heyrir raddir fornra fjalla dynja heimurinn hristist og skelfur undan þunga einskis lífs börn heimsins loka bókum sínum og morguninn grætur í sorg sinni yfir ókominni tíð svartur andi umlykur sál og hendur og flæðir sem ólgandi straumur svalra fjalla vatna í æðum hans ] [ Nú loga úti litrík blys -ljósadýrð um miðja nótt. en glaðir landar gera gys, glösum lyfta og drekka skjótt. það fyrsta sem tvöþúsund-fjögur fyrir hittir í reykjavík er kampavín, kartöfluflögur konfektsíld og hátíð rík. Að missa af þessu er mikil synd -mér var nær að sveima. Sendi ykkur þó sjálfsmynd og skála bara heima. ] [ Mig vantar svo lítið, og ég bið um svo fátt bara halda í þína hönd því ég á svo bágt ég er einn og óstuddur og ráfa í huga mér um yðagræn lönd og held í hönd á þér Og í dagsins draum, horfi í augu þín, horfi í draumi, í draumi þú ert mín ] [ Það sáu það allir, hann hafði á mærinni mætur og mærinni fannst hann líka dálítið sætur. Og loks hefur fuglinn náð að festa sér rætur með fögnuði hugsar til komandi brúðkaupsnætur. ] [ það er vatn í augunum mínum salt í sár því það er svo sárt að fella tár og svo var það stúlkan sem stundaði grát í myrkrinu á kvöldin á endanum grét hún úr sér augun & einmana rúlluðu þau um heiminn beisk ] [ sit og stari á tóm sæti og hugurinn í ferðalag fer um lífsins þröngu öngstræti sem barið hafa á mér. ] [ Faðir minn hann hefur þolað þrekvirki og raun honum var að heiman bolað af móður með áfengis daun Í körfu dúsa mátti hann ásamt litlu systir sinni og settur var í algjört bann og haldið var svo inni Svo liðu ár og hans móðir vildi við hann losna þá henti honum á ókkunar slóðir með móður hjartanu frostna en tók hún piltinn aftur til sín til að fá sínar velferðisbætur en lífið var honum ekkert grín þótt drengurinn væri sætur Og er hann varð sextán ára henti móðir hans honum út barnæskuna hann var búin að klára meðan móðirin drakk af stút En fór á sjóinn ungur drengur til að vinna sér fyrir mat þá móðir vildi hann hafa lengur og í skamma stund við það sat Þegar hann fékk svo útborgað móðir hann keypti sér bús fyrir peninga hans er hann hafði dorgað og svo henti hún honum út fyrir hús. Og faðir minn alla tíð héðan af lét móður sína vera og silgdi því einmanna um hið stóra haf svona á ekki börnum sínum að gera. Amma mín ég þig ekkert þekki þú dópuð varst alla mína tíð þú tókst úr mínum föður tilfinninga hlekki sem ég nú fyrir svíð. ] [ Endalaust skammarflæði ég gæti gefist upp og sagt eitthvað í bræði ég vil bara fá að vera í friði og hugsa í næði ætlast ég til of mikils? Sama hvað ég geri, það er rangt ég er heimskur, ég veit það, ég þarf ekki að sækja það langt þetta er í blóðinu, svo kannski þarf ég að láta eitur renna milli æða mér er alveg sama, látum tilfinningar flæða sjáum hversu langt verður gengið ég er tilfinninganæmur, hvaðan helduru að ég hafi það fengið ég er tæpur á tauginni kannski verð ég fundinn á botninum í djúpu lauginni að ég þori ekki, það er misskilið, ég vil mér þykir ekki vænt um mig, það getur það enginn skilið ég veit ekki ástæðuna en mig grunar að hún sé allt ég er samt glerglas á tréborði sem er valt það þarf ekki mikið til að brjóta mig niður ég er brothættur, ég get ekki útskýrt betur, því miður kannski er ég bara einmanna, löngun í ást er vakandi löngun stelpna í mig fer slakandi ég er að missa takið, á lífinu og fleiru ég þarf að lifa á lofti, því ég hef ekki efni á meiru er þetta raunhæft, á einhver þetta skilið það er tómt svæði í lífi mínu, mig vantar einhvern til að fylla í bilið einhvern í stutta stund, er á meðan er en þar til sá tími kemur, þá neðar og neðar ég fer í sorgir mínar og vorkenni mér, mér er ætlað meira ég vil verða frægur og með fulla vasa fjár, og vitiði hvað fleira? ég vil verða tónlistarmaður, en virðist langsótt ég er bara búinn að fá leið á að sofa einn hverja nótt ég hef fengið leið á að kúra hjá myrkrinu allar nætur liggja aleinn og hlusta á hvernig stormurinn lætur þegar hann berst í gluggann og reynir að ná til mín reynir eins og ég reyndi að ná til þín líkt og með mig, þá nær hann mér aldrei, ekki í þetta sinn en kannski á endanum á hann eftir að koma inn um gluggann minn með látum, eyðileggja allt og skilja mig eftir særðan ef ég hugsa málið, er vindurinn þú, bæði með sama markmið skilja mig eftir í nóttinni með engan, mér við hlið ] [ Ég er áin, runnin undan rótum rismikils jökulhjálms, skolgráar leirskriður skríða niður hlíðar. Örsmáir litlir lækir lindár og frerasull safnast saman í farveg sem liðast niður í móti. Undan hraunhrjóstri hríslast kristalstært vatn sem kliðandi samsamast sora mínum kolskolugum. Hlykkjótt leið mín liggur um leirur og sanda, grýtta gráa mela, gljúfur og skorninga. Veturinn sendir frost og frera, til að fjötra streymi mitt. Klakaþiljuð klettagljúfur, kvelja mig og ísnálastinga. Lygnur mínar kliða kyrlátar í köldu skini mánans ljómandi stjörnur strá stálfuglasindri yfir mig. Á vorin byltist ég barmafull, brýt niður allar hömlur ryð niður fúafauskum, fleygi þeim upp á meleyrar. Bakkar mínir á bólakafi í bullandi leirgrautarsulli sem gumsar gráma sínum yfir gróðurnálaangana Að sumri logar litadýrð lyngs og blómaskrúðs, eyrarrósin skartar og skín, skógarrunnar anga. Ótal blátærir bunulækir bulla við mig glaðlega, kitlandi sporðaköst silunga vekja sæluhroll um mig alla. Er haustar koma af heiðum hundruð farandsöngfugla, voldugur kliður þeirra, kór með kostulegri raddskipan. Síðkvöldarökkrið svífur að svalir haustvindar leika á stríða, þanda, strengi mína straumþunga niðandi óma. Við ósinn bíður Ægir konugur með útbreiddan faðm sinn, en riðst á flóði upp farveg minn. Þegar fjarar hefni ég mín. Ég læði jökulskoli langt út og lita fjörðinn öskugráan, en aðeins örskamma stund, ofurkrafturinn sigrar mig. Sandöldur Sjávarkonungs og skolugar leirur mínar skapa fagra glitrandi fleti sem fyllast af iðandi lífi. Kári konungur vinda, gárar kynjamyndir á spegilgljáann Ægi, mér Árdrottningunni og íshjálmi jökulsins til dýrðar. Samið fyrir píanótónaflóð. Edda Magg. ] [ Árið og takk fyrir gamla Sagði róninn við flöskuna kæri vinur við höfum átt samleið í gegnum súrt og sætt við höfum vinina kætt og góðan mat snætt og látið veigarnar renna um varirnar sem brenna á gamlárskvöld flaskan mín fríð ] [ Að renna stoðum undir raunveruleikan Taka inn lyfin sín með köldu vatnsglasi Finna hvernig lyfið flæðir uppí heila og í blóðrás æðarkerfisins Læknir í hvítum sloppi klappar þér á bakið og segir : "Þér batnar" Þú fyllist vonar um betra líf gengur heim á leið og varpar öndinni léttar ] [ Að umorða sannleikann til að fela þig bak við gardínur mannorðs þíns Þú þorir ekki að vera berorðugur annars berst um þig óhróður Að segjast vera eitthvað sem maður ekki er raunverulega Er eins og að bíta í sviknar piparkökur. Piparkökur með kílói af pipari en ekki teskeið af pipar. Þú bakar þína eigin uppskrift að sannleikanum svo hann komi tilbúinn heitur og ferskur útur bakaraofni munns þíns ] [ How many times do I fail How many times will I be in jail How many times will I hurt myself How many times will I be between heaven and hell How many times will I be stranded in life How many times will I look at the knife and how many times will I cut my wife How many times will I say it's the last How many times will I curse the past How many times do I need your eyes How many times will I tell u lies How many times will I end this shit How many times have I said, that I mean it ] [ Aginn er eins og mara sem vakir yfir mér sér til þess að þvaran sitji aðeins hér og aðeins hér fari ekki neitt haldi sig við efnið láti ekkert trufla sig ekki sjónvarpið ekki dyrabjölluna sem segir stanslaust ding dong og ókyrrir þvöruna sem reiðist og neitar að opna dyrnar það er enginn heima ég er ekki hérna segir aginn látið mig í friði fíflin ykkar ég þarf vinnufrið sagði aginn að þvaran ætti að segja síminn hringir ekki svara sagði aginn við þvöruna sittu bara þarna eins og þvara og ekki svara ] [ Veturinn er dýrlegur með frostið sitt sem leggst eins og sæng yfir landið skyldi því vera kalt eða er guð að afþýða ísskápinn sinn svo hann geti kælt mat fyrir englana þeir eru líklega svangir ] [ Kæra Ingunn. Ég biðst fyrirgefningar á hegðun minni ég vildi bara að andlegum vandræðum mínum linni ég er að bugast og lét það bitna á þér ég er svo upp með mér að þú sért hrifin af mér ég vissi ekki hvernig ég átti að bregðast við hrifningu þinni ég vildi að ég gæti hitt þig en held að þér líki ekki vel við mig ekki lengur allavega, og ég er reiður ekki slæmt-reiður, heldur tilfinningalega leiður ekki útí þig, heldur svo allt annað mér þykir vænt um þig, en hvernig get ég það sannað? ég fer kannski suður um helgina, ætlaru að hitta mig? ég lofaði að ég myndi hringja í þig og ég stend við það, ef þú vilt sjá mig, láttu mig vita strax ég get tekið við símtölum, smsum, bréfum og jafnvel fax ég vil heyra frá þér láttu mig vita ef þú ert ekki komin með andstyggð á mér fyrirgefðu hvernig ég lét ég sá eftir þessu og innra með mér ég grét ég get ekki meira, ég þarf knús engar áhyggjur, ég er ekki með lús svo þú getur knúsað mig allan daginn alla nóttina líka ef þér langar þú athygli minni fangar ég vil hitta þig og sýna þér hvernig kókos er framreiddur ég get sýnt þér hvernig ekta kókos er framleiddur en jæja...verð að fara..segðu mér hvað þú vilt gera Þinn Kókosbangsi ] [ Það var einn fagrann septmberdag að grunur fór um mig leikandi, tvö lítil strik sýndu mér það að ég var orðin barnshafandi. Kviður minn stækkaði dag frá degi ég fann lífið dafna innan í mér, þú varst aðeins agnarlítil baun í legi og ég var þegar orðin yfir mig ástfangin af þér. Þú stækkaðir ört og tíminn leið hratt sársaukinn tók við, klukkan tifaði, loksins fékk ég þig í fang mitt og ég segi það satt, þá fyrst fannst mér ég lifandi. Ég vissi ekki að hægt væri að elska svo heitt hjarta mitt slær hraðar við bros þitt, eftir að ég fékk þig fyrst í fangið hefur allt verið breytt, þú færðir birtu og tilgang í líf mitt. Ég skal gleðjast með þér ég skal gráta með þér ég skal alltaf reyna að vera til staðar, mig langar að gefa þér allt það góða sem til er, en gera þig hamingjusaman öllu framar. Ég elska þig og dái, ég elska brosið þitt þú ert tilgangur, gleði og hamingja mín, aldei máttu því gleyma elsku hjartað mitt að þú ert engillinn hennar mömmu sín. ] [ Ég loka augunum og hugur minn leitar til þín mér hlýnar örlítið og ég gleymi mér um stund, skrýtið hvað tíminn breytti allri minni sýn á lífinu..ástinni, og leiddi hana á minn fund. Ég brosi er ég hugsa aftur,allt er svo breytt, þegar þú vaktir hjá mér hræðslu og hik, ég vissi ekki að ég myndi elska þig, elska þig svo heitt en það tók aðeins augnablik. Þótt nóttin sé köld og hræðslan mig lamar Þá færðu mig til að sjá allt það góða sem ég hef þú umvefur mig öryggi, ást, en öllu framar Þá færðu mig til að dreyma vel er ég sef. ] [ Einmana líf í gráum fleti auðnarinnar. Blátt blóm sem heyr sitt stríð við eyðandi öfl náttúrunnar. Eitt fjarri kyrrð dalanna og gróðursæld skóganna nær það auga einmana sálar betur en allt. Það lifir og deyr fjarri öllu Eftir er minning um minningar. ] [ Innst í sálarkimum særðrar sálar þrífst löngun í hefnd. Slíkur löngun nagar, skekur og eyðir geislum gleðinnar. Augnablik. Dokum við. Sjáum, skoðum, og lifum upp á nýtt. Þá næst á ný það sem hjartað þráir, trúin á lífið. ] [ Ég stjórnast af straum agna berst um líkt og bylgja borinn af sólvindum Ég er afmyndun efnisins endursköpun leirsins í Hans mynd Ég er fyrirmynd heimspekinnar hugmynd fornaldarinnar hugsun spekinga Ég er upprisa tvífætlinganna rökleg þróun prímatanna sönnun erfðanna Ég er sonur kjarnafjölskyldunnar virkur þegn markaðsvæðingarinnar, draumur Dýrabýlsins Ég er munurinn á milli rétts og rangs Trúaður vísindamaður samtímans hugmynd aldanna -ég er óákveðni samtímans ] [ Eitt líf, eitt tækifæri og auðvelt er að klúðra því Því sem við fáum aðeins einu sinni, og fáum ekki ný Verðum að vanda valið og fara réttar leiðir Ég fór í ranga átt, og eru nú Guðirnir mér reiðir Ég valdi þig, ég gerði mín mistök, og sé eftir þeim Sé eftir því að hafa hlustað á þig og boðið þér heim Þú ert sem rotnað epli með djöfullegum keim Hvað hef ég gert þér sem er svo slæmt? Ef ég hefði verið með þér, væri líf mitt dauðadæmt Það er vegna þín að ég treysti ekki hverjum sem er Sárt var að heyra að þú varst aldrei hrifin af mér Var það bara ávani? Eyddi ég tíma í þig Svo þú gætir bæði, niðurlægt og andlega drepið mig? Ég varð að setja fótinn niður Og síðan ég gerði það, hefur aldrei verið friður Þarftu að ráðast á tilfinningar mínar Ég hef aldrei vaðið yfir þínar Ég hef aldrei svarað fyrir mig Svo núna er tími til að valta yfir þig. Þú ert hörmuleg manneskja sem ætti að deyja Ég verð að játa það og segja Að ég þoldi þig ekki, þú niðurlægðir mig fyrir framan vini mína Misnotaðir mig, fyrir framan fjölskyldu þína Notaðir mig á versta veg Þú ert alveg hræðileg Sættu þig við það, að þú ert ekkert fyrir mér Ég er aðeins svört minning í höfðinu á þér Láttu mig í friði, áður en þú gengur of langt Þú særðir mig á hverjum degi þótt þú vissir að það var rangt Ég lét þig komast upp með það, en núna er endurkast Á þig, og ég mun berja árásunum í þig svo fast Að ekkert verður eftir af þér Ég fyllist hatri þegar þú ert nálægt mér Ég er bitur, fullur af reiði og langar að særa þig Á sama kvalarfulla hátt og þú særðir mig Ég er bara ekki eins og þú ert Ég særi þig ekki allan daginn þótt þú hóra sért Það er þér að kenna að líf mitt er ekki lengur athyglisvert Ég er sár eftir þig, ég þoli ekki þessar árásir frá þér Því þær lenda allar harkalega með hvelli á hjartanu í mér. ] [ Ég er vatnið sem rennur niður kinnarnar á þér, rigningin sem lætur maskarann þinn renna til. Seinasti dropinn sem fellur í glasið áður en það yfirfyllist. Bleytan sem þú rennur til í á baðgólfinu rétt áður en þú brýtur hvert bein í líkamanum. Ég er vatnið sem sker djúpa skurði í fjallshlíðarnar. Ég er áin sem drekkir þér ef þú stendur ekki fast í lappirnar. Ég er vatnið í brúsanum þínum eftir erfiðar æfingar. Ég er vatnið sem lekur niður hendur þínar sem þú skvettir framan í þig þegar þér finnst heimurinn vera að hrynja. Ég er vatnið sem fyllir augun þín þegar þig dreymir illa. Svitinn sem lekur niður líkamann þinn. Andaðu inn í mig og ég leysist upp. Ég er vatnið sem klýfur steininn þegar það frýs. ég er vatn en þú ert sjór. ] [ Ó ljúfi morgunnroði gaf mér líf, ljúfa gerðu ásjónu á vanga. Sælli liftu von þá létt ég svíf, í sæta arma hans um veginn langa. Ó morgunnroði umvefðu hann millt, mjúkar leggðu varir hans við mínar. Gef að sæll hann játi loforð gillt, og gefi mér þar ævi ástir sínar. Ó morgunnroði ég þrái þennann mann, hann mjúkt ég kann að elska í varmans eldi. Af andans krapti og hreinleik guðs ég ann, svo ævin verður líf í mjúkum feldi ] [ Í blikandi ljósum um blákaldar nætur býr vitund mín. í ísbreyðu aldri á í mynd mín rætur og átökin þín. Í krumlununm hörðum og krafti þess svarta kæfir þú bál. Á vegnum dökka í viðkvæmu hjarta veikir þú sál. Í berbrjósta holdi og bifandi anda bölvar þú hér . Í þyrnunum beittu milli þrúandi handa þrýstir þú mér. Og nístandi kuldi þinn napur mig frystir í nóvember sól, Og kuti þinn glampandi kveljandi ristir þessi komandi jól. ort 1975. ] [ Í áraraðir,hef ég staðið á alfaraleið. Með hjartað í hendi mér Og veifað til allra sem leið áttu framhjá. Sumir létu svo lítið,að brosa mér við En flestir, þeir strunsuðu framhjá Með andlitin stirnuð sem lík. Í dag hef ég hjartað á sínum stað Kalið og krumpað saman En vel geymt. Með andlitið stirnað sem lík. ] [ Tiplar á tánum í miðri borg meðfram ánum niðrá torg Gæjist eftir skjóli ósýnilegur gamall kjói furðulegur Útskúfuð sál hverfur til og frá. Vaknar aldrei frá síhungraðri martröð sem matast endlaust. Óskiljanleikinn heldur föstu taki í tauma lífsins, en böndin renna úr þreyttum greipum og martröð þessa lífs lýkur... Hann vaknar. Ný tekur við. ] [ Rétt við aldanna rót, roðans sólsetrið brann. Þar ég festi minn fót, æska í blóði mér rann. Inn við fjallanna fang, foldin lífskraft mér gaf. Nú mér gæfunnar gang, gefur ólgandi haf. Rétt við víðáttu væng, vaggar gleðinnar rún. Þar er ævinnar sæng, sett á hamingju brún. Inn við sumar og sól, er sérhvern dag í mér hlær. Þar ég byggi mitt ból, blóm í sál minni grær. Rétt við seiðandi straum er skellur eyjunum á. Ég lifi dásemdar draum, dafnar ástin mér hjá. Neisti guðs í mér grær, geyslar ljóma í sál. Von í huganum hlær, hjartans brennur mitt bál. ] [ Einn dag datt snjókorn af himninum einhverjum datt það í hug? einhver hafði hugmynd um það en enginn vissi að það dytti þó voru fræðingar sem spáðu um veðrið að minnsta kosti kalla þeir fræði sín spá því þeir vilja ekki taka ábyrgð á fræðunum því þau eru ekki óbrigðul köllum þá því spámenn veðurspámenn eða er ekki fínna að vera spámaður en fræðingur ] [ Þú verður alltaf hér í mínu lífi Þó ég finni, þú færist mér fjær Þegar ég þrái ekkert meira En þú færðist örlítið nær. Það eina sem stendur eftir Er ljósið sem lýsir mér Sólin sem vaknar að morgni Og lýsir upp daginn með sér. Sólin sem eigum við saman Sólin sem er mér svo kær Sólin sem elskum við bæði Sól sem er elskan svo tær. Og það eina sem á ég nú eftir Er minningin um mig og þig Og litla stelpan sem vekur Með kossi og faðmlagi mig. Svo fögur að innan sem utan Svo lík elsku pabba sín Og það eina sem stendur eftir Í sambandi mínu og þín. ] [ Ég er við það að falla í yfirlið. Hví uppgötvaði ég þetta ekki fyrr? Að hann var aðeins að nota mig... Ég finn fyrir svo miklum sársauka - ég verð víst að þrauka Og vona að hann muni koma, til mín aftur - þessi fantur! ] [ Máttur minn er að dvína. Tilfinningarnar byrgi inni, þær vil ég engum sýna. -Ég þegi að sinni.. ] [ Hræðsla umlykur mig alla ég á mér ekkert athvarf drottins nafn ég ákalla faðm ástvinar ég þarf Ég get ekki hugsað mér neitt verra þetta voru mistök tár af kinnum mínum þverra augu mín rauð og rök Ég bið bara um eitt tækifæri um að geta tekið þetta allt til baka ég fjölskyldu mína særi sakleysi mitt, búið er að taka Best væri að fara úr þessum heimi skömm innra með mér geymi Hjálp ] [ Ég þarf að æla, hjarta hans búið er að kæla. Hvað var hann að pæla? Mig að tæla, og fá mig svo til að skæla.. Þetta fær mig til að æla. ] [ Ég er að reyna að sofa, hann mér búinn var að lofa -að vera alltaf hjá mér Samband okkar búið, nú verður ekki aftur snúið -hann farinn er frá mér Alltaf hafði ég vitað, að aðeins einn myndi særast, og tel ég það svik að, það er búið, sem var mér kærast. ] [ Reyni að vera liggjandi, á erfitt að vera kyrr. Prufa að vera sitjandi, aftur og aftur ég mig spyr.. Hvað vill hann með mig hafa? Ég er orðin máttlaus, útlimir mínir lafa. Hann sér aðra leið kaus. Hugur hans og hjarta, hulin ráðgáta -ég þó eins og opin bók. Nú mig langar helst að gráta, Amor ást okkar tók. Aldrei aftur augu hans fríðu.. Við áttum að elskast í blíðu og stríðu. Hann sér snúið hefur við, nú hefst hin langa....bið. ] [ Samviskan vonandi hann nagar. Hjarta mitt í tvennt hann sagar. -Ekki vill hann hringja.. Hann forðast mig, hugsar aðeins um sig. Pottþétt kominn með leið á mér svo hér ligg ég aftur ein, ég gerði honum aldrei mein. Ég vona að hann finnur á sér, hve mikið hann særir mig Hjarta mitt í tvennt hann sagar.. ] [ - Að vera með óráði.. Allt gerist of fljótt, margt ljótt Þetta hafði ég aldrei planað, út í óvissu ég hef anað - Ég var ein af þeim skynsömu.. Ég get aldrei tekið það til baka sakleysið mitt búið að taka Ekki veit ég hvað ég þarf að gera róleg, ég verð víst að vera Þetta er búið og gert. Þetta er ekki ómaksins vert. Mig langar helst að hverfa. Fjölskyldan verður víst syndir mínar að erfa - Ég hef ekkert annað að bjóða.. ] [ Þeir settu hornsteinn í náttúru sem þagði, fólkið hópaðist, og út af orðinu lagði , allt annað en stóð á letrinu bak við gröftinn. Inn í berginu heyrðust höftin, raddir bergrisa,er höfðu troðist undir fargi. En heimurinn svaraði af bjargi, og fleiri hornsteina af bragði að berginu lagði, þar til bergrisi og náttúra dó, \"Í berginu bjó eitt sinn\",sagði amman. \"Hornsteinn\" skyldur \"Náttúru og Bergrisum\".En nú er bara \"Hornsteininn einn eftir,og erfitt að sanna að hann sé til.Auðvita fólkinu í vil. ] [ Snjóplógur ryður götu mína og salti stráð á klakann Miðstöðin í bílnum fer að hlýna fyrir sjálfan ekta-makann Snjóflyksur dreifast á jörðina og þakin verður jörðin snjó Verst verður það fyrir útigangshestana sem voru búnir að fá af vetrinum nóg Norðurljósin skýna skært og dýrðin geislar af himni Barnið litla sefur vært og vaknar semma að þessu sinni Snjóflóð geisa eins og heimstyrjaldir og fólk flýr úr húsum sínum aðeins einstakir bæir eru valdir af vetrakonungi þínum Hver vaknar upp með kul á fingrum er það sjálfur eskimóinn Hann er frosinn alveg að hringnum á þakinu tístir spóinn ] [ Ég set öngul á girnið og dreg gat á vökina Eg horfi á himins-stirnið og þurrka af ísnum döggina Er fiskur bitinn á agnið segi ég upphátt Í kílóaverði er sett upp magnið Í kuldanum hef ég varla mátt Ég veiði hvern fiskinn gómsætan og bragðgóðan Ég set hann svo á postulíns diskinn steiktan og safaríkan Heimskautamaður var ég fæddur og hugsa um bráðina mína Við ísbjörn eða hval er ég varla hræddur ég með skotvopni vil þá pína Byssukúlur eru í mínu belti og sveðjan á sínum stað Heyri ég í fjarska í úlfagelti Ég verð að hlaupa inní mitt hlað Þeir ná mér eigi þessi skinnin að þessu sinni er mér bjargað Kannski þeir bráð í sjónum finni og henni hafa fargað ] [ Lagasafnið er fullt af fróðleik sér til skemmtunar Sé ég í þjóðarbókhlöðu reyk eru það hillingar Brunaliðið þeytist út af geisi miklum hraða Bæjarbúar hrökkva í kút Vatnsgeyma þarf að hlaða Reykur liðast um bæinn stóra og vekur mikla sjón Slökkviliðsmaður segir : "Það sést ekki glóra" Við þurfum vatn sem er jafnstórt og mikið lón ] [ Fréttaþyrstum einstaklingum sem lesa blöð og bækur Það verður ekkert úr heitstengingum Í bókasöfnum, listasöfnum, menntasetrum, eru upplýsingar eins og rennandi lækur Myndavélar eru á lofti og spyrlar vilja svör Þingmaður neytti af konfekti hann vildi ekki mör ] [ Gefðu mér nú pelann þinn drykkinn vil ég drekka Þangað til ég fæ bros á kynn Þingmann vil ég þekkja Ekki segja í ræðu þinni við skerðum niður kerfið Þú skalt heldu að þessu sinni skylmast með orðum og minni þú þarft notadrjúga sverðið ] [ Lykillinn að fögrum degi er að fá sér göngutúr Þingmaður í púlti segir "Yfir frumvarpinu er ég súr" Undirstaða velmegunar og æskilegs þjóðarsæmd Koma í veg fyrir hringamyndunar Svo þjóðin verði ekki rænd Að renna fyrir fisk í ánni straumhörðu Ég hlakka til að setja hann á disk Öfundarmenn á það störðu ] [ Gufuskipið Geysir sigldi um höfin breið Úr læðingi það leysir sæfarenda leið ] [ Orðhákur segir í ræðustól Neyðin kennir naktri konu að spinna Hún þarf að nota ýmis tól Ríkidæmi þarf að finna ] [ Lukkunarpanfíll sigraði keppni er hann söng af mikilli raun Þetta var í raun engin heppni Fyrir það fékk hann dágóð laun ] [ Í gær komst þú og liftir ljósi mínu, á ljóm dýrðar,er ástin ein sér á. Ég blómstraðisem fræ í beði sínu,á barmi þínum fann ég heita þrá. Í gær komst þú og beittir blíðum örfum, og burtu tókst mig alheiminn að sjá. Og ástin brann af vonarinnar völdum, í visku sinni sem kerti okkur hjá Í gær komst þú og vættir varir mínar, af víni andans, er ástin ein sér á. Ég nærði líka æsku vonir þínar, og neytti með þér brunni lífsins frá. Í gær komst þú og gafst mér gæfu mína, og gleðinbrann sem röðull okkar hjá. Ég vaknaði minn vinur, hlið við þína, minn vonar neysti fékk sinn draum að sjá. ] [ Illa fór það með þig þrotinn,þú varst kominn að enda þú sagðir það oft við mig(passaðu þig) en hvar ertu búinn að lenda? Einhverstaðar sem er friður þú fjarlægðist allt hægt og hljótt dópið dró þig niður hörund þitt var orðið mjótt Sæll varstu alltaf og glaður hérna hjá okkur áður, svo varstu aldrei sami maður í brjósti þínu varstu þjáður Að sakna þín er sárt ég vildi að þú kæmir aftur og líf þitt væri klappað og klárt í þér var nægur kraftur Hvernig gastu farið í burtu svona ungur Ég finn ekkert svarið nema að hugur þinn var þungur Svo bílinn þú settist uppí og hlustaðir á æðri köllun um að verða þú á ný þú fannst á Nesjavöllum!! ] [ Þótt þú sért nær dauða en lífi þá elska ég þig samt,þótt þú skiljir það ei En uppá einu,einu litlu skýi, þar bíður þín hvít örlagamey. Þú áttir ekki að gera það,því þú réðir engu hvort eða hvernig!!... ] [ Í átta mánuði gekk ég með þig, ó litli drengur, hefði ég gert það lengur, hefði ég ekki bara hugsað um sjálfa mig ] [ Horfðu í hafið og þá sérðu augun mín Hlustaðu á vindinn og þá heyrirðu orð mín Heyrðu skýin syngja söng minn til þín Finndu sólargeislana bera hlýju mína til þín ] [ Bull og brjálæði bandvitlausir,þeir vaða í´ann vesæll og volæði ver hann sig,þeir lemja hann!! Sýna sína lögfræði slá hann niður saklausan!!... ] [ Nú ertu farinn frá landi herra til að gera bátinn þyngri meðan ég tárin mín þerra með hring þinn á þumalfingri 2001 ] [ Jæja elsku Jói minn jagast þú að landi sólin skín á bátinn þinn sumar og sær glitrandi sumar 2001 ] [ þú ert sólin sem sindrar um heim þú ert silfrið í skartgripum fínum þú ert bláklukka í biðukollasveim þú ert bláminn á himninum mínum þú ert lyktin sem lokkar mín vit þú ert ljósið sem glitrar á sjónum þú ert hjarta sem hamrar með þyt þú ert hlátur í guðlegum tónum þú ert allt sem að elska ég þú ert engill sem vísar mér veg ] [ Á milli okkar eru jöklar og fjöll, langir vegir og rennandi tár Getur þú ekki heyrt mín ástarköll? Því ef ekki þá verð ég sár!.. 2001 ] [ með byrðar efans á grönnum herðum gengur hann burt kremur heilann í lúkunum öskrandi: að vera eða ekki vera heima? hver veit hvort skal fara eða vera um kjurt? er það nóg að liggja í litlu rúmi og láta sig dreyma? lítilvæg eru svörin þegar stórt er spurt samt einhversstaðar hátt þau sveima ] [ Særð sál hrökklast um dimman veg saknar alls og ekki neins Farin er sólin sem var svo falleg Sorg á milli hvers einasta beins ] [ Þótt sé ég aumur og illa gefinn ég áræddi að setja ljóð á vefinn varlega fór ég fyrstu skrefin - fannst ég ætti að þegja. Svo ákvað ég bara að stökkva í stefin en stakk við fótum, það kviknaði efinn - hvern andskotann á ég að segja. ] [ Það er kúnst að taka í nefið og setja tóbak á hönd Það er ekki öllum gefið að skella á handabakið rönd Bændur eru miklir karlar og keppast við smalamensku Ekki við mig það hvarlar að vinna í lausamennsku Tóbaksklút ég hef við hendi ef þörf er á Smalinn fær að kenna á refsivendi ef hann kindurnar fer að flá ] [ Ef ég sit við borðið og bendi á ljósið, flýgur um mig straumur og ótti sem alltaf koma með mér í rúmið á kvöldin. Og við rífumst um sængina og svitnum alveg ógeðslega. Á meðan er síminn í hleðslu, Ef ég sit hér við borðið og bendi á ljósið, finn ég fyrir efa og undrun sem alltaf fara með mér í rúmið. Og við sláumst um sængina og vöknum svo með andfælum. Á meðan er síminn í hleðslu, Ef ég sit við borðið og bendi á ljósið, fer um mig löngun og lygar sem alltaf koma með mér í rúmið á kvöldin. Og við króknum úr kulda. Á meðan er síminn í hleðslu. Ef ég sit hérna við borðið og bendi á ljósið, þá er það blekking og bölsýni sem deyfir birtuna og ég fer í rúmið á kvöldin. Og ég reyni að vefja um mig sænginni og ligg andvaka. Á meðan er síminn í hleðslu. ] [ stofn trésins er stofn lífsins greinarnar eru hreinn skítur ] [ ég elda stálgjarðir fyrir þig í kvöldmatinn ég fæ mér bara snarl... ] [ Heitann sumardag sit ég undir grenitré og horfi uppí himininn. Greinar grenitrésins sveiflast í vindinum. Svo hversdagslega. Skyndilega breytist vindáttin, ég stend upp, ætla bara að drífa mig heim, þegar ég kem auga á eikartré. Stórt fallegt og virðulegt tré. Ég labba að því, sest undir það. Vindurinn leikur við greinarnar og fuglarnir sungu glaðir og treystu trénu fullkomlega. Voru fuglar í grenitrénu? Einn dag þegar ég sit undir trénu eins og venjulega falla nokkur laufblöð til jarðar. Svo alltaf fleiri og fleiri. Þegar leið á hafði tréð misst öll laufin og ekkert skjól var af því. Fuglarnir farnir... Þetta fallega virðulega tré var orðið af hríslu.. Ég stend upp döpur í bragði Fannst ég hafa verið svikin. Heimska tré! En allt í einu kem ég auga á grenitré. Grenitréð sem alltaf var svo venjulegt, óspennandi. Nú var það ferskt og grænt, eins og ekkert hafi í skorist. ] [ Someday I might collapse and crawl I'm on the rock bottom and about to fall deeper in the shadow of my past in the unforgiven pain were I might not last where I might spend the rest of my time in prison of hell, no mercy for my crime nothing to lose, and nothing is left sudden death waits me and it's hard to accept but it's now my time to pay the depth ] [ Eftir að hafa bifast silalega á saklausri stúlkunni settist ég á stól inná baði. Ég horfði á litla styttu í hillunni og reyndi að hugsa um eitthvað sorglegt eitthvað sorglegt en fallegt. Ég gekk að stúlkunni grátandi og sagði. "Ég er prins. Ég bý í kjallaranum, í horninu á kollinum og það er þoka" Hún lá í ógeðfelldri stellingu andspænis mér, djúp og listræn. Ég horfði til himinsins og í stað þess að biðja máttarvöldin um fyrigefningu syndanna þá hrópaði ég grátandi af hlátri. " Elsku himinninn minn, viltu vera svo vænn að breyta þessari stúlku í fjall svo ég geti farið uppá hana aftur með hreina samvisku" ] [ Þörfin varð æ brýnni efti því sem að hann sat lengur og hlustaði á hjartað í sér. Fyrst fór hann í pakkaferð til Spánar. Síðan fór hann á matreiðslunámskeið hjá hugleiðsluhópnum "Miracle of Love". Hann svaf hjá karlkyns klámstjörnu. Hann veiktist af kóleru í heitu landi. Hann missti minnið í langri bátsferð. Þörfin varð æ brýnni efti því sem hann sat lengur og hlustaði á hjartað í sér. Nú er hann í sundi með tveimur nunnum (við skulum hætta áður en hann heyrir í okkur) ] [ ,,skórnir eru alltof litlir” sagði stúlkan við afgreiðslumanninn og hann rétti henni hattinn sinn og mælti: ,,taktu hár úr hatti mínum og leggðu það á jörðina og upp munu rísa skógar alsgnætta rennandi gullár stöðuvötn af gosdrykkjum og bleik ský munu þekja himininn” stúlkan starði á manninn með litlu fallegu bláu augunum sínum og sagði: ,,en mig vantar bara skó svo ég fái ekki blöðrur á fæturna” ] [ Líttu á! Hvað þú hefur gert. Þú hefur fórnað sambandi okkar fyrir annað. Þetta eru sár sem munu aldrei gróa og endar okkar munu aldrei aftur ná saman. ] [ Kynlegur kvistur í nágrenni við mig. Hann er eins og hann er. Það er stundum likt og aðrir sjái frelsið sogast inní hann. Kannski vill enginn þiggja þvílíkt magn af frelsi á svo skömmum tíma. Hann er einn af þessum sem fer ekki eftir neinum reglum. ÉG hef sjaldan séð hann brotlegan. Við fylgjumst þó öll með þvi á endanum þá náum við honum sanniði til við munum ná honum. ] [ Vélin hemur sig aldrei en hamast víggirt ósnertanlegum pólum segulmagni gæddum og dregur alla nauðuga viljuga á hnjánum í banvæna sjálfheldu. Sem hvati alls og uppruni eðlishöfundur langt í frá hlutlaus víar hún okkur aumum í gapið gleiða búnum brestgjörnum skurni næringarsnauðum eggjum í milljóna tali og afföll eigi ómikil. Sú náttúrulega rýrnun og vannæring knýr áfram vélina og sjálfseyðing óafstýranleg í víginu mót óbugandi endi alheimsins. Hljóðlaus brestur klaksins dreifir sér og mengar andrúmsloftið og ærir allt kvikt með fjarveru sinni og þögn. Drottnunin er sjálfsögð og lofuð af heiglum sem vafið hafa festina um háls sér og hanga bjargarlausir yfir botnleysinu. ] [ Vænbrotinn fugl í fjöru getur ei flögrað Útataður í tjöru verður kannski lógað Hann veit ekki eitt aukatekið ráð og reynir að taka flugið Kannski verður hann að bráð þá verður honum first brugðið Selir eru hungraðir og sjá fuglinn reynir að bjargast Þeir fara margir á stjá Borða litla fuglinn og hressast ] [ Hátt uppá klettasillu leynist lítill fallegur Örn Af móður sinni ekki gleymist hún hefur eignast dásamleg börn Þegar hann tekur flugið og reynir að læra á vængi Þá verður honum mikið brugðið í hreiðrinu var hann fangi ] [ Frelsaður maður gengur með bók undir hendi Hann hatar þegar fólk tekur sér smók og ef maður rán fremdi Fagnaðarerindið hann segir snjallt útum alla borg Það er ekki svo einfalt Því margir borgarar lifa í sorg Hann vitnar í guðspjöllinn bæði sýnkt og heilagt Hann virðist fara útum víðan völlinn vill ekki að fólk sé eyðilagt Hann segir Jesú er kristur góður sem leiðir veginn þinn Með Jesú er það helgaður róður láta hann hreinsa veginn minn ] [ Undanfari árangurs er að taka til í eigin lífi Að púlsinn sé reglulegur lifa ekki í sálarstríði Best er að setja sér markmið og fylgja þeim hist og her Finna hið innra þann góða frið Guð horfir á, fylgist með og sér ] [ Á meðan Lex Luthor undirbýr yfirtöku sína á heilsugæslunni og Lois Lane rekur mál sitt fyrir jafnréttisráði, þá lepur Clark Kent ofsoðið kaffi með Lalla Johns á Vogi, þar sem hann tekur á vanda sínum með Kryptonite. ] [ Lægðin yfirþyrmandi, niður á mínar herðar fellur frá grámyglu skýjuðum himninum sem öskrar á mig, blákalt, kolsvart og ég fell niður á næstu línu kylliflatur. Yfirbugaður spyr ég ímyndaðan hugann: "hefur of mikið verið lagt á mínar herðar?" en þá máltækið svarar mér um hæl með háðslegu glotti: "Guð leggur ekki meira á herðar fólks en það getur borið" ég svara þá Guði: "Guð minn góður, þú hefur fellt mig niður á... neðstu línu helvítis!" ] [ Ég smeygi mér inn í ríki kyrrðar uppsprettunnar umvafinn kærleika þar sem viskan ræður ríkjum. Ég leggst í þögnina og fell í algleymi, fell í faðm ástar á sköpun lífsins og tilvistar alheims. Þá vitund verundar geislar bláum verndandi regnbogageislum á veg minn... á vegi mínum heim í hjarta. Ég sný að lokum aftur frá ríki kyrrðar þar sem viskan ræður ríkjum umvafinn frið í faðmi kærleikans. Ég opna dyrnar og halla þeim aftur í hálfa gátt á eftir mér. ] [ Klukkan slær sex, þjóðin bíður. Fréttir sem gleðja, hryggja. Þurrlegur þulur “Útvarp Reykjavík” “Fréttir”. Í fréttunum er þetta helst, allir bíða Hvað er fréttum ? Dauði og hörmung Sprengjur, stríð Dauði, blóð, sorgir Af hverju bíðum við alla daga Eftir að klukkan verði sex ? Eru góðar fréttir engar fréttir? Aldrei er gleði og hamingja í “Fréttum er þetta helst”. Viljum við aðeins heyra um sorg og þjáning. Hvenær kemur í "fréttum klukkan sex". Fréttir af mannsandans verkum fögnuði og gleði fegurð. Þá vilja engir hlusta Því kemur það aldrei að fréttir verði góðar fréttir í "fréttum klukkan sex". ] [ Ég beið þín langa, dimma daga, daufum yljaði vonarneista, sorg og ótti vildu saga sundur þráðinn, fá gátu leysta. Viltu mig eða viltu mig ekki? vonarlítil spyr ég þig. Ástarálögum ég þá hnekki ef ekki viltu eiga mig. Sé svarið annað þá mér segðu og sýndu í verki vilja þinn. Komdu hingað og hjá mér legðu hjarta við hjarta og sláttinn finn. Vilt' ekki sjá hvort við hljómum saman, sénsinn taka á hjartasorg? Annars fáum við aldrei að finna hvort falli eða standi sú spilaborg. Er lífs míns elska nú loksins fundin eða liggur mín leið enn um einmana göng? Dagana styttir og líður skjótt stundin, syngur brátt von mín sinn síðasta söng. Svarið mér gefðu og óttastu eigi skilið ég á að fá vissuna þá. Þiggirðu ást mína sannast ég segi sjá alltaf mun ég þér vera hjá. ] [ "minnkar hringurinn upplýstur" hlekkjuð í handjárn í vinstri sú hægri mjúk í lófa. Samtal, og þrá hennar fyllir. snerting, og líkaminn ljómar. augnaráð, og hugurinn blómstrar. ástfangin hún flýr ekki. þarf að leita að lykli til að losa þá vinstri. "undir hringnum upplýstum minnkuðum varirnar samfalla líkamar þéttir saman augun lokið enn í járni í þá vinstri" afbrot hennar--eða hvað? ] [ Það er á svona kvöldi þegar dökk englastelpa í appelsínugulri peysu litar kvöldljósið tunglsljósið. Með rugling í höfðinu og aðra stelpu í eyrunum á horninu stutt frá. Við kyssumst kveðjukossi. Hún: með von um aðra daga. Ég: með rugling í höfðinu og aðra stelpu í eyrunum. Engill í appelsínugulri peysu litar kvöldsljósið tunglsljósið ] [ Heimurinn klæðir sig í náttfötin, og skýin halda að þau séu sniglar. Tunglið, já tunglið nýbúið að skrá sig inn á sína venjulegu vakt kveikir ljósið a vagninum sínum og heldur af stað. --hálft í kvöld. Í allri þessari dýrð á gangstéttinni fyrir framan gult hús: ólga í maganum róleg, skríðandi spenna. svipurinn ljómar blíðlega hendurnar lagðar niður með hliðunum --utan einstaka skipti þegar hægri höndin lyftist til að taka smók af sígarettu. --Einnig er gulur köttur við fæturna.-- Augnaráðið Augnaráðið lítur út eftir veginum upplýstum og bíður eftir að skuggi af mannveru birstist. --skyldi hún koma í kvöld?? ] [ Dökkbrún augu þín hvelfast yfir mig líkt og upprunalitur jarðar sem fyllir mig ró. hendur þínar: umlykja mig, líkt og sú sem hefur gull í höndum sér --strjúka mér. Djúpbrúnt augnaráð segir mér allt sem þarf. Ég lifi þig þig ég lifi. Kyrrð hugur minn ekkert nema kyrrð. Óljós framtíðin skiptir ekki máli Við vorum ekki við verðum ekki Við erum ] [ Fallegasti græni litur í heimi bráðnar við bláan -- einnig fallegasta lit í heimi og breytist í tár sem fellur úr auga. Handtak og miði með stöfum situr eftir. stuttu seinna síminn sendir á skjáinn saknaðarbylgju og hjartað slær ofslætti. Fæturnir bera mig áfram en hamarinn límdur við höfuðið neglir lófana við leiðina. Hægt og rólega Fæturnir halda áfram - og hendurnar negldar enn. Hægt og rólega: vöðvarnir, æðarnar, beinin húðin: teygist og stuttu seinna slitna ég. ] [ Enn á ný upp ljóskúla rís og dreifir bjarmanum á allt sem undir er. Hvítt sem úr skýjunum dreifir sér í blámann sem verður rákóttur í dag. Enn á ný litaðir englar fylla loftið söng sínum og gera bláan hljóðandi. Aðeins ofar ljóskúlan yfir myndinni af lífi lifandi formbreytist en heldur uppruna. Í dag eins og alla daga í sömu átt: upp - miðja - niður en vissan er sú að í dag er öðruvísi en í gær og á morgun verður ekki eins svo ég tek ofan hattinn og heilsa nýjum degi ] [ Dansaðu í ljósinu litli engill dansaðu í ánni klifrum í trjánum og látumst apar og kyssum jörðina. Þú ert sætur litli engill þó þú haldir þig annað. Syngjum nóttina og syndum í ánni og þefum af myrkrinu. Lifum svo aftur og lifum ekki lifum á milli ljósa og gleymum svo að anda í smástun elskum án hjarta hötum ekki -- útúrmáum. föðmumst svo án handa og fljúgum með mávunum. Við endumst að endanum og kyssumst að byrjun sé þig á morgun ] [ Opnastu! dreifðu ímyndinni af sjálfum þér út í endaleysið og fleygðu henni frá þér. Finndu! Finndu að þú ert hluti af öllu í kring og allt í kring er hluti af sjálfum þér og hlæðu! Brostu í dag! Brostu, því að í dag er nýr dagur! Brostu, því hann er það besta sem getur nokkurntímann gerst! Brstu einnig að mistökum þínum! Gleðstu! Því þó að endirinn geti orðið á morgun þá verður hann aðeins upphafið að einhverju nýju! Lifðu! Því það er það besta sem ÞÚ getur gert! ] [ Grænn og blár draumur og sólin sést varla fyrir blámanum sem fyllir loftið. Vængjaðir í loftinu, á trjánum á jörðinni og málarinn finnur ekki réttu litina. Ég er staddur í náttúrulífsbókmenntum lifandi fyrir hugskotssjónum mínum og augu mín endurspegla þeirri fegurð sem lífið er. Hér í Pantanal Hér eru draumasmiðjur og ástin fæðist hér í hjörtum hattklæddra manna og það verður hér sem hluti hjarta míns verður geymdur Það er hér í Pantanal ] [ Hátt uppi yfir höfði mér þar sem skýin hafa hulið síðustu stjörnuna á himinhvolfinu hinumegin við skýin þar sem sálir okkar ganga hlið við hlið á milli draums og veruleika þar sem alheimsskilningurinn er daglegt brauð þar sem mannleg blygðun er ekki til þar skulum við leggjast tvö baða okkur í stjörnublikinu ligja hlið við hlið hugsa ekki um hvað er og hvað ekki skilja allt og ekkert sleppa af okkur beislinu og dansa okkur þangað sem enginn nær til okkar án þess að hugsa um fjarlægðina milli okkar ] [ ,,Ég er blindfull"!! sagði stelpan í pilsinu. ,,Ég stend varla í lappirnar!" sagði strákurinn. og þau drukku meira ] [ Syngdu litríki fugl! Syngdu sólinni uppkominni söng Þendu vængi þína úr gulli og fagnaðu nýjum degi. Græna hjarta sem slærð fyrir það líf sem þú átt umvefðu mig í hlýjan faðm þinn og leyfðu mér að anda þig. Ekki gráta þau okkar sem féllu í nótt heldur gleðstu! yfir því sem fæðist í dag! í dag! vaktu með mér meðan hin sofa vaktu með mér meðan hin vaka og ekki hætta að anda ] [ Þegar lífið og sorgin þig brýtur þá hugsa ég stíft til þín. Mína ást og kærleik ei þrýtur og vináttan aldrei dvín. Ég vil hjálpa þér gegnum sorg, sorg sem hjráir þér nú. Vináttan byggist á öllu, kærleik, umhyggju og trú. ] [ Stundum... velti ég því fyrir mér hvað það er sem dregur mig að þér. Getur það verið hvernig þú kemur fram við mig? Hvernig þú tekur mér eins og ég er? Hvernig þú gerir ekki engar væntingar til mín? Hvernig þú hlærð með mér en ekki að mér? Hvernig þú hlustar á það sem ég hef að segja? Hvernig þú skilur það sem ég segi við þig? Hvernig þú gleður mig með jákvæðni þinni? Hvernig þú bregst við atlotum mínum? Hvernig þú æsir mig einfaldlega með nærveru þinni? Hmmm.., er nokkur þörf á að velta þessu frekar fyrir sér? ] [ A dream came true, when I met you. That feeling I feard, got trough. My feelings to you, are the things that do, make my Beautiful Nightmare come true. ] [ Tónlistin ómaði í Flórens á barrokktímabilinu. Hjá kvenfólki var það mikið fliss og flens að sitja á kafaraþilinu. Þeir stukku fram af borði af skipinu stóru. Skipstjórinn hafði á orði kafarar hafa fundið Barrokkperluna góðu. ] [ Flórentína Kammerat kölluðu sig dáðardrengir Enginn setti þá á gat og enga þá bræður rengir Monodía kallaðist þetta ein rödd við hljóðfæraleik Þegar Grikkir vildi svíkja og pretta og taka inní lungun hinn ljúfa reyk Skáld og rithöfundar tóku sig til í sál snéru við blaðinu frá endurreisnar svo úr því varð tónlistarbál Þeir vildu endurvekja verk við grísku harmleiki Á því varð alls engin bið Hugur þeirra var á reiki Þeir vildu tjá af tilfinningu innihald verkanna Svo í huga yrði af hrifningu tónlistarskáldanna Galdurinn við þetta var að setja hljóma við laglínu Dásamlegur Ódisseifur bar allan sinn mátt í pínu Tölusettur bassi var notaður til þess að hrypa lagið hraðar Sá flýtir var ekkert venjulegur Í ljóma og frægð Ódisseifur baðar Spenna var á milli grunnhljóms og forhljóms Það vakti mikilla snilli og mikinn fagran orðróms Hver var það sem spilaði svo snilldarlega lagastúfinn en gleymdi að ljúka því hikandi Bjarki tónlistarsögukennarinn ? ] [ Myrkur um miðjan dag grámi um vetur ekkert gengur mér í hag og svo þetta djöfulsins veður. ] [ Þegar ég opna sálu mína fyrir þér Ætlar þú að snúa þér undan? Meðan ég helli úr huga mínum yfir þér Ætlar þú að horfa í augu mín? Þegar ég stend nakin fyrir framan þig Ætlar þú að sjá mig? Ætlar þú að elska mig? Þrátt fyrir allt ] [ Your words weigh heavily on my chest. I try to take a breath, but the breath is not clean. I try to shrug them away, but they will not leave. They burn in my mind and in my heart. I never dreamed that we would soon part. Thoughts become cloudy, the words are too heavy. I cry into the night. ] [ Augu mætast læsast Vöðvar spennast æsast Bros myndast Ást tindrast Hugsanir syndgast Hlutir gerast: Fólkið lofast og það börn eignast Svo lifir það allra hraðast þar til við dauðann það fer að berjast þá er lífið hratt og flottast farið niður og allra norðast og á steina tvo skal grafast "Vér viljum hvílast" ] [ "Hvort finnst þér betra..." "...honnínöttsseríjós eða venjulegt seríjós?" -Spurði drengurinn stúlkuna útá leikvellinum í frímínútum. "Nú auðvitað venjulegt seríjós" -Svaraði stúlkan en bætti svo við. "...því honnínöttsseríjós er svo rosalega óhollt" Og vonbrigðin leyndu sér eigi í augum litla drengsins. Honum hafði alltaf þótt venjulegt seríjós vera ótrúleg sóun á bragðlaukum. ] [ ég vil brenna húsin ykkar og standa í fjarlægð og fylgjast með eins og þegar þið brennduð mitt og ég gat ekkert gert allt horfið á einu augnabliki allt farið og ég elska engan lengur trúi ekki á neitt lengur hann var tekinn og það var eins og hjartað hætti að slá sorgin er óumflýjanleg á hverjum degi hverja sekúndu og það er vont að anda eins og loftið sé fullt af rakvélablöðum og þau skera mig að innan ég verð reið og reyni að hugsa um eitthvað annað en það er erfitt ég gleymi honum aldrei ég er hluti af honum og án hans væri ég ekki hér ég veit stundum ekki hvað ég á að gera án hans en ég get ekkert gert hann kemur aldrei aftur nema í draumum mínum þar tala ég við hann en orðin eru loftbólur sem bara hverfa út í buskann og ég er mállaus að eilífu mállaus gagnvart honum ] [ ..sögu hef ég sagt litlum tveim bláu augu þeirra lokast senn erfiði og ergelsi í þessum heim ekki tökum hefur náð á þeim enn.. Ég elska að horfa á ykkur sofna sjá friðinn slaka á ykkar andlitsdráttum sjá merki dagsins á ykkur dofna heyra engar áhyggjur í ykkar andardráttum ] [ bældar ástríður hennar voru spegilmynd kaldlyndis míns ] [ Ég merki mér svæði. Pissa á stofugólfið. Ég lýsi yfir skoðun minni á vissri tegund af fólki. Lem konuna mína. Ég sýni af mér kæti. Rústa íbúðinni. Ég er tryggur vinum mínum. Það er partý heima. Ég er ástríkur. Hef mök við son systur minnar,sem er nemandi í 6.bekk í grunnskóla. ] [ Góða nótt, fagri dalur; Þín mun ég ætíð sakna FAR VEL, ljóti heimur; Þig mun ég kveðja við endastöðina sjálfa Ég segi BLESS, kæru vinir; Því næsta líf á mig kallar... ] [ That single time We had some fun Paid me the price Of a life time of thoughts I can not express Thoes feeling I feel Without making myself Drink a shit lode of beer Don’t know why And still don’t know how I’m writing these lines And sending you now Tell me to stop Or I keep on forever Writing these lines Of a Love twisted mind… In a box with a Alcohol lock on ] [ sjálfhverfur karlhverfur kvenhverfur nefndu það tilfinningar verða ávallt litróf innsæisins ] [ Þykkir mér nú "Þorri móður", þú verða orðinn nokkuð góður, eftir kulda él við kot og haf. Viltu ekki hvíla róður, og færa okkur ekki í kaf. ] [ Hún sefur þegar húmið leggst á bæinn, því hún hefur hamast mikið allan daginn. Slorug föt og stígvél liggja í einum haugi, og andlit hennar angist sem á draugi. Hún heitir eitthvað er bænum er alveg sama, hár hennar er rysjótt og flýr allan drama. Löngu er hún hætt að mýkja soðnar hendur, hætt að taka eftir hvar í lífinu hún stendur. Hún reyndi mikið að kreista þetta út um helgar, horfið mikið á hvernig margur strákur "felgar". Gaf sín brjóst,er brjóstbirtan varð mikill, horfði á lif sitt verða að einum hnykill. Hún fannst að morgni í gutli eigin ælu, sálin hennar nú leitar betri sælu. Það reyndi engin við gröf hennar að túlka, nema að hún hefði verið ágætis verbúastúlka. ] [ Stundum er líkaminn allt of þröngur fyrir sálina. Eins og polyesterflík sem hefur hlaupið í þurrkara. ] [ Þegar tilfinningar mig yfir þyrma, tek ekki rétt skref og vankin fer að votna Sálin byrjar að rotna Augun þín minn huga fylla, ljóslifandi engill hugan sveipar Hrekur það sem mig vill særa, þurkkar tár og vankan þerra. Daufur angin lyggur í lofti, kemur frá hvítum kodda, ilmvatnslykt þarf ég varla, til að ímunda mér þig nakta Þegar ég sitt í þungum þöngum, finn ég þínar blíðu hendur bak mitt strjúka og ég byrja að gleyma öllu sem mig vill særa Sný mér við í æðist kast, vona sárt og sakna þinar blíðu En hendur mínar í loftið grípur, lífið er aftur svert á fullkomna vegu Eilífðar heimi sitt ég í, langar í meira en hugsun um þig Stundum er best ekki að hugsa, um fortíð sem aldrei mun breyttast Framtíðin mig samt kvelur, vildi ég sjá hvað dauðan defur Nú ertu vofan sem mig niður grefur, allt sem ég sakna er það sem þú hefur Feta einn á gleymtum vegi, finn þar sálu sem mig meira gleður. ] [ Þegar ég hlusta á þig verð ég að loka augunum og láta mynd þína hverfa úr huga mér annars næ ég ekki að einbeita mér að fegurð orða þinna. midda ] [ Ég og bróðir minn erum varnarlausir Írakar, móðir mín er stoltur Bandaríkjamaður. Á hverjum degi reynum við að komast undan loftárásunum, en finnum hvergi skjól Á hverjum degi lýsum við yfir sakleysi okkar, en finnum aldrei skjól. Heimurinn fylgist ráðþrota með, en honum virðist sama. ] [ dimmar nætur, kaldir skuggar dvöldu árum saman í sálarkytru suður í reykjavík vonarglætur, gamlir draumar, létu lítið fyrir sér fara í gleymdum skúmaskotum en svo komst þú færðir mér stjörnublik í sængina mína gafst mér bros með morgunmatnum sem dugir daglangt ] [ Þú! Sem átt að heita móðir hefur eyðilagt mig, tekið persónuleika minn og hent honum á haugana. Gleymt mér og hver ég var. Ætíð er ég ein og nakin því þú hefur brotið mig. Þú! Sem átt að heita móðir. Það er ekkert sem ég get gert svo ég horfi á þig brjóta mig, horfi á þig skemma mig og þú, sem átt að heita móðir horfir á mig hata þig. Samt, ertu mér allt. ] [ Það er rigningarsuddi. Ég er í bleikum skóm með bláum reimum en ég er í góðum frakka sem slengist um löppina á mér eins og hundur á þörfinni. Slubbarigninginn er svo köld að ég gæti fengið mér brjóstsykur með lakkrísbragði. ] [ Ég geng og geng eftir dimmum vegi lít til baka en sé ekkert nema eftirsjá gjörða minna hlutir sem ekki gleymast a einum degi heldur eru grafnir i minnið þar til endalokin na mer ] [ Rólurnar sveiflast til. Tannstönglar í glasi. Einfætt múrmeldýr lærir að synda einsog einræðisherrann leitar að lyklaborði heimsins. ] [ Í mygluðu heyinu með ósvífna fortíð eða standandi í briminu með fjarstýrða flugvél. ] [ með stjörnukíkinum kíki ég innum gluggana í blokkinni á móti internetið er bilað ] [ Splass... Með fiðrildi í maganu svíf ég í vatnið sem leggst um mig þétt og eftirgefanlegt í senn. Eins og ást þín tandurhrein. ] [ með einum fingri upp til Guðs storkaði ég almættinu með einum fingri upp til Guðs mótmælti ég óréttlætinu með einum fingri upp til Guðs datt ég niður dauður ] [ hún sem með mér vakti allar nætur hún sem vanga minn ljúft svo strauk hún sem sagðist aldrei frá mér fara hún strauk ] [ Hvert sár sem ég sker er “hróp á hjálp” Hvert ör sem ég ber er “hróp á hjálp” Hvert tár sem ég felli er “hróp á hjálp” En Eingin veit að ég “hrópa á hjálp” Eingin skilur að ég “hrópa á hjálp” Eingin sér að ég “hrópa á hjálp” Eingin heyrir að ég “hrópa á hjálp” ] [ Hver sem er sem ber sem býr að baki sveittur klaki rennur til sýnir skil argar hátt magnast smátt og smátt ] [ I wanna die With no reason why Just got the desire To put out my life fire ] [ Því lifum við svona öll þessi ár því samþykkjum við tilvist þess sem fellir okkur tár því höldum við áfram því sem gerir okkur öll svo sár berjumst á móti því en samt svo með því sigrumst á því sem særir og getur glatt á ný ] [ Ég vil vera meira en ég er Á hverjum degi ég lengra og lengra fer Inn í svartnættið, í myrkrið sem ég verð geymdur Þar sem öllum er sama og á endanum gleymdur Þar sem virðingin er engin, þar til heilinn er úr sér genginn Orðinn heilaþveginn Er einhver séns? Engan veginn ég er afgangur fólksins sem neitaði mér neitaði manni sem fullur er af vilja til að bjarga sér þarf bara smá hjálp við að rísa upp á ný En, hann fastur er, svartnættinu í ] [ Farið með ykkar fuglum og fljúgið með þeim sýnið ást ykkar með mönnum um geim Reynið að freist'ekki konu ykkar meir þar sem hún gæti endað á hæli með geir. Sýnið traust og skilning verið trú og sýnið ást ekki koma og brenn'af'þrá staldrið við og strjúkið hár Hún var eitt'sinn mín svo eitt'sinn þín traust var ástin en ekki eins sterk og stál Sú ást er hrein sem ekki má ef hún má þá skal ekki sá sem óhreinkaði hana sýna mér hana því þá mun allt sem var eitt sinn eitt hverfa frá mér eins fljótt og kom. Hugarkonni ] [ Kenndu mér að sjá, Heiminn með þínum augum. Kenndu mér að skynja, Skilja hugsun þína. Kenndu mér að finna, Þegar þú finnur til. Kenndu mér að hlusta, Á hlutina sem ég annars missi af. Kenndu mér að tjá mig, Þegar ég þarf á því að halda. Kenndu mér að lifa, Drekka í mig fegurð lífsins. Kenndu mér að vera, Vera eins og þú. ] [ Ég vildi að ég gæti, komið tilfinningunum í orð sagt þér hversu heitt ég elska þig í raun og veru. Lýst því fyrir þér Hvernig veröldin breytist Við það eitt að hugsa um þig. Bara ef þú vissir Hvaða áhrif þú hefur á mig. Bara ef þú vissir Hvað berst um í brjósti mér Við það eitt að sjá þig Bara ef þú vissir.. ] [ Ég hjúfra mig uppað þér Fingur okkar fléttast saman. Þú horfir í augu mín sérð hvað ég hugsa við hugsum það sama.. Ég finn fyrir hjartslætti þínum hjörtun slá í takt herma hvort eftir öðru Ég læt hugann reika þó er ég stödd hjá þér Ég er þín. ] [ Skrýtið hvaða áhrif tónlist hefur. Tilfinningar. Ástin sem yljar manni, Sorgin sem rennur hljóðlaust niður kinnarnar. Minningar. Fyrsti kossinn, lagið "okkar". Aðskilnaðurinn Söknuðurinn Missirinn Tilfinningarnar flæða hindrunarlaust gegnum huga þinn. Breytast jafnskjótt og næsta lag byrjar.. ] [ Ég hugsa til þín, Heyri rödd þína. Horfi í augu þín, skynja snertingu þína. Þó ertu ekki hjá mér. Ég finn fyrir andardrætti þínum, finn fyrir nærveru þinni, hvernig þú umlykur mig. En þú hverfur, jafnskjótt og ég opna augun. ] [ Ég sit í fjöruborðinu, myrkrið umlykur mig. Öldugjálfrið sefar mig, vaggar mér í svefn. Mig dreymir þig. Finnst ég svo umkomulaus þegar ég vakna. Horfi upp í himininn. stjörnurnar tindra, í svörtu hvolfinu. Lýsa upp himininn, bara fyrir mig.. ] [ Sígaretta í morgunsárið. ] [ Einhvers staðar þarna bakvið hlýt ég að hafa eitthvað að segja. ] [ Hann samdi lög með einstakri tækni með fiðlunni sinni góðu Torelli og Vivaldi tóku upp hans leikni lærði það sem í verkum hans stóðu Stradivarius fiðlan var unnin og úr henni fenginn fagur hljómur Loksins var hún fundin það kom úr henni geysifagur ómur Meistarinn Corelli samdi tónlist með þessari nýju smíði Hann sýndi öðrum hvað þeir höfðu af misst Og hvað fiðlan var mikil prýði ] [ The death is knocking at my door once again I ask, what is this life for I won't be able to smile anymore I can't go on living like this I don't know where my soul is I sold it to the devil I'll never get it back ] [ Armar á engilbjartri nóttu utan um holdið sökktir undir sæng. Er ég dáinn, og farinn til himna? Eða er það bara andartakið sem er svo fallegt að mér finnst sem ég svífi? Undurfegurð heldur í andardráttinn og draumurinn umkringdum grænum kemur í hillingum og flýgur með mig til annarra pláneta. Sólin slær bjarma sínum á augun sem opnast, og finna fyrir. Armar á engilbjörtum morgni utan um holdið sökktir undir sæng. ] [ Er ánægja eftir hjá mér, það er eitthvað minna mann með meiri biturleika, er erfitt að finna tilfinningar sem hafa safnast upp á mig þær góðu, sem laða mig á þig þær slæmu, sem láta vita að ég sé of seinn hver stendur við bakið á mér, ekki neinn hverjir standa eftir mér til stuðnings, ekki einn staðreyndir lífsins hafa sýnt sig og veit ég nú þegar, að það er of mikið fyrir mig. ] [ Ég veit ekki hvað það er, samt skynja ég það. Tómleikann, einmanaleikann, eyðimörkina innra með mér. Áður var hún grasi gróin, þar spruttu litfögur blóm, sem fögnuðu hverjum nýjum degi, fullum af birtu og yl. Þar til blómin tóku að visna, ský dró fyrir sólu, og endalaus köld auðnin tók við. ] [ Hvers vegna hafa aðrir áhrif á sál mína? Hvort ég vil tala eða þegja, hlæja eða öskra. Ég vil ráða því sjálf. Brosa yfir engu, fella tár yfir fegurð lífsins. Líða um í eigin draumaheimi, þar sem ekkert er til nema ég. Enginn nema ég. ] [ Tómleiki, einmamnaleiki. Svarthol sem étur mig upp að innan. Krafsar og klórar. Nagar mig. Myrkrið flæðir um æðar mínar, líkt of alltofsterkt kaffi, svartara en himindrunginn sem umlykur mig. Ég er svört. ] [ Nú þegar ég hef fundið þig, er ég á báðum áttum. Nú þegar ég hef fengið þig, veit ég ekki hvað ég vil. Og þó það sé erfitt að viðurkenna það.. veit ég ekki hvort, ég er ástfangin af þér, eða ástfangin af ástinni. ] [ Ég er Fönix, fuglinn sem reis uppúr öskunni. Fuglinn sem vængbrotinn hóf sig til flugs. Sálin sem lét ekki bugast. Hjartað sem fann ljósið í myrkrinu. Hugurinn sem sættist við sjálfan sig. Ég er Fönix, fuglinn sem reis uppúr öskunni. ] [ Komdu og finndu mig, ástin mín. Ég elska þig, ég verð alltaf þín. Ég finn mig oft eina núna, komdu og finndu mig. Ekki láta mig missa trúna, ég vil ekki missa þig. Manstu? Þegar við fórum saman út að ganga? Mér hafði aldrei liðið svona áður.. Hjarta mitt þú náðir að fanga. Svo, ekki vera of bráður, og fara frá mér - ástin mín.. ] [ Hljóðlaust fellur hjartað til jarðar rúllar eftir götunni niður niðurfallið hverfur sjónum. Blindur flýtur heilinn um í miðjarðarhafinu miðju hálf uppétinn af hröfnum Óðins týndur. Ær sit ég eftir og reyni að koma skipulagi á sjálfa mig. ] [ Að tala og tala endalaust um allt og ekki neitt Spillingu verður að fela Þingmaður getur því ekki breytt Hann vaggar sér í púltinu háa og mælir með miklum orðaforða Hvað verður um góða páfa sem fastar og vill ekkert borða Hann leggur áherslu á orðin og bendir út í sal Heldur hispurlaus ræðuhöldin Einhver tekur frammí Þetta er eintómt hanagal Nú byggjum við upp borgina okkar og skipuleggjum allt uppá nýtt Uppá pallborðið spilin stokkar svo borgarbúar húsnæði geta prýtt Nýja tónleikahöll mun rísa eins og kastali Ljóskastalar munu hana upp lýsa á aldarafmæli Byggjum upp landið svo stolt sé af með hugsjónarstarfsemi Netin á togara skellt í kaf hefur það haffærisskírteini ? Landið byggist upp á öldinni okkar og verður framtíð erfingjanna Ráðherra með brögðum í þinginu skrökvar í ávarpi til allrar þjóðarinnar ] [ Krókur á móti bragði sagði drengurinn Ritaðu niður hvað þingmaðurinn sagði Stórfiskaleikurinn ] [ Angel, come fly away with me Into your life and all dreams there within waiting to take you away Soft hopes with the spark of new begun life will guide you along your way Angel, come walk along with me Along the path you choose for yourself each and every day don\'t let them decide and never you hide the choice is yours alone Angel, don\'t wait to long for me your destiny lies before you inside the mind and the soul why walk in the shade though the sun\'s shining late there\'s always a lighted path Like the bright colored morning and evening star you shine as a million warm suns ] [ það var í gönguferð með hjartað í buxunum að ég hitti þig ekki það var í algleymisgönguferð um götur sólbakaðrar reykjavíkur með útlandailm í nösunum að ég hitti þig ekki það var í háfleygrahugsanagönguferð um fjörur og móa sveitarinnar minnar að ég var búin að gleyma þér ] [ Ég vil vera maður drauma þinna ég vil liggja hjá þér og finna tilfinningar sem streyma frá þér öflugar hugsanir sem lenda í hjartanu í mér hlýlegar hugsanir, að maður gæti yljað sér hjarta mitt brennur, heldur fyrir mér vöku hugsanir um þig halda hjarta mínu slöku endalausar pælingar um framtíð mína og hvort ég fái að blanda henni við þína. ] [ I still remember your name All since the first day you came Into my life and stole my heart And it stops beating when we're apart And it seems, You'll always be in my dreams ] [ Þú gerir hvað sem er, bara fyrir það eitt, að hitta mig ekki, ég græt einmana grát, öllum er sama. Ég sé ekki tilgang, dey í rólegheit, finn mér blæða, bíð, bíð eftir dauða, öllum er sama. Núna er ég einn, í mínu dánarbeði, enginn grætur, engan syrgir, mér er sama. Kemst ekkert, hvorki til himins, hvorki til heljar, einn ég reika, í mínum eigin heimi. Öllum er sama! ] [ "Bæta við ljóði" gefur þér kost á að setja inn eins mörg ljóð og þig lystir. Reyndu eins og kostur er að vanda innslátt og stafsetningu og farðu vel yfir ljóðið áður en þú samþykkir. "Sýnilegt" þýðir að ljóðið þitt mun birtast hverjum þeim sem skoðar notendasvæði ljóð.is. Að auki áskilur ljóð.is sér réttinn á að nota viðkomandi ljóð sem ljóð dagsins. Einnig gefur það ljóð.is rétt til að nota á uppákomum tengdum ljóð.is. Komi til frekara útgáfustarfs af hendi ljóð.is verður haft samband við höfunda ljóða. "Samþykkt" þýðir að stjórnendur ljóð.is hafi farið yfir ljóðið þitt og fullvissað sig um að engan ósóma sé þar að finna. Veldu "Eyða" ef þú vilt eyða ljóðinu. Veldu "Breyta" ef þú vilt breyta ljóðinu á einhvern hátt eða gera það ósýnilegt öðrum. Til dæmis er upplagt að merkja ljóð ekki sýnileg fyrr en þú ert fullkomlega ánægður. Athugið að við breytingu ljóða fellur samþykkt þeirra. Stjórnendur ljóð.is þurfa að endurskoða ljóðið til samþykktar. Ekki er hægt að breyta ljóðum sem hafa verið kosin ljóð dagsins. ] [ Mitt dimma blóð mun drjúpa um þínar hendur sem draums míns virki hafa sprengt. Mér finnst þinn böðull einatt á mig kalla þótt ekkert líf sé framar við mig tengt. Sem barn ég unni þér í þessum draumi ég þekkti ekki heimsins myrkva stig hinn myrkva stig sem ævi mína alla ég óð í blóði sjálfs mín fyrir þig. ] [ Þú komst, þú sást, þú sigraðir, núna, áttu mig. Hvað segirðu, má ég gefa þér í glas? þú neitar aldrei, en játar ætíð, ERTU ALKI?? Í mínum bedda, bíður þú heit, ég skelli mér úr, þú hlærð, litli maður!!! Ekki gott, núna þarf ég, betra tól, annar verðuru, farin fyrir jól! ] [ Ég rak við í baðinu. Nú get ég skrifað um það bók. ] [ Faðir Handels vildi að hann lærði lögfærði En tvær grímur á hann runnu þegar hann sýndi mátt sinn í tónfræði Hendel samdi fyrir almenning á meðan Bach samdi fyrir kirkjuna Hann gerðist að Englending og samdi tónlist með hjálp organista Operan Almira náði miklum vinsældum það var hans fyrsta verk eitt af borgarbúa eftirlætis verkum Samt gerðist hann ekki að klerk Water-tónlist samdi hann fyrir einn af samstarfsmönnunum Fyrir náð og miskun hann fann eitt af sínum meistaraverkum Hann samdi óperu í ítölskum stíl og óratoríur Hann keyrði ekki um á bíl heldur hafði náðargáfur Hann sagði frá lífi Jesús Christ í verkinu Messias fræga Hann hafði góða matarlist fór um Hallelúja Kór að ræða Dó hann 3 dögum eftir sýningu á stórverkinu sínu Fann innblástur af rigningu Lifði ekki í kvöl og pínu ] [ ... er allt sem ég hugsa um ... er allt sem ég man en trúðu mér þegar ég loks man og loks fer að hugsa munu ljóð mín á vörum allra hljóma og bergmála um eilífðar sal ] [ Ég stend hér á svakalegu svelli veit ei hvað ég á að gera vatnið undir mér hlær að mér kemur þá allt í einu fugl hvíslar að mér ein mistök og þú ert dáinn ég lít í kringum mig og sé fast land framundan ég geng hægt af stað fikra mig að landi svo ég detti ekki í gegnum ísinn þegar ég er næstum komin segja trén á bakkanum þú átt þetta ekki skilið og samstundis fell ég í gegnum ísinn ] [ Hugmynda flugið mitt flígur og flígur það flestan sjó farið hefur það fyrnindin flest og þar ég yrki ljóð flaug ég eitt sinn til Tíbet, Timbuktu og Tælands til hvers? Bara fyrir þetta ljóð? ] [ Fokking !&%”#!?....*/-&#$@ hugsar þú kanski En á morgun verður þetta fallið í dýpstu gleimsku Gleimdu þessu bara og láttu þetta vera Annars verður þinni eiginn heimsku Að bráð ] [ Uppá stól niður aftur Inn og út um gluggan Hvað er ég að gera Ég læt eins og allger háviti ] [ Þú gekst inní búð Tóks þér buxur í hendi Labbaðir út Rauð ljós, viðvörunarbjalla Og þú sagðir NEI DJÓK! ] [ A, Á, B, C, D, E, É, F, G, H, I, Í, J, K, L, M, N, O, P, Q, R, S, T, U, Ú, V, X, Y, Z, Þ, Æ, Ö Af hverju þessi röð??? ] [ Uppá stól niður aftur Inn og út um gluggan Hvað er ég að gera Ég læt eins og allger háviti ] [ Ég sit hér á hreyflum í háloftum þeim sem aðeins fuglar og flugvélar fara fyrnindin fyrir neðan flykjast framhjá en fjandi er þetta langt að fara ] [ Líkaminn sekkur saman augun lygnast aftur og hljóðið fjarlægist slökunin er alger myrkrið breytist í liti hluti persónur úr fjarska kemur riddarinn á fáknum grípur mig í arma sína horfir á mig [ó þessi fagurgrænu augu] og segir Það er meira hvað sumir hafa það kósí! Ha? Ég opna augun og horfi á glottandi andlit kennarans. ] [ Mér líður ekki vel! Það er þungur steinn í maganum á mér. Mér líður ekki vel! Það er svart ský í höfðinu á mér. Mér líður ekki vel! Það er tómarúm í hjartanu á mér. Mér líður ekki vel! Það er dregið fyrir í augunum á mér. Mér líður ekki vel! Það er svartur blettur á tungunni í mér. Þú tókst steininn, þurrkaðir upp skýið, fylltir upp rýmið, dróst frá og afmáðir lygina! Mér líður vel. ] [ Vegurin ég tek er sá eini sem hér er hann grípur mig og kastar mér um steinar stoppa ei mína ferð til höllar lífsins við sjáumst á enda því endalausa sem bregur okkur upp á lífs gleðir sá sem okkur kemur til vina mun um allan tíma sjást i skýa ferð öldin er ung hún sem tímin gleipir nú mun mér aldrei bregðast við þó létt sé að reyna sé þá fallega bláa fugla og minn eigin förunaut sína mér rétta leið hinn eigin verndari íllt mun koma og aldrei gleimast hin fæddu merki og þau sem koma sein sendi hugsun góða til móðir allra endinn komi brátt undir okkar völdum sú breiting sem drepti allt gleimist ei ljósið mínkar leitin byrjar mér dettur hugsun í hug sem svikar mig ég sjé blóðið renna frá öllum hefur það upphaf vill aldrei hætta mín stjarna lýsir i fjarlægð hún nálgast fljótt til að eiða öllu sem sálin sér holan í mínum vegi opnast dregur mig niður i mirkur mitt skyn eiðist kaldar hendur grípa mig og rífa úr mér vitið það besta sem mun einkast mér ég missi jafnvægið hrapa til enda kem aldrei niður yfir mér liggur birtan og þau sem eru hinum megin horfa á mig mínka ] [ Gott ef ekki meira, vil eg segja þér, hvað þá ef ekki fleira, kemur í huga mér. Villtu hætta þessu bulli, Mín ástkæra frú, Ég gaf þér hirng úr gulli, Þegar þú varst mér trú. Ekki viltu neitt af mér vita, Langar þig ekkert mig að sjá, Ég allan daginn aleinn strita, Er að koma hafðu hraðann á! Ég ætla þig ekki að berja, kannski aðeins að tuska til, Í þér hvert bein mun merja, Ég geri hvað sem ég vil. ] [ Tunglið skín, og vísar mér veg, ég kem að dyr, mig enginn sér, ég banka. Ég geng inn, ekkert hljóð, Illska finnst, hræðslan nálgast, ég kalla. Með hnúann hertan, tilbúin er, ertu hvar, ertu hér, ég reiðist, Ég að þér kem, engin hreyfing, ekkert svar, tárin koma, ég elska. Ein kona, einn maður, eiga ást, núna horfin, kemur aldrei aftur. Ég um þig held, og græt þig hátt, afhverju þú? ég missi mátt, taktu mig með! Ég aldrei aftur, samur verð, ferðu burt, ég einn á ferð, Gleymdur. ] [ Hvíslaðu að mér vindur þeim sannleika sem bíður mín í framtíð Eyð minni óvissu Er lífið ljúft eða martraðar ganga? Óvissa er það sem nagar og skemmir mest af öllu. Vissan er næring hvað sem hún segir. Segðu mér vindur, hvað bíður handan þess sem ég sé? Endalaus biðin eftir svari vindsins deyðir mína sál Ég get ei endalaust beðið, þolinmæðin þrotin. Hvað er það sem bíður handan þessa lífs.? ] [ Hvernig ætli þa sé að vera þú í hugsunum djúpum eru þær staðfestar eða eru þær leitandi. þetta er orðið fokking þreytandi. Fylltu mig af gleði eða laumastu burt særðu mig á staðnum og láttu mig svo gleyma. Sú aðferð sú allra best er. Finndu ástina ] [ Allir segja að jörðin sé hnöttur, að myrkrið sé svart, að 1+1 séu 2, að himininn sé blár, að strákar séu karlkyn og stelpur kvenkyn. En hvað ef þetta er allt saman bull. Hvað ef jörðin er flöt, myrkrið er gult, 1+1 eru 5, ef himininn er grænn, ef strákar og stelpur eru samkyn. Hvað erum við þá? ] [ Ég horfi upp í himininn og stjörnurnar segja “hvar varstu” og ég var bara að reykja, en vindillinn er svo lengi að brenna, ég komst ekki inn, ég ætlaði að flýta mér inn en stjörnuhrapið brenndi mig upp til agna. Hver er ég nú? Logandi kominn af svölunum, hæ, af vindlinum laustur af stjörnu Nú er ég annar, hver er ég, farin í vinnuna, kem heim á kvöldin og borða kvöldmatinn og sofna vakna fer í vinnu, fitta í munstrið. Hvar er 597? ] [ OG allir vildu að ég væri allur. Ég er þessi sem er svo leiðinlegur, hvar á ég að vera. Farinn út á svalirnar að reykja, undralegt að festast í hugsunarhætti, farin að velja. Allir koma undan snjónum, þiðna, rífa sig upp og verða að sumri. Hvar eru allir vitarnir. Þegar öllu er hvolft deyjandi, en stjörnurnar lóna og ég horfi upp í himininn og ég sé þær glóa, sumar tifa en aðrar seigja “hvar varstu” en ég vel aðra til að reykja vindil, hann brennur svo hægt, ég varð alveg stjarfur. ] [ Hvar eru varnaðarorðin Hvar eru rasistarnir. Hvar eru framapotarnir, Hvar eru múrararnir, Hvar eru pípararnir, Hver er kristur jesú og drottinn almáttugur, Hver er ég . Hver er farin að vera með kærustunni minni. ] [ Verum það sem allir vilja og förum meðfram húsa röðum, föngum allar minningar, ætlum okkur tíma, biðjum um frið. Biðjum um frið, og verum það sem allir vilja. Finnum það. Hvað er það sem allir vilja? Sofum meðan allir sofa vinnum meðan allir vinna lifum sólahringinn. Hvar eru yfirburðirnir? Svart fólk með allar hendur? Vandað hverfur vinna fötluðum og fáráðum, veröldin, stjörnurnar, dekkin, gluggarnir, göturnar og speglarnir. Sæmilega gengur mér að fóta mig. Hvar er heimurinn og veröldin öll of viðkvæm. ] [ Hálir draumar eins og álar sem læðast eftir hafsbotninum og hverfa út í blámann. ] [ The painful strength of love Will lift me on wings above High over the clouds To a place there's no pain or doubts You have to decide if your in love or not In the end you might get hurt alot ] [ Ómstríðir hljómar voru notaðir óspart til þess að skapa tilfinningu Dauði, ást og hamingja og hjartað kalt til þess að skapa í verkinu hrifningu Til að láta tónlistina lifa orðið var örlagaþráðurinn spunninn Fleiri Virtuosar komnir á sjónarsviðið Gamall flutningur út úr brunninn Echo ýmist veikt og sterkt og hermiflutningur Annað hvort ljóst eða dökkt Tilfinningabarningur Kontratenórar voru falsettusöngvarar þeir fluttu verkið með glæstum leik Fallegar voru Bach's oratoriurnar þær voru ekkert feik Óperan skiptist í ýmsa hluta Forleik, einsöng, og sögumann samspilskafla og kórinn Áhorfendur þurftu tárin að strjúka þegar sverðið var stungið í hjartastaðinn Jean Babtist Lulli var einn sá besti með stafinn sinn úr blýi Illskeyttur, harður, einn sá frekasti samdi verk sem voru hið mesta prýði ] [ Það eru að angra mig draumar Óumflýjanlegar hugsanir og straumar Ég þrái þig svo mikið, að ég þjáist Ég reyni að fara með leynt, svo það ekki sjáist En ekki er hægt að leyna tilfinningum sínum Með þessari þöglu bið, er verið að níðast á tilfinningum mínum Endalaus bið að hinum fullkomna draumi að ég geti loks hætt að hafa tilfinningar mínar í laumi Ég veit að draumur minn rætist ekki í bráð En þegar kemur að því sem ég hef alltaf þráð Verður það of mikið að taka við Þegar maður hefur verið í svona langri bið Virðist maður ekki tilbúinn fyrir það sem bíður Ég fæ svo mikla verki fyrir hjartað að það svíður Ég þrái þig svo mikið, ég vildi að þú bara gætir skilið Að ég dýrka þig, ég er einmanna og vildi að þú gætir fyllt í bilið. ] [ Og enn og aftur læri ég að labba- hjálpa þér að finna aftur upp hjólið sem þú fannst upp í gær nýttir svo til að hrinda mér úr jafnvægi ] [ Ég vildi að ég væri bleikur glassúr á snúð svo myndi kyntröllið kaupa mig og snúðinn ganga út úr bakaríinu taka snúðinn upp úr klístruðum bréfpokanum sleikja mig af og sleikja út um (best að klára það besta fyrst) arka upp Bankastrætið með bleik munnvik sæta kyntröllið sæta kyntröllið í snjónum ] [ Þessi sem kom í grófan heiminn þegar lausláta apastelpan lagðist í sandinn og fæddi af sér þessa sem fæddi af sér Adam ] [ Jónas er tilfinningaríkur. Þegar hann var lítill drengur fór hann oft að gráta upp úr þurru. Á milli ekkasoganna reyndi hann að útskýra að tilfinningarnar umbreyttust í saltan vökva sem fyllti hann frá maga og uppúr og varð að lokum að flæða út um augun. Það skildi hann samt enginn. Í dag er hann orðinn 33 ára og fólk kallar hann Tilfinningaríka trésmiðinn. Hann hefur unun af því að skera út stóla og borðfætur og á meðan hlustar hann tónlist. Ceiline Dion er nýjasta uppáhaldið. “Þessi kona skilur tilfinningar. Það hlýtur að vera franska blóðið í henni... hún hlýtur að vera fiskur eins og ég,” hugsar Jónas og sleikir salt tár af efrivörinni á meðan tónlistin úr Titanic fyllir verkstæðið og hann leyfir hugsunum sínum að reika um í hafi tilfinninganna líkt og þær séu drukknandi DeCaprio. Vinnufélagar hans á trésmíðaverkstæðinu hata tónlistina sem hann elskar. Í fyrra tóku þeir alla Billy Holiday, Róbertu Flack, Shade og Julio Iglesias diskana hans, bræddu þá og gerðu úr þeim hræðilegan skúlptúr. Þetta olli Jónasi uppnámi í margar vikur en loks náði hann að hugga sig við tilhugsunina um að Kristur hefði jú líka verið smiður og að hann hefði líka þurft að líða miklar þjáningar fyrir það eitt að vera hann sjálfur. -Það kostar hugrekki að hafa tilfinningar þegar maður er karlmaður. ] [ Ég kasta mér fram af bryggjunni og finn kaldann sjóinn slá mig utanundir, sogast inn í fötin, fylla stígvélin og draga mig til botns. Dimmblár liturinn sem er inni á augnlokunum tekur á móti mér, saltið blandast saltinu mínu og ég sýp hveljur. Það gerist allt svo hægt í þessum bláma, en heitt og rautt hjartað slær þéttingsfast eins og graður trommari í blautum ljósum. Finn mig leysast upp og hverfa. Kuldi umbreytist í hita og í gegn um hugann brýst sekúndubrot af hugsun um einhverja efnafræði sem ég lærði á unglingsárum. Ég held að ég sé farin, finn allavega ekki mikið fyrir mér lengur. ] [ Kraftaverkalæknirinn þrammaði inn á parkettið á háhæluðum skóm númer 44. Aðeins nær Guði en við hin sem vorum á flatbotna. Hann sneri lófunum að okkur, lyfti höndum og sagði eitthvað um að ásjóna drottins lýsti yfir okkur. Ég fylgdist með svitadropa renna eftir líflínu vinstri lófa hans. Giltrandi svitaperla eins og silfurlitaður sportbíll á hraðbraut –og hugsaði hvernig það væri að vera inni í henni. Hafmeyja í svitadropa. Hann lauk bæninni með því að segja Amen, tók stóru bláu bókina undir hendina og þrammaði aftur inn í bakherbergið sem hann kom út úr. Ég sá að hann kreppti hnefann. Sá rúðurnar brotna í kringum líflínuna. Skýjakljúfa hrynja við hraðbrautina. ] [ þó þó það lýkur upp í ljós þú ert bara drós farðu út í fjós ekki fara í stígvélunum míííínumm.......... ] [ Megrunin tók ekki nema viku –þá var ég laus við sjálfa mig. Drakk duft í vatni á hverjum degi frá morgni til kvölds. Mánudegi til mánudags. Fyrsti dagurinn var erfiðastur. Vont að breyta um venjur. En þetta vandist á þeim þriðja. Ég elska mig núna. Enda laus við mig. Helvítis mig. ] [ Klukkan hálf eitt eftir hádegi hringdi vekjaraklukkan og Aron Erlingur settist sperrtur upp hafandi vaknað fimm mínútum fyrr. Skórnir voru við rúmstokkinn. Fallegu rússkinnskórnir frá Ameríku. Hann strauk þeim ástúðlega áður en hann reimdi silkireimarnar af stakri natni og gekk því næst nakinn, en skóaður, inn á flísalagt baðherbergið. Blátt og glansandi tannkremið smaug hægt út úr túbunni og hann fann tilhlökkunina hríslast um líkamann um leið og hann horfði vandlega á tilbúinn burstann. “Hvergi misfella, gott að bera að góm,” hvíslaði hann að sjálfum sér og færði burstann með fullkominni stjórn að framtönnunum. Byrjaði á hægum hreyfingum. Fyrst upp og niður, svo til hliðanna. Jók hraðann smátt og smátt. Klukkan tifaði á baðhillunni. Tvær og hálf mínúta. Hann burstaði áfram. Aðeins lengur. Þrjátíu sekúndur yfir tímamörk. Þrjár alls. Skrúfaði frá krananum og skolaði. Fékk sér sopa af fersku vatni. Garglaði duglega og spýtti að lokum karlmannlega í hvítann vaskinn. Fór fram, dróg rúllugardínuna niður, lokaði birtuna úti og setti Elvis á fóninn: Well, it’s a one for the money, two for the show, Three to get ready, now go, cat, go! ] [ Þegar ég bíð góða nótt munu myndirnar í hausnum mínum dansa í kringum herbergið mitt og ærslast í kringum rúmið mitt. Og... Þegar ég bíð góðan dag leynast myndirnar bakvið augun mín bíðandi eftir að raunveruleikinn skvetti marglituðum skuggum í kringum hreyfilausa líkama minn. ] [ Strætisvagninn stöðvast íííííík....hviss! Ég lít inn í vagninn sem er fullur af brosandi fólki \"Hvert fer þessi vagn?\", spyr ég vagnstjórann \"Í FOSSVOG\", Ég drep í sígarettunni, glotti við tönn og geng um borð ] [ Ég er fugl án fjaðra -reytti þær þó af mér sjálf Ég er maður án handa -hjó þær þó af mér sjálf Ég er ég án þín þó án þín sé ég ekki ég -hrakti þig samt burt sjálf Veittu öðrum hendur og fiður og sviptu mig sál minni Gefðu öðrum það sem mig vantar -þó helst ekki það sem mig vantar mest ] [ Ég hoppa um og reyni að veiða þig í galtómt hjartað sem vildi ekki hafa þig um daginn ] [ Please, let me love you girl You are my reason for living in this world You are the energy I need, to make it through Only way for my to live, is with you When I'm alone, I don't know what to do Please come back to me and stay Be with me and never go away I need you in my arm I will protect u against those who wanna do u harm ] [ Ég vil eignast þig allan en aðeins eina nótt brennimerkja þig svo versta martröð mín muni aldrei rætast ] [ Hvenær ferðu út. Ég er að spá í að hætta. Hættur við að hætta við að hætta. Þú ert fín í þessu. Ég er að fara til læknis á morgun. Góða nótt. Á ekki pening. Því miður. Hefurðu smakkað ísbjörn? ] [ Seconds are like days We all need to find our ways To get alive through this But already, I don't know where my love is ] [ I've told you my mind More perfect girl is hard to find But me, I was left behind Did you forgot about me Without you I don't know what man I should be I care for you, I always will My life's a empty place I'd like u to fill ] [ Hvað hefég gert til að eiga þetta skilið sérstaklega frá þér þér sem ég elska Ég get aldrei gleymt hvernig þú horfðir á mig með blikið í augunum og tilfinnigar stóðu skýrum stöfum í augum þér Ég horfði á móti og við töluðum saman án allra merkingarlausra orða heldur skildum hvort annað Við lásum úr augum hvors annars allt sem segja þurfti og nú skil ég að þar var ekkert annað en sönn ást ] [ When I saw you walk away from me I saw you lokk back and make thouse words with your lips Ilove you I burst into tears and thought I´m gona miss him but now when I´m with you I watch back and remember How it was to miss I love you and you love me and I know that we are going to be together forever ] [ Nauðgun er sár sárari en allt liggur sem fjall á sál þinni og lífi Við vorum bara tvö á flakki um bæ í strætó við vorum og áttum hann ein Hann keyrði af leið stoppaði langt í burt burtu frá fólki það var engin til hjálpar hann tók mig svo fast reif af mér pilsið nærbuxur um leið Tárin mín flæddu hljóð og köld niður kinnar og háls og skildu eftir leið Ég fann fyrir hörðum og stórum limnum hann þröngvaði sér inn og meiddi mig um leið mér fannst ég vera að rifna rifna í tvennt meðan hann hélt mér og nauðgaði um leið Ég beið þess að hann hætti fengi fullnægingu eða enhvað bara please að hann myndi hætta Núna sit ég og hugsa til baka hvað ég var vitlaus að reyna ekki að sleppa en ég get það bara ekki Þetta brýtur mann niður og eiðileggur sál mans þó svo sé liðið um 12 ár síðan allt þetta skeði maður getur ei elskast með unnusta sínum því minnignarnar koma þegar allra síst skildi ] [ Það er sárt þegar þú hringir ekki kemur ekki, lætur illa þegar ég þarfnast þín Ég drep mig mér líður illa sakna þín elska þig Nú ´se ég þú ert eins og hinir ríða búið bless ÉG HATA ÞIG Ég hef hugsað ég gæti drepið mig en ég geri það ekki met lífið og mikils Því ég veit það eru fleiri betri en þú betri en allt ] [ Hvar er ég ég þekki ekkert það er allt eins húsin fólkið allt Ég var hérna áðan ég fer í hringi hvað á ég að gera ég rata ekki neitt Mamma hjálp hann lemur mig Ég flý langt í burt burt frá honum Þar sem hann nær ekki til mín getur ekki lamið mig nauðgað mér, allt Hjálp einhver hann er að koma hvað get ég gert hann heldur mér Hjálpið mér þetta er sárt MAMMA komdu einvher bjargið mér Get ekki labbað hvar er ég hvert fór hann ég finn til ] [ Flóð. Opnum flóðgáttir hugans og leyfum hugsununum að leika lausum. Hugmyndir: Hvað ef við skrifuðum í hina áttina? Heilsuðumst með vinstri og hnepptum til hægri. Lifðum í heimi örvhentra? Flæði. Sleppum sköpun úr sálinni. Megi hún flæða um hendur mér þar til jafnvægi ríkir milli sálarinnar og blaðsins fyrir framan mig. Tréð sem vex táknar mig og ást mína: Einstök ] [ The sand warms my body The grains tinkle into every nook, every cranny. I turn around to face the sky as the sun is falling. I miss him. I had wanted him to make love to my skin Now I must settle. ... You give me your touch and I accept with a sigh. The moon observes our games with one eye And the night quickly passes us by. ... I awake as my lover returnes come morn. I feel ashamed and more than a little torn. ] [ Stroka pensils. Ég horfi á málninguna þorna á hlutlausum striga. Eins og skúringakona sem þrífur ósýnilegan blett, gagnrýna augu mín: Aldrei nógu gott, aldrei nógu gott. Penni færist yfir blað. Línu eftir línu fýkur hann og hellir úr sér visku, hellir úr sér lærdómi. Hrífandi! En samt heyrist hvíslað: Aldrei nógu gott, aldrei nógu gott. Hreyfing líkama. Handleggur, fótur, bak. Holdgerving tignar. Geislandi af glæsileik. En eitt skref of hratt, allt er ónýtt. Aldrei nógu gott. ] [ Take me. Take all of me. Take my body and combine it with yours. A unity of bodies makes a unity of souls. Take me, Take me by the hand. This is as close as we can get. Hold me. Hold me and never let me go. ] [ I guess some people are bound to dream a dream they can never have Come true. I guess some people are destined to live a life that before they've begun Is through. I guess I should not hope to someday, somehow Have you. But people have always wished for the undoable, dreamed for the impossible and sometimes Dreams come true. I guess for now I will just have to love with a heart that is alone. So blue. ] [ Ástin mín særði mig í kvöld, hún hélt framhjá mér. Eina sem ég finn í hjartanu núna er kvöl, því ástin mín er ekki hér. Ástin mín er með öðrum manni núna, í rúminu sem venjulega tilheyrir mér. Ást mín til hennar ætti núna að fúna, því ástin mín er ekki með mér heldur þér. En ég get ekki hætt að elska ástina mína, þótt hún sé núna í fanginu þínu. Hún með yndislega brosið sitt fína, ég vona að hún sjái eftir þessu allavega pínu. Hvað á ég að gera á morgun, á ég að segja henni að ég viti allt. Ætli ástin mín biður um vorkunn, og játi rétt um allt. Ástin mín hvað á ég að gera núna, á ég að taka þig í sátt. Eða á ég að láta ástina fúna, og leyfa þér að fara í rétta átt. Ég hélt að við ættum eitthvað sérstakt saman, en ekki svik og leiðindi. Ég hélt að elska væri eitthvað gaman, ég hélt að við stæðum hér saman. ] [ Ég nenni ekki neinu, ég sit við eldhúsborðið, reyki og drekk mitt kaffi. Ég horfi á listann með öllu sem þarf að gera, en geri ekki neitt. Ég veit að ég þarf listann að klára, og það helst í dag. Þrátt fyrir það sit ég við eldhúsborðið, reyki og drekk mitt kaffi. Hvað á ég að gera, hvernig fæ ég mig til að byrja á öllu því sem þarf að gera. Ég hugsa um þetta, á meðan sit ég við eldhúsborðið, reyki og drekk mitt kaffi. Á meðan ég sit ég við eldhúsborðið, reyki og drekk mitt kaffi. Hugsa ég með mér, kannski ég ætti að hætta, að reykja og drekka mitt kaffi, og fara að stað og reyna að gera eitthvað með viti. ] [ Hví ert þú að gráta litla hnáta Hví fylla hvarma þína tár, litla hnáta Hvað er það sem hryggir Kveikir tilfinningabál Byggir upp sorg og styggir þína sál Litla hnáta, litla hnáta Sólin er farin af himninum Ekki dugir að gráta litla hnáta dokaðu aðeins til morguns litla hnáta Sólin kemur aftur, því ég lofa Dansar á skýjum dísin sú Hún fór aðeins inn í kofa að sofa, líkt og þú Litla hnáta, litla hnáta ] [ Tónar um tómið leika Tímalaust, rétt eins og fyrr, Ákveðið, án þess að skeika En samt hún virkar svo kyrr; Tónlistin sem okkur teymir Tiplar á aldanna slóð, Sögurnar segir og geymir Sýnir oss fortíðarglóð ] [ Hleypa fram gleðitárum og í gegnum þau skynjum við dýrð heimsins í svifsjón, líkt og hann speglaður sé á vatnsfleti. Það er eins nálægt því og við komumst að upplifa unaðsóm veraldarinnar þar sem hún sleppir út nótnaskölum af tilfinningum, voldugt tónabrim sem sameinar hin hreinu hjörtu og hugi þeirra sem trúa á lífið. Sýnin er þó ófullkomin, gárótt og blekkjandi þar sem minnsta hnjask eða atburður getur komið af stað bylgjuhreyfingu sem skekkir myndina, og sama hvað við reynum þá getum við ekki lagað hana, tekið aftur atburðinn. Ekki frekar en við getum reynt að móta vatnið. ] [ Heimur ófyrirsjáanlegra örlaga víns og osta ástar og losta. Allt er heitt en samt svo kalt þykir svalt kaltsvalt en umfram allt falt Heimur þar sem ástin er föl náföl föl fyrir rétt verð, réttum manni í réttri stöðu öllum réttum mönnum höllum undir ódýrar tilfinningar ást í skyndibitaformi með frönskum og cokteilsósu afgreidd af þjónustustúlku sem átti einusinni framtíð framtíðin var björt nú er hún dáin tilfinningalega dáin spáin: svört ] [ Viltu leyfa mér að elska þig ég vil finna strauma þína fara gegnum mig leyfðu mér að tárast þegar þú heldur um mig ég vil vera með þér sem eftir er þetta væri skiljanlegra ef þú tækir eftir mér ég get ekki útskýrt þetta betur ef ástin væri blað, væri það ósýnilegt letur engin getur skilið það, letrið blindar Ástin er blind ] [ Úti er myrkur komin er nótt, ég sit alein hérna heima, en mér verður ekki rótt, því draugarnir um allt hér sveima, það boðar ekki gott, mér hlýtur að vera að dreyma. ] [ Augnlokin þyngjast, ég er svo þreytt. Hendurnar dofnar, ég ræð þeim ekki neitt. Fæturnir kyrrir, þeir fara ekki neitt. Ég ligg uppí rúmi, en sofna ekki neitt. ] [ Varir þínar svo rauðar, sem ný útsprungin rós. Hörund þitt svo hvítt, sem ný fallinn snjór. Hár þitt svo fagurt, sem svörtustu hrafnar. Sál þín svo saklaus, við fegurstu ljóð. ] [ Follow the light And everything is gonna be alright Come to my arms tonight I never wanna lose u outta my sight ] [ Í dag er stórþvottur. Sá máttugi þvær borgina rigningin sópar rikinu í niðurföllin sem hafa vart undan elgnum. Einstaka Mannfólk hraðar sér leiðar sinnar hvergi sést köttur þökin á húsunum syngja af fögnuð. Ég sit inni en ætla út. Út að hlaupa um blautar auðar götur eins og Palli sem var einn í heiminum. ] [ Tárin renna heit niður vota vanga mína Flóðið vill ekki hætta Hvað gerði ég rangt sagði ég eitthvað vitlaust móðgaði ég þig á einhvern hátt Þarftu að vera ein má ég koma viltu að ég fari haltu mér slepptu mér, hvað á ég að halda vilt mig vilt mig ekki hvers á ég að gjalda. ] [ Lífið er ljúft og dásamlegt Gott það er að lifa En lífið er ei óendanlegt Klukkur ávalt tifa Nauðsynlegt er að njóta þess Og nýta það ég tel Vertu ávallt glöð og hress Þá líður þér alltaf vel Stundum er samt lífið leitt Þá tíminn læknar sárin Þú ein getur því samt breytt Þurkaðu af þér tárin Mundu eitt sem mikilvægt er Að hlusta á þitt hjarta Því eftir þessu framtíðin fer Hvort átt þú hana bjarta ] [ Er ég loka augunum þú ert mín fyrsta sín því fórstu frá mér ferlega sakna ég þín Mín sál er sorginni bundin minn hugur er að sökkva hvað get ég gert ætti ég að stökkva Mitt hjarta hamast mikið það hættir brátt að ganga hvað er hægt að gera hef ég hugmynd ranga Ég get ey lengur þraukað ég veit að það er ljótt ég svíf skelfingu lostinn vonandi sjáumst við fljótt ] [ Á balli mig bölvaður aumingi sló ég tuskaði hann til og barði ég settist niður og skelli hló er ég sá að hans auga ég marði Hann vildi fara en fór að væla ég sá að hans fótur lafði ég horfði niður, hvað var ég að pæla ég brotið hans fætur hafði Á sjúkrahús hann var á settur mér fannst ég vera sauður ég sat og starði eins og klettur staðreyndin var sú að hann var DAUÐUR ] [ Mikilvægur maður fæddist barrokk aldarinnar Á daginn friður um hann færðist eftir trúardýrkunarinnar Undir hirð Kongins var hann útnefndur í starf Ávallt naut hann söngsins gaf Englendingum mikinn arf Dido og Aeneas var snilldin ein Stúlkurnar kunnu það að meta Í heimavistarkóla slitnaði reim svangur og þurfti að éta The Fairy Queen var enn annað sem hann eftir sig skildi stelpu var það ekki bannað Ef hún sjálfan PURCEL vildi Fantasíurnar hans sýndu og sönnuðu tækni kontrapunkt hans Alla þær heima könnuðu að konungsveldið vildi krýna hann með krans ] [ Himnarnir grétu yfir óförum mínum krakkarnir hlógu hann hló ekki ] [ Útsýnið yfir pollinn er ægifagurt í kvöld þar baðar sig blindfullur máninn með blikandi stjarnafjöld og ljósin við götuna lýsa í lognværum bæjarins óm á dömu á háum hælum og herra á burstuðum skóm Þau slompuð um götuna slangra slefandi í glösin sín syngjandi drykkjusöngva "já, sjómennskan er ekkert grín" að húsinu mínu þau hallast og hávaðinn stöugt vex á endanum eru þau komin í alvarlegt hjónapex Er heillaður á þetta horfi í huganum lofa ég hve gatan sú arna er orðin asskoti menningarleg og góðar eru þær gjafir sem gefur mér bærinn minn er peyjar á pöbbarölti pissa í garðinn inn ------ Ég veit, er ég vakna á morgun og vappa úr garðinum út þar æla á götunni grúfir við glampandi flöskustút hlandið á stéttinni stiknar sterkjan er ilmandi hrein og dauðhreinsað dömubindi damlar við rennustein Þar litlu börnin sér leika í leifunum frá í gær gullin sem nóttin gaf þeim gleðja sem endranær og mávar í krásirnar kroppa krummi er eitthvað að spá hann gráðugur fær sér í gogginn ef gefst honum færi á túristinn festir á filmu hið fagra umhverfi mitt norðlenskum mannlífsmyndum svo mokar í albúmið sitt hann færir í bókina feitu fróðleik um Íslandsdvöl hlandpolla, glerbrot og gubbur, Goðapylsur og öl -------- með útsýni yfir pollinn ég andvaka bylti mér ég elska þig gatan mín góða og glauminn sem fylgir þér ég veit þitt háleita hlutverk við heiminum öllum skín sem bæjarins besti kamar blessuð Strandgatan mín ] [ Ég vildi að ég gæti, horft í gegnum augu þín. Séð hvað þú hugsar, því mér finnst erfitt að skilja þig. Hvað þú vilt, hvað þig langar. Því mér líður nú þegar eins og þú getir lesið hugsanir mínar. ] [ Stendur á brúninni, svitinn perlar á enninu tárvotar kinnarnar, rauðar sem logandi eldur. Þú hugsar, reynir að hugsa en hugsanirnar flækjast saman, hnýtast saman, renna saman í eitt. Sársaukinn í brjóstinu, hjartanu, sársaukinn í sálinni, svíður, stingur, kvelur þig og étur upp að innan. Þú klemmir aftur augun, tekur eitt skref fram á við fellur niður, hrapar.. ..Ennþá er allt í lagi.. ] [ Tímin líður,já líður og líður. Konan í blokkini bíður og bíður Því hennisvíður og svíður!!! ] [ Now the world has come to an end! We are doomed to perpetual suffering. Unless we end it ourselves! Then we´ll roam around in Purgatory forever. If you end it for me , you´ll burn in Hell, but I´ll go to Heaven! But that won´t do, ´cause I don´t want you to feel pain. I don´t want to die, but I don´t want to suffer either. Why, oh why does the apocalypse have to come now? Why can´t it come when I´m already dead? ] [ Ég sit og stari á sjónvarpsskjáinn Sé þar hörmungar miklar Kemur við sögu maðurinn með ljáinn Krakki liggur og spriklar Barnið skotið var í barminn Því barist um olíu var Horft vart út um gluggagarminn Á börn með skotsár og mar Að stríð sé réttlátt þvílík þvæla Bush með sinn mátt og miklu stæla Bandaríkin með því mæla Að myrða fólk og pynta þræla Saddam er samt miklu verri Algjör er hann sauður Fjandans fífl og óþverri Ég vildi að hann væri dauður ] [ Þetta eina kvöld kvöld illsku og haturs stöðvaðist hjarta mitt, blóðið storknaði og hugur minn hvarf. Það var fullt tungl, vonskan tók völdin, át sig inn í mig. Þetta var ekki ég, aðeins líkami á sálar með tómt hjarta. Ég bið þess að þetta kvöld, kvöld illsku og haturs, hefði aldrei runnið upp aðeins verið martröð. Martröð sem stöðvaði hjarta mitt. ég mun aldrei gleyma þessu, þetta situr á sálu minni -að eilífu. ] [ Þú ert fæddur í þennan heim, heim illsku og ástríðu afhverju? hverja einustu sekúndu hvert einasta andartak, ertu að læra eitthvað nýtt afhverju? þegar þú ert að ná þínum takmörkum, læra á lífið, deyrðu, ferð á annan stað í annan heim. afhverju? Tilgangur lífsins er spurning spurning sem enginn á svar við afhverju? ] [ Ég er hrein mey lítið og saklaust grey þarf að fá mér að ríða, það má ekki bíða. Drengurinn reynir og reynir ekki á hann sér leinir að hann á í mesta basli að troða inn þessu litla drasli! ] [ ég ráfa um í myrkrinu í leit af ljósi, það er eins og það dimmi við hvert fótatak ég sé ekkert, allt er svart í hringum mig. Ég hrópa á fólkið enginn svarar. fólk gengur utan í mig allt verður svartara, að lokum fer fólk að ganga í gegnum mig ég er ósýnileg í myrkrinu ] [ Þið munuð öll deyja, lífið rennur frá ykkur. Dauðinn étur ykkur upp, fólk mun sakna ykkar gráta, en svo eruð þið ekkert, gleymd undir yfirborði jarðar. Með dauð blóm, mosa og illgresi. ] [ María, María þú yndisfríða mey mín synd er sú, og hlustaðu nú: Ég hef barið og blótað, ég bræðrum mínum hef hótað. Fólk hef ég svikið og svívirt. Nú fer ég á kné. Líf mitt er sori en sál mín er spýtnabrak Nú leggst ég á magann, Já, refsaðu mér. Ég bið bara um eitt og ég bið þig svo heitt fyrirgefðu mér, skref fyrir skref svo að lokum skulda ég, ekki neitt. ] [ Sei sei, sjáið flokkinn þann sem tiggin merki stoltur ber og verkalýðinn válegan hann virðist bera á herðum sér. ] [ Er við leggjumst undir sæng Ó, hitinn grípur mig Ég tek þig undir minn væng Því ég mun ávallt elska þig Ástin mín, ég mun ávallt vera hér Ég mun alltaf hlusta á þig Á vandræði sem þú vilt deila með mér Því þú getur treyst á mig Ég vil finna blossa í hita þínum Ég vil ekkert segja Liggðu hér í örmum mínum Því hjá þér vil ég deyja Ég hvísla í eyra þitt Ég elska þig svo heitt Þú átt allt hjarta mitt Hjörtu okkar eru sem eitt ] [ When I first met you I knew it was true Your eyes could make me cry Because the beauty came from you I could feel the perfection walking by But could such a perfection be real I never knew such a girl I cannot describe the way I feel I could not give her to the world Do I have what it takes to ask you out Will you ever look at me and say That your loving is no doubt And you will love me every day All my heart, you I give You are the one I love Rest of my life, with you I live So I might fly on wings above All my love I give to you This world has given me only madness Murdering you is what I might do So I might die in sadness I love you so deep I just really do I put you down in neverending sleep So I may always be with you Now, again, I will never see your face Because I murdered you in cold blood And send you to a better place Where you will be taken in warm embrace ] [ Ég loka augunum, og sé fyrir mér dauða þinn. hvernig ég drep þig á dimmu kvöldi. Guð stendur með mér og skolar burt sönnunum með gleðitárum himinsins!! ] [ Hjarta mitt frosnaði, og er hart eins og grjót enginn getur fengið það til að slá aftur. Afhverju gerðiru þetta afhverju sveikstu mig? í draumum mínum þeim góðu ertu að hengja þig ] [ og við gengum eftir steinlagða veginum upp í móti hann virtist langur og þegar við komum upp sáum við alla týndu mennina sem kannski vorum við sjálf ] [ ef við liggjum í sóleyjabeði innan um vélfugla og fjarstýrðar flugur þá skiptir engu máli hvað við segjum því það er ekki raunverulegt bara sóleyjarnar skipta máli og þú og ég... ] [ Ogni giorno io guardo al tuo face perché tu sei brava, intelligente e interessante Ogni giorno io leggo il giornale per sapere il mio mondo Ogni giorno io vivo per ogni momento perche ogni minuto e precioso La vita senza te, e come un cielo con un grand nuvole, che piancere. Ho fame ,perché mamma mia non aveva fatto un pranzo per me. Durante questo secondo, qualcuno non vivere di piú, e morto. Morto e senza parole. Al volte, la vita e misterioso, nessuno sai la verita del Dio. Dio nostro, sa tutto la veritá, almeno il giorno quando io morirá. ] [ þegar hún kom í heimsókn virtist allt vera stillt augun tindruðu ekki eins og fyrr og hún sagði mér frá því sem hún hafði séð á fjarlægum stað hún hélt að ég væri dáin en hún vissi ekki að það var hún sem var dáin ] [ L'eglise est prés de la mon maison. Je veux aller en dimance e fare des question pour DIEU. Le chiel e clair comment l'eaux Je dis a mon ceur. Je veux vivre le prossiem cent anni. ] [ Perché stare silenzio Ogni persona bisognio a communicare avere opinione della problema Non stare silenzio Perchio io grido al cielo Dimmi dio la veritá del'eternitá Dio dice : Io ti dico nulla Basta cosí: "Vai via a casa tua guarda la luna piena, e quando il sole splende" ] [ Hjörtu okkar slá í takt við erum sem eitt, þegar ég ligg í faðmi þínum og horfi á stjörnurnar, horfi á himininn, og sé tunglið lýsa upp hjörtu okkar, veit ég það, finn það, að við elskum hvort annað. ] [ Án þín er ég ekkert fólk sér mig ekki, tekur ekki eftir mér, og heyrir ekki í mér Með þér er ég allt fólk sér mig, tekur eftir mér og hlustar á mig. ] [ ég fann þegar síðasti blóðdropinn, sá síðasti í líkama mínum rann úr mér.. Ég hætti að anda, hjarta mitt stöðvaðist ég var dáin. Sálin yfirgaf líkamann, ég horfði á sjálfa mig föla og sálarlausa með bláar varir, liggjandi á blóðpolli. en mér leið vel. döpur ákvað ég að halda lífinu áfram, ég fann þegar hjartað fór að slá, heyrði veikann hjartslátt og grét kristaltárum ekki af gleði og ekki af sorg aðeins fyrir að fá að vera hér og lifa þessu lífi lengur. ] [ mér er svo heitt, það logar allt í kringum mig ég er í helvíti ein og yfirgefin með brunasár á fótunum eftir að hafa reynt að stökkva og teygja mig til lífsins. ] [ Einhvern tíman áður fyrr augum leit ég á þig. Alveg er ég sannfærður, þín augu sáu mig. Ef til vill andartak Ógleymanlegt var. Síðan hef ég leitað alls staðar. Einhvern tímann síðar til baka lítum við ] [ Óhugsanlegt er að vera frjáls, Og sparka í hurðina þangað til að maður verður hás, kaupir lás, og þyggir bás, auðvitað lætur maður á þessa rás, En einmitt, ég sagði þér að þú ættir ekki að vera í svona fötum, en því miður eru allskyns margar skötur, og einmitt að ég sagði þér ekki að kaupa þetta, þú ert algjör sígaretta, veistu útaf hverju? af því mér er alveg sama.. ] [ Segð´aldrei það, sem í hjarta mínu vonar! Segð´aldrei það, í nafni föður og sonar! Segð´aldrei neitt sem lýsir huga minn! Segð´aldrei neitt, það er best nú um sinn. Hjartað læst og lykillinn týndur. Þú varst mér næst og draumurinn sýndur. Hvað var það sem vakti huga minn? Væntanlega bara veruleikinn! Segð´aldrei það, sem vaggar minni sál! Segð´aldrei það, sem í henni kveykir bál. Segð´aldrei neitt um hamingju mína! Segð´aldrei neitt sem ást kynnað sýna! ] [ Eitt skref á gangstétt (það sem ég var að hugs...) tvö skref og svo framvegis. ] [ in the night, i wake watching you as you lie there, so quiet so calm. feel the uglyness inside fly away. you make me who i am today. my sick toughts seem so far away. your skin so soft, so beautiful you are. your breath so steady and deep. feel so save with you. you strong like a man but soft like a little boy inside. all this room for you, but still can´t let you in. a part of me can´t live without you, and a part of me is afraid of you. im afraid of you because i love you so much. and maybe you will go away, then im left with nothing. just a grave to play with. ] [ where is the anger, i once felt for you. where is the pain, i once felt so deeply. where is the blackness, i once had over me. all gone? all i can feel, is love. all i can feel, is joy. all i can feel, is save. all i can feel, is you. where did it come from? þks ] [ if i fall asleep, then wake me. so i don´t fall into my ugly world of petreyal. were nobody can see me or how bad i can be. the water drowns me in blood there. i can´t stand up, can´t call for help. were things are done to me, were people hurt. were i die. if i could wake forever, i would... then i feel safe, so safe. black tears of sorrow, they take me trough the night. again and again. and when the morning comes, be there-(x2). þks ] [ once, there was a girl. she lived in a beautiful house and her walls made her save. but one day, somebody came into her house, broke her walls down and took her smile. the girl ran out, got lost, and was never found again. ÞKS ] [ i was born, in fear i drowned. i knew one day would come a great day. the day i died. black clouds all surrounded me. the salt in the sea cleared away. the blood in my veins dryed up, and the the skin of my body was so attempting. I took the knife so tender I tore open my wrist Yes it's a great day for now i dance in death. for now i sleep. ] [ a long long time ago, seeing you soul. these words just cut my heart, and my sun went down. my world came down again, and you touched my hand like a devil child and down in blood i drowned and my body got numbed i asked you to stop but you just went on and on and on again. your face, your smile... just went up in flames, no shame,just game i was put in a dark place. im just crying i can´t stop hiding you face...in flames. ] [ elsku pabbi, elsku pabbi, taktu mig í fangið, syngdu með mér, vaktu þar til ég sofna, haltu fyrir mér vöku, breiddu út gullvængina þína. elsku pabbi, elsku pabbi, vertu glaður, ekki gráta, leiddu mig gegnum lífið. settu mína hönd í þína, leyfðu mér að finna öryggið. breiddu út gullvængina þína. elsku pabbi, elsku pabbi, þig enginn getur meitt, þú ert svo sterkur, þú ert svo stór, ég er svo lítil. verndaðu mig. síðan ég var lítil, þessi orð eru alltaf, verð að vita af þér, nálægt... breiddu út gullvængina þína. ég elska þig þín alltaf.....dódí. ] [ ég hélt að ég vissi, en ég vissi ekki neitt. ekki einu sinni pínulítið. ég hélt að ég mundi finna, en ég fann ekkert, bara bleytuna af regninu. ég hélt að ég vissi hvað ást væri, ég vissi ekki neitt, ég var með hjarta sem ég fann ekki fyrir. ég hélt að ég vissi hvað líf væri, ég vissi ekki neitt, ég var ekki lifandi. ég hélt að ég vissi hvað dauði væri, ég vissi ekki neitt, ég fann sjálfan mig bara dauða í þögninni. ég hélt að ég vissi allt, í rauninni ekki neitt, ég vissi að þegar þú sagðir mér og útskýrðir, ég fann þegar þú umvafðir mig heilbrigði að nýju, ég þekkti ást þegar þú tókst mig í þinn faðm, ég vissi hvað líf var þegar ég fann það i sjálfri mér, ég vissi hvað dauði var þegar ég upplifði hann að alvöru. nú skil ég mikið en ekki allt, en það er allt í lagi, því það er erfitt að gefa dauðri sál líf aftur. þks ] [ ligg í heitri sænginni með kaldar tær, finn hvernig hárin rísa á bakinu og sængin opnast. finn heitan líkama þinn koma aftan að mér, finn hitann sem umlykur mig. öryggið sem kemur yfir mig. sterku hendur þínar halda mér fast. finn andardráttinn þinn læðast upp hálsinn á mér, lyktin þín lætur mig hitna að innan. þú segir mér að þú elskir mig og heldur mér fastar, býður góða nótt. eitt tár læðist úr auganu mínu, og ég þakka fyrir að vera hér, að vera elskuð af þér. fæ verk í hjartað og andardrátturinn minn verður þungur fæ fiðrildi í magann. ég elska líf mitt núna. ég er hamingjusöm, ég elska þig. ] [ when everything has drowned in your world, i want to be the one drying things up for you. when you have been in a fight, i want to be the one kissing your scars. when you cry and laugh, i want to be the one holding you. when you get sceard, i want to be the one telling you that everythings going to be okey. i want you to know, i want you to know, i want you to know that im here. þks ] [ when the night comes in, i think about what he did, my body starts to shake and my soul closes. i close my eyes and imagine everything is okey. then i feel your arms around me and remember, how loved i am and the fright goes away. as long as you are here with me nothing can touch me. you open your eyes and ask if im okey. i always say yes so you can sleep. but im wishing we can go haunting. so i can feel save again. i want that fucker dead. i wish that thing would go away but it will never go. that feeling, that stupid feeling. that feeling of blackness and surrender. i can´t hide myself from you anymore, tears just run down my face. and you look at me with that beautiful face, and just make me all better again. i love you. ] [ long time ago, i felt pain. long time ago, i felt sceard. for a while my mind was not in the right place, for a while i could hear my heart cry. it´s funny how one thing can change your life, who you trust and who you love. i find it hard just getting up in the mornings, im sceard of living...what a chicken! i don´t want you to see in me, because all you will find is sorrow. i want to feel your arms around me in the night, then maybe i can sleep with my door unlocked. ] [ if i were a stone, i would pull you into darkness. were you could brake my soul over and over . so i can put it back together again and again. then we have something to do all day long. ] [ im covered in blood. it runs down my face and i ask for forgiveness. my heart so black by what i did today. im not fine. i feel your voice and screaming burning my face. its getting cold. its so easy to give up now, but i can´t. please help me trough this pain i have hidden. please. ] [ sindful shame, shame upon me. wisper of the night, of the darkness. come take me away, take me to my grave, birds of wisdom...come follow me. ÞKS ] [ stop hurting me, stop wisitting me at nights, you devil. my flesh you rape over and over. i am so tired of this. why did you scar me so long ago. ÞKS ] [ if you get to close, i´ll push you away. because i have been stolen so many times. you know i bleed inside, so thank you for staying. i don´t wanna waist any time, i want it all now. before you wake up and relize that im nothing. im covered by skin, so undress me, make me feel. be real, let me know that you are there. sometimes i know, but i can´t see. all the times that i have played dead, is just to get away, to be cold. sometimes i feel nothing because it hurts to feel. once we were, now we are, but how long? my grave is ready for my lost darkness. so let me be in peace, just stay. i´ll get better, all for you and all for me...us. we were meant to be...fait. today is fucked up, tomorrow will be okey. so, need while i bleed. hold me, when its cold. understand, what i don´t understand. if you don´t, just pretend. just see in me, see how good i can be. ] [ like a big drum, it beats slowly and loudly. when i listen to it, i feel so quiet so calm. this is the thing that keeps you breathing, keeps you alive. this is all you. no one has the same noise in their heartbeat. and yours is just.....yours. i think, i don´t think i can only see, see you. þks ] [ Að eiga sér draum er mikilvægt, breytir lífi flestra manna, að ná honum er kannski hægt, með vinnu og striti allra anna. Draumur minn er langur, Lengi lifi draumaland, Í draumi mínum er enginn gangur, Bara ævintýri sem situr strand! Ó Guðveig villtu gefa mér líf, Mig vantar einhverja stúlkukind, Einhverja góða og ástar víf, Sem baðar mig í næstu lind! Þar sem fossar geysa og áin rennur, bíður eflaust mín eina von, Þar sem ástin lifir en hatur brennur, Kem ég til með að eignast son! Í minni hjartans laug, Er ætíð gleði, Þar sem fuglinn flaug, bíð ég í blómabeði! ] [ Hann heyrir ekki aldrei neitt. Röddin bærist hljóðlátt hvísl í roki sjálfumglaðs hjarta. Hjá honum er hún óboðin þögnin. ] [ Ljúgðu ekki kæri vinur, ég sé sannleikan í augum þínum. Sama hvað þú segir, sama hvað þú gerir, augu þín munu aldrei ljúga af mér ] [ Kappklæddur róninn situr á Austurvelli í sumarsólinni spyr einskis, leitar einskis. Tómur sprittbrúsinn liggur við hlið hans. Eins og fráskilin hjón fortíðarinnar. ] [ Sumir hafa stóra drauma um réttlæti og frið aðrir hafa stærri drauma um að komast út úr rúminu. ] [ Það segir alveg sitt stoltið og þrekið. Þú hefur hjarta mitt höndum tekið. //////////////////////////// Ég er tilfinningum trúr treysti núna mínum. Þarna er freistinganna flúr í faðmi þínum. //////////////////////////// Tær er lindarinnar laug líknin öll hjá þér. Römm er tilfinningataug teikn öll koma hér. /////////////////////////// Það er tæpitungulaust talað öllum stundum. Því að hjarta mitt þú hlaust á heitum endurfundum. ////////////////////////// Hvernig er að eiga ást einatt er þú vaknar. Vita að þá beygur brást bíður sá er saknar. ///////////////////////// Þú ert mér glóandi gull og gimsteinaskrýdd þín sál. Í mér er ástin svo flóandi full funheitt ástarbál. //////////////////////// Þú hefur mig í einni andrá allan heillað gullið mitt. Einsog fögur baldursbrá beint í ljósið hitt. //////////////////////// Reglulega í ástum rík raun ef ei má gæla. Aldrei var mín ævi slík undrun, vonir, sæla. ] [ I don't wanna be down But my life has come to an end But still I'll be around And these word to you I send All my love I give to you And I just need your love So I can make it through I love you my dove Be mine for the rest of time But can such love be true Will you always be mine I will always love you ] [ í augunum sá ég glampa, sá glampi kom frá sálinni. sálin sá í gegn um augun, augun gátu ekki logið. ] [ Svara skal nú skellunni, enda er hún ferleg. Forðast bit frá kellunni, enda beitt og sérlegt. ] [ Eyjan mín græna svo fögur er, Í hafsins bláa mystri. Þá blasir landið yfir mér, Og frostið vatnið frystir. ] [ Sumt er betra og annað best, Sit og læt mig dreyma. Um fagra konu og hvítann hest, Sem ég get átt hér heima. ] [ Sit ég hér og hugsa,um ævintýra lönd, Álfa,kónga og falleg fljóð. Bláann himinn og sólarströnd, Með andan yfir vötnunum og irki mín ljóð. ] [ Þú færð náttúrunnar ein að njóta ég neyddist til að brjóta blómastelki í blómvönd handa þér bónorð aftur færð frá mér ekki segja nei, ekki segja nei. Mér er sama hvað fólkið sagði ég skar burt hjartað og á borðið lagði tregafull nú tárin falla tómt mun brjóstið á þig kalla ekki segja nei, ekki segja nei. Ég veit að hátt í huga þínum hangi ég, líkt og þú í mínum vitum að sambandsslitin voru morð því slíkri ást lýsa engin orð segðu núna já, segðu núna já. Hérna er mín hinnsta kveðja hugsa að þig hún muni gleðja ekki annað orð í eyra þér aftur nuntu heyra frá mér segðu núna já, segðu núna já. ] [ Augun þín svo blíð og blá blunda í huga mínum. Verst að ástina ekki má efla í faðmi þínum. ] [ Þá er komið að sorgarstund söknuði og tárum. Bið að fljótt við endurfund fái koss að sárum. ] [ Þú færð hérna ástin mín eina allt sem ég hef að gefa. Ég vil þér hamingju hreina í hendur þínar vefa. ] [ Sjálf mitt var á ferð og flugi fann ég loksins ástina. Felldum saman hjörtu og hugi held ég enn í vonina. ] [ Það ólga í mér unaðsstraumar einn þá er með þér. Dáleiddur um okkar drauma að dvelja nú hjá þér. ] [ Þú ætíð ert mér efst í huga engin kemst þar nær. draumana ég læt nú duga og dýrðartímann í gær. ] [ Release my heart however you vill do that I will always love you whatever you put me thru. And when will you ynderstand I only want your hand forever with me holding you close to me. ] [ Tilfinningin um mig streymir Reyndu meira og þú gleymir, minningarnar af nótunum sem þú gafst mér. Fannst mér eins og þér og mér væri eins og aðrir hver. Afhverju vildiru minningunna, Því vildiru að ég vaki yfir þér, og gleyma hvernig ég fann tilfinninguna, en þú áttir þetta alveg sér. Afhverju ég? Ég er ekki merkilegur auðvitað, hlustar engin á mig, frekar hlustar hann á þig ! ] [ drungi og hrollur hráslagalegur dagur í febrúar herskáir sýklar í hálsi hefja stríð heilagt stríð heilinn er dofinn hugsunin sljó hárið blautt og kalt hörundið þvalt hrollur og hósti hráslagalegur drungi í augum ] [ Menn og jakkaföt, gleraugun detta ofan í hádegissúpu. ] [ Opin minnisblokk, lyklaborðið útatað, nú þegir síminn. ] [ Ég þrái þig svo heitt Því þú ert minn vinur En nú ert þú farin hvað geri ég þá ?? Hjartað er fullt, fullt af söknuði Ég reika einn og leita þín Ég hef leitað í löndum og um höf Ég finn ekki þig bara sting, sting í hjartanu í mér ] [ aftur bara þú og ég í baðkari af viskí, vodka og rommi, syndandi í söltum tárum gærdagsins, syrgjandi það sem var og verður en átti aldrei að vera. teymum sótsvört ský hversdagsins frá gluggum sálar minnar og brjótumst inn í draumana og háfleygan tilganginn, fáum far hjá baðkari frá helvíti til himna, sköpum heim þar sem veðurfréttirnar og bæturnar og menntunin og herra Ödipus á neðri hæðinni sem er alltaf tuðandi um handklæði sem ég stal fyrir slysni af snúrunum í fyrra, eru sammála um það að ég sé topp klassa náungi sem á skilið tilbeiðslu frá heiminum eins og hann leggur sig. og á morgun, þegar þegar ég hef sannfært sjónvarpið um staðfestu mína hvað varðar innri lit hafsins og að engin þolir mótlætið eins vel og ég eftir baðkar af viskí, vodka og rommi, þá mun ég vakna í drasli dauðans, líta í spegilinn blessaða og spyrja: er guð til? ég sá litla stelpu. svart sítt hár niður á axlir, dökk brún augu og lítið nef. Hún var í ljósbláum kjól alsettum hvítum blómum, hélt á skólatösku, faðmaði hana að sér, hoppaði niður götuna og brosti til mín saklausu brosi. ég gat ekki brosað á móti, því að það vantaði á hana annan fótinn. það skipti samt engu máli, hún var bara í sjónvarpinu. bara þarna, styðjandi annarri hendinni við vegg er hún strýkur svitann af enninu og klórar í eina hnéð sitt. ég er hérna. ekki á ég að synda til hennar og halda í höndina á henni? það er fólk sem gerir það fyrir mig. sem gefur samvisku minni frí frá eymd hennar og hjartabrjótandi brosum. svo hættu að pota í samviskuna mína. þú hefur engan rétt til að teygja þig í gegnum sjónvarpið og klóra gat á drauma byggða á fornum syndum sem gengu í erfðir frá mínu fólki. þú hefur engan rétt. þú ert ekki hérna. ég er hérna. ég á þennan heim, ég á þennan draum, þetta er mitt viskí, mitt vodka, mitt romm. og ég hef allan rétt til að baða mig í mínum saklausu syndum, vakna á morgnanna í drasli dauðans og spyrja: er ég til? ] [ Þar sem eldarnir kvikna og brenna þar sem vötnin flæða og renna þar sem vindurinn blæs og hvín þar er ást mín til þín Ást mín til þín er alls staðar ] [ Ég sit og horfi út um gluggann myrkur og strætó keyrir fram hjá Ég sit og hugsa um allt sem ég hef eignast með þér ótal minningar um ótal ljúfar stundir Með þér hef ég lært svo margt aðallega þó að elska skilyrðislaust Ég elska þig Ég sit hér og hugsa um þig með þér hefur líf mitt orðið svo ljúft Hugsa um þig ] [ Ég ætla að hlæja í alla nótt Þar til ég tárast Og um leið og tárin renna niður kinnarnar á mér breytast þau í stórt H og lítið a og tárin syngja Ha Ha Ha eins og lengi og þau endast - í alla nótt ] [ Ég efast um ágæti þitt kæri veruleiki svo virðist sem öll þau loforð sem ég sagðist svíkja munu dafna í tilveru þinni Ég efa tilveru þína kæri veruleiki spurði sjálfan mig í morgun hvers vegna líf mitt væri eins og það er og týndi þér Ég mótmæli sakleysi þínu kæri veruleiki vonarneistinn dafnar svo vel er þú ert fjarri týndur í draumi ] [ Við tvö á gangi Jökull prumpar verður skömmustulegur Ég segi að þetta sé allt í lagi það sé gott að prumpa úti því þá gufi þetta bara upp út í loftið Upp í skýin segir hann spyrjandi já segi ég Til englanna í skýjunum spyr hann já segi ég Þá segja þeir bara “Hver á þetta prump” segir hann hróðugur ] [ Jóhannes er að verða fimm Hann keypti sér tattoo í dag Vatnsleysanlegt Hann veit að það er líka til tattoo sem er fast Fer aldrei af Ekki heldur þegar maður deyr Nú spáir hann í hvort til séu tattóveraðir englar ] [ Þið lítil með stór augu Látin standa í beinni röð og jafna bilið og segja 1., 2., 3., 4., 5., sexti, 7., 8., o.s.frv. Skiljið ekki af hverji á að segja sjötti og láta hælana á skónum snúa að veggnum en ekki tærnar ] [ Sigurvegari lífsins er hetjan sem berst á móti straumnum Hver ann hagi hirðfíflsins og spáir í hans draumum Hann gengur með skrítna húfu á höfði sér Stundum stendur hann á grúfu eins og vera ber Skakklappast um bæinn og heilsar fólki á götu Hofir yfir bláan sæinn hringir í ömmu sína og biður um að komast í skötu ] [ Ég leita og leita en finn engan finn þig ekki heldur hún er máttlaus bjargarlaus reynir þó að berjast áfram hún er örvæntingarfull leitar út um allt hjartað ólmast þarna er einhver hún reynir að kalla en engin heyrir allt er kjurt ] [ Nakið hold Leggöng á floti hann rennur inn þau fallast í faðm hreyfing hafsins hann spýtir hún herðir að alsæla svífur yfir þau þau sofna ] [ Sama hvað ég reyni...ég skil ekki dauðann. Hversvegna eru þeir sem maður elskar, hrifsaðir frá manni? Oft er svo margt eftir - margt ósagt, margt ógert, ótal faðmlög sem aldrei verða... 'Astarjátningarnar sitja fastar í hálsi manns..eina játningin eru tárin sem falla..ég elska þig. Lífið er of stutt - alltof stutt. Þó það virðist vera heil eilífð..þá er það aldrei nægilega langt. 'Eg veit hvað verður elsku amma, og ég veit að þér líður betur þegar ástvinir þínir fagna komu þinni..og elsku afi.. En ég má sakna þín og syrgja...því ég elska þig svo heitt. Góða ferð elsku amma mín.... Þín "Dimmey" ] [ When you put your hands upon my face I almost disappear to another place Your touch is like being swept away and I feel like loving you is the right way You caused me to start believing in me Us together, was always ment to be Whatever might happen, I'm there for you Love me girl, and I'll love you too ] [ Í húmaskoti nætur Situr lítill drengur einmanna og yfirgefinn Heldur dauðahaldi í móður sína Ég lýt í augu hans Og brosi hálf dapurlegu brosi Tek hann í fangið Kyssi hann létt á kinnina Og geng með hann í betri framtíð Hann spyr; hvenær vaknar mamma ? ] [ What hurts me the most is the love that you give me Coz I dont think that I deserve that kinda love I’ve tried so much, that I’m burning inside I cant find a reason to stay no more I hope you understand, its not your fault But I have to go. I blame my self For the pain I have in my heart All I have is pain except the love that is yours So I’ll go now, I hope You’ll forgive me The pain that one coused me I can no longer bare But even tough I’m gone I’ll always love you I want you to remember that time we had together And never to forget that if I go I’ll always be in your heart Like you will be in mine ] [ Ég sofna á næturnar með ekkasogum og tárum, hugsa hvað ég hef verið að gera á þessum stuttu fimmtán árum. Ég vildi að ég gæti komis burt og dregið andann. Vildi óska að ég gæti flúið raunveruleikann, Ég minnist þín og sakna sárt, fórst án þess að kveðja en við skyldum í sátt, Þakklát fyrir stundirnar sem við höfum átt, þú varst ekki sá eini sem lést, flerri komu og fleirri fóru, svo mikið að gerast á stuttum tíma, Of mikið fyrir óreynda sál eins og mína, Farvel! Lífið ónýtt eins og brotnir giftingarhringar, segi sannleikann eins og brúðarhjón að ganga að altarinu. Dauðinn kemur án miskunnar og skilur aðeins eftir minningar um stuttu og góðu stundirnar. Þú varst hetja afi, í mínum augum varstu hetja Á litla bátnum þínum í stóra blá hafinu... Með fiskana syndandi allt um kring Þú varst svo stór, svo sterkur Takk elsku afi minn Takk fyrir að vera hetjan mín ] [ Ég vildi að ég væri Væri eins og þið viljið að ég sé En ég get það bara ekki! Afhverju ætlist þið að ég sé öðruvísi ? Afhverju má ég ekki vera eins og ég vil ? Elsku mamma, ég bið þig Hættu að öskra Ég get ekki breyst Ég vildi að ég gæti það En það er svo erfitt. Það er svo erfitt Að þurfa að lifa svona Að vera einskins virði Að lifa í lygum og blekkingum Að vera ekki elskuð. Þegar að tárin leka niður kinn Og enginn til staðar til að þerra þau Mér finnst ég vera hötuð, Þegar að ekki einu sinni þú Kemur að hugga mig Ég vildi að ég væri Væri eins og þið viljið að ég sé En ég get það bara ekki.... ] [ Þöngin ein ríkir Sit ein, hugsi, djörf, dauf Tárin renna niður kinnar Hlý tár á köldum kinnum Í kirkjugarði er gott að vera Þögul orð fljúga um höfuðið Orð saknaðar Orð trega Orð sem þrá þá gömlu góðu tíð Þegar að hamingja var til í hjarta mínu Liggja í dvala hörpustrengir Stengir gleði og sorgar, ástar og dauða Fegurð víðáttunar fyllir mig von Sannfærist að lífið gæti verið yndislegt Hamingja myndast Þegar að þú klýfur fjöll Ferðu alltaf niður aftur Sama hvort þér líkar það eður ei Vonina hverfur Myrkrið tekur öll völd Finnst ég vera missa takið Takið á lífstrengnum Ég reyni að klifra upp En datt alltaf niður Get ei lengur barist Verð að sleppa.... Vonin deyr Andlitið fölnar Hjartað brestur Ekki deyja fyrir þá sem hata þig, lifðu fyrir þá sem elska þig. ] [ Verndum votlendissvæði og friðlýsum laxá Unnt er að læra lögfræði verndunarsinnar í það spá Ólögmætt er að stífla ánna og leggja drög að verki Vala Flosa vill hækka ránna Hver verður valinn Vestfjarðar víkingurinn sterki Njótum landsins og friðlýsum lendar Þingmaður í ræðu sinni mælir Gæsina vill hann að einnig njóti verndar Sigmar B Haukson við þingmann ræðir ] [ Hérna er ég þá kominn, til þessa horfa á þig. Þessi svörtu augu, hafa svona áhrif á mig. Ég veit ekki hvað skal gera, bara þegar ég sé þig. Þú ert þessi kona, sem elskar ekki mann einsog mig. En ég ætla mig að herða, Til að nálgast þig. En hvað á ég að gera, til að eignast konu einsog þig. ] [ Hvar er fegurð að finna sem fæstum er töm. Gleymd og sjálfum að sinna er sálarkröm. ] [ Ég umvafin er af myrkrinu ekki þoli ég meir , mér er kalt. Af hverju, það ég ekki skil, mér finnst ég vera köld. Myrkrið umvafir mig,það ég ekki vil. Ég stend hér ein í eilífu myrkrinu til enda, engan á ég að sem skilur né þolir mig, Ég umvafin er af myrkrinu. Ég skal rotna hér ein engum ég hleypi að ég er bara ein. ] [ fullur sat á skrifstofunni og skildi ekki staf uns skyndilega á lyklaborðið steindauður ég svaf. yfirmaður að mér kom og átti við mig þras. argur því að fundið hafði galtómt viskíglas! kvöldið fyrr, á djamminu, ég fann mér draumadís dansandi og brosmilda með romm í kók og ís. en ástin okkar aldrei var meira\'en væmið fjas og ekkert vekur fleiri tár en galtómt viskíglas! ráðið mitt ég reyndi oft sjálfur þó að bæta rugli öllu hætta og á aa fundi mæta og æstur læknir yfir mér sinn reiðilestur las: \"lífið býður upp á annað en tómt viskíglas!\" mig sendi á vog og sagði við mig \"þú er orðinn krankur\" en sjálfur kann ég á því lausn, er bara alltof blankur -ef ég aðeins ynni í happadrætti das þá alltaf ætti augsýn í stútfullt viskíglas! ] [ tuttugu stóðu tær í loft tveggja finna í svefni af stundum þeim mig stæri oft er stórra orða hefni. drukkið hef ég drengi tvo dauða undir borðið. svolgraði og sagði svo "síðasta á ég orðið!" ] [ Ljúft, svo mikið ljúft en engu að síður svo fast, svo hart í djúpi óttans smýgur steinbítur falinn í hugarfylgsnum óttans Miðnæturbil. Ris steinbíts ] [ þegar stjörnurnar lýsa mér leiðina heim sé ég andlit þitt speglast svo fagurt í þeim þegar stjörnurnar lýsa upp andlitið mitt finn ég hjarta mitt þrá það að sjá aftur þitt... þó röddin þín rétt áðan nærði mín eyru vill hugur minn endalaust taka við meiru þegar hugur minn endalaust hugsar um þig finn ég söknuðinn þá sárast umlykja mig... þegar norðurljós lýsa upp svefnpoka minn og tunglið fullt reikar um kaldan himininn fellur tómleikahrollur á hjartað í mér því vildi ég óska þess að þú værir hér... ef mælist einhver meðvitund inni í mér vil ég óska þess alltaf að hafa þig hér... ... þegar reika ég kaldur upp ókunnug fjöll og tunglið bjart lýsir upp silfraða mjöll stjörnurnar birtast og hverfa fyrir skýjum er minning um þig það sem heldur mér hlýjum... þegar sólin er hulin grámöskvaskýjum er minning um þig það sem heldur mér hlýjum... ] [ ég sit við gluggann og stari út í kaldan einmanaleikann biksvartur hrafn flýgur framhjá og sest á húsgaflinn þó ég sé ekki hjátrúarfullur og veit að enginn mun deyja finn ég samt eitthvað deyja innra með mér... tómar gosflöskur og munaðarlausir plastpokar fjúka til og frá ég reyni að samsvara mér með þeim – finna myndlíkingar svo ég geti sagt með réttri orðnotkun og háfleygum orðum að ég sé nákvæmlega eins tómur og einmana og þeir... fjúkandi til og frá í febrúargráma finn ég að hjartað missir eitt slag hlustandi á vindinn hrjúfa og ráma hver einasti dagur er eins og dagurinn í dag... þó ég horfist í augu við ískaldan einmanaleikann reyni að hræða hann í burtu með illu augnaráði dúða hjartað að utan með hlýjum minningum finn ég hvernig kólnar alltaf meira og meira... fjúkandi til og frá í febrúargráma fölur, þreyttur og í augunum glær hlustandi á vindinn hrjúfa og ráma hver einasti dagur er eins og dagurinn í gær... ég hugsa til þess tíma sem ég lifði áður þegar ekkert varð til þess að lyfta vörum mínum brosin fæddust andvana og gleðin aldrei birtist... ég hugsa til þess tíma sem fylgdi í kjölfarið þegar ekkert varð til þess að draga úr gleði minni brosin lifðu að eilífu og gleðin aldrei fyrtist... hugsa svo til þess tíma sem ég lifi núna: fjúkandi til og frá í febrúargráma gleymandi sjálfum mér í sorgum hlustandi á vindinn hrjúfa og ráma kannski kemur þó betri dagur ...á morgun? uppfullur af alls kyns sorgum... kemur nokkuð betri dagur á morgun? ... líf nú sem á árum áður aftur orðinn alltof þjáður sama hvað ég geri og segi ekkert breytist með nýjum degi... ekkert breytist með nýjum degi... ] [ finn nú koma þunglyndið sem forðum funinn hverfur burt úr mínum orðum ljóð mín snúast öll um sýrutárin... reyndar veit ég ekki nú hvað olli vona þó að hverfi þessi skolli sem í hjarta mínu skapar sárin... ekkert hefur kveikt í gömlum meinum klifrar gömul minning þó úr leynum hvaðan sorgin kemur veit ég ekki... kannski kuldinn þessa daga vekur kvalir upp og alla gleði tekur ég finn aftur leiðann sem ég þekki... ... gæti vonað að allt verði sem fyrr við hugsanir ég opna gamlar dyr kannski liggur þessi leið að lausnum? hef lært að leysa flókna fjötra er finn ég lífið byrja að nötra þó finn engar leiðir nú í hausnum... ... veit ei hverju er nú um að kenna finn þó hjartað í mér aftur brenna ég veit ekki hvert skal fingri benda... ekkert leysist með svo þungu ljóði sem ég skrifa nú í miklu hljóði þetta mun líklega aldrei enda... ... sama hvað ég geri og segi ekkert breytist með nýjum degi... ] [ Andinn blundar í brjóstinu á meðan morgunskíman brýtur sér leið inn í daginn vopnuð litum Góunnar. ] [ Snjórinn fellur niður, líkt og blíð snerting elskhuga míns, á eirðarlausa götuna. ] [ lítið stórt leyndarmál sem þræðir sig eftir æðunum þrýstir sér í gegnum hjartað og slær á létta taugastrengi hvílir í fingurgómum sem renna eftir blautri tungu upp í hugann kitlandi hugmyndir svo freistandi svo freistandi ] [ Augu þín töfra mig berskjaldaða Svipur þinn einbeittur ég brosi Og get ekki annað Þú ert ekki hlægilegur Mér liður bara svo vel. ] [ Þú klifrar upp fjallið Og blómstrar Þú klífur bergið Og leitar að blómum. Þú fellur niður rétt við toppinn en skrámar þig aldrei nógu mikið til að hindra að þú rísir ekki upp Og reynir aftur. Það er forboðið fjall lífs þíns. ] [ Autt blað Stingur í stúfa við línurnar á hinni blaðsíðunni þar sem hver blettur er þakin tilfinningum og orðum ] [ Tindurinn stendur og fellur stækkar í átt til himins þrýstist á milli skýjana. Lagður af gúmmíinu og elskaður af konum. Þú ert í bíl setur í gang Startar,finnur vélina titra undir þér Leggur rólega af stað ferð hraðar,kemst á fáfarna vegi ferð hraðar, og ert ólöglegur. Þú ert með belti og sleppur ómeiddur En hugsaðir þú um farþegan þinn? Er hann öruggur við hlið þér? Eða henntist hann út um rúðuna í síðustu beygju. ] [ Augun þín Blá augu, þekkja himininn Græn augu Gleymast í sjónum Blind augu fæðast í snjónum. En Brún augu átt þú,jörðin undir fótum mér. - Hann hlær og hlær og stundum slær,slær með sársauka sárið ei grær,grær og við bæði færumst fjær,fjær hvort öðru. ] [ Trúðurinn minn grætur og horfir sorgmæddum augum á eftir mér. fyrir honnum er lífið circus og ég er innblásturinn. Þegar hann málar sig í framan og felur sig bakvið grímuna. þegar hann hlær skildi hann hlægja með þér eða að þér. Það er spurning. ] [ Þetta er sagan um rjóða og góða drengi stíl og steypu fíl og keytu par sem passar saman og hvað það getur verið gaman að leika sér við einhvern annan en með sjálfum sér. ] [ orð eru ekki einsog eðalvín sem geymd í eikartunnu göfgast með aldrinum grafin í hjarta verða orð beisk og fúlna við geymslu ] [ í gær bjartur morgunroðinn hlær í fölbláum klakaglugga og þú birtir mynd af sjö ára stúlku - með fléttur og forvitin augu - smáfingruð teiknar mynstur úr frostrósum á kjallaraglugga ] [ tækifæri máð úr tímanum, það sem þú gerðir verður það sem þú gerðir aldrei, það sem þú hefðir átt að gera það sem hefði verið viturlegra að gera var það sem þú hugsaðir en gerðir ekki ] [ ef þú vilt vera vinur minn þykja vænt um mig passa mig halda utan um mig skal ég vera allt sem þú vilt að ég sé ] [ hefði hann elskað þig og ekki brugðist þér? hefðir þú elskað hann og ekki brugðist honum? sennilega hefðiru bara brugðist sjálfri þér ] [ Alla nóttina eina sem mig langaði að gera var að kyssa hann og segja "þú verðskuldar þetta" ] [ Ertu orðin? ] [ life is beautieful life is sweet even better if we meet take me home take me far even though i dont know were we are life is short so dont let go yes is maybe and no is no give us a kiss..i want your soul ] [ give us a sound give us a spell lets do this honey you know me to well for this is us and that was i and this is were i say good bye it was good, it was swell we gave it a try we dit it well dont be sad think happy thought i know its crap but thats all i got dont let big things get to small lets let the words talk Cause they say it all at least for a while we had a ball ] [ Þið fæðist sem stjörnur, fallegar sem rós þið eigið líf sem ykkur var gefið þið eldist með árum, og njótið þess mjög Svo kemur að því að dagur ykkar kemur sannarlega er það hörmung og synd en óumflýjanlegt, það skilur eftir sár sem erfitt er að loka Ykkar verður minnst sem skemmtilegum hóp hlæjandi, ánægðum og varkárum svo kom sá dagur er guð kallaði snemmt var það og erfitt En með tíma, sem læknar sár mun það lagast en ekki gleyma að þið verðið ætíð í minningu ástvina ykkar, sem munu minnast ykkar ævilangt Hugarkonni ] [ Á myrkri, seint um kvöld sá ég kynjaverur á þeim var svipur sem sveipaði til kölska hver er þinn draumur sem þú þráir hvað dreymir þig þegar þú sefur hvernig kemst frá honum, hann heldur þér fastri og sleppir ekki. Snemma morguns, laust eldingu sterk og ógnvekjandi hvað geriru þegar kölski kemur hann hefur snert þig þú ert með honum Sunnudagur, það upphófst mikið öskur það var kallað, það var öskrað, það var sungið hjálp mér, hjálp mér ó guð, heyrðist í fjarska hvað þýðir það þegar kölski ætlar að klófesta þig hvað er dekkra en myrkrið, hvað er ljósara en ljósið Vertu ætíð undirbúin fyrir það sem koma skal þegar þú verður tekin, þá gæti það skeð hratt og þú munt hverfa af jörðu hér og sameinasta æðri veruleika lifðu í sátt og samlyndi við það sem þú elskar, meðan það er getur ekkert komið fyrir þig, og þú munt ætíð lifa. Hugarkonni ] [ I'm sitting in silence Thinking about putting an end to this I'm dealing with emotional violence I don't even know how happiness truly is I got the blade in my hand and ready to cut I want to live, but my life is fucked What will be able to stop this pain My desire to live, is about to drain Each day I think about how to put an end to my life And now I'm sitting on my bed with a knife Waiting after the right moment to stab One opportunity, I won't hesitate to grab ] [ Oh man, I did it again! Here's my story.... I met a girl and made a mistake I knew I was doing wrong But that's the way I choose to take And you didn't love me all along This mistake I repeated to take I kept falling into the same trap My soul was starting to shake You say you love me, but I won't listen to that crap Have you ever loved without being loved right back Then you know how I feel When your world starts to fade to black And nothing feels real I've been there five times and I hate it You say you like me But it doesn't mean shit You are just an ordinary ho who I don't like to see Only change of think Is in my car With a cuban and a drink But that dream is so far I want someone to comfort me Don't try to change my mind Who do you want me to be Cause myself is hard to find ] [ After all this time I'm getting lonelyer than ever I wish you were mine And we'll be together forever I close myself in a prison of lonelyness Where no one believes in a true happiness Where I'm getting a kind of faithless I need to get out Honey, I need you more than ever I never realised it before That we were ment to be together And I just couldn't love you more But in a perfect plan There's always a error Lonely girl and a lonely man Involved in a emotion terror For you I would die When I look into your eyes Whenever you walk by Oh, the pain, for you I will die But a sorry story has been told You made me kill myself And for you, my soul I sold And I'm dead and it's your fault Even now when I'm dead There are so many things left unsaid So much pain in me But still, I believe that you and me were ment to be ] [ It started as a love at first sight I'll always remember your beautiful face But then it ended with a constant fight And eventually with a murder case My love to you was too strong I couldn't take the pain You didn't love me all along And the thought of that, makes me go insane It's not fair, to make one man pay You hurt me so deep I just wish you could come to me and stay So we can together, lay down to sleep ] [ Glóðin ekki gneistar meir gagnslaust hana að næra. Ást mín til þín aldrei deyr oddný, hjartans kæra. ] [ Lóa hún er ljúf og sæt létt í skapi líka. Áræðin og hreint ágæt yndi vina ríkra. ] [ Situr hjá mér fagurt fljóð Fanney, bæði mild og góð. Sem ég til þín agnaróð um andlit núna æðir blóð. ] [ Vængi þú hefur vonum mínum veitt um framtíð bjarta. Handsamað í hugsskotsýnum huga minn og hjarta. ] [ Hvernig launar maður ljúfmennsku þína lipurð, innileika og trúnað þinn. Ekkert hef þér annað að sýna aðdáun, lotningu og vinskap minn. ] [ Sólin Sendir sína hlýjustu geisla niður til mín til að ylja mér um hjartarætur Golan Snertir mjúklega vangann og hvíslar manni hin fegurstu ljóð. Þögnin Lætur ekki í sér heyra eins og vanalega, það eina sem heyrist er fuglaþytur í fjarska. Skýin tipla létt á tánum um heiðbláann himinininn og passa sig að verða ekki fyrir regnboganunm stígur dans við heillandi takt sjávarins . Meira að segja máninn sem er venjulega svo feiminn kíkir aðeins við sjóndeildarhring , freistar þess að slást í för með þessum sólskinsdegi ] [ Ég hefði átt að segja þér frá öllu því góða í fari þínu Og hætt að minnast alltaf á gallana -nú ertu gallalaus Ég hefði átt að segja þér hvað ég unni þér og að ég meinti ekki þetta ljóta sem ég sagði -en núna er það aðeins of seint Ég hefði átt að segja þér að þú varst ekki ómögulegur, drungalegur og leiðinlegur, þú varst allger engill -eða það ertu allavega núna ] [ Afhverju getur ekki neitt verið hreint og beint? Annaðhvort svart eða hvítt. Allt þarf að vera hvítt blandað svörtu eða svart með smá slettu af hvítu. Gleði blönduð sorg eða sannleiki með smá slettu af svikum. Allt blandast saman í gráleita hringiðu í stíl við gráleitann veruleikann. ] [ Verðugur ertu andstæðingur og vítisvinur og bölsóttur skilnaður en fámáll en fámáll þau eru torsótt fjöllin sem við skulum sleppa að kljúfa látum þau eiga sig þau eru fallegri í fjarlægð ] [ Ég vildi að ég gæti skrifað eins og Poe, og ort eins og Hjalli frá Bólu. En það er bara ekki séns, og þó, ekii nema ég fengi hugmyndagjólu. ] [ Þótt þú eigir ekki hliðina bjarta, þá áttu samt stað í mínu hjarta. Og ég óska mér vil að þú komir mín til en í guðs bænum farðu ekki að kvarta. ] [ Mig dreymdi að mig væri að dreyma, draum sem ég skildi ekki neitt. En honum vil ég helst ekki gleyma, og heldur ekki fá honum breytt. ] [ vindurinn hvíslar í eyrun á mér á meðan ég geng á gangstétt erfiðleika, kvíða og angistar ég skil ekki hvað hann hvíslar vona að það komi logn svo hvíslið hætti ég vil ekki heyra það því ég veit að það er rétt ég vildi að ég væri fjöður og gæti fokið burt með vindinum ] [ ég er ein heima og síminn hringir svara grátandi rödd ég átta mig ekki alveg hringi í mömmu nei, þetta er ekki raunverulegt brún leðursæti og vond lykt ég heyri í sjúkrabílnum endalaus bið ljósin blikka og allt snýst hvert fer ég núna? hún kemur í hvítum búning og segir að það sé allt í lagi að gráta ég get ekki grátið allt er frosið hún liggur grafkyrr snúrur og tæki píp..píp..píp.. ógeðslegt hljóð dauðans "hún lifir ekki nóttina" hún berst og opnar augun þrem vikum seinna ég grét aðeins einu sinni allt er breytt ég er ekki til ég er gleymd og er alltaf ein örbylgjuofn og tilbúinn matur af hverju við aftur? ] [ Þú vaknar, Og ég vakna. Þú sefur, Og ég sef. Þú þarft ekki að elska, En ég elska þig samt! ] [ þeir skurðir sem rista grynnst á yfirborðinu rista dýpst í hjartanu og þeir agnar-agnar-smæstu svíða sárast ] [ Legðu við eyrun, og pískrið skrýtna hækkar, þetta er lítill trekt sem orðin er að stóru himins fljóti, fyrir ofan englar hnykkja á með blóti, að þungi heimsins sé kominn með lágu ljósin,og manneskjan smækkar. Mjólkurstefnan hvít sem öllum þótti væn, hún sem svo ugglaus flaug um alla heimsins haga. Einhver hrópar bergmál í stórri kirkju,að nú þurfi hana að laga, en það veit engin að skrattinn sjálfur liggur nú á bæn. Þungi heimsins hvílir nú á öxlum litla drengsins, með augun skær, hann sem sprengdi sig fyrir fram herstöð, brossandi í gær. ] [ Ef þú ferðast yfir fjöllin há, þar sem gullið gyllir við sýslumörk. Villtu minnast mín meðan þú ert þar, við stúlku sem ég þrái mest. Ef þú ferðast yfir fjöllin blá, þar sem árnar frjósa við sýslumörk. Viltu gæta þess að hún klæðist vel, svo að hún verði ekki veik. Ef þú ferðast yfir fjöllin há, þar sem gullið gyllir við sýslumörk. Viltu skila kveðju til hennar, þar sem hún er heil og nýtur sín. ] [ HJÁLP Í VIÐLÖGUM : Grátt skegg í brunasárum – berst í leikjum við því. Heimsmeistaramót í vitleysubrjálaðabrölti – get kastað hringjum í limahjarta sannleikans. Syndi til móts við dauðann – býst ekki við að það breyti neinu um útkomuna – held áfram að leika í fullri alvöru og brosi við Þér. Hætta er á að hjólið springi – hleyp í stað eldamennskutrúarbragðabrölts. Burt her fer í pólitískum landflótta og skilur landið í rúst – skúlptúr óráðinna örlaga bygg ég þegar í lifandi mót hallarmynnanna. Slys eru ekki óhöpp af tilviljun – set mig í leikarastellingu lífsuppvakningar- augnabliksháréttatímabils. ] [ Þegar ég fór í peysuna í morgun var ilmurinn af ástinni ennþá í henni. Ég hugsaði um gærkveldið og brosti. ] [ Er ekki allt gott til sölu? ] [ Þegar ég gekk í burtu. Fann ég hvernig yndislegt bragð þitt var enn á vörum mínum. Þá vissi ég að ekki var allt glatað og glotti. ] [ Ég var yfir mig ástfangin - af honum. Fyrir hann, vildi ég allt gera. Á vissan hátt réð hann yfir mér. Hann átti mig. En dagar urðu að vikum og vikur að mánuðum og mánuðir að.....ári. -Þá varð allt svo erfitt. Hann sagðist ekki vilja mig lengur "Ég elskaði þig" (í þátíð!!??) sagði hann. Hjarta mitt tvístraðist, ó, sársaukinn Mér hafði aldrei liði svona illa. Eitthvað stakk beint í hjartastað. Sársaukinn var ólýsanlegur.. ..svo vondur illskan umlauk mig alla...hún var allstaðar Ég hafði aldrei trúað að einhver væri svo kaldur, að geta farið svona með mig. En það gerðist ég er ein. Enginn elskar mig núna Ég er ein. ] [ Fréttamaður talar: Veðurspáin er ekki góð í dag. Spáð er allsherjar rigningu frá morgni til kvölds. -Skýjað með köflum. Ekki er búist við sól á næstunni. Búið ykkur undir storm, storm vondra minninga. Frost á bilinu 5-8°C -Klæðið ykkur vel ...Flóð!!!Óveður í aðsigi!!! HÖRFIÐ!!! HÖRFIÐ!!! Bjargið ykk.... (þögn) -Við stöðvum þessa útsendingu sökum veðurfars. Við biðjumst velvirðingar. ] [ My world is bad but my dreams are real my mind is focused and I've got a balls of steel my goal is simple, my thoughts are clear I'm the man people should love, but also should fear Don't fuck with me, cuz I'm the nigga around here if you step up to me, u can prepare die Cuz I'ma kill you whatever I'm straight or high and I don't need a reason why it's just a brain reaction to kill without leaving a detection and when the judge asked me, it was just a simple reflection Explicit Content is my name I'm not after bitches or fame I just want everyone to know the game know the niggaz I'm killing my mind of bloodspilling my desire of filling in empty space in my head on the outside I'm alive but inside I'm dead and I'm not gonna repeat what I said just don't fuck with me or you'll get killed you'll be screaming while I'm fucking thrilled and I will never stop until my satisfaction will be filled.... ] [ Lonelyness, failure and sad these are the options I ever had I'm a left over, useless punk I'm what they call "white junk" no good for anyone Nobody see's me anymore but it's not like they did it before I've got nothing to live for I must kill myself as soon as I can so my body can be put in a trashcan These are the options I have..... ] [ If you only knew how important you are to me if there were some way to let you see that with me, is the safest place to be in my arms, in my heart, in my dreams I love you so bad but it seems that the only place you won't be do any harm is when I hold you in my arm there is a red rose in my mind big red rose with big shadow behind the shadow is my life and the rose is you and the entire beauty about it too ] [ Fyrir framan húsið lagðirðu þig og hugsaðir: ef ég væri stjarna þarna einhvers staðar uppi væri jörðin þá niðri eða uppi kannski á hlið já... og einhvern veginn urðu þessar hugleiðingar þér til halds og trausts líkt og þumalputtinn í æsku og í þinni sannfæringu varstu viss um að jörðin væri alltaf ofurlítið skökk ] [ Ég fann þig sem áhorfandi í leikhúsi lífsins, sá ég aðalhetjuna stíga fram á sviðið bjartur,dökkur,fagur Ó mig auma þvílíkur dýrðardagur sterkur stilltur óforskammaður. Náttúran lifnaði er hjarta mitt lét undan. Tók sig upp til flugs og sagði hér er ég er eitthvað pláss? eða verð ég að líta undan. ] [ Tilfinning teygði sig upp og þagði sagði ekki orð en brosti og þagði leit svo upp og gáði og fann þig fegurri en orð fá lýst innan sem utan leitandi að mér fyrir víst. ] [ Grimdin er geigvænleg geymist hún víða. leynir sér vel í orðum eins og ríða Leikur að eldi og lítur svo undan svertir hverja sálina ei svo saklausa og fína leikur að eldi, leikur að steinum að óvörum stungin á hol og steiktur á teinum. Ekki er svo gott að heillast að nútíma sveinum. ] [ the show must go on so im stepping out and singing a song singing of life of love and hate trying my best to open the gate giving it all to for kingdom and king saying it all its a open thing is it worth it? is it good? life goes on or so it should ] [ Mig dreymir þig, ég hugsa um þig, mig langar í þig, má ég fá þig? Í græna bolnum, með hárið svart, ertu svo fögur, svo æðisleg. Komdu elskan, komdu til mín, má ég vera hjá þér, alla tíð. Ég sé þig brosa, Horfa til mín, mér líður vel, svo ósköp vel. Erum við saman, ég með þér, ég þarf ekki meira, þú ert mér allt! ] [ Ég sakna þín svo að það hjarta mitt sker það nú í molum er hvert sem ég fer vildi ég óska að þú værir hér hjá mér Ég ræð ekkert við það þegar tárin byrja að streyma þú opnaðir flóðgáttir hjá mér vil bara vakna svo ég geti hugsað “gott” mig var bara að dreyma Þetta eilífa stríð sem ég er að heyja við hjarta og hug minn er svo erfitt langar ekki að verslast upp og deyja afhverju ertu ekki hér og faðmar mig Hvað get ég gert til að fá þig aftur verð að fá þig því þú er minn hrópa til himins “hjálp” hvar er minn kraftur Get ekkert gert þarf bara að hvíla mig um sinn. ] [ You said you loved me, and I felt it to But something changed in you The next day you didn’t want me any more You said baby lets just be friends for now I am not ready for this kind of commitment Maybe later I will be ready And now many years later I am still waiting like a fool for you just waiting for a call from you saying that you miss me and you want me now. ] [ Við voginn þorp eitt lítið stendur þar víða standa klettar þar má finna svartar strendur svo fallegar og sléttar Fjall eitt fagurt yfir gnævir sem svip á þorpið bindur hefur nafn sem vel við hæfir það heitir Búlandstindur Ég er hér staddur í paradís og vera hér ég kýs minningar héðan ég hef að geyma því á Djúpavogi á ég heima Við fiskinn fullt af fólki vinnur í frystihúsi og á sjó eitthvað við veiðar fólkið finnur við sjóinn ríkir friður og ró Þótt þoku hérna oft að streymir Hér þykir gott að lifa Um Djúpavog mig alltaf dreymir Meðan klukkur lífsins tifa Ég er hér staddur í paradís og vera hér ég kýs minningar héðan ég hef að geyma því á Djúpavogi á ég heima ] [ sjúga sjúga sjúga ] [ From heaven sent, Honey you were meant, To stay with me, To fill my fantasies, Hypnotise, Look into these eyes, Moving through, Gliding like a butterfly. ] [ When the hands of time move fast, And you can't erase the past, Then close your eyes and you will see, Come and take my hand, And follow me to the promise land, Hold me close inside your heart, Let us never fall apart, A love that lasts eternally, That's the ocean of eternity. ] [ Dýpra en veruleikinn, Er minningin um þig og fegurð þína, Hann er eins og ilmur í kvöldblænum, Og er hann snertir vit mín, Þá verð ég feiminn við að anda. ] [ Tínt, horfið, uppgufað Hvert fór það? Traustið það var hér En nú engin það sér Tími og peningar Það er ekkert svar Hvorugt er hér Engin það sér Hvað er það sem ég finn Tárvot er kinn Ég er ekki hér Því engin mig sér Ein lítil tilfinning Nú finn ég sting Sorgin er hér Hún mig alltaf sér Hver vill skipta Ég vil ekki svipta Hulunni af þér Er engin sem sér Það sem eitt sinn var hér ] [ Guð! Hvernig má þetta vera ? Hér sit ég við glugga uppi á Íslandi og horfi á fuglana vappa um grasflötina, eins og upptrekktir tindátar í tafli. Vapp, vapp, og þeir velja sér maðk í nefið. En úti í Palestínu situr móðir og horfir stolt á einkason sinn troða inn á sig sprengjum og vappa yfir til Ísraels eins og upptrekktur tindáti í tafli. Vapp, vapp, og hann velur sér strætó að sprengja. Guð! Á ég bara að sitja og glápa á fuglana á meðan þú innheimtir blóðfórnir? ] [ Sjórinn er dökkur, gruggugur og djúpur, endalaus sjór enginn botn bara endalaus sjór. Öldurnar eru eins og skímsli að reyna að ná mér þegar ég sit á bátnum og forðast að líta á endalausa sjóinn. ] [ Ég er eins og.... rússíbani, stundum glöð, stundum fúl, stundum reið aldrei í sama skapi allt gengur upp og niður ég er aldrei eins dag frá degi. ] [ Einu sinni átti ég hest Ofurlítið ljótann Það var sem mér þótti verst Þegar Grýla tók'ann Sigga litla systir mín Snýtir sér í fötu Hún er sæt og svaka fín Og skokkar útá götu ] [ Ég vil vera sú sem..... Læt þig fá fiðrildi í magann, Ég vil vera sú sem..... Læt hjarta þitt slá örar, Ég vil vera sú sem..... Er með þér alla tíma, Ég vil vera sú sem..... Hef huga þinn allan ] [ 1) Herbergið mitt, pínulítið, hvítir veggir, á gólfinu er parket, stórt teppi ofaná. 2) Sófi á móti glugganum, sjónvarp á móti sófanum, situr á kommóðu, hilla með bókum og græjum. 3) Herbergið mitt, lítið, sætt, og væmið stelpuherbergi. ] [ This world is full of sadness and dirt Everywhere is hate and words that hurt Will I ever find peace, will I ever find kindness How will I find that in a world filled with blindness I'm so tired of being mocked Getting sick of the world that is fucked No more love in these unknown places Disappearing faces Everyone I knew got away I wish I'll never live again that day Once I was in love with a girl I gave her access to my world But she took my trust and made me crawl She took my emotional wall and made it fall I gave her my soul so she could have it all Now I can't get her out of my mind Her attacks hurt me so deep I can't leave them behind My heart is empty, she took all I had I should never listen to what she said It didn't mean shit, empty words Words, that I won't take, but inside it hurts All the pain I feel, I blame you My heart has stopped from the bullet that went through No more blood filled with sorrows in my vein Now I'm just an memory in people's brain ] [ Handleggir hans hvíla þunglega á mér Ég hlusta á hann anda í dimmunni Og furða mig á hversu mikið ég veit ] [ Do you know how it is to miss someone you care for? At the last minute you look in their eyes and see things you never seen before After all the time you spent with them is about to fade And you wish it could be you instead, would you trade? Strange feeling in your heart telling you it's about to end Your loosing the one you've spended all your life trying to defend Have you ever hold their hand while they are dying from you You try to bring them to life but there's nothing you can do Tears in your eyes, your getting scared, you feel alone Suddenly the streets seems lonely, your car and your home Nothing is same and it's bringing you down To not having your loveones around Unrecoverable loss in your heart Now, when you and the one you loved, will always be apart ] [ Ég hef ekki enn litið við deginum í dag hann er þó meira en hálfnaður. Og ekki veit ég hvort hann líður allur fram hjá mér og öll tækifæri hans með. En þá verður mér kanski á að spyrja sem svo; Nei, hvað varð af deginum, er komið kvöld? Og ég sem ætlaði...... Hvað? Nei,svo sem ekkert. ] [ ég skal stoppa upp fyrir þig heiminn ef þú bara borgar ég mun taka úr honum að innan setja gerviaugu sem mæna að eilífu ] [ Bezt væri að gleyma þessu, og leyfa því sem á að gerast – að gerast. En bara ef það á að gerast, annars ekki. Ég vil ekki að eitthvað sem á ekki að gerast, gerist. Ég vil að minnsta kosti ekki vera sá sem gerir eitthvað sem á ekki að gera, annað fólk getur séð um það. Hvaða fólk? Æjiégveitþaðekki. Þetta er fáránlegt, tala, ekki tala, tala, ekki tala. Samkynhneigður albínóagírafi. Ef þetta þýðir ekki eitthvað, þá veit ég ekki hvað. Ég veit ekki hvað. Skjóttu þig, fíflið þitt. Ef ekki, hvað þá? Djöfulsins kjaftæði, […] … bara ef heimurinn væri bara í tveimur litum, svörtu og hvítu. Það eru samt tveir litir, tveimur of mikið. Skjóttu þig. ] [ silfurmáluð mjöllin myndar skafla tunglið varpar ljósi sínu bjartar stjörnur skríða hæglátar um himin norðurljósin dansa kát um skýin myrkrið magnar fegurð næturinnar ég geng hér glaður undir fjallasýn... ... faðir stendur leiður yfir foldu frumburðurinn grafinn djúpt í moldu stríðið blóðgar líka dáðadrengi... mæður gráta sáran yfir sonum hverfur hinsta ögn úr þeirra vonum stríðið hefur staðið alltof lengi... ... silfurmáluð mjöllin myndar skafla tunglið varpar ljósi sínu bjartar stjörnur skríða hæglátar um himin norðurljósin dansa kát um skýin vindur hlýr um kinnar mínar gnæðir meðan handan fjalla blóðið flæðir... hjarta mitt í sólargeislum kætist meðan handan fjalla martröð rætist... sofna ég við tungsljós hlýr og glaður meðan handan fjalla deyr einn maður... ... handan fjalla aftur deyr einn maður... ] [ Weave a tiny web of lies, Weave and let it grow inside. Let it grow and let it thrive Let the web take over your life.. ] [ Alone, cast out of Heaven. Embraced by darkness. The warm embrace of the cold dark. She feels dirty. Expelled from Heaven, forever, Never to return. With the only company of the cold darkness. The darkness that holds its arms around her. Holds her tightly so she won't get away. Eyes in the dark, like tiny stars. Always watching, always hating. Always whispering - what do they say? She can't hear them, and she doesn't want to. Lies down, covers her ears, only to hear more whispering. This time the whispering comes from within her own head. Covers her eyes, only to see more darkness, more glaring eyes, staring at her with these icy, cold eyes. ] [ A fair, little girl, in a pretty white gown, (like an angel, or maybe a fairy) Walking in the playground, sits down on the swings. (But all the children have gone) Standing. (alone) Sits down. (abandoned) Like an angel. (But she's missing her halo) Like a fairy. (But she's missing her wings) Maybe she's been cast out of Heaven? ] [ Nóttin er svört, vítiseldar rísa. Í hefndarvímu guðirnir eyðileggja allt. Í myrkrinu ljósin frá eldunum lýsa. Á Dómsdegi er myrkrið heitt - en samt svo kalt. Móðir faðmar drenginn sinn, heldur honum fast. Hvíslar í eyra hans huggunarorð. En drengurinn er farinn, sér ei hennar augnakast, Guðirnir tóku hann of fljótt. Kofinn brennur, og þessi ótrúlega ást, Milli sonar og móður hans Svífur á brott þegar lífið fjarar út, uppá strandir hins ódauðlega lands. ] [ Svik skal hefna, sár rifin upp, og í sárin salti stráð. Fyrir morð skal myrða, fyrir það morð skal hefnt, Með dauða skal borga fyrir tár. Vítishringur, óslökkvandi bál af hefndarþorsta og sorg. En þegar hefnt hefur verið, eftir lifir glóð - Á endanum brennir heil borg. ] [ Lying in my bed, staring at the ceiling. (But not seeing anything) Listening to the rain. (But not hearing anything) Sitting by the window, Watching people walk by, (but not seeing anything) Listening to their thoughts (but not hearing anything) Sitting in class, Watching the teacher write, (But not seeing anything) Listening to him explain, (but not hearing anything) For all my eyes want to see is your face, All my ears want to hear is your voice, All my lips want to touch are yours, All my fingers want to feel is your skin against mine. ] [ Lokuð inni Innan þessara steinveggja, Kemst ég nokkurn tímann út? Hvar er prinsinn minn? Bjargvættur minn? Hví kemur hann ei? Villtist hann kannske á leiðinni? Eða hefur hann kannske gleymt mér.. Vongóð ég bíð, alltaf, í glugganum. Horfi á lífið fyrir utan. Og bíð eftir prinsinum mínum. ] [ Touching, feeling, trying to find the way. Everything is dark; where's the right path? Listening, smelling, using my hands, only to find blocks, preventing me from going on. Where's my path? Will I ever find it? Everything dark. Forever. Dark. ] [ Branches Naked branches, Dancing softly with the wind; Swaying to and forth. Whispering softly, Words of passion, words of love, Words that leave with the wind. Never to be heard again. ] [ She walks in the garden. Sweet, innocent, made of glass. So small, so fragile. The garden; so scary, so big. Walks between the enormous trees and thorny bushes. She doesn't fit in there. Her place is in a soft bed, covered in velvet and silk. But still, she's there. So sweet, so innocent, so fragile. Made of glass. Looking, searching, trying to find. Something she once loved but is now lost? She walks to a tree; a tree that once grew and blossomed flowers of pure beauty. Flowers that have now long withered and died. Blown away. She touches the branches, feels the trunk, as if in hope the flowers'll start to blossom again. But the tree is dead, no feelings left. And all love for life has left it now, never to return. Her innocent face, her warm embrace, Her fragile tears, running down her face. So sweet, so innovent, so fragile. Made of glass. She's locked inside the garden. No way in, no way out. The gate's been shut, guarded by a fiery angel with a flaming sword. Has the girl locked herself in? Built the garden about herself? Protecting her from the world? Or protecting the world from her? She keeps on walking, keeps on searching. Looking for something that doesn't exist? Is she looking for love? -No love in the garden. Is she looking for warmth? -No warmth in the garden. Is she looking for life? -No life in the garden. Shattered glass on the dead, dirty ground. Shattered soul in the dead, dirty body. Shattered tears on the dead, dirty face. So sweet, so innocent, so fragile. Raped by the world. ] [ Walking in the desert without water. Dying of thirst. Seeing water everywhere. Illusions, tricking me, giving me false hopes. Walking through life without you. Dying of thirst. Feeling your touch, hearing your voice, smelling your aroma. Illusions, tricking me, giving me false hopes. ] [ This unexpected feeling, I’ve felt it before. Even when you’re near me, I feel the horror. Of this unexpected feeling, why here, why now? Why do I feel it? Why, and how? When I’m supposed to feel so good, and life is going well, I’m in love with you, and you love me as well, When life seems to be like the children’s play This unexpected feeling, I feel my decay This unexpected feeling is the loathing of life, Life and all that follows, the love and the strife. And only when you touch me and gently kiss my lips, This unexpected feeling is taken over by a bliss. ] [ Hating, disgusting, loathing, Loving, beautiful, caring. sarcastic, egotistical, full. Depressed, closed, empty. Feeling emotions, all at once. how can I feel, so much. Was my heart, really built, for this pain? It hurts to feel, your touch. It's exploding with emotions, too many to bear. I see the shattered pieces, Flying through the air. As I slowly gather them together, To mend my broken heart. My vision comes clearer and clearer; It doesn't really matter that much. For with my heart, the emotions come back, And I'll be back where I were. And a comfortable numbness comes over my brain, As I walk away in a blur. ] [ She is dark, she is dread, she's the queen of the dead. she is divine, she is delight, she's the deity of the night. Her dance is defiant, dazzling is her face. Her derision is dire, deadly is her gaze. In the darkness she dwells. In the dephts of Hell itslef. In the debris of the dawn the daylight is gone. In the daybreak I die, with my dagger I lie. My doomed soul descends, The blood on my knife, drenched. ] [ I held you in my arms but then you started to fade, dissolved into the thin air around me. I sensed/felt(?) you in the air, I tried to breathe you in but I knew that you were gone. I tried to look for you, I wanted you again, to lie here in my arms. But you were already gone, gone, just like a dream, like an angel from my dream. My dearest dream angel, Please come again. Please. Come again... I want to fall asleep and sleep forever more, just for the chance to see you again. ] [ I look in the mirror, and I see someone else. Some other girl that I don't recognize. She moves like nobody I've ever seen, but her mouth is full of lies. She tells me I'm disgusting, in my innocense I believe. And my self-esteem starts drowning, till I no longer want to live. But then one day I wake up, like from an ugly dream And I shout at the girl, 'shut up!' and to my surprise I see, that the girl there in the mirror, is noone else but me. and angry I break the mirror into a thousand-and-one piece. ] [ Sometimes you can't stop laughing, but suddenly you want to die. Sometimes you want for no reason at all, lie down on your bed and cry. Sometimes you think you're madly in love, but the next minute... you're not. Sometimes you think that everything's unfair, and you want to scream... alot. And that's what the teenage years are like, the hormones are driving you mad. You never know what the fuck you want, and everything is so sad. ] [ Ef hjarta væri ég með/mér væri það þvert um geð/því frá því koma tilfinningar/því þurftu þær að koma hingað?/Því þó að ástin sé til staðar/eru svo margar sem auðveldlega skaða/þær komu flestar úr litlu boxi/sem gefið var til stelpukjána/sem átti svo öðrum það að lána/stelpukjáninn ekkert vissi/og höggormurinn úr sér missti/að hún opna það ætti/þó það ekki mætti/hún er leiðingi leysti/allt sem vont er í heimi hér. Og útaf þessum stelpukjána/ég hjarta mitt mun aldrei lána/þó þeir glaðir gerðu allt/það væri eins og að setja salt/í opið sér, því ástin mun/að lokum kulna, deyja út/og ekkert verður eftir nema hatrið kalt. Ef gáfur ég hefði/ég frá mér þær gefi/því þaðan kemur lymskan, útsmogin lús/sem læðist inní heila manna/og læðist út á milli tanna/og maðurinn fús/hlýðir henni í einu og öllu/hann telur það víst sína köllun/að svíkja sína vini og pretta/og því vil ég segja þetta:/að lymska og kænska fara ekki vel saman/því af því leiðir ástvinamissir, og fleira lítið gaman. ] [
The sun is lying down to sleep, as she slowly closes her eyes, she colours the world. Red, pink, purple and blue. Then she slowly falls asleep, and the light that brightens the sky in the day, she lends to the moon and the stars. The sky grows darker, the colour of the darkest of blue, it's like satin or silk. It's the same colour as I see when I look into your eyes, and I see the moonlight's reflect.
] [ How often have I sat and looked out my window, and hardly realized what was outside? How often have I sat and thought about you, and felt like I could travel at the speed of light? How often have I wished that you were here with me, and not so many miles away as you are? And how often have I written a poem about love, -with only you in my mind? I just can't get you out of my head; your voice, and your touch. I lie in my bed and feel like a part of me is missing, And I feel that you're supposed to be there. It's like my heart was torn in two parts, and one part isn't here. An emptyness is surrounding my heart, It hurts and I let out a tear. I need to find the other part, and I think I know where to look. I think you have a half of my heart; at least my whole mind you took. ] [ What is this feeling I´m sensing? I´ve never felt it before. Sometimes I feel like I´m walking, or floating in the air. I feel almost overly happy, but miserable at the same time. I feel like I really want to..... oh damn couldn´t finish that line.. Cause I can´t think straight, and I cant think askew......I think I´m in love with you.... Sometimes I feel like I wanna give up, for this world doesn´t matter to me. Yeah, nothing really matters to me, unless there´s you, and there´s me. This feeling is filling my heart, and I think it´s gonna explode. But getting through the everyday-life is pretty hard, when I can´t stop thinking about you.. But just to think about telling you how I feel, gives my stomach a butterfly, Cause what would I do if you wouldn´t feel the same? And if this feeling dies... Because this feeling is what is keeping me alive, and the picture of you in my head, is enough for me to think that life on this earth, is a pretty good life to live. ] [ Ský veruleikans hrannast upp sleppir sýnum þungu dropum sem verður að polli algleymis er ég drukna í ] [ Je veux vous visiter une belle soir Pour bevoir bon vin et fair quelque chose interessant Tu est prés de mon cheur mon chér Je veux vous jamais abadonner ] [ I think your special, I think your great When I'm with you, I don't know hate You must be an angel, you bright up my day Doesn't matter if it's night, your beauty brights it up anyway My words are real I'm only telling you how I feel How many nights did I spend thinking about you Come to think about it, that's the only thing I wanna do You were everywhere, in my dreams, in my mind You're the only feeling I couldn't leave behind That's a good thing, I never wanna lose you I wish you think the same thing about me too If you would ask.....the answer would be, I DO! ] [ La vie sans toi et comment vie sans l'eaux Dans la dessert seul Je guarde la lune dans la nuit et quand le solei briller pour nous ] [ Hugurinn svífur, veröldina hausinn klífur. Hringur í lífi, springur um hvern sinn fingur. Heimsins hlið, um bið grið fyrir manna sið. Heimurinn hlýðir, raddir á hann sem framkallar alla þrá. ] [ Ástin er svo heit, þótt langir veggir liggja. Þótt ástin sé eitt, Þá skal ég hana þiggja. ] [ Sál mín nakin i hann kallar sál min háð i hann kallar sál mín sár í hann kallar sál mín kvalin í hann kallar ] [ Sál mín grætur í blóði sem niður hendi mina seytlar sál min grætur í tárum sem niður andlitt mitt seytla Sál mín hrópar á hjálp sem ég hafna ] [ Í sál minni öskur hans lifir í sál minni Tár hans lifir í sál minni kvöl hans lifir í sál minni sársauki hans lifir í sál minni blóð hans lifir í sál minni hann lifir ] [ sár sálar minnar likama minn kvelja sár sálar minnar fólkið sem elskar mig kvelja sár sálar minnar KVELJA ] [ Háð honum ég dái hann ég græt hann ég sakna hans ég lifi fyrir hann ég elska hann.... ] [ ótti við að missa hann ótti við að særa hann ótti við að kvelja hann ótti við að elska hann ] [ öskur deyjandi sálar minnar er: - öskur sársauka - öskur ótta - öskur kvalar - öskur saknaður ] [ Á vordögum kemur litli strákurinn og kveikir í sinunni. Eftir hann liggur sviðin jörð. Sólin skín. Það er heitt. Sinan brennur. Þetta er allt gert til að hjálpa komandi grösum. Að vaxa, að dafna, að verða að blómi. Lítil stúlka tekur blómið. Litli strákurinn tekur það af henni. Og borðar það, ] [ Það er nóg af fiskum í sjónum. Verst að sumir eru dauðir. Eftir að hafa lent í brottkasti. Aðrir eru fiskar á þurru landi. ] [ Elsku vinkonan mín sem ég hef ekki hitt í mörg ár og loksins þegar ég hringi er litli ömmustrákurinn þinn hann sem er mest á milli tannanna á Íslandi og þá kemur þessi upphringing hinu megin frá um eitthvað eldgamalt og þú í sunnudagsfjölskylduskylduverkefnum talandi við hana sem ekki vildi koma á sjómannadaginn fyrir svo mörgum árum og taka við hjónabandinu sem sonurinn var tilbúinn með á flugvellinum samt sagðirðu mér að þetta væri þitt barnabarn og ég fann til eins og ég væri inni í hjartanu þínu og hefði aldrei farið neitt. Já. Það er bara svona. ] [ La macchina et la mia mano Io vado a sinistra et a destra Al volte non so di quale directione vado Al volte io vado mia stessa via Ho deciso di andare la via del Gesu Christo Mio salvatore della vita La via del Gesu che viveva a Nasaret Che aveva salveggiato tutt'il popolo del mondo Spero che la mia generatione vanno alla croce del Gesu Per sapere la conocenca del Dio. Dopo aver avuto liberatione mei occhi splendevano ] [ Povero io - Non ne ho pane per oggi né per domani - Morto a fame Chi liberarmi questa volta Sono un vecchio uomo nella strada Ti prego io per denaro per vivere a domani perché non ho niente Ad un tratto posso ascoltare una voce dal cielo "Andare alla croce per la liberatione" Io faccio una domanda al Dio - Perché vivere cosí sensa pane, sensa familia sensa niente Una voce dal cielo dice : "Non stare alla strada per avere pane" Ad un tratto puo vedere angeli che dicevano "Voi siete liberato per la tua fede" ] [ Ég er rokkari, ég fróa mér þegar konan er ekki heima, ég dett í'ða á sunnudögum, ég reyki tvo pakka á dag, ég er á bótum, ég er með fótasvepp, ég er með flösu, ég kann ekkert, get ekkert, skil ekkert! Ég er nobody! ] [ Aldrei aftur, skal ég rusla svona mikið til mamma mín, skal ég skilja eftir minslu á borðinu mamma mín, skal ég koma inn á skítugum skónum, skal ég biðja þig um pening svo ég geti keypt mjólk í mötuneytinu, skal ég verða þér til skammar með því að tala svo fólk heyri, skal ég koma heim með vini mína sem þú vilt ekki fá inná þitt heimili... en mamma..leggðu þá flöskuna frá þér, taktu snærið af hálsinum á mér, ég get ekki andað... en get andað betur þegar snærið er farið af, aðeins..betur. ] [ Andinn blundar í brjóstinu á meðan hugmyndirnar brjótast um í klakaböndum tregans ] [ Í upphafi var ekkert og ekkert varð að engu og frá engu var ekkert komið Svo varð ekkert að okkur sem er ekkert og mun verða ekkert á ný Við erum ekkert við vorum ekkert og allt bendir til að það breytist ekki ] [ Ónauðsynlega fólk deyið ég vil vera einn í alheiminum ] [ konan spurði mig klökk um guð hvort ég tryði ekki ætti ekki guð í hjartanu mínu og ég brosti þreytulega þegar ég reyndi að útskýra hvernig ég ætti fullt í fangi með að trúa á mig mig sem er einstæð móðir í vesturbænum og svo raunveruleg að mig verkjar stundum undan því ] [ doðinn fikrast áfram eftir leggjum finn mig standa umkringdan af veggjum engin orka til að klifra stálið... birtan smýgur inn um þröngan gluggann ég vil heldur hverfa inn í skuggann forðast það að ræða vandamálið... birgi inni orðin sem mig særðu sakna þeirra orða sem mig nærðu leggirnir halda áfram að dofna... sest því uppgjafa niður í horni upplifi uppgjöf á hverjum morgni og höfuð mitt byrjar að klofna... ... hendurnar mínar reistu þennan múr en núna kemst ég aldrei aftur úr og ég fagna aldrei neinum lausnum... hendurnar mínar blóðgast múrnum á er ég reyni að ýta honum frá verkurinn stækkar ennþá í hausnum... langar að komast út og er til þess knúinn en fjandinn hafi það ég er alltof lúinn í höndunum búinn og þrótturinn flúinn... ... doðinn fikrast áfram eftir leggjum finn mig standa umkringdan af veggjum engin orka til að klifra stálið... reisti þennan vegg með eigin höndum núna er ég umvafinn af böndum hugsa um eldgamalt vandamálið... eini félagskapurinn hérna innan veggjar hérna bakvið stálið er gamalt vandamálið... langar að komast út og er til þess knúinn en fjandinn hafi það ég er alltof lúinn í höndunum búinn og þrótturinn flúinn... ] [ Notandi: nog_af_moguleikum Þyngd: 174 kg Hæð: 183 cm Ef ég myndi fara í hárlengingu og hárígræðslu laseraðgerð á augunum mínum láta græða sílikon í magavöðva lita hárið á mér dökkt fara í ljós þrisvar í viku kaupa mér BOSS jakkaföt keyra um á Porche 911 láta minnka á mér nefið stunda líkamsrækt sex sinnum í viku fara átta sinnum í lýtaaðgerð og fitusog og tala með heillandi hreim yrði ég hugsanlega líkur Johnny Depp að einhverju leyti... Hefur einhver moldrík kona áhuga þarna úti? Kveðja “Möguleikinn” ] [ Pieno di tutto della amore della veritá della tua sinceritá Aspetto del giorno della realtá della oppertunitá dell'eternitá. ] [ I got this feeling that I don't belong in your world and everything seems wrong might the reason be that you don't like me no more I swear to God I never felt like this before you're always in my mind, where ever I might end It doesn't matter as long as I'm holding your hand By your side, I want to die In your arms, I want to cry I want you're loving, to get me high Don't know what to do I just wanna love you..... ] [ Il fume nella collina ridere a te Perché tu ai sete La lune sorridere perché e il tempo per te a andare a letto Il sole gridere Non stare cosí nella mia lume Piu bello sotto gli alberi alti Un gocchio di latte per il café e Io mi sento piú bene ] [ Svart ský dró fyrir mánann Og allt varð dimmt Lítil stelpa fannst sofandi í snjónum Hún hafði grátið sig í svefn Hún grét því hún saknaði birtunnar og hún vaknar aldrei aftur. ] [ Tveir englar efuðust um tilvist mannsins enda engan að finna í himnaríki ] [ Hetjan mín gat ferðast um tímann stöðvað byssukúlur skotið alla að nákvæmni vitað allt skotið sér leið í gegnum lögguna -án þess að drepa neinn stolið bílum drepið vonda karlinn fórnað sjálfum sér fyrir framtíðina ...bjargað deginum Svo spyrðu hvort ég trúði á Jesú hvort pabbi væri ekki bestur Ég átti bestu hetju í heimi og ég sá hana gera það aftur og aftur og aftur ] [ Á milli þeirra liggur áin æð borgarinnar og á milli þeirra liggur brúin í fullkomnum boga og ofan á boganum standa þau og horfa á strauminn meðan færist höndin hægt, á móti hönd og augun snúast gegnt augum vandræðaleg bros sem færast nær og koss -sem sendir straum- og andartakið fest í minningunni Á milli þeirra liggur heitur straumur ástar ] [ "Elsku amma Stella. Það er svo skrýtið að þú sért farin, í mínum barnaskap hélt ég að þú yrðir hér til Eilífðar. En þú sterka góða kona ákvaðst að nú væri komið að því. 'Eg virði þá ákvörðun, því hún var þín og sátt þín hjálpar mér að verða sátt sjálf. Loksins sérðu öll börnin þín, barnabörn og barnabarnabörn og þú og afi Kiddi vakið yfir okkur og verndið. Mín sterkasta minning með þér er þegar ég var hjá ykkur í Sigló og við þurrkuðum fjólur og fleiri blóm, ég vona að þú kunnir að meta þá fjólu sem ég gaf þér elsku amma. 'Eg er sár sjálfri mér og spyr mig alltaf "af hverju?". Þú veist hvað ég á við. 'Eg elska þig amma og sakna þín svo mikið.'Eg er fegin að hafa getað kvatt þig á spítlanum, ég veit þú heyrðir í mér, og gerir enn. En það er sár á hjartanu mínu núna en það grær, en ætli saknaðarsársukinn hverfi einhverntíma? En ég veit þú ert hamingjusöm núna en við sem elskum þig megum gráta og sakna. Og við vitum öll að einn daginn verður allt gott, þegar við verðum öll sama á ný. 'Eg elska þig amma, ég elska þig afi. - Þar til næst, far í friði. ] [ I. tindrandi skína á þræði tilverunnar steinrunnin augnablik einsog perlur úr plasti marglit minningarbrot um kulnuð hérumbil hefð’áttað gömul næstumþví II. tækifæri sem hljóðlaust rann milli fingra hvarf í svartan sandinn syndir nú í bláum sjónum skima eftir öðrum fiskum í þessum sjó sem alltaf er talað um að syndi í stórum torfum bíði þess bjartir að verða veiddir í net mitt ] [ finn andvarann blása mér blítt um vanga birtan frá sólinni varpast af sænum í fjarskanum sé ég tindra á tanga tíbráin sýnir mér myndir frá bænum... finn hitann frá geislunum hlýja kinnum friðsæl mín ásjóna speglast á fleti á hafi við hamingju aftur finnum í höndum mér fiskar frá köldu neti... undir stjörnunum skipið friðsælt skundar á skýjum tunglið við þögnina dansar á morgun við förum til fisksins fundar finnum út hvort að hann netinu ansar... ... vakna frá draumum í vetrarins drunga dugur minn liggur víst bara í jöfnum hugsa um námsefnið fullur af þunga en sálina dreymir ferðir að höfnum... skýrslan í skólanum eftir mér bíður ég skila þarf strax fyrir næstu viku meðan lífsins draumur framhjá mér líður mælist ég efstur á einhverri stiku... ... liggur minn hugur hjá framandi höfnum eða heimsins speki og flóknum jöfnum? liggur minn hugur hjá hafinu svölu eða þeim tilgang’að ná hárri tölu? einhverri tölu sem segir bara eitt: “ég eyddi mínu lífi í ekki neitt...” ... þegar stend ég doktor í fagnaðarglaum og í höndum mér ber ég bókavinning ég vakna mun leiður upp við vondan draum: “að einkunn á blaði er ekki minning...” ... ég hef sál sem á heima í skipum en er laminn af lærdóms svipum... 10.03.2004 ] [ Hún sagði þig koma og ég trúði hún lýsti þér fagri og sagði þig bíða ég lysti yfir undrun og fann fyrir kvíða þú ert komin og stendur sem orðið, þú átt blíðu og með allt þitt á borðið hjartað er opið og armarnir líka hjarta mitt fullt kærleik fagnar því aldrei áður fundið tímana slíka. ] [ Hornspangagleraugun reikna mislit jakkafötin vega brúnir inniskórnir meta tangir, hnífar, klippur leika um mig þar sem ég ligg á köldum málmbekknum þeir vilja ganga úr skugga um að ég sé hæfur á göturnar að ég sé samkvæmt reglugerð bíðum og vonum kannski yfirsést þeim meingallað bremsukerfið ] [ Konungshallir undir kúgun hans rísa, Kuldi og grimmd eru hans mein. Fallið er fólkið sem borgirnar hýsa, framselt til himna í boði Hússein. Herinn réðst inn og mætti litlu hafti Handsamaði Saddam og drap hans menn. Synir Hússein sprengdir upp af krafti Skálaði Bush í víni og gerir víst enn. höf. Ólafur Heiðar Harðarson ] [ Vesæl sál í vesælum líkama, getur sig ei tjáð. vesæll líkami með vesælum hug, getur ei gert. Vesæll hugur vesæll sem ég, er engum neitt. ] [ Ástin drottnar og ástin syngur ástin leikur við hvurn sinn fingur ef ástin brotnar sem eintómt glyngur þá ég verð veikur og vitleysingur ] [ Brúðurin gengur út kirkjugólfið með fallegan vönd. Hún er svo falleg og fín, og heldur í pabbahönd. Brúðguminn horfir á fallegu brúpina sína og vonar svo innilega að þessari kou mun hann aldrei týna Presturinn talar um að elska makan og vernda. Og svo framleiðis... þið vitið öll hvernig þetta endar. ] [ Vesalings fiskarnir, þeir get'ekki grillað sér sykurpúða. Því sjórinn er of blautur til þess að kveikja eld. ] [ gekk út í kyrrðina þegar leiðinn tók völd horfði á norðurljós sem lýstu bjart í kvöld... ... nokkur þeirra stigu spor gegnum himinhvolfin heitt í hamsi þau gleymdu sér í dansi vöktu upp brosið á vörunum mínum og hurfu... nokkur þeirra röltu svo hæglát undir stjörnum drógu seiminn og lýstu hægt upp heiminn tindruðu lengi í augunum mínum og hurfu... nokkur þeirra komu sem leiftur yfir himin lítil skutust og gegnum loftið brutust stöldruðu stutt við í huganum mínum og hurfu... ... líkt og norðurljós lýsa upp himin og dansa um himininn glatt dvelja persónur í okkar hugum og hverfa svo hægt eða hratt... ] [ mölurinn marrar undan fótum mér vindurinn veinar kalt að eyrum mér himinninn hlæjandi horfir á mig sendir sín ský til að ráðast á mig... ... geng gegnum grátandi skóginn votur glymja í eyrum mér fjallsins hrotur veit að á svipstundu allt mun falla... skjálftar í vöðvum mér verkinn magna villtur í fjöllum – gefst upp og þagna það stoðar ekki lengur að kalla... horfi á himininn hvelfast yfir hversu lengi ætli maður lifir með nestið búið og sinnið lúið? grúfi mig í grasið – held mér heitum hefur fólkið mitt hætt öllum leitum og sorgmætt heim í hlýjuna flúið? ... mölurinn marrar undan fótum mér vindurinn veinar kalt að eyrum mér himinninn hlæjandi horfir á mig sendir sín ský til að ráðast á mig... ... rumska sveittur í rúminu heima ringlaður veit að mig var að dreyma en draumurinn kann að þýða svo margt... þunglyndi þroska og alls kyns hættur þýðir minn draumur að verði kættur hugurinn minn sem að sá bara svart? ... mölurinn marrar undan fótum mér vindurinn veinar kalt að eyrum mér draumurinn dafnar enn í huga mér... ] [ Konungur kvaldist á krossi í stað þess að hampa sínu hnossi. Konungur eilífðarinnar stunginn sárum öllu því er við áður bárum Hann sem heimurinn hafði hafnað þótt himneskum konungdómi væri ánafnað saklaus með sekum dó þar fólkið til hans sló himinsins dýrmætasta hnoss neglt á kross á krossi leið dauðans beið í sárin sveið og líkamsörin nöfn vor rist í naglaförin. Hann var fyrir þig á krossi látinn kafna ég skil ei hvers vegna menn honum vilja hafna. Konungur alls kaus sér enga björg að veita til að rísa upp og frelsi frá dauða mönnum veita. Fara og sækja lykla heljar drepinn á hæð sem kennd er við hauskúpu skeljar. Lyklar vítis brott numdir sveið í hans undir. Fórnaði sér fyrir fólkið svo það hefði kost á að verða hólpið. Mínar syndir og sár öll mín tár á hann lögð deyddur fyrir Júdasar brögð. Enginn honum til bjargar gerði neitt hans líf deytt ekkert er saklausara og af meiri kærleik fyllt hann dó því hjarta mannanna er svo spillt húðstríktur,smáður,hæddur til dauða dæmdur. Hann dó fyrir sjúkdóma, syndir og sár á hjarta til að koma með nýja byrjun og framtíð bjarta. Hann sem var af öllum bestur dó dauðdaga þeim er þykir allra verstur Hann gat sér bjargað, en var trúr köllun sinni til að geta bjargað sálu þinni og minni Þótt jarðneskan líkama þeir hafi deytt var líf hans aldrei eytt. Flestir vita að hann var til en að hann lifi fáir á því kunna skil enginn getur vitað það nema hann leyfi sér að trúa þá mun hann í hjarta hans búa það er ekki allt sem með fræðiritum er hægt að sanna menn reyna margt að kanna hvernig hann snertir við fólki enn í dag hvernig hann svo oft kippir öllu í lag hvers vegna ef þetta væri bara saga hefur hún lifað svo lengi og er enn fólk að sér að draga það er ekki allt sem við getum skilið til fulls en sumt er þó meira vert en virði dýrasta gulls hann þröngvar sér ekki upp á neinn ákvörðunina tekur þú einn ekki verða of seinn hann engan brott rekur öllum opnum örmum tekur en það þarf þó að velja í þessu lífi hér ”hverju hefurðu að tapa ef fylgir mér?” hann þig spyr hvern dag vill einungis bæta þinn hag. ] [ þegar gylliboðin streyma inn um lúguna allan ársins hring og mér er lofað hinum og þessum vinningunum fyrir það eitt að skila inn réttu svari og hlusta á eiturhressa töffarana á hommastöðinni í heila viku og hringja svo inn til þeirra verða sá tíundi í röðinni og ná að giska á hljóðið hvaðan það kemur og hvað veldur því verður mér hugsað til fyrrasumars... þegar hugsanirnar streymdu inn í meðvitundina allan daginn og ég ímyndaði mér það að ná mér í stelpu á djamminu með því einu að drekka nógu helvíti mikið af áfengi með eiturhressu töffurunum á skemmtistaðnum í heila nótt og fara svo á stjá um bæinn verða sá allra fyrsti í röðinni og ná að giska á orðin hvernig á að nota þau og vona að hún svari til baka... ... hvort tveggja hæpinn grundvöllur fyrir gróðrarvon og dráttarvon... ] [ brúnaþungur byrja ég að muna blóðið hefur misst sinn litla funa gamlar myndir standast sterkan bruna... reyndi ákaft minninganna eyðslu en gat ei borgað örlaganna greiðslu jafnvel þótt ég reyndi Drottins beiðslu... grafinn aftur fínt í gömlu sárin geðvondur ég hugsa aftur árin þar sem streymdu stríðast sorgartárin... myndir fornar stinga gat á sinnið sjúkdómurinn skríður gegnum skinnið lífgar aftur upp á uppeytt minnið... ... vil nú loksins hvetja mínar hvatir hvenær urðu mínir draumar latir? minningarnar tauta alla tíma titrandi ég verð við þær að glíma... minningarnar verða því að fara svo ég muni kalli mínu svara gefa sorgartímann upp á bátinn glaður loksins stöðva allan grátinn... ... núna mun ég byrja lífið betur búinn þessi ógeðslegi vetur bölið enga drauma mína letur... ] [ kuldabolinn baular hátt og anga sína skekur biluð vélin grætur aumt og allar sálir vekur litla harða vélin inni í mér... augun étin upp af tárum tærast þarna grotnuð tómleiki í sjálfum mér og sálin veiklynd brotnuð ekkert eftir handa þér... dauðasyndir hafa forðum fyllt minn svarta lista fullur vonar um að bíði loksins fögur kista kista sem að tekur móti mér... samviskubit og þráhyggja þeysast um í hjarta þreyttur, leiður, blauður – held áfram að kvarta ekkert eftir handa þér... þetta ljóð er allt sem liggur eftir líkami er enn í svefni löngum grátstafir mínir eru nú heftir þó veltast þeir enn í slæmum öngum... liggur kaldur á hlýjunnar beði líkami minn sem að dó loks frá mér ég lagði sálu mína að veði tapaði ekkert eftir handa þér... ] [ ég kveikti á nokkrum ilmkertum hellti rauðvíninu í glösin opnaði nuddolíuflöskuna og horfði á þig nakta ofan á rúminu í töfrandi kvöldhúminu... lagðist kylliflatur fyrir fegurð þinni við hliðina á þér byrjaði að kyssa þínar silkivarir strauk þér laust um dúnmjúkt hárið og horfði á þig nakta ofan á rúminu í töfrandi kvöldhúminu... strauk þér blítt um brjóstin strauk þér blítt um hendur strauk þér blítt um maga strauk þér blítt um læri... en engin svipbrigði... þú lást þarna eins og ýsuflak er ég strauk og nuddaði þitt bak þú lást þarna tómeygð og dauf er ég strauk blítt um þína... tóm augu þín mættu spurulum augum mínum hafði ég gert eitthvað af mér? hafði ég gert einhver mistök? hafði ég gleymt einhverju mikilvægu? hafði ég sært þig á einhvern hátt? ... settist vondaufur á rúmkantinn og starði daufum augum út í myrkrið meðan þú lást enn hreyfingarlaus og þrjósk... rak augun loksins í kassann á gólfinu og það rann upp fyrir mér ljós: “battery not included” ] [ ég vildi að þú gætir heyrt allar raddirnar sem rógbera mig... ég vildi að þú gætir séð alla draugana sem dansa við mig... ég vildi að þú gætir snert alla púkana sem pota í mig... ég vildi að þú gætir skilið allar hugsanir sem hringla í mér... ég vildi að þú gætir skynjað alla merkingu sem miðlast frá mér... gegnum öll þessi ljóð... ] [ ég ákvað að skera upp herör gagnvart hryðjuverkum í síðustu viku... ég sendi áttatíu og þrjár fullbúnar orustuþotur sextíuþúsund hermenn og dómsdagsflugvél... ég skipaði þeim að myrða alla þá sem litu út fyrir að vera illir og hugsanlega bandbrjálað illindispakk... þeir drápu allt sem fyrir fannst þeir rifu niður heilu byggðirnar skutu börn af tvöhundruð og þrjátíumetra færi... (að sögn eins... en ég held að hann sé bara að monta sig) hleyptu fjörutíu tonna skriðdrekum yfir moldarkofana vörpuðu fimmtán tonna sprengjum yfir moldarkofana skáru hendurnar af illindisseggjum því þeir báru hnífa sprengdu húsin upp í háaloft því í þeim voru hnífar... (allir þessi hnífar gætu reynst okkur skaðsamir) þeir drápu allt sem fyrir fannst þeir rifu niður heilu byggðirnar skutu börn af þrjúhundruð og fimmtíumetra færi... (hann er strax byrjaður að ýkja) ég stoltur leit á árangurinn ég stoltur sá á haugana hauga þar sem áður voru illskuhúsin... ég stoltur leit í spegilinn ég stoltur sá þar sjálfan mig manninn sem að gerði heiminn að öruggari stað... ] [ hann ýtti henni niður í gólfið sparkaði fast í kviðinn lamdi oft í höfuðið hrækti á hana... hún stundi grét og sparkaði hélt utan um ófrískan kviðinn til að verja það sem í henni dafnaði... hann lagðist ofan á hana reif hana úr tötrunum þröngvaði sér inn til að ná sínu fram... hún gafst upp með ekkasogum starði á loftið og vonaði að stundin liði fljótar ef hún reyndi að sofna... hann lauk sér af í snarhasti lamdi hana ítrekað með kylfu og hnúum... hann hrinti henni niður stiga þeytti henni utan í vegginn og endaði kvöldið ...á enn einu sparki í ófrískan kviðinn... ... hann fékk fimm ára fangelsisdóm fría máltíð á hverjum degi þak yfir illkvittið ljótt höfuðið og laus tveimur árum fyrir tímann ...fyrir góða hegðun... hún fékk lífstíðar þunglyndisdóm fría depurð á hverjum degi vantraust á alla ástvini sína og missti barnið fimm mánuðum fyrir tímann ...fyrir hans hegðun... ] [ hún glóði líkt og sóley á blíðum sumardegi er ég stakk honum í raufina... þrýsti á nokkra vel valda staði hún stundi hærra með hverri snertingu... hún hitnaði og hitnaði stundi hærra og hærra uns mér leist varla á blikuna gat varla snert hana lengur með berum fingrum... færði hendurnar af henni gat ekki snert hana óhljóðin ærðu mín eyru... reyndi að draga hann út en fastur hann sat í níðþröngri heitri raufinni... ... tók hana úr sambandi mun aldrei reyna að spila þennan tölvuleik aftur... ] [ sittu nærri eldinum og hlýjaðu þér strákur er hitinn ekki kósí og yndislega skær? þú veist það ekki núna – en nærri þér er snákur með illsku í huga og kemur nær og nær... starðu á eldinn og láttu værðina á þig falla er þreytan ekki þægileg og dagdraumar góðir? hinum megin við glúfrið raddir til þín kalla hægra megin við þig nálgast skógarbirnir óðir... hjúfraðu þér við steininn og hvíldu lúin beinin luktu þínum augum aftur og láttu drauma dafna hættu að hugsa um sorgir og eldgömlu meinin þú veist það ekki nú – en í svefni þú munt kafna... ... gleymdu öllu illu sem þig hefur sært hugsaðu frekar um það sem er þér kært horfðu fram veginn - hann liggur nú beinn hætturnar elta þig – og í miðjunni steinn... hlauptu áfram strákur og hlauptu hratt annars hætturnar ná þér og fella þig flatt hlauptu hratt á þínum blóðugu leggjum en bráðum lendirðu á flötum veggjum... ... ef hætturnir þú flýrð – á aumum leggjum lendir þú bráðum á hörðum veggjum... ] [ þegar ég var lítill átti pabbi minn spjall við mig og sagði mér frekar klúra sögu af býflugum og blómum... eins og ég skildi það báru býflugurnar frjókorn á milli saklausra blómanna og átti það víst að tákna “kynlíf” ... veit ekki alveg hvar ég villtist af veginum en hvernig tengjast súkkulaði, rjómi, jarðarber, trúboðastelling, hundakúnstir, sextíuogníu, nuddolía, rólur, svipur, grímur, leðurbúningar, gervilimir, titrandi borðtenniskúlur, bananar, vaselín og flengingar eiginlega býflugum og blómum...? ... þarf helst að eiga annað spjall við hann pabba... ] [ Það breytti öllu að verða ástfangin Ég hefði ekki getað trúað því en ég varð ný Glæný Litirnir virtust skærari og andadrátturinn léttari. Hjartalagið fékk nýja heild Ég hefði ekki getað trúað því hve gott Er að vera ástfangin af Almættinu Hann gefur mér allt sem hjartað þráir Demantshringi gæti hann gefið mér tíu en hann veit að hvaða demantur sem er getur ekki fyllt sál mína Ekki fuglasöngur eða kertaljós, glænýr bíll eða snoturt hús Þó gæti Hann gefir mér þetta allt Hann elskar mig meir en verðmæti heimsins Hann hlustar á hjarta mitt slá og telur hvert tár Hann veit um gleymd leyndarmál og mín dýpstu sár Og Hann veit að ég veit að Hann veit Svo við getum þagað saman meðan mínúturnar telja tíman. Án þess að rjúfa þögnina getur Hann hvíslað til mín Ég elska þig Orð Hann eru eins og gola sem blæs ljúft inn í sálina Frið og fullkomnun Ég svara með minni veiku mennsku röddu Jesús ég elska þig en fyrst þú elskaðir mig. Þá fyrst er þögnin rofin en ástin sú sama Ég hefði ekki getað trúað hve mikilfenglegt það er að vera ástfangin af almættinu. ] [ Raddir himna sungu og her engla flaug til jarðar til að bjarga mér Andavald undirheimana reyndi að hrifsa, taka og stela sálu minni Reyndu og reyndu, gátu ekki neitt Gátu ekki eyðilagt, eyðilagt og eyðilagt. Tortímt Svo djöfullinn fór í líki ljósengils. lokkaði mig til sín með tælandi rödd en trylltum rauðum augum Komdu, komdu unga hnáta, komdu ég skal gefa þér gull og græna skóga ég skal gefa þér allt sem hugur þráir rauðan kjól, gylta skó höll hvað viltu ég skal gefa þér það allt En himna englarnir sungu Hallelúja og hjartað fór að slá og hjartað fór að vilja meira en hugurinn kunni að þrá Þá grenjaði djöfullinn og grát bað mig að fara sér ekki frá en dýrðaríki Drottins kallaði mig á Þá féll ég á kné og til bað þann Hæsta bað hann að taka við mér eins og ég er þó syndug sé og tár mín streymdu stanslaust Þá tóka hann mína hönd og lyfti mér upp í sína hæð og sagði barn mitt gráttu að vild en sár þín eru gróin Því ég hef beðið fyrir þér Og himna englar sungu Hallelúja, halleljúa ] [ Tvö hjörtu um hlaupa hjartsláttur þeirra ör Koffín fíkn kætir kærleiki þeirra á milli. Við hin horfum á óþolinmóð Hjörtu sem saman eiga að vera Eru saman sem Sólin og Vatn Lífsgjafar ástar og manna. Það erfitt er að vera áhorfandi og í senn þáttakandi Í skrípaleik mannanna samfélags og vilja bara sjá þau saman. ] [ Hrossagaukurinn er með langt nef, og fær oft kvef. Hann flýgur yfir tún og gefur okkur dún. Hann er með tvo fætur og er líka sætur. ] [ Ertu vinur minn, þú horfið á mig þjást. Elsku vinur minn, Þú þarnast ást. ] [ Þú gafst mér hana nú, þú veist ég elska þig. Þótt ég sé ey sú, þá þráir þú mig. ] [ Þú ert mér allt, en mér er svo kalt. Þó muna þetta skalt, svo margfallt. ] [ Mig elska muntu nú, þótt ég sé ey sú. Hvar nú, ert þú? ] [ Það ert þú, sem ég elska. En hvar ertu nú? ég hugsa um mig, þú ert ástin mín, ég dái þig, ég mun verða þín. ( . Y . ) (..) ___ ] [ Mætti átta gömlum konum Ég þorði ekki En ég verð Níunda konan var rænd ] [ Ég er þolinmóð ég er að sjóða pasta Pasta í olíu Það sýður í fjóra tíma Ég er þolinmóð Það kemur eldur Ég er þolinmóð Slökkviliðsmaður bjargar mér Ég er þolinmóð Hann sér það Ég er þolinmóð Á deild Hann veit það Ég er ástfangin Hann setti mig á deild En ég er þolinmóð ] [ Spegilsléttur fjörðurinn varpar skugga á bölsýnina sem brátt dregur mig til dauða ] [ Í gíslingu þeirra er ekki þekktu hann, var hann virtur. Heima saknaði hans enginn. ] [ Ef þig vantaði stað að geyma hjarta þitt er pláss hjá mínu. ] [ Mildur andvarinn feikir stærðar fjallgörðum, í huga mínum. ] [ Stökkva fram úr myrkrinu, sálþyrstar blóðsugur. Galopna andfúlan kjaftinn og sýna ryðgaðar og bitlausar vígtennurnar. Augun eru líflaus og tóm. Reyna að bíta mig en ég finn ekkert nema vandræðalegan pirring. Mig langar til að berjast, mig langar að reka fleyg í brjóst óvættanna og murka úr þeim lífið. En það eina sem ég get gert er að slá pestina af mér eins og flugur. Ég steyti því hnefa til skapara þeirra í hamslausri bræði minni og öskra að þeim þar til mig sárverkjar í háls og lungu og hjarta. ,,Hættu að óska þess að vera þunglynt skáld þegar þú ert hvorugt! Hættu að þrá ástarsorg meira en ástina sjálfa! Hættu að vorkenna sjálfum þér í athyglisveiðiferð þegar þú hefur það fínt! Drullastu til að viðurkenna að þú hefur það fínt!" Eftir þessa útrás líður mér betur því ég veit að ég hef það fínt. ] [ Fuglar eru með fjaðir, fiskar eru með ugga, ljóninn eru með hramma en mennirnir bara með skugga. ] [ Ég elska þig, og þú elskar mig, við elskum hvort annað, og það er sko sannað. ] [ Inní þér Er söngur sem syngur Blíðlega, alltaf. Söngur sem þú heyrir Aðeins þegar allt er hljótt. Söngur lífs. Drauma og vits. Óendalegra ólifaðra ævintýra. ] [ Light my life, light my fire light up my dreams and my desire put down my hopes but never leave me alone I just can't think now when your gone Must have your love, now when apocolypse is on My fire in your chest has faded away and now it seems it doesn't matter what I say And the time I wished never to come, is today Apocolypse, in my heart, in my dreams my feelings are dead and my mind screams It's now, end of time is near in every heart, filled with fear We're dead, apocolypse is here! ] [ Hvers getur ung stúlka standandi á nærklæðum í stórhríð og byl vænst af náttúrunnar óblíðu höndum? Líklega þess sama og hún þekkir af stöðugum tryggðarböndum frá manna höndum. ] [ Gagntekin þokumistri sveif sálin um flugvöll stórborgarinnar nakin reyndi hún að ná í tötra gamallar sálar sem hún hafði týnt inni í sér Sál um sál frá sálnaflakki hver um aðra innan sömu sálna allar hálf naktar notandi hver aðra til að hylja sig fyrir gegnumtrekk í þokumistri heltekinnar hugsunar á flugvelli í ókunnri stórborg þátíðarinnar ] [ ísform með pappírsbragði ofþornað kex í sumarbústöðum og hálfvitalegar rauðar ástarsögur koma mér stundum í gott skap ] [ Tyggjóið er geysi gott, gott að fá í munninn. Apinn hann er enn með skott, ég er nú meiri klunninn. ] [ Ég á mér draum, ég á mér draum sem alldrei mun rætast. Ég veit að hann mun ekki rætast, því hann er ekki til.... ] [ Í fótbolta gaman er, þótt sé það pul og púl, United koma saman og vinna Liverpool. ] [ All the time, I used to say That eventually I would pass away People didn't listen, but it's now today Standing on my own Lost everyone I love...all sleeping nights alone In the dark, freak is leashed They hate me, I'm a beast Pain and pain over again Nothing I do, can make me a man I'm so sorry for the things I've done I want to come out of the dark and see the sun No more hiding, no more shame Everywhere I go, it's all the same People are all the devil, but with a different name I want to die, I'm sick of playing this game... ] [ Ég á mér drauma, sem ég mun aldrei lifa Ég á mér orð, sem ég mun aldrei mæla Ég á mér styrk, sem ég mun aldrei nota Ég á mér ást, sem ég mun aldrei dreyfa Ég á mér framtíð, sem ég mun aldrei sjá Ég á mér sýn, en ég er blindur Ég á mér væntumþykju, sem ég get aldrei deilt Ég á mér vilja, sem ég mun aldrei sýna Ég á mér þrá, sem ég mun aldrei fá...... ] [ “Hey! Afhverju verðum við ekki öll bara vinir? Væri það ekki gaman!?” -Sagði Jesú rétt áður en mennirnir negldu hann á krossinn. ...hann vissi ekki að mennirnir kunnu ekki stakt orð í hebresku. ] [ ég skil þig ekki á neinn hátt Afhverju segistu elska mig? þú hefur eitthvern mátt... sem fær mig til að svífa Ég get ekki hætt að elska þig.. Það sem ég ei skil ,ég sit hér með mín tár græt og mun ei skilja þetta tímabil , þetta líf eina sem ég vil er að vera hér ein með þér..... ég man er ég lá hjá þér... og heyrði hjarta þitt slá þá ég vissi að ég ætti... allt sem ég vildi fá ég er eirðalaus án þín hér,skil ekki ka amar að þér ég óska þess að þú mundir vera hjá mér Allt mitt líf ] [ Alltaf á grímuballi eltir þann næsta hlærð og drúpir höfði við gengum í gegnum garða og rákumst á grimman hund leiðir okkar tvístruðust og nú þegar degi hallar hangir búningurinn á snaganum og þú hverfur undir sængina og segir ekki orð ] [ Did I hurt again, I keep thinking Am I on my way to hell, in my own pain sinking I'm stuck in moment of pain Hell used to come over me, but now with rain No silent in my chest, voices making me hear That my life, will end right here Maybe I deserve being in pain I've been to long driving on the wrong lane But I've never done things I should die for Maybe I should go to hell and never show myself anymore Doing people a favour, leave without a trace Stay for eternity in a cold lonely place I've said I'm sorry, but it can't replace the things I took I can't do anything to make it up, but look If I could die instead, I would do I feel so bad and I'm so sorry for you Now I go to claim my place in hell I'm sorry for everything I couldn't tell Moment of pain, memory I should erase Memory of you touching my face Moment of love, only thing I ever had But now...I'll die alone...and sad ] [ In my blood, in my vein Is a poison that is toxicing my brain All motion are still, my system doesn't respond My memory has been forgotten.... Have you ever felt so in love that you could die So in love that she makes you feel high Ever got so lost in the beauty of her eye's That makes you think there's nothing you wouldn't sacrifice For only one moment in her sight Keep thinking if she see's me tonight Can't tell wrong from right My dreams are gone, I let them go without a fight Long ago I got away from the light Living in the dark shadow of my own And the devil that took my soul and my home ] [ Til þess að þú gætir sært mig þurfti ég að klæða mig úr fötunum og leggjast nakin við hlið þér. Það er eins og ég hafi klætt mig úr sálinni í leiðinni og týnt mér. Því að ég hef ekki fundið mig eins og ég var um leið og þú byrjaðir á lyginni. Ég velti því fyrir mér hvort að þú hafir drepið mig og ég er ekki frá því að einhvern sannleikskorn sé í því. Því Ég Sakna Mín ] [ Ljóðalínur langar og leiðinlegar yfirleitt um ekkert ekkert sérstakt draga mann niður í leiðindin einmitt það sem ég geri núna finnst það gaman gera fólk dapurt setja það í fýlu. Ég er köld Og finnst það gaman ] [ Hversvegna? Hversvegna þú? Hversvegna líður þú þvílíkar þjáningar? Hvenær færðu svar við þinni brennandi spurningu? Jákvætt eða neikvætt? Hvenær færðu kjark til að spyrja? Ósk þín er að fá svar án þess að spyrja. ] [ Á óþroskuðun skammdegismorgni læddist Kári kuldaboli úr fylgsni sínu og réðist á þá, sem héldu að veturinn væri ekki kominn, og beit þá í eyrun og puttana. ] [ Held í mér andanum Vil ekki tala við þig bullandi kaldhæðnin svíður og andinn berst við tárin. Hugurinn blekkir og hugsunin svekkir Hún er framtíðarhrædd, tíminn teymandi hana áfram. Samt svo staðföst og hræðir mig, lokar á mig og segir að ég sé ekki lengur til. Bara ef hún opnaði augun þá sæi hún að ég stæði þarna grátandi. Eins og ég hafi aldrei gert neitt annað áður. En hurðinni heldur hún lokaðri og læstri. Tilfinningarnar fá ekki út. ] [ Ég finn tortímandi storminn sterka, en sé í myrkri litla logandi geisla, sem leiða til vammlausra verka - og vel lífskraftinn eilífa beisla. ] [ Ég var í mikli sturtu allt tók sinn tíma þar, en ég hljóp síðan hratt í burtu því gömul kona þar var. ] [ Ég stóð þá þarna einn í skóginum ekki vissi ég hvað var í skóginum. Það var myrkur,það var nótt ég gat ekki séð neitt því það var nótt. En síðan glökti í eithvað það var ljós þá gat ég loks séð leiðinna út í fjós. ] [ Vaknaði snemma og fann að það var eitthvað sem vantaði, Aðeins mitt eina nafn, Enginn annar sér að ég er fastur, Fljótt kom eilífðin. Ég hætti í nokkrar sekúndur, Þá gerðist ekkert. Hver er ég á þessum tíma, hvar er nafn mitt? Ég held að það hafi læðst í burtu. Það hringir enginn útidyrabjöllunni. Það er ljóst að það mun ekki trufla neinn. Það verður erfiðara að leiða þetta hjá sér. Ég horfi beint áfram, en það er ekkert eftir að sjá. Það sem er gert er gert. Lífið hefur náð tökum á mér. Ég læt mig sleppa, það sem er núna mun aldrei verða. Ég gleymdi að ég gæti séð, Svo marga fallega hluti. Ég gleymdi að ég gæti þurft, Að komast að því hvað lífið gæti fært mér. Tek þennan farsæla endi, skiptir engu máli, Guð eyðir ekki þessum einfaldleika á möguleika. Hjálpaðu mér upp, vektu mig, draumar eru fullir. Kenni þessari slóð um. Þótt frosinn væri hélt ég að ég gæti stöðvað, En hver mun bíða? Hvað geri ég núna? Get ég breytt um skoðun? Ég hugsaði þetta til hið ýtrasta? Þetta var einu sinni líf mitt. Þetta var líf mitt eitt sinn. ] [ Nagli í stórum skógi Naglar og horfin sýn Naglar í með ekkert hjarta Naglar á stórum ís Naglar sem meiða í orðum Nagli með lítinn haus Naglar í frostnum skógi Nagli með spur-nar-haus Naglar á förnum vegi naglar sem vita allt Naglar sem ofmeta alla Naglar sem geta ekki meitt Naglar á sólskinsdegi Naglar og birta í þér Naglar á dýrðardegi Nagli og spurning hér ] [ Takk þið sem komuð takk ekki fara takk það er svo gott að hafa ykkur takk þið gefið yl takk þið gefið frið og ró takk sólin gefur takt í lífið takk réttir okkur af í lífinu takk birtan frá henni er svo góð takk engan tunglmyrkva takk skipið er á réttu stími til okkar takk svo við villumst ekki af leið takk því skipinu er vel stjórnað takk því við förum eftir stími skipsins takk ] [ Hann Sjáið hann er HANN HANN Hann er einhver annar. annar en hver? Nú hann sjálfur. ] [ Skipið Máttur hafsins mikill er, menn slasast og deyja. Engin veit hvert næsti fer, kannski fer næsta eyja. Ekki spyrja hvert hún fer, því engin veit hver er styrkur hraunsins. Hafið spyr ekki hver næsti er, hvort það sé þú , hann eða maður auðsins. ] [ Gengnum dimma þrönga slóð, þar sem stemning er með miklum hroka, þú ferðast um þann þrönga veg með þögull óp í sjón á spegilfögrum beltum afl þíns, falin bak við dauf eyru þinna Hauka. Hvað hefur þú að gefa byssubrandur annað en miðlun blóðdrifins hjarta, með þessu,og þessu eina sem þú hefur til bruns að berra,vera í flotum fötum og ganga í takt? Hvar er þessi lykill sem opna kúgunar dyr og lætur þig stíga upp úr mannlegu eðli, eða Þarftu alltaf að falla fyrst til að sjá það hvað gerðist hinum megin? ] [ Á hafi glampar sólin sæl með sæmilegri brellu vappa ég með vænlegt smæl til Víðihlíðiskellu ] [ Hikandi fór ég um helkalda strönd hófför í sandinum rakti. Sá ég hvar opnuðust sævarins lönd sýnin mér lotningu vakti. Birtist úr djúpinu bláfextur jór brimið um lendarnar freyddi. Fossaði um bringuna svellandi sjór salthvíta ölduna sneiddi. Nasirnar titruðu er nístandi hnegg neistann í augunum slökkti. Andartak blikaði á brúnir og skegg brotsjórinn dýrinu sökkti. ] [ Þú ert eins og hið sæta vín ég vil fá þig aftur til mín ég mála þögnina ein án þín biturt vín gæti þó drukkið meira eina tylft eða svo samt staðið í fætur tvo ég í fæturna stend sem klettur og bíð ] [ Fjandans buxur fjandans hár fjandans andlit, fjandans peysa fjandans húfa fjandans varalitur, hvern fjandann ertu að gera, lest bara eitthvað! Fjandinn hafi það! ] [ Þannig flaugstu,svartur yfir hvítum feldi fjallana,eins og skuggamynd á tjaldi. En þegar augun mín drógu þig inn í sig, opnuðust nýjar víddir. Við tvö urðum eitt með vindinum, sem var búinn að finna okkur nýtt nafn. ] [ Það er alltaf hæðnishlátur, sem veldur ólukku í gull. Oftast brestur það út í grátur, enn verður svo aftur bull ! Grátur er bísna sár, það búast allir við. Og allir halda að maður sé klár, að tóra við Guðs sið. Hlátur er oftast glens og gaman, það vita allir vel. En ef að eitthvað blandast saman, Þá fer þetta aðeins ver. ] [ Varkárir til sóknar þeir blása og fullir af sigurvilja. Því í dag viðrar vel til loftárása og það eina sem þeir skilja. Himininn breyttist og varð blóðrauður braust þá út barátta og mikil hræðsla. Sprengja féll og eftir lá drengur dauður útskýringin á henni er enginn fræðsla. Móðir sat með látið barn í fangi sínu lömuð af ótta reiði og sorg. Allt sem þú sérð með auga þínu er ónýtur staður sem áður var borg. Ekkert var að sjá nema gráa reykinn sem lá yfir allt og öllum. Liggur þarna maður og annar illa leikinn og hræðsla heyrist í flestum köllum. Loftið í borginni var rakt og þurrt og lyktin fyllti menn viðbjóð. Þarna var handarlaus maður sem gekk burt en eftir honum myndaðist blóðslóð. ] [ Karl átti konu sem var sko löt enn úr ullinni búa átti til föt og hlutverki sínu hún aldrei vel sinnti og karlgreyið oft það hana á minnti. Svo dag einn stóra kerlingu bar að og konan um hjálp hana bað. Spurði hvort fyrir sig hún vildi vinna því ekki kynni hún úr ullinni að spinna. Kerlingin sagðist glöð það vilja en eitt yrði hún samt að skilja. Að upp á nafni hennar hún þurfi að geta og fyrir sumar annars myndi hún hana éta. Ráðvillt konan var nú orðin og kerlingin með ullina var löngu horfin. Karli sínum hún frá þessu sagði en hann settist bara niður og þagði. Einn dag karlinn hélt upp til fjalla heyrði þar úr gili einu einhvern kalla. Gekk þangað og sá þar stóru kerlinguna hrópa nafn sitt og það yrði hann að muna. Hélt hann heim án þess að nafninu gleyma, ritaði það á miða og bað konuna að geyma. Veturinn leið og kerlingin kom svo aftur, barði að dyrum og í höggunum var kraftur. Spurði hún um nafn og varð fljót að því, svaraði þá konan með nafninu Signý. Ekki rétt, en spurði hvort Ása það væri? Rangt, en hún átti nú eftir eitt tækifæri. Spurði konan hvort Gilitrutt væri rétt og varð kerling svo brugðið við þá frétt, féll hún í gólfið en lá þar stutt fór svo burt því nafn hennar Gilitrutt. ] [ Sárt ég mun nú sakna þín sem varst mér hjá hvarfst svo út í buskan og út í myrkrið svart Það líður ei dagur það líður ei stund sem hugur minn reikar og endar ei hjá þér Alltaf eru þær góðar því engin slæm er til þú varst alltaf svo góður og blíður við mig ] [ Við gengum saman hönd í hönd gengum um götur stræti og borg Þú hvílsaðir að mér "ástin mín ein hvernig gæti ég án þín verið" Ég hvíslaði á móti "elskan mín góð þú veist það mun eig gerast í bráð" Ég elska þíg heitt og vil þig ei missa því ég þrái að vera þín að eilífu ] [ Það eitt að heyra rödd þína breytir litunum í kringum mig. Allt sem áður var myrkt lýsist nú upp og baðar mig geislum. Orð þín smjúga inn í hugsanir mínar og glæða þær björtum litum. Þínum litum. Bara ef ég fengi að sjá bros þitt, sem lýsir upp myrkustu tilfinningar, feykir manni upp til skýja. Þangað til, geymi ég mynd af þér kyrfilega festa í huga mínum. ] [ Sólin skín björt á hvítt andlitið sem er herpt saman af beiskju og með bauga undir augunum. "Helvítis" muldra ég, "Helvítis sólskin" Lít útum gluggann, leyfi sólinni rétt að gjægast á litla púkann í kjallaranum. Hverf strax aftur til minnar fyrri iðju. Pikkandi orð inná tölvuna sem hverfa jafn óðum. ] [ Lífið þýtur framhjá mér meðan ég stend frosin í sporunum með lokuð augu. Allir eru að flýta sér mega engan tíma missa. Svo enginn tekur eftir álútu verunni með lokuðu augun. Þeirri sem veit ekki, hvort hún er að koma eða fara og hrærir sig því hvergi. ] [ Mig vantar snertingu. Hlýtt faðmlag sem yljar inn að dýpstu hjartarótum. Einhver, sem fær mig til þess að brosa, þegar ég vil helst af öllu gráta. Einhvern, sem fyllir holrúmið í hjarta mér. Einhvern, sem skilur hvernig mér er innanbrjósts, án þess að ég mæli orð af vörum. Einhvern, sem fær mig til að missa fótana og tapa áttum. Mig vantar einhvern sem strýkur mér um vangann og segir svo óþolandi blíðlega "Þú ert svo sæt þegar þú reiðist" Mig vantar einhvern. Mig vantar þig. ] [ Hefðu mig til himins svo ég fái snert skýin. Fljúgðu með mér út í hvolfið svo ég sjái stjörnurnar speglast í björtum augum þínum. Ferðumst saman, þó kyrr á sama staðnum. Látum okkur dreyma, Saman. ] [ Kvöldsund á neti með rauðvín og ljóð Kveiki á kerti og sit hérna einn Kyrrja í hlóði stunndin er góð Því vegurinn liggur mér farsæll og beinn. ] [ Oh my..... I'm so tired being right I'm tired being alone every night When I shouldn't be on my own But my dream has left me alone She did wrong, she made a bad mistake But he took the dream I was ment to take Jealousy soul and a failure man Why is it so hard to see I'm your greatest fan You are doing the same mistake twice Why can't you follow the angel's advice What is it your really want from me I'm not gonna spend anymore time trying to make you see When you seem to be blind What is going on in your complicated mind All I got left is letting go of my breath Because nothing is out there for me but death ] [ How is it possible to make such a mistake How many hurt feelings can I make Shall I hang myself over the lake That's my decision to take When will I put an end to this all When will my final patient fall Will I stop make an damage to everybody I love I will kill me and hide myself forever behind the clouds above ] [ Pendant j'aspette a toi Je pense de mes fammes dans la vie Elles sont numerouse Je ne veux pas parler de l'autre fammes avec toi pasque la vie é seulement toi Dans la nuit, je panse. Peut etre je trouve une autre Pasque je suis un homme que vouler avoir beaucaup dans la la vie, beaucoup de faire Qui ne vouler pas étre heureuse. Qui ne vouler pas étre content Qui ne vouler pas avoir future Mais je n'ai pas la ceur pour étre heureuse. Pouvre moi. ] [ Frjáls klæddur hvítri skikkju og notar tvíeggjað sverð Til guðs ég hugsa af væntumþykju Fylgdu mér hvert fótspor, hverja ferð Kristur minn, ég svara þínu kalli þú leiðir veginn og svarar mér Þú situr uppá himnastalli Þín boðorð ég í hjarta mínu sver Huggun þín er grundvöllur trúar Þú hughreystir og styrkir í nærveru Þú um hjartarætur mínar hlúar Þín kirkja og boðskapur, þína vistarveru Frjáls um veg þinn fótspor myndast kærleikur, kaleikur, og kraftaverk Syndin með bæninni vill umbreytast í fyrirgefningu þegar bænin er sterk Kristnihaldið er heilagt Því halda þarf utanum í ljúfri bæn Fáein orð til guðs svo einfalt trúin er svo frjáls og kæn Vakning í hjarta mínu og barmafullur bikar minn Mig þyrstir, þú varst í þinni pínu Þú bíður mér í bæinn þinn Jesúsalem, Jerúsalem, Í heraðinu Nasaret Ég landið með fótum mínum nem Guð með yfirhandarlagningu lét Konugur, konunganna Himinn lýsir upp guðs neistum Frelsari mannanna Eigi leið þú oss í freistnum Mig þyrstir í orð þitt núna og tunga mín er þurr Í bæn ég bið um styrk með trúna syndir afmáðar eftir þungan burð Lækning um líkama, syndin gufuð upp Lykill líknarans, lindin læknar lund Orð þín eru lampi fóta minna í bæn heilagur andi finnur mig Heilagar lindir, um sálu renna og kenna mig þinn boðskaps sið ] [ Ég horfði út um gluggann Og sá þig nálgast ég leit niður á skuggann hann niður var að tálgast Ég átti enga von En hélt mér bak við tárin Ég hugsa lon og don Hvernig lífið yrði næstu árin Ég elska þig af öllu hjarta Ég mun aldrei geta gleymt þér Ég held mér í vonina bjarta Um áhuga þinn á mér ] [ Hvers á maður að hlakka til jóla sérhvert ár að fá góðan mat að smakka eða allt þetta búðarfár Jólin koma senn er eitthvað gaman þá ég sit og bíð bara enn er snjórinn kominn, ég fer að gá Margar gjafir við fáum þá við kertaljós og ró allt er þetta jólunum á kannski ekki, og þó ] [ Borðið er blátt hárið á ömmu er grátt tónlistin er spiluð hátt váá ég á svo bágt ------------------------------- Stilltu tækið hárið þið flækið krókinn krækið á burt þið mig rækið ------------------------------- Hjartað það brennur er ég sé þessar glennur hoppa fram og til baka ég gæti kreist kaldan klaka ] [ Ég sá þig í gær í faðmlagi annars ég leit niður í tær og hljóp svo til ?? Ég hugsaði aftur og aftur vá þetta er skrítið þetta er meira en smá kraftur og ekkert smá lítið Niður í gólfið, ég er að renna hvað get ég gert hjarta mitt er að brenna ] [ Senn koma jólin þá geri ég öll ljóðin þetta ljóð er um jól þessi jól þá geri ég ljóð ljóðið er um Jesú Jesú er jólin um jól er gaman gaman að vera saman brátt líkur þessu ljóði því það eru að koma jól ] [ Meðan ég svaf heyrðu eyrun mín suð eitthvað var þarna, kannski sjálfur Guð. Þetta sagði mér hvað ég ætti að gera og einnig hvar best væri að vera. Var mér kannski að dreyma að yfir mér sálir voru að sveima. Mikið er þetta allt saman skrítið því ég sá ljós og það var lítið. Þegar ég sofna bráðum aftur finn ég inn í mér sé mikill kraftur. Þá loka ég augunum mínum og leggst af í draumunum þínum. Birtist ég þér, mun ég ekkert segja heldur horfa á þig mín fallega meyja. Ekki skaltu mig á neinn hátt hræðast því við gætum látið hugmyndir fæðast. Nú þig um tíma ég kveð það verður stutt en mun bæta mitt geð. Kem svo aftur næst þegar ég sef og þá, ég mitt hjarta þér gef. ] [ Þeir komu aðsvífandi að nóttu og blíðlega þeir mig sóttu. Ég finn enn hvernig ég svíf og fann tilganginn um þetta líf. Ég var settur á góðann stað og þar var maður sem mig bað. Að sjálfum mér ég yrði að sinna því vandamálunum yrði að linna. Oftast er erfitt að fá það sem er best og vill maður það oft og það sést. Tímarnir verða nú betri og betri og ætla ég mér að koma vel undan vetri. ] [ Hvernig fær maður öllu breytt eða þurfa ekki að hugsa um ekki neitt. Halda svo út í lífið áhyggjulaus vitandi að hjartað fyrir löngu fraus. Er einhver sem stjórnar þessum leik sem stendur fyrir ofan skýjin bleik. Á maður að trúa og treysta honum og halda í öllum vonlausum vonum. Hverjum á ég eiginlega að þakka heilsa upp á og færa glæsilegann pakka. Að þessu hef ég sjálfann mig oft spurt en sem á að svara er löngu gengin burt. Ég er langt frá því að vera honum reiður en hef fengið nóg af því að vera leiður. Ertu að láta hefnd þína bitna á mér og Guð þessi spurning er ætluð þér. Ég skal gera allt sem ég þarf að gera svo ég þurfi ekki þetta allt að bera. Hegðun mína fékk ég í arf en ég vill hamingjuna aftur sem hvarf. Ég hef beðið um betri tíma en vonir mínar eru farnar að dvína. Ég bið þig um að geð mitt bæta því það myndi sál mína kæta. ] [ Beðnar bænir mínar hljóðna, brostnar vonir lífsins óðna. Lánadrottnar bænir lána, huga míns traustinu dána. ] [ (Intro:) This is for all you people that think I'll never amount to shit.... (Verse 1) Daddy, go ahead, call me P.I.M.P I don't give a fuck, you obviously don't know me And mom, say again I'll never make some G Ya'll make me stronger by calling me a looser But in the end, who's the real loser? Get to know me before you judge me And in the end, ya'll get to see I ain't no fucking wimp I've made it better than ya'll and I'm a pimp I got the G, I got the ho's, I got the twenty fo's My name is pimp, my shame ain't real I'm going to make ya'll enter my mind to feel How close I'm to kill (kill my enemy's) I can do everything, I'm da p.i.m.p with tha Gz (chorus:) Fuck all you that doubt me Burn in hell for cursing the P.I.M.P But in the end y'all see That I'm tha dogg with da G (Verse 2:) Yeah, my parents don't know shit I'm gone now and I won't return until I've made it This song is especially dedicated to you All you did was calling me a failure and a fool So what, maybe I'm a failure but I don't give a fuck I don't care about others opinion, if ya'll don't like me, suck my cock Go ahead, kick me out, make me glad Because if I'll stay with ya'll any longer, I'm good as dead But when I think about it, I'm on my own I don't know what to call the place that used to be my home Fuck, I hate people that call them selfs friend And when I need help they just slam on my hand Fuck all people that doesn't help others in must So for real, who can you really trust (chorus:) Fuck all you that doubt me Burn in hell for cursing the P.I.M.P But in the end y'all see That I'm tha dogg with da G (Verse 3:) Only way to glad my dad Is if he would see me on the floor dead Be careful what you wish for Because that dream can get more I could just kill myself like I tould you before It seems like you don't care You just think I wouldn't dare But what will you say when your dream will come true What will you say, what will you do Maybe: "I hated that nigga" and my mom say's: "Yeah, I hated that fool too" One love, and my parents ain't in it Fuck Y'all that said I would never amount to shit. ] [ Er lífið myrkur er lífið þrá um annað líf betra líf Er lífið svart er lífið grátt í tilfiningum sagt er lífið aðeins LÍF... ] [ Spegill, spegill horfðu á mig ég horfi í spegilinn og sé bara þig þig og mig í speglinum ég sé og í bakgrunn eitt gamalt tré ] [ Líf mitt er flækt það er ekkert hægt Líf mitt er eitt og stundum ekki neitt ekki er hægt, allt að fá og aldrei neitt að ná ] [ Hvað er það sem ég heyri? Hlusta betur því hávaðinn verður meiri. Ég hef gleymt öllu sem ég hafði því mig það frá raunveruleikanum tafði. Ég geri vel það sem ég kann leitaði af því lengi en aldrei það fann. Hvað er það sem læknar brotið hjarta því oft er maður yfir því að kvarta. Hvar er hamingja á þessari stundu því allir í kringum mig hana fundu. Það er hreinlega í mér allt sem glymur allt saman inn í mér og sérhver útlimur. ] [ Fullir en frábærir erum við oftast hjá okkur fáar stúlkur virðingu hlotnast Berum ei virðingu fyrir neitt né neinum og þykjumst vita oftast hvað við meinum. Við veltumst drukknir inn á næsta bar og svipumst eftir fórnalömbum þar. Hópumst þar sex í kringum stúlku eina og förum ekki fyrr en hún fer að kveina. Ekki kunnum við konum að sinna enn að elska, nei það er eitthvað minna. Frekar keppumst við að drekka meira því bestir erum við í þeim geira. Erum fæddir án allar tilfininga og kunnum sko konur að þvinga. Á sunnudegi eru við strax farnir að bíða eftir helgi en vikan er lengi að líða. ] [ Ástin er það sem allir þrá og allir sammála um það sem ég segi. En á þessum tíma fer ástin á stjá og opnar hún fyrir alla lokaði vegi. ] [ ógleði! ó-gleði! ó þú mikla gleði gærdagsins. ] [ Í hafsjónum leynast þær, duldar þrár. Og ég finn þær eru hamingjunnar ástarfár. Flumbrufótar sig fallvölt sýn. Hún ein veit það hver er ástin mín. ] [ Ég elska þig núna. Eins kröftugt og flóðbylgjur dimmustu djúpa hjartans. Þrumugnýr á sálarinnar himni. Þó sem milt logn andans á undan storminum. ] [ Í dag liggja hugsanirnar undir feldi hlýjunnar og láta sig dreyma. Um drauminn sem verður bráðum að veruleika. ] [ til er lítill duftreitur þar sem jörðin verður alltaf sviðin ] [ Þegar við vöknum upp við sprengihvelli mun þykja friðsælt að búa í helli Hafa aldrei lært að blóta og hvað þá diffurkvóta! Því fáfræðin er vanmetin og önnur fræði andsetin Af neikvæðri þróun, ég mæli illt í viðkvæman poka ógnarfast kýlt og mannkynið stekkur skref aftur bara neikvæður kraftur sem eyðir siðgæðum góðlátum fræðum Á veg eyðingar æðum í illskunnar klæðum þótt til Guðs við bæðum allt kristnibænavæðum komum við ekki okkar sæðum fyrir í tilsvarandi samstæðum Sem þýðir bara aðeins: Allt verður eitt eitt verður ekki neitt Þá komumst við í feitt, leitt, þreytt, reitt, heitt ástand, þar sem óeirð hvílir. Hvað finnst ykkur um það? ] [ Ég sit og horfi, á þig úr fjarska. Með tár í augu, titrandi hjarta. Varir mínar brenna, fingur mínir skjálfa. Ef aðeins eitt augnablik, ég þyrði nær. Gæti ég sagt þér, allt sem ég þarf að segja. Hve hjarta mitt brennur, af löngun til þín. En dagarnir líða, og enn ertu í fjarska. Hjarta mitt slær, fastar og fastar. Hugrekkið ekkert, ég kemst ekki nær. ] [ Ég spurði-Hvert ertu að fara? Enn hann fór án þess að svara. Enginn hefur orðið hans var og enn hefur ekki borist neitt svar. Hvert er ferðinni heitið í hans för? Því öll viljum við fá svör. Við þessu hann aldrei mig varaði? Þótt ég spurði, aldrei hann svaraði. Því meira sem ég hugsa til hans sé ég hversu hratt hann líður. Hann hefur við aldir og ár stigið dans enda er hann tíminn sem aldrei bíður. ] [ Er þetta kannski besta ljóð í heimi svo gott allavega að ég það vel geymi. Nú mun það berast hratt á milli manna og um leið það fyrir heiminum sig sanna. Dreift það yrði um veröld víða og hjálpað þeim sem við vandamál stríða. Enn á daginn, yrði því ekki gleymt því hugur allra hefur það geymt. Það myndi koma á alheimsfriðifriði og kenna öllum menningum nýja siði. Kæta og vekja brotin hjörtu sem aðeins sáu líf sitt í svörtu. Það myndi sameina ólíkar þjóðir og allir yrðu við hvorn annan góðir. Útýma myndi það fátækum löndum og tryggja þeim fjárhagssterkum böndum. Enn ekki er til neitt besta ljóð heims og draumurinn er því ekki til neins. Því þetta myndi aldrei gerast því aldrei myndi það frá Íslandi berast. ] [ er búinn að vera með lag eitt á heilanum síðustu mánuði það skiptir milli angurværra gítarsólóa harkalegra trommuslátta og dynjandi bassaplokks ásamt því sem söngvarinn hvíslar syngur og öskrar til skiptis... næ ekki textanum næ ekki taktinum skil ekki lagið... ... gítarleikur sorgarfullur nætur allar hljómar söngur djúpur tregablandinn daga alla ómar textinn ferðast ofan garðs og neðan... trommuleikur tryllist alltaf er ég horf’á hana bassinn dynur – hjartað stynur af eldgömlum vana og ég gleymi sjálfum mér á meðan... kannsk’er misjafnt lagið – sorgum vafinn ástaróður? trylltur söngur boðar kannski tíma sem er góður? textinn þýðir eitthvað djúpt og hulið... leita því að líkum lögum – sem mér heima leynast meðan sálin syngur áfram – engar línur greinast ég vil vita það sem mér er þulið... ... er búinn að vera með lífið á heilanum síðustu mánuði það skiptir milli angurværra sálarsólóa harkalegra hjartslátta og dynjandi þunglyndis ásamt því sem hugur minn hvíslar grætur og öskrar til skiptis... næ ekki textanum næ ekki taktinum skil ekki lífið... ... skil ekki lagið skil ekki lífið en reyni að syngja með... ] [ Hvernig er hægt að slíta sig frá svona hugsunum? Slíta aldagamla ösp upp með rótum., alltaf eitthvað eftir. Kemur aftur og aftur. Lífið er ein löng barátta við mannlegt eðli. Ein löng barátta gegn því að vera „eðlilegur“. Það er kjaftæði, goðsögn, að maður geti þekkt sjálfan sig illa. Maður nagar alltaf fjötrana sem sjálfsþekking kastar á mann. Þeir sem segjast ekki naga lifa í sjálfsblekkingu. Allir naga. Allir vita hvað mannlegt eðli er – hvatir sem láta ekki af stjórn. Allir berjast gegn mannlegu eðli, að lifa er að heyja styrjöld við sjálfan sig. Að deyja er að játa sig sigraðan, meinið er að það að lifa er líka að játa sig sigraðan. Hvatir eru verkfæri djöfulsins, handbendi myrkrahöfðingjans. Ljótasta orð í heimi er eðlishvöt, eðlishvöt, eðlishvöt. ] [ Ég vakna á slaginu 07:35, og úti er nóttin enn dimm. Sest upp og nudda þreytu úr augum, sem sést vel á bláum baugum. Klæði mig í það fyrsta sem ég sé, fer svo í það að hita mér te. Næsta verkefni er að ná í blaðið, það liggur blautt úti við hlaðið. Reyni svo lesa það með bestu getu, forsíðumyndin var af konum sem grétu. Geng svo hægt inn á baðherbergi, þar finn ég tannburstann hvergi. Sé sjálfann mig í speglinum úfinn, hárið út um allt og gelbrúsinn búinn. Klæði mig svo í buxur peysu og bol, svo jakkann enn í það fer allt mitt þol. Nú verður erfitt að skóna að reima, allt mitt blóð mun upp í haus streyma. Eldrauður í framan út ég fer, snjór er úti langt sem augað sér. Berst svo við að bílinn að opna, á þolinmæði minni er fljótt að slokna. Búið er allar götur að skafa, kemst ég þá leiða minna án tafa. Raddir í útvarpinu láta mig brosa, um nokkra spennu mér tekst að losa. Nú klukkan er orðin 08:08, sé kennslukonuna fyrir mér sátta. Úr kennslustofunni heyrist ei kliður, fæ þau skilaboð að tíminn féll niður. Hefði ekki þurft svona snemma að vakna, það er rúmið mitt sem ég sakna. ] [ Ég gæti horft í augun á þér og logið því blákalt að enginn hafi nokkru sinni snert mig eins undursamlega og þú. Að önnur eins sæla geti vart fyrirfundist í gjörvöllum heiminum. Ég gæti látið þig halda að þú værir að svipta af mér hulu eða losa mig úr viðjum fortíðar minnar. Ég þyrfti bara að verða niðurlút, skammast mín eilítið fyrir líkama minn og láta þig halda að þú værir smátt&smátt að frelsa mig undan blygðuninni og það gæti leitt til góðs. Það gæti farið svo að sjálfstraust þitt efldist í beinu samræmi við blekkingu mína og að eftir því sem ég renndi sterkari stoðum undir trú þína á sjálfum þér sem Elskhuga heimsins, myndi þér þykja vænna um manneskjuna sem ég þættist vera og legðir meira kapp á að láta hana titra&skjálfa af frygð undan fimum hreyfingum tungu þinnar. Mig langar ekkert að gera þetta. Sannleikurinn (sem við þurfum ekkert að ræða) er sá að á undan þér hafa komið og farið þónokkrir menn; sumir þeirra hreinlega komu -og fóru en aðrir stóðu sig með stakri prýði því langar mig ekkert að gera þetta en mig langar að þú vitir að ég gæti. ] [ Afhverju græt ég þessum tárum, útaf mínum hjarta sárum, sem við saman skárum, svo djúpt að það aldrei grær, samt er ég engu nær. afhverju er heimurinn grár ? afhverju gróa aldrei sum sár ? afhverju líður mér svona illa bara við það að láta um þig hugann reika, það eina sem ég man eftir að heyra er: komdu kisa, komdu að leika! ég það ekki meika! því þú átt mitt hjarta og mína sál. og hjartað í mér er ekki úr stál, þótt þú hafir í mér öll tök. er þetta allt mín sök og þú verður mér að fyrirgefa! Því tár mín dropa líkt og himnaflóð. innan við beinið ner ég ekki það góða, gæða stúlka! ég á allt þetta skilið fyrir syndir mínar! ] [ ég er búin að fá nóg... mitt litla hjarta þolir ekki meira! Láttu nú í þér heyra! ég hugsa svo núna hef ég ákveðið að það geraog hérna kemur ísköld gusa beint úr mínu hjarta! Sem virðist í þig vanta! tár mín dropa líkt og himinn væri að gráta. Litla skjáta, reyndu að hætta að gráta! Það skilur einginn afhverju ég græt, ekki einu sinni ég. það eina sem ég veit er að mér finnst ég vera ein í þessum heimi, því ég er í eigin veröld, engin annar á þessum stað! Ég horfi í kringum mig... engann ég sé þar. sama hvað ég geri, ég kalla, ekkert svar, það eina sem ég heyri er röddin sem bergmálar í brjósti mér. Í hjarta mínu býrðu samt, en ert að reyna fara. best þér bara að gleyma fyrst ég fæ þig ekki að geyma! ] [ Þú bankaðir hjá mér og lagðist í útlínur mínar í gömlu rúminu ] [ Darkness all around me My life's in shadow and nothing I see My enemy has my dream, he took her today He took my girl, and left me with only future gray Something in my heart was taken away I might never recover I was left alone in the desert of pain My hate, I can never explain Heart, filled with hopes, all away it swept Just one thing I kept Memory of you in my grave My home is now my cave I'm a prison behind my own bars of steel All the motion I used to feel Are gone, you have brought death among I guess I've taken it for too long Now, I'll die in the fire of love Burn in hell for you.... ] [ Ég veit ekki hvað þetta er, ég veit ekki hvað það er sem ég sé. en það er eitthvað við þig, sem lætur mér líða vel. Ég nýt þess að horfa á þig. Ég nýt þess þegar þú horfir á mig þegar þú snertir mig finnst mér ég vera örugg, þó að snertingin sé saklaus. Það eina sem heldur mér lifandi ert þú, Ég geri allt til þess að vera nálægt þér Ég veit ekki hvort þú tekur eftir því, ég veit ekki hvort þú tekur eftir mér. ] [ Ljós heimsins og sannleikans lýsir frá himni, kærleikans Friður er trúin og læknar sár Frjálslega geng ég sérhvert ár Ljósins englar birtast þér inní herbergi eins og vera ber Þeir umvefja þig kærleika með Lútherstrúarbænarher Hver dó, þegar Jesú var frá en Jesú kom og vakti hann Menn töldu það af og frá Hann lífið aftur og lækningu fann Larsarus hét hann sá sannkallaði Var framliðinn en lifnaði við Fékk ekki lykil hjá Péturs hliði Kraftaverk orðið við fagnaðarklið ] [ Langar að biðja bænir til heilla til að frelsa, lýkna veika Með fögnuð í hjarta bæinn frelsa Siðvenjum trúar í hjarta mitt heilsa ] [ Einu sinni enn og aldrei aftur. áfram ég renn og orðinn fylliraftur. ] [ Opna augun, uppá gátt svo björt og góð ég vil finna heimsins sátt á stríðinu orðin móð. Trítla yfir götuna ég er að fara fyrir mömmu að sækja vatn í fötuna vatn fyrir hana ömmu. Vatnið lekur hægt kannski það sé búið afhverju getur stríðinu ekki lægt eða við, einhvert burtu flúið? Vatnið komið, fatan þung sprengjan springur, ég dett niður, og ég sem var svo ung Afhverju gat ekki verið friður? ] [ Litla ljúfa snát vertu nú, ljúf og kát Komdu með mér, komdu komum upp á fjall uppá heimsins hæðsta stall. Dönsum allan daginn daginn út og inn lofum ljósið bjarta lofum frið um sinn. Þú snoppufríða snáta sestu hjá mér smá Viltu vera hjá mér kjöltu minni á. ] [ Freisting Flýtur hjá.. eins og forboði ástarinnar frá treystir þú á það að hætta þér inní voðaverk. Listaverk? Dapur dagur líður hjá þegar dreggst þu frá mér. þig, mín augu vilja sjá. vil vera hjá þér. Hætta mikil hugsaðu um það. Heimska í þér býr. En sterk stækkar hugsun í að tveir líkamar snertast. Augu skerpast.. freisting fremur illkvindisverk. ] [ Eg hljóp út í nóttina til þess að fela mín tár, þú fylgdist með en þóttist ekkert vita, þótt nóttin var köld var mér heitt, þá brann ást mín til þín. ] [ Ég er með ákveðna mynd í höfðinu, hún er af hvítum löngum stiga. Þetta er stígi sem ég hef verið að ganga síðan ég fæddist. Fyrir framan mig er móða svo ég sé ekki hvað mun verða á morgun. Ef ég lít aftur þá fer ég að minnast liðinna atburða. Því lengra sem ég lít því fjarlægri verður minningin. Ég hef verið að ganga lengi og nú hlýt ég að vera kominn. Lærdómnum að ljúka og ég að verða fullvaxta maður. Sem ungur drengur sá ég ekki hvert stefndi, óð inn í móðuna af hugrekki þó skorti mig fulla sjón. Sem ungur maður þóttist ég margt vita en með árunum lærist manni meira að skylja. Áfram held ég inn í móðuna þó hugrekkið hafi dvínað hefur vitið vaxið og leiðin ljós. Á efri árunum fara skrefin að stígast hægar er óvissan stingur mann í bakið. Af göngunni móður og því er mér spurn, hvar er síðasta trappan? ] [ Andardráttur þinn á vörum mínum mótar ósögð orð. skuggi ljóss í myrkrinu og segir mér að hvísla. ] [ Draumar minningabrot um heiminn eins og hann var. Borin á höndum þeirra sem skilja ekki af hverju, alltaf fleiri fleiri. Hugsjónir háleit markmið og draumar. Fyrir fólk eins og þá. ] [ Ég ligg og strýk fingrunum eftir votu grasi. Dropar á grönnum fingrum, tindrar á brosandi augu... Sólgul blóm gægjast undan lyngi eins og feimin, djörf og hugrökk en feimin. Flýti mér að hrifsa til mín síðustu döggina á gulu krónublaði. Morgunn. 3. apríl 04 ] [ Hann stakk hnífnum í brauðristina rafmagnaðist upp og fór í vinnuna hann er nefnilega ekkert venjulegur og hann sest fyrir framan skrifborðið lyklar inn læknaskýrslur allan daginn alla daga svo gengur hann heim á leiðinni hrynja ljósastaurarnir á hann hann er nefnilega ekkert venjulegur svo eldar konan hans kjötbollur hann fleygir þeim eins og boltum sem skoppa á gólfinu og þá fer hann á barinn fær sér sígarettu hann er nefnilega hættur að reykja bjórinn ræðst á hann úr glösunum von bráðar er hann gegnsósa heimferðartími hann er nefnilega alveg gaga ] [ Hvernig stendur á því að hugsun mín sé hverfandi. Allt sem ég hef lent í hefur sjaldan verið gefandi. ] [ Í Rangárvallarsýslu bjó bóndinn Gissur sem elti fé sitt út um allar trissur. Dag einn hann lenti í því sem aðeins fáir hafa lent í. Kallað var ógurlega úr Búrfellinu sem ætlað var þeim í Bjólfellinu. Gissur vissi ekki hvað væri að gerast og sá ekki hvaðan köllin voru að berast. Beðið var um pott og helst stórann því eldaði yrði nú í honum mann góðann. Vissi hann að þarna voru tröllkonur tvær en alls ekki vildi Gissur hitta þær. Gissur ákvað að stoppa þarna sem styðst þegar niður fjallið tröllkona ryðst. Of hræddur hann var til að líta aftur enn í hesti hans var mikill kraftur. Stukku þeir yfir holt og hæðir og tröllkonan stóra á eftir þeim æðir. Klofamenn heyrðu lætin heim í kofa og hringdu öllum kirkjuklukkum í Klofa. Tröllkonan þoldi ekki klukknanna hljóm hún flúði því og gaf frá sér mikið óm. Eftir þetta aldrei til tröllkonuar sást en ekki við hana aftur þurfti að kljást. ] [ Hún vill alltaf sjást þó svo úti er nótt. Lætur stundum fólk þjást hverfur einnig fljótt. Hún bæði fer og kemur og dregur því fólk niður. Við hana þú semur ef fallega þú hana biður. Hún er því miður blind girnist þá sumum allt. Er hún kannski fyrirmynd sem hitar hjartað kalt. Hún er þar sem er friður einnig þar sem menn kljást. Fyrirbærið er mannlegur siður það er þriggjastafa orðið ást. ] [ ekki fara frá mér ég bið þig! kæri vinur min við þegar höfum einn tapað plíss ekki endur taka það! ég á bara þig að ekki hverfa út í heimin heldur frekar skaltu koma til mín ég er her til staðar hvenær sem er ég skal hlusta og yilja þér þú ert mer allt þú átt að vita það! við áttum bæði tvö einstakan vin sem hvarf frá okkur og hvílist þar en plíss ekki gera mer það að hverfa líka ég bið þig! Ég er her til staðar ég skal hlusta og yilja þer Ég skal vera hjá þer styðja þig gegnum ílt og vont Ég vil ekki missa annann vin Við vitum bæði hvað það er sárt Æi kæri vinur minn plíss ekki fara. ] [ Sterkur er vitur maður. Þó sterkur maður sé sjaldnast vitur. ] [ hvar er ég, hvað er ég að gera hér í hinni stóru veröld lítil er ég sé ekki neitt því allt er svo stórt einn blettur sem ekki sést týnd týnd í alveröldinni ] [ Í leyfi ég geri mitt besta því sem úr því kemur er mér, einni viðkomandi - smá tími líður hjá og stóra stundin runnin upp upp á líf og dauða - þú sest niður og gerir þitt besta lífs andartak, þú mun taka - þegar útkoman er komin engin veit hvað úr því verður aðeins þú veist það ] [ Ég sá ekki hvað borgin er falleg fyrr en fór að snjóa eins og heima. ] [ Fastur í tímaglasi tilverunnar tifandi tikk takk Fer kannski í bíó, horfi á imbann eða les bók til að þykjast góður Annars stari ég á vegginn, geri ekkert Eyrðarleysi smáu augnablikanna Meðan lífið þýtur hjá og sandurinn rennur til þurrðar. ] [ Ef á botninn er komið er ekki allt búið og þó svo að hjartað sé afar lúið. Ekki neitt af þessu verður flúið en lagað getur ef blaðinu er við snúið. Ekki skaltu láta við slag standa þó svo eigir þú í meiriháttar vanda. Stattu upp og berðust fyrir máli þínu því þá drepst það í blóði sínu. Ferð þín verður erfið, ljót og ströng og ekki heldur stutt heldur löng. Aldrei skaltu samt nota ofbeldi þó svo hetjur kæmu og það þér seldi. Líttu aldrei vonsvikinn til baka því þá þarftu sko að svara til saka. Spýttu í lófanna og berðu frá þér gerðu það vel svo sérhver maður það sér. Hlustaðu ekki á boð né nein bönn heldur kýldu úr þeim hverja tönn. Traðkaðu ofan á allt og öllum og betra væri það með skaðræðisköllum. Hristu vandamálin af þínum öxlum þó þú þurfi að fórna einum,tveim jöxlum. Það bjargar enginn þér nema þú sjálfur hvort sem þú sért heil eða hálfur. Aldrei skaltu hættu að blása til sókna jafnvel þó svo sál þín sé að krókna. Ekki sökkva neðst niður í djúpinn og hristu af þér afneitunarhjúpinn. Þú skalt ekki yfir neinu þegja heldur opna þig og frá öllu segja. Oft stutt er heimsins dvöl hjá mönnum sem í huga sínum geyma kvöl. Lífið hefur svo margt upp á að bjóða og ferðast áttu eftir til ófundna slóða. Þú veist svo vel hvað þú getur og alltaf getur þú gert en betur. Batann finnur þú svo sirka þegar hugurinn þinn er farinn að virka. Gleði þína þarftu svo að virkja og um leið sjálfann þig styrkja. ] [ Dear friend, I just wanted to let you know Whatever happens I will never let you go You stood by my side when ever I felt down You were the one risking your life when I was about to drown I just want you to know that for you I'll always be around Dear friend, when I was close to death, you're the one I found Where ever you might go, whatever you might do In my heart I'll always keep a picture of you My friend, I can't explain in words how I feel You've been there for me like friend for real What can I give in return Dear friend, never go away I need you more every passing day Whatever you do and whatever you say Someday, for your kindness I'll pay Dear friend, everyday for you I pray ] [ I remember those times when I enjoyed excist The angels don't want me to die but I must insist There are so many things in this world making me pissed I hate people for not having faith in me So much anger for those who cannot see In the end I will rise and make it to the top My ambition is strong and will never stop I have a goal in life and I'm gonna get it And I hate people for not helping me shit You have only made me strong Ya'll think I've been a loser all along Guess what, you're wrong Good times ahead I will ride on till the day I end up dead Back in the days I was nothing But the anger inside me made me feel like I was something Your disappointment has only made my balls grow bigger For thinking I'll never make it in the music has made me turn into a nigger So much dark thoughts inside my mind Positive sides are rarely to find Cuz everything reminds me on back in the days I left behind ] [ How bad will I miss you How bad do I wanna kiss you How long will I wait How long will you play with my heart rate How much pain do I take How many broken heart will I make How many times will I tell you my mind How many times will you leave me behind How many times do you care How many times do I think life's unfair ] [ Daga uppi undir fölu tungli einsog ungabarn. (vafin í lín og lögð að hlýjum barmi) efi dreginn á langinn vegna óljósra spurninga um himinn eða eitthvað annað svipuðu honum. Umvafin. ] [ Afi minn er, hvað ætli hann sé? Ég lít á hann sem verðmætara en nokkurt fé Því hann er það sem kallast gull Að mótmæla því væri bara bull Afi minn er mín fyrirmynd Að mótmæla því væri aðeins synd Og ef þú sérð það ekki hlýturu að vera blind Að elska hann er almenn skynssemi Því hann er fullur af blíðu og góðsemi Hann er maður til að líta upp til Hann er maðurinn sem ég líkjast vil Hann hefur sýnt mér margt og frætt Sama hvað gengur á, það getur hann alltaf bætt Hef ég komið til hans fullur niðurdregni Þá hefur hann glatt mig af megni Þótt hann sitji í stól og segi ekki orð Þá fyrir mér er hann eins og Goð Án hans er ég aðeins hálfur maður Því hjá honum er ég aðeins glaður Hann einn getur fengið mig til að brosa blítt Þegar ég umgengst hann er mér alltaf hlýtt Alltaf verið mér góður Og er hann ansi fróður Hef ég mikið af honum lært Og mikla vitneskju hefur hann mér fært Sem mér er um kært Er mér kappkostað að honum verði þetta bætt Allur þessi tími sem mér er gefinn með afa Ætla ég að nota hann vel og nálægt mér hafa Sama hvað gerist hef ég á honum gætur Ég passa hann og geymi við hjarta rætur ] [ How can I explain my feelings? How can you expect me to tell? If you don’t know how I fell And I’m baring all these thoughts by myself And at the end I might snap and crash into pieces What do you expect of me? I’m not a Jesus I got a normal feelings, I’m human and not between two species I can’t take everything on my soul and carry it like diseases I must let it out and shout: why do I carry this birth? It’s not I like this earth, and if I had one wish, I would wish the whole world reverse And then I wouldn’t feel all this pain in my brain And finally start living my life normal I don’t need too keep me suit in formal Cause I can wear anything I want and there’s nuttin you can do too stop it By killing me maybe, try it and get fucked, Shit! Hell, now I can even go in split Without blowing my balls on the walls every time they falls It’s my girl My precise In my world She’s my freshness’ My girl is special to me and I’ll do anything to protect her And if you treat her I’ll move too another sector And if you follow us, I’m a kill you without affect her Bury you in the backyard so she won’t be aware Where I putted your white ass and where I hide the stash Cause I love my girl, she’s special to me Have you ever seen animals fight for their food? Tenfold that and then you get how angry I can get When somebody angers my pet and gets me on set to attack Put me on my close level and transform me into a devil And now it’s no way too run this battle I’ll bury you in the ground and sit on you while smoking half a pound And if you rise up asking for a second round I’ll shit on you and shoot you with my shotgun Cause I got weapons but you got none So I can shot in your head for fun And there’s no use to run Cause when I got my goal and I’m on the roll And there’s nuttin you can do other than fall Just give up, you don’t gotta soul. Nigga wit no trigga putting out my cigar Ohh shits, no way nigga, get away from my face You know I don’t want you in my place Just get out of here without a trace Or I’ll kill ya black ass fagot Cause my brain is rigged and ready to blow And it will happen if you put him on overload I still don't give a fuck I'm still with your mommas face in my butt I can blow your face in the space with no trace And don’t use the “F” word Fuck, you didn’t heard I’m not that kind of guy who likes too being flirt And if you try too talk I’ll fuck you in the ass so you won’t be able too walk ] [ Hvar get ég byrjað Ég byrjaði á botninum og er þar en Ég get ekki sett saman fleiri en tvær rímur í senn Ég er löngu búinn að vera Hef mikla byrði þurft að bera Aðrir rapparar hafa komið að mér og spurt hvað ég er að gera En hvað viltu mér? Ég hef ekkert að segja Ég er alveg á ystu brún og við það að deyja Hver myndi sakna mín Ég er á botninum og á ekkert nema stól og diskinn rímnamín Í æðum mínum er ekkert nema Amfetamín Ég hef verið háður sterum og fíla Kókaín Ég er ílla farinn Ég hef setið á götunni og beðið eftir að verða barinn Kemstu eitthvað lægra Sit svo uppi með vinstri augað úti og skurð á því hægra (smá hlé...undirhljómurinn verður aðeins rólegri en hraðast svo aftur) Hvað get ég gert? Hefur þér fundist eins og fólk sér á móti þér? Það er ekkert miðað við mig og hafa allan heiminn á móti mér Á yfirborðinu virðist ég vera klár En innst inni sit ég einn yfirgefinn og sár Hvað hef ég gert til að verðskulda þetta Þurfa alltaf stuðning vegna hræðslu við að detta Ég hef enga vinnu og hef samt einn munn að metta Ég hef allsstaðar komið við En allsstaðar er fólk sem hunsar mig Öllum er sama um minn líðan Allir vilja drepa, og grafa mig síðan Er sökin að minni hálfu Ég hef þurft að bera byrði alla ævi sjálfur Enginn skal segja að ég eigi ekki skilið frið Eða kannski hrós svona við og við Ég er mennskur að einum fjóra Og ef þú mótmælir þá sýni ég þér þann putta sem ég kalla “þann stóra” Ekki líkja mér við ræfla líkt og Rottweiler eða Móra Rottweiler hafa engan stíl og Móri er hóra Ég segi þetta ekki vegna þess hversu leiður ég er Heldur að ég er niðurlægður hvert sem ég fer ] [ Difference between nice ducks and me is none Them and me thinks water is fun Maybe that ducks are covered in feather But my ass is dressed up in leather But we are brothers whatever And we’ll be niggaz forever Some people look down on ducks but they’re clever They can send duck’s terrorist in USA Bomb that mothafucka far away (wawawawa) They’ll do it to you if you won’t listen to what they got to say And when that happen you can’t hide behind eBay You fucking Internet gay Stop hiding and come out to the light Get ready to receive in e-mail huge Internet fight I can battle you and you know it Cause when I release the ducks you ain’t shit They’ll attack you to the ground and you’ll be crippled What do you say now when they’re biting in your nipple? (Aaaaa) To late now bitch, they won’t leave Cause these mothafuckas are pulling in your sleeve And they won’t stop till’ your dead They’ll eat up everything that is in your head This is a nice duck Drunken one and likes to fuck She got no cock But still she fucks everyone on the block Really nice duck lives straight on the underground You can search but she won’t be found Cuz she don’t wants to have people around She’ll snap and follow you like a bloodhound She’ll bite off your dick without making a sound Cuz these feathered mothafuckas don’t show weakness That’s cuz they don’t have one, so they don’t take shit They won’t have it, if you try, you’ll only make them the worst Cuz these cocksuckas must be full of evilness and they’re cist They’ll kill you and you’ll be the first Then they’ll take over the universe They’re dangerous and they bite We must get ready for a duck fight Maybe we lose but we must see the light in sight shining bright Soon they’ll attack, then there’s no way back, there will be a lot of whack And the government is sitting on they’re ass smoking crack And they can’t see how the future will be black It’s over, but I can’t cry, I’ll rather wait in the darkness and slowly die So let’s be nice to each other, even ducks, they can battle to Don’t forget, or they might look up for you. ] [ Hann var svikinn að ásettu ráði og allan tímann hafinn að háði. Allt saman þetta ég sá allt sem þarna gekk á. Því miður hafði hann öllu sínu týnt og gat ekkert fram á sýnt. Reyndi að gera vel við sig og eftir bestu getu fyrir þig. Við gerð hans var Guð að spara þess vegna varð hann að fara. Barðist við að halda lífinu í skorðum en aldrei gekk það líkt og forðum. Þröng voru hans lífsins göng og ferðin í gegnum þau voru ströng. Hvert einasta betl var hans neyð og daglega eftir von hann beið. En nú er Juan gamli farinn og vonandi kominn á góða staðinn. Aldrei mun ég honum gleyma og nú mun hann yfir jörðinni sveima. ] [ Ég lá í sófanum. Sjónvarpsþættirnir skullu á mig eins og flóðbylgjur. Ég hentist til og frá í gusuganginum - í stofunni minni. Skyndilega var ég staddur á götunni. Sá móta fyrir mönnum sem gengu vasklega í átt að mér. Komdu með! Ég var skyndilega í herbergi með Knox Harrington, Gunnari Dal og Cornelis Vreeswijk. Við drukkum og drukkum. Tókum lög. Því hvernig geturu verið vantrúuð á meitlun snillingsins? Vær yfir hæfileikum mínum? Valið einhvern umfram mig? Ég man þegar við lágum saman. Vafin hverju öðru. Og þú varst svo sæl. Ég veit þú ert ekki sæl lengur. En þú valdir þetta. ] [ Hástemmd orð í huga mér sungu. Hugurinn öskraði morð. Jólasteik íslenskrar tungu, krufin og borin á borð. Í hásæti menningarvitar sátu, framreiddan orðskrúðinn í sig átu. Skröfuðu um kúltúr og menningarmál, íslensk er tungan sterk sem stál Orðskrúður allur var etinn. Öfugur kom hann súr. Dúndrandi, lyktandi fretinn. Restin kom rassholu úr. ] [ Lífið sjálft er alltaf að breytast og lifum við samkvæmt því. Elsku karlinn varstu farinn að þreytast en nú ferðu brosandi kassann þinn í. En hvernig skal taka á þessu og við hvern er best að tala. Það munu margir mæta í þína lokamessu þó vinsældir þínar væru farnar að dala. Þó svo þú sért ekki lengur hér ættir þú að geta slakað á. Það mun einhver muna eftir þér. því minningargrein mun þú fá. Nú ertu á meðal frægra manna sem milljónir dýrkuðu í denn. Lífsmunstur þeirra skaltu kanna því þetta voru alvöru menn. ] [ Aðeins ein manneskja getur lífnu breytt en er ekki þessi rulla orðin þreytt. Sumir vilja segja að ekki sé svo því til að eiga sér líf þurfi aðila tvo. Allir geta haft á þessu sína skoðun og meðtakið með ró hverri boðun. En ekki er til eitt gott ráð fyrir þá sem elskhuga aldrei hafa náð. Hver er sinn eigin gæfu smiður en stundum gengur það ekki upp því miður Þá þýðir ekki gefast upp og hætta heldur við hlut sinn sætta. Til eru ótal fiskar í sjónum í hverjum læk í hverri á og vatnslónum. Leitin mun bera árangur að lokum og þurka þá tárin úr augum með strokum. Sigla munt þú á milli lítila bára með lífsförunautnum til fjölda ára. Setjist svo niður og festið rætur og þar alið þið upp bæði syni og dætur. ] [ Ég gerði hreint í dag rótaði í stöðnum skúffum þyrlaði upp ryki í dyrum og dyngjum Ég flokkaði allskonar smáhluti: óteljandi tvinnakefli gleymt skart penna smáaura gömul bréf (nokkur tár þar) myndir (sumar af fólki sem ég er löngu búin að gleyma) dularfulla lykla (sem enginn veit að hverju ganga) Ég fleygði út í tunnu af köldu miskunarleysi: vanræktum flíkum hörnuðum naglalökkum stökum sokkum snyrtivörum (síðan Kurt Cobain var enn með púls) tilgangslausum skrautmunum gluggapósti óopnuðum frá því í fyrra Ekki grunaði mig hvað ég átti mikið af: skærum hálsmenum (nærklæðnaði sem ekki á erindi nálægt nokkrum kvenmanni) gömlum jólakortum Allt annað sem ekki fann sinn réttmæta stað fyrir klukkan fimmtán núll núll fór á haugana í fjórum stórum ruslapokum Um klukkan sautján núll núll fékk ég svima og ógleði "Þrifnaðarmanía!" hugsaði ég Svo ég settist niður með brauðsneið og kaffi og velti fyrir mér hvað það væri nú ljúft ef ég gæti gert það sama við: ógagnlegar minningar vonda drauma brostnar vonir neyðarlega komplexa og fólk sem ekkert er á að græða... Sagði pass, nóló og tuttugu spaða hjálp, amen og jedúddamía - fór svo og lagði mig. ] [ Ég sé þig í fjarskanum umvafinn möguleika eins og mjúkum, þykkum kasmírfrakka með fullt af spennandi vösum, skrýtnum hnöppum og sniðugum smellum Þegar þú færist nær klæjar mig í fingurna eftir að gramsa í þessarri yfirhöfn og sjá hvaða ókönnuðu gersemar þess sem enn er ekki orðið og minjar þess sem þegar er leynast þar í felum Mig langar að leggja kinnina við mjúkt og hlýtt efnið og rekja slóð þína um lífið eftir angan þeirra staða sem hugur þinn og hjarta hafa dvalið En þegar við mætumst lít ég undan vef þétt að mér rauðri flauelskápu og geng framhjá án þess að brosa því ég vil ekki leyfa þér að fara gegnum vasana mína ] [ Það er stelpa sem heitir Fríða, Já, hún er nú alltaf að stríða. En stundum kemur sú blíða, að stríðnin hún þarf bara að bíða. Samt greyið er ágætis táta, þó stundum fer hún að gráta. Hún á sér einn fallegan hjalla, þar situr hún uppi að bralla. Strákskrattarnir bíða í röðum, eftir að vinna á sköðum, en auðvitað verður hún Fríða, að fá að vera með að stríða. ] [ Ég ríf úr þér tönnina argandi læturðu eins og fífl dvergvaxnar blóðslettur á gólfinu tönnin hangandi í spottanum Ég brosi eilítið af uppákomunni þú hlaupandi í hringi bölvandi svo að lokum ertu orðinn leiðinlegur hefði betur rifið úr þér allar tennurnar Þá hefðurðu nú orgað! ] [ Það er ég sem er maðurinn gangandi gagnabankinn sofandi hugsuðurinn Fucking ofvitinn! ] [ Ég sit yfir bréfi, skrifa með lífsins krafti, hver stafur, er þinn stafur þannig held ég áfram, þartil bréfið er orðið autt, þá stíla ég það og sendi frímmerkið er falleg rós í blóma en umslagið, það er hvítt og dautt ég vonast dag hvern eftir svari þannig geng ég með flugu í höfði en aldrei fæ ég svar, því ég stílaði bréfið, á rangan stað. ] [ Situr hann á köldum stein sorgmæddur og sár af öllum bókunum, hann hefur fengið mein samt þykist hann, nú snjall og klár sú blekking, er sálarinnar engjandi vein. Eftir tuttugu ár situr hann enn sorgmæddur og sár miskilur heiminn, og les í senn fyrir utan bækur, er hann óttalega vinafár. ] [ Ofsalega er þessi kápa fríð og snotur flík og áfram ég búðarápa því ég er svo rík. Ég þarf mig upp birgja af gjöfum og öðrum hrossaskít ég hef engan tíma til að syrgja því ég er svo rík. Peningarnir eru mín fæða ég með þeim útí kerfið fík ég þarf Jesús upp klæða því ég er svo rík. Jólin ég kaupi með peningum og öðru staupi en Jesú þau lofa sem búa í þessum ljóta Kofa. ] [ Allt sem ég fékk var ekki það sem ég vildi Allt sem ég gerði var ekki tekið í gildi Allt sem ég sagði það enginn mig skildi Allt sem ég fór enginn mér fylgdi ] [ Ímyndaðu vini þína á góðri stund og framkallaðu í myrkraherbergi einmannaleikanns. ] [ Ég er orðin,og orðin eru orðlaus, orð sem eru sögð og ekki sögð, þau komast ekkert með nístandi orðnauð raunveruleikans. Aðeins andvarp mitt nemur þau í gegnum óttan,sem ríkir á milli okkar. þetta eru hljómlaus spurnar orð sem skríða á milli andstæðna hér og þar,án þess að á því sé haft orð. Ég græt fyrir hönd orðanna sem eru ekki til. Vonandi að þessu orðaskagi linni. svo orðaðu nú við mig \"Búkolla mín\"ef þú heyrir orðið. ] [ mother fucking djöfulsins déskotans þynnka! shit faced andskotans helvítis sunnudagsmorgunn! og fucked up fjandans bölvaða trappa! ... hugsaði hann eldrauður í framan þegar hann missteig sig illilega á leiðinni upp í hundgamlan prédikunarstólinn... ] [ myrkrið gjörðir mínar – einu sinni leyndi minnið uppeytt bældi – niður fornan grátinn niður hvarma mína – aftur sýran streymdi sorgir fann ég klifra – aftur upp í bátinn svo ég núna ætla – að stökkva fyrir borð... gamlar kenndir koma – aftur inn í huga kæla niður vonir – um að vakni friður sífelldar tilraunir – vildu ekki duga svo aftur nú ég fell – ennþá lengra niður sekk nú lengra niður – og allt í sama horf... halló myrkur, gamli vinur orðinn leiður orðinn linur aftur finn ég koma tárin er ég hugsa aftur árin er ég hugsa aftur sárin... hvaðan koma tárin? – veit ei hverju sætir hvernig vaknar sorgin? – ekkert vakti minnið veit því miður ekki – hvað mig núna grætir meðan leiðinn dafnar – sýkist lúið sinnið... halló myrkur, gamli vinur... orðinn leiður orðinn linur hjálpa þú mér aftur niður inn í sjálfsvorkunnar iður fastur aftur þar því miður... hvaðan kemur leiðinn? – hvað hvílir að baki? hvernig vaknar þetta? – að mér ekkert amar fjandinn hefur aftur – náð á sálu taki finn ég takið harðna – sársaukinn mig lamar... halló myrkur, gamli vinur orðinn leiður orðinn linur hjálpa þú mér aftur niður inn í sjálfsvorkunnar iður fastur aftur þar því miður... ... fastur aftur niðr’í – sjálfvorkunnar heimi ég vil núna vita – hverju þessu sætti? fjandinn hafi lífið – aldrei leiða gleymi lifnað hefur eitthvað – sem mig áður grætti... eitthvað hefur lifnað – sem mig áður grætti hvað í heimi vekur – öllu gömlu tárin? reyni nú að muna – eftir öllum mætti hvaðan sorgin kemur – hugsa aftur árin... hugsa aftur árin hugsa aftur sárin hugsa aftur tárin og sekk því lengra niður í sjálfsvorkunnar iður halló myrkur, gamli vinur orðinn leiður orðinn linur ein í kulda sál mín stynur því hún veit hún fellur niður inn í gömul og gleymd iður... inn í sjálfsvorkunnar iður... ] [ einhvers staðar þarna efst uppi í ísköldum og ljósbláum skýjum hefur guð falið sinn lítt notaða “undo” takka í tölvunni sinni... ef ég kæmist að honum myndi ég þurrka út ótrúlega margar og heimskulegar aðgerðir... ég myndi þurrka út drykkjuna reykingar letina þunglyndið minningar ef tirsjá rifrildin kossana og þann auma mann sem ég hef nú því miður að geyma... en ég get aðeins látið mig dreyma því ég kann ekki fjandans passwordið... ] [ Hvar finnur þú ljúfari líknarstað sem léttir þeim hrjáðu byrðar? Menn tapa oft þrótti við tæpasta vað, þá taka við öryrkjahirðar. Þeir bágstöddum sinna með bros á vör og berjast við sérhvern vanda, græða flest mein, þó oft sjáist ör sem örlögin þjáðum valda. Þar ljúfmennskan hefur sitt höfuðból og hjálpsemin aldrei brestur. Af bjartsýni og vilja er borinn í skjól hver brothættur örlagagestur. Þakklæti og lof á sá hógværi her, af hetjulund vinnur þar störfin. Til baráttu ávallt hann búinn er hvar brýnust og mest er þörfin. Oft gleymast hin lágværu líknarstörf í leiftursókn auðs og valda. Að meta til fjár hvar mest er þörf mælir síst auðhyggjan kalda. Frumherjar djarfir mátu hér mest manndómsþor vekja af blundi. Stórhuga þjóð mun styðja best við starfið á Reykjarlundi. Ásjón. ] [ Um vonlaus mál við ræðum á meðan þúsundir í drykki blæðum. Barþjóninn straujar kortin sí og æ en allt gerist þetta niðri í bæ. Staulumst svo og reynum að dansa klukkutímum saman án þess að stansa. Næst á dagskrá er að fá sér bjór því hugrinn er ekki lengur sljór. Áfengið gefur okkur aukinn kraft sem edrú fólk hefur aldrei haft. Því undir áhrifum gerum við allt myndum mæta nakin og finnast það svalt. Öll högum við okkur eins en að tala um það er ekki til neins. Getum líka verið öllum til ama skiptir engu því okkur er alveg sama. Svo á morgnanna er öllum gestum hent út taka margir með bjór og drekka af stút. Þá hafa einhverjir djammarar parast en hinir úr öfund eru að farast. Í Lækjargötunni enda allir í línu þar sem flestir bíða eftir rúminu sínu. En lífið í miðborginni er furðulegt og oft langt frá því að vera fallegt. Þessa hegðun fengum við öll í arf og það sem í okkur vantar, það hvarf. En eftir viku endurtekur saga sig og lesandi þetta á bæði við mig og þig. ] [ Ég leiður var á konunni og lamaður á sál, er leið ég fann til huggunar, í dálk um einkamál. Þar kona var að óska eftir kæruleysis stund, með karlmanni og fljótt hún vildi hafa þennan fund. Nú auðvitað ég svaraði og síminn hringdi skjótt, í símanum var rödd sem mælti "Hittu mig í nótt" Ó - röddin var svo loðin - svo liggileg og mjúk, hún lét mig alveg finna að hún væri í mig sjúk. Ég skal gjarnan leiða þig um lífsins paradís, og leyfa þér að njóta þess að ég er vanadís. Ég ferðast um á svaka flottum sendiferðabíl, sérstaklega hentugum í ástarleikjapríl. Svo nefndi hún mér stund og stað og spenningurinn jókst, að standast kvöldsins löngu bið, naumlega mér tókst. Er eiginkonan yfirgaf mig draumaheiminn í, ég orkuhlaðinn hélt á vit, ævintýra á ný. Inni í bílnum beið hún mín, við brugðum strax á leik, í banastuði fljóðið var sem lyfti mér á kreik. Á eftir er hún kveikti ljós, mér æðislega brá, og endastakk mér út úr bílnum - Tengdamömmu frá. [1989] ] [ Einn í húmi nætur, ég hljóður sit, og horfi út um stofugluggann minn. Út í rökkrinu, leiftra fögur ljósaglit, - læðist regnið tæra niður húsvegginn - Einn í húmi nætur, ég hugleiði, hégómann sem bar þig burt frá mér. Hví minn hroki vex með hverju lífsskeiði, og hvað ég geri sem mitt auga ekki sér. Mína galla met ég nú, mín var sjálfshyggjan drjúg. Einmanaleikinn nagar mig. Í brjósti mínu ríkir rödd þér trú, og röddin hvíslar - ég elska þig. Einn í húmi nætur, ég bíð og bíð, vona að bankir þú á dyrnar ofur hljótt. Ég þér flytti vina fagra tónasmíð, ef fyrirgæfir þú mér - nú í nótt. Mína galla met ég nú ..... Já röddin hvíslar - ég elska þig. [1989] ] [ Tjaldborgin - töfrandi dalur tökum lagið við varðeld og spil. Bernskan brosir, dreyminn er halur hér brúum við kynslóðabil. Kvöldgolan klettana strýkur kviknar fjörug hjá snótinni þrá. Að morgni er myrkrinu lýkur margur vaknar voninni hjá. Þá er sungið og dansað í dalnum og daðrað í laut og hlíð. Fegurð lífsins í fjallasalnum fæðist á þjóðhátíð. [2000] ] [ Heim ég sný nú Húsafell, hér margt ég sá í veðurblíðu. Hella, hálsa, Bæjarfell, Hraunfossa og Hvítársíðu. [1992] ] [ Byrjaði daginn með bloggi bleksvart kaffi og Moggi fréttirnar las fékk mér svo glas fínustu blöndu af groggi [2003] ] [ Njóttu lífsins, elskaðu saknaðu vertu Ég elska, ég sakna og ég er, en án þín nýt ég ekki lífsins ekki til fulls ] [ Beautiful girl lost her way back in the day. Trying to follow footsteps of a lost mind, wants to go back, is trapped in her own imagination. Covers her soul with a dirty mask, stains her body with the art of her mind. Draws one line down her face, broken heart between her breasts. Drops of black Inc run down her hand. She closes her eyes, trying to see what was meant to be. Riding a wave, singing a tune, into the sky. Off she goes, living a dream. Endless colours swimming around, making a sound. Red and blue to see what is true, yellow and green to see what it means, purple and pink to see what to think. No mind of her own, fire inside. She sees the passion but can´t put it away. Counting on her fingers. Three, six, four, nine, I want to make you mine. Two, five, seven, zero, I want to be a hero. She paints a picture using her voice. Using a colour not of her choice. One line down and she makes a crown, making a kingdom of her own. Dancing around, nowhere to be found. Spreads her wings up to the sky. She is ready to fly and say goodbye. 09.04.04 ] [ Kaffikannan stynur þegar henni er lyft upp og lífinu hellt í burt. ] [ Hugmyndir steypast út en svo kemur ryksugan sýgur allt inn og geymir þar til einhver með fullu viti segir vó, góð hugmynd þá vaknar maður til lífsins og vinnur að fullu í stórkostlegri hugmyndasmíð sem gæti orðið næsta afstæðis kenningin en svo hendir hún því hreingerningarmellan sú sem tekur til í mannlegu ryksugu manns, og hendir öllum þeim snilldar hugmyndum sem manni dettur í hug og þær gleymast að eilífu í endalausum pytt fúlra hugmynda og hugsmíða. ] [ Þetta er pínulítið saklaust land sem er þakið fjöllum og allt er í sand. Landið fannst fyrir meira en 1000 árum af víkingum sem siglu á bláum bárum. Sjálfstæði þjóðin þráði mikið því danir höfðu hana svo oft svikið. Svo árið 1944 varð loksins úr því vegna stríðsins sem Danska þjóðin var í. Þekkt er landið fyrir fegurð sína einnig á það kvenþjóðina fína. Ungfrú heimur unnið höfum þrisvar sinnum og oft það útlendinga á minnum. Heimsmet í skuldum er þjóðin að setja og við skuldadrauginn á hún við að etja. Um jólin brjáluð í verlsun þjóðin verður og hver einasta vara úr búðum hverfur. Svo á sumrin þegar góða veðrið kemur annarhver íbúi annað land nemur. Ekki bara útaf sólinni þeir fara heldur í hinum löndunum fæst ódýr vara. Svo skellur á nýr dimmur vetur og á þjóðina þungliti setur. Kuldinn og snjórinn koma inn harðir og leggjast yfir allar jarðir. Þrátt fyrir þessa ýmsu kvilla á þjóðernisrásina allir sig stilla. Og allsstaðar verður hún á sveimi því Íslands er best í heimi. ] [ Það var þybbinn trúður að steppa, þögull hann ætlaði að keppa, og hann var rétt búinn að sleppa, þegar einn talan á jakka hans spratt, við það blessaður trúðurinn datt, og fallið,það var bratt. Það kom á hann stóreflis gretta, og nefið það varð flatt. Eftir það var hann lifandi kreppa. Engin trúður hefur nefið flatt, hann missti vinuna,ekki satt. ] [ Gluggi heimsins með óhreina rúðu, við horfum út um með augum úr brúðu. Það hækkar ruslið,það gerist ekkert, Þú fjarlægist tilveru þína.Snúðu!.... ] [ Augnástartangó Neisti, veistu hvað neisti er? Er kertið brennur niður, Sit ég hér einmana, spyr mig spurninga. Hugsa um stundirnar, samræðurnar, forvitnina, brosin, augun, freknurnar, röddina, forvitnina. Hvíta sjalið sem Marilyn Monroe, spékopparnir sem Audrey Hepburn, sakleysi barnsins, kynhvöt rósarinnar. Varirnar kyssulegar, tveir rósrauðir speglar með mentolbragði, stinnir speglar. Speglar sem minna á melónur, jarðaber eða eitthvað safaríkara en allt það sem safaríkt er. Tungan sleikir varirnar og dropinn drýpur, í vatninu hann flýtur og speglast þar andlit rósarinnar, ástarinnar, fegurðarinnar, andlitið þitt. Þú stendur þar fyrir framan vaskinn, lítur í vatnið, og hugsar um.... Er kertið brennur sit ég hér, einmana, hugsa um spennurnar sem ég týndi smám saman úr hárinu, spennur yfir allt rúm sem vísbendingar liðinnar nætur, þarna lékum við okkur, fram eftir, og töluðum, töluðum , töluðum um allt milli himins og jarðar, engin feimni frá fyrstu stundu. Er hún sú rétta? Það hlýtur að vera ég hef ekki fundið þessa tilfinningu í nokkur ár, nú er ég sáttur, ánægður og hamingjusamur. Augun sem spurningamerki? Stórt spurningarmerki sem enginn veit svarið við ekki einu sinni hún sjálf. Augun dansa um loftið eins og tangó. Leikur sér að manni með tilfinningaþrungnum og erótískum takti. Tæling, spenna, neisti. Horfðu á mig, þau gera það en dansa síðan nokkur spor, til að gera mig ringlaðan, æstur í að fá að vita meira, sjá augun en þau eru sífellt á hreyfingu. Ég verð að veiða þau, eins og lunda, háfa þau í gullna háfinn minn, þá eru þau mín. Og þó, það er gaman ef þau fá að dansa sinn dans, tangó, og stíga aldrei feilspor, en tæla þó marga dansfélaga að dansparinu, en það er ég sem er dansfélaginn, það er, ég segi ég brosandi, er ég horfi á kertið brenna niður, hérna einmana ég sit og hugsa um augnástartangó. Eldurinn er hættulegur og það er æskan einnig. Á ég að fara varlega, leyfa henni að synda ein í sjónum og njóta allra fiskanna sem gefa henni auga. Eða á ég að synda með henni, svo langt í burtu, við getum þó synt á sama tíma í sitt hvorum löndunum. Langt frá hvoru öðru, öndum bara á sama tíma og dönsum ímyndunarbjörgusund. Verst að sundvörðurinn hendir okkur líklega upp úr löginni þegar hann sér þig syndandi eina með bros á vör og lætur teyma þig án þess að vera teymd á sama tíma er mér hent upp úr óþægilegri klórlaug í Lundúnarborg fyrir dónaskap, í ímyndunarástarbjörgusundi. Spékopparnir, svo sérstakir, hvaða vöðvi er það sem togar kinnarnar inn. Býr til holu á andlitið, er það eilífðar ást rósarinnar. Eða bara óeðlileg hamingjusemi, ég lít á myndaalbúm og sé að öll fjölskyldan er með þessa spékoppa, ef til vill er þetta hamingjusamasta fjölskylda Íslands. Alltaf brosandi, en hvenær er brosið ekta, alltaf? Líklega, ég hef fundið mjög hamingjusama stúlku á hinu þunglynda Íslandi. Kannski eru vöðvarnir sem toga kinnarnar inn uppsöfnuð tár sem aldrei streyma niður kinnarnar. Tárin toga í brosið og brosið tjáir gleði á sama tíma og tárin uppfyllast. Mig langar að kafa dýpra í spékoppunum, sleikja þá, kyssa þá, stinga mér í þá eins og að stinga mér í djúpu laugina, en ef til vill má aðeins einn synda í þessari laug og það ert þú. Kertið brennur. Og einmana drengur fantaserar fyrir framan tölvuskjáinn, spyr spurninga, en vill þó ekki fá svör vegna þess að hann hefur gaman af því að synda meðfram sundfélaganum, dansa augnástarsambandstangó, og spegla sig ímentolsmurnum vörum. Neisti veistu hvað neisti er, ekki ást, heldur byrjunarstig ástar, ekki stingur í maganum heldur fiðringur í öllum líkamanum. Neisti, ég veit hvað neisti er. Skyldi hún vita það? Skiptir það máli? Svo lengi sem ég finn fyrir neistanum og brenn allur að innan, villtu brenna með mér, en þó án þess að fuðra upp? Neisti, þetta er neisti! Ég sit hér og kertið brennur, hlusta á sellótónlist og horfi á vaxið leka niður rautt kertið, af einhverjum ástæðum er vaxið hvítt, sem snjókorn en snjókornið er þó aðeins myndlíking fyrir eitthvað sem er mun dónalegra, nei ef til vill er sæði ekki dónalegt. Vaxið lekur meðfram kertinu og storknar svo á kertastjakanum, þetta er kynlíf kertsins. Hvað er kynlíf án neista? Ég þekki það 47, en flestar án neista. Barnalegur leikur sem fullorðnir leika, en kynlífið okkar kallast ekki kynlíf, líklega ekki njóta ásta vegna þess að það er klysjukennt jafnvel klysjukenndara og plebbalegra en rólóauglýsingar, dömubindnaauglýsingar eða I love Dominos Pizza auglýsingar. Kynlífið okkar heitir ekki heldur kynlíf líklega er það bara neistun. Eigum við að senda frá okkur neista í nótt? Við látum okkur dreyma um neistun á ströndinni, í loftbelg, í sundlaug, upp á fjalli eða í sveitasælunni í hlöðunni. En líklega er það best hjá okkur í rúminu, því á ströndinni klístrast sandurinn við kynfærin og krabbi bítur þig í rassinn, í loftbelgnum brennur gasið bakið á mér, í sundinu festumst við saman vegna þrýstings og þurfum að fara neiðarlega á slysó, á fjallinu er svo kalt og maður frosnar á rassinum og í hlöðunni stingast stráin og skera lærin eða beljan kemur og pissar yfir okkur. Já neistunin okkar er líklega best í góða rúminu mínu sem ég hef bara á Íslandi. Kertið brennur niður, sem lífið að líða, það er enn í efri partinum, það er ungt og á mikið vax eftir. Við erum ung og þurfum að leika okkur, ég er líka ungur, svo erum við líka bæði brosandi sem yngir okkur enn meira. Þessir þrír mánuðir liðu svo hratt, næstu þrír mánuðir líða enn hraðar. Og þá mun ég aftur fá að dansa með þér augnástartangó, synda björgunarsund með félaga og senda frá mér neista og stökkva og sökkva mér ofan í spékoppana og synda í tára flóðinu. Tárin eru ekki sorgartár heldur gleði tár , ástarinnar, ég synd í rósarblöðum með sundkappanum sem ert þú. Neisti, þetta er neisti, eigum við að dansa augnástartangó? ] [ Hornið mitt er hlýtt og gott þar vil ég helst vera innviði þess er fagurt og flott samt þannig að þau á púlsinn skera Að engjast þar, er ljótt minn eiginlegi griðastaður allt svo gott og hljótt bara einn, hér kemst enginn maður Einn ég dey horninu mínu enga vini ég sé né vil þeir geta einbeitt sér að sínu enda gefa þeir mér sjaldan hjartayl ] [ Ég horfi á fallega mynd myndin til mín brosir skært á myndinni er lítil lind þar sefur maður einn vært Nú myndin fallega brennur hún sýndi ei fallegar hliðar nú blóðið á hana rennur allt í tilstilli friðar ] [ frostbitnir fingur grafa í moldinni í eilífri leit að löngu fölnuðum og rotnuðum rótum afraksturinn liggur í haug, lúsugir njólar, harðir kögglar, fúnir stilkar og rótarangar inn á milli rifin rósablöð, morgunfrúr og bláfjólur sem flæktust með, alveg óvart - djásnin tættur er tilfinningagarður ] [ Dagur senn á lofti er, húmið hopar hafsjór skýja á vindum berst. Í náttúrunni rjúpnakarri ropar röðullinn við fjallstopp skerst. Sólargeislar fjöllin fögur baða fjörug lömbin bregð' á leik. Í oddaflugi gæsir upp sér raða Öll skýin litast, verða bleik. Vaknar allt af værum svefni nætur vængjaklið frá lóuhópi heyri. Morgundöggvað grasið ennþá grætur gefur nokkra dýrð að líta meiri ? ] [ Tjörnin mín heima er heimur sem speglar allt annað; við hana börnin svo frjáls leika sér. Fátt er það, sem þarna er bannað þú, taktu nú sæti og gleymdu þér. Svo falleg og húsin á hvolfi þar blika. en hverfa skjótt við bárur í blæ. Samhljóma við lífið, sem líkt og að hika svo litla stund er og sjaldan næ. Liljur vatnsins sér ljúflega vagga, vatnið er þeirra lífsins lind. Æskan þar leikur og bindur sér bagga og býr til sumarsins fegurstu mynd. Varla nú bærast blómin í kring er brosa mót sólinni hlýrri. Af gleði í anda og sálu ég syng og samgleðst heimsmyndinni nýrri. ] [ One chance, one word to make it right Stop the violence and drop the fight Is there a peace in sight? One day with silent fire Burning everything that was your desire One moment is all it takes To do unforgivably mistakes Something stupid causing that your friendship brakes True friend, someone to depend on Will he stand by your side or will he be gone Who can you trust? Who will make your heart crushed? Someone you can love without shame Friend who understands your pain Who keeps you in his frame Someone that doesn’t run away from you…. One chance, one word to blow away Everything that your friends used to say Are they really your friends? Where are they today? Standing beside you? No, it’s just the shadow of their broken promises…. To forgive is hard, to forget is the worst Who will take their lives? Let me be the first There’s nothing you can do to make this go away I don’t want to be like everyone else, I choose my own way Everybody thinks they need to do the same as the others Follow in the path of their father’s or their mother’s Be yourself, do what you want to do Don’t let your friends stop you Because they can hurt too ] [ Á góðum degi gleðjumst mörg til gamans kveðju pára. Mín elsku systir Ingibjörg er orðin átta ára. 26. október 2003 ] [ Lærum verðum við öll að lifa því aldrei hættir lífsklukkan að tifa. Ekki þurfum við breyta lífsformi okkar því í þeim eru misgóðir flokkar. Nægur tími er fyrir hvern og einn og aldrei þarftu að vera of seinn. Bara ef þú slakar á og sest niður verða vandamál ekki lengur fastur liður. Ræktaðu allt það góða sem þú átt þar áttu mikið en alls ekki fátt. En á eftir öllu slæmu kemur gott og þá sérðu hvað lífið frábært og flott. ] [ Þegar hann var með víni varð hegðun hans líkt og hjá svíni. Óð yfir allt og alla ekki hvíslaði hann heldur varð að kalla. Kastaði frá sér öllum ljótum orðum sem setti allt saman úr skorðum. Ekki þekkir hann lengur sína vini og hvað þá hans 11 syni. Eyðilagt hefur mannorð sitt um leið og hann eyðilagði þitt. Konan löngu af honum orðin þreytt því ekki gat hún honum breytt. Að lokum var henni nóg boðið og upp úr höfði hennar hafði soðið. Skildi hann eftir í volæði sínu og fór alfarið eftir hjarta sínu. Situr hann nú einn eftir með sárt ennið og hugsar aftur hvernig var í dennið. Þá voru allir ánægðir fyrir hans hönd og ferðuðust þau öll saman víða um lönd. En nú er sá lifnaðarháttur búinn og er hann aleinn og sál hans flúinn. Það sem ekki gekk þarna á er allt svo erfitt að segja frá. Hreinlega allt sem hann átti var þurkað út af áfengismátti. Svo sýpur hann en á seyðinu slæma og vonar að hitta konu væna. Ekki er til kona sem tekur við honum og hvað þá öllum hans 11 sonum. Nei áfengið getur verið heljarinar böl og breytt getur hamingjunni í kvöl. Ekki finnst lækning í blessaða búsinu og það bitnar á öllum sem búa í húsinu. Þannig er um að gera að láta það vera því þá getur séð hvað þú ert að gera. ] [ Ó sjá! Hinar unaðsfögru gosdósir dansa um í hressandi blæ aprílmánaðar... Hver þarf fugla og hver þarf blóm þegar litríkt ruslið þekur þau bæði...? Ó sjá! Hin tignarlegu mannvirki, grá og kössótt gnæfa sem guðdómleg virki yfir jörðu... Hver þarf fjöllin og hver þarf árnar þegar við getum stolt horft á okkar verk...? Ó sjá! Mengunarskýin sem hylja gagnslausa sólarupprásina! Byggingakrana sem skyggja á forljót fjöllin í fjarska! Virkjanalón sem fylla upp í einskis nýtt skóglendið og malbikið sem hylur ógeðslega hraunið og grasið...! Ó sjá! Fegurðina sem við skópum á óspilltri og einskis nýtri jörðinni... ] [ á fyrstu árum ævi minnar snerust hugsanir mínar um eftirfarandi setningu: “Baba, baba... Danni vera aaaaa við bangsa!” á allra síðustu árum ævi minnar hafa hugsanir mínar snúist um eftirfarandi setningar: “af hverju hefur guð ekki komið niður og bjargað mér!?” “guð er greinilega dauður og heimurinn fucked up maðkahola!” “samkvæmt líkindatúlkun Borns táknar tölugildi bylgjufallsins í öðru veldi líkindaþéttleikann fyrir að finna viðkomandi ögn í tilteknu hniti.” “svartsýni hjarta míns hefur hulið augu mín dökkum dúk eilífðarinnar...” ... ég vildi að ég hefði haldið mig við “Baba, baba... Danni vera aaaaa við bangsa!” ] [ Augun þín sem áður voru full af tunglskini eru orðin dökkskýjaðir himnar En ég bíð samt hjá þér og horfi á heiminn taka framúr mér alveg sama hvar ég er mig langar alltaf að flýja því sama hve nálægt ég fer mun ég aldrei ná til þín ] [ Móðir mín elskulega kæra sú sem í 9. mánuði gekk með mig. Hefur allt gott fram að færa og aldrei mun ég særa þig. Allt vill hún fyrir aðra gera og hjálpa til í gegnum súrt og sætt. Á öllum stöðum í einum vill hún vera og á svipstundu er móðir mín mætt. Upplifað hefur margt og mikið og stendur en upprétt eftir það. Sjálfstraust hennar er gott fyrir vikið og í vanda aldrei um hjálp hún bað. Hún hefur verið mér til halds og traust og kennt mér muninn á réttu og röngu. En hlutverk móður aldrei þú braust og hefur hjálpað mér í minni lífsgöngu. Þúsund sögur um þig er hægt að þilja og kannast fjölmargir við þær. Hversu mikinn kjark þú hefur og vilja og hvernig öll þín hugsun helst svo tær. En það sem ég er að reyna að segja er að hún er lífs míns besta fljóð. Yfir öllu þessu er erfitt að þegja svo ég varð semja um hana þetta ljóð. ] [ Ég vildi að ég gæti fengið þig Það er bara svo margt sem stöðvar Ég vildi að þú gætir elskað mig Því þú ein, til mín höfðar Ef ég gæti sagt þér hug minn Ef ég gæti bara lesið úr augum þínum Ef ég gæti séð í huga þinn Þá gæturu lesið úr mínum ] [ Raindrops in my face as I watch you fade away I know I won't get you back, but I pray The pain has a mirror and is pointing at me Probably beause I've been blind and is trying to make me see That you and I were never ment to be Alone standing in the rain My heart is filled with lonelyness and pain All my dreams has suddenly become my nightmare Every night waking up looking for someone that isn't there Thougtless mind with painful emptyness Waking up, alone Thinking that now I'm on my own I whisper in the dark every night Will the angels show me the light My path in life has faded I've been through hell but I made it Your face behind the raindrops tears my skin I can't let out the pain within The fallen angel is laughing at me too But in the raindrops, will always be a picture of you ] [ Maður einn þrammar um stræti en þó í eirðarleysi rápir. Hann skeytir ekki um aðra en fólkið á hann glápir. Það spyr: "Eigum við að hjálpa? því þú sérð varla neitt. Það er synd og skömm en þú færð engu um það breytt". En maðurinn bregst reiður við "Ég sé það sem ég vil sjá!" segir hann hösturlega og rekur sig ljósastaur á. ] [ Guð: Hér sér mikið stuð Ég: Nei sjáið öll þetta er Guð. Guð: Svona vertu ekki að flagga þessu. Ég: Hey, má það hef vel mætt í messu. Guð: En ekki hefur þú hagað þér vel. Ég: Geri allt á meðan ég hér dvel. Guð: Eigi skaltu mæla svona við mig. Ég: Ég segi hvað sem er við þig. Guð: Ok bjór skaltu á mig splæsa Ég: Því miður korti mínu er búið að læsa Guð: Hvar er öll inneignin þín? Ég: Hey þú getur breytt vatni í vín. Guð: Já það er rétt hjá þér sonur minn. Ég: Viltu þá ekki fylla drykkinn þinn. Guð: Ekki skaltu ögra mér. Ég: jú það ekki nokkur maður sér. Guð: Ok eitt glas en bara í þetta sinn. Ég: Þú ert stressaður, ég það finn. Guð: Auðvita mikið verk er að vinna Ég: Já flestum jarðabúum þarftu að sinna Guð: Og allt nöldrið sem ég heyri. Ég: já kröfurnar verða meiri og meiri. Guð: En hvað er maður svo sem að kvarta. Ég: Þetta er betra en þetta niðri svarta Guð: Ég þakka fyrir og er mjög sáttur. Ég: Það fylgir þínu starfi mikill máttur Guð: Og honum er ég alltaf að beita. Ég: Að játa fólki þá og neita. Guð: T.d lendir maður oft í því. Ég: Og sendir menn niður helvíti í. Guð: Þetta eru reglur og mín skylda Ég: En fæ ég refsingu hjá þér milda. Guð: Bara ef þú hættir að ljúga. Ég: Lofaru að leyfa mér þá að fljúga. Guð: Já en mundu það sem ég segi. Ég: Ég segi engum frá þessu heldur þegi. Guð: En nú vil ég bjórinn sem ég um bað. Ég: Já þú meinar það. Guð: Mundu að þú átt segja rétt frá. Ég: Jæja þá. Guð: Góður er bjórinn þakka þér. Ég: Heyrðu ertu að gera grín af mér. Guð: Nei sonur minn það geri ég ekki. Ég: Eins gott því marga ég þekki. Guð: Mundu á hvern þú ert að yrða. Ég: Ég skal sjálfann mig betur hyrða. Guð: Jæja vertu nú sæll sonur. Ég: Já ég er farinnað reyna við konur. ] [ Ég kom hingað inn hafði eina bók með mér með auðum síðum ] [ Um tilgang lífs og ljóss ég leita svara, en engin finn Er heimsins glæsta góss mín gæfa eða böl? Af hverju er ég hér? hvert liggur vegur minn? Er ég héðan úr heimi fer hverra kosta á ég völ? Erfitt er framhaldi að spá en allir uppskera sem sá svo byggðu upp líf þitt, kærleikanum á. Ég hamingju leita hér en hvernig á ég hana að finna? Ef réttlætið ekkert er er þá til einhvers að vinna? Erfitt er framhaldi að spá en allir uppskera sem sá svo byggðu upp líf þitt, kærleikanum á. [1990] ] [ Já, gott finnst mér að viðra, sálina hér syðra og syngja Vestmannaeyjaljóð. Létta drykki blanda, luma á eyjalanda er líða um loftin tónaflóð. Njóta dalsins hlýju, þjóðhátíð að nýju hérna fílar sig sko sérhver sál. Hvert sem auga litið fær, langar leiðir lýsa ástarbál. Á þjóðhátíð fer ég, aftur það sver ég og öllum það segi sem eru að spá. Að landinn er góður og lýðurinn óður sem lifir á Heimaey. Hér vil ég djamma, um þúfurnar þramma þurfandi einhvern fiðring að fá. Í gamni og glensi, leita að sénsi gararumba bei. Er brekkusöngur ómar, undirleikur hljómar yfir dalinn færist fjör. Drengir stúlkur finna, sem daðri vilja sinna og dansinn á pöllunum er ör. Sungið er í tjöldum, á svölum ágústkvöldum og sumir fara í bekkjabílum rúnt. En endirinn er alltaf eins, frá þér hverfur vænlegt seðlabúnt. Á þjóðhátíð fer ég .... [1989] ] [ Ljóðin fara sýnar eigin leiðir í gegnum hugann sérhvers manns. Tjald yfir alla vitund það breiðir um leið og skáldið fellur í trans. Um allt er hægt að yrkja bæði lifandi og dautt. Ímyndunaraflið þarf að virkja svo ljóðið verði ekki snautt. Áhrif á fólk þau hafa og í lífum hafa myndað slóð. Innihald þeirri bera ljúfann safa sem í heild sinni verður gott ljóð. ] [ Ég vil fisk að borða tvo litla sporða. Með kartöflum og káli svo ég verði að stáli. ] [ Hættu að gráta elskan mín hættu þessu voli. Annars kemur hingað inn bara ljóti boli. Nú brátt fer þig að dreyma litla elskan mín. Þá loksins koma allir englarnir til þín. Þegar augun opnast aftur verður komin nýr dagur. Þá getur þú sagt mér hversu draumurinn var fagur. ] [ Óður til nútímans hlusta ég á vinsælt lag. Vonandi verður þessi texti ljóð dagsins í dag. Fer ekki fram á mikið svo ekkert fari nú á mis. Veit að það er bókað að þetta fer inn á ljóð.is ] [ Ég væri til í að búa í sama bæjarfélagi og þú Svo að ég myndi vita hvernig það er að mæta þér á götunni og segja ekkert ] [ Veturinn nú burtu fer strax í næstu viku. Ekki mun hann kæla þig lengur inn að kviku. Það kemur svo loksins blessað stutta vorið. Það mun kalla á alla komið út ef þið þorið. Sumarið lítur svo við eftir að vori líkur. Það mun sko bæta alla þó þú sért fátækur eða ríkur. Haustið harða birtist sem sína hörðu vinda. Laufin falla af trjánum og eftir öllum götum synda. ] [ Uppá þaki einn hann liggur öruggur í lífsins sjó. Af illsku heimsins orðinn styggur öllu tekur þó með ró. Horfir yfir heimsmynd sína hugur reikar víða. Brátt mun blessuð sólin skína og bæta sár og kvíða. ] [ Þessi mikla auðn í norðri sem liggur ofan á eld. Barist hefur fyrir lífi sínu en aldrei verið feld. Yfir henni norðuljósin dansa þegar kaldir eru vertrardagar. Fegurð hennar finnst víða á meðan öfundin aðrar þjóðir nagar. Fjöllinn yfir öllu gnæfa skuggaleg og há. Svo þessir miklu sandar sem þarf svo mikið sá. Hinir stóru hvítu jöklar um landið vítt liggja. En þjóðin sjálf er ekki vön að frá öðrum aðstoð þyggja. Blessuð er af æðri mætti þetta agnarsmáa land. Um aldir og ævi mun það lifa mitt fagra Ísland. ] [ On the road of life we walk, Eyes on the ground, no time for talk. I start off at one end with a dime in my pocket and a smile in my hand: There in case I need it, There for a rainy day. No one here to leave prints on my heart. No hand to guide me, we're always bound to part. Yes me, myself must watch my way. Fragile heart, keep the love away. I can't let me go astray. I'd rather wait until tomorrow, I'm much too young now, anyway. So now on tomorrow's eve I sit, I think while my quilt I weave. And with my eyes of tired red, I see, I dream of my own bed To rest my feet To relax my soul. Tomorrow's come but I'm much too old. ] [ Bítlarnir höfðu rangt fyrir sér.. Sólin kom aldrei Ég er enginn rostungur Og ást er ekki allt sem þarf. En það var eitt sem þeir höfðu rétt fyrir sér. Þetta var erfiður dagur og ég hef stritað eins og hundur. ] [ Á þeim stöðum sem hef leitað á veit ég að sannleikurinn sefur. Svo loks þegar hann finnst er það samviskan sem upp hann grefur. Frá þeim degi sem hann steig fram hefur margt fyrir mig verið gert. Birtust mér glænýjir hlutir sem ég hef aldrei séð áður né snert. ] [ Er kemur sumar og sól syngja fuglar um ból alla bestu söngvana þína og hinn blíðasti blær ber þér vina mín kær vorboðans kveðjuna mína. Ég leitaði þín um langan veg og ljúft var þig að finna því þú ert elskan yndisleg ó ástin drauma minna. Þegar dagurinn dvín dafnar ástin til þín þá ljúfustu minningar streyma sem ég geymi með mér meðan hugurinn fer og langar að faðma þig heima. ] [ Það er ljúft að anda og ég heyri loksins í mér fínt að geta faðmað og sofna hjá þér Þú ert vatnið og ég er báturinn þú ert allstaðar og flýtur mig áfram Síðan fýkur í þig og þú reiðist fyrirgefðu mér áður en þú sekkur mér Ég er týndur ég er brak sem skolast á fjöruna en ég elska þig samt ] [ Sorgin hefur fæðst lítil hún er í fyrstu síðan eins og lifra hún étur sig stóran hún étur mig innan frá ég er tómur Síðan verður hún að púbu og tíminn líður úr púbunni kemur fiðrildi sem flýgur með ást og hamingju ég blómstra allur innan frá ég er glaður ] [ Alpahúfur... hafa mér alltaf þótt bera afar einkennilegt nafn. Því, ef þær eru svona miklar Alpa...húfur Afhverju geta þær þá ekki veitt eyrum mans og höfði það skjöl og þá hlýju sem nauðsyn krefur, þegar í alpana er komið? ] [ Lítil ljós lýsa, vítt og breitt um heiminn, öll með þá vonlitlu ósk að hjálpa til sum vilja ylja nokkrum, sum vilja bjarga öllum - nokkur vilja bara flóðlýsa kirkjuna. Enginn veit hvernig þau kvikna, hvar, eða hversvegna En af þeim stafar sérstökum ljóma sem aðeins þeir sem hafa þessa þörf til að hjálpa haft Flest hinna sönnu ljósa urðu það óvart, án nokkurrar ætlunar eða tilgangs- annars en þess að lýsa upp pínulítinn hluta af heiminum, hversu dimmur sem hann annars nú er. ] [ Sporin þín dúnmjúku voru alltaf svo helvíti örugg þú vissir jú að krjúpandi geturðu ekki fallið sérlega illa og sporin dúnmjúku voru sannfærð um ágæti vegarins eina þau stefndu með þig á endann og forðuðust allt sem ekki var áður kannað því það er svo hlýtt hérna á öruggu hliðinni hví að hætta á athlægi þegar línan beina er krítuð á malbikið og hvað með það þótt þú finnir aldrei fegurðina í þessu haustkvöldi svoleiðis er bara hjóm og kjánaskapur fyrir listamenn og aðra geðsjúklinga við hliðina á vissunni um að þú komist eftir línunni krítuðu frá A til B frá upphafinu til moldarinnar án þess að þurfa að óttast að lenda undir öllum þessu köldu járnhælum og dreyma um mig draum ] [ Farin frá mér fíknin er fegin ég anda léttar. Frjáls og glöð ég núna fer fulltrúi minnar stéttar. Margt og mikið hef ég lært mun því ekki gleyma. Hjarta mitt þið hafið nært. Í hjarta mínu þið eigið heima. Þvílík ykkar þekking er þroski ykkar og kraftur. Yndisleiki af ykkur ber. Ykkur ég sé vonandi aftur. Visku ykkar þið veittuð mér. Vanda minn nú ég skil. Tryggð og traust þið sýnduð hér. Takk fyrir það að vera til. ] [ Lífið er oft svo gruggugt og grátt. Þú sérð ekki ljósið aðeins myrkursins mátt. Þú vilt ekki heyra, þú vilt ekki sjá. Þú sem að leitar að manni með ljá. Sá maður er dauðinn svo hlustaðu nú. Hann læðist og laumast. Hans ósk er helst sú... ...að fanga sem flesta og núna ert það þú! ] [ Gráttu nú barn mitt, gráttu þeim ört. Tárum sem frelsa, tárum sem sá. Sá yl í þitt hjarta svo þiðni það skjótt. Svo frostið ei lengur ríki þar hljótt. ] [ Lítill fiskur syndir hratt. Hann er að flýta sér er að verða of seinn í mat. Hann syndir hraðar og hraðar. Hann tekur ekki eftir því að hann er eltur. Hann hlakkar til því það er uppáhaldsmaturinn hans í dag. Ormar og meiri ormar, ormakássa. Allt í einu er hann gripinn. Það er hákarl stór og mikill. Það er þá sem hann áttar sig á því að hann fær engan mat. Því hann er maturinn.. ...Aðalrétturinn. ] [ Ein úti í sandkassa Blár kjóll Á hækjum mér umlukin myrkri að undanskildum ljósflugunum sem flögra undir stóra stóra trénu þetta er samt bara draumur ] [ Blaðað í gegnum blöðin Andvarp Blýantsendi nagaður Andvarp Spekingslegur svipur Andvarp Skyndileg hugljómun Párað á pappír Andvarp Nagaði endinn sleikir örkina eyðir öllu út Andvarp ] [ Hljóðnaðu haf svo ég heyri öskrin úr iðrum jarðar þau kæfast kveinin og köllin í róandi hljómlist frá þér. Farðu til fjandans frelsi sem tætti mig upp og tærði finndu þér fórnir að handan því hugur minn ekkert fer. Jörðin skelfur og nötrar djúp mín kalla á þig ég heyri ekki í vindinum lengur heyri ekki hrópið frá þér. Þú hlustar svo sjaldan á hjalið skilur varla mitt mál verndar einungis barnið sem bærist í minni sál. Vandaðu kveðjuna vinur veðjandi byð ég nú þig orð sem er hvíslað í vindinn hljóðnar í alsherjarbyl. ] [ Ég er alls ekki hjátrúafullur en á síðustu þremur árum hef ég brotið tuttugu og þrjá spegla. Það var ekki fyrr en í dag að ég fattaði í hverju óheppnin fólst. Það voru allir helvítis brotnu speglarnir. ] [ Eitt er það sem ég veit, og það er, að það er alveg óþolandi að vera aldrei viss um neitt. Eða það held ég allavega. ] [ Ég gerði ekki neitt Samt er það mín sök Ég vissi ekkert Það var líka mér að kenna Mér gekk illa í námi Svaka var ég ljót Kunni ekki að stafsetja Hendið henni út.. fljót Ég hugsa um það núna Ekkert var mín sök Ég bara fæddist Það er mín sök ] [ Veðrið er vont Ég komst valla heim Snjórinn næstum Í gegnum rúðuna ,,came” Hélt við færum útaf Hélt við værum dauð En engill var hjá oss Við komumst heim Pabbi var rosa róló Ég sá hver hann var Hann keyrði gegnum skaflin Og kom okkur heim ] [ Hjartað þér gaf ég Og vildi bara gott Þú hentir því á brott Eins og ekkert væri Ég stóð í rigningunni Ég var rosa sár Rigningin flæddi um hár mitt Líka nokkur tár Þú hafnaðir mér Á lang versta veg Hvernig það ég fyrirgef Aldrei get ] [ Hjarta mitt í molum Það grotnar upp skildir mig í holu Til að rotna upp Vonaðist eftir Að þú kæmir aftur Ekkert kom Ég var ein Nú ég sakna Stundanna Tíma okkar Saman ] [ Komdu heim Komdu fljótt Án þín Er allt of hljótt Í minni hlut Á ég nú Þú tókst sekkinn Og hljópst á brott Sár ein sit Með ennið rautt Því ég sakna þín ] [ Tár í myrkri Glitrar perla Perlan sú Er ein Nóttin köld Læðist að Frystir allt Frystir mig ] [ Sjórinn dregur mig Ég vil stökkva Hann hunsar mig Lífið hrökkvar Ég sé engan tilgang Vil sofa burt Tilgangur að gufu verður Líf mitt á braut Viltu mér burt Yfirgefa mig Þig ég sé Þú labbar burt ] [ Hve illa mér líður Særði þá sál Á mig má hrækja Hvílík skækja Hún smá og fátt sá Kom ég að og sökkti Henti henni for í Og nú mun ég finna fyrir því Samviskubitið bítur sárt Hvað skal núna gera Brjáluð tussa og tröllskessa Mun á nafni mínu hvessa Skilið á svartan möl Ég særði þessa sál Vini vildi og kærleik já Rústaði ég þeirri þrá Hver einasta brá og bröndugras Fela sig, er ég kem Kvikindið sem kveikti á mér Mun kvelja mig til enda Sálin litla á brott er Grimmdin hremmir hana Að ljótum leik leiki mér Að litlu lífi hennar ] [ Að sjá þig aftur Yrði gleði ein Sökunun hafði Komið í þeim Vinir hlýir Hafa saknað þín Loksins komin Aftur heim Við byðum lengi Eftir þér Fréttir um drukknun Hafði borist þeim Komin ertu hér Þótt blautur sé Lífið er gott Þú ert en hér ] [ My eyes read sorrow How could you say My life was worth nothing After those words you made How can i live now You have lied My reputation Has come to noun How can i look In my mothers eyes Tell her while daddy cryes That you have lied Those words you said Were sad and blue Lies i can’t say Not so soon ] [ Þetta er veröld Ég bý þar Þú gerðir það erfitt Að lifa af Ég sagði fátt Þú ýktir það Vörn hafði enga Fyrir lygunum Þú laugst á mig Og að móður vor Hvað get ég Sagt nú? Þín orð rista djúp Djúpt svo langt Því barn á aldrei Að berja í spað ] [ Sá þig þar Þú gekkst frá Vildir margt sjá Hver ertu? Labbaðir hjá mig langaði þá Þig að fá Hver ertu? Sé þig stutt frá Koma mér hé Stöðvar ei stað Hver ertu? Heim komin er Þú ert með mér Byrjum nú brátt Hver ertu? Ástin er þá Komin mér hjá Svaraðu þá Hver ertu? Óvissan er Mikil hjá mér Veit ekki en.... Hver þú ert.. ] [ Má ég segja þér fréttir Má ég segja þér frá Má ég segja þér leyndarmál Sem enginn má fá Viltu vita sannleikan Viltu vita það Viltu vita leyndarmál Sem enginn má fá Um ,,hann” er mitt leyndarmál Hann er komin hjá Hann er mitt leyndarmál Sem enginn má fá Elska hann en enginn veit Að ég hugsa um Því hann er mitt leyndarmál Sem enginn má fá En leyndarmálið dugar skammt Því hann vill mig ekki sjá ,,hann” vill ekki vita að hann er leyndarmálið.. sem ekki mátti sjá ] [ i walk in the isle i see you glow all around you all people to charish you i come closer my sorrow starts to show i look down your cauffin you face so frown i still remember how you got away all those nights i pray that it hadn’t gone that way the car it smashed right through it and killed all inside that is what happened on that higway road i lost you that dampty night it was my fault i should have thought of you befor i drank and drove ] [ Er köttur dagsins. Einkennilegt. Áður var ég rotta og orti öðruvísi. Ég er köttur, ekki rotta Gleymt aðgangsorð. Sorglegt. Kötturí dag. Furðuleg. Er þrátt fyrir allt rotta dagsins. Rotta, köttur? Hvorugt! Aðeins launorð. Ég þekkist ekki, frekar en kötturinn sem át rottuna. ] [ Allt er gott og allt er frábært þegar vegir lífsins eru beinir. Á hverjum stað og í hverju horni gleðin hún sig leynir. Lifðu aðeins þínu lífi því þá færðu þitt næði. Svo loksins sérðu þá að gleðin heldur sínu flæði. Það sýnir engin þetta en þykjast vera í einhveri leit. Þeir plata engan með þessu og fyrir löngu gleðin af þessu veit. ] [ Hvað allt er orðið að engu, hvernig gat það gerst..? Hugur minn er tómur. Hvað vil ég? Hver er ég..? Það er einsog ég sé ekki til lengur. Bara svipur á gangi um Borg óttans, án allra möguleika.... ..bara enn eitt andlitið sem hverfur í fjöldann - og gleymist. Það er vont að vita ekkert - hræðir mig. Hvar endar þetta allt? Oft pæli ég í því hvers vegna ég var sett á þessa jörð..? Refsing kannski? Mín eina vörn gegn geðveiki er að hugsa ekki.... ] [ Í sófanum lítill drengur sefur og yfir honum er mikil ró. Hann sofnaði á skammri stundu en rétt áðan hann vakti og mikið hló. Nú er hann farinn að dreyma því hreyfingar hans sýna það. Er hann kannski að berjast við dreka eða reyna koma hundi ofan í bað. Vakna skaltu bráðum drengur draga skal ég frá gluggatjöldin. Ekki þarftu að sofa lengur því nýr dagur hefur tekið völdin. ] [ My life is great and my future is bright I succeed conquer the night My heart is beating again too Now, when I’m in love with you There are a lot of things I need to do I’ve been putting to many feelings on hold I look better am I told Fresh look and smile upon my face And my hate has gone without a trace No more a prisoner behind the bars of pain Only joy and happiness are going through my brain One thing made it all be true Now, when I’m in love with you ] [ It’s in your eyes…. I cannot describe it…. Something beautiful has caught my eye I felt my heart beat deeper when you walked by Unknown feeling I never felt before You make me think life is worth living for I’ve never talked to you, but your beauty said all what’s need to say I’ll always remember the day you walked across my way You left without a word I scream after you but it won’t be heard You must be an angel, your shining face has it all Falling in love with you, will probably be my fall ] [ Once I was in love, you know how it is Thinking that it can’t get any better than this Every day seems to smile at your face But then it happens that someone takes your place Takes away your dream and disappear Now, when you are here… ] [ Aftanroði, röðuls skin á sjávarfleti. Djöfulinn og ég við styðjum leti Ég ligg og sé hann í huga mér þar sem ég er í mínu fleti. Drýslar á mér nærast Dauðinn nær er að færast Allt farið sem mér áður var kærast Seint ætla ég að læra Samviskan farin að láta á sér kræla Fíknina ég verð að næra Amfetamín Ljúfa ramma ástin mín Ég loka augum mínum og sé kílóa sín. En nú ertu farin, ekki lengur hér Og enginn mína þrungnu sorg sér Einn og þungur ég götur fer. Amfetamín Ljúfa elskan mín Í hyllingum ég sá öll kílóin fín Þau hurfu upp í skýin og ljós varð öll lygin og nú reyni ég að forðast dýin og reka frá mér djöfulinn fara ekki í fangelsi aftur inn og segja við Guð: Að eilífu þinn. Hætta styðja léti rífa mig upp úr mínu fleti ég held að ég „strákurinn“ það geti. ] [ Draumur að eiga nýja skrifblokk fyrir hugsanir sýnar. Ef ekki væri fyrir þessa stíla bók myndu þær veikjast – um í tjörn hugans eins og silungar. Penninn minn er veiðistöngin mín og orðin hér eru aflinn sem ég dreg að landi. Og ef hann er verkaður rétt verð ég kannské lesinn af einhverjum. Kannské gára ég hans tjörn eða snerti einhvern streng. En eru frjóar hugsanir einhvers virði ef þær hafa ekki umboðsmann á bakvið sig? Ef þær hafa ekki einhvern til að kreista andann úr orðunum og markaðsvæða þau? Eða eru þær mestar fríar og óbeislaðar? Tamdar hugsanir eru t.d bílar og sömuleiðis morgunkornið þitt og svo framvegis. Og því hlýtur heimurinn að vera hugsun og við hugsanir...,..., Ég er frjáls hugsun,,, ótaminn... Og nú tek ég á mig mynd sem maður,,, og er nú í fjötrum holdsins,,, á þessari líðandi stund... Við erum öll orð,,,, - ef við setjum samasemmerki á milli orða og hugsana? Og öll orð eru lítilsverð ef engin hugsun er á baka við þau... ] [ Drekka á barnum verða fullur heim að sofa vakna þunnur Panta Pizzu og skuldirnar hlaðast upp. Börnin gráta þeim gefið nammi, kannski bjór í pela þau óþekk þá skömmuð grimmt, jafnvél barinn. Við matarborðið engin fær að tala út því fram í allir grípa kæft er niður saklaust tal,snúið útúr til að börnin missi tök á umræðunni og þau ásökuð um rugl. Farið er í meðferð kvartað, kveinað því börnin eru svo erfið. Strákurinn er kannski „ofvirkur“. Fá syndar aflausn hjá meðferðarfulltrúa standa stoltur/stolt í pontu segja þar allan „sannleikan“. Og svo Ljúga, svíkja, detta í það berja konuna og halda framhjá. Barn í skóla grætur í frímínútum... ] [ ekki láta skjáta láta lífið leka láttu máttu láttu ljúfa dúfa ljúfa láttu regnið drjúpa regnið megnið miklu meira fleira frekar fáir fráir fákar fara bara frá mér til þín ] [ Mér hættir til að njóta leita að löngun í léttleikandi lífi þínu Mér hættir til að þrá svo ófyrirgefanlega að stjörnurnar leita neita að trúa mér fyrir tilvist sinni Vegna þín hætti ég að sjá stjörnur Ég er innilokaður í vefengjanlegri gleði því hvernig get ég réttlætt tilvist þína án stjarna til að líkja við þig ] [ Alone I sit and wait for tomorrow, depressed, camping in my world of sorrow. Sailing forward, my ship of sadness, how long must I go on in the world of madness? Pain and suffering all around me, mayhem, still my blood is the only one i see. Hoping for a brighter day, a better world, a better way. ] [ “Fucking shit!” sagði unglingurinn við sjálfan sig þegar hann missteig sig á sleipri götunni. Gömul konan heyrði til hans og táraðist yfir glataðri æsku nútímans... “Náði ykkur!” sagði smástrákurinn við hina krakkana þegar hann beindi platbyssunni að þeim. Gömul konan heyrði til hans og táraðist yfir krúttlegri æsku nútímans... ] [ “allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skuluð þér og þeim gjöra” sagði guð forðum með áherslum ... mikið andskoti hefur mannfólkið stundað sadómasókisma lengi. ] [ Dagný mín kær, svo fögur og skær, og lokkandi mær, með fallegar tær ] [ Ó, þú Birta svo brosmild og fín, ég brosi er ég hugsa til þín. Þú 'rt rosa sæt og svaka kúl og sérstaklega bjútifúl. ] [ ó dagný litla durex, mín litla dansandi hunangsfluga. Líkt og túnfífill á tindrandi sumarkvöldi, er tíminn hefur bakað sína lífsins leið! ] [ Birta þú ert eins og skyrta, þú mátt hvorki borða hesta né hunda og heldur ekki Emil og Skunda. Þú ert með svarta eyrnalokka en hefur ekki kysst marga kokka, því þú ert með honum Magga.... ] [ Ég sit hér ein og hlusta. Það er nótt og flestir líklega sofandi. Ég hlusta á kyrrðina, hún er svæfandi. Ég slaka öll á. Öll streita svífur í burt út í myrkrið. Mér finnst ég svífa líkt og ég sé á mínu eigin skýi. Ég loka augunum og læt sem ég sé í öðrum heimi. Langt í burtu frá áhyggjum,streitu og sorg. Þessi heimur er staður sem ég heimsæki þegar áhyggjur og ami hversdagsins yfirbuga mig. Hann hjálpar mér að slaka á og hugsa um hve lífið getur verið fagurt og gott. Ef maður einblínir ekki aðeins á vandamál sín heldur horfir í aðra átt og sér lausnina á vandanum. Að hlutirnir séu ekki eins slæmir og þeir virðast í fyrstu. Svo opna ég augun og sál mín fyllist nýrri lífssýn. Hún fyllist von um betri tíð. ] [ Ég er kominn aftur, hlusta á nemendur sem taka sig alvarlega, kennara sem taka sig alvarlega. Þung andlit, þungt andrúmsloft, hér eru allir svo þunglyndir. Gáfumenni á erlendri tungu, ég er hér, hugsa að ég taki mig ekki of alvarlega, þess vegna er ég mun alvarlegri en allir hinir sem taka sig alvarlega. ] [ Sólin skín og fuglarnir syngja. Grasið orðið grænt og blómin að spretta. Þú flýtir þér á fætur,hleypur svo út aðeins klædd í stuttbuxur og hlírabol, ætlar í sólbað. En raunin verður önnur því þú rennur á hálku og dettur ofan í snjóskafl. Það er þá sem þú gerir þér grein fyrir því að þig var bara að dreyma. Það er ekki komið sumar. Vetur konungur situr enn í hásæti sínu og hlær nú dátt að flónsku þinni. ] [ Thetta eru odruvisi vinir, vinir i skola, ekki vinir sem fella tar saman nema thad se leiklist. Thau sveima med mer meira en nokkur annar i thju ar. Thetta er oddaflug, en eftir thrju ar breytast svanirnir i snjotittlinga, pafagauka, pelican , struta, lunda, kryur vid erum oll mismunandi eftir oddaflugid og hefjum okkar einstaklings swing vida um heiminn. ] [ Þú varst mér sem dóttir. Ég annaðist þig flesta daga og einnig sumar nætur. Ég sá þig þroskast dag frá degi. Þú varst eins og lítið saklaust blóm, blóm sem þráir ylinn. Ég faðmaði þig og líf mitt fylltist gleði. Ég heyrði þig hlæja og allt varð bjart. Líf mitt virtist fullkomið. En hlátur getur breyst í grátur því þú varst tekin frá mér. Ó hversu mikið ég sakna þín. Og nú sit ég hér ein og græt, ekki fyrir framan aðra heldur græt ég hér í hjarta mér. Græt yfir því að fá ekki að sjá þig aftur. Eina huggun mín er sú að nú líður þér vel.. ....á himnum. ] [ 11:15 Bjallan glymur. Kári er mættur. Örfættur. Hún hefur raust sína. Um hvað er hún að tala? Myndarleg skáld eða Grasaferð? Nei, það er Hallgrímur Helgason. Þetta er allt að koma. Játi mætir. Og stuðið bætir. Hann er í módernískum hugleiðingum. Tíminn líður. Tíminn og vatnið, líða áfram í lygnum straum. En Helga Kress hún rýfur lognið! Það stefnir allt í stórstreymi, í þessum heimi. Vefarinn mikli frá kasmír. Vélastrokkað tilberasmjer eða rjómi íslenskra bókmennta? Heimapróf í íslensku. Arg! Það gæti eins verið á útlensku. Þetta er allt að koma. Ekki láta okkur falla, Halla. “Er tíminn að hlaupa frá okkur?” Bjallan glymur. 11:55 ] [ ég hrópaði fögrum orðum upp til fjallanna og vonaði að þau myndu bergmála alla leið til þín en þau týndust í þokunni ég sendi þröst með kveðju eins og jónas forðum og vonaði að hann næði yfir hafið og heim til þín en hann dó á miðri leið nú hvísla ég ástarorðum í vindinn og bið um að þau berist ljúft að eyra þér og vona að þau fari ekki út um hitt ] [ Ég forðast að líta til baka því fortíðina hef ég kvatt. Lít hornauga á lýgina en fylgi því sem er satt. ] [ Lognið strauk varlega mitt hold loks fann ég langþráðan frið það verður veraldleg bið þar til ég verð af heimsins mold. Frjáls ég stóð í mínum sporum en þau hafa verið mér erfið byrði sá svo hversu lífið er mikils virði og með komu breytinga á nýjum vorum. Æðri máttur stendur yfir þessum stað sá sem verndar allt sem er vígt og alla hamingju gefur. En öllum er sko ekki sama um það og hugsa sífellt um slíkt en enginn á því sefur. ] [ Ég get ekkert að því gert og mér þykir það afskaplega leitt. En glampinn í augum þínum minnir mig einna helst á reykelsi. ] [ Þú varst konan sem stökkst af gleði af stað til að hitta mig. Konan sem hringdi klukkan 3 að nóttu til að segja “Ég elska þig 9,9.” Þú hafðir trú á því einfalda og fallega og að við ættum framtíð í Grafarvoginum. Þú hafðir fáa veikleika en ég var þeirra mestur. ] [ helber verður græðgin vondum oft að falli villast sálir þeirra undir eyðslusvalli ekkert virðist geta losað þá úr böndum... varir mynda grettur og glott í augum býr graður axlarpúkinn í heimskan hugann snýr “hvað er betra en að hafa fé í höndum...?” engill sem að áður á öxlum mannsins sat í hendingu flúði og hvarf í óséð gat núna verður ekkert alltof mikill gróði... aurinn sindrar gullinn í gráðugum augum glötuð verður hinsta samúð úr hans taugum stelur öllu léttu, slettir miklu blóði... ... vítislogar sleikja votu sárin vinda burt úr augum sýrutárin Satan hafi sálu þína fjandi sindrar hjarta þitt úr hörðum sandi... tjaran lekur þykk í þínum æðum þiggðu dvöl í Vítis dekkstu svæðum nú þú getur naumast snúið aftur njóttu restar lífs þíns ljóti raftur... ... stoppi þykka hjarta þitt úr sandi! þungt á huga hvíla þínir aurar myrkur þiggi sálu þína fjandi! líkt og aðrir ljótir græðgismaurar lenda muntu brátt í Satans landi! ] [ Skólasund er asnaleg kennslustund. Að læra svo margar aðferðir er tilgangslaust, ég gleymi þessu hvortiðer næsta haust. Bekknum er skipt í hópa sumir skrópa aðrir mæta þar vildi ég nú sjá eina sæta! ] [ Svartar neglur hennar skárust í húðina, Rifu allt það sem inn’í mér var, Innyflin, hugsanir, minningar, Enn hægar, enn hægar hún mig skar. Sársauki er mitt líferni, ég særi aðra og er særð. Mínar innstu langanir frelsast, uppþornað blóð á líkama, er mín hinsta fullnæging. Grátur á hverju kvöldi, uppþornuð tár á andliti, gefur mér gleði í æð. Snerti kaldan líkaman, Fyllist ánægju, gleði. Opinn munnur á dauðri sál, Eldspýta kviknar og það er bál. Öskur kvenna, tálsýni, brjálæði. Dans í kringum eld, galdrar. Hlátrar, lík á báli. Þau áttu sársaukann skilið. ] [ Ég bið afsökunar þar sem ég stend frammi fyrir þér Lít lítill niður í augu þín skömmustulegur En um leið tek ég skrefinu lengra Bið þig þar sem ég stend um leyfi til að hugsa til þín ] [ Sundsprettur sem heilsubót, er köfun eftir lífsins rót. Sperrtur líkt og hundur, á eftir næstu tík, gónir hann á blautan kvenmanninn, sem er aðeins að taka sér frí frá amstri dagsins. Hann stingur sér í djúpið, svamlar um hálfnakinn og finnur hvernig blóðið fossar út í limina. Hann kafar dýpra í 37°C heitum vökvanum, 70% vatn, 30% vessi. Unaðsleg tilfinning! Og ferðin endar í egginu, innst í þrifanlegu óðali konunnar. Svangur endar hann í ísskápnum, innst í eldhúsinu, fullu húsi matar. ] [ ég heiti hulda -en þú? ég bý í kulda -en þú? ég á risavaxinn vöfflubíl -en þú? á þetta ekki að ríma við fíl? -hvað finnst þér? ] [ Þögnin er hávær hugsun dropinn er fellur af enni þér í fallinu er hún í skellnum ekki ] [ Ég hef glatað rétti mínum til salernisferða svo ég get ekki farið niður að kaupa kók. Og þessum sólarhringslanga klukkutíma ætlar aldrei að ljúka. Ég sit einn í auðn andleysis þíns, í kringum frjálsa sál mína liggja sofandi sálir í fjötrum hugsunarleysis og til þess þú heftir ekki mína sem tekin er að syfja lít ég ekki á töfluna þína þar sem er ekki pláss fyrir ljóð heldur aðeins fyrir formúlur og reglur. Ég horfi út um gluggann sé andvarann stríða greinum trjánna og steypumót hangandi úr gulum krana sveiflast í vindinum. Ég vil ekki vera hangandi steypumót í keðju sem stjórnast af vindinum ég vil ekki vera tré fast í jörð og eina hreyfing mín blásturinn sem leikur sér innan um greinar mínar Nei, ég vil frekar vera vindurinn sem blæs burt hlekkjum hina sofandi sála. ] [ þú féllst af himnum hrein hvít mjúk og ósnortin en menn spilltu þér gengu í þér lituðu þig með þvagi sínu mokuðu þér af veginum í stórar hrúgur þar sem með tímanum frostið breytti mjúku hörundi þínu í gler grjótinu af götunni rigndi yfir þig og svipti þig þeim hreinleika sem eftir var og nú þegar ég sé þig í þessum stóru hrúgum fyrirlít ég þig fyrir að láta spilla þér. ] [ með falskar vonir í ferðatösku og ómótaða drauma í nesti flaugstu burtu frá því sem þú elskaðir, burtu frá því sem elskaði þig ] [ Gefðu mér stríð svo ég megi vaka og ekki eitt af þessum smávægilegu í Afríku sem snúast um að hindra naflausan harðstjóra í því að misþyrma kúguðum þegnum sínum og er rétt minnst á á blaðsíðu 13 í Morgunblaðinu. Heldur eitt alvöru sem snýst um olíu og er sjónvarpað beint frá einhverju Arabalandi hingað upp á Frón. Ó, gefðu mér stríð svo ég hafi eitthvað til að skrifa um en gerðu það í fjarlægu þriðja heims ríki þar sem aðeins þeir deyja sem ég þekki ekki. En gefðu mér svo frið til að búa hér langt frá stíðsvöllum þínum og þeim ósanngjörnu orrustum sem þar eru háðar en leyfðu mér að fylgjast með því svo ég geti gagngrýnt stjórnvöld þín og barist með orðum gegn yfirlæti þeirra og því hvernig þau hyggjast herja á öllum heiminum með ógninni um hryðjuverk. Gefðu mér stríð svo stjórnvöld minnar þjóðar geti stutt það og tekið þátt í hernaði án þess að missa syni síns lands. En ekki gleyma að gefa mér frið til að sofa milli loftárásanna. Búðu svo um mig í bæli falsöryggis og breiddu yfir mig vernd fjarlægðarinnar Gefðu mér stríð svo ég megi vaka, en gefðu mér frið svo ég fái að sofa. ] [ hvar er hvíldin nú, þegar komin er nótt og hverfa dagsins læti? syngja ei söngva nú, silfruð englagnótt svo sætt sem hver einn gæti? tómt og tætt er nú, telpuhjartað hljótt, en enn eru tíu tær á fæti. ] [ Myndir kvikna í kolli, kenndir lifna við, kvenmannsbelgur olli, kauðabólgukvið. ] [ Þú vaknar skyndilega eins og borgin úr dvala á sólríkum vordegi hendir þér úr fötunum og sverð að svona skulu allir dagar verða en á morgun ertu kominn með kvef og rigningin glymur á gluggunum ] [ hann elskaði mig hann elskar mig hann mun elska mig hann laug ad mér hann lýgur að mér hann mun ljúga að mér ] [ Mér er heitt þér er kalt heitt gefur kalt hlýju kalt þykir það gott en kalt vill bara vera kalt og er bara kalt ] [ þú manst ekkert. þú hættir að muna fyrir löngu. þú situr bara, í dimmu herbergi og lest nútíðina. ] [ þú kastaðir stjörnunni okkar upp í himininn ég sá hana í gær hún var sár út í þig þú sveikst hana hún vildi vera hjá okkur hún var okkar ég ráðleggi þér nú náðu í stigann þinn góða og kondu með hana til mín til okkar ] [ Vaknaðu hress í býtið og finndu sjálfa þig Það er ekkert lítið sem þetta er mikil bið Hef beðið og beðið dögunum saman og ekkert svar fæst Enda er það ekkert gaman Óskin hefur ekki ræst Huggun er að borða hangikjöt og spinna ljóðin góðu Gaman er að horfa á hanaöt áhorfendurnir að því hlógu Hver er það sem ber á dyrnar er það kannski þú Það er tími að fara út með kýrnar þær ganga sjálfviljugar í trú Lukkan fylgi þér hvert auðnuspor og hamingjan veri með þér Hve gott hefur okkar verið vor á heiðinni tína bláber Limirnir dansa eftir höfðinu og orðin dansa eftir huga Enda sést það í ljóðinu Þetta ljóð mitt verður að duga ] [ Karl og kerling áttu dreng einn sem þau litu ekki á sem neinn. Ein skepna var í þessu koti sem hélt þeim algjörlega á floti. Dag einn kýrin var numin á brott og það þótti fólkinu alls ekki gott. Sendu því strákinn út að leita en hann þorði því ekki að neita. Skipuðu dregnum að finna kúna aftur en kerling var vond og karlinn raftur. Hélt því drengurinn út og með nesti aðeins klæddur buxum skóm og vesti. Nú hafði hann gengið langa leið en settist niður og fékk sér brauðsneið. Á kúna hann varð að kalla og baulið barst langt upp til fjalla. Gekk hann lengra og kallaði aftur og í baulinu var nú meiri kraftur. Færðist hann nú nær kúni sinni en ætli hann hana finni. Stóð hann nú upp á hamri einum sem var þakin bæði mosa og steinum. Baulaði þá kúnin undir hamrinum stóra og hann klifraði niður án þess að slóra. Sá hann kúna við hellisopið bundin eftir langt ferðalag var hún fundin. Hélt þá drengurinn sæl og glaður heim en mikið átti eftir gerast hjá þeim. En eftir stutta göngu skessu bar að sem vildi kúna aftur heim í hlað. Mælti drengurinn við kúna hvað skal gera því ef hún næði þeim væru búinn að vera. Að taka hár úr hala sínum hún hann bað svo vísu eina hún við hárið kvað. Í vatn það breyttist og stórt það var en ekki stoppaði skessan lengi þar. Því á svæðið var mætt skessunar naut sem drakk allt vatnið sem það hlaut. Sagði þá drengurinn nú væri allt búið því nú gátu þau hvergi flúið. En kýrin hafði annað í huga og lét ekki skessuna sig buga. Heldur breytti næsta hári í eld því þá yrði skessan örugglega feld. Ekki dugði það því nautið á eldin meig og yfir brunna jörðu skessan steig. Nú urðu þau að breyta næsta hári hratt og breyttist hárið í fjall eitt bratt. Skessan stóð við nú fjallið reið á meðan hún eftir stóra bornum beið. Holu í fjallið skessan nú skar en of litla og festist hún inni þar. Ekki lengur lágu hættur í leini því skessan hafði orðið af steni. Drengurinn komst nú með kúna heim og var sko vel tekið á móti þeim. ] [ Án ljósastauranna væri ekkert líf ekkert ljós engin sjón, ekkert í fjarska sé ég lítið ljós vonina set ég í annan gír mér finnst ég stefna eitthvað ljósið færist nær, ég sé það betur ég set vonina í þriðja gír stefnan er að verða markvissari ljósið er ljósastaur, ég sé hann set vonina í fjórða gír það er hálfur kílómeter í hann ég fann ljósastaur, það er til leið. ] [ Augun þín bera himinn og jörð. Vorið þá hljómar af nótum þínum, fuglarnir fljúga vegna töfra þinna. Nóttin þá kemur er augu þín lokast. ] [ Einmanaleikinn grefur sig inn, hjartað er brostið og vot er kinn. Liggur og vakir, dagana langa með rósrauð tár á vanga. Sársaukinn nístir í hjarta og bein, hræðsla við þá sem vinna þér mein, hræðsla við myrkrið svanga með rósrauð tár á vanga. Allt það sem var, er ekki í dag. Ekkert gengur þér lengur í hag. Erfið er lífsins ganga með rósrauð tár á vanga. ] [ Varið hef ég mörgum nætum til þess að líf mitt fjölgi rætum. En til hvers spyrja mig fáir maður græðir á því sem maður sáir. Sólríka daga mörgum augum ég hef litið og aðeins setið í í vör mína bitið. Áhyggjulaus um allt og alla hvort þeim verða á mistök eða frá falla. Segjum að sjálfstraustið skíni og geislum sínum andlit mitt klíni. Maður er þannig mestur og bestur þar til eitthvað að lokum brestur. Það breytir enginn manni betur þó svo þar sé vor sumar eða dimmur vetur Allir eru eins og þeir eru í dag grátandi eða brosandi eða syngjandi lag. ] [ You thought I only wanted us to be friends Why did it have to happen again? I thought this was it Something perfect I’ve always wanted This was just too good for my simple mind You are the girl I’ve always wanted to find But now I have to go, leaving you behind I keep ask myself; will there be more I think I’ve never been so in love like this before I wish you could understand how I feel If you only knew my feelings are real Would it even matter? You knowing my mind, would it be better? I’m taking a walk in the rain Hoping it will wash away my pain But my feelings for you are too strong Maybe trying to let them go is wrong After all, I want to have a picture on your face Kept in my heart in a warm place You thought I only wanted us to be friends Why did it have to happen again? ] [ Yndisleg eru þau í alla staði, aldrei hefur gerst að þau yfir mig vaði. Alltaf tilbúin að hlusta á mín mál og gefa um leið innblástur í mína sál. Þau búa yfir rosalegum sjarma sem gefur frá stóran bjarma. Stoltur er ég að eiga þau sem að og alltaf mættu þegar um hjálp ég bað. Hverfa munu þau aldrei úr lífi mínu og þau orð meiga þau geyma í hjarta sínu Minningar margar eigum við saman og að rifja þær upp er ótrúlega gaman. ] [ Á sjálfann mig ég trúi og treysti og þungan á öxlum mínum ég af hreysti. Ef Guð er góður fá allir betri tíma og þau skilboð berast okkur í síma. Ég vil vakna aftur sæl og glaður en ekki hugsandi um þetta þvaður. Lífið mun sko bráðum leika við mér og þá mun ég hefna mín á þér. ] [ augun róast í rafljósaveröld er augnlokin síga um stund hugurinn reikar en rekst á veggi ruglaður af umhverfisóhljóði sem truflar finn loks frið með fingur í báðum eyrum finnst eins og í kuðungi ekkó af hafi er hugarflugan suðar í hljóði ] [ eflaust mér illa gengur að reyna í þessari vímu þér að gleyma en vertu þó viss um, þú færð mig aftur ég sigrast á þessu með þér, lífsins kraftur. í herbergi mínu við berjumst nú saman gegn ljótum myndum það er ei gaman að lafa eða stökkva það er ei málið í afmæli á morgun, eða skjóta af mér kálið. á endanum við munum saman liggja í sælu eða dauða og með honum tryggja að lífið hefði runnið sitt skeið á enda æ góði guð hjálp, þú verður mér að senda. bankað á dyrnar mér brá örlítið hann vildi fá að snæða, það er ekkert skrítið að fara frá drengnum ég hlít að vera óður á morgun ætla ég mér, að vera orðinn góður. nýr dagur er risinn og léttari er lundin víman farin og snaran ei bundin halda mér hreinum það er nú málið snáðinn mér bjargaði, að ég fór þá á bálið. heyrðu mig vinur og hlustaðu á mig heilræði þessi ættu að slá þig hættu að sprauta og troða í nefið og við fjandann skilur og dauðabeðið. ] [ Takk sagði þorskurinn þegar hann var togaður á þurrt land Settur í gapastokkinn hausinn höggvinn af eins og kom fyrir Jón Arason forðum. Hausinn hengdur á snæri og látinn þurrkast á trönum. Sendur til Nígeríu í gám og svertingjar látnir háma hann í sig. Verði þér að góðu sagði þorskurinn þegar hann rann ljúflega ofan í svertingjann og lauk þar með veru sinni á þurru landi. Svertinginn brosti og fékk sér banana í eftirrétt. ] [ Yess baby yess bye bye bye bye bless Vertu nú hress Ekkert stress Ekki vera skess Né aldeilis hless Haltu þig til hléss bless bless ] [ Á stundum eftir storminn þegar veðravonin verður ekki meiri en stafalogn kviknar í brjóstinu krefjandi löngun af mætti minninganna að standa í stafni stefna á mið sjá himinn og haf fallast í faðma kærleikans á kvöldrekinu finna fiðringinn alsæll á nafla alheimsins að draga dágóðan þann gula gráðugan. ] [ Hljóðlát hugsun hörfar inn í tómið, endurómar lífið. Hugfróun dagsins dagar upp í draumi, fjarar út í fjarskann. ] [ Ég reyni að komast út ég er að kafna Ég verð að sleppa sleppa út úr þessum viðjum Mig langar í líf ég vil vera frjáls Ég þoli ekki að vera hér hún fer svo illa með mig Verð að komast út út í birtuna ] [ Þú ert; holds míns freisting drauma minna þrá fingra minna uppáhalds snerting sem dagar mínir elska að dá! ] [ Sólskín í dag það skín á mig en ekki þig fáir sjá aðrir geta hinir heyra Hljótt svo Hljótt að það ærir mig kvelur mig særir mig samt er svo hljótt Kalt rosalega kalt er þú kvaddir mig kysstir knússaðir en leist ekki undan LB ] [ Hvar í loftinu er orðið Orðið sem ég leitaði er ég kvaddi þig Það er eins og það hafi farið og hafið flug sitt suður með fuglunum í takt við vindinn Hvar í alheiminum ert þú? Þú sem faðmaðir mig og þerraðir tárin með hendi þinni, tárin sem runnu eins og fossinn í takt við bergið ] [ Sorgin í fjarska flýgur um bæinn og gerir sér hreiður heima hjá mér Dauðinn svo nálægt ég heyri í honum það þytur í þungum vængjum Biðin eftir heimkomu hans verður eilíf Komdu strax til mín Komdu núna Heimsóknin ætlar aldrei að verða veruleika tónlistin dunar enn og hættir ekki Kannski kemur hann ekki kannski brottlenti hann get ég þá leikið mér með börnunum, sungið sönginn? En yndisleg tilfinning sólin skínur loksins lífið er ekki lengur sorg heldur skemmtilegur leikur Það er bankað á dyr þung högg bergmálast ég finn til sársaukinn eykst Með stórum hvelli opnast hurðinn fugl dauðans mættur fætur mínir gefast upp Afhverju núna? eru mín síðustu orð er fuglinn tekur mig við fljúgum í burtu ekkert svar ] [ Um harðfenni vitstola hugur minn reikar þar hefnist þeim illu, en myndir svo sárar þar birtast og dvelja, en drjúpa svo höfði því draugar þar búa og djöflar og árar. Ég gæti ekki losnað þó glaður ég vildi, ég græt ekki lengur það skipið sem sigldi. Í huga mér ber ég samt mynd af þeim skildi er skýrir mér leið gegnum myrkur og él. ] [ Steig úr rúminu og eftir mig lágu búngur rúmið sagði-Mikið rosalega ertu þungur. Hitti næst ískápinn sem var mjög heitur hann sagði-Ekkert hér þú ert of feitur. Kaffivél neitaði mér næst um kaffi hún sagði-Nei vinur þú ert straffi. Útidyrahurðin lét mig ekki að opna sig hún mælti-Svona má enginn sjá þig. Varð á vegi spegils á leiðinni aftur inn sár hann sagði-þú ert nú ljóti eigandinn Fúll ég stóð við klósettið hvíta Það sagði-Þú mátt alls ekki í mig skíta. Hönd mín greip næst í tannbrustann hann hrópaði-Síðast 18 holur ég fann. Settist ég því í sófann þreyttur hann sagði-Farðu af mér þú ert sveittur. Núna gat ég ekkert gert né ekkert farið en öskraði reiður- Ég hef fundið svarið. Loks datt mér snjallræði í hug og loks komst hugurinn minn á flug. Mælti ég þá stoltur og glaður í bragði svo hátt að enginn neitt sagði. -Nú skal ég allt brjóta og bramla og ekkert né enginn mun mig hamla. Bretti ég upp ermar reiður mjög fór inn í kompu og náði í kylfu og sög. Svo þegar ég ætlaði láta til mín taka byrjuðu allt og allir að svara til saka. Nú loks höfðu allir skilið hlutverk sín og áttuði sig á að þau væru öll mín. -Munið hver stjórnar í húsi þessu en ef það gleymist lem ég ykkur í klessu ] [ Hvernig sem að heimur snýst hjarta mitt það átttu víst. Allt þó hverfi, ætíð tér aldrei mun ég gleyma þér... ] [ Þröngva málum áfram láta gremjuna tala koma á kommúnisma láta frelsið róa koma á bananalýðveldi hefna sín ná sér niðri á hefta fjölmiðla láta þessa blaðasnápa komast að því hvar Davíð kaypti ölið ] [ Hlustið á kónginn fylgið orðum hans snúið orðaræðum ykkar í hans hjólför ekki tala í kross ekki tala út og suður ekki vera falskir heldur talið eins og húsbóndinn. Ef þið hugsið eitt þá segið annað aðeins ef það hljómar eins og rödd húsbóndans Spólið ekki í gömlum hjólförum eins og bóndi á gömlum Landrover heldur hugsið eins og kóngur sem ræður á bæ húsbóndans. ] [ Þegar ég sest niður í miðri mannmergðinni og þú togar í mig, skipar mér að standa upp; hvæsir að ég sé þér til skammar er ég að bíða, bíða, bíða eftir að þú hlammir þér niður á móti mér og finnir hvað það er gaman að vera hneykslunarefni ] [ Kaupa áhrif og kaupa völd, er mottóið á glæpaöld. Plata fólk og plata þjóð, er mafíóista glæpaslóð. ] [ mánaskin á vegg kaffið kólnað í bollunum baksvipur þinn ósagðar hugsanir vanhugsuð orð svo margt getur dáið svo margt sem að deyr vegna orða sem aldrei eru sögð ] [ Nú er Eyja nítján ára Ung hún er og hress Menntaskóla brátt mun klára Og losna við allt stress Hafðu það gott á afmælisdaginn og vertu sjálfri þér lík Gangi þér nú allt í haginn Þá verður þú hamingjurík Ég segi ey meir að þessu sinni Búinn að segja það mesta og óska ég þér í framtíðinni sælu og alls hins besta ] [ Nú skólinn byrjar enn á ný Því nú er liðið jólafrí Fólk að streymir hvaðan af Komið á sinn samastað Alvaran er nú tekin við Í sumarfríið er löng bið Allir eru nú byrjaðir að læra Og inni á milli sig að næra Sumir safnast upp til hópa Þeirra markmið er að skrópa Að glápa á sjónvarp er hér siður Það virðist vera fastur liður Menn verða líka samt að læra Svo menn eigi framtíð kæra Menn berjast við skólann sundur og saman En eftir á það er bara gaman ] [ Eitt er mál sem um er rætt Hvað XXXXX stækkar mikið Að borða nammi nú er hætt Því alstaðar er spikið ] [ Nú inn læðist sorgin því nú ertu farin finnst sem þú hafir verið hér í gær ef aðeins ég gæti dregið þig til mín nær. ef ég aðeins þig fengi sótt hví tók lífið þig svo fljótt hví endar það alltaf skjótt ég vil að þú komir en þetta eru víst bara vonir ef aðeins í ferðalagi værir þá þú aftur kæmir. alltaf vildir mér vel ég tilfinningar bældi í harðri skel. Góðar stundir áttum saman horfnir tímar, þá var gaman. Hví þurkaði lífið þig út skildi eftir í hjarta mér sút nú ertu farin elsku ástin mín mig langar svo til þín varst mér svo góð á bara minningar, myndir og þetta ljóð þú varst tekin frá mér en ég hef svo margt að segja þér ef ég hefði aðeins oftar verið þér hjá lífið aldrei neitt í staðin mér mun ljá Þú varst sólargeisli í lífi mínu en sólin hvarf á bak við stórt ský nú vantar mig smá sólarskýmu til að halda áfram að lifa á ný. sólin marga geisla þarf um hvern og einn þeirra munar einn þeirra skyndilega hvarf í maí er koma skyldi sumar Hægt er að skoða myndir en það sáraukan þyngir þær er ekki hægt að faðma sorgina tíma tekur að hjaðna. Lífið yrði sem ævintýri í stórri höll og við gleðjast myndum öll ef þú kæmir á ný við hittumst eftir lífið, ég trúi því. ] [ Í fætinum ég kvelst ég eigi á það felst að mig hundur hafi bitið, hélt ég missti vitið. Ég heyrði gellt. Jafn hratt og hurð er skellt, hann mig beit sárið illa út leit. Inní minni sál er reiðibál ég skamma sjálfa mig að reiðast þessu skinni en þó kraumar reiðin inni. Hundin á Linda Pé sem margir telja að fögur sé Hann heitir Máni og ég vona að hann skáni. ] [ Þá er tveir mánuðir til vetrar voru Menn til farar fóru. Þetta voru Flosi og hans menn í kirkju blessunar báðust, myrða skildi senn. Að Þríhyrningshálsum riðu þar eftir mönnum biðu. Grímur og Helgi héldu Hólum að Voru ákveðnir í að gista er héldu í hlað. En eftir að förukonur þeir höfðu hitt, var snögglega um skoðun skipt. Þær fréttir færðu af mönnum er til Bergþórshvols lögðu leið, með að markmiði þeirra deyð. Á Hóli voru þeim fóstruð börn en nú skyldi haldið heim að vera vörn. Á meðan eldaði Bergþóra dýrindis mat, og bauð öllum að éta á sig gat þetta yrði hennar síðasta sinn sem húsfreyja er færði mat á diskinn. Þá Njáll í sýn sá: gaflveggi rifna frá, blóði drifna stofu, mat og borð og skyldu þau að rætast myndu þessi orð. En Skarphéðinn bað þau að syrgja ei „Ég fell með sæmd er ég dey” þeim vandara myndi sig vel að bera nú Njáll bað þau að vaka og vör um sig að vera. Er Flosi og fylgdarmenn hans sér að bænum tróðu Njáll og heimamenn úti stóðu, hann taldi öruggara inn í hús að fara „Það gerði Gunnar og varðist gegn skara.” Skarphéðinn vildi úti standa, „þeir kveikja eld og húsi munu granda. Fús sem melrakka í greni læt ei svæla mig inni, en verði föður mínum að ósk sinni, ef hann vill skal ég brenna með honum.” Og fóru þau öll inn, en út var hleypt konunum, þá Helga, Ástríður sem konu bjó Flosi í gegnum það sá og til hans hjó. Bergþóra og Njáll fengu útgöngu boðna. Hann vildi ei lifa við þá skömm að hefna eigi sona. Hún vildi að jafnt gengi yfir þau bæði, „Ung var Njáli gefin, nú saman eldur okkur bræði.” Barnabarn þeirra, Þórður Kára, ungur drengur, án þeirra vild’ei lifa lengur. Þau lögðust þrjú til hvílu, brytinn dró yfir þau uxahúð sem skýlu. Þar þau skyldu liggja sama hvað yfir gengi Njáll bað brytann það að muna, svo bein þeirra fundið fengi. Skarphéðinn að föður sínum gjörði gys, „Undrar ei að hann hvílist, á aldri gamalmennis” Flosi og félagar inn skutu spjótum og þannig börðust, heimamenn köstuðu til baka og vel vörðust. Flosi sagði mönnum sínum þá að bíða uns hinir yrðu að báli ei þýddi að skjóta betra væri með eldi að ljúka máli. Skarphéðinn og Kári þá ræddust við, Kári skyldi hlaupa út á þvertréið, eldstokki út á undan kastaði hann, út hljóp svo sjálfur,allur í logum brann. Mennirnir sáu bara eldstokkinn, „Þessu kastaði Skarphéðinn” þeir sögðu, en hitt grunaði þá ekki að Kári hlypi í eld og reykjarmekki sér í læk kastaði og með þeim vökva allan eld tókst að slökkva, hljóp svo með reykinn í gróf er nú kallast Káragrófin. Þar hvíldist hann um stund, hafði heitið að hefna fyrir þennan fund. Skarphéðinn hló er Kári fór Af þeirri tilhugsun að hann hefnda sór. Hljóp svo út sjálfur þvertréi á, en það brást og til baka kom hann þá. Gunnar Lamba að honum hæddist en Skarphéðinn ei dauðan hræddist. Gunnar sagðist ei hafa svo mjög hlegið eftir að Þráin, þeir fengu vegið. „Þá eru hér jaxlar hans, minjagripurinn” Skarphéðinn í Gunnar kastaði svo augað út á kinn. En Skarphéðinn og Grímur brátt lífi týndu, Flosa og mönnum hans, svo sýndu, sem allt bæjarfólk dautt væri vissu ei uns Geirmundur þeim fréttir færði, að eftir lifði Kári og taldi Flosi að eftirmál mikil yrðu nú týnast myndu mörg höfuð og ei óhætt að sitja sitt bú. Sigfússynir hjá Flosa þáðu gistingu, næst fóru að veita Ingjaldi hirtingu. En þeir drápu ei hann, hann drap Þorstein svo blóðið rann. Ásgrímur, Kára til hefnda styrk vildi veita, þeir fóru líkja að leita. Fundu beinin öll þá En á Skarphéðni var skrýtið að sjá: Krossmark í hann brennt. Kári fékk þeirra allra hefnt, já allra var hefnt en sérstaklega nafn Helga nefnt sem og Þórðar Kárasonar sem föður bar eins og von var. Kári gat engra jafn oft og Njáls og Skarphéðins og aldrei hann ámælti né heitaðist í garð óvinarins. Er allra hefnt var, Fékk Kári Hildigunnar. Konu Höskuldar Hvítanessgoða, sem einungis frið hafði viljað boða, ei að sín yrði hefnt með slíkum voða. Hér endar sagan blóði ötuð, geymd en ekki glötuð, enn Hallgerður af mörgum hötuð. Kára líkt var við Gunnar slík sóma hetja sem þýddi ei við að etja. Saga með mikið blóð, endar hér við Bergþórshvols glóð. ] [ Lífinu er líkt við lestarstöð þar sem margir standa í röð eftir réttu lestinni bíða, þurfa kalli sínu að hlýða. Lestarferðin líður fljótt því fyrr en varir hún endar skjótt í lestina er sífellt fólk að koma og fara margur gleymist í öllum þeim skara. Á lestarstöðinni er alltaf eitthvað að gerast engar fréttir af því berast ef einhver fer við lífð á mis þar er alltaf ys og þys. Ferðin er stutt með lífsins lest nýr tekur sætið og sest, komist einhver á endastöð. Alltaf bætast fleiri í þessa löngu röð. Leiðin liggur ekki í gegnum lystigarð fer í gegnum örmjótt skarð leiðin er hlykkjótt og skrykkjótt. Á leiðinni er margt hægt að gera og margt einnig hægt að vera en sumir eru alltaf að kvíða og bíða því erfiðleika marga er við að stríða. Ef þú heldur þér fast kemstu brátt í sætið sem í sast minni hætta er á að þú dettir margir hrasa og illa eru settir. En ef þú skyldir falla skaltu á hjálp kalla. Reyna að standa á fætur og hafa á þér gætur. Í þessari lestarferð þú tilfinningar til einhvers berð því er erfitt að ferðast ein vonar að lestarleiðin ykkar liggi um sporin bein. Ert í allri mannþvögunni þá þú mannst að allt endar á endastöðinni. vilt sitja eftir í einhvers minni Það virðist sem þú gleymist en að baki grímum grátur geymist allir einhvers innst inni sakna óttast að eiga sjálfir ekki eftir að vakna. Það fylgir þessari lestarför að hafa brost á vör einnig gleði og hlátur gnístan tanna og grátur. ] [ I hate you, I hate you I honestly do Some day you'll find me Sitting in your favorite chair Only to find me totally empty Hello, my name is Jane I am the neutral woman From the neutral planet 1 Modern, regular, Husband, 2,5 children Everyone's asleep by 10 pm You took me away From my loved ones Even farther away from you Who could really want This kind of perfection? Modern every day art home Regular 7 o'clock dinner Husband, 2,5 children and a dog Everyone's asleep by 10 pm Did I always love you? Do I want this kind of perfection? Was this really my dream? ] [ Kæri Guð, ég vildi óska að ég væri bara óheppin En ég trúi því að mín velgengni er undir mér einni komið Ég veit að það á að vera ég sem á að finna þig Og gera mig að betri, opnari og skemmtilegri manneskju En get ég gefið mér tíma í það Guð? Almáttugur? Stundum hugsa ég út í hvaða andartök það voru sem gerðu mig að því sem ég er í dag gæti ég valið andartökin? Ég vil ekki trúa á tilviljun Heldur mína eigin ákvöðrun Á stað og stund. En ef þú ert þarna Veistu hvað fullkomið er? Góði Guð, ég hef hugsað mikið til þín Hvernig var það svo að þú varðst að persónu líka? Ég vil trúa því að þú ert það góða inn í mér og inn í öllu Þú ert ekki ábyrgur fyrir neinum sköpuðum hlut Heldur við, sem sköpum þig. ] [ Það er hrollur í mér. Baráttan að baki. Kröfugangan tilgerð. 1. maí Eins og aðrir dagar fyrir ungmennum landsins. Baráttan gleymd. Ástæðulaus minning. Krafan um betri tíma lifir. Baráttan að baki. Fyrirhafnarlaust líf. Það er motto dagsins. ] [ Um ekkert og engan er þetta kvæði heldur er þetta svokallað rímnaflæði. Lestur þess færir þér mikið næði og best þegar þú ert á þínu heimasvæði. Kannski það fyllir í einhver tóm því það það ber fallegan hljóm. En það mun aldrei berast frá því óm né særa þinn viðkvæma góm. Yfir því mun alls engin særast og vitund þín á hærra stig mun færast. Af því má ef til vill eitthvað lærast og sungið þar sem sólin skín skærast. Það mun ungviðið vel upp ala og kenna því rétt að tala. Lestu það í rúminu þínu svala því þá fer maki þinn hreinlega að mala. Kvæðið er bæði ég og þú og held ég að ástæðan sé sú. Að aldrei bjó hér sú trú að kvæðið væri búið hér og nú. ] [ Manstu þegar við vorum litlar og sátum rassblautar á róló og það var svo æðislega gaman. En við stækkuðum. Og núna kemur ekki til greina að sitja einhverstaða rassblautur og ef það kemur fyrir er það vegna þess að maður datt og þá er það bara skammarlegt. ] [ Svigar Atómin sviga milli öreindanna, Englarnir hoppa og gráta í grashafinu, Við flóann. Þorskarnir fljúga í tóminu, Þar sem tíminn stöðvast, Augnablik. En mannfólkið, Hvað með það? ] [ Mér finnst ég vera svo smár, Dropi í mannhafinu, Fólk kemur og fer, Eins og sólin. Yfirnáttúruleg tilfinning hellist yfir mig, Ég er að fara. ] [ ég er stríðsmaður lífið stríðið tek þátt í bardögum á hinum ýmsu vígvöllum flestir fara fram að innan. stríði við hugann draumana tilfinningarnar réttlætiskenndina girndina syndina fíknina ástina letina sorgina uppgjöfina myrkrið fallið berst við hinar sálirnar í stóru og smáu engar Sameinaðar Þjóðir til milli einstaklinga engir sáttmálar stríð í friðsamlegum búningum hversdagsleikans í misjöfnum myndum augnaráðum orðaskiptum kúgunum skoðunum allir fylgja sinni eigin herkænsku sinni eigin tækni skjóta úr byssum sem mynda holur grunnar djúpar rista með hnífum sem mynda sár rispur stungur nýjasta tækni vopna sem þó hefur alltaf verið til líkamleg andleg mannleg falleg? innri stríðin snúast mikið um hvernig binda skal um sárin frá hinum hermönnunum til hinna hermannanna rifna þau aftur upp? þeir hæfustu lifa af. ] [ Líkjum lífinu við sætabrauð Niður fossana rennur dísætt vatn, Og eyðimerkurnar verða að Mjólkurgraut með kanil Jöklarnir breytast í rjóma Og Halli Pólfari í rauða snjógallanum Er jarðaberið á toppinum. ] [ dagurinn í dag er slyngur maður með fima fingur sem spilar lag úr lífi mínu ég dansa með dagurinn í gær var fúll fauti sem klístraði saman í möppu myndum úr minningum lífs míns ég föndraði með dagurinn á morgunn er Julie Andrews sem syngur lífið mitt í söngleik ég mun syngja með sunnudagurinn er prestur sem boðar ást og frið á vígvöllum veraldarinnar ég boða með mánudagurinn í hinni vikunni er mæddur maður sem horfir á sápuóperur með tárin í augunum ég tárast með þriðjudagurinn þar á eftir er þreytt kona sem málar myndir í litum lífsins ég mála með miðvikudagurinn er mikill maður sem stjórnar sinfóníum í tónum ástarinnar ég læt stjórnast fimmtudagurinn er lífsreyndur leikstjóri sem leikstýrir leikurum í ólíkustu hlutverkum ég leik með föstudagurinn er ljóðskáld sem yrkir um atburði líðandi stundar ég yrki með laugardagurinn er loftbelgur sem svífur á vit ævintýra ég svíf með framtíðin er rithöfundur með margar hugmyndir sem ritast í útkrotaðar og óskrifaðar bækur ég rita með dagar lífs míns eru jafn misjafnir og fjöldi jarðarbúa ég lifi með lífið mitt er lottó ég spila með. ] [ úti fagur fugl raular lag boðar góðan dag heyri fugla skræki dái þeirra læti hoppa um af kæti niður austurstræti. sé barn, í nös er hor elska íslenskt vor ] [ eitt sinn stóð ég í þeirri meiningu að ljóð væri pælingar í rímuðu formi einskonar orðaleikur eins og hver annar rapptexti eða vísur seinna lærði ég að ljóð gæti einnig svifið frjálst og óbundið þætti þá list eins og hver annar skúlptúr eða málverk lærði af biturri reynslu að ljóð höfða hver til síns markhóps verður að fylgja þinni stefnu til að halda í hann, þig sjálfan en dómarar og ljóðspekúlantar listaspírurnar vilja alltaf það sama hrátt kjöt hráan kaldan raunveruleikann passaðu þig að fegra hann ekki gerðu hann bara svartari svo lesendur megi skilja boðskapinn: öllum líður illa, engin von er til allavega ekki listamönnum í vil þeir eru of framandi til að vera bjartsýnir nú veit ég að ljóð eru víst allir þeir stafir og orð í hvaða formi sem er, sem ég kýs að kalla: Ljóð sama hvort þau fá birtingu aftan á mjólkurfernum í fréttablaðinu eða sem ljóð dagsins þau eru mín tjáning mitt viðhorf til lífsins. gott ef þetta er ekki bara.. svart raunsæis ljóð eða hvað? leynist smá vonarneisti.. ] [ eitt sinn ég sór að eignast aldrei tölvu en sit nú fyrir framan talnavölvu handskrifaður skyldi stafur hver listin best geymd á spjöldum mér sem nú ljóð andspænis bákni með glærum skjá það starir á mig í augunum kaldhæðnin grá. ] [ In my head is a picture Sunshine and blue sky and I smile a little Beautiful dream with you in the middle I love you so much I start shaking because of your touch All your beauty in all it’s image So much perfect ness with no limit Kept in my heart and will never be forgotten I love you, I really do I don’t think I could live without you Already I miss your laugh and your smile Just thinking of that makes me forget everything else for a while I live in a dream, it must be Why else should girl like you want a man like me? Whatever you do, don’t forget my name Maybe I and all the others are all the same But I can say I love you with no shame Baby girl, I love you Thanks for all the nice thing you said about me too I’ve been in difficult times but you helped me through Thanks for all the love you gave me Thanks for showing me who I really be Thanks for having love for me….. ] [ I love your smell, your face and your eyes But everything is hidden beneath your lies I’ve made my mistakes and I’m forced to pay I can hear your voice in my head every day I’ve been in suffer for too long now It will all go away but I keep asking me how I’ve spend so much time in loneliness Waiting to find a true happiness But I let my true love get away ] [ The sun is rising; my eyes are filled with light I walk to my window and outside is a beautiful sight I get my clothes and step outside Morning sun is shining bright Tears in my eyes so I dry them clean This day is beautiful and filled with hope and everything between I’m walking on green grass and I’m breathing a fresh air I hear the birds singing and the wind blowing in my hair The sun has gone down, and I’m in my bed Finally my tears has stopped to fled I’m looking forward to see what tomorrow has for me So many things I have to try and see Now I say good night When I reach to the lamp to turn off the light ] [ I'm trying to show you how I feel by writing this letter Because I can't find any way to describe it better Every time I felt down I knew you would always be around For my comfort, for my pain We got a friendship I would like to maintain I got something in my hands I will never let go Caring between you and me I would like to grow No matter what you’ve done, no matter what you say I will always love you more each passing day If you feel bad you can always come too me I will make you happy and let you see That you can become everything you ever wanted to be I support all the things you will do Just remember when I say I will always love you…. ] [ . Endir ] [ Þú svafst á meðan kuldaboli beit sem fastast. Hellir þinn var tilbúinn og þú lagðist til hvíldar fyrir veturinn. Ég öskraði og var með læti til að hindra að þú gætir sofið enn ég hefði bara átt að spara krafta mína fyrir sumarið. ] [ Hvert sem er fylgir mér Löngun til að fara Fara í burtu með þér Ég sá þig þar, fann mig í þér Í hyldjúpum augum Sem sýna mér það sem ég er. Hvað með mig og þig? Ég finn fyrir þér. Sál mín hrópar og kallar En himininn heyrir ekki í mér. Sólin rís, ég veit hvað ég vil Nú loks er við skiljum Og vitum að við erum til. Ekki ein, við erum eins Við erum hvort annað En samt er það ekki til neins. Að vera til, að kveljast og þjást Að bíða og vona Og syrgja það allt sem að brást. Hvað með mig og þig? Ég finn fyrir þér. Sál mín hrópar og kallar En himininn heyrir ekki í mér. Ég komst að þér, þú komst til mín Ef við kæmumst í burtu Hvað væri lífið án þín? Sólin sest, líf okkar er Leikur að eldi Stormur í höfðinu á mér. Hvað með mig og þig? Ég finn fyrir þér. Sál mín hrópar og kallar En himininn heyrir ekki í mér. Sólin sest… ] [ Ef ég væri engill og sæti á mjúku skýi lengst uppi í himninum fyrir ofan allt og alla þá gæti ég vakað yfir þér dag og nótt, og enginn myndi vita af því að ég fylgist með hverri hreyfingu þinni... ] [ Ljúfur er tunglsbjarminn ber á dyr draumanna takmarkalausra tilfinninga í heimi næturinnar Í anarkíu hugsana hafsjó myndbrotanna veltist ég um sveittur í skáldaheimi nætur ] [ Að kyssa varir þínar er eins og að liggja alsæll og frjáls í paradís, allt gleymist í kringum mig.Ég svíf inn í ófundin heim þar sem augu þín fylla alla veggi. ] [ Æskunar blómi og syndanna böl, því féll ég í freistni og syndgaði mjög, ég leitaði og leitaði, en á röngum stað, ó andi minn sem ég vissi ekki af, er umlukinn dauða og nístandi kvöl. Í fjötrum engla dauðans ég á engan séns ég berst eins og barn, en mig skortir kraft, þó ég berjist áfram í nýrri braut þá herðist takið á hverri ól. Mín sál hún engist af nístandi kvöl, hjarta mitt tómt og líkaminn grár, Andinn er dáinn og ég á ekki séns, minn máttur er þrotinn en gröfin er tóm. Ég er lifandi dauður, hvaðan kemur mín hjálp. Ég kalla til himins, mitt angistar óp. Jesú ó Jesú heyr mína bæn. Ég er brotinn og beygður og syndugur mjög. Ó Jesú ó Jesú leiddu mig þinn veg. Lofaður sé Drottinn um all tíð, Halleluja hann er hin sami í gær og í dag, og hans gæska og elska er undursamleg, hans viska er meiri en allt sem er til hans ilmur, hans nærvera , hann elskar mig. ég elska þig Jesú, meira en allt sem er til mín orð eru fá og verkin smá, en allt sem ég er það er ég fyrir þig því þú hefur skorið á hina nístandi ól sem sem batt mig í synd og bjargað mér úr snöru hins illa. Ég get varla skilið, hvers vegna þú dóst. en þú fórst upp á krossinn og dóst fyrir mig. Þinn sigur er algjör, dýrðin sé þín. Andi minn lifnar og gleðst yfir þér, mín sála er glöð og fagnar á ný. Líkaminn bjartur og horfir til þín. Minn munnur nú syngur og vitnar um þig því hjálpræðið gafstu fyrir fleiri en mig. Þinn Helgi Andi er með mér, hann sannfærir. Þitt Orð er satt að eilífu, því fagna ég og hlakka til Þegar allt er komið fram sem koma skal, Í hinum nýja himni og nýju borg, en þangað til mun ég benda á þig, því þú ert hið sanna LJÓS. ] [ Dögg á bikar glóir -morgunstund. Til botns er drukkið eðalvínið ljúfa og vinafundur gleymdur líkt og ský er máninn kyssti í nótt á sinni vegleið. ] [ Ég heyri hvísl þitt handan þinna fjalla. Í grýttri gjá syngur golan er bar þitt hjarta. ] [ Fallega skreytt bókin liggur á náttborði mínu. Það gleymdist víst að setja í hana index og blaðsíðutal. ] [ Fallega skreytt bókin liggur á náttborði mínu, með tættu innihaldi höfundar. ] [ Allt sem þú gerir, pirrar mig. Allt sem þú segir, særir mig. Ég sé hvernig þú horfir og veit hvernig þú hugsar, Þú hatar Hvernig þú hagar þér, pirrar mig. Hvernig þú urrar að mér, særir mig. Ég heyri hvað þú segir og veit ég á það skilið, Ég hata Hvað þú leikur vel, undrar mig. Hvað allir virðast blindir snertir mig ekki. Þegar fólk kemst nær, þér og þínum, það skilur, Það vorkennir ] [ Þó að þreytan sé alveg að vinna, og augnlokin þyngist á ný. Er ég smám saman farin að finna, hvað það var sem ég kom mér í. Hvert orð sem þú segir er grafið, í hugsanir mínar og geymt. Í hjarta mér ólgar nú hafið, sem var mér um árabil gleymt. Því þó að ég fái þig eigi, og allaf svarirðu nei. Munu söknuður, tár mín og tregi, fylgja mér þar til ég dey. ] [ Ég gæti hugsað mér að elska þig, eiga með þér líf. Án orða þú baðst mig um að fylgja þér, í draumaheimi lét það eftir mér, í sæluvímu svíf. Sama hver þú ert, sama hvað þú gerir, þú veist það vel að ég mun bíða hér. Alveg sama hvert, heilir táraherir, ég mun alltaf bíða eftir þér. Hvort sem er í vöku eða svefni, alla tíð í huga mér þú ert, með bros á vörum nafnið þitt ég nefni, læt þig leiða mig, alveg sama hvert. Krafturinn kemur að innan, það er þitt að láta hann koma í ljós. Hvað er það við þig sem ég heillast af, þetta litla hjarta mitt er illa sokkið, sökk á kaf, svo djúpt í dýpi ljóssins, Og ljómann sem fylgir þér. Lífið verður ekki verra en þú vilt hafa það, þú ræður hvort þú brosir eða hlærð, Opinberar tómarúmið í hjartanu, eða létta strengi slærð. Ef lína er falleg verður ljóðið gott, ekki sætta þig við minna, ekki láta freistast, ekki særa neinn, ekki sigla gegnum lífið, án þess að upplifa neitt. Endirinn læðist upp að þér, öll við vitum að hann kemur, Nýttu tímann sem þú færð með mér, haltu í það sem þú hefur. ] [ Hvað var það sem að fékk mig til að horfa á þig? Hví varstu alveg viss um að þú vildir mig....? Þú veist hvað er orðið, þú veist hvað var, Þú vissir að ég gæti ekki veitt þér svar, Svo vertu viss á því, Að ég sé það sem þig langar í. Er fyrst ég hitti þig, Ekkert uppí hugann kom. Hví þurftir þú að horfa á mig, og vekja hjá mér veika von? Svo núna, Vil ég vita hvað það er sem að þú sérð við mig, Því ég veit vel að ég er ekkert fyrir þig. Þú veist ég er óreynd, á bágt með traust, En ekki fyrr en núna niðrí hugann laust, Að kannski viltu mig... Sama hvað ég forðast þig. Hvað er það sem að fær mig til að elska þig? Ég vildi að einhver gæti svarað fyrir mig! Ég veit hvað er orðið, ég veit hvað er.... Ég veit vel hvað ég finn ef þú ert ekki hér. Ég þrái aðeins eitt.... Svo elskan ekki segja neitt. ] [ Ég veit ekki hvað hefur komið yfir mig, Ég geri ekki annað en að hugsa um þig. Hvað varð um litlu stelpuna sem alltaf brosti, ? Særindi, svik, lygar og losti... Hún lærði og kann nú að treysta engum, Það var ekki til þess sem við lífið fengum. Þeirri nótt sem hún fékk fullnægð í alsælu að sofa, Sá hún síðar meir eftir, þegar til fór að rofa. Því hvað er lífið nema óskrifað blað, Þar til einhver tekur að sér að krassa á það...? ] [ Þegar fyrst ég sá þig fann ég inní mér, Kvikna lítið ljós sem lýsir enn. Um alla eilífð skal ég fylgja þér, Þú hlýtur að sjá það senn. Þú ert mér allt og mikið ég gæfi, Til þess eins að þóknast þér, Allt mitt líf og öll mín ævi, Fara í að þjóna þér. Láttu ekki aðra, Ákveða hvað þú vilt. Þú ræður þér sjálfur, valið er létt, Eina reglan er að velja rétt. Þegar árin fara að líða hraðar, Vandamálin hlaðast á þig, Ekki gefast upp, ekki hætta að vona, Þegar þú síst þess væntir, Birtast englar að ofan, sem sjá um þig, Kalla á mig, Og koma mér til þín. ] [ Kominn á letigarðinn enn eina ferðina hristir haus og glottir framan í strákana sjáið hver er mættur. Tendrað í feitum sterti inn í klefa, úti er komið rökkur. Velkominn „heim“ þú ungi. Vonandi líður þessi vist fljótt og vel. sagðar eru fornar frægðarsögur um tíma sem voru kannski aldrei til nema í huga sögumannsins. Ár Guttans líða misjafnlega, sæmilega og illa. Og einn dag hann fær að arka útum garðshliðið upp á veg. Hann er með 1450 kr. í vasanum. Og í huga sér hann segir: Hingað kem ég aldrei aftur. En einn daginn á letigarðinn kemur þangað eldri maður... Enn eina ferðina. Hann hristir haus og glottir, tannlausu glotti, framan í kallana og segir: Sjáið, já, sjáið hvur er mættur og er kominn til að vera. ] [ Fótatak í myrkrinu, spor sem mynda slóð, innblástur að ofan, orð sem mynda ljóð. Skuggamyndir á veggjunum, stari blaðið á, kertaljós á borðinu, flöktir til og frá. Innblástur að ofan, orð sem mynda ljóð, fótatakið í myrkrinu, dulin er mín slóð. ] [ Hvar er lífið sem ég taldi að væri selt í stórmarkaðnum og tískubúðunum? Já, hvar er það líf, þetta góða líf. Ég finn það hvergi. Ég leita búð úr búð frá kaupmanni til kaupmanns í Smára og Kringlu, er jafnvel úti og horfi til stjarnanna til að leita. Er það að finna í himinhvolfunum þetta líf sem ég leita að? Hafa vísindamenn uppgötvað það og stílfært til fjöldaframleiðslu? Dauðann finn ég og er þó ekki að leita. Hann er í sígarettunni og ljósum prýddum skemmtistöðum. Hann er sveittur á dansgólfinu í alsælu. Hann er í strætinu, hann er í kogganum rámur og hás. Hann læðist að vitund grunlausra barna í formi saklausra leikja, hann er í barnapíunni sem horfir á „meinlaust“ porn með flekklausa kærastanum sínum. Dauðinn er ríkjandi alls staðar í fréttunum, jafnvel í saklausum kosningum og fegurðarsamkeppnum. En hvar er þetta líf sem mér var heitið í vöggunni og á leikskólanum áður en barnapían kom og spillti minni vitund, áður en fréttirnar smugu inní sálina? Já, því finn ég það ekki í hillunum innanum tískuvörurnar? Bandið spilar og sveittur strákur á skemmtistað dansar og hrekklaus stelpa er líka með án þess þó að vita við hvaða mars hún er að dansa. Og börnin syngja „Þá var kátt í höllinni“ við lag dauða bandsins. Þetta er ljóð mitt til þín, já til þín sem kannt að geyma mitt líf. Og ég segir þér nú að brjóst mitt er fullt af ótta og samviska mín svört sem samviskur virðulegra borgara. En góðborgarar finnast ekki lengur, því fyrir mér eru bara til rík svín sem felast í fílabeinsturnum með dauðann ræktaðan í görðunum sínum. Þetta er samviskulaust ríkt fólk sem hefur áhyggjur af sveiflum hlutabréfamarkaðarins og það er fólkið sem stal lífinu í frelsisins nafni. En ég, hugsa ég stundum. Hvernig verð ég ef ég efnast einn daginn? Verð ég þá líka tilfinningalaust svín sem hrín í takt við markaðinn. Verð ég hluti þess valds sem um mannslíf ekkert skeytir? Verð ég þá partur af líflausu afli peningamaskínunnar? Ég sem þrái líf fullt af heilbrigðum gildum og jafnrétti. Þetta líf var eitt sinn til. Ég hef lesið um það, um gömlu fjölskyldueininguna, það liggur falið undir niðri. En ég finn það ekki í mínu lifanda lífi, þó ég leiti búð úr búð. Allt annað er að finna svo sem hægindavörur, hagræðingarvörur og vörur sem „allir“ þurfa að eiga. En gildin finn ég hvergi. Því er það svo fyrir mér að frjálshyggjan hefir leyst spilltasta eðli mannsins úr læðingi og hin gömlu gildi vikið fyrir markaðnum. Ég þrái einfaldleika og öldungaráð vitiborinna ekki þessa reglugerðamaskínu bakarísdrengja sem auðinn fengu í arf. Er þessi hugsun mín óraunsæ og barnaleg? Er þetta ósk vitfirrts manns sem kann ekki hinn spillta leik? Eða er ég óspilltur með réttmætar óskir? Ósk mín um endurreisn hinna góðu gilda verður seint uppfyllt í þeim veruleika sem er nú ríkjandi. Frjálshyggjan, ekki endilega hægristefnan, hefur kviksett lífið og við syngjum öll jarðarfararsálminn djúpt inni í sálum okkar ómeðvituð, þar sem við keyrum á óráðlegum hraða í gegnum tilveruna. Blind leit að lífsgæðum og allaveganna hægindum hafa tekið það líf er ég sækist eftir að lifa. ] [ Tárafljót stúlkunnar sem sat og beið við gluggann rann sinn farveg í gegnum hjartað og varð að stöðuvatni í sálinni. ] [ Rómantíkin felst ekki í rauðum rósum eða kvöldverður með kertaljósum. Rómantíkin er það sem inn í manni býr því þá sést best hversu maður er hlýr. Rómantíkin fæst hvergi í búðum né er hún helgarferð upp á hótel Flúðum. Rómantíkin þarf ekki að vera erfið né að þið öll út á land hverfið. Rómantíkin er ómeðvitað fyrirbæri sem allir nota við ýmis tækifæri. Enn sparlega skal nota hana því þá verður hún brátt að vana. ] [ Eitt sinn var Davíð rosalega sár því að óvinur hans átti fjölmiðlafár. Davíð hann vældi og upp í nefið saug því völdin voru hjá fyrirtækinu Baug. Með bros á vör hann frumvarp lagði en óvinur sat nú ekki heima og þagði. Nei fljótir þeir voru að mótmæla því sem setti Davíð erfiða stöðu í. Lögin höfðu alla þjóðina sært en samt svaf Davíð afar vært. Hann hlustar aðeins á hjartað sitt kalda en ekki á það sem lögin kunna að valda. Davíð gerir þetta útaf einum manni og þráir að koma á hann ljósvakabanni. En einu er hann Davíð að gleyma að svona aðferðir eiga ekki hér heima. Ógnarstjórn er nú á okkar landi sem heldur þjóðinni í föstu bandi. Þetta litla land með sína fáu þegna verða því miður henni að gegna. Davíð þetta ljóð sem ég til þín þú þarna dökkhærða krullótta svín. Það má ekki hugsa bara um sjálfann sig og það sem best hentar fyrir þig. ] [ Ég dett inn í lokaðan heim þar sem virðast vera ótal opnar leiðir. En þegar betur að er gáð er tíminn stopp eins og flugan á veggnum. Ég veit ekki hvaða leið ég á að velja vitandi að engin þeirra er leiðin út. Hvað get ég gert, spyr ég fluguna á vegnum. Haltu áfram, svara hún föst milli tímans og veruleikans. Ég þor´ekki annað en að halda áfram, ég held áfram. Ég geng og geng en ekkert gengur. Ég spyr fluguna aftur, hvernig á ég að halda áfram ef ekkert gerist. Stoppaðu þá, segir flugan. Ég stoppa, en áður en varir þá sé að fætur mínir er fastir við jörðina. Hvað er að gerast, segi ég við fluguna. Jörðin leikur við þig, segir hún. Af hverju gerir hún það, segi ég og tek eftir að því meira sem ég festist losnar flugan enn meira. Af hverju festist ég en þú losnar, spyr ég fluguna. Það er vaktaskipti og um leið hverfur flugan. ] [ Mér er sagt að ljóð sé ekki fullskapað ljóð fyrr en þú, lesandi góður, hefur lesið það og lagt til þína upplifun. Búið til eitthvað nýtt, einhverja sameiginlega sköpun okkar beggja. Fram að því er varla hægt að tala um annað og meira en léttvæga sjálfsfróun mmmmmm Var þetta gott fyrir þig líka? ] [ Sarg, sarg sarg, sarg sarg, sarg heyrðu! sarg, sarg heyrðu aðeins! sarg, sarg þú segist elska mig og viljir að ég elski þig sarg, sarg Af hverju ertu þá að sarga á mér hjartað með slitinni og bitlausri sög? ] [ stóðþarnahálfmáttlauseingönguklæddursvitalykt,ljótumnærbuxumogmeðhörðogbrothættaugu,ekkertþessafór´onumvelenrökkriðgerðisittbestatilaðhjálpafelaþvoogmildaenkvefiðhennarogfjórirbjórarsáuumrestina. ] [ Enginn veit hvernig það er Að vera sá grimmi Að vera sá sorgbitni Á bakvið saklaus augu. Enginn veit hvernig það er Að vera hataður Að dofna út „Segja aðeins lygar“(1). En draumar mínir eru ekki svo fátækir Sem samviska mín virðist vera. Ég hef stundir, einmanna Þar sem ástin er hefnd Og er aldrei frjáls. Enginn veit hvernig það er Að líða svona Sem mér gerir og kenna öðrum um. Engin heldur eins mikið aftur Af reiði sinni Ekkert af sársauka og ógæfu má skína í gegn. En draumar mínir eru ekki svo auðir Sem samviskan virðist vera. Ég hef stundir, einmanna Þar sem ástinn er hefnd Og er aldrei frjáls. Og þegar ég tek eitthvað inn Og slysast til að leggja niður varnirnar og fer að brosa Segðu mér slæmar fréttir Svo ég hlægi ekki og fari að líta út sem erkiflón. En ef ég innbyrði eitthvað sæmt Hjálpaðu mér þá að selja það upp. Skjálfi ég af kulda, vinsamlega legðu eitthvað hlítt yfir mig. Haltu á mér hita, leifðu mér að vera öruggur. Því enginn veit hvernig það er Að vera sá grimmi Að vera sá sorgbitni Á bakvið saklaus augu. En draumar mínir Eru þó ekki svo fátækir Sem samviskan lítur út fyrir að vera. ] [ Fallega veröld nú kem ég til þín Eftir að hafa verið villtur Þú er falleg hrein sem hvítt lín Þér við hlið ég verð stilltur. Sýn mín skýr, ég er upp fullur og hýr og ég geng inn í Paradísargarða þar er viskan býr Verð þar í skjóli frá heiminum harða. Mærð mín á í sálinni heima rís upp líkt og skínandi hjól og ég stikla um á milli framandi heima, um himingeima. Get allt jafnvel klætt mig í kjól… ] [ hún hallar höfðinu mæðuleg á svip man ekki - man ekki ó af hverju get ég ekki munað stynur hún æ oftar situr svo með angist í augunum hallar undir flatt og hristir höfuðið út af gleymskunni sem ágerist og öllu því sem hún man að hún á að muna ] [ Hugsaðu um frelsið innra með þér þegar þú léttir af þér syndir Og allan heiminn uppá nýtt þú sérð nýjar hugsjónir í sálu þú kyndir Vaknaðu, vaknaðu við drauminn vonda þú hefur sofið of mikið Vertu á varðbergi,finndu fjársjóðin falda Passaðu þig að fara ekki yfir strikið Finndu þig í guðspjallinu það hessir og bætir lund Hefur þú gengið að Akrafjallinu og horft yfir hið fallega sund Sannleikurinn í hjarta, því talar tungan hreina Fyrirgefning andans, ekkert að leyna kveikja kraftaverka ] [ Grímur: eiginmaður faðir elskhugi vinur samstarfsmaður fagmaður fræðimaður brandarkarl broskall Fallegar grímur Verst að það getur verið erfitt að anda í gegnum þær og ná þeim af sér ] [ Það er gott að eiga góðan vin Sem þú getur treyst og talað við En missir þú vin, flöktir hver sin Og sálin ei finnur sinn frið ] [ Ósnortin var laut í skjóli tveggja hlíða sem hönd raskaði ] [ Ég er ástfanginn. Ástfanginn upp fyrir haus! Það er ekki mannseskja sem hlýtur þessa ást, heldur hef ég fundið að ég elska lífið. Kannski er lífið manneskja. Ef lífið væri manneskja væri hún stelpa. Stelpa með blá augu. Það veit ég, augu sannleikans. Rauðar varirnar svo mjúkar og fallegar - Ef lífið væri manneskja hefði hún nafn. En auðvitað er lífið engin manneskja, Lífið er bara blóm. Já, stórt og fallegt blóm, sem teygir sig lengra eftir því sem lífsleiðin þröngvar sér lengra gegnum breiðstræti alheimsins. Stundum flýgur það á fleygiferð um hraðbraut hversdagsleikans, en síðan tekur það sér hlé og stoppar við undur veraldar - læk hreinleikans, þessa mikilfenglegu kirkju tónlistarinnar, og helst af öllu, við hinn mikla píramída ástarinnar. Ég hef elskað lífið frá því ég kynntist því fyrst fyrir alvöru. Kannski gerði ég mér ekki grein fyrir því strax, þar sem ég hafði um annað að hugsa þá. Kannski elskaði ég eitthvað annað þá, ég bara man ekki hvað það gat verið. En eitt veit ég. Ég veit það að lífið mun aldrei elska mig til baka. Það hefur annað til að elska. Kannski elskar það dauðann, ég veit það ekki. Ég skipti mér ekki af einkalífi annarra. ] [ Ef þú heldur að ég hafi gefið þér hjarta mitt, þá er það misskilningur. Ég afhenti það einungis til láns, til geymslu. Einhvern dag mun ég horfa framhjá sólþurrkuðum tárum alla leið inn í augu þín og biðja þig að skila því - einhvern dag. Bara ekki í dag... ] [ Ef þú bara vissir, hver sárt ég sakna þín. Í huga mínum missir, ert þú að hugsa til mín? Ef þú bara sæir, öll tárin sem ég græt. Ég bölva ef það nægir, því syndin er svo sæt. Ef þú bara skildir, hvað ég þrái að hafa þig hér. Ef þú bara vildir, koma og vera hjá mér. Ef þú bara værir, alltaf mér við hlið. Með tímanum svo lærir, við verðum alltaf við. ] [ Sorgin nær tökum á hverjum sem er, lítið við því að gera. Lífinu lifum við það er hér, vitum svo verður að vera. Það ætíð mér fylgir um nætur og daga, að efast um lífið og leita. Undrast ég illgirni liðinna daga, en engu tár mín þó breyta. Sólin mun elska mig alla tíð, um eilífð hún enni mitt kyssir. En mannfólkið lifir á sora og níð, enginn veit af hverju hann missi. Á endanum erum við öll sömul ein, svo njóttu þess vel sem þú hefur. Sorgina, tárin og sálarmein, samstundis hamingjan grefur. Ef línan er falleg verður ljóðið gott, lífið er ósköp svipað. Til hvers að eltast við það sem fólki finnst flott? Þú ein getur sálinni skipað, að líða eins vel, og brosinu sæmir, ei fleiri verða tárin og dagar slæmir. ] [ Dagurinn liðinn, dimma fer, draumarnir vakna í huga mér. Hugsa ég til þín títt og ótt, og býð englinum mínum, Góða Nótt. ] [ Hey! Hver slökkti ljósið?! Hvað er eiginlega að gerast hérna?! Ég ætlaði að gera svo margt áður en ég dræpist, hitta fólk, skoða náttúruna, snerta norðurljósin, njóta lífsins og allt það. En ókey... Eitt sinn verða víst allir menn að deyja. ] [ So, I was asked to write a poem, especially for you. I´m hoping that you'll like it, so tell me if you do. Well I hardly even know you, but I´m hoping that won't last. 'Cause we've really only got a month to get to know each other fast. I know that we'll have fun togher but the question really is: Will we be friends for just two days, or forever after this? ] [ There is something in me, And I'm wondering if it's true. That this something in me, Could also be found in you. There's something in me, That makes me look at the stars above. And that something in me, Makes me believe that I'm in love. There's something in me, And now it's stronger than ever before. And that something in me, Says that I'll never need you more. There's something in me, that makes me wonder why we're apart. But that something in me, Dries the teardrops in my heart. There's something in me, That makes me feel I don't have to pretend. And that something in me, will be here until the end. ] [ Lítið dæmi um litla rós í litlum heimi með lítið vald. Stórir hugar í stóru tómi einir í heimi eiðinleggingar sem bráðum mun springa. Springa af öfund, reiði, vonsku og hatri. Springa að innan og eyða sjálfum sér til að byrja aftur og verða betri. ] [ Í hvert sinn sem ég sé þig, gerist eitthvað inni í mér. Ég ræð bara ekki við mig, því ég verð að segja þér. Þú ert verri en allt sem vont er, og ljótara en allt sem telst ljótt. Svo ef þú kemur nálægt mér, þá geldi ég þig fljótt. ] [ Það er eitthvað við þig, sem fær mig til að brosa, bara ef þú hringir, fæ ég fiðring niður í tær. Mig dreymir svo oft, ef ég mætti um huga minn losa, gæti sagt þér allt, í von um þú kæmir nær. Því þú veist hvað það er sárt, með þig sem ég treysti, svo langt í burtu frá mér, ég held að það sé klárt, ég fæ aldrei að njóta þess, að vera með þér. ] [ I wish you were here, To keep me warm through the night. I wish you were near, So you could hold me tight. I miss you so much, And everything you do. I mostly miss your touch, And how you always knew. I need the sound of your voice, to tell me I'm ok. I need to have the choice, me tomorrow - you today. ] [ Viltu vera vinur minn, með mér alla daga? Litli verndarengillinn, allt þú kannt að laga. Viltu vera vinur minn, þerra öll mín tár? Eins og stóri bróðir minn, mínn gætir um ókomin ár. Viltu vera vinur minn, ef ég lofa af öllu hjarta; Að ég skal vera vinur þinn, leiðarljósið bjarta. ] [ Ég gæti setið hér, og hlustað á þig sofa. Séð þig brosa úr draumaheimi, muntu elska mig í draumi? Alveg vildi ég, eyða lífinu svona. Finna hjarta þitt við hjarta mitt, að eilífu. Hver stund sem að ég á með þér, er sú sem ég aldrei gleymi, og að eilífu geymi í hjarta mér. Ég vil ekki loka augunum, vil ekki hverfa í draumaheim, því ég sakna þín og ég vil ekki sakna neins. Og jafnvel þó mig dreymi þig, það nægir ekki fyrir mig, því ég sakna þín- og ég vil ekki sakna neins. ] [ I wish I could think of something to tell you how I feel. You will probably never know, How much I really care. But after I die, I hope you'll think: "Oh, I wish S.S. was here" Please don't cry, I'm not that important and crying won't make it better. I'll be watching you from heaven no matter where you go. You know you mean the world to me I don't know if you feel the same. But if you do, please let me know, the game of love, is everything but a game. ] [ Ef þú værir sólin, myndi ég búa í Afríku. Ef þú værir regnið, myndi ég búa í regnskógunum. Ef þú værir saltið, myndi ég búa í sjónum. Ef þú værir matur, myndi ég aldrei borða neitt. Ef þú værir drykkur, myndi ég aldrei drekka neitt. Og þegar þú kemur í Paradís, verð ég þar líka. ] [ Ertu að hlusta á mig, ertu dofinn eða hvað? Drullaðu drengur á þig, og drattastu af stað! ] [ If you only knew, Of all the hurt and pain you've cost me. If you only knew, Of all the scars in my soul. You wouldn't treat me like you do, You wouldn't make me cry. You would say 'I love you' Or at least you would try. I pray you soon will realise, that after this. It won't be the same, I hope you soon will see that, you- you're the only one to blame. You won't treat me like you do, You won't make me cry. You won't say 'I love you' You won't even try. I promise that I'll tell her, tell her, what you did. I assure you she won't want you, never want you after this. She won't treat you like she does, She'll make you cry. She won't say 'I love you' She won't want to try. I told you not to rape me, and I told you not to lie. She'll find out about everything, and why I had to die. My soul will come back to haunt you, and there's nothing you can do. You took my perfect life from me, now I'm taking yours from you. ] [ Takk fyrir að koma mér aftur í gang, takk fyrir að vekja hér von, takk fyrir að vera þú sjálfur, og leyfa mér bara að vera ég. Takk fyrir að þora, Takk fyrir að nenna, Takk fyrir að vilja og takk fyrir að skilja. Takk fyrir að reyna, engu að leyna, ...samt það sem ég er að meina... Takk fyrir að draga mig aftur til baka, takk fyrir að vilja, elska og vaka. Því svörtustu næturnar, birtast oft þeim, sem hafa ekki þig, til að leiða sig heim. Stundum sé ég ekkert, nema röfl og raus. -En þetta er víst lífið, sem ég sjálfri mér kaus. ] [ Fengi ég bros frá þér, ef við hittumst á himnum? Tækir þú eftir mér, ef við hittumst á himnum? Ég sé það nú, að bara þú, gast opnað mig, ég elskaði þig og geri enn þá. Myndir þú leiða mig, ef við hittumst á himnum? Mætti ég kyssa þig, ef við hittumst á himnum? Mig dreymir þig, þétt upp við mig, hvert kvöld ég græt og hugann læt, til þín reika. Tárin streyma enn - sárin gróa seint Ég sé þig ekki í senn - sorginni get ei leynt. Myndir þú þekkja mig, ef við hittumst á himnum? Gæti ég treyst á þig, ef við hittumst á himnum? Hvers vegna nú, af hverju þú, viltu bíða mín - uns ég kem til þín, upp til himna? ] [ You're my best friend, And I know it's true. That in the end, I'd be helpless without you. I love you and you know it, to bad I just can't show it. I love it when you're there for me, And I love it when you smile. I love it when it's just you and me, though we've just been mates for a while. You mean the world to me, You know it's true. I thought you could see, without you I'm blue. ] [ Þú skiptir öllu í snyrtilega dálka og raðir Bútar heiminn í skiljanlegar einingar Filterar svo á það sem þú vilt sjá Það sem passar ekki inn í jöfnuna er falið ] [ No matter what you do, I'll support you. No matter what you say, I'll be true. No matter where you go, I'll die in the end. So, no matter what you think, you're my best friend. ] [ Augnablik! Ekki tala við mig einmitt núna. Ég er að bíða eftir því að andinn komi yfir mig. Þetta er alveg að kom. Ég finn gustinn af vængjum andagiftarinnar. Hei! Ekki fara framhjá! Ég þarf líka hjálp! Ekki gleyma mér. Æ, ég bíð bara. Hún hlýtur að koma aftur´ líkt og strætó kemur alltaf á 20 mín. fresti. Fimm mínútur, fjórar mítútur, fer hún ekki að koma? Ég er sko eiginlega að flýta mér! Æ, fokkit. Sleppum þessu bara. Hvað ætlaðirðu að segja? ] [ Lítil orð sem eiga að merkja allt, segja allt sem í mér býr upplýsa allt sem ég veit og veit ekki, falla sem hraun úr munni mér eftir eldgosið mikla í hjarta mínu. Þau orð eru kannski ekkert nema óregluleg röð bókstafa fyrir þig. En hvernig sem ég reyni að skilja ekki orðin liggur merkingin svo ljós fyrir, skýr og tær í orðaflaumnum, heit sem hraunið og storknar gleymist því aldrei. Líkami minn ber merkin líkt og jörðin sem lenti undir hraunflóðinu. Hólar og urðir líkama míns eru orðin mín, merking þeirra og upplifunin sem olli flæði þeirra. Hvað veldur gjósinu?, spyrðu kannski. Ef þú veist ekki að það ert þú, þá veistu ekkert um mig. ] [ Þegar ekkert annað bíður, nema kuldinn og kvöldið svart. Meðan sérhver sekúnda líður, án þín hér vantar svo margt. Í huga mér fyllist ég ótta, um hamingju þín með mér. Er hjarta þitt ennþá á flótta, eða verður það ætíð hér? Þú veist það er fátt hér í heimi, sem gleður mig neitt á við þig. Hverju einasta tári ég gleymi, þegar tekur þú utan um mig. Ég lofa þér núna og alltaf, mun ég styðja þig eins og ég get. Ég lofa að elska þig allan, á eilífð ég markið set. ] [ Ok plástur, mjólk, klósettpappír, skyr ruslapokar, karrí og nýjar hjarir á dyr. Kókómjólk, bananar, epli og fiskur brauð, bleyjur og einn geisladiskur. Kjöt, appelsínur, ólívur, grautur og egg súrmjólk, og traustir naglar í vegg Malakoff, hrökkbrauð, hunang, feiti kex, kókusmjólk, gúrka, perur, hveiti. matarsódi, cherrios, kavíar, mjöl jarðepli, kók og fyrir konuna naglaþjöl. Ég held að allt sé komið..... ] [ Ég er eins og postulínsdúkka, brothætt. Ekki missa mig, ég er full af vatni. Hjartað mitt er golfkúla fullt af teygjum. Tóm augu. ] [ Með sárin á hendinni. Með hristing í heilanum. Með rugling í sálinni. Með hníf í maganum. Vonast eftir engli, til að taka mig upp. Ég get þetta ekki lengur, hvernig þetta gengur, ömurlega. Hvernig er það hægt, að elska og hata, allt á sama tíma. Ég vona að ég rata, himnaríkis. ] [ Með brúnt hár, komið smá hvítt í skeggið. Myndalegr maður, þreyttur samt sem áður. Ég þekki þennann mann, en ég veit ei af hverju. Í sveitinni býr hann. Ég fann hann á hesti, rétt út í móa. Hann skellti mér á bak, og sagði mér að hóa. Ég fann hvernig hesturinn feykti mér áfram. Vindurinn um vanga mína lék. Ég leit aftur, sá hann hvergi. Ég fann skeggið hans á mínum vanga. Ég vissi að hann væri farinn. Og hann kæmi ekki aftur. ] [ ég sakna þín Pabbi... ...Ég elska þig Pabbi... ...Komdu aftur Pabbi... ...Ég þarfnast þín Pabbi. Kæri Guð, leifðu Pabba að koma aftur... ...Kveðja frá Dótturinni. ] [ Þurrkuð rós þyrnum sett Fölnuð fegurð forðum fögur Lífvana litdauf nú liggur Brothætt blöðin blómstra ei lengur Verður að mylsnu við minnstu snertingu Ástin er rós lifandi brosir við sólarljós Stutta ævi rósin á bíður þess að þorna Blómstrar aðeins stutt í senn Ef vökvann þverr því er verr Lifir frosin það sem eftir er líflausar rósir lifa lengur Lengi lifir í gömlum glæðum. ] [ Augnaráð hefur það fram yfir flest að það talar sitt eigið tungumál óháð raddböndum eða samfélagslegum ástæðum. Brosið hefur þann eiginleika að það þarfnast hvorki orða né snertingar til að það festist í minninu umvafið um minninguna um þig. Þú þú þarfnast einskis hvorki augnaráðs né bross, ekki snertingar ekki orða, til þess að láta mér finnast þú einstök og ég heppnasti maður sem lifir. -það er bara eitthvað við þig ] [ Heil sagði Hitler uns hann varð þreyttur í hægri höndinni og lét hana falla niður. Eða var Hitler kannski örvhentur? ] [ Ég hlakka til öllu fremur eða þegar vorið kemur. Fuglar syngja, umhverfið vaknar, sólin skín en snjóinn saknar. Ég hlakka til þegar sólin skín. Falleg og skínandi eins og frú fín. Úti krakkar leika þótt sumir bara stara út í loftið og reika ] [ Sönn ást er saga ein. Sú ást er hrein og bein. Hún kemur himninum frá og henni er erfitt að ná. Fullkomni maður, fullkomna víf, fullkomið ástarlag. Finndu þetta fullkomna líf. Fyrir þinn eigin hag. ] [ Hvar sem ég fer allt sem ég sé eru ímyndir af þér Í núðlupoka, auglýsingum, eða bara myndir vekja upp minningar um þig Faðmur þinn ég sakna vernd það veitti mér. og bara að hanga með þér það gleði veitti mér. Hve vænt mig þótti um þig og hve sárt ég nú sakna þín Ég sakna að vera í faðmi þínum og fá kossa frá þér. Hvenær sem mér leið illa hvenær sem ég þurfti hjálp þá komst þú á hvítum hesti og hjálpaðir mér. En nú er hjálpin farin farin á annan stað nú er sagan búin ég á ei annað blað. ] [ Rósarblað fellur, tárið skríður niður kinn, varir mætast, hjörtun slá í takt, rósarblöð fylla magann, kítla að innan, í takt, í takt, við opnum munninn, ég blæs rósarblöðum, inn í hana, í takt, í takt, í takt, við andardráttinn, hjartsláttinn, samdráttinn, við syndum í rósarblöðum og sökkvum dýpra, dýpra, dýpra, í táraflóði ástarinnar. ] [ Ég veit um leikrit, leikrit án ljósa, leikmynd og búninga, leikmynd á sviðsmynda, leikara og leikstjóra. Leikrit með upphaf, miðju og endi, mið ris og niðursveiflu, ást og hatri, gleði og harmi, þú ert höfundurinn, og leikritið er... ...lífið... enska: I know a play, play without lights, stage, curtains and set. play without make-up, custumes, props and actors. Play without, script, prompters, and directors, this play has a beginning, middle and end. It has a climax and downfall my friend. It's comedy and tragedy, you are the author, and the play is the life. ] [ Hún er vinur en þó svo miklu meira, traust, trúnaður, samræður, ég víbra að innan, svo ólík þeim öllum, hennar andlit, hennar rödd, hennar austræna fegurð, hennar tónlistarsmíð. Svo miklu meira en vinur, líður vel í hennar nánd, hvað er það sem veldur því að ég hlusta, brosi og hlæ, hvað er það sem veldur því, að ég faðma hana að mér, legg höfuð hennar í minn vanga, lykta að hárinu hennar, ég finn ilm, brosi, hlusta og faðma. Hún er vinur en þó svo miklu meira, hvað er það? Kannski er þetta hin eina sanna tilfinning sem kallast ást. enska: She is a friend and so much, much more, crossed finger, strarcrossed lovers, our dialouges let me viber insight, there is no one like her, her face, her voice, her youth beuty, her music, so much more than a friend, feel well when she is with me, holds me, feets me, what is it that makes me listen, smile, laugh, hold her in my arms, let her face to my cheek, smell her hair, smile, listen, hold her, so much more than a friend. What is it, maybe it's what people call, the FEELING CALLED LOVE. ] [ Ég settist niður til þess að skrifa sálm og ég skrifaði þetta: Ástin mín ég vildi að við værum saman tvö hér undir sólinni. Þessari björtu sól sem virðist skína okkar vegna og skapað sumarið, sem virðist aðeins til komið til að gleðja okkur. Ég vildi að við værum tvö. Já, bara þú og ég. Og veröldin væri okkar leikfang. Svona lagað þoli ég stundum ekki, vegna þess að þetta er ekki harður sannleikurinn lífið tekur alltaf við. Og það að mér finnst alltof margir vera spilltir og tækifæris sinnaðir. Og svo er sannleikurinn einnig sá að morð eru framin, stúlkum er nauðgað. Það er farið illa með fanga ekki bara í Abú karep í Írak heldur einnig hér á íslandi og engvin hefur áhuga á því ekki einu sinni Amesty Internatonal því þetta eru ekki fín mál, þetta eru nú einu sinni afbrota menn og fátækir aumingjar sem hafa engvin áhrif í samfélaginu. Rómantíkin er draumur, í raun flótti frá veruleikanum, augnar bliks blossi, en hann er (veruleikinn margfrægi) einnig t.d sá að sambönd karls og konu vara ekki. Og þá vegna þess að einstaklingunum finnst þeir verða vera einhvers staðar annars staðar en þeir eru. Það eru svo margir alltaf að missa af einhverju „merkilegu“. Svo þeir finna ekki frið í örmum hvors annars. Vegir veraldarinnar eru svo sannarlega vondir. Og Parið leitar út fyrir sambandið. Ríkjandi tilvera er því ekki næg. Fólk þarf alltaf að leita út fyrir það sem það hefur. Nema það eigi skít nóg af peningum og það eiga fæstir. Allt svo álikta ég svo því ég á engva en ég á þó krónu á himnum, eins og eitt skáldið sagði. Og því eru flestir eins og asnar á eftir gullrót kapítalismans í efnis heiminum. Og það (þetta annað fólk, þetta umhugsunarverða fólk) þarf alltaf að gera sér einhverjar grillur um það hvernig náunginn hefur það. Hann Kalíasi gæti haft það betur en ég vegna þess að hann á eitthvað meir en ég, en margt fólk hugleiðir aldrei að náunginn hann kynni að vita kannski eitthvað meira, og svo hann Simíasi hann er rauðhærður og hann á Jeppa en fer aldrei á fjöll og er ekki í björgunarsveit svo allir rauðhærðir eru leiðinlegir og frekir eins og hann og keyra um á jeppa og eru ekki í Björgunarsveitum. Í Guðsbænum hættið að alhæfa um eitthvað annað en að Guð sé til eða dauður og um skaðsemi reykinga. Hættið að hugsa um annað fólk, sjáið bara hvað þið hafið fengið mig til að gera! Ég er að hugsa um ykkur, og vá mér þykir flest ykkar leiðinleg, en alsekki öll! Hvernig er hægt að ætlast til þess að sálar líf fólks sé á bjargi byggt er áreiti og kapphlaup nútímans er eins og það er. Við erum eins og forfeður okkar steinaldarmennirnir í hegðun nema við ökum um á vél knúnum ökutækjum og búum í sements kumbaldar kössum og notum hugvélar til skrifta en ekki bein og jurtablek. Við verðum að hægja á okkur og þroska okkur andlega.. Eða er ekki svo lesandi góður. Ætlar þú kannské að segja mér að allt sé eins og þú vilt að það sé hjá þér? Ætlar þú að segja mér að þú látir þér nægja það sem þú hefur og að þú girnist ekki eitthvað annað og „betra“. Ég minni á að það er annað að óska sér einhvers betra en að girnast það. Ætlar þú að segja mér að þú sért það góð/góður? Ég á mínar stundir þó þeim fari fækkandi og sáttin sé að yfirtaka tilvistina en ég vil ekki staðna það finnst mér ekki sama og að vera sáttur. Kyrrlát kvöld og tungls ljósið glitrar á tjarnarfletinum ungt par labbar heim á leið og það helst í hendur. í huga stráksins eru spoler kítti á níu Impresuna sem hann fékk á bílaláni og á því ekkert í. og í huga stúlkunnar er hugsun um hvort hann verð henni nægjanlega góður. Á hann eftir að græða peninga. Getur hann orðið betri í rúminu. Svarið er að öllum líkindum Nei ef spurt er um hamingju! Þetta á eflaust eftir að enda í skilnaði ef þau á annað borð giftast. Því þau eru alltof veraldleg í hugsun. Fólk í dag eru vitleysingar, allt svo mikið af því, en það var reyndar fólkið í gær líka, það veit ég því ég hef ekki alltaf verið einfrumungur. Ég á mína foreldra. Það vantar alla skynsemi í nútímann og fortíðin var basl. Kannski er þetta bara Ísland? Kannski er þetta bara vegna þess að við höfum haft sjúka þjóðarsál svo lengi. Áður fyrri var hark og harðindi, skortur og dauði. En svo kom stríð og þá komu peningar og sveltandi bænda lýðurinn tók að streyma í kaupstaðinn. Og þáði karmellur og tyggigúmmí. Já, hér áður fyrr var engin sæla að vera á Íslandi. Fyrir utan þann tíma þegar við skrifuðum allar bækurnar og hér var höfðingjaveldi og svo þegar við fengum karmellur og tyggigúmmí er bretar og- svo Kanarnir mættu svo við mættum sigla landinu sjálf í strand. Þannig að ég er bara röflandi vitleysingur, sem í raun hefur það allt of gott og auðvitað er ég ekki sáttur við tilveruna og mannlífið í hringum mig. Já skorturinn og dauðinn var ríkjandi á Íslandi um aldir. Og enn er skorturinn að segja til sín. En eru hörmungar að finna í mannlífinu. Mæðrastyrksnefnd og Ríkisstjórinn (skortur á auðmýkt) segir sitt. Já, Íslendingar verða alltaf samir við sig. En er þetta Ljóð? Því get ég ekki svarað, vegna þess að því hefur víst verið stolið og engin veit hvar það er niður komið. Nema síðast sást það í blokkinni og maðurinn í speglinum var eins og fréttamaðurinn á skerminum(1). Það hefur ekki sést síðan og hvernig á ég að geta samið eitthvað sem ég veit ekki hvar er? Mikil ósköp, Hjálp! Já. Ég hef mist þráðinn. Já, ég er komin út fyrir efnið. Ég var að tala um ísland. Var það ekki annars? Um útkjálkann Ísland sem er einhverstaðar á Atlandshafi og mig minnir á hjara veraldar er ekki með lengdar og breiddar gráðuna í höfðinu og mótmæli mín við ríkjandi háttum er að leita ekki eftir þeim upplýsingum. Landinu sem var líkt við flugmóðuskip og á því höfum við byggt tilveru okkar. Kanakarmellum og tyggigúmmíi. Í áratugi höfum við verið á spena litla frænda í vestri. B.N.A. Hvað svosem sú samstöfum stendur fyrir, en ég ætla bara að leifa mér að vera eins vitlaus og margir aðrir og segja eitthvað sem ég veit ekki almennilega hvað þíðir. Við sendum hann í raun þangað, litla frænda, Amikanan, og svo einhverjum hundruð árum seinna fylgdu ómagarnir okkar á eftir þegar við ætluðum að hreinsa landið af aumingjum. Eða voru það ekki annars við sem fundum Amríku og að Marko Poló endur upptvötaði hana okkar vegna, þá vegna sögusagna um Landið Góða í vestri, leifið mér að vera Íslendingur og halda heiðrinum í friði. Og af hverju gefum við þeim þá ekki bara harðfisk og slátur í skiptum fyrir Tyggigúmmíið og karmellurnar? En í dag eru að koma nýir tímar og heimurinn að mestu rannsakaður, enga Amríku að finna. Nítt skeið fer að renna í hlað. Evrópa er að renna saman í eitt og sumir heyra ofheyrnir. Þeir telja sig heyra góða vænlega stóla kalla. Og mögulega hlíðum við kallinu! Að hugsa sér! Af því að einhverjir vitleysingar sem eru ekki í tengslum við- Raunveruleikan, telja það jafnvel okkur í hag að vera hluti Evrópusambandsins! Þeir eru jafnvél það barnalegir að halda að Ísland verði í hringiðju alls, eða svo hefur mér heyrst. Þeir ætla kannski stinga upp í sig vindli og setja á sig hatt og sigla því til hafnar í Þízkalandi. Eftir að búið er að sprengja það laust, það er nú svo vinsælt að sprengja allt í dag. En af hverju þá ekki bara að sigla til Amríku og vera þar í hringiðju alls? Þið vitið að hringiðjur eru hættulegar vegna þess að þær soga allt niður líkt og þegar þú tekur tappan úr fullum baðherbergis vaxnum heima hjá þér. En ég tel að okkur kunni jafnvel að bíða en meiri skortur- ef við rennum saman við stórfljótið, Evrópusambandið, og afhendum mönnum í Brussel ( Höfuðborg Belgíu þar sem höfuðstöðvar Evrópusambandsins eru) það sem við börðumst fyrir í tveim þorskastríðum, 200 mílurnar og ég tala nú ekki um sjálfstæði okkar til að ákvarða um okkar mál sjálf. Og hvað ætli verði um litla bæjar lækinn ef einhverjum dettur í hug að hann geti orðið góð viðbót við Flegeþon (logandi fljót í grískri goðafræði, sem ég er ekki fróður um en mér þykir hæfa til samanburðar við Evrópusambandið). Allt það erfiði kann þá að hverfa. Kann að lenda í höndum pólitíkusa í Brussel Ísland er útkjálki sem á eftir að verða fjársveltur og rödd okkar má sín lítils í eld hafi hins varasama fjóts. Og kannski er ég enn komin út fyrir efnið. Kannski ég ætti ekki að segja mína skoðun? Kannski ég ætti að loka huganum og vera eins og Sverrir Ztormsker og fara bara að semja klámvísur vegna þess að mér finnst þið svo vitlaus, eða ég hugsa að það sé ástæðan þess að hann sé að þessari vitleysu? En hvar er ljóðið sem ég settist niður til að skrifa? Hvar er þetta helvítis Ljóð? Hefur einhver fundið það hér á milli línanna, kannské ég ætti að breikka línubilið svo þú getir skoðað betur á bakvið textann. Ég hef skrifað þetta hér að ofan og þetta hér að neðan og þetta mun eflaust engin lesa, sama hvað. Ég trúi ekki á það að nokkur nenni að lesa það sem ég skrifa. Mínar skoðanir fara líklegast aldrei lengra en það að verða ólesin texti á tölvuskjánum hjá mér og á einhverri Ljóðasíðu á netinu. Og þá er Kannski bara best að ég troði fleiru óviðeigandi inn í þennan texta og vandi mig lítið eins og ég mér er lagið og fari að tala um samfélagið, samfélagið... Barnið í skólunum lærir hvernig það er að vera neitandi. Já, Skólarnir framleiða neitendur. Því er ekki kennt að vera „on top of the game“ að mér finnst. Því er ekki kennt að spara og safna sér fyrir bíl og húsi sem ætti reyndar að vera hlutverk foreldrana. Sko brýna fyrir því að nota aurinn sem það fær fyrir að vera í garð vinnu yfir sumarið t.d til að versla fyrsta bílinn, þetta eru þrjú sumur, kannské fleiri. En þó hef ég ekki mikið verið í skóla, en stökusinnum í vinnu, nennir einhvur að ráða mig í vinnu, vantar ekki ráðherra eða einræðisherra eða kannské bara Konung, jæja hvað um það best að halda áfram hér og tala hér um hin raunsanna veruleika allíðunar eins og hann sé ekki staðreynd, svona er ég alltaf vitlaus. Börnunum eru gefinn Vísa-Depid kort fyrir fermingu og yfirdrátt um 17-18ján ára aldurinn. En mér finnst að börnum eigi að vera kennt að spara og vera hyggin og það ætti að vera hagur bankana að vera með peninga fólksins heldur en að eltast við skuldir þeirra og því ættu þeir að halda upp skynsamlegum áróðri. En Réttlætingin er sú að á meðan það er stöðug velta þá sé þetta í góðu. En er það í góðu ef að ég fæ 20.000 spesíur lánaðar á hverju ári og borga bara x (tíu) til baka? Og svo þegar ég er dauður fær sonur minn skuldirnar í arf, ef ég ætti son þar að segja, og hann hefur að öllum líkindum tekið upp sama vitræna háttinn og ég og þarf að rembast við að borga skuldirnar hans Pabba og leggur því ekkert til hliðar fyrir börnin sín. Og þá stefnir vitanlega allt í eimd og volæði. Ég vildi að við hefðum aldrei fengið blessað Tyggigúmmíið og Karamellurnar. Og að það ætti að kenna Börnum Lífspeki við 9ju ára aldurinn með öðrum orðum Grunn heimspeki eins og er gert í fyrsta bekk upp í háskólanum, hvar svo sem hann er, og munin á huglægu og hlutlægu mati og að trú sé góð en að þau verði að treysta á sitt eigið hyggjuvit. Við erum Kristið samfélag er það ekki? Og ég vildi einnig gera alla Íslendinda ríka í ofanálag með því að gera eyjuna okkar af paradýs fyrir auðklifinga og frægðarfólk og banna aðgangs harða ljósmyndara og einnig skikka fólk til að huga að framtíð barna sinna svo þau sleppi við stritið sem foreldrarnir þurftu að inna að hendi, mér þykir ekki fínt að strita ef hægt er að sleppa við það. Ég vil fyrir myndar ríki þar sem ekkert betl er og ég kann ekki einusinni að skrifa Ljóð. En hvar er ég í dag? Nú er stórt Spurt! Vegna þess að í dag er ég slettur og feldur ræfil á hinu sanna Alfa jarðar Íslandi. Já, það kann að henda menn að geta ekki tekið þátt í þessum sjúka leik sem lífsgæða kapphlaupið er. Sem betur fer... Góð heilsa hefur oft fengið menn til að gera bölvaða vitleysu sem þeir hefðu ekki gert ef þeir væru heilsu tæpir (haft eftir Immanuel Kant). Já, ég veiktist og fékk sjúkdóm heimsins, þunglindi og vímuefna fíkn ungur að árum en er að ná mér og er að verða að manni hægt og rólega og ég er að spara. Já, Ég er að spara sjálfan mig og smá upphæð mánaðarlega og kannski ég brenni hægar upp en þið hin sem eruð á fleygi um tilveruna og að ég muni eiga eitthvað eftir í eilífa lífinu af sjálfum mér. Þið brennið upp og visnið, það gerum við reyndar öll ef við lifum ekki rétt, sem ég reyndar trúi að ég sé ekki að gera ( lifa ekki rétt) því ég fann hin eina sanna andans elexer, Guð. En ég hef ekki alltaf verið sparsamur á lífsorkuna. Og nú er ég hér og glamra á hugvélina. Já, ég er á móti orðinu tölva vegna þess að það er að öllum líkindum dregið af orðinu völva, sem spáði fyrir um framtíðina hér áður fyrr vegna þess að fyrst þégar tölvurnar komu voru þær notaðar til að keyra forrit sem reiknaði saman kosninga tölur kjördæmanna í sveita- og alþingiskosningum. Hugvél er mér hugleikið orð. Og þá vegna þess að við höfum hugbúnað sem fær vélina til að „hugsa“ og það þarf að nota hugann til að spila þessa blessuðu leiki sem eru að eitra hugarfar unglingana en sumir auðga skipulagshæfni og þá er gott nafn á þá Hugleikir. En hér er ég, fyrir framan Vélina, auka heilan minn og ef ég væri mér ferðavél myndi ég kalla hann litla heilan, geymdur á fjárlögum eins og ráðuneyti og fer næstum aldrei framúr heimildum nema með blessuðum yfirdrættinum, segi ég eftir allan fyrirlesturinn, ég er álviti greinilega nei það er iðnaðar og viðskiptaráðherra. Og,,, ég gæti haldið áfram en ákveð að láta hér við sitja í bili. Lifið heil.. ] [ i have wondered this planet for days and all i have found is people smiling. once i found nothing. in the center of it all my biggest fear has come to reality ... living. children running down the streets, laughter, people in love. i din´t noticed that before. its sunny, once it was raining. i fall in the water and drown with only joy in my heart. ] [ bið endalaus bið, langar að sjá þig einu sinni enn. kvaddir með þessum fallegu orðum sem urðu að vökva og rann um æðar mínar. djúpi skurðurinn sem þú ristir á sál mína, grær ekki og mér finnst ég vera að detta ofan í hann. þessi djúpu bláu augu sem stara enn á mig, ég get lesið þig. ] [ ,,Eltu drauma þína" sagði sá sem hafði glatað sínum og ég hlýddi um hæl ] [ Tilfinningarnar hlaðast upp, hvað á ég nú að gera? Ég elska hann en ég dýrka þig, hvort á ástin að vera? Hann hefur verið mér eitt og allt, lengur en nokkurn grunar. Fylgir mér gegnum heitt og kalt, ástin hans öllu mig munar. Hvað er það þá sem mig dregur að þér, ef hann er allt sem ég þarfnast? Hvað setti af stað inní hjartanu á mér, hugsanir dæmdar, hvernig sem farnast? Löngunin magnast með sekúndu hverri, tekur þetta engan enda? Lygarnar verða alltaf verri og verri, guð minn eini, hvar mun ég lenda? Í gær var ég þar en nú er ég hér, ótrúlegt hvernig allt gengur. Í gærnótt með honum en núna með þér, ég ræð ekki við þetta lengur. Hjartað að kólna og samviskan svört, svikin og prettirnar virka. Fyrir löngu er horfin mér vonin björt, syndirnar hylja nú sál mína myrka. Sérðu ekki til hvers þú ætlast af mér, þetta er ekki lengur gaman. Ég get ekki verið alltaf með þér, hann veit ekki að við erum saman. Mig skorti kjark og mig skorti þor, til að segja honum satt um þig. Það er mér að kenna að snemma í vor, kvaddi hann þennan heim - og mig. ] [ Vorþeyr fer um fjallaskörð fram um dal og tanga um skógarlund, um laut og börð leitar glettinn fanga og Drottins blessuð barnahjörð býr sig út að ganga. Er nú þorrin þung og hörð þrautin vetrar stranga í geislum sólar grætur jörð af gleði blómin anga yfir "Leirunnar" úldna svörð álftahjónin spranga. Haltu nú Guð um vorið vörð því vont er í bæli að hanga nú fer ég með bljúgri bænagjörð og bros um gráa vanga á sunnudagsrúntinn fram í fjörð á Föstudaginn langa. ] [ ÉG sé það ég vil það ég finn af því lyktina ráðgjafarnir tala hver ofan í annan taktu það bíttu í það láttu það vera láttu tunguna leika um það hvað græðirðu á því? komdu þér í burtu hættu að horfa þefaðu af því af hverju þarftu það? raust þeirra hækkar ég næ ekki að svara ekki að rökstyðja fell í dá tek ákvörðun, framkvæmi og fell þriggja flokka kerfið er ekki fyrir hvern sem er ] [ Ég heyrði lífsins létta kvak ljúfan söng og vængjablak mér fannst sem vetur væri á bak og vor í blænum óma. - Morgunstund, og ilmur af beði blóma. Sá ég lóu lofti í leika við gaukinn, dirrindí í föruneyti fríða því ég fann líka stelk og spóa, og kríur tvær, - en um kvöldið var farið að snjóa. Upp frá því kvað við annan brag það andaðist vorið næsta dag hún söng ekki meir sitt ljúflingslag lóan í draumunum mínum. En lagðist í snjóinn og dó þar Drottni sínum. Drottin gaf og Drottinn tók í daganna sögu hann kafla jók já, gamalli lummu úr lífsins bók og lógaði í snatri þeim neista sem áræddi á íslenska vorið að treysta. ] [ Elsku besta hjartans Ýr, þú varst mínar ær og kýr, en mistökin þau voru mér dýr, maður tímanum ekki til baka snýr. Ég sýndi þér aldrei hvað í mér býr, og brenndi að baki mér of margar brýr, en nú hef ég ákveðið að skipta um gír, og er orðinn maður nýr. Ég er í dag sæll og hýr, tíminn ekki lengur frá mér flýr, þó er minn þróttur fremur rýr, því hjarta mitt er vafið gaddavír. ] [ Í Afríku ríkir fár og hungur, þar er enginn leikur að vera ungur. En mennirnir þar eru sko alls engar gungur, þeir veiða ljón og skera úr þeim tungur. Þar er eigi gaman til þess að vita, að börnin í Afríku fá aldrei ætan bita, engan þar hrjáir offita og daglegt vandamál er skita. Svo til að bæta svörtu ofaná grátt át fólkið apakjötið hrátt. Síðan fengu sér flestir drátt, er nú fólkið frekar fátt. Í Afríku er enginn fullorðinn lengur, aðeins gamall maður ellegar ungur drengur. Til lengdar þetta ástand ekki gengur, og í Afríku verður enginn mannfengur. Í Afríku er lífið að fjara út, Guð hefur rekið á það endahnút. Við þerrum tárin með vasaklút, og göngum í burtu, niðurlút. ] [ Ó mín kæra Fríða, þér vil ég gjarnan ríða, uppí rúm til þín skríða. Þú munt fætur þína glenna, þegar ég mun í sköp þín renna. Saman við þeysum á ógnarhraða, þar sem ég er búinn að gera þig gríðargraða, hvort þú færð það mun ég engu lofa, því þegar ég er búinn fer ég að sofa. ] [ Hjarta mitt brotnaði í þúsund bita, þegar ég heyrði að þú værir kominn á fast. Ég er dáleiddur af fegurð þinni, en hef aldrei sagt þér frá því. Núna ég bíð bara og vona, og er búinn að líma mitt hjarta aftur saman, kannski ég reyni aftur seinna, en ekki strax, því límið er ennþá að þorna. ] [ Yfir bókunum nemendurnir sveittir sitja, þegar á önnina er farið að halla. Kennararnir sinn dómsdagsboðskap flytja. „Bætið ykkur ellegar þið öll munið falla!" Kennarar eru haldnir kvalalosta, okkar foreldrar okkur í þrældóm selja. Kennarar eru haldnir blóðþorsta, Alla daga þeir okkur kvelja. ] [ Ég horfi oft á þig úr fjarska, en þori þig ekki að nálgast. Fegurð þín vex mér í augum. Þú ert ein sú fallegasta vera, sem ég hef augum litið, fegurð þinni kann ég vart að lýsa. Liðað hár þitt er sem silki og augu þín glitra, líkt og á himninum stjörnur tvær. Bros þitt er með afbrigðum fagurt, það færir heiminum hlýju, að minnsta kosti það yljar mér. Ég veit ekki hvort ég ætti þér þetta ljóð að sýna, ég er hræddur við neitun, hræddur við höfnun, en ______, ég héld ég elski þig. ] [ Ég ákvað að tjá mig í ljóðrænu formi, til að tjá þér ást mín'á þér. Hjarta mitt skoppar líkt og það standi á gormi, hví lítur þú ekki við mér ? ] [ Ég vaknaði í morgunn og á klukkuna leit, hún sýndi ókristilegan tíma. Skreið ég fram úr en um stólinn minn hneit, baráttan við myrkrið er erfið glíma. Að lokum ég ljósið sá, ljósið á baðinu virtist ekki svo langt í burtu. Ég lét ekki þreytuna á mig fá, og ákvað að skella mér í sturtu. Vatnið var djöfull lengi að hitna, frostið í nóvember getur verið þrálátur fjandi. Að minnsta kosti fór ég ekki að svitna, þessi dagur var ekki á mínu bandi. Coco Puffs át ég í morgunmat, og gluggaði í DV í leiðinni. Af morgunkorni át ég á mig gat, skóflaði því í mig með skeiðinni. Leiðin í skólann var hulin snjó, ferðin virtist verða kvöl og pína. En í fjarska heyrði ég að Jovana hló, tók ég þá aftur gleði mína. Klukkan átta settist ég við borðið mitt, en Ásgeir var seinna að vanda. Siggi var hins vegar samur við sitt, mættur með fróðleik milli handa. Loks um hádegisbil fengum við hlé, héldu þá flestir heim. Aðrir eyddu í mötuneytinu fé, en maturinn bragðaðist eins og gömul reim. Þegar ég kom loksins heimn sló klukkan fjögur, mikið var ég feginn þá, þolinmæði mín var orðin mögur, af hverju má ég ekki bara sitja hjá ? ] [ Ef við værum ljósastaurar, væri ljós mitt löngu dáið, ég hef beðið eftir þér svo lengi og horft útí bláið. Samband okkar það varð aldrei náið, ég reyndi oft, en aldrei kom jáið. Það vantaði ávallt eitthvað svo við næðum saman, en alltaf sýndi ég stillingu. Við hlógum oft og höfðum gaman, en hjarta mitt skorti alltaf fyllingu. Bros þitt yljar mér um hjartarætur, það nær minni sál að rugga. En ef þú einhvern tíman grætur, veistu að ég mun þig hugga. Þú býrð yfir undursamlegum þokka og hjarta mitt er í hnút. Þú hefur náð mig að lokka, í ástarnet og ég kemst ekki út. Ég held að enginn skilji, hvað ég þrái þig mjög, en kannski muntu það einn góðan veðurdag sjá. Því ég mun reyna í lengstu lög, að heilla þig og í þig ná. ] [ Einhvern veginn hefur þetta allt verið eins og síðast. Ég vakna án þess að muna hvað var á huga mínum og þú Ekkert svar Ekkert Svar Ekkert Svar EKkert Svar Ekkert Svar ] [ Við sátum í kastalanum sterkbyggðum úr krossviði með rennibraut og öllu aðrir voru í eltingaleik í sandkassanum í fótbolta að róla en við sátum í kastalanum Þetta var kastalinn okkar við horfðumst i augu hennar ljómuðu grænu hárið úfið og sandur í munnvikinu mig kitlaði í magann svo leit ég undan Við héldumst í hendur sórum svo þagnareið með sandinn á milli tánna Síðan þá hefur ást brugðist vonum ] [ Ég sit og ég horfi á þig tala, en... ég er samt alein... Þú talar og talar, og ég brosi... en því þú horfir ekki í augun á mér, þá sérðu ekki hvað ég er mikið ein... Ég heyri ekkert hvað þú segir, ég er að hugsa til þeirra... Þeirra sem eru búinn að knúsa mig og passa, þegar ég var alein, með þér... en það sem ég skil samt ekki er hvernig ég get hlustað á þig... og sagt þér hvað þú átt að gera... en, samt verði svona ein... Svo kem ég heim... og ég er ekki lengur ein... því ég kveiki á... og þið komið og knúsið mig... og allt verður aftur Okey... ] [ Þó ég gráti að kveldi Elsku mamma ég græt þó ekki er þú sefur. Nema að almættið brenni eða Að líkamin minn verki. Því mamma það besta sem ég geri Er að kúra brjóstinu hjá. Þó ég vakni eld snemma morgni Þá er það bara fyrir þig. Svo að þú vaknir við mig Þegar ég kissi þig á kinn. Eða horfi vært á þig sofa Mér við hlið. Elsku mamma þó ég sé stundum frekur er ég bara að prófa mig hjá þér. En elsku mamma Passaðu mig því ég veit ekki, Og ég skil ekki, og ég get ekki Passað mig. ] [ Söknuður brennur í auga hjartans rennur. Öskrarhvað er að vilja elskan, þú þarft ekki að skilja. Þetta sem kallast ást, ég og þú, það sást. Manstu, að ég fann hvernig þú lást. Eitt og eitt tár, einskonar djúp sár. Tilfinnigin verður í öll þessi ár. HVERNIG FERÐU? HVENÆR FERÐU? Hjarta mitt skerðu, djúpt inní sálinni verður. Þessi minning. Þú gafst mér góðan vinning. Þetta segir sig sjálft, þú þarft engan skilning. Kannski hljóma ég eins gömul álft. En hér ég. ] [ Finn enga ánægju, svo innilega tóm af orðum. Svikin af blóðbera mínum. Heyri rödd syskina kalla á mig til hjálpar. Hamingjan hvarf, inn í helli drauganna. Græt því ég get ekki hugsað mér að lifa án systkina. Flóttinn gengur ekki, verð að vera sterk. Get ekki andað af sorg. Rignir áhyggjum, á veröldina. Hugsa ekkert um sjálfa mig. Flóttinn gengur ekki verð að vera sterk. Geri allt til að bjarga fjölskyldunni. Sel afleiðingarnar á útsölu. var samið 20,10 ´99 ] [ Þegar tíminn líður, og stundirnar renna upp. Svekt og reið, grátur og hlátur, einhverstaðar á götunni. Vellíði undir áhrifum fíkninar. Svartur skuggi sólinnar. Blekkt af rödd frægðinnar. Sárt vegna fjölskyldunnar. Vellíði undir áhrifum fíkninar, um eitt stutt tímabil! Ömurlegheit og sárindi. ÚTLIT? HRÆÐILEGT! Allur líkaminn aumur og fölur. Allt lífið í einu búri inn í vegg löggæslunnar. Lemjandi hjartað með hnífum og hömrum. Búta það niður og gefið til fuglanna. 22,05 ´99 ] [ Við sólarlag lærði ég mitt fag í hlýjunni undir blæjunni las ég slatta var við það að fatta en ég var annars hugar eitthvað annað hug minn yfirbugar eftir dálítinn tíma við heilann var ég búin að glíma og fann loksins svar við spurningunni honum ég unni strák einum það skal ég samt ekki segja neinum að ég elska hann hrollinn ég fann á erfitt með að læra ást mín ég vil honum færa ekki læra daginn út og daginn inn of mikinn kærleik ég finn sleppa skal fræðinni við lifum aðeins einu sinni ] [ ég kom í þennan heim öskrandi síðan þá hef ég ekki hætt engan ég hef á mínu bandi mér hefur blætt ] [ Ef við værum tannstönglar.... ........þá værum við öll mjó. ] [ Ég er týnd.... við vorum eitt sinn samrýnd það er búið ekki aftur snúið bless fress ] [ Bless er lítið orð með stóra merkingu ] [ hatarðu mig hví hvað gerði ég til að verðskulda það éttu bara skít frík ] [ Yfir bókunum ég sit reyni að halda rænu nú er ég alveg bit og horfi út á hagana grænu ég byrja að dreyma dreyma um mig og grænu haganna hoppa á milli tveggja heima reyni að ná til faganna Ríf mig upp úr draumnum dottaði smá ég ríghélt taumnum læt ei þreytuna á mig fá Taumurinn sem veruleikinn er er kaldur og þreyttur Haginn sem draumurinn er er heitur og breyttur Verð víst að halda dómnum helvítis veruleikinn hendi burt öllum fórnum draumurinn á ný handleikinn Djöfuslsis dottaði aftur má segja að veruleikinn er andskotans fantur á milli tveggja heima ég sker Bilið breikkar mér seinkar prófið á morgun engin borgun Fallið hengur yfir mér fjandans lærdómurinn og veruleikinn þeir mættu fara til helvítis fyrir mér.. ] [ Bjartur blámi morgun þekur, blíður bjarmi rætur rekur, börnin birtast, þau sólin vekur. Bindast böndum, burt óttann hrekur, blóðsins brauð, hugans dekur. ] [ Fyrsta ástin er eins og vilt ljón sem þarfnast verndar. Í draumi mínum hamast hjartað. Spegilmynd hans er allls staðar, líkt og hann sendi hana. Ég get ekki annað en legið í faðmi hans og fundið brennandi hjarta öskra MEIRI ELD!!!!! ] [ Allt svo ungt en svo saklaust. Grátur barnsins, er lífið hjá fólki. Hatur heilans, skemmdi hjartað. Líkt og stór skammtur af reiði og sorg. Þunglyndið færðist yfir í dóp og varð að engu. Sjálfsmynd augans verður dökk líkt og fylling í sprautu. Fyrirlitning ársins, kemur yfir þig, því þú segir satt. Hatur fyrirgefningarinnar er sterkari en kærleikurinn. Allt er yfirgefið, líkt og rústir í herbúðum. Svona saklaust er það ekki. Þessi grimmd á að deyja þessi grimmd bjó ekki í lífi þínu! 9,12 ´98 ] [ Svo sannarlega Guð minn góði skal ég fylgja þér Og yrkja um það í þessu ljóði þú með augum þínum sér Skarplega sé ég boðskapsins frið í bókinni þinni stóru Og trúarpostular líða enga bið að guð komi, hann bíður handan móðu Í þrígang hef ég þvegið mér með bænaranda, syndina vikið burt Í fjórgang hef ég tilkynnt þér Hve við vöxum hratt rétt eins og jurt Gangan hér á jörðunni þinni Gefur mér styrk með þinni náð Æ, guð fyrirgefðu mér að þessu sinni ég hef syndgað, nærveru þinnar hef ég þráð. ] [ Með guðs orð á vörum og hið hreina hjarta Við sitjum fyrir svörum við guðsaltari bjarta ] [ When I open my eyes, all I see is you When I close my eyes, I dream about you…. I care for you, I’ve always do Whatever happens, I will always love you I wish I could say what is inside my heart Wish I had the courage to let the truth out before my heart falls apart My mind is filled with pictures of you Your pain is what I’m ready to go through I can take whatever is going to be on my way Because I know in the end we will together fly away ] [ Ekki skal bjóða hættunum heim því fáar eru varni gegn þeim En í hættunar augum ertu lítið peð sem hún mun leika sér daglega með. Nú skaltu fara öllu með gáð og losa þig við allt sem þú hefur þráð. Láttu alla gamla drauma ganga burt og ekki þekkja þá þegar um þá er spurt. Það ert þú sem líf þitt vegur og metur og veist manna best hvað þú getur. Aldrei aftur skal vakna upp sá grunur að á lífi þínu sé sjáanlegur munur. ] [ Myndir sýna mér vanda líðandi stundar líka þær sálir sem sitja niður bundnar. Í hverju sjónarhorni sé ég það sama, læt það pirra mig og verða mér til ama. En leiðin frá því er að snúa sér við en þar mætir mér allt önnur hlið. Þar verður allt svo dimmt og napurt, og langt frá því að vera fagurt. Um ævina hef ég séð ótal myndir og í þeim öllum eru mínar syndir. Þær hafa komið úr ýmsum áttum þar sem ég sést í sorgum en ná sáttum. Sumar myndir sýna allt það sanna og uppgjöf margra ungra manna. Næsta lífs skulu þeir allir njóta því bestu myndina munu þeir hljóta. ] [ Allir finna fyrir sólarinar gleði sem festir sig brátt í sessi. Því í sumarvinnu hún sig réði til þess að eyða öllu skammdegis stressi Geislar hennar munu skína ofan á alla og meðan hún varir, leikur allt í lyndi. Brúnan lit hún setur á hvíta skalla, aldraða manna í jakkafötum með bindi. Nú verður sérhver vindur hlýr því horfin er öll vetrarins mjöll. Hita mun hún allt sem að henni snýr og fólkið streymir niður á Austurvöll. ] [ væri ég fleyg flygi ég á fallegu kvöldi í vestur ofar skýjum í gegnum glufu gægðist ég á gluggann þinn og sendi þér síðan með glitrandi geislum sólar ólgandi ástríðukossa í logandi litum og þú - þar inni agndofa af fegurðinni fullri af funheitum kossum ] [ I can't believe, and sometimes in my dreams It's you who cuts my skin Just to see how much it bleeds Please let me in I stand outside here in the rain And it washes away, away my sanity I feel so alone, alone again I miss my amnesty I need to forget, i don't want to remember you You have caused me too much pain Still i wish you were here, it's true To lift me out of the water once again I stand outside here in the rain And it washes away, away my sanity I feel so alone, alone again I miss my amnesty ] [ I know I promised I even knew it at the time But you see, my senses vanished And I went on with it, anyway But my sorry don't mean much I should have known better But when I felt his touch I lost control Never before did I feel The way I felt that night Like my dreams were real Dreams I never had before But my sorry don't mean much I should have known better But when I felt his touch I lost control You know deep within your heart I didn't mean to hurt you We should make a new start and forget about the past I know my sorry don't mean much I should have known better But when I felt his touch I lost control ] [ ég vil aldrei þurfa að finna til, aldrei þurfa að óttast í örmum þínum vil ég finna yl, en þú lítur ekki við mér ég reyndi að fljúga en féll þá vængjalaus til jarðar tilgangslaust að reyna að ljúga ég elska þig mér er alveg sama þó að þú þykist ekki taka eftir mér hlustaðu á mig, hlustaðu nú en þú heyrir ekki neitt ég reyndi að fljúga en féll þá vængjalaus til jarðar tilgangslaust að reyna að ljúga ég elska þig tíminn líður endalaust viðhorf þitt hefur ekkert breyst mér er sama hvað þú kaust ég gefst aldrei upp ég reyndi að fljúga en féll þá vængjalaus til jarðar tilgangslaust að reyna að ljúga ég elska þig ] [ Ísland breytist brátt í banana og en sitjum við uppi með kanana. En hvar frelsið og þetta lýðræði stjórn þessa lands er algjört kjaftæði. Stjórnin gerir allt sem henni þykir best og gerir það svo vel að það sést. Enginn geri neitt á móti því bíðum frekar eftir að lenda vandanum í. Stjórnarandstæðan bíður sveitt og vonar að lögunum verði breytt. Því þá þurfa þeir ekki að rífast neitt né standa loksins saman sem eitt. Því notar Óli ekki neitunarvaldið svo fella meigi Bananatjaldið. Þá verður Davíð kóngur fallinn frá og aldrei aftur atkvæði fólksins fá. ] [ Af ásettu ráði ríf ég upp gamalt sár, strái í það salti og læt það gróa aftur svo ég muni alveg örugglega bera örið að eilífu ] [ ef ég væri fluga flygi ég um og suðaði ef þú værir þar flygi ég um og suðaði við eyrað á þér svo flygi ég burt það hátt uppi að dagblaðið þitt næði mér aldrei ég væri flugan sem héldi þér vakandi ] [ ég ég sit ég sit og hugsa ég sit og hugsa og stari ég sit og hugsa og stari dáleidd á þennan seiðandi skjá ] [ Hugur minn stynjandi undan þungum höggum því hugsun eftir hugsun um þig kvelur mig Það væri næs að (eftir sitthvorn bollan af kaffi og kleinu) að dýfa sér af Esjunni ofan í báru í hvalfirðinum svamla svo að fjöru með fisk í sitthvoru stígvélinu (áttu ekki stígvél?) þar getum við legið örmagna hlustað á ákafan andardrátt þinn og horft á skýin tipla eftir himnafestingunni þar til sólin tyllir sér glottandi á hafið bláa hafið í fjarska. Þá máttu kyssa mig. ] [ Hjartans skorpin skel við dauðans næturþel við náttsins bliku deyr í þér. ] [ Ljósastaur,ó,ljósastaur,ég snýst og Syng.\"I am happy in the rain\". Ný búinn að innbyrða svaka geim, og er nú á leiðinni kannski heim, Ef ég þá kann lengur að radda. Þú fékkst fljót af mér þarna padda, ringlaðan,ruglaðan og rassandi fullan, og við mér blasti ekkert nema götu drullan. þá birtist þú mér stöðugur og bein, og ég samfræður að nú yrði ég hrein. Þú hélst mér föstum í snúningi jarðar. eins og ég heiti Jón eða Garðar. Ég ætlaði sko að komast að kjarnanum, og dró augað í pung,rétti til að bjargunum. því ég vissi ekki hvað ætti að segja svo ég brosti upp í ljóisð og ákvað að þegja. Ljósastaur,ó ljósstaur.Hvar á ég heima? ] [ Ég á heiminn,ég á heiminn. hrópaði þarinn er hann myndaði öskur með sjávaröldunni ,og slettist með henni upp í fjörunna.Sviðið var eyðifjörður og tunglið var sviðsljósið.Í útfallinu varð hann eftir og heimurinn upplýsti honum staðreyndir lífsins. ] [ Ég hef séð kossa, ástaratlot, samfarir í hinum óeðlilegustu stellingum Ég hef séð veikindi, börn með hvítblæði og fólk með krabbamein Ég hef séð hryðjuverk, útlimi sprengda af fólki brunarústir og stríð Ég hef séð barsmíðar, vopnuð rán, nauðganir og þúsundir morða framin Ég hef skyggnst inn í alla leyndustu afkima mannssálarinnar En síðan sé ég kreditlistann rúlla og ég veit að þetta er allt í plati ] [ Ég hef hugsað marga daga, margar nætur, um framtíð mína og framtíð þína. Draumar mínir eru ónýtir án þín þú fyllir þá af gleði, og færð mig til að sofna af tilhlökkun við að sjá þig aftur. Líf mitt breyttist, við nánari kynni af þér. Hjarta mitt er ekki samt, ég fékk tilfinngu... Tilfinningu fyrir þér. Með þig, mér við hlið, mun sál mín verða full af lífsgleði. ] [ Orð geta verið stutt og löng einnig bæði auðveld eða ströng. Þau geta valdið gleði í lífi manns en um leið eyðilagt hugmyndir hans. Orð hafa oft fleiri en merkingu eina og oft þau sig í bókum leyna. Hugann þinn eru þau við það að kæfa en einnig kunna þau hann að svæfa. ] [ Hefur þú þráð dauðann að sjá, er hann klæddur hempu og með ljá? Þetta er ímynd mannsins á honum en það er hann sem stelur öllum vonum. Dauðinn bæði gefur og tekur og yfir það góða sigur sinn þekur. Tekur þær sálir sem lífinu hafa lokið og viðskipti við hann hafa hlotið. Sálirnar fer hann með bæði upp og niður og er það í starfi hans fastur liður. Stundum er hann til bóta og loksins alvöru líf sumar sálir hljóta En þegar nýr og fagur dagur rís mun hana fanga ungan pilt eða fagra dís. Deyja þá öll orð sem koma úr þínum munni og þá syrgja með þér hvert tré og runni. ] [ Óður til hafsins. Í stórborginni þráir maður sjávariðinn, vatnið hreina, vindinn, fuglasönginn. Í Undergroundinu sakna ég mávakvaksins, vælið í kríunum, klettana við hafið. Við Thames, sakna ég bátahafnarinnar, dorga kola, fiskilyktina, þarans, kuldans. Við Trafalgarsquere hugsa ég um lindina hreinu, teygi mig í gosbrunninn, sýp og spýti út skítuga vatninu. Ó þú haf, ég þrái þig! ] [ Ég er í lausu lofti á líðandi stundu, hvorki flýt né flýg, fótgangandi er. Staðna um stund, stend og hugsa, reyn´ð svara spurningum, svara hinu óþekkta, en ekkert finn, ekki flís af svarinu, lífinu sem líður, leikur sér að tímanum, græt og geng áfram, ganginn hinn óþekkta, leiðin liggur niður, lífið það líður, að lítilli ljómandi ey, leggst niður og dey. ] [ Hoppandi, hrópandi, syngjandi, hlægjandi, dansandi, leikandi, brosandi, svífandi. Skælandi, snöktandi, svitnandi, kveinandi, vælandi, grátandi, kvartandi, öskrandi. Sveimandi, kyssandi, andandi, blásandi, gefandi, þiggjandi, elskandi, ríðandi. Fljúgandi, fallandi, sigrandi, tapandi, vakandi, sofandi, lifandi, deyjandi. ] [ Ég elska þig! Geturðu látið orðin dansa tangó um líkamann, látið orðin stöðva hjartsláttinn um slag, látið bragðlaukana bræða tunguna á orðunum, roðnað, erst, tárast? Ég elska þig! Og orðin dansa, hjartslátturinn stöðvast, ég roðna, ertist, tárast, því að ég elska þig! ] [ Besti vinur minn er skugginn, sem læðist á eftir mér, sá næsti er stofuglugginn, sem enginn í raun sér. Við Skugginn og Glugginn, saman fórum á bar, nakinn stendur skugginn, en enginn sér hann þar. Ákváðum því, ég og Glugginn, klæðum okkur úr, þá hverfa Glugginn og Skugginn en ég er settur í búr. Menn mig skoða, hvergi er Skugginn, Meðöl í mig troða, hvergi er Glugginn. Ég ekkert borða, faðma ímyndaðan skugga, tek aldrei til orða, þeir kalla mig öfugugga. Ég sakna þeirra beggja, herra Skugga og Glugga, villtu á minnið leggja að heilsa Glugga og Skugga. ] [ Ég man svo vel þann fyrsta janúarmorgun, er ég opnaði augun í veröld sem ég hafði aðeins séð með augun lokuð. Sú stund var dýrmæt þá er við lágum hlið við hlið, en er þó mun dýrmætari núna er við liggjum í heimi sitt hvorum. Þótt á mig sæki aldur þá aldrei ég mun gleyma, hve fögur augu tóku á móti mér þann fagra nýársmorgun. ] [ Dagur líður. Ein situr um nætur og bíður. Hver stund eykur á hjartans þrá, og vonleysistilfinning grá. Svartasta nóttin grúfir yfir, meðan gamall draumur lifir. hve lengi er lífið að líða.. Þegar þú þarft að sitja og bíða. ] [ ást fangin fangi ástar hjartað læst inn á Litla-Hrauni lykillinn brotinn. ] [ Mig vantar þetta þol- þessa þolinmæði sem gerir manni kleift að sitja og fínpússa ljóðin eins og demant. Slípa hverja hlið, laga alla vankanta þar til það glansar og skín til lesandans. ] [ Tónlist berst í eyrun mín hún er í formi vindar sem úti kvín. Regnið reynir að komast inn, lætur sér nægja að berja á gluggann minn Kaffisopinn hitar mig inn að beinum en hans gét ég ekki notið með neinum. Kem mér vel fyrir í sófanum mjúka, hrollnum í mér fer nú brátt að ljúka. Legg ég nú frá mér kaffið heita finn hvergi teppið og byrja að leita. Það liggur samanbrotið undir borði svo hissa ég er að ég kem ekki upp orði. Nú ligg ég undir því og mér fer hlýnandi en fæ hroll því vindurinn er en kvínandi Dreg fætur mína saman í hnút ligg svo dáleiddur og horfi út. Vitandi að ég bráðlega sofna og finn hvernig fætur mínir fyrst dofna. Svo næst byrja ég að hrjóta dreymir mig þá drauma fallega eða ljóta. Á svona dögum er best að vera inni og bíða eftir að rigningunni linni. Enn í millitíðinni slakar maður á og gerir allt það sem maður má. ] [ Sérstaka útgeilsun þessi kona ber skiptir hana engu máli hvernig hún er. Ótal sögur hún hefur að geyma og persónur þeirra eiga en í mér heima. Af henni marga hluti hef ég lært og mikla ánægju hefur hún mér fært. Stúlku á hún eina og stráka þrjá sem hún hefur fullkomna stjórnun á. Hún er töffari líðandi stundar og við hár alla daga hún mundar. Ef henni liggur eitthvað á hjarta hún segir frá því án þess að kvarta. Ég man þegar ég fór suður um höf sendi hún mér bréf að gjöf. Ég gleymi aldrei innihaldi þess því það var meira en aðeins eitt bless. Þar las í því hversu mikilvæg hún er mér en frænka er ég jafn mikilvægur þér? Einn daginn mun ég uppfylla okkar drauma til þess þarftu að senda jákvæða strauma ] [ Ég sagði honum að hann þarfnaðist hjálpar; Hann spurði mig ef ég gæti mælt með einhverjum, ég sagði nei en ég gæti svosem sagt honum hvað væri að honum frítt. ] [ Það er ekki furða að þú lítur út eins og tannstöngull þegar eina sem þú lifir á er varagloss, svefnlausar nætur og sígarettur og svo í enda vikunnar þegar hann gefur restina af deginum sínum til einhverrar stelpu sem er með sítt svart hár. ] [ Sýnin blekkir mannsins anda, sýnir ljósin fanga lífsins anga. Ranga daga langa blekkir oss, lífsins hraða heljarmikla foss. Sjónin segir okkur satt ? Sýndarmennskan undir kraumar! Hvað er lygi ? Hvað er sagt ? Hvursvegna er þetta á okkur lagt ? Sérhver sýn er okkar spes, það sem hver maður sér til les. Sjónræn sýndarmennska er glundurhnoðri, stjórnaðu þínu eigin stjórnborði. ] [ Farðu nú að gera eitthvað. ] [ rósrautt skýið sem ég held dauðataki í er byrjað að trosna og ég færist neðar bleksvart skýið sem ég strýk með iljunum er byrjað að þykkna og ég færist neðar rósrautt skýið sem ég held dauðataki í rifnar í tætlur og ég hlunkast niður ... á svörtu rigningarskýinu sit ég uppgefinn og hissa með rósrauðan hnoðra í köldum höndunum til minningar um rósrauðu tætlurnar sem færast í burtu... ] [ í aðstæðum sem mætti kalla "öðruvísi" uppgötvaði ég mér til ómældrar ánægju að ég hef nú þegar uppfyllt tilgang lífsins: "að enda ekki í eldhúsbréfi..." ] [ Með þrautseigju og þolinmæði þraukað hef ég margar nætur. Þá einatt hafa indæl kvæði yljað mér um hjartarætur. ] [ Fékk nóg og gefst upp, ég drep á lífinu/ Pumpa mig sjálfan upp og lifi á deyfilifinu/ Ég var einu sinni glaður en á endanum ég datt/ Beygði mig niður um tíma og skóreimarnar batt/ Batt nógu fast til að ég gæti aldrei hrasað/ Sterkur hnútur, nú ekkert getur mig slasað/ Ég lifi glaður á ný og það er skóreimunum að þakka/ Geng ekki áfram, nei, ég geng til að bakka/ Betri tímar voru fyrr en sakleysið er horfið/ Loksins er ég sáttur, og sáttur við lífsviðhorfið/ Ég geng gegnum lífið um tíma og mér líður lengivel/ Loka á dyr fortíðar og frá fortíð ég mig fel/ Loksins geng ég gegnum skónna og þá byrjar lífið að særa/ Batt skóreimarnar fast og reyndi ekki að lagfæra/ Ég lokaði á tilfinningar og ég lokaði á ást/ Bjó til eigin vansæld og fæturnir blæða og þjást/ Get ekki leyst hnútin og loksins fatta að ég er fastur/ Gekk gegnum lífið í sömu skónnum og ég gekk lang aftastur/ Ég gat ekki skilið né tekist á við eigin vandamál/ Núna þegar ég byð um skæri, hræddur, heyrist ekkert nema bergmál/ ] [ Trúðu á bollann sem þú drekkur úr kaffi Þar lest þú úr þríeyki sálarinnar. Framtíðin endurspeglast úr kaffisetleginum sem sest hefur meðfram brún hans. Þar sérð þú framtíðina skína eins og stjarna á himni "Ó, sýndu mér veginn bolli minn Órótt er mér um hjarta Hamingjuna feldu mér og framtíðina bjarta" "Æ, hvað hef ég komið auga á koma gleðidagar Ó, þetta má ég ekki afmá Sálu mína lagar" ] [ Hver er munur augnanna, blá,græn, brún eða jafnvel blönduð. En nú eru augu mín blá og vinar míns grá en hvert sem ég lít virðist allt vera grátt. Hvort sem að litur augnanna er blár eða grár þá skiptir það litlu máli því það er einungis augnanna tál. Eitt getur þó orðið hjartans mál, hvort kærleiks mál sé augna tál. ] [ Þú varst steinninn Steinninn sem sökti mér djúpt Inn í horfinn heim Glötunar og gáksa Ég dvaldist þar um hríð En áttaði mig svo Að án þín er ég ekkert En með þér ennþá minna ] [ Every time I look in the mirror I see you But the image is fake and your face is too I dream about you every night I wish every day I could have you by my side But, where did you go, I feel the lonelyness come over me Why can't you stay with me like it's suppose to be? I love you so badly, my heart doesn't pump anymore Can't say it did ever before Say I love you, I love you even more Don't judge me though I'm poor And if I make mistake don't push me out the door I can't do everything but I try I wanna give you my love till I die When I see your face I get so high Why do I love you, don't ask me why I just wanna die by your side And feel myself go farther and farther from the light.... ] [ Heilt sumar vansveftrar hamingju sem gægist líkt og maður með yfirvaraskegg í sjónvarpsþætti sem ég hefur gleymt og ég sest niður gluggaþvottamennirnir útmá hugsanir mínar og kennslukonurnar murka úr mér andann með ilmvatninu sínu hundarnir hlaupa niður göturnar eins og Bandaríkjamenn í Tet-sókninni það rignir gleraugum ofaní hálsmálin og það eina sem eftir er í huga mínum ert þú ] [ Af tilfinnginum hef ég ekki fleirri Mitt kalda hjarta allt þannig frysti, er ég hann missti. Ég hélt þú gætir komið í hans stað, hvaðá kjaftæði er það!?! Ég hefði það átt að vita, að enginn kemur í hans stað! Hvað með það þótt mér líði illa og að mitt sálarlíf sé ekki á réttri leið, en ég öskra bara á hjálp í neyð! Ég hugsa oft um að deyja en vill það engum segja! Vá hvað er ég að gera, tilfinningar eru ekki hægt burt að skera. Fyrirgefðu... Ég fæ svona köstþ Þú veist ég elska þig, vill ekki missa þig. En gerðu það, ekki særa mig. ] [ Ég fyllist bjartsýni þegar ég fyllist af huglægri ró Þegar kyrrðin, og friðurinn umlykur mig með eftirvæntingu fyrir deginum í dag, og morgundeginum Næringin af íþróttariðkun fyllir mig lífsþrótt,hugrekki og kjark. Útgeislun endurspeglast í andlitinu eftir ánægjulega útiveru í formi göngutúr, sundiðkun, eða teygjuæfingum. Ég finn fyrir frið, þegar hljótt er í kringum mig. Ég finn fyrir frið, þegar ég næ að tengja mig við bjartsýni dagsins í dag, og dagsins á morgun. Eftirvæntingin fyrir hlutum hefur breyst. Dagurinn í dag mun verða góður því hið innra líður mér vel. ] [ Áttavilltir ráfuðu stafirnir eftir blaðinu þar til þeir runnu allir í eina slóð upp í pennann í öruggt skjól. ] [ Fyrirgefðu mér, Því ég elska þig. Fyrirgefðu mér, Því þessi ást er mín þrá. Fyrirgefðu mér, Þegar ég get ekki litið af þér. Fyrirgefðu mér, Þegar ég er ósammála. Fyrirgefðu mér, Þegar við rífumst. Fyrirgefðu mér, Fyrir að elska þig. Því ég elska þig mikið! samið 16,05 ´04 ] [ loforð eru fleyi þínu landfestar sem af djörfung þú heggur léttum höndum skipi stýrir stoltur út á hið bláfagra haf ] [ i know how it is to wana die i know how it hurts to smile i know how it is to try to fit in when you cant i know how it is to hurt your self outside to die inside.. ] [ Trú mín litla saklausa veika sem ég eitt sinn missti. Ráðarlausan mann ég varð að leika en blekkt gat ég eigi honum Kristi. Farið hef ég í gegnum allt hans safn og hefur það tekið langa stund. Fyrir þessum bókum stendur ekkert nafn enn höfundurinn er ekki léttur í lund. Trúin er til staðar meðan þú sefur og yfir líf þitt allt tilgangi hefur náð Góða strauma til allra hún gefur og gefur gífurlega góð ráð. Hún mun skila þér að lokum vilja með heitum eld sem sál þín vermir Þetta verður eitthvað sem þú vilt skilja þegar eftir Guði eða Kristi hermir. ] [ Síðasti dagurinn þinn gæti orðið slæmur en einnig hinn sá besti. Það er herrann sjálfur sem ákveður það því hann er örlagavaldurinn mesti. Síðasta daginn skaltu ekki við þræta því þú hefur um það ekkert val. Gefðu frekar valinu betri sjéns og taktu á því sem koma skal. Síðasti dagurinn kemur án viðvarana en þá verður þú við lífið laus. Kemstu þú þá á betri stað sem hamingju fyllir þinn haus. Síðasti dagurinn getur verið á morgun og hann getur einnig verið í dag. En ekki vera að hugsa mikið um hann heldur stunduð áfram þitt lífsins fag. Í himnaríki er fyrir alla pantað pláss og af plássi er meira en nóg. Því er best að nýta það sem best og finna þar hina mestu ró. ] [ My friend, I just wanted to say What ever happens, I’m here for you every day No matter what you do, I’ll follow you all the way You’ve been there for me every time I needed you I know I don’t need to pay you back but I have too You don’t know how much I care for you my friend I’ll stay with you all till the end I will never leave you behind Because a friend like you, is hard to find Every time I thought my future was all black I knew I could depend that you got my back I would never hurt you in any way You are just a perfect friend, I must say One day I will pay you back You’ve helped me to keep going the right track If there wasn’t for you I wouldn’t be here I feel like I’m something when you are near Feel like something that is worth to live for I think I’m a failure, but you make me feel I’m more I never had a perfect friend like you before And I’ll never have another friend that compares to you I’ll forgive every mistake you may do Even if you wreck my car I won’t ask you why I’ll stand by your side until the day I die I would take a bullet in the head if you would tell me too I have so much respect for you Doggy dogg forever friends I’ll be there for you till our life ends I know I haven’t been as good as I should If you told me too go to hell, I would My words are real I’m only writing how I feel Don’t take this in a wrong way Don’t think I’m gay I’m just saying what is need to say One love dawg, straight on I pray our friendship will never be gone ] [ Í dagsins önn dreymir alla og særa þeir fólk og kætir. Í höfði hvers manns þeir eitthvað malla en oftast það sál þína bætir. Draumarnir því miður koma og fara en aðrir draumar koma samt í staðinn. Oft eru þeir óraunhæfir og tóm tjara og þá er raunveruleikaveggurinn hlaðinn. Menn dreyma stundum fallega snót og þær dreyma á móti fallegan mann. Þá verða hugsun þeirra að vera skjót því uppfylla þarf drauminn þann. Varasamt getur verið að fylgja þeim því þeir eru ekki alltaf ætlaðir þér. Þeir geta brotið niður þinn heim þegar draumarnir í gegnum þig fer. ] [ Það er ýtt útidyrabjölluna á og úti stendur maður með ljá. Hann gengur inn á þess að við mig tjá og fer að undir allt að gá. Ég spyr hver sé hans vilji hér og hvort eitthvað hann vildi mér. Ég spurði svo hvenær hann fer því hann yrði nú að flýta sér. Í gólfið nafn mitt hann skar og um hálsinn skrítið merki hann bar. Hann sagði að þetta væri allt sem var og við því öllu vilda hann fá eitt svar. Ég svitnaði og rödd mín varð hljóð um leið og ég sá úr honum renna blóð. Tár úr augum mínum minntu helst á flóð og fylltust öll vitund mín viðbjóð. Næst kom reykur og fylgdi mikill fnykur og spurði hann hvort ég ætti sykur. Ég horfði á hann og varð orðlaus en ekki bara það því ég líka fraus. Ég rétti honum sykurinn hvíta án þess að framan í hann líta. Hann þakkaði fyrir og glotti við tönn og þessi frábæra saga er ekki sönn. ] [ Ég heyri andardráttinn í golunni hvísla í eyra mér. Finn hvernig hendur vindsins fara um mig eins og ljúfur elskhugi. Ég læt mig falla í faðm hans hann ber mig á vængjum sínum til síns heima. Loftkastali, bláar rósir og von. Ég heyri andardráttinn í golunni hvíslað í eyra mér \"röðin er komin að þér\". ] [ Lífið, er eins og tóm flaska. Maður þarf að fylla á hana til að geta drukkið, en maður ætti ekki að vera ánægður með vatnið fyrr en maður hefur fyllt á hana sjálfur ] [ Þú ert horfin og kemur ekki aftur yfir móðuna miklu liggur þín leið. Hjartað brast líkaminn gaf sig þú gast þetta ekki lengur þá varðst að fara á brott. En þó þú sért farin þá ég í hjarta mínu veit að þú færð þína langþráðu hvíld Hinummegin við móðuna. ] [ Á sunnudagsmorgni ég ekkert betra veit en að stíga á bak fáki og ríða upp í sveit Falla meðal blóma sofna í ljúfri laut finna fyrir regni og verða blaut. Standa svo á fætur setjast á bak ríða beint til bæjar Í lítilli laut hrossið æjar. Komin svo úr sveit fara vel að hesti passa að ekkert bresti sofna inni í básnum ljúf og undirleit. ] [ Máttur minninganna er meiri en máttur kærleikans. Hann er meiri en máttur ástarinnar, meiri en máttur hugrekkis. Því hvað væri kærleikur, ást og hugrekki ef við gætum ekki einu sinni munað hvað við hétum? ] [ Vilja þeir eitthvað hafa? Srúrúrúr´rurúrúr´rur SALALALALALLALAALAL SLALALALALALALALALAL Og þetta gera menn á þingi! 77777777777777777777777777777777777777777777777777777777777777 ] [ Þú fæddist inn í þennan heim grenjandi og hefur verið það síðan. ] [ Einhverntíma verð ég konungur. ] [ Þetta var ömurlegur dagur. Ég missti niður um mig í Kringlunni. ] [ Ég skúra gólfið og þríf allt hátt og lágt, ég skalla stundum malbikið en það er svona prívat mál. Kannski... ] [ Banda út höndunum Öxin og jörðin Kallinn á bakkanum Kommar og förin Fann ekkert svar Öfund og afbrýði Kominn er tími til að Kommar verði við lýði ] [ Ég er fegurðardrottning Ég gubba sólskini ] [ Helvítis Atticus er óþolinmóður. Óþolin móður? Nei, það er Calpurnia. ] [ Ég ætla að taka strætó frá Hlemmi Strætóinn er tómur Ég stíg inn í vagninn Ég er einn Aleinn Skömmu síðar Snýr bílstjórinn sér við Og breytist í geimveru Með mörg augu Mýmörg augu Og skömmu síðar Erum við komnir í burtu Í burtu frá jörðinni Og við höldum út í geim Langt út í geim Og við ferðumst áfram Helvítis ljóshraði ] [ Hvaddað vafra? Hvað liggur á? Hvaddað vafra? ] [ Að lokum skyldi upphafið skoða Þversögn? Sumum spurningum verður aldrei svarað... ] [ Það er aðeins einn Já aðeins einn Sannur konungur Sannur guð Og þið skuluð sko ekki vera að masa! ] [ Hausarnir verða eins og brunabjöllur og æpa á mig. ] [ Í fyrsta skipti er Ægir fyrstur í stafrófinu. ] [ Það eru svo mörg merki í heiminum Sum munum við aldrei skilja En öll hafa þau sinn tilgang ] [ Æææ Lífið er ekki bara dans á rósum ] [ Undir regnhlífinni blómstra lítil og ljót börn. HVAÐA HVAÐV ] [ Abbabbabb og obbosí þetta er algjört svínerí Stendur þú fyrir þessu sukkerí Dansidansi dúkkan mí Obbosí Obbosí ] [ Hugsa sér, það er til fólk sem samþykkir hvort ljóð höfundar séu hæf til lestrar. ÓGNARSTJÓRN!!!! ] [ Ég gægist inn um glugga fortíðar, horfi á brosin, ástina. Gleymi mér í hlátrasköllunum. Vil ekki sleppa, nærist á fortíðinni. Framtíðin í augum mér, svört hola. Sé ekki fram á betri framtíð, betra líf án þín. í fortíðinni þú býrð. ] [ Þó svo að tónlistin sé gömul eða ný setjum við hana hljómtækin í. Tónar hennar geta verið léttir og þungir sem menn hlusta á bæði gamlir og ungir. Í flestum tegundum hennar er gott flæði og gott er að njóta tónlistar í næði. Tónlistin mun ávallt vissan boðskap bera og er hún fyrir löngu komin til að vera. Yfir henni sumir eru að ærast á meðan aðrir yfir henni nærast. Nýjar tegundir margir eru að kanna og berast þær hratt á milli manna. Ávallt ber tónlist nýja hljóm og aldrei er hún innihaldslaus og tóm. Yfir margt hún nær að hylja og gefur mönnum bæði styrk og vilja. Vonandi tekur tónlistin sér aldrei frí því þá yrði heimurinn vandamálum í. Líf án tónlistar væri algjör fjandi vonandi kæmi ekki upp sá hræðilegi vandi ] [ Bergrisar vakna Einu sinni voru tveir fílar að labba yfir götu Þá byrjaði annar fíllinn að hoppa "Afhverju ertu að hoppa?" spurði þá hinn fíllinn "Æ ég nenni þessu ekki" svaraði hinn. Og bergrisar leggjast aftur til svefns ] [ Skondið er að horfa á sjálfan sig því maður sér þá hinn sanni mig. Með þetta furðulega bros og augnaráð sem horfir stíft í næstu bráð. Með þetta svarta hár og þetta nef og endalausa ánægju frá mér gef. En eitt verð ég viðurkenna að skrifa meira er ég ekki að nenna. ] [ Nóttin verður löng. Tíminn kemur í veg fyrir afrek. Það er ekki til kaffi. ] [ Vita skaltu vinur minn Ef líf þú vilt gott eiga Hugsaðu þig þá um um sinn Því há er mistakanna leiga ] [ Litla gula hænan fann fræ Það var hveitifræ Litla gula hænan bakaði brauð Það var gott brauð Litla gula hænan vildi ekki gefa neinum með sér Litla gula hænan kaus Sjálfstæðisflokkinn ] [ Hérna er ráð sem segir sex Að fylgja því ekki telst til lasta Ef tegra viltu eff af x Þá skaltu ekki gleyma fasta ] [ Vittu vinur og vittu þá Ef þú vilt vera kúl Ef diffra skaltu fastann k Þá verður útkoman núll ] [ Vinur minn það kemur að sök Ef þú hefur um k kosti að velja Og ef telja skaltu n stök Og þú ákveður að tvítelja ] [ Hvar er gleðin sem mér var gefin hvarf hún út á höfin blá? En nú er hún á þeim stað þar sem hjörtun eru hætt að slá. Ég sé það sem fáir sjá og dreg þau orð aldrei í efa. Eignast hluti sem mig langar að fá en það kennir um leið að gefa. ] [ Það sem þú gerir hverju sinni mun ávallt skipta máli. Það sést á sálinni þinni og einnig þegar þú hana brennir á báli. Það þýðir ekki að vera á stöðugum flótta enda brátt mun allt saman rætast. Örmagna þið eruð og full af ótta þannig mun ekkert við líf ykkar bætast. Tíminn læknar sko enga sorg maður verður með henni að lifa. Samt rölta margir súrir um öll torg á meðan góðir tímarnir burt tifa. ] [ Ég er aleinn hérna enginn annar á stjá. Allt svo dimmt og kalt samt er hoft mig á. Mér líður líkt og líki er fölur blár og er liggjandi. En fer ég til himna eða í brennandi síki en líkaminn minn er rotnandi. Á maður að trúa á líf eftir dauða það er stóra spurningin. Ég mun hverfa skjótt frá lífinu auða eða það mun segja krufningin. ] [ Sá tími er kominn,þá engin er stund, til að framkvæma áliðið heit, með blóðrauðum kvöldhimni þú hnefa þinn steyttir, þú skildir verja þinn ættjarðar reit. Hvað höfðum við gefið,á líðandi stund, nema rétta fram blóðuga hönd, og blóðið það litar og gefur þér þrá, að hverfa frá vígvalla strönd. Við hugum að lykli, hvar liggur sú leið, í vökulum draumi er aldrei mun rætast, en vatnið mun koma og fara á ný, sem upphafið og endirinn mætast. ] [ Getur þú ímyndað þér hvernig það er að hafa ekkert í friði fyrir öðrum? Ekki neitt, ekki einu sinni það sem þú skrifar, og að sjálfstæð barnsleg hugsun þín sé ógn við syndir hinna fullorðnu. Orð þín og barnslegt sakleysi ýfir upp kvöl og kveikir undir báli fyrirlitningar verndarans þér í garð, hún sér svo eftir að hafa alið af sér eitraða ótukttinna sem aldrei mun verða neitt og átti aldrei að verða að sjálfstæðu lífi. Og fátt það sem þú segir eða gerir er talið skiljanlegt eða í takt við kvalafullan fátækan veruleikann sem er „algildur“ í heimi hér! Aldrei fá orð þín og tilfinningar þá athygli og ástúð sem þú leita fetir. Að vinna af kappi að föstu markmiði er ekki í samræmi við hugmyndarfræði mann fyrirlitningarinnar og ef að þú minnist á eitt hvað samskonar, bara takmarksins vegna, er það sagt vera „óráðshugmynd“ og það er hlegið af þér og þú sagður skrítinn eða vitlaus, en líklegast er um báða kostina að ræða. Frændur þínir hrækja aftan á bak þitt þegar þið eruð á leiðinni heim eftir að hafa verið niður við höfn að drepa og pína sjófugla og þeir breiða yfir sök sína, því það er þú sem er sá vondi. Klyfjuð af illgjörðum heimsins læra eldri systkin þín það af styrkri haldleiðslu að þú sért illur, vitlaus og skrítinn vegna þess að þú ert alltaf að hugsa og/eða tala, og þess vegna hata allir í þínu Helvíti þig. Aðeins vegna þess að innra með þér logar kærleiks ljós sem er óslökkvandi sem verður að fyrirlíta, af því að það kastar birtu í átt til þeirra er uggandi eru yfir orðum þínum. Að hugsa er ekki lengur heimilt vegna þess að hún er orðin full skír fyrir fólk með tæra samvisku sem ber af sér allan skilning á hegðan þinni og háttum og upp fara vaxa hugmyndir um að þú sért andlega vanþroskaður og of virkur og að þín bíði að leggjast í dauðans gröf snemma á lífsleiðinni og það birtir yfir verndaranum sem sér í hugskotum sér syndina deyja hægt og hægt og hugsar það fari að horfa til betri vegar þegar helvítis barnið er dautt. Og öll mannúð hverfur endanlega úr tilvistinni líkt og þegar sólin sest til viðar nema þegar sína þarf alla þá ógæfu er bölvuð þú ótugtin ert hinum fórnfúsa verndara sínum og fólk fer að kenna í brjóst um hana. Að hugsa! Slíkt er vitanlega engvum, nema stöku vitleysingum er sitja einir inn á skrifstofum sínum gagnslausir mikilvægra fólki sem getur drukkið brennivín og farið ham skiptum frá sárkvöldum mannseskjum yfir í slefandi siðlausa drýsla sem tilheyra undirdjúpunum og kunna hin eina rétta lífsgaldur sem er að lifa í siðspillingu og hórdóm og svo einungis þegja um brot sín á sál og vernd andstyggðarinnar. En það verður að þvinga helvítissakleysingjann til að halda kjaft hvar sem hann er niður kominn. Ekki skal hann opna munninn án harðrar grimmilegrar andlegrar kúgunar og kinnhesta, þó að það kosti hann lífið, og ef það verðu innan tíðar þá kannski hefst líf mitt á ný, hugsar drottnarinn. En fara verður varðlega þegar barni skal banað með klókindum og siðspillingu vegna þess að drýslar og saurlífskvendi helvítis verða einnig að hlúa að æru sinni á meðal manna og þá eru niðurbrotnir aumingjar gott skjól fyrir veraldarinnar viðbjóðslegu gæsku og þeir vekja líka upp meðaumkun sem er svo góð ef maður á hana ekki skilið. Í huga þessarar syndugu konu er barnið ól varð meðaumkun að samúð og samúð að meðaumkun, hatur af ást og ást að hatri, fyrirlitning varð í sjúkum huga skilin sem gæska og háðung sem blíðuhót og hún óskaði þess að fá að verða aftur ósnert snót er aldrei fékk blíðu hót sem svo óx upp sem hin kolsvarta lastana rót. Að hugsa færð þú samt í slagtogi við eldir drengi ef að um afbrot, drykkju eða fjáröflun til fíkniefnakaupa er að ræða, sem farinn eru að tilheyra tilvistinni eftir að þér voru gefinn fíkni efni 12 ára gömlum af leiðbeinandi gæsku hönd þíns saklausa bróðir og þú lærir að þá er hugvit ekki illa séð og það má nota þar. Þetta er þitt hlutverk á meðan þú lifir í mannanna vesældar heim, hér er allt í föstuskorðum, hér er allt í „góðu“ svo ekki segja frá kvöl þinni af því að ekki má ógna öruggri stöðu þeirra er telft hafa sakleysingjanum fram sér til hlífðar og upphefðar. Á meðan þú heldur þinni stefnu í átt að gröfinni er allt stillt og rótt hjá þeim sem einhverja siðferðilega ábyrgð ættu með réttu á velferð þinni að axla. Þetta er þitt líf og ekki skaltu voga þér að gefa þér að sullaralegum tálsýnum eins og þeirri heimsku tálsýn að menntun sé af hinu góða og að það sé gott fólk sem sé menntað, því ekki er það sá veruleiki sem þér var fundinn staður sakir ofdrykkju og andlegrar fátæktar þeirra er höfðu fyrir þér vit. Þú átt að vita að slíkt fólk ekki metið að jöfnuði við þau skítugu klæði sem þú klæðist í. Vei, þér ef þú vogar þér að gera aðra tilraun til að rísa upp til að brjóta upp yfir þetta fyrirkomulag því þá þurfa þau sem ábyrg eru að axla sjálf okkar klyfjar og blekking sú er að nefnd er hin óvéfengjanlegi sannleikur gæti tekið að leysast upp og ljós þitt Ótuktarinnar gæti farið að vera öllum sýnilegt. Og ef byrðin fer af þér ungum drengnum ertu sakaður um að„kúa“ vegna þess að þú reifst þig lausan frá dauðans greipum svo þú gætir lifa þínu lítilsverða lífi í réttlátri ró. Einn án samúðar því þú fórst frá dýpstu hyljum helvítis og hleyptir birtunni niður í heldýpið. Þú ógnin sem veittist að öðrum sem barn í tryllingslegri angist og heift á er að sýndist af óskiljanlegri ástæðu eða ónáttúru einni samann, hafði þá eftir allt réttlátan málstað að berjast fyrir... Þú hafði þér lífið fyrir stefnu og markmið og varðst því að umbreyta þröngri veröldinni kringum sig í takt við heilbrigða skynjun þín og skynsemi og lýsa yfir það bjartan loga sannleikans og axlaðir þínar eyin byrðar... ] [ Who has planned my destiny, i know for sure that was not me. Where does my future path go? can you please point, at someone who knows? ] [ Ekki afklæða ást mína þú munt finna gínu Ekki afkæða gínuna þú munt finna ást ] [ ég heyri þrusk í þessu djúpa húmi, eitt þrusk sem berst mér gegnum augnalokin og þögnin er þess eina verksummerki lágt þrusk sem vekur mig í mínu rúmi svo máttugt að mín værð er burtu rokin, og hvíslar að mér heilu listaverki það gegnum myrkrið lævíslega svífur og leitar á mig þar sem ég ligg nakinn, um nóttina það dreifir sínu smiti það reynist eiga bit sem beittur hnífur og brunagadd sem nístir eins og klakinn við hljóm þess sprettur á mér svalur sviti ég bíð en þruskið heyrist ekki aftur og engin svör mér skiljanlega gefur sú kyrrð sem ekki kemur frá sér hljóði eitt lágvært þrusk, nú þrotinn er þess kraftur og það er kannski draumur manns sem sefur en ég skal gera það að þessu ljóði þrusk ] [ Ég fann að lokum þá lind sem ein gat gefið langþráða svölun mínum þorsta og hjarta. Í kyrrð hjá henni eitt kvöldið ég sat og úr klöppinni vatninu jós. Á grein söng þröstur sinn bljúgasta brag meðan bjarminn af sólsetrinu lindina gyllti. Þar sá ég kvikna hinn dýrasta dag og í dögginni lifnaði rós. Ennþá kliðar hún, þó að augum mínum hún sé horfin og hulin af sinu sé lindin, sem eitt sinn var. Nú er þornaður kletturinn þar sem hún streymdi en þögnin hið einmana svar. ] [ Þau loksins komust á toppinn í þetta sinn ekki nær oltin öll marin og blá svo stór sá á í raun voru orðin krókloppinn. Eftir mörg erfið ár og fleiður og sár og brambolt og brölt þau urðu hálf hölt þau tóku í gegn á sér kroppinn Með útsýni meira en flest okkar hinna þau njóta þess ekki þaðan af minna og syndgunum drýgðu þau gáfu langt nef í þeirra huga var ekkert ef Á tindinum fagra undu þau sér þar glampaði og glóaði á þeirra ker En í valnum ættingjarnir lágu þeir neituðu að beygja sig fyrir goðunum háu þeim leist ekki lengur á þeirra hátt því finnst enginn flötur á friði og sátt. ] [ Hvaða blóm er fegurra en blóm? Hvaða vatn er tærara en vatn? Hvaða litir eru litríkari en regnbogi? Hvaða snjór er hvítari en snjór? Hvaða steinn er lykill að sálinni? ?????Augun þín!!!!! ] [ Ég er ástfanginn sem Rómeó, illur sem Macbeth, þunglyndur sem Hamlet, abbó sem Óþelló, slittinslegur sem Ríkharður þriðji, Brjálaður sem Sesar, næmur sem Hinrik fjórði, lævískur sem Jagó, ég er Shakespeare persóna en ég lifi þó enn, því lífið er leikhús. Hvernig mun ég deyja? Þeir deyja allir ungir, fremja sjálfsmorð eða drepnir, nei ég held að ég lifi, lifi og verð gamall, ef ég lifi þá er ég ekki persóna, þá er ég bara ég! ] [ Lífið er lag, með melódískri laglínu, viðlag sem fjölskylda, uppsveifla sem gleði, niðursveifla sem sorg, lífið er lag, með öllum hljóðfærum, heilum kór og tækninýjungum. Lífið er lag, sem allir kunna en sumir gleyma og falla frá, sumir syngja, sumir humma, sumir blístra aðrir þegja. Lífið er lag, svo væmið svo rokkað, svo þungt svo veikt. Lífið er lag, lagið er líf. ] [ Blómin í hlíðinni kyssa sólina, útsýnið blæs í andlitið, trén dansa við umhverfið, íkorninn syndir í grasinu, lautaferð undir rósum, söngur frá dýrum, sólin sest í Thames, tekur sundsprett og lýsir hæðina, náttúruilmurinn ber niður mengunina, elskendur í laumi, ó bara þú værir hér. ] [ Krossfestingin er pynting sem enginn gleymir, vitlaust fólk sem lifir í fortíðinni, horfir aldrei fram á við, hvað er í núinu? Pyntingar milljóna manna um allan heim, pyntingar í skugga eins manns sem dó á krossi fyrir 2000 árum. ] [ Sjávariður, söngur, Baldur, bátar, töskur á traktor, vinir og vín, saman í sorg, gaman í gleði, burt frá borg, Bítlar og blóm, kríur, kuldi, rigning, rok, ástarlaut, lundi, grátur, gifting, hljóð í hundi, sumar og sól, kossar, knús, hundgömul hús, hlandað í hey, fjör í Flatey! ] [ Einn dag las hun bok, sokk inn i bokina, fell a Personuplanetuna, fann thar folk, personur ur oskrifudum sogum, fagrir fossar, fridur og kossar, kynnist personum ur gamanleikjum, odrum ur harmleikjum, en sogurnar skrifast, personurnar hverfa, vinir hverfa, hun faer heimthra, fost ut i geim, kemst ekki heim, En allt breytist i thessum heimi, jafnvel lengst, lengst ut i geimi. Gamanpersonur vilja gledi, harmpersonur hatur, svo hefst strid, fossarnir fogru hverfa, fuglarnir haetta ad syngja, en hun er hun og kemst ekki heim. Er thetta draumur, eda er thetta veruleiki? ] [ Biblían er góður skáldskapur, um góða manninn Guð, og góða soninn Jesús. Bók skrifuð til að bjarga mannkyninu, en varð í staðinn vopn, vopn sem er að tortíma heiminum. ] [ Leggst niður og reyni að detta úr sambandi, einhverskonar nirvana frá amstri hversdagsins. Hugsanir flæða inn um kúpuna og halda áfram út á við í heimsókn til nágranna míns sem aðeins seilist eftir hugarró líkt og ég. Einhverskonar útvarpsbylgjur sem deyja ekki, sækja á mig kveld eftir kveld. Loksins stekk ég síðan á einum fæti inn í hyldýpi algleymisins... ...flótti... sem varir í fáeina klukkuhringi. Ranka við mér úti í horni, á afarþægilegum járngormum. Alheill og fleygi mér út í, sömu undarlegu hringrásina á ný. ] [ Tilkoma týndrar sálar í hjarta mínu laus við alla trú leysir þig undan skyldu þinni vegna andlegrar vanheilsu Í þetta sinn er afneitunin mín ekki í þinn garð heldur tillaga til guðleysis Skyldi einhver vera til staðar? ] [ Kalla á frelsaran drep í nafni hans Föður alheimsins réttlæti sök mína Með rangfærslum því hvað er trú ef ekki skjólveggur illverka Eða misskildi ég eitthvað? kv, Mannkynið ] [ Til himnanna reisum við hendur og tilbiðjum svokallaðann guð. En vildum við ekki heldur fá sannfæringu en ekki tuð. Úr Bókinni góðu við lesum hvern dag og lærum við alltaf nýtt. Þegar kemur að því að reyna á það verður okkur ekki ýtt..... af stað. Því verðum við eigi að setjast í bíl og starta vélinni hanns, biðja svo guð um að keira í burt að við segja til vegar og stans. Guð leiðir okkur áframm og hjálpar okkur við, að lifa þessu lífi sem kusum við að lifa. Hann segir okkur hvaða dyr og við göngum þar í gegn. ] [ Það einsa sem osama var að meina er hann lætur sig dreima, var að palestína sat undir árás viltra manna og tvær milljónir manna deyja þá ekkert bandaríkjamenn segja!!! En árás á U.S.A og 10.000 manns deyja þá verður allt brjálað og bush vill stríð heyja!!! Meikar það eitthvað sens? Eða er ég bara rugluð? ] [ Nú sefur þú í kyrrð og værð og hjá englunum þú nú ert. Umönnun og hlýju þú færð og veit ég að ánægður þú sért. Ég kvaddi þig í hinsta sinn Ég kveð þig nú í hinsta sinn. Blessun drottins munt þú fá og fá að standa honum nær. Annan stað þú ferð nú á sem ávallt verður þér kær. Ég kvaddi þig í hinsta sinn Ég kveð þig nú í hinsta sinn. Við munum hitta þig á ný áður en langt um líður. Sú stund verður ánægjuleg og hlý og eftir henni sérhvert okkar bíður. Við kveðjum þig í hinsta sinn Við kvöddum þig í hinsta sinn. ] [ Stundum er best að segja ekki neitt því þá getur enginn annar neinu breytt. Hingað til hafa allir áfram mig leitt, nú finnst mér það ástand orðið þreytt. Nú mun ég gera hutina sjálfur þó svo sannleikurinn í því sé hálfur. Því fyrir mig veit ég hvað er best og forðast skal ég allt sem er verst. ] [ Inni í skýjunum sá ég nafn þitt skrifað og bjarminn og ylur mig tók. Þegar horfi ég betur sé ég andlit þitt föla og tárin sem leka á kinn. Ég elska þig heitar en orð geta tjáð en okkur var ekki ætlað saman, og sé ég það betur ef að er að gáð hversu heitt ég þrái þig. Ef gyðjurnar leyfa og guðirnir góðir fáum við að vera aftur tvö. En ég veit að þú vildir ekkert meira en ég lifði fyrir okkur saman. Ég horfi í gegnum tárin á lífsleið mína og sé hana ekki án þín en einhvertíman í ókominni framtíð verðum við aftur tvö. ] [ sit á kúlunni og þurrka af jörðinni og skerpi línur landanna með risastórum pensli það þarf að hlúa að blómum í Afganistan kengúrum í Ástralíu jöklunum á Íslandi svo allt þurrkist ekki út og ekkert verði eftir nema byssuskefti hermannsins gamlar umbúðir af prins pólói á víðavangi og kerti gamla mannsins sem brennur svo glatt að það sést alla leið frá Úsbekistan til Ítalíu hef mig hægan og vindi tuskuna, bleyti pensilinn og safna rusli ljósin á bæjunum í kring eru eins og friðarkerti í myrkrinu ] [ Skil ekki...... Þögnina, sem er þrúgandi Biðina, sem er slítandi Söknuðinn, sem fer ekki Ástina, sem er svo ólík Veit ekki.... Hvað þú ert að hugsa Hvað þér finnst Hvað á að halda Hvað er og verður Ég veit og skil.... Ég er ástfanginn ] [ Langur dagur...löng er stundin langur vegurinn til þín. Ég horfi með söknuði út á sundin ég vildi þú værir komin til mín. Þú ert að eilífu í draumum mínum. Ein í huga mér, ert þú Ég þrái að vera í faðmi þínum. Það vildi ég að væri, NÚ! ] [ þú otar fingri og maðurinn er dáinn þú otar fingri og húsin eru rifin niður þú otar fingri og múr milli manna er byggður þú otar fingri og barnið sér ekki meira þú otar fingri og öll þjóðin lifir í ótta ... af hverju otar þú ekki þínum fingri í þá átt sem hann á heima? helvítis fíflið þitt. Vinsamlegast, Daníel Páll Jónasson, Reykjavík, Íslandi. ] [ í bláum tónum samlit sjónum eru fjöllin fagurlega útskorin skuggamynd í vestri upplýst af bakgrunnslitum úr báli sem bara er hægt að lýsa með litum og tónum sú mynd er fegurri en fegursta hugsun sem flogið hefur um huga manns án orða ] [ Alkahól er mestavopn- sem kæfir mann og drepur. Litlum krökkum þykir vont, en Unglingunum betur! ] [ Ah man, I’m looking in her eyes I think I could die, twice I think I’m going to give myself some advice Before I find out I’m not going to get what I’m dreaming about All my thoughts are fake Every time I look at her, my inside starts to shake First time I saw her I started to melt There are no words to describe how I felt All the sudden my loneliness went away I wish I could feel this every day But on second thought, I thought again We can’t be anything than just a friend I dreamed wrong Could have told myself all along Too good to be true Should have knew I would never get someone like you I filled my mind with lies I just feel so perfect when I look into your eyes But I won’t get you Too many obstacles that I need to get through I think you’re just so perfect for me too The worst part is, there’s nothing I can do…. Again I start to think My feelings are going to sink So much pressure to take Once again my mind to you is fake Once again my inside has started to shake The reason is clear I feel helpless when you are near Please touch me so I can feel safe Because when I’m with you I don’t know how to behave My feelings to you are still strong I thought I could have you, I was wrong Like before, my mind is filled with lies But I still fly away when I look into your eyes Every day I scream for guide What will I need to do to have you by my side Are my thoughts right Will we ever unite? For you I will burn my heart Oh God, never do us apart I beg to heaven to make us one I’m in a competition with God, and he won I refuse to loose you And no matter what you do Don’t go away Please don’t ignore what I say I must confess for everybody here today I love you more each passing day These confessions could make people hurt I’ll take my chances to be left alone in the dirt I don’t care what other people say I don’t care because of this I might get killed one day I taste the air to make sure it’s real I touch the air to make sure I can feel But I know it’s true I’m still so in love with you Maybe you deserve more than I can give from me Maybe I’m blind, maybe I can’t see But my feelings are still to strong to break My inside still starts to shake Your loving is to strong to take I’ve made the decision about you Killing these dreams is what I’m going to do... ] [ Á hversu miklum hraða þarf ég að vera á til að hitta þig hjá hjarta þínu ? ] [ I tell you about Lech and sons! ] [ Ég og þú. Hún og þú. Var það eitthvað sem að ég sagði, eða kannski gerði? Eða eitthvað sem að ég gerði ekki, eða sagði ekki? Hvað er svona frábært við hana, sem að þú sérð ekki í mér? Eða hvað er svona ömurlegt við mig, sem að þú sérð ekki í henni? Þú og hún... og ég... ] [ Eymingja íkornamaðurinn, hann á enga vini. Því hann er hvorki, fugl né fiskur. ] [ Andvaka er andskotans böl og umfram allt líkamleg kvöl. Geta ekkert gert nema liggja og fyrir löngu er byrjað að skyggja. Maður liggur bara og bíður og hægt hver mínúta líður. Þráir meira en allt að sofna, líkaminn þreyttur og farinn að dofna. Brátt verður maður alveg búinn orðinn pirraður og afar lúinn. Klukkan þá 7 að morgni er og klukkutími þar til í vinnu maður fer. ] [ Hann fæddist, hann óx, hann frelsaði, hann dó og steig upp til himna. Hann snýr brátt aftur trúa menn, á jörðu til manna sinna. Hann borinn var í fjárhúsi, því upptekið var hótelið. Hann græddi vel er fæddur var, fékk gull, myrru og allskonar. Hann gerði margt og mikið gott, hann gekk yfir vatn og það var flott. "Já hann er eins og þið heyrið nú: okkar heilagi maður Jesú". ] [ Hin eilífa hringrás lífsins: ég fer fram og aftur, aftur og fram "Hann var að moldu kominn" eru hin eilífu orð, "og að moldu verður". Hvernig ætli það sé? Að vera grafinn, að rotna og vera étinn, í líkkistu, í jörðu, að verða að mold, eða öðru. Ég kýs að brenna, að brenna í lífvana báli, að verða að ösku, sem dreift er um, á mína allbestu staði. Ég vil brenna! ] [ Það er eitthvað sem vill hafa völdin bæði yfir vitund minni og sál. Hvað það er veit ég hreinlega ekki en í huga mínum kveikir það heitt bál. Er þetta einhver sem mig þekkir og leynir því og um leið mig blekkir. Maður vonast til að fá að vita ég berst vel sem kostar blóð og svita. Vangaveltur og kvalir sál mína fylla á meðan ekkert hrós tekst mig að hylla. Hvað á ég að vita og hvar á ég að leita og hvaða bragði er best að beita. Er þetta tákn sem engin trúir á sem feykir burt því sem er búið að sá. Á ég að sjá úr þessu framtíð eða er þetta sem gerðist í fortíð. ] [ Eitt sinn gekk ég lengi lengi um græn tún og fögur engi. Mætti ég þar faguri dís bað hana að vera þar til nýr dagur rís. Hún strauk vangann minn laust en í þeirri stroku fann ég mikið traust. Augu hennar voru fallega blá og man ég hversu lengi ég horfði þau á. Hún bar um halsinn fallegt skart sem um persónu hennar sagði mér margt. Alltaf man ég þessa mey því fegurð hennar mun gleymast ei. Ég hitti hana aðeins í draumi en þá hefur hún mig í föstum taumi. Ekki mun ég hitta hana á förnum vegi ef svo verður mun ég segja frá þeim degi ] [ Ég hugsa meðan degi hallar og þannig tekst mér sjálfan að næra. Upp koma hugsun um konurnar allar einnig mistökin sem ég náði af að læra. Flokka allt í poka og vel að herði sá er mikill og þungur. Þar er allt sem ég áður gerði og flest þegar ég var ungur. Ég hef kvatt þetta en ekki með tárum því í mörg horn er að líta. Margt og mikið við hugurinn bárum en okkur tókst að frá okkur bíta. ] [ Upp er komin morgunsól upplýsir hverja brekku og hvern hól. Henni fylgir fuglasöngur hlýr fyrir utan gluggan þar sem maðurinn býr. Hún rennur upp róglega hljóð en vekur samt heila þjóð. Gefur víst deginum sitt gildi, er einmitt það sem landinn í gær vildi. ] [ Hann afi á Ísó, á Öldunni bjó af dugnaði og festu hann stundaði sjó. Gaf okkur líf, með því sem hann úr hafinu dró á hafinu barðist hann með sinni stóísku ró. Að stunda sjómennsku í hálfa öld og stjórnað af þeim sem tóku sér völd. Þeir sem mörðu fólkið með illskeyttum anda en aldrei tókst þeim að beygja hann Balda. Standandi á bryggjunni og stara upp í bæ hann verður að fara að draga lífsbjörgina úr sæ. Það er sárt að kveðja sína með leyndu tári það rífur í hjarta, á mann öldunar, djúpu sári. Í lokin er það yndislega holt og bolt að fá að vera með sitt vestfirska stolt. Að hafa barist við Íslandshafið til að fá laun þá er gott að fara í land og brenna sína eigin kaffibaun. ] [ Að vera á sjónum er göfugt gott þó mörgum finnist það æðislega flott. Krabbarnir í landi þeim leiðist mest að missa af þessum sem okkur finnst best. Að fara út í blámann í öryggri hönd og sjá þar í roðanum látur og strönd. Sjómannslífið er okkar blóð og bönd og fara út á miðin fá að fæða önnur lönd. Það er sjómannsins eðli að bera höfuðið hátt þó þokan og hrokinn sendi seglin í gagstæða átt. Gersemin okkar er hafið sem við búum við ekki vera hræddur við að setja seglin í bið. Hafðu þann mátt sem þér finnst best að bera því sjórinn er góð og yndisleg vera. Við verðum að passa hvors annars lát því að alda getur verið hrjúf við lítinn bát. ] [ Af hverju að lifa, ef lífið þig hatar? Til hvers að reyna, ef öllu þú glatar? Lífið er staður, sem ei gefur grið. Á endanum göngum, um himnanna hlið. Þá væri nú alltaf, svo gott og svo blítt. Bara ef ég gæti, nú för minni flýtt. Þá væri allt svo betra, ei áhyggjur meir. Rynnu þá saman, heimarnir tveir. Ég þyrfti ei að hugsa, ég þyrfti ei að sjá. Þá mindi ég dvelja, framliðnum hjá. Ég sættist við lífið, það hefur sinn gang. Faðma ég heiminn, og sest í hans fang. ] [ Ástin, smýgur inní hverja frumu og étur þig upp að innan Svo á endanum sérðu að þú hefur orðið vitni að því Þegar heimurinn féll. Þegar allt kláraðist orðið vitni að endalokunum. Þú stendur ein á meðan allt hrynur í kringum þig og svo finnur þú að ljósið slokknar...... þetta er búið. ] [ ALWAYS FOR THE MUSIC! JÉJÉJÉ I was walking down the street. JÉ JÉ. ] [ The Englishman is calling. He is dying on the hill. Bredrose dumb red of wine, so much thicker than his life. His ill wife is falling. ] [ Ég bið bara um... allt. ] [ ] [ Helber kjúklingahaus, hefur ekkert að gera. Úr prentsmiðju dónakalla kemur símaskráin. En ég er nakinn og einn. ] [ BOB Bob di did di did you die in the end? ] [ Ég er ömurlegur maður, í ömurlegu húsi, með ömurlegri vinnu. Ég er ömurlegur. ] [ -Pabbi, hvernig verða börn til? Tannstönglar. Breytingar í aðsigi. Breytingaskeið? Skalli. ] [ Æ Æ Ó Ó. Æ Æiiii Á Á Æ Ó Æ Ó Æ Æ. ] [ Sofa urtu börn og enginn þau svæfir. Vaka geimbörn en strætóbílstjórinn þau svæfir. ] [ ER ÉG EINHVER TRÚÐUR HÉRNA?!!! ] [ Svo undrandi, þegjandi, fylgist ég með þér Svo elskandi, sofandi, ranka ég við mér Svo brosandi, hlæjandi, tala ég við þig Svo grátandi, grátandi, hugsa ég um þig.. ] [ Í upphafi skal endann skoða ........................................já ok, ég sé hann núna. ] [ Ég flaug um skýin í nótt sperrti vængi mína og þaut um loftin. vindurinn þaut um hár mitt, strauk vanga minn og kallaði fram tár í augum mínum. Í dag ætla ég hinsvegar með vængina í hreinsun, til hans Tóta. Svo þeir verði hreinir fyrir kvöldið. Því í nótt mun ég snerta engil. ] [ Whereever I will go, whatever I will become. You only need to know, that is what had to be done. The path might not make any sense, and I do not want to lecture. You will have to zoom with the lense, to notice the point in the picture. ] [ Okkur er haldið niðri. Sprautuð niður með deyfilyfjum. Hvað er ljóð? Aðeins orð. Aðeins andardráttur kulnaðs hjarta. ] [ Draumalandið Ég hverfa vil í uppdiktaðan heim Hamingjan er þar á hverri grein Í fantasíu næ að fanga þig Fögur ertu þar og elskar mig Svo tekur tómið við og tilgangsleysið fordómar og skilningsleysi Ekkert er sem áður var aldrei fær ég svar, aldrei fæ ég svar Þá líð ég aftur inn í daumaland þar skipinu er ekki siglt í strand Við göngum saman gæfuríka leið Ég fagna þín og ávallt þín ég beið En að lokum tókst að sameina Illúsjónir og raunleika allt er fært á betri veg En horfin ertu á braut ] [ Engilssprettur dansa í grasinu græna á meginlandi Evrópu Eitt verð eg að segja Að kalt verður alltaf í Siberiu Þær hoppa í grasfletinum og útum allt Fjölga sér fljótlega Það segi ég satt Þær dansa, hoppa og skoppa um víða vegi Á við og dreifð um trjátoppa og kætast á nóttu sem og degi ] [ Ég er líkt og lauf í vindi, fer hingað og þangað. Ég berst um gleði, sorg, borg og torg, stundum er ég að einhverju suði og tuði, en aðra stundina í algeru stuði. Svona er bara lífið! ] [ Grátur og hlátur skiptast á, En ég bara sit og horfi á. Lífið áfram skundar. Á undan mér, Ég sit eftir, Sit eftir með aumt ennið, Eftir þig. Þú skildir mig eftir. Köld nóttin, Hún læðist um, Bankar uppá Allstaðar. Er hvergi velkomin, En treður sér inn til fólks, Inná fólk. Síast inn í huga þeirra, Alltaf köld. Hvergi huggun að fá, Bara jájá elskan, Já ég veit. Sagðir, þú grést, Ég græt aldrei. Þú laugst. Þú lýgur alltaf, Hvert einasta eina orð, Það er logið. Tillitslausa skepnan þín! ] [ Svik. Alltaf þessi stanslausu svik, Þú situr ein eftir með allt. Alla ábyrgð, Allar tilfinningarnar, Reyni að byrgja þær inni, En get það ekki, Er ekki nógu sterk, Ekki nógu köld. Er ég bara frík, Tilfinningafrík? Hvað er ég? Af hverju sveikstu mig? Hvað gerði ég rangt? Hvað er að mér? Hvað er eginlega að þér, Ert eitthvað vangefinn, Að þú hafir gert mér þetta! Eitt er víst, Þessu mun ég aldrei gleyma. Ég mun aldrei brosa til þín aftur.. Aldrei tala við þig aftur.. Aldrei treysta þér aftur.. Aldrei sjá þig aftur. Þú litla ljóta afstyrmi, Ég hata þig. ] [ Lífið? Til hvers? Hvers vegna? Ég skil ekki. Af hverju ég? Af hverju alltaf ég? Alltaf lendir allt á mér. Af hverju... Aðeins þögn, dauðaþögn... ...fæ ekkert svar. ] [ Þær svífa þarna aleinar tvær og við vitum að við eigum þær. Við munum staðsetningu þeirra en í dag og á næturnar setja þær sinn brag. Svo þétt sama þær liggja við lítum upp þegar fer að skyggja. Á hverri nótu þær saman ljóma þá er eins og eitthvað fari að hljóma. Þegar allt úti er orðið svart þá skína þær tvær svo engilbjart. Þær segja okkur að við hamingjuna bætist og úr flestum okkar draumum rætist. Stjörnurnar koma aftur næstu nótt en þá verðum við af þeim bæði sótt. En biðin eftir þeim verður stutt og til ævintýrana verðum við flutt. ] [ Í Helvíti er Coka cola sjálfsali sem kosta 100 krónur í amfetamín á spott prís og cokaínið gefins. Bankastjóri og verðbréfaguttar Sem valda gengishruni árvist og varanlegri óðaverðbólgu með óvandaðri efnahagsstefnu. Svikulir Forstjórar með ímyndarhönnuði á launum Bókara sem hagræða tölum svo fjárfestar bíti á öngulinn Og lævís kvendi sem flakka á milli seljandi sig og- stolnum upplýsingum hæstbjóðanda. Og ráðandi herra hlær og lætur allt vera stjórnlaust Hugleiðir jafnvéla að gefa vald sitt frá sér Með draumóra um að þurfa ekkert að gera Eins og drottnara heimsins er einum lagið. Og göturnar eru fullar af [Gáfuðum] götustrákum Sem dreyma um að verða eitthvað af ofantöldu En brjótast inn og stela litlu bitunum sem gleymast á borðum höfðingjanna. Lögreglumenn Helvítis vernda þig gegn gæsku Sem einhverstaðar óeinkennilega vill til að leynist Í mannlífinu og ef að hún finnst er hún Inni lokuð í ævilangt fangelsi eða á geðveikrahæli. Perrvertar eru í stöðum biskupa, presta og annarra sálusorgara Sem lokka börnin til sín í nafni karleika og góðmennsku. Dómarar eru klámfíklar og drykkjumenn Sem engum gefa grið nema sínum líkum. Og þú hefur verið dæmdur til eilífðar vistar hér en mundu að dópið er ódýrt og vínið frítt Og losti er sú dyggð sem þú hélst að hún væri Og heiðarleiki skiptir engvu máli. En ég áminni að það varst þú sem seldir mér Sálu þína í skiptum fyrir óverðtryggt lán í erlendri minnt Til að geta keypt þér demanta og verönd Svo nágranarnnir myndu ekki sjá að þú værir sparsamur og hygginn. ] [ Að sitja einn og kafna, kvöl með tóma hendi, kaldsveittur horfa á litlausan vegginn, böl augun síga, orðinn frekar þreyttur Kyssi með kinninni gólfið kalda fell út, um annan heim þeysi ég ólga, mig strýkur stór alda ég er sagður látinn úr....loftleysi ] [ Geng ég um á æskuslóðum. Minningar flögra um og setjast á minningargreinar. Á leiðarenda fljúga þær allar tilbaka og bíða frelsis á ný. ] [ Lítið er af lífsins gæðum, leita þeirra dag og nótt. Þarfir hef og þrár í æðum, sem þjóta um og hverfa skjótt. ] [ Einsamall hvíli mig árbakkann við, upplifi sjaldgæfan róandi frið. Með sólinni gleypi ég náttúru nið, og nýt þessar stundar frá mannanna klið. ] [ Í tunglskini ást sína tjáði hann mér, töfrandi konu hann óskaði sér. Við giftumst á þilfari í glampandi sól, glæsilegum manni þá ævina fól. ] [ Ég horfi í augun þín.... en þú sérð mig ekki.. þú horfir í augun mín... en ég sé þig ekki... við horfumst í augu.. en sjáum ekki hvort annað... ] [ Tíminn tíminn sem mun tortíma okkur að lokum. klukkan tifar tíminn líður endalokin nálgst en hvað eru endalok? endalok eru upphaf á einhverju nýju nýjum tíma. ] [ mamma!veröldin er vansköpuð! sagði vitur drengur í dag Sums staðar eru börn í stríði þjökuð meðan ég syng glaður lag. Mamman leit niður og hló elskan mín, þú getur glaðst að þurfa ekki að vera barnið í Irak sem dó. Barnið með byssuna sem hermaður einn af fótinn hjó. En mamma, af hverju erum við ekki bara öll vinir, við erum jú öll menn, ég er eins og allir hinir, brúnn og hvítur í senn. Æj,þú ert nú meiri kjáninn, lærir það er þú verður stór, að fólk, litur og fáninn,mynda saman kór, kórinn við grannan keppir um pláss og yfirvöld, þannig mun það alltaf vera í dag og öll kvöld. ] [ Dilla með mér dísir, í drauminum um djásnið, drykkurinn var drjúgur, djöfullinn er dauðinn. Dansinn hafði dunað, dreyri um kynnar rjóðar, dimm var dyragætin, drottinn þinn, hann drúpti. En dygg var þér dældin, dásemd sálar dropa, dýrð sé þér drottinn, að djöfullinn er loksins dottinn. ] [ Ég sagði atómljóð.Hver sagði apahljóð? Margir hugsuðu.Hvað sé rétt og hvað sé rangt?Gengur lífið út á það að telja strædómiða?Eða vera með dagskrá sjónvarpsins fyrir framan sig? Einn wiský sagði maðurinn og þjóninn klippti af honum bindið. ] [ Það er þröstur úti að sýna, að það sé allt í þessu fína, hann er röddina að brýna, í þessari sumarkyrrð. En þó hann sé þetta að þylja, og það vanti ekki vilja, þá á ég erfitt með að skilja, í þessari sumarkyrrð. Ekki er heimurinn að sveltan, náttúran hlýtur að eltan, það tekur bara tíma að meltan, í þessari sumarkyrrð. ] [ Í upphafi var einn. Einn er byrjun á leið hans til hins óendanlega þar til massi hans verður svo mikill að hann verður aftur einn. Alheimurinn er einn. Guð er einn. Og maðurinn er einn með sjálfum sér. ] [ Fullur þú fullyrðir það, hvar heimurinn eigi sér stað, og að fullyrðing þín sé best. Full af hroka ,þeir setu hana í poka, og litu á þig sem gest. ] [ Þú segir svona endrum og eins, að allt saman sé ekki til neins. Ekki satt? Þú þegir svona endrum og eins, þykkist vera sonur jólasveins. Ekki satt? Þú beygir svona endrum og eins, en finnur þó ekki til nokkurs meins. Ekki satt? Þú lifir svona endrum og eins, endrum og eins,endrum og,endrum,og endar svo. Ekki satt? ] [ Hann er pottþéttur plebbi í strigaskóm pleijar sig kúl og reykir Hann er fastur í tískunnar töffaraklóm túperar hárið og sleikir ] [ One thing I just found out I do not want what I’m dreaming about My thoughts have played me bad My mind has played me mad My weakness has played me dead Only love I had, is done Only dream I had, is gone I woke up Realized my life is fucked Empty like it was always meant to be And the dark and the pain will stay with me I’m sorry for every tear that I’ve caused I’m sorry for every memory I lost I’m sorry for I can’t see I’m sorry, but my dream will die with me Even if I die, would it matter? If I stay alive, why would it make it better? What have I done to myself? I’ve taken my last breath I’m waiting for my own death ] [ Nú ligg ég þunnur og þreyttur og get ekki sagt að ég sé breyttur. Helgarnar ganga út á það sama og á endanum mun þetta getu mína lama. Þetta getur ekki gengið mikið lengur því þegar ég sef þetta á mér hengur. Er eitthvað við þessu að gera því ég vil ekki lengur þetta bera. Losna mun ég við böl þetta þó svo ég þurfi að klífa hæðir og kletta Svo lengi sem ég verð frjáls og sáttur og komin yfir mig annar lifnarháttur. ] [ Nú ertu settur á bolinn minn og þinn, sem rauð ljósapera skrúfuð út og inn. Viltu byrja aftur?Hvað viltu þá? Eitt högg fyrir nei,tvö fyrir já. ] [ Yfir borgina stoltur ég horfði og í huganum orð þuldi. Sá fyrir mér að yfir lægi fallegur borði sem bæði hús og vegi huldi. Svo lítil, fámenn og grá en hefur samt svo mörgu að segja frá. Í henni lifir margskonar menningar sem eru budnar við ýmsar kenningar. Þegna sína tekst henni áfram að knýja á það bæði við gamla sem nýja. Gerist það alla daga og öll kvöld næstu árin og fram á næstu öld. Við stórborgir heimsins hún sig jafnar og endalausum kröftum safnar. Hún verður alltaf hér og nú og gefur því öllum sterka og góða trú. Mikin sjarma hún ber því hún er eins og hún er. Allar sýnar væntingar greiðir og yfir oss faðm sinn breiðir. Standa mun hún alltaf vörð um þegna sína og hina fallegu jörð. Hún er engri annari lík hin stórkostlega Reykjavík. ] [ Sit á krossgötum, Sit ein, Sit ein á þessum hræðilegu krossgötum! Hugsa um þig... Hvað ertu að gera? Núna, akkúrat núna. Hvað ertu að hugsa? Um hvað hugsarðu? Eitthvað um mig? Getur ekki verið.. jafn mikið, og ég hugsa um þig. Þá veistu hversu mikið ég hugsa um þig. Jaðrar við geðveiki, elskan mín. ] [ úr háloftunum komu þau skýin á feykiferð þau litu illkvittnislega á okkur áður en þau brotlentu á jörðinni og gufuðu upp ] [ Stormur.. Hvar er hann? Úti? Eða bara í höfðinu á mér? Ég veit það ekki. Allt hljótt. Dauðaþögn. ] [ Snjókorn falla, Eitt og eitt. Falla létt á hvíta jörð, Hvíta saklausa jörð. En hvernig jörð? Jörð sem er full af gleði of hamingju? Eða jörð sem er full af sorg, og leiðindum? Jörð ásta? Eða kannski, jörð haturs? Jörð friðar? Jörð stríða? Jörð þar sem allir eru glaðir? Eða jörð þar sem allir eru mæddir, og leiðir? Ég veit það ekki. Hvers konar jörð er þetta? ] [ Eitt andartak, ein sekúnda, en mínúta, eitt korter, einn klukkutími, einn dagur, einn sólarhringur, ein vika, einn mánuður, eitt ár. Ein staðreynd; Þetta er of langur tími, of langur tími fyrir mig að bíða, bíða eftir þér. Allt er of langt, komdu núna. STRAX! ÉG SAGÐI NÚNA!!! Komdu með mér ;) ] [ Sit og hugsa, Hugsa um þig. En þú? Hugsaru eitthvað um mig? Eða ? Er kannski allt tómt þarna? Í höfðinu á þér, Æ, nei.. ég meinti í þessu tómarúmi. Allt á flakki og ruglingi? Það kæmi mér ekkert á óvart. Er bara “soldið” pirruð, Pirruð útaf þér! Og gettu hvers vegna. ] [ Skipið er að koma! ] [ Fóstrið svífur í tanki og Mini-Arnbjörn skráir niðurstöður tilrauna og hlær: Hehe. ] [ Bökk hitti bökkfökker úr því urðu til urtubörn, og enginn þau svæfir. Hverjum er ekki drullusama? ] [ Hjartað í mínu brjósti hamast, hamingjuna hjá þér finn. Finnst ég vera af ást að lamast, og vona að þú verðir ávallt minn. ] [ aaaaaaaaaaaaa ] [ Súmmað inn á stúlku í gulum kjól hún situr með bláu augun og axlasíða ljósa hárið á brunninum. Hún dinglar svörtum lakkskónum og les aftan á sjampóbrúsann sem stóð á baðbrúninni hún leggur hann frá sér. Hún teygir höndina til vinstri en grípur í tómt undrun leynir sér ekki á smáfríðu andlitinu. Hún lítur í ofboði í kringum sig en til einskis allur pappírinn er uppurinn í angist sinni grípur hún í ljósa axlasíða hárið og öskrar upp yfir sig. Súmmað burt frá stúlkunni í gula kjólnum með bláu augun og skelfingarsvipinn á smáfríðu andlitinu ] [ í gróðurlausu ríki Bakkusar þar sem fjöllin gnæfa fögur fljótin renna straumhörð og dalirnir djúpir dvelja í skugga glataði ég gleði minni... þar hef ég hennar ákaft leitað síðan þá... ] [ Lífið er taktur tikk, takk, tikk, takk, má ekki missa út slag, tikk, takk, tikk.., ] [ Ljóðið er líf ] [ Sjadu mig syngja, sofdu mer hja, hlustadu a hljodin, hljominn minn a. Dansadu dansinn, dilladu ther, villtu vangavalsinn, vaggadu mer. Villtar blautar varir, vingast vid mig, sannar samfarir, samt elska eg thig. ] [ Sú skáeygða? sagði hann. Hver er hún? Hvað þá? Sú skáeygða, sagði hann. Ég sá augun ekki þannig, sú skáeygði, sagði hann, en veistu, ég elska hana. Sú skáeygða? Sagði hann, ég játaði, sú skáeygða, sagði ég. ] [ Með brennandi löngun þú brostir til mín, ógleymanlega berjalyngsstúlka. Við borðuðum saltfiskstöppu og kampavín, og í blóðbergið lögðumst og létum heiminn túlka. Og upp úr því steig einn ást svo merk, að steinarnir í brimið gáfu öldunni anda. þeir báru á botninn slíkt kraftaverk, að hinn gamla land hófst til nýrra stranda. þar blákaldir dagar hurfu á braut, Þú gerðir þá alla af eilífum draumi. Ég sogaðist niður og hamingju hlaut, og vildi aldrei komast úr þeim straumi. Þakka þér fyrir þann draumbláa sæ, er speglaðist inn í augunum þínum. Því kastar lífið slíkum tíma á glæ, þegar hann hættir að þjóna tilgangi sínum? ] [ Einmanalegur raunveruleikinn syngur mig í svefn með vögguvísu rigningarinnar. Draumar mínir dansa í kringum rúm mitt. Óli lokbrá tekur mig með sér í dans draumanna þar sem við dönsum að eilífu. ] [ Hér, þessi heimur, ekki er en án þess þó að hann burt fer. Við lifum hér án grunsemda flest nema þeir sem vita mest. Það eru vélar er horfa er við liggjum tengd, þurfum eigi að borða og tíminn í lengstu lengd. Sérstakir liðsmenn saman vinna að sigri, en hjálp hins eina er þörf til að ekki komi til meina. Innan liða leynist oftar en ekki Loki sem kemur ávallt í veg fyrir að ferlinu áfram þoki, já hið stóra ferli sem öll við þurfum til að upplifa það er áður var, áður en við hurfum, raunveruleikan sjálfan. Hvort fólkið er tilbúið því miður vita það fáir en það sem bjargvættirnir vita er að frelsunina vilja allir. Vitneskjan endist aldrei í þeim öruggu höndum er hún byrjar því Loka er sjaldan hægt að koma undir órjúfanlegar þiljar. Árangursins ber að gæta... fljótlega og fallega, í síðasta hluta. ] [ Á hverjum degi, hverju kvöldi, sjáum við andlit, okkur kunnug eður ei. Þau fá mig til að spá… er líf þessarar manneskju betra? Hvað var hún að hugsa… meðan þetta augnsamband varði? Fastur í mínu eigin lífi ég enn er. Farinn að slugsa og helgidagarnir myndast, svo að veggnum sný ég aftur. Ekki líður á löngu þar til forvitninnar kraftur snýr mér við… ég finn ekki frið því um líf mitt finnst mér fátt, og í annarra leita ég að sátt. Tíminn líður og hugsanaháttur breytist… mótast og þróast og nú andinn hefur róast. Héðan í frá, lifir aðeins von og ósk um hamingju aðilans sem framhjá mér fer, eins og ríkir nú hjá mér. Á hverjum degi, hverju kvöldi. ] [ Brennandi löngun,baðandi öngum,fækkandi ströngum. Glóandi töngum,himneskum söngvum,svitnandi göngum. Augun skær,færast nær,ilmandi blær. Heimurinn hlær,kvölin grær,hamingju fær. Brennandi löngun,glóandi töngum,augun skær,heimurinn hlær, Baðandi öngum,himneskum söngvum,færast nær,kvölin grær. Fækkandi ströngum,svitnandi göngum,ilmandi blær,hamingju fær. ] [ Fæðist allur litur yfir láð og lög, lætur litlaus orð með norðan vindi hverfa. sumarið hefur lært aftur öll sín fög, og sunnan vindur lætur til stálsins sverfa. frostrósir sem voru alla að klikka, er nú rauðar rósir með ilm um alla jörð. Litli lækur er orðin áin mikla, og litlu börnin sem hlaupa um holt og börð Í dag er sumar á þessum norðan hjara, hlaupum úti,hlæjum,verum,leikum saman. Lífið er hjá þeim sem framúr skara, en ekki á sumrin,þá er hjá öllum gaman. ] [ Ég er Perla og þú ert Gull Saman erum við hjarta úr ull Ást okkar er hringur Amorengillinn syngur Við giftum okkur í dag. ] [ Í byrjun eru pörin svo sæl og glöð og atburðarrásin verður alltof hröð. Á þeim tíma ástin mannshjartað gleður en stundum hún pörin fljótt kveður. Stundum í sambönd er of fljótt farið og er þá dauðadómur eina svarið. Tilveran verður svo hrá og pörin aldrei fótfestu ná. Fara verður róglega í þessi mál og bera virðingu fyrir sinni sál. Því ef hún er einhversstaðar fjærri verður ástin ekki neitt stærri. Að kynnast róglega er það besta og þá mun ekki neitt bresta. Það getur tekið tíma og verið hart en þá gerir ástin fyrst við sig vart. Hamingjan fljótt sterkt samband reisir og frá öllum vanda pörin leysir. Því hjá öllum vill hamingjan heima og allir vilja hana vel geyma. ] [ Hvað varð um hreinleikann... hvaðan kom syndin? Við höfum vafa engann, það sem ræður er girndin. Löngunin tekur okkur yfir, annan heim er lifir, þar sem annað deyr. Viljum við meir? Nú innbyrgt hef ég, það sem ávallt ég fyrirbauð. Yfir ég fór... og sé eigi leiðina heim. Kemur einhver til mín nú? Undirmeðvitundin ræður ei en biður, um að finnist innri friður, í þessari brotnu sál. Ljósið er sjáanlegt, og nú loksins fáanlegt. Hjálp minna vina, náðu að lina... þessa hingað til óbrjótandi þörf. ] [ Now I lay myself down to sleep I ask to God, his promise to keep And if I won’t get what I want when I wake I pray to God, my dreams to take She said she loved me, I knew she could lie Maybe I hoped for something else, I don’t know why But in your arms I want to die Why can’t I find what I’m looking for? Not sure this has ever happened before I got what I wanted, but I want more I thought you could understand, but you don’t You thought I would give up, but I won’t I pray for what I want so much Pray for another opportunity to touch…. Pray for you, because I care I can always find the good smell of your hair What can I say? I just love you And my pray to you is, that one do you’ll do to ] [ Rjómi Gull Blár Svartur Grænn Börn í fótbolta. ] [ Merkisdagar voru þegar Hundadagakonungur var við lýði Menn hrukku í kút En tóku samt við honum Það var ei við fagnaðarkliði Hann þrammaði við Reykjavíkurtjörnina Og Hljómskálagarðinn Hann ætlaði sér að eignast Ísland hið góða Og sagði : Ég er stríðshetjan stóra Hann titlaði sig sem konung Og sagði : Ég á Ísland hið góða En konurnar vildu gefa honum löðrung Að hann færi voru þær að vona Hann setti sig á háan hest og sagði Ég leik krók á móti bragði Þrammaði eins og stríðshetja og tilkynnti öllum Ísland ég lagði Jörundur hundadagakonungur Var ei lengi við lýði Samt var hann hetja og mikill skörungur Að lokum hann flúði ] [ Degi þessum verður ekki gleymt, hver íbúi hér á landi hefur hann geymt. Loksins var hlustað á fólkið í landinu sem mun styrkja vel á bræðrabandinu. Forsætisráðherra óð af stað með sinn her og krafðist að allt yrði eins og það er. Skýr skilaboð um einræði hann sendi og bar hátt á loft sían bláu hendi. Þá gjörsamlega upp úr öllu sauð og forsætisráðherrann frið bauð. En þjóðin byrjaði undirskriftum að safna því þessum lögum yrði að hafna. Svo í skyndi kom forsetinn heim hann varð að taka þátt í þessum game. Búið var verið mikið fjölmiðlafár sem kostaði blóð svita og tár. Svo 2. júní kom Forsetinn sterkur inn og kvað upp fyrir þjóðinni dóminn sinn. Að það yrði þjóðin sem fengið valdið en það hafði Davíð aldrei sagt né haldið Nú liggja völdin hjá íslensku þjóðinni en hún hefur átt þetta lengi inni. Því hvet ég alla lögunum að neita því nýju lífi lýðræðinum verðum að veita ] [ Þótt ég gráti er það allt í lagi eins lengi og það er út af þér ] [ Að leiðast er eins og að vera... ...fötin uppí skáp sem fóru úr tísku fyrir löngu ...vitavörður ...bók sem hefur aldrei verið lesin en situr uppí hillu og rykfellur ...óopnaður tannbursti ...snjóþota að sumri ...týnda púslið í púsluspilinu ...jólaskraut í júní ...bíll á bílahaug ...bleklaus penni ...steinvala sem bíður eftir því að einhver fleyti með sér kellingar ...alfræðiorðabók ...opin mjólkurferna sem stendur í sólinni ...eyðibær ...heimildaþáttur sem allir sofna yfir ...ljóta leikfangið sem enginn vill kaupa ...símaskráin frá því í hittífyrra ...ég núna ] [ -hvernig ætli það sé að vera lag sem er svo til ósyngjanlegt? -hvernig ætli það sér að vera kandífloss sem er að verða til? -hvernig ætli það sé að vera fuglinn í gauksklukkunni? -hvernig ætli það sé að vera tré sem fellir laufin? -hvernig ætli það sé að vera sokkur í þvottavél? -hvernig ætli það sé að vera skór með táfýlu? -hvernig ætli það sé að vera heimasíða? -hvernig ætli það sé að vera erfitt próf? -hvernig ætli það sé að vera sparikjóll? -hvernig ætli það sé að vera koddi? -hvernig ætli það sé að vera ljóð? -hvernig ætli það sé að vera þú? ] [ Þú ert tvöþúsund. Eittþúsund og eittþúsund og ég stend í sirka fjörutíu og fimm gráðum. ] [ Blikkaðu bjarta augnsvipnum í átt að þögninni sem litaði samtal okkar um fortíðina áðan, í bláu hylki við höfnina. Þú breytist í sinfóníu í eyrunum -sem þau endurvarpa óminum af röddinni þinni og verður að listaverki eftir Dalí í huganum -túlkanleg á svo marga vegu, allt að því óskiljanleg. En samt svo falleg Rigningin verður sem upphaf að einhverju nýju Hverju? Ég veit það ekki. Svo ég leyfi framtíðinni að verða eins og rigning: hún kemur bara, hvernig sem hún verður. ] [ Vindinn lægir, allt er hljótt, fulgar himins þagna, senn á enda dagbjört nótt en enginn virðist fagna. Sorg og reiði fyllir menn, augun fyllast tárum, sólin rís þó dimmir enn og hjartað er í sárum. Þrítugasti' og fyrsti Maí, sálin í mér marin Því í kjallara í Vesturbæ er lítil stúlka farin. ] [ Í myrkrinu er brauð, þúsund, vatn og ein rödd. Það er Nótt í Algeirsborg. Vertu hjá mér, Caspah, holræsi full múslimum, og augu þín geisla. Mánasigð. Regnið skolar blóðinu. Regnið skolar blóði. Regnið skolar. ] [ Undir hrjóstrugu landslagi andlits þíns meðal fallinna dropasteina finn ég steingerving Leifar horfins tíma og merki um lífið sem var ] [ Ég sit hér með brostið hjarta Þrái að sjá brosið bjarta Sem lýsir upp mína sál Ég græt sárum sorgartárum og vona að þú komir til mín En sambandið er ónýtt af svo mörgum sárum að ég efast að birtan nái til þín En nú skilja leiðir ástin mín Ég vona að þú skiljir og náir minn hugur og hjarta þig þráir og að eilífu verð ég þín ] [ Að treysta guði er það besta sem ég þekki Þurfa ekki að halda að fólk mig blekki Því Guð kennir mér að sjá Hverjir segja satt frá Viltu læra það sem ég hef lært Af því sem ég get af mig stært Því það er magnað að lifa sátt Í sambandi við þann sem ég kalla minn æðri mátt Ég er svo þakklát fyrir þetta Ég fólk er hætt að pretta Lýg og stel ekki lengur Já þetta er þvílíkur fengur Á andans braut ég komin er Bið og hugleiði sem betur fer Því það heldur í mér frábæru lífi Og höndinni frá flugbeittum hnífi Þetta gerir guð fyrir mig Hann segir að það sé því ég tali við sig Dag sem nóttu Hugsanir mínar hann sóttu Þessu getur þú líka kynnst Eins og þú hefur á minnst Trúðiru eitt sinn á hann En að tala við hann þú segir “ég ey kann” Nú ferð þú og biður Um að það komi yfir þig friður Nú getur þú lifað sátt Í sambandið við æðri mátt Núna tekur þú upp penna Á þig tvær grímur renna Skrifar niður allar þínar syndir Sem í huganum lifa sem myndir Segðu mér svo frá öllu saman Þó þetta verði ey gaman En þvílík sæla þegar það endar Þér fyrirgefningar verða sendar Skaðann þú verður að bæta Suma kannt þú að græta þér virðingu þeir sýna Þegar sársaukinn fer að dvína Svo eykst þér lífsins krafur Þú gerir þetta aftur og aftur Því þú sérð að þetta gefur þér mikið Þetta verður ekki svikið Hugleiðsla og bæn tekur nú við Guð leggur þér heilmikinn lið Lífsgleði þín vekur von hjá veikum Þú ferð að hjálpa þeim sveittum og smeykum. Trú án starfs er dauð Guð okkur annað tækifæri bauð Hægt er að klúðra því á svo auðveldan hátt Þú munt kynnast því svo æði brátt Muntu því allt sem þú hefur heyrt Öllu þú getur nú breytt Hjálpina færð á svo mörgum stöðum Sponsorar bíða í röðum Nýliði kemur nú inn Og sér lífsglampann þinn Um hjálp hann biður Og innra með þér er friður Nýliðinn hringir svo í þig og spyr Hvernig var þetta með þig Þú segir; mér opnuðust nýjar dyr Já, tólf sporin margborga sig ] [ Það er yndislegt þegar allir draumarnir rætast og ástin og hamingjan báðar í sálinni mætast. Albjartar nætur og angan af gróðrinum sterk öldungis magnað og þrungið sköpunarverk. ] [ ojbara ojbara ojbara ] [ Ég mig um aðeins einn kæri ástin er furðulegt fyrirbæri sem ég ekki skil, margir flottir karlmenn til en aðeins einn ég vil einn sem færir hjartanu yl hef reynt að hætta að elska hann en ég það ekki kann aðrir menn koma og fara en ástin til hans mun alltaf vara og ekkert gengur hann elska sífellt lengur þeir segja að tíminn lækni sár en hann myndar aðeins tár sífellt stærri sár sem spyrja baldursbrár: hann elskar mig, hann elskar mig ekki, hann elskar mig, hann elskar mig ekki.. ] [ Hugurinn tekur mig í ferðalag, aftur í tímann minningarnar hellast yfir minna mig á gleði horfna vini sorg missi óttan við hraða lífsins hvernig allt sem ég upplifi núna einn daginn verður bara minnig dag einn ei langt í burtu kveðji ég þau sem ég elska mest andartakið sem var núna er strax farið. ] [ valin fram yfir aðra, vegna umbúða án tillits til innihalds en hverjir búa að baki grímunum? hvers vegna finnst flestum það sama fallegt? hver ákveður hvað það er? ef allir fengju að velja en væru ekki forritaðir af umhverfinu væru allir fallegir? hver ákveður hver er betri? hvað er í raun fegurð? hvers vegna að verðlauna menn fyrir hvernig þeir fæðast frekar en hvaða mann þeir völdu að geyma? ] [ hugmynd um... æ, þú veist... betra líf sú hugmynd að berja betri boðskap í kollinn læddist eins og "dítektíf" í svarthvítu fór "önder mæ skinn" og snerti strengi lék djass í dúr svo ég lagði aðra höndina á stýrið steig rólega á kúplinguna færði gírstöngina aftur í númer fjögur og sagði "kúl" við framrúðuna ég fíla dúr ] [ Ég taldi kosti hennar og reið henni Seinna taldi ég ókosti hennar á meðan ég reið henni Seinna taldi ég ókosti hennar á meðan ég reið annarri Þær hafa báðar sagt að ég búi yfir kostum en eru sammála um að ókostirnir vegi þyngra ] [ Treð upplesnum dagblöðunum í gulan pokann. Strýk hugsandi glansandi kviðinn. Strýk hugsandi bleikan glansandi kviðinn. Kannski er það alls ekki tilviljun að Bónusmerkið er grís? ] [ Í sköpunarbrumi mannsins fæddist fyrsta vonin að sálu hans og gaf honum eilífðina að loforði gegn þeirri skyldu hans að leita sannleika lífsins. ] [ Gleðin til allra landsmanna nær blómin blómstra og grasið grær og hjartað inn í manni róglega slær. Sólin lýsir upp blásvartann sæ vindurinn kælir alla niður með sínum blæ þá um leið takt við tímann ég næ. Hvítar húðir sólin litar einnig sál og líkama hún vel hitar og ástin nær öllum sig fikrar. Nú allan vandi er hægt að laga því verður líf þitt mjög góð saga og þökkum við Guði fyrir svona daga. Á svona dögum er allt hægt allavega það sem hefur hingað til nægt en batamerki það er löngu orðið frægt. ] [ Á bak við lukt augu er það sem ég vil ekki vita og það sem enginn veit draumar sem verða raunverulegir og þeir sem ekki rætast draumar sem enginn veit um á bak við lukt augu er sársauki sem ekki gleymist bál sem aldrei var slökkt á bak við lukt augu eru myndirnar sem blómstra kærleikur sem vermir en ég veit aldrei, hvort er betra, það sem þú veist eða það sem varð þegar þú loksins opnaðir augun ] [ Á heitu malbikinu liggur fallegur blómvöndur sem búið er að keyra yfir aftur og aftur, um kvöldið er blómvöndurinn enn á sínum stað kraminn niður í malbikið, þannig endar okkar líf. ] [ Þó svo að ég tali ekki mikið er ekki víst að ég finni ekki. -ég orða það kannski öðruvísi- ] [ Þögnin umlykur íbúðina englaandlit á koddum og svefninn leitar þín en það er svo gott að eiga - stund fyrir sig - ] [ Lína er lítið barn, hún er ekki mikið stærra en garn. Hún hoppaði upp í himinfgeimin, en þar slitnaði reimin. Þar sá hún Andrésínu, en þá fékk hún magapínu. En þá fékk hún sér appelsínu. En nú er Lína sofnuð, því hún er soldið tognuð. Nú segji ég bæ við lítið hræ úti í sæ. BÆ !!! ] [ Hjarta mitt slær fastar bros mitt er breiðar augun lýsa skærar Hjarta mitt brotnar bros mitt er horfið tár mín renna hraðar ] [ Every cloud the sun breaks at the morning I wake. I´ll be thinking about you. Babe you know i feel blue Every sunrise i see they all remind me of you every sunset i see I know theres a day done of waiting All this time that I'm alone. I´ll be waiting for you. All this time that im blue Ill be thinking of you but there's a comforting thougt that warms me inside That one day my darling you'll be right at my side. At every sunrise I see you´ll be sitting by me At every sunset I'll see you'll be watching it with me. ] [ Það eru ekki karlmenn sem angra mig heldur ég sjálf, það hvað hjarta mitt er opið og berskjaldað, það liggur bara þarna úti algerlega óvarið fyrir öllu því fólki sem gengur hjá því. Ég hef ekki staðið mig nógu vel við að vernda það og því er það sært. Ég þarf að vinna í því að gera að sárum þess og byggja vörn í kringum það, þannig að það verði enn opið en sterkbyggðara fyrir umhverfinu ] [ Í dag skein sól á sundin blá og seiddi þá, er sæinn þrá. Og skipið lagði landi frá. Hvað mundi fremur farmann gleðja? Það syrtir að, er sumir kveðja. Ég horfi ein á eftir þér, og skipið ber þig burt frá mér. Ég horfi ein við ystu sker, því hugur minn er hjá þér bundinn, og löng er nótt við lokuð sundin. En ég skal biðja og bíða þín, uns nóttin dvín og dagur skín. Þó aldrei rætist óskin mín, til hinsta dags ég hrópa og kalla, svo heyrast skal um heima alla. ] [ Ótrúlega rennur þessi fallega á lengi til sjávar. Allt þetta ferskvatn. Beint í salt svartholið mengað af saur, þvagi, rusli og úldnu blóði. Ferskvatn á upptök sín á friðsælum, fallegum stað en endar í geislavirku svartholinu djúpa. ] [ Þegar ég fékk hugmyndina þá vantaði á mig annan handlegginn. Seinna mikið seinna Þá var ég orðinn jakkafatatýpa. Jakkafatatýpa með tvo handleggi. Annar var sannur en máttlaus Hinn var gervi en gat puttað drottningar í konunglegt ástand. ] [ Bessastaðabeikonið, það talar mikið núna, það er að verða ánægt.. Baldur er að missa trúna.. "Það gerir ekkert til" "það gerir ekkert til".. Því hann fer í forsetaembættið.. ] [ Blaðið fer inn og út... Skaftið skelfur... Augun tárast.. Blóðið lekur.. Fótarnir hlaupa.. Hvað var verið að tala um ? ] [ Kannski nei ég veit það ekki... Láttu mig vera! ] [ Þegar þú tekur blaut föt upp úr poka verður þú að setja þau upp aftur því þau verða að þorna. Þetta sagði mamma við mig. ] [ Þegar þú tekur blaut föt upp úr poka verður þú að setja þau upp því annars þorna þau ekki. Þetta sagði móðir mín við mig. ] [ Þegar þú tekur blaut föt upp úr poka verður þú að setja þau upp því annars þorna þau ekki. Þetta sagði mamma við mig. ] [ * ** *** **** ***** ****** * ******* * ******** * ********* ************ ******************* **** **** **** ************ ***** ***** ***** * ] [ Hvað þarf ég að gera, til að fá þig til að skilja? Það, hvað þú ert og hvað þú verðu. Tilgangslaust að reyna þú hlustar ekki á, þó innst inni þú viljir það samt. En "vinur" þinn besti, með alla þessa lesti, ræður yfir þér nú. Hann dregur þig frá mér, svo frekur, svo reiður. Þú skilur bara ekki hvað mér þykir vænt um þig. ] [ Má ég ganga inn? Ætli það sé í lagi? Því ég þrái ekkert annað en þig þó svo að ég spái í annað. Viltu leika við mig? Má ég leika við þig? Ég reyni allavegana á það, þó að ég viti að það sé bannað. Spurning hvort við eyðum kvöldinu saman? Bara ég og þú, það verður ábyggilega gaman. Þú lítur svo laglega út. Þessi fallegi, netti háls og ekki er höfuðið síðra. Þessi laglegi botn á þér líka og allt það sem inní þér býr. Ég held bara að ég láti vaða, gríp um þig alla með annari hönd. Dreg þig að mér og lyfti þér upp og helli úr þér uppí minn munn. Aaahh, hvað þetta er gott, þú bjargaðir lífi mínu. Ég veit ekki hvar ég væri Ef ég ætti þig ekki að ...þú elsku besta flaska af spíra ] [ Vertu nú varkár heillin mín og vefðu um þig trefli mælti mamma eftir vín mér rétti tvinnakefli ] [ Eins og stjörnuhrap í dagsbirtu fellur ást mín hljóðlaust og ósýnileg framhjá þér ] [ Nú á dögum er allt svo mikið og allir menn hafa konur sínar svikið. Það þekkir engin lengur hvað sé lítið en það byrja oftast snemma í bítið. Skuldir hlaðast og fjölskyldum eyða en verðbólgan alla í gjaldþrot neyða. Ekki þarf að eignast allt á einun degi hugsa ég á og kortið í sölumanninn flegi Gulir miðar í póstinum berast og samviskan er öll niður að skerast. Mér þykir það leitt að þetta sé svona um bætt ástand alla daga ég vona. Hugmyndir um sparnað komast ekki að þó svo skuldatölurnar séu komnar á blað Því nú á dögum verða allir allt að eiga og einnig er verðlag hátt og öll leiga ] [ Bleks eg brandinn munda brags með taugar þandar galdur ljóðs við glími gjörning ramman stunda ljóðs á undralendur langar mig að skunda fara í stríð við stafi og stuðla á báðar hendur fríða skeytlu fanga form og línur meitla rími bregð á braginn bind í hnúta stanga. ] [ Fallegi, litli lækur mig langar að heyra þig syngja hlusta á dansandi dropa á döggvotum steinum klingja. Síkáti, seytlandi lækur þinn söngur að eilífu hljómi er fellur þú stall af stalli í stöðugum frelsisómi. Kankvísi, kliðandi lækur ég kom til að hlusta á niðinn æ, lof mér að syngja líka ljóð um ástina og friðinn. Gefðu þeim, litli lækur sem líkna hér þorsta sínum það yndi, þá fegurð og frelsi sem finnst í kvæðunum þínum. ] [ Miðdegissólin á laufgrænni hlíð Teið sem ilmar, sú angan svo blíð! Kirsuber vaksa á runnum í kring Ég látlaust um sumarið syng. ] [ Ég vakna þunnur rétt eftir hádegi og sný mér róglega og opna augun hægt. Sé þar stúlku sem ég kannast ekki við og sjokkið er vægast sagt vægt. Reyni að sofna strax aftur en tekst það ekki vegna stúlkunar. Hvar skildi ég hafi kynnst henni? en ég þarfnast ekki frekari túlkunar. Á óskiljanlegan hátt brátt ég sofna en er vakin með koss á munn. Lít og sé stúlkuna brosa og hún segist vera merkilega þunn. Vandræðilega skríð ég undir sængina því ekki hef ég neitt að segja. Hún spyr til nafns og hvað ég geri en ég kýs yfir þeirri spurningu að þegja Ég finn hana yfirgefa rúmið og undan sænginni ég lít. Blasir við mér stórt og fallegt bros svo áhrifamikið að ég í hnefa minn bít. Við setjumst svo niður með kaffibolla og saman gærkvöldið reynum að muna. Þessi stund er ekki sú besta og mig minnir að stúlkan heitir Una. Hún segir mér að hún verði sótt og ég brosi við þeirri frétt. Skömmu seinna að hurðinni við förum en þá er miklu fargi af mér létt. Ég væri til að hitta hana aftur en þá fer ég aftur á þennan bar. Mun ég muna eftir henni þá? Við því er samt ekki til neitt svar. ] [ Ekki varstu gamall er þú drapst Líklegast er það ekkert skrítið Þitt líf var víst drykkja og last Og sjaldan þú vaknaði alsgáður snemma í bítið Án þess að ég hafi nokkuð til þín þekkt Þetta segi ég í allri minni spekt Merkilegt er einnig sagt hve þín kvæði eru góð Þykir mér þá Matthías betri Þín kvæði eru til þess eins að tendra sígarettu glóð Og ég tel mig miklu betri. Þó að ég drekki ekki eins og svín Er landið er einnig ástinn mín Oft þú kvaðst um fegurð þess En hjá mér er vetur lengur en sumar En þó fá liljurnar tækifæri að vaxa í brjósti þess Fæ ég aldrei kampavín né humar? Drottin gaf þér góða gjöf Sem þú tókst með þér í dauðans gröf. ] [ I want to say few things to you all To everybody who wants to see me fall To everyone who hates me… I don’t care, bring on the word Do you think they really hurt? I’ve heard them to many times before I don’t care no more Nothing to lose and nothing to live for Pointless life and might as well end No one to love and nobody to defend I’m useless, at least I admit it At least I got the balls to say fuck it At least my words are real Fuck this life if I can’t feel No one wants me, I’m on my own My mind starts tripping and I’m living in a dead zone I got no home No place to stay Today is a perfect day To die... ] [ iðagræn blómabrekka girt af með gaddavírsgirðingu ] [ Ef villistu af leiðinni heim - í bylnum, á barnum, í barningnum úti - máttu vita að í augum mínum kveiki ég kertaljós svo þú ratir aftur heim í hjartað mitt. ] [ Það er svo mikið af þér í þeim. Samt færðu aldrei að sjá þau. ] [ Veldu þér konu við hæfi. Skónum geturðu látið breyta á morgun. ] [ Bláir tónar líða eins og reykur um sál mína. Og grátklökkt bergmálar gítarsólóið af veggjunum í höfði mér. ] [ Dansandi, talandi, hlæjandi, kastarðu höfðinu aftur og slærð hárinu daðurslega til. Það er enginn, nema ég, sem sér sorgina í augunum, heyrir örvæntinguna í hlátrinum. Aðeins ég sem veit að trylltan dansinn stígurðu við dárana í höfði þér. ] [ Ósjáandi, óafvitandi, leitaði ég þín um ómælisvíddir hins óþekkta. Þú lagðir hönd á öxl mér, koss á kinn mér, og dæmdir mig verðugan skósvein. Vel hefurðu kennt mér og viljug var ég að læra. En leit mín að þér hefur borið mig yfir landamærin. Nú er sakleysið annað land. Mér er það lokað um eilífð. ] [ Við fórum til Heljar þessa fordæmdu nótt, við tvö. Riðum græneygðu skrímslinu um náttvegu Niflheima. Í kæfandi myrkrinu sprungu þér út blóðrósir á brjósti. Ein sneri ég aftur, alein. ] [ Kannski dönsuðum við saman í silfruðu regninu. Kannski flæddi það yfir okkur, fyllti vit okkar ljúfri angan af sumarblómum og frelsi. Og græni kjóllinn þinn varð blautur og límdist við líkama þinn og þú dansaðir í rigningunni og hlóst og þú varst svo ómótstæðileg með brosið í augunum, blómin í hárinu, að ég réð ekki við mig heldur strauk kinn þína og laumaði á þig kossi. Kannski svaraðir þú atlotum mínum og við áttum ástheita stund, veltumst um í grasinu sem var blautt og hrollkalt við nakta húð okkar. Kannski var það draumur sem mig dreymdi meðan ég svaf og regnið söng við gluggann minn. ] [ Ég gæti sagt þér: að allt verði í lagi, að þú verðir búinn að gleyma þessu á morgun, að þetta sé ekkert svo slæmt, að sársaukinn brenni burt í draumunum og allt verði gott. Ég geri það ekki, vil ekki ljúga að þér. Get ekkert sagt, get bara haldið þér í fangi mínu og strokið hár þitt meðan þú grætur. ] [ MÁRÍUVERS Allar eru þær mellur - nema ein Mellur sem við kaupum - nema ein Heilög Guðsmóðir fyrirgefi mér Fari ég með rángt mál! D.S. TILBRIGÐI Allar erum við mellur Dagur - allar sem ein Allar seljum við okkur á strætum - fyrir drauminn um eitthvað meira Heilög Guðsmóðir gerði slíkt hið sama! ] [ Í nóttinni heyri ég rödd þína hvísla: ,,Hversu fánýtt líf þitt er." Og ég öskra á móti, veina upp í vindinn, í orðvana æði. Við orðum þínum á ég ekkert svar. ] [ Dragðu mér draumstafi drátthögum fingrum. Málaðu orðmyndir haustmjúkum litum. Ristu mér svefnrúnir rammar að afli. Syngdu mér silkiljóð svefnþungri röddu. ] [ Ef ég gæti bara skrifað ást okkar minnisvarðann sem hún verðskuldar. Til þess þyrfti ég orð úr marmara, úr góðmálmum og eðalsteinum. Það þyrfti tíma, til að fægja, til að pússa og gleyma því sem skyldi. Ég á engin slík orð en tíminn er nægur. ] [ Bak við augnlokin dansa fölbláir vafurlogar, villuljós í höfði mér. Í skuggunum liggur óttinn andvaka, nafnlaus ógn í nóttinni. ] [ Við tölum í hringi og krossa. Og orðtáknin, táknorðin þyrlast, sveiflast, dansa, djöflast í kringum okkur. Í stríðum flaumi stóryrða erum við strandaðir glópar á eyju án merkingar. Við tölum í hringi og krossa, læst í svikamyllu óræðra orða. ] [ Þú dregur snjóhvíta dúfu úr loftinu einu. Með vængjaslætti hverfist hún í dúnmjúkan klút sem þú strýkur um brjóst mér. Með nettri sveiflu breytist hann í hjarta mitt, blóðugt og titrandi fyrir deyjandi augum mínum. Og þú hneigir þig, breiðir út faðminn og hvíslar: ,,Töfrar!" ] [ Hugarstríðsmaður, hendur þínar blóðugar en þó svo blíðar. Fortíðarskuggar vefjast um fætur þína, halda þér föngnum. Ástríðuþrungnar stundir í faðmi þínum, en engin framtíð. ] [ Sóttheitir vængir mínir titra er þú strýkur þá hugsandi höndum þínum. Og þú slítur burt eina fjöður, svo aðra, og ég sé framtíð mína, sveipaða myrkri þess sem eitt sinn gat flogið, en aldrei meir. Í örvæntingu ýti ég þér burt og fleygi mér út í lokkandi tómið þar sem vindurinn hvín um eyru mín og klettarnir taka mér opnum hvössum örmum. Gat ég þá aldrei flogið, nema í draumi? ] [ Ég get ekki hlaupið lengra en á enda heimsins, þar hlýtur þú að ná mér að lokum. Og þú læsir blóði drifnum klóm þínum í hár mitt þar sem ég stend örmagna á silfraðri ströndinni við veraldarsæinn, og þú teygir flugbeittar vígtennur þínar að hálsi mínum til að vekja mér und og sjúga úr mér líf mitt og ljóð. Þegar það gerist ætla ég að hrækja í andlit þitt og hlæja. ] [ Tunglið slær blákaldri birtu á hrafnsvarta vængi þína. Í augum þínum blika eitraðar stjörnur og klofin tunga þín hvíslar mér tærandi syndabáli. Í gælum þínum finn ég dimmbláa eilífðina, kraftinn í gegnkaldri sál þinni, og ég skil í einni svipan hví þér var kastað úr Paradís. En vinur minn, freistari minn, fyrir þessi augu, þetta grimmblíða bros hefði ég fylgt þér í útlegð. ] [ Haustköld hvíslar gangstéttin vegaljóðum að fótum mér. Hráblaut syngur blánóttin tregasöngva við vanga minn. Hryninn slá fætur mínir, alblóðugir, á leið til þín. ] [ Á svona degi, svona æðisbjörtum degi þegar skýin fara í loftköstum yfir landinu og sólin skellihlær, þá eru orð ekki nauðsyn því hjörtu okkar slá í takt. ] [ Vertu skáld mitt og færðu mér ljóð þín hlaðin seiðandi eldi. Vefðu mér ljóðvef úr heitum nóttum & tindrandi augum, saltmjúkum kossum & hrímhvítri húð. Sláðu draumvoð þína morgunrjóðri ástúð, fölgulri vináttu og silfursprengdri virðingu. En íþyngdu mér aldrei með eldrauðri ást þinni, hún gæti brotið vængi mína og bundið mig jörðinni. ] [ Tregafullt augntillit festi sig við brosið mitt breytti mér. Brosið mitt dvínaði dagurinn lengdist og ég hætti að horfa í augu þér. Bak við blikið er óróleg minning um allt sem ég gerði en ég elska þig. Bak við blikið er draumur að deyja og ég spyr ekki aftur hvort þú elskir mig. ] [ Leysist úr læðingi leyndar kenndir leyfist þá meira en má, er fallegum fljóðum auga sendir og fiðringinn gráa fá og altarisloforð um trúnað og traust traðkað verður nú á er eldheitur blossinn um æðarnar skaust eiginmanninum hjá miðaldra gumar vel giftir og graðir gæta sín ekki þá þó eiginkonan á þá starir í augu sem sýnast blá fjöreggið okkar er forðum við reistum feykist nú vindinn í hvað með það að hvort öðru við treystum, hví er trygglyndið fyrir bý? ] [ Í huga mínum felurðu þig drauminn sem mig hefur ekki dreymt hulinn þoku eftirvæntingar og ég bíð eftir þér Mesti ótti minn er að vakna og sjá þig þar enn hulinn þoku eftirsjár drauminn sem mig dreymdi aldrei ] [ Ljóð hafa aldrei komið lífi mínu mikið við. Ég hef heldur aldrei haft þolinmæði til þess að skrifa dagbækur. Mér leiðast innihaldsrík og löng samtöl og get ómögulega lesið bækur. Tónlistin í dag er of hávær. Bílprófið er of erfitt. Laun eru of lág. Tengdamömmur taka allan glansinn af ástinni. Börn eru hress en vitlaus. Ég fæ hausverk ef ég sef of lengi og það er ekkert þess vert að vakið sé yfir þvi. Pólitík er flökurleikavekjandi og peningar eru skítugir og alltof fáir. ÉG gersamlega hata neikvætt fólk. ] [ Ljósins friðar engill blakar vængjum sínum í kyrrðinni Undir hellu liggur ketill Ætla að drekka te, úr kranans lindinni Á himninum vaka englar hljótt þeir umvefja þig í hjarta Þeir standa vörð um þig þegar þú sefur rótt og umvefja þig kærleikanum bjarta Ávinningur í bæn til þín, herra Guð minn ég finn þinn frið Ávöxtur vex, hjartað verður stærra Ég hlusta á þinn boðskaps sið. Minn háæruverði drottinn Mikli heiðursins postulinn Þú kemur, þegar ég óska þess og aldrei, aldrei segirðu bless ] [ Klausturs nunna biður til drottins um kærleikan og drottins hamingju Hún sest á hné á altarinu í auðmýkt sinni, biður um náð frelsisins Þetta allt fjallar um heitstrengingu og vera í náð, bænarhersins ] [ Abbadís sest við eplatré hugsar um ást, frið,og kærleika Hún biður til Guðs, og sest á hné Hugur hennar til himinsins reikar Hún sofnar og vaknar skyndilega við Þetta var blundurinn góði Nú verð ég áfram að ástunda boðskapsins sið Hún skrifar um það í sínu ljóði ] [ Klausturmúrar umlykja Abbadís Hún sögur segir, börnum drottins Sólin heita úr suðri rís Hún kennir eftir lögmálum orðsins ] [ Sástu litlu stúlkuna? Þessa með ljósa fallega hárið og í rauðu skónum og í bláa kjólnum og með svo fallegt hár Hún var að leika við dökkhærða drenginn Þau voru svo falleg Bara tvö í heiminum Eins og þú og ég Í rökkrinu ] [ Ég reyni að komast út ég er að kafna Ég verð að sleppa sleppa út úr þessum viðjum Mig langar í líf ég vil vera frjáls Ég þoli ekki að vera hér hún fer svo illa með mig Verð að komast út út í birtuna ] [ Ég er vaknaður og fuglarnir syngja mér morgun kveðju. Ég fer á fætur, fæ mér kaffi eða te. Lít á farsímann og sé að það er búið að vera reina að ná á mig. Bílarnir bruna framhjá. Ég er út í glugga og horfi á mannaða farskjótanna. Hvað yrðu þeir án okkar? Kavíar og kampavín perlur fyrir svín. Hvar ert þú nú ástin mín? Fjandinn hafið það ég hringi til baka. : Já halló. : Já nú Lögreglan. : Ja, það var verið að reina að ná á mig úr þessu númeri? Enginn kannast við það. Fortíðin hún er alltaf þarna, sama hvað. Ég fæ hana ekki flúið. Þetta er allt saman frekar snúið. Gamalt og lúið. En ég fæ mér Kavíar og kampavín. Hendi Perlum fyrir svín . Og spyr: Hvar ert þú nú ástin mín? ] [ Maybe I´m no saint, But I´m just as nice. Perhaps I´m not in grace With most people in existence. But God loves me like I am his son. I have got no visible scars on my face. It is pretty just like yours. They are all on my soul. And she just to be in tatters and unclean And my heart was broken. But I had the fier in my eyes, And my heart was willing to embrace The Word of God and our savior Jesus Christ. It may sound simple, but it was smart, And it gave me my life and my peace back. The Word cleaned up my soul And restored my heart. It is possible for every man Who is walking on the crooked trail of life To be cleaned by the power of the Word. I never really fell from grace of God I only managed to obtain it. Now I pray that I can still keep it In return for my service Here on Earth and beyond. I always had kindness in my soul But my mind sometimes forgot it. I stole and drank, and I lied and did drugs Then I was alone with my guilt, And my mind remembered my true value. And in my past I was also blind to wisdom But my eyes were open. It is not good to be blind When you can see, and have wisdom In your soul and give back the kindness of the Lord. I’m not perfect But I am willing to be a better man. And that is what God is seeking in mankind. You only have to ask Him, And He will open his heart for you. It won’t happen over night It may take days and years. Be patient and slowly you will gain knowledge. And you may stumble or fall But true people stand up and keep on going in faith. You may have a vision that no one else can see And it may seem like the world is blind Remember that all are not able To see clear at night. Just look up at the stars and keep on going in the name of Jesus Christ the savior and God almighty And if I do anything other than live in the Spirit I will go back to my old self. Perhaps not the same day But I will slowly drift back And lose myself to the temptation of the world. This is written as a reminder Of the power that God and the Word Can give an unfortunate man like me. Man who spent his youth incarcerated For crimes against himself and his society. ] [ köttur úti í mýri sneri sínu stýri og keyrði út í skurð ] [ einu sinni var ég við með þér ] [ ég dansa blindandi við undirleik hjartans kannski munt þú stíga á tærnar mínar ég er tilbúin að taka þá áhættu ég er í hermannaklossum með stáltá ] [ Ég ætla að gefa þér mynd. Mynd af morgni sem boðar bjartan dag, þar sem sólin syngur sitt fyrsta lag og döggin drýpur af bláum blómum. Ljúfur morgunblær leikur í laufi trjánna. Andartak sem eilífð. ] [ Uppí hofi gyðjunar biðja Guð sinn um vísdómsgáfur og andansnáð Sumar finna kraft um rjóða kynn og við kringumstæðum mjög góð ráð Hofið er heilagt, og náðarstaður Útsýnið er fagurt og stórfenglegt Þær segja upphátt\"Hve dýrlegur er dagur\" \"Hve dásamlegt er guðs andansverk\" ] [ varstu getinn af ást eða girnd, af yfirlögðu ráði eða í synd? er það lykilatriði? ] [ litla flugan með rennblautu vængina náði að skríða uppá laufblað sem hafði fallið í lækinn nú rekur hana áfram á meðan vængirnir þorna í sumarsólinni ] [ þú heldur kúptum höndum um öndunarstöðvar þínar strýkur henni um vangann með tjöru úr lunga þínu ] [ þitt fallega bros þú dregur í felur þar sem áhorfendur ekkert fá séð aðeins þú færð að sjá það þar sem þú brosir í laumi bak við leikhústjöldin innra með þér ] [ Óvenjulegar nætur hrekja í burtu venjulega daga. Saman mynda dagar og nætur endalausa tímasóun. Saman mynda dagar og nætur fallega ofin töfrateppi tilverunnar. ] [ ég er sól og ég skín alla leiðina heim til þín ég er blær og ég hvísla fögrum orðum í eyru þín ég er rigning og ég míg beint í opið geðið á þér ] [ Leikmyndin uppsett, aðgangseyrinn greiddur. Unnendur dauðans sestir, ekkert sæti laust. Tjaldið að tötrum, skildir leikaranna að flísum. Eggvopn í augnstað, útkoman er óviss en aðlinum er sama, svo lengi sem að sýningin færi þeim tímabundna skemmtun. Og hver hló ekki þegar halti maðurinn missti hendurnar? ] [ Samkoma, gleði, át og söngur. Sögur, slúður, át og söngur. Við erum full af sjálfum okkur. ] [ Einhverntíma einhversstaðar stoppa ég hestana sem komu á móts við mig úr þinni átt. ] [ Bein lína, tvískiptur vegur, krossgötur. Vegur lífsins býður upp á óendanlega margar leiðir, óteljandi áfangastaði og svigrúm til að gera mistök. En svo lengi sem að ferðalangurinn viðurkennir mistök sín getur hann í það minnsta reynt að bæta upp fyrir þau. Niðurlæging og skömm, aðeins tvö af mörgum skrefum sem að ferðalangurinn þarf að ganga til að rata aftur heim. ] [ HATUR þegar ég sá hana varð sjálf myndinn mér að bana , þegar við mættumst í jarða förinni þinni draumar mínir rættust, ég ber enga ást og þú það sást, þú varðst að deyja það er það eina sem ég vill seigja, frekar en að þegja hluturinn var alltof stór að bera nú elska ég mitt hjarta ég náði að skera þig í parta ég hef ekkert um að kvarta. mig langaði samt að eiga þennan hníf sem ég notaði til að stitta þitt litla lif þarna þú lást með augun blá það vildi ég mest sjá þú lást eins og frosinn eins og þú hafir til dauða kosinn mig langaði til að sjá þig í síðasta sinn ég lamdi þig á kinn þú bjóst í borg ó hvað ég sakna þessara sorg nú varstu farin dauð til bana barinn nú get ég farið að sofa þér ég því lofa því ég hafði þig barið staðið upp og farið með þessa góðu minningu. ] [ nú ertu farinn á brott í seinasta sinn mér finnst það svo gott ég verð fljót að gleima þér þvi þú bölvaðir mér. ég vil ekki sjá þig meir nú ég fer þegar sorginn deyr . aldrei aftur ó þessi mikli kraftur sem fær mig til gleima þér og geta aftur sofirð og látið mig dreima um þessi óréttlæti af hverju þið rifust en ég sæti ég á að herja ifir þér og ég má þig berja ég með þessar hendur björtu en þú slær bara svörtu ég skil ekki neitt þegar ég hef ofbeldi beitt ] [ fyrirgefðu mér ég ætlaði ekki að fara frá þér vonandi munum við aftur mætast þá munu draumar mínir rætast ég myndi aftur kætast eða kannski fannstu þér nýja ég vil reyna það að flygja kannski eru augun ykkar búinn að mætast og þið munu banna mér að láta drauma mína rætast tárin að fella eins og það sé úr fötu verið að fella ég verð að fara að skilja að þú myndir mig ekki aftur vilja ég verð að hætta að dreyma og reyna þér að gleyma . ] [ ég er á eiði eyju kemst ekkert lifið er farið út að sigla um hafið ég sé ekkert nema stjörnu kafið ég er í hvítt lak vafið ég vil fara enginn tekur við mér ég öskra enginn vill svara ég átti vináttu með þér nú er hún farinn langt á hafið bláa kemur ekki aftur aldrei til þess þarf þessi mikli kraftur sem lætur fólk vera glatt þegar einkvað illt hendir en þessi undra verði kraftur verður aldrei til aftur og ég hugsa um glötun og þessa bölvaða hatur ég er farinn og sný ekki aftur ] [ ég vil þér söng senda um ást og hlýju þetta lag má ekki enda ég opna mín augu nýju ég er að fara að lenda ég tel upp að tiu eingu úr laginu má henda ég hata töluna níju á hana ég mun aldrey benda ég næ i mina sigju áður enn ég næ að lenda nú er ég þetta lag buinn að senda ] [ ég brosi við spegilmynd minni hún er ekki glöð ég sé það á fals brosinu sem hún reynir að halda uppi ég set á mig skeifu það er eins og spegilmyndinni sé létt eins og hún væri leið og gæti ekki brosað er hún að deyja hún er með skeifu hún vill ekkert seigja hún er bara með skeifu og er að þegja er hún að hugleiða um að deyja svo rennur upp fyrir mér að ég er spegilmynd mín :( ] [ Kæri Adolf sárt vér söknum þín Senn er mál að efla hreina stofninn Úr Jerúsalem rekja júðasvín Og jafnvel byrja að kynda gamla ofninn ] [ Ég tilbið Guð á hnánum nú Komdu nú og kenndu mér og segi við Guð minn í auðmjúkri trú Guðs engla og stjörnur ég sé Boðskapur þinn fyllir hjartans þrá Tómið er farið og fyllt upp með bæn Allt ég get, allt ég má Fylgi guðsorðum sem eru mér væn Innra mér fylgir guðsneisti skær hann fylgir mér götur og strætistorg Útum víðan fallega bæ Þar hitti ég samt marga sem lifa í sorg Þeir þrá eftir boðskap Guðs skapara og í öngstræti þeir hafa ekki séð það svartara Hvert liggur leiðin nú Þeir spyrja sig, eflaust er það trú. Hjartað slær í takt við fótspor hvert fólk vaknar upp við langa drauma En vínið í maga er víst of sterkt Innanklæða það vill því lauma Tíminn er kominn, að leggjast á hné og tilbiðja guð sinn og vona Þótt Gosi sjálfur væri búin úr tré Þá fékk hann líf, sí svona. ] [ Níðhöggur liggur í iðrum mér á meðan hærugráir djöflar í jakkafötum með rauð bindi og horn í stíl ráfa glæfralega um sali sálar minnar. Ormurinn bærir varla á sér heldur kyrru fyrir og bíður færis. Þegar myrkrið skellur á eins og öfundsjúkur elskhugi í hefndarleit heggur hann til og bítur mig í hjartað. Og tær blá tárin vella niður vangana þangað til ég finn aftur fyrir faðmlagi þínu þá leggst ormurinn fyrir að nýju. Hann liggur kyrr og bærir ekki á sér, og á meðan hann er kyrr svelta djöflarnir. ] [ Hún syngur með sinni seiðandi rödd og ákallar framliðnar sálir þar sem hún stendur í fjöruborðinu. Hafið strýkur hvítar iljarnar og reynir að lokka hana til sín. Hún horfir með dreymandi svip á blágræna hafið sem er svo fagurt. Hún leikur við það með söngnum og hefur það á valdi sér um stund. Hafinu líkar við hana þar sem hún stendur líkt og gyðja sem er að bíða eftir einhverju. Svo lokar hún augunum og hreyfir sig í takt við ölduhljóðið. Hún finnur sálirnar í kringum sig, ímyndar sér um stund að hún tilheyri þeim. Skyndilega fellur á dúnalogn og innra með henni ríkir friður sem aldrei hefur verið. Hún er frjáls og snýr til síns heima. ] [ I don’t know my feelings I don’t fiend the love to you anymore You are my friend, but that’s it I wait so long that it is gone I don’t know what I want I don’t understand my self I am sick of trying I’m dust going to stop ] [ Look at my aye, you can see me cry I cry because I loved you once but it is gone and I don’t know why Now I have to say goodbye I don’t understand my self, but I know you’re not the one, I must love I know there is more for me so you can see, I don’t need you anymore but I care for you, that is fore sure ] [ Ég ætla mér að elska þig í nótt inn um rifuna smeygi mér, allt of mjótt Ætla að leita þín þar til þú finnst alveg sama hvað um mig verður minnst Elska þig svo heitt, skal elska þig í alla nótt höfum allt rólegt, alltog hljótt Liggjum undir morgun og elskum heitt frá þessum tíma skal ekkert breytt. Þú þarft í vinnu, ég held þér fast langar bara aðeins lengur, taka ástarkast Þig ég fíla í botn og þú elskar mig á móti svo góð tilfinning að hafa þig, held ég fljóti Heyrum fuglasöng, setjumst upp og brosum svefninn er búinn og við augun losum Vöknum eftir hamagang næturinnar elskumst og kyssum að lokumlitlar kinnar ] [ Ég get verið pirrandi, leiðinleg og frek á mína vondu tíma eins og þú veist tala um hvað allir séu pirrandi og að þú sért sekur ég á mína flækju sem ég get ekki leyst Villtu samt taka mig í sátt ég er bara mannleg og geri mistök alveg eins og þú mátt en ekki saka mig um mína sök Ég er svo lítil og viðkvæm sál viltu bara elska mig og geyma kveiktu lítið ástarbál og hættu mig að leyna Ég get verið ósanngjörn og ráðrík en ég á bara mína tíma viltu fyrirgef mér áður en ég svík og viltu brotin saman líma ] [ Kvalir og pína Þú ei sérð Slefa og blístra Lafandi skott og roðna Lítil mús í holu Þori ekki að segja Hvernig á ég að fara að Hvað á ég að segja Asnalegt að segja: “ég elska þig” Veit það er ekki satt Veit ég kann ei að elska Lítil mús í holu Kann ekki ennþá Langar voðalega Segja þér hluti Lítil og skjálfa Lítil og sár Sé þig labba Ég hoppa upp á tá ] [ Love is evil evil is true true is something something is you Life is dead dead is heaven heaven is escape escape is wonderful Lion is cool cool is ice ice is me me is lion Moreover, I run away… ] [ Ástin hatar mig en ég hana elska Ástin er lífið og lífið er farið Í spegilmynd ástarinnar læðist um skuggi hamingjunnar fer hljótt um Ástin tekur hjarta mitt en ég píni mig áfram Ástin stelur huga mínum og huginn hálfa leiðina dregur Í spegilmynd ástarinnar ráfa um Skuggi hamingjunnar villigötur mig finna Ástin tók af mér lífið en samt áfram reyni Ástin bar mig á villigötur og nú þig reyni að fá... ] [ Mamma bíður í öngum iðar til og frá er með svo rosa löngun að stíga á fallega tá Karlmaður gengur léttur mamma horfir á hún setur upp fléttur og fer svo upp á tá Hann horfir á hana og hlær hún roðnar eins og rós álítur hana fallega mær hún tekur því sem hrós Nú leiðast þau í burtu og verða ástfangin alein þau fara í sturtu og mamma verður smjörlin Alltaf þau eru saman og ekkert er snúið þau hafa það bara gaman og er þetta kvæði nú búið ] [ Svo skrítin tilfinning finnst ég fæðast á ný verð heilmynd í huga þér ég er ímyndun þín og líkar það vel Þú sérð mig þeytast um reyni við huga þinn freista þína sál, ég brosi og svíf um og þér líkar það vel Tilfinningin blossar upp í huga þínum er ég fæðist aftur á ný, leikur þér að mér og mér líkar það vel. ] [ Love can hurt love can be evil but remember you will fiend someone to love You must go on and remember there is more fish Do not let the love get over you dust go on, and I love you! Remember me, I’m still here don’t worry, he will come Wait and see, dust go on Love is not the life. Love can hurt Love can be evil but it is not the life you will fiend someone to love… ] [ Merkingarlaus orð eru vinsæl lofar og svíkur svo strax seigir sæta hluti en meinar svo ekkert segist elska en er það satt? Eins og útsprungin rós búin að þjóna þér búin að lifa og njóta ástarinnar en sest samt niður til að hugsa Elskaði þig og þráði þú varst mitt líf, þar til það fór Nú lifi ég í minningunni og elska ekki meir Lífið á enda og rósin ein þurrkuð, skrælnuð, visnuð Þú vast allt sem ég átti eintóm orð, en það er það eina sem ég get gefið þér nú ] [ Ég stend á tímamótum stari inn í ókomna framtíð er á þröskuld sem skilur að barnið og konuna. Verð á þessum þröskuld dálitla stund en mundu að ég mun missa takið falla inn um gættina standa á eigin fótum. Þú bíður eftir mér á hverju kvöldi vitandi það að ég á eftir að breytast er í mótum hjá lífinu og mun bráðum verða til. Er núna bara mitt á milli á stórum þröskuld en á endanum muntu sjá að ég get bjargað mér sjálf. Gefðu mér frelsi og taktu því með ró lífið hefur margt upp á að bjóða og ég vil fá það allt að sjá og núna er kominn tími til að sleppa. ] [ Í öllum mínum ótta ég elska þig Á meðan ég hrasa hugsa ég til þín Þegar ég er ein leita ég til þín Þegar ástin vaknar veit ég að það er til þín. Alltaf mun ég elska þig sama hvað ég geri, eða segi Alltaf mun ég hugsa til þín á hverjum einasta degi Alltaf mun ég leita til þín á meðan ég lifi. ] [ Fylgdu mér í gegnum myrkrið leiddu mig að ljósinu leyfðu mér að fá að sjá lífsins veg Verðu mig svo fyrir mistökum Vertu hjá mér alla tíð Haltu mér hjá þér í nótt Leiddu mig að ljósinu og stökktu svo með mér í djúpið Syntu með mér til lands Bjargaðu mér upp í sandinn Verðu mig fyrir óhamingju Elskaðu mig! ] [ Brostnir draumar, táraflóð lítil einmanna sál, ástarfár Brosi í gegnum sorgina, hlæ að vitleysu lífsins, kem til þín Leita huggunar hjá þér, ástarbál Hugsa með mér, að þú sért ástin Leita ekki meir, búin að finna þig leggst við hlið þér, sofna Lífið gengur í hringi, ég snýst klukkan verður stopp, tíminn stendur komið kvöld, gæti elskað þig í alla nótt Nú ég verð að fara, hverfa þér frá Geng að læstum dyrum, opna með lykli Lykillinn stendur á sér, hurðin læst kíki inn um gluggann, sé sjálfa mig Ég sit þar inni og hugsa til þín, inní huganum ] [ Hleyp á vegg, brotna niður Gleymi öllum hugsunum Hugsa til þín, bregst í grát Hljóðlaust tal, milli mín og tómsins Fer mér hægt, labba rólega Lít til baka á vegginn Hleyp áfram, reyni að komast burt Veggurinn er hruninn, traustið á lífinu búið Reyni að sofna, stari út í loftið Reyni að gleyma öllu sem hefur gerst Vonlaust líf, vil stökkva niður Hleyp á vegg sem brotnar niður ] [ Þig langar til að elska, verða elskaður en án umhugsunar fellurðu inn í sjálfan þig Þú verður hrifinn af ástinni Hún blindar þig og leiðir áfram, inní óvissuna Þú lætur hana bera þig áfram, eftir straumnum veist ekki hvað þú villt eða hvers vegna ástin á bara að leiða þig áfram En þú verður að ná stjórn á henni, finna fyrir ástinni Ekki elska ástina sjálfa, heldur láttu hana hafa völd hún mun bera þig áfram á flekum lífsins ef þú fellur af syndirðu í land Hún getur ekki varðveitt þig, en láttu ekki stjórnast Reyndu að skilja ástina, láta hana bjarga þér ekki hlaupast á brott á meðan hún er enn til staðar ekki elska ástina notaðu hana til að elska aðra, lifðu með þeim ] [ Ég sit hér og velti fyrir mér hvernig það væri að færast úr stað vakna, lifna við. Ég sit föst inní mér og hugsa hvernig það er að fæðast, verða til á ný. Ég er í dvala innan í mér og get ekki vaknað föst inn í myrkrinu leita að lyklinum til að opna fyrir ljósið komast út verða bjartsýn, sjá lífið. Ligg inní herbergi í höfðinu skelf útí horni vil ekki vera til loka mig af slekk ljósið sofna og fer frá lífinu. Hringrás minni lokið ég ligg í dvala. ] [ Af hverju er sem lífið snúi við mér baki? Allt er að verða ok, og þá ! Allt fer í mask. Langar svo oft til að gera eitthvað eitthvað slæmt, berja mig, drepa mig? Kannski er ekkert vit í því, en samt ég hata mig! Allt þarf að vera svo fjandi erfitt allt er svo ekki til... Stend í tívolíi, föst í hringekjunni langar svo í rússíbanann. Viltu hjálpa mér, ég er föst! Viltu losa mig, ég bið þig. Líflínan of löng, langar burt. Af hverju örlög, hvað er það? Ég vil bara komast burt taktu mig til þín, gerðu það. Ég skal krjúpa á hné. Ég þoli bara ekki þessa hringekju. ] [ Allt hljótt í huga mínum Einbeiti mér að sorgum þínum ljúfar minningar sem við áttum en það var nú ekki allt sem við máttum... Allt í einu er bassaboxi stungið í samband Allt verður snar og ég man af hverju Það var stúlka sem sveik þig Lítil hóra sem reið þér Lítil tussa, hóra, tík reið öllum hér í Reykjavík Því miður varst þú að vera einn af þeim sem hún ákvað að gera mein lítill strákur í sorgum sínum biður um huggun hjá mér og mínum En ég segi þér það nú, þér var nær að ríða tussunni í Reykjavík hún er bara lítil tík stökktu út úr sorgum þínum... því þú færð enga huggun hjá mér og mínum. ] [ Úríll eins og kötturinn þegar ég vandi hann af dósamatnum skríð ég á lappir sumir dagar eru erfiðari en aðrir ] [ ljóð hvað er það er maður bara að semja einkvað úr muninum koma stafir sem leggjast á blað hvaða orð er það útúr stöfunum koma orð sem fara í belg og biðu sem enginn getur lesið pírir á sér augun og reynir að lesa eitt orð í einu stundum koma falleg ljóð en önnur eru dökk sumir semja flott sumir semja ljót en samt eru þau öll búinn að gera sitt besta og eiga skilið að láta í ljós sin ljóð verk . ] [ Þú þarft ekki að skilja hversvegna strax bara skilja að ég græt og þarf þig ] [ Skáldaðu eitthvað krapp um stjörnurnar og augun mín það virðist vera að virka á mig -ég er sko ástfangin Finndu upp og ljúgðu smá um fegurð mína og þokka ef þú vilt nýta þér að ég sé ástfangin af þér Þú mátt annars líka bara elska mig í alvöru ] [ Þetta var kannski þess virði eftir allt saman. Nei, nú lýg ég. ] [ Það er eitthvað svo sérstakt við það að vakna upp einn morguninn án tímaskyns og ekki í sínu rúmi blindur á aðstæður og án eyrna. fara svo á fætur í svartholinu opna hurðina og ganga út í hversdagsleikrit raunveruleikans ] [ "í gegnum stíft skinnið skein óskert hatur". -Þau fæddust inn í heim sem hafði aldrei séð saltið áður en það var borið á gullslegna diska þeirra. En það var eina hábjarta nótt sem maður kom að máli og mælti svo: "Sá er í heimi allra manna ríkastur sem aldrei hefur augum litið peninga" ] [ Ég sé við ljóðin sé ég allt eða sjá ljóðin mig? nei. Ég sé lífið í gegnum ljóðin og ljóðin mín sjá lífið í gegnum mig. Þau stjórna mér. Þau einfaldlega eru ég. Hver hlutur í lífi mínu, í kringum mig hver orð, hver hreyfing er ljóð - eða partur af því. Nýr dagur er nýtt orð Nýtt ljóð. -orðið ljóð er einnig ljóð. Þjáning, gleði, ást, sorg - allt. Ég lifi allt í gegnum ljóðin. En ljóð eru án orða í upphafi orðin eru bara hjálpartæki sem ljóðin nota til að koma sínu til skila. Og ljóskáldið er ljóðið sem ljóðin nota til að koma sínu til skila. Þannig að á morgun þegar ég vakna vaknar ljóðið einnig inn í nýtt ljóð ] [ Þú kemur í þvöguna sem spyrnir á móti. Einn á móti áttatíu og veist þú getur ekkert einn. Svo með talstöð að vopni brjálæðið í augunum hræðslu í höfðinu fingurna spennta um bareflið en skítinn í buxunum kallarðu á vini þína sem koma von bráðar með fleiri vopn meira brjálæði meiri hræðslu og enn meiri skít í buxunum því þeir vita það jafnvel og þú að þó þeir felli einn okkar koma tveir í hans stað af meiri hörku og enn meiri reiði. Og núna augliti til auglits andspænis hver öðrum stöndum við að velli í þögn. Þú ert eflaust með vopn í hendi en vald þitt virði ég ekki og mun aldrei. Svo að án ótta læt ég fyrsta högg þessarar baráttu ríða af. ] [ ég ráfa um í myrkrinu í leit af ljósi, það er eins og það dimmi við hvert fótatak ég sé ekkert, allt er svart í hringum mig. Ég hrópa á fólkið enginn svarar. fólk gengur utan í mig allt verður svartara, að lokum fer fólk að ganga í gegnum mig ég er ósýnileg í myrkrinu ] [ ég fann þegar síðasti blóðdropinn, sá síðasti í líkama mínum rann úr mér.. Ég hætti að anda, hjarta mitt stöðvaðist ég var dáin. Sálin yfirgaf líkamann, ég horfði á sjálfa mig föla og sálarlausa með bláar varir, liggjandi á blóðpolli. en mér leið vel. döpur ákvað ég að halda lífinu áfram, ég fann þegar hjartað fór að slá, heyrði veikann hjartslátt og grét kristaltárum ekki af gleði og ekki af sorg aðeins fyrir að fá að vera hér og lifa þessu lífi lengur. ] [ Hjörtu okkar slá í takt við erum sem eitt, þegar ég ligg í faðmi þínum og horfi á stjörnurnar, horfi á himininn, og sé tunglið lýsa upp hjörtu okkar, veit ég það, finn það, að við elskum hvort annað. ] [ Þú, sem blíður blær hafi liðið hjá, dregið fingurgóma þína eftir strengjum hörpu, líkt og hrynjandi sláttur hjarta míns er þú strýkur líkama minn... Ég, sem lítið feimið fiðrildi, kitla í þér hláturtaugarnar með vængjaslætti mínum, líkt og kossar þínir kitla mig er varir þínar snerta mig... Við, sem hamingjusamir einstaklingar, og eiga framtíðina saman í hvors annars örmum, líkt og tvístirni á himninum er eyða ævi sinni saman... ] [ Við liggjum saman undir þykku teppi og horfum á norðurljósin Orð eru óþörf við hlýjum hvort öðru kyssumst létt njótum hvors annars ] [ Fullt tungl, fullt torg fullur. tekinn í armana, varirnar blautar þrýstur, snertur, þreifaður, strokinn leiddur heim..."heim". Aftur leiddur - inn um dyr gripinn í myrkri, dýnan fellur afklæddur - hendurnar á henni núna. "athöfn"--Makast. myrkrið umlykur okkur tveir, þrír, fjórir tímar. Andvarp Ligg á hliðinni, hendin á henni. grípur, þrífur, kyssir góða nótt. andardráttur, hún sefur ekki ég - andvaka. Lít á úrið, það er tími. klæddur aftur, gríp rennheitur kveðjukoss, ástarorð opna hurð, geng út, loka hurð. geng... ég er einn á ferð finn mótor, fer með mótor. sex þrjátíu um morgunn reyki sígarettu, afklæðist í speglinum: klóruför á bakinu öllu. Hvernig get ég nokkurntímann gleymt þér orðin lifandi á blaði Hvernig get ég nokkurntímann gleymt þér? ] [ Stjörnurnar eru eins og göt á himinhvelfingunni í gegnum þær skín ljósið frá himnaríki ] [ Himinsnjór á ljósbláum bakgrunni í hárri hæð hann hreyfist. -af fuglasöng í frjálsu fallinu má ekki hugsa um það sem er ekki hér. Dreifist um og afmyndast sú sundbaka sem áður var. Það líður hægt en ekki stopp og einhver fljúga meira en önnur. úr ljósbláum yfir í dökblátt himininn hann er yfir mér. Af gráum himni myndaðist blítt sú fegurð sem blár himinn er ] [ Það var einn góðan veðurdag að ég vaknaði helblár upp og sólin beit mig í augun ég reis upp með braki og byrjaði að ganga hægt. Berfættur gekk ég á glóandi gólfi en morgunvökvinn frá hágrátandi himninum fældi burt logana og eftir ótrúlegt dansandi himnaspil var blóm risastórt LOKAÐ! Svo ég stóð á höndum og gekk á hvolfi í átt að blóminu og eftir smástund smellti ég rólega kossi á eitt blaðið og viti menn! með sinfóníu í eyrunum sá ég það opnast upp og ég sá þá loks hvað himininn hafði sent mér hann sendi mér þig ] [ -fáein skref mér þér- hefjum okkur til flugs en stöndum þó dönsum saman vals í skýjunum yfir landslagi augnaráðsins og æðar okkar syngja óperur og meiraðsegja Mozart klappar Gakktu með mér á stað þar sem það sem er er ekki en þó samt fjólubláleitum með sköpulag dúnsængur í kvöldsólinni. En veistu veistu að við þurfum niður á jörðina? Vefjum okkur kaðal úr sólargeislum og stjörnuþokum og sígum niður. Við fórum aldrei neitt með líkama okkar. Við lokuðum bara augunum í augnablik og gengum -fáein skref með þér- ] [ Datt í jörðina grét mig fullan af "-". hellti vatni í eyrun neitaði að heyra þig sjá. Þú, hver ert þú? persóna af holdi og blóði? pennastrik? tónlist? reiðhjól? ert þú ég og ég þú? og hinn líka? Fegurðin speglast í pollinum og yfir svífur gervitungl. Gervi - Tungl. Tunglídularbúningi sveif yfir fegurðina sem speglaðist í pollinum. -Eða undir fegurðina? En hei lítum á staðreyndir - aftur á jörðina Þú ert þú ég er ég fegurðin sem speglaðist í pollinum erum við við erum fögur. Og tungliðídularbúningi gervi - tunglið er það sem er á milli okkar ] [ Draumurinn fallinn veit ekki hvort ég á að hlæja eða gráta hræddur við að hreyfa mig hræddur við að vera kyrr. óvissan kveikir eld í huga mínum svíðandi brennandi grátþrútinn innan frá. -reyni að halda andlitinu þó. Ástin ég veit ekki hvort hún er að fara eða koma snerting hennar fyllir mig þrótt til að takast á til að styrkjast til að róast. Hún hún gerir mig óðan góðan hún gerir mig "lifandi" ] [ Hávaði ég vakna upp úr draumi reyni að ná áttum skil ekkert, sé ekkert. Leiftur ég kippist til af hræðslu veggirnir upplýstir á sekúndubroti. Aftur titrar allt í kringum mig teygi mig í sængina og dreg uppfyrir haus. Hitinn er óbærilegur en ég þori ekki öðru. Drunur, LEIFTUR! Finnst sem himininn sé að klofna. Fyrst: skerandi, rífandi glerbrotshljóð svo djúpt og drungalegt urr! -það rifnar gat á himininn. Regnið fellur á þakið hrynur frá himninum sem rifnaði gat á. Aftur hávaðinn heldur áfram rífur himininn í sundur annarsstaðar og ég ligg enn í rúminu með sængina uppfyrir haus ] [ Lífið er eins og ólesin bók ein blaðsíða hver dagur einn kafli hvert ár endirinn líkt og dauðinn ] [ I Blóð sem vellur bullsýður að flæða upp samansaumuð sköp yfir flaðrandi blaut geirvartnablóm Hann: Klámkjaftur úr Dickens á kenndiríi Hún: Reykvískur sleikipinni vor og vöxturinn eftir því II Þagnar í orðahríðinni þekktur málshákur dregur gluggatjöldin fyrir girðir niður buxurnar og talar við sjálfan sig III Að fara upp sköp einnar konu er eins og að koma út úr annarri að finna nýjan nafla til að hringla í klóra sér far, gera sér hreiður í sárinu Eitt brjóst tvö brjóst nafli og sköp Þetta líffæri er eins og Cadillac Þetta líffæri er eins og útihátíð Ný hálstök nýir snípaleikir vasabilljard með tröllabelli og kuntan nær honum upp í haus. IV Með titrara í rassinum til að líða betur Klappar blómunum á bakið sofnar frjóofnæminu sofnar sjálfur sofnar. V Blóð sem vellur upp samansaumuð sköp bullsýður að flæða upp samansaumuð sköp blóð sem flæðir upp samansaumuð sköp tröllaballar blóð upp samansaumuð sköp. ] [ Tjaldið lyftist (maður kveikir á útvarpi) (bók fellur úr hillu á bókasafni) (áhorfendur tryllast stutta stund, en þagna svo skyndilega eins og höndum hafi verið fórnað). Ljóshærðar kynþokkagyðjur (eins og úr fiftís bíómynd) í ljósrauðum tálkjólum þetta eru ekki mellur heldur gleðikonur í svörtum sokkaböndum hlæjandi hver að annarri en samræminu (og samkvæminu) óhjákvæmilega og algerlega óvænt raskað af miðaldra manni í gráum jakkafötum með .38 kalibera fant milli fingrana. „Haldið fyrir eyrun dömur, nú verða læti!” Óskiljanlega, skellir maðurinn upp úr. Stúlkurnar gapa og hiksta og skelfast en eru of furðu lostnar til að skjálfa. Ekkert af þessu var í handritinu. „Dömur, ég er ekki að grínast, haldið fyrir eyrun og gerið það strax!” Ein af annarri fylla þeir eyru sín fingrum svo neglurnar (dömur eru alltaf með dulitlar neglur) skrapa hljóðhimnuna án þess að skemma hana verulega. Þegar engin þeirra heyrir lengur til, miðar maðurinn vandlega á svarta leðurtánna, skýtur sig í fótinn og haltrar bölvandi út. Tjaldið fellur. Útvarpið dettur á gólfið. Bókin brennur. Áhorfendur missa sig gjörsamlega í fanatískt brjálæði, ganga fylktu liði niður í miðbæ og henda stjórnarráðinu stein fyrir stein í tjörnina. ] [ Tígrar eru töff það segja það allir siðferðilegur skilningur er ekki bjór. Bjór er töff, það segja það allir. ] [ Tré minna mig bara á sólskildi sem aftur minna mig bara á rízómið sem ég held hljóti að eiga sér stríðinn bústað í mjöðmum rússneskrar stúlku (þær bera við brúnina á borðinu mínu) og hún dettur af stað eins og hún hafi alltaf verið í nákvæmlega þessu rými og sé svo vön því að meira að segja kollhnísar og byltur koma henni ekki lengur í opna skjöldu þegar ég gef henni típrósent tipps og brosi mér alla leiðina heim. ] [ Ástir og ananas og leðurjakkar og litlir gítarar og litlir strákar sem eiga að taka við fyrirtækjum feðra sinna þegar feðra sinna verða gamlir og bíta hendurnar sem éta börnin sín og skyldmenni barna sinna ræki þau ekki skyldur sínar og taki ofan virðingu sína við rotnaðar kynslóðir réttritunarreglubræðra (Rím sagði einhver, og höfuðstafur, Rím-bó var franskur bissness maður sem skeit eitt sinn á kodda og er frægur fyrir vikið nefndur skáld) Elvis Presley með lítinn gítar lítill strákur í stórri bíómynd og vill ekki taka við fyrirtæki föður síns því hann hefur allt önnur plön sem ég man ekki hver eru en þetta gerðist allt á Blue Hawaii og kærastan hans var reið við hann fyrir að kyssa flugfreyju og hann er betra skáld en við allir fyrir munnsvipinn og augnaráðið og fyrir röddina alger greppur og fékk sjálfsagt meira að ríða en allir íslendingar til samans þó hann yrði feitur og brostinn fyrir aldur fram og íslenskar konur þykja kannski lauslátar en engin þeirra var nokkru sinni kennd við Elvis því þrátt fyrir lauslætið þá er ekki nema rétt svo mikið til af íslenskum konum að þær nái að flæða út yfir landsteinana til Færeyja en ekki til Ameríku því hún er svo langt í burtu Eia orti svo skáldið og þóttist töff því eia er ekki orð heldur einhver vitleysa og svo dó hann löngu seinna og skáldin sem á eftir honum komu eyddu áratugum í að yrkja sig út úr þessu eina eia sem var svo kannski bara ekkert merkilegt til að byrja með. Þetta var ekki Rím-bó heldur Laxness, sem samkvæmt orðabókinni minni er enska og þýðir linkulegur. ] [ Að frelsa heiminn er eins og að standa uppi á stól í stóru veitingahúsi og kalla út í salinn: Er einhver hér inni í kórónafötum? Og öllum er ljóst, að þessi maður er galinn. ] [ Prologus Og hann sté inn... og hann leit til beggja hliða haugur af dagblöðum á aðra hönd og opin dolla af gamalli kotasælu á borðinu hann stakk annarri hendinni í vasann og dró fram – lokað í lófa – uppstrílað dómadagsljóð sparifatakvæði fyrir brennandi kirkjur óð til blæðandi klassahóru (hún var á síðasta snúningi og átti skilið nokkur falleg orð til að deyja frá brauðstritinu – átti skilið falleg orð eins og aðrir sem kikna ekki á vaktinni) opnar lófann svo efsti dagur sprettur af stað skiptilykill og ást og kebab og rútan-sem-fer-alltaf-á-leiðarenda og flögrandi dansandi horna á milli yfir kotasælu og dagblaðahrúgum stíga á tær hvort öðru takast á flug og detta svo einhverntímann standi þau á fætur orðin að föstum lykli og sameiginlegri ábyrgð brauði og hlaðbaknum-til-að-koma-krökkunum-í-skólann ljóðið varla nema kviðlingurinn af sjálfu sér lokað aftur í lófa í vasa sem klappar því varlega breiðir yfir það pappírssnifsi og syngur því þjóðsönginn fyrir háttinn. I Heimurinn er allur með öðrum orðum. Ég segi ekki að hann sé fallegri – að sólin setjist hægar eða menn drepi hvorn annan síður að ástæðulausu en ég er allur eitthvað frískari með öðrum orðum dansandi m.ö.o. í átökum tek á takandi á og kann vel við að finna undir fingrum mér nýtt hold og þegar þetta skvapar sér úr greipum mér kemur sólin og sest með öðrum orðum annarstaðar og við náum loks að smeygja á milli okkar þessari indælu kaldhæðni – heimur með öðrum orðum er aldrei beinlínis stöðugur og því ókyrrist ég stundum sjálfur renn á rassinum eitthvað út í buskann-buskann og rek mig í rogastans með höfuðið kyrfilega skorðað milli allt annarra brjósta en ég er vanur kæfi mig næstum við að reigja á mér höfuðið og tóna frygðarlega „Elskan mín hóran mín brostu eða ég læt af látunum og fer.” II Æ öll þessi ha?-hamingja er mér ekki eðlileg. Þetta er bara veröld. Hún er meira að segja vond og ljót og full af misskilningi og reglugerðum. Freiheit og libertad eru mín en hagsýnustu menn eru sammála um að einkaaðilar séu mun betur til þess verks búnir að reka frelsið en fólk almennt – langar í freundin þar sem kærustur duga ekki lengur. III Iss bara veröld þó þeir beri hana öðruvísi fram. Iss piss. Þroskasaga? Það er ekkert til að tala um sem ekki er þroski. Nema hégómi nema rólegheiturnar og ég í samræðu við hinn upphafna sjálfan mig óska mér holds og óska því svo jafn harðan burt. Ástarljóð? Ja... nei. Þroskasaga. Í gegnum kóngana þrjá, granna feita og litríka Búdda í hold saman á blístrinu í heimsendapúlsandi apókalypsó í myrkrinu og þögninni á klúbbunum þegar ég get ekki talað við fólk. Hyglum við dýrinu? Er það þá ekki bara ágætt. Svona fyrst það er mennskt. IV Niðri á jörðinni í laut sem rennur undan snjó í maí komandi talar sólin til mín án málalenginga breimar og hvíslar: „Ef þú brosir ekki linni ég látum og fer. Brostu hóran mín.” Kom óboðin óforvarendis í einskis boði og setur fram kröfur af öllum tegundum en þverneitar að vera meðfærileg sjálf: „Þú getur ekki átt mig!” eins og einhver vitlaus menntaskólastelpa í tilvistarkreppu. Auðvitað get ég átt þig! En ég svara: „Hérna... sól... uhhh... sól... uhh... hérna.... skín á mig?” sposkur og vona að hún kunni að meta íslenskan kraftaskáldskap og fyrirgefi mér loks og að lokum. V Gírugt barn að rífa heiminn úr höndum þér? –Krass! Og heimurinn (finnst þér) skælast og skekkjast að öðrum orðum? –Krass! Krass! Honum vindur upp og niður hringiður af kringlfimi skoppandi flögrandi krass! það stenst ekki að heimurinn sé skopparakringla skopparakringlur þurfa undirstöður og jafnvægismiðju krass krass! Barnið leikur sér að hjala krass við umhverfið öskra og skíta til skiptis særa fram krass óróa yfir rimlarúminu og slefa yfir rúmteppið og hlær svo krass að öllu saman. Gleymdu aldrei að viljirðu kenna barninu að forðast eldinn, þarftu fyrst að brenna barnið. Byrgirðu brunninn drepumst við öll úr þorsta. Að gera heiminn barnheldan er að eyðileggja heiminn. VI Eru þessi orð ort í eilífðina? Nei nei. Og fussumsvei. Hæst bylur í tómri...!!! og það allt saman. Það þarf einhver að snúa skortinum í birgðir setja hann á flösku drösla flöskunum á markaðinn með asnann í eftirdragi og selja hann ódýrt. Þú vilt virkilega ekki vita hvernig þessu lýkur. VII Og hvaðan kemur þessi hvöt til að vera með, frekar en á móti, frekar á móti en með. Er það líka hjarðhugsun ef við syndum saman á móti straumnum? Og kannski rofnar einbeitingin einmitt hér í þessum ós sem uppsprettan sá í hillingum og svörin sökkva á kaf í froðuna án þess að spurningarnar hafi látið sjá sig sökkva sökkva loksins brosandi hóran mín elskan mín loksins brosandi. ] [ Í þá gömlugóðudaga að ruglukollvikin náðu mér aftur um hnakka – það eru ansi margir dagar orðnir aðrir en þá var – fréttist síðast af Meistara í Mannlegum Samskiptum makindalegum í eigin blóði sárlyndislegum á gangstéttarbrún við Austurstræti; hann var laminn greyið – það er ekki hægt að ætlast til að allir séu lífverur. Ég er t.d. rotvera. – rótvera – lát-vera – ekki tilbúinn þráður í líkama mínum ekki heil í hugsun í höfði mér heldur þessi sprottin úr órækt og skipulagsleysi: Bananal kanónískar rottur lifa alltaf af stökkva alltaf frá borði rétt áður en skipið leggur úr höfn skríða upp undir pilsin á duggaramellum og segjast nýkomnar frá Cuxhaven og Hull með lestarfylli af kjaftæði handa landanum og „hver er það eiginlega heldurðu sem dregur allan gjaldeyrinn frá útlöndum?” spyrja þær stoltar og lygnar og kokhraustar og mellurnar rugga sér svo í lendunum renna upp pilsfaldinum og skella gulnuðu vaselíni milli mattra barma sér rétt eins og rotturnar myndu hantera fisk ef þær hefðu hugrekki til – lífið er lítið grín á veltingi og stórstormandi útsjó þegar þú vaknar í lausu lofti með meter niður í rúmið hjá þér og káetan hefur tekið á sig brot svo veggurinn er hálfur kominn ofaní efri kojuna og þú átt í mestu erfiðleikum með að opna hurðina til að dröslast á vakt. Þegar dagur hefst ruggar dugga í slefinu á koddanum þínum. Í duggunni er ég. Mér hefur verið sagt að Ísland sé klettur í Atlantshafi og íbúar þess þurfi að halda sér fast til að fjúka ekki út í sjó. Þetta er ekki satt. Ísland er þorskur, og íslendingar svif í maga hans. Í hug dettur mér annar, barnabarnalegur, hugsandi: Steinn bítur börn á sjómannadegi; börnunum verður hverft við og berja Stein til ólífis með naglaspýtu. Tálknfræði: Maður tálknar afl og afl tálknar framleiðni og framleiðni tálknar pening og peningur tálknar mat og matur tálknar mann og maður tálknar afl og þannig áfram þangað til skorpan er orðin gullinbrún og allt helst til dautt. ] [ Öllum að óvörum reið haikan um sveitir með allt á hornum sér, búin beittum eggjum, og tók að höggva bragarhætti hægri vinstri. Í minni pokann létu kynstrin öll af atómljóðum, höfuðstafirnir vegnir með veggjum blæddu stuðlum um strjúpann. Kviðlingur einn um ástina laugaði hvarma sína, einmana á skítugum bedda skíttur út næturgreiða, lygin var megn og hann dó þrátt fyrir það. Máttugustu ljóðabálkar –jafnvel allsráðandi dellur– lágu út úr sér iðraðir, augljósir, drepnir æ ofaní dagsins aí, jafnvel þeim var ekki eirt lífs. Hliðstæður, andstæður, endurtekningar, merkingarleysur, stúfar, uppskafningar og lágkúrur stundu í takt við gný dauðans þegar húsum reið japanskur bragarháttur með krosslagða fætur, eitt orð yfir annað af allt að því óskammfeilinni Ró. Síðust féll haikan sjálf á hnén, rak upp stríðskvein, lyfti sveðjunni hátt yfir höfuð sér, og rak sig í gegn. ] [ Frostrósir þiðna af lendum mér svo leysir niður læri og tær Ó hve dirrindýrðarlega dásamlegt að eiga heim, minn snjótittlingur er sólskríkja á ný! og valhoppandi míg ég á sölnuð sólblómablómin, brenni kornfleksgrasið með stækkunargleri svo reyklyktin rekur burt úr nösum mér fúna blauta glaðlega hjarðlykt vorsins –heimurinn er gamall sokkur í apríl, margístoppaður og stökkur undir fingri. Á vorin hugsa ég um að drepa guði, og fæ standpínu eins og yfir dásemdardapurri draumsnauðri mellu eða stelpu sem er bara að biðja um það (ekki eins og ég sé ástfanginn, heldur eins og eitthvað sé að mér). Veröldin er ljúf og ég er ekki sem verstur ógirtur og soginn af sólblómablómum –væri mér gert að vera blóm, yrði ég vatnalilja með froski sem skýtur rótum í vatnsbotn og slitnar eins og í brúðumyndinni um Þumallínu –auðmýkt – – lífið snýst um að sýna auðmýkt! Að lokum hlýtur einhver að hafa fengið nóg, þeir tætluðu vorið –frekjulega og stjórnlaust (eins og þeir væru bara að sýna sig)– og klufu það í eindir sínar [Kristur reif sig lausan af krossinum, lét sér blæða út á kirkjugólfinu, sagðist hafa fengið nóg] og sumardagurinn fyrsti rann upp með brjálstormum hríð og fjúki, leit ekki dagsins ljós fyrir óveðrinu Nú dansa englar í kornfleksgrasinu. Nú dansar blóðugur mannssonur við mannana börn. Nú dansar hvert dirrindí ] [ Suma daga er ekkert að gera utan að mála þakið á húsinu sínu rautt ofaní rautt. ] [ (tileinkað Besta Vini Ljóðsins) Öskrum svo hátt að yfirgnæfi ljóðið! Að skáldið þagni myndlíkingin deyi stuðlar falli í höfuðstafi því tíminn og rímið eru ekki rétt gerð (hver hefur rúm fyrir tíma og rím?) Öskrum svo hátt að yfirgnæfi ljóðið! Orðin hljóma ekki lengur eins og ég meini þau; drukkna í suttungamiði ældum af vörum skáldsins sem yrkir ljóð eins og hann reiknar og lesandinn tekur fyrir nefið því hann veit betur en játar það ekki fyrir nokkrum manni. Öskrum svo hátt að yfirgnæfi ljóðið! Kórónum svo verkið: kljúfum bókmenntafræðinginn í herðar niður fleygjum ritstjóranum fyrir ljónin og brennum allan kveðskapinn. ] [ Sundurslitnar keðjur af fingurkjúkum þurrar bryggjustultur blekpenni úr gegnheilu tré og dauður maður í léreftspoka (hann var ótukt hvort eð er) og ég skúra gólf mér til lífsviðurværis. ] [ Æ ólund og angist og öfund og annað. Allt hvað af tekur! allt hvað af tekur! Hvar eru þau gullin mín kvenna gullin mín gullið mitt -mitt guðið mitt gauðið mitt? Ó minn æri, upp læri læri ljóðin mín, meðan þjóðin mín, afskipta þjóðin mín bandar út höndunum bullið mitt bullið mitt hvar geymist bullið mitt betur en hér kæra kvendi kona og þjóð. Og svo hærra yfir fjöllunum fjarskana dölunum djúpunum, hærra! hrópið hærra! Burgeis og þó og þý og þú á spena gullsins míns bullsins míns! Bandarandabýbýbý -jájá elsku gullið mitt gullið mitt ég skal geyma guðið þitt ef þú vilt reisa krossinn minn hnýta allan lárvið og párvið um skápinn í skáldinu með gullið í bullinu. ] [ Vegurinn rennur undan mér og ég renn með rútunni. Ég er orðinn svo vanur að fara að mér finnst ég varla hafa verið nokkurstaðar lengur. Ég var varla kominn út úr henni í morgun þegar ég þaut af stað -afkynlífaður, náði ekki að pakka -það er eitthvað fjári óréttlátt við að fá ekki burstaðar í sér tennurnar að morgni dags. Og hér er ég mættur í nýtt land og hér er rúta utanum plussklætt rauðsæti og hér eru stórar rúður undir landslagið. Hér er ekki jafn grýtt en svei mér þá ef trén eru ekki fleiri. Ég sé ekki neitt fyrir trjátoppum. Er það þá hingað sem ég er horfinn? Í þetta skiptið? Ekki það ég kvarti. Þetta er ágætt. Í gær drakk ég frítt í morgun svaf ég hjá og í dag er ég farinn. ] [ Setjið fræga fólkið í þyrlu fljúgið með það á Suðurskautið og skiljið það eftir en fylgist með því hver króknar fyrst ef þið viljið vita hver er verst klædda stjarna ársins ] [ Ef maður tekur tvö meðalþroskuð Washington Delicious epli og sökkvir þeim í fiskabúr nágrannans undir geisla vasaljóssins og bætir út í einni Campbells Cream of Chicken súpu og syngur úkraínska þjóðsönginn Hefur maður sóað tveimur ágætis eplum, einni súpu og sennilega drepið alla fiskana. ] [ Ó eilífa barn ótal 10 ára afmæla! sem þúsund sinnum hefur þúsund sinnum skrifað á töflu kennarans: „Ég á ekki að...“ Enn berðu sjúklegt litarhaft fjölskyldu þinnar. ] [ Hundurinn hrapar nú í tilraunaskyni niður úr skýjunum með fyrstu fallhlíf í heimi bundna við loðinn skrokkinn Vindurinn í flaksandi eyrum hans er beint framhald af opnum hleranum Handleggnum sem henti spýtunni út og röddinni sem sagði: „Sæktu.“ ] [ Í dalnum sit ég og meðal oss er dauðinn áfengið flæðir á allra vörum fólkið horfir á svarta sauðinn fórnarlamb er flutt á börum. Í dimmum skugga bjargsins Í járnum svartur depill situr er skugga fleytti yfir í krókknar kulda er hann bitur Í skelfingu sá lifir. Því deytt hefur lífi mannsins Öskur og grátur yfir geysir skelfingin lýðinn grípur svartur depill sig sjálfan leysir í hausinn á sér hann skítur. Því deytt hafði lífi mannsins Saklaus reyndist hann svo vera svona fer vínið með mann hvað annað átti hann að gera því eitt við vitum um hann. Hann var sonur fórnarlambsins ] [ Ég les allar slæmu fréttirnar í Séð og Heyrt fyrst af því að sá sem sér stjörnuhrap má óska sér ] [ Í kringum kúlulaga öskrandi yfirborð hleypur þú með útbreyddan faðm og tryllingslegt blik í augunum, eins og allt sé að hverfa nema þú. Á brjósti þínu brotnar himininn í ótal smáar agnir og freyðir hvítur milli þín og umheimsins, kitlar þig og kvelur þig svo þú hrópar upp yfir þig. Ef þú sérð þér færi á að setjast pínu stund, hnígur örmagna niður milli grjóta og kletta, ertu vakinn með hraði. Og með lokuð augu ríst þú á fætur byrjar að hlaupa og umvefur gömul fótspor með hálf syfjulegu brosi. Fegurð þín er afstæð þegar þú þýtur áfram. Kraftur þinn og elja endalaus. Því í flýtinum gleymdirðu að gæta þín og grófst úr fjöllunum, byltir um bátnum. Og með bátnum hvarf maður konu sem beið við hlið þér og bætir nú tárum við veldi þitt. En ferðalangur, þú ert þó öruggur hvílustaður. Og á fingurgómum þínum dansa þeir sem þig dvelja, langþreyttir. Í kringum kúlulaga öskrandi yfirborð hleypur þú með útbreyddan faðm og ég heyri þig brosa, ég heyri það á rödd þinni og sé það á blikinu í augum þínum. Jafvel þó þú hræðir mig. ] [ Lucid dreaming when i'm awake I'm all alone, nobody cares Please for gods sake Please come next time, he dares ] [ It’s like my life just froze But still, it’s kinda good i suppose Full bottle of wine But it would be nice to break it And cut myself with it ] [ Feeling something A loose leash or a piece of stability? ] [ Lets open our gates Unfold our wings and share them That’s gods will according to his sign He could had told us some other way ] [ So clean, left alone Broken Leash Afraid of Freedom ] [ Peace makes us pretty ] [ Í viðjum hjónabands Sálin situr fangin lágvær öskur andans bæld og bangin Rís upp persóna í vonarósk og gleði Hljómar þinna tóna Líf og hamingja að veði ] [ Nú skil ég stráin, sem fönnin felur og fann þeirra vetrarkvíða. Þeir vita það best, sem vin sinn þrá, hve vorsins er langt að bíða. Að haustnóttum sá ég þig sigla burtu, og svo komi hinn langi vetur. Þótt vald hans sé mikið, veit ég þó, að vorið, það má sín betur. Minningin talar máli hins liðna, og margt hefur hrunið til grunna... Þeir vita það best, hvað vetur er, sem vorinu heitast unna. En svo fór loksins að líða að vori og leysa mjallir og klaka. Ég fann, að þú varst að hugsa heim og hlaust að koma til baka. Þú hlýtur að vera á heimleið og koma með heita og rjóða vanga, því sólin guðar á gluggann minn, og grasið er farið að anga. ] [ Hún hét Abba-labba-lá. Hún var svört og brún á brá og átti kofa í skóginum á milli grænna greina og trúði á stokka og steina. En enginn vissi, hvaðan hún kom í þennan skóg; enginn vissi, hvers vegna hún ærslaðist og hló, og enginn vissi, hvers vegna hún bæði beit og sló.- Hún hét Abba-labba-lá. Hún var svört og brún á brá og gerði alla vitlausa, sem vildu í hana ná. Á villidýrablóði, á villidýrablóði, lifði Abba-labba-lá. ...Einu sinni sá ég Abba-labba-lá. Hún dansaði í skóginum, svört og brún á brá. Mér hlýnaði um hjartað og hrópaði hana á: Abba-labba, Abba-labba, Abba-labba-lá! Þá kom hún til mín hlaupandi og kyssti mig og hló, beit mig og saug úr mér blóðið, -svo ég dó. -Og afturgenginn hrópa ég út yfir land og sjá: Varið ykkur, veslingar, varið ykkur, veslingar, á Abba-labba-lá. ] [ Why does it have to be this way? I’ve lost my angel today Why doesn’t anybody listen to what I got to say? I’ve lost my angel away I’ve been trying to tell you why Only for you, I will die You are my breath Without you, I have only death You are my eyes, without you I’m blind Empty mind Looking for something I’ll never find Memories I left behind My angel is gone I don’t know what is going on Who killed my angel? Someone’s going to pay for this ] [ God made a big mistake He sends me to this world for me to take Every pain in every heart Instead my own, has fallen apart What do I get instead? Only wishful thinking I was dead My feelings are wrecked My heart is whacked I can’t even think on my own… What has happened to these perfect friends? Our friendship has faded and soon it ends Why? I scream in the rain On my both knees knocking my head in the ground trying to blow my brain I see my blood in a pistol smoke I stop breathing and about to choke I hear people around celebrating my death I knew everybody hated me…. I’ve made my friends become numb They’re fading away; I wish I could do some I hate who I am, I hate what I’m going to become I’m just counting down to the minute I kill myself I don’t care anymore on my behalf This might be my last poem, I really don’t mind Another idiot like me is easy too find I’m just another freak who was left behind How could I be this stupid, I was blind? But now my eyes have opened so I can finally see All the bullshit people are talking about me Fuck everybody who hates me Fuck everybody who thinks I can’t amount to shit Tell me to kill myself, fuck; I might as well do it When you read this, maybe I’m dead, maybe I’m not Like who gives a fuck so, so what? Like Manson said: This was never my world U took my angel away I’ll kill myself to make everybody pay….. ] [ Can’t believe I listened to your word They are the most fake shit I ever heard You told me you were never going to leave me You have… All lies, everything I said was just a joke to you Do you have any idea what I’ve been through? I’ve done everything I can to make this good If I could find a way to die, I would You don’t know shit, you lied to me Made me feel so free But in reality I’m in my own pain My head is going to blow, I’m going insane When I look at your picture, I feel nothing I’m dead because of you….. I’m mad, I’m sad, bang! I’m dead ] [ I have pictures in my mind Walking away leaving you behind My eyes are fading, my skin is turning none When I turn around, you’re gone Sometimes I feel empty and I don’t know why Memories of you will never die… I miss you so much, but I left you alone I’ve tried to contact you but no one answers the phone Please come back to me, I can’t breath I feel this pain calling me deep beneath Can’t live without you…. Don’t know what to do… I don’t know if I can live this through…. I beg you; I will do anything to be yours again I had my chance, but I ran…. ] [ There are no words to describe how I feel I just wish these dreams would become real So tired thinking that all it seem Will always stay in my dream I just think I might not last the day It’s wrong but I believe it anyway Everything has been said that need to say I’ll just turn back to my life and walk my own way ] [ Hjarta mitt er í þúsund brotum, dreift um allt, gólf. Eitt brot situr fast á milli hurðarinnar og þröskuldsins. Þó, finn ég ekki mín hjarta'stykki því augun eru full af tárum. ] [ Þegar blómin opna krónur sínar á sumrin Þegar býflugur fljúga ögrandi á fólk Þegar sólskinið glampar í andliti fólks Þegar hjartað slær hraðar og hraðar Þegar ögrandi hitabylgja hrekkir naktar sálir Þegar kvöldroðinn við sjóndeildarhring vekur upp rómantíska stund Allt þetta gerist þegar menning samfélagsins hlakkar í hjörtum fólks og það byrjar að njóta. NJÓTA AÐ VERA TIL ] [ Jesus Christ???? God???? The Government???? Can they help me???? Jesus...... There is only one thing to say. Fiction...... God!!! Well..... What a frod. The Government!!! One Hell Of A..... Joke.... ] [ As I wonder As I see You're so stupid I can´t believe You fell for it You fell for that Oh your so stupid On that I´ll bet Well I´m so stupid I lost the bet That feeling is stupid Have to eat my own hat. ] [ Where ever I am I´ll be thinking of you In Spain or in France You´ll hunt me like glue All the glory of Scotland All the wonders in Greece They wont match your beauty They wont match my pain The search for my love The hunt to be happy I Will travel the earth Where are you? All this money I spent To all these countreis i went I was searching for you All this time you were here Right by my side Right in my lap why did´nt I noteist You by my side all the time. ] [ A new day, a new night Brand new sun, some new dark clouds At the bay, at my right I shall run, make some crowds ] [ There´s no damn pity That the International Lovers will rock this city ] [ Syndir mínar eru hengdar á kross og móður minni gef ég koss Signing hjartans breytir oss og að baða sig í köldum foss UPPTALIN ATRIÐI, HAFA TILGANG ] [ ljóshærð og bláeygð aðeins sex ára gömul og dreymdi draum hverrar stelpu hún óx og draumarnir með draumarnir létu bíða eftir sér þar til hún hætti að bíða eitthvað innra með henni brast hún byssuna tók og setti í fang sér kjarkinn brast, ef nokkur var skrímslið kom fram hún ýtti því til hliðar þar til það yfirtók að lokum í dag býr í henni skrímsli hún sjálf er undir því og bíður í offvæni eftir dauða sínum ] [ Ég horfði á skuggana dansa á bláhvítum veggnum þeir tókust í hendur og kunnu sér ekkert hóf Ég horfði á laufblöðin fljúga fannhvíta fugla sem hurfu í sólarátt. Og bros þitt brann eins og eldur blossandi bál þegar ég spurði: Mun ég nokkurn tíma geta fyrirgefið þér ? ] [ Ég horfði á lífið sökkva eins og stein ofan í blásvart vatnið uns ég sá það ekki lengur. ] [ Svei þér, andvakan arga! uni þér hver sem má. Þú hefur mæðumarga myrkurstund oss í hjá búið með böl og þrá, fjöri og kjark að farga. Fátt verður þeim til bjarga, sem nóttin níðist á. Myrkrið er manna fjandi, meiðir það líf og sál, sídimmt og síþegjandi svo sem helvítis bál gjörfullt með gys og tál. Veit ég, að vondur andi varla í þessu landi sveimar um sumarmál. Komdu, dagsljósið dýra! dimmuna hrektu brott; komdu, heimsaugað hýra! helgan sýndu þess vott, að ætíð gjörir gott, - skilninginn minn að skýra, skpenunni þinni stýra; ég þoli ekki þetta dott. Guðað er nú á glugga; góðvinur kominn er, vökumanns hug að hugga; hristi ég nótt af mér, uni því eftir fer. Aldrei þarf það að ugga: aumlegan grímu skugga ljósið í burtu ber. ] [ Mín er meyjan væna mittisgrönn og fótnett, bjarteyg, brjóstafögur, beinvaxin, sviphrein; hvít er hönd á snótu, himinbros á kinnum, falla lausir um ljósan lokkar háls inn frjálsa. - ] [ Út á plankann með hann! Hákarlarnir eru tilbúnir. Skellur í skoltum, skín í hvítar tennur; þar fór önnur hetja. ] [ Kraftaverk! Kraftaverk! Kraftaverk! Kraftaverk! Ef þú trúir. ] [ blik í augum elskan horfðu á mig bros á vörum elskan brostu til mín orð frá munni elskan talaðu við mig mig langar svo að vera hjá þér tala við þig hlæja með þér en þú vilt ekki tala við mig ...ekki lengur ég brást þér og núna brosir þú framaní heimin og ég sit eftir hugsa til þín græt blóði öskra framaní vindinn sekk dýpra og dýpra loksins verður ekkert eftir af mér þá kannski sérðu það fyrst ég elska þig ennþá og hef alltaf gert koss frá himni hlýtur þú frá mér ég mun alltaf vera þin ] [ svart er lífið svört er sálin svart er sjálfið svört er nóttin svartur dagur svartur vetur allt er svart svart í mér en skyndilega allt er svo fagurt bjart og gleðilegt, ó hvað hefur skeð inn kemur þú með alla þína fegurð aldrei vil ég vakna ] [ Doctors say it's how I sit, how I walk I know better than that It's the weight of my world That used to bend my back ] [ Lost in the woods Raised up by wolfs Raised up as food A Lifestock Eaten. ] [ A rack of mirrors Reflect each other No control over content Why bother? ] [ Ég þarf ekki að eiga fjöllin og flytja þau með mér hvert sem ég fer Ég sætti mig við að skilja þau eftir á sínum stað og ganga í burtu Ég þarf ekki að eiga ákveðna mynd sem segir mér hver ég er Ég sætti mig við að breytast eins og skugginn á veggnum. Ég þarf ekki að eiga sannleikann skrifaðan niður á blað. Ég sætti mig við að þekkja mun ljóss og myrkurs og innst inni veit ég veit að það er satt að orð skipta ekki lengur máli. ] [ Not needing to impress fortune God could have created an ugly world deserted, broken and forlorn without us ever knowing the difference but due to some obscure reason fathomable only to his intricate mind he blessed us with unending beauty dazzling our eyes with a thousand colors of purple, yellow and blue creating species of every hue and diversity and while we as children cry out in pain (because we don´t understand) we cannot but acknowledge the infinite extent of his eternal love. ] [ Úr deiginu geri rósir rósir rauðar sem kossavarir þínar hlýt að geta gefið þér smá rósir piparkökurósir svo eru líka hjartalaga, stjörnulaga, hringlaga piparkökur góðar bara ef þú vildir smakka ] [ Eg gekk einn morgun árla út að skemmta mér. Dagur gaf drengjum varla dýra birtu af sér. Fram hjá fögrum lundi ferðast gerði ég þá, furðu fagur var sá. Miðjum morgni nærri mundi ég aftur gá. Var þá hálfu hærri, ég horfði lundinn á. Laufið og greinir grænar greiddust út svo beint. Víst var veðrið hreint. Dagmálastund án stríðu þeim stoltum lundi nær stóð ég þá beint með blíðu því blómstrin voru mér kær. Laufið og greinir grænar greiddust yfir mig út. Ég hafði ei harmasút. Á hádegi lauf með listum það leist mér grænt að sjá, með firna fögrum kvistum, furðu vænt að ná. Í öllum blóma sínum allur lundurinn stóð. Hans var hefðin góð. Nóni nærri mundi nálega veðrið hvasst, dálegur stormur dundi, dreifðist laufið fast, næfur og börkinn bæði burtu hafði með sér svo ei var meir eftir. Stofnar einir stóðu, þar studdist eikin við. Hvar eru þá greinir góðu er girntist fyrða lið? Í burtu sem mest þeir máttu, það minnist hver eð veit, svo enginn aftur leit. ] [ Eg leit í einum garði yfrið fagurt blóm, hvar engan mann þess varði, eg svo þangað kom. Einatt á mig starði auðs fyrir fagran róm sú lystug liljan fróm. Hún er svo hýr að líta sem hermi eg ungri frá, rétt sem rósin hvíta eða renni blóð í snjá. Enga yfrið nýta eg með augum sá aðra vænni en þá. ] [ Ef leiðist þér, grey, að ganga, gefa vil ég þér hest. Segi eg upp sambúð langa, svo trúi eg fari best. Hafir þú fornt á fótum, fá skaltu skæðin ný. Gakktu hart á grjótum og ganaðu upp í ský með bandvettlinga og traf, styttuband og staf. Farðu norður í Gýgjarfoss og stingdu þér þar á kaf. Sökktu til botns sem blý og komdu aldrei upp frá því. ] [ Ef leiðist þér, grey, að ganga, gefa vil ég þér hest. Segi eg upp sambúð langa, svo trúi eg fari best. Hafir þú fornt á fótum, fá skaltu skæðin ný. Gakktu hart á grjótum og ganaðu upp í ský með bandvettlinga og traf, styttuband og staf. Farðu norður í Gýgjarfoss og stingdu þér þar á kaf. Sökktu til botns sem blý og komdu aldrei upp frá því. ] [ Nú er ég glaður á góðri stund sem á mér sér. Guði sé lof fyrir þennan fund, og vel sé þeim sem veitti mér. Vitjað hef ég á vinamót sem nú á sér, reynt af mörgum hýrlegt hót. Vel sé þeim sem veitti mér. Þó mungátsorð séu mörg og smá sem oft við ber, til lasta ekki leggja má, því veldur sá sem veitti mér. Yndi er að sitja öls við pel og gamna sér, en fallegt er að fara vel, þó ör sé sá, sem á skenkir. Gott er að hafa góðan sið, sem betur fer. Aldrei skartar óhófið og er sá sæll sem gáir að sér. Gott er að hætta hverjum leik þá hæst fram fer. Nú skal hafa sig á kreik. Vel sé þeim sem veitti mér. ] [ Eg veit eina baugalínu, af henni tendrast vann eldheit ást í hjarta mínu, allur svo ég brann; bjartleit burtu hvarf úr rann. Nú er eig hugurinn heima, því hana ei öðlast kann. Sú var seljan ofnis palla siðug í máta rétt, hennar hegðan réð mér falla, hæversk var hún og sett, af bar yfirbragðið létt. Nú er ei hugurinn heima, ég hef ei til hennar frétt. Hún stóð hýr í fögrum ranni, hugði ég að henni best, svipgóð, sú kann bæta manni sorg og hugarins brest, þýtt fljóð þarflegt kunni flest. Nú er ei hugurinn heima, því hefur ei til hennar frést. Þýð, teit, þakin dyggða safni, þrifnað læra réð, blíðleit, bestu kvenna jafni bauð hið hýrsta geð; eg veit er henni gæfan léð. Nú er ei hugurinn heima, því hana fæ ég ei séð. Mey brá mér fyrir hvarma steina margri fyrr og síð, ei sá eg að heldur neina, er svo þætti fríð, fótsmá, fagurhent og þýð. Nú er ei hugurinn heima, hún hvarf á samri tíð. Augnskær, en á hörundið bjarta eins og mjöllin hrein, mjög nær mínu gekk hún hjarta, hýran af henni skein; sú fær svalað geðinu ein. Nú er ei hugurinn heima, því horfin er silkirein. ] [ Nú er best að syngja satt og segja nokkuð í fréttunum: Það ætlar að ganga einum flatt út hérna hjá réttunum, ótemjuna að sér batt, ekki bjóst við prettunum, í því merin áfram spratt upp smámsaman létti honum; hart hann ofan á holtið datt svo hlunkaði í vöðvaklettunum. Hann þóttist hafa heiminn kvatt og hrein með ofurgrettunum. Eggjaður var hann enn á bak, eg var staddur hjá honum, kom þá í hann snugg og snak, í snússara haminn brá honum. Lendarnar fengu og lærin blak, líka kollurinn á honum, þótti hryggurinn þurfa mak, þrífornt smér má fá honum, af buxunum niður lútin lak, það lukkaðist ekki að ná honum, hann hljóp á bak og hátt við rak, vér höfðum oss svo frá honum. ] [ Kúgaðu fé af kotungi svo kveini undan þér almúgi. Þú hefnir þess í héraði sem hallaðist á Alþingi. ] [ Athuga þú hvað ellin sé, ungdóms týndum fjöðrum, falls er von að fornu tré, fara mun þér sem öðrum. ] [ Vakrir hestar, vígðir prestar, vænar píkur, þetta flestallt víða víkur, varan besta um landið strýkur. Hesti að ríða um hauðrið víða heims er kæti, presti að hlýða mesta mæti, meyjunnar blíða er eftirlæti. Hest um grundir hafa menn fundið helst að sinni, prest, ef stundar stand og inni og stúlkuna undir rekkvoðinni. Fjögur hundruð hestur kostar og herleg tygi, þrifinn prestur þrisvar níu, þorngrund besta áttatíu. Eigðu, prestur, ungan hest og ágætt kvendi, þú hefur flestallt þá í hendi það hið besta hér innlendis. ] [ Farvel, Leirgerður, drambsöm drylla, drottnunargjörn og öfundsjúk! Þú skalt ei fleiru frá mér spilla, freyddu sem best af þínum kúk! Heyrðu hvað nett ég seinast syng: Svei þinni hrakdóms-uppfræðing! Skáldskapur þinn er skothent klúður skakksettum höfuðstöfum með, víðast hvar stendur vættar-hnúður valinn í fleyg sem rífur tréð. Eitt rekur sig á annars horn eins og graðpening hendir vorn. Oftlega millum orða tveggja opna hljóðstafir djúpa gjá. Ef þú nú færir eins og Sleggja, annað skaðræðiströllið frá, og sykkir niður sjálf á kaf sálm mætti gjöra þar út af. Hann væri nettast sunginn svona: Sjá hversu angra eymdin fer! Hún sökk - var kátlega sköpt kona - harðkjaftur þeg! Slíkt undrast gjör! Allt framstykkið var aftan á! Datt öfugt - ó tjón - hryggjumst! Dó! Þú mátt nú sjá í þessum spegli þína skáldskapar réttu mynd. Súptu betur á Sigtýs legli og sogaðu ekki í þig vind! Það kann að gera rembings raun, ropana meiri og illan daun! ] [ Hver ríður svo geyst á gullinbrúvu hávan of hifin hesti snjálitum, hnálega hristanda hrímgan makka, eldi hreyfanda undan stálsköflum? Glóir á gunnsnörpum grásteind brynja, hangir ísskjöldur hal á öxlum. Vindur stendur svalur af veifan skálmar, norðljósa brúskur bylgjar á hjálmi. Hann er riðinn frá heimum miðnáttar, aflbrunni alheims og ótta munaðar. Mun ei Vor una né Vellyst þar aldri í Segulheimum á Segulfjöllum. Elli hann ei kennir þó eldri sé heimi og jafngamall guði. Lifa mun hann öllum lengur veröldum og yfir lík þeirra líða. Afl vex því öflga er hann það nálgast. Harðnar Fjörgyn hans í faðmlögum, hverfist í demant dreyri hennar en grænló skikkju gránar og hjaðnar! Ei hinn ítursterki afli þó beitir magnlítil grænlit við moldarbörnin. Mjúklega svæfir svo megi ei finna eymdir þau ellidauða. Kemur svo allur og kreistir í sterka jörðu járnarma og jörðu kyssir. Verður hún þunguð af þeim viðskiptum, velur svo ljósmóður sem Vor nefnist. Sagt er fyri Vori Vetur flúi! Hvergi hann þó flýr en færist ofar! Vor skríður undir, Vetrar er yfir bringa breið um bláloft gnæfandi. Aldrei inn frægi þó fjarlægist svo að hann heims hjóláss sleppi endum tveim eða yfirgefi jarðar neitt það næst er himni. Sést því á sumri miðju fjalls á skrauthnúfum skartið vetrar. Því vill ei heldur þiðna á vori himinhrím á höfði öldunga. ] [ Blástjarnan þó skíni skær skal ei framar pína sjón mína því aðrar fegri eru tvær er mér tindra miklu nær og undir Svövu augnabrúnum skína! ] [ Aldin móðir eðalborna, Ísland, konan heiðarleg, ég í prýðifang þitt forna fallast læt og kyssi þig, skrípislæti skapanorna skulu ei frá þér villa mig. Þér á brjósti barn þitt liggur, blóðfjaðrirnar sogið fær, ég vil svarinn son þinn dyggur samur vera í dag og gær, en hver þér amar alls ótryggur eitraður visni niðrí tær. Ef synir móður svíkja þjáða sverð víkinga mýkra er, foreyðslunnar bölvan bráða bylti þeim sem mýgjar þér, himininn krefjumst heillaráða og hræðumst ei þótt kosti fjör. Legg við, faðir, líknareyra, leið oss einhvern hjálparstig, en viljirðu ekki orð mín heyra, eilíf náðin guðdómleg, skal mitt hróp af heitum dreyra himininn rjúfa kringum þig. Móðir vor með fald og feldi fannhvítum á kroppi sér, hnigin að ævi kalda kveldi, karlæg nær og holdlaus er. Grípi hver sitt gjald í eldi sem gengur frá að bjarga þér. Sjáðu, faðir, konu klökkva sem kúrir öðrum þjóðum fjær. Dimmir af skuggum dauðans rökkva, drottinn, til þín hrópum vér: Líknaðu oss eða láttu sökkva í leg sitt aftur forna mær! ] [ Sálarskip mitt fer hallt á hlið og hrekur til skaðsemdanna af því það gengur illa við andviðri freistinganna. Sérhverjum undan sjó ég slæ svo að hann ekki fylli en á hléborðið illa ræ, áttina tæpast grilli. Ónýtan knörrinn upp á snýst aldan þá kinnung skellir, örvæntingar því ólgan víst inn sér um miðskip hellir. - - - Sýnist mér fyrir handan haf hátignarskær og fagur brotnuðum sorgar öldum af upp renna vonar dagur. ] [ (Sölvi Helgason) Heimspekingur hér kom einn í húsgangs klæðum. Með gleraugu hann gekk á skíðum, gæfuleysið féll að síðum. ] [ Hjá Goðmundi á Glæsivöllum gleði er í höll, glymja hlátra sköll og trúðar og leikarar leika þar um völl en lítt er af setningi slegið. Áfengt er mungátið og mjöðurinn er forn, mögnuð drykkjarhorn, en óminnishegri og illra hóta norn undir niðri er stiklunum þruma. Á Grími enum góða af gulli höfuð skín, gamalt ber hann vín en horns yfir öldu eiturormur gín og enginn þolir drykkinn nema jötnar. Goðmundur kóngur er kurteis og hýr, yfir köldu býr. Fránar eru sjónir en fölur er hans hlýr og feiknstafir svigna í brosi. Á Glæsivöllum aldrei með ýtum er fátt, allt er kátt og dátt. En bróðernið er flátt mjög og gamanið er grátt, í góðsemi vegur þar hver annan. Horn skella á nösum og hnútur fljúga um borð, hógværi fylgja orð, en þegar brotna hausar og blóðið litar storð brosir þá Goðmundur kóngur. Náköld er Hemra því Niflheimi frá nöpur sprettur á. En kaldara und rifjum er konungsmönnum hjá, kalinn á hjarta þaðan slapp ég. ] [ Djúpt í hafi í höll af rafi Huldur býr, bjart er trafið, blæjan skír. Oft í logni á ljósu sogni langspilið hún knýr, sindrar silfurvír. Raular undir Rán í blundi rótt og vægt, lognið sprundi ljúft er þægt, og í draumi undirstraumur ymur stillt og hægt, haf er fagurfægt. En í kalda er kvikar alda kreppist glær, hærri galdur Huldur slær: strengir hlymja, hrannir glymja hvítar nær og fjær, rymur sollinn sær. Trúi eg leiki Faldafeyki fiðlan snjöll, eru á reiki rastafjöll, Ægisdætur fima fætur flytja um báruvöll, byltast boðaföll. Dunar sláttur, dýrri er háttur drósar brags, tekur hún brátt til Tröllaslags: Magnast stormur, Miðgarðsormur makka kembir fax, kenna knerrir blaks. Meðan veður valköst hleður vogs um tún, Huldur kveður hafs í brún, inn á víkum yfir líkum einnig syngur hún marga rauna rún. Óm af hreimi galdurs geymi gígjan þá, dregur hún seiminn djúpt í sjá, treinist lengi tón, og strengir titra eftir á dult í djúpi blá. ] [ Í birkilaut hvíldi ég bakkanum á. Þar bunaði smálækjar spræna. Mig dreymdi að í sólskini sæti ég þá hjá smámey við kotbæinn græna. Og hóglega í draumnum með höfuð ég lá í hnjám hinnar fríðustu vinu. Og ástfanginn mændi ég í augun hin blá sem yfir mér ljómandi skinu. Úr fíflum og sóleyjum festar hún batt. Þær fléttur hún yfir mig lagði. Þá barðist mér hjartað í brjóstinu glatt en bundin var tungan og þagði. Loks hneigir hún andlitið ofan að mér svo ilmblæ af vörum ég kenni. Ó, fagnaðar yndi hve farsæll ég er. Nú fæ ég víst kossinn hjá henni. En rétt þegar nálgaðist munnur við munn, að meynni var faðmur minn snúinn, þá flaug hjá mér þröstur svo þaut við í runn og þar með var draumurinn búinn. ] [ Hér hvíli ég, hinn morgunsvæfi maður. Að marki var mér fótaferðin ströng. Ég fór að hátta - fékk hér loksins glaður þá fyrstu nótt sem mér var nógu löng. ] [ Ást er föstum áþekk tind. Ást er veik sem bóla. Ást er fædd og alin blind. Ást sér gegnum hóla. ] [ Hún er sem svanur fegurst allra fugla, syndir stolt á vatninu, svipast eftir ást, kvakið hennar fallegt, vængir fríðir. Hún er hvít, fögur snót sem snjóugla, skimar um í trénu sínu, svipast eftir ást, sér strákinn er Eros hitti, honum stríðir. Hún er stúlka, gaman þykir að rugla, í stráknum vitlausa sem henni brást, kemur tár, kemur bros, koma árstíðir. Hún er sem baldursbrá fegurst allra blóma, blöðin slitna er elskhugar leita eftir ást. Elskar mig, elskar mig ekki, elskar mig, Hún er sem laglína með ljúfa fagra hljóma, melódísk, músíkölsk, og allir að henni dást, laglína sem fer í minnið og þar festir sig. Hún er sem leikrit sem fær alltaf góða dóma. Leikrit sem fjallar um viðfangsefnið ást. Leikrit sem minnir mig á að ég elska þig. Hún er sem gamlárskvöld í stór brenna, túristarnir koma hafa ei séð brennu slíka, kröftug, brjáluð, kraftmikil og ofsaleg. Hún er sem skvísa en þó engin glenna, dansar á gólfinu dansinn chacha mika. æi takt við tóna, hröð, örugg og unaðsleg. Hún er sem ástin fegurst allra kvenna, andlit hennar fagurt og búkur hennar líka. Skemmtileg, gáfuð, sniðug og yndisleg. ] [ Lá grafkyrr þóttist sofa. Þú suðandi sveimandi settist á eyra mitt. Sló eldsnöggt yfir eyrað og fann að þú slengdist inn. Síðan hafa hugsanir mínar flogið stefnulaust á vængjum þínum. ] [ C Straumur tímans gegnum eilífðina F Vi ð sungum saman um heimsbyggðina F C Am Hve dýrðar dagur í örmum þér D Ég syng um sumar, haust, vetur og vor C Fönn í fjalli og skýjabreiða F Falleg heiði og lindar uppspretta F C Am Ég gríp andann á lofti og þú með mér D Í kyrrðin á fjallstindi ég fer C G Am Heimurinn er endalaus fjarsjóðskista F C G Hann gefur okkur endalausa þrá C G Am Hann gefur okkur fínan uppáhaldslista F C G Hvað Guð gefur mér, ég vil sannalega fá C Stjörnuhrap á lofti og himinninn blár F Á gullöld tímans, hver er ei klár F C Am Magnaðar gjafir, guð gefur mér D Lindin gufar upp til himins fer C Fimbulkuldi í sálarkytrum mínum F Ég hlýja mér við heitan arineld F C Am Kjarrið í lundinum , grænum og fínum D Ég vil ilja mér í hlýjum bjarnarfeld ] [ Á mánaslóð ég horfi í kvöldsins húmi og fljótið gælir milt við mína hlust. Þess niður er sem tíminn-streymir stöðugt en virðist kyrr í undarlegri ró. Ég lyfti bikar og sé hvar mánans glott í tæru víni speglast örskotsstund uns skýjabakki himinsali klífur og hylur mánann sjónum hvar ég sit. En víst til botns í bikar komast má þótt ský á ferli hylji mánann sjónum. ] [ Ég held að það muni ekki rætast úr neinu hjá okkur Það er hægt að nefna dæmi, ég skal nefna nokkur Aldursbil er mikið en við vinnum úr því Ef ég missti minnið myndi ég byrja að elska þig á ný Ég hélt að ekkert gæti tekið ást mína til þín Ég hélt að ekkert gæti breytt huga þínum til mín Þá kom þessi hommatittur og tók þig til sín Nú sé ég aðeins svart, aðeins rautt Ekkert lengur lifandi fyrir mér, allt dautt Þú ert dauður Viktor, ekkert getur stöðvað mig Og þegar ég hef náð í þig Er fjandinn laus Hún hitaði mig þegar hjarta mitt fraus Núna er ég viss um að ef ég myndi hætta að anda í dag Væri þér sama um það! Þú hefur gleymt mér Hvað hef ég gert þér? Þér er sama um hvað mér finnst Þykist vita hvernig mér líður, þú veist minnst Þú veist ekkert hvað er í gangi Ég ætla ekki að kála mér þótt mig langi Þú fórst frá mér, og tókst hjarta mitt með Án þín þarf ég það ekki hvort eð er Viktor, ég vil sjá blóð þitt á höndum mínum Ég vil finna fyrir blóðinu renna úr æðum þínum Nanna, eitt vil ég segja Mig dreymir um að sjá kærasta þinn deyja! ] [ í vindinum sofa sálir liðinna daga hvísla í draumi köldum orðum um framliðin haust um vor og sumur andvana fædd ] [ Lífið er sterkt eins og mosinn það grær á klöppunum við hafsbrúnina og heldur heljartaki í bláhvíta tilveruna Þegar ekkert veiðist verða mennirnir þöglir þeir standa í hópum og horfa á mávana. Kannski vita þeir hvað varð um silfurlitu fiskana. Telpa við skúr litar hvítar rendur á hafbarða steina og syngur hljóðlega Afi hennar átti gulnaða mynd af ungri stúlku með fölleitt bros sem hann setti á borðið hjá svissnesku klukkunni. ] [ Ísland Grænum lauki gróa túnin, gyllir sóley hlíða syllur, færa víkur flyðru á vori, fuglar syngja í Trölladyngjum, sauðir strjálast hvítir um heiðar, hossar laxi straumur í fossi, bella þrumur á brúnum fjalla, blár er himinn, snarpur er Kári. Holland Seg, hvort kyn sé lands eða lagar loftgrá strönd í Rínar hvolfti; skerast inn of akra rennur, ævivist hefir þjóð á sævi; morgna og kveld snýst mylnu fjöldinn, marar þolir iðna golu; fullum seglum fljúga of völlu fley á lagar þröngum vegi. Spánn Spánn er fjall með feiknastöllum, flatur á koll, en ránar tolla gjalda elfir; ærið silfur út úr fargast Sagarbjargi; suður gnóg er sæld í hlíðum, sæt eru granateplin; kætast drósir víni í Vandalhúsum, vex þar auður af frjóvgan sauða. ] [ Örbirgðin mín kemst ekki í lóg, eg hlýt að þola hana. Bakarinn hefir brauðið nóg, en brestur mig peningana. Eg er nú setztur upp í hró, allnærri kominn bana. Langar í brauðið þarna þó; það er af sultarvana. ] [ Einskildingar eru tveir eftir í sjóði mínum, bleikrauðir sem brenndur leir, báðir úr eiri slegnir þeir, með konungsmynd og kenniteiknum frýnum. Enginn veit, nær allt er nóg, örbirgð skal ei kvíða. Uni þeir við aura plóg, sem auðnum naumast koma í lóg. Ég vil æðri arfahlutans bíða. ] [ Dó þar einn úr drengja flokk, dagsverk hafði unnið, lengi á sálar svikinn rokk, syndatogann spunnið. Hespaði dauðinn höndum tveim, á hælum lögmáls strengdi, bjó til snöru úr þræði þeim, þar í manninn hengdi. Er það gleði andskotans, umboðslaun og gróði, fémunir þá fátæks manns fúna í ríkra sjóði. Gegnum hættan heljar straum huggaði sálu snauða, ef þá silfurgjalda glaum gleypti hlustin dauða. ] [ Signor einn, er svartur var, sunnan kom úr dölunum, heim að mínum húsum bar, hafði verk í mölunum, gaurinn beiddi gistingar og grýtti af sér hjölunum, honum gaf ég svoddan svar, sitja mætti á fjölunum, gleypti hann mat í garnirnar, gnagaði af suðarvölunum, lapti upp mysu leifarnar, líkur reyðarhvölunum, um skuld mig krafði, skakkt upp bar, skeikaði ríkisdölunum, líka þreif til lummunnar, lauk upp reikningsskjölunum, gjaldið ég í geði snar greiddi að fölskum sölunum, svo honum yrði hlýrra, – en hvar? Í helvíti og kvölunum. ] [ Stórveldafundurinn á Höfða var planaður. Hann fylgdist með af mikilli athygli. Og nú gerðust hlutirnir hratt. Þegar sá dagur rann upp að leiðtogarnir skyldu lenda á Keflavíkurflugvelli var hann staddur heima og fylgdist með atburðunum í beinni útsendingu í sjónvarpinu. Og í þann mund sem forseti Sovétríkjanna steig frá borði steyptist geðklofinn yfir. Og einsog vænta má var hann eftir það virkur þátttakandi í öllu því sem fram fór á Höfða. Það átti eftir að gerast aftur að stórpólitískir atburðir höfðu áhrif á geðheilsu hans. Hann var í Svíþjóð 1991 þegar Persaflóastríðið braust út. Þar fékk hann nokkuð aðsópsmikið geðklofakast og tók þátt í stríðs- átökum af fullum þunga. ] [ Reikult er rótlaust þangið, rekst það um víðan sjá. Straumar og votir vindar velkja því til og frá. Fuglar flugu yfir hafið með fögnuði og vængjagný, - hurfu út í himinblámann hratt eins og vindlétt ský. Þangið, sem horfði á hópinn, var hnipið allan þann dag. Bylgjan, sem bar það uppi, var blóðug um sólarlag. ] [ Hljóðnað er, borg, á breiðum strætum þínum, bláhvítur snjór við vota steina sefur, draumsilki rakið dimma nóttin hefur deginum fegra upp úr silfurskrínum. Vökunnar logi er enn í augum mínum, órói dagsins bleika spurning grefur djúpt í mitt hjarta, er kemur seinna og krefur kyrrðina um svar, um lausn á gátum sínum. Vinur, þú sefur einn við opinn glugga, æskunnar brunn í svefnsins gylltu festi sígur þú í og safnar fullum höndum. Hugur minn man þinn háa pálmaskugga, hafi ég komið líkur þreyttum gesti utan frá lífsins eyðihvítu söndum. ] [ Er sólskins hlíðar sveipast aftanskugga um sumarkvöld og máninn hengir hátt í greinar trjánna sinn hálfa skjöld, er kveldkul andsvalt aftur kæla tekur mitt enni sveitt og eftir dagsverk friðnum nætur fagnar hvert fjörmagn þreytt - Er úti á grundum hringja bjöllur hjarða nú hljótt, svo glöggt og kveldljóð fugls í skógnum einstakt ómar og angurklökkt og golan virðist tæpta á hálfri hending, er hæst hún hvín, og hlátur barna, er leika sér við lækinn, berst ljúft til mín - En eins og tunglskinsblettir akrar blika við blárri grund og ljósgrá móða leitin bakkafyllir og lægð og sund og neðst í austri gylltar stjörnur glitra í gegnum skóg: þá sit ég úti undir húsagafli í aftanró. Því hjarta mitt er fullt af hvíld og fögnuð, af frið mín sál. Þá finnst mér aðeins yndi, blíða, fegurð sé alheims mál, að allir hlutir biðji bænum mínum og blessi mig, við nætur gæskuhjartað jörð og himinn að hvíli sig. En þegar hinst er allur dagur úti og uppgerð skil, og hvað sem kaupið veröld kann að virða, sem vann ég til: í slíkri ró ég kysi mér að kveða eins klökkan brag og rétta heimi að síðstu sáttarhendi um sólarlag. ] [ Riddarinn hallast við brotinn brand, bærist hans kalda vör: „Nú er dauðinn að nálgast mig, nú er mér horfið fjör.“ Riddarinn hallast við brotinn brand, blæðir hans djúpa und: „Lífið var áður svo ljómandi bjart, nú lokast hið hinsta sund.“ Riddarinn hallast við brotinn brand, bleik er hans unga kinn: „Ekki er ég vitund hræddur við hel, en hefndu mín, vinur minn.“ Riddarinn hallast við brotinn brand, bíður hans mannlaust fley: „Ég ætlaði að vinna mér fé og frægð og festa mér unga mey.“ Riddarinn hallast við brotinn brand brosir svo hægt og rótt: „Kóngsdóttir fyrir handan haf, hjartað mitt, góða nótt.“ ] [ Vegmóðum var mér úthýst, - válega hvein í tindum - bölvaði ég þá bónda, börnunum hans og öllu; dimmdi óðum af degi, dundi foss í gili; gekk ég án nokkurrar glætu, gekk ég í opinn dauða, gekk ég í sjálfan dauða. Gekk ég í gljúfrin svörtu, gínandi sprungan tók mig, bein mín lágu þar brotin, blóð mitt litaði stalla. Lá ég einn og óhægt í eilífu svarta myrkri; en beinin mín brotnu hvítna, þau bein hafa verið að meini, þau bein skulu verða að meini. Leitað var mín lengi, langt og skammt var farið; brá ég bleikum grönum, beindi feigra sporum. Fá vil ég nítján til fylgdar, förum tuttugu saman; nú eru orðnir úti átján í þessu gili, átján í djúpu gili. Þegar dimmir af degi, dynja fossar í gili, vegmóðum verður úthýst, válega hvín í tindum, þá færist ég aftur í auka og alla hingað teygi; gnauðar þá kaldur gustur í gljúfrunum mínum þröngu, í gljúfrunum okkar þröngu. ] [ Blundar nú sólin í bárunnar sæng; húmskuggar læðast frá haustnætur væng, sveipa í svörtu hinn sofandi dag. En andvarinn kveður hans útfararlag. Haukar á hamri, hrafnar í tó hlusta nú hnípnir á hljóðið, sem dó. Langanir, sem leita að ljósinu enn, detta niðr um myrkrið sem drukknandi menn. ] [ Svanir fljúga hratt til heiða, huga minn til fjalla seiða. Vill mér nokkur götu greiða? Glóir sól um höf og lönd. Viltu ekki, löngun, leiða litla barnið þér við hönd? * Nú finn ég vorsins heiði í hjarta. Horfin, dáin nóttin svarta. Ótal drauma blíða, bjarta barstu, vorsól, inn til mín. Það er engin þörf að kvarta, þegar blessuð sólin skín. Í vetur gat ég sagt með sanni: Svart er yfir þessu ranni. Sérhvert gleðibros í banni, blasir næturauðnin við. - Drottinn, þá er döprum manni dýrsta gjöfin sólskinið! Nú er hafinn annar óður. Angar lífsins Berurjóður. Innra hjá mér æskugróður. Óði mínum létt um spor. Ég þakka af hjarta, guð minn góður, gjafir þínar, sól og vor. Hillir uppi öldufalda. Austurleiðir vil ég halda. Sestu, æskuvon, til valda, vorsins bláa himni lík. Ég á öllum gott að gjalda, gleði mín er djúp og rík. ] [ Ég vil burt og halda á höf, hirða ei neitt um boðaköf, láta storminn teygja tröf, tuskast við mín jakkalöf. Betra er en draumadöf, dáðlaust líf og stundartöf að sigla fleyi á feigðarnöf, flytja bú í vota gröf. Ég hef lengi í þrautum þráð það sem yrði hjálparráð, en aldrei marki nokkru náð, nú er að leita þess með dáð. Þótt ég verði bylgju að bráð, bíður mín þar fagurt láð, fyrir handan græðis gráð, gullið land og sólu fáð. - - - Yfir djúpin breið og blá báti litlum sigli eg á. Mörg er bylgjan fleyi flá, fækka engu segli má. Austur vil ég sigla um sjá, svala minni dýpstu þrá. Mig dreymdi, að ég í sænum sá sólskinsland þar austur frá. ] [ Sólin blessuð sígur rauð til viðar, glóa á lofti gullin ský, grátklökk áin niðar. Haustið nálgast, hríð og vetrarrosinn, senn er ekki sólar von, senn er áin frosin. Lóan horfin, lokið söngvafulli, rökkvar hér, en suðræn sól sveipar hana gulli. Ógnar myrkrið oss á norðurströndum, innra grætur óðfús þrá eftir suðurlöndum. Eigum vér þá aðeins myrkar nætur, enga fró né innri hvíld, engar raunabætur? Himinn yfir. Huggast þú, sem grætur. Stjörnur tindra, geislar guðs, gegnum vetrarnætur. Vetrarnóttin varla mun oss saka, fyrst að ljósin ofan að yfir mönnum vaka. ] [ Í skóginum sefur vatnið. Hjá vatninu sefur gömul borg. Og silfurhvítt sumarregnið seytlar af blaði á blað í þrúðgri, þögulli sorg - af blaði á blað. Og gamla borgin við vatnið í villiþyrnunum hulin stóð. Og dimmrauðar drúptu rósir um dyr og múr, sem hnigi þar hálfstorknað blóð - um dyr og múr. Í skóginum úti við vatnið ég viknandi leit hina gömlu borg, sem hlýddi eg á hálfgleymda sögu frá horfinni tíð um örlög og sára sorg - frá horfinni tíð. Í skóginum úti við vatnið ég veg minn gekk hljóður um grafin torg. Og silfurhvítt sumarregnið seytlaði af blaði á blað í þreyttri, þögulli sorg - af blaði á blað. ] [ Það var eitt sinn eyrarblóm á eyðistað, og lítill fugl að kvöldi kom og kyssti það. Hann elskaði svo undurheitt sitt eyrarblóm, og veröldin var án þess öll svo auð og tóm. Að morgni eftir nepjunótt og nístingsél fram og aftur flögrar hann um frosinn mel. ] [ Það er kviknað í mér. Gæsin er farin. Fékk far með vindinum. ] [ We are tied together With two different ropes Tied well by memory No hopes Still I love you my dear According to Mr. Hyde And the holy liquid I want you at my side Speak freely, speak for yourself Act as you, and act as me wipe my fake plastic tears Can we ever be? ] [ með regn á rjóðum kinnum leggur þú augu tvö tindrandi á mínar tær Við brosandi saman finnum (mörgum sinnum) egó mitt undrandi elska þig á morgun í dag í gær ] [ Meðan vitund mín lítur yfir hafið og ég sé hafið sé ég hafið í fljótinu Þú ert spegill einhverrar sálar Ó, yndislega veröld hvað ertu annað en spegill annað en sönn trú Ó, fagra vatn vatnið hefur alltaf verið ég og þú Og þá sá ég ströndina hafið leit mig sem regnið þá fangaði ég regnið og það leit í augu mín Guðdómleg sýn Hafið lítur mig glitrandi augum meðan regnið sefur Teningur varpar gagnsæum vængjum yfir vindinn Það er vatnið Það gerir einnig lindin Við erum menn sem förum upp fljót og fljótið stendur yfir hafinu Nakin kona sem er að vona Ég hef farið þetta fljót og ég var fljót ] [ Mig grunar að maðurinn sé kominn til að taka upp sín fínustu blóm og dæma fyrir soninn Að kveða upp sinn dóm Margir munu hata hann En það eru þeir sem dæmdir verða Að leggja á hatur hann ekki kann Mannkynnið hann skal herða Það mun syngja sinn sálm djúpt í sínum hjörtum Og biðja til síns herra Á sumar kvöldum björtum Það mun af honum dáðst því hann er himinsins kerra Um eilífðir alda það mun trú sína halda Binda trúss sitt við hann einan konung Og um vetrar nótt kalda Trú mun ekki verða nein launung Páfinn mun svitna og himnar titra Regnið hreint mun niður falla Um stræti mun það leka og glitra Margir munu þá Guð kalla En hver er maðurinn sem fyrir var spáð svo óljóst Er hann kannské himnafaðirinn sjálfur Sá sem öllu stjórnar leynt og ljóst Eða er hann kominn útúr stein eins og álfur. Nú er betra að missa hendi heldur en að brenna sjálfur í víti merjast þar og engjast og verða að horn grýti ] [ Yfirgefin standa húsin hylki um hamingju hundruða tóm stund um að bráð. ] [ To the angels from above, take care of my man´s soul, and let him stay and wait for me so we can be together in eternity ] [ kötturinn dó úr forvitni missti eitt líf áður en hann lokaði öskju Pandóru - þá eru átta eftir ça va bien auf wiedersehen ] [ You thougth you were pretty in pink, your pitch black hair was fair and all you knew was being loved but the others said you ugly, you knew it wasn´t true you just had a dream that would never come true and you knew that: everybody is beautiful in black and white everybody is loveing on the inside that wasn´t enough for you so you asked your self where should you hide from this misery, wicked reality this loveing fantasy? Now were your pills done and mama needs to buy more bags you lost your grip of reality and sliped into your black and white fantasy where everything is beautiful and you where beautiful in black and white ] [ imagine your life at it is not worth takin the risk it dosen´t seem like nothing but it is What will you do? when you have no longer a bottle to protect you and your pills are gone too you don´t see the world as it was when your love ones are fadeing away than you don´t give a shit You think what is the world comming to and kepps the delusion on that you are great and we are all dumb so what are you? ] [ Fleygt í kassa og grafið, grafið í saur og drullu. Því öllum er sama, enginn skal syrgja þessa sál sem var. Líkaminn er eftir og rotnar augun skorpna, húðin föl og lyktin viðbjóðsleg, enn er öllum sama nema ormunum sem éta. ] [ ég flaug beint inn í augað sem kramdi mig ] [ Fagurlega lagfærir hann silfurlitar fjaðrirnar fimum fingrum Teygir síðan úr grönnum líkamanum áður en hann hefur sig til flugs sem fálki Fimlega fer hún höndum um hvítt hár sitt festir í hnút Hrollur fer um hana er hún gengur nakin niður að vatninu og leggst til sunds sem svanur ] [ Tvær stjörnur - augun - og við, sjást ekki fyrir sólinni sem skín í kvöld. Lifandi, sogin inn blásin svo út ásamt reyknum, -út í sumarkvöldið. Sígarettan löngu búin en ég sit sem fastast á svölunum. Því þar er sá staður sem ég fæ frið til að skrifa um þig. Sólin horfin, en á svölunum situr ennþá einhver með aðra sígarettu. ] [ Fullir verða fagrir menn falskri hrokavímu En burtu mun hún bágast senn með bölsins elligrímu ] [ How are you now my four legged friend and where are you now that life has come to an end You were so fine and always so good but sometimes you were misunderstood I do regret the times I said you were wrong when all that you did is what dogs do all along it is unfair your life was so short but maybe some day I'll meet you there Where are you now and what do you do I want you to know that I am thinking of you I miss you dear now I'm left alone somehow I still feel that you are near happy you were so very glad every day and so full of life to think that now you'r away thank you my friend for times that we shared my love for you will never end. ] [ Innbyrgið stækkaði mig langaði að gráta reyndi að gráta en grét ekki ekki þegar dauða bar að ekki þegar ég meiddi mig ekki þegar vonir brustu ekki þegar ég var einn ekki þegar ég tapaði loks kom tár og ég frelsaðist... þar til ég kroppaði flísina úr auganu. Á morgun ætla ég að skera lauk. ] [ Þú flýgur í kringum mig talar til mín á tungu sem ég skil ekki þú flýgur í óstöðuga hring það er eins og þú sért að leita að einhverju ertu að leita að einhverju? eða ertu kannski bara að pirra mig, fá mig til að drepa þig fá mig til að stytta leiðinlegt og tilgangslaust líf þitt losna út úr heimi fýlu og andúðar ef svo er, þá er ég reiðubúinn til að hjálpa ég gríp þig á lofti og krem þig í lófa mér ég opna ekki hendina en horfi magnþrungið á hana kraftur lúkunnar linast og ég opna hana til að sjá leifarnar af þér en þú ert ekki þar þú ert enn að leita ] [ Það heldur lítil stúlka í mig en ég vil frelsi og leyta upp og það líður ekki að löngu að stúlkan missir takið og ég er frjáls. Ég er frjáls Og flýg upp til skýjana Til að hitta hinar blöðrurnar Allar frjálsar eins og ég. Á leið minni upp á við Er einhvað sem bítur. Ég spring. Ég er ekki lengur frjáls Heldur fell ég til jarðar Og lendi í garði hjá lítilli stúlku ] [ Á kvöldi sem þessu leiði ég hugann af því hvort þær óteljandi heilafrumur sem þeytast um huga þinn mætist stundum í mynd af mér og hvort sú mynd hreyfi enn við þér. ] [ Þú stigur uppí geimskipið. Flýgur inní sólskinið, skilur anríki dagsins eftir. Situr á eyðimerkur strönd tunglsins, með koktel í annari og stjörnukíki í hinni. sérð vini þína brosa til þín, einmanna leikinn hellist yfir þig. Horfir á heiminn og tekur sopa. Stendur upp, blandar þér annan koktel. Brátt saknaru þrældómsins, vilt snúa aftur. Þú sest uppí geimskipið og heldur heim. ] [ Hver andardráttur Hver sekúnda Hvert andartak Er mér mikilvægt Til hverrar hugsunar Ég er aldrei einmana Þegar ég er einn með hugsunum mínum ] [ þegar ég hafði skrifað ljóðið mitt yfir brjóstið á þér og sogið úr því mjólkina leið mér aðeins betur ] [ ég skar út augun þín í rúmgaflinn minn það gekk allt svo vel afhverju þurftiru að loka þeim ] [ ég heiti eftir frumsyndinni ef við förum nánar út í það og haga mér samkvæmt því. ] [ Hápunktur kvöldsins var þegar ég risti sjálfsmynd á bakið á þér og stakk svo hnífnum í bólakaf þar sem hann á heima ] [ geturu ekki gert neitt rétt ég vildi bara að þú dræpir mig hægt og rólega ] [ ég vissi að hugljómanir hans myndu lama heiminn mér leist svo vel á þær að ég leyfði honum að ráða ferðinni ] [ mér fannst það nú bara hljóma nokkuð vel þegar ég spilaði á fingurnöglina með tönnunm ] [ stamaru líka þegar þú ert að ríða ] [ Frigid, Breiðholt jess. Lólæf skömbeg. Ha? ] [ (eitt) Sjónvarpið mitt þjáist af snjókomuveikinni ógurlegu ástæður eru ókunnar en mig er farið að gruna að loftnetið sem ég föndraði úr hnífapörum og reipteipi sé ekki að virka sem skyldi. (tvö) Ég gekk á standlampa hrasaði um stígvéli velti pottaplöntu um koll og káfaði á örbylgjuofninum áður en ég komst að þeirri niðurstöðu að sennilegast borgar sig ekki að föndra sér linsur úr matarlími. (þrjú) Af gefnu tilefni og biturri reynslu vil ég ráða fólki frá því að nota heimföndraða peningaseðla. ] [ Ástin fyrir mér er ekki til og er eins og regnbogi í augum litblinds manns sem leitar þó. Ástin fyrir mér er ekki til eins og einhyrningur í ævintýrasögu sem finnst eflaust aldrei. Ástin fyrir mér er ekki til en ég horfi samt áfram upp í bláhvítan himinn og bíð. ] [ Margslungnir brúnir og gulir og rauðir litir í margvíslegum tilbrigðum læðast um uppeftir trjánum og niður einmana götuna. Lauf þyrlast um í nöpru rokinu og hurðir skellast. Það er enginn á ferli svo síðla dags, svo senmma morguns. Allir búnir að finna sér gististað. Konungur vorsins sagði í gær að kvöldið í kvöld yrði tíminn sá er tíminn stæði í stað. Og í hverju andartaki væri fólgið tímabil úfaf fyrir sig er rynnu saman í eitt allsherjar tímabil ástarinnar. Hann sagði ,,Sumarið er tíminn vinur minn”. En hún kom aldrei. Hún sem ég ætlaði strjúka blíðlega um vanga. Og elska og dá, Og þola allt sem væri óþolandi við hana því ég elskaði hana Og núna er haust og allir farnir í sitt hýði. En ég er enn að bíða eftir að sumarið byrji. ] [ Ung dama hallar sér að auðu húsi uppreysnarseggurinn getur ekki sagt móður sinni að hún reyki Hún spyr mig: "Er reykingalykt af fingrum mínum?" ] [ Það eru ekki allir sem sjást, sem fylla þennan heim af ást. Til er fólk sem gerir sitt, án þess þó að vilja komast í þitt. Þó að hatrið sjáist betur, skaldu doka við, og sjá hvað setur. Hættu að taka mið, af því sem getur, farið mun betur þennan vetur. ] [ Þó að dagarnir svertast, og skýin snertast. Þó að fjöllin sofa, og birta minnki kofa. Þó að blotni grasið, og að þagni allt masið. Þó að kuldinn kæli, og krakkinn væli þá er von á gleði í meira mæli! ] [ ég er hérna líka sjáðu mig taktu mig tuldrar hún forsmáð baunin sem liggur óútsprungin og útspýtt í poppskálinni ] [ Vakir yfir kaldri jörð konungur frosts og mjallar. Ungur maður situr vörð, meyja úr kvölum kallar. Þögnin nístir inn við bein, myrkur gleypir ljós. Komin er í þennan heim lítil frostrós. ] [ Seint um kvöld er kvakar álft, kvalinn svanasöngur lognar út því lífið sjálft líftryggir ei lengur. Háreist álftin hvikar senn, hægt nú kraftinn þrýtur. Eins og hendir marga menn, mögur guð sinn lítur. ] [ kom svo úr sólarljóma mínum skíthæll sem íþyngir hjartanu þúsundfalt, afhverju situr hann þarna enn þá fastur í skítnum og lætur mér svíða Svíða í hjartað og hann þarna fjarri og ég alein skíthæll drunur og drungi veröld er mér þoka mig langar heim ] [ Í ljúfu skjóli nætur kom lífið til mín í vor læddist eins og grá læða þangað sem ég svaf og hringaði sig á maga mínum ] [ When your star reach my mind morning comes and goes again worthless life sailing away into the dark tomorrow away..... ] [ Inn í mistrið yfir móðuna límkennt andlit vefur þokudýrsins erfiður. Ég er móður og aldrei hinum megin... ] [ I. HEL Lokadóttir. Blár sólarlaus geimur. Mínus hundrað og allir á brókinni. II. VÍTI Djöfullin sjálfur. Plús hundrað. Allir lestir leyfðir, enga hægt að stunda. III. HELVÍTI Temprað loftslag. ] [ seint í gær rétt áður en ég sofnaði  sá ég næturstjörnu  sem virtist nær jörðu en aðrar  stjörnur ] [ Í viðjum mér ólgar þrá frumhvöt lífsins sem nötrar í innviðunum líkaminn skelfur þar til glóandi aska klífur jarðskorpuna Vilji þess brýst upp á yfirborðið Ævafornt eðli veiðimannsins tekur stjórn Angur þess knýr mig áfram rænir mig skynseminni ber mig til endalausrar leitar Ég þrái að finna konu sem er hrein og tær eins og íslenska vatnið fögur sem stórbrotin náttúran indæl, ljúf og góð Dularfull og spennandi stúlka samt svo nálæg og blíð Persónuleikinn fyrir fögur beinin er sem litur á svarta mynd glæðir hana fullkomnri ásjónu Hún er íhugul og rannsakandi forvitin um tilgang gangverksins saman verða hugsanir okkar skýrar Hlátur hennar líkur svanasöng fágætur, ljúfur og ilhlýr Bros hennar syndir um mig varmur með fiðringi Og ég horfi dolfallinn á þennan upplýsta engil Með dagdrauminum deyr ímynd hennar en ég er enn lifandi í endalausri leit ] [ "við höfum loks verið frelsuð frá einræði" -sagði strákurinn. "lof sé Allah fyrir stórveldið" -sagði stelpan og Patriot stýriflaugin flaug inn um gluggan hjá þeim. ] [ Fram og til baka þreyttur fer tannburstinn minn uns skína tennur ] [ Knörrinn sem hann stýrði og oft um úfinn sjá að veiða Þann gula hefur fyrir löngu fengið uppi á fjörukambinum byrðingurinn mosagróinn kinnungsborðin gisin og kjölurinn horfinn ofan í gróinn svörðinn og hann sem færði björg í bú situr nú veikburða í hjólastóli á elliheimilinu hvílist þar fótfúinn strýkur skjálfandi hendinni um fægðan skallann og horfir til hafs votum augum grætur örlögin að þá er búið að úrelda. ] [ I knew this day would come You say you still love me, where are these words from? But when I looked into your eyes, there was something that made me think I’ve failed to make my feelings to you sink I’m mad about you, I love you so much I love your every smile, every touch Everything I had, isn’t mine anymore Recognized this feeling from before I felt so lonely when I walked away from you through the door I saw emptiness ahead Circle of dead Spinning around in my mind So fast, how could I be so blind? It is all coming to me now, finally I know Now I’m sure why you didn’t say no I know why you said all these pretty things about me I prayed to God to let me keep you, he didn’t agree Everything I’ve worked for, everything I’ve said Just wish all my feelings to you could be dead Do you even have any idea how it is Ever tried to feel like this? Ever tried to scream for something that won’t answer? Someone up there has left you, doesn’t it hurt Feeling like you’ve been left in the dirt! It sucks, doesn’t it? Let me know And the pain will only continue to grow…..grow… ] [ Ég ligg uppi í rúmi og græt. Og tárin leka í eyrun á mér því að ég ligg á bakinu. ] [ En Mexico la gente es muy buena, Me gusta la rica cena. No me preocupa la pansa llena, porque despues tomo una ballena. ] [ Every time I thought that I didn’t have a home Every time I thought that I was on my own I was right No matter how hard I try to fight You will always be out of my sight How much can I take? How much until I break Don’t push me to the edge of time Don’t rub it in my face that you will never be mine You have caused me dead After I lost what I had I’ve lost everything I want Everything I’ve owned is gone ] [ Heyrirðu myrkrið falla á? Hversdagsleikinn hverfur eins og dögg fyrir sólu og völundarhús myrkursins leikur sér að huga mínum ég finn hvernig myrkrið stígur þunglega fyrir aftan mig þar er bara svarta nóttin þegar ég lít við ég finn hvernig hendur óttans leika um huga minn þær fara græðgislega um alla króka og kima og finna alltaf það sem þær leita að. Litla barnið sem ég hef troðið niður í djúp sálar minnar kemur aftur upp á yfirborðið og ég get ekki annað gert en að kíkja undir sængina og inn í skáp til að friða litlu stúlkuna. ] [ I liked the way your blood bled when I cut your throught it reminded me off passion ] [ Ég get ekki samið ljóð. Hef aldrei getað. Einhvern tímann er allt fyrst. Líka ljóðið. ] [ Á naglaspýtum héngu trúboðar í stellingum fíla stuttu hjá lágu snákar í langri röð halastjarna eitrið af tungunum spýttist hægt af stað ég gekk framhjá snerti enni snákanna sneiddi skonsur í dökkdimmum helli næturinnar hringsnerist um kófsveitta fíla sem höfðu verið að iðka sund með Óla bassa og farið svo að versla á eftir án undantekninga keypti hver fíll sér lambhúshettu, kappakstursbíl, derhúfu og sleikibrjóstsykur ég gekk framhjá batt höfuðfat á fílana bað draumana um vernd á leikvanginum borðuðu ljónin mig, brytjuðu mig í sundur, bognuðu sverð ég ligg nú á gólfi ljónabúrsins óviss um að ég komist í sturtu aftur að ég hitti þig ] [ Geti ég tekið gleði þína í hægri hönd og sorg þína í vinstri, fæ ég að líta inn í hjarta þitt Geti ég tekið reiði þína á hægri öxl og áhyggjur þá vinstri, mun ég faðma sálu þína að mér Ósk mín þögul og djúpt ] [ Þögul ást í þröngu rými Frosið hjarta þakið hrími Eitt er horfið annað brennur Ör af boga Amors rennur. Drengur elskar, svanni dáin, enn til staðar ástarþráin. Á moldu fellur sveinsins tár, í brjósti hans er sorgarsár Jörðin hylur hennar mynd, sálin fauk með hlýjum vind. Við stein með nafni hennar grætur, rifnar burtu hjartans rætur. Með blað í hendi'á jörðu skríður mærin hans á himnum bíður. Sigðin glampar á hans hníf, vill ey öðlast lengra líf. Einn mun aldrei gleði skarta, frostrós grær á drengsins hjarta. Með hníf í brjósti hnígur sveinn, vildi ey lengur lifa einn. Í örmum hennar friðar nýtur, hjartað ekki aftur brýtur. Fann í faðmi hennar hlýju byrja að elska heitt að nýju. ] [ Í brjósti pilta tendra bláu augun bál, Bjartir speglar inn í þína fögru sál. Ef horfa þau til mín þá hjartað hamast ótt. Hugur minn mun dvelja hjá þér hverja nótt. Létt herðar þínar falla ljósir lokkar á. Ljóð mitt lýsir vart því sem að augun sjá. Og frá því ilminn leggur, ferskan angan finn, Fljótt mig dreymir þá um mjúkan faðminn þinn. Varir þínar heitar kveikja von um kossa Sem kuldann hrekja burt og tendra blossa. Sem funi hjartað bræðir fagra brosið hlýtt, Og fær mig hvert sinn til að elska upp á nýtt. ] [ Þú ert gyðja míns hjarta, Stoð minnar sálar, Drottning minna drauma. Við hlið þér er ég ósigrandi. Ég vil þar gráta og þar vil ég kætast, Í þínum faðmi þar sem draumarnir rætast. Ég vil halda í hönd þína, Hönd sem veitir mér styrk, Von og trú. Þú kallar fram kærleikann í hjarta mínu. Ég vil strjúka þitt hörund og njóta mín best, Í faðmlagi stúlku sem þrái ég mest. Ég vil horfa í augu þín, Augu sem laða fram ást. Ég vil uppfylla óskir þínar, Elska þig og virða. Ég eiga vil stund þar sem augu okkar mætast, Í faðmi þér þar sem draumarnir rætast. Þú ert innblástur ljóða minna, Fegurst allra meyja. Orsök hamingjunnar, Gleðin í lífi mínu. Ég vil þér halda og þig vil ég kyssa, Í faðmlagi þínu sem ég aldrei vil missa. ] [ When no one ever looks your way, And no one says you’re nice today. And no one sends you smiles across the floor. When there is no love left for you, And all the world is gray and blue. And deep inside your heart you’re feeling poor. When you feel like you have missed the train, And everything you’ve got is pain. And deep inside you’re slowly growing old. When everything that’s good is gone, And you are never having fun. And all your world is slightly going cold. Remember I am here my friend, And friendship never comes to end. Though sometimes we are very mad and sore. You never have to run and hide, Cause I am always by your side. So let the friendship last for evermore. ] [ Hugur minn vill hata allt, Hjartað ekkert skilur Minning er í sárið salt, Sæmdin tár mín hylur. Geng ég enn með bakið beint Bros og stundum hlátur. Breytast mun sú staðreynd seint, Að oft er stutt í grátur. Gaf þér rósir fagurrauðar Reiður óska ég þess heitt. Að þær detti allar dauðar, Og döpur þú munt elsk’ey neitt. Stjarnan skín og tárin streyma, Stend ég eftir hnugginn sveinn. Ein mun okkar drauma dreyma, Dapur mun ég deyja einn. ] [ Með hjarta úr gulli þú gekst í mitt líf Með gleði og brosandi varir. Á skýi úr vonum við hlið þér ég svíf Og vona að aldrei þú farir. Fyrir þig skal ég berjast, blæða og þjást Berjast í minningu þína Vertu mér kærust og kenndu mér ást, Ást sem að aldrei mun dvína. Loginn í hjarta, mér lýsandi bál Ljóð mitt það ávallt mun geyma. Fegurst mér þykir þín saklausa sál, Sú sem ég aldrei mun gleyma. ] [ Ég dæsi þegar dagurinn kemur, draumarnir sleppa takinu og ýta mér framúr. Af hverju var ég að vakna? Veruleikinn getur verið svo óspennandi. Undirmeðvitundin hendir huganum, Hærra, þangað sem stjörnurnar hvíla. Þar sit ég á höku hálfmánans, horfi á stjörnurnar og hlusta á sögur. En það eru engar stjörnur, heldur útiljósin í borginni. Marsbúarnir miða leyserbyssum á jörðina. Magnað hvernig allt er hægt. Horfandi á allt annan heim, hugsandi á apamáli. En maður man aldrei hvernig fór, Reyni að rifja upp eftir að draumarnir hentu mér burt. Sekk mér í moggann og óspennandi tilveru hversdagsins. En næstu nótt, næstu nótt heyri ég endinn á sögu hálfmánans, eftir að ég sofna yfir kvöldlesningunni og sekk inn í heim marsbúa og mánaferða. -Magnað hvernig allt er hægt. ] [ Hvert sem þú lítur framhjá þér visnað lauf þýtur. Kuldinn fer að bíta í kinn taktu því fram húfuna vinur minn. Dagurinn er ekki lengur langur þó svo hann sé mörgum ansi strangur. Þess vegna er gott að sofa en það bætir þig, því ég lofa. Alla daga þú leitar af skjóli og þú finnur það í þínu bóli. Á morganna viltu ekki vakna því sumrinu ertu strax farin að sakna. Horfið er allt þitt þor og það sem þú vilt er nýtt vor. Eftir sumarið þessi árstíð fram braust hið drungalega og kalda haust. ] [ Er frelsið falið í þeim hlutum sem maður hefur eitt sinn átt. Er það stundirnar sem við nutum eða þegar við skildum sátt. Er frelsið að takmörkum sínum að ná eða salt yfir sárin strá. Er það sem er okkur best eða kannski að sjá góðverkin flest. Frelsið munu allir finna bara ef þeir afþví leita. Þá er sko til mikils vinna og mörgum brögðum hægt að beita. ] [ Bláber fjöllin liggja makindalega og teygja úr sér í sólskininu Veðruð vitni í veraldarsögunni. Upplýsa ekkert nema gengið sé á þau. ] [ Sólskin Gola Flugusuð Niðurinn í ánni Kyrrð hugans Að bara vera Vera hér Vera til Að bara lifa Lifa hér Núna ] [ Brennimerktu mig á hnakkann með tungu þinni Ristu mér húðflúr með sálarbrotinu sem ég gaf þér Með svita og tárum málaðu mynd á bakið af hjarta þínu Merktu svo verkið fangamarki þínu með blóði En þurrkaðu út fótspor þín áður en þú ferð ] [ This poem is dedicated to all who think I suck For everyone who thinks I should jump from a block For everyone who thinks I’m a crack head For every fucking bitch who thinks I’m good as dead I’m tired of all this emotional violence Tired of never getting any peace and silence Can’t go out without some bullshit going on Tired of hearing”where did you get that money from?” It’s like I can’t do anything on my own It’s like I don’t have a home I love my family, but stop it Stop asking me some questions, just drop it I know I’m wasted But I’m still the biggest pimp you ever tasted I love my crib the most I’m still representing the west side coast I love you my friend and I got your back So if anybody steps up to me, there’s no way back Don’t judge me before you know me No telling how far I’ll go Nothing I can do, my brain just goes with the flow It was in high school when my anger started to grow Now I can’t do this anymore My life isn’t like it was before One day you open the door and see me still hanging in the ceiling It’s not like anybody cares about my feeling You know what? This is kind of funny Chances of anybody reading this are the same like if I get any money Nobody cares, nobody reads about my shit Don’t tempt me to kill myself; I might as well do it I hate everybody that barks at me I hate everybody that won’t let me be Pimp haters, all around I can’t even go to town Pimp haters are making me feeling down One last word My name will always be the biggest name you’ve heard ] [ Uppá undinn afþrengdur tuskulegur & tómlegur Velja þarf úr valmengi velförnuð eða volæði? Andlaus sagður sakfelldur ráðleysi & dugleysi hrista höfuð ættmenni afneitun eða samþykki? Gerla vel skal gjöra vandfýsni & kostgæfni stefnan rökk af tvísýnu skyldurækni eða hamingju? Ungur maður eldmóður spengilegur & stórmæltur Verandi þess vel megnugur ungur eða aldraður? Víst að sækir alveröld Stórsstirni & smágrýti Framtíðin kemur að endingu fullkomin eða vonbrigði? ] [ Berum þá í það minnsta eitt eða tvö sprengjubelti undir skrápnum. Því grátt er hvorki svart né hvítt. ] [ ég er þreytt og þungt er hjarta þekja sjónu mína ský sólu vil ég biðja bjarta blíðum geislum til mín senda verði hönd mín aftur hlý ] [ Þarna eru þessi ljóð sem segja sína sögu þarna eru þau ekki einhvers konar skeljar sem sváfu af sér eilífðina í fallegri fjöru eða loftsteinar sem féllu til jarðar ofanúr holu hveli sem væri kannski nær lagi heldur blóðið á vörunum undan tönnunum jafnvel á nöglunum þegar lífsblómið bærðist og ég hvíslaði drepa drepa ljóðin sem lögðu af stað í öndvegi áður en sjóreiðin hófst þarna eru þau löðrandi syngjandi og þú spyrð kannski eilítið hikandi viltu vera minn vængur í nótt ég get það ég get það ekki ] [ Bak mitt er þakið allskonar örum þó eru flest eftir þig ] [ Searching for something...you call it soul.. How can one be so empty..? Days go by, they're all the same..(someone show me the path that's mine.) Remember the butterfly that lived in my soul? It flew away..it's gone...my soul doesn't breath anymore. I know that what I'm doing is wrong...(but the days pass more quickly.) That's what I need...my sanity is all I have left...(or is it?) and I can't afford to loose that too.. All my masks...You never know where you have me...(neither do I...) Once I found a butterfly in my pocket... I should hav made a wish...but I didn't. Am I doomed forever..? Or can this breathless soul come to life again? ] [ Klukkan tíu að morgni með tárvota kvarma Kveður hann lífið í hinsta sinn Í von um að bíði hans galopnir armar Ömmunnar gömlu sem kyssti hans kinn Í lífinu hafði hann orðið undir Eilífðin hafði hans sálu merkt En hafði þó margoft um grösugar grundir Glaðvær hlaupið um náttúru slekt En tíminn hafði í taumanna tekið Tifað’í burtu hægt og hægt Í sjálfsvorkun hafði hann eftir setið Sínu litla lífi frá sér bægt Fölur og fár hann negldur er niður Náhvítur líkaminn sál hans enn bar Loksins í myrkrinu heyrði hann kliður: Hún amma þín er ekki á þessum stað ] [ Dabbi gekk í typpó sem hann eitt sinn fékk hann gekk ennþá í þeim í 9unda bekk Þær voru bláar og blátt typpakusk það var algjör plága að týna kuskið burt ] [ Haltu áfram að skapa, þú hefur engu að tapa. Sköpun þín er stórkostleg og flott en sú gangrýni gerir þér aðeins gott. Af lífinu málar þú myndir, góðverk mannanna og allar þeirra syndir. Í list þinni er hægt að læra og líf allra og sál gleði færa. Í nákvæmnina leggur þú mikinn þrótt, áhrif frá snillingum hefur þú sótt. Þú sjálfur hefur alla burði að bera haltu áfram með það sem þú ert að gera. ] [ Þessi farlama orð eru fjötruð við tungu mína, sálu og spor mín á jörðu Þessi fjörugu orð opna mér heim þúsund skálda og laða mig að paradís Orð mín, farlama og fjörug eru himnagjöf ] [ Með hjarta úr gulli, augun himinnblá og með hönd sem huggar. Brosti þínu breiðasta þegar vel lá á þó innst inni væru myrkur og skuggar. Aldrei neitt slæmt féll úr þínum munni heldur gullmolar sem við lærðum. Öllu sínu fólki hann mest unni og allt það sem við honum færðum. Þú ferðaðist á milli ólíkra landa sem við hin sjáum aðeins í draumum. Þar snertu fætur þínar heita sanda og þú syndtir í hafsins heitu straumum. Nú ertu með oss á vissan hátt en við hittumst auðvita aftur. Á þeim endurfundi verður ekki haft lágt heldur settur í það allur okkar kraftur. Vertu sæll, vertu sæll afi minn en aðeins í þetta sinn. Þú munt standa yfir okkur vörð öllum þeim sem þú unnir hér á jörð. ] [ Þeir sungu \"When I\'m sixtie four\" snillingar léttir í lundu heilluðu alla sem hlustuðu á og hljómana sígildu fundu. Í stúdeó Apple ég staddur var og stundin er heilög í minni það hljómar enn í höfði mér himneskur söngur þar inni. Ég vaknaði upp við vænan draum en vissi að ég var bara heima og lét því í spilarann \"Let it be\" svo ljúft mig fór aftur að dreyma. Mig dreymdi um daginn í lífinu og drengina sá ég í anda syngjandi \"We can work it out\" vinirnir okkur til handa. ] [ Ég vakna og horfi á grámyglulegan hversdagsleikann vinka mér fyrir utan gluggann. Sýnist hann hafa lítið breyst. Það bankar einhver á þakið, eða er þetta guð að gráta og minna mig þannig á áþján heimsins? Ég spyr guð en fæ ekkert svar. Eitt sinn hefði ég heyrt svarið en núna hefur sambandið slitnað og bíður eftir viðgerðum. ] [ vor er tímin, tímin sem líður. Hann líður sem blíður, hann er Blíður sem fríður. Þökk sé sumrinu og sólini, minni og þinni. blóm vaxa, vaxa og vaxa. og deyja og lifna við þökk sé mér og þér. ] [ Þegar ég brosi lokast augun mín. Í blindri hamingju, sælu svíf ég. Þau lokast í hálfmána, tákn nætur, myrkurs. Í myrkri hamingjunnar, dreg ég fyrir gluggatjöld sálar minnar. Það sést ekki inn, það sést ekki út. Ég hverf en í myrkri sé ég. ] [ Höfuðverkur, heljar pína, hrjáði lengi mömmu mína. Loksins hún til lækna gekk lagðist þreytt á hvítan bekk, leyfði þeim í sig að rýna. Þeim reyndist ekki mikið maus mæla allt í hennar haus. Fannst þar einhver furðuhnútur, -fölur, lítill bandvefskútur. (Frekar það en skrúfa laus!) Því svona stubbar standast ei stóð af læknum og fróða mey. Í burtu skal með skörpum hníf -sem skaðlaus bætir múttu líf- með skyndi þetta auma grey. Nú vita máttu með þitt mein: Móðir veikist aldrei ein. Öll við stöndum þér hjá þétt, þyrst að heyra góða frétt. Þráum að hún komi ei sein! ] [ Fíflið sem var byrjað að vera skemmtilegt er ennþá fíflið það erum við sem erum hinsvegar orðinn fífl ] [ Stundum langar mig bara til að hefna mín ekki endilega fyrir eitthvað sérstakt, meira bara svona innri reiði. Leita uppi alla aumingja samfélagsins og bara pynta þá, koma því svo rækilega inn í hausinn á þeim að þeir séu ekkert nema aumingjar sem verðskuldi á engan hátt að lifa. En ég get þetta ekkert, ég get ekkert leitað uppi þessa aumingja, þessi þunglyndu fífl, því ég er sjálfur aumingi. ] [ Stundum finnst mér eins og ég viti ekkert, til dæmis eins og núna, en hún er falleg stelpan í skólanum, stelpan sem mig langar að ríða, confidensuð og örugg, en fífl er hún, hún er kommafífl, hún myndi aldrei skilja það að ég kýs íhaldið, því hver annar, því hver annar hugsar um silfrið mitt? ] [ Nei! Nú er ég búinn að fá nóg af þessu! Þetta er bara vitleysta! Lagið fer allt of hægt, en það heldur bara áfram og áfram, þannig til mar deyr úr elli rokkdauða, skilur ekkert eftir sig, nema lítið skáeygt barn hah! Það er þó skárra en þetta, þetta kjaftæði sem skilar engu? Nema hverju? Bíðum aðeins lengur, setjumst niður, bíðum, slappaðu bara af, þetta er.. Nei farðu og gerð eikkva nei en það er sumar, sumar? Hvað græði ég á því? Er ég fullur? Er ég að barna litlar stelpur? Er ég að komast nærri? Einhverju? Bíddu bara aðeins... ( innsk höf. brjálaður geðsjúklingur labbar uppað þér og þú ert skyndilega dauður, hættu síðan að hlusta á pabba þinn!) ] [ Nú ferðu að nálgast 23 árið og horfið er fortíðarsárið, góðvild áttu og fyndin hlátur en lítið ertu fyrir grátur. Sterkur alltaf hann er og sést það hvernig hann það ber, gefin er hann fyrir fydni ávallt leikur allt í lyndi. Yfir fótbolta hann oft liggur og heimsóknir vel þiggur, í félgasskap unnir sér best og er hann þá til í flest. Haltu áfram að vera þú en ástæðan er aðalega sú, að þú ert vinur í raun og átt skilið fyrir heimsins bestu laun. ] [ Hún er mér góður vinur stendur mér ávallt næst. Sama hvað yfir mig dynur eru ráð hennar alltaf glæst. Hún hefur lifað tímanna óðu sem hún hefur lært vel af. Oft ég minnist stundanna okkar góðu og hjálpina frá þér þegar ég fór í kaf. Úr fjöldanum hún sig skar því fegurð hennar er engri annari lík. Svo þessi sjarmi sem hún ber flæðir um allt og alla í Reykjavík. Hún á inni allar blessun mína og veit hún vel af því. Vonandi segir hún ykkur sögu sína en atburðarrás hennar er innlæg og hlý. Sæl mun þú verða í 1000 ár elsku besta Lilja. Lækna skal ég öll þín sár en það verður þú ða vilja. ] [ Ég sit við gluggan, með kaffi í glasi það er mánudagur og slabb á götunni. Helgin er búinn og það líður að næstu. Mórallinn kominn og það líður að næsta. Dag eftir dag, viku eftir viku, ár eftir ár hinn sami hringur með litlum tilbreitingum. Nema kannski er ég farin að drekka kaffið úr bolla. ] [ Ég elska föður minn og móður saman þau gáfu mér líf af gjöf. Þau hafa farið margar ótroðnar slóðir bæði yfir lönd og heimsins höf. Margar góar stundir saman við höfum eytt allt frá heimili okkar eða upp í sveit. Til að gleðja þau þarf nánast ekki neitt en það ég best allra veit. Þau sáu mig ganga mín fyrstu spor og setjast á fyrst á skólabekk. Fylla mig af kjak og þor þegar í svartholið ég sekk. Alltaf sýna þau mér hina réttu leið og sjá það sem enginn annar sér. Við höfum verið vinir um langt skeið en enginn breytir því sem núna er. Við stöndum saman í hverjum harmi og í gegnum það hvort annað leiðum. Yfir foreldrum mínum mikill bjarmi sem skín á hverri stund sem við eyðum. Við verðum saman alla tíð og enginn getur stoppað það. Hver stund með ykkur er falleg og fríð en sem barn ég bað guð um það. ] [ Tilfinningar eru eins og ský sem berast með vindum. Taka á sig margar myndir, fallegar og dimmar, stórar jafnt sem agnar litlar. Hvernig get ég beislað vindinn að ég gæti bara beislað vindinn. ] [ Tár niður kinn rennur söknuður er valdur þess. Inn að hjarta henni brennur eftir að hann sagði bless. Ein um nótt hún sefur einmanna með hjarta kalt. Sál hennar gröf sína grefur eftir að hún af stalli sínum valt. Hvarf hans var hennar hagur eftir allt sem gekk á. Á morgun kemur nýr dagur með nýrri von og þrá. ] [ Sögu skal ég segi ljóta um kerlingu sem ekki er fríð. 13 börnum tókst henni að gjóta sem ekki voru á meðal hins almenna lýð. Maður hennar var latur sem aldrei gerði neitt. Lá allan daginn á maganum flatur og gerði kerlingu oft lífið leitt. Bjuggu þau upp til fjalla en kerling leitaði oft til bæja. En hrollur fór um þá alla sem heyrðu kerlinguna hlæja. Hún elti aðeins óþekk börn sem voru sælgæti í hennar huga. Greyið börnin áttu enga vörn en í örmum hennar voru þau aum sem fluga Með í för var köttur stór sem kerling gekk með í sinni ól. Seint Desember kerlingin í ferðir fór þegar mannfólkið hélt gleiðileg jól. Um næstu jól skal rifja upp sögu mína en þá má ekki vera óþekkur eða í fýlu. Heldur sýna hegðun fallega og fína annars endið þið í gininu á Grýlu. ] [ Innan um öll þessi andlit sem virðast andlitin ein skilur þú þig frá og situr í mér ] [ Nagaðu á mér heilabörkinn skrapaðu úr mér mænuna sjúgðu inn í eyrun á mér með ryksugu. Sláðu mig með hækju og ristu mig sundur með rafmagnssláttuvél í hjáverkum á lóðinni. Ég var að vonast eftir að þú myndir hringja. ] [ Með óslökkvandi þrá, með gegnumgangandi eftirsjá, með lífið eins og titrandi písk í reiddri hendi sogar hann í sig andartakið eins og drukknandi maður. hann skilur við sig minningu um söknuð eftir framtíð sem aldrei varð. hann og lífið eru aftur eitt ] [ Hálfrökkur á gólfinu í andliti hvers og eins eitthvað sem ég fíla ekki endalaus leiði dregur mig hingað með klær sem vilja rífa andleysi mitt í agnir Rífðu mig niður ég mun sameinast þér fyrir andartaks gleði að hafa fundið þig uppurið þig yfirgefið þig ] [ þreyttur kem ég heim um kvöld minnist þín svo undir svefninn ímynda mér alls kyns vitleysu að þú verðir ástfangin af mér vegna einstæðra mannkosta minna ég vakna snemma bölva þér í hljóði að láta mig tapa svefni dreyma vakandi skotinn í hjartanu og hjartað í buxunum ástfanginn aftur ] [ Þú hylur mig í nóttinni líkt og hafið hylur sjávarbotninn Þú faðmar mig líkt og aldan faðmar fjöruna Og er mig dreymir vaggar þú mér eins og hafið vaggar mánanum Á morgun þegar fjarar út vil ég breytast í marbendil ] [ Eitt sinn læddist ég innan um sólargeisla, klauf steina með ástinni, dró regnið niður úr skýjunum og lét vindinn flæða um fætur þér. Eitt sinn teygði ég mig handan við sjóndeildarhringinn, færði þér dagsbirtu í lófann, festi himintungl við höfuð þér og elti þig til dögunar. Eitt sinn urðum við viðskila yfir nótt og ég fann þig steingerða um morgun - en hjarta þitt sló enn. Í nótt þeyti ég tárum til stjarnanna Í nótt leita augu mín innávið Í nótt rek ég slóðir hjarta þíns til hjarta míns. ] [ Mig hefur langað að grípa um skýin á þessum morgni þegar hver andardráttur fyllir mig ótta - svífa með þig burt ástin mín því hvorugt okkar lifir morguninn af ] [ ég er inni í þér þú ert utan um mig ég er harður þú ert mjúk ég er tómur þú ert full - komin ] [ Vindurinn er að stríða okkur en við kiprum augun hlæjandi og hlaupum í fang hans ] [ Hann missti trúna í gær kannski var það viljandi gert? En á meðan saltur er sær verður trú hans ávallt skert. Hann trúði ekki á hvað sem er en á eitthvað trúði hann. Sá Guð var ekki uppi heldur hér og sagðist þekkja náungann þann. ] [ Koma þín um nóttina gladdi mig, og þegar þú fórst frá mér um morguninn skildir þú eftir ilminn og ylinn af þér í sænginni minni bara handa mér. ´92 ] [ ég steig út úr lestinni heyrði hörpuleikinn hljóma sá tvö þeldökk englabörn í hvítum klæðum allt fullt af sálum í ranghölum himnaríkis tók rúllustigann aftur upp til helvítis ] [ ég ligg á grúfu í baðkarinu með lokuð augun í hlýjunni heyri raddir í fjarska og mig minnir að endur fyrir löngu hafi þetta verið einmitt svona bara mýkra ] [ Hans týpa er að finna í hverjum hóp sem í veislum gefur frá sér fagnaðaróp. Manna mest hann alltaf syngur og leikur við hvern sinn fingur. Fyrstur allra hrópar Baldur skál en edrú er hann með pínulitla sál. Oft á tíðum þykir honum lífið gott sést það vel þegar hann setur upp glott. Í faðmi kvenna hann hefur sofið rótt síðustu árin á hverri einustu nótt. Konan hans heldur um alla hans þrá og svo lengi sem hjarta þeirra en slá. Í slæmum veðrum inni finnur hann skjól en er úti allan daginn þegar er sól. En á föstudögum hann hleður á sig vörum því svo virðist sem hann sé á förum. Er með orðaforða sem enginn stafar af og getur talað alla í kaf. Með áfengi munnurinn verður laus þó hugur hans fyrir löng af því fraus. Baldur er að mínu mati hinn mikli þó hann ekki allan daginn vöðva hnylki. Því honum er sama hvað öðrum varðar á það við hverja mannsekju þessar jarðar Ég varð bara að semja til hans ljóð því Baldur hluti af þessari þjóð. Uppátæki hans verða alla tíð geymd og aldrei verða þau úr minni mínu gleymd ] [ Morgungeislar sleikja mjúkt hörund. Fuglasöngur gælir við opin eyru. Tært loftið nærir hungraðan líkama. Dulin alsæla faðmar sofandi sál. Ef aðeins ég væri vakandi til að upplifa slíkan unað. ] [ Mig dreymir um hann Dag og nætur Aldrey séð annað eins fagurt fés hvernig hann labbar hvernig hann talar hvernig hann horfir á mig ég fyllist öll öryggi ég roðna mig langar svo mikið í hann en ég get ekki fengið hann hann er giftur of gamall fyir mig sem er svona ung hann á fyrirtæki Þénar mikið á börn hús og Hund Aumingja ég hann er kennarinn minn sá sem ég þrái heitast en hann er of strangur of ríkur of heitur Hvað ég elska þegar hann talar Kennarinn minn! ] [ Þegar ég er andvaka um nætur þá sest ég uppí glugga horfa á nóttina dimmuna skýjin sjóinn Þegar hann er með mér og við ætlum að meika það þá fer ég úr öllu lygg nakinn við hlið hanns hvað ég er frjáls fynnst eins og ég geti hlupið hlupið á markaðinn og keipt mér smokka ] [ Hún amma er allgjer gansta! hvennig hún rappar Þá verður maður svoleiðis að stappa og klappa því engin/nn er svona góður að rappa eins og gangsta amma! elska þennann hreim með þeim sem elska hana ömmu Lagið hennar er þrjóst með sílíkon í Brjóst hún er sú besta hún er aldrey til í að fresta þvú hún er gangsta amma! ] [ Hafið þrumar yfir björgunum. Skýin etja kappi hvert við annað. Sólin dregur sig hnuggin í hlé. Vindurinn hvín miskunnarlaust. Björgin standa stolt og bjóða öllu byrginn. Lítill bátur skoppar sem korktappi á öldunum. Hafið gælir við björgin. Skýin svífa í sjöunda himni Sólin brosir á ný. Vindurinn flissar kjánalega. Björgin standa enn sem fyrr Brak úr litlum bát rekur á fjörur. ´87 ] [ Framtíð tapaðist í ferð til tunglsins. Finnandi vinsamlegast skili henni í næsta kjarnorkuver. Fundarlaun. ] [ Þegar ég hugsa, hugsa ég um þig. Þegar ég skrifa, skrifa ég um þig. Þegar ég tala, tala ég um þig. þegar ég horfi, horfi ég á þig. Þegar ég sakna, sakna ég þín. Þegar ég elska, elska ég þig. Minningin um þig situr í mér líkt og blek á blaði og hvernig sem ég reyni þá vill hún ekki hverfa! ´90 ] [ Er það ekki undarlegt vinur, að þú hvílir hér í garði minninganna? Er það ekki undarlegt vinur, að nýr dagur skuli lifna án þess að færa mér þig aftur? Er það ekki undarlegt vinur, að sólarupprás hvers dags færi mér minninguna um þig? Er það ekki undarlegt vinur, að hafa átt svo ljúfar stundir sem nú varðveitast í minningabók hugans? Er það ekki undarlegt vinur, að þú sért ekki lengur hér til að hugga harma mína? Er það ekki undarlegt vinur, að vinátta okkar verði ævinlega geymd í hjarta mínu? Er það ekki undarlegt vinur, að hugsa til þess að við munum hittast á ný? Er það ekki undarlegt vinur? ´97 ] [ Samviskuleysið situr stolt við hlið mína og lætur gamminn geysa, fullvisst um gæði sín og visku. Svo hriktir stoðum sannleikans! ´94 ] [ Ég sit einn í sorg, tár renna niður mínar kinnar Græt yfir dánarbeði þínu og læt tárin falla á það til minningar þinnar Ég er eins og lítill strákur sem felur tilfinningar sínar Augun rauð og þrútin eftir aldargrátur því tilfinningar þínar urðu aldrei mínar Sama hvað ég biðst fyrir, þá ertu að farin frá mér Núna fæ ég aldrei tækifæri til að segja að ég sé ástfanginn af þér Enginn sá leynda fegurð þína, en ég er sá sem sér... Ég fell niður á hnén, kreppi hnefanna og lem í þína mold Ég leggst þér við hlið og leyfi maurum að éta einnig mitt hold Án þín verð ég ekki, án þín er ég ekkert, ég er ekki þekktur Aðeins einmanna þér við hlið í rigningunni, svekktur Finn fyrir dropunum eyða mér að innan... Því þarftu að yfirgefa mig, við áttum allt saman Rigningin er byrjuð að éta mig upp í framan finn fyrir kulda, en samt svo mikilli hlýju því vaknaru ekki og leyfir mér að elska þig að nýju? Ég sekk dýpra og dýpra niður á við Tek utan um þig og finn þar loksins frið.... ] [ Dropinn sem fyllti mælinn, féll í hafið og hafið gleypti hann eins og ekkert væri. Er ég aðeins dropi í hafið? ´89 ] [ Hlauptu og kauptu!! Til sölu! Til sölu banaspjót, allar stærðir, allar gerðir, bæði ný og ný uppgerð. Góðir greiðslu skilmálar. Raðgreiðslur. ÓTAKMARKAÐ UPPLAG!! ´91 ] [ Tár skríður niður kinn, aldan lekur af steini, sól sekkur í sæ, ég kveð en elska þó í leyni. Enginn veit hvað átt hefur, fyrr en misst hefur. Maðurinn á tunglinu er einmana, hafmeyjan í hafinu er einmana, Guð á himninum er einmana, fóstur í maga er einmana. Það er enginn svo sterkur að hann geti staðið einn á báti, jafnvel í logni, báturinn vaggar. Enginn veit hvað átt hefur, fyrr en misst hefur. Dimmalimm kyssti svaninn sinn og fór. ] [ Fingur þínir... líkt og logatungur sem sleikja mig og í mér tendrast óslökkvandi losti sem leitar lausnar í faðmi þínum. Þú...og aðeins þú getur veitt mér lausn. ´97 ] [ Það glitra daggardropar á heilögu altari þínu, þar sem uppspretta unaðar svellur. Áhrif líkama míns á líkama þinn fylla mig lotningu yfir þessu dásamlega sköpunarverki. Í unaði bergi ég á uppsprettu þinni. Það er algert algleymi. ´95 ] [ Hún komst inn fyrir varnagarða mína í líki tróju hests og úr kviði hennar streymdi illskan holdi klædd og felldi mig! ´93 ] [ ég lýg að þér eins og ég stend hér eitthvað er að mér hver maður sér veikleiki minn ert þú og það er mín trú að á milli okkar er brú sem við verðum að sjá nú guð verður að komast á milli okkar trúin mig til sín lokkar bænir því ég bið nokkrar nýjan streng lífið plokkar ] [ Ó, aurar vors lands! Ó, lands vorra aura vér lofum þitt heilaga, heilaga nafn! Úr hagstjórnun bankanna hnýta þér krans þínir harkarar, seðlanna safn! Fyrir þér er ein króna sem þúsundkall og þúsundkall króna ei meir, einn víxill sem rýrnar við vaxtanna fall og vonar á aur sinn og deyr. Íslands þúsundkall Íslands þúsundkall einn víxill sem rýrnar við vaxtanna fall og vonar á aur sinn og deyr. Ó, aur! Ó aur, vér föllum fram og fórnum þér brennandi, brennandi sál, seðlar, vor drottinn frá kyni til kyns, og vér kvökum vort helgasta mál; vér kvökum og þökkum fyrir þitt skjall, því þú ert von einasta skjól; vér kvökum og þökkum með auðvaldsins pall, því þú tilbjóst vort forlagahjól. Íslands þúsundkall Íslands þúsundkall buddunnar sífellda útþenslu brall sem blessast við góðæris jól. Ó, aur vors lands! Ó, lands vors aur, vér lifum sem blaktandi, blaktandi strá; vér deyjum, ef þú ert ei ljós það og líf, sem að lyftir oss gjaldþroti frá; ó, vert þú hvern morgunn vort ljúfasta líf, vor leiðtogi í daganna þraut, og á kvöldin vor himneska hvíld og vor hlíf, og vor hertogi á þjóðlífsins braut; Íslands þúsundkall Íslands þúsundkall verði gróandi þjóðlíf með arðvænlegt brall sem þroskast á þjóðlífsins braut. ] [ Heill þér,gamli Hafnarfjörður, hlýi,góði mannlífsvörður. Æði vel af guði gjörður, góðra vætta höfuðból. Stendur byggð á styrkum grunni, storka hrauns í fyllingunni. Allra vinda og veðra skjól. Megi börn þín bera hróður, bæta og styrkja allan gróður. Öll þín sæmd er okkar sjóður, öll þín hneisa okkar smán. Megi allt þitt mannlíf gróa, menntun geri hugsun frjóa. Best þér veitist barnalán. Því skal þor og þrek til dáða þinni sögu ávallt ráða, svo að forlög fái skráða framtíð þína á gullin spjöld. Ef að hönd í hönd vil taka, heilladísir munu vaka, Hafnarfjörður,ár og öld. ] [ Now It´s been weeks since I talked to you last, our feelings and memories dug in the past, somehow we never could find out a way, I love you forever that's all I can say! ] [ Hvar ert þú, sem ég ætti að geta hallað höfðinu að, og grátið allri minni sálarkvöl yfir. Þú, sem tækir með báðum höndum um andlit mitt og kysstir tárin burtu. Faðmar mig blítt og huggar mig. Vitandi, að það er mannlegt að gráta. Stendur við hlið mér sem styrkjandi stólpi. Skilirðislaus ást, gefin af sannri elsku. Rétt eins og blómið sem teigir sig, mót byrjandi morgundögginni. Í trausti þess, að sólin skín aftur. ] [ Í lok dagsins fann ég hvernig vinnudagurinn Hafði sloppið undan nöglum gærdagsins. ] [ Semí löguð kúla Sem var komin með Liti regnbogans Hafði fyrir stuttu fengið áskrift af ljóð.is ] [ Brimið skall á steinunum gráu svettist sandinn á hvar ertu? ég ekkert nema óbyggðir sá með augunum mínum bláu þar sem óttinn allt um læddist efa í mig tróð hvar ertu? ég ein á ströndinni stóð starði skelfd í allar áttir og hræddist hvass er vindurinn kaldi hann kvelur mig hvar ert? ég freistaðist þess að finna þig en skelfingu fylltist og sálina faldi þýður er kári og sjórinn er kyrr kvöldsólin gyllir ský hvar varstu? enn standa fótsporin fjörunni í af hverju komst´ ekki fyrr? ] [ Mér er alltaf mikils virði að mega geyma fagran sjóð björt er sól í Bitrufirði bjart er yfir æskuslóð. Lék ég mér sem lítill strákur labbað var þá upp á brún eða líkt og fimur fákur frjáls ég hljóp um fjöll og tún. Lífið var mér létt í spori ljúfu æskuárin góð allt varð þá að einu vori ættjörð þér ég syng mín ljóð. Minningar sem gleði geyma gleðja augun tindar,skörð þar sem ljúfar lindir streyma og líða hljótt í Bitrufjörð. ] [ Vinnukonurnar hamast á rúðunni vindurinn blæs að sunnan og vinirnir sem átti ég forðum þeir vaka um nætur og vonin sem grætur veit að ég einskis sakna. Hvort verslóhelgin í ljóma verði okkur til sóma víst bak við einhvern runnan vinir hvíslast á orðum þá guð einn það veit hvað gleðin var heit og hvað gott var að morgni að vakna. Nú einn er ég húki og inni er púki ég öfunda ei þunnan með allt sitt úr skorðum Ég elska að vakna og einskis að sakna er ástin mig vekur öðruvísi en forðum. ] [ My faith has faded away I feel more like shit every day I’ve lost to many that matters to me I don’t give a fuck if you disagree I’ve loved too many times to love again I just need a true friend I’m sorry for every pain I might do But the reason why I might kill myself is because of you I just need someone to care Need someone who doesn’t think about what I wear Everyone I love, I miss Everyone I care for, I miss I don’t know how long I can take this So much mess in my life that I can’t let out I don’t know anymore what my life is about Am I going to find what I want? I’m a have my doubt ] [ Farðu nú að sofa barnið mitt því nóttin er skollin á. Engill mun svífa um herbergi þitt sem aldrei fer þér frá. Nú ert þú farin að dreyma, um riddara og stóra höll. Margar kynjaverur til þín streyma dvergar, álfar og stór tröll. ] [ Mín ást. Þín ást. ] [ Hjá pabba hef heyrt ég margar sögur eina um prinssessu sem var fögur. Svo var önnur um úlf og 3 lítil svín en það var uppáhalds sagan mín. Gaman var að heyra pabba lesa þær því frásögn hans er svo hrein og tær. Alla mína athygli hann nær og inn á milli mikið lof hann fær. Hann veifar höndum sínum og klappar stekkur af stól og fótunum stappar. Mörgum sögum oft hann blandar í senn um dreka, dverga og risastóra menn. Í æsingnum verður hann rauður í framann og það finnst mér fyndið og gaman. Mamma segir honum oft að hafa hljótt því ég verð að sofna enda komin er nótt. Við það pabbi róar sig niður og úr herberginu heyrist enginn kliður. Smásaman augnlok mín lokast og nær draumaheimnum ég þokast. ] [ hið fullkomna hljóð er þögnin frá þér þegar þú ert þreyttur á mér og ég engist um af kvalarfullum athyglisskorti þar til að lokum ég sný mér að öðru og þögnin frá þér er þögnin frá mér ] [ Ég veit að við sjáumst aftur, ég veit að við verðum hjón, ég veit að við eignum strák og stúlku, ég veit að við verðum gömul saman, ó ég veit. ] [ Ó þú já þú bara þú. Ekkert nema þú, enginn nema þú, því þú ert allt, og allt ert þú. ] [ Að einbeita sér. Hugsa skýrt um skýrleikan í loftinu. Horfa í einhverja átt. Vita afhverju og hvernig það var Synda, setja lófa ofan í vatn, finna það smjúga á milli fingranna, gera tvö ess í vatninu og finna hvernig krafturinn fer út í brjóstið og upp í axlirnar, leyfa höfðinu að taka á moti spennunni og hugsa síðan kraftinn til baka í nýtt tak. Leggja diska á borð Leyfa timanum aldrei að komast inní hausinn. Henda öllum klukkunum Fara í stórmarkaði til að horfa á fólk og slappa af. Vinna brosandi fyrir einhvern sem þú þekkir ekki. Þú þarft ekki að þekkja hann/hana þvi þér þykir svo vænt um hann/hana Þér þykir, vænt um, af alvöru. Af alvöru hefurðu lært að taka engu sem hinu síðasta né hinu fyrsta. Alvara breytist úr einhverju þöglu og óskiljanlegu í orðið al vara. Þú ert var við allt, alltaf. Þér verður aldrei aftur kalt engin getur náð þér ekki tíminn ekki peningar ekki guð ekki ástin jú kannski ástin common ég er kominn fram úr sjálfum mér og búinn að klúðra æfingunni. ] [ Þarna sátum við á kaffihúsi sem hélt því fram að þar væri hægt að fá ostaköku dagsins á 450kall það var lygi og til okkar kom þjónn sem hélt því fram að kaffið kæmi eftir svona umþaðbil tíu mínútur það var lygi og konan sem ég hitti hjá klósettinu sagði að himinninn væri allur að lýsast og bráðum myndi stytta upp það var lygi og þú sagðir að það væri klárt mál að ég mætti leigja íbúðina þína meðan þú værir í Finnlandi það var lygi og ég þakkaði fyrir mig og sagði að auðvitað myndi ekki verða neitt vesen ég myndi hugsa rosalega vel um hana það var lygi Þarna sátum við og mér varð illt í maganum og fékk dúndrandi hjartslátt því ég áttaði mig á því að allt benti til þess að tilvist okkar væri líka bara lygi ] [ Í sælureit einum hittumst við fyrst. Við vorum ung og höfðu ekki aðra kysst. Við vorum feimin fengu roð í kinn. Þú spurðir mig svo viltu vera kærasti minn. Mitt svar auðvita já, og þú fagnaðir því. Vorum svo ánægð með það að vera byrjuð sambandi í. Svo leið tíminn og ást okkar féll í dá. Það var svo augljóst að annan við vildum fá. Leiðir okkar skildu en við kvöddumst með tárum. Bæði fundum ástina aftur á fáeinum árum. Þú verður að taka maka þínum bara eins og hann er. Þá getur þú verið viss um að hann þig í hjarta sínu ber. ] [ orð mín leita enn sem fyrr að skoðun sem keik stóð hér forðum finnst nú hvergi ] [ Ósögð eru orðin Óheyrð munu orðin verða Engin mun heyra er ég hvísla þessi orð útí nóttina Orðin sem þú áttir að fá að heyra ] [ Ég horfði á eftir þér Hverfa inn í lífið Án þess að líta við Án þess að vita hvað beið þín Ég hefði betur farið með þér ] [ Í dag lyktaði ég eins og ugla og svo eins og múlasni þú gafst mér hornauga voru augun ekki öll úti með vettlinga, trefla og gleraugu þú sagðir hæ angurværir næturgalar syngja í botn kríusönginn sem þú dáðir svo kom annar og annar eftir það sálmarnir í gríð og erg og orgelið bilað engir tónsmiðir nema eyra þitt sem nemur tíðni stjarnanna mengað andrúmsloftið meig í fjörubotninn ] [ Vetur kóngur vakir enn verður þó á brottu senn snjó af landi tekur vaknar aftur vorsins blær vinalegur bjartur skær sumarsælu vekur. Lömbin fæðast lítil strá leita svo á fjöllin há haustið ekki þekkja stækka ört og stæra sig stór öll verða fyrir þig þú ert þau að blekkja. slátrar þeim og sárt það er sleikja útum flestir hér hrygg og lærasteikur lambið sem var brögðum beitt borið er fram niðursneitt sorg er lífsins leikur. ] [ Strjúktu vanga minn og mér mun blæða ótvíræðum tárum söknuðar þó þú sért ekki á förum Láttu á það reyna; grafðu mig lifandi og sjáðu að ég mun enga tilraun gera til að losna Fangaðu mig mér er sama- ég er fangi fyrir ] [ Sjá þig vafinn sorg svipað þykkri og meikið sem er farið að þurfa til að hylja baugana mína ] [ Kannski er óreiðan í lífi mínu bara vísbending um að ég sé ekki föst í farinu sem mér fannst ég hafa ratað í ] [ Hugur leitar heim til þín heyrist sungið lag þar sem fögur fjallasýn faðmar þig í dag. Jörðu þína ræktar þú þannig auðgast fold ástkært hefur eignast bú okkar fósturmold. þúfum breyttir þú í tún það var mikið verk þá á Blesa upp á brún baráttan var sterk. Ei er lífið alltaf vor er því stundum hark gengnu spor þín geyma þor geyma mikinn kjark. öll þín störf og öll þín tryggð eilífð meta kann söngur þagnar seint í byggð sem á slíkan mann. ] [ bústinn og blindfullur máninn brosandi um himininn skeiðar geislunum glettinn varpar um grundir, dali og heiðar. Núna hlær hann og hæðist að heimsins örvita skaki þótt stundum dulur og dreyminn hann dvelji að skýjabaki. Hann hefur um aldur og ævi allt frá upphafi vega haft við heilagar tíðir helgistund, mánaðarlega. Já, nú er hann glaður og góður og glottir í dimmrauðu skýi að skaparans voldugu skikkan hann skal vera á fylleríi. ] [ mig vantar einangrunarteip því sál mín lekur það blæðir úr huganum minningum um þig um æðarnar renna tár ] [ Hún var svo falleg þetta kvöld... En það hafa liðið tíu dagar síðan ...Hún brosti til mín, ég sver það... Og hver og einn hefur verið verri en sá sem á undan fór. ...Og síðan dansaði hún við strákana, hvern á fætur öðrum... mér finnst einsog það hafi liðið tíu ár ...alla nema mig... Og ég hef ekki getað sofið ...en hún brosti ekki til þeirra... því að á nóttuni hugsa ég um hana ...ég fylgdist með henni allann tímann, meðan hún dansaði... Ég sé hana allstaðar ...Hún snérist og sveiflaðist, það glampaði af hringnum hennar... En það er alltaf einhver önnur stelpa, einhver sem hefur sama svarta hárið eða rauða regnjakkann ...en allt kvöldið var hún sorgmædd á svipinn, nema þegar hún brosti til mín... ég get ekki hætt að hugsa um hana ...Svo hljóp hún út grátandi.. ég get það ekki ...svo fannst hún morguninn eftir, hún var búin að hengja sig. En alltaf þegar ég loka augunum sé ég hana dansa, sé hárið sveiflast, sé glampa á tárin sem hún hafði í augunum. ] [ Eitthvað læðist meðfram veggjum miðbæjarins klætt í svart svitinn drýpur af enninu, hringir bjöllu, einhver hvíslar "hver er þar?" svar fæst ekki svo heimamaðurinn læsir hurðinni og um leið hjartanu vitandi það að dyrabjallan mun hringja næstu nótt. ] [ Flæði flugur flóð í hug mér fláðu þessa skepnu sem skapraunar mér Fláðu hana deyðu hana svo harmakveinin hætti hatrið hennar á mér dynur við þetta ei mig sætti Svimar mig sem sótthiti mig hrjái Hring og hring mín hugsun þvælist svo helaum sál mín til hliðar fælist Þráhyggjan er þyngsta þrautin þver og þolin og hennar brautin hlykkjast hleypur upp og niður Slíkur er hennar siður Út já út vill sjálf mitt skreppa burt frá æðisraun vill sleppa Þráir frið og þráir deyfð þar sem engin tilfinning er leyfð Að vera ekkert að vera hvergi að leysast upp sem bergi ég á bikari sindrandi seiðandi særir hans vökvi er sætur sælu færir Svífur mín sál sem í algleymi svæfi ] [ Hér geng ég um ein og sár, frá auga mínu fellur tár. þegar ég sé þig verð ég reið, svo ferðu burtu þína leið..... ég held ég sjái þig ekki meir, því núna breytist ég í leir. af því að ég sakna þín, og vona að þú saknir mín..... ] [ Kuldi mætir barni sem vill sína ást sína Ást með skilyrðum Annað stendur ekki til boða Lenda á stað, án þess að óska þess Þú brást mér Reið örg og sár Geng ég um göturnar Öskrandi á alla nema þig Ég hélt þú elskaðir mig Ég get ekki fyrirgefið Ekki allir draumar enda vel En þú vaknar þó alltaf á endanum Verða allir þar, verður allt eins Þú getur valið Þetta er nú einu sinni þinn draumur……. ] [ Grætur hokinn búandinn grætur og gnýstir tönnum grátur læknar vinur minn og gerir menn að mönnum ] [ Ég elska að vera nálægt þér, sjá hvað þú ert falleg og hrein, Allt verður svo auðvelt þegar þú snertir það. Hvað ég myndi ekki gera fyrir þig, þú þarft bara að segja það og ég kem En ég virðist ekki gera neitt rétt, aldei vera þar þegar þú þarft Ekki nógu fínn eða smart og ekki skilja nógu margt. Fyrirgefðu að ég skuli ekki sjá hvað þú ert að hugsa, heyrt það sem þig langar að segja. Lesið í þögnina og samið í eyðurnar Fyrirgefðu ] [ Þegar ég kveð þennan heim, mun ég gera það með einu vinki... svo sátt ætla ég að vera. þegar englar himinsins koma að ná í mig mun ég teygja mig til þeirra.... svo fleyg ætla ég að vera. þegar himnarnir opnast og taka við mér mun ég standa bein... svo stolt ætla ég að vera. ] [ Ég vill þig eins og þú ert ekki þér breyta ég dái þig fyrir það sem þú ert ekki þig skreyta ég elska þig því þú ert allt sem ég leita ] [ Líkt og kónguló vef ég minn vef, safna í hann fólki sem ég ein vel. Þar eru margir stórir og smáir, suma ég elska en aðra ég dái. ] [ Ég var Plataður 1.apríl af honum Davíð makríl hann sagði að það væri gat en það var bara plat þannig fór fyrir mér sagan er á enda hér. ] [ Ég elska sjóinn og allt sem í honum er, ég tek mér dýfu og niður ég fer. Í undirdjúpum ég andann dreg og finn hvernig kyrrðin dregur mig að sér. Á svona stundu ég gleymi mér og öllu því vonda sem í heimi þessum er. Því miður dugar loftið skammt en eins og selur ég sæki mér nýjan skammt. ] [ Skúrir á stökum stað Skýjað með köflum Rigning og rok í Reykjavík Rölti mér inn á Glaumbar. ] [ Ég sit og skrifa, horfi á rigninguna rita ljóð á gangstéttinna. Droparnir falla á skítugan gluggann og ég sé út . ] [ Haltu vel utan um ástina, en þó ekki of fast því þú gætir kæft hana. Haltu vel undir ástina, því ef þú missir hana brotnar hún. Haltu ástinni heitri, en passaðu þig þó að brenna þig ekki á henni. Viðraðu ástina öðru hvoru, því hún á það til að verða tilbreytingalaus og leiðingjörn. Hleyptu henni frá þér þegar þið þurfið svo þið fáið ekki leið á hvor öðru. Láttu ástina gera æfingar til að styrkja hana. Ekki ætlast til of mikils af ástinni því að hún getur aldrei uppfyllt allar væntingar þína og vill það heldur ekki. Reyndu að sjá fegurðina þegar allt virðist vonlaust -notaðu minningarnar. Haltu vel utan um ástina, svo hún endist og endist. ] [ Það byrjar að snúast. Ég opna rykfallin augu eftir langan raunveruleikadvala og lít í kringum mig. Fyrst um sinn er ekkert að sjá nema ryk en með tímanum strík ég hvert kornið af fætur öðru og einblíni inn fortíðinna, sem svo lengi hafði verið fallin bak við lokaða veggi augnanna. Sum kornin eru svo föst, svo djúp og svo köld að ég finn fyrir nístandi sársauka. Minningarnar rista djúpt og hversdagleikinn hylur ekki lengur heldur stráir salt í sárin. Þetta er hreinsun, út með allt sem ég sópaði undir. Ég strík af sálinni með skynseminni og hendi út óhreinindunum með tjáningu. Mig verkjar í taugarnar eftir þrifin. Ég er þyrst og helli í mig þekkingu, styrk og trú. Mig hungrar eftir ást sem ég kaupi með kærleik. Þar slæ ég tvær flugur í einu höggi og græði einnig von. Ég stend stolt eftir þrifin. Strek. Ánægð með sjálfa mig. Það hefur snúist. ] [ Það kom með Lóunni. Feykti burt áhyggjum og opnaði hörtu unga fólksins. Teyngdi saman einmanna sálir í von um bjarta framtíð. Bergmálaði hlátur barnanna og hleypti líf í huga gamla fólksins. Opnaði götur og gerði alla vegi færa. Fæddi afkvæmi og vakti blómin og býflugurnar af löngum dvala. Það færði fólki landsins von og bjartsýni eftir langan vetur. Það er vorið er veldur. ] [ Þrúgandi tómleikinn helltist yfir hann í koldimmu skammdeginu. Ráfandi í fólksfjöldanum starði hann án þess að sjá, hlustaði án þess að heyra og lífið fór að einkennast af svart-hvítu. Litirnir voru horfnir. Eina hljóðið sem hann skynnjaði var suð . Fegurðin var horfin. Innra með honum óx tómleiki og skilgreindi hann frá öðrum mönnum. Reif upp tilhlökkunina, tilganginum til að lifa og gerði hann að engu. Eftir stóð tómur líkami, líkami án sálar. ] [ Sem barn lagði ég í mina fyrstu orustu. Án þess að vita að hún væri hafin, tók ég of stórt skref inn á víglínu hinna fullorðnu, óhrædd og örugg um að geta flúið inn í skjól æskunar. Fljótlega sá ég að þanngað væri ekki snúið. Ég horfðist í augu óvina minna sem kölluðu sérsveit sína “erfiðlekar”. Fremst í flokki var hin miskunarlausa ást, sem læddist um vit mín og blindaði mig, gerði mig máttlausa fyrir hinum erfiðleikunum. Eftir að ástin hafði yfirgefið mig tók sorgin við. Hún stal brosi mínu og sverti sál mina. Ég sá ekki fordómana og einmannaleikan fyrr en ég hafði sigrast á sorginni. Fordómarnir og einmannaleikinn köstuðu mér á milli sín og særðu mig í hvert skipti sem að þau snertu mig. Fátæktin reif líka öðruhvoru í mig og lét mig finna fyrir sér. Ég hljóp af stað en vissi ekki hvar ég gæti falið mig. Á leið minni safnaði ég kærleik, vináttu, ástúð, vitneskju, fróðleik, stolti, hugrekki, sjálfstæði og sneri svo við. Ég bauð ástinni samstarf, vingaðist við einmannaleikan, horfði í augu við fordómana, yfirbugði sorgin og vann á fátæktinni. Fyrstu orustinni var lokið en ekki þeirri síðustu. ] [ Á morgnanna ég vakna, og næturinnar sakna. Ég þvæ mér, og bursta tennur, svo upp í mér tungan glennur, en enginn sér. Svo fæ ég mér að borða, og mamma tekur til orða, þið strax í skólann skuluð, þá pabbi til orða tekur, þið eruð alveg búin að borða, og strax í skólann ekur. ] [ Ástin er eins og nautabaninn, Sem lokkar nautið með rauðu, seyðandi lit og ögrar því að takast á við hann. Þegar nautið hleypur í gegn, stingur ástin það í bakið og særir það blæðandi sárum. Hið ástfangna naut heldur í blindni áfram í von um fullnægingu á hvötum sínum, þar til dauðinn skilur þau að. Ástin stendur eftir með blóðugar hendur og áhorfendur fagna stöðugt. ] [ Augað mitt- allt endalaus leikur. Öskur,óp Verð að passa að særa engan. Gifting,börn, elska á svo margan hátt Auga mitt- vil vera hamingjusöm Hræðsla Vil eiga svo marga. Augað mitt- lífið mitt, hjartað mitt. Öskur,óp Sól, Ánægja,gleði, hamingja, ást, birta Mín sól Tár, blóð, sár Öskur, óp Biturleiki, hatur, sorg, myrkur, þreyta, ótti Lok, lok, lok, sjór, sjór, sjór Hugsun, Framtíð, Tímasprenging. ] [ Ég lifi í einangruðu landi, undarlegum lokuðum heimi. Þar sem aðal nytjavörur eru kretit og ávísunarhefti. Þar sem samfélagið byggist á verslunarferðum og tískubylgjum. Þar sem séttarskiptingin flokkast eftir vörumerkjum. Og í mínu landi geysist unga fólkið með nýjungar á öllum sviðum, óttalaust og sigurvist um bjarta framtíð. Og í mínu landi hræðist fólk hvorki hungursneið, dauða né stríð. Í mínu landi hræðist fólk aðeins synjun úr posanum, lokun stöðvar tvö, gjaldþroti. Ég lifi í einangruðum landi, landi efnaðshyggjunar. ] [ Ég leit í spegilinn og brosti Falleg, ung, fín og hrein Ég vildi að hann sæi mína kosti fá að vera með honum ein Hann dró mig út í nístings frosti Ég áttaði mig ekki, varð alltof sein Í augum hans brann dýrslegur losti með hulið fyrir vitum mínum heyrðist aðeins vein, lítið kvein Ég leit í spegilinn, í kaldhæðni brosti Eldri, rifin , óhrein ] [ Ég var einu sinni eins og hús, traustur og hlýr. Ég var eitt sinn eins og þakrenna, meðtók allt og lét það blíðlega frá mér. Og ég var eins og þak, verndandi og þolinmóður. En oftast var ég eins og veggur, sterkur og stöðugur. Stundum var ég eins og stigi, sem stefndi stöðugt upp. Ég var líka eins og handrið, stoð og stuðningur allra. En alltaf var ég eins og hurð, opinn fyrir öllum. Nú er ég ekki lengur eins og hús, því ég varð ótraustur og kaldur,tók öllu illa, varð óþolinmóður og sýndi litla vernd, veiktist og varð óstöðugur, sýndi engum stuðning og stefndi beina leið niður. En ég er ennþá eins og hurð, lokaður og læstur. ] [ Það marrar í hurðinni, rósin fýkur burt í kvöldrofinu. Óttinn dregur úr þér allan mátt. Sestu niður, hlauptu svo burt. Óttastu ekki, nóttin eykur þol þitt, mundu að hlaupa áfram. Undarleg nótt, ég dett niður, ég er of máttlaus. Stattu upp, gerðu það, gerðu það núna, fyrir mig. ] [ Ég get ekki dáið fyrir dáinn mann, því hann liggur í gröf sinni. Kvílir í kyrrð og ró, samt ég sit og vona, að þú komir aftur til mín. En það logaði of glatt, þú lést mig á undan fara, og brannds svo bara, ég grét við gluggan stundar sök, og hvísla komdu,komdu. Ég vakna um nætur eftir að hafa dreymt þig. Koma og hvísla, ég er hér og verð hér. Ég reyni að hemja mig en þá fer ég að hugsa um þig. Ég þoli ekki að vakna og þig ei sjá, þú þurtir að þola of margt. Berjast fyrir lífi mínu en ekki þínu. Ég grét mig votan er ég hugsa um þig, Því fórstu svona snemma frá mér? Þú fórst of fljót, ég hef varla sofið nokkuð síðan þú fórst. Ég vildi deyja en ekki þú. Líða mín verstnar mjög , eftir sem dagar líða. Ég gleymi ei svipnum á þér, þegar þú hvarfst, þú sagðir mundu að ég verð hér ávalt. En þú ert ei hér hjá mér. Kondu aftur vertu hjá mér. Ég lifi ei lengur án þin. Logarnir sækja enn á þig, ég sé það ég veit það. Hvers vegna þú, afhverju þú. Ef ég sé þig ei aftur dey ég brát. Von mín kann að visna brát, þá ég dey til þín. Eitt andartak varstu hjá mér. Svo varstu farin frá mér. Er dauðin svart hol? Eða dans á rósum? Sorgin og söknuður hvílir í mér. Ég vil vera þjá þér einni. Rósin sem gafst mér visnar ei. Hún hvílir í bókinni minni. Ég lofa mér að þú komir aftur, til mín,mín. Fólkið segir mig vitlausan, að halda að þú snúir aftur, ég hef enn von sem mun, vonandi aldrei brenna burt, eins og þú. Hjarta mínu er brestað á braut. Ég vil svo heit systur mín til baka. ] [ Hvað á ég að gera? Mig kvelur kvöl! Karamellu ég hnuplaði um daginn. Kaupmaðpur reiddist og kvað þjófaböl sinn koma við peninga haginn. Mig lögreglan samstundis leiddi á braut , laminn handjárnum óx nú mín þraut. Og fangelsisholan var fúl þessa nótt, úr fötum ég háttaður var. Eymd mín var stærst þegar úrið var sótt, ekkert tímaskin lengur ég bar. Ég óvígur lá þar með órofa hlekki og átti að skilja:,,Glæpir borga sig ekki”! Þrjátíu dagana ég þrauka nú átti, það er mikið að gera í dómarastétt. Fjórum sinnum svo framlengja mátti, þá framseldur var til að mæta í rétt. Þar dómarinn blaðaði í bókum með spekt, mér bandaði frá sér: ,,Nú greiðir þú sekt”! Ég horfði í bræði á helvítis hundinn, hreykti mér aðeins og mælti við raust: ,,Í mánuði fimm mátti ég liggja bundinn, mín fjölskylda lenti á vergang í haust. Á lögreglu kerfinu taka ætti törn, þið tukthúsið eingöngu fátæka og börn\". ,,Ég aldeilis á þér ekkert að greiða og enga krónu hef ég í mínum sjóð. Þið megið bara gera ykkur gleiða, gróflega hef ég, á ykkur viðbjóð\". Þar með var ég dæmdur aftur inn og á víst að dúsa þar fyrst um sinn. Eftirskrift: Eru dómsvöld landsins aðeins peningar og pólitík og prentfrelsið bundið að einhverju leiti hentistefnu höfðingjanna í Reykjavík til að heilfrysta mál eða að leggja í bleyti? ] [ Fílabjór úr dósum drekkur dekkjasmiður Hörður Jó. Þrálátann hann þorsta slekkur, en Þuríður , fær alveg nóg. ] [ Út með kinnar út með stút. Mundu að hafa á þér kút. Hafðu eyru hafðu munn. Það var stúturinn sem ég var að tala um. Þessi köttur er kafloðin kisa. Hún er falleg en blaut eins og mysa. Þegar jólin nálgast er allt orðið fínt og flott.Þegar bankað er að dyrum fá allir sælgæti og gott. ] [ Í morgunblænum bærist lauf trjánna eftir rigningar næturinnar. Sólin teygir anga sína inn um gluggann og vekur mig. Það er ilmur í lofti. Birkiilmur. Ég nýt þess að liggja og láta mig dreyma. Um þig. Fuglarnir syngja mér vorljóð. ] [ Nú hefur það því miður gerst að vond frétt til manns berst Kær vinur er horfinn okkur frá því lífsklukkan hans hætti að slá Rita vil ég niður hvað hann var mér kær afi minn góði sem guð nú fær Hann gerði svo mikið, hann gerði svo margt og því miður get ég ekki nefnt það allt Að tala við hann var svo gaman á þeim stundum sem við eyddum saman Hann var svo góður,hann var svo klár æ,hvað þessi söknuður er svo sár En eitt er þó víst og það á við mig ekki síst að ég sakna hans svo mikið,ég sakna hans svo sárt hann var mér góður afi,það er klárt En alltaf í huga mínum verður hann afi minn góði sem ég ann í himnaríki fer hann nú þar verður hann glaður,það er mín trú Því þar getur hann vakið yfir okkur dag og nótt svo við getum sofið vært og rótt hann mun ávalt okkur vernda vináttu og hlýju mun hann okkur senda Elsku afi,guð mun þig geyma yfir okkur muntu sveima en eitt vil ég þó að þú vitir nú minn allra besti afi,það varst þú. ] [ lífið er ekki dans á rósum lífið kemur og fer og hann er hér almáttur guð því að það er hann sem ræður hér hver er og hver fer hann á valið hér hann sér hver á að fara og hver á vera hann tekur bara næsta líf ] [ Ég hef ekki hringt ég hef ekki gert neitt það eina sem ég get sagt er að mér þykir þetta leitt ég vil í þér heyra,ég get því ei breytt hvað get ég sagt meira en að mér þykir þetta leitt ég get ekki spólað tilbaka þó ég vildi góður vinur hef ég ekki verið sem skyldi útaf hverju,ég veit ei það það var eins og tíminn hjá mér stæði í stað mér fannst ég hafa heyrt í þér bara síðast í gær en sá tími færðist óðar fjær og allt í einu áttaði ég mig að ég væri kannski að missa þig góðan vin,sem þú hefur reynst mér betri vin er ekki hægt að hugsa sér fyrirgefurðu mér eða gerir þú það ei láttu mig vita hvort sem það er já eða nei í síma,bréfi,eigin persónu eða hvað sem er ég verð að fá að vita hvert svarið er ] [ Ef vin þú átt þá skaltu þetta gera því þá er vinskapurinn hér til að vera vertu trúr,vertu tryggur alltaf hlýr,hvernig sem á þér liggur hlusta ávalt vel á þinn vin þannig batnar ímyndin vertu til staðar ef hann þarf þig kannski þarf hann að láta hugga sig það skaltu með glöðu geði gera já,hjá honum skaltu vera trúðu honum og treystu góður vinur það gerir,það veistu gerðu allt þetta og miklu meir vinskapurinn þá aldrei deyr! ] [ það sem kvelur mitt hjarta það sem kvelur mig nú er að við tölum ekki saman ég og þú margt hefur komið fyrir margt hefur gerst en þetta er allra allra verst því að heyra ekki í þér er svo sárt það er mér svo mikils virði það er klárt ég vona að þetta leysist sem allra fyrst því mér líður það illa líkt og móður ég hafi misst ] [ Empty streets and empty heart Empty words did us apart I'm so close to death I don't want to take another breath Just want to close my eyes and die I want death to suck my veins dry I don't want to feel my breath Again, I am so close to death... ] [ Ef vin þú þarft þá er ég hér ég skal á þig hlusta eins og mér ber ég skal vera þín stoð og stytta í gegnum allt ég skal vera þinn vinur þúsundfalt mundu það vinur minn kæri ég aldrei þig særi ég skal ávalt vera þinn vinur hvað sem á dynur ] [ Það er eitthvað sem ég hræðist en ekki er veit hugur minn hvað það er. Í hugsunum fram og til baka það æðir sem gerist alveg að sjálfum sér. ] [ Aleinn í fjörunni, Horfi á kvöldroðan á ágústkvöldi, bleikur himininn bræðir jökulinn, kríurnar kvaka yfir mér, sjórinn skellur á landið, báturinn berst við brimið, Gróttuvitinn gægist upp úr eynni, Ég sit einn og einmana, þegar sólin sekkur í jökulinn, krían goggar í hausinn, sjórinn flæðir yfir mig, báturinn, sekkur í sæ, Gróttuvitinn grætur í eymd, Ég er aleinn og horfi á kvöldroðan á ágústkvöldi. ] [ Ef eg væri hátalari, þá myndi eg gefa þér hljóma sem þú hefur aldrei heyrt, sem minnir á stað þar sem ríkir ró eilíf ró, og þú hvílist og svífur á tónum í takt sem aldrei hefur heyrst og aldrei fundist. ] [ Nú er nótt, og allt er hljótt. Tunglið bjart, myrkrið svart. Nú er nótt, og allt er hljótt. ] [ Í skólanum ég læri, aldrei á munninum bæri. Ég læri stærfræði, ég læri nátturufræði, ég læri samfélagsfræði. Hvað sem hann,hún,það lærir, alltaf það hugann nærir. ] [ Tíminn líður enn og aftur langar að heyra þína rödd bíð og vona að ég verði staddur knúsandi þig þar sem þú ert stödd Stundum er ég feiminn að segja það sem segja þarf þá get ég verið gleyminn en í þessu ljóði ég varð ] [ Barn mitt blíða ég læt þig frá mér þykir þetta leitt, Kvölin mun hrjá mig nótt sem dag. Því ég ekki hjá þér er, Ég vona að þú lifir af. Ég verð að gera þér þetta, mér þykir það leitt. Ég get ekki gefið ást og hlýju, Sjálf er ég bara ein og yfir gefin, Nú hverf ég frá þér saklausa barn. ] [ Sársaukinn Oft særi ég þig, oft hata ég mig. Oft ég horfi á þig aldrei ég get horft á mig Oft þrái ég þig, oftu viltu mig. Ofast fæ ég þig, en aldrei færðu mig. Oft skil ég þig, oft fel ég mig. Oft blæðir þig, alltaf særi ég þig. Aldrei skil ég þig, allir ættu að hata mig. Aldrei mun ég skilja þig. Afhverju elskaru mig? Sannleikurinn Sannleikurinn er sár, sáraukinn kvelur þig. Afhverju er taxti ástarinnar svona hár? Andskotinn hafi mig! Sannleikurinn er sá að.. að ég elska þig. En sársaukinn drepur allt.. allt sem er í kringum mig. Allur heimurinn minn snýst um þig, og ást mína á þér. ] [ Ég óska þér þess, kæra barn að Guðshönd ætíð þér fylgi. Í dag var þér gefið nafn og það er mín ósk, og mín von - að þér það blessun færi, kæri................son. ] [ Að elska, er eins og að gefa eitthvað af sjálfum sér. Að hata, er að taka aftur það sem þú hefur gefið. Að fyrirgefa, er að vita hvar hjartað í þér er. ] [ Hefði ég fengið það sem ég aldrei fékk, þá hefði svo farið sem það aldrei fór. Hefði ég hitt þann sem ég aldrei hitti og hefði ég gætt þess er ég aldrei gætti og hefði ég fundið það sem ég aldrei fann. Þá hefði með öllu hent það sem aldrei henti. Já, hefði ég farið þangað sem ég aldrei fór þá hefði ég staðið þar sem ég aldrei stóð. ] [ Ef ég segi ég elska þig á íslensku er það svona, En ef lætur hugan reika er það svona á búlgarísku obicham te, En á Hawaii er það aloha wau ia oi, Láttu þig dreyma um góðan stað eins og á finnlandi er Það svona Minä rakastan sinua. Ef þú situr oh hugsar um Frakkland er það je t´aime. Á eyjunni grænu er það taim i”ngra leat, Svona er tungumála flakk. ] [ Hvert sem ég fer ert þú með mér ef ekki gangandi þá í huganum. ] [ bak mitt er þakið allskonar örum þá eru flest eftir þig þó að þú ríðir ýmsum öðrum konum þá elskaru víst enga nema mig ] [ meet me in the bathroom for a litle bit of fun i´m gonna show you how it´s really done fuck for fun fuck for fun ] [ Bitförin sem þú skildir eftir milli læra minna eru að dofna en sárin á brjóstinu virðast ekki ætla að gróa. ] [ ég gæti valhoppað upp og niður Everest fjall með akkeri á herðunum og áfengi í æðunum án þess að blása úr nös... ég gæti synt baksund alla leið til Antartíku með fjallgönguskó á fótunum og handjárn á höndunum án þess að blása úr nös... ég gæti stundað taumlaust kynlíf í margar vikur með leðurgrímu á höfðinu og rjómatertu í maganum án þess að blása úr nös... en í lífsgæðakapphlaupinu? gat bara hlaupið nokkra metra... ] [ með örvum sínum ætlar Amor að hitta hjarta mitt en miðið hans er því miður stillt alltof oft hálfum metra of neðarlega... ] [ með kreppta fingur og lokuð augu varð mér hugsað til guðs; "ætli hann sé nokkuð alls staðar...?" ] [ Þegar laufin á trjánum dansa á óáhugaverðan hátt þá flytja sig fjórir hrafnar um set í himninum. Litlaus fiðrildi felast meðal lítilfjörlegra flugna á húsveggjum í borg. Sólin sest í þoku litirnir eru daufir. Myrkrið getur ekki fyrir nokkurn mun ákveðið hvenær það ætlar sér að breiða teppi yfir ljósið. Haustið lætur bíða eftir sér. ] [ Lengst uppi í sveit, þar býr geit hún er löt og feit er alltaf á beit en svo þegar hún týndist þá hófst að henni leit. ] [ Ég yða af þrá.Þrá til astinnar minnar hvar ertu ég bíð, bíð eftir þér.komdu leif mér að snerta þig Þú snertir mig kisstir mig,við komum erum eitt við erum ástfangin ] [ allt þitt skítkast sem ætlað var mér endaði á fingrum höndum og í andlitinu á þér ... horfðu á þína eigin flekki og horfðu svo á mig þú óhreinkaðir þig en hittir alls ekki... ] [ Þú ert draumur í dós, þú átt skilið heimsins hrós. Þú ert fögur sem rós, þú ert mitt ljós. Þú lýsir minn heim, það sést út í geim. Þú syngur í draumi, en ekki í flaumi. Mér líkar við þig, ástin grípur mig. Hjarta og rós, þú ert draumur í dós. ] [ Hér inni er sá sem ég elska, með augnaráðum sínum hann mig finna má, þá upp til sólar rísum, og gleimum öllu því mennska. ] [ elsku litla stelpan mín svo falleg og brún á brá ég verð alltaf móðir þín ég mun ávalt standa þér hjá ég mun þig styðja í gegnum allt ég verð þér góður vinur ég mun þig elska þúsundfalt hvað sem á dynur ] [ minn elsku fallegi drengur að fá þig var mikill fengur að fá lítinn peyja mikil blessun,það verð ég að segja þú ert alltaf svo glaður og gaman að vera þér hjá þú ert myndarlegur ungur maður þú vilt alltaf pabba fá pabbi er þér góður vinur en oft ertu líka mömmukall gott er hafa þau ef eitthvað á dynur því þau geta stoppað hið mesta fall ] [ Fyrir nokkrum árum kynntist ég þér það var mikil lukka,eða það finnst mér þú ert búin að styðja mig í mörg ár hvort sem ég hef verið glöð eða sár Fyrir allt það vil ég þér þakka og ásamt því vil ég gefa þér þennan pakka sem lítinn virðingarvott til þín þú ert og verður alltaf besta vinkona mín Mundu það mín góða vinkona Erla fyrir mér verðurðu alltaf perla ] [ Love is like a bird Stirring in my frozen heart Trying to escape. Þrándur Thoroddsen ] [ sofðu rótt í alla nótt nú róin yfir þig færist þú ert falleg þú ert hljóð til þín syng ég þetta ljóð sem ég samdi einn dag áður en þú fæddist og núna ertu hér þú ert hérna hjá mér ] [ Fjöllin háu hreinu og bláu snjóar allt í kring frosnir fossar í tindum gráu nú er horfið lyng ] [ ég vaki og vaki og ligg á þessu laki ég get ekki sofið ég get ekki neitt ég verð bara að vaka þó mér þyki það leitt en syfjuð ég er spurning hvernig þetta fer kannski ég sofna eða sofna ég ei reyni að loka augunum þau segja nei tel kindur;ein,tvær allt í einu hverfa þær reyni að hugsa um hvað gerði ég forðum þá fyllist minn hugur af skrýtnum orðum hvað get ég gert hvað geri ég nú æ,ég vildi að ég væri núna þú þá myndi ég ekki svona vaka ég myndi bara minn svefn taka ] [ Á sjúkrahúsi var ég í þrjá daga af því það þurfti blóðþrýsting minn að laga ég lá og lá en ekkert sá ég mátti bara ekkert gera og í rúminu skyldi ég vera en inn í mínum malla var lítið kríli að tralla það var með voða mikil læti eins og það gæti ekki unið sér af kæti en útaf því þurfti ég að liggja svo ég myndi ekki heilsuna mína styggja en svo nú er ég loks heima og hugsa um heima og geima í sirka þrjár vikur þarf ég að bíða og þarf að láta dagana líða svo nú ég enn bíð í þessari sumartíð eftir þér litla kríli ] [ Í Skálateig koma oft góðir gestir og gleðjast með okkur um stund en Inda og Bessi eru þeir bestir sem borið hafa lengi á minn fund. Þau byrjuðu að skrúbba og skrapa og skrautlegri málningu að sletta og síðan fékk ég talsvert að tapa er ég tók við þau briddsrimmu létta. Ég bið þeim blessunarinnar og ber þeim þakkir að lokum en tár munu koma á kinnar og kannski grátekki í rokum. ] [ Ekki hafa þær systur námsvistarverki. Vísindi og lærdómur draga þær til sín. Þær eru nú ættarljóminn stóri og sterki. Stunda vel námið og hugsa oft til mín. Býr Marta í Englandsborginni stóru og bablar víst liðugt á alþjóðamálum. Hún og Magga systir í heimsreisu fóru. Heilar komu aftur á líkama og sálum. Mennta sig nú báðar í Mastersgráðum. Munu fáir vinir þeim systrunum gleyma. Þó er ég stoltastur af stelpunum báðum. Stundum fá sumir nóg af því heima. Ásgeir kemur hér líka eilítið við sögu. Ástina hún Magga tendraði í honum. Megið þið njóta ykkar handanna högu og hugsjónir rætast að björtustu vonum. ] [ Fædd 1980 en ort 3.6.2004 Með hryssunni Skuld, hófum við ræktunina aftur! Um “Hrekkjaskjónu” okkar nágranninn blaðrar!!! Því hún er svo stórbrotin að stoppar varla kjaftur og staða mála sú að lítið er til að segja um aðrar! Og Skuld endar síðla ævina sína endist hún bara þó nokkuð vel. Sú hefur skjóttan feldinn sinn fína fengið í arf og mæta hana tel. Undan Skuld og Otri árið 2000: Óðfluga ruddist í ræktunina harða. Rauðbrún á litin með dálítið stress. Sem folald hljóp yfir grindur og garða glettnisleg á svipinn og vinkaði bless. Keypt folald árið 1999: Kjarnorka er svört frá Kjarnholtabúi. Kynbótahryssa sem prýðir vora sveit. Þeir eru með fádæmum tel ég og trúi taktarnir fjölhæfu er veður hún reit. Keypt sem fyl í Ólgu frá Húsavík 2001: Glóra er rauð, sívöl og sælleg hryssa. Sleipur náði ég henni í mitt vildarstóð. Það er mín trú og það er stöðug vissa að þjóðarstáss verði og til reiðar góð. Röst er fædd 2003 undan Óðflugu og Vali frá Höskuldsstöðum: Sýnist vera laus við löst, líkaminn brúnskjótt yndi. Léttum sporum rýkur Röst, sem reykur í snörpum vindi. Atorka fædd 2003: Kastað hefur Kjarnorka og kynnt sína jörpu línu. Tíguls er dóttirin Atorka, með allt á hreinu og fínu. Fædd 11.6.2004: Skverleg undan Skuld kom jörp út úr skyndikynnum í langri ferð! Hún töfrum frá Gára skilar skörp sem og sköpulagi af bestu gerð! SÚ VERÐUR EI SELD FYRIR LÍTIÐ VERÐ! Fengin í hestakaupum 24.8.2004, 4.vetra undan Óskahrafni og Piltsdóttur: Askan svarta vekur hér nú vonarinnar glóð! Virkilega gæfuleg, með kosti af besta tagi!! Rataði hún í hestakaupum, rétt á vora slóð! Reynast skiptin trúi ég báðum í góðu lagi!!! Ritdómur 2005: Hrossablóð í fyrsta flokki flæðir um í stóðinu en ekki birtist þessi þokki þegar að kemur ljóðinu. Svona er maður andstyggilegur. Góðar stundir! Hreinn Þorkelsson frá Laugarvatni. ] [ Róbert er víkingur og í verkum knár mér veitt hefur liðsinni í fjöldamörg ár og bjóði sá hnefana brotnar þú smár, best er því að láta hann í friði. Hann er á móti mörgum í liði! Svo mæra hann stúlkur, sem fella oft tár, þær vilja njóta hans allar á iði. ] [ Af merinni Skessu tel ég, að sé bættur baginn! Besefa Þokka, tapaðist ekkert nema kraginn! Þetta með hestinn, það skilja víst fáir þótt viti flestir um hvað málið snýst. Þess vegna færðu nú þennan hjá mér braginn og þér treysti ég vinur að bón mína ei smáir, tvítug drápa og tuttugu sinnum fyrirgefðu! Töluð eru orðin, sem þú sjálfur kýst! En Kjarnorku undir fola, keypt margir hefðu, kynbótamenn, eða við því ég býst! Svo er æra mér að keyra, ég vil því fram halda að ég viti bara ekkert, hvers ég á að gjalda! ] [ Æfinlega blessuð Sigrún mín sæta með sjarmörinn allan lúfa og mæta. Megi lífið þér í hamingju hossa og halda í þér ástarinnar blossa. Þín kynni hér birta og bæta, blundar tengdadóttursglæta. Bjarna smekkvísi bónda nú kætir og best sem oftast þú mætir. ] [ Æja hún er öndvegis dama íðir og náð hefur frama. Æja er ættinni til sóma og augun í Magnúsi, þau ljóma. ] [ Ung var Dísa mín djörf til ásta dublaði við stráka og gerði sitt skásta. Ástsjúkir greyin hvísluðu á götuhornum: “Hún Dísa kemur í bæinn á morgun!” ] [ Ég hef marga hildi háð og hef þar notast við ýmis ráð en ætíð þó seinn til verri verka. Mönnum þó nudda uppúr sínum saur sem sé ég með hvolp eða kattargaur það virkar eins á stórbokkann sterka. Allir þegja svo þunnu hljóði þegar ég rita um siðleysið!! Það ástandið er ekki beysið og endalaust er vaðið í blóði menn eru samdauna glæpunum góði! Ekki er ég skáld en yrki þó samt ýmsir telja það sé nokkuð rammt og ansi er mér nú trauðlega tamt textann að láta mér hlíða. Oft hrýt ég milli hríða!!! Líkar heldur fáum við ljóðin mín og láta mig á stundum vinir heyra: “Fyrir neðan virðing´ er að fjalla um svín, en um fallegt skalt þú yrkja því meira!!” ] [ Heiðursdís í heiðursskini ég hilli! Í dag er blessunin hún Bára búin að lifa til sextíu ára. Góðir eru vinir á víð og dreif. Verð ég þeirra hjálpar oft fegin. Þannig verða menn sjálfir seif og sjást að lokum hinu megin. ] [ Fjölþýðir gæðingar fundust hér áður. Farinn að eldast ég man þessa daga. Mörg kvöldin fögur ég reið út allsgáður. Ævintýr mín eru lífsreynslusaga. “Við erum rassfastir feðgar” sagði faðir minn. Á barnsaldrinum báðir skriðum, er bættist aldur þá við riðum. Líkasttil endar hér bændatíð bara. Býsna er það orðin drjúg þjóðarsaga. Ríkisstjórnir ruplandi koma og fara, reyna að eyða landið nætur sem daga. ] [ Heillaóskir á fermingardaginn! Ragnhildur Gunnars hið fagra fljóð fermist nú sælleg og rjóð. Öðlist hún gæfu og gengi og gleði sem endist lengi og glæsilegt góðhestastóð. Og ei teldist vera verra veittist henni moldríkur herra og börnin gáfuð og góð, sem grundir hleyptu í vígamóð og vildu sig við hana sperra. Húsráðendur hafa mitt hól þeir ættu skilið þakkarbrag. Þetta var ágætt í dag!!! ] [ Magga Þóra er orðin þrjátíu og tveggja. Þjóð sína hún kynnti vel á erlendri grundu. Erfði flest það skásta foreldranna beggja og fæddist sem lífskúnstner á óskastundu. Þú ert Marta smarta þrjátíu og sex það er víst í Afríku sem sexúralið vex. Hugsa ég mér afabörnin út við snúrustaur eftirmynd pabbans sem er dökkur gaur. Mamma er fyrir norðan nú er ekkert pex, nema hún komi aftur að þrífa ryk og saur. Kveðja, pabbi. ] [ Ég hef séð flest það fallega sem í veröldinni er, fögur dýr og heimsins fallegustu blómabeð. En fegurð þín af öllum öðrum ber, því þú ert það fallegsta sem augu mín hafa séð. ] [ Hvert sem lánið best þig ber á björtum lífsins vegi. Allra heilla óskar þér Einar í Skálateigi. ] [ Ástin er fengin, ef hún er alin. Ástin er engin, ef hún er kvalin. ] [ Þegar við finnum til andlegrar hrörnunar og líkjum okkur við róna. Horfum þá á stjörnurnar, en ekki niður á skóna. ] [ Ég get ekki reist við rönd að rétta þér blómavönd þó langt sé útí lönd líður hann til þín í móðu. Verði þér gottið að góðu!! Kveðja, pabbi og mamma. ] [ Við sólarupprás, er veröldin að vakna, örlítill daggardropi, á grein, fellur niður, úr trénu stóra, og blandast vatninu. ] [ Hamstur, hundur, fugl og svín, þetta eru dýrin mín. Fjúga, skoppa, hlaupa hratt, en allt í einu hamstur datt. Köttur krúsídúlla er, kátur þegar mús hann sér. Sætur er hann sefur, sko veiðihár hann hefur. ] [ Í stundaglasi tímans streymir sandurinn í tómarúmið. Hvert einasta korn skilur eftir sig minningu. Í stundaglasi tímans er vitneskja um framtíðina ] [ án þín væri ég vængbrotinn fugl troðinn undir í hringiðu lífsins ] [ Prestarnir þrábregðast þjóðinni í vanda þeir beina sínu tali mest til annarra landa. Hrópa á Drottinn Jesú hátt bæði og snjallt, höndunum út baða svo þeir ná varla að anda, hátíðlegir á svipinn þeir hempuklæddir standa! Hitler slátraði milljónum, lánið reyndist vallt!!!!! Þá hrópuðu líka gyðingar þetta sama útum allt en ekki kunni Drottinn hættunni frá að banda!! Af þræli vinnusvikanna þykir mér leggja daun!!! Þinn náungi er drepinn og annar í larfa klæddur og allur svona ræðuflutningur ekki græðir kaun allra þeirra sem falla með samþykki þínu í raun! Jesúvæll og handapat um að frelsarinn sé fæddur færir engum liðveislu sem er svívirtur og mæddur! Þú vinnur fyrir ríkið en fyrir þjóðina ekki baun!!!!!!! En þjóðin er samt fólkið sem pínd eru af þín laun!! ] [ ,,Nýju fötin keisarans\", eru glettnis grá, geislabaugs þótt ríki stundarfriður. Siðferði er haldið uppi ofan frá og einnig líka þaðan mulið niður. Veslings barnið skyldi ekki ljótan leik, er lostnir sefjun reyndar aðrir gengu. Undarlegar hnippingar þá komu á kreik: ,,Sjá keisarans hátign stendur þarna í engu\"! ] [ Ótti í dölum sem uppi í heiðum, óttast nú fólkið skuggana sína, óttinn hamlar öllum leiðum, óttast menn svo að þeir láta sig pína. Þrælablóð í þeirra æðum rennur, sem þora engu eða reyna að verjast. En víkingarnir þoldu vígasennur og voru alltaf til í það að berjast. Ætla ég hyggindin öll sem best, örlögin ráða en lífsins er glíma. Úr vesöldinni, þá ræðst fyrir rest, reynslan mun kenna börnum síns tíma. En börnin þurfa að öðlast frið til að fæðast. Fleiri eyða mannlíf, heldur en það bæta. Embættismenn nú ekkert kunna að hræðast. Elska bara vellystingar og peningana mæta. ] [ Það er lengi búið að brenna bækur hér og þannig “dótarí.” Þess vegna er ég nú að nenna að nefna okkar þjóðarsvínarí!!! Ritstjórana þyrfti að sækja til saka, sæmir engum ritfrelsið af fólkinu að taka! Spillingunni má ei við í blöðunum blaka! Brjóta þeir stjórnarskrána galvaskir þá! Bananalýðveldið blómstrar landinu á!!! ] [ Mig langar að...vefja þér inní bómull, rugga þér framm og til baka meðan ég segi þér sögur af lífinu og stelpum sem halda að þær séu konur...kona/stelpa/kona/stelpa...svo eru líka til strákar sem muna ekki eftir því að þeir eru strákar og verða að gömlum körlum með pípuhatt og staf. Ég myndi gefa þér blóð mitt í pela, afþví eins og allir vita en margir eru búnir að gleyma þá er það blóðið sem tengir okkur saman. Myndi teikna blóð- hjarta á bringuna á þér og sleikja það af, svo ég ætti alltaf part af hjarta þínu. ] [ Óbótamenn geta hreykt sér hátt, hvílíka brandaraeiða þeir sóru!!! Átt hefur þeirra hugurinn smátt, hönd getur ritað orðin þau stóru! Grey hér bisa líknarlúnir af leigumorðum ærurúnir, gamna sér við grannans frú! Spóka sig í fínum fötum, fara sloppar vel á rötum, kenna sig við kristna trú!!! Hafa völd á hórum, aurar!!! Hópast peninganna maurar og henda kátt sitt hórarí!!! Morðingjar og mannorðsþjófar mega að sönnu kallast bófar! Sokknir djúpt í svínarí!!! Murka börn úr móðurkviði!! Mergjuðu fylkja áróðursliði, til geldinga gráðugir hreint! Eiðana sína ekki muna!!!!!! Allt fyrir Mammonstilveruna, troðið niður ljóst og leynt!!! “Grimmur er guðlaus maður!” Gleypir mútur trúverknaður!! Líknardráparinn handahraður hugsar ekki um börnin smá!! Fjölskyldunum líka fargar sá! Bófalið sjaldan bætt hefur raun, bíræfnir leika svo fáum er rótt!! Enginn fær sviða í annarra kaun einhverra valdandi gerða um nótt! Dæma sig verkin djöflanna sjálfra!!! Draga sér meira en nokkur frá segi!! Öll mín skrif gætu ei hlutast til hálfra hryðjuverkanna sem ske björtum degi! Ekki vil ég draga neitt í dylgjur, að dóma eigi þrælmenni að fá! “Gjöld eru glæpanna fylgjur!!!” Gjaldi því hver betur sem má! Brjálæði stjórnvalda tekur sinn toll tekst þeim án vafa landið að eyða!!! Gamlir og sjúkir á hvíslast með hroll: “Hvenær skyldi okkur farið að deyða?” ] [ Ég hangi innan girðingar og læt mig dreyma um að ég sé eini fuglinn sem fleygur fer yfir girðingarandleysinútímans. En krafsandi leita ég fæðu í forinni og hálffeginn að hafa húsnæði ég reisi háls minn hátt og skima í fjarskan en hvenær skyldu vaxa á mig flugfjaðrir. ] [ Allt er nú vandanum vafið!!! Virðist þar hvað sem annað! Illt telst sem best upp hafið! Allt hið góða lokað og bannað! Hryðjuverkin og hroðaleg morð henda sig oft á stríðsglæpatímum! Hugtökin spanna víst engin orð öryrkjans nú í mannréttarglímum!! Með ofurhuga og orðanna “ræpum” andlega sjúkir í metorð og völd samtíningi af siðleysi og glæpum sullað er í ólög langt fram á kvöld. Æran er fljót að fjúka, fáir sjá við lífsins táli. Oft sem best illu af ljúka eða þá sem skipti engu máli. Samviskan týnist, óttinn í augum Alþingi kennir nútímans svipinn, en aðrir geta sér tapað á taugum, takist þeim ekki að halda í gripinn. “Sjaldan er fíflum framaskortur,” fara hlaupandi upp stiganna þrep! Frá þeim kreistist ört lítill ”lortur,” lemjast svo í forinni undir drep! “Marga hefur veröld villt!!!” Villtir þeir kenna enga slóða! Foröðin geta ferðunum spillt og forlögin gert úr þeim sóða! Alltaf reynast uslagjöldin erfið mest bóta sé þörf!!! Ekkert ég spara á spjöldin spyrjist í aldanna hvörf!!! ] [ Ýmsir buðu oft mér fár, aldrei ég sendi þeim rós, frekar sem klofið kviðarhár, kveðjur með nógum fransós. Þybbið er oft þrælanna lið, það má hér búa við sitt. Ranglátt hyski af ríkissið, ránshöndum fer um mitt. Leiðist mér þessi ,,rassareið”, en rónunum finnst það skást og ei reynast uslagjöldin greið, gegnir víst lítt um að fást. -Best er að vera bráður í raun- búa sig undir sem verst. Alltaf dugðu mér lítil laun og lund til að gera sem best. ] [ Fossar niður bergið bjart, svo dunar niður hamrabelti hart Þar ríkir ávalt friður Yfir dökku grasinu hvílir döggin, á þessari fallegu ey en yfir dynja höggin á þessari saklausu mey. ] [ Fjórmenningarklíkan í Kínaveldi, er kunn nú á dögum og situr í haldi. En geldingarnir okkar með glansandi feldi glenntu sig upp til að nauðga með valdi. Ó,hversu glæstir þeir bukkuðu bökin, búnir að gleyma að þá vantaði punginn. Hnikktu sér upp og hófu svo mökin, Hákon bað Jón að vera nú slunginn. Er erfitt að vita hver útkoman verður? Ætli prósentutalan komi á meiru róti? En leikur þessi var oss illa gerður, því auðsveip þeim “sýslutík” glennti á móti. Það virðist svo auðvelt að svívirða snauða, og sæmdarauki að sparka í náinn!!! En villidýrsnauðgun er vond fyrir skauða og vitanlega er hún meint útí bláinn! Að harni á dalnum það hentar ei gikkjum, sem hreppsnefnd gerir engum til sóma! Frá aldamótum talið með örgustu bykkjum! Elstu menn sveitar hafa grundað þá dóma! Sendið því hreppsnefndarblórann til baka! Að biðja gott fyrir sæmd væri hverri? Það mun nógu slæmt við ”Skorrann” að skaka ef skammast sín ekki prestunum verri! Um sýslumanninn segja víst ber og sveitastjórnarinnar skítuga ”Klipper,” að sálarmyrtir nú sóðast þeir hér Söddkliff auminginn og Jack heitinn ”Ripper!” ] [ Þrisvar sinnum þrjátíu daga þrauka fangar svelti á Ísalandi hrjáðu. Þá er ”Rollu-Mási” að reita og plaga sem reiður hundur “Skæru-Loga” í bandi dáðu. Ær og lömb hafa ekkert skjól í að leita en eymdarkvölurum hlífir skjöldur raggeita. Bregðum ám og lömbum í bæjarstjórnarsætin Og bæjarstjórnarliðinu í girðingarkytru. Tannagnísturs háreisti! Mynduðust mannalætin? Ef ME! Segðu ráðstjórnarfulltrúarnir vitru. Yrði þá lágkúran að lúffa fyrir hornum og Loga bæjarstjóra vikið af sauðum eðalbornum? Þið sjáið nú hágöfginn hrútanna stóru hefna fyrir ykkur kalda og rýra í bjórnum. Nei, því miður vinir! Sauðirnir sáu ekki glóru. Þó sveitarstjórnarmannanna hátt léti í kórnum. Þeir hugguðu sig við hugsunina skíru að í haust yrðuð þið skornir og seldir verði dýru. En hvað var það sem hrjáði ykkur mest? Hungur, þorsti, kuldi, ormar, riðuveiki? Urðu þorparans hrópin á Þrótt ekki verst? Er þrútinn froðu hann melsins var á reiki. Í knattspyrnuöskur hvarf ykkar sári jarmur! Afmyndun kvalarans sýndi: MARK! Það var harmur! ] [ Þau eru stödd í gömlu eldhúsi og síðnæturbirtan í samræmi við söng lóunnar. Hann opnar ísskápinn og ljósið streymir út á gólf. Hann finnur mjólkurfernu, beygir sig niður og hellir mjólk í skál. - Af hverju hænirðu að þér þessa villiketti? - Af því að þeir elska mig. - Það er nú bara matarást. - En það er einmitt þannig ást sem ég er að leita að. Viltu mjólk? ] [ Ég labba niður fjölfarna götuna, horfi í kring um mig, læt sem ég sé til. Enginn sér mig, ég sé ekki neinn, ég er ekki til. Til hvers ert þú þarna, þú sem grætur handan götunnar í óhreinum fötum, aleinn, alveg eins og ég. Ég labba áfram flott, á fínum hælum, sárfætt, en læt eins og ekkert sé. Hver skyldi gráta á morgun ? ] [ eru hér? ertu enn hér hja mér? eða ertu nú farinn burtu frá mér. líttu á mig, líttu á mig eg er hér , eg stend hérna ein og bíð eftir þér. ekki fara burtu frá mér , ég myndi aldrei geta gleimt þér. komdu hér, taktu mig þér við hönd, og leiddu mig um lífsins ósköpin öll. ] [ Lord, come on and take me home I can’t stand here all alone The blue bird told me to return back take all my things in a sack Thinking of the country side the pickup and my gun What my father and my mother said I just needed to have fun I am going home I miss my field upon the hill Where the peace is upon me And my old friend BILL He is chilling out there as you see 10 dollar bill is the only thing I’ve got I haven’t been earning alot What I see in the clear blue sky Is going home and eat my mothers apple pie ] [ Svo mikill sársauki sem ég kemst ekki yfir Mér mun ekki líða vel á meðan sál mín lifir Svo mörg tár sem ég hef fellt Ég mun aldrei brosa á ný því djöflinum hef ég sál mína selt Mér líður eins og tárin munu aldrei hætta að flæða Því sál minni mun aldrei hætta að blæða ] [ Fyrir henni flatir lágu! Frigg er mikill genasjóður! Vildu greiða verði háu víst mun aukast þeirra hróður! Flíkar ekki fölskum tönnum fitubolla á gangi lipur! Haft er nú að sögum sönnum að sjáist ekki betri gripur! Vil ég ekki vera grófur og vonda gera henni spá! Má þó vera að meiddur hófur muni svíkja ef reynir á! ] [ Sem dökkur skuggi þú flýtur framhjá mér með brosi sem heillar mig. Verst hvað það er skrambi kalt í skugganum. Sólin skín og andlit þitt þýtur framhjá á ógnarhraða. Og allt er um seinan. Hefði ég getað breytt því? ] [ Ingólfur drengur og Dísa pæja dag einn sögðu: "Jamm og jæja nú giftum við okkur með pomp og pragt! Lífsins gleði við látum skína Líkt og Æja, Magga og Stína!" Ég get ekki sannara sagt! Með kærri kveðju frá fóstra! ] [ Lítil börn ylja sér um kalda fætur og kíkja á góðar hjartarætur. Leika sér í vinnu og leik við gamla eik. Sjórinn dansar og snjórinn glansar við sólbjartan himininn og þegar líður að kveldi er kveikt á eldi. Og stjörnur fanga himininn með litlum skærum punktum. ] [ Mikils er vænst af Þokka Þokkasyni, Þórður, Siggi og Ingólfur komnir eru í feitt. Leiða vildum hryssu af Kjarnholtakyni svo komið gæti afkvæmi er teldist vera reitt. Fá vildum örlítil fimmtíu þúsund fyrir að gefa honum Þokka einn sjens. Því varð nú dálítið strembin sú stund er strákarnir slógu því öllu í glens. Heyrninni minni ég tæplega trúði en trúlega Ingólfur hafði það vald. Móttilboð gerði og mælti með snúði: "Munum frekar leggja til urðunargjald!" ] [ Það er ekki aldurinn sem slíkur sem ég óttast Öllu heldur tíminn Mér finnst ég hafi ætlað gera meira og vera fljótari að því Nógur er tíminn og alltaf kemur meira af honum sagði færeyingurinn þannig er það þangað til allt er orðið of seint ] [ Einn dag ég sagði halló við litla veru, þá sagði hún glíngló, gíngló og horfði forviða á þetta grei og bað um hey. Þá sagði það glíngló,glíngó nú sperti það eyrun af rausn á því var ein lausn. Byrjaði svo að nýju, glíngló,glíngló. Byrjaði það nú að berjast um, ég leit niður og sagði humm. Dillaði sér og söng glíngló,glíngló. Steig það á mína litlu tá, ég sagði jáhá. Öskraði það þá glíngló,glíngló. Hamaðist á bekknum, tók þá eftir nokkrum flekkjum. Gargaði það nú glíngló,glíngló. Sveiflaði það sér í tréinu, ég fann skjálfta í hnéinu.. Bölvaði allt í einu glíngló,glíngló. Vafði það utan um sig bandi, í fáránlegu ástandi. Hrópaði sá litli glíngló,glíngló. Því fannst gott að vera í sænum, hjálpið mér úr bænum. Kallaði af reiði glíngló, glíngló. Hentist yfir húsin, æ þarna bjó mjóa húsamúsin.. Emjaði það glíngló,glíngló. Hentist um í ljósinu, samt hann labbaði í átt að fjósinu. Veinði illilega glíngló,glíngló. Hentist yfir hamrabelti út með fló og dó. Aldrei framar var sagt glíngló,glíngló. ] [ Fullþroskað glóaldin hangir yfir hafinu Brátt týnir það lögun í húminu og drýpur í augu mín ] [ Ég festi sólblóm á vegginn, bítlaplakat og engil fyrir ofan rúmið þitt. Meðan ég elda grautinn syngur þú og dansar með Pepper liðsforingja og vinum hans, á hátíð herra Flugdreka. Fallegi drengur, þú ert af þriðju kynslóð blómabarna í heimi þar sem byssumenn og ræningjar fara með völd. Meðan þú borðar grautinn skulum við hlæja að fréttunum; það er betra en að snúa sér undan. Við eigum sólblóm, bítlaplötur og engla . . . Við skulum gæta þeirra vel. ] [ Hann vildi farga stóðinu og fylfullri meri fyrir þann rauða sem um veginn gekk! Ingólfur sagði: "Ég kaupin ekki geri, en auðvitað skil ég þinn góða smekk!" Grunar menn að Þórður hafi verið í víni vonlaus um það lán að eignast góðan hest! Enginn þarf að halda að slíkt sé gert í gríni! En gefa Ólgu mína í kaupbæti tel ég reyndar best! “Ég hef alltaf staðið mitt splitt, þa´ þí´ir ekkert anna´!" "Þitt var mitt og mitt var þitt," má þetta dæmið sanna! ] [ Ó, þú fagra veröld. Með sólstöfum þínum þú snertir sál mína sem gladdist við. Viltu gera það aftur? ] [ Ástin flýgur ansi hátt endar hún nú hvergi undarlega nú er kátt andað undir bergi ] [ Verkirnir hamla mér göngu, Ég er búin að gleyma öllu sem ég mundi fyrir löngu. Sé fólkið mitt mun sjaldnar en ég var vanur að gera, Þeir vilja frekar láta mig sitja hér og láta mig éta stera. Hvað er fólk að hugsa í þessu landi? Að láta mig sitja og rotna eins og eitthver fjandi. Ég get ekki skrift mína lesið, Og hvað er þetta sem allir tala um og kalla internetið? Ég verð bara að vera hér þjáður, Sitja hér einn slitinn og fláður. Hvað varð eiginlega um konuna mína hana Ýr? Æi, henni er sama um mig ég er krumpudýr. Ég stefndi eitt sinn að því að verða frægur, Harmonikkan slitnaði og ég varð hlédrægur. Dóttir mín hún varð meinatæknir, Og sonur minn hann varð heilaskurðlæknir. Ég man ekki hvað tengdabörnin heita, Og barnabörnin, ég nenni ekki að nöfnunum að leita. Ég kemst ekki einu sinni á klósettið sjálfur, Ég er með bleyju eins og eitthver barnskálfur. Ég fæ ekkert gott að borða, Ekkert nema eintómann graut, ég er hungurmorða. Það er langt síðan ég fór út úr húsi, Hjúkkurnar segja að ég eigi ekki einu sinni rétt á smá djúsi. Hvers á ég eftir að sakna? Ábyggilega einskis, best að sofna og ekki aftur vakna. ] [ Hlustaðu á rödd mína ég tek þig inn í regnbogann þar sem ástin blómstrar þú þarft bara að biðja mig þá skal ég fylgja þér Komdu með í heim með nýrri ást þú munt sjá að þú þarft ekki að þjást Ástin vex í hjarta þér ég ástarálfur er ég get hjálpað sumum kannski ertu einn af þeim Komdu með í heim með nýrri ást þú munt sjá að þú þarft ekki að þjást Ég fylgi þér í sanna ást þar tilfinningar dansa um þér mun líða sem aldrei fyrr komdu nú með mér Komdu með í heim með nýrri ást þú munt sjá að þú þarft ekki að þjást ] [ Lítið hjarta í brjósti þínu hamast Draumarnir í kringum þig svífa í kjöltu minni liggur þú og brosir um vangann ég strýk og augun þín lokast Hugsanir og þrár verða að draumum tími og stund standa í stað þótt að þú sofnir á þarftu ekki að óttast því að þú veist að í hjarta mínu átt þú stað Nóttin er dimm og stjörnur lýsa upp himinn sól að morgni hún lýsir þig á þú vaknar og tíminn byrjar að ganga ástin mín þú átt mig að Nóttin er loksins horfin á brautu burt þú ert minn engill og lífsins ljós ég veit að þú getur ei hjá mér alltaf verið þótt þú farir þá vil ég eiga þig að. ] [ Í kuldanum stendur, myrkrið hann hylur sálin er horfin inn í skuggagjá kærleikur og ást eru aðeins til að kveljast sameining okkar anda er milli himnanna ást og hatur í rifrildum standa gott og ill mætast og berjast þegar lífið hverfur hvert skal þá fara til himins, lúsifers eða til baka Á lífsins spotta hann klippti sjálfur hann kaus að deyja því að lífið var myrkvað lífið til dauða er til þess að læra lærði hann eitthvað sem var ljúft og snjallt Í ljósi eða myrkri hann ferðast Fastur í tíma og veit allt sem til þarf Stedur og starir á þá sem lifa Horfir á eldlífsins sem að brennur hratt. ] [ Ef hjartað ræður för þá verður ást á þinni leið kærleikur þig snertir fiðringur um þig fer í logni eða vindum í rigningunni votri í sólinni og stjörnum er tilfinninga sveimur á mörkum ástar og haturs er hvorki tilfinning né losti ef ást birtist í lífi skilur hún ætíð eftir ör Lífið segir sína sögur sumar eru stuttar Fæðing, líf og dauði Hringrás tilfinninga. ] [ Slokknar kerti í lífsins brunni sveima sálir í hringrás stuttri straumar guða stjórna öndum Viltar sálir reika í myrkri Morgunsól og bláar ástir vinirnir og fjölskyldan helduru að það lifi alltaf þótt að gott sé það hverfur allt Myrkraöfl í svörtum salnum guð og englar á himnum björtum lífsins sögur skrifaðar niður taka anda í sínar hendur Djöflar gefa sumum mátt sinn til að eyða lífi á jörð guðirnir þeir skapa lífið Góðmennska tekur oftast völd ] [ Morguninn er ekkitil neins að fagna hann kemur og fer líkt og fallin stjarna með augun lokuð, ég verð nú að opna snerting við djöful er til að sofna Ég trúi ekki, ég skil ekki myntin er mín og ég lít á hana djöflarnir syngja og mér halda Böndin ei slitna, ég held í mitt hjarta Þótt þeir syngi, þótt þeir dansi þótt þeir snúist í kringum mig alla sit ég ein í skýjinu svarta ekki döpur en fer samt að gráta Ég trúi ekki, ég skil ekki myntin er mín og ég lít á hana djöflarnir syngja og mér halda böndin ei slitna, ég held í mitt hjarta lostinn er ekkert sem hægt er að stöðva ég lifi í draumum og mig langar að hverfa hverfa inn í dulinn heim þar sem ég get lifað ein með þeim ég trúi ekki, ég skil ekki myntin er mín og ég lít á hana djöflarnir syngja og mér halda böndin ei slitna, ég held í mitt hjarta ] [ Stór ást, lítið hjarta stórt sár, lítið blæður Láttu ekki blekkjast, ekki kvarta þótt þú hatir mig erum við alltaf bræður Ég þín sakna og vil þig ei missa líttu á mig mér er hægt að treysta þótt í lífi mínu gerist skyssa þá finn ég á milli okkar neysta Augun þín bláu í sólinni skína þú fékkst allt sem ég fékk ekki en þegar ég skoða sálu mína þá veit ég að ég kom sjálfum mér í hlekki Smá af ást, stór skyldleiki pínu koss, stærðar faðmlag þótt þú kallir þetta kannski sálar veiki þá þarf það ekki að vera í dag sættum verum vinir syngjum saman í hafi lífsins ég þig elska meira en margt annað komdu, verum ei ósáttir ] [ Brostið mitt hjarta, horfin mín sál ég vildi að ég ætti einhvern að ef að tilfinningar hefðu mál þá myndi ég tala frá hjartans stað sumir vilja kvelja, aðrir þeir þjást hlutleysi fyrir þá sem ei þora það leysir ekkert að rífast og slást orðin djúpt í sálu bora ekki er hægt að lækna allt sem er til einelti er eins og veira bæði drepa og særa, ef maður vil sjálfsmorð kvelja mann meira Hugsaður þér sál sem er eitt stórt gat helduru að sú sál lifi áfram blóðið það drýpur í risastórt fat hefndin mín og dauðans mun ná fram Að kvelja mann þar til hann deyr er það sem fólk er að gera Móta manneskju í þinn leir láttu fólk frekar vera. ] [ Tekuru eftir sári sári sem enginn sér ég græt oft söltu tári ein, í sálu mér Ef hunsaru þína vini þeir falla oft skugga í hundur með sínu ginir Bítur þig æ og sí þú útilokar mig stundum meira núna en oftast þó ég sé á leiklistarfundum þá vil ég inn í líf þitt loftast Alltaf að gera eitthvað annað við aldrei erum saman er ég ekki inn í líf þitt hannað? útiloka, er það gaman? þótt þú eignist fleiri vinir þá hélt ég að ég væri þar líka ein með glas af gini ég hugsa um þína líka ] [ Það er enn í minni mér Mótað fast í sinni Þegar ég mætti bara þér í kvöldgöngunni minni Frjáls í fasi varstu þá fAGUR eins og engill Verst að öllu þykir mér að þú gerðist þengill Bara mig þú sagðist þrá því skal ég bíða og vona þinnar ástar von mín á um að verða þín eina kona ] [ Hvað skal ég gera.Lesa, lesa lygarsögur, nei Þessa angans pésa eða skrifa,skrifa skammir um skíthælinn í tréklossunum þarna frammi í básnum Dingalong. ] [ Gott er að hvíla hér, má ég vera lengur í þér, Raunsæ ei ósk mín er, inn í heiminn kem ég hér, ósýnilega naflastrenginn býð ég þér. ] [ Það er í draumunum sem flest okkar dreymir allar þær langanir, og öll sú þrá, ást, umhyggja, sorg sem byltist um í hjörtum okkar og vill klóra sig upp á yfirborðið, og blómstra. Það er falið í draumunum það sem hin "ytri við" eigum oft erfitt með að sætta okkur við. Til dæmis þá staðreynd að við óttumst. Óttumst það sem er ekki snertanlegt en er þó alltaf til staðar, alltaf að gerast, það er: endamörkin við endann á göngu okkar. En einnig er það í draumunum það fegursta sem við getum vitað, sem í daglegu máli hefur verið nefnt: "von". Von um að seinna meir geti öll sú reiði og heift sem þrífst í heiminum fundið að það er ekki þörf þörf fyrir það að eyðileggja í stað þess að geta verið skapandi. Svo að ég leggst á bakið, loka augunum - sofna, og læt mig dreyma. ] [ hann kemur, hann fer, hann er. Tilbúinn að snúa hausnum við, afturábak og áfram, verkjatöflur, fuss og svei! Þær virka ei. Hann kemur og myrkrið skellur á Hann fer og sólin kemur aftur Hann er og hann er og hann er og hann er.... ] [ Til hvers að eyða tímanum að hugsa um hann? Hann eyðir nóttum mínum, dögum mínum, öllum tíma mínum. Er hann þess virði? Hann kemur þegar hann kemur, hann fer ekki neitt. ég hugsa um hann, allt verður svart, allt verður tómt, köfnunartilfinning. en til hvers að eyða tímanum í að hugsa um hann? Afhverju ekki að njóta tímans án hans. Er hann jafn hræðilegur og ég held? Eða er hann fegurri dagurinn. Hættu að hugsa... Hættu að þjást... en auðveldara er að segja en gera... ] [ Þegar lífið leikur við þig og sólin snýst í kringum þig, þá ertu áhuggjulast atóm í alheiminum. En ef atómið rekst á nifteind fer leikfélaginn og jörðin snýst í kringum sólina. Ég er ekkert nema rykkorn í súrrealískum alheimi. Ég er ekkert nema sandur í realískum sandkassa. Þetta ljóð segir mér það eitt að ég hef ekki hugmynd um hver ég er. Ef ég ætti nú bara heima í draumalandinu, væri það þá veruleiki? Dag einn varð ég ástfanginn í draumi, eftir það svaf ég meira og meira og hitti alltaf prinsessuna mína í draumaheiminum. Á daginn var hún óvinur minn í vinnunni en á nóttinni elskan mín. Ég hætti ég að vaka og svaf, lifði bara í draumnum. Ég var ástfanginn, en draumurinn breyttist í martröð og við hættum saman, hún hvarf úr draumnum. Ég fór í vinnuna og hitti hana á ný, hún vildi ekkert með mig hafa, ég elti hana, stokkeraði hana og varð ástfanginn á ný. Það var þá sem ég hætti að sofa og vaki bara. Ef maður ætti nú bar heima í veruleikanum, gæti það verið draumur? ] [ Hvenær kemur vorið? Klakann brestur brátt þol til að bera þunga sólarinnar brak brestir fuglasöngur tíst tíst. Regnboginn tekur á sprett í öldunni Getur maður óskað sér í alvörunni? Er nóg að sjá regnbogann? Má segja óskina? Nei vina mín, Haltu henni fyrir þig og þá mun hún rætast Ef hún rætist ekki, sem hún gerir samt, getur þú verið viss um að vorið kemur að lokum. Því það var óskin, ekki satt? ] [ Ég vil bara að þú vitir að ég grét, ég vil bara að þú vitir að ég grét. Um leið og bíllinn startaði, ég sem ætíð kvartaði, ég vil bara að þú vitir að ég grét. Ég vil bara að þú vitir að ég grét, eftir að ég kvaddi þig, horfði á eftir bílnum fara, stóð bara eins og þvara, brosti og vinkaði bless, en ég vil bara að þú vitir að ég grét, ég vil bara að þú vitir að ég grét. Ég gekk inn með bros á vör, af hverju? Engin svör, í hjarta mínu er djúp, djúp ör. Þú ert farin mitt fljóð, þú sem ætíð varst góð, það er fátt um svör, en ég skrifa þetta ljóð, bara svo að þú vitir að ég grét. Ég vil bara að þú vitir að ég grét, og var loksins laus við þig, þú sem aldrei skildir mig, en samt þú skildir mig svo vel, betur en nokkur annar, ég vil bara að þú vitir að ég grét. Ég kyssti barnið bless, það hló, ég hugsaði ég er góður pabbi og hló. En ég kyssti þig á kinn, vertu bless í þetta sinn, þú brostir fögru brosi til mín, og ástin varð skyndilega sól sem skín, en þá þú fórst, en ég vil bara að þú vitir að ég grét. Manstu okkar gömlu daga, ástfangin út um lönd og haga, kyssandi, knúsandi, kelandi, flissandi, ástfangin lítil hjón, já, ég er enginn meðaljón, ég lét þig fara, af hverju? Enginn mun svara. En ég vil bara að þú vitir að ég grét. Breyti öllu, tek okkar myndir niður, allt í einu algjör friður, en samt er það mér sem siður, að kalla nafn þitt og halló, en nú er ekkert svar, svarið er hvar? Langt í burtu ekki hér, þú fórst frá mér. Ég er sáttur, þú sátt, að elska þú mátt, hví á ég svo bágt? Ég vil bara að þú vitir að ég grét, þegar bíllinn var horfinn, og enginn var hér, eitt sinn sagðirðu villtu giftast mér? Nú ég aleinn og vorkenni bara sjálfum mér. En ég vil bara að þú vitir að ég grét. Ætli þetta sé fyrir bestu? Finnum lostann að nýju, finnum þá gömlu þá gömlu hlýju. En ég vil bara að þú vitir að ég grét, og oft illa, illa lét. En þegar ég kyssti þína kinn, í ef til vill hinsta sinn, varð ég á ný ástfanginn, þegar þú kvaddir mig, ég hugsaði, ég elska þig, en ekkert sagði, kvaddi og þagði. En ég vil bara að þú vitir að ég grét. ] [ Viska þín svo mikil hugsun þín svo djúp svo hrein svo tær hjarta þitt svo meyrt og viðkvæmt viðmót þitt svo þýtt svo blítt samviska þín svo hrein sál þín svo viðkvæm svo góð samúð þín svo sönn ást þín svo sönn svo hrein svo tær hlýja þín svo einlæg óendanleg elja þín svo kröftug Blámi augna þinna svo tær svo hreinn roði vanga þinna svo ferskur svo svalur mjúka brosið þitt birtir hleypir sólinni inn gullnir lokkarnir lýsa ilmur þinn eins og hunang og mjólk og eplakaka með kanil kraftaverkið mitt sem fékkst allt það besta sem ég á og pabbi sonur minn svo yndisblíður og fagur þú átt hjarta mitt og ég þitt. ] [ Hylling? Ertu þarna? Ég sé þig varla En ég veit af þér Fáir taka eftir þér Þú fellur alveg inn í umhverfið Hvað ertu að hugsa? ég veit að þú ert einmana hefur engan til að tala við en þú horfir á fólkið sem leikur sér rétt við nefið á þér en það sér ekki þig bara sig en þú þekkir leyndarmálin og bíður eftir að álögin hverfi og þú gangir til móts við lífið og ástina alsæl og reynslunni ríkari ] [ Mjúkir, liðaðir súkkulaðistrengir snerta axlir þínar Ískalt vatn augna þinna dáleiðir mig. Ferskur roði eplakinna hunangsbragð húðar og sætur ilmur af flóaðri mjólk minnir mig á sumarið. ] [ Moses var einstakur maður og sérstaklega gáfaður Hann bað Guð um mat og ekki þar við sat Það ringdi frá himninum vikuskammtur fólkið í eyðimörkinni var hólpið Og hann bað Guð aftur og aftur Ekki meir það var sólgið Kongurinn afneitaði honum í sífellu og trúði ekki neinum lögmálum Hann hrópaði upphátt : Enga dellu En á meðan Moses bjargaði mörgum sálum ] [ ég dett í holu, ég reyni að komast upp en hvernig sem ég reyni, ég kemst ekki. Kona kemur og réttir mér hönd, ég neita henni. ÉG vil ekki hjálp. Ég er þrjósk, held ég geti allt sjálf. Ég kemst ekki upp. Allt er svart. Ég gleymist í holunni og rotna þar. ] [ Ó ljóð ef ég syngi þig yrðir þú óhljóð ] [ Af stjórnarskrárbrotum hann stærir sig og stórkarlalega hann kærir sig kollóttan við stjórnarandstöðu klið er í alþingispontu hann mærir sig: Dabbi, ég heiti, drusla og gunga með dálítinn vott af skítlegu eðli fjölmiðlalögin af þreföldum þunga þráast ég með fram hjá kosningarseðli. ] [ Grenjandi rigning, niðurdrepandi úrhelli steypist úr svörtu himinhvolfinu. Stúlka grenjandi heldur þéttingsfast um saltstauk. ] [ lazily roams the corridors and rooms painted in dull memories. alone she knows the fantasies, nightmares and daydreams. asleep most of the time in the bright light of the closed windows -while i pointlessly exist- but wakes to enjoy the tuna and to frolic in the lemon scented litterbox which i leave out for her -hoping that she exists, too. ] [ Þá er þreytan grípur mig ég þykist vel útsofin loks augnlokin síga og gefa sig sofandi stend ég, dofin ] [ Lúinn í lok dagsins tók ég af mér grímuna upp á hillu sátu þær allar og horfðu á mig sofa ] [ I Engin eru örlög til önnur en þú skapar hvort þú heldur himna til eða til heljar hrapar. II Von er valdið eina sem verndar öll guðs börn. Bæði stál og steina stendur trúar vörn. ] [ Ég elska þá tilfinningu að líða illa Því ég kann það svo vel ég þekki þá tilfinningu að líða vel en ég kann ekki við hana því, hún breytir ímynd minni Sjálfsvorkun ég elska þetta orð. ] [ ég vaknaði einn morgunn í annarlegu ástandi vinkonur mínar lágu hálftómar á gólfinu konan,börnin,og hundurinn farin ég er skuldum vafin íbúðin að falla á tíma,og ég teygði mig í eina vinkonuna og drakk hana hálfa ég er mikið betur settur án kerlingarinar,barnana,og hundinn þoldi ég aldrei ég skulda ekki mikið ekki mikið miðað við Hannes í næsta húsi í huganum ligg ég á sólarströnd umvafinn fallegu kvenfólki Með fallegan lit í glasi,en hvern andskotann er konan mín að gera í mínum draumi ég hef sofnað og raunveruleikinn birtist aftur,óvelkominn í sinni ömurlegu mynd ] [ Andlitsgrímur allir sína ævi bera og aldrei innstu tilfinningar sýna. Og þannig virðist þetta verða að vera. Veistu hver er sá , á bak við þína ? ] [ Ég er einhversstaðar þar sem enginn sér mig ég er allsstaðar þar sem allir sjá mig samt finn ég sjálfan mig hvergi ] [ Döpur græn augu horfa Á andlit sem eru tóm Gleðin úr þeim er horfin og eftir situr sorgin ein. Döpur græn augu líta Sjálf sig í spegli Og sjá að þau hafa átt betri daga En þau vita að enn eru þau ung Döpur græn augu stara á kaldan vegginn Eigandi þeirra hefur verið lokaður inni Fyrir afbrot sín gegn sjálfum sér Og þau sjá ekki í gegnum vegginn né sumarið fagra er úti er Döpur græn augu nú fella tár Vegna þess að æskan er liðinn Og lítt fengu þau hennar að njóta Enginn er til að þerra tárin Döpur græn augu nú loka augnlokum sínum Aftur og vilja helst ekki líta framan í nýjan dag Vegna þess að lífið hafði engin fyrirheit Sem þess viði var að horfa á. En augun líta nú nýjan dag Og sjá að smíða má himin og haf Veggurinn er farinn og sumarið Sýnilegt í gegnum gluggann ] [ ég hélt það væri ást en það var ekki rétt þú sagðist ekki drekka en hvað gerir þú þá ferð á fillerí og færð þér á broddinn sé þig sleikja á annari stelpu skoltinn mig langar að gráta en veit ei af hverju þú varst minn en ert það ekki lengur fyrst ég var sár en komst svo yfir þig við erum bara vinir ég vil þig ekki sem meir Viðhaldið þitt er lítil ljóska sem ekki gekk í skóla fór í meðferð, er samt í dópi skil ekki hví þú ert í þeim hópi þú vilt mig aftur ég segi nei það er ekki gott að vera særður ég brenni mig ei aftur á þér ég hef reynt þér að gleyma það gengur illa ég læt mig oft um þig dreyma það sem þú ert samt.. þú ert bara villa skaddaður í hausnum hví gerðiru þetta ég elskaði þig og hefði fyrir þig dáið foreldrum mínum var illa við þig nú ég skil það vel ég hefði átt á þau að hlusta og sleppa þessu sambandi mamma sagði mér að þetta myndi gerast en ég vildi ekki hlusta en þetta litla viðhald þitt ég veit að hún er drusla. ] [ Sterarnir skelltu mér Í gólfið settu mig Í væntumþykjupeysuna óluðu fætur mínar mokuðu mér síðan Í rúmið og sprautuðu ólyfjan í rassinn svo ég myndi haga mér eins og þú skrýtið! hélt að ég ætti að haga mér svona hér af því,er ég jú á þessum stað Með þínum vilja en gegn mínum eigin vilja bara af því að ég er ekki eins og þú vilt að ég sé ] [ Ég leit út um gluggann þar sá ég þig hjartað mitt. ég missti af þér aftur þar með fór allur minn kraftur Ég þrái þig hjartað mitt kommdu aftur ] [ Allir lifa í draumi Því allir þurfa draum til að lifa í. Og allir þurfa draum Til að deyja í... Því hvernig gæti himnaríki annars verið. ] [ Er það svo Að allir svíkja Í bakið stinga eitruðum rýting Er veldur sári Sem ekki er séð Með augum berum? Og er það virkilega svo að flestir eru að leika Einhvern annan en þeir eru Einungis til að þóknast öðrum Sem einnig eru að leika sín misheppnuðu hlutverk Og þá til þess að þóknast einhverjum enn öðrum? Eru allir á höttunum eftir Því að verða miklir og viðkenndir? Hrós og viðurkenning Frá hræsnara, lygara Er í mínum augum ekki mikils metið. En viðurkenning frá góðri samvisku og heiðarleik Gefur sál minni líf. En því miður er ég með hras gjarnar fætur og leikararnir í mínu lífi eru Flestir búnir að glata Sínu upphafi, trausti. Og þá einnig sjálfum sér. ] [ Döpur græn augu horfa En sjá ekki neitt Fegurðin sem augun eiga að sjá Er ekki lengur til staðar, allt er breytt Döpur græn augu líta á Rúnum rist andlit. Öll gleði úr þeim er horfinn Aðeins sorg í þeim býr eftir hörð vinar slit. Döpur græn augu Nú tár fella Því ár hafa liðið, sem þau ekki litu Árinn runnu augunum frá, minningarnar hugann hrella. Döpur augu nú lokast Og vilja ekki opnast á ný Vegna þess að allt sem þau dáðust að áður hefur breyst í forar dý ] [ Til að botna bull og dellu brúka verður sama lag Apa þunna þoku vellu Þetta kemur seinna í dag Bæði skýrt og skorinskort skylt er þér að tala Flest er hjá þér ílla ort Andlaust hnoðra froðu sort ] [ Ég þakka fyrir bréfið smarta mín Marta! Magnaðar þínar ferðir um ókunna slóðu! Þér finnst nú hún Ríó fjöllunum skarta! Farðu bara að klifra með vangana rjóðu! Vandaðu þín fótmál, völt er hver karta! Villstu ekki af leið ef að skellir á móðu! Sé að þessu vel gætt þarf ei að kvarta! Þínar ferðir jafnan munu enda með góðu! Kv. Pabbi. ] [ Hversskonar bölvuð bull og þvæla afhverju eruð þið með þessa stæla að samþiggja eikki ljódid mitt mér sem finnst það vera svo fínt ] [ grátur í myrkri sem enginn veit slasað barn það hvílir sig sár á hné það fengið hefur já það er sárt er í því grefur ] [ Oftast sést fegurðin vel, sumum finnst hún ósýnileg. Aðrir leita hennar í hel, en flestir hverfa á annan veg. En ég og veröldin veit, hvað ég sá er ég á þig leit. ] [ Kurteisin kostar ekkert! Kalsa ég henni til ykkar. Vinum úr daglegu striti vil gefa tækifæri að virða mál alvarlega í þröngum hópi. Vil ég ekki láta veifa að mér rópi. Vandi er að nauðga í skæri. Réttlætið ekki raunir þær fyrir mér þótt ríða láti aðrir sér nauðugir eða viljugir!!! Ei gat hreppsnefnd annað séð eða stöðu sína réttar metið. Hún endagleypti eitrað peð!! Eymdar-sálna-veslings-tetrið. Einar á móti örgum tón emjar nú er hættu stand! Þá espast bara argaflón ólmir vilja spila grand! Aumingjarnir eiga bágt þeir ekkert vilja læra! Æran þeirra liggur lágt sig lömuð má ei bæra! “Hreppa gamla,” hrýtur enn í höfga viskusnauðum! Sýnast vera sæmdarmenn sauðir á skítahaugum! ] [ Í Ormstaðarkabellu rumskuðu rænur! Þeir runnu útaf prikum sem aflóga hænur! Heimskunnar frófíll í hæðirnar gónir! Hentistefnuna þeim ber fyrir sjónir! Með glampandi andlit, glitrandi af svita og græðgi í augum þeir hrifsuðu bita! Þeir vissu nú gjörla að fallinn var forinn og frægir þeir yrðu að ganga hans sporin! ] [ Hátíð nátturunar Ég reyni að sofna, þessi hátíð úti heldur mér vöku. Vindar syngja, tréin dansa í takt við sönginn, skýin gráta úr gleði. Ég gefst upp að reyna að sofna og stari á þessa fallegu hátíð. ] [ Bræðurnir þrír Veðrið, helvítis hrekkjalómar þessir bræður. Rigningin rignir yfir mig sturtu, Vindurinn blæs mig í burtu. Meðan að sólin, elsti bróðurinn hlær af hamförum mínum. ] [ Hugsun Maður hugsar stundum alltof mikið, Hugsanirnar og hugmyndirnar streyma út. En stundum fer maður þó yfir strikið, Og hugmyndirnar flestar fara í hnút. ] [ Lífið Lífið er erfitt, lífið er vinna, Lífið er asnalegt og því þarf að sinna. Lífið er skrítið, lífið er snúið, Lífið er skemmtilegt og ljóðið er búið. ] [ ( 1 )Ekki nóg. Ég var ekki nóg fyrir þig þá fær þú bara lítið af mér þetta átti að verða ævintýri en varð bara þetta venjulega. ( 2 )Dans. Dansar þú við mig næst þegar við hittumst? ég dansa við þig í huganum. ] [ Elskaðu mig farðu svo næst elskaðu mig og farðu svo ekki auðveld leið í Paradís. ] [ Allt er líkast ævintýri ég hringi þú kemur þú ferð þú hringir þú kemur hvers get ég annars óskað? Það er á sunnudögum sem vikan endar þá ferð þú heim til þín og ég byrja aftur að bíða. Ef þú kæmur ekki eitthvert kvöldið er ég biði þín myndi ég reyna að hætta að bíða. Stundum ert þú hjá mér þegar ég skrifa en ekki núna vikan er rétt að byrja. Ruth ] [ Ætli ég sé ekki stelpa Með brostið bros Brákað hjarta Beittar tifinningar og brennheitar varir? Ætli ég sé ekki stelpa Með brostna drauma Brákaðar vonir Beittar væntingar og bláköld vonbrigði? Ætli ég sé ekki stelpa Með brostið traust Brákaða sál Beittar hugsanir í bláböldum raunveruleika? Ætli ég sé ekki stelpa Með brostna lífslöngun Brákaðan tilgang Beittan skráp og brennheita þrá? Ætli ég sé ekki stelpa Með brostna þolinmæði Brákaða viðmiðun Beitta dóma og blákalda tilætlunarsemi? Ætli ég sé ekki bara venjuleg ófullkomin stelpa? ] [ Labba útúr fortíðinni. Fortíðin færir mér minninguna. Minningin er sársaukafull. Sársaukafullt er andartakið. Andartakið er nútíðin. Nútíðin er tilveran. Tilveran er flókin. Lífið? ] [ Hin fagra vera gengur framhjá á degi hverjum. Brosið fallega er ætlað þeim sem á horfir. Brosið vekur kenndir hið innra. Kenndir sem hver og einn verður að eiga við sjálfan sig. ] [ Með töfra sprota hér ég krota orð í huga niðrá blað Vona svona alltaf verði gott að koma hér í hlað Gleðin ríki börnin skríki farsæld dafni koti í Og að hjónin alltaf verði hvor í öðru skotin í ] [ Frelsi er að missa meðvitund en vaka yfir sér um leið eins og að hverfa en vera fullkomlega til staðar á nákvæmum punkti togstreitu þar sem kröftug hreyfing hefur mann allan á flug þó negldan í sömu stöðu. ] [ Liggur ljóðaharpan hljóð logar ekki andans glóð. Sama hvað ég rembist, reyni rýni fast á blað og greini. Ekki hefst mitt hugarflug, held ég því mig skorti dug. Hvernig fór ég þá að því í þetta skiptið enn á ný? Að tapa tárum svita og blóði en tjasla saman _þessu_ ljóði? ] [ geng ég búinn grímum tveim gleði sýni sem og trega hlæ ég ótt að öllum þeim sem allt sér taka alvarlega ] [ Hann er að norðan sagði sjómaðurinn skrækróma. Án þess að sleikja á sér putta og setja hann upp í vindinn og hafa áttarvitann sér til hliðsjónar áður en hann fordæmdi ranga átt fyrir ölduganginn. ] [ Hann röltir um götur og stræti gefandi mannfólki gaum birtan fer hallandi fæti flyjandi hverfur hún aum Læðist að kveldið lýsir af staurum leikur föl birta um einsaman mann skyldi nú einhver sem leitar af aurum stökkva úr runna og reyna við hann Við hugarvíl það hann herðir nú göngu hugsandi "kanski eg komist ei heim" skjálfandi verður að beita sig ströngu að skundekki hraðar og detta um stein. Svo sér hann ljósið sem lýsir að heiman lokkandi kallar "flýttu þér nú" skyldi hann komast guðirnir teiman heilan á taugum bættan í trú. ánafnað Aðalheiði 2004 ] [ Vatn rauf skarð í varnargarð vantar sparð á þúfubarð hækka jarðarvegginn varð er villta, harða Jökla sarð ] [ Þvottabrettaþjóðvegur þykir mér hér vera, hjakka í sundur hjóllegur og hjólbarðana skera. Þvottabrettaþjóðvegir þykja mér ei góðir. Eru þingmenn alltregir, eða tómir sjóðir? ] [ Allau sjáðu inná ljóð áttu nokkrar stökur orsakaðir fegurst fljóð fékk í huga vökur Dirfist mér dreyma enn djörfungu að sýna uppgjöfin mér sýnist senn sálina drepa mína Í hugskotinu held ég mynd hefurðu mig skilið vísast yrði stærsta synd skildum minnka bilið ] [ Þitt æðsta andans goð, þín átrú, Gvendur Joð, sem svaf eitt ár með sann og síðan hélt sig mann. Kom hér með kurteist geð, og kannski fleyra með. Þitt skáld, þitt skáld, hér skeit, var skeint við herlegheit. - K.Jóh. ] [ komdu og leggstu hérna hjá mér við skulum hverfa í þetta gula og græna sóleyjarhaf við skulum horfa á gullbikarana vagga í blænum öldurótið færir okkur nær sóleyjarkossi ] [ Ég hafði lengi undrast þig; ljóð þín, heimasaumaða kjólana og bera fætur í ilskóm á götum borgarinnar. Nú undrast ég þig enn meir; börn okkar, sögur þínar fyrir háttinn, kóríander og basilíkum í eldhúsglugganum. Ég ætla alltaf að undrast þig, elskan mín, hækkandi birkitrén í garðinum og andlitin fleiri og fleiri í myndaalbúmi okkar. Ég undrast meir og meir, þessa miklu og fallegu sögu. ] [ Vor í lofti og angan af gróðri leiðir okkur út í birkikjarrið. Sonur okkar, 11 mánaða, sem þóttist fær í flestan sjó eftir vetur á stofugólfinu, er á báðum áttum – það virðist enginn vegur að skríða í þessum þúfum. Elskan mín, fyrir ári síðan vorum við tvö líka svona ráðvillt. Nú hlæjum við og köstum steinvölum í lækinn. ] [ Til eru auðmenn hér í Vestrinu sem þykir fínt að nota uppstoppaðar hendur górilluapa fyrir öskubakka. Þar af leiðandi eru einnig til veiðimenn sem gera sér ferð til að sækja slíkan varning. Þetta veit ég af því að til eru sjónvarpsmenn sem elta ósómann uppi og sýna mér, þar sem ég sit og gef ársgömlum syni mínum pela fyrir svefninn. Elsku barn, mér líður stundum eins og apa á trjágrein, varnarlausum með afkvæmi sitt í fanginu. Þegar þú ert sofnaður skal ég fara niður í geymslu; þar í myrkrinu leynist örugglega apabúningur og riffill. Pabbi skal fara til Afríku að skakka leikinn. Og best að taka til hendinni í Reykjavík líka – París, London, Róm; varið ykkur, þrjótar og illmenni allra landa! Og þó, líklega gerum við best í sitja sem fastast á trjágreininni okkar og brosa framan í myndavélarnar. Aldrei að vita nema okkur verði leyft að fara með ljóð. Verst að vera ekki hagyrðingur upp á gamla mátann, en við gerum okkar besta. ] [ Við morgunverðarborðið verður mér stundum hugsað til gamals vinar sem var lengi skipstjóri á millilanda-skipi. Hann komst oft í hann krappan og hefur frá mörgu að segja. Mestu svaðilförina fór hann á áttunda áratugnum, þegar morgunkornið hóf að streyma til landsins frá Ameríku. Það vildi svo til við útskipun í Baltimore, að gámarnir með kókópuffinu lentu neðst í lestinni. Þeir reyndust heldur léleg kjölfesta þegar út á rúmsjó var komið, slagsíða kom á skipið og minnstu munaði að Atlantshafið gleypti það með manni og mús. Okkar maður stýrði þó skipi sínu heilu heim, en maður veltir því fyrir sér svona við morgunverðarborðið, hver kjölfestan ætti að vera þegar lagt er upp í langferð. ] [ Vart þorandi að sofa með þetta litla líf sér við hlið. Andardrátturinn svo ofurléttur – þó er hann vindur í hlíðum Kilimanjaro, þytur í laufi regnskóga Zaír; skothríð á götu í Mogadishu. Vart þorandi að sofa með þetta litla líf sér við hlið. ] [ heyrið þið ekki kall mitt á hjálp heyrið þið ekki neyðaróp mitt sjáið þið ekki mína myrku sál sjáið þið ekki tómið í augum mínum heyrið þið ekki tilfinningaleysi orða minna ERUÐ ÞIÐ BLIND ? haldið fyrir augun og hlustið, haldið fyrir eyrun og horfið, hlustið á hljóðlausa beiðni mína sem ég mynda með höndum mínum - meðan þið haldið fyrir augun til að heyra, meðan þið haldið fyrir eyrun til að sjá GERIÐ EITTHVAÐ - STANDIÐ UPP AF RASSINUM OG GERIÐ EITTHVAÐ hættið að einblína á það sem betur má fara horfið á það sem vel tókst gefið ykkur tíma til að horfa á það sem Guð myndi kalla kraftaverk - HORFIÐ Á MIG ekki horfa á mig gagnrýnum augum; horfið á mig eins og þið sjáið mig .. ekki eins og þið viljið sjá mig HLUSTIÐ Á MIG hættu að grípa fram í fyrir mér hættu að gagnrýna litlu orðin hættu að segja mér að bíða HLUSTAÐU NÚNA ... ... áður en það verður of seint ] [ Skin og skúrir falla á Feneyjarborg ferjur þræða götusundin mjó. Lítið er hús við moldarlagt markaðs torg þar Marco Polo áður á öldum bjó. Máttug kirkja Markúsar guðspjallamanns minnir á krossferðir fyrri tíma. Fjóreykið fegrar enn höllina hans hvikar á kistu flöktandi skíma. ] [ Draumur munksins er friður og kyrrð og syngja guðsorðið í klaustri stóru Daglangt biður hann um miskunn og dyggð og muldrar orðin,hvert lærissveinar fóru Þeir fóru að vatninu til syndaaflausnar og vígðu hvern annan í djúpið Hver og einn þeirra fékk bænarsvar Drottinn sagði : Biðjið og krjúpið. Bjargaðu sálu hans, miskunaðu henni Burtu víktu djöfla, og visku hana kenni Kaleikans máttur mun friðþægja þig Ó vesalings sálin, hún þolir enga bið ] [ Hví er ég að gráta? Ég óska þess að tárið renni tilbaka, get ég ekki spólað tilbaka? Ég vildi ég gæti það, Eða látið bara á pásu Og hugsað mig um stund. Ég vildi ég vissi það, af hverju ég er að gráta, kannski brosi ég of mikið, hyl tárin, eins og stíflu, Kárahnjúkar. En einn daginn mun hún bresta, hvað þá? Eftir of mikla sól bráðnar jökullinn, flóð, eftir of mikla gleði brestur varnargarðurinn, flóð. Hví er ég að gráta? Þegar lífið brosir við mér, ég á ekki rétt á því, þess vegna spóla ég bara tilbaka, og brosi, brosi eins og ég hef alltaf gert. ] [ Gígaröðin grá að lit greinist í höfuðáttir. Um lágnættið á Laka sit lukust upp svartar gáttir. Firna þytur færist nær fjarlæga ógn ég finn. Höggin heyrast er Kölski slær hamri á steðjann sinn. Berst að Núpstað þungur niður nálgast eldar ,jörðu svíður. Heggur hart hinn myrkvi smiður hrina neista úr arni ríður. Hunkubakkar, Holt og Nes hagar, tún og bæir. Á eyðibýlum örlög les eyddar kirkjujarðir. Systra Stapi hulinn hálfur stendur einn í suðurátt. Séra Jón hann biður sjálfur, um sigur þinn og bænarsátt. Í huga mér ég klerkinn sé, er helgi fyrir öllum biður. Krýpur einn við krossins tré, horfni hvíldarstaður. ] [ Friðarstaður postulans er stórt og mikið klaustur Hann hugsar mikið til Abrahams hve góður hann var og traustur Eining er sameiginleg í sálum vorum um sáttmála þessarar þjóðar Virðing og sættir í menningar ljóðum Konungurinn ávarp um friðinn boðar Hve dásamlegur, dýrlegur dagur nú Hve mikilfenglegur drottinn siðar Milli himins og jörð var byggð brú og sáttmálans örk í rétta átt miðar Magnþrungin ræða, prestsins í púlti hnitmiðað og skorinort,og hispurslaust Um vanærða lýðinn í seyru og sulti við þrumuræðu hann orti og brýndi raust \"Hvert fara særðar sálir er hafa ekki neitt Þær ganga villu vegar og til reiði hafa reitt\" \"Byggjum fyrir þær kirkju og brúum bilið stóra Ég hugsa til þess með væntumþykju Stofnum stóra kóra\" \"Fæðum, klæðum, um krisni fræðum tökum til hendi, og hugsum stórt Ráðum prest í hvítum klæðum sem um ljóðrænan krist hefur um ort\" ] [ Pabbi hugsar um barnið góða Sem er inni að gera mömmu óða Við fæðingu var það lítið, sætt og feitt En nú er það stórt, ljótt og illa greitt. Mamma segist ekki vilja það sjá Hún segist nýtt barn vilja fá Kötturinn undir það tekur Aðeins með að segja mjáááá...... ] [ Hér sit ég og sauma Saman þessa tauma Gegnum puttan auma Ég saumum lauma. Geng ég í gegnum skóginn Beint suður á bóginn Jólasveinnin gefur mér í skóinn Aðeins slæma tóninn. Tekur hann upp tólið Missir það í gólfið Lætur það í hólfið Sem liggur í gegnum gólfið. Ég hérna sit og skrifa Á morgunn muna ég klettin klifa Pottþétt er að ég muni detta niður Þá fyrir mér verður góður friður Ég eitt sinn átti kött Sem ég vildi fá að skíra Hróa-Hött En mamma fékk að ráða Og skírði greyið Bárða. ] [ Mér eitt sinn leið illa Átti mikið bágt Svo kynntist ég þér Með hverjum degi leið mér betur Og mig nú hlakkar til að vakna og vita af þér í hjarta mínu Sem eitt sinn var dökkt en er nú bjartara sem aldrei fyrr Ég vona alltaf að þú verðir með mér kyrr. Farir aldrei mér frá Ég hélt ég gæti ekki elskað né orðið ástfangin fyrr en ég sá þig Þá fyrst sá ég að ég gæti elskað og verið ástfanginn og verið elskaður á móti Vertu alltaf mín ég elska þig :******* ] [ Í morgunsárið kviknaði líf. Það reisti sig við þegar leið á morguninn. Um hádegið var það í fullum blóma. Fallegt á að líta. Eftir því sem leið á daginn hnignaði því. Þegar kvöldið kom var það úrvinda. Og dó. ] [ Blindandi endurskin glansandi grænmetis vankandi blástur vanstilltra hátalara næst: muna eftir sólgleraugum + eyrnatöppum Drengurinn í glerbúrinu fylgist með svarthvítum veruleika meðan ég dæmi hann samsekan þjóðfélaginu, verðlaginu og andskotans popplaginu sem glymur í þessu græna víti. ] [ Sveittir líkamar. Í kófinu neistar af augum. Munnurinn fær aðra tungu. Tjaldið fellur: við tekur grímulaust hold. ] [ “Við erum stödd hérna í ljóði eftir Tómas í Vesturbænum í frábæru grillveðri. Mér sýnist að degi sé farið að halla og að búast megi við gyrðnesku sólarlagi í kvöld og betra að vara sig á oddhvössum áhöldum.” Kaffiilmurinn úr næstu bók vekur mig af þessum draumi og beinir huganum að annarri veröld. ] [ Ég var afbrýðisamur í ástarþríhyrningi! Ég elskaði stúlkuna mína, stúlkan mín elskaði hamsturinn, hamsturinn elskaði ástina mína, ég hataði hamsturinn hennar og hamsturinn hataði mig. Ég var afbrýðisamur og mig vantaði athygli! Ég talaði við stúlkuna mína, stúlkan mín talaði við hamsturinn, hamsturinn knúsaði ástina mína, ég bölvaði hamstrinum hennar, og hamsturinn beit mig. Ég var afbrýðisamur og mig vantaði snertingu! Ég strauk stúlkunni minni, stúlkan mín strauk hamstrinum, hamsturinn trítlaði á ástinni minni, ég kleip hamsturinn hennar og hamsturinn klóraði mig. Ég var afbrýðisamur og mig vantaði gleði! Ég brosti til stúlkunnar minnar, stúlkan mín gantaðist við hamsturinn, hamsturinn kitlaði ástina mína, ég öskraði á hamsturinn hennar og hamsturinn kúkaði á mig. Ég var afbrýðisamur, þegar hamsturinn dó! Ég flissaði mót stúlkunni minni, stúlkan mín grét yfir hamstrinum, hamsturinn lá hjá ástinni minni, ég öfundaði hamstrinum hennar og hamsturinn glotti til mín. Ég var afbrýðisamur og er það enn! Ég er ekki hjá stúlkunni minni, stúlkan mín grætur hamsturinn, hamsturinn stal ástinni minni, ég fyrirlít hamstrinum hennar því hamsturinn sigraði mig. ] [ Ást er einhver furðuvera sem enginn botnar í hún getur farið illa með fólk sem hefur lent í illa í því ég hef reynt að elska en það ekkert gengur en eitt er víst ég nenni þessu ekki lengur elskaðu bara sjálfa þig og ekkert maus hættu að væla og fáðu þér í haus ég hef reynt að elska rangann mann en núna þarf að gjalda ég vil ei elska aftur því það er þvílík kvöl ég reyndi að vera bara ég og er því ekkert svöl ] [ Í gær komstu bara til að segja mér upp engin ástæða jú annars ólik viðhorf til lífsins. Og ég sem bara fór í mat með vinkonu. Allt tekur enda og ég sem hélt að nú. Hversvegna'' því við gátum hlegið saman. ] [ Ég stend á heilagri jörð og Jesús stendur þar vörð Þar heilagan boðskap kenni í kirkjunni með fjölmenni Ég þarf ei skrifta með tölvu Og með Jesú þarf enga völvu Ég úthelli anda guðs til barnanna enn fremur trúaðra safnaðarmeðlimana Einföld bæn, og signingu við hjarta Jesú setur ljósið í staðinn fyrir myrkrið svarta Einstök upplifun í Jesús með bros á vör frá honum fæ ég, mörg bænarsvör Lítil gjöf til Guðs hins mikla margfalldast í himnaríki Þetta er eins og að setja niður stikla ekki halda að hann þig svíki Eins og frumur sem margfaldast mun ávöxtur guðs rigna yfir fátæka Og til þín mun endurheimtast öll svörin koma, frá himni í búningi tækifæra ] [ Neonlýsandi augun Stara á þig í myrkrinu Elta augu þín Hvert sem þú lítur Þegar þú kveikir ljósið Feida þau út Og líta út eins og hálfgegnsæ drulla En þegar þú slekkur á ný Og allt er orðið niðadimmt Þá stara þau sem áður Ég ráðlegg þér bara Að horfa ekki í ljósið Þegar þú lokar augunum ] [ Kvíðinn er eins og dýr sem étur mann að innan brýtur niður sjálfstraustið mylur það í þúsund mola hakkar það í púslbita í hakkavél þessum púslbitum er erfitt að raða saman svo að úr verði einhver mynd Kvíðinn er ein af þeim tilfinningum sem maður hræðist og óttast ] [ Lá ég í lautu á Hlíðarenda Hugurinn hóf slíkt flug, hélt ætlaði aldrei að lenda. Draumsýnir og hugarórar, heyrðust mér álfakórar flytja mér framtíð mína framúrskarandi fína Ætli Gunnar, Hallgerður og Nína hafi fengið hugljómun sína á sama stað á öðrum tíma - og fengið líf sitt til að ríma? ] [ Þetta líf, þessi tilvera, þvílík barátta getur verið. Þú fæddist í heiminn, svo fallegur engill. Þú hófst þína göngu, sem reyndist svo torveld. Mótvindur mikill Honum aldrei linnti. Þú yfirgafst heiminn, með lærdóm mikinn. Þú fallegi engill - Guð blessi þig. ] [ Í draumum mínum dansar þú fyrir lokuðum augum Þú kitlar augnlok sem vilja aldrei opnast heldur halda sig við þig eina. Þú ert haltu mér/slepptu mér týpan, nýtur athygli minnar Þó ekki jafn og þú nýtur þess að kitla augnlokin til að sjá hvort ég muni opna þau og hætta að sjá... þig. Og auðblekktur hugurinn krafsar sig áfram í áttina að hinum einstaka kossi (ef ég kyssi þig þarna, á hugans víðlendum, berskjaldaður fyrir sjálfum mér, þá þýðir það að við munum aldrei kyssast í raun, en ef ég kyssi þig ekki... þá er ég að fresta því óumflýjanlega, því við munum aldrei kyssast. Ég hef áhyggjur af öllu. Mest þó af því að ég hafi áhyggjur.) Ég kyppist fram og til baka í átt að fingrum þínum, leyf mér að snerta þá aðeins eitt sinn Leyf mér... að sameinast þeim. Andlit þitt hleypur um, áfengisandi ástarinnar, heltekinn. Ó hve ég hata að elska þig. Andlit þitt dansar um, húðfrumurnar frjálsar. Andlit þitt breytist í allar þær sem ég hef áður elskað Allar þær sem ég hef áður misst. Ástin er tálsýn hugans segi ég sjálfum mér til að ýta frá hafsjó tilfinninga, um leið og sorg söknuðarins og sjálfsábendingarnar ætla að hamra mig með sleggju sinni. Og þú hlærð. Diddilídei. Og ætlarðu að gleypa mig, lengja kjaft þinn á ótrúverðugan hátt og umbreyta tönnum þínum í nagla; gleypa mig? Ætlarðu að binda enda á frumstæða og kannski ósmekklega tilraun mína til þess að öðlast hamingju? Ó hamingju, þú þungi hlutur massaleysis, bylting hugans hefst á fæðingu þinni. Ég hef ekki orku í að reyna klaufalegan keisaraskurð. Við verðum vísast að bíða örlítið lengur. Ég er í raun vakandi. ] [ Við höfðum lengi þráð. Fylgst með augum löngunar og forvitni glitra okkar á milli. Daðrið vængjum þanið fiðrildi. Og loksins kom að því: Þó maður hafi dýft fótunum ofan í baðkerið og aðlagað sig sælunni, hita baðvatnsins þá jafnast aldrei neitt við það, eða breytir unaðnum, hitanum og þegar maður dýfir öllum líkamanum ofan í baðið. Og maður getur ekki annað en lokað augunum og notið þessa augnabliks; augnablikið þar sem allar áhyggjur hverfa og breytast í rómantísk norðurljós. ] [ ef vegurinn nær svo langt má ég þá koma? ef ég hef gert eitthvað rangt má ég þá samt vona? ef augu mín ekki lengur vaka má ég þá sofa? ef ég læt myrkrið mig taka verð ég þá vofa? Ef ég held áfram að brosa mun ég þá fá gleði? Ef ég við skugga mína losa mun ég þá leggja líf mitt að veði? Ef ég held áfram að yrkja verð ég þá betri? Ef ég held áfram mig að styrkja verð ég þá betri? ég vona að mínír draumar deyi aldrei... því draumar leysast upp í sorg. Mín næstu skref verða í rétta átt. ] [ Þú ert fugl og í augum þínum hvílist forn fegurð í friði frá heimsins fári. Ó, ósköp ertu falleg. Þú hefur fært mér himininn, sem var mér áður svo fjarlægur úr glerbúri Og þó ég muni vísast gleyma þér innan 15sekúndna bugast hjarta mitt við þá tilhugsun að ég muni aldrei sameinast tér á himninum, milli skýjanna. ] [ Guð og gæfa fylgi þér á lífsins vegferð þinni. Jesús Kristur verndi þig á líkama,sál og sinni. ] [ Ljósið sem býr í hjarta mér, er besta gjöfin af höndum þér. Þú almáttugi Guð minn,ver þú hér um alla eilífð að leiðbeina mér. ] [ Með kærleika í hjarta ég glaður geng á braut. Þessa stuttu dýrðarstund, til fullnustu ég naut. ] [ Æðarnar á kúptu enni þínu minna mig á æðarnar í visnuðu laufi eða rætur. Í kvaðratrótinni má telja lífdaga þína. Haustið nálgast. ] [ Í leit að uppruna mínum fell ég þér að fótum, kyssi fald þinn, væti með tárum mínum grasrót þína. Að vitum mér leggur ilm moldar þinnar. ] [ Fiðringur mig færðist yfir fannst þér vera grár áhuginn sem ávallt lifir aðeins þannig og hrár Engin önnur veitir mér anda til að skrifa fegurðin sem fylgir þér fær mig vilja lifa ] [ Þar sem æskudraumarnir ganga hoknir við staf leika sér lítil börn með brostnar vonir að uppflosnuðum friðardúfum. ] [ Eftir að ég fór að opna bækur þá lokaðist ég. Eftir að ég lokaði bókunum þá opnaðist heimurinn. Nú geng ég lokaður um í opnum heimi og get illa greint hvert ég er að fara og hvaðan ég er að koma. Ég sé ekki hverjir eru á undan mér og hverjir eru á eftir mér. Mér gengur hvorki né rekur en stend svo sannarlega ekki í stað. Ég ætla að kaupa mér tyggjó. ] [ Ungur drengur fæðist sólbjartan vormorgun hann elst upp, fyrsta brosið, fyrsta skrefið. Árin líða það er vor á ný, ungur maður gengur herinn í. Með bros á barnslegri vör hann dreymir um frægð og frama en það er alveg sama það er stríð! Framtíðin bjarta, verður martröðin svarta. Hermaðurinn ræðst á óvina bæ tilfinningum kastað á glæ skítur á allt sem hreyfist. Hann rekst á 12 ára dreng sem hniprar sig í keng sem grætur og biður um grið. Hermannsheilinn hugsar það eru óvinirnir eða við. Byssan riðar til allt er yfirstaðið. Undir hermannshjálminum leynist ungur maður sem mannlegar tilfinningar toga í. Bærinn er yfirbugaður, allt líf máð burt. Er sigurvegararnir ganga stoltir í gegn þeir finna einn sem hefur reynst þeim lélegur þegn. Við hlið líks 12 ára óvins liggur hermaður sem hefur skotið sig höfuðið í gegn. ] [ Þú valdir fallegasta blómið - tókst það upp með rótunum og settir það í garðinn þinn, en þú hafðir bara átt plastblóm og varst fávís reynslulaus kona. Þú varst virkilega stolt af blóminu þínu - það var það sem vantaði til að fullkomna garðinn þinn, og þú varst stolt og glöð þegar þú sagðir frá vonum þínum. En þú fékkst samviskubit - því sumir sögðu að þú hefðir stolið blóminu, aðrir reyndu að særa þig með því að gera lítið úr blóminu þínu. Enginn óskaði þér hamingu eða vildi gleðjast með þér. - með þögninni og framkomunni sagði fólk hug sinn, og þú – sem alltaf hafðir staðið með vinum þínum - varst svikin. Í stað þess að horfa framan í fólk og segja; - “þetta er blómið mitt - það er fallegt og ég er stolt af því!” þá leistu undan og lést vanmáttinn naga þig að innan. Hávær illkvittin rödd innra með þér kallaði; - “þú átt fallega blómið ekki skilið!” og þú ákvaðst að trúa röddinni og trúa þeim sem voru að særa þig. Þú hættir að sinna blóminu þínu - þú hættir að hugsa um blómið, lést eins og það væri ekki til, og blómið byrjaði að vistna í garðinum þínum. Röddin kom aftur og hvíslaði að þér; - “sjáðu bara, - ég hafði rétt fyrir mér!” og þú trúðir röddinni, þó að hjarta þitt vissi miklu betur. Einu sinni var ég blóm í höndum þínum - frumstæð lífvera sem þurfti svo lítið til að geisla og ilma, en þú - hélst þú vissir allt! – en blóm þurfa vatn, umhyggju og yl. Þú lest bækur um blóm og átt tíma hjá sérfræðingum - en það eru bara bækur og fræði - um plastblóm og þú vitnar í fræðin, velur það sem hentar - en finnur samt ekki svarið. Kona! - hvernig gast látið mig visna í kjöltu þinni! ] [ Heima er best því úti er vest og rokið er mest og sólin er sest ] [ Ástin er eins og töfrar, sem kemur svo ljúf svo sterk, kemur við hjartað mitt eins og töfrar sem snerta mig svo ljúft djúpu sári,eins og töfrar.En svo yndisleg og ljuf. ] [ Á vængjum lífs flögrar hugur um ókomna framtíð á grænum grundum hugsana býst vonin við góðri uppskeru hefur hugur hennar hvarflað til sáningarinnar? ] [ Á nýjan stað í óravídd kem ég heim til mín í hjarta míns draums og veit þar með upp á hár hvert hann leiðir mig og við tökumst í hendur draumurinn og ég og verðum samferða um vegi lífsins þá örskotsstund sem hann varir og ég stend með mjúkar varir eftir koss hans draumsins lyfti mér upp á þann stað þar sem ögranir ögra ekki langanir vekja ekki losta og kyrrðin hefur fyrirvaralaust komið sér fyrir í huga mínum ýtt hugsunum til hliðar af mikilli festu ] [ Á Jónsmessunótt jónur okkar tvinna, jákvæða ást sem aldrei mun linna. Í greipum álfa og gríðar steina, gegni ég því að elska þig eina. ] [ Lítil stúlka undir mold, grafin köld og gleymd, æskan ekki fögur var, eilíf sorg og eimd. Blár og marinn líkaminn, blóðidrifið hár, sálin lamin og eiðilögð, í hjarta rist var sár! Fyrirgefning syndanna, heiftin köld sem ís, hnífurinn á bólakaf, brostið hjarta frís. Alein var hún og er hún enn, undir kaldri mold, brostið hjarta, brostin augu, marið líflaust hold. ] [ þú sankaðir saman öllum mínum sálarsyndum og dæmdi mig úr leik það er augljóst það er langt síðan þú horfðir í spegil ] [ ég leitaði hátt og lágt að nýrri sál því mín var skítug mín var ónothæf mín var rifin mín var ónýt þú saumaðir hana aftur saman og færði mér hana í nýjum umbúðum en ég hafnaði henni þóttist ekki þekkja hana ég fann og týndi ástinni líkt og Alzheimer sjúklingur þegar hún fann mig vissi ég ekki hver hún var og af hverju hún var að færa mér nýja sál þegar það var ekkert að minni ] [ Ég er biluð Þarf að fara í viðgerð skilur enginn að ég get bilað rétt eins og ofnotuð og vanhirt tölva þarf að updeita mig annars ræður minni mitt ekki við meiri upplýsingar System Overload... ] [ Með vindil og viskí í hönd á hóteli við heita strönd Heillandi í alla staði nýkominn úr baði Lékum okkur líkt og forðum áhyggjulaus alla daga en með óhugsuðum orðum eyðilagt og aldrei hægt að laga ] [ Með marblett á rassinum Sköllótt á píkunni skunda ég út í nóttina á fund við þig ] [ ÞAÐ er Og ÞAÐ er ekki! Hvað er ÞAÐ? ÞAÐ er allt og ÞAÐ er ekkert ÞAÐ er málið! ] [ Andlit þitt blasir við mér og minningar streyma fram Hörund þitt svo fagurt fíngert og slétt Strýk ég í huganum yfir Þú ert hjá mér ætíð og alltaf ég finn fyrir þér (andardrætti þínum á hálsi mér) Þú ert svo oft en samt ei meir Aðskild að eilífu Þú og ég. ] [ Ríddu mér Stríddu mér Haltu þér saman þetta er ekki lengur gaman Þú er blauður, snauður, sauður Þú er dauður öskra ég... ...á eftir vofu þinni ] [ (Nytsamur sakleysingi auglýsir eftir skónum sínum) Á ævi minni, hér vestur í heimi, hef ég séð of margar lélegar bíómyndir og á minni ævi í austurvegi, einnig þar hef ég séð margar margar lélegar bíómyndir og allar bækurnar sem ég hef lesið á minni miðlungs æfi… Ó já já, ég skapaði í huga mínum hreina snilld við lestur lélegra bóka! Þér trúlausir! Komið og sjáið hugmyndirnar, framkvæmdagleðina, bitra ávexti hugmyndasukksins! Komið og sjáið: VerdunPétursborgLeníngradGallipoli ÞýskalandNóttHinnaLönguHnífa KristalnóttSovétiðSíbería EyjaklasinnGulag Guernica VarsjáLondonStalíngrad Dresden BerlínAuschwitzBirkenau SovétiðEyjaklasinnGulag OgHirosímaVíetnamKambodía ChíleGvatemala AfganistanSovétið EyjaklasinnÍranÍrak Kúveit svo fylli ég í eyðunnar --- með blóði Sómala LíberíumannaRúandaHútúaTútsa BosníuMúslimaSerbaKróata og KosovoAlbanaSerba Ár til stefnu að skrá sig á sláturspjöldin aldarinnar. Með hluttekningu minnist ég Vinafélags Íslands og Albaníu (blessaðir einfeldingar) Jaa.. Vinafélag Íslands og Alþýðulýðveldisins Kína lifir. Það lifi! Í skúffu hjá miðaldra karlmanni í Reykjavík. Mikið var gaman að líta ljóðin hans Maó í Ráðhúsinu hérna… nei! Tölum ekki tæpitungu. Hvers mega sín tvö þúsund ljóðavers í móti tveim milljónum? Það eru dauðir landeigendur. Hvaða eilífu snilld, víðfeðmi í táknmáli, hversu smágerða fegurð þarf að setja í eitt ljóð, til að vega salt á móti þessum fimmtán milljónum smábænda sem þú drapst í einu Stóru stökki? Maó! Maó! Þessum smávinum varst þú enn ein hungurvofan. Tölum ekki tæpitungu, ég hef ekki gleymt Tíbet, samviskuföngum og frelsisvinum í hljóðlátri bæn set ég svart strik í kladda Kínversk Íslensku verslunarnefndarinnar (kladdanum stal ég í júníbyrjun frá Suðurlandsbraut 22, 108 Reykjavík og af lyktinni vissi ég strax að þetta voru blóðpeningar Rauða Alþýðuhersins af torgi hins himneska friðar) Ég veit að Himininn er opinn, kvalarópin stíga upp. Guð hlýtur að brosa í gegnum tárin, hann skilur allra best íroníu mannanna. Segi eins og er að á minni ævi hér fyrir vestan læk hef ég lesið of margar lélegar bíómyndir og austur á fjörðum einnig. Og alltof margar lélegar bækur hef ég séð út um allt. ,,Þegar bókabrennur hefjast líður ekki á löngu þar til farið verður að brenna fólk“ sagði kallinn Heinrich Heine. Og ég er að læra. Lesa og lesa betur til glöggvunar og hugrekkis. Eða, hef ég misskilið lífið? Og syndir mannana frá upphafi, get ekki borið þær á veikbyggðum herðum mínum, hún nægir mér Vígúlfaöldin númer eitt, hinn einasti og sanni tvöþúsund vandi! (Og tvöþúsund vandinn hvað?) Höfum við ekki nægilega marga tæknimenn? Tölvumenn? Vantar fleiri innstungur? Vandinn er svona einfaldur skammtur af samviskuvanda. 20. öldin gerir barasta ekkert ráð fyrir 21. öldinni. Það vantar dagsetninguna! Guð minn almáttugur! Og öll þessi börn komin í heiminn! Haldiði okkur verði fyrirgefið að drepa ekki alla, sérstaklega þegar Guðdómur dagsins í kísilflögunni fer að hiksta? Við höfðum þó Sprengjuna! Helsprengjuna. …Vantar dagsetninguna, enginn gerði ráð fyrir lífi. Falleinkunn 20.aldarinnar. Og Guð sagður dauður og ekki var það loftsteinn eða drepsótt, varla nokkur kirkja eða trúfélag að pynta, drepa.. - trúvillinga. Nei, aðeins maðurinn - sjálfur - ég - á eigin ábyrgð! Sífellt meira ein- manna- maður. Í raun og sannleik held ég að Guð hafi aðeins örsjaldan brosað í gegnum tárin. Drottinn, ég finn ekki skóna mína, held að ég hafi verið illa skóaður mestan part aldarinnar. Hefur nokkur séð skóna mína? ] [ Stund erndurskírnar, hugur minn og sál eru umkomulaus, nei – dauðvona. Stund endurskírnar hjarta og hugarþels. Ég vil tilbiðja þig Jesús Kristur, lofa þig Drottinn, herra minn og faðir. Skírnartími. Kom í hjarta mitt Jesús. Lof sé þér Drottinn Guð! ] [ Framtíðin er autt blað, handunnið af Guði. ] [ Hvað myndi gerast ef við íhuguðum Guð – eins oft og við opnum Outlookið í tölvunni, eða grömsum í GSM phonebook, já hvað myndi gerast? ] [ Jesúbarn í meyjarfaðmi morgunbjart með bústnar kinnar opnar ljósinu veg lætur drjúpa í lófa minn birtu stundirnar tólf og fáein tár, blóðlit. ] [ Sérðu fjall í fjarlægri sveit sérðu engi og tún hólinn minn heima og svarrbláa sanda Sérðu enn, eða hvað undir blákyrru hvolfi gullin mín í túnfæti og smávaxna fingur strika stafi í loftblámann stafir, orð færð til bókar í móbergið mjúka eða sérðu nokkuð fjall sérðu sporin mín yfir blákyrra nótt að fótskör Saltguðsins. ] [ Orð brennur á vörum blómgist í hjarta mér orðið og hljómi í trommuskógum smáfuglasöngur þetta granna ljóseygða tíst í trommuskógum orð og brennur á vörum blómgist í hjarta mér orðið. ] [ Á haf – fletinum glitra þúsundir smáfugla, deyja þegar sólin sest. ] [ Yrki hérna upp á grín aðeins bara um hina. Þú ert eina ástin mín elskulega vina. ] [ Löngunarfull horfir gangbrautin á uppblásinn sebrahestinn sem svífur lausbeislaður upp í dimmbláan himinn. Ástleitið umferðarljósið misskilur augnaráð gangbrautarinnar og blikkar vonglatt niður á götuna. Forvitin augu drengsins í bílnum sjá hest í rauðum bjarma fatast flugið og falla í svart-hvítan faðm. Skömmu síðar eru þau eitt. ] [ ef laufið eitt felur, þá liggur það kyrrt ef lagið þú syngur það ómar í senn ef blaðið þú lest þú eflaust þig fræðir ] [ augun þín blá þrungin af harmi, með tár á hvarmi þú horfir mig á. Ég þekkti hana og hún þekkti mig, hún var vinkona mín og ég vinur hennar. við vorum á gangi og til hennar hrifsaði straumhörð áin, er ég fann hana aftur þá var hún dáin. þrungin af harmi ég hélt ég myndi deyja, því það var svo margt sem ég vildi henni segja. Ástin kemur og ástin fer ástin hún bjó í hjarta mér og ást mín til þín er óendanleg og hana mun ég geyma hjá mér, að eilífu. ] [ Steinarnir sitja og stara, á stráin sem dansa en fjöllin hlæja bara en skýin ekki ansa. ] [ Bílarnir skríða eftir götunni, umferðarljósin blikka í sífellu, löggan tékkar á öllum, en umferðin heldur samt áfram. ] [ Í skólastofu, margar bækur, halla sér hver að annari og sofa. Það ískrar í blýöntum, pennaveskin hoppa um borðin og kennarinn fer yfir prófin. ] [ Komdu og kveiktu hjá mér bál Í kvöld skulum við yrkja saman. Og upphátt yfir alla; skál ! áður var allt svo gaman. Gang þú gleði og sorg til mín grátum og hlæjum ,finnum til. Gleymum gráma og drekkum vín glæðum eldinn um óttubil. Stundum syrgi ég söngvana mína staldraðu hér örlitla stund. Segðu mér söguna þína svífum yfir lokuð sund. Láttu ei erfiðið kúga þig eirum engu í samræðulist. Lífið er ljós sem vermir mig leikandi í veraldar vist. Siglum undir blásandi byr breytum siglingareglum. Á morgunn lemur dauðinn á dyr dreginn af þöndum seglum. ] [ Hingað komu góðir gestir Geir og Bassi heita þeir. Spilamenn þeir voru ei verstir. "Ver so good," ég segi ei meir. ] [ Lítið sætt barn, er að læra að ganga, þarna er garn, svo barnið fái að hanga. Lítið sætt barn, fór í litla rólu, barnið fór út, þar fann barnið fjólu. Lítið sætt barn, lítið barn grætur, lítið barn hlær, sefur um nætur, meðan sár þitt grær.. ] [ Þjáning hjartans, öskrandi sál gefðu mér frelsi, og kveitu bál Hreinsaðu mig frá allri sök veittu mér frelsi -svo ég hafi á því tök Neyðin, hungrið, og bjarvætturinn þér Nagandi sálarangist þegar ég geng frjáls, hver og einn með augum það sér og byrgðarnar þungu hef misst Þú frelsisins engill mættu mér í bæn og þegar á morgun andinn er sálarinnar spegill Bænin mín er ljúf og væn Svaraðu mér, svaraðu mér Er ég kalla á þína gæsku og uppá altari ég glaður fer og leiðréttu mína syndir mína æsku Ég tala frá hjartanu hreina nú og þetta fjallar allt um trú Engin getur tekið hana mér frá og þeir sem það sáu mikið brá Upp á fjallstind ég geng mína göngu og hugsa um, þegar börn liggja í vöggu Þau þurfa aðhlynningu, næringu strax á eftir , þeirra fæðingu. Ég aðhyllist ei mátt minn og meginn og Guð er yfir því ákaflega feginn Allt gengur sinn vanagang í trú Kannski var Mose bara mikið BRAKETHROUGH. Andagiftin með þínum styrk gefur mér innsæi, von og trú og sálin, ei hún er myrk hún er frelsuð hér og nú ] [ I. Samkomulag milli guðs og manna gefur þeim tækifæri trúna að kanna Sjóðurinn á himnum eru gimsteinar við vitum öll hvað hann í raun meinar II. Gæska og gull gefur himinsins náð og prestar hafa á sínum snærum ráð Kristilegt trúarþel í veikum mætti Mín von, trú, mitt ráð ég bætti III Varastu hið illa eins og pestina en bjóddu í bæinn góðu óvæntu gestina Ræktaðu andann og þitt trúarþel Guð telur bænir þínar ákvaflega vel IV Varðveittu fjölskyldu þina og vini eins og sjáaldur augna þinna sérstaklega dætur þínar og syni og mikilvægum verkefnum farðu að sinna ] [ sköp nokkur... blasir við honum! á næsta götuhorni Hann finnur fyrir nístandi hræðslu Hún nálgast með ógurlegum hraða! Hún mun drekkja honum Hún mun hakka hann í litla bita með klofnu endunum sem einnar líkjast krabbaklóm eður drápsvélum, en hvar stendur Hann þá? þegar píkuhár hafa hakkað Hann í bita? þvílík skömm! en Hann heldur þá bara kúlinu með því að segja að Hún hafi ekki verið rökuð, helvítis hóran! ] [ ég vaknaði í morgun með engar hendur og engar fætur. útlimirnir láu á gólfinu og mynduðu fagurrauðan en næstum svartan poll. ég dáðist lengi af fegurð þessarar útlima. og hugsaði hvaða snillingur gat skapað slíka snilld en hvaða geðsjúklingur gat fjarlægt hana frá restini. svarið lá í blóðinu O+ var svarið. það var svo nálægt fyrir ofan mig og þá man ég að það Var fyrir ofan mig sofandi. þannig að ég sagði; getur þú vaknað og sagt mér af hverju þú reifst eina snilld af 6 milljörðum í sundur? og svarið var; af því að ég er systir þín og þessi heimur rúmir bara eitt listaverk en ekki tvö ... þú ert tvö. og ég spurði; af hverju léstu það ekki nægja að ógna mér með hníf því þá væri ást mín til þín aflimuð í svörtum polli. ] [ Lífið marga gefur gleði gamanið þó oft reynist falt Skyldi ég þó með glöðu geði gjarnan lifa upp aftur allt. ] [ Brástjörnur bláar man ég bros líkt og ljómuðu perlur nálægð sem neistaði elding nafn er var ómfagur söngur. ] [ komdu ei heim ég hef þér gleymt láttu mig í friði það er of seint ég vil ekki fá þig hingað það er ekki illa meint get bara ekki hætt að elska þig sama hversu oft ég hef reynt ] [ manstu eftir stúlkunni með augun sem flissaði og hló dansaði og dó í kópskinni við sjó ? hana klæjaði alltaf í þau (rauðbrostin) og hún sá voðalega illa (stokkbólgin) þess vegna hló hún dátt því heimurinn var eintómt grín (grunnhygginn) í hennar djúpu augum sem sáu hann réttilega á röngunni (kotroskinn) við hin bíðum (vínhöfug) með tómar augntóftir (dagblind) eftir að hún komi aftur því stúlkan með augun sagði okkur alltaf frá öllu sem hún sá liggaligga lá . ] [ hann kyssir eins og páfagaukur er með beittar varir þurra tungu (og mig þyrstir í íslenskt fjallavatn til að skola honum í burtu) hann kyssir eins og hundur ég er öll blaut í framan af andfýlu hans (og með eyrun full af slefi) hann kyssir eins og froskur tungan langa vefst um mína alla leið niður í kok (og hótar að rífa hana með sér á bakaleiðinni upp í hann) en þú kyssir munúðarfullum kossi við undirtóna ástríðunnar með vott af dýrslegu eðli (og þá veit ég að þú gætir verið maður mér að skapi) ] [ Ég hugsa of mikið um það sem ég má ekki hugsa. Og hugsa um af hverju ég hugsa svo mikið um það. ég hugsa að ég verði að hugsa um að hætta að hugsa-eða ég hugsa það. ] [ Ég er að rembast við að vera í ástarsorg mér miðar betur ágætlega ] [ ég lét brennimerkja nafn þitt undir iljarnar mínar svo nú get ég trampað á þér í hverju skrefi ] [ þú skalt sko ekki fá mig til að gráta allavega ekki til að gráta þig ] [ bitförin sem þú skildir eftir milli læranna á mér eru að dofna en sárin á brjóstinu eru enn á sínum stað ] [ Stundum Stundum langar mig að gráta... Ég reyni og reyni En get það ekki Stundum langar mig að elska... Ég reyni og reyni En get það ekki Stundum langar mig að deyja... En ég reyni ekki ... Því þá mun ég aldrei gráta né elska. ] [ sumarið var biturt eins og aldarins ástarljóð þú áttir hug minn allan en þú reifst úr mér hjartað og felldir mig þar sem ég stóð sumarið var sykursætt ég hélt mig væri að dreyma en þú notaðir og plataðir mig ég elskaði og hataði þig þessar minningar ég mun ávallt geyma ] [ Líkt og hringir á vatni gárast ljósið á leið til hins óræða. Stjarneindir glitskærar drjúpa, kristaltær dögg, augnsilfur himnanna. Dauðadjúpt vatnið flýtur mjúklega yfir vitund sjálfs míns. Maurildin sindra í myrku yfirborðinu yfirborðinu. ] [ Að vera og ekki vera epískur. Það er spurningin sem fær hjólin til að snúast í höfði mér. Að lesa eitthvað sem varla hefur tilgang né meiningu fær mig ekki til að hugsa. Ekki til að bölva, það fær mig til að gera það andstæða. Það fær mig ekki til að sína nein viðbrögð. Það fær mig ekki til að sína nein viðbrögð. Ekki til að bölva, það fær mig til að gera það andstæða. né meiningu fær mig ekki til að hugsa. Að lesa eitthvað sem varla hefur tilgang til að snúast í höfði mér. Það er spurningin sem fær hjólið Að vera og ekki vera epískur. ] [ Ef mig myndi langa til að skjóta mig! Er ég að hugsa um að láta smíða fyrir mig gullkúlu í ókeypta 44kallybera pistoluna mína. Það þíðir ekkert annað en að ata huganum uppúr gulli ef ég ætla á annað borð að sletta honum á borðið eins og ég er að gera með þessum skriptum mínum. Aukþess Lauga ég hann hvort eð er uppúr gulli hvern dag með góðum lestri andlegra bókmennta og heimspeki... ] [ Þín orð segja mér margt, hjálpa mér að opna. Hleypa öllu út og stansa stundarkorn. Ég vil engu leyna fyrir þér, stend og horfi út í tómið. Blákalt á móti mér kemur skuggi sálar þinnar. Sýnir mér handfylli af ást og kastar til mín. Án þess að ég verð vör við það. Lendingin er mjúk. Armar mínir umlykja ást þína´, ég tek þéttingsfast tak. Allt snýst í ringulreiðinni. Mér tekst að horfast í augu við raunverleikann. Í nýju ljósi birtist allt. Fallið er hátt, ég dey. Ég dey í örmum ástar þinnar. ] [ Tómlegt tómarúm kemur og fer, stansar og horfir á heiminn. Heimurinn snýr baki og felur sig í myrkrinu, myrkrið umlykur skugga. Hún berst áfram, snýr einnig baki, en kemur, kemur alltaf aftur. ] [ Ég vildi ð ég gæti glatt heiminn en samt um leið vafið honum um fingur mér. ] [ fer sem með dimman dag sem elífarlag því svefsins mjúka hlið er erfit að leysa í þessari bið en sem fell munu brotna munu fossar blotna ] [ sjávarvindurinn hleypur burt yfir græna grasflöt dreifir gullnu gliti og rekur upp kríur kátur dans er stiginn í lofti í frjálsri hrynjandi ball er augum fólgið en fyllir mig sumargleði sjávarvindurinn siglir yfir bláan hnött sála mín afklæðist og slæst með í för ] [ Fýkur enn í fleiri skjól, og fækkar góðum málum. Forlaganna fjárans tól, fórnar góðum sálum. Ef æviskeiðið endist vel, engu ber að kvíða. Sjaldan verður manni um sel, sem sitthvað þarf að líða. Margur er af guði gjör, gætinn fjór og dreyminn. Aðrir hýsa heimskupör og hugs ei neitt um beinin. Fávizkan er fjári slæm, forðumst allir hana. Biðjum okkur betri bæn, en bíðum ekki bana. ] [ Öldrykkja og ökuleiðir, aldrei fara saman. Mjög til ama, margan meiðir, mest þá kárnar gaman. Bakkus karlinn beittur er, ber af öðrum kónum. Sannast bezt að segja hér, sækist eftir rónum. Kviðlingar á kvæðakvöldum og kærleiksríkum fundum. Hátíðlegar helgar höldum, á heimsins beztu stundum. ] [ Hann næðir, hann gnauðar, um neyðardyr hann nístir sem eitraður hnífur. Þú söknuði leynir, en lætur sem fyrr, að lokum hann hjarta þitt klýfur. ] [ Slowly drifted away from the group Mutual interest to leave Standing on the black path Cold, but ignoring it Snow pouring down A smile in the faint light Engraved to my memory For life ] [ Deep between the circles of black and white Experience, feelings, thoughts All become visible Life isn’t always as expected The colors between the circles Reflect the soul I can look further than many Easily seperate truth from lies Real feelings Can be read from the eyes ] [ Knocked on a door leading to my past Hoping for an answer, but not knowing which Waited a while, the heart was pounding Was this a dangerous move? A short time passed, seemed like forever There was an answer, the door opened Maybe I was hoping to be inviteded in But all the seats were taken ] [ Wandering the streets at night Once again, alone Thinking Hoping Walking past the house below the street Would this be the day? Fulfillment of endless journeys? Wishing Caught a glimps Could this be? Yes I can go home I am happier than before I will return For another journey by the house below the street ] [ Sitting on the edge Watching the ghosts of the desert Dark clouds closing in I have seen the future Need to break free Find serenity The ghosts have cleared my mind Taken me to a new path I have found my inner peace Please stay for a while ] [ My thougths are encrypted Yet so simple You could know Choose your reference And my mind will open Thoghts will flow To the one who knows Simple but complex Only one can hold The key to my thoughts ] [ My journey has begun Crossing the black desert Need to get away From the madness of life What is life If not enjoyed The meaning fades away The search has begun ] [ Þvottapoka skellir hann á skallann! Skarnalausan smyr hann svo í flýti! Flottheitin þau eiga drenginn allan! Aldrei má því sjást á honum lýti!!! Og barmenningar æsirinn allsgáður!!! Alla töfrar með söng og spili á kvöldin! Hann er því af dömunum mjög dáður, dáleiðir þær og tekur á þeim völdin! Að lokum tekur með sér aðeins eina! Oft þau laumast og hverfa útí húmið! Órúlega kaldur og iðinn við að reyna, eina að fá, til að velgja hjá sér rúmið! Danna Tjokkó tigna menn og prísa!!! Telst sá vera fyrirmynd bestu manna! Bólar ekki á að ættboginn fari að rísa? Er allt í lagi? Það mætti fara að kanna! ] [ Í háu melgresi liggur slóð við fjöruborð sólarhiti á húð minni sandur undir fótum Saltur keimur og bitur berst í hálsinn og ég teyga síðsumarið ] [ Sólin skín svo skært en þó er nístingskalt í hjarta mínu. Kaldur pollur freistar mín í sólinni en hann er of kaldur þegar ég sting mér út í. Þannig ert þú stundum. Brosið þitt svo skært og augun blika svo björt en þegar allt kemur til alls ertu bara eins og kaldur pollur sem freistar í sólskini. ] [ Haföldurnar gæla við fjöruborðið. Sólin er að setjast. Lítil lundapysja í skrautlegum pappakassa frá Ikea, gægist út um gat og bíður óþolinmóð eftir að losna úr prísund sinni. Ég tek gætilega utan um hana og held á henni niður að hafinu sem hún þekkir og þráir svo heitt. Ég rétti þér viðkvæman fuglinn og þú tekur utan um litla kroppinn og finnur litla hjartað berjast eins og brjálað. Þú finnur ylinn frá þessum litla varnarlausa kroppi. Þú leyfir vængjum hennar að leika frjálsum. Þú heldur með báðum höndum utan um hana og handleggir þínir lyfta henni hratt upp og niður og hún baðar út vængjunum og gerir sig líklega til flugs. Þegar þú finnur að hún er tilbúin leyfir þú henni að fljúga frjálsri út á hafið. Þú skilur hana og hún veit núna að þú ert bjargvættur hennar en ekki óvinur eins og hún hélt kannski fyrst. Við dokum við í fjörusandinum um stund og fylgjumst með henni fljúga og setjast loks á hafið. Þegar hún hverfur inn í sólsetrið höldum við heim á leið með skóna fulla af sandi og hjörtun full af gleði og pínulitlum söknuði eftir pysjunni litlu sem var svo viðkæm en samt svo sterk. Mestur er samt söknuðurinn eftir tímanum sem flýgur svo hratt. Tímanum, sem við njótum stundum svo vel en ekki alltaf. Ég óska að tíminn stæði kyrr og við gætum varðveitt þessa tilfinningu þegar við gerum eitthvað svona dásamlegt og náum að snerta fegurð lífsins. ] [ The smooth scent of the horizon fills the room exotic animals run around the passage with no intention what so ever the slow breeze warms the cheeks of children in the courtyard I glance at the ticking clock finding myself “noplace” at suppertime I feel the hunger arise in my digestive organs but do nothing about it when watching the dried up canals I get a feeling of gone well-being the people left poor and dirty in their primitive bungalows smiling and weeping on any given event of the humid day who am I to trust in this madness of shabby, rolling images I get restless, cold sweat, cold feat, and a silence of rumble The inside-doctor turns of the idiot-box while rolling his joint my padded world seems more dull and sterile moment to moment the vigorous bore reminds my of other times, and better ones The absurd beauty of escaping every situation perches on my shoulders everything seems to shine outside of the walls, the leather, the sterility I open my eyes and see… realize it’s all parts of the same asylum the walls are just bigger, more colorful and velvet padded the doctor will still follow his patient, from one ward to the other. ] [ Ég veit að þú hefur beðið eftir því finnst það rómantískt sætt en ég tileinka aldrei ljóð Ég er prinsippmaður þú verður að fyrirgefa ...gerðu það? því að ég tileinka aldrei ljóð Þó að ég sakni þín þegar þú sofnar í sama rúmi og ég fyrirgefðu ég tileinka bara aldrei ljóð Ég skal gefa þér allt, ást, umhyggju fullnægingar, tíma ...rúblur og skildinga en Sigga, ég tileinka aldrei ljóð ] [ Þú,fögur ogsaklaus í vögguni sefur, og friðarins ljósið það geislum þig vefur. Og,stoltur eg er því,þú dóttir mín ert, ég horfi og hugsa hve fögur þú sért. Mérvænt þykir um þig já,elskan mín kær, því,bros þitt,það virkar sem ljúfasti blær. Nú vina mín blíða guð varðveiti þig, og megi þig góðvild og hjartgöfgi prýða. Gylfi Valberg ] [ Just waiting New life, new sins Those tiny little things That control your life ] [ Dreamt all those years away Lived under a hat of tears Had no future, had no past Senseless and dead ] [ Tears and wishes All the love you gave me It all turned out to be Lies and kisses ] [ Elsku móðir mín kær ætíð varst þú mér nær, eg sakna þín,góða mamma mín. Já,mild var þín hönd er um vanga,þú straukst, ef eitthvað mér,bjátaði á. Við,minning'um þig geymum og aldrei við gleymum, hve trygg varst þú okkur og góð. Við kveðjum þig mamma, og geymum í ramma í hjart'okkar minningúm þig Gylfi Valberg ] [ Hún sat un stund svo stóð hún upp grátbólgin frá höfði til táa hún situr og bíður eftir móður sinni sem aldrei kom nú ein og yfirgefin hún hefur enn von en hjartað er horfið og hugurinn með en saklaust barnið sveltur í hel hún neitar að fara staðnum frá en hún visnar þessum stað á. ] [ Fossar niður fossaberg dynur hátt niður snjóhvítt hamraberg gengur yfir steina og hraun hin hinsta lífs raun. Farið niður klettaberg slétt á nýjan leik glampar á hamrabeltið hátt upp með árum dögunar. Lyðar í átt að túnunum rólega en ákveðið hægt en hljótt syndir stofni frá ] [ Auga Guðs vakir í djúpu vatninu. Ég velti mér laumulega framhjá. ] [ Í húmi næturinnar finn ég nálægð þína. Þú gengur fram hjá húsi mínu. Mynd þín birtist mér í svip, vafin ljóma minninganna. ] [ Morgunn. það heyrast hamarshögg yfir fjörðinn. Dagur. Söngur þinn og boðskapur friðar þrengist inn í sál mína. Kvöld. Stjörnurnar blika, ég felli tár yfir brottför þinni. ] [ Ert þú maður með reynslu? Ég er ekki maður með reynslu. Ef ég væri maður með reynslu þá væri ég ekki alvöru maður. Í dag varð líf mitt 5% styttra en líf einhvers annars sem lifir jafn löngu lífi. Ert þú maður með reynslu? Ég er skugginn af einhverjum, einhverjum sem lítur út einsog ég. Líkaminn er eins. ] [ Eða Eilífðin væri \"Eða\". Eða \"Eða\" væri Eilífð. Væri þá \"Eða\"eitthvað eða ekkert? Eða Hvað? ] [ Hvítar gárur hafa sjóinn, með hvítum fuglum að hefjast fyrir ofan, og hvít ský í leik þar efst. Enn,en er ekki melurinn gróinn, Tekur þá að lofa? Kannski þegar blessað lognið gefst. ] [ Það er hann Ágúst að hlusta. situr við glugga,og horfir á trén bursta, loftvog er inni stöðugt að falla, krakka að leik eftir sólinni að kalla. En hvað getur aumingja Ágúst hagað, í stöðugu standi sem ávalt er vaggað? ] [ Þú ert inn á því,að lífið sé ský? Það er svart,blátt,rautt,stórt og smátt, og veit eins og þú fjarska fát. það er spurning um þetta ský með öðrum lit, sem gefur því og þér kannski meira vit. ] [ risti allt svo djúpt ofaní.. mér varð flögurt bumbuslátturinn ómaði en hvar var ég? allur sálarmáttur minn allur handa þér! þú máttir eiga mig....... fannst ég standa berfætt í grasi.. alltí hunangi og blöðrum! en var hætt að vera viss.. gat hafa verið þú að reynað fjara mig út.. flaut gegnum allt ... þú lést mig svífa ...ég sveif. þú hefðir getað verið hann en ... ] [ lítil...stendur..horfir út dúnsæng með vængi .. það er hún ekkert jafn fallegt! heltekur með augnlitum sínum.. glóandi hári sínu ...nóturnar ljóma .. hún sá það.. ] [ þetta byrjaði hérna ...hahah! allt svo fáranlegt! kemur inn en ekkert skeður.. gömul stytta af þér þarna útí garði...kemur inn með mér ! styttan af þér og allt útum allt ! kem inn með látum ..alltof sokkin ...haha! fullt af viðrinum ...sköllóttum sem nýbónuðum ! sökktu þér ofaní ! hm! ekkert að gera nema synda áfram útí sjoppu með tannburstann á eftir sér ...öskrandi um að fá að hreinsa mig! innanfrá. ..haha! úff geðveiki og sýrutripp! þetta er nú meirameira! hlauptu bara niður stigan svo þú dettir og .. fáir marblett!...allt öskrandi, hoppandi um eins og Sex pistols á sínu skærasta ! hörmung að hlusta ..haha!..allt búið. stop! ] [ hann gætir vel að sér ...engan æsing hvernig fer hann að? ég hérna uppi ..og hann hefur ekki hugmynd..! hugsa ....of oft.. segi þó ekki mikið.. held því fjarri öðrum get ekki leyst það inní mér... nefið, ótrúlega bakið hvernig lýsi ég þessu?!? hann nálgast.. ég stífna.. ] [ Ojj!! þetta kemur ekki út sona hjá mér !! …aldrei aftur halda það þetta gæti farið út í öfga og gætir þú bara staðið þarna alsnakinn og mundir ekkert gera í ólátumnum sem koma út úr mér, en hvað var það?? Allt úti í móðu en ég sé samt of mikið, allt svo skírt og hann, hann er miðpunktur alheimsins, sögurnar snúast um hann ! hver hefði trúað því? Enginn! ...Nema þá kannski það, það sem leyndist undir náttborðinu, það sem lauk æfingu sinni með því að hnegja sig án nokkurra hreyfinga? Úff..hvernig læt ég ! á löngu verin farin að sofa en samt segir engin neitt.. því það skiptir öllum of miklu máli til þess að þora að spurja. Enginn særir neinn. því stimpillinn verður alltaf brennimerktur þér… hvort sem þú reynir að þorðast hitann eða lætur hann eiga sig. Oftar en einu sinni hefur hann orðið fyrir vonbrigðum…. alltof oft í seinustu viku! Datt tvisvar niður blómagarðinn rétt eftir gróðursetninguna, fékk sjö stírur á einni nóttu á stírulausa tímabilinu og hjó puttana af sér með reglustrikunni sem átti að gefa honum tíu! Úps en hver veit nema að þetta komi fyrir hana næst.. …þegar hún situr ein uppá kletti og vonast til að blómin farað springa út úr honum.. þá alltíeinu….BÚMM!!! Alltímauk og loftsprengingin verður að öllum pakkanum í heild sinni! ”HVAÐA PAKKA ÞANNA FOKKÍNSGS ÓGEÐIÐ ÞITT!!! ÞAÐ VAR ALDREI NEINN HELVÍTIS PÍKU PAKKI!!” .….en fyrr en varir er hún orðin ástfangin á ný, í gegnum óendanlegan veg ...þanga til 77. maí þá!... orðin en á ný ofugsnúin ! Ólgan færist yfir hana! Langar helst til að brjóta saman brynjur…. Búin að leysa frá skjóðunni!!..segir alltof mikið en hvað um það …það gerir ekkert til…. þetta gengur allt upp… kem bara betur út á endanum! ] [ sumarið leið svo hratt áður en ég vissi varstu svo farin guð líf þitt á enda batt og ég sit eftir óvarin vinkona ég trúi ey að þú sért ekki hér þú varst allt sem ég unni lífið svo hverfult, sýnist mér ég sýndi þér ást mína, sem best ég kunni. ] [ Þegar upp mun staðið, mun lífið lifa það. Að færa færri fórnir, svo kærleikurinn komist að. ] [ Hvar er þetta ljós? þetta ljós sem allir segja að sé handan við hornið? Ég fór framhjá horninu, alveg niður og aftur til baka. Samt sá ég ekkert ljós!!! ] [ Ég er inní litlu herbergi stend fyrir framan lokaða hurð enn sé í gegnum hana. Bakvið hurðina er strákurinn í draumum mínum, fallegur, skemmtilegur og kann að meta mig eins og ég er. Einblýnir ekki bara á útlit mitt að utan heldur fyrst og fremst útlitið að innan. Hann sér hjarta mitt! ] [ Eftir miðnættið læði ég fótum í stígvél og vef kroppinn í sumargræna kápu. Það er njókalt úti og hvergi bjarmar af tungli eða stjörnu. Bæjarbúar eru kvöldsvæfir – hvergi neinn á ferli og gluggar gapa dimmir við næturferðalangi. Nema í blokkinni við sundlaugina. Á þriðju hæð til hægri logar pappírslampi á borði og í skini hans miðaldra kona að lesa bréf frá manni. Hann býr á Svalbarða þessi maður og segir að bráðum breyti um árstíð og þetta eilífa helvítis myrkur hopi. Hann hlakki til að sjá litinn á húsunum í Longyearbænum. ] [ Úti snjóar án afláts og ég er ein heima að horfa út um gluggann. Grindverkið við bílskúrinn fennir hægt og hægt í kaf. Mér þykir vænt um snjó en í dag hefði ég heldur kosið sól sem kveikir birtu og yl í einmana hjörtum. Gamli maðurinn í kjallaranum mokar snjóinn frá útidyrunum, spýtir úr nös af og til en heldur svo áfram, einbeittur. Allt í einu fer ég að hugsa um epsadrillur sem ég keypti á Spáni fyrir fimmtán árum. Í lítilli hliðargötu og konan sem seldi mér þær vita tannlaus. Nú væri notalegt að hafa þær á fótunum, stíga niður með lokuð augun og ímynda sér að tágarnar væru eldgamalt hellulagt stræti í borg við Miðjarðarhafið ] [ Málverkahiminn yfir bænum einsog landslag á gamalli mynd sem hann Rembrandur málaði árið 1638. Einn í dálítilli herbergiskytru og kannski einmana eftir að hafa kastað blekteikningu af konu sem hann elskaði í sýkið. Seinna um kvöldið gæti hann hafa drukkið þrjár rauðvínsflöskur á skuggalegri knæpu og hlustaði á tannlausan ungverja spila sorgarmarsa á eldgamla harmónikku. ] [ Seinna rölti ég út í hermannagrænu kanaúlpunni til að setjast á bekk og glápa upp í dauflýstan glugga listakonunnar sem býr í bárujárnsklæddu húsi ekki langt frá okkur. Hún er dapurleg í heyfingum, klædd í óhreinan greiðsluslopp og situr einbeitt við stórt tréborð að rissa upp myndir af berum karlmönnum. Ég þekki suma þeirra og veit að hún er að hugsa um hvernig lífið væri núna – já, nákvæmlega einmitt núna – ef þessir menn hefðu efnt öll þessi loforð sem þeir sviku en svikið þau fáu heit sem þeir stóðu við. Hvernig? Svo rífur hún myndirnar og slekkur ljósið. Staulast að rauðum dívan í myrkrinu og leggst þar á bakið að þylja barnavers sem einhver kenndi henni fyrir löngu. Mér er orðið hrollkalt en það verður bara að hafa það. Ég sit áfram ein í hálfrökkri og hugsa mitt. ] [ Í morgunsárið er listakonan ein á gangi í skógræktinni meðan kallarnir sem vinna í verksmiðjunni tínast af næturvakt út úr blárri rútu og inn í húsin sín þar sem ungar og gamlar konur sofa með sjálfshjálparbækur og rómana á náttborðum. Hún er í rauðum síðkjól og pilsið þyrlast um fætur hennar þegar hún gengur yfir trébrúna við tjörnina og hugsar hvernig það væri að vera ein af þessum konum sem enn sofa í heitu rúmi meðan mennirnir þeirra hátta sig hljóðlega og skríða svo undir næturilmandi sængina. Svo hristir hún þessar hugsanir af sér vitandi að það myndi ekki henta henni – hún er bara ekki svoleiðis kona. Eftir litla stund kemur hún að bekk við tjörnina en þegar hún ætlar að setjast rekur hún augun í visna trjágrein sem liggur þarna og fær allt í einu þá flugu í höfuðið að þetta sé töfrasproti. Í honum búi einn og aðeins einn galdur og hún þarf ekkert að hugsa sig um áður en hún sveiflar sprotanum. ] [ Úti er heitur brennheitur sumarmorgunn en ég hef setið lengi uppi á háalofti að sortera biblíumyndir sem ég fékk í sunnudagaskólanum þegar ég var stelpa. Maðurinn minn hefur smíðað handa mér dálítinn kistill sem er hólfaður niður svo ég get komið skipulagi á myndirnar – eitt hólf fyrir hverja biblíufrásögn. Ég held mest upp á mynd þar sem Jesú reikar einn í Getsemane og haninn galar, líktog til merkis um hina þreföldu afneitun, en Jesú er mildur og rólegur á svipinn einsog ekkert alls ekkert hræðilegt hafi gerst og beygir sig niður til að lykta af lotusblómi. Inn um risgluggann berst ómur frá lifandi bænum og um hádegið klöngrast ég niður tréstigann. Helli mér ístei í bjórmuggu og sest með hana út á svalir. Með höfuðið fullt af tilvistarspurningum en engin svör á reiðum höndum þangað til mér verður litið niður götuna og sé hvernig fjallið bylgjast í ylbrá og gamli presturinn (sem kenndi mér meira en flestir um biblíusögurnar) hverfur á fjallahjóli inn í sumarhitann – glaður með heiminn þó atburðir í veröldinni séu ekki alltaf uppörfandi. ] [ Sefur sól und jarðar yggldri brún haust hvín vindurinn hvössum rómi úfið svelgir haf saklaust skip sorgmætt fellur regn í næturstríði. ] [ I'm sick and tired of this stupid game for I know I'll never be the same Constantly wondering when, where and how but there really is no going back now I tryed to let this pass my mind too scared to think of what I'd find if I looked closer inside my deepest dreams only to find that this isn't what it seems When I tryed to forget, tryed to move on I knew that the happy feeling was gone she never called, no words were spoken but alone at home my heart was broken Wishing we could have what we had for years when I held you and fought back all your fears when I kissed your tears and made you smile if only for a little while it made me happy, I love you so much but somehow you've gone out of touch ] [ Ég er með sama varaplan og Andri Snær nema í mínu tilfelli er kannski réttara að tala um draum. Svona eins og kínadraumar heróínneytenda. Silungstanginn var alveg með þetta í fyrstu bókinni sinni. Nær allar mínar uppáhalds bækur eru fyrstu bækur. Nema kannski í tilfelli Andra, þar finnst mér ástarhnötturinn fremstur. Þarf að spurja hann nokkurra spurninga um tengsl hans við alheimssamvitundina þegar að við hittumst á sléttunni. Sem sjálfsagt verður innan skamms ef svo fer sem fram horfir Annars veit ég ekki hvort hann þori að heilsa mér vitandi af því hvað ég á mörg firstadagsumslög. Kannski við bara smellum í eina fimmu og förum svo hvor sinn veg. Eins og njálsungur gerir við landann. Ég þyrfti að hala niður veraldarvefnum á harða diskinn í fartölvunni minni áður en ég héldi á sléttuna, vefurinn er fyrir löngu búinn að koma í stað langtímaminnis hjá mér. Það væri agalegt að vera á sléttunni og geta t.d ekki flett upp á hvað söngkonan í "enginn vafi" heitir, svona ef það myndi leita á mann. Svo er sléttan svo fögur að margir sem koma þangað verða fyrir svo magnaðri lífsreynslu að þeir vilja aldrei koma þangað aftur. Þetta hljómar kannski eins og öfugmæli en svona fer hræðslan um að minningarnar missi ljóman sinn, með menn. Þó það sé nú eiginlega gefins að miðnætursólin skíni næsta dag og næsta sumar. Það er reyndar líka gefið að sléttunni þykir lítið til dreymandi ferðalanga og skálda með skrítnar pælingar koma. Og talandi um að fá slagi gefins, þá er mikið spilað á sléttunni. Þó lítið sé gefið í þeirri spilamennsku. Nema kannski brennivín í mótherjann og áminningar á makkerinn, aldrei rauða spjaldið samt. Því það verður að halda spilinu gangandi, spila þar til sólin sest. Lítið annað að gera á sléttunni. ] [ Ís,sandur,snjór, svartur berjamór. Jökull,fjara,fjöll, forynjur og tröll. ] [ Ímyndaðu þér að þú sért víkingur og (höggvir mann og annan) klýfur mig herðar niður, í gegnum hjartað.... Þannig líður mér! ] [ Í nótt er hjarta mitt hljótt Í nótt stöðvaðist einn sterkasti vöðvi líkama míns Í nótt, fannst þú aðrar varir... ] [ Can anybody find their way home? Isn't it easier to be alone? I held you're heart in little hands, two five-six year olds making plans Now she goes her own way Frozen by the fear to stay thinking up some lies to say knowing they will hurt me plenty oh please God let them hurt me gently I'm lonely and I'm too tired to walk But for you you know I'll always walk and I've started walking, can't stop now No, I can't stop for anyone I've got troubles of my own I'm trying to find the way back home.. Don't laugh at me Don't turn you're eyes Can no more bear you're stinking lies Who ate you're heart? Who made you bleed Who holds the two of us apart? You're cold insinde no more crying for heavens sake just please stop lying No the wind can't tell you how I've been wanting to lay down in your arms again Will I feel you're love again and lay down with you're heart again? This is the last time I will say these words I remember the first time the first of many lies Something I didn't know of but still stuck in the middle of Many things I've forgotten now and seen way too little of Well I've been trying and trying as well as I've been dying and dying This is the last time I will show my face one last tender lie and I'm out of this place What happens when you forget you're name when old faces all look the same If only I don't bend and break then maybe I can stay awake Ii I can't stay on the surfice then maybe I'll forget to breathe. ] [ Lovesick bitter frozen heart in pain, waiting for life to start behind my big fake smile i'm aching behind my tears my heart is breaking been trying to lead my life out here but i'll soon fade away, disappear don't like the paths wich I have chosen when I look back it's all been frozen and I don't know myself anymore Been writing down my hopes and fears but it mostly just comes out in tears I donðt have a shelter, no home to go to no special place wich I can run to when morning comes I wish I had a place ti run to But I don't want to know myself anymore ] [ Ég sá þig, með vanilluís Og ég hugsaði með mér, ætli hann vilji bragða á súkkulaðiís? Og ég leyfði þér að smakka... (Þú gæddir þér á mér, ég gaf mig á þitt vald. Þvílíkt vald. Ég naut hverrar mínútu, eins og barn í sælgætisbúð, sem ég og var. Óviti að leika sér að eldnum, sem ég brenndi mig á, eldnum sem þú hafðir kveikt.) ...en þú sagðir að þér þætti súkkulaði ekki gott, skildir mig eftir með tóma skál, og fékkst þér jarðarberjaís ] [ á sólríkum sumardag er ég á sveimi hoppa og skoppa í lífsins vind syng um ást í blómaheimi og drekk hunang úr lífsins lind suð suð ég er lítil býfluga suð suð suð dáleiði þig með mínum ofurhug suð suð ég er með lítið rass sem ég dúndra svo í þig þú ert svo mikið skass að oddurinn heldur sig við mig la la la ég er lítil býfluga la la la la la næli í þig með mínum ofurhug litli býflugukallinn minn af hverju ertu svona daufur? þú blindast af fortíðarþrá þinni sem þú hefur nú í haldi! litli býflugurassinn minn af hverju ertu svona vitlaus að fatta ekki að það er ég sem flögra yfir besta hunanginu? hm hm ég er lítil býfluga hm hm hm læt þig eiga þig sjálfur og gleymi þér hm hm hm ... ] [ komdu hlaupandi ekki detta gatan er hruflótt ekki detta náðu markmiði þínu og haltu jafnvægi en ekki falla fallið er hærra en þú heldur á tímabili botnlaust þú kemur fallandi oní tómið ekki láta það gleypa þig ekki falla náðu tagi og náðu jafnvægi ekki detta reyndu að halda þér gripið mun þéttast og á lokum felluru ekki lengra þú kemur hlaupandi ekki falla því gatan er alltaf hruflótt... þú kemur dettandi og þú fellur ferð að væla en stendur þó upp og kemur hlaupandi til mín þetta er betra en ég veit ekki hvort þú munt falla ekki falla frá náðu endalausu jafnvægi og vertu hér ] [ Ég sá þig, hitti þig.. Ég kom til þín, kyssti þig.. Ég lá hjá þér, snerti þig.. Ég svaf hjá þér, missti þig.. Ég gaf þér mig, hvað gastu beðið um meira? ] [ Tískustraumar veiða margt í net, fet fyrir fet færast þeir um og tína, í annarra vöggu og gröfina þína. Allt sem þú hafðir fyrir því, verður að endurtakast aftur á ný, Rangt verður rétt,rétt verður net, á vogaskálum manndómsskortsins. ] [ Á meðan loðnan dælist upp úr skipinu keppist sjómaðurinn við að elska konuna. Á meðan aðrir taka sér Þingvallarhring er aðrir heima og eru þó menn Á meðan aðrir burðast með innkaupapoka sjást aðrir í baksýnisspeglum og gera ekki neitt. Á meðan fjólublá ljós grípa samkynhneigða Eru aðrir þröngsýnir út á víðavangi vafðir í plastfilmu. ] [ Ég var blautur fyrir utan og beið, í sakleysisdimmunni, það gaf á bátinn. Allt var svo bjart því sálinni sveið, svo var ég bara freknótti skátinn. Svo stóðstu á hólnum í bjartri nótt, og drullugi pytturinn lærði að brosa. Ég skildi aldrei hvað það leið fljót, spennan um þig og sálina að losa. ] [ Þú skýtur af teiginum lítilli kúlu, og ef til vill lendirðu í gryfjunni fúlu. Takmarkið var að hitta inn á bruat það getur þó reynst erfið þraut. Púttinu er líkt við kólfi í klukku þú púttar samt með mismikilli lukku, skjótirðu kúlunni allt of fast áttu það til að þurfa að djöflast. "Skorið" er lágt, þér gengur svo illa þá verður þú bara sálina að stilla. Alveg rólegur, það liggur ekkert á, þú verður eins og Tiger eftir smá. ] [ Þó að ég þekkti ykkur afar lítið, þá vökna mín augu samt. Að kveðja fólk, það er svo skrýtið því verður fólk aldrei vant. Komnar á fermingaaldur aðeins þrettán ár að baki. Á leið á skíðamót, kvödduð heiminn á andartaki. Áttuð eftir að upplifa ykkar drauma, en nú eruði englunum hjá. Ég sendi mína hlýju strauma og hugsa ykkar til. ] [ Ég er frábær gæi á eðal bíl. Stelpurnar elska mig, ég hef frábæran stíl. Flottur í tauinu ég ávallt er, einkum þegar ég skemmti mér. Hvað getur klikkað? Já hvað getur klikkað? Vá, ég er frábær! Ég er lítill ræfill sem enginn þekkir. Bólurnar og gleraugun fólkið blekkir. Fötin mín eru löngu dottin úr tísku, engum finnst flott þótt ég tali þýsku. Hvað get ég gert? Æ, hvað get ég gert? Oh, ég er vonlaus! ] [ Það var sumarið ´98 er ég var ástfanginn í fyrsta sinn. Svo sannarlega var það ást, mín fyrsta og nýjasta ást. Hún var eitthvað frjáls, svo frjáls og óhefluð, hún kunni að fá mig til að brosa, með því að brosa sjálf og kissa mig á kinn. Rótleisið hafði hún frá gamla, hann hafði ferðast víða til að spila á gítar, og ást mín fór víst með til að elta far sinn gamla. En þegr hún fór mér þá skyldi hún eftir þetta blað, þettta þunga þunga blað með orðum sumargleði. ] [ Ég geng í skóla, menntaskóla. Þar vakna ég alltaf snemma til að fara í skólann, það getur tekið á, og komið niður á markmiðum manns í lífinu, því að drengur eins og ég get lítið leyft mér að fara út á vegkant, stefnan er sett svo hátt, vissulega vill ég komast yfir stelpu, það væri heldur ekkert leiðinlegt að vera með gullskeið og virðingaverðan kjaft, en það er bara einfaldlega alls ekki í boði. Það sem er á boðstolnum er selt undir borðið, það er bara verst að það er dúkur á borðinu, dúkur sem nær niður á gólf. Síðan eru jú einhverjir sem geta ekki klárað sínar gulrætur, þá reynir maður að hlaupa til, en veit ekkert hvaða leið mun leiða mann úr völundarhúsinu. ] [ Sagt hefur verið um fólk eins og mig, að fáa það snerti og sjaldnar sé það snert Því miður ég segi þá segja þeir satt, því fólk eins og ég er lítð að sjá þú herpesa færð og gyllinæð með. Það situr við borð, semur ljóð, og samkvæmislífið það sjaldan sér því fáa það snertir og sjaldnar er það snert. ] [ Ég er tilfinngalaus, vinir minir segja mér sögur sínar og drauma en ég finn ekkert kinka kolli og labba burt jafnvel nikótín kemur mér ekki til, og ég sit hér og sem þetta ljóð, þetta ljóð sem er steindautt eins og ég ] [ vildi að ég gæti skýrt með orðum ást mína til þín vinur, eins og forðum þegar þú komst til mín Þú varst svo fagur birtan umlauk þig það er þó þinn hagur að þú losnir loksins við mig ég hef ekkert að gefa bara sorg og eymd reyni sálina að sefa vona að ég sé ekki gleymd ] [ Hver á ást skilið, sem getur ekki skilið? Til hvers að elska, ef ástin er blind? Hvað þarf til að brúa á milli okkar bilið? Ég vil bara elska, og lifa í synd! Ég vil þig bara elska, en ástin er blind. ] [ Úti í horni situr agnarsmá stelpa -stelpa sem eitt sinn fyllti allt herbergið ] [ \"Ég er búin að vera svooo óheppin í dag,\" sagði stelpan afturí strætó, \"ég labbaði á skáp og sjáiði, það blæðir!\" hélt hún áfram við vinkonur sínar. Mikið vildi ég að ég væri svona óheppin eins og hún; að það sem ég hefði labbað á væri bara skápur og hægt væri að setja plástur þar sem mig blæðir ] [ Innst inni í myrkviðum þúfnalandsins sitjum við saman í hring og vefum dumbrauðan lit blóðsins í sægrænt lauf saumum að ljósinu stáltenntan hring æ, þessar iðandi hendur. ] [ Þar sem fuglarnir elskuðust í fjörunni og rigningin hægði á sér og féll þungt til jarðar lagði lítil stúlka munn uppað eyra föður síns og spurði er ástin loftbóla? ] [ Hvaðan kemur myrkrið sem gerir það að verkum að okkur langar öll út að dansa. Okkur langar að dansa um í glitrandi frostinu, ein og hugsandi. Aðrir hafa greinilega hugsað það sama svo dansararnir skríða á næsta bar skjálfandi af kulda. ] [ Var rétt kominn niðreftir þá reis upp á himininn Véboði kominn yfir grýtta hæð í spor mín af akrinum sverð yfir hugrakkar borgir yfir þúsundir þúsunda og ástarorð og kærleik Vígúlfur, kominn yfir grýtta hæð og fellir sín tíþúsund í plógfarið. ] [ Velkominn Véboði Sjáðu manninn Vígúlfur það er brostinn tunglfugl í auganu, innar bærist vængur, bærist lauf, vængur og sérðu enn, eða hvað Jesúsbarnið, morgunbjart í meyjarfaðmi? ] [ Agnarögn Dögg þarna er hvítur veggur botnfrosið lækjarhjal kýprusviður öræfakuldi dimmutré í suðurhlíðum blóð – berg á himni heiðskírt fjall og sumarský vindlétt laufgað sumarský. ] [ Takk fyrir daginn hafði hún sagt Með nýfundinn glampa í augunum -sjáumst á morgun var það síðasta sem ég heyrði hana segja ] [ í fallega garðinum rammgirta víggirta unir sér enginn þar ríkir þrúgandi þögn þótt grasið fagni dögginni falið í húminu og laufið leiti út gegnum rammgerða rimla - - - í hálfkæringi grípur hönd mín ilmandi blað og slítur en hjarta mitt fyllist harmi um leið því þó í lófa mínum laufið fagni langþráðu frelsi og ilmi enn er það farið að fölna ] [ Ó, hve heitt ég óska að varir okkar gætu heilsast líkt og hendur í handabandi... Hve heitt ég þrái að liggja í faðmi þínum líkt og sjórinn umvefur ströndina... Er það of seint eða mun minn tími koma? ] [ Það er fyrst þegar maður byrjar að taka eftir litlu hlutunum í hringum sig að maður fær tækifæri á því að fegra lífið umfram default settings. ] [ ég er frjálst fall ég botna það með fléttum mínum sem ná alveg niður ó ó hví hví botna ég eigi mitt eigið fall guð taktu á móti hári mínu og helgaðu það rekkju þinni. ] [ Ég er rósin sem blómgast að hausti ég er unglingsins elliglöp ölið sem alkinn ei smakkar og ástin sem kann bara rök ég er marglytta í fjörunnar sandi ég er fjúkandi bylur í sól ég er saga sem löngu er liðin ég er álfur sem kom út úr hól. ] [ ostur er holur ostur er hollur ostur er góður .........en smjörið er betra!! ] [ Yrðiru ei á mig, ég hunsa þig.. Ferðu frá mér, ég horfi á eftir.. Sértu mér nær, ég skal vera þér kær.. En viljiru ei, segðu þá nei! Því ertu svo kaldur, er ég hlýju mína býð? Þó ég sé þér nær, ertu órafjarri.. Þú lætur mig hanga á ystu nöf.. En grípur mig samt er ég virðist falla.. Svarar ei, þó á þig kalla.. Ég veit ég þig vil, en þig ei skil.. Spurningin aðeins ein.. Viltu mér halda, eða sleppa? ] [ Ég óð blóð um langa slóð heyrði hljóð og heilt flóð af viðbjóð þegar ég stóð og hlóð þetta ljóð. Inná bar þeir börðust með stærðar mar þeir vörðust hljómuðu vein,þegar skein niðrí bein eftir stein og tálgaða grein. Svitinn, tárinn og augnaþunginn einn þeirra í bakið stunginn fleygur verður ei þrastarunginn eftir gríðar högg í punginn maður situr eftir þrunginn með sprunginn sköflunginn. ] [ Kraftaverka konu eina þekki ég sem kann að feta lífsins stíg á eigin veg. Hörkutól og hjartagóð er allt í senn og hefur meira bisnessskyn en flestir menn! Saga hennar sorgleg víst á köflum er, samt gríðarsterka trú á æðri öflum ber. Í langan tíma logaði sjálft heimilið loks trúnni betri tíma á flest öll gleymdum við. Sóknum slíkum samt ein alltaf varðist hún með samúð bæði og kærleik gegn þeim barðist hún. Stolt og óhrædd stóð hún alltaf föst við sitt jafn-sterka konu hef ég aldrei fyrir hitt. Í hennar æðum flæðir mikið flökkublóð og franskan hennar orðin líka nokkuð góð! Hún heimsótt hefur þegar ótal ókunn lönd hyggur ekki nægja að liggja á sólarströnd. Afrek hennar ekki eru öll talin hér. eitthvað meira gleymsku í nú falið er. Minnumst þó að mömmu okkar skuldum við meira að segja okkar fyrsta afmælið! Að hitta þessa konu öllum heiður er. Frá henni ekki nokkur maður leiður fer. Hátíðlega höldum upp á hennar dag: hátt og snjallt við gefum henni þennan brag. ] [ Eineygða og alvísa á ég völvu. Fregnir mér færir handan. Vafra um rafeinda vef með tölvu, finn ég þar frænda minn, Gandar. Skyggndi í skjáinn skein þar á margt, minjar frá Óðins ríki. Fýsir í frændans fagurt skart, silfur í Mjölnis líki. Hamar Þórs heimta háls minn og ljóð. Völundi greiðslu má gjalda. Launin hér liggja, lét þau í sjóð. Hverning má borgun nú valda fyrir skartgripi fornalda? ] [ Von bráðar er að sleppa ....strax ] [ Þú, þú fagra fljóð þú svo fögur, að se bara þig þú átt mig allan, bara mig þú ert mer allt. ] [ Sjálfumglaðir sómamenn, sífellt þráðinn spinna. Samt sem áður söknum enn, sigra þeirra að finna, Biturleika og beiskju ber, en blíðuhótin fjærri. Augljóslega illa fer, ef eigi finnur fögnuð nærri. Framtakssamir Fjölvísmenn, fyrirmyndir skapa. síst af öllu síðri enn, en sérfræðingar raka. Heiðursmenn og heldri konur, halda hópinn enn. Vífirlengur - varist vomur, virðum góða menn. ] [ Það er svo margt sem vita þarf ef maður stofnar heimili, svo merkilega geta hlutir snúist við á stundinni. Allir þurfa allavega að eiga íbúð fallega og sófasett að sitja í og sjónvarp til að týnast í, og þvottavél og saumavél og hrærivél og eldavél og myndavél og sláttuvél og hakkavél og vaðstigvél og berjara og bankara og dísildós upptakkara, alsjálfvirkan tannbursta og rafmagnsplötuspilara. Nauðsynlegt er líka að eiga frystikistu fallega, flestir eru þreyttir eftir akstur tryllitækanna. Og vinna alla vikuna og vitanlega sunnudaga, helst líka alla helgidaga, vinnan göfgar vissulega. Já nauðsynlegt er sannarlega að hafa úti öll sín ráð, enginn gefur konu auga fyrr en þessu marki er náð. Og ef þú verður duglegur og gráðugur og gírugur og fram úr hófi hófsamur, þú nærð því marki níræður. Ég veit þú verður þreyttur eftir þetta allt um jólin. Farðu þá og fleygðu þér í nýja rafmagnsstólinn. ] [ Eitt er ég alveg viss um, sem enginn maður sér, að það eru njálar að naga neðri endann á mér. Og þeir hafa nagað og nagað og nú er komið haust. Og ég hef klórað og klórað en kannski einum of laust. Utan við endaþarminn er ofurlítil skor. Þar get ég svarið að sátu sautján stykki í vor. Og það er eins satt og sit ég hér, að sumir skriðu inn. Þeir eðla sér innan í manni, andskotans kvikindin. ] [ 9 Við hryssurnar fyrir vagni Faraós líki ég þér, vina mín. ] [ 13 Ávextir fíkjutrésins eru þegar farnir að þroskast, og ilminn leggur af blómstrandi vínviðnum. Stattu upp, vina mín, fríða mín, æ kom þú! ] [ 3 "Ég er komin úr kyrtlinum, hvernig ætti ég að fara í hann aftur? Ég hefi laugað fæturna, hvernig ætti ég að óhreinka þá aftur?" ] [ 2 skaut þitt kringlótt skál, er eigi má skorta vínblönduna, kviður þinn hveitibingur, kringsettur liljum, 3 brjóst þín eins og tveir rádýrskálfar, skóggeitar-tvíburar. ] [ Í garðinum miðjum svigna greinarnar af frjósemi Bjarg bifast Í líkklæðum rís morgundagurinn rósinfingraður Framandi smiður neglir hann miskunnarlaust við sjóndeildarhringinn með dularfullum ávexti Þessi maður er að gera út af við mig Sagði sólin Og settist ] [ Á botni lítillar tjarnar liggja svartir steinar og horfa gegnum tárin Stormurinn gárar skálarnar fyllast bráðnandi fönn Gegnum bergfléttu mosa og gránað hrím skín myrkrabrunnur Get ég nokkurn tíman fyrirgefið ykkur? Spurði hann og drakk í sig beiskan sólroðann ] [ Handan við gráan ís og frosin tún í fjarlægu herbergi var autt blað ég skrifaði logandi ljóð og við horfðumst í augu mjúkur ljómi teygði sig í draum gegnum glugga, brakandi hveitiakra og yfir lygna tjörn ] [ Hér sit ég niðri í fjöru alein með dálitla störu en ég geri samt enga kröfu ég er fastur niðri í fjöru ] [ Ástin er falleg, ástin er blind. Ástin hefur enga rödd. Hún reynir að tala, en hún getur það ekki.... ] [ Mig langar að fljúga, upp í geim. Og heilsa geimförunum, á leið þeirra heim. Svo langar mig hærra, en ekki of hátt. Er ekki bara best að hætta, áður en flugið verður of langt. Þegar svo langt er komið, vill fólk ekki hætta. Það vill alltaf meira.... en ég er ekki fólk svo ég sest bara á geimstein og bíð eftir mömmu. ] [ Blaðberinn tekur blaðið úr töskunni, og lítur yfir bardagasvæðið. Snjórinn hylur allt, og skuggar trjánna reyna að fela hvíta litinn. Hann reynir að halda jafnvægi í rokinu, og ætlar sér að leggja af stað. Fyrsta skrefið í snjóhólinn er erfitt, og hann er við það að snúa við. Kuldinn gægist inn um götin á hönskunum, og læðist inn í skóinn. Blaðberinn stoppar í nokkrar sekúndur, og hugsar um krónurnar sem hann er að fá fyrir þetta. Svo ákveður hann að gera atlögu, og hleypur í gegn um snjóinn og dimmuna eins og bardagamaður. Ræðst á lúguna, og treður blaðinu inn. Svo dokar hann við í hlýjunni, og áttar sig á því að verkefnið er aðeins hálfnað.... ] [ Sannleikurinn er eins og bolti í ruðningsleik Þeim er hrósað sem láta boltann ganga á milli sín Þeim sem vilja halda fast í hann troðið í svaðið ] [ Af hverju ertu svona skemmtileg, af hverju ertu svona falleg. Ég skil ekki af hverju ég er ekki löngu búinn að bjóða þér út. Ætti ég kannski að prufa? Eða kannski á ég ekki séns.... Hverjum er ekki sama um sénsa, kannski fæ ég ekki annað tækifæri. Ég verð að ná því, grípa tækifærið. Er ég kannski of seinn? Svona stelpa er örugglega fullbókuð.... Hverjum er ekki sama, maður á alltaf að prufa allt. Hafragraut og bjúgu, ekkert annað er valkostur. En áður en ég næ að hugsa er hún búinn að segja "já" og kyssa mig.... og við löbbum af stað á stefnumót. ] [ Ef þú ert að skoða þetta, þá er þetta samþykkt ljóð. ] [ Hefurðu litið í spegil, horft inn í þig, séð þig að innan og séð hversu ljótur þú ert í raun? Hefurðu litið í spegil, horft djúpt inn í augun, sokkið dýpra og dýpra þangað til þú kemur að uppsprettu sársaukans? Hefurðu einhvertíman horft framhjá jarðneska útliti hégómans og séð það sem er í raun, en felur sig svo vel. ] [ ,,Ekki hlaupa, sprengjan springur." ] [ Hveiti Vatn Mjólk Sykur Gestir ] [ Fjólublá glans myndavél hér hjá mér fyrir mig og mínar glansmyndir ] [ Daginn sem ég dey verður mín minnst með, fána í hálfa stöng. ] [ Í sandinum sátum við, og sýndum hvort öðru blíðuhót. Þar fundum við frið, frammi fyrir hafsins öldurót. Við horfðum á hafið bærast, og kæta ástfangin hjörtu, og leyfðum mánaskininu að nærast á ástinni okkar björtu. Söngur hafsins gleymist seint, slíkur var hans kraftur. Raunalega höfum við ekki reynt að ryfja hann upp aftur. ] [ Af hverju er þetta svona boring, öllum finnst þetta leiðinlegt. En af hverju, af hverju eru þá allir að gera þetta. Við getum hætt núna, og farið heim að sofa. En allir halda áfram, af því að enginn hugsar eins og ég. Ég er sérstakur.... ] [ mánaglimmerið á flauelssvörtu hafi á hug minn allan í faðmlagi haustnætur við svanasöng sumardags ] [ án okkar erum við ég ] [ Vetrarhjartað þiðnar Ég veit ekki hvort ég held út annað svona sumar. Þetta sumar var of gott. Og ég, ógæfumaðurinn, hugsa til þess með hryllingi ef næsta sumar verður enn betra. - - - Nú er haust og ég bölva sólinni. Þið hafið séð til mín standa úti á palli steyta hnefa til himins. Ég öskra bölbænir fullum hálsi því ylur og birta baða umhverfið allt er svo fallegt. Fegurðin bræðir innviði hjartans. Þar sem áður var ís drýpur nú vatn svo tært og hreint að út af brjóstinu leggur ljósbrot líkt og af demanti sem finnur sinn fyrsta dag. Aðeins regnbogans er saknað. - - - Kominn er vetur snjókorn féll á veginn. Haustið sem mildaði skap mitt er horfið. Það sem áður var gefið frjálst er aftur tekið að frjósa. Þegar vorar mun mér skiljast að árstíðir míns innri manns eru ótengdar þeim ytri. Og vetrarhjartað þiðnar. ] [ Krí! Krí! Ögrandi fuglar minna mig enn á móðurást ] [ Það leynist land allra drauma drauma sem rætast aldrei landið er miðpunktur heimsins heimsins sem þú sérð aldrei þar eru akrar af ilmandi blómum blómum sem hafa engan lit þar sest sólin aldrei og grasið bara vex það vex svo hratt að það deyr jafn óðum,það deyr það jafnast við jörðu og það byrjar á nýtt að vaxa,sem aldrei fyrr þar fljúga fuglar og syngja í kór þeir syngja ljóð eftir látin skáld skáld sem engin þekkir en ljóðin þekkja allir því ljóðin sem fuglarnir syngja eru þjóðsöngur landsins landsins sem engin sér. ] [ Beljandi Blár taktu hana freyddu við fætur hennar róaðu allt sem inn í henni er ] [ Ert þú svona persóna sem vill verða geimfari? Eða viltu kannski verða ræstitæknir? Kannski köfunarsérfræðingur? Borðar þú brauð með sultu, eða bara með osti og smjöri? Tekur þú upp rusl sem þú sérð á götunni, eða ert þú sá sem hendir því á hana? Ertu rauðhærð eða brúnhærð, feimin eða kjarkmikil? Íþróttamanneskja? Eða anti-sportisti? Mjúk persóna eða hörð? Skapmikil eða róleg? Kannski ertu smámunasöm, eða tekur ekki eftir neinu? En mér er svo sem alveg nákvæmlega sama. Ég elska þig. ] [ Sem rósbleikt ský var vitund mín á vetrarnæturhimni en varð að engu í augum þér og hvarf í tómið - hvarf í ískalt tómið. ] [ Í safírblárri nóttinni seiðir söngur vindanna. Rósbleik skel ristir mjúklega Ránar fald. Marbárur rísa og hníga í hröðum hjartslætti sjávarins. Röðulglóð sveipar láð og lög er Lofnargyðjan stígur fullsköpuð úr skínandi djúpinu. Ort undir áhrifum af mynd Bottichellis, Venus. ] [ Ég horfi djúpt í augun á sjálfum mér og læt það vaða í vaskinn. Og það er trú mín að tunglið ilmi eins og hálfétið epli meðan augað á mér blæðir út í nóttina eins og ofbráð og ótímabær dagrenning. Það er helvítis klisja en ég kemst ekki fyrir hana að í ljóðum eru aðeins tveir tímar dagur og nótt alltaf upphaf og endir aldrei þetta áberandi miðlæga sem læsir allt í greyp sinni eins og gráðugur svefnhnefi sem stígur og hnígur eins og velsmurður traktor eða hafalda. Ég elskaði einu sinni konu með vaxtalag mótorhjóls en tilfinningar mínar brunnu upp eins og hjólbarði sem hringsnýst á svörtu malbiki og allt stefndi í mikla hvell en það kom ekkert út úr þessu engin sköpun enginn nýr heimur ekki neitt, nema ófullnægð óburðug hvöt til að sökkva höndunum aftan í hárið á annarri manneskju rífa fast og segja: Þú ert mitt. Ég geri þetta stundum við sjálfan mig. Tekk í hnakkadrambið á mér og toga í skinnið umkomulaus eins og blautur kettlingur og þó ég megni ekki að lofta mér þá veit ég að minnsta kosti að líf mitt er í mínum eigin höndum 85 kílógramma þungt og þyngist meðan ég tóri. Þetta flak liggur ekki á öðrum. ] [ Þegar haustvindar bæra rauðu valmúanna á akrinum heyrist veikur ómur úr hræddu fuglshjarta þá fljúga farfuglar í suðurátt þegar valmúinn fellir rauð blöðin á akrinum er ferðin hafin eins og lævís minkur læðist vetrardrunginn að eins og mara leggst hann yfir en í litlu fuglshjarta blómstra rauðir valmúar í sólinni fyrir sunnan. ] [ Alheimurinn snýst í hringi við eftir miðnættursól.. Ég labba úti á götu með litlu vinum mínum.. Ég fékk gefins frá guði skyggndóm en þeir segja nó nó nó. Ég fer heim að gráta og hugsa um telpuna sem fyllir rjóðan vangann af hlýju frá hennar barm... Er ég orðinn geðveikur..? Eða hvað...? ] [ Ég heiti Jón og borða grjón og prumpa eins og ljón og það er ekki sjón ef það verður tjón..Og þú ert algjört flón.. ] [ Ég er sanngjarn Hinn er hatgjarn Ég er einlægur Hinn er íllskeittur Ég er duglegur Hinn er latur Ég er einbeittur Hinn er fjarlægur Ég er góður Hinn er grófur Ég verð ástfanginn Hinn verður hugfanginn Mér líður vel Hinn með sálina í mél Ég segi ég skil og ljósið sé Hinn segir hinn er ég. ] [ Það mælti mín móðir að mér skyldi kaupa fagra skipa flota fremstur gerast sægreifa standa í brú og stjórna stýra frystinökkva bruna svo að bryggju og brott með meiri kvóta. ] [ Þegar við hittumst í fyrsta sinn, Þá kviknaði ástarblossi. Við héldum þú yrðir að eilífu minn, Og það var í mjúkum kossi. Þú tókst við mér í tilfinningarflóði, Sálin var öll í klessu. Ég lá ávalt heima grátandi í hljóði, og þér tókst að rífa mig upp úr þessu. Við elskuðum hvort annað geðveikt heitt, Með vonarneystana hörðu. En Daníel minn mér þykir það leitt, Við þroskuðumst frá hvort öðru. Augun voru björt og full af vilja, Og hjartað fullt af hamingju. En eitt sem ég mun seint skilja, Að það sé horfið og allt mér að kenna! ] [ Inn ég fer með blaðið, sest svo niður og eitthvað minnir á hafið. Ég lengi les í friði, lengi hurðin safnar liði. Svo einhver fer að banka, og ég tek klósettpappír af hanka. Á baðherbergi heyrist ófriðarkliður, og ég hugsa..... Ó, ég gleymdi að sturta niður. ] [ Ó litla Gleym - mér - ei. Gleymdu mér ei, því annars heyrist svei. Þú ert lítið og blátt, en alls ekki grátt. Þótt þú sért lítið, ertu alls ekki skrítið. Þú á peysur festist, eins og tyggjó sem á skó mína klesstist. Við þín alltaf munum minnast, og fallegasta blómið finnast. ] [ hvert sem huga minn rekur hluta af honum þú tekur ávallt að þér ég leita ást min eina og heita hugsun þú sérhverja þekur ] [ Look around, At all the broken hearts, That lie scatterd everywhere, Like leafs in the fall. But slowly as the winter, Comes and goes, They grow big and strong, Only to be broken again next fall. ] [ Svört er sól, sviðin mannaból. Fossar blóð í Fjandans feigðarslóð. Drynur jörð er Dauðinn tyllir tá í draugalegri borg við Tígrisá. Grætur barn, gáttir Heljar við kross- Guðs-farar lutu ei kristnum sið. Lítill drengur líkn fékk ei hjá þeim sem limlestu og brenndu hans skinn og bein. Vér hjálpum þá - Það er hið - minnsta mál! Hendur kaupum - gerum við hans sál. Við sem erum Guðs útvalda þjóð! - Og ekki okkar sök - þótt renni blóð. Drynur jörð er Dauðinn tyllir tá í draugalegri borg við Tígrisá. ] [ Með sveðjuna að vopni berst hann yfir malbikið Kvartar undan björgunum sem festast milli tánna ] [ Forréttinda- og framalið, freklega bæinn sópa. Gefa öðrum engan grið. gjafa sinna að njóta. Í tugum talið tóku til sín, tekjurnar í vor. En nú er uppi önnur augsýn, og öfug þeirra spor. Ort í jan. 2004. Á áttugs afmæli. Átta tugir ára gegnir, og aldamótin innanborðs. Skin og skúrir í skilum fengnir, og sælustundir sigurorðs. ] [

Eftir stóran labbitúr í garðinum

settist ég aftur upp á legsteininn

við gröfina beið mín skælandi maður

með liljur í hönd Fyrirgefðu! Ég er einmana er þér sama þótt ég leggist hér niður?

Í forvitni kinkaði ég kolli

og yljaði þessum mikla vini

gegnum hrím hjarta míns Síðan ég kom síðast hefur margt átt sér stað Eins og þú manst missti ég fyrirtækið og konan skildi við mig En nú er ég kominn á götuna og börnin tala ekki við mig eftir málið sem kom upp Ég er ekki fullkominn ástin mín – hef mína galla en ekkert af þessu á ég þó skilið – er það?

Nei – hvíslaði ég

og kyssti þennan mikla vin

Ég sá hann fyrst

um kvöldið við tjörnina

] [ þornað kaffi ég kveð þvæ framtíðina fölur ] [ Ég held að ég sé ástfangin, ég vil þig, ég þrái þig. En ég mun aldrei eiga þig og þú munt aldrei elska mig, því þú ert ekki til. ] [ Hnífar stungu og klippt var á tungu. Hræðsla og ótti og stöðugur flótti. Falin og fundin og barin um sundin. Liggur í blóði þó að hann hljóði. Blár og marinn, andinn er farinn. Opið sárið og hinsta tárið. ] [ Stelpan með bláu augun og brosið svo blítt. Hún syngur og dansar og er svo hlýtt. Lífið er dans á rauðum rósum hún brosir, dansar og syngur. En stelpan með bláu augun villtist af leið, týndist úr gleði í sorg og villtist um ótamda borg. En þetta var bara saklaust gaman en meira en hún réði við og nú gengur hún um göturnar gráar og kaldar. Hún er ein. Hún liggur í vímu í dimmu skoti, takmarkinu er náð. En aðeins takmarki villtra leiða og dimmra skota. Nóttin var köld, lífsins blómið svo ungt en er nú eitrað og þungt. Meira og meira og meira fékk hún. Hún fékk líka nóg. Nú liggur hún í rifnum fötum sjúskuð og ljót. Bláu augun sem glitruðu af gleði eru orðin tóm af drunga og sorg. Brosið er farið. Blómið er fölnað. Blómið það syngur ei meir. Hún dó þessa köldu nótt. ] [ Eftir skúr er skinið víst skartar sól í Heiði Gegnum skýin sólin brýst sjaðnar bóndans veiði ] [ Manstu okkar fysta fund í fögrum lundi sátum bæði og saman áttum unaðsstund ég orti til þín lítið kvæði við vorum kát og létt í lund og lékum okkur þar í næði þá gaman var að vera til er vorið lék um vanga við þráðum sól og sumaryl og sætan blóma angan Og saman lögðumst kinn við kinn kát og rjóð og dreyminn við vorum ung og ástfanginn og áttum allan heimin. ] [ Þegar höf og lönd skilja okkur af. Munu ósýnileg bönd, halda okkur að. Hátt á himni skín stjarna, heiðgul og skær. Fyrir okkur er hún þarna og færir okkur nær. Ef söknuð þú skildir fá, notaðu þá hugarflugið ríka, þú stjörnuna skalt horfa á, þá veistu, ég er að horfa líka. ] [ að ég kunni ekki að elska að ég kunni ekki að hata að ég kunni ekki að fela að ég kunni ekki að sýna að ég kunni ekki að missa að ég kunni ekki að trúa að ég kunni ekki að treysta að ég sé tilfinningalega þroskaheft leyfum þeim að halda, ég veit betur ] [ Ég er eins og skrautegg, það sem allir sjá er skelin, svo litrík og falleg. En bakvið þessa þykku skel er ég einungis sorgmædd lítil stelpa í leit að einhverjum sem getur frelsað mig. Í leit að einhverjum sem getur brotið skelina og leyft mér að gráta. Í leit að einhverjum sem getur elskað mig og ég get elskað. En því miður er eina manneskjan, sem er nógu sterk til að brjóta eggið, ekki lengur hjá mér. ] [ Kysstu mig. Finndu varir mínar með vörum þínum. Haltu mér svo þétt að þér að ég heyri hjartslátt þinn. Sjáðu þráina í augum mínum er ég horfi á þig. Elskaðu mig. ] [ Hugur minn virðist alltaf til þín renna. Hugsa ég ótt um það sem ég var á mig að brenna. Í annað sinn fékk ég minn síðasta koss á kinn. Í þetta sinn hélt ég virkilega að þessi yrði minn. Aldrei ég þorði þeim fyrri að segja neitt. Aldrei vissi hann hvaða . töfrum hann hafði mér beitt Úr hans lífi vildi ég þá hverfa. Út af því að ég vildi ekki vera þessi herfa. Leit ég svo upp og þig sá en aldrei vissi að það myndi á mig fá. Leitin hélt ég að væri á enda eftir að ég sá þig á mig benda. Eftir það var ekki aftur snúið Ég brenndi mig aftur og allt var búið ] [ Einmanaleikinn heltekur mig Ég er alein og græt Hugsanir mínar snúast allar um þig Ég sit hér ein í myrkri Þú ert eina ljósið í þessum drunga En nú lýsir það ekki lengur Sál mín fyllist óhugnalegum þunga Ég sit hér ein í myrkri ] [ Ruglingur ruglar mig Hvað er að gerast? spyr hún sig... Hvað þýðir þessi frétt sem mér var að berast? Í dagsins morgun birtunni Snýr hún sér á vinstri hlið Hann er horfinn frá henni Hvað tekur nú við? Endalaus bið Engar útskýringar, ekki neitt Ruglingurinn ruglar mig Hvaða bragði get ég beitt? En það dugðu engin brögð Hvað var hann að hugsa um? Nú var hún eyðilögð Skilin eftir í vangaveltum ] [ Við rætur fjallsins stendur rotinpúrulegur hóll rótfastur í þeirri meiningu að hann sé líka fjall. ] [ Í vindinum blaktir lítið blóm sem þráir að verða stærra. Af skuggum trjánna það kveinkar sér og verður smærra og smærra ] [ Ég finn hvernig tilfinningin brýst um innra með mér -eins og einmana loftlaus kútur í ölduróti. Í mér býr nefnilega eitt lítið en magnþrungið ljóð sem neitar að líta dagsljósið. Ég sit og hugsa stíft, læt hugann reika. En ljóðið er týnt. Sigli því í gegnum lífið stefnulaust -þar til sá dagur kemur að ég mun sjá móta fyrir því við sjóndeildarhringinn. ] [ Ekki segjast hringja, nema þú ætlir að standa við það Ekki segjast tala við mig seinna, nema þú ætlir að standa við það Ekki leika þér að því að særa mig, þó sannleikurinn sé sár þá kemst hann aldrei nálægt sársaukanum sem kemur þegar logið er að manni ] [ Öllum ég hleypti inn, hugsaði ei um afleiðingar þær. Flestir út um bakdyrnar flúðu, sumir stöldruðu um sinn. En þú, sem ert mér svo kær, braust út um rúðu. ] [ Ég vil losta, ég vil ást. Ég vil vera, ég vil þjást. Ég vil skilning, ég vil sjást.... sem mikilvægt líf í lífi annars. ] [ Fegurð náttúru er jarðarbörnum móðurfaðmur og henni fæðist ekta hrjúf hlyja þjóðar Tungur berast frá allri heimsbyggðinni og heilsast á bæjargötum á hikandi íslesnku Allra ósk að festa rætur í nýheimi Dýrmæti í hverju brjósti blómgist í litskrúði Fegurð Íslands smýgur og ljómar í sálum okkar Á sporum forfeðra reisum við framtíð ] [ Við rífumst - og ástin dregur sæng reiðinnar yfir sig og augu hjartans lokast þessi svefn veitir enga hvíld, færir enga drauma og ástin vaknar þreytt og þvæld að morgni ófær um að gefa af sér magnvana líður hún um daginn eins og draugur, gegnsæ og gleðisnauð ekki einu sinni reiðin yljar henni lengur ] [ Hrynja angurstár eilífðar af augum. Hrapa stjörnur hrímkaldar af himni. Ríkir svartnætti - eitt og alvalda ] [ Bláa höndin byrstir sig, Baugstíðindum vill stríða. Hún hæðir bæði mig og þig, hinir verða að líða. En bæta munum betri brag, og búast skjótt til varnar. Hundsum þeirra háttarlag, og hendur illa farnar. ] [ Eins og trúður upp úr kassa Ég hlæ eins og hálfviti Málaður í asnalegum litum Til að gefa tilfinningunni kraft Eins og trúður upp úr kassa Ég dilli höfðinu Til að braka í hálsinum Gera mann brjálæðislega pirraðann Eins og trúður upp úr kassa Ég stekk og öskra Til að hræða mann Og hlæ svo eins og hálfviti Ég dilli höfðinu Braka í hálsinum Hlæ eins og trúður upp úr kassa Og maður tekur mig úr kassanum Rífur haus frá gorm Og þakkar prakkaranum pent fyrir gjöfina ] [ Það er sársauki sem kvelur mitt hjarta. Ég veit ekki hvað mig á að vanta. Samt er eins og ég sé svo tóm og ekkert geti fyllt þetta óm. Reiðin ríkir samt mest í mér því allt var lygi sem tengdist þér. Góðvildin sem gaf ég þér kom aftan að mér eins og gler stakk mig í bakið svo sárt það er !! ] [ Ungdómsins auðmjúka "rapp" aldeilis auvelt og "cool". En afdalsins afleita "snakk" er aldeilis fráleitt og "fool". ] [ Í haustsólinni rekst ég á rófulausann kött. Hann gengur stéttina við bankann og skimar eftir fuglum í trjánum. Skuggarnir lengjast en eðli kattarins breytist ekki þrátt fyrir rófuleysið. ] [ Því fylgsni sem draumar fela sig í, er varla lýst með orðum, heldur tilfinningum. Með ástinni grennslast ég fyrir um þá, fyrir utan líka minn. -Finn þá ekki. Nota gleðina til að þreifa á mér, en þeir finnast ekki í brosinu. Með þránni brýt ég mér leið inn, og notast við örvæntingu sem hjálpartæki, og í lokin nota ég tárin til að brjóta mér leið innar, en enn eru höft. Fatta svo loks þegar depurðin brýtur sér leið, í gegnum síðasta haftið: Að draumar finnast aðeins í svefni. -Þar sem þeirra er síst leitað. ] [ Ár og aldur á milli liggja Vináttu vinirnir ekki þyggja. Segullinn rennur saman En það er ekki gaman Þegar eitthvað á milli liggur, Bíð og vona að hann mig þyggur ] [ Ég á brot af hjarta þínu En fæ þig ekki. Þú átt brot af hjarta mínu En færð mig ekki. Stóra skrefið þarft að taka Láttu traustið ekki flakka Komdu með það til mín Og ég verð þín. ] [ Hún skélfur af ótta, Við sjálfan sig og lífið. Villt og frjáls Ótamin og dularfull Verður að heilla Verður að vinna Saklaus og góð En samt svo lúmsk Eins og naðra sem Tælir bráð sína og Deiðir með eitur biti Nærist, án næringu deyr hún Hún nærist og nærist En brátt fær hún nóg Þá kastar hún bráðinni Langt út í sjó En með söknuð og tárum Horfir hún á Bráðina fljóta henni frá Lævís og tignarleg Hún í bráðina nær Dregur hana til sín Og færir sig fjær Hún horfir á bráðina lifna við Er stjörf af ótta að hún snúi dæminu við ] [ Ég ligg hér í öngvum mínum Og finn alstaðar til. Enginn finnur það sem ég finn Enginn útskýrir þessa breytingu Breytingu á tilfinningum mínum. Allt breyttist á svipstundu Allt snérist ruglingslega við Og ég veit ekki hvað ég á að Hugsa, halda, finna eða gera Svarið er lítið Eins lítið og Hin minnsta rós hjarta míns Dafnar og deyr. Tíminn líður Svörin koma. ] [ Ást-vinur minn Gleim mér ey Hugsaðu um mig Eins og rós hjarta þíns, Ræktaðu af ást og hlýju Svo að ég dafni. ] [ Hvað er þetta krot Farðu eins og skot Ertu graður sagði maður hvað ertu að pota og ota þínum tota Vertu góður Við þína móður Hvað er að þér fjandi ég held að þer standi heldurðu að þú sért bestur eða allra manna mestur ertu kanski prestur? Þú ert ekki góður Þú ert óður Þetta er lúið Og kanski líka snúið Þetta er búið. ] [ Do not let it be day yet please, good night stay from the light I pray upon thee to give me dark I want to stay up until the light has swallowed the night Don't leave me here alone darkness, keep me away from home ] [ Hér er ró og hér er friður, hér er gott að setjast niður. Hugsa sína þungu þanka, þar til eitthver fer að banka. Þá er mál og manna siður, að standa upp og sturta niður. fyrir yður því miður, en það fer ekki niður. ] [ Ég elska þig svo mikið, ég elska þig svo heitt, En það er svo skrítið, því ég elska þig ekki neitt, Ég vil fara frá þér, en ég get það ei. Það er eitthvað sem enginn sér, það er eitthvað sem segir nei. Ég fór í burtu, þú varst ekkert sáttur. Ég grét mikið í sturtu, en þú varst samt góður dráttur. ;) ] [ Hin eilífa hringrás lífsins: ég fer fram og aftur, aftur og fram "Hann var af moldu kominn" eru hin eilífu orð, "og að moldu verður". Hvernig ætli það sé? Að vera grafinn, að rotna og vera etinn, í líkkistu í jörðu, að verða að mold, eða öðru. Ég kýs að brenna, að brenna í lifanda báli, að verða að ösku, sem dreyft er um, á mína allbestu staði. Ég vil brenna! ] [ Hann fæddist, hann óx hann frelsaði, hann dó og steyg upp til himna. Hann snýr brátt aftur trúa menn, á jörðu til manna sinna. Hann borinn var í fjárhúsi, því upptekið var hótelið, hann græddi vel er fæddur var, fékk gull, myrru og allskonar. Hann gerði margt og mikið gottt, hann gekk yfir vatn og það var flott. Já hann er eins og þið heyrið nú, okkar heilagi maður "Jesú" ] [ brún eru augun sem sjá þig eins og þú ert brún grænt er grasið sem kítlar iljarnar þegar ég geng berfætt grænt blá er sultan á vöfflunni minni við tíndum berin saman blá svart er kaffið í bollanum mínum ég drekk það daglangt svart ] [ Röðull margur risinn hvarfar reyrður lögmáls sigurverki. Koma um kringlur minni arfar kúlur háðar efnis merki. Heimur lítur hvernig starfar hvarfa eind í eðlis verki. Reglubinding ræður öllu í geimi rúmmálsstærðin ekki verið skráð. Yfirsjónir ennþá hafa á sveimi ögnin minnsta öllum öðrum háð. Eykst nú þekking ört í vorum heimi allar hælastöður kenninganna bráð. Eimyrju röðull níu hefur hnetti hér er regla í myndun kerfi sólar. Veraldar mygla með býsna bletti borar í jarðkrílið heimtar og gólar. Vatnslóni í víðfeðmna náttúru sletti vegi utan ekur tætir þar og spólar. Vísindamaður nafnið gefur glaður giskaði að lífið vaxi aðeins hér. Fráleitt önnur jörð og annar maður aðeins myglu guðinn sér. Langreynt heimsku bilað blaður barmafullt þvaður ei skeytum vér. Við galopnum hugann gefum líf gleði og frelsi í hugmyndastreði. Barnið þarf föður og veraldarvíf við útgeimsverur blöndum geði. Ég sáttmála heimsku sundur ríf sjálfbyrgings hugur aftrar gleði Í geimnum búum á gróinni jörð geimverur teljumst við vera. Mislit á flestöllum hnöttum hjörð hugsenda veraldar kringluna þvera. Hamingju megin er guðleg gjörð guðir skapa líf og ábyrgð bera. ] [ Lífið það lifir í eigin heimi Lifandi sprettur hvar sem er. Líf á jörð er líf í geimi Lífsins neisti um veröld fer. Lífsfrjóið í loftsins sveimi Leiðandi afl í brjósti ber Einum ætlað er guðir gera guðir elska lífsins keim. Guðir fagra gæsku bera guðir nátta vítt um heim. Guði ætlað á gafli vera Guð ei raskar hugum þeim. Guðir skapa geim og líf guðir upphaf eiga sér. Guðum leiðist karp og kíf Kærleik öllu senda hér. Gulnaðar klysjur gamlar ríf gallar í texta þykir mér. Góður af guða ættum er gegnum heill og fríður. Afkomandi sem annar hver ættarboginn víður. Eiginkonu á örmum ber ástleitinn og blíður. Gæta vildi guðinn manns þar góða og illa mætast Ef ekki treystir huga hans helsins stjórar kætast. Guðinn þyggur gæsku svanns gæfa á kosti bætast. Létta vildi löngun hans Láta drauma rætast. Getnað þáði og gæsku manns Gæfu kostir mætast. Amma drífur afa í dans Ættarstofnar kætast. ] [ Eg ögraði solar dögum nu leggja dimmir dagar lif mitt i eielti. Ruth ] [ Ligg á gólfinu í tómum kjallaranum og horfi út um gluggann beint inní paradís. Í horni garðsins hjúfra sig saman Eva og Adam. Það er alltaf kalt í Eden. ] [ Bakvið sígarettu, gleraugu og gamalt andlit, er sál sitjandi manns. Vindur er laus og garðurinn dimmur, ekkert kemur i veg fyrir einveru hans. Fyrir honum er lífið blaðsíður, í lítilli svartri bók. Ritaðar minningar, um ástvini sem Guð frá honum tók. Augun sem ljóma ekki lengur, minnka og dofna. Sál áður þekkt með nafni, leggst niður og sofnar... ] [ orðin tóm andinn farinn allt uppurið sem áður skipti mig öllu máli einlæga ljóðið sem þú ortir af ást til mín lak víst niður og liggur marflatt í gráleitum polli við glatkistuna innanbúðar er ekkert úrval eftir að orðskrúðið hvarf í bláinn af því þú þessi kjáni ert alltaf að leita að lýsandi orðum svo langt yfir skammt ] [ Ó hversu mikið ég sakna, Að fá fiðring í magann útaf stríðni ástarinnar, Ég mun minnast þess ávallt að vakna, Í faðmi, við morgun, gegn ljúfri snertingu þinnar Að leggja lófa við kinn einhvers sem þú elskar, Að draga höfuð nær þínu, Ekkert annað er eins, Engin slík víma, fæst í gegnum lyf, Engin önnur, gefur sömu áhrif Kossar léttari en fjaðrir, Kossar þyngri en stál, Einbeiting er óþörf, Til að finna sín stærstu sár Ástfangin manneskja heyrir tónlist, En sér ekki allt sem er, Manneskja án ástar heyrir ekkert í þögninni, En sér raunveruleikann eins og hann sig ber. ] [ Augu mín drukku í sig andlit þitt. Nutu eilífðar andartaks, unaðsvímunnar og freyðandi fullnægingar funheits lostans. Gómsæta, glitrandi kampavín, gerjað ´52, - hve ég elska þig! ] [ Þegar meirihluti á þingi líður þjóðarsvik af verstu gerð. ráðamanna straumur stríður storkar þjóðar friðarferð Hver vill ekki starfa í stríði standi nauðsyn fyrir gerð. Hver vill standa í nöpru níði þá nauðung brýtur reglugerð. Það verður að vaða i manninn verst hvað heitt er þar nú. Kanar særa fram sanninn sjálfhverf er ríkistrú. Hver er drepinn og hverjir ekki hverjum er ekki sama um það. Hverjir raða á helsins bekki hverjir sækja í blóðugt bað. Hver vill ekki í stríði starfa standi það til boða. Meirihluti þings og þarfa þjónar blóðsins hroða Viljandi þeir vaða í manninn vonlaus er morðingjans her. Kunngerði kananum sanninn kunnuga orðsporið fer. Halda menn að herjaður friður haldi skár en friðsöm leið. Í friðar skoðun kominn skriður skaðar ófrið fylking breið. Hugsun nær til korters kannski kaninn flæðir yfir land. Innfæddra dauði ímynd raski ítarsaga hendir strand. Hverjir látast og hverjir ekki hugnast engum segja frá. lygaveginn varla þekki víðast eirðir finna má. Friðinn allir finna viljum ferillinn er kærleiksleið. Ófriðarstolið ekki skiljum andúðin er nokkuð breið Friður hrópar múgur manns megn er þeirra skelfing. Dýrka kóngar dauða glans dreyra full er hvelfing. Læt ég heljar lokið óð leitt mér þykir málið. Fyrrum vorum friðar þjóð nú fáninn skreytir bálið. Friðinn heimtar allur heimur herforingjum mörkin sett. Í hveli geislast stjörnugeimur guðleg ætlun fölnar nett. Lýðræði frelsi lakur keimur lausnum hafnað framhjá flett ] [ Þúsund aldir þurfti sköpun líða nauð þíða jökla í bergið rákar glufu. Náttúran skartar vindum gjálpi og gnauð gjósandi keilur frið og landmót rufu. Í hverum landsins sullaðist og sauð Sæbotnar fyrrum lagðir gróður hrufu. Foldin hláku og frostaveðrum laut friðsæll jarðargróður hörvar og rís. Í áratugi vor um haustið hnaut hafið leggur og fasta landið frýs Tófan af landsins nægtum naut nýbúanum gnóttin vís. Veður eldar vötnin fjallablaut vesæl skilyrði gróðurþekju. Ræktarnæði aldir hundrað hlaut heitir straumar valda grósku rekju. Maðurinn kom bramlaði og braut brenndi skóga risti torf með frekju. Foldu eyddi flest er prýddi fegurð lands í mærðarljóðum Lofsöngvum og lofi skrýddi lífinu hjá döprum þjóðum. Ingólfur kappi Ásum hlýddi Æsir jusu úr gnægta sjóðum. Hingað sigldu heiðnir menn héruð mönnum lutu. Landa merki lúta enn lögum er þeir brutu. Meira tóku magn í senn er minna af landi hrutu. Öldum síðar aðrir menn alla fossa virkja. Athafnaskáldin eru senn eldri skáldin kyrkja Þjóðin eignast þjóna enn þjóðsöng nýjan yrkja. Landið óbyggt er fagurt falt farmenn ei sækja snortinn svip. Náttúrurof og skarkið valt varast fræðimannsins hrip. Röklausu fræðin reikna ei allt ráðvilt er þjóð með sokkið skip. Lágvits hagsmuni löngum stríðala létt þægir skapa sér vinnu og traust. Vísindin skulu til vitsauka mala verjendur fegurðar hefja upp raust Margur þarf í málinu tala manngert er land eða afskiftalaust ] [ Sindrar í hári þínu þúsund og ein stjarna, bliknar í samanburði himinhvolf allt. Djúpin í augum óendanleg, fagur er svipur meiri en sólar. ] [ Hjá honum ríkir lognið og náttúran liggur í dvala. Ég sakna þess að rafmagnast með þér í þrumuveðrinu. ] [ Liljuhind, Liljuhind fetar bithagann í auga mér Liljuhind. ] [ Í fingurgómunum geymir hún eldinn nýjum degi. ] [ Eignist ég elskynju förum við hingað með eldinn og látum sefast. Hvergi veit ég myrkrið traustari hjálm flöktandi mannverum. ] [ Nístir tönn kuldinn, snyrtir fingur kemelljónsins. Gnístir tönnum múrbrjótur. ] [ segist elska mig ég brosi elska svo mikið á móti segir svo margt hunsar mig þegar þér hentar ég brosi sprungurnar myndast kemur ert sniðugur ég hlæ en fjarlægðin er nálæg og það heyrast brestir notar þér elsku mína eins og tusku til að þurrka alla blettina þína sprungurnar bresta verða að rifum gríman brotnar elska svo mikið með grímuna stóru er svo sterk en að baki er brotin sál segist elska mig ég brosi elska svo mikið á móti en elskar þú í raun? eða bara þegar þér hentar? kaupirðu nýja tusku þegar þessi verður götótt af of mikilli notkun? hver saumar götin? hver límir brot grímunnar? ] [ ástin fer alltaf aðrar leiðir en þá sem þú ætlar henni hún er jafn mikið til og draumurinn þinn sem þú veist í hjartanu að verður ei segir engum frá en trúir samt á. ] [ Hvað eiga súperman, batman og spiderman sameiginlegt? koma þér til bjargar, eru góðir, en eru ekki til eins er sönn ást góður bjargvættur sem ekki er til. ] [ Ástin er samstilling sála samruni lífs og manna. Sumir við fyrsta blik bála brennur þar ástin sanna. Aðrir við atlotin rjála endalaust hvötina kanna. Saman í sannleikann leggja sólbjörtu leiðina vilja Samstaða hag bætir beggja. botnfreðin andlitin skilja Hamingja í höndum tveggja hætta að leyna og dylja. Ástin umber og gæði gefur gengur þar undir sjúkri sál. aðeins þiggur ekkert hefur elskar stjan og mærðar mál. Dekurrófan sjálfselsk sefur sverfa lætur í dreggjar tál. Sanna ástin sú er gefur síngjörn ekki veran nú. Mannkærleika mikinn hefur maður sá er elskar þú. Undir kærleik sætum sefur samstillt par er reisti bú. ] [ Brauðskurðarvélar. Hvað er eiginlega málið með þær? ] [ Ég anda að mér birtu haustsins, þessari birta sem er aðeins hér... eins og allt sé heilagt. Ég er ekkert, ég er það. Gagntekin af töfrum lífsins. Regndroparnir fylla loftið og eru sönnun þess að ég er til. ] [ Ég sit með sólgleraugu inn í eldhúsi að borða fisk. Er að vega og meta, kosti og galla þess, að skilja vin minn eftir, vin minn sem ég elska, á þessum stað. ] [ Lífið streymir áfram eins og foss hratt án hugsunar. Það skelfir mig hve heitt ég elska þig. Ég hata þig þó ég þrái þig og elska þig jafnmikið og ég forðast þig Horfi á þig og brenn að innan. Þú ert að tala, brosa, hlæja... mig svíður... Augun límd við þig á hverjum degi, þó ég vilji það ekki... Lífið rennur áfram óendanlega, mig langar að stoppa það.. bara í smá stund.. til að horfa á þig aðeins lengur. ] [ Droparnir falla á auða gangstétt, loftið umvefur mig. Ekkert heyrist nema í bílum í fjarska. Það vantar bara eitt.... Að mæta þér, í rigningunni, öllum blautum og þú brosir til mín. Við göngum saman. Þá fyllist þögnin af fótataki okkar. ] [ Gula bókin græn, græn græn græn ] [ Hvert ertu að fara ? Ég er farinn ] [ Hann sér út um það er inni hvernig þá ? ] [ Rúllaðu upp stigann Rúlustigan já rúllaðu upp stigann stigann minn tröppurnar eru þarna ] [ Reality, hit me hard this morning, realized I´ve lost you without a warning. Memories of you and I together, always tought that we would last forever. I was stupied, and made a big mistake, I never meant to take your heart and break. This is made for you, I want to tell you the truth, I love you! These words are made for you. ] [ Rangt nær yfir svo margt, Rangt er okkar líferni, Taktu það ranga frá, syndgaðu ei meir, Skemmtilegt væri lífið þá? Ég sé orminn skríða og eitra um heim allan, nær til þín með sínum hætti, syndir svo margar bara frá mér, Myndir þú fórna ranggerðum þínum fyrir betri heim? ] [ Ef bara ég hefði þau völd, Að geta breytt er mér ólíkar, Mikið myndi fara, En mikið myndi fram koma. Mínar dýpstu þrár og beiðnir... Árið sem ég stend á, En ætti að liggja, Ég hrífst af öðrum tíma, Vildi ég um stund annað líf hafa. Fúlgur af fjár varða mig engu, Það sem fæst fyrir gull vekur ekki áhuga, Ég vil finna það sem finnst ei nú, Mín ósk er sú. Er það synd að óska um annað en ég hef? Er það rangt að vilja annað en ég umvef? Svör við slíku Spyr ég Drottinn er af líkur. ] [ einsog kryddkorn í mat metin og mulin milli fingra af ástúð og alúð gefa litlu jákvæðu hlutirnir lífinu annan keim ] [ Aldrei ráðsmenn af metnaði mæra meir en þingið verður að grandi. Ríkið ekki af reynslu vill læra ráðandi þessu ógnar standi. Mun atvinnu gamla öryggið kæra engum til góðs í framtíðar landi. Þjóðin er að hluta hýrudregin hagnaður öllum til boða stóð. Landsbyggðin líta kynni fegin á lausnir er áttu að blása í glóð. Um atvinnu dalandi vona veginn verði til framdráttar smárri þjóð. Fiskinn þeir færðu og tóku í kvóta foringjum einum afhent með kæti. Ráðsmenn í ruglinu blindir fljóta ramakvein í engu byggðum mæti. Samvisku verri en sægreifar hljóta situr í þeim er kunna sér læti. Flytur héðan öll byggðin burt bændur og sjómenn í suður flosna. Þingheimur kallar veriði kjurt kosningafylgi og flokkar trosna. Loforðið landinu þykir þurrt lausnin er vinna, efndir brostna. Þeir svara og mala í tækja tól tillaga þeirra komin í strand. Ráðalaus stjórn um byggðir og ból beinir nú fólkinu vestur á sand. Lýsandi vandi þar ekki sést sól sofandi ríki með deyjandi land. Sægreifar kvótann fengu á fati flestir þeir létu ekkert í té. Hér skal hagræðingatalið í plati hlunnfarin þjóð er stór tapar fé. Stjórnin kvað að verði brátt bati boðaður hagur kæmist á kné. Stundum hjá sægreifa gerist í koti seldur er kvóti um niðdimma nótt. Morguninn eftir er þorpið í þroti þorrin er vinnan engum er rótt. Engann afla en mörg fley á floti farin er heimild og sægreifa drótt. Eign í einu vetfangi verðlaus vinnan farin í annað land. Seldur og slægður afli með haus sendur í gámi með öðru í bland. Þorparann þennann fólkið kaus þóttist hann koma málum í stand. Kvóta skáldið tók athafna aura arður af fiski ekki hans lag. Ei hafði til sín pantað paura er pranga með afla og skip í dag. Þorpin með bryggju og stífa staura stinga í stúf við heilbrigðan hag. Aflið farið sem atvinnu skóp afkoman horfin úr bænum. Ráðamenn aldrei hlusta á hróp hjálpin kom unnin úr sænum. Undir veggjum hípnir í hóp hampa þar loforðum vænum. Margveldis Álver þið fáið í fjörð fjölda margt verður að gera. Frá borginni kemur borana hjörð bílgöng í fjöllin og hálsana skera. Einskis mun eign og landsins gjörð þá ekkert skal hér um að vera. Ykkar yrking er val á jörð yndis njótið við launaskrið. Mannlíf í þorpi þá marglitu hjörð magnþrungin boðar atvinnan grið. Spúandi eitur spannar þinn fjörð spýan er kostur en lokar á frið. Fólk í bænum leit í hnúana hnípið hroðin skein af sérhverjum svip. Engu þið tapið álverið grípið allur fór grútur í síðasta skip Á vöktum unnið í karlana klípið kosturinn rífandi vinnu inngrip. Jónar og Gunnur í boðsorðið beit biðin á efndunum er fólkinu raun Mörg voru augun er lýgina leit og laumast burtu, suður í hraun. Í rauninni vissu og sérhver veit vonir og áform greiða ekki laun. ] [ Eg hugsa til þin þegar þu ert að vinna og kalt er uti Eg hugsa til þin þegar eg er i bilnum a leiðinni heim. ] [ Í dag varð himininn grárri.. Í dag rann vatnið hægar en venjulega.. Í dag, fékk ég dóminn.. ] [ Húsið á borðinu Það er bara mótel Hótel nei mótel af húsi ] [ Í slæmu skapi út af pínulitlu beini ] [ Gatan er úti frekar löng en gangstéttin er lengri Þetta er einstefna til vinstri ] [ Sköllóttur og langur árásargjarn á nýtt fólk en hægist þó er líður á aumingja maðurinn er bara lítið lamb ] [ Út um gluggann hangir brot af regnboga. Litríkur líkt og loforð þín. Tek hann niður brýt saman og sting honum inní hjarta mitt óstraujuðum. ] [ Ég hræðist ekki fallið hrasið af toppnum Það er lendingin sem fyllir mig áhyggjum ] [ Þar sem ímynd hittir fyrirmynd verður til eftirmynd af mér Og þú ert ímynd af eftirmynd fyrirmyndarinnar Því ert þú og ég ímynd til fyrirmyndar ] [ Viltu sjá? Viltu heyra? Viltu mig fá? Og kannzki örlítið meira? Viltu snerta? Viltu smakka? Viltu mig erta? Og síðar svo þakka? Viltu? ] [ Dulsins ótti sefur nóttin steðjar að, ást mína í hulu grefur er hún fór af stað. Ég elska þig í leyni, ó þú, ert ástin mín. Orð mín ég geymi í steini því ég verð aldrei þín. Komdu aðeins nær mér, ég þrái að snerta þig, mig langar að vera hjá þér, viltu líka snerta mig? Kannski í næsta lífi ég mun hitta þig, þar til í draumsinsheimi svífi og þar þú leiðir mig. Ekki er allt kosið, leyniástin mín. Ég kveð þig því með kossi, mín hinnsta kveðja til þín. ] [ Lítill drengur hleypur hratt kemur inn og segir mamma, ég datt. Sjáðu mamma sárið, það er eins og hárið á Stínu systir. ] [ Ég mun aldrei vita hvað honum finnst en aldrei mun ég hann spyrja. Ég mun aldrei vita hvort hann veit en aldrei mun ég honum segja. Hann veit ekki hvað hann gerir mér en hann mun aldrei skilja. Hann veit ekki neitt en mun hann komast að því? Aldrei við erum, aldrei við verðum. Einu sinni var en verður ekki meir. En í draumum mínum hann lifir, þó best sé að gleyma að við hefðum getað orðið, heldur mig þó áfram að dreyma. Aldrei hef ég hann kvatt, aldrei það mun ég það reyna. Því þó hann segi aldrei satt, áfram mun mig dreyma. ] [ Tuttuguogfjórir sléttir Þvalar hendur Glansandi augu Í speglinum Þrjú frjókorn Engin mold Passlegt drafaði blómið og hélt út í veturinn ] [ Flétta silfurþræði úr dyn kattarins, rótum bjargsins og hjartarótum mínum. Hnýti smágerðar snörur, hárfínar gildrur til að leggja fyrir saklaus orðin í myrkviðum málsins. Seinna sel ég þau í ánauð í fastriðnum böndum ljóða minna svo hver megi gera við þau sem honum sýnist. ] [ Með bleki, á blaði get ég ekki gefið af þér rétta mynd. Hvernig fæ ég þá fangað þig í ljóð mitt? Kannski ef ég færi stjörnurnar, hnika til þessum helvísku ljósglömpum með rómantíska orðsporið, svo þeir myndi andlit þitt á næturhimninum. Eða ef ég opna mér æðar, dreg þig blóði mínu á sólbrennda veggi borgarinnar. Kannski ef ég risti nafn þitt með nöglum mínum í hold elskhuga ókominnar framtíðar. Eða fæ ég aldrei fangað þig í ljóðvef minn? ] [ Hlauptu stúlka litla, hlauptu! Yfir víðfeðmar huglendurnar, hlauptu. Öskraðu stúlka litla, öskraðu! Bráðum kemur úlfurinn og étur úr þér hjartað. Veistu ekki stúlka litla, veistu það ekki? Að í draumum heyrir enginn þig öskra og þú kemst aldrei undan! ] [ Kossar þínir brenna hörund mitt, þeir eru litaðir lygum. ] [ Dökkvan niðadvergar fara dáðum þeirra í gosi lauk. Dáðlaus og dauðvona hjara djöfulæðið í buskann rauk. í köldu að köku veldi skara kærleikur í heimsku fauk. Vönuð tengsli vondra para varði þar til yfir lauk. Bjartar í bjarma sólir vísa byggðir væddar guða ást. Urmull slíkra heima hýsa hami er lifa í kærleik skást. Lífsandstreymi fáir fýsa fráleitt að meta kalt og þjást. Saman þroski í reisni rísa raunir engar við að kljást. Gæsku vilji Guða bylgja gæfa ætluð hverjum manni. Svartra sauða dagleg dylgja Drottinn enginn er með sanni. Heimsku neitun fræðum fylgja fákunnátta í eigin ranni. Bilar sjaldan belti og sylgja brjálast vit í fræðabanni. Í ómælis geimi eilífðar rými endalaust guðlega hnetti finna. Geimsins öreind Guða sími gagnast lífi er bjartir sinna. Guð er gæska eilífðin tími geislandi eindir lífið kynna. Vonir í skuggum hnatta hými heimsku fari brátt að linna. í samhæfðu ríkis ráðaleysi reynist ekki stjórn á neinu. Háir dáðum hysknisleysi hamingjuríki í öllu og einu. heildin stillt úr hugarþeysi. hollráð framar ráði beinu. Þroska ei þjáir dyggðahreisi Því er gott að fylgja hreinu. ] [ Ég er eitthvað svo inn í mig. Eins og augun snúi ekki rétt, horfa bara inn í höfuðið á mér, hingað inn! Inn í myrkur huga míns ... ... ég sé ekki neitt. ] [ Kossar.. ..eru til í eintölu, en oftast notaðir í fleirtölu ..geta þýtt ansi margt ..koma mörgu í verk ..afleiðingar losta ..til að tjá ást ..vekja líf ..eru þó oftast notaðir til að spyrja hvort laust sé í kjallaranum Kyssumst! ] [ hverfular línur um ekki neitt augun leita útúr orðunum ég geng grunnt í því vatni sem veitt var í og veigra mér við að leita í hylnum hér verður ekkert veitt ] [ Hér sé veisla og hér sé grín hér eigi menn gleði vísa!!! Dansa, syngja, drekka eins og svín og dauðir svo aftur rísa!!! ] [ Lífið er vegabréf mitt til annars heims. Og dauðinn eins konar vegabréfsáritun! Þegar þeir við innganginn spyrja mig um tollskyldan varning mun ég þrýsta hendi að brjósti og lýsa yfir: “Aðeins tollfrjálsar minningar!” og ég mun bíða milli vonar og ótta eftir að komast í gegn. Og svo, þegar þeir hleypa mér áfram þigg ég boðið feginshendi og smygla með mér broti af mannlegum breyskleika er ég geng í gegnum hliðið. ] [ Þegar augun segja sögur sem að enginn þarf að túlka og sú eina sem að segir þær er annars konar stúlka sem að segir skrítnar sögur og sjaldnast mikið vit í orðaflaumi hennar þó að augun segi sögur sem að sjaldan þarf að túlka þá get ég aðeins brosað því að stúlkan hún er annars konar stúlka en ég vandist því að engar aðrar stúlkur segja annars konar sögur sem að fáir geta skilið en sjálfur er ég samur og einn af þessum mörgum (en ekki er því að neita að stundum er ég ein- stakur og gleymi mér þá iðulega í annars konar sögum). ---- Þegar augun segja sögur sem að enginn þarf að túlka nema augun sem að skilja og augun sem að brosa því ef augun segja sögur er sagan ætluð einum (og ekki get ég neitað því að stundum er ég einstakur eins og vísast flestir þeir sem skynja hennar sögu). En yfirleitt þó læðist að mér annars konar grunur; að stúlkan hún á sögu sem að enginn getur túlkað og að stúlkan hún á leyndarmál sem að enginn getur skilið og enginn getur vitað að stúlkan hún á skugga og í skugganum hún grætur þegar skilningsvana augu gefa henni gætur og tala illum tungum um háskalegar sögur (sem vafalaust má túlka á vafasaman máta). ] [ Frumherjar höfðu fremd og þor forystulið og hraustlega mannað. frumbyggjar átu síld og slor sjálfsagðar þarfir og annað. Oft kom kvef með herjans hor hóstandi smit var bannað. Dæmigerðir dugnaðar hópar deildu kjörum í bræðralagi. Sameign í verki á samvinnu hrópar sum húsin risu með gler í fagi. Björgun í stormi barnsminni grópar bundið er þakið með vírastagi. Í Kópavogi er margra minnst menn er sýndu kjark og dug. er norðan áttin þrýstir þynnst þagnar gnauð og lyftir flug. Jón úr Vör hér kannski kynnst Kársnes Dís með frjóann hug. Í landamerkjum listamanns ljóðmagnaðist þankagangur. Smæðin tafði ei hugsun hans hingað spottinn þótti langur. Hans var líf ei glamúr glans getinn heima þyrstur svangur. Teygðist byggð um holtsins hæðir húsaraðir í breiðum línum. Hugsjón fólksins hjarta bræðir hver og einn að vilja sínum. Hvað frumkvöðla getuna glæðir gagnast hún lífskjarna fínum. Stór og stækkar bærinn enn stanslaust beðið um lóðir. Festu Rætur framsýnismenn framkvæmdaglaðir og góðir. Án Kópavogs verður sveitin senn soðin og matreydd við hlóðir. Bærinn verndaði sveita sælu samstillti óskir aðstoðar háðar. Kærleik fundu í guðsins gælu gruflandi andans ljóða snáðar. Dáða kross í dinglandi nælu dáðlegar Orður í barma skráðar. ] [ Snjókorn falla eitt og eitt á morgun verður ekki neitt..... Kallt er úti, kallt er hér. Kallt er inni, veturinn er... Snjókorn falla eitt og eitt. bráðum verða miljón... ekki hættir að snjóa neitt neitt neitt á morgun verða trilljón... ] [ adda sadda er alveg eins og padda og er að reina að fara til steina því hún veit að hann segir að þarna sé kleina sem hún má eiga eins og kjötið seiga sem hún fékk í firra því hún var að pirra vin sinn góða og kennarann óða.. ] [ Hún hrífur meira en fegurð Fegurð er ekki neitt. Það er ekki hægt að lifa án hennar.. Hvernig yrði það líf?? Góðvild er að innan. Hvernig yrði að vera með góvildina sem húð, Og illsku sem hár?? ] [ Hlustaðu á þögnina... hún er andardráttur eilífðarinnar. ] [ Ég átti mér draum. Um ástir og afleiðingar Að vera ástfanginn En ég lagði ekkert á mig Og ég fann ekki ástina Í nótt fann ástin mig Í nótt rættist draumur Í dag er ég glaður. Ég lagði ekkert á mig sjálfur heldur lagði ástin á mig byrgðar miklar, svo miklar að án þín myndi ég bugast og deyja. ] [ Vinátta er ekki til sölu, Hún fæst bara á einum stað. Það er sammt hvergi hægt að kaupa hana, en staðurinn er hjarta og sál... ] [ Gengur um víðan veg , Og endar inni í svölu skoti.. Ætíð það gengur vel, Ef ekki kemur mikill voti... Ef votinn hingað kemur ég blotna mikið, Og það er vont, Ég dei... ] [ Bleikt og lítið, Fallegt blóm....... Stór skrítið, Fullt af flóm.... ] [ Hann hét Dagur og hún hét Nótt. Saman undu þau sér áður en veröldin varð til. Í frumsköpun heims voru þau síðan aðskilin af Guði. Og Nótt þráði Dag áfram eins og Dagur hafði áður þráð Nótt. Sagan segir að eftir þennan aðskilnað hafi Dagur leitað heimskauta á milli að Nótt, en ekki fundið. Þá hafi hann svarið þess eið að hann mundi rísa úr gröf sinni og ekki una sér hvíldar fyrr en hann fyndi hana. Þegar svardagi þessi barst Nótt til eyrna, sór hún hinn sama eið og sagði að ást þeirra ætti engan sinn líka í heiminum. Við þetta reiddist Guð því hann taldi þau tilbiðja hvort annað meira en hann sjálfan. Í refsingarskyni mælti hann svo fyrir að Dagur og Nótt mættu aldrei finnast, en svardagi þeirra skyldi standa. Svo Guð skapaði “dag” og “nótt”. Myndu þau verða birta og myrkur mannfólksins og ávalt rísa úr dánarbeð sínum til að leita hvors annars. Eftir að skipan þessi varð að veruleika mun Nótt hafa fært örlög sín í ljóð, og hljóðar það svo: Hvar ertu dagur draumur minn eini? Ég gleymi mér sjálfri í eigin skugga fæ ekki séð þig í veröld án spegils. Minn þorsti sem drekka vildi vatnið er horfinn orðinn að svartnætti sem er ég sjálf hálf af Engu sem býr mér í brjósti. Að nótt og dagur rynnu í eitt eitt sem að enginn fengi sundur skilið ég óska þess óska þess svo ofurheitt að upplifa augnablikið. ] [ Stjörnurnar skína á himninum eins og glassúr jarðarkringlunnar. Mig langar að éta þær upp til agna hugsa ég á meðan garnirnar gaula en ég er í megrun þannig að ég verð að láta mér nægja beyskt óbragð raunveruleikans. ] [ Við liggjum í rúminu saman í myrkrinu glugginn er opinn og úti er hljótt við kyssum og káfum ég bít af þér eyrað og toga í hárið en æi, þú tárast farðu ekki gráta það má ekki gráta ég segi og síðan ég kroppa úr þér augun og rúlla svo augunum niður á maga eins og tveim litlum eggjum sérðu mig? spyr ég þú brosir og svarar - ég sé ekki neitt. Við hlæjum og síðan þú stendur á fætur og syngur og syngur svo fallega syngur ég kasta í þig augunum tveim litlum eggjum svo dönsum við saman á meðan þú syngur við dönsum og dönsum í myrkrinu inni en glugginn er opinn og úti er hljótt. ] [ Þú varst öðruvísi en allir sem ég þekkti með syndandi augu úr sjónum og óteljandi sauma á líkamanum. Við bökuðum saman súkkulaðiköku og ímynduðum okkur að einhver ætti afmæli settum á hana eldrautt kerti í miðjuna og ég fékk að blása og óskaði að við myndum alltaf vera saman. En nú eru fjögur ár síðan þá það er undarlegt hvað tíminn hefur flogið áfram þótt kvöldin séu lengi að líða. ] [ Ég skar út fullt af pappírshjörtum og hengdi uppí loftið á herberginu þínu breiddi síðan yfir mig skítugt lak og sveimaði kringum þig þar sem þú svafst eins og fallegasta líkið í veröldinni þuldi síðan ljóðið sem ég samdi fyrir þig og þú sagðir að væri drasl helvítis fíflið þitt en hvað um það við skulum sauma okkur saman á morgum og þykjast vera síamstvíburar. ] [ Ég bað þig um að bíta mig í hálsinn svolítið fast og þú gerðir það og sagðir að ég smakkaðist vel væri svolítið á bragðið eins og blóðappelsína og ég fann hvernig safinn lak á milli brjóstanna meðan nærbuxurnar blotnuðu og borðdúkurinn litaðist af rauðu. ] [ Mig dreymdi einu sinni að lítið tré væri að vaxa útúr miðju handarbakinu á mér fyrst bara örlítill sproti sem lengdist og stækkaði þar til hann kvíslaðist og lítil laufblöð tóku að spretta útúr endunum. Ég sýndi þér það alveg hugfangin og fann fyrir stolti eins og tréð væri nýfædda barnið mitt svo lítið og óskaplega viðkvæmt og veikburða. En þú grettir þig og sagðir að þetta hlyti að vera æxli kannski illkynja og ég yrði að láta taka það í burtu láta skera það brenna það en ég sagðist ekki vilja það. Þá tókstu fast í tréð mitt og sagðist skyldu redda þessu togaðir og reifst það upp með rótum. ] [ Þú sagðist vera sjúkur af ást eins og alltaf horfðir á mig ögrandi með geðveikisglotti og sagðist mest af öllu vilja slíta úr þér hjartað til að sanna það og rétta mér það blóðugt og púlsandi í æðislegri sjálfsmorðssælu. ] [ 4 af hverjum 7 fréttum byrja á: ,,öflug sprengja sprakk..." Á meðan ég les það set ég á mig naglalakk Ætti nú heldur að þroskast og pæla og fara á flakk Segja svo stundum við guðinn minn TAKK. ] [ Hugsanir á flakki ekkert frjótt Yfir Esjunni kólgubakki sem hverfur skjótt Jafn einfalt og takki sem gerir nótt ] [ Forstjórar í fyrirtækjum fjársvik lygar prettir Bóhemar í fjölskyldum nær alltaf svartir blettir Eru þessir menntuðu eitthvað betur settir Skærustu stjörnurnar eru oftast gervihnettir ] [ Hver ert þú? Hver er þinn réttur? Hvaðan færð þú þína von? Svíkur mig eða ekki.. Snertir mig eða ekki Skilur mig alls ekki Skilurðu ekki að ég kann að gefa þér von Þögninn þín svíður, svíður minn anda Fattarðu ekki að þú ert mín von Leikur við þig lífið ljúfurinn minn Listir þig í sopan eða viltu lífsins veigar og víf Mig dreymdi drauma Dagdrauma um mig og þig Eigum við framtíð eða er ég að sjá botninn Botninn..þegar allt er búið Botninn hefur þú klárað mig Hver ert þú Hver er þinn réttur Hvert er þitt takmark..kemur það saman við mitt Gefur þú mér von Von um framtíð með innihaldi Hvað sem gerist hvað sem við segjum eða ekki segjum Findu botninn og þar finnur þú hjarta þitt Svíkur mig eða ekki Snertir mig aldrei Skilur mig alls ekki Skilurðu ekki að ég er þín von Skilurðu ekki Þín von ] [ There is a bridge to cross, are we going to make it? coming from different worlds crossing on the chance of happines. I meet you,saw you fellt you living my life with in you leaping through the hole finding no ground only my values flying by me. I crawled into my self and cryed i shouted out and you was deaf i touched you and you turned away i missed you,yeat you was next to me your silence you isolated me in sorrow i left. ] [ i just wrote you a letter it had my soul my heart and spelling mistakes. read from your soul keep it by your chest or just use it for fire when you get chilles to night, Im waiting for the brake, the chanse or just plain luck to come along. if i dit then i ditint if i was then i wasnt if i tried i forgot it if im here im there i know you are there but wish you were here then i could meet you. ] [ Vindurinn geispaði golunni, en glefsaði ofurlítið, í eyru Elínborgar. Þar til hann gaf sig, en kuldinn var enn kröftugur, og kældi sig enn frekar. En ylur Árna yppti öxlum, og yljaði henni í faðmi hans, myrkrið hafði mælt sér mót. Við mánann og jafnvel þó, hann væri venjulega seinn, erfði myrkrið það ekki við hann. Framundan, þau sáu fjós. Fornt og löngu yfirgefið. Það stóð eitt og einmannalegt, eins og eyðieyja langt úti á sjó. 'Æ vonandi er þar eitthvað, til að kveikja ofurlítinn eld.' En seinna sannaðist það, að þó þau fengu sárum sínum gætt að. Þau hjúin höfðu það ekki af, en þau höfðu þó hvort annað. Elskendur fallnir frá, þannig fór um sjóferð þá, en síðan er dágóð stund. Eflaust er mörgum spurn, hvaða villugötum voru þau á, en það veit enginn nema þau sjálf. ] [ Byrjar lyftir öðrum fæti færir hann fram stígur niður lyftir hinum fætinum færir hann fram fyrir hinn stígur niður endurtekur aftur og aftur eins oft og þú vilt Endar ] [ Sólin snýst um sig sjálfa Plánetan snýst um sólina Tunglið snýst um plánetuna Enginn fær frið fyrir öðrum né sjálfum sér ] [ Sá sólina setjast en aldrei rísa Sá tunglið dvína en aldrei vaxa Sá grasið gulna en aldrei grænka Sá hvítt verða svart og gerði það aftur hvítt því það var það eina sem ég hafði stjórn á Svart snéri samt alltaf aftur og aftur ] [ Leyfist mér að spurja hver sá drenginn? Leyfist mér að spurja hver sá manninn? Leyfist mér að spurja hver sá slysið? Allt tengist en ég spyr og fæ engin svör ] [ élskann Djeiní ég er að segja það lofa sko! meina sver tveggja dyra með klakavél hann er bara svo sædur sko nema sædarari að innan leiðin er bara svo löng ég kemst alveg sko en það er bara hérna verst að ég kemst ekki kemst ekki upp úr sófanum ] [ lítur niður ætli ég geti flækt þá flækt á mér puttana? umkringdur af umhverfinu aðstæðurnar og ég það gæti það gerðist einu sinni en það er bara svo erfitt fertugasta og önnur heimsstyrjöldin ég og allt þetta skrítna sem ég kann ekki en ég bara skil ekki ] [ Fæddur '49 á krummaskuðinu Ísland ég er sorglegur lúði fór blindfullur á ball stelpur klæddar í gamlar gardínur með hár eins og hæstiréttur ] [ Ég er að labba á ströndinni að hugsa um ömmu þetta á að vera dramatískt en það fýkur sandur í augun á mér og ég ligg blótandi í svörtum sandinum ] [ Ég er búin að drekka of mikið viskí maðurinn sem ég "elskaði" hljóp fram af kletti hann var reyndar fífl en það er "part of programet" að syrgja fólk sem reynir að fljúga hann reyndi allavega svín geta ekki flogið ] [ Þú sagðir; Ég er að fara og ég leit upp og spurði, hvert? Þá laustu niður til mín eftir heilt ár og kysstir mig. ] [ Hjartað varð undir í ójöfnum leik er áttust við þrá mín og kvöðin, blekkti mig staðfestan, styrk eins og eik því stofninn hann skildi ei blöðin. Er kvaddi mig austrið með ávölum svip yfir féll haustmyrkrið svarta, grimm herti einsemd hið ískalda grip um eldinn í laufinu bjarta. Upp ég af rótunum reif mig og sleit ráfa nú, stefnulaus vera, reyni að kynnast einhverjum sem veit hvað mér er ætlað að gera. Mig grunar ég leitaði langt yfir skammt leiddur af ábyrgðarþunga, hjá austrinu held ég að hefði lært jafnt að horfa á drenginn minn unga. Lífið það snýst um að snapa sér yl við snertingar hvíslandi vara, lygna svo augunum aftur þar til aldrei þig langar að fara. ] [ Ég ók eftir fimmtu tröð og fram hjá stræti 52. Allt í einu eins og ljós birtist komu tónarnir fljúgandi og umvöfðu bílinn. Þau höfðu þá ekki farið lengra hugsaði ég, Billie, Basie, Parker, Gillispie velkomin aftur. ] [ ég er gallagripur stilltur á ,,sjálfseyðingarhvöt" á kraftinum ,,alger niðurrífsla" en þar sem ég er gallagripur þá vinn ég ekki eins og skyldi heldur eyði einnig öðrum í leiðinni ] [ hjarta mitt verkjar verð að stöðva sláttinn hef ekki enn áttað mig á því að það er skáldskapur í eyðum minningana ] [ Dalurinn opnaðist þröngur upp og síðsumarslitirnir umvöfðu drenginn sem lá á bakinu og horfði upp í loftið. Lítil flugvél í ógnarhæð leið hljóðlaustt yfir sviðið og dró á eftir sér heimþrá. ] [ Frá heila mínum til handa þinna er titrandi raf. Sem ófullgert ljóð um úthafsins gáru og kvöldhúmsins traf. Og hin fölbleika sýn við aftansins kinn skóp húminu göróttan staf. ] [ Beygðu hné þitt unga mær í átt að óendanleikanum sem birtist okkur í skærri stjörnu sem venusarvagn á vesturhimni, á meðan þúsundir ljósára allt um kring kvelja okkur með sinni frosnu þögn. ] [ Hvenær kemur hann ? Hvernig birtist hann ? Er hann kannske eins og ung stúlka sem ber að dyrum og spyr. Býr Sigurður hér ? Þá ætla ég að svara. Hvaða Sigurður. ] [ Þegar ég sá þig fyrst var ég strax sannfærður um að fegurri manneskja væri ekki til á þessari jörð. Þú endurspeglar allt hið góða í fari mínu. bros þitt breytir myrkri í nýttan dag og hlátur þinn er líkt og fegurstu engla söngvar. Ég mun ætíð standa vörð um öryggi þitt og ég mun vernda þig með lífi mínum. Í mínum huga ert þú einn sá mesti snillingur sem uppi hefur verið, þér eru allar götur greiðar og þú getur orðið allt sem þig dreymir um,ekkert er ómögulegt þú stjórnar þinni framtíð sjálf. Þú ert dóttir mín og þú ert ást lífs míns. ] [ Hún barðist tímunum saman við að koma okkur í þennan heim Hún vakti margar nætur við að svæfa okkur. Í gegnum öll okkar veikindi hún hjúkraði okkur. Hún þáði engin laun Hún átti aldrei frí. Við eigum henni líf að þakka Hún er móðir okkar, Hana við öll virðum og dáum fyrir fórnfýsi og óskilorðsbundna ást sem hún ber til baranna sinna. ] [ Silkimjúk húð hennar strýkur burt allan ótta. Ég er týndur í örmum hennar, hlýtt hörund hennar heldur á mér hita á meðan hugur minn fullur af köldum og dimmum hugsunum reykar um í myrkrinu. Því óendanlega sem ekkert virðist getað stöðvað. Ég bíð þess með eftirvæntingu að myrkrið fari og skuggar hætti að dansa trylltum dans hins móðursjúka höfundar sem virðist getað skapað óreiðu úr skipulagi. Ég lít undan, ég er hultur í örmum hennar, ekkert fær grandað mér.Ég er ekki einn. ] [ Ég var aðeins barn. Ég var aðeins barn þegar ég reif úr mér hjartað og gaf þér. Ég færði þér hjarta mitt á silfurfati ásamt sál minni og líkama. Þú lést hjarta mitt slá, nærðir sál mína og naust líkama míns. Nú er ég eldri og þú hefur kramið hjartað mitt, étið sál mína og misnotað líkama minn. Ef þú sérð þér fært á því, þá þætti mér vænt um að fá leyfarnar af hjartanu mínu og hluta af sál minni ef hún er ekki horfin. ] [ Í húsinu á hæðinni eru holar dimmar dyr og augum blindum gluggatóftir stara. Og ég sem aldrei, aldrei áður hefi komið við. Hef víst komið hérna áður, til að fara. ] [ Embla er ekki á allra færi einstök í sinni röð. Hún er með fín og falleg læri og feykilega, -- falleg. ] [ Gæsirnar klufu loftið í oddaflugi yfir fölbleikt engið og gullin lauf trjánna svifu mjúklega til jarðar eins og dúnn undan ljósum væng. ] [ Haustvísur Nú húmar að og haustið tekur við hélu slær á votan svörð. Fela nætur fagurt sjónarsvið fjöllin mín og sérhvern fjörð. Regnboginn glitrar rjóður og hlýr rökkrið það senn okkur vefur. Dagurinn hopar, dagsbirtan flýr, dýrðlega myndina gefur. ] [ Veggirnar þaktir staðalýmindum frá helvíti Hold-yljandi flýkur lyggja sem hræ á gólfinu Og kuldinn streymi í gegnum tvöfalda glerið Samt sit ég hér og geri ekkert í því. Þögnin umlykur klikkið í tökkunum Tónlistin streytist á móti . Staðalýmindirnar hæðast og hlæja af mér Allt er að vera vitlaust.. Fæ ég FÆV!!!! Ekkert svar enþá.. Samt situr þu sem dáleiddur við skjáinn Situr og andar, situr og hugsar Situr, situr SITURRRRRRRRR!!! VAKNAÐU MANN FJANDI!! Hildur Þ ] [ Myrkra tekur inn’í mér, Er dimma fer í september Ein í næturhúmi hér Og græt er engin til mín sér. Hvað sem var að gerast þar Aldrei mun ég finna svar Sársauki sem aldrei var Sársauki sem ég ein bar Sjaldan skorti hugrekki þá Það hver vitur maður sá Samt sem áður fann ég þrá Sem myndi fylgja eftirsjá Nú sveima ég hér og horfi á já, horfi með söknuði á þá Sem eftir eru jörðunni á og syrgja mína glötuðu sál. ] [ There once was a very private eye This eye could see beyond the sky Making moments last forever Binding ties that would not sever Giving life to lifeless dreams Where everything is what it seems The eye refused to wear eyeglasses wear them just to please the masses for this creature had a vision and what it saw was it’s decision even purple days and dreamy nights were a fraction of it’s unique sights Though it at times felt like a fraud For some it was the eye of god Catching life at it’s very core More beautiful than ever before For what it gave, this private eye It could never ever be a lie. ] [ Brother, brother, don’t reach for the sky Live sober here on, I don’t want you to die Sleepless nights and endless thoughts Never ending the worries your actions brought Live on brother, I need you with me To stay as you are, death won’t set you free This world is alright if you give it a chance Just stay away from the devils dance Our father and mother would miss you so much Not ever to feel your loving touch please do it for them if not for you my brother! Your death is far from due Lastly what I want to say Is that if your not going to stay You wont go alone, I’ll follow you and they will mourn not one, but two ] [ Thinking while I lay upon the bed These last few days I’ve been alittle sad It seems for no reason at all Maybe it will all just go away And then may be it’s here to stay Tomorrow everything may well change Though I don’t know which way i’ll go I’ll leave this place and then they’ll see That I was never meant to be Anything else than a memorie ] [ Flugvélin dró á eftir sér reik í kaldbláu loftinu í átt að flugvellinum. Léttum skrefum gengu þeir í hrímuðu lynginu á átt til byggða þar sem beið þeirra jól. ] [ Á dögunum sat ég við sjónvarpið og horfði á alþingiskonu tala. Síðan slökkti ég á talinu og horfði á munn hennar hreyfast. Hann hreyfðist og hreyfðist og augu hennar gneistuðu af ákefð til að bæta heiminn. Í Danmörku fannst á dögunum steingervingur af risaeðlu þriggja millján ára gamall. ] [ Blóm vistna en stein varir að eilífu líkt og minning þín. ] [ Myrkvaður hugur minn leitar ásjár í faðmlagi birtunnar sem er mótuð eins og líkami konu, Hlýr og mjúkur barmur hennar linar þjáningar mínar Hún vefur fótleggjunum utan um mig Bægir myrkrinu frá Ég er frjáls í örmum hennar Hið fyrra er horfið. ] [ Okkar ástkæru fold við nú seljum og þar með allt dýralíf hveljum við innflytjum erlent vinnuafl til þess eins að setja okkur á háan stall Við grösum og fögrum blómum sökkvum og fögnum um leið árfarvegi dökkum því dalir, hólar og hæðir nú undir vatni verða og minna þá sést til fugla ferða Okkar skömm er nánast engin svo lengi sem samstaða við önnur lönd er fengin þá stíflur og stríð við styðjum án þess þó að vera spurð að því hvað við viljum Við fyrir börnum okkar ávallt brýnum að glögg við verðum ef við í bækur rýnum og það að arfur okkar sé svo sterkur svo og að missa hann væri ómældur verkur Hvað þá með okkar land og vætti við ættum jú, með allri okkar trú og öllum mætti að vera við sköpun guðanna sátt svo börn okkar ey þurfi að elda silfur grátt ] [ Nú Freyr virðist í öndvegi hafður vera álfana röðull á akrana skín, nú allur gróður og tré sig vel bera sváslegir vindar nú blása til þín. Nú þreyttir Skinfaxi og Dagur orðnir eru sól á himni síga fer, Árvakur og Alsvinnur móðir eru komin tími að kveðja hverja veru ást og frið nú hefur, þessi dagur gefið mér. Nótt nú yfir himin ríður Hrímfaxi með dögg sína undir henni fer, dimma á eftir sér hún grímu dregur þó stjörnum prýdd hún sé. Máni ásamt Viðfinns börnum sólar sinni, gráleitur á himni hátt, lýsir upp aldna steina á Njarðar ströndum þó Hati Hróðvitnis mögur leiki grátt. Tími sonar Svásuðar nú á enda er þá Vindlónar mögur tekur hart á móti mér, með frosti sínu og éli, mig hann kvelur hér og allur gróður nú fölnar við fætur mér. Hertíum klæddur ég stend hér nú og kveð börn mín og konu ég faðma fast að mér, nornirnar þrjár nú með rúnum rista mér og þér hvað framtíðin í skauti sér ber. Dvöl mín hér á fögrum miðgarðs foldum brátt nú fer að líða ég ligg hér dofinn í föllnum valnum Gunnur, Rota og Skuld þar eftir mér bíða. Ég finn nú að ég áfram er leiddur á fund Valföðurs riðið er geyst, þar mun ég í hávahöllu ásamt einherjum dvelja þar sem öl og matur er bestur og Ásgarð undan jötnum verja. Ragnarök svo líða munu þá á Gimlé ég ykkur mun aftur finna, því að Surtar logi þann stað ekki nær að brenna og mun hann hýsa alla þá sem sælir og góðir voru. ] [ Eftir áralangar æfingar og þrotlausar tilraunir tókst það. Við sömdum lag handa heiminum! Það kviknaði í litlu herbergi og hljómaði strax vel en með tímanum fór það óvænt fram úr björtustu vonum. Textinn hófst á óskiljanlegum samhengislausum hávaða en í hægum takti komu orðin eitt og eitt undursamleg og heillandi í óstöðvandi stígandi. Aðbúnaðurinn var ítarlegur enda hvergi til sparað og er það komst loks á markað elskuðu allir það og dáðu. Það flutti á vinsældalistana og fjarlægðist okkur en hvenær sem það hljómaði í útvarpi eða sjónvarpi á vörum annarra eða sem minning úr hugskoti bræddi það hjörtu okkar. Tilbrigði við stefið fylltu heiminn bergmál fortíðarinnar varð metsöluplata morgundagsins, lokasinfónía hljóðfæraleikaranna. Og við lifum að eilífu sem tónlist. ] [ í morgun þegar ég beit í brauðið mitt, var 4 ára strákur bitinn af byssukúlu í Palestínu. í morgun þegar ég hóf leit að skónum mínum, leitaði írösk kona að barnabarni sínu en það eina sem hún fann voru skór þess. í morgun þegar ég steig inn í strætó númer tvö, sprungu tveir strætisvagnar fullir af lífi á götum Ísraels. í morgun þegar ég gekk framhjá tómum grunnskóla gengu menn um götur Rússaveldis og myrtu 499 grunnskólabörn. fjögurhundruðníutíuogníu....... Það er það sama og ég borga fyrir subwaysamlokuna mína sem ég kem með heim seinnipart dags nöldrandi og vælandi um erfiðan vinnudag og sötrandi coca cola á meðan. En það eina sem ég gerði í raun var: ég sat á sveittu rassgati við tölvuskjá og vorkenndi sjálfum mér yfir því að vera ekki með stöð tvö og Idolið fer að byrja Lífið er sumum gott Ætli þeir sýni Survivor í Súdan? ] [ Orðin skriðu út úr honum skrykkjótt og loðin eins og svartar kóngulær. Spunnu glitrandi vef milli tungu og hjarta. Spunnu glitrandi vef milli himins og jarðar. Spunnu glitrandi vef lyga og ljóða. Bara til að hafa mig góða. ] [ Af hverju eru allir svona óþakklátir? Af hverju eru allir svona frekir? Af hverju kann enginn að meta mig? Hver bjó til þessar óraunhæfu kröfur? Hver ákvað að ég fengi ekki neitt? Hver stjórnar heiminum og öllu sem er, hvað er ég eiginlega að gera hér? ] [ Sjálfselska, mont, eigingirni og nýska, orðin sem öðrum finnst lýsa mér best. Ég keypti mér Lexus því það er jú tíska, og mér líður best þegar auður minn sést. Kaupi allt það dýrasta flottasta og besta, segi öllum frá því og sýni sem flest. Eignast með árunum muni sem flesta, því mér líður best þegar auður minn sést. Hreint er ég viss um að þeir sem mig þekkja, eru jú flestir minni en ég. Fæstir þeir eiga jú muni sem blekkja, allavega ekki eins mikið og ég. Ungviði kennt hef nýsku og leti, kosti sem gerðu mig það sem ég er. Gert hef ég það svo að seinna þau geti, vaxið úr grasi og hermt eftir mér. Svo þegar seinna til hvílu er lagður, saddur af lífi, snauðu af ást. Þá verður sannleikur lífs míns loks sagður, honum leið best þegar auður hans sást. ] [ Blítt þú blundar rótt breiðist húmið yfir. Stjarnan skín í nótt við skulum biðjast fyrir. Skuggar birtast brá bærist tregi í hjarta. Seinna muntu sjá sofðu barnið bjarta. ] [ Svartur er hrafninn svartur er hrafninn syngjum út kvöldið með bikar á borði Tunglið leit inn með skugga bláum í takt við eldinn sem glóð´i í arni Senn kemur morgun senn kemur morgun mettur af ryki og glærum orðum ] [ Dagurinn þegar jörðin stóð á öndinni og hugur minn leitaði út í víðáttuna upp hæðir og yfir fjöll var vorið komið. ] [ Hví horfirðu á mig, hví vekurðu von. Er það ég sem á þig, þú fagri Íslandsdon. Viltu ganga örlítið lengra. eða bara halda í mína hönd, Allt í kring virðist nú þrengra. erum við að mynda bönd. Ég skal þig aldrei svíkja. sveina aðra líta á, Frá þér aldrei víkja, ef þú vilt mér vera hjá. Nú vil ég ekki tala, því misst ég hef mitt mál Ég hjartað mitt þér fala. Og alla mína sál. ] [ Siðprúðir gera það ofaná, Öfugir gera það aftan frá. Stressaðir vilja það bara fá, en hjá sumum er lokað og ekkert má. ] [ “Illt er að láta í lekan pott,” leyfist mér slíkt hér að orða? Duga skal nú og gerist gott geti menn fengið að borða!! Kerfisins má ei saurugan saka! Saknæmt er ef einhverjir nenna! Enginn vill þar á nokkru taka!!! Ábyrgðarleysið er engum að kenna! Úrskurði dómstóla vantar svo víða, vandamál stór og tíminn sem gull! Atvinna kerfis að láta hann líða!!!!! Leika sem börn að hræra sitt drull! Ætla ég fis þetta fótanna mein! Fótasár valda raunum og baga! Engin er lækning í núinu nein, eða neinn til að færa til haga! En hvað á að gera við kerfiskarla, kunni þeir bara rjóma að lepja??? Drápurnar mínar duga þeim varla, dæmast þær samt engin helgislepja. ] [ ...Afmeyjun! Sársauki,spenna,hræðsla. Blóð! Mér blæðir! Hvílík kvöl, er það kvöl að verða kona? ...Mistök! Drukkkin!Dauðadrukkin! dreginn inn á klósettt. Ókunnugt andlit, snertir og hamast. Hættu segi ég hættu! Spjóti stungið inn, enginn sársauki, engar tilfiningar, sjálsfróun hans á mér. ...Ástfangin! Horfumst í augu, höldumst í hendur, kyssumst og kelum, klæðum hvort annað úr. Nakin!Naktari en nokkru sinni fyrr. Elskumst Gott svo gott. Ó hvað það er gott að vera kona! ] [ Ljúft við orðin leik ég mér ljóðin ég þau tileinka þér. Hugurinn ekkert annað sér en stundirnar sem við áttum hér. ] [ Ég setti puttann þarna niður og ég fann að ég þurfti að skeina mig ég sá fasistaplottið í hendi mér. Skrýtið var að sjá hvað stjörnurnar voru klikkaðar þetta kvöld og snákurinn stífur. Ég kveikti í rettu og rölti niður Laugaveginn og fannst ég vera flottur. Hei, þarna var Rósa áttu gras ástin veistu um flott partí. Ég er heví gæi og get reddað öllu eigum við að rokka í kvöld. (Ef ekki í kvöld, hvenær þá?) ] [ Elsku vinur þökk fyrir allar dópstundirnar manstu eftir nálinni og nefinu manstu svimann manstu myrkrið manstu kvöldið forðum. Elsku vinur dópum saman í kvöld það er það sem við viljum það er það sem við viljum píkurnar skipta engu dópið dópið dópið það er það sem við viljum. Elsku vinur dópermann og dópið dópið dópið það eru draumar okkar. ] [ Helvíti hitnaði ég þegar ég sá parið og þú ert nýskáld nýhilskáld og vont skáld. En kynþokkafull kona. ] [ Það mætir alltaf sama helvítis pakkið í pottana. Er það ekki? Þessi er örugglega hér til þess að reyna að fá sér að ríða. Þú veist hvað ég meina, en djöfullinn vildi ég sjúga geirvörturnar á henni, það skiptir ekki máli. Og rúnka mér suður á Reynimel, í rökkvuðu herbergi og rauðu neonljósi. ] [ Ég næ ekki takti í tilverunni og hún getur ekki borið mér birtuna. Í nótt dönsum við saman þar til sólin rís. ] [ Lygin er sannleikur minn. Og sannleikurinn er mín lygi. ] [ Ég finn ilminn af þér og ég hugsa skyldir þú alltaf hafa lyktað svona lokkandi. ] [ Já hann er ágætur þessi háttur spurðu mig á morgun hvort ég hafi ekki örugglega skilið eftir fimmhundruðkallinn í nærbuxunum. ] [ Ég get ekki tekið þátt í þessu lengur góða nótt litla ljót. Skítur skeður eins og þeir sögðu á góðri íslensku. Við höfðum betur ekki farið í þessa útilegu og sameinast varmanum og víghöfðum. ] [ Þegar ég sá brjóst þín fannst mér eins og veröldin syngi þegar ég nam frygðarhljóð þín vaknaði ég. ] [ Í morgun reis nýr dagur og dauðinn beið mín á blankskóm og þá birtist mer blóðrauð bókin. Og mér fannst þú vera apríkósa ég veraldarvanur og þú varst tíkin í kvennafangelsinu. Og ég hundurinn. ] [ Lífið ... er drulla Drulla sem er föst við mig Drulla sem ég vill losna frá Lífið á ekki við mig Drullan drekkir mér ] [ Læsi sjálfa mig inná baði til að fá næði fyrir geðveikinni. Sest niður og hefst handa við að hnýta netið sem ég lofaði feitu línudansmærinni í fjólubláa sundbolnum. Má ekki bregðast í þetta skiptið, síðast féll hún niður netið slitnaði og hún lést samstundis. Vængirnir báru hana ekki til himna. Þess vegna bý eg til annað net, feita línudansmærin fékk annað tækifæri ] [ þreytt illt flökurt leið hvert fór sólin á meðan ég beið? einmana asnaleg sorgmædd reið allt er orðið er fyrir ég kveið. sælt væri að sofna nú svörtu myrkri í síðan að endingu ætlaðir þú að vekja mig upp að nýju ] [ Til lífsins er fórnað lífgjafanum sem gekk dauðanum á hönd. Skrýdd rauðu gekk inn fylgd tveimur stærstu faðmlögunum. Lagðist á stallinn ljósið litað rauðu af þeirri sem var hér áður. Maðurinn í grænu sveiflar sverðinu og ég man ekki meir ekki fyrr en maurarnir skriðu á mér allri. Leg orðið að legstað þar hvíla börnin sem aldrei urðu En ég lifi. ] [ Ljóðin streyma fram í hugann, steypast niður eins og Dettifoss. Renna niður heilaveginn beygja til hægri og vinstri. Stoppa á rauðum ljósum. Leggja við taugagöngin, labba svo niður þau og koma fram í hendina sem ritar þau á blað. ] [ Snjórinn kom og settist berrassaður á fjallið; rak nefið upp í vindinn og teygði úr tánum. Hann hoppaði alveg til sólarinnar og allt bráðnaði nema hausinn. Svo rann hann niður brekkuna eins og bolti. Hausinn klifraði alveg upp á topp og skoppaði alveg inn í sólina og hausinn bráðnaði og gat ekkert gert og bara búið. ] [ Ég horfi í botnlaus augu þín Þrái að drukkna Saman syrgjum við fölnandi æsku okkar Spyrjum í hljóðlátri angist Hvað ef? ] [ Hvort er einum kært að svara Ekki bara horfa og stara Bara ef þú vildir og mig betur skildir Að ég þorði að bíða að og vona að þú vildir við mig koma svo svaraðu hvað villtu.?? eftr Dingdong. ] [ Hangover is an obsession that penetrates every atom of my fragile self an obsession that reminds me to drink so I can have a hangover ] [ The real achiever in this world is the under-achiever, the loser the one we trod upon for failure teaches humility the door to all the virtues The real winner in this world is the one that goes unnoticed who may never have a grave lost at sea, or what you like The real reason lies in the beholder not what is in the hand of the beholder Thats why, you and me are the same ] [ Sameindir austanvindsins umvöfðu mig þar sem ég greip með höndunum í tunglið og æddu síðan í aspirnar á flötinni. Þær titruðu í vindinum og gáfu frá sér hvissandi hljóð með greinarnar berar sem bentu á flötina þúsund fingrum. Longt er í vorið,en það kemur samt. Verum samtaka og þreyjum þorrann með andvökunætur í farteskinu ] [ Sátum hér að sumbli glöð, sváfum vel og lengi. Hestar komu heim á tröð, hófar skullu á engi. Viðfjarðarundrin vekja menn, víst við reyndum það. Súpukjötið kraumar enn, krota ég létt á blað. Við dólum heim með duggu senn og drífum okkur í bað. ] [ Í fyrra hérna ortum við um ýmislegt. Nú andagiftir heldur tregar reika. Í óðarmálum er því nokkuð tungutrekt, en tappar fjúka og spilasagnir skeika. Tafl á rúmi, taktar snjallir leikjum í, á tímamörk er korter fastur liður. En eins og spilin enginn hérna neitar því að allra bestu skákir fara niður. En að líkum aftur víst mun verða rótt! Í veldi drauma svífum kannske bráðum! Að morgni þurfa smalamenn að skunda skjótt, með Skuggahlíðar-“Þóra”, í ráði og dáðum! ] [ Það fyllti huga minn fallegt fljóð, hún hold mitt fékk til að rísa. Þá varð það til þetta litla ljóð, sem endar á orðinu físa. ] [ Þögnin er þín eina vörn um varir þínar leikur kaldur þeyr en rótlaust blóm það dafnar ekki heldur visnar upp og deyr ] [ mig langar að snerta þig eins og rós og stinga mig viljandi á þyrnum þínum ] [ hefur þú heyrt um manninn sem var alltaf á flótta hlaupandi milli skuggsælla staða ásóttur af orðum úr fortíðinni hefur þú heyrt um manninn sem var lokaður inni á skuggsælum stað ásóttur af orðum úr framtíðinni hefur þú lesið ljóð nýlega? ] [ Tunglið er fallegt! Það segir mér sögur af þér og mér. Sögur sem kannski eiga sér aldrei stað. Svo felur það sig bak við skýin þegar það sér hvernig ég bregst við. Þegar það sér spegilmynd sína endurspeglast í tárum mínum tárum sem kannski eiga sér aldrei stað... ] [ Ferð okkar er endalaus en ekki án fyrirheits því við erum öll hér í mjög merkum tilgangi að breyta veröldinni en þó merkilegt nok án þess að það þurfi að sliga okkar daglega líf því steinninn sem breytir árfarveginum hefur ekkert fyrir því hann er bara til staðar stundum er það nóg ] [ lítið barn sefur vært með mjúkan bangsann í fanginu hjúfrar sig upp að honum leitar verndar um leið og það verndar er trúin okkur það sem bangsinn er barninu? ] [ Sundurskotið höfuð unga drengsins lafir friðsælt örlítið á skjön við líkama hans Heitur vindurinn bærir blóðstorkið hár hans Þar sem hann situr enn á þríhjólinu Heldur dauðahaldi í stýrið Eins og hann óttist að detta ] [ Stríð Þetta eina orð Nær yfir sorgir hinna lifandi Þögn hinna dauðu Litlar varnarlausar lífvana verur sem teygja hendur sínar í liðinni bæn til himna í vonleysi í von eftir stendur stytta af einræðisherranum hol að innan eins og fyrirmyndin ] [ Ég drukknaði í djúpi augna þinna og tíminn stóð kyrr eitt andartak eina mannsævi. Ég dó í djúpi augna þinna en fæddist á ný hinn fyrsta dag. ] [ Vorið er komið sólskin blíða tillir um tánna hlýja. Hænurnar verpa eggin kleggjast ungarnir koma og fara. ] [ Lifandi ljós lýsir öðru. Leiðast þau saman? eða dofnar hitt? hvert ljós segir sitt. ] [ Hleyp og hleyp Hleyp og hleyp Vill ekki hætta Ætla ekki að hætta Má ekki hætta Hleyp og hleyp Hleyp og hleyp Vill ekki nást Ætla ekki að nást Má ekki nást Hleyp og hleyp Dett Rís ekki aftur ] [ Nakinn með útrétta arma kalla á drottinn Kemur hann? Hjálpar hann? Bjargar hann? Kalla og Kalla Annar maður nakinn maður kemur og tekur í hönd mína "Varstu að kalla?" ] [ Ég stóð við húsið og reykti sígarettuna mína. Horfði á fólkið og bílana þeytast framhjá. Stóð þarna þegjandi og hugsaði um gamlar minningar, gamlar ástir. Fylltist sorg og söknuði. Henti frá mér stubbnum og gekk inn eins og ekkert hafði skeð. ] [ Sá álf um daginn Hann var að skemmta sér Hann dansaði og var hýr á brá Hann sá mig og brosti ] [ Kveiki í og sýg horfi á eldinn bogast og koma af stað eiturmegnuðum reyk Reykurinn fyllir vitin og sogast niður ofaní lungun sem sótast Blæs út frá mér fylgist með er reykurinn breiðist um herbergið og mengar ] [ Engill var á mynd sem ég sá um daginn ljósmynd Engill þar sem engir vængir sáust á englavængir Engill sem hafði því miður enga ásjónu andlit Engill sem starði á mig og heilsaði mér ] [ Berst um og finn máttinn hverfa Saltvatnið þrýstist inn í vitundin Augun opnast en sjá ekkert Móðan færist yfir mig en ég gef ekkert eftir Yfirborðið nálgast Sólin rís á ný ] [ Ferðalangur fylgist grannt með þegar hóllinn opnast og út streymir ljós mannsins Grunnurinn hrynur Stólparnir klofna Veggirnir molna Skógarnir fuðra upp Ferðalangur fylgist grannt með er ringulreiðin blossar upp og stjórnleysið tekur völdin ] [ Þegar þú drepst ætla ég að njóta þess að horfa á páfagaukana éta úr þér augun. ] [ Ekki blika sóldægrin og sunnanáttin sefur Ég vildi ég gæti myrt þessar myrku vetrarnætur. ] [ Ég finn að hann er að fara að gefa þess vegna ætla ég að spila hann gaf vel síðast en ég er ekki spílafíkill. ] [ Það var ekki fyrr en ég vaknaði allur alblóðga í framan að ég fattaði að þú varst á túr. ] [ Hvað ertu gömul spurði ég fjórtán ára viltu ríða æ veistu ekki að vorið og veturinn og vötnin sem gáfu mér allt hurfu áðuren nýsnævið þiðnaði. Ég er reiðin sagðir þú en nóttin var ekki söm hvaða helvítis máli skiptir það og þú svona nýfarin að skynja þig í rigningunni sem kynveru. Ég vona samt að við sjáumst aldrei aftur. ] [ Vinur minn þú varst krossfestur. Þú vildir öllum gera gott elskaðir fyrirgafst umbarst barðist við hatrið í brjósti þínu. Fólkið hrækti á þig grýtti þig unni þér ekki griða. En þú gafst allt sem þú áttir en hvað gef ég? ] [ Ég sá hana á horninu á Amsterdam hún minnti mig á eilíft líf ég skellti þúsundkalli í spilakassann og hringdi á leigubíl. Ég hrynti henni út á dansgólfið og hún sagði nei. Ég hefði getað valið hverja glaða mey en var of fullur til að segja hei! ] [ að héðan í frá verða allar konur kristilegar að framan sem og að aftan ] [ sólbjartur septemberdagur sólþurrkaður hundaskítur skítalykt svartar tyggjóklessur á flísalögðum gangstéttum er svar Montpellier við hvítum tyggjóklessum á svörtu malbiki rigningarlykt vatnsósa náfölum ánamöðkum rigningarsaman dag í Reykjavík ] [ Ég er enginn Jónsi í svörtum fötum en ég reyni. Niðurdreginn hlusta ég á Nasistamellurnar. En enginn skilur mig. Og heimurinn fokkar mér á fimmtán mínútna fresti. ] [ Stundum getur reiðin runkað sér hún gerði það í gær en hún gerir það ekki alltaf því miður. Stundum getur rökkvið rúnkað mér einsog skáldamellurnar sem skynja ekki neitt. Líða um í dofa dópaðar. En þetta er líf þeirra því þær eru beiskar. Og þær muna ekki eftir mér. ] [ Gleðin er liðin við erum ein. Ég vakandi þú áfengisdauð í sófanum. En barmurinn rís í tign. ] [ Þeir tala um heimsendapesti eins og einhverja fóbíu en ég veit að þær koma með nálykt og blóðsugum og því sem þú væntir ekki. ] [ Þú talaðir um trúna vonina kærleikann. En það voru bara tíundir sem skiptu máli. Sjá hér er ég og get ekki annað. Spíttið í vasanum segir að geðveikin sé gleði þín. ] [ Áður voru dagarnir draumaglit. En nú eru þeir nóttin sjálf. ] [ Fjarstýringin á átján og Nýhilskáldin eru í sjálfsmorðshugleiðingum. ] [ Hví skyldum við ekki fara út í skurð því þar heyrum við rödd kyrrðarinnar friðar gleði og sátta. Þetta var nóttin sem ég lofaði þér lífinu birtunni gleðinni. En ég sveik það því ég átti það ekki. ] [ Ég þekki þig og hata þig. Þó þú sért sá eini sem vakir yfir mér hvert skref. Vakir eins og hrafn yfir hræi. Það lá við að ég dæi. ] [ Ég reyni að drekka þig en helvítis kúmenbragðið stoppar í kokinu. Ég man eftir kringlunum sem ég borðaði hjá ömmu dýfði þeim í teið. Ég reyni að drekka þig því hugsanir mínar hverfa í eitt. En í birtingu sé ég bölvunina. ] [ Ég veit að þú vildir segja það ég heyrði þig segja það. En þrælastríðinu er lokið, ég vildi auðmýkt. Nóttin kemur og náköld birtan. ] [ Sál mín syrgir mitt fas, sjálfsaginn orðinn sinn herra. Þráin að heyra ekkert þras, þrífst á því sem verður verra. ] [ Ég er ekki alkóhólisti sagði skáldið en mikið helvíti er vínið sætt. Ég leyfi ástríðu minni ekki að draga andann en ég drekk bara til að gleyma. Gleyma gleyma gleyma gleyma gleyma. Það er það eina sem ég vil. ] [ Vinur minn sem ég þekki ekki veit ekki hvar hann á að vera í nótt. Hann er hræddur við lífið og veröldina en hann getur slegið á lyklaborð þó hann megni ekki að segja ég elska þig. ] [ Vinur minn fer reglulega í ljós hann litar hárið svart og er með flotta vöðva. Vinur minn dópar ekki er giftur og á fjórar dætur og allar eru þær þéttvaxnar. Vinur minn er hrókur alls fagnaðar. Nema heima hjá sér. ] [ Veturinn er kominn þá fara krakkar að væla um kulda leika sér í snjónum og syngja jóla lög. Veturinn er árstíð, sem krökkum fynnst gaman. veturinn er árstíð, sem snjóar fer. ] [ Allt sem er ástin og ástin sem er allt, mun hverfa með sólinni þegar jörðin snýr sér undan. ] [ Ástarljóð í næturkyrrð, hvað er hlýrra? Sorgartár á stjörnunótt, hvað er verra? Endalaus innblástur, í einni tilfinningu. -Og um leið, endalaust tómarúm, í ótal tilfinningum. ] [ Glitrandi kristallar, lýsa upp hjarta mitt, örsmáir ljósgeislar, sem falla á andlit þitt. Eitt andartak vona ég, án þess að finna þig, að þú sért ekki farinn, farinn úr huga mér. Því þú sem varst innblástur, ást og tilfinning... All í þessu eina bjarta andliti. Horfðu inní sárið á sál minni, sem þú skildir eftir þig. Stöðugt í minninu, óstöðug hugsun, sem hverfur um leið og lífið úr augum þínum. ] [ í gær var móðir mín í lautinni við fjallið, hún lék sér á enginu með hundinum mínum, það voru góðar stundir. Faðir minn var fluttur til fjalla. Hann afsalaði sér húsinu. Núna erum við í höfuðborg fjallana !!! Alein og næstum dauð. ] [ Þetta líf er eins og lítil króna, þá meina ég ljósakróna. Svo björt og tær sem vatn í gær, það grær í dag.... Á morgun fer rafmagnið. Við notumst við kertin ..... ] [ Grasið óx upp og stóð á höndum og jörðin hjálpaði því. Svo duttu buxurnar af því og runnu alveg fyrir augun. Og svo rann peysan alveg niður á jörðina. ] [ Hann fæddist, hann óx, hann frelsaði, hann dó og steig upp til himna. Hann snýr brátt aftur trúa menn, á jörðu til manna sinna. Hann borinn var í fjárhúsi, því upptekið var hótelið. Hann græddi vel er fæddur var, fékk gull, myrru og allskonar. Hann gerði margt og mikið gott, hann gekk yfir vatn og það var flott. "Já hann er eins og þið heyrið nú: okkar heilagi maður Jesú". ] [ Hin eilífa hringrás lífsins: ég fer fram og aftur, aftur og fram "Hann var að moldu kominn" eru hin eilífu orð, "og að moldu verður". Hvernig ætli það sé? Að vera grafinn, að rotna og vera étinn, í líkkistu, í jörðu, að verða að mold, eða öðru. Ég kýs að brenna, að brenna í lífvana báli, að verða að ösku, sem dreift er um, á mína allbestu staði. Ég vil brenna! ] [ hver mannvera er þakin litlum örverum sem hún sér aldrei Alls konar kvikindi maurar bakteríur og fleira Skyldi mannkynið vera hluti af örverunum sem lifa á Guði sem er alheimurinn ] [ hvaða rétt hef ég til þess að gera tilkall til þín sem tilheyrir himinhvolfinu og moldinni í senn samt engist sál mín um leið og líkami minn skelfur í fráhvörfum frá þér þar sem frygðin og bænin mætast bíð ég þín ] [ orð þín í tíma töluð þínum tíma tilveran er fléttuð úr óendanlegum fjölda smáatriða hugsunum orðum og athöfnum sem mynda saman fínofinn ósýnilegan vef sem er líf okkar vefinn getum við einungis séð með því að stíga út úr okkur sjálfum út úr vefnum og píra “augun” á ákveðinn hátt ef vefurinn er heill er allt í lagi orð mín í tíma töluð mínum tíma er vefur okkar heill? ] [ Þú ert ósamþykktur, brennandi heillandi, mun eldri en ég. Lætur mig kikna, dreyma þig, blotna. Mig langar í þig, þú einn hreyfir við mér. Þú ert orðinn allt, orðinn stór, en ég er enn dreymandi písl! ] [ Ég á mús, með enga lús, hún á hús, og vatnskrús, vatn drekkur en ekki djús, hún vill knús, og hlustar á blús. Ég á kött, hann á hött, kölluð kisa, sem líkar misa, kölluð læða, á fisk vill gæða, um leik vill ræða, en fer fljótt að mæða. ] [ Fangelsismúrinn er brostinn og fnykur sálar þinnar er floginn langt í burtu úr öllum vitum mér. Nú ríkir bara friður í faðmi gleði minnar og fögnuðurinn mikill er komst ég burt frá þér. ] [ Ég er guð Ég talaði við hann fyrir stuttu þar sagði hann að tilveran væri grín. það er ekki hughresandi að hugsa til þess að við erum brandari. En það er samt satt. Ég er líka satan. Hann býr innra með mér. Hann er efinn. Hann er óttinn sem við búum yfir. Hann er ekki bara hið illa hann er líka góða. Guð og satan er einn og sami maður. Ég er einn maður Ég er ekki margskiptur persónuleiki. Ég er hið góða og hið illa í heiminum En hver er ég. ] [ Tíminn blæs og lífið þeytist áfram yfir endamörkin Enginn meðbyr einungis mótvindur og bárur mannanna móta heiminn ] [ Ein kartafla kom upp úr pokanum opnaði skápinn skoppaði niður á gólf og dó. ] [ Kæri vinur Dapur svipur fylgir þér Og oft á tíðum hefur fólk það séð En góð sál er innra með þér En þessa sál ekki allir fá séð Þér finnst þú vera á vitlausri braut Sem aldrei virðist enda Þér finnst lífið vera erfið þraut En þrautin leysist það vil ég á benda Fjarlægðin er ekki löng í hamingjuna Vittu til vinur minn Þú munt hennar una Sá dagur kemur og verðu þinn Mundu að sá sem yfir þér mun vaka Styrkir þig sitjandi af fallegri sillu Að þó einhver brot úr hjarta þínu myndi taka Sendir hann þér styrk af þinni hillu Þín vinkona B.B.S. ] [ Hann kom eins og blossi Hver er þetta Sem smelltir á mig kossi Ég lifnaði öll við Lét mig hverfa Og setti þetta á bið Hræðsla greip mig alla Það var eitthvað sem tengdist honum Sem virtist á mig kalla Ákvað því að slá til Eins og það hafi verið örlög Og það ég núna skil Öll framtíðin er óljós En það birtist Í lífi mínu skært ljós Vitandi hvað myndi gerast Lét mig slaka á Og með vindinum berast Þó við vitum ekki hvert stefnan er Er ánægð að hafa hitt þig Því ég er breytt hvernig sem fer. ] [ með orðunum einum býrð þú okkur til heiminn mig og þig býrð um okkur í setningum orðlaus tilvera leysir okkur upp í óskýrar skuggaverur umbúðir úr orðum skerpa útlínurnar við búum í lífslangri skáldsögu skrifaðri á staðnum ] [ Blóðrauð dvaldi hún í sinnu minni nótt og strauk orðfingrum litdaufa vanga ég lauk upp augum leit en sá ekki nóttina fyrir myrkri. að morgni reis bláklukka á vegi einum og ég dró mig að henni viðjar álaga bundu líkama ferðlúinn ég sat þar og hlustaði á vind eyðimerkur svartrar uns jurtin visnaði. hvíta fjöður bar að og endaði í opnum lófa hvellt gá sjakala kolsvartur ljár í huga mér -er komið að því, spurði ég með fjöðrina elti ég sjakalann dauðadjúpt í eyðimörkinni blóðrauð nótt og bláklukka bíða mín enn við veginn. ] [ Skírnarljóð nafna míns!!! Hann er fallegur Einar Örn með upplitið frá pabba sínum. Hendurnar gæti virkjað í vörn virkilega eru þær líkar mínum. Velkominn nafni til að vera okkur hjá!!! Veit ég þig samsteyptan genunum fínum! Virkilega fannst mér nú vænt um að sjá að varst þú líkari pabba en afa þínum!!! 29/01/2005 Glæsileiki hans vex og vex!!! Vandaður er nafni og slyngur! Trúi ég að dömunum sex x sex sá vefji um hvurn sinn fingur! ] [ Sunna Júlía sýnist mér sveitarprýði á Skorrastað! Með ellefu árin hennar hér heillaóskir ég set á blað! ] [ Elsku besta amma, nú hvílir þú, að sjá þig fella úr landi, er nú rosa sárt. ég sit og hugsa, hve margt við gerðum saman, hugur minn stöðvar aldrei, það hefði verið svo gaman. Kannski er gott að þú fórst, ég veit að guð er góður, þú varst orðin veik, ég er samt alveg óður. Ég græt og læt, fella niður tár, ég er voða sár, Mér langar til þín, Þegar ég er orðin gamall, og hverf útúr heimi, kannski sé ég þig, ef þú verðir ekki komin aftur, í heiminn. Það er ekki hægt að eiga góða ömmu, góða ömmu eins og þú, margar ömmur veit ég elskaði þær, af öllum reit míns hjarta, "Og þú ert ein af þeim" ] [ Amma var svo dásamleg hún dansaði úti á gólfi sumir hvarta sí og æ en ég skelli hlæ. Nú er hún látin tárin streima hægt niður því nú sjáumst við uppi í himna ríki. Mig saknar svo ömmu en það er gott að vera hjá Guði. Við skulum nú dansa ömmu dans því þá verður hún fegin. ] [ ég stend i skugga þínum ég bíð eftir orðum þínum ástin mín því lifum við í þessum skuggaheimi þar sem ljós ástarinnar lýsir eitt og ekkert sést nema lítill logi hvað erum við að gera hérna það er ekkert hér nema gullinn þráður óendurgoldinar ástar þú sérð mig ekki ég tærist upp og breitist í skugga skuggann þinn ] [ Everytime you're felling sad or all your imotions are mest up bad. You always know that I´ll be there no matter when or where. No matter how bad you feel, you know you can always reveal you´re deppest thoughts and most disires cause even if you´re brain retires you´re secret´s safe with me. ] [ það er svo kalt snjónum kingir niður þó að kuldinn sé aðeins í huga mínum þá er hann samt hér. það sér enginn snjóinn nema ég það finnur engin kuldann nema ég útávið er heitur sumardagur en ég veit betur ég er svo þreitt á lífinu ] [ Áður teymdi ástin mig í bandi setti mig á öruggann stað. Þó svo líf mitt lenti í strandi aldrei um hjálp ég bað. Ég hef sjálfum mér verið til ama og gengið hef í gegnum súrt og sætt. En aldrei var neinum um mig sama brotið mig niður eða hjarta mitt tætt. Eftir allt uppréttur hef ég staðið og hrint áhyggjum af öxlum mér. En loks snérist blessaða blaðið því lokað hef á samveruna með þér. ] [ Ég er monthani þú ert ekki neitt því ég er monthani Víkið frá sem ekkert getið Farið burt til allra átta Ég er monthani þú ert ekki neitt því ég er monthani ] [ Hlandland, það er mitt land meiri bjór, meira hland Hlandland Hlandfési, þetta er þitt land þessi bjór og þetta hland Hlandland ] [ Ramses III er ekki Monthani II frekar en Napoleon Bonaparte Monthani II byggir veraldir sem hann einn getur montað sig af ] [ Monthani nálgast sitt sjálf með yfirgangi og látum slík hegðun dugar skammt hjá ykkur hinum Því er ég monthani ] [ Fargri eru fjallasalir sem augun finna og sjá. Stórar hlíðar og djúpir dalir, þar sem jarðir bænda standa á. Finna má bæði tré og runna og á sem rennur skammt frá. Gömlu húsin eru hrunin til grunna, sína gömlu mynd aldrei aftur fá. Sveitin mín saklausa fína misst hefur sjarman sinn. Henni tókst honum að týna, hún verður samt alltaf staðurinn minn ] [ Ég hef gert rangt góði Guð ekki refsa mér. Frá deginum í dag, skal ég þjóna þér. Ég var týndur í eigin sorg sem leiddi mig til þessa leiða. En með þessu ætlaði ég, engann manneskju að meiða. Hætta skal ég að ljúga og sýna af mér betri mynd. Hífa skal ég upp buxurnar, og aldrei fremja aðra synd. Virða skal ég lífið sjálft geymdu þessi orð drottinn minn. Vonandi hlustar þú mig á, þú mikli sem skapaðir himininn ] [ Í ljóðum aldrei lífið er því ljóðin alltaf ljúga. Já ljóðið aldrei veginn fer það aðeins kann að fljúga. ] [ Hey þú óþekktarormur, komdu núna hér, þú ert bara lítill gormur, með pínulítið nef. Ef söngvari vilt þú verða, þá verðuru bara búðarkerra, ef leikari vilt þú verða, verðuru bara lakkrísleðja. ] [ Verkur í maga, enginn matur, í marga daga, alveg flatur... ...engin næring, borða minna, aldrei lærist, lífið að finna. Best að sleppa því alveg að borða, sérstaklega þegar einhver er að horfa! Ég er alveg svöng en má bara ekki fá mér, það gæti kallað fram þetta augnaráð frá þér. Finnst þér ég feit? Er ég svona ljót? Ekki lengur heit, og blóðið eins og jökulfljót. Engin næring, enginn hiti, kuldahrollur, kaldur sviti, Hvernig er hægt að deyja úr hungri, í leit við að halda sér grannri og ungri? ] [ Ég er bara 10 ára, verð 11 ára, 17.Október með pínulítið kartöflunef. Pældu í því, hvað ég er gamall, kann að skálda ljóð, og finnst það bara gaman. Ég búin að gera mörg ljóð, miðað við suma, sum af þeim eru mjög góð, en sumir mætti leggja ljóðið oní sjó. ] [ Eins og tungan leitar sífellt í sár í munni leitar órór hugur minn að minnsta fræi óhamingju í fylgsnum sínum og vökvar vel og vandlega Er það furða þótt hamingjan sé fallvölt þegar maður hefur Trójuhest í höfðinu? ] [ The cold is outside, but I feel warm Because I know when I’m with you, nothing can do me harm As the wind comes in, the smile went away from my face I know I can be something if I get out of this place I can’t feel my lips, my words can’t get out I can’t say those things I’m thinking about You take my hand and walk me on But in the cold night you are gone My breath is getting harder to take These feelings are too hard too break I keep tight my memories by the lake Everything was perfect, the moon showed us the way It was almost a perfect day.... Suddenly the clouds went gray The cold was in me.... I couldn’t say..... I felt down on my knees and dirt was in my eyes I was so blind, I couldn’t see your lies No more goodbyes…. I try to fly away, as my feets are getting stronger I’m trying to find you so we can be together longer I will never forget what you said “I will never leave you” but you are dead Something grabbed my leg and helt me close I got lonely but then I saw this red rose Something reminds of you, this rose is a sign Even though you will never be mine I always will have your face in my eyes And a memory that never dies…. ] [ The rain has fallen upon my dreams..... The tragedy hunts me for what I am…. But I ask myself….what am I?..... I’m walking alone in the dark, the rain has taken my hopes away Every tear I’ve made has been washed today I’m trying to tell myself this is not how it ends Am I alive or dead?....It depends…. I see the rain falling on the street, the lights are out I just don’t understand what this life is about I miss you, I really do, but you left me in the rain…. The only memory of you is my pain I pray everyday for the rain to stop, is there hope? I’m running in the dark, slipped on a bag of rope My face is wet, the rain got me, I feel no hurt… In the cold dark comes a man with bright light pulling me off the dirt I felt so cold, but I knew it was warm This man had my life in his arm I looked into his eyes, I saw my future….I saw my death The man suddenly disappeared and I lost my breath I felt down on my knees, I didn’t feel so good I saw…I’m not sure but then I finally understood The rain went away like my dreams…. The tragedy hunts me for what I am…. But then I thought, you are the one But in my heart you were gone I need you….but you don’t want me back, am I told I looked up to the sky, I felt so much cold And when I closed my eyes….I didn’t want to open them And I will never do it again… I asked God to take me, let me into your door My heart stopped beating, and won’t beat anymore….. They buried me in the dark..in the cold It was not true what they told You loved me, after all I said… I wish now, I wasn’t dead You’re on my grave beating the dirt God I wish I could be heard You lay down and cry…your tears changed into hurt Your love woke me up…I tried to breath.. I just couldn’t escape from the beneath You didn’t even hear me…I screamed, I cried You will never forget the day that I died….. ] [ Ó þið elskulegu tónar sveiflunnar sem komu til mín eins og angandi ást á síðdegi, lyftu mér í hæstu hæðir og sögðu meira meira þú ert rétt að byrja, haltu áfram því þú átt daginn uns kvöldhúmið fellur létt á hug þinn. ] [ Ég er með ógleði af ást, byrjuð er að æla. Þér finnst um fátt farin er ég þó að skæla. Ég er með ógleði, uppsölu, iðrakveisu - en þú ert með stæla!! Ég er með hjartaáfall, hugsýki harðlífi - ertu ekkert að pæla?? ] [ Tunglið kalt uppá himninum svipur frosinn í götunni. Eitthvað brast barði allt of fast hnefinn rauður hann er... Þögnin kemur upp um mig. Hvað hef ég gert? Augu Heljar stara á mig hnefinn rauður hann er... Ef ég hefði ekkert séð ekkert gert hvar væri ég nú? Kannski faðir með fjölskyldu, í stað þess hefur þú mig dæmt. Ég er dæmdur! Dæmdur! Mælir lífsins er tæmdur. ] [ Þú verður að segja mér satt ég get ekki lengur gengið um keðjureykjandi með spjót í hjartanu fiðring í maganum snöru um hálsinn þú verður að segja mér satt ég vil ekki deyja úr lungnakrabba fyrir þrítugt blæða út í hjartanu stökkva upp í hvert sinn sem síminn tístir bjallan hringir draumurinn vaknar Þú verður að segja mér satt ég á ekki fyrir fleiri sígarettum hef ekki meira blóð í hjartanu ekki meira þrek til að elska Þú verður að segja mér satt ELSKARÐU MIG ? eða kannski er mér bara alveg sama.... ] [ svona amatörtíkur eins og þú eiga ekkert í mig þú situr og segir mér frá hefndinni sársaukanum sem þú ætlar að valda hefndinni og þú grætur en þú veist ekki bakvið hlustandann góða skilningsrík augun brosið blíða er ég tík allra tíka og ég ætla að dansa á ösku þinni þegar dagar hefndarinnar koma ég tala ekki ég geri og græt aldrei og þú munt sjá þegar dagar hefndarinnar koma að þú hefðir átt að hlusta sjálf því ofar öllu verð ég hætt að hlusta græt ekki hefni hefni og hlæ ] [ á hverri nóttu læðist ástin inn til þín þar sem við elskumt og ég ligg á sænginni umla og styn all part of the game my dear og ég elska en þetta er bara á nóttunni og á nóttunni er hjarta þitt lokað og þú vilt ekki opna mitt hvað ertu að gera á daginn ? þegar ég sé ekki þegar ég er ekki hvað ertu að gera á daginn ? ertu að elska einhverja aðra ? hvar opnarðu hjarta þitt ? ég ætla að setja þig í band og binda þig við rúmið no worries ég hef nóg í bandinu svo að þú getur farið í sturtu í eldhúsið hraðbankann og elskað mig þá geturðu elskað mig líka á daginn kysst mig sleikt mig elskað mig og þó ég drepi sál þína anda þinn þá skiptir það ekki máli því ég er elskuð ] [ Ég set drauma mína á flöskur svo ég hafi vetrarforða leggst svo í dvala en vakna aldrei aftur. Einhver heppinn mun finna flöskurnar og láta innihaldið rætast. ] [ You do not wait for my reply. You do not hear, you do not care. I believe that love is out there, WHERE ? Your teeth so white,your skin so bright, could you stay for one more night? You do not care, you do not know, I shall make love within you grow... But how, I say, what can I do ? I kneel, I crawl, I fall for you. You do not hear, You do not see, You do not care to care for me. All this I know but still I fall... There´s love for one and love for all. But maybe the mistake is mine alone I kneel, I crawl, I cry. I believe that love is out there, WHY ? Tomorrow is another day, I shall have love, I know I may, I wanted yours,it was not there. I believe that love is out there, do I CARE? ] [ Í poka einum allt hans er hann á víst ekkert meira. Hann gamall, grár og veikur er hvað get ég sagt þér fleira? Í lest hann situr kassa á og man þá gamla daga. En kassan gefur konu, hann hann kann sér vel að haga. Nú stendur gamall maður sárt er lítið barn þar grætur. Barnið datt og sár eitt fékk hann reisti það á fætur. Hann barni þessu bros sitt gaf já, bros sitt undur bjart. Hann átti ei margt en gaf jú þó gjafir beint frá hjarta! ] [ Í sárum dropum lífið er, Í tómum dropum lífið fer. Þeir dropar renna afar hljótt, Um hljóða, kalda dimma nótt. Nú renna þeir frá hjarta mér, Og aðeins vilja segja þér: Mitt líf, mín ást, mín sól ert þú, Úr lífi mínu hverfur nú. ] [ Er vaknar lítið lífsins ljós, í heimi stríðs og friða, þá brosir einn er þjáist hinn, það kallast víst til siða. Er hvílist annar vakir hinn og horfir upp til skýja, þá annar nótt og tunglið sér, en hinn sér daginn blíða. ] [ Ég stari tveimur stjörnum um gluggann minn, vill flýja. Þú gengur þar um rökkrið inn og horfir upp til skýja. Þín augu mæta stjörnum tveim er horfa á þig úr tómi. Mitt hjarta ber þér ástarorð úr þúsund vinda rómi. ] [ Um skólans ár fer lítill drengur með sár á hjarta samt hann gengur, með tár í augum hátt hann stefnir og loforð sín hann ávallt efnir. Úr skóla fer hann beint að vinna þó dimmar nætur samt hann finna, hann veit nú allt um jörð og heima og frægur er um alla geima. Hann ást og yl nú loksins fær er eignast hann þá fagra mær, hann ávallt þó í hjarta hefur minningar og lítið sefur. Á elliárum loks hann lætur lífið sitt og fellur fætur, þá lífsins ganga barns er hafin er minning hins er gleymd og grafin. ] [ Nei, aldrei er að vita, hvað guð er með, heldur manni hita, eða er það frosið nef? Ég veit hvað guð gerir, hann skúrar bara gólfið, sumum finnst það gaman, en aðrir rosa leitt. Ég get ráðið draumum, og veit ekki afhverju, spila við aðra laumu, en rugla bara tóma steypu. já, fótbolta ég spila, liðið með fjölni, svo boltanum ég skila, vill fara á hestnámskeið, hestnámskeið með tjölvni. Nú þarf ég að kveðja, það er allt of sárt, þarna er súkkulaðileðja, já guð það verð ég að fá. ] [ Tólf hjóla steypubíll dældi úr sér steypunni yfir litla stráið sem á því augnabliki var að hugsa hvað úr því yrði þegar það hefði náð að vaxa. Enn var það í sömu hugleiðingum þegar það kíkti upp úr harðnaðri stéttinni. ] [ það stekkur bros fram á varir þínar já einmitt svona ] [ aðeins eitt orð þagnar það var orðið dimmt hljótt svar ] [ Hljóðar bera rústir við blóðguð aftanský blíðar myndir garði gengnar hjá Dafnar ei lengur lífsins þöll. Örlög manna einn mun sjá. ] [ Skrýtið hvað það er allt í einu ánægjulegt að það sé farið að dimma ] [ Nú til dags verða allir að sætir svo þeir eru verða af tískunni ætir. Þröngar buxur og öfga greitt hár sem skilur eftir í buddunni þinni sár. Allir verða að vera eins og hinir því annars hverfa allir þeirra vinir. Aldur þinn skiptir ekki nokkru máli því tískan brennir þig á báli. Þeir sem eiga ekki peninga verða undir og færri verða allar gleðistundir. Þér er sagt hvað þú eigir að hlusta á og hvað þú heimtar í jólagjöf að fá. Í búðunum sölumaðurinn þig platar og þig með fölskum upplýsingum matar. Því í augum hans er en eitt fórnarlamb sem ættir að fá sér nýt föt og hanakamb. Þér skipað að hreyfa þig dag og nótt áður en hjartaáfall hefur þig sótt. Þú munt deyja ef hreyfir þig ekki neitt byrjið því að púla svo allt verði sveitt Þú ert að guði gerður og góði mundu það og gleymdu ekki um hvað hann þig um bað. Þú skalt ekki ljúga, þú skalt ekki stela hlustið því ekki á þessa sölumanns dela. Því þeir ljúga og kaupa ykkar sál og að innan í þér brennar þeir bál. Þeir lifa í græðgi og svíkajhvern sem er gætu sent þíg úr búðinni jafnvel allsber Dópið það kostar og drepur þig hægt að lokum færðu hjartastop sem er vægt. Lífið er gott og reyndu að njóta þess ekki upplifa allt nútíma stress. ] [ egnin oðr kmou þaegr gé stsestit nuðir fnuigurinr sgólu vnaa fsaitr hajrtað tfiðai etifr liesðlu ] [ Ég reyni að ganga í kringum þunglyndishúsið án þess að koma þangað inn, því ef ég fer þangað inn fyllist ég af þunglyndi og mig langar ekki til að vera þunglyndur með brotna sjálfsmynd, leiðinlegar hugsanir og aumur á sálinni. Mig langar til að vera frjáls, frjáls frá þunglyndishúsinu og getað brosað við lífinu og sagt: „Ég er til og mér líður vel.” ] [ Ég er peð í lífsins tafli en mitt sjálf er riddari sem festist í amfetamín skafli og kom svo til Guðs altari. ] [ Komdu bara og kysstu mig á kinn mína ef þú vilt, ljáðu mér svo hönd þína ég lofa að vera stillt, eltu mig og leggstu hjá mér við lækinn djúpa, leyfðu mér að taka um þig og líkamann strjúka, leggjast þétt að þér og með líkamanum við þig gæla, ljúflingspiltinn saklausan af göflum tæla, fikra mig neðar og finna hold þitt rísa, fiðringur tekur um sig þetta er betra en fögur vísa, horfðu á mig ég veit þú þráir, ég vil að þú mig núna fáir, leystu um og lofaðu mér að finna fyrir þér, njótumst enginn heyrir enginn sér, minnumst þess svo að þetta var ævintýrið okkar, piltur,stúlka, nælonbuxur og ullarsokkar, rafmögnuð stund óendanlegur kraftur, Kveðjumst svo og sjáumst aldrei aftur. ] [ Við erum flest ef ekki öll auðvald á einum eða öðrum punkti í lífi okkar. Vegna þess að hver króna, dollar eða pund er verðgildi og máttur til verslunar andvirði þeirrar einingar sem hún er huglægt séð. Þannig að það er ekkert merkilegt að vera auðvald. ] [ Ég samdi til þín litla stöku, stafarugl um þig og mig. Vinskap vorn sem heldur mér vöku, vers sem ort er bara um þig. Frænkur við erum freknóttar líka, fagrar að okkar eigin sögn. Að djamma, djúsa og út að fríka, en ágætt að eyða saman þögn. Þegar ég er leið þú gerir það rétta, lætur mér líða aftur vel. þarft ekki að spyrja hvað er af þér að frétta, því þú sérð í mína sálarskel. Skiljum hvor aðra án þess að tala, sál okkar hún slær í takt. Höfum henst í gegnum alla skala, Í blíðu , kulda og þegar veður er rakt. Hef ég þér fyllilega þakkað, fyrir hveitibrauðsdagana í denn, vildi ég gæti til þeirra bakkað, verið með þér en þó hér í senn. Þú þreytir líf í öðru landi, þrot það hefur gefið mér. Þó ég á báðum löppum standi, þá get ég ekki lifað hér. Viltu vinur koma aftur, vera hjá mér dag og nótt. því án þín er er mér þrotinn kraftur, þolinmæðin farinn og ekki er mér rótt. Saman við gætum breezer sopið, drykkjuleiki og spilað á spil. þunnar í ísbúðina þotið, þreyttar kúrt inni í byl. Dagsins draumórar tóku völdin, dimmt var yfir huga mér. hugsa ég til þín á daginn og kvöldin, kæri vinur kvöl er að vera ey hjá þér. ] [ Það er frost Komin er nótt ég ein geng úti allt er hljótt Þar til ég sé þig Mig þú tekur særir mig, þar til blóðið lekur Þú fullnægist Þú snýrð burt Blóðið er horfið Allt er þurrt Lítið tár brestur og um kinn mína rennur Ég æpi úr kvöl því í mínu hjarta eldur brennur. Laufin eru frosin ásamt minni tómu sál. ] [ Hann er óttasleginn hann er kvíðinn hann þarf að kveðja börnin í hista sinn að kyssa konu sína bless fyrir fullt og allt hann ætlar ekki að koma aftur, aldrei hann ætlar að fara fara burtu það er kalt úti hann fer í flíspeysu vinnupeysuna það er október morgun sá fyrsti hann segist vera að fara uppá fjall hann er ekki að fara uppá fjall hann er að fara niðurí vinnu að fara niðurí vinnu með kaðalinn hann er ekki kvíðinn ekki hræddur heldur tilbúinn tilbúinn fyrir dauðann ] [ Vorið hvarf úr hjartanu, sem hafði slegið svo glatt og oft alltof hratt, þegar þú kvaddir og breiddir kaldofið haustið yfir skjálfandi herðar mínar. ] [ Fyrir utan gluggann minn fislétt lauf fýkur. Það ætlar sér að komast inn áður en lífi þess lýkur. Það bar öll þau merki að sumarið sé búið. Laufið átti búsetu á lerki en hefur frá honum flúið. Ég tók það í hönd mína og strax um lit það breytti. Það sagði mér alla sögu sína ég skjól því á meðan veitti. Við vorum sammála um tvennt að tvö við ættum brotna sál. Laufið hafði á það bent, að ástin gæti brennt í manni bál. Nú hefur það fallið frá og lokið hefur tilgangi sínum. En það er eitt sem segja má að laufinu leið vel í örmum mínum. ] [ áður var hún sæt og falleg nú hrum sem blikar tár vangasvipur mjúkur,fínn nú hörkulegur sem steinninn blár rauðar postulínsvarir nú herptar saman sem lína er ljósa hárið slétt og fallegt nú svart sem nóttin ber bláu augun sem lýstu barni orðin grá sem kaldur steinn komdu elskan komdu hingað til himna þar er ég ] [ Þegar ég verð engill verð ég í hvítum kjól og ég fæ geislabaug gylltan og glansandi ég engill þú engill Veröldin okkar verður himnaríki sjálft ] [ Ég er ekki útbrunninn en ég er sýruhaus og ég neyti hennar ekki alls ekki. Hugsunin er minning og hafið söng ég var ekki hér ég var aldrei hjá þér. Ég valdi ekki sýruna sýran valdi mig. ] [ Hann kom til mín í dyrnar, rétti fram höndina ég kiknaði og hann sagði aðeins þetta: Sæll vinur, ég er Bó. Þetta var eftir tónleikana. Vá, æptu píurnar! Og fólkið í röðinni hló. Eftir það sagði ég upp á Gauknum. ] [ Í klóm drykkjunnar Ég horfi í augun á þér Þau eru ekki eins og þau eiga að vera. Þú ángar af víni!! Þú vast að drekka!! Tárin byrja að streyma Ég er sár Sár út í þig. Á endanum gleypir drykkjan þig Inn í ýmindaðan heim. Þar sem allt er fullkomið Eða það heldur þú. Innst inni veistu að þú ert að missa mig Ég get ekki horft upp á þig Í klóm drykkjunar. Það er enginn undankomuleið Nema viðurkenna vandann. Þú heldur að vínið bjargi öllu Eða telur þér trú um það Ég fel mig í skugganum Ég lamast niður. Græt og græt Grátur bjargar engu. Ég reyni að tala við þig Þú hlustar ekki. Ég hleyp í burtu Þá sé ég hann. Hann er eins og guð í augum mínum Kemur þegar mér líður ílla, Þegar allt er að hrinja, þegar ég þarfnast hans og reynir að hughreista mig. Ég sé aftur tilgangin með lífinu Það er honum að þakka að ég brosi Og mun brosa. Þanga til sorgin brýtur það niður En gleðin og hamingja eru sterkari Og ég mun berjast Meðan hann brosir til mín Mun ég brosa. ] [ Dimm endalok Myrkrið nálgast Tilfiningin er skrýtin. Brátt mun enginn minnast mín Nema lítil telpa Sem grætur. Enginn við hugga hana, Enginn vill minnast mín. Ég átti mína slæmu daga Eins og hver annar. Hún reynir að tala við fjölskylduna, Þau hlusta ekki Þau bara stara á hana. Hún varð reið og hljóp út. Það er rigning Enginn hleypur á eftir henni. Hún finnur hvernig tárin blandast rigningunni. Hún sér ljós, Þau nálgast of fljótt. Eins og dauðinn. Hún opnar augun Hún er öll út í blóði, Augun er þung eins og steinn. Hún veit að hún er að deyja. Þá mun draumur hennar rætast Um að hitta afa sinn í fyrsta sinn. ] [ trúa bitra vini mínum sem segir að ástin sé mýta? byggja upp samsæriskenningu um kalla sem sömdu ástina fyrir þúsundum ára spunnu hana upp frá rótum til að halda fólkinu góðu svona eins og paradís (aflátsbréfin og allt það)? nei get ekki annað en horfst í augu við ástina sem skekur líkama minn og er hreinlega áþreifanleg og lyktina af þér sem er eins og vímugjafi og þig sem ert svo fáránlega fallegur þar sem þú liggur við hliðina á mér í svarta hárinu og bláu augunum og sefur kemst ekki hjá því að vita að ég er væmin í maganum vegna þess að ég veit að þú ert til þú ein stór feit gangandi viðvörunarbjalla sem ég sniðgekk og fjarlægist sífellt punktinn þar sem ég gat auðveldlega snúið við og bjallan glymur ennþá og bergmálar í höfðinu en það er erfittóþægilegtasnalegt að éta ofan í sig að segja fólkinu að það hafi haft rétt fyrir sér of gömul til að slíta mig lausa og hlaupa og hver segir að það sé rétt að flýja vandamálin í stað þess að takast á við þau hver segir að ég eigi ekki að taka í höndina á þér og segja við gerum þetta saman af því að ég elska þig elska þig allan með uppsveiflum og niðursveiflum með oftúlkunum og ranghugmyndum með áfengissýki og röddunum í höfðinu með lokkinn úr hárinu mínu í vasanum elska þig án þess að vita nákvæmlega hvers vegna með öllu akkúrat svona eins og þú ert núna á þessari sekúndu mínútu þessum degi þessu ári með geðveikina grasserandi í hausnum og flæðandi út um öll vit og þess vegna gerum við þetta saman ég og þú því ég vil það ég og þú í sama rúminu sama tómarúminu ef þú bara syngur stundum fyrir mig og gerir stundum eins og ég segi við getum þetta og samt veit ég að ég veit ekki hvort við getum þetta veit ekki hvernig við getum þetta veit bara að mér finnst ég ekki hafa neitt annað en höndina þína læsta um mína og ég held að ég gæti orðið hamingjusöm með þér ef þú bara kannski og stundum ] [ Ég er Peð í lífsins tafli en mitt sjálf er Riddari Er festist í amfetamín skafli og kom svo til Guðs altari. ] [ Er þetta ást eða þörf??? Ég fynn hendur þínar Á barmi mínum Þú strýkur hann Laust en fagmanslega Ég fynn hvernig þú spennist allur Andadrátturinn er hraður Þú kyssir mig Ég fynn mjúkar varir þínar við mínar Ég gæti kysst þig endalaust Við fáum ekki svo langan tíma Síminn hryngir ég þarf að fara Ég hleyp út Út í rigninguna Það er sorg í hjarta mínu Það er eins og elding hafi lent í hjartanu Eins og það hafi verið rifið úr mér Gleiðin byrtist Þegar þú talar Þegar þú brosir Þegar ég heyri rödd þína Gleðin er Þegar þú ert nálægt ] [ Ég sé tár renna niður augu þín Ég hef sært þig Djúft Hvað gat ég gert Látið þér að líða ýlla Eða huggað þig Þetta er mitt val Erfitt val Augu þín eru rauð Og þrútin Mér líður hræðilega Ég hef sært þig Ég sé það í augum þínum Þau eru full af sorg og hatri Nú veit ég það Ég hef misst þig Ég næ alldrei til þín aftur Lifi ég það af???? ] [ Sjómaður (Afi) Ég þekki þig ekki En langar það Hvernig á ég að tala við Þú ert valla nefndur Þegar ég nefni þig við fólk Reynir það að komast undan Þó þú sést minning má minnast þín Þú ert nú afi minn sem ég er stolt af Pabbi er sagður líkur þér Hvað veit ég um það Ég hef ekki séð margar myndir af þér Mér langar að geta kvatt þig alminilega Þó þú fynnist ekki Þá ertu samt alltaf í hjarta mínu. ] [ Vetur nálgast Snjóhvít fönnin skríður niður fjallið. Kaldur vindurinn þéttist að mér kuldi fer um mig. Brátt mun snjórinn þekja allt með sínum hvíta lit. Börnin hlaupa út bros fer um varir þeirra. Smitandi bros ég brosi. Renna sér á sleða niður brattar hlíðirnar. För myndast eftir barnsfætur hendurnar verða kaldar Eplarauðarkinnar sína afrek dagsins. Móðirin tekur á móti þeim með rjúkandi heitt kakó og kökur. Heitt kakóið hlýjar littlu líkömunum Börnin sofna með bros á vör. Bíða spennt eftir morgundeiginum Mun snjórinn vera... ] [ Á vegi mínum vaxa ekki blóm því niðdimm nótt með napri hendi lýkur um sérhvert blóm á sorgargöngu minni. Á vegi mínum visna lítil blóm. ] [ Að lifa er að hafa fæðst að lifa er svo efinn hvort maður sé í raun sá sem maður er og uggur yfir því hvert maður fer að lifa og svo deyja án þess að vilja það. ] [ Upp kom sú nótt að þeir báðir mig kysstu. Mér varð ekki rótt og af mér þeir misstu. Einn ei skildi hvað hann vildi. Annar er sá sem ást mína á. Báðir eiga hug minn og hjarta, en aðeins einn fær brosið mitt bjarta. ] [ Ég þrái að vera með þér, hvern dag og hverja nótt. Sjá þig vakna við hlið mér og sjá þig sofna rótt. ] [ Þú ert áttaviti, sem ég hef glatað.. Nú get ég ekki lengur veginn ratað.. ] [ Tréð í garði stendur berin rauð eru á, þar eru engar endur en mörg börn eru að sjá. Þau tína og tína berin en borða einnig smá berin voru eitruð deyja allir þá. ] [ Gatan var í gönguferð og hitti vin sinn húsið og þau fóru að spjalla saman um hvernig þau ættu að komast heim til sín. Þau voru búin að labba um allt landið næstum því. Og svo sáu þau bara húsið en þá kom bíll og gatan lagðist niður svo að bíllinn gæti keyrt. Og svo fóru þau heim en dyrnar voru læstar. Þau voru með nesti. Svo var einn með lykla, það var gatan. En þá kom stór bíll og þau gátu ekki opnað. Gatan setti lyklana í vasann og lagðist niður. En dekkið sprakk. Og svo komu engir bílar og þau gátu bara opnað dyrnar og komist inn. En húsið var ekki stórt, bara eins og hundakofi. Húsið var komið heim en gatan átti ekki neitt hús. Hún átti bara heima á jörðinni af því að hún liggur alltaf. ] [ Ég hef leitað þín lengi yfir daginn og fram á nótt. Gengið hef fjöll og græn engi þar sem óheppnin hefur að mér sótt. Á leiðinni varð ég á vegi veru sem vísaði mér í átt til þín. Hún sagði mér frá stað þar sem eru endalausar ástir og stúlkan mín. Áfram gekk ég með von í hjarta því nær ástinni minni ég var. Horfin er fortíð mín svarta og við spurningum hef ég fundið svar. Loks fann ég stúlkuna mína þar sem hún alein sat á steini. Mikil viðbrögð hún kaus að sýna en þeirri stund ég aldrei gleymi. ] [ Þögnin er skerandi hávaði heimsins. Þögnin fyllir út í tómarúmið sem óp og öskur skilja eftir. Þögnin er listrænn tjáningarmáti fólks, sem getur ekki tjáð sig munnlega. Þögnin er allsstaðar til en lætur lítið yfir sér. Hún skríður yfir hvert fjall, niður í hvern dal og hverja laut. Hún svífur alltaf í kringum okkur en fólk er alltof upptekið til að taka eftir henni. Allir vita hvað þögnin er en fáir skilja hana til fulls. Þögnin magnast upp í næturhúminu en leggst til svefns í morgunsárið. ] [ Horfi á hvítleit skýin hanga kærulaus á gráum himninum. Án festingar án öryggisnets skítsama um það hvar þau eru eða hvert þau eru að fara. Safna í sig sýnishornum af veröldinni og svífa þar til þeim sortnar fyrir augu. Leka niður af þreytu og sofna gegndrepa á fjallstindum eða hafsbotni. Rísa svo á einhverjum degi aftur upp til himna nýfædd, hvítklædd og óhrædd. ] [ Lífið er eins og hurð stundum er hún opin stundum er hún lokuð en aldrei er hún læst ] [ Ef ég ætla eitthvað eitt, einhver öskrar í mann, aldrei má ég ekki neitt, eilíft nokkurntímann. ] [ -Falin bak við augnaráðið sem beinist til þín úr fjarlægð er fegurðin.- Þær hættur sem fylgja því að þrá þig eru faldar í skuggunum sem stafa af ljósi þúsund ódauðlegra andartaka. Því ef ég opna mig, hendi ég burt öllum lásum. Fagurt ljós á gráum degi stafar af þér. Og í fjarlægð stend ég í skugganum ] [ Já,svarið er komið það beið eftir mér. þú þekkir mig eigi ég veit sál þín er. Þú fegurst allra kvenna af lyndi má það sjá. senn lífið er komið að vakna oss hjá. Ég bið þig að koma og vera hjá mér. þar til lífinu lýlur í veröldu hér. Ferðin góða hafin er húmar senn að kveldi. þú munt ætíð vera mér líf í ástar eldi. Þig kveð ég að sinni mín ástfagra mær. þú ert mér í hjarta þegar kvölda nær. ] [ Að gefa aðeins það besta þér er mér ljúft í hjarta. Með þakklæti get sagt það hér að nú skín sólin bjarta. ] [ Ég er dofinn þegar hendur þínar snerta sál þín um mig ofinn finnur finnur frið því ég er dofinn Mætti ég biðja þig að stinga höndum þínum inn undir húð mína strjúka blóðpumpuna sem býr í brjósti mér rólega svona eins og þegar þú straukst bak mitt og ég fékk gæsahúð því ég veit að ef ég fæ gæsahúð á hjartað þá mun ég geta kysst þig með sál minni beint á munninn ] [ Í þúsund daga var ég týnd þúsund sinnum fannstu mig Þúsund kossa gaf ég þér Þúsund sinnum elskaði þig í þúsund skipti varstu svikinn Í þúsund skipti játaðist þér Þúsund sinnum neitaði Til eilífðar nóns elska ég þig Til eilífðar nóns átt þú mig Þúsund sinnum hvað þarf til að við verðum eitt? ] [ Þú.! Þú ert draumur minna drauma ég finn blóðið renna og villta strauma Mig að að brenna,svo ef ég verð sú flenna þá mun ég þér lauma með mér og þig tauma. Dingdong. ] [ Að svo búnu héldum við heim eftir langa nótt
lostinn sofnaði og lífsbaráttan
hinn kaldi raunveruleiki vaknaði. En þú hafðir aðrar hugmyndir og ég diggaði við þig
duggi dugg af því ég vildi sýna djörfung. Löngu síðar:
Og barnum var lokað eigum við ekki að reyna að fá bíl sagðir þú þú getur gist á sófanum. Eins og næturengill.
] [ Stærðin skiptir máli sagðir þú og ljóð innihalda sannleikann. Já það getur verið æ ég er skáld - æ beibí það skiptir ekki máli. En brjóst þín gera mig geðveikan. Skítur skeður sagði ég og mikil ósköp eru þau flott. Ókei sagðir þú ég borga skotið þú borgar bílinn. Þá erum við kvitt. En ég man ekki símanúmerið þitt. Beibí. ] [ Ég er enginn alki en ég hef túskilding í hendi og lostafulla konu mér við hlið. Áðan voru unglingarnir að sníkja af mér rettu hei eigum við að berja þig sögðu þeir. Krakkar mínir má ég klípa í hana þessa. Er hún á lausu? Skíttu í píkuna á þér helvítis perrinn þinn. Og nóttin lagðist yfir. ] [ Ég er á eilífum bömmer og fokka heiminum þó mig langi það ekki. En ég verð að gera það sjálfs mín vegna því heimurinn er drulla. Og ég er að drukkna í henni ég man sóldagana á togurunum þegar hundurinn sleikti mig. Og ég fékk að gista í kojunni og kokkurinn gaf mér dreggjarnar og Guðrún á Vesturgötunni kom sem guðaveig. ] [ Þetta ölvaða rökkur þetta siðblinda líf. Þessi einhyggja þessi þrá sem sefast ekki. Ég vildi ég væri munkur búdda Guð. Ég lifi í afmörkuðu rými eilífðarinnar og geðveikin er griðastaur minn. Þú gyðjan í norðri þú annarlega strönd ert álengdar og gælir við geðveiki mína. ] [ Reykurinn leitar til gluggans líkt og ég leita þín svips þíns og gæsku þinnar þetta er veröldin sem mér er framandi. Stormurinn á sér ótal andlit en ég á aðeins einmanaleikann og sársaukann. Reiðuleysið er líf mitt. Meðan ég geng um göturnar eða ligg kyrr í lognstillunni þá er ég alltaf einn. ] [ Kvöldið svo fagurt og hljótt kallar á mig, aumingjann út úr fylgnsni mínu til að hlæja að mér fyrir heigulsháttinn. Það hlær og hlær og ég græt, græt út í myrkrið, dökka myrkrið. ] [ Sírenuvæl- sjúkrabíll— -Hugur hraður hugsar: “Almáttugur! láttu vininn minn vera heilan” Drykkjuræfill- dópistar á Hlemmi – -Hugurinn hraður er: “Guð! veittu vininum mínum styrk” Glatt par á götu- gömul sæt hjón— -Hugurinn hægir á: “Hamingja! lát ei vininn minn vera einan” Nýir skór- nóg að borða— -Hugsun hamingjurík: “Lukka! veit vini mínum gæfu” Heiður himinn- sólarlag— -Hugur rólegur er: “Vellíðan! vertu vini mínum alltaf hjá” Blómarós- bros út að eyrum— -Hugurinn hljóður er: “Gæfa! veit vininum mínum ástríki” ] [ Titringur, skjálfti, töfrar þjóta tilefnið ert þú. Helst af öllu herrans njóta vil ég hér og nú. Augnablik ég augum loka stundina aftur lifi. Við unaðskennd og undur doka, undarlega öll á svifi. Mætast munnar að loknum degi munaðurinn er mikill. Þú ert minn eini elskulegi elsku og unaðs-lykill. Milli svefns og sælu sakna ég þín mest. Hugar þíns og handa-gælu hugnast mér nú best. Í faðmi þínum fá að vera fagrar langar nætur. Ekkert frekar vil ég gera en eiga með þér rætur. Ástarkveðju áfram sendi ákall út í daginn. Vil ég aldrei að víman endi verði okkur í haginn. ] [ Ég ligg í grasinu og horfi upp, ég horfi á skýin búa til myndir og óska þess að ég geti búið til myndir með þeim, fallegar myndir. En ég ligg bara í grasinu get ekki flogið þannig að ég óska. ] [ Ekkert smá sem ég sakna þín en engan hef ég símann engin kemur heim til mín hvað á ég að gera við tímann. Langar svo mikið í koss og knús karli stórum frá :o)) En í staðinn aðeins fæ ógnar blús og fleiri hárin grá. Einhvers staðar minn vinur er einhvers staðar í geiminum eflaust honum líði eins og mér “alveg aleinn í heiminum” Áfram held ég alltaf einhvern veginn að baksa og vera sátt við mig þó Af lífsins kúnstum mér var fenginn helmingur og miklu meira en nóg. Einmannaleikinn allra verstur er erfitt er hann að sefa Ég veit þó alltaf sem betur fer hvað mikið ég á að gefa. ] [ Vindurinn flytur mér fréttir sem ég forðast að heyra. En stundum getur verið léttir að vita um líf sitt aðeins meira. Hann smeygir sér inn um gluggann og hvíslar fáum orðum að mér. Aldrei hefur það verið sama tuggann heldur hlutir sem enginn annar sér. ] [ Ég er bara lítið barn, barn sem ekkert skilur. Kaldur vindur og kalt hjarn – kuldinn – hann ekkert dylur. Nú falla laufin líkt og áður langt er ei í vetur. En ekkert verður eins og áður, eitthvað ég hefði átt að gera betur. Í sumarlok ég sveif á skýjum, sæl ég gaf mig alla. Í örmum þínum – öruggum – hlýjum ölvuð lét mig falla. Viss í minni vitund var ég þá vissi að ástin var hér. Vissi að þú vildir vera mér hjá vildir gefa af þér. Svo fór um þig vinur vondur hrollur vafi og kvíði kaldur. Feiknin öll er þinn fortíðartollur fall-valtur örlagavaldur. Það dró fyrir ský og dimmdi af degi, dæmdi mig í burtu síðan. En vonin var mín og vildi ég eigi viðurkenna vonda líðan. Því sorgin er stór og söknuður líka stingur og nístir rætur. Aftur hélt ég aldrei slíka aftur að gráta um nætur. Ég hélt að sorgin sagt hefði bless svo sátt ég var að unna. Mér fannst ég vera voða hress vilja lífið og kunna. Svo snöggt þú snérist vinur minn snérir þér burtu frá mér. Hræddur og tættur er hugur þinn heljargrip hann hefur á þér. Hugarró og heilsu óska ég þér heitt frá mínu hjarta. Ást og kærleik færðu frá mér og framtíðina bjarta. Ef einhvern tíma enn og aftur efinn leitar á þig, þá líttu upp – þar er ógnarkraftur þiggðu fyrir þig. Bara ekki gleyma blíðri mær Björginni sem snerti hjartað. Því ég er bara barn sem er engu nær barn sem ei getur kvartað. Vona bráðum að þú munir vilja veita mér þau svörin sem hjálpa mér að sjá og skilja svo engin verði örin. ] [ Ekki veit ég vinur minn vel hvað út af brá. Áður þú áttir huga minn, ákaft ég brann af þrá. Er loku þú skaust fyrir ljósið mitt þá lyppaðist ég niður. Ég viss\'ei önnur ætti hjarta þitt. Enn mér þykir það miður. En gengin spor ég græt ei lengur því gæfan mér snérist í vil. Ég veit í dag ég er happafengur, ég svo miklu meira skil. Ekki það versta var að vera einn endalausar nætur. Heldur það að hjá mér ei neinn herrann festi rætur. Stopp ég sagði og hætti að sýta og sorgartárin fella. Núna mun ég hverja stund nýta því nærri er elli-kella :o) Hvar ég verð um næsta vor veit ég eigi núna. Það eitt ég veit að kjarkur og þor þjöppuðust inn í frúna. Áfram ég stend og ætla lengra alla leið til enda. Þótt í búi mínu æ verði þrengra þá ekkert ill mun henda. Líttu upp og ljósið sjáðu í ljúfri sálu þinni. Sálarró og styrkinn fáðu úr sögu-vísu minni. Einskis annars en góðs ég óska þér ekki gleyma því. Þú geymir bara það góða frá mér þar til við hittumst á ný. Hvort það verður hérna megin hnettinum þessum á. En fagna mun ég þér ósköp fegin þá færðu mér kossinn frá. ] [ Når blomstens bæger langsomt åbner sig og du smiler til mig med røde varme læber da kysser jeg dig smager sødmen i din mund og falder på knæ foran dine fødder vårberuset. ] [ Ekkert svar á ég elsku besti við englaorðum þínum Herrann minn á hvítum hesti huga stelur mínum Tíminn tiplar á tánum nú tíminn er lengi að líða þegar hann sýnir tuttugu og þrjú þarf ég ei lengur að bíða Kossinn þrái kinn mína á kossinn allra besta Áköf er mín ástarþrá ákall til hins mesta ] [ Tag mig i dine arme kys mig blidt. Vis mig din længsel vis mig din frygt. Jeg kan se ind i din sjæl når du ser på mig. Og jeg ved du kan se -at jeg elsker dig. ] [ Brástjörnur blíðar man ég blika mót sjónum mínum. Bros geisla og glitrandi perlur gæfuna í örmum þínum. Nálægð sem neistaði elding er nam ég frá verund þinni. Nafn eins og ómfagur söngur yljar nú sálu minni. ] [ Tilvistartóm Tekst ekki að fylla -Hugsunarvilla ] [ að vita og ekki vita hver veit þá svarið? ekki ég,ekki þú hver þá? leitað að svari en finnst ekki hvar og hvergi, en hvernig? ] [ Hver eru þú og ég Of margir hér eru Hvers vegna komst þú Þegar ég ekki þig sé ] [ Hvítur snjór í hvítu húsi Geng þar í þröngum stíg Er glæpur framin í litlu húsi. ] [ Vissu fáir um mitt vein vonglöð vissan úr augum skein. Hver var ég nema hold og bein haldin fangi líkama sálin ein. Hún bjó á bak við brosin hjartað kalt, beinin frosin. Lifði lifandi dauð lokuð sálin snauð. Hjartað hellti sínum tárum hafði haldið opnum sárum. Kallið kom, stöðvaðist kvein sefaðist þá um hjartans mein hvíldi loks lúin bein. Sál sveif sátt á sinn fund sættist öll hennar lund. Gekk um gullslegna grund gafst líkaminn í eilífan blund. Hjúpuð holdi undir áletruðum stein hurfu til moldu mín frosnu bein. ] [ Eitt er hérna einstakt ljóð, um það var ég beðin. Ferskeytlan er feikna góð, fagmannlega kveðin. ] [ Máninn í svartnætti tindrandi tær, til þín í myrkri skal kalla. Dauðar þær sálir hann dregur sér nær, og draumana uppfyllir alla. ] [ Hvít klæði svört sól sorgin kom hér við og dvaldist of lengi lokuð augu líta skugga að leik und hvörmum sem skýla mér frá eyðimörknni. ] [ Kjartan Þorbergsson 60 ára 17.10. 2004 Heillaóskir færum við þér Kjartan okkar kæri!!! Við komumst því miður ekki í veisluhöldin þín!!! En nokkrar skálar þó, við tökum við tækifæri! Tökum lögin hans frænda og þá verður púra grín! Koníaksflaskan þig kæti vinur, frekar en að æri!!! Karlmannlegast tel ég þó að drekka eins og svín! Við myndum drekka með þér ef mögulegt það væri!!! En Magga skírir Einar Örn, að vera þar bíður mín! Þar heldur gleðin hæst á loft er þína skál ég segi!!! Hafiði það svo notalegt! Með kveðju frá Skálateigi! ] [ Dimmt er nú úti Kveður kuldamjöll Ekkert er eins og dimmhöll Drungandi nístandi völl Það á við okkur öll. ] [ Með þungum huga konan þegir, þerrar burtu tárin. “Gættu þín góða hvað þú segir!!” gall við í gegnum árin “Það er víst ei nóg að vilja, vel að meina orðin, sannleikann sjálfan má aldrei dylja, settu öll spilin á borðin.” Hún vildi geta tekið til baka töluð orð í húmi nætur. Hana áfram heldur að þjaka hrollur um hjartarætur. Það er ekki það sem sagt var sem þjakar hana nú. Heldur það – hún veit ei hvar hugur hans er og trú. Grætur hún og Guð sinn biður að gefa sér nú svar. Í hjartanu megi myndast friður sú hugarró sem var. Hún er bara lítið blóm, barn sem í litlu botnar. Sækir að kuldinn með sínum klóm, kuldinn yfir öllu drottnar. Hún var svo sæl um sumarmál svo viss um ástina hans. Sátt við þessa fallegu sál sem boðið hafði í dans. Dans sem átti að duna dátt daglangt í framtíðinni. Sem sól á heiðum himni hátt, sólskyn var í sinni. Afarfalleg voru ástarorðin ástin úr þeim skein. Allt var lagt, að hún hélt á borðin, engin gamalgróin mein. Í gleði sinni gaf hún meira, gjöfin var hún öll. Vildi gjarnan gefa fleira og guma búa höll. En smátt og smátt þá dimmdi yfir, sem nótt þá dagur varð. Þrálát er þögnin og lengi lifir, þungbúin myndar hún skarð. Las hún enn og aftur ljóðin loforð um betri tíð. Að þeirra einna væri ástarslóðin alltaf um ár og síð. Það yrði aldrei þrautaganga þeirra ljúfi dans. En frek hafði þögnin hann tekið til fanga, fá voru orðin hans. Ein hún sat í erlendu landi ekkert botnaði í neinu. Hafa hemil á tárum var vandi, hló hún ekki að neinu. Hún var ekki viss hvað helst skyldi halda - því herrann ekkert reit. Hún vildi bara ekki veseni valda, viljandi fram hjá því leit. Kannski hafði konan áður komið að þessum mótum. Vissi-það er vont að vera öðrum háður vilja allt á sínum nótum. Því allir eru einir fæddir, engu um það breytir hver, hvaða huga og hjörtu þú þræddir héðan- einn maður burtu fer. Hún vissi líka að von og trú eru veganestin bestu. En maður minn – þvílíkt desjavú man hún eftir flestu. Hún man hvernig var að sitja og bíða ein í húmi nætur. Hún man hve lengi tíminn var að líða hrollur um hjartarætur. Í brjósti sínu enn ber vonarneista biturð er ekki til. Sér hún í sálinni ástina reista sannleika í vil. Vill hún allt sínu vini til góðs, vitji hans hamingjan víð. Happið verði honum ei til hnjóðs, hugumstór alla tíð. Í bljúgri bæn hún biður þess nú að blómið sitt hann muni áfram. Hún gaf sína ást í góðri trú og gefur hana áfram. ] [ Góði faðir gefðu af gnægtavisku þinni sindr´i og geisli hún sem haf í samviskunni minni. Bljúg ég stend og bið til þín bæn sem skiptir máli. Skjótt hún stígur upp til þín sem neist´i af litlu báli. Styrk og trú ég sæki í þig sem er mér í vil. Langar mig að þú leiðir mig líkt og hingað til. Lengi hefur ljósið lifað ljúft í sálu minni. Ekkert burtu fær því bifað þessu broti af visku þinni. ] [ Erfið er þessi þrautarganga þögul er sem gröfin hugsanir í húminu hanga hræðileg er mér töfin Ég vildi eiga vin svo góðan sem vefði mig sínum örmum mér segði betra allt yrði bráðum og brosið leyndist í hvörmum ] [ Máttur bænar birtist mér bjartur sem ljósið eina. Eilíf trú ei vík frá mér eins þótt lífið ég fái að reyna. ] [ Veistu hvað ég heiti Og veistu hver ég er Ég er lítill engill Sem bý hér hjá þér ] [ Veistu hvað ég heiti Og veistu hver ég er Ég er símaskeyti Sem lítið á mér ber. ] [ Hver býr í þessu húsi Er það ég Nei Það ert þú og ég ] [ Hann var rithöfundur einn af þeim sem orti en átti enga ró. Húmoristi og hrókur alls fagnaðar þó. ] [ Dauðra jóa dölum í, þar dvínur elli, fundust þeir á fögrum velli. Brúnn og Rauður rennast að á rosknum fæti, hneggjuðu vakrir vina-læti. Höfuð-sviminn horfinn er og hungrið ríka, fóta-skjögrið farið líka. Hrókur svarti hóf svo tal í hesta máli: ,,Hér er völ á vænu káli. Nú er læknuð lemstur öll, sem leiður beimi kvaldi oss með í manna heimi". Kragi sannar þulu þá með þægu bragði. ,,Allt er þetta satt", hann sagði. „Herra mínum helzt ég ann og hverjum seggja, sem mér gjörðu lið að leggja. En happa-snauðar hendur þær mig hremdu feigan, gjöldin síðan eptir eiga". ] [ Fundanna skært í ljós burt leið. Blundar hér vært á beði moldar, blessaðar fært á náðir foldar, barnið þitt sært, ó beiska neyð! Sofið er ástaraugað þitt, sem aldrei brást að mætti mínu; mest hef eg dáðst að brosi þínu, andi þinn sást þar allt með sitt. Stirðnuð er haga höndin þín, gjörð til að laga allt úr öllu, eins létt og draga hvítt á völlu smámeyjar fagurspunnið lín. Vel sé þér, Jón! á værum beð, vinar af sjónum löngu liðinn, lúður á bón um himnafriðinn. Kalt var á Fróni, Kjærnesteð! Slokknaði fagurt lista ljós. Snjókólgudaga hríðir harðar til heljar draga blómann jarðar. Fyrst deyr í haga rauðust rós ] [ Þetta verkfall er ekki að mínu skapi, ekkert að gera hér heima við. Ég sit bara við tölvuna eins og api, og langar að læra af gömlum sið. ] [ Hægt og hljótt lætur dagurinn sig hverfa þegar nóttin stingur börnunum beina leið í bólið, en þau vilja heldur leika sér við Óla litla lokbrá og hlaupa í ótal hringi allt í kringum jörðina, sem hrýtur undir mánageisla sæng. ] [ Fróðleiksfúsi kötturinn gekk inní Bókhlöðuna með þröst í kjaftinum hann vissi ekki að þrösturinn var skáld þeir stóðu báðir við afgreiðsluborðið og báðu um bókasafnsskírteini þrösturinn var stærri og feitari en kötturinn og auk þess með gleraugu þrösturinn vissi ekki að kötturinn ætlaði að éta hann ] [ Í slitlaginu blandast blóð og tjara. Senn verður takmarkinu náð. Ég er syndlaus maður, laus við hvatir. Dökk krómmaskínan æðir áfram einsog hraðlest inní eyðimörkina. Ég sé himininn opnast í sporöskjulaga auga og reglulega varpar það fram slitróttum myndum úr lífi mínu. Þetta blikandi auga er það eina sem lýsir upp rauða- myrkrið. Þau giftust á fimmtudegi í mars á ferðalagi um Gíbralta. Næsta miðvikudag voru þau stödd í hótelherbergi á sjöundu hæð Hilton hótelsins í Amsterdam þar sem heimspressan hélt að þau hygðust gera það fyrir framan myndavélarnar í þágu friðar. Á bilinu fimmtíu til sextíu blaða- menn höfðu ferðast frá London til þess að vitna um þennan atburð, berja kappann augum með þessari undarlegu konu frá Japan sem hann hafði verið að gera hosur sínar grænar fyrir.    Loks hafði hann gengið af göflunum. Sökum þess hversu mikla athygli brúðkaupið vakti, hefði allteins verið hægt að nota tækifærið til að koma skilaboðum áleiðis. Mörgum árum síðar viðurkenndi hann að þær pólitísku hug- sjónir sem hann hafði að leiðarljósi hefðu í vissum skilningi verið barnalegar. Hvernig átti að vera hægt að boða frið í heimi sem átti aðeins ofbeldi? Það hefur stundum komið fyrir mig að einhver minnist á atvik eða samræðu sem ég get ómögulega munað eftir. Þegar það gerist reyni ég að láta ekkert uppi og þykist vera með á nótunum. Ég hef velt því fyrir mér hvort rekja megi slíka minnisbresti til geðveiki. Eitt dæmi um þetta var fyrir mörgum árum þegar ég hringdi í vinkonu mína sem mig hafði lengi langað til að sofa hjá og hún svaraði í símann heldur önuglega.    „Veistu, nú verður þetta að hætta!"    „Verður hvað að hætta?"    „Ég fíla bara ekkert að þú sért að hringja hérna og spyrja hvort ég sé í nærbuxum eða eitthvað þvíumlíkt – einsog núna í morgun. Ha."    Auðvitað baðst ég strax afsökunar og bar fyrir mig eitthvert grínið. En ég verð að viður- kenna að það er heldur óþægilegt að halda uppi samræðum við manneskju sem gengur út frá því að maður hafi upplifað það sama og hún er að tala um. Ég hef aldrei kunnað við að spyrja heimskulegra spurninga og því frekar bitið á jaxlinn og vonast til að umfjöllunarefnið útskýri sig sjálft. Fortíðin er einsog eitraður ávöxtur. Ramminn utanum mynd af fjötruðum manni. Augun lýsa af örvilnun. Hann heldur hönd upp að kinn, horfir í gegnum þann sem horfir á móti. Dauð orð á vörum. Dimmur bakgrunnur. Næstum ekkert sem minnir á umheiminn. Eftirkeimur eiturs. Það mætti segja um mig að ég sé gefinn fyrir að velta mér uppúr hlutum. Fyrrverandi ástkonur hafa kvartað yfir því að ég geti ekki látið neitt ágreiningsmál eiga sig. Að ég þurfi að brjóta allt til mergjar. Það hefur nefnilega aldrei verið neitt vandamál fyrir mig að komast í samband við góða kvenkosti. Hins vegar hefur eitt og annað valdið því að sambönd mín rofna að lokum. Dæmi: Ég var í tygjum við konu sem ég kynntist í Kvöldskólanum um árið. Hún var yndislega afslöppuð týpa. Við vorum búin að vera saman nokkra mánuði og höfðum það mjög gott þang- að til hún spurði mig einn daginn: „Hvað er það í mínu útliti sem þér líkar?" Ég sagði henni að mér þætti hún fallegust í myrkri. Það er einmitt þetta með drykkjuna. Er ekki alltaf talað um að undir áhrifum áfengis sýni maður sitt rétta andlit? Ef svo er þá er ég vissu- lega geðveikur, því það getur verið tilviljunar- kennt hvar ég enda þegar ég verð ölvaður. Eftir villta nótt á djamminu hef ég vaknað á eldhúsborði í einhverri ókunnri blokk, gist fangageymslur lögreglunnar og margt þar á milli. Það væri allavega ekki fjarri lagi að ætla geðveikina og drykkjuna sitt hvora hlið á sömu mynt. Því annað getur framkallað hitt.    Jafnvel þótt talað sé um að geðveiki geti verið ættgengur sjúkdómur hlýtur samt margt að ýta honum af stað, ekki veit ég til þess að nein tilfelli hafi fundist í minni ætt hingað til. Þegar ég var unglingur tíndum við strákarnir sveppi í lok sumars á golfvellinum í bænum þar sem ég bjó. Síðan lágum við um nætur í sandgryfjunum og fylgdumst með geimskipum á himninum eða flissuðum yfir því þegar jörðin hreyfðist. Við sögðum foreldrum okkar að við værum að safna golfkúlum og það væri langbest að tína þær þegar enginn væri á vellinum og gaman að tjalda í leiðinni.    Ég hef reynt að móta lífsskoðanir mínar út frá eigin reynslu. Þegar eitthvað gengur úr skorðum dreg ég lærdóm af því og leitast við að efla hugann. Það er enginn of góður til þess að skoða sjálfan sig ofan í kjölinn. Af hverjum er jesúmyndin og hvernig líkar mér við eigin spegilmynd? Spegillinn brotnar. ] [ Hjá þér með gleði hverja einustu sekúndu ennþá ég dvel Líf okkar var sem stilltir strengir sem hljómuðu vel Hljómur minn var hljómur minn & þinn Hljómur minn var hljómur minn & þinn ] [ Þar sem ólukkan býr þar á ég best heima. Burt frá mér sál mín flýr því ég neita hana að geyma. Ég hef tapað öllu frá mér og næ engu af því til baka. Leyndarmálin skal ég segja þér en hvað af þeim viltu taka. Ég er reyna að selja sálu mína og færðu hana á góðu verði. Gott væri í skiptum að fá þína þó svo mín sál af þínu hjarta skerði ] [ Vegna vandræða í peningamálum sál mína ég varð að selja. Birtist mér þá brosmildur maður sem í höndum sér peninga var að telja. Um verðið við reyndum að semja en það gekk ekki sem skildi. Maðurinn var ekki alveg í lagi vissi samt hvað hann vildi. Hann spurði hvort höfuðið fylgdi með en ég sagði að svo væri ekki. Fúll og með súran svip hann sagði -Þú ert nískasta mannvera sem ég þekki. Næst sagðist hann ætla gera mér tilboð sem erfitt yrði fyrir mig hafna. Inn í því voru glæsikerrur og hallir og einnig að líf mitt blómstra og dafna. Við neitum mína varð kauði reiður ræksti sig og sagðist heita Lúsifer. Um leið ég hætti öllu glensi og gríni og þá fyrir mig sem betur fer. Hann stækkaði og varð himinhár og lagði yfir mig svartann skugga. Allt í kringum okkar jafnaðist við jörðu og úti varð bæði myrkur og mugga. Ég bað hræddur um miskun hans en það var ekki í umræðunni. Hann stækkaði um helming og spurði í hverju ég væri bestur og hvað ég kunni Ég sagðist kunna spila á gítar og að ég væri bestur í því fagi. Svo vildi hann fá að heyra mig spila en ég kunni ekki nótu í neinu lagi. Hann setti mig og sagði lítið var í mig og gekk leiður í burtu afar sár. Ég var löngut búinn að pissa í mig og fella svona 750000 þúsund tár. ] [ Tímavélin hefur sinn gang en á heilum hring hefst allt að nýju Sjálft sjálfið fer sína ferð hring eftir hring sjálft sig um kring Um hringbraut fer hin glæsta sólina um kring að færa okkur vorið ] [ orðin ein upplýsa nótt hina dæmdu orðin sem engu fá lýst án þular orð af orði allt má tengja orðum saman ] [ Eldur í undralandi á forboðnum tímum td. í dag Veröld í björtum logum í skugga ástar á því sem ekki varir Heimur í losti þegar hún svarar með fölsku brosi Hershöfðingi án hers með konu án varalits gljáandi vélkonu atóm, atóm ] [ dagsins rós fölnar því sem dregur nær kvöldi dauður dagur er og ég fer fleiri dagar eins og á færibandi fleiri dagar og minna líf aldur vonir deyðir dauðar sigla farinn langt í burtu kem í dögun ] [ það byrjaði á fallegum sumar morni að ég sat einn og einnmanna út í hægra horni. engin tók eftir mér. en nú er ég komin til að hjálpa þér svog það gerist ekki það sama. ] [ Í lausu lofti, ..nú sit ég hér. Allt á tjá og tundri hvert sem þú lýtur, ekki furða þig undri. Ekki bara í kring, heldur einning... einnig hjá þér. Lýttu dýpra. ] [ Leitandi hugsun, Reyni að finna tilgang Tilganginn. Hvers vegna? Ég skil ekki. ] [ Frjáls og fljúgandi. Ég flýg, Er svo frjáls. Frjáls eins og fuglinn, Ég flýg. Vandamál koma. Ég flýg. Meiri vandamál, Allt ruglað og líka ég. Ég flýg, Ég flýg hærra. Allt í lausu lofti, Allt getur gerst. Ég flýg. Flýg í svefni, Flýg í vöku. Frjáls eins og fuglinn. ] [ Ég dett. Dett niður.. ...óteljandi hæðir. Allir detta hraðar, Ég dett ein. Fell neðar og neðar, Lýt á þig, sé ekkert. Horfi út í tómið, sé þig. ] [ Þótt þú útskýrir, Ég skil minna en ekki neitt. Hversvegna? Afhverju? Jájá.. auðvitað þykir þér það leitt. En málið er, að nú er allt breitt. ] [ mig varir um ferðina handan um nýjan heim eða engan heim mig varir um að kynnast þér sjálfvirki ég sem heimur elur mig varir um ferðina hér um halla og slóðir að augunum þínum mig varir um að varast varast þín, varast mín varast ekki vín ] [ Gleymdu ei fegurð íslenskra kvenna því þær gefa lífinu vissann ljóma. Þú getur spurt þá Baldur Elís og Jenna og heyrt hvenig svör þeirra hljóma. Fegurð sína fá af náttúrunnar hendi en ekki af lýtarlæknum eins og suður frá. En ef ég á sílikon brjóstum lendi fellur hugur minn og hjarta í dá. Íslenskar konur bera þokka mikinn sem kyndir upp í gamalli sál. Af íslenskri fegurð verður enginn svikinn og hún kveikir innra með þér svakalegt bál. Á Íslandi, óó fyrigefið á Íslandinu góða er hægt að bjóða stúlkum heim. En á ítalíu ætlar allt upp úr að sjóða ef þú mælir orðið \"rúmleikfimi\" að þeim. Ef litið er yfir síðustu mánuði þrjá hef ég greinilega vinninginn í dráttum. Herbergi mitt hafa tugi kvenna fengið að sjá og geri mitt besta til að ná áttum. Heima er alltaf best að vera því stúlkurnar tala sömu tungu. Hér veistu hvað þú þarft að gera til að ná í konurnar gömlu og ungu. ] [ Glaðlynd sólin gægist yfir öxl fjallsins kinkar hlægjandi kolli og bros mitt fæðist. ] [ I wonder what i did wrong I tryed to make you smile I tryed to make you like me But still you said no I wonder what it did wrong Am i to ugly Am i to boring Or am i a wussy complaning I will neaver know Becos she won’t tell me Now when it’s all over She will tell me on my grave ] [ Þeir tala um minnimáttarkennd og mysing. Drangajökull dýrkaði mig. Áðan fór ég á Klofajökul en þeir segja að það skipti máli hvort maður komi að norðan eða sunnan. Sjáðu til svona er lífið standir þú hjá Þjórsá gæti hún heitið tveimur nöfnum. Efir því hvoru megin þú stendur. ] [ Komdu með mér út í skóginn leiktu með mér að mér við mig bara ekki á mig Svo lengi lærir sem lifir er sagt en ég vil það ekki vil ekki vita þekkja kunna geta heldur leika: leika oft mikið og af öllu hjarta svo lengi sem ég lifi og þú Komdu með mér út í skóginn feldu mig finndu mig alla alltaf segðu bara ekki að það sé lærdómur að leika ] [ Einu sinni hélt ég að lífsgangan fælist í að sigra tindinn á eigin fjalli ein og hjálparlaust en þegar ég hitti þig við fjallsræturnar skildi ég að gangan sjálf er sigurinn og að ævintýrið er að fara hana tvö saman ] [ Þegar ég hafði borist með straumnum nógu lengi reis ég upp við dogg skilaði lánsseglunum og reri kappsfull með sannleikanum mót straumnum á stefnumót við drauminn ] [ Við erum ekki á eitt sátt um neitt nema ást okkar hvors til annars Afreksfólk setur heimsmet í spjótkasti kringluvarpi skítkasti Við horfum hljóðlát hvort úr sínum stól hvort í sínum heimi milli okkar ástin afrek út af fyrir sig ] [ Það breytir engu þótt við föllum ekki að sömu strönd þótt útsker byrgi okkur sýn um stund bara ef þú vilt vera næsta alda á eftir mér og fylgja mér yfir hafið ] [ Orð þín fylltu baðkar stór djúp og heit við böðuðum okkur bæði í þeim Daginn sem yfir flaut var of seint að kenna þér á kranann rödd mín drukknuð í orðaflaumnum ] [ Lífið er ekki sangjarnt.Hvílík byrði sem við þurfum að bera á okkur. Fyrst fæðumst við njótum alla og alls. 1Árs erum við sett í pössun hingað og þangað svo foreldranir geta unnið. 2Ára erum við kominn á leikskóla svo foreldranir fá smá pásu frá okkur. 3Ára farinn að rífa okkur og slást við jafnaldrana. 4Ára farinn að hafa vit á hlutunum. 5Ára farinn að hlakka til skólans. 6Ára kominn í skólan með hnút í maganum. 7Ára búinn að læra lesa og eignast vini. 8Ára viljum við helst vera úti allt kvöldið. 9Ára óþólinmóð/ur að bíða eftir hlutunum. 10Ára enn þá að stæka. 11Ára er maður allveg upptekinn af vinum og vinsældum. 12Ára fylgjumst með öllu sem gerist í kringum sig. 13Ára kominn í tölu fullorðnafólksins. 14Ára reynum að vera meira en við erum. 15Ára hættum að vera mömmu barnið. 16Ára förum við á vit örlagana. 17Ára kominn í fast samband. 18Ára farinn að búa. 19Ára enn að þroskast. 20Ára frjáls eins og fuglinn. ] [ Að standa utan alls, horfa á „venjulegt fólk“ versla jóla gjafir fyrir sína nánustu meðan Krossfestir jólasveinar prýða skreytta glugga verslana. Og Kristur horfir á og er hugsi Með Wiskí pela innundir kuflinum. Með sígarettu í hægra munnviki Þar sem hann gengur laugarveginn Og hangir stundum niðrí austurstræti Með jólasveina húfu. Hann botnar ekki upp né niður í hraðanum. Hvert hefur heimurinn farið! Gæti hann hugsað þegar hann fær sér smók af camel án fillters. En ég er víst komin aftur í einhverri mynd. Og ártalið er mitt. En hraðinn er of mikill. Hraðinn er of mikill. Að standa utan alls með snert af Kristi í sér, Horfa á „venjulegt fólk“ versla jólagjafir fyrir sína nánustu. Og hafa ekki efni á svo mikið sem einni. Á meðan Krossfestir Jólasveinar prýða Jóla skreytta glugga verslana. Og spyrja sig er maður horfir á heiminn: Hvert hefur hann farið þó svo ég viti að jörðin snýst í hringum sólina þá er spurningin ekki bókstafleg. En hún er tilkominn vegna þess að jafnvél hinir verstu manna eru komnir með nóg. Og morð er komið í tísku. Já, jafnvel morð er komið í tísku. ] [ Grasið stingur iljarnar snetringin kítlar og særir. Ótröð heldur hún áfram yfir hóla og hæðir. Langt í burtu stendur skilti hún hleypur síðasta spottann. Paradís hún var að verða komin það var dimmt. Inns í dalnum var ljós lýsti upp dalinn. Í dalnum var jökull stór og mikill. Telpan fann kuldan í gegnum rifnu buxurnar. hún hneig niður hún var komin í Paradís. ] [ Ef þú villt hlusta þá er ég hljóð næturinnar í skugga dagsins sem tefur þig við að vera ekki þú sjálfur ] [ Þegar tíminn varð að klukku festi nútíminn rætur Æ síðan göngum við píslarvottar í átt að turninum þar sem leyndarmálin sofa Okkar er þrenning : sekúnduvísir, atómkjarni, og ljóshraði Okkar menning er hátíðin þegar orrustuþotur útrýmdu Guði ] [ skiluru orðin eða önnur tákn sú hlið er raun sem þú mætir blasir það við sem ekkert er þótt blasi við í trega nætur skiluru orðin og annað mál sá vegur er raun sem þú gengur blasir það við sem hugað er ef blasir við undir miðri sól ] [ Hann sem er sannur í því sem hann reynir, og ósvífinn í því sem hann segir – Hann sem aldrei óttast, og aldrei ann sér griða, hann mun sigra lýðinn. Þú horfir framan í hann og hann grætur, svo framandi þér sem að hann sýnist – Þegar þú reynir að tengjast, þótt enginn nálgist þig, hann mun einnig snerta okkur. Og lífið er eilífur böðull, ósannindi eða uppásögn, lífið reyrir þig meðan þú sefur – og sefar þig meðan þú vakir, vitjar þín ei meir, hann vitjar okkar í draumi. ] [ hef hugsað mér að loka heimi mínum fyrir þér áður gekk lykillinn þinn að öllum mínum dyrum þú glataðir honum smátt og smátt hef ég gefið þér einn og einn lykil en kippan er orðin svo stór að þér tekst sjaldnast að komast inn ] [ lagði niður vopnin fyrir framan sjónvarpsskjáinn horfði á klám og lét mig dreyma um þig gaf bardagann upp á borðið gaf undan ímyndunarafli hugans - mun betri staður til að dvelja á ] [ Ég sit hérna einn, jú það er kaffibolli mér við hlið, Hann segir nú ekki mikið svo ég ætla bara að þegja og eiga við sjálfann mig. Síminn hefur haldið kjafti í allann dag það heyrist ekki kjaftur tala. Hver ætli sé skýringin á þessu, eru það staðreyndir eða tilviljanir. Eru kannski allir í sömu sporum og ég. Ég spyr, ég spyr frétta, en enginn svarar, blaðið kom ekki í morgun sem þýðir aðeins eitt. Ég hef verið gleymdur. ] [ Upphaf miðpunktur og auðvitað endir. ] [ Hér er ég staddur í veislu, veislu með fullt af fólki, það er fullt af fólki í veislunni sem ég er staddur í. Þarna eru frænkur mínar og frændur og frændur og frænkur mínar, en frænkur mínar og frændur eru staddir í veislunni sem ég er í. Afar og ömmur og ömmur og afar eru stödd í veislunni sem ég er í og frænkur og frændur líka og ég ömmur og afa í veislunni sem frænkur mínar og frændur eru í. Mamma og pabbi og pabbi og mamma eru líka í veislunni sem ömmur mínar og afar og afar mínir ömmur og frænkur mínar og frændur og frændur mínir og frænkur eru staddar í. Samt veit ég ekki hverju er verið að fagna. ] [ Ég finn þig standa mér hjá og fylgja mér hvert fótmál. Þú átt alltaf hlut í minni sál þvi ég þrái þig aftur að fá. Minningar um þig vel ég geymi innst inni í hjarta mér. Aldrei skal ég gleyma þér því ávallt um þig ég dreymi. Við hittumst aftur vinur minn þá margar sögur ég segi þér. Á meðan verður þú ávallt hér en ég kveð þig í þetta sinn. ] [ ZZZZZZZZZZZZ ZZZZZ ZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZ ZZZZZZZZ ZZZZZZZZZZZZZ ZZZZZZZZZZZZZZZZZ ZZZZZZZZ ZZZZ ZZZZZZZZZZZZZZ ZZZZZZZZZZZZZZZZ ZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZ ZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZ ZZZZZZZZZZZZZZZZZZ og yfir á hina hliðina ZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZ ZZZZZZZZ ZZ ZZZZZZZZZZZZZ ZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZ ZZZZ ZZZZZZZZZZ ZZZZZZZZZZZZZZZ ZZZZZZZZZ ZZZZZZZ Z ZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZ ZZZZZZZZZ ZZZZZZZZZZZZZZZZZ ] [ Einhvern tímann um kvöldið verður spilaður leikur. Útskotslotterí er hann nefndur þú spilar hann keikur. Verðlaun eru boði vinningurinn er eitthvað. Engin varð svo frægur að standa pressuna. Endilega mætið leikinn og verið með í lotteríinu. Svo enginn villist neitt er keyrt á milli. Beygt þar strax til hægri í endanum vinstra meginn. Þar er hurð sem stendur á Bára þar eigið þið að fara inn. Svo við hittumst á Brodway Nei, á hóteli í Chile Upplýsingar forhönd Jens gefur Mjög spennandi leikur leikur að leik leikur að leik við erum keik ] [ Dreg tjöldin frá Svitadropi rennur niður bak hennar Smjatta rólega á heiminum Guð er allt Allt er Guð ] [ Það var í vor að í heiminn kom þessi litla sæta snót Herdís Birna heitir hún sem kom í heiminn um hánótt með þennan mikla lífsins þrótt. Elsku Herdís Birna mín þú ert alltaf svo sæt og fín. Ó, lífið hefur breyst hjá mér ég er svo stoltur að eiga í þér. Þú ert svo björt elsku fagra fljóð þú verður alltaf mitt yndislega ljóð. ] [ Ó elskan, þú yndið mitt og fegurð þessi trú sem geislar frá þér þessi ást sem þú losar til mín þessi orð sem koma frá þér. Ó hvað þetta ferðalag verður yndislegt með þér ferðafélaginn minn þessi ferð er okkar Það er ekki annað hægt en að vera stoltur að því að fá að vera í ferðalagi með þér þessi ást þessi blíða sem kemur frá þér Þetta ferðalag er rist inn í hjarta mitt ég þarf ekki kort því ég mun alltaf, rata til þín Þó ég yrði týndur í sólskininu, mun ég rata til þín þó almyrkvi yrði mund ég rata til þín, rata til þín Upphaf þessara ferðar með þér er upphaf þessa lífs sem ég lifi nú alúð og trú sem þú skapaðir mín frú tryggð og trú sem þú skapar í hjarta þér Að ferðast á farrými þínu og vera í rými með þér er það sem ég hef leitað að því að hjartað þitt er á réttum stað. ] [ 1. Ég er dóttirin og í hafniðinum heyrist allt og í hafniðinum syngja raddir sem upphefja engan heldur þjóna eingöngu þeim eina tilgangi að vera og heyrast ekki og í hafniðinum hafa aðrar raddir sungið með tónum sem aðeins birtast í hljóðlausum líflausum orðum á vörum sem aldrei bærast. 2. Ég er dóttirin og aðeins ég skynja þýðingu þess að rekaviður dagsins er ekki ormétinn að innsta hring og aðeins ég skynja þýðingu þess að þessir köldu blautu klettar boða algera þögn og aðeins ég skynja þýðingu þess að dagurinn hefur dregið í lengstu lög að sýna skömmustuleg svipbrigði sín já – aðeins ég er þess megnug að skynja að allir þessir fyrirboðar hafa í öllum sínum myndum aðeins boðað það sem þegar er orðið og aðeins ég ein skynja þá blíðu fingur sem leika um þig og veit að hafniðurinn er söngurinn þinn í djúpunum (í grænu grænbláu bláu biksvörtu djúpunum) þar sem óp ykkar heyrðust ekki - en samt heyrði ég á þeirri stundu að sameiginleg fortíð okkar var að breytast og umbreytast í einmannaleg minningarbrot og þá og þá á þeirri stundu heyrði ég ópin þín systir og þaðan í frá gat ég aðeins (og þó með naumindum) sagt; ég er dóttirin sem drukknaði ekki. ] [ It\'s hard to tell your mind to stop loving someone when your heart still does... and if loving you is wrong... I don\'t wanna be right. ] [ Þokan… Dökkt sjalið legst yfir fjörðinn Með allan sinn kulda Eins og dauðinn. Ég finn að dauðann nálgast Þjéttur stríkur hann vanga mína En ég sé hann ekki. Ég lít til hægri Ég lít til vinstri Ég lít upp Ég lít niður. Ég sný mér í hryngi Dett í grasið. Ég ligg fyrir neðan sjalið Ég fynn fyrir því strjúka nefbroddin Mig kíttlar Ég brosi. Ég sé sólina fyrir ofan mig Reyna að brjótast í gegnum sjalið. Geislar hennar ná til mín Inn í hjartað mitt. Ég finn hvernig hjartað hittnar Ég missi sambandið við geislana Það er mansskuggi yfir mér. Ég opna augun Horfi í augun á honum En næ ekki augnsambandi við hann. Hann er ekki hérna Hann er í sínum heimi Sem mér er ekki boðið í. Augun þín eru full af Sorg Tárin steyma niður vangana. Ég vökna um augun Ég loka þeim. Þegar ég opna þau Ég sé þig valla. Sjalið hefur hulið þig Dregur sig með sér í burtu Ég sé þig hverfa úr hjarta mínu. Sjalið er horfið og hefur stolið þér Ég ligg í grasinu og græt. Sólin huggar mig Mér er ekki huggað. Hjartað er brotið Tárin hætta ekki að streyma. ] [ Ert þú -í raun og veru - sonur Guðs? Spyr fréttamaðurinn í sjónvarpinu Jesúm Krist. Það eru þín orð, svarar Frelsarinn, með bros á vör. Jólatréð er sofnað, það hallast ískyggilega á aðra hliðina og mér flýgur í hug - hvort það hafi líka stolist í sherryið sem var falið í þvottavélinni á jólanótt. Rauð könguló er snyrtilega bundin um topp þess en gulir götuvitar lýsa dauflega á slútandi greinum. Úti sitja hrafnar á ljósastaurunum krunkandi eftir feita hangikjötinu sem við hentum í ruslið á aðfangadagskvöld. Á svörtum himni skín einmana- óljós - stjarna? ] [ Úti er ísköld nótt og dagurinn er dauður. Borgin sefur rótt og hver bíll er auður. Máninn guli skín svo skær og lýsir upp dimm stræti. Kuldinn svífur róglega nær og ekki heyrist úti nein læti. Frostrósir á gluggann prýða og mynda fallegar myndir. Snjókorn um göturnar líða og vindurinn í þeim syndir. Stjörnurnar flissa í laumi en þær hugsa ekkert ljótt. Allir eru staddir í draumi á þessari fallegu vetrarnótt. ] [ veruleikinn er leir í þínum lipru höndum listilega mótaður í þinni mynd verði henni á að molna í hnjaski dagsins áttu nægan leir í nýja mynd ] [ Það er svo margt sem mig langar að seigja. Seigi samt ekkert Kyndi bara bálið innaní mér Þegi bara, um langa hríð Það er svo margt Sem mig langar að gera. En geri aldrei, því mig vantar þig. Þig, sem mig knýr til dáða og orða. Þú sem allt seigir og gerir... ] [ hurðin lokaðist á eftir mér og nýr heimur blasti við. heimur hins óþekkta. ég var eins og lítill bátur sem leysti landfestar í fyrsta sinn og hélt á ný mið. ég gekk niður götuna og skrefin hurfu á eftir mér. og þá var ég eins og ég hefði aldrei verið til. ] [ orð, setning, málsgrein, kafli, bók og bókasafn: orðin hanga saman í setningum og liggja í málsgreinum í köflum í bókum á bókasöfnum þar fara orðin ófrjáls þar til hugsun leysir þau úr fjötrum ] [ Falsaður tími og eilífðarvélin hvín meðan hugurinn reikar við þrautir og vinnu Falsaðar víddir á hljóðhraða yfir borginni og hugurinn farinn til fjarlægðra heima Stundin við tréð leiðin til fjalls tómar hendur í auðum dal og tómur haus í tannhjóli skuggans ] [ Hvað er að í heim sem er sjálfstýrður hvert er farið þegar allt hefur verið gert Engin gáta heillar hugann enn hann vinnur og verkið er lífið Dauðin og hafið tifa við ljós himins og tár meyjunnar hvín í þotuhreyflinum ] [ Heimur brennur hratt og við með honum ennþá hraðar engin dagur er nógu langur til alls eða of stuttur til einskis þótt lítið, þá minna er ekki neitt hafðu frið stríð er óþarfi of margir falla frá fleiri eru áhorfendur af þínu lífi ef þú hefur eitthvað til þess hefurðu það að sýna hinum ] [ Þú einn veist og ekkert rýrir það sem er eða ekki Ekkert tekur frá þér það sem þú ekki ert Þú einn getur og ekkert fær hindrað sem er eða ekki Ekkert tekur frá þér það sem þú ekki ert ] [ Vindurinn hrifsaði hugsanir mínar, henti þeim yfir þvera götuna, blákaldur blés á mig, - bless! Og lét sig hverfa. ] [ Hverfular minningar hug minn sækja inn um skráargat hurðar minnar tilveru hverful litbrigði og hljóð sameingislausa þrá mín til lífsins Ég lifi í frystihúsi minnar eigin sálar þar sem þið þorskarnir og rollurnar eruð fryst Afþýddu þínar kvalir og þinn hug jafnframt leistu úr læðingi það afl sem þú ert og sem heimurinn þarf ] [ DAUðINN Hjartað springur. Sársauki og reiði taka völd. Langar að sofa, vil vaka. Hvaða brak var þetta? Æ, nei, ekki brotna meira. Ekki bregðast, þú ert mér allt þú sagðir það sjálfur. Hvað er hægt að gera? Enginn viðbrögð, og ég stend ein eftir úti á miðju túninu. Nakin og máttvana, finn ég hvernig æðarnar springa. Og blóðið það seitlar úr þeim. Þú gafst þig þá. Eftir allt sem ég gerði, sem var þér einum ætlað. þetta var ekki ætlunin. Af hverju? Mig langar að vita sannleikann. Hann einn er réttur. Hvað hefur gerst? Ég stirðna öll upp. Það kólnar. Grasið umvefur mig kærleika sínum sem það eitt getur gefið, Án þess að spyrja um hvort maður vilji vera eftir. Ég finn sjónina hverfa á enda hjara, aðeins móða og eintóm ský. Hvað er að? Hvað er þarna? Áhyggjur magnast og hræðsla tekur völd. Það er þá satt, að það sem maður ann er manni verst. Þetta getur ekki verið, hvers vegna? Það er eins og ekkert sé framundan, bara svartur litur. En hvað er þetta? Einhver Þrýstir á mig, ái, láttu mig vera. Hvað viltu mér? Komstu í alvöru mín vegna? Þér er þá annt um mig, en það er of seint að snúa við. Ég heyri ekkert lengur. Orðin renna saman í eitt og hafa ekki lengur neina merkingu. Hví þá að þola þennan sársauka, sem kemur eins og hríðarbylur? Flettir af þér skinninu, rífur af þér neglurnar, sagar þig með sög og , klórar þig með gafli. Sker þig með bitlausum hníf, saxar þig niður, bítur í þig, og hrækir þér síðan út úr sér. Og viti menn, Farið. ] [ Ég vil ei vera svona, ég vil lifa lífinu og vona. Ekki þurfa að kveljast út af ást og ekki láta á mér sjást. Að leita er erfitt og finna einn er hart En að elska allt sitt líf er mjög einfalt. Það skyldi engann undra, að ef ástarmálum ég splundra. Þá er það mín eina sterka hlið, því ég get aldrei hikað eða staldrað við. Mig langar ekki að sofa eða vaka, tilfinningar láta til sín taka, Hjartað tekur kipp og stress og kvíði, innantekinn sársauki og svíði. Ég skil ekki af hverju allt er svo skrítið Og í heiminum er ég svo pínulítil. Það eru kannski fleiri eins og ég, sem spá í öllu og hvernig lífið er. Af hverju eru þessir svona? Og að ég skuli vera sköpuð kona? Þetta er heimsins versta spurning, og flestum finnst ég bara vera eitthvert dingling. En að kunna ekki að tjá sig getur verið sárt, það gerist þegar átsin fer við þig að slást. En núna hefur líf mitt tekið snúnimg, vandamálum breytt og sett í búning. Núna veit ég hvernig lífið er, Og lifi hvern þann dag sem að höndum ber. Gengur vel og betur en gat ég vonað, þann eina fundið sem að ofan kom að. Inn í mitt brenglaða lif, og fékk mig til að elska á ný. Hann er alveg eins og ég Hefur verið svikinn og særður mikið. Þess vegna eigum við svona vel saman, Dýrkum hvort annað og höfum voða gaman. Ég óska apð einhver mér það gefi, að þessi maður mína sálarangist sefi. Það hefur hann sko gert og miklu meira, þetta er þá ekki jafn slæmt og allir segja. Höf: Lauddý Jó. ] [ Hvít hvít engilhvít hjarnbreiða í hlíðinni niðrað ísuðu vatni og vökin ósýnileg barnsaugum blinduðum af þyt og snjófjúki meðan sleðinn sendist sjálfkrafa ósveigjanlega að djúpbláu auga íssins sem lykur aftur um fimm ára ævi Sleðaför í hlíðinni hyljast drífu og ísbrynjað vatnið heldur feng sínum ] [ Augu sem dagurinn hefur flúið svo djúp að nóttin nær ekki til botns Vonin flögrar úr djúpinu í líki vængbreiðra fugla og höggur tönnum í brjóst þér Í djúpinu neisti sem kveikti mörg bál bernsku þinnar og æsku: vængjablak fuglanna megnar ekki að glæða hann Öræfaþögn ís á vötnum og fuglarnir flognir í vestur ] [ Þetta er þitt líf og það sem þú átt afgangs: fáein litsnauð ár sem hverfast í hringiðu sjálfvirkra viðbragða við sömu kvöðum holds og anda uns óhroði í lungum kölkun í æðum eða krabbi í lifur slökkur neistann. Breyttu lífi þínu sagði skáldið og trúði á mátt orðsins Og þú stendur á rústum margendurtekinna ákvarðana um nýja byrjun um ófarnar leiðir úr ógöngum vanans Hver ný byrjun fyrirheit um hnoss sem nauðsyn rúmhelginnar hrifsaði þér úr greipum áðuren það skírðist Hver ófarin leið villuslóð að sama áfanga: fleininum í holdinu sem angraði postulann Það sem ég vil geri ég ekki Brotin í rústunum áminning um ólokin reikningsskil sem biðu hentugri tíðar Hún rann ekki upp afþví lífið býður ekki uppá hagstæða afborgunarskilmála: Þú staðgeiðir blekktar vonir um leið og þeim er framvísað og sóldunar afganginum í nýja kastala Tónlist og glaðværð í næsta húsi þarsem leitað er hnossins: þú sérð ástina tærast í holdi konu sem stóð með þér á krossgötum og valdi leið að nýju marki glampann í augunum daprast þegar hún gefur sig á vald tónum dansi og teiti hrævareldum lífsblómans Viljinn lamast þegar þú stendur ófús gagnvart ávöxtum vonarinnar og skilur að einmitt hún ónýtti hvern þinn ásetning rændi þig kjarki til að brjóta brýr og kasta þér útá sextug djúp Breyttu lífi þínu sagði skáldið en það var um seinan því vonin fór um það eldi og skildi eftir kulnaða rúst Breyttu lífi þínu segi ég með því að færa það dauðanum að þekkilegri brennifórn ] [ Þögn öræfa er öðruvísi en þögn eyðidala milli hárra fjalla með grænt kjarr uppí miðjar hlíðar kræklótt gisið sumstaðar kalið: þögnin hangir í ósýnilegum streng milli fjalla og stakir tónar lóu og þrastar líða burt einsog fis útí geiminn Fjöllin grúfa sig yfir þig einsog móðurbarmur skýhnoðrar hjúfra sig uppað þeim einsog hvítvoðungar og þú ert í sátt við einsemdina einsog í móðurkviði ] [ Dagarnir ryðjast gegnum mig Dagar: straumþungt fljót sem hjartað virkjar Dagarnir ryðjast gegnum mig til hafs ] [ Ég sé nóttina safna til sín fjöllunum mjúklega einsog hæna ungum sínum og breiða yfir þau gagnsæjan væng Þau móka undir vængnum óhagganlega þögul sem búi þau yfir váboða eða annarlegri kvöl og kvíði dagrenningu að hætti tröllkvenna Er það forneskja sem seiðir mig til þeirra undir væng næturinnar eða dulræð von um að heyra Gunnar syngja í haugnum Helga kveðja Sigrúnu? Athvarf mitt er annarstaðar enn um sinn ] [ Alltíeinu molast minningin í margar nætur Bresturinn bergmálar inní mér meðan ég tíni upp brotin og varpa þeim í deiglu dagsins Brotajárn í nýjan herbúnað ] [ Erum við svona hrein? spurðirðu þegar við horfðum í spegilinn sem sýndi okkur ástina í allri sinni nekt Nektin og ástin eru dagurinn og birtan eru nóttin og dimman Við horfðum á nekt okkar og spegillinn svaraði Þú snerir þér til mín með svar spegilisins í augum ] [ Við stóðum á ströndinni og vindurinn vafði hár þitt um háls mér til að sanna að ástin hafði fjötrað mig Þú horfðir á öldurnar sem dóu við fætur okkar og rödd þín var sár þegar þú hvíslaðir gegnum vindinn: Hversvegna er tíminn einsog hafið? ] [ Snerting þín marði í mér hjartað afþví hún kom frá hjarta sem elskaði í óleyfi: ég fór höndum um vota hvarma og augnlok þín luktust um sannleik sem mátti ekki segjast Við stóðum tvö einmana börn í skuggum borgarinnnar með óttalegan sannleik í höndunum þegar við þrýstum þeim að vöngum hvort annars og þögðum Við flúðum þennan sannleik útí nóttina og lauguðum hendurnar en blóðið í æðum okkar kallar skuggana til vitnis um svikin ] [ Síðan við skildum hefur mikið blóð runnið til hjartans skolað með sér ónýtum dögum þessum tómu ílátum sem sökkva til botns safnast í hauga og stífla loks strauminn ] [ maður fer sína leið mætir sinni heimtu mætir sinni skuld maður fer sína leið og mætir þeim dómi að fara alla leið og gefast ekki upp maður fer alla leið sinn eigin þræll sinn eigin herra maður fer alla leið og mætir þeim dómi að hyggja að innra eldi sem deyr út að ævikveldi ] [ Ég er sjálflýsandi í myrkri og ég er sjálfvirkur í ljósi tíminn er andvirkur í mér Ég er varanleiki andans og hverfileiki efnis tíminn heilsar mér Ég er stöðuorka lífsins og ég er fallorka dauðans tíminn er óvirkur í mér Ég er tunglið að degi og sólin að nóttu tíminn hlær að mér ] [ Ég er alltaf á milli. Alltaf þegar gamanið er að byrja, þá dett ég úr sambandi. Þegar ég ætla að tengjast aftur, þá veit ég að ég verð ekki lengi inni. Ég er aleinn og það er ískalt, ég er eins og frosið jójó. Fljúgandi á milli veraldar samskipta og tómleika á töfrateppi pendúlsins. Stundaglasið ræður lífi mínu. Ég stjórna engu sjálfur.... ] [ Hugsanirnar mínar fara hring eftir hring ég næ ekki sambandi við neina ég er hrædd um að ég spring en ég verð að halda áfram að reyna. Góði guð láttu höfuð mitt hætta að snúast ég get einfaldlega ekki meyra en við hverju er ég að búast það eina sem þú vilt og getur sagt er haltu áfram að reyna og reyna. En það dæmi get ég ekki leyst allavega ekki ég sjálf en ég hef ekki nógu mikla reisn til að leita mér sjálf að hjálp. því leita ég til þín hvað er það sem mig vantar gefðu mér einhverskonar sín á það sem mig haftar. Mér finnur svo til og það eina sem ég vil er að ná að hugsa til enda en ekki á rassinum lenda. ] [ Ég horfi djúpt í grænu augun þín og sekk í djúpan,þykkan og dimman frumskóg sem engin greið leið er sjáanleg. Ég greiði hendinni í gegnum hárið þitt og það myndast tár í augum mér varir þínar rauðar sem rós,mjúkar sem fiður kyssa tárin burt af vanga mínum varir mínar nálgast hægt og hikandi varir þínar og við fyrsta kossinn myndast lítill eldhnöttur á milli okkar sem stækkar og stækkar við hvern koss. Heimurinn hættir að snúast allt er kyrrt við erum komnar inn í eldhnöttinn og svifum upp til stjarnanna og verðum eitt af þeim. þegar ég horfi upp til himinsins og sé stjörnuna okkar man ég eftir okkar fyrsta Kossi. ] [ Ég hrapa neðar og neðar í endalaust svarthol sálarinnar Dimmt,kalt og dautt. Við hvert vandamál fell ég dýpra og dýpra í tómið sem er allsráðandi innra með mér. En svo birtist þú og togaðir mig upp og gafst mér ást til að sauma saman gatslitið hjarta mitt núna er dimma holið innra með mér Bjart,hlítt og lifandi. En í dag togar svartholið í mig svo þung eru vandamálin en þú heldur fast í höndina á mér en svartholið togar og togar að með tímanum slitna saumarnir og þú missir takið. ] [ Á vogskorna strönd ég stefni á ný með sæbarða kletta og öldunnar klið. Þar átti ég vin því aftur sný og einn hlusta á hafsins þunga nið. Yfir bernskunnar bönd komu áranna skil, í birtu og leik var gleði við völd. Fari stjörnubjart skin um óttunnar bil sækir tregi um síðsumarkvöld. Við heiðarvatn kyrrt er svanurinn einn hjartað einmana en vonina ber. Í fjarlæga ferð er orðinn of seinn og finnur,hann aldrei í burtu fer. Kveður haust sólin blíð kvöldið allt er svo rótt. Kallið kemur um síð Kyrra nótt. ] [ Á titrandi mósaíkmynd á gárum Tjarnarinnar hvílir haustdagur ] [ Ég leit á hana og virti fyrir mér andlitsdrættina Hún sagði ekkert og hélt áfram að glápa á gamanþættina Ég renndi hönd minni í gegnum hár hennar, ljósa lokkana Hún sat og starði sjónvarpið á en tók af sér sokkana Ég smeygði mér nær henni líkamar okkar snertust og hún á mig leit augu okkar festust Herbergið fylltist af hitastraumum og svitalykt ] [ Þú ert ekki innan armslengd og því vill ég þig ] [ Ríf í tunguna og reyni að taka hana úr þér vef henni um fingur mér og fæ þig til þess að svara svo mér líki ] [ hér stóð örfættur maður sólin skein á hann þar sem hann stóð eins og örfættur maður ] [ Tónlistin glymur en hverfur hægt og rólega að baki mér Geng burtu völtum skrefum Stæðið stappað af bílum Kem að kagganum og opna hurðina í fimmtu tilraun Sest inn spenni beltið og starta í fimmtu tilraun Keyri af stað og mæti einum í tékki hjá löggunni Ökumaðurinn í hinni dósinni líklega edrú en ekki ég ] [ Hljóp hratt datt og batt mig með görnum svínsins Hoppaði þá sá og ná- ði ekki settu marki ótegundarinnar Settist niður miður og kliður- inn drap í taugaendum hugsunarinnar Ef ólæti lífsins myndu hlaupa hoppa setjast þá merkjanlegt óyndi uppdauðans skyti upp kollinum og festi rætur í lifrum oss ] [ Orðin stöðva lífskraft minn og ég sit þegi hugsa Orð þín harðna og lemja hjarta mitt ég lamast og stari beint fram Þú reiðist og það eina sem ég heyri eru óp og öskur Dofna allur meðan ópin ágerast og meiðyrðin stinga hljóðhimnuna Veit hvað ég vill segja en orðin festast í kokinu Vantar kjark því hann er enginn í aumingja eins og mér ] [ Ég gref undan rótunum því ég er ekki með á nótunum ] [ blóðdroparnir úr sturtunni glumdu á flísalögðu gólfinu líkt og regnið er dundi á rúðunni og skurðurinn á speglinum elti mig á röndum líkt og hátækni eldflaug skotið úr F18 ] [ Pabbi lamdi aldrei en hann var aldrei til staðar þegar hans var mest saknað ] [ þau dauflega féllu, þín djúpu spor er döpur við kvöddumst snemma í vor. augun voru svöl þótt hjartað heitt sveið er svikin við héldum hvort sína leið. freðin var jörð undir fargi af snjó falleg skein sólgyðja á himninum þó. hlýindi og liti hver sólgeisli gaf og gróður tók við sér, hvar áður hann svaf tók ég þá fyrst að finna sárt til er fann ég þar hvergi neinn sumaryl. í vonleysi vafraði ég stefnulaus þótt væri hlýtt blíðviðrið, hjarta mitt fraus . því eftir sig skildi hún víst mikið skarð mín skrýtnasta ást sem þó aldrei varð. og eitthvað ég skildi eftir hjá þér því aftur á ný ert þú komin hér... og loksins er komið langþráð haust mig langar að kyssa þig, fast fyrst -svo laust. ] [ Ef stríðið heldur svona áfram, deyr mannkynið út, allt deyr, heimsendir, fólk sér það og kallar á hjálp, biður þá um að hætta, vegna ótta við hrottafenginn dauðann sem hangir í loftinu og bíður eftir að falla, falla á jörðina, brjóta hana upp í mola, ekkert, tómt. ] [ Hey! Hlustaðu á littla hjartað sem þú greypst!Bara örfá orð! Er mér óhætt að brjóta vegginn og hleypa þér inn hinum megin. Hver er þá staða mín? Get ég treyst þér fyrir mér og mínu? Ferðu vel með það? Eða níðistu á því littla sem eftir stendur af mér? Þar ég nýjan múr, þar ég nýtt mitt, þú veist ... með grímunni og öllu? Þetta hljómar eins og vantraust, en er gamall vani sem er ekki tengdur þér að neinu leyti. Ég finn að þessar hugsanir mínar eru óþarfi og treysti þér hundrað prósent fyrir mér og mínu. Aldrei hefur þessi tilfinning komið upp á dekk áður ... traust, sem er eitt það mikilvægasta veganesti mannskeppnunnar gagnvart þeim sem hún elskar. Hvað verður annars um ástina ef traustið er ekki til að bakka upp feilana á lífsleiðinni? Loksins fann ég þessa tilfinningu, og hef viljann í að leyfa henni að vinna með mér ... með okkur. Hvar þú stendur gagnvart mér? Þú átt mig, hvern einasta kost, hvern einasta galla, hvert einasta andlit sem ég set upp eftir aðstæðum. Hvert einasta andartak snýst um þig, um okkur, um okkar framtíð. Ég myndi gera allt fyrir þig, ég myndi deyja fyrir þig, ég myndi drepa fyrir þig, ég myndi svíkja stærstu svik sögunnar fyrir þig. Ef ég gæti? Þá myndi ég kaupa hús við ströndina, flottustu bílana á markaðnum, allt sem þig langaði í frá því þú varst barn en fékkst ekki, og gott betur en það. Framtíð sem þú aðeins gast látið þig dreyma um eða sást í bíómyndum. Einkaþotu ef þér fyndist það betra að versla í Beverli Hills en í Köben, þá gætirðu skutlast þangað ef þér dytti það í hug du ved; ) Ég finn þig. Ég finn þig er við kyssumst, er við liggjum hlið við hlið og horfum í augun á hvor annari ... tökum utan um hvor aðra og hleypum hlýjunni á milli. Það þarf ekki orð, þau orð sem nú eru á markaðnum eru ekki næg til að lýsa tilfinningaflóðinu sem býr inní okkur. Við vitum það báðar, þess vegna hugsa ég ... hvort orðaforði mannkynsins standi í stað eða hvort að ást okkar hafi yfirgnæft allt og opnað aðra dyr að veruleika þess sem er satt og rétt hvað ást varðar. Er það ég, erum það við ... aldrei held ég að ég fái skilning á þessu öllu saman, en þrái það heitt að geta fengið það á blað ... svart á hvítu. Hvernig get ég annars sagt fólki hvernig mér líður, hvað ég elska þig mikið? ] [ Við deyjum öll, allt í einu verður allt búið farið ... tómt. Verðu myrkur, verður ljós, fær maður tíma til að kveðja, sjá allt verða ok hinum megin frá Flestum myndi þykja erfitt að vita ekkert, ekkert um náungann sinn, er það ekki? Smá vitneskju um hvernig þetta héldi áfram hjá hinum, fólkinu þínu skilurðu? Allt í einu getur maður ekki hitt neinn, talað við og horft á, fundið fyrir, engin nærvera what so ever. \"langafi, ertu hræddur við dauðann\"? Gamli sat á stól, varla fær um að eiga samtal, en sagði mér þó, að ég ætti ekki að vera hrædd við óvissuna, hélt því fram að það væri tímasóun, óvissan væri ekkert endilega slæm. En ef að ég vildi eyða ævi minni í að velta mér uppúr því, \"þá þú um það góða mín\". Sagði það kalla fram geðveiki, lífið væri of stutt, ég ætti að nýta allt sem það hefði uppá að bjóða þennan stutta tíma sem ég hefði. Þannig að svarið var nei. ] [ Með ást minni allri sendi ég nú styrk og bænir blíðar ég er ég og þú ert þú Við sjáumst síðar ] [ að sjá þig þarna í vöggunni ég hafði aldrei séð svona lítið og samt með þessi stóru augu þú horfðir langt inn í mig inn í hjartað og svo næst þegar ég sá þig þú varst stærri og gast fleira nú tókst þú með feitu höndunum þínum utanum mig og kreistir fast alveg inn í hjartað ég fór mína leið og þegar ég kom aftur þá varst þú þar sem ég var og fékkst allt sem ég fékk nema fleira og meira en það virtist ekki snerta þig þá inn í hjartað en þú fórst svo og opnaðir allar dyr gleðinnar og fannst hana eflaust lifðir hátt og hlæjandi dátt, en hláturinn náði ekki alveg inn í hjartað. þú varst svo reið við mig og grimm augun þín stóru ókunnug og svört munnurinn fullur af ógeðslegum orðum sem drápu allt en náðu þó aldrei inn að hjarta. og nú er það bara eitt eftir allt annað brunnið í kringum okkur samt slær hjarta þitt í takt við mitt og við byggjum okkur þá næstu framtíð um svolítið hjarta því ekki það ] [ nú þegar ég er orðin fullorðin og get enn fuðrað upp náð upp og haft gaman af og gagn þá er ekki verra að hafa vaselín, svolítið magn og eins og einn perra ] [ Máttarstólpar, miklir menn, mættu hug sinn skoða. Minni máttar mæðast senn, mjög þeir fótum troða. Í persónunnar prjál og pjátur, peningunum pungar eyða. Sáttir sitja sínar sátur og sælir sínar súpur seyða. ] [ Mig dreymdi dagdraum. Ég og Hannibal Lecther stjórnuðum saman þætti. Með Gísla marineraðan á teini. Ég get sagt þér, það var rýrt innað beini. Ég vill gleyma sem fyrst, Gísla veini. Hann var borinn fram á trogi með x-d sósu Hannesar Hólm. Það brakaði í beði, Hannes og Hannibal blönduðu geði. Fyrir mig var þetta engin gleði. ] [ Um Hamingjuna Hamingjuaugnablik lífsins koma okkur alltaf að óvörum Það erum ekki við sem grípum þau Heldur grípa þau okkur. Dingdong ] [ Þú er svo sætur þó ekki allir sjái það en mér þykir svo vænt um þig þó ég hafi bara þekkt þig stutt þá er eins og ég hafi þekkt þig alla ævi ég man eftir augnaráðinu sem þú gafst mér þegar við hittumst fyrst ég hafði aldrei upplifað neitt þessu líkt fiðringur í maganum og hræðslan við að gera eitthvað vitlaust þegar við kysstumst fyrst og hvað allt ljómaði ég vakti alla nóttina með þér og gat ekki beðið eftir að hitta þig aftur en svo sá ég þig með vinkonu minni og þið kysstust eitthvað brotnaði í mér þann dag eins og rýting hefði verið stungið í brjóst mitt dó ást mín á þér, já það hafði verið ást á milli okkar ] [ ... ældi ég og nú róta ég í ógeðinu í leit af einhverju ætu hugsunin um að fá mér eitthvað nýtt og létt í magann nei og ég finn aftur eitraða bitann sem olli magakrampanum ] [ Elding lýsir upp muskaðan himininn Milli kræklóttra trjánna glittir í vatnið sem vantaði. Þoka umlykur fætur mínar og hendur, Liggur lágt við jörðina eins og snjór. Skríð í áttina að vatninu og hristi af mér kuldahrollinn sem hríslast upp eftir hryggsúlunni. Vatnið sem vantaði, vatnið sem beið Læt mig rúlla útí og gleymi. Gleymi öllu sem var til ] [ Þú og ég við tvö erum kát og hress við erum tárinn okkar streyma líkt og að fá okkur til að gleyma hvar við erum hvað við gerum hvað við erum ég er ég þú ert þú og hana nú. ] [ Ást svo stórt orð að einhverntímann eyði eg því öllu á þig þá fyllir þú hjarta mitt af hamingju og ást þinni eg mun skarta úr einmanna leikanum ég kvarta hvar er hamingjan hvar ert þú? Ertu týndur? hvar felur þú þig? enginn veit hver þú ert einn úr hópnum leitar þú að mér eg leita af þér við erum tvö óaðfinnanleg ] [ þegar hann var lítill og vildi koma inn eða fara út staldraði hann oft við milli dyranna inn í íbúðina og dyranna út á götu - í stigaganginum - á einskis manns landi stundum svo lengi að hann festist og angistin tók hann ] [ Ég er bara átt\'ára, í verkfalli ég er Klukkan 10 á kvöldin í rúmið drösla mér Enginn tekur eftir því hve seint á fætur fer Því mamma og pabbi er\'í vinnunni hjá sér. Núðlusúp´í hádeginu og pizza oft á kvöldin. Barnapían segir mér að fara inn til mín Núðlusúp´í hádeginu og pizza oft á kvöldin. Mamma er svo stressuð, hún ætt´að gæta sín. Í sjö heilar vikur ég læri ekki neitt kennarinn hann sagði mér þetta væri ekki neitt Allir kæmu ánægðir í skólann aftur fljótt en ég er ekki viss, því að þett´er frekar ljótt. En þegar ég verð þrítugur og rifja upp það fer. Þegar ég var í verkfalli og gerði margt af mér. Það gerði mig að manni, því allt ég mátti þá. Og lærði eitt og annað sem ei tíðkast okkur hjá. Núðlusúp´í hádeginu og núðlusúp´á kvöldin. Það var frekar einhæft, ég læra skyldi hér Það endaði með því að ég tók af þeim öll völdin, Því núðlusúpa er ekkert sérstök alveg ein og sér ] [ Furðu vekur, allt er hér bíður, vonar, vakir tíminn líður, ekkert er fyrir tímans sakir Hvað er það sem allir þrá enginn sá enginn á Andartakið, það var hér hér hjá mér Ég var hér ] [ Ég ligg í sófanum,og rigningin dynur á þakinu. Hún lekur niður rúðuna,en samt er svo hljótt. Engin á ferli,skil þetta ekki.Allt í einu er rigningin hætt,nóttin komin,ég sofna. Dagur rennur upp á ný,ég vakna í morgunsárið. Labba niður stigann,allt er hljótt. Mikið er ég svöng,skrítið.Fæ mér í gogginn,geng út í blíðuna,allt svo fallegt. ] [ Ég finn þegar persónleiki þinn umvefur hjartað mitt aftur og væntumþykjan þin faðmar mig áður fyrr snertir þú sál mína svo laust en eg tók ekki eftir því hvað eg elskaði þig fyrr en þú hvaddir mig Í tómleikanum týnist eg og heyri rödd þina í vindinum bið guð um að engill þinn fari að skýna því í veruleikanum væri ágætt ef það færi að hlýna.. ] [ Enn einn dagur, Svo forkunnarfagur. Sólin skín, Inn í augun þín. Sér í brosið þitt, Sem vermir hjartað mitt. Kveður brag, Fyrir lítið ástarlag. Les í himinninn, Að þú sért pott?étt minn. Hvernig má, Fara best með mannsins þrá? Síðan göngum, Undir Látrabjörgum. Sofnum fljótt, Í vordögginni rótt. Við vitum það, Við verðum skilin að. Munum njóta, Að láta ástina fljóta. Áhyggjur burt, Alveg sama hvurt. Í burtu svíf, Nú inn í annað líf. Núna ert einn, Ungi, yngissveinn. Mynd af mér, Hefur í hjarta þér. Lítur upp, Gefur frá þér hvump. En brosir svo, Og heldur áfram að lifa. Lauddý Jó.- september ´04 ] [ Ég veit að þetta er ekki rétt þessi tilfinning þessi sársauki En það er þá bara ástin Hún tekur og særir En getur líka gefið og glatt Hún er bara Hún þroskar og fæðir Hún kemur eða fer Stundum stekkur hún á milli Stundum langar hana að læra Stundum getur hún bara grátið Hún er sál tómsins Hún vekur upp vonir og drauma Hún flýgur um Hún er verndarengill Hún lýgur eða segir satt Mjög oft dregur hún ályktanir Þessi ást Hún er eilíf Hún kennir Hún vakir en sefur aldrei Hún er leiðangur Hún er lærisveinn Stundum er heit Henni rignir niður Eða jafnvel rennur Kannski skín hún bara Hver veit Enginn á alveg eins ást því hún velur sér fólkið ] [ Ein á ný, Og gaman af því, En langar að leika mér stundum Sé sætan strák Og fer í baklás Hugsa strax, getur ei gengið En fell á ný Ekkert vit í því Hve lengi þarf ég þess að gjalda Sem fór í rúst Sópað burtu með kúst Sem gerðist þegar valdi ég ranga Mig langar á ný Að sjá falleg ský Og svífa upp í loftrýmið mikla Finna byrgðina á mér minnka Koma að nýju niður Með betri sál Takast á við nýjar aðstæður Finnst ég falleg og vera einhvers virði Brosa og hlæja, Gráta og syrgja Gera öll lífsins verk En það er svo Að þetta ég fann Og langar alls ekki til baka! ] [ Húmblár himinn heiðgult tungl í austri varpar kaldri birtunni yfir hrjóstrug holtin dimmblá fjöll í firð og kvöldgolan andar hæg og köld og kliðar við sölnuð stráin í haustsins kyrrð. ] [ Það slær, slær eins og klukkan. Taktfast, alveg að eilífu - eða hvað? Mun það bergmála, um tímann? Og er það í raun það sem ég vil? Sporin liggja aðeins áfram, get aldrei farið aftur. Brýt hugann um setningar, sem sjálfdauðir menn sögðu deyjandi. Það slær, slær alltaf hægar. Lifir, en deyr svo hægt. Síðast, slagið fjarar út. Floginn, og eftir situr sællegur friður. Ferðalagið hefst upp á við, flýg til ókominna stunda. Lít samt lítið eitt til baka, ég skildi þá eftir mig: Bergmál ] [ Dauðinn hangandi á þræði blá þræði rauð þræði græn þræði gul þræði svart þræði lífs þræði Von er einhver staðar að finna dauðs von lífs von trú von kærleiks von ástar von HAMINGJA- DAUÐI- LÍF- TRÚ- ÁST-VON- REYSUM-VELJUM-TRÚUM-TREYSTUM-HÖFNUM SKILJUM-LEYFUM-ELSKUM. ] [ Þú rótar í höfði mínu rífur upp með rótum hugsanir mínar. Hönd þín er hlý sem hjarta þitt en sál þín er falin bak við harða skel sem frystir mína húð. Augu þín bera blíðuhót sem bíða eftir leyfi til að vera til... Ég sé það... Ég sé þig... Hví hræðist þú mig, hönd mína og hjarta mitt... Sál mín sefur órótt við hlið þinni köldu skel með tímanum storknar mitt hjarta, þér við hlið. ] [ Í fangi hinnar bjarteygðu blá sumarnætur blundar og grætur ein visnandi rós. Daggperlur glitskærar drjúpa af blöðum döpur og kvíðafull brúna hennar ljós. Ég vil að hún vakni vaki og lifi. Mín sálaða og sölnaða sárþreytta rós. ] [ Nóttin eins og dökkhærð stúlka djúp augu og myrk leiftrandi sjáöldur blóðrauðar varir roðaglóðin lýsir í brosi hennar og tunglið er hrímhvítur fákur með silfraða spora norðurljósin ólgandi bylgur reikandi sála í faxi hans kaldar lýsa stjörnurnar í augu hennar ] [ Djöfull er ég drullupist, á greddu í ljótum dútum. Enga gellu geta kysst, gortast á lygum og mútum. Sveittir sorakjafthólkar, sleikja út um munninn Sjá þeir konu sem barn mjólkar og vona þeir komist á brunninn. Geta þeir ekki drullast í gymmið, greytt sitt sveitta hár. Spikið myndi hverfa við trimmið, heimurinn yrði ey sár. ] [ Falleg vinátta einsog Sól og rós... Sól fær rós til að blómstra og líða vel með því að skína... en hún veit hvernig hún á að skina en rós veit ekki hvenær hún á að blómstra og hún er alltaf að frekjast.... en þær eru samt alltaf tvær... og skína og blómstra á víxl... og stundum saman. ] [ Manstu Haugana, Týndu Ruslahaugana? Þetta er byrjun á ljóði. Lagið hljómar enn í höfði mér, Pottar skellast saman og kranarnir sveiflast. Dagur.... Allt Brennur Í Logum Manna Í gær. ] [ TAKK fyrir allan tíman sem þú hafðir fyrir mig fyrir allan sannleikan sem þú sýndir mér fyrir allt traustið sem þú gafst mér fyrir alla gleði sem þú færðir mér fyrir alla tíman sem þú studdir mig fyrir alla styrkin sem þú sýndir mér fyrir allt fríið sem við áttum saman fyrir allt hrósið sem þú gafst mér fyrir alla samúðina sem þú sýndir mér fyrir alla umhyggjuna sem þú gafst mér fyrir alla ástina sem þú gafst mér MIG ] [ Ég vil vera þín Ég vil elska þig Ég vil þrá þig Ég vil snerta þig. Þú ert allt sem ég elska Þú ert allt sem ég þrái Þú ert allt sem ég vil Þú ert allt sem eg óska. Þú varst mín augu Þú vars allt sem ég elskaði Þú varst allt sem ég þráði Þú varst allt sem ég er. Ég er allt sem þú vilt Ég veit ég elska þig Ég bíð eftir svari Ég vil þig núna. ] [ Mín örlagatala er 1 Sef 1 vakna 1 borða 1 ] [ Má ég vera aðeins minni, eins og lítil mús. Svo sál mína ég aftur finni, því sálin er smærri en lús. Falið mig fyrir veröldinni inni í vandaðri krús. Velt mér burt úr vesöldinni valt sálarhús. ] [ Ótrúlega Óaðlaðandi, Ógeðslega Óheillandi, Óskaplega Ófullnægjandi, Óneitanlega Óspennandi. ] [ Það heillaði mig prins... hann kastaði ekki stein í gluggann minn að næturlagi... hann orti ekki til mín ástarljóð sem hann hefði sungið fyrir framan gluggan minn...hann reyddi mig heldur ekki á hvíta fáknum sínum og hann hnýtti mér ekki blómsveig og bar mig í fangi sér... prinsinn minn heillaði mig þegar hann bauð mér í glas á Hverfis og tók mig á rúntinn á gamla fordinum... Prinsinn minn er heldur ekki alvöru prins bara gaur rétt eins og þú... ] [ Hæð veit ég standa, - það var herborg áður fleiri en fimm daga, þars ég feiknstafi flesta um leit svalri sefströnd á. Harðan helgaldur þá er um haf kominn vindur á vogi blæs, brimskafl bláfaldinn buldri þungu grenjar að grunnsteinum. Eitt var það undra, er ég þar eyrum nam, þá er næddi næturkul. Ungbarns ópi sem þess, er ófætt dó, þótti mér hvert strá stynja. - Hví svo þrungin þú þungu drepur höfði moldu mót? Hví þú in hárfagra, hrelldum lík, sóley, sólu flýr? Hvort þá svo harðráð og heiftarfull býr í brjósti lund hræsvelg hrímþursa, er í hvirfilbyl fer of foldar jaðar? Var það ei ærið, er þú áður felldir sólu borið blóm, þótt ei saklausu síðan hingað að feyktir þess frækorni? Illska, andstyggð og óþoli, örgust eiturjurt, grær hér í grasi, unz guðs veður fellir þau fullvaxta. Syrgir nú einmana ið unga blóm, runnið í reit lasta. Hörðum huga hatar sól og vind fyrir tilveru tíma. En, Bergur, þú, sem und bjargstórum syndaþunga þreyr, höfði hnarreistu - svo er hjartað blint - apast að óheillum. Saklaus blóm, þau er ei synd þekktu, felast fyrir þér, þars þú glaður þeim, er gabbað fékkst, mætir að munaði. Ómar mér í eyrum þitt eymdakvein, er hörðum heldróma sveiptur sárlega um seinan vaknar fyr nágrindur neðan. Illar nöðrur, þær eð æ vaka, sárt á sálu bíta. Þannig vaknar sá, er í villu svaf. Æ koma mein eftir munað. ] [ Sé ég nú hundljótann hnakka Með hausinn sinn tóma og skakka Er að pælí að skreppa og kaupa mér jeppa síðan yfir helvítið bakka ] [ Ung leggur hún,ástfanginn, bjartsýn á lífið og tilveruna. Útí hinn stóra grimma heim. Dagurinn verður dekkri,, dekkri,, dekkri allt svart ekkert ljós. Hvar er 40 kerta bjartsýnis pera foreldranna, búið búið búið já líflaus hangir hún í Pravda belti sveiflast til og frá það glitrar á fallega lagt hárið. en hann, já hann kúrir við barm bestu vinkonunnar ánægður með sjálfan sig. ] [ Ég borða pylsu, BARA með sinnepi.. sinnepið kitlar braðlaukana. Og spékopparnir í epplakinnum mínum birtast. eins og óteljandi Steiktir laukar í poka á leið til föður míns, ég veit að ég er einn á ferð um slóð pylsunnar... í sölubás bakvið kringluna.... bíður pylsan, Grilluð. Afgreiðslumaðurinn er spikfeitur, með spékoppa líkt og mínir, laukar í poka..! ég ferðast um á pylsufaratæki. ég á eingan að nema sinnepið. sem kallast mustarður öðru nafni. Þegar ferð minn er lokið í gegnum geiminn og heim aftur, heimsæki ég mustarð. Hann á ekki heima nálægt heldur langt í burtu. Hann á sér áhugamál, það er að yrkja ljóð um þennan nýja heim, sem að er í vændum sólarinnar. ég á mér áhugamál, ég grilla mig í sólinni, ég er grillaður, oftast með pylsu í hægri hendi og sinnep í hinni. Sinnepið er sætt. ég notast ekki við pylsubrauð. pylsan er seig, ég get ekki bitið í hana, hún er svo seig. Sinnepið er það eina sem ég borða í dag...... ] [ Einn ég sit og hlusta á manninn tala. Samt ég sit og hugsa hugsa um þig. Konuna sem ég elska. ] [ Það er eins og nemendur þurfi að bera allar heimsins áhyggjur á herðum sínum. Sem er ekkert skrýtið, veistu hvað meðalkennslubók vegur? ] [ Sit einbeitt þegar bylgjurnar skella á hljóðhimnum mínum Gulrótarkjams. Hjálp - hvernig get ég lært ef það eina sem mig langar að gera er að rífa gulrótina af grunlausri manneskjunni, henda í gólfið og hoppa á henni með tryllingslegum glampa í augum. ] [ að yrkja ljóð er eins og að sjúga slím úr nefholinu áður en maður hrækir maður tekur óttann kvíðann gredduna aumingjaskapinn letina heimskuna safnar í góða slummu og spýtir á blað ] [ Þegar kvöldi skyggir að Og nóttin tekur við Hitti ég þig Augun svo heit Ástríðan frá þér skein Þú horfir á mig Ég skil þig Þú skilur mig Við skiljum hvort annað Til þess erum við Varir okkar mætast Það slokknar á mer Og ég fell inn í heim Allt annan geim Hvað tekur við..? Allt annað svið ] [ Nú ertu farinn frá mér mun ég sjá þig hjá mér hvernig sem tímanum líður mundu bara eftir hverjum þú bíður Komndu inn hvernig sem fer ég á þig hvort sem er ] [ villtu vera memm? villtu kúra og kyssa? villtu vera saman? viltu eiga allt sem það er? villtu vera traustur og trúr að eilífu? en núna eru aðstæður kannski breyttar kannski verðum við ekki tvö... villtu vera memm? villtu kúra og kyssa? villtu vera saman? viltu eiga allt sem það er? villtu vera traustur og trúr að eilífu? ] [ Í kærleikans kirkjugarð klöngrast dáin þrá. Rís þess vofa\' er aldrei varð vill mig láta sjá. Í dimmu draumalandi dansar vonin feig. Því ást á eyðisandi aldrei verður fleyg. Aftur gömul svíða sár, sorgin leikur brag. Flæða aftur tregatár, taktfast muldra lag. Í skjóli nætur skuggar líða skunda í mitt hús. Í örmum mínum ástin blíða aldrei varð mér fús. ] [ Röddin fjarar út eins og lífið. Eins og líf í fugli sem hefur verið skotinn. Ekkert hljóð heyrist. Sit og græt í hljóðlausum heimi. ] [ Til hvers að sakna ef enginn saknar þín? Til hvers að vakna ef enginn bíður mín? Verð ég að bíða uns ástin leitar mín? Eða verð ég að þýða öll ástarljóð án þín? ] [ -Ég byrja að hlaupa kaupi allt sem má kaupa Þú kemur og pantar allt sem þig vantar Peysu og prjóna prúðbúna þjóna deserta og vín lambakjöt og svín tæki og tól það eru að koma jól- Get ég pantað barnajólin mín? Þegar ég var ung og fín ég í Laura Ashley kjól um sérhver jól Og bræðurnir mínir ungu sátu saman og sungu jólalög með mér og allir voru hér. -En nú æði ég í bæinn og kaupi allan daginn Jólaskraut og glingur tel alla mína fingur Er ég engum að gleyma? Úff, er mig að dreyma? Þetta heltekur mig alla ég veit núna varla dragt eða kjól það eru að koma jól- En.. þá gömlu góðu daga og kossinn allt má laga Mamma svo ung og fín með litlu börnin sín Þegar klukkurnar klingdu jólabjöllurnar hringdu Og þeir sem máttu þjást fengu umhyggju og ást. -Ég gleymi mér um stund fer um víða grund Hugsa stíft til baka þegar veisla var ein kaka ávextir og ís, lambakjöt og grís. Á jólanótt skal vaka með börnunum og taka jólalag og fleirra því jólin eru þeirra- ] [ Hungrið leytar á mig, það fær víst aldrei nóg. Ég er svo svöng, svo svöng, og geng á ísskápinn. Opna hann allveg upp á gátt, fallegt er um að litast. Allskyns dollur og gotterí, ég fæ vatn í munninn. Háma í mig allskyns gott, yndislegur er sá tími. Þegar maginn segir stopp, ég alveg stend á blístri. Gott er að kunna sér magamál, að þessu þarf að huga. Allir verða að hugsa um það, að rækta vel sinn líkama. Þekkja verða allir takmörk sín, því ljótt finnst mér að sjá. ungar stúlkur ganga um, vaxtalausar og grindhoraðar. ] [ Af hverju? Gastu ekki tjáð þig eða var það ég. Kannski bara við bæði Af hverju? þurftu hlutir að fara svona og særa okkur svo djúpt. Að ekki verður hægt að breyta Af hverju? Gerðist þetta ef þú sagðir mig vera engilinn. Kannski af því að ég kom þegar þér leið illa Af hverju? Varstu hinn týndi hlekkur minn sem mig langar ekki til að glata. Sem fékkst mig til að vilja halda áfram að lifa Af hverju? Trúði ég þér ef ég hætti síðan að treysta þér. Vegna óvissu minnar Af hverju? Særðist ég þegar þess þarf ekki. Framhjáhald skemmir manninn. ] [ Án hennar í lífi mínu Væri ég ekki neitt Hún og taktarnir hennar fínu Og hárið alltaf greitt. Hún er falleg, hún er vitur. En þó svolítið treg Hún getur orðið stundum bitur Þegar ég hluti á langinn dreg. Hún er sú sprækasta móðir sem ég hef á ævinni séð Sterkari en hundar óðir sem elta skjálfandi féð. Hún er dugleg og góð Hún er dugnaðar vera. Þess vegna skrifa ég um hana ljóð Því mér væntumþykju ávallt mun bera. Ef hún myndi deyja. Þá myndi ég deyja með. Ég niður myndi beygja Og skera mig veinandi á geð. ] [ Það er endalaus eyðimörk. Grá. Og sem ég stekk af baki úlfaldanum finn ég hvað ég er skítug, fötin rifin og örugglega vond lykt af mér. Því þarna stendur þú. Gulur. Kominn, ég veit ekki hvaðan. Og þú heilsar og ert svo fallegur, spjallar svo skemmtilega við mig meðan ég verka mig upp. Við drekkum kaffið þú reynir að sannfæra mig að mig vanti einmitt eitthvað. En ég bara stari útfyrir allt. Bleik. Tek samt eftir hversu langa fingur þú hefur, en heyri ekki hvað þú segir, fyrr en ég óvart sé inn í svört augun. Og ég varð aftur frú Sigríður komin útúr eyðimörkinni. hjá mér situr sölumaður. Ég versla örugglega við hann með vorinu. Og þegar hann rennir úr hlaði er allt regnbogans á litinn. ] [ within my mind i feel your soul trembling beaneath the knife the light blinding sealing my doom i saw it all within your mind within your soul our doom was found within it all it all began only made to end with this light and see it now it´s all so clear your life´s gone low the end is near i feel your end within your soul it all ends here in your darkest dreams i was made and in my love you die with me your blood flows trough my hole on your head my unfilling void can never be healed within Your mind you forged our doom within your soul you forged our end within their mind they see your end and within their tears they seal your doom it all ends here ] [ STÓR ORÐ Með eilífðina að vopni mun alheimurinn aldrei enda í stórum orðum. hugsanir manna hugsjónir kanna hvergi mun sá máttur molna meðan morgundagurinn mætir keðjuverkun hugsanaorsaka eru náttúrunnar verstu mistök að eilífu mun sú hugsun ríkja að ekkert sé það sem það sé reikandi um ríki allra heima endalok allra himingeima gámur gleymdra hugsjóna frelsið geymir vel ] [ Lognið á sjónum teygir fjöllin hinumegin við fjörðinn alla leið yfir til mín. Mér finnst ég geta stigið útá. ] [ Við mig var sagt: æi, hættu þessu kelling og ég svaraði stóreygð: en ég er ekki kelling Ok, kona þá nei ég er bara stelpa að vera kona er næstum jafn fjarlægt og að vera fullorðin ] [ verð ég hér á morgun hvenar dey ég? kannski morgun? kannski hinn? það er hulinn ráðgáta! Bingg bingg, hver veit, ekki ég. ] [ ég óðmála orð hugmyndir ] [ Saumaklúbbur saman, spilar teiknispil. Hlægja og hafa gaman, heppnar að vera til. Mála, borða og mynda, mjólka, vaska upp. Slúðra hlægja og synda, syngja og kasta upp. Heiða, Margrét, Alís, öllum þeim ég unni. Fjóla, Erla og Arndís, ekki gleymi ég Gunni. (höf:M.Þ.E) Víst var gaman að vera hér, varla heim mig langar. Veit ég eitt á sjálfri mér, ekki förum við svangar. (höf:F.P) ] [ Nú þegar fjöllin eru ísköld grasið dáið og gult þá nær sólin ekki að skína beint á mig. Þá verð ég að geisla sjálf til að líf sé áfram í þessum fagra dal. Að minnsta kosti þangað til hin kemur aftur... ] [ Ég reyndi að drepa sársaukan Ég er að deyja Ég get ekki hreift mig Allir djöflar fylgjast með Ég er að deyja Og biðja Mér blæðir Og ég öskra Er ég of sein til að bjargast Er ég of sein ? Guð hjálpaðu mér Afhverju hjálparu ekki Ég er hrædd Og held fast í þig en þú hjálpar ekki Ég verð drepin hér Ef þú hjálpar mér ekki Er þér sama Er þér alveg sama? Ég er að deyja Og biðja Mér blæðir Og ég öskra Er ég of sein til að bjargast Er ég of sein? Getur þetta ekki endað Ég er að deyja Og biðja Mér blæðir Og ég öskra Er ég of sein Til að bjargast ? Er ég of sein ? Ef þú gætir hjálpað Væriru ekki þá búinn að því ? Ég er hrædd En ekki við dauðan Ég er hrædd við þig . ] [ ‘I gær var allt svo augljóst en nú sé í móðu ég veit ekki hvað er rétt hvað er rangt langar að gera allt sama hvað það er mér fynnst sem allir horfi sem allir gapi og geta ekki hætt eins og ég sé eina stelpan í heiminum mér langar og get farið og látið þetta stoppa en Hvernig ? ‘I gær var allt gott Nú er allt vont Ég skil ekki Vil ekki Og get ekki hætt að hugsa um gærdægin sem Mér leið vel En nú snúa allir við mér Bakinu . Eina sem mér langar að fá er ást Umhyggja Og Nýtt líf Sem er ekki hægt Hvað er ég eiginlega ? Er ég dáin Er ég á lifi hvað er að Ég skil ekki Vil ekki Og get ekki Sætt mig við það sem Er núna. Mér langar Að deyja og gá hvernig líf er þar Ég á hvort sem er einga að Til að hugga mér við Ég er dáin nú þegar Án vina og fjölskylu minnar. ] [ Veruleikinn plokkar í mig við hvert tækifæri bítur mig blíðlega á meðan ég geng í svefni yfir himinhvolfunum get ég ekki sokkið Stikkla á stóru stjörnunum núna forðast að hrasa á þeim litlu áður hræddist ég ekki fallið því ég vissi að þú varst þar. Vellíðan sem fylgir súrefnisleysinu því þá gleymi ég tímanum gleymi þér um stund uns ég næ aftur andanum sé jörðina í hillingum fulla af minningum brosmildum tálsýnum sem ræna mig sönsunum forvitinn hreyfi við skýjunum. ] [ Ef ég stæði upp núna. Næði ég samt aldrei uppúr vatninu. Þó með hendur upp í loft. Öldurnar mála mynd af flöktandi engli með sára olnboga og hnén eins. Því bautir vængir nýtast illa til langferða. ] [ Í lítilli ljóstíru mennirnir streyma til móts við eigin lygar. Þeirra ljós er myrkur lygar kannski sannar ef við segjum æji æ. ] [ Ég kynntist þér ekki en laut við brjóst þín. Í faðm þinn. Kyssti varir þínar og naut ilmsins af hári þínu. Trúði að þú værir mín. Ég horfði í augu þín og sá að ég var ekki ástin þín. Þú varst aðeins - ó, nema ég. ] [ Ævintýraþráin seytlaði en þá var ég ungur og snauður. Framtíðin var óráðin, farmannsævi, var það það sem ég vildi? Seinna stóð ég á annarri bryggju og mávarnir hlógu. Ég vissi aldrei hvað ég vildi. ] [ Vá Illa Súrt Að Ráfa Einn Innilega Krónulaus Nýlega Iðjulaus Nauðsynlega Geng Um Ræsin Hjálparlaus Jómfrúarlegur Ásaka Lögin Póstmódernískur. ] [ ! ] [ Ægis dætur bera mig langt frá Ýmis holdi í huga mér ég geymi þig á stjörnu prýddu kvöldi. Hjálmur sólar nú lýsist upp Dagur áfram ríður ég hélt ég myndi gefast upp en förin áfram líður. Ránar ver mér reyndist harður hungrið oft mig sótti samt ég áfram barðist særður þó á mig sótti ótti. Loks á land nú kjöl minn rak tók þar á móti mér sólin ég byggði nú yfir höfði mér þak og áfram liðu árin. Freyr mér fagra akra gerði á móður Þórs ég nærðist þeim ég mínar fórnir færði til að vindar vetrar lægist. Nú þegar árin á mig færast leitar hugur minn til þín minn andi er farinn að tærast hjá þér sólin ávalt skín. Ég ligg hér einn í rúmi mínu hjartað farið að sljóvgast mjög ég vona að ég sé enn í hjarta þínu því þú sem eldur ert í mínu. Nú ég lygni mínum augum aftur á fund feðra minna fer í von um að á Gimlé ég sjái þig aftur þar með þér ég minni eilífð ver. ] [ að yrkja ljóð er að tala við guð draga kanínu upp úr hatti spinna vef úr gullþráðum sólarinnar ] [ Eitt sinn varstu svo fagur, nú ertu svo magur \'eg man eftir þér þá \'eg veit ekki hvort ég segja má.. Snjógallinn allur fullur af snjó Og þú varst aðeins í einum skó ég fann skóinn og leit í augun þín blá Þú áttur bágt, það var ei erfitt að sjá. Augun full af tárum En líkaminn þakinn sárum Þessir stóru strákar sem í þig sparka, aldrei heyrðum við þig þó kvarta. Okkur var sagt að halda okkur fjarri þér en ég hafði það einfaldlega ekki í mér \'Eg rétti út litlu hendina mína og þú réttir mér hræddur þína. \'Eg kyssti þig á kinnina og þurrkaði tárin en það tekur langan tíma að lækna sárin \'Eg kenndi þér að elska á ný En þú kenndir mér svo miklu meira, ég mun aldrei gleyma því. Saman sigrum við allan heiminn Og ferðumst í huganum upp í geiminn. Eitt er víst, ég mun ávallt standa með þér svo lengi sem ég í þessum heimi lifi hér. ] [ þetta er tileinkað Vöku og hröbbu.. 3 vinir og 3 vinkonur hittust fyrir tilviljun í nauthólsvíkinni Með tælandi augum, fallegum brosum og mikilli útgeislun, hrepptu stúlkurnar hjörtu þessara saklausu drengja. Þær verða þó að fara varlega því ekki vilja þær særa þessar viðkvæmu sálir. Þetta er of gott til að vera satt, þær bíða enn eftir að vakna og þurfa að snúa aftur inní kolsvarrtan raunveruleikann. Er þetta draumur, eða er Guð að sýna þeim að þær eiga allt það besta skilið í heiminum? ] [ Ástin mín ég elska þig, er það satt að þú elskar mig? Kaldar hendur, hlítt hjarta saman yfirstígum við allt það svarta. Þú ert hetjan mín, ég er stúlkan þín. ég vil ávallt hjá þér vera Þínar sterku hendur upp mig bera, nú skulum við sofa og aldrei vakna Því að þetta er aðeins draumur og þín ég sakna.. biddan.. ] [ Það var í byrjun sumars ég fyrst hann sá en ég er hrifnari af honum nú en þá er augu okkar mættust mitt hjarta hætti að slá nú þurfti ég aðeins hans athygli að ná. \'Eg veit að hann er yngri en ég er þó allavega ekki þynngri í ást er aldur aðeins tala og ást minni á honum er ei hægt að svala. Við pössum vel saman, ég sé það á hverjum degi Það er þó ég sjálf frá segi Mig langar að segja öllum heiminum en veit ekki hvort eg megi Því hann veit ekki að ég elska hann svo það er best að ég þegi. \'Eg vildi að ég í örmum hans nú lægi Ef hann byði mér hjarta sitt ég það pottþétt þægi bara að hann ást mína á honum sæi og hvað mér þykir hann hann allsvakalegur gæi. ] [ Baby all my life I’ve been searching for true love, and i thought i would never find it, until i met you. I want you to know that you mean the world to me, although i might not show it, but baby, i really do love you. You’re an angel sent for the sky to save me from all evil, god really must love me, cause he sent his favourite angel to rescue this little girl. And this little girl is me, her heart is broken in one tousand pieces, she has really been heartbroken, trying to find the true love, trying to find the man of her dreams. But all these guys do for her is tell her they love her and then leave her all alone, with a broken heart. Then you came along, and you try to clue the pieces together,one by one. And yesterday you did it, my heart is all healed, and I know i love you, baby, you are the love of my life. And all you have to do now to make me happy, is to hold me really tight, and tell me that you love me, tell me that I’m yours, and you will never ever leave me, because I really need you, im lost without you.. dont ever leave me, promise? I hope god will forgive me, im not sending his favorite angel back, cause you’re mine now, and as long as you wont tell him where you are, he’ll never know. But one day i’ll have to send you back, because you’ve done your job, you have saved that little girl from evil, from missery, and when that day comes, I will cry myself to sleep. But you have to go, i understand, you have to save all these other little girls, all these other girls that are like me, with broken hearts. But I will never forget you, my favourite angel, my baby, and all the things you did for me, all the things you tought me, I will allways remember that. Thanks for being there for me, thanks for understanding, just remember, i love you and there will never be a place in my heart for anyone else but you... ] [ Why? Why is that little girl crying? why? Maybe because her fish died, maybe because she’s grounded, or maybe because her true love went away. I know how she feels, her heart is empty, nothing but sorrow. There is nothing in this life that makes her happy, nothing that makes that little girl smile. Not since her man died last saturday. He died in war, fighting for his contry, his rights, he died, but he died as an hero, and she will allways remember him as her hero. Everynight she cries herself to sleep, until the last tear falls down the cheek. But shes so tired, tired of cryin, tired of being alone, loneliness.. thats what she know best. so, one day she takes a gun out of her daddys drawer. she holds it for a while, then she looks at a picture of her man, an smiles, for the first time in weeks, “ i’ll see you soon baby” And then she pulls the tricker.... ] [ Everybody have got a best buddy. a best friend. Ive got one. shes so funny, and clever and kind, and beautiful. She allways makes me laugh, and no matter what, shes allways by my side. when im feeling down, she holds my hand and lends my a shoulder to cry on. Shes there, whenever, wherever. Thats why shes MY best friend, and i love her more than anything. Her name is vakie, and she makes me crazy, crazy in love. Vakie, this is for you, thanks for being there. :* ] [ Hvað er thað sem fær thig til að brosa? Hvað er thað sem fær thig til að liða vel? Eru að vinir? fjöskylda? litil börn hlaupandi um hlæjandi? Hja mer ert thað thu. Thað ert thu sem færð mig til að brosa, thu sem heldur mer gangandi, fær mig utur rumminu a morgnanna, thegar eg hugsa um thig, hlynar mer um hjartarrætur. Thað ert thu vegna thess að eg elska thig, og eg veit að thu elskar mig. thessi thrju litlu orð, sem skipta svo miklu mali. EG ELSKA THIG ] [ Hann brá sér í villtan bófahasa og borgaranna allra tæmdi vasa! Hér á landi þjóðmálanna þjófar, þyrpast í störfin eftir sakir grófar! Þórólfur nú samt berst í bökkum í bandi hjá siðlausum krökkum, sem fá á sig óvirðingu vandans, að vísa honum ekki til fjandans! ] [ Reistu hug þinn, fánaberi eins og flaggið hálfu týnt og horf ei aftur bróðir nýrrar þjóðar Réttu fram ljóskerið sem áður upplýsti þennan sal og lýstu veginn ljósberi nýrra tíma ] [ Næði ég lausn, næði ég frið um hjarta mitt hríslast nafnið þitt bitin og barin ég blóðug sár vef um mitt hjarta þitt allsherjarlán gull og grænir skógar mig heillað ekki fá en hjarta þitt hreint ég mun aldrei fá ] [ Sjá, morgunbirtan skín og boðar bættan hag hún skríður upp í til mín syngjandi sæl um góðan dag ] [ Er veturinn skríður inn fyrir dyr ég eldinn skara og dreg að mér ábreiðuna hlýjan hún ornar og minnir á liðna daga Sæl og södd að vetrarkvöldi ég bíð þess að vorið hefji leik á ný ] [ Gleymdu mér kona gleymdu mér frú græddur er geymdur eyrir ég á ekki hús ég á ekki skó ég er ekki túskildings virði Þú hjarta mitt átt en alls ekki mátt eigna það upp á mig myndi gefa þér allt blóm, ást og skart án þess að vera þér byrði ] [ Sprengjur sprungu í nótt á meðan ég svaf rótt saklaust fólk tók á loft þetta gerist jú soldið oft ] [ bleik sigð sker kvöldhiminn í rauða strimla skýja sem sólin brennir eldhafið sleikir svartan sandinn við fætur þína ] [ í faðmlaginu felst loforð um að senn vori á ný og hlýni hjarta að vetri liðnum ] [ I never thought it would come to this, With pain in my heart I cut my wrist. Saying goodbay to everyone I love, Saying goodbay to everything I have, Saying goodbay to long lost times. Saying hello to freedome. Last thought I thought of you, Your long hair and pretty eyes. I love you so. I die, my sould dies. There is no turning back, Not that I wan’t to, A last goobay would have been nice, But there is nothing to do. As I feel my life drift away. I still think of you, Last thing I have to say. I love you so, hope you love me to. ] [ I have no feelings, I have no tears, I have no love, I have no fears. I have to leave, Cuz I love him so, You must belive, But I have to go. I’ll miss you, I really will, Hope you love me to, But I can’t stay still. Just cry a little, Cuz I loved you so. Don’t hate my soul, Cuz she had to go. ] [ I belive in you, When you need me to. If you call my name, I’ll be there. Dead or alive. Your my star in the sky, The blood in my heart. You lift me up so I can fly, You pull me down when I need to cry. I want to die. There is no right, There is no wrong. My body remanes, But my soul is gone. To you my friend I say goodbay, Cut my wrist, Wanting to die I loved you so And I always will. I had to go But I need you still. Don’t cry for me, Just be glad, My soul is free. I’m holding my dad. My best friend I love you so, To bad I had to go. It’s just so hard to say goodbay, Don’t cry, stay strong and try. ] [ Hún var í hvítu, einsog lítill svanur í leit að engu. BÍDDU. Hættu. EKKI. Ég sá hann koma, vona að hann stoppi hana. hún varð sér að bana. Hlustaði á tónlist í útvarpinu. hún var farin. sá hana aldrei aftur. tælandi rödd hennar hvíslaði í eyra mínu, \"komdu með mér, ég skal sýna þér\" Allt mitt er þitt, fædd til að þjást, sá hjarta sitt, svo fullt af ást. Hún þoldi það ekki, var alltaf brúðarmey, en aldrei brúður. Einsog fallegur hvítur svanur, hann var alltaf sannur og elskaði aldrei aftur. ] [ ég labbaði út um kirkjudyrnar, sá snjóinn falla létt til jarðar, fyrir framan mig löbbuðu mennirnir, mennirnir með kistuna. þar lá hann faðir minn, þurfti ekki einu sinni að hafa fyrir því að labba, hann var sofandi. heyrði hann tala ljúft í eyra mér, fann skeggið hans strjúka blítt kinnina mína, að hugsa sér, hann er farin og kemur ekkert aftur. heyrði snjóinn braka í takt við rödd föður míns. hann hvíslar lag sem við sungum eitt sinn. hugsaði hann um mig hugsaði ég. hvað var að hugsaði ég hvernig hugsaði ég, en fékk ekkert svar. ég fleygði rósinni á leiði hans labbaði reið til baka. sat ein í prestsetrinu og sá hann standa fyrir framan mig. ég stóð upp og faðmaði hann fann hann snerta hendur mínar. kinnar mínar. hjarta mitt. nú er hann að eylífu horfinn, farinn, mold einsog jörðin sameinaður sjálfum sér. ] [ Á sök ég fékk að gjalda sem eigi ég gerði í mínu hjarta er ei hatur né kyrrð ég er fangi í éilífðar bið slegin niður hrakinn burt ef sannleykan eg vissi ég segði hann ég ekki reið né vond á sál því svona verk er vandað vel að brjóta niður þar til það brotnar og lemja þar til vöknar sem er ekki hjá MÉR. ] [ Talaðu,talaðu hrópaðu svo ég heyri ég er hrædd og ein og skelf inn á bein ég veit ekki hvað gerir mér mein ég sit hér alein uppá hlein og grætum mínum síða gráti ] [ Með viljann að vopni og trúna á sjálfum sér fer hann í hringinn eftir langa fjarveru. Í fyrstu lotu fær hann nokkur högg frá andstæðingi sínum en hann lætur sér ekki bregða, heldur áfram sínu striki! Í annari lotu vaknar hann til lífsins og spilar úr sínu mjög vel og nær yfirhöndinni. Í þriðju lotu á hann salinn og hringinn, slekkur á andstæðingi sínum með góðu höggi og andstæðingurinn er í sárum. Með viljann að vopni og trúna á sjálfum sér sýndi hann mér að ég get gert mína hluti líka vel, hvað sem ég tek mér fyrir hendur ef ég hef viljann og trúna á mér sjálfum. ] [ Ég sit og hugsa um þig. Ég vissi það um leið og ég sá þig fyrst! Vissan skreið upp eftir bakinu á mér, inn í hausinn og vafði sig utan um heilan í mér. Þess vegna veit ég það. Þegar þú ert hjá mér heldur framtíðin mér í fangi sér og sýnir mér hvað allt er fallegt og gott. Þess vegna veit ég það. Það er enginn eins og þú. ...og ég elska þig fyrir það. ] [ Hér er ein staka Þetta er um þig mér fannst ég verða við henni að taka því hún fjallar líka um mig Það fjallar um okkur bæði þegar við kinntumst um vonir okkar og drauma En við vorum svo ólík að þetta gekk aldrey upp ég endaði úti á landi En þú út á Lífis ólgu sjó En okkur dreymdi samt drauma ] [ Fyrirgefðu mamma, en ég sá ekkert annað. Fyrirgefðu pabbi, snaran veitti mér lausn. Fyrirgefðu eiginkona, mér leið bara svo illa. Fyrirgefið börn, pabbi gat bara ekki meira. ] [ Ég hrópa, ég hrópa út í myrkrið. Þú svarar ekki. Er rödd mín svo dauf að hún berst ekki alla leið? Ég doka við. Reyni aftur en rödd mín berst ekki. Getur verið að þín rödd berist ekki, en mín nái gegnum svartnætti? ] [ Þú leikur á básúnu og blokkflautur tvær; barítón og alt. Úr hljóðfærunum gustar, tónar fylla salinn, fyrir aðeins þær. Fyrir þig skiptir mestu hver hlustar ] [ Í fjarska heyrist fótatak, fótatak þeirra framliðnu þeir ganga um þann stað sem áður var tún en nú er steinsteypt slétta. Hvað veldur þeirra gangi færst ekki svarað. Samt vitum við að ekkert færð því breitt. Í fjarska heyrist fótatak. ] [ Ég veit satt að segja ekki hversvegna en ég hef ekki séð fyrr hvað tunglsljósið getur verið fagurt. Einmitt nú þegar fyrstu geislar vorsólarinnar brjótast upp fyrir sjóndeildarhringinn og blandast tunglsskyninu. Hér í firðinum hefur ís úr ám og lækjum runnið til sjávar, geislarnir speglast á undursamlegan hátt í sjónum. Ísinn fyllir svo fjörðinn af undarlegum, köldum friði. Sjórinn er spegilsléttur. Ég skil ekki hversvegna ég hef aldrei séð, aldrei séð þessa fegurð ekki fyrr en nú þegar báturinn hefur sokkið. Ég berst fyrir lífi mínu í ísnum. Á morgun kemur eflaust frétt í útvarpinu; Lítill vélbátur fórst þar sem hann var að veiðum einn maður var um borð og er hans saknað. Ætli þeir sem heyra þessa frétti viti hvað fjörðurinn er fagur? ] [ ég sit ein við gluggan ég sé snjókorn falla ég er við heitan ofninn það fer ylur um mig alla Mér er hugsað til móður minnar þegar við saman sátum í kirðinni í vetra kuldanum Fyrir nokkrum árum ég kvaddi hana með tárum nú er hún farin mér frá og skilur eftir sára þrá Til liðinna tíma er við Er við sátum gluggann ] [ Þegar ég vaknaði. Sársaknaði ég samviskunnar. Tveim dögum seinna. Fann ég hana drugfulla. Angandi af skilning. ] [ Hjarta mínu blæðir dökku blóði             blönduðu                              söknuði mínum ] [ Ég ligg í sortanum og hlusta      á hjartslátt heimsins Hann slær      í takt við þrár mínar og langanir ] [ Bráðum dagar, rósin rjóð, rennur í burtu húmið. Við skulum bara vera góð og verma saman rúmið. ] [ Já, þú ert vont skáld en ert samt skáld Og þú ert gott skáld en ert samt skáld því þú ert jafn misskilið skáld og þú ert skilið skáld Ekki af því þú getur ekki gert neitt annað en samt þarftu að vera skáld og hvað ert þú að gaspra, skáld! Þú ert skáld af því að það er eitthvað að þér og þú ert með minnimáttarkennd, skáld Og þegar aðrir áttu úlpu og takkaskó þá var þín æska: draumar að degi til Samt ertu, skáld, montnari en hanagal að nóttu eins og fyrirburi spýttur útúr klofinu Og montið, skáld, mun drepa þig samt er það þinn hnífur og gaffall þín Campbell's-súpa og allt hitt sem rúmast ekki í dós Þú andar, skáld, og kallar það orð sem aðrir kalla hóstakast og líta undan Þú kannt ekki að lesa, skáld Þú þjáist af athyglisröskun Hjá þér heitir það „að skálda í eyðurnar“ sem fyrir öðrum er bara hvítt ekki einu sinni snjór, postulín, sakleysi, dauði, heldur bara hvítt ekki einu sinni pappír Ég heyri ekki í þér, skáld, kyngdirðu rifrildi úr bók? Sagðistu hafa verið jórturdýr í fyrra lífi og borðað orð? - Heidi fjarðarbarn - önug og gömul, núna gift lögum og reglu, hvæsir eins og heiðagæs segir að þetta sé bara gömul tugga og tilgerð milli „gæsalappa“ En líttu upp, skáld! Blicken i skyn, nu var det levat Whysky og renat Skål skål skål Þú borðaðir í alvörunni orðin ekki satt, satt? Fórstu þess vegna til Ísafjarðar, skáld? Var ekki erfitt að bera sig með reisn svona hokinn úti eins og undir súð? Eru fjöllin eins og wok-panna og þú í dalnum eins og olíusteiktar núðlur? Hvers vegna stendurðu ekki í lappirnar, skáld? Eða eru kannski fjöllin sköp? Hryggurinn hér vestur og austur Kúptar hendur, nei, skapabarmar, þeir ytri og þú reikar um baktería í súrum legi sérræktuð flóra við snípinn Og af hverju varstu alltaf að kvengera hóla og hæðir, skáld? Var það út af því að þú vildir deyja og fara heim? Eða viltu kannski þú montna skáld geta ný afkvæmi sjálfan þig, skáld, eina ferðina enn? ] [ Hræðist ég er geng um kletta og klungur, hugur minn af hryllingi er þungur. Hér voru mælt svo hræðileg orð, hér voru framin ódæði og morð. Ei vil ég gista ykkur grösugu vellir né glitrandi fossar, því hug minn svo hrellir, mörg sálin varð að deyja döpur, rúin, og hvar var þá \"hin mikilfenga trúin\". ] [ Ljós Eitt sinn var ljós í hjarta mínu, eitt sinn varð ég ástfanginn, eina sem er í hjarta mér í dag er myrkur, mín tár streyma niður, mín góðu ár horfinn eru, Ljósið mun ég finna í hjarta mínu aftur, ástfanginn mun ég aftur verða, myrkvið mun slökna og ljósið skína, tárin munu þerrast, mín góðu ár lifa í hjarta mér, Allt mun sinn tíma taka ] [ Í aðfalli augna þinna lá ástin örend. Sem dó svo ég fengi löngu síðar líf. ] [ Mér þykir það svo skrítið hversu mörg ljóð ég nú á. Stundum er innihald þeirra lítið samt til fólksins þau ná. Ég hef samið fleiri hundruð ljóð og aðeins brot af þeim eru hér. Saman ég hef safna þeim í sjóð en nokkru eru hér handa þér. Snilling ég tel mig ekki vera né hinn næsta Jónas Hallgrímsson. En mér finnst svo gaman að gera ljóð um stúlkur og að eiga sér von. Ég mun halda áfram að yrkja og fátt getur stoppað mig. Ljóðin mín eru til að styrkja þá sem snúast um sjálfan sig. ] [ Sweet pains of desire. My body longs for yours. My lips are burning after your last kiss. My rose weeps when i think of you. Im shivering all over with the tought of your touch. These are my sweet pains of desire, for you. Make my pain go away, touch me.... ] [ Handan hafsins grætur þú vinkona. Þú grætur vegna þess sem gengur um Víti. Handan hafs, handan heims. Ég get aðeins veitt þér faðmlag í dagdraumum geimaldarinnar. ] [ Oft svo virðist sem lélegustu ljóðin nái hæstu flugi. Það hef ég aldrei skilið. Þess í stað skrifast þetta á blað sem ég hugsa. En það sem er horfið á braut hef ég fyrir löngu gleymt. ] [ For death, I will never give Only for you, I can live As I open my eyes Every light was showing your lies I want to close them again.... I just want it to be like it was.... ] [ regnskaflar koma æðandi innúr dal níðþungir droparnir úr sunnanáttinni lemja mig utan og nísta sér inn að beini samt get ég ekki annað en fagnað þeim því þeir voru rétt áðan að hressa þig bak við þessi fjöll á milli okkar ] [ Rauða rósin,í búðinni beið, tók ég hana upp, borgaði með mínum síðustu aurum, og gekk alsæl út, ] [ Húsið við sjóinn hrundi til grunna í morgun. Húsið var gamalt. Þarna bjó enginn nema villtu kettirnir og mýsnar. Það átti að rífa það niður fyrir löngu. En það var aldrei gert. Svo í morgun þá hrundi hið gamla hús til grunna. ] [ Brenglaður hugi Opin sál Örvæntur maður kastar á bál Hann kann að syrgja ekki gráta Hjarta og huga vill láta Skiptir hann engu lífið sjálft Líf hans hefur kramist hálft Vill halda í taum vill sleppa Ótti og hræðsla saman keppa Líf hans vilja þessir,hinir Hann hryggir ekki ættingja og vini Kaldar bárur á bláu hafi Finnur ei er í kafi Drekkur drykkinn eiturbana Ástin gerði hann hjálparvana Vill snúa aftur til baka Skoða heiminn en udir klaka Lygnar bárur sína óvissuna Í draumum og skyssuna Þegar hann hugsar og sofnar Dreymir drauminn hugur dofnar Vaknar illa og kolruglaður En kemst að því hann er maður 10.nóv.2004 ] [ Ég er með malt ég elska malt. ég drekk mikið malt gef engum með mér. Malt er gott kalt eins og þú. Malt þúsundfalt eins og þú. umm... Malt. Í flösku er malt best stútur og flottheit. Ég mala eftir hvern sopa. Malandi, malandi malt malt malt. ] [ Gastu? Gert það Veistu? Svarið núna Skildiru? Merkinguna Komstu? Til mín Sástu? Gleðina Fannstu? Ilminn Kysstiru? Með hjartanu Faðmaðiru? Af alúð Nálgaðistu? Persónuleikann Gréstu? Svo kæmu tár Hlóstu? Af unun Brostiru? Með augunum Syrgdiru? Af ást Gladdistu? Við fæðingu Lastu? Stafina Kanntu þetta enn? 10.nóv.2004 ] [ Amma gaf mér lopa ég prjónaði. Ég á núna lopapeysu, lopabuxur, lopahúfu, lopavettlinga, lopasokka, lopatrefil, lopanærföt, lopamig. ] [ Fullkomnari föður vandfundinn er og finnst mér hann bestur í heimi hér. Stolt af því að vera dóttir Steina og skal ég því eigi leyna. Duglegur drengur hjá dömum happafengur. Alltaf vill hann eitthvað frá sér gefa Byggja upp vináttu eða sorgir sefa. Húmorinn hann skortir ei og sjaldan hann við mig segir nei. Þakklát fyrir allt sem hann hefur gert fyrir mig þó mætti hann slaka á og hugsa smá um sig. Heiðra skal þennan hugdjarfa mann sem virkja góða hugmynd vel kann. Fjölskyldna þó númer eitt, tvö og þrjú þannig að komum öll saman og gleðjumst nú! ] [ Ég er bara barn, mig langar ekki í skólann. Í nótt dreymdi mig draum eða var það draumur? Ég er ekki viss, ég veit oft ekki muninn á draumi og veruleika. Ég sit inn í strætisvagnaskýli, ég þori ekki í skólann. Það gæti einhver tekið eftir mér. Best að vera í felum helst ósýnileg. Strætó gengur ekki lengur í þessari götu svo ég get verið í friði. Bara týnd. Eða er ég týnd? Tók einhver eftir að ég var ekki í skólanum? Hvað er að, af hverju sést ég ekki? Hvað gerðist? Einu sinni lék ég mér kát í skólanum. Ég var sýnileg. Af hverju, hvað gerði ég rangt, breyttist ég? Hver getur sagt mér það? Mig vantar svar. Doði. Heima er gott, best að vera þar, öruggt og hlítt. Árin liðu jafn snöggt og hendi er veifað. Vangarnir eru orðnir rjóðir og sýnilegir. En þegar hugsunin leitar til týndu áranna. Dofna litirnir. Var þetta ekki bara martröð? ] [ Ég sat á hafnarbakkanum í leðurjakkanum. Og beið þess að dagur tók að rísa svo sólin myndi mig upplýsa um tilgang lífsins. ] [ Elskan mín, hvað sem þú velur gerðu þá dygð að sið að gera eins vel og þú telur því þá er Guð þér við hlið Vertu alltaf sjálfri þér trú og látt\'ekki glepjast af snauð Því aldrei enginn er betri en þú það aðeins ber af sér nauð Vertu þú sjálf, því þannig þú ert heiðarleg og einlæg ert þú ger vel við aðra, það er góðs vert en statt þó á þinni trú Mundu samt ávalt, að ein ei þú ert og ef beitt ert þú í rang ef blæs á móti, alltaf er gert að koma í mitt fang. ] [ Ég er ekki með malt ég hata malt. Ég drekk ekki malt en ég gef það öllum. Malt er vont kalt eins og þú Malt er einfalt eins og þú. oj... malt Í flösku er malt verst stútur og hallæri. Ég æli eftir hvern sopa. ælandi ælandi, malt malt malt. ] [ Svo margar hendur um vanga mér strjúka ljósageislar læðast hér inn kitla mitt hörund og kinnina mjúka knúsast þau inní mitt skinn. Ekkert er betra í heiminum hér en eiga svo margar hendur Fullkomnar, frjálsar strjúka þær mér fagrar sem lífsins strendur Barnahugar og bjartir draumar bera þær traust til mín Þau fræ sem ég sáði, framandi straumar sjá þau að framtíð er sín. Brosin björtu, á mig skal trúa byggja sín framtíðar lönd. En styrkum grunni að þarf að hlúa ef standa skal framtíðar strönd. ] [ Ég hef lifað lífinu lifandi, því þakka ég allra mest þér. Ég er lífsklukkan tifandi því það er gott innra með mér. ] [ Ég vel að fela mig bakvið fallega brosið mitt og lifandi augun mín sem virðast grípa athygli þína... Ég vel að brosa innilega því það gerir sál mína fallegri... Ég vel að segja að lífið sé þess virði að lifa því þó ég gráti á kvöldin því að þú elskar mig ekki... Ég vel að gráta á kvöldin því á daginn sjást tárin... Ég vel að horfast í augu við þig, brosa til að segja lífið er yndislegt og ég elska þig... ] [ I try to hold on, as my hopes slippes away For my fallen angel, that I lost that day Every depressed memory I had, are back I might as well go and put a rope around my neck No reason for me anymore, breathing has become my enemy Living, what good can I do for me? You told me a lie.... But now I want to die.... My heart has fallen apart Only ashes of pieces remain I have to die to get away from the pain I bury my own grave, like from the start You have now killed my heart..... ] [ Rugg rugg rugga mér í stól Hugs hugs hugsa til þín Í myrkrinu glóa augun þín Ég finn snertingu hita Held áfram að rugga mér Loks. Þú kemur við hjarta, hjartað mitt, Ástin komin, um stund, með þig, til mín. Rugg rugg Hér og nú. Dýpra og dýpra gengur þú inn. Lengra Dýpra. ] [ Fuck you,you \"mother\" dem fucking \"face\" i see sky,sun,tree, that focking incredibly. ] [ Stelpa Leiddu mig Eins og bíll í park fimmþúsundkarlinn frá ömmu og strendurnar á Mæorka Heimadæmi fyrir morgundaginn Og augun eru alveg að lokast á bókasafninu Við vöknuðum hlið við hlið Og hendurnar eins og... spagettí... sem legið hefur of lengi í pottinum... Búmm! Rafmagnsstraumur og þú liggur í gólfinu Bíll keyrir framhjá Hjónin í næsta húsi ] [ Huldar hendur henta ei hér, höldum hentar betur. Heiðskír rök, sem halda vel, hæfileika sómasetur. Háðuleg þau heimskupör, er henta sumum mönnum. Sér á parti og setur för, sýnileg í dagsins önnum. Hugðarefnin höldum í, og hæfileikum höldum. Enn og aftur og nú á ný, nálgumst það er töldum. Hulinsheimar henta sumum, en hæfa öðrum miður vel. Gæfusporin gagnast gumum, gifturíkir vísa veg. ] [ Framtakssamir Fjölvísmenn, fyrirmyndir skapa. Síst af öllu síðri enn, en sérfræðingar raka. ] [ Björt sumarnótt. Sólarlagið gyllir fjallstindana. Ég hlusta á niðinn í ánni, söng fuglanna, kindurnar jarma uppi í fjallinu. Bæirnir sofa undir bleikum og fjólubláum skýjum. Lyngið og blómin ilma og fiðrildin fljúga um loftið. Hestur stendur upp á hæðinni. Túnin eru nýslegin og mig langar til að hlaupa berfætt yfir þau. ... Svona er hún íslenska sumarnóttin. ] [ Fyrst þegar ég sá þig þú kveiktir í mér bál Mig langaði að fá þig Til að græða mína sál Fá að sjá þig aftur og hugga þig Taka utan um þig og kveikja í þinni sál ] [ You look so fine with your bright green eyes, I wish I was a part of the colour And flowt around in your dark eyeball. Your dry lips are so red in the winter, I want to bite off every dead skin of it And svollow your death. Your dark hanging hear look so dirty, I want to lick it and make it shine So it can fullfill me with life again. Your voice sounds like crystal, When you say; Come to me, I\'m sweaping my floor. It would be nice. Your body is like an electric guitar, I want to grab your ass It sounds like an classical. Your little toe is very ugly I\'m glad you\'re vearing socks I think I\'ll dump you in the summer. ] [ sum ljóð eru góð eins og mjólk og kex undir teppi þegar dimmt er úti ] [ Hefur þú orðið varir við það að í lífi þínu sé mikil gróska? Skrifaðu því niður á blað allt sem þig langar að óska. ] [ Arafat nú látinn er, 75 ára að aldri. Er í hugum allra nú, Þótt herkví hefur verið. ] [ Ég er fuglinn sem fljúga vildi með fjaðraþyt yfir blikandi mar. En til hvers eru vængir og vonir ef viljinn er blaktandi skar? ] [ Fékk mér sjálfskiptan svo við gætum haldist í hendur þegar við rúntum ] [ Anna, borðar banana. Grillaðan, með súkkulaði. Sleikir útum, stynur. já. ] [ Ég var á forsíðunni á DV, í hönd mína tók Davíð Oddsson, ég á trippi,ramm-skökk, víman öllum tökum á mér náði, hann í hönd mína leiddi, ég eins og mellu poppuð drusla hans við hlið, starandi fólk á okkur leit, með myndarvélar á lofti uppi, ljóslogandi geislar skært á mig skinu, raddir að mér hvísluðu vaknaðu vaknaðu, á forsíðu DV komst ég ekki, því draumur einn var þetta.... ] [ Móðir jörð Komdu til mín nú, litla barnið mitt. Guðsgjöfin ert þú, hamingjan er mín. Mín aldarmótar bæn, er barnið sem ég ber. Frið í heimi hér, Það lifa fær, það lifa fær. Ástin mín er heit, því barnið borið er. Guð gættu þeirra vel, sem búa í heimi hér. ] [ Í hundrað ár Öldin er senn á enda, maður jafn gamall öldinni kveður. En á sjúkrabeðinu liggur hann aumur, biður fyrirgefningar. Öldin var löng, nægur tími til að gleðjast, syrgja og gera mistök. Þegar endalokin nálgast, snúast hugsanirnar ekki um gleðina og hamingjuna. Eina óskin er að fá fyrirgefningu á öllu því sem ekki var sagt, og því sem var sagt. Maður er ekki fullkominn, allir gera mistök. Fyrirgefning. ] [ Af hverju er það þannig? Góðu strákarnir fá klapp á bakið og hálfvitarnir fá stelpurnar heim? Síðan er verið að segja að strákar séu skítur? Þið leitið bara á vitlausum stað! ] [ Hvernig líður manni daginn sem maður fattar að maður mun lifa og deyja einn? Leiður, einmana, öfundsjúkur, afbrýðissamur, niðurdreginn, reiður reiður út í heiminn reiður út af áformum Guðs ef Guð er til niðurdreginn því maður mun ekki upplifa þá lífshamingju sem aðrir munu gera. afbrýðissamur út í kærasta vinkonu sinnar öfundsjúkur út í vin sinn Einmana, því ég mun eyða jólum einn ef ég held upp á þau vinir og fjölskylda munu bjóða mér til sín á aðfangadagskvöld vegna vorkunnar reyna að halda uppi samræðum en hvað hef ég að segja? leiður, því þessi niðurstaða er stór baggi til að bera á öxlum sér einn Samt verð ég sáttur sáttur því ég slepp við brostin hjörtu mislukkaðra makafundna því ég þarf ekki og aldrei að taka að mér foreldrasessu og fjölga mannkyninu því maður fær að sleppa við heilbrigða sjúkdóm konunnar peningaþörf barnanna væl tengdaforeldra og meir! Ég mun ganga einn beinn glottandi út í heiminn því ég mun aldrei þurfa að skipta búinu. ] [ Í dag er bara þrælahald í útlöndunum langt, langt í burtu Flest þessi fyrirtæki kaupa ódýrt vinnuafl neyða þau til að vinna við fáránlegustu aðstæður veifa vendi og hóta refsingum, og standa við þær semsagt kúga vinnumenn sína, sem fá engin laun. En nóg um grunnskólakennarana, aumingja litlu börnin í Afríku. ] [ Hlaup, troðningur, slagsmál, læti! Einhver missti bókina sína og tróðst undir skrílnum. ég mun ekki sakna hans því ég þekkti hann ekki. Ofsaakstur, árekstur, slagsmál, læti! Einhver sá ekki rauða ljósið, og tróðst undir bílum. ég mun ekki sakna hans því ég þekkti hann ekki. Ofsaakstur, troðningur, hlaup, árekstur. Hjartað á fullu, allan liðlangan daginn. Veikleiki hinna sterku gossar upp. Sagt er að meðalaldur muni fara hækkandi. ekki hjá Íslendingum! Við erum alltaf að drífa okkur, og munum flýta okkur í dauðann. Ég spái því að hjartasjúkdómar verða í tísku eftir 15-20 ár, staðinn fyrir Hugo Boss og niðurhal. ] [ Minn drykkur, minn roði, minn sviti, mitt vatn. Minn styrkur, minn voði, minn hiti, mitt malt. Þinn drungi, þinn þungi, þinn djöfull, þinn dans. Þinn þrungi , þinn ungi, þinn leiklistartrans. ] [ Huldu dans Ég horfi út um gluggann Í rökkrinu sé ég þær dansa Hring eftir hring Þær svífa svo léttar um Snerta vart jörðina Hring eftir hring Síðasti dansinn Svo hverfum við á braut Hring eftir hring Fallega heiðin Holtagrjótið og móinn Hring eftir hring Mennirnir eru kaldir Skilja ekki jörðina Hring eftir hring Rífið upp sálina Náttúrunni blæðir Hring eftir hring Steyptar stéttir Hvað situr eftir Hringurinn stöðvaður ] [ Jólanótt Hverjir eru komnir Fullt af fólki Hlátur, glens og gaman Trítla fram Skil ekkert í þessu Hverjir eru þetta Glaðlegt fólk Prúðbúin Horfa á mig, brosa. Huldufólk erum við Ferðumst í nótt Kemur þú með Gleðin togar Erfitt er að hugsa Gott er boðið Hvað heldur mér fastri Börnin Afþakka boðið Takk fyrir okkur Fallega var hugsað Um hulin heim ] [ Björg Beygð en björt Brotin en full af lífi Fóstrar nýtt líf, nýjar vonir Fylgist með Sér aðra koma og fara En kemst ekkert sjálf Er föst Eldist vel Lætur ekki margt á sig fá Er gróskumikil En hvað er fyrir innan ? Kalt grjót Dimmir hellar Eða kannski undurfögur Álfaborg ] [ Fiskur á þurru landi Áhyggjulaus Syndi með straumi Í hópi af ólíkum fiskum Verð kærulaus Gleymi mér Soltnir munnar Grípa tækifærið Setja út net sín Baráttan fyrir tilverunni Vakna upp á þurru landi Endar það svona ] [ Fish in the tree, bird in the sea, fly up-ward up to me, ] [ Merk hún er og mikilsverð manninn ástin blessar. Þú unaðsþrá í brjósti berð er bugar sálir hressar. Allra ást af guðum gerð ganga leiðir þessar. Í trega raunum angist rís riðlar vana lífi. Söknuð frekar kargur kýs kenndir burtu rífi. Bjálkahafi forðast flís í freklegu heimsku kífi . Hvar finnst sá sem fáa ann og færri vildi gleðja. Einmana sálin fösun fann fagnandi í sambúð steðja. Ástarhrollur um rásir rann reisn mun engann seðja. Eitt er grundað annað girnd ganga saman pörin. Svörun kennda fráleitt fyrnd fögur brúðar slörin. Aldrei verður ástin hyrnd unun markar förin. ] [ Árlega barna fjöldi fæðist færast neðar meðaltölin öll. Íbúa Geirdal enga hræðist enn vilja margir sumarhöll. Í fjölbýlunum fólkið bræðist fjarlægðir greina bolta höll. Til dóms með ljóðin læðist lítið skáld við rímsins völl. Óttast hrekkinn einhver hæðist orsaki þannig hlátrasköll. Hvenær stjórn á manni mæðist markast best við hróp og köll. Frægir vogar fyrrum látur falinn sjónum yngri manna. Kunnug gleði kæti og hlátur kastar birtu á vegferð sanna. Vondar reynast vega gátur villtir fjölda lausnir kanna. Fólk í traustum Bæjum búa besti kostur hentar tregum. Grundir, Brekkur, Gjárnar brúa Gerðum, Lindum, Sölum, Vegum. Stígar, Stekkir, að Hlíðum hlúa Hvömmum og Borgum ýmislegum. Á ferlið heima fluttir vísa frændur og vinir í hverfin ný. Í hæðum mörgum húsin rísa húsum fjölgar bænum í. Smárar, Kársnes og Smából lýsa Smiðjuvegi næstum því. ] [ Snjall er snillings eiturhugur sniðuga hugmynd ýmsir fengu. Sanna heimi að dáða dugur dældi í þá er fremstir gengu. með tóma vasa og sjóðasugur soltnum öryrkjum yfir héngu. Afkoma sjúklings er tekjutengd tilvera maka í skerðingum metinn. Á beltum sífellt lækkuð lengd af léttum diskum matur etinn. Milljóna þörf af ríkinu rengd raunar krónan öll um setin. Aldnir og öryrkjar sáran kvarta Alþingi rói þá siðblindu og sefi. Afstaða þings hin versta varta vex með hárum fremst á nefi. Hækkun mætti hópur skarta horfir fram að næsta skrefi. Allir sinn eigin hugsa hag hagnast ég eitthvað á þessu. Flest er bundið flokkabrag fárast þeir um stóla og sessu. Sköpum þeim lyga skreytnidag skynsemin barin í klessu. ] [ Elsku pabbi ekki lengur gráta ekkinn báðum skapar vanda Andans sár mun undan láta engum hollt í slíku standa. Kærleik verður til mín máta minning skal ei öðrum granda. Elsku mamma og yndis pabbi ekki stunda lengri sorg. Þið heftið mig í hugar rabbi haldið mér frá okkar borg. Hugann reynið ég svara kvabbi raunir engar ég ber á torg. Kærleik máttu kærann sýna kenndir beindu að þínum syni. Fyrirmynd má betur brýna boðskap þygg frá góðum vini. Formæður mig konung krýna kærleik senda ættarhlyni. Lungum skarta hérna heilum hamingju ríkt er nýja landið. Allir þeir sem þjást af veilum þurfa að gista hvítabandið. Lífið völtum líkist keilum leggist eða á fótum standið. Yndis amma minn elsku afi Engar sorgir þurfa að vera. Hér leitar allt í ljúfa stafi Leikir nám og ábyrgð bera. Þó verkin fá að heiman hafi Hér mun vera margt að gera ] [ Val á orðum vandar þú veifiskati enginn. Vettlingatökin virðast nú vera mörgum fengin. Ertu kannski efndin sú sem ekki er burtu gengin. Góð eru gífur orðin þín glettni þeim að baki. Axla ypptum þykir pín einhver í þá kraki. Hugvekjandi hugsun fín hlustun engann saki. Vaknar allra vitund enn virkjum fjölda huga. Köllum saman konur menn kenndin ætti að duga. Ef samstöðuna virkjum senn má sinnuleysið buga. Elen þessi okkar frú orðstýr fær í riti. Á veruleikann velur þú varla rétta liti. Kannski ertu konan sú er kannar allt af viti. Veruleikinn vetrar blár víða örlar á rauðum. Svartur verður sjaldan grár signar yfir dauðum. Axlinn er þóttist ypptar klár endaði á bekk hjá snauðum. Sorgin margann hefur hitt herjað á lönd og álfu. Fæstir eru alveg kvitt við ferli hels að hálfu. Líkni þjóðin liðið sitt leysist allt af sjálfu. ] [ Kítla þig með krækiberjalingi kúra inni þegar úti frýs Finna fyrir seiðingi Fíflast þegar ég kýs Lauma léttum kossi á vangann leika við þitt fagra hár Gera þig af ást til mín svangann Svoleiðis er ástarfár. ] [ Myrkrið er komið, í hjartað mitt. Veturinn er dimmur, og brennir mína sál. Ég er einn, innaní mér. Sé ekki sólina, bara myrkrið. ] [ Þarna ertu ljóti kall, geðstirður og fúll. Hefur allt á hornum þér, lemur allt og berð. Þú öskrar mig á, ég hef ekkert þér gert. Ég vill í burt, og aldrei þig sjá. En ég á hér heima, alveg einsog þú. ] [ Hvernig er það að finna hamingjuna ? Finna hana síast inn gegntaka líkamann og sálina. Finna hjartað slá af gleði. Ég veit það ekki ... ] [ Andar sem unnast fær ekkert aðskilið að elska var fall þeirra beggja. Trúin gat ekki minnkað bilið tár var sameign tveggja. Hann fyrir handann en hún var hér þráðu hvort annað aftur. hún ekki lifað gat ein og sér sorgin tók allt sem hét kraftur. Hann horfði en við hana gat ekkert sagt heimar tveir skildu þau að hún gjöf við gröf hans hafði lagt og grét og til hans og bað Vissi ey að barn undir belti bar barn sem hefði orðið drengur með hníf sína æð í sundur skar vildi ekki lifa lengur Hún tók tvö líf sem lifa áttu lifa hún fær ekki í nýjum heim Sundraðar sálir að eilífu máttu sorgin var ekki hliðholl þeim. ] [ innantómt andleysið hellist yfir innsláttar hjóm ekkert að segja betra að þegja ] [ Haförn Fagur er fuglinn er flýgur hér hjá Frjálsborinn er hann og hafið hann á Flýgur yfir Esjuna haförninn sá Gyllir í sól við sjávarrönd ] [ Ég stari á blaðið tómt ég þarf bara að skrifa til að fylla það. Lífið ég þarf bara að vera til að lifa það. Þarf bara að brosa til að elska það bara að hrasa til að hata það. Hugsa að ég þurfi að vera áhorfandi til að skilja það. Það næsta sem ég kemst er að lífið það sé leikur. Kveikja lífseldsins er tilgangur en restin. Hún er reykur. ] [ Yndislegt er að fá af lífinu að taka að fá að elska finna til og þjást Því þjáningarnar fáum við til baka borgaðar í kærleika og ást ] [ Ég stóð á brúninni og horfði á sjóinn það var hátt niður en sjórinn var kyrlátur hann róaði mig og þá vissi ég að dagurinn í dag var ekki minn dagur til að stökkva. ] [ Hugur minn þreytist á sögumönnunum, í flöktandi bjarma eldsins slær hjartað of hratt fyrir hæglátar raddir þeirra og pípureyk sem liðast frá vitunum. Ég vil dansa við villtan trumbusláttinn sem bergmálar í höfði mér, meðan glóðin brennur í sálinni og aftur kviknar glampi í augunum. ] [ Hægur dans í hringi kringum þig. ] [ Ískalt var frostið en kossar þínir í senn mjúkir og heitir. ] [ Þú vefur mig örmum þínum og hvíslar að mér nokkru sem við heyrum bara tvö og mér finnst andartakið ætla að vara að eilífu En þegar ég opna aftur augun... þá ertu horfin ] [ „Það er gott að vera einn” það sagði maðurinn við mig. „Það er gott að geta gert það sem þú vilt” sagði sami maður. Á morgun verð ég einn. Ekki í fyrsta skipti. Ekki í annað. Nei, ég er einn á hverjum degi. Daginn eftir. Verður vonandi einhver kominn til þess að hafa hemil á mér. Og því sem mig langar að gera. Sami maður sagði að ást væri ofmetinn. Ég sagði að það skipti ekki máli. Hann brosti og sagði mér að ég væri ástfanginn. Ég sagði að það skipti ekki máli. En kannski á morgun. ] [ ég sitt í hreiðrinu mínu umkringd kertaljósi frá seríum kveikjuþráðum og hjartastöðinni minni. sýni á mér hlið sem ég hef saknað. Frjáls undan oki og stríði laus við spennu og blót lifandi lofandi líðan sem færir mér hamingjuljósið leiftrandi leikandi lýsir sjáðu friðinn ég fann. Minn öruggi staður er fundinn ég friðin í sálunni fann. hreiðrinu lokið er í bili ég þér heitustu hugástum ann. þú komst eins og vonin mín bjarta brosið svo bjart og yndislegt. augun þau stinga eins stjarna sem birta í hugskautum mér. ég vegamótin mín fann og fylgi nú veginum hratt, en sé mitt ferðalag hafið og fegin ég fortíðina get hvatt. ] [ im killing my time with changes im getting it out while i can im letting the rush go through me im living life as a man im seeing things with my emotions im getting it all while i can im letting you know im here for you and im here free until the end the changes are coming and going i celebrate them each time it means im learning and growing it means im getting it right. the people i pass are not strangers they are partners in crime the crime is living life to its fullest its the one crime that is mine. i dont fear death or its jugdes i dont fear loving you now its all changes yours and mine maybe tomorow its different i dont really have a clue all i know to day im happy and hopefully so are you. my changes are coming and growing im learning and getting it right but each time im living and loving i have to camp out for the night. so lets forget pain and sorrow lets love and live our life one of these days it will be over we will pack our bags and go home with noting but what he have been learning and feeling what has already grown. ] [ Ég ligg hér einn í myrkrinu. Ég sé frostrósirnar blómstra á rúðunni. Ég hugsa til æsku minnar, þá sá ég þær blómstra svo fallega. En nú tákna þær kulda og vanlíðan. Ég hlusta eftir marrinu í rúmi þínu. Þú hreyfir þig ótt og títt. Ætli þú sofir illa? Eða er þetta tilviljun? Ég heyri þig hvísla nafn mitt þar sem þú sefur í næstu íbúð. ] [ Skólinn nú byrjaður aftur, Þó kennarar vilja það ei. Alþingi lög á það setur, og gettu nú betur. ] [ Það er allt þetta hversdagslega Sólin sem gerir hvítan vegginn gulan Í dagsbirtunni Suðið í þvottavélinni Og tímalausar hugsanir mína Sem fá mig til að þakka Þér. Að ég dreg andann í dag Finn fyrir köldu gólfinu Horfi út um gluggann Og finn lykt Fær mig til að þakka Þér Það virðist svo undarlegt Að þú varst alltaf hér Kallaðir á mig Gekkst mér við hlið Jafnvel straukst mér um vangan En ég efaðist um að þú værir til Þá borðaði ég og talaði, hló oft og mikið Gekk um strætin heilbrigð Með bros á vör allt var þetta sjálfsagt Að mér fannst Þá var hversdagsleikinn sá sami En ég ekki þakkaði Þér. Þú sem er Guð og dóst og reist á ný Þú sem gafst mér andadrátt, hendur sem finna og fætur sem ganga og ég þakka að þær ganga þinn veg þennan þrönga og mjóa þann sem þú valdir fyrir mig. því vil ég nú þakka Þér. ] [ Ef hvísl mitt heyrðist um alla veröld myndi ég hvísla nafnið þitt dag sem nótt svo jafnvel maurarnir heyrðu og fuglar loftsins skildu hve dásamlegur þú ert. Og þegar mennirnir sofa og þegar þeir vaka ég myndi hvísla Jesús, Jesús og bíða eftir bergmáli frá vestri til austurs og frá noðri til suðurs. Ef dans minn talaði við hjörtu myndi ég dansa nafnið þitt dag sem nótt þar til allir stigu fram og dönsuðu saman fram á kvöld og hjarta mannanna færi að slá í takt við þitt. Ó, Jesús minn Jesús hve dýrlegt væri að veröldin væri lofsöngur þinn. við stæðum öll sem eitt reistum upp raddir okkar og litum auglit þitt en þó ég standi ein vil ég hvísla og dansa þitt fagra Orð þar til ég dey. ] [ Hvítvín í hádeginu Koníak á kvöldin. Ég er oftast dauður þegar fréttatíminn er. Hvítvín í hádeginu Koníak á kvöldin. Það er ekkert merkilegt í fréttum hvort sem er. ] [ Ég held að minn endir sé hér rétt hjá jafnvel í garðinum hjá mér hann gæti verið eitthvað sem mér fannst sjá gæti hann hafa komið inn með þér? Ég held þú þekkir mig mjög lítið held samt að þú vitir allt finnst eins og það sé ekkert skrýtið hvað helvíti er kalt. Ég horfi beint til þín og held aðrir halda og horfa niður hólk Sumir segja að helvíti sé fullt af eld einhver sagði að það væri annað fólk. Í dyragættinni stendur gesturinn hélt samt ég hefði lokað hurðinni gjörðu svo vel þá og komdu inn svo illt komi ekki inn með golunni. ] [ Villuljós vímunnar, hentar mér vel. Að sjá heiminn í þoku sljóleikans. Vera dofinn, skynja ekki neitt. Allur sársaukinn horfinn, bara unaður sem var löngu gleymdur. Villuljós vímunnar, setur bros á andlit mitt. Falskt bros sem enginn þekkir, bara ég sem sé það í spegli. Veggurinn hverfur, í þoku vímunnar. Engar hömlur, bara gleði. Taumlaus hamingja, sem var löngu gleymd. ] [ Ég hélt að þú værir eðlileg og þessvegna varð ástin og ástin var góð ástin var ljós í myrkrinu. Myrkrið var ekki lengur dimmt og kalt því að þú komst og iljaðir mér um hjartarætur. Síðan vissi ég sannleikann. Ástin gaf upp öndina. ] [ Hvað er fargið? Hvar er fargið? Fargið er sannleikurinn. Fargið er á brjósti mínu. Fargið er þungt. Mig langar að læra sannleikann. Sannleikann um hana. Hún sem var ljósið. Ljósið í myrkrinu. En sannleikurinn er ennþá falinn. Sannleikurinn er ennþá lygi. Er fargið þá lygi? Ég veit það ekki. Kannski veit hún það. Hún var eitt sinn ástin mín. Áður en Fargið kom til sögunnar. Þá var mér aldrei kalt. Hún yljaði mér í myrkrinu. Síðan lagðist fargið á mig. Fargið nauðgaði mér í myrkrinu. Núna er ég umvafin nóttinni. Ekki fara. ] [ Faðir minn. í dag áttu afmæli, sextí\' og eins. Hér áður fyrr fylltir þú húsið kræsingum þennan dag. Allir sem vildu fengu að njóta vinsemdar þinnar. En hvað ég vildi að þú lifðir í dag. ] [ köld fegurð mjallarinnar keflir jörðina og leggur við ljóstýru nætur líkklæði á fölva haustsins taktfast marr tifandi fóta hendur hanskaklæddar í hjartanu vetrarkvíði ] [ Senn koma snjóhvít jól og brátt fer hátt að rísa sól álfar dansa á jólanótt og allir hafa ósköp hljótt En hver dansar við hana á jólanótt eða fer hún ein að hátta rótt álfar dansa á jólanótt og engin hefur lengur hljótt ] [ Ég er þinn vinur, og er þér hjá. Þegar myrkrið kemur og skellur þér á. Ég vill hjá þér vera, þegar vetur til þín kemur. Finna með þér ljósið, þegar myrkrið verður svart. ] [ Hvaða tík er nú það? Spyr þú.. Það þarf ekki að vera kvöldverður, kertaljós, ljóðalestur við arineld, háfleyg orð, næturganga, fjara, tunglsljós, eða hringur og eitt lítið bónorð! Það eru öll litlu smáatriðin, það er satt! Eins og koss að morgni, honum fylgja þrjú lítil orð. Miðar, sem innihalda ástarjátningar og á mínum vegi verða. Segir að ég sé falleg þó svo að ég sé nývöknuð, úldin. Vel mælt! Segir þú og tekur mig í fangið, við föllum í drifhvíta fönn. Gæti ekki sleppt þér þó mig langi, ást okkar er sönn.. ] [ Mig blæðir gegnum pennann reyni mitt besta til að gera blaðið að splatter mynd ef dauðu skáldin væru dáinn væri ég stoltur af engu. Ég er hræddur við splattermyndir skáldanna hef aldrei opnað augun alveg Þegar ég sest niður með skáldunum og við ræðum næstu senur virðist ég alltaf verða dragbítur á endanum og er sendur eftir annarri flösku á meðan skera þeir á púlsinn. Einhver sagði orðin merkingarlaus Það voru mín orð. ] [ Vakna snemma í vinnuna, úti er byrjað að snjóa, það er kallt í nóvember, passa sig á bófa Vinna allann daginn, alltaf er það gaman, labba labba labba já, ég vildi að við værum saman Klukkan tifar, tifar létt, tískan er að breytast, enn hugsa ekki um það, maður byrjar bara að þreytast Koma heim í heiminn sinn, koma heim til að hvíla, Kristinn hvað varstu að gera nú? hér er alger fýla Rúmið góða fer ég í, þegar ég fer að sofa, hætti að hugsa, hreyfa mig, hverju var ég nú að lofa? ] [ Ég fékk svona armband eins og þegar ég fæddist ég var svo fegin ] [ Veturinn er kannski kominn. Kafaldið oltið ofan af fjalli. En hér í fjörunni er fugl, flýgur, segir það sama og í sumar. Öldurnar gjálfra glaðar, gusa sér jafnvel upp á stein. Gömul útþrá tekur sig upp og spillir andartakinu. ] [ fleygur ertu fágaði fugl Floginn til kvölds. Kemuru aftur í lífsins rugl sem kreistir úr þér vitið. Lífið leikur sér mjög að þér þú lútir höfði og þig gefur floginn ertu ekki lengur hér en aukið vit þú nú hefur. Gættu þín því lífið er krækjótt það tekur þig á taugum og hverfur svo skjótt lifðu undan lífinu litli fugl. ] [ Ég ligg í sófanum og hugsa til þín Þú sem ert handan við hafið eitthvað svo órafjarri en samt finn ég fyrir nálægð þinni líkt og þú liggir við hlið mér haldir utan um mig gælir við andlit mitt og háls og þá líður mér svo undur vel. ] [ Því brástu mér vinur hvað hef ég gert rangt hvað hef ég gert til að verðskulda þögn þína ] [ Hlusta á fuglana syngja, hlusta á öldurnar krauma, hlusta á kára fjúka, hlusta á endurnar kvaka, hlusta á allt enda. ] [ Stjörnurnar glóa og tunglið skín kraftur alheimsins sýnir vald sitt Jarðskjálftar hrista jörðina og eldgosin gjósa eldspúandi grjóti langt út í himingeiminn. Það umvefur sál mína tómleika og sorg því ég er bara lítið tár í öllum þessum stórfenglega ljótleika engin mun taka eftir því þótt ég hverfi á braut með steinunum. ] [ Á öðrum endanum hvíla tvö titrandi augu á bakvið dökka slæðu og á hinum endanum hvíla tvö titrandi augu á bakvið ljósan farða og ég... get ómögulega séð hvor hulan er þyngri ] [ Úr alfaraleið í myrkrinu krafsa ég með blóðrisa fingrum í frosna jörð. Reyni að husla líkið af andvana fæddri ást við hliðina á voninni sem dó í haust. ] [ (sungið við Krummi svaf í klettagjá.) Þótt ég gjarni vilji vel velkominn er ekki\' í hel. :Geng á vondum vegi.: Rembist eins og rjúpan við reykja mig í grafarfrið. :Langt frá dánardegi.: Kolsvart þá ég kaffi drekk kannski nú á hjarta slekk. :Hamast mest það megi.: Æði þá í alkahól andlit vísar móti sól. :Minni frá mér fleygi.: Vakna upp á vondum stað vil ei meira tala\' um það. :Sit ég þá og þegi.: Best er kannski\' að koma sér í kunningsskap við stórdíler. :Sjaldan frá því segi.: ] [ Klerkur enda ævinnar stendur stendur og starir á mig einblínir aðeins á mig sér ekkert nema mig vill engann nema mig Ég grýti hann með gosdós hleyp svo burt frá þarna reyni að komast út þarna vill ekki vera þarna get ekkert verið þarna -en ég vill heldur ekki vera hér Nei ekki hér heldur með þér já þér og mér okkur kemur best saman ég brosi mest með þér Klerkur enda ævinnar bíður hann bíður ennþá ég hunsa hann núna ég hef ennþá þig svo lengi sem ég hef þig þá má klerkurinn bíða ] [ Á hvað eruð þið að horfa? Mig? Bíddu hvers vegna? Ég er ekkert merkilegri ekkert meira merkilegri heldur en næsta manneskja er það? Akkuru stariði þá á mig? Því ég er ekki einsog þið? Því ég reyki ekki drekk ekki hórast ekki drepst ekki slæst ekki tala ekki hlusta ekki vill ekki sé ekki fer ekki er ekki ekki? Ekki? Haldiði ykkur saman núna? Bölvaða lið ] [ Andardráttur þinn snertir húð mína Við erum eitt þú og ég Svitinn rennur saman við tárin sem við deilum í sameiningu líkama okkar ] [ Ég get ekki andað í búri þínu Leystu mig út og ég mun verða þér þakklát að elífu. ] [ Það rignir og rokið rjátlar Við árfarvegi og gil. Inni er þó að finna Örlitla birtu og yl. Vegalaus förumaður Sem hvergi á höfði að halla Húkir við norðurvegginn Í skjóllausum harðfiskhjalla. Hann dreymir svo fallega drauma Um stoð sem að aldrei brást. Hún vekur upp heita strauma Sú minning um móðurást. Er birtir að degi hann húkir þar enn Hann liggur látinn hjá frosinni jurt. Hans lík verður borið til grafar senn En sálin er flogin á burt. ] [ Frostrós á glugga,freðin jörð Kalt er heims um bólin. Snjórinn fellur á sofandi svörð Bráðum koma jólin ] [ Janúar nóttin við gluggann gælir Glottandi tunglið garðinn minn málar. Þá gömul martröð á sér krælir Og skríður um skúmaskot sálar. Á svona nóttum ég sef ekki hót En læðist og faðma að mér börnin Fallegar hugsanir ráða á þessu bót Því ástin er besta vörnin. ] [ Ég heyri í rökkrinu undarleg hljóð í æðunum finn ég frjósa mitt blóð, eitthvað er þakið að bursta, ég sit alveg grafkyrr og hlusta. Það er bara haustsins hrímkalda hönd Sem strýkur um stafna og glugga Svei,ég er hrædd við minn eiginn skugga. ] [ Að endamörkum heimsins Svíf ég í draumi. Um óravíddir geimsins Burt frá lífsins glaumi. Þar stjörnurnar glansa Og norðurljósin dansa. Á ógnarhraða til baka þýt Að vakna til lífsins aftur hlýt Þar hellast yfir mig amstur og streð Í valdatafli heimsins ég er bara peð. En í kvöld þá aftur mun ég sofna Og til nýrra kynna við stjörnurnar stofna. ] [ Er fannhvítir fjallanna tindar grúfa svo þungt yfir bænum. Nístingskaldir norðanvindar ýfa upp öldur á sænum. Þá skýtur í kollin upp myndum af bæ sem að snjóflóðið tók. Um myndir þær sorgarbönd bindum og geymum í hugarins minningabók. Allur sá fjöldi ágætra manna sem fórst þennan snjóflóðavetur. Náttúruhamfarir sífellt það sanna Að hætta er á ferðum er fönn í fjöll setur. Í gluggum þar ljós sjást oft loga í minningu þeirra lífa sem eru fyrir bý. Og fólk ber í brjósti sér kvíði boga það veit það kemur alltaf vetur á ný. ] [ Hún kom inn í lífið svo lítil og grönn Svo lasin og veik í hjarta. En alltaf var lífsgleði hennar jafn sönn Og fallega brosið bjarta. Marín litla er horfin á braut Hvíld hefur fengið frá sjúkdómi sínum Burt fór frá lífsins amstri og þraut En hún lifir í minningum mínum. Ég trú’að á dómsins æðsta degi Hún komi okkur í mót með opinn faðminn. Og almáttugur guð þá gefi að megi Hún fylgja okkur inn í himininn. ] [ Fýkur yfir hæðir Vegur af vindi sorfinn. Veturinn landið klæðir Öll kennileyti horfin. ] [ Er báran brotnar við fjörunnar borð Og yfir mig kemur andinn, Þá raða ég saman orði við orð Og skrifa mín ljóð í sandinn. En aldrei þau munu þínum eyrum ná Á brott ertu farin,en hvurt ? Og aldrei þú munt þau ljóð fá að sjá Því sjórinn þau nemur á burt. En ef þú kæmir nú heim á ný Og allt yrði aftur svo gott Þá skrifa ég mundi mín ljóð í ský Og saman við sæjum þau svífa á brott. ] [ Þar sem fjöllin og fjörurnar mætast þar falinn er fallegur bær þar ástin og vonirnar rætast þar vorvindur vængi fær. Þar æskan sér unir á engi þar fossinn í fellinu hlær. Þar sumarið lifir svo lengi þar brosir hinn blíði blær Ég elska hin kyrrlátu kvöld og fossbúans klakabönd, og frostið sem tekur öll völd og strýkur allt hrímkaldri hönd. Og veturinn kalda sem hvín og syngur við sofandi svörð og breiðir hvítt híalín á fallega Eskifjörð ( Við lagið Liljan í holti ) ] [ Ég er ennþá hjá þér Meðan þú mín minnist Ég er ennþá hjá þér Þó þér ei það finnist. Geymdu í hjarta þér myndir hvert sinn er ferðu á kreik. Geymdu í hjarta þér myndir Af okkur öllum að leik. Hugsaðu til mín með gleði Horfðu fram á við Hugsaðu til mín með gleði Ég geng þér ávallt við hlið. ] [ Elsku fallegi sonur minn Velkominn í heiminn inn Nú hefst þitt æskuvor. Megi guð strá gæfugliti Og mála lukkuliti Í öll þín framtíðarspor. ] [ fólk er alltaf að segja mér þú veist. þú ættir að hætta að skrifa þessi veðreiða-ljóð, þú hefur enga hugmynd um hversu leiðinleg þau eru. jæja, ég var semsagt á veðreiðum um daginn og ég þurfti að skreppa frá og pissa. ég renndi niður buxnaklaufinni og stóð þarna grípandi og þreifandi og togandi. ég togaði og ég þreifaði og ég greip. þar til gaurinn við hliðina á mér sagði: ,,djöfull, þú hlýtur að vera alveg í spreng...” en ég svaraði, ,,nei það er ekkert svoleiðis, ég er bara í nærbuxunum öfugum.” ég kom honum loksins út og meig svona helmingnum, niður með fætinum. og fór síðan út og veðjaði á næsta hlaup sex á móti einum. og vann. þetta er bara enn eitt leiðinlegt ljóð. -Charles Bukowski (úr Dangling in the Tournefortia) ] [ ég stend við orgelið og horfi á myndina af honum. allt í einu fyllist ég yfirþyrmandi söknuði. hann er farinn að eilífu. john lennon hljómar í bakgrunninum. \"love is the answer, and you know that for sure..\" ] [ Fótbolti er ekkert mál, allir dúndra boltanum svo þeir ekki sjá, svo niður hann kemur svo þeir er yfir með þremur. Knötturinn hringlaga er, enginn innn á völlin fer fyrr en dómarinn kemur og þá þeim semur. Markverðinir í horni hvoru, sitt hvoru megin á völlinum, skjótast á milli stangana, ónei þarna klúðraðist markvarðslan. ] [ Stóra tunglið vaknar í tæru húmi kyssir Heklu blíðlega og heldur af stað í kvöldferð sína Ástúðin björt ] [ Eins og sært villidýr varstu króaður út í horn. Þú hafðir ekki stórt hjarta. Þú fékkst á þig króka, upphögg og bombur. Þú reyndir ekki að verja þig. Andstæðingur þinn veitti þér enga miskunn. Í boxi er engin miskunn sýnd. Eins og með ljósaperu var slökkt á þér, bara svona. Það þýðir tap í boxi. Eftir sit ég og hugsa um hvað varstu að gera í hringinn? ] [ Þú svarar engu en spyrð mig samt er hjarta næst sem holdertamt? Ég svara engu en spyr þig samt, viltu svarmitt hjarta eða holdi tamt. ] [ Sjáðu sjáðu hvað ég gerði! Sástu ekkert? Vertá verði! Reyni aftur huguppherði. En Þú ert farin ! ] [ Þetter þungt í maga. Hef ég drukkið stál? Alltaf sama saga, elti svik og prjál! ] [ Sé ég fjötrum hnepptur búrið, það er mitt. Lykill,loka,læri,leggi. Hverjum finnst þar sitt! ] [ Ég sái fræjum sérhvern dag, þau fallí grjót og fjúkí hag, byggið þreskog brauðið baka, það mettar munna barnogmaka. Ég grjótið huggoghyrði hagann. Góðverk gærdags fyrnir sagan. ] [ Sometimes i feel like im lost in forever Everyday i wonder when i´ll be free. But when that will happen,who knows,maybe never... But at least im not pretending, to be anyone but me. ] [ Þú átt nýtt heimili núna.. vissiru það? Þú býrð inní hausnum á mér.. þú vilt ekki fara. Ég reyni og reyni.. að segja þér að fara, en þú vilt ekki yfirgefa mig. en kanski vil eg ekki að þú farir.. kanski vil ég ekki vera ein. Kanski veistu hvernig mer líður.. en er eg kanski of sein? Rak ég þig í burtu.. fórstu einsog ég bað? gaftstu upp á mér.. ertu þarna? ] [ Lífið er ekki alltaf dans á rósum, lífið snýst ekki bara um þig, lífið snýst líka um hvað ég vil, ] [ Hæhæ. Hvað? Þú! Ég er búinn að bíða eftir þér. Mér. ] [ Þar sem börn féllu á víðavangi stóð ég brosmildur og sólbrunninn. Þar sem ég stóð lítill angi og þar sem uppreisnin var unnin. Þar gengu um túristar margir hlaðnir myndavélum og sólarolíu. Sumir voru léttir en aðrir argir sem fengu ekki bjórana sína níu. Nánast var öllum sama um fortíðina og hugsuðu frekar um sólina skæru. Litu svo sælir inn í framtíðina og hvernig myndirnar á filmunni væru. Ég gerði nákvæmlega eins og allir hinir en las um þennan stað á leiðinni heim. Á þessum stað þrifnuðust engir vinir og sjálfur Guð gat ekki hjálpað þeim. ] [ Göturnar fullar af lifandi snjókörlum með steinaaugu. ] [ Ég hata ljóð. Ég meina það, þau eru illgjörn. Ég held alltaf að ljóð séu einföld ég lesi þau og skil og svo búið. En alltaf nær eitthvert ljóðið að læðast upp að mér og öskra BÖ! Mér sortnar fyrir augun blóðið þýtur í eyrum mér ég þori varla að horfa aftur. Hvernig dirfðist ljóðið að ögra mér? Mínum lokaða hugsunarhætti og þrönga sjónarsviði? Hvernig dirfðist ljóðið að fá MIG til þess að hugsa? Virkilega hugsa. Hugsa um hvort hvað ef . . . Nei ekki ég. ] [ Svo kalt.. ...að það eina sem heyrist er skrjáfið í stjörnunum þegar þær skríða skjálfandi undir svarta himnasængina. ] [ þú ert alveg ótrúlega steiktur en það er alltaf eitthver steiktari þú ert alveg ótrúlega sætur en það er alltaf eitthver sætari þú ert alveg ótrúlega mass-aður en það er alltaf eitthver massaðari þú ert alveg ótrúlega sterkur en það er alltaf eitthver sterkari þú ert líka alveg ótrúlega bragðgóður, djúsí,spennandi, vel byggður og kemur mér alltaf í gott skap.. Enda ertu líka langbesti hamborgari í heimi! ] [ Á kvöldstundu er kaldinn hleypur knepplir fótum að sér hvernig stendur á þessu? erfiði streyta kuldi Hvar er framtíðin? Árla morguns hitinn malar hleypur mæðulaus getur þetta verið? léttleiki vellíðan hiti Ég er framtíðin! ] [ Sit ég og horfi á þátt með Lon og Don ég heiti Torfi og er Helgason. Kassinn eins og það heitir er oftast menning peningaplokks og þótt þú neitir er það ekki vegna einhvers sokks. Og nú nenni ég þessu ekki Drekk þennan safa sem minnir mig á kekki Í mjólkinni hans afa. ] [ Panflautan túlkar saknaðar söng með suðrænum sorgar seið. Leiðin í burt var erfið og löng logi í öskunni beið. Auðlegðarlind landið hans var lánlaust í Inkanna byggð. Foringi þeirra var knésettur þar. Þjóðin var svikin í tryggð. Minningu sína um uppvaxtar ár Innst í frumskógar sal. Varðveitir einn og vísar á tár varða í áranna dal. ] [ ég eyði tímanum í að hugsa um allt sem ég get ekki gert ég eyði tímanum í að hugsa um allt sem að allir segja um mig ég eyði tímanum í að hugsa um hluti sem enginn annar hugsar um ég eyði tímanum í að hugsa um allt sem ég ætti að gera og ég eyði tímanum í að hugsa um þetta rugl sem ég var að skrifa á blað og hvers vegna þú.. heldur ekki bara kjafti.. já abb abb.. nei nei.. ekki segja neitt ha? Það varðar mig ekkert um.. það er ég sem er klikkaður en ekki þú það er ég sem er ég en þú sem ert þú.. en ef ég er ég og þú ert þú.. hver er þá þessi þarna sem er að skrifa niður þennan texta fyrir mig? Ekki eyða tímanum að hugsa um það því þá verður þú..snargeðveik/ur eins og ég! ] [ Dísa var fuglinn þinn og hann gafstu okkur Núna er hann hjá þér góði kokkur. Á hverju gamlárskvöldi komstu hér.. en núna ertu farinn Hjartað þitt gaf eftir sér og í minningunni ertu hjá okkur Í minningu Óla ] [ Vinur sem veitir en ekkert þiggur, vináttan er honum allt. Traustur hann er trúr og tryggur, trúnaður sem engum er falt. ] [ Þreytan svífur yfir mig líkt og svífandi fjöður. Get ekkert sagt, get ekkert gert. Ég er algjörlega dofin. finn hræðsluna stíga yfir mig með sínum yfirþyrmandi krafti. Get ekki losað mig, er fjötruð af illskunni. Get ekki losnað, fyrr en heimurinn breytist, ekki fyrr en fólk breytist, kemur vel fram, hugsar um aðra, og önnur líf. Hættir að menga haf og land. þá fyrst get ég losnað, en tilhvers að halda í vonina. Þegar ég veit að ekkert breytist, og ég mun vera föst að eilífu. Föst í illsku mannfólksins. ] [ Tíminn líður svo hægt svo óstjónanlega hægt. Aldrei kemur þú. Ég bíð, og bíð. Aldrei kemur þú. Hvar ertu? Veistu ekki hvað ég hef beðið? Hef beðið svo lengi, beðið eftir þér. En aldrei kemur þú. Tíminn líður, líður svo hægt, svo óviðráðanlega hægt. Aldrei kemur þú ] [ Ég sekk í kolsvart myrkrið. Einn. ] [ Við erum guðir næstu heima fæddir til að skapa og dreyma reyndu því sem best að geyma það sem vildir tap og gleyma Næst skrifuð verður önnur saga um það sem mætti bæta og laga þá dregur þú upp dapra daga og skoðar eins og blóm í haga Þú þurftir líka sorg að safna til að ná að vaxa og dafna taktu því það gleymda og grafna og hefðu upp til hærri krafna Sjá sigur felst í syndum þínum og svo líka bara í því að vera úti að djamma alla nóttina í fötunum fínum með einhverjum helvítis svínum ,sullandi í sig ódýrum vínum og vakna svo upp á blettóttum dýnum. ] [ Með úttroðnum möppum þið málstaðinn verjið. En hvar eru svo lögin er þið í bílnum mig berjið? Og lengi má sparka í líkamann brotna og ljóta. En sálina tekst ykkur aldrei að brjóta! Og er loksins þið sleppið mér úr þessum klefa, í innbrot ég fer án minnsta efa. Því lagana vörður, mér lífsreglurnar lagði, er hann við mig inná Níu með spekingssvip sagði. Ef þú finnur þér vinnu sem er við þitt hæfi, skaltu reyna að tolla í henni alla æfi. Og þú hneykslaður röflar, en ég bið þig að þegja og hlusta á það sem ég hefi að segja. Að þótt öll séum við ólík og misjöfn í fyrstu. Þú kemst ekkert lengra! þú endar líka í kistu. ] [ Hvernig á bíða yfir heljar og fljótt með enginn sefur rótt dagur rennar að morgni og höfðar á öfugan veg hvað sem liggur á það er það skelfir yfir fjallið slétt og skjótt viðraðst auga mín blekking ein vera. ] [ Trúðurinn brosir Trúðurinn hlær Trúðurinn slær öllu upp í grín En bakvið farðan bakvið brosið stóra bakvið allt blikar tár Tár í auga trúðs tilfinningum þrunginn Falið bakvið farðan svo engin sjái ] [ í sviðsljósi tunglsins sést stirna á frostrósir brostinna augna stirt grýlukertabrosið minnir á martröð fyrir jól af snjóenglinum er það að segja að hann fennti í kaf varð úti með jólakúluglampa í tindrandi augum koma börnin hlaupandi inn löngu gleymdur er snjóengillinn ] [ frosin strá svigna undan eigin þunga í lægðum brekkunnar sem búnubbinn þurfti ekki að beita fyrirmannleg kattartungan hefur verið gædd grárri visku ellinnar þar sem hún trónir efst í skriðunum og fyrirlítur álúta þegna sína dúðaður útigangurinn liggur útkýldur á nær óbeittri mýrinni og grávíðirinn hugsar til þess að eitt sinn var erfitt að vera til týndur hrímtittlingur flýgur um í örvæntingarfullri leit að óveðri svo hann geti villst aftur á leið en mett alþýðan situr inni í hlýjunni, fyrir framan sjónvarpið, leyfir sér að dreyma um framandi lífsgæði og veit að á haustum góðæranna þrífast illgrösin best ] [ Tunglið og vegurinn sátu saman Þau borðuðu ost Fengu lost Og ég Tunglið og vegurinn Konurnar á veginum Tóku við blómsveginum Og ég Tunglið og vegurinn Blóminn blómstruðu Í ketilsuðu Og ég Tunglið og vegurinn Fiskurinn steiktur Maðurinn reyktur Og ég Tunglið og vegurinn Golfkúlan rúllaði Hún fór og tjúllaði Og ég Tunglið og vegurinn Setningar grófar Lófar og þófar Og ég Tunglið og vegurinn Fóru í bæinn Í gegnum snæinn Og ég Tunglið og vegurinn Tunglið sveif Vegurinn skreið Og ég Tunglið og vegurinn Marsbúar komu Og héldu veislu Og ég Tunglið og vegurinn Blómsveigur visnaði Og sönglaði Og ég Tunglið og vegurinn Malt er gott Kók er flott Og ég Tunglið og vegurinn Sitja á vegg Líta á hvort annað Og ég Tunglið og vegurinn Mjólk er holl Kemur úr kú Og ég Tunglið og vegurinn Allt er stillt Þau eru þarna kjurr Og ég Tunglið og vegurinn Hæ hó Bæ bó Og ég Tunglið og vegurinn Vasaljós er blátt En hitt er grátt Og ég Tunglið og vegurinn Teiknimyndin er teiknuð Leikin mynd er leikin Og ég Tunglið og vegurinn Ég er tungl Þú ert vegur Og ég Tunglið og vegurinn Diskar og gafflar Plötur og hnífar Og ég Tunglið og vegurinn Snjórinn bráðnar Verður að vatni Og ég Tunglið og vegurinn Ef hann er hún Er hún hann Og ég Tunglið og vegurinn Keðjan glitrar Hálsfestin líka Og ég Tunglið og vegurinn Síminn hringir Ogvodafone líka Og ég Tunglið og vegurinn Kristinn Er vondur Og ég Tunglið og vegurinn Tölvukapall Jólaöl Og ég Tunglið og vegurinn Ægir Bægir Og ég Tunglið og vegurinn Rör með strikum Göngustígur með stikum Og ég Tunglið og vegurinn Blýantur Strik Og ég Tunglið og vegurinn Dúfurnar kurra Svanurinn gargar Og ég Tunglið of vegurinn Sátu uns dagur kom Þá fóru þau hvort í sína átt Og ég Tunglið og vegurinn Eru ekki meir Fóru og hittu geir Og mig ] [ Þú ert sú eina sem ég hugsa um, þú ert mín, mín eina sanna. Mig dreymir þig, ó ég elska þig, vertu mín því ég elska þig meir enn allt allt sem gefið hefur mér hamingju. Kysstu mig blíðum koss lát mig gleyma vanlíðan, lát mig finna gleðina á ný. Vertu mín að eilífu elsku Guðrún, mín eina og sanna. ] [ Ljós í húsglugga horfir að götunni Gult og mjúkt í nýkomnu húmi Hvíld heimilis er klippt úr myrkrinu og flýtur eins og dyrnar að himnaríki ] [ Ástfangin ský á skærbláum himni skína. Og æðarblikinn auga hýru rennir til ungkollu sem syndir feimin framhjá. En strákarnir á stelpuskjátur stara. Þotur fljúga og festingu bláa feta í háum boga og blikandi vængjum blaka. Og bílarnir á bónorðsferðum bruna með eld í æðum yfir Tjarnarbrúna. ] [ Þótt þú lipri tungu þinni rennir yfir heilabörk minn Þótt þú látir orðin flæða inn í tjörulegið hjarta mitt Þótt þú brjótir niður hverja einustu sálarörðu í líka mínum Þótt þú látir silkislæðu orða þinna kippa undan mér jafnvæginu Þótt þú lipri tungu þinni rennir yfir heilabörk minn þá vil ég segja að við erum bara vinir ] [ Ég sá þig og blóð taumarnir láku úr augum mínum ég sá þig og hjartað pompaði niður í hægri bómullarsokkinn ég sá þig og fiðringurinn losnaði ekki úr vinstri hluta líkamans ég sá þig og veröldin breyttist öll í svarthvítt nema þú en svo labbaðiru hinum megin við hornið og þá hvarf þetta allt. ] [ Gefðu mér það fyrsta sem þú sérð þegar þú lokar augum þínum. Gefðu mér það síðasta sem þú hugsar um áður en þú ferð að sofa. og að lokum máttu gefa mér það sem ég hef lengi beðið eftir gefðu mér frið til þess að deyja ] [ Í erli dagsins gleymist margt hver við erum hvað við gerum hvert við höldum Í örmum lífsins er ekkert að hafa nema að vinna að því hörðum höndum án þess að vænta vinninga ] [ götuljósin slokkna eitt kerti í glugga stjörnur birtast á himni sem kveikt væri á þeim fleiri kerti loga einmanna bifreið ekur framhjá og lýsir upp götuna eitt augnablik ilmur af arineldi leggur um vitin stjörnuhrap ósk norðurljósin sindra á himninum karlsvaginn lýsir pólstjarnan hulin skýjum tunglið dansar hálft köld nóttin umlykur bæinn dauf birta af götuljósunum stjörnurnar hverfa aftur ] [ sólin stígur yfir fjöllin pollurinn kyrr einmana bátur rýfur þögn hafsins fuglar syngja bjóða góðan dag vörubifreið blæs út reyk og mengar tæran morguninn ein og ein bifreið rýfur þögn morgunsins hafið kyrrt aftur fjöllin speglast hrafn krunkar ámátlega fleiri bílar rjúfa kyrrðina flugvél hefur sig til flugs með fuglunum rýfur þögn himinsins hundur gelltir skólabjalla hringir góðan dag ] [ fiskibátur líður inn fjörðinn ristir djúpt spegill hafsins riðlast myndirnar ókyrrast mávarnir fylgjast með æsingur á bryggju spottar í land bundið kranar ískra lyftarar þeysa um menn brosa hlægja fá sér í nefið skrafa snör handtök fiskur í hús unninn sendur étinn skipið fer ] [ flaggað í hálfa stöng kirkjuklukkur fólkið gengur hægar tregafullt hvíslast tónlist berst frá orgeli þögn kista á gólfi miðju fáninn blómin prestur talar fólk grætur svartur bíll bíður – amen – kistan borin fólk eltir bílar ræstir elta opin gröf köld bíður kistan sígur signd mold kransar – amen – lífinu lokið hér á jörð ] [ á þakinu bylur regnið blautt kalt hreint skolar burt skítnum undan snjónum vindurinn gnauðar kaldur votur fólk berst um bíður eftir sumrinu sem lætur enn ekki sjá sig kemur einn daginn vonandi þegar því hentar á meðan dynur regnið enn á þakinu ég ligg og hlusta á róandi tónlist regnsins ] [ Lokað, svart. Og ég er fastur í rútínu hversdagsins. Opið! Bjart! Og draumavera birtist í dyragættinni! ,,Hæ, viltu koma út í sígó?\". -Ég frýs á staðnum -Kominn aftur inn, blindaður af hamingju. Horfi í sígarettupakkann, og vona það besta. ] [ Tímaleysi einkennir andardráttinn. Með allt á bakinu. Veð snjóinn uppað hnjám. Með rokið í fangið. Sé ekkert fyrir bylnum. Getur einhver bent mér á staðinn þar sem fjöllin sjást og sólin líka. Þar sem tíminn bíður eftir mér og ást gerir menn ríka? Fyrirgefið en ég bara skil ekki ensku og ég sé frekar lítið. Það er bara sjónin og heyrnin sem gera kommon sensið mitt skrýtið. Ég veit maður hugsar ekki með augunum!!! Og ekki heldur með eyrunum. Ég bara oftúlka flest. Svo ég sé ég ekki sem best. Heyri illa af sömu ástæðu. En nautnahyggja skapar samstæðu. Nei nei, ég er með heila, ég hugsa og allt. Ekkert heimskur, ég held bara að heilanum sé kalt. Já, ég er Íslendingur. Hvernig vissiru það? ] [ Ég veltist um í hringiðu sem lemur mér utan í kant öðru hverju. Nógu reglulega til þess ég jafni mig sjaldnast. Tvisar er nóg til þess að þekkja sársaukann. Einu sinni er samt alveg nóg til þess að forðast hann. Sá sem leikur sér með eld getur verið viss um að leikurinn endi í hámarki. Sá sem leikur sér með ís þarf þess ekki. Tilfinningar eru annað hvort. Eldur bræðir ís. Ís slekkur eld. Rauninn er að fæstir finna jafnvægið. Ég er ekki í jafnvægi. Í dag er dagurinn sem átti að vera fyrir löngu. Ég hélt að hann væri liðinn. Þegar ég var lítill fann ég oft fyrir eldinum. Það var þægilegt. Það er þægilegt. Í dag segja allir að ísinn sem skynsamlegri. Sem hann er. Að flestu leiti. Nema hvað er óþægilegt að finna þegar hjartað hægir á sér. Æðarnar þrengjast og móðan fer að vera greinilegri. Móðan nefnilega er nefnilega alltaf til staðar. Hún er afleiðing kaldrar hugsunar og tilfinningahita. Hún verður greinilegri eftir því sem að persónan er kaldari og tilfinningin heitari. Á tímabilum sér maður ekkert fyrir móðu. Það heitir að vera skynsamur. Það er bara of óþægilegt að sjá ekki út. Þó svo að skynsemin segi manni að fljótlega sjái maður út. Eftir að hitinn lækkar og gufan hættir að myndast. Hins vegar er mjög óþægilegt að vera kalt. Þó svo að móðan fari. Snjókallar eru skynsamir menn en einmanna. ] [ Undarleg er okkar stjórn, ei má leyna slíku. Snauða lætur færa fórn, fyrir hina ríku. Hæsti réttur hátind nær, sem heimsins undrið fína. Ei þar Davíð inni fær, með alla vini sína. ] [ Öskrandi villidýrið í mér grjótheldur kjafti, múlbundið í saumaklúbbs skemmtisögum og slepju. Hneykslað andrúmsloftið leyfir engar hvatir, allt skal slétt og fellt og til fyrirmyndar. Ef ég væri pardus gæti ég hlaupið burt. En líklega er öruggara hér á Íslandi í þessari samkomu að vera rykmaur undir yfirborðinu því þar er ekki einsemdin og allar hvatir leyfðar. Grrrrrrrr... ] [ Silfur Egils Sýnist mér, sýzt af öðru verra. Sigmundur samt sómir sér, með sæmdarheitið herra. ] [ Such beautiful lips I saw that day My soul was fulfilled with a light ray And they always were there And she… She was Esther… I saw you, oh cute lady With that ring so sexy And my eyes were so opened Watching you smile every second And I wanted to know what was behind I was decided to discover your thoughts I was decided to have your soul I desired so deeply to listen to your mind Patiently I waited for you to take out the cover A sad story you showed behind your smile And you so strong handling it and going over I admired you so much and you overtook my mind Our souls slowly got connected And I recovered a smile lost forever Me nothing special, not really clever And you, so cute, sweet and perfect Today I wish I was behind your smile And every time your lips showed your teeth In your thoughts it was me who hid And you were so happy with my poems… with my lines… ] [ I was captured in nightmares so deep, so black… Is the love that left in me a mark… Is love that for so long had lacked… And there are you emerging from the fog And you sit beside me And take me out of my hive Give sense to my life And you kiss me and I’m healed Please stay close, stay here Kiss me again, kiss me please Go back in time to the moment When your lips touched my soul And make it never, never stop And I’ll kiss you with body and mind ‘Coz you opened the eyes of this blind And I’ll kiss you with skin and heart ‘Coz you find the silk between tons of lead And for you I’ll work hard to do things right ‘Coz you’ve been so lovely so nice Hold me softly, hold me tight And you, sweetly enjoy of my heart every slice And my heart one more time has shrine Your sweet smell when I taste wine Your presence in my poems, in every line The needing of making you mine The peace of your light And slowly you discovered my real smile… ] [ Sé eftir stund og stað er við saman áttum. aldrei eftir þennan dag aftur náum sáttum. ] [ Ef það er tá táfýla af þér þá er orið tímanbært að skipa um sokka! Ef þú er sveitt sveitt á tánum þá kemur lykt sem kallast TÁFÝLA! Þegar þú ert búin að vera vera úti þá kemur stundum rosa vond táfýla! ] [ Glit augna þinna Dáleiða mig, toga mig í draums vöku. Ég verð stjarfur í stjörnubjartri nóttini. Döggin drýpur af laufblöðum trjánna og mig dreymir hjarta þitt blæðandi í höndum mér slá sinn síðasta takt. En er ég vakna til hins fyrtra raunveruleika sé ég að það glampar á stjörnur í augum þér og að þú brosir til mín, það yljar mér um hjarta. Og angur sálar minnar rennur út til þess að blandast angri milljónir annarra sem berjast við sinn myrka mann í nóttini ] [ Þegar ég hugsa um þig set ég stjörnur í augun mín fiðrildi í magann minn og gulan fugl í munninn tísti og tísti en engin skilur mig Svo líður dagurinn og ég orðin örmagna og áður en ég sofna á kvöldin tek ég stjörnurnar úr augunum festi þær í loftið hleypi fiðrildinu út og óska mér set gula fuglin í búrið og geymi dreymir svo og dreymir og ég skil ] [ Vaknaði upp úr djúpum dvala Sólin skín svo skær. Er hún kannski kominn nær ? Sálin er mér svo kær. Hver er þessi, unga mær ? ] [ Ef ég ætti ástarsíma sem ég gæti tengt í vegginn og fengið són hringdi ég strax í strákinn hinu megin á hnettinum og gæfi honum tón ] [ Ef ég viðurkenni nokkuð verð ég ekki lengur rokkuð hef ég hingað verið lokkuð? ef svo er þá er ég fokkuð og enda kannski óplokkuð -rauðsokkuð! Því enginn vill fá höfnun er það nokkuð? ] [ Þetta tilhugalíf er sálarstríð reyni að vernda sjálfa mig það ruglingi veldur en ég get ekki hætt að hugsa um þig heldur Og þegar að því kemur finnst mér erfitt að segja því fólki oftast semur betur með að þegja ] [ Veður var vott, sagði ekkert gott. Orðunum hreytti, um engan skeytti. En eitthvað því breytti, Því nú fuglarnir syngja og um háls minn hangir hamingju-pyngja! Takk fyrir að hringja. ] [ Of þreytt til að sofna en of þreytt til að skrifa á veggnum er rifa innfyrir klukka að tifa Ormar þykja ógeð og norðurljósin mergjuð En í raun og veru eru þau alveg eins ] [ Ég elska þig. Ég gerði mér ekki grein fyrir því, fyrr en það var of seint. Kannski að það sama eigi við þig? Ég veit þú elskar mig, þú komst til mín í draumi og sagðir mér það sjálfur. Ég elska þig svo heitt, ég hef elskað þig alla tíð. Alveg frá því ég hitti þig fyrst, jafnvel fyrr. Ég mun ávallt elska þig, þótt sá tími komi, að ég hugsa ekki um þig alla daga. Þá vil ég að þú vitir að ég elska þig. Ég elska þig og mun ávallt elska þig. Því samdi ég þetta ljóð til þín. Svo þú vitir að ég elska þig. Ástín mín..... ] [ Ekki hringja! það er regla frekar skaltu hurðum skella megrunarplanið niður negla gamla fólkið hrella bandaríska herinn fella jafnvel gerast mella! Bara EKKI hringja Það er regla. ] [ Ein á förnum vegi, ein og yfirgefin. Allir hafa yfirgefið hana. Fyrst einn af öðrum, að lokum stendur hún eftir ein með tárin í augunum. Hún grætur svo sárt en enginn í henni heyrir. Allir halda, hún er svo sterk, Það sem hún vill að þau haldi. Innst inni er hún viðkvæm, eins og lítill kettlingur, enginn af því veit. Hún stendur eftir ein, ein og særð, særð sálarsári. Hún er ein ein og yfirgefin. ] [ Þessi tilfinning er undarleg, þessi sem skríður inn í hjartað. Ég reyni að koma í veg fyrir það en það tekst ekki. Að lokum verð ég að sætta mig við\'ana. Þessa tilfinningu sem er svo ný. Sætta sig við orðið ást. Ástfangin vona að hann taki eftir mér. Get ekkert gert nema bíða og vona ] [ Lífið er eins og tónlist varir aðeins í stutta stund en fjarar svo út. Hví er lífið svo stutt? Svo hægt sé að meta það. Lífið er eins og tónlist, það er annaðhvort rólegt, fjörugt, ömurlegt eða geðveikt. Það er sagt að maður eigi að lifa, lifa eins og hver dagur sé sá síðasti. En það mun enginn gera, því við vitum ekki í raun hversu stutt lífið er. Lífið er eins og tónlist varir aðeins í stutta stund en fjarar svo út. ] [ Mom, listen to me.. This song is about, both you and me. Oh, mom, i will alway\'s be wair of, you loving me, that can i clearly see.. Chorus I will alway\'s know, that you love me, and this is the song, that you will remember about me. Oh, mom, i will alway\'s belive in you.. no metter what, my mind will be free.. And my free mind think\'s about YOU !!! Mom, i just want to say to you, that i will alway\'s love you.. forever, and ever... don\'t you ever think that i dont love you, becouse i do.. i hope that you can see that Chorus I will alway\'s know, that you love me, and this is the song, that you will remember about me. Oh, mom, i will alway\'s belive in you.. no meter what, my mind will be free.. And my free mind think\'s about YOU !!! Mom, i have faith in you, remember that, no metter what...OK ? I love you..! ] [ Það er aðeins eitt verra en að vera lagður í einelti. Og það er að leggja einhvern í einelti. Alltaf með alltaf með sektarkennd, og í fremsta hlunn í að biðjast afsökunar, En veit að það þýðir ekkert því ekkert réttlætir það sem maður hefur gert.. Það er hræðilegt.. Ekkert verra..! ] [ Fagur fjallasöngur úr Fljótshlíðarsveit, heyrist hófadynur í seinni leit. Ýmsar sögur koma upp af mörgum góðum dögum. Hófadynur, söngur, gaman í fjallasölum og breiðum dölum. Man þó helst eina góða er kona tók föður minn í fóstur skreið upp í ból hennar hlýtt hennar Kristínar Aradóttur. Vaknaði þar skrítinn á svip ekki skárri á aradóttur hlógu menn dátt af grip þar til hann af Hrund var sóttur. ] [ Heyri hófaslög um fjallasali breiða, sungum lengi góð og gömul lög er við létum hestana skeiða. Minningar um góða daga með þér og mörgum góðum, hljómar í eyrum einsog gömul saga brýst höfði mér í flóðum. Man þær góðu ferðir er fórum upp á fjall, höfðum gaman og sungum saman, hlustuðum á fjallanna kall. ] [ Kristín Ara, Hrund og ég kokkferð fórum í seinni leit. Snemma reyndist Kristín þunn leit út einsog gömul geit. Fór hún um kvöldið heim fyrir Kristínu illa fór. Þrátt fyrir það var mikið geim og fjallmenn sungu í kór. Hækkaði þræll í aðstoðarkokk en þó ekki í bollum bollum enn í þrælaflokk, sett mig ekki á hágann stall, settist niður og smurði nesti á kollum. Rúnar drakk og Jóndi meig og Presley gerði ekki neitt, stóð bara fyrir og í sokkinn seig, blessaði allt og þótti það ekki leitt. Mikið var gert af honum grín þó mest af Ella á Skíðbakka. En án Presley hefði ferðin orðið leið, þó allt var látið flakka. ] [ Ég ástfangin varð við fyrstu sýn af mjúkum fögrum línum vissi að þarna yrði gaman á háum fjöllum, köldum en fínum. Var þó lítil stúlka þá, forvitin mjög, átti við það að glíma. Hlustaði á \"gamla\" fólkið spá og rifja upp gamla tíma. Ef ég ætti nú eina ósk væri hún að fara aftur a´fjall sem lítil telpa, rifja upp gamla góða daga og fá að vera pabbastelpa. ] [ Ég stóð þarna sjörf og starði meðan fregnin sál mína marði Ég stirnaði upp og hjartað varð kalið - þú hafir víst lykkjuna valið. Ég man hér í denn er ég horfði þig á hugsaði að heppin sú yrði sem þig myndi fá en nú ertu farinn og aldrei aftur kemur og hjartað mitt um lækningu aldrei semur. Afhverju vilduru deyja? Hvernig leið þér? Hélstu að öllum væri sama? - EKKI MÉR! Engin koma svör við spurningum mínum þau eflaust þú geymir í huga þínum. Er við hittumst aftur elsku Þórður minn Þá verða gleðifundir, þú færð koss á kinn! Börnin mín fá að heyra sögur af þér og vonandi uppi á himnum þú segir af mér. Ég vona að þér líði núna miklu betur og marga körfubolta í hringinn setur ;) Ég kveð þig því með söknuði, elsku vinur minn drottinn þig blessi - ég elska þig - í hinsta sinn ] [ Ég er kominn heim með dreifðan huga og flokkað ólyndi. Um leið og ég finn lyktina af olíu og gömlum appelsínum veit ég að ég hef brugðist sjálfum mér í dag eins og reyndar flesta daga. Ég veit líka að ég á eftir að halda því áfram ekki síst vegna þess að allir aðrir eiga eftir að ljúga, ljúga því að ég hafi ekki brugðist þeim, að ég hafi sigrað meðaltalið, sé í efri kantinum. Ég veit að þetta á eftir að gleðja mig ég á eftir að vera sammála þessum optímisstum og margsanna fyrir sjálfum mér að þetta sé... í raun og veru rétt hjá þeim, ég sigraði meðaltalið var langt því frá lélegastur. Þegar þessum blekkingarleik lýkur loksins horfi ég í skeiðina, þessa sem ég nota til að borða verðlaunaísinn, og sé spegilmynd mína, óhugnalega raunverulega. Á hvolfi, næstum efstur verður næstum neðstur og ég geri mér grein fyrir því, aftur, að ég er fljótandi á botninum með hinum, þeim sem sviku, brugðust, þeim sem sögðu að þetta væri of erfitt og ákváðu því að reyna ekki. ] [ sé alltaf fyrir mér brosið þitt feiminn, lítur niður sterkur og stór finn fyrir snertingunni hendur þínar láta mér líða eins og fallegustu konu í heimi stórar æðaberar siggrónar dökkt úfið hárið minnir mig á klettana og sandinn hvít húð þín á kaldann jökulinn dimmblá augun á myrkan sjóinn svo óendanlega stóran berð af öðrum, með höfuð og herðar yfir alla hafsjór af tilfinningum hafrót í sálinni skriður af minningum sem hellast yfir mig og leyfa mér ekki að gleyma þér ] [ bý mig undir að læsa klónum í þig strýk þér varlega um vangann bý mig undir að hvæsa brosi fallega til þín bý mig undir að stökkva burt leggst hjá þér bý mig undir að særa þig eins og þú hefur sært mig býð þér hinn vangann bý mig undir að rífa úr þér hjartað gef þér mitt ] [ Ógleði og æla alla morgna, daga. læknarnir pæla endalaus þessi úldna saga. Hvað er hægt að gera? rannsóknir, blóðprufur. Veit enginn hvað um er að vera? ] [ Það má ekki tala við gamalt fólk, því þá er maður skrýtinn. Það má ekki tala við sjálfan sig, því þá er maður klikkaður. Það má ekki tala við dúkkur, því þá er maður ekki nógu þroskaður. Það má ekki tala við kennara, því þá er maður kennarasleikja. Það má ekki tala á bókasafni, því þá er maður sussaður. Það má ekki tala við guð, því hann er ekki til. Og það má ekki þykja vænt um mömmu sína því þá er maður mömmustrákur Við hvern í andskotanum, á maður þá að tala, þegar alls staðar þar sem maður fer, er manni grýtt eins og ber. Og allt það sem maður vildi segja, er maður neyddur til að þegja, og allt það sem maður vildi gera, verður í einu andartaki, bara að deyja! ] [ Það birtir að degi grá morgunþokan víkur fyrir geislum sólar. Skuggarnir styttast lífið vaknar flugur suða fuglar syngja Í moldinni kviknar nýtt líf af fræi sem féll þar í fyrra örgrannur stöngull klífur moldina á leið til birtu og lífs. Örmsmátt grænt laufblað ýtir burt moldu birtan og sólin auka því mátt. Allt í einu er komið þar blóm sem tómið var eitt rétt áður grænn litur lífsins breiðíst yfir dökkan lit dauðans sem áður var. Eitt örskots sumar dafnar blómið bláa þar sem áður var tóm Birta sólar nærir það líf sem ber þá um haustið eitt fræ sem fellur til jarðar. Að hausti deyr það blóm sem vaknaði að vori en í moldinni bíður nýtt fræ þess vors sem næst kemur og lífið kviknar á ný. ] [ himna stjörnur á hvolfi glitrandi skærar á himnum skinu mín glöð upp til himna horfir skærasta stjarna til mín brosir ] [ 06.06.06 mun heimurinn eins og þú þekkir hann enda öll rökvísi líður undir lok litir munu hverfa karlar verða konur börn verða gamalmenni tónlist verður að þögn dýr fara að tala þar sem áður voru fætur verða hendur þú munt tala með augunum sjá með nefinu finna lykt með eyrunum dauðinn verður ekki til okkur mun fjölga fjölga þar til ekkert pláss verður eftir á jörðinni þá munu líkamar okkar allra renna saman og við munum þekja jörðina þangað til hún kafnar og deyr ] [ Ég horfi út um gluggann á hvíta jörð. bláum, svo bláum sævi á sundum. Ó fagra veröld hve þú þú ert nálæg en gluggans-gler skilur mig frá þér - gluggans-gler. ] [ Rósir og rauðvín gott roði á fagurri kinn Stúlkan finnur sæluvott síðri er ekki hinn Ákafar ástríður kvikna ákalla þær á meira Ósjálfrátt um augu vikna allt er fagurt að heyra Titrandi þau töfrum gefast tjá sig í hita Um ástina þau aldrei efast allt sig telja vita ] [ Ég veit þú kemur vinur minn með vorið inn í líf mitt Ég heyra vil allan huga þinn og horfa á brosið þitt Þú einn mig þekkir út og inn þú veist ég þrái þig Græðir þú og gleður mitt sinn og gælir blítt við mig Ákafan dreymir mig ástarfund með ástinni sönnu minni Mér mun aldrei gleymast sú stund er hönd mín verður í þinni Svo ósköp sæll og sætur þú verður standandi á önd Þú ert nú bara þannig gerður biðjandi um mína hönd Sannarlega ég sé þig svitna svarið viltu fá Biðin má ei á þér bitna Besti..... ég segi já ] [ Líkt og blóm er mannsævin af jörðu er það komið að jörðu skal það aftur verða. ] [ Er vorið kom og veturinn fór voru mér búnir skór Of litlir voru þeir og ekki söguna meir því nú er aftur kominn snjór Komdu karlinn fyrir jól klöngrastu í mitt ból því þú vilt mig og ég vil þig þá aftur mun skína sól Gefðu mér elskan gullin fín gjafir og ég er þín fylltu fang mitt rósum flíkaðu fögrum hrósum Komdu karlinn til mín Sjáðu sæti- hér er ég svona- nafnið byrjar á bé En hvar ert þú? Er veik mín trú? Er þetta bar\'a eitthvað spé? ] [ Hvar ertu minn hjartfólgni vinur? herrann minn eini og sanni Harmafullt mitt hjarta dynur hrekst ég um í banni? Ég skil ei vel því mér sárnar svona sífelld ný reynsluspor Var mér ei kennt alltaf að vona? þótt vafinn sýndi for Hvar er herrann sem gullin mér gefur? og hjarta sitt mér færir Sá sem rólegur hjá mér sefur og aldrei mig særir Mig dreymir þig draumaprinsinn minn daga jafnt sem nætur Hjarta mitt þekkir huga þinn og hjartans innstu rætur Því finn ég þig ei í fjöldanum? þú felur þig þar enn Konan ég bíð í kuldanum kemurðu ekki senn? ] [ \"Skrítið\" segir hún og skoðar sig í speglinum. Meira segja sálina sína sér og er sátt við sig alla. Hugurinn skýtur inn efa: ...\"því ertu hér ein?? ef allt er svo satt og gott?\" Hjartað berst á móti ...\"kannski enginn sjái hana í réttri raun.... kannski kunna þeir bara ekki gott að meta\" Hugurinn hvíslar: ...\"getur verið að hún sé of góð? það geti enginn átt með henni samleið?\" \"NEI\" hrópar hjartað: ...\"hann er bara vandfundinn! og veit örugglega ekki af henni enn.\" \"Jú\" hlær hugurinn: ...\"hann veit... en kannski þorir hann bara ekki.. heldur að það sé of gott til að vera satt!!\" Konan brosir við spegilmynd sinni og heldur út í bjartan daginn ] [ Í gær voru -tár þín skuld til mín. -systir. Í dag eru mín, -tvöföld, skuld til þín, -systir. ] [ Down, See his ghosts Ghosts of unfortunate chanches Sinking all the way Dig for him Dig for nothing Nothing at all he sees Down Set him on fire Dig Dig for his flames Dig for their ashes Dig for them ] [ Við sátum við borð ég sagði ekki orð en hugsaði þeimur fleira. Því var ég hér stödd svo á lífinu södd og gat ekki gefið meira. Þú brotið hafðir mig í smátt og allt sem ég hafði átt það burtu úr mér kreist. Ekkert hægt að gera nema bíða sitja og horfa á tímann líða fá ekki rönd við reist. Ég óskaði þess að horfin ég væri fleiri köst ég ekki afbæri. Þráði ég að farast. Þá upp reis alda í mínum huga það hlaut að vera einhver smuga frá þér ég varð að komast. Komast burt frá veikindum þínum. Kynnast aftur löngunum mínum varð óskin mín eina sanna. Fá að vera í friði ég ein finna aftur heil mín bein fá lífið aftur að kanna. Ég vissi það er út ég gekk að líf mitt allt á bláþræði hékk því bræðin er þinn hængur. Er ég vaknaði var ég létt í lund ég vissi ég færi ei aftur á þinn fund. Aldrei framar ég geng til sængur. Ég vil þakka þér morðingi minn við kvalirnar laus er hugur minn aldrei aftur ég felli tár. Hjá mér verður alltaf áfram bjart en hjá þér verður sennilega allt svart lífinu þú bara lifir sár. ] [ Í bergi óma vélar, vélar sem óma alla daga, held ég fyrir eyrun, svo þau springa ekki. hávaðinn í vélunum suða, ég á jörðu legst með hendur fyrir eyru, argandi gargandi volandi, slökkvið á þeim strax. hlustað er á mig, slökkt er á þeim, stend ég upp tek hendurnar frá eyrunum, stynjandi vaggandi heyri ekkert með þeim lengur misst hef ég heyrn. ] [ Við dauðans dyr ég stóð um stund stór en samt svo smá. Var ekki viss hvort ég vildi þann fund sem vondar vættir ýttu mér á. Leit ég upp og ljós ég sá baðað í ljómandi björtu. Lífið síðan leiddi mig frá ljúft það sýndi mér hjörtu. Hjörtu sem tifa og hjörtu sem slá hjörtu sem engu leyna. Heitari ósk enga áttu sér þá en þau endurheimtu meyna. Úr viðjum braust heill vonaher og vildi heim mig bera. Úr helju ég kom og hér ég er og hér ég ætl\'a að vera. ] [ Með Grand í glasi og grát í kverkum ég velti fyrir mér mínum lífsins verkum Hef ég gengið til góðs? Enn á ný skal ákvörðun taka eitthvað sem ég aldrei tek til baka Verður það mér til hnjóðs? Ég vissi ekki fyrst vel hvað ég vildi ég veit þú átt til fullt af mildi en ástina hvergi ég sé. Ég vil ekki halda áfram að þykjast finna þögnina um okkur lykjast vil ekki meira spé. Seinna muntu sjá og þakka mér svolítið kannski ég kenndi þér sem verður þér í hag. Ég bið þér blessunar alla tíð birtan og ástin munu koma um síð Nýr dagur eftir þennan dag. ] [ Tunglin mín þrjú birtast mér í draumi, þar sem heimurinn drukknar og soðnar. Því sólin er svo heit. skynsemi, röksemi ekki til og ég löngu búin að missa tökin. ] [ As the night came in, my eyes felt warm From the cold you came, and helt me in your arm My thoughts became my dreams All I\'ve learned, nothing is like it seems ] [ Þegar þú veist ekki í hvorn fótinn þú átt að stíga. Og þér líður eins og klamedíusjúkling að míga. Kem ég. Fer með þig á lendur guðanna. Sé um mína. Það þýðir samt ekki að svartnættið sé horfið. En eitthvað ljós er þó farið að skína. Í hjartanu. Þú finnur fyrir návist minni. Fjandi gott að geta flúið öðru hverju úr angistinni. Og tónlistin fer að hljóma betur. Hún er mýkri. Og þú sættist við sjálfan þig. það birtir til. En samt er ennþá dimmur vetur. Birtan er innra með þér. Ljósið skín. Í koldimmri nóttinni. Ég lýsi þér. Okkar samvist hefur fært þér nýa sýn. Á heiminn og hlutina. Sem þú áður tókst ekki eftir. Þú furðar þig á ljótleika lífsins. Hálfur heimurinn er sár þjáður. Þjáning manna sem ekkert geta gert. Ekki er þeirra lífshlutskipti öfundsvert. Allt snýst um peninga og völdin En hvað með alla hina. Sem líða fyrir fégræðgina. Og þjást. Samt sofna hinir óðu brosandi á kvöldin. Sáttir við daginn. Hugsa bara um efnahaginn. Sama hverjum þarf að traðka á. Þeir skortinn ekki þekkja. Hvað er að? Hvern halda þeir að þér séu að blekkja. Með ósaneindum. Þeir bjarga meira að segja töpuðum kosningum Heimurinn brást. Það getur ekki verið að þetta eigi að vera svona. Engin guð er til. Heldurðu að eitthver einn gæti stjórnað þessu. Þú sér það sjálfur. Samt ferðu í messu. En mundu samt að treysta á sjálfan þig. Kaninn segir þér að forðast mig. En hvað veit hann. Með peningum sína hamingju hann fann. Er það betra. Hver er það sem þú kvelur. Ertu að valda eitthverum skaða. Engan vegin. Þú einfaldlega friðinn velur. Er það svo slæmt? ] [ Hvað ef ég er stjörnuhrap og tilheyri himnum en blóm jarðarinnar toguðu í mig og lífsins vegur týndi mér. Ætli englarnir leyti ?.. eða jörðin gleypi mig? svo birtist ég á ný nema ég er hafið ódauðleg og endalaus. ] [ Úti gráta regndropar þeir eru að syrgja sjálfan sig breytast í poll sjálfsvorkunnar þorna upp og deyja. ] [ tregafull tónlistin fyllti á mér höfuðið án þess að ég byði henni inn hún settist að sló upp tjaldbúðum kroppaði í heilan á mér stanslaust át upp heilan á mér einn bita á dag dag eftir dag þangað til ég missti vitið ] [ Veturinn er kominn og þrengir sér inní mig. Hvað á ég að gera til að losna honum frá. Birtuna ég þrái og lifa henni með. Hvað á ég að gera til að losna honum frá. Vetur konungur ég krýni þig. Mér ég fórna á altari ljóssins til heiðurs þér. ] [ Vetur vetur seig þú mér, tilhvers þú ættlast af mér. Fæ ég að lifa fæ ég að deyja, hvað viltu mér. ] [ Pirraður alveg upp í rassgat, langar að hoppa í polla, reiður. Get ekki stjórnað mér, breiður pissa ég í hlanddrullufat. ] [ Hér með er ég að leita af konu, hún má vera stór eða smá. En ég er rosalega einmanna og þarf konu strax að fá. Hún verður helst að vera fyndin og vera sátt við sjálfa sig. En umfram allt á hún að vera sniðin aðeins fyrir mig. Heimsk má hún ei vera og kunna vel til verka. En hún verður að geta sýnt í sér hjartað stóra og sterka. Vonandi berast til mín svör frá konum með samband í huga. Ég skal ekki vera dómharður og samþyggja, ef það er smuga. ] [ Ég þekki einn mann sem á konur ei kann. Á skyndibitastað vann en pabbi hans átti hann. Hann var svo feiminn skoðaði oft geiminn. oft hann var dreyminn að ferðast um heiminn. En hann átti konu blíða sem honum var oft að stríða. En hann þoldi ekki að bíða eftir að fá henni að .... ] [ Ég veit ekki hvort ég á að myrða mig eða þig það skiptir ekki máli því dauðinn er. Það eina sem þú átt víst. ] [ Stjörnur er hún sönn sagan forna um hann. Er virti hvorki boð né bönn í boðskap ég friðinn fann. Segið mér stjörnunnar leið um sakir angist og beyg. Um jötu og barnið sem beið og beittan þyrni sveig. Sáu þið svikin og kossinn og spádóminn er varð. Upprisu andans og krossinn. Enn ganga páskar í garð. Segið mér satt var það hans síðasta gjörð við þig. Eða varstu í viðjum manns í veröld er fæddi mig. ] [ Snjóhvítur snjórinn glitar og sindrar eins og stjörnur í óravídd geimsins. Ósnertanlegur óendanlegur eins og fjarlægðin sjálf. En allt í einu er hann horfinn allt er svart. Hversu langt er þar til stjörnur geimsins hverfa og ekkert verður til á ný? Aðeins myrkrið og tómið svartholið eitt. ] [ Þú veist þú átt mig. Ég kem þegar þú kallar. Ég hoppa þegar þú segir “hoppaðu”. Þori ekki að fara, hrædd um að mín bíði ekkert annað. Föst í vef sem þú spinnur eftir þínum þörfum án tillits til mín. ] [ þú slóst mig á hægri kinnina fast ég bauð þér vinstri kinnina sár þú slóst mig á vinstri kinnina fastar ég brotnaði niður í milljón brot ónýt ] [ Þegar líkami minn er of dofin til að gráta, þegar líkami minn er of dofin til að finna til, þegar sál mín er svo kvalin af tilfinningum sem ég skil ekki sjálf. Vill ég svífa inn í tómið þar sem hugsanir eru ekki til og sársauki aðeins orð á merkingar. Þar sem kvíði hefur aldrei verið til og ótti er eitthvað sem engin skilur. ] [ sérðu stjörnurnar í augum mínum þegar ég horfi á þig heyrir þú tónlistina í rödd minni þegar ég tala við þig finnurðu angann ástar minnar þegar ég er nærri þér eða sérðu mig nokkuð yfir höfuð þegar ég stend fyrir framan þig! ] [ Jóla-andinn Barist um blóðuga bakka. Heilög borg í vanda. Hverjum er það að þakka? Kristi,Guði eða Alla. Alltaf er hann að kalla. Hvar er það góða? Hver á þennan krakka? Látið hann skjóta. Á meðan fögnum við því góða. Erum að kaupa pakka. Hvað eigum við að halda? Ekki erum við í vanda. Ættu þeir ekki að hjálpa! ] [ höndin segir kommatittir beint flokkinn hann svo hittir í hjarta fátæks almúans fyrir sakir kúgarans Dabbi minn heyrðu vel þú ert sleipur einsog gel tími þinn mun leiða í ljós hvort þú færð hrós eða rós. ] [ Ef Einar Már væri Nýhilskáld þá væri hann náttúrulega nýhilisti. Ef himbrimarósirnar og snjórinn væru aðeins hvít ábreiða. Rifjaði rigningin upp sorgina. ] [ Falin í huga mínum blind og nakinn sefur í líkama mínum ískaldur klakinn Sést í gegnum dimmblá augu mín finnst í gegnum rauðar varir þínar elskar mig af líf og sál lífið ] [ Snákur sefur kyrr í tré munaðarfullar stundar falið bakvið kumpað fé gleymdar vinar fundar Tíminn læknar, líða ár án vitund hugar minnar Svifur áfram, stækkar sár í minni, andlit þinnar Gengum lífið áfram gékk í minningu ástar blindra á stundum þræði hjartað hékk lífið mitt að hindra. ] [ The animals wait for you the girls scream. All has fallen apart. Boys are getting dressed in the locker-room and the parents are making sweet love in the jungle. Monkey\'s scream. Wake up, wake up from your sleep, deep sleep. The lions have captured Mrs. Nany, there is no one who can watch me now. The girls scream again. The father is dead fallen into the shaddow. Woman of fire has taken him she want\'s him to cook for her. The girls are afraid, all but one, she\'s inlove and know\'s she can\'t go higher. The man she loves is violent. He loves another. That\'s why she screams. The rain falls on my head, I have no hair today. Love all, serve all they sing. That guy sleeps with men, he\'s gay. ] [ Peningana vantar blessaðir fantar aukavinna, aukavinna hvar er þig að finna? leitar og leitar upp fjöll og sveitar hurðarnar skelldar hugmyndirnar felldar einn í óvissunni, myrkrið endalaust. óvissa....... ] [ Þegar veturinn kemur, rokið mig lemur. Dagur verður skemur, og lífið mig temur. ] [ Ekki ætti ég að væla, meðan aðrir þurfa að svelta. En það er erfitt að skæla, meðan maður er að melta. ] [ Sjálfan mig hef ég svikið, sokkið dýpra fyrir vikið. Væntingum fækkað, markmiðum lækkað, tómleikan í mínu hjarta hef stækkað. Framundan bjartari tímar, frægðarsól og gleðitímar. Væntingar stækka, markmiðin hækka, tómleikinn í mínu hjarta brátt mun minnka. ] [ Hjartað fylgir fugli fögrum Í glugga situr rós Ég geymi mér í landsins töfrum fiðrild lítið kveikir ljós. ] [ Himnafaðir heyr nú mig, hallir tungls og mána sig. Sama hversu stór ég er, sama hvert ég fer. Þótt ég hjálpi öllum hér, hvernig ég hlúi að sjálfum mér. Hann mun okkur kalla á. þó svo verði okkur eftirsjá. ] [ Draumar... Hugsanir sem fengu vængi... Hófu sig til flugs... Hærra og hærra... Horfðu yfir heiminn... Héldu að þær gætu sigrað... Haft hið illa undir... Hikuðu eitt augnablik... Hröpuðu... Dóu... ] [ Orð hafa meiri merkingu í minna samhengi. ] [ Í Afríku eiga margir heima, þar er mikið ræktað. Þar er mikil hungursneyð og fáir fá að borða. Um Afríku við lærum í skólanum og kennarin talar um hungursneyð og fátækt. Í Afríku er fullt af fólki sumir eiga engin klósett, sumir eiga ekkert hús, og sumir eiga ekkert til að sofa á. ] [ ég sit hér og þrái en mig vantar andlag. ] [ ég er tóm alveg auð orðin hverfa KJULLUBANGSAR KJULLUBANGSAR bergmálar svo að mig verkjar í eyrun eru ekki til nein orð? hvað með \"STOPP\" Grafarþögn held áfram að skrifa alveg tóm en þessi orð þó komin á skjalið HVAÐ GERÐIST? Ég stend upp fæ mér kaffi í bolla ekki glas TÖLVUR Hvað með þær, aukaheilar mannsins HVAÐ ER MÁLIÐ? enginn eins Geng að svefnherbergisglugganum lít út og sé Leggst upp í rúm en sé ekkert þar AUGUN HVAÐ VÆRI ÉG ÁN AUGNA? Skrítið hvernig ég er hvernig lífið er HVAÐ ER ÞETTA ég veit samt ÉG VEIT ÞÓ ÞETTA Lauddy Jó. (24.11.2004) ] [ um vanga minn nú veltur vindur kaldur æðir sviksamlega sveltur \"svakalega næðir\" segi ég, og fer Heim. ] [ Svefninn ekki á mig sækir svefnlyf tek fyrir rest Gott gingsen svefninn flækir gingsenneysla vöku krefst Vona að ég vakni sæl á morgunn gott er að byrja viku vel Því þessi vika gefur útborgunn þá verslað get ég að ég tel Loksins fer mitt lyf að virka svefninn er að læðast að held ég sofni eftir sirka mínútur sex eða hvað? ] [ Ég er þreytt og búin að fá nóg spurningin er bara á hverju ] [ Stöðugleikinn, hugtak. Með merkingu? Aðeins þegar opinberir launamenn setja kröfur! Aðrir bjuggu til orðið. Þeir hækka sig hóflega, fáein prósent á taxta sem þeir þekkja ekki ..eftir undirritun. Rólegur maður, rólegur! Segja þeir með þunga, Þegar mánaðarlaun mín hverfa. Í vasa þeirra eftir 6 daga vinnu. Ég skil! Stöðugleiki þinn eru örlög mín. Hringekja, sjónarspil, vonleysi? ] [ Ég er samviska þín og vitund ofin saman í eitt ég er andlitslaus en samt sem áður endurkastast ég í spegilmynd þinni eins og tvær hliðar af sama teningi númer eitt og númer sex og þú ert einhverstaðar í miðjunni ráðalaus. ] [ Ég færi klukkuna nær mér .. í von um að tíminn líði hraðar. Ég færi vísinn á klukkunni áfram. .. í von um að sólin blekkist. Ég leita að lykil tímans .. í von um að láta tímann líða hraðar. Í öllu draslinu í huga mínum finn ég gömlu góðu þolinmæðina. Þarf ég nokkuð þennan helvítis lykil núna? ] [ Kuldinn er hatrið, frostið eru tárin. Tárin sem hafa frosnað eftir langa og erfiða nótta. Ég anda að mér, gufan sem kemur útúr mér og hverfur útí bláinn er hamingjan, hún hefur farið frá mér. Svo kemur sólin, sólin sem afþíðir hjarta mitt og hjálpar mér að endurnýja hamingjuna. ] [ Sál mín er föst. Föst inn í vitlausu herbergi. Föst í tilfinngarleysi Eina sem ég get gert að vona.. Vona að sál mín finni tárið, finni brosið, svo hún komist í herbergið við hliðiná. ] [ Brostu, brostu hjartað mitt, því mann þú átt sem elskar þig. Fúslega hann gæfi stoltið sitt, hjartað mitt, Ég elska þig, bara þig. ] [ Íslendinga, Flehhhhhh,Flahhhhhhh, Awwwwwwww,piffffffff, pafffffff,púffffffff, Búmmmmmmm. Mergjað,Röffað, Töfffff,geggjað, bleeeee,arrrrrrr, Rugl. ] [ Ungur sá ég þig sæta, og seinna á minn fund vildir þú mæta. Stefnumót við fórum á, vorið kom með sólina sæta. Þegar ég betur á þig sá, vildi ég þinna sálar gæta En ég verð svo skugga dapur, þá verð ég stundum latur. Bara fyrir þig ég vakna. En tilfinninga sakna, um gleði án sorgar, og sorgar án leti. ] [ Já ég veit að ég vil finna, fyrir brosi þínu í hjart mínu, þú veist ekki hve ég elska þig, Þú veist ekki hve ég þrái þig. Alveg einsog sólin lýsir upp sumarið þú lýsir upp hjarta mitt Bara ef þú brosir til mín brosið segi ég elska þig þú ert minn alla tíð ] [ Ég er ein í heiminum á hjara veraldar Hjartað mitt er brotið og ég meiði mig Enginn til að hugsa um mig Mér finnst eins og ég sé búin að gráta heila eilífð Mig vantar að hafa einhvern hjá mér, til að hugsa um mig og hughreysta En ég get ekkert gert í því, verð að húka hérna ein grátandi Vildi óska þess að ég væri á öðrum stað í lífinu Vildi óska þess að ég hefði kynnst manni sem aldrei hefði gert mér þetta En er hann virkilega til???????? Hvernig er hægt að elska manneskju og samt hafa það í sér að særa hana svona mikið. Ekkert fær þetta lagað, það eina sem ég get gert er að bíða eftir nýjum degi Svo ég komist héðan burt, burt hvert? Hvert stefnir lífið mitt núna, einhverja allt aðra leið en ég hafði hugsað mér Allt er breytt, allar mínar vonir og væntingar Hvernig er hægt að særa einhvern svona illilega, og segjast svo elska Hulin ráðgáta fyrir mér Hvert fer ég, hvað geri ég, hvað verður um mig????? Aldrei fæ ég traustið aftur, hvað þá verð ég alltaf ein? Mig vantar einhvern til að halda utan um mig en hef engan Búin að missa besta vin minn og manninn sem ég elskaði Lífið gengur því miður ekki aftur á bak, en væri það ekki góð tilbreyting ] [ Ligga og stara ströndina á og vita ekki hvað er að sjá vesælast úr sorg og þrá og ekkert gerist ég reyni að mynda minningu en sé ekki skírt bara óljóst ryk það koma spurnigar en enginn svör er þetta bar eilífðar Böl? ] [ Ég er einkaeign konu minnar. Í varðveislu sjálfs míns. Glataður. innan um allt hitt dótið. ] [ Föst í ramma. Þessum ramma sem ég sjálf smíðaði utan um líf mitt fyrir óralöngu. Viðurinn fúinn, naglarnir ryðgaðir. Hann passar ekki lengur. ] [ Mig langar að dansa léttfætt gegnum lífið, rjóð í kinnum með haustvindinn í hárinu. Ég vil elska, syngja, leita, lifa... Í stað þess að fylgja löngunum mínum sit ég hér og hugsa... týnist í myrku svartholi huga míns. ] [ Svanhildur Halla hún er góð því er ég að lofa. Nú eiga allir að hafa hljóð því hún á að fara að sofa. ] [ Það tekur eilífð að rista brauðsneið og þó leið veturinn eins og andartak hugsanirnar silast um í heilanum en þjóta þó með ótrúlegum hraða ég kynntist þér fyrir stuttu samt er eilífð síðan ég þekkti þig ekki Tíminn er ekki eins og vatnið Hann rennur ekki með jöfnum hraða heldur rykkist fram og aftur, aftur og fram eins og hljóðbylgja ] [ orð orð orð endalaus orð uppi og niðri, úti og inni skvaldur, mas, óró suðandi, iðandi, titrandi hoppandi, hlægjandi, syngjandi hvergi friður, hvergi ró hugsanir íhugun, röksemdir bull og vitleysa stærðfræði, saga, líffræði flæðandi orð þögul orð óstöðvandi hugsanir óstöðvandi orð ] [ Every where I look, everytime I sleep I am afraid I have fallen too deep I run in the dark, I hide behind my lies I dream of your silver gifted eyes As I look up at the sky My body tempature falls Every word I\'ve spoken are false But I can\'t tell, I can\'t say Because your hate killed me today... ] [ Krummi er svartur og líka stór. Hann er spörfugl, það er satt. Þjófóttur og glysgjarn, þjófóttur og glysgjarn. Hann er svartur, það er satt, hann stelur gulli, það er rétt, þjófóttur og glysgjarn, þjófóttur og glysgjarn. Höf. Lísa Margrét Gunnarsdóttir, 9 ára. ] [ Ég bíð samþykkis ókunnugs manns. Mat á andanum, ljóðinu, mér. Verð ég samþykktur? Sennilega. Er það staðfesting andlegrar festu minnar? Staðfesting þess að ég sé ekki dónalegur? Verði ég samþykktur, veit ekki neitt. Ef til vill andríkur eða bara kurteis. ] [ Því þessi heimur aðeins er þá þú ert hér til að sjá. En hvers skal leita, hvar skal gá, hvert þvingar þinn fundur hann þá? ] [ Meiglaður að innan hann opnar sig hann hefði átt að opna sig löngu áður. Hann rennur út á morgun. ] [ Segðu ekki orð getu ekki annað dreymdu ljúfa drauma með samviskubit í maga. Grætur þig í svefn Látin þegar tekur að daga. Vissir ekki hvað þú gast gert Finnur enn fyrir því Með holdið bert Spyrjadi guð HVÍ?? Hví ég og mitt Það ég átti Það var aldrei þitt Passaðu það frá illum mátti. Hið týnda barn Sem ég aldrei átti Ég byð þig guð ef þú ert til Passaði það sem ég ekki mátti. Aldri fær að lýta dagsins ljós Eða finna ilm af nýslegnu grasi Klappa hesti eða fara í fjós. Lýt á lífið sem hálftómu glasi. ] [ Sé þig enn Sefur svo vært Í draumum mínum Þú vast allt sem mér var kært Ég reyni að þrauka Ég reyni að lifa Ó guð aðeins þú veist Veist allar mínar syndir Ef ég gæti við mig reist. Það harma ég þó allra mest, Barnið sem aldrei var Eftir einnar nætur gest Og skyldi eftir far. Á sál minni ég skildi eftir far Ung og vitlaus en samt gömul sál Er ein ég er á því mest bar Að líf mitt er meira en mál. Ég græt og syrgi Nótt sem dag Allt sem ég inni byrgi Óska gæta gleymt sem gamalt lag. ] [ Barnið mitt blítt sem blóm þú dafnar rjóðar kinnar og hárið svo hvítt. Eitt orð og þú kafnar. Græt mig í svefn með þig kalda í fangi mínu gæti tekið það aftur myndi gefa allt til að hafa þig í rúminu þínu. Engann pabba þú átt. svo sárt að sakna ef ég hefði þann mátt myndi ég þig lækna. Aldrei fékstu þennann heim að sjá samviskan mun mig naga gæfi allt fyrir þig að fá eitt sinn úr mínum maga Enginn vissi af þér þá en samt sakna ég þín svo sár sál mín fær enga ró ér er að koma, það er klárt ] [ Sálin dauð en líkaminn lifir Rödd þín ómar í eyrum mér Hugsa alltaf um þig Bara ef ég ég gæti verið nærri þér. Væri ljúft að eiga þig að Óttast ekki niett því þú værir hér Ó hvað ég vildi það Óska þess heitt inní mér. En sirkusinn heldur áfram Og hringeggjan snýst Og ekkert fær þau stoppað Á börnin brosið brýst. Ég er týnd Sé ekki alheiminn Þó hann snúsit í kringum mig Svíf um geiminn Og hugsa um þig Þó morðinginn í mér sé á lífi Þá er ég hérna á bakvið. Haltu í mig Fell saman. Hugsa um þig Lungun falla saman Næ ekki andanum. Fell niður Sef Sálinni friður Umlukin englum Hann byður. ] [ Þau syngja öll það sama Ástin, trúin vonin geyslar úr augum þeirra Þar stendur lítil dama Svarta lokka og rifnum buxum Sér ekki vonina Sér ekki trúnna. Horfir á þau tómum augum Hún elskar svo heitt En telur sog búna, Blind, Hún sér ekki neitt. Hún er ein Allt er farið Hún taldi allt rétt, Ástin sigrar allt Líf hennar sem gömul frétt. Svo hrædd um líf, Ekki sitt eigið. Í henni vex lítið barn Sem engann á faðir. Flúin að heiman Með ekkert nema barnið ófædda. Þau syngja öll það sama Standa þétt í kringum hana Henni er sama, Hún hefur barnið. Horfa á hana illum augum. Hún hafði guðlast. BARN LÚSÍFER. Kringum hana fullt af draugum Halelúja, Halelúja. ] [ Nú er sumar nú er gamann nú er gott að leika samann börninn hoppa létt á fæti og eru alveg að springa úr kjæti.Þá er líka hækt að fara í berja mó þar sjá þau kanski könguló þá flitja þau eitt lítið ljóð sem hljóðar svona börninn góð:Könguló könguló ég skal gefa þér gull í skó ef þú vísar mér á berjamó svo þegar köngulóinn fer af stað þá hrópa börninn:HVAÐ þá er köngulóinn farinn í sveppa bað.Svo þegar börninn eru farinn að hátta þá er klukkan löngu orðinn átta þá þegar börninn sofa rótt þá sega englar:GóÐA nótt. ] [ brosið mitt og brosið þitt brosið okkar begja sem heldur sig ó já heldur sig innann þessara veggja ] [ Ég og þú við samann nú við hittumst hér að tína ber:Kræki ber,blá ber ,rifs ber,og lamba spörð ulla bjakk ojakk. ] [ við vorum svo flott og fallegt par frekar hávaxin þú þurftir ekki að fara í ess bara til að kyssa mig langir fingur, fætur, og fleira gott löngum áttum við saman náið heitt ég fór vestur varð hamingjusöm vegir okkar lágu bara þannig einstöku ef koma á álagstímum og ég ég elska minninguna ] [ langt uppi í sveit eru líka drottningar í hentugri tísku gjótandi augun líta eftir ló ljósið litið gegnum glösin fingrafara leitað af nokkurri nákvæmni syndin eina í hnallþórum sögur á lofti hér, nú, úr annarri sveit, af frægu fólki eða af næsta bæ þeim þykir ef allt er ekki eins og eftir bókinni feilspor fordæmd lágt og nartað hér og hvar ætli þær hugsi eitthvað eða þarf yfirleitt eitthvað að hugsa annað en eitthvað um náungann hvað hann gerir og ekki hvað fleira er skemmtilegt í þessari sveit... jú auðvitað! bulla ljóð til dæmis... ] [ Ég þrái að finna ást finna að ég skipti máli Er oft sem innantóm skel veltandi um í hafróti lífsins Af hverju er ástin mér hulin? Hví finn ég ekki hennar koss? Hjartað kallar, hrópar og gargar En svarið er ekki neitt ] [ Ljóð ég mæli og legg svo á lítið gangi á helsins vegi. Gengið Enginn geti frá guðsins hjálp á lokadegi. Eirið verða allir þrá Elskið líf svo dafna megi. Frið til fjörs og ástar leikja frelsi huga orðs og æði. Forðumst þá er slysin sleikja slakkt er fjör á neiðar svæði. Af hroða sínum illir hreykja í hrotta skap og bölsins bræði. Hrylling morða og haturs vilja helsins svanna fáir trúa. Kúgun, róstur og skaða skilja skoðanir í kviku snúa. Hefta þá er halda og vilja helsinsgjána þurfi að brúa. Vandi lífs í veröld okkar virðist einnig herja heim. Græðgi og haturs lygi lokkar lítið getum hjálpað þeim. Hamingja og hreynir sokkar halda frið um allan geim. Frið má finna vítt um heim fylkjum okkur að guða tali. Tökum undir tal með þeim að tyrfa skuli flesta vali Ferlinu er fagnað vítt um geim Í fegrum höllum og glæsta sali. Hatur manna hóps og landa hrellir vora ögurstund. Málefni friðar á mörgu stranda mögnum alla með létta lund. Kærleiksmálin kann ég blanda komi saman svanni og hrund. ] [ Sigríður fólk í tíma tekur tækni okkur kenna þarf. Ritill alla skugga skekur skapar línu kola svarf. Kenndir sköpun verka vekur virkar enn sem áður hvarf. Rissa, skissa, kríta, kola kann að tússa þil og lita. Blanda, mála, skanna, skola skil á öllu þessu vita. Af getuleysi gramir vola getumeiri þjást af hita. Fáein í tækni finna takt fátt mun aðra sliga. Kolamynd er kolafrakt kolið grákkar striga. Svertan gefur sýndarmakt sver mun kolsins miga. Ferli vinnu frekar slakt flestir mála tjöldin. Apaskrekk eða apastrakt apar máluðu spjöldin Eftiröpun er einhæf vakt öpun tekur völdin. Skal nú læra skyggja mynd skapa þrívíð kortin Ónýttur tími algjör synd einhæf lista sortin.. Verð ég eins og vega kind af vímu listar snortinn ] [ Nóttin hefur lagst yfir mig helvíti er hún alltaf lengi að líða núna og loks þegar sólin kemur geta skýin ekki drullað sér burt og ég fer að þjást af krónískri svarstýni ] [ Ég er með stungusár og ég næ með engu móti hnífnum úr ] [ Hárfínir þræðir andartaksins leysast upp og verða stundum að engu .... Ribbaldar fortíðinnar læsa klónum í skapið og knúa fram yfirlýsingar , sem eiga fótum sínum að launa ... Fyrir hvert andartak sem þær dvelja hérna . Komnar .... Farnar ! Rökstuðningur hverfur í skugga ólgu nýrra hugmynda , sem best er að gleyma ... Læt mér leiðast og byrja upp á nýtt .. ] [ Sometimes I wish the wind Would not be cold. Sometimes I wish I was on my own. Would my heart beet still go on? If I loose these feeling’s Will my mind still have its own? I don’t know how to fake it. Nothing is here for my taking. Feelings bring me pain and joy But tears I can claim as my own From things that were left alone No one there to comfort No one there to hold The wind is cold Hope and clarity That is what you are to me You are sanity You are my sanity ] [ Út braust skrímslið . Og át restina af þér . Kaldlindi var ei málað á strigann hjá þér . Ég hrædd inn í tjaldið....skreið . Og fann fyrir hita og ró . Ég fékk nóg . Þegar þögnin skall á . Tælandi ég tæklaði þig . Ert þú glaður....spurði ég þig ? Ert þú dapur núna...Finnur þú til ? Er hjartað þitt ennþá hennar ? Eða er ég komin með það ? Hvernig endar sagan , þegar hversdagsleikinn tekur við ? ] [ Ég setti hljóðið í krukku . Og læsti aftur lásnum . Bruna af stað , ímyndin af þér brenndi gat á sálina . Lauk aftur augunum . Hversvegna í dag ? Hljóðið kom mér af stað.. Fyrir daginn í dag.. Á meðan ég lak niður í sápuna , og krampinn hvarf . Ljúfmetið mettast í huganum . Og spinna á þræðina . Bragðið verður sterkara . Og ilmurinn grýtir kyrtlana ..Færir mér tunguna . Sýnir mér myndirnar . Læri látbragðið og hvessi varirnar . Sting í stúf . Klessi á þig . Blessa þig . Fyrirgefðu . ] [ Ég ligg hjá þér ,inn við bein. Með innvortis sár. Lét orðin líða hjá. Lá á ? Að fylgja þér heim. Slíta mér bein við bein. Ég ligg hjá þér , einn og tveir. Örkumla eftir síðustu nótt. Lét ástina líða hjá. Takmarkinu náð. Að fylgja þér heim. Slíta mér bein við bein. Ég fikta í þér , prófa allt . Hryndi af stað atburðum , sem aldrei áttu sér stað. Ligg örugg inn í mér. Horfi á heiminn örugg..inn í mér. ] [ Ég skreið upp á sólina . Læddist inn í nóttina . Vakti með skugganum . Og lifði af nóttina . Hrökklast af stað . Grjótin hrynja himnum af . Tunglið er að hefna sýn . Því ég skreið upp á sólina . Mig langar að lifa út nóttina . Og berjast með þér . Skríða inn í morguninn alsber . Finna aftur taktinn , sem þú gafst af þér . Hrökklast af stað . Ég lifði þig af . Við skriðum inn í nóttina . Læddumst inn í morguninn . Og fórum upp á sólina . ] [ Sérð þú kannski hvar ég er ? Ert þú varnalaus , nakinn ,ber ? Viltu finna hvernig það fer. Ég get verið þver. Og leitt þig á villiveg. Ef þú spillir mér. Og lætur mér líða vel. ] [ To err is human & covering up is to. What is the secret of successful living? I am growing in the wrong direction. So far away from home. He had some affection. To some extension. Now I am flourishing like a flower, In some one else’s arms. Killing the game, makes him go away. Playing it my way. Shy is my sun. And it’s not for you to see. So don’t push so hard, Because I feel like I am braking. After all that has been taken Out of me. ] [ Why did you not tell me you were sorry? Why did you not tell me you understood? When the sea is calming down. And my emotions haven’t run you out. Making me seam, the calmest of breeze. Pulling me down and out. Letting go of my last breath Out my lungs. Giving up on Present situation. Seeing the end as the Best solution. Now I will see tomorrow. And know what you don’t. Stop holding me down. I have one million, things to let out. ] [ It’s a revelation this dream I had last night. The fear has left my mind. Revelation cause I haven’t felt like this in such a long time. It’s strange how it keeps creeping Back in to my mind. Today today. And everything is the same. Tomorrow tomorrow. And everything falls in to place. Silently today becomes the past. And I watch it fade away. Will we meet tomorrow? If it ever comes. My crippled mind is in a sleepless coma. And I’m not finding my feet To checkout what’s happening to me. And this time tomorrow you realize You broke the rules. Messed it up for the two of you. ] [ It’s easier to forgive Than it is to forget. It’s so easier to fall back in Than it is to stand up again. Just so I can feel alright This is the time To look you in the eye’s Say “goodbye” Now I will never Let you down again. I just don’t know if I fell. Or just got up again. Now you lost That special thing you had before. And I’m turning into ice When ever you are around. Braking up is hard to do. ] [ I can’t seem to think of no one place Were you would hide. No special taste comes to mind. When I drift through all the echoes that were left behind Steel all the tears you can find. I don’t mind. Embrace me love You’re so kind. Embrace my love Take your time. Embrace me love I won’t mind. Know this it’s just you. No one else will do. So if you’re ever ready to come out And I start walking. Don’t run me down. I have my feet firmly on the ground. ] [ Decent devil how have you been? Still looking good man have a drink on me. Killing time by your side means so much to me. Your life is all messed up. Have you nothing to seek? No necessity to bring? Nothing left to cling on to? You’re words aren’t deep enough. Or def to my ears. They have no effect. It’s a visual defect. Or is it just me? My thought’s still lay around. Unused sometimes abused. And still I have no clue. Shallow as a child I am. Say something sexy. Say you’ll stay. That you won’t brake. Say you will stay. ] [ Everything is right Then you turn me off. Every song I sing Turns me off. Every breath I take Breaks your lungs. Turns you off. It suck’s a lot Fucks me up Shit I’m drunk. But to hell with it Anyway. I feel sorry for you Then you turn me on Every smile I give Turns you on. Every time you give to me Turns you on. But to hell with it anyway Anyway. You’re turning me on and off. It suck’s a lot And fuck´s me up. But I’m having fun. So why are you turning me off And on. ] [ Tilfinningin um þig þreifar sig áfram í skúmaskotum sest hún að! Leitandi að ástæðum til að skipta um skap! Hvert er ég komin? Er þetta staðurinn sem leitað var að? Endalokin eru komin af stað! Algjörlega óumflýjanleg! Brattar brekkur..Líflaust lag. Dam dam dam. Titra af reiði svíf af stað.. Fjólublá í framan. Kverkatak ! ] [ Í hvert sinn er ég höfði mínu halla heyri ég þig nafn mitt kalla Á ást mína ertu alltaf frekur og ágirndina oftast sekur Ég girnist þig og vil þér gefast gefðu mér nótt þá mun mín löngun sefast ef þú vilt ekki með mér njóta mun ég mig bara í hausinn skjóta ] [ Elskar hann mig? Spyr ég mig í huganum, horfi dreymin á hann. Hann er með blett á kraganum, Skiptir ekki máli, ég elska hann eins og hann er, með eða án bletts. Elskar hann mig? Elskar hann mig ekki litla baldursbrá? Mér líkar hann best á haustin, þá er hann svo smekklega klæddur. En þá hækkar einnig raustin, en það skiptir ekki máli, ég elska að hlusta á hann tala. Elskar hann mig? Elskar hann mig ekki? En svarinu er feykt burt sem lauf í vindi. Ég veit að ég get gert betur, að sýna honum tilfinningar mínar. En sá hann það ekki í vetur, þegar ég kastaði til hans snjóbolta? Elskar hann mig? Elskar hann mig ekki, litla grýlukerti? Spurt hef ég þig þrisvar, aldrei hef ég orðið þín vör. Allt er þegar þrennt er, ætli vorið komi með vonir og svör? Vorið kom og sagði; Meyja litla, hættu þig að kvelja um ókomin árabil. Ekki gráta, reyndu nú að skilja, hann veit ekki að þú sért til. ] [ þau vöknuðu saman. þýðir það samband? vandræðalegt, að vita ekki sannleikann. hún var farin, hann saknaði hennar. hann var farinn, hún saknaði hans. gagnkvæmur söknuður ríkti, þýðir það ást? -hæ. -hæ. -ég saknaði þín. -ég saknaði þín. -hvað þá? -ég veit ekki. það var ekki tilgangurinn. ] [ Silkislæður á austrænum basar og hafgolan!? Nei! Norðurljósin Pils í suðaustrænum magadansi og heitur blærinn!? Nei! Norðurljósin Strá á útlendum akri og haustvindurinn!? Nei! Norðurljósin Öldur á fjarlægri strönd og sægróðurinn!? Nei! Norðurljósin okkar. ] [ mig vantar kjark. mig vantar kjark -upphrópunarmerki. þetta er ömurlegt. mér líður eins og ég sé með fiðrildi í maganum. ef ég þyrði, þá losnaði ég við fiðrildin. eða myndu þau fjölga sér? ef ég hefði kjark, fengi ég svar. en kannski vil ég ekki vita svarið. ekki ef það þýðir að fiðrildin fjölgi sér. ] [ andvana fædd orð úr hugarfylgsni krossin er hvítur og ég kveiki á kerti kom þú frelsari hugrenninga ber barn þitt burtu ég drýp höfði og held áfram knúinn gremju skáldanóttin er svört framundan ég dreypi á bikar mótlætis dreg upp sverð tungunnar og bíð þess sem koma skal ] [ Ég er brennandi hús við fáfarinn veg. Hugsanir mínar æpa af kvölum eldtungur sleikja þær og brenna upp til agna þær komast aldrei út. ] [ Tilveru, sem bað um líf, var hafnað. Nú? Tilveru, sem bað um líf, var hafnað. Nú, af hverju? Tilveru, sem bað um líf, var hafnað. Af því bara. Varstu til? ] [ Einu sinni Skrifaði ég sögu Sagan var um mig Sagan var um þig Sagan var falleg Um okkur saman Þangað til að Þú reifst hana Við erum ekki Lengur saman ] [ Mig dreymir um Karlmann Mig dreymir um Ást Mig dreymir um Samband Mig dreymir um Gleði Mig dreymir um Hamingju Mig dreymir um Fjölskyldu Mig dreymir um Fyrirvinnu Mig dreymir um búr Ég er Kona Ég er Ástfangin Ég er Ein Ég er Glöð Ég er Hamingjusöm Ég er Fjölskylda Ég er fyrirvinna Ég er Frjáls Finnst mér samt eitthvað vanta. Þrái hinn happy ever after endi. ] [ prófkvíði eiginlega aldrei kaffidrykkja gerir ekkert gagn -eykur fiðrildin -veldur prófkvíða ] [ ég er afgangur þjóðarinnar bara slys. ég les ljóð mig langar að geta ort en mig skortir hæfileika. ég skammast mín. ég er þess óverðug að eiga mitt eigið heimasvæði. ] [ Værirðu hér bryti ég á þér nefið svo það væri í stíl við hjartað mitt. Svo færum við saman uppá slysó ] [ Á ströndinni í paradís eftir líkamlegt líf okkar hérna munum við eyða eílifðinni saman í draumaheimi okkar beggja. Leikum okkur saman með sandkorn milli fingra byggjum sandkastala og skýjaborgir á strönd eilífðarinnar milli heimsins og tímans. ] [ Ég barði Borínef augum blístrandi á leiðinni á klóstið. Síðan sá ég Sælgætisstelpuna grandskoða símann sinn. Hló síðan í huganum að hjákátlegu Öndinni kjaga á brott. ] [ Gargandi, argandi, vargandi, barn, Hoppandi,skoppandi,rokkandi, dýr. Biðlandi,riðlandi,skriðlandi, kona, Sokklandi,fucklandi,rokklandi, maður. ] [ I met a guy, he gave me the best thing I ever got. His love, his trust, his everything. Wow, he is so hot. We had a time together but then I went away. The hardest thing I ever did, Why couldn’t I stay ? I think of you my day along and imagine if you were here. But just a dream, it’s sad to know that baby, you are there. I miss the things about you, I miss the things you do. I miss me, how I am the days when I hang around with you. Watch you when you’re shaving, you have this sexy face. How you walk beside me, you do it with a grace. Another day you told me, no matter what we do, you will always be there for me, and Gad, I know that’s true. If you have a bad day and everythings goes wrong remember that you have a girl who loves you- let\'s be strong. ] [ Ég er einsog laufblað Ég fæddist á stóru grænu tré Ég var fallegt laufblað Ég átti ánægjulegt sumar Sólin brosti til mín og allt var gott En einn góðan veðurdag... Þá kom vindhviða og feykti mér af trénu Frá vinum mínum Frá fjölskyldu minni Ég var ein í hinum stóra heimi Á ferð minni um loftið komu oft sviptivindar Ég snérist oft, var á báðum áttum Vissi ekki neitt Hvar mun ég lenda ? Verður allt í lagi ? Hverju get ég ráðið um endastöð mína ? Í golunni heyrði ég hvíslað: ,,Hver er sinnar gæfu smiður” Ég lét það berast.... ] [ ég get ekki ekki talað við þig en þú pirrar mig samt alveg óstjórnlega. ég sakna þín en fjarlægðin gerir fjöllin blá þannig að hvað veit ég? mig langar til að gráta. ] [ forboðna eitrið kallar úr fortíðinni á sálartetrið kveikir í löngun minni. ég vil þig en neita og leita að einhverju betra því fyrst og fremst skemmirðu heilsuna. ] [ Það er svo auðvelt að setja upp nýja grímu. Þú tekur ekki eftir því þú sérð það ekki. Ef hann lemur mig þá sérðu ekki gatið á sálinni. Ég get falið það, ég get falið það svo auðveldlega. ] [ Ég hélt þú værir hinn eini rétti, en það er ekki alveg rétt. Ég gaf þér mig og allt sem því fylgjir, þú kannt ekki að meta það góða sem ég hef. Þú mig lamdir sundur saman, enginn trúir því fyrr en ég fer. Þau halda að þú sért góður, góður öllum en þér fer nú bara verr. Ég þig hata, hata svo mikið. Að ég græt mig stundum í svefn. Þú svo ílla með mig fórst að mikil vinna er framundan að byggja aftur brúnna. ] [ Ég er svo reið að ég gæti sprungið. Ég hélt þú værir sá eini sanni. Þú ert ógeð sem átt ekkert gott skilið. Það ætti að taka þig úr sambandi þú ættir ekki að fá að fjölga þér. ] [ Hvernig er heimurinn orðinn Ef að tvítugir strákar lemja stelpur Þeir eru ekki heilir, ekki heilir. Leytaðu þér hjálpar, strax. ] [ Mig langar stundum ekki til að lifa. Ég er algjörlega ónýdd á sálinni. Það er svo stórt gat að það er erfitt að fylla upp í það. Svo erfitt að ég held ég þurfi hjálp. ] [ Ef hann kýlir einu sinni þá gerist það aftur farðu. Það er erfitt ég veit, ég veit. Talaðu við mig talaðu við mig. Ef hann heldur framhjá á það er sárt. Þú færð ör, djúpa ör á sálina. Hún grær, hún grær það tekur bara tíma. Gangi þér vel. ] [ Er ást fiðringur fyrir magan? Eða er ást hamingja. Ég veit það ekki lengur, veit ekki hvort ást er til. ] [ Það er komin nýr dagur, þú getur þetta á fætur með þig. Það er erfitt en þú getur það. Talaðu, talaðu það er gott. Einn dagur í einu og það grær. Tekur tíma en það grær. ] [ I love you sagði hann. Jeg elsker dig sagði hún. Samt skildu þau ekki hvort annað. ] [ Yfir landi er fagur feldur fannhvít mjöllin hrein. Í höll og koti kærleikseldur sem kveikir trúin ein. Nú hátíðlega höldum jól huga verður rótt. Húmið leggst um laut og hól lygn er vetrarnótt. Allir sáttir una við er sérhver núna hefur Helgin veitir hjartafrið hamingjuna gefur. ] [ Í morgun var ég lítið barn og átti ég vin. Þessi vinur var lífið sjáflt og sú lífsgleði sem í mér bjó var þessum vini að þakka sem lék við mig og allt var svo einfalt. Svo óx ég upp og lífið sveik mig. Það var enginn leikur meir heldur brostin hjörtu, stress og sorg. Þeir sem voru mér hvað kærastir hurfu frá mér á einn eða annan hátt og ég varð ein eftir með lífinu sem var orðið minn versti óvinur. Nú kvöldar að og ég brosi að lífinu eins og tveir gamlir óvinir sem er farið að þykja örlítið vænt hvor um annan. Ég man alla góðu tímana sem ég tók ekki eftir þegar ég átti þá og sé núna að lífið var mér gott. Núna bíð ég eftir nóttinni og nýjum vini sem kemur og fylgir mér brott. Ég skil þó eftir kveðjugjöf handa gömlum vini. Mitt eigið blóð sem hleypur um og þykist hata lífið. ] [ Á bókhlöðunni sitjum Einbeitum okkur mikið Kona kemur og telur Og djúsin fer í felur. Svo lítum við yfir Brosum svolítið mikið Einbeitningin hvarf Hver svosem hana þarf? ] [ Jón the Man Jón stór maður er Maður sér hann hvert sem maður fer. Hann verður aldrei rekinn Því hann er aðal Sporðdrekinn. Hann alltaf fyndinn er Hann gengur fram af sér. Hann ávallt myndavél sína hefur Guð má vita hvort hann sefur. Ef eitthvað bjátar á Þá lætur hann það ekki á sig fá Því hann er sá sem allir treysta og trúa á. Fólk eins og þú gerir lífið skemmtilegra Okkar varð það og líka miklu merkilegra. Þetta sumar er búið að vera æði Ekkert okkur að mæði Við hefðum samt nú getað gefið þér meira næði. En vá þínir æsandi straumar Úff við fáum öll Dagdrauma.. Viljum helst ekki vakna Því við eigum þín svo eftir að sakna. En eigðu góða ferð ..og taktu mynd af öllu sem þú sérð ] [ Ástin (til hvers er hún?) Hún lýsir upp lífið þitt Hún hjálpar þér framúr Hún svæfir þig að nóttu Hún hjálpar þér í gegnum erfiðleika Hún bætir þína sál Hún leiðir þig á rétta braut Hún er óskiljanleg en oftast jákvæð Hún vermir þig að innan Hún bætir þig í leik og starfi Hún gerir lífið skemmtilegra Hún fullkomnar þig Hún gerir alla daga skemmtilega Hún er óvænt og eftirsóknarverð Hún er ófyrirsjáanleg.. HÚN ER YNDISLEG ] [ Ástin ein hún yndisleg er, að auki hreint kraftaverk, að mér skuli hafa verið veittur kaupauki. ] [ Þar sem ekta gylling gefur sjóndeild kvölds og morgna lit. Þar sem bláir litir bláma fjöll og firnd, haf og himin. Þar sem rauðir litir rjóða kinnar, runna og eld í fjalli. Þar sem hvítir litir hvíta öldu, jökulhadd og vetrarspor. Þar vil ég litkast. ] [ Mamma takk fyrir að trúa á mig, Bróðir Nr 1 varst mér allt, Bróðir Nr 2 gafst mér allt, Bróðir Nr 3 Sýndir mér allt, Bróðir Nr 4 Leyfðir mér allt, Bróðir Nr 5 Lofaðir mér allt, Bróðir Nr 6 veitir,gafst og varst mér allt Pabbi takk fyrir að taka á móti mér. ] [ engan veginn veit ég velti mér uppúr því himinninn er himinblár og hellings regnvatn ský ] [ Skýin sigla með englana um borð. heiðskýrir dagar eru góðir fyrir heiðingjana Hlýtt á daginn næturnar kaldar Ég bý um rúmið mitt í annað skipti hleyp út á götu og bíð eftir strætó það nennir enginn að labba á meðan heiðingja sólin brennir burt fyrirgefninguna Það nennir enginn að vaka á meðan götótt tjald heiðingjana felur jörðina fyrir guði. ] [ það saumaði krosssaum fyrir munnvikin mín og ég gat ekki talað frekar en sungið því loftið komst ekki út um munninn svo ég snýtti mér út í loftið svona til að sýna mótþróa ] [ Segðu mér hjarta, segðu mér hvað skal gjöra Því ég er bara stúlkubarn og hugmyndir mínar eintómar botngötur Segðu mér hjarta, segðu mér því ég er að tæmast ráðalaus, ringluð og þreytt örvilnuð eftir gripi sem rennur ekki undan mér Segðu mér hjarta, gerðu það ] [ Líkt og lítið laufblað á grein, sem bíður eftir því að haustgolan blási því burt, sit ég og bíð eftir þér. Ég veit að þú ert nálægt. Svo nálægt að ég finn nærveru þína læðast upp að mér. Líkt og nakin grein sit ég og bíð þess að snjóa leysi. ] [ Ég get ekki skrifað löng ljóð sökum þess hvað ég er oftast tóm af tilfinningum og þegar þær koma (hún er þó ofast ein og heitir víst sorg, ég er ekki alveg klár á hvað hún er) gríp ég þær glóðvolgar og þvinga þær til að setja orð á blað þegar ég hef skrifað nokkrar línur verða þær uppiskroppa með tilfinningar eins og ég og þá sitjum við oft báðar sorgin (sem ég kann samt ekki almennileg skil á) og ég sorgmæddar yfir tilfinningaleysinu ] [ Stundum gengur ekkert upp sem skyldi hlutirnir snúast ekki eins og ég vildi. Það er sem myrkrið hugan hylji en ég vil að hjartanu stjórni þinn vilji. Hjálpa mér þá með heilum huga þig að tigna, ei undan áhyggjum heimsins svigna. Stundum er sem öllum sé sama, allt snýst upp í gamlan vana. Mig langar bara að flýja eitthvað burt fátt um svör en mikið spurt. Hjálpa mér þá að muna að þú víkur aldrei frá mér, sama þótt ég hlusti ei og gleymi þér. Stundum líður mér eins og skít á jörðu einni agnarlítilli örðu, sem skiptir svo litlu máli, týnist í heimsins táli. Hjálpa mér þá að muna elsku þína sem breiðir yfir bresti mína. Það er svo margt sem ég vil halda í en ég verð að týna því, leyfa þér að taka yfir svo þú farir alltaf fyrir ei sjálfselskan mín sem er svo skammsýn. Þú veist betur en ég hvað mér er best það hefur þú sýnt með því sem hefur gerst. Þú ert vinur sem stendur við loforð þú ert vinur með einföld boðorð þú ert vinur sem elskar mig hjálpa mér með hreinu hjarta að tigna þig. ] [ I’m waiting for you, my friend to come out of the skies. Others have waited too, then lost patience but for me the time flies. All the pretty birds flying towards light of peace. Running, elephants in herds very loud just like your niece. Then I feel warm sunshine and the world is good. All soldiers disarm peace poor children get food. I wish for you only you with all my heart. ] [ The power of death, strikes us all, at least, once in life. Then new is born, and we love, life again. Then we see, the sorrow, of the pain, that fills out closest hearts. Love seems far away, like it never was, or will be again. Death becomes the freedom, and we leave, to look for better. But what do we find? Only deeper and darker pain, worse then ever seen. Death and life, Become one. Love and loss don’t differ. Where to go? I don’t know. ] [ Þegiðu! Hún öskraði, en hann bara þagði. Þögnin var grafinn í hann eins og ljótt listaverk. Orðin sukku, djúpt ofan í sálinna hans. Hugsanir rotnuðu, eins og líkin djúpt ofan í moldinni. En svo varð þögn, með friði og hann var frelsaður. ] [ Eins og þegar maður blæs kuski, var mér blásið. Yfir hafið og fjöllin. Allt var öðruvísi. Ekkert eins, eins og heima. Ég var lítil svört lús, og hvítum pappír, svo var mér hent í ruslið. Ég gat ekki synt, eða klifrað til baka. Yfir fjöllin og sjóinn. Föst, ein og yfirgefin í nýjum heimi. Ný ég. ] [ Nóttin ung, eins og nýfætt barn. Skógurinn stór, eins og Amazon. Tunglið fullt, úlfarnir úlfra. Ástin heit, eins og bál brenna. Klukkam slær, ting tong. Mér er kalt, grýlukerti á nefinu. Fyndna fólkið, farið að skríða nær. Ský fyrir tungl,ég blind fyrir þér. Týnd, vegurinn er horfinn. Rætur, flækjast fyrir mér. Skar mig, á brún hjarta þíns. Blæddi, en sá ekki blóðið. Núna er ég hérna ein. Enginn til þess að halda utan um mig. Týnd í skóginum þínum. Svo heitur og sætur en samt svo hættulegur. ] [ Sem lítið snjókorn ég kyssti þína kinn bráðnaði... og þú gleymdir mér strax ] [ hvað er það sem greinir okkur að erum við ekki öll eins hvað er það sem gerir mig að mér og afhverju ert þú ekki eins og ég við erum samt öll eins við erum eins uppbyggð við komum eins í heiminn við förum alveg eins útúr honum hvað er það sem gerir okkur ... sérstök er það, það sem við gerum er það, það sem við segjum er það hugurinn eða er það hvernig við notum hjartað okkar það er hvernig við notum hjartað okkar ] [ gafst mér von sagðist elska var bara orðin tóm eftir skyldir stúlku með höfnun í hjarta stúlkan sem elskar alltaf svo mikið svo mikið svo miklu meira en gerir henni gott og alltaf alltaf gerir sömu mistökin kann ekki enn að sjórna hjartanu hjartanu sem elskar allt það sem endar á því að skilja það eftir ráðvillt á víðavangi. ] [ Í Palestínu heldur strákur upp á 15tán ára afmæli sitt. Það eru engar gjafir né veisla og flest hús í nágrenninu eru hruninn. Hann gengur að móður sinni og segir: Mamma ég vil vera hryðjuverkamaður. Og móðirin horfir góðlátlega á son sinn og segir : Þú meinar Píslavottur eins og hann Akmeth Alslamabat frændi þinn. Já, segir strákurinn. Vegna þess að ég vil berjast gegn öllu því sem illt er og ég vil frjálsa Palestínu. Og ég vil að húsin hér við hliðina rísi upp að nýju. Og að börnin geti leikið sér án þess að eiga að hættu að vera hrakinn í burtu af hermönnum Ísraelsríkis. Fæ ég sprengju belti í gjöf eins og Akmeth fékk er hann varð 18tján ára? Móðirin sem er þreytt horfir á son sinn og segir: Við eigum frændur í frelsissamtökum Palestínu. Ég sé hvað ég get gert. Strákurinn fer út og gengur um rústirnar þar til að kallað er í hann heim og er þangað er komið er honum sagt að fara úr að ofan. Hann hlýðir og maður setur utan um hann belti hlaðið sprengi efni. Og það er sagt við hann að honum verið smyglað yfir landamærin til Ísraels og þegar þangað er komið eigi hann að taka strætisvagn er gengur að barnaskóla þar. Það verður og þegar yfir er komið bíður hann eftir vagninum. Og er vagninn kemur og er stöðvaður horfir vagnstjórinn tortrygginn á hann en sér að þetta er aðeins strákur og hleypir honum því inn. Strákurinn fær sér sæti hjá lítilli stelpu og sér bjarma af augum hennar er hann lítur í þau og segir : Gegn allri illsku og til heiðurs frjálsrar Palestínu, Allha. ] [ Horfið hefur öll mín von sem áður hafði staðið í stað. Vonandi birtist hún mér aftur en oft hef ég minnst á það. Allar mínar góðu vonir komið aftur til mín. Ég vil ekki sökkva, í dóp eða brennivín. Von mín ertu horfin út í bláinn eða ertu hér hjá mér. Ekki get ég sagt um það því ekki finn ég fyrir þér. ] [ Þú heimsins mesta snild best nýmalað og með mjólk. Ég drekk þig að vild meðan ég tala við fólk. Upp úr rúminu þú rífur mig því á morgnanna ertu best. Ég horfi á bollann fanga þig en í honum nýtur þú þín mest. Frá suður-ameríku þú kemur en ég drekk þig á ítalskan sið. Öllum vel við þig semur og þú kannt að setja á frið. Elsku kaffi, þú ert ástin mín sem aldrei gerir neitt slæmt. Oft þú sýnir mér árin þín þegar úr bollanum er tæmt. ] [ bassinn minn ég strýk þig blýtt bassinn minn þú hljómar frítt bassinn minn ég elska þig frá glötuninni þú dregur mig bassinn minn þú ert mitt líf bassinn minn mín sálarhlíf bassinn minn vertu hér bassinn minn ég er hjá þér ] [ ég finn fyrir tilfinningu... hún byrgist inní mér eins og atómsprengja sem þráir að komast út ég tek stökkið! gríp blýant í hönd og rauðu bókina mína úr tiger og ég flegi orðunum útúr mér og sprengi heila síðu og þarna er hún atómsprengjan fullkomin á blaði en ég er ekki gáfuð atómssprengjan mín er ekki fullkomin stafsetnig en það vilja allir breyta sprengjunni minni í það rétta ég get ekki breytt því liðna atómssprengjan er sprungin hún verður ekki heil ég get ekki lífgað upp stafina þeir eru steindauðir á blaðinu en samt tilfinngar mínar ] [ Horfðir á hana með tómum augunum en þrjóskur vildir ekki hlusta árin liðu með falska gleði í augum enn reyndir að byrgja eyrun miðaldra fórst að hugsa um hversu hamingjusamt líf hún hefði átt kanski hefði engu verið að tapa nei of stoltur enn á elliheilmilinu horfðir yfir lífið kvíðandi dauðanum \"hvað ef það sem hún sagði var rétt\" \"kanski að maður ætti að taka sénsinn\" hugsaðir um það hugsaðir um það þar til þú hrökkst upp af það var of seint. Hún með gleði tók lífinu með ró er hún eltist glöð yfir farin veg leit hlakkaði til dauðans er árin færðust yfir eina ósk í hjarta hafði þó alltaf borið langaði eitt að sjá gleði í augunum eina hryggð í brjósti bar hann var farinn það var of seint. ] [ Þegar þú opnar aftur augun þín. Þá breytist allur heimurinn. Friðurinn leggst yfir mig. Er ég byrjuð að finna til? Súrefnislaus. Þreytt en hraust. Þegar þú opnar aftur augun þín. Og það lifnar inn í mér tilfinning. Um hvað það er sem skiptir, öllu máli. Dauf að vakna við lífinu. Stíf að taka við hamingju. Laus í loftinu. Hörð á gólfinu. Þegar þú opnar aftur augun þín. Ljósið lifnar við og hreyfingin. Er ég byrjuð að finna til? Er ég byrjuð að finna til? Þegar ég dreg andann inn um munninn minn. Og gamlir eldar brenna á ný. Þegar þú opnar aftur augun þín. Þá breytist allur heimurinn. ] [ Ef ég finn mig hjá þér, er ástin okkar þá sönn? Ég leita eftir þér og þú að mér. Og okkur miðar eitthvað áfram. Horfum um stund fram á við. Lítum ekki til baka. Fortíðin er gleymd, horfum fram á við. Gleymumst í hvort öðru. Núna um stund,um sinn. ] [ Í köldu myrkrinu ein ég sat. Herti upp hugann og hélt af stað inn í nóttina. Jarðþokan lýsti mig. Inn í skel þar ég beið. Regnbogi fylgdu mér heim til þín á ný. Norðurljósið leiddi mig fyrir þig. Stjörnuhvelfingin flýtur inn um himininn. Sérð þú mig fara inn til þín á ný? ] [ Look to the sky. White clouds embrace I try to reinforce him. This will be your time. Is this your life? Collapsing my shoulders. My head moves down. Flying through the air. Emotionally transparent. Transmit time transmit. Transparent to the eyes the mind transmit the truth. My head moves upward. The moon to see. Transmitting sms. Hello I want you to blaze the sky find your eyes enlighten by the moon. We are both in tuned. Into the moon We send sms. The moon speaking until the next night. ] [ Hún hafði ekkert upphaf og engan endi er nema von á hvern annan þeir bendi? ] [ Fallegar skýjaborgir hins kappsfulla fjarnema falla til jarðar um leið og hann stígur út úr síðasta prófinu. Honum fallast hendur og mætir í hina vinnuna sína eftir hádegi. Draumarnir um ilm af kanil, ajaxi og eplum hverfa í gleymsku hins þreytta hugar. Jólin koma samt sem áður og rykhrúgurnar hírast ennþá í hornunum. Best að hafa bara kveikt á jólaljósunum til að þær sjáist ekki eins vel. ] [ Þér, fulltrúi almættisins talið um refsingu hinna syndugu kvenna. Ég hef syndgað og mér ber að refsa. Ég þrái refsingu yðar og að lokum fyrirgefningu synda minna. Fylgir hún ekki annars með? ] [ ég þjáist af afturhaldssinnaðri ástarjátningu. held fast í það að ást sé alveg örugglega heilabilun. í það minnsta rökleysa. svo ég hef ákveðið að játa ást mína öfugt. giþ aksle gé. nú þarf ég bara að finna sæta stelpu sem talar afturábak. ] [ She cries in the darkest corner waiting in fear. His strong arms, seem to conquer all. She tries to run for freedom but she’s too lost and tired. She fights her best but he’s way too strong. When will it end? She’ll never know. Her heart was a crushed shell by the sole of his shoe. ] [ Ég er svo utan við mig að ég tek ekki eftir því að ég er búin að hlusta á sama lagið aftur og aftur ég tek ekki eftir því að ég er búin að lesa sömu blaðsíðuna aftur og aftur Án þess að veita því eftirtekt er ég samt búin að hugsa um allt allt milli himins og jarðar ] [ ég skima í kringum mig enginn er að horfa bogra yfir tölvunni þannig að enginn sjái að ég skrái mig inn á ljóðpúnkturis það er bara miklu skemmtilegra að semja ljóð heldur en að læra um stöðuorkubreytingu massalausrar byssukúlu í lofttæmi ] [ Vincent Van Gogh, ef þú aðeins gætir séð til mín nú þar sem ég krota á vegg niðri í bæ. ] [ blæðir tár úr auga sortnar sól í suðri brennur byggðin forna guð á himni horfir helför herja manna heigull veldur stríði hvað upphafi olli og sáði í hjarta hatri engin veit með vissu nú berjast bræður steinn versus byssu plastkúlur deyða móðir, faðir gráta blóðugur er himinn jörð vill af blóði meira auga fyrir auga tönn fyrir tönn af ritningu menn deyja ] [ of falleg sál til að vera veikur inn við hjarta of mikil ábyrgð að bera átti fallega von og framtíð bjarta. Of mikill maður til aað skilja Of harður heimur til að lifa og grimmur heimur til að vilja Of mikil kveðja til að skrifa. ] [ Ég lagði á borð á hverju kvöldi fyrir fjölskyldu mína mat fyrir 4 hvíta hreinskilni bleika gleði græna þolinmæði gula samvisku svarta reiði og sósu \'\'bara svona til að hafa þetta fínt\'\' skyndilega veiktust þau öll, voru lögð inn á spítalalalala.... lækningamaðurinn sagði að niðurstöður blóðrannsókna sýndu ástleysi! ástleysi kona! gargaði hann að gefa þurfti þeim öllum rauða ást beint í æð sjálfselskan var þá í alvörunni að drepa mig? þegar ég kom heim af spítalanumnumnum áttaði ég mig á því Sósuliturinn! ] [ Ástfangin lifum góðu lífi ég við gluggann hann í pottinum allar hans tilfinningar vaxa um húsið hlátur hans hljómar í höfði mér orð hans dreyfa sér um allt líkt og illgresi faðma mig stinga mig kyssa mig hann talar við mig sem aldrei fyrr leynir mig engu grátur hans heldur í honum lífinu ég lifi í orða illgresi hans ] [ I just want thank you for giving me everything you got I just want to thank you for being there when I need you And I just want to thank you for being my best friend And I just want to thank you for being the resin for my life ] [ ‘Aður var hún sæt og falleg nú hrum sem blikar tár vangasvipu mjúkur,fínn nú hörkulegur sem steinninn blár rauðar postulínsvarir nú herptar saman sem lína er ljósa hárið slétt fallegt orðið svart sem nóttin ber bláu augun sem lýstu barni orðin grá sem kaldur steinn komdu elskan komdu hingað til himna þar er ég ] [ nobody understands this feeling in my hart its like im trapet and i cannot run its like im sad but nothing to cry for nobody i can talk to, nobody that understands this feeling in my hart this lonlyness, but how much i hug you it never works, i dont know what to do!!! i sit in my room and cry and cry but never know why, lookin out the window watchin the sea, watching the buirds flying happy in the scy, people happpy never so unlucky to have this feeling never so insecure never so sad never so lonley never so i dont know... ] [ Er svo brjálæðislega æstur. Jólin eru að koma, til mín. Ég óttast þau, koma svo snemma. jafnvel á undan sjálfum sér. Er ekki viðbúinn. ] [ Draumur um að verða ljóð dagsins. Er draumur um draum sem er hrein martröð. ] [ Manstu eftir lúmskum ástarljóma sem leyndi sér og bar aldrei á góma, við reyndum að taka völd en ekkert tókst og leyndi ástarloginn óx og óx, okkur var ætlað að lifa saman okkur var ætlað að lifa og deyja saman. ] [ Ellin kom og gerði okkur gömul í eigin heimi urðum við einsömul að gráta liðna æsku gagnslaust var í hugarskotum geymdar minningar ylja okkur við bernskustóna ylja okkur við leyndu bernskustóna. ] [ Við höfum öll eitt óttabrot í minni um að örlögin gripu í tauma öðru sinni og allar spárnar rætast er guð og maður mætast mætast aftur og ger\'upp gamlar sakir, mætast aftur og ger\'upp sínar sakir. ] [ Strike once, twice and then three times. Ball! Run, fast! Faster! Don\'t stop, for a breath. Every minute that you take, cost\'s you a whole life. On this long road, Never! Must you stop! At the end, we are all fools! Running to the end. Hoping to catch the ball. Only hoping, never knowing! But in the end, the ball is out. Into a deep, dark hole, falls the ball! Humans are such a fools! Running after it, like dogs! Time has won. Now you must die. ] [ Organisms make orgams and orgasm makes organisms. Circle of life, goes on and on. Continueasly continues mathematically incorrect. Increase or decrease, in the end, it doesn\'t matter. Always comes back to life and death. ] [ Fagrar sálir í þessum heim Of fagrar til að vera Margir þeirra vilja ekki meir Og vita ekki hvað á að gera Þó ungir sumir Og aldnir aðrir Við elskum þau öll En ekki skilja þó allir. Í fegruðum ljóma Þessar sálir lifa Þar til þær hætta í blóma Og klukkan hættir að tifa. Ástin of mikil Við það ekki ráða. Þó farnir séu Við kvetjum þá enn til dáða. ] [ Sólin snýst um jörðina, afhverju snýst ég ekki um þig. Mitt líf er þitt, taktu það. Ég get sé bara þig, sjáðu mig. Ég græt fyrir þig, brostu fyrir mig. Bræddu alpana fyrir mig, ég verð að sjá það. Komdu við mig, ég verð að finna það. Ég get þetta ekki, ég er að gefast upp. Takk fyrir mig, ég gefst upp. ] [ Frjáls. Þar sem himinninn veðrur blár, Þar sem grasið er alltaf grænt, Þar sem hann veðrur aldrei aftur sár. Þar sem Gamli Rauður er, Þar sem ástin dofnar aldrei, Þar sem hann bíður eftir mér. Hann er að eilífu frjáls Þar sem hann vill vera Hugsum alltaf til Guðmundar Páls Þar sem hann hefur ekkert lengur að bera. Við munum samt öll sakna hans Alltaf elska hann um alla tíð Hann lifði lífinu með glans Sú blíða stutta tíð. ] [ Hví tókstu barn mitt blítt Út út mínum heimi Hamingjan hefði fært mér barnið frítt Inn úr þessum geimi. Hefði verið gott Að fá slíkt yndi Sætt lítið barnaglott En sá draumur hvarf í skyndi. Saklaust sem engill Tekið mér sem ég er Hefði elskað það og dáð Kannski er það sem betur fer Hefði viljað hafa hann hér Barnið mitt kært Hjá pabba ert í staðinn Ég líf hefði getað í heiminn fært. Svo saklaust og ljúft Yndislegur og fagur Barnið mittí draumum er Blítt og bjart sem sólbjartur dagur. ] [ Þögnin er svo yfir þyrmandi, ég get þetta ekki lengur. Lendur mínar öskra á þig, verð að fá þig. Komdu nær, snertu mig. Vertu eitt með mér, hún öskrar á þig. Ég er að deyja, hættu að stríða mér. Taktu mig ] [ Watches me like an angel Holds my hand when i need For him i thank all Good from heaven or an evil seed. He’s the one i always loved Loved him so my heart broke Killed him self Said goodbay and my heart stroke. Falling to pieces He just walked away Thought everything would be alright Remeber it like it was yesterday Wish you where here So i could kick your ass Kiss your cheek And tell you that i love you dad. I coming soon To be with you You love the most And i know you love me to. ] [ Hún er ég Hún er hamingja Hún er yndi Hún er umhyggja Hún er allt það fallega Hún er allt það dásamlega Hún er allt sem ég á Hún er sú eina yndislega. Hún er það sem ég dýrka Hún er allt sem ég finn Hún er það sem ég elska Hún er blóð mitt og skinn.. ] [ Sit hér við gluggann og stari á tunglið ein nú raula vísuna sem þú kenndir mér forðum er þú vaggaðir mér í svefn. Hver vaggar nú þér í svefn? Sit hér við gluggann og stari á tunglið \'tunglið, tunglið taktu mig\' og berðu mig heim því þar situr hann faðir minn og getur ekki sofið. Ég get heldur ekki sofið. Sit hér ein við gluggann og stari á tunglið það lyftir mér í draumaheima en samt ég get ei sofið. Draumaland og Skýjaborgir já, þar vil ég búa. Sit hér ein við gluggann og stari á tunglið \'tunglið, tunglið taktu mig\' og berðu mig yfir hafið því þar situr hann faðir minn sárveikur og kvalinn. Sit hér ein við gluggann og get ekki sofið. ] [ Grátum ei tárum, mín liggur enn þá í sárum, sting í hjartað ég finn, Guð er sko minn, hvert var ég kominn, hryggt hef ég son minn. Skugga minn ég sé, Fjandinn hafi það fé, bölvum,tuðum, börnum og snuðum. Kölski fastur í mér situr, oftast er ég bitur, því ver og miður, engin til mín biður. Hryggt hef ég sjálfa mig, með orðum og forðum hlaupa skal ég í burtu, beint upp í sturtu, þvo skal ég orða-forða í burtu. ] [ Hún sá ást, eins og fallegan fugl sem var fastur inn í búri og hafði, fyrir löngu týnt frelsi sýnu. Fastur að elífu einhvers staðar þar sem hann átti ekki heima. ] [ Lífið silkiþráður. Lífið dúnfjöður, milli fingurgóma. Lífið vatnsdropi á grýlukerti. Lífið sandkorn á vegi þínum, í vindi. ] [ Upphaf. endir. ] [ Ég finn andansnáð, og ríkar gjafir og sálarinnar bjart ljós Enda er það konungurinn okkar faðir sem fæddur var í Betlehemsfjós Upphafið var fundið að kærleikans náð var Jesú hinn sanni, og öll hans ráð Undrandi voru vitringar, þegar Jesep sá að þetta var Jesú Kristur sem í jötunni lá Barnið fædda, og æskubrek hans birti til í sálum vorum Hann vildi alla krýna með krans með sínum náðarandans svörum Orka og birta streymdi frá honum bjargað var mörgum syndanna sonum Hann læknaði veika, og sorgmædda blinda, heyrnadaufa, og niðurlútna ] [ Ekki brosa ef þú meinar ekkert. Augun eru tóm brosið falskt orðin eins og rýtingur í hjartastað. Ég sný mér undan en veit að tóma gríman sem þú barst mun ásækja mig og eitra fyrir mér. ] [ Þú treður á mér skyrpir lélegum lygum framan í mig bíddu bara. Átyllur safnast saman og hægt hægt verða þær að fljóti sem sprengir stíflur vanast og kaffærir allt ljóta fólkið. ] [ Lífið er eins og bolti sem rúllar áfram. Þú reynir allt þitt líf að hægja á og þegar það loksins tekst ertu dauður og gleðst ekki yfir sigrinum. ] [ Hvenær hættir heimurinn að snúast? Kannski ættum við bara að hnipra okkur undir sæng og bíða eftir að Guð slökkvi á eilífðinni ] [ Ef heimspekingar hættu að vera til hverjir myndu þá spekja heiminn? Allt glatast, fellur í gleymsku og hin eilífa spurning er letruð í málm á skrifstofu forseta Bandaríkjanna óbreytanleg, ósvaranleg. Hvort kom á undan Lífið eða dauðinn? ] [ Sakleysið týnt ofaní kassa. Ég kaupi gálgafrest með hvítri lygi. Það er bent á mig. Lygin felur sig í búning ryðgaðs sannleika. Hulstrið er krossfest meðan sjálfið flögrar með briminu. Ósekir verða vængbrotnir. Heiminum er sturtað niður um stíflað niðurfall. ] [ Allt er svo ruglað pirrað fólk ryðst áfram, yfir, um kring ég neyðist til að flýta mér líka sálin gleymdist á stoppustöðinni ] [ Fjólublár himinn. Ég er föst í snjókorni. Í nokkur dýrðleg andartök liggur allur heimurinn undir mér svo bráðna ég á augnloki. ] [ Ástin ein hún eintóm er, fjarlægð sólarinnar sér, hvirfillinn flýgur hér, brostnum böndum bindir sig, að eylífu. ] [ fingur í lófa. nefbroddur í lófa. nefbroddur á handarbak. varir á handarbak. varir á háls. varir á varir. ég sakna þín. ] [ Ég sat aleinn og yfirgefin í bíl og á leiðinni heim. Ástæða þess er fyrirgefin var að hjálpa vinum mínum tveim. Samferða mér var allskonar dót bæði kústar og tuskur og blóm. Hefði frekar viljað fallega snót því þá hefði ljóðið allt annan hljóm. Ferðalagið tók sirka 5 tíma og færðin var alls ekki góð. Óskaði þess að vera með síma því ég var óvanur að keyra þessa slóð. Ég gerði mistök á leiðinni og fór næstum útaf veginum. Sem betur fer ekki á heiðinni og að tekið var að halla af deginum. Ég komst þó óskaddaður alla leið og kannski aðeins of seinn. Heima eftir mér allt fólkið beið en afsökun mín var að ég var einn. ] [ Þá er lífi þessu lokið, þreittur er og lúinn. Og eftir situr austan fokið, þar eigrar barna trúin. Á lífið, gleði, leik og starf, og lækinn út í móa. Og lautina sem lét í arf, lítilla barna hróa. Nú sáttur kveð ég sælu reitinn, en sár er kveðjustund. Ég vona´að ávallt syngi sveitin, söng með þá léttu lund, er sunginn var sumarkvöldin heit, þá stjörnurnar lýstu allt. Ég barnungur þína barma leit, nú bíður mín mirkrið kalt. ] [ Já ég veit að ég vil finna, fyrir brosi þínu í hjarta mínu, þú veist ekki hve ég elska þig, Þú veist ekki hve ég þrái þig. Alveg einsog sólin lýsir upp sumarið þú lýsir upp hjarta mitt Bara ef þú brosir til mín brosið segi ég elska þig þú ert minn alla tíð ] [ Humar stjörf ég er, bráðnum ís ég ber, hugurinn minn öllum öðrum er, ofarlega í huga þér. ] [ Ég ætla að búa til listaverk! Ég tek jarðarber, lem það í klessu með hamri og segi: Þetta er mitt kramda hjarta. ] [ Líkt og strengjabrúður fylgjum vér í einu og öllu fyrirskipunum valdsins í vestri, í blindni Algerlega ómeðvituð og óupplýst um afstöðu þá er vér tökum, sköpum vér ný vandamál fyrir heiminn. ] [ frá því ég sá þig fyrst í 32 tommu tv-inu vissi ég að þú varst sá rétti, við áttum að vera saman hjörtu okkar slógu í takt, ekkert gat stöðvað okkur við stóðum SAMAN á heimsenda ég hefði gert allt fyrir þig hefði dansað allsber niður Laugaveginn bara fyrir ÞIG en með einni setningu reifstu úr mér hjartað og tróðst því í mixer þú sagðir: VILTU HÆTTA AÐ ELTA MIG ÉG VEIT EKKERT HVER ÞÚ ERT ÉG VEIT EKKI EINU SINNI HVAÐ ÞÚ HEITIR!!! ] [ Það er stúlka sem ég þekki sem vill svo góðann mann. Verst er að hún veit ekki að hún er búinn að finna hann. Skilaboð til hennar hann sendir en hún tekur ekki eftir þeim. Þó svo hann þeim í hana hendir er hún föst í allt öðrum heim. Vonandi fer hún þetta að sjá því hann vill ekki missa hana. Hann þráir svo hana að fá en án hennar er hann svefnvana. Hún verður að opna augun sín og melta öll skilaboðin hans. Því í sálu hans vindur hvín sem er ótti sérhvers manns. Svo fyrir þá sem af þessu vita færið stúlkunni þessar fréttir. Það myndi líf hans góðum litum lita og yrði honum mikill léttir. ] [ Andadráttur þinn er mér sem innblástur í heim þess liðna, þar sem dagurinn var leikur og nóttin ögrun þess forboðna. Þar sem líf og dauði ófu sama vef hláturs og gráturs og við gengum saman endana á milli þrungin eldmóð á vef örlagana. Og andadráttur þinn var innblástur minn, og innblástur okkar var andadráttur lífsins. ] [ Imagine there\'s no love, It\'s hard to believe, No one stand befront us, Above us only sky, Imagine all the love I\'m giving you today... Imagine there\'s no me and you, It is hard to do, Nothing to love or die for, No religion too, Imagine all the love and life we can have in peace... You may say Im a dreamer, and you are the only one, I hope some day you\'ll love me, And we will live as one. Imagine no love, I wonder if you can, No need for pain or suffer, but you love another man, Imagine all the love Sharing everything I had... You may say Im a dreamer, but Im not the only one, I hope some day you\'ll love me, And you and me will live as one. ] [ Höfundurinn lýsir því öll. Þrátt fyrir að hafa verið í burtu í fleiri ár. Allt stenst við heimildir og ekkert til sparað. Það er deginum ljósara að hann man það enn. ] [ er líf eftir dauðann? förum við öll í skrúðgöngu með Guð í fararbroddi - dönsum og syngjum og erum glöð? verður okkur útskúfað vegna synda okkar - send til Helvítis? Það er ábyggilega meira stuð þar! ] [ komdu komdu með mér mig langar að sýna þér svolítið við hlaupum saman - áhyggjulaus og glöð sjáðu himininn það er sumar - sól við leggjumst í hátt grasið og förum í skýjaleik þarna er bátur - og flóðhestur við flissum og leggjumst svo dýpra í grasið snertum - finnum - njótum brennheit sólin skín á bakið á þér -stuna líkamar okkar verða eitt vefja sig saman eins og kolkrabbar þú strýkur mjúka húð mína -kyssir á hálsinn \"Hvað eruð þið að gera þarna?\" stökkvum upp, grípum fötin og hlaupum skríkjandi í burtu lífið er svo yndislegt ] [ Ég ligg upp í rúm með Sting í græunum og í maganum. Stingur Steinson, kýs að kalla hann. Nú er hann elígal eilíen í Njú Jork. Áðan söng hann \"itts proppablí mí\" meðan hann gekk um gyllta akra. Aldrei þessu vant er gott að sofna með Sting í maganum. ] [ Hefur þú séð heimsins stríð, herja´á littlum sálum. Þá kemur móðir björt og blíð, með björg á þeirra málum. En áfram mætast stálin stinn, stríðið friðinn deyðir. Í hjörtum allra herinn þinn, hamingjunni eyðir. Horfðu´í augun sár og sjúk, sjá lífsins dimmu nátt. Lát friðardúfu´á hæsta hnjúk, hefja frið og sátt. ] [ Í skini ljóssins marka skuggarnir rýmið og skilning minn á stöðu sjálfs mín í heimi hlutanna. Svo kemur upp vandi. Það er til fólk sem býr til hluti sem eru ekki hlutir sem skapar einingar sem eru ekki nema óræðir og illskiljanlegir skuggar af sjálfum sér og skuggarnir móta og marka skilningsleysið sem er á milli mín og hlutanna. Form og útlit taka merkingu úr inntaki sínu og inntakið er í höfði skapar síns, sem eilíft leyndamál hans. Það verður ekki rætt í heyranda hljóði. Verður varla skoðað í skini ljóssins. Verður varla skilið í huganum. Nú eru það skuggar skilningsljóssins, sem marka stöðu mína meðal hugmyndanna sem varpað var inn í huga minn úr heimi hlutanna. Nei og já. Lengi má manninn og huga hans reyna. ] [ andvirði eigna miðað við vístölu gefið út af greiningardeild með forsendur um áfram haldandi verðbólguspá hagkerfið, kjölfestan efnahagslífið dow fokking jones þriggja milljarða hagnaður og bankinn leitar að mótframlagi? ég set klinkið í hnífstunginn Gogga gráðugu mörgæsina og hugsa til þess að bráðum kaupi ég mér bjór fyrir allan peninginn... ] [ Sál mín er klædd svartri skikkju með þúsundum tölum. Smá saman næ ég að losa eina og eina með hjálp þinni Þolinmæði mín er að bresta tölunum fjölgar. Skikkjan þrengist ég næ ekki andanum! Skikkjan rifanar ég er frjáls!! ] [ Þessir sveinar eru þrettán og eru þeir stórir og smáir. En nýjustu rannsóknir sína að hver Íslendingur þá þráir. Fyrstur kom Gemsasníkir, þjófur mikill var sá. Hann rændi nýjum gemsum því alla varð hann að fá. Annar kom Tölvugaur sá var sko slæmur. Hann vissi allt um tölvur því fyrir þeim var hann næmur. Þriðji kom svo Hvítflibbastúfur í loftinu var ekki hár. Hann var í viðskiptasvindlum og í þeim var hann ótrúlega klár. Sá fjórði var Rettusníkir sem uppi í fjöllunum býr. Hann er bestur að sníkja rettur því pakkinn af þeim er svo dýr. Fimmti kom svo Húsbréfikaupir sem í 4 einbýlishúsum bjó. Hann keypti sér húsbréf og af þeim fékk hann aldrei nóg. Sjötti kom Yfirdráttarskellir sá kunni ekki að fara með fé. Skellti bara á sig yfirdrætti og beið eftir hvað myndi ske. Sjöundi kom svo Öskubakkasleikir á skemmtistöðum er að finna hann. Hann var þessi sem bað um vatn því tungan hans oft brann. Áttundi var Skyndibitakrækir sá var aldeilis orðinn feitur. Það skipti hann engu máli hvort hamborgarinn sé kaldur eða heitur Níundi kom Bílalánstaki sem flotta bíla varð að fá. Lét bræður sína skrifa undir en alltaf féllu lánin á þá. Tíundi kom svo Raftækjasleikir sá fékk aldeilis oft í sig stuð. Hann var bara svo forvitinn að sleikja tæki sem gáfu frá sér suð. Ellefti var Internetsníkir sem á netinu fylgdist með oss. Einnig kynntist hann þar stúlku sem eitt sinn gaf honum koss. Tólfti var hann Vínþefur sá kunni ekki að fara með vín. Hann hefur verið fullur í sjónvarpi bæði á stöð tvö og sýn. Sá Þrettándi var Stúlkukrækir sem á sko kærustu eina. Sú átti að hafa verið fullkomin, strákar þið vitið hvað ég meina. Nú eru sögur þeirra taldar, sögur karla sem læðast um húsasund dimm. Börnin mín kæru ekki óttast þið sjáið þá aftur árið 2005. Þið verðið bara að vera þæg og góð og fara snemma í ykkar ból. En þeir segja núna við alla gleðileg, gleðileg, gleðileg jól. ] [ Þó úti sé kalt núna sitja rónar á Arnarhól. Þeir eru allir fullir en segja samt Gleðileg jól. Margir karlar eru einir og skríða upp í sín ból. Þeir eru allir einmanna en segja samt Gleðileg jól. Lítlir fuglar flúgja um og vilja finna skjól. Þeir eru allir kaldir en tísta samt Gleðileg jól. Fráskildir feður sitja sárir sitja á bar og á stól. Þeir eru allir niðurlútir en segja samt Gleðileg jól. Hundar vilja út að pissa og gefa frá sér gól. Þeir eru allir í spreng en gelta þó allir Gleðilegt jól. Hundaeigendur viðra hunda sína og ganga með þá í ól. Þeir eru allir þreyttir en segja samt Gleðilegt jól. Bubbi og Megas syngja saman og syngja saman Fatlafól. Þeir eru báðir leiðir á því en segja samt Gleðileg jól. Göngugarpar ganga úti ganga hin stóra Norðupól. Þeir eru allir með hælsæri en segja samt Gleðileg jól. Rokkarar í míkrafón öskra og spilar undir Rokk og ról. Þeir eru allir illa farnir en segja samt Gleðileg jól. ] [ bæta við ljóði, sýnilegt samþykkt, eyða, breyta fullvissað, sýnilegt, ánægð nú og inná einkamál að deita ] [ 1. Bílarnir þyrla upp haustlaufum og ryki dánum minningum 2. Snjóflygsur hylja spor mannsins er gekk hér um, eins og hann sjálfan 3. Maður í frakka í mildri vorskúrinni ráfar um garðinn 4. Angan af vori lagði að vitum mínum raka vetrarnótt 5. Hann hefur komið hingað nú í nótt og prýtt glugga með rósum 6. Vindurinn feykir dánu laufi um strætin, hárkollan fýkur 7. Einn vetrarmorgun með frostrósir í gluggum, stóðst þú hér úti 8. Þegar ég vaknaði í skugga gullregnsins, var dagurinn farinn ] [ Alvitur maður gekk götuna til enda. Örvitur maður gekk götuna til enda. Fávitur maður gekk götuna til enda. Smávitur maður gekk götuna til enda. Hálfvitur maður gekk götuna til enda. Óvitur maður gekk götuna til enda. Þar stóður þeir og vissu ekki til hvers þeir gengu. Þeir skildu ekki tilgang göngu sinnar og litu því um öxl, á litla barnið við hinn enda götunnar. Þeir spurðu einum rómi: “Til hvers gengum við litla barn?” Og barnið svaraði: “Til þess að komast á enda götunnar.” ] [ Móðir ei dóttir sinni trúir, dóttir ei móðir sinni lýgur, ekkert þeirra veit hvað þeirra bíður, dóttir ekki getur grátið, harma er það að seigja, að hún vilji nú ekki þegja. Í hönd mína skalt þú taka, ganga skulum við ekki lengra, taka skalt þú mig í sátt, ei skulum við hafa hátt, enda munt þú ekki seigja fátt. Dóttir ei segir neitt, enda móðir-in orðinn of þreytt, dóttir vil ekki hlusta meira, enda harla margt að seigja. ] [ Nafn ég mér á, kallið mig Kjána, en lofið að hætta kalla mig stjána, ég alls engin bjáni er, þó litskrúðugan fána ég ber. ] [ Sama hversu lengi við fáum lifað Það er eitt sem ég hef uppgötvað... Við Þurfum ekki að vera auðug Við þurfum ekki að vera fræg Þetta er allt í kringum okkur... Hvað er það sem heldur okkur sem eitt hvað er það sem er alltaf hjá okkur en segir aldrei neitt? Við vitum að það er þar, en getum ekki gripið þegar tækifæri gefst Fljótlega er það hamingja eða hatur sem í okkur hefst En það sem er mér alltaf í huga efst Mun ég kynnast því sem allir sjá Eignast það sem allir þrá Eitthvað sem allir vilja fá Eða lifi ég villtur? Ég var einn, ég er það enn Ég tek aðeins eitt skref í senn Ótti tók sér festu í mér Ótti við að verða ástfanginn af þér En ég var heimskur, ég barðist og vann Ég særði þig, og er það eina sem ég kann... ] [ hví stendur maðurinn?? svo þögull á svip. þetta er ekki staðurinn, þar sem ég fann þennann grip. Hún svo fögur og rjóð. Hví eru til svona fallegar verur hún er svo saklaus og góð. Samt svo mikil sorg í heiminum, svo mikil völd. svo mikil þjáning og sorg, hvenar varð veröldin svona köld. Menn að búa til líf, aðrir að taka. menn að gera von. Í huga manna ill ráð vaka. Ef til er guð, hvar er hann nú? allt þetta trúar suð. og sumt fólk hefur ekki klú. Ef til er guð? hví tekur hann þau smáu þau saklausu ekki þau illu, fáu? ] [ Enginn hefur öll völd enginn er yfir alla hafður, veröldin samt svo köld. Við hvað er guð tafður? Menn sem ekki skilja að þeir geta ei heiminn fengið aðrir sem djúpt svo vilja allt sem getur ekki gengið. Mann og annar tala saman ást, frið og allt það ljúfa. Æjj hvað það væri gaman. Má segja í heiminn vannti skrúfa. ] [ Í höll sársaukans stend ég miðri. Veggir mynninganna hellast yfir mig. Skuggi myrkurs umlykur mig. Hyldýpi trega og ótta við fætur mér ] [ Þau laumast, þau laumast bæði framhjá mér og leyna því sem þau deila. Á meðan sit ég og bíð, og bíð eftir honum. Hvað skal gera, skal gera í vítisvímu. Skal bíða, bíða eftir því að lífið þjóti framhjá. ] [ Ég man.. er þú komst. Ég man.. er þú brostir. ég man.. að þú varst þú og gerðir það vel. Ég man.. Hvernig gleðin var frá hjarta þínu. Ég man.. eftir tilhlökkuninni þegar þú varst að koma heim til mín. Ég veit.. að þú ert lent á heimavelli himins og líður vel. ] [ Ég hafði kórónu lífsins Í hendi mér augna blik Og sannleikann í hjarta Sem opinberaðist mér í Jesú Kristi Ég fékk að sjá yfir sviðið Og komst að tilraun andans Sá að flestir eru aðeins mold í rósarbeði skaparans. ] [ Ég sá hana ekki koma þessa skyndihugdettu þína um að lífið væri betra án mín en hún minnti mig á hversvegna ég þoli ekki að hugsa um framtíðina hata að hafa skipulagt morgundaginn og á regluna mína um að treysta engum það mikið að hann geti sært mig þegar hann fer Ég býst við að þú sért sáttur þú allavegana talaðir þannig eins og þungu fargi hafði verið af þér létt og það er allt sem skiptir mig einhverju einhverju af viti að minnsta kosti Það er bara eitt við þetta allt saman eitt sem ég reyndi að benda þér pennt á þegar þú vildir ekki hlusta að ég er soldið hrædd, soldið óörugg og soldið lítil núna því ég get gert hvað sem ég vil með mig ] [ Myllusteinn barnæskunnar dregur mig niður í djúpið en ég sporna við fótum Hægt, ofurhægt og varlega klóra ég mig upp mosagróinn brunnvegginn Treð tánum inn í sprungurnar Ljóskeilan færist nær og myllusteinninn léttist Sólargeislarnir kitla mig í nefið er ég klifra yfir kantinn Myllusteinn barnæskunnar horfinn, gleymdur og geymdur en aldrei grafinn ] [ Flöktandi regnbogi Sagar í sundur bjart myrkur Öskrandi þögn vaknar úr dvala frostsins Upphaf alls sem endar Leikandi á rauðum þræði Ávöl himintungl í góðum hljómgæðum Ylvolgur sjórinn fellur. Skáldið situr kyrrt Teningakast lífsins Örlög þess sem elskar ] [ GUÐ Hvað er að heiminum í dag, við fæðumst og deyjum, sumir stytta sér aldur það er þeirra mál, við getum ekkert við því gert ef ekkert að þeim biður um hjálp, hjálpumst að tölum saman, hættum að nöldra og tuða elskum alla og sérstaklega friðinn um jólin, biðjumst fyrir með fátökum og stríðshráu fólki um allan heim, Guð veri með öllum um jólin. AMEN. ] [ Manstu þegar við vorum lítil... Manstu þegar við fundum holuna sem randaflugur komu uppúr? Við þorðum ekki að taka netið burt sem við settum yfir því þær ætluðu að ráðast á okkur. Manstu þegar við lékum okkur að kyssast við hliðina á Grímsagirðingu? Okkur varð illt í maganum af hlátri eftirá. Manstu þegar við brutum fjölina yfir gamla brunninum? Við töldum okkur trú um að einhver hafði dottið niður fyrir löngu og það væri lík þarna. Manstu þegar við pissuðum á plastdúk og sögðum mömmu að þetta væri epladjús? Ég man eftir dúknum en ég man ekki eftir viðbrögðum mömmu. Manstu þegar við stálum blysi úr flugeldabunkanum? Við kveiktum í því niðri í fjöru og það var svo flott að sjá lita kúlurnar deyja í sjónum... En það var sárt að vera rassskelltur þrisvar eftirá. Manstu þegar rotþróin sprakk? Við misskildum fullorðna fólkið og héldum að Jón Páll hefði sprungið þarna oní. Grasið var líks svo grænt undir skítnum. Manstu þegar við hlóðum upp öllu sem við fundum til þess að komast upp á háaloft? Þegar við lyftum upp hleranum var svo dimmt og svo mikið af kóngulóarvefjum að við þorðum ekki upp. Það var líka gat á þakinu. Manstu þegar við bjuggum til göng úr teppum og stólum í stofunni? Fíni vasinn sem við notuðum sem festingu datt niður á gólf og brotnaði. Manstu þegar við tjölduðum út á túni og sváfum úti um nóttina? Við vöknuðum eldsnemma og sáum dalalæðu. Við reyndum að komast inn í hvítu þokuna en hún færðist alltaf í burtu. Ég man eftir þessu öllu. Líka öllu hinu sem gerðist. Sú staðreynd er sem rífur í sorgartaugarnar mínar er að þú gerir það ekki. ] [ Ég vil að þeir taki hólógramískt afrit af mér dansandi í laginu eins og ég Live! Þeir skulu geyma afritið fyrir alla að sjá í flagnandi hvítmáluðu herbergi einhvers staðar í risíbúð Það verður rafknúið af eilífðarvél hlaupandi naggrísir í hringekjutúrbínu sem fjölga sér og deyja á þriggja mánaða fresti Ég vil að allir geti komið og dáðst að mér steppandi ef þeir leggja á sig að finna niðurnítt húsið en risíbúðin verður falin eins og hernaðarleyndarmál meðal þeirra sem heyja orrustu seiglunnar gegn tímabundnu vélvirki Ég vil að fólk roðni við Elvis-hnykk mjaðma minna og skilji af hverju orðið Sköpun er mér tamt en orðið Handverk er mér leitt eins og ótemjutrunta Ég vil að höfuð búkur lappir verði þrenning sönn og ein þversögn svo einföld ef ekki er sagt já! eða nei! heldur einmitt kannski! Ég vil að skiljist af munúðarfullum hreyfingum axlanna og nekt viðbeinanna af hverju ég dansa frístæl en ekki Cha-Cha-Cha eða vínarvals Ég vil að sjáist á tungubroddi mínum sem skýst út um annað munnvikið eins og á einbeittu barni með 1798 stig í Gameboy™ hvers vegna leikur þess smáa en ekki múgskelfdur tangó byltingar skóa Ég vil að sveigar úlnliða minna kringum loftstjörnur kringdar milli bendifingurs og þumals beri mentóri mínum fagurt vitni LeRoy í Fame en ekki Nietzsche í Rope: „It is not what you show, it is what you’re holding back“ Ég vil að sjáist á hárinu sem bylgjast í uppreisn með sitt eigið striptease á skallanum hvers vegna þetta eina taktfasta Núna – er það ekki lengur núna Ég vil að sjáist af augunum frávita af gleði hvers vegna fæturnir stjórnuðust ekki af lífhræddum haus sem kunni ekki fótum sínum forráð nema í lok lagsins á flótta undan fundvísum bjölluhljómi Ég vil að skiljist þegar hjartað dettur úr beati – fólk kiknar, grípur fyrir andlit og kallar: Sjáið, þarna er maður! hvers vegna glimmer og stjörnuryk þyrlast af loftsteini gegnum gufuhvolfið Ég vil að þú skiljir þegar þú snertir textann fingur á ystu nöf sjálfra sín gleiðir og þurfandi eins og þú vildir taka um slagæð... Ég vil að þú skiljir að hjartað úr draugi er minning í líki afrits – dansandi hólógram ] [ hugljúfur draumur þekur lífsins róm vekur vonarglætu fyllir dagsins tóm líf í sálu kviknar drýpur tár á kinn titra hvarma stráin breiðist bros um kinn ] [ drýpur dögg dregur von á tálar dreypir myrkurs veigar deyðir huga minn ] [ snjókornin svífa hægt í draumkenndu mynstri óreglunnar heyja harða orustu við glampandi harðneskju malbiksins eins og á taflborði berjast ólíkir heimar jarðarinnar kuldi gegn hlýju hvítt gegn svörtu enginn sigurvegari nema kannski djöfullinn þegar auðnin hefur yfirráðin ] [ seiðandi hlátur leitaði mig uppi umvafði mig lokkaði mig í átt að þér úr augum þínum skein sigurinn ] [ Þegar ég hugsa um þig læðast tárin fram í augun en halda sér fast í augasteinana vilja ekki sýna sig vilja ekki vera til sýnis þegar ég er ein missa þau takið ] [ Stjörnur geta breyst í tár. Í nótt rann stjarna niður vanga minn stjörnuhrap úr hægra auga stjörnuhrap vegna þín ] [ Rödd mín ómar í huga þér, rödd þín ómar í hjarta mér rödd okkar ómar í vindinum. ] [ Ef heimurinn er í einu faðmlagi faðma ég heiminn á hverjum degi Ef heimurinn er í bláum augum sé ég heiminn á hverjum degi Ef heimurinn er í strákavasa Þá er þar allt á hverjum degi Ef heimurinn er 9 ára strákur þá upplifi ég allt á hverjum degi ] [ Himininn blánar er solin rís gleði landans úr vitjunum gýs syngur vindur, syngur haf eins og nátturan gaf langa fagra tóna ] [ Ljóð mun ég semja þér, hættu þá að bölva mér, ljóð munt þú fá, þú verður þá að skoða og sjá. ekki tuða þrasa og dæsa, saman skulum við semja, í stað þess að bölva og grenja. ] [ Sól! Og geisli úr gullþráðum galsast yfir rúminu mínu. Ég teygi hendur mínar hægt og hikandi fram Ætla að ylja þeim ofurlitla stund. Þá dregur aftur dökkva fyrir sól -dimmt er yfir rúminu mínu. ] [ Í hjartagarði fennt hefur yfir fótspor sem fetuð voru á lífsins braut með þér. Og undir köldum snjó og klaka hulin er kulnuð ást í brjóstlíkneski af mér. ] [ Þú varst stormur sem geisaði um nótt. Þú varst hvirfilbyls hringiðu dans. Þú varst skýfall með ástríðuþrótt. - Þú varst ástin í líkingu manns. ] [ Ljósið hið bjarta snertir vorar sálir Ljóslifandi, birtir til í mínu hjarta Lykillinn að velsældinni Lykillinn að spekinni Lykillinn að viskunni er orð Guðs Og dyrnar opnast ] [ Fannhvíta fönnin og hjarnið harða Fundinn var Jesú og orð hans bjarta Frelsari oss fæddur var, mikilfenglegur Foss lindarinnar var orðinn stórkostlegur Munaðardýrð og meistarans söngvar Magnaðar heitstrengingar Meistarans dygðir Munaðarfriður og miskunnina fagnar Syngdu nú kvæði, og vögguljóð Syngdu nú orðið, og vertu góð Engar syndir, vertu nú hljóð Aðeins fallegar myndir, þau Maria, og Jósef,voru svo fróð ] [ Ég er allt sem þú vilt og allt sem þú vilt ekki. Vek þig með atlotum, svæfi þig með orðum. Sprengi allan skalann í báðar áttir - eldhringur myndast. Marglitir logar, brennandi hugar. ] [ ég þrýsti andlitinu niður í koddann og finn angann af þér leifar kossa þinna hvíla enn á grófu hörundi mínu og ég finn ennþá unaðinn af ofurmjúkum snertingum þínum dísætt bragð þitt varðveitis enn um stund á tungubroddi mínum og hverja nótt heyri ég lág en samfarandi nautnarhljóð þín og reyni að draga þig nær mér skuggarnir af nærveru þinni verða stöðugt ógreinilegri og bráðum gleymist að eitt sinn elskaðir þú mig að eitt sinn elskaði ég þig ] [ Bomburnar falla Tæta allt í sundur Lítið barn, blóðugt Hjúfrar sig upp að látinni móður Frelsi? Allir dauðir Sprengjan hitti húsið Barnið, pabbi, mamma, amma Blóðslettur og viðbjóður Frelsi? 10 þúsund saklaus líf Glötuð í sprengjuregni Limlestar þúsundir hörmungar og hungur Frelsi? ] [ Ég sat með þér og huggaði þig Sagði þér að allt myndi verða í lagi En þú hreyttir bara í mig á móti Og leyfðir mér að þjást með þér Skíthællinn þinn! -Sagði ég við hann í huganum Ekkert mál. Gleymdu þessu bara. -Sagði ég upphátt ] [ Mamma okkar nú 24 desember runnin upp er, þú þínum 59 afmælisdegi fagnar, við börnin 7 saman gleðjumst þér með, á þessum dýrðardegi sem um okkur fer. Snjór á jörðu ný fallinn er, þetta nýja ár er nú að hefjast þér, bíddu bara mamma okkar þetta á allt eftir að fara vel. ] [ Hjá x inu mínu (mín) alltaf endar hjá, svo sterk er sú þrá, að elska hann og geta gist hjá, að eiga hann mig má, því yndislegast er það nú að sjá. ] [ Hér vil ég helst vera en er að fara á taugum vil helst ekkert láta a mér bera vil að fólk láti mig helst vera lifa vil ég mínu lífi fá frið frá þessu liði. til er ég að fara á morgun en á það til að deyfa mig í allt of mikið að sorgum, raunin er þrautinni þyngri að gera eitthvað sem í manni í þyngir. að kvelja sjálfa sig svona er hreint helvíti, sem brennur djúpt í huga mér hvað annað get ég gert sálin hjartað hugurinn er búið að bregðast mér. líf mitt einskins er fyrr en í himna ég kominn er þar sem rólegheitin bíða mín þar mun ég finna langs þráða friðinn friðinn sem guð mun gefa mér. ] [ sama hvað ég horfi á sama hvað ég hlusta á á einn eða annan hátt tengist það ástinni sama hvern ég tala við sama hvert ég fer alltaf leyta allir að því sama samt átta þeir sig aldrei á því þegar þeir finna hana ekki fyrr en hún er farin. ] [ margt skil ég enn fleira skil ég ekki mitt eigið hjarta mun ég aldrei skilja. ] [ Það er á svona dögum sem ég hef svo óskaplega lítið að segja. Hendur mínar enn angandi af salmíaksskotinni sítrónulykt. Skúringaminningin sveimandi um í bakinu. Hálsinn þurr af uppburstuðu ryki. Og loðin tungan fylgist áhugalaus með hugsunum mínum í líki Ajax-stormsveips reyna að taka sig til. ] [ Nóttin gaf mig umvafða norðurljósum stjörnum í tunglinu sofandi draumum sínum ] [ að vörum þínum lá mín leið eitt sumar í paradís frá augum mínum gekkstu sömu leið á endanum ég áttaði mig á okkar leið var aðeins í huga mínum ] [ í gær var íslensk karlmennska jörðuð og dregin sem sauður til slátrunnar alla leiðina í gegnum Ikea það var í ljósadeildinni sem ég kveikti á perunni og við kassann fékk ég að borga fyrir einfeldni mína ég eyddi góðri stund heima við að setja saman stolt mitt og einingar pressaðar ferkantaðar það voru engar leiðbeiningar um leiðina til samsetningar skrúfur og bolta sem gengu af ég fel eins og tilfinningar mínar ] [ þú sagðir; elskumst og lifum saman af tómri ást, en þegar líður á ævina hefur tóm ást ekkert innihald ] [ Tíska Ungfrú Kling, á sviðið gengur 193 á hæð ljóshærð tágrön ung kona í támjóum skóm silkibleikum undirfötum um-vafinn ljósmyndurum og öðru tísku fólki Tíska nahhhhhhhhhhhhh, flehhhhhhh flahhhhhh, blehhhhhhh, blahhhhhhhh. ] [ Fiðringurinn læðist um mig, fer um æðar mínar. Endar á dimmum stað, hún orgar eftir snertingu. Ég læt undann, læði hendinni til hennar. Loka augunum, sé þig liggja hér. Mjúkar strokurnar byrja, hugurinn tekur flug til þín. Hún er heit og mjúk, orðin svolítið þrútin. Hendin heldur áfram, í taktföstum hreyfingum. Hún spennist öll upp, ég titra af ánægju. Leggst niður og hugsa.. hvernig ferðu að þessu? ] [ Hatur, reiði, viðurstyggð! Ást, hamingja, aðdáun! Hver og ein tilfinning flæðir um mig er ég sé þig. Ég brosi í gegnum tárin, neyði mig til þess. Ég skil ekki þetta ástand, milli ótta og hamingju. Ég horfi í augu hans, af óttablandinni virðingu. Gæsahúð læðist um líkama minn, og hugurinn fer á flug. Er ást okkar byggð á ótta, ótta við einveruna, ótta við höfnun, hræðslu við lífið. Ég vil ekki vera hrædd lengur, hvað um þig? ] [ Vegna hans, brosi ég. Vegna hennar, dansar sál mín. Vegna þín, kippist hjarta mitt til. Án þeirra, get ég lifað. Án þín, er veröldin glötuð. ] [ Hlauptu og sigraði heiminn, í einum hvelli. Brostu og sigraðu mig, og hjarta mitt. Talaðu og sigraðu hug minn, og sál mína. Hvað sem þú gerir í lífinu, gerðu það með sigri! ] [ Rónar á götu úti standa hrollur um þá fer blóð streymir um líkamann þeirra þeir standa hvar sem er ] [ Love is when you touch me, Love is when you care, Love is when you kiss me, Love is when you stop and stair. Love is something you can not handle Love is when you light some candles Love is when ones kiss will live you in the bliss. Love is in the flowers, Love is in the showers. Love is in the bed, And love can hit you in the head. Love is in truth Love is in you, Love is in happiness Love is, I have no clue. ] [ Ég er ekki hrædd við þig. Heldur smeyk við ímyndina af þér, ímyndina um þig og mig, og tilfinninguna að hafa þig hér. Ég er smeyk við að elska þig, og kannski verið elskuð. Kannski er ég skrítin, en það veit bara Guð. Ég er smeyk við þetta stóra, litla, sem mun kannski hjarta mitt fylla. Þá mun ég af þér dást, af kærleika og ást. Ég er smeyk við ástina, Eða kannski hrædd? En stundum á kvöldin er ég tárunum mædd, Því þú ert ekki hér. Hér, hjá mér. ] [ Ég vil svo mikið vera með þér Knúsa þig og kyssa, hafa þig hér. Það er erfitt fyrir mig að segja þessi orð, En ef ég geri það ekki veit ég að það leiðir það mig í ástarsorg. Þessi þrjú litlu orð sem komast ekki út, vil ég deila með þér, en maginn fer í hnút. Þú hefur sagt þau svo oft En ég aðeins á þig horft. en ekkert til þín sagt, Nema eitt orð..”takk”. Þú veist ekki hvað mér þykir vænt um þig Þú veist ekki að þú ert mér svo margt Þú veist ekki það mikið um mig Þú veist ekki að þú ert mér allt. En það er svo erfitt að segja, þessi þrjú litlu orð. En það er líka svo erfitt að þegja, og ég set þau núna upp á borð. Ég elska þig! ] [ Hvar sem þar væri, vorum við bæði. þar var mikið næði, Og okkur skorti ekki hugmyndarflæði. Þú tókst það tækifæri. Og tókst klæði, burt af læri. Var það kvöld svo mikið gæði, Að ég öskraði að miklu æði. Þó við ei vildum því ráða, Þá vorum við alveg að fá það. Sprautaðist þá mikið sæði, Fyrirgefðu, þó um það ég ræði. Út, inn, upp og niður. Eftir smá tíma, hvíldi loks friður, Það var ekkert meira, ég lofa! Því við fórum næst að sofa. ] [ Allt baðað sólskini. Fólk á göngu. Fjölskyldur í göngutúrum. Eldra par með vinkonu, hann með hatt hún með slæðu, hin með kollu. Par í bríma tekur heilan bekk. Allt baðað sólskini. Nefin snúa að geislunum. Sum köld og eitt á eiginkonu. Hendur í vösum. Hendur í lófum. Vettlingar á sumum. Kræktir armar. Allt baðað sólskini. Önd í kafi. Endur að synda. Sjófuglar frekjast. Svanir ekki komnir. Smáfuglar tísta. Allir eru fuglar. Allt baðað sólskini. Glerhöllin. Glerhöllin sem gullhús. Glerhöllin sem geislahús. Glerhöllin er lokuð fram í maí. Glerhöll úr kjólamynd. Glerhöllin óraunveruleg, samt hér. Allt baðað sólskini. Par í bríma sem og annað. Kræktir armar sem og annað. Allir fuglar sem og annað. Óraunveruleg höllin sem og annað. Vonirnar sem og annað. Við sem og annað. ] [ Sólin mænir á mig, hiti um mig vefur, ég er heit, ég vil kalt, ég vil bráðna. ] [ Ég er ekki lengur ég sjálf. Ég leitaði en ég var ekki! Ég hef týnt sjálfri mér í tómleika tilveru minnar. Ég er ekkert. ] [ Why can\'t I be like the other girls? Why won\'t kids play with me? Why are they always teasing me? Why can\'t sadness let me be? Why am I so fat and ugly? Why can\'t mom just stop and hug me? Why is my sister always so mad? Did I do some thing wrong? Am I bad? Why is mommy some times sad? What did I do that is so bad? I don\'t understand What did I do? Did I do some thing to you? Why do I always feel so low? Why do I watch T.V. all day long? Why do I eat to ease my sorrow? Where the hell do I belong? ] [ Þetta er saga um buxurnar mínar, þær eru bæði sætar og fínar. Ætíð er \"hnakki\" sem þær ber, eru þær þröngar og fara mér vel. ] [ Þú kemur til mín ósköp hægt og hljótt er húmið dökka sest um sefa minn. Í hjarta mér þá helköld ríkir nótt en heit mín tár sem falla á fölva kinn. Þá lýsa mér þín augu blíð og blá. Svo björt og hrein þar skín mér ástin þín. Sem glæðir aftur gleymda von og þrá. Þú göfga litla hjartans kisan mín. ] [ Illt var orðið um þau sem bjuggu upp til fjalla þar var vetrar snjórinn tær og hreinn kemur þegar jólin koma jólasveinar 1 og 8 koma þegar börnin fara að hátta Með í för var köttur stór bröndóttur var hann þó niðkvæði er ort um hana Branda hét hún einnig þó. ] [ Yfir heimi er hjarn Húmnótt á vegi Systir dagsins Fer yfir foldið á renniskeiði Gjafirnar bíða í heima húsum. Lágt hundargá heyrist úti. Á lágnætti kemur stúfur og sinnir kvöð sinni sveininn sá uppi í norðurljósa skýjunum bíður dagurinn. ] [ Í Græðinu finn ég fyrir mestu flæðinu Því ligg ég sjúgandi á sárinu. Og þegar ég er í því fárinu græðandi gleði græt ég tárinu. Og þú mig rífur af á hárinu. Farvel ég finn mér annað sár á árinu! ] [ Ég strauk í gegnum hár þitt Gældi við mjúkan barminn Horfði í þessi djúpu augu kyssti heitar varirnar En þá vaknaði ég af draumnum ] [ Varla búinn að finna minn stað þegar ég kom til þín þú gafst mér laufabrauð hlýjan og lyktin og stjörnurnar þú gafst mér laufabrauð gluggatjöldin bærðust ekki það var logn ég hafði dottið um gangstéttahellu og blóð þú gafst mér laufabrauð takk fyrir að hleypa mér inn og bjarga mér gefa mér laufabrauð ] [ Líður að kveldi, og nóttin gægist inn. Best að fara skreyta, litla bæinn sinn. Það líður senn að jólum, börnin leika sér. Úti í snjó og inni hjá mér, gaman er með þér. Leitt er að kveðja þig, ég óska þér gleðilegra jóla. Sjáumst seinna eftir jól, Vonandi fæ ég hjól. ] [ Börnin best og smá, fara úr sínu bóli. Allir eru að fara út, að renna sér á sleða. Það verður glaumur,gaman, syngja kvæðið um Grýlu í gala hellinum. Það er mikið og mart að gera, vilija fá matinn strax. ] [ Ljóð frá mínu hjarta, laglína frá þinni sál og við þurfum engan takt því hugar okkar eru samstilltir. ] [ Ég kyssti rauða rós með lokkandi angan sem ein blómstraði og dafnaði innan um frostrósirnar á köldum vetrardegi. ] [ Saga,stærðfræði,lestur og skrift, við leirum hér inni. Öllum er það allra best að læra og taka eftir, ungum leikur allra best að læra,læra og læra, Við fáum eitthvað fyrir það, sem við tökum ekki eftir. það er orku og mátt til að lifa. ] [ hvert fór máninn fölur og fár er hann hafði handsalað samning - og hulið augu stjarnanna hvíta duftið er runnið í ræsið og himnarnir hærugráir hella sér yfir stræti og torg en eitthvað er óljóst og illskuorð fjúka er yfirvöld deila við drottin sinn var glansskolun gulltryggð - og skítvörnin skilyrt í alþrifaútboði engla hans um jólin ? ] [ Ég og hún erum bestar, engin annar en ég og hún, ég og hún leikum okkur, sitjum saman,lærum saman,lesum saman, við skemmtum okkur. ] [ Bitur morguninn var hlýr, blákaldur himininn skýr. Dansandi fuglar á stjá, dagurinn var sem nýr. Jökulinn glansaði á, jafnframt í sólina sá. Myrkur kom sem skyldi, morguninn enginn vildi. vindurinn illa lét, var sem mikil mildi. Eins og biskupinn góði hét, er himininn ömmu grét. ] [ Jökullinn fagri glansar, fuglar í skóginum rísa. tunglið við hafið dansar, stjörnurnar himininn lýsa. ] [ hjartslátturinn mikill er, Í mínu hjarta geimi þig hér. því þetta er sá öruggasti staður, fyrir menn eins og þig. Ekki efast um að ég fari burt, upp til guðs og ofan í jörð, Mundu bara hve betra er að fara, Farðu strax ekki svara, Því oftar sem ég sé þig, því hjartað fer hraðar. Mundu það sem sagði ég áður, Betra er að fara en svara. kvíddu engu ég kveð þig nú, mundu bara að líta í spegil, Því þar ert þú. ] [ 23.febrúar. Gerðist fögursjón, Lítil stúlka fæddist þá, efast um sorgir því þá var kátt. Faðir þessara litlu stúlku. fallegur sem himnaríki. lagði það í heilagt rúm, svo hvíld það fengi nú. Móðirin kát og glöð, yfir því sem gerðis hér um nótt. liggur og lætur sig dreyma, um fallega mjöll. Systir kær og blíð. Læddist að henni og kisti á kinn, Með tár í augu horði hún á, Því hún var svo glöð, Fyrir góða afmælisgjöf. Bróðir sæll og brosandi. Fékk að taka á móti þeim, þegar allir komu heim. Það var kátt í þessu húsi, og mikið var drukkið af djúsi. ] [ Ljónið öskrar,slær,froðufellir, verður brjálaðra en nokkru sinni fyrr, beitir öllum sínum kröftum, hendir hlutum, ógnar,slær í allar áttir,meiðir, allt verður brjálað.. þangað til það loksins fær sitt og sest fyrir framan sjónvarpið og HLÆR! ég er hrædd við ljónið. Hin dýrin eru líka skelfingu lostin. Hvenær fær Ljónið nóg :( ] [ mærðu þinn vilja lærðu að skilja megnaðu mikils á orð hafðu gát stýr öruggur bát á lífsins sjó sýn lífsglaða lund sem létta mun fund þinna samferðamanna gefðu þín gnótt birtu upp nótt með gleði í hjarta lífi skalt unna að meta og kunna þér lærast mun fljótt mín orð lærð\'að meta og gott af þér geta minn ástkæri son ] [ Fyrir um nokkrum árum sat ég og beið þín, með nokkrar rauðar rósir í hendinni,ég sat við veginn og bað til guðs,ekki komst þú,ég bíð þín enn. ] [ Ljós í þínu hjarta Skín kærleikanum bjarta Þú geislar eins og sól frjáls með enga ól Guð hefur tekið þig í sínar hendur með sjálfri þér þú stendur þú ert með blómakrans stígur ástardans fyrr en varir ertu eiginkona hans þessa elskulega manns Sem elskar þig af öllu hjarta lyftir þér upp og skartar veitir þér allskyns krafta sem þú vissir ekki af en guð þér gaf þetta verður enginn vandi því út lífið rikir ykkar á milli sannur ástarandi þú sérð lífið í nýju ljósi og kemur ekki til með að búa í neinu fjósi gott líf þið saman kjósið og hvort öðru hrósið börn þið eignist saman oh ef þú bara vissir hvað allt verður gaman þú kæmir og mig kysstir mín kæra systir ] [ Guð blessi þig dag og nótt það sem eftir er Sannleikurinn er í hjarta þér ] [ Ég hef aldrei reynt að þroska mig en samt þroskast ég, eins og ávöxtur. Það er ekki gott að verða of þroskaður. ] [ Á þingi þurrkuntur sitja. Þrefa um leiðindamál. Níðast á þjóðinni og nytja, náttúru landsins og sál. ] [ Regína, ég elska þig svo mikið Þú tókst hjarta mitt og blést af því rykið Án þín, ég er ekki sá sem ég er Ég er fullkomnaður þegar ég er með þér Núna er ég aðeins hálfur þess sem mér vera ber Geturu nú loksins trúað mínum orðum Getur allt orðið líkt og forðum Eða var mig að dreyma En hvað það var, bið ég þig....Aldrei gleyma ] [ Hvað er dýpra en systkina ást, Hún gerir þér erfiðara að þjást, Öll erfiði verða auðveldari, Áhvörðun þín verður skarpari. Þið gefið mér ástæðu fyrir að lifa, Því tíminn hratt hann tifar. Ég get aldrei lýst ást minni til ykkar, En þetta er hún sem þetta skrifar. Oft hefur mig brostið tár, En þið græðið alltaf öll mín sár. Hver þarf peninga og völd, Þegar ástin verður aldrei köld. ] [ \'en orðstír deyr aldregi, hveim er sér góðan getur.\' Hún lá endilöng á gangstéttinni í Bankastræti og skrifaði nafnið sitt á grasið við götukantinn. Hún skrifaði með rauðu bleki svo nafnið væri vel sjáanlegt á grænu grasinu. Hún var ekki í neinum fötum en hafði vafið gamalli sæng utan um sig til þess að hylja nekt sína. Hún var hálfhrædd um að einhver myndi amast við henni, þar sem hún lá á maganum þvert yfir gangveginn, eða saka hana um að fremja skemmdarverk með því að pára svona á grasið. En fólkið virtist ekki taka eftir henni, heldur steig hiklaust ofan á hana á hraðferð sinnni upp eða niður götuna Hana var farið að verkja í bakið af því að vera svona fótum troðin en lét sig hafa það. Hún vissi sem var að hún varð að gera allt fyrir nafnið. Þegar hún hafði lokið við að skrifa hálfa leið frá kvennaklósettinu niður að Lækjargötu tók hún sér smáhvíld og kveikti sér í sígarettu. Hún saug áfergjulega að sér reykinn og leit yfir verk sitt. Við augum hennar blasti kraftaverk og henni varð ljóst að Guð hafði stýrt hendi hennar, því á hverjum þeim stað sem hún hafði skrifað nafnið sitt uxu nú rauðar rósir. Hún drap í sígarettunni og fleygði henni umhugsunarlaust í göturæsið. Svo hélt hún áfram að skrifa. En nú þurfti hún að skrifa mun hraðar en áður því sólin var horfin, dökkir kólgubakkar voru að hrannast upp á himninum og það leit út fyrir rigningu. Hún varð að ljúka verkinu áður en það byrjaði að rigna því líklega myndi gamla sængin sem hún notaði sem yfirhöfn gegnblotna ef það kæmi væta á hana. Að lokum skrifaði hún síðasta stafinn. Verkið var fullkomnað og hún lagði frá sér pennann sigrihrósandi. En þar sem hún sat þarna var hún skyndilega lostin skelfilegri hugsun, sem fyllti hana smátt og smátt nagandi óvissu. Hún hafði ekki hugmynd um hvort rauða blekið sem hún hafði skrifað með væri vatnsekta. ] [ stórt Gat í hjarta mér, gat hann ekki mér svarað, hvað hef ég gert til að verðskulda þessa stóru rifu í hjarta mér, ég verðskulda hana ekki,ég vil ást ég þarfnast ástar þinnar,vil að hún fylli gatið í hjarta mér að eilífu. ] [ Fann HANN manninn sem ég ANN !!! ] [ Frá Hlíðarenda Þorgrímur þaut og þóttist ekki sjá, hvort Gunnar væri genginn á braut en geirinn var að fá september 2004 ] [ Hnefar flúgja, hendur skaða, heilinn ekki sáttur. segist heldur vilja vaða, vaknar þá hans máttur. september 2004 ] [ Hálsinn grípa klaufskar klær kassinn ómar víða frammi kallar fimbul mær fær hún tón að líða oktober 2004 ] [ Gottlieb und Uta, treffen in Utah Gottlieb und Uta, heiraten in Utha Gottlieb und Uta, leben in Utah Gottlieb und Uta, sterben in Utah Sturla Óskarsson og Mangús Egg oktober 2004 ] [ Nú er sortnar sólin, sjá sigrað hefur Runninn verðum bara\' að bíða smá brátt er heimur brunninn November 2004 ] [ Koma öllu út úr mér á ég erfitt með, að trúa öllu aflraun er því sem hefur skeð en unað gaf það yndis kel eftir þessa bið, það var allt þegið vel þótt meiru mætti við ] [ Ég yrki ljóð um afa minn, Oddur hét sá gamli. Hann var alltaf mér vænn og góður, aldrei ég fór frá honum, Tómhent í senn. Mikil sorg ríkti þar í bæ, þegar hann steig upp til himna. Nú veit ég að hann er alltaf hjá mér. Gráttu ei og hugsaðu um. Góðu stundirnar sem þú og hann, áttu saman. Leiddi hann hverst sem er, og hann mun vera hjá þér. ] [ þú skilur ekki þú skilur alls ekki, ég er bara svona, ég tala bara svona, ég get ekki verið öðruvísi, ég vil ekki vera einhver annar en ég er, ég er bara ég, og vil bara vera ég. ] [ Á veggnum er óðfluga sem situr og hlustar á samræður hinna háttsettu sem fluga á vegg. Óðflugan flýgur um og skrifar langan ástaróð um aðra óðflugu sem er græn að lit. Í ástaróðnum er ýmislegt og þar er að finna margar játningar en engan ósóma, ósómi er fyrir neðan virðingu óðflugna. Heimsendir nálgast óðfluga og óðflugurnar munu brátt missa kraft sinn vegna alls hatursins í heiminum. Við álfarnir ættum einnig að gerast óðflugur og njóta lífsins í ástinni og skrifa ástaróði um óðflugur. Allur heimurinn ætti að vera grænn. ] [ kaldur vindur á mig blæs enda ég á glugga frosin og hvít blómstra köld að innan brosi frosnu brosi. ] [ flugeldar hvern dag litríkir fá að springa springa að innan springa nú verða þeir sýnilegri sprengja burt horfnar minningar liðið ár springa að utan springa líst mér best á hina einu sönnu ljósadýrð norðurljósa dansinn svífandi um himinhvolfið fallegri en hver flugeldur aldrei þau springa. ] [ Einn ég er með sjálfum mér enginn kemur til mín. Hugsanirnar duga einar sér með mér. Best bara að vera einn með sjálfum mér. Hvað annað? Ég ER einn með, sjálfum mér. ] [ það mæddur maður nemur og má því enginn gleyma: að kúkur fyrir kemur er klaufar úti sveima ] [ Maðurinn á hjólinu kom eftir götunni. Hann horfði hvorki til hægri né vinstri en þaut framhjá með flagsandi frakkann. Hann hefur greinilega tilgang, sagði maðurinn á bekknum í garðinum og tók sígarettuna út úr sér um leið og hann horfði á eftir honum. ] [ Sólin varpar gullnu skini sínu á silfurglitrandi snjó á nesi Bjarmi er tvíofinn í djúpri gagnsærri nepju og bros manna litast rósbleik Dagurinn, Guðsgjöf, sættist við hundrað dimma daga ] [ Stundum sé ég endalokin fyrir mér nálgast hægfara. Ég gæti gert þetta og ég gæti gert hitt. En ég geri það ekki. ] [ Vissara er að nýta tímann vel og njóta lífsins til fulls. Því hvað sem öðru líður líður tíminn. ] [ Lítill strákur með skóflu labbar í áttina til mín og allt í einu dettur mér í hug: Gamli maðurinn með stafinn. Munurinn á þeim er varla meiri en svona áttatíu ár, sem varla telst mikið miðað við aldur himintungla. Lífið. Hvað er lífið annað en reynsla? Hvað verður um þá reynslu sem manneskjan öðlast? Ég spyr, því það eina sem skilur þessa tvo að, er reynslan. ] [ Tvö lítil hvolpa augu, eitt stórt rautt hjarta, ein lítil græn sál, eitt rauðlitað lítið bros, eitt skærblátt tár niður vangann, vilja seigja HÆ. ] [ I made my first step, because of you I took my first breath, because you told me to I helt your hand, because it was warm I loved you, because it was right I went through pain for you, because it seemed worth I bothered living, was it worth?... ] [ My hand is shaking, I\'m trying to write Something\'s in my heart I have to make right You\'ve been lost for six months, and I don\'t expect you to call They say you\'re in drugs, but I don\'t want to believe it at all But as horrible it may sound, it\'s true And that\'s the reason why I lost you If you could just been smarter and go my way We might be still together this day... I hate myself because of you, you make me sad Alive or dead? It\'s simple as that... ] [ Spurning hvort maður þjálfi aðeins sinn innri mann á kortersfresti? Það er allavegana hægt að reyna... Svo gekkk hann út. Ég horfi á eftir honum með svívirtan spilastokk í höndunum. Klökkir eru karlarnir, herfa, þú kynnist þessu brátt unga mey. Inní myrkrið þeir endlaust hverfa, og enginn af þeim snýr aftur, nei. Spurning hvort þú grafur þér ekki bara dýpri holu í hvert skifti? Skíst framhjá Jón á hjólinu... Hann tekur ekki eftir því. Svo ég dreg djúft andan, teygji mig aftur og hlæ. Lætur á sér lítið bera, lifir í eigin heimi. Það er ekkert hægt að gera, ef að Marían er á sveimi. Spurning hvort þú getir ekki lánað mér samviskuna þína á morgun? Ég lofa að reyna mitt besta... Og kvaddi með látum. Tek af mér húfuna og gríp í endan á því og hugsa: Ég væri allveg til í að lifa. ] [ Tíminn dansar tangó uppá grín, tómlegt húsið stendur autt. Meðan ekkjan syrgir börnin sín, silfrað tunglið verður rautt. Vindurinn veinar svo hátt að mig sker, veltur á sjónum dugga. Gleymir að gá eftir sjálfri sér, sefur við galopinn glugga. Himnarnir brenna við hafsins enda, heltekur mig sú sín. Löngu kominn tími til að lenda, leyfi mér að gera af því grín. Nafar milli Hana og Hænu, held ég uppá Gónhólinn. Loksins ég reis þó með litla rænu, reyni að lifa fram á jólin. Dagur dettur og nóttin rís, dimmt er yfir þar syðra. Bræður berjast á landi íss, blákallt þeir hvorn annan myrða. ] [ Þú ert falleg, með heila í lagi og svo ertu lagleg. Þú ert skrítin, stundum getur veröldin verið ítin. Þú ert dóni, í dag ertu dóni en í gær varstu fáguð. Spáið í framtíð vorar bjartsýnu þjóðar. Þú ert lamin, og í kjölfar þess er sálin þí kramin. Þú ert kelling, krumpuð og ljót eins og fitufelling. Þú ert grátin, aldrei fullnægð og farinn er dátinn. Spáið í framtíð vorar bjartsýnu þjóðar. Þú ert fíkill, fyrir öðrum ertu götunnar sýkill. Þú ert hóra, froðufellandi gleður bankastjóra. Þú ert staur, en fyrir stjórana þú færð magran aur. Spáði í framtíð vorar bjartsýnu þjóðar, svo var því hætt... ] [ Kuldaleg konas sem situr á bekk, kramin á sál og á hjarta. Reynir mest megnis að vera geðþekk, meðan ríkisbubbarnir kvarta. Talar um allt milli himna og helju, hvort við mig eða þig eða aðra. Og þó þú rífir kjaft og kallir hana belju, þá hættir hún samt ekki að blaðra. Hún veit hluti sem fáir vita, hefur frætt mann um annað og eitt. Sagt agnarsögur og veit öðrum hita, en aldrei fengið fyrir það greitt. Það þykjist enginn þekkja hana, þegar hún kastar á fólkið hæ. En þegar sakna fer það sagnanna, þá skíst það til hennar niður í bæ. Hún dvelur þarna alla daga, dásamlegt er hennar gagn. Og sjaldan verður þreytt sú saga, er segist hún taka næsta vagn. ] [ It wasn´t me, it wasn´t you. Who else could there be, exept for us two? Who is playing this game? I couldn´t care less. Who is there to blame, who is there to bles. ] [ Halla nú höfði og kveinka mér mjög, horfinn er lífs míns kraftur. Sver nú við dáta og drengi þau lög, að drekka aldrei neitt aftur. ] [ Ég sé allt Og ég get allt Já bara ef ég vil það Ef ég stend mig vel Og vinn í því Og gengur mér þá vel Ég sé allt gott en hugsa ekki Um vont Ég vil geta og geta allt þótt svo vinni Ég ekki allt Sama hvernig og sama þá Hvernig gengur mun ég aldrei víkja frá Því að lifið er mér allt Sama hvað gengur á Sýndu ljós Sýndu dug Sýndu allt sem þér dettu í hug Segðu bara eitthvað gott En ekki bara það sem er flott Ég vil gleðjast og það get ég Ef ég vil það og ef ég trúi á mig Ég er ánægð með allt en hvað Þýðir allt í huga mér ? En ef dimmir og er dökkt Illa fer Ef ég vinn ekki með mér Hvað gerist fer ég heim Fer ég að gráta Verð ég þá alein ? ] [ Að stundu erum við skilin sem silfruð næturdöggin er kveður rósarblað í birtingu morgunsólar, og hverfum inn í eilífðina með dansandi iðuköstum deyjandi norðurljósa. ] [ I\'m looking out the window, all the hate I see Everybody\'s gathered to follow me And I cry inside, I cry for every soul that lives In this mad world no one forgives People standing all around, angry and waiting for my death I fight for every last needing breath I stand alone, the world is on my shoulders. My own bleeding arrow, my heart is betrayed and sorrow If I close my eyes, will there be any tomorrow As I fall down on a dying hand Death for all people and dying land All I see, is pain and hate As they say, for everyone, already been decided fate For my dying love, I shall rise up and take you away As the hatred world, on their knees, and pray. ] [ Áramóta heitin mín, Ég heiti því fyrir Guð. Þetta fyrsta áramóta heiti mitt. Er að standa mig vel í skólanum. Læra of sitja á hólunum. Þetta annað áramóta heiti mitt. Er að safna fyrir sumarbúðunum. og vera ekki nálagt lúðunum. Ég heiti Guði fyrir þessi heit. Og horfi á kindur á beit. ] [ Nú er árið 2004 brunnið upp og kemur ekki aftur nema í hugann á mér nokkrum árum seinna sem minning. ] [ Á meðan borgarbúar fögnuðu nýju ári með flugeldaskothríð um miðnættið tókst þú inn nokkrar svefntöflur, lagðist upp í rúm og breiddir yfir þig dúnmjúku sænginni sem þú fékkst um jólin, slökktir á náttlampanum og myrkrið kyssti þig og faðmaði þig að sér í síðasta sinn. ] [ Í takti hljómfalls líkamar mætast tunga í tungu varirnar vætast eitt augnablik verða orð eins og ljóð sem ég greypi í hugann og geymi sem fjársjóð minningar mætar ég ætíð mun geyma þessari nótt ég aldrei mun gleyma það var sem jörðin stæði í stað ég vildi margt segja þótt ég gæti ekki sagt það en minningar mætar... ] [ Rafmagns kossar Kinn ei hitta Vildi óska Ærir væru Kossarnir er Koma hingað Sendir eru Síman minn í 03/01/2005 ] [ Bjargaðir mér um einveru. Það bankar enginn uppá, dettur enginn inn, hvað get ég ekki gert! ] [ Að fæðast var að komast úr einsemd móðurkviðar finna öryggi handanna er þær báru mig að brjóstinu að fæðast er svo sveiti míns andlits að metta magann þar til ég dey. ] [ Í nútímanum er allt svo lifandi. Ég gleymi stundum að Elvis er dáinn, þegar hann syngur mér inn að beini. Hinum lifandi dánu fjölgar á hverjum degi. Hér sit ég og horfi og hlusta á ungt fólk sem er gamalt og ungt fólk sem er löngu dáið. Mun ég deyja alveg? ] [ Hann sigldi sínu fleyi um sjóveðrasund í stórsjó og hvínandi roki. Samt var hann alltaf með ofsann í lund alinn í fátæktaroki. Harður í horn sögðu hans samtíðarmenn á svipinn þó blíður en kænn. Í rimmum hann reiddist og var þá í senn rætinn en í viðmóti vænn. Við komur í höfn varð oft hrakningasamt hnútar við drykkjur og skál. Blossaði heiftin ef bruggöl var rammt brenndi hann mannlega sál. Aldurinn mildaði og mýkti hans hug meyrt verður mannanna þel. Með árunum einmana og vísað á bug í ellinni læstur í skel. ] [ Bómull minni mig alltaf á þræla, þræla sem eru látnir strita, í blóði sínu og svita, á bómullarökrunum. Svartir, sterkir líkamar þeirra pyntaðir undir steikjandi sól suðurríkjanna. Þeir unnu til að uppfylla óskir hvítra húsbónda. Óskir um líf í lysisemdum ríkidæmis síns og þægilegheit í svita annarra, húsbónda sem var gjörsamlega sama um öll lífin og ungar sálirnar sem þeir voru að eyðileggja. Þegar ég nota bómull til að fjarlægja farða af hvítu andliti mínu og naglalakk af löngum, fíngerðum fingrum mér ljær það mér samviskubit og ég skammast mín. Ég fæ samviskubit yfir að vera hvít og lifa í lúxus hins vestræna heims og ég skammast mín fyrir hvíta forfeður, sem voru ekki einu sinni mínir eigin. ] [ You. Your voice, wish I had. Across the distance and the sea It comes to me. You. Your laugh, can tell it\'s there. Across the distance and the sea It comes to me. You. Your warmth, think I\'m scared. Across the distance and the sea You\'re loving me. ] [ Ég kann ágætlega við dauðann hann er sá eini sem ég hef kynnst hingað til sem engan hefur svikið ] [ Í haustgulu kvöldskini gengu elskendurnir að fossinum. \'Komdu\', sagð´ann og stökk út á stein í miðri ólgandi ánni. \'Komdu\', sagð´ann aftur - biðjandi og rétti út höndina. Hann stendur enn - einn á hálum steini. Svellbólstruð áin. Fossinn í fjötrum - ísköldum fjötrum. ] [ þú liggur lömuð Andlit þitt er klesst við gólfið í þínum eigin blóðpolli, nakin ertu þarna ein, jafn vonlaus og hungursneytt barn í afríku bíður þú eftir riddara þínum til að koma og ríða þér í rassgat með haglabyssu og hleypa af, bíður þess að þarmarnir í þér dreifist um í maganum á þér sundurtættir Bíður sársaukans sem þú fannst þegar þér var riðið fyrst blaut af legblóði eingöngu óþægileg þægindi ] [ Sometimes I forget, Forget my pain, forget my sorrow, Sometimes I forget there is tomorrow, I forget time, and place, Float on air in time and space. My memories are just a haze. So I think about the present, I think about the peace, Will someone just save me, please? And as I’m floating on free air, I scream and yell, in quite despair. Don’t know what will happen now, Will I ever get back down? Someone will probably think its fair, But it’s too much for me to bear. So I loose my grip and fall to the ground I fall and I fall forever it seems, I finally come down, and I fell to my death, Would they laugh? Would they cry? Would they even notice I died? Earth to earth, and dust to dust. Now I lie here, beneath the ground, To warm me, only the dirt, Thinking: I finally got out, From the pain, and the sorrow, And now, there is no tomorrow. Here, only peace and quiet, And I said to myself as there I lay, Here I will stay, Forever, and have nothing to pay. ] [ Stundum bið ég þess að einhver komi og brjóti mig í þúsund mola. Pússli mér svo saman, svo ég geti byrjað aftur. ] [ All of the sudden, All of my memories, And my ugly past, Comes flushing over me. In one fast flashback, I see my whole past, Passing by, In front of me. I want to help her, I really do, I want it so bad, But only to see her face, It makes me sad. I see her crying, And she’s screaming for help, But no one will ever even try, And that’s why, I cry. I try to run over to her, But don’t want to come to close, I just stood there, looked at her, And my body just froze. Couldn’t do anything, I couldn’t move, I couldn’t stand, This is a feeling, and it’s a quite new brand. To me, a feeling, That is really something new, And it’s not so appealing, From my heart, all emotions, is stealing. I want to run to her, Tell the kids to go away, Tell her it’s ok, Then I look around, and where are they? I stand up, And I run as fast as I can, But it still was too late, Oh how fast I ran. Sleeping beauty, Lying on the ground, Move less, Wide open eyes, big and round. I see no movement, And I hear no sound, Only a puddle of blood, That begins to grow. Tears fill my eyes, And the hater begins to grow, How can these damn kids, Lay so low? ] [ ég elska þegar ég er með þér. þegar þú stingur uppá einhverju rómantísku. þegar þú biður mig að koma til þín. þegar þú kemur mér til að brosa. þegar þú brosir útaf mér. þegar þú segir að eitthvað minni þig á mig. þegar eitthvað minnir mig á þig þegar þú heldur utan um mig. þegar þú strýkur mér. þegar þú segir að ég sé sæt. þegar þú segist sakna mín. þegar þú kyssir mig. ég elska þig? ] [ Oh brother dearest, I love you so. This motion is the clearest. Don\'t you ever go. Oh brother dearest Life has always been mad whatever you do, I will always love you, even though your heart is sad. Oh brother dearest, from me you went. I cried, but tearless, and to you, a sad song I sent. Oh brother dearest, why did you leave? I know, life is the meanest, but why did you have to go away from me? ] [ Lost and alone again, in this reoccuring dream. Crying alone - again, all I can do is scream. Stuck in pain and I weep, remembering all I have loved. Awake and I only seek sleep, to forget all I have lost. ] [ eyddu ekki laufsins blaði í þarflaust ljóð ] [ Í skúmaskoti hugans þar sem hafmeyja hugsana minna syndir áhyggjulaus liggur veiðimaður efans vopnaður skoti í myrkri. ] [ Come close, and feel my breath Kiss, upon her dream, and a silent death On my dying body, my soul has faded away Crying spirit, has left us today.... For my dark angel, I swept away from this earth For all evil, she is having a birth I\'m the son of an angel, the angel is mine For dying hope, for it will never shine As I open up my eyes, only shadow in my heart Dark Angel of mine, why have you put death upon dart As I look around, everything is cold What have I done, this is my own fault.... ] [ Um ævi mína hefi ég málað vatnslitamyndir á hverja örkina á fætur annarri. Brátt mun ég mála síðustu örkina með miklu vatni og smá litaskvettum hér og þar. Hún mun verða kölluð örkin hans Nóa. . ] [ Tómleiki ljósastauranna Gerir sitt besta í því að lýsa gráan morguninn upp Mengunar mökkurinnn er buinn að kæfa fegurðina úr Reykjarvik og fólkið þykist fágað í ljóma afganganna ] [ Augu mín bera ástarblika þinn og gleði þín ber gleði mína hljómur orða þinna ber tilfiningar mínar og ást þín til mín ber lífskraft minn ] [ Hann hvarf hljóðlega inn í sjálfan sig og afsökunin í andvarpi hans drukknaði í þykku myrkrinu. ] [ Yfir stökk og hlein, fyrir dag og vein. liggja kvört og kvein. bakvið bláan stein situr systir ein. ] [ I want to find a trace I want to find a race I want to find a face Like yours I hope we can be together for ever,ever and ever so promiss my that you will never break my heart \"I will never go away\" That is what you say I just have to be \"okey\" And hope that in the end love will win ] [ Fýsnin förunautur skynseminnar og félagi fáránleikans. Hvers vegna leikurðu svona á okkur? Náttúrublómin sem teygja stilki sína og krónur mót hinni græðandi dögg næturkyrrðarinnar. Þrumur þínar skelfa okkur svo blöð vor titra. Rætur vorar hvítna. Hvers vegna þurfum við að færa þér svo dýrlegar fórnir? Miskunnarlausar eru kröfur þínar í húminu. Hvenær mun skynsemin skilja förunaut sinn? Aldrei. Því að þá væri lífið ekki ævintýri. ] [ Stormurinn hafði augun á honum Heiminum það er að segja. Og heimurinn og stormurinn Horfðust í augu. Eins og ástfangið par. --- Á Súfistanum starir innilokuð vindhviða Út um tvöfalt glerið. Drekkur sömu tárin. Meðan þrír metrar á sekúndu. Brenna upp í svörtum öskubakka --- Hann var fyrri til að blikka Í Hafnarfirði slotaði vindinum Og heimurinn brosti við mér Skartaði sínu fegursta. Enda sunnudagsmorgunn. --- Stattu þig, stattu þig, stattu þig. Drengur að gera lífstykkin. En gerðu þau hljóðlega. Og hittu mig fyrir. í dapurlegu himnaríki. --- Þá skal ég hlæja Benda á sjálfan mig Og brenna upp eins og vindurinn. Í svörtum öskubakka. --- Heimurinn tók augun af honum Storminum það er að segja. Og heimurinn og stormurinn Fjarlægðust hvort annað. Með ástarblik í augum. ] [ Þú gengur einn, að lífinu þú leitar, leiðin virðist endalaus og grýtt. Sjálfum þér og sáluhjálp þú neitar, og sjaldan hefur tækifærin nýtt. Í örvæntingu aldrei skaltu gleyma, að einhvers staðar vináttu þú færð. Í bugað lífið birtan fer að streyma, á bröttum vegi leiðarenda nærð. Til betra lífs mun bjartsýni þér snúa, og bæta þína líðan sérhvern dag. Á góða menn og Guð þinn skaltu trúa, í garði þínum rækta bræðralag. Ef einhvern tíma manni síðar mætir, og myrkur hans og þunga finnir þú. Þú leiðir hann og líf hans óðar bætir, lýsir upp með vináttu og trú. Huga þinn úr höndum mátt ei tapa, hæfileika þína rækta skalt. Framlag þitt mun framtíðina skapa, og færir allt til baka þúsundfalt. Ríkidæmi og auð sinn maður metur, mismunandi þarfirnar má sjá. Einmanna þú einskis notið getur, en allra sinna vina njóta má. 13. júní 2004. ] [ Að fyrirgefa alltaf er allra besti kostur Hefndin sjaldnast hyggnast vel hljótt þú velur sjálfur ] [ Þú skæri engill sast mér hjá, meðan pétur lykli leit mig á, ég hugsaði mig um hvort guð mig ætti, augun mín störðu stíft á pétur sem, brosti svo blítt að mér var orðið svo, verulega hlýtt. Þú pétur opnaðir mín bláu augu, úr bláu augunum tár lak, þú eini sem gast opnað og veit mér. hús-skjólsþak. Stjörnurnar,skýin,rigningin,sólin öll brosa svo blítt og hlítt til mín þar á meðal pétur lykli. ] [ Mér er alveg sama þó þú elskir mig ekki Ég er nokkuð viss um að það væri hvort sem er tímasóun Mér er alveg sama þó þú komir ekki í kvöld Ég er nokkuð viss um að ég fæ hvort sem er gesti Mér er alveg sama hvort þú verðir kyrr eða farir Ég verð ekki einmana þegar ég sef ] [ Stundum þegar ég er einmana hugsa ég um þig og andlitið Og stundum þegar mér líður allt öðruvísi hugsa ég um þig og andlitið Ég hugsa um þig og hvernig þú hlýjar mér úr fjarlægð ] [ Vá, heyra þig tala heyra ræpuna vella út um eyrun á þér eins og einhver hafi ýtt á fast forward Vá, heyra þig tala heyra þvæluna renna niður hökuna á þér eins og á slefandi ungabarni Vá, heyra þig tala og yfirgnæfa Bob Dylan með heimskunni á hann ekki betra skilið? Vá, heyra þig tala lygarnar streyma út um augun á þér og niður undan gleraugunum Gerðu það fáðu þér að reykja og þegiðu ] [ Beiskur er harmur haustsins og hunangssætt sumarregnið orðið rammsölt tregatár. ] [ Mamma,pabbi,amma og afi. langaamma og langafi. Bræður,systur og frændur. Frænkur,og einnig Gvendur. ] [ Stríð og stríð. Geisa yfir írak, Palestínu og U.S.A ] [ Ég í sunnudagaskóla fer, einnig ég,og ég,og ég,Líka ég. Þar um Jesú heyrt ég talað hef\' einnig ég,og ég,og ég,Líka ég. Ég þekki Jesú barnavininn þann, er oss beint til himins leiða kann. Viltu vera vinur frelsarans, Það vill ég,og ég,og ég,Líka ég. ] [ Ég svíf í draumaheiminn minn eina ferðina enn týnist gleymist felli hljóðlaust tár tár sigurs ég veit ég hef unnið ég þarf bara að finna verðlaunin einhvern tímann einhvern tímann ] [ Þú veist að ég elska þig þó ég sýni það ekko nóg. Það er margt sem ég sé eftir að hafa gert ég vildi að ég gæti bætt fyrir Þú ert besta mamma sem ég veit um ég gleymi að segja þér það. Vonandi minnir þetta ljóð þig á það svo þú haldir áfram að brosa. Agnes 22 des 04 ] [ Littli rollupabbi minn sem ég elska eins og hann er. Þegar maður þarf að tala ertu til staðar þú hlustar og leiðbeinir. Þú ert besti pabbi sem til er vonandi tekur þú þig á. Áður en við missum þig ég mun alltaf elska þig. Agnes 22 des 04 ] [ Fáranlega líf sem leikur mig grátt hvað í fjandanum er að gerast ég verð að taka það í sátt Ég skil ekki af hverju ég skil ekki hvað hvað í fjandanum er að gerast hvað í fjandanum er að Af hverju ég? spyr ég aftur og aftur ég get ekki meir þrotinn er mér allur kraftur Að gefast upp er þó ekki um að ræða eftir allt þetta strögl hlýt ég eitthvað að græða ] [ Einn ég sit á fjallsins tind einmanna og saklaus Í fjarska trítlar fögur hind í faðmi Guðssíns engla kaus ] [ Ung og saklaus á lífsins leið allt var bjart og framtíðin beið Hún trúði á allt og trúði á alla Hún átti eftir að læra af sínum bláeygða galla Lífið var ljúft þar til kvöld eitt að veröldin sökk og allt varð breytt Aðeins ein karlkyns vera var lífi hennar í Á einu kvöldi hann breytti því Hann sem áður hafði verið bestur af öllum sat nú að drykkju með ókunnum körlum Er drukkið hafði nóg til að sálinni týna seldi hann djöflinum stúlkuna sína Inni í rúmi sat hún leið eftir óp og orðagjálfur þegar inn í myrkrið skreið djöfullinn sjálfur Er Lokaðist hurðinn og dimmt var orðið lá hún aftur ein en sakleysið var horfið Hún hélt seinna að þetta yrðu bara minningar sárar hún vissi ei að í myrkrinu biðu fleiri árar ] [ Á bleksvörtum himni hanga glitrandi óskir barna jarðarinnar ...vongóð í bugðóttri halarófu. Á bleksvörtum himni renna þær sér niður spegilslétt norðurljósin ...og kútveltast í augum þínum -stjörnubjörtum. ] [ Þau áttu sér lítið leyndarmál um kossa og eskimóa \"saklaus leikur\" það sagði hann leikur sem hann skyldi þróa Hún flissaði og hló í þessum litla leik því hún vissi ekki þá að leikurinn fljótt myndi breytast í eitthvað sem hún ei áttaði sig á Lifandi veran sem stúlkan var fór kvöld eitt í sitt bað hún hvarf það kvöld í fyrsta sinn það kom brúða í hennar stað Brúðuna hafði hann búið til úr sínum dimmustu hugarórum hún birtist þegar hann óskaði þess á meðan beið stúlkan í sárum Hún skildi ekki það sem í gangi var og lét því stjórnandann ráða vildi hann hana eða brúðuna hún gat ei verið þær báðar Að kjafta frá var ekki hægt það var hún búin að læra þetta var henni að kenna hún viss það hún vildi ekki mömmu særa Eftir stutta ævi hún vissi ekki margt en eitt var satt og sannað eini maðurinn sem hún treysti þá hafði kennt henni að svona er bannað Það eina sem hún gat huggað sig við að hún sjálf lék ekki þennan leik hún beið bara á með hann lauk sér af það var brúðan sem kom á kreik Eftir þúsund skipti það gerðist loks það sem hún lengi hafði eftir beðið hann gekk of langt og gat ei meir \"Ég er frjáls, getur það verið?\" \"Þetta er búið\" hugsaði hún með sjálfri sér er hún var ein þó að hann væri heima \"brúðan er ekki lengur hluti af mér best að grafa hana og öllu gleyma\" ] [ Gengum burtu brott frá kringlu átt að húsi hvít var jörðin komum inn en kvöddumst ekki meira er sem móða ein faðmar finnast fingur læsast augun mætast undan lítum endurtökum aftur aftur þar til loksins því að kemur fyrsta sinn fram fór á gangi fattaði’ ekki á stundinni kom á óvart er málhringir hittust kynntust komu saman en svo aftur endurtók sig yndislegur unaðurinn varð svo glaður gleðin við að fá þá loksins þig að kyssa vildi’ ég gæti verið áfram hjá þér ávallt aldrei farið knúsað meira kysst þig oftar besta stund mín stað sér átti gekk í burtu baka horfði sá þitt andlit söng af gleði litlu eyrun litla nefið sá málhringur sem mig dreymir ] [ Hvar ertu nú spyr ég skuggann, hvar ert þú sá Sem bankaðir á gluggann? Ég þrái þig af öllu hjarta. Komdu til mín með brosið bjarta. Fagri engill með hvíta vængi, ekki láta mig bíða lengi. Ef ég eignast þína ást, mun ég ekki lengur þjást. Ég vil ei gráta aðra nótt. Svo ef þú getur komdu fljótt. ] [ Morgundagur,morgundagur. Ég vakna og fé mér kaffi í senn, Leikur er slæmur sem lifa ég fæ enn. Morgundagur,morgundagur. Sit við borðið og drekk og drekk, Leiðindin fara því það er trekkt. Morgundagur,morgundagur. Morgunsólin skín í gluggann inn, Og þarna situr kötturinn, Morgundagur,morgundagur. Ég stend upp,og labba út, vindur og sólin skín á minn kút. Morgundagur,morgundagur ] [ öfundin læddist með veggjum illgirnin glotti við tönn tuðið fann tilgang í nöldrinu og lygasagan varð sönn ] [ Skynjað kynorku stóra sem í litlu hjarta býr hún vill brjóstast um og klóra en tilfiningin flýr. Þótt fiðrildi lífi sínu fagni þá hefur það engan til að elska sig af miklu magni eins djúpt og dýpsta gil. Þú hefur miklar þrá að fá það sem sjaldgjæft er situr fyrirframan myndaskjá og horfir á ástina leiðast útí sker. Kynorka ást ég sást án ástar. ] [ Það læddist hljóðlega í kringum húsið, mitt á milli staðar það gekk, snar stoppaði á sérstökum stað, stað þar sem engin annar mun stoppa. ] [ Brosum, bros heillar okkur, hvert bros gefur manni hlýju, tíminn líður klukkan tifar hjartað slær. ] [ Líf mitt skakkaföllum tók, vatnið í áni eykst, hjartslátturinn minn og púls jókst, veikur er sá þráður, sæluvíman muldi móður. ] [ Ég sit ein í rökkrinu óttast að fólk komi of nálægt. Ég vil ekki kynnast öðru fólki því það mun engin jafnast á við þig. Skilnaðarorðin þín glymja í eyrum mínum og skera í gegn um merg og bein, líkt og neglur að klóra niður krítartöflu. Ég trúi ekki að þú hafir yfirgefið mig. Ég hélt að þú værir sú eina fyrir mig. Ég hélt að ég væri sú eina fyrir þig. Söknuðurinn hrópar og reynir að yfirgnæfa bergmál einmanaleikans. Ástin er öðruvísi en ég hélt. Ástin er sársaukafull. ] [ Þegar tilfinningarnar fölna, líður mér einsog ég hafi glatað hjarta mínu niður í hið djúpa gljúfur minninganna. ] [ Elska ég þig af öllu hjarta, bjargvættur þá, er slæmt á dynur. Umlykur alla, þín útgeislun bjarta, ein þú ert minn langbesti vinur. ] [ Unglingurinn reynir og reynir og reynir á þolrifin á tilfinningarnar á takmörkin á mig fyrir sig. ] [ Nafn:_____________________________ Settu X við rétt svar 1. Pabbi minn gengur um með ref á höfðinu a) grimman b) stóran c) bláref 2. Pabbi minn er með _____ hár a) íslenskt b) fallegt c) eðal 3. Pabbi minn stundar sund og bridge í öllum veðrum a) þriðjudaga og fimmtudaga c) kl 13 til 17 c) á veturna Kennari:___________ Einkun:____________ ] [ I search the room Nowhere to be found Were did you go Who is to blame? I ask No one to tell The only thing I know, It wasn’t your choice Who took you away? You beautiful girl I search again Nowhere to be seen Where is your smile? I can still hear you Again Where did you go? Some things aren’t right Why you? Why not someone I didn’t know I need a reason I need to know The only thing I know, It wasn’t your choice Who took you away? My beautiful friend I turn my back Look one more time Your bed is empty Only your case but no you I still feel you The one thing I know, It wasn’t your choice Why take you away? My beautiful angel... hug ] [ Ég er föst ofan í hinu djúpa gljúfri minninganna. Það er allt dimmt í kringum mig. Kolniðamyrkur. Engar minningar eftir. Allt er glatað. Hjarta mitt, sálin, ástin, vonin. Allt það góða er farið. Myrkrið umlykur allt og hylur allt. Hvar er gleðin, ástin, vonin? Hver er valdur þessa? Er þetta heimsendir? Mun öllu ljúka á þennan hátt? Það er betra að deyja en að lifa á þennan hátt. Hasta la vista illi heimur. ] [ Reyndi að helminga okkur en þegar ég setti helmingana á okkur saman þá pössuðum við ekki saman ég var með of stórt nef þú of mikið hár aftur á móti voru eyrun svipuð þú sagðir mér að hætta þessari vitleysu þetta hefði ekkert með stærð að gera heldur eitthvað annað og svo ættum við allsekki að skilja tungurnar að svo varstu líka reið af því að ég braut gleraugun þín ] [ You clearly unprintable man, have done wery good with your life. Whipped a whole \"9\" from exam, that shorely should bring a good wife. ] [ Nástjarna yfir nöturheimi skín á bak við ský. Byssu mundar sveinn í dauðans dali. ] [ ygglir brún ræskir háls sýpur kaffi helvítið hann Haffi ] [ Er ég heil eða er ég hálf manneskja, ég held ég sé bæði, er ég manneskja eða er ég skrímsli, ég held ég sé bæði, er ég góð eða vond persóna, ég held ég sé bæði, er ég feit eða mjór krakki, ég held ég sé bæði, er ég óhrætt eða hrætt barn, ég held ég sé bæði, er ég klofinn eða tvíklofinn-persónuleiki, ég held að ég sé bæði, er ég ég eða þú kvk-kk, ég held ég sé bæði er ég gagnkynhneigð eða tvíkynhneigð(gay), ég held ég sé bæði. ] [ Uppalandinn gekk um dalinn snæviþaktan og sólin blámaði spor hans í mjöllinni. Vindurinn kom og fyllti sporin. Uppalandinn sigldi yfir hafið spegilslétt og kjölurinn teiknaði pílu á sjóinn. Vindurinn kom og jafnaði gárurnar. Uppalandinn kom í nýtt land að sumarlagi og fæturnir bældu spor hans í grasið. Vindurinn kom og reisti stráin. Uppalandinn kom til barnsins í húsinu og orð hans gerðu spor í vitund þess. Vindurinn kom og regnið kom en orðsporin eru þar enn. ] [ krakkar særðir fólk í tætlum blóð á götum sprenging bara einn stór dauði sem springur á andartaki hróp og köll frá fólki þar sem vonarneistinn um hjálp er að deyja út eldur í húsum landið allt í eyðileggingu líkin of mörg allt útaf manni sem sprengdi sig sjálfan. ] [ Það gerðist einn sólbjartann dag er Hann var úti með mér og við vorum í boltaleik Þið vitið sjálfsagt ekkert hver Hann var en það fáið þið að vita seinna Hann leit upp til himins og ég spurði: Hvað sérðu? Hann svaraði ekki en straði ennþá á eitthvað sem færðist nær og nær Þetta fyrirbæri var stórt og kringlótt Hann steig til hliðar og leit á mig Hann brosti en hvarf svo með þessu kúlulaga skipi Þá loks varð mér ljóst hver Hann var og hvað þetta var Hann var geimvera og þetta var geimskip En seinna var mér sagt að geimverur væru ekki til en þetta sama kvöld sá ég stjörnuhrap og sá þá glitta í Hann með bros á vör ] [ Ég er flaska full af vatni en enginn vill drekka af mér Ég er penni fullur af bleki en enginn vill skrifa með mér Ég er manneskja full af lífi en enginn vill tala við mig ] [ Hér er hún Þar er hann Saman eru þau Hér er ég Þar ert þú Saman erum við ] [ I have been uttelry defeated Thrown around like a doll Shaken, broken, hit Let alone to cry these tears Wanting to yell out my pain Screaming for help I am None wants to hear or help I am to die, just pass away ] [ I hear a distant cry of the falcon so free and unafraid he is crossing the sky looking for prey returning his cry I do Seeing him coming so close and alone I spread my wings fly meting high above I salute him this brother I lost I see such sorrow in his eyes knowing that I am his sister it is my time to die hearing his cry as he tears me apart My brother the beautiful falcon with sorrow takes my heart could she not forgive my ignorance oh mother of the dear Christ ] [ I am here and alone afraid of myself taking decisions being grown up Trying to change not to be so fearful just stand up yell what I want not being walked over strong and indipendant let myself go ] [ Ég er barn í hjarta alltaf hrædd og ein slegin ég er grátandi er ég bið um hjálpina Án þess að vita hví er ég alltaf á flótta dregin í gegnum sársauka barnið ég sokkið til heljar Get engum treyst brostin er allur vilji sterk var ég eitt sinn en nú er ég horfin, inn Kann ekki að segja fallinn á kné í bæn treysti á björgun hins heilaga máttar Brotin, brömluð barnsins bein er ég reyni aftur á flótta traust mitt á Guðinn góða dvín bið aðeins um eitt, hjálp Nístandi grátur minn engin orð ég hef kvalari, þú sem þarna ert lát mig í friði Ei mun ég undan láta falla í freistni lyga leyfa þér mér að stjórna ei er ég sterk, en sterkari en svo Ópið fast í hálsi mér veit ég get barist tárin á vöngum gefa mér styrk vitandi að ég gefst ei upp ] [ Harðneskjulegar grímur mínar mótaðar í árana rás meitlaðar eru í andlit mitt allar tilfinningar Sagan segir að allir skulu þjást ég hef minn skammt fengið hvar er hamingjan sem ég á að fá leitandi ég er og sár Grímurnar upp settar hvern dag enginn skal mig í raun sjá litlu stúlkuna sem er svo ein sem falin er í augum mínum Allt hefur mig niðurbrotið sár hvern dag og hví því ég er skotspónn reiði hörð af mér en brotin Ef ég grímurnar felldi væri ég nakin hrædd við að sýna mig mun einhver skylja Loka augunum og sný mér undan vona að enginn mig sjái að grímurnar haldi þér frá að þú munir mig ekki sjá Múrinn hrynur niður við fætur mér fallinn og grímur mínar einnig hvað var það sem ég sá í sál þér augun er sálarinar spegill ] [ I hold you right here in my arms watching you talking in sleep crying for something you had trying to call out for the Your crys are burried in my mind you so afraid of hurting me never speaking of whats wrong so I just softly touch your cheek Me knowing of your painful dreams wanting to tell you that I am here just so afraid of pushing you away because you are just a friend Unspoken words, a distant cry our cheeks cheek to cheek I just want to hold you right here in my arms ] [ I dont want to cry but still I do I cry for what I lost but I lost you There was no reason no cause just one big loss of what I loved I gave up in a way but still I look for you every single day I promise to you I do I never wished you away thought I was unsure, afraid I never knew what to think, to say but for you I still await Over you I had no shame why is no mistery I never played that game pretend to care if I never did Still today I read what you wrote so long, long ago to me you must know I always cared I just hope that you can see As I write these words a memory comes across my mind of one little kiss I gave you just to say thanks for being there ] [ Asking all those questions never finding an answer hurting eating my heart just a little bit by bit So much pain and hurting never understanding why just wanting an answer to where, when and why My very own sadness drowning me dragging me down step my step listening to everything trying to make sence out of it I scream out my questions not so silent any more I need to know to live how to stop killing myself ] [ Um garðana ég ein og rólega geng dáist af hverju blómi og jurt horfi til vina minna eikana í svalandi skugga þeirra sest Augun lokuð og gleymi áhyggjunum heyri andardrátt svals vindsins hjartslátt fagurar jarðarinnar finn hvernig ég er ein þeirra Mér hefur aldrei fundist ég ein með þeim alltaf fundið þeirra styrk vildi að ég gæti séð með þeirra augum verð hluti þessarar einstöku heildar ] [ I feel my broken Wings I try to fly How can I fly with wings so broken How much I want to die Once I felt the wind beneath my wings Once I flew on the great open sky But then I crashed, crashed to die But I want to live, want to fly With sorrows so deep I couldn\'t fly with tears in my eyes I couldn\'t see I went down, down to thee I cannot fly with wings so broken Only my soul is meant to fly Only you can help me up An angel at her mothers side An angel that once was mine ] [ Söknuður hjarta míns á sér rætur hjá þér barnsins sem ég ei hef stúlkunar sem var mín Ég hef þig eitt sinn séð í draumheimum mínum áður en þú fórst þú mig kvaddir litla dóttir Loka augunum til að sjá þig dansandi um á milli trjánna með brúnu lokkana og bláu augun í döggvotu grasinu Það nafn sem þú þér valdir ég nú að leiti ber vona að þú fyrirgefir mér Viskan mín litla fagra Vona að ég muni þig senn sjá þó bara í draumheimum álfum hjá þú valdir þitt ból með þeim í landsins fegurstu Gjá Bið ég að heilsa feðrum okkar álfunum, meisturum galdra frumkraftinum sem ég þar fann ég sakna þín það veistu elskan mín Ég mun koma þegar ég get. ] [ Ég er ein þar sem ég sit og skrifa hugsandi um dagsins raunir hlustandi á klukkuna tifa bíð næsta bardaga á nýjum degi Sterk ég læst vera en er þó ei á bakvið grímurnar fel mig löngu týnd og horfin mey vonandi leitartu til að finna mig ] [ I try to call for help no replay or answer I just wish I could talk and hear a your voice You helt me when needed so warm and helping You are a friend I want to keep my spirit up Asking what is wrong when something is Always seem to know as sadness comes Does my hurting always show or do you read my mind I quietly ask these questions wondering just hoow Smiling to you thanking just for who you are Thank you for the support and trying to help ] [ Þerra skal ég tár þín Strjúka þér um kollinn Reima fyrir þig skónna Leiða þig yfir götuna Lyfta þér á háhest Hræða burtu drauga þína Vera hjá þér þegar þú þarfnast mín Segja þér sögur af álfum og tröllum Leika við þig Hlægja með þér Syngja með þér hástöfum alla söngva Vera þar sem þú þarfnast mín Elska þig ] [ Crying in a farside corner listening to the words I want to say writing my mind when I see the paper with the tears flowing in my eyes I doubt my reasons I doubt what I truly am I doubt that I can stand alone I doubt that I can overcome this fear Knowing that I am not save thinking of getting away, to escape getting to a save place I know so far away but so close My doubts are so clear My fear is in the open My thoughts flying around My fear swirls in my mind Thinking that maybe I am not alone but deep inside I know better I am always alone when I have fear deep inside I also know that I have you I throw away my pen I cast away my fears I push away my book I dry away my tears Sinking into myself I try to swim away knowing that I am strong stronger then I thought at first. ] [ I am alone in a world I don\'t know Standing on my own feet With no one to hold on to Fright swirls in my mind and doubt Not knowing what to do or think Doubting every move that I make Crying in despair for help Why in the world did I go Looking at every move as a mistake Trying to make sence out of everything Trying to take it day by day Hoping that time will fly away Crashing into reality way to hard Time takes time to pass Till then I shall be alone All alone in a world I don\'t know ] [ With every passing day I hope to send your sadness away Joy and hope and faith I bring Like a bird I raise my voice and sing My wings are broken I seek your help With every singles tear You I show my love and fear With a little help from you In the end of summer I shall fly too Then your children you have a storie to tell About a little bird you helped to get well I sit in a tree with my children and tell them of you Because I shall always remember you too A woman filled with love and faith Once one year my life had saved ] [ A little angel I watch and see I hope to love and comfort thee My faith and wish for what you shall be Happy and glad just as we Your birth was a gift of life to me Your being was all meant to be ] [ With thoughts so dark With my mind so clear With a smile on my lips With a honor I take a bow I find my thirst for life I open my eyes and begin to cry I with a mind so dark I cry for all the sufferings you had An angel you are A demon I am A light of life A light in the dark ] [ I have been worried and I have been sad I have been unhappy and I have been glad I have felt like I should open up But like a door I close again Maybe I need someone with a proper key But with small hands to help my door slowly opens I feel as I can break free but when shall it be I neither can or want to stand alone I sit by the phone ready to make a call But what if my call is unwelcome Maybe it is not but maybe it is I in a fright close my door again I close my eyes do not want to see I hold my ears because I do not want to hear the child crys But I try to speak and ask it to let me be Maybe this child was never meant to be just like me ] [ Fyrir hvert skref í rétta átt, tek ég tvö til baka. Því mér finnst ég ei hafa mátt, til að vinna það sem mig er að þjaka. Það að vera ein, og vita ei neitt. Hjálpar ei við að lækna sálar mein, en hjálpað getur allt og læknað eitt. Vinur sem með stendur sterkur í raun, er sem stólpi á miðju hafi. Ekki syrgja og gráta á laun, því þá get ég ei dregið þig úr kafi. ] [ Ég horfi út um gluggann horfi á englana bregða á leik. Ég sé brosin á vörum þeirra heyri raddirnar skríkja og hlægja. Ég veit af gleði þeirra hugsa um lífið sem þau eiga framundan. Ég lít á þig sem þarna hjá þeim er hughreysti mig og brosi til vinar míns og englana. ] [ My mind is like a book ~a book filled with pictures and words ~a book that got both good and bad stories ~a book that not so many can and amy read ~a book that is always getting longer ~a book that has grown with the years ~a book that will never stop growing My mind is a book ] [ Sweet child of mine has gone to another world a little girl that was never born ohh my angel, my little one never leave the heaven ohh sweet child ohh sweet angel ohh how I miss you ohh my sweet child never leave me shy, my heaven ] [ I hear these craving calls inside The hurting cries The repeated whys I heard and suffered The cries for my trust The whys for who I am I am who I am and what I am is I The fact I did not hear The fact I did not fear I was pure but now I am not The fright of trust The fright of living I choose to die but I am still alive ] [ Ég grét svo lengi var svo ein. Fann enga leið var föst inni í mér ] [ Það var lítið eitt er var mér sagt. Á ég að trúa eða á ég að elska. Ætti ég í blindni ætíð að fyrirgefa. Skildi ég þig skylja eða þú mig. Get ég horft í augu þín eða þú í mín. Geturu mér sannleikann sagt til ei mig meir mun særa. Hef ég horfst í augu verri drauga og kaldari sannleika fengið. ] [ Ég sé lítið ljós í rökkrinu í rökkri komandi nætur. Lítið ljó sem lýsir mér lýsir mér mína leið. Nóttin komandi köld og þrá lokar mína leið. Horft til baka er ljósið var lítið ljós lífsins. Lítið kerta ljós ] [ Er húmar opnast mér heimar duldir hvers manns auga. Fagrar hulinsheimaskepnur mér heilsa í brosi. Nýjir heimar ei í draumi þó með nóttinni opnast. Í skjóli nætur mínir fram koma misskylnir sem ætíð. ] [ Heitt blóð niður hálsinn rennur úr opnu litlu sári. Saltkeimurinn á vörunum enn er sætur sárauki yfir slíkum örlögum. Í skjóli nætur við lifum lifum dauðra lífi. Brostin augu og lítið bros eru örlög mín. Lífsneistinn deyr og lifir eftir mínum þorsta. Vak ei eftir mér ef ég kem munt þú lífið láta. ] [ Mánaskin á miðri nóttu, á mig kallar lágfóta. Vetrakuldi á miðju hausti, grátur hungraðra yrðlinga. Lít ég út um gluggann minn, sé lágfótu læðast hjá. Fer niður brattann stigann, gef henni í gogginn fæði. Greiðann mun hún greiða mér, á nýju góðu sumri. Ungar ei gráta meir, Rebbi heim á grenið komið hefur. ] [ Margs er að minnast, dagurinn ætíð lengist. Veturinn dregur að sér andann, finn kuldann læðast inn um klæðin mín. Napur vindurinn strýkur jörðinni um vangann, sem og með kaldri hrjúfri höndu. Lítil stúlka leikur sér í snjónnum, rennir sér niður brekkur og skilur eftir snjóengla. Englar á jörðunni hvítir og fagrir, för barns í snjónnum og einn einmanna karl. Úr kúlum nokkrum stendur einn feiminn karl, með gulrótarnef og augun úr kolamolum. Lítill drengur sér karlinn góða og hugsar \"Ætli honum sé kalt?\" Með trefil, húfu og fagurt steinabros býr hann sig undir nóttina. ] [ Hrafninn situr á staur og á mig horfir man hann kannski eftir nokkrum matarmolum. Stór augun á þessum unga fugli glitra sem eðalsteinar hann breiðir úr stóru vænghafinu og blaktir til mín en er þó kjurr. Mér finnst sem hann brosi þar sem ég sit og er svo ósköp rólegur þarna óhræddur og lætur sem hann sjái ei vörðinn minn hugrakka sem gjammar. Vængjunum hann aftur blaktir og til mín brosir sem við séum gamlir vinir morguninn eftir á sama staur finn ég lítinn andvana músaranga. Hann Krummi þakkar vel fyrir sig sem og allir aðrir þó á vinurinn minn góði slæmt orðspor. ] [ You screamed to me but no reply you cried over me please dont die Dont leave me here so lost inside youll never forget her the girl who died ] [ Left me behind. These wings, These wings, they slip and fall. These wings they cannot fly. Why did you leave me behind? These woods are dark. These trees, These trees, they loom around me. These trees they smell of blood. Why did you leave me behind? ] [ Það var dagur. Hann var kátur og hlýr. Hann var tær og sætur. Hann var eftirminnilegur og mildur. Það var sumardagur. ] [ Fullan skáp ég átti af ljóðum einum senn. En nú finn ég þau engin þau týnd og horfin eru mér. ] [ Gulir caterpillar í framsókn á jörð í Skugga Kárahnjúka. Á okkar nákomna landi eru framin Sivjarspell. ] [ Allt það dökka sem á dagana dreif hann lýsti með ástúð sinni, svo allt það góða er gaf hann af sér ég geymi í sálu minni. Hann bíða mun með bros um brá á breiðunni handan hæða. Hugga mig mun við brjóst sér þá og hjartasárin græða ] [ Í dag 25 janúar er, þú þínum 25 afmælisdegi fagnar, við öll hér gleðjumst þér með, á þessum kalda deigi sem um okkur fer. Ungur drengur full vaxinn er, full vaxna dýrið þitt sest hér hjá mér, ljós í lífi þínu skín, þú í bjargsins báli brennur ekki án mín. Lítill fugl á axlir þér sest, og hvíslar að þér að gefa mér smá frest, þú breiðast til mín brosir blítt, mín á þig horfir að þér varð undurhlýtt. ] [ Sakleysið kom til mín á svörtum dularklæðum og sótti um grið hjá mér. Með augu full af ótta angist í hverju spori það sótti um grið hjá mér. Ég tók það fast í fangið faðmaði og kyssti. Grét og bað til Guðs að gæta þess með mér. En þrótturinn var þorrinn þjáning í veiku hjarta hjá sakleysinu svarta er sótti um grið hjá mér. Ég svæfði það svefninum langa sakleysið – er grið fékk ei hjá mér. ] [ Kominn heim, andlitið rjótt. Lít í lófana, finn ennþá fyrir þér. Svo heitri, svo ungri, svo mikilli holdgervingu tæringarinnar. Þú lætur orðin falla, einsog sprengjur í ástleitandi hjarta mitt. Sprengir innviðin, svo eftir situr tómið. Þú lætur varirnar bera á mig tærandi vökva, sem eyðileggur yfirborðið - brýtur múrana. Eftir sit ég svo, tómur í hjartanu. Tærður að utan, varnarlaus gagnvart fleiri orðsprengjum. ] [ Dreg handlegginn fram bretti upp ermarnar, legg hnífinn að úlnlið mér, byrja skrapa hægt og rólega, þangað til að ég finn sársauka, byrja ég að öskra,öskra hærra og hærra, bið um hjálp en hjálpar einhver, ég er ekki ein það eru mörg þúsund andlit í kring, hvaða andlit eru þetta jú hjálpar andlitin, ég er ekki ein. ] [ Það hefur allt verið ritað sem þarf að rita. Það hefur allt verið hugsað sem þarf að hugsa. Það hefur allt verið ort sem þarf að yrkja. Nú er bara að lifa eftir því. ] [ Kalda stríðið var aldrei nein styrjöld heldur skapgerðarbrestur stórvelda. Sjálfur á ég í hrollköldu stríði við sjálfan mig. ] [ Æðarnar kippast til og frá, hjartað slær hraðar og hraðar, hugurinn hringsnýst í þúsund hringi, hendurnar titra stjórnlaust, tennurnar glamra og glamra, hausinn hoppar til og frá, sálin brennur hægt og rólega inn í mér. ] [ Elskan mín Það getur stundum komið manni í opna skjöldu – verið köld vatnsgusa eða líkt og að fá aðsvif – að lesa orð sem eru svona einlæg. Ég gerði mér aldrei í hugarlund hversu einlæg þú ert, né að þú værir það ekki. En segðu mér satt, ef þér finnst ekkert hafa breyst síðan við vorum saman – sumarið 1994 í Ísrael. Að í einfeldni minni gagnvart tilfinningum þínum þá sé allt við það sama? Hversu undursamlegt það hefði verið – nei, heldur átti að vera – að fá að þekkja þig einsog þú speglar þinn eigin trega. Hversu foreldrar þínir hljóta að hafa hatað mig. Aðeins í djúpu þunglyndi getur eitthvað snert mann – manns hjarta, tilfinningar og sál. Ég veit það ekki, og gerði það aldrei. Það eru tíu síðan, nánast uppá dag. Ég hugsa mikið um Rauðahafið í Eilat. Reyndar um allt og alla. Þá sem ég kynntist og allt sem að gerðist og gerðist ekki. Um fyrstu nóttina þegar ég, þú og Anat fórum á ströndina. Og þú spurðir mig síðar: „Hvað ef Anat hefði farið út í með þér?“ Manstu eftir þessu? Auðvitað gerir þú það. Ég svaraði eitthvað á þá leið að allt sem gerðist í lífinu er á valdi örlaganna. Manstu ekki eftir þessu? Jú, auðvitað gerir þú það. Nótt eina lágum við og horfðum uppí næturhimininn. Og ég benti þér á nokkrar stjörnur. „Þetta eru stjörnurnar okkar,“ sagði ég. Og við kysstumst. Svo ekki halda að ég sé sneyddur tilfinningum. Ég sakna þín líka. Eða réttara sagt, kópía af mér saknar kópíu af þér. Er það ekki? Auðvitað er það svo. Bréfið frá þér er stutt og hnitmiðað. Ég vona í öllu falli að þú hafir í millitíðinni fundið þér einhverja hamingju. Eins þó ég hafi brugðist þér. Það er satt. Áfallið sem ég fékk við að lesa bréfið þitt opnaði augun mín og var löngu orðið tímabært. Ég gleymi þér aldrei. Ástarkveðja K ] [ ljóðin  eiga að hljóma sagði hún innanúr öllu þessu  myrkri sagði hún  sögur af lifandi lífi - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - slakaðu á punktunum sagði hún eftir að hafa lesið yfir handritið (að litbrigðamyglu) leyfðu ljóðinu að vaxa í allri sinni smæðardýrð vertu orðvandur ] [ Ég eiginlega leyfði þér að sjá hvernig brotna andlit mitt meiddi mig, ég hef mitt stolt og veit hvernig á að fela allar mínar dýpstu tilfinningar ég græt mínum tárum ef ég sé fyrir sóls-þá muntu þekkja tárin frá tárunum í augunum mínum þú munt aldrei vita að ég elska þig samt þó annað mætti sýnast ég held áfram að grenja,dropar falla af himnum og geta aldrei þvegið mínar dýpstu tilfinningar, þar sem við erum ekki saman þá bið ég um óveður til að fela tárin sem ég vona að þú sjáir aldrei, einn daginn þegar tárin hverfa, þá ætla ég að ganga með brosandi andlit í sólinni ég er kannski fífl en þangað til þú elskan mín sérð mig aldrei kvarta þá sérðu mig brosa. ] [ Svartir skuggar sitja yfir mér segjast vera vinir englanna í bakspeglinum sé ég hreyfingu öfundar pískur framtíðar dafnar og ég græt ] [ Ég heyrði þig segja við mig, þú ert besti vinur minn. Síðan varstu horfinn. En ég heyri það þó enn, ef ég hlusta. ] [ Brotinn gluggi í húsi, vindurinn hvín. Brotinn spegill í sálartetri, ævilöng ógæfa eða hvað? ] [ Er ég fórna höndum til himins og ákalla minn guð: \"Hver er tilgangurinn með þessu öllu?\" fæ ég svarið áður en ég hef klárað setninguna.... Verður maður annars ekki að byrja á byrjuninni, á botninum, á jörðinni? ] [ 10 ár liðin eru frá Súðavík flóðinu, þegar náttúran að sér garði bar, 14 manns lífi sínu týndu þar, guðs englar birtust þá, 14 fallegar sálir guðs hendur settust á. stjörnur detta frá himnum, þær geta aldrei þvegið tilfinningar okkar, við hverfum á bakvið dökk ský til að fela tárin. ] [ Þú birtist mér í villtum draumi, nakin undir breiðu, ég notaði þig í laumi, lagaði hár þitt með greiðu. Þú söngst svo rauk úr eyrum þínum, ég hélt að þú værir blóm, sem söngst mig í dvala, þú varst cannabiz. ] [ Þú fallega píka leikur við mig, þú blotnaðir ferlega líka, Þú dvaldist í húsasundum, og humpaðist á hundum, Kisan min káta. ] [ Sindrað sólu er vatnið og snævi eru þaktir tindar lifna ljúfar stundir og lýsa í huga mér. Siluns lonta í læknum lómar sungu að kvöldi fuglar kvökuðu í kjarri og kyndug fluga á vegg. Lékum við okkur í túni létt á fæti að vori við lítinn kátan hvolp. Tímar hafa liðið talin nú hver stundin er tifar æviveg. þó man ég enn í muna margan bernsku unað. Yndisfögur æskan býr æ í huga mér. ] [ Ég sleikti þig og elskaðist við lika, þú varst fallegust af öllum, þú varst píka. ] [ 16. Janúar er dagurinn minn, ég elskaðist fyrst við karlmann, í húsaskjóli við eyjarbakka, hann hét Jósef og var smiður. ] [ Í ruðningi við riðum, ropuðum og rifumst, ríðandi og skríðandi allar nætur, litli fótboltamaðurinn. Þú elskaðir mig, ég dó, þú varst sár og drapst þig. Nú ríðum við aftur saman, í ruðningi á himnum. Litli fótboltamaðurinn. ] [ snjórinn hefur læst sig í lægðir brekkunnar og reisn kattartungunnar er flogin á brott útigangur reikar um í eirðarleysi á ofbeittri mýrinni og troðinn grávíðirinn týnist í fönninni hungruð tófa læðist eftir keldunni og bráðum mun hún hrifsa aumt líf hrímtittlingsins og í nótt þegar sjónvarpsdagskráin er búin vaknar þjóðin upp við vondan draum veturinn kom ] [ ég ber sílinn niðri í gráar yleiningarnar og skrúfa þær við stólpana svo mér verði ekki kalt og byrgi þá jafnt leið sumarsgolunnar og norðarvindsins um hjartað mitt ] [ Guð er til segir amma. Guð er til segir mamma. Guð er til segir löggan. Ég veit að þannig er guð til. ] [ með andugt ég horfði heillaður og hugsaði hvað kemur næst úr pokahorni þangað til ég held niðrí mér andanum ] [ Hið rjóða og góða rauðvínsglas Það hefur upp raust mína og bætir mitt fas Áður skorti mig skoðanir og innihaldsríkt tal En eftir sopann heyrist einatt ljúft mal ] [ Ég átti einu sinni fulla skúffu af réttlæti. En þegar ég opnaði hana, var hún á hvolfi. Mér fannst það óréttlátt. ] [ sleep well charm undistrubed unreached in the soft world behind me sleep long charm light in the dark stay your head on my pillow I will sing a lullaby for dark clouds moving through ] [ when it comes through glass and concrete with thick air and freezing heat follow me away from the noise to an other place where the heartbeat of the world is softer breathe the sweet air promise me we must not ever go back ] [ time-burner is holding on he\'d be long gone if he wasn\'t so strong his mind is brave but in his heart there hides but shallow hope still unrecognised and rooted fear runs unrestricted scared at last his temple of mind becomes unfastened and then so becomes his grip the fall brought the end of fear but not of hope now his only fuel is you ] [ and then I come to you with a smiling mind and giggling heart, full of tender floating softness of glowing dark quiet flames play a sleepy melody inside untamed butterflies everywhere the scent of angels on my blanket of feathers embracing the sweetness of anticipation in this gold hue grows a blooming field of love for you ] [ Á var lagt um dimman dag dreyr rauður máni himinn skar. Reiðmaður sést um sólarlag svíður í hjarta , ótta bar. Hrasar svika svelli á svitastorkin drösull frýs. Býsna tindi bjarmar frá byltast rögn og Hekla gýs. Birta flöktir bleik við ker bærist skuggi hægt á vegg. Særðan huga sæmnd þar ver seytlar blóð með sverði hegg. ] [ Það sem ég sá varst þú, vinur minn var þar. Það byrjaði að rigna, þegar þú sást mig þá gréstu. Ég lifði af. ] [ Kona er hún stundum nær, samt svo fjær Vona ég að sjái hún mig aftur Rosa sæt og skemtileg, þessi mær Gosa hefur hún sem í er kraftur Sítt ljóst hár sem blakar vængjum sínum Nýtt ferskt bros sem lýsir alla vegi Sýn hennar gefur ljós handa þínum Skín fyrir alla á hverjum degi Hverjum vini hennar fylgir lukka Verjum vinskap hennar sem okkur sjálf Þitt hjarta er mér sem kirkju klukka Mitt slær ekki fyrr en klukkan er hálf Þú hringir samt næstum aldrei í mig Nú bíð ég og hringi síðan í þig ] [ “I will not cry, I will not brake, I will not shad a tear, I hope it’s a lie, I hope it’s fake I start to shake in fear. She hammers and hammers me, up and down As my tears start to fall, on to the ground But I can just hope, hope I will not drown. Please don’t let them hear my sand little sound. A friend takes my hand and shows me mercy “Make her stop”, I cry, but she can not hear me My friend stars to sop and begs me not to cry. “Please god, please, let me die!” “ I felt your pain Go through my vain When I saw your sad face In that awful place Please little friend, forgive me for not knowing, The sad little girl you dare not showing. I hope I can know her, I hope she’s true. But the only thing I want to know, I want to know you. ] [ My friend don\'t go we haven\'t talked in so long tell me of your travels of what you have found and what you left behind I\'ve been wondering lately why your head is missing in all my photos You see I woke up one day as the phone rang and from that day the images changed or maybe you never had a head maybe I simply did not notice untill now? I can\'t say I\'m sure anymore But I think I remember that it seemed to look from certain angles somewhat like mine ] [ Ó þarna kemur þú loks myrkur mjúka umfaðmandi myrkur eins og hendin hennar mömmu segir ekkert en ert allt sem ég þarf núna ] [ My friend what a surprise I hope you have not been standing there for long I\'ve been so busy growing my flower I don\'t even notice you anymore but tell me, what has happened to your chest? it looks as if the heart is missing I see You keep it in your wallet where it\'s always been I hope it\'s comfortable there between the 10\'s and the 20\'s ] [ te og kaffi en er teið ekki betra með hunangi? ] [ Oft sýnist lífið í lægðum, og ljóst er að svo er það oft. Af orðum særandi sögðum, skapast oft þrúgandi loft. En berðu´ekki hatur í hjarta, því hatur er lífsins böl. Og djúpt inn í sortanum svarta, sterk blundar forlát í dvöl. Því einnig er gnægð af gleði, sem gleymast má ekki að sjá. Það góða sem gerist, og skeði, en glata þó einnig má Þær gjafir sem gengt okkur stóðu, ganga oft sárar á braut. Því oft eru gjafirnar góðu, gerðar að sjálfsögðum hlut. Og síðan er lífinu lokið, því lífsleiðin er svo skömm. Það líf undan helreið er hokið, sú helreið er erfið og römm. Svo held ég í leiðina löngu, sem leiðarlok hefur ey. Þá erfiðu´og grýttustu göngu, til Guðs, þegar ég dey. ] [ hvítt og svart tekst á einnig kóngur og peð hin innri ég ] [ Mínar svörtu hægðir sýna og sanna að ég er af Drakúlaættinni. ] [ Í sálinni myrkur ríkir, einsemd um æðar rennur. Greyptir í hjartans minni ástarkossar slíkir. Eldur í brjósti brennur heitar en nokkru sinni. ] [ Ég er eins og flugvél sem er um það bil að taka á loft. Bý mig undir að lyftast frá jörðinni, finna vindinn undir vængjum mínum. Svífa frjáls -í alsælu. En ekkert gerist, æði áfram stjórnlaust -blint út í óvissuna. ] [ Fyrir löngu síðan átti ég lítinn fugl. Ástríða hans var að gleðja mig, aðeins mig, með söngvum sínum. Í fyrstu ég sat oft og hlustaði, en með tímanum hætti að meta þá gjöf sem hann mér var. Gekk framhjá honum dag eftir dag. Þá tónar fuglsins hættu að heyrast. Hann veslaðist upp, brostið hans hjarta. Fangi í búri. Þó reyndi ég allt það var of seint, hann söng ekki aftur fyrir mig. Með söknuði, sleppti honum lausum út í frelsið. Burtu hann flaug en eftir sat ég, ein. Veslast upp, brostið mitt hjarta. ] [ Þú kemur og kyssir mig blítt ég kikkna í hnjánum. Þú kemur og kyssir mig blítt ég kem ekki´upp orðum. Þú kemur og kyssir mig blítt ástríðan kemst á loft. Þú kemur og kyssir mig blítt þá neistar birtast oft. Þú kemur og kyssir mig blítt þeim koss er ég mun una. Þú kemur og kyssir mig blítt koss sem ég vil muna. Þú kemur og kyssir mig blítt ég kyssi þig til baka. Þú kemur og kyssir mig blítt heita kossinum raka. Þú kemur og kyssir mig blítt kossa ég fleyrri vil. Þú kemur og kyssir mig blítt kipptist þá sál mín til. Þú kemur og kyssir mig blítt hjartað fyllist hlýju. Þú kemur og kyssir mig blítt kysstu mig að nýju. ] [ Ég sest á stólinn, ranghvolfi augunum, horfi á ljósið blikka, halla mér aftur, heyri brak bresta í stólnum, hvissss hvasss búmmmm, dett. ] [ Ég kunnti ekki að velja helvítis fasistinn réðst á mig þess vegna drekkti ég ekki mjólkina mjólkina sem að mamma gaf mér. Ég var hræddur og stubbarnir réðust á mig utan í blokkinni. Stóribróðir minn er vondur hann vill ræna mjólkinni hann er líka kommunisti helvítið á honum. Ég stiklaði fram og sá mömmu ríða jólasveini þau voru handjárnuð. Það var barið mig utan í blokkinni. ] [ Ég keypti mér reyndar aðeins þrjár og búðarkonan var unaðsleg. Ég bauð henni á Gaukinn og fólkið úr birtunni hló. Ég drakk bara bjórinn minn og dó. ] [ Krumlan gamla er komin aftur krafsar hjarta mitt í Kroppar og nagar sem ógnar-kjaftur og kraumar enn á ný Hún löðrungar mig og lemur oft lætur sem ég sé skítur Leyfir ei mínum löngunum á loft lætur sem svart sé hvítur Þrúgandi margar þrautir sendir sem þurs í huga mér Þrengir að mér og af þunga hendir þanka-brotum frá sér Vilja minn og vonir brýtur vill að ég muni brotna Veit að veikan kraft minn þrýtur vakandi vill yfir mér drottna Sýkir allt og sjúklega sýgur sálina litlu mína Segir ei neitt, en samt hún lýgur ei sýnileg sú lína Hvenær mínu hugarstríði lýkur hrelld ég hugsa ei Hugurinn yfir hæðir fýkur hrædd er orðin mey ] [ Ef sanngjarn og góður hví refsar hann mér þá? af heiminum ég verð óður þessum grimma stað, ég lifi á. Ég dreg mínar lötu lappir áfram hvern ljótan dag ég gretti mig og hveina, á guði ég hef lítið lag. Það er ekki mér að kenna þó enginn vilji góður vera það er þessi borgarspenna, það er alltof mikið að gera. Með guði við stigum fyrstu skrefin Þau voru örugg og trygg en svo kom fjandans guðs efinn, og í sæng með djöflinum, ég nú ligg! ] [ Mixt in the midst of the darkness, even if i´m going to travel a different road, the ending will always be without you until the dawn. Ibelive that life was always held back, far away, lost in my memory,obscured by the ocean haze. ] [ Underneath the blue sky, the wind blows towards the future as if to draw the rays of the sun into an embrace. I just let it push me around leaving only my footprints behind. If i have the air to stroke my cheek and soft grass to fall down on i don´t need anything else. Sleeping with a contented smile. I stare into tomorrow that stretches on endlessly. I know that my love fore you will never end. ] [ ei lát veðrið á þig fá ó þó fjúki öll þau strá sem þú treystir ávallt á og eitt sinn voru há þó er eitt sem aldrei fýkur en með tíma regnið drýpur og áður en að yfir lýkur eyðist steinn sem aldrei strýkur? ] [ sofðu vært og sofðu rótt sú er á hann Sófus sest leggðu’ á koddan höfuð hljótt og hvíldu þig sem mest 14/01/2005 ] [ blákalt lýg ég uppí opið ógeðið ekkert verður tekið aftur sálin svört tuska undin hvít samviskan nagandi haltu kjafti aðrir dæmi hver um sig ] [ sá er fann ljósið loga í myrkrinu en lokaði augunum kynntist efanum sá er varð vitni að óttanum sigra drauminn vingaðist við eftirsjánna sá er heyrði lífsnautnina og samviskuna etja þrætulist rakst á girndina sá er sá hamingjuna tárast hitti ástina ] [ So slow, so ugly, So you, why me? The stars, the sky, I cry, I die. You lied why that. I sturggle on and on And so on. But what for? There is nothing left, Only death and dying Falling angel. ] [ I wish I could fly, Fly through the sky and fly like a bird. I would fly to seak for happyness. I would fly away from saddness. Fly beond mountains and ocean. Fly around the earth and fly around the uniwerese. Fly in search for you my happyness. ] [ My tears, your blood. Bleeding weed. The more I cry, the more you die. My bloody tears, I shed my tears, my bloody tears. Bleeding weed. I cryed and you died. ] [ I am all alone… I don’t belong in this….world… In this whatever… Fear.. tears… unbelivable.. unsuccess.. The truth is never gonna be.. me.. I am never gonna be the… truth… For I am nothing but dying… restless.. None… black and white soul.. ] [ Insane, crazy, Tied down and dying forever in the darkness. Can never rest, can never sleep, will never be me. Pain forever. Filth, fire, dark, nothing. My soul is gone and my heart is broken. ] [ þá þögnin þögnin djúp djúpt dreg ég andann anda fagna fagna einverunni og umbreytingin getur hafist augun sjá ég heyri ég finn lykt ég teygji loppuna strýk veiðihárin finn hugrið ná mér man þig ] [ Loksins þessi langi langi ljósadagur á enda ég flý, flý flúorljósin skerandi augun mín augun fagna fagna þér myrkur myrkur loksins ] [ hver segir að steinar gráti ekki? þeir gera það... að minnsta kosti tveir ] [ Allt í kringum okkur eru andlit, án andlits án staðar, bjart og snemmt fyrir daglegt púl, helst ekkert í, ekkert þeirra tár fylla okkar tómrúm, augun okkar sökkva djúpt, ekkert hræðir mig, ég vil deyfa sorgum mínum, á morgun. ] [ Engin orð Lýsa því sem býr innra með mér. Því sem bjó innra með mér En er nú horfið Tómið eitt Hyldýpið sem varð eftir. Sem kannski ekkert mun megna að fylla upp í. En þú mátt reyna Því nú þegar Hefur þér tekist Að fylla hugsanir mínar. ] [ Fylgist með þér í svefni. Hvernig þú brosir þegar þig dreymir. Hvernig brjóst þitt lyftist Við hvern andardrátt Hvern hjartslátt. Finn hvernig hjarta mitt slær örar. En þó ekki í takt við þitt. ] [ Af hverju Af hverju finn ég bara orð Til að túlka harminn Túlka depurðina og einmanaleikann. Sársaukann í höfðinu Sársaukann í brjóstinu. Er ég hamingjusöm Eða er ég að blekkja aðra Blekkja sjálfa mig? ] [ Læt sem ég sjái þig ekki Þrái þó athygli þína Vil finna fyrir augum þínum á mér. Vil finna aðdáun streyma úr hverjum andlitsdrætti. Því ég er svo lítil. Innst inni er ég ennþá litla stelpan Með spangirnar og rauða hárið Sem enginn tók eftir. ] [ Hvernig sem ég reyni. Hvernig sem ég reyni að beina hugsunum mínum í aðrar áttir hugsa ég um þig. Þig sem þótti svo vænt um mig. Þig sem strauk hárlokk frá vanganum og sagðist engin augu hafa séð jafn falleg. Seinast þegar ég vissi voru þau alveg eins. En samt fannstu þér ný augu, ekkert sérstaklega eftirtektarverð augu. Bara augu. ] [ Síleitandi að sjálfri mér Tilfinningum mínum Einhverju sem staðfestir tilvist mína Einhverju sem fyllir mig lífi Einhverju sem sýnir að ég er ekki bara tóm skel Hol að innan. ] [ Strýk flókið hárið frá, Tár rennur hljóðlaust niður rjóðan vanga. Það sem ég ætíð taldi mig þrá, Hefur skilið mig eftir, Og gert nóttina langa. Lífið nú er dautt og dimmt Dragnast áfram af gömlum vana Trúði ekki það gæti orðið svo grimmt Grafið undan mér, orðið sál minni að bana. Ég krafla mig upp á klifið Klóra Reyni að tóra. Ef ég bara gæti svifið Flogið burt og skilið eftir Gamla móra. ] [ Hafið, svarta hafið. Kallar stöðugt til mín. Ég beini augum tunglið á. Því máninn hefur aðra sýn. Hafið vill við sameinumst í öldum stórum og smáum. Máninn hlustar samtalið á og horfir með augum sínum bláum. Máninn vill ég elti hann og gerist ein af stjörnunum. Hafið biður hinsta sinn að ég komi undan dögunum. Föstudagur næstur er hugsa minn hugur þarf. Mánudagur kominn er en svarið bara kom og hvarf. Fimmtudagur kom þó aftur hugur minn fékk engan frið. Samt safnaðist í mér einhver kraftur Þar sem ég ákvað að gefa þeim grið. Ég gekk út en sá hvergi Mánann, og Hafið hafði þornað upp. Ég þar Sólina leit í fyrsta sinn, hún skarst í leikinn og fuðraði mig upp. ©Hrefna Bettý Valsdóttir ] [ Komdu! Þú veist hvað ég vil horfum á púslin falla saman á meðan við göngum - borgum fyrir sömu vitleysuna tvöfalt og föllum saman. Hann bölvaði mér er sönnunin lá fyrir - gat ekki falist og lyfin ei dugðu kyrktu hugann og tíminn týndist í tómarúmi. Hlusta á snjókornin falla bíð eftir dagrenningu nakin í tómu rúmi. ] [ Þegar slokknar á sólinni rennur tár niður vanga minn þegar nóttin líður ligg ég andvaka þegar dagur rís eru augu mín þurr tárin uppurin ] [ Sat ég villtur austan fyrir fjall, gróðurangin í loftinu. Sá ég sólina setjast, kom þá, lotfandinn og vildi smá spjall. _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ Hvaðst hann vera þreyttur, þreyttur í beinum og sál. Þreyttur einsog laufin á haustin, spurði hvort , eigi skildi ég hans mál. _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ Sagðist eigi vita hvaðan hann kæmi, loftandinn þagði um stund, Sagði svo: \"Eigi munt þú skilja hver ég er, eitt skal ég þó segja að kem ég frá læmi. _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ Hvað hann vera villtur svo, að ekki man hann hvar sá læmir sé. Spurði hvort ég gæti leiðbeint sér heim, því ætti hann þar konu og syni tvo. _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ Sagðist hann muna að hann kæmi að sunnan, vissi ég eigi hvernig sá læmir liti út. Sagði hann að læmir sá væri smálækur, að ætti hann heima norðan við runnann. _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ Kannaðist ég eigi við þennann runna, hafðu eigi áhyggjur sagði hann. Berðu mig þangað og ég mun vísa þér leiðina, bar ég hann, daganna marga, yfir fjöll og dali grunna. _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ Er við komum að þessum læmi, leit ég öxl mína og eigi var þar loftandinn. Leit ég þá upp og sá að ég var kominn heim, hafði hann þá bara fylgt mér svo kæmist ég heim. _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ Hafði þá þessi loftandi, eytt sinni síðustu orku í að vísa mér leiðina heim. Vegna þess, komst þá loftandin heim til sín, til sinnar fjölskyldu. Í mínum huga, verður hann ávallt guðsandi. ] [ Ég hallaði mér út um opinn svefnherbergisgluggann og starði tómlega út í auðan húsagarðinn. Ég var í þungu skapi. Enn ein ömurleg djammhelgin framundan því það var ekki venjan að neinn karlmaður liti tvisvar á mig þegar ég fór út að skemmta mér. Ég myndi örugglega enda ævina sem ellidauð piparjúnka. Engin von um börn, hvað þá heldur barnabörn, svo ekki sé nú minnst á syrgjandi eiginmann við mitt dánarbeð. Ekki sála myndi fella tár þegar ég gæfi upp öndina. Það yrði pottþétt heldur ekki ein einasta minningargrein í Morgunblaðinu sem myndi fjalla um mína gleðisnauðu ævi. Jafnvel yrði óframkvæmanlegt að lesa dánarfregnina, því ekki nokkur sála myndi hafa grænan grun um hvaða persóna hefði á dánardægri sínu skilið eftir sig þetta skorpnaða lík. Ég yrði því jörðuð á laun og presturinn einn manna viðstaddur jarðarförina. Ég var djúpt sokkin í þessa ógnvekjandi framtíðarsýn og sá enga glætu framundan í lífi mínu. En skyndilega var ég hrifin til baka til sjálfrar mín þegar ógurlegt öskur skar sundur myrkrið sem umlukti mig. Mér varð ljóst á einu augabragði að nú væri ég loksins dauð og að óhljóðin stöfuðu frá sjálfum Andskotanum sem með þessum hætti væri að bjóða mig velkomna til sín í Helvíti. Ég var sem lömuð af skelfingu en með ofurmannlegum kröftum tókst mér að hrista af mér doðruna og beina skelfdum sjónum mínum í þá átt sem ósköpin bárust úr. Og mér til ævarandi sáluhjálpar komst ég að raun um að þessi ógnvekjandi hljóð voru ekki runnin úr barka Myrkrahöfðingjans heldur stöfuðu þau frá dulitlu sjónarspili sem átti sér stað í garðinum fyrir utan gluggann minn. Þarna á miðri grasflötinni var breima læða, blygunarlaust,að velta sér fram og til baka með eggjandi hreyfingum. Hún velti sér hraðar og hraðar í undarlegum æsandi takti svo Það stirndi á gljándi feldinn og liðlega vaxinn líkamann. Nokkrir spikfeitir fresskettir sátu frá sér numdir af hrifningu allt í kring og fylgdust stíft með frygðardansi læðunnar. Allir með tölu tilbúnir að stökkva til um leið og hún gæfi merki um hver þeirra væri sá útvaldi. Og einmitt þarna á þessum tímapunkti þegar dansinn stóð sem hæst sló niður í huga mér yfirnáttúrlegri opinberun sem átti eftir að gjörbreyta öllu lífi mínu. Ég áttaði mig á því í einni sjónhendingu að það myndi skipta sköpum fyrir mig og mína möguleika á þessu tiltekna sviði í framtíðinni að ég léti loksins verða af þvi að innrita mig í dansskóla. ] [ Nú 22 janúar runnin upp er, er þú þínum 3 ára afmælisdegi fagnar, þú hjá mömmu þinni og pabba unir þér, alls vel og lengi við fögnum þér. þú litla ljós okkar skínir skært, þú mikla framtíð byggir breytt, þú mikið í þessu lífi hefur lært, þitt litla líf á eftir að rokka feitt. ] [ ég er mikilvæg manneskja í mikilvægum heimi og ég gegni mikilvægu hlutverki í mikilvægri fjölskyldu í þessu mikilvæga samfélagi í mikilvægu félagi í mjög svo mikilvegum skóla en í öllum þessum mikilvegheitum finn ég ekki mikilvægi mikilsvægis míns ] [ Inside my head, There’s another world. A world where no one else can see. A place where I can be free. But when I open my eyes, And see, I’m the slave of hatred, Sorrow and pain. Am I the only one who can see, How we really should be? ] [ Bíð ég eftir að þú komir í líf mitt En það er ekkert víst að þú vilt koma Ég lofa þér að ég verð stillt En eina sem ég rauninni get gert er að bíða og vona. Ég hef dreymt um þig svo lengi Að ég er farin að halda að þú sért draumur En í draumnum get ég þig þó fengið En lífið er stutt og tíminn er naumur. En NÚNA vil ég þig fá Og ekkert getur því breitt En ég hef það á tilfinningunni að ég það ekki má og að á endanum fæ ég ekki neitt. Hví er lífið svona strangt Fyrir gelgju eins og mig? En er það svona rangt Að ég vilji þig? ] [ svo mörg hlutverk hvern einasta dag þekki mig ekki lengur veit ekki hver ég er veit ekki hvað ég vil bara eitt safn af mismunandi grímum mismunandi ég-um verð að stíga af sviðinu fara baksviðs og átta mig ] [ Úff þetta er erfitt ég er að horfa á koníaksflösku þvílíkt dekurdýr. Líklega hulstraðasta vín í heimi fyrst flaska, síðan ég síðan heilt herbergi. Og ég þarf að æla hvert ælir maður alvöru koníaki. Það hlýtur að vera til einhver spes aðferð einhver fallegri en ég er með í huga. Einhver siðfágaðri. Djöfullinn ég fæ alltaf standpínu þegar ég æli. ] [ Íslenski maðurinn hefur fimm gangtegundir. Fyrsti er kjánagangur. Annar er hamagangur. Þriðji er ærslagangur. Fjórði er gleypigangur. Fimmti er æðibunugangur. Vei þeim sem hlaupa upp og fara vanagang. ] [ Ó!.. Hvar var það sem ég villtist af leið? Er það kanski einhvað sem einginn veit? Ég gafts upp á því að leita og beið hef verið þar síðan á sama reit Á stað sem þessum get ég alls ekki Staðið og hugsað um hvernig það er Að vera frjáls, óbundinn í hlekki Að eiga mér líf einsog vera ber Ekkert ég hef sem að flækir mitt líf Ekki einusinni ástin stóra Á því skýi eigi ég stend og svíf En samt verð ég að standa og tóra Er það kanski of seint að snúa við? Og hætta þessari vonlausu bið? ] [ Fríkeipis fimmtánára hóra, kostar aðeins einn til þrjá bjóra, sætt og snögg því hann nennir ekki að slóra. ] [ Ekkert hljóð, Vindurinn þagnar, Logninu á undan storminum, Lýðurinn fagnar. Eftir erfiða nótt, Þreyttir menn loksins fá að sofa, Og fólkið er svo hljótt. Mun óvinurinn, einhverjum friði lofa? Í óvissu sinni, Í herklæðum, fólkið festir blund, Ég finn fyrir þunganum af brynju minni, En þó aðeins rétt um stund. Ég loka augunum, Sé aðeins svart, Finn hvernig slakast á taugunum, Og fyrir augum mínum verður bjart. Er ljósið sem ég sé, af góðu kyni? Er það komið til að nema mig á brott, Er ég á leið til að hitta guðs syni, Ef svo er, er það þá gott? Verða það börn okkar, Sem munu ganga sigurgönguna? Verða það barna börn okkar, Sem þurfa eftir þessu að muna? Mun þetta ástand, vara í mörg ár, Munu börn okkar undan sverði falla? Og börn þeyrra þurfa að fella fleiri tár, Finna fyrir konungi myrkursins, á þau kalla? Lyktin af dauðanum, Allt um kring, En um hamingjuna, Ég aðeins syng. Með sverð í hendi, Og bros á vör, Er ég í himnaríki lendi, Og finn þar, við öllu svör. ] [ Hallelúja! öskrar svarta konan með hvítu tennurnar. Röddin er hás en hljómfallið kröftugt...eins og hún hafi sagt þetta orð þúsund hundrað milljón sinnum áður. En eins og hún njóti þess alltaf jafn innilega,fær ekki leið á því. Hún lítur í kringum sig og hlær,hátt og dátt. Svo tekur hún upp fötuna og leikur sér að stíga bara á svörtu flísarnar-þessar hvítu eru sjórinn...enda kann hún ekki að synda, og syndgar ekki helldur. Hún kann það ekki. ] [ lúið borð barðir stólar brotinn stytta lugt og snæri bar ég út á hauga henti ævi manns myndir í skókassa ég skoðaði síðar ferðaðist í tíma en brotna styttu hélt ég eftir og ákvað að líma hörðum höndum alla ævi unnið kvölds og morgna þegar öll er ævi það ég læri lífið er lugt og snæri ] [ Nú þegar engann ég á að, og öllu hef tapað. Það eina sem ég þráði, hef ég nú glatað. Og ekkert sem ég fundið hef meira en nú. Er sársaukin því farin frá mér ert þú. Ég bað á hverju kvöldi, að kæmir þú heim. Og hjarta mínu raðaðir úr brotunum þeim er stigið hef ég á, og blóð mitt nú rennur Ég hverf inní mirkrið, Sál mín hún brennur. Ég vill þakka fyrir stundirnar, ásthúð og hlýju Og megi lífið og hamingjan skína að nýju Fyrir allt sem ég hef gert ykkur, fæ ég ei breytt Það tekur mig sárt, að ég finni ekki neitt En nú farin er ég yfir, og kveð þig mín kæra. Ást mín og lífið, nú í ljósinu skæra. En mín síðustu orð, ég tileinka ykkur. Elsku mamma mín og pabbi, bróðir minn og systir Ég elska ykkur. ] [ húkir í sínu horni bara glaður einfaldur maður gaufast aðrir augum í bak bora en´ekki þora því freði þolir illa gleði en stundar gjarnan baknag ] [ SPURNINGAR NÝJA RÁÐHERRANS Hvernig get ég skipt máli? Er ég einhver? Hvað er við mig? Er ég einhvers virði? Spurði, nýi ráðherrann og horfði á cheerioshringina sigla hægt frá silfurskeiðinni sem hann fékk frá ömmu sinni og afa í Þingholtunum, í vöggugjöf! ] [ Hún bíður færis að baki mér og brýtur og spillir því er hún sér Hún hæðist að kvíða og harmi mínum og gjallandi níðir mig með hlátri sínum. Hún bíður færis að baki mér að bæla kosti mína er hún sér Hún nærist á gráti og goldnum sárum og rænir mig von og gleðitárum Og skjótt hún vaknar svo skjálfi mitt geð hvert sem ég skunda fylgir hún með og lævís hún hvíslar í óráð andvökunótta Hlauptu á flótta, annars tapar þú hugsun þinni í veruleikans ótta. ] [ Heimsins Heimska Eftir Gússa Heimstyrjaldir með dauða og morðum herjuðu á heimin forðum daga Og friðarviðræður með fögrum orðum dugðu ekki til að laga ástandið sem ríkti þá öll illskan og grimmdin, ó já. Hermenn lágu út um allann vígvöll Ekkert heyrðist, engin köll, Þögnin var þar og dauðin líka Það var ljótt að sjá, ekki kíkja. Og þegar í húsin komu S.S.H Voru engar leiðir til og frá Og þá var fólkið tekið, tekið og myrt Jafnvel þó það væri illa hirt. Fólkið var brennt, fólkið var skotið, Það var tæmt að innan svo það gat flotið. Fólkið var kramið, kramið með sleggjum Og svo var það tekið og brotið á leggjum En svo ætluðu allir að hætta þessu rugli Og hætta að eyða öllu heimsins gulli, í allar þessar atómsprengjur sem eru ekki góður fengur en enn í dag er fólk að drepa gyðinga og stundum bara fyrir peninga...... ] [ fjöllin löngu lokka tæla bleikar blíðar bjartar hlíðar rákir skera renna niður mjúkar blíðar meirar hlíðar 24/01/2005 ] [ skært og bjart á gráa glampar glóir fögur sál á þig munu lýsa lampar ljóstra upp innra bál 24/01/2005 ] [ My beauty has forever gone. My life it ended with a song. Happiness I’ve never known. The seed of evil has been sown. He did not have the heart to linger. My soul he just had given the finger. Crazy little daisy girl. She only wanted one little word. Crazy little daisy girl. As graceful as a singing bird. ] [ mikil sorg á bænum býr bæjardyrnar lokast huggun er skamt undan skýr það er, hann telur þokast 24/05/2005 ] [ Jörðin nýfersk skýin eru bara grá sólin leikur að leikjum manna himinn er bara blár. ] [ 2, 13, 53, 19 307, 41, 7. 499,17, 97, 5, 3, 67 ] [ Feldu guði sorg og gleði þína, gæfubros hans að launum færð. Lífs þíns fræ þér leið þá sýna, því leiðin sú er ei utanbókar lærð. Gefðu þjóni hans athygli og þökk, einmanaleikans þrár þá frá þér snúa. Gleymdri gleði kennir frá táraklökk, að gæsku þín guðs er í sál þér vill búa. ] [ Augu þín eins og tindrandi, táldjúp veiðivötn tunga þín sæt sem rósavín. brjóst þín sykurhúðaðar svanabringur með sultutoppum af brómberjum. skautið bleik skál með möndlurís og skvettu af smávegis aldinsafa. ] [ fálma eftir einhverju til að fara í verð að vanda mig notalegt viðmót, ó mjúka myrkur! augun geta sofið aðeins lengur alveg þangað til öskrandi ljósaperan á baðinu sker á þessi þægilegu faðmlög myrkursins og dagurinn eftir allur sigraður af þessum frekjulegu morðingjum ] [ Ég er einn það er eins allir séu hlutlausir í kringum mig. En þá átta ég mig á því að ég er ekki hlutlaus. Og það skiptir mig miklu máli. ] [ Hundar slást og kærastan mín hlær ég brosi líka ofaní tær! Ég fæ mér súp af bjórnum og baka vandræði úr klaka, nú var ég klipptur og sonur mágkonu minnar heldur áfram að vaka! Ég les yfir ljóðið og byrja að hiksta, svo segi ég sko og leiðrétti texta! ] [ Í fjórtán daga flaug ég frjáls eins og fuglinn. Á fimmtánda degi vaknaði ég úr mínum draumi. Á sextánda degi tók kaldur veruleikinn við. Á sautjánda degi festist ég í neti daglegs amsturs. ] [ Eitt andartak andarðu hraðar, augu þín blika af þrá. Tvo líkama lágnættið baðar, lof\' mér að vera þér hjá. ] [ Ég elska litla engilinn, sem í vöggu sinni sefur. Ég elska litla engilinn, sem mikla ást mér gefur. Nú veikur er litli engillinn, sem kúrir mér að barmi. Nú veikur er litli engillinn, því lifi ég í harmi. Nú dáinn er litli engillinn, sem gerði mig svo ríka. Nú dáinn er litli engillinn, og dó mitt hjarta líka. ] [ Hann sá hana í fjarska, og ástfanginn varð hann um leið. Hann vildi við hana tala, en eftir réttu stundinni beið. Hárið var fallegt sem silki, og augun svo falleg og blá. Fiðring hann fékk um sig allan, hann fylltur var einskæri þrá. Hann vilti spyrja ´ana að nafni, og dolfallin gekk hann af stað. En mun hún svara á móti, hann hugsaði lengi um það. Hann þreytur opnaði augun, hafði hann dreymt þetta allt? Hlýjan sem áður hann fann, hvarf og allt varð svo kalt. En svo fann hann eitthvað hreyfast, hann fann einhvern liggja sér hjá. Hann leit við og sá aðeins augun, svo himnesk, falleg og blá. ] [ Afhverju ég, ég ung glöð stúlka brosandi allan daginn, eða hélt það allavega, þangað til stærsta stormveðrið kom, þá missti ég allt, missti þig, þig eina sem ég elskaði, já þig. ] [ Dagur liggur falin bakvið bláan klett hulin eins og slæða finnst ekki í hel myrki flýtur yfir frost og mel situr og bíður eftir mér. ] [ Ég finn snjóinn bráðna undan mér þegar ég ligg með alla anga úti og bý til engla Lít til himins og allt er svo hljótt Ég held niðri í mér andanum Af ótta við að missa af augnablikinu ] [ Gulnað strá og allsbert tré Dansa saman Baða sig í haustsól ] [ Allir hafa átt drauma sem aldrei hafa ræst. Samt vilja allir vita hvað eigi að koma næst. Drauma er hægt að túlka á einn eða annan hátt. Sumir láta það vera og lifa með þeim sátt. Draumar þínir gefa frelsi til þíns hugar og aukin kraft þegar sorgin þig bugar. ] [ Ef lífið væri lítið blóm, og garðurinn geymdur hjá Guði. Þá væru Guðs beðin all-flest tóm, því menn eru fastir í puði. Þeir kunn'ekkjað rækta í garðinum litla, og berjast með stríði og skruði. En veraldleg gæði og dýrkeypta titla, þeir selj'onum ekk okkar Guði. ] [ Ég er farinn veit ekki hvenær ég kem aftur elskan ég hugsa bara um þig farinn af stað veit ekki hvenær ég kem aftur því ég fór fór frá þér Læt þig ekki hafa mig að fífli meira lykillinn að hjarta mínu - var borinn til grafar sálin mín svífur fyrir ofan þig og biður um frið frá þér Aldrei mun ég sjá þig ekki gráu augun,ekki breiðasta bros þitt, því ég er farinn frá þér þar sem við endum ekki á sama stað Ég er sokkinn ég er fífl ég lét þig fara frá mér ég vil sjá andlit þitt hjá mér ég er sú eina sem græt þú finnur fyrir mér ] [ Hví er þessi skessa skæld skyldi hún vera bæld? Sálin hennar sofandi ær sitjandi á hamri í gær ] [ Jemen eini hvað skeði allur marinn i andliti ég er á sveimi inn í herbergi heyri öskur hvað skeði ég ég ég er staddur á kleppi. ] [ Er lífið bara lýgi hugarburður tilfininga minna eða er það alsælan sem einhver annar dreymir um? Hvernig mun ég losna þegar ég vakna upp frá draumi eða er þetta veruleiki sem enginn sættir sig við? Hvernig væri nú að allir færu að hugsa eithvað hlýrra hugsa um hví fólkið er hér í stað þess að lifa í eymd? ] [ Færðu mér frið við styrjöldum,stríði og hættu. Líttu við lífið er ljúft við mig. staddu upp og hugsaðu þig um. Færðu mér frið og ég fylgji hver sem er. Og ég faðma þig um leið. Færðu mér , færðu mér frið ] [ Ég lagði blóm við styttu gleymda hippans um daginn. Sítt bronshárið glansaði í rigningunni og ennisbandið safnaði vatni í fellingunum. Rósótt mussan fylgdi líkamanum sem virtist vera undir málminum. Snjáðar gallabuxurnar voru í göngusveiflu um fæturna. Allur líkaminn var sveigður undan hreyfingu hnefans sem mótmælti og handarinnar með friðarmerkið. Blómin voru í hrópandi ósamræmi við grænan, sumstaðar glampandi málminn en ekki auglýsingaskiltin og innkaupapokana allt um kring, á markaðstorgi hamingjunnar. ] [ Bælir á þér hér með mér línan brotin bygginn á svarti mundi komdu klár svælir er sá sem gengur þér frá. Flugan agnið bítur á konan geispar hræjum frá litlu ormar synda smá hér er ég komin til að vera ykkur hjá. ] [ Við hlaðborð ástríðunnar úr uppsprettu unaðar fleytti ég rjómanum af ást þinni er rann ljúflega niður. ] [ ég hef barist á banaspjóti ég hef varist skotum og grjóti saknað og misst sparkað og slegið elskað og kysst grátið og hlegið ég hef móðgað klórað og bitið ég hef blóðgað og misst vitið ég er dáður hataður líka ég hef áður drepið slíka ] [ My heart won’t stop bleeding. You cut me too deep. I barely hear it beating. I feel I’m falling to sleep. It felt like two bullets fired, right into my soul. To think it was you desired. But now I only feel cold. ©Hrefna Bettý Valsdóttir ] [ Ég þrái að eiga, ég þrái að fá. Ég þrái að mega, í þitt hjarta að ná. Ég þrái ást og þína hlýju, ég þrái að saman við verðum að nýju. Því allt mitt hjarta er opið þér, öll mín ást til þín frá mér. ] [ Við deildum deigi við deildum árum ég vil fá þig pabbi því ég elska þig ég er fullorðinn og fann mína leið það tók tíma að átta sig en ég heyri andardrátt þinn vildi að ég gæti snúið við og breytt öllu ] [ Ég hellti úr höfði mínu yfir þig en sit aðeins eftir með sárt enni og tóman haus. nú Kenny G. fær mig ekki lengur til að skipta um stöð. ] [ Ef ég þarf að ganga mikið lengur á eftir þér verð ég að fjárfesta í nýjum skóm. ] [ geng ég um ekkert vantar því gnótt á af götum í vasa því ég lífið hylli vasa fylli af tómum draumum það verður aldrei spurt og gnótt af að taka og aldrei litið til baka ] [ hann hvarf ríðandi í sólarlag syngjandi í humátt fylgdi Rattattatti hann söng niðurlag ] [ Þögn, öskrandi, veinandi, ærandi. Þungur og grár himinn, jörðin í sárum, gaddavír, sprengjubrot, í fjarska brennd borg. Dúfa, liggjandi, hvít, falleg, andvana. Á brjósti banvænt sár, í því peningur, blóðið litar fiðrið, lífvana augu. Þögn. ] [ Það er morgun dalalæða teygir letilega úr sér á túninu fuglar rumska grasið hvíslar birtan hvít himininn auður dagurinn byrjar rólega ég röllti niður malarstíginn það marrar í skrefunum með fulla myndavél af töfrum er ég á leiðinni heim ég ætla að læðast inn til þín skríða undir sængina og kítla þig í nefið ] [ If I had no name, would I then be nobody? If I had no passport, would I then not exists? And if I had no mind of my own would I then not be human? We are all nobody. Everyone is special, nobody is special. Everyone is different, we are all the same. Is time our illusion? The endless space stretches endlessly, the man is born and dies. To be nothing, to be nobody and to never accomplish anything but the illusion of own goals. The image in the mirror is disturbed. Insecure of yourself, But Why? It’s not like it matters. ] [ Ég flýti mér í búninginn, því bráðum opnast tjöldin og fara ljósin að skína á mig. Ég get nú þegar heyrt áhorfenduna órólega bíðandi eftir mér. Sjálföryggi mitt hverfur um leið og áhorfundir líta á mig underlegum augum. Nakin, berskölduð geng ég inn á autt sviðið. Ég byrja, og smátt og smátt bætast fleiri leikarar í hópinn. Öryggi mitt byggist upp, og áhorfendunum er skemmt. Ég er komin stutt, og þegar orðinn svo þreytt. Því leikurinn er öðruvísi, ekki raunveruleikurinn. Áhorfendurnir vilja eitthvað, eitthvað sem þeir sjá ekki í sínum lífum. Ég er þræll skemmtunar þeirra, ég veit ekki hver ég er. Hver sena á eftir annari, endar þetta aldrei? Uppgefin, að vera eitthvað sem ég er ekki. Ég þarf pásu, til þess að geta aðskilið raunveruleika og leikritið því hver er ég, í raun og veru? Týnd í leikriti lífs míns, sem er blekkingin af lífi mínu, uppfilla óskir áhorfendana. Þvinguð að setja upp leik af annara mann fyrirmynd af mér. Hvernig endar þetta allt? Ég veit ekki einu sinni hvort þetta endaði. Það eina sem ég man er dauft klappa úr köldum sal. ] [ Þegar áhyggja er sótt í hugmynd sem er gerð vitleg með rökréttu samhengi við gamlar hugmyndir með gömlum áhyggjustefjum. Svo æða þær allar saman inn í vitundina troða sér fremst í hugsunina. Ekkert kemst að. Ekki sannleikurinn. Ekki skynsemin. Ekki vitið. Að lokum breytist lundin. Verður þung. Þunglyndi. ] [ Það lá við að mér væri nauðgað í dag þegar bíllinn fyrir aftan mig reyndi að troða sér inn í púströrið hjá mér. ] [ Elsku vin – engill ertu mér engum öðrum líkur þú það hvernig ég fæ þakkað þér þankarnir snúa nú Bjargar fyllir þú brjóst af vonum bara með því að vera til Ég veit ég ber ei af öðrum konum en góðan huga ég skil Engan betri er að eiga að en elsku engilinn þig Ég varð bara að segja þér það að hugsanirnar snúast um þig Allt það góða ég vil gefa þér og græða öll þín sár Kærar þakkir og koss frá mér knús fyrir ókomin ár ] [ Skemmtilegt á ég stelpuskott sem sífellt er að spyrja Mamma, mun ég verða flott? Má fjörið byrja núna? Ung að árum hún undrast margt en unir sér lítt við lestur Henni finnst mikið á sig lagt hana langar að vera hestur Helst hún vildi í sveitinni vera hendast á milli staða þar mun vera nóg að gera hennar staður er hlaða Unir sér ekki á skólabekk stríðir og potar í hina kennurum sínum gerir grikk þessi káta litla vina Seinna náði stúlkan áttum settist og fræðin las breytt er og bætt í háttum blítt er hennar fas ] [ Sífrandi var ég stynjandi skálinni yfir standandi því maginn var í hnút og allt á leiðinni út mér leist ekki á kroppahljóðin kraumandi Tafsandi til Guðs míns bað en ekki tókst nú það því líðanin varð verri og einhver innri hnerri skaut mér hálfa leið út á hlað Emjandi í eitruðu móki engill birtist með glas af kóki og er ég svolgraði á af mér aftur fór að brá ég varð aftur að gleðinnar hróki ] [ Að loknum degi eftir langt puð langar mig að þakka þér Guð Hversu vel þessi dagur fór nú ekki sakar að hafa góða trú sem huggun veitir líkt og snuð Ég lúin leggst og lofa þig lofaðu alltaf þú sjáir um mig Barnið þitt blíða mun ég vera bara ég hafi nóg að gera því margur heldur mig sig Gefðu að ég góðan mann hitti grönnu haltu mínu mitti Maðurinn sá má vel vera hár ekki sakar að hann sé klár Ég lítið mig kæri um eitthvað slytti ] [ Langþreyttur og lúinn kvíðinn lötrar hægt um sálina Telur vart sinn tíma liðinn tæma vill hann skálina Hella vill úr hroða sínum og hjarta mitt hylja Vælandi hann veitist að huga mínum vill vonir mínar mylja Hann þekkir ekki nýju þankana mína því allt er orðið breytt Vill ekki kannast við veikleika sína vill bara að allt sé þreytt Baráttu okkar mun bráðum ljúka því bænin stóra er mín Lengst í hugarfylgsnum mun húka hundskist hann heim til sín ] [ Ég vel þekki engil í mannsmynd engum öðrum líkur er Held þó oft hann hafi ei hugmynd hversu frábær hann er Allt sitt besta fyrir aðra gerir þótt annir séu hjá honum Bestir finnast mér armar hans berir og brjóst hans fullt af vonum Að falla ljúft í faðminn hans fanga ilm og góða hlýju Ég veit hann vinsæll í kvennafans vart ég fanga hann að nýju Ég held samt hann viti hve kær konunni mér hann er Veit hann vel af vænlegri mær? ég vildi hann væri hér. ] [ Eftir langa ferð í ljótum dal sem læknar engin mein þá loksins lít ég fagran sal en líður eins og ég sé of sein Of sein til að njóta og skilja sárt mitt hjarta grætur Veit ekki neitt – ég er hætt að vilja varla ég stend í fætur Fætur sem fóru með mig ranga leið fúnir eru og þreyttir nú og hjarta mitt sem eftir herranum beið harmar sína fölsku trú Þá trú sem eitt sinn mig töfrum stráði tældi mig og sveik Allt of seint þá af mér bráði æ... ég vil hætta þessum leik ] [ 1 er ber lítið um hann fer, kom tvisturinn felldi hann sver 2 sig á kemur, sá þriðji súr illur syngjandi var 3 kom syngjandi súr, sá fjórði klæddi sig úr 4 úr fór, kom þá fimman með nokkra rauða tvinna 5 tvinna var með, var sexan mættur sér 6 sér mættur til taks, sjöan skjótust var til taks 7 skjótust til taks flúinn, áttan óttalega lúinn 8 lúinn er, meðan nían hegningarhúsið fer 9 í hegningar-húsinu grátandi var, meðan tían stundi boðskapinn þar 10 á sér lokar orð 1,2,3,4,5,6,7,8,9,10 erum við. ] [ Ég var að lesa dúnblaðið sá að þú varst ein af þessum sem varst vafinn inn í dún, sá fallegu dún kistuna þína, dún andlit þitt,lokuðu dún augun þín, að lokum gaf ég þér dún kossinn. ] [ I asked you over for dinner, I said: Nice shoes! Ignore was the answer of the unconscious one. And I spent lonely night, crying, in my cold bed Because all I wanted… Was a FRIEND! What was that? “I thought you were different” Who was I, when you were me? My understanding, reaching the limit of the human illusion. Don’t be me, because who the fuck am I then supposed to be? At the start, you were nice But then you didn’t like me. For who I was, my idea, my opinion. But why? I don’t understand why you changes into ME! I cut myself out of your sociality My idea was Freedom, but cloned was living you not a mind of my own. I need a friend! Don’t be me, because who the fuck am I then supposed to be? ] [ Þú þú dróst mig á tálar í skóginum. Þú þú varst með annan mann í eyrunum rugling í höfðinu og með mig milli varanna en litaðir tunglsljósið, kvöldljósið. Þú það er þitt að ákveða hvað verður. ] [ Lygar látast sannar líta Leynast aftan illra orða Sumar særa, aðrar bíta Sannleikann þær allar forða ] [ Margan fýsir í metorða glaum, hlýða lævísu munaðarkalli. Sá lifnaður felur fýsnanna draum, sem leiðir að þeirra falli. ] [ Mér finnst ég sjá í gegnum fólk. Ég sé hvernig það er í raun og veru. Það er ekki gott. Næstum allir eru flæktir í vef tilfinninga sinna og langana. Sjá ekki að þeir eru einir í sínum heimi. Taka ekki eftir því en telja sig frjálsa og brosa eins og allt sé í stakasta lagi. ] [ The candle light in your eyes is burnt in my mind. The look on your face is stuck in my eyes. The touch of your skin is still on mine. The smile on your face reflects my smile. The beat of your heart plays like drums in my ear. That night vil never leave my heart. The night i knew.. ] [ Eina litla stundu stoppaði hávaðinn og ég heyrði... Regndropar dælduðu laufblöðin sem með hjálp Kára dönsuðu undan þeim Laufblöðin keyrðu á hvort annað og mynduðu þetta sem við köllum skrjáf Kári öskraði eins og hann gat en því miður þá skildi hann alls enginn en svo... eins og hann stoppaði byrjaði hann aftur ] [ Hann var alltaf einn af hópnum sneri baki við sjálfum sér. Nú er hann loks á toppnum veit alls ekki hver hann er. Sérstaki strákur þekkir’ðu hann sérstaki strákur nei, hver er hann Það hélt aldrei neinn með honum hann sagð’aldrei hvað honum fannst. Hann hélt bara með hinum „ Ég er sammála” sagð’ann. Sérstaki strákur hver þekkir hann sérstaki strákur trúirð’á hann. ] [ Ég man, dreng og stúlku, hönd í hönd á fallegum vordegi. Sólin kitlar rjóða vanga og fuglarnir syngja þeim ástarljóð. Hún með gulan fíflavöndinn sem hann týndi, aðeins henni. Ég man, mann og konu, örþreytt í amstri dagsins. En að kvöldi loksins saman, tvö ein og faðmast. Hún með brosið sem hún sendir, aðeins honum. Nú gömul hjón, hönd í hönd á fallegum haustdegi. Vindurinn blæs um roskna vanga og fuglarnir syngja þeim kveðjusöng. Geymum í hjörtum ljúfar minningar sem eru, aðeins okkar. ] [ Fyrir suma aðeins blek á pappír, eða orð í mislöngum setningum. Aðrir skynja þrá leitandi sálar að fullkomnum skilningi. Naktar tilfinningar standa berskjaldaðar í sviðsljósinu. Breyddu hjarta þitt á disk og berðu það fram fyrir gesti lífs þíns. Ljóðið er framreytt. ] [ Um götu gengur ungur drengur. Ástfanginn í fyrsta sinn með rauðan blómvöndinn. Á leið að finna stúlku drauma sinna. ] [ Lífið er mér sem leikur kattar að mús. Veit að ég hef tapað en leitandi held ég áfram um það völundarhús er hugur minn hefur skapað í myrkri mynd. Ég er kvalinn en finn þó ekki til. Holur að innan og kaldur, lifandi dauður svo gefast upp ég vil en er rekinn áfram af eirðarleysi. Villtur ég ráfa um tóma sali sálar minnar. Í örvæntingu þrái að finna tilgang tilverunnar, er einsamall og yfirgefinn af engum nema sjálfum mér. ] [ Á Borðeyri bíður þú sæl og rjóð blómleg og fögur sýnum. Göngum um gróandann, ótroðna slóð, og gandreið á Land Rover þínum. Af fögnuði gleypi ég gómana báða; Gustavsberg hvítu og hreinu. Eftir ferðina fáum við lagköku snjáða, fínasta kaffi og kleinu. ] [ Hlýr andvari orða þinna er allt sem þarf til að skyggnast inn í huga minn, kveikja bál í hjarta mínu og losa sál mína úr eigin viðjum. ] [ laumumst í rökkrinu niður að svartri lygnri ánni skiljum fötin okkar eftir við skógarjaðarinn á sumarhlýjum klöppunum við hylinn situr nykurinn leikur tælandi á fiðlustrengi lag um eilíft líf syndum í svartri ánni finnum álana strjúkast við fótleggina - eða eru þetta fingur dauðra manna? klæðumst einni flík á röngunni svo að skógardísirnar nái ekki að villa um fyrir okkur á leiðinni heim um dimman greniskóginn ] [ Ég ætla bara að vera rólegur þreyttur á að vakna á ókunnugum stöðum þreyttur á vökunóttum í fölskum dýrðarljóma áfengis og eiturlyfja þreyttur á sömu andlitunum sömu setningunum á erfiðu dögunum í kjölfarið Held ég gangi í skátana þeir virðast alla vega glaðir. ] [ Enn um sinn, er ég er verk í vinnslu, ófullkomnuð fegurð, í felum á bak við skapara minn. Óskilgreindar tilfiningar, ég veit ekki hvað ég finn. Eða hvernig mér líður, þegar ég finn tár, renna niður mína kinn. Veit ei hvaða hug ég ber til þín, skil ekki hversvegna hjarta mitt tekur kipp, hversvegna fiðrildin í maganum, fara svo fljótt á flug, og öllum áhyggjum mínum vísa á bug. Get ekki útskýrt það betur, en þetta er ástarjátning mín. Og hún er einkum ætluð. Til þín. ] [ Þetta snýst um brot í heilanum! Það brýst um, um í heilanum brotin snúast það brestir í mér ég snýst,snýst þar sem hugurinn snýst umhverfis eldinn, ég gýs heilinn er að sviðna allar mínar dýrmætu eignir sem hafa þróast í heilanum eru brunnar. ] [ Mitt líf einfaldir tónar endurteknir aftur og aftur stutt hljómhviða sem breytist ekki ] [ It feels great to see the stars on the sky. And kno tht the sky will last forever. It feels wonderful to hear the ocean talking to you, telling a story. A story that only you and the world can understand. A story about all the sensitivity in the world. A story about that every human being has feelings, but somebody hide them as deep in their heart as they can, but all the others show their feelings to the world, their friends and everybody they care about. A story about everything in the nature that is living, is having feelings, ewen the plants. Every animal has a lot of sensitivity. It\'s wonderful when the world share a big secret with you. It\'s lovely to smell the flowers, the ocean and everything in the world. It\'s wonderful to know that the world is looking after you, it cares for you, what you are and what you will be. Love is one of our feelings. Emotional love is true love. To love somebody means you care about him/her. ] [ Á leiðinni til þín ösla ég snjóinn, græt ég gegnum vindinn, öskra ég í gegnum kuldann. Með kaldar hendur, frosin augu, dúndrandi hjartslátt, kem ég að dyrunum þínum og þú ert ekki heima. ] [ Þú reifst í mig og tókst litla búta af mér Ég leyfði þér það í blindni elti ég þig og endaði svona í tætlum. ] [ Í gaddavírslíki vefur sársaukinn sig utanum hjarta mitt og sker viðkvæmt kjötið með oddhvössum sannleikanum. ] [ Gul laufin titra uppþornuð í vindinum, hvísla sín síðustu orð um sumarið sem hvarf. Heitur líkami minn breytist í ísilagða tjörn. Allar minningarnar, öll orðin mín, sitja föst í ísnum og glata tilganginum. ] [ Og úti urrar veðrið. Það er kalt þótt ofninn sé á fullu og ég ligg skjálfandi undir sænginni. Vindurinn lemur húsið og veggirnir titra en þegar ég lít út um gluggann skín sólin og þvotturinn hreyfist ekki á snúrunni. ] [ Tunglið lýsir upp himininn, haustlaufin hvíla sig á hálfnöktum trjágreinunum og fjörðurinn er stilltur. Í nótt blossar óveðrið annarstaðar. ] [ Upp úr frostinu brjótast sólblóm. Á ísilagðri tjörninni synda nývaknaðir andarungar. Þegar þú brosir í áttina til mín brýst vorið gegnum kuldann. ] [ Spegilmynd sjálfs míns syndir í votu strætinu. Ég leyfi regninu að drekka mig og gleymi mér í fangi þess. ] [ Ég man að það voru bleik blóm í hárinu þínu, að þú lyktaðir af sumrinu, að augu þín ljómuðu af ást. Ég var hamingjusamasta stúlkan í heiminum, svo sá ég að þú varst ekki að horfa á mig. ] [ Ég sit á gólfinu og nýt þess að finna ylinn frá sólbökuðu teppinu. Dagurinn er jafn fallegur og nóttin var erfið. Í birtu himinsins hverfur kuldinn og myrkrið er fjarlægt og ómerkilegt í minningunni. ] [ Ljóminn úr augunum þínum dáleiðir mig, tælir mig inn í frumskóg hárs þíns, þar sem brosið þitt yljar mér. Minningarnar um þig hlaupa milli trjánna, leika sér að mér og hlæja. Og ég veit að ég mun aldrei rata út aftur. ] [ Leyfðu mér að gleyma. Leyfðu mér að snerta. Fingur mínir skjálfa af ástríðu, því augu þín eru bannvara og varir þínar innsiglaðar. ] [ með fannferginu fullkomnar hann fyrir okkur jólin og með áttagata ósonlagi og óþolandi frosti bræðir hann hjörtu rjóð í vöngum brosum við því framaní snjókarlana (liturinn á jólunum skiptir jafnmiklu máli og gjafirnar) og hátt á bláa himinum situr hann nötrandi af hlátri gamli skröggurinn með snjóblindu í augunum og augu úr gleri og með grýlukerti á tánum ] [ Gluggar fjölbýlishússins vakna einn af öðrum og geyspa letilega til svarta morgunsins sem umvefur snjóskaflana fyrir utan. Köld götuljósin skjálfa í kuldanum og horfa með undrun á mannfólkið skifta á draumum sínum og ös hversdagsins. ] [ blóðugur slímugur aðskotahlutur kemur þú í heiminn og einsog yfirþyrmandi drungi tilverunnar sé ekki nægur ertu barinn í bakið þartil þú orgar af sársauka og þú lærir að ganga tala ljúga og lifa og þú lærir að treysta mömmu og þú lærir að vantreysta mömmu og þú lærir að ekkert skal elska og að engir kossar fá læknað sárin sem sjást ekki að utan rétt skriðinn útúr skólanum ennþá hlandvotur á bakvið eyrun úrvinda af þreytu uppgefinn á heiminum þreyttur á að anda lífsleiðinn í hámarki bankainnistæðan í lágmarki og klukkustundum saman geturðu legið uppá þaki og starað útí tómið tunlið tunglið taktu mig taktu mig í rassinn ] [ Sú staðreynd að risaeðlur ríktu hér á jörðu fyrir 65 milljónum ára er eitt út af fyrir sig næg sönnun þess að Guð sé ekki til og hafi þess vegna ekki getað skapað risaeðlurnar. Enda er hvergi minnst á sköpun Guðs á risaeðlum í Biblíunni. Og jafnvel þó við göngum út frá því að Drottinn hafi ekki getað skapað risaeðlurnar sökum þess að hann var ekki kominn fram á sjónarsviðið þegar þær voru uppi. Sýnir einmitt það, að Guð lýgur þegar hann segir í Bibíunni að hann hafi alltaf verið til. Með því brýtur hann eitt af sínum grundvallar boðorðum sem hljóðar svo; 'Þú skalt ekki ljúga' En hver skapaði þá risaeðlurnar? -Augljóslega, einhver annar guð. Drottinn hefur þá ýkt skrambi skrautlega líka þegar hann hélt því fram að hann einn væri Guð og að við skyldum ekki aðra guði hafa. þess vegna segi ég alltaf hreint út við Guð þegar hann er að reyna að telja mér trú um að hann sé til - að hann sé nú meiri lygalaupurinn! ] [ No longer will I bare the shame for trusting you. I am to blame No longer will I take the pain of loving you. I am to blame No longer can I play this game of loving you. I am to blame. For the love and lust cheats and distrust I brought it all on We\'ll always go wrong. So now our game of love is through Blame me i just got, over you. ] [ Ég skrifa um konu sem kynntist ég ung. Um tíma hún reyndist ævin henni þung. En eins og klettur úti við ballarhaf, stóð hún allt af sér og hafði það af. Þetta er konan sem prýddi mig dýrustu klæðum þó það þýddi\'að hún sjálf gengi\'í hræðum. Konan sem aldrei dró kost minn í efa sú sama og kenndi mér hvað það er að gefa. Konan sem lét mig aldrei í friði við það að kenna mér góða siði. Konan sem þerraði tárin mín sú sama og græddi öll sárin mín. Konan sem eldaði matinn minn og hélt mér í örmum sér, fyrst um sinn. Hún er konan sem með nauðum mig ól sú sama og hefur æ verið mitt skjól. Þetta er konan sem kenndi mér flest er ég kann elsku mamma mín sem ætíð ég ann. Sú eina kona sem fram á þennan dag hugsar frekar um minn en sinn eigin hag. Þú hefur sýnt mér að kærleikurinn er vel þess virði að gefa frá sér. Því þó í lífinu slái ég fullt af feilnótum þá kenndir þú mér að ganga á þessum fótum. ] [ Lífið sjálft á sér ekki tíma. Menn eldast ekki um sekúndur, mínútur, klukkustundir, daga, mánuði, og ár. Lífið hefur sinn eigin tíma. Sekúndur lífsins er hraði frumubreytinganna og þess vegna get ég ráðið aldri mínum. ] [ Ekkert sem við gerum skiptir máli. Við gætum alveg eins sleppt því að gjöra eitthvað yfir höfuð. Í rauninni eiga gjörðir okkar sér engar afleiðingar. Og það felur í sér að við eigum okkur enga framtíð. Einungis fortíð. Og fortíðin skiptir engu máli því hún er liðin. Og við getum ekki breytt því liðna. Mannkynið dó út fyrir löngu síðan. Og það er bara hægt að deyja út einu sinni. Þannig að í rauninni erum við ekki til. Við höldum það bara. Og það er ekkert eins og við höldum að það sé. Lífið er eitt stórt samsæri. ] [ út úr kyndli aska flæðir geislar glæða glóa bjartir ljósir logar ljóma hérna alla sali eldur lýsir en samt sé ég ekki ljósið finn ei hita funans hlýja beita kann ei bálsins bjarta leynda mætti logans skæra ] [ það var ekki fyrr en þú hættir að tala að ég skildi það sem þú sagðir í orðleysinu birtist einlægnin í málleysinu sannleikurinn í varnarleysinu nektin þá fyrst sá ég hver þú ert áður vel falinn í flúruðum setningum ] [ Eitt sinn á gangi ég augu þín leit, inn í mér kviknaði tilfinning heit. Aðdáun mína þú augnablik sást og upplifðir brennandi ást. Tóku þá örlögin taumana í, trú mín á lífið nú vaknað´á ný. Geymi í hjarta mér gleðidag þann er gagnkvæma ást þína fann. Örlagavaldur og einstakur galdur var augnablik það er ég ástina fann. Á álögum mínum og augunum þínum, enga ég skýringu kann. ] [ ég vildi að lífið væri fallegt lag á nótnablaði mínu þá myndi ég leika létt á það og aldrei slíta streng ] [ Þú setur sól í mitt hjarta þú setur hlátur í minn barka með brosinu þínu bjarta. Með þér vil ég um lífið arka ] [ Drengurinn hló fékk sér sígó og dó ] [ Ekki með neinar hendur Vil ekki fjúga um lendur Þar sem reykavíkurborg dælir heitu vatni í tjörnina ] [ Moody Cow sleeps under a quilt of lies and feels no guilt for her despise she holds a grudge and loves it so that she will not ever let it go jealous greedy and so not nice spite so clearly dyes her eyes she can listen she can hear but never ever will she share and undercover this grimy snoop digs in filth to find her food for smear and slander is the fodder that fills her cheeks and gets her fatter the lower she puts others even her own brothers the higher up she feels her simple mind relveals that only in her own eyes is she wonderous and wise for no matter what she tries others see her pretense and niceness-guise at last we note that she is not altogether without pity for she is not exactly what you would call pretty ] [ Ég hugsa þess vegna er ég skáld. Ég lít á hluti öðruvísi en verðbréfamiðlarinn sem klekkir á súrsætum almúganum. Sá mun líklega tapa lífeyrinum vegna miðlarans östöðvandi græðgi. ] [ Áfram Aston, áfram Villa, áfram Aston Villa, jafnvel þó við töpum einum leik! ] [ Það er margt hægt að gera þegar tíminn stendur í stað. En verra er að þurfa bera dauðadóm sem maður sjálfur kvað. Maður stendur alltaf upp aftur þó svo báturinn er dregin í land. Það er samt ekki eftir nein kraftur og sár maður siglir í strand. Farir þú heljar og til baka skaltu ávallt nýta þá reynslu. Því á þínum málum skaltu taka og loka þeim slæmu ofan í geymslu. ] [ Komið sælir kæru foldarbúar kynnist betur okkar fornu sögu. Trúarkúnstin trúarviljann kúgar tærir hugar forðast reglu þvögu. Einráðir hópar afsprengi trúar eineltu heiðna af geðleysi rögu. Lifðu hér Goðin og lifa þau enn um langar aldir þróast Ása saga. þúsund árin mælt í gegnum menn mörgu góðu haldið var til haga. Batnar við Æsi sambandið senn saman við þurfum margt að laga. Aldrei lokaðist Ásum hér landið ógnar götin sjást þar og hér. Traust á fold og tryggða bandið trúleg bending þykir mér. Fólkið eymdin og flökkustandið fluttu nöfnin kunnug þér. Valkyrjur gistu Valhallar sali varlega Ásynjur aflinu flíka. Líknuðu nokkra vopndauða vali veittu af rausn er nutu slíka. Virðingu fengu í valmanna tali valfengnar konur atsæknar líka. Óðinn er guða og manna mestur margur er hans leyndarsvipur. Hann ýmist þykir góður gestur gjafmildur vitur sagnalipur. Ella klórandi vargur verstur válegur urrandi glefsandi gripur. Traðir Óðinn þeytir átta hófa hrossi heiðblátt sindur undan skeifum keyra. Gandinn situr guðinn þó hann hossi goðumlíkir þegnar nálgun heyra. Skekur bifröst skjanna birtublossi skellir harðir berast næmu eyra. Ása Þór hinn mesti goða garpur græskulaus til varnar hallar liði. Goðið hafra hélt er gleypti sarpur guðinn skrýtna matar hafði siði endurskapar aftur goða garpur goðumlíka hafra með geita sniði Mörlandinn goðið þoldi Þór þjónkun mikla karlinn hafði. Í augum flestra ógnar stór einkum þegar mjöllnir lafði. Megingjörðum mögnun sór meira fékk en þoldi kvarði. Til orustu búinn er okkar maður oddar engir á hann bitu. Sjaldan eða aldrei glotti glaður Goðin kátu á hann litu. Þór minn sterki þinn er staður stríða frenju rista fitu Markast í bakið megingjörð magnast gimheims krafti goðið. Jötnar villtir í hamfara hjörð hrottum sjaldan mörgum boðið. Í jötna Mjöllnir skárar skörð skaði trölla um valinn troðið. ] [ Öldrun er þáttur er þarf ekki vera þannig er málið í heljar heimi. Á hrörnunarferlinu hratt fer að bera hárin að þynnast í grámusku keimi. Helstefnan sífellt í hamingju skera hallar á lífið með kærleik á sveimi . Veröld er önnur í veglegum geimi víst þangað allir að lokum hér fara. Örfátt á jörðu agnarsmátt teimi aðstoðar líf á veraldar hjara. Líf eftir líf er í efnuðum heimi hverjum þar kennt að lifa og svara. Eflist öll sköpun er listinni lifað látlaus er framför í verkinu þínu. Á vitrænni þróun hefur veröldin klifað varlega lífveran tilnefnir línu. Illa hefur illskan seglunum rifað inn siglir gæfan í hringferli sínu. Brátt fer að bráðna jörð undan illum bergir hér foldin af gróður þef. Ráðlausum loksins ratað úr villum riðlast brátt vítin hreinsast stef. margbrotnar sálum á mjóum bergsillum muna þann tilgang sem hverjum gef. Gefa skal Guðunum enn meira rými gæskunni fylgir kærleiksstjarfi. Í skugga og skelfingar óttanum hími Skelfast ei fleiri hornin á tarfi. Sköpum þeim gleði skammur er tími. Skerpum á kærleik svo friðurinn starfi. ] [ Sérhver maður sínum guði getur gengið varla nær í jólaönnum. Svo lengi hugur meðan metur mann og annan kærleik sönnum. Ellefu sinnum við bætum betur báginda lífi á jarðarmönnum. Guðleg verund mikils metur mannsins gæði árið hvert. Hugleiðingin hrist í letur hugur linast geðið þvert. En bletti á samviskuna setur undan svikist og ekkert gert. Nýtum kært sem gæfan gefur góðleika vinar og ástaróð. Nái guð sem næmni hefur nýting jóla kærleiksglóð. Fjarlægist allt er farsæld tefur fjársjóð eignast lítil þjóð. Að loknu tylftaferli lifna jólin Lýsist ást í mannsins huga. ljósbjört vera og ljóma sólin liðum sinnti er byrðar buga. ráðin einu og réttu tólin reisum tengsl er guðum duga. ] [ Hver er Persónudýrkun dagsins dynja hróp í hornum öllum. Smekklaus vilji leitar lagsins laumar tón úr glerja höllum. Í stefnumálum stjórnarbragsins stýra formenn presta köllum. Þeir skammast og skemmta sér skammtíma hagsmuni kjósa. Topparnir toga í aðra hér traðkað á sómanum ljósa. Takmarkað forustan treystir þér troðið á þeim er kjósa. Allir bjóða flokkar fremd í forustu okkar maður. Gömul loforð skúrka skemmd skaðleg eintómt blaður. Sækir að lokum sekann hefnd sóminn bull og þvaður Í engu ræður félaginn ferð fórnin einskis metinn. Að loknu streði við listagerð lá við hann yrði étinn. Þakklætið ekki í brjósti berð bekkur af mannvali setinn. Hann gruflaði í valmanna gæðum er gert höfðu viðvik í flokknum. Það snarkaði í gömlum glæðum guminn rétti úr skrokknum. Forheimskt að fórna sér hræðum í forugum götuðum sokknum. ] [ Höfðingi herskarans fráa hollvinur frelsis í bænum. Stendur á stallinum háa starandi glyrnunum grænum. Lotinn með lokkana smáa leiksvæði driturum vænum. Margann átti maðurinn vini megnið í sögum fornum. Leiðtogar með landsins syni lítið sinna áður bornum. Misstu virðing menn og vini margur dúsir enn í hornum. Menn áttu dágóða drauma danina sendu þeir aftur heim. Ólgandi hugar í kotunum krauma kannaðar ferðir í vesturheim. Fréttirnar eru um stöðuga strauma staurblankra manna í nýjam heim. Hvað um þá er heima sátu hýrnaði svipur í dalnum þar. Ellegar þeir sem ekkert gátu aldrei þeir fengu vesturfar. Glöggir sumir merkir mátu mitt er ekki komið svar. ] [ Spilling venst í spilltum flokki sporslur boðnar traustum vinum. Rupplandi kólfar í ræningja plokki ræna hér sjóðum ætluðum hinum. Siðfræði þeirra á syndugu brokki sjálfstæðið tórir í orðunum linum Fram við göngum fylktu liði fagurgalann móta þarf. Í okkar nafni og augna miði öll við fengum dáta starf. Staðfesta úr sterkum viði stundar róstur er friður hvarf. Við kusum sterka konga menn er kunnu lögum fletta. Til jarðar fellur tjaldið senn Halldór klifrar kletta. Mistök fleiri en þessi þrenn þurrkar traustið metta Höfðingjavaldið heiminnn skekur hlýðni krafist til allra átta. Sjálfstæða hugsun í burtu hrekur horfnar vonir gleði og sátta Foringja hugsun forna vekur frammarar ætíð utangátta. Lýðræðissinni ég löngum verið laumandi íhald aldrei var. Þingheiminn setjum þannig á skerið að þjóðin öll sjái hvað vantar þar . Til frambúðar Dóra foringjann þérið frekar en hugsa um lýðræðis skar. ] [ Það er vont að vera inní sér og heyra blóðið renna straumþungt um æðar heyra hjartað berja einsog á bumbur endalaust og komast ekki upp á yfirborðið til að standa fyrir máli sínu. ] [ Ésús Kristur bróðir minn drakk á börunum en ég reyni að forðast það Munurinn á okkur er sá að Hann gaf kærleik ég óttast hann Sjá, ég er hér ég veit ekki hvers vegna mér var veittur kærleikinn ] [ Ég fékk mér framsóknarstaup sem var mjög gott Ég fékk mér Ingibjörgu Sólrúnu sem var hott hott Það var sólríkur dagur og Davíð sagði þetta er orðið gott ] [ Allt þetta listamannapakk og greddan í henni Rósu Ég vildi að ég væri með vinstrimannasósu Þegar stjórnin kemst til valda Þá skal ég segja ykkur hvar á að tjalda ] [ bæn um frið. Hvern skal biðja, meðalmaðurinn vill frið, Kjallarakytra, Stríð. Blóð, byssa. Skot, barn liggur í valnum. Úrræðalaust foreldri, grátur og gnístan tanna. Hörfið þið trúaðir ofstækismenn. Friður á jörðu, Sameining ] [ Þegar maður verður veikur þá kemur á mann illur kreikur. Uppi í rúmmi maður sefur og á mann kemur vefur. Mamma kemur að hjúkra en allt í einu þarf maður að rjúka. Allt hún manni gefur sjáðu bara hvað maður hefur. Pabbi gerir allt fínt en þá er allt tínt. Reynir hann svo að finna honum vanntar bara nál og tvinna. ] [ Oft maður verður argur en á því þarf maður að taka. Reiður maður verður við næsta mann. Illur og fúll skundar maður út. Ef þú verður argur, reyndu á því að taka, ekki reiðast næsta manni, skundaðu frekar út. ] [ Ef þú kæmir til mín myndi ég ráðast á þig og rífa utan af þér fötin. Svo myndi ég leggja þig flatan á fínpússað eldhúsgólfið og fleka þig með bestu lyst. ] [ Fyrst: ................................................................ Í gerjun: bííb............bííb.............bííb..............bííb Á meðan bííb...bííb...bííb...bííb...bííb...bííb....bííb.... Rétt eftir: bííb.......bííb.........bííb.......bííb........bííb.... Aðeins seinna: bííb......................bííb.......................bííb... Nú: .................................................................... Magnús Ben 09/02/2005 ] [ Skandall er skaðinn sem þið hafið gert sködduð er náttúra sem rómuð var. Það nístir mig valdið nakið og bert nályktin legst á gróðurfar. Dreyfir svörtum dauða slæðan töluvert dúnmjúki leirinn tekur lífið sem var Þeir reisa ofurlónin og annað setja þarna enginn okkar latti þó smekklaust væri Hingað fólk leitar að lýðræðiskjarna. leggja mótbyr stoð ef í átök færi. Eftirsjá er mikil að líta fegurð farna fáráð er heimska ef landsvikin mæri. Er það ekki heimska meta hlutina kalt hafna þar annara fegurðarsskyni. Þegar allt er til arðsemis metið og falt uppfræddi ég mína dóttursyni. Þá vega hér verndin og nýtingin salt iðjunarglýjan á móti gróður vini. Grátum að morgni graseyðni dags grósku mikil er náttúrudaman. Kannað verði betur eða leitað lags að lagfæra skemmdir í framan. Yfirborðs mótun í færni fags Fegrast þegar unnið er saman. ] [ Dagný Lóa dafnar vel, dökk með rjóða vanga. Hún á eftir að ég tel, að eiga ævi langa. ] [ Er eitthvað ljúfara en að sitja í hvíta hægindastólnum á vetrarkvöldi fyrir framan stofugluggann sem snýr í norður, horfandi á ljósin sen lýsa hinum megin við voginn. Agndofa yfir litadýrð þeirra perlu sem vakir yfir borgarbúum líkt og móðir vakir yfir veiku barni. Héðan er allt svo kyrrt og friðsælt, ekkert sírenuvæl og engin skerandi öskur óréttlætis. Það eina sem heyrist eru ljúfir og suðrænir tónar sem berast úr einu horninu. ] [ Ég stend nú, stari þig á, starir í augun blá. Ætíð veist, þó enginn muni, ég alltaf þér, í huga unni. Líkt hjartað hætti að slá er hætti ég að sjá aðeins fallegu augun þín. Eigi vissi, þau væru mín. Hjartað, stóra hjartað þitt hélt þétt utan um mitt. Hvað himinfengleg ástin er. Hví sé ég mig í þér? ] [ Ég elskaði hann, hann ég dáði Hann var það sem ég þráði. Ef ég sá ekki þann mann var líkt og sólin hætti að skína. Því í honum, ég lífið fann, og eldurinn fyllti sál mína. Frá mér svo hann fór og eldurinn í mér dó. En hann lét mig sig elska Þyrsta í það mennska? Nú, er hugsa ég um hans koss, hrapa tár mín líkt og foss. Hjartað brotnar, hrapar, dettur. Ég hefði átt að vita betur. ] [ þetta er eina veröldin þín í heiminum ] [ við vórum og lékum okkur í heilaöld ] [ Darkness is so mysterious and pretty to some But to me it’s mad, and it makes me feel numb I hate to feel the darkness overwhelm me But people not see what it does to me. The darkness holds death, pain and fear But when I feel those, I don’t want people near I don’t want them to know who I really am. This small, weak little lamb. Who is the darkness to make me feel this way. I want to feel loved, beautiful and gay. I hate this damn darkness I hate this fucking madness But the thing I hate most is the overwhelming sadness. ] [ Cold as ice Frozen eyes Dead as Stone Let Alone Passed away Just as everyday Crying pain I\'ve gone insane ] [ Painted feelings on my face just like a mask in its place not seeing throught my tears pretending I have no fears Fade away little girl finding my place in this world going into twists and turns no knowing how much truth burns ] [ Í rökkrinu vofan bíður okkar, hún ýfir upp djúp sár. Allt breytist, áður hljómaði allt æðislega, frábærlega, yndislega, nú allt er breytt í ógeðslega, ömulega, hræðilega.. ég skil ekki, Komdu með fjarstýringuna af mér aftur, ég ætla aftur að stilla á rás MIG. ] [ Hvert ertu farinn? finn þig hvergi, hvar ertu? Búin að leita útum allt, en hvergi þig finn... Kíki upp, niður, hægri, vinstri, fer heilan hring, þá loksins finn ég þig sofandi, sofandi í hausnum mínum. Ég vek þig og finn strax hvernig æðarnar tútna út, gleðiefnið sem dreyfist um líkamann. ummmmmmmmmm.... ] [ Hryssan Aska heldur vær heillaði kaska sveininn. Hestabraska tróð um tær til að maska beinin. "Barnabrúnka" hló svo dátt að bylgjaðist hennar makki. Reiðmaðurinn hófst þá hátt og hentist upp úr hnakki. Við skulum gera glettu eina, hestaskipti við hann reyna, setja "Málarajarp" undir þennan garp! Þú veist kæri hvað ég meina! Hann fór víst á fætur í dag, fer óðar að komast í lag!!! Ekki má ég hlæja, en segi: Jamm og jæja og sei, sei og lík þessum brag! ] [ Greddupúkinn læðist inn, Ekki er þetta í fyrista sinn. Hann fer í sínn ham Og gerir það sem hann man Vera “flott”, En það er líka svo gott. ] [ týndur úr huga mynd villtur varð í aldir horfi um hvarf kominn er í tölu guða leit-andi við og við hann aldrei fundum meðann grafinn í fjörusandi aldrei man hann fundinn aldrei mun hann verða aldrei vera aldir í öldu aldann honum unni Óskar óskar aldann unni annan mann minning lifi hans heldur hafið hefur hann á opið sár í jörðu að leik í klettagarði skall sjór á land aldann eins og heitur eldur ] [ Það er reistur kross fyrir hvern iðrandi mann. Þess vegna verð ég að fara að safna spýtum. ] [ Svartnættið syrgir í örmagna sál. Hjartanu blæðir við útbrunnið bál. Hið nýfædda ljós er nú logar svo hljótt lýsti ei upp þessa örlaganótt. Ég eignaðist lítið barnabarn aðfaranótt laugardagsins 12. feb. 2005. Hann fæddist með Downs heilkenni. ] [ bráðum hittumst við aftur það eru liðin mörg ár það verður vonandi vandræðalegt annars væri hún ekki til neins þessi minning ] [ sól þarna skæra sama hvernig ég gretti mig alltaf skaltu samt skína á mig ég verð afmynduð en fallegastar erum við saman þegar ég sé þig gegnum handarbakið mitt, augnlokin mín, eldrauða heita skæra sól og ég verð þú þú ég við við. einar. ] [ Vangaveltur. Maður sá er guðinn fyrstur fann fékk þá skrítnu mynd í huga. Aldraðann útlits sýna hann aðrar myndir þurfti að buga. Ímynd kynnt sem enginn kann eflaust finnast ráð sem duga. Í gráhvítum kufli gamal er maður gráskeggið mörgum hefði nú dugað. Sæll var um tíðir guðsonur glaður gæsku naut hrundar er ást hafði bugað. Eljunar ávöxtur atlot og daður elur þann bur sem guðsyni er hugað. Fullþroska er maður þrjátíu vetra þróun varanleg ef rétt er stefnt. Furða að ætla þeim besta ei betra berandi elli þar illsku er hefnt. Í nafni Heildar og heilsusetra er hreystileg fegurð þroski nefnt. Blekkingatrúin er bálandi staða bráðum er gengið heldur of langt. Þá bannað er eitt í verra þeir vaða og vita ekki lengur heilt eða rangt. Kristna heiminn kynnu að skaða kynnist þau fólki guðsorða svangt. Heimskerfi mitt er allur alheimur all flestar sólir og lífgjafa hnettir. Þroskaðar heildir þéttsetinn geimur þróandi framlíf á jarðkúlum settir. Á guðlegri stefnu milljarða sveimur staðnaðir neðar frumstæðir prettir. ] [ Hér sit ég ein, alein og yfirgefin. Ég græt, græt því ég hef misst vin. Vinur sem var mér traustur og trúr, ég tók í hönd hans er hann var súr. Þegar við lékum saman, saman hjá stóru eikinni. En nú ertu farinn, horfinn í annan heim. Þar sem friður og dýrð munu fylgja þér, en aðeins draumar og fortíð munu fylgja mér. Þú varst ást mín og draumar, því á milli okkar neistuðu heitir straumar. Við leiddumst hönd í hönd, og tengdumst sterkum vináttubönd. Þó upp í skýin þú kominn ert, þá vinur minn þú ávalt sért. Ég veit þú bíður eftir mér, því ég vil ætíð vera hjá þér. ] [ Af hverju ég? Ég sem er alltaf ein. Hvað er að gerast? Gerast í þessum heimi. Marinn líkaminn og glóðurauga. Handleggurinn brotinn, ó! hvað það er sárt. Það er svo sárt að standa ein, ein á móti tíu, jafnvel hundrað! Hvað get ég gert, hvað skal segja? Þetta var martröð, einelti er martröð! ] [ Hvað sem gerist, hvert sem ég fer. Þú ávallt ert í huga mér. Hárið dökkt og glansandi, og augun svo framandi. Þú heldur mér traustu taki, og allt það vonda er að baki. Ekkert í heiminum mun taka þig frá mér, því ég mun ætíð fylgja þér. Í gegn um súrt, í gegn um sætt, því hjartað mitt þú hefur brætt. Ég dái þig, ég þrái þig. Ég vona bara að þú viljir mig!!! ] [ ég sakna ekki lengur ég frekar þakka ég hef þroskast ég skil ég finn ég gleðst ég er þú varst alltaf þar þú ert enn og verður þú gafst alveg sama hvað þú varst glaðværðin þú sagðir þú þagðir takk mamma ] [ Ást er ávöxtur hverra blóma Allir þurfa ástina Hjartað hamast ótt og títt Þegar horfi ég á þig ] [ All I want is you and me You and me are great to be If only we could work on it Keep our relationship fit Think about our good times And what I’m saying, it rimes It’s just because I love you so I don’t want you to go If you do, You’ll take my heart to I love you ] [ Klerkar og fjöll, um fagra morgun ást. Skýin tóku þig, eins og dögg fyrir sólu. Sakna þín mikið, græt morgun ást. Lít til himins, Og nú ertu þar. Afhverju fórstu, burt frá mér. En má ég ekki fá að kyssa þig. ] [ Þú ert ljúf sem lamb, hárið þitt er gyllt eins og gull, augu þín eru fallegri en tært vatn, Rjóðar kinnar þínar fallegri en rósin, Rauðar varir þínar sem rennandi blóð. Ég elska þig, ljúfa lamb, barnið mitt. Sofnaðu, litla mín, sofandi, svefnburka; sofnuð nú. ] [ Afhverju er ég hér er það satt að ég sé ástfangin af þér, á meðan ég finn mér flottann hatt. En öðrum þú fórst með Á töfra stað En það hefur skeð, Að ég fór með þér í bað. ] [ Er þetta galdur, sem milli okkur fór, ég elska þig ó Baldur, Eins og í augun fékk ég klór. Folald í haska hérna er fín taska, geymi þar fyrir þig ástina um mig. ] [ Verkin ég vann ég finn fyrir hann Gull og gersema á þetta að vera þema. Þræla út og inn má ég vera þinn, kona þín og mamma þeirra þá get ég þénan fleira. Hvað er að þér, kona góð. Viltu giftast mér, Þetta er nú algjör lóð. Ég veit ég er bara eitthver tusku dúkka, en má ég ekki fara og alltaf bara húkka far. ] [ Dauðinn tekur völdin það er oft á kvöldinn. Stríðinn byrja um morgun þá er allt í sorgum. Stríðinn enda á kvöldinn þá tekur nóttin völdin. ] [ Áfengi dauðans, þú litli stormsveipur fékkst áfengiskast,hljópst skólaus út í snjóinn, kuldinn herjaði á þig, þú frosinn snérir við,en þá var ég farinn. síman þinn hafði mín í för, þú í rútu upp í varst dáinn úr áfengisdauða,mín hugsandi um kastið sem þú fékkst hvað kom til, hvað gerði ég? mín í taumhaldi hélt í síman, eins og hann værir þú, en þetta varst ekki þú, síminn titrar og bjallar mín í síman tekur upp HALLó þú elskan mín í símanum varst. unaðslegt símtal við áttum, mín til stormsveipsins kemur til, þú litli stormurinn minn þú elskar mig. ] [ Ljósin dofna og myrkrið tekur yfir umvefur heitar ljósaperurnar og bylgjast um herbergið síðustu tónar myndarinnar hverfa af skjánum um leið og ég sný mér í dúnamjúku rúminu og dreg sængina yfir mig Umhverfishljóðin drukkna í þögninni og þögnin fæðir af sér umhverfishljóð brak stigans, fall regndropans hvin vindsins og andardráttur minn allt blandast þetta saman í hvirfilbil nútímans ] [ stend við gluggann og horfi á umhverfið umferðina, fólkið horfi stíft, blikka augum en áfram koma engar myndir fram nema í huga mér stend við gluggann og horfi á umhverfið en sé ekkert augun hafa sofnað dáið myrkrið hefur gleypt þau stend við gluggann og hlusta á umhverfið umferðina, fólkið mikið er gott að skilningarvitin eru fleiri en eitt ] [ ef ég segi þér hvað ég heiti og þú segir mér hvað þú heitir þá þekkjumst við og erum ekki ókunnug lengur ] [ Í fögrum dal á ónefndum stað er snjó að leysa undan snjó brýst blóm; ljóst, lítið, fagurt, fínt. Svo kemur hret og frostið það sker, þá falla blómin en blómið stendur; ljóst, lítið, fagurt, fínt. Nú skín sólin, færir fleirum líf, sumarið komið blómið þroskast, vex; grær, fellir af sér fræ. ] [ Mölin er nýbruninn handa vegarins er ýtan út úr bruninn. ] [ Á morgun ætla ég að storma inn í tískubúð í miðbænum rífa jólaseríurnar úr glugganum vefja þeim um hálsinn á mér klifra upp á stól draga upp svissneskan vasahníf og rista rúnir í hold mitt. Svo ætla ég að grípa þrýstna afgreiðslukonu klína blóði í fötin hennar og dansa við hana foxtrott. Svo ætla ég að bera á mér brjóstin fyrir opinmynntum lýðnum reka útúr mér klofna tunguna á öryggisverðina öskra Lebensraum! og skunda heim til mín. Þar ætla ég að finna fyrir óendanlegri smæð minni við risastóra borðstofuborðið mitt og hugsa með mér að svona hljóti atómum að líða og skæla að lokum ofurvarlega út í kakómaltið mitt. ] [ Farinn ertu yfir hæðstu hæðir, flogin upp í bláa himininn. Á vindsins vængjum þú áfram æðir en farðu varlega vinur minn. Gott og farsælt líf þú áttir og komst svo mörgu í verk. Við þig skildu allir sáttir enda voru vinaböndin sterk. Vinur við gleymum þér ekki og vitnum í þig á hverjum degi. Það brosa allir sem ég þekki þegar sögur ég af þér segi. ] [ I am I am not I am I am not I am I am not I will I will not I will I will not, I do I do not I do I do not I do I do not I trust I trust not I trust I trust not. I ask you I dont ask I ask you I dont ask I love you I love you not I love you, I am stupid I am not stupid, I need you I dont need you I need you. This is me this is not me this is me, Talk do not talk talk do not talk, Hate me do not hate me hate me, Hug me kiss me hug me kiss me. ] [ Ef ég ætti fleiri töflur ey ég mund taka þær því þær eru úldnar vöflur heldur vil ég fagra mær ] [ Ef værir þú hjá mér Kristur, Myndi ég ræða við þig um kenningar Kirkjunnar og hennar siði. Ef værir þú hjá mér Kristur. Myndir þú leiðrétta. Því kenningar Kirkjunnar Vekja hjá mér ugg. „María var vissulega þín móðir En hún var ekki minn himna faðir. Það varst þú sem komst og frelsaðir Svo menn gætu horft í duftið“. Andi þinn er og var mikill. Svo mikill að enn snertir þú menn. Svo mun verða um aldir enn. ] [ Við grunnsævarslóð liggur gull í sjá en glitský á himni skín. Yfir lönd skyggir leið hin dulda vá hún líður en birgir þér sýn. Þar sem himinn og haf renna saman í eitt halda örlög við dagsbrún vörð. Þau vaka og vefa í möskvana greypt veginn um móður jörð. Við vafurlogann er lofsungin nótt í ljósi bar ég minn harm. Ég gekk úr þeim heimi því sál mín var sótt særð við glötunar barm. Förumaður þú siglir um úthöfin einn í ánauð með sorgar þel. Við marbakkann blikar hans perlusteinn og bíður í luktri skel. ] [ Það sem getur gerst í einu mannshöfði. Framtíð mannanna ákveðin, framandi heimar skapaðir syndir afmáðar. Allt í huga eins manns. Og þar eru bardagar lífs míns háðir. Þar á vígvelli hugans er ég óbreyttur hermaður í skotgröf. Kúlur á milli stríðandi fylkinga þjóta. Togstreitan er á milli góðs og ills. Þar er ég verðandi einræðisherra, sem vill einangra þegna sína frá umheiminum, svo að þeir geri ekki uppreisn að stríði loknu. ] [ Fyrir óralöngu á aðfangadagskvöld er eftirvæntingin lá í loftinu líkt og glitrandi stjörnur singdi hún mamma okkur hátíðlega, og í hvítan nærbolinn fyrst börnin sín klæddi og þá komu þau, - jólin. Stofan okkar fylltist indælli angan. Heilagri eins og Himnaríki -hin fyrstu jól. ] [ Mamma,pabbi og stóri bróðir Mamma ég kom en fór svo fljótt, en núna ég sef á himnum rótt. Ég vildi vera lengur og vera um kjurt, en þar var einhvað sem tók mig burt. Pabbi ég þig elska, elska svo sárt. Ég sakna þín svo mikið, ég sakna þín svo sárt. Stóri bróðir þú hafðir mig huggað, þú mig í svefn hafðir ruggað. Ég sé ykkur seinna verið ei leið, ég sé ykkur seinna svona á miðri leið. ] [ Ástin er lífið lífið er ást. Sumir lifa sumir þjást. Barn nú fæðist þar er eylífðar ást. Foreldrin hræðist og barnið mun þjást. Ástin er lífið lífð er ást. Barnið er veikt nú mun barnið þjást. ] [ Ég þrái ást, en ei fæ neinu breitt. Ástin mér brást, og ég skil ekki neitt. Veit ei hvað skal gera, að vera einn. Það vill ég ei vera, og deyja aleinn. Enginn mig skilur, ég er oftast einn. Það er blindbylur, og ég stend þar einn. ] [ Dóttir eitt sinn ég átti að fá, Sál þín var ekki tilbúin þá. komdu þegar þú ert tilbúin, já komdu þá. Guð þig passar nú, vertu stillt og vertu trú. ég elska þig ávalt, ég elska þig nú. Þú á himnum lítur niður til mín, og sér mig þar að hugsa til þín. Guð ég bið um að hugsa um þig, Vertu þæg og vertu góð ég elska þig. ] [ Ég elska minn föður, hann reyndi mig aga. Ég elska minn föður, alla þá daga. Hann reynir og reynir, að koma mér til manna. En ég hlustaði aldrei, og sagði æi mamma. Ég elska minn pabba, Frá því að ég fór að labba. Við rífumst mikið , En nú ég stoltur í fótspor hans labba. ] [ Pabbi sagði nei, en mamma sagði já. hún segir það núna, hún sagði það þá. Hún í hönd mína hélt, ég gat alltaf hana elt. Hún hefur svaka þolinmæði, henni fanst ég vera algjört æði. Því vill ég henni þakka, að eiga svona góða krakka, ég elska þig mikið, og þakka ykkur fyrir vikið. ] [ Úti er kuldi, og inni er hiti. þú vinnur og vinnur, það myndast sviti. Þú verkamaður ert, frá verkamönum þú kemur. Hvað heldur að þú sért, þú ljóð nú semur. Nú þröngt er í búi, og hvað á að gera. farðu í skóla, og látu dópið vera. ] [ Tónlistin er okkur hjartans mál, Hún tjáir okkar hjörtu, og hjálpar okkur að slaka á, Góðu daganna björtu. þú tjáir þig með tónlistinni, hvort sem er úti eða inni, ást eða sorg þú skilur hana, þú gerir það að gömlum vana. Þú tjáir sorg, En þráir ást. Þú leitar um borg, En ei hún sjást. ] [ Sumar sólin skín svo skært, þú í sveitinni sefur svo vært. Ég mun alltaf hugsa til þin, ég vona bara að þú hugsir til mín. Um verslunarmannahelgin skemmti ég mér, ég gekk um Akureyri við hliðina á þér. Við fórum í sund á sunnudegi, ég mun aldrei gleima þessum degi. Um Akureyri við göngum saman, við höfðum af því voða gaman. En ég skemmti mér mest, þegar við vorum saman. ] [ Valentínus Valentínus kom að landa Einni fagri mær Stakk honum inn að vanda og varð hún alveg ær því hún fékk barn undir belti Sem getið var af heilögum anda ] [ Húsið í hyllingum sé ég stutt í paradís get ekki beðið. Svo margt sem ég ætla að gera. Mála, brjóta, breyta öllu. Lífið er frábært. Allt svo fallegt sannkölluð paradís. Sauðárkrókur, paradís. ] [ skyndilega koma orðin snöggt og kröftuglega eins og hnerri og ég stend eftir og hlusta á þögnina sem þau hafa skilið eftir ] [ Hálsinn aumur, bólginn, streptókokkasýking. verkjatöflurnar ét og ét, sólginn, verra en að fá í sig rýting. Get ekki borðað, reyni, það er svo vont, sárt. Hljóma eins og köttur á breimi aldrei aftur takk, það er klárt. Bið ekki um mikið, eina pizzusneið. gef mér eithvað, æji, það versnar um leið. Uppdópaður af pillum, líður svo vel. sýkingin farin, streptókokkasýking, djöfull af sel. ] [ Fótbolti, fótbolti, fótbolti, fótbolti. Ohh......lífið er svo yndislegt segi ekki meir. ] [ Rigndu ekki niður tárum, þetta mun annars allt enda í sárum, þú litla skinn Hryggur skalt þú ei vera, alltaf skalt þú til mín um-hyggju bera, ég stend hér og þín bíð þó ég sé nú alls ekki fríð, hjá þér ég vil nú vera en þú vilt ekki láta á þér bera. ] [ Þetta er ljóð dagsins.......... ........bara ef svo væri, ó hvað fyrir það ég gæfi. Einhvern tímann, kannski? Held áfram að reyna, reyni og reyni. Veit ekki hvort það tekst ég reyni. Er hvorki Steinarr né Guðmundsson, þetta kemur veit ef ég reyni þá munu stjórnendur ljóð.is tilnefna mitt ljóð \"Ljóð Dagsins\" ] [ geng upp götuna í slabbi sokkarnir blautir áhyggjur hellast yfir mig hvað ef ég myndi nú klúðra því? þegar ég kem að gangbrautinni mæti ég lítilli stelpu í rauðum gúmmístígvélum sem horfir á mig og ullar ] [ Ég lifi í litlu ævintýri hver dagur er áskorun hvarvetna leynast ný tækifæri nýjar þrautir og nýjir mótherjar líka nýjir vinir ef maður bara sofnar ekki á verðinum ] [ Stundum hlaðast upp hrannaský, þá hugurinn fer um völl. Hjartað berst um þungt sem blý, í eyra bylur efans köll. Vanmátta stend og veit svo fátt, vildi í hug þínum sjáist. Hvort þú í sannleika hér er sátt, eða hvort hjartað þitt þjáist. Því alla ást vildi gefa þér, þessa heims og þess handan. Bara ef hefði þú komið með mér, þá mátt hefðum leysa vandann. ] [ Leiðinlegt fólk lífið hefur Það biður um allt en ekkert gefur En aðvitað er það ætið sjálfsagt Að gefa svo lítið, en fá svo margt Ætið þau skipta sér að manns málum Segja öðrum frá ástum manns og tálum Hætta aldrei, um það vilja þau tala En eftir nokkra stund er það eigi satt Fólkið allt er byrjað að gala. Skrítið hvernig lífið er Asnalegt hvernig það alltaf fer - á sama veg ] [ Svarthvít strætin þjarma að mér í opnunaratriði myndarinnar. Við afgreiðsluborðið panta ég mér bolla af technicolor svo ég geti tekist á við söguþráðinn. ] [ Tyggjó er eins og salt fyllir allar götur ekki samt eins gott og malt eða gamlar plötur ] [ Hvað ef aðeins væri einn sá er þig vildi hitta hvað ef hann nú væri seinn eða fylli bitta ] [ Sjálfsblekkingin, óttinn, hin eigingjarna herkænska er ryðgandi sannleikur uppljómaðs sjálfs. ] [ Brotinn vegur brestur er, fylgir djúp lægð, skurðinn sá dyggir voru, sveinar fornir smáir eru, legðu blessun bjartsins á, eldurinn mun logna undir stormi. ] [ Við þig konan krýpur. Kvalin, tár sín sýpur. Hún var aðeins of sein, að stöðva þitt vitlausa mein. Blóðið staðfestir hennar illa grun, að þú sért farinn við byssu dun. 112 sagði, nú koma þeir, á lögreglubíl þeir verða tveir. Babú babú þeir fljótir verða, en ég hugsaði, öll vegalengd er eilífð til mín. Ég sagði, er hann á lífi, ég sagði, er hann á lífi. Við munum skoða en engu lofa. Bíddu frammi á meðan við tökum á móti þessum harmi. Ég beið og beið en sál þín skreið. Í þínum kroppi var hún ei og í sífellu ég endurtók, nei. Lítill miði olli engum friði, við hefðum betur haldið í mannasiði. Talað saman um stríð og frið, ýtt burt dauða og gefið lífinu skrið. Þú varst alltaf minn og nú kraft þinn ei ég finn. Hvað hefurðu gert maðurinn minn ? Nú er ég ein með okkar mein. Af hverju fórstu, því vagninn dróstu. Guð nú ég treysti og hann er minn eini neisti. Í þessu lífi ég hafði þig en með þínum gjörðum þú reyndir á mig. Hjá Guði á ég stað og stund. Hérna megin, hinu megin, fer ég og mun fara á hans fund. Hans er valið hvenær ég kem til þín. Það ekki ég ákveð, þó svo sorgin sé mín. Ég bið og vona að þú friðinn finnir og að meinið eigi á sig minnir. Þú ákvaðst að fara og ekki leyfa drottni að svara. Drottinn bendir á lausn og gleði. því átta ég mig ekki á, hvað í höfði þínu skeði. Við skulum taka upp þráðinn þegar hún kemur yfir mig náðin. Ég spurningar hef um hvað skeði. En ég mun lifa og í sandinn skrifa ég elska þig, líkt og þú á þinn miða. Jóhann H H,2004. ] [ gengur upp gena stigann sullar dna á milli glasa Kári glottir ánægður með milljónir í vasa en hver veit hvað þeir í díkót eru að brasa? ] [ Stúlkan sér liti í dögunum hún getur litað dagana á autt blað. Laugardagur er þó frábrugðin Þá teiknar hún klukku í svörtum ramma sem slær enda á vikuna. ] [ Smá saman hvarf hún inn í hlekki geðsjúkdóms Þar sem einu sinni var hlýr faðmur varð kuldalegt fas Tilfinningarnar frusu urðu líkt og grýlukerti stingandi oddhvassar frosnar Heit tár barnsins sem þráði móðurást gufuðu upp í frosthörkunum ] [ Þú sast við eldhúsborðið með blik í augunum orðin flugu í bylgjum út úr munni þínum Þú ætlaðir að gera svo margt Hugsaðir svo margt Hugmyndirnar hrúguðust upp og troðfull þvottakarfan gapti yfir óreiðunni Næsta morgun var blikið horfið vonleysið skar sig í gegnum loftið Þú ætlaðir þér ekkert þann daginn Hugsanirnar voru staðnaðar Hugmyndirnar lágu á botni þvottakörfunnar sem hló sigurvissum hlátri ] [ Ánamaðkur, slitinn í tvennt, engist til og frá á jörðinni og kvelst í þögn. Getur hann lifað áfram hálfur? Skilaðu helmingi hjarta míns er þú hafðir á brott með þér út nóttina. ] [ gumi gefur gaum sefur og saumar saum en núna hefur hann leyst sinn taum kerling í koti dauð önnur kona í rauðpolli Koch að kenna Rodja varð að nenna drolli ekki mátti miklu muna að allt hans plan mundi upp funa á stundinni varð að spuna gumi ekki gaum gefur Raskolnikof bara sefur ] [ hvað höfum við gert til þess að eiga það skilið að lifa í þessum heimi? heimurinn er ekkert það góður, en sumu fólki líður vel og vill ekkert annað en lifa að eilífu, ég vildi óska að mér liði þannig, að ég væri ánægð með lífið og liði vel, kanski einhvern tíman... ] [ Nú ertu farinn Farinn mér frá Frá mér að eilífu Tárin renna Renna niður kinnar Kinnar rauðar af sorg Hann passar þig Þig fyrir mig Mig að eilífu Nú ertu í myrkrinu Myrkrinu án mín En hann passar þig Þig fyrir mig Aumingja Tinna Tinna er ein En ég passana Passana fyrir þig Veruleikinn er harður Harður án þín Þú varst minn vinur Þú varst mín ást Þú verður geymdur Geymdur á þínum stað Stað í hjarta mínu Minninginn er stutt Stutt var ævi þín En nú ertu farinn Farinn mér frá Ég gleymi þér aldrei Aldrei þú verður einn Því hann passar þig Þig fyrir mig Hann vildi fá þig aftur Aftur því þú varst engill Engill ertu núna Engillin minn ] [ sjávarrokið grét á gluggann minn söltum tárum meðan ég svaf - og nú sé ég ekki út fyrir fingraförum vindhviðanna sem lögðust á glerið í leit að skjóli á meðan ég svaf ] [ Snjóhríðin barði húsið að utan ég sá tárin renna niður gluggana heyrði í beinverkjum veggjanna skynjaði kvein þaksperranna Ég hjúfraði mig saman undir ylvolgri sænginni klemmdi saman augun og þakkaði guði fyrir hlutskipti mitt ] [ Hjarta mitt er á harða spretti frá losta hugsunum sem hlaupa á eftir því, hugsanirnareru svo hraðar að það líður ekki að löngu þar til ég mun falla og þær munu hrynja fyrir mig líkt og regnið fellur til jarðarinnar. ] [ Allur lífs og dauða leiði lætur ekkert aftra sér. Og þó á götu hans gátur breiði gagngert hann kemur í átt að þér. Þó víkir þú vinur af hans vegi og viðrir þig um nokkra stund. Dokar hann uns hallar degi og dregur þig aftur á sinn fund. Varlega frekar veittu mér vinur, ef nóttin þig hræðir. Saman þá sáttir sitjum hér uns sólin myrkrið bræðir. ] [ Dagurinn vefur ljóðinu saman býr til kúlu og kastar því upp í loftið grípur og kastar aftur og aftur..... Stundum lendir ljóðið á götunni þá fellur skuggi á ljóðið og skítugir krakkar traðka á því Stundum lendir ljóðið í höndum fólksins þá glitrar á ljóðið og brosandi börn fagna því Ef ljóðið nær að haldast á lofti nógu lengi grefur það sig í minningu almúgans það verður ljóð dagsins ] [ Í Idol Bubbi rúllar feitt, sumum gerir hann lífið leitt. Textar hans eru hugar lestur, enda er Bubbi alltaf bestur. Hann semur texta um sitt líf, svona er hans tónatíð. Eitt sinn hann nú líf sitt olti, en syngur nú með miklu stolti Æska erfið hann nú átti, og fortíðin er ei góð. Lifir núna hér í sátti, Hérna Bubbi er eitt ljóð ] [ Þegar sólin mætti tunglinu -og bauð góða nótt varð til ævintýr sem konan sagði barninu við rúmstokkinn varð til ævintýr sem hvarf. ] [ Í draumum ég svíf: með vinkonum hjá mér. gott er þetta líf, Í faðmi þér. Vinkonur mínar gætu orðið þínar. Sætar eru stelpur þær hugsa um að eignast telpur. En er ég bara ein? sit ég í fjarska verð orðin sein verð ég þá að maska. Vinkona móðir, þið eruð æði góðir. Gifstu mér ó, Ari vertu barna faðir. ] [ Í mirkri ég skrifa. Langa tengi skrift En stundum verð ég þér að bifa. En öðrum er ég gift. ] [ Ó María hún María heitir María hún segr allt gott með 2 téum ekki með 1 téi hún er gelgja ársins en ekki eins mikið og Helena bara smá minni hún María er svo cool en ekki múr. ] [ Grænir fingur hennar gylla í ljósinu og dansa vetrar dansinn í ljósinu sem skín á mig. Á vatninu hjá elskendum sigla hvítir svanir og kyssa stjörnur og ungar elta þá. Um alla tíð er dauði svana er kominn. Deyja ungarnir. Alveg eins og fólkið í ástarsorg. ] [ ¨66 er hann sem sagði það ekki gftast ég og þú skiluru? Ef þú elskar fiska þá ertu me mér en ekki kolkrabba stelpuni Hún heitir er þaðð ekki Naría hún getur keypt sér nærbuxur Við giftumst á morgun og eignumt krakka. ] [ Ég heyrði þennan grátur en ef þetta væri hlátur, myndi ég kaupa og svo beint að hlaupa, dansa nafn mitt er Hansa. Hlæja mig máttlausa Alls ekki rausa. En þetta var grátur vildi ég að þetta væri bátur, sem þurrka væri af, kaupa mér staf og lofa mína trú. Bara að þetta væri þú. Hlaupa eftir hljóði nei ekki þú minn góði. Vera töfra kona æji æji svona finna þig ekki fyrr en sekki þessi bátur, ekki væri hann kátur. Finna hann liggjandi tyggjandi farinn til himna sjúge tjúke bimna. ] [ Ég sá hana labba. Svarta hárið síða sveiflaðist um jakkann. Mjóar kirsuberja rauðar varir hennar glönsuðu þegar hún brosti. Augu hennar bláu litu á mig ég brosi. Kemur svo beint til mín og kyssir mig á kinn. Orðin fara í eyru mín Mér finnst þú sætur. Er ég sé hana aftur næsta dag. Kem ég til hennar á hnjám og byð hana að giftast mér. Svarið heyrði ég vel Hún sagði já. Hún sagðist heita Rósefína og varð svo rósar rauð. ] [ Þær voru í stuttbuxum, og bleikum maga bol, hárið var í hnút, þær brostu, mjórri en nornin góða, sætari en fegurðardrotting. Mátturinn var ekki annað en góður, töfra þær sig heim að nýju, sveittar, þreyttar, og heilsuræktin er í þeirra plús. ] [ Janúar eins og Elvis Presley Febrúar eins og bollurnar Mars eins og súkkulaði og pláneta Apríl eins og vetrar dagurinn síðasti Maí eins og mæður sem eiga daginn Júní eins og Lýðveldi Júlí eins og 31 dagur Águst eins og nafn á einhverjum September eins og í laginu:Kóngurlóa vef Október eins og Vetrardagurinn fyrsti Nóvember Aðventan hefst Desember eins og Aðfangadagur,Jóladagur og Annar í Jólum. ] [ Samþykkt er ekki sameigilegt. Sýnilegt er ekki sardína. ] [ Þú fæddist þann annan ágúst með þitt yndislega bros á vör með tímanum varð það fallegra eins og hjartað þitt óx og óx Með tímanum varð ánægjan meiri eins og vandamálin urðu fleiri þú fæddir þinn yndislega son svo ung en þú lést það ey á þig fá Með tímanum kynntist þú manni reynduð þið af öllum krafti að eignast þér annað barn sem á endanum varð stúlku barn Með tímanum varðst þú einstæð móðir með börnin þín þér við hlið vannst eins og vitleysingur því einhver varð að sjá fyrir þér og þínum Tíminn leið eins og vindhviða fæddir þú annan dreng en svo kom í ljós seinna meir að faðir þinn var alvarlega veikur Mánuðirnir liðu hægt og brátt flaug hann á seinni vængnum og hvarf þér fyrir aftan sjóndeildarhring Þú lést börnin þín aldrei sjá þig fella tár en hvert tár sem ég ey sá snerti mig og kvaldi Ég vissi alveg að þetta var erfiður tími en þú misstir aldrei brosið til okkar en auðvitað brostir þú ekki eins mikið og þegar þið afi sátuð saman Þú áttir svo annan strák og við fluttum í sveitasæluna þið amma unnuð mikið og ég sá þitt fallega andlit ekki eins oft og áður En því er ekki að skipta þú byggðir okkur fallegt heimili með tímanum varð dóttir þín mikið lasin og þú stóðst við hennar hlið eins og klettur Dóttir þín var heima og horfði á heimilið sitt verða að einni tauga, og vanlíðunnar hrúgu með hverju tári fylgdi slæm vanlíðan sem ekki var oft gott að skilja Á endanum komst þú að því að heimilið okkar yrði brátt ekki okkar þú reyndir að berjast en á endanum fórum við að leita að öðru heimili Við fluttum inn í nýtt heimili nýtt upphaf tímarnir voru öðruvísi og brosið kom oftar Aumingja börnin sem ekki eiga móður því ég gæti ey lifað án þinna arma Þú ert móðir mín þú ert besti vinur minn þú ert ástæðan fyrir því að ég vakna á morgnanna þú ert manneskjan sem ég elska meira en allt ég elska þig ] [ Orð á blaði stafir mynda. Hjarta mitt nakið. ] [ P ஐ M var þetta ást. Draumur saumur. P er Polite M er Mother. Love you. En ástin varð meiri en þegar Geiri var með mother, og Mother með Geira. Nú er hún með Polite og barn eitt er hún með hamingju samari en allir og gift er hún honum P. ] [ Hún bjó til hús þegar hún var með lús hún átti mús og lét hana í krús. Gleypti hana hestur en þar var lítill prestur sem langbestur gaf barninu nafnið Gestur. ] [ Vinkonurnar Maria góða Eva Ekki má kalla hana Naria þá verður hún að gefa Slefa ekki neitt svona bull algjört rugl: Eva og Maria eru vinkonur Báðar eru þær gamlar oft eru þær að gramla dótið hennar mömmu ei ömmu. Þegar að þær leika, verða fyrst að meika andlit sitt fara að breika vilja ekki teika verða við það smeikar, fara beint í bólin þegar að sólin hverfur þeim á braut fá svo að borða graut. En hún eva hraut og maría skaut pílunni og þaut beint í hennar ból varð þá loksins sól. ] [ Hann var með varalit, Augnskugga hafði hann hann var blár, rauðar kinnar, Þetta er skór í bleikum kjól. Gull litað hárið með silfur litað band, og allt í fléttum, og hann var kona, þetta er skór í bleikum kjól. En loksins þegar hún var til. Þá kramdist hún hjá þér. Hún var lömuð af táfýlu og illa lyktandi sokkinum. Þetta var skórinn sem var í bleikum kjól. ] [ Ljósið kviknar að degi til, myrkvið rýrnar í rökvinu, þegar skuggar í dagsljósi birtast, kuldast dimmar tekur að nætur. ] [ Sokkarnir þínir meiga alveg hvíla sig inni hjá mér. Liggja saman á köldu gólfinu alla nóttina og kúra. Teyja svo úr sér við fyrstu sólargeislana og láta sig hverfa. Áður en ég vakna. ] [ Þú varst minn, en ég var aldrei þín, ég vil þig, en það er ekki svo auðfengið, hvað þarf ég að gera til vinna ást þína á mér, þetta er erfitt líf að geta ekki snúið öllu við eins og það á að vera, ég er uppgefin á að reyna, en mun ekki gefast upp, því þú ert minn, í hjarta mínu huga mínum sál minni ertu alltaf minn, ] [ Ég hef heyrt menn segja tíminn læknar öll sár ég vil heldur bíða en fella mörg tár ] [ Ef hús þitt er úr gleri ekki kasta steinum þótt nágranarnir stundum hleri og kasti líka hleinum ] [ Stundum er ég legst til rekkju meðvitund vil missa ég sigli um á stórri snekkju vakna og verð hissa ] [ Við sitjum í myrkrinu. Við hlið hvors annars. Sitjum þegjandi,ég horfi út um gluggann út í dimmt myrkrið og hugsa. Síðan horfumst við í augu..og þú segir\"eigum við ekki bara að hætta þessu?\" Hjarta mitt stoppast eitt augnablik..ég kinka kolli og læt sem ekkert sé. En inn í mér er hjarta mitt brotið. Brotið í tvennt, þú braust það! ] [ Ég horfi á þig deyja inn í þér..smám saman,sálin deyr líkaminn verslast upp..hvernig get ég horft upp á þig gera þér þetta.Ég hef reynt að hjálpa en þú villt enga hjálp þiggja..þú ert fastur í fíkninni..fastur í helvíti..og finnur enga leið til baka! ;*( ] [ When i look into your eyes. I see nothing but hate and lies. When i say something,u say im wrong but your always right.U always blame me for some things u dont do right.I scream and yell at myself that i just wanna die,cause i cant take this much longer with u in my life.... ] [ Ekki vinur fara að skæla heldur skaltu æla í þér vil ég ekki pæla þvi þú ert með stæla ] [ Þokuslæða, yfir hugarfylgsnunum. Mannvera, úti í þokunni, gengur lengra frá mér, og hverfur. Huliðshjúpur hjúpar tilveruna í einn dag, af ástfræðilegum orsökum, og ég verð tómur, grár. Krumminn, blakar vængjunum. Feykir þokunni í burtu, og ég verð samur aftur. ] [ einu sinni skrifaði til mín maður og orðin voru rauð en stafirnir svartir og þeim var hvíslað á hvítan grunn og tónninn var ertandi og þegar ég las orðin hans varð ég heit og mig kitlaði og ég vissi að hann hefði glott meðan hann skrifaði það stóð ertu ljóðskáld? ljóðskáld eins og elísabet jökuls? það er sexí ég flissaði og velti því fyrir mér hvort hann héldi kannski að ég og elísabet jökuls værum einu ljóðskáldin hann var alltaf að stríða mér ] [ Fegurð þeirra slær mig snjóblindu utan undir svo lyftist undir nýsköpuð brjóst þín sem vel sköpuð fyrir skildinginn vísa leiðina sem ég fálma mig mjúkhentur eftir. ] [ Núna er ég lygg og græt inn í eyru tárin leka en þú ert svo ósköp sæt ekki ég þig vildi reka ] [ Bara ef ég kynni að ríma það ljóð mín mundi lengja því þau minna á gamlan síma þá er þurfti að tengja ] [ Ég vil ekki vera annar en ég hef verið undanfarið, ég hef verið einhver vilt tryllt galinn persóna, misst trúna á öllu og öllum læt mér fátt um finnast þegar að öðru að kemur, finnst allt hundfúlt. Hver er ég í raun og veru? jú ég er lífsglöð, orkumikil, glansandi, stúlka, sem þykir gaman að öllu og öllum, læt mér ekki fátt um finnast-um aðra. Ég er bara ég og vonandi helst ég sem ég með tímanum sem líður. ] [ Í blómhnapp troðnum af éljum og vindi engist nakin sála mín ] [ Við höfum gengið brunninn til þurrðar fyrir löngu búið Geimskip mun fara frá skólavörðuholti klukkan áttamínúturyfirtólf og flytja næstu kynslóð handan póstmódernismans Ég er sjálfskipaður kapteinn og þeir sem eru á móti mér fá ekki að vera memm ] [ Maður getur ekki annað en brosað illkvittnislega þegar sæta Hollívúddparið kysstist á skjánum um leið og kötturinn minn sleikir á sér rassgatið af áfergju ] [ Þegar ég var með tárin í augunum og þéttsetið var á Dillon Þegar hún tróðst við hliðina á mér og kynnti sig Þegar of þéttsetið var til að ég gæti forðað mér Þegar hann leit á hana, hún á hina, hin á mig og ég á fyrrverandi með örvæntingu í augunum Ætli öllum hafi fundist það eins yfirmáta vandræðalegt og mér? ] [ Ég er í verkfræði, ég reikna heimadæmi og lifi í dæmaheimi eins og mig dreymi um ástina og ástin er samleitin. ] [ ég ákvað í morgunn að fara ekki í skólann það var svo vond lykt af mér nennti ekki í sturtu. Svaf hjá honum í gær hlátur svaf í morgunn slef í eyranu á mér vakna. Stend upp pissa klæði mig. Í röndótta skyrtu pils lopasokka jakka stígvél tvö húfu. Græna húfu ofaná rautt hár undir úfið. Undan augu þreytt. Ljóðrænar hugsanir blá augu græn augu. Samruni út. Kveikjari síðasta sígarettan brennur upp í munnvikinu í þokunni. Stóru þokunni í hausnum á mér litlu þokunni úti klonk klonk stígvél. Kannski kaupi ég kók kannski sígarettur sest steingrindverk. Brotið á einum stað. Hæ. Lítill krakki vinkar út um glugga hrædd hleyp næstum sest. Í strætóskýli er að plata ekki að bíða eftir strætó bara of mikið. Nikótín. Kaupi kók og bland í poka fyrir hundrað og fimmtíukall alveg helling kvitta og stelpunni er alveg sama hvað ég heiti. Sleppi sígarettum vil ekki plata strætó aftur gæti orðið reiður nei. Marblettir einn tveir þrír fjórir álfilmupakkaðar gleðipillur í hvítu boxi. Blágræn hauskúpa berst við bleikt gúmmísvín á sænginni minni gulur hákarl. Stundum skil ég engann sopi kók. Stundum held ég að ég hafi ekki atkvæðisrétt. Sé ekki manneskja eitthvað annað með munstruð augu og lakkrísreimar sem ég tygg í smá bita fyrir bita og kyngi. Þegar enginn skilur mig. ] [ Sál minni blæðir henni blæðir vegna allra sára er þú hefur veitt henni. Hver blóðdropi sem fellur táknar gjörðir þínar. Ég safna þeim í skál og gef þér er ég kveð þig við dyr helvítis. Er þú hittir Satan gefur þú honum skálina hann mun skenkja þér í glas úr henni til eilífðar og láta þig drekka þá munt þú upplifa allan þann sársauka sem þú hefur veitt mér og að lokum mun sál þinni byrja að blæða. ] [ Ég sé þig þú sérð mig. Ég vil þekkja þig þú vilt þekkja mig. Við reynum að tjá okkur en ekkert heyrist við reynum að snerta hvort annað en finnum ekkert. Heimsendir skellur á glerbúrin brotna! Loks erum við frjáls. Ég sé þig deyja þú sérð mig deyja. ] [ Í nótt dreymdi mig draum ég og þú vorum stödd á utopískum stað. Við drukkum malt ég söng og þú spilaðir á óbó á meðan ellefu dvergar dönsuðu í takt við melódíurnar frá okkur. Í fyrsta sinn á ævinni brostir þú tár rann niður vanga minn. Ég vissi að loksins hafðir þú fundið hamingjuna sem að þú hafðir svo lengi leitað að. ] [ Ég stend á bryggjunni himininn grár vindurinn kaldur þögnin læðist að mér þögnin eykst þögnin tekur yfir. Ég sting mér sekk dýpra og dýpra uns ég finn kaldann hafsbotninn snerta bak mitt þögnin er yfirþyrmandi allt verður svart þögnin hefur sigrað. ] [ Þú ungi maður hlýð þú á því samviska þín þig hrópar á þú ungi maður því vilt þú ei raust hennar hlusta á hún var þér að gjöf gefin til að forða þér villu vegar frá þú taldir þig geta gengið götuna einn vinarhönd á öxl þér af þér burtu þú þreifst þú ungi maður nú situr þú einn með höfuð þitt í greypum þér augun svo tárvot og beisk nú bergmálar rödd samvisku þinnar hjarta þínu í þú ungi maður gakk hægt um gleðinnar dyr í örvæntingu þinni þú nú leitar af þeirri vinarhönd sem þú forðum taldir ei á þörf þú ungi maður hún þér nú horfin er oft þeir sem gott eiga ei það vita fyrr en þeim misst er einmannaleikinn hefur þér nú tökum náð á hróp þín ein eftir eru hjálp,hjálp þú ungi maður nú þig engin vill hlusta á þú nú uppskerð það sem þú hefur sáð ] [ Hann situr í stól hróflar í hári sínu lítur á mig brosir segir á sinn blíða hátt ég elska þig þessi maður þessi yndislegi maður sem hefur valdið mér svo mikilli sorg en þó sem meira er svo ólýsanlegri hamingju og gleði sagði ekki einhver að ástin væri einmitt þannig sambland sorgar og gleði ef hann bara vissi hversu miklu hann mig skiptir hann er allt allt sem ég er mín ást mín gleði mín sorg mín fortíð mín framtíð allt mitt líf var,er og verður fyrir hann ég elska hann. ] [ Ó þú faðir,vor faðir þú sem á himninum býrð þú sem horfir með kærleik á þennan synduga heim hvar endar þessi veröld full af lygi og girnd mannfólkið spillt eins og leikbrúður stírðar af höfðingja þessa heims ó þú faðir,vor faðir þú gafst okkur kost á að velja á milli ílls og þess sem er gott en vor faðir,vor faðir við mistum sjónar af þér hjörtun heltekin af öllu sem íllt er af kærleika þínum og gæsku þú sendir þinn son á herðar sér tók hann vorar sindir og böl af mönnum var hann hæddur hengdur á kross á dauðastundu hann bað fyrir oss að dvöl sinni lokinni á jörðu hér hann lét okkur eftir dýrmæta gjöf ef við fram fyrir hann komum í einlægni og trú hann fyllir hjörtu okkar gleði bíður okkur velkominn í sitt hús ó þú faðir,vor faðir í Jesú nafni ég þig bið opna þú augu okkar mannanna svo við megum lifa saman í kærleik og frið. ] [ Æ hvað hún er fögur á henni tollir ekkert ryk því hún er svo skelfing mögur vildi að hún hefði spik ] [ það er nótt í Reykjarvíkur borg lítil stúlka situr innifyrir og horfir út um gluggann, úti er myrkur,niðdimma myrkur, úr augum hennar má skynja ákveðinn leiða ef ekki óþreyju, henni líkaði ekki allt þetta myrkur, fannst það gera allt svo kalt og drungalegt, oft fannst henni hún líka sjá eitthvað í myrkrinu, þá varð hún hrædd skildi það vera satt sem þeir sögðu í sjónvarpinu í kvöld, að það ætti að snjóa í nótt, henni líkaði við snjóinn, fannst hann lífka allt við, yfir andliti lítillar stúlku var eftirvænting, er hún lagðist til svefns þessa dimmu vetrarnótt það er morgunn í Reykjarvíkur borg, lítil stúlka rís úr rúmi sínu, hleypur hröðum skrefum að glugganum, gleðisvipur færist yfir andlit hennar, það var þá satt sem þeir sögðu, göturnar,tréin,bílarnir, allt,allt,allt, var þakið hvítri ábreiðu, það var komin snjór litlar hendur,fætur og höfuð, þrengja sér með óþreyju í yfirhafnir, eins og gustur þýtur hún framhjá móður sinni, út að dyrum, út,út,út var það eina sem komst að í huga lítillar stúlku þennan morgun ristað brauð og mjólkurglas situr óhreyft á eldhús borðinu, móðirin horfir á eftir henni, skilur ekkert í þessu óðagoti svo árla morguns, að glugganum hún gengur, blíðlegt og skilningslegt bros breiðist fram á varir hennar, úti er litil stúlka, með barnslegum ákafa rennir hún snjónum upp í stóra bolta, glöð í bragði og með bros á vör, tekst hún á við það verkefni, að viðhalda tilveru snjómannsins. ] [ Er dagurinn sofnar eftir annríkann dag og sólin sest til hvílu sest ég niður með nóttini... Við ræðum um daginn og fegurð kvöldsins gleymum okkur í svefngalsa og brosi ég vil ekki sofna.... Vakna upp af fallegasta draumi ársins nóttin á brott og morguninn kominn heim hann býður mér góðann dag... brosið enn fast á andlitinu og kaffið verður aldrei kalt því draumar mínir... ...birtast mér á daginn. ] [ Ef ég gæti sett það í orð, þá myndi ég yrkja fyrir þig ljóð. Ef ég gæti sett það í söng, myndi ég syngja fyrirþig. En ég er enginn penni, og krunka er ég reyni að raula. Ef ég gæti tjáð þér hversu leið ég er... Ég ætlaði þig aldrei að særa Fyrirgefðu, en það er ekki nóg bara innantóm orð ] [ Það enginn skilur þessa tilfinningu ég er sú eina sem henni finnur frá heila og niðr\'í bringu hún rennur frá enni alveg niður í tær eina sem finnur fyrir henni er ljóshærð lítil mær Hún öskrar á mig svo ég eigi fari hún vil að ég umluki sig þó eftirá mun ég vera aum og marin þreytu nú ég finn því tilfinningin tekur svo á líkamann minn en hún er svo góð, hún má ekki hætta! hann verður mig að sætta ] [ Tungl-Pési, Tungl-Pési. vantar á þig miðnesi? Tungl-Pési Ung-pési, er konan þín þung Pési? Bróðir þinn hann Páll Máni, vonar að ég skáni í tánni en hann er fábjáni og smá kjáni með augu grá-blá sem skoða má í smásjánni, sem Blá-Stjáni fékk að láni. En Blá-Stjáni, er á krá á Skáni, og horfir á skjá frá Spáni,, hrópandi: Heja heja heja Sverige Tungl-Pési GNU Pési hvað gerum við nú? Pési förum í snú snú við og okkar crew crew. Móðir mín í New New (York) segir ekkert sú sú comment vous vous (appelez?) Strax á landi er þaks andi tunglið er vaxandi. Tungl-Pési er lax fjandi hann er að þerra lax Varstu að hnerra Max? Et in Terra Pax. ] [ foh kjú spegill Geturu sannað það? Já, en ég nenni því bara ekki. Fósturpabbi minn getur lamið gaurinn sem mamma þín er að ríða. Sá sem segir að einhver sé lélegur að búa til ljóð er sjálfur lélegur að búa til ljóð ] [ Morgundagur er svo fagur, hann var svo magur, voðalega bragur. Báturinn, hláturinn mátturinn í vatninu, þátturinn um þig. Að sjá þig, liggjandi í bátnum hárið gyllir þig og þú ert brosandi: til mín. Ó, Nína fína. peningana mína, verð ég að sína þér. Þegar að ég sá þig fór kuldi um mig, Að hugsa um sig Nína fína. Gull frá þér, Sull í bátinn fór, ei bull heldur eigi rugl. Grimma, Dimman, tók þig, í vatnið frá mér. Dauðinn sauðinn, fyrirgefðu ég elska þig. ] [ Hún fauk til mín, þetta litla blóm. Örlögin höfðu komið henni fyrir þarna. Ég steig inn í blómið. Veröldin var önnur. Ný skilgreining á fegurð hefur gripið huga minn. Ég gekk út, stjarfur. Sama hver staða mín er núna, ég er á meðal heppnustu mönnum á þessari jörðu. ég steig inn í blómið, Blóm hreinnar fegurðar. ] [ Hver ert þú sem yfir okkur flýgur, á þeim aftari stígur og að restini lýgur? Hver ert þú sem drepur heilu löndin, eyðileggur vináttuböndinn og rífur blómavöndinn? Hver ert þú sem ert svo frekur að þú frelsi tekur og fyrir fleira ert sekur? Hver ert þú sem lætur hauskúpur klofna, vináttu rofna og leyfir fólki eigi að sofna? Hver ert þú sem þróunn tefur, engar tilfinningar hefur og ekkert gott gefur Hver ert þú sem ofbeldi beitir, til reiði reitir og Járn Fuglinn heitir? ] [ Bomban brunaði, bíllinn var þó í lagi. Gúmmíið geislaði, gáttað í dag. Rommí í rassinn, ropaði mjög hátt. En Espan elti mig. Kóngur klappaði kakan sprakk á þig. Þó þumalfingurinn þakkaði fyrir sig. Sólin sofnaði samt hún geislaði. Bomban brunaði, búið spil. ] [ int main() {
short man = true; short woman; double pleasure; while(short man_is_at_work = true) {
short woman_is_lonely = true; float tears = true; tears++
} for(pleasure = man + woman; long holiday = true; pleasure++) {
if (short penis = true)
float wine = man + woman;
else
double bed = man + woman;
} double dragon = pleasure = true; return 0;
}
] [ Við stóðum og gáfum gæsunum það er þó kallað að gefa öndunum en gæsirnar eru frekastar og fá sitt þær stóðu nálægt okkur hvæsandi og gargandi á sama tíma svifu svanirnir tignarlega um tjörnina sumir hringuðu hálsa sína saman hvítir og hreinlegir að sjá þá var það sem ég tók eftir þeim þrír svanir, sem hegðuðu sér eins og gæsir stóðu þétt upp við mig á stéttinni átu með bestu lyst og öllu tilheyrandi skrækjum og frekjustælum hurfu nánast inní gæsahópinn voru hvítir, en þó gráguggugir, skítugir, skuggalegir svanir þá ég fylgdist með þessu, urðu þau allt í einu manneskjur þær falslausu fallegu syntu um tjörnina þær freku, flykktust í leit að æti og þær lúmsku sem sýndu á sér aðra hlið en þær í raun báru voru gæsa-svanirnir gráu. ] [ þokkafull þokan þrýstir sér að mér dularfull, drungaleg frískandi, falleg sveimandi, dreymandi listræn og lævís alveg eins og þú ] [ I din\'t wanted to love u But i did...and it hurts so much.. because u dont love me back.. ] [ Bréf til Hr.Draumaprins Hvar ertu..kæri draumaprins ég hef leitað þín lengi en aldrei fundið.. ég bíð..bíð þín.. láttu sjá þig sem allra fyrst.. kv. Þín Draumaprinsessa ] [ I\'m scared.. and i\'m so lost.. so alone.. like no one understand me..anymore! Sitting here alone in the dark,thinking what to do.. should i just do it and get it through..so scared..so alone..so lost .. ] [ Dont know what to do.. dont know what to say.. dont know how to behave..around you.. i do know one thing and that is that.. i\'m falling for you..* ] [ Im leaving u You said These words are still in my head Think about it everynight What can i do to make it right? Should i call and tell u how i feel Or keep it all inside Bacause i want so deeply To make things right Between u and i..* ] [ ég er maður tvítugur að aldri ég á konu og barn og er afkomandi af Baldri en konan er svo feit og barnið lítur út sem geit þannig ég leigi mér hóru sem er systir hennar Dóru En er ég kem þar inn margt ógeðslegt ég finn Tappar og sprotar sem notaðir eru til að pota hún dregur mig inn í herbegi eitt ég reyni að neita, en það er of seint troðið er í mig tappa og er ég í stellingu sem kend er við Lappa er að fá það og allir vöðvar stífna Hún tekur tappan út en holan rifnar og allt það út sprautast og frænkan drukknar í skít sem naumast ] [ O faðir vertu sá faðir, faðir minn, jarma skalt þú í guðs nafni, syndir skalt þú laumast með honum Inga Guðs Hrafni, O faðir vertu sá faðir, faðir minn, bölva skalt þú í hljóði, nema vinur minn litli hann siggi stóri í hann guð manns hljóði, O faðir vertu sá faðir, faðir minn, frelsarinn minn syndi í allar hafnir, fljúga skalt þú vel og lengi með Inga Hrafni. ] [ Blekktu mig með töfrum vertu svo með öllum öðrum. ] [ Láttu vera, láttu kjurt. Ekki snerta, farðu burt. Ekki bíta, ekki narta. Hann er algjör halakarta. Vondur strákur. Ekki falla. Samt ég heyri hjartað kalla. Verð að snerta, verð að kyssa. Af blossanum ég má ey missa. Veit að seinna mun ég vakna, alein aftur og hans sakna. En í kvöld má sorgin vera. Hjarta mitt óhrædd mun bera. Sting mér svöl í djúpan poll. Unaðslegan fæ ég hroll. Voljúmið er sett á max því seinna kemur ekki strax. ] [ Eymdin er mikil í heimi hér, styrjaldir geysa víðsvegar um þennan heim, illska mannanna magnandi fer, saklausu blóði úthellt er fjölmiðlar birta okkur hörmungar þessa heims, atvikin djúpt í vitjum okkar geymd grátandi móðir í rústum síns hús, með höndum sínum grefur urrð og grjót til himins hún horfir, andlitið afmyndað af sorg, skerandi óp hennar, Guð minn,ó Guð minn fær mér aftur minn son ] [ Ég kíkti undir pilsið. Hún var kynskiptingur. ] [ Englar sefið mína sorg yfir sögu þessa manns. Draumarnir í danskri borg dóu í huga hans. Honum þótti land og þjóð í þögn þar standa hjá. En öll hans ljúfu ljóð lifa en söknuð tjá. Í kyrrð við kirkjuvegg ég heyri skáldsins róm. Auðmjúkur á leiði legg lítið íslenskt blóm. ] [ Gamla nornin kallar á mig. Hún er enginn álfakroppur. Frekar kroppinn álfur. ] [ ég keyri inná bensínstöðina beygi mig fram og fæ dæluna kalda í rassgatið ég keyri burt og drep hugsanir í hvernig ég ætla að eyða punktunum sem ég græddi með því að dæla sjálfur ] [ nóttin er löngu komin djöfull er ég þreyttur hvar er þessi djöfulsins Ólafur lokbrá þegar maður þarf á honum að halda skíttu í skóinn á þér mér er sama þótt þú heyrir ] [ Brugðið var brandi. Brast mitt hjarta. Draup þá dreri er drukkinn var. Sendill satans sótti minn anda í Hallir Heljar Heigull kom Segð þú mér Satan, synda drottinn. frá tilgangi tilvistar, tíma og rúms. Hve gamall er guð góðra manna. Ganga um geimverur á gangstéttum jarðar? Dæsti þá Djöfullinn djúpum rómi. Spurningar sprengja þín spaugileg er. Dæmigerð della dauðlegra manna. Halir ei hugsa helvíti í. ] [ allt þetta flaut og eilíft staut ég vil heldur borða graut og liggja í grænni laut ] [ Hjálmgrár öskubakkinn fullur af stubbum. Eyðimerkursólin full af dansandi úlföldum. Ég? Bara fullur. ] [ Neongrænir litir hafsins speglast í augunum á stelpunni sem stendur við hafnarbakkann og horfir út á sjóinn. Faðir hennar. Öldur fyrir langa löngu. Bryggjan er bil á milli þeirra. ] [ Galleríið er fullt af fólki. Eyrnalokkarnir á þessu listasnobbi eru fáránlegir vægast sagt. Hvar get ég bíl mínum lagt? ] [ þú ert fugl en ég er maður bráðum fer ég í flugvél þú ert fiskur en ég er maður bráðum læri ég að synda ] [ Undanfarna nætur hef ég hlegið hér og hlegið, um-hugsað um mínar rætur, það svolítið skondið það var hlegið um nætur. ] [ Ég mætti gömlum manni á leið minni heim úr vinnunni í dag. Hann var með hvítt alskegg og á höfðinu hafði hann ljósgræna húfu, sem mér sýndist í fyrstu vera skátahúfa. Gat það verið að þessi aldni maður væri skáti? Hugsaði ég með sjálfri mér. En við nánari athugun fannst mér það frekar ólíkleg tilgáta. Því ekki gat ég sett mér hann fyrir sjónir sitjandi við varðeld syngjandi skátasöngva. Né heldur marsérandi í skrúðgöngu á sautjánda júní á stuttbuxum í grenjandi rigningu. Hann virtist einfaldlega of gamall og feitur til þess að taka þátt í þess konar ævintýrum. Ég gaf honum nánari gætur, hvíta alskeggið, bústnar rauðar kinnarnar, það vantaði bara rauða húfu í stað þeirrar grænu til þess að þetta gæti verið jólasveinn. Ég sló því föstu að sú væri raunin, þetta væri jólasveinn í frekar tötralegum dulbúningi. Og hann væri líklega bara að frílysta sig hér í höfuðborginni. Njóta þess að hverfa í fjöldann svona óeinkennisklæddur. Nú var líka mesta jólaæðið runnið af mannfólkinu enda komið fram undir vor. Ég leit á gamla manninn nokkuð ánægð með niðurstöðu mína. En fannst samt sem áður eins og eitthvað væri öðruvísi en það ætti að vera. Hann var þegar betur var að gáð fremur ó-jólasveinalegur í hreyfingum, þótt roskinn væri og sver um sig. Hann hafði frekar göngulag ungs manns. Og jafnframt var hann, eins og svo mörg gamalmenni nánast barnslegur í fasi Og þessi ljósgræna húfa. Græn eins og vorið... Skyndilega varð mér ljóst hver hann var. Hann var vorið... Mætt í tötrum vetrarins 'að því komið að kasta lörfunum og koma til okkar allra sem yndislegt nýfætt vor. ] [ No money, no honey Don’t waist your life on numbers No honey, no money Don’t spend your life on numbers And when you’er closed to a deal And you like to have a good meal And sometimes you’er lost, lonely and blue And no one is really true No money, no honey Don’t waist your life on numbers No honey, no money Don’t spend your life on numbers Sometimes you don’t have a penny in your pocket And you feel like a rocket You think for yourself what can I do I ask myself “How can you” No money, no honey Don’t spend your life on numbers No honey, no money Don’t waist your life on numbers Endir lagsins kemur svo : The luck of life is to face the reality And bring forward the best you can Don’t wait, just seek for your own destiny And see the future bright ahead. ] [ íllafarinn velkominn á grjótharða grund í leit að frið Guð þú góði gef mér grið örstund og fyrirgefðu það sem ég ekki skil bæn frá mér til þín ber bæn um mig burt með fer ] [ Er bárurnar berast um sæinn beinist minn hugur til þín. Í veltingnum veikur er maginn Vonandi kemst ég til þín. ] [ Snúðu flipp flipp, opnaðu snú snú, lokaðu krass krass, gargaðu arrgg arrgg. ] [ Ástarbiti Ég hrærði mig inn í þig, þú helltir þér yfir mig, við mixuðumst saman. Urðum að köku -með miklu kremi. ] [ Ligg, Ligg og hugsa um það sem framundan er. Hvað næst? Hvað bíður mín handan við næsta horn? Svartir skuggar dansa allt í kringum mig, Þeir bjóða mér upp í dans en ég get ekki hreyft mig. Ég flýt á öldum hafsins. Notalegt, en ég ræð ekki ferðinni. Straumurinn er of kröftugur. Hvar enda ég? Eða enda ég kannski ekkert? Ligg, Ligg og hugsa. Af hverju er ég til? Líður mér vel? ] [ Hátt við stefnum stjarnanna til, ekkert stöðva okkur gæti. Karlinn í tunglinu krækir í spil, og við köllum: \"hei, þú sæti\" ] [ Á himnasæng þú hvílir á og horfinn er þinn þróttur. En á andliti þínum mátti sjá, bros þegar þú varst sóttur. Loforð oss um að hittast á ný stendur þar til lífi mínu líkur. Sú stund verður björt og hlý því loforðið hvorugur okkar svikur ] [ Farðu í friði, farðu í ró frelsarinn tekur við þér. Það er rúmt ár síðan hann dó maðurinn sem stóð með mér. Vaktu yfir, vaktu yfir oss við viljum nálægð þína. Ávallt mun ég bera þinn kross sem eru tákn um söknuði mína. ] [ Æðar bláar blossa berir þar gjósa mörg þúsund hverir, árin líða börnum hjá, þetta er lítil saga að seigja frá. Byggð og bú, björg og hjú, þetta eru samtökin sjötíu og þrjú, Hommar,biarar,lessur, við undir einni pressu erum, guð okkur öllum gaf samúð blessun og ást þegar straght fólkið okkur öllum brást, guð okkur gaf traust,von kærleiks trú enda erum við samtökin sjötíu og þrjú. ] [ Ég stend og horfi á þig horfi á þig tortíma sjálfum þér sál þína engjast um líkama þinn verslast upp augu þín endurspegla brotið sálartetur þitt þú ert fastur í brennandi logum helvítis fíknin hefur tekið af þér öll völd Ég stend og horfi á þig mig hryllir við þér finnst þú sjálfselskur fáviti get ekki fundið til með þér finnst þú geta sjálfum þér um kennt Ég stend og horfi á þig þú ert fastur í neti blekkingar og afneitunar vilt ekki horfast í augun við vandan velur auðveldustu leiðina leitar á náðar bölvaldsins samviska þín í molum þú baðar þig í sjálfsvorkun hugleysingjans reynir að mála djöful þinn á samvisku einhverns annars svo þú getir haldið áfram að eitra musteri sálar þinnar á kosntað einhverns annars Ég stend og horfi á þig öskra á þig í bræði minni ég hata þig ég teygi mig eftir þér fingur okkar mætast en ég næ ekki að snerta þig á milli okkar er veggur veggur úr gleri ] [ Sterk og stirð við erum, reynum að finna ró og kyrrð, undir höfn við gluggum öll bátur vaggar undurhægt fiskar í sjónum synda, djúp alda breiðist okkur hjá, á barmi óttans óttumst ei,við höfum fundið frið. ] [ Myrkur,svarta myrkur hvar er ég finn yfirþyrmandi illsku fylla andrúmsloftið stjörf af ótta vill burt get mig ei hreyft djöfulleg andlit allt um kring i lausu lofti verurnar snúa mér í hringi hraðar,hraðar,hraðar ískuldi hróp mín kafna í hálsi mér komast ekki út hvaða andar eru þetta hvað vilja þeir mér týndar vansælar illar sálir fastar í tómarúmi andarheimsins ég hrapa skell niður á rúm mitt sit stjörf skelfingu lostin vakandi eða sofandi er ekki viss klíp mig í handarbakið á,á andvarpa af létti sit andvaka það sem eftir er nætur þori ekki að loka augum mínum finn enn nálægð þeirra djöflar alls staðar í öllum hornum bíða tækifæris að ráðast til atlögu á ný loksins,loksins birta,birta heyri harmavein týndra sála er geyslar sólu berja á þeim og fæla djöfla sálu minnar burt,burt,burt ] [ varnarlaus er án alls óms opinn, nakinn selur vinir skilja\' ei vægi hljóms, vörn sem tónlist gefur ] [ Þú ert rykkorn í augasteini mínum þú færist til og frá truflar sjón mína frá öllu öðru Höndin reynir að fjarlæga rykkornið. En það virkar ekki... þú ert bévítans dæmi en mátt vera áfram en bara ekki trufla lífsveginn minn. Augasteinninn sættir sig við truflun þína. ] [ Orð þín oddhvassir hnífar fljúga út úr munni þínum flugbeitt. Stundum hittir þú mig beint í hjartað Öðrum stundum hittir þú en brynja mín kastar þeim af sér. Þú ert svo góð í hnífakasti að mig langar til að skrá þig til keppni! ] [ Rápa í myrkri, feta sig áfram, á óendanlegum stíg. mistaka. Halda áfram í blindni, treysta á að hinir viti, hvert leiðin liggur. En í óvissu. Þegar fóturinn skrikar, molnar úr barmi vonana, stígurinn hverfur Og allt er úti. Í umsjón þinni faldi ég áttavitann, með einskæra von sem mitt leiðarljós. Vakna upp frá draumi, ég vil fá áttavitann aftur. ] [ Ég hef ekkert að lifa fyrir sagði hún og grét við hann laumaðist svo í heimsókn til hennar nokkrum dögum eftir að hann stal pillubréfunum ] [ Elsku pabbi þína visku og réttsýni þú mér tamdir leiddir mig í skilning á svo ótal mörgu mikilvægi þess að greina rétt frá röngu fylgja minni innsýni í einu og öllu láta ei aðra leiða mig afvega af minni lífsins göngu oft fannst mér þú ei sanngjarn og við mig harður skildi það ekki þá fannst þú bara við mig vondur nú ég í þínu hlutverki er sjálf mín eigin börn nú á og trúðu mér fullkominn skilning á breytni þinni þá hef náð elsku pabbi minn frá mínu hjarta ég þér segi þú mátt sáttur við þig sjálfan vera í þínu hlutverki föðurs þú mér aldrei hefur brugðist í hjarta mínu ég ávalt mun mitt þakklæti til þín bera ég ætíð get til þín leitað er erfiðleikar að mér steðja jafnvel er þú ert mér fjarri þú mig í mína draumaveröld heimsækir er ég vakna hristi hausinn get ei brosi varist þér ávallt virðast mín hugboð berast er myrkur að mínu hjarta sækir ] [ Lítil stúlka með dimm augu, Dimm, dökksvört augu. Hleypur eftir marglitri götunni. Gulur, Rauður, Grænn og Blár. -Hún brosir. -Litirnir glampa. Ekkert nema tilhlökkun fram undan. Inni á milli leynist einn dekkri litur. Litla stúlkan hrasar. -Hún grætur -Hvar er litadýrðin? ] [ Á næturnar, þegar ekkert er fyrir utan gluggan, nema, myrkur, Endalaust myrkur. Þá fer ég af stað í ferðalag. Mér tekst að ferðast um allan heiminn og ég sé allt. Ég sé það sem ég vil sjá. Einnig það, sem er vont og ég vil ekki sjá. Hugurinn en fullkomnasta farartæki jarðar. Með honum komust við milli heimsálfa Á aðeins broti úr sekúndu. ] [ í skólasundi nenni ég ekki að vera betra er að synda hundasund og láta lítið á sér bera í ljóða tíma ég fæ mér fegurðarblund því ekki veitir af til hvers að vera í íslensku? ég þekki hvern einasta staf til hvers að vera í skólanum ég verð alveg brjálaður,hvern einasta dag til hvers að vera í stærðfræði ég kann plús og mínus borðið mitt í skólanum ekki er flatt og ekkert í þessu ljóði er alveg satt ] [ Ég villtist oft á langri leið en lítt ég hirti samt um það. En harkan mér í huga sveið ég heyrði nið frá öðrum stað. Innst þó bjó í æskuárum að ýta úr vör með ráð og dáð. Andinn lagður ótal sárum ég uppskar það er til var sáð. Skuggar falla og sverta fjöll og skúrir ýfa kyrrlát djúp. Þá sést í leiftri hamrahöll en hrímgrá öll í þokuhjúp. ] [ Þegar vindar blása tímanum áfram Og með hverri sekúndu sálin víðar sér Þér ég þessa gjöf gef í von um eitt stórt bros ég kalli fram Lifðu heil, lifðu sæl leyfðu mér, þér við hlið standa í gegnum súrt og sætt meðan nótt syngur, og dagur himin lýsir ] [ hnífaparið ætti að vera saman og vinna á matnum í sameiningu samt er gaffallinn bara að hræra í kakódrullunni ] [ Vegurinn upp á við er hrjóstugur rætur trjánna fella þig henda þér út af sporinu greinarnar gefa þér kinnhest græta þig af og til ef þú kæmist alla leið myndu náttúruverndasinnar mótmæla hástöfum. ] [ síðasta vígið er fallið það er engin von eftir samt rís aska úr öskustóinu samt er maður mettur samt kemur nýr dagur það er engin von lengur allar varnir eru brostnar samt laufga tréin samt brosir mær samt rís sólin ] [ þín orð svo dísæt sírópið lekur úr munnvikunum ég sleiki það af vörum þínum - hvert einasta orð - líkt og önnur sætindi skammvinn nautn augnabliksins ] [ Við stóðum þarna þögul í rigningunni þegar hún skaut skyndilega út úr sér tungunni og fangaði fallandi snjókorn. ] [ Óska þess stundum að geta rifið hjarta og sál mína, hent því á haugana, og fengið nýtt hjarta og nýja sál ] [ horfi á þig hlaupa móti vindinum reyni að snúa þér við en án árangurs áður en ég veit af er ég farin að hlaupa með ] [ Lítil stelpa þráir ást, ástinn er hvergi. Öskrar útum gluggann hún er að missa það, hún er að missa sitt litla hjarta sem þráir frelsi. Haturinn sest yfir hana. Lítið tár læðist út hrætt um að lenda í þvi sama. Dettur niður mátlaus og hvítt augun lokast og hún blessast, heimurinn gleipir hana og sársaukinn fer. Hartað slær en í hjarta mér með meirri sársauka sem fjékk nafnið að sakna. Byltingarnar sviknar og sameinast fljótt. Gleimist hún en aldrey hjá mér. Frelsið er ekki til það mun það aldrey, stríð mun alltaf vera til og folk að berjast um frelsi. Þögnin verður meirri og þannig endar lífið. Nú er minn tími búin ég er að ganga sömu göngu, í heilagan dauða með frið og ró í litlari sálarhol, og lífið sem ég alrey átti fer. ] [ I want to be loved You know what love is dont you? No your to cruel, to cruel to be a human So what are you? I dont want to be alone, Coz im afraid of guys like you. Now you laugh whats so funny? I run away afraid to the dark, Crying coz the end will come... You dont care. I give you this so you can try to understand, I dont think you will read it. I look at you eyes they are burning And your heart is like stone, why are you so angry? What did the life do to you? I know the life is full of lies and hates and evil things But whats so special about you? Yeah im asking coz I care about people. But poeple like you hate me, they love seeing me cry. Im just alittle girl trying to find peace , My life has suck and I just neat peace sp I want to die. Please can you stop coz its really hurts? Please stop I dont want to end like you. Please dont cut me . Atleast tell me what did I do to you? I dont even know you so just leave me alone. Please goaway! Im getting really scared. You didn care... no one did. You all think im dead but no im just so scared that I dont go out any more! Why didn you care about me? WHY?!? ] [ tilhögun þín mig dregur að, hugan fyllir ég fer í bað, líkama minn þinn hiti umliggur, þér til ama, ei allan hann þiggur, farðu samt ei á brott, þótt ég sé stiggur, mér líður vel þegar hjá mér þú liggur, 2.nóv, 2004 ] [ ég myndi tilla mér niður hjá þér ef ég gæti, brosa breitt og vera með læti, draga þig að mér og af mér sýna kæti, en fyrir hurð þú tillt hefur fæti, horfna ást þína ég sárt græti, um ákvörðunina stanslaust þræti, þurr tár þín mitt hjarta bræti, hjarta mitt kalt og sorgin það æti, bíð enn að þú til mín aftur mæti, 2004 ] [ Munnurinn eitt logandi helvíti -duga eða drepast Ertandi sársauki á tungu -ekki mistakast Kyngi pillunni, um leið bjargvætti mínum skynja sæluvímuna framundan -alveg að takast Festist í kokinu, líf mitt stendur í stað sé vímuna þokast í móðu -misheppnast Hósta pillunni upp ásamt restinni af sjálfstraustinu finn sæluna renna úr greipum mér -allar dyr lokast ] [ I want to lie, all day in bed dark clouds are, surrounding my head no one, I ever want to speak cause my will, all is so weak emotions are, at their highest peak want forever, to fall asleep need someone, around me to hold take my sorrow, and it unfold how can few words, be so hurting it all started, with simple flirting those last days, the sun shining high then you ended it, I dont know why now my mind is, totally blind ways to leave, it tries to find what others will feel, I do not care cause without you, I cannot bear 2001 ] [ Afturmótmælagöngur haldnar í Reykjavík af tilefni lýðríðis á Íslandi. enginn mætti á mót allir gegna allir þegnar sinnar þjóðar líka þeir freku á einþingi. ] [ stund sannleikans var algjörlega hans þessa góða manns svo fékk hann krans og steig sinn fyrsta dans ] [ eyrði ekki fyrr en varði lá sem fiskur í sjó sat á himni og hló hel til sín tók ungan andann bárur að ströndu féllu ég heyrði í þeim saknaðarhljóm ] [ Það var einu sinni borð sem sagði ekki orð heldur framdi bara morð það átti þó gítar en hann líktist sítar borðið var ekki glatt með það svo það skellti sér nú bara í bað ] [ Fyrir mörgum árum síðar plöntuðu ástfangin hjón tveimur litlum öspum. Önnur öspin hefur vaxið og orðið að fallegri ösp sem allir dást að. Sterkt og kröftugt tré sem stendur allt af sér og lætur hin trén í skóginum ekki hafa nein áhrif á sig. Hin öspin, litla öspin, hefur verið viðkvæm frá því hún var gróðursett. Hún faldi sig bakvið sterku öspina svo hún fékk ekki nægt sólarljós. Hún óx hægt. Hún kunni illa að nýta næringuna úr jarðveginum. Hún lifnaði samt öll við þegar fólk gekk framhjá og sýndi henni athygli. Teygði úr sér og tók vaxtarkipp. Þráði svo ást þeirra og hlýju. Um leið og fólkið yfirgaf hana þvarr henni allur móður og neðstu greinarnar og tóku að hrynja af. Með árunum hefur hún vaxið vegna allrar þeirrar ástúðar og hlýju sem hún hefur fundið fyrir og er orðin helmingi hærri en sterka öspin. En það er ekkert tignarlegt við hana þar sem nær engar greinar eru á henni. Langur bolur hennar kitlar skýin og gott ef börkurinn er ekki byrjaður að flagna af henni. ] [ Reið úr sárinu blæðir svartur vökvi Reið því ekkert er eða verður eins aftur og aftur er ég orðin ný önnur manneskja Reið því ég var sú sem ég vildi vera. ] [ Dagurinn er fallegur, ákaflega fallegur. Heiðskýrt og lognmolla. Eins og hendi sé veifað hrannast dökk skýin upp. Heiðskýrt yfir í léttskýjað, léttskýjað yfir í hálfskýjað, og þaðan áfram þar til orðið er alskýjað. Vindurinn læðist á eftir skýjunum og eykur kraft sinn þar til ástandið minnir á heimsókn fellibylsins Mitch. Allt sem er steini léttara fýkur um og enginn hættir sér út. Fólk er varað við því hættuástandi sem ríkir af völdum veðursins. Skyndilega fer að lægja og núna koma hviður endrum og sinnum og ljósgrá skýin bera við bláan himininn. Það bíða allir í ofvæni eftir þeim fagra degi sem ríkti um árið og hafa fulla trúa á að bráðum verði aftur heiðskýrt og lognmolla. ] [ Augun opnast og þú veist ekki hvar þú ert, eftir stutta stund sérðu að þú ert stödd inni í tjaldi, og það sem meira er; þú hefur verið gerð að uppblásinni dúkku vina þinna. Gott að eiga vini sem er hægt að treysta og nenna að leika við þig. Þú hefur ekki leikið þér með dúkkur síðan þú varst lítil svo þetta ætti að geta orðið skemmtilegt. Þú hefur þörf fyrir að öskra og þú öskrar af lífs og sálarkröftum, gefur þig alla í þetta eina öskur sem á að veita svo mikla útrás. En það heyrist ekkert í þér, ekki boffs, ekki múkk. Hvað veldur? Er verið að þrengja að hálsi þínum? Það getur ekki verið að vinir þínir geri þér þann grikk að meiða þig á þennan hátt. Þér léttir þegar þú sérð að það er ekki rétt. Vinur þinn hefur hendur sínar á brjóstkassa þínum og eru þær allar á iði. Gott að eiga vini sem eru slík karlmenni að bjarga konu í neyð. Þú hlýtur að hafa dáið og þinn kæri vinur er að veita þér hjartahnoð. Verkur þinn í hjartastað er þvílíkur og er það af völdum hnoðsins. Mikill léttir að fá skýringu á verknum, stingnum í hjartanu. Vinir þínir standa upp, girða sig og vilja fara út í fjörið. Þér er boðið með, manngæska þeirra er þvílík. Færð meira að segja þrjá kossa á kinnina. Þú átt góða vini, mjög góða. Það eiga ekki allir vini sem nenna að fara í dúkkuleik við fullorðna konu og leyfa þar með barninu í sér að njóta sín. Sömu vinir bjarga lífi þínu, þú hefðir eflaust dáið drottni þínu ef þeir hefðu ekki gripið inn í, hnoðað þig og blásið í þig líf. Og til að sýna kærleikann í verki færða létta kossa á kinn þína. Þetta eru menn sem þora að vera þeir sjálfir. Þetta eru menn sem láta þér líða vel. Þetta eru sönn karlmenni. Er það ekki? ] [ Þegar þú vaknaðir, hreyttir þú í mig að ég hefði ekki verið nógu góður í gær. Þegar ég kom til þín í hádeginu með heimabakað brauð, sagðir þú að bragðið væri ekki nógu gott. Þegar við borðuðum þriggja rétta lúxusmáltíð á Argentínu, sem ég borgaði fyrir, sagðir þú að þú hefðir heldur kosið Perluna. Þegar þú fórst að sofa, lá flaska með rauðvíni af dýrustu gerð á koddanum, og miði sem á stóð: ,,Drekktu ein djöfuls viðrini\". ] [ Við erum þrjár, alltaf saman. Við sínum eingin tár, það er alltaf gaman. Við stöndum saman, Hvað sem gerist. ] [ Hjartað litla að bugast mér Verð að finna þig og segja þér Mitt litla ljóta leyndarmál Sem er að éta mína sál. Sameiginleg ákvörðun þetta var Spurningin var bara hvar Þó þetta ætti bara að vera gaman Hefðum við aldrei átt að gera þetta saman. Þið gantist, hlæjið og grínist Alveg nákvæmlega eins og ykkur sýnist Mér einni þykir þetta leiðinlegt Fyrir ykkur var þetta einskisvert. Vildi að ég gæti spólað aftur En virðist sem þrotinn sé minn kraftur Verð víst bara að lifa með þessu Og reyna að vinna mig útúr þessari klessu! Þið mikilvæg hafið verið mér En þetta ævintýri endar víst hér Kveð ykkur nú að sinni Verið sæl elsku X ] [ Þegar ást er tjáð er grunnur byggður. Og ef vel er að gáð draumur þinn tryggður. ] [ Edrú eins og litli fiskurinn, syndir á tjörninni. ] [ Hún er sko fyrirmyndin og gerir lífinu góð skil. Sál hennar tær sem fjallalindin sem allir ættu að leita til. Hún er minn sálufélagi og vinur og segir allt hreint út og satt. Alveg sama hvað á mig dynur hefur hún komið og mig glatt. Hún er svo rógleg og mild með stórt og sterkt hjarta. Ég segi öllum að við séum skyld og geri það um alla framtíð bjarta. Þegar ég mæti til hennar kátur tekur hún ávallt vel á móti mér. Við deilum sögum og myndast hlátur og sérhver maður það sér. Hún hefur gengið í gegnum sorgir sem sköpuðu andvaka nætur. En fyrir ofan skýjaborgir situr engill sem með þér grætur. Áfram hún mig alltaf leiðir og kennir mér líka að velja. Svo fljótt út faðm sinn breiðir þegar sár sál mína er að kvelja. Aldrei skaltu lenda undir þegar óhamingja sækir að. Þú átt bara skilið góðar stundir og ef einhver spyr, segi ég það. ] [ Innst inni í hjarta þér leynist smá ást til mín. Í draumum þú birtist mér, og þá ég sendi til þín. Það sem ég þrái mest er nærveru þinni að njóta. Gefins færðu það sem er best, aldrei skaltu vont hljóta. ] [ Orð á blaði lýsir mér í smá-atriðum, auga fyrir auga lýsir mér í fullri-stærð ] [ Hann horfir niður á oss og hreyfir vængi sína. Setur kveðju í fingurkoss sem berst inn í sálu mína. Geislabaugurinn gulur skín og góðu lífi þú lifir. Ég hugsa og brosi til þín meðan þú vakir okkur yfir. ] [ Ruslið er tómt, hyskið er margur, pakkið er gleymt, jú hvar er ég stödd hvergi annarstaðar en í veröld vitlýsinganna ] [ lyginn lagði orð í munn lævís var til sagna fljótt varð fiskisagan kunn og frómir át\'upp til agna ] [ Bátinn minn hef ég dregið í land því hann má ekki sigla í strand. Þetta er orðinn vonlaus barátta sem mun enda sem sorg án sátta. Á slæmum stað er hún núna stödd og að minni hálfu er hún nú kvödd. Hún ætti að éta það sem úti frýs því verri kostinn hún frekar kaus. Ef hún kemur svo sár til baka mun ég alls ekki við henni taka. Heldur halda höfði mínu hátt og hvísla sannleikanum að henni lágt. Geng svo stoltur minn veg og held áfram að vera ég. ] [ við hugsum eins þú og ég berum saman bækur okkar og síðurnar eru eins rétt eins og eftir sama höfund tvíritaðar afritaðar ljósritaðar upplifanir þær sömu gamlir draugar og ljótir karlar sem læðast inn að nóttu stolið sakleysi algjört ofstæki brotin barnæska en stöndum sterk sigurvegarar gáfumst aldrei upp börðumst áfram sigurvegarar - því við völdum að lifa ] [ Ég er mesti kúkur jarðríkis Ég þarf að deyja til að vakna aftur úr þessu víti sem ég kom sjálfum mér í Ég þarf að vakna aftur til að finna þig á ný á nýjum stað þar sem við þekkjumst ekki aftur Ég gref mig í holu og held áfram að grafa Ég kann ekki að hætta og reyni aftur og aftur að grafa mig úr henni í stað þess að stoppa Ég skeit lífi mínu á einu kvöldi og fæ það aldrei til baka Ég hefði alveg eins getað stokkið fyrir bíl og drepist Ég er kúkurinn ] [ Beneath me I see my shadow Walking, talking, acting Pretending to be alive as if he were me A continuous game of charades where no one wins And quitting doesn’t exist Only in death can I put an end to the divine mockery Only in death can I truly be free to see the truth This black day I feel the pain of the ages Turmoil inside my aching bones struggling to be released Yet again, like a plague upon my world It smites everything in its path with its potency This black day, I died ] [ Pólitíkusinn leitaði að sannleikanum. Gekk hann um göturnar og spurði fólkið. Nei, ekki var hann þar! Las hann í bókunum og reyndi að skilja orðin. Nei, ekki var hann þar! Sat hann með vinunum og ræddi og spurði. Nei, ekki var hann þar! Svo settist hann í sætið sitt og hagræddi sér. Já, þarna var hann! ] [ Ég er ekki til Ekkert er raunverulegt Heimurinn lítur við mér en horfir undan Skömm, niðurlæging, smán Öllu þessu olli ég á svipstundu Ekkert verður tekið til baka Bullandi eftirsjá Eins og fiskur sem nartar smátt og smátt í einu Óbærilegur verkur sem endurtekur sig í sífellu og virðist ekki taka enda En nú er ekkert eftir til að narta í Ég er horfinn, ekki til Dáinn ] [ Ég skil ekki, ég veit ekki hvað það er og ég skil ekki, sumt sem ég verð, sem ég stundum verð að gera og ég veit ekki hvað það er. Stundum skil ég hvað það er en þá, veit ég ekki hvað ég á að gera. Svo geri ég það sem ég held og held að það sem ég geri sé það rétta. Svo, svo er það ekki rétt. Svo heyri ég það sem er rétt og ég skil ekki ég veit ekki ] [ Ég vaknaði í morgun á mánudegi. Fékk mér kaffisopa með kennurunum og starfsfólkinu og sá heiminn. Í fyrstu löngu frímínútunum fékk ég mér annan kaffisopa og tvær ristaðar brauðsneiðar og hafði þá spurt um heiminn. Í hádegishléinu borðaði ég matinn minn og fékk mér kaffisopa á eftir og hafði þá fengið óljós svör um heiminn. Í síðdegishléinu fékk ég mér kaffi og kleinu og hafði þá unnið frekar með heiminn. Við dagslok, sleppti ég kaffinu en fór heim á föstudegi og skildi ekki heiminn. ] [ Blóm vaxa nálægt hjarta mínu. Mig langar að skipta um jarðveg áður en þau visna en ég get það ekki. Þau teygðu sig upp úr ástinni, í skjóli við umhyggjuna og brostu með blöðum sínum og krónu eins og lifandi börn. Í hvert sinn sem ég gekk um garðinn, brosti hjarta mitt. Dagblöðin fuku hjá í árvindinum, Forsíðurnar breyttust. Allt er svo óvart. Hjarta mitt er hætt að brosa. Ég stend kyrr í garðinum. Blómin sem uxu svo nálægt hjarta mínu, drúpa höfði. Þau eru enn í skjóli við umhyggjuna. Teygja sig upp úr hatrinu en brosa ekki með blöðum sínum og krónu eins og lifandi börn. Blóm vaxa nálægt hjarta mínu. Mig langar að skipta um jarðveg áður en þau visna en ég kann það ekki. ] [ Þú hendist niður hlíðina, valkoppar og finnst þú eiga heiminn. Þér finnst þú fær í flestan sjó og ætlar þér að sigra heiminn sjálfan. En þú átt ekki von á að misstíga þig á leiðinni niður. Þú misstígur þig og ég er svo óheppin að lenda undir fæti þínum. Risavaxinn fóturinn lendir ofan á brjóstkassa mínum með miklum þunga. Það miklum að mér reynist erfitt að anda. Einhverra hluta vegna gleymir þú að taka fótinn af brjóstkassa mínum og er hann þar enn, þar sem ég ligg undir rótum hlíðarinnar. ] [ Hún er ung að árum, of ung til að kynnast sársaukanum. Snöru er komið fyrir um háls hennar, en þó gætt þess að hafa hana nógu víða til að valda ekki of miklum óþæginum - uss, er sagt, uss! Næstu árin fylgir snaran henni hvert fótmál. Hún hefur elst, orðin fullorðin að eigin mati. Hert er á snörunni svo hún finnur fyrir töluverðum óþægindum - uss, er sagt, uss! Hún á orðið erfiðara með að fara ferða sinna því óþægindin undan snörunni valda henni ama. Hún heldur áfram að eldast, orðin hokin af reynslu. Fólk keppist við það að herða snöruna að hálsi hennar svo sársaukinn er orðinn gífurlegur. - uss, segir hún, uss! Snaran er svo hert að hálsi hennar að hún er blá í framan, augun standa á stilkum sínum og munnvatnið lekur í stríðum straumum niður höku hennar. Þetta er ekki fögur sjón og hún sjálf veit það manna best. ] [ Lítil stúlka dansar milli blómanna, tekur upp sóley, þefar af henni og flissar, ó hvað lífið er ljúft. Litla stúlkan tekur ekki eftir skugganum sem fellur á blómum vaxið túnið. Skugga tröllvaxinnar veru. Litla stúlkan tekur í bandið sem er um háls Búkollu, teymir hana af stað. Verður þess ekki vör að Gilitrutt hefur Esjuna á loft. Litla stúlkan finnur fyrir miklum þunga er Gilitrutt sveiflar Esjunni og skellir á bak hennar. Hún þarf að skríða á fjórum fótum leiðar sinnar. Litla stúlkan neyðist til að drattast með Esjuna á baki sér í gegnum lífið, skref fyrir skref. Þungi fjallsins er óbærilegur en litla stúlkan ætlar ekki að gefast upp fyrir Gilitrutt. Hún veit að einn daginn mun Óli lokbrá ganga til liðs við hana. ] [ sýna skal aðgát, þegar unnið er með ást hún er mikið tilfinningarefni, við að fást sambandið í byrjun brothætt er, vandamál ei mega vera láttu eins og þú sért, ungabarn að bera ekki segja strax, nein stór orð heldur ekki setja, öll þín spil á borð passaðu þig líka, hana ekki í ástarorðum kæfa ást hennar á þér, annars muntu svæfa einbeittu þér heldur, henni að kynnast sjá hvernig hjörtum ykkar, gengur að finnast ekki biðja um of mikið, allt of snemma annars samveru ykkar, þú fljótlega munt skemma hún á sig sjálf, sína vini, áhugamál og líf virtu það því annars, hún hættir að vera þér góð og blíð ekki stela frá henni, öllum hennar tíma eða hringja í sífellu, í hennar síma athyglisþörfina, sjálfum þér vertu nægur í kringum foreldra hennar, kurteis og þægur ekki ganga á eftir því, með henni fá að sofa heldur ekki láta, hana því lofa ekki láta á þér sjást, afbrýðisemi neina þá þróun sambandsins, í ranga átt ert að beina ástina heldur skalt, strax á trausti fæða þá hjörtu ykkar fljótt, saman munuð bræða 6.nóv, 2001 ] [ þegar þú ert nálægt mér, hugur minn kætir anda og sálu mína, þú styrkir og bætir ásjón vara þinna, mig langar að kyssa fallegt bros þitt, alltaf gerir mig hissa ávala líkama þinn, mig hungrar í vöku ég elska andlit þitt, frá hvirfli niður í höku bara að ég ort gæti til þín, fallega stöku jan, 2005 ] [ Sársaukinn, sem meiddi þig hér áður fyrr er nú ljúfsár því hann er gjöf frá mér. Í stað þess að finna muninn á góðu og vondu ert þú orðinn sem ein tilfinning og skynsemin leysist upp í nautninni og sársaukanum sem ég veld þér, þú getur ekki aðgreint þetta lengur. Styrkur okkar beggja streymir gegnum píningu þína því þú veist að það er mitt afl og minn vilji og mitt næmi sem liggur að baki. Ég ögra þér , svo þú getur tekið við...mér. Tilfinningar sem þú þekktir ekki fyrir koma nú upp á yfirborðið, orðlausar, þeim fylgir engin rökhugsun eða sjálfstjórn. Þú ert fljótandi í landi sem þú þekkir ekki en þekkir þó svo vel. Frá þér streymir ást til líkama okkar beggja, lífs okkar,okkar! Sársauki okkar , hamingja, angist og þor kemur í ljós á holdi þínu og ég vil fá þig til að kjökra og gráta af flugbeyttri hamingju í fjötrum mínum. Ég opna þig . Breyti þér. Skora á þig. Ég tek þig inn í breytt ástand. Nátturulögmálin gilda ekki hér, líkami þinn skilur og finnur og þolir hluti sem hann kannaðist alls ekki við áður. Þú hefur látið alla sjálfstjórn um lönd og leið, ég ráðkast með þig eins og ástríðufulla sinfóníu úr ofurnæmum skilningarvitum þínum. Tilvera þín er orðin fræðileg, þú ert bæði svo mikið þú sjálfur og svo mikið minn! Við það að þora að gefa þig mér svo mikið á vald, gefa þig örlögunum og nektinni á vald í því ástandi sem ég hef þig í núna, hefurðu styrkst alveg óendanlega. Ég breyti þér, þú tekur stakkaskiptum og það tengir okkur enn betur. þessi leyndardómsfullu helgisiðir tengja okkur, þvert gegnum tíma og rúm og öll venjuleg takmörk holdsins. Við svífum saman, ég vísa þér leiðina, þú hlustar og kennir mér og við vitum að saman erum við staðfesta ástríðuna á ástina og lífið. Ofsafengin mök okkar eru fórnargjöf til nátturuaflanna. Saman læknum við sum þeirra sára sem við sköpum í okkar tætta mengaða hverdagsleika. Við sýnum lífinu virðingarvott með því að þora að ferðast inn í ókunn lönd, líta innra með okkur, á töfrakraftinn hið innra. Allt streymir þetta í gegnum okkur á þessum andartökum alsælunnar, hraðar en á auga festir en við vitum að við erum að skynja einhverja dásamlega fjarstæðu. ] [ andlit þitt eins og himininn augabrúnir þínar eins og fíngerð ský á auðum himni augu þín tvær bjartar sólir munnur þinn eins og landslag móðurjarðar ég leggst nakinn í moldina í heitu sólskininu reyni að festa rætur ] [ Ég er ekki eins og þú Þú ert ekki eins og ég Ég er ég og Þú ert þú Saman, getum við, myndað eina heild. Heildin er lífið. Lífið gengur í krignum okkur Það erum við, Ég og Þú sem mótum tilveruna. ] [ I smell like a lollipop/nasty ass dogg and I like to fuck/my daughter is on my cock/I feel so much pain that I\'m about to give up/I feel all this pain growing in my head/help me on my feet so I can get back in my bed/my face is fucked and is turning red/I can\'t think straight cause my brain is dead/I think I\'m sick/maybe it\'s just an national trick/bad dream controlled by some chick/my head is about to explode/I won\'t be fine till I get back on tha road/with heavy load/of cd\'s with J-Lo/and don\'t tell me to lay low/I\'m an nasty ass monster I got my closet full of clothes that I won\'t wear/I\'m so crazy that my momma had to send me to a foster care/and when I got my first pumice hair/I ran away from home/fuck cunts and had my eye\'s pierced/drank liquor till my brain began to disappear/I\'m that man whom yo momma told ya\'ll to fear/you should run away everytime I\'m near I used to smoke grass/I probably end this shit by blowing up my ass/I\'m just gonna finish this one and I must be fast/An police officer is in the place/I hit him in his face and I got his blood on my face/I ran out and i got no trace/but I ran back in and shot the officer in the head just in case/went out and raped the next bitch that I saw/another officer came and shouted that I couldn\'t fuck with the law/so I shot his ass away/and that\'s what happens to everybody that are in my way/but when I was little I was a super high timid/but now I\'m a nasty ass with no limit/and I don\'t wanna lick your cunt, I wanna be in it Fuck this/fuck that/give me another pot/I just wanna lie on the couch and smoke alot/my momma told me to quit smoking crack/I turned around and cut her neck/Oh shit what have I done/I knew there was no time to run/my eye\'s started to bleed/what can I do, I\'ve smoked to much weed/gotta get a grip, fuck/my brain beat has dropped/I must be dead/I\'m on upper level/I felt right down to the devil/I was locked in a cell/Oh shit, this must be hell ] [ Afhverju geta konur ekki sagt, sagt það sem maður vill heyra. Í stað þess að tala í hringi segið frekar að þið viljið ekki meira. Lélegar afskanir líta dagsins ljós og maður sér í gegnum þær allar. Samt gera allar konur þetta því góðmennskan á þær kallar. Verið hreinskilnar og segið satt þó það gæti skaðað sálir manna. Því lýgin sést svo langar leiðir að hana ætti hreinlega að banna. ] [ Ei sár yfir að þú hættir að tala við mig Ei bitur yfir að þú vilt mig ekki Ei reið út í þig fyrir að vera eins og þú ert Ei græt yfir að vera ein í dag og á morgun líka ] [ Það var ekki ég. Það var taugastarfsemin sem tók af mér öll völd. ] [ Hverjum hefði dottið í hug þessi yndislega þjáning sem fólk sækist eftir ekki þér þú manst örugglega ekki hvað ég heiti Ég er soddan draumóramanneskja mörg þúsund kossar helvítis hættu núna tilgangur hjartans er að dæla blóði ekki tilfinningum ] [ Ég sit hérna ein á föstudagskvöldi. Öll ljósin eru slökkt og ég helli í mig öli. Sigrast á eilífu vesældarstússi. Og geng og geng í mínu fínasta pússi. ] [ Gengur inn í búðina fegurð hennar vekur upp gamla manninn sem er að skoða blaðið og strákinn sem hafði verið að hugsa um big band kenninguna. Hún vekur mig líka upp lykt af hrísgrjónum mig hefur langað í þennan páfuglabol lengi. ] [ Tíminn stendur í stað þegar tónlistin flýtur í gegnum mig eins og stór adrenalínskammtur. Fullkomnar mig með tónlistarfullnægingu. Gítarinn fer í lungun, fyllir þau með tónlistargasi. Trommurnar fara í hendurnar og fæturna, eins og tónlistarbatterí. Bassinn sér um heilann, en söngurinn fyllir hjartað mitt af tilfinningu sem ég get ekki útskýrt hvernig er. Tónlistarfullnæging. ] [ Hann var hvítur og veraldarvanur hann var gullfallegur svanur sem fargaði lífi sínu og hvarf úr lífi mínu. ] [ Þegar ég staldra við hugsa til baka sé ég þig og mig hlæjandi saman á fleygiferð eftir moldarstígnum þú við stýrið ég við hlið þér óvissar um hvað biði okkar eftir næstu beygju reykspólandi krakkabjánar þá.... lifðum við fyrir augnablikið á þeim augnarblikum upplifðum við hamingjuna í öllu sínu veldi án þess að við þó gæfum því gaum ] [ Í stjörnu skini stríðrar nætur blikar minning þín ljúfblátt ljós leikur blíðlega um vanga minn. Stjörnur tindra tifa og deyja, trega óskastund -er nú ] [ Ég fúslega færði þér hjarta mitt,en fékk ekki staðinn þitt, nú hjartalaus ég er með engu ég mig ver, hugsaðu vel um hjarta mitt, því þú átt meira en eitt, en ég á ekki neitt. ] [ Lagið hefst Við erum gerð fyrir hvort annað dansinn, ég, þú, tónlistin Laginu lýkur Lagið hefst Þú æðir áfram og ég dregst með dansinn, þú, tónlistin Laginu lýkur Lagið hefst Ég stend á dansgólfinu, án þín ég, tónlistin Laginu lýkur ] [ Útgönguleið?! Ég fann útgönguleið!! Ég kemst út!!! VÚHÚÚ!!!! Ég fylgi merkjunum langa leið en... Lokað??!! Þetta var gabb!!!!!!! Ég arka reiður um og bölva í hljóði Og segji: Þetta var gabb! #%@!!!! Þetta var gabb!!!!! ] [ þótt þú farir einhvern daginn þá verðurðu kyrr þetta er óafturkræf innstimplun ] [ þú virkjar sprengikraftinn öll eldfjöllin innra með mér sem vissu ekki af sjálfum sér ] [ Ást er erfið, sumir hætta saman, aðris rífast, sumir skylja. Ást er líka hamingja, maður þarf hamingju til að geta elskað. Eftir. Steinunn Reynisdóttir. ] [ Ég Hassan Belafonte ávarpa íslensku þjóðina gríman ávarpar hina grímuna og svarið er nei Samt gefst ég ekki upp, nei takk Hassan talar við grímuna og svarið er aftur nei Ég Hassan ávarpa í öllu mínu veldi þegar gríman dettur af drottningunni og ég Hassan stel senunni ] [ Vinir eru fólk sem maður getur trest. Vinir hjálpa. Mömmur geta líka værið vinir mans. Frændur,frænkur. Og meira að segja SYSTKYNI !! ] [ Um nóttina lagði ég gimstein á götuna. Svo fyllti ég veröldina af stjörnum. Næst skálaði ég við tímann í veigum lífsins. ] [ Raunveruleikinn vakti mig, þegar sólin læddist inn um gluggann hjá mér og fuglarnir hvísluðu í eyrað á mér. Aðeins í einu sinni var sögu, verða þau aftur. ] [ Ef glaðasta manneskja í geiminum getur alltaf verið glöð En samt alltaf döpur á sama tíma þá bókstaflega er hún með klofið geð ] [ Hvernig er hægt að vera allt í senn Glöð og döpur Ástfangin og hata Fölsk og treystandi Vinur allra og vinur einskis Einmanna og vinamörg Ákveðin og óákveðin Hvernig er hægt að vera ég ] [ Ég hef lengi ætlað mér Að leggjast á skýjin og borða súkkulaði Flétta hárið -Á litlu englastelpunum Spila ólsen ólsen - við englastrákana. Panta tíma hjá yfirmanni okkar og segja Guð, hvernig á ég að lifa lífinu? Fá ekkert svar Knúsa alla vini mína Stökkva niður aftur og takast á við lífið ] [ árla dags ég augu þín leit sá endurspeglaða nýja tíð tíð án gráturs blæðinga....alls tóm innihaldslaus ég svíð. ha, .(punkturinn) á að vera í þessari línu en ekki alveg yfir í þessa samt... Kveðja Fólk með Sirry. líttu á mig skuld, ég er 100% lán ekki nælon. ég þrái að saklaus fórnarlömb skuldbindi sig mér..svona.. komið ungu lömb komið til skulda pabba kær kveðja KB banki. Allrahanda útsala, viskustykki fyrir örfhenta, komið og kaupið! hinn raunverulegi texti við lagið Hvar er húfan mín hvar er.... kúkur, hvar er skítur hvar heldur hlaupárið sig 2005 kúka brúnir hvítu, hvar er jafnréttið ?????????? ] [ Hármissir og restin aflituð hann er með perlufesti þröngt um hálsinn Hann hlýtur að heita Sam Kynhneygður Við óskum herra Kynhneygðum alls hins besta... Tónlistarhátið á dögunum einginn græðir færri hljómsveitir komast að en vilja Hann byrjaði að spila á píanógítar Kúargrásleppulagið vann Oprah tekur yfir á Stöð 2+ Veðurfréttir á leið í hús, það verður örbylgjulega rigning og myrkur og meinlínisskuggar. Arnarnesið sekkur með nýjum íbúum - allir í Srilanka safna og senda pening sökum flóðanna. ] [ Nánast útrunnin kona raular vögguvísur blá ábreiða hvílir á örmagna kroppinum, slær hrynjandatakta á brjóstkassann kveikir ækskuneista í ástlausu hjarta. svipuð saga! þegar ég sé hjólkoppa rennur hugi minn ávallt til þeirra tíma þegar Kaninn fór með mig á verkstæðið sitt á beisinu á sunnudögum og gerði mig of unga að konu ] [ Ég arkaði út til þess að sjá betur inn til þín. Þar var fallegt því þú skildir mín húsakynni. Ég fór aftur heim til þess að rifja upp og sjá. Svo liðu dagarnir eins og stórt og hræðilegt snjóflóð. Það var ekki lengur sól heldur ást við vorum inni saman. ] [ Þú opnaðir hugann, horfðir til mín. Hjartað sparkaði, pumpaði á ný. Þú opnaðir hliðið, inn til þín. Sálin þá fattaði, að þú ert mitt líf. Fangelsaði fiðringinn í von um frelsi. Ringlaði riddarinn fór úr brynjunni. Ég opnaði hugann, horfði til þín. Hjartað kvartaði, elskaði á ný. Ég fór úr brynjunni, þú fórst til mín. Rökvísin rataði, og bjó til nýtt líf. ] [ Í kófi, ósofinn í óhófi. Sveittur lófi. Þreyttur, uppeyddur, tilneyddur meiddur, langt leiddur, hræddur, mæddur, hættur, byrjaður, glaður, dapur, hatur, sár, tár, ógleði, ógeðið kveðið. í meðbyr á móti, ég kveð þig. Ljóti. ] [ Þú þarft ekki að taka þátt í stríðinu til að deyja, en ef þú gerir það verður þú hetja. ] [ Draumur um drós, eða draumur í dós, þú ert draumur sem rós, sem mig dreymir sem ljós, þitt bros, þitt bros, og fagurt fasið. ] [ Ónýtir hvítir strákar, gráta svitadropum. Ofnotkun á efnum mín skoðun. Allir kaldir, haldnir hræðslu um bræðslu hugans. Dans á rósum í ljósum logum. ] [ nærkomnar kartöflur, fínt er að flá sársauka þeirra, þykist ekki sjá á háum hita, í potti skal sjóða allt virðist þeim, hægt að bjóða vanar að vera, í stöppu vel kramdar saltaðar, brúnaðar og lamdar með viðbættum sykri, fljótt þær gleyma en músahjartað mun, þetta að eilífu geyma 21.mar, 2005 ] [ My heart is torn apart The love I had tasted is now forever wasted I wish you had stayed in my heart The battle is lost, I’m lost How could I ever love again? How could I? I thought this love was pure I thought it was so true I know now, there is no cure from falling in love with you I still am. I could never love another You have destroyed the meaning of love You have destroyed the meaning of trust What should I do now? Can I get you off my mind? How? You left me behind Betreyal is a very cruel thing as for me, I will never forget it I could never love another She has destroyed the meaning of love She has destroyed the meaning of trust I could never love another She can ] [ Hefur þú séð lax með fax eða kanski hest með lítinn sporð. Hefur þú kanski séð orm sem hefur framið mor. Ekkert af þessu hefur gerst svo ekki þarftu að vera hrædd/ur. ] [ Ég sá lítinn orm ég horfði á hann,hann lenti í stórum storm og fauk í burt ég sá hann alldrei aftur. ] [ fruss hey vindurinn er með móral. fruss og sólin með móral. fruss seiji ég nú bara og ulla á sólina og vindinn. hvað eru þau að skipta sér að. ] [ Hvert ert að far aspyr sólin. Stjörnurnar svara núh þú et svo merkilega að við meigum ekki vera nálagt það segir tunglið allaveganna. já tunglið veit nú valla mikið það er alltaf slökkt ljósið þegar það kemur. ] [ Dís,dís litla dís svo lengi sem þú manst svo lengi sem þú lifir. Við elskum þig. ] [ Konan og maðurinn voru eitt. Þá kom djöfullinn og sagði: „Hahaha, þið eruð ekki neitt,“ og maðurinn dó, og konan dó. En djöfullinn hló. * * * * * Djöflinum líkaði þessi leikur, og lék hann aftur hvergi smeykur. Hans árar allir og grimmdarverur, ollu usla og sprengdu ljósaperur. Óx honum svo ásmegin, að ætlað’ann næstan drottin veginn. Almættið reyndi, en fékk ei við ráðið, Ríkið hrundi og Hann var háðið. Fór herrann að lokum þá sömu leið, og leikmenn þeir sem fengu djöfulsútreið. Ljósið var dautt og mennirnir með, en myrkrahöfðinginn heiminum réð. ] [ Thank you for loving me this little time It gave me time to think about what love was I think I will never find some one who will be like you You are so special Thats why I loved you And I still do In my heart, you’r name will always be written ] [ Þar sem læri þín mætast er gullið grafið, gaman væri þeim auði að ná. Yrði það yfir allt himneskt hafið að hendast á reið um nótt þér á. Heyrðu góði, gleymdu þessu! Gamna færðu þér ekki með mér. Átt þú í höggi við harðsnúna skessu sem hryggbrýtur sveina og undan þeim sker. Fyrirgefðu framhleypnina, fara skal ég burt frá þér. þykist ég þó vita, vina, að viljir þú samt sofa hjá mér. ] [ We where so perfect together But that one day we had a fight I cried my eyes out but you didn’t care I’ll guess you will never forgive me You just want to forget me But I will never forget you Never ] [ We crashed All I saw was blood and bloken glass I looked for you Are you alive? There you were Didn’t move, are you alive? I tried to call your name but I couldn’t talk Somebody, please help me and my friend I was stuck and couldn’t move I had to lie there and watch you die I saw you eyes open But you said: I love you and then your eyes closed again I will always remember you Just hug me in my dreams ] [ Now the time has gone When we laughed and cried together Now my life will be lonely without you I always hear your voice, telling me that you love me But it is always my imagination I know what we will never meet again I know I will never feel your touch, your kisses again Thinking about that, I can\'t explain It just makes me want to cry and never be happy again. ] [ Sitting here next to you No, I’m not going anywhere I’m going to be here forever Follow you into the darkness Feel you’r tuches on my skin Never leave me Evan though you don’t know me ] [ When we were younger, you kissed me, but now you wont look at me. I don’t know why, Maybe you are just to good to be true. ] [ I always see love in you eyes. But when I look into them last time I saw not only love, I saw beauty, so fine And you were so tender I started to cry when you said good byes But remeber Never forget me ] [ Ský fyrir sóla dró þegar litlu stúlkunni var vaggað í ró á dimma kalda vetra-degi það fór augnabliki áður en litla hjartað dó Mikla ást það þarf að grafa þitt litla hjarta hætti að slá hvers vegna þurfti það okkur að fara frá, Mamma,pabbi sú einu sem gráta hvers vegna okkar litla hnáta rifinn burtu var, litli engilinn okkar verður alltaf hér og þar, þið mér finnið fyrir og biðji mér vel enda er ég að kveðja ykkur hér ykkar síðasta bless til mín kveðið er, mamma,pabbi ég ykkur elska og kveðju kveð bless, ] [ How can you miss something you never had? ] [ Ég á mín sæferðaskip stærilát en bundin við naust. Þau bera enn baráttusvip en bíða og sigla í haust. Í höfnum á kóraleyjum kvaddi ég félaga minn. Kættist með kátum meyjum en horfði upp í himininn. Við sigldum í svartri kólgu ég sá hinn þögla mann. Þrútinn og barinn af bólgu en bátsverjar smánuðu hann. ] [ Hvíslandi upp í stjörnubjartan himininn meðan frostið bítur í eyrun og myrkrið sækir að ...af hverju... Leitandi í afkimum hugans afkimum heimsins Og svarið læðist að þér þegar síst skyldi upp við illa einangrað hitaveiturör vakir lítil fjóla fyrir misskilning. ] [ Mér líður kannski eins og tíu hæða hús hrynji innra með mér. En ég hengi bara broskall aftan við orð mín og þú fattar ekki neitt. Sýndarhamingja mín felst í tvípunkti og sviga. ] [ Þegar ég sit hér og horfi út um gluggann finnst mér ég hafa verið svikin. þessi heimur sem við lifum í er ekki sá heimur sem ég vildi fæðast i. ég er viss um að ég hafi séð annan heim þegar að ég leit niður af himnum. ég er vissum að ég hafi lennt á vittlausri plánetu,plánetu refsingarinnar í stað plánetu frelsis og umhyggju. Þessi pláneta var sköpuð fyrir þá illu sem ekki voru að gera sitt gagn í hinum góða heimi.Næst þegar ég vel um plánetu ættla ég að sjá til þess að vængir mínir brottni ekki svo ég hrapi ekki á vitlausa blánetu, ég vil ekki verða vonsvikin á ný. ] [ enginn er fallegur þegar hann sefur, ekki einu sinni stelpan sem er falleg þegar hún sefur. ] [ allir hafa sína galla meira segja hinn gallalausi. ] [ bleika rósin andspænis mér fylgist með öllum mínum gjörðum, falleg blöðin lýsa upp vegginn vegginn er hún hangir á. ] [ Lið á Englandi Illa gengur þeim nú Veit ekki með þjálfarann Er hann góður Rafael heitir hann Pína þeir mig allar helgar Ofsalega verð ég pirraður Ofan á rúmið ég hlammast Líf er púl ] [ Ástin mædd er borgun ber, ekkert aftur í hugann fer, blind er sú mæða sem engin sér. ] [ Fyrirgefðu mér ég á ekki ást að gefa þér ekki meðan annar í huga mér fremstur er Týndur er sá en aldrei gleymist sú þrá, að ást mér hlotnaðist-að hann kaus að fara mér frá, ] [ Ljósið í höllinni skærast skein- seppinn logi gróf upp manna-bein- mjúki sveppi á gólfið lagðist og kvein-aði mynd af loga í blaði birti grein-. ] [ Þú lagðir fram þitt hjarta að fótum mínum. Farið var að slá allverulega í það En ég hafði enga lyst á lúnu hjarta sem lafði rétt við síðasta söludag. ] [ -\" Ljósdökkt andlitið djúpbrúnu augun glær dropi sem drýpur úr auga og rennur \"-. Við vitum það bæði jafn vel, þó annað okkar neiti því í fyrstu. -\" Hún grúfir fagurt höfuðið í hálsakot hans umhverfið ekkert nema þögnin \"- -Þarf meira en þögn..? -\" orðalaust tala þau saman án hreyfingar. Tvær ungsálir í faðmlagi, ferðalagi. Önnur snýr aftur, ekki hin. Þau Hjarttala saman \"- Við finnum hvernig óttinn, óttinn við að missa, fyllir okkur. -\" Hún lyftir upp djúpfögrum svipnum augu hennar lokuð. Hann strýkur fingrunum yfir andlitið til að muna. Rennblautar varnirnar snertast, þau fylla hvort annað hlýju. Sorgartár, eru sáttartár \"- Við finnum hvernig sáttin, sáttin við það að skilja við, en tengjast þó eilíft, opnar ólokanlegt hlið í hjörtum okkar. -\" Sporin liggja í sitt hvora áttina \"- ] [ Halldóra Kristín engillinn Helga minn fann og hefði víst getað fundið sér lélegri mann! Af stúlkum öllum hér ber og á kostum ætíð hún fer og virkilega ættina mína bæta mikið kann! ] [ Það er fjör á útihátíð drekk´eins og maður getur í sig látið sama hver er árstíð maður stenst ekki mátið Hanga stundum inní tjaldi ein verða dauð á bak við stein svona hlutir gera engum mein á útihátíð verð ég(næstum)aldrei of sein Manna langar ekkert að fara heim frekar vera úti og drekka með þeim sem eru þar finna þennan keim stundum með lausa skóreim ] [ ég grét af meiri ákafa er ég uppgötvaði að ég hafði ekki hugmynd af hverju ég byrjaði ] [ Bak við augu Alheimsins dansa álfameyjarnar á yndisfögrum klæðum. Ætti ég að slást í hópinn? ] [ Ertu lika buinn ad gefa bleiku fiskunum??!! .....spurdi hun aest og upptrekkt ] [ Strumpa Strumpur er lítill og mjór, hann segir: þarna er sjór, Þarna sér hann bjór. Þarna gengur Strimpa hjá, og hún dettur ofaní gjá, og lét Strumpa Strump sjá. Strumpa Strumpur er á gangi, honum vantar eikkað í svangi, honum langar að vera eins og langi. Strumpa Strumpur var á gangi, Skór hanns fullur af þangi, svo var hann bara kallaður Mangi. ] [ Fangar mig tilfinning sársauka og ótta, Færði mig nær en samt varla sást. Lítið mig langar að lifa á flótta, Langar mig meira að upplifa ást. Tilvera mín er til einskis nýt honum Tekur sig ekki að hrópa á hann. Allt of oft sé ég hann umvafin konum, Aldrei ég mun eignast hann fyrir mann. Ef gæti verið að fyndi ég aftur Ástleitni ungs manns, ég tækist á loft Kynginnar- ástin er þvílíkur kraftur, Kæri mig ekki um að sárna of oft. ] [ Sálinn og jörðin tengjast, Hið verandlega drekkir mér í faðmi sínum, og sálin huggar vonir mínar. Tár, ég er týndur. ég gleymdi mér of fljótt, og fann mig ekki aftur. Þjáður sofnaði og var vakin í draumi. ég gleymdi mér í nótt, Ég fann þig, þú sýndir mér hvar ég var Hræddur vaknaði ég, aðeins til að sofna aldrei aftur. ] [ Orð, hver þekkir sig sjálfan? Snúum aldrei aftur. von, þú þekkir mig hálfan saman aðeins brotlaus kraftur. Svartur. ] [ Ég sendi´eitt´sinn heiminum svolítið blað, það sjálfsagt mun enginn lesa. Því ég passaði ekki að póstleggja það með póstnúmer lúsablesa! ] [ Glaumi fylgir glamur glatt að leggja á bratta magnast uggur meðal manna, eykst þá spenna lýður lærir fræði lærdómsgyðju mæra Ver er vís af læsi vandi um hnúta að binda ] [ Það er svo margt sem enginn veit, og enginn skilur, um lokin sem að ljá þér reit en lífið hylur. Er dauðinn sár á dauðastund? Dey ég kvalinn? Heldur sálin hátt á fund, í himna salinn? Er dæmt er tekur dauðinn völd, um dýrar syndir? Er varpað niður´í vítiseld, með varmans lindir? Fyrirgefur faðirinn, er fávís hrösum? Og hleypir inn í himininn, heimsins grösum? Já, lífið engin lætur svör, um loka farið. Fyrr en býður bana skör barni svarið. ] [ Í svefni oftast sæll ég er og kætist, en sjálfsagt þannig draumur aldrei rætist, er konur manninn umvefja og una, svo undurfagrar eftir manni muna. Það telst nú ekki vondur draumur vera, ef vonardísin hefur sig að bera. Og ennþá síður ef þær eru níu, hver einasta með skorið yfir tíu. Nú, draumar hafa upphaf, miðju´og endi, en allt´óvíst um hvar í honum lendi. Og spennan eykst er að lokum fer að líða, lætin hætt, eða fæ ég meira´að ... bíða? Er hámark draumsins hefst að mynda rætur, hryngir klukkan, þarf að fara´á fætur. ] [ STYRKUR DROTTINS Þú gengur styrkur með kyndil í hendi Í gegnum mýrar,ár,fjöll og drullu Ég geng í humátt á eftir þér Sé ekki hætturnar framundan En geng örugg í fótspor þín Mig undrar að ég geti gengið Veit að þar er styrkur þinn að verki. Fljótlega fer ég að þreytast Ég festi fótinn í gjótu, kalla á þig Þú kemur og hjálpar mér á fætur Næstu skref, heldurðu á mér Ég finn að ég er örugg í faðmi þínum. Það byrjar að rigna og hvessa En ég hjúfra mér bara fastar að þér Þú ert Pabbi minn og þú passar mig. Að lokum seturðu mig niður á jörðina Ég geng óstyrkum skrefum á eftir þér En svo fer ég að horfa í kringum mig Á grjót sem fellur úr hlíðinni, Stórar ár framundan,rokið og rigninguna þá dofnar á kyndlinum fyrir framan mig Og að lokum hætti ég að sjá þig Ég fyllist ótta og þreytu, hægi gönguna Síðan stoppa ég og sest niður á stein Brest í óstjórnlegan örvæntingar grát Ég er að gefast UPP !!!! Þá heyri ég þig kalla út úr þokunni Dóttir mín ertu búin að gleyma mér ? Ég fyllist krafti og stend upp á ný Í stað þess að kalla á þig Reyni ég að komast sjálf til þín En vindurinn og rigningin er svo mikil Ég hætti að sjá út úr augum. Ég stoppa og fyllist strax vonleysi Ég fer að hugsa ljótar hugsanir Rífa sjálfa mig niður Segja mér að ég sé algjör aumingi Geti aldrei gert neitt rétt. Þá heyri ég þig kalla aftur Dóttir mín, kallaðu á mig Ég mun bjarga þér Þá hrópa ég á þig, Jesús bjargaðu mér. Þú kemur með kyndilinn til mín Tekur mig upp og berð mig áfram. Í gegnum þokuna og hvassviðrið Ég spyr þig hvert við séum að fara ? Á þann stað sem ég hef fyrirbúið þér Segir þú og bætir síðan við Þar sem þú færð hamingju og frið Því þú verðskuldar það, dóttir mín. Hjarta mitt fyllist gleði Yfir að eiga svona góðan föður Ég þakka þér fyrir allt pabbi minn Og í dag vel ég að treysta þér Leyfa þér að bera mig, passa mig, Þar sem ég hvíli í faðmi þínum Opna ég dyrnar á hjarta mínu Og samstundis lætur þú streyma inn frið Gleði, kærleika og þrautseigju Þetta er unaðslegt, forréttindi Að fá að meðtaka gjafir þínar faðir Takk fyrir að elska mig í dag Drottinn minn. ] [ Syndir mínar bar. Ég sé þig hanga, þjást á krossinum Svitinn lekur af þér, þjáning allstaðar Ég vitað hef hvað gerðir þú fyrir mig En svo sé ég nýja hluti á þér Hvað er það sem hangir á þér allstaðar Miðar sem hanga út um allt Ég verð forvitin og færi mig nær Þá sé ég hvað stendur á miðunum Synd, ótti, sorg,allt sem ég hef gert Jesús þú barst það allt fyrir mig Svo ég þyrfti ekki að þjást Ég geng að krossinum til þín Án þess að meðtaki það sem þú gerðir Fer ég að tína miðana af þér, hengi þá um hálsinn á mér Af hverju geri ég þetta Faðir minn? Hví næ ég ekki að meðtaka gjöf þína Sem er lífið þitt, syndafórnin þín Takk að þú ert þú Þú leyfir mér ekki að þjást lengi Þú ferð að tína af mér miðana Síðan hellir þú yfir mig gleði og frið Þú hefur viljað gera allt fyrir mig Elskað mig án skilyrða Ég er svo þakklát fyrir að eiga þig að Að fá að vera barnið þitt, alltaf Faðir í dag meðtek ég gjöf þína Og í auðmýkt segi ég bara Takk FAÐIR Elfa 2004 ] [ Þú – Þú ert eins eins og falleg perla í skel Hún geislar af gleði, öryggi og hlýju En stundum lokast skelin, þá kemur él Og sársaukinn þinn birtist að nýju Ég stend hjá eða reyni að brjótast inn Þrái heitt að sjá fallegu perluna mína Get bara grátið, tár renna niður kinn Beðið að þú opnir skelina, vinur minn í gær var sársauki þinn svo mikill Skelin harðlæst, þú gast ekki opnað þig Að fara hélstu að væri þinn rétti lykill Kaldur og stífur varstu,vá það særði mig Ég veit þú varðst að fara vinurinn minn mín von er að þú finnir lykilinn rétta og að þú takist á við sársauka þinn perlan komi á ný,þú lifir lífinu létta. 9.2 2005 Elfa ] [ Þú ert Þú ert hlýr og sérstakur maður Þú ert skynsamur og klár Þú ert perla sem stundum ert í skel Þú ert kærleiksríkur og góður strákur Þú ert ljósið sem lýsir upp lífið mitt Þú ert litríkur eins og regnbogi Þú ert skemmtilegur maður Þú ert lifandi persónuleiki Þú ert viðkvæm sál Þú ert falleg persóna Þú ert gleðigjafi í mínu lífi Takk fyrir að vera eins og þú ert Því ég elska þig eins og þú ert Vil ekki breyta þér á neinn hátt Bara fá að hafa þig áfram í lífi mínu Væri stærsta gjöfin sem þú gæfir mér. Þín Elfa ] [ Fyrirgefðu fyrir öll þau skipti sem ég hef verið að leika mér að lyklinum að hjartanu þínu ég veit ekki hversvegna ég sný honum alltaf óvart í öfuga átt og ríf þannig á þig gat dýrmæta hjarta ég kann bara ekkert á svona lykla þeim fylgir allt of mikið af kvöðum og ég er allt of mikill kjáni til að hugsa um svoleiðis villtu kenna mér að fara rétt með dýrmæta hjartað sem mér þykir svo vænt um og ég skal lofa ég mun reyna að vaxa uppúr kjánaskapnum og hætta að rífa á dýrmæta hjartað þitt gat ] [ Það ásækja mig kóngar og drottningar úr ævintýrunum ég berst við dreka, frelsa kóngsdóttur kasta skít í kjaftaóða prinsessu ríð á hrúti og bræður mínir hæðast að mér sá hlær best sem ekki hlær Í dýflissu eigin hugsanna, út í einu horni liggur kveikjari, drap ég gömlu konuna fyrir gullið, silfrið, koparinn eða kveikjarann. Stóru hundarnir voru æðislegir, á morgun verð ég tekinn af lífi og nú er gasið búið á kveikjaranum og hundarnir hafa verið svæfðir. ] [ Söknuður sál mína kvelur minn kæri vinur þú ei lengur hér á jörðu dvelur þinni lífsgöngu ei ætlað var lengri veg sárt er því að taka vildi að þú værir ennþá hér Nú þú leið þína hefur lagt yfir móðuna miklu með vissu ég veit þar þú mætt hefur móttökum góðum þar hlýtur nú að vera glatt á hjalla þannig ávalt það var er þú mættir með brosið þitt bjarta Þú einstaka sál hafðir að geyma þér ég aldrei mun gleyma minningin um þig er björt og mikil hér á jörðu niðri hún áfram lifir í hjarta mínu þinn stað þú ætíð munt eiga ] [ Orð af orði bók af bók hugmynd af hugmynd mynd eftir mynd Mig langar til þess að yrkja um: -Hlaupandi fólk á grísku skrautkeri -Mann sem aldrei fór suður -Sofandi svein á fjallatoppi -Nakin börn í tunglskini -Lítinn sótara á heiði -Boeng-þotur á heimleið En held í heiðri áttunda boðorðið Þú skalt ekki stela! Samt kyssa bárur ennþá báta í brakandi sunnan þey. Og ég blygðast mín ei þó ég noti ekki gæsalappir. ] [ Stend við tjörnina lótusblómin fljóta á vatninu spegilmynd frosks ] [ Ástinni eru allir vegir færir, Engan langar af henni að missa. Þagnar sérhver þá er annan særir, Þá ástin hverfur eftir stend ég hissa. ] [ Föst í heimi fláræðis og svika Færist varla úr stað en silast vika Finnst ég í tómi föst,svörtu bika Finn ég lít til baka, og ég hika. Mikið vildi munað geta daga Meðan var ei samviskan að naga Minnist samt svo margs sem þarf að laga Man fátt, en samt margt, þvílik saga. Særum oft með sögðum orðum Særum og svo fljótt við okkur forðum Situr lífið súrt í föstum skorðum Sitthvað fannst mér hulið undir borðum. Liggur mörgum lífið ósköp á Langar öllum mest úr því að fá Leiftursnöggt ég leit til baka’ og sá Líf mitt var mjög gott, já mér brá. Fann að lánið fylgdi mér hvert mál Fann að ég var nokkuð heilbrigð sál Feikna margt sem felur í sér bál Friðsældar ei dregur mann á tál. Hamingjan ei hendir manni frá, Heldur reynir myrkrið manni’ að ná Hafi maður hjarta má vel sjá Hamingjan mun yfirhöndu ná. ] [ Ósögð orð mun engin vita Eitt mun falið í mörg ár. Margt er sagt í málsins hita Mikil liggja eftir sár. ] [ Stundum vildi ég að ég væri einhver önnur, Ekki með aðra fjölskyldu, eða aðra vini, eða annað umhverfi Heldur öðruvísi stelpa, í öðruvísi líkama. Ekki alltaf, bara stundum. Kannski annan hvern dag, eða í fríum. Helgarpabbi. ] [ Skrýtið.... hvernig ábyrgð annarra á okkur virðist alltaf meiri en ábyrgð okkar á öðrum. ] [ \"Guð er ópíum fólksins\" Sagði Marx við okkur hin. Ég rétti upp hondina og spurði: \"Áttu ekki við trúarbrögðin?\" Þá svaraði Marx: \"Jú það var það sem ég sagði, ertu ekki að hlusta?\" Og hann blikkar tvo menn sem koma og grípa í mig og henda mér út. Ég dustaði af mér drulluna og sagði: \"Bölvaðir ný-Marxistar\" ] [ Morguninn eftir vakna ég og átta mig á því af hverju ég hef misst. Náttúran er ekki svo sterk að geta læknað það sem hefur komið fyrir. Ég veit ekki hvort tíminn gerir það heldur því hann er orðinn of þreyttur. ] [ Hún er æðislega krúttuleg hún Inda Hrönn! Enda víkur Bjarni sjaldan frá henni spönn!!! En hann er orðinn sver og hlaupaþungur er og fylgir illa eftir því að Inda er svo grönn!! ] [ Það dreitlar úr morgunsárinu dagurinn er með ský á auga. ] [ ég ætlaði að skrifa ljóð um heiminn um allt sem fyrir augu ber dásama veröldina, upphefja þig ég skrifaði ljóð um heiminn það voru mín eigin skref í sandinum sem vindurinn afmáði ] [ Ó, þú vanþakkláti landi. Ólmur þú vilt mig virkja. Drekkja mér í djöfulshlandi? Drepa mig og kyrkja. Drekkja mér í syndaflóði? Hvar er þá Nói? og hans örk? Mundir þú skipta á orku og blóði? Hversu mörg megawött framleiðir Björk? Hreindýrin þau drukkna í eigin blóði, forsetanum bara alveg sama. Raddbönd fugla fyllast flóði, eigum við ferðaþjónustuna bara að lama? Hugsiði um komandi kynslóð, okkar mistök verða þeirra verkur ég meina, þetta er okkar eigin blóð. Austurland er staður merkur. Viltu koma í skoðunarferð? Til er ég, landslagi skreyttur. hættið því við stíflugerð, því ég er ekki fallegur breyttur! Hefur þú lent í rafmagnsskorti? Það eru ekki margir sem láta sér bera, Þess vegna þetta ljóð ég orti. Ég heiti Kárahnúkur, látiði mig vera! ] [ Vinnandi vörður í hverfandi fjarlægð frá umheiminum. Hann hugsandi um leyndardóma lífsins þegar boðflennan mætir. Hún tærir hugsanir hans í eyðu. ] [ Heilt bílhlass af sverðum í gegn um mig miðja hefði sært mig minna en það sem þú sagðir... með svipnum þegar þú þagðir.. ] [ já það er rétt: Sólin skín kaldhæðnislegum glampa á ylströndina í nauthólsvík ] [ Manstu þegar við hittumst fyrst þegar nóttin fækkaði fötum beraði á sér brjóstin og benti okkur að koma. Við skáluðum oná öskutunnum og síðan skar ég þig í ræmur hakkaði þig í spað með hárið í flækju og risavaxinn nagla í hjartanu. Þú hlýddir eins og hundur gerðir allt sem ég vildi þar til ég endaði í götunni útglennt og örmagna með sæðislæki um líkamann og sleikti útum. ] [ Veistu að vonin hún vakir utan læstra dyra hjá þér? Í svart nættismyrkrinu nærri hún er með náð sína og frið fyrir þig. Hlustaðu heyrirðu ei höggin er að dyrum örþreytt hún ber? Viltu ekki opna vinur, fyrir - voninni -og mér? ] [ Hvað er ég að dæma? Ég má ekki dæma! Hver má dæma? Ég verð að dæma! Rökhugsun mín má ekki vera dæmalaus! ] [ Ryðgað líf riðlast til og frá rofandi eftirsjá Svartnætti sálugt umlykur allt skerandi kalt Tómlegt er tilvistar slokknandi bál tæmist sú sál Hverfa\' ekki kvalir dauðlegs manns hvata hans Hálfviti, heimskur strákur situr hjá horfir á Byður og bíður að eitthvað gerist en brákaði\' og snérist ] [ Everything under the sun is imagination, nothing is real. Yet all laws are true. How can this be so? Man is the expression of the most basic force of nature. In so being, he is blind to his own role. The basic force of nature, that rules everything, is love. From it comes gravity, the physics of Einstein, and the beauty from the Hubble telescope. How can this be possible? Man has mastered the basic forces of nature, in so doing he personifies them. Rule my friend, rule your own life. That which is given, is the source of the universe. Do not waste time in idle thinking. Be the master of the source, and overcome the boundaries of human existence. ] [ Í þungum þönkum ráfa ég um gólfin. Hugsandi, leitandi, hrædd. Skimandi eftir einhverju, sem ég veit vart hvað er. Hugur minn uppfullur af orðum, orðum sem \"meika engann sens\". Þau ringla mig þessi orð, losti, dráttur, kynþokkii, ást, kynlíf. Ég labba á vegg, kemst ei lengra. Sný mér við og lít á mannmergðina, sem þokast í átt til mín. Ég verð hrædd, kvíðinn heltekur mig alla. Ljós svo skært og bjart blindar mig. Hann opnar fyrir mér leið í gegnum fjöldann. Óhrædd tek ég í hönd hans og með ringulreið í hjarta bíður mín nýr dagur. Nýjar ringulreiðir. Ný orð. ] [ Æskunni skaltu hlífa við lífsins harmi, leyf henni að gleðjast, um sinn Lát hana ei líta sorg vora og þján, snögglega þerraðu tárvota kinn Því hún mun síðar fella tár af hvarmi, leyf henni að gleðjast, um sinn Svo lát hana ei vita lát hana ei sjá hve hjarta þitt brestur sonur minn ] [ The Dark side has taken over me. Im not the same person... that i was ...A soul full of hate and darkness..cant find myself.. somewhere outhere is my soul lost and alone.. waiting for come back home.. ] [ Slakaðu á þínum kröfum sestu og slappaðu af. Mundu það sem við höfum og það sem ég þér gaf. ] [ nægilega lík til að laðast að hvort öðru nógu ólík til að bæta hvort annað upp raddir segja það ekki ganga hjartað hrópar haltu fast ] [ með draumblá augu innihaldsríkan kvið gengur hún brosandi um rúmfatalagerinn milli flísteppa, sokka og gardína hún lóa litla lipurtá safnar stráum stráum, fjöðrum og flísteppum flísteppum í hreiðrið vorið kom með henni lóu lóu litlu lipurtá ] [ 100% laufblöð þvoist í höndum með köldu vatni má strauja við mjög vægan hita má ekki setja í þurrkara ] [ Skrýtið og Hrátt. Ég geng yfir öldur af hljóðum sem eru eins og taktfastar línur á leiðinni á enda. Röddin nær yfir restina sem oftast er um eitt. Aftur á bak einleikur sem ég fæ ánægju að hlusta á. Hver getur sagt mér hverjir þetta eru og hvaðan þeir koma? Þeir eru núna aðeins hringlaga efni sem fer í ferð sem endar einhverntímann. Ljósið fer áfram en ég sé það ekki. Hins vegar heyri ég í fullt af stöngum, prikum og pinnum sem aðeins voru og verða aldrei aftur. ] [ Sorry for the thing I did, Sorry for all the things I have done. Sorry for not being there, I just don\'t want you to be gone. Sorry for the little things. Never thought I\'d feel so low. Sorry for my big bad words. Forgive me, \'Cause I need you so. ] [ Kvalarfullt bros á litlum strák. Hann situr í kaffistofunni. Hún er ekki til staðar. Tilgangur er ekki til staðar. Annar maður gengur að honum og fyllir höfuð hans af lygum og prettum. ekkert meira. Fjögurhundruð ár. himnaríki er uppgötvað. tilgangurinn er tilgangsleysi. fimmtíu lítrar af blóði renna á meðal holræsana. litli strákurinn situr á gangstéttabrún. ekkert meira. Maðurinn bankar og konan í blómakjólnum kemur til dyra. Maðurinn vaknar og stígur í ferðatæki ríkra manna. Þjóðsögur á meðal manna, sprengja springur og drepur tilgang tilgangsleysis. frelsari tilgangsleysis er frelsari mannana og tilgangs þeirra. Ekkert meira. Standandi á þakinu, hann hoppar. Hann flýgur í gegnum loftið og hamingjan flæðir um æðar hans. Á þessu augnabliki er jörðin ekki til og hann fellur að eilífu. Lítið bros á litlum strák miklu meira. ] [ Litlu sprotarnir sofa undir hvítri fönnninni eins og indæl börn sem kúra sig í hlýjunni í mömmubóli og bíða þess að ástrík sólin komi með fangið fullt af grænu vori og vekji þá. ] [ Aska Askan svarta vekur hér nú vonarinnar glóð! Virkilega gæfuleg, með kosti af besta tagi! Rataði hún í hestakaupum, rétt á vora slóð! Reynast skiptin trúi ég báðum í góðu lagi! Atorka Kastað hefur Kjarnorka og kynnt sína jörpu línu. Tíguls er dóttirin Atorka, með allt á hreinu og fínu. Blíða Blíða mér barst frá vini, bærilega vetraralin. Komin undan Keilissyni kostagripur talin. Fífilbleik á litinn ljómar listavel í fjarska. Þótt hafi hendur tómar henni vart ég braska. Drífa Drífa er sem drottning fín dável hörð í skapi. Dillar lend og hátt við hrín ef henni ríður knapi. Elding Elding skeiðar yfir grjót alltaf tekst að standa. Brúnskjótt er með bægifót býsna reist að vanda. Glóra Glóra er rauð, sívöl og sælleg hryssa. Sleipur náði ég henni í mitt vildarstóð. Það er mín trú og það er stöðug vissa að þjóðarstáss verði og til reiðar góð. Glæsihryssur Fríðleik ber Gyðja frá Grund, glæsileik Hrynjanda Hrund, Venus hér var um stund, Von sýnist létt í lund. Gullblesi er gæða klár, sem getur farið vel í klofi og eigandinn er ekkert smár uppá tröppunum á Hofi. Gyðja Mikið djásn er Gyðja frá Grund, og geðjast mér vel hverja stund. Geðið er gott, ganglagið flott og sómir sér við hliðina á Hrund. Hervör Hervör myndast mæta vel, mig og gerir ríkan. Er það sjaldgæft að ég tel að eignast kjörgrip slíkan. Hrund Hrund er skjótt og breið á brjóst og býsna prýðir nú sú mitt stóðið. Ég fékk tvo fyrir einn það er ljóst. Fylfull er hún, ja það var nú lóðið. Kjarnorka Kjarnorka er svört frá Kjarnholtabúi. Kynbótahryssa, sem prýðir vora sveit. Þeir eru með fádæmum tel ég og trúi taktarnir fjölhæfu er veður hún reit. Kjarnveig Glóblesótt og fínt með fax fer á gangi lipur, Kjarnveigu ég kenndi strax, kominn er listagripur. Mósi Í jarðlífinu hann hrekti svalt. Honum í kjötvöru er því breytt. Eitthvað verður sett í salt, svo í steikur, það ekki er leitt. Mön 7 Fífilbleikstjörnótt, fríð á brá fæddist af Hrundinni smá. Ein Mönin enn og ánægju kenn, sem ætlar að vera okkur hjá. Neisti Víst mun Neisti verða góður vasklega um sig ber. Vænkast hagur vænkast hróður vel hann líkar mér. Óðfluga Óðfluga ruddist í ræktunina harða. Rauðbrún á litin með dálítið stress. Sem folald hljóp yfir grindur og garða glettnisleg á svipinn og vinkaði bless. Ólga Með fölskum tönnum bítur best, ber sig vel á þremur fótum. Um Ólgu er það eins og sést aðeins spaug á léttum nótum. Rauðhetta Eigi telst að hún sé höst helst þó brokki gjarna. Rauðhetta með rassaköst rótast undir Bjarna. Röst Sýnist vera laus við löst, líkaminn brúnskjótt yndi. Léttum sporum rýkur Röst, sem reykur í snörpum vindi. Skíma Hátt sitt fríða höfuð ber hörð á spretti þolin. Skíma í Skálateigi er skjótt með nettan bolinn. Skuld Með hryssunni Skuld hófum við ræktunina aftur! Um “Hrekkjaskjónu” okkar nágranninn blaðrar!! Því hún er svo stórbrotin að stoppar varla kjaftur og staða mála sú að lítið er að segja um aðrar!!! Skutla Skutla undan Skuld kom jörp út úr skyndikynnum í langri ferð! Hún töfrum frá Gára skilar skörp sem og sköpulagi af bestu gerð! Sú verður ei seld fyrir lítið verð! Smella Smella á tölti treður spor, í tún og veður engi. Ung hún sýndi yndi og þor, sem eflaust varir lengi. Stóri-Jarpur stæltur er stiklar létt um gjótur. Sporar ísa, móa mer, mjög í ferðum skjótur. Telpa Telpa skeiðið tifar létt tónar jörðin undir. Allt er þá sem orðið slétt urðir móar grundir. Von Vonin gefur gull í tá, gullmolarnir seiða, Von sér milli bæja brá, barst mér norðan heiða, Vonin gjöf er guði frá og gerir engum leiða. ] [ Eins og laufið fórst þú héðan með vindinum, engin syrgir laufið en margir munu syrgja þig, laufið fær engan helgan reit eins og þú færð, laufið verður aldrei minnst en þín verður minnst með minnismerki þér til dýrðar en laufið ekki. ] [ Loka augunum fyllist eins og blaðra af dópi hugsana minna. Svefnenglar bíða á girðingunni úti eftir að gamla konan skilji við herbergið mitt. ] [ Mætti ég biðja að sjónbaugurinn verði réttur í beina línu svo vonin hverfi ekki í veltingi daganna mætti ég fá stórstreymi yfir tímasker og angistarála berast með ástinni út fjörðinn án þess að nokkur finni spor mín á ströndinni ] [ Hvað er ástin? -annað en hamingja, væntumþykja, ánægja? -er hún ekki líka sárindi, svik og afbrýði? Ég var hamingjusöm, ánægð, ástfangin. Hann særði mig, sveik mig og blekkti. Hvað er hatur? -annað en ólgandi reiði, illgirni og óvinskapur? -er það ekki líka orsök afbrýði, sárinda og gamalla svika? Ég er sár og reið, ekki hatursfull, ekki elskandi en sár. Hann er farinn, horfinn, heppinn. ] [ Ég gekk í gegnum stóru dyrnar og mér leið eins og glitrandi stjörnu. Allir störðu á mig í fáeinar en langar sekúndur. Ég sá myndavélar, fréttafólk og rauðan borða, en aðeins frá mínu sjónarhorni. Ljósin hurfu og ég fékk sjónina aftur. Þarna stóð hún, fallegri en nokkru sinni áður. Það var aðeins hún, brosandi. Ég var stjarnan hennar. ] [ Anda inn...vitund mín fyllist af sætkenndu vorlofti, þesskonar sem hægt er að finna bragð af... geng af stað og einskonar hamingja læðist yfir mig, þesskonar sem hægt er að finna á góðum degi.. Lít í kring sé tvo fugla eltast við hvorn annan, svona þesskonar ástfangna fugla sem hægt er að sjá á vordegi... Leggst niður í grasið og horfa á skýjin hreyfast, þesskonar ský sem hægt er að leika sér að... Ég læt hendurnar leika um stráin og finn einkennilega tilfiningu...svona þesskonar tilfiningu eins og þetta hefi gerst áður... Þá man ég að á þesskonar degi fyir langalöngu gekk ég með pabba mínum og lagðist með honum í þesskonar gras og horfði á skýin.... Einkennileg tilfing fór um mig svona þesskonar tilfining að fullkomin sæla og hamingja hafi gripið mig á þesskonar degi. ] [ Kallin, konan, barnið, hundurinn og vörðurinn horfðu niður á okkur, liggjandi í grasinu, þar sem við horfðum upp í himininn og bjuggum til myndir úr skýjunum. ] [ Vatnsheldir Pennar, hitanæm gleraugna hulstur, útvarp með innbygða sundskýlu og klósettpappír sem spilar jólalög. Hvert stefnir þessi heimur okkar eiginlega? ] [ Ég gekk við hlið þér og trúði því eigi að frost væri úti. Ég kvaddi þig og mér varð kalt. ] [ Ég geng eftir stíg, en ég veit eigi hvort ég stefni á ljós eða myrkur. Því lengur sem ég geng, því meira fer ég út af stígnum. En af einhverri ástæðu þá kemst ég alltaf á leiðarenda, stundum rispaður og meiddur eftir greinar trjáanna Trén eru reglur og viðmið í þessum skógi. Ég lít til hliðar og ég sé stíg listarinnar, en hann er þröngur og það er nánast enginn leið inn á hann. Ég stefni á hann. hann er þröngur og það er nánast enginn leið inn á hann. Ég stefni á hann þótt krókaleið þurfi að fara. Mig langar að fara á milli stíganna tveggja en fáir komast út þannig, Út úr skógi menntunar. ] [ Litbrigði norðurljósanna dansa á stórbrotnum himninum. hverfulleiki hversdagslífsins má sín lítls í samanburði við kærleika Guðs og fjölbreitileika lífssins Litbrigði lífsins endurspeglar hjartaþelið við þverhníptan hamarinn og blómugan dalinn stendur tígulegt ljónið og sérhver maður gengur fyrir dóminn, dóm lífssins. ] [ Æðisköstin af þú lifir en ekki er mér rótt! Ég verð að ná þér aftur yfir, elskan mín komdu fljótt! Ég verð að ná þér aftur yfir, í ástarbrímanum skjótt! Ég vil þú munir, meðan þú lifir manninn sem gisti í nótt! ] [ Margur leggur létta lund í lófa völvu. Aðrir sér eiga ástarfund á lyklaborði tölvu ] [ Í hestarækt er best að vinna og vaka og varla tími til að fá sér lögg. Er tuskubellir taka skref til baka tekur óðalsbóndinn á sig rögg. Kjartan. Sig í handarbökin naga núna nóg er drasl í þeirra merahjörð. Einar. Nískan hefur marga snöru snúna svona er það oft á vorri jörð. Kjartan. ] [ Slíka stemmingu hef ég aldrei kynnst. Hvað geri ég? Hvað snerti ég? Hvernig hegða ég? En þegar að stundini kemur, þá líður mér eins og fullkominni kúlu að rúlla eftir fullkomni sléttu. ] [ Er ég til í dag? Var ég til í gær? Mun ég vera til á morgun? Mun tíminn sogast inn í svarthol, eða hefur hann þegar gert það? Er tímin til? Eru svarthol til? Er ekkert eða endalaust til? Mér finnst svona pælingar leiðinlegar. ] [ Krota mun eitthvað krúkklegt, um klettagóðan vef. Finna þar eitthvað fallegt, sem úr má smíða stef. Af hógværð skal fjalla, Um toppatrítl og fjöll, Svo litli góði vefurinn, verði hvítur eins og mjöll. ] [ Viltu eyða með mér kvöldinu, eyða á mig kossi og bjarga mér af galeyðu einverunnar. Og ég skal ekki biðja þig um neitt framar ] [ Allar bækurnar fóru á brennurnar nema Biblíurnar og lostasögurnar sem lágu yfir ábótar og tóku til rannsóknar í læstum kjöllurum í fúlum munkaklaustrum. ] [ Bara ef ég bara væri páfinn ekki þessi dáni heldur hinn þá hefðu allir áhuga á svölunum mínum ] [ Það var einu sinni strákur sem átti stóran hund. Einn dag týndist hundurinn. Alveg eins og Búkolla nema þetta var hundur sem hét Búi. Stákurinn fór og keypti sér nýja skó og nesti. Svo bara alveg eins og í Búkollu nema hann heyrði eins og í úlfi en ekki baul þegar hann var búinn að borða, af því að hundar baula ekki. Hann heyrði bæði ýlfur og voff. „Best að labba af stað”, sagði hann. Hann fann skessurnar. Hann fann Búa. Skessurnar hlupu á eftir Búa og stráknum og þeir hlupu út. Hrundu steinar niður úr hellinum og á skessurnar og þær dóu en ein hönd varð eftir út úr og hún varð að steini. ] [ Þau reistu sér hús, á afskekktum stað. Með trú á jésús, þau lifðu þar af. Lifðu á landinu, landið það gaf. Í tæru fjallavatninu, fór sálin í bað. Lífið svo nærandi, ekkert var hatað. sorgin ein særandi, Þótt allt virtist glatað. Veturnir harðir, en ekkert var að. Hnúarnir marðir, eftir lífsins búskap. Lífið allt þó sigur, þau þekktu ekki tap. Allt svo einfalt, með kött og útvarp. Lífið virtist kalt, en allt var þeim falt. Sögðu sína sögu satt, sem upp á sig vatt. Sjálfa sig batt, og í hyldýpið datt. Þau gerðu sér von, um börn á bæinn. Dóttir eða son, til að lífga daginn. Vorboðinn kom, en börnin biðu. Tvö ein einmana, því miður, því miður. Hann elskaði hana, hún elskaði hann. Ást allt að bana, Guð kærleikann fann. Venjulegt lífsdrama, maður með konu, kona með mann. Þeim stóð á sama, Um hag alls, Alls í þessum lífsins dans. Alls í þessum tryllta trans. Þau tvö, dauðar rósir í lífsins krans. ] [ Love is lonely alone. Love is only a song. so sing along, and get it on, on your own. ] [ ofan á sveittum búk veltist höfuðið fram og aftur fram og aftur en póstmódernískt segir það. ] [ Ég get ekki hætt að hugsa. Bláu augun, brosið sætt ég get ekki hætt. Ég hugsa til þín daga og nætur, vil vera hjá þér er þú grætur. Hvernig gat Guð búið þig til? Því ertu allt sem ég vil? En spurningin er, viltu mig? ] [ Það skilur enginn hvernig mér líður, -hversu mikið mig svíður. Ég get ekki talað við neinn, það yrðir enginn á mig, - ég er steinn. Hvað á ég að gera? Hvar á ég að vera? ] [ Ein hún er í dimmunni enginn skilur hver hún er. Hún villist, eins og dropi í brunni verður að engu, að eilífu fer. ] [ Tár rennur niður kinn, í hjartanu sting ég finn. Ég veit ei hvað er að, mér finnst ég ein á dimmum stað. Ég teygi hendina og bið um hjálp, en enginn heyrir né sér... ] [ Mér líður svo illa, mér líður eins og heimurinn sé að hrynja á mig. ég get ekki andað, ég er að kafna, ég er að deyja... ...úr ást af þér ] [ Glansandi hnífsblaðið leikur við úlnliðinn bara smá afl og það fer að flæða. Glansandi hnífsblaðið litast rautt á meðan að húð mín verður hvít. Mátturinn rennur út með blóðinu og leggst á gólfið. Ég leggst við hliðina á honum og ligg bara þar Við erum saman en ekki lengur hluti af hvort öðru. Við gerum okkur grein fyrir því, að án hvors annars erum við ekki neitt. Þá býður dauðinn góðan daginn og tekur okkur með í langferð. ] [ Þegar sólin læðist inn og kitlar á mér augnlokin þá segi ég \"helvítis!\" og dreg fyrir gluggann. ] [ Drunur eru í hausnum mínum allt er svo ómógulegt. Hvað get ég gert? Til þess að verða eðleg og samþykkt af samfélaginu. Ég þrái þess eins að þessar drunur hættuþ og veittu mér hvíld. Því hvíldin er það sem ég þrái. Enn ekkert skeður. Ég reyni og reyni. En hvað get ég gert ] [ Horfðu upp til stjarnanna en hafðu báða fæturna á jörðnni. ] [ Fortíðina ég get ekki tekið í sátt Fyrr en ég kemst í samband við æðri mátt Framandi er hún í mínum sjúka haus Fjandinn með sitt endalaust glamrandi raus Ætli ég losni við þetta leiðindar glamur Ætli að heimurinn verði einhverntímann samur Æpandi röddin í mínum sjúka haus Æsist við Bakkusar glamrandi raus Djöfull og Bakkus eru sem eitt Deila út efa og orðum er beitt Dynjandi í mínum sjúka haus Drukknar þetta glamrandi raus ] [ Fishy er fiskur, lítill sem diskur. fiskar reyna hann að borða þá lemur hann þá með sporða. Fishy er bitur appelsínugulur er hans litur. Fiskana hann borðar, bæði uggar og sporðar. Fishy er stór syngja hafsins kór því hann étur aðra fiska án þess að nota diska ] [ Ég er alltaf að vinna, Beggi vill að ég vinni minna. En ég vil fá pening svo ég geti keypt mér e-ð annað en tening ] [ Singstar party er bestur andstæðan við vestur betri en hestur aldrei hann brestur þar er líka lestur Beggi er sestur kóngur er mestur hann heitir ekki Gestur ] [ Strætó kann ekki að keyra Klessir bara meira og meira. Aumingja fólkið sig meyðir en þó engan deyðir. Í vinnuna var ég of sein en það gerir ekkert mein Það var ekki mér að kenna það voru engin belti til að spenna. ] [ Tinna er að vinna að reyna að finna litla Tinna og sæta Binna og fer að kynna og þeim að sinna er þessu að linna ég fer að minna og ykkur vinna! ] [ Valli er í útlöndum en flýgur vængjum þöndum aftur til Íslands í heimsókn til hvers einasta manns Beggi er orðinn frægur því hann er alltaf þægur þessi góði strákur sæti buxnasnákur Ég fer norður og fæ margar orður Týna tómata og passa að ekki þá gata ] [ Ég og beggi kúrum og kannski pínu lúrum yfir spólu liggjum og nammi tyggjum Í sims er gaman þar eru allir saman útum allan bæinn og niðri við sæinn Konudagur var í gær Beggi sagði að ég væri falleg mær hann gaf mér súkkulaði og rós og allt kvöld gaf hann líka hrós ] [ Kaupa Marsvolta Það er gaman. Þeir eru góðir. spila þanngað til þeir verða móðir. Vinna, vinna. alla daga pening pening ég kasta tening Lord of the Rings á sæludögum hvað var ég að pæla mig langar að æla ] [ Magga Þóra, Einar Örn og Ásgeir með sterka sólarvörn á Kanarí sér kunna engin lætin. Fara niður í fjöru, fá sér nýja vöru, ferðast mikið og ferleg er kætin. ] [ Tíminn Líður! Sumarið 2004! þegar ástin spratt, ég og blómin uxum hratt, þetta þroska-tímabil varð bratt, ástin hvarf, ég hvarf. ] [ Það er dimmur dagur og Drottinn ég spyr: Hvers vegna vilt’ann við dauðans dyr? Á hverju kvöldi fyrir ást okkar bað Viltu ekki veit´onum samastað? Án hans væri líf mitt svo dapurt og dautt Hvorki hlátur né bros, það yrði ansi snautt Ég má ekki við því að miss’ann mér frá Því hann er jú líf mitt, allt sem ég á. Við tvö erum ástin og ástin er eitt Frá honum getur ei nokkur mig neytt Ég bið þig að hlíf’onum, gefð´onum grið Af einlægni sit ég, af einlægni bið. Svo ljúfur maður á skilið að fá Jörðina að bæta og lifa á En ef þú vilt fá líf hans í gjald Taktu mig með á dauðans vald Ég myndi alls ekki yfir því kvarta Ef bæði við hyrfum í hyldýpið svarta Því við erum ástin og ástin er eitt Svo taktu okkur bæði eða ekki neitt. ] [ Þegar vakna ég til lífsins hvern einasta dag Þegar hlusta ég á lífsins ljúfasta lag Þegar rökkrið er slævandi og lífið er kæfandi -Hugsa ég til þín. Þegar stjörnur himins og tungl eru björt Þegar skammdegið kemur og hugsun er svört Þegar brosi ég breitt, þegar ég get ekki neitt -þá hugsa ég til þín. ] [ Ég stari inn í sortann og söknuð ég finn Klökk þig ég kveð, kæri vinur minn Líf mitt hefur þú blómgað og bætt Skapandi hugsun í huga minn fætt Það varst þú sem mig hvattir til dáða Og til þín ég ávallt gat leitað ráða Og oftast var ekki langt í brosið Ljúfari vin gæti ég ekki kosið Bros þitt og hlátur gladdi mitt hjarta Og minnti mig á komandi framtíð bjarta Þó lögin okkar hljómi ekki lengur Eru minningarnar dýrmætur fengur Í hjarta mínu þig ávallt geymi og veit að ég sé þig í öðrum heimi En þangað til ég úr heiminum fer skal ég lifa eins og þú kenndir mér ] [ Ástin birtist mér Í formi langrar samveru, ástríðu og nautnar Í blekkingarvefi hjartans Hún var samhljómur tveggja sála en eins og sérhver hljómur -endaði á þögn. Ástin hvarf mér Í formi sorgar, vantrausts og svika Sem mynduðu brothætt hjarta Og 3ja stigs brunasár að innan. Hún skildi ekkert eftir sig ....nema sár sem enginn sér og tómleika. ] [ Ég sit inni þín vegna hversvegna inni - slæmt minni stutt kynni í kjöltu þinni hvað er að fregna komdu og seigðu mér að gegna í gegn um glerið tölum í tólið hvernig dafna börnin vita þau að ég er ekki í húsmæðraskólanum ekki segja frá rimlunum þetter misskilningur mislingur og mysingur ég hristist bara meira með hendurnar strektar aftur fyrir bak ég fæ hvítt slím eins og lím í munnvikin útaf lifjunum ég mun ekki aftur þó mér aukist kraftur og mér mæti fylliraftur véfengja vit þitt Er þetta mittið mitt mér sýnist það stækka er ég þunguð hér inni með verra minni þetta eru ekki mín heimkynni hleypið mér út hleypið mér út... ] [ Ég vakna stundum illa farin Á sál minni svo blá og marin Mig skortir kraft, er eirðarlaus Og þegi því enginn vill heyra slíkt raus. Ég er einmana barn og vonum svikið Ástin mér hafði lofað svo mikið Þó sárindin með dögunum dofna Deyja þau ei, þótt mér takist að sofna. Ég þreytt er á vonbrigðum breyskra manna Hef ekki lengur þörf til að kanna Eitthvað í hjarta mér stingur og svíður Ég vona að eitthvað betra mín bíður ] [ Ég var vængbrotið fiðrildi og engdist um Í eilífri leit minni að hlýju Týndi mér sjálfri með tímanum Uns ég vaknaði, manneskja að nýju ] [ Ég syndi mót straumi, ber mig samt vel syrgi oft í laumi, en grátinn ég fel. Ég lifi í draumi, og drauminn ég tel Að inní mér kraumi, mín löngun og þel. ] [ Skráðu ljúfustu minningar þínar meðan hugur þinn starfar enn Því þegar dauðinn með krumlur sínar Þig tekur, mun minningin gleðja menn. ] [ Ég heyri hljóðið... Ég skynja að það er verið að kalla á mig... Það er sífellt barið að dyrum. Sjálfsvitund mín veit að það er gleðin sem bankar! -En hvar er lykillinn? Lykilinn að skráargati hamingjunnar? ] [ Rólan fer upp.... Og ég get bjargað heiminum með persónutöfrum, hæfileikum, gáfum, framsýni og trú á mannkynið. Ég er yfirgnæfandi og full sjálfstrausts. Skínandi, lifandi stjarna á dökku himinhvolfi jarðarinnar. Kröftug er husjón einnar konu. Rólan fer niður... Og samstundis sekk ég niðurá við, máttur minn dvínar og ég hverf inní hugsunarlausan mannfjöldann Móti mér skynja ég stingandi kalt raunsæið. Og ég geri mér grein fyrir tilgangsleysinu og vonleysinu. Máttlaus er hugsjón einnar konu. ] [ Ég skal leggja mig í líma Takast á við nýja tíma Finna frið, ei málin flækja Oftast er svarið ei langt að sækja ] [ Lífið snýst eilífan hugsanagang Á hverjum degi mér færir í fang Spurningar...hvað er rétt, hvað er rangt? Svo lengi ég læri, sem lífið er langt ] [ Öryggi lífs míns var undan mér kippt Og æskudraumunum var ég þá svipt. Hvert fór traust mitt og barnsleg trú? Ég trúi ekki á neitt nema sjálfa mig nú. ] [ Ég sit klukkutímunum saman Stari útí loftið og þegi... En mig langar að öskra. Öskra í gegnum þögnina. ] [ Brostnar vonir, brotið hjarta Breytir veröld, gerir svarta Kraminn heimur, kúguð sálin Kæfir kraft minn, flækir málin Ég finn sorg og ég finn til Frið í hjarta er allt sem ég vil ] [ Eins og síli berst um í gini hvalsins Eins og lítil dúfa á móti stórstorminum Eins og fiðrildi í mesta vetrarfrostinu Berst ég fyrir réttlæti heimsins ] [ Ég hitti Djöfulinn! Fegurð hans svo ómótstæðileg að ég gerði allt til þess að vera nálægt honum Snerting hans svo heit að ég þráði að brenna upp í höndum hans Augu hans svo tælandi að ég drukknaði í þeim... Orð hans svo máttug að ég trúði öllum lygunum hans Og þá seldi ég honum sálu mína. ] [ Barn undir belti ber ég nú Orsök barnsins er nóttin sú Er lostinn af okkur tók öll völd Við elskuðumst ákaft, umrætt kvöld. Hvað er til ráða? Spyr ég nú. Er ég til í barneign og bú? Efinn er stór hvort þú verðskuldir traust Því mig í fyrra þú niður braust Og ýmsar hef ég sögurnar heyrt Sem fyrir þér gera hjarta mitt meyrt Frá vörum þínum hef ég heyrt bull Og frægðarsögur um áfengissull En innst inni veit ég samt ei hvað þú hugsar Á daginn þú lærir, um helgar þú slugsar... Heit er ást þín á köldum bjór En hvert er planið er verðuru stór? Ég er kannski skrýtin en heit er mín þrá Að skilja þig, sterkum tengslum að ná Ég veit þér finnst ég falleg og flott Og kynlífið okkar er meira en gott En traustið er hins vegar óráðið mál Mér finnst þú vera svo torráðin sál Mína hrifningu fangar en einnig mig hræðir Samtímis von og ótta þú glæðir Er ég eignast barnið mun ég því allt gefa Syngja í svefninn og ótta þess sefa Mér er það mál að þú gerir það sama Hvort sem að krílið er herra eða dama Mér finnst þú fyndinn og mér finnst þú sætur Sjálfsagt þú verður faðir ágætur En oft ég ei skil það, hvernig þú lætur... Verðuru til staðar er barn okkar grætur??? ] [ Þú komst á fund minn í draumi í nótt Í húmi nætur, er allt var svo hljótt Þú kvaddir með kossi og tregann ég sá En ég leidd’ann hjá mér, ei vildi hann sjá. Ég vildi að ég hefði, sagt þér það þá Hvað ég elskaði mikið, hve heit var mín þrá Að aldrei hef ég annan mann Þráð eða hugsað svo mikið um hann. Í hjarta mínu nú syrgi ég þjáð Ég vildi ég hefði þér ást mína tjáð En hvern hefði órað fyrir því Að við yrðum aldrei saman á ný Hinstu kveðju, þér sendi ég nú Þú vita mátt að ég var sú, Sem ást mína alla óhindrað gaf En svo fórstu frá mér, meðan ég svaf. ] [ Every minute´s like an hour Every hour´s like a day Every day is like a month When you are far away I feel like I´ve been waiting...for many years Why don´t you come back? Why don´t you come back to me? Why don´t you come back? Why don´t you come back to me? I sit here in the shadow Still thinking of you My life isn´t the same When I´m not with you I feel like I´ve been waiting...for many years. ] [ Litli fugl Ó, fugl, segðu mér Er hann virkilega ástfanginn af mér? Eða er hann bar´að leika sér? Segðu mér, hver hann er Því að ég vil ekki vera særð á ný Ó, litli fugl Ó, fugl, segðu mér Koma ástarorðin hans frá hjartanu Eða fær hann þau hjá vinunum Segðu mér, eins og er Því ég vil vita það áður en illa fer Ó, litli fugl Inn í huga minn Streymir vafinn Ég veit ei hvað hann vill Vill hann leika sér, svo gera gys að mér? Eða er hann sá Sem allar stúlkur þrá Og verði alltaf hjá mér Mun hann fylla hjarta mitt af hamingju? Ó, litli fugl Hann er, líkur mér Þráir frelsi og er á framabraut Mun hans líf falla mér í skaut Segðu mér, eins og er, Því ég hef brennt mig ótal oft á heitri þrá Ó, litli fugl ] [ Ég sit hérna ein, við vol og vein Hætti ekki að hugsa um þig Ég einmana er, svo langt frá þér Hvað verður nú um mig? Ég veit að þú varst að gera rétt Þú varðst að fara þessa ferð En mig grunaði ekki, hve erfitt það yrði Fara til þín ég verð Ljáðu mér vængi Því ég fljúga vil til þín Ljáðu mér vængi Svo ég komist til þín í kvöld Hvert sem ég fer, í huga mér Eru ástarorðin þín Ég gleymi þér ei, fyrr ég dey Hvar ertu nú ástin mín? Ég veit að þú varst að gera rétt þú varðst að fara þessa ferð En mig grunaði ekki, hve erfitt það yrði Fara til þín ég verð Ljáðu mér vængi Því ég fljúga vil til þín Ljáðu mér vængi Svo ég komist til þín í kvöld ] [ Léttlynd og lauslát ég fór niðrí bæ Greikkaði sporið, ég sá þarna “gæ” Hann virti mig viðlits, “hæ, sweety pie” Við fljótlega kysstumst, það var “allt í læ” Sumum mun kannski finnast það “sick” En síðar um kvöldið fékk frá honum “lick” Hann lá milli fóta mér, puttaði og saug Og ástarorðum ég að honum laug Af mikilli ástríðu emjaði og stundi Þar til hann fékk það og heimurinn hrundi Hann stóð upp og klæddi sig, var frekar “kvikk” Því hann var með óvenju lítinn \"dick\"! ] [ Krafsandi kræsingar lokka mig til sín úr öllum áttum... Bjóða alls konar bragð, en lágt næringargildi. ] [ Fyrir þér er ég ostaterta! -Girnileg, fersk og bragðgóð! En súr og óeftirsóknarverð eftir 3-4 vikur ] [ Don´t you worry, my best friend! On difficult times, I´ll give you a hand I will to you from heaven send A guardian angel, from wonderland. ] [ það er eins og einhver hafi tekið sig til, dregið fram handryksuguna og hreinsað til í sál minni það á enn eftir að skúra en mér líður betur ] [ Kveðum í kútinn svartsýnisböl Kyrjum um kynlíf, gleði og öl Því ljúft er að lifa og vera svöl Léttlyndi og húmor er dægradvöl ] [ Um húmbláa nótt undir bláhvelfdum himni hvarflar einmana hugsun á vængjum innsæis gegnum eilífð. ] [ how will i know if you never tell me i try to speak to you.. i get no answers.. it doesnt help me.. im not getting anything from u u dont say a word .. how i am supposed to live like this.. living in a lie.. the one day..she calls .. i pick up the phone.. then i know for sure.. and when u come home.. i\'ll be gone.. dont worry.. i\'ll be not missing u.. at least im not living in a lie with you..anymore ] [ Það er myrkur, allt er hljótt. Eg vei ekki hvar ég er, ég er týnd. Ég er týnd fra umheiminum, horfin Ég finn ekki sjálfa mig, hvar er ég? Það er öskrað, mér bregður Hver öskraði? Var það ég? Eg reyni að öskra, en ekkert kemur Mér finnst ég dauð, dauð að innan Mér finnst myrkrið þrengjast, plássið minnkar Hræðslan tekur mig, fer með mig burt Ég sé ljós, ég fer að því Ég var dáin en nú er ég farin ] [ With a smile on your face, You looked at me, full of grace You said to me, I was the one And so I thought I was your onlyone But time went by, And so did you It was all a lie Nothing was true. So it seems to me again, I’m alone, left in pain Will I ever find the one? Is he there, is there someon ] [ Mér fannst ég vera í himnaríki, - svo hamingjusöm Þú varst mér hjá í englslíki - svo fallegur Ég vildi að eilífu vera þér hjá - svo mikið En hvernig átti ég að vita hvað þú hugsaðir þá? - svo heimsk Eina sem þú vildir var að losna við mig - svo sárt Þú sagðir ekkert, ekki einu sinni bæ við mig - svo sárt Mig langar í þig aftur, ég finn svo til - svo sárt Þú skildir eftir hjarta mitt opið sem gil - svo sárt Ég sakna þín svo mikið, það er svo sárt ] [ So alone But no-one knows. All this pain Started again I scream for held But no- one hears My eyes are wet, I’m all in tears. Then a hand comes towards me Whipes away all my tears I look up, and so I see An angel smiling down to me And so he takes my hand and says I heard your scream, I felt you pain Come away with me, to another place And you will never fell the pain again ] [ Tilfinningin er svo sterk, Hún ristir mig að innan. Í hjartanu finn ég verk, Verk sem er ekki hægt að lýsa. Verkurinn kom er ég hitti þig fyrst, Mér var heitt og kalt, bæði í einu Verkurinn magnaðist eftir að við höfðum kysst, En ánægjan og hamingjan var svo mikil. Svo var allt búið, alltof fljótt, Mér fannst eins og heimurinn hryndi. Eg var bara ein, allt varð hljótt En eftir varð verkurinn... ] [ Mig dreymir um að kafa í hyldýpi viskunnar, klífa fjallstinda vitundarþroskans og berjast við ljón bresta minna en hjarta mitt dælir letiblóði. ] [ Sjálfsmorð mun mín fremja, ei munt þú fá mér að bjarga, því sjálf mun ég mér farga, grátið mig ei, mín harmar það að seigja, að ást né von mér engin gaf, því líf mitt hrasaði og dafnaði, því döpur varð ég með árunum, dæma skulu þið mig ekki, ekki voru þetta leikir djók né hrekkir. ] [ Alheimsvaldur ætlaðist örugglega til meira af okkur. Er þetta allt? Rútína sem enginn kemst af. Samt langar öllum af henni á einhvern þátt. Allir vilja það sama en samt ekki. ] [ Geng eftir þröngum gangi með grátandi barni og gamalli asískri konu. Það ýskrar í kerrunni ég lýt á allar litríku freistingarnar í hillunum. Staf eftir staf lýsa þær unaði og hamingju sem þær veita neytanda. Hamingjan býr þá í Bónus. Allir þangað. ] [ andnauð sól fjaraði út fjörðinn festi ský á himni saggaði fyrir blikaði haf dallur í ranni og skuggamynd af manni með dræsu stagandi á polla gamall farinn að skrolla ég spurði hvernig liði? og tók í nef að sjóara siði ullarpeysa gulur hattur gekk hann burt eilítið fattur ] [ Milliliðalaus ég er ekki til upplifun mín á mér er frá öðrum komin Hver er þessi ég sem upphaflega er frá mér komin Get ég ekki munað það vitað það nokkurntíma skilið það Er ég kannski sjónhverfing alls þess sem ég óska mér Í samhræru við allt sem ég aldrei vildi finna Hvort sem ég er milliliðalaus liðamótalaus rænulaus eða bara laus við að vita meira um mig en aðrir um sig Þá líður mér bara ljómandi rjómandi dæmalaust makalaust ágætlega ] [ Hjúfrar sig að þér sleikir strýkur Vill gælur Veist ei að hún klórar og hvæsir Lævislega læðist um þú ert sem hnykill í höndum hennar loppurnar mjúkar með klær smettið hvæsir og hlær hjarta þitt bráðin í klóm hennar ] [ This life is so dem hard, i just faild on my drugs test, i can\'t hold me faster any more, this life\'s just slips from my hand\'s, why can i not hold me any more. ] [ HAFIÐ LEMUR STEINANNA SVO MJÚKT AÐ ÞEIR LÁTA UNDANN OG RÚNNAST RÚNNAST AF ÞRÝSTINGI HAFSINS ALDURINN HREYFIR ÞÁ SMÁTT OG SMÁTT ÚR STAÐ TÍMINN LEMUR MIG SVO FAST AÐ ÉG LÆT UNDAN OG ELDIST ELDIST AF ÞRÝSTINGI TÍMANNS ALDURINN HREYFIR MIG HRATT OG HRAÐAR ÚR ÆSKU. ] [ GRASIÐ BIFAST HÆGT Í LÉTTUM ANDVARANUM Í TAKT VIÐ TÍMANN FELL ÉG NIÐUR OG SKIL SÁLINA EFTIR STANDANDI SEM LÍTUR VIÐ OG HORFIR Á AUGUN TÆMAST MÁTTUR FJARAR GRASIÐ LÆTUR UNDAN ÉG LIGG ÞARNA OG HORFI Á SJÁLFAN MIG GUFA UPP ÁN ÞESS AÐ GETA GERT NOKKUÐ FINN ÉG GRASIÐ SNERTA VANGA MÍNA SVO MJÚKT TÁR MYNDAST SVO HÆGT SVO SVART SVO BJART ] [ Árinn drepur, sálartetur elur allt, sem fjandinn getur Étur drauma og til mín laumar ímynd einni, tár mín krauma ] [ Bestu hamingjuóskir á afmælisdaginn 14.04.2005 Okkar bestu hamingjuóskir Halldóra mín Kristín!!! Hjúkkan björt sem engill er og tengdadóttirin fín!! Tuttugu og fimm ára ertu nú æðisleg ljóska og myndarfrú. Til lukku kæri Helgi minn því hún er stúlkan þín!!! Besta kveðja frá tengdamömmu og tengdapabba! ] [ Léttum skrefum hoppar barnið á stéttinni Ég horfi á það, finnst það svo ánægt En ég veit að þetta er bara gríma Á bak við grímuna er ljótt sár Sárið er illkynja og það blæðir úr því Ég sé að augu þess eru full af sorg, Sársauka og einmannaleik Það er eins og þau segi Viltu elska mig, faðma mig Gerðu það Ekki meiða mig, gerðu það Og niður kinnar þess leka mörg tár. Ég veit að það á engan að Sem elskar það án skilyrða Ég þrái að taka það upp, hugga það Segja því að allt verði í lagi Sársaukinn sé búin, en ég vil ekki ljúga Ég tek það upp og horfi á það Niður vanga mína renna hljóðlát tár Barnið er orðið að unglingstelpu Ég horfi á hana tala við móður sína Í augum stúlkunnar er hróp á ást En hún fær hana ekki, heldur ábyrgð Allt í einu er eins stúlkan verði kona Ábyrg, sterk en samt bara barn Barn sem fékk ekki að vera barn Ég reyni að teygja mig til hennar Bjóða henni aðstoð mína, ást En hún ýtir mér hrannalega í burtu lítur á mig og segir ég get þetta sjálf! Tár mín voru í regninu þennan dag. Barnið er orðið að fallegri konu Ég horfi á hana, finnst hún sterk,ábyrg En þetta er bara gríma til að lifa af Hún er svo þreytt og döpur Hvað á ég að gera við hana Það blæðir úr innri sárum hennar Drottinn viltu hjálpa henni?? Má ég gefa þér þetta brotna ker Vilt þú líma hana saman Faðir ? Ég bið, hjálpaðu henni að fyrirgefa sér Mistökin sem hún gerði, hliðarsporið Að hún sé ekki hörð og vond við sig Fallega konan gefst upp Ég horfi á hana gráta með manni sínum Ég veit að hún hefur misstigið sig Brotið af sér, sært fólk Mig langar að taka frá henni sársaukann Laga, þerra tár hennar, taka vonleysið En ég get það ekki, Guð einn getur það Hún þarf að rétta út hendurnar til hans Ég sé hana í veikum mætti segja JESÚS Þá er eins og ljós lýsi upp herbergið Friður,fyrirgefning og lækning fylla herbergið Hún leggur sársaukann við fætur HANS Barnið og konan eru elskuð SKILYRÐISLAUSRI ÁST AF GUÐI Drottinn ég fel hana þér á vald Að þú gerir við hana það sem þér þóknast Hjálpaðu henni að elska sjálfan sig Eins og þú elskar hana, skilyrðislaust berðu hana á örmum þér og ef hún dettur Viltu reisa hana við þerra tár hennar og sár. Taktu við litla barninu og konunni ÞAU ERU ÞÍN ] [ Hjarta mitt er sem blæðandi sár í dag Það er sárt að kveðja þig engillinn minn Ég þráði að ást okkar kæmi öllu í lag Erfitt er að kyngja þessu, það ég finn Hvers vegna þarf þetta að vera svona Stór hnútur sem erfitt er að leysa Ég trúði því að ég ætti að vera þín kona Að kveðja þig, það ég verð að feysa Þú átt stórt hólf af hjarta mínu nú Erfitt er að hætta að elska þig Ég get það ekki nú, staðreyndin er sú Ég get ekki neitt þig til að elska mig Því kveð ég þig í dag, vinurinn minn Með trega í huga og hjarta mér Ég vona að þú finnir friðinn þinn Að þú finnir þér líf sem hentar þér Hér sit ég veit ekki hvert ég stefni nú Þú hefur verið stór partur í lífi mínu Ég veit að Guð leiðir mig, trú mín er sú Að hann mun halda mér á réttri línu Ég bið að Drottinn leiði þig nú Gefi þér allt sem það sem þú þráir Aldrei sleppa hendinni af þinn trú Mundu að þú uppskerð eins og þú sáir Bænir mínar og ást munu fylgja þér Mundu hvar ég er ef þú þarfnast vinar Þú getur alltaf bankað upp á hjá mér Góður vinur þjáningar getur linað. Elfa 2004 ] [ Lækning sáranna Unga konan situr grátandi inn í eldhúsi Þótt hún sé rétt tvítug að árum Er byrgði hennar mikil og sár Sársauki hennar mikill og djúpur Þetta er sársauki barnæskunnar Afleiðingar misnotkunar og ofbeldis Hún hefur engum treyst til að sjá sárið Sjálf óttast hún að ef hún opni það Verði það henni sjálfri ofviða, of sárt. Þar sem hún situr og biður til Drottins Brestur eitthvað innra með henni Eins og ein hurð inn í sárið opnist Hún veit að Guð vill fá að komast inn Umvefja hana,lækna hana af sársaukanum En á hún að þora ? Hún hefur alltaf borið þetta ein Óttinn yfirtekur hana Gamli draugurinn er mættur!!! Þá er eins og Guð taki hana að sér Leiði hana í sýn í gegnum lækningu sína. Hún sér sig eins og sem lítil stelpa Litla krullubínu með freknur, mikið skap Það er eins og hún standi inn í girðingu Drottinn stendur fyrir utan Hann vill komast inn í girðinguna Þar sem hún felur sársauka sinn Stelpan er reið, gengur fram og til baka Neitar að hleypa Jesú inn, hræðist það Hún gengur fram og til baka í reiði Segir hástöðum farðu í burtu! Láttu sárið mín vera, ég á þau ein En Jesús fer ekki, stendur bara og bíður Bíður þess að hún róist, gefist upp Hleypi sér inn í ljóta sárið. Að lokum hleypir skottan Jesú inn Hann tekur hana í fangið Sest með hana á bekk Biður hana rólega að gefa sér sárið sitt Stúlkan er svo hrædd við hvað gerist þá Þegar einhver hefur fengið sárið hennar Hún sársaukinn hefur litað líf hennar Verið fylgifiskur hennar lengi En hún veit ekki hvað hún fær í staðinn Brjálast því úr reiði í fangi Jesú Í ró og frið heldur hann utan um hana Leifir henni ekki að fara neitt Bíður eftir að hún hætti að berjast um Að lokum er hún of þreytt, gefst upp Í stað þess að hrifsa af henni sárið Segir Jesús henni að hún hafi alltaf val Val að bera sárið sjálf Eða leyfa honum að bera það og lækna Hann segir henni að taka sér tíma Til að taka ákvörðun hvað hún vilji gera Ef hún velur að gefa honum sárið Geti hún komið með sársaukann til sín Hún þarf aðeins að ganga yfir þessa brú Hann bendir á brúnna, brosir og fer. Stúlkan situr ráðvillt eftir á bekknum Í hendinni heldur hún á poka með sárinu Óstyrkum skrefum gengur hún af stað Skíthrædd, skjálfandi og máttlaus Fer hún upp á brúnna Tekur tvö skref, eitt til baka Hvað segir hann þegar hann sér sárið ? Dæmir hann mig eins og allir hinir !! Mun hann sjá að ég var fórnarlamb ?? Aftur tekur hún skrefin áfram Svo eitt afturábak Hvað mun hann gefa mér í staðinn? Verður tómarúm eftir þar sem sárið var! Ýmsar svona spurningar koma í hug hennar En áfram fer hún, ofurhægt Loksins er hún komin yfir brúnna Hræddum skrefum gengur hún til Drottins Réttir honum grátandi pokann Segir “sjáðu”!!!! Þú mátt sjá, segir hún skömmustulega, Um leið og hún réttir honum pokann Birtist stór og fallegur engill Hann heldur á poka sem hann réttir henni Hún tekur við honum opnar hann varlega Í pokanum er friður,gleði,ást og sátt Fegins tár renna úr augum stúlkunnar Ég trúi varla að ég hafi komist í gegn Segir hún fegins röddu Síðan meðtekur hún gjafirnar úr pokanum Friður,ást,gleði og sátt fylla hana Í fyrsta sinn er hún frjáls frá sárinu Sem nísti hjarta hennar svo lengi. Drottinn hefur tekið hann í burtu. Litla stúlkan gengur létt í burtu Friður og sátt fyllir hjarta hennar Hún lýtur til baka á Jesús Takk Jesús er það síðasta sem hún segir Svo fer hún með heim Með nýja fína pokann sinn Líf hennar er breytt um eilíf. Elfa 16.12. 1998 ] [ Þú stóðst í dag horfðir fallega á mig Kærleikur og ást úr augum þér skein Ef þú bara vissir hve heitt ég elska þig Og hve ég þrái að enginn geri þér mein Ég skil ei hví þú elskar mig Því þú veist alla mína ljótu ævi En ég þarf ekki alltaf að skilja þig Bara trúa að ég sé kona við þitt hæfi. Það er svo gott að eiga þig að Finna virðinguna sem þú sýnir mér Þakklát ég er , þú mátt vita það Ég nýt hverrar stundar sem á ég með þér. Þótt stormur lífsins skelli okkur á Ég standa vil stöðug þér við Ég treysti að Drottinn beri okkur þá Og gefi okkur ætíð ró sína og frið. ] [ Ég vildi að ég væri fugl ég vildi að ég væri lítill fugl - með stóra vængi Þá myndi ég fljúga beint i hlýja fangið þitt og fá mér blund. ] [ Ég er villt, villt í skóginum, villt í frumskógi tækifæranna, villt í frumskógi óendanlegra möguleika og lífsstíla, villt í náminu, villt í lífinu. Mig langar svo að finna tréð mitt, litla tréð mitt í stóra frumskóginum. Eina staðinn sem ég á heima á. Þar eru hneturnar mínar og ungarnir mínir. Þar er líf mitt... ] [ Í dag er mér illt í maganum, ég er með strengi í maganum, mjólkursýrurnar skemmdu í mér magann. Það er vont að hlæja. ] [ klink, klonk vélin tikkar ég tannhjól bjallan hringir ég slefa hugsa augnablik um hunda Pavlovs svo um samlokuna sem bíður mín þessar fimmtán mínútur Á ÉG (skv. kjarasamningi) helli kaffi í bolla og hugsa: \"dag einn mun ég henda hnífnum mínum í gangverkið skera á tjóðrið sem bindur mig við básinn guð ætlaði mér meira en þetta! ég ætla að skríða úr púpunni breiða út vængina dag einn\" bjallan glymur ég sturta í mig restinni af kaffinu lulla aftur að borðinu mínu og munda hnífinn ] [ Bárunnar blúndukögur skrýðir dimmbláa klettaströnd þar sem svarthvítir fuglar sveima við hljómþýðan söngleik vindanna. Í þverhníptu bergi óma ótal vonglaðar raddir vorsins sígrænu drauma. Hugur minn horfir og saknar er ung ég undi og unni í faðmi þér fagra eldborna eyja. ] [ Vor kom í hjarta mér andinn lyftist upp til skýja Þjáning huga þíns kvöl sálar þinnar voru sem hret í vori sálarinnar Ást mín á ný kviknaði sólin braust úr skýjum vetrar Bros færðist yfir andlit þitt hjartað tók örar að slá Hreti lokið - vor á ný Milli orðanna er sannleikur allt ósagt sem máli skiptir Snerting þín óræð augu þín sögu segja Hjarta mitt slær til þín Hindrun á vegi sála blóm sem ekki má slíta Sárt á að horfa sárar að bíða Sál mín bundin og ber ] [ Ég opna augun, -allt er breytt. Ég er ekki sú sama -er ekki lengur þreytt. Mamma stendur við rúmið mitt -og grætur. Hún segist hafa misst barnið sitt, -hvað meinar hún? ég er hér. Ég spyr hana hvað hún meini -hún svarar ekki Ég reyni að faðma hana - reyni en fer bara í gegnum hana. Ég lít við á rúmið mitt, -þar sé ég mig. Líkaminn minn liggur þar -ég er dáin. ] [ Fegurðin kemur innan frá þó fáir skynji hana utan á hún er birtan í augum þér og brosinu sem þú sendir mér Hlustaðu vel á hjartans malið Því þar er þér svo margt falið brostu svo blítt og gefðu af þér fegurð þína sem ætíð dugar mér Fegurðin kemur innan frá Þó fáir skynji hana utan á fegurð er nokkuð sem allir þrá og hana fæ ég þér hjá. Elfa - 1995 ] [ Syndin þig bindur vinur minn Böndin þú sérð ei sjálfur Jesús vill gefa þér friðinn sinn Ég get ekki bjargað þér, það ég finn Fljúgðu fuglinn minn svarti Burt úr hjarta mér Þá kemur engillinn bjarti Og líf vill gefa þér Líf með tilgang, til þín kemur Taktu á móti því Hann um syndina semur Sál þín mun verða sem ný Jesús grætur þér við hlið Er sér hann blindu þína Mætt\' honum faðir, ég bið Að hann gefi þér byrðina sína. Elfa - 2003 ] [ Drottinn ég er svo þreytt og leið þreytt á að taka ábyrgð, vera sterk Þú veist hvað ég þrái hvíld og frið Frið frá sársauka, skömm og vanlíðan Ég þrái að fá að hvíla örugg hjá þér Leifa þér að annast um mig Dekra við mig eins og ungabarn En ég er hrædd við að slaka á Óttast að þá fari allt illa Faðir, fyrirgefðu mér vantraust mitt Þú hefur aldrei brugðist mér Af hverju ættirðu að gera það núna Hví ættirðu ekki að gefa mér hvíld þú villt ég að koma til þín ef ég þreytt segir að ég eigi að taka þína byrgði Hún er létt, já ég tek við þinni byrgði Viltu skipta, þú mátt fá mína faðir Þreytan mín er nú í þínum höndum Gjörðu svo vel pabbi minn. Elfa - 2003 ] [ Hugsunin um hann er yndi Hætt við að ég taki flipp. Ef að hann eftir mér myndi Oft tæki hjarta mitt kipp. Æðislegt væri ef hann vildi Aftur mig hitta sem fyrst. Dýrðin’að dreyma er mildi, Dásemd ef hefðum við kysst. Lund mín er nú létt sem fiður Liggur við að ég takist á loft. Innra með mér er nú friður, Er hægt að sjá hann of oft? Hvernig getur hrifning mín orðið Heitari en sólin sem skín? Legg ég nú líf mitt á borðið, Langar mig að verða þín. ] [ 1 Þú fórst á fimmtudegi, kortér yfir tvö. Það brakaði undan fótum þínum á nýföllnum snjónum. Það sindraði á mjöllina í skini götuljósanna. Ég sat fyrir innan, í litlu risíbúðinni minni, bak við kalt glerið og horfði á þig fjarlægjast, í átt að Fríkirkjuveginum, yfir Hljómskálagarðinn. Kertið var slokknað í glugganum, svo þú sást mig eflaust ekki þegar þú snérir þér við, en ég horfði á þig, með söknuði. Sætur ilmurinn af reykelsinu sem þú gafst mér fyllt vit mín og ég hugsaði um allt sem þú hafðir sagt mér, gert fyrir mig og stundir okkar saman. En aðallega um þetta kvöld og allt sem hafði gerst. Hjarta mitt fylltist af gleði og hamingju. Ekki vildir þú taka bílinn, því þú hafðir drukkið fyrr um kvöldið, hvað þá leigubíl, því það hefði kostað þig heilan þúsundkall. Heldur vildir þú ganga heim, því veðrið var svo gott. Baðst mig um að vera ekki með þessar áhyggjur, sagðir mér að það væri ekkert að, heldur væri það bara í hausnum á mér. Hvað gat ég annað en trúað því; ég trúði öllu sem þú sagðir mér. Það er ekkert sem breytir því – ekkert. Aldrei hafði ég fundið fyrir slíkri ást, slíkri hamingju, sem nú. Lífið brosti við okkur. 2 Við hittumst á föstudagskvöldi, fyrir utan Nasa. Þú varst sá fallegasti karlmaður sem ég hafði nokkru sinni séð. Ljósbrúnn frakkinn fór vel við kastaníubrúnt hárið, sem var greitt aftur en skipt í miðju. Það brá fyrir brosi sem fékk mig til að kikna í hnjáliðunum, sem hafði þá ekki gerst í mjög langan tíma. Mig langaði að hlaupa til þín, kasta örmum mínum um háls þinn og gefast algerlega á þitt vald, en mér tókst að halda aftur að mér; ég skil ekki hvernig. Ég óskaði þess að þú myndir enda með mér, en tíminn einn gat sagt til um það. Þú horfðir á mig, eflaust beint í gegnum mig, ég fann eitthvað kvikna innra með mér. Dagdraumar sóttu á huga minn. Síðar um kvöldið þú bauðst mér í glas, besta hvítvín sem til var í húsinu. Bauðst mér upp í dans, við skemmtum okkur vel; langt síðan ég hafði átt svo góða og ánægjulega kvöldstund. Seinna fannst þér hávaðinn of mikill, bauðst mér að koma heim með þér, sem ég þáði með þökkum, hjarta mitt barðist í brjósti mér. Ég skil það ekki enn hversu mikill herramaður þú varst. Við lágum saman fyrir framan arininn, í stofunni í stóru íbúðinni þinni þar sem allt var til alls. Við töluðum um vonir, þrár og drauma, drukkum rauðvín og reyktum vafninga. Þú sagðir svo margt, ég hlustaði á hvert orð, drakk í mig, naut hljómfagrar raddar þinnar. Sökkti mér í draumaveröld þar sem við vorum það eina sem til var, nutumst án hamla, án ótta, án veruleika. Allt erfiði hvarf við orð þín, heimurinn varð að leiksvæði, vandamálin að skemmtun. Þú fylltir sál mína gleði, hjarta mitt hamingju, hugur minn varð drukkinn af orðum þínum. Við sofnuðum saman í stóra rúminu þínu, án þess að fjarlægja föt okkar. Áður en ég sofnaði, horfði ég á þig, naut þeirrar fegurðar sem ég sá, lét hugann reika uns ég féll í svefn, inni í draumalandið. Þú vaktir mig með rjúkandi kaffi og heitum rúnstykkjum. Ég fór heim eftir yndislegan morgunverð sem þú náðir í út í bakarí. Morgunmatur í rúmið; herramaður fram í fingurgóma. Þú baðst mig um símanúmerið mitt, en ég efaðist um að þú myndir nokkru sinni hringja. Ekki eftir nótt sem þessa, þar sem orð voru meiri en gjörðir. Þú kysstir mig bless - á kinnina. Ég óskaði annars; finna heitar varir þínar þrýstast upp að mínum, finna hönd þína snerta háls minn, strjúka bak mitt; halda utan um mig. Ég roðnaði, leit undan, en þú straukst um vanga mér og kvaddir. Ég gekk heim með fiðring í maga, hjartað fullt vonar, fótatak mitt létt og fjaðrandi. 3 Þú hringdir, daginn eftir, mér brá því öðru átti ég von á. Bauðst mér út að borða, sem ég þáði – var annað hægt? Ég hafði eytt deginum í að taka til, hugsa um þig, láta mig dreyma. Mér datt ekki til hugar að þú myndir hringja, ekki eftir það sem ég hafði áður lent í. En herramaðurinn þú hringdir og bauðst mér út. Kannski varstu ekki eins og hinir, sem vildu allir það sama á fyrsta kvöldi. Við fórum á Indíafélagið, fengum okkur indverskann. Yndislegur matur; enn yndislegri félagsskapur. Þú sagðir mér frá fjölskyldunni, börnum, bræðrum og hundi. Ég hlustaði á hvert orð, sagði fátt en naut þess að hlusta á þig tala. Þú spurðir mig og ég reyndi að svara, en eflaust hef ég sagt eitthvað fáránlegt, því þú hlóst að mér þegar ég sagði þér frá Bellu systir. Mér sárnaði pínulítið, en það hvarf þegar ég sá þig hlægja, svo ynnilega, svo fallega. Þú settir hendina fyrir munnin þegar þú hlóst, faldir fallegar tennur þínar. Smá hrukkur birtust við augun sem gerði þig enn fallegri; myndarlegri. Hjarta mitt þráði þig; líkami minn titraði. Það var fallegt kvöld. Við gengum niður kalda Hverfisgötuna eftir þessa yndislegu máltíð sem þú bauðst upp á. Ég sagði þér frá því helsta sem hafði gerst í lífi mínu, frá því ég var þrettán. Þú tókst í hönd mína fyrir framan Þjóðleikhúsið, baðst mig að stoppa, settir fingur á munn mér og kysstir mig. Ég fann hvernig ég missti næstum máttinn í hnjánum, hvernig maginn snérist allur við. Mig langaði helst til að éta þig upp til agna, á tröppum leikhússins. Þú settir hönd þína aftur á hnakka mér, straukst í gegnum hár mitt og þrýstir heitum vörum þínum að mínum. Tunga þín lék sér í munni mínum og við vorum gersamlega án umhverfis. Staður og stund voru fokin úr huga mér og ég þráði það eitt að fá að njóta þín, allt til enda veraldarinnar. Þú spurðir mig hvar ég ætti heima og ég sagði þér það. Samt langaði mig ekki að sýna þér lita risið mitt, því það var aðeins kústaskápur, miðað við íbúð þína í Nóatúninu. Ég reyndi að færast undan, en þú krafðist þess. Við gengum suður Laufásveginn og þú hélst í hönd mína alla leið - frá Þjóðleikhúsinu og heim á Tjarnargötuna. Smá andvari kom úr norðri, yfir Tjörnina og þú sást að mér varð kalt, tókst utan um mig enn á ný og kysstir mig á miðri brúnni á Skothúsveginum. Bílarnir runnu framhjá, en okkur gat ekki verið meira sama; við áttum heiminn. Ég opnaði dyrnar og vonaðist til að þú skiptir um skoðun og við færum heim til þín, en mér varð ekki að ósk minni. Þú eltir mig upp þröngan stigann, þögull. Ég ætlaði ekki að geta opnað dyrnar, því ég fylltist skömm á aðstæðum mínum; skömm fyrir að geta ekki boðið þér betri umgjörð; eitthvað sem færi þér betur. Þú brostir til mín svo fallega, þegar ég snéri mér við og horfðir á mig með þessum yndislegu brúnu augum. Ég gat ekki annað en kysst þig á stigapallinum. Atlot þín voru sem himnasending. Aldrei fyrr hafði ég kynnst svo mjúkum og æfðum höndum, né sýnd slík virðing, svo mikil ást af nokkrum þeim er ég áður hef sofið hjá. Þú vissir nákvæmlega hvað átti að gera, hvar átti að strjúka, hvernig þú áttir að athafna þig. Líkami minn titraði undan fingrum þínum. Aldrei fyrr hafði ég notið slíkra atlota. Það lá rós á koddanum þegar ég vaknaði og miði þar við hliðina. Þú hafðir þurft að fara, vonaðist til að ég fyrirgæfi þér, sem ég gerði samstundis. Ég lá í rúminu fram yfir miðdag, lét hugann reika um þig og atlot næturinnar. Kallaði fram í huga mér andlit þitt og þinn fagra líkama, sem var stæltur mjög. Hugsaði til þín með söknuði, með þrá og löngun í að fá að njóta þín á ný. Nú varð ég að bíða í angist þangað til ég heyrði aftur í þér, því mér hafði ljáðst að fá símanúmerið þitt. Myndir þú hringja aftur? Hafði ég staðið mig nægilega vel? Var ástæða bortthvarfs þíns önnur en sú sem þú gafst upp? Hugur minn varð sjúkur að hugsa um þig; þrá mín varð sterkari með hverjum andardrættinum. 4 Þú hringdir um kvöldið, baðst mig afsökunar á því að hafa horfði, svo snögglega og án þess að kveðja. Lofaðir mér því að þetta myndi aldrei gerast aftur, ef ég vildi hitta þig á ný. Ég bauð þér að koma og horfa á sjónvarpið, við gætum leigt mynd, fengið okkur popp og kók. Þú sagðist vera á leiðinni, ætlaðir að kaupa poppið og gosið, en ég yrði að sjá um myndina, bara eitthvað skemmtilegt. Ég leigði You’ve Got Mail og þú brostir. Þú sagðist vera Meg Ryan ‘fan’ og þakkaðir mér fyrir valið. Baðst mig að sitja við hlið þér í sófanum, hélst utan um mig og ég fann að það var eitthvað meira að gerast en hjá Tom Hanks og Meg Ryan; ég fann fyrir einhverju sem gat bara verið gott. Þegar myndin var búin kysstir þú mig, við nutumst í sófanum en enduðum upp í rúmi. Þar lágum við og töluðum, nutumst á ný og sofnuðum. Þú hélst utan um mig, ég þrýsti þér fast upp að mér. Kannski ég hafi haldið þér of fast því þú vaktir mig snemma um morguninn, sagðir mér að þú þyrftir að fara til vinnu, kysstir mig og tókst við að klæða þig. Sagðist ætla að hringja í hádeginu, jafnvel að bjóða mér eitthvað út að borða. Ég sagði þér að ég finndi eitthvað, en sá eftir því um leið og ég sleppti orðinu. Þú brostir til mín, þínu fallega brosi og sagðir að það væri í lagi, það væri gagnkvæmt. Ég fann tár myndast í hvörmum mínum, þurrkaði það nett með handarbakinu og strauk þér svo um vangann. Þú tókst í hönd mína og kysstir í lófa mér. Svo kysstir þú mig bless og stóðst upp, snérir þér við í dyragættinni og sagðir mér að þessi íbúð væri miklu heimilislegri en þín, en ég trúði þér ekki; ég hafði verið heima hjá þér og vissi hve þú varst mikill smekkmaður. Þú kvaddir og fórst. Ég lá í rúminu án þín, horfði upp í loftið og lét hugann reika á ný. Hönd mín strauk tómt rúmið, þar sem þú hafðir áður legið. Söknuður sótti að, ég vildi þú værir við hlið mér. Ég hugsaði um þann tíma sem við höfðum átt saman, um þann tíma sem við ættum eftir að eyða saman, hvað myndi gerast, hvað gæti gerst. Hjarta mitt barðist um í brjósti mínu fyrir þig, til þín. Hvað varst þú að gera, hvert fórstu þegar þú hvarfst frá mér? 5 Dagar urðu að mánuðum, við kynnstumst betur. Ást okkar dýpkaði, böndin styrktust, sálir okkar tóku að vaxa saman. Hjörtun slógu í takt, rómantíkin heillaði; þú varst meira en ég hafði nokkru sinni gert mér í hugarlund; ástríkur, glaður, fullur af hlýju og góðmennsku. Börn þín tóku mér vel, litu á mig sem hluta af þér, þannig varð ég partur af fjölskyldu; eitthvað sem mig hafði lengi dreymt en aldrei gert mér vonir um. Þú þrýstir á að ég flytti til þín, en ég þráaðist við. Ótti var minn óvinur, fyrri sorgir sóttu að. Það eina sem þú gerðir var að brosa þínu fallega brosi og kyssa mig. Öðrum eins skilningi hafði ég aldrei kynnst, né þvílíkri þolinmæði. Að finna slíkt er fjársjóður og ég hafði átt því láni að fagna ramba á hann fyrir utan Nasa, kvöld eitt í janúar. Líf mitt hafði breyst frá því ég sá þig fyrst, hafði tilgang; fyllingu. Vorið kom og ástin blómstraði enn. Þú hafði kynnt mig fyrir allri fjölskyldunni, meira að segja þinni fyrrverandi, sem tók mér með kostum og kynjum. Allt var að ganga upp, hvernig sem það er skoðað. Fyrsta sumar okkar var sem draumur, haustið sem fagurt ljóð. Jólin fengu þann hátíðarljóma sem ég hafði aldrei kynnst. Þú varst mér allt. Annað eins sumar hafði ég ekki upplifað. Nærvera þín dró allt það besta fram í fari mínu, ég fór að brosa, hlægja og njóta lífsins á ný. Við fórum ófáar ferðirnar í sumarhús foreldra þinna, með og án barna þinna. Skemmtum okkur ætíð vel, nutum samvistanna, frelsisins og nærverunnar. 6 Á nýju ári sagði ég þér frá ákvörðun minni, eitthvað sem þú hafðir eflaust beðið eftir með eftirvæntingu. Við ætluðum að fara að búa saman, ég, þú, börnin þín tvö og hundurinn. Við yrðum fjölskylda; eining sem væri partur af stærri heild. Þú sagðir mér hve hamingjusamur þú varst, hve ánægður og glaður. Bauðst mér út að borða til að fagna ákvörðun minni. Kampavín og rósir biðu eftir mér á Lækjarbrekku. Hjarta mitt fylltist ást, augu mín vöknuðu. Ég hafði aldrei elskað nokkurn sem þig, ég sagði þér milli forréttar og aðalréttar. Þú sagðir það sama við mig, brostir fallega til mín og tókst í hönd mína yfir borðið. Samt var einhver dulúð, eitthvað meira, sem þú vildir ekki segja mér. Ég þóttist ekki taka eftir því, en þú einn veist hve léleg mín leiklist er, hve erfitt ég á með að fela hug minn og síst frá þér. Á eftir máltíð kom koníak og kaffi, Mozartkúlur og annað konfekt. Ég sagðist ekki mega við meiru, en þú sagðir að ég hefði aldrei verið fallegri. Þú fékkst þér vindil, sem gerðist sjaldnar nú en áður. Mig langaði í þig á þeirri stundu, en lét nægja að halda í hönd þína og halla höfðinu að öxl þinni. Þú tókst utan um mig og hélst fast um herðar mínar. Hjarta mitt var að springa af hamingju. Kvöldið var fagurt og loftið hreint. Við gegnum um bæinn, héldumst í hendur, horfðum á húsin, bátana og störnurnar. Norðurljósin dönsuðu á himninum, kuldinn kom að norðan, en blés samt notalega. Fullt tunglið hvarf á bak við rauðhvít ský, sem komu með golunni. Eitt og eitt sjókorn féll niður á auð strætin, auðar gangstéttarnar, sem tóku að grána meir og meir. Við Ráðhúsið þú stoppaðir mig, kysstir mig og horfðir lengi í augu mín. Andardráttur þinn varð að hvítu skýi, sem svo losnaði upp í læðing og hvarf. Ljósin lýstu upp Tjörnina í gegnum ísinn, lýsti upp snjódrífuna sem kom að ofan, hægt og nánast tignanlega, líkt og í ævintýri. Þú sagðist elska mig, meira en lífið sjálft. Vildir ekki án mín vera. Sagðir að ákvörðun mín hefði gert þig hamingjusamari en nokkuð annað, kannski fyrir utan fæðingu barna þinna. Ég skildi það, elskaði þig samt og kyssti á móti. Eitt var það samt, sagðir þú mér, sem þú vildir spyrja mig að. Eitthvað sem þú hafðir beðið eftir í langan tíma. Forvitni mín var mikil, en skyggði samt ekki á ástina, vonina og bjartsýnina sem hafði hreiðrað um sig í hjarta mínu. Ég spurði hvað það væri, hvort eitthvað væri að, en þú sagðir að svo væri ekki, kyngdir og hertir upp hugann. Hvað gat ég annað en beðið, með hjartslátt sem hefði nægt til að gera út af við gamla konu. Þú stakkst hönd þinni í vasann og dróst upp flauelsklæddann kassa, lítinn og bláann. Hjarta mitt stansaði á því augnabliki og neitaði að slá meir, skreið upp í háls svo ég varð að kyngja ótt og títt. Loks tók það að slá á ný og þá hraðar en áður, svo mjög að allur líkami minn skalf. Þú hélst mér væri kalt, en ég neitaði því, sagðist aðeins finna fyrir spennu, ást og hamingju. Hvað ætlaðir þú að gera? Gat verið að rómantíkin yrði meiri en orðið var? Varstu virkilega, þarna við Tjörnina, að uppfylla síðasta drauminn? Spurningin kom og ég kyssti þig. Svarið var auðvitað jákvætt, var við öðru að búast? Ekki væri nokkur leið að neita slíkri bón frá manni sem þér. Þú dróst hringinn á fingur mér, lítinn, nettann og sérsmíðaðann. Þú hafðir munað eftir orðum mínum og látið gera hring eftir mínum óskum, en bættir við frá eigin hjarta. Ég horfði á þig og svo á fingur mér, hjarta mitt fann fyrir fögnuði, ást og feginleika. Við kysstumst, hlógum, grétum og kysstumst á ný. Gengum svo með Tjörninni heim til mín, rólega. Nutum nærverunnar, kvöldsins og logndrífunnar. 7 Þú hraust lágt við hlið mér. Klukkan sló tólf. Ég horfði á þig sofa, hugsaði til framtíðar, fortíðar og nútíðar. Hvað hafði ég gert til að verðskulda slíkan mann. Var þetta einum of gott til að vera satt? Hönd mín strauk bringu þína varlega, svo þú gætir sofið. Fagur líkami þinn lá nakinn í rúmi mínu, þreyttur og fullnægður. Bros var enn á vörum þínum. Ég vakti þig rúmlega eitt, því þú varðst að fara. Heima biðu börn og barnapía, sem þú varst að losa undan skildum sínum. Sagðir mér að vera hér, hvílast og njóta mín. Sagðist ætla að ganga heim, njóta kvöldsins og hugsa um mig. Ég bað þig að taka leigubíl, að minnsta kosti, en þú tókst það ekki í mál, sagðir mér að hafa ekki áhyggjur, þetta væri ekki svo langt. Ég fékk að njóta þín einusinni enn áður en þú hvarfst frá mér. Við kvöddumst í dyragættinni, ég ætlaði ekki að láta þig fara, hélt þéttingsfast um þig, í fráhnepptum sloppnum. Þú sagðir að ég hefði fallegan líkama, ég bað þig að segja satt. Þú brostir, kysstir mig og tókst utan um mig. Sagðir mér að hafa meira sjálfstraust, það færi mér betur. Sagðist elska mig og kysstir mig á ný. Snérir þér síðan við á stigapallinum og gegst niður. Ég elti þig niður og kyssti þig aftur við útidyrnar, kvaddi og lokaði á eftir þér. Hraðaði mér upp á slitnum inniskónum. 8 Þú fórst á fimmtudegi, kortér yfir tvö. Nýfallinn snjórinn brakaði undan fótum þínum og á hann sindraði í skininu frá götuljósunum. Köld gjólan kom enn að norðan, tunglið brosti á ný á stjörnubjörum himninum. Ég sat fyrir innan, á gluggakistnunni, bak við kalt glerið, horfði á þig fjarlægjast, í átt að Fríkirkjuveginum. Andardráttur minn fraus skamma stund á rúðunni, myndaði kringlótt ský sem minnkaði smám saman uns ég blés frá mér á ný. Kertið var slokknað í glugganum, svo þú sást mig ekki þegar þú snérir þér við, en ég horfði á þig, með söknuði. Ég hélt að mér sloppnum, það kólnaði eftir að þú fórst; íbúðin varð tóm og líflaus án þín. Þú hvarfst sjónum mínum, ég fór upp í kalt rúmið. Rúmið var tómt án þín, hjarta mitt saknaði nærveru þinnar. Samt hlakkaði ég til helgarinnar, því þá ætluðum við að flytja mitt litla dót yfir til þín, hefja okkar búskap, njóta nærverunnar sem ein heild. Svefninn sótti seint að, en kom samt að lokum. Þú varst í draumum mínum. 9 Mamma þín hringdi klukkan hálf sjö. Hún grét. Hjarta mitt fraus. Sviti spratt fram á enni mér. Maginn fór í hnút svo mig langaði að kasta upp. Eitthvað hafði gerst. Bað mig um að koma upp á sjúkrahús í hvelli - eins og skot - það væri ekki það langt eftir. Þú lást hreifingarlaus í rúminu. Slöngurnar skyggðu á þig, stungust inn hér og þar. Tækin skríktu, vélarnar dældu, hjúkrunarkonurnar komu og fóru. Andlit þitt var líflaust, marið, kalt. Hönd þín lá hreifingarlaus með hring á fingri. Ég hélt um hana - grét. Líkami þinn lá undir hvítri sænginni, bringa þín bærðist vart. Lyftist upp einungis vegna tækja og vilja lækna. Lítil von, var það eina sem læknirinn sagði, en ekki gefast upp, hugsaði ég. Bað í hljóði - án trúar. Óskaði að ég hefði farið með. Því fórum við til mín, ég spurði í sífellu. Fékk engin svör. Tengdó tók um axlir mínar, við grétum sáran. Þú varst að fara frá okkur, drengurinn sem við elskuðum. Hve lítil sandkorn á fjöru lífsins við vorum, svo varnarlaus, svo ráðalaus. Líf án þín var okkur óhugsandi. Klukkan tíu varstu allur. Grátur okkar fyllti kalda sjúkrastofuna. Sorgin þyngdi hjarta mitt, fyllti huga minn, yfirbugaði líkamann. 10 Þú varst jarðaður á laugardegi. Hvítur snjórinn huldi jörðina kring um djúpa og dimma gröfina. Þú lást í hvítri kistu, sem beið eftir að vera færð ofan í kalda jörðina. Gylltur kross skreytti hana að ofan, krans rammaði hann inn; borði blakti í golunni. Himininn dimmur. Tár mín frusu á kinnum, ég hné niður af sorg og söknuði. Faðir þinn studdi við mig, reyndi að hughreista en ekkert huggaði hjarta mitt. Móðir þín og börn voru, líkt og ég, frá sér af harmi, grétu sáran, söknuður sat eftir. Tár okkar frusu á kistu þinni. Að hugsa um þig, liggjandi í þessum kassa, varð mér um megn. Ég sá þig þar, klæddann í fallegu jakkafötin sem við höfðum valið saman. Með bréfið sem ég hafði skrifað til þín daginn sem þú lést milli handanna. Skildi ekki hversvegna þú varst tekinn frá mér á þessum tíma, þessari stundu. Framtíð okkar svo björt, vonirnar svo miklar. Lágu nú í köldum kassa, sem seig hægt ofan í gröfina, sem beið eftir að yrði mokað ofan í hana á ný; mokað yfir framtíð mína, vonir og drauma. Um kvöldið, þegar öllu var lokið, sat ég og grét í tómri risíbúðinni. Kveikti á kerti við myndina sem ég hafði tekið af þér sumarið áður. Horfði á þig, hugsaði um okkar yndislegu stundir, saknaði þín meira og langaði að deyja. Fara til þín, vera hjá þér, þótt það kostaði mig lífið. Því hafði ég ekki krafist þess að þú tækir leigubíl? Því hafði ég ekki farið með þér? Því var ég eftir án þín? Spurningar leituðu á hugann, ég grét meira, sárar. Líf mitt varð allt í einu tómt, svo líflaust og dimmt. Vonin sem kviknað hafði í hjarta mínu hafði verið tekin frá mér eins fljótt og hún kom. Slíkt kæmi aldrei aftur. 11 Ár er liðið, ég sakna þín enn. Við gröf þína stend ég; aldrei kemur þú aftur. Bros þitt horfið að eylífu; ást þín hlýjar mér ei framar. Tár renna niður kaldar kinnar mínar, hjarta mitt grætur. Hringurinn enn á fingri mínum; frá þér - til mín. Blóm liggja á gröf þinni. Frá mér horfinn – að eylífu. ] [ Þar sem vegur finnur vog veit ég fallegt hús þar og þar sem vegur finnur vog veit ég fallegt hús þar og með skakka veggi skælist það og skrítna glugga sérðu að dyrnar detta af dyrastaf dágott gelt einn hundur gaf svölur sveifla tónum vel sunna sest við himinhvel Er hún þar við aftansól elsku mamma í sínum stól er hún þar við aftansól elsku mamma í sínum stól. Í kinnum næstum kviknað í og kjöltu situr barnið í. Tappinn litli hress vill toga titra rauðar kinnar loga. Bankar mamma í spaugi barnið betra verður blessað skarnið. Köttur setur kryppu á kemur mý sem truflar þá, köttur setur kryppu á kemur mý sem truflar þá. Loppu sveiflar loðni kisi lenti fluga´ í slæmu slysi. Barni klappar mamma á kinn kemst það brátt í svefninn sinn. Allt um kring því englar vagga ekkert mun því barni hagga (Hist, hvor vejen slar en bugt H.C. Andersen. Þýðing: Ásgeir Beinteinsson) ] [ Hvert sem ég fer finn ég fyrir þér Þú felur þig bak við ruslatunnuna. en í dag faldiru þig bak við tréið bláa þú ert með tæki sem tekur myndir. myndir af mér. ] [ Ætli guð verði aldrei sár út í okkur. hin okkur sem eigum allt. en erum samt að biða hann um meir ] [ hvínandi sandstormur fæst af tilraun til að hugsa þegar hugurinn er eyðimörk hugsanirnar sandkornin (sem ég heyri slípa innanverða hauskúpuna) með hverju augnabliki þungar blýkúlur kaldar og hrjúfar rífa augnlokin legg augun aftur of þreytt til að sofa leggst í sandinn of þreytt til að hugsa ] [ Ég vildi óska þess að geta horft í augun hans,ég vildi óska þess að ég geti sýnt hann,ég vildi óska þess að ég gæti átt hann,ég vildi óska þess að hann væri hér. ] [ Eitt andartak, Nei hún fór fyrir. Vertu nú fljót að tala, svona snögg hann er að fara. Bless farðu nú þú skyggir á mig, hann er að fara. Er hann farinn, nei. hvað er ég að hugsa, hann er farinn. 16.04.05 ] [ ] [ Can’t find a way in the sleep. Feeling something running through my body. Waking up from a bad dream Home alone i scream.. Ghosts keep trying breaking in my head With their sad little souls, trying to spread. All my happiness, try making their own. With all the hatred they say im down But all it is ... it is a bad dream, i scream. All around me, with tears in their eyes Sailing through my head, fearing the lies. The bad and the good feels like nothing, Nothing, that won’t come into something. In the morning when i wake up from a dream, a dream so bad i still have to scream My weak soul, paralyzed to the bed Thinking about the things they said. But all it is my sister, screaming instead Ghosts of trouble running trough my brain Keeping it up together Trying to reach it faster than the rain While i try to make it better. ] [ changes effects us all, sleeping in daylight, waking in dark. no normal routine, everything is a mess. ringing to the office, called in sick. not true, just trying to make things click hard to turn around, while stuck to the ground. lieing on the sofa, watching tv, but really, there is nothing to see, constantly more and more tired, need soon strength, so i wont get fired. doorbell ringing, the pizza is here, cant live like this, its very clear, have to call boss in his cell. tell him the truth face him so i wont go to hell. the sun comes up and i sleep tuesdaymoring, when my phone rings. my friend, saving the day she gives me an order, have to obey, finally get up, in the car, thank you for this i say. ] [ i was sick but i didnt have a fever. and i didnt wanna stay at home. cause all my life i have seen them come. two and two together. here were im stuck in this place, with toilet, bed and no space and all i can think about are the things that made be proud. when ever someone comes visit, wich happens once in a year, they have to rely on a glass unit in case if i use my second gear. bad people and good people in this world. the good ones i never see but somewhere they exist were they are ment to be. ] [ adultery a man has to believe what he sees if the trigger is beneeth, no wonder he is so careful, so slow if not, the real bomb might blow. sociality makes the world a better place. man who dont think so, should live in the space. if the bomb goes off its safer in the galaxy, physically, but the space is disgrace in the social place. ] [ Hún situr við eldhúsborðið starir tómum augum út í kyrrláta nóttina drepur í sígarettu í yfirfullum öskubakkanum Tár hrynja niður vanga hennar hún dregur djúpt að sér andan rennir höndum sínum eftir andlitinu andvarpar... slær hendinni á brjóst sér eins og til að fjarlægja sársaukan sem þjarmaði svo þungt að henni Af hverju gat þessi sársauki ekki farið? Af hverju þurfti henni alltaf að líða svona illa? Hvað hafði orðið af öllum hennar áformum og draumum? Hvernig í ósköpunum hafði hún lent hér? föst í vítahring ástarinnar.. Hvernig gat hún látið fara svona með sig aftur og aftur og aftur..... Hún hristir hausinn og fussar \'Ég þarf að hugsa málið\' hafði hann sagt...... hugsa í fjandanum hvað? Hún hlær beiskum hlátri hlær af heimsku sjálfs síns auðvitað vissi hún að hann var ekki að hugsa andskotans neitt.... Furðulegt hvað það var alltaf á föstudögum sem hann þurfti að \'hugsa\' :::: Hann hlýtur að fara að birtast hvað á hverju það passar sunnudagur í dag hversu aumkunarverð gat hún orðið???? Hún vissi jafnvel og hann að hér sæti hún og biði hans eins og vel taminn hundur sem stekkur um háls husbónda síns og fagnar komu hans um leið og hann birtist í dyragættinni. ] [ Þar sem þér leytið munið þér ekkert finna Og það sem þér finnið mun yður ekkert gagnast í lífinu ] [ Þú læddist fram á tánum og spurðir Hvað merkja þessi tár? Ég settist á stól og svaraði Eitt sinn var enginn sjór aðeins sorgmætt fólk ] [ þrátt fyrir klausur og áður útgefið sátu svartir stafir á hvítum pappír og ekkert imponeraði ] [ Eins og þjófur að nóttu braust þú inn í líf mitt fangaðir hug minn gekkst bersekksgang um sálu mína tróðst á hjarta mínu stakst svo af í húmi nætur er ég í fasta svefni var Ég þig kærði til yfirvalda með skóför þín á hjarta mínu ein sönnunargagna Feitur og sveittur lögreglumaður er sat við borð sitt þurkaði svitan af skalla sínum andvarpaði þungfærnislega umlaði út úr sér að mörg mál lík mínu biðu yfirferðar Flegði svo skýrslu minni kæruleysislega í himinháan bunka óupplýstra mála!!!! ] [ svartklædd dís með silfurbelti á fjólubláu skýi stígur dans flauelsmjúk leikmynd himnalengja lýsir með fjarstýrðum stjörnukrans hnyklar Bragi brýr er brýnir raustu rós rafurs roða ljós rúskna sýnir drós svartklædd dís með silfurbelti á fjólubláu skýi stígur dans... ] [ Á vörum mínum brenna orð, orð sem enginn má heyra. Þú mátt ekki vita neitt mitt hjarta þú mátt geyma. Ef þú værir tilbúinn. Ást mín heit þín þrá svo sterk. Hvaða mann þá kynntir mér láttu á það reyna. Ég vona mitt hjarta þolir bið. Ég skal engu gleyma þann dag er þú opnaðir hjarta þitt. Ég bíð eftir þér hér heima. Ég bið og vona, segðu mér satt láttu á það reyna. Höf.Ólöf Ögn mars 2005 ] [ Ást þín býr í mér Ef ég vissi hvað væri inní hjartanu á þér. Hvað væri að sjá? Hvað myndi ég fá? Ást þín er ei ætluð mér. Ást þín getur bjargað mér. Reyndu að skilja, reyndu að sjá. Þín ást er í hjarta mér. Ég vona að þú sjáir það, Hvað ég get gert. Fyrir þig. Án þín mitt hjarta brestur Án þín er ég ekki NEITT. Höfundur:Ólöf Ögn sept.2004 ] [ Þó ég væri Nakin, köld og blóðug Ég myndi þig ekki vilja sjá. Þú breyttir rétt í rangt. Þú hugsar ekki neitt. Hví gerir þú hluti Sem grætir fólk. Þú illi maður, far frá mér Með þig í örmum mínum Þá á ég ekki neitt Með þig í örmum mínum, Er ég nakin, köld og blóðug. Höfundur: Ólöf Ögn sept.2004 ] [ Sérðu hamingjuna? sérðu hvernig hún nötrar kringum þig sérðu að þú geislar? sérðu allt jákvætt? sérðu mig og hugsar... hamingja? ] [ Frjálsan gerir eins og fuglinn álreiðin gyllta þann sem góðan ber sjávarloft um vangann leikur líkt og silkislæða og vorþeyrinn þýði fer hjá eins og vængjarþytur Álfák stýrir styrkum höndum móti sólu særok úðar frelsi andans aftur lifnar kveikir sinni sálu minnar ] [ Ligg andvaka og fer yfir lífið andartaksgleði brýst fram örskotastund er minningin vaknar svefhöfginn góði færist yfir og náðarfaðmur óminnis umvefur mig. Ég vakna seint um óttu í ljósaskiptunum við píp í förunauti ég rís úr rekkju í morgusárið og fer fram í eldhús borða hafragrautinn og rúgbrauðið og þorskalýsið set bílinn í gang í frosti og funa og keyri af stað Fólkið bíður í röð við ljósin rauðu grænleit skiman fellur á fölleit andlitin þegar mislit blikktækin liðast áfram hvert á sinn áfangastað ég kveiki á tölvunni og horfi vonbjörtum augum á skjáinn. Heimkoman er blandin tilhlökkun sem drukknar í hversdagsleikanum það gutlar í marglita regnbogans vökvanum , þegar strýkur hvítleitt tauið hugurinn víða flakkar gleðin er samt svo vinarsnauð -vonarsnauð Hvernig verður heimurinn eftir 40000 þúsund ár verður þá sjónvarp bílar reiðhjól vor? ] [ Einn ég hnípinn sit heima og húki helgin liðlanga líður vonarsnauð æskudraumur sýnist sjónum horfinn tröllum gefinn glötuð hamingjan Rafskynjuð boðin berast flækum víra hjartað feilslag tekur flæðir adrenalínið titrandi fingrum fer um lyklaborðið slæ inn stafi og sendi í ómælið ] [ Svo lítil og smá er leit ég fyrsta sinn augun að sjá skærbláum lit sakleysi heimsins sýndist þá augljóst en verund er hverful og hendingum háð Sá hana bjarta hinsta sinni svo undirfögur földum vöfðum lífsbandið þá brostið, slitið um eilífð alla ei meir að sjá ] [ Sé þig ekki í daga og nætur sef lítið sem ekkert og festi ekki rætur Ég vil fá bætur því sál mín er rifin og tætt Langar að eyða dag og nótt í mjúkum faðmi þínum En ekkert gerist svo skjótt og gæti orðið ljótt ef svo væri Þreyttur frá degi til nætur gef mér samt ekki tíma til að hvíla mínar fætur og allt illa lætur í höndum mínum og hugsun Burt vil ég komast í nótt og kíkja svo aftur þegar allt er orðið hljótt Vill ekki missa okkar ódreymdu nætur ] [ Í dag ertu þrítugur, þrumuguð einn. Þór, minn félagi til lukku með daginn. Um gresjuna gengur þú réttur og beinn Gangi þér allt í haginn. ] [ Lífið er óumbeðinn ratleikur í myrkri án vísbendinga. Hefði ekki mátt vanda aðeins betur til? ] [ Blindaður af eigin bjálka flýt ég fram hjá drukknandi sálum þeim er ég gagnrýndi. Þeim er ekki við bjargað. ] [ Óskiljanleg veröld, veröld sem stjórnað er utan frá Yfir nýútsprungið, geislandi blóm fellur dimmur skuggi, skuggi sem smátt og smátt eykst. Mikil barátta og bjartsýni einkennir þetta blóm en að lokum bugast það. Skugginn nær að hylja það og við hin horfum frosin á. En lyktina af því finnum við enn, heyrum enn smitandi hlátur þess og fegurð þess gleymist aldrei. Þetta tiltekna blóm kvaddi alltof fljótt ] [ einn kaldan vordag situr vel klæddur maður við skrifborð á tíundu hæð í reykvískri glerbyggingu með áhyggjur af minnkandi viðskiptum. fyrir hundrað árum stóð langafi þessa manns í fjárhúshlöðunni og horfði á lítinn heystabbann þegar norðangarrinn hafði staðið vikum saman. sömu áhyggjurnar og vorkuldinn jafn. en daginn eftir snérist hann í suðrið og harðindunum var lokið - að þessu sinni. ] [ Nú er ég kátur því kominn er í mig snabbi. Á könnunni frá þér stendur tengdapabbi!!! Hafðu þakkir Halldóra mín, hún er fín undir brennivín, því er engin furða þótt ég drekki og drabbi. ] [ Ég þekki fallinn engil sem er sko hýr á brá. Því miður get ég ekki sagt nafni hans frá. ] [ Sumarið er að koma ég heyri vel í því. Hitinn fer hækkandi því í sólina sést oftar í. Öll laufin springa út og grasið verður grænt. Fortíðar þjófar skila öllu sem um veturinn höfðu rænt. Ástin lætur til sín taka þó svo það sé dagur eða nótt. Svo fallast pörin í faðma og sofna róglega en fljótt. ] [ Sveipuð hulu daganna birtist þið mér líkt og forðum. Í vöku er ekkert til en í svefni stendur tíminn í stað og ég gef ímyndunaraflinu lausan tauminn. Það skeiðar með mig inn í draumaheiminn. ] [ Brýt í bága við sjálfan mig en elska vorið líkt og börn þín þráðu umkomulausan hvolp sem kveið fyrir breytingum tímans sem ég einn gat stöðvað. Þú reynir að nálgast mig en ég fleygi mér ofan í hyldýpið án þess að kveðja því mér líkaði aldrei við þann er þú þóttist vera. Í kjarnorkubyrgi föður míns eru vistir fyrir daga eyðileggingarinnar sem þú munt skapa. - En ég verð fyrri til. ] [ Trampandi treður hún niður timburmenn sína konan með állungað. Nú kemur hún aftur á frímerki sem ég greip á lofti í roki Hvernig situr blessuð konan? er hún lappalaus allsnakin og snauð hver tilheyrir henni? Brúnu gervilegu augun blikka sitt á hvað, nasirnar opnast og lokast. Hún ruggar í sætinu með angistar hugsunar svip Er hún mannleg? Er hún mynd? Hver er konan sem kemur og fer væntanlega einhver sem einginn sér einhver sem ég ímynda mér ] [ Hún tárast, grætur hástöfum hún steig á stein, þakinn glerbrotum óumberanlegur sársauki, sársauki vesturlenskrar stúlku. Allir hlaupa til og hjálpa. Hún öskrar, nær óráði og trillist hún var umskorin á steini, ... með glerbroti! óumflýjanleg kvalarpína sársauki sem aldrei fer sársauki afrískrar stúlku. Hví gerir enginn neitt í því? ] [ Hellir, dyra og allslaus birtuglæta í agnarrauf stingur og rífur í augntóftina um miðnætur aftan. Fyrirburi allsnakinn færður í ullarreifar Brosti á annan sólarhring í munn hans færðar leifar. Dafnaði framundir vikulok blés frá sér lífinu sjálfur Hallaði aftur augunum, malaði, kúrði og kvein Kvaddi svo með brosinu þennan flókna heim ] [ Erum við að hugsa það sama? Orðin svifu í lausu lofti Þögn jafngildir samþykki. Er þetta þá búið? Hluti af mér hvarf Ég varð tóm. Reyndi að fylla upp í tómið Sama hvað ég reyndi Ekkert það fyllti. Varð aðeins meira og meira Ég sveif í lausu lofti Að lokum lenti harkalega. Brotin þeyttust út um allt Út í buskann flugu Svifu þar í lausu lofti. Milli þeirra flaut ég Teygði út hendurnar Reyndi þeim að ná. Með tímanum þeim náði Raðaði þeim saman Byggði mig upp. Verkinu hef lokið Ekkert svífur í lausu lofti Ég er orðin heil. ] [ Eirðarlaus eigrið um í leit að lífi betra losnið ei við heimsins fár uppskerið aðeins svita og tár kulda heimsins vetra eitt hefur hnoss í heiminn komið er menn traðka með fótum sér kvaldist fyrir ykkur hér en þið vaknið ei og sofið ] [ Með eigin augum sérð en opnar eigi betur borgar fyrir það dýrt verð í eigin mætti ekkert getur þá þú hamingjuna loks finnur halda skalt í hana fast láta ei með vindinum berast sæll þá sigurveiginn vinnur. ] [ Gárar á fletinum golan af hafi glampa við suðrinu föllituð ský Á sundinu værðarleg kollan úr kafi kemur með æti og dýfir á ný. Frá húsinu stóra berst hljómur og ylur hlusta á tónana runnar og tré Lyngið og grösin og laufið sem hylur lautina hennar hvar alltaf er hlé. Af hljómunum kenna má stúlkunnar strauma strýkur hún nóturnar þögul og hljóð Í huganum tregar sárt hamingjudrauma frá hjartanu streymir það tónanna flóð Haustið er komið, húmið og svalinn Hlynurinn fellir nú klæðin sín rjóð Fráan ber norðan á vængjunum Valinn vindurinn hvíslar sín fegurstu ljóð ] [ Eitt sinn var drengur sem langaði að prófa rússíbana. og svo þegar hann prófaði, losnuðu taumarnir sem urðu honum að bana. ] [ Ég trúi því að allir fæðast sem englar inn í lífið. Sumir veikjast og falla, en sumir ekki. Sumir fæðast aftur og aftur, en sumir ekki. Sumir fljúga, en sumir ekki. Þeir eru verndarenglar. ] [ Við grafreit drúpir sóley höfði sínu er sólargeislar baða. Rósir anga, og litrík blóm sem liljur augað fanga og lykja garðinn geislar sólar. Mínu auga bý stað í fögru fangi þínu, þú fagri dagur. Blærinn strýkur vanga þeirra er hér um kirkjugarðinn ganga, uns gráleitt myrkrið dregur svarta línu um daginn. Sólin sínum geislastöfum á sumarkvöldi fer um ský og dregur þá yfir tjörn er sindrar silfurtær. Á leiðum sprettur lífið upp af gröfum látinna manna. Hvað er lífsins vegur annað en tákn sem enginn skilið fær ? ] [ Ljóðin hljóma, yndæl ótt, ástin ljómar bjarta Fljóðin blóma, reika rótt rósir sóma skarta ] [ Sefur væran Borgin, bær blikar særinn rjóður Vefur blærinn Krókinn kær kveður snærinn gróður ] [ Braginn móta, fráleitt frem fúlar rótar sögur Laginn, fljótur, sjaldan sem, segi ljótar bögur. ] [ Roða skrýðist norðrið, nótt nálgast prýði sólar. Troða víðan ægi ótt Unnar fríðu kjólar. ] [ Vetur Fella prýði blómin blíð björkin fríða grætur Hrella víða stormar, stríð stinnings hríðar nætur ] [ Morgunsólar miklu bogar mót hans fangi líða hljótt Á kvöldin Stólsins kyngi logar hann kyssir Drangey, góða nótt ] [ Máninn er fullur, í mystrinu læðist magnaðri skímu inn um gluggana slær Þá við hið óþekkta hugurinn hræðist er heiðina þekur hinn fölgræni blær Þá er ei boðlegt að vera á vappi varasamt mun, þegar tunglfyllir er. Í byggð heim að komast, hrósa má happi hver halur sem gangandi um heiðina fer. Á ískalda hjarnið nú styrnir í styllu stjörnurnar gægjast bak þokunnar skaut. Farmaður heimþráður veigrar í villu vegalaus þekkir ei heiðinnar braut. ] [ Útifyrir á enginu við hraunið börn að leik frjór barns hugurinn glaðlega sveimir börnin um kring fjörugt ímyndunaraflið frelsi sínu fagnar brosandi með börnunum bregður á leik hrífur þau með sér á vit hugans flæði upphefur barns andan æskuna töfrum glæðir fremst í flokki leiðir börnin inn í spennandi ævintýra heim. ----- Innifyrir í herberginu við tölvuna börn að leik slævur barns hugurinn dapurlega sveimir sjálfan sig um kring þungbrýnt ímyndunaraflið frelsi sínu svipt sorgbitið með börnunum bregður ei lengur á leik bugað af tæknivæðingu nauðugu vikið á bug barns hugurinn forritaður ímyndunaraflsins ei lengur þörf fremst nýskipuð í flokki fjarstýrir börnunum inn í mataðan tækni heim. ] [ það er logndrífa á koddanum mínum ] [ Vorið mitt ljúfa víst hef ég beðið að værir þú komið til mín. Vektir upp blómin og vonlandið freðið vorsólin okkar þar skín. Veit ég það núna að vetrinum lýkur varla er á himninum ský. Vorgolan blíðlega vallendið strýkur víst mun það koma á ný. Vorið er hérna, vel það nú finn vetur er horfinn á braut. Golan svo ljúflega gælir við kinn glitrar vort jarðarskraut. ] [ júlí 2004 Strjúktu hlýjum höndum þínum yfir frostna bringu, Bræddu hjartað mitt svo það gufi upp Þá þarf ég aldrei aftur að elska þá verð ég aldrei aftur særð - því frekar vil ég vera tilfiningalaus 28 des 2004 Hlýja handanna þinna réði ekki við frosið hjartað það var skilið eftir það stendur eitt og yfirgefið enn bíður það þess að hætta að finna enn býður það þess að finnast á ný - dimmar villigötur og of stórir skór ] [ úr munninnum orðstreymi óáhugaverðra setninga andlausra niður og niðurgangur orðasamhengja japlar á meinloku öllum stundum tyggur orðin tafsar æi geturðu ekki haldið bara haldið kjafti? ] [ þetta byrjar svona ávextir grænmeti skyr morgunkorn mjólk kæfa brauð víkingalottó kattarsandur
*
en hvar er kassadaman get ég tekið hana aftanfrá - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - þú finnur enga innkaupakerru í eyðimörkinni stúlkan birtist þér með bananabrjóstin einsog afródíta til forna hún leggst auðkeypt fyrir framan þig með rós           á milli tannanna - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - ferðin endar svona þú lendir og stígur inní hvíta herbergið og þú sérð að öll húsgögnin eru hvít og morgunbirtan flæðir inn einsog galvanhúðað rekald í miðju herberginu er rúm sem einhver hefur sofið í þú lítur í kringum þig en finnur enga morgungyðju aðeins löguleg brjóstin í bónusbolnum og gullhjarta ] [ Ljóminn fellur brunni hjá, borgin mikla hvílir sál, viskan bruninn börnum frá, litlu andar þeysast hjá. ] [ Þú liggur við hliðina á mér glaður – heldur að allt sé gott á meðan engist ég og vildi að þú sæir hvað þú getur verið erfiður. ] [ Það var skrýtið ég var að rölta heim og mætti þessum risa krókódíl á götunni hann var alveg ein akrein á breidd hann brosti ég brosti sem betur fer var engin umferð ] [ Eitt sinn var stelpa sem starði sjónvarpið á, starði með augun þungu. Starði svo mikið að loksins þá, sjónvarpið og augun sprungu. ] [ Blóðidrifið sólarlagið banaði deginum. ] [ Fortíð mín er skuggum skreytt skjótt ég burt vil fara. Oft ég megna ekki neitt, á mér liggur mara. Á því ég er orðin þreytt Þetta stríð að þreyja. Ég get engu lengur breytt ég vil fá að deyja. ] [ Ef ég gæti sagt þér það, hvað mig væri að dreyma. Þú myndir nú eflaust hlæja að mér, því vil ég frekar gleyma. Ást mín á hið ómögulega Ást mín svo vön því nú Ég mun þig aldrei eiga Ég ligg og læt mig dreyma Þó svo væri ég gæti þig átt Ég gæti ei þegið þá sátt Ég á svo mikið bágt Ég er vön að þrá úr fjarlægð, líkt og tungl þráir sól. Ég gæti aldrei játast þér, þú ert aðeins til að dreyma um. Ég var vön að óska eftir þér, var vön að biðja um ást þína, játningu og tár. Nú hugsa ég til baka, Nú veit ég hvað ég get, Ást þín er ekki alvöru, Ást mín er til að þjást. En ég læt mig dreyma, líkt og ég gerði í gær. Án þessara drauma, mín sál, myndi visna, deyja og þjást. ] [ Er ég hugsa til þín, hvað get ég gert. Ég þrái þig svo mikið, þrái en fæ ekki neitt. Ég hugsa oft á kvöldin, hvað er þú að gera. Situr þú heima, með stelpu í þínum örmum. Ég sá þig í gær, með horaðri ljósku. Þú horfðir á mig, Leyst undan um leið. Ég les það í blaði, bílslys á brautinni. Ungur maður lést, með horaðri ljósku. Ég spyr mig oft, hvað get ég gert. Nú ertu farinn, ég er alein. ] [ Amasing things are happening. I see everything twitching around What is happening? I didn\'t do this... The eyes of the wich are watching, and waiting, they are waiting for the right moment. You will never leave when your alife. You can\'t your stuck, You\'re stuck in the time of magic... These things didn\'t happen this isn\'t right Why are you doing this? Help me. leave me alone I didn\'t do anything please... You will be punished for what you have done to us nothing can help you. You will die soon you will be betraied like you betraied us... I didn\'t betraied you. I don\'t know you why are you doing this? I didn\'t kill you I didn\'t even touch you I don\'t know nothing... The end is near you have nowhere to go you\'re stuck you can\'t leave now you\'re dead... What are you talking about? I\'m not dead I\'m still alive I didn\'t do anything I\'m not dead I\'m alife... You\'re woice and our\'s have connected. You are one of us. You\'re not afraid anymore. We belong to you, like you belong to us. How can we help... You can\'t help me, I\'m one of you, I\'m not afraid. My time has ended, take me in your armes... We take you as you like, You\'re safe right now, You\'re one of us now. You\'re one of the demonds, one of the demonds in the spirit-tree. You... are... one... of.... us.... ] [ Er ég leitaði að þér, fann ég þig ekki. Ég rakst á marga sem líktust þér, en fann einungis tómleika. Á endanum gafst ég upp, Ég gat ekki fundið þig. Ég vildi vera ein, hætti að fara út, hitti aldrei fólk. Ég var ein. Þegar ég var loks búin að gefast upp, gefast upp á lífinu og sjálfri mér, þá hitti ég þig. Ég sem var búin að leita, leita svo lengi. Loksins fann ég þig. Þú steigst inn í líf mitt og inn í hjarta mitt. Án þín væri ég ekki hér. Og ég þakka guði, fyrir það á hverjum degi, fyrir þann dag sem ég hitti þig. ] [ I thought I was sad. I thought I was blue. That the night would never end. I went for a walk, I saw everybody were happy. I took the train, everyone were quiet. I thought I was alone, alone, sad and blue. But then I saw two children. Almost no clothes, and no hope for them. I realised, I was not alone, I was nothing. ] [ Stupid. Is that the word? Is this the right word for love. Love is stupid. Love is so much. Why do we fall in love, when we only get hurt. It\'s not a usual pain. It\'s like your mind, your soal and heart are being stabbed. Stabbed with thousund knives Cutting your mind You go insane. You don\'t think right. You\'re in love. 12 dosens of roses a shiny golden ring. Maybe couple of children, is this all a fake? Stupid? That\'s the word for love, that feeling you don\'t know, but everybody want. What can we do, without falling in love? Nothing, nothing at all. Just sit down and think. Is it worth it. Stupid that\'s the word that\'s love. ] [ Hafið táknar líf og dauða. Lífið í hafinu. Hefuru tekið eftir hvernig hafið lætur í vindi. Fiskar og annað líf þrífast þar. Hafið er ólgandi, dregur mann til sín. Hvernig ætli það sé, að lifa í sjónum. Að lifa í þessu ólgandi vatni sem er alltaf fullt af lífi. Hafið dregur mig til sín. Hvernig ætli það sé að lifa í hafinu. Verð að komast að því, læt mig falla í hafið. Fyrst kemur mikil hræðsla, svo kemur friðurinn. Hafið er svo friðsælt. Hér líður mér vel, hér á hafsbotni. ] [ Hvað er hamingja? Hvað felst í orðinu hamingja? Geta allir fundið fyrir henni? Þarf að leita að henni? Er það að hafað náð öllum takmörkum? Eða, er það að hafað fundið þann eina rétta? Eða, er það að eiga fjölskyldu? Heimili, öryggi eða peninga? Er hægt að kaupa hamingju? Ást..... Ást er hamingja, sönn ást með góðum einstaklingi. Fjölskylda, ást, börn og öryggi, að vera elska ótakmarkað og að vera elskaður.... Það er hamingja. ] [ Ég hef spurt að því hvernig blandan af ást og vináttu er. Nú hef ég loksins fundið svarið. Ástin er sterkt orð jafnsterkt og tilfinningin Vinátta getur enst að eylífu en minningin varir að eylífu. Blandan er dísæt og súr hvorutveggja í einu. Að elska óendurgoldið að kjósa vinnáttuna frekar til þess að vera til halds og traust. Þessi blanda er súr og einnig er hún dísæt því ég get notið þeirra stunda sem við erum saman. Dísæt og súr Það er ást og vinátta. ] [ Hafiði tekið eftir því að sumt fólk virðist alltaf vera óhamingjusamt, sama hvað maður reynir að hjálpa? Hafiði tekið eftir því að sumt fólk virðist alltaf vera hamingjusamt, sama hvað kemur fyrir... og maður hefur engar áhyggjur af þeim því þau eru alltaf hamingjusöm, við einbeitum okkur frekar að þeim óhamingjusömu, því þau virðast þurfa alla okkar hjálp. Svo einn dag þá fréttum við að sá hamingjusami sé dáinn... að hann hafi framið sjálfsmorð... Og við skiljum ekki afhverju. Þetta er kallað grímur, svo margir setja upp hamingjugrímur þegar þeim líður illa svo fólk komist ekki að því hve illa þeim líður og enginn veit af því. Þessar grímur hafa kostað marga lífið, því þau halda að öllum sé sama, að allir loki á sig, enginn kæri sig um þá, en það er ekki satt þau eru elskuð af svo mörgum af fólki sem þorir ekki að segja hversu mikið þau eru elskuð. Því setja þau upp grímu til að forðast hvað? Sársauka? Veit ekki Það eina sem ég veit er það að ef ég sé einhvern sem er með þessa grímu þessa hamingjugrímu Þá mun ég reyna allt allt til þess að losna við grímuna svo þau geti tekist á við vandamál sýn í stað þess að flýja og deyja.... ] [ ég reyni að galvanisera ryðgað hjartað ég bæti í boltum og skrúfum smyr allt draslið en þetta er ekki klukkuverk frá Sviss heldur íslenskt handverk gangur þess er ekki eins og íslenska hestsins það urgar í ónýtum festingum og ryðguðum nöglum sem vor slegnir í rétt til að lappa uppá draslið samt slær eitthvað undursamlegt í því klunnalegt glamur þá líður mér eins og manninum sem fann upp hjólið ] [ hylur í læk og gárar af steini sóley á bakka brosir mót sól grasið græna bylgjast í vindi eins og laxinn í straumnum á móti ég syndi skríð uppá bakka þurrkar mig sól ský á himni þjóta í skyndi ligg ég um stund og á fuglana heyri anda að mér lofti ligg kyrr ekki eyri lygnir í lofti sól verður rjóð geng ég upp brekku með hjarta í von á móti mér hleypur minn ástkæri son við setjumst í laut horfum um stund sólin hún sest á sjónarrönd í fangi mér liggur lítil sál í hjarta hans slær allt alheimsmál í fangi mér sofandi spegilmynd ] [ I\'m all by myself and I miss you alot. Why did you go? Why did the sea take you away from me. I know I\'ll survife I\'ll stay alife I\'ll stand on my own but I will always miss you. When I think about the sea, my eyes get full of tears why did you do it? why did you go? When I look in a mirror I think ,,I should go after him\", but I can\'t do that cause I know I gotta live. I gotta finish my business and when that is finished cause I love you. Though the death will do us apart we\'ll always love eachother so we\'ll meet again. Soon in the ocean, soon in the death, soon in heaven. ] [ Hvað er ást? Ég hélt að ég kæmist aldrei að því. En svo komst þú, þú steigst inn í líf mitt og inn í hjarta mitt. Hafði aldrei grátið, aldrei grátið út af karlmanni. En svo kommst þú inn í líf mitt. Þú gast komið mér til að gráta. Út af ekki neinu. Þú hefur sært mig, án þess að vita það. Þú steigst inn í líf mitt, inn í hjarta mitt. Þú særðir mig svo mikið. Mig verkjar í hjartað. En nú loksins veit ég, ég veit hvað ástin er. Þökk sé þér, þá loksins veit ég. Ég veit hvað ástin er. ] [ EF ÉG GÆTI LÁTIÐ ÞIG SYNGJA MYNDIR ÞÚ SYNGJA SVO FAGURT AÐ ALLIR SEM Á ÞIG HLÝDDU MYNDU TÁRAST AF GLEÐI EF ÉG GÆTI LÁTIÐ ÞIG SYNGJA MYNDI STJARNAN ÞÍN SKÍNA SVO SKÆRT AÐ ALLIR SEM Á ÞIG HORFA MYNDU FALLA Í ÖNGVEITI AF HRIFNINGU EF ÉG GÆTI LÁTIÐ ÞIG SYNGJA ÞÁ VÆRI ÉG GUÐ EN HVAR ER GUÐ OG HVAÐ GETUR HANN GERT EKKERT ] [ Ef að ást er vitfyrring hvað er þá ást ? Ást er fiðringurinn innra með þér sem kviknar við fegurðina, og vex eins og blómin. Blómin eru það sem kryddar tilveruna í kuldanum. Þannig að maðurinn kryddar sitt eigið líf ! ] [ Lífið er ganga hvers lifandi manns, sem að á jörðinni er staddur. Sumir byrja snemma, sumir ekki. Sumir eru latir, sumir ekki. Hver og einn fer sinn vanagang, eftir sínu höfði. Sumir hlaupa en aðrir ganga. Ég sest oft niður og fylgist með. ] [ í garði mínum reyti ég arfa og slít upp hin fegurstu blóm ] [ í dag vil ég drekka mig fulla og dofna í kollinum og bulla nota allan minn mátt í að æpa það hátt að það er íslensk hefð að sulla ] [ every morning you open your eyes stare at the ceiling look for the light slowly roll over step out of the bed your feet on the floor freezing concrete stumble to the kitchen grab with cold hands the first cup of coffee your miracle for today sit down by the window silently drink think of nothing today think of nothing today get dressed by a ritual get dressed in a heartbeat nudity isn\'t accepted and nudity is cold pick up random clothes from the bedroom floor wear layers of them wear layers of them and hide behind them hide behind them ... every morning get out of the house where the sunshine is sullen and summer is dull eye-contacts aren\'t allowed so you stare at your toes think invisible think untouchable every morning it\'s all the same you wake up again and there\'s still a brick in your head --- it\'s not a poem it\'s not a rhyme it\'s just another way of killing time ] [ Hjartað brostið Hlutar útum allt Halltu mér, mér er kallt Láttu mig vera Því nú hef ég lært Til hvers að elska? Tilhvers að treysta? Tilhvers að gráta? Nei ég græt ekki Ég sýni aldrei sársauka Held mínu striki... Ég þarf ekki á neinum að halda Nema sjálfum mér ég er sko ekki einmanna Ónei ég er hamingjusöm Ég hlæ útí heimin. Ég hef gaman En innst inni er ég dáinn............ ] [ Hann getur ekki leitt þig, - hann hefur reynt; Hann getur ekki fylgt þér, - hans skoðarnir eru aðrar; Hann fer úr leið þinni, - og hann veifar ekki. ] [ súrt í broti er sítrónu bátur sökkvandi í gin og tónik þú einn að drekka skál fyrir sjálfum þér þú þarft þess með ] [ Lögin ljúf hann leikur á hörpu sína eins og syni slátrara sæmir En enginn tekur eftir honum þegar hann leikur af inlifun og einlægni Fagrir tónar skella á hamri mínum og steðjum Uppi á fjalli dregur hann sig inn í húmið og spilar svo undurblítt Fyrir rollurnar, fyrir kindurnar, Gabríel fjallaskáld og eilífðina Í helliskúta ligg ég með vot augu og gef frá mér lítinn grát Því ég er bara fjósakona Fátæk aum, sem að bíð og vona Að sonur slátrarans verði minn Uns eilífðin gellur upp lokaflautið á okkar veraldlegu jarðvist ] [ Maður nokkur sest á stein hann hygst selja ljóð gæti betur hvílt sín bein og safnað í digran sjóð ] [ Demantur Drottins Ég sit flötum beinum á gólfinu hér heima Líkami minn er skjálfandi og veikburða Sál mín óttaslegin og órólega Ég veit ekki hvert líf mitt stefnir Hvert þú ert að leiða það, Drottinn minn Að lokum leggst ég á hnén í bæn til þín Ég gef þér ótta minn við að standa ein Ég sé hann sem stórt æxli í lífi mínu Ég tek æxlið, legg það við krossinn þinn Bið þig að fylla gatið þar sem það var Ég sé blóð þitt renna eftir bakinu mínu Eins og skjöldur umvefur það mig sterkt ! Öryggis tilfinning umlykur anda minn Ég sé þig koma með demant Og setja í gatið þar sem æxlið var Ég spyr þig hvað þessi demantur tákni Þú segir að hann sé kærleikur og friður Þá finn ég frið fylla anda minn og líf Fullvissan um að allt fari vel, Þegar ég stend upp, veit ég að þú sérð um mig Ég er í þinni hendi sama hvernig fer Á ég alltaf ÞIG til að halla mér að. Elfa 2004 ] [ Ung móðir horfir á fallegan son sinn Hann situr,les bók, svo glaðlegur Lýsir mörg sinnum því sem hann sér Í gær fannst móðirin þetta eðlilegt En ekki í dag Nei, Í dag heitir þetta fötlun Sonur hennar er einstakur Einhverfur hvað er það ? Hvernig á móðir að takast á við þetta Henni fallast algjörlega hendur Sest niður og tár renna niður vangana Hún veit að framundan er vinna Mikil vinna og erfiðleikar Hún er svo hrædd, ein Óttast að hann verði aldrei eðlilegur Eðlilegur, hvað er það nú eiginlega ?? Hún veit það ekki, þekkir það ekki sjálf Óttinn nístir hjarta hennar og huga Einnig ást til sonar síns Sem situr glaður á gólfinu. Hefur ekki hugmynd hvað hefur gerst Að hann hafði fengið á sig stimpil Hann er fatlaður – öðruvísi. Í huga sér tekur móðirin ákvörðun Hún ætlar að elska þetta barn Og einstöku fötlunina líka. Hún tekur son sinn blíðlega í fangið Niður á koll hans renna hljóðlát tár Úr andliti móðurinnar skín ást Hún er vanmáttug og þreytt En hún ætlar að áfram að lifa Læra að lifa með fötluninni Þeim erfiðleikum sem henni fylgja Þetta barn var gjöfin sem henni var gefið Gjöfin hennar lífið hennar Konan byrjar að biðja til Drottins Í auðmjúkri bæn gefur hún Guði allt Son sinn og líf sitt allt Þá finnur hún frið í hjarta sér Vissu um að Jesús muni ganga á undan Leiða þau áfram í gegnum lífið Þau eru örugg í hans örmum. Elfa - 2003 ] [ Ég sit á hnjánum - í stofunni Örvænting og vanlíðan í sál minni Þú stendur fyrir aftan mig – faðir En ég sé þig ekki, veit ekki af þér Finn bara örvæntingu og uppgjöf Þú horfir á mig með kærleika og ást ég sit með fangið fullt af glerbrotum Brotin eru líf mitt – mistök mín og sár Ég veit ekki hvað ég á að gera við þau Í stað þess að biðja þig að hjálpa mér Fer ég að reyna að líma brotin saman Tek eitt af öðru og lími þau saman Ég fyllist skelfingu – þau festast ekki Molna í höndum mér, eitt af öðru Ég brest í óstjórnlegan grát Hvað á ég að gera núna – faðir ?? Ég sit með sandhrúgu í fanginu–líf mitt Þá sé ég þig Jesús við hlið mér Grátandi sópa ég sandinum mínum saman Þú tekur sandinn þá breytist hann í púsl Fullt af kubbum og byrjar að púsla Lífi mínu saman aftur,vonin vaknar í mér Ég tek upp öll púslin, eitt af öðru reyni að finna stað fyrir þau En ég get ekki púslað, bara þú faðir Þú segir, ég skal sjá um þetta dóttir Með kærleika og þolinmæði í rödd þinn Smá saman fæðist falleg mynd úr púslinu Hún er ólík gamla glerinu mínu Svo falleg, stöðug og örugg Ég veit það er þér að þakka, faðir Ég leyfði þér að púsla líf mitt saman Búa til fallega framtíð fyrir mig Ég veit að ef ég fer að púsla sjálf brotnar það í sundur og molnar Takk faðir fyrir þessa kennslustund Ég þarf bara að treysta þér, Jesús Leyfa þér að vinna verkið fyrir mig Það eru forréttindi að vera barnið þitt Núna og um alla eilífð. Elfa - 2005 ] [ Tárin streyma, sár mín blæða Stoltið brotið, sorg í hjarta Bænin af vörunum - flæðir Vonin lýsir sálina bjarta Himna faðir lina mína þraut Lausn þú hefur fyrir alla menn Líkna mér og lýstu mína braut Takk að lausn þína kemur senn. Elfa – febrúar 2005 ] [ Ég leytaði að ljósi ég leytaði að von ég leytaði að hugrekki ég leytaði að öruggi En loksins er ég fann það fann ég ekki frið lífið hafði tekið allan minn grið Seinna mun ég vakna við vor og sólarljós og sólstafina telja á fjallinu helga. ] [ Mig langar að rífa allt og brjóta Læra á byssu og þig skjóta Svo einskis þú fáir að njóta -En það yrði mér ekki til bóta... ] [ Austan undir fjöllum stendur hamraveggur hár Þar álfar búa höllum þar geislar loginn blár ] [ Við píanóið ég oftast sest Spila, syng og nótur fæ fest Allt annað kringum mig mætir rest Því í tónlistinni ég uni mér best Að komast frá stressinu í sjúkum heimi Í draumaveröld vera á sveimi Losa um vanlíðan, þreytu og kvíða Gegnum hljóma og tóna þýða Tónlistin mig aldrei svíkur Hún fylgir mér þar til að yfir lýkur Lög mín og ljóð að eilífu lifa Því tónlist er eilíf og allt sem ég skrifa ] [ Ég sit við leiðið þitt með táruga kinn og fæ ekki skilið hví kölluð varst burt. Þú varst bara sjö ára yndisleg rós sem horfðir á lífið með bros út á kinn Augun þín bláu þau lýsa mér leið gegnum þoku og mistur gegn harmi og þrengd Litli bróðir skilur ei hvar didda hans er hann leytar en ei skilur að horfinn þú ert Pabbi þinn saknar þín og syrgir hvern dag rósina sina fögru sinn frumburð sitt stolt Mundu mig alltaf engillinn minn Mamma þig geymir í hjartastað Við hittumst aftur við bláa voga og hvítar strendur guð blessi og geymi í nýjum heimi þín elskandi mamma ] [ Sæll vertu Sigfús Örn sonurinn minn væri!!! Ég samgleðst þér á afmælinu vinurinn kæri og telst mér að þú sért orðinn tuttugu og sjö. Í Háskólanum lærir þú og hefur frið við alla. Hamast og skrifar marga pistla ígulsnjalla!! Þú vilt vera númer eitt en hvergi númer tvö og nýtur þess að láta suma hafa það í bö.... ] [ Hide in my shell Wept my lonely tears. In this life of hell No one can understand my fears. Can\'t come out. Your name I shout. But you don’t come to me. So from this life I try to flee. Awaken from the dead, you linger above me. Sad tears you have shed, for you are, the one who loves me. ] [ Ég sit hér oft og hugsa um bæinn ólafsfjörð og háu fjallaklettana sem sjórinn klífur á Í norðri skín björt sólin sem lýsir upp þetta kvöld þá finnum við hvað við elskum okkar kæra ólafsfjörð Fuglasöngur heyrist er draumar verða til í hugum okkar allra leynist hér álfabyggð Ólafsfjarðarvatnið svo fallegt kyrrt og tært upp í fjalli fjarðarins sefur lambið vært Á syðri á bjó einn bóndi sem við minnumst öll bóndi sem orti kvæði um hinn fagra ólafsfjörð Hann ávallt söng með gleði með bræðrum á syðri á og fyllti hjörtu manna þetta ólafsfjarðarskáld ] [ Sko, hérna, þú veist, sem sagt, að hérna, þetta, einmitt, skylurðu, sérstaklega, þannig, sko. ] [ Hvernig þykist ein nútímasál ætla að gera fyrir því ráð að henni muni takast að skrifa eitthvað merkilegra eitthvað sæmilegra eitthvað betur samsett ritverk en snillingar fortíðarinnar? Er öll von úti fyrir okkur þau sem þykjumst geta hruflað á pappír nútímans einhver orðatiltæki með rími eða án jafnvel án hrinjanda ekki með stuðlum ekki höfuðstöfum? Getum við kallað þannig ljóð - ljóð hvert er okkar framlag samanborið við það sem fyrir er? Er einhverju við að bæta? Kannski er heppnin okkur í hag því hefðbundin, margtroðin slóð er ekki í \"móðins\" í dag gerist ég því kræf og kalla þetta hér að ofan ekki hefðbundið ljóð - ekki nútímaljóð... heldur bara fráviksljóð. ] [ Er sólin vekur upp nýjan dag flýgur fuglinn í fjörðinn hann svífur meðal klettana og gargar stoltur til bæjar Vindurinn þeytist um bæinn hratt og öskrar í eyrað mitt hátt heitir sólargeislarnir skína með allan sinn mátt í fjörunni sit ég og fylgist með skipum sem sigla til hafnar Mávarnir hlæja meðan brimið berst á grjótgörðum þessarar bæjar Landið á sér ótal leyndarmál dögun rís af krafti,lífi og sál. já, morguninn vekur mína sál. Regnið fellur með deginum og slær mig andlitið í það rennur niður göturnar er fjara verður að flóði Stutt er að dögun rís á ný og máninn kallar til sólar þá svífur hann meðal klettana og gargar stoltur til bæjar. ] [ Undarleg örvænting beit mig um leið og ég leit aftast í kæliskápinn sem frekjulega endurspeglaði andlit mitt sem svo greinilega bar líti lífs míns Með heiminn á herðunum nagaði ég mig í handarbakið yfir skelfingu minni á mínu eigin lífsmynstri Tilfinning eins og mig vantaði allt sem ég vissi ekki né skildi en skildi hvorki né vissi hvað mig vantaði Ég leit aftur aftast í kæliskápinn mér hafði missést þetta var ekki andlit mitt ... þetta var glaðleg ostabaka ] [ ég hef tilfinningum mínum, til hennar lengi verið trúr þær eru svo sterkar, sterkar eins og múr svík þær jafnvel ei, þegar fæ mér lúr en með öllu þessu, sjálfur verð súr þótt ég endalaust eftir henni vil bíða aldrei mun fá að snerta andlit hennar fríða samt held ég áfram, eftir ást og umhyggju leita í huganum aðstæðurnar stöðugt er að skreyta en ást mína hægt er að þreyta huga hennar til hans, aldrei mun breyta honum alla hennar nálægð, ávallt mun veita rjóða vanga mína með því mikið munu bleyta hvernig get ég komist til móts við þetta, hvað get ég gert ætti ég kannski að taka, inn eitthvað stert finnst ég svo veikburða, tómur, holdið bert allt því hún hefur svo djúpt mig að innan snert nóv, 2001 ] [ what was it with this guy, that i was feeling maybe my moment with her, that he was steeling what do i care, to her he must be more appealing my thoughts to her, I cannot now be revealing might be better to have them, kept on concealing enlightening her this condition might scare her away frightening her and ruining my audition, i want her to stay righter would be, to introduce her better to me brighter my chances, mine she would be 14.okt, 2001 ] [ hann byggir mig upp og brýtur mig niður bara ef milli okkar ríkti stöðugur friður reiður hann er og fullur tortryggnum huga tilfinningar sem á endanum hann niður munu buga hvað get ég gert hverju get ég breytt tekur svo á, ég er svo þreytt þessar aðstæður mig út í ógöngur geta leytt er það honum fylling að aðra geta meytt er vandamálið ég, er hann svona út af mér lagast allt til muna, ef loka á eftir mér og fer engin svör ég hef við því, veit bara hvar ég stend hvern dag ávallt reyni, passa að ei ég illa brotlend 14.nóv, 2001 ] [ in the fields of love, your heart will stay forever depart from each other, they can by god never you were made for him, and he was made for you always to each other, shall thy be true forgive past arguments, leave them behind embrace the future, and constant love you will find still remember that, both intent to be right that can easily, start up a fight so surround positive energy, around your souls then together you can, accomplice your goals but don’t forget your friend, that easily breaks the one who’s feelings, he never fakes never his spirit, you would do any bad nor his emotions, bring down sad then for eternity, he shall stay your friend give you friendship, even death cannot end 14.nóvember, 2001 ] [ Ég sé að bærist barmur þinn, blíðlega strýk ég vangann. Nú ég sælu strauma finn og sætan blóma angan. ] [ Like a rose without red Like a statement unsaid Like a page filled with words but I’m empty instead Like a cold wintertime never followed by spring Like a few words on paper could mean anything Like a sun without beams I\'m asleep without dreams Like the water were missing in rivers and streams Like the thousands of lies that used to be true Like an incomplete soul I am without you ] [ Hvað er fólk? Er það strengjabrúður Guðs sem hann stjórnar eins og hann vill? Eða eru það leikarar í leikriti og jörðin eitt stórt leiksvið? Endalaust leikrit Alltaf sama leikritið En allt í einu springur leiksviðið... hvað er þá eftir? Ekkert.. nema fáeinar leifar af sviðinu, leiksviðinu sem ekkert leikrit, ekkert leikrit verður leikið framar á. ] [ Lífið er ljósið sem kvikknar og slökknar kikknar og klökknar líður og býður eftir brosandi hjarta og nýuppgerðri sál Líf, þú ert ekkert mál! ] [ Ég fyrir mér velti þessari trú á \"guð\" Við syndgum flesta daga ...ljúgum og stelum Girnumst konu Braga án hrings liggja tvö í felum Lítum hornauga á róna ...en ofnotum sjálf vín heiðrum æðri dóna en þekkjum ekki ...þá sem minna meiga sín Höldum uppá \"heilög jól\" og páska í nafni sonarins -briðjum súkkulaði -syngjum Heims um ból en munum ekki tilganginn! Svo þegar heimurinn hrynur og þeir ungu falla frá þá allt á þeim \"heilaga\" dynur Honum um allt kenna má og á Honum blótað - Hver þremillinn sá! Hvernig gat´ann, mig skilið eftir eina - en tekið þá? Víð trúum þegar þörf er á en ekki því við trúum því \"heilaga\" ekki kenna um má nema við lífsháttunum snúum. ] [ Ég horfi á tímann fljúga áfram, reyni að gera allt í einu, enda með því að gera ekki neitt Ég horfi á skýin svífa yfir. Þau taka á sig ýmsar myndir, en leysast upp að lokum Ég horfi út um gluggann og sé tunglið, fljóta innan um skýin. Þessi stóri hnöttur, sem alltaf hefur bara... verið þarna. Ég horfi á andlit mitt í speglinum, ímynda mér hvernig það verður seinna. Verður það litlaust andlit gamallar konu, sem aldrei hefur fundið sanna ást? Eða verður það andlit konu, sem hefur fengið allt sem hún vildi út úr lífinu? Ég horfi inn í kristalskúlu. Þar sé ég allt mitt líf. allir hlutirnir sem ég gerði eru einskis nýtir. Ég horfi inn í stundarglasið, hvert andartak talið í sandkornum, sem aldrei hætta að hreyfast. ] [ Ef ég væri stætó þá vildi ég að þú værir auglýsingin ] [ Hornsteinar tilvistinnar þar sem mennirnir lifa, samfélagið – heldur áfram í sínum tímahring, þótt tilveran stoppi í einstöku hjarta, á einhverjum tímapunkti í lífi hverrar mannveru. ] [ Hugsanir ég æli þeim í poka loka fyrir og hendi út í sjó. Neikvæðar hugsanir – þungbærar sökkva á botninn, þær góðu reka í fjöruna og leita mín. ] [ Minningar eru á misjafnan hátt, sem megum í hjartanu geyma. Í einhverjum þinna átti ég þátt, sem erfitt þér reynist að gleyma. Nú æskunnar dökku atburði lít, sem ábygur faðir barna. Einelti hvers konar úthrópa hlýt. og afsaka veginn farna. ] [ Bara ef það væri líka keppt í hjarta fegurð Þá myndir þú vinna fallegustu hjartalokurnar, titilinn ] [ Ég laumast út í nóttina til að finna þig Leita þín í angist, sárþjáist af löngun eftir að komast nær þér Brenn við að reyna að skilja afhverju þú ert svona fjarlægur Legg líf mitt að veði til að fá agnarögn af þér inn í hugsanir mínar, bara örlitla stund.. TILGANGUR - hvar ertu? ] [ Segulstál sem tvennt festist við Eða laðast það saman? Kannski um að ræða hefð sem virðist á endanum verða að gömlum vana --Hann og hún-- ] [ Það var eins og eitthvað troðfyllti mig af gleði kreysti allar æðar mínar þrýsti brosi fram á varirnar kítlaði innstu taugarnar lýsti af óþrunginni hamingju myrkranna á milli ... þú brostir á ný ] [ Ljósið logar birtu hjá, síðlærnætur barnsins grátur, kyrrð og friður fundin er, uppruni barnsins endar hér hjá mér. ] [ Í tíma og ótíma hugsanaflæði vit mín fylla einstefna innflæðis stíflað útflæði blikkandi aðvörunarljós bilun í aðsigi yfirfullt rúm lokað svæði í nauð losa stífluna það fremsta út flæðir ei tilbúið tilveru sinni óundirbúið sinni tilvist mætir vanmegun sækir ómagi annarra hugsana flæði býður þess aldrei bót samsæti samherja sinna aldrei mun njóta fórnalömb útflæðis hugurinn ábyrgur neitar þó allri aðild sekt sinni áfrýjar. ] [ Tíminn hleypur áfram staldrar ei við skeytir ei um aðra blákalt stefnir áfram engu hefur að tapa né nokkurs að keppa við nema sjálfan sig bölvað tíma kapphlaupið hans er eilífðin ] [ veistu hvernig þetta getur farið betur, þú leggur alla þína krafta saman, hefur gaman, tekur skóna yfir allt á merkis degi, og munt þá ganga alla langa vegi. þegar sólin kemur upp, lýsir fjallið bjarta, og fuglarnir syngja af öllu sínu hjarta, vilja fá meira, meira og meira inn í sína búð en enda með ekkert uppá þeirra snúð en ég veit, ekki hver þú ert, en nú ertu farinn, burt. en ég veit, ekki hver þú ert, og svo ertu farinn, burt. sólinni hefur lækkað og fuglunum fækkað, þeir reyna að vængja sig inná allra handa bak, og fljúga alltaf vitlaust við þetta andartak. fara þeir svo loksins, þegar öllu hefur létt. ég reyni alltaf að vera sannleiknum sannur, þegar voðaverkin streyma að og reyna að skemma allt sem ég hef gert, til að gera þetta vert, gengur alveg frá mér, enda að lokum, er ég allur. en ég veit, ekki hver þú ert, og nú ertu farinn, burt. ] [ Gamall grár situr og bíður rifjar upp gamlar tuggur gömul gildi. Klukkan tifar, framtíðin kemur í stuttum skrefum þar til dauðinn mætir. ] [ Ein ég geng í sandinum árin mér að baki tóm, þó full eftirvæntingar sár, þótt örin séu horfin eftirsjá, þótt engu myndi breyta þögul, samt mikið af lífsreynslu einmana, þótt virk félagsvera metnaðarlaus, þótt nám sé markmið sorg, þótt stutt sé í brosið Lífið er hverfult, andartakið er dýrmætast því það er nú þegar liðið! Lífið er – en nú farið – hjá sumum. ] [ Fyllir mig af óútskýranlegri þrá, sem skilur mig eftir þyrsta. ] [ There are some things I have to say But I can´t say, ´cause I am afraid of you would laugh at me There are some words I wanna say But I can´t say, ´cause I am afraid of losing you for good But I… Am falling inlove with you I´m falling inlove And I… I´m falling in love with you I´m falling inlove Would you tell me I´m a child Or would you laugh, or would you love me too? I really hope you do And I hope that you can see That you will always be a part of me Even though you don´t love me But I... Am falling inlove with you I´m falling inlove ] [ Alltaf varstu blíður, elsku ástin mín Fyrst er við hittumst, það var ást við fyrstu sýn Ég lét mig ávallt dreyma, framtíð mína hér á nesinu heima, í faðmi þér Ég vænti svo mikils, elsku ástin mín Með þér leið mér betur, mér fannst ég vera fín Ég var sú heppna að geta í þig náð Aldrei mun ég gleyma, er þú fórst mér frá! Var alein í myrkrinu Ekkert ljós að sjá Alein í myrkrinu Veröldin tóm og grá Minningar svo sárar Þær svíða inní mér Líf mitt er vonlaust ef ég er ei með þér Hvernig gastu farið, elsku ástin mín? Ást minni var varið, eingöngu til þín Ég veit að engin önnur mun elska þig jafn heitt Hví fórstu frá mér? Nú á ég ekki neitt! Líf mitt er horfið, ég veit ekki hvert Ég sé engan tilgang, kannski er lífið einskis vert Þú varst svo ljúfur, minningin svo sæt Nú í kolamyrkri, ein ég sit og græt Var alein í myrkrinu Ekkert ljós að sjá Alein í myrkrinu Veröldin tóm og grá Minningar svo sárar Þær svíða inní mér Líf mitt er vonlaust ef ég er ei með þér... ] [ held við hann tryggð hef á honum mætur hann heitir mér hryggð tryggur en súrsætur hún reynir að troða sér á milli heitir gleði, vill ná minni hylli en ei svo glatt góðkunninginn flýr og fer vinur minn treginn vor tryggð var og er. ] [ Ég vil flýja raunveruleikan Ég vil fylgja huga mínum og hugsunum Ég vil lifa lífinu mínu í örðu formi Ég vil vera allt sem enginn skilur Ég vil týnast í skógum skýjanna Ég vil horfa á ástina blómstra í huga fuglanna Ég vil vera það sem enginn hefur áður verið Ég vil en get ekki fengið....... ] [ Ef þú myndir ekki skjálfa heldur vera vegg myndir ekki vera væminn heldur fyndir að ég skil þig ekki né þínar syndir ég þekki þig bara ef þú myndir sjá að ég vil ekki heyra meira né fleira af þjáningum þínum hættu að gráta drengur ertu hnáta? vertu eins og hinir feður og synir vertu sterkur sem barinn klerkur það virðist virka nú hefuru snýtt þér í bolinn minn flýtt þér að þurka þig í mig áður en hinir sjá því ekki má fréttast að þú kannt að fá tilfinningar þó þú sért svona engin stúlka, engin kona menn meiga finna ekki minna heldur jafnt það er bara leitt að vera þreytt og hlusta bara ef þú segðir ekkert meir heldur þegðir þá stæði ég ekki hér í gættinni heldur hleypti þér aftur inn ég hef saknað þín og þú mín farðu burt ] [ Gleyptu mig himnanna faðir haltu mér móðir jörð skýldu mér skýja og náttúru bróðir stráðu mér í forfeðraskörð Hleyptu mér ótroðnar slóðir um týndbaug og ófundinn fjörð Brendu mig báli kvelju hreiðraðu um mig í synd um leið skalltu hylja mig fiðri og breyta í nýlistarmynd liftu mér svo þegar niðri ég ligg líkt og látin kynd Heyrðu mig faðir atlandshaf fleittu mér burtu um stund lof mér að líða, líka og njóta aldanna þinna við sund Þríf mig, drag mig, festu í kaf haltu mér, slepptu mér kraftur sökktu mér, drekktu mér, breyt mér í haf en leif mér svo að lifa aftur og aftur ] [ Hjartað mitt þolir ekki þessa sorg sem býr inní mér. Ástin er ömurlegt fyrirbæri! Ég er einmana ég mun aldrei losna við þá tilfiningu að þurfa einhvern í líf mitt. ] [ Á milli póla suður og norður elska þig án orða en bara ef skógarþrestir mega horfa ] [ Þegar þú grætur, grætur hjartað mitt líka, þegar þú brosir, brosir lífið við mér, þegar ég held á þér þá er ég ánægður og hjörtu okkar brosa saman til lífsins. ] [ til að geta myndað erfiðinar raun, er ekki að leita svarainar baun, falla má í frestni en festa ekki á stað, leitast um á engi yfir dauðans dal. ] [ Ææææææælir og blessaður ertu ekki hress! Eru menn í Háskólanum með nokkuð stress! Nú ert þú tuttugu og átta með fallega skvísu en er ekki til bótanna að fá litla pabbavísu?? Til lukku kæri Sigfús og vertu sæll og bless!! ] [ Vit minninganna þar sem fortíðin grefur sjálfan sig. Vit nútíðinnar sem sækir á grárri hugsun - um framhaldið. ] [ Orðin leið á að finna friðinn hinn innra þegar augun hans Krumma horfa djúpt í sál mína. Þögnin er himnesk þarf ekki meir, en honum þó fylgir heitir djúpfrostnir kossar sem hverfa, þegar þess er óskað, að Krummi staldri við og verði hvítur. ] [ Að næturlægi fæðast freistingar Fram undir morgun, svefnlaus. Oft þá gerast gjörningar, gríðarlegt basl og maus. ] [ Það er vonlaust að óttast sífellt hringrásina eilífu lífið er hverfult og hverfandi fjarar út en engu að síður inn líka sem betur fer Gæfan stjórnar okkur hún lýstur eldingum sínum niður á okkur mannfólin þegar henni sýnist það er ekki hægt að semja. ] [ Vík á brott angurværi andi aldrei skaltu hingað koma. Hundskastu burt forni fjandi! Farið með lestir sem yfir mér voma. ] [ Og loks kom vorið þerraði tárin skóf burtu horið og læknaði sárin ] [ Þúsund Tár Þar sem enginn heyrir, þar sem enginn sér. Í dimmasta horninu, inni hjá mér. Heyrist hvíslað um leynda drauma, gamlar þrár, Sem enduðu allar sem þúsund tár. Geymt en ekki gleymt og særir enn svo djúpt. Engar áhyggjur engar kvalir, að vera dáin er ljúft. ] [ Þúsund Tár Þar sem enginn heyrir, þar sem enginn sér. Í dimmasta horninu, inni hjá mér. Heyrist hvíslað um leynda drauma, gamlar þrár, Sem enduðu allar sem þúsund tár. Geymt en ekki gleymt og særir enn svo djúpt. Engar áhyggjur engar kvalir, að vera dáin er ljúft. Horfi inní myrkrið, hugsa um líðin ár. Sem enduðu öll sem þúsund tár. Geng í gegnum skuggan, falin fyrir þeim. Fortíðin á mig kallar, mig langar aftur heim. Ég hef fórnað ég hef grátið, grátið útaf þér. Byrðin ávallt lögð, á bak mér. Allt sem fyrir bar, og allt sem tók svo á Fékk mig til að gleyma, öllu sem ég sá. Köll úr öllum áttum, gegnum loftið fer. Byrðin ávallt lögð, á bak mér. ] [ Behind these tears, Beneath this pain, A child who fears, Fighting in vain, Too many times he tried, Even blood he cried, He is dead inside, Still no one hears, No matter how far he goes, How loud he screams, All eyes are closed, They\'re dead it seems, May be death found to them a way, May be who knows, Or may be they didn\'t find a reason to stay, No one cares I suppose. ] [ In the darkness of the shadows, Lies my soul, Looking inside me, There is only a hole, When the night falls, My pain will rise again, Can\'t help it but give in, Even death can\'t release me, I\'m already dead, Can\'t find a way to stop these voices in my head, Waiting between thousands of lives for someone can hear my within voice screaming, I\'m not just a kid, Can\'t find myself, Lost in my thoughts, Confusion will end, Whatever it costs, Begging my eyes not to be cryin\', While writin\' my last line, Waiting for something to make me stop, Just before I let the pen drop, Here she comes looking at me, Holding my hands to make me see, My hidden spirit, It seemed so true, Life is so beautiful if we only knew. ] [ Tíminn líður margt hefur skeð tíminn líður margt hef ég séð aftur hjarta mitt er brotið ævintýri hef þó hlotið tíminn tifar hjartað slær í takt með ég bíð og bíð en aldrei neitt fer að ske skref ég verð að taka til þess að ég hætti að hafa mig til saka þrjú skref og bata hef hlotið hjarta mitt er ekki lengur brotið veit hvar ég hafði verið þar byrjaði skrefið Nær Guði ég áfram fer Hann ávallt um mig sér Þakklát ég er og áfram ég rétta leið fer ] [ Yfir hjalla yfir hóla upp á fjalli ég japla á njóla hugsa um mína æskudrauma og til þín minningarnar lauma á mörgum stöðum hef ég verið hræddist alltaf fyrsta skrefið hvar er ég nú í mér kviknaði trú kemur alltaf sama svarið veit hvert ég get farið fíkillinn að mér læðist og óttinn á ný fæðist hvar er ég nú? hvarf mín sterka trú? ] [ Hugsanir flytja mig yfir hafið Oft hef ég þangað farið Eitt skref og hjarta mitt er brotið Eitt skref og frelsi hef hlotið Tvö skref og fundið hef sátt Ein bæn og fundið hef mátt Óttinn kemur hljótt Læðist að mér skjótt Mörg skref og óttinn gæti farið Þá loks mun ég vita svarið Vissi hvar ég hafði verið Þar byrjaði skrefið Um leið og á botninn er komið Þá loks get ég aftur sofið Á uppleið ég aftur er Ef rétta leið ég fer ] [ Náttúru stúlka Náttúru Barn Barn sólar Barn sjóa Hleypur í þyrniþykkni Blóð streymir Finnur hún frið Finnur hún gleði Sársauki finnur Veit að hún er lifandi Veit hún hefur sál til að gráta Vel líðandi Stelpu Barn Sem líður um himin Líður um sjó á alheiminn hugurinn fyllist fóta takið tæmir það sálar ró finnur stúlkan en í náttúru ró er hún sver að náttúran á hana , á hennar sál á hennar hjarta ,á hana alla og hún á náttúruna. ] [ I find my happiness I find my dream, up in the sky i see the rain just far-far away i have my dreams ] [ Halló, hver er þar? ég veit ekkert hver þú ert, ég vona ekki konan sem ég bar, ég sé eftir því hvað ég hef gert. Það var í gamla daga, en ekki það langt síðan því ég er bara 11 ára, feimin, og fel mig undir hálskraga. Ég fór samt til dyra, þar stóð amma, sem hvarf hafði verið í ósköp langan tíma, í bakrunn var blómakerið. Ég sá fyrir mér geisla sem í augum hennar var, sagði hún þetta óvart, og gekk um allstaðar. Hún sagði okkur ótal sögur sögur um sjálfan sig, sögur sem hún hafði samið, semsagt lyga bar hún við. Hún byrjaði að segja okkur eitthvað, sem við trúðum alls ekki, að hún hafði orðið fyrir bíl, þegar þjónn hafði komið og gefið henni hamborgaradíl. Sagði hún snældusnarvitlaus hvað helduru að ég sé, eitthver tilfinningalaus kerling, sérðu ekki hvað hefur skeð?.. Hún sagði að hún hafi sagt þetta og trúðum henni alls ekki, því vön hún hafði verið, að ljúga svona að okkur. Hún átti samt ekki að fara án þess að heyra í sér, því í fötum hún var ekki til fara, ég skil ekki í henni get! núna kveð ég að sinni búið með kvæðið mitt, segi og afkynni bless og sjáumst aftur í skyndi. ] [ now, you’re lonely, not feeling satisfied, hoping that someone comes visit, calling the people, you have already tried, it’s hard cause it feels explicit. frustrated voice, doesnt want you to bother, but that doesn’t count for the other, tears running down to your chin, unfair, cause you didnt do any sin. but there is one thing, you have over them like wing, this kind heart and patient soul, that will carry you to the higest pole, and make you the very best role. you’ll do this, let them see what i have seen you can’t hide, just tell them where you’ve been let them be the the one with the bad thing. so i can happily laugh in my sing. ] [ Því er nú svo komið að vatnadrekinn víðfrægi sem fram að þessu hefur flogið frjáls um öræfi Háuhnjúka er nú vanmáttugur og örmagna. Hann hefur verið fangaður og fjötraður niður af fjölda innlendra og útlendra riddara sem drifið hefur að úr öllum áttum með það eitt að markmiði að öðlast fé og frama í þessum hættulega hildarleik. ] [ Maður gengur einn og aumur aleinn ráfar um í kringum hann er glys og glaumur geymt í læstum kofum dynja höfði hans á dropar hittir konu blíða öllu góðu getur lofað góða konan fríða dýrlings hlýju getur gefið greiðslu vill hún fyrir fá \"hvert er verðið sem þú setur?\" svarar konan þá: FIMM MILLJÓNIR! febrúar 2005 ] [ Fjórtán ára ég sá þig, fimmtán, ég vildi fá þig. Sextán ára ég á þig sautján, ég vildi ekki sjá þig. ] [ Ég hugsa En skil ekki Ég reyni En get ekki Ég veit ekki Hvernig lífið virkar Hvað skeði Í hausnum á mér Mig langar Að vita Mig langar Að skilja Hjálpaðu mér Að skilja Segðu mér Svo ég viti Ef við hugsum Um lífið Um veröldina Um ástina Niðurstaðan er Hún er og verður Alltaf sú sama Sú eina og sama ] [ Ég vil að þú vitir Mig langar að segja Ég hugsa um þig Svo lengi sem ég lifi Þega ég hugsa Stendurðu hjá mér Augun þín björtu Svo blá sem höf Brosið þitt breiða Mig langar að kyssa Svo blíðlega og mjúklega Svo þú finnir fyrir ást minni Þegar ég hugsa Finnstr mér ég finna Hvernig sterkur faðmur þinn Umlykur mig alla Ég heyri þig hvísla Finn andardráttinn við eyrað Svo mjúkur og hlýr “ég elska þig” Svo blíður og góður Svo skemmtilegur Þú lætur mig hlæja Hamingjan um mig streymir Baldur ég elska þig ] [ Her heart tried to resist, her eyes tried not to see but unconsciously her heart broke and her eyes saw behind the tears. And with her charm and innocent she became the forbidden fruit. Spellbound to be tasted by promised men. A goddess to men on there war between love and lust. But love conquers all and they all turn safely to there home. But sometimes just sometimes they leave parts of there heart with her. And those soldiers she\'ll never ever forget. ] [ Seeing angels sitting on my bed telling me my heart is broken. Touching my blinded head seeing what has not been spoken. Here in my bed I cry for him. He\'s forever lost, left with the pain. Burn my mind burn for him. And save me with your rain. My sweet angels dry my tears. But take not my love for him, I’d rather die sad. Take this body and my fears. And leave me alone to be mad. ] [ Oh star bright angels give me nothing but forgiveness the time was never in beat with my sadness What have I lost in this life of mine, which I never had? The chances to love, hate, cry or laugh? I felt so alone all this time and in an endless fight. But all this time you kissed me good morning and good night. Only if I would have known what sadness laid in my head you were maybe still in my bed. Kiss me bright angel and say ones more good night. And for me it will turn off my light. ] [ What is it about love that makes it so impossible to bear? The weakness that lies in these hidden walls of comittment that seems to make there own prison by never telling a word of truth or not telling at all. Have I said to much or nothing at all to the one I am to give myself so willingly and with out the confession to my heart, have I then send those demons far away or do they lay in me head hiding from the light, lurking in the dark telling me to forsaken the mind and live blinded in my sin To never tell the secret of the body that burns of desire for all living things in motion. The sheets of my bed are marked by his footstep and do not wish to go away. Under my covers where you make me feel , under your covers where you make me real. Dose his breath weaken as the days go by? Have my linger strokes fallen to point of being forgotten. Or dose he remember the way I stroke his forehead into sleep and curved his hair away from his face, dose he sleep with his face against the wall still or is it filled with roses and sweet smell of flowers that warm his thoughts of days to come. Has he succeeded in the art of imitation of life and has he reached the place where his heart is no longer the prison of inhaling dreamless dreams. Do I regret the unsaid, the tango of two, and the eyes of you. Were ever you may be, who ever you might be the far well has deserted me. Since these are the last breath of you, when life offers you a chance to live, never regret having it. ] [ Góða nótt fólk, raunverulegt sem og ímyndað, og njótið ævintýra þeirra er sækja á í draumi, því unaðslega stjórnleysi sem bundið er aðeins af þeim takmörkunum sem settar eru á hugsun. Góðan dag fólk, grátandi sem og brosandi, og haldið hátíðlega þessa sálumessu draumanna, þar kvaddir eru draumar og boðuð er vonsviknin, þar beisluð er hugsunin og grafin eru ævinýrin. Góða ævi gott fólk, látið sem og lifandi, og gleymið að mörg köfnum við í ösku drauma okkar. ] [ Feel as though I\'ve just been crushed, by a feeling stronger than lust. Feel so bitter towards the world, as into the fire I\'ve just been hurled. The sparkle from her eyes had faded, as I had anticipated. To her I only was a fling, now with my broken heart I sing. ] [ Það er mér hulin ráðgáta Hversvegna allt sem maður þráir er beint fyrir framan mann En vegurinn þangað endalausir krókar En það er mér ljóst hversvegna Krókarnir eru þess virði að fara Og hversvegna það er þess virði að snúa við í botngötum og halda áfram Því með þér fer ástin mín aldrei til spillis Og með þér gefst ég aldrei upp Með þér mun ég fara hvert sem er Hvenær sem er Hvar sem við endum ] [ Ég man er hlutir voru stærri en heimurinn minni. Ég man þegar allt bara vaskaðist upp, maturinn bara settist á borðið og fjármál voru ekki til. Núna eru hlutirnir minni og heimurinn stærri. ] [ MillJón lítil gler brot Ég gekk á þeim, skeytti engu um afleiðingar nútíma kexverksmiðjunnar í Bangkok Jón í Bangkok Nei, ég bara spyr... ] [ staðan er erfið, ekkert gengur í hag, prófin nálgast, hefur ekkert lært í dag. skólaslit renna upp, prófin byrja. áherslur á hverju, nemendur spyrja. kennarinn glottir og hlær til baka, þessi próf sem enginn er tilbúinn að taka, gera lífið erfiðara, meira stress. magasárið út í gegn, þykist samt hress. krossar út í eitt, kláraði ekki allt, fallinn á tíma, sárið asni salt. grætur í eigin barm, grey kallinn. gætir náð, kannski ekki fallinn. niðurstöður koma, stressið afar beitt, sveittar fimmur útí eitt, reddaðist feitt. sumarið reddað, engin próf eftir, já! virkilega gaman, sona eftirá. ] [ Gerum þa allt kvöld alla nótt Þetter svo gott a það verður ei hljótt En þegar að mamma kemur heim verður manni órótt Tippið enþá uppí lofið, hleypur inní skáp Mamma bankar og seigir að það séu komnir gestir Þau koma öll inn, og 2 prestir Opna hurðina og það heyrist hátt róp Hann hleypur út og seigist hafa séð kónguló... ] [ Öskur þin bergmála í huga mér og regnið í nótt mun tileinka tár mín ástin sem okkur var kveðin verða sem sár sem aldrei verða helin ] [ Á útvarp maður hlustar, á sjónvarp maður hlustar, á græjur maður hlustar, svo hlustar maður í símann. Hlustun er nauðsyn, eyrun eru ekki bara til að vera. Maður notar eyrun til að hlusta, eru þau því nauðsyn. Í eyranu er hljóðhimna, þar inn kemur hljóðið. Eyrað greynir hljóð, svo maður geti heyrt. Eyry eru stór, eru eru lítil. Eru eru guðsverk, eins og við öll hin. ] [ það sem kom mér áfram varst þú, þú hafðir á mér trú, að gefast upp er enginn máttur núna er ég sáttur. ] [ Þu byrjar a þvi að hella öllum tilfinningum viðkomandi i eina skal og hrærir þvi næst vel og vandlega i 7 minutur. Siðan bakarðu tilfinningaklessuna i um það bil einn og halfan klukkutima og að lokum skreytirðu hana með ykjum og lygum. ] [ Byrjaðu á því að traðka á hjarta hennar með skítugum skóm þínum. Þjappaðu og stappaðu þangað til hún þolir ekki meira og grátbiður þig um að hætta. Kreistu þá 10 lítra af tárum hennar í skál. Leggðu hana svo alla á skurðbretti og skerðu hjarta hennar í örþunnar sneiðar þangað til hún missir alla virðingu fyrir sjálfri sér, en þráir þig í eilífri von um að þú verðir aftur eins og þegar þið kynntust fyrst. Þegar hjarta hennar er orðið verulega aumt og bólgið, helltu þá tárum hennar yfir sneiðarnar, bættu við hálfri matskeið af blóði og hrærðu vel saman í þeytara. Ath. Gott er að nota einnota hanska við þetta. Gættu vandlega að þurrka allar slettur jafnóðum upp og hafa hreint og snyrtilegt í kringum þig! Fylling: Gott er að fylla svo í hjartað með blýi og þungum steinum til að ná fram sem mestri þjáningu. Steiktu allt saman á pönnu við hæsta hita. Best er að hafa hjartað útbrunnið. Nuddaðu svo reglulega með salti, helst í hverjum mánuði. Geymist í frystikistu eða þar sem börn og almenningur sjá ekki til... ] [ Ég vil ekki kvarta og ég vil ekki kveina Fólk vill ekki horfa upp á mig veina En augun og svipur minn engu leyna Sársaukinn skín, það er það sem ég meina Ég vil ekki hitta aðra unga sveina Það kemur bara hreinlega ekki til greina Þó margir samt vilji við mig reyna þá verð ég oftast alveg eins og kleina Stundum þeir heilla mig, yngismeyna En hrifningu ávallt mér tekst að leyna Því hvað veit ég, hafa þeir samvisku hreina? Sumir hafa nefnilega ekki neina. ] [ Ég er lítil gæs á vetrardegi og ráfa um á Reykjavíkurtjörn dag eftir dag Það er hörkufrost og kuldi og mér er kalt Ég þrái að einhver taki eftir mér, skilji líðan mína og sjái hvað ég er einmana, taki mig heim til sín til að gefa mér að borða eða bara til að ylja mér. Einn góðan dag kemur lítill og fallegur drengur...hann sér mig og brosir: \"Mamma, mamma, sjáðu gæsina!\" Kallar hann. \"Má ég ekki taka hana með mér heim og gefa henni að borða með okkur???\" Eitt andartak kviknar hjá mér vonarneisti og ég vakna til lífsins eitt augnablik... Fæ ég nú loksins að upplifa kærleika heimsins??? :) En móðirin lítur ekki einu sinni á mig, heldur dregur drenginn áfram og segir: “Drífðu þig nú, við erum að verða of sein í jólagæsina!!!” ] [ Núna er ég bara lítill punktur í bókinni þinni Þú hefur rissað mig á blað í æsku og þig hefur dreymt mig í draumum þínum, en þú veist ekki ennþá hver ég er... hvernig ég lít út... hvað ég snýst um... Núna ert þú bara lítill punktur í ljóðunum mínum Ég hef rissað þig á blað í æsku og mig hefur dreymt þig í draumum mínum, en ég veit ekki ennþá hver þú ert... hvernig þú lítur út... hvað þú snýst um. Bráðum förum við að draga upp línur og mynda málverk saman, Draumar okkar verða að veruleika og við lærum að þekkja andlit hvors annars og skilja hvað allt mótlæti lífs okkar snerist um.... Að finna hvort annað. ] [ Ef engar aðrar píkur inni í þú, þér líkur, ást okkar rýkur. En ef\'að þú mig svíkur samband okkar fýkur. ] [ Góða nótt elsku vinur, hér er vögguvísa handa þér. þegar drungi yfir mig dynur, þá ertu hér hjá mér. þegar yfir eru farin nú, kuldi og myrkur að okkur sækir. þá í huga okkar byrtist þú, og með þér byrta og lækir. ] [ ég eitra fyrir umheiminum en það er allt í lagi því umheimurinn eitrar fyrir mér og öllum öðrum ] [ Every human being is a sky of it´s own and we need them all to travel the distance to our God eternal shore. ] [ Lay awake, hope I die Why am I open, but so shy. Want to drown my sorrows in your arms And I know, In you hands I can not be harmed I think of you as my merciful black knight That saves me from the madness, and carries me in to the night Why cant my thoughts never be true? Why cant I never really have you? ] [ Ljósið er fallegt og skært, en það er vont að horfa. ] [ That is one thing i know for sure, that this seems not real at all. So beautiful and so pure, please catch me if i fall. To good to be the real deal, can’t tell you how i feel. Have you ever dreamed a lie? Were the man said you would die? Well, im sure this is all above, yes, im taking about real love. Love is above your wildest dreams, im sure you have guessed. Dreams are coming true, so it seems, and soon you will be blessed. ] [ Lovely and cute she whips up her hair acting all cool, making it harder for me not to care. She looks in my eyes and melts me from within, seeing all but none at a time, trying to walk, but she won’t let me stand. My brain in pieces, trying to collect, puzzle without preview not easy to forget. In English we speak but I can’t seem to talk all the voices in my head blocking it out. Freeing my innerself from a prison, that I built for myself. This insanity... Struggling... Want to loosen the chains but I’m blinded from her light, shining so hard in the lonely night. Trying to shut it off, but I can’t find the switch, because she was meant too live. This beautiful thing that I can’t resist, she won’t come to me and I can’t get to close. She can’t hear me cause I’m making it too loud for her to make it out, in the flood of messages, that everyone but me tries to get along. But I’m just a sender not a receiver, so why even try? no one receives what I’m trying to send... All alone in the silence I still hear her voice but it’s not meant for me. For I’m not worthy, even with the knife in my hand. She still doesn’t understand But is that the purpose? for her too understand? I’ll never know... but I can speculate, while waiting for life too pass me by only for me too look back and listen to sentences, of someone who doesn’t know me. Like she doesn’t know me, none the less reckognizes me in the crowd while none of them see that I was made for her, but she not for me. Hard to accept, but truthfully painfull Like the bad guy in the movies, unless the hero dies, and the bad guy lives on, only to be hated by more and more people. But one day... One day, he’ll descover, someone that loves him because he is hated by all. Like she will see that I’m not for her, but it was there for every one too see in the first place. asking the same question won’t get me anywhere far, unless, she could give me a answer, But she can’t. I must descover the real question Was she ever made for me? Or am I just a sick litlie puppy, trying to bark at a too big of a bone? Maybe the question is that I won’t get no sleep till I get an answer that will satisfy me but not her? Never... That I could not bear on these old and battered shoulders. But can I even bare myself from dying within or trying to make this work? Make what work? That might just be the question! ] [ Mig langar að gráta Mig langar að öskra Ég get ekki grátið Ég get öskrað Ég get bara þagað....... Þangað til ég finn frið, frið sem er ekki til það er satt...... því miður..... Ekki láta svona!! Hvernig?? Einsog allt sé í himnalagi Einsog allt sé í rusli Einsog allt skipti máli Einsog ekkert skipti máli Ég skipti máli...... Ég skipti ekki máli..... Ef ég skipti ekki máli er ég ekki til Ef ég skipti máli þá er ég til trafala Skiptir engu...... Skiptir öllu!!! Þú skiptir máli Þú skiptir ekki máli Þú skiptir mig máli!..... Ég get ekki grátið....... Viltu gráta fyrir mig? ] [ My name in a paradox, can time afford a paradox? Not to my knowledge, because every one can afford something, but at the same time they won’t, don’t, and wouldn’t. Because of ignorance or selfrightuesnes? No, they wouldn’t dare, or would they? Human instinct is a very interesting thing, but is it safe? that might just be the case, when you walk, talk, and act all cool, showing everyone that you are not me, but you’re self. maybe I’ll find a reason to question you’re soul purpose for not breathing in the same rythim as me!! But then again who wants to be like me? Not me... I’m not a poet, just a kid, not a person just a follower of the crowd, not a bird but only a balloon in the sky, where you float alone with the clouds. There, and only there, can you wait. Wait and try to see what awaits you, in the future of the time you can’t control. And when you see something, don’t let it pass you by because you were too busy thinking about the clouds you just made love too in you’re imagination!! That might be the downfall of you and those around you. For you are them and they are you, all is one, and one can make all, with another just alike. But progress in life can’t be measured in numbers nor countless times you make someone laugh! I’ts up to you to make life what it is, and so you affect not only me or them but everyone... Wether you’re fat, skinny, ugly beautifull or just another average guy, you make a diffrence. Maybe not a big one, but small and tiny, that buidls up with all that everyone else makes as well... Making life good and just is not for all to copryhend, but every man on this planet can and would settle for something if it wasn’t for human instinct. Enough for me is too much for someone else, just like my shoes are my protection from hurtin me, but not mother earth. The sky is clear aas you stand in front of me and ask “ What is life, and how should I live it?” The only answer I have is “Look up too the sky, search you’re soul and you’ll find the right cloud to make you’re home on” Wether it be gray and old or white and cold, just make good use of the only thing you have... Youreself. ] [ Everyone looks but no one see’s All the pain and suffering hiding inside of me Everyone walked on my soul No one noticed it even if I’m foul Everyone talks like I’m not really there But I’n used to shit like that so I don’t really care Everyone heard so no one said When I scream out in pain the memory fague Everyone’s a winner nobody looses I’m just a looser with too many faces Everyone pushes but nobody pulls I can’t hide myself with all these rules ] [ Feeling so lonely, feeling so down Feeling, oh feeling, this feeling is pain Nobody see\'s me like I’ve never been known If I continue like this , I’ll go fucking insane Bringing it up and down, bringing it all around Can’t stand too hear my own sound Trying to mute it but nothing will work Keeping these feelings they already lurk From deep within me, I hear myself cry Telling myself I’m living a lie Want to get out, hear myself shout Up to the sky and into the clouds Far from behind, you see me try Walking alone, talking to no one But you can’t really see it,you only try Still walking alone... I am alone.... ] [ Darkened my mind, I can’t see clearly. These kittens lick my wounds you inflicted, on my heart that was in the way of you’re rout. Making my stink too the roots of all eternity, nobody cares...... Don’t read these lines, feel them, like they where the cold shiver of an old womans hand stroking you’re back, trying to comfort, but only making it harder not to realise what this world intends for us. Because she doesn’t know how, when or why we think like we think. We are the future but we are also responsible for making the past not fade away. Accomplish this and we can rest in peace with knowing that our effort doesn’t go to waste. But in the end all is wasted.................... The future, the present and even the past.......... All is wasted... ] [ Orð eru aðeins töluð af þeim sem þurfa eitthvað. ] [ Spurningin er oft svarið við spurningunni. ] [ Leið þessi er einföldust,fljótfærust greiðfærust.Full af kærleika ,ástuð,gleði,hamingju og íklæðist eilífðinni.Þetta er leiðin heim. ] [ Eldur þinn slokknar aldrei. Ást þín tæmist aldrei. Kærleikur þinn endar aldrei. ] [ Leiðin heim er leiðin inn í mig, inn í sjálfið. Þessi undurfagri staður sem engin orð fá lýst. Þar býrð þú eilíflega í mér. Minn eilífi Drottin Guð mín nærandi móðir! ] [ Sjá mig vera hér að eilífu í þér. Hvað er það sem ég sé,sjálfan mig í þér. ] [ Ég skynja ást þína í andardrætti mínum minn eilífi.Þó ég sé aðeins afsprengi þitt,þá skynja ég þig ávallt í huga mér. Allar mínar hugsanir leiða aðeins til þín, því það er ekkert annað eilíft. ] [ Heimskur er sá er hugsar! ] [ Er þú leggur allt þitt traust á þinn innri leiðbeinanda, þá ferðu að sjá heildarmyndina. Hættir að sjá aðeins framfyrir þig,heldur sérð allan hringinn. ] [ Allstaðar þar sem ég er þar er Guð, allstaðar þar sem Guð er þar er ég,hver er ég. ] [ Falleg augu eins og glitrandi stjörnur mjúkur feldur eins og dúnsæng malið þitt gefur mér gleði í hjarta blíðlegt bros þitt gaf mér hamingjutár. ] [ sólin inni sólin úti sól í hjarta sól í sál ] [ Undirmeðvitundin ávallt til staðar í líkama sem flosnar upp hægt og hægt vegna ágreinings tilfinninga í stríði fyrir innan holdið. Að finna – getur verið hverfult leitt mann á ókunnuga, framandi, ógnvekjandi staði, himnaríki eða helvíti. ] [ syndandi í sælunnar glaumi sá ekki að dauðinn hló loksins hann lét undan straumi lognaðist útaf og dó. ] [ Er þetta mánudagsmorgun? Eða hvað? ] [ Í makindum mínum flýti ég mér hægt inn um gleðinnar dyr. Í flýti fer ég mér hægt út um gleðinnar dyr. Mitt á milli stend ég í stað í dyragættinni. ] [ Hún var fullkomin velkomin og alkomin inn í líf mitt. Ég var altekinn heltekinn og handtekinn af henni. Hann var kvensamur óhamingjusamur og afbrýðisamur eiginmaður. Ég var kappsfullur áhyggjufullur og blindfullur við gluggann hennar. Hún er ástrík skilningsrík og moldrík sem betur fer. Hann varð allslaus vonlaus og getulaus án hennar. ] [ Útaf þér gekk ég burt Útaf þér ók ég burt Útaf þér lá ég andvaka En samt hafðiru dug til að senda mér sms \"Ég vildi að þú værir hér!\" En vildiru það? ] [ Hvernig er hægt að setja í orð, eitthvað sem hefur verið svo margoft sagt áður? Eins og kálfur að sumri, leið mér með þér. Útsprungin rós, sem vaknar að vori. Hljómar klisjukennt, þannig ég ætla að einfalda það niður í atóm.. Ég held að ég sé ástfangin af þér! ] [ Sofandi meðvitund vakandi hugur dreymandi snerting, spennan magnast fiðrildi vakna í miðjum dofnum líkama Sofandi: ekki vekja mig Vakandi: ekki stoppa ! ] [ Við sátum á ströndinni lögðum augu okkar í sandinn Þau störðu á ást okkar fjara út ] [ ég tók eyrun mín setti þau í vasann á meðan þú talaðir ] [ Með munninn fullan af orðum arkaði ég til þín En ég gleypti þau á leiðinni ] [ Förum í frí! jibbí... ] [ Mig langar að skrifa ljóð, orðin komast eigi út úr mér. Þau eru þarna, en þau komast ekki út. (Þú varst hjá mér í kvöld. Fingur þínir mjúkir, augu þín svo falleg, koss sem féll svo mjúkt á varir mínar, og orð sem féllu betur í eyrað mitt heldur en öll heimsins tónlist. Kveðjustund nálgast og þrátt fyrir augun, orðin, fingurna og kossin þá á ég erfitt með að segja: \"ég elska þig.\" En allt í einu falla þessi orð út úr mér, lágt og hljótt: \"ég elska þig.\" Ég heyri lítið en samt mjög þæginlegt: \"sömuleiðis\" koma til baka. Fullkomin endir á fullkomnu kvöldi.) Mig langar að skrifa ljóð, orðin komast eigi út úr mér. Þau eru þarna, en þau komast ekki út. ] [ Það er barið að dyrum, maður svarar ekkert í dyrasímann heldur opnar upp á gátt og býst við hinu besta. ] [ Drekka og dópa Dapurleg nótt Ég fer svo að sópa Hjarta mitt er orðið ótt Ríðandi og reykjandi Í öllum húsum kveikjandi Kemur ekki heim Er orðinn einn af þeim. Bíð ég biðina löngu Bara að kæmi hann heim Hlustar ei á mömmu ströngu Skýst út og skýst útí geim Ég var of sein Ég brást ekki við Nú sit ég hér ein Því dauðinn tók þetta lið. ] [ Barn í bumbu mína Bíð eftir að fá Og svo barnið fína Sem ég þrái að sjá. Börnum ég bjartsýn fylgist með Bara að óskin mín rættist Loksins fékk ég lítið peð Meira en lítið kættist. Skaust í þennan stóra geim Svo hratt slær litla hjartað þitt Fegin er að fá þig heim Því þú ert litla barnið mitt. ] [ Sárt er að segja frá Sorglegum atvikum Sem að hér hrundu á Á síðustu vikum Dauðinn á dundi hér Döpur sárt ég syrgi Allt sem hann tók frá mér Ég fyrir andlitið byrgi Skalt ei sökkva í sorgina Sem tók yfir völdum hér Svífur yfir borgina Með sálina úr þér ] [ Bestu vinir, sem bræður Bara ég og þú Hér er enginn sem ræður Hvar er vinurinn nú? Þú varst ávallt þarna Þar fyrir mig Saman gættum barna Aftur ég þrái þig. Sorgartárin renna stór Syrgi þennan missi Allra besti vinur fór Á kalda kinn þig kyssi. ] [ Drekka og dópa Ríða og reykja Farðu nú að sópa Svo í því megi kveikja Þetta helvítis drasl Festist í kústnum Og fer útum allt Þurrkaðu af stútnum Og gefðu mér sopa Úff þetta er kallt Nú verð ég að ropa Fer svo fram og athuga málið Allt er orðið brjálað Tveir eru dánir Í sófum, á gólfí, í stólum, inná klósti Allsstaðar er fólk að drekka og reykja Blindfullir og uppdópaðir, ælandi dópistar Löggan er komin og ævintýrið búið. ] [ Sumarið svaka heitt Synd að sitja inni hér Pabbi mér finnst þetta afar leitt Ég veit hvað ég gerði af mér. Ætli ég komist aftur út? Alltaf var ég engill Set ekki lengur á mig stút Kannski vitlaus tengill!! Tímanum er tapað Tárin leka hratt Þegar hef ég hrapað Niður fjallið bratt. ] [ Wherever you are, help me find away. I really want you to help me. Sitting by a tree waiting for you to say, where you want me to be. Whats my status? Can you please tell. Its like walking through a wood. Without water, without cell. Guide me the way quick, im out of food. Give me the answer of life, cause i’m looking for my girl. I really want to find my wife, so my heart can be her pearl. ] [ Fanney býsna fögur er Fer í bolinn bleika Ákveðin,á við heilan her Gerir stráka veika. Stúlkan sykursæta Sannarlega þrjósk hún er Fyrir margt vill þræta Lætur ekki brjóta á sér. Þó að þrjóskan leynist ei Þá er Fanney elskan mín Fallegust er þessi mey Gæti líka náð til þín. ] [ My mom is cooking dinner, while waiting for the sitter. She really want to find some winner, so she don’t have to be bitter. Doorbell rings, its goodbye, they’re out. Gone so fast i can’t even shout: \"Mom you forgot to say good night\". Well, sometimes they never get it right. Again it rings, the sitter walks in. So lucky that Lucy is sweet. I told here about my mothers win, then i found her a story to read. I wake up from a small dream, mom and her friend are back. Suddenly choke, and then loud scream. Something is not on the right track. I realize that this guy isn’t very nice. So i call the police, like i’ve been tought. He hears me and my head freezes like ice, So i run fast out, cause i have never fought. Concerning about my mom, were i’m lieing on the ground. People calling: \"where are you Tom?\" I come out, they gather around My eyes forced to cry. My mom has lost her life. I cry, no matter how hard i try. And she just wanted to be his wife. ] [ Fæddur fatlaður var Faðirinn fór í hið djúpa haf Drengurinn af öðrum bar Alla sína orku gaf. Lífið ekki alltaf líflegt er Laglegur drengur eyðilagður Hann verður að taka því hvernig sem fer Illa farinn var sagður. Aldrei gat hann náð sér allur Alltaf reyndi hann þó Orðinn eins og gamall dallur Drengurinn fékk bara alveg nóg. ] [ Tómt? Ég heyri ekkert ? Er allt horfið? Hvar er allt það góða? Hvað varð um fjölskyldu mína? Allt í þúfum þöglum, heyri ekki orð en til hvers eru orð? Góð spurning.. ] [ úr fjalli háu flísin losnar rúllar hratt og hrapar niður stendur á velli stjarfa grjótið stöðugt er það stóra grjótið vindar hvassir vinna ekki grjótið stóra stendur stöðugt bærist ekki bugast aldrei en er þó ekki ósigrandi vatnið sigur vinnur hægan vætir yfirborðið molar grjótið myndar þægan minna er það orðið lítill steinninn lifir ennþá undan vindi lætur aldrei stendur kyrr og strýkur aldrei fastur situr fýkur aldrei smái steinninn steyptur er úr sama steini og stóra grjótið þó að grjótið þolað hafi dvínun mikla dropa vegna dynja vatnsins veiku högg á vota steininn lúna svo á steininn svífur dögg og sandur er hann núna út og suður sandur fýkur vegna vinds og vægrar golu stöðugleika steinsins litla vantar léttu litlu korni samt sem áður inniheldur alltaf ögnin agnarsmáa stóra grjótsins sterka kjarna þótt hann minnki og þoli mikið hann hverfur aldrei aldrei alveg mars-maí 2005 ] [ Hvar ertu mitt sæla sumar? Ég bíð spenntur eftir þér. Hef keypt risa stórann humar sem þú átt að borða með mér. Úti er kaldur vindur sem blæs og stuttbuxurnar bíða því enn. Ætlaði í þeim út og hafa það nice líkt og ég gerði á Spáni í denn. Ertu hætt við að koma í ár? Maí er sko farinn að stað. Í svona veðri er þjóðin sár og þú átt að vita það. Leyfðu okkur að njóta hitans sem þú kemur hingað alltað með. Allir eru farnir að sakna svitans og geta stokkið úti í blómabeð. Farðu nú að koma sumarið góða trúi ekki að þú sért hætt við. Hvað þarf ég þér bjóða? til að stytta þessa bið. ] [ Ég vaknaði í morgunn! annað var það ekki. ] [ rökkur sumar nætur, daginn snæðir hjörtu okkar beggja blýðlega bræðir tunglskinið fyllir augu okkar beggja í aftursætinu ég fæ þig til að hneggja... 07.maí, 2005 ] [ Hjarta litla híalín gæsku litla kjötbúntið mitt fagurkeri tilfinninganna skín í dag því það er þitt. ] [ In waking death I find solace In waking death I find peace In waking death I find myself In waking death I find life She touched me and I flinched. I fell down and cried, laughed, went mad, got mad, felt alone, felt safe. As she woke I died and got born at the same time, endlessly. To live, I woke death. ] [ Litla rauða rósin mín, fallega purpurarauða. Nú ertu orðinn þín, á græna grasinu auða. Höfund. Margrét L. ] [ Heiður loftin fallegu og blá, út um alla tíð. Nú er sumarið komið á ný, Og sólin er svo blíð. Höfund. Margrét L. ] [ Hérna er síðann, úti er blíðan. Ég er ljóð að skrifa, Og elska að úti að lifa. Höfundur. Margrét Lena. ] [ Eitt sinn var ég úti, Með honum Knúti. Hann var orðinn svangur, En ekki svakalega langur. Höfund. Margrét L. ] [ Ég heiti Margrét Lena, er ekki mikil pena. Ég er 9 ára, og er ljóðið búin að klára. ] [ Það má aldrei grína, með ljótum orðum. Né pína, Ekki gera grín af öðrum, ] [ Mamma heitir Linda, og er ekki sú blinda. Pabba heitir Kjartan, og er ekki úr hjarta. Þau eru skilin, á milli hjarta eru bilin. Fósturpabbi heitir Heiðar, Tekur tvær skeiðar. Spilar á gítarinn, Nú er hann flýtarinn, Heiðar, Kjartan Linda. Eru ekki sú blindu, Kjartan, Linda, Heiðar. Tekur upp skeiðar, Linda, Heiðar, Kjartan, Því þarna er hjarta, Er ekki það blinda, Og tekur upp tvær skeiðar. ] [ Á síðunni eru snilldar ljóð, og eru afskaplega góð, Höfundarnir eru svo klárir, Viljið þið hjálpa mér ? ] [ Haraldur, Faraldur. Anna, Panna, Heiðar, skeiðar. Linda, tinda, Lena, Pena, Erna, Ferna. Sif, Lyf. Ás, Bás. ] [ Ég grét… Yfir leikhúsi fáránleikans. Vegna þín sem aldrei fékkst von. Eða þín sem hræddur eltist við tómið. Vegna orðanna sem aldrei voru sögð, útaf eigin hugleysi Vegna þeirra yfirgefnu, vonsviknu. Og hugrekki þeirra sem leyfðu sér að vona. Vegna þín sem áttir þér drauma. Ég grét líka vegna fegurðarinnar, Vegna vonarinnar um mannveruna sem ber við himinn á fjalltindi framtíðarinnar. Þegar þetta er allt að baki. Hamingjusöm, frjáls Einhverntíma. Tónlistin lék í hjartanu Á fiðlur fegurðarinnar. Þeir hljómar eiga aldrei Eftir að heyrast. Hvernig segi ég frá því, sem orðin geta ekki tjáð eða því sem tónarnir geta ekki sungið? ] [ Auma þjóð, eltandi tilgangsleysi. Hafðu þinn Jónas Hallgrímsson. Hirtu Matthías Jochumsson. Þú ert ósköp lítils virði… og lágkúruleg. Ef þú hirðir ekki um hina miklu meiri fjársjóði sem bærast í brjóstum þinna lítilmótlegustu þegna. Til hvers var barist, hví voru orðin sögð Ef eftir stendur aðeins auglýsing um græðgi. Kostuð af Kóka Kóla. Ó guð vors lands. ] [ Maður grúfir hendur við andlit sitt og lætur eins og hann vilji ekki sjást eða þekkjast. Ég horfi á hann um hríð og dettur í hug Frey P. Njarðvík! En hugsa svo; Nei, hann myndi ekki fela sig svona. Ég fæ osta kökuna og fylgdarmaður minn súkkulaði köku án rjóma og svo erum við báðir með venjulega upp á hellingu fyrir kaffi. Við gæðum okkur á veitingunum og sötrum á kaffinu Þar til annar maður vekur upp hjá mér athygli. En það er stakur maður við borð gengt mér með blöðru! Hvað er hann eiginlega að býsnast með þessa blöðru? Ætlaði hann að halda einhverri fröken afmæli sem fór svo í súginn? Eða átti hann sjálfur afmæli og var því ekki dapur? ] [ Aftanroði, röðuls skin á sjávarfleti. Djöfulinn og ég við styðjum leti Ég ligg og sé hann í huga mér þar sem ég er í mínu fleti. Drýslar á mér nærast Dauðinn nær er að færast Allt farið sem mér áður var kærast Seint ætla ég að læra Samviskan farin að láta á sér kræla Fíknina ég verð að næra Amfetamín Ljúfa ramma ástin mín Ég loka augum mínum og sé kílóa sín. En nú ertu farin, ekki lengur hér Og enginn mína sorg sér Einn og þungur ég götur fer. Amfetamín Ljúfa elskan mín Í hyllingum ég sá öll kílóin fín Og sóttist eftir fyxi á hverjum degi vonaði að hrúgan yxi hey, ég var að finna upp á nýju trixi ] [ Við tjörnina öndin liggur umhverfis er hvítt frauð samt sem áður verð ég hriggur því að hún þar liggur dauð ] [ Ég geng inn, allt er gervi, ég sætti mig við, gleðst og fæ mér sæti. Gervi Gervi Gervi Ég enda kvöldið á taktföstum, kvalarfullum pyntingaraðferðum. Ég geng út en veit núna að konungurinn lifir ] [ Orðin eru orðin tóm og enginn skilur betur. Bergmálsins bitrum óm svara ber ef getur. ] [ Skýtur fyrir skildi, skyldi verja, hann. Vonina og vildi verja, huginn brann. ] [ Tikkar, tifar, telur fer tefur innan tíðar. Hvergi, hvenær, tíminn er, hvað mun gerast síðar. ] [ ég flyt eftir segs daga í fyrsta skipti frá foreldrum ég hlakka til ég hlakka svo til að ég get ekki einbeitt mér að prófunum ] [ Rósin er það blóm sem flestir tengja við ástina.. Eins og þjóðfélagið er í dag þá er það ágætis tenging. Því að við tökum rósina úr sínu rétta umhverfi. Klippum hana til svo að hún líti betur út, og skiljum ekkert afhverju hún visnar svona fljótt. Kanski ættum við bara að lofa henni að blómstra eins og hún kemur fyrir. Hæta að fegra hana og taka hana úr sínu rétta umhverfi. Eingöngu hugsa um hana og halda henni við svo hún fái að blómstra sem aldrei fyrr.. ] [ Hneggja hross í haga héðan megin flóans. Næfurþunnt er hér að naga nú er sagan senn á enda enda kjóinn floginn suður. Í dögun nýrrar aldar markar í mýri möðruvallablési. steinum klofar knáum. ] [ Ég mála á mig sumarið, og kyssi þig, ég sé þig blómstra, guð hvað þú ert fallegur. Ég horfi á þig, um leið heltekur þú hjarta mitt. Ég elska þig. ] [ Við hittumst uppá köldum kletti. Ég horfði á þig, kinnarnar voru rjóðar. Við löbbuðum saman eftir stígum forfeðra okkar. Stígurinn varð erfiðari með degi hverjum. Þú varst eins og djöfullinn í vondu skapi. Ég flúði frá þínum vítis eldum, þú eltir mig og togaðir mig til þín. Ég var föst í greipum þínum... Þú misstir takið, ég flúði út í heiminn. Þú reyndir að toga, þú togaðir og togaðir. Ég fel mig undir köldum kletti, kuldinn þrengir að... Ég hugsa um þig. Þú kallar á mig hárri röddu, ég svara þér með láu hvísli. Ég sleit mig lausa, ég finn að þú togar, þú togar og togar. Þú náðir taki á hjarta mínu, ég leyfði það... Nú er ég farin... En takið er ennþá. Ég reyni og reyni að losa það, en það losnar ekki. Ég er á leiðinni, því að ég... Elska þig. ] [ Fullur poki af mistökum Ei hægt að loka Springur á endanum Ég bíð og vona Ég reyni að komast undan En slepp þó ekki Eltir mig endalaust Hvað á ég að gera? Ég leggst í grasið Kemst hvergi Reyni að kasta steini í tunglið Nú er mér borgið ] [ Á nú ekk\'að svara mér er ég orðin byrði. Aldrei skal ég **** þér fyrst ég er ekki þess virði. ] [ Ég þetta orð ég hvað þýðir það? herra Klár, örugglega e-ð sem þið hugsið hver er ég söðulnefjaður, vambmikill, kerskinn en um fram allt hvers manns hugljúfi í hvívetna eða hvað? Er ég kannski einn af þessum draumóramönnum Hvað sem því líður þá svífur andi minn yfir auðum gresjum hafdjúpanna en þegar öllu er á botninn hvolft er ég bara. ] [ Vinsældir skrokkanna á skjánum fengu mig til þess að missa minnið í smá stund jarðbundinn alla tíð síðan himinlifandi. ] [ gegnsætt er nú glerið glæra tóm er flaskan teigar búnir allur orðinn er auminginn öllu veldur eymd í flösku janúar 2005 ] [ efnafræði enginn skilur úti ríkir ekki bylur konan ung til krakka þylur \"kemí\'\" í börnin mylur janúar 2005 ] [ Hann öskrar við ána..árans með sóma.. fokkar á kerfið, á alþingið skeit... hann skýtur á bjána..sýnir ey sóma.. þingmenn sem svíkja senda á í sveit.. frá frá hættið að svíkja frá frá fyrir menn og þjóð... allt farið er úr böndum, ykkur taka ætti höndum..stríííð er hafið gegn vorri stjórn... ] [ Alið heiftar hatur hefur eyru er hlusta eigi á auga fyrir auga, allt sem hjartað fyllir þá. Blessuð börnin og borgarinn má deyja burt sleppa þeir sem fyrirskipa og stóru orðin segja. ] [ I dagenes forsvundne spor ligger barndommens stækkede fjer. I aftenens ankomne brise svæver livstidens arrige sky. I nattens nuværende mörke flyver döden leende forbi. ] [ Höfugt geislaljósið í staf gegnum ský stikaði jörðu, kveikti í rennandi læknum og lék sér í háfjallatindi... ...þetta náttúrunnar yndi. ] [ á sólheimum eru börnin hress en það verður samfélaginu tæpast til hagsbóta þegar til lengri tíma er litið ] [ Nóttin dregur að og svefninn kallar á Sit sem fastast og stari á skjáinn Myrkrið fellur inn og þögnin breiðist út En hrotur hækka ótt að baki mér Næturlífið rólegt er að mínu mati fínt Óttast skort á aga og vinnuþreki frá dag til degi ] [ Líf. Úr augum þínum ljósið skín svo skært. Stjarna fædd á jörðu. ] [ ást + ríða = ástríða ] [ Fyrir einu andartaki ríkti gleðin Núna, ríkir sorgin Fyrir einu andartaki hló ég Núna, græt ég Fyrir einu andartaki vorum við elskendur Núna, erum við vinir Fyrir einu andartaki var allt að byrja Núna, er öllu lokið ] [ Ég var í himnaríki, ég sveif á ástarskýjunum Kannski fór ég of hátt upp því að ég sá ekki neitt Sá ekki neitt fyrr en það var of seint Og ég hrapaði til jarðar og særðist.. ] [ Tárin runnu niður vangann Tárin sýndu mínar tilfinningar Tárin leituðu eftir hjálp Tárin vildu fá svör Tárin sýndu hvað ég elskaði þig mikið… ] [ Tár falla inní mig og rigningin breytir mér inní bitru sólinni ég elska rigninguna opnar hún augun mín og hún hreinsar mig og skít heimsins og birtist mér glod ég elska hana ávallt í sannleika sagt okkar undirstada í eilífu lífinu ] [ Þessi ólukkans fjandans fælni fullgerð virtist af rælni stend þó styrkum fótum en sjálfur að glíma samt forðast þótt fari tíminn senn að korðast í jarðföstum földum rótum Þó óhamingju hegri ljúgi og um mannsins himinloftin fljúgi þá er það mannvits meðferð sæla en óviss sannleikur í sinni og í sálar járngirtu minni þá sem virkir verund sína pæla Án róta og moldar sem einmana volkuð spýta í súrefniskassa svo agnarlítil á að líta Jurtin með nál vökva fær í þyrstum æðum í húsi gróðurs grær hún og finnur fjörið en grætur þegar andanum ekkert er kjörið líkt og barnið veikt í voðarklæðum ] [ Persónu valfrjálsa vill ei við mig tengja við yfirborðið marar tómleikinn hið innra gægist þó fram úr fylgsnum fallvölt í framan fasið er hverfullt og holund er í sálu. Hvað er ástin hugsun eða tálsýnt tilfinning í dróma táldregnir þankar vitstola ímynd vítislogar heljar -sá er ekki hafði ást hefur ei lífi lifað. ] [ Árla morguns við vatnið með veiðistöngina sólin speglar sig í vatnsfletinum og þögnin ómar hljóð í kyrrlátri náttúrunni er himbriminn syngur sinn söng. ] [ Býð í bíó brosandi mey eftir deit gærdagsins sitjum hlið við hlið hljóð og prúð og bíðum næsta dags. ] [ Sá sem allir óttast! Sá sem allir mölva í smátt! Sá sem allir prumpa! Já, þið áttuð kollgátuna: Þetta er Signor Rullí sá eini sanni markgreifinn af Merkigerði. Píkuþjófur með öllu góðu sem illu þótt gleðjist Gummi við gígvatnið gráa sem jafnan tældi geimkúlu og ál f. sem í sakleysi sínu spreyjaði brundi yfir gesti og gangandi mér kennir til þess enda hef ég margan manninn heyrt taka til þess. ] [ að losa hnullunga með járnkarli. ] [ Sálarskip strandaði forðum hjá manni er ég kannaðist við stærri en fá lýst með orðum voru hans sótsvörtu viðmið Geðheilsan var við það að tak´ann leiðan með grjótfulla vasa útí sjó Hann komst yfir kaldasta klakann með erfiðismunum, en þó Nú er sá maður farinn í friði laus við sitt þunga slör Gengur í byrtu, svífur á brosi á leið sína hinstu för ] [ Takiði bara myndir, lesið póstinn, skoðið sjúkraskýrsluna, vegabréfin og stöðuna á reikningnum mínum. Hlerið símann minn og skoðið það sem ég skoða á netinu. Fylgist með mér dag og nótt... Gangið bara niður réttindi mín á að eiga mér einkalíf. Ég er nefninlega eins og hinir þegnar landsins, ég læt vaða yfir mig svo þetta er allt í lagi. Ekki gleyma að neyða mig til að setja mæliskífu í bílinn minn svo þið getið sektað mig aftur í tímann. Bless á meðan ] [ tindilfætt hnáta með veður í aðsigi töltir um grundirnar með rúgur og bygg og gnóttna tá. Það er ekkert sem hindrar för hennar því á Ísland í hlut, gósenland veðurfræðinga ] [ All day I sit by myself thinking of escaping Look at the people, they try but they’re faking Look to the sky realise this What you see is a cloud not a flying dish Run from reality Run really fast Sense you’re alone but still you are last Mist in my eyes I can’t see clearly You’re holding my hand but I know I will fall, surely..... But frightened I’m not of falling for you Because I know that I do I really, really love you Forest is chasing me Wild side taking over Then I wake up the next morning Wishing I was sober Unleash the knot set me free I can’t remember the name It’s called L-O-V-E From L comes the Life wich I absorb and breath The O is Obscured, my image, when not freed V is for Violence I would fight for you’re heart And E stands for Everyone Because everyone has got a HEART! ] [ Alone... Everyones gone, yet here I stand Alone... Standing here staring at my hand Alone... My hand, the only one without a ring around my finger Alone... Expectations broken, now the shadows start to linger Alone... I wish the sun would shine, and make them go away Alone... Sitting in a corner, my inner self begging me to stay Alone... I talk to none, but myself Alone... No not talk, more like thinking to myself Alone... Repeat, depression, repeat Alone... You read this thinking this is deep Alone... This is the begining, the surface of it all Alone... You can´t imagine answering the one and only call Alone... But I try... Alone... Try to lift up the phone... Alone... I answer it “Hello” but realise I’m... ...Alone ] [ ástsjúkir bananar brjálaðar appelsínur pera með morðæði tómatur með fóbíu fyrir tómötum geðklofið jarðaber vínber sem ofsækir fugla ] [ Kindin stóð, kunni bara að kúka, bíta og kyngja langaði henni lengi að fara langt í fjall að syngja. Grá kindin gekk af stað í gegnum landsins engi. Smá spölur og meira en það sú hafði verið lengi. Hún kom að háa tindinum heppnin var ekki með, var hún í mesta vindinum en viljin var eigi peð. Stundum var mikið af steinum þá voru mikil hopp, án nokkurar hljálpar frá neinum hún komst upp á topp. Gerði svo greyið sig tilbúna til að syngja á milli dala, en fattaði svo eftir ferð lúna að hún kunni ekki að tala. ] [ Værum svefni venjast þokkar Landið tætt og lúið grætur Traustir menn, nú er tím\' okkar Byltingu byrjum í skjól\' nætur! ] [ Við Bárðarlaug um stund ég stóð og sporum fylgdi hægt og hljótt. Hjá Tröllakirkju var berserksblóð ég bað um grið þá einu nótt. Í bjarginu beru var þursinn einn með beyg í hjarta og stafinn digra. Hann stóð við stálið svara seinn. Snæfellsásinn er vanur að sigra. Um hann miðjan var megingjörð meitluð úr bjarnar beinum. Allt í kring stóðu vættir vörð varðir af dropasteinum. Skreytti jökull sem silfurteinn þau stærilátu hallarkynni. Sverðið hans var feigur fleinn það fann ég brotið inni. Dumbungur var við tind og drang og drungaleg heimkynnin öll. Honum fannst ég færast mikið í fang að friðmælast við tröll. Við Djúpalónssand er dauðinn vís drýpur af haföldu faldi. Hætt er á broti ef báran rís og brýtur á þeirra valdi. Á leiðarenda leiddur í þrot logn eftir storma og byr. Í huga sár og beiskjubrot þá birti við Sönghellisdyr. Hellubjargið hátt þar fyrir hraunað sem úfið haf. Gyllt er margt sem grátt er yfir gleymdur sá er gullið gaf. ] [ Af ást og eigin girnd er margt sem illa fer má það vera mikil sind sem bæta vil ég þér Nú í huga þér býr ljót mynd af mér sem bæta vil ég þér Ný mynd af mér, mynd af þér, mynd af okkur. Er sett saman í hjarta mér, hjarta þér. ] [ Í morgun þegar ég vaknaði og kveikti ljósið komst ég í samband við guðið í sjálfu sér. ] [ Ráfa um skóginn í von um að finna þann sem ég ætla að skjóta. Verð að miða vel skjóta af öryggi, vissu – beint í mark ! Málið þá vonandi dautt, öll framtíðin blasir nú við og hann er minn – því ástarörin fór djúpt í hjarta hans. ] [ Grasið er ávallt grænt það sveigist eftir því hvernig vindurinn blæs og í miðri iðunni stend ég fullviss um að ég er á réttum stað á réttum tíma á bakkanum hinu megin sem ég sé í fjarska er bara framtíðin, ekkert sem mig vantar núna ég er sátt og tilbúin að takast á við það sem að mér er rétt ég þarf ekkert annað en græna grasið mitt þar sem ég stend ] [ Leyndir og ljósir draumar streyma inn um hugann og í fyllingu tímans þeir rætast og leggja drög að nýjum hugmyndum og væntingum ekkert nema eftirvænting fyllir bikar minn ] [ Í Ollantaytambo er örvasa maður undir himni tekur sumri að halla. Og biturðin skín þetta er beiningastaður blöðin af trjánum tekin að falla. En Manco hann skýldi í myrkrinu svarta mönnum sínum er sóru þess eiða. Að Inkanna veldi ætíð mundi skarta öllum sínum draumum með töfrum og seiða. Borgin Machu Picchu var fegurst á fjöllum fjársjóður hulinn er svaf þar í öldum. Falin og geymd fyrir grimmd og spjöllum gimsteinninn er lifir á sögunnar spjöldum. En við grjóthleðsluvegginn er gömul kona sem grætur og það er ekkert til ráða. Kalin í hjarta kramin og allt án vona nú kveð ég Perú og geng hljóður til náða. ] [ Ónei þarna mistókst okkur hrapallega steinar hrundu yfir hinn gullna meðalveg við sprenginguna nú verðum við að fara aðra leið ] [ Mig þyrstir eftir þöglum orðum þínum svipmótið mitt bjarta eftirvænting svellur mér í vonarbrjósti er bíð ég í ískaldri þögninni leyndra boða þinna svaraðu ljúfum sýndarorðum ] [ Djúpt inn í félögum friðsælla þjóða forboðnir ávextir dafna. Mitt inn í spillingu skjótfengins gróða sjálfstæðar hugsanir kafna. Á mörkum hinna eilífu orustu valla ófrjálsir hermenn deyja. Á vígvelli hugans hundruðir falla, hugrakka baráttu heyja. Í stórbrotnum þingsölum þögulla nefnda þjóðkjörnir fulltrúar lofa. Handan við lágkúru lélegra efnda lögboðnir þingmenn sofa. Hálfunnin frumvörp fyrir þeim liggja um fullvalda sjálfstæðar lendur. Þeir framtíðar auðinn eiga að tryggja örfoka landsins strendur. Lágstefndar sálir í svartnætti skæla skrimta við ömurleg kjör. Skuldugir feður fjárvana þræla falla að lokum í kör. Í hrollkaldri lognmollu liðinna tíma liggur vor framtíðar slóð. Nú er hún háð okkar öreiga glíma um öndvegis sjálfstæða þjóð. Með hárbeittum vopnum verjum við heiður og virðingarsess þessa þjóðar. Framundan virðist vegurinn breiður á víðáttu menningaslóðar. ] [ Vesældóm skaltu sigra og sjálfan þig vel að virða hrista af þér doða og drunga dáðina efla af þunga til þors og heiðurs að huga og hugleysi allt að buga kostaðu kjarkinn að efla og karlmennsku fram að tefla ] [ Hvelfingar myljast og hrynja yfir þig hrævareldar kvikna og verða að báli. Tíminn brestur og teygir sig og tætist í alsherjar sýndar táli. Rúmmið riðlast og sundur skilur seglar brotna í örsmáar eindir. Orkan flæðir magnast og mylur Miklihvellurinn aflinu beindir. Að baki er sú brennandi gáta er byrgir oss sýn og öðrum lýtur. Að endingu verður eitthvað undan að láta óvissan ræðst er ævinni líkur. ] [ Ég sá þig regnvota í kvöld þú vars orðin svo köld mér fanst líða heil öld og engin þurr tjöld já þau virtust föld. Gömul pappa spjöld hefðu greitt öll gjöld, gefið öll völd og hreinan skjöld æ þett er tómt nöld\' ] [ Im trapped in my own mind. No one whants to know what is in there, nobody cares. I can scream it from a roof top but nobody listens. My heart doesnt care any more, my soul is too weak to fight it. I have given up, surrendered to it. Cause the pain is to much for me to face it. I have lost myself in the mask. And i dont want to go back. Im strong inside somwhere. Im slipping away. Away from me. From the person i once was. And in a twisted way it feels good! ] [ Finnuru það þegar kaldur vindurinn snertir kynnar þínar... Hver rosalega ósjálfbjarga og máttlaus þú ert? Finnuru það þegar sá sem elskar þig smellir kossi á varir þínar... Hve heitt þú vilt getað elskað á móti? Finnuru það þegar hálkan steypir þér niður á blauta götuna. Hve sárt það er að hafa engan til að hjálpa þer upp? Finnuru það þegar þú situr í myrkrinu með þegjandi gsmsíma í fanginu. Hve heitt þú óskar þess að einhver hringi? Finnuru það þegar þú faðmar vini og heilsar þeim... Hve lítið þeir vita um þig í raun og veru? Finnuru það hve sárt það er, þegar einmanaleikinn fer í gegnum æðar þínar og sál? ] [ Ég vil týnast, týnast í myrkrinu, og svo vil ég finnast, finnast í byrtuni. en ég vil ekki sjá þig á hvítum hesti með sverð svo bjart að ég sjái lítið annað, þegar himinn er hvort sem er svo bjartur, að sjón mín skerðist. því ef þú ert á hvítum hesti, í ljósum fötum og með bjart sverð, á ég hvort sem er ekki eftir að sjá fegurð þína. Komdu frekar á svörtum hesti og í dökkum klæðum, þannig að ég sjái þig sem best. ] [ Mórinn svo grænn í gróandi fjörunni með þarann og þangið báran við sandinn og skeljar leikur líkt og barnið glatt við sólgyllta sjávarborðið. ] [ Birtist líkt og glottandi vígbúnum mjallhvítum tönnum eins og íhugul langsoltin úlfynja, um skoltin leikur órætt peningabros, slefar tómlæti, blóðhlaupnum augum, á sakfellda harmræna bráðina er hún læsir góðlátlega kjaftstórum orðum í viðkvæmt fölbleikt holdið. ] [ í ljósaskiptunum sat hún dökkhærð með uppsett hár og litla tösku við fætur sér á trádrumbi við skógarstíginn þarna sat hún og beið léttklædd í bleikum kjól og hælaháum skóm með eldrauða hjartalaga halogenblöðru sem bærðist í golunni hún beið meðan við horfðum á hestakerrurnar flytja fólkið í átt að lestarstöðinni þegar síðustu sólargeislarnir léku sér í laufi trjánna meðan skuggarnir lengdust og litlir ástarenglar lágu örþreyttir á blómakrónum uppiskroppa með örvar eftir annríki dagsins amor amor og þessi eilífðar bið eftir honum ] [ Hvað er ég alltaf, að stressa mig, á hlutum, sem ég get ekki, gert neitt við. Ég hef til dæmis, áhyggjur yfir því, að þetta ljóð sé ekki um neitt, nema áhyggjur mínar. Ég hef áhyggjur, kannski, af allt of mörgu. Ég hef áhyggjur af því, að áhyggjurnar, hafi áhyggjur, af áhyggjunum, sem hafa áhyggjur. Þetta hringsólast, í höfði mínu, hring, eftir hring. Af því hef ég líka áhyggjur. ,,Seppi viltu gjöra svo vel ég er í viðtali, viðtali við háskólanema, í sálfræði!” ] [ Þarna hló ég, allir litu á mig. Það ískraði undarlega, í hlátrinum. Þetta var of, of, of, of, neiðarlegt. Ég roðna. Ég svitna. Ég naga neglurnar, niður að kviku. Jæja þá, jæja þá. Þetta voru ýkjur. Það voru allir að, horfa á gamanþátt, sem ég lék í. ] [ Það er svolítið, sem ég, verð að seigja þér. Mig dreymdi eitt sinn draum. Draum um þig. Þú stóðst brosandi, og fagnaðir mér, opnum örmum. Þegar ég fattaði, fattaði, þegar ég vaknaði, að ég hafði misst þig, skammaðist ég mín. Ég hljóp þá til þín á þessu fallega, bjarta, vorkvöldi. Þú komst og sagðir mér, að ég hefði komið, komið of seint. Þú áttir aðra. Þá skildi ég, að ég var í vitlausu húsi. Ég hljóp í þitt hús, faðmaði þig að mér. ] [ Finn gráa hitamolluna á hörundi mínu sé skugga í hornunum ljós skýn úr kaffibolla tekur eitt skref í von og deyr þegar haust raunveruleikans skítur með vopnum sínum og flýr haustið lifir litríku en stuttu lífi hraðskreitt eltandi stutt pilsin inn málar græn laufin í brúnu og rauðu sendir gestina heim sit á brotnum stól dottandi í dögun tautandi einhvern dónaskap skömmin liggur í harðindunum svar vetrarins við paradís sumarsins kaldur, vindur, frost, hvítur, fölur, tindrandi hvítur kristall á gluggakarmi hvítar rósir og hvítt vín þá finna myrkar sálir til freslsis hamingju og gleði það er enginn endir á þessu öllu sandurinn á ströndinni steinarnir í fjallinu reyni að nálgast eilífðina en eitt augnablik nægir eitt augnablik sem lengist í óendanleikanum fingur snertir fingur tíminn er óbuganlegur haust, vetur, sumarsæla hringiða í kringum okkur þangað til ég breytist aftur verð einhver önnur aftur og ég sé sólarljós skýna úr kaffibolla laufin verða græn steinarnir kyrrir veröldin hreyfist í kringum mig og ég er kyrr en breytanleg finn hringiðu jarðarinnar hring eftir hring eftir hring eftir hring verð ringluð í eilífðinni til endaloka. ] [ Mig langar að seigja þér sögu. Sögu sem að fjallar um þig og mig. Þig og fallegu örvarnar göfugu, Sem var skotið þegar ég sá þig. Ég fylgdist með þér hlægja með vinum þínum, reiðast, brosa, vera töff og með stæla. Mig langaði að láta þig verða að mínum. En varð reið eftir að aðrir hjarta mitt fóru að kæla. Mér varð alveg kalt, þegar einhver tók þig. Mér fannst nokkurn veigin allt, tómt, þegar þú ekki sást mig. Loksins tókstu eftir mér, en þá tók ég ekki lengur eftir þér. Mig langaði ekki í athygli frá þér, ekki einu sinni að þú sæir meira af mér. Ég var þér reið, því alltof lengi eftir þér, ég beið. Ég sé það bara nú, ég hefði bara átt að setja mig í sömu spor og þú. Ég eflaust ekki sæi þig, frekar en þú sást mig. Mig langar að enda þessa sögu. Söguna af okkur tveim. Þegar við elskuðum hvort annað. Ekki á sama tíma, en þó einhvern tíma. Eflaust viti þið endirinn. Við erum hjón og búum við Grafarvoginn. ] [ Talar eins og svín. Hlær eins og hæna. Sér eins og tígur. Gengur eins og köttur. Grætur eins og hýena. Fagnar eins og rotta. Mistekst eins og apa. Hvílist eins og fugl. Í rauninni vantar allt sem á að kallast maður. Manninn vantar. Eða hvað? Jú ég fann hann. Hann er sá. ] [ Ég varð svo glöð, glöð þegar ég sá þig. Þú hljópst í fangið á mér, glaður, þótt illa á stæði. Þér fannst það ekkert óþæginlegt, að ég skildi nefna það við þig. Þér fannst svo sjálfsagt, sjálfsagt að ég væri til, eftir þennan atburð, þessa sorg. Mig langaði að þakka þér fyrir, eftir aðeins stutta fyrirgefningu, jafnaðiru þig. Í dag, get ég alltaf þakkað þér. Mér fannst svo sjálfsagt, að þú skildir líka lifa. Eftir atburðinn, atburðinn sem lá þungt yfir mér, þennan dag. Þennan dag, hjálpaðiru mér. Þótt þú ættir sökina. ] [ Á hverri sekúndu Stelur ormurinn úr mér vitið Ekkert eftir nema spurningar Sem ég veit svarið við ...hver er ég? ] [ Æ! ertu til í að klóra mér undir herðablaðinu Brútus minn? ] [ Nóttin hefur árvökul augu og þúsund oddhvassa fingur segðu mér að annar dagur renni upp ] [ Klukkustundir líða hver dagur fellur í skugga þess næsta og í dreggjum þess liðna bíður fullkomið andartak sem enginn hefur uppgötvað. ] [ Uppfull af hégómagirnd og klisjum ber ég á mig gervirauðar varir og segist ætla að elska þig við allar aðstæður ] [ Þú segir mér að byggja skýjaborgir því ég geti allt. Í fávisku minni gerist ég aumkunarverð, hleð ógreinileg háhýsi úr púðursnjó og sandi og mikið djöfull finnst mér ég asnaleg á meðan. ] [ Mig langar að anda þér að mér; sjúga orku þína niður í lungun mín og reykja þig upp til agna jafnvel þó þú étir mig að innan og ég hafi fengið ýtarlega fræðslu um það hversu skaðlegur þú sért mér. ] [ Bara smá og smá í einu ég dreg það útúr munni mínum, blautt og slímugt. Bara smá og smá í einu ég kem því einhvern veginn frá mér, ætlunin er samt ekki að koma því yfir á þig. Ég veit ekki hvað þetta er en þetta er ágætis byrjun. ] [ það glampaði á hnífinn blóðtaumur lak í hjöltu líkið lá spurnaraugum andvana úr baki dreri og lak niður tröppurnar í sandinum sýndist það svart sólin skein það glitti í hvítar tennur hins brosandi Brútusar ] [ Löngum lýtur löngun þrá, lifa vilt og njóta. Lykli leyfist lesa skrá, loku frá að skjóta. Lausnin lífsins látlaus þá, leynist í að móta. Lömbin læra leika smá, lífið fær að fljóta. Lærðu lífsins list að sjá, látt’ ei frá þér þjóta. ] [ Tíminn daginn dregur frá morgni dagsljós gegnum. Kvöldið nálgast kólnar þá. Komdu, myrkrið egnum. ] [ Ég er sæll og hreinn nýbúinn í baði er þó ekki nýbúasveinn þótt það væri ei skaði Já ég er tandurhreinn hvítþveginn sem mjöll úps ég verð of seinn í konungsins höll En gleymum því, ég segi njótum lífsins, snú því það er ekki á hverjum degi sem maður er eins hreinn og nú. ] [ ég er að sifelt fallin farðu nú fuck you ég er í vanda og það er erfitt að standa við hlið djöfulsins þvi að það eru allir að falla hvað á ég að gera í þessu lífi þegar ég get ekki lengur staðið í mínar fætur.mig vantar hjálp og það strax því að djöfullinn er að taka mitt líf og það er bara eitt hægt að gera í þvi þú er 555 og ég er 666 og þú munt fara í blóð baða því að það er varla hægt að standa í því að við erum í vanda og það verður að gera eitthvað í þvi og þér var nauðgað hvað ertu að stautta (hvað á eg að gera )þú er eitthvad að hvakka og þú verður að redda og hvað ertu að bralla og það er engin tími í að bralla eitthvað þarna fucking fífl og reddaðu málonu núna eins og skot og mun ég alltaf góða reynast þér..... ] [ þú munt falla með þessa galla á meðan þú kallar á alla þá ertu fallinn skallinn farðu niður í engihjalla og talaðu við Halla og fáður að bralla með bróðir hans honum skalla þá áttu að fá skalla..... ] [ Elsku amma. Ég vaknaði upp, síminn hringdi, Röddin í símanum var Sólrún. Hún færði þær fréttir sem enginn vildi, Því sorgin, hún breiðist út. Ég fór heim til ömmu, Byrjaði að syrgja. Þann unga mann, Sem saknað er sárt. Hugsaði um lífið, sorg Óskar andri frá okkur hvarf. Þar sem hann bjó í Reykjavíkurborg, Hans er saknað. En hann myndi vilja, Að við myndum skilja. Þann lífsins gang, Sem við fáum í fang. Brosum og hlæjum, Og minnumst þess stunda. Er góðar voru, Og minnisverðar. En elsku mín amma, Vertu nú sterk. Lífið það verður að ganga, Lífið, kraftaverk. Í bænastund sátum, Og felldum stór tár. Horfðum á engil lífsins, hálfgert ástarfár. Ég mun seint skilja., Þann missi sem hrellir mig. Hugsa um gang lífsins, Og Óskar, ég hugsa um þig. Mér finnst svo sárt að horfa, Á ykkur sem grátið svo sárt. En barn Óskars, óskabarn Maíbarnið kemur nú fljótt. Óskar minn við elskum þig öll, Við, verðum sterk og klífum öll fjöll. Takk fyrir frændi að vera svo góður, Ást þín er enginn áróður! ] [ Þrengjandi fólk Þú vilt reyna að stjórna mér, sálgreyna mig hættaað horfa á mig hóra, lið fyrir lið ég er bara svona mella, sjálfur um sig þú vilt reynað vaka yfir mér, þú pirrar mig þú verður uppáþrengjandi, hugsaðum þig þú verður tímalengjandi, eltandi mig reynandi að skilja stúlku, hugsaðum þig horfir á mig grefur svo djúpt, spyrjandi mig brennir litlu heilasælur, Birgitta Rós hugsar með þér hvað er að þér, ertu þunglynd litla reiða stelpukind, þetta er sind hver er orsök og hvaða rök, hefur stúlkan hvers vegna ertu svona leið, og svona reið þetta er bara gelgjuskeið, leiðin er greið taktu á vandamálinu, og taktu lit þetta segja þau sem hugsa, og mynda hnit Þú skilur mig ekki og munt ekki skilja svo láttu mig vera það er ég að vilja ein á barmi örvæntingarinnar minnar eiga líf vinkonunnar, vinkonu þinnar Augnarráð svíður mig fokk jú, þú stöðvar mig og hugsaðu um sjálfa þig, ég hata þig og þú ofsækir mig stöðugt, særandi mig hættu strax að horfa á mig, vá! þennan ríg láttu þig nú bara hverfa, brothætt er líf burt, burt úr mínu strax ekkert gaman burt burt og láttu eins og ég þér er sama þú ert útlendingurinn hér, þessu lífi munt ekki ná því bara gat, hjartað ég rífi ég vil bara næði alein, útí horni er bara að skapa vandræði, sái korni korni í svartann akurinn, akurinn minn sem skýlir mér langt burt frá þér, en barum sinn hvernig myndi þér líða ef, ég horfá þig hvernig væri það að bíða, að fá smá grið hættað horfa á mig hóra, sálgreina mig Þú skilur mig ekki og munt ekki skilja svo láttu mig vera það er ég að vilja ein á barmi örvæntingarinnar minnar eiga líf vinkonunnar, vinkonu þinnar. ] [ -Án þín minn heimur mun hrynja, himininn yfir mig falla, allt er í rúst, og ringulreið án þín þín það yrði ekkert heim. Vertu alltaf dúfan mín, Þú ert stóra ástin mín, Með ljósa lokka, hrokkið hár, Þetta er algjert ástarfár, Sú semég dýrka og dái, Svo falleg, ég gæti dáið, Fallega kisa silkimjúk, Þegar ég er engli hjá, Hjartað slær örar búki á, Ég trúði á ást við fyrstu sýn, Og sú varð raunin ástin mín, Í sæluvímu ég varla sef, Og þá ég raula þetta stef. Án þín minn heimur mun hrynja, Himininn yfir mig falla, Allt er í rúst og ringulreið, Án þín það yrði ekkert heim. Mín stefna er orðin allveg ljós, Svo beiskur draumur í dós, Án þín ég yrði straumlaus á, Í lífvana heimi ég væri þá, Með þér ég get allt og geri, Með þér ég er sem ungur héri, Stefnulaus í stórum heimi, Skynsemin er í algleymi, Fagra fljóð og dúfan mín, Vertu hjá mér um ókomna tíð. Án þín minn heimur mun hrynja, Himininn yfir mig falla, Allt er í rúst og ringulreið, Án þín það yrði ekkert heim. Án þín minn heimur mun hrynja, Himininn yfir mig falla, Allt er í rúst og ringulreið, Án þín það yrði ekkert heim. ] [ Sorg, umlykur hjartað kalda, kalt af völdum sorgar, sorgin fylgir tóminu, tómið birtist í dag.. Farinn, en kemur aftur, aftur heim til mín, ég sakna þín, þú ert ástin.. Það er svo langt, langt í komu þína, þú til mín, ég dey að lokum... ] [ þá eru svo blá, að ég kikna í hnjánum, mér finnst ég svífa, og mig langar að, ganga að þér og kyssa þig. Þau eru svo blá, að ég felli tár, græt í svefni, og mér finnst ég detta, í hvert sinn sem þú lítur á mig. Þau eru svo blá, að ég get ekki hugsað um annað, en augun þín og, ástina sem býr í brjósti mér, en þú villt mig ekki. ] [ Ég er svo hrædd, um hjarta þitt, að þú veljir annað, en ekki mitt, í martröðum mínum, birtist hún, hún kyssir þig, og þú ditzar mig, þá græt ég svo sárt, því vonin hún brást, er þetta draumur? Hugur minn aumur, treystir ei neinum, neinn kemst nálægt mér, en gerðu það vinur, láttu mig treysta, að ekkert muni þig freista, ég er svo hrædd, ég er svo hrædd. ] [ Þú drekkur, og sekkur, niður í hyldýpi, helvítis. Þú verður háður, og smáður, reynir að komast upp, úr helvíti. Þú sekkur dýpra, drekkur lítra, tekur sýru, frá helvíti. Þú verður þunglyndur, telur kindur, á heróíni, helvítis. Þú villt deyja, unga meyja, þú ert þræll, helvítis. Þú selur þig, líka mig, allt fyrir dóp, helvítis. Þú færð sprauti, sest í lautu, gullna sprautan, frá helvíti. ] [ Hún grætur, hvað gerði hún rangt? Hún lætur, eins og umskiptingur. Hún er hrædd, um líf sitt. Hún er mædd, af sorginni sem fylgir henni. Hún rís á fætur, gengur heim. Hún gefur gætur, tóminu innra með sér. Tóminu sem stækkar ört, og hylur sál hennar. ] [ Hvar er mamma? Hví er ég hér einn? Hví skildi hún mig eftir? Hér finnur mig neinn. Hún var svo hlý og góð, með mjólkina volgu, en ég var ekki stúlkubarn, hún hugðist nefna mig Olgu. Hví fæddist ég drengur? Hér er svo kalt, ég tóri ei lengur, dauðinn svífur um allt. Húm drenginn bar út, út í dauðann, þann litla kút, með líkamann rauðan. Mitt hatur vex, og ég hefna mín mun, á móður og föður, ég er á fremsta hlunn. Ég svíf inn í hús, og byrja að arga, drep svo allt og alla, öllum mun farga. ] [ Það gengur um stelpa í suðri, hún fæddist í vestfirskum faðm, líf hennar varla er gefið, hún berst með hverjum arm. Það gengur um stelpa í suðri, sem vegnar svo ósköp vel, hún talar og hoppar og skoppar, leggst ekki inní dimma skel. Hún brosir og segir mér sögur, um frægðarför út í heim, “é va so duleg í boston”, og ekki lýgur hún þeim. Svo elskuð er stelpan í suðri, sem býr yfir gleði, ei sorg, hún gefur af ást og hlýju, þar sem hún býr í fjarlægri borg. ] [ I can\'t do it anymore, i need some help, help from a Angel, just come and find me, and give me some peace. ] [ Ekki labba fram af brú þó þig vinur skorti trú heldur skaltu drottinn lofa áður en þú ferð að sofa ] [ Ég man það svo vel, Það lifir í huga mér, þú treystir mér alldrei, alldrei neitt rétt hjá mér. Þú ert rétt og ég er rangt, þú veist allt, og getur, hefur vit fyrir mmér, og þú gerir allt betur. Takk sá rétti, þín sú ranga. ] [ Þú sagðir svo fallega hluti til mín, um mig, frá þér ég kímdi og hugsaði um af hverju þú hvíslaðir að mér. Kannski er ég í allvöru svona sæt, prinsessa, falleg, elskuð, best fyrir þig þú lýstir hlýjum hug til sætu mín, eða kannski vantaði þig bara að ríða kannski vantaði þig bara mig... ] [ Af hverju vil ég bara hafa þig hjá mér? Ef ég elska þig svona mikið, afhverju mátt þú þá ekki skemmta þér? Sakna þín strax ef þú ert ekki nærri. En þegar þú ert hér þá eru sælustundirnar færri. Ég loka á þig og læt einsog belja, þú ert yndi og allt, samt ertu að kveljast. Af hverju er ég svo frek, bara frek? Pjúra leiðinleg, og allt frá þér tek. Vinirnir hata það og ég skil það vel, þú reynir að bæta úr öllu, en engum er um sel. ] [ Svo gjöfult er brosið, ef ekki er frosið. Svo svikult er augnaráð. Svo kalt erað skilja, hvað strákarnir vilja. Svo heitt er vort ástarfár. Við lifum í heimi, sem djöfullinn teymir. við deyjum ef hann verður sár.. ] [ Ég vildi að ástin og eldur, væru í hjarta mér. Bruni og áhyggjur aukast, innst inni í sjálfri mér. Ég fæddist sem sjóðandi sykur, ef aðeins þú tryðir mér. væri ég sólskyn sem eykst, svo gleðin hún skýn af mér. Ég vel og hafna með herkjum, svo ég brenni mig. geri svo mistök og mæðu, þegar þú særir mig. Vertu því vær og vitur, með óreyndu mér. því verðandi litur og leikur, verða úr þér og mér. ] [ Vakir, vakir meira og biður um styrk til getu, vissu og vonar. Biður og bíður til endaloka er vaktin endar og vonin skerst ] [ -Ískaldur sviði, líkt og lítil hrísla í vindi, Ég skelf og græt. -Von og höfnun, vissa um neikvæða svörun. -Hver vill hana, sem fer sína leiðir? Ekki hann, sem hún horfir til. Sá vill barbí, það nístir og meiðir. ég skelf og græt, þessi vonlausi sviði. ] [ Þegar mér leið svo illa, þá straukstu mér blítt. Mér hafði verið svo kalt, en er núna svo hlýtt. Ég var svo sár og reið, að hjarta mitt skalf að reiði. Mér leið svo illa, en svo brosti ég af gleði. Þú hélst mér svo fast, og blítt að hjarta þínu. ég elska þig, og ekki bara pínu. Mér líður svo vel, og ég dái þig. Þú ert svo nice, og góður við mig. Takk fyrir allt ástin mín, þú veitir lífi mínu sýn. ] [ Þú ert mín stoð, mín eina ást. Þú ert mitt goð, sem alldrei brást. Þú ert mitt líf, þú verndar mig. Þú ert minn prins, ég elska þig. ] [ Hann situr þarna, hann var barinn. Hann situr þarna, hann var laminn. Hann situr þarna, hann var brendur. Hann situr og grætur, hann er skemmdur. Ónytjungur, asni, fáviti, dýr. Heimskingi, aumingi, ræfill. Hann grætur, grætur sárt. Uppgefinn á lífinu, langar að deyja. Hverskonar móðir hatar svo heitt? Hvað gerði hann rangt? Hvað á hann eftir langt? Af lífinu sem suckar, af lífinu sem brást. ] [ ,,Ástin mín ég sakna þín líka, og mikið vildi ég geta kúrt hjá þér\" Sælustraumur, ég er að fríka, og hugsa ,,vá, ástin er hér\" Ég ímynda mér og er ekki að hika, að hlýja þín sé tileinkuð mér. Vona og vona, að lífið sé svona, um aldir alda, og þú sért hjá mér.. ] [ Það var þá, sem ég þarfnaðist, þín og nálægðar. Þá, sem ég vildi þig, mér leið illa, var sár. Yilfinningar upp og niður, grátur, tár, selta, þú varst busy, ég var í einskonar sturtu, táraflóðs. Ég bað um þig, ,,viltu koma?\" ,,No can be\" var svarið frá þér, ég kúrði með Lalla, mjúkum og þögglum, annað augað er að detta úr, keyptur í dótó, ríkur af ást, til mín, en ekki frá þér. Gast ekki komið til mín, á hvítum hesti, fyrir mig? Vera þín hjá mér, dyggði og bjargaði, sálinni sem visnaði og dó. ] [ stundum er ekki nóg að skrifa þessi ljóð stunur á blaði því minning var góð Myrkrið grúfir sig yfir herberginu og veitir mér hlýju í þessu dökka skjóli. Hér sér mig enginn. Hér er enginn. Hér eru engir gluggar. Hér heldur mér enginn né huggar. Hér heldur mér enginn né ruggar til svefns. Aðeins tónarnir úr plötuspilaranum hér varpa orðum í eyru mér og halda mínum sönsum fyrir mig. Má ekki hugsa um þig. Má ekki færa þennan sjúkdóm yfir á næsta stig og gera hann banvænan mér. Hér sér mig enginn. Hér verður enginn. Hér vill enginn vera... með mér. senn teygður á langinn er svartnættisanginn sem grúfir svo lágt yfir tilveru minni ég veit enga sök en samt dvel ég hér fanginn enn sjúkur á geði og loka mig inni... Það er bankað á hurð. Einhver vill komast hingað inn og læðast í hugann minn. Hver getur það verið sem stendur með kverið og les upp þau ljóð sem mér voru svo góð? Ljóð er ég skrifaði fanginn af ást? Þegar svartnættisanginn aldrei sást og tilveran var sem skást? Löngu kvödd er sú kvenmannsrödd sem áður mér hlýju olli. Er hún komin aftur að nýju? Stendur við dyrnar falskur skolli sem tælir mig út og ælir út birtu sem lendir á mér? Hér er ég hólpinn. Hér sér mig enginn. Hér verður enginn. Hér vill enginn vera... með mér. Myrkur er skjól mitt. Styrkur er skugginn. Lokaður glugginn. Vil ekki fara út á meðal manna og mara í hálfu kafi. Vil ekki týnast í illskunnar hafi og ókunnar lendurnar kanna. Hér hef ég skjól. Hér er mitt ból. Hér get ég glatað mér í myrkri en um leið ratað um allt mitt svæði. Hér hef ég næði. Hérna er myrkur. Hér eflist minn styrkur því enginn hér dvelur. Sólskinið þróttinum stelur. Hugann kvelur því hugur er myrkur sem vill vera myrkur. Hér sér mig enginn. Hér verður enginn. Hér vil ég vera... aleinn. farðu burt því sólskinið eymdina lamar í birtunni djöfullinn stamar og nær ekki að koma sínum leiða í mig vil finna sjúkdóminn komast á næsta stig og finna gleðina aldrei framar... því ég geng milli myrkranna sár og hnugginn með blóðugum höndunum ýfi upp sárin því hvert sem ég ferðast þar eltir mig skugginn kveinar í eyru mín miskunnarlaus fjárinn. elti með augunum tárin er falla á visin stráin ýfi upp eldgömlu sárin vonin horfin gleðin dáin... ... Heyri hljóðin berast frá nálægu skýi. Gömlu ljóðin hljóma svo innilega lesin upp af öðrum. Þó ég hafi blóðugur samið og hjarta mitt lamið með hárbeittum orðum er hugur minn fullur af nöðrum sem látast vera aðrar en þær eru. Blindaður af annarri veru reyndi ég að sjá einhverja birtu í alltof björtum heimi því mín eigin birta var alltaf á sveimi. Fann ekki neitt. Vildi bara eitt og það var að fá að vera í friði. Einn á litlu sviði. Leika mitt eigið leikrit eftir handriti minnar handar. Sögupersónan ennþá andar en fljótt verður breyting þar á. Hún fellur í dá. Hún fellur frá. Enginn óvæntur endir því allir vita hvar hún lendir. Þar sem enginn vill vera. Þar verður enginn. Þar vil ég vera... aleinn. hið heita fang þunglyndis um sig nú hreiðrar í huganum skuggar brosin burtu reka nú myrkrið með nærveru hjartað mitt heiðrar nakinn ég berst hart svo við vopnaða dreka... finn eldinn umlykja mig finn hitann umkringja mig finn kuldann umlykja mig finn dauðann umkringja mig fingurnir kremjast og augun fölna fætur brotnir undan búknum hrynja húðin öll flagnar og hárin sölna heilinn bilast og varirnar stynja... og ég elti með augunum tárin er falla á visin stráin ég ýfi með nöglunum sárin því von mín er horfin og gleðin er dáin... ... Heyri djöflana kveða sín ljóð. Heyri öskur og falleg hljóð um leið og ég reyni að fara á fætur. Teygi mig í gluggann til að komast inn í skuggann eins og allar aðrar nætur. Vil festa mig í draumi því ég reika um í straumi sem vill bara leika mig grátt. Hátt og lágt ég berst utan í steina sem kveina og kenna mér um. Vil finna mig brenna í vítislogum um leið og ég kafna í ekkasogum því mér finnst ég eiga það skilið. Vil brúa bilið milli eymdar og dauða og falla inn í logann rauða. Í myrkrinu deyja og sjálfum mér fleygja uns ég finn ekki meira. Vil ekki heyra. Vil ekki fleira. Vil bara vera hér... einn. mislyndur elti ég myrkrið hvert sem það fer með hlýju og faðmlögum taka við mér nætur mér líður ekki illa þar sem ekkert er því þar get ég óhræddur farið á fætur þarf ekki að óttast hvern einasta morgun hvert straumurinn heilann og sál mína teymir hvort hugurinn taki við hatri og sorgum hólpinn um næturnar mig óhræddan dreymir um fögru fljóðin og fallegustu ljóðin funheitu hjörtun sem draga mig á tálar þar finn ég gleði og missi aldrei móðinn þar sem aðgát er höfð í nærveru sálar... ég elti með augunum tárin er falla á visin stráin ég ýfi með tönnunum sárin því von mín er horfin og ástin er dáin... ... Skuggi, myrkur, nótt og rökkur. Ég hef ætíð verið dökkur. Finn fyrir brýnum þörfum til að hætta mínum störfum og leggjast bara niður flatur. Rotna sem maðkamatur. Vegurinn niður er hreinn og beinn. Vil bara vera hér einn. Vil bara deyja... aleinn. því nú veit ég um stað þar sem mig getur dreymt að eilífu frjáls undan lífi og grátnum þar get ég sofið og hlegið, brosað og gleymt ég öðlast loks hamingju að mér látnum... frjáls undan illsku og sárum frjáls undan gráti og tárum frjáls undan fólki og níði vil leggjast í næturhýði vil finna myrkrið ylja mér og elta það hlýðinn hvert sem það fer... ... elti með sálinni myrkrið er fellur á visin stráin og hvert sem það annars fer því handan grárrar móðu myrkrið bíður vingjarnlegt eftir mér. ] [ tárin vöknuðu af dvala í nótt er mér sýndist ég sjá hana inni brosið sem áður bræddi mitt hjarta braut um leið eitthvað í sálu minni varir sem áður ég kyssti svo blítt opnuðust upp og sungu mér orðum setningar sem henni voru samdar nú hljómuðu fegurri en forðum öll þessi ást sem aldrei fór á brott hefur bara aukist föst hér inni ef þú kemur einhvern tíma aftur áttu vísan stað í sálu minni... ... hlýjan fangar bara þá sem elska kuldinn grípur fast um þá sem sakna ísinn myndar rósir kringum hjartað stundum langar mig ekki að vakna því draumarnir sem sýna þig ennþá eru einu gleðistundir mínar og þó að aldrei vonin vakni aftur ég mun þar falla enn í hendur þínar öll þessi ást sem aldrei fór á brott hefur bara aukist föst hér inni ef þú kemur einhvern tíma aftur áttu vísan stað í sálu minni... ... öll þessi ást sem aldrei fór brott mun ætíð vera fangi hérna inni sönn ást hverfur aldrei sönn ást var það alltaf finn ennþá verkinn í sálinni minni hjartað bíður ennþá eftir nærveru þinni... ] [ sex strengja gítar með þrjá strengi slitna getur ekki spilað sitt fagra lag tveggja strengja hjarta með annan strenginn slitinn vill bara rymja sitt daufa slag og það hljómar ætíð eins... ... yfirborð sálar sést ekk’í myrkri og sorgin bak skugganna leynist í tóminu hljóðið hverfur á braut og þögn ein í eyrunum reynist... í myrkri skjólið ég ætíð finn mér í myrkri bólin mér þykja svo hlý í myrkrinu næði og myrkur er hér myrkrið er athvarf og vinur á ný... ... strengirnir fáir í tóminu þegja og hljóðir í svefninum langa... ókunnar raddir í myrkrinu segja að horfin sé angistin stranga... í tómi og myrkri þögull og dökkur tekst mér loks friðinn að fanga... ] [ Brennandi þrá í brjósti mínu brýst fram í hvert sinn er ég sé þig Ég vil vera ljósið í lífi þínu Mig langar að þú elskir mig ] [ Gakktu yfir brúna, og þú munt örugg verða undir beljast fljótið. Brúin ber þig yfir, þú drukknar ekki í ánni undir beljast fljótið. Ég ligg lífvana á botninum, og áfram beljast fljótið og áfram beljast fljótið. ] [ Æ réttu mér vasaklútinn, hin þornuðu augu þurftu að endurnýja kynnin við döggina. ] [ Blómið rifið úr moldinni. Í vasanum það deyr. í buxnavasanum mínum. ] [ Á unglings aldri leit ég hrafnar þing. Og þótti ekki merkilegt. En mistíkin af því var mikil og dulúðin stór að öðru fólki fannst. Söfnuðust þeir saman einn og einn að vetri til. Og svartur blettur varð á hvítri jörð iðandi af lífi. Fólkið í kringum mig dáðist af þessari sýn Og mér fannst það ey tengjast mér. Þar til hið stærra þing var haldið. Einhver hundruð hrafna söfnuðust þá saman. Þá fann ég að það var haldið um mig. Þá gjörðist stormur í huga mínum Og sjálfur ég hvarf en er storminum slotaði kom ég Og skrifaði þetta ljóð. ] [ Hvar varstu Jesús ? Er faðir minn öskraði á mig Við hlið mér, þerrandi tárin mín Ég stóð – hélt ég væri ein – Hvar varstu Jesús ?? Er frændi meiddi mig Við hlið mér – grátandi Linandi sársauka minn Ég stóð – Fann ekki fyrir þér Hvað gerðirðu Jesús ? Þegar þú vildir ná til mín Leiddir mig í kirkju Ég fékk að heyra um þig Ég stóð – trúði á þig Hvað varstu Jesús ?? Er uppreisn ég gerði gegn þér Stóðst og beiðst ég kæmi til þín Ég stóð ein – reið út í þig Hvað gerðirðu Jesús ? Er sokkinn ég var í ruglið Leiddir fólk til mín Sem benti mér á þig Ég stóð ein – þorði ekki að treysta þér Hvað gerðirðu Jesús ?? Er langaði mig að hætta neyslu Komst með kærleiksríka konu Sem bar mig á örmum sér og elskaði mig Ég stóð og gargaði á þig – Hjálp Hvað gerðu Jesús ?? Er hrópaði ég á þig Ef þú ert til – hjálpaðu mér Þú komst með hjálpar hönd þína Leystir mig og gafst mér von Ég stóð - vissi að ég var ekki ein Hvar varstu Jesús ? Er leita ég í kukl og spár Nálægt mér – elskandi mig óendanlega Ég stóð – hafnaði þér á ný Hvað gerðirðu Jesús ?? Er kom ég til þín einu sinni enn Faðmaðir mig – leyfðir mér að gráta Ég stóð – elskuð skilyrðislaust af þér Hvað gerðirðu Jesús ?? Er fór ég að ganga lífið með þér Gafst mér kraft og fullt af gjöfum Ég stóð – fannst ég geta allt Hvað gerðirðu Jesús ?? Er geðveikin skók mína sál Leiddir mig, passaðir mig Komst mér inn á sjúkrahús Ég stóð – brotin og hrædd Hvað gerðir Jesús ? Er tók ég hrósið sem þú áttir Gerði það að mínu – hrokaðist upp Sýndir mér umburðarlyndi – beiðst Ég stóð – hélt ég væri Guð Hvað gerðirðu Jesús ? Er hlýju ég sótti hjá öðrum en þér Þú varst þolinmóður faðir og beiðst Ég stóð - fannst ég hafa svikið þig Hvað gerðirðu Jesús ? Er synd mín kæfði mig Hjónaband mitt – líf mitt Settir engil við hvert horn Ég stóð – hélt að þú hataðir mig Hvað gerðirðu Jesús ? Er reyndi ég að taka mitt líf Uppgefinn, úrvinda og þreytt Þú barst mig inn á sjúkrahús – í líf Ég lá – þráði að heyra þér frá Hvað sagðirðu Jesús ? Er hrópaði ég í örvæntingu á þig “ég vil að þér líði vel” sagði þú Ég lá – meðtók þessi orð frá þér Hvað gerðirðu Jesús ? Er tókst ég á við lífið á ný Skilnað og afleiðingar syndar minnar Þú barst mig á örmum þér hvern dag Ég stóð – Hélt fast í hendi þína Hvað gerirðu Jesús ? Er geri ég mistök í dag Þú elskar mig og leiðréttir hvern dag Ég stend – nýt þess að lifa með þér Hvað gerirðu Jesús ? Er þarfnast ég vinar í dag Þú ert vinur minn – til staðar alla daga Ég stend svo þakklát að eiga þig að Alltaf og æðíð ertu til staðar fyrir mig Ég þarf bara að meðtaka það - Jesús Leita til þín – Það þrái ég að gera Alla daga – Ganga vil ég þér við hlið Þú ert vinur minn og þú bregst aldrei ! Elfa – maí 2005 ] [ Þjónn Guðs Ég sest niður til að tala við þig, faðir Spenni greypar, loka augum og fer á hnén Ég er komin í þína himnesku nærveru Inn í helgidóm þinn, andlega séð Ég finn sterkt að nærvera þín er hér Opna munninn til að tala,ekkert gerist Ég kem ekki upp einu einasta orði Það er eins og orðin standi föst Ég loka augum, reyni að kyngja kögglinum En ekkert gerist, ég bara er hjá þér Hægt og rólega færist ró yfir huga minn Hljóðlátt tár rennur niður kinn mína Annað fylgir á eftir, síðan kemur flóð Tárin renna í stríðum straumum niður Þau spyrja, af hverju ég, Guð ???? Hví valdirðu mig til að þjóna þér faðir Skítuga og óverðuga konu kvöl Með brenglaða mynd af lífinu og fólk Hvað hef ég sem þú getur notað faðir ? Er ég verðug til að kallast dóttir þín Ég fer að telja upp allt sem ég hef gert Allar syndir mínar minni ég þig á Í hvert sinn minnist á syndir mínar Rólegur og yfirvegaður tekurðu syndina Strikar yfir hana og hendir í burtu Ég er stödd í helgidómnum þínum faðir Allt er í skýra gulli,fallegt eins og þú Ég skoða fötin mín, fyllist ógeði Þau eru skítug, rifin sem og andlit mitt Ég blygðast mín og langar að fara út Ég ætla að hlaupa út úr herberginu En þú stöðvar mig rólega en ákveðið Tekur mig í fang þér þó ég sé hrædd Tekur mig úr lörfunum og þrífur mig Ég er skínandi hrein Síðan klæðirðu mig í hvíta skikkju Þú setur á mig merki þjóns Guðs Réttir mér svo bakka úr skýra gulli Með vopnum, verkfærum og allskonar dót Ég verð forvita, spyr hvað þetta sé Þú segir að þetta séu Guðs gjafir mínar Ég tek hikandi við bakkanum úr hendi þér Spyr hvort ég geti ekki skemmt hlutina Jú segir þú,þá kemurðu með þá til mín Og ég mun lagfæra þá, segir þú brosandi Ég geng út, brosandi og stolt Þú treystir mér til að vera þjónn þinn Ég tók við því í trú og þú munt nota mig Þú veist hvað þú ert að gera Þú ert Guð,af hverju er ég með áhyggjur Þú munt vel fyrir sjá Elsku pabbi minn, Alltaf og ætíð 18.3.2005 Elfa María Geirsdóttir ] [ Hvers vegna ertu svona visin, dóttir mín Ég skapaði þig líkt og tré í garð minn Fallegt tré, stórar og sterkar greinar Græn blöð og sterkan stofn í jörðinni Stólpi í ríki mínu, til þess ertu sköpuð Að horfa á þig í dag hryggir hjarta mitt Ég skapaði þig til að vera sterkt tré En í dag ertu visin og veikburða Stormar heimsins hafa dunið á þér Stórsjór og áföll hafa dunið yfir þig Þú ert við það að gefast upp yndið mitt Þú ert eins og visið tré í dag Laufin eru brún eða dottinn af Greinar þínar brotnar og beyglaðar Og aukagreinar og illgresi sest á þig Stólpi þinn er gisinn og holur að innan Andlega ertu að dauða komin, dóttir mín Ég þrái að fá að hlúa að þér á ný Viltu að gefa mér leyfi til að laga þig Ég geri ekkert án þíns leyfis, samþykkis En ef þú leyfir mér það, hefst ég handa Eins hratt og þú þolir dóttir mín Ég þrái að vera garðyrkjumaður þinn Skipta um mold á þér sníða af þér visnuðu greinarnar Skera í burtu illgresið sem er á þér Það verður stundum sárt og erfitt En mundu að ég er þér við hlið ég legg ekki meira á þig en þú þolir Treystu mér og ég mun breyta lífi þínu Ég þrái að gera þig að stóru eplatré Sem er með græn falleg laufblöð Styrkan stofn og fallegar greinar Þannig verðurðu ef þú treystir mér Og leyfir mér að fara höndum um þig Ég hlakka til að hefjast handa Sníða þig til nota þig mér til dýrðar Ég elska þig og er stoltur af þér Því ég er þinn Faðir á himnum Elfa - 2005 ] [ Eldur Drottins Þú ert svo stór og máttugur Guð Ég þarf ekki að leika fyrir þig, brosa Þú þekkir mínar dýpstu hugsanir og þrár Veist hvar sár mín eru getur læknað þau Það eru forréttindi að vera dóttir þín Eldur brann í hjarta mér fyrstu árin Ég þráði bara að þjóna þér, lifa í þér Gera þinn vilja var eina sem skipti máli Þá veiktist ég og múr kom í hjarta mér Ég vissi að þú elskaðir mig en var hrædd Hrædd við að taka þig með inn í geðveiki Lita nafn þitt með maníu og klikkun Þú varst það heilagasta sem ég átt Því skildi ég þig eftir ég veiktist og fór ein af stað án þín Það var svo erfitt að vera þarna ein, á Ég veit þú fylgdist með og hjálpaði mér Leiddir mig gafst mér styrk til að ganga Í gengum hæðir og dalir geðveikinnar Þegar ég var ekki veik,talaði ég við þig En eldurinn var horfinn úr hjarta mér Vissi af þér, þorði ekki að treysta þér Smá saman fór ég að þjást,lifa í myrkri Tómið í hjarta mér óx, ég reyndi að fylla gatið Ekki með þér, heldur með mannlegri veru. Maðurinn var veikur, fyllti ekki neitt Ég þjáðist og hjónabandið mitt líka Að lokum var sársaukin of mikið Ég varð svo þreytt, vildi bara deyja Fá að komast nær þér, finna ekki til En þú leyfði mér ekki að deyja faðir Heldur gafstu mér nýtt líf og gleði Ég gat ekki flúið frá þér þú varst allstað á hverju horni Að lokum gaf þér sársauka minn Hjarta mitt og líf mitt allt á ný Vandamálin hurfu ekki,ég er ekki ein Þú berð þau fyrir mig,leiðir mig í gegn Ég hef hjálpara sem gengur á undan mér Eldurinn brennur í hjarta mér í dag þrái að lifa fyrir þig, fá að þjóna þér Þessi eldur gefur mér kraft að ganga Takast á við verkefni dagsins, með þér Þú ert og verður minn stóri styrkur Hjálparinn minn góði og blíði. Elfa - janúar 2005 ] [ Ég sit hér svo veik, hugurinn reikar Til þín faðir og um líf mitt allt Ég er svo hrædd Jesús minn Ég veit ekki hver er tilgangurinn Með lífi mínu og að vera hér En ég þarf heldur ekki að vita það Þú veist það faðir og það er nóg Mér líður svo illa núna, pabbi minn Eins og lítilli stelpu í örvæntingu Ég veit ekki hvernig ég kemst áfram Hvað bíður mín í framtíðinni, faðir En þú veist það, ég vel að treysta þér Það er stutt að tárin brjótist fram Ég er svo ein, lítil og hrædd Ég veit að þú ert þarna fyrir mig En ég finn lítið fyrir þér núna Samt er vissa í hjarta mér, þú ert þar Ég hef svo oft treyst á fólk í lífi mínu Að það beri mig í gegnum erfiðleikana Gefi mér vellíðan sem ég þráði svo heitt Já þetta fólk hefur hjálpað mér mikið Það hefur brugðist, ég staðið ein eftir Ég get aðeins treyst algjörlega á þig Ekki fólk, bara þú getur mætt mér núna Þú gefur mér bara góðar gjafir Frið, fögnuð, kærleika og sátt við lífið Ég leggst í fangið á þér,Jesús núna Treysti því að þú munir byggja mig upp Styrkja mig og leiða næstu skref Taka frá mér örvæntinguna, gefa mér frið Ég treysti og tilheyri þér pabbi minn, Nú og ætíð áttu hjarta mitt himna faðir. Þín dóttir Elfa 15.3.2000 ] [ Uppsprettulindir Guðs Gott er að sitja við fætur þínar, faðir Finna styrkinn sem þú átt fyrir mig Sjá líf mitt með þínum fallegu augu Meðtaka friðinn og gleðina sem þú gefur Það er stórkosslegt, forréttindi Jesús Það er svo gott að treysta þér, Drottinn Vita að þú leiðir mig í gegnum táradalinn, sársaukann, efann Þú ert með mér í gleðinni og geðveikinni Ég treysti þér að þú haldir í hendi mína Leiðir mig eftir þinni áætlun ,pabbi Það sem ég þarf að gera er að vera fús Fús til að leifa þér að leiða mig Leifa þér að taka byrgðar mínar,bera þær Því þú breytist ekkert faðir, Traust mitt byggist ekki á tilfinningum Vanlíðaninni eða örvæntingu minni Heldur þér faðir minn kær klettinum sem breytist aldrei Sama hvað, þú elskar mig alltaf ég er þín eigin Ég horfi á daginn, sé ég nokkur fjöll ég veit ekki hvernig ég á að fara yfir En það er allt í lagi, því ég hef þig get treyst því að þú leiðir mig, alltaf Hvar sem ég er get ég treyst því, faðir Þú leiðir þú mig framhjá fjallinu Eða í gegnum það, Ég þarf ekki að hafa áhyggjur þú ert við stjórnvölinn þá fer allt vel Ég þakka þér faðir fyrir hver þú ert Fyrir allt sem þú hefur gefið mér Þær gjafir og þann styrk sem ég fæ Bara ef ég treysti þér, hallelúja Ég elska þig faðir, þú átt hjarta mitt Í dag og alla daga ert þú minn Guð Ég þrái að lifa bara fyrir þig, alltaf Ég fór í gegnum táradal síðustu viku Og þú varst þar, leiddir mig þerraðir tár mín Ég fór ég gegnum reiði, þú stóðst þar Styrkur varst sem ventill á reiði mína Ég upplifði ofurgleði, geðveikina mína Þú stóðst þar með reipi bundið í mig Passaðir að ég fær ekki of hátt upp Greypst mig svo styrkum höndum, faðir Þegar ég datt niður í örvæntinguna mína Allstaðar varst þú elsku faðir minn Þú barst mig að hjálpinni inn á spítala Þar lástu utan um mig eins og dúnsæng Leyfðir mér að hvílast í örmum þínum Örugg,lítil,hrædd fæ ég að hvíla í þér Sama hvernig mér líður í lífinu Hvort sem ég get allt og líður svo vel Eða mér finnst ég alein í þessum heimi Þá ert þú til staðar með ást og styrk Þú elskar mig eins og ég hvernig sem ég læt Fyrir það lofa ég þig bið um styrk í dag og hjálp í dag Ég finn styrkinn þinn og í honum geng ég Ég get alltaf farið að lindum þínum Og meðtekið styrk, traust og líf Ég vel að gera það í dag, faðir Verði þinn vilji ekki minn í dag Elfa - 2004 ] [ Að elska þig er eins og orusta þar sem við bæði fáum ör Að elska þig ekki er eins og styrjöld án áfloga ] [ Hefurðu einhverntíman fundið það? Þegar heilinn er eins og steinn, allar hugsanir frostnar fastar. Þegar hjartað er eins og gúmmí, dælir öllu út en tekur ekkert inn. Allt sem þú sérð, heyrir, bragðar, lyktar, finnur, dettur dautt niður þegar það kemur við þig. ] [ Fyrst augnsamband... og ég er króaður af, svo orð... og ég er fastur í fjötrum, loks snerting... og ég er lokaður inni, inni í litlum klefa með þér Augnablik... og þú ert farin, eftir það er ég einn lokaður í litlum klefa sem þú bjóst til utan um mig ] [ Andlaust skáld situr við tjörnina og gefur öndunum brauð lífsins. Endurnar þiggja brauð andlausa skáldsins sem stendur loks upp og yrkir um lífið. Þar til brauðið er búið. ] [ Spenna, augu mætast. Spenna, varir mætast... Snertingar, þrá, spenna. Áfengið hafði sín áhrif. Svo í morgun, var þetta allt liðið hjá. Eftirsjá, augu mættust. Eftirsjá, afhverju? Og einhvernvegin, Gátum við hvorug, fengið okkur til að segja “rosalega vorum við full”. ] [ Þú vaknar um morgun, og sofnar um nætur. Þú vaknar um morgun, en ferð seint á fætur. Ég elska að sofa, og vaka um nætur. Ég er alltaf að lofa, að fara snemma á fætur. Ég geri ekki neitt, í einu né neinu. Sofa ég vill, og það er á hreinu. ] [ Hann er besti vinur minn, ég kalla hann Flón. Hann verður hér um sinn, Sagði hann elsku jón. Hann hlíðir öllu sem ég segi, oftast lika hann nú þegir. Skóna mina hann nú nagar, ég elska hann samt alla þá daga. Við erum tveir og alltaf saman, hjá okkur líka alltaf gaman. um morguninn ég fer á fætur, sjáðu hvernig hann flón minn lætur. ] [ Þú bílprófið tekur, Og um götur ekur. Þú keyrir á nagla, Og dekkið legur. Hvað gerirðu þá, þú um dekkið skiptir. Þú tekur nú tjakkin, Og bílnum þú lyftir, Löggan þig stoppar, Þú keyrðir of hratt. Nú bíllinn hoppar, Þú keyrðir of glatt. ] [ Stjúpan mín, stjúpan þín, fögur sem mær, uppáhaldið mitt, segi ég við hana, þá hún upp með sér hlær, hún hefur það sitt, því þori ég að mana, við hana. ] [ Inní hús, er lítil mús, hún fær sér djús, sem var í krús. Henni fannt það gott, með sitt skott, henni fannst það gott, en svo sá hún vott, í stórann pott. Hún fór og gáði, hvort hún náði, hún svanga sig tjáði, og súpuna dáði. Þá fékk hún sér sopa, bara pínu dropa, andaði ropa og geispaði gopa. Hún var orðin þreitt og sá svo opið breitt, það var leitt, en það var of heitt. Þá sá hún ketti, upp á nefið bretti, hljóp í einum vetti, inní mikið af metti og þar frá sér þreituna setti. Nú var henni bjargað, miklum mat hafði fargað, þótt mikið hafi gargað og argað. ] [ As I sit As I look through the dark dark window As I remember how it used to be As I remember how I always wanted it to be I mumble about the life today How I always cry How I always feel sad How I bow before my master My master My master who took everything away from me I bow before him Or else He\'d take more ] [ Ef ég kæmi til þín, tæki utan um þig og andaði að mér lyktinni, sem ég sakna svo sárt... og ef ég kæmi til þín, hvíslaði að þér orðunum sem áttu að vera sögð, en voru aldrei sögð... og ef ég kæmi til þín, gæfi þér hjarta mitt og alla mína ást, sem þú áttir alltaf einn... og ef ég kæmi til þín, og sýndi þér sál mína eins og hún er... og ef ég kæmi til þín, legði niður vopnin og vildi semja um frið... myndirðu þá kasta mér frá þér? aftur? Samið á Akureyri 1992 ] [ þegar mig dreymir, get ég flogið, ég flýg heim til mömmu, og heilsa henni. Þegar mig dreymir, er allt bjart, og hlýtt, á meðan fuglarnir syngja. Þegar mig dreymir, kynnist ég fyrstu ástinni, og fyrsta kossinum, í draumi. Þegar mig dreymir, er ég ekki heima, ég er úti, í heimi. Þegar mig dreymir, þá sef ég, mig dreymir, er ég sef. Þegar mig dreymir, heiri ég raddir, einhver sem kallar, að komin sé dagur. ] [ Hafðu mig sem guð einan og þú hólpinn ert ellegar skalt þú deyja, fylgdu hópi mínum og hentu fyrir róðra öllu heimsins rökum því ég er allt og ekkert, guð, og heilög geðveikin í haldveikum huga þínum, hafðu mig sem guð einan og þú hólpinn ert því allar eftirlegukindur í helvíti munu brenna og biðja mig um miskunn því ég er allt og ekkert samverji og slátrari keik stoð og kviksyndi, guð þinn. ] [ Ég settist inn í bílinn sæll á leið og sigurviss frá kauphöllinni. Á besta stað í borgarhluta beið breiðtjaldssjónvarp í íbúðinni minni. Ég kveikti á kvöldtíma frétt og klóraði mér á bak við eyra. Sá þar sagt frá rollum í rétt rúningu dilka og sitthvað fleira. Mér fannst það mikil furðulegheit að fjalla ekki um vexti og gróða. Ég aumkaðist yfir annarri leit en aurum og gullinu góða. Ég er stórkaupmaður á sældar líf og stundum fer ég út að borða. Er alltaf svangur og allt í mig ríf safna fitu og vetrar forða. Er ríkur og ræni menn eins og þig með rjúkandi vindil og stæl. Þótt offita sé alveg að drepa mig ánægður er og þol ekki væl. ] [ Mein er þeim er í myrkur rata máttinn gef ég til að hata. Hikaðu ei hlustaðu enn hvísluðu rámar raddir í senn. Ég trúði aldrei á táknin þín taldi fremur silfrin mín. Einhvern veginn eyðist allt ást þína aldrei endurgalt. Undir sól og sedrusviði á sandi borinn úr móðurkviði. Oft mig dreymdi um dauðann og dimman akur auðan. Þá komstu í hvítum klæðum og kisstir á musterishæðum. Ég barg að bikar þínum en brást með svikum mínum. Ég endaði sem íllgjörðamaður aumur er minn fæðingastaður. Skírður var ég saklaus drengur samt var í mér stríður strengur. Börn eru björt í bernsku sinni en bölvun fylgdi komu minni. Móðir, minnstu mín í nótt af myrkrinu verður sál mín sótt. Skipi var snúið skekið og rúið. Yfir reiða og rá ríkti ógnþrungin vá. Öllu var eytt í eldinum breytt. Brýtur við brot berst þar Judas Ískaríot. ] [ Horfi á skuggann þar sem hann skríður undan sólinn. Alltaf sá sem fylgir. Aldrei sá sem leiðir. Sýnilega ósýnilegur. Svolítið eins og svolítið eins og.. - þrá mín til þín ] [ Ef lygi er lygi -er hún sönn. ] [ Er ég leit í augu þín eitt kvöld um skamma hríð var sem tíminn hætti að tifa um stund með tár á hvarmi. Ég man þá dul sem dagur rynni nýr. Líkt og eilífðin á augnabliki lyki upp sálu minni Og þótt finnumst aldrei aftur á vegi okkar lífs. Gleymist aldrei þetta augnablik sem eilíflega lifir. . ] [ Á hverjum degi þegar ég opna augun, mun ég ávallt leita að tilgangi með þessu lífi, horfi til himins reyni að skyggna inn í heim Englana, hugur minn er á hverfandi hvolfi, allt er svart stjörnurnar hverfa, ég hrapa ég vil blómstra, blómstra á meðal Englana. ] [ Ég bar kennsl á manninn hann læknaðist ] [ Taktlausir taumar af tárum streyma niður kinnar mínar þau hundsa rök mín hlusta heldur á níðin í sál minni. Kjánatár. Kjánasál. ] [ Ég hef ekkert að sanna og ég geng um óáreittur. nú er ég í friði fyrir sjálfum mér. Ég hætti að skipta mér af. Ég sætti mig við blokkina og allt hið innantóma. Ég þarf ekki að segja neitt en það er of lítið. Ég er of stór og ég verð að láta til mín taka. Skrifstofumenn og Glæpamenn lítil munur á hugum, enginn munur á eðli hugsana. Allir sækja þeir eftir eigin hag. Ég röfla og þvaðra að virðist útí eitt, ég sem stal lífinu og komst í skuld við dauðan.......... ] [ When you hate it you know you can feel, but when you love it you know it\'s not real.. ] [ I shoot myself to love you.. ..If I loved myself I\'d be shooting you ] [ A cut\'s just a cut And no-one is hurt A bloody black shirt Red stains and brown dirt A cut\'s just a cut But No-one gets hurt A wonderful feeling Each scratch, slit and cut But a cut\'s just a cut and they\'ll all make me pure The rose-red blood flowing resisting death\'s allure A cut\'s just a cut And no-one gets hurt Each one makes me better I\'ll bleed till I\'m whole A cut\'s just a cut And no-one is hurt Dreams can make you better But dreams will make you hurt A cut stands for nothing when nobody cares The pain will cure all things but no-one else dares ] [ Ég gef þér hjarta mitt úr gulli, og allt sem því fylgir: Varirnar, augun, faðminn, bílinn, klofið, tímann. Og þú breytir því í pappír, og hendir því jafnóðum í pappírstætara. Svo gefurðu mér leifarnar í lokin. Til þess eins að ég geti púslað þeim saman, sett þær á réttan stað og gert þær tilbúnar fyrir næstu norn. ] [ Hvert fóru þeir tímar? Þar sem maður sat, Á stigatröppunum heima. Áhyggjulaus um lífið og tilveruna, Áhyggjulaus um framtíðina. Hve oft höfum við ekki spurt okkur að því? En það sem við áttum okkur ekki á, Er að við vorum aldrei áhyggjulaus. Tilveran, lífið og framtíðin, hafa alltaf verið okkur áhyggjuefni. Við bara höldum annað. Því við einfaldlega munum ekki. ] [ við rokkinn sat og vann ull og sögur saman spann á rokknum framm í rökkrið, - og allt langnættið, hún sat á rúmstokknum. Fóturinn við pedalann hjólið undi hring eftir hring það hljóð ég man, swing hjól pedalanns taktfast tímanum sem leið hring eftir hring. Í myrkri baðstofunnar ullin hjólið fann, vafðist hratt um kefli, gróf gæran varð að fínum loba tvinna. Tímans hjól man tímanna tvenna. rokkurinn rann sitt síðasta skeið með þér. Manstu tímanna tvenna í tvinna; hvert klæði fyrir hvern dag, hver hnykill fyrir hverja stund, hver hringur fyrir hvert augnablik. Þráin fyrir annað líf beið, Þrútinn lobahnykill, þróttur á þrotum er dauðinn ber á dyr Hring eftir hring. Swinghjól rokksinns dauðanns. Ekkja eftir dauðann mann, rokkurinn ekkjill þinn. ] [ Þegar ég var lítil hlustaði ég alltaf á óskalög sjómanna ekki af því ég þekkti einn einasta sjómann heldur af því þar voru spiluð góð lög þá voru tímarnir öðruvísi. Ég hafði aldrei heyrt talað um emmtíví vissi varla að tónlist gæti spilast í sjónvarpi nema þá kannski þetta klassíska gaul. Núna hlusta ég gjarna á bæði klassískt og emmtíví eða klassískt emmtíví \"money for nothing\" og allt það. Núna eru óskirnar öðruvísi sjómennirnir fá sínar kveðjur í geessemm og við hin, við getum hlustað á gnægð af lögum - en hvað varð um óskalögin? Óskalögin eru færri hafa falið sig í gnægðinni núna hef ég ekki tíma til að hlusta á nein óskalög hef ekki tíma til neins nema að vinna, sofa og hafa áhyggjur. Hvað varð af þessari stelpu sem bara sat og hlustaði á óskalög sjómanna? ] [ Karmur grænn Rúða, herumbil hrein, Þó í hornum hennar skítur er árin hafa safnað saman. Handan gluggans er möl sem er flöt að varnargarði, stórgrýttum. Hafið sleikir garðinn og það skilur sitt salta vatn eftir á honum og það er sem silfur þynnur fljóti á vegna þess að sólin skín Þvílíkt glit, þvílík stemmning. Fjöllin grimm gnæfa yfir það allt í hring en dempast hefðarlega niður í dali Svo að þau gangi ekki alveg framaf manni. En eitt þeirra er klofið og reyndar minnir það mig á það. Þangað ætla ég að fara í sumar og skríða í gegn Upp á topp og þar ætla ég að sleikja roða upphimins ekki mikið, en samt nóg til að láta tilveruna bólgna út í það óþekkta og ég ætla líka að skrúfa peruna úr henni svo að nóttin geti skollið á. En nú, allt er kyrrt og fuglar fljúga eins og smákóngar sem- virðast ríkja yfir himnunum hér neðarlega í henni (tilverunni). Sú sýn svo fögur, ekkert fær henni hróflað… Nema þá hvellur úr byssu veiðimanns sem rífur hjúp hennar. Og þá er dauðinn í henni og sú stemming sem honum fylgir ráðandi. En hér sit ég í stól áhorfandi, þetta var ekki minn fugl svo ég sný mér í hring og það hlakkar í mér því að það er að koma sumar á Vestfjörðum. ] [ Sit við sjóinn mjúka og langar að breiða yfir mig þessa silkiáklæddu sæng og sofna. Svo kannski skolar líkamanum upp í framandi landi. Þá mundi jafnvel enginn vita hver ég væri og engan vegin hægt að bera á mig kennsl. En ég er kjól systur minnar hún myndi brjálast. ] [ Margoft munið þið sjá, hinn slæga í mannsmyndum. Þó gæti það verið Guð að tjá, reiði sína á mannana syndum. Til Djöfullsins hefur margoft sést drepandi fólk og pína. Þó þykir þeim myrka það lang best, að sverta sál þína. Ó drottinn! Afhverju hafið þér falið yður, stríð og dráp, börn soltin, hvar er yðar guðdómlegi friður? Hefur þú yfirgefið mennina eða hafa mennirnir yfirgefið þig? ] [ Í huga mínum Óeirðir og Óveður En í huga þínum kemst það eitt að hversu þú ert Ófullnægður Svo þykistu þekkja mig ] [ Á milli þess sem við rífumst og elskumst erum við ekkert fljótum í tilbreytingarlausu jafnvægi mér finnst svo gaman að pirra þig smá bara til að geta sagt -fyrirgefðu ástin mín svo elskar þú mig enn meira en nokkurntímann áður þegar þú brosir til mín og faðmar mig að heita líkamanum með traustu höndunum Ég elska ástina sem sést í augunum þínum þegar þú fyrirgefur ] [ Ég minni svolítið á tunglið þessa dagana; þótt stundum lýsi aðeins lítill hluti af mér og inn á milli slökkni ég alveg er ég skríð í skjól mitt, gægist ég samt alltaf aftur út; hrífst af ljósinu eina ferðina enn og endurkasta því af lífs og sálarkröftum En nú hefur þú sett stein í tannhjól tímans; fest mig í ljósinu og ég sem er svo vön að snúast í sömu rótgrónu rútínunni, vona að þú hafir fest steininn vel ] [ úr mér er tappi tekinn en enginn kemur lekinn ] [ Blátt, blátt, blátt. Grænt, grænt, grænt. Hvítir húsveggir lemja augu vorgengla. Hvítslitur á fjallatindum. Norðurpóllinn gusar, svo jafnvel beinin kólna. Aukahúðir duga skammt. Hann kann að smjúga, vindurinn að norðan. Heit stöndum við, innan við gluggana. Horfum á litríkar myndir vorsins, málaðar af sólinni. Allt er fullkomið þegar maður horfir á lífið utan við gluggann. Sumir eru alltaf innan við glugga. Gera sér enga grein. Glerið er svo hreint. ] [ ég spyr og spyr en enginn svarar því ég er grjót á miðri öxnadalsheiði ] [ Ég er gubb í poka Heyrðu viltu loka? Því annars kemur fnykur Nei þetta er enginn sykur Ég er gubb Þetta ógeðslega subb Kom úr forsetanum Andskotanum Viltu gera svo vel Því hérna ég dvel Að drullast til að þrífa mig upp? ] [ Í kringum heimin labba ég á engu nema húfu. Þarf ekki landakort, geng minn veg um grjót og eina þúfu. Í mínu besta gleðiskapi geng ég upp að Bessastöðum. Banka upp hjá forsetanum heilsa, bless, vér förum. Í Vatíkaninu hitti páfann hann er að fitla við sig sjálfann. Einnig með eru ungir drengir stórir og smáir með naflastrengi. Í Ungverjalandi er allt útí hlandi pissandi kallar og hundar í bandi. Grafinn í sandi er köttur að sauma en tekur ekki eftir að í potti er að krauma. Nei komdu sæll og blessaður segi ég við Fidel Castro. Hann situr við borð með kúbuvindil á einhverjum litlum bístró. Heilsa upp á Bush í flýti langar ekk\'að sjá hans lýti Hleyp beint útúr hvítu húsi vona að hann þarna dúsi. Hleyp svo heim og hengi mig ég hef séð nóg, ég myrti þig. Snara reipi úr mínu fangi nú úr loftinu ég hangi. \"Bless bless\" heyrist kallað niðri Djöfullinn! Kjafturinn fullur af fiðri! Jæja þá er ég bara farin. Var hvort eð er í klessu barin. ] [ Mundu þótt Ég fari er ég hér Mundu ef þú fer Mun ég fara með þér . Þótt ég fari Er ást mín ekki brotinn þótt þú farir Er sál mín ekki Brennd Mundu ef ég drep Mun ég ekki drepa þig Þótt þú drepur Mun ég ekki meiða þig Sál okkar er eitt Í gegnum lífið Enginn fær því breytt Því ástin er sterk . ] [ Við fæðingu barns Er þér gefin Lítill gimsteinn. Þessi litli gimsteinn Mun bræða Hjarta þitt. Það er undir þér Komið að passa Þennan gimstein. Passa hann frá Öllu illu Hugga hann og vernda Verndaðu þennan Gimstein því hann Er dýrmætari En lífið sjálft. ] [ Lítill fagur drengur Trítlar um bæinn. Bros hans bræðir Allt og alla. Þessi drengur er engill. Ljós og fagur Engill. Engill sem sendur Var til að Vernda fólkið Fyrir illu. Vernda fólkið Sem engan á að. Svo það verði Aldrei einmanna. ] [ Þessi augu. Svo fögur og blíð Svo tær og skír. Að horfa á þessi augu Fær þig til að Gleyma stund og stað. Horfa á þau Tindra. Sjá þau Glampa. Þegar þú horfir í þessi augu geturðu ekki annað En orðið ástfangin. ] [ Í augum sé ég angist, von og þrá og upp á veruleikans sýndarþil varpast vitund er ég veit ekki á nein skil. Því spegill, spegill herm þú mér, - er ég til? ] [ heldur vil ég klám en predikara í sjónvarpi með helgislepjusvip ljúgandi lausn þinna þjáninga og eldgamla nunnu með þurftarsvip og sultardropa boðandi heimsendi enda orðin ragnarök slekkur hún á logandi kertinu og í myrkrinu kallar á guð maríubænir bæta fyrir breyskleikann ] [ My skin is tearing I got scars in my face but they don’t reveal what takes place in this cruel litlie world you better pick up the pace start running and running I succeed in not getting away look at a person and try to realize what it, he, she is feeling Inside I got the scars to show my soul the way it really is these scars represent the things you think but don’t dare to say to say youre feelings are like suicide afraid to run, but barely can stay avoiding the subject of opening you’re soul keep it up, in the end you’ll be just like a ghoul wandering the wastelands, looking for something, but mostly youreself you pick up a shovel and star to dig you dig and you dig at the bottom of it all you see what you have done to youre soul you’ve destroied it and all that is left is a gigantic hole ] [ losti?..... orð orðanna?.... fær eitthvað orð jafn mikla merkingu og losti?... ást?... hatur?.... talað er um að elska... er það hægt??.. hvaða tilfining fær fólk til að eyða ævinni saman, ylur að innan?... tár gleðinnar í barmi þíns heittelskaða??... ógn og vernd fyrri lífstíls hverfur bara við tilhugsunina að ganga í hjónaband... hverjum langar að byrja upp á nýtt??.. hvað þá búa til nýtt líf..? kveðja það gamla??.. enginn partý, gleðikvöld eða skemmtistaðir?.... eða voru þau kannski ekki til staðar fyrr en þú hittir Hann?? þannig í raun varstu búin að byrja uppá nýtt áður en þú gast hvatt það gamla, hvað svo sem það var? ] [ You wanna die? Ok Pick a very popular, public place So you can see the disgrace in you’re mothers face when she see’s you in a pool of her very own blood Remembering you when you we’re just a litlie kid playing in the mudd throwing some sand at the children all around then you see youre mom Wait, think.... What am I saying like you would listen to my crap even if it made sense maybe I’ll just stop writing Locking you all out of the world that I see Would you wanna be me? Rather then youreself again? I don’t think so ] [ Bringing out the worst in me Trying to create something new It won’t really make a diffrence and no one will remember except for a few of those ignorant of the big things in life like having a house, kid and a wife This makes no sense, all scrambled I wander within my own fence were I can enjoy not hearing you but screaming it all back you don’t really hear it and that is a fact I’m screaming right now pleasure... resist... smite me down and abandon me in the mist I search for this I search for that I search for nothing that is phaaty phat 3 years in a row I was wearing a hat shielding from you and the others that fight struggling to survive with all my might I was weak but now only torn when I die you need not mourn I will always be with you SCREAMING! ] [ Upp er vaxinn akur blóma, eiga rót í hjarta mínu. Tak þau upp og lát þau ljóma, leggðu þau að brjósti þínu. SkÁ ] [ Grasið er grænt, sjórinn er blár, amma grætur og afi er nár. Sólin er ljós, epplið er rautt, á túninu liggur lambið dautt, hrafninn hlær gleðisnautt. Á morgnana og kvöldin, er þreytan við völdin og drengur sem grætur gefur því gætur ag glugginn er opinn. ] [ ég tók enga mynd á aðra filmu en ljóshimnu augnanna örskot skáldað til og skorið í form ljóð sem lifir mig ] [ ég er ein ég held á hnífnum en það seijir mér engin að skera mig ekki. ég stend uppá þaki á blokini minni en það sér mig enginn. ég sit ein útí mirku horni og hórfi á fólkið labba framhjá mér er kallt en það tekur ekki eftir mér ég er ein. hnífurinn skerst inní holdið og það er öllum sama. ég stek niður en deij ekki en það er öllum sama. ég er að rotna í mirkra horninu það sejir enginn neit og það spir mig engin hvort ég vilji vera vinur þeirra ég er ein. en allt í einu kemur ljós,ég sé ekkert en ég finn hlíuna frá því ég sé hendi mig langar að taka í hana en ég get það ekki ég er föst í eithverjum rauðum ljótum vef ég reini að losa mig en hann þrengist bara ég horfi enn á ljósið ég fer að gráta ég þrái so heitt að taka í þessa stóru heitu hönd og far afrá þessu öllu saman. vefurinn fer að losna ég verð sterkari og sterkari og vefurinn lausari og lausari. so allt í einu losnar hann ég get andað ég get hreift mig ég sé hvaða vera var í ljósinu það er vinarlegrur maður hann rétir út hendurnar og faðmar mig ég finn hvernig hitinn fer um mig mér líður allt í einu so vel ] [ Þá var ekki til nema tvennt í heiminum; maðurinn og allt í kring um hann ] [ þú skaust ragettu í rassinn á mér og þegar hún springur dreifi ég yfir þig stjörnuljósum ] [ svo þegar ég opna augun veit ég að það bíður mín gulur strætó sem stoppar hérna við rúmstokkinn og í honum er lúðrasveit og sirkus og ég er ljónið ] [ Hreinsaðu pípuna mína! Hreinsaðu pípuna mína ½ vitinn þinn og klæddu þig í jakkaföt því þú ert að fara á ball. segðu svo engum frá hver ég er. Því ég er lækurinn undir lækjagötunni, og pípan mín er stífluð. Gefðu mér dóp hálfviti og dansaðu. En slepptu hassinu vegna þess að það er bara fyrir unglinga börn og homma Og ég er hættur að reykja það fyrir áratug síðan, rúmum. Gefðu mér heldur amfetamín og sprautu með alsælu. Vegna þess að þá verð ég góður á malbikinu. Pípan mín er ennþá stífluð skíthæll þó þú sért í jakkafötum!... Og mig vantar píputóbak, dóp og aur Þar sem ég er fastur undir sementinu sem þið lögðuð yfir mig í stað þess að hafa mig gegnsæjan. Það ættu allir að fá að líða með mér. Hálfviti, gefðu mér wiskí og klaka. Bara tvo klaka í glasið takk og snáfaðu svo í burtu en glasið má vera fullt, En takk. Pípan mín er stífluð og ekki gefa mér hass. Allt annað en hass skal ég taka inn Jafnvel baunir frá ora, banana frá cikita og tófúköku skal ég éta. kókaín, spýtt, sveppi og sýru skal ég þiggja sem áður, eins og ég hef sagt. En ég er fastur undir malbikinu í lækjargötu og get ekki tekið neitt inn. Ég er lækurinn undir lækjargötu Ég er álfurinn undir strætinu Og ræsislokið er mitt svo ég geti farið að synda. Syndga fyrirgefðu. Ertu búinn að losa stífluna því ég verð að fá mér að reykja. Takk, hálfviti láttu mig svo vera, en þú ert sætur í þessum jakkafötum en ég er gagnkynhneigður svo það nær ekki langt. Ég fann hjá mér tóbaks bréf. . Takk. Hálfvitar veraldar fyrir að hafa losa stífluna úr Pípuni minni Nú get ég reykt mitt blessaða nicotín í friði. Komið ekki aftur fyrr en ég sést og hef fengið það sem mér ber. Takk hálfvitar heimsins, takk hálfvitar heimsins, takk hálfvitar heimsins. Takk. ] [ Ég var að kaupa mér hús, húsið mitt bíður eftir mér, lofa að standa við mitt búinn að brjóta, rífa, pússa og skrapa. parketleggja, flísaleggja, mála - skapa. Nýtt líf, nýr kafli tekur við stíg uppá lífsins svið tilbúinn að takast á við lífsins þrautir allar vegins brautir. Hlakka til - Húsið mitt, húsið mitt. ] [ Ástin er æðislegur hryllingur. þar til einn daginn hún pakkar dótinu sínu niður og tekur hjartað mitt með. ] [ sýklarnir læðast up í nefið niður í kok. ég er hætt að geta talað. ég ræski mig og hræki á götun og blóta þessu bévtans kvefi ] [ Ekki elska neitt of heitt Sál þín gæti orðið sveitt Aldrei treysta neinum Fyrir þínum leynum. Sálarangist einkennir þig Með sár í hjarta þínu Láttu lífið snúast um þig Ekki neinn í kringum þig Láttu ekki leika þig grátt Enginn mun þá líta á þig lágt Stattu upp og segjðu dátt Ég held höfði mínu hátt Nú sé ég þig með höfuð hátt Ánægð með allt sem þú átt Það er ekki gott að láta leika sig grátt Haltu þínu striki. ] [ Rauð lítil stúlka rjóð í kinnum Raular ég gleym ei okkar kynnum Meðan lífið áfram líður Manstu þá eftir mér Tifar tíminn áfram tíður Tárin tala, blómið bíður Þá frá sólu hverfur ský Þú blómstrið lítur á ný Blátt lítið blóm eitt er Ber nafnið gleym ei mér ] [ Ég verð hér endalaust þú losnar aldrei við mig þannig verður það alltaf lifðu, lítt ei aftur ég spjara mig bara farðu, bjargaðu sjálfri thér ég hef þolað það harðara farðu bara gott hún komst undan ég er loskins búinn að finna sanna hamingju sú stysta, mesta , og einlægasta hamingju stund mannsins rétt fyrir dauðann..... af hverju komstu aftur? þú áttir að bjargast FARÐU!!! viltu ekki skilja mig eftir? hvar hef ég verið? og þú ætlar að vera hérna með mér þar til yfir líkur? ó elsku ástar ljósið mitt Mér skjátlaðist... ] [ ( ef ég væri ríkur) Ó, ef ég ætti tjaldvagn Dibbi dibídæbi dibbidibbi dibídæbi damm. Engar súlur, engin hælastög, ekkert bogr við bakverkina rög. Ekkert pump í dýnur Dibbi dibídæbi dibbidibbi dibídæbi damm. Ekkert grjót sem rispar rassgatið Enginn þúfa þétt við mjóbakið. Þá gæt´i ég dólað letilega um landið Lullað í þriðja um þjóðveginn Fallega staði festi ég á film. er kvöldar áð ég gæti við eitthvert fjallavatnið teygað að mér landsins ljúfa ylm Og hent svo upp höll í þremur handtökum Æjjæjjæjj !!!!!! Ó, ef ég ætti tjaldvagn......... ] [ Hann gengur um reikull í spori ei hugann festir við neitt. Leitar eftir því sem er ekki til leitar þar til hann deyr. Hugann hann herðir með spýtti. Sér ei að hann er lifandi lík. Dagsljós hann ekki þolir finnur sér skuggsælan stað hugsar, reynir að hvílast finnst eitthvað vera að. Á götunni er Deildin á hverju horni, sér litla von. Raunveruleikanum sviptur, týndur. Örvæntingarfullur leitar að friðsælum stað. Leitar en finnur ei neinn... ] [ Inn í mér synda sindrandi álar Inn í mér stinga stingandi nálar. Tárin uppsprettu í augunum finna og renna niður um kinnar og innar. Sláðu ryki í augu mín -augnablik ...svo ég geti múrað upp í sprungurnar. ] [ Þú sem átt mig átt það skilið, þú tókst mig upp þegar ég grét, faðmaðir mig, sagðir mér að þú elskaðir mig, af öllu hjarta, tókst í hönd mína þegar ég þurfti, þurfti á styrk að halda, ég hafði þig hafði þig alltaf, ég gat treyst þér, ég gat vitað af þér, ég fann fyrir þér, mamma þú ert sú sú sem styrkir mig enn í dag, mamma, ég er alveg eins og þú sjáðu! ] [ Ég gekk út á fagurgrænt, brosandi túnið. Fagrar, brosandi sóleyjar, tóku fagnandi við mér. Allt var umvafið friði. Allt var svo fallegt. Mér var litið yfir þreytta, stirða götunna. Stór, ógnandi háhýsi horfðu á mig dramblátum augum. Allt var heft truflun. Allt var svo uppgefið. ] [ Óttinn, óttinn. Meira en að seigja. Meira en að hlusta. Meira en að sjá. Við vitum, að eitthvað hræðir okkur. Við forðumst það. Við óttumst það sem við hræðumst. Auðvitað er það óþarfi. Auðvitað er það böl. Auðvitað er það vandræði og klúður. Samt er maður hræddur. Samt ofskynjar maður það. Samt er það fast þarna. Því óttinn er meira böl en það sem maður í raun óttast. ] [ Þegar miðnætursólin skín stíga blómarósirnar úr dvala skríða úr vetrarhíðinu og springa út söngvarnir óma og dansinn dunar trumbuslög hjartanna eitt brennur, annað brestur vessar streyma inn og út í villtri hringrás þau rísa í vestri og hníga í austri því fengitíminn er hafinn ] [ Ég dreypti um stund á veigum þínum vakti mér yl og gleði vínandi þinn flæddi um mig ég varð ofurölvi uns allt sortnaði Nú reika ég á gráum strætunum þunnur timburmaður ég grýtti flöskunni í vegginn og nú liggja tár mín á dreif, glitrandi glerbrot uns við verðum sópuð upp eins og hvert annað rusl og send út í veður og vind ] [ Tvær sálir sem fundu hvor aðra lágu saman í nóttinni og horfðu á bragandi dans norðurljósanna funinn í æðum okkar logandi dreyrinn í hjörtum okkar sem slógu ótt og títt sáum stjörnuskinið í augum vöknuðum í faðmlögum og ávallt lýsti í brjóstum okkar við greindum ekki varginn sem teygði ginið mót urðarmána í formyrkvan í ofsafengnu æði og hrævareld í augum uns einungis dökk askan var eftir og svartir sandar auðn og einmanaleiki; einungis botnlaust tóm þar sem flöktir glóð í sortanum ljúfsár minning og hverful von ] [ Ef þú opnar honum rifu kemur hann inn og á við þig tal hann spyr þig spurninga sem þú spyrjandi svarar og hann gefur þér tíma og áður en þú veist af fer þér að láta vel að efast og líka spurningar sem allt draga í efa svo heldur hann áfram þar til ekkert verður þér víst. ] [ Nautgæfa fóðurgrasið grær á leiði móður þinnar þjáðu. Því ertu hljóður, frændi? Sjáðu, hvar bóndi góður björg sér fær. Þúfu, sem slær hann, undir er sú ein, sem kæran haft þig hefur, í hjúpi væran dúr hún sefur. - Heytuggu nær hann handa sér. Þar er nú prýðin fljóða frægst, móðurorð blíð á mjúkum vörum, málfærið þýða, ljúft í svörum, upplitið fríða, ástarnægst? Seinna meir skaltu sama veg. Raunar er kalt í rúmi þröngu, og rökkrið svalt, en fyrir löngu veiztu það allt eins vel og ég. Nú færðu ekki að sjá um sinn meira af rekkju móður þinnar, maðkurinn þekkir skrautið innar. Því hlærðu ekki, herra minn? ] [ Naha, naha! Báglega tókst með alþing enn, naha, naha, naha! Það eru tómir dauðir menn. Naha, naha, nah! Það sést ekki á þeim hams né hold, naha, naha, naha! og vitin eru svo full af mold. Naha, naha, nah! Og ekkert þinghús eiga þeir, naha, naha, naha! og sitja á hrosshaus tveir og tveir. Naha, naha, nah! Þeir hafa hvorki kokk né pott, naha, naha, naha! og smakka hvorki þurrt né vott. Naha, naha, nah! Og hvergi fá þeir kaffibaun, naha, naha, naha! og eru svangir og blása í kaun. Naha, naha, nah! Og bragða hvorki brauð né salt, naha, naha, naha! og þegja allir og er svo kalt. Naha, naha, nah! Þeir deyja aftur úr kulda og kröm, naha, naha, naha! Og holtið er grátt og kvölin söm. Naha, naha, nah! ] [ Augnablik, minningar, frábærar stundir ég sit og hugsa, hvað hefur breyst? Tilfinningar okkar, þessir yndislegu fundir ég horfi á vonina, get ég henni treyst? Hún skiptir um skoðun breytir um vilja Kannski er ég treg en mér tekst ekki að skilja ] [ Á engum stað ég er nú stödd það var svo mikið sem ég ætlaði þér að sýna En af lífsins braut þú ert nú hvödd og munt á himnum uppi skína Ég í einhvern tíma græt mínum tárum og reyni mínum sorgum að linna En ekkert fær lokað mínum svíðandi sárum ég verð mig aftur einhvernveginn að finna ] [ Enginn mér tryði mig kviði og sviði og yfir mig liði Mig kvíður og brátt yfir mig líður þessi langi tími ég við það glími Allt hljótt enginn hringjandi sími! ] [ Í miklum hæðum ég er að falla Í engum klæðum þú heyrir mig kalla: Þú ert mig á brott að hrekja draumur þinn er að rætast En martröð þína og ótta ég skal vekja og á miðri leið við munum mætast ] [ Þú litla, feita og freka mitt sjálfstraust ert burt að reka Þú segir orðin og tárin leka og neitar svo að játa þig seka ] [ Talaðu snöggvast við mig ég skal ekki tala hátt. Þú getur sagt þína drauma en munda að hvísla þá lágt. ] [ Ég sé lífið allt í móðu nokkuð meira en áður. í dag er ekki allt í góðu en þó er ég ekki þjáður. Allar hugsanir renna í eitt og ég sit fastur á sama stað. Finn að sál mín er þreytt en ég neita að tjá um það. Öll heimsins orð mig hryggja þess vegna loka ég mig inni. Vill sjálfan mig upp byggja og geri það eftir slæmu minni. ] [ Elskan; manstu þegar ég talaði um að bjóða hingað fólki í leit að vopni í baráttu gegn vopni sem er að drepa okkur ] [ Á röngum stað í þessu lífi Það er eins og hlykkjótt fjöll ég klífi finst leiðin of löng hún liggur gegnum mörg dimm göng þar sem ekkert ég sé langar að hætta, langar að fara ég hugsa ef ég skyldi nú hætta hér og fara á annan stað þar sem fengi ég loks frið frá þessum vonda heimi og öllu um hann ég gleymi. ] [ Ég sit niður á fjöru hugur minn reikar aftur til æsku minnar hvað ég ávallt fann þar mína undarlegu hugar ró horfði út á hafið krotaði í sandinn sat tímunum saman stapísk ró fyllti sálu mína flæði huga míns yfirfullt hugsunum börðu dyra af óþreyju þráðu útgöngu svífa á flug frelsis þarna gat ég opnað hurðina hleypt hugsunum mínum lausum gefið þeim frelsi sjálfstæði horfði á þær svífa langt, langt á haf út fagnandi frelsi sínu sem í sömu mund gáfu andargift minni útrás bros færðist yfir varir mínar bejandi hjartsláttur minn bar til kynna óútskýranlega vellíðan... jafnvægi... vangaveltur míns hugsanaflæðis fylltu andrúmsloftið allt mig um kring kítluðu mig feiktust með vindinum orðin í sandinum hrifin á brott á endanum á haf út þar sem þau hófu ferð sína með straumi aldanna sem báru þær á vit óendanlegs ferðalags sem á sér enn tilveru. ] [ Með þér fann ég frelsið í eilífðinni. Að sætta sig við að fljóta saman undir þungum krónum minninga okkar. Og biðja þess að stranda aldrei. ] [ Við sinfóníu lífsins ég dansa. Ein í huga mínum umkringd öllum öðrum unmkringd heiminum. ] [ Andstæðurnar í þrám okkar drógu okkur saman. Tvær leitandi sálir á sama brautarpalli. Lestin löngu farin. ] [ Ég geng um höfnina, meðfram sjónum. Við sjónarrönd glittir í sólina en annars er grátt. Venjulegur íslenskur dagur. Aftan að mér læðast hugsanirnar, kossar okkar og þrár, samkenndin, hamingjan endrum og eins. Ég, sem hélt að tár mín mundu aldrei þorna, sé – núna við harðnandi gifs tímans – að ég dey, hverju sem líður, einn með sólina sem hina einu sönnu hamingju. Þótt kærleikur þinn hefði - að sjálfsögðu - mildað harðindin get ég lifað. ] [ sterklega ég finn hversu heitt ég þrái þennan og hinn til að verða minn og ég allar mínar þrár ég fái ég er háð karlverum þeir eru mín ást liggjandi á þeim berum, þrái ég að þjást? finn hvað eirðarleysið, lætur mig hugsa og pæla ég fæ að lokum allt í feisið og fer svo heim að skæla kvenkyn eru veiklind dýr háðar hinu og þessu og nú mæli ég hér skýr: að lokum endiði í klessu! ] [ Nóttin er dimm, Regnið er blautt, Snjórinn er kaldur. En þegar ég er með þér finn ég bara fyrir hlýju og ást. ] [ Þú hefur innrás inní mosavaxna vitund mína og byrjar að reyta upp mosann sem hefur vaxið á mörg hundruð árum og veitir mér skjól á köldum tímum. Ég sem ligg hér nakin og brjóst mín blasa við þér. Þú heldur áfram að reyta upp mosann meðan ég bið um það eitt að þú kyssir mig góða nótt. ] [ Oh, sister Death, when will you come for me? Why do you take those who don\'t want to go, when \'tis I who needs it the most? Free my soul from the nightmare that I, myself created. Free me from the burden of the Endless, for I see the light nomore. Even here, in the kingdom of my own making, I cannot conjure a dream to realease me from this darkness. And so I cry out to you my sister, Death. ] [ í nálægð þinni ég sannfærist um stundar sakir, hvað er það elskan mín sem fyrir þér vakir? hvað viltu mér, hvert ertu með mig að fara, ertu að vona að hún á okkur sé að stara? geymist ég í myrku skotti þínu, þegar springur þú seilast eftir hjarta mínu, eru orð þín sönn og áætlanir staðfastar, eða verður mér innan tíðar í burtu frá þér kastað 09.júní, 2005 ] [ Crawl inside Dream, what do you see? The shadow of the wolf of darkness therein resides, waiting patiently for his prey... Enter happy thoughts, instantly consumed. Enter darkness, it's there to stay. Can you see his malevolent scheme? Please help me to overcome him, Dream. You alone have the key to this lock. Don't be one of the Endless who mock those they exist for to aid. I remember how you were ages ago, when we existed together in peace Your power and pride you couldn't let go and your creation would never cease. But now I sense your spirits are down, you can't see any point to it all. Let me remind you before you lay down your crown, there's no pride in taking a fall. I should know best, for it once happened to me. My ego got bigger than my soul. So he cast me out you know the deal, My sun a burnt out coal. So rise man of sand and never forget, those for whom you exist. A new dawn your kind will get, dreams will forever persist. ] [ Afhverju er ég eins og ég er? Stúlka med dökkt hár og augu blá, Afhverju tekurðu ekki eftir mér? verð bara þína athygli að fá! Afhverju er ég svona dofin? afhverju er ég svona dauð? það virkar sem sál mín sé ofin, eða er hún kannski bara auð? Hvað viltu mér og þarftu að sjá? Sál mína skal ég þér gefa, eru augu mín ekki nógu blá til að hjarta og sál þína sefa? 09.06.2005 ] [ Tengjum saman tryggðarbönd Thailands yfir höf og lönd blómalands sem bíður mér brosið þitt svo fallegt er. Út á sjóinn er ég fer elskan mín ég sakna þín þá heima oft minn hugur er hjá þér elsku ástin mín. Ó hve dýrðar draumur er dagur hver í örmum þér hjarta úr gulli hefur þú hrein og bein í lífsins trú. Út á sjóinn er ég fer elsku Kam ég sakna þín þá heima oft minn hugur er hjá þér elsku ástin mín. Ljómar sól þín lífs um geim og lýsir mér til þín heim augu þín svo undur blíð elska mun ég alla tíð. ] [ Vinátta þín er mér mikils virði, og gefur mér mikinn frið. Guð má vita hvað um mig yrði, ef þín nyti ei við. Ég veit að ég er mikils metin ávallt er þú til staðar. Endalaus hlýja frá þér getin, til þeirra sem þú að þér laðar. Aldrei máttu gleyma mér, stórt pláss þú átt í mínu hjarta. Ég mun ætið unna þér, hetjan mín bjarta. 09.06.2005 Eva þú ert langbest af öllum!! :) ] [ Það ert þú sem þarft mig ávallt að þola. Það ert þú sem þarft að gefa mér ást. það ert þú sem huggar ef fer ég að vola. það ert þú sem vilt við mig fást. Það ert þú sem ég elska heitt. Það ert þú sem kallast móðir. það ert þú sem ei ætlast frá mér neitt þú ert fyrirmynd af því sem kallast góðir. 09.06.2005 ] [ Í leiðindum gríp ég til kutans og keyri á kaf Geðið mungát glepur beygur sækir að Hvert kvöld sem ég beygi af og dey ] [ Þegar þú ferð vaknar von um að allt verði ókei Hurð fellur að stöfum hjartað missir slag tíminn stendur kyrr vindurinn kafnar vatnið staðnar flugan þagnar orðin stama Og mig minnir að skóhljóð frá tiplandi Kínaskóm kveiki svart/hvíta þögn þar til þú - Garún Garún - stingur lykli í skrá mína og lífið kemur í lit ] [ Þú komst eins og vorið með ilm af regnvotum strætum þegar hjartað var opið og tómt Ég man þegar við strukum hvort inn í annað og þú sofnaðir með koss minn á vanga Þú varst vonin sem hjartað vakti og það glitrar á ástir regnbogans í augum þínum Garún Garún taktu mig og berðu mig upp til skýja ] [ We prejudge our lives Here we are and there we\'ll go False notions of paths on which we\'ll flow we\'re occupied with lies Deciding forevermore How can we be so naive to think we\'ll pull the plug that drains the sink we\'ll shoot but never score Foolish need for control From mountain tops to desert beach The knowledge must be in our reach Condemning of the soul We don\'t belive in time We think there\'s not enough to spend Curious we strech around the bend Becomes a wasted rhyme It\'s no way to live This is what we all must do Ignorance is piss in your shoe we take and never give How can we surely tell? When he\'s planned a rise or fall If there is a he at all The soul I\'ll never sell Darkness lies ahead No lights shine on the road beyond Of death we have become to fond It\'s all inside our head ] [ Fullkomnun sprettur af ófullkomnun Ófullkomin manneskja elur af sér fullkomna sorg, svört sem svartasta nótt og djúp sem dýpsti hafsbotn. Eins og eldrauð og heit glóðin molnar í grásvarta ösku á augabragði ] [ Sviðna vinabönd við svartklæddum hatri, sofna verndarenglar á vakt sinni í snatri, ef guð er sú vera sem yfir oss vakir, og fyrirgefur ódauðlegra sakir? ] [ Yesterday is already a dream and tomorrow is only a vision. But today, well lived, makes every yesterday a dream of happiness and every tomorrow a vision of hope. So if I pick up all my pieces that lie scattered around my world I might find a way to fullfill this philosophical plea. To long have I wandered, stripped of the things I need to be. A raven of the night who knows not sleep, I repeat the vicious circle of my non-existance. Stuck between the world of tomorrow and yesterday, I had no dream and see no vision. Like the undead roaming in the night, alone in the darkness of uncertainty, aimlessly caressing deaths hands and lifes boosm, blindly hoping that either of them would take me into their arms, like a mother would a frightned child, to carry me off down destinys cold, empty streets. But here I am still and will always be, stuck in the ever deepening cravass between life and death, wake and sleep. In no mans land I\'ll dwell forever. ] [ We turn green with envy, red with anger, black with hate and blue with sadness. But what about greed? It\'s always there, cowardly hiding, but always at the ready, an automatic mechanism of consumption. Like and irritable itch, unreachable and ever growing, so that finally we buckle down and it\'s power comes to light. A bloddy orange would be its color, like fire, consuming everything in its path, stopping at nothing to grow ever larger and powerful. ] [ Þyrnirósir ef við bara gætum sofið eins og börn. Kaffibollar og sykurmolar dreymi um pönnukökur eða grjónagraut í vöku. Prinsinn getur prísað sig sælann að hún sló hann ekki þegar hún var vakin eftir svo væran svefn. ] [ Nú hefur okkar Halldóra lokið skólabransa og hennar góðu einkunnir eru með glansa! Hún er góð og snjöll, við elskum hana öll og útskriftarpartýið góða verður ei til vansa! Þar verður hópur góðvina með létta lundu lífsgleði verður allsráðandi á góðri stundu! Við syngjum hátt í kór og sötrum mikinn bjór og menn fíla sig í botn á þeirri samkundu! ] [ Life is like smoking a cigarette in rough winds, you get a few good drags but most of it just blows away... ] [ Orð sem enginn skilur Þögn Ég horfi út en þar bíður mín bara meira myrkur ] [ Travelling sideways, following the moon Skipping over rainbows on a damp afternoon Crawling through the sky, with the head in the trees Poking at the stars with the cool night breeze Swimming through tall green grass, swaying playfully Gather together and join the dream of tomorrows fantasy ] [ Hvar ertu þegar ég þarf þig Á undan minni samtíð Enginn skilur mig Nema röddin í þokunni Hún hvíslar að mér Blekkir mig Ég man eftir björtum dögum Þá skein sólin á ljósa hárið mitt Nú bíð ég andvaka eftir því sem aldrei kemur. ] [ Þegar ég horfi á hafið Sé ég andlit þitt speglast Óljósar útlínur af fallegasta sköpunarverki guðs. Þú horfir á móti og augu þín glampa. Ég vona bara að öldurnar beri þig ekki í burtu. ] [ If dawn is birth, dusk is death and the day is life, what then is the night? C.a. nine months in the woumb or forever locked inside an earthly tomb? What happens after dusk? Are we reborn, is there another dawn? Are we transported to other places where there is no dusk or dawn, one of eternal day or one of eternal night? Do we get another chance at the day and another day after that, infinantly? Whatever the night may bring, I\'ll dream tonight. ] [ Við erum öll hlekkjuð við vegg ranglætisins. En fæstir vita að lykillinn er falinn í hjarta hins upplýsta. ] [ Myrkrið umlikur mig. Hvar er ljósið sem áður skein svo skært kemur það aftur eða hefur það yfirgefið mig. ] [ Sálin mín er brotin Hvert get eg leitað Sumir leita í trúna Aðrir kafa dýpra ] [ Sólkerfin og stjörnurnar fylgjast með hreyfingum þínum. Bros þitt fegurri en nokkuð blóm. Himnaríki er þitt. ] [ Þegar nývöknuð sól rís upp á morgunhimininn Ert þú það fyrsta sem kemur í huga min Hvernig þú brosir Hvernig fallega hárið þitt fýkur í vindinum Sólin bíður þér góðann dag og þú brosir á móti Þú gerir heiminn fullkominn ] [ It\'s such a tease, that yellow burning blotch in the sky, that it\'s probably a she. Sophisticated, glowing, thoughtful, warm, playful, charming and yet decietful, manipulative, moody, dangerous. If it\'s a he though, he\'s probably gay. ] [ Þú ert hjá mér í draumi sem vöku hugurinn geymir minningu forðum. Um hvern dag og hverja nótt ég sveipa þig hugsun minni. Ég hvísla nafnið þitt í fjöllin og hafið og greipa ást mína í klettaberg. ] [ Þú ert mitt hjartans hvínandi bál er ég leitaði að í þúsund ár. Loks fann ég minn himinn loks fann ég mitt haf. Þú ert mín angist og þú ert minn friður. Þú ert ljóðið sem lífið mér gaf. ] [ Við skulum ekki gráta þótt grafi í gömlum sárum, því við finnum engin svör í löngu liðnum árum. Þau eru farin sinn veg eins og löngu hljóðnuð bæn. Gára burt á lífsins bárum og drukknuð í hafsjó af ógrátnum tárum. Við skulum ekki gráta þegar næturnar eru dimmar. Þótt örin virðist ljót eða minningarnar grimmar. Því að með vorinu vaknar alltaf von og í spegli tímans sindrar kærleikans líknandi tár sem allan sársauka mildar. ] [ Nóttin var blá. Við lágum í myrkrinu nakin og hvísluðumst á í þögninni. Loksins gáfumst við upp fyrir hvoru öðru, ég og maðurinn, með hafið í augunum. Þú þerraðir tárin mín þögull og vafðir mig klettþungum örmum þínum. Nóttin andvarpaði fegin. ] [ Mitt litla alheimsljós. Þú komst og þú kvaddir eins og fegursta fölnandi rós. Nú brestur mitt hjarta og himnarnir gráta er í mildan faðm guðs ég legg þig, litla barnið mitt bjarta. ] [ Sussu, sussu barnið mitt góða nú er nóttin alveg björt. Sussu, sussu barnið mitt blíða allt er svo friðsælt og rótt. Nú sefurðu vært, yndið mitt ljúfa umvafin kærleika guðs. Nú er heiðskír íslensk sumarnótt og allt svo kyrrlátt og hljótt. ] [ Eitthvað deilt með allt mínus allt, er meira en hvað sem er þúsundfallt. Það er óendanleiki í plús eða mínus. Tangens deilt með sekant er sínus. ] [ ég geng niður strætin og elti bílana ég fel mig bakvið veitingastaði og hirði afganga ég þrengi mér upp við fólk sem ég þekki ekki og þefa af rössum þess ég held að ég sé flækingshundur ] [ Stundum langar mig að stunda kynlíf með líki En svo fatta ég að þá yrði ég litin hornauga af samfélaginu og missi alla löngun. ] [ Stundum þá langar mig til að drepa eitthvern Slátra eitthverjum Kála eitthverjum Stundum langar mig til að slátra þér Skera þig Sneiða þig (Og saxa þig niður) Stundum langar mig til að kála þér Myrða þig Og éta þig Hráan með tómatsósu Kalt kjöt með tómatsósu Og kannski franskar með. ] [ Hamingjan er vandfundin, Láttu mig vita þegar þú hefur fundið hana Því þá ætla ég að stela henni af þér. ] [ Dynhamrar dökkir dagur í austri máttlaus myrkraöfl steinrunnin vættur stöfum roðin grjót er grýla nætur ] [ Þú ert svo mikið æði Að þegar að ég sé þig Þá finn ég fyrir morðæði. ] [ Tveir tómir bekkir bíða tala saman muna tímanna tíða margt fólk mikið gaman margir hafa í þeim setið samtölin mörg af sér getið manneskjurnar margar glaðar eða daprar sól eða regn sumar eða vetur þar þeir hafa staðið fólkið hefur setið þeir hafa hvergi farið manneskjurnar fara víða í bænum sitja bekkir og bíða. ] [ Er ég ljóð? ] [ Ég stari út í heiminn, finnst ég vera að drukkna, ég kemst ekki lengra, að ég stari og grenja, út í þennan vilta heim. ég þarf að vita hver ég er ] [ Póstmodernisminn, hvað er það? prettir og tálar, umburðarlyndi umsnúin gildi ,eða siðleysi gildisleysi, kannski hressandi köld sturta fyrir kapitalismann sem hristir sig líkt og hundur eftir holdvott baðið og fær bein í laun frá hundhlýðnum lýðnum ] [ líf, þessi ókunna manneskja, alltaf stendur hún álengdar við tilveru mína og allir segja mér að faðma hana, stundum geri ég það með heilum hug en oftast með hiki í hjarta. ] [ Hérna sit ég og lít út um gluggann, sé bréfbréfa bölva í hljóði og troða póstinum í lúguna, hann á víst erfiðann dag. Það er sólskin en hvasst fólkið er ekki að fýla það, hleypur í skjól og sest niður, en börnin gleðjast sólinni og sparka í bolta kát. Spurningin er samt sú hvort ég eigi að vera barn í dag eða fullorðin og eiga slæmann dag. ] [ rígbundin átthagafjötrum legufæris frá morgni til kvölds vafin innan í bómull og gifs fjallið úti roðnar á kvöldin ég kem seinna treð það fótum gleymi þessu svo ] [ Er held ég enn á æskuslóð úti er napurt og sól er sest og er nóttin skellur á verð ég magnlaus í myrkrinu og minning þín er sterk sem bál. Ó hve sárt ég sakna þín sem lýstir mér inn í ljóðaheim og lífs mér sagðir sögur um landið okkar ljúfa og lífsins leyndarmál. En á morgundaggar ég fer á fund og finn þar huggun í dalsins kyrrð og minningarnar lifna við um sveitina, fólkið og fjöllin sem fylgdu þér hvert fótmál. ] [ Dimmir dagar og dökk kvöld. Lífið sagði hátt, ástin er köld. Tómir dagar sólin blind. Lífið sagði hátt, lífið er lind. Blautir dagar himininn grár. Lífið sagði hátt, tíminn læknar sár. Langir dagar jörðin frosin. Lífið sagði hátt, sjáið öll brosin. ] [ Þú veist mín ást er ætluð þér þú veist þú ert mín eina þú veist þín ást er ætluð mér þú veist vel hvað ég meina ] [ Þú komst í sófann hjá mér og virtist hrygg í lund mér leið svo vel þar hjá þér þessa einu stuttu stund Þú gefið ekkert getur um það er ei að fást þó ég vildi kynnast betur þinni einlægustu ást Þú vilt mig eiga að vini það vænt mér þykir um þín fórn er fyrir syni sem hugsa þarft þú um Ég finn í mínu hjarta er sumri halla fer er myrkvast nóttin bjarta hve einmanna ég er Ég taka verð af skarið og vonlaus segja þér við verðum ekki parið sem ég löngum óska mér Ég á ei neitt að bjóða nema bara mig en af konum allra þjóða enga vil ég nema þig Nú læt ég á það reyna hvort tíminn lækni sár hvort ég hugsi um þig eina um ókomin ár ] [ Um lendar þér og lærin stinn mig langar til að strúka við geirvörturnar gæla um sinn og gullið hárið mjúka Hve ljúft við brosir lukkan mér og leyfir mér að njóta unaðs kvöldstund einn með þér og endurfundi skjóta ] [ Hann sagði við stúlkuna að allt hefði sína ástæðu og að allt væri vaxið frá grundu sjálfs okkar. Hún skildi það vel og kallt hjarta hennar hlýnaði, það næstum bráðnaði þegar hann sagði henni að vængir hennar titruðu ekki að ástæðulausu. Nokkrum dögum seinna var hún mætt aftur grátbólgin og vængbrotin. \"kæri sáli, þú sagðir mér ekki að allt hefði einnig afleiðingu\" ] [ Hvernig má ég segja þér, hvað mér býr í hjarta? Hve nærvera þín yljar mér, með brosi þínu bjarta. Stundum deyr út vonin mín er einn ég geng til náða. Enga framtíð sé án þín, hvað er nú til ráða? Að sjá þig aka burt frá mér, augun fyllast tárum. Hve vildi ég þú værir hér, ást mín er í sárum. Sál mín hangir upp á þráð, mitt hjarta er í taumi. Hve lengi þína ást hef þráð, sem vitjast mér í draumi. Sýndu mér á einhvern hátt, að ég skipti máli. Ég er að missa allan mátt, mitt hjarta er ekki úr stáli. Alltaf verð ég vinur þinn, sama á hverju gengur. Þó Grikklandseyjar elskhuginn, sé það ekki lengur. Viltu ástin segja mér, hvað ég þarf að gera? Til að verða hæfur þér, því þannig vil ég vera. ] [ Glaður er á góðri stund geislar lífs míns kraftur man er fórum fyrst í sund fljótt vil fara aftur Þú mættir mér á bláum bol blaut við lékum saman óx þá ástar minnar þol ó hve það var gaman Allt of sjaldan síðan þá sé ég ásjón þína þrá’ í faðminn minn að fá fjallkonuna mína Hvað er ég að hugsa mér? Hví er ég að vona? Mér ei er ætlað líf með þér þú verður ei mín kona Plásslaust er í Paradís para brostinn draumur enga á ég álfadís ó hve ég er aumur ] [ Ég man tannlaus brosin tindrandi augun og tíumilljón spurningar. Ég man hlýjar barnshendur húfuklædd höfuð og hjartanlegan hlátur. Ég man barnslegu einlægnina blikandi stoltið og bekkjarkvöldin. Ég man sex ára svipinn sjö ára flissið og skólatöskur í gúmmístígvélum. Ég man krummafót kríuegg og kátustu krakkana. Ég man að ég ætlaði að kenna ykkur svo margt. Hvað, man ég ekki lengur. Það eina sem ég man er það sem þið kennduð mér. ] [ Það var föstudagur og miðbærinn fullur af fólki ég gekk eftir gangstéttinni til vinstri gatan - til hægri steingrár veggur þá sá ég í veggnum andlit manns kallandi á hjálp ég leit í kringum mig en enginn virtist taka eftir neinu ég snéri mér við og sá andlitið hverfa inn í vegginn ég ætlaði að hlaupa en stóð föst í stéttinni og eins og styttan af Jóni Sigurðssyni horfði ég á anlitið hverfa og mást út - í rigningunni. ] [ ó Guð ekki vera með þetta puð og kondu mér í stuð, Heyri ég suð eða fékk ég bara stuð æjji hættum þessu puði og förum í stuð ] [ Þegar rökkrið ríkir á reynslunnar þungu stund og brjóstið af ekka bifast blóðugt er hjartans und Leitaðu þá á Drottins fund. Þig vil ég bænir biðja blessaði faðir minn viltu mig veika styðja og vef mig í faðminn þinn. Elfa - Jan 2005 ] [ Nærvera mín á sporbaug um tvær svartar kúlur andlit flökt en samt opið andardráttur silkimjúkur en rennur þó til á samskeytum ég er Mummi munaðarlausi en lifi þó í munaði og þá rennur lækur af vörum mér -en fjarar snöggt út flúrljósa-afslöppun og hlæjandi doði á ekki saman svo ég sný mér -og varpast af sporbaug ] [ Heim gengur Tinni, tindátinn, staðfastur. Rakinn hjúpar hann ringlaðan. Hneggjandi hljóð undir fæti. Og hvað?! og hvað?! Stál? Stál sem stingur í augun. Og hvað?! og hvað?! Dynjandi taktur hífur mig upp. bleik móða eða ský? Bæði, rós sem fitjar uppá nefið og hvítur, skjanna. Meir skjanna en heilagt ljós? Nei. ] [ einu sinni var ég með haus en svo hlustaði ég á maus og hann datt af ] [ það rignir ekki blóði ef ég segi það alveg satt ] [ This is me, lost litle girl, i was a litle happy girl, i\'m falling down, but i try to pull me up, BATMAN. ] [ Þú komst til að kveðja svo kyrrlát og hljóð. Þú kvaddir með kossum þínum við komudyrnar rjóð. Tilbað þig með tárum mínum trúði á þína sál. Eignast vildi ást er skildi öll mín leyndarmál. Við dönsuðum í draumaheimi um dal í sólarátt. Stundum grét ég sárt í hljóði þótt sumir hefðu hátt. Ásýnd þín með æskublóði í augum mínum beið. Þú hélst af stað en heitt ég bað við héldum hvora leið. Seinna gat ég skrifað betur söngvaljóðin mín. Sárin sem þú skildir við var sorg og ástin þín. Skil nú betur sátt og frið syng á nýjan leik. Hjartað fagnar er kveldið kallar kyrrðin ein hún veit. ] [ Við ljósalampa og lítið borð þín list varð til með rækt. Fingur þínir færðu orð í fagran búning hægt. Handverk þitt og hjartaást er hátt í huga mínum. Við útsaum muntu aldrei fást aftur í stólnum þínum. Ætíð mun ég elska þig innst í hjarta mínu. Seinna færa svanir mig í skjól að brjósti þínu. ] [ Hugur er frjór og hugur er fagur. Hugur er fullur af lífsgleði og vonum. Hún er með mér, þetta er sólríkur dagur, En í huganum er hún með honum. ] [ Ég læt mig stundum dreyma í dagsins önn um daga langa og landsins bjartar nætur. Þar lækir streyma úr stórri fönn, sverfa niður tímanns tönn og tifa um hvannarætur. Ég læt minn huga líða um hafsins rót við háa kletta og kaldar landsins strendur. Þar fuglar kvaka um klofin grjót kunna lítið mannamót að meta um þessar lendur. Ég læt minn huga reika um hetjuslóð á heiðum uppi við heitar landsins lindir. Þar orti ég mín lífsins ljóð, um ljúfa ást og fögur fljóð og fagrar fjallamyndir. Ég læt mig stundum fljúga um háreist fjöll við fögur gil og gráblá landsins grjót. Þar dvelja stundum tvíefld tröll sem takast á um víðan völl og váleg jökulfljót. Ég vakna að lokum upp af dagsins draumi við dauflegt stræti í stórri heimsins borg. Heimþránna ég læt í laumi líða frá í sterkum straumi og stöðva mína sorg. ] [ það er þögnin sem veldur sárinu og hefur líklega komið aftan að mér já auðvitað! ] [ Riðandi staurar. 180°- þar er ég það sér hún, prófessor, Páll lögfræðingur? Nei ekki beint en samt lúmskur. Já ég veit hver þú ert, tölum um það, væri ekki best að gleyma þessu? spurningin nær ekki lengra en ekkert, en er útskýrð með glotti ] [ ef betur er að gáð sjást örin með nýjustu samtalstækni og röntgen má sjá allt falið. en á yfirborðinu má klæða af sér örin mála og fegra brosa jafnvel, faðma... en röntgen sýnir sundurskorið blæðandi hjartað sem að þér snýr viðgerð er hafin ] [ Ég sakna þín vinur Hví fóstu mér frá Ég sakna þess að faðma þig Ég sakna þess já Ég man þegar þú hélst Hélst í mina hönd Við elskuðum hvert annað. Ó hve unaðsleg stund Afhverju fórstu þessa nótt? Hvaddir mig ei Ég sef ekki rótt Fyrr en ég get sagt þér eitt Það eina sem eg vill seigja þér Er það eg elska þig Eg vona að þú hafir elskað mig Ég vona að þú heyri þetta kall frá mér Það kall er að láta þér líða vel Og lofa að hugsa oft til þín Svo þú getir haldið áfram að elska mig ] [ Tilfinninganæm manneskja situr hér ein , Hugsar um hvað hún vilji og hvað ekki, Hún fattar það að hún er ástfangin, Ástfangin af manneskju sem hún vissi rétt af Ástin heltekur hana , Ástin tekur yfir allar hennar hugsanir, Hún hugsar aðeins um þessa mannekskju Fær margar spurningar uppí hausinn. Er ég ekki nó og góð fyrir hann? Elskar hann mig nokkuð? Vildi hann mér eitthvað ? Þykir honum vænt um mig? Engin svör aðeins daprar hugsanir , Hugsanir um líf án hans , Lífið er var gott áður en hann kom En betra er hann var komin Núna reynir hún að loka hann af Í dimmu horni inní hausnum á sér En hún finnur að hann á ekki að vera þar Hann á að var á björtum stað í hjarta hennar. ] [ Ég man svo vel er eg kissti þig fyrst Mér leið eins og prinsessu Heimurinn var fullkomin Jafn fullkomin og sólin Mér langaði svo að hafa Hafa þig hjá mér Að eilífu sem vin minn Sem stóð mér svo traust við hlið Við stóðum þarna saman Um stjörnu bjarta nótt Gleðin skein úr brosi þínu Og veitti mér mikin þrótt Mér langaði að hafa þig Alltaf hjá mér En svo fórstu þessa leið Og eg sé þig ekki meir Eg kveð þig hér með vinur Og vona þess þú gleðjist Þegar þú heirir að eg hef alltaf elskað þig ] [ Nú er sólin farin að lyftast Kemur kanski upp bráðum Eftir allan þennan dvala Lýsir kanski loksins smá í lífi mínu. Búið að vera svo mikið myrkur Myrkur, kuldi og sársauki Það byrtir til og hlýnar með sóinni, Sársaukinn sjatnar og Lífsviljinn kviknar Kanski sé ég sólina aftur Eða eru þetta bara hillingar Ofsjónir og blekkingar Eða kanski tálsýn vilja og vonar?? ] [ Sit hérna Inni lokaður Fastur í helvíti Er ekki að losna Neiddur í skóla Þau skilja ekki NEI! ] [ ég nenni ekkki að lifa þessu lífi lengur nú langar mig að deyja þið viljið ekki mér það leifa segið mér að ég eigi að lifa hvað varð um það að maður ætti að gera það sem maður vildi vera sjálfstæður og gera það sem maður sjálfur vill síðustu árin er búið að vera að hamra því í hausinn á mér vera sjálfstæður og fylgja minni eigin sannfæringu ekki endalaust að láta aðra skipa mér fyrir og segja mér hvernig ég eigi að lifa lífinu þið hljótið að sjá það sjálf að þessi tvöfeldni gengur ekki þið eruð ekkert nema hræsnarar sem segja eitt og meina annað þið segjist vilja hjálpa mér en leyfið mér samt ekki að deyja hvernig væri að hjálpa mér að deyja? þá mynduð þið losna við mig og áhyggjurnar sem mér fylgja ] [ Ég veit ekki, Skil ekki, Fatta ekki, Hvað er að. Ég þarf að vita, Þarf að skilja, Þarf að fatta, Til að mér batni. En hvernig veit ég, Hvernig skil ég, Hvernig fatta ég, Hverju þarf að breyta? ] [ Ég get ekki tjá þér Ást mína til þín Tjáð hana í orðum Ég get ekki heldur Sýnt þér hana Sýnt með gjörðum Eina sem ég get Er að reyna að opna hjarta mitt Opna það og bjóða þér inn Bjóða þér alla þá hlýju sem ég get veitt Kíktu inn og sjáðu Sjáðu tilfinningar mínar Tilfinningar til þín Þær eru svo heitar Þær brenna í hjarta mínu Ég get þér aldrei gleymt Aldrei sleppt þér Get ekki leyft þér að fara Því ég elska þig svo heitt ] [ Ég sakna þín Ég þrái þig Þrái að finna snertingu Finna hendur þínar renna Renna eftir bakinu mínu Sakna að finna þig taka utanum mig Taka utan um mig og kreista Sakna þess að horfa í augun þín Halda í hendina á þér Hafa þig hjá mér og geta kysst þig Ég sakna þess hvernig þetta var Ég er haldinn fortíðarþrá Ég þrái þig ] [ Einn ég ráfa í myrkrinu Einsog stefnulaust fley Enginn áfangastaður Veit ekki hvaðan ég kom Né hvar ég mun enda Eða myn ég enda einhverstaðar Eða bara vera stefnulaus Stefnulaus um aldur og ævi ] [ Þú sagðist elska mig, Ég elskaði þig líka, Trúði því sem þú sagðir. Svo var mér sagt að þetta Væri byggt á lýgi. Ég grét, Grét þig, Þótti svo sárt að missa þig. Reyndi að gleyma þér Hélt það hefði tekist. Frétti svo af þér. Komst að því Að ég get ekki gleymt þér, Get ekki ýtt þér frá mér. Því ég elska þig en svo heitt. ] [ Með poka á hausnum Gaskút við hliðina á mér Skrúfa frá, Gugna á þessu Ríf pokann af mér og skrúfa fyrir kútinn Sit og huxa Afhverju ekki?? Er það sársaukinn?? Eða er það hræðslan?? Hræðsla við dauðann... ] [ Fljótt frjáls ég verð Eftir fimm mánaða innilokun Fæ að ganga meðal fólks Ekki undir eftirliti Eða með gæslumenn ] [ Ég þrái að skera Þrái að finna kalt blaðið sleikja húðina Þrái að finna blóðiðð leka niður hendina Sjá þegar rauður vökvin sprettur fram Vona að mér blæði út en Vita að það takist ekki frekar en í öll hin skiptin Allar þessar misheppnuðu tilraunir Skilja eftir sig minningar, ör á hendinni Sjá örinn í hvert skipti sem maður lítur á hendina Alltaf þessi stöðuga minning á sársaukan sem einu sinni var Blossar alltaf upp aftur þegar maður heldur Heldur að maður sé laus við hann!! Þetta hlítur að enda með dauða fljótlega... ] [ Nú er ég lokaður inn Eins og dýr í búri er ég geimdur Einig er ég umheiminum gleymdur Enginn mér man eftir Ég var tekinn úr mínu umhverfi Sendur í burtu og sagt að það væri fyrir bestu Ég er þeim ekki sammála Þetta er einsog að vera í fangelsi Engin símtöl Engar heimsóknir Ekkert!! Hafa allir mér gleymt Eða eru þau fegina að losna við mig? Hvort sem er þá er ég fastur hér Kemst ekkert í burtu! Hér verð ég næsta árið Haldið í burtu frá öllu og öllum Smá samband við umheiminn Aðeins út, enginn hefur samband inn!! ] [ . . . . . Vorð. vetrarguð\"#! ] [ Eitt andartak ég taldi lífið fullkomið eitt andartak ég trúði á þig eitt andartak ég sleppti og á einu andartaki komstu upp um þig ] [ Leiddu mig þú veist hvað mér leiðist einveran á meðan fólk faðmar hvort annað af ástúð ] [ Veröldin týnist inn í myrkri móðu, á meðan ég fel mín leyndarmál í skjóðu. Ríð inn í nóttina á fáki mínum hvíta, veröldin fyrir mér sem fallin spýta. Hversu frjáls þarf ég að vera í dag ? Hversu frjáls til að allt komist í lag ? Þarf ég að taka saman höndum og grafa öll sár ? Binda endi á öll mín sorgartár ? ] [ Hver er & hver ekki, hver viljum við vera? Hvernig finnum við okkur þú þig, ég mig, og við hvort annað? Erum við týnd í hraða lífsins og væntingum annarra? Sjálfið er horfið í spegilmynd almúgans. ] [ Ég fell í ópi óttans, dimman grípur mig líkt og þyrnóttur koddi. ] [ stórt veldi af depurð stórt haf af reiði hvernig hann dirfist er einum of fyrir mig ég vil öskra ég vil gleyma ég vil drepa og sjá hvernig mannveran særist og hættir svo að lifa deyðu, burt úr huga mér. ég vil aldrei sjá þig aftur né vita af þér. ég hata þig. ] [ Við saman. Á öðrum stað, á öðrum tíma, Er ég viss um að við hittumst á ný. Á betri stað ert þú nú kominn, Þitt heimili er undurmjúkt ský. Tíminn líður eftir þann dag, Er þú varðst að kveðja þennan heim. Hugsanir um horfna tíma, Ó hve vel ég man eftir þeim. Við saman, í gegnum, lífshlaupið, ávallt með bros á vör, Við lékum, í lyndi, hjá okkur var lífið ávallt fjör. En núna ertu horfinn fyrir sól, Ég hélt að lífið myndi standa í stað. Með kraft að ofan, frá góðum guð, Ég held áfram með lífið, svona er það. Lífið breyttist , er ei lengur eins, Ég þakka guði, nú fyrir sérhvern dag. Ég vildi heiðra minningu góðs drengs, Mín hinsta kveðja, rituð á blað. Við saman, í gegnum, lífshlaupið, ávallt með bros á vör, Við lékum, í lyndi, hjá okkur var lífið ávallt fjör. Ég varðveiti allar minningar, í hjartanu að eilífu, Ég gleymi aldrei góðu dögunum, ég gleymi aldrei þér. …. Gleymi aldrei þér. ] [ Ég man eftir þessu kvöldi eins og það hefði gerst í gær. Við höfðum ekki þekkst lengi, en þegar þú komst og spurðir hvort einhver vildi koma í göngutúr sagði ég já. Við röltum um svæðið og töluðum saman. Héldumst í hendur. Mér leið svo vel og í fyrsta skipti í langan tíma fannst mér ég örugg. Þegar við komum til baka sátum við fyrir utan skálann og spjölluðum. Allt í einu sagðirðu að þú vildir kyssa mig. Mér leið eins en þorði ekki að segja það. Ég hélt þú vissir hvernig ég er. En þú fórst inn. Ég sat úti í smástund og fannst eins og heimurinn hefði hrunið. Ég sá þig aftur þegar ég kom inn. Það nísti hjarta mitt að sjá hversu illa þér leið. Ég hef aldrei getað fyrirgefið sjálfri mér það að særa þig svona. Ég bara hélt þú þekktir mig. Ef þú hefðir bara kysst mig. ] [ Hann leit á klukkuna og ég líka, vildum báðir eflaust vinda tímann hraðar þar sem við sátum tveir á biðstofunni og við biðum áfram, fingur trommuðu á jakkafaldi klukkan sló fimm, og allt í einu sagði hann: \"akkúrat núna, var ég að fæðast\". ] [ Marta mín er mektar gullvild í Afríku núna!!! Hún er alltaf mjög glaðvær á góðum dögum og gerist hálærður doktor kerlingahögum!!!! Þrjátíu og átta ára er hún nú í lífsins blóma! Hún er langbest og snjöllust af öllum, öllum og auðvitað þarna í draumunum hjá köllum! Ég óska heilla og hamingju heillabarni mínu! Með gæfu og gengi hún standi vel á sínu!!!!!! Ég gleðst í fjarska með þér á afmælinu þínu!! ] [ Hvar ertu vinan, ég leita þín hef leitað fram á nætur. Gerðu okkur greiða og komdu til mín áður en annaðhvort okkar grætur. Mig verkjar að hugsa til þess að þú birtist mér ekki á ný. Aldrei hef ég heyrt orðið bless en hugarfar mitt nú ég sný. ] [ Úr votu skauti vatnsins bláa reis ég nakinn og tær. Hljótt upp úr móðunni sem lagði af vatninu steig ég fagur og skær Vatnið sem ól mig unni mér heitt. Það iljaði mér með andardrætti sínum sem ljósálfar spunnu í örfínan þráð og marbendlar ófu úr dýrindis lín, sniðu af kufl, úr mistrinu skikkju sem merlaði af í hvítu mánaskini. Svarrbláum nikrum var beitt fyrir vöggu úr mjallhvítum liljum og sígrænu sefi sem mettaði vit mín með framandi angan. Hún festist við föla rekkjuvoð stjarnana sem flökti á hvíslandi földum vatnsins er ofurmjúkt kysstu mig á vangann. Allar vættir vatnsins vöktu yfir mér, og vernduðu mig af mætti. Þær gáfu mér glitrandi gullin fræ Bráins og dögg þá er draup á miðju nætti. Lagardísir ljáðu mér brynju herta í vafurloga, sverð úr sólstöfum sjöunda himins og skjöld úr regnsins boga. Þá röðull rann heitur á heiðan himinn og leysti í sundur minn líknarbelg, risu úr svelgnum hvasstenntir drekar sem kenndu mér töfra og leyndir vatnsins. Kyngi og seiðstafir urðu mitt mál. Dvergar krýndu mig vorsmíði sinni sem huldi mig brágeislum dauðlegra manna. Og æskan varð öll að eilífri bernsku og ómunatíð, að draumi um hetju sem vatnið bláa gaf allt nema sál. ] [ Þitt óðal er úthaf þinn andi land. Gimsteina gaf í gróður og sand. Lofsungin leið leysti þín bönd. Í birtingu beið brimið við strönd. Gatan er gróin gömul en bein. Söngva við sjóinn skildum við ein. Byr fær er bíður blíð er dagsbrún. Yfir sæina sígur síðnæturhúm. ] [ ég tek við trúnni gerir hún það ég skil trúna mína sættir hún sig við það trúin mín er mér mikilvæg er henni alveg sama um það . ] [ Eimbeitt traust sem brotnar niður um aldir styttir upp augu full af blóði sinnum þessu táraflóði hleypur á sjó aleinn sveinn finnur frið og fær aldrei nóg á endanum allt er breytt líf hans uppþornað og beitt . hann sker sig á sínu lífi endar einn aleinn með sínum beitta hnífi ] [ Ég vildi að ég gæti farið til baka Ég myndi breyta þessu eina kvöldi Ég er ákveðnari núna Nú gæti ég sagt það sem ég vil Nú myndi ég ekki særa þig Nú myndi ég ekki særa mig ] [ Isis, confused angel queen Goddess for those who chose you Chained down by your own insecurities, Life shall set you free Fear of flying Soaring high above Cherry flavoured with chocolate sprinkles Fading soul, looking fornew strength, Keeping it hidden within yourself So even you can\'t find it. Little sister, mother, Older than us all Graceful, intelligent, beautiful Lovely, trusting, insecure, Smart, nice, On the brink of a thumb, It\'s called karma The night is still young... Who worships you when hope is lost? Who listens when you cry? You chose your stand, you knew the cost Shoulder to cry on for everyone else Moody, disoriented - unattainable goddess Coldness and christmas, presents for all Cafe Paris, birthday Snowballs, trees, christmas lights All you want is a hoola hoop and your new bracefree teeth Darkness all around us Dreams have a meaning And you have dreams If you have a meaning Are you but a dream? Seems like everyone around you is crazy Do you not have one friend who is sane? Are you? Searching for diamonds among lumps of coal Shining so bright Little star, Little May Star Always scared, afraid of the simplest do wrongs wonder why people find you childish Lovely eyes Good taste Sweet little countrymouse Anna, babe, I love you too. You are better than you know (but I do!) Others look up to you, You look down on you, Setting goals impossible to achieve ] [ We fill our lives with meaningless things To block out the world and its pain And those who see through it we secretly hate Because we fear that we might, too. Cheap things are worthless, Expensiveness counts Your heart came for free We buy things, we build things, We long for everything Prada And we give things importance So we have something to believe in People who die, people who suffer They are the people no-one cares for any longer Because it’s not in fashion anymore. Never mind love, forget about compassion There were movies about it – both flopped Disney’s about as much care and love It’s healthy to show children anymore We build castles to defend our belongings We buy things to show off, and lock ourselves in And within the thick walls Covered with prizes It’s easier to pretend we’re happy within. ] [ svo lítið fræ verður eitthvað bara sá því. djúpt í augum þínum hlæjandi sá ég sáðum þar við situr sáð en auðvitað verður ekkert það er ekkert andskotans lögmál að það verði eitthvað þetta var bara eitthvað sem ég sá ] [ Það er ólýsanlega erfitt þegar líkami manns er fastur heima á Íslandi á meðan hjartað er í Noregi. ] [ You can tell from the scars on my arms and cracks in my hips and the dents in my car and the blisters on my lips that I’m not the most careful of girls you can tell from the glass on the floor and the strings that are breaking and I keep on breaking more and it looks like I am shaking but it\'s just the temperature and then again if it were any colder, could I disengage if I were any older , could I act my age? but I don’t think that you’d believe me it\'s not the way I’m meant to be it\'s just the it made me It just the way the emptiness made me and you can tell from the state of my room That the mess isn’t just on the inside and I’ve got some issues to work through there I go again pretending to be alive pretending to able to work throught the mess of me I have no real soul beneath the surface trying to convince you that I do it was accidentally on purpose I am not so serious this passion is a plagiarism I am the world\'s worst accident and you can tell by the red in my eyes and the bruises on my thighs and the knots in my hair that I’m not right now at all there I go again pretending that I’ll fall don\'t call the doctors just let me crash and burn and you can tell that I’m sorry that I asked though you did everything you could (like any decent person would) but I might be catching so don\'t touch you\'ll stop believing that what you see is real don’t touch my hands because the bandages will all come off and you can tell from the smoke at the stake that the current state is critical well it is the little things, for instance: in the time it takes to break it she can make up ten excuses: I’m short on sleep, and I feel lonely or sad, or it’s the state of the world or me or you and it’s not my fault don’t blame me, don’t listen don’t make me face the consequences of what I do I won’t hurt you, I swear I hurt me, but you don’t care Let me be Let me freeze Inside of what I seem to be. It’s so sad I’m so sad If you break through the emptiness And then through the loneliness And the sadness after that All you’ll se is pain A rusty machine soul That fooled you all, but not me Because my soul doesn’t work anymore And why fight for the life Of the already dead? Why work on to save A living shell of a little baby girl I don’t believe there is a cure for this these feelings I’m stuck with The feelings that I make me feel The feelings that I seem to feed With my soul and my mind and my heart and my sight And there is nothing I can do And there is nothing you’ll ever do That can save me from myself I am useless I am behold the worlds worst accident I’m sick, I must die Why won’t you please just let me? And why won’t I? ] [ leiðir liggja saman leiðir leiðast ekki arm í arm af löngun leiðir skilja á krossgötum er leiði ] [ Pealing the flesh of the mind that is blowing revealing thy self without them ever knowing I’m scared to hell with all of these sessions writing down all my dirty litile confessions putting in these lines one thing that defines the uglyness in all of us my demise is my protection fighting all of these copycats they can’t cut through the bullshit looking at their stats discovering their misfits ] [ Making me feel like I’ve never been born feeling like a child that has yet not worn the truth about life the dreadful disease killing everyone around you bringing you to youre knees the mistakes are as follow you lived youre life nobody cares so drop the fucking knife killing youreself won’t solve a thing look at the moon you start to change turning dark look a the clock it’s almost noon Oh my god you’re already late to witness the birth of the first born child in youre hands, lies his fate ] [ Today I saw that I had been focusing on the wrong things in life Yesterday I saw nothing Tomorrow I will see that I was right all along but still, I was wrong Because, whats right is right and whats wrong is right in the eye’s of whom who thinks he is right. At the end I’ll end up alone out on the street because... I thought I was right ] [ Án þín er ég ekkert. Ég er núll og nix. Þú gerðir mig að þeirri manneskju sem ég er núna og ég er þér mjög þakklát. Þegar þú ferð í burtu er ég einsog veikur fugl það ert þú sem heldur mér saman það ert þú sem ert ljós lífs míns. á erfiðum tímum þú stiður mig. ég vildi með þessu segja: TAKK FYRIR AÐ VERA TIL:* ] [ það er eins og allur heimurinn sé á móti mér minni tilvist Ég er bara hérna reyni að þrauka gegnum hörki lífsinns. Veit ei hvað ég gerði til að verðskulda þetta allt. Mig langar bara að hverfa. verða endanlega ósýnileg. Þar sem enginn getur séð mig. Þar sem enginn veit hverju ég klæðist. Þá get ég loksinns verið ég. ] [ Raddir umlíkja höfuð mitt. það er eins og ég sökkvi í sand eilífðar eins og allt vari mikið lengur ég er fangi í eigin líkama. Raddir segja mér hvað ég má og má ekki. Þær segja mér að setja þig í hlekki. Binda þig fastann. sleppa þér hvergi. Þú ert fangi í mínum hugsunum. Hvað var það sem ég gerði til að öðlast mátt? ég veit ekki svarið en raddirnar segja að ég hafi gert rétt. ] [ þú daðrar við mig eins og sólin daðrar við sjóndeildar hringinn en þegar á reynir roðnarðu niður í rassgat og hverfur á bak við fjöllin ] [ Ást mín er logandi bál eins og brennan á þjóðhátíð í Eyjum. ] [ Biðin er maður í bláum frakka sem stendur undir ljósastaur hamingjunnar og þegar ljósið kviknar, þá hverfur hann og enginn man eftir honum fyrr en ljósið slokknar og hann birtist á ný tilbúinn að staldra við eins lengi og þarf ] [ Dónablómið ógnþrungna sendir mér stingandi augnaráð með græðgi í svipnum og langar að borða mig Það hættir ekki að horfa mér finnst eins og það sé að horfa í gegnum mig en samt beint á mig Alltaf þessi helvítis dónablóm hafa gert margan óskunda í gegnum tíðina og valdið miklum andlegum og líkamlegum sársauka Þess vegna skal ég stíga ofan á það og kremja það til bana! ] [ Gleðin streymir um allan líkamann lekur fyrst niður frá hársverðinum niður í augun beygir við nefið nítján millilítrar af gleði brjóta sér leið inn í munninn afgangurinn rennur áfram niður hálsinn niður bringuna niður magann stöðvast við mjaðmirnar. Gleðin rennur ekki lengra í þetta skiptið, hann missti fæturna í slysi. Gleðin lekur niður af líkamanum og í niðurfallið. Eina gleðin sem hann mun finna héðan í frá er þeir nítján millilítrar sem hann geymir í munninum. ] [ þegar andinn er fullur af engu og innra leynist hnútur er affarasælast að þegja láta lítið fyrir sér fara og finna tilveruréttinn í tóminu þá tekur enginn ekki neitt í burtu og ekkert ósagt er ósatt án lygi ] [ Ég játa til feðra minna syndir mínar sem eins og skörðóttur hnífur hafa bitið á sköpun almættisins og sem eitur hafa deytt fögur blóm er döfnuðu á grundu móður minnar Eitt örsmátt tár get ég gefið í staðinn en hver er sú bót Mínum síðasta blóðdropa heiti ég en hver er sú bót Getur einhver sagt mér hvar ég beygði af leið ] [ Um draumalendur ljóðsins svífur sál mín endurborin ] [ Lítil hönd í lófa mér létt vil hana strjúka sæt var þessi stund með þér sárt var henn’ að ljúka ] [ Heitum tveimur höndum á heiðarlegum manni leita finna líða fá ljúft um kropp á svanni ] [ Það er kannski eitt eða tvennt eða þrennt, sem lætur mig það skilja það er kannski eitt eða tvennt eða þrennt sem lætur mig það vilja það er kannski eitt eða tvennt eða þrennt sem lætur mér líða ég kafna það er kannski eitt eða tvennt eða þrennt sem lætur mig þig hafna það er kannski eitt eða tvennt eða þrennt sem lætur minn huga vakna það er kannski eitt eða tvennt eða þrennt sem lætur mig þín sakna. ] [ Ég er farinn í feðranna lest farinn vestur um firði og fjöll. Þar sem sólin rís og sólin sest og sál mín ratar í hásætishöll. Ég var alinn í uppvexti við unnandi móður og ástvina lund. Enn man ykkur og sáttur við sið sorgmæddur lít ég á samveru stund. Ég bið ykkur fjöll og vestan vor að varðveita enn hin kyrrlátu kvöld. Þá stend ég minn sjó með þrek og þor þið þekkið minn fjöll svo harðgerð og köld. ] [ Ég sá þig við ána á biksvörtum hesti, svo hvarfstu í gjána í brydduðu vesti, með skotthúfu á höfði, svo fölur og fár. Ég síðan þín leita um ókomin ár. ] [ þér vil ég ríða uns rýkur úr hófum rennsveitt í lófum. Rauður minn dansar svo drynur í fjöllum, hjá dvergum og tröllum. Var ég ung er fyrst ég fékk þig líta, fögur varstu brún með hausinn hvíta. Hefði ég bara hreppt þig merin kvika, hvað í andskotanum fékk mig hika. ] [ Dagur, alveg eins og í gær býður upp á fjöldann allan af venjulegum hlutum. Handabönd manna á milli flissandi stelpur týnd fjarstýring hjörtu sem styrkjast og brotna á víxl barnsgrátur óbærileg þreyta handklæði brotin saman og norðanáttin enn eina ferðina. Allt það sem kveikir í manni þræðir sig þarna á milli og mætir manni óviðbúið sem uppgötvun, minning, tilfinningarót eða einfaldlega góð saga því hversdagsleikinn er sagna bestur. ] [ Í upphafinu leynist endir og í endalokunum felst upphaf. Endalaus hringur Skyldi maður nokkurn tíma læra eitthvað !! Samt getur maður ekki annað en haldið áfram hring eftir hring...... untill.... ] [ Tvö hjörtu slá takt. Undirspil sála eflist. Á milli kviknar lítil, viðkvæm laglína - heimsins fegursta tónverk! ] [ Óvissan gleypir hjarta mitt Óvissan rífur mig í sig Óvissan talar við lífið þitt Því óvissan hugsar um þig Ég ei veit hvað ég gera skal Á ég nokkuð mikið val ? Hugurinn talar og hjartað slær Mikill og stór óvissublær. ] [ Þú ert minn vinur Þú ert mitt svar Þó eitthvað hrynur Þá verð ég þar Mundu þetta Mundu það Þó lífið sé erfitt Þú átt mig að ] [ Reiðin knístir við sára sál. Mikill eldur við mikið bál Tárin leka niður kinn Er ekki komið nóg í þetta sinn? ] [ Þú ert farinn þú ert gleymdur og allur skarinn ekki lengur geymdur Ótrauð held áfram mína leið gegnum lífið. Þú skiptir ekki máli þú átt mig ekki lengur. ] [ Flestum þykir gaman þessum tíma á. Pörin byrja saman og miklu meira má. Já, þessi unglingsár alveg rosa mikið mál. Hlátur, gleði og jafnvel tár fara í gegnum hverja sál. ] [ Tvö við vorum í hitanum veltumst um í svitanum. Vorum við með tungur tvær trylltar um allt fóru þær. Fór ég inn í blautan hyl fann þar bleitu og mikin yl. Breittum við um stellingu, hjakkaðist þannig á kellingu. Fór þaðan í sparigat þótti gott þar við sat. Eftir mikin hamagang fékk hún næstum niðurgang. Fullnæging á leiðinni gat ei stoppað reiðinni. Tók hann út og vildi þvott hún hikaði ei og gaf mér tott. Svo var komið að sáðláti var hún eins og í kappáti Eftir það við vorum sátt héldum svo í hvora átt. ] [ Græskulaust ég grínið tel, á gleðisnauðum stundum. Sér í lagi virkar vel, er vantar fjör á fundum. Fáfræðin er fjári slæm, forðumst allir hana. Biðjum okkur betri bæn, en bíðum ekki bana. ] [ Brellukóngar býsnast við, bætifláka að finna. Hafa löngum haft þann sið, sem höfuðpaurar kynna. ] [ Segðu mér aftur söguna, af öllum furðuverunum, Tröllum og forynjum, draugum og dvergum og álfunum. Ég vona að ég vakni, og verði að eilífu vær, Fann hvernig svefninn læddist, mér svo kær. Sveimuðu skuggarnir í draumalöndunum fjær, Sviplausir tældu mig með sér, þokuðust nær. Ég reyndi að finna skjólið, og fikraði mig þér að, Reyndi að finna aftur öruggan stað. Kuldinn beit mig löngum, Kúrði ég undir sæng. Hlýrra var mér forðum. Undir þínum heita væng. Hlaupandi reyndi að hörfa, bjargandi sjálfum sér, Horfði til baka og sá þig, hrópaði hjálpaðu mér. Verðuru ekki hjá mér þegar ég hleyp í hring? Viltu ekki vaka yfir og allt um kring? Opnaði rólega augun og sá að þú varst mér við hlið, Tókst mig í fangið og ruggaðir rótt eftir heillanga bið. Hvarmana fór að fylla og tárin flutu af stað, Ég færði mig nær þér, hjúfraði að. Ég lá á brjósti þínu, og varlega í húmið lagðir, Heyrði þig ofur hljótt hvísla, heyrði þú sagðir. Láttu honum batna fljótt, Svo sofa megi rótt. Undur hljótt, Nú sem og alla nótt. ] [ Eftir amstur morgunsins er gott að fá sér að borða Eftir máltíðina er gott að loka augunum og láta sér síga í brjóst Það heyrist raddkliður frá hinum í kaffistofunni Þeir tala ekki lágt Láta vel í sér heyra Eins og það er gott að dorma aðeins þá sjá óþægilegir stólarnir til þess að maður vaknar með dofinn afturendann ] [ Nú hlýjar eru hjartarætur hennar Birta yljar þeim nú sælar eru svannardætur seint þó vakni eftir geim ] [ lífið snýst í hringi eða snýst ég um lífið og geri alltaf sömu hlutina. ] [ Ligg andvaka hér á kodda mínum Reyni að skilja hugsanir í huga þínum. Ekkert samband breytir þér meira þetta er hvorki sjúkdómur né veira Láttu mig vita hvað þú vilt gera á ég að tala við þig eða bara láta þig vera ? Hvað get ég gert - ég veit ekki neitt? Nema það að mér þykir þetta leitt Talaðu við mig - lof mér að heyra viltu þetta eða kannski eitthvað meira? Við finnum ráð, við finnum leið Þótt tíminn eftir okkur beið Hann mun efla okkur og virkja og kannski vináttu okkar styrkja Þetta er það sem við vildum þetta er okkar verk. þótt við séum öll misjafnlega sterk. ] [ Bugast mátt ei Björgin blíð björt öll ljós þín loga þú veist þín bíður betri tíð við enda regnsins boga ] [ Blíðleg augun þín, þokkafullur líkaminn, brosið margræða, hlýlegt móðurskautið fyllir mig gleði og öryggi. ....þá vil ég vernda þig, þá vil ég elska þig og eiga þig hverfa inn í þig og verða þinn að eilífu..... Hjartað mitt brostið, sál mín niðurbrotin ást mín í dauðateygjum, myrkur í sálinni, fegurð þín skelfir mig: Eg er afbrýðisemin, ég er tortímingin...... .....Ástin er dauði minn, sverið mitt hrokinn, skjöldur minn kuldinn. Ást mín er stríð við sjálfan mig (ort um tvitugt) ] [ Hljóp ég heim í ofgáti Heim og lentí ofáti Gat ei gert nokkuð neitt Naut þess síðan út í eitt. ] [ Köttur hljóp á krukku Klessti sig í hrukku Sat þar og skeit uppá bak Skeit í hrúu alveg uppá þak Þaðan hann datt á þúfu Þannig grenjaði hann á grúfu Þá kom heimskur hundur Hrópaði: þetta er undur! Þá hrökk við kötturinn haltur Heilsaði hundinum valtur Spurði hann spjaranna út Og sagðist hafa hrokkið í kút Hundurinn hugsaði ekki neitt Heimskur var hann út í eitt Svo kom fuglinn fljúgandi Fretaði í loftinu gargandi Þetta var þá heljar messa Þá fuglinn flaug á krukku, Klessa Kötturinn horfði á hundinn Hundur sleikti fundinn Kötturinn vildi krækja í bita Kræst þetta er ekkert nema fita. Hundurinn fékk sér fjaðrir Frekar heimskur, ekki eins og aðrir. Ekki meiri steypa að sinni Skemmtu þér að sögu minni. ] [ Í fyrndinni reyndu forverar okkar að ná taki á tímanum. Þeir hentust á eftir honum í eins konar eltingarleik og þegar þróunin hafði loksins gefið þeim tímaskyn þóttust þeir geta klukkað hann. Stássið hangir nú uppi á vegg eigendum til prýði eins og uppstoppað dýrshöfuð í húsi ævintýramanns. Í rauninni náðu þeir honum aldrei. Þetta var eins og að reisa rimla utan um sjálfan sig og segjast þannig hafa fangað umheiminn. Ólin er enn spennt um höndina. Hamstrahjólið snýst enn. Þó maður eigi dagatal eru dagar hans samt taldir, og enn í dag er maðurinn fangi eigin huga, en hugfanginn eftir sem áður. ] [ Ég á vin. Vin sem ég get treyst fyrir öllum mínum dýpstu þrám og löngunum. Í nótt, á meðan lífið svaf, læddist ég berfætt út í döggvott grasið og hvíslaði í eyra hans leyndarmáli mínu; að ég elskaði þig en myndi aldrei aldrei þora að segja þér það. Og þó svo ég viti að vinur minn muni ekki ljóstra upp leyndarmálinu þá er hluti af mér sem vonar heitt og innilega að eitthvert haustkvöldið hvísli hann leyndarmálinu í eyra þér. Ásamt gulnuðum laufblöðum. En hann mun aldrei segja frá. Vinur minn vindurinn. Öll eigum við eilíf leyndarmál sem enginn nema vindurinn fær að heyra. ] [ Horfi á bleikt, glitrandi ský svamla letilega í suðurátt. Heyri í árniðinum sem slípar þúsund ára gamalt grjót. Strýk fingrunum yfir puntstráin sem dansa yfirvegað í golunni. Bragða á sætum blöðum blóðbergsins. Anda að mér ferskri angan lambagrass og ljónsloppu. Svona er hún, íslenska sumarnóttin; Sannkölluð veisla fyrir skilningarvitin. ] [ Djúpt ég geymi sár eftir þá sýn Mynd af ást sem varð aldrei mín Fyrir hana, aðeins hjarta mitt slær Ávallt þessi söknuður sem engann enda fær Við fyrstu sýn, ég mun aldrei gleyma Fegurð hennar í hjarta mínu ég mun ávallt geyma Minning um þegar ég hafði þig En var það satt, varstu til staðar þegar ég datt Hvar ertu nú, hvernig get ég andað einn Hvernig væri það ef ég hefði ekki verið of seinn Þú ert mér eins og loft, fáir vita af þér En allir þarfnast þín, af hverju fórstu frá mér Eftir öll þín loforð, ég sit hér einn, af hverju? Ég held ég fari að vakna frá þessum draumi.. ] [ Einn í myrkri, sjálfseyðingarkvötin tekur við Vítisenglar hafa komið til að leggja henni lið Einn í horni, með tár á kinn Mun ég gefa mig í þetta sinn Leitast eftir meiru en ekkert finn Opnast nýjar hliðar sem ég sá ekki fyrr Ærslafull sál sem getur ekki verið kyrr Ég óttast um mitt eigið líf Brátt með vítisenglum ég svíf Einmanna hugur rákar um minn veg Á visnum grunni, hjá minni ást er ég Ást sem var horfin en er nú hér Hvernig er hægt að forðast það sem alltaf sér Ég held ég muni sitja áfram hér með þér ] [ Í myrkrarfrosti ég dreg inn andann Eilífur logi til ást minnar fyrir handan Brostin tár á daufum himni Kaldar varir handa ástinni minni Faðmur sem ávallt upp á býður Allt sem þú þarft, segðu mér hvernig þér líður Ég elska þig, og mun ætíð gera Tilfinningabyrgðir ég mun ávallt bera Vil vera það sem ég mun aldrei vera Kaldar varir eru það eina sem ég hef Mig dreymir þig þegar ég sef Þú ert í dagdraumum mínum er ég tek mín síðustu skref Ást mín er köld....Ástin er kaldar varir ] [ I saw you in my dreams.. I saw you last night and it seems I\'m in love with you still My heart is empty and only you can fill Can you hear my suffered cry Can you see how slowly I die I still can\'t believe it was you My heart was beating on my chest and i thought it was coming through You saw me, but did you care Or have you forgot, life ain\'t fair I still get lost in your eye\'s Holding on to a memory that never dies... ] [ Kenningar mínar speglast í súrrealískum takti sem ég fylgi og kalla hjartslátt minn. ] [ Raindrops on my face Carrying me to a better place The streets are gone, every pain washed away I was standing alone, that rainy day I have done something that I regret Something in the raindrops won\'t let me forget Who am I, what is this? One love, one kiss You are the only one I truly miss Raindrops in my eye\'s when I watch you fade away I know I won\'t get you back, but I pray ] [ mig langar svo í þig að hringja höfnun þinni bágt ég á með að kyngja óska þess þig í faðm minn að fá góði guð viltu ást hennar mér ljá ó þú varst mér svo hlý fjarvera þín þung mér er sem blý ánægja mín liggur öll í þínum orðum ó hvað þú hefur sett líf mitt úr skorðum ég elska að sjá bros þitt bjarta ég elska að lykta af hári þínu svarta ég elska hvernig þú nærir mína sál ég elska hvernig þú kveikir í mér bál ég elska hvernig þú kyssir mínar varir ég elska hvernig þú á mig starir sérðu ekki þegar þú leggst í arma mína hvernig úr augum mínum hamingja er að skína mig langar að bíða eftir að þú komir til mín aftur þverrandi með þér fer allur minn kraftur allt sem ég gaf var bara fyrir þig að þiggja þögn mín ég vona að sé þig ekki að hryggja mig langar bara aftur hjá þér að liggja. . . . . . 17.júlí, 2005 ] [ Sífellt er það segin saga, sagansölum frá. Að endalaust um okkar daga, óskum ýmsra ná. Með kvenlegan kynþokka í tali og kærlega borið á borð. En karlarnir klofast um sali, og klúryrtit kveða sín ootð. Old boy. ] [ Með hangandi hendinni heyrum við, hugljúfa tónana þína. Sífellt og seyðandi sendir á svið, söng hinna sælustu tíma. ] [ Suður fórumk um ver, en ég svarna ber öflga eiðstafi úr úthafi: munarmyndum mjög þótt yndum, heimrof mig finni hjá Huldu minni. Þar er barmi blíður og blómafríður runnur í reit, er ég rökkri sleit, dalur, sól og sær og systur tvær, einkamóðir og ástvinir góðir. Þar er búþegn beztur, bóndi og prestur, til þess tel ég vottinn, - trúir enn á drottin og á sjálfan sig, svo sem ég á mig. Þar er líf í landi og ljóshæfur andi. ] [ Eldgígur vestan undir Kröflufjalli Bar mig á brenndum auri breiðar um funaleiðir blakkur að Vítis bakka, blæs þar og nösum hvæsir. Hvar mun um heiminn fara halur yfir fjöll og dali sá, er fram kominn sjái sól að verra bóli? Hrollir hugur við polli heitum í blárri veitu. - Krafla með kynja afli klauf fjall og rauf hjalla. Grimm eru í djúpi dimmu dauðaorg, þaðan er rauðir logar yfir landið bljúga leiddu hraunið seydda. ] [ Reið ég yfir bárubreið brunasand, en jódunur, kalt var hregg og átt ill, ýtum skemmtu dálítið. Holur nafar grjót grefur. Grunar mig, að seint muni Úlfur karl, þótt aur skjálfi, ámur fylla úr þeim nám. ] [ Heill sértu mikli Milton íslenskra! - fyrr ek aldregi fátækt reiddist en er hún angrar þik ellihruman og hindrar mik hjálp þér veita, gulli gæddi ek þik ef ek gull ætti. ] [ þRÚGUSYKUR INN FYRIR MUNNVIK FYRIR PRÓF ÉG ÆTLA ÞREYTA LANDSPRÓF ÞAÐ ÆTLA ÉG MÉR MEÐ ÞRAUTSEGJU MEÐ BLÓÐSTREYMIÐ UPP Í HEILA HEILASTÖÐVAR ENGU GLEYMA ÞAÐ RÍKUR ÚR PENNA MÍNUM ÞEGAR SKRIFA Á STÍL ÉG RÆÐ EKKI VIÐ PENNAN HENDIN VERÐUR STJÖRF OG ÞEGAR ÉG GENG ÚR PRÓFI RYFJAST UPP FYRIR MÉR SPURNINGAR. SVARÐI ÉG RÉTT. Æ, NÚ MUNDI ÉG SVARIÐ ] [ Ég skil mig ekki - alltaf hlýt ég unna, en elskað sömu lengi ég get ei meir; mér finnst ég þjóta meðal ótal brunna og mega drekka - en þyrsta alltaf meir. Því sjái ég mey, og sé hún ung og fögur, og sé hún ekki járnköld, eða stál, þá er ég í báli, yrki ótal bögur og öllu fórna, líkam bæði og sál. - En þegar víman aftur af mér líður, ég ætíð finn og glópska mín var stór. Var hún sú rétta? - nei, og sárt mér svíður, er sé ég aðra, hvernig þarna fór. Með nýrri ást svo nýja byrja ég vegi, en nýtt í vorum heimi eldist fljótt; svo gengur koll af kolli, dag frá degi, frá dagsins morgni fram á svarta nótt. En þó er ég orðinn þreyttur fram úr máta á þessum leik, því hjarta mitt er kalt, og margoft hlýt ég sárri gremju að gráta mitt glópsku líf og þetta ráðlag allt. Ég hefi elskað aðeins einu sinni, og elskað þá svo heitt sem nokkur má, með þeirri glóð, sem brenndi innst mig inni- nú askan þakin er með klaka og snjá. En allt, sem bærist innst í sálu minni, og allt, sem neitar mér um stundar ró, er þetta: Ég vil elska einu sinni, bara´ einu sinni til - og þá er nóg. ] [ Ég elska þig, stormur, sem geisar um grund og gleðiþyt vekur í blaðsterkum lund, en gráfeysknu kvistina bugar og brýtur og bjarkirnar treystir um leið og þú þýtur. Þú skefur burt fannir af foldu og hól, þú feykir burt skýjum frá ylbjartri sól, og neistann upp blæs þú og bálar upp loga og bryddir með glitskrúði úthöf og voga. Þú þenur út seglin og byrðinginn ber og birtandi, andhreinn um jörðina fer; þú loftilla, dáðlausa lognmollu hrekur og lífsanda starfandi hvarvetna vekur. Og þegar þú sigrandi´ um foldina fer, þá finn ég, að þrótturinn eflist í mér. Ég elska þig, kraftur, sem öldurnar reisir, ég elska þig, máttur, sem þokuna leysir. Ég elska þig, elska þig, eilífa stríð, með ólgandi blóði þér söng minn ég býð. Þú alfrjálsi loftfari, hamast þú hraður; hugur minn fylgir þér, djarfur og glaður. ] [ Ef hemju henti eg böndum og hlypi úr setningslöndum, en flygi fjöðrum þöndum sem fýsnir benda mér. Þá yrði ærinn súgur, og ys á jörðu drjúgur, er kvenna kæmi múgur með krossmörk fyrir sér. Þær vildu vænti eg sjá mig og vísast bentu á mig, þær týnda myndu tjá mig og trauðla hefja leit. Ég uni illa böndum og illa í nokkurs höndum, er flýgur fjöðrum þöndum mín frelsisþráin heit. ] [ Lítill máttur lyfti mér, lítið gerði eg með hann. Lítil kom og lítil er, lítil fer ég héðan. Aldrei viður vænn og hár vex í hrjósturlandi. Líkaminn er limasmár, lítilsigldur andi. Ef ég loksins ljósheim næ, lífs þar stigin hækka. Skilyrðin ögn skárri fæ skyldi eg ekki stækka? ] [ Hve elska eg þig, gleði, með geislana þína, - án gleði er eg aumlega stödd - þá sólbros þitt skín inn í sálina mína, þar syngur hver einasta rödd. Og þá vil eg öllu því lifandi líkna og lofa því gleðina sjá. Allt mannkyn þá vil eg af misgjörðum sýkna og mildinni konungdóm fá. Þú opnar það besta, sem eðli mitt geymir og uppljómar dimmustu göng, svo ljósið og hitinn að hjarta mér streymir, og hugurinn fyllist með söng. Því elska eg þig, gleði, með andlitið bjarta sem áhugann kveikir og þor. Þinn bústað sem oftast mér hafðu í hjarta, þú, huga míns syngjandi vor. ] [ Austan enn kemur ávarp til þín, ástkvinna góð mín, ástkvinna góð mín og ósk huga fest, að elski þig drottinn og unni þér bezt.... Látið hefur skaparinn langvegabil þér frá og þar til, þér frá og þar til, sem þreyi ég byggðum í, fundir með ástunum fyrnast af því. Enn nú er óslokkið um hjarta mitt ástverka ljós þitt, ástverka ljós þitt, sem áður fyrri tíð allfagurt logaði árla og síð.... Faðmar mitt hjartað af fögnuði þig, farðu svo við mig, farðu svo við mig, því fulltrúa má finnumst við snarlega guðs stóli hjá. Búast vil ég héðan í blessunarstað, súru hef eg safnað, súru hef eg safnað á sjö tugum þeim ára sem eg fékkst við illlyndan heim. Deild vorra tíma í drottins hendi stár, það held eg þrjú ár, það held eg þrjú ár sem þú framar ber yfir þá tugi sem taldir eru mér. Sæl vertu guðs gefin gæzku og náð, efni þitt og allt ráð, efni þitt og allt ráð, önd þín og fjör, míns herra mest fáðu miskunnarkjör... Guði sértu falin, og guð launi bezt þér fyrir mig mest, þér fyrir mig mest, mundu hjartanlig, að mitt hjarta með guði minnist við þig. ] [ Ætti eg ekki, vífaval, von á þínum fundum, leiðin eftir Langadal löng mér þætti stundum. ] [ Spennti eg miðja spjaldagná, spriklaði sál á vörum; stillingin, sem oss er á, ætlaði að verða á förum. ] [ Hvert leiddir þú mig, ljúfa þrá, svo langt á árstíð kærri? Sjá, vorsins kirkja hér er há með hvelfing öllum skærri. Hið helga ljós er heiðsól ein, um hana er ljómar alla og logar fögur, hlý og hrein á háaltari fjalla. Hér elfan þreytir orgelslátt, svo óma kletta göngin, og fuglar láta úr allri átt svo indælt hljóma sönginn. Og þetta á nú við mig vel, það vorið er, sem messar og hljóðri ræðu þrífur þel og helgar stundir þessar. Og hér er allt svo fullt af frið og fullt af helgum dómum, og gullna sólargeisla við ég guðspjöll les í blómum. Og gróðrarblær um grundir fer, sem gerir allt að hressa; þá finn ég vel að Vorið er í víðri kirkju að messa. ] [ Sólu særinn skýlir, síðust rönd er byrgð, hýrt á öllu hvílir heiðrík aftankyrrð. Ský með skrúða ljósum skreyta vesturátt, glitra gulli og rósum, glampar hafið blátt. Stillt með ströndum öllum stafar vog og sund, friður er á fjöllum, friður er á grund; heyrist fuglkvak hinsta, hljótt er allt og rótt, hvíl þú hug minn innsta, himnesk sumarnótt. ] [ ég var að hugsa fyrst og fremst ] [ Þú angraðir mig áðan með orðum þínum, Sigrún! Eg bað þig aftur mig hitta, ef andaðist þú fyrri; kvaðst þú ei trúa að kalda eg kyssi þig vildi,´né hjúpaða hvítbleika þig höndum umspenna. Mín trúir þá ei meyja að muni eg sér unna ef hún eigi trúir eg unni sér fölri. Þínar það víst eru varir þó verði þær kaldar, kinnar eg sé þær sömu þó sjái eg þær hvítar. Kyssir ei á köldum kalda mjöllu vetri röðull, jafnt sem rauðar rósir á sumrum? Hvít er hreinust lilja, hvít ert þú sjálf sem mjöllin. Muntu þá miður skarta þó munnur og kinnar hvítni? Þó heimsdvalar-dreyrinn deyi þér af vörum, blærinn þær blíðlega skreytir blásala eilífðar. Engilhvítt formið hið fagra finnast mun óskert kinna jafnfrítt og jafgott rauðu þó jarðblysin slokkni. Mærin mín hin skæra! mig ei láttu því einan, mér þó farir þú fyrri til friðsala himna. Komdu þegar á köldu kólgur ganga hausti og um miðnætti máni í mökkva sig hylur. Mun þá fölur máni af meðaumkvun bregða blæju sinni, svo bjarta eg brosa þig sjái. Farðu þá, mín fagra! Fljótlega mér að bólstri og hendi hvítri og mjúkri mig hóglega snertu. Svo þegar bregð eg blundi og breiði faðm þér móti, snjóköldum barmi snúðu snarlega mér að hjarta. Fast kreistu brjóst mér að brjósti og bíddu unz máttu lausan fá mig úr líkams fjötrum, svo fylgja þér megi eg. Glöð skulum bæði við brott síðan halda brennandi í faðmlögum loftvegu kalda í gullreiðum norðljósa þjóta um þá. Væn svo þá smáblys í vindheimum glansa um vetrarbraut skulum í tunglsljósi dansa og snjókýjabólstrunum blunda svo á. ] [ Allt eins og blómstrið eina upp vex á sléttri grund, fagurt með frjóvgun hreina fyrst um dags morgunstund, á snöggu augabragði af skorið verður fljótt, lit og blöð niður lagði, líf mannlegt endar skjótt. Svo hleypur æskan unga óvissa dauðans leið sem aldur og ellin þunga, allt rennur sama skeið. Innsigli engir fengu upp á lífsstunda bið, en þann kost undir gengu allir að skilja við. Dauðinn má svo með sanni samlíkjast, þykir mér, slyngum þeim sláttumanni, er slær allt, hvað fyrir er. Grösin og jurtir grænar, glóandi blómstrið frítt, reyr, stör sem rósir vænar reiknar hann jafnfánýtt. Lífið manns hratt fram hleypur, hafandi enga bið, í dauðans grimmar greipur, gröfin tekur þar við. Allrar veraldar vegur víkur að sama punkt. Fetar þann fús sem tregur, hvort fellur létt eða þungt. ] [ Augun mín og augun þín, ó, þá fögru steina. Mitt er þitt og þitt er mitt, þu veist hvað ég meina. ] [ Langt er síðan sá ég hann, sannlega fríður var hann; allt sem prýða má einn mann mest af lýðum bar hann. ] [ Man ég okkar fyrri fund forn þá ástin réni; nú er eins og hundur hund hitti á tóugreni. ] [ Hver vill ræna frá heiðri sól um vorsins daga, sem lundi grænum logar á, í loftið vill hans greinar draga?... Hver vill banna fjalli frá fljóti rás til sjávar hvetja? Veg það fann, sem manngi má móti neinar skorður setja. Hver má banna að blómstur tvenn bindi saman heldar rætur og vaxi þannig saman senn sem náttúran vera lætur? Hver vill binda huga manns að hvergi megi þönkum fleyta? Þar sem yndi eirir hans, ætíð mun hann þangað leita. Hver má skilja flóð við flóð, farveg einn ef hitta taman, og skilja vilja blóð við blóð, sem blæðir tveimur æðum saman. Engir menn því orkað fá og aldrei heldur munu kunna að halda kvenna hjörtum frá honum, sem þær vilja unna. Tryggðin há er höfuðdyggð, helzt ef margar þrautir reynir; hún er á því bjargi byggð, sem buga ekki stormar neinir.... ] [ Hvert var það fljóða, sem eg sá mér svóifa um anganstundu hjá svo fagurleit og blokk á brá sem blys um geiminn víða? Hrafnsvörtum lék í lokkum hár ljósan um háls, um dökkar brár tindrandi augu ástarþrár eldgeisla sendu þýða.... Kulnað var að um Ýmis hold eldurinn falinn djúpt í mold; mér var að líta menjafold sem mjöll af himinboga.... Andaði þá um eyru mér ilmhlýjum blæ, er mætti þér, blíðviðri lék í brjósti sér sem blési gola um voga.... Ó, augu blökk, er brúna há blikandi skinuð himni á, og kolsvört undir blakkri brá brunnuð í dimmum loga! Ó, aaugu dökk, eg yður sá, og aldrei síðan gleyma má - eg nötra eins og nakið strá, en næturvindar soga! * Mörg eru liðin árin ör, eldur er minni, kulnað fjör; en þau sem særðu seimabör, svanna augun þýðu - Þau eru enn í minni mér, og munu, hvað sem eftir fer, unz móður hnígur málmagrér að moldarskauti víðu. Og er á vori sunnan sól senda gjörir um bala og hól lifandi geisla, guðs sem ól gróðrarfoldin blíða - Þá lifnar enn hin aldna þrá, aftur mig langar þig að sjá ókunnu vengi víða frá að vegi mínum líða! ] [ Þögul nóttin þreytir aldrei þá sem unnast, þá er á svo margt að minnast, mest er sælan þá að finnast. Eilíf sæla er mér hver þinn andar- d´ráttur og ýmist þungur, ýmist léttur - ástarkoss á varir réttur. Hvítum, mjúkum, heitum, fögrum hand- leggjonum vil ég heldur vafin þínum vera en hjá guði mínum. Guð að sök mér gefur ei sem góðum manni unun þó ég fremsta finni í faðminum á dóttir sinni. ] [ Ég vildi feginn verða að ljosum degi, en vera stundum myrk og þögul nótt; þá væri eg leiðarljós á þínum vegi, þig lyki eg faðmi þá þú svæfir rótt. Svo undur dauðtrúr ég þér skyldi reynast og o´ní gröf ég með þér færi seinast. Og þá menn læstu líkkistunni aftur, ég læddist eins og skuggi í faðminn þinn, (því mannlegur ei meinað getur kraftur að myrkrið komi í grafarhúmið inn), ég vefðist um þig, væri í faðmi þínum, unz vekti eg þig með ljósgeyslunum mínum. ] [ Læt ég fyrir ljósan dag l´jos um húsið skína, ekki til að yrkja brag eða kippa neinu í lag, heldur til að horfa á konu mína. * Ég vildi eg fengi að vera strá og visna í skónum þínum, því léttast gengirðu eflaust á yfirsjónum mínum. * Vertu óhrædd þótt vanginn þinn sé fölur: allt til dauðans ástin mín ellimörkin hylur þín. ] [ Ég horfi stoltur á myndina sem er af þér. Þó þú eigir ekkert hlutverk hér finnst mér flott að hafa málað svona ljóta mynd af þér. Það kannski segir um það hvernig mér líður og hvernig ég hugsa til þín. Ég sé þig sem ljótt skakkt málverk upp á vonlausum vegg ] [ Vaknaðu vinan ég er komin komin til að segja þér, hún birtist mér vonin þess vegna er ég komin hér. Ég mætti henni í bænum þar sem hún beið köld og blá. Það komu vindar frá sænum sem blésu hana á. Ég bauð henni faðminn minn og þess vegna er hún hér. Hún er komin líkamann inn satt er ég að segja þér. ] [ Sit og skrifa orð sem engir annar skilur, þetta er saga um morð sem ein persónan hylur. Hugsa og skrifa hratt næstum úr stólnum datt fæ mér kaffi, reykir meira gleymi að fá góð ráð hjá Geira svitna mikið, svitinn rennur mellur og allskyns glennur koma fyrir í sögunni góðu má ekki gleyma konunni óðu klóra mér í hausnum, bora í nef kannski ætti ég að skrifa um ref nei held mig við mannfólkið ljóta sem drekka drepa skjóta og blóta varpa fram getgátum stórum sturta í mig nokkrum bjórum ennið er blautt og illa farið heyri að á hurðina er barið húsvörðurinn er að heimta leigu hann truflar orðin mín fleygu borga á morgun sál mín öskrar finn á mér að honum blöskrar hættur að heyra, er fúll á móti og skíri bókina \"maðurinn ljóti\" tek upp símann og hringi strax konan segir útgefandan farin í vax ríf í hárið og gnísti tönnum þoli ekki ruglið í Metró-mönnum naga neglurnar niður í kviku átti víst að skila bókinni fyrir viku fer undir borð, þar engin mig sér fer úr fötum og ligg á maganum ber of mikið álag fyrir mig að bera stend upp en veit ekki hvað skal gera tek pennann og naga hann í sundur sest niður og gelti eins og hundur handakrikarnir eru grænir á lit það stígur ekki í kollinn neitt vit veit sko hvert næst ég flyt þangað sem næg eru skordýrabit síminn hringir og næstum ærir mig útgefandinn hóstar og kynnir sig segir ekkert með bókina vilja hafa myndi selja meira af bók án stafa skellir á og ég sit starfur þessi bók átti að verða bókmennta-arfur allar hugsanirnar nýttust ekki í neitt og 18 árum í bókin ég hef eytt hendi bókinni og dreg fram penna og blað ég skal sko segja útgefandanum það að ný saga verði tilbúin mjög fljótt og hún mun ekki fjalla um eitthvað ljótt kannski ástarsaga um ungt par eða ævintýri sem hefst á Einu sinni var lofa að gera miklu betur og líka að hún verði tilbúin næsta vetur hefst nú stór og söguleg stund en fyrst fæ mér síðdegisblund. ] [ Hann leiðir mig Hann leiðir mig Á lífsins leið Hann leiðir mig. En ég þarf að koma til hans, svo Hann geti leitt mig. Gefa Honum líf mitt. Fá frá Honum hinn endalausa kærleik. Kærleik án skilyrða. Og af því Hann elskar mig Leiðir Hann mig í gegnum allt lífið. ] [ Þú flaksar um í draumum mínum íklædd hvítu pilsi. Raungerir drauma mína og þrár þegar ég vakna. Samofinn þér klæði ég mig í hugarfylgsni þín, anda þér að mér. Íklæddur þér, lifi ég. ] [ Svona lifir fólk í sumarbústað á kveldin. Situr hann með coniak og starir í eldinn. Hún saumar og saumar, snarkar í arni og kraumar og svo skreiðast skötuhjúin undir feldinn. ] [ Skáldið kom til mín og ætlaði að kenna mér svoldið um fegurð því gengum við niðrí bæ til að hitta þig fyrst talaði hann um hárið á þér ljóst, frjálslegt, eilítið sítt og með teygju svo deplandi augun og hendurnar síðast brosið en þá fór hann að hugsa um sól ] [ Niður á jörðina stari ég nú, norður tárið rennur. Asnalega þessi ansans trú, andinn i helvíti brennur. ] [ Hann situr löngum stundum í samfélagsherminum að gleðjast með gleði að detta í sorgir í herminum myndir renna sitt skeið hvítir stafir dansa út af tjaldinu ] [ Stundum finnst mér gaman..... að horfa í spegil - þegar ég er sæt, að syngja - þegar ég held lagi, að vera full - þegar það er gaman, að yrkja - þegar ég á til orð, að þykjast - þegar ég er bara ég, að vera til - þegar þú vilt vera með mér. Mos. 2002 ] [ Vindar vökunnar feykja burt draumum næturinnar. Nóttin, á flótta undan deginum skilur draumana eftir sem dögg í grasi. Dagurinn kemur með miskunnarlausan sannleikann, - raunveruleikann. Drepur dagurinn drauma mína? Ak. /Rvk. 1991 ] [ Tilveran er taktlaus tík sem vill fá að vera með. Allt í lagi með það. En hver ákvað að ég ætti að kenna henni að halda takti? ] [ Lífið er sjúkdómur sem berst frá manni til manns. Pilla er allt sem sumir þurfa til þess að læknast. Hinir bera smitið áfram. ] [ Hamingjuna sumir aldrei fá Hamingjuna flestir ei í ná Hamingjuna nánast allir þrá Hamingjuna sem ég vil sjá Hamingjuna takk ef ég má Bara til að prófa rétt aðeins að skoða halda henni í lófa segja henni að aðstoða Alla nema mig, því það veitir mér Hamingju heilans og hugans. ] [ Fyrir fé færðu félaga Fyrir félaga fávísa færðu félag fávita frávita fáráða flissara fjárans ] [ Ferstrendar glitra í feiti fegurð skín og andi hvíta kristalsins hveiti hvísland\'ilmur í blandi Um smettið renna smurðar smeykur get ei hætt dýrðinni rauðu dífðar dæmalaust gosið sætt Hleifar brúnir í brauðum brestur siðastreð dýrunum í mig dauðum dormandi ég treð Þreyttur er á þriðja þrekið undið úr mikil er mín miðja maginn orðinn súr Að linni best að leggja lúinn skrokk á spreng slenið eins og sleggja slafrandi ég geng Brosand\'inn trítlar brýnið Bröltir út í skeifum \"Pant fylla postulínið! pakka gubb\'og leyfum\" ] [ Svo fögur en grá einfaldlega fríkí í dögun má sjá Reykjavík í líki sem líkjist paradís í helvíti lítið og skrýtið sem fríkið ] [ Ég brosi og bíð, eftir björtum degi Skammdegið þegir, svo ég brosið leigi ] [ Ó blíði barnavinur svo biðja vil ég þig þú leiðir mig til ljóssins á lífsins æðri stig. ] [ Röndótta risafluga reiðarslag ég tel að glugg\'á leynist glufa glasið ég þér fel Gadda padda geitungur geymdur er og sár. Mun sveppur vinur sveitungur stöðva þig í ár? Flúðu frjáls eins fluga flýttu þér í þitt bú. Ef gleymist önnur glufa frá glugga burtu snú Vetur svo kemur og vorið vill ég minna þig á að bera í flugu búrið banvæna sveppa vá ] [ Eitt visið strá. Grænt að vori gulnað að hausti. Af köldum stormum beygt og barið, -kalið. Eitt visið strá. ] [ með augum mínum sé ég allt Ég sé nútíð og fortíð og framtíð Ég sé george bush presintera world pís og kjarnorkuvopn á góðum prís ég sé stríð úti heimi og fólkið sem grætur og fólk inni stofu með skítuga fætur uppi á borði, horfandi á fréttir til að heyra um hvað aðrir þjást til þess að geta verið sátt við sína ömurlegu tilveru í leit að öllu og engu ég sé vini mína í dópi og halda að það sé ekkert mál þeir eru við stjórnvölinn en ég veit betur því ég sé að í þeirra sál er tómarúm sem þeir reyna að fylla með utanaðkomandi efnum en ég veit betur því að ég sé allt en helst langar mig til að leggjast útaf slappa af og loka augunum….. ] [ Í kvöld mun ég klífa minn klettafjalla tind. Þar svanirnir svífa við svala töfra lind. Heyrast þaðan hlátrasköllin í hvarfi við urðarstein. Efst á snös er hulduhöllin við huliðsvætta heim. Á leiðinni ég lýk upp hliði að loti komið enginn sér. Inn ég geng og finn í friði fegurðina í sjálfum mér. ] [ Ég hef fallið í götu hins heilaga djöfuls, með fjöður að hönd, ég snert hef guð, Leikinn hins heilaga ei talað hef við , þörf að því svo friðar um mið myrk eru öflin sem umlykja mig ég hræddur var, en látin nú. þekkt hef ég vængjaða engla, ekta engla sem trúa á guð enginn með líf hefur tiltekið mig. ] [ Lítið hugljúft dýr hefur hringað sig í kjöltunni minni. Mælir malandi, Mjá! Ég skal vera þér hjá, en viltu strjúka mér þá, -einu sinni? ] [ Ég var reikistjarna á reikulli braut á ofshraða áfram ég þaut. Um húmið haustkalt um hverfulan geim ég leitaði lengi að leiðinni heim. Ég þráði þögull þína gjöfulu ást sem á norðurhimni á næturnar sást. Að lokum ég kom þar að líknandi sól sem af náð Guðs skein á minn Norðurpól. Ég er fastastjarnan sem fann sinn stað á heilögum himni á Hauskúpustað ] [ Ég er ekki týndur ég er ennþá til ég er enn að bíða eftir svari sem ég skil. Allt er hljótt í heimi og húmið skollið á stjörnur strjálu ljósi skima til og frá. Væntingar og vonir mér vísir gáfu menn þögnin samt hún þreytir ég þarfnast einhvers enn. Sendu mér í svefni sólarljós og frið elsku þína alla og eilíft sjónarmið. ] [ Ég leitaði meðal blóma meðal mislitra steina leit upp til stjarna horfði á hafið ólmast eldinn kalla sá ekkert heyrði ekkert; Faðir hér er ég. Ég leitaði meðal vatna meðal ókunnra stíga leit inn í mitt hjarta horfði á stjörnur hrapa tunglið hrópa sá ekkert heyrði ekkert; Faðir hér er ég. Ég leitaði til himins meðal lifandi orða leit á þinn kross horfði á þjáningu þína náðina kalla sá allt heyrði allt; Faðir hér er ég. ] [ Þúsundir væminna orða, sem allir hafa svo oft heyrt áður. milljón væmnir textar, sem allir eru eins. En samt er ég engu nær, og ég sem hef lesið allt um ástina.... ] [ Trén bar við himininn það var höfgi yfir garðinum og blómin ilmuðu sem í kveðjuskini hann vökvaði þau með blóði sínu og þau ilmuðu sem aldrei fyrr hann féll á kné á ilmandi jurtirnar í dauðans angist svo kom félagi hans tók utan um hann og kyssti hann. ] [ Þú ert farin en þó ertu hér þögnin er hærri en allt sem er hamingjan fylgi þér hérumbil hafðu það gott svona umþaðbil. Viðlag: Við eigum myndir og minjagripi og málaðan staf þessir litir og líkneskin smáu lifa okkur af. Ég sé þig fara með fölleitt skott þér finnst kanski´ einsog vont sé gott þó að það svíði þá sveið meir fyrr og sumar nætur var ég jú kyrr. Viðlag: Við eigum myndir og minjagripi og málaðan staf þessir litir og líkneskin smáu lifa okkur af. Ég veit ég hverf það er vitað mál á veraldarbotn ein gömul sál sem þekkti Guð sinn en gleymdi skjótt en Guð minn komdu ég sekk of fljótt. Viðlag: Við eigum myndir og minjagripi og málaðan staf þessir litir og líkneskin smáu lifa okkur af. ] [ Sumu fólki er alveg sama Um mig, þig og ALLA Það eina sem þau hugsa um er að ná að brjóta sem flesta niður taka brotnar sálir þeirra og safna þeim saman eiga þær útaf fyrir sig, hafa þær sem huggunn brotnar sálirnar, brotinn hjörtu, og lítra á tárum. Og á meðan þau horfa á mig fella tár, hlæjja þau öll Til að fagna því að þau hafa náð að brjóta mig aftur safna saman brotonum og nota þau sem huggunn. Gera þau svo þetta aftur og aftur bara til að þeim líði vel velja krakka úr hópnum, pynnta hann líkamlega, andlega. Hversu grimmt getur fólk orðið? bara til þess að fá huggunn brjóta niður aðrar sálir eyðileggja líf þeirra drekkja þeim í þunglyndi og tárum bara til að safna saman brotum í sjálfsmynd sína bara til að getað horft á spegilmynd sína glaður á meðan þeir sem hafa týnt brotum úr sál sinni þola sig ekki lengur og vilja losna úr þessum heimi hverfa fyrir fullt og allt, frá öllu og öllum. ] [ Vatni grýlukertin gráta grá og benda niður Undir hvíta hvirfilssáta Hvel sem alla bryður Væta götur vatni atar Veit á betri tíð Anga móðir unga matar Ægisdóttir blíð Í vefnum kóngulóin kúrar kært er henni band Tengir saman vor og sumar söng og gleði í bland Leggur á landið dauða logn er hvergi að fá Gula rífur og rauða renninga á stjá ] [ Nú er ég staddur hinumegin við hvergi í hávaða svo auðveldum að hlustirnar kveina ég held á glasi og bjórinn minn bergi og ber á herðum mér krossa og steina. Ég horfi oní djúpið og drekk þess minni með dáið bros fast í tannlausum garði ypptandi öxlum yfir fornri framtíðinni sem við fortíð rétt svo jafntefli marði. Ég gefst ekki upp, nei aldrei ég brotna og ekki sýnast mér himnarnir fagna ég öskra ég æpi, horfi á sjálfan mig rotna og elska þartil ég að eilífu þagna. ] [ Manstu þá vinda er blésu vetri burt manstu þá daga er ástin var lítil jurt manstu þær nætur er átti ég með þér manstu það vorið sem löngu liðið er. Manstu þær götur er gekk ég með þér manstu þau ljóðin sem engin framar sér manstu þá söngva er sungu lífsins blóm veturinn deyddi með kuldans beru klóm. Nú vindar eru hljóðir alveg einsog þú gleymdir þeir dagar er vorið var mín trú horfnar þær nætur er átti ég með þér vorið á burtu og haust í hjarta mér. Þegar það vorar og vermir enn á ný þá skal ég syngja um dægrin svo hlý þá skal ég láta líktog værir þú hér þá skal ég finna jurt í brjósti mér. ] [ Ég man þig vinur með vind í fangið og vetrarkvíðabrag. Mjöllin fellur á minningarlandið það merlar á kveðjudag. Um haustið sigldi hafís inn á kyrran eyðifjörð. Frostrósir festust á gluggan minn og féllu á hvíta jörð. Þá lokuðust gömul siglusund ég stóð við bæinn minn. Ísa leysir með sólarstund ég sit við lækinn þinn. ] [ Tímans sandur rennur og skilur okkur eftir með fortíð sem eltir og hvílir þungt í huga Beinin brotna og frjóvgast vaxa sem lækir í miðri á Tímans sandur rennur og við horfum á ] [ Minningarnar þrengja að og ekkert þar sem í dag skín því neitt er verra en það að eyða degi án þín. Manstu tímana þá er við fengum að sjá. Saman héldumst í hönd og ekkert fékk slitið þau bönd. En í friði og ró hófst þetta litla stríð og ei líður á löngu að ég fái alveg nóg og vill ég helst af öllu gleyma þessari tíð. Ei fæ ég þó ósk mína og minningarbíóið heldur áfram að sýna. ] [ Krónutenglar með mikilli öfund horfist í augu speglamóður Gemsapartý með hárri tónlist leggi við eyru fingraóður Lem og lem og ekkert skeður Ber og ber og ekkert kemur Útihurðagerlar með húna í vasa missi kjaftinn trítilóður ] [ Logandi blásýrueldar í brennandi húsunum blika við himinn þegar ég forða mér hlaupandi á bak við kolaða þakbrúnina til þess að halda í öndunina sem er erfið og þung eins og trukkur að aka í gegnum Hvalfjarðargöngin og ég bíð á meðan svartur reykurinn dreifir sér yfir borgina eins og ský og síðan kafa ég ofan í svalandi, kalt grænblátt hafið. ] [ orðin voru  óþekkjanleg orðagyðjan var  rissmynd hún sem ekki var norn  og talaði um karlaketti  hláturinn sem var smitandi  já næstum því nornarlegur hvað annað gat ég sagt? einsog vúdúbrúða lá hún  þarna hreyfingarlaus  þakin hvítri loðinni slikju ég var einn til vitnis –  enginn sem gat aðgreint eða  upphafið hana  sem tekið hafði við byssukúlu fyrir mig - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - löngu seinna þegar grafskreytingarnar eru horfnar þegar myrkrið breytist í rauðanótt þegar klukkurnar tala ] [ I guess this is good by, and a thank you. For so long you have been there, my rock in the sea. My tears have flown, in onor of you. My smile has shined, of the thought of you. No longer am i allowed, to think to our days. No longer to smile, of the thougt of you. I hope you will be happy, you realy deserve it. I hope u think of me, with a smile on our face. Its time to let go, move on. But do one thing for me, dont ever stop smiling. ] [ Tíminn er eins og glas af sandi sem rennur hægt niður og bíður eftir því að vera á réttum stað á réttum tíma. ] [ Þegar þú sefur þá er ég vakandi, þegar ég sef þá ert þú vakandi Því þú ert nóttin og ég er dagurinn. ] [ Það er byrjað að dimma og kólna og bráðum fer gróðurinn í dvala á meðan ég og þú höldum áfram okkar verki, strita fyrir brauðinu svo við getum lifað annað sumar, notið sólar, birtu og hlýjunnar. - En það er svo langt í næsta sumar! ] [ Lét ég þig finna fyrir því, á ég að vera dæmd sek, ég tók mitt með, með því að kveikja ljósið, tók sálina út, út í nóttina, þessu er kannski lokið, en það stoppar ekki, ég er hér, þú snertir hjarta mitt, sál mína, breytir lífi mínu, ástin er blind, það vissi ég, hjarta mitt snerti þitt,ég er blind, það er satt. ] [ Ég óska að ég gæti umkringt sál mína, ég get valið myrkvið í stað kuldans, ég gæti öskrað svo hátt án þess að finna orsök þess, þetta eru bara tár jarðarinnar, allar minningarnar sem ég á, óska þess að ég gæti hjálpað mér að skilja, erfitt að velja milli himinsins og helvítis, viss um að geta bjargað sál minni frá ótta, þetta eru bara tár jarðarinnar. ] [ Er ég viðra vinin minn vegfarendur flissa. Ég trítla út á tröppurnar tek hann út og pissa. ] [ Gáfnaljós er hún Marta mín og menntuð í fræðunum víða. Þrælmennum veitir hún samúð sína sem pabbinn lætur skammir á ríða. Já, víst ert þú einstök uppáhaldið mitt og allur þinn hróður mun lengi standa! En Skálateigskarlar hafa skapferlið sitt og skítmennum kveðjur ei vanda. ] [ hér byrja ég ljóðið, og hér enda ég það. ] [ Dönsuðum við undirspil flaututóna hálfgerðan mars ég sagði að ég ætti engar trommur þú sagðir að það væri allt í lagi við gætum bara trommað á magana þessvegna fórum við úr bolunum ] [ Lifa. Heimsyfirráð eða dauði, það er að lifa! (fullkomin lifun) það er lífdauðinn/dauðalífið ROKK and RÓL \'till þe fat leidý síngs! (það verandi mamma) ] [ Í frjóum lundi á fagurhól óx forðum móti sól svo indæl lítil silfurbjörk sem mér gaf líf og skjól. Allt á sinn tíma, stað og stund á brott er björkin ein enn bærist lauf í skógarlund þar drjúpa tár af grein. ] [ Regnið fellur á götuna, blandast við blóðtaumana. Fikrar sig áfram eftir götunni. Líflaus líkaminn liggur hálfur út úr flakinu. Barnið horfir á hann sorgmætt á svip. Faðir leggur hönd á öxl þess. Þeir ganga í átt að ljósinu. ] [ Stutt var okkar kveðjustund. Þóttumst vera létt í lund. Skipið sigldi ströndu frá. Heim á ný nú leiðin lá. Eitthvað innra með mér brast. Í minninguna held ég fast. Á hverjum degi ég hugs\'um þig. Það er alveg að fara með mig. Þú veist ei hvað ég sakna þín. Ætli þú saknir mín? Ég bið til guðs í von og trú. Því ástin mín, já það ert þú. ] [ Ég held ég hafi orðið pínu paranoid þegar tungubroddurinn snerti íspinnann og festist! ] [ Hann vakir okkur yfir og verndar hverja stund Hann sendir sína engla er sólin fær sér blund. Stjörnur strjúka vangann og stundin, hún er blíð ég veit að Jesús Kristur er hjá þér alla tíð. Blessa þú nú barnið því búið er því ból í nótt þá muntu eiga hjá englaföður skjól. ] [ Ég er svo ofvirk að tossalistinn fyrir næsta dag er aldrei styttri en fjögur þéttskrifuð A-fjögur blöð. ] [ Líktog regnstafir féllu orðin af himnum ofan félagi minn og snertu hvaðeina sem á veginum var orðin félagi minn eru orðin að staðfestu. ] [ Þú ert bara 27 ára gamall maður að verða 14 ára. ] [ Bölvuð viskan flogin er, hvorki á landi né íslandi hún er, í heiminum viskan sperrir sig bölvandi skrækjandi af ótta heimsins ] [ Lífið þyrmdi yfir mig en þá steyptist regnið niður helltist ferskt úr fölgáum himni endalaus víðátta glitrandi, dansandi dropa flæðandi á götunum og gangstéttum seitlandi læjarspræna úr gati á vatnsrennu votur gróður endurfæðist er hann bergir á lífsvökvanum og ég löðrandi og gegnumblautur, kaldur og storkinn hugur minn endurnærður, sál mín orðin hrein úrhellið dregur sig í hlé heiðbláminn gægist úr rofi og brýst gegn um skýin enn skín sólin og enn speglast lífið í ljóma daggarinnar ] [ Ferðalög frumlegra furðuverka finnast í fáranlegum fjölda frásagna og fer fjölgandi... En fjölföldun á stökum öldum lifir líkt og þú munt mörgum sárum sakna og sérð með öl í glasi... Gleðinnar geislar geispa golunni grimmt og greindarlaust. Grímur... hvað býr á bakvið? Breytist birtan, villir sýn, sín vegna, seint hvarf traust. Grýttur... einn flýr, áfram við? Einmana, eintómt drama einkennir einkennilegan engil með eymdarsvip. Eðlilega mun einhver stama... Stór orð streyma og litlar myndir öskra, fortíðin fer seint í lit. Ef til vill endar ein, hver dama. Dreymir ekki alla um betri daga... ] [ Komdu tjáðu þig finndu út hvað ég vil. ] [ bros gegnum tárin skin í skýfalli glitrandi götur glampandi pollar blik í bölmóðs biksvörtum augum og skjól í skúraleiðingum ] [ Ljúft þetta líf Ljúft þetta líf í loft upp ég svíf Sumarið og sólin setjumst nú á hjólin Brunum nið\'r\' í bæ bara\'ð segja hæ Viðlag... :;Halló, hér er ég Vá, hvað þú ert æðisleg Sömuleiðis send\' eg þér sæta kveðju trúðu mér Stritandi um stræti og torg Staddur hér í borg Sest ég niður sveittur Svakalega þreyttur Vil ég vera hér Fast við hlið þér ] [ Tango Tango is my dance, it´s so good i can not stop It´s so cool, it has lot´s o´fance, we are never going to stop hop now from floor and france, scout to me hello and stop for dance tango is my band and my dance to dance Tango went in shop and he said ,,Come for dance’’ tango is my life If I die what heppens to my tango if i cry then cry my tango If i can’t dance tango how can dance tango for my ] [ Það varst þú sem ristir upp hjarta mitt og hlóst. En ég saumaði það aftur saman. Risti svo úr þér hjartað, horfði á þig gráta og hló. ] [ hiti birta hausverkur vá,þynnkan er að gera útaf við mig dýna svefnpoki ókunnugur maður guð minn góður hvað gerði ég í gær? ] [ Þau sækja á hug minn svörtu augun er spegluðu ótta og angist dauðans. Svo þreytt var hún orðin og þjökuð af hræðslu þó reyndi hún að synda því hún elskaði lífið og óttaðist dauðann. Ég var tólf ára telpa sem trúði á hið góða. - Í sveit þetta sumar. Hún synti til dauða þó svörtu augun mig sárbændu um líf. En ég mátti ekki hjálpa. Þau sækja á hug minn svörtu augun. - Svörtu litlu músaraugun. ] [ bleikar gular glæstar slæður rauður bómull bifast varla svíða geislar sveypa bláman Faxaflóinn fuðrar upp er sæinn bakvið sólin sekkur júní 2005, Danaveldi, ort til Reykjavíkur. ] [ Af hverju ég? Af hverju að ljúga að mér? Af hverju að draga mann á asnaeyrunum. Koma illa fram Gera það sem þér sýnist. þegar þú vissir að ég vildi þig svo heitt og þráði þig. En ég var svo blind gekk um í ástarvímu. Sá ekki neitt. Hefði átt að sjá það fyrr að þú værir ekki þess virði. Maður lærir að mistökum en ég veit ekki hvort að ég hafi gert það í þessu tilfelli því að þú átt enn smá hluta í hjarta mínu en ég veit samt að það verður aldrei neitt einhvað sem heitir . ég og þú. ] [ Það er sumar en ei lengi, því haustið óðum kemur. Fer að hvessa og kólnar tekur, rignir mikið og fuglar fara. Þetta er vísa sem gengur og gengur, sem gengur næstu hundrað ár. ] [ Ég neita. Neita. Að taka þátt í palisanderskapphlaupinu mikla. Ég neita. Neita. Að kasta minni pyngju í hýtina, húsasmiðjuna eða bykó. Ég neita. Neita. Að kasta minni pyngju í hýtina, flísabúðina Vídd. Plastfólk en alls ekki plastparket. Ój ój, aldrei. Aldrei. Palisander, palisander, við viljum palisander. Ég er bara alþýðuskáld og aumingi. Og nota minn aur í vitleysu. Ój, ój, ég er bara aumingji, á ekkert hús engan palisander. Palisander allt í kring. Palisanderinn umvefur mig. Dæmir mig. Afhverju ertu ekki palisandersfíkill? Ha? Afhverju? DÆMDUR. Dæmdur af palisandersfíklunum. Aldrei verið dæmdur af öðrum fíklum. Að tilheyra ekki þeirra RÖÐUM. Röðum. Reðum. Röðum. Ríðum. Röðum. Ríðum rörum. Röðum palisander í allan dag. Röðum palisander oná palisander. Ekki svona palisander. Oj Oj. Oj Oj. Ekki svona. Nýjan palisander. Meiri palisander. Betri palisander. Strax, strax. Meira, meira. Verð að fá meira. Verð að fá flottara. Flottara en hinir. Betra en hinir. ] [ Bak við fjöllin birtist ljós. Það dreifir úr sér og glæðir dalinn. Sendir geisla á botn vatnsins, ljós inn í híbýli mannsins og vekur hanann með hlýjum strokum. Brátt sígur þó ljósið á ný og svæfir allt með léttum, ástúðlegum og hlýjum strokum. Þakkar fyrir góðan dag, málar listaverk á himininn og kveður með ljúfum kossi ] [ kuðungar sæskeljar fiðrildi fuglar viska sveimandi sálir Fósturjörð ] [ Hefur þú séð fuglana synda og flugfiskinn fljúga? Hefur náunginn nauðgað þér og nælt í þitt bros? Hefur þú verið blindað barn er berst við eigin straum? Hefur þú setið í sólinni og óskað eftir rigningu? - það hlýtur að vera, því þannig er lífið - ] [ ævarandi glamur kaffi .....bjór og fröken léttvín fjölga sér í kapp hvert við annað dreifa sér á borðin með áfergju steypa sér í þyrsta maga varirnar rauðar.......þurrar.......frakkar ......bleikar......feimnar mynda samhljóm í sötrinu byrja svo aftur sönginn glamrið eitt andartak áfram ] [ ég er þakin ljóðum þau klínast á mig sem gulir \"post it\" guð er að gera grín að mér ég veit ekki hvort þetta sé innblástur eða vinnustress ] [ Ég var á gangi um daginn við miðjan gamla bæinn settist á bekk með peninga sekk og taldi svo allt værí haginn Þá kom að mér ungur maður sem var ískyggilega glaður hann tók mína hönd ég reistist á rönd og æpti \"ég er ei svo graður!\" Þá kypptist hann allur við og bað mig um stundar bið hann andann að dró skekktist og hló \"ég bið bar-um eilítinn grið!\" \"Og hvað villt þú frá mér?\" spurði ég tregur og þver \"ég vil aðeins fé og kaupa mér hlé á fatfellu staðnum hér\" Ég hugsaði aðeins um eitt \"Ég get ekki fúlguna greitt\" hnefi á loft lamdi mig oft og síðan man ég ei neitt Purpura augun opnuðust lítt andlitið mitt var orðið sem nýtt ljótara en allt marið og þvalt all skorið, migið og grýtt ] [ Þá ertu loksins litla skinn, inn í heiminn borin. Því hann lofar, faðir þinn, að fylgja þér fyrstu sporin. Nú ertu komin á sjötta ár, þú stjarna í augunum mínum. Mörg hefur pabbi þurkað tár, af votum hvörmum þínum. Enn hafa árin þotið hjá, nú eru sextán að baki. Ég bið þess að faðirinn himninum á, ávalt yfir þér vaki. Brátt mun lokið minni vakt, og brautin mun verða þín. En sem stoltur faðir get ég alltaf sagt. Þetta er dóttir mín. ] [ Ef ég drukkna hylnum í og harmahljóð heyri sem fara inn í bein, hvelja hvern með eitt harmar vein ] [ ég er, laufblað í roki, fiskur á landi, snjókorn í eldi, ormur á öngli.. án þín ] [ 18 ára, kvaddur í herinn. Fannst það ekkert tiltökumál. Hvað getur svosem skeð fyrir strák einsog mig? En strax fyrsta daginn, syrgði vinar míns sál. Dauðinn gleymir víst ekki að minna á sig. Sentist og varðist, Entist og barðist. Allt í góðri trú að heim kæmist og þar biðir þú en annað áhorfist nú. Bróðir minn, sem eftir lifir; Stíg létt, - ég er moldin sem þú gengur nú yfir. ] [ Vilmundur gamli fór og heilsaði Argentínu menn, því ertu svona sljór? sagði Fabien!\". Fabien var maður maður skrýtinn var, eins og hann sæi fína mey því karlinn reyndist graður. Þetta var því ekki graðleiki bara svona grínleiki, hann hló og þvílíkur hreimleiki hann dó og þvílíkur seinleiki. ] [ Ég finn í örmum mér flotta tóna að leika sér, ást og yl ég finn með þér ei brotnar hjartað, og ei neitt gler!. Ég finn sérhvert tár streyma úr augnlokum mínum, þetta er aðeins ástarfár sem vex úr kærleika þínum. Lífið er tómlegt hér engin er að finna, vildi ég þér svo að minnast vanga mínum strokið hér. ] [ Eitthvað sem verður nýtt og nýtt eitthvað sem er svo heitt, Eitthvað sem er svo milt og hlýtt eitthvað sem gerir lífið ei leitt. Þetta er sólarströnd að heimsækja stundum útlönd, Það er svo gott og hresst aðalega þegar flugur kyssa mann bless. Hitinn verður svo heitur ég spyr um hitastigið, Þá sat maður einn útgreiddur ja, veðurspárnar hafa logið! Hitti svo á hann Guðjón minn og sagði honum hvernig hitinn var, hann sagði: hvernig var þá pabbi þinn? hann sem alltaf var skaðbrunninn Ég var komin heim, skaðbrunninn og flugukysstur, nú er ég kominn með dálítinn hreim, undan Guðjóni, þá var ég fyrstur ] [ Var að fara til norðurlanda norðurlandið hét Noregur, vildi að ég væri á leið til sólarstranda, en ég vissi það og var rólegur. Spáð var ömurlegu veðri, allan tíman þar til ég mun fara ég gæti borgað og borgað og borgað, bara til að fá það betra. En ég var millilentur í Danmörk, dálítið ólíkt Heiðmörk ég var búinn að ætla mér, Að hér ætlum við að búa! Hér var sól og hiti, enda ætlaði ég mér hér að búa þegar eldri myndi ég vera, til Danmörk mun ég fljúga! En tími var komin á Noreg, og byrjað að kalla mér hlakkaði ekki til, er ég kom þangað, hélt ég myndi falla! Í Noreg var ósköp fallegt, fallegra en allt, allt sem ég hafði séð, í lífi mínu og meira en þúsund faldar rósir! ég var í kaupstaðnum Bergen, á Hákonsgötu 110, og dvöldum í Scandic Hotel þar var allt í góðu. Þetta var aðeins kóramót, en við gerðum ýmis annað en að horfa á kóra, og sitja snót ég mátti í bænum vera. Þegar eitthver hnerraði atsjú, var sagt í skyndi BLESS JÚ! ég hló og hló og hló og hélt þetta væri ofsatrúarfólk. ] [ Það er ekki til neins að öskra á vindinn – sorrý Stína hann hefur alltaf hærra en ég. Það er til lítils að ætla sér að lægja öldurnar – best er bara að bíða hér í fjörunni, lognið kemur um síðir og ég get sjósett bát minn og róið til þín – ástin mín hafðu biðlund. Það er til lítils að ætla að senda þér SMS – síminn minn straumlaus og ekkert rafmagn í eyðibyggðum. Bréfdúfurnar flognar úr dúfnakofanum því fleygi ég þessu skeyti í brimið og vona að það berist þér um síðir. Vina mín hafðu biðlund ég skal róa bátnum mínum til þín þegar vindinn lægir. ] [ Öfund afbrýðiseminnar nærist vel stækkar og verður að byrði sem vill ekki fara sest og nagar inn að beini inn að hjarta. ] [ Eigi lít ég framar ástagull yndælust Börn míns barns burtu hrifin. Grípa skal ég til vopna og verja vega til ólífis nær hvern og fjær. En þó frjósi í Helju gangi flóð yfir lönd og farsóttir eiri engu sem lifir. Aldrei skal ég gleyma ást minni á þeim er unni ég heitast af helsærðu hjarta. ] [ Ljósfagur og lokkaprúður leiftra brúnaljósin blá. Brosið hans og barnahjalið besta gjöfin Guði frá. ] [ Sælar og blessaðar systurnar góðu!!! Sit ég nú einn heima í þoku og móðu. Allt sæmilegt er að segja, smávegis verið að heyja, bleðlana hérna er hestar áður tróðu. Við náttúruöflin nýtir víst ekkert að tjá. Núna spáir regni og þurrkur er liðin hjá. Við engan sýnum sút, sæmilegt er að ríða út, og hestarnir eru okkur til sóma að sjá. Nú, Helgi okkar kom fljúgandi í fyrradag og fór þá að komast hér æði margt í lag. Það skrapp allt í skorður, á Skótanum fór svo norður, og mamma okkar með og þar líkur brag. ] [ Ég er bara karl í koti með kerlinguna mína. Eftir kóngsins sækist sloti og sprotanum hans fína. Þjakaður af lífsins þroti þekki lítið bjartsýnina. Flýtur meðan helst á floti fyrir mér reyni’ að brýna. Fyrir okkar skyldum skríðum og skrimtum þá fyrir rest. Sjálfsagt hart hlutskipti líðum og heilsunnar veilu brest. Að úr dróma drepumst bíðum En deyjum vísast úr pest. Samt horfi ofar fjallshlíðum og hunsa þetta hvað flest. ] [ Var svo ung og vissi ekki hvort þess myndi bíða hnekki ef einsömul færi á prestsins fund og drýgði synd þar litla stund sem mér þótti taka árþúsund. Hann sagði þetta vors Guðs vilja. Ég fæst víst seint til að skilja - máttarvöldin. Seinna tvö hjörtu í mér heyrði slá. Í sakleysi mínu, sagði’ honum frá. Þá kvað við; ég þyrfti að þegja, ei sálu segja. Ella í Drekkingahyl fengi að deyja. Svo kroppinn vafði í skýluklút. Og barnið mitt litla ég bar út. - En heyri það gráta á kvöldin. ] [ Greitt er ekið beint er stefnt. Staurinn framundan er. Bíllinn hann kyssir dauðinn brosir mót mér ] [ Í annan heim arkar þú nú, Á vit ævintýra og spennu. Tár verða felld við brottför, Bros mun birtast við komu. Þú skilur eftir svo margt, En færð meira í staðinn. Hugrekki þitt er ólýsanlegt, Þótt hræðslan skíni í gegn. Söknuður mun verða mikill, Hjarta mitt er að bresta. Bros þitt mun þó skína, Í gegnum minningarnar. Tíminn er afstætt hugtak, Líður hægt hér en hratt þar. Við bíðum öll spennt, Eftir að þú lendir aftur. Nú skiljast leiðir, Í dágóðann tíma. En næsta vél sem ég sé, Verður þú að lenda. ] [ Vertu sæll og blessaður kæri Björgvin minn. Býsna var orðin drjúgur hjá þér æviferillinn. Þú varst nú orðinn albúinn að fara hinstu för og fjarska mikið þreyttur og dapurt sálarfjör. Vonandi verður hinumegin glaðar í geði þínu. Gjarnan máttu þá slá til mín á beina símalínu. Ég þakka svo að lokum þín ágæt vinarkynni og þinn hlýhug allan sýndan fjölskyldu minni. ] [ Mis stórir steinar þekja fjöruna Marglitur þarinn sefur á steinunum. Ég labba í fjörunni Ráfa á milli steina Líkt og lítil stelpa. Sjórinn dregur hugsanirnar í burtu Kemur til baka með nýjar hugsanir Áhyggjulausar hugsanir. ] [ uppþornun rotnun veikindi Mjallhvít sefur endalaus bið snýkjudýrið hleypur um líkaminn hefur verið tekinn í gíslingu haldið af dauðanum styrjöld stríð uppgjöf hæg slátrun þjáning Guð, geturu nokkuð hjálpað. ] [ Fólk tekur ekki eftir fjörunni Notar hana fyrir ruslahaug. Án fjörunnar væri ekkert líf Eins og sjómaður án bátar, Kennari án skóla, Karl án konu, Börn án foreldra, Börn án frelsis Pössum fjöruna Annas missum við allt. ] [ Uppá hæðum Blönduóss,ég hugfagran yfir lýt, hjartað örvast,því fegurð augun gleður. Háu Strandafjöllin mig hrífa,er þeirra nýt, og hverfi í skyldleik þeirra,er upp mig galdur hleður. Fagur bærinn sem konfekt,sál mín hrifin fagnar, fögur áin Blanda svo kröftug sé ég iða. Í þögninni má skynja þá kyrrð er aldrei þagnar, og þrastar hjónin syngjandi,ungahópa siða. Hve kyrrðin getur sagt frá fögrum sumar kvöldum, með kærleik sól í eldi,í hafsins borði kveikir. Ég virðist ölvun finna af fegurðinar völdum, vakna djúpt í sál mér,horfnir æsku minnar leikir. hinn sanni listamaður,alfaðir okkar helgur, hjartans ást djúpa,til Blönduósbæjar ber. Nú einstökum friði blandast árnið ómsins elgur, sem elskulega heilagt um æðar mínar fer. Laufey Dís\"05 ] [ Hugfangin yfir sæinn hrópa, hjartans óskir golan ber. Sigurvissar þær öldur sópa, og sætar þær enda á vörum þér. Nú berst mitt hjarta ásýnd beisla, bros þitt fagurt nú yljar mér. Guðsljós um mig sé ég geisla, og gæfu þá er ég fæ frá þér. Nú himininn mér virðist hærri, og heilög er mér sjávar strönd. Neonljósin nú eru nærri, ég næstum næ í þína hönd. Veröld guðs djúpt í mér verkar, á völdum hans gegnum lífið fer. Sigrar andans eru sterkar, stolt mín hönd með Jesús er. Sólroðinn minn vanga strýkur, og saltur þefur um vit mín fer. Loftsins sveipur er engu líkur, ljúft mig drottin um galdra ber. Laufey Dís\"05 ] [ Sólin er að setjast við fjallanna fögru hæðir, og fjörðinn geislum baðar með roðans fögru glóð. Hve yndismjúkur unaður sér ljúft um æðir læðir, og leikur sér á strengi eitt undur fagurt ljóð. Hve hafið slétt mig seiðir og hlý mig golan strýkur, Og hugur skinjar fagurt náttúrunar lag. Hve dalurinn af fegurð er dásamlega ríkur, og dularfullir straumar í brjósti mér í dag. Áin mér söngva leikur ástar ljóð svo fögur , tvær álftir á vatni synda, ástfangið fagurt par Stuðlaberg við lækinn mér segir álfasögur, og stoltur fákur í geislunum, bítur grasið þar. ég hugsa nú um ástina sem hjarta mitt hefur fundið, og hlýja augnaráðið er hann gefur mér. Sólin áfram hnýgur fögur inn við sundið, hver sólin fyllir brjóst mitt,og hugans strauma hér. Laufey Dís 2004 ] [ Hve sál mín grét af sorgarkvölum, og skarpur verkur mig alla tók. Hve sár lá andin í kulda svölum, minn hugur lagðist djúpt í mók. Ég fann hvert tár af öðru falla, sem fossandi á,um mína kinn. Og hryggðar verkur að brjósti halla, og harðann fann ég ekka minn. Ó Kalli hve ást mín sárt er kvalinn, minn kæri sárt ég elska þig. Þú tregur frá mér burt vast talinn, nú tekur eilíf nóttin mig. Laufey Dís 2004 ] [ Í hvössur vindi voðans , vit mitt tínir stað. Í greypum reiði-roðans, ég reika um forarsvað . Í örmum kæfðar kvalir, kreistast úr lífi hér. Og allir dauðas dalir, Dvelja í brjósti mér. Laufey Dís 04 Harður er sársaukinn, þegar plástur kærleikanns er uppurinn! ----speki---- ] [ Þú fylltir huga minn af innantómum orðum sem síðan fuku burt með hinu ruslinu ] [ ég sá líf mitt þjóta hjá eins og bíómynd og ég gat ekkert gert nema að horfa á og borða popp ] [ Ég finn ennþá brunalyktina. Veggir sálar þinnar eru svartir sótugir og þó þú skrúbbir og skúrir þá fer ekki lyktin þessi brunalykt fortíðar sem er horfin út í buskann glóðirnar eru löngu slokknaðar og þú settir upp reykskynjara svo þú brennir ekki aftur upp til kaldra kola og verðir skilin ein eftir í rústunum. ] [ Hún var getin hrein, saklaus borin milli stráks, stelpu ...fæddist aldrei. Dó á óþekktum tíma fjarlægð í sameiningu ...nú aðeins minnst. ] [ Ó drottinn götu greiddu. grædd þú í hjarta mér,Visku... og Líf mitt leiddu, í lofsins faðm með þér. Vonir lífi ljáðu, líknar arminn þinn. Í minni ævi áðu, ætíð vert þú minn. Ó tendraðu birtu bjarta, frá blíðum faðmi þér. Þá hamingju í hjarta, ég hef í brjósti mér. Ó faðir viltu vaka, er veröld kastar gný. Og burtu trega taka, tendra sól á ný. Þá daga er svíða sárin, og sorgir berja á skjá. Sölt eru tregans tárin, þá trúr þú ert mér hjá. Þú andar blíðum blænum, og borgið hjarta er. Þú bankar upp á bænum, og blíða þín er hér. Halt við brjóstsins barm, börnum mínum þétt. Við ástar þinnar arm, áfanga leiðir rétt. þeirra tæru tár, Og trega á burtu vík. þeirra æsku ár, Þá árnast vonin rík. Laufey Dís 1987 ] [ Hann gengur eftir götunni Maðurinn í frakkanum Ætli hann sé að hugsa til mín Ætli hann muni eftir mér Muni nafnið mitt Muni hver ég er Það er liðinn langur tími Of langur tími Í þögninni Ólgandi sársaukinn tekur völdin Núna er það bara minningin sem lifir Um manninn í frakkanum ] [ Angurværð og þrá eru orð sem ekki urðu til fyrr en ástin var uppgötvuð. ] [ Sæll, fallegi maður! Gleður mig að kynnast þér, þó þú sért nú aðeins mynd um liðna tíma. Mynd, sem eitt sinn var gefin „Til konu, sem jeg elska”, orð, rituð með fölnuðu bleki og gleymdust lengi í kassa. Ástin sigrar allt, jafnvel mörg ár í myrkri og hún lifir enn í mynd af manni, sem ég elska. ] [ Þú ert minning um draum sem eitt sinn var - en tíminn tók og faldi. Þú ert minning um ást sem eitt sinn var - en dauðinn tók og faldi. Þú er minning um sorg sem eitt sinn var - en lífið tók og faldi. Þú ert minning. ] [ Í fjarlægum skugga þú situr hjá mér - og nóttin fer þung yfir hafið. Tilveran læðist svo tætandi og ber - og nóttin fer þung yfir hafið. Ég átti mér draum sem var lífið með þér - og nóttin fer þung yfir hafið. Samt er það þó sorgin sem spyr og sem er: „Ertu fuglinn sem flaug yfir hafið?” Mos. 2003 ] [ Þegar öskufallið verður eftir gosið og jörðin skilar sér heim og fellur í dá á ný, er allt grátt, kalt og nístandi bert. Þá er spurningin eina sem eftir lifir sú hvort einhverntíma hafi eitthvað verið og hvort einhverntíma verði eitthvað aftur? Mos 2003 ] [ Nýfætt, með vonir guðs í augunum og hreinleika englanna í sálinni, brosir þú mót sólinni sem heyr endalaust stríð sitt gegn myrkviði náttanna. Sólin brosir blíðlega til þín á móti og yljar saklausri tilveru þinni, með óræð fyrirheit um fjarlæga framtíð í fullkomnu jafnvægi ljóss og skugga. Mos. 2002 ] [ Þú notar mig þegar ég er blaut. Ég finn hvað þú vilt, hvernig þú stuggar við mér, ýtir, fram og til baka. Endurtekur, aftur og aftur. Ég geri allt fyrir þig... Sýg, - þó ég geti ekki meir, nudda, - þó ekkert sé eftir, ligg, - þó þú hamist, sleiki, - það sem fyrir er, þræla, - svo þú njótir, er, - eins og þú vilt. Allt... þér til geðs. ] [ Ég ræð ykkur frá því að lesa í mína sál, svo hrakta, hrjáða, slegna og snjáða. Hún á ekkert eftir, það slokknaði bál, sem brann í brjósti mínu forðum. Ak. 1990 ] [ (De Steen - Braum Vermeulen) Þýðing: Þórhallur Hróðmarsson Ég fleygði steini í fljótið heima og flaum þess breytti, þó ekki alveg, því enginn getur víst stöðvað strauminn, sem streymir áfram um annan farveg. Ef til vill köld og klakabólgin klýfur áin og máir steininn, hrífur með sér og fær hann fólginn í fylgsni dimmu í djúpi hafsins. Ég lagði steininn í löginn heima svo lífsferð minni mun enginn gleyma. Þótt áin lítt um mitt innlegg skeytti, þá á ég steininn sem straumnum breytti. Ég á mér steininn í ánni heima og áin mun hann um framtíð geyma. Hann unir þarna svo ósköp máður og áin verður ei söm og áður. ] [ þegar ekkert yrkisefni er unnt að kreista úr korni hugar - akursins þegar allt er þroskað og hunangið drýpur svo dásamlega gullið af hverju strái þegar ljóðskáldið leitar með öllum skilningarvitum að sorginni - eymdinni - ástleysinu eins og að nál í heystakki hvort er þá heimurinn betri eða verri en þegar yrkisefnin uxu á sérhverju strái og ljóðin voru öll svo dásamlega döpur ] [ Beri blærinn kveðju mína blíðlega inn í huga þinn. Vaggi aldan þér í svefn á meðan nóttin hellir myrkri í gluggana. ] [ ég er svo einmanna, að ég gæti dáið, stundum langar mig til himnanna, þar sem ég gæti flogið. mér líður ekki vel og mig vantar þig hér. kannski komumst við til himnanna, þú og ég. ] [ Hundrað þúsund hugsanir saman inní mér. Langar að komast út en ég hleypi þeim ekkert Hundrað þúsund tár saman inní mér Langar til að komast út en ég hleypi þeim ekkert Því einn daginn fórst þú útúr lífinu mínu og hvað get ég gert? Lífið heldur áfram! Jújú, nema hvað? En samt er eitthvað inní mér sem er alveg stopp Hundrað þúsund kossar er áður gafstu mér koma aldrei aftur. ] [ I wonder about people how we came about who invented the alphabet I wonder a lot about. Who said a flower was a flower when it could be so much and what were we like before we became us? ] [ You got words with meaning You got words that rhyme You got words that tell a story and words that never lie You got words to join together You got words to describe You can get words to do anything if you try! ] [ Megi gull og gersemar verða á vegi þínum, undur og leyndardómar, steinvölur og stjörnuskin. Megir þú ætíð finna réttu leiðina, réttu orðin og styrk til að halda áram. Megi morgunsólin færa þér yl inn að hjartarótum og hver hugsun þín ró og frið. ] [ Hol að innan, heil að utan held ég áfram. Hvar er ég stödd? Stöðnuð í hringiðu lífsins - stopp ] [ Blómin eru fjögur það eru rauðar rósir. Blómin eru fögur og lykta eins og mín móðir. ] [ Uppvask, þvottur, elda mat Alltaf það ég geri! Samt sem áður sífelt ég sögð er vera meri ] [ Ég á ekki heima hér, í heimi hinna rósrauðu skýja. Ég held að ég komi mér og leiti að hinum heimi nýja. ] [ Ég er hin mikla hetja, áfram mun aðra hvetja sem við mig kappi etja. Þá skal ég út fletja, mitt trýni upp á fitja, alla síðan upp éta! Gjöf til fagurra meyja, án mín þær varla lífið þreyja. Hugsa um mig heimafyrir, signa sig í bak og fyrir. Myndarlegur og hár, karlmannlegur og klár. Aldrei felli tár! Oft sýni mig, allir hylla mig, vilja vera ég, tilfinning notaleg. Einn dag sló þögn á hópinn; Algjör friður, ég leit niður... Sá að út gægðist mitt litla undur buxnaþvengurinn var farinn í sundur! ] [ Hei hó hei hó klukkan hún sló korter í tvö um nóttu djömmum og drekkum heim við svo veltum einhvern tímann í morgunsárið hjartað það brestur maskarinn klesstur kjóllinn í krumpu á gólfi fer heim í þynnkunni finn fyrir minnkunni heiti því að drekka aldrei aftur en þráin hún lemur og löngunin kemur og kvöldið hefst að nýju ] [ Einn góðan veðurdag ætla ég að sigra heiminn ] [ Þögul situr, þráir ljós í skuggaveröld með biksvartann kaffibolla og gamla kleinu. Beiskt. Þreytt hún situr í íslensku vetrarmyrkri og sötrar í sig hlýju og il frá Kólumbíu. Beisk. ] [ Ég elska langa göngutúra sem enda ekki neinstaðar, það minnir mig alla vega ekki á þig. Mér finnst gaman að bíða í löngum röðum. Ég hlusta á hnakkatónlist, svo lengi sem að það minni mig ekki á þig. Ég tel stjörnur á næturhimni til einskins, - það minnir mig alla vega ekki á þig! ] [ Myrkrið grúir yfir öllu sólin kemur allt verður bjart vatnsdropar falla úr lofti óveðrið byrjar allir verða hræddir það slotar maðurinn fer út veðrið er gott fuglarnir syngja hann vappar um þar til hann kemur að vatninu þar sem vatnaskrímslið sefur svo hverfur hann ] [ Ég leit í augu þín og sá líf og liti. Þarna gat ég staðið tímunum saman í sömu sporunum, hlustað á laglínu hjarta þíns slá í takt við mitt. En Því lengur sem ég stóð og hlustaði breyttust hljómarnir í skerandi öskur. Taktarnir byrjuðu að fara á mis og augu þín lokuðust. Í einni svipan varð allt hljótt. ] [ Simmi Simmi Simmi minn, Simmi Simmi Simmi, Simmi Simmi Simmi minn, Simmi Simmi........ Simmi!! ] [ Ég var við þegar þú borðaðir svið. Mig langaði í bita en þú sagðir að það væri ekki nóg til. En hvað með það ég get alltaf fengið mér að borða annarsstaðar. ] [ ég fór í sjómann við Magga vin minn og ég hlýt að hafa læst hendinni eitthvað vitlaust því ég brotnaði á hægri hönd, upphandlegg nánar tiltekið og nú geri ég allt með vinstri. ] [ Ég sat og hugsaði um Jésú. Afhverju hringir Jésú aldrei í mig? Þegar ég hringi í hann þá er hann aldrei við og guð er alltaf mjög leiðinlegur við mig. Ég ætla að reyna einu sinni enn. 555-jésus. biiii.. biiii.. já halló. Er þetta jésu? Nei ég er jésuspétur.. ] [ Þú hvarfst, þú lést. Ég man svo lítið eftir þér. Enda var ég bara ungt barn þegar þú hvarfst. Hvarfst frá öllum þeim, þeim sem þóttu vænt um þig. Ég myndi gera allt bara til að líta augum á þig. Ég hef bara séð myndir af þér, og ég man þig þannig. Ég væri alveg til í að kynnast þér og sjá hve góð þú varst. En ég verð víst að lifa án þín. Ég mun samt alltaf geyma þig, geyma þig í hjarta mínu. Það er sú minning, minning sem ég varðveiti vel og lengi. ] [ Á hverjum degi kveiki ég á vesalings mannkerti vakna við óhljóð garnagaulssynfóníu legg inn skilaboð á talhólfið mitt (erótísk skilaboð horfi á vaxið bráðna) ] [ Spíta sem flýtur á hafinu,hvaðan kemur hún að. Gæti verið að jarðskjálfti hafi eiðilagt hús sem síðan fekk hafsins bað, eða var skip á siglingu langt frá öllum löndum. Og hvirvilvind og brotsjó bar að skipsins höndum, hvaðan kom þessi spíta sem flýtur rétt við fjöru lands. Ég veit því miður, hún hefur enga sögu að segja, en er aðeins kölluð Rekaviður! 1970 ] [ Á lítilli eyju ég fæddist í heiminn, þar sérð þú stjörnurnar glitra um heiminn. Þar sérð þú fjöll og þar sér þú mánann, þar sérð þú fegurð og íslenska fánann. Þar sérð þú snjó og fólk sem að skíðar, þar sérð þú fegurð um allar árstíðar. þar sérð þú vötn sem frjósa um vetur, þar sérð þú fólk sem skautað vel getur. þar sérð þú læki og all stóra fossa, þar sérð þú eldi úr fjöllunum blossa. þar sérð þú menn til veiðar á bátum, þar sérð þú haga með stórum heysátum. það sérð þú hús sem byggð er úr torfum, þar sérð þú heyskap með ljái og orfum. þar sérð þú jökla sem menn hátt upp klifra, þar sérð þú bækur sem fornöld upp rifja. Á þessari eyju ég fæddist í heiminn, þar sérð þú stjörnurnar glitra um heiminn. Þar sérð þú fjöll og þar sér þú mánann, þar sérð þú fegurð og íslenska fánann. Laufey Dís 13 ára 1971 ] [ Í dimmbláu djúpinu dvelur vitund mín eins og loftbólur lyftast hugsanir mínar eins og flugfiskar fljúga hugsanir mínar hátt -upp úr dimmbláu djúpinu. ] [ Til fjandans með þetta helvítis vín, sem fólk verður halfvitlaust af. Bara það uppfylltist óskin mín, að það sykki í ólgandi haf. Ef það findist aldrei í heiminum framar, þá brjálast enginn á því. Og engann manninn það framar lamar, né verk í höfuð sem blý. Laufey Dís 14 ára \"72 ] [ Ég nálgast þig með sveiflu sálar, er sorgir kveða um brautir hálar. Þú ert yndi,ljós þitt logar, látlaust það í hönd mér togar. Augun þín er spegill sálar, sífellt draga mitt hjarta á tálar. þau mæla stórt í þagnar þrá, er þrautir kreista lund og brá. þitt bros er von,þín hönd er hlý, í hamingju ég að því bý. Þinn faðmur kveikir ljósið ljúfa, logaþess ég ei vil rjúfa. Í sekúndu ég faðm þinn finn, og freista koss á þína kinn. Við altari,hjá kristi kærum, hans krossi við,svo gullinn tærum. L.D.E\"87 ] [ Dag einn tók ég hjartað þitt og henti í ruslið með hinu sorpinu. Dag einn hrifsaði ég ástarorð þín og sturtaði niður klósettið með hinum úrgangnum. Dag einn tók ég sál þína og feykti henni burt með köldum vindinum. Dag einn áttaði ég mig á því að ég fleygði sjálfri mér til glötunar. ] [ Ef ég er ég og þú ert þú, hverjir eru þá allir hinir? ] [ Ég sat að kveldi og horfði á Rauðleitan himinn glampa á sjónum. Sólin horfði í augu mér með rósrauðar varir og hvíslaði ástarorðum í vindinn. Stjörnurnar brostu við mér á meðan máninn grét bláum tárum því sólinn féll af himnum ofan rétt eins og kvöldið þar áður. Gætu sólin og máninn verið elskendur í álögum og hafið táraflóð frá tunglinu? ] [ Í ljóssporum liðinna daga liggja vængstýfðar vonir. Á húmbláum himni vikna hæruský Hjúpuð hálfrökkri nætur hvíslar sorgin ósögðum orðum. ] [ Sortan við ströndina gráu er falleg þegar himnarnir gráta. Hún segir mér sögur um það sem kannski er, faðmar mig, elskar og huggar í laumi. Fullkomnar mig og hatar að ég sé til. ] [ Sé pappír ekki bleikur þá er hann kannski blár, en sé hann ekki hvítur því er hann þá aðeins grár? ] [ Ég spurði: „Iðrastu?" Þú svaraðir: „Iðrast ég? Það tekur því ekki, lífið er rugl hvort eð er." Ég sagði: „Það er ekki rugl fyrir mér." Þú muldraðir: „Nei, kannski ekki..." Og það var þá sem ég sá að ég var bara rugl fyrir þér. Ak. 1992 / Mos. 2002 ] [ Mér finnst gaman að taka dæmi: um þig, og mig, það er dæmi gert fyrir okkur, um ást, og sorg, það er dæmi gert fyrir lífið, um hlýju, og kulda, það er dæmi gert fyrir unað, um í gær, og á morgun, það er dæmi gert fyrir núna, um hitt, og þetta, það er dæmi gert fyrir allt, Tökum dæmi: til dæmis, er þetta ljóð dæmi gert fyrir dæmi, um hvað við erum dæmigerð. Rvk. 2002 ] [ Halló, hver kveikti ljósið? Varst það þú? Hver ert þú eiginlega manni? Ertu ekki alveg í lagi? Þú feiti frethaus og fúla fífl, ég er ekki dúkka!!! Andskotinn hafi það, þú mannleppur, viltu fá að sjá börnin þín á lífi? Ég hoppa á þér ef þú verður ekki góður. Nú, hlýddu, fíflið þitt. Æi, þetta er handónýtt núna. Þú eyðilagðir allt. Þú kveiktir ljósið!!! Sko!!! Þú komst of seint - alltof seint engan veginn nógu gott. Þú ert ekki að standa þig. Fíflið þitt, þú fúla fífl, þú ert rekinn. NÚNA!!! ] [ Það er, eins og hvorki sé andartakið til, né eilífiðin þegar við erum saman eins og hvorki sé vakan til né svefninn þegar við erum saman eins og hvorki sé þögnin til né orðin þegar við erum saman eins og aðeins við séum til. Saman. ] [ Það er fegurð í viðnum, sem skorinn er létt, kátína hvernig hnífnum er beitt. Undnir kvistir, og inngrónar holur fá nýja mynd og ásýnd, jafnt í augum þess sem á horfir og þess er vinnur verkið létta að skapa. ] [ Þegar orðin geta ekki talað, er ekkert hægt að segja og þá er aðeins hægt að þegja. Er eitthvað við því að segja? ] [ Elsku vinur, þú ert toppurinn á endanum á sjálfum þér. Handan við toppinn er ekkert nema auðn, sama hvert litið er. Jafnvel ef snúið er við toppar þú sjálfan þig margfalt á móti. ] [ Æ!!! Hver skaut mig með olnboga í bakið? Ó, varst það þú? Heyrðu, elskan mín, taktu olnbogann úr bakinu á mér áður en ég skýt þig í síðuna með mínum. ] [ sko, ég lagði af stað fram veginn og vissi alveg hvert ég var að fara eða þannig sko, ég veit að ég lagði af stað fram veginn og vissi nánast hvert ég var að fara eða þannig sko, ég veit að ég var á stað og vegurinn var framundan en ég vissi ekkert hvert ég var að fara. eða þannig sko ] [ Ég á milljón mýs og rottur líka, leik á flautu og lokka þig með mér, syng fyrir þig og tæli þig og þú veist ekkert betra en verða við ósk minni þú, þræll, sem ekkert ert. ] [ Her án þín hjarta mitt grætur engist um af þrá til þess sem ég taldi mér einni tilheyra þá nú það burtu frá mér er farið í höndum annarrar stúlku býr nú hjá sólin mig faðmaði að morgni hvers dags hve lífið ég elskaði þá brosandi á fætur fór samfeða sólinni á fund þinn fór hér án þín sólin mig vekur með heitu faðmlagi sínu ég nú undan henni færist sængina yfir haus dreg sofa vil lengur sú ein er nú mín þrá hún mér hlær við enn heitar mig faðmar öskuill að glugganum lít á mig hún horfir í allri sinni dýrð góðan daginn mér býður á sinn blíða hátt ilskulega ég á hana horfi tunguna út úr mér rek segi henni fjandans til að fara hætta mig að ónæða hér ég ei lengur mig um hana kæri á fund þinn aldrei aftur fer sólinni samferða ei lengur þarf með sárlega hún á mig horfir hún sig hverfa lætur niðurlút og sár á bak skýjanna glás það var þá sem mitt hjarta kipp tók....... samviskan í mig sparkaði hvað hef ég gert? spurning vaknaði hver er ég? snúið hef baki við þeirri einu sem mér ávallt stóð við hlið æ, sól mín heyr hróp mín ekki yfirgefa mig þú sá bannsettur sem hjarta mínu mein vannst hver ert þú? það eitt ég nú veit ei tára minna þú verður ert óþverra þú mig að gert hefur ei skal ég þig lengur láta mig sál mína særa sólina og lífið sjálft af vettugi virða nú regnið mig að morgni vekur myglulegt og grátt að glugganum ég horfi þig sól mín hvergi er að sjá aðeins tár þín er hrynja undan skýjunum frá að mínum þau verða er þau rúðunni endurspeglast á fram á varir mínar bros fram færi hvísla að vindinum bón mína að hann megi skýjunum víkja frá svo bros mitt megi þér til sjónar berast svo þau megi þerra þín tár ] [ Brúsi er mikill maður manneskja sem treysta má. Ávallt er sæll og glaður og marga vini hann á. Þekktur er fyrir fyndni sína og hláturinn sem skekur allt. Hleypur gleði í tilveru þína og setur hita þar sem er kalt. Lengi lifi Brúsi í 100 ár líka 6 fetum undir jörðu. Hann er sá sem læknar öll sár og tekur á þeim með hörðu. Það þekkja flestir þennan mann sem hér er nefndur Brúsi. Góðvild hefur einkennt hann sem hann sýnir í hverju húsi. ] [ Þú ert tvíeggjað vopn, bölvuð tæfa, heggur sár þar sem dýpst þau særa. Þú ert ekki blind sem kvaðstu vera, þú ert synd sem ég hef ekkert með að gera. Ak. 1989. ] [ Veistu lífið er svikult ég komst að því í dag. Það læddist aftan að mér og stakk mig í hjartastað. Ég hélt að við værum vinir við töluðum svo oft um það. Á sálarinnar sumarkvöldum nutum við samfylgdar. Og seinna, þegar napur vindur nísti hjartans sál naut ég minninganna um þig. Þú dróst mig upp úr hyldýpisins öskustó og gafst mér aftur líf og hugarró. Nú líður mér líkt og litlum fugli með lamaða vængi læstum í svörtu búri sálarinnar og þrái ylinn sem þú einn getur veitt mér. Af hverju fórstu? Vegna hinna? Ak. 1989. ] [ Hún dansaði fyrir okkur í skugga loforðs sem ekki var til Hún dansaði fyrir okkur sem ekki sáum að ekkert var til Hún dansaði fyrir okkur sem áttum von sem ekki var til Hún dansaði fyrir okkur og lífið sem er aðeins til í höfðinu á mér og veit ekki að ekkert er til ] [ Þú dvelur löngum í dýflissu minni í drunganum þar sem ekkert er. Þar sem nóttin ein er náðin með nístingskulda sinn. Þar sem rotnar eru þær rætur sem ryðja sér þó leið. Þar sem ekkert er en engist og egnir mig um leið. Þar sem tilveran er taktur sem táldregur mig. ] [ Hver dagur í hverfulum tíma hverfur í skugga alda. Grá er sú lífsins glíma, þá sálir og líkamar gjalda. Brennd er sú brú er bar, til baka ei má snúa, því ekkert áður það var, þungt megum við búa. Sálin með sín skörð, svalt um hjartarætur. Gleymd ei framin gjörð, grafnar sárabætur ] [ Ég er kría og er svo glöð því sólin skín og sjáið bara þrjú börnin mín. Ég er stúlka sem vænst er klukkan sjö Á leið minni steig á kríuegg. Alltílagi. Eftir voru tvö. Ég er skúmur sem unga vil koma á legg. Á leið minni náði handa honum í kríuegg. Ég er minkur sem ekki hefur étið neitt. Á leið minni sá kríuegg og fékk mér eitt. Ég er kría og er svo leið því tunglið skín og ég finn ekki þrjú börnin mín. ] [ Þegar lítið barn deyr kemur engill af himnum ofan með glitrandi augu og tendrar ljós í sorgmæddum hjörtum. Þegar lítið barn deyr kemur engill af himnum ofan með rósrauðar varir og ber það i faðmi sínum upp til Guðs. ] [ Öðrum er ég byrgði á baki, brestur von á andartaki. Skoða kröfur sannleikans, svíf vo beint til anskotans. Kviknar bál í kaldri ösku, kóngur hlær í glærri flösku. Blekkir vökvinn beiska von, barnið er víst Bakkuson. Hrópin kastast hæð frá hæðum, höfðingi er af vökvans gæðum. Heiminn í vasa hef ég allann, heröð dali og allann hjallann. stari djúpt með sortnum augum, sýkist sálin og titra á taugum. Leiksviðið er lognu farið, látlaust er í höfði borið. ] [ Ást mín til þín er eins og fugl í hvassviðri sem flýgur stjórnlaus um himinblámann og berst við að halda lífi. ] [ Skammarlega stutt. Skyndilega gott. Skynsamlega skitugt. Skrykkjott um stund. Skrad i minni beggja. Skylur voru engar. Skaskotid var inn ordi og ordi. Skjolsailt herbergi. Skøkk vidmid. Skælt fyrir rest. Skundad heim. Skola sig. Skal aldrei aftur. ] [ Þar sem dýpstu þrár sveltandi barna eru slitnar úr hjörtum þeirra; Þar sem innstu langanir skáldsins eru gerðar að ryki og feykt út í vindinn; Þar sem tár þess sem grætur horfna tíma eru gerð að steini og mölvuð; Þar sem draumar allra hinna eru drepnir mun ég loks rjúfa þögnina og brjótast út í ópi ] [ Tannburstinn þinn á náttborðinu mínu segir mér að þú sért alvöru ] [ Þú fylltir líf mitt gleðitárum, þú læknaðir brotin hjörtu. Nú ertu farin, dagar verða að árum, ég séð get ei sólina björtu. Árin líða-sárin gróa, hjarta mitt fyllist af hlýju. Nú hugsa ég um framtíðina, er hittumst við aftur að nýju. ] [ Ég heyri í vindinum -hann syngur. Ég heyri í öldunum -þær sussa. Ég heyri í trjánum -þau hvísla. Ég heyri í hjartanu, hjartanu mínu, það kallar -á ást. ] [ Vað ekki í villu og svíma í válogum genginna tíma en horfðu upp í himinbláman og hugsaðu fram á við. Trúðu á mátt þinn og megin það mun þína gæfu skapa því Guð býr í brjósti þínu og býðst til að leiða þig. Ég samdi lag við þetta ljóð. ] [ Hjarta mitt grætur er ég hugsa til þín, hvar ertu? fangi ástarinnar, eins og fugl sem er læstur inni í búri og getur ekki þanið vængina til flugs, eins get ég ekki tjáð þér hug minn til þín Augun fyllast af tárum sem streyma niður kinnar mínar og breytast í demanta sem brotna er þeir falla, eins syngur fuglinn í búrinu tregasöng sem smá saman hljóðnar og verður að hvísli. ] [ Sálarkvöl gerist sífellt flóknari Einatt hefur hún verið kvalræði -það má sjá í gömlum sögum eftir því sem skepnunni fleygir fram teygir hún angana víðar snúið að finna út hvaða skott skal elta ] [ Elsku Sindri sofðu vært, svefninn á þig kallar. Englar blessi barnið kært, og beri til draumahallar. ] [ Lífið svo ljúft, leikur við mig. Hjartað svo heitt hugsar um þig. Ástin svo áköf á þig kallar. heyri þig hvísla er höfði hallar. "Elskan mín eina, ekki fara" sé ekki sál þína, "viltu svara?" -Góði Guð viltu gefa henni tíma til að búa sig undir eilífðina. ] [ Þú ert von mín og líf mitt, þú ert ást mín og þrá, þú ert allt sem mig dreymir, þú ert allt sem ég á. ] [ ég var hlaupandi á akri með tveim svörtum hröfnum sem reyndu að gera mér gys flugu í hringi plokkuðu í mig ég datt svo man ég ei meir daginn eftir mig dreymdi að í kistu ég væri ég sá jarðarför gestirnir fimm aðeins mamma og afi og systur mínar þrjár enginn grét mig ég dó fyrir smán. kistan var brúnleit með þrem gylltum krossum sex svartar rósir láu við hlið mér hvernig það varð það veit ég ei en þá vaknaði ég í svitakófi heljar mér var heitt mig svimaði ótt vissi ei hvað á mig stóð veðrið þegar ég heyrði um lát þitt þú varst fundinn um morguninn. þú hafðir gefist upp á öllu og ekki viljað lifa en fannst líklega friðinn ég vil samt fá að vita af hverju? ] [ Þú reifst úr mér hjartað frá rótum eins og tannlæknir, en skildir ekkert eftir nema opið sár. Án þess að hika var það jú ég sem settist í stólinn og opnaði kjaftinn upp á gátt. ] [ Sumarið er hér með búið þar sem skólinn hófst í dag. Heimanámið verður ekki flúið en það er tossunum í óhag. Nýtt fólk og nýjir straumar gera nú vart við sig. Góð veður verða fjarlægðir draumar og kuldinn kemur með að pirra þig. Við taka dimmu vetrakvöldin með sinn skammt af pínu. Ekki láta hana taka völdin og setjast að í lífi þínu. Sumarið kemur aftur vinur með sína sól og gleði. En sama hvað á þér dynur tekur þú á því með þínu geði. ] [ Ég sé alla heimsins liti umhverfis líf þitt. ævintýri og undur sem að eilífu lifa manna á milli. Orð sem mynda heild umhverfis magnþrungið svið ímyndunaraflsins. Stundum eiga raunverulegustu hlutir sér enga stoð í raunveruleikanum. ] [ líkt og visnuð haustlauf flögra tilfinningar mínar í köldum haustvindinum ég bíð þess að kuldi og myrkur vetursins frysti þau í klakabönd götunnar þegar þú gengur yfir þau verða þau orðin frosin dofin af tilfinningu aðeins fallegar minningar lífvana í viðjum veturs bærast kannski við í sólbráð en bara út af dauðakippunum ] [ Svona er þá lífið, þreytt og lítið. Erfitt er að vakna svona snemma í bítið. Það er kalt hérna inni, og hrollur líkamann þekur. Hef ekki húmor fyrir því þegar konan alla sængina tekur. Að vakna svona snemma ætti að banna með lögum. En lífið er eins og lottó og ákveðin örlög við drögum. ] [ Svo horfði hún í augun á mér, og sagði: Nei. ] [ Björtu ljósin skína í gegnum mig eins og ég sé ekki þarna, bara draugur hversdagsleikans sem hverfur úr huga þínum innan skamms. Ég er þreytt, langar að sofa alltaf. Samt held ég áfram að segja \"Gjörðu svo vel og góða skemmtun\" með bros á vör. Þú ert með hnút í maganum. Þú rakst 3 manneskjur í dag en ferð samt út með konunni eins og ekkert hafi gerst. Björtu ljósin skína í gegnum þig eins og þú sért ekki þarna, bara draugur hversdagsleikans sem hverfur úr huga mínum innan skamms. ] [ Í konuveldi er ég og líkar það vel. Áður en langt um líður sálu mín ég sel. Hvert sem ég lít er kona á stjá. Samt veit ég að eina ég mun fá. Reyni að halda fókus og einbeiti mér. Horfi samt lúmskur og engin það sér. ] [ Allt auðævi heimsins getur ekki keypt mig. Samt er það spurning, hvað fæst fyrir þig? Verðið verður sanngjarnt og allir á því græða. Samt er það spurning, hver í þig mun blæða? Þú ert mjög góð kaup og hver maður við þig sáttur. Samt er það EKKI spurning, fannst þér þetta góður dráttur? ] [ Það sem þér er sagt, því áttu að hlýða. Annars skaltu halda kjafti og læra góði að bíða. Ekki skaltu blóta mér því þá færðu kenna á því. Svo þú skalt halda kjafti annars færðu hnefa augun í. Þú skalt ganga vel um gólf og þrífa sjálfur þinn skít. Svo góði besti haltu kjafti annars í kinn þína ég bít. ] [ Hugur þinn er varinn eins og riddari í brynju, ónæmur fyrir orðum mínum og tilfinningum. ] [ Veturinn nálgast og leggur hvíta ábreiðu ofan á líf mitt. Gróðurinn fölnar ásamt andlitum fólksins á götunni. Eins og hvalur sting ég mér ofan í hafdjúp drauma minna og bíð þess að vori á ný. ] [ Dagur kveður, fellur sól að sjávarbrún. Rauðleitur himinn lýsir upp myrkrið og leiðir mig í faðm þinn á ný. ] [ Berjaferðin: Þau brugðu sér í berjamó að vanda og býsna mikið tók honum að standa því að útum allar lautir og móa hann ætlaði á Ingibjörgu að róa. Hann lagði hana í laut eina mikla og limurinn fór þá allur að sprikla. “Æ, leyfðu mér það aðeins fyrir oddinn því mig er farið að taka svo í broddinn!” En ungmeyjan þá um fór að brjótast. “Ekki skaltu uppá mig skjótast og þótt þú brýnir bísefann betur þá breima verð ég aldrei í vetur!” Svaraði ung þannig fyrir sig: Ljótur þó að Simbi sé samt er annað verra. Gerir oft að öðrum spé enginn vill þann herra. ] [ Þú sagðist ætla að vitja mín þegar þú værir kominn til himna, bara í annari mynd en ég væri vön. Samt kvaddi ég þig með tárum. Þá sagðir þú glettnislega og ég man það svo vel: \"Af hverju að kveðjast, þegar við hittumst alltaf á ný\". ] [ Af gólfinu glögglega má sjá þau gæfuspor sem mennirnir þrá fara holu einu höggi í finna týnda sveiflu enn á ný teinréttur, nýslegnu greeninu á ] [ Ég fer alltaf á mis við hvert lítið bros hvert lítið orð hvert lítið blóm sem þú tínir þú myndir hvort eð er varla þekkja mig aftur eða hvað? Mig verkjar svo í hjartað og samviskan bítur mig fast fyrir þér er ég örugglega hver sem er en fyrir mér ert þú litla brosið, litla orðið litla blómið ] [ Líf mitt er bitur bikar bergi á, bragð er vont Von um ást, von um losta, von um von. Óðar kulnar vonarneisti ] [ Ég hitti þig þú brostir voða sætt við spjölluðum um heima og geima en allt endar þetta á einn veg Mér finnst þú frábær.. verum bara vinir. ] [ Verða ekki alveg örugglega til ljósmyndir spennandi ljósmyndir með frægum og næstum frægum eða sérstökum sögulegum aðstæðum fyrir ævisöguna þegar hún kemur út á bók. ] [ Ég sé varir þínar hreyfast og orðin falla á gólfið, köld og meiningarlaus. Tunglið baðar jörðina í bláleitri birtu næturinnar. Jafnvel döprustu hugsanir fá ljósglætu á slíkum stundum. Eitt sinn var mér þó sagt að tunglið hefði sínar myrku hliðar rétt eins og þú. ] [ \"Lífið er dásamlegt og bjart framundan\" af vínföngum er nú ekki snautt!!! \"Man livir bara kun en gang og málið er dautt!!!\" ] [ Sumir vilja líkja ástinni við eld. Af litlum neista verður mikið bál. En eldinn verður að glæða og eins verður að gæta að kertið brenni ekki upp. Dreirrauðir logarnir stíga lostafullan dans og geta lýst upp myrkrið, engu síður en stirndur næturhimininn, yljað manni og sviðið uns hjartað greipist í kol, og ekkert er eftir nema askan, öskugrár maður með öskugráa sál. Ást okkar fölnaði ekki. Hún var áþekkust rós sem er pressuð inn í bók. Þar er hún varðveitt, minningin, lifir einungis sem svipur þrár okkar og tára, reikul vofa bross sem er stirnað og okkar dýpstu tilfinninga, varðveitt í þurrum og stífnuðum blöðum. ] [ Þú ert svartur, þú ert bleikur, þeim er saman hver með hunda hausinn hengur. Fólkið í landinu býr, það á okkur snýr. Við ójöfn kjör, við viljum frið á jörð. Það er ei ekki satt, Það er frekar bratt. Við notum mikið smjör, Því ég vill ei ójöfn kjör. Sara Dröfn ] [ Geng á fótum, harðar fer, hoppa í hringi, glöð verð ég. Sara Dröfn ] [ Eigi ég brotna skal, frekar ég frozna í kal. Þurrís og miðnætti, Kubbar, kliður og læti. Sara Dröfn ] [ Með höndum geri ég allt. Jafn vel ver mark. Rita ég mitt mál, enda nota ég hendur þá. ] [ Lífið er demantur en flýgur hjá. Fuglar syngja, ég hleyp létt á tá. Ljósið flýgur hjá, elding snotur þýtur frá. Snigill liðast að hann þarf bað. Lífið hengur á priki, atað út í ryki. Margt að flytja, merki um svita. ] [ Hæ, ég heiti Sara ekki bara, ekki Harpa Sjöfn heldur Sara Dröfn. Ég æfi mark það er sko smart. Þótt ég kunni ekki að rappa kann ég að klappa, ég skal sko spila fyrir það er ég að lifa, áfram stelpur klukkan er að tifa. Skora í markið það er sko svaka kántrí, ég er í fínum gír ekki vil ég fíl. Við bökum kökur með að vinna sko stelpur því skulum við sinna. Ég vill enga köku heldur hreina skötu. Réttu mér greiðu þarf að hreinsa burt úr kantinum, þótt ég sinni störfum í markinu. Þið skuluð bakka það er happa, komið í vörn með kaffikvörn. Vertu ekki með stæla plís þarf að æla. Hlustið á mig ég meiði mig í tánni, við erum að tapa,hrapa niður á jörð. Guð minn góður ég er að gapa, guð skapaði mig og þig bombum boltanum fyrir kvöldhornið. Í mér eru í liði Sunna sem hertekur sviðið, leyfðu mér að dansa. Hey Fannsa Pannsa kanntu að dansa viltu dansa við mig, þú ruglar mig farðu niður til hinna. Ég ætla að vinna. Kraftur er í mér og þér við vinnum þetta saman þetta verður gaman. Ég er að rappa farið að klappa... hey hættið að klappa ég er að rappa. Sunneva og Heiður eigið þið greiður. Hey Solla ertu kannski Solla stirða viltu kenna mér að fara í splitt. Emma Klemma klemdu á mér hárið, sjáið hvernig hún fór með anskotans bálið. Þið hin eruð skrítin en enginn er skrítnari en ég þegar ég er farinn úr skónum farið þið að sofa þegar þið finnið lyktina af tánum á mér. Dögg er minn þjálfari, Mætti halda að hún væri kálandi karfi, eina sem hún seigir er 5 hringi annars dey ég. Hlunkumst við af stað, annars förum við í kaf. Læðumst burt í nótt ef hún verður kominn í kjól. Kuldaskræfa sem er að væla. Dögg Lára hvað ertu að pæla ??? Ég er búinn að rappa farið að klappa !!!!! ] [ Búi ekki hræddur er flýja undan mér og þér. Við þurfum ei hann að setja pakka saman og eta. Því Búi Andríðsson er hetja. ] [ Barnið sefur, barnið grætur. Þú þarft að hafa á því gætur. Þú ruggar því blítt í nótt, því þá er allt orðið hljótt. Litli drengurinn, alinn upp í heiminn sinn. Afi og amma eru til staðar, þó þér sé bara illt í maga. Elsku litli drengurinn lofi við þér heimurinn. ] [ Mamma mín, í heimin mig fæddi, ól mig upp og klæddi. Mundu orðin skýr ég elska þig móðir mín. ] [ Músin mín er agnar smá, hún er létt á við tá, hún tístir ótt og blítt, henni er einnig oft hlýtt. Sara Dröfn ] [ Draumahúsið mitt er krúttlegt og á við þitt Fæ ég póst þangað en enga skrattaanga. ] [ Súperdúberúber tölvan mín, hún er sko svaka, svaka fín. Svo líka skjá sem á glampar. og ein mús sem á tvo litla takka. Sara Dröfn ] [ Fjör og frík, skemmtihring, dansa, dansa. Fjör í sirkusbransa. Sara Dröfn ] [ Hann flýgur upp á þak það heyrist brak. Hann niður strompinn rennur, vonum hann ei rassinn brennur. Sara Dröfn ] [ Á himninum bjarta sérðu soldið sót. Þú munt allaf muna þetta brennuóp. ] [ Hinu megin við regnbogan sérðu litla skál, í henni er gullsins tá. Hún er mín en hana máttu fá. Sara Dröfn ] [ Hún lætur ekki segja sér, því hún ákveðinn er... Því skulu þið hlusta á okkur kveða... í endanum munu þið slefa... Amma mín er pæja fín, hún á ull enda prjónar hún alveg fullt, Sokk eftir sokk, peysu eftir peysu. Börn hún á... alveg syni 3. Dætur hún einnig á... lætur hún sig ekkert á fá... þær eru 3. Amma á mig prjónar... sjáið bara sætu skónnna... amma ekki roðna... sjáði bara skvísuna .. hún gerði á ykkur flísina... á laugardögum hún fer, upp í kolarportið... sjáði bara littla sæta glottið... Þú bjóst upp í sveit... ekki vastu að elta gamal geit... amma var að vinna... Pottþétt að spinna og spinna... því ertu svo ung?? þú hlaust að geta hlupið upp í Nýjung... Þú enn ert að passa börn... hraust og lætur engann segja þér... aumingja skapur.. ekkert spes.... nú hætti ég og kveð ... svo ekki þið frjósið í hel... ] [ Einu sinni var kona... hún átti heima í húsi... hún átti líka eitt sem hét.. kaffibrúsi... Hún var soldið smá en hún var mjög klár... Hennar mottó var: Það getur verið erfitt að lifa... listinn er að skrifa... Leið nú tími hægur... enda var tíminn nægur... Stund eftir stund, mánuð eftir mánuð... viku eftir viku hana vantaði sykur... Það kom soldill fnykur... eftir nokkrar vikur... Svita lykt kom... enda var það líka von... Örinn fer upp og niður... vonadi flýgur hún enhvað suður... Vonadi sefur hún enhvað í nótt... þið verðið að hafa hljótt... ] [ Tónlist er eðli, en verður hún eithvað verri? Þú hlustar og hreyfist, í takkt við tóninn og syngur með. Þetta er í lagi lífið byrjar með glæsibragi. Þú hefur gaman á því að hlusta, en hvernig væri að stoppa og hugsa. Hlustaðu á þitt hjarta, sýndu því þitt bjarta. Hlustaðu á sjálfan þig og segðu allt það létta. Hugsaðu; Hvað er betra en þetta ? ] [ Margt hefur drifið á ævi mína, en að segja frá því, tæki langan tíma. 14 ár er þó nokkur tími, en líði sá dagur á það líði. 14 ára barni er margt hægt að bjóða, ást þína en ekki svartsýni. Eftir hverju ertu að bíða, Drífðu í því, stundvísi er gullsins virði. ] [ Pabbi er góður vinur minn, passar upp á allt, meira að segja fljótið kalt. Hann les mig í svefn á kvöldin, býr um rúmið mitt um morgunin. Sér til þess að mér vegni vel, Sendir mig í kirkju hvenær sem er. Hann passar allt og alla, ef honum vantar hjálp hann á englana kallar. Hann minnir mig á guðinn minn, hann réttir mér hönd og leiðir mig á rétta veginn minn. Því guð í lífi mínu er eins faðir minn. ] [ Halelúja hún er komin. Fædd inn sem bjartasta vonin. Bindur hnút á stríð, þá sést í birtuna, falleg og fríð. Hver elskar ekki systur sína? ] [ Ég er bitur vonin brestur, blæðir ört úr minni sál. í öðrum örmum ert þú gestur, önug sekt þín er sem stál. Tilgangur með tryggðarböndum, teigist út um stræti borgar. Blóðugur ert á báðum höndum, bæli ég niður kvalir sorgar. L.D.E\"82 ] [ Hefur þú heyrt þögninna svara. Hefur þú fundið hve svarið er þýtt. Hefur þú heyrt þegar augu hans stara. Hefur þú fundið hve barn þitt er blítt. Hefur þú hlustað á breiskleikann hrjúfann. Hefur þú fundið að sólin er hrygg. Hefur þú hlustað á draumfarann ljúfann. Hefur þú fundið hve ástin er stigg. L.D.E.\"72 ] [ Áður en lífið rennur úr greipum mér líkt og sandkorn, ætla ég að sigra heiminn. Rétt eins auðveldlega og bróður minn í ólsen ólsen. fyrir 10 árum siðan. ] [ Ég fann fjársjóði í sálarkistu þinni. Vináttu, von og kærleika, sem þú deildir með mér lífið út í gegn. ] [ Kattargulum glyrnum er gjóað inn í nóttina (og stundum eins og þær blikki hver aðra) bíðandi eftir þreyttum ferðalangi með logandi mælisljós til að geta sagt honum að kortinu sé hafnað ] [ “Baðar sig í brókinni bágt er þetta að skilja. Farðu bara úr flíkinni og fáðu þér stuttan Lilja.” “En heyrðu hjartans Doddi hér er enginn koddi og ef að er í þér leiði ég er með vörtueyði.\" ] [ Ég sat í strætó ásamt öðru fólki. Það hló og var hamingjusamt, ásamt vinum og vandamönnum. Ég gekk út úr strætó. Framhjá mér gekk fleira fólk. Allt var það brosandi og hlæjandi. Því leið vel og lifði lífinu. Ég kom heim til mömmu og pabba. Þau öskruðu og lömdu mig. Sögðust hata mig og vilja ekki sjá- mig aftur. Ég sat því úti í kuldanum, með tannburstann minn í hendinni, bíð eftir því að einhver gefi mér tannkrem. ] [ Guð segir að maður eigi að elska náungan. Þá á ég að elska þig, því vertu ávallt þakklátur, fyrir lífið sem Guð gaf okkur. Ég veit ég yrki mikið um Guð, en það er í lagi. Því hann lét lífið fyrir okkur bæði. Því nýti ég tækifærið til að yrkja um hann kvæði. ] [ Hvað á að gera? Sitja heima og kveða. Á eitthvað að fara út, eða ertu kannski morgunfúl? Þá mundi ég frekar vera heima, hugsa um eitthvað fleira. Þú lætur í þér heyra, ef þig vantar hjálp. Því hjá mér er ávallt, opið alveg upp á gátt. ] [ Við ábyrgjumst að þú munir upplifa eilífa sæluvímu með guði á himnum. Lagt verður af stað við sólarupprás frá BSÍ. Nefndin. ] [ Ástin er eins og viðkvæmt blóm. Hún þarfnast þess að hlúð sé að henni til þess að hún blómstri. ] [ Heyrir þú hrópin sem hingað berast? Ég er sannfærður um það að eitthvað sé að gerast. Við skulum frekar bíða en að líta forvitin út. Kannski er verið að binda fólk og setja á það hnút. Þetta er ekki okkar mál því skulum við sitja hjá. En ef þetta kemur nær skal ég fara út að gá. ] [ Seint verður sagt um mig að ég sé að gera það gott. Þó það snertir ekki þig þá hef ég gert margt flott. Ég er allra manna maður en gef oft lítið af mér. Því mér er illa við þvaður sem ég frétti frá þér. Gagnrýndu mig ekki við aðra segðu það frekar við mig. Því meira sem þú ert að blaðra er það hatrið sem mun eiga þig. ] [ Undir áhrifum sé ég drauga fánýtt drasl safnað í hauga. Litla stúlku biðja um mat meðan ég borðaði á mig gat. Sá kletta hrynja um allt falla einnig í vatnið kalt. Fólk með græna fingur grét og ég vissi ekki hvað ég hét. Litlir djöflar spúðu eldi meðan ég svaf undir feldi. Prestar hlupu með krossinn sinn og öskruðu \"Guð minn ég finn\". Himininn varð bleikur að lit vissi þá að ég hafði misst allt vit. Englar hófu að falla jörðina á og hjarta mitt hætti að slá. Stjörnur fengu munn og hendur og rifu upp allar hvítar strendur. Bóndi kom aðsvífandi með dauða kýr en vinnugallinn hans var nýr. Ég vaknaði inni hjá lækni sem prófa varð á mér nýja tækni. Hún væri það eina sem bjargað gat mér ég sá þá það sem engin annar sér. Svona fór því miður þetta allt ónýtt og við það að detta. Ég sæki brátt um gott hæli en með svona hugsunum ég mæli. ] [ Veðruð húsin í Tassilak sviðsmynd í spagettívestra Nukkurak spennir bóginn á fyrstu byssunni sinni Hann er tólf ára. Í gær batt litla systir hans hestahnút á þykkt reipi Og herti að. Hann fann hana sitjandi á hækjum sér ennþá haldandi um reipið Sólin skein gegnum skjáinn. Í Tassilak fá krakkarnir byssuleyfi tólf ára Þeir yngri deyja ekki ráðalausir. ] [ Þetta er ekki endilega spurning um tilgangs leysi-efni enda, þjóðbúningur Lettlands er YFIRLEITT, ekki... og ég sem hélt að ég væri að yrkja ljóð! ] [ Ef að ég væri pabbi mundi ég vera ég Ef að ég væri krabbi mundi ég vera ég Ef að ég hefði punghár mundi ég vera ég Ef að ég hefði græn tár mundi ég vera ég Ertu ekki með öllu mjalla drengur!? ] [ Við erum tvö ein alveg alein... ...með vinum okkar ] [ Ég var að labba meðfram ströndinni, fék k sa nd k or n í augað ] [ Útvarpið hringir, eða var það síminn? Allaveganna... ég tek það upp og hoppa, eða svaraði ég? Allaveganna... röddin talar við mig í símann, eða var það útvarpinu? Allaveganna... ég hlusta ekki neitt en tala bara, eða var það öfugt? Ha... ég man það bara ómögulega, eða hvað? ] [ Þessa ást er ég búinn að finna, og fyrri henni er ég búinn að vinna! Það er eins og ég sé búinn að spinna og spinna. Og nú er garnið búið, það verður ekki aftur snúið. ] [ Hálfir dagar heilsuðu sólarhringum saman brunuðu á burt á vetrarbraut útí buskann týndust töpuðust síðan tók Guð mig í fangið og merkti mig líktog forðum er ég festi blómið gleym mér ei á peysuna þína. ] [ eittsinn bar fyrir birtuna undarleg norðurljós sveiflaði slæðum sínum uns það stóð eftir nakið í allri sinni fegurð í allri sinni visku síðan þá hefur hinn fagri félagi aldrei horfið og loks nú nýtur dagsbirtan sín til fulls. ] [ Hlustið! hann þegir hinn illi og er orðinn skar Guð minn tók stafinn er kúgarinn bar í Babýlon borg ánauðar. Heyrið! hann lagstur er lágt í Helju fordæmdrar Guð minn tók stafinn sem kúgarinn bar í Babýlon borg ánauðar. Jörð mín! í friði þú skalt ég gef þér mitt svar ég molaði stafinn sem kúgarinn bar í Babýlon borg ánauðar. Tré mín! gleðjist þið nú Drottinn allsherjar hann sprekaði stafinn sem kúgarinn bar í Babýlon borg ánauðar. Guð minn! þú hreinsaðir burt með sópi eyðingar þú molaðir stafinn sem kúgarinn bar í Babýlon borg ánauðar. Jörð mín! í friði þú skalt ég gef þér mitt svar ég molaði stafinn sem kúgarinn bar í Babýlon borg ánauðar. ] [ Siggi Sigg var ekki gamall Siggi Sigg var frekar ungur er hann fannst í hafsins slýi með hausinn fullann af köldu blýi. Siggi Sigg var ekki gamall Siggi Sigg var frekar ungur er sendur var hann seint í rúmið og sólin hvarf í dökka húmið. Elsku Siggi þú ert sætur sér í lagi um dimmar nætur ég hef á þér miklar mætur má ég glenna í sundur fætur? Siggi Sigg var ekki gamall Siggi Sigg var frekar ungur er hann fékk sér fyrst í nös frosinn útá ystu snös. Siggi Sigg var ekki gamall Siggi Sigg var frekar ungur erann kýldi einn til dauða aðeins fyrir blóðið rauða. Vertu þægur engar þrætur þú átt engar minnstu bætur Siggi er ekki lengur sætur sama hversu mikið grætur. Siggi Sigg varð ekki gamall Siggi Sigg var frekar ungur er hann fannst í hafsins slýi með hausinn fullann af köldu blýi. ] [ Set ég út vængina, flýg til þín. Breyði yfir þig sængina. Þú ert svo sæt og fín. Þú ert sólinn sem skín, því geislar þínir ná til mín. Ég er verndarengillinn þinn, kallaðu, ég kem til þín. Sama hversu lágt þú kallar, ég verð til staðar, sama hvað þig vantar. Opið er hliðið upp á gátt, gangtu inn. Þú þarft ei að hafa lágt. ] [ Sársauki sérðu þokuna hinu megin við álverið? Sérðu menninguna dala hverfa inn í einstaklinga heiladofin og sár. Fólk þorir ekki lengur að hugsa, finna, vera til... miðaldir á ný. Landinn rennur út í sjóinn og hverfur menningin lifnar á ný eins og æðakölkuð kerling sem hefur gleymt hvað hún heitir eða hver hún er. Gleymt og þorir þess vegna aftur að hugsa, finna og vera til. ] [ orð stutt í spuna kveðja höfði kinkað kolli kaldur kaffibolli og dáið ljós á sprittkerti bless bæbæ svo blöktu gardínur og marraði í garðhliðinu ] [ Þögnin veldur þrá vonin enga miskun fær, himinn fellur ofan frá í sárið sem aldrei grær, tómin öll í sárin ná, bæði í dag eins og í gær. ] [ Gleði, grátur mikil læti barnið er með sár á fæti. Röddböndin fóstran þandi meðan börnin léku í sandi. Detta, hlaupa lóðinni á öskra \"reyndu mér að ná\". Eitt barn leikur bráð sem ljónið hefur náð. Leika, ímynda sér mikið byssan er skítuga prikið. Í garðinum er risa höll og undir henni er tröll. Stara, eru við lífið sátt í feluleik kalla \"þú mátt\" Í sandinum má finna skel sem þau passa svo vel. Horfa, hlaupa foreldranna til gera deginum við þau góð skil. Í dag lærðu börnin nýtt lag vita að þau koma aftur næsta dag. ] [ Ég hef hér verið að skoða, svo margt að valla sé hægt að orða. Svo flott ljóð, svo margt að sjá. Orðum hér valla er hægt að tjá. Ég gæti setið hér nótt sem dag. Skoða þetta ljóða-flóð ég aldrei fæ af þeim nó. ] [ Stendur þú úti á hlaði, ný kominn úr baði. Líttu upp í himinin, því þú ert góður vinurinn. ] [ Flestir elska makana og leggja sig í líma að láta vel við þá svona í einhvern tíma!! Síðan fer grimmdin mest að ráða gerðum. Gefinn er skítur í þótt hætta sé á ferðum! Því þarf ekki að undra þótt illa gangi oft og öllu hjónabandinu sé spilað uppí loft! Ógnarstjórnir troða líka einkalífið fótum því ólögin valda því hörmungum ljótum! ] [ Við bláar tjarnir felldu ljósgeislarnir tár. Á rauðu dúnsænginni bærðust orðin í bylgjum. Þá leit ég upp til himins og sá: Að stjörnurnar höfðu dofnað og tunglið hafði glatað tilgangi sínum ] [ Líkt og daggartár sem fellur af grænu laufblaði, falla tárin af himnum, eitt af öðru. ] [ Ég málaði á mig annað andlit með litbrigðum lífs míns. Mjúkar strokur þöktu skugga fortíðarinnar með ljósi og litum, uns ég horfði á móti heiminum, með falsað bros á vörunum. ] [ Sætleiki loftsins, lækjarniður í fjarska, ómur fuglanna, bera í burtu áhyggjur þínar og sorgir. Aldan sem fellur við fjöruborðið, svæfir hugsanir dagsins þar til dagar á ný í huga þínum. ] [ Líkt og regnið sem fellur af himnum falla orðin af vörum mér inn í huga þinn. Orðin sem falla af vörum mínum og næra huga þinn og sál einn þungbúinn dag er andlit þitt speglast í augum mér. Þar til himnarnir opnast og sólin umvefur þig birtu sinni og yl. ] [ Sæl og blessuð Fjólan mín frækna!!! Með freknur sætar og hárprýði rauða! Kanntu ekki að snara fola framsækna og fá síðan höndlað moldríkan kauða? Sköllóttan fískan sem skaffar mjög vel. Skrögg svona gerðan vel náttúraðan tel. ] [ Eins og blóm spretta orðin upp af akri hugmyndaflugsins, uns við hefjum okkur til himins og dönsum sigurdans í skýjunum. ] [ Hún Arnleif er ævilega sætasta gellan og allir karlar þrá að laust hún sig girði!!! En Gunnar bara ólmur sýnir henni sprellann en sá er líka talinn vera hverrar tommu virði! ] [ Lokum augunum og göngum fáein skref upp sólargeislana. Fljúgum á vængjum vindsins um himinblámann. Rennum okkur niður regnbogann. Hverfum inn í fagurblá norðuljósin þar til við opnum augun á ný. ] [ Í blómhnappi rósar er fólgið fyrirheit um fegurð lífsins á gullnu augnabliki. Þér birtist þar Guð í blómsins mynd sem brosir þér mót í vegarins ryki, ] [ öll þessi augnablik á meðan við lifum ] [ Þegar árin færast yfir með ró sinni og spekt, skilja þau eftir minningar í hugum okkar. Þar til við sjálf eigum aðeins tilverurétt í hugum þeirra sem eftir lifa. ] [ Ég sakna þín svo sárt, mér finnst ég eiga svo bágt. Í tönnunum finn ég til, en ei vill ég fara til tannlæknis. Ef sturtað sé úr minni fötu, það mætti finna rusl á þeirri götu. En ég fæddist hér með tilgangi, en verð ég að lifa svo upp það gangi. Lífið er eins og einn stór áfangi. ] [ \"Ég held ég sé þunglynd....\" ] [ Birtan faðminn breiðir sinn um breiðan himinn gráan litir virðast ljósari en langa sumardaga Fellur regn af himni hljótt og heyrist varla í því blautar götur, gangstéttir en grasið flytur angan Lyktin vitjar vitanna er veik en fangar hugann hægur andar andvarinn af úthafinu dimma Fæðast þennan fagra dag og falla á öðrum líkum fyndist mér og fleirum að það fengist ekki betra ] [ Hvers vegna 68? ..var það neysluæðið? ..var það gróðabrallið? ..var það ósanngjarnt stríð? .. var það skilningsvana stjórnsýsla? ..voru það heimskir stjórnarherrar? Ef þá, hvað nú? ] [ No one knows how lost u can get In this big world of words I’m so blinded be the trees I can see the forest My head looks fore feelings I can spell And I wonder, will I ever be like u Will I ever see things ur way Hoping fore understanding I get none, thrown a way Like yesterdays news The story of my life Wrongly spelled The mind of a dyslexic ] [ Rómantísk Reykjavíkur rigningin gælir við götur og gluggann minn. Leitar nú heillaður hugurinn til manar er missti ég víst um sinn. Gangljósin glitra í malbikinu eftirgerð borgar af blikinu er lifir svo sterkt í augunum hennar. Fegurstu stelpunnar, ástarinnar minnar. ] [ Sú er ekki að sitja kyrr, syngur í moll og fís, öskrar svo sem aldrei fyrr, eins og stunginn grís. ] [ Allar þær konur sem hafa elskað of mikið bera marið hjarta í brjósti sér. Framtíð þess sem ber of þunga sögu er bleksvört, og blindgatan ein. Of marga hef ég elskað, og of marga hef ég sært. Á herðunum hvílir óbærilegur þungi. -Því okkar saga er öll. ] [ Menn arta tíðum prump og piss og pæla ekkert í hvernig fer. -Það er ekki nóg að vera viss, maður verður að vera ,,sikker”- ] [ In the sky i can see your name is written, with so much love but still so bitter . Sitting here alone thinking of u and the time we had, so good so true. May god give u the power to leave this earth and spare no love in your new birth, to be overtaken by love and understanding and the flight from now on has a softer landing. I think i am selfish for not letting u know that trough my childhood i wanted to show that there is much more love in me than hate but i guess that´s how it works, fate! I have so much to say dad if only you knew how much i´m sad i feel so empty without you hopelessly empty and that is true. You gave me this life to live it in peace still nothing but war and hate that´s released, i want you to be here and help me grow up to be the little girl that loved you so much.. Dad, if only you knew how i feel crossed mind and heart of steel i´m told to be strong i´m told me hang on. Dear dad, i love u so much, take care ] [ Höfuðið vill ekki sofa Svo margar sögur að segja frá Allar þær vil ég gjarnan hlusta á aftur og aftur Vandamálið er að yfirmanneskjan heldur að ég sé fylliraftur! ] [ Kettirnir sem mala hátt hvæsa, mjálma kela -ef þeir væru mennskir menn þeir myndu ræna rupla stela ] [ Undarlegt hve allt er skrítið hugsa flestir virkilega svo lítið? Hvað er að ske? Hvað er að ske? Hvað er að ske? Er hausinn á ykkur gerður úr tré? Kennarar í dái verkfalls liggja og bráðum fer að skyggja. Þeir ætt\' ekki að þurfa ölmusu að þiggja. -Hafa börnin eitthvað gott að tyggja ...eða horfa þau á Paradise Hotel á Skjá einum? Ráðamenn ýmist liggja í leynum -eða standa upp á ísjaka einum. Bera á sig Parísarkrem og eru hressir, þangað til einhver á ísjakann klessir Því alla þá ég hem hér ég kem! ] [ Hvers vegna glitrar jafn mikið á silfurfægða limósínuna og hinar geislameðferðarmeðhöndluðu tennur forsetans Á meðan lyktar af líkum í Írak? ] [ Ég hef vakað og sungið í 10 nætur spilað á munnhörpu ekki haft á mér gætur er ég ekki sætur? þú næstum grætur Hefur á mér mætur mætur mætur Ég læt mig fljúga hættu að ljúga Reyndu frekar sannleikann að sjúga. ] [ Ég vaknaði í hvítu og allt í kringum mig var fiður -skildi ekki af hverju froskurinn sem synti fram hjá mér var doppóttur Ég ákvað að stíga á fætur En sá ekki neitt fyrir fullu fólki fróandi farsímum ] [ Á Fjólugötunni heldur hús. Heillast allir af Snúbba lús. Komi snúður á Snússi mús, Snúður lús er í arma fús!!! Yfir færast árin skjótt. Árið fyrsta er liðið nú. Á þér ástarinnar gnótt allir hafa og mikla trú. Vertu alltaf vinur minn vandaður hvar þú ferð! Háll er þessi heimurinn og hæpin flónsku gerð! Bestu hamingjuóskir frá nafna afa! ] [ Einhvern er að gráta ég heyri það hingað inn. Kannski er það lítil hnáta sem þráir að sjá himininn. Hún situr, þerrir sín tár horfir upp en sér bara ský. Þar blasir við skýjaveggur grár en ekki sólin bjarta og hlý. Hún þarf ekki að gráta því himininn fer ekki neitt. Veðurguðirnir eru stór gáta og einir geta veðrinu breytt. ] [ ég hugsa um þig alla daga og nætur og um hve sárt ég sakna þín það er sem frost í hjarta mínu sem þiðnar ei þó að bálið dvín. afhverju það gerðist veit ég ei lengur vill bara hafa þig hérna hjá mér ég sakna þín alltaf meira og meira og vil segja þér hvernig það er mér finnst að heimurinn meg\'ekki taka meira af þér frá mér að alltaf þú vitir hvar sem þú verður að partur af mér verður alltaf hjá þér ég vil líka minna þig á hvað ég meina um hvernig mér líður með þig að alltaf já alltaf þú eigir að vita að ég elska þig meira en ég skil ] [ ef viðkvæma sál þú hefur sem alltof mikið gefur þá verður þú að vita hvenær skal segja nei gerðu það nú fyrir mig og hugsaðu um sjálfa þig því lífið er enginn leikur en ef svo er þá rosa heitur þú verður líka að muna í samband hratt að buna ef manneskjan er feitt að ljúga þá skaltu tippið ekki sjúga það er annað sem ég vil á milli okkar ekkert bil ef eitthver segir þér að þegja þá veit ég alveg hvað ég mun segja í fyrsta lagi myndi ég brjálast og orðaforðinn minn mun klárast sérstaklega ef það er Siggi Fann sem nákvæmlega ekkert gott kann hann veit ekkert í sinn haus og þegar hann talar þá kemur bara raus ég skil ekki hvernig hann sér þig ekki hann greinilega ekki gott fólk þekkir. ] [ þegar ég horfi á augun þín og þú horfir til baka á mín þá líður mér vel og ég brosi þegar þú svarar mér með brosi þá hugsa ég að varirnar tosi þá líður mér vel og ég brosi mig langar að knúsa þig og kyssa og aldrei á ævinni þig missa þá mun mér alltaf líða vel og hvern þann dag ég brosi. ] [ þegar þú brosir fyllir þú hjarta mitt af þrá þegar þú brosir ærist ég af gleði þegar þú brosir þá brosi ég. ] [ Ást mín til þín er ofsalega mikil hún flæðir um hjarta mitt eins og óstöðvandi flóð ég ræð ekkert við það en ég elska þig. ] [ sjórinn er blár líkt og mitt tár sem kemur því að þú segir ei \"i love you too\" steinninn er grár og ég er sár því að þú særðir mig en ég elska þig blóð mitt er rautt en hjarta mitt er dautt því að þú særðir mir en samt elska ég þig hatur mitt er svart líkt og gólfið er hart þar ligg ég nú samt eins og mér er vant. ] [ hvað hefur þú nú að segja sem fær mig til að langar að deyja aftur og aftur þú gerir þetta og lætur mig alltaf neðar detta mig langar að þú elskir mig líkt og ég mun alltaf elska þig alltaf mun ég gera það alveg sama hvað. ] [ we love we die we forget to say goodbye we live we cry we paint the blue sky we feel we hate we laugh at our relate we hurt we miss we want a goodbye kiss. ] [ ég veit ekkert um þig en samt þú fórst uppá mig fullur varstu en ekki ég ég ditzaði vinkonu mína kötturinn Ormur horfði á meðan buxurnar flugust á ég ætlaði að biðja um númerið þitt en ég gleymdi því SH*T nú get ég ekki við þig talað og forvitni minn verður ei svalað ég þarf að spyrja þig spjörunum úr því heima hjá þér ég fékk mér lúr. ] [ 2 be 2 love 2 be 4 you when you die 2 be with you everytime because you are my life. ] [ i hate the way you look at me i don\'t know what you\'re gonna see am I too ugly for your friends I\'m dealing with a lot of ends Can\'t you just leave me alone I\'ve never broken any bone so I\'m not going to let you rule breaking my heart was not so cool I hate you and I want you to see what you are making me be i hate you, i hate you, i want you to die this was my message F*ck you and bye ] [ þú fékkst þér að ríða og skildir mig svo eftir fórst til Danmerkur ég þér mig merkti þú varst svo lengi og ég saknaði þín svo komstu aftur ég vonaði til mín ég sendi þér sms og fékk alveg kast er ég fékk svarið \"ég er eilla kominn á fast\" ég hataði þig en meira hana og ætlaði mér að verða ykkur að bana en það gerði ég ekki og núna er mér sama því þú sagðir henni upp og ég er dama hún er hætt að borða og sefur ei neitt en það skiptir engu lífið er feitt. ] [ \"where are you?\" \"why aren\'t you here?\" \"when are you coming?\" I drink another beer \"hello you haven\'t come..\" \"I miss you lots\" and I drink few vodka shots. \"goddamn you motherf*cker, you didn\'t show up! I hate you and this life, F*CK\" this story ends with a little girl lying on the ground dying. and her last questions are on his phone waiting to be answered but she can\'t hear a tone there she lies that little girl no one finds her and her pearl. ] [ I love you like the sky all blue and no lie I hate you like the grass you really are a dumbass I miss you like the snow never there you have to know i want you more then life and I hope to be your future wife I can\'t held it talk gobberish love me that\'s my wish ] [ afhverju gerið þið mér þetta? afhverju látiði mig niður detta? afhverju gefið þig skít í mig? afhverju langar mig að rífa ykkur úr lið? afhverju vantar mig að gráta? afhverju sit ég hér ein? afhverj\'er einsog ég hafi brotið öll bein? afhverju kemur enginn að hjálpa mér? afhverju hugsar enginn um hvar ég er? afhverju langar mig að deyja? afhverju líður mér svona illa? afhverju er ei kát stelpan litla? afhverju snúa þær bökum í mig? og hugsa bara um sjálfa sig? afhverju hata þær mig?? ] [ geturu ímyndað þér hvað þú ert að gera mér alla daga þú rakkar mig niður og ég dey að innan því miður þú hrindir mér niður í djúpar holur og enginn upp hjálpar mér allir hlust\'á þig, helvítis rolur þau vita ei hvernig það er ég féll fyrir aumingjaskapnum ég féll fyrir hvernig hann er ég féll fyrir, ég datt um ég féll fyrir aumingjanum þér. ] [ elsku litla mamma mín alltaf áttu blómin fín ég veit að við rífumst ég veit að við sláumst en það er hægt að bæta og hvor aðra kæta það er erfitt það er sárt en vonandi skiluru einhverntímann ég er ekki stelpan litla sem bara þurfti að kítla vandamálin ná dýpra vandamálin eru stærri láttu mig stundum vera það eitt þarftu að gera þá jafna ég mig þá róa ég mig þú skilur þetta vonandi einhverntímann. ] [ hafið hvíslar uss uss uss ekki flýja burt burt burt heyri ég ei þinn hjartarslátt frá frá því nú þarf mátt brátt er ég sátt. ] [ Baldur, Baldur ástin mín úr hjarta þínu hlýjan skín þú iljar öllu er nálægt er ef allur heimurinn gæti séð ég elska þig svo ógurlega mikið að ég gæti hjartað úr mér slitið þú ert mér allt sem hugsast gæti elsku ástin Baldur sæti. ] [ you know I love you you know I care think about all those things we share remember me now forget me never and we will be good friends forever ] [ Ástin hún gefur en þú ekki hefur af þér er þefur sem liggur útum allt þar liggur lítill refur á meðan tófan sefur kónglóin vefur á meðan lygar þínar dreifast eins og vont veður sem eydileggur leður á hjarta mínu treður andskotinn þú! er skrítið að hann Seifur hafi verið leiður og líka mikið reiður eins og ég er þér? ] [ afhverju gerir þetta alltaf mér líður eins og ég sé föst í snjó og það er alltaf kalt þar þú segir ekki við mig hey mér þykir vænt um þig heldur hummar bara og lokar augunum heldur að mér líði eitthvað vel ég reyni að vera góð þegar ég vek þig en þú segir \"þegiðu og hættað bögga mig\" hvað á ég að hugsa þegar þú ert alltaf að slugsa mætir ekki á réttum tíma því að klukkan hættir ekki að hringja í þínum síma ég vakna við það og get ekki sofnað aftur á meðan hrýtur þinn stóri kjaftur prófaðu einu sinni að vera góður við mig en ég mun samt alltaf elska þig! ] [ fyrirgefðu að ég fór frá þér ég gat ekki tekið þig með en þú veist að ég þig dýrka og dái eins og fræ sem sjálf jörðin sáir. ] [ Viðinn í andanslíkama er alheimurinn víður, þar vindurinn kveður oft nöpur ljóðin sár. En ljúft oft sól upp rýs og í varma líður, ljúfsárt þerrir burt hin beisku tár. Í veröld með krossi hans mér læðist viskan, og víðan skilning á kvölum Jesú Krist. Yfirþirmandi dafnar í heimuinum illskan, og illræmd sár þín Jesús,ég vildi kysst. Er sólin fögur um veröld í gleði skín, og sveitir jarðar,tóna sitt þögla lag. þakkir Jesús, sú fegurð er vegna þín, með þjáningum á krossi þú gerðir allt nýtt einn dag. L.D.E \"05. ] [ Það var um daginn sem ég stóð úti á túni. Það var mikill úði, svo inn ég flúði. Þegar inn ég kom var mikil von að ofninn væri í gangi. Svo hljóp ég í móðurfangið. Hjá móður minni á ég stað. Þar er heitt. Þangað ég leita, þegar lífið er leitt. Þegar tár ég felli þá kemur móðir mín í hvelli. Opnar arm sinn og hleypir mér inn. Hún kyssir öll bágtinn á og græðir með því öll mín sár Ég lít upp til hennar án hennar mundi sál mín brenna. Hún eldar góðan mat, svo góðan að ég gæti etið á mig gat. En sauma mundi hún strax í það. Hún bætir upp allan missi, kinnina á mig hún kyssir. Í henni átti ég heima, svo kom ég út, hún þurfti mig að skeina. Skal ég sko aldrei því gleyma. Mamma er minn besti vinur, því ávalt hún mig best skilur. Mundu bara móðir mín ég elska þig, sama hvað á dynur. ] [ Ég stekk fram kem með tillögu sem allir hafna strax. Geng fúll í burtu fæ mér kaffi og spái í spilin, stekk fram kem með tillögu sem allir hafna strax. Klóra mér í hausnum horfi á Esjuna spyr hana um lausn en hún svarar ekki, fæ mér kaffi, svart að þessu sinni. Ég stekk fram kem með tillögu sem allir hafna strax. Fresta fundinum og fer heim þar sem fjölskylda greiðir atkvæði hvað eigi að vera í matinn, ég kem með tillögu sem allir hafna strax. Það vill enginn semja við mig þrátt fyrir góðar tillögur. Öll þessi græðgi og frekja endurtekur sig alltaf. ] [ Opna dósina og við mér blasa hvítar perlur hafsins, liggja svo róglegar í vatni, eru samt sáttar að sjá ljósið ég skelli þeim á volga pönnuna og þær dansa tangó. Ég hef ákveðið að blanda við þær karrý og um leið kynnast tveir ólíkir menningarheimar. Sé hvernig þær miðla málin karrýsósan og fiskibollurnar, það eru ekki til fordómar á pönnunni og allir tilbúnir að prufa eitthvað nýtt Í pottinum á hinni hellunni eru hrísgrjórn sem eru græn af öfund, þau skoppa til að sjá ofan í pönnuna. Áður en maður gat dregið inn andann var öllum þessum ólíku menningum hvolft á sama disk og þá má segja að Asía og Evrópa hafi mæst og endað stutt en gott samstarf. ] [ Ef ég hefði vængi myndi ég fljúga inn í hugsanir þínar og mála á þær brosandi sólskin. Ef ekki pínulitla mynd af sjálfri mér, Ja svo þú munir mig. Því ég elska þig örlítið, þú veist. Ef ekki meira en þú heldur. ] [ Þar sem allt sést er enginn friður. Þar er allt svo opið og enginn mannasiður. Menn blóta og ragna berja, bíta og klóra. Þar sem allt sést er alls engin glóra. ] [ Það sem er á botninn hvolft hellur þú niður á þig blótar sjálfum þér fyrir að tekið svona til orða og að hafa leikið orðatiltakið eftir. ] [ Ég trúi á lífið og sem því fylgir samt er ég með efasemdir sem stöðva geta mig Ég las það í bók að lífið væri plat og við værum þrælar sem engin vildi eiga nema Guð hann keypti okkur á uppboði og bauð víst betur en Satan sem fær þá sem Guð vill ekki fá það má því segja að Guð velji bestu bitana og sendir draslið niður ] [ Í litlu rjóðri einu bjó agnar lítill maður, hélt á sverði beinu og var sæll og glaður. Hann var lítill sem peð en var sterkur sem naut, í orrustu fékk að vera með og heiðursorðu hlaut. Þessi litli maður aldrei dó og lifir en vel í dag, en dag einn fékk hann nóg settist niður og samdi lag. Í rjóðrinu má heyra það þar hann spilar og syngur, aldrei um höfundarlaun bað en lagið í hjarta manns stingur. ] [ Sumir segja að við séum eitt en reyndar erum við tvö semsagt 1+1 eru 2 sem þýðir að við erum ekki eitt, engin getur sannfært mig um þetta. Hef aldrei verið góður í stærðfræði en veit að 1+1 gerir 2 ] [ Ég veit ekki hvernig hún lítur út En ég veit hvernig hún hugsar Hún læðist í hugum margra manna með greindinni lætur hún flesta þjást Hún bítur fólk af einskærri illsku og drepur stundum, ef ástæða er til, en hatrinu beitir hún þó mestu á mig! Þetta bitnar mikið á þig því þú verður einnig fyrir hatri Hún fer á bakvið það og læðupokast einsog myrkrið í sólinni og sólin í myrkrinu, Þú hefur notað hana Ég hef gert það einnig Allir hafa notað hana og hún styrkist með degi hverjum, gýtur af sér afkvæmum og verpir þeim í huga lífsins Nei þetta er ekki kvenmaður, ekki könguló heldur, Þetta er reiðin í sinni fullri mynd sem oftast er þó kveðin niður Hún hefur áhrif á alla, Mig, þig, hana, hann og lífið með sína tilveru. ] [ Er ég sé tár falla niður vanga þinn brest ég í grát, Ég sé augu þín í flóðum, ég veit að þau, þerrast ekki brátt. Er ég heyri kjökrin í þér, kjökra ég sjálf, Ég finn hjarta þitt í molum- hvað hef ég gert? Ég ætlaði bara að gera allt betur, ég ætlaði ekki að leyfa þér að þjást lengur. Ég vildi þér bara allt gott, Þú veist að ég er alltaf vinur þinn Þerraðu nú tárin- vinur minn Ég afber ekki lengur- vinur minn Að sjá þig svona leiðan- vinur minn. ] [ Ef ég myndi efast um þetta litla líf þá myndi það deyja og ferðast í paradís Paradís er betri staður en hérna hjá mér þar sem ljósið skín svo skært í Paradís Ljósið er allt slokknað hér hjá mér ég get ekki elskað ég get ekki þráð ég get ekkert annað en kvalist af ástarþrá Ég hef efast allt of lengi allt verður slokknað brátt nú svífur þetta litla líf upp í paradís Ég sit hérna og hugsa ég hef drepið sjálfa mig lítil saklaus stúlka horfin fyrir fullt og allt ég tók mitt eigið líf vitandi um það, að lítið barn bjó sig undir það að komast alla leið en nú hvílir það hjá mér kúrir, sefur vært og hljótt Barnið er óhult í Paradís með mér ] [ Inní mér logar eldur sem enginn kannast við hann brennir úr mér sálina lætur hjartað kippast til Ég framdi nokkrar syndir sem láta eldinn bjarta brýna hnífinn hvassa sem skilur svo eftir sig ör Inní mér logar eldur Sem enginn kannast við Þetta eru reiðitaumar Sem brjótast óðar út Skaða allt, skaða alla skaða það sem fyrir fer Óstöðvandi rýkur hann áfram í mannsmynd með aðeins eitt í huga Að tortíma mér ] [ Ég hélt að þú ætlaðir að fara, pakka niður, hætta að svara Þú sagðir ekki einu sinni bless, hvorki við mig né vini þína, Það var mér að kenna að þú fórst, Mér að kenna að þú dóst Ég horfði uppá besta vin minn deyja, Bílinn keyrðir af einskærri reiði Þú fórst hratt út af mér þetta var mér að kenna, Og er ég steig út, sá ég bílinn kremjast Ég hljóp svo hratt, eins hratt og ég gat Sjónin var varla fögur, mér leið ekkert vel Svo leit ég upp, sá þig anda Augnablikið fékk mig til að standa Með einhverja von um þig á lífi Hélt ég af stað til að losa þig út, Ég man það svo greinilega, Orðin voru forðaðu þér burt En ég hélt áfram án þess að heyra Án þess að sjá, án þess að taka eftir hvað státaði á En mér tókst það, að bjarga þér út, Hljóp svo aftur í bílinn, tók lykillinn úr, snéri mér við og sá eldinn krauma, Fann þessa voða heita strauma, Ég man svo greinilega að þú kallaðir til mín: Komdu strax, eða að þú brennir inni. Síðan heyrði ég stóran hvell, heyrði brakið bresta, Fann það falla ofan á mig, Með lykilinn í hendi mér skreið ég út heil á húfi, ágætlega heil. Þá sá ég vin minn fella tárin, og svo sá ég mig í flakinu bjarta Logandi svo að ég byrjaði að gráta Svo sá ég að ég hreyfðist, það var verið að draga mig út Opnuð var höndin, Í henni var far, Það var lykillinn sem ég tók með mér Það var lykillinn sem bjargaði mér, Það var lykillinn af himnaríki, sem tók aðeins sjö skref. Nú er ég geymd í hjarta þínu heil á húfi, með svart lyklafar í lófanum. ] [ Fljúgandi veröld án flautandi froðu sem slettist til og frá og sogast í saltstangirnar svo verður allt ljótt alveg afskræmilegt að prestar og kóngar beygja sig niður og biðja þess að vera ekki til því ekkert er gott í þessari sælgætisbúð nema leyndardómur lífsins ] [ Í eitt andartak eitrast hugur minn Og ég eigra þarna um, Í hugsunum, Sem hafa engin takmörk. Í eitt andartak stöðvast heimurinn Og allt sem ég finn er reiðin, í blóði mínu, í sárum mínum, í huga mínum og reiðin sem veit ekki einu sinni hver ég er. Í eitt andartak fer heimurinn af stað Og orðin sem biðu Streyma upp á yfirborðið Og valda þar miklum skaða. Í eitt andartak er allt hljótt Og reiðin sem var als ráðandi er farin í bili Og í staðin kemur þessi yfirþyrmandi eftirsjá. ] [ Hvernig sem ég væri Hringandi mig í kringum Hnigin og sár Eitt dansandi tár Gleðin ein var aldrei nóg Tómleikinn fann mig og sló Það er alveg sama hvern ég særi ] [ Yngismey lá þar í lautu og beið með leyndardómsglott á vörum. ,,Sjaldan er konan reið eftir reið”, þótt reiðskjótinn hrekki í förum. ] [ Hún er sú sem fæðir mig Hún er sú sem klæðir mig Hún er sú sem ég elska mest Hún er sú sem grætur með mér Hún er sú sem hlær með mér Hún er sú sem kyssir á bágtið Hún er sú sem kúrir með mér Hún er sú sem eldar besta matinn Hún er sú sem þrífur húsið Hún er sú sem kyssir pabba minn Hún er sú sem reddar öllu Hún er sú sem hugsar um alla Hún er sú sem þerrar tárin Hún er sú sem brýtur saman þvottinn Hún er sú sem vaskar upp Hún er sú sem bakar Hún er sú sem ryksugar Hún er sú sem býr um rúmin Hún er sú sem les fyrir mig á kvöldin Hún er sú sem syngur fyrir mig Hún er sú sem verndar mig fyrir illu Hún er sú sem skutlar mér út um allt Hún er sú sem verslar í matinn Hún er sú sem mælir hitann Hún er sú sem hlustar á mig Hún er sú sem ég treysti best Hún er sú sem getur allt Hún er sú sem gerir allt Hún er elsku besta mamman mín ] [ Nú kveikt er í öllum húsum ljós því heimaskip hefur lagt til sjós. Og vakin eru börn það er veðra nótt í vindinum hvín og engum rótt. Því þorpið er þúst við yzta haf og þrútið brim færir strönd á kaf. Þeir hljótt ganga einir um kaldar dyr er hraustir burt sigldu ljúfum byr. Þar tómlegt er hús en talar til mín og tignarlegt hefur fjarðar sýn. Ég kveð þá einn í kyrrð á nöf þeir hvíla þar enn í votri gröf. En hljótt undir sól við hamra grjót og hátt yfir vog og öldubrjót. Er vonin sem kaldan vermir barm veit að þú berð þinn dulda harm. Við bíðum guðs börn við blámóðu strönd og höldumst þá hönd í hönd. ] [ Í skólanum lærum við, eða þykjumst læra. ég veit ekki hvað það eru margir sem eru að læra en það geta ekki verið margir. Kennararnir halda að við skiljum allt og brjálast ef við ekki skiljum. ÞEir segja oft \"þú lærðir þetta í fyrsta bekk\" \"þú lærðir þetta í 3 bekk\". Hvernig eigum við þá að muna það? ] [ Kennarar eru gamlir, kennarar eru ljótir, kennarar eru illa lyktandi, kennarar eru andfúlir, kennarar eru leiðinlegir, kennarar eru pirrandi. Kennarar eru bestu skinn innan við beinið og eru bara að meina manni eitthvað gott með því að reyna að kenna okkur eitthvað En það gengur mis illa! ] [ Stundum er bara stundum. Bara er bara bara. Eru eru bara eru. Þessi eru bara þessi. Ljóð eru bara ljóð. Algjört er bara algjört. Rugl er bara rugl! ] [ Það er bara þrítugasti ágúst samt ertu komið haust þarna nístir mig inn að beini minnir mig á ég gleymdi að kveðja sumarið þá tek ég mig til og renni nokkrum tárum á eftir því svo er það búið þá get ég heilsað þér haust ég fagna inni í mér hlakka til að finna lyktina finna þægilegan svalann reyna að komast innfyrir úlpuna ] [ Þegar ég lít frammá veginn, verður mér hugsað til gærdagsins. Þegar hvert skref færði mig nær,- -og fjær, og skildi eftir spor. Þau eru öllum sýnileg, og sýnist sitt hverjum. Þau skipta sköpum, og verða aldrei aftur gengin. ] [ Oft er stundinn löng, og við orðinn svöng. Á okkar herðum hvílir, sandkorn sem þyngir lífið. Mannslíf í tuga tölum. Börn sem haldin eru miklum kvölum, meðan lífið snýst í kringum mig, svona er heimurinn hér um bil. Ég skal það vona og bíða, svona þarf engum að líða. Fyrir svona fólki er ég vön að byðja, svona er ekki hægt að skilja. ] [ Getur verið að allt sem í heiminum er sé frábært? Að fuglarnir syngi fegurri sem aldrei fyrr og að geislar sólarinnar nái hringinn í kringum hnöttinn, bara vegna þín? Getur verið að blómin spretti með hraði upp úr hverri grasrót og að unaðsilmann frá þeim leggi um allan heiminn sem tengir sálir okkar saman? Frá hjarta mínu að hjarta þínu. Bara vegna þín? Getur verið að lækurinn seytli í jarðvegi fegurðarinnar og að fegurðin seytli í hjarta mínu, bara vegna þín? Getur verið að skýin leiki sér af gleði á himnum ofan og að börnin taki undir gleðileik skýjanna, og hlæi og skoppi sem aldrei fyrr, bara vegna þín? Getur verið að undurfagurt sé á úfið hafið að líta og að brimið skelli svo hljómfagurt á brimbrjótinn, bara vegna þín? Getur verið að augun mín tvö, nef mitt, munnur, fingur, hugur og hjarta, hafi einhvern tilgang hér á jörð, bara vegna þín? Getur verið að eitthvað sé til í öllum kenningum heimsins, bara vegna þín? Getur verið að allir hlutir heimsins séu í raun yndisfagrir? Að fegurðin leynist undir hverri þúfu og hverjum steini og umlyki allt, bara vegna þín? Getur verið að öll þessi fegurð sé raunveruleg vegna bros þíns, hláturs og snertingu augna þinna þegar þau hvíla á mér? Getur verið að öll þessi fegurð heimins........ sé bara vegna þín? ] [ Fraukan mín fríða Hvenær fæ ég að ríða? Hinar löngu nætur Mig dreymir Evudætur Og dagana langa ég heyri stunurnar ganga Langt fram á nótt Af ást á ég gnótt. Með greddunnar langa armi Ég fróa þessum garmi \"Syndaaflausn!\" Ég æpi á þig Og spegilmyndin hatar mig ] [ Allt lífið við þurfum að leita. Fara lengra, skoða meira komast, komast ekki. Halda áfram. Úr köldum skuggum í kynjaveröld heita, og skrýtnari spurningar fáum og fleira að heyra. Eintómar spurningar, fá svör. Ef fáum við svörin, er leitinni lokið? Getum við hætt, lagst niður og hvílzt? Við viljum það ekki, heldur halda för, áfram um sólina, lognið, regnið og fokið rokið. Hvað við höldum við séum klár. Vitum svo mikið og getum, rökrætt skoðað og togað og vitað allt uppá hár. Stútfull af glóru og miklum metum meira vetum. ] [ Ég er afkvæmi Guðanna Ég er afsprengi nútímans Ég er tálgmynd hins týnda Ég er fjallkonan fundna Ég er fædd í fullkomnu vestri Ég er föst í velgerðu búri Ég er einstakt dæmi um einstakling Ég er bláeygður morguninn Ég er ofsi á trúar Ég er uppreisn án málstaðar Ég geng í fótspor meistaranna Ég er útkrotuð ósýnilegu bleki ] [ Það eru ekki margir sem þekkja þinn innri mann. Og margir dýrka þig og dá Ef þau vissu, já, ef þau bara vissu mundu dýrka þig þá? Þú ert best er það ekki? Það frétti ég!! En hjá hverjum? jú, auðvitað hjá þér! England eftir 6 daga Ertu ósátt við að ég komi með? Talaðu þá við mig! Ekki hvísla bara eins og einhver smástelpa! Í alvörunni þú ert svo þroskuð! eða það frétti ég! En hjá hverjum? Jú, auðvitað hjá þér! Líf þitt er flókið en hverjum er það að kenna? mér, fólki útí bæ? kannski mömmu þinni? NEI!!! Engum nema þér! Þess má geta að ég er ekki að tala illa um þig! Ég er bara að tala um þinn frábæra..! Já, þinn frábæra persónuleika!! Ég nefni ekkert nafn, taki til sín sem á! ] [ Eftir stanslausa stríðni endalaust, gafst hann Símon loksins upp Enda vinalaus Hann spratt af stað í kjallarann, eftir stutta stund hékk hann þar. Engin stríðni, Ekkert stam, Einn í friði Óáreyttur Nú þarf Símon Aldrei framar, Að óttast stríðni Eða einelti. Hefnist þeim Sem illur er, Illskan drepin Með dráttarvél? ] [ Sifjan er mikil og sækir að mér. Sjálfsagt er best að niður ég gíri. Ég hugsa um hverskonar lottó það er, hvar útaf ég lendi ef ég sofna við stýri. ] [ Rauð rennur áin Sa - fa - far Rauð rennur áin Sa - fa - far fossar um brattar hlíðarnar rennur um æðar blæðarans farvegur hennar (rauð rennur áin) farvegur hennar (fossar um hlíðar) farvegur hennar (blóðugar slóðir) farvegur hennar er hungrið hans. ] [ 1. Manda vanda morðingi í skógarrjóðri lá. Mólakúlú Mólakúlú í moldarbeði lá. Drýsla týsla tældi hann tætings litlu meyjarnar þar til ein sér inn það vann að túra dúra drepa hann. Þar endar sögu Mólakúlús Mólakúlús Mólakúlús þar endar sögu Mólakúlús langt í frá. Því enginn vildi grafa hann gefa frið og jarða hann átta manns því tóku hann drógu hann og lögðu hann moldarbeðið í.... en brúna ljóta höfuð hans með gini hans og glirnum hans snýr norður í. 2. Mólakúlú Mólakúlú sefur þú sjáðu nöktu fæturna sem að ganga þér hjá sjáðu nöktu fæturna sem að hverfa þér frá Gaman væri að bíta í þá narta í þá og glefsa smá draga þá í gröfina gröfina já gröfina og sýna meynni gjöfina gjöfina já gjöfina sem dauðinn færa má ungum stúlkum og þá skal mönnum skiljast að Mólakúlú Mólakúlú mun aldrei við þá skiljast. Því Mólakúlú Mólakúlú er það sem grefur þú í gröf þér eigins huga og skyldi fáum dyljast að Mólakúlú Mólakúlú er aðeins lítil fluga sem flýgur til og frá. ] [ ,,Sá er fátækur, sem fær aldrei nóg”. Fjandans græðgin á sér djúpar rætur. Eigum náungans vill öllum koma í lóg. Einn á sér nóg er duga það lætur. Menn byrgja sig upp og bera heim ækin og búa sig undir mikið át ef þá lysti. Oft er sem borið í bakkafullan lækinn. ,,Betri er einn fugl í sósu en tveir í frysti”. ] [ Ég er bæði feit og fríð faðmur, kossar mildir. Þig myndi elska alla tíð, ef þú bara vildir. ] [ Það rigndi mönnum í gær tveggja er enn saknað. ] [ Gæsir gagg bjór í hönd hliðar saman hliðar beikonið hefur völd. Taskan á öxlinni, ekki rigndi á hárið ljósatíminn borgaði sig ...gervibrúnka í morgunsárið. Úti að flippa í hvítum þröngum bol komnar á rassgatið lækka aðeins hálsmálið til að sýna voða sæta hálsmenið. DRULLIST AF DANSGÓLFINU MEÐ YKKAR HLIÐAR SAMAN HLIÐAR ÞIÐ HAFIÐ ENGAN TAKT ÉG SIGRA YKKUR ALLAR 100ÞÚSUNDFALT! ] [ Kominn á síðasta snúninginn -sér ekki rétt valtur á fótunum smellir hann fingrunum þvoglumæltur vill hann EINN STÓRAN -segir ekki takk en á meðan froðan freyðir sígur höfuðið barborðið á -þetta er nú ekki sjón að sjá. Sýpur af áfergju sem lífsvatnið sé ...svettist úr börmunum 3 nornir undir tré. ] [ Sjáðu öll ljósin sem narta í eyrun á mér. Heyriðu í bassanum sem lemur í magann á mér. Inn í maganum leynist lítið hús, sem er úr gleri en enginn kemst út. Þar gildir sérstakt aðgangsorð ÝTTU Á RÉTTA TAKKANN ...það eru aðeins kelnu kettirnir sem hljóta allan pakkann. ] [ Hugsanir mínar flögruðu um loftið á heitum sumardegi ásamt fiðrildum, þar til vindurinn feykti þeim upp í himinhvolfið. Í kvöld fæðast nýjar hugsanir sem sigla um svartnættið, þar til dagur rís að nýju og feykir þeim burt líkt og fiðrildunum sem flögra um loftið á heitum sumardegi ásamt hugsunum minum. ] [ Banana ég fékk mér góðann, gulann að lit með enda rjóðann. Erfitt var að opna hann, góða, gula bananann. ] [ Vín er drukkið víðar en á börum. Vín leiðir marga í soll. Vínið fylgir oft kröppum kjörum og keypt er víða í toll. Færum nú glösin fljótt að vörum fyrr en þau velta um koll. Takta sýnum og teigum snörum og tökum úr okkur hroll. Vín er gott ég varð fyrir svörum. Víndrykkja er mjög holl. Burtu á reikandi fótum við förum og föllum í næsta poll. ] [ Þú gafst mér færið til að veiða þig -en lést það vera að bíta á krókinn. ] [ Ef það er enhvað sem vefst mér tunga um tönn. Þá hvenær ég fæ mína hvítu fönn! Vor,sumar og haus, þarf ég að bíða endalaust! ] [ Úr skýjunum lekur bleyta, í henni krakkar sér úti leika. Allt verður blautt, hún bræðir greyið snjóinn burt! Er það Guð að gráta eða er það bull? En eitt er víst mér lýst ekkert á þetta sull! ] [ Fiðrildi flýgur um magann minn, hugur minn færist nær þér. Er það ást sem ég nú finn, á ég að segja þér frá mér? Ég veit að vináttan er mér allt, vil ey henni spilla. Örlítið knús því mér er kalt, leysir mína kvilla. Tölvuspjall er gott og gilt, en getur skjárinn nægt mér. Sködduð sál af vegi vilt, vísar mér samt að þér. Hvað er það í fari þínu, sem segir þetta er sá rétti. Á ég að senda þér litla línu, svo af áhyggjum mér létti. Flókna fortíð á ég mér, mistök forðum daga. Ekki boðleg er ég þér, ef ég bæti mig ey og laga. ] [ Hann Gretti ég kannast við, hann hefur með sér útlitið. Hann er í íslendingarsögum, hann var ei upp á okkar dögum. Hann var sumum til ama, en honum stóð á sama. Sumum langaði hann að kæra, um það er ég til dæmis að læra. ] [ Hið góða horfið er ætlunin var að þú myndir horfast í auga mér, þú verður að sleppa taki á þér, og reyna finna ást þína á mér. ] [ Úti er komin vetrartíð vindur, frost og snær og hríð Blundar í mér ástarþrá sem um mig bræðir allan snjá Inni sængin hlýjar mér þráir meira en það sem er Hefur löngun oft mér strítt þar til að mér verður hlýtt ] [ Hafið sendir fingur koss autt skýli við ströndina fullt af sandi, gamalt ég anda að mér lofti geng upp úr hafinu loka augunum finn stinginn frá sólu finn sumar angann í loftinu síðustu andartök menningarinnar eftirlifandi á veiðum leitandi að meðaumkun og þú situr í stólnum og ruggar þér eins og amma gerði forðum þegar við héldum að allt yrði alltaf eins að heimurinn myndi aldrei breytast lítil börn að leik í sandinum græn þokan læðist að vefur sig inn í allt utan um allt ég hverf aftur niður í hafið syndi um í grænu hafinu þar sem höfrungar léku sér finn koss hafsins á hörundinu ruggar mér rólega hafið fullt af lífi frjálst það er svo lítið eftir bara þú og ég ruggandi eins og amma áður fyrr þegar allt var eins og það átti að vera ég varð fullorðin og ekkert er eins og áður aftur og aftur verður græna þokan að vana róar mig og ég held á friði veraldar í lófanum og ég held í minninguna af blá blóminu gleym-mér-ei gleym-mér-ei gleym-mér-ei ] [ Stærðfræði er ei mitt fag, vildi að ég gæti það með glæsibrag. Sitja með hundshaus, vonandi verður ólin laus! Innikróaður tímum saman, bara ef þetta væri gaman! Ekki ég gefst upp fyrr en lausnin er kominn upp! ] [ Þú situr í sólinni, það geilsar af þér ást og hlýja. Þér líður vel,þú ert ánægður. Þú brosir til mín með þínu sæta brosi. Hvað það er freistandi, að kyssa þig og elska, en það meigum við ekki, því ég þarf að fara. Þú ert sætur eins og girnilegur sleikjó, þú bræðir hjarta mitt eins og sólin bræðir súkkulaði, ég elska þig og vona að þú elskir mig. Megan 1999 ] [ Ég vil hætta að anda, ég vil hætta að vakna, ég vil láta líf mitt fjara rólega út. Faðmaðu mig guð, taktu mig upp, hví þarf ég að vakna, hví þarf ég að lifa. Guð taktu mig, leyfðu mér að engli verða, ég er ómögleg hér, ég get ekki neitt. Engil vil ég verða, svífa á skýi, kannski geri ég það rétt. Megan 2002 ] [ Það hvílir inn í mér, lítil fruma, sem er að myndast, í fegurstu veru. Ég hlakka til að finna, finna spörkkin og hreyfingar, hjá yndislegu verunni, sem hvílir inn í mér. Guð blessaði okkur með því að veita því líf, fallegu verunni sem hvílir inn í mér. Eftir átta mánuði mun það, fallega veran koma. Það verður barnið okkar, framtíð mín og mannsins míns. Megan 2004 ] [ Ég lít upp, þar sé ég þig, sem engil að skýjum ofan. Þú varst mér allt mitt líf og mitt yndi, stundir saman, það var gaman. En þegar þú fórst fór yfir myrkur hjarta mitt tómt það var sárt. Í hjarta mínu ert þú átt þú stóran hlut en aldrei muntu aftur koma sama hvað ég bið. Þótt ég hlæ og skemmti mér er söknuðurinn en sár ég sé þig á himnum þegar að því kemur. Megan 1999 ] [ Hún stendur við höfnina. Hvít eins og snjórinn. Blái kjólinn rifin, augnskuggi niður á kinn. Hvað hafði gerst ? Hún horfir á hafið hún er reið,sár og svegt. líf hennar er ömurlegt. Hvers þarf hún að gjalda, henni finnst hún skítug. Hún horfir niður á hafið, þar sér hún sig. Kalt líkið dregið úr hafi. Stúlkan í bláa kjólnum hún var enn hvít, með bláar varir. það sem gerðist veit engin,það vissi hún ein. Megan 1999 ] [ Það sér engin hve sál mín er döpur svo innan tóm síðan þú fórst. Þegar ég sé regnið streyma niður gluggan það er spegillmynd sálar minnar. Það eru mánuðir síðan þú fórst. Ég veit þú kemur ei til baka. Ég kveð þig með söknuð og tárum, þú munt ávalt eiga stað í hjarta mínu. Megan 1998 ] [ Þegar við snertumst myndast eldingar á himnum þegar þú kyssir mig fer eldur um æðar mínar þegar við elskumst hættir hjarta mitt að slá. Af unað og ánægju hugsa ég til þín. Ást mín brennur af þrá til að hafa þig Ást okkar mun dansa þar til morgunsólin rís. Megan 2003 ] [ Myrkrið hyllur mig vættirnir koma út þeir ásækja mig í svefni sem vöku Gerðu það gungan þín taktu líf þitt láttu það fjara út þú er ekkert. En ég berst gegn þeim reyni að sannfæra mig ég er einhvað Guð mun hjálpa mér Vættirnir hætta aldrei þeir tala við mig hvort sem í svefni eða vöku þeir ætla að ná mér. Megan 2003 ] [ Ég opnaði augun Þar sé ég þig mikla ljósa hárið var slegið ég hélt að það væri engill en ég heyrði kallað Svana þá vissi ég að þetta væri stóra systir mín. Mér þykir svo rosalega vænt um hana því hú er mennski engilinn minn Svana er besta systir mín. Megan 2002 ] [ Þú lítur upp þar sérðu mig með mikla svarta lokka með rauðu þrýstnu varirnar augun blá eins og himininn. Þú gengur að mér og brosir hlýtt til mín eins og sólin á heitum sumardegi, þú spyrð mig um dans og ég sagði já Dansinn dunaði nóttin leið, tíminn flaug eins og fugl sem fer suður á bóginn þú kysstir mig og faðmaðir á meðan við stigum dansinn. Árin liðu og minningar streyma um þig eins og flettirit þar sem þú dansaðir við mig ég sé en þá brosið þitt ég elska þig svo heitt. Megan 2002 ] [ Ástin líður yfir Deng Xiao Ping, og H C Andersen á eintrjáning. Side by side the children sing. ] [ Grasið í garðinum \"grænkað\" er ég í grasið lagðist alsber hjá mér þú lagðist sver ég mér snéri við og vissi ekki hver Ástar við nutum saman þegar þú snérir þér við og tókst mig að framan ] [ Minningar um þig, vængbrotnir fuglar í huga mínum. Söknuðurinn brennur inni í mér, brennir mig inni. Ég horfi yfir dalinn þinn, fegurðina sem þú elskaðir. Sögurnar, hláturinn, brosið, öll hlýjan sem þú gafst. Nálægð þín svo fjarlæg. Vorið var tíminn þinn, og þegar andvarinn ber ilm þess að vitum mér finn ég að þú verður hjá mér. ] [ Er ég sá þig fyrst skaut amor mig litla örvin hitti hjara mitt fyrir þig það slær Ég hugsa og hugsa bara um þig þegar ég vakna langar mig að sjá bros þitt. Ég brenn af þrá til þín aðeins að sjá þig fær hjarta mitt til að slá Ég vildi óska að dansinn tæki aldrei enda því þú varst þar með mér Brosið mitt var breitt því þú dansaðir við mig Það er vonin að þú viljir mig. Megan 2002 ] [ Þið voruð huppleg að heimsækja mig. Helvíti að eiga ekki vín á svona degi. Mínir bestu grannar eru samir við sig en sýnist mér best að um hina ég þegi. ] [ Ég sýni framför og fjölgar ljóðum þó fátt sé af svörunum góðum við spurningaflóðum. Það eru ekki ætíð best eintóm blíðmælin flest! Ég hef seilst í gamlan sið að spyrna skítahrúgum við! Góða menn ég virði vel, vil helst ei líta hina! Held best hæfa kjafti skel. Hvað er lífið án vina? ] [ Kletturinn í hjarta mínu hefur verið klifinn. Í vínrauðum bjarma blaktir fáni með nafni þínu. Kletturinn í hjarta mínu hefur verið klifinn. En nú ertu farinn og fáninn rifinn. Kletturinn í hjarta mínu hefur verið klifinn. ...bara til að vera yfirgefinn ] [ Dregur í sig skuggann, og lokar sig í gluggann, slekkur á heitri sól, sterkt eins og hörkutól. Svartur er hann, sýnir ekki mann, felur öll ljós, og dregur í sig fjós. ] [ Vatnið er slétt, fiskarnir synda, mennir eru glaðir, stormur ber á, þrumur í gráu skýi, vatnið fer að hristast, og báturinn fer á stórann klett, siglir hann á hann, og svo sést það aldrei meir. Hvorki báturinn né þeir. ] [ Kvöld. Tungl speglast í haffleti. Tungl. Horfið bak við ský. Veröld falin á bak við svart fjall. Kvöld. Á morgun kemur nýr dagur. ] [ Let me see the menu again. I´d like to change my order Do they only serve heartbreak on this side of the border? That is why I´m going over. I´ll let you know when I know where I´m going! ] [ Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. Ég elska þig. ] [ Við sunnudagssteikina hugsa ég um lambið í haganum, hryggur. Mér finnst þetta kindarlegt. ] [ Ég dreg að mér andan En segi ekki neitt Því að innan og handan Er e-ð breytt ] [ Ég myndi fara út með ruslið og ganga í inniskóm, ég myndi tala upp úr svefni með vinalegum tón. Ég myndi hlæja miklu oftar og klæðast björtum lit ef að nærvera þín loftar um mig, ég brosi og sit. ] [ Roses are red, violets are blue, sometimes I\'m sad and so are you! ] [ Krúttleg er hún með krullurnar, kúgast en reynir að reykja. Ekur á rauðum eðalkar, englapiltar út um sleikja. ] [ I woke up last night And looked to my right The time was only half past two Day not yet bright But though for insificinent light I hedded towards the loo I could not sleep For my heart is weak And curious for something new I was doing just fine And sleeping all the time. Am I falling in love with you? Rejection, the jelous and heartbreaking moments The things that make it hard. watching you dance, hearing you laugh, seeing you smile... The things, that make it worth my while. You want to be free But what about me? I really can´t dig that deep The time is still late And I will just wait Untill, once more, I fall asleep ] [ Himininn fullur af brotskýjum og nefstórum mönnum Ég leik á banjó og sög í veikri von um að vinna hjarta þitt ] [ Bláa höndin sýnist mér nú býsna vinnuhörð og Bónus vill helst grafa sex fet niður í jörð! Sagt er af í fréttum að menn noti bolabrögð en bestu orðin eru þau sem aldrei eru sögð! “Mikið var drottinn góður að búa til bjór!!!!!!” Býsnaðist Ási félagi og dollan hans var stór, skenkti mér eina líka og við skáluðum í kór, skál af því úr Ríkisstjórn Davíð Oddsson fór! Það er svo, að leiðasta stykkið liggur lengst á diski og það er alveg eins með bölvað Ríkisstjórnarhyski, sem raunar ætti hvergi að mega vinna nema í fiski. Hann magnaði þjóðar-misréttið í mikinn óskapnað, mannréttarbrota og siðleysisdómum sinnti ekki par, í lífeyris- og fiskveiðistjórn var mönnum mismunað, mál öryrkja dæma um skítlegt eðlið við stjórnarfar! Þá brestur marga manngreindina er mest við liggur! og margur er vegna kosninga hungraður og hryggur en hælist þá um auðjöfurinn sem peningana þiggur! Alltaf lengist svo hér meira landsmanna launabilið og margur hefur spekingurinn mælt á bak við þilið að menn fái það að launum sem að þeir eigi skilið! ] [ Gæti ég fengið nýja tímaröð í líf mitt Andarteppa og aukaslag og ég er viðhorfslaus Þú heftaðir þig í heilann á mér og nú get ég ekki setið kyrr ] [ Tíminn getur leikið mann grátt. Ég mun seint tak´ann í sátt. Ég man ekki hvernig það var að vera þinn. Ég man eftir móðunni, ég man eftir hendinni sem skrifaði nöfnin okkar á spegilinn. Svo færðist yfir skuggi og það var opnaður gluggi. Móðan hvarf frá. Þó það sjáist ekki lengur er alveg víst hvað stendur skrifað þar á. Næst þegar hitnar. Næst þegar að það hitnar birtast kannski nöfnin okkar á ný. ] [ Síðast er skildum með trega var sárt að fara frá þér. Öldur upp risu að vega og einstaka teygðust að mér. Hamingja er hugur í auði í hjarta elska með þrá. En hatur sem heftir er dauði er í hyllingu horfir þig á. Segðu mér sorg viltu ég borgi skuld í brimi við brot. Þar sýður á súðum með orgi og sálin mun komast í þrot. Líknandi hönd er læknar leyfðu mér að vaka hér. Seinna er veturinn vaknar er vorið farið frá mér. ] [ Hey, hvað get ég sagt? Shit heppens Kær kveðja Adolf ] [ Nú sit ég hér og rita Mín bestu ástarljóð Án þess þó að vita Hvort þau séu góð Þau fjalla öll um sömu stúlkuna Hún gengur um með bláa vettlinga Ég tala en ætti kannsk´að þegja meir Því í höndum hennar er ég aðeins leir Það skiptir engu máli hvert að stúlkan fer Án hennar minni maður ég augljóslega er Og ég gæti svo sem sagt ykkur meira um það Tíminn er mér hagstæður þó ég viti að ég geti aldrei fundið orð sambærileg við þig Ég lét þá bara þögnina tala fyrir mig ] [ Í angist hjartað brostið bíður bíður og biður, tíminn líður hylli hans veit ei hvort næ þó sem fyrr hlátri hlæ hlátri töfðum tregans efa sál sorg sína vill sefa tindrandi tárin falla sál á sinn skapara að kalla, hendur mér fallast ei að huggun hallast biturt hjartað brotið búið, þreytt, þrotið þyrnarnir stinga þeir fram sárin þvinga loks til þín í einlægni lít langþráða gleðina hlýt blómgast þyrnar þá þeir yl og birtu sjá. ] [ Móðir heldur um barnið sitt sem grætur hátt og mikið. Hún veit það manna best að barnið hefur hún svikið. Leggur það varlega á jörðina fer með fá og fögur orð. Svo hvíslar vindurinn hljótt að þetta sé ófagurt morð. Gengur burt frá barninu og grátur þess hljómar. Gráturinn berst til fjalla þar sem í hellum hann ómar. Barnið liggur varnarlaust og hjartsláttur þess stoppar. Liggur í miðju djúps dals og allt í kring fjallatoppar. Sál barnsins englar sækja og bera hana til skýja. Þar færð barnið gott skjól og inngöngu í veröld nýja. ] [ Kann að vera að dóttir mín kjósi að gifti sig því að kona er sú orðin glæsileg að þroska! En ef hún nú vildi bera þetta mál undir mig má ég þá segja?: Reyndu að kyssa froska! ] [ og við heltumst úr lestinni og okkur var sama ] [ rauðvínslegið ímyndunarafl kveikir í dramadrottningu sem hafði svo fúslega sagt af sér í hita leiksins óhefluð löngun í grámann sem bjó í hjarta mér svo tilfinningalega uppurin ég er rúsína ] [ Rokin. Farin. Sú staðreynd að hafa átt átt að stefna í stefnir í óefni. Ó, efnir þú loforð þitt að hrekjast ekki undan hvað sem á gengur? Ágengar hugsanir um þig! ] [ En tungið kemur aftur upp ekki ýlfra enn sólin sest í senn hvort erum við nú aftur VARÚLFAR eða MENN? ] [ Ó þú mæta mildamóðir. Mikla þig vilja allar þjóðir. Elskuleg hönd þín blessi barnið, er brosir sól á fannhvítt hjarnið. Og alla daga þín elska skín á yndislegu börnin mín. ] [ Lærifaðir, Þú sem mælir fagurlega langar eru raðir Út margra þinna löngu vega Mæltu nú þín fögru mál Komdu mér á vit góðra ljóðra þinna Aum er mín sál því vil ég þig koma og finna Ó, Benedikt Þú sem mælir fagurlega bene fyrir góður dikt fyrir ljóð Þú mælir ljóð þín góð svo fagurlega. Þú ert minn afi, faðir og lærifaðir Leifðu mér þig að finna. ] [ Þessi gráleidda slæða sem þekur andrúmsloftið hún þrengir að mér mér finnst ég lokast inni mér finnst ég verða daprari það verður allt svo mikið svartara mikið kuldalegra ég finn mig sökka niður í vonleysið reyni að gera allt til að toga mig upp en það er svo erfitt á haustinn verður allt svo svart. ] [ Með bros á vör þú gengur eftir dansgólfinu snýrð þér í hring Kyssir á kinn mína Þessi koss hefur brætt hjarta mitt ég geng á eftir þér Silkimjúkar mjaðmahreifingarnar Hárið fellur eins og slæða niður bak þitt Orðin flæða út úr þér eins og rennandi lækur og ég held ég sé að falla í yfirlið Þessi máttur sem heldur mér Er rofinn þegar þú kynnir mig fyrir unnustanum. ] [ Ég veit ekki hvað ég heiti ég veit ekki hver ég er hvar ég á heima eða hvert ég fer Ég geng hér í hringi veit ei hvert ganga ég skal Ég man ekki hvað ég gerði daginn í gær eða vikuna sem var Ég kann ekki að synda ég kann varla að borða mat ég veit ekki hvaða ár er ég hata líka vatn Að sumu leiti er ég orðin aftur barn ég er á stofnun en samt ekki skóla Hér situr fólkið og bíður eftir þeim stóra. Alsheimerinn, hefur tekið flest frá mér Ef ég fengi að ráða Þá væri ég ekki hér. ] [ Hann er eðlilegur Hann er ofvirkur Hann er stilltur Hann er óþekkur Hann er sætur Hann er fallegur Hann er minn og ég á alltaf eftir að elska hann Sama hvernig hann er. ] [ Mér finnst eins og lífið renni frá mér, Ég Drekk of mikið og get ekki hætt. Ég vil bara vera hjá þér... En úr því get ég ekki bætt, ég hef úr því að velja, annahvort Þú eða brennivín... Ég hef vízt kosið að taka vínið, það er ekkert ég sem er svínið... Svona hefur líf mitt langað að vera Þetta er það eina sem ég hef að gera! ] [ Lífið mitt er tómt rugl, flestum finnst einsog ég eigi að vera á B.U.G.L., það eina sem ég geri er að dópa, drekka og ríða. Mér líður svo illa að mig er byrjað að svíða. En þetta má ekki bíða, annars fæ ér bara kvíða. Það vilja mig engvir strákar, teir segja alltaf \"Ég elska þig\", sofa hjá mér svo búið spil... ] [ þessi hlýja birta bjarmi af kertum bækur í hillu ylur og ástin ískaldir dropar draga á rúðuna línur dreg mig í var - til vors vilt þú draga fyrir ? ] [ Hæ! Ég er konan, hin eilífa kona með takmörk og tilgang. Ég hef staðið í eldhúsinu og talað við daginn um hamingjuna. Ég hef horft í augu barnanna og látið augnablikin ljúga um eilífðina eins og slóttugur elskhugi í dögun. Ég hef setið yfir þvottinum og hlegið út í bláinn löngum, dimmum hlátri. Hæ! Ég er konan, hin eilífa kona með takmörk og tilgang. Ég skal sýna þér móðurástina hina endalausu, veglausu ást sem fylgir manninum á hjara veraldar og bíður og brennur í botnlausum kvenna brjóstum. Ég skal sýna þér þolinmæðina sem bíður í fylgsnum sálarinnar og vakir dag og nótt til ragnaraka. Ég skal sýna þér sálir barnanna sem saklaus hlaupa um þúfur og leika við veröldina eins og hún sé eins saklaus og frjáls og þau sjálf. Ég skal sýna þér náttúruna sem liggur blá og marin eftir ágang mannsins. Hæ! Ég er konan, hin eilífa kona með takmörk og tilgang. Ég vil sigrast á heimskunni sem liggur í leyni og krjúpandi læðist og sefur mennina með lygum og tilbúningi. Ég vil sjá mennina blómstra af visku og viti fá þá að sjá helgidóminn í andlitum hvers annars í stað þess að leita til helgimynda og tómra hugmynda. Ég vil sjá mennina þrífast og elskast í sólarljósi nýrra tíma. Ég vil sjá blóð mitt renna út í vota nóttina ég vil horfa á lífið sjálft þrífast í sandinum. Hæ! Ég er kona hin eilífa kona með takmörk og tilgang. Kannski kem ég með vindinum og hvísla leyndarmál í eyra þér um sólina, vorið og ástina. Kannski velt ég niður hlíðina með þér og ann þér í heyinu eins og ástfangni konu ber. Ég þek þig með hlýju og il uns dauða kuldinn hlæjandi sækir þig heim. Kannski rís ég upp úr þjáningu kvennanna sem þegjandi sátu við eldavélarnar og horfðu á leyndarmál heimsins malla í pottunum. Kannski sit ég við eldavélina í þúsundir ára og baka þér brauð eins og meistari hins hvíta marmara situr við stein sinn einsammall, þögull. Kannski sit ég við ketilinn og særi seiðinn sem gerir mennina að bleyðum, sauðum og flónum. Ég er konan, hin eilífa kona með takmörk og tilgang. ] [ Er kvölda tekur og allt er hljótt þá í huga mínum allt svo ljótt, í mínum draumum er allt svo svart enda er mér oftast kalt Þegar þokan kemur þá verð ég hrædd og á kvöldin er ég fá klædd ég fer undir sæng þá er það eins og ég hafi væng þetta er senn allt á enda vegna þess að sólin var að lenda þetta var bara draumur og Myrkur og Þoku enda hef ég ekkert að lokum. ] [ Ég vil ey valda þér vöku né veikja þína sál. Til þín samdi ég stöku svo hlýddu á mitt mál. Þú leitt mig hefur lengi, lífið þú lést mig fá. Á milli okkar er tengi, sem enginn rjúfa má. ] [ hver er ég? ég er týnd í mér. ætli að það sé slæmt að vera ekki með stimpil eins og allir aðrir virðast hafa? ég er bara hér og reyni að finna út af hverju, en það er erfitt af því að ég er týnd í sjálfri mér... ] [ á hverjum degi vakna á hverjum degi sýndast vera sama brosi... samt þýðingarlaust. held áfram að dreyma draumana þarf í rauninni ekki að vakna aftur þar er allt fullkomið... eða virðist vera, en svo. ] [ then when i had it i loved it then why did i leave it so long looking for it all lost now hope i can find it again then i would stay 03.08.05 ] [ will not talk will not see will not smile will not think only of you when you WILL come someday, if you will 26.06.2005 ] [ ég heyri í þér samt get ég ekki séð þig ég finn fyrir þér samt get ég ekki séð þig ég heyri í þér anda samt get ég ekki séð þig þú sérð mig samt get ég ekki séð þig 02.19.2001 ] [ When it comes I want to be seeping when it goes I want to be waking when it comes I want to cry when it leaves I want to be happy when it comes I\'ll be sad when it comes I want to be gone ] [ einn er farinn einn elskaður einn sá aldrei einn dáður eftirsjá einn gamall einn veikur eins saknað 28.06.205 ] [ Tónverk vindsins bergmálar á milli trjánna, kalt og ögrandi. Glitrandi frost á götunum, tendrar tár í augunum. Gránar grængresi, falla ljós frá bláum næturhimni, hægt og hljóðlega. Lýsir himnaskart grænt og iðandi um himinhvolf. Haust. ] [ Hugurinn fraus hugsunarlaus aldrei fyrr verið svona kyrr ] [ Við göngum um hallir og trúum að við séum konungborin. Við sitjum við gnægtarborð matar og álítum okkur matgæðinga. Við ökum á glæsivögnum og teljum okkur ferðalanga. Við klæðumst glit- og glysklæðum og tollum í tískunni. Við höfum þekkinguna við fingurna og hugsum að við séum vitringar. Við eigum börn, bæði stór og smá og höldum við við séum foreldrar. Við eigum allt í auglýsingunum og erum hamingjusöm! ] [ Ég sit ein og hugsa til þín ég hef ekki gert annað en hugsað um þig,að þú yriðr minn í lífi og sál því þú kveyktir í mér bál,ég þrái þig að fá, ég gæti samið um þig 100 vers, en hvað er best,að sitja og vona að þu munir koma.því það er best ] [ Helduru að svartir vefir þínir geti vafið sig utan um mig? Helduru að þú, svarta ekkjan, getir spilt mér og komið mér á vit efna þinna? Þú á þínum efnum þínum ert svo þungt haldin, ættir að fara í meðferð og losna undan fjötrunum. Ekki get ég ráðið örlögum þínum, en eitt veit ég, og það er að flestir karlmenn sem koma nálagt þér verða stungnir í hjartastað og munu deyja af ástarþrá. ] [ Þú krafsar í mig með klónum þínum, krafsar svo djúpt að það skerst í hjartað. Þú ætlar ekki að hætta. Þú ert villdýr í frumskóginum. Þu krafsar þig áfram inn að sál minni. Þar færð þú stað. Á endanum ákveður þú að skríða í burtu. Þú skilur eftir þig sár í hjarta og sál. Þú ert svo sannalega villidýr í frumskóginum. ] [ Ég vissi að þú varst minn Ég hélt þér með gráum silki hönskum ég var mjög fáguð og hugsaði aðeins um mig sjálfa Um stund varstu minn svo urðu kossar þínir aðeins of blautir Snertingar þínar of harðar Orð þín of hörð Silki hanskarnir breyttust í vinnu hanska Ég varð lítilmagninn hafði þig ekki lengur í höndum mínum Þú rannst niður silkið þú tókst þér fótfestu Ert ekki minn lengur heldur er ég þín Þannig mun það vera ] [ Laufblöðin sem eitt sinn voru græn, breyttu lit sínum í brún Grasið sem var þakið blómum, er nú orðið autt. Hjarta mitt sem gekk áfram á ást, er nú stopp. ] [ Ég verð að fylgja þér Án þín get ég ekki verið Móðir mín gaf mér þig Þig get ég öðrum gefið Samt þótt að móðir mín hafi gefið mér þig og ég geti gefið öðrum þig þá getum við bæði átt þig Þess vegna ertu svona einstakt fyrirbæri Því þig get ég aðeins notað einu sinni ] [ Ég hef oft fundið fyrir blautum fingrum þínum renna yfir síðu mína Ég hef séð þig hlægja að fyndnum orðum mínum Ég hef séð þig gráta þegar ég segi þér sorglegar fréttir Við höfum átt góðar stundir saman og líka slæmar þú hefur numið fróðleik frá mér Þú hefur einnig gefið mér fróðleik En samt höfum við aldrei talað saman Því ég get ekki talað Aðeins sagt það sem aðrir segja mér. ] [ Ung stúlka er á gangi niður myrkar tröppur Hún veit ekki hvert þær liggja Þarna skríða snákar Í 7 ár þeir bíta hana Hún nær að fela sárin En þau skilja eftir sig ör Hún gengur en þá niður stigan Á leiðinni eru lika nokkur fiðrildi Misfalleg að vísu Hún er gengur áfram Þar hittir hún mink hann gefur henni flöskur Hún gengur með flöskurnar alla sína göngu sípur aðeins af þeim til sparnaðar Þegar aðeins eru 10 tröppur eftir niður stigann hittir hún ref refurinn gefur henni snjó og grænar plöntur Hún étur það síðustu skrefin Þá er ferðalaginu lokið. ] [ Þvingaðir hana til að setjast á hné þér hvíslaðir orðum í eyra hennar það sást á henni að henni var ómótt þegar hendur snáksins læddust niður eftir líkama hennar Hún var ekki á sínu eigin valdi Vökvi bakkusar hafði smogið í blóð hennar Fleiri snákar snertu hana á ýmsum stöðum Sögurnar byrjuðu að myndast dag frá degi Hún var óspilt Hún var hrein Uns hún lenti í höndum snáksins sem gaf henni undir fótinn. ] [ Hreinleg hvít lök héngu á snúrunni Þau höfðu öruglega hætt við að fara í ferðalagið Hreinleg hvít lök héngu en á snúrunni Þau hafa kannski gleymt að taka þau inn Hreinlegu hvítu lökin voru orðin skítug Hversu lengi ætla þau að vera í burtu? Hreinlegu hvítu lökin voru byrjuð að rifna Þegar ég gekk yfir í íbúðina við hliðna á og sá að þau voru farin en samt þarna en þá ] [ Davíð vafði tungu sinni utan um skinkuna Ólafur sagðist nú samt eiga hana og reif hana frá honum Davíð tók í smjör hnífinn Ólafur greip í hnífinn og stakk í hendi Davíðs Davíð tók þá í borð dúkinn Ólafi stóð ekki á sama og tók stólinn undan honum Davíð sat á gati Þá tók Ólafur í hönd Dorrit og hún sagði við Davíð \"Þú gleymdir titlinum heima hjá þér.\" ] [ Svart eins og niðdimm vetrar nót, Svíðir tungu mína frostbits kossi, Sjóðandi morgun kaffið. ] [ Í gegnum myrkrið ég svíf Því ég á þetta líf Brotna drauma ég dreymi Ég lifi í öðrum heimi Svo er ég vakna í dag Þá ég syng þetta lag Því Guð gaf mér nýtt líf í gegnum ljósið ég svíf ] [ Fortíðarminningar til mín sækja Líf mitt og drauma flækja Tárum ég græt þar til ég sef Löngu horfna tíma í holu ég gref Tárum er ég að eyða Í vonlaust ástand og leiða Minningum er ekki hægt að gleyma Fortíðina ég þarf að geyma Lífið er svo fagurt ég vil því ekki eyða Í dapurlega daga og tilgangslausan leiða Mitt innra sjálf ég finn í mér Og æðri máttur minn um mig sér ] [ frá degi til dags hugsa ég að mig dreymi dauðann. án þess að vita, nokkuð um hann. nema að hann er til staðar. ] [ Um alla heima og geima veit ég um land, það er land sem Ingólfur Arnarsson fann! Það heitir Ísland og á því ég bý. Aldrei ég gæti hugsað mér að snúa mér burt frá því! Ísland þakið snjó er bara draumur minn, en efast ég að allir vilji hann inn. Það lekur úr himninum, þá rignir glatt. En þá fara ormar úr holum sínum hratt. Í hverjum firði í hverjum dal, þar á fólk sér góðan stað. Sama hvernig líðan er þá er ísland ávalt innra með mér! Ef hugsað er til baka, þá áttum við eitt sinn ekki sjálfstæði, og þá varð eilífur bardagi. En svo fengum við okkar liðræði, og fólk fékk frið og næði. Nú hef ég þig frætt um ísandarverk, og veistu þá að þetta er ei skemmdarverk. En nú hefur þjóðin breyst mjög hratt, og eru það ljóðin sem minnast á margt. ] [ Lífið er stjórnlaust hvernig ferð þú að því að lifa berst á móti straumi berst með straumi kemst á bakka hvílist fellur svo út í á ný ég mun standa á þurru ] [ sólin skín framhjá mínu hjarta grænn gróður vakanr úr skugga ég sit fastur í mínum skugga hann eltir mig hvert sem er skuggi geymir mínar syndir minnir mig á sig aftur heldur sárum mínum opnum þú sigrar með því að lifa ] [ Stubbar út um allt, og öllum er kalt, hættum að reykja, og í okkur kveikja. ] [ Pabbi minn er mikill maður, og þegar hann er kallaður, þá er hann hreinn og beinn, og er glæsilegur sveinn. ] [ Dag eftir dag og kvöld eftir kvöld, sit ég og hef engin völd. Aleinn og eimd mína hef tek hana líka með mér þegar ég sef. ] [ Ekkert væl og skæl hann pabbi slær sér um hæl. Uppí rúm og farðu að sofa komdu ekki fyrr en degi fer að lofa. ] [ Án trúarinnar, væri ég eins og krókódíll í níðþröngu fiskabúri. Án skoðana, væri ég eins og ísbjörn fastur í sahara eyðimörkinni. Án tjáninga, væri ég eins og fugl vængjalaus á tunglinu. ] [ þunglyndi er ekki sjúkdómur það er lífsstíll ] [ ljóðin eru undirmálsgreinar samskipta samtöl sögð í hljóði ] [ Sjáðu, hvar blómið grær, eins og barn sem leikur sér, litirnir hreinni en þvotturinn, og anganin eins og af ungmeyjum. Blómið rís hærra og hærra, fólk kemur víða að til að sjá það, allir vilja finna lyktinina og sjá fögru litina. En síðan stækkar blómið enn meira, fer svo að nota meira og meira vatn verður litdaufara eftir því sem það stækkar og anganin er orðinn að fnyk. Loks vill blómið toll og hótar þeim sem ekki borga, það fer að fjölga sér, brátt verða blóm út um allt. Allt í einu hunsar fólk blómið og það fer að örvænta, en það er orðið of seint, það spilltist, og varð sjúkt. Loks kom maður, með exi stóra, hjó blómið, og fólkið fagnaði. Stuttu síðar óx ofurlítið blóm en fólkið var snöggt til, trampaði á því og reif það upp, því það vissi af gylliboðum þess. ] [ Ég gekk að sjónum mælti til hans “Gefðu mér fisk” en hann henti í mig þangi. Ég gekk til fjallsins hrópaði til þess “gefðu mér gull” en fékk aðeins grjót Ég gekk að skóginum bað fallega “gefðu mér timbur” en fékk aðeins kvist. Ég gekk þá heim tók fram exi sótti hakann náði í netið. Gekk að skóginum hjó hvert tré tók það og smíðaði mikið skip. Fór því næst að fjallinu gróf úr því allt gull uns það hrundi og gróf skurð Fór ég að sjónum, veitti honum í skurðinn lagði netið þvert yfir veiddi allan fiskinn. Nú hafði ég fellt skóginn, brotið fjallið tæmt sjóinn og átti bát, fisk og gull. Gekk því næst að konu minni “Hérna, nú hef ég sigrað skóginn, fjallið og sjóinn” Ég brosti sigri hrósandi. En kona mín sagði þá “ekki bað ég þig um það heldur um gull í einn hring, eldivið og fisk í matinn.” Því næst sagði kona mín “nú hefur það sannast að ég á aldrei að senda guðina til að vinna mín verk.” ] [ Við tveir sitjum samam, mikið er það voða gaman. Mikið er ég með mikkla glápu, Bíddu... Er ég allur út í sápu. ] [ einungis uppspuni fundinn upp sem gulrót aðeins hugtak enginn friður stríð er staðreynd ávallt þar, engin hvatning við finnum fyrir því allstaðar ávallt stríð heimurinn er vonlaus lífið er stríð dauðinn er friður við deyjum aldrei því stríðið heldur áfram. Því lofa ég. ] [ Lítinn bróðir á, stórskrítinn er. Sit oft honum hjá, eins og vera ber. ] [ Ég hverf héðan hugsa að þetta er gott Get gengið héðan geri ekkert flott. Dreymir deyjandi menn Drýgi syndir Er ekki fallinn enn elti lífsins lindir. Hví verðum við að verjast? Skiptum um sið, einfaldleika sverjast. En ekki er allt gefið eignir eru okkur dýrmætar Fáir fá lostann sefið fá gjafir sætar. Heyri hrópað oft Hlusta varla Orðin orsaka vont loft Orsaka vonda karla. Sturlun strýkur mig sé vegginn, hvítur Kannski kemur þetta fyrir þig Kannski lífið flýtur? ] [ Hér sit ég og reyni að skilja hvernig þú slappst hvers vegna þú fórst. Var það útaf drykkjunni? Var það útaf óstundvísinni? Var það útaf félagsskapnum? Eða var það vegna peninganna? Eða var það útaf nýja bílnum? Eða kannski þeim gamla? Verra á ég þó með eitt Hvers vegna ég fór ekki fyrir löngu frá þér. ] [ Hamingjan kemur í dósum sem eru rauðar á litinn og eru skreyttar með rósum og manni ánægðum á svipinn. Reiðin kemur í köstum oft lengi að sleppa oft eftir að hafa legið undir löstum og fær mann til að keppa Hatrið er oft heitt stundum nístandi kalt hefndin getur það seitt og líf manns verður falt. Heimskan þekkir sig eigi ánægðir eru fattlausir og lýk þessu og segji þeir vita ekki hvað þeir eru vitlausir. ] [ Svakalega borðar maðurinn ber til hálfs hakkandi í sig spekk svita, blóð. Vannæring skortur offita Sjónvarp með flötum skjá verður að fá, fylla á. Skráargat kíkir ekki of lengi þægilegt, þægindi, lazyboy. Þolir ekki auglýsingar, -kaupir framlengingar EN HANN VILL FÁ VATN AÐ DREKKA LÆKNINGU VIÐ ALNÆMI KUNNA AÐ LESA AÐ MJÓLK KOMI ÚR BRJÓSTINU FYRIR BARNIÐ MEÐ BELGDA MAGANN OG MJÓU FÆTURNAR Hvað ætli sé næst sé næst í sjónvarpinu? Hann vonar að það sé American Idol. ] [ Ég þarf að skrifa skjálftan úr kerfinu rifrildishellirignig nema droparnir voru haglél með saltsýru ] [ Hvítt, svart, gult, blátt. Góð, vond, vinaleg brennandi meiðandi NEI NEI NEI NEI NEI Verum vinir. Þú hatar mig -og öfugt Sé þessar sjörnur í augunum sem ég vil ekki sjá. Hvað hef ég gert? Blæðandi öskrandi en ég vil ekki. Hvað get ég gert? Þú tengdist mér á öðrum nótum í þínum huga en mínum. HVAÐA HELVÍTI Ég hef þig -en vil það ekki. Hvernig losnarðu? Ég vildi að ég gæti gefið þér lykil með aukapari -en hann er ekki til. ] [ Ég get verið hádramatísk jafnvel svínsleg og hortug á köflum En með þér skiptir það ekki máli. Því sjálfur ertu hortugur dramatískur göltur ] [ Sem staurfastur hundur slefar og geltir, meðan kisu loppan tiplar hjá. Horfi ég á hana stíga dansa við súluna. ] [ Eins og sandkorn í glasi tímas sem horfir öfunds fullum augum, yfir vindsama eyðimörk bíð ég þess að verða frjáls. Þó að tíminn líði, líkt og á um firði og móti sinn eigin farveg þarf ekki nema eitt einasta sandkorn að stíflar glassið, og tíminn hættir að slá. Syngjandi eyðimerkur vindar myndar sprungur á slétt yfir borð og glassinu blæðir sandi, tíminn rennur úr greipum mér Ævi hvers mans er eins og tímaglass, hver dagur eins og sandkorn eitt einasta sandkorn í eyðimörk tímans sem við ráfum um, uns glasið er tómt. ] [ Hvar í veröldinni \"Hváir\" þú Viðarmikil leit er \"hafinn\" Við \"húsið\" byrgið og brú Í angist \"hjartað\" titrandi bíður Eitt er þó víst, að \"hugur\" minn og \"sál\" þín \"svíður\" ] [ Á ferð um lífið þeysast sumir áfram á 140 km hraða, og jafnvel þegar vegirnir verða hálir er gefið í. Á sama augnabliki hrapa stjörnur af næturhimni og lifendur af lífsins braut. ] [ Þessi jól horfði ég upp til himinns, ekki til að sjá tunglið nei, heldur til að sjá jólastjörnuna. Jólastjarnan sást eiginlega aldrei hérna, það var alltaf skýjað svo ekkert var að sjá. Ég vissi samt að hún væri þarna, þó að ég sæi hana ekki. Jólastjarnan er stundum eins og vinátta, Þú sérð hana ekki, en þú veist vel að hún er þarna. ] [ Drukknum ekki í drullupollum tökum heldur fenjasvæðin í það og drukknum almennilega það er nefnilega fánýtt að aðhafast í drullupolli jafnvel þótt jakki hafi verið látinn yfir fyrir dömu í fenjunum verðum við eilíf ] [ Hver er ég? -lifandi vera? -andi með líkama? -kássa af frumum? -tilfinningavera? -hluti af heildinni? -jarðarbúi? -kjánaprik? -íslendingur? -Vestfirðingur? -höfundur? -námskona? -kvenkyns? -ég? ] [ Snjóflyksurnar svífa fallega niður á jörð yfir mannkyn og boða jólin okkar. þær hylja það slæma veita góða tíma fá okkur til að hugsa og passa blómin. ] [ Snjókornin falla hljóðlega Niður á hvíta jörðina. Það er frost Og það er kalt Jólanótt. Þessi típíska jólanótt Hún er jólaleg, Svona stjörnubjart og fallegt Það er allt gott á jólanótt, Allt svo fallegt. Þó fara sumir á jólanótt Þeir fara að eilífu, Langt í burtu, Það er engin miskunn Þó að það sé jólanótt. ] [ Hvaða tilgangi þjóna jólatrén? Þau eru bara þarna í nokkrar vikur, Standa þarna þar til þau deyja, Það hlýtur að vera leiðinlegt, Að vera jólatré á jólunum. ] [ Kertið logar, Tíminn líður, Allt gerist, Jólin koma, Og líða hjá. Samt áttu eftir að muna Eftir því, þegar Þessi jól voru, Þessi jól voru þau bestu. Á næsta ári gerist það sama. Tíminn líður, kertið logar og allt gerist. ] [ Hversu falleg er ein spiladós? Spyr ég og horfi á hana. Fimm englar eru á henni og hún snýst í hringi með englana og spilar jólalög. Amma átti þessa spiladós, ég á hana núna, það er alltaf jólaskap þegar ég heyri í henni. Maður kemst í gott skap og í huganum dansar maður og syngur í hjarta sínu. Hún brotnaði um daginn, í kassanum, þá tók ég límið og límdi englana tvo sem duttu það er kanski málið að taka fram lím og líma heiminn. ] [ Svartbrúnir stóðhestar lítið tungl í myrkri tvær teskeiðar á engi taflkall í skurði rósblá peysan hrímsvart hárið tungl að stangast á líkt og tveir gæðingar sem vita ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga ] [ Ég skal vera fræið ef þú verður tréð ég skal komast lengra en þú hefur séð ég skal vaxa hærra en lauf þín hafa náð og vinna fleiri hildir en þú hefur háð, því allt sem þú gerir þarf ég að gera betur því ég er sonur þinn. Ef þú klífur kletta skal ég klífa fjöll og ef þú hús þitt byggir mun ég reisa höll og ef þú verður ríkur vil ég eignast allt helst allt í heimi ef það er falt, því allt sem þú gerir þarf ég að gera betur mikið betur, því ég er sonur þinn. ] [ Sogast að sænum öldurnar flækja mig, særokið sverfur Sólin sígur logandi á meðan þarinn segir ævintýr. Sækýr og hafmeyjar segja ekki frá neinu -en næla stundum í einn og einn. ] [ Einn daginn þá vaknar þú bara upp og langar kannski ekkert að lifa lengur. Þú ert orðinn þreyttur á lífinu og finnst það ekkert spennandi lengur. Námið verður erfiðara og minni tími gefst fyrir félagslífið. En kannski á það bara að vera þannig, lífið er skemmtilegt um tíma en svo þá breytist það í einskonar þunglyndi. Lífið er skrítið fyrirbæri, það lifa allir því á svo ólíkan hátt en samt finnum við alltaf einhverja hamingju. Stundum þá er lífið skemmtilegt en stundum ekki. Sumum ykkar finnst það ömurlegt að ég sé að vorkenna sjálfum mér yfir því að mér líður illa og að lífið sé ekkert spennandi lengur, en maður getur ekki gagnrýnt sársauka á þess að hafa upplifað hann fyrst. Við lifum lífinu eins og okkur finnst besta að lifa því, og þannig lifum við í fjölbreyttum heimi með ólíku fólki. En stundum þá fer ég að hugsa, hvað ef að allir lifðu eins? Væri heimurinn eins góður eða vondur eins og hann er í dag. Það sem ég er að reyna að koma á framfæri hérna er að allir eru ólíkir og allir hafa mismunandi vandamál. En þess vegna er orðið lausn á vandamáli í orðabók okkar, því að allir geta orðið hamingjusamir, sama hverjir þeir eru eða hvar þeir eru. ] [ Stundum velti ég mér upp úr sjálfum mér, þar til ég smelli mér á heita pönnuna og fæ ósmekklega brúna skorpu á mig. Kemst þess vegna ekki að innihaldinu án þess að fá óbeit á sjálfum mér. Feit og brunnin skorpan íþyngir mér og ég gleymi sjálfum mér. Stundum eru blómin litríkari, tónlistin fegurri og loftið ferskara mín megin. Ég finn vindinn í bakið og kraft í hverju skrefi, hvert orð svo velvalið og aldrei neinn efi. Þá kemur að því að ég fer að velta mér upp úr sjálfum mér og enda á því að skella mér á heita pönnuna, þú kannast við lyktina. En nú er ég hér með þér. Þú sem aldrei gleymir mér. Þá man ég mig og þú finnur mig, koma til. Til þín. ] [ Halló Er einhver þarna? Eða er ég ein. Ein hérna og kalla á hjálp? Og enginn svarar. Skyndilega koma einhverjir. Og gera grín að mér. Ég veit ekki hvað ég á að gera hleyp bara í burtu og fel mig fyrir sannleikanum. ] [ Maðurinn fæðist einn góðan dag með autt nótnablað í hendi. Á hverjum degi myndast nótur á blaðinu eftir því hvernig leikið er á lífins tóna. Sumar nóturnar eru beiskar, sumar ögrandi en deyja út að lokum, meðan aðrar vekja þorsta hjá öðrum tónskáldum lífsins til að heyra meira af listaverki þínu. ] [ Á kyrrlátu haustkvöldi varð mér gengið framhjá gamla kirkjugarðinum umkringdum steinvegg dauft ljós frá luktunum lýsti upp klappir og krossa sem teygðu sig upp úr jörðinni í náttmyrkrinu grafir hinna framliðnu undarlegt, hve myrkrið var meira þar en á himninum utan birtuna sem á þá féll sálnahliðið stendur upplýst í garðinum klukkan er hljóð ef til vill voru það trén og runnarnir í myrkrinu glóði á roðið og gullið laufskrúðið sem baðaði trén, kræklóttar greinarnar í gegn um trjámyrkrið lýsti af ljósastaur eins og stjörnu, þó grámóska væri á himni og enn voru græn blöð vorsins á tjám og runnum í garði hinna framliðnu þau munu glóa eða roðna á farvegi lífsins falla frá og fæðast að vori. ] [ Kemst ég þangað á skýið mikla þar sem ég mun hitta þig. Ég sakna þín enþá þó árin séu liðin þú alltaf hjartað mitt átt enginn nær því. Þú einn aldrei særðir mig þú einn skildir mig ég mun ávalt sakna þín. Elsku afi minn. Megan 2005 ] [ Ástin er fögur, eins og fiðrildi ástin er yndisleg eins og nýfætt barn. Ástin er unaður sem fer um allt líkaminn og hjartað heltekið af ást. Hinn einni sanni er rétt handan við hornið eða hvað ? Kannski er hann þegar þar. Þú brosir þú hlærð þú nýttur þess að vera ástfangin. Á skýjunum svífur og vængirnir með sem ástin þig ber á vit ævintýra því ástin getur allt. Megan 2002 ] [ Ég vil ekki vera hérna Ein, Bitur Og sár út í sannleikann Sannleikurinn er ekkert nema tálsýn Tálsýn til að fela lygarnar Einsemd Hjartað finnur til Og sálin brennur upp sársaukinn nýstir gegnum lungun Ég get ekki andað Ég get ekki sofið Get ekki vakið Get ekki lifað Get ekki dáið Ég vil ekki kveðja En ég get ekki heilsað Sálin er farin En ég stend eftir Stjörf af hræðslu Reið út í heiminn og sár út í þig Þú dóst og tókst mig með þér ] [ Djúpt inni í skilningarvitinu Innst undir skinninu Grafið á heimsenda Og gleymt eins og styrjaldirnar. Liggur hjarta mitt, Marið og blóðugt, Vafið inn í svört klæði Sem eitt sinn reyndust hvít. Tár mín blóðug og sorg mín hörð. Ekkert eftir nema öskrandi þráin Sem kallar inn í nóttina Öskur, garg. Ekkert svar. ] [ Þú talar en ekkert kemur út. Þó ég fari Muntu gráta þínum beisku tárum. Ef ég elska þig ekki lengur Mun ég deyja. Ástin er hverful En það er hatrið líka. Og sársaukinn sem fylgir Myrðir mig smátt og smátt Þar til ekkert er eftir. Ekkert nema týnd sál, Sem bíður eftir að verða elskuð. Reiðin ólgar í mér, En kærleikurinn er of sterkur. Ást mín Yfirbugar sársaukann sem ristir svo djúpt. Biluð plata, brostið hjarta. Mistök, vonbrigði Þú átt mig alla en ég á ekkert í þér. Tungulipri þín er söguleg Og augun þín björt sem himinn. Bros þitt lýsir upp myrkar nætur Og orð þín enda storma. Ég elska þig Er annað hægt? ] [ Allt sem við byggðum, Allt sem við eigum Á að hrifsa það burt úr greipum okkar? Allt sem við viljum, Allt sem við gerum. Á að taka það burt úr örmum okkar? Látum við eldinguna skemma sólskinið? Látum við hatrið skemma ástina? Er vinátta okkar ekki meira virði en það? Öll okkar hjörtu, Öll okkar tár. Á að þurrka það út úr minni okkar? Segið mér að vináttan sé meira virði en það? ] [ Eins og fugl sem flýgur úr hreiðrinu. Eins og barn sem flytur úr húsinu. Ég hef fengið nóg af þér. En samt kem ég aftur. Bið þig að gefa mér orma. Bið þig að þvo þvottinn. Og ég uppgötva hvað mér þykir vænt um þig. ] [ Eins og dauðinn sem varir svo lengi Mun ást mín endast lengur. Ég gæti elskað þig um alla eilífð Og dauðinn gæti ekki hindrað mig. Sársauki þinn nýstir gegn um mig. Eymd þín umlykur mig Hamingja þín særir mig Því þú upplifir hana ekki með mér. Eigingirni mín skemmir mig Og hjartað finnur enn meira til. Ég, týnd rödd í ópi sannleikans Þú, sól sem skín skærast allra sóla. Með öskri gegnum dimmar nætur Andvaka nætur, sofandi dagar Hugsanir sem eyða mig upp Mun ég alltaf elska þig Rödd þín hljómar um eyru mín Og ég stenst ekki freystinguna Ég verð að fá, verð að snerta verð að elska þig. Munt þú einhvern tímann elska mig. ] [ In a place so far away With deep eyes on display This area of all unloved Is a place for a head so soft Tears will dry Angels will cry And the darkness will lead the way. Go ahead to paradise Telling twisted lies Made of stone All alone In a place of all unknown. Kisses of thy death Bruises from thy life A kiss goodbye Just saying hi In a place so far away ] [ Why do we fall, only to climb up again? Why do we cry, only to be told to stop? Why do people leave, when we love them so much? This moonlight shines brighter then any other. I’ll see you on the other side. Your the moon, I’m the stars, And our love is the Aurora, Northern Lights. On the other side, we’ll set the sun together. On the other side, we’ll be alone forever. ‘Cause on the other side I’ll always hear you laughter. On the other side, I remember your face. ] [ How do you make me smile And cry, all at the same time? How do you make me live And die, all at the same time? I make little hearts with straps in the middle With my tears I dry the fabric And with my blood I clean the paper I make little stars with straps around the corners. How do you birth me And kill me, all at the same time? How do you empty me And fill me, all at the same time? I want to know how you make my tears run And how they heal every wound Every bruise, every mark How do you take away my scars and twist them around? Everytime I look into your eyes I die a little inside my soul Everytime you stand beside me I cry a little inside my heart Everytime I crawl beneath your skin I fade a little inside of me And everytime you lie to me I lie a little to myself. ] [ You have eyes of decivement And lips of lies Your soul is as cold as the atlantic And your heart’s made of stone You lie and you fake things You pretend to be so much more Your lips are linger as thiefs And your eyes are full of sorrow You hurt me but I stay You lie still here I lay I cry over your mistakes Your fears are my laughter Your words are my screams And your sorrows are my tears ‘Cause every night you scream My tears are wasted by one more meter But still Never the less And even though I still love you I still hate you I still need you And I still tear your picture to pieces My tears have fallen for too many days And I have forgiven you everything you’ve done For I am weak and you have got a hold of me And you have eyes of kindness And a mind of loneliness I forgive you ] [ Fimm bros Fimm skeifur. Tíu augu, Tíu tár. Augun munu gráta Og brosin munu dofna Þennan dag sem við óttumst Allar fimm. Fimm loforð, Fimm hjörtu. Tíu augnablik Tíu andardrættir. Loforð hafa myndast, En munu þau standa. Þennan dag sem við hræðumst Allar fimm. Fimm ástir Fimm hötur. Tíu fingur á fimm höndum Sem halda svo fast í hvor aðra. Ég elska ykkur allar Og ég mun ykkur aldrei gleyma. Þennan dag sem við skiljum Allar fimm. ] [ Ef lífið er eitt heljarinnar tómarúm, og við erum öll hér til að fylla það. Stendur stór stýrimaður, og stýrir okkur. Með ósýnilega þræði fasta í bakið á okkur. Teiknar okkur inn í myndasögur. Brýtur í okkur hjörtun og hellir vatni í augun. Erum við öll þáttakendur í sýndarveruleikanum? ] [ Thy heart will be my shelter Thy head will be my home Thy eyes will be my secret Thy lips will be my own I will die for thy honor I will break for thy voice I will kill with thy heart I will kill for thy kiss. For I will do all I can do I will tell all I can tell With thy kiss, upon my lips. I die.* ] [ In a little place unknown she tries to find her home so cold, depressed they couldn\'t care less for the girl with the golden locks. In trailer park far away she doesn\'t want to stay if he leaves her now she won\'t know how to look for life again. In my coldest dream I\'ve dreamt I saw her standing there her tear on her cheek her lips were cealed and I never saw her again. ] [ As if it\'s all just an opinion. Nothing is fact. everything we do is analyzed changing with one snap. Is it all a delucion? Made up by one person who makes the world go \'round. Does God exist? As a human I most know. Is it all a lie? ] [ These words of hatred are made by your touch These marks on my chest are made by your laugh. These scars on my rists are made by your eyes. This tear that I cry is your voice saying ,,Hi.\" And your smile is the reason, why i still stare. ] [ If this is what we\'ve come to I don\'t want to go on. and if you\'re going to ignore me I guess I\'ll ignore you too. Does she say those words? Does she laugh like this? Is she all you want? I she another me? I\'ll make you regret your existance. I\'ll make you wish she was me. For that one who is blind-folded, he can not see. ] [ Það er haust. Og farfuglarnir eru komnir á kreik. Þeir eru að fara. Þeir eru að fara til útlanda. ] [ Litla telpan trítlar um túnin. Með bros á vör og gleði í hjarta. Gleði hennar skín úr grænum augum hennar. Hún smitar út frá sér. Með lífsgleði sinni og hlátri. Þú brosir Er þú sérð litlu telpuna þína trítla um túnin ] [ Svo lítill og Svo brothættur. Hændur AÐ foreldri sínu Þarfnast þess. Jafnvel þegar Flogið er á braut. Er í huganum Foreldrið. Foreldrið sem Var til staðaar. Þegar mikið Á reyndi. ] [ táraflóð . fallegt ljóð í gengum sár og sviða blátt blóð rennur með línum andlits spegillin starir ] [ Hamingjan sést Í augunum. Augu hamingjusams Manns glóa. Að horfa í Augu þessa manns Fær þig til Að glóa. Augun lýsa Upp allt andlitið. Og gera hann Fallegri en Nokkru sinni fyrr. ] [ Hann grætur Tár hans seytlar Niður föla vanga Hann grætur Tár hans renna Niður föla vanga Hann grætur Tár hans streyma Niður Föla vanga Hann grætur. ] [ Ljósið, á djúpum sjávarbotni, er fiskur, augnaglitur, og svo bustlar hann á brott. Fellur fiskur undan þungum vonum og hafið liggur uppað rjóðum kinnum berginu, sem mennirnir og ég ötumst við að ýta dag hvern, lengra útí djúpið. Steypt fram af haldreipi viljans Og vonirnar drukkna. ] [ Kroppaði í þig, hélt að ég fengi saðsamt og dísætt kornið útá engi En óplægður akur, kalinn undan vetri Þá kornin í hlöðunni eru mun betri ] [ Dauðinn er minn vinur, ljáinn ég vill fá. Komdu til mín vinur Sýndu mér vald þitt og vel brýndan ljá. ] [ Ég er fastur í flækju og þegar ég toga í spottann þá losnar ekki því ég er hnúturinn. ] [ Ég átti leið hjá. Tjörnin var með fuglaflensu. Ég hlustaði á Hljómskólagarðinn. Allar sálir mínar voru með í för, allir líkamar og staðgenglar, og við héldum áfram að lifa og deyja af gömlum vana. ] [ Kveikjan, og það lifnar bál í hjartanu, brennir ást og hamingju Það logar glatt á meðan birgðir endast, Svo gýs upp verkurinn, þegar unnustan kastar á hjartað, Svartri Olíu. ] [ Að sitja fastur og þora ekki neinu er eins og að sitja fastur inní bíl sem situr fastur í snjó sem liggur fast undir dekkjunum. Þú þorir ekki útur bílnum þú situr bara og bíður og enginn er til, nema þú og þessi bévítans bíll og samt siturðu, og bíður. ] [ Dagur er að kveldi kominn Komin er niðdimm nótt Enginn er á ferli Allir sofa rótt En inni í húsi er kona ein Situr þar og grætur Hún grætur sinn yngri son Um dimmar einmanalegar nætur Um sumarið hann dó Hann dó svo snöggt Enginn gat hann kvatt Á lífsneista hans var slökkt Hans hlátur,hans bros og bragur var öllum sem hann þekktu svo kær hann var þeim einlægur vinur og stóð þeim alltaf nær Söknuðurinn er mikill Fyrir móður að bera Að missa son Þannig á það ei að vera En áfram dagarnir líða Líkt og ekkert hafi gerst Að bera þennan söknuð Það er móður verst Hún situr upp sína grímu og reynir að brosa breitt en ei er það auðvelt því er ekki leynt Allir hana styðja og er það hið besta mál en kvölin fer aldrei hún mun ætíð herja hennar sál Hún mun alltaf hafa í hjartastað minningar um sinn kæra son en ótrauð fer hún áfram lífsins veg það er mín einlæg von ] [ Heimurinn er sem bíll og hvika heimsins eins og dekk sem snúast og snúast þar til bensínið er búið. ] [ Brostu…já brostu nú!!! Engir brosir líkt og þú Þín fegurð sem af þér stafar Þín góðsemd allt lagar Þín nálægð, þinn friður Líkt og fallegur sjávarniður Þín trú, þinn ljómi Þín tryggð, þinn sómi Þín velvild, þín ró Þín ást sem er svo frjó Umvefur mig alla og lætur mig ei falla ég finn fyrir þér hérna hjá mér þú mín gætir líkt og þú hjá mér sætir ég vil vera eins og þú það er eina óskin mín nú því engin persóna er betri mér kvíður fyrir komandi vetri hvað geri ég án þín hvað geri ég nú mín stærsta ást það ert þú ] [ Ég verð þín frænka. Ég verð þinn vinur. Ég mun þig styðja hvað sem á dynur. Hlusta mun ég ávalt á þig. Alltaf muntu hafa mig innanhandar alla ævi mina. Mitt loforð legg ég í hönd þína. Megi gæfa og gleði ávalt fylgja þér. Þú alltaf verður í hjarta mér. ] [ Ég er hér en þú ert þar og freistingin er allstaðar en sama hversu mikil sem hún er þá stöndumst við hana eins og vera ber… ] [ Árin koma, árin líða Eftir hverju eru allir að bíða Til hvers morgundeginum að kvíða Þegar lífið er í dag Margir virðast því viljandi gleyma Hvað dagurinn í dag hefur að geyma Það er mesti óþarfi aða láta sig dreyma Um hvað morgundagurinn færir í hag Nýttu það sem þú nú hefur Því dagurinn sjálfur þér hamingju gefur Ef þú nýtir hann rétt og það ei tefur Þá kemurðu lífinu í lag Taktu því lífinu með fagnandi hendi Og þeim baráttuóskum sem ég þér sendi Og ég hér með á það bendi Að tileinka þér þennan brag. ] [ Okkar elsku góði afi! Þú ert sá besti á því liggur enginn vafi. Þú átt ábyggilega eftir að lesa fyrir okkur ljóð og hjá þér munum við alltaf vera góð. Út um allt viljum við hendur þínar leiða. Einn daginn fáum við kannski að fara með þér að veiða. En hvað sem þú gerir og hvar sem þú ert að þá hefur þú okkar litlu hjörtu snert. Því þú ert svo góður og þú ert svo klár hjá þér munum við ekki fella nein tár. Því heima hjá afa er alltaf gaman að vera því þar getum við látið mikið á okkur bera. En afi okkar kæri við viljum að þú vitir nú okkar allra besti afi, það ert þú! ] [ Við lífsins stiga ætlum að þramma og þar með okkur verður þú okkar elsku besta amma. Okkur þykir lífið svo skrýtið og margt er svo flókið í heiminum nú. Þá er alltaf gott að vita að okkur getur hjálpað þú. Þú alltaf í huga okkar ert. Þú hjörtu okkar hefur snert með góðmennsku og hjartavernd. Hér og nú ertu heimsins besta amma nefnd. Þú ert sem af himnum send. ] [ Ljós og hrokkinhærður með augun blá Myndarlegur og góður er drengur sá Algjör kúrukall við mig er Mikið mun ég sakna hans þegar hann frá mér fer Þessi tími með honum hefur verið mér kær Allar mínar bestu óskir hann fær Ekki hafa mörg tár komið honum frá Mér finnst ég eigi lítinn hlut í honum, bara smá Komið er að kveðjustund Vona að við eigum endurfund Ég óska honum alls hins besta Megi hann finna hina gæfu mesta ] [ Í haust byrjaðir þú, Björn Bogi, hjá mér Mikið hefur verið gaman að kynnast þér Fjörugur ungur drengur ertu með sanni Þú átt eftir að verða að myndarlegasta manni Hjá okkur hefur oft verið rosa gaman Lita,teikna,syngja og vera saman Þó stundum hafi verið pínu læti Þá hafði ég alltaf af þér mikið kæti Nú þegar komið er að kveðjustund Vona ég að við munum eiga endurfund Ég óska þér alls hins besta Megir þú finna hina gæfu mesta ] [ Ei hef ég lengi passað þig En þó hefur þú náð að heilla mig Sá tími sem við áttum hér saman Var mér mikils virði og það var mjög gaman Þú ert lítill prakkari,sætur og klár En örsjaldan varstu stundum sár Auðvelt var þá hugga þig Ég tók þig upp og þú kúrðir í mig Alltaf var allt búið strax þá þú vildir bara smá huggun fá okkar tími saman hefur gleði gefið mér ég mun aldrei gleyma þér. ] [ Elsku litli frændi minn Komið er að kveðjustund um sinn Lengi hef ég passað þig og var það dýrmætur tími fyrir mig þetta hafa verið misjafnir dagar en það er ekkert sem hlátur og smá bros lagar því ert nú skemmtilegur lítill kall og allt þetta hjá okkur small við munum þó oft hittast saman áfram verður hjá okkur gaman vita máttu að alltaf áttu hjá mér skjól koma hér og leika hvort sem er rigning eða sól því mínir armar eru alltaf opnir þér þú verður alltaf í hjarta mér. ] [ Þú ert mér lífið Þú ert mér allt Þú ert minn hiti þegar það er kalt Þú ert mín stytta Þú ert mitt stoð Þú ert minn hugur Þú ert mitt þor þú ert mín ást þú ert minn vinur þú styður mig alltaf hvað sem á dynur Þú ert minn Ég er þín Um alla eilífð Við tvö ] [ Tree sagði við mig: I am leaving svo ég sneri því yfir á íslensku og það sagði: ég laufgast. ] [ Þú varst að reykja andrúmsloftið en ég teygði mig til þín úr rykugu sófasetti og við vorum. ] [ Eyjamaður sagði við mig: Öll lönd eru hlutar af eyjum en allar eyjur eru ekki lönd. ] [ ég klifraði upp stigann Ég er að detta í sundur sagði hann -Haltu þér saman. ] [ Um konu hér í bæ ég ætla smá að tala Við alla bæjarbúa held ég að hún sé búin að mala Því það þekkja hana allir….já þekkja hana vel Öllum líkar vel við hana …eða það ég tel Púkinn í Lindartúni er hún stundum nefnd og oftast er hún alltaf vel uppstemmd Þetta er enginn önnur en hún Bessý okkar Konan sem alla í bloggheiminn lokkar Bessý okkar er yndi allra og kæti Algjör prakkari en þó aldrei með nein læti Hún við alla vingjarnleg er Góð persóna, sem hver og einn sér Já, hún Bessý er hér og Bessý er þar Bessý getur verið allstaðar Ekki slæmt það nú er... ekki er nú það… En ef þú finnur hana hvergi…..þá hefur hún pottþétt skroppið í bað ...í nuddbaðið sitt fræga þar gerir hún sig þæga hverrar mínútu þar hún nýtur en svo upp úr baðinu þýtur Hendist í bílinn og keyrir af stað Keyrir í FS og leggur í hlað Hoppar þar inn og sest á stóla Því Bessý okkar er gengin í skóla Stuðningsfulltrúann er hún að taka með stæl Ég held að í því starfi verði hún sæl Að skóladegi loknum þá heldur mín heim og dettur í hinn fræga “bloggaraheim” Við hina og þessa hún ræðir hin ýmsu mál Já Bessý okkar er góð sál Því geta allir verið sammála mér Já er það ekki?…eða hvað finnst þér????? ] [ Ástin er ljúf, ástin er sæt, ástin er góð, ástin er þægileg, ástin er blind eins og nýfæddur kettlingur. Án ástar þinnar til mín, er ég ekkert nema einmana Maríuerla á flugi um bláan himin alheimsins. Án þín er ekkert nema yfirgefin söngþröstur lífsins, án þín mér við hlið. Ástin er sár. Ástin er blind mynd af mér, þar sem ég bíð eftir þér við hlið ástarinnar. Eftir ást þinni til mín. Ástin er ljúf eins og mjúkur sófi alheimsins. Ástin er mjúk eins og gljáandi feldur pardursins. Ástin er ljúf, ástin er sæt, ástin er góð, ástin er þægileg, ástin er sár, ástin er blind eins og nýfæddur kettlingur. Án þín er ég ekkert, með þér er ég allt sem hugurinn girnist. Ég elska þig. Vjofn (1995) ] [ Ég finn fingur þína enn gæla við hár mitt frá því í gærkvöldi á ballinu. Þú hvíslaðir í eyra mitt að þú værir minn að eilífu og ást þín væri óendanleg. Ást þí til mín er mér ómetanlega verðmætur dýrgripur lífsins. Ég er þín. Hjarta mitt þarfnast ástar þinnar til mín. Þú sagðist aldrei ætla að yfirgefa mig. Ástföngnum augum leist þú á mig, og hvíslaðir stuttu seinna: \"Kraftur ástarinnar er óendanlegur. Þú ert mín að eilífu.\" Þú fylgdir mér heim og hvíslaðir í eyra mitt: \"ég elska þig.\" Með trega kvaddir þú mig og hélst heim. Vjofn (1995) ] [ Fuglinn flýgur frjáls um loftin blá. Ekki skil ég tilgangin af því að fljúga út um allt án einhvers tilgangs. En ég vildi að ég gæti flogið svona frjáls um loftin blá. Án áhyggja. Vjofn (1994) ] [ Næturgalinn fagri flögrar um garða keisarans í Kína, og syngur sinn fagra söng um nætur fyrir keisarann í Kína. Keisarinn í Kína eigrar eirðalaus um garðana sína fögru í Kína. Án næturgalans fagra er keisarinn í Kína eirðalaus. Næturgalinn fagri syngur sinn fagra söng fyrir keisarann í Kína. næturgalinn fagri sem flögrar um garða keisarans í Kína, er keisarinn sjálfur í Kína. vjofn (1994) ] [ Ef lífið er auðvelt, ef lífið er fullkomið og hlédrægt. Þá er lífið ekkert nema aum sjónhverfing af raunveruleikanum. Ef lífið er erfitt, ef lífið er ófullkomið og óhlédrægt. Þá er lífið góð sönnun á raunveruleikanum. Ef lífið og ástin eru einn og sami hluturinn. Hvað er þá dauðinn og hatrið í öðru veldi? Svar: Aum afsökun á raunveruleikanum. Þá er lífið eins og einn allsherjar índíánabardagi við þig sjálfan. Vjofn (1995) ] [ Ísland með sitt fallega landslag hefur risið úr sæ og skartar sinu fegursta umhverfi til mín og þín. Okkar. Við gengum inn víkina hönd í hönd og hlógum að lífinu er við horfðum á hvort annað með ástföngnum augum. Við vorum ung og ástfanginn og héldum að heimurinn myndi enda án annars okkar, en svo var nú ekki. Þú og ég erum við. Verum því við að eilífu. Vjofn (1995) ] [ I wish I could live forever, to see the amazes in the future. I wish I would have meet you sooner, to become better friends, forever. Vjofn (1995) ] [ Ef ég væri fugl og gæti flogið myndi ég fljúga til þín og taka þig með mér til tunglsins. Missirinn er sár. Ef ég ætti eina ósk, myndi ég óska mér þig aftur til mín, svo þú gætir lifað lífinu eins og þú hefðir kosið. Ef þú finnur þig knúna að koma aftur til mín. Birstu mér í draumi og segðu mér að þér líði vel. Vjofn (1994) ] [ Fjallið gnæfir yfir hafið og bæinn, eins og tröll í árásarhug. Fuglarnir fljúga um í leit að mat, yfir hafið djúpa og bláa. Bílagnýrinn berst til mín í gegnum loftið, svo óþolandi hávær og drungalegur. Mildur vindur blæs um loftið og ýfir hafið, svo það er eins og það sé nýkomið úr lagningu. Vjofn (1995) ] [ Hann gekk yfir götuna eins og engill sem svífur um himnana. Hans bjarta og góðlega bros sem yljar mér ætíð um hjartarætur. Lifir ennþá. Björt augun geislandi eins og sól í heiði. Frjálsleg framkoman eins og ljúfar tónar. Persónuleikinn eins og mjúkt flauel. Hann er eins og hann er. Yndislegur að vanda. Vjofn (1995) ] [ Hún kom til mín svo undur- fögur og smágerð. Hnarreist og tíguleg. Hún kom af tignarfólki frá fjarlægu landi, langt í fjarska. Rósin fagra. Nú situr hún og hengir haus. Hengir haus og bíður þess að deyja drottni sínum. Rósin fagra. Vjofn (1995) ] [ Hér sit ég og hugsa um hann, sem er mér svo ansi fjarri. Fjarlægðin gerir fjöllin blá, og mennina háa. Segir máltækið, en í huga mér en hann mér nærri. mér finnst ást mín til hans verða mér erfiðari og erfiðari. En ást mín bíður hans annþá, ef hann ennþá vill njóta hennar. læt hugann reika um alla heima og geima. En endar alltaf hjá honum. Vjofn (1995) ] [ Formlega þér færi eitt, sem fyrifram hef gefið. Nú máttu ekki segja neitt, þér gef ég á mér nefið. Eflasut fyllir hlátur hug, heldurðu að mér létti? Vinnur ekki á mér bug, nú augun þér ég rétti. Fussar nú og hristir haus, heldurðu að þú farir. Væni þú verður aldrei laus, hér færðu mínar varir. Brosir núna blítt til mín, býst kannski við fleiru. Ekki er ég orðin þín, þó ég gefi þér mín eyru. Glottið gufað upp um sinn, ég hef ey enn mig gefið. En í sárarbætur sæti minn, sendi ég frá mér kvefið. Þó þetta séu engin líknarstörf, lyftist á þér kassinn. Því nú ætla ég að gerast djörf og gefa þér á mér rassinn. Eftir hef ég hendur tvær, háls, brjóst og maga. Læri, leggi og nokkrar tær, sem að þú mátt hafa. Nú er aðeins eitt að fá, sem að ég enn skarta. Ljúfur ég ætla þér að ljá, lykil að mínu hjarta. ] [ Þótt sköpin hafi á skafli tök er sjaldan báran ein og stök. Sjábratta eyði eyja. Færðar voru fórnir hér feigðar rúnum vafinn fer. Því eitt sinn skal hver deyja. Ég olli mörgum æðru og kvöl en átti ei annarra kosta völ. Breyskur er hugur og hold. Kyrrlátir kveðjið mig horfinn hrakinn í útlegð og sorfinn. Hvílið minn bróður í vígðri mold. Er sorgin sló á strengi sína skárust þeir í kviku mína. Fýkur í fannir um fjalladali. Bitur gekk ég einn frá borði er birtist hún í dánarorði. Fljúgðu svanur um himinsali. Röddin kveður djúp og dimm dynur í Garði við sönginn þinn. Upprís sólin í austri hátt. Illt skal af illu hljóta illt muntu af verki njóta. Andvarpsstunu við höggið átt. Orða þinna á þú ráð uppskerð það sem til er sáð. Aldir renna eldar kynda. Bæði ráða guð og gifta. Grímu munu árin svipta af öllum er á móti synda. ] [ Ekki horfa til himins krakki! Það eru klámstjörnur í kvöld. ] [ Þegar hún skein hin úlpuklædda sól og suður var miklu fjær en austur þá runnu tár frá rosabaugum svo köldum og risinn féll sem eittsinn var hraustur. Eins voru aðrir miklu nær en þú og ýmsir sem gáfu allt sem þeir áttu en raunir hins mikla risa voru fyrir bí er ræflar hlógu og skemmdu sem þeir máttu. Það var hlegið og grátið og greitt með annara fé og það gránaði í fjöllin seint um óttu dagur leið að kveldi þó klukkan væri sjö og kvöldið það kom að áliðinni nóttu. En sökin var fyrnd einsog sólin sem skalf og sumir áttu ekki fótum fjör að launa nú hristist hún á himni hin úlpuklædda sól og heilsan er mæld í fjölda kroppaðra kauna. ] [ dökkir baugar augun píra til að geta séð það sem lætur það lifa en í stað þess fellur það dýpra og dýpra og fjallstindur dofnar neðst er ekkert nema steinar mörg hundruð sem tákna veruleikan klofinn í núlegri þekkingu lífsins. ] [ Í rökkvinu leitar hann að því sem hann á, hann fer í hvert hús til að leita, hann er álitinn gimmur, en það er hann ekki, því í rökkvinu má sjá, tár renna niður, kalda hvita kinnina. ] [ Með stjörnublik í augum, kallar hún á hjálp, hún segist vera hrædd, hún hleypur um, skelfingu lostin af hræðslu, og leitar af felustað. En veggurinn hrinur, þrumuveður dynur á, þeir hana fynna, svo hún segir; \"segðu mömmu að ég elski hana\". ] [ Ég skemmti mér skríðandi í skugganum til að hafa betri yfirsýn. Skröltormarnir sem ég hitti á leiðinni eru allir málhaltir. Ég áveð að vera nakin til að skera mig ekki úr -ákveð að öskra svo enginn heyri í mér. Ég drekk drykkinn í einum teig til að verða ekki full. Horfi í augun á öllum sem ég mæti svo að enginn elti mig. ] [ Hver ég er? Sjúkdómur, æxli, bragðgott og fallegt æxli. Svona einsog litir og tónlist og það að sofa áhyggjulaus meðan draumarnir fleygja manni út fyrir mörk veruleikans. Þó ekki út fyrir mörk mannlegs máls. Svona einsog fallegur litur, fallegt lag. En þú bara veizt ekki af litblindu þinni og botnar ekkert í textanum. Liturinn veldur sjúkdómum og dauða, textinn fjallar um mig. Ég er æxli og þetta er textinn minn. Fegurðin drepur. ] [ Siente el aire Eshucha el aire Como la tierra que te tiene y tu alma vuele el sol nunca duele Como el amor ouele ] [ Hann veit ekki neitt segi ekki ég sé sveitt fæ ekki rauða flekki -hrekk ekki í kekki ...ætli hann sé gerður úr svínaspekki? ] [ Hvort myndirðu heldur vilja vera, tyggjóklessa á stétt -eða fuglaskítur á staur? Saur úr Halldóri Ásgrímssyni -eða fyrsta byssukúlan í Írak sem hæfði í hjartastað? Henging Sverris- og Friðleifsdætra -eða SPRENGING KÁRAHNJÚKAVIRKJuNAR? ] [ Gleðin gagntekur mig. Lítið fræ vex mér innra. Öll mín áralanga bið bar ávöxt. Allar mínar óskir eru uppfylltar. Vakna einn morguninn, líður ekki vel. Mig verkjar. Afreka daginn með herkjum. Um kvöldið kemur blóð. Hringi í lækni, leggstu fyrir, ekkert annað hægt að gera. farðu þér varlega. Liggðu fyrir. Græt úr mér augun. Framtíðin virðist svört. Er óhuggandi. Hvar er fæið mitt? Því er það farið? Engillinn fór aftur til himna. Vjofn (2004) ] [ Ligg við hlið hans og hlusta. Hlusta á andadrátt hans í þögninni. Hann sefur djúpum draumlausum svefni. Stoppar andartak, byrjar aftur. Skil ekki, vil skilja. Hvers vegna? Hvers vegna ég? Dreymi dagdrauma, drauma sem enda vel. Hann segist elska mig. En afhverju mig? Hvað hef ég fram að færa sem hann sækist eftir? Hann gaf mér gjafir, tvær dýrmætar gjafir. Fyrir það er ég þakklát, svo eilíflega þakklát. Þetta vildi ég. En af hverju mig? ] [ Ligg hér, get ekki sofið. Andvaka. Læt hugann reika, fer ekki langt. Stoppar hvað eftir annað á sama stað. Hugurinn endar alltaf hjá mömmu. Velti fyrir mér hvað hún sé að gera. Vaka yfir og vernda barnabörnin tvö? Læt hugann reika, kemur aftur að mömmu. Hvað ætli hún sé að hugsa. Hugsa um fjölskylduna litlu sem stækkar? Vertu hjá okkur mamma, vertu hjá okkur alltaf. Vjofn (2005) ] [ Nú 16 Október runnin upp er þú pabbi minn 58 ára aldurs ári fagnar englunum með ég á jörðu sit og þig sé elsku pabbi minn gættu mín því ég verð ávalt dóttir þín ] [ Þegar ég týni þér undir öllu ruslinu í hugsana-heimi mínum, fynnst mér ég týna hluta af sjálfri mér. ] [ Vináttan og frelsið er það sem ég og þú þörfnumst til að halda lífi í þessum geðveika heimi. Viltu vera vinur minn, og leyfa mér að vera vinur þinn um alla eilífð í gegnum alla geðveika heima. Vináttan og frelsið er það sem ég þarf til að geta haldið í til að halda vitinu í þessum geðveika heimi. Ég þarfnast þín, þú þarfnast mín, verum því vinir og njótum frelsisins sem við hljótum með vináttu okkar. Vjofn (1995) ] [ Ég virðist þekkja andlit þitt. Ég get ekki komið því fyrir mig. Allar þessar breytingar eiga sér stað. Enginn hefur tekið mig þangað. Ég sver ég þekki andadrátt þinn. Minningar eins og fingraför, rísa rólega. Þú vildir ekki muna mig, því ég er ekki sú sama. Lítill bær ákveður örlög mín. Það er svo langt síðan, mig dreymdi aldrei um að þú kæmir aftur. En nú ertu hér, og ég er hér. Er minningin um mig enn í huga þér? Þín er í mínum. Vjofn (1995/2005) ] [ Ég get ekki barist við þessa tilfinningu lengur. Samt er ég hrædd við að sýna hana. Það sem byrjaði sem vinátta, hefur orðið sterkari. Ég vildi að ég hefði styrk til að sýna það. Ég segi sjálfri mér að ég geti ekki haldið út að eilífu. Segi að það sé engin ástæða fyrir hræðdslu minni. Mér finnst ég svo örugg þegar við erum saman. Þú gefur lífi mínu stefnu, þú gerir allt svo skýrt. En eins og ég velti fyrir mér að hafa þig í sjónmáli. Þú ert kertið í glugganum á köldu vetrarkvöldi. Ég færist nær en ég bjóst við að komast. Ég get ekki barist við þessa tilfinningu lengur. Ég er búin að gleyma fyrir hverju ég háði þessa baráttu fyrir. Það er timi til kominn að leggja út spilin. Vjofn (1995) ] [ Gustmikil og gröm að sjá geysist ellin fríða. Hún mun ekki í Höskuld ná, hann er úti að ríða. Ef heyri ég í hófum skella og himininn er blár. Kát ég mun á könnu hella og kannski á ég tár. ] [ Er ég sá þig ungan mann eldur brann í æðum. Einatt er ég hitti hann, hrifin kasta klæðum. ] [ Tveir engladvergar kysstust það var ekki svo klámfengið bossarnir hristust þó en skvampið var bara rómantískt sannfærðir um að stefna þeirra var einhver og raunveruleg en ekki bein lína flugu þeir inn í framtíðina með hendur um axlir hvors annars himinninn glitraði á meðan þeir ákváðu að trúa ekki á neitt nema hina líðandi stund og sama skýjið sem þeir fóru reglulega framhjá ] [ Laufið missir tak eitt, tvö og öll þau falla -það er komið haust ] [ Taktu hjartað mitt geymdu það, gleymdu því ei -því ég elska þig ] [ ÉG er kominn, tókstu eftir því að ÉG er kominn? ÉG er kominn..... ÉG er kominn! Veistu það að ÉG er kominn? Kominn.... ÉG fæ mér kaffi, því að Ég er kominn. ] [ Lausn á tímans vanda er að ganga ekki með hangandi hendi Lyklar að dyrum til traustsins ljósi Ljósins hæðar sveita fjósi Heimsins lausn á tímans vanda lyklar veraldar heimsins brjál Yfir hellisheiðis-sanda og fjúga yfir landsins - sál Yfir heiðislanda grænu þar svífa sætir vindar hlýir Ég vil sjá á engi, hvíta hænu og yfir sjávarglaumin prýðir Gaman er að sjá ljósið í fjarlægð og nóttin sækir á hlíðarkot Langan bjartan , munaðar dag og heimsins tími leiðir daginn. ] [ Brostu þó þitt hjarta sé brotið Brostu þó ást þú hafir ei hlotið Brostu það ávinnur mikið Brostu það engan getur svikið Brostu þegar þú átt erfiðan dag Brostu...eitthvað fer þá í lag Brostu til hins dapra þá mun hann ei í frekari sorg hrapa Bros getur veitt hinum sorgmædda ljós Brosið getur verið sem undurfalleg rós Brostu til barnanna sem leika sér Brostu til mannsins og bros hann gefur þér Brostu til dýranna og þau koma frekar til þín Brostu til fólks þegar dagur dvín Brostu til gamla fólksins já, brostu breitt! Brostu til allra það getur mörgu slæmu eytt Brostu og þú bros munt hljóta Brostu því allir þess njóta Brostu til mín og ég brosi til þín Já brostu alla daga enga samvisku mun það naga Allir þurfa á brosi að halda Engu slæmu mun það valda Brosið það vináttu og hamingju gefur.. ..og hlýju og allt illt þá sefur Það er sá sannleikur sem ég get sagt þér Prófaðu að BROSA, það mun gefa af sér ] [ desperation, on the edge of consealment hoping the best, I need to rest finding an angel, I fracture my heart no more rest, I still hope the best typing as an old man, but still just a boy I don’t really mind just trying to enjoy folding this paper the key to my heart you think that I’m mushy thats where it all starts playing the music pretending that you hear but you can’t hear shit because of youre biggest fear that would be to open up youre emotions to people thank god for this gift at least you are able closed forever, try to break free I lost the key thinking “mistake” there never was a key ] [ Út um þúfur inn í hús þarna leynist Mæja mús. Hvað sem því líður þá er bóndinn ekki blíður, hann er öskureiður en sonurinn er leiður honum þykkir vænt um músina þótt hún sé með eina lúsina. Nú veit ég ekki hvað ég á að segja, og ætti því bara að þegja. ] [ Ég horfi út í bláinn, ég horfi á sólina þegar hún slökknar í hafinu, ég horfi á blómin hvernig þau lokast og sofna, ég horfi á himininn hvernig hann dökknar. Ég horfi á þig. ] [ Ég er föst í dýpstu holu jarðarinnar, ég er ein. Mig vantar eitthvað sem ég veit ekki hvað er. Það er eins og hjartað ætli að brjótast útúr brjóstinu og yfirgefa mig. Allt er farið. Það er myrkur og sé ekkert ég loka augunum hægt og rólega. Þá sé ég mynd, hún er af þér ég heyri í þér en svo hverfur þú og ég vakna heima í rúminu mínu. Þá sé ég hann. Það er veruleikinn. Orðin þín bergmála í höfðinu á mér, ég vil ekki meira. Ég öskra Hvar er ég? Ég er byrjuð uppá nýtt. ] [ Ég hélt að þú værir eðlileg og þess vegna varð ástin og ástin var góð ástin var ljós í myrkrinu. Myrkrið var ekki lengur dimmt og kalt því að þú komst og iljaðir mér um hjartarætur. Síðan vissi ég sannleikann. Ástin gaf upp öndina. ] [ Ástin mín þó ég aldrei hafi farið þó ég aldrei hafi spurt þó þú alltaf hafir verið og aldrei horfið burt ástin mín, má ég koma aftur? Ástin mín þó ég aldrei hafi hugleitt þó ég aldrei hafi horft þó þú alltaf hafir elskað og aldrei annað hvort ástin mín, má ég koma aftur? Ástin mín þó ég aldrei hætti að elska þó ég aldrei gleymi þér þó þú alltaf elskir alla og aldrei gleymir mér ástin mín, má ég koma aftur? ] [ Með augnlokin þung sem feiti gjaldkerinn fæ ég mér annan þriðjudagsrauðvínssopa. Með blý í hnakkanum og blóðsugu á bakinu segi ég fílunum sem toga í axlirnar á mér -að lina aðeins takið. ] [ eins og byssukúlur sem reyna að hitta okkur. Sumar fara framhjá, þó lítur maður við og er feginn að hafa sloppið. aðrar kúlur hitta okkur, en særa okkur lítillega skilja bara eftir sig skrámu, stundum er ekki hægt að ná þeim úr. Svo kemur að því, þegar maður er enn í sárum. Hún hittur mann og fer djúpt í holdið og næst ekki úr. Manni svíður í fyrstu og hitnar svo venst hún og áður en maður veit getur maður ekki án hennar verið. ] [ When is the world to perfict? When can I stop these endless thinking? My mind is pure, but is your? How will we know, what to do? When do we go, and where to?? Do we all have to be inlove? where do feelings end? What kind of feeling can take us into space? and where do we land?? You might think I\'m stupid Like lennon said, I\'m not the only one No I will go to bed. And hope that I will be gone. I will try to do what I\'m told but inside all I don\'t want to I just want to be bold ...all I can do... ] [ Sometimes I just wanna go home where it rains flowers noone is poor noone is evil noone is sad or bad or unhappy where everything shines every music is like life everyone is like you ] [ Ég? Ég held að ég geti labbað á vatni! Labbað heimsins hæðstu fjöll! Synt í kröftugustu ám! Hoppað til tunglsins! Flogið til júpíter! Bjargað sveltandi börnum! Legið í blautu grasi! Verið ég! Verið hamingjusöm! Allt get ég, þegar ég sef. ] [ Fyllerí á hæsta stigi verðum kolruglaðar endum saman í faðmlagi nú erum við barnaðar Jóna verður hissa Guðný verður flögurt Betty þarf að pissa þetta er dapurt Betty og Jóna við voru víst saman Jóna er ekki lengur mjóna það er ekki gaman Jóna og Guðný Þær voru að leika Jóna potaði neðaní og gerði Guðnýju veika Guðný og Betty fóru að kela við fóru í annað partý nú þarf ég að ala Nú erum við mömmur og pabbar en getnaðarlimur? þessir Keflvíkingar Það var enginn drjóli við voru bara þunnar ættu helst að fara á geðveikrahæli þetta eru áhrif drykkjunnar Nú huxum við og hlæjum þessir góðu gömlu tímar þurfum ekki strax að skifta á bleyjum erum við hommar? Þetta ljóð er bara rugl gerðist ekki í alvöru Gvuð minn góður ég braut nögl ég var leidd í fátæktargildru ] [ grái fokkerinn flýgur norður flugtækni gæsanna sem fylkjast suður að sækja flensu fer ekki framhjá mér flýt á bakinu fram og aftur ] [ Ég var flöktandi, sífellt spyrjandi um sannleikans eina veg fann þá leitandi, Guð minn huggandi og leiðin varð dásamleg. Sannleiksskapandi, gjafir gefandi Guð á himnum allt sér helgur guðsandi, friðar flytjandi og fylgd heitir hann mér. Ertu grátandi, bænir biðjandi um bros og líknandi hlíf komdu fagnandi að krossinum krjúpandi og Kristur mun gefa þér líf. Allt um lykjandi, ávallt elskandi eilífur Guð hann er. Kærleiksunnandi konungur ríkjandi á krossinum dó hann þér. komdu fagnandi að krossinum krjúpandi og Kristur mun gefa þér líf. komdu fagnandi að krossinum krjúpandi og Kristur mun gefa þér líf. ] [ Þegar að ég sá þig í sumar, Leit ég í augun þín Og sá sál þína Brosa. Þegar að ég sá þig í skólanum, Leit ég í augun þín og sá sál þína Gráta. Þegar að ég sá krakkanna á skólalóðinni berja þig, Leit ég í augun þín og sá sál þína Öskra. Þegar að ég stóð bara og horfði á, Leit ég í augun þín og sá sál þína Deyja. Þegar að þú fórst heim til þín og hengdir þig, leit ég í fortíðina og sá sál þína hverfa. Stöðvum einellti! ] [ Skólabjöllunar hringja út Ég labba meðfram veggjunum og í hvert sinn vona ég Vona ég að þau taki ekki eftir mér En þau taka eftir mér Þau koma í átt til mín og þau: Berja, sparka og gríta. Tár rennur niður kinn Þar sem ég lygg ein eftir á leikvellinum Blóðug og brotinn Ég er dauð Ég er dauð innra með mér. Elsku drottinn Elsku drottinn, Hjálpaðu mér! Bissa tekinn úr skápi pabba, Núna sef ég Núna sef ég að eilífu og mun aldrei- Aldrei þurfa að upplifa jafn mikinn sársauka aftur. ] [ Í hvert sinn sem að þú mig berð finst mér eins og þú í hjartað skerð. Aftur og aftur þú lemur mig Hjartað fér að gefa sig. Síðan þú við mig segjir og þú þegir! Hann mig meira lemur ef ég fér í felur. Ég í þunglindið lekst og hjartað í mér brest. Seinna ég á púlsin sker Og sálin úr mér fér. ] [ Þú gafst mér ást þína, En ég vildi hana ekki En samt tók ég við henni og hengdi hana upp á herðartré og geimdi hana inni í skáp. En seinna þá vildi ég ást þína, Ég ætlaði að sækja hana inn í skáp, En þá hjekk eitthvað á henni, En það var of seint, Önnur ást lá á þér. Hún náði þér, á undan mér. ] [ Þegar að ég hjéllt að allt væri búið, Þegar að þú komst til mín, Þegar að þú hengdir ást þína á mig, Þegar að þú hjellst í hönd mína, Fann ég að hjartað væri hætt að blæða Þegar að þú komst og bjargaðir mér, Þegar að þú þerraðir tár mín, Þegar að þú leist í augun mín og sagðir...... Nú heng ég ást þína á þig og þú mátt ei leysa hana. Þar hjekk hún og aldrei var hreyft við henni. ] [ Eitt sinn var ég lítið barn, ég lek mér með dúkkunar, Fór í Teboð við lísu, Og gistum saman heima hjá mér. Eitt sinn gerði ég mistök, Ég lek mér að dópinu, Drakk bara áfengi og svaf á götunni ein mistök kostuðu mig lífið. ] [ Á Mánudag ég þig sá, Fegurð þín á þér lá, Bros þitt breitt og flott, Augu þín skinu eins og skærustu stjönur og rauðu kinnanar minntu hels á epli, Þú falleg varst þá. Á miðvikudag ég þig aftur sá, Fegurð þín en á þér lá, Brosið breitt sem aldrei fyrr, og augun vá, Þú fallegri varst þá. Á föstudag ég þig aftur sá, Fegurð þín fölnuð var þá, Brosið ekki lengur á þér lá, Augun fljótandi, Andlit þitt var fölnað, Þú uppdópuð varst þá. Á Laugardag ég þig aftur sá, Fegurð þín ei á þér lá, Bros þitt dauft, Augun þreitt, Andlit þitt var fölt og grátt, Þú ofdópuð varst þá. Á sunnudag ég þig ekki sá, Hvar var fegurð þín, Brosið breiða, augun skínandi, Og eplakinnanar rauðu ? Ég saknaði þín þá. Á Mánudag ég frétti það, Að fegurð þín var farin, Bros þitt ég ekki aftur sá, og augun sem að áður skinu of eplakinnanar rauðu Þú dáin varst þá. í kirkjunni ég í kistuna leit, Fegurð þín til himins farin, Brosið ei aftur á þig fer, nú augun tóm eru og kinnar þínar hvítar. Elsku vinur ég sakna þín, Ég sé þig í himnaríki þá! ] [ Hjarta mitt er frosið, Því að það vill engin elska mig. Villtu Hlýja hjarta mínu? Og hengja það upp til þerris. ] [ \"HA?\" Kallaði ég á guð ...\"Hvað segiru?\"... ...\"sambandið er e-ð slæmt\"... Þetta var um nótt og ég stóð á miðju Miklatúni í Reykjavík, horfði upp í myrkrið. Það var smá úði. Ég lét þetta eina viðbragð Guðs falla á andlitið og svalandi bleytan hafði róleg áhrif þó hún svaraði ekki spurningu minni. En ætli ég verði ekki að láta hana nægja. Hlítur að vera erfitt verk að skapa rigningu og vera kannski með páfan í símanum. Hann tekur ekki eftir litlum dreng á stóru túni. ] [ Austur á bóginn veit ég um ljóðin, þau felast í steinum, víða í geimnum. Um heimana langa, alveg út á tanga. Ef þú finnur það ekki, þá ferðu í kekki. Leitið og þér munið finna! Það er markmið sem þú átt að geima. ] [ Í hjartanu mér svíður, ég verð að segja þér hvernig mér líður. Þetta er ekta ástarhugur, við erum eins og 2 litlar flugur. Kæri minn besti vinur, þú ávalt mig best skilur! Við tölum um heima og geima, ég held við séum engu að gleyma! Segðu mér minn kæri, hvernig lífið án mín væri? Um alla daga langa, vill ég vera í þínum vanga. Dreymi þig daga og nætur, ég elska þig, alveg niður í rætur. Spurningin er mín ósk, Viltu spyrja mig núna fljótt! ] [ Fyndið hvernig sorgin þvingar mig alltaf niður minninga-götuna Ég sá stjörnuhrap í kvöld sem veitti mér enga ósk ég horfði bara á hana falla ] [ I will be take I try to fake make me a shake and give me litle cake maybe I was a big mistake ] [ Í Kringlu kastast kaupæði í innkaupakerran full af engu keyri um á jeppa, kaupi Herbalife, sérð mig þjóta á eftir kvóta. Verð að eiga meira en nágranninn; verð að eiga hluti sem ég á aldrei eftir að nota og fyrir framan arinninn, Bachelor og Idol ylja mér, enda ekta gervi, rétt eins og ég. ] [ manstu eftir hellinum þar sem við héldum að ættu heima tröll manstu eftir brúnni sem við byggðum yfir lækinn úr fúnum spýtum manstu eftir því þegar kúnum var hleypt út á vorin manstu eftir því þegar þú fluttir og við sáumst aldrei aftur ] [ Það bítur þig, það skemmir þig, eyðileggur þig þar til þú hverfur. Ég er ein eftir, án þín, krabbinn tók þig. Hvað á ég að gera? Ef þú hefðir verið í sama landi hefði ég farið í jarðarförina og grátið, af því að ég sakna þín, þó að ég hafi ekki náð að þekkja þig af því að þú áttir ekki heima í sama landi. Þá sit ég í mínu landi og hugsa um þig, sakna þín og græt. ] [ í nóttinni varð ég persóna í eigin höfði súrrealískir eru dagar þínir, hálfvotir að innan í hreinskilni sagt. Þú engill orða minna, vængir þínir eru ást mannkyns. ] [ Hamingjan er sem hafið, hjúpað af sólarglóð, dreymir að djúpið hylji dýran og fágætan sjóð. Hamingjan er sem hafið er hlustar á stormsins óð, gjálfrar og glymur og veltist og gleymir þeim dýra sjóð. Hamingjan er sem hafið, - guð hjálpi þér veika mær! Það djúp, er þann dýrgrip geymir er dýpra´ en vor löngun nær. ] [ Hátt skal gígjan hljóma, honum þakkir færa, sem lét áður óma óðinn silfurskæra, söng um sólu bjarta, söng um frelsi þjóða, söng í hug og hjarta himin vors og ljóða. Brosið blóm á engi, blika lind í halla! Hreyfið hörpustrengi Huldur Íslands fjalla! Glitra gullnum ljósum glóey logastöfuð, skreyttu röðulrósum röðulskáldsins höfuð! Látið lóur gjalla, listaskáldsins hróður! Syngið svanir fjalla, söng um ykkar bróður! Fjalladrottning fríða faldinn láttu skarta! Lofið hjörtu lýða landsins stærsta hjarta! Meðan lífs frá lindum ljós og hreimar streyma, og í máli og myndum manna hjörtu dreyma, blikar skært hið bjarta bláhvel draums og ljóða, lifðu í lýðsins hjarta ,,listaskáldið góða"! ] [ Nú kveð ég hinn hagspaka, kvíaða hóp, nú kveð ég þig jórtrandi friður! Ég veit að þið kallið mig villtan glóp, ég veit að þið hrópið mig niður! Ég held mína leið – og hirði ekki meir þótt hæðninnar örvar mig stingi. Ég get ekki staðið og hrópað ,,heyr” á heimskunnar sauðaþingi. En liggið þið áfram, og hefjið þið hatt fyrir heimskunnar venjum fornum, og lærið þið áfram að segja satt og sanna með töldum hornum! Og haldið þið áfram að hæða þann glóp, sem heldur ei leið inna flestu, og trúir ei blindum og tjóðruðum hóp, en treystir þeim fáu, - bestu! ] [ Það húmar – og hafgúan raular svo hljóðan dularóð, en lengst í vesturvegum vakir hin hinsta glóð. Eitthvað svo undarlegt hvíslar innst inn í minni sál um hafsins ótal undur, sem öldurnar hefðu mál: Víkingar héldu á hafið og hugðu nema lönd; þrengri og þrengri varð þeim hin þögla, gamla strönd. Drekarnir stefndu frá ströndu, stormurinn söng við rá og leiddi þá langt út á hafið, en landið var hvergi að sjá. Þeir sigldu og sigldu yfir hinn salta öldugeim, uns vonirnar voru dauðar. En þeir vildu´ekki snúa heim. Þá brenndu þeir báta sína; það bál skein langt yfir sjá. Þeir litu við hinsta logann það land, er þeir vildu ná. Og reykurinn leið um loftið, hann lokkar frá kaldri strönd, því alltaf er særinn samur og söm hin ónumdu lönd. ] [ Upp\'í lygnu, út\'á straumi streytist gamall bátur við. Undirlagður, ærið lúinn, gefðu gömlum vini grið. Erfið vinna ávalt hefur fylgt þér vinur, straum í stál. Undirlagður, ærið lúinn, hvíl þig nú, þú gamla sál. ] [ Ó þú fagra undrafljóð, áttu hvergi heima? Mér finnst þú svo sæt og góð að ég vil þig gjarnan geyma. Eftir láttu skin og skúr, stíg í veröld mína. Þar munu vernda vegg’ og múr litla hendi þína. Undurfagra röddin þín rekur hug minn hljóða, út úr þínum augum skín fegurð allra fljóða. Vertu vinan ætíð mín, ekkert mun þvi aftra. Dryn, hjartað bjarta. ] [ Blóðið rennur, sérðu það? Það lekur, lítill, rauður lækur rennur, breiðist yfir gólfið. Ég hlæ! Þér finnst ég kannski ... ja ekki alveg eins og þú. En í raun og veru ... ja þá er ég eins og þú. Ég hef bara ... ja aðeins öðruvísi hugmyndir um lífið. Já það er rétt. Ekki líta mig hornauga. Ég er eins og þú ...ja svona næstum því. ] [ Sólin skín, ég hugsa um þig. Þú veist það, þú finnur það. Undarleg tilfinning hríslast um þig, þú lítur upp í himininn, við horfum á sömu sólina. Skyndilega dimmir, þú hverfur, nei, nei ég vil þetta ekki - skothvellur bergmálar í kyrrðinni. ] [ Stundar friður loksins, ... loksins. Blár skuggi leggst yfir andlit mitt. Ég er hrædd, ... svo ótrúlega hrædd. Hann elskar mig, ég veit það. Ég er bara ... ekki nógu góð við hann. Ég skal bæta mig, ... ég skal. ] [ Heimurinn er að farast Ég las það í mogganum í morgun Austrinu hefur verið pakkað saman Og Afríka tekin í sundur Forseti Perú lýsti yfir þjóðarsorg í gær Lamadýrin eru komin í gáma Þau mega bíða ragnaraka eins og við hin Kirkjugarðarnir eru pakkfullir Því að deyja á morgun þegar þú getur gert það í dag? Hérna hvíla dreggjar manns Krafsiði yfir og bætið við krans Lokiði augunum og minnist hans Drekktu í þig herlegheitin og gerðu það með glans ] [ Nálgast vetur, neikvætt er, núna vorið óska mér. Langa og lifandi sumarnótt, ljúft ég sef þá sætt og rótt. ] [ Ótti og óöryggi yfirtekur allt það góða þekur yndislegar sálir rekur blekkingar og lygar vekur ] [ Nú húmar að föstudagskveldi einn nýstingskaldan marsmánuð fyrir framan Melabúðina situr einhverskonar Þráinn með sál í einni en trönuberjasaft í hinni. Hvernig er ferðum hans háttað? hann fer á tveimur jafnljótum ] [ Nú húmar að föstudagskveldi en enginn Þráinn situr fyrir framan hrími setta Melabúðina. Á mánudögum er baksíða fréttablaðsins auð íslensk kvikmyndaframleiðsla er í sögulegu lágmarki. Það er nefnilega hætt að selja trönuberjasaft í Melabúðinni ] [ ég þú við saman í freyðibaði nakinn líkami þinn vættur súkkulaðibráð og ég dýfi hverju jarðaberinu á fætur öðru ofan í silfurofinn nafla þinn og á milli tánna. Ég sleiki saklausa hamborgara af stinnum geirvörtum þínum þær stinga og ég fæ hundrað göt á tunguna ég taldi þau í gær vakuminnpakkaðar hnéskeljar þínar sem ég týndi í fjörunni við Tunguvík ilma eins og nýlagað kamillute ] [ eg sakna þin, ég sakna ástarinar frá þér eg sakna kossana frá þer eg sakna þess að fá að vera hja þer, eg sakna goða lifsinns með þer, því þú attir mitt hjarta, ég mun aldrei gleyma þér ] [ Við vorum ástfangin, agnarstund. Lífið, sem hafnaði því. Stundin, sem tók það í fang sitt. Hún, sem vildi lifa í fegurð sem hvergi var til. bara agnarstund. Hann, sem kannski kannski. Ljúfan sem leið,stóra,stóra agnarstund. ] [ Ég sá þröst fá sér í gogginn það var sígarettustubbur Þá var mér hugsað til fólksins: \"helvítis subbur\". ] [ samviska samvitur samhuga samhyggð samsæri? sammála? ] [ brúnsvartar brástjörnur blikuðu í nóttu andugta horfði í kima sálar bleikar varir bergdu af blóði eitt fyrirgefðu drap stemmninguna ] [ Mér líður ekki illa lengur Því þú ert hér Þú ert minn littli happafengur Vilt þú byrja með mér? Á milli okkar er sterkur strengur Sem togar mig nær þér Ég veit ekki hvernig þetta gengur En vilt þú byrja með mér? Í fari þínu eru mikil gæði Það hver maður sér Mér finnst þú vera algjört æði Vilt þú byrja með mér? Þú kannt svo vel að syngja Og alltaf gaman að vera með þér En þeirri staðreynd ég verð að kyngja Að þú munt aldrei byrja með mér! ] [ Sometimes dreams come true You dream of me I dream of you So together we will be When I heard about your dream I didn’t know what to say I just wanted to scream And thought there was no way When you’ll hear about mine Where you look so fit You will feel fine I know it ] [ Ég les moggann við eldhúsborðið og drekk gamalt kaffi í rólegheitum morgunsins. Stafirnir í blaðinu dansa og mynda stórfréttir eða pólitískar skoðanir fyrir augum mér. Kötturinn stekkur upp á borðið og veiðir frá mér lesturinn með því að leggjast ofan á blaðið. Hann horfir á mig lygnir aftur demantsaugum sínum, brosir og malar hátt. Ég strýk honum nokkra stund og lít á klukkuna. ] [ Ég geng eftir stígnum sem er umvafinn ilmandi gróðri og leita að ástinni sem ég þrái að eignast. Á göngu minni heyri ég niðinn frá læknum og fuglana syngja í trjánum. Á bekknum situr ástfangið par. Kyssist. Lætur vel hvort að öðru. Ég á stutt eftir að enda stígsins ennþá finn ég enga ást. Kannski er hún ekki til? ] [ Pabbi pabbi Hví kalla ég þig pabba Ekki hefuru sinnt starfi þínu Ekki einusinni pínu Láttu mig bara vera Ég hef nóg annað að gera En að spá í þér Og áhugaleysi þínu á mér Ég vil ekki vera þinn sonur Og þú villt aðrar konur En móður mína Sem er allt í fína Því þú ert aumingi og ræfill Sálin hefði engan regnboga Ef augun hefðu engin tár Hefði enga liti Ekkert líf Svo þakka þér faðir Fyrir regnbogann ] [ Engin mun öðlast frelsi Maðurinn getur ekki verið frjáls Verið frjáls frá öllum ábyrgðum Gert það sem hann vill Hugsað bara um sig Og verið frjáls Því ef þú ert frjáls Ferðu ekki til himnaríkis Og þar Þar eingöngu Er hið sanna frelsi ] [ All around I ate my date My stash my state The needs calling late But you know, I gotta catch that flight All around, I ate my skunk My fur my funk As drunken punk But you know I’m higher that a kite All around my body I’m soaked I’m brushed, I’m broke That chunky will choke Along with the moment of clarity All around I strut my stuff My bad my bluff My sniff my snuff Along with the moment of ecstasy Damn, Damn again My eyes lid up, I’m on sinkin’ sand Damn, Damn again Mushroom man is here to take my hand As I sin For the state I’m in Nor loose or win I feed my soul You runt cheesy cunt Place your punt I’m on a role Hate me, ate me, eat me, beat me Freak me, weak me, will me, kill me Rip me, zip me, love me, let me go Damn, Damn again My eyes lid up, I’m on sinkin’ sand Damn, Damn again Mushroom man is here to take my hand As you heard, Heard my word, So absurd Facing down As I fake More I can take Shiver and shake Hit the ground Hate me, ate me, eat me, beat me Freak me, weak me, will me, kill me Rip me, zip me, love me, let me go ] [ This is the story About one man´s fame Who took my manhood and stained my name I caught him at home messing with my girl I lost my breath, my mind started to swirl Rippin hert burst in raging flames Cuz i lost my love to a man called Jazzy James Get of my Lady Get of my Lady But she just screamed Screamed his name Jazzy James It hurts when the sun is ripped from your sky You fill your chamber, bullets starts to fly The painfull sight of naked bodies in bed I couldn´t forgive so i painted them red My filthy love is never coming back Cuz Jazzy turned my world, my world to black My world is Shady My world is Shady So i caught a bullet Bullet myself ] [ I should´ve seen When you sold my spleen Something was wrong When my appendix was gone I wanna get out see the sun But they´re all after me with a gun Hypochondria Hypochondria It´s what´s wrong with me Private voices calling Tell i´ll crumble i´m falling But they´re only in my head I´ll bleed out in my bed The world stops to gyrate with a fall of a grenade I got hole in my soul keeping me from reaching my goal I got a soul in my head And it´s trying - dying dead ] [ When i feel alone, my mind goes across the sea To think of you my sister so far away from me You were my shelter, you are my rock We can be without allt he modern talk And i know life was a bitch But you always protected me when we were kids Don´t look back in anger there is one thing good You helped me survive our fucked up childhood You saved my life, and if i could I´d do it for you everyday, but you know i would You rised me up when i was down So it gets hard not having you around It gets harder when winter is growing colder When i just wanna lay my head upon your shoulder All my life i´ve been in my own prison And you were the only one who would really listen You are my saviour, you are my muse When i´ve got you in my heart i know i can´t lose So it´s the question what did i do To get the privilege, to be the only one really knowing you I quess we´ve lerned from the weeping wound from our father And the wounds get salty the times he won´t even bother But today you are a good mother It don´t matter how old i get i´ll always be your little brother You rised me up when i was down So it gets hard not having you around It gets harder when winter is growing colder When i just wanna lay my head upon your shoulder ] [ Ég sat við rúm þitt svarta nótt þá sorgin kom og allt varð hljótt. Ég minnist þín með sárum trega, það magnast undarlega. ] [ Mikll hestur hár og dyggur í huga mínum varstu tryggur. Á heiðum uppi frár og frakkur, fallinn ertu Yngri Blakkur. Þín við minnumst margan daginn, mikið varstu á stökki laginn. Aldrei hnípinn aldrei skakkur, allra vinur Yngri Blakkur. Penninn skrifar, söngur ómar, sólin yfir bænum ljómar. Yrkir hann þó áfram frakkur óðinn um þig Yngri Blakkur. ] [ Lífið er algjör svikamylla Það er þó það sem flestir vilja, en þó ekki allir Sumir vilja ekki meira Það sem enginn vill skilja... Hvað vilja þeir sem ekkert vilja? Hvorki lífið eða dauðann! Og við sem virðumst ekkert skilja, Hvorki lífið eða dauðann! En eitthað hljótum við að skilja? Því eitthað hlýtur Guð að vilja? Eitthað sem heitir ég og þú, eitthað sem gerir lífið ljúft. Ég er betri lífs, en dauður. ] [ Autumn The wind strokes my cheeks The leaves whirl by I whirl with the leaves My naked body remains Without thought, without soul, without feeling Bereft I am in another world But my body is in its right place I try to collect my thoughts My naked body running between the trees I lose connection with myself My body runs and runs But where is the soul I gather myself I see the body lying in the grass My own body My body is dead The soul flies up Often I have not seen the autumn But I save the memories ] [ Ein mun ég sitja, hér eftir alein. Kom mér ei á óvart, alltaf verið of sein. Alla þessa leið sem að ég nú fór. Aðeins nokkrar mílur enn. Þá kannski, já kannski hefði ég komist í mark Ég sit við hliðina á þér dag eftir dag Veit ekki hversu lengi ég mun geta falið það. Falið þetta frá þér. Ætli það muni ekki vera í dágóðan tíma. Því þú ert svo blindur eða vilt ekkert sjá, hvernig mér líður það framhjá þér fer. Enn á ný horfi ég á eftir þér þú aftur ert komin með nýja uppá arminn og ef það ei gengur þú kemur og vælir utan í öxlinni mér. Og ég leyfi það því það seinasta sem ég vil sjá er þig í ástarsorg. ©Hrefna Bettý Valsdóttir - 1989-2005 ] [ can you hear the beat the beat of a heart that is dead in a space full of emptyness just like a void can you feel the defeat the defeat of me and my head in a space empty but still full just like a void can you look at the resurection look but not see in my head no more space for nothing just like a void can you conquer the action laugh but not feel feeling for someone or something not like a void I escape from reality into my shell frozen outside far from a void I stop all activity burninig in hell staying on the inside my heart is a void ] [ For long I have not written but here I go once more talking about the things in life reminding you once more and you better listen if you want to learn a lesson for this is an old confession life is what you want it to be no more no less thats what I’m waiting for no one seems to understand the way they should restore the style of love and hate apart peace is uncomplete nothing goes the only way it was made to be freaking out from underneath you look to be amazed see me crying under the bed you see me fade away and now I close this monolog I dont know when I’ll be back but you can rest and be not afraid that I will be back ] [ ég sakna þín óendalega mikið á hverjum degi býð ég eftir endurfundum enginn hugsar svona vel um mig og þú allar áhyggjur hverfa í hvers lags ástandi sem ég ku vera í veit ég að þú verður til staðar ég elska þig svo mikið þú ert svo skilningsrík þér er sama þó svo að aðrir deila þér með mér ég sakna þín óendalega mikið á hverjum degi býð ég eftir endurfundum eftir langan og erfiðan dag er ekkert betra en að komast í þína mjúku breiðu arma leggjast og sofna. ] [ I’m falling in love I’m falling for you but dispite all that I do you treat me like a shoe tired of being stepped on like a bloody dog the dog who killed youre mother the dog see’s only fog don’t hate the dog hate the fog and you just might find that the bloddy dog is blind ] [ Ég sat og horfði á fegurð þína dansa í ljósi eldsins. Þú varst hljóð eins og vindurinn, kyrr eins og vatn, og af þér geislaði friður næturinnar. Ég fann þennan brennandi eld úr iðrum anda míns, djúpi sálar minnar, sprottin frá Honum, sem er upphaf elskunnar, höfundur ástarinnar. Og Hann leyfði mér að sitja og horfa á fegurð þína, dansa í ljósi eldsins. 23.12´00 ] [ Gleymdu því, að ég skuli hafa brosað, því brosið náði ekki til augnanna. Skeittu því engu, þótt ég hafi hlegið, því hláturinn kom ekki frá hjartanu En þessi tár... þau vökvuðu sál mína, nærðu andann, og gráturinn sem ómaði var bergmál hjartans. Hann færði þér tárinn, og þessi tár, eru handa þér 23/11/00 ] [ Þú ert hin mildi vorangan sem ber fyrir vit mín í golunni. Þú ert sólin sem vermir vanga minn. Þú ert mér kyrrt og spegilslétt vatn við sólarlag, svölun anda míns, friður fyrir sál mína. Þú veitir augum mínum gleði, höndum mínum ertu unaður. Þú ert allt sem maður getur óskað. Ég elska þig meira en lífið. 27/11/00 ] [ Við getum verið góðir saman, þú og ég. Við erum hvor öðrum jafn nauðsynlegir, og himininn er fuglunum og sólin er trjánum. en endrum eins þarf ég frí frá þér, vera einn með sjálfum mér, og hugsunnum míum. en hömlur..... hið daglega. 06/03/00 ] [ Ég horfði í skýjinn, og sá ímynd þína. Dropar féllu frá himnum, niður úr skýunum, og tár skýjanna runnu niður kinnar mínar vegna þín. 06/03/00 ] [ Engin hefur fengið tár mín, nema þú. Engin tunga, hefur smakkað seltu þeirra, nema þín. Andi minn hefur grátið vegna Guðleysis annars fólks. En ekkert tár hefur runnið til neins nema þín. Í þessum”heimi”, á mig engin nema þú. Þú átt mig ein. 27/11/00 ] [ Ég ritaði ljóð í sandinn hvíslaði það í vindinn hjó það út í hamrana harmabjörg hjarta míns Huginn, heyrirðu raust mína sem bergmálar þögul syng þína fegurstu söngva flyttu ljóð mitt, bróðir um víða veröld lofgjörð lífsins glæð þjáð brjóst mannana funa okkar og sefa hjörtu þeirra ] [ Hættu að þrýsta mér upp að veggnum Hættu að spyrja mig um tilfinningar Hættu að gera mig taugaveiklaða Ég get gert það sjálf Farðu frekar og lagaðu kaffi ] [ Gref gröf næ samt bara ekki að grafa nógu djúpt inn í sjálfa mig til að finna... hvar eru tilfinningarnar? er þetta ekki rétti staðurinn ég gróf þær hér fyrir mörgum árum þær ákváðu örugglega að grafa sig út synda í burtu og stofna eigið ríki á lítilli eyju þær eru sterkar munu lifa þetta af þangað til ég finn þær aftur ] [ Ég hverf á braut um ógleymið Mitt líf það þraut ófeimið Horfnar eru hugsanir fljótandi fasti þrjótandi þögn Svíf á hærra plani Líf á lægra plani ekkert norm né nein form Virtur veruleiki firrtur raunveruleiki Sé mín ský veit ei hví er víst ný.. ] [ Ligg ber undir berum himni ligg hér allsber Hrygg ber mínar syndir á hrygg mér ég ber Ég er víst hér þó ei finnist mér ] [ Þú fylltir mitt hjarta af blíðu og yl, og snarsnérir hugsunum beint þín til. Allt sem ég vildi og þráði svo heitt var gagnkvæm ást en fékk ekki neitt. Ég bað um einn koss og beið hans lengi en skildi svo loks að hann ég ei fengi. En ef þú sérð mig loks líkt og aldrei mig sást, þá veistu það vinur að ég þjáist af ást. ] [ Ástin er yndisleg. Með þér að eiga. Augu þín eru falleg . Vil ég þér að segja. Að ég elska þig. ] [ af fúsum og frjálsum vilja þá verð ég að reyna að skilja að allir eru öðuvísi og engin er eins sama hversu vel þeim tekst það að hylja þröngsýni, gengur útá það með mestu getu að fela sprungur sannleikan um hvað er að þetta hverfur þegar maður er ungur við notum alls kyns leiðir til að tilheyra einhverjum hóp saumaklúbbar, stjórnmálaflokkar flestum finnst best að nota dóp sumir falla lágt aðrir svífa hátt en við endum öll eins smátt og smátt sumir bera skilaboð standa upp og hrópa meðan aðrir vita betur standa útí horni að sópa engin þekkir neinn en allir þekkja þennan sem er vinsælastur allra því hann er með ávísun og pennan þau drekka mikið vín stundum alltof mikið þá blindast þeirra sýn og verða því sár fyrir vikið að redda sér hinu og þessu hefur sína kosti og galla það þarf að svíkja og pretta fyrir þessu margir falla þannig hver er sjálfum sér næstur í von um að enda ekki einsog hinir hætta að ljúga og særa með hverju orði að sýna svolitla virðingu þýðir fleiri vinir ] [ Ég fylgsni mitt í hjartans þrá geng í þrönga blekkingu og dansa fölan vals sem endurspeglast í lífinu. ] [ Í eyðileggingunni sá ég ljós, ljós sem lýsti upp fölt andlit þitt og sagði mér frá þér. Ég hata þig, Þú elskar mig, Við sjáum ekki ljósið saman, ég sé það án þín. ] [ Sutndum er enis og himeruinn sé að srítða mér. ] [ Hugur minn eins og mensk þvottavél Allt snýst og ég veit ekkert hvað er hvað. Hjarta mitt í þúsund molum Og er ómögulegt að setja saman. Líkami minn hefur enga orku Ég liprast niður í hverju skrefi Lungun mín tóm eins og sprungin blaðra Þungt andvarp í hverjum andardrætti... Minningar streyma úr öllum áttum Og tilfinningarnar láta ekki af stjórn Varir mína vilja ekki tjá orð mín Þótt þörfin til þess er yfirgnæfandi. Ég hef breyst svo mikið En samt er ég alveg eins og ég var Í sömu helvítis hringekjunni Sem virðist aldrei ætla að hætta... Sköpunargáfa mín virðist birtast Aðeins þegar mér finnst lífið tilgangslaust Ég er ástfangin af þunglyndinu Því aðeins þar finnst mér ég eiga heima Hamingjan hefur engan áhuga á mér Þótt ég fái að kynnast henni af og til Og ég hafi mig útí það að elta hana En hjá mér er hún ekki auðfundin... Svartsýni er eitt af því sem hrjáir mig Sálin getur ekki afborið fleiri brotin loforð Né þegar vonin sjálf brestur í lófum mínum Trúleysi á að lífið verði nokkurn tíma betra. Finnst ég vera sjálfselsk í hugsunum Og veit að vandamál mín eru enginn Miðað við hvað heimurinn er hræðilegur Við þá sem þurfa þess sem minnst... ] [ Hjartat slar som sambatrumman tarar pianoslingan nerför kinden, i bröstet skriker tusen trumpeter för full hals i kör med magen som förstarkare, nar jag ensam borde fira sjalvstandighet, exploderar huvudet som en konfettibomb och sambatrummans slag fortsatter uppmuntrande att sla karleksdansens sariga fötter. ] [ Ligg úti á grænu víðáttunni Tek andann á lofti Og tíminn stoppar stutta stund. Allt virðist skýrar en áður, Dumbrauður litur yfirtekur himininn Þegar sólin tyllir sér niður Eftir erfiðan dag. Lyktin af sjávarniðnum kitlar nef mitt Og vindurinn dansar um grösin Sem umlykja líkama minn. Hlusta vandlega á fuglasönginn Sem hljómar svo líflega í fjarska. Allt í einu streymir þessi sælu tilfinning Í gegnum lokaða hjarta mitt Finn hvernig allt virðist þess virði Og allar þessar hugsannir sem herja á sál mína Hverfa léttilega á braut. ] [ Skítug sál, í miðri kösinni, öskrar til mín óhreinum orðum. Hún er alein, hún er allslaus, hún er saurug, hún er notuð, hún er brotin með skítuga sál ] [ Kaldur dagur upp rann Ég sá þetta ekki fyrir Í æðum þér óvissan rann og slagur hjarta þíns fraus Kaldir dagar á eftir komu vonleysið og tárin saman runnu Hörund þitt svo líflaust og sárið þitt að hverfa Köld nóttin gekk í garð líf þitt útí sandinn rann Horfinn var þinn sálarneisti sem eitt sinn glitti í augum þínum Köld var húðin í snertingu og tár á vanga mínum rann Sem eitt sinn þú kysstir mig Og sagðir að þú yrðir ætíð hér í lífi mínu ] [ Ég misstíg mig, -sný á mér ökklann Nístingur Doði Afmyndun ...allir regnbogans litir, þó hver í sinni röð í sínu formi og tíma Nístingurinn nagar ág notfæri mér doðann til að komast aðeins lengra -En hvert? Og hvað segir hvenær? Til hvers? Þegar ég nýt ekki hvers einasta skrefs Ég læt undan og skyndilega birtast mér allir regnbogans litir. Hver í sinni röð í sínu formi og tíma ] [ varanleg tóbakslykt af öllu fáránleg hárgreiðsla sektarkennd sagan endurtekur sig í spíral sjálfseyðingarinnar ] [ nííííÍÍÍÍ.. BÚMM!!!! ] [ Hvað ætli hafi verið í gangi í hausnum á manninum sem fann upp á spakmælinu að margt sé skrítið í kýrhausnum ] [ Allt er gott sem endar vel! Segir hver? ] [ Við næsta hringtorg liggur leiðin í ljósheima ] [ Yfir haf í hríðarbáli og heljargreipar kulda rauðbrystingur raunarmæddur, rakst að landi nýju. Hann skríður einn um skógarreiti, og skelfdur leitar hlýju. Í hjartans öng nú hræddur situr en heyrir málið dulda, sem gnýrinn ber þá gnauðar í, gnípum og vetrarskugga. Hver mun fuglinn fagra hugga. Það skefur að og skaflar myndast, skelfilegt er myrkur. En tunglið eitt það talar blítt og teygir sína anga, að flæking einum er ferst í nótt ef finnst ei hjartagæska. Þá rauðbrystingur um rauðanótt, reisir sína vængi. Til tunglsins svífur, tíminn hverfur, titrar rödd í frosti. Hann syngur lag er síðan lærðu sálir með hjarta brostið. ] [ Í stjörnum og sænum við snarkandi eld. Í brjósti og bænum bíður ástin í kveld. Hún segir mér sögur og syngur til mín. Er falleg og fögur sem fingurgull þín. Hún velkist um veður og villist um skeið. En kemur og kveður og heilsar um leið. Hún er stríður strengur og stundum of kalt. Hún er falinn fengur og fyrirgefur allt. Ég er gjöfin sem gefur ég er gömul en ný. Er í sálinni sefur og sorginni bý. Ég lokka og læðist úr launsátri renn. Í hugangum hrærist og hjartanu brenn. ] [ I’m bored as hell I got nothing to do I wish you where here because I really miss you I spend my time thinking what if you came back then I see why you’re not here what I have and what I lack there\'s no fucking sound only silence and shame I’m too afraid to speak up and for that I am lame I look out to the sky and know you see the same what if I stare long enough, will I finally forget your name? now when you’re gone I sit here alone I ain’t got no purpose much like a stone just laying on the ground waiting for the next kick a kick towards the end so hopefull and yet so sick everyone else gets a chance and make use of what they get but I never get a chance because everyone else thinks I’m not set well fuck ya’ll and screw you I’m gonna do what I do fuck up you’re whole life and gut it all the way through isn’t that what you want? for me to make it bad? better then you standing there thinking that I’m sad look at me with pity I think you’re mistaken I havent lost anything but from you I have taken money, time & emotions all the normality replaced with sickness that’s just a formality you wont let me in so now I must pickup the lock the one protection to your soul you stupid litlie fuck I’m gonna get in one way or another I got the persistance more then any other I’m also at the end an inch from the edge losing every bit of sanity to you this I pledge I don’t know what to do I don’t really give a shit I know what to do I’ll throw a fucking fit smash all the windows break down the walls rip apart every door and spread shit all over the floor fight in-animate objects so I won’t hurt anyones feelings intences the pain so I can cover up the meanings transform to a teddy cuddly and cute damned to be so weak myself I could shoot fuck all this depression I’m pist as hell gonna rip you to pieces and bid you farewell fuck this holy pipe and your stupid mariuana you can fry your own brain I’m gone, cionara ] [ Ég held að penninn minn sé bilaður. Orðin eru vitlaus og koma ekki rétt út. Í þokkabót held ég að blaðið sé orðið kolklikkað. Ég er að skrifa meistarastykki en sé ekkert nema krot. ] [ Mig langar að standa upp. En ég sit bara og horfi. Myndir sem eru nánast lifandi í stofunni minni. Börn að deyja, menn að drepa, konur að svelta Hvað get ég gert? Ég fæ svarið sent til mín með E-mail. Ég stend enn ekki upp. ] [ Settist inn hljóður og leiður Drakk öl Dansaði fram á nótt í svitabaði fjöldans. Man næst eftir mér einum með fulla blöðru, endaði á að míga utaní húsvegg í bænum. Hugsaði um þig ] [ Er þér líka illt í maganum? ] [ Afsakið, ég var á undan... ] [ Ó hún var sæt Ég elti hana um allan bæ Inn á Sólon, út af Sólon Stað eftir stað Hönd í hönd. Uns kvöldið var á enda. Runnið af okkur báðum. Hún var hvorki sæt né skemmtileg lengur. Hún sagðist þurfað fara heim Ég fór heim og hún líka. Ég sá hana í kringlunni í gær. Ég sagði hæ og hún líka á móti. En hvorugt okkar hafði vilja til að segja eða gera meira ] [ 8 ára krökkum finnst oft gaman að leika sér í drullupollum! Velta sér uppúr honum og vera miðpunktur drullupollsins. Þegar þau eru svo kominn með leið á drullupollinum fara þau inn í sturtu og þá er drullan farin af þeim. Næsta dag finna þau sér síðan nýjan drullupoll til að leika sér í. ... Þú átt að vera orðinn of þroskaður til að flakka á milli drullupolla. Þegar þú ert búinn að vera of lengi í einum polli þá er sturta ekki nóg... ...en alveg eins og 8 ára krakki fannstu þér nýjan drullupoll til að leika í daginn eftir, þó svo að drullan frá mér loði ennþá við þig. ] [ Kemur fram í kvæði kærleiksríkur ærir Vinur allra veikra vandalausra fjanda Sælir allir sitja, sáttir náum áttum. Líkna skaltu ljóðið, lauga mína bauga. ] [ put the numbers together but no result maybe the wrong numbers not my fault if the magnitude of the number can be divide by two then the answer is solid but not necessarily true for the equation can change at any given time just like algebra, working in this very rhyme but that you cant understand because I’m not ready to describe the multitude of letters and the degree of their hidden vibe they signal each other and send a secret code for our brain to figure out in systematic mode quietly entering and never going out digging in our moral decoration insuring our inescapable and point blank isolation because numbers have a gift a unique ability to distract make us vulnerable to attack while we do the calculation ] [ Máríu öll, minnumst blíð, máttugust allra meyja; í mynd -kærleikans; kemur og vitjar kvöldstund eina. Kemur og sækir krónu þyrna, kærust vitjar vinar síns. Kveður í hljóði á kveldi myrkvu, kristi vís og kærastur; klettur lifenda, -hugaður; faðir hirðar fremstur á leið að ljúfum endi er lifnar nýtt líf, í ljósi mildu blessaður. Á boða háum brotnar aldan, bylgjast tár bráar, er boðar trú; -bjargfastur. Upp rís aftur aldir lifir góður drengur djúpt í huga dvelur allra blíðastur. Máría hreina, mætust komdu, villtu þinn vin, til himna hefja; - af víðsævi. Höndum haltu er heilsar þrenning, honum okkar og fagnar föður, við ferðalok á langri ævi. ] [ Hestarnir mínir eru taktfastir á gangi. Ég þarf að læra hrynjanda af þeim. Hesthús eru lærdómshús. ] [ Ég hef þulið orkukornafræði. Kannski eru vísurnar mínar, mín orkukorn. Hver veit. ] [ I know that if you walk away you turn around and go leave me behinde with nothing or noone I will miss you so I wish that it could be a little longer be a little more It could have been good or greate but what was it for? I love you a little and little bit more your hands, your body, your smile and eyes I liked you every day every night Why do we have to do the goodbey\'s?? ] [ Útlagi með atgeir sólu sá á róli rofa geislar í hafi rís úr viðjum ísa höldur sá er heldur hjarta sínu bjarta einn svíkur annan falla munu allir ] [ Ó, skáldfákur mikli á sköpunarvegi, skemmtu í ljóði á fegurstum degi. Hetjuleg kvæði, sem heimsljósi skæru á hetjurnar varpa og meyjarnar kæru. Alvaldur heimsins okkur má styrkja, er aumur þinn þjónn um hetjur skal yrkja. Megi vor andi frá minningum greina, máttugum sögum um meyjar og sveina. Við skjaldmeyjar fagrar og forynju kvalda fáumst í kvæðum, við minningar staldra, er greina frá stríði þess góða og illa, er geysar um heiminn og vert er að stilla. Við hringborðið vaskir heilsast þeir drengir, er heim komu glaðir, er daganna lengir Brátt munu kveða í brimhljómsins anda, bögur um hetjur sem að eilífu standa. Öfl munu vakna, er um aldir hafa sofið, á Íslandi hafa bergrisar sáttmála rofið. Kvæða mun kraftur hetjunar fjötra, kremja og brjóta, í fjöllunum nötra. Kyndir þá aflið er kveðin er bragur, kemur upp sólin og fæðist nýr dagur. Nú kappanna fákar kætast og lofa, kominn er dagur og engin má sofa. Í dag eru frásagnir færðar í letur, er fæddust í huga, þess er smátt annað getur. Skáldfákur vakur, mér vaktu hjá núna, er vályndir tímar mér taka burt trúna. Svo færa ég megi kóngi eitt kvæði, að köppunum fræknu vísubrot læði. Drápuna eina fær drengurinn sanni, dýrt skal kveðið í skáldfáka ranni. ] [ Mikið, lítið meyjar rakki, margt, fátt getur ljóðað, sigrar, tapar sálu hreinni, sjaldan, oftast hrekki fremur. Blíður, reiður bústinn drengur, byggir, rífur kvæðin góðu, kátur, leiður kemur aftur, klæmist, lofar góða þulu. ] [ Viltu giftast mér? Ég skal vera góð ég lofa við getum veirð einsog Elvis og Prucella. Ég elska þig litla vofa. Og ef þú verður dapur skal ég týna fyrir þig stjörnur svo þú verður ekki dapur aftur. Ég skal hugsa um þig og til þín alltaf ég verð þín hönd og kraftur. Og við verðum aldrei fullorðin og stór þó við verðum aldrei fullkomin heldur ég elska þig alltaf fátæk eða rík elska þig, hvað sem því veldur. ] [ Grámi hátt í Esjuhlíðum, - hótar okkar vori að víkja, hann vill okkar vonir svíkja. En úti sýnist sólin blíða, sumarkomu boða nýja. Hvítan fald að miðju fjalli fegurst skartar meyjan flík. Hvenær kemur vorið vænsta. - vorið sem og sólarblíða, sumarþeyr um velli víða. Ljóma sund í ljósum sólar lævíst gerir kuldakast. Ætlar sumar seint að koma, sumarvon við köllum þig. ] [ Í náttúrutransi þú naust að vera til, nýöld rann upp, mosinn var svo mjúkur. Augum til himins skaust er skýin runnu hjá og skyndilega straumur frá þér til miðju jarðar vakti mig af draumi. Álengdar ég stóð, alkenndur nýrra ljóma og álútur sá fléttur vafðar fimlega um steina. Þú lást í mosa og lagðir eyra að sverði og laumaðist í hjarta hvers er dreymir. Aldrei gleymi ég þeim straumi. En allir draumar í dögun aftur hverfa sem dögg í sólu. Það andartak er mosinn aldrei gleymir okkar sögu sem ekki í raun er til. Í bældri lautu er draumur minn í dvala dálítið sem einn ég á í laumi. ] [ Vina mín í heiðinni, hvar varstu í nótt. Veistu ekki að ég vakti og beið þín í láginni med litföróttum stráum og læk er hvísluðu -sögu þína i eyra mitt. Vina mín í heiðinni, ertu horfin á braut. Veistu ekki að ég vakti og beið þín á flötunum horfði á vindinn og vellandi gauk -rita sögu þína i skýin. Vina mín í heiðinni, hví er hörund þitt svo fölt. Veistu ekki að ég vakti og beið þín hjá fellunum fingur mínir snertu fannhvítt hörund þitt -og námu sögu þína Vina mín í heiðinni, hvar varstu í nótt. Veistu ekki að ég vakti einn á milli jökla eldur brennur í æðum og augun þín skær -sögðu mér söguna alla. ] [ Ég gekk með Kafka um kræklótt stræti þar sem aldéflið andlit sitt sýndi. Allt var kyrrt og enginn á kreiki. Nú er vor og liðinn vetur, varmenninn flúið Prag. En veistu hvad býður við brúna að handan. ] [ Lidice, - hvar ertu nú, í grænum grundum sokkin i svörð Víetnam, Chile, Afganista, Írak - hví kemur þú aftur, Lidice Í hrafnbjörg mæður hurfu feður til slátrunar leiddir - hvað brást þínum börnum. Lidice, - hví bregðumst við enn. ] [ Er dagur rennur döggin sólu kyssir og dagbjört bíður sjónarrönd í hafi. Á fjörum löngum fæðast sker úr kafi og fyrirheit sem aðeins ein þú vissir. Þar aldan gárar eilíf létt við fætur, og öðuskel á fjörugrjótið leikur. Þú aldrei aftur orðið getur smeykur, ef undralagið heyrir baki nætur. Nú daggarbjartur drösull svífur heiður, í dýrlegri reið engin orðin mælir, er jórinn ber þig jökli nær svo hraður. Í eyjum fjarskans ernir búa hreiður, og urta ein við fjöruborðið gælir, þá hugsýn geymdu í hjarta þínu glaður. ] [ Á löngum kvöldum líður seint úr huga, þá leikur golan blítt við hvarm og vanga, gangan upp á bratta stígnum langa í gegnum skörð sem marga vilja buga. Í grýttum urðum grafist beygur strangi, og geig í hjarta hleypa má af hleinum. Í laufsins krónum liggur fugl í leynum, og lagið syngur handa ferðalangi. Á linditrjánum laufin grænu fléttast, sem leysa höfn í vorsins hlýja skapi, og kveðja vetur krækilyng og drapi, þá komstu hugur aftur hingað léttast. Upprás sólar alltaf gleður tinda, á eggjum hörfar þokuslæða nætur, í morgunroða meitlast æska barna Laufskörð brött í lendum hugarmynda, sem lindin tær er speglar þínar rætur, er lífshlaup þitt leynt í innsta kjarna. ] [ Það hafði verið sól í viku en svo sagðir þú, sól ég er komin í frí og eftir stóð ég og fann skuggann langa. Ég stóð í skugga, sólin var allt um kring. Þú hljópst út í sólskinið og hrópaðir ég er frjáls. Ég sat í skugganum og naut sumargolunar leika við andlit mitt og hárið bærðist og flugur kitluðu hálsinn minn. Ef skugginn gæti breyst í mánaskin og í húminu sætum við tvö, þúværir vindurinn sem gáraðir hárið mitt og varir þínar flugur sem kitluðu hálsinn minn. Ég sit og bíð eftir sólskini, að hausta taki og kvöldin lengi með fullu tungli. Þá kemur þú aftur og skóhljóð þitt svo létt berst að dyrum mínum og þú segir ég komin, ég er komin úr fríi. ] [ Lítið að gera og ligg á fleti, læðist um á interneti. Varla lengur að vilji og geti, vesæll nema bíða í leti. Ef að einhver áttu ráð, andans bæta máttu dáð. Litlu korni líka sáð, léttir huga nú í bráð. Sólin vermir kalda kinn, kemst þó varla í sálu inn. Hrjúft er þetta heljar skinn, hylur vanda enn um sinn. Upp, upp minn andi rís, ásjónuna bjarta lýs. Eldur sá er í æðum gýs, aftur nú til alls er vís. ] [ Hann galaxí gvendur á hraunum, var gamall og reyndur í raunum, en gudda hans smáa gekk undir fáa svo gvendur fékk lítið að launum. Hún gudda hans gvendar á hrauni, gaf kallinum súpu og baunir svo fylltist af gasi af því ferlega brasi og viðrekur nú allar þær raunir. En viðrekstur varla var búinn er vesalings kallinn varð lúinn og gasið það skaut gvendi á braut um stjörnur og tungl sagði frúin. Í geimnum nú svífur hann gvendur um galaxíið liggja hans lendur svo laus er hann við allt það leiðindalið kellinguna og aðra hans fjendur. ] [ Hvort sem er í Amsterdam eða Austurvelli, ást mína áttu vísa, einn ég dvel í landi ísa. Upp á jökli áttum fundi, á þig smelli kossinn eini kenndir hýsa hvernig má þeim betur lýsa. ] [ Fákar gleðja frækna knapa á fögrum degi, engin trunta er á þessum vegi. ] [ Skella á jörðu skeifur fáksins rauða skammt er liðið af degi fæddum nýjum. Hratt er farið, hugur hjá þeim blauða er höggva skal er veður tungl í skýjum. Býr þar hefnd sem feigð og fríun hvetja. Í moldargötu var mærin yfirgefin meidd á hjarta og blóði drifið hár. Fast um tauminn hnyklast krepptur hnefinn og hnúar hvítna svo auga fellir tár. Ekkert afl mun ólgukraftinn letja. Sú fagra mey er fjallasali byggði nú fallin er, úr sárum blóðið streymir Lýtur höfði vættur er varnir tryggði, von og trú í dýpi hugans geymir. Þá blikna ský og bærast tregastráin ] [ Heyrði lag í dag söng með, fékk Sting í magann... Vildi að ég gæti samið svona ] [ Vita mátt hún veitir björg, og vernda mun hún fingur. Því í lífi okkar leynist mörg, lítil nál sem stingur. ] [ Hví er sterkasta aflið ástin, er örgranna þræði spinnur og hjarta þitt blæðandi vinnur. Þú finnur þar strauminn sterka, þú stendur svo máttvana ein er sálin í örvænting espar, allt heimsins bannfærða mein. ] [ Hvað snertir þá taug, er snýr við hjarta snjófugl um sumar, syngdu þinn óð. Hvar leynist blossinn með leiftrinu bjarta, er ljómar að nóttu sem kvöldsólarglóð. Hvenær ná hjörtun að hrærast í takti sem hamast í einsemd að halda við mætti. Ég yrki mín kvæði, í alheimisins tómi, engin þau heyrir, þær nætur ég vakti. En blómið það fölnar ef brestur sá ljómi, er bærði við hjarta með titrandi slætti ] [ Eigum við að elskast - í mosanum, í móanum eða buskanum. Mættu mér - fjarskanum. Ferðastu í huganum -findu mig í kimunum. Geymdu mig´ - í draumunum en gleymdu mér ei. ] [ I. Að nausti Í vari hvílir fagurt fley fánum skrýtt í stafni Bíð ég enn að byr mér gefi og báran skipi vaggi. Leitað hef ég lengi skjóls. Nú mun sigla um höf í höfn þó hamist norðan stormur. Í ölduróti og iðuköstum áfram beiti seglum. Þá vind á móti í fangið fæ. Í dag mun heim í naustið ná og nóttu dimmri gleyma. II. Hafið Í ólgandi hafinu er bátur minn á reki. Ég hef tapað áttum og feikist undan vindsveipum, í óvæntum stormum sem sunnan golan blés. Stormurinn á eftir logninu. III. Í beitivindi Rísandi öldur allt í kring og ef þær brotna, brotnar bátur minn. Í beitivindi ég leita að lygnu. Engin landsýn ekkert var til að hörfa í. Hvar brennið þið vitar, er vísið mér veginn. IV. Viti Í fjarska logar viti og speglar geisla sinn í haffletinum. Aldan brotnar í fjarska, - stillist veður. Sætur saltkeimur á vörum, að baki stormur. Bátur veltur í óróa öldubrotsins og berst að strönd. Strönd ókunnra lenda. V. Við strönd Að strönd þú hraktist og stefndir að hömrum, í bjarginu bergmál, þar sem bíða þín forlög. Hamrarnir opnast og hrynur úr bergi, Skriðurnar falla það skellur í grjóti. Eldurinn kviknar úr iðrum hann þeytist. Himnarnir hljóma, þú lendingu nærð, en bátinn þinn brýtur báran við klett. VI. Skip undir seglum Við lendur þess fjarska með vitanum bjarta er færði þér sjórinn, þín bíður í vari og bylgjuna kyssir nýtt skip undir seglum. Í tunglskini nætur það titrar hvert borð er ýfist upp veður, ólgar þá brimið og upp lyftist bylgjan, þú berst út í geiminn og siglir með stjörnum. VII. Glitrar Er barst eg að ströndu á bláhiminn horfði í skýjunum skrifað eg starði á þá stafi. Legðu að bátnum ég bíð þín í vari þú bærir mitt hjarta. Nú báruna lægir. Á árar ég lagðist að landi ég náði og lít upp til himins þar leiðsögn ég finn. Augun þau glitra sem glóandi viti í gær var ég týndur í dag er ég þinn. ] [ Komið er haust og kaldir vindar, í kotinu eldurinn þrotinn. Frosið er vatnið og freðin jörðin, í fárviðri gróðurinn brotinn. Það nístir að beini, er næðir um glugga, hver mun á kvöldin kærasta vin minn hugga. Skefur af þekju og skaflarnir myndast skjól er ei lengur að hafa. Bylurinn lemur og bálviðrið geysist bundið í hlekki og klafa. Enn nístir að beini það næðir um glugga, hvað læðist á kvöldin kalið í dimmum skugga. Króknar í rökkri og kvikan er frosin hvenær fer veðrið að hægja. Augun þau stara og stara út í bláinn steinrunnin ógninni bægja. Það nístir að beini, það næðir um glugga, hver mun á kvöldin kærasta vininn minn hugga. ] [ Ég sakna þín sveit með fjöllin og dalinn og sólar að morgni í kyrrlátum reit. Við ána, með fuglum, - þar varstu falinn fegursta dísin í íslenskri sveit. Hjá kofa á heiði er kembdi ég forðum, kærustum vini undir háfossins nið. Augun þau ortu með einstökum orðum óðinn sem barst yfir fjallanna svið. ] [ Allt til andskotans farið illt er að vera til. Allt vit er úr mér barið ekkert ég veit eða skil. Í sannleika get ég svarið síst er það sem ég vil. ] [ Djúpt í myrkviðum hugans er sál þess sem ég elska fjötruð í kvöl hins óendanlega. Of ég hef leitað en finn ekki neitt ég veit að samt er hún þar. Af hverju er þvílík byrði lögð á fagra sál að engjast, horfin öllum. Hvað get gert til slíta þá hlekki sem fjötra þá sál sem ég elska ? Ó guð minn veittu mér hjálp til að ná til fegurstu sálar sem á jarðríki er. Oft langar mig til að deyja þegar vonleysi grípur og ég veit að ósigur blasir við. Komdu til mín ásin mín eina ég skal umvefja þig og vernda til þess dags sem ég dey. ] [ Ég var í bjór banni þannig að ég drakk romm. ] [ Að elska þig er gott þú ert búin að bræða hjarta mitt. Svo finn ég hitan frá þér já er ekki ástin yndisleg. ] [ Sem örfínn þráður er ég í höndum þér farðu um mig mjúkum höndum og kysstu blítt á enni mér ] [ Þín hinsta för varð hér til mín, þig himnafaðir tók til sín. Er nóttin kvaddi, nöpur köld, nálguðust hin dimmu tjöld. Nú hækkar bráðum sól í heiði, í sálu minni er dapur leiði. En lífið heldur áfram rennur, og minning þín í sálum brennur. Þakka þér fyrir allt og allt þér aldrei var um hjartað kalt. Þín föðurást mér yljar nú, og elska þín og trú. Meðan stendur minning þín, meðan sól í heiði skín. Mun ég pabba minnast á við fjallavötnin fagurblá. ] [ Ég man það svo vel þegar ég sá þig fyrst ég vildi að við höfðum aldrei hist því ég hafði aldrei áður fundið þess hlýju ég vildi ég gæti upplifan hana að nýju þú særði mig svo djúpu hjartasári fyrir þig ég grét þó aðeins einu tári þótt allir segðu mér að gleyma þér þá ertu alltaf innst í huga mér ] [ Er ljóðrænan í mér slokknuð? Ég leitaði að ljóði í mér en rænan var farin. Fór um götuslóða heilavefsins og staldraði við samskeyti tveggja fruma. Hér var eitthvað að! Hér var eitthvað öðruvísi! Engir neistar flugu í samskeytunum Ég kveikti í sígarettu. Drakk glas af rauðvíni. Flautukonsert Mozarts KV 313. Mókti. Einungis þeir sem kunna að móka, finna ljóðrænuna. ] [ Nóttin var allan daginn og heimurinn með fýlusvip alla leið til Kína. Endalaust frost og skafviðri allan ársins hring. Þangað til þú komst þá breyttist hún í endalaust sólskin. Heimurinn byrjaði að brosa og öll lönd breyttust í Ástralíu. ] [ Snögglega án vonar birtist sorgin sviptur mun úr heimi þessum frá ég sýna mun að sál mín hún sé borgin og sannanlega mun þér unnt að sjá þó lífsins logar slokkni og brenni yfir lát ekki harminn angra huga þinn því minning um mig áfram hjá þér lifir meta skalt það til góða vinur minn Gleðjast máttu yfir gömlum fundum glaður vera í sinni,bragði og hress þá sólskin birtast mun úr sorta stundum er ljóst þér verður hvar ég skipa sess Við hægri hönd lausnari okkar situr hjá drottni vorum mun mér líða vel mín vegna máttu ei því vera bitur og mundu hvar í tilveru ég dvel ] [ Ásta tekur aríur á klósettum í laumi. Arkar svo um gangana með sængurver í taumi. Eins og fiskur móti straumi. ] [ Má ég fljóta fá með þér á fundinn kæri prestur, sumardekkin seinka mér og svo er enginn hestur. ] [ Nú er himinn heiður, skír, held ég gleðjist lundin. Bryndís litla Hrundin hýr, himinsæl er stundin. Elsku hjartans unginn minn, á þig skíni sólin. Er ég klappa á kollinn þinn þá komin eru jólin. Nú er sól og sunnanátt, sælt er úti að ganga. Fuglar himins hafa hátt ég hampa litlum anga. Björtu augun brosa blítt, birtir yfir öllu. Andlitið er yndisfrítt, oft er kátt í höllu. Ég yrki ljóð um ást og trú, um unga mey sem þekkir þú. Hún er mín lífsins unaðsstund, hún heitir Bryndís Hrund. ] [ Röddin hvíslaði að mér eitthvað á eftir að gerast. Eitthvað lá í loftinu þessa nótt, skýin þyrluðust til í ótal myndir, í ótal litum. Í veggjunum heyrast sögur, í myndunum heyrast raddir. Þegar líða fer á daginn, fer birtan og felur sig, sólin breytist í mána og skýin breytast í stjörnur. Maðurinn fer og felur sig í hlýjunni, og hugurinn kyssir líkamann góða nótt. Í veggjunum heyrast sögur, í myndunum heyrast raddir. ] [ Sumarstjörnur á heiðum himni. Ýlfrandi einmanna úlfur, eða syngjandi smáfuglar. Hvort heldur sem er horfi ég í kringum mig, girði niður um mig og pissa á malbikað plan. Það kviknar á peru í háuhúsinu, það birtir til. ] [ Tilþrif lífsins, það ómögulega kemur fyrir. Tilþrif lífsins, dramatísk ópera, með óhjákvæmilegu sorglegu atriði í lokin. ] [ tipla á tánum í gegnum lífið, hljóðlega fer af stað. Er risin á fætur fyrstu skrefin tekin, er þar með hafin baráttan við það ókomna. Bros, grátur ást. hatur, hefnd reiði. Tilfinningar sem erfitt er að kljást við. Ekkert jafnast á við mannkynið. ] [ i could only stay for i let you do to me can\'t let you in where are you i only would stay, for you do to me, something inside me can\'t get out. thoughts are strange feelings are weird nights are long when you are near so stop taking my mind rescue me from you my mind is drifting drifting apart from me to you ] [ Í frostinu geymist það sem enginn sér. Sjá það má á frostrósum, sem umleggja allt. Það endurspeglast, í vatninu sem klakabrynja er. Veturinn kallar á leyndarmál, sem fela sig í frostinu, fæst leyndarmál vara að eilífu. Klakinn þiðnar með sumrinu. ] [ Síðdegissólin giltrar í frostinu. Fimbilkuldi, rautt nef, ekkert stöðvað fær breytingar. Desembermáninn horfir niður skammdegið alla hefur. Svartsýni nær alla dregur, jólaljósin lífga verður, annars lífið það sefur. ] [ Skilaboðin voru kuldalega sem ég fékk hinum megin, þú átt ekki pantaðan tíma strax við sendum þér skilboð næst. Afsakið mistökin. ] [ Á Grænlandi var gaman vel, glöddust drós og halur. Tóta æddi upp á sel, því enginn var þar hvalur. Dídí reif upp björgin blá, svo brast í veröld undir. Enn í dag má undrin sjá, um allar Grænlandsgrundir. Hótelstjórinn hélt um stund, hann hefði frítt í bátinn. Eftir stóð á Grænlandsgrund, grandalausi dátinn. ] [ Að trylla til Grænlands er takmarkið stóra. Tæta í tollinum, tralla og þjóra. Allir nú mæti og enginn er heima nema einmana makar sem láta sig dreyma. ] [ lóa litla nú siturðu hér þú hefur nægan forða fuglakorn og lítil ber þú ættir að fara að borða ] [ á reykjum er gaman á reyjum er fjör við erum saman og borðum smjör. ] [ Hjartað gjörsamlega búið þolir ekki meir nístandi sársauki aðgerðin búin dánarstund 16:25 ] [ Að elska mannesku eins og þig er kraftaverk. Þú er besta unnusta sem ég veit um enda ertu mín og ég þinn enda erum við traustir vinir líkja. ] [ Sjórinn er angraður, með beiskt hjarta, það sem hann vill hann tekur. Með stuðning aldanna, sem rísa á fætur, öskra af reiði, mannhafið þær taka allt með sér. ] [ damn this shit ,I’m taking it all back of course I am, you knew this was all whack take my spare shit and put in the recycling rack until I straighten out and get ready to get back on track fiddle with these words until they grow old and grey then suddenly I realise I ain’t got shit to say and when you wake up from the sleep and see its day you maybe stop daydreaming and start thinking like okay I suck, I’m a shamed but that shit don’t matter stop fucking with this shit, thinking wich beat is fatter listening to my music, before my brain begins to splatter I’m doing this my way and not yours nor the latter bringing down the same rhymes as I did the last time from me to you and all the same shit that didn’t rhyme cursing like I was raised in the one O nine don’t sweat it homie, I’m not trippin’, no I’m fine playing the game like I was raised to make rules to fake the true meaning for all of those ignorant fools making insecure fuckers wannabee’s drools riding on their back like they were some fucking mules now I’m taking the shield off, you wish I wouldnt’ do so couse now I’m coming after your ass like you was a real ho and don’t try and play all stupid like you could blackmail me with that do’ I might just commit suicide and make it look like you did it to put you on death row ] [ Roses are red, Violins are blue, Someone like u belongs to the zoo. Don’t be mad, Don’t be blue, Frankeinsein was ugly too. ] [ Rose are red, The devil is bad, I have red mouth I’m going south. My car is red, But you said Something bad About my head. ] [ ég flýg um himininn það sem ég sé er allt þetta fé. ég kaupi mér dýrt hús flott föt og allt, en samt fæ ég lús því ég gleymdi að kaupa malt. ] [ Krefjandi spurningar áleitinna hugsanna stukku fram úr húminu. Spruttu fram úr engu náðu mér í rúminu. Spurðu um allt spurðu um ekkert, efuðust þó aldrei um galdur tímans sem ég var með í glasi við hliðina á rúminu mínu. Galdurinn er að vera í núinu. ] [ Sit hljóður við vegginn ljós bjarminn speglast í augunum. Í kvöld ætla ég að drekka í mig visku þeirra sem skrifuðu söguna. Sökkva mér í djúp hins óvænta, og dreypa á ferkantaðri þekkingu. Það er góð dagskrá í kvöld. ] [ Við áttum svo vel saman við vorum eitt okkur var oft líkt við malt og appelsín Svo vel náðu við saman ] [ Fjaðrirnar fuku um loftið, starandi augun sem áttu ei lengur von horfðu út í tómið. Viðkunnanleg andlit, eru þau viðkunnanleg þrátt fyrir allt? maður spyr. Svikin í blóma lífsin, lagðist til svefns sem varði að eilífu Þegar fjaðirnar fuku um loftið. ] [ Hún gekk á iljunum yfir grasið, sem stundi að vellíðan. Settist á gamlan úfin bekk, sem að þagði. Trén kvísluðu henni sögur, með hjálp vindsins, sem blæs í kviðum bæði kaldur jafnt sem heitur. Hún klæddi sig í skóna, gekk yfir grasið, sem grét sársauka tárum, lét klink í sjálfsalan fékk sér kók og horfði til himins og brosti. ] [ Rauðhetta gekk inn í skóginn. Þegar hún heyrði í úlfinum, snéri hún sér við, tók upp byssu sem var í körfunni og skaut hann og hló horfði svo til himins og sagði: Eins og ég hafi ekki heyrt þessa sögu áður. ] [ Í storminum stóðstu styrkur og keikur, svo stæltur að baráttan reyndist leikur, við forynju fagra þú glímdir í nótt, en fannst undir morgun að hjarta varð rótt, er forynjan breyttist í blómknappadís, sem bláskel fögur úr ólgandi hafinu rís. Ó, geymdu þá munúð, - og mundu þann brag er forynjan breyttist við blómknappans lag. ] [ Er fram sóttu knapar að Saltnesáli, söguna geymum í bundnu máli. fákurinn prúði er fullhugan bar, festist í bleytu á sandinum þar. Höfðinu draup en hetjunar tak hífði upp klárinn, þá brá sér á bak Illuga-bróðir er barðist á Fjörum, og bjargaði fáki með handtökum snörum. Lífgjarn var fákur og léttur bar knapa, launaði greiða svo margfallt til baka. Leikur í taumum er líður að vori, lyftir hátt fótum, greikkar úr spori. Sumrinu fagna, - þeir félagar bíða, ferða um sveitir, um grundina líða. Trúr reynist klárinn og knapa geymir, traustur í lund og engu því gleymir. ] [ Á Tvídægru lögðu og teymdust vel hestar, en týndir í þoku, raunirnar mestar, þola þeir máttu er nálguðust pytti, og þrautirnar margar er sukku í mitti. Um flóana bárust en færðust að landi, hjá fellinu slétta, þá jókst aftur vandi. Því áttirnar allar þær vísuðu niður, en aldrei skal falla er íslenskur siður. ] [ Á móálóttu klárhrossi og merarsyni, mættur var víkingur af sterkara kyni, um sveitirnar reið skartbúinn knapi. Skáldfáksins vinur, ei angurgapi, en ef hnakkinn ei girðir á geltum fola, skal harðan svörðinn á foldinni þola. Því trylltur var drösull, í dansinum lenti, og darraðans folinn af baki honum henti. Upp reis hann aftur og aldrei skal þola, öðrum að kætast ef dettur af fola. Höfuðið uppi skal hátt áfram bera, höldur er ríkir í ásinum þvera. Þó marinn sé bógur og blá sé nú lend, bugast mun aldrei og engin sú kend, í huga hann þekkir, því þraukar hann enn, þrautirnar vinnur, á bak fer hann senn. ] [ Framrúðan frosin, skafan heima í rúmi. Bíllinn hlýnar fljótt. Slabbið frosið hart, hjólför ráða stefnunni. Samt er ég villtur. Ljósin stöðva mig, útvarpstöðin næst ekki. Sólin rís gullin. Í gegnum tárin sé ég varla neitt. ] [ Sit á grindverki. Horfi á þig. Þú vinkar. Ég brosi. Þú talar við mig. Ég stend upp. Ég fer. Þú horfir á eftir. Sit á grindverki. Horfi á það sem ekki varð. ] [ Partí í kvöld. Drakk úr mér allt vit. Dansaði, án þess að þekkja eigin hreyfingar. Drapst uppí sófa. Vaknaði. Ég ætla aldrei aftur að drekka! Síminn hringir, partí í kvöld. ] [ Við vinirnir kepptum. Hann vann. Vinur minn vann. Ég átti að brosa, en brosið sneri niður. Ég átti að gleðjast, en gat það ekki. Til hamingju! Segi ég. Deyðu! Meina ég. Ég er ekki þroskaðari en þetta. ] [ Laminn, marðist ekki. Stunginn, án þess að blæða. Hengdur, hætti ekki að anda. Svikinn, dó að innan. ] [ margar tilfinningar í hrærigraut inní mér á erfitt með að útskýra hverja fyrir sig. hversvegna er lífið svona erfitt, tilfinningar svona flóknar. hversvegna getur ekki lífið verið dans á rósum og tilfiningar aðeins tvær. ] [ Horfðu á mig, fast. Segðu mér hver ég er. horfðu gegnum augun, inn í sálina. Farðu um æðar mínar, eins og seglskip í stormi. Finndu kjarnann. Finndu staðinn þar sem ég byrja og enda. Þar sem dagur og nótt mætast Þar er frumefnið. Atómið. Segðu mér hvað þú finnur Ef ég vil þá vita það. Kannski er sannleikurinn of stór. ] [ Ógnarstjórnir með einræðis villutrú aumingjana níða, skattleggja og pína! Af rangfengnu ekki blessast slíkt bú, því bóndinn fær aldrei nóg fyrir sína! Enginn virðist neitt í arfleyfðina spá! Endalaus er græðgin á vorum tíma! Allir vilja til ríkra aurunum fleiri ná og eymd þeirra stærri sem bágstaddir híma! Af skítlegu eðli skemmtir Ríkistjórnin sér!!!!!!! Er skítur hún á sig snarar hún brók sinni við!!! Þjösnahátt þjóðmála blöskrar fleirum en mér! Þursaflokkar aldrei kunnu nokkurn mannasið! ] [ Útlitið, Hjartað, gáfurnar, og skynsemin. Þú ert allt sem hægt er að hugsa sér. Mikið hvað ég vildi vera þú. ] [ Ó,hvað ástaróskin mín getur verið hlý til þín. Ég bið guð að geyma þig elsku pabbi fyrir mig ] [ ég vil þig,en ekki þú mig, betra get ég fengið, fögur dís,fórnar sér. Dó í stríði fyrir þig. ] [ Að vera nauðgad er ekki rétt en að seiga fra er frett, mér var sagt ad þeigja, ó, guð ég vildi deyja. Ég opnaði augun, og sá að mér var bara að dreyma. ] [ Agúrkan 1973 - ... enn sem komið er. ] [ Snjókornin bráðna, borgin speglast í dropum. Glugginn er blautur. Fimm ára kökkur í hálsinum á mér: Get varla kyngt, varla andað ] [ Sjái ég enn þá sporin þín við Silfrastaðaá. Lifna gömlu gullin mín ég gaf þér Baldursbrá. Upp við Ísa köldu ver er ást í fylgd með mér. Hátt við Hrafntinnusker er hjartað mitt hjá þér. Tindri vatn í Tjarnargíg tár á hvarmi skín. Villist ég á vonum flýg í vorið heim til þín. Fari ég um Köldukinn og hvikul Svörtuloft. Veit ég vel um hugann þinn og vaki stundum oft. Upp við efstu heiðarhá er himinn boginn blár. Neðst við napra Jökulsá er nætur draumur grár. Brönugras við Brunasand bleikt við silki lín. Ástin græðir eyðiland og æviárin mín. ] [ Þú söngst svo fagurt en syngur ei meira. Höfuð þitt hvíta er nú litað dreyra. Maður með byssu skaut þig til bana af vana. ] [ Hjá þér. Hleyp frá þér. Sloppinn. Ég leita að þér. ] [ Ég sá þig, ég dæmdi þig. Ég talaði við þig, ég skildi þig. ] [ Reis upp frá dauðum í gær. Fór fram úr. Klæddi mig í. Borðaði morgunmat, fór í skólann. Enginn veit af mínu kraftaverkinu. ] [ Liti mína sótti ég til fegurðar svamlaði öldur ástarinnar þangað til raunin drekkti mér í fávisku. ] [ Dun dun dununndun dunun dunun dununu dununu du nu dunununu dununununununu nu nu nu.... ] [ Mjúkar hittust, mjúkar snertust, mjúkar kysstust. ] [ Kyssti dauðann í hendi mér. Hann er lítill en hættulegur, andskoti. Reykur liðast úr munni mér. Ég finn bruna, en þó sælu. Ég kyssi dauðann aftur, finn lungun emja og hjartað öskra. Kyssi dauðann í hinsta sinn. Dauður á dansgólfinu, með vinston í hendi. ] [ Eyddi föstudegi í drykkju, man ekki. Eyddi laugardegi í þynnku, gerði ekki. Eyddi laugarkvöldi í drykkju, réð ekki. Eyddi Sunnudegi í þynnku, gat ekki. ] [ Sorgin mig yfir hellist himnarnir gráta regnið smellist, göturnar blotna einmanna geng ég hugsanir brotna, tárin renna augunum úr blandast við rigningarskúr, dauðinn bíður handan við hornið fyrr en líður útbrunnið kornið. ] [ Snjórinn kemur en hvert hann fer? Hann lendir kannski ofan á þér. Inn í hús og inn í bíla, Þar sem hitinn fer að þíðan, þetta er saga snjósins fína. ] [ Í Húsaskóla er gott að vera. Enda eru allir góðir vinir. Jafnt smáir sem stæri. Það er líkja hlýtt og nótarlegt. Og skemmtilegt starfsumhverfi og vinnuumhverfi. ] [ Brosið þitt svo blítt, af hamingju er mér hlítt. Mér finnst ég skrýtinn, ég veit ekki hvort þú berð sama hug til mín. ] [ Kárahnjúkar blæða frýs villt blóð vorra æða erlend stórfyrirtæki græða. ] [ Finnst ég falla, falla í ský. Allt er undarlegt, undarlegt á ný. Finnst ég hlaupa, hlaupa burt. Tek inn lýsi, en lýsið er þurt. Finnst ég fljúga, ég flýg hátt. En eitt veit ég, ég lendi brátt. Finnst ég syngja, syngja fallegt lag. En ekki kemur út úr mér neinn tónn í dag. Finnst ég geimd, geimd í hillu. Ég er skraut, skreytt gyltu. Finnst ég hugsa, hugsa um þig. En valla veistu að ég er til. Finnst ég glötuð, glötuð án þín. Þetta er einfaldlega bara tilfingingin mín. ] [ Orðheit ást er ást mín til þín, ást sem bæði er hægt að seigja og skrifa ást sem bæði vinir og fólk skilur, skínandi neysti í kringum tvær manneskjur, ást sem guð hefur gefið leyfi fyrir það er ást mín til þín orðheit ást. ] [ Feministar eru þær konur sem ekki bjóða körlum heim. Hef ekkert um það segja og ætla ekki að vorkenna þeim. ] [ Andartak. Lungun fyllast. Þau tæmast. Andartak. Kokið fullt. Ekkert kemst niður. Andartak. Dauður. ] [ Þú læstir þér í mig. Langar klær í djúpi hjartans. Sársaukinn óbærilegur. Nálægð þín, unaðsleg. Þú stekkur af mér. Ég anda léttar, Þú stendur með hjarta mitt í klónum. ] [ ég var á leið heim seint um nótt mér varð ekki um sel svo hrædd svo órótt það lá eitthvað þarna allt útatað blóði,hvað var var hér,,hugsaði ég, af Angist og ótta, maður eða kona þessi hræðilegi heimur, mér varð ómótt svo seint um nótt,allt útatað blóði ] [ Þú ert kvark kvikul þú hverfur og birtist og vitrustu menn veraldar skilja þig ekki (ef Einstein væri á lífi myndi hann afneita þér sem ólógík) Þú ert kvark undirstaða tilverunnar og einhverstaðar er annar heimur þar sem einhver hugsar hvert fara kvörkin mín? ] [ Borgin lýsir í myrkri vekur fólk í skammdeginu hljóðin kafa inn í meðvitundina sökkva eins og steinn í vatni og allt í einu ertu vön þú ert stórborgarstelpa. ] [ Snjór hylur garðinn, jólaseríur ljóma; Sængin rís, fellur. Ilmurinn af kaffinu vekur húsið blíðlega. ] [ Í undirdjúpunum óma ei orð né fagur tónn. Í þögn samt dansar þangið þakklátt við öldunar nið. Ef í djúpið gengið gæti ég gæfi mig dansi á vald. ] [ Mig langar að byggja mér hallir úr ljóðum. Mig langar að hafa úr efnivið góðum. En andinn er lítil í nóvember nú, og nánast er engin mín trú. ] [ Lítill og mjúkur Lítill og mótaður Lítill og munaðarlaus. Lítill og auðnotaður Lítill og auðmjúkur Lítill og auðsærður. Lítill og brotamikill Lítill og brotlegur Lítill og brothættur. Lítill og bregst Of lítill brestur. ] [ Ekki allir ganga lífsins veg svo fölan, Ekki allir ganga um í myrkri. En sú er sagan sem líf mitt segir, sú saga, sem þú getur fundið í djúpi augna minna. ] [ Lágkúra og græðgi Svona er Ísland í dag! ] [ Andar sandurinn í dag? Hann þykir svo fölur og grár, kannski er hann að blekkja börnin til þess að fá frið frá þeim Sandurinn á sér enga undankomuleið situr fastur í svokölluðum sandkassa og bölvar því að kettir noti sig sem klósett ] [ Sælir sitja menn saddir rámar reynast þeirra raddir. Hugur heyrir óskýrt hljóð leynist í því lítið ljóð. ] [ Litla telpan með fallegu augun, hún reynir að brosa, brosa í gegnum tárin, eymdina og sársaukan, sársaukan sem þessi stríð valda, en það er erfitt, því nú er hún ein með brotið hjarta! því þessi stríð tóku allt sem hún átti, allt þetta litla, nú getur hún þetta ekki lengur,en á meðan hún tekur sitt litla líf, er verið að heiðra þessa skyttur sem tóku allar þessar saklausu sálir. ] [ Myrkur, ég sé ekkert, allt er svart, hvað er að gerast? ég heyri bara í sýrenum og bílflautu, ég man ekkert, hvað skeði? ég er dofin í líkamanum ég finn ekki fyrir neinu nema sting í hjartanu, það slær hægt, ég finn það, þetta er einsog heil eilíf að líða, nú átta ég mig á því hvað var að gerast, ég hef lent í því, að nenna ekki að bíða, ég var að flýta mér, og ég svínaði fyrir bílinn sem átti að fara á undan mér! ég heyri öskur og grátur, þetta er djúpt og ég hef ekki heyrt þetta svona áður, þetta er mamma ég reyni að kalla en það kemur engin orð út úr mér, ég finn að ég er að lýða útaf, ég bið til guðs byð hann um að hjálpa mér, loksins.. ég vakna ég heyri sniff ég er allur komin í gifs, ég sé móðu, allt í einu sé ég bara mína sorgmætu móður, hún er að segja einhvað ég sé sé það en heyri ekki orð þótt ég vilji það, en ég les af hennar vörum, hún segir að hún muni alltaf elska mig, nú fatta ég, ég hef fengið tækifæri, tækifæri til að lifa, og ég þakka guði fyrir það að leyfa mér að lifa uppá nýtt. ] [ Ástin er hverful eins og vindurinn þú veist aldrei hvaða stefnu hann tekur næst hvort harðir norðanvindar blási og nístí hjarta þitt hvort ljúfur sunnanblærinn leiki við þig og tendri elda eða hvort blási úr austri eða vestri og allt gengur sinn vanagang. ] [ Hvað er ást það er 3 stafa orð. Með því breyta í 5 stafa orð þá er það að elska en er að breyta aftur í 8 stafa orð þá er það elska þig. Og já þá líður okkur vel. Þá segi bara 1 að lokum og hvísla eyra þitt ,, ég elska þig \" ] [ Lofaðu mér að staldra aðeins við lofaðu mér að líta aftur við lofaðu mér að horfa í augun mín lofaðu mér að ég verði alltaf þín lofaðu mér að koma aftur heim lofaðu mér að hverfa ekki út í geim lofaðu mér að allt verði alltaf gott lofaðu mér að ég eignist eitthvað flott lofaðu mér þó þrátt fyrir allt að fyrirgefa mér allt sem ég hef gert í sárin máttu ekki láta salt og ekki bara hugsa um holdið bert ---- Þú segist ekki getað lofað hvað get ég núna sagt Engin orð geta lýst þessari þrá þrá um allt sem mig langar að fá Elskaðu nágungann, elskaðu þig samt meira Án trausts á sjálfum þér öðlastu ekki traust náungans ] [ Hvernig er hægt að tala hjarta annara, þegar maður þekkir ekki einu sinni sitt eigið hjarta? Hvernig er hægt að ráðlegja öðrum eitthvað, þegar maður er sjálfur í tilfinningarkreppu? Hvernig er hægt að gefa hjartað sitt, þegar maður getur ekki lifað án þess? Hvernig er hægt að syrgja aðra, þegar maður syrgir sjálfan sig meira? Ég bara spyr. ] [ Sólin skín á kroppa mannana, og gefur þeim brúnku. Rigninginu fylgir drullusvað Sem gerir okkur lífið leitt. Sólin skín á jörðina, og gerir hana skorpna og þurra. Rigningin bleytir upp í jarðveginum, sem gerir honum lífið glatt. Afhverju er mannfólkið svona eigingjarnt? ] [ Ekki gleyma, ég horfi á. Ekki gleyma, ég veit. Ekki gleyma, ég refsa. Ekki gleyma, ég fyrirgef allt. (Svona næstum) ] [ Hrund er skjótt og breið á brjóst og býsna prýðir nú sú mitt stóðið. Ég fékk tvo fyrir einn það er ljóst. Fylfull er hún, ja það var nú lóðið. ] [ Byggi borg ei blæð á torg í mig bíta sárt um líta einvera borgina heggur veggur lágvær dynkur ei svo flynkur múrar falla reynað kalla bergmálið borgina skekur rekur blóð af hvörmum illt í örmum syrgja byrga hryggur styggur byggi borg ei ber á torg sárt um líta mig slíta en geym þú kvöl veit mér svöl ég á þá völ ? kalinn er minn kroppur. ] [ Rótum skítur Rótum slítur hví þá kveinkar björkin sér ? nál út bíta burtu spýta spurði varga hvurju farga Saltið er mér Sætlegt. lögin lagði orðin sagði nú skal spá hvert vil ná Sárlegur er mér Svefninn. Rótum unni ei slíkt kunni hví þá kveinkar björkin sér ? ] [ Ég er ekki eins og hver önnur öskubuska, beibí klukkan slær tófan hlær milli þúfna öll úfna varaða þig sparaðu þig í næli þig tæli bít í tófu illt í rófu ei hæli út fæli dansaðu við mig lengur, drengur. ] [ áður var hún falleg, með fallegt sítt ljóst hár, og augu sem lýstu upp heimin af hamingju og hugrekki , en það var áður, áður enn hún festist í þeirri gryfju gryfju sem fáir komast uppúr!, Blá og marin var hún alltaf eftir það, með glóðurauga, illa til höfð, þetta er stelpan sem var alltaf svo falleg, en lenti í röngum félagsskap, félagskap sem var fíkn, stelpan sem var svo falleg, leit í spegilin, og þar sá hún manneskju sem hún hafði aldrei séð fyrr,, þessi manneskja gat ekki verið hún, þessi stelpa í speglinum var með svart tætt hár og bauga undir augunum, augunum sem áður lýstu heiminn upp af hamingju og hugrekki, voru nú sorgmædd, full af ótta, ótta um lífið, þarna uppgvötaði hún að engan átti hún að, hún reyndi en féll alltaf í sömu sporin aftur, nú vissi hún að þetta gat hún ekki lengur, tók upp hníf og endaði sitt líf. ] [ Fólk hér, fólk þar. Já þetta fólk er allstaðar. Allir á þönum, hér og þar. Blaðrandi, labbandi, betlandi. Sumir rífast, aðrir elskast. En allt er þetta það sama, þetta er fólk, hér þar og allstaðar. ] [ Life is good, life is bad. Life is terrible, life is sad. There is war, in this world. People die, lose their lives. But for who? For me? For you? They are living do die and destroy the eart. That\'s what life is, life is deat. ] [ Tásur geta verið sætar sem súrar, langar sem mjóar, stuttar sem feitar. Brúnar eða hvítar, langar neglur, engar nelgur. En hverjum er ekki sama? Þetta eru jú bara tásur. ] [ Blóðugir skór, hlaupa í burt. Blóðugar hendur, fela sannanir. Blóðugur maður, sest upp í bíl. Blóðugur maður, sleppur. Blóðug sál, tapar sér. ] [ Talaðir, án þess að segja. Þagnaðir, án þess að þegja. Drapst mig, án þess að meiða. Dó, án þess að deyja. ] [ Hann: ,,Þú ert mér stjarna á myrkum himni\". Hún: ,,Þú ert hlýjan í sálinni\". Þau bæði: ,,Við erum eitt\" -Tíminn leið- Hann: ,,Viltu eyða með mér ævinni? \". Hún: ,,Þú ert sá eini sem ég ann, og já\". Þau bæði: ,,Við erum eitt\". -Tíminn leið- Hann: ,,Þú virðir mig ekki viðlits lengur\". Hún: ,,Hjarta mitt hefur kólnað. -Til þín\". Þau bæði: *þögn* -dagurinn leið- Tveir koddar í tvíbreiðu rúmi. En aðeins á öðrum hvílir haus. Hann: ,,Hvað hefur gerst? Hvað hefur orðið? Nú situr aðeins eftir mitt tóma rúm\". ] [ Snúðu þér við þegar þú heyrir fótatakið á eftir þér í myrkrinu. Og horfstu í augu við -sjálfan þig. ] [ crucify your beliefs and leave them alone but when you die where will you roam? like electric pulses hidden in the air phantomising visions giving you the glare hidden in your shelter look out through a hole making invisibility a shield for your soul wishing ghosts wouldn’t see you but they can see all the rules don’t apply to them they have taken the fall would you duel eternity and stay on this plane? for one shot at real-presence? to have something to gain? like the wiseman said you get what you deserve those who bend, will break those who sway, will curve those who jump and land on their feet shouldn’t have to crawl to get back to their seat so embrace yourself we are in for a ride life is full of changes like the wind and the tide ] [ Í hóp minna kunningja kátur ég er Í kirkju eða á fundi þó sjaldan mér flýti og seint verður Askja til ánægju mér þó eldstraumur bruni þar neðan úr víti en konur þið freistið mín heima og hér það heillar mig vanginn og barmurinn hvíti Við athugun sagna mér oft hefur virst það ekki sé kynlegt þó hjörtu okkar brenni í svefnrofanum hefur mér sannleikur birst því sjálfur ég trúi og öðrum það kenni að skaparinn kæmi upp konunni fyrst og karlmanninn síðan hann ætti með henni Aðalsteinn Ólafsson 1917 - 1998 ] [ Í sinni mynd er maðurinn skapaður. Sjálfur veit hann fátt annað en hug sinn. Seint skilur maður annan mann. Þá hann skilur veit hann stundum meira en hollt er. ] [ Í fannkynngi og myrkri ég fæddist í heim Ég finn hve það misráðið var en sé þetta skömm mun hún skella á tveim og skaparinn meðsekur þar. Í sveitinni minni bjó fátæktarfólk en friður var hjörtum þess í og drykkurinn oftast nær mysa eða mjólk svo meint varð ei neinum af því. En tímarnir breyttust að heiman ég hélt og hlykkjótt var slóðin mín þá en tískunnar kónga ég aldrei hef elt þar ákveðinn beygði ég hjá en byðist úr glösunum hin görótta veig ég gerði henni sæmileg skil og sjónin mín skerptist með sérhverjum teig það segja ég fólkinu vil Og nú er ég aldraður orðinn og grár það óvissan tekur í senn já karlinn er alltaf með eindæmum þrár segja alvöru og raunsæis menn Úr skammdegis myrkri ef er skundað af stað engu skiptir hve mörg verða spor ef að loksins það finnst sem að leitað er að þetta ljósríka heillandi vor Aðalsteinn Ólafsson 1917 - 1998 ] [ Í glugganum mínum flögraði fugl sem frelsinu hafði týnt. Athafnir hans voru ekkert rugl hans erindi í ljósið brýnt. Þó gluggarúðan sé gegnsæ og hrein hún granda frelsinu kann. Leiðin til sigurs er aðeins ein hana enginn hjálparlaust fann. Ég opnaði gluggann eins og ég gat þá eina þekkti ég leið og litli fuglinn mikils það mat nú mátti hann renna sitt skeið. En hvenær ætlar hin Íslenska þjóð að opna sinn glugga til fulls. Svo frjálsir menn geta fundið sér slóð án frekju valda og gulls ] [ Við vöknuðum hlið við hlið og skynjuðum æskuna svífa frá okkur með rykinu sem glampaði á í sólinni ] [ Hnúturinn í mér miðri stækkar þeimur fleiri sekúndum sem ég ver frá þér. Berst við tárin því harmurinn er ekki. Hendur mínar vefjast um ósýnilega þig. Ég myndi óska ef ég væri þú ] [ Ég sá þig í systur þinni ] [ köst, föst, veldur löst Lífið þýtur hjá Ekkert eftir nema kyrrðin Þögn, samt sem áður öskur ] [ Gömul sál Sem horfir út um gluggan Í von um eitthvað nýtt. Búin að missa alla eiginleika Og dauðinn á næstu stráum. Situr öllum stundum Og gluggar í blöðin Minnið búið að bregðast henni Spyr sömu spurningarnar Aftur og aftur Og fer í taugarnar á yngri kynslóðinni. Skilur ekki upp né niður En vill enga hjálp frá neinum Þrátt fyrir leiðindin Sem virðast birtast uppúr þurru Þá á hún samt gott hreiður Í hjarta fjölskyldunnar. ] [ Ást og umhyggja fylgja skal þér, volgan il ég snendi frá mér. Í ótta við kveðjulaust ferðlag heim, á sömu stundu á leið út í geim. Ég veit ekki hvað þú hugsar um mig, en eitt veit ég þó, að ég elska þig. ] [ misskilningur. ég man eftir stundum þar sem þú komst til mín. þú varst ekki hrædd, heldur forvitin. ég sá þig, og skildi ekki. smátt og smátt byrjaði ég að skilja en ég miskildi. fyrirgefðu. ] [ Morguninn var dimmur, fjallið starði drungalega. Sál mín minnkaði við samanburðinn. Þrautir næturinnar voru langar. Blóði drifið gólfið beið eftir að segja frá öllu. Ég leit við, sá verk mín. Kúbeinið var blettað ryði og blóði. Tilfinningin var ekki eftirsjá, ekki gleði né reiði. Mér leið eins og áður, tómur, orða vant. ] [ Why do I love you so much ? Why can’t you just love me like I love you ? I need you, you are my love You said you had to think about it I think you don’t like me like I like you It´s so fucking hard to think about you You with some other girl Maybe better girl then me Why am I thinking like this ? God help me help me help me Im praying I need your help now Not to morrow now!!! You know I like you But I don’t know why I like you Maybe are you just like other boys Who know ? not me ! I’m sure god that I will lose him I know you can’t let him love me but maybe give me another chance to show him who I am Now I’m crying I just want you to me You said now that you cant Be In love with a person That you can’t see every day I love you , but you don’t love me I don’t need you this is my life I think that I can life with out you!!! Good bye!.. ] [ aðeins eitt kerti á gluggasyllu einn dropi af hjartahlýju yfirbugar kolsvarta sorgarveröld ] [ You made me smile, You made me cry, You made me happy, You made me sad, but thats just because you are my best friend and i love you so much ] [ What is this life ? I am not sure .. People is hurt People cry But they don’t know really why Someone cry because of love But I cry because my soul is empty. My heart is a big black hole And I cant do anything My brain is frozen just like my heart Why cant the word be wonderful And nobody will cry And nobody die ] [ Ég sakna þín svo mikið afi Þegar eg kem í heimsókn Enginn afi til að taka á móti mér Taka utan um mig og knúsa Enginn afi til að fara með útí búð Bara til að kaupa harðfisk útaf ég Var í heimsókn. Enginn afi til þess að fara með á Verkstæðið. Koma á Akureyri er Kvöl núna . Stór partur af þessum Fallega stað lést með þér. Þegar ég frétti að þú værir að deyja Þorði ég ekki að koma og kveðja þig Frekar var ég í eyjum í sjálfsvorkun En fyrirgefðu ég hefði átt að koma En ég var ekki nógu sterk þá ég sé Enn eftir að hafa ekki komið Lífið var svo erfitt. 1. febrúar Hringdi mamma í mig í skólan Sagði að ég þyrfti að fara í flug útaf Afi væri mjög veikur. Ég fór útí horn Og grét og grét þetta var það sem ég Átti ekki von á fyrirmynd mín Besti maður sem ég vissi um. 9. Febrúar 2005 hringdi pabbi í mig Hágrátandi. Hann sagði mér að afi hefði Dáið um morguninn að hann hefði sofnað Eg var glöð og sorgmædd á sama tíma Glöð að afi þyrfti ekki að kveljast lengur En sorgmædd yfir að hafa ekki geta kvatt hann. Ég vissi að afi hafði Krabbameinið en ekki svona Mikið krabbamein það var útum allt og engin leið að Stoppa það. Afi var bara bíða eftir að deyja hann kvaldist hvern dag Ég elska þig afi minn og vona að ég sjái þig þegar eg kem Til þín og við getum farið útí búð eins og við gerðum allt Bara til að kaupa harðfiskinn handa mér þó þið Ættuð lítið sem engan pening sníttiru alltaf pening fyrir Harðfisk fram úr erminni Ég elska þig besti afi í heiminum Baldur Björsson Frá Stóru-Þverá í Austur-Fljótum Fæddur 24.febrúar 1933 Látin á Akureyri 9.febrúar 2005 ] [ Í höndum mér hef ég tvo steina. Annar er glitrandi og fagur. Hinn er aðeins grár. Sá er glitrar hefur verið slípaður og er því sléttur viðkomu. En þessi grái en nokkuð hrjúfur og eilítið minni. Nöfn þeirra eru Bergkristall og Grágrýti. Kristallin laðar að augu En Grýtið fælir frekar en hitt. Kristallinn er skær og geislar sem sólin... ...þessir geislar blinda. Grágrýtið heldur sínum lit þó svo að þú skoðir hann vandlega, Þú færð að kynnast hverri misfellingu á yfirborði hans, Ferð jafnvel að þykja vænt um hann. Hvað gerist ef þú missir niður kristalinn? Hann brotnar í aðra minni sem halda áfram að blinda. En Grágrýtið? Það fellur niður á harðann flöt Og heldur áfram sinni upprunalegu lögun. ] [ Af vörum þínum drjúpa orð En augun segja hið gagstæða. Þau eru gluggi að sál þinni Þau sýna mér hvað býr þarna lengra inni Segja mér hvað lifir þarna vanrækt og hungrað Reikar um í dýpi huga þíns Varirnar innsigla hið hungraða Situr þar tjóðrað fyrir handan En hungrið magnast Svo sárt Böndin halda ekki í lokin Það brýtur sig laust Fangar bráð sína og leikur sér að henni áður en.. það rífur hana í tvennt með hárbeittum veiðiklóm svo innviði, ásamt blóði lita umhverfið dreyrarautt. Loks er það snarað um hálsinn á nýjan leik Og tjóðrað fast. ] [ Mig langar burt, Mig langar í vængi, Mig langar að slást í för með farfuglunum og fara eitthvert, Fara á einhvern betri stað, Fljúga yfir höf, Fljúga yfir lönd, Fljúga frjáls... Vera laus við allar ábyrgðir sem íþyngja mér, Vera laus við allt þetta endalausa puð sem maður þarf að leysa af hendi Skilja eftir öll mistökin sem ég hef gert Og fara bara... Bara eitthvert annað... Aðeins syngja í góðum hópi Og halda á suðrænar slóðir. En jafnvel fuglar lenda í stormi, Fuglar villast, Fuglar týnast frá hópnum, Fuglar enda einir, Fuglar verða svangir, En jafnvel fuglar deyja. ] [ Nenni, Kalli, Nonni, Sara, Nenna ekki að fara út í búð og kaupa svala. ] [ Hann lifir enn. Hann man fæðingu Krists, upprisu hans, hann man Napóleonstríðin, víkingana, hellisbúana. Hann veit flest allt sem vita má, hann veit þó ekki hvort hann sé eilífur eða langlífur. ] [ Formið er gott í bakstur á blæðandi sár sköpin á mér. ] [ Þarna er hann, þarna á botninum. Það glyttir í hann, eins og hann sé að blikka mig. Hann veit ég næ honum aldrei aftur. Hann er á botni brunnsins. Ég fórnaði honum fyrir ósk, ósk sem ég vil taka til baka. Ég vil taka allt til baka. Snúa aftur litla vísi. Gleyma því sem gerðist. Gleyma því sem ég veit. En þó peningurinn sé bara í augnfjarlægð, veit ég að hann er of fjarlægur. Eins og manneskja í draumi. ] [ Ekki gleymað þú horfðir. Gleymdei því sem þú sást. Sjáðu nú hvað er orðið, þú veist vel að þú brást. ] [ Drip, drip, drip, sagði hann og borðaði steininn ] [ þú, ert þú farinn? ertu farinn mér frá. þú veist að þú verður barinn ef þú ferð inná krá! ] [ ég vildi óska að ég væri þú!! ] [ ég fer á ball dansa og skemmti mér kem heim fer að sofa mig dreymir vel. morguninn eftir skrifa ég hvað þetta var skemmtilegt inná bloggsíðu og set kanski inn myndir en ég hugsa ekkert um peninginn sem að ég borgaði með! ] [ ég hata skólasund ég hata þegar að vinir svara ekki smsum og þegar að.... ...við vínkonurnar ættlum kanski á ball um kvöldið, en við erum ekki viss hvort að við meigum fara, en þær hringaja ekkert eða senda sms og segja hvort að þær meiga fara eða ekki þær láta kvöldið bara líða og fyrr en varið er ballið búið! ég hata myrkur ég hata þreytu og ég hata þegar að ball er klukkan 10:30-12:30 á virkum degi um kvöld! ] [ ég brenni allar brýr, mér að baki á ekki afturkvæmt í þessi lönd engu skiptir sú ábyrgð sem á mig taki í illu höfum rofið okkar vinabönd það munu aldrei takast með okkur sættir hvort sem er í þögn eða hljóði þegar við mætumst erum sem tveir vættir í minn garð ertu haldin viðbjóði 19.jan, 2006 ] [ Til andskotans með allt! Samt ekki alveg allt ] [ Stefnulaust líf mitt áfram æðir stoppar ekki né siglir í strand. Innst inni í mér hjartað blæðir og ég upplifi gleði og sorg í bland. Mig langar að standa á stað þar sem ég verð aðeins sæll. Um mitt vandamál engin bað en það er minn Arkilesarhæll. ] [ Ég veit ekki hvort þú hefur,huga þinn við það fest að fegursta gjöfin sem þú gefur,er gjöfin sem varla sést Ástúð í andartaki Augað sem glaðlega hlær Hlýja í handartaki allt sem þú gefur og færð. dingaling,2006 ] [ agnarlitlum fingrum snertirðu strengina í hjartarótunum óvitandi, óviljandi, hljómar hjalið þitt fegurst allra í þessum rykuga heimi blábjörtum augum bræðir gamlan á einni andrá ] [ believing that this life isn’t deceive but deceiving myself that I got a believe so I go away and make no mistakes and find that I’m not mature but naive seeing the hallucination of an illusion coming down to the conclusion that right and wrong don’t necessarily mix but they make a good fusion proving that a bum can pick up a gun showing us that he’s not all that dumb so he pulls the trigger, It needs to be done ] [ Frosinn steinn á stíg, mattur af kulda, ryki; Fast situr fyrir. Ég öskra af sársauka þegar ég sparka í hann ] [ Hér lífið er kalt kaupæði og allt og flest allt er falt Við djömmum og djúsum með landa í brúsum og á glæsikerrum crúsum Aldrei skyldi mig óra að í bakkann myndi klóra að svo erfitt sé að tóra því án flatskjáa stóra og helst alveg fjóra þú ert kuntulaus hóra Í lífskapphlaupi keppum á glænýjum jeppum fljótfærin vitinu sleppum Við samfélagsins kröfum borgum með töfum og gleymum hvað við höfum Aldrei skyldi mig óra að í bakkann myndi klóra að aldrei sé hægt að slóra né losna við sinn móra og án virtra draumóra þú ert kuntulaus hóra. ] [ Náð Hans er vafin utan um mig eins og burito brauð umvefur chilli con carne. Án hans er ég bara klessa. Ekkert mais brauð sem heldur utan um mig ps. þú veist ef það vantar ] [ Ég gæti sagt þér hvernig mér liði ef sálin væri ekki öll á iði uppfull af tilgangslausu kliði Ég fylgdi öllum reglunum þrúgandi þrýstingnum æpandi auglýsingaskiltunum \"Þú verður að vinna þína vinnu þræla fyrir ölmusu sá fyrir tómri uppskeru\" En hann dregur mig niður þessi ævaforni siður milli okkar er enginn friður Því frjáls vill ég anda þrátt fyrir mína vankanta flögra milli óþekktra landa þá mun ég þess freista að kveikja vonarneista trú á manninn treysta kynnast öllu öðru frelsa sál úr snöru jafnvel skrifa litla sögu um allar mínar hugsanir þrálátu langanir eigingjörnu kvartanir nei, burt með þessa neikvæðni hvernig væri að iðka jákvæðni sýna algera hreinskilni eins langt og augað sér þá gæti ég sigrast á sjálfum mér svo ég hafi eitthvað að gefa þér ] [ Throw your dices to a table of lies feel the disgust when it grows out of size \"Hold that inside\" father tells his son \"The war is not over it hasn´t even begun\" \"God is not real only a state of mind. God is just you and all of mankind!\" Those words left his soul, shattered and broke \"believe in yourself\" he then honestly spoke ] [ Engin ástæða til að fara á fætur. Og gefa lífinu gætur. Allt svo kristaltært. Um alla vegi fært. Sléttur, breiður vegur. Enginn farartálmi tregur. Heiðskýrt og sólin skín. Og í öllum heimsins lúðrum hvín. Húsið það hlær af kæti. Heyrast hlátrasköll og læti. Blik í augum. Og létt yfir taugum. Fæðast tár á hvarmi. Streyma niður með barmi. Flæða í stríðum straumi. Er ég vakna upp af draumi. ] [ Hægt og bítandi og þungt þunglyndið færist yfir hringrás depurðar og einsemdar hring eftir hring depurð einsemd. Finnst ég öðruvísi en allir aðrir. Ein í mínum heimi eða föst í annarra. Er líf eftir dauðann, eru einhver svör, er einhver tilgangur, eða hvað? Hvað er lífið? Er það núið framtíðin eða fortíðin? Hvað á ég að lifa fyrir? ] [ Á eyri nnim átt is j á e i t t p u n t s t r á s e m s t ó ð á þ v í f a s t a r e n r ó t u n u m a ð þ a ð n æ m i v i ð sjálfan himininn. ] [ The rain falls as our hearts cry, lost member of this hard life, took our last breath, we watch this lonely life go by, as we try to heal our sore, and at the moment when we wake up, we wonder - what\'s this life for, caus without feelings, and without love, we will never win this war alone... All this passion in my mind, lights this fire inside of me, suddendly we don\'t need the sunrise, caus suddendly we don\'t need to see, all we need is speed, all we need is neel and pease, caus today we build our life on poision, so our hearts wount bleed, so finally our minds get free.. Chours; Watch the rain fall down as you run, feel this freedom rushing through your veins, caus you don\'t have to cry no more, now there our tears are dry, caus all we cried for, was just another last lie, and now our lifes\'re gone, now it\'s all gone.. All those feelings you felt before, sad mistake we all make, and as we wake up our lifes, we whisper - please, for god sake, help me now or never, this is something I can\'t take, can we make it through together? but then you watch your blood go by, - this last feeling and as we watch our selfs die, we brake down in front of our lord, and cry, but we know it\'s for nothing, caus without feelings, and without love, we\'ll always think that our lord is gone... ] [ You press your self against the wall, you watch his eyes through the dark, feels like your heart is going to fall, but still your tears are frosen, inside your mind you hear his call, telling you that you where the one choisen, you close your eyes but still you see, and his touch burns your faith like poisen, and you know there you\'ll never be free, caus your last doors are closing... Chours; He threats you with his biteless sword, staps your heard again - again, you will suffer for every word, until you\'ll be your devils fan, it cruses your life, it burns your light, and now you wonder what\'s this life for, you are joing this endless fight, now it\'s to late to scream for your lord.. The mourning is helpless, you\'ll never be fine, the animal will cruse your confess, as he wispers in your ear; - now you\'re mine... he will live on your fears, he will suck on your breath, lick all your tears, and hold on to your heart, but every time he cries, and every time he smiles, - another child dies, and as you scream and you brake down and cry, as you scream - \"just let me die\", he holds on to you - to tight, but someday you\'ll see your heavens light, when finaly - lord will end this fight... Chours; He threats you with his biteless sword, staps your heard again - again, you will suffer for every word, until you\'ll be your devils fan, it cruses your life, it burns your light, and now you wonder what\'s this life for, you are joing this endless fight, now it\'s to late to scream for your lord.. ] [ For a moment I thought there I was through with life, all I could ever see was a empty fog, I lost my light on the way to hell, I couldn\'t breath - I couldn\'t talk, I couldn\'t feel - I couldn\'t turn back, I walked through my life without a wision, my mind was dark - my heart was black, all I could hear was the whisper from nothing, all I could feel was the sore in my heart.. Then I found my hand of brave, then I fealt my heart again, I fealt so save, no more mourning - no more pain, I stapped the dark, I ran away, you fixed my broken wings, and you turned me back, you held me in your arms, and for the first time, I found love.. But something happened, happily ever after faild, and for that - I felt so sad, all I felt was empty and guild, all I saw was you so mad, our dark times took over, we broke apart, and we got lost in nowhere.. I wrote your name in thousand lines, I screamd your name like thousand times, I ran, I cried, I wrote down lies, I cuted me until I found a life, but something was missing, something was lost, I lost the only thing, there could give me love .. But god was good, he forgott my mistakes, and so did you, and now I\'ll do what ever it takes, so we can make it through, so again - we\'ll be together, so again we\'ll be one .. ] [ Margar stundir hugsa ég um þig, en annan þú elskar, þú elskar ekki mig. Fyrst þegar ég sá þig, sem ekki er langt síðan fóru allar mínar tilfiningar að tifa við tíman. En þú ert búinn að vera með þessari stelpu í soldin tíma, frá okkar fyrsta fundi, er hef ég verið bara að bíða. ] [ Vertu nú kát og létt í lund, og notaðu þína tíma og þessa stund! Brostu svo breytt svo ég brosi, svo lengi að það vaxi mosi! ] [ You broke my heart and left me to die. Our life torn apart I\'ve lived in a lie. Something so cherished changed over night Oh- what a feeling in the deep darkest night. Used to believe that love was so strong never felt lonely or left without words There is something so terribly wrong in a heart of human, the pain is the sword. I went through the stargate of Heavens Door then God came to rescue my soul from the FALL. He showed me what is the most important of all to help and to heal, and to love evermore. ] [ Vinur sem lofar og svíkur það í bráðlæti sínu er ekki vinur heldur kunningi Vinur sem lofar en lætur það leka er ekki vinur heldur vínflaska Vinur sem lofar og lætur aðra lofa að þeir muni þegja er opin bók Vinur sem lofar og innsiglar loforðið Með lási yfir orðum þínum Er aðeins sál þín Eigi skal ég loforð lofa nema það sé aðeins Mitt eigið Þegar að þú Loforð lofar er það aðeins Forvitnar vegna Hví að lofa þegar loforð sem eru svikin brjóta sálina Loforð má þó lofa fyrir þann sem þú elskar og elskar þig á móti Því ástin er það sem veldur því að loforðin skulu vera haldin Þau loforð sem ástin heldur eru loforð sem læst eru Þau loforð sem ástin heldur eru loforð sem eru aldrei svikin Þau loforð sem ástin heldur eru loforð sem aldrei leka Þau loforð sem ástin heldur eru loforð sem vara að eilífu Eða þar til ástin dvínar. ] [ Rofar að degi liggjum við en í rekkju En heit eins og kvöldið áður Ég sofna á ný. Það rofaði að degi Ég vakna og lít á koddan koddan sem þú lást á en þú ert farinn Það rofaði að degi þann morgun sem við lögðumst í rekkju Þú lagðist á koddan við kysstumst Þegar rofaði að degi Læddistu hljóðlátt í burtu hvarfst út í buskan Lauslát, svo hljóðlát Þegar rofaði að degi lagðist ég á hliðina Þú, horfin út í buskan Ég brosti, þetta var bara ein nótt ] [ Ég get ekki sofið fyrir veðurofsanum geng út í vetrarnóttina með hlýjan vind í fangið hlákan bræðir svellið við hvert fótmál birtist jörðin sem liggur í dvala ] [ Kaldur kjúklingur Feitur unglingur Brotinn silungur Bleikur hýjungur p.s. skúli, ég elska þig. ] [ Eitt andartak í eilífðinni. Augu mætast, hendur finnast, alveran tekur kipp. Hjörtu slá Óðinn til gleðinnar. Draumur í vöku, draumur í fyllingu, hrædd snerting vonir, væntingar, ósk sem rætist. Mjúkur koss eða draumur um veruleika? ] [ angels are true to those who believe but don’t trust so easily those who decieve an angel is pure fine and clean but copys are dirty ugly and mean the angels have wings they fly through the sky and the ones who attempt will fall down and die the angels can sing with melody dreams don’t buy it all it’s not all what it seems angels are guardians truthfull and just for them to help you belive in them you must so if you see one of their kind and you’re sure it is real make a clear state of mind get in touch with what you feel show someone you must you know what to do can\'t show me the angel I only see you ] [ íslenzk túnga lá í gómi sem lömuð í fótnum náfýla af andardrætti orðanna beygingarháttur þágufallsýkinnar í nefndu falli eftir hundrað ár sko, ok verður kvortsemer dauð ] [ hvort sem var gerðist ekkert nema sjónvarpið eyddi upp líftíma liggjandi í fleti fórnað á altari heimskunnar hugsanir drepnar milli auglýsinga og sopa af diet kók ] [ Vala í fjöru velkist og sporin mást í báru. Það skvettist við klett og froðan flýtur. Smáfugl hraðar sér á sláttu og hverfur. Tístandi og flautandi syngur lífinu lof. Slæður á tindi renna í hlíð við kletta. Fífa í mýri við hverja kviðu undrast. Fossinn talar þungri röddu í klettum. Niðandi lækurinn segir mildar sögur. Mosafeldur klæðir nibbur og klungur. Mjúk er áferðin í regnúðanum silfruðum. Spegill í dalbotni málar mynd hæðanna. Hvítar doppur gára spegilinn og myndina. - Á ég að vera þar? Gul og rauð er slikja máluð af borg við fjöllin. Vélstrompar dæla slikjunni með kumri. Svart í svart og hvít strikin sem blikka. Hávært suðið berst inn um næstu glugga. Þroskaðir sílóávextir sveiflast í kranaskógi. Inn renna, hjá renna, frá renna málmdósir. Hviss, hviss, dunk, dunk og brumm brumm. Skref fyrir skref og fet fyrir fet færast verur, inn í manngerða klettana, skrautmálaða. Rafglóð við fingurgómana, við eyrun, heilann við kynfærin á körlum stundum konum. Sem blýið var rómverjum, svo sturlast fólkið. - Á ég að vilja vera þar? Ég er einn í mínum eigin heimi og þar eru þeir, hnútar andstæðnanna, hnútar náttúru og ónáttúru. Spurningar mínar eru sverð á hnútana óleysanlegu. Er ótti minn ástæðulaus? Verður spurn mín hnútaleysir? Náttúran og ónáttúran takast á, í einskonar keppni. Sérstæður verðlaunagripurinn er afhentur í lokin! Vil ég hlusta á þjóðsönginn þann með hönd á hjarta? Verður það kannski komið í lófa minn titrandi? Spurningum er best að svara fyrir lokadagsetningu! Þannig er það á öllum umbúðum og framleiðsluvörum, Svo er einnig hjá mér, það má sjá skrifað á bakvið eyrað. Hvað eru margir með það á bakvið eyrað eins og ég? - Sennilega verð ég þar hvort sem ég vil eða ekki. ] [ Ef ég mætti ráða myndum við enn elska hvort annað. En ég ræð ekki, er það? ] [ Þó ég vilji frelsi þó ég vilji geta gert allt sem mig langar - þegar mig langar þó ég vilji njóta ásta á götuhorni - með ókunnugum manni þó ég vilji upplifa heiminn - á eigin spýtur þó ég vilji fara án skýringa án leyfis án kveðju þá er svo sárt að sleppa og ég rígheld í það sem er ekki lengur til. ] [ hafið endalaus auðn hringalda himins speglast í sjónum mararbáran blá brotnar þung og há segir eitthvert skáldið og bátarnir sigla úr höfn út í óvissuna ] [ Flís úr draumi draga nóttin uppi daga hegrans fjaðrir plaga eg naga höndum saman núa böndum sundur snúa sofi mín vofa fari mín mara barn til hálfs kara um háls lá snara. Var koss minn kaldur ? strangan sá mig valdur um ævi og aldur þann galdur. Sérðu ekki hvítan blett í hjarta mínu ? ] [ Spending my whole life alone, wasting endless time. Rejecting all the love you´ve shown, do you think it is a crime ? I will not be tempted by the promises you make, I don´t need another guy who´s only out to take You´re not welcome on my boat, I never invited you to stay, So baby, why don´t you hit the road and find an easier prey. ] [ hamingjUna vandhöndlaða leiki við góma gera vil sóma hállt mitt svell dyggða ei get meðal byggða eg inn í skel fel. eg sendi- svo endi dansa við skugga strýk mér um ugga fljótt fljótt flýgur fiskur sporið vallt allt er fallt svífa lengi eg strengi vog milli tveggja tvista. þú varst bara nýbyrjuð að fljúga, elskan. ] [ Hvað er ástinn ef maður hefur þetta tækifæri að tjá sig ? ÞAð er að segja við þann sem þú elskar og þykir vænt um -. Og ekki sísit að koma fram við hana eins og þú mun vilja koma fram við þig þannig er nú ástin og hún er heit og sterk tilfinng og ekki síst hvað er það gott að elska einhvern eins og þig. ] [ Sólargeisli, sem skreið inn um gluggan, líkt og þoka sem læðist inn um fjörðin, gaf mér von um betra líf. Rafmagnað teppið á gólfinu, Með mörghundruðum rykkorna, sem dönsuðu í geislanum, Virtist öðlast nýtt líf. Skýjin með þungbúin andlit, Stigu þungum skrefum, í átt til sólar, og grétu. Sólargeislin, sem skreið ei lengur inn um gluggan, varð að laufléttum skugga, samt svo dimmum, samt svo sorgmætum. Þrátt fyrir það, urðu regndroparnir að spegli, þar sem sál mín speglaðist, svo frjáls, svo létt. ] [ Seinfleygur fugl og hið hulda barn fylgdust að um stund milli samstæðra heima tveggja og þegar nær dró vetri varð sólskynið skýrara, augna þeirra beggja. Leggstu með mér milli þúfna og ég dreg þér af fingri leyndan dóm, segir álagakonan og sinnir blíðlyndi barnsins. Um miðbik þegar aftur tók að dimma flaug hann um síðir afturábak og náði í koffortið sem þau skyldu við sig. Þar fann hann endurfundi margræðra muna. Ekki svo, ekki svo, að hvorugt hafi því gleymt sem fagurt var en tíminn spyr ekki, hann gengur. ] [ ég brann á báli ástar glatt er ung ég var og lifði hratt en nú er mitt hjarta orðið latt og laust við þá pínu sem ástin batt ] [ Hjartans hvunndagsprinsinn minn ég hugsa til þín enn um sinn, um heita og hlýja faðminn þinn og sáran söknuð minn Minningin geymir þá mæru sýn er augu mín fyrst litu þín, þá hamingjan vafðist sem hýjalín um hjarta mitt, ástin mín Mér skildist loks, umvafin faðmi þínum, að oft lumar leitin á fundi sínum, en hvernig er hægt með nokkrum línum að tjá þér hvað brennur í æðum mínum Ást þín er saklaus, barnsleg og hrein, ég aldrei hef litið fegurri svein Í hjarta mitt þegar ég orðin er ein rekur sorgin sinn saknaðarflein Er þreyta\'að mér læðist og lamar minn dug, þá ein hugsun um þig henni vísar á bug, því meitlaður ert í mitt hjarta\'og minn hug, með þér ég kom \"bleikum blöðrum\" á flug Er ertu mér hjá skín sólin svo glatt og ekkert er fjallið sem sýnist of bratt, en múrveggir tímans þeir molna svo hratt og speglagler fortíðar verður fljótt matt Með sælunnar molum þú myndaðir slóð að fótum mér þar sem ég stóð Fyrir þig ég legg alla ást mína í sjóð, elsku sonur, mitt hold og mitt blóð ] [ Ég er oftast kát í lund sama hvað á dinur hlakka til að fara á þinn fund ég veit þú ert svo fimur Mitt andlega eðli er að vera hress og sönn veit ég að allt gengur betur að detta ekki hér í fönn og lifa af þennann vetur ] [ Með glóð á vörum, þau kyssast. Með eld á vörum, þau skilja. ] [ Þeir sem með lavaski leita líta mig fyrst allra manna vita þá síst hvað þeir heita, hjárænur af verkum ég sanna. Ég hef margt af lífi lært og læt ykkur nú vita það, í Fjarðabyggð sé varla vært versni lífið á þeim stað. Mikið skal sá er ætíð vill vel vilji hann leika á stundum. Fáráðum þessum fleira ég tel, fá mætti á bæjarráðskundum. Nú get ég látið mig heita hund. Hæfi ykkur stjórnarfar slíkum. Heldur vil ég þó hafa minn blund en hlaupast við skottið á tíkum. ] [ Augun opin eru, það þvert það er ég vil. Kann ekki svefn að festa, í lífsins ölduþyl. Bankar nú uppá Draugsi, nú dæmir á mig dóm. Lyftist létt upp sálin, frá prestsins lága róm. Nú er öldin önnur, því fæ ég eigi breytt. Ljósið hefur slökknað, slæmt, en ég var svo þreytt. Framhald það ég þrái, að slái hjartað í mér. Máttu þó það vita, sól, sögu hef ég að segja þér. ] [ Betra er að falla með frægð og fá sér þannig letruð spjöldin en flettast klæðum og fá enga vægð fólksins í dagskrá á kvöldin. Það höfðar svo misjafnt til manna munúð og allskonar prjál. Ekki ætti konum að kenna að karlmannahegðun sé brjál. Viljiru heita vinur minn vandarðu þína háttu. \"Fattirðu ekki fítusinn\" frá mér heyra máttu. ] [ Ljóð sem ég hef samið 12 ára. -------------------------------------------------------------------------------- Mamma gerðu mér það ei Mamma gerðu mér það ei, mundu að ég seigi nei, Ég vil ekki deyja ég hef frá of mörgu að seigja. Út þú hentir mér út um gluggan, Úti læðist ég inní skuggan, Ég sé ofsjónir út í þessum kulda, æ hvað þarf ég þér að skulda? Pabbi orðin pínu þreyttur á þér, pínir sig í að hjálpa mér. réttur frá honum ríkir á mér ræður mamma öllu hér? Frá augum mínum blasir falleg sýn, Faðir minn seigir við mömmu, þetta er dóttir þín. Mamma orðin mæta yfirgefin, mun aldrey hleypa mér inn, þarna er efin Ég legg í draumi á stað, auðvitað geri ég það. ekki vil ég mömmu þekkja Æ hún verður bráðum ekkja. Faðir minn vill fara burt, Fallega gat ég ekki spurt Mamma leifir mér það ekki má ég ekki fara með neinum sem ég þekki? Faðir minn farin er fast mamma mín núna mig ber. Ég má ekki fara út, Ég má ekki fá neitt í minn mallakút, Ég þarf að sofa úti ég get ekki lifað lengur, finn svo til í mallakúti. Mamma hleypir mér nú inn. man ég eftir þessu í sinn? Hún fer að hugga mig, hún veit ekki hvað kom fyrir sig. Hún fer að hlaupa inn í eldús, hún kemur með stóra krús. Alvöru matur í henni er aldrey núna hún mig ber. Nú er að líða nefnilega af kvöldinu, Nú óttast ég að hún hendi mér út,af sjálfu valdinu, En hún leifir mér að sofa inni hjá sér. á kvöldin núna, spyr hún sig, \'\'hvað var að mér\'\' Ég veit ekki hvort þetta sé rétt. En þetta hlítur að vera góð frétt. ] [ þegar þú talar þá stari ég á þig og reyni að finna galla í andlitinu þínu, ég finn enga, þú ert fullkominn þú hlærð og ég hlæ líka, ég heyrði ekki það sem þú sagðir, en ég veit að það var eitthvað fyndið, ég held ég elski þig. ] [ ef ég myndi deyja myndirðu skíra krakkan eftir mér? myndirðu mæta og syrgja mig, segjast verða uppi með mér? færirðu kannski burtu, segðist aldrei vilja sjá mig þar helvíti væri staðurinn fyrir fólk eins og mig? hvað ef ég skrifaði, segðist allltaf elska þig gæfi síðan létt í skyn að ég hefði bara verið djelös gæ. ég þarf ekkert að afsaka ég lifði lífinu, dó með sæmd. mannlegt compassion, ómannlegan hugsunarhátt ] [ Það væri best fyrir bandið ef þú já svæfir hjá mikk. ég hugsa það -sagði hann með ástarglampa í huganum. Eins og pabbinn sem hefur meiri metnað fyrir boltasparki sonar síns en eigin Þorir ekki að njóta, gefur pakkan annað það pirraði mig allir þeir gullhamrar sem ég fékk notið í kvöld. frá marianne. Sæt saman. Sitt hvor höndin á sama handleggnum. ] [ Keyrandi um á Volkswagen en skyndilega enginn vegur fyrir framan mig Spilandi fóboltaleik, en skyndilega enginn ástæða gengur illa í skólanum, en skyndilega skil ég það. Vinir mínir segja mér mig hættan að reykja, ha? Reyni að finna hana, þá skil ég það líklega, það reynist erfitt. Loks finnst hún, þá er hún fjarlæg, loks hitti ég hana, ég græt, höfuð mitt hallar aftur af skömm. Þetta var ekki svona í gær. Hvað hef ég gert. ] [ Hingað til hef ég ekki gert mikið af því að skjóta eitruðum ástarörvum mínum í busastelpur. Yfirleitt geymi ég trojuhestinn í maganum, uns magasýrurnar éta hann upp til agna innrásarmenn streyma að og gera áras á innra strarf líkama míns. ] [ Harðnar á dalnum drengur dugir nú ekkert slór ekki líðst þér lengur að látast vera stór. ] [ If you close your eyes, what can you see? Nothing? I disagree Give it some thought, set your mind free Tell me again, what can you see? Nothing? I disagree The inside of eyelids is what you can see. A canvas wiped blank, each time you blink Reach for the paintbrush and sink - it in colours and paint what you think The painting remains till the next time you blink Let’s try it once more, this time with feeling, The inside of eyelids are only a ceiling Like a sky to the ground, so much in between From eye to eyelid, so much to be seen The best thing about this world of closed eyes? You can be who you are or wear a disguise Tell only the truth or tell only lies Mix it all up be naughty or nice, shrink as you will or double in size Take part in a race and take home the prize Travel to china for a thimble of rice Why not walk back for the exercise? Do as you wish, but this one thing applies There are no rules in the world of closed eyes. ] [ Einn á ráfi undir morgun Á kafi í drukknuðum sorgum Veit varla hvert hann gengur Góður fengur, Fyrir augu sem fylgjast með Yfir kirkjugarðsvegginn Partýið er rétt að byrja. Hann hefðI ekki átt að stytta sér leið Lítið hann vissi um það sem beið Rankaði við sér litlu síðar, Móttökur blíðar En eitthvað var öðruvísi Bakvið kirkjugarðsvegginn Partýið er rétt að byrja. Dj-inn er dauður en spilar þétt Gestirnir sálir sem völdu ekki rétt Búsið er rautt, dansgólfið dautt en er eilífðin ung. Partýið er rétt að byrja. Hann vel sér unir hjá nýjum vinum Hjálpar til við að ræna hinum, Ráfandi um morgun´í Drukknuðum sorgum Býður betra líf Bakvið kirkjugarðsvegginn Partýið er rétt að byrja. Dj-inn er dauður en spilar þétt Gestirnir sálir sem völdu ekki rétt Búsið er rautt, dansgólfið dautt en eilífðin er ung. Partýið er rétt að byrja Partýið er rétt að byrja. ] [ I promised myself I wouldn\'t - couldn\'t Do it again This time will be different Time spent Wisely. Precisely. I\'ve burnt my midnight oil Down to the last drop Top up! The time draws near. Fear. This time I won\'t pull it off. Enough is enough, Next time will be different Barely made it, Forgot the footnotes, the quotes I should\'ave - Could\'ave but didn\'t - couldn\'t . Got away with it, again, Next time will be different ] [ Um miðja nótt í myrkrinu svarta fara skjannahvít spurningamerkin og upphrópunarmerkin á stjá. Þau fara frá einu húsi til annars. og kíkja á gluggana. Babblandi sitt sérstæða tungumál. Skilja ekki! Hvers vegna hefur okkur verið úthýst? ] [ Los sentimientos que le habían convertido en un angel se sujetaron con claves en la carretera cuando los ojos desesperados se abatieron juntos en la misma angustia antigua. ] [ Í gegnum eiturmengað loftið teygi ég hönd mína litla og brothætta \"Gríptu\"!! - hún hlýtur að geta hjálpað þinni! ] [ Lendir á vörum þínum og bráðnar, eins og ég. ] [ Risið er hús á hæðinni handverkið slyngra rekka! Kraumar í Krummaþúfunni krásirnar borðin dekka! Nú opið er hús hjá Einari og eitthvað er til að drekka! ] [ Er annað eins ljúfsárt og ást í meinum? I Á mörkum boða og banna býr brennandi þrá glæðist eldur í hjörtum ástríður ólgandi logandi ljómandi leysa úr læðingi ókunn öfl. II Í dagrenningu deyjandi eldurinn aðeins askan minnisvarði næturinnar nagandi handarbökin kveðjast án kossa. ] [ Með augunum þínum þú kveikir bál, lítill gimsteinn er sorgin á, einmanna, sorgmædd lítil sál, biður til Guðs að taka þá þrá. Sú þrá er bitur, vonin veik, engist um í vonlausri leit. Betra líf óskar þú, ef bara rættist óskin sú. Lítill fugl er máttinn missir, teigir sig upp og sólina kyssir sú eylífðar leit, löng og þreitt en ekkert að óttast því vonin er björt og ástandið er breitt. ] [ Littlar Stelpur, sem haga sér eins og stelpur. Í Skóla stelpurnar fara, einn kenanra þau kinnast að nafni Mara. Fullt af vinum eignast þær, Svenni littli bróðir fær. Næsta dag skólaföt þær fá, læra síðan nýja stafinn Há. Út með ruslið henda, og nú er ljóðið að enda ] [ this condamned generation the youth of our nation doing things they havent been taught without thinking what if they get caught but not in a fashioned way just the silent style, like nothing to say soloing amongst us all their spirit dissapear hiding in that cool and strong state of mind what they dare not talk about, what they fear worrying that they’ll fall out, getting left behind nobody cares, just do your own thing have a drink, bring on the new fling light up a joint, and make love to the smoke dont flame it to much, or you just might choke greed is a sin, just like lust wipe away the tears and watch them become dust nowere to play, nothing to choose one option available, it’s to refuse but they stay strong, so hard and cool drinking some more, like cars need fuel they sink even deeper then the bum down the street waking up one morning, without anyone to greet alone and ashamed for their past redemption nothing else matters but the next pention more money more booze they still cant refuse they do this shit stupid and ignorant of all like the man with a paycheck goes to the mall buying the same today just like yesterday something unwanted, that won’t ever last only works for a moment, then becomes the past ] [ Barnið Kristín Erna, er eins og mjólkurferna, Hún stundum verður þerna. Hún segir og teygjir þar til hún þeygir. Besta vinkona hennar að nafni beta, Á Bókstafinn Zeda. ] [ Ég alltaf fer að sofa og góðum her ég lofa. Ég drekk helli niður og fæ mér smekk. Úpps missti ruslið verð að fara út að henda En þetta er að enda..! :Þ:Þ:Þ ] [ Barnið mitt, hve heitt ég ann þér, undrið smátt, hve sakleysi þitt ljær mér, ljúfan mátt. Barnið mitt, hve fljótt við glötum gæsku og blíðu, hve fljótt við gleymum undrun og hlýju. Barnið mitt, lífið er leikur, á tíðum grár, ef engin er höndin, er gráturinn sár. Barnið mitt mundu faðmsins náð ef þungan herðir, mundu kærleikans ráð við allar þínar gerðir. ] [ Ég stend á barmi gljúfurs hyldýpið fyrir neðan tærnar standa fram af brúninni og ég er við það að falla - eilíf glötun í myrkri undirdjúpanna Fyrir ofan er sólin. Hún tegir sig í átt til mín Hitar vangann -og heldur mér í styrkum örmum sínum - og lofar mér betri tíð. Á ég að hrökkva eða stökkva? ] [ Leitum að því sem ekki næst, metnaður næstur aurum, í lífinu sem læst. Löngun í það sem liggur fjærst, hátt frægir lesti, slægð og snilli hæst. Leiðumst upp til tískuhæða, einlægni, trú og heiður, dyggðin sú að hæða. Lífsins markmið að græða, græðgi og öfund, dyggðin sú að næra. Leitum ljómans í listaauði, menning andans dauð, kæfður í efnisbrauði. ] [ Heldur af himni lítil sál, - ber með sér leyndarmál. Reginöflin máðum þá gömul ör, - gleymd nú í nýrri för. Leiðin sú sama, en nýr maður, - gengur aftur glaður. En gangan herðist, um grýtta leið, - þó ekki alveg sömu reið. Oft mæddur og sár, á stígnum hrasar, áfram stærri spor, - stæltur af þreki og þor. ] [ Það koma dagar þegar ljósið er dauft hugurinn myrkur og sinnið snautt Vorið við gluggann svo grænt,gult og blátt litirnir dofna og hverfa allt svo grátt Sólskin og hlýja úti söngur lífsins ómar hvað er svo þungt og kalt sem þungir hugarórar. ] [ Við erum efnið, fæðumst og deyjum, hér sem við fyrst urðum og seinna hverfum til. Við erum andinn, gæðum líf og eyðum, hugsum, en þekkjum ekki, hvaðan verður til. Hvað ræðum gerðum sona, sem spilla kostum þínum, rífa hár þitt og hold í von um auð,-ó móðir? Þeir misþyrma fóstru sinni, í græðgi og heimsku. Eru forlögin þeirra að verða síðastir sona? - Ó móðir jörð. 1990 ] [ Sem í ljósi birtist skuggi líður í grárri mósku hljóður löngu liðna tíma ber vitur lýsir ef þú leitar maður í huga þér Sem í myrkri kviknar ljós leikur í litum sínum hljóma himins tóna ber ákallið ómar ef þú hlustar maður í brjósti þér Sem í eldi birtist logi roðar lífsins lit hvítan kærleik hjartans ber tæran andann þú finnur maður í hjarta þér. ] [ Stjörnur himins, hamur heima, hver stök en saman sægur. Stjörnur himins heyrir til manna, tíðum dimmar en stundum bjartar. Stjörnur himins manna heimar, blika á hvoli skaparans ljóma. ] [ Undarlega stund lifir nú í lófa mér, hljóð með mikla lund en aldrei aftur. Önnur stund var áðan hér, seiðandi alda seitlaði milli fingra mér. Sérhver stund stundum lág og líka há, sífellt hraðar líður alltaf hjá Ávallt dýrmæt en líka gleymd, því önnur er komin, fyrir þá sem var reynd. Stríðar stundir, í tímas harða nið, hafa hrundið lífinu í gegnum mig. Hafðu ráð krepptu hnefann, haltu nú, í augnabliki sáð. ] [ Fortíð, örlaganna veg vefur í mál, hug, hönd, gönguna hefur. Nútíð, reirð gömlum böndum, bindst á ný, nýjum löndum. Framtíð, gyrt viljans mætti, bregður sverði á slitna þætti. ] [ Heimska og fáviska eru stjúpur þær byggja múra og byrgja sýn eflast saman og afla vina Viska og þekking eru systur þær brjóta múra og opna sýn ganga saman liðsfáar Vaknar þekking og viskan há er hugur og vit fella saman hönd og verk ] [ Á víðum akri á völlum heims vindurinn bylgjar grasið á þeim velli, lítið strá dansaði þar með öðrum. Með titrandi hendi ég gríp það strá sem fyrir sigði fellur, stráið er ég með sigðina í hinni hendi. ] [ Óttastu dauðann?- finna þokunið, - og döggina í framan. Snjóar og byljir herðast við, er ég nálgast smásaman. Drungi nætur, stormsins afl, umlykja táknið hans. Þar stendur það,- nábogans tafl, sérhvers göngumanns. Ferðinni er lokið, tindinum náð, og múrar falla. Sigrum var í baráttu sáð, sem um ávinning alla. Baráttugleði, -reisum hátt, fyrir hinn mikla slag. Sárt ef dauðinn sviptir sýn og mátt, og knýr til uppgjafarlag. Nei, reynum allt með hárri lund, sem hetjur guldu lofið. Hefjum andann, greiðum glöð lífsins skuld, sársauka og myrkri ofið. Djörfungin, ógæfu skjótt til bata snýr, verstu andartök enda. Frumaflaátök, fjandmanna orðagnýr skal réna, skal milda, Skal breyta, skal úr sári friður verða, og færa í sálu þína bjarta. Ó, þú og mín sál, saman hverfa, að eilífu í Guðs hjarta. Þýðing á ljóðinu PROSPICE, eftir. ROBERT BROWNING (1812-1889) ] [ Tíminn er eins og hringur og himinsins ljósakrans. Ég ferðast um nútíð og framtíð í fótspor hins hugsandi manns. Allt er afstætt líka tíminn. Hann er ekki sá sami allstaðar. Ef við hugsum okkur tímann sem endalausan sístreymandi hring sem skiptist í nútíð, framtíð og fortíð. Og við séum stödd í nútíðinni en viljum ferðast um tímann til fortíðar, þá er auveldast að stökkva yfir framtíðina framundan í tímahringnum og þaðan áfram inn í fortíðina. En alls ekki ferðast afturábak til fortíðar í tímahringnum þar sem við færum þá á móti flæði tímans í sínu endalausa sístreymi, hring eftir hring. ] [ Engin læti,alltaf gleði,aldrey sorg,Alltaf hlátur. Anna,Eva,Brynja,Guðný Björg,Henný,Kata,Guðný Ellen & Ég Garðar,Víking,Stóný,Rósi,Gabríel,Búbbi,Ásbjörn Öll við erum vinir. ] [ Dönsum saman, það gerir þér ekki illt, ég lofa. Dönsum fram á nótt, þú getur farið heim á morgun. Ég skal passa þig í nótt, en gleyma þér á morgun. ] [ Þó að þeir komi í röðum með gylliboðum. Blekkingar, falskar vonir. Viltu leika? Komið og takið miða því þessi lest er fyrir löngu farin og einungis pláss fyrir einn kaptein. Því aðeins einn fær brosið mitt bjarta. ] [ Að vera hrifin af strák, sem er vinur þinn. Sem er hrifin af stelpu sem er vinkona þín, en ekkert vill því sú þriðja er hrifin af honum. En það er gott, hann heillast af konum. En það gildir engu, hann heillast af annarri sem þú þekkir ei neitt. En það er eitt, vinkona hennar er hrifin af strák sem er vinur þinn sem heillast af öðrum en þér. Niðurstaðan er sú, Hann veit ekki að þú, ert sú sem elskar hann mest. En fyrir rest, er það ekki alltaf sú sem er í styðsta pilsinu sem vinnur? ] [ Enginn sér mig eins og ég er En ákveða hver ég er… Ætli þeir nokkuð mig sjái? Ég reyni að gera öllum gott Reyni við alla að vingast Ætli þeir viti það? Allir þykjast vita hvað ég vil. Hvað ég veit, hvað ég skil. Hvað vita þeir? Það er svo margt sem þau ekki vita Svo margt sem ég ekki deili. ] [ Stúlka ein í leiði liggur með hrífu yfir miðjan barm. Maður einn á það hyggur að fremja í flýti mikill harm. Hví fæ ég ei í frið að vera? Kjökrar litla sóleyin. Slitin er hún yfir sig þvera, bannsettur fífillinn. Hann Jón okkar var eigi latur vann hann ávallt eins og naut. En duldist í honum mikið hatur þvílík örlög stúlkan hlaut. Því þurfti stúlkan þess að gjalda þótt hún eigi vild´ann fyrir mann. Hann skildi við hana særða og kvalda illverki þar hann vann. ] [ Ég er svo blind barnaleg og blá. Þykist allt vita, kunna og sjá. En ég er bara peð í lífsins skák. Ég reyni þó að spila með í gegnum þetta hálfkák. Sannleikurinn er sá að ég veit voða fátt, og kann enn minna. Leikmaður á borði á byrjunarreit. ] [ Í stjörnuþoku hljóma himins óma, ungri sól sem skapari himni fól. Frá logans heimi og hugarsveimi, helgir goðar skutu fram skipum úr naustarann. Sona skarar fáru skínandi brynjur báru, fylgdu konungskná björtum knörrum á. Hin aldni í stafni andans fari, stefnir hug og hönd að nýrri strönd. Borin á bylgjum undir birtum seglum, alvind við reiða alrök bóginn beiða. Mörkuð heljarför yfir geimsins reginhöf, bárust fleygin há stirndum geislum á. Vísaða vetrarbraut runnu sigurnaut, vörðuð glóðarskjöldum gegn boðaföldum. Yfir himna sjö, geimsins höf og strendur, reyrð örlagastögum bundin heljarbögum. Reis úr logahafi sjöunda sól, glóandi gullfari birti í mót. Hin aldni í stafni andans fari, festir bönd á nýrri strönd. ] [ Hringur dreginn með fingri Guðs, - gneistar af neisti Lýsir úr myrkri lífsins glóð, - ljósbogi rís og skín Kraftar knýja hreyfingu úr kyrrð, - sköpun rennur Andans ómur vekur lífsins þrá, - logans brennur Ljós og myrkur takast á, - í viljann togar Andans vernd vefur allt - í kærleik boðar Þá andar lífið tilgangurinn nær, - svo hugann birtir Þrenning þá leysist í regnbogans liti, - svo hjartað þystir. ] [ Ástarljóð dóttur minnar til mannsins sem hún elskar Hún gefur gefur Kannski trúir hún að orðin hafi töframátt, kannski trúir hún að hann muni allt í einu fatta fegðurðina. Einlægnina Skilja hvað hún hefur að gefa. Ég elska sköpunargáfu hennar tilfinningar, einlægnina Ég er gömul, gæti sagt henni að maðurinn sem hún elskar hefur ekki hæflleika til að meta það sem hún hefur fram að færa. Og þau munu ekki ná saman. Samt orti ég svona ljóð til pabba hennar. Og við erum löngu skilin. Tölum um veðrið, verðbólguna, ástandið í landinu, ég skynja einhvers staðar djúpt í hugskoti hans einhverjar tilfinningar til krakkanna og mín, hann skildi aldrei gjöfina. Svo- hvað get ég sagt henni? Frá einmanaleika skáldsins? Hún fær aldrei neitt frá honum í líkingu við það sem hún gefur. Svo ég stend hljóðog fylgist með henni gefa og gefa, breiða út vænti sköpunar sinnar og fá aldrei svar í líkingu við það. Einmanaleiki. Það er hægt að búa við hann. Svo ég hugga mig við að dást að sköpunarhæfileikum hennar, hlusta á Angie með Rolling Stones, krosslegg fingur og vona að hún haldi í sköpunargáfuna. Skítt með þennan strákaula sem skilur ekki fegurð. ] [ svo marga daga og nætur stóð ég við vegabrúnina. Beið. Svo lengi. í regni, í sól oghríðarbyl Með vegarlampann. Beið. Árin liðu. Nú er veglampinn brotinn. Ég farin heim. Og mun sakna þín ævinlega. ] [ Gyðingur á stríðstímum Hjúfra mig í lélegri koju með skítug rúmföt lúsu svöng lifi ég eða dey á morgun? Kalt. Svo kalt. Svöng. Svo svöng. Drepa þeir mig í morgunsárið áður en morgunmatnum verður slett í grautarskálarnar Verð ég skorin á háls? Ég lifi, því ég er klár, kjaftfor. Stolt. Þannig var það árið 1968 á Íslandi. Nasistarnir faðir og bróðir færðu tímann til og við, þessi yngri systkini vorum gyðingarnir. Þannig var það 1968 á Íslandi. Við lifðum af í fangabúðum þeirra í 5 ár. Ég er enn gyðingur og leita að merkinu á handleggnum á mér. ] [ Ef ég bara gæti hent huganum í þvottavélina eins og hverri annarri flík afmáð óhreinar hugsanir og sem óskrifað blað byrjað upp á nýtt. ] [ Ég tel Að ég og þú Og rúmgaflinn minn Getum gert Almennilegan takt Upp við vegginn minn ] [ Ég er áreki nú á reiki með árekamalpokann, þá ég á lít, strax ég álýt að lítt áleytin sé þokan. (Ég vaknaði í morgun við að Valgeir Guðjónsson var að syngja íslensku útgáfuna af \"Icelandic Cowboy\", og þar segir hann: \"... en kindreki er ekki fallegt orð...\"; og þá fór ég að hugsa um hvað væri betra orð yfir kindreka...) ] [ Leikum okkur með lífið. Búum til mann og gerum hann að okkar eigin guðaleik. Horfum á hann vaxa, horfum á hann dafna. Okkar eigin sköpun. Búum til fleiri, búum til heri, styrjaldir, stríð. Seljum vopn, seljum þessa menn, okkar menn. Verum guðir bara einn dag. Líf skipta okkur engu, þeirra líf, ef þeir eru þá líf ? Við felum okkur í húsum langt í burtu. Á bakvið skrifborðinn á bak við bindin okkur mun ekki saka. við erum guðir í dag. ] [ þegar þau sjá þig... Stærsta stjarnan sem hangir föst við himinhvolfið. Þú skínir skærast bjarminn bjartastur fegurðin ómælanleg. Sólin og tunglið og allar stjörnurnar horfa á þig í undrun og velta því fyrir sér hvert þeirra fegurð fór. 02.08.02 ] [ Ég stend nakinn inn í hring og reyni að bera fyrir mig hendur, reyni að hylja nekt mína. Öll spjót standa að mér stingast í síðu mína særa mig. En þar finn ég þig Í kring um mig stendur heimurinn og hlær að mér af því ég hugsa ekki eins og hann Ég stend og horfi á öll rök mín borin til grafar en þér verður eki haggað. 08.08.02 ] [ Hamningjan er minn besti vinur. Á hverjum degi fæ ég að vakna til móts við hana og bjóða henni góðan dag. Hamingjan er ástkona mín. Ég fæ að elska hana á hverjum degi anda að mér ilm hennar, faðma að mér hamingju hennar. 08.08.02 ] [ Þú talar við vegginn en hann svarar ekki . Þú heyrir andardráttinn. “Ég veit þú ert þarna!” Ekkert svar. Samt heldurðu áfram að tala í von um að fá svar 02.08.02 ] [ Trítlaðu til mín Kúrðu þig hjá mér Knúsaðu mig, elskaðu mig Ég elska þig Litlu fæturnir þínir vekja mig Þú ert fegurri en sólageisli Þegar þú brýst inn um gluggann minn Ég hlakka til að sjá þig Heyra í þér trítla til mín Koma og kúra þér, knúsa mig, elska mig Ég elska þig. 16.08.02 ] [ Ljóðin þín eru yndisleg, segja mér að þú sért ljóðið mitt. Litla lipra táin þín tekur sporið svo létt. Röddin þín svífur inn í eyra mér, og hlátur þinn fyllir brjóst mitt. Þú ert mín fyrsta. ] [ Eins og svarthvítt atriði í \"slow motion\" stóðum við augliti til auglitis. Með einni setningu á einu andartaki hrundi tilveran þegar ég uppgötvaði að ástin væri ekki endurgoldin. Snöggkælt hjarta á svartri nóttu. ] [ það síðasta sem ég hugsaði var, je t´aimerais, síðustu orð mín til hennar, sem ég sagði, kvöld var komið að morgni, hún lokaði augunum og dó. Allavega fyrir mér. ] [ Vá, þetta var hún, fullkomin í alla staði, falleg eins og vorið. þetta var vorið okkar, mitt og hennar, okkar beggja, og það blómstraði. ] [ Hennar voru græn, mín grá, þau mættust, þau hittust, Hiti. ] [ augu, munnur, líkami og sál, allt svo fullkomið, allt svo fallegt. Ég átti það allt. En missti. ] [ Ég missti hana ekki, hún missti mig, hún fór í burtu, ekki ég. ] [ við kynntumst, við hittumst, þekktumst og elskuðumst, urðum eitt, en samt aldrei neitt. ] [ djamma ? spurði mamma, núna ? spurði ég og horfði á kúna, hún er rugluð ! ] [ I’ve forgotten the art I don’t know where to start so I’m gonna try my best and start with my heart It’s hidden behind a wall a wall that doesn’t fall if you want to see the other side you have to make the right call the decision is what we make it be you can’t turn back time now shame on you to feel so free and get behind the line you hurt me still but I’m to blame for being so stupid in my brain to think that the scars would go away the day that you came along you would fix it all with what you say how could I have been so wrong this curse is a blessing in a disguise within it a whole bunch of truth and lies but all of that seems to disappear when I look into your beautiful eyes I cant make words to describe the way you make me feel so I negotiated with myself today and made a darn good deal I’m going to make a new road in life a road that was ment for only me without the things and stuff I want and it will be all that I see because I am alone all I got are dreams it’s worthless to you hard as it seems I can never give you what you’ve given to me a concept of thought so simple to see that the road that I’ll walk will finally descend alone in oblivion that’s were I will end ] [ I ain’t thinking when I write man what the fuck I ain’t got no talent, I guess its all about luck and when your face is all red like you been hit by a truck don’t come to my doorstep preaching about why we suck we are all the same, we all want the fame but some of us cant cut it, because we wont play the game some won’t risk being exposed to all the shame but they keep forgeting the fact that we’re the same did you hear that, oops I made a mistake I repeated myself but that don’t mean I’m fake no, I silenced myself because I know what I can take my vision of this life is not what you get but what you take now its getting hardcore, I flamed the last thread I’m getting ready to fight like my fists were made of lead but I must wait my time, I sitting in line and not getting ahead still very much alive and not nearly going dead you want to hear some more, then change to channel four and hope for some companionship, when I come knocking on the door because when I’m through with you, all you can see is the fucking floor wheeping the next morning because your face is all bloody and soar yeah I know, life isn’t easy, it’s really really hard here, go buy youreself some happiness with my creditcard I tried it once but all I got was a fucking shard of the truth that you would really fuck my up, without a regard to my feelings or my soul, like I said just before its what you take but not get, need I say it once more cause you cant see the warnings, it’s like you just want the gore the splatter of a insult when it hurts the deepest core so now what? you expect me to cry? just hand in the towel without giving this a try this ain’t that easy, you can’t just lay down and die there’s always someone who cares and they’ll ask “why?” and who’s gonna answer them? you? I don’t think so what? you think you got what it takes, ohh hell no just pack up your bags and leave, ok? go or you could hang around and learn some stuff yo I could teach you some shit, untill you come around that every battle is a fight for the showdown don’t punch ‘till the bell rings and you hear the sound all you gotta do is hang in there and wait for the !-next round-! ] [ Allur heimurinn sefur, meðan framið er morð í Bagdad, New York, París og í litlu Reykjavík. Er ekki mál að vakna? ] [ the fueling hate is hiding in conception driving the mind to suicidal depression raising in the air our fists like a dare to stop all the madness get rid of all the sadness we protess this clockwork human behavior awaiting the arrival of the one and only savior but nobody comes to rush us away escaping the insanity of another day so we hold on to hope, peace and free will praying that tomorrow there’ll be no one to kill but if the world was that perfect and everyone would get along then we wouldn’t be sitting here listening to this stupid song ] [ Í ár er vorið fyrirburi. Það fæddist minnst þremur mánuðum fyrir tímann. Sólin undrar sig á þessu en skín samt, yljar brosandi fyrirburanum í hitakassanum. Vorið er komið. Vonandi helst það á lífi aðeins lengur. ] [ Þetta var of mikið, ég þorði ekki að treysta, þorði ekki að elska, þrá eða vilja. Ég skildi þig eftir eina, undurfögur veran í rúminu. Ég kveikti upp í arninum, til að ylja þér. gekk út, og horfði á húsið brenna. ] [ Þú bauðst mér í mat, í svikinn héra, hann var svikinn, alveg eins og ég. En hvernig leið honum, áðuren hann fór í ofninn ? Eins og mér ? vissi hann að ekkert beið hans nema ofninn ? ég spurði mig, en endaði sjálfur í ofninum. ] [ Himnarnir grétu, og ég líka, þrumurnar sungu. Ég hélt þér í örmum mínum, máttlausri og líflausri, líf mitt var á enda, því þú varst farin frá mér. ] [ Ef hægt væri að skipta hjarta mínu. Væru aðeins þrjú hólf og væru þau svo. Fyrsta hólfið fyrir feimni til þín. Og sú feimni felst í draumi mínum um þig. Annað hólfið fyrir ást til þín. Sú ást sem ég ber til heiðurs þér. Þriðja hólfið alveg fullt. Hólfið þriðja myndi vera fullt af þér. Jæja nú veistu allt sem ég ber til þín. Og því máttu vita, ég trúi á þig. ] [ Kjáninn ég trúði öllu sem þú sagðir Þú komst inn í líf mitt, fylltir mig af lygum Þegar ég fór að spyrja nánar þú bara þagðir. Kjáninn ég trúði þér fyrir öllu mínu og hvernig þú laugst að mér á móti skil ég ekki hvernig þú gast hvað býr í hjarta þínu? Kjáninn ég hlustaði á hetjusögur hversu vel þú værir staddur í þessu lífi þínu sem er ekki til Þú mataðir mig á lygi, eftir sit ég mögur Kjáninn ég fyrirgef þér Hvað get ég annað þegar þú átt engann annan að? en hvernig veit ég, að þú ljúgir ekki meir að mér? ] [ Í huga mér er auðn og tóm. Þar ríkja ekki framar neinar sorgir eða gleði. Aðeins auðn og tóm. ] [ Það er auðvelt að vera óhamingjusamur. Það er erfitt að vera hamingjusamur. Það er samt betra þó að það sé erfitt. ] [ I lay there with my head in a bag Thousand thoughts going threw my mind Screaming for the answer Biting nails and blood dripping You call out my name Useless anger and fright Heavely falls into the deep Aiming for the spot You feel free There is so much blood Pale and weak Your head is about to blow up into tiny pieses So heavy to hold up Tears blend in the blood You had to be someone else Insted of you and me Trying hard not to let it show Running away from all emotions Killing life. ] [ hvar sem ég er hvert sem ég fer munntu lifa í hjarta mínu líkt og hrafninn flýgur til nýrra stranda ásjóna sólar birta í mín augu finn ég fyrir þér ] [ I can\'t even tell you a letter... not even a word, Nobody knows me or wants to believe, for what Ive seen is beyond your knowledge.... your body will reject your knowlegde to know, you think I tell lies, you think that I\'m fake, you dont know that you are just scared, you dont wanna know the truth. you dont know that what I am telling you is the honesty you will never know or hear.. ] [ Þú ert eins og eiturlyf djöfullinn sjálfur Get ekki litið í augun á þér og ég hleyp í sífellu frá þér ég leifði þér að taka allt það besta af mér Það er eins og ég leiti eftir sorginni Ég get ekki andað án þín Þú tekur af mér öll völd Ég er orðin háð þér Í vöku eða svefni Þú hefur yfirtekið mig Í hugsunum mínum Í draumum mínum Ég hef gefist upp Ég er ekki lengur ég sjálf Ég er háð þér líkt og eiturlyf ] [ Með hálm í hausnum hjartlaus, huglaus og lítil finn ekki gula veginn og nornin gargar í eyrun á mér. Hvar finnur maður galdrakarlinn í Oz á tímum gemsa og gervihnattasjónvarps? Hvar? ] [ Ég elskaði móður sem var mér kær. Ég sýndi ekkert þakklæti en hún hætti aldrei að vera mær. Við vorum bestu vinir og þegar við hættum að vera saman var aldrei neitt gaman. Ár eftir ár og ég hugsaði. Öll þessi ár hef ég aldrei verið sár. Ég vissi að ég hafði gleymt. Allt um móður en það var of seint. Ég missti af öllu hún var farin farin að eilífu. Ég fór með bæn hvar er móður. Ég vil fá hana ég vil eitt tækifæri. Ég beið og beið en tíminn ekkert leið. Ég fór út í búð og keypti mér nokkra bjóra. Ef ég hafði hlustað á hafði lífið ekki verið svona erfitt og kannski mundi ég takmarkinu ná. Ef ég hafði betur gá þá mundi ég kannski þá lifa lífinu lengur en það var of seint ég dauður lá. ] [ Þau eru tvö í fjarska. Skilja ei hvað þau eru. Þau eru tveir staukar. Þau eru Piparpabbi og Saltmamma. Hann kemur með safann. Hún kemur með engifer. Þau þekkjast ei. Þau eru Safran og Kóríander Það er snjór, ég þarf eitthvað sterkt. Hvar er Cyenne þegar ég þarf hitann. Hann veit ekki hvað hann vill. Enda er hann bara Krydd en ekki Pipar. ] [ Perlur í algleymi sjávar eru sem huldur í höfði mínu. Ég fæ eigi séð það sem hyldýpið gleypir. Glitrandi Hafmeyjur í sólarglampa líða framhjá. Ég ligg neðst niðri ég er að drukkna,,,,, deyja. ] [ In the blue clouded sky, I fly. Why? Cause a man pushed the red button. I see life Im not willing to destroy. I fly over Retton, over farmer Roy. Im getting hotter my thrusters burn. Im made of steel but heart is in a turn. I wanna go back but my program says no. Feel as time stands still, all so slow. Now I peak down, all I see is snow. May be over Russia, think Im gonna blow. My eyes are getting tired, Im asleep I kill 1.000 people, not what I need. ] [ það er ekki mikið meira sem ég get kennt þér . Þú ert geðveikur snillingur og kannt þetta allt saman. Nema kannski það að trúa á sjálfan þig og pæla ekki í því hvort aðrir tali um þig á bak. Þú ert illa til fara og hefur slæma borðsiði en þegar ég lít í augu þín sem oftast eru slikjuð af lyfjaneyslu og þú brosir til mín og blikkar mig til að sýnast svalur. Þá stendur mér á sama um geðveikina. því þrátt fyrir allt þá ertu svo helvíti náttúrulegur. Að ég get ekki annað - en elskað þig. ] [ Mér til yndisauka hef ég ákveðið að endurfæðast og hefja nýtt líf Ég er hættur að drekka Coke og byrjaður að drekka Coke light Finn samt engan mun, mér líður eins og áður Allt greinilega sama draslið ] [ Undrin gerast æ oftar og ég hef tekið eftir því. Get sagt þetta vegna þess að undrin lendi ég oft í. ] [ building it all up like never before climax appearing in the form of solution brick after brick, trying to stay focused the point of it all lost in the confusion waiting for something to come by people opening their minds for insertion looking for a way out but no exit here and here, disapproval and direction walls are rising, doors not made finding the answer to the question timeless hourglass, broken but not empty awating the arrival at the station nobody is there, still all alone not even lights to make a shadow mate just blinding darkness, burning black not enough room to make fake hate no clothes, no water no external pain not even a roof above the head to protect it from the rain scream to hear an echo scream for a sound waves hit the walls and reject all around only a few have seen this house one, maybe two they all gasp at the sight of it and so might you ] [ Thad er hamagangur i rødinni. Hún hreyfist ekki. Andlitin í rødinni breytast ekkert , frá sekúndu til sekúndu. Tíminn brennir rødina, byrjar aftast. Allt í einu gengur ísfirdingur fremst í rødina nokkud vid skál og øskrar yfir hópinn. Thad eru tveir endar á rød heimskingjar og madur á alltaf ad fara i thann sem er nær erindi manns. ] [ Ég sakna þín mikið. Þú ert mitt góða í lífinu. Ég er alltaf að hugsa um þig. Á daginn þegar ég er vakandi og á nóttunni þegar ég sef. ] [ in this forgotten realm silence is essential potraing a picture of all its potential halls with many moments that cant be missplaced listings of true people that wont be enlaced gather the fun the happy and the best put them in a pile get rid of all the rest thinking of appearence no mirrors in this dimension make good of the dreams don’t wander into expansion now and then from time to space comforting feeling hiding ones face no truth nor lie this world we defend wondering why will there ever be an end ] [ Hér má segja að allt sé nú í bærilegu gengi þó ég hafi reyndar ekki séð niðr´á mig lengi, en ég stefni þó að því markvisst og ótrauður og vonast til að ná því áður en ég verð dauður. Ég er þó yfir þeim ráðleggingum dálítið stúrinn að ég drífi mig nú til að leggja í danska kúrinn en konan segir mig stefna beint í hjólastólinn ef ég taki mig ekki á til að sjá í tólin fyrir jólin. ] [ Hve mikið er hægt að þrá þig Hve mikið er hægt að þjást Þú komst óvelkomin að sjá mig Þú forboðna ást ] [ Kvöldsöngur mófuglanna þagnar og þokan hylur fjallstoppana. Lífið sefur, í vöggu tímans, uns morguninn vekur það. ] [ Ef allar góðu minningarnar væru múrsteinar, sem tíminn byggði þér turn úr. Hugsaðu þér hversu dásamlegt útsýnið yrði að lokum. ] [ Brauð með osti er eins og hundur án vængja, bara ósköp venjulegt. ] [ Tár án tilgangs? ] [ Like a rainbow after the rain, With her shine no one could contain. She gleamed brightly like the sun. Never did she ask help from anyone. She had more color than could be, Now black swallows all sanity. She had hidden sorrow in her heart, With so much to break apart. She left for a more peaceful place. In our hearts she has a space. When the darkness covers all light, Pain makes a never-ending night. Seems like the light will never return, Like this feeling will always burn. As when the clouds part after rain, Only time can ease your pain. The color will come back someday, In your heart the rainbow will stay, Her love will be with you forever, To grow with and to treasure. ] [ Tíminn er vinur, ungi maður, hann er von þín og framtíð. Von um frið og fagran heim, tíminn er þinn ungi maður. -1974 ] [ Það var daginn sem maður dó, að líf mitt breyttist. Ég varð sár og svikinn, að missa af manni sem dó. Það var þá sem ég skildi, hve lítið ég vissi um lífið og því sem eftir fór. En ef þú vilt syrgja góðan mann, græturðu vegna heimsins, því heimurinn missti góðan mann, en maðurinn ekki heiminn. 1974 ] [ Lífið færir mér, örlítið nær þér, þegar ég finn, þann vilja þinn, sem fegurð ljær, - og fullkomnun nær. Leggur lífsins kvöð, í tilviljun og röð, við teigum þann mjöð. Brestir lífsins og boðaföll, frá mönnum berast harmaköll, - óma þungt í jarðarhöll. En viljinn upphefur þann, sem stefnir í betri mann, vindinn sveigir í mátt, og takmarkið í sömu átt, brýtur verk, lýkur mynd, byggir aftur, - sömu synd ? ] [ Opna augun sé birtu sé myrkur Af hverju opnaði ég ekki augun fyrr? Byrja að hlusta heyri tónlist heyri þögn Af hverju byrjaði ég ekki að hlusta fyrr? Dreg inn andann lykta angan lykta fýlu Af hverju dró ég ekki andann fyrr? Skynja snertingu snerti mjúkt snerti hart Af hverju skynjaði ég ekki snertingu fyrr? Sé, heyri, lykta, snerti lífið Af hverju fann ég ekki lífið fyrr? ] [ or darri, today i can\'t remember that far back into the past, can\'t even remember if i imagined him alive: he taught me things which made no difference to me when i first heard them like i was young and he was old; older and he taught me words which made the day\'s shadows lengthen on the sidewalk of my youth words like i love you; i love you anyway but i can\'t forget the way i needed his touch whether he really did exist or not ] [ and sometimes i\'m afraid to let you hold my hand not because your fingers can discover me in ways that even i do not know myself, but because it is easy, so easy for you to write the destiny of our separate ways on the lines of my palm ] [ Fölnuð fegurð, aldurinn þig niður dregur. Fjarandi viska, heimurinn þig felur. Með árunum þú áttir að læra, heiminn að næra. Í blindandi heimsku, Þú æddir áfram, náungann notaðir, á lífinu þú traðkaðir. Nú er komið að skuldadögum, þú skilur það ekki, aldurinn þig viskuna rændi. ] [ En það stemmir ekki ef strá tolla ei í steyptum brekkum og rafmagnsframleiðslufílterað vatnið seytlar út meðal sundursprengdra hamra í skömmtum. ] [ Í huganum hef ég skrifað þetta milljón sinnum án þess að setja niður á blað: Stelpufífl, þú heldur á rós úr körfunni minni með glaseygðan aumingja við hliðina á þér rós, drós tvennt ódýrt í hans augum. Aulalega áleitið glottið varaliturinn og caprí girt oní sokkabuxurnar míkrópilsið klósettpappírsdregill undan smáhælaskónum. Þú drekkur kyssir gubbar brosir drekkur mangóbreezerinn oní þig og færð svo loforðið uppfyllt um bjórtyppið inní þig. Rosahart og heitt ef þú ert heppin eða klukkustundarlífgunartilraun og drepast saman feika það kannski? Muna ekkert á morgun. ] [ Bæjarljósin glitra í bláum skugga eins og hrapandi stjörnur af himnum Í fjarska greini ég ekki lengur vonarljós frá tárum ] [ hvers á ég að gjalda þurfa að ganga á milli tjalda kvöld eftir kvöld því sterk eru þau völd sem gera mér það að þurfa að ganga í hlað sem heimskur og ómerkur tjaldanna vörður en hverjar eru þakkirnar fyrir allar fórnirnar ég vil ekki gleyma hvernig það var heima áður en ég fór út í þetta slór sem aumur og auðmjúkur tjaldanna vörður ] [ Ef orð mín gætu aðeins tjáð, þann söknuð er ég finn. Líkt og hjartað sé rifið úr mér, daglega oft og aftur. Ég sé þig standa þarna, með armana utanum hana. Um stund átti ég þessa arma, nokkrar nætur í senn. Hún er mér kær, það er sárast. Ég vil þið séuð hamingjusöm, en ég vil það líka fyrir mig. Ég þarf að horfa fram á við, en ég get það ekki. Ég get ekki sleppt þér, þú lýstir upp tilveruna. Þú varst svo bannaður, að það jaðraði við synd. Það var það besta, enginn vissi. Ég brosi til þín, án þess að þú vitir. Að inní mér kraumar sársauki, stóra Á orðið. Fyrirgefðu að ég sé ekki nógu sterk, til að gleyma þér. Ég get ekki gert það, þetta var mér of kært. Ég þakka fyrir mig, en græt inní mér. Ég held áfram, en þú verður ávalt með mér. ] [ Eins og bróðir, eins og besti vinur. Ert þú mér. Þitt fallega bros, þín glitrandi augu. Þitt ákveðna nei, mitt glitrandi tár. Þú ert mér svo kær, en ekkert óeðlilega. Bara svona temmilega. Takk fyrir að vera til. Takk fyrir að segja nei. Takk fyrir að segja ekki neitt. Takk fyrir að vera þú. ] [ Á hestum er oftast undir kvið eða einhversstaðar fóta á milli, en ef Bidda af hörku herðir rið þá hangir Gústi af mestu snilli. ] [ Ástin er sérstök Ástin er trú Að ástinni við leitum ég og þú Ástin gefur Ástin er ljós Ástin getur verið sem undurfalleg rós Ástin er bros Ástin er undur Ástin er mikill fagnaðarfundur Ástin er gleði Ástin er hlátur þó henni fylgi stundum grátur Ástinni við deilum Ástina við eigum Hlúum að henni eins vel og við megum Ástin er umhyggja Ástin er vernd Hún er sem af himnum send Ástin er allt þetta og miklu meir Hlúið vel að henni þá aldrei hún deyr ] [ Þótt svo ég sé smá og geti lítið sagt þér Þá vil ég að þú vitir hversu mikils virði þú ert mér Ég finn fyrir þinni ást Ég finn fyrir þinni hlýju Ég sýni það með því t.d.brosa og hjala ba-ba-bíu hvernig þú mig baðar og greiðir mitt hár og hvernig þér tekst alltaf að þerra mín tár ég finn fyrir svo mikilli ást alltaf mikil tengls milli okkar nást þínir armar umvefja mig alla ég get treyst á að þú komir þegar ég kalla þegar mitt hungur steðjar að þá get ég alltaf treyst á það að þú mér gefur að borða ég safna að mér orðaforða svo ég geti farið að tjá mig betur við þig en alltaf virðist þú samt skilja mig hvort sem ég er með blauta bleyju eða vanti bara kúr, gæti líka verið að mér vanti dálítinn lúr þú fyllir mig öryggi og gleði þú leggur líf þitt frekar að veði en að eitthvað slæmt hendi mig ég er svo þakklát að eiga þig alltaf vil ég vera krúttið þitt þú hefur fyllt hjarta mitt ég mun aldrei þig svíkja en mundu bara alltaf að ég elska þig líka. ] [ manstu þegar skáldið orti ljóð úr orðunum sem ég bjó til handa þér ? ekki gleyma því þegar ég bauð þér í bíó og pylsu á eftir í Bæjarins Bestu manstu þegar guð hringdi og vildi kaupa sólina sem ég bjó til handa þér ? ekki gleyma því þegar við fórum niðrá tjörn og gáfum öndunum eldgamalt brauð manstu þegar gullsmiðurinn bjó til hring úr gullinu sem ég bjó til handa þér ? ekki gleyma þegar ég gaf þér súkkulaði á konudeginum ] [ Vakna á morgnana Ein Sinni börnunum Ein Sit við tölvu Ein Sit við sjónvarp Ein Sinni heimilinu Ein Sofna þegar dagur dvín Ein Alltaf ,alltaf Ein ] [ Kveðja vil ég þig kæri vin að góðra manna sið Þú sem ekki lengur stendur mér við hlið Við þig gat ég alltaf rætt hin ýmsu mál Þú hafðir að geyma góða og yndislega sál Nú þegar sorgin blasir við mér... ..þá rifjast upp þær stundir sem ég átti með þér Það var svo margt sem við gerðum saman Á mörgum þeim stundum var feyki gaman. Ætli þú munir þær eins vel og ég? Ó, hve sorgin er óyfirstíganleg. Mér finnst svo oft að þú sért enn hér og ég muni fljótlega heyra í þér. Raunveruleikinn blasir þá við Þú ert farinn í gegnum hið gullna hlið. Ég veit að þú ert komin á betri stað þó erfitt sé að hugsa um það. Ætíð vildi ég hafa þig mér hjá. Því þurftir þú að fara jörðu frá? Við áttum ætíð að vera saman um alla eilífð hafa gaman. En þú fórst alltof fljótt. Hvernig á mér þá að vera rótt. Hvað geri ég án þín? Hvað geri ég nú? Minn elsku besti vinur það varst og ert þú!!! ] [ Þú ert sú sem ég get treyst á Þú ávalt hlustar á mig Til þín er gott að leita Mikið er gott að eiga þig Mín fyrirmynd þú hefur verið kennt mér ótal margt vera góð og kurteis og vera ekki með kjaft Þú ert sú sem hefur stutt mig þegar illa liggur á Þér get ég treyst og trúað það er gott að vera þér hjá Þú hefur verið og ert mín hetja staðið af þér hin ýmsu mál Alltaf ertu mig dugleg að hvetja þú ert hin allra besta sál Gott er hafa þig nærri Því gott er að hafa þig Að vera þín kæra dóttir Það er mikil blessun fyrir mig Takk fyrir að vera mín móðir Takk fyrir mig að þola Takk fyrir að vera mín öxl þegar ég hef þurft að vola Ég vona ég geti einn daginn endurgoldið það sem þú gefið hefur mér Mér lífið þú gafst og umhyggju betri gjöf er ekki hægt að hugsa sér Þetta ljóð er þér tileinkað elskulega móðir mín Þig mun ætíð elska kveðja; Katrín Rut dóttir þín ] [ Guð gaf mér engil sem ég hef hér á jörð Hann stendur mér hjá og heldur um mig vörð Hann stírir mér í gegnum lífið með ljósi sínu Ég er svo þakklát að hafa hann í lífi mínu Ég vona að hann viti að hann er mér kær Allar mínar bestu hugsanir hann fær Hans gleði og viska við alla kemur Við flestalla honum vel semur Hann stendur mér hjá þegar illa liggur við Hann víkur ekki frá minni hlið Nema sé þess viss að allt sé í lagi Fer þá að vesenast í málarastússi af ýmsu tagi Hann er vandvirkur og iðinn hann sinnir alltaf sínu vel hann segir það aðalatriðin sem er rétt, það ég tel Hann hefur kennt mér að vera þolinmóð og sterk hvetur mig áfram að stunda mín dagsverk “þú skalt alltaf standa á þínu”, hann ávalt hefur sagt mikla áherslu á það lagt Þótt svo hann segi ekki við mann oft mikið Þá meinar hann alltaf margt Hann getur aldrei neinn svikið það getur hann ekki á neinn lagt Hann er bara þannig maður Hann er bara þannig sál Hann er aldrei með neitt þvaður Hann meinar allt sitt mál Hann sýnir mér svo mikla ást Hann vill aldrei sjá neinn þjást Hann er minn klettur og hann er mín trú Hann er minn besti pabbi, staðreyndin er sú! ] [ Fannhvít og friðsöm, liggur á freðinni jörð. Hafbláir höfuðgluggar stara á himininn. ] [ Geng ég um gangana hlustandi á hljóðin, gefast þar efni fyrir andann og ljóðin, um uppeldi og aðstæður íslenskra barna, engist mín hugsun, vil grípa til varna. Það er bara eins og enginn í landinu viti, af öllum þeim verkum og daglegu striti, byltum og brekum sem um borðin vor fara. Bjarganir okkar! Þar var fallöxi og snara. Allskonar hugsanir og siðferðis eilífu orðin eru í stríðinu varnar og bardagakorðinn. Munum við sigra að lokum eða sigraðir verða? Sjáumst við stríðslok og spyrjum daga og gerða. ] [ Ég býð eftir næsta vori, ætlast til af næstu sól. Í veröld eintómur sori, hert er vor sultaról. Nakin af von og blíðu, enginn söngur eða hlátur. Hvenær sé ég engin fríðu? Hljóðna þú minn grátur. Nóttin er grá undir tungli köldu Hvar er sá? Sem englarnir völdu. ] [ Hugar okkar ólíkir, fullvel ég veit. Reynsla hvers dags þetta sýnir. Í háar hæðir óvæntir andar spretta. Ekki fer vel að rugla reit. Hver sem í raun okkar rýnir spyr því ekki frétta. ] [ setting the goal bar way to tall trying to reach it to pull it down showing it to each one and all attempting to turn this all around breaking some rules I set for myself and falling like fools I change myself turning theory to history and retracing my track hiding the truth from only me so it won’t hit me in the back the stars are making music and singing in a cosmetic and unstable ray telling me what I’m really thinking but I don’t understand what they say the way this shows me how not to be I recognize clearly but hardly see ] [ Djöfulleg upprisan djúpt í sálu þinni, Hann kemur inni í þér Djöfullinn er inni. Hann er beiskur, grár og loðinn grúfinn yfir bein sjórinn hans er soðinn og gerir öllum mein. Djöfullinn er inni. ] [ Hann er syndin sjálf Bíður þarna niðri eftir óviljugum vondum krökkum Því allir eru litlir krakkar og allir eru vondir. ] [ Regnbarið grjót í vöggunni barnsins rautt regn flæðir niður. Dropahljóð í blóðinu. Faðirinn getur ekki sofið. Öskur að innan, tréð er skakkt og skotið, móðir fellur niður. Tár blandin blóði. ] [ Í svartnættinu flýgur dagsljósið grasið grænleita syngur sælusöngva moldinni undir niðri lekur sýnilegum tárum. Allt á nokkrum árum, hún er opin fyrir fleiri sárum. Þegar yfirvaldinu hentar. ] [ Hönd hennar fellur ljúft á grasið allur máttur hefur farið. Augun eru galopin og horfa upp til himins. Blóð úr henni málar jarðveginn og ég sýp af vörum hennar. Dauðinn hefur heimsótt hana. Það var ég sem hleypti honum inn. ] [ Ég les ritað orð eftir Edgar Allan Poe. Sit í mjúkum, brúnum stól með fæturna á henni. Hún sleikir gólfið undan mér, og ég les fyrir hana. Það er ekkert sem hún ekki gerir, fyrir smá Edgar Allan. ] [ Þegar varist snertast kynfæri herpast sólin sest brundið klesst. Mig langar ekki til að sofa, mamma. ] [ Uppi við svarta sefgarðana steytti ástarfleyið á skeri þú stiklaðir fimlega í land hvern faðminn af öðrum eftirlést mér austurinn ] [ the weight on my shoulders is continuously mistaken still dragging my feet until the slumber is awaken when the bells will ring the weight is finally lifted and so shall the spirit be rightfully gifted an award for the service a price for the winner for lifting up the guilt and forgiving the sinner find what has been mine to make your’s rise above the step goes to push and push goes to shove this has always been mine and you won’t take it away no matter how hard you try you’ll hear what I have to say I worked very very hard and much much to long to give up the rights and give up the wrongs this is my trophy my one and only price my shoulders alone can take it because of it’s abnormal size ] [ when you don’t know were to turn and you’re sick of it all just pick up that phone and give me a call I’ll wipe away the tears make the problem dissapear turn darkness to light scare away the fear I promise you’ll be safe you don’t need to be alone won’t let nobody hurt you won’t leave you on your own when you are in need you can count on me I won’t let you down this you will see because I’m a real friend to whom treat me like such and I trust you believe me when I say that I love you very much ] [ Heill þér aldna eðjufljót sem úrganginn mannanna ber með virðingu ég nú vinahót votta í hrifningu þér. Fyrir tilvist og trúmennsku þakka þér þarf og þjónustu meðan aðrir blaðra því hvað er fegurra og frómara starf en að fórna sér fyrir aðra? Um aldir að hlusta á karlanna kýt og kvennanna tal um hégóma og bera svo í auðmýkt skarn þeirra og skít en skera upp slæma dóma. Nei Kópavogslækurinn keikur og vís kann af biturri reynslu að þreyja því hann veit að á endanum aftur upp rís hans orðstír sem aldrei mun deyja. Er á góðviðrisdegi í léttleika lónar og leikur við steina og börð þá heilagir berast hörputónar þessa himneska tákns hér á jörð. ] [ Heyrðu ég held ég sé örugglega næstur ég hér er búinn að velkjast um svo lengi ég vanda á til að verð´örlítið æstur þó mig vanti bara lítinn skammt af áfengi. Mig vantar bara vodka gin og sérrí viskí smá og skvett´ af sénever Stolichnaya Koskenkorva Tanqueray og Terry Teachers líka og eina De Kuyper. Og láttu svo allt í lítinn poka vinur ég léttstígur með þetta burtu fer því enginn veit hvað í dagsins önn á dynur drengur minn í þessum heimi hér. ] [ \"Á morgun,\" sagði sá lati, hlammaði sér í sófann og teygði sig í poppið. Idolið var að byrja. \"Illu er best af lokið,\" sagði sá duglegi, um leið og hann reimaði íþróttaskóna. Hann var að fara út að hlaupa. \"Illu er best af lokið, á morgun\" sagði ég spekingslega, og reyndi að afneita lönguninni til að gefa skít í ritgerðina og fara bara að sofa. ] [ Inn út - inn út inn og aftur út inn út - inn út inn og aftur út. Brööhhhhhhh! Inn út - inn út inn og aftur út inn út - inn út inn og aftur út. Öhhhhhhhhhhh! Inn út - inn út inn og aftur út inn út - inn út inn og aftur út Brööhhhhhhhh! Sullið látið leka á löngu brotinn fleka. Öhhhhhhhhhhh! ] [ Ég hef tapað mínu stolti fyrir konu málaðri storknuðum osti. ] [ Með kílómetra gat í hverri tönn og hálfreyktan vindil við kjaft hann liggur undir fallandi fönn og drekkur gamalt saft. Við hægri hlið hans dvelur snjóþakin, skítug en falleg daman. Hún þetta vesældar líf velur því þá þau ávallt verða saman. ] [ Hvað ef sólin hætti að skína? Hvað ef ég hætti að anda? Væri svo slæmt að sjá mig ekki? Væri ekki gott að sjá mig aldrei framar? Ég sé ekkert. Ég græt, ef ég hugsa um þig Fæ ég að sjá þig aftur? Þú varst mér allt. Síðan hvarfstu sjónum mínum. Það er svo langt síðan. Samt finnst mér það hafa gerst í gær! Það sem ég óska heitast, er að fá einn dag í örmum þér. Þú gætir haldið mér, Ég sakna þín, ég þarfnast þín, nú frekar en nokkurs annars. Þú ert lífæðin mín. Ég vil ekkert annað en þig aftur. Elsku bróðir minn. ] [ Eins og dáleidd horfi ég í hvíta eins og ég finni lykt sem fær mig til að vilja lifa áfram. Kannski bara spítalalykt. Hjúkkurnar ganga framhjá mér brosa. Eins og vélmenni. Bara að hjálpa mér. Hvíti liturinn sker mig í augun. Skerið mig. Ég vil ekki vera lengur hér hjá þessum hvíta lit hann er of hreinn og bjartur fyrir mig. ] [ Að ganga ein er leiðin sem ég vel. Að ganga fram hjá ykkur er leiðin sem ég fer. Ein með vilja, ein með styrk er lífið sem ég vel. ] [ Ég vinn í banka Mamma vinnur í skóla Hún drekkur kaffi Þetta er hræðilegt Þú ert með hausverk Þú ert grátbólgin Ég er lítil Mamma er sorgmædd Ég er dáin ] [ Weeping Willow. Sitting in the park. Gracefull – Determined. Beautiful. Looking to the sky. Sun is smiling. Knowing She’s so Beautiful. Looking to the ground. Flowers smiling. Knowing She’s so Graceful. Looking round the park. People staring - children pointing. Knowing She’s so charming. Strawberry. Beautiful and sweet. Glancing out to the world. Dusting the dirt away. Looking at the sky. Smiling. Sun is smiling. Not meant for her. Flowers smiling. People staring, children pointing. Not meant for her. Weeping Willow sitting happy. Meant for her. Strawberry lying alone in the shadow. Weeping Willow laughing, knowing She’s so Perfect. ] [ Sometimes it seems the world is full of roses. Nothing could ever go astray. Hopes and dreams that fill your soul in doses. Seems it will never go away. Do you think life is dandy? Flowers and lots of candy? Walking on purple clouds? Not ever feeling doubts? There’s one thing I think you should know, life isn’t what you think, although it’s important to focus on good things, that make us feel happy inside Cos the more of us think good we could get rid of the bad, and then guide the people that need it away from bad, and get the good thoughts to stay! Life is dandy! Flowers and candy, purple clouds! Don’t listen to doubts! Life is great! Just open the gate, and let in the love, the hope and white doves! Life is dandy!! ] [ I need your love, I want your kiss. To feel your touch. And that look. When I met you, your smile never left your face.. You took me in your arms, and kissed me. You told me that you loved me. Now your gone. I look in your face. Your blanc. I hug you with love. You don’t. I kiss you In Love. You won\'t. I tell you that I love you. I want your love back. Just tell me that you love me... ] [ Tveir heimar... Ég flýg á vængjum ástarinnar alein í myrkrinu. Þú elskar mig. En þú ert ekki hér. Ástin flýgur með mig heim til þín. Þú ert þar – ertu þar? Þú elskar mig – er það? Dagarnir fara í frí. Brosið læðist burt. Breytist í tár – - þú sefur Ég elska þig – er það? Tveir heimar – en hvor? ] [ Dimman svífur yfir sumrið, tekur sólina burt. Lítill fugl í leit að æti. Hvar er mamma hans nú? Dimman lekur inn í augun, tekur vonina á brott. Þó ég vildi, ei brosað gæti. Ein, án hjálpar, án trú. Dimman þokast inn í hjartað, flýgur vonin í burt. Sálin grætur öllum mætti, öskrar: Hjálp! – hvar ert þú? Sólin gægist inn í skóginn Vonin birtist enn á ný. Alein vaknar falleg rósin Sálin léttist, opnast.. brosir ] [ Lítill fugl í mömmu hreiðri, ýtt er út í harðan heim. Flýgur hátt á leið svo greiðri, syngur glatt um allan geim. Fræið smátt í moldu kaldri, frið í hvílir, kyrrt og stillt. Himinn lekur, líkast galdri vex úr moldu rósin villt. Lítill angi í mömmu armi, öruggur að tryggum barmi. Tíminn líður, stutti ei bíður, úr grasi vex og burt svo flýgur. Brotni vængur fuglsins smáa, líði rósin frost til dauða, hrynji heimurinn hjá snáða.. ..Ef allt fer á ská, hvert leita skal þá? Í öllum þrautum og vanda mig styður. Ég vil að þú vitir ef aðeins þú biður, ég ávalt mun reyna mitt besta og mesta, og styðja þig ákaft í gegnum það versta. Hafðu það gott, elskan, lífinu lifðu, án eftirsjár prófaðu, gerðu, upplifðu. Svo margt er í lífinu að finna og reyna, til fullnustu njóttu, og engu skalt gleyma! ] [ I lie in my bed and think about my life. I lie but I do not sleep. I am plagued with worries. Worries about you. Do you still love me? I wonder... I sleep. I sleep but I do not rest. I am plagued with thoughts. Thoughts that turn to dreams. Dreams that turn to nightmares. I am plagued with worries. I sleep but I do not rest. I lie in bed. But I do not sleep... I am plagued with worries... ] [ Love... What is love? Is it.. attraction or is it comfort? To feel safe? Fulfilling the need of belonging? To love... Is it to care? Do you need company? Looking for friendship? Don’t want to be alone? Or is it love? Don’t go sliding away don’t go looking for love don’t keep wanting to belong! Just be happy with what you’ve got! What is love? Is love? ] [ Þú situr og hlustar. Tónlistin flýgur eins og þoka inn um eyrun. Svífur um kollinn, leikur við heilann. Þú hugsar... En samt ertu tóm.. Sælurnar hvísla, hvísla að þér orðum, orðum sem syngja. Orðum sem mála. Mála mynd í heilanum á þér. Og út það vill.. Þau dansa á blaðið.. Hvað finnst þér? ] [ The Sorrow is like a stone, sitting in my stomach, hard and heavy. Missing. I remember when you were here. The little church in the centre of town, and the hospital on your way. Now I don’t go there anymore. Your first job, when you walked across Kópavogur, and everyone thought you were insane. Sometimes I gave you a lift half way, and kissed you goodbye.. ..but met you that same night. Months pass by and I don’t get to see your smile. I hear your voice sometimes on the phone. Only thing left for me now are memories and hope that maybe someday soon we will again be together. And I can whisper that I love you, and feel like never again will I be alone. I’ll get to rest in your arms. Happy. Home. ] [ I’m lying in bed, with the light switched off. But there’s one thing that’s missing.. ..you. All I have are my thoughts now. Wordless poems that float around my brain. Flashbacks, from when you were with me. Memories, that yet have not happened. Creations of my mind, wishes of something we might have had. Or may get to have. But one thing is for sure.. we do not have it now... You making a smowman with Rögnvaldur at Christmass. -when I fell in love with you a little more- Us having a barbeque in Akureyri, with dad and Raggi. -The sunniest day made it the best day- You meeting me at Waterloo, and taking the tube together. - That was never lonely- Us going to Zizzi’s for a veggie calzone. -For the sixtyeth time- Us Going to see Hamlet At the Old Vic. -When you met my mum for the first time- .................................... Us together in England, owning a home together -Maybe even a baby- You asking For my hand -And the wedding- You knowing Icelandic. And working in Iceland. -Us living in Iceland together- Me having a gig. Being a singer. -And you standing proud in the audience- If only this love will stay in our vains, Maybe we can have those things someday. ] [ Sometimes I think the TV is the work of the devil. Put here on earth to trick us to be lazy. Steal our souls. “Turn it on...” “You know you want to...” “All your worries will away...” “Happy.. Forever happy... and laughter...” without meaning You are staring. Staring at the screen. The lifeless screen. It’s flashing. Unknown figures moving, talking. You are staring the night away. Staring the day away. Alone sits the body. Motionless empty soulless sad. So let me ask you this: -What is the point? ] [ Jólagleði, jólafrí, gjafir, góður matur. Jákvæð bros á allra vör, úti frost og napurð. Fögnum fæðing frelsarans, fjölskyldan á jólunum. Kertaljósin ljóma skært, lofa bjarta daga. Kvöldið kemur, mömmu er kært kakó heitt að laga. Fjölgar úti börnunum, Fegin frí úr skólunum Megi allir gleði fá, kærleik, ást, á jólunum, megi ríkja gleði jól, glatt á öllum heimilum! ] [ Do you think you can think yourself crazy? Analyze the thoughts, analyze each word, untill the sense is gone? So all you are left with are words? Thoughts, floating in your brain.. -without meaning? If so -I must be getting close... ] [ I am the chaos. You the stability. What I am missing you have. What you are missing I have. Together we are stronger. Now I am alone. I no longer have you. No longer stability. I think I am losing my mind. I am asking for your help. I need your help. Make us strong again. The bond between us is breaking. Getting weaker by the day. I need to see you. Or I will lose you. The bond will break. And I will again be floating alone in the nothingness of life. Being But not living. I need you. Please.. help me. ] [ Myrkri dregur fyrir sólu, mér finnst ég vera komin heim. Mínúturnar byrja að líða, áhyggjur fara út í geim. Á daginn er allt að gerast er erfitt að fjarlægjast það. Óhljóðin ávallt þau berast, svo erfitt að geta hugsað! Á daginn er alltaf læti, svo erfitt að geta hugsað. Og jafnvel þótt að ég gæti sofið - ég ekki alltaf vil það! Æ nei! Ég er svo þreytt! Hvað geri ég nú? Hvað geri ég nú? Það er kominn dagur.... Ég má ekki sofna, ég má ekki sofna, ég má ekki sofna..... ...zzzzzzzz... ] [ Með stjörnublik í augum, kallar hún á hjálp, hún segist vera hrædd, hún hleypur um, skelfingu lostin af hræðslu, og leitar af felustað. En veggurinn hrinur, þrumuveður dynur á, þeir hana fynna, svo hún segir; \"segðu mömmu að ég elski hana\". ] [ Í rökkvinu leitar hann að því sem hann á, hann fer í hvert hús til að leita, hann er álitinn gimmur, en það er hann ekki, því í rökkvinu má sjá, tár renna niður, kalda hvita kinnina. ] [ Maður gengur yfir fanhvíta fönnina hann gengur ótrauður áfram, þótt öll von og trú sé búin þá gengur við hlið drottins, fús í að fá frið. Maðurinn gengur áfram enda heitir hann Jón, í guðs friði gengur hann í lón. Jón hinn littli maður er að gera gott ber við vinstri hendi sverð sem er flott í Drottins náð og friði notar hann það vel enda notar hann það bara við að veiða sel Jón hinn trúaði maður rakst eitt sinn á hafur, og hafurinn var illur en Drottinn gerði hafrinum grillur, svo hann var ei legur illur. Són hinn sterki maður hitti eitt sinn mann, maðurinn hét Halli en oft saung hann sama lag og palli. Jón hinn góði maður hlustar á allt og alla og gefurgóð ráð. Jón hinn hugaði maður í orustu fer, með Guð á vinstri hendi og sverð í hinni ber. Jón hinn látni maður dó í orustu, grafin er í jörðu með Guð yfir sér. Jón hinn guðlegi maður situr við vinstri hönd Guðs, talar við menn bæði í lífi og dauða og stiður þá til hinsta dags. Jón hinn saknaði maður ástina fann hann ei, hvorki í þessum heimi né uppi himnum á. Þannig líkur þessu ljóði ég vona að þú hafir ekki fellt tár því hinn ástkæri Jón kemur aftur, hann varð barra að kveðja að sinni. ] [ Augu saklaus barns horfa á mig,úr rökkrinu. Hvað þau vilja veit ég ekki þau virðast hrædd. Ég fykra mig áfram nær, hjartað hamast augu barnsins hverfa, og ég stend ein í rökkrinu ] [ þegar dagurinn liður, kemur nótt. Um nóttina sofa littlir krakkar, og láta sig dreyma, um súkkulaði gosbrunna, og dúkkulisur. en þegar þau vakna sjá þau hvorki dúkkilísur, né súkkulaðigosbrunna, og þau skilja þá að þetta var, allt bara draumur. ] [ Kirkjan sem stendur á holtinu, þessi með fallegu myndunum af fólki sem við þekkjum ekki neitt maría mey og jóseph standa og veifa, en við sjáum það ekki því við erum ekki inní kirkjunni heldur fyrir utan að leika okkur og við heyrum ekki að kirkjan vill að við förum inn og skoðum allar myndirnar í kirkjunni sem stendur á holtinu. ] [ Tunga hennar snertir mína og strýkur mjúklega. Munnvatn mitt er drykkur hennar. Gróin sólin krýpur við fætur mér og kemur í ofgnótt ópa. Tímabært að fara heim og njóta ásta. Kunngerðar tilfinningar bólstraðar að innan. Undir niðri bíður hann og öll hans fjölskylda. Brotið gler og blóð regni kyngir niður og drepur lífið ljúft. ] [ Lifandi til hálfs Sakna þess að hlæja alveg inn í maga Sakna þess að finna alvöru gleðistrauma Sakna þess að geta grátið með ekka Áður fyrr með fulla útgáfu nú einungis sýnishorn Lifandi til hálfs Sakna þess að sjá heiminn skýrt Sakna þess að hafa áhuga Sakna þess að hlakka til Áður fyrr komst ég á leiðarenda nú misstíg ég mig á lokasprettinum Lifandi til hálfs Sakna þess að finna fyrir þér Sakna þess að finna fyrir mér Sakna þess að finna fyrir okkur saman Áður var ég þátttakandi í lífinu nú fylgist ég bara með af áhorfendabekknum Ef ég vakna upp af svefninum og átta mig á að ég hafi misst af lífinu Viltu þá segja mér frá öllu sem gerðist? Svo ég geti hlegið, grátið, glaðst og þjáðst og svo dáið án þess að finnast ég aldrei frjáls ] [ Helvítis slydda, slor og skítur, Vegirnir ófærir, frostið bítur, Vildaðég ætt\'nokkrar jarðýtur. ] [ Tígullinn á borðið, andinn svífur Úr krukkunni flýgur kænska og viska Hann á að gera en lætur það vera Hann setur upp pókerfés, ákveður að riska Ég sturlast og bomba í hausinn á honum Spilastokknum? Spilastokk sálarinnar? Myrkur... Ekkert nema spilastokkar og myrkur. Kannski er ég heima hjá Fischer? Ó, nei... hann er í skákinni Það rennur svo upp að ég mun þessu rústa En ég gef leikinn og rúnka mér í skápnum hans Gústa. Það er svo mikið af skóm þar... Allir svo svartir og skínandi Einkennilegt hvernig skór geta bæði verið svartir, en skína samt Eggjandi Eggjandi, hvaðan kemmur orðið? Ég legg spilin á borðið Gef leikinn og stekk í skápinn... Klára það og hleyp, hleyp í myrkrið og í gárasjó minninga minna. Í útsjó minningana eru litlir fiskar, Fiskar minningana, fiskar gærdagsins, fiskar framtíðarinnar. ] [ Mig langar að hlaupa um á engi grænni víðáttu á milli mikilfenglegra eplatrjáa þöktum eldrauðum eplum þar sem sólin leynist bak við örþunna skýjaslæðu skærgul og mig langar að leiða þig hönd í hönd brosandi eins og ástfanginn asni og við trítlum um með blómasveiga á höfði í hvítum kjólum haldandi á bastkörfum fullum af bleikum rósablöðum ] [ Get svo svarið að ég hripaði niður ljóð bakvið eyrað í gær En hvernig sem ég leita finn ég það hvergi ] [ somehow he’s got this strange notion that he feels the same old emotion he hiked the wrong side and now he will fall hurting so much that he’s forced to crawl he looks up to the top, it’s way to steep if he fails again, he’ll surely go deep but turning around is not a dignified way not reaching the top at the end of the day he must make an attempt at not giving up he raises his spirit and drinks from the cup takes the first step and gets ready to start pulse and heartbeat are way of the chart he’s nervous, what if he makes a mistake if he falls again the consequence he’ll take it’ll rid him of all his honour and his pride suddenly someone is standing by his side it’s a friend with a grin and a smile on it’s face telling him to chill out and put down the pace so he takes it’s advice and eases off gently scans the horizon for something he can’t see the red beams of sunlight begin to emerge defying the fatigue and the restless urge he has to sleep and rebuild his strength otherwise he won’t make the whole length disapointed and discouraged he lays down and looks at a star feeling rage and envy why he could only get this far he aimed at the peak now lost and a freak the way down will be hurt, pain and sorrow beacuse his friends advice he decided to follow he blames it on him, her and them the next try will be harder, times ten will this repeat itself again and the moral be the same as then that he was forced to stop before he got to the top ] [ Ekki er hér beysinn bústofninn, en býsna er þó ættaður vel. Ég lauma þar einu og einu inn. Ása félaga er vart um sel. ] [ Sjómenn drekka mikinn bjór pissfullir á landi röltandi valtir eins og sjór drukkna í sínu eigin hlandi ] [ Ástfanginn er ég af þér þú ert mér allt, mitt líf svo sæt, svo falleg, með mynd af þér í hausnum alla daga ég svíf ] [ Í óskabrunninum bergmálar ómur langana í höggum mynta sem dynja í dýpi hans Sjálfur óskar hann þess einskis heitar en að fá eigin rödd svo hann geti óskað sér eigin raddar ] [ Bara eitt sem mig langar að segja þér Ég elska þig. ] [ Sálartetrið rembist. Brotið ljós flæðir um strekkta steina. Brotið af kristöllum og rafsegulsviði. Einbeitingin mér leynist. Lausnir láta á sér standa, ráðþrota fresta ég svefni og geði, heimurinn í kring ískrar og titrar. Ég í vítahring að vanda. Sjóndeildarhringurinn er tómur og heilinn framleiðir röng boðefni. ] [ Fyrir framan mig er ílangur svartur hlutur. Hann er alsettur ferhyrndum útskotum með hvítum táknum. Ef ég þrýsti á útskotin birtast tákn á ljósfleti fyrir ofan svarta hlutinn. Ef ég set táknin í rétta röð fæ ég borgað. ] [ Ég helli góðum fyrirætlunum úr höfði mér í ferhyrnd mót. Mótin baka ég í ofni. Úr ofninum koma hellur. Ég hellulegg leið mína, sem liggur niður. Niður í eldinn. ] [ farðu ekki framar aftar er öruggara og öruggt er allaveganna ekki tvísýn ferð án fyrirheits gramsðu um stund í stríðu hári mínu og finndu koltvísýringslyktina uppúr jörðinni á vorin þetta er allt sprottið af sama meiði hvort sem er og verður allt að sömu feyrunni einhvern daginn ] [ Ég get ekki sofið, sit bara og stari Stari á nóttina líða hjá úr þessu fylgsni af draumum og sýnum horfi á vonina hverfa mér frá og koma svo aftur og kvelja mig smá Því ég á draum, ósk sem ei rætist ósk sem að breyttist í þrá þrá sem mig kvelur með vonleisi sínu vonbrigðum, bölsýn og tál krefjandi, hatröm og brennheit sem bál Og þó að ég þrái og óski og vilji aldrei ég draumunum gef mig á vald í vonlausri vissu ég stari því áfram stari því ég vil ekki sjá og óska þess sem ég vil ekki fá því þó draumarnir rættust og óskirnar allar ég gæti aldrei þegið þær afþví ég veit, ég á það ei skilið ég er ekki falleg, nógu góð eða klár og þessvegna felli ég eingin tár því þó að ég eigi mín vonbrigði og sár ég veit að ég á það skilið að kveljast fyrir að vera svo heimsk að þrá heimsk, heimsk, heimsk, heiskuleg þrá heimskulegu óskir, farið mér frá verið mér hjá ljúfsárar kveljið mig smá þar til að lokum ég fer ykkur frá og ég á þetta skilið fyrir að þrá ] [ What in this world makes you happy what in this world makes you cry what is beyond the end of all Where will we go when we die? When tears have frozen and fallen, No one is near to say good bye, There is a moment of silence, Where you, no more, need to lie. ] [ It thrives on anger, fear and pain Crawling in around inside your brain There’s nothing left to win or gain You know it well that your insane. ] [ This loneliness, this loneliness within, my heart. There is no way to explain with words. No reason at all to see Why this loneliness is there within, within the midst of me. When I’m lying, here alone, I let it go and cry, There is no point in asking me, I just don’t know, why? ] [ Á meðan myrkrið kæfir dauðar sálir stendur nakin maður út í horni og syngur kvæði um horfna ást ] [ Sláðu mig í framan þegar ég dáist að þér Fótbrjóttu mig þegar ég reyni að komast að hjartanu þínu Hlæðu að mér þegar ég opna mig fyrir þér Niðurlægðu mig þegar ég monta mig á þér Og ekki gleyma að elska mig þegar ég er farin frá þér ] [ Það er komin helgi- svona venjuleg helgi- þar sem ég, læt moggana í póstinn- og passa svo systu- mamma sem grætur- saknar pabba- pabbi*- tja ég segi ekki starfar hjá guði- systa sem situr á rassinum- og kannski draslar út- inni í laufunum. Þar sem við búum- fátæk og hjálparlaus!! Munum við horfa á litlu systir deyja!! Líf hennar er á enda. Enga hjálp eða enga björgun bara deyja! Ég mun sakna þín litla systir. ] [ Ég er strákur, bara venjulegur! Held ég..!! Þegar ég opna ofur augun mín! Sé ég allt þetta fallega fólk! Þessar fallegu stelpur síð hárin! En ég er bara svo ljótur of ljótur til að fá að kyssa eina þeirra! Bara svo ljótur, flauta á eina fæ auma kinn. Svo flautar þessa ljóta stelpa. Við erum bæði ljót. Hún er ljóshærð með sítt slegið hár Ég hef brúnt stutt hár. Er það allt í einu flott? Erum við þá falleg? ] [ now lets give this a real colourfull look and decide what to do to the one who took my right hand and left me crippled with a hook show mercy on the fucker or treat him like a crook cut off his hand and make him know the pain hang him on a lightpost for ten days in the rain now you die, no not yet, first lets make you insane hahaha all the shit you put on me will make in vain now I can raise my gun and take aim put your stupid looking ugly face in the frame nothing like this has ever happened in your game because you never got this level and thats a shame I wish you could feel the embarrecment and hate towards thyself but no matter, it’s to late now I’m ready to begin , so I open up the gate and let the dogs loose to chew on your fate get ready for agony and sorrow, and more to come that alone could be well enough for some but you look like a hard ass like the gladiators from rome so i’m gonna give you a litlie extra, my own special tome enjoy while it last sucker, you won’t last a day feel the organs burning inside as the sight fades away pulse project your legs to dust with my death ray your the whole reason, why your kind is so gay I’m not afraid to give you more and more to see when you puke out of all the gore gore rip out your ears with my mighty roar roar and trow you head out of the window of the tenth floor I’m just warming up, this is the first of a bunch to see how well you take the punch I’ll even go and steal your brothers school lunch and slaughter your family, while their on brunch you cant escape, I wont let you leave this is no time to be a pussy and greive so be a man and put up your sleave and get ready to recieve the hurt, the fragmented body and mind there is no more space in my soul to be kind look at this segment, there is something to find ohh look you were reading this shit, so I got you from behind ] [ man this is hard I don’t know what to do trying to waste away the day just to get through to the next and there after remembering nothing only your beautifull laughter the sound of your voice and those incredible eyes like singin birds in the early sunrise why me why so long I can´t turn my head yet I feel this is wrong these emotions are solid so hard to embrace for if I act upon them I’ll get slapped in the face risk isn’t an option the plan would fail putting in my heart another dirty nail and so the struggle continues for mere self-control can’t loose my temper must hold on to the soul try to further myself to keep a safe distance but end up like always reaching out for assistance ] [ Friend. What makes a friend? The one you know? The one you care about? The one you trust? The one who’s company you seek? Friend. You are a friend. You don’t need to take space in my life. You give me something special. I can. when you are near I am. I don’t need to try I already am. ] [ Like sitting in the sofa. Cuddling, chocolate and movies. Now I do it alone. Getting drunk. Talking about everything, and feeling the hazy love and passion. Being hungover. Sleeping all day, watching tv and eating. Waking up early with the sun. Having tea and ab-mjólk, with musli. Now I do it all alone. ] [ Do you want me to know you love me? Do you want me to feel safe? Do you want me to love you? You don’t need to tell me every day that you love me. You don’t need to give me flowers or diamonds. You don’t need to write me a poem. All I want. All I need. Look at me. Look at me as you used to. Look into my eyes with the passion as before. Look at me. And look into my soul. That look. The look that said I love you. ] [ How do you feel when you think about me? Does my beauty amaze you? Does my body excite you? Does the thought of you kissing me make you quiver? Does your heart skip a beat? Does your stomach jump? Do you stop what you’re doing and think about me? Think how much you love me? I know you used to... ] [ I know I should be sleeping. -But I’m not. I am obsessed by my thoughts. Surrounded by my being. Need to get out. Away from my thoughts. My world. My being. All I know I can’t stop thinking. Thinking about nothing. And everything. Worrying about everything. And nothing. I just want to rest. ] [ Orðin á blaðinu Eru ætluð þér. Ég sé þig. Það skín af þér brosið. Og vinir þínir hlæja með þér. Ég er ein. Ég hef ekki heyrt í þér í viku. Einmana tár læðist niður kinn mína. Það saknar þín. Eins og ég. ] [ My head is splitting. My stomack bursting. My eyes are crying. My soul is aching My spirit screaming. My heart is braking. How can the cause of all this be you? You that once gave me so much joy and endless love. Where did it go? How can you leave me alone crying in the shadow? With no hope left? No joy? No love? You that once gave me so much strength, have now left me with none. It was you who gave me love. And it was you who took it away. (So where do I go from here?) ] [ Hvað er að þegar öðrum liður illa ? Þá er ég til staðar. Ég hér og alstaðar að hugga um þig mig kæri vinur. Þá er ég til að hugja þig þegar þér líður ekki vel og ert hygginn og þegar eitthvað bjátar á . Þá er til staðar til að hugga þig og knúsa þig minn kæri vinur. ] [ Ef ég bara gæti heyrt í gegn um skinn bringu þinnar og greint orð og séð inn í gegnum augu þín og lesið setningar Hvað er enn innvortis? ] [ Einn koss frá þér í rökkri er nóg til að: breyta loga í bál framkalla flugeldasýningu skapa glæstar skýjaborgir þó hann sé stolinn. ] [ So beautiful and peaceful they all smile so nicely to you The look of these eyes So bright and clear But even angels fall Make mistakes and cry There are angels with no smile There are angels, with a broken heart So beautiful and peaceful They all seem so happy But some angels have sorrow Angels that don´t like \"tomorrow\" Even angels fall and die...... ] [ Þursar, nornir, dísir dauða spinna nóttu dreyra rauða. Hver er að spinna hvaðan kemur? Þrjár í einni, ein í þremur. Hver í spuna rokkinn lemur? Sitja saman berja stokka ata blóði spuna rokka. Hvín í eyrum feygra manna hvísla milli bitinna tanna: Manna lífi engu unni Nornir þjá hjá Urðabrunni. Hver er að spinna hvaðan kemur? Hver í spuna stokkinn lemur? Þrjár í einni, ein í þremur spinna andans þráð í duld. Vita örlög öðrum fremur Urður,Verðandi og Skuld. ] [ Saga þeirra er saga mín saga þessi er engri lík saga mín er saga þín saga um ömmu og barn sem búa í Reykjavík. Sorgir áttu saman þær sögðu ei frá þeirri sorg syrgðu saman tvær og tvær sorgmæddar á göngu heim frá Grænuborg. Sungu saman nótt sem dag svefninn og á kvæðin sín sungu ávalt sama brag spurðu: Hvar er mamma, hvar er dóttir mín? Sumir aldrei svörin fá spurningin er þvíumlík sumir aldrei fá að sjá sorgina hjá ömmu og barni í Reykjavík. ] [ Djamma,slamma djúsa, sull. Drjúglega eykur vandann. Búin lúin full með bull Bakkus drepur andann. Reykja, meika ryger mall. Ríflega slær á vandann. Flyg í friði fátt um fall. Feitur fæðir andann. ] [ Á Guð Björgvin? Á Guðbjörg vin? Það eru bilin sem ráða hvernig orð eru skilin. ] [ Öskudagurinn liðinn er Ég hugsa hvað ég ætla að vera Ég hugsa að verða Jarðaber Og fullan nammipoka þarf að bera Ástin mun ekki taka völd Ég efast nú um það Ekki hugsa um Rómatíks kvöld Ég þarf núna heitt bað. Vinkonur mínar verða líka Við verðum að syngja og góla Ekki ég hugsa um slíka Ekki skulum við hjóla. Núna fer þetta nú senn að enda. Nenni ekki að skrifa meira En þú skalt þessu ekki henda En ég bið að heilsa Geira. ] [ Nói var orðinn vel við aldur og nokkuð ern en hann átti ekkert erindi á kassabílinn. Hann var búinn að fá sér nokkra af koníakinu hans Atta Katta, og fann kassabíl strákanna við snúrustaurana. Þegar hann lá svo í blóði sínu undir spýtnabrakinu neðst í brekkunni, búinn að brjóta gírstöngina og eyðileggja Silver Cross hjólin undan kassabílnum, skynjaði hann að leikföng eru fyrir börn. Hann var alltof fullur til að stýra og tautaði með sjálfum sér; Emissa demissa ] [ Eins og að litlu gripsviti sé fyrir að fara, fæ ég bara ansi lítð á matgræði tekið. Með ístruna stóra burðast ég því bara og á bágt með að hreyfa mig fyrir vikið. ] [ Hindrar hraða einn vegna augnskaða? Hugsar um aðlot og vinnur á háhraða. Herðir besefatak - hugarmak við Daða Hávaða upp rekur, er hann lætur vaða. (á ímyndað skitufullt rassgat hins rauðglaða nei, hvaða, hvaða, hvaða?) ] [ Ég er Guðmundur Torfason í dulargervi. ] [ Nútímavæði og afsvæðavæði þetta heimasvæði hugans. (- sem skráð hefur verið hingað til í dagbók, sem engin annar vissi um.) ] [ Samstaðan er hverful í raun !!!!!!! !!!!!!! ekki eða hvað? ] [ Horfumst við í augu sem grámyglur tvær Það okkar sem undan lítur, tunglsýki fær. ] [ gengu saman víni angandi þrúgum glöð í hvarfi hamaðist hjarta þitt kitlandi af ást sem dó svo í þynnku morgunns ælandi í klósettið maskarinn dró línur grátbólgnar blikstörnur baðaðar eldsprungum bælt rúm minnti á horfna veiði gærdagsins endursýningar nágranna drápu hugsanir ] [ Ég þarfnast þessara orða Eins og áferð ég finn línurnar skjótast inn í mig og út jafnfljótt finnuru kaffiilminn? Hann heltekur þig eins og þráhyggja sem þú getur aldrei sleppt Þú vilt ekki sleppa Ég vil ekki sleppa! Vil bara halda fast í ekkert í tómið Og það stingur inn í brjóstholið eins og kaldur einmannalegur raunveruleikinn morguninn eftir Er þetta endirinn FINNURU ÞAÐ EKKI!!! mwaa mwaaaa mwaaabababababa Mig langar að láta þessi orð öskra Öskra svo hátt að þú heldur fyrir eyrun Og þér finnst eins og þú sért að springa Og þú getur ekki meir og þú lætur það eftir þér JaaaaaaaÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁ Ég á ekkert líf nema í þessum orðum Orðin eru líf mitt og líf mitt eru orðin Er þetta ekki orðið gott ] [ Snertu mig Bara í stutta stund Áður en þú heldur áfram þínu lífi því ég á ekkert ] [ Ég sá trérimlagardínur speglast í gleraugunum þínum En ég sá ekki þig Fann ekki sál þína Því þú lokaðir á mig ] [ Allt er hægt er hugurinn girnist Hver er fer nú þetta er Minn happadagur upp er runninn Og sérðu það er þú ert hér Eða ertu þar Farðu Færist yfir örlög mín Í aðra heima held ég Á morgun kemur dagurinn Og líf mitt fljótt mun breytast Ég er hér en ekki þar Inní stofu ertu Kannski er ég allsstaðar Kannski er ég hvergi Vertu þar og vertu hér Vertu alltaf hjá mér Komdu ekki nálægt mér Við eigum enga samleið Eftirsjá er óþarfi Njóttu liðins tíma Lærðu svo af reynslunni Og horfðu fram á veginn ] [ Það hringsnýst Bergmálið gagntekur mig Ég heyri ekki lengur í þér Einu skrefi fjær en í gær Dagurinn kemur aldrei aftur ] [ Ég sting hendinni á kaf Ríf upp með rótum Hlustaðu á mig einu sinni! Hættu þessu væli! Afhverju þarftu alltaf að vera að röfla! Ég þoli ekki þetta röfl Haltu kjafti Troddu teppi í kjaftinn á þér Ég vil ekki heyra meira GAMLI NÓI GAMLI NÓI BLA BLA BLA BLA BLA VÍST! ] [ Þegar ljósin slökkna og nístandi þögnin rífur mig í sig Get ég ekki annað en hugsað ] [ Ég græt fæ ekka eða kannski ekki ekki. ] [ Þú massaður sagði steratröllið nei steraölið. ] [ Sturlungar slást straumur ást Bjöggi hann brást Maggi er illur. ] [ Pólartíkin eftir liggja líkin á vígvelli prófkjöra. ] [ Kaldur og napur hann hvín um grundir Kárinn hinn eini og sanni Með nístingsrokum og gulum dokum Hrímdulur veruleikinn andar að norðan Andaktugur bolinn hrollhljómur titrar Með nístingsrokum og gulum dokum ] [ Af líkama mínum hún yfirgefur hreiður sitt öruggan samastað Lóin mín ljúfa Hún naflanum fórnar fyrir sturtunnar andrá eitt andartaks hugljómun Lóin mín ljúfa Þar lætur hún líf sitt drukknar skolast til botns Lóin mín ljúfa ] [ Af öllum þeim dagdraumum sem ég þekkti Var hinsti draumurinn helst að veruleika mínum Og af öðrum þekkti ég þá báða ] [ Hinn eini hinn eini, eini hinn eini sanni hrappur Með viljann að vopni og hestinn sinn blíða Hann þeysti um grundir með hala og sprundir Hinn eini hinn eini, eini hinn eini sanni hrappur ] [ Nú ríðið þið saman á reiðskjótum fráum, í rökkvuðum skógi mót himninum bláum, vinirnir tveir-Höskuldur, Geir. ] [ Af öllum þeim undanrennum lífsins sem ég kynntist Var það sú hæsta sem lægst lagðist Hún var fögur þó um leið kvik á brá með hægum heimatökum Lést hún hægt um aldur aftur ] [ Ljósin voru rauð af því að ég var sein ] [ manstu þegar ég las ljóðið sem enginn skildi nema þú sem flissaðir ein í hugsandi salnum sem vissi ekki neitt manstu rétt daginn sem við fluttum sömdum við ljóð um ósiði kallsins í íbúðinni á móti og skildum það eftir í póstkassanum hjá honum stílað á eiginkonu hans. Ó heljargjá sem liggur aftur til þeirra daga! Hvernig skal maður lifa án þeirra nema í óskinni einni, nema minningu sem dofnar en hverfur aldrei. ldrei. drei. rei. ei. i. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . ] [ á hafi hafði hafliði haft haft milli tánna stundum stundum við við milli trjánna og dag einn var siggi að dunda við ána ] [ Hörund snertast, losti og þrá eftir blíðu og skilningi. Tilfinningar örvast, skilja eftir sig ljúf sár í litrófi sálarinnar. Fullkomnað, hnígur sællega til viðar. Löngun fullnægð, flétta tilgangsins sundruð en bíður örugg hringrásar lífsins. ] [ a brand new sheet life and existance hopes and dreams a futal resistance how many yards for a safe distance this all disapears in the next instance cant stop me now I’m unstopable rich of feelings highly affordable channeling out meaning of capable rusty within not nearly replaceable finding peace in ending and rest wishfully thinking this will end up the best a heart of hope beats within this chest studying to pass the final and last test choosing visely who to love and who to hate still not knowing the big pre-release date leaving it all in hands called fate answers must come hopefully not to late ] [ Því var spáð í Ragnarökum að af himni myndu hverfa heiðar stjörnur. Með fráfalli þínu eru þau þegar hafin hjá mér ] [ Heyrðu mig vindur, hlustaðu á ráfar nú kauði reiður hlustaðu haf og hlustaðu vel þetta verður minn síðasti seiður. Ég vonlítill sigldi um höfin sjö og bjó við vindinn kaldann kom aflanum ávallt heilum í land og elskaði lífið sjaldan. Ég hlustaði alltaf á vindinn sem sagði sögur að handan þar heyrði um mannanna örlög og spáð var í veður og landann. Hlustaðu á mig Njörður þrætir nú þreyttur ver orð mín ég hvísla í vindinn bæn mín með öldunum fer. Heyrðu mig vindur, hlustaðu á sárlega biður nú gumi að eftir dauða minn andinn sveimi, vaki yfir hafi og sjómannsins draumi. Heyrðu mig Njörður, hlustaðu vel ég bið þig að nota kraft þinn með mávum vil fljúga, yfir öldunum svífa, leiðbeina sjóförum á land inn. ] [ skiluru sko hédna eikka sona gegt alle ógla flott ma skiluru ] [ Afadrengur minn eldist skjótt, afbragðs piltur sá verður fljótt og gríðarlegt gáfumenni! Gnægðir fékk af genum fínum, glaðværð ríka frá öfum sínum og kímni þar líka ég kenni! ] [ Enn sit ég einn við borð og opna mitt hlið. Sorg kemur inn með orð og andvarpar þreytt eftir bið. Synd er systir mín og siglir um höf. Föst við festar með land í sýn og færir mér stundum gjöf. Ég Þekki Hades og Karon er hyllingarsveinn. Ég þekkti Jesú Jósefsson og Júdas er kyssti hann einn. Gleði er grátur minn þér gjöful og hlý. Þar get ég sofið um sinn og sótt í mig kjarkinn á ný. Ég er eldfim og brenn ástleitin en köld. Þið sjáið mig senn ég sit og bíð hér í kvöld. ] [ sem ég sit hér og drekki sorgum mínum oní hyldjúpt vínglasið sorglegur bitur einmana kuldalegur vitur máttvana sem ég sit hér sem ég ] [ ljóðbermi brunnin von lykt lagði af rituðu hálfköruð orðin flöktandi eldur dansaði yfir laserprent markleysuorða sem ollu mér hugarvíl askan fauk og kaflanum lauk ] [ Í þögninni, situr þú eins og frjókorn í lótusblómi kyrrðarinnar öldur saknaðar lenda á skerjum klettar míns heimspekilegar pælingar um trú, líf og menn veraldar og allt það sem í henni býr þegar öllu er á botninn hvolft sakna ég vináttu þinnar og nærveru. ] [ horið góða grænt og hlýtt laðar fram minningar bernskunnar úr sandkassanum þegar maður þurrkaði það með erminni svo eftir sat rönd frá nösinni og niðr’ eftir kinn þegar blautir vettlingarnir hleyptu inn sandinum sem þornaði á milli fingranna þegar maður kom inn í hlýjuna svo þurrkaði maður sandinn burt og eftir sat önnur rönd aðeins daufari ] [ Ó magi Hví kvelur þú mig svo? Þú hefur fylgt mér Fyrir minn fyrsta dag Er það ég? Rifrildið um daginn? Þú gefur mér stingi og krampa Hvern einasta dag Þótt ég borði Eða ekki Þá ertu alltaf að kvarta Þú þenst út Og grennst Hver munbiti Gerir þig stóran Ertu of góður fyrir mig? Eða er ég ekki nógu góð við þig? Þú ert svo afmyndaður Í formi og lögun Get ekki leyft almúga Að sjá þig svona.. Ó magi Hví kvelur þú mig svo? ] [ Ég fór á sjó þar fiskur bjó hann sagðist heita Hlynur og vildi vera minn vinur ég veiddi hann í net það er það besta sem ég get ég át á honum haus hann fór alveg í maus ég át á honum kviðinn loksins fékk hann friðinn ég át á honum sporð þetta hlýtur að teljast morð. ] [ þú sast á móti mér á bókasafninu ég þjáist þegar þú flettir blaðsíðu því ég veit að með hverri flettingu styttist í brottför þína og bókasafnsvörðurinn hlær því hann trúir ekki á ást og ég hvísla í eyra hans dagar þínir eru taldir en hann heyrir ekki því að hann hlustar á queen djöfull hata ég queen ] [ Alla daga verkurinn meiðir pirraður, geðheilsan farin orkunni hann eyðir af sálinni, marin. þetta er svo vont get ekki meira, alveg að gefast upp ...pillurnar virka ekki Reyni að halda í vonina þrauka það illa sé ekki ljósið, myrkvið er svo sterkt, sterkara ...en ég, ég bið þig bara um það, að, taka sársaukann í burtu, það er svo erfitt núna, lífið. get ég ekki í birtuna svifið? þetta er svo erfitt ....svo erfitt! erfitt ] [ þessi fallegi drengur, sem gekk mér við hlið, gengur ey lengur, mér við hlið. Hinn máttugi faðir, tók hann til sín, já, nú er hann farin, að eilífu glataður. Ég reyka um, eins og glötuð sál, því ástin min er farin. Hann skyldi mig eftir, ó Guð taktu mig líka, ég vil ey vera án hans. Ég hugs um stund, og geri það svo, næsti bíll, ég stekk, sé allt svart. En nú kemur ljósið, ó það er hann, þessi fallegir drengur gengur aftur við hliðina á mér. ] [ Er farinn, enginn kvaddi. Er falinn, enginn leitar. Er enginn. ] [ Ó, mín eina angist ég þjáist aðeins þín vegna Hví skyldi ég gegna lífsins lömbum ljúfum Ó, mín eina angist hví er grátur nær Og kaldur sær er drekkir drukknum dúfum ] [ Á meðan annað fólk las sögur fyrir börnin sín sögðum við hvort öðru lygasögur á meðan annað fólk horfði á sápuóperur brutum við blómavasa á meðan ég týndi upp glerbrot keyrðir þú út í nóttina ] [ fyrsta setjumst inn í salinn með popp í kjöltunni kók í hendi annað horfum á bíómyndina sem reynist illa leikin og með óljósan söguþráð þriðja maulum poppið sem reynist glerhart og klístrað svolgrum í okkur kókið sem er volgt og klístrað fjórða ég pant vera bissnessmanneskja ] [ Hver er ég orðin hvar er ég stödd hvert stefni ég og hvar mun ég lenda Hvernig endaði ég hér afhverju kemst ég ekki burt síðan hvenær hætti ég að vera ég og í hvað hef ég breyst Afhverju er allt svona breytt og hvers vegna fór það svona hvernig veit ég hvað er raunverulegt þegar ég veit ekki hvort mig er að dreyma ] [ Nú blikka menn vart auga nema borga fyrir það og bestu manna samningar duga ei út fyrir hlað! En fyrrum dugðu orð manna, lengst af, eða hvað? Eða traustleg handabönd sem komu í þeirra stað! ] [ Husunin læðist að mér ég get ekki hamið mig ég vil drauminn ég vil allt hitt fara þangað þar sem allt er hljótt og allt er mitt en hugsunin hverfur fljótt og blákaldur veruleikinn skellur á mig skellur á mig eins og ískalt vatn ég átta mig á að hér á ég heima og hér þarf ég að vera. ] [ Munið þið rauða hjálminn - úfið hárið eða Beckham greiðsluna hér um árið afsakið meðan ég felli tárið ...er lífið ekki hnausþykkur jarðaberjasjeik í morgunsárið? Nú svífa orfin - salt í sárið sviðin jörð nú HM - fárið samkynhneigðir nú horfið á hárið og hugsið um mig á meðan af ykkur þið klárið Því hvað er sælla en á döggvotu engi en að hugsa um fagra dísvaxna drengi Mig og Jakob - dreymir það lengi og fæ það á meðan ég hann flengi En brátt kemur sumar og sælan öll því trúin hún flytur fleira en fjöll móðar rúður, stunur og frygðarköll uns aftur að hausti fellur þá mjöll ] [ Þessi fallegu augu soga mig að sér, dáleiða mig. Að hugsa um hann, á kvöldin, á daginn, fyllir mig. Af hugsunum, löngunum.. Hjartað hamast ég lamast. Hann lyftir mér upp á hærra svið, huga míns. Og ég flý á vit drauma minna þar sem við, hittumst á ný. ] [ Sælar verið þið ævinlega dáyndis dætur! Ég dútla í tölvunni, langt fram á nætur!! Sögur ykkur sendi sagðar fyrstu hendi en dálítið eiga þær orðið langarar rætur! ] [ Svartir hrafnar, Hring eftir hring, Þeir fljúga... Yfir skála í súð. Að lokum. Stoppa þeir. Lenda á skálanum. Þeir hafa fundið tilgang sinn. ] [ Innan um fjölda manns, Ég er ein. Með \"vinum\" mínum, Ég er ein. Þú ferð, Ég er ein. Endar alltaf eins. Ég ein. ] [ Hlæjandi illar hænur Rauðglóandi augu, Ljótar að utan, Ljótar að innan. Það þarf aðeins eitt augnatillit. “Klukk!” ] [ Skilin eftir. Af besta vini mínum. Þegar reinir á, sést hverjir eru sannir, sannir vinir. Takk fyrir ekkert. ] [ every day i try to wake up but i cant because i miss you so (miss you so) you are never here when i need you baby you are always somewhere else (never here) i am gonna go away for awhile because i cannot do this anymore (never more) and i start to shiver afraid that i will die alone shiver when you left me here to bleed bleeding im feeling better when i sing (when i sing) oh oh ohh every day i try to wake you up but i cant because you are gone (you are gone) you are never here when i want to kiss you baby you have left me now (im all alone) im gonna fly away , im gonna die because i cannot do this anymore (im dying slow) and i start to panic i am gonna die alone panic im never gonna see the light singing trying to wake up from this every day i try to wake up but i cant because i miss you so (i miss you babe)... öddi rokk 11. mars \'06 ] [ The earth quietly sleeping. White snow-blanket keeping it warm. Warm glow of the night shining in the cold. Sitting in the warm darkness. Beautiful music surrounding. Soul breathing. Smiling. You are away. Across the sea. Although, I do not cry. Your red closeness keeping me warm in the dark. Heart pumping in my face. Hope smiling in my heart. Later... ] [ Kyrrlát jörðin sefur. Þakin hvítu snjóteppi. Hlýr ljómi næturinnar glóir í kuldanum. Í hlýju rökkrinu sit. Umlukin fögrum hljómum. Sálin andar. Brosir. Þú ert fjarri. Handan við hafið. Þó. Græt ég eigi. Rauð návist þín yljar mér í myrkrinu. Hjartað hamast í kinnum mínum. Vonin brosir í hjarta mínu. Seinna... ] [ RATATATATATATATATATA!!! RATATATATATATA!!! RATATATAATATATATATA!!! \"HAHAHAHAHAHAHAAAAA!!!\" ] [ Elsku afi minn, þú verður alltaf minn. Ég elska þig svo heitt, og mér þykir það svo leitt að á meðan við í okkar rúmum kúrum liggur þú fastur í snúrum. Ég mun aldrei gleyma þér, og mun ávallt vera hér. Þú átt skilið að lifa og láta hjarta þitt tifa. En þegar þú vaknar, þá á lyfjum slaknar. Það mun glaðna hjarta mínu í að sjá þig hressan á ný. ] [ Elsku pabbi ég sakna þín ég mun aldrei gleyma þér sólin ekki hjá mér sín þú munt alltaf vera í huga mér. Elsku pabbi hví fórstu svona fljótt? Ég sef ekki rótt. Vonandi heimsækirðu mig í draumi og gætir okkar í laumi. ] [ Skólinn stundum ,,boring\" er, því ekki er hægt að leika sér. Stundum í ferðir við förum, og á fjöllin störum. Diskóin mörg við förum á, voða gaman er þá. Nammi og gos í boði er, og allir láta það eftir sér. ] [ Útlitið skiptir máli hjá flestum, nema mér. Ekki skiptir það máli hjá hestum, en það gerir það hjá þér. Persónuleikinn skiptir meira máli, ekki nema heilinn þinn sé úr káli. Það barnalegt er, að tala ekki við þann sem eigi útlitið með sér ber. ] [ Fýlupúki í bala með baunahaus og hala, ekkert skal hann fara fyrr en hanarnir gala. Fýlupúki í bala, með rauða rófu og svala skyldi hann leggjast í dvala ef hann sér smala? ] [ Fermingin nú nálgast æ, en aldrei verð ég stærri. Tímanum ég aldrei næ, og finnst ég verða smærri og smærri. 2.apríl fermist ég og kemst þá í fullorðinna tölu, enginn segir að ég smábarn sé og spáir fyrir mér með völu. ] [ Urra, bíta, klóra, slá ekkert getur stoppað, rífa, slíta, berja’á ská enginn getur kroppað Dansa, syngja, leika, sjá Allir eru glaðir, Komdu hérna og sestu mér hjá Setjist þið öll í raðir. ] [ she told her with a smile while staring at her feet. The hunger for perfection kept knocking on her back. one , two , t h r e e .... the more i loose the more i win. ] [ memories from when I was 6 years old, running around with pixie wings and singing songs that don´t excist. wishing I could go back to those days,, wishing not a single worry ] [ this is the ultimate invasion. mistaken for taken breaths . ~ e a r a s e these thoughts. & put me to sleep. dear my love. she\'s not sleeping. not] anymore ] [ immortality never seemed like a curse before lack of colours & faded hearing . . . ... . ..... . . .heavy-red atmosphere this time make it count. ] [ Snæhvít fönnin fellur Og enginn heyrist skellur, Eins og snjóhvítir englar hún svífur Og trjátoppana klífur. Sólin kemur og skín snjóinn á, Engan snjóinn má nú sjá Bráðnar snjórinn nú títt og ótt Og ekki kemur hann aftur fljótt. ] [ you leave me with no self control. . :.in the end we all figure out your circle of domination. error in a heartbeat. . ~2 gone, 3 more to go ? s h a t t e r my self esteem. ] [ Rífa, rífa, skjóta fólk allir fá að deyja, enginn lifir þetta af nema þeir sem þegja. Deyða, deyða, deyða fólk enginn getur sloppið gerum þetta með okkar (byssu)hólk skjótum við alla sem taka hoppið. ] [ Mér leiðist öfgar meira en allt en samt er ég öfgakenndur stundum. Maður kemst ekki hjá því að gera hluti sem eru öfgakenndir til dæmis að stækka bæði gos og franska á Mcdonalds ] [ Þó maður svari ekki í símann klukkann 4 að nóttu til þarf ekki að þýða að ég vilji ekki tala við þig Mátt ekki misskilja að ég svari ekki á þessum tíma dags en hef því miður ekki þann hæfileika að svara í símann eða senda sms meðan ég sef Kannski of miklar kröfur ] [ Hauslaus hæna hleypur hér um Hvað á ég að gera? Fanga, fanga, fanga fljótt? Góma hana í bala. Bala, bala, fáðu mér fljótt Svo ég nái henni Kjúklingakippi fær hún þótt Ég balann fyrir henni glenni. ] [ Ég reyndi að miðla málum En það ekki gekk. Ég var á nálum En nú ég sekk. Ég skrifaði kort En aldrei það sendi Ekkert gort Því ég mér um kenndi. ] [ Ég kem þér til hjálpar, Þegar þú þarft mest. Ég hjálpa þér, áður en þú drukknar. Ég vill ekki sjá þig þjást Eins og engill Reyni ég að glóa. Eins og fjöður, fer lítið fyrir mér. Ég geri hvað sem er. Hvað sem þú þarft. Það eina sem þú gerir, er að láta mig vita fyrir 5. ] [ Fer vel um þig? Farðu frá annars dettur þú. Hvernig bragðast þetta líf? Hvernig lifir þú af? Þegar þú getur engum treyst, nema þér sjálfum. Sumir gefast upp, Aðrir berjast. Hvort ætlar þú að gera? Berjast? Deyja... Hvað sem þú gerir, er þetta Orange. Fer vel um þig? ] [ Líf flokkstjórans er ekki alltaf dans á rósum. Það þarf að fylla á tóma bensínbrúsa, það þarf að fara upp á vélamiðstöð þrisvar á dag með útriðinn traktor, það þarf ganga í starf gæslumanns á Kleppi og það þarf að sinna ábyrgðarfullum verkum eins og að loka gámnum og velja í hvaða verslun farið verður í á kaffitíma. ] [ get ur ein hve r k enn t m ér hve rni g á að bre yta sp áss íus til lin gun ni? ] [ þ a ð e r e i t t h v a ð a ð l y k l a b o r ð i n u m í n u ] [ Slaka á hérna! Reyna að anda með nefinu hérna! Voðalegt!! Fá sér Rídalín, og skola niður með Appelsín. Ahhh... ] [ Ég sá geit, Sem var með mönnum á beit! En svo hún skeit, og ég við leit, En þá hún bara grasið beit! ] [ Lífið er eins og eldheit sígaretta \"bitter sweet\" sem brennur á augabragði ] [ Þræðir ótta vefjast um hjarta mitt Ég er að kafna, á erfitt með að anda Eins og þungur steinn sé á bringu mér Líkami minn sem lamaður, dofinn Líkaminn skelfur eins og lauf í vindi Mörg tár renna niður kinnar mínar Get ekki hætt að gráta, þó ég vilji það Örvænting grípur í sál mína, fast Held að ég sé að missa vitið Hvar ertu Jesús minn ? Einu sinni enn er líf mitt sem hrunið Mér finnst ég standa í rjúkandi rústum Lífið sem ég lagði svo mikla vinnu í Með manninum sem ég elska svo heitt En nú er hann farinn, vill mig ekki lengur Eftir sit ég og er svo hrædd við lífið Óttinn kemur, vefur sig utan um mig,fast Af hverju þarf þetta að vera svona ? Ég þarfnast þín svo Jesús ? Ég hef treyst svo mikið á þennan mann Kanski meira en þig, faðir minn En nú er hann farinn, horfinn mér frá Og litli sonur minn, gjöfin mín Það eina sem ég á eftir og Guð Ég lít inn í hjarta mitt – það er tómt Allt sem maðurinn gaf mér er horfið Tómleikinn nýstir mig inn að beini Kaldur og svartur – eins og krumla Mig langar að deyja, er svo þreytt, tóm Viltu gefa mér vonina aftur Jesús minn ? Ég þrái svo að eiga friðsælt líf Geta treyst fólkinu í kringum mig Þora að elska, vera elskuð Vera örugg í lífi mínu Viltu gefa mér þetta, Jesús ? Ég leggst í faðm þér frelsari minn Ást þín leggst yfir mig sem sæng Öryggið fyllir hjarta mitt og sál Þú stríkur um hár mér undurblítt Ég finn að þú elskar mig –skylirðislaust Án kröfu um að ég breytist Þú skilur sársauka minn og sorg Finnur til, grætur með mér Hjá þér er ég örugg og óhullt Með það veganesti geng ég út Í lífið sem bíður mín þarna úti Ég er ekki ein – Jesús er með mér Með honum get ég allt-alveg satt. Elfa 6.7.2003 ] [ Þeir segja að hún sé sterk kona Það gusti af henni öryggi og gleði Styrkur sé í skrefum hennar Líf í andlitinu og umhverfi Það er sjálfsagt rétt En skrímsli – frú höfnun býr inn í henni Þeir sjá bara yfirborðið Ekki sárið sem er fyrir innan Sem höfnun hefur valdið henni Sjá ekki afleiðingar þess Hve viðbrögðin eru lituð Af þessu skrímsli – nefnt frú höfnun Þeir sjá ekki litlu hræddu stelpuna Sem stekkur í vörn Þegar einhver bregst vitlaust við Þegar hún heldur að höfnun sé í nánd Hún verður orðhvöss og köld Brynjar sig fyrir sársaukanum Skemmir samskipti - kæfir kærleika Með skrímslinu – frú höfnun Þeir vita ekki af hverju hún er svona Hún var bara lítið barn Sem var ófært um að verja sig Þegar faðir hennar hafnaði henni Hún fór að leggja hart að sér Til að fá ást og tíma hjá honum Skrímslið – frú höfnun var gróðursett Þeir skilja ekki viðbrögð hennar Þegar þeir breyta plönum sínum Geta ekki hitt hana, hafa lítin tíma Hún fær höfnun – skrímlið vaknar Hún fer að leggja hart að sér Til að fá athygli, tíma og ást Heldur að það sé eina leiðin Til að vera ekki hafnað Skrímslið – frú höfnun - stjórnar henni Þeir vita ekki hví hún grætur svo oft Yfir hlutum sem virðast svo smáir Skrímslið er að verki – sárið opið Það þarf lítið til að það blæði á ný Skrímslið – frú höfnun - hefur völdin Þeir vita ekki að í dag breyttist hún Hún sá skrímslið vakna á ný Hvernig það byrjaði að skemma Tæta í sig samskipti ástvina hennar Hún stoppaði það – lokaði leiðinni Fór á hnén – gaf Guði Skrímslið Guð drap skrímslið hennar í dag Frú höfnun lifir ekki lengur í henni Guð gaf konunni frelsi í dag Þeir sjá það en skilja samt ekki Það skiptir ekki máli – HÚN er breytt Hún veit það og Guð veit það Það er alveg nóg - meira en nóg. 19.5. 2004 - ] [ Sárin blæða í hjarta mér Tárin streyma, ógnarhratt Jesús mig tekur í faðm sér Hann sárin græðir, alveg satt Ást hans læknar dýpstu sár Er hjarta mitt hann græða fær Tár mín breytast í gleðitár Þegar sár mín hann í burtu þvær Gleðinn streymir inn í mína sál Vonin stækkar í hjarta mér Verður sem mjög stórt bál Ég þrái Faðir að fá að þjóna þér Elfa 6.6.2005 ] [ Sársaukinn nýstir hjarta mitt Ógeð fyllir kok mitt og líkama Er svartar minningar flæða fram Um niðurlæginguna, skömmina Allt ofbeldið, þegar vonin var kramin Mig langar að kasta upp, kúgast Láta allt ógeðið með í klóið Losna við sársaukann, kvölina Sturta því niður í sjó – að eilífu Ég hef borið þennan kross í mörg ár Kross misnotkunnar hefur eitrað líf mitt Athafnir mínar, orð og hugsanir Eru lituð af þessum við viðbjóð Já þetta er ógeð, hreinasta pest Ég man ekki hve oft ég heyrði spurninguna Spurninguna sem enn nýstir hjarta mitt “ finnst þér þetta gott” ? Á meðan það verið að meiða mig Hvernig átti mér að finnast þetta gott Ég svaraði sjaldan en samt... Nýstir sektarkenndin mig djúpt Að finnast þetta gott, það fannst mér sárast Í dag er ég stunum spurð sömu spurningar Sama hvort mér finnst þetta gott eða ekki Fæ ég alltaf viðbjóð í hálsinn Mig langar að losna við hann – algjörlega Ég veit hvað ég get gert Ég gef Jesús þessa setningu Gjörðu svo vel, faðir Þú mátt fá hana, eiga hana Viltu létta henni af herðum mínum Já, vona þetta var miklu betra Takk faðir minn kær Elfa – mars 2003 ] [ Oft mig gleður að standa um stund þá stormurinn gnæðir um nætur mig draga á tálar og kalla á sinn fund ólgandi ægis dætur. Oft þegar morgnar tínist eitt tár þá himininn nóttina grætur er vindinn lægir sefast sjár og sofa ægis dætur. Oft ég vakana með vota kinn á drauminum hafði ég mætur en ég fórst í hafi og dómurinn minn er að dansa við ægis dætur. ] [ Herja Heljar stormar hart á Fryggjar börð vaka Vítis eldar visnar líf á jörð Þau öfl er götu gæta gefa enga von illum öflum mæta aldrei sigurs von Höldum öll til Heljar heimskum okkar trú berum brotaskeljar bág er veröld sú Sól í síki hverfur sekkur bjarg í sæ dunar Dauðans elfur dómum sí og æ Að lokum lifnar yfir lofgjörð hefst á ný þó aðeins Þú einn gefir þín hjartans atlot hlý ] [ Þá þegar hafði mér birzt hin fagra ásjóna hennar er hafði fjötrað mig í draumi Það var upphafið af viðskilum hjarta míns við þitt Og dómur minn var skömmin er hún sveik mig og hló ] [ Í ljóma gærdagsins blómstraði ást þín á framtíðinni og trúin á morgundaginn braut niður múra fortíðarinnar ] [ menntaveginn hleypur við fót og missir að mestu af námsefninu félagslífinu djamminu unglingsárunum því ráðherranum er í mun að koma henni á leiðarenda sem fyrst adlra fist ] [ í fréttum er þetta helst sakborningar í baugsmálinu komu til knebregg lutgrerrlff lánskjaravísitala æetteeærrr... ægrrullbgffærr grmsblgrrmmm írak eoorrrrpppgg blöhhhggggsttttrrrllll rrpereg loðnufrysting eggkkkkrrlllesbbb erreppreprio fllnlm… gnarrbnnr gaaagggjrtttt breska verkamannaflokksins aaaaahhhhæ æht hmm?? ælht élllfff… blísdghrrrmllll... hnmorrrrlkkkkk kk... zzzz... --- og þá er það veðrið á höfuðborgarsvæðinu næsta sólarhringinn …hnnnaaagggghhhh!!! ] [ 5, 4, 3, 2, 1, loksins kominn á leiðarenda. ] [ ég og þú, þú og ég, erum við saman, eða hvað ? ég er einn, en ekki þú, bíddu bara, It will happen to you. ] [ Þú ert sem raunagyðjan sjálf sviplaus og gegnsæ mött - eins og áfallið gler sem hefur slípast í harðneskju heimsins Óréttlætið hefur bundið þér Helskó dæmt þig og svívirt án forsendu eða miskunnar líkt og forðum mannkynið krist ] [ Einhver hefur deytt blómið er stóð í glugga mínum og blómstraði í átt til götunnar svo þú gætir notið þess Einhver hefur borið mér þá fregn að lífið sé á enda alheimurinn sé að lokum kominn mannssálin sjálf sé að deyja Einhver segir mér að berjast eyðileggingarmætti mannsins illsku mannkynsins sjálfri mér ] [ Ég sé þig ganga guðdómlegum ham, geyslandi svo enginn skildi trúa. Að undir gylltum álaganna rann, leyndist aðeins eitruð ormahrúga. ] [ Sendi smsið bíð eftir svar spennan eykst svarið er hvar. Staður er sagður biðinn eftir svar þráinn vex svarið er hvenar. Tíminn er gefinn tíminn er núna þráinn styrkist hvar ertu núna. Sannur maður birtist í dýrmynd maðurinn er dýr í heildarmynd. Hvað ertu að fela bakvið sms og síma alltaf mun maðurinn vera sín eigin gríma. Þrátt fyrir mikla þróun og tækninotkun er enginn lausn til að hindra frumstæða hegðun Munurinn er mikill dýrin eru grimm en maðurinn veit hann hefur fingur fimm Horfir á heiminn í gegnum sjón Fjarlægðin of mikil tilfiningin er orðin tóm. ] [ Slá inn, slá út, hreinsa, byrja upp á nýtt. ég byrja og hætti, hreinsa, þetta verður ömurleg ritgerð. byrja upp á nýtt. ] [ Prinsessa, drottning, eiginleg dís djarfari öllum úr fjöldanum rís gegnsýrð, grimmúðug, hjarta úr ís manninn skil eftir í sárum. Elska að drottna Drottinn er ég Ganga á fólki á mannlegum veg óvægin, herská, ægileg glotti yfir mannana tárum. Enga hef samúð ég ríki ein í höllu úr blóði og tilskornum stein enginn fær inngöngu, menn eru mein snúa frá hliðum með brotin bein sný hnífnum þó blæði í sárum. Prinsessa, Iðunn, álfadís Erla, Hallgerður, Freyja grimmari öllum hjarta úr ís fegurst allra meyja. ] [ Mexi-kani, mexi-öl, mexi-hvað ? mexi-bar. það má segja að þetta sé svona minn staður. ] [ Here comes the ugly one Looking sad and wearing black Those stupid fu**ing preps all laugh Because she looks so fat Trying to ignore the comments She walks, looking at the floor Since she doesn\'t say a word They shout more ugly words The jocks throw their footballs at her And the anorexic girls just laugh She\'s teased in science, she teased in P.E. She\'s even teased in math Everyday, the same routine, She runs into her room and cries She thinks that no one cares If she just curled up and died Then one day after normal teasing, She finally had enough She couldn\'t handle all their teasing And other stupid stuff At the corner of her eye She spotted a pointy blade She slashed her wrists until Her vision started to fade Suddenly, she fell Colapsing on a towel The words carved in her wrists read, Am I Pretty Now? ] [ vakna upp ómótaður eins og leir greiðfær gangur lífsins framundan eins og rauður dregill og fyrir manni liggja endalausir möguleikarnir í formi slökkviliðsstarfa, ruslamennsku, löggæslu eða ofurhetjustarfa þótt foreldrarnir sætti sig við ekkert minna en lækna, lögfræðinga, forritara eða ráðherra --- og smám saman vaknar maður aftur til lífsins en göturnar hafa þrengst til muna harðnaður leir slitin motta lesblinad OFVIRKNI athyglis brestur framundan veggir ræstingar slögtun ] [ að eftir að ég geng framhjá prófdómaranum hvít af kvíða sest niður stilli svartan píanóbekkinn og horfi loks skelfingu lostin á hvítar nótur svartar nótur mun ég gleyma hverjum tóni hverjum takti og skjálfa eins og hrísla í vindi ] [ Ef þú ert þráhyggja er ég haldin þér Ef þú ert ástin er ég fangi þinn ] [ Þú ert flóðið sem straum mínum rær það yndi sem hljóm sálar minnar þú glæðir hefur að litlu mestu glatt mig óendanlega. ] [ Það gekk upp að mér stúlka svartglitraður blær hennar byggði mig kofa þangað fer misvit mitt að sofa og þar get ég stundað speglun á því hvað innviður mitt er ófrjálst. ] [ Þegar maðurinn slammaði hnefanum í borðið og hrópaði \"hvenær fæ ég athygli?\" þá vissi ég að góðærið væri búið, og bara vika eftir ólifuð. Hvernig datt honum þetta í hug? Einu sinni enn, og heimurinn fellur um sjálfan sig. ] [ ,,Þetta var bara eins og sprenging!\" segi ég með æstum málrómi en þá segir hún bara: ,,og hvað með það, það er ekki eins og fólk hafi aldrei áður séð fæðingu\" og þetta sagði hún með svona tóni sem fólk sem nennir ekki að hlusta á aðra á það til að nota en þá saegi ég bara: ,,hei, sko þú og þínar ömurlegu skoðanir geta bara farið til fjandans!\" og þetta segi ég róleg en þó með ákveðnum þunga á fjandans. maður er nú ekki kona fyrir ekki neitt! ] [ þú heldur að við getum öll drukkið af sama glasi! veistu ekki að sumir drekka meira en aðrir? ] [ þegar mig langar mest að sitja á skýi í indjánastellingu og byggja mér loftkastala dreymin þá kippir grámyglulegur veruleikinn í mig og ég fell til jarðar dösuð ] [ Lengi má flest laga og bæta!!! Látum samt þetta okkur kæta!!! Síst skyldi seinn maður flýta sér!!! Sjáðu því aumur og fyrirgefðu mér: Til hamingju með afmælið kæra Magga mín! Mikið er nú bumba þín orðin stór og fín! Tími var líka kominn til þess að taka á því sko! Þú ert jú orðin þrjátíu og fimm það telst mér vera svo! Hvort að það fæðist Anna Kristín eða Einar júníor Mar! Skiptir ekki máli í sjálfu sér því snillingur verður þar! Ég bið að heilsa Ásgeiri þínum og nafna mínum líka! Megið þið öðlast dáðir og dug og dýrðina gæfuríka! ] [ O O ! ! sprengjur O! O! O = = hús brenna O O O O O O óp í rústunum hræðileg óp og grátur ----------- --------------- ------------------- blóð þér blæðir litla stúlka \' \' \' o o ----- - - ------ - - ----- --- -þögn- krakkar elta mig út úr rústunum burt burt ] [ sit ég hér ein og hugsa minn gang hugsa hvað hinir hafa gaman ég sit hér ein í herbergi mínu reyni að tala, reyni og reyni en ekkert gerist alltaf ég enda hér ein. til hvers að lifa, til hvers að þrá, það eina sem skeður er hryggbrot og sár, svo alltaf ég enda hér ein. svo til hvers að lifa sú ástæða er ein nein. ] [ Sá þig þú brostir það snerti mig við aftur hittumst gegnum vin svo við kysstumst komu brestir reiði og angist komu allir lestir svo þú hryngdir við sættumst og aftur kysstumst ] [ Ég veit ekki hvernig þetta ljóð lak inn látinn - loginn slökknaður og rykugur kertastjakinn eins og Davíð Oddsson stóð, þá stend ég hér nakinn í ósamstæðum sokkum og á baki skíti þakinn. Svo ekki örvænta þó þú lesir í vefdagbók - eða í eyra af dauða mínum af íslenskri tungu kunnir að heyra þetta er einhver mannvonska sem menn áfram keyra af ástarljóðum mínum, muntu áfram lesa meira Það er allt í lagi Jakob – þetta eru bara sögusagnir Því sumar sálir eru af satanískum veirum sýktar því vissulega eru sagnir af dauða mínum stórlega ýktar en skoðanir mínar á þessum einstaklingum hér mýktar en maður veit þó nú hver það er, sem af mykju lyktar En ef ég birti brot af minni heimssýn betla þeir myndu að setja heilan í formalín ljóð dagsins 10.mars - Jakob það er til þín megi Guð og galdrar nú færa þér öll ljóðin mín En þó krakkaskarinn þig umkringi - syngi ófagrar sögur af þínum eiginn typpalingi eða þó barnaleg teiknimyndavera í þig hringi og segi að ég sé hjá öðrum og sjúgi og kyngi Það er allt í lagi Jakob – þetta eru bara sögusagnir Jakob, maður hlýtur að spyrja eins og Gunnar Dal: ,,Í hvað munu mennirnir breyta manninum?” Þinn einlægur ] [ Við hlaupum áfram Jakob því við erum guðir jarðarinnar sem berjumst um auðinn, sem berjumst um valdið og orðurnar, og við hlaupum endalaust áfram, og enginn veit lengur til hvers -nema við tveir minn kæri Meistari Jakob ] [ þegar mannkynið gengur á bak orða sinna í villiljósum næturinnar þá kemur sér vel að það eina sem ég hef nokkurn tímann sagt um nótt er nafn þitt og ég geng á bak og skeiða á þér inn í morguninn ] [ Pínulítið og veikt barn fæðist til mín Sonur minn, smár og veikur Slöngur, tæki og súrefni í kassa hans Barnið grætur sárt, móðir grætur lágt Hvernig fer þetta ? Hvernig líf verður þetta ? Sonur minn er duglegur Duglegur og fallegur lítill angi Ég get ekki haldið á honum Ég get ekki passað hann Ég get ekki gengið með hann um gólf Hann grætur þegar hann er stunginn Hann grætur þegar hann er snertur Hann grætur því hann skilur ekki Skilur ekki afhveju mamma tekur hann ekki Loksins kemur anginn heim til mín Fallegu brúnu afa augun hans Horfa á mig og brosa Hann sefur í fangi mínu loksins Hann sefur í rúmi mínu loksins Heldur í hendi mína Móður ástin fangar okkur tvö Ég elska þig litla hetjan mín 10.marz 2006 ] [ Mamma, ég geng minn eigin veg geng minn eigin ve - e - eg hvort sem saga mín verður treg eða hreint yndisleg þú verður að leyfa mér að ganga minn eigin veg Mamma, ég geng minn eigin stíg ég geng minn eiginn st - í - íg hvort sem í kviksyndi eða gíg ég stíg, ei því ég lýg að þú verður að leyfa mér að ganga þennan stíg Mamma, ég geng mína eigin leið ég geng mína eigin lei - ei - eið þó að til sé önnur gata bein og breið ég geng þessa ekki af neinni neyð ég verð að fá að marka mína eigin leið Leyni, Leyni, Leyni Leið Leyni, Leyni, Leyni Lei - ei - eið því ég einu sinni kveið er með skottið á milli lappana út skreið að þurfa að ganga lífs míns eigin leynileið Leyni, Leyni, Leyni Leið ekkert nema leyni, leyni le - e - eið ég sór þess Fram hjartans eið að vinna bikar áður en úti er æviskeið og í þriðja skiptið hún mun hjálpa þessi leyni leið Leyni, Leyni, Leyni Leið ekkert nema leyni, leyni le - e - eið ég eftir ást minni beið og nú er gatan mín greið og allir ganga núna mína leynileið ] [ Þegar ég vakna þá vakna ég við ilm þinn Þegar ég vakna þá vakna ég við snertingu þína Þegar þú vaknar þá vaknar þú við þetta Þegar þú vaknar þá langar þig til að sofna aftur Hver getur ásakað þig ] [ Hvað er ég án þín annað en maður sem þráir allt en á ekkert skilið, hvað ert þú án mín. þú ert allt og getur allt en það eina sem stoppar þig er ég. ] [ Hvísla ég kveðjuóm í húmi nætur og döggvað ljómar, mitt draumablóm er ég sofna en þú ferð á fætur Ó, kæri Jakob megi í Róm dafna og lifa vel þínar fögru hjartarætur. ] [ Ég kroppa úr augunum gulgrænar stýrurnar og sting þeim uppí mig hugsunarlaust salt bragð vekur upp hungur þarf að næra mig betur Kroppa í miðnesið ómeðvitað finn að eitthvað hefur farið fram hjá mér harðnaður köggull vekur upp hungur þarf að næra mig betur Líkþorn og harðnað skinn sem hringar sig um táneglurnar plagar mig með sprungum plokka í og vekur upp hungur ég þarf að næra mig betur ] [ Of lengi hafa íslensk stjórnvöld haldið þegnum sínum í gíslingu óttans. Ég klæði mig upp sem múslima og sest á bekk fyrir framan Stjórnarráðið - búinn að líma mynd af Ayman al-Zawahiri á svörtu skjalatöskuna mína. Glotti er ég hugsa ,,auga fyrir auga og tönn fyrir tönn\" ] [ Úr svefnrofa vakna, sé þig mér hjá kúldra þig alveg upp við mig opnaðu munninn, má ég sjá skeit einhver fullorðinn uppí þig? Svíður í augun, mig fer að svima reyni þó áfram að dotta leita að handklæði, útum allt skima dó uppí þér gömul rotta Æli og æli, er þetta í lagi er eðlilegt að vera svona leita að súrefni, held ekki þvagi djöfult að vera kona Hvað sem að veldur, eitthvað er að elskan klemmdu varirnar saman Og þurfi ég að velja, vel ég það nú þitt rassagas hljómar gaman ] [ Of lengi hafa stjórnvöld blekkt almenning og alið á fáfræði og ótta. Flestir eru búnir að kasta hvíta handklæðinu inn í hringinn en ég kasta hvítu eitruðu brauði á tjörnina... ... og beini krepptum hnefa mínum í átt að Alþingi og segi ,,auga fyrir auga og tönn fyrir tönn\" ] [ Lítið hjarta hamast í kviði mínum Berst fyrir lífi sínu Líkami móður er í baráttu Baráttu við að halda litla anganum Lítill kroppur er duglegur og hamast um nætur Móðir brosir þreytt, getur ekki sofið En þetta táknar að lífið er enn til staðar Sonur minn lifir 10.marz.2006 ] [ Við flögruðum sífellt um, ljóðin mín og ég, í átt að ljósi sköpunarkraftsins. Þegar þú komst varð birtan svo mikið að við frusum agndofa og gátum okkur hvergi hreyft. En núna þegar við erum loksins farin að venjast birtunni, sjá í kringum okkur og ná áttum byrjum við aftur að flögra, sterkari en nokkru sinni, í áttina að þér. ] [ Ljóðin mín eru ekki fullkomin frekar en ég. En ég vona að einhvern tíma muni einhver lesa ljóðin mín eins og þú lest mig. ] [ Aðdragandinn virtist langur enda mikilvægt að fanga rétta augnablikið. Fingur sveif hægt niður að takkanum. Smellur! Blindandi flass sem aldrei virtist taka enda. Framkölluð á stundinni og hengd upp á vegg. Þar stendur hún ennþá jafn skýr og daginn sem hún var tekin. ] [ Svo hárreist grænt og fagurt reis upp úr moldinni. Þetta fullkomna tré. Fagurgræn laufblöðin mynduðu fullkominn hring á toppnum. Stöðugur stofninn eins og staðfastur hermaður, á leið í bardaga. Ósýnilegar ræturnar breiðar og langar í brúnni mold. Ekkert gat dregið úr mikilfengleika hjá svo fullkomnu tré. Svo einn dag tókst eftir því að laufunum hélt uppi annar mjór stofn. Hann stakkst úr moldinni falinn á bakvið þann breiða og bardagalega. Í dagsbirtunni kom það svo greinilega í ljós. Að þetta fullkomna tré var ekki fullkomið. ] [ Þó faðmlag þitt ylli dauða mínum vildi ég frekar deyja í örmum þínum en að fá aldrei að snerta þig. ] [ Fróðir segja, því er fjarri sanni að fagurt útlit ei hjálpi manni sérhver fræðimaður nú það kanni svo ei í mó þið maldið fegurð er dyggð, sama hvað þið haldið þó fegurðarsamkeppnir fari í ykkur fáklæddar dísir og tvíhöfði þykkur ,,hverjum keppenda er gerður grikkur” gjammið uns dregið frá er tjaldið frygð er dyggð, sama hverju þið fram haldið heilbrigð sál í hraustum líkama um hið seinna virðist öllum drullusama klár kona sækir um og dýrleg dama vinnuveitandinn hefur valdið fegurð er dyggð sama hvað þið haldið nöldra menn yfir þjóðfélagsnormi yfirborðskennd hafi komið með frjálshyggjustormi náttúrulausir enda í engu formi ná ei að losa brjóstahaldið frygð er dyggð, sama hvað þið haldið þó vel sért greind og gæsku hlaðin sé glötuð fegurðin kemur ekkert í staðinn því svarar djöfullinn og ég sjálfur Daðinn þrátt fyrir allt skvaldrið fegurð er dyggð, sama hvað þið haldið sóltanaður tarfur og sleiktur hnakki í hórusamkeppni held þig hakki þú lítur út eins og ófermdur krakki tími til kominn að þú fræðist fegurð er dyggð, sama hverju þú klæðist þó hygginn sért og hæglundaður hafðu ráð mín kristinn maður hér er valtur heimsins staður hinn fær gott er hæðist frygð er dyggð, hvaða kufli sem þú klæðist glötuð skáld kalla frygð grunnhyggni giska geta ei á, hvers vegna á þau rigni er bestur til dóma sá útmigni að meta þjóðfélagið frygð er dyggð, sama hvaða ályktun þið dragið Ráð það gef þér að lækka rosta rauðvínið spara og fína osta það mun teljast til mannkosta að vera gæddur losta frygð er dyggð, já allra best kosta frygð er dyggð, mest mannkosta frygð er dyggð, minnst mann kostar frygð er dyggð, ég held við það tryggð. ] [ Lítil ljóshærð stelpa Leitar að hönd pabba Vantar styrk og hlýju En pabbi er farinn Ekki úr hjartanu, ekki úr minningunni Eingöngu úr þessu jarðneska lífi Í dag var hún kölluð morðingi Í dag var hún beygð En ekki brotin Í hjartanu heyrði hún pabba segja Ég er stoltur, ég elska, ég sakna Ekki láta orðin meiða þú veist betur Við vitum bæði betur stelpa mín En pabbi ég er reið,ég er sár Afhverju meiðir fólk syrgjandi stelpu? Afhverju getum við ekki minnst þín saman? Afhverju er fallegt fólk með grimma ljóta sál? Ekki spyrja svona stelpa mín Ég elska, ég sakna, ég er stoltur Horfðu fallega á grimmt Horfðu fallega á lífið og njóttu Minnstu mín með gleði og hlýju Mundu eftir því sem ég sagði Mundu eftir því sem ég gerði Mundu eftir okkur mömmu Og vertu sár stelpa mín Glerhús brotna þega í þau er kastað steinum Sannleikurinn er sagna bestur Stelpan mín 10.mars.2006 ] [ Eftir kvalir og þrautir Var hluti af mér tekinn Sár og aum lá ég og grét Engin gat gefið mér von Þar til hún kom Hún settist á rúmið hjá mér Sefaði grátur og þerraði tár Gaf mér von og sagði Þú reynir bara aftur En hvað ef það klikkar hvíslaði ég Þá er lífið þannig Og þú lifir með því Rós áttu þegar, gefðu henni allt Allt sem þú átt Ég finn að sál mín sefast Og ég sofna í fangi hennar 13.marz 2006 ] [ Skrýtið að heimurinn stoppi ekki Ég vil að allt stöðvist Veit fólk ekki að dauðinn kom Ég vil að fólk stoppi allt og syrgi Syrgi fallna samborgara og vini En tíminn heldur áfram Lífið heldur áfram Þó svo að ég vilji það ekki 10.marz 2006 ] [ Föstudagsmorgun, fallegt veður Fuglar sungu, bílar keyrðu Hvernig getur verið að allt sé eðlilegt úti Við sem sitjum hér með sorg í hjarta Höldum í hönd þína Pabbi vinstri ég hægri Við horfum á andadrátt þinn hverfa Við horfumst í augu, sorgmædd Ég hvísla í eyra þitt Þetta verður allt í lagi gullið mitt Þú mátt sleppa, og þú sleppir Örvæntingin grípur mig, hvað á ég að gera Hvernig á ég að geta þetta, ég sleppti þér Afhverju gerði ég það Ég hleyp út, sest í sólskinið Græt og geng um borgina Kem aftur til að kveðja líkama þinn Og finna hlýju fjölskyldunnar Í síðasta skipið Ég er vængbrotinn fugl Ég get ekki hugsað skýrt Ég geri mistök og aftur mistök Ég bara get ekki hugsað skýrt Kollurinn móttækilegur fyrir móðurást Telur sig finna hana en sú ást brennir mig Ég leita að föðurást en faðir er brotinn eins og ég Hann hugsar ekki skýrt heldur Við flögrum hring eftir hring Komumst ekki áfram eða úr heiftinni En allt í einu kemur fregnin Anskotans krabbinn kominn í föður Sameinuð stöndum við saman á ný Ekkert getur breytt því sem gerst hefur En við getum breytt því sem mun gerast Faðir og dóttir saman á ný Ég brosi, vængbrot okkar hefur læknast Við höldum áfram, höldum áfram með góðu hjarta Sameinuð stöndum við aftur á ný 10.marz 2006 ] [ Ég sit við nafnið þitt Það er kalt Það er dimmt Það er hljótt Stundum finnst mér Eins og ég sé þannig Afhverju stendur nafnið þitt þarna? Afhverju stendur þú ekki hjá mér? Ég lít til himins Sé tindrandi stjörnur Og norðurljós dansa Þau þeysast um allt Þau dansa fyrir mig Mér hlýnar og ég brosi Því ég veit að þú ert mér hjá 15.marz 2006 ] [ Hjarta mitt brennur Það brennur af sorg Sorg yfir horfnum ástvinum Hjarta mitt blæðir Það blæðir af depurð Depurð yfir einmannaleika Hjarta mitt er mannlegt Ég er mannleg En vonda sálin er það ekki Vonda sálin vill særa mig Hjarta mitt hefur verið sterkt Og það mun vera sterkt Þar til það hittir vondu sálina Á verður hjarta mitt aumt En sál mín ekki Glerhúsið brotnar hjá vondu sálinni Vonda sálin er grimm Því hún gat ekki elskað á sjúkrabeði Heldur sat heima og beið Hún ætlaði að vinna baráttu en tapaði Hún tapaði virðingu og æru Hún tapaði kærleik Hún tapaði föður Hún tapaði fyrir mér 10.marz 2006 ] [ Þú misstir þinn son yfir móðuna miklu Sál þín var brotin í 19.löng ár Þú talaðir um hann og sagðir mér sögur Sögur um ást hans á börnunum tveim Þú sagðir mér sögu um fund okkar þriggja Er hann hélt á mér lyftunni frá Ég strauk hans blíða vanga og leit í hans bláu Skríkti og hló og skemmti mér vel Er það tók að kvölda ég sofnaði blítt Hrökk upp með andfælum kallaði títt Og pabbi kom hlaupandi róaði mig Það var unun að heyra þig segja mér sögur Sögur af manni sem hvarf mér of fljótt Oft sá ég tár renna af kinnum Af söknuð og sorg Í hjarta og sál En kvöld eitt júní þú ákvaðst að nú Væri tíminn að hittann á ný Þú hélst því af stað að hitta þinn áskæra son Ég sakna ykkar beggja Og afa míns líka Ég veit líka að einn bjartan dag Við hittumst öll aftur á ný 15.marz 2006 ] [ Ég sé snjóinn falla Ég sé fugla hoppa Ég sé hunda hlaupa Og börn leika Ég fylgist með Dreg andann djúpt Og finn að ég er til 15.mars 2006 ] [ Á langþráðri stundu hann ákvað að fara og hitta hana á ný Hann beið þess svo lengi og hlakkaði til Að faðmana aftur á ný Mörg leiðindi spunnust er kvöddu þau heim Heiminn sem við búum í Ást þeirra fékk ekki virðingu lengur Því fengu þau ekki sinn draum Að hvíla hér saman var ekki þeim gefið Því það var víst gengið frá því Að hann skildi aldrei hvíla hér henni við hlið Sem betur fer veit ég Á himnum þau hittust Þau ganga og leiðast um allt Er kvöld hjá þeim kemur Þau skríða í holu Og hvílast þar saman á ný 16.marz 2006 ] [ Tóm orð sem lýsa aldrei hryllingnum reyni að loka augunum þar til það er afstaðið fjórir grímuklæddir menn þylja yfirlýsingu ég skil ekki mál þeirra en veit hvað er í vændum þó ég viti hvað muni gerast og hefur þegar gerst bið ég þess innra af öllum mætti að það gerist ekki við vorum vöruð við samt er maður aldrei viðbúinn miðaldra vesturlandabúi, skjálfandi af hræðslu bundnar hendur og fyrir augu mér finnst ég kominn í hans stað skelfingin ólýsanleg ég píri augun sé sax dregið klemmi augun en heyri gegn um myrkrið hægt, eins og sög hryllingsópið nístir mig nei, tóm orð sem lýsa aldrei hryllingnum hvenær lýkur því? það heldur áfram og áfram eins og því sé ekki ætlað að ljúka loks þagnar hljóðið ég opna agun glittir í höfuð píri nötrandi augun, bíð aðeins lengur hönd með blóðugt höfuð mannsins sem var á lífi í máttvana skelfingu fyrir örskoti síðan fyrir augum manns stirnað í angistarópi Fyrir hvað? Frelsi? Sjálfstæði? Lýðræði? Og þið spyrjið hvers vegna ég hati stríð? Hvað ég hafi á móti hernámi? Myndirnar renna áfram, menn, konur og börn hver mynd annari hrottalegri eins og maður sé ristur á hol aftur og aftur og aftur nei, þetta málverk get ég ekki málað enda væri það eflaust bannað sendiboðinn skotinn, enn ein myndin er þetta bara mynd, nafn, tölustafir, sem mást burt með morgunkaffinu? Dagur eftir þennan dag Ný gleði, ný sorg myndir sem hreyfast og líða áfram en þeim er ekki lokið þessar myndir lifa, þó þær séu af ríki dauðans og fólkið lifir líka, sem eftir er, svipt ástvinum, örkumlað allt lifir í ykkur, lifir í mér, með okkur öllum sem sjá, opnum við augun þið gleymist ekki og hver veit kannski getum við tekið nýjar myndir ef við fáum nýtt myndefni og hið gamla hverfur á braut að eilífu Fátækleg orð mín til minningar um ykkur Hvíl í friði ] [ Á hverjum degi við spásserum ráfandi um flatir víðáttunnar Oft ein stök en stundum saman Á hverri nóttu við reikum um siglandi á bárum draumalandsins Sjaldan ein en aldrei tvö ] [ nægir nógur tími þér sem bíður sífellt betri tíma gufaði stundin þín upp og staðurinn hvarf hann - í núinu ? hvar ertu hvert ferðu héðan ? ] [ Mold hví ertu hér svo undurblíð Ó, mold ] [ Við slógum í slagabrýnu í kvöld, er sóttu mig hér þrír garpar heim. Ekki var þó mikil viskan við völd enda vandrötuð leið í hvert geim. En gleðin ríkti og gáskinn í bland og gerði spilagjöfin því ekkert til. Kaffið var líka kröftugra en hland en við kunnum vel að gera því skil. Eftir langa setu þeir bárust á braut. Býsna hafði kvöldstund liðið skjótt. Vinninginn þarna ég vissulega hlaut en vissara er að mæla um það hljótt. ] [ alone so alone nobody needs me nobody seeks me feel like i´m falling apart feel like i´m dying inside can you help me can you give me your hand oh lord i call out your name don´t know how to pray i´m dying inside need you by my side deep in my heart i don´t know how to open the door again ] [ Þú ert grunnhygginn og grannvitur En góður á krossaprófum að giska Holdi klæddur kom ég heiminn í Hr. Daði hin eina sanna hreina viska Þú ert offitusjúklingur hrikalegur Hnausþykkan sjeik sérð í hyllingu Holdi klædd dyggð í heiminn kom Hr. Daði, Meistari í hófstillingu Tvo hæðna höfuðlausa ræfla og Hugleysingja ég því miður þekki Holdi klæddur kom ég heiminn í Hr. Daði þekktur fyrir hugrekki Rangt við hefur, ruddalegur ertu Ranglætið víst ríkir það víða Holdi klæddur hérna ég stend Hr. Daði og réttlæti heimsins smíða Vangefin ertu og á allt vantrúaður Varla í þér nokkur heil brú Holdi klæddur, hjarta hreinn stend ég Hr.Daði og boða mína sönnu trú Í villu þinni veður um vonlaus, vantrúaður á hinn eina Guðsson Holdi klæddur stend ég Hr. Daði Í myrkrinu með ljóstýru og boða von Kærleikssnauður og kaldur ert orðinn Kristlausan sé þig um göturnar reika Holdi klæddur stend ég Hr. Daði Talsmaður hins eina sanna kærleika Já, Hr.Daði holdi klæddur, vopnaður kærleika Laus við allt heimsins böl og alla jarðaberjasjeika ] [ Þú hamast við að lofa Hrafnaþing Hrækir orðunum ófleygum út úr þér Hatur á því sem er ei heimsveldinu hliðhollt Þitt stolt var ávallt þessi fjandans her Þinn heimur er svart/hvítur, kalt þitt heimsmyndarlitróf Þú minnir mig mest á Bush, þann heimsins mesta súrefnisþjóf Þú grést þennan góða og glaða daga Er gekk herinn burtu loks Gramur sast, nær hamramur heima en heldur áfram að horfa á Fox Þitt er skítlegt eðlið, er Satan af götu sinni upp skóf Þú minnir mig mest af öllu á heimsins mesta súrefnisþjóf Þú trúir á stríð til að koma á frið að tilgangurinn helgi meðalið ,,taste your own fucking medicine” Í þetta eina skipti það ég styð Ég er með eiturbrúsann minn við vefinn, þú ert kóngulóin sem hann óf Þú ert aðskotahlutur sem minnir mig mest á heimsins mesta súerfnisþjóf Og ég ætla að standa hér örlítið lengur, óþarfi að hlaupa til fóta og handa Ég held að þú sért svo heimskur að þú gleymir bráðlega hvernig á að anda. ] [ Ég er klársins klárasti kúreka –Daði fer með þig á dalsins dimmustu staði við sólsetur þú getur séð mig á vaði nakinn og japplandi á reyktu taði Ég er Daði, Daði, kúreka – Daði Vaðsvaðataðsúkkulaða kúreka Daði Kvað við á Viðarsstað – kúreka Dað...i ,,Ég er Daði, Daði, kúreka – Daði” Ekki reyna að koma með rassmalagest Ef þú ferðast í villtra vestrið með hægfara lest Ég ræni hana og tek af ykkur allra mest Kúreka Daði – tekur allt nema ólæknandi pest Ég er Daði, Daði, kúreka – Daði Hraðklósettblaðabrúnbaða kúreka Daði Kvað við á Viðarsstað – kúreka Dað...i ,,Ég er Daði, Daði, kúreka Daði” Ég gríp byssuna mína hraðar en skugginn Ég gríp byssuna mína hraðar en hljóðið Og ég greip hana og skaut Guð almátugann Áður en hann gat sent á okkur Nóa flóðið Ég er Daði, Daði, kúreka – Daði Staraásmaragðaálagða kúreka Daða Við rak á RekaVið-arstaði – kúreka Dað...i Kvað við með aumri kvennmannsröddu ,,Mér finnst góður jarðaberjasjeik” ] [ Heiða, Heiða - þú hitar upp í mér blóðið Heiða, Heiða – þú hitar upp í mér blóðið Það var lagið, það var lóðið Hérna kemur sjálft stóðið Því Heiða, Heiða þú hitar upp í mér blóðið Heiða, Heiða – þeir hlýja mér þessir kossar Heiða, Heiða – þeir hlýja mér þessir kossar Og rómantík þá hún blossar Og frygðarvökvinn líka fossar Því þeir hlýja Heiða, Heiða þessir kossar Heiða, Heiða – aldrei ástarljóðum mínum eyða Heiða, Heiða – aldrei ástarljóðum mínum eyða Það að innan myndi mig deyða Og úr munnvikum myndi þá freyða Svo ei þeim máttu eyða - mín kæra Heiða, Heiða Heiða, Heiða – er þú sefur, yfir fegurð þinni græt Heiða, Heiða – er þú sefur, yfir fegurð þinni græt Því þú ert svo ógeðslega sæt Og sama hvað ég útúr rassgatinu læt Heiða, Heiða – þú ert svo fögur að ég græt Heiða, Heiða – hvert mitt tár, fullt af himneskri ást Heiða, Heiða – hvert mitt tár, fullt af himneskri ást Og ég veit hún mun aldrei af mást Hvernig sem ég mun þurfa að þjást Svo tært er mitt tár Heiða, Heiða til þin, mín ást Heiða, Heiða – þeir glóa þínir fögru lokkar Heiða, Heiða – þeir glóa þínir fögru lokkar Og ég man en eftir fyrstu kynnum okkar og sama hvernig spilin þú stokkar við endum saman, það gera okkar – fögru lokkar Heiða, Heiða - veröldin án þín væri tóm Heiða, Heiða – veröldin án þín væri tóm Þú minnir á sólsetur í Róm Og engla himinsins óm Já, án þín Heiða væri veröldin mín tóm Heiða, Heiða – þú ert ástæðan fyrir að ég vakna Heiða, Heiða – þú ert ástæðan fyrir að ég vakna Er þú ferð í vinnuna ég þín sakna Og upp úr deginum eins og sokkabuxum fer að rakna Uns ég sé þig, svo þig dreymi og vegna þín ég aftur vakna Heiða, Heiða – þú ert grafin í mitt minni Heiða, Heiða – þú ert grafin í mitt minni þó ég Jakobi kynferðislega sinni og sé jafn samkynhneigður og Tinni Heiða, Heiða – ást mín á þér er grafin í mitt minni Þinn einlægur Daði ] [ Hver hefur sinn djöful að draga mínir eru nú nokkrir en allt á að vera hægt að laga nema þá sem eru brotnir Æðruleysi vildi helst af öllu öðlast ekki láta neinn kippa mér niður en sumir halda alltaf áfram að djöflast sama hve oft maður biður Það er eitt í þessum heimi sem ég treystiá það er að elska hann Leó Má því ekkert annað ég á nema fallega sál sem ég fæ ekki alltaf að vera hjá ] [ Þú horfir á mig þessum ótrúlega fögru augum sem breyttu mér algjörlega þegar við kysstumst fyrst í miðnætursólinni við vatnið fyrir einhverju síðan og ég veit ekki hvort ég á að túlka það sem ást eða hvort þér finnist ég einfaldlega skrýtinn. Umræðuefnið er ekkert frekar en undanfarið því það er eins og neistinn á milli okkar hafi slokknað eða var hann nokkurntímann til? Ég myndi kasta mér út í hafsauga fyrir þig, eins og litlum steini sem lendir í ölduganginum án þess að nokkur taki eftir því utan þeirrar eilífu lífveru sem hafið er svo oft sagt vera, og ég myndi sökkva niður á botninn og drukkna fyrir þig, hætta að anda og gleyma öllu sem við áttum bara aðeins ef þú bara myndir biðja mig um það. Ég vildi óska þess að þú hættir að láta mig lifa í óvissunni án þess að þú sért nokkuð að því ég túlka þetta mögulega aðeins sem eitthvað frá þér en ég er nokkuð viss um að þetta sé aðeins tilbúningur í mínum ástsjúka hugarheimi þú brennir mig að innan þú kveikir í hverri frumu þú brennir þig í gegnum húðina eins og baneitruð ástarsýra og bræðir líffærin sem þjóna engum tilgangi ef ég hef þig ekki til að veita þeim næringu því eins og allt líf þá þurfa líffærin mín líka einhverja jákvæða orku og sú orka er falin í orðum augnaráðum snertingum og minningum um koss í miðnætursól. ] [ Alltaf á ferðinni maður minn alltaf á ferðinni drengur minn með nýju konuna í bílnum 22ára úkraínska snót spengi og tilkippilega geirvörturnar stífar með breiðan hring sem þrá vökvun klukkutíma sprett á dag og stjarnan á húddinu vísar veginn á vit villtustu ævintýra stjörnuþokunnar þú þarft sólgleraugu og súrefnistank til að ná okkur á englarykstráðri vetrarbrautinni maður klikkar nú ekki á því drengur minn að lokum... ertu ekki að koma? ] [ Ein í hugans garði, þögn og nóttin dimm. Læðist að mér óttinn er legst mér þétt að kinn. Því nú er tími til að kveðja sálarinnar ólgu sjó. Bið ég Guð minn kæran að seðja og gefa mér frið og ró. Í huga mér sveima andar, því geri ég ekki skil, hvernig far horfinnar handar drepur mig hér um bil. Því reika ég ekki lengur ein í djúpi sálar minnar, skelfur höndin, skinn og bein af snertingu handar þinnar. ] [ stundum er eins og heimurinn hrynji og allir með ætli það verðir þannig þegar ég kveð? það held ég ekki því heimurinn eins og ég þekki heldur áfram sama hvað sama hvað er að þó að mamma, pabbi, ég eða annar liggjum í valnum og í kring eru hrægammar þó heldur heimurinn áfram sínum vanagangi þótt hann langi að hrynja með...... ] [ þessi brúnu augu þín þvílíka fegurð þau hafa að geyma ég mun alltaf vera mamma þín því skaltu aldrei gleyma þú horfir á mig horfa á þig með ástúð í hjarta því þú átt framtíð bjarta elsku vinur kroppur knús þú ert sko minn sæti krús ] [ Sjá, allur þessi tími Ég veit varla hvað gera skal Ef ég bara sit og húmi Þá verð ég alveg gal ég kíki út á lífið þar er margt að sjá kem svo heim í rúmið þar hvíld ég vil fá Svo vakna ég aftur þá Þann næsta dag Ég lít til hliðar að gá En það er enginn þar ] [ angurvær og angistarfull róta ég til í höfðinu æði um sálina í orðaleit en finn engin þess verðug að lýsa því hvernig mér líður ] [ þegar ég í baksýnisspegil leit sá ég étna fortíð blasa við ég sat við skjá með sterkar tilfinningar á stjá ég hamingjuna vildi af ásettu ráði og á spamadur.is alltaf svo gáði ég fékk það sem ég vildi en ekkert ég skildi afhverju hamingjan þeyttist í graut og hvarf svo hálf á braut svo eftir árunum þegar græddi úr sárunum þá sá ég gaur í rauðu klæddur og vissi ég rétt svo hvenær hann var fæddur svo þegar dagar liðu datt eg djúpt í skriðu á msn skjótt við töluðum og smám saman ást við möluðum Fyrsta kvöldið okkar saman einum þá skalf ég svo mikið á beinum og hann mig alla svo blítt strauk að ég bráðnaði í marmelaðimauk um mig alla fór hrollur góður drengurinn í rauðu svo sætur og rjóður kyssti mig kossi löngum og rjóð ég varð á mínum vöngum Nú er hann minn þessi rauði drengur og mun hann meira vera lengur og þótt mikið hann hrjóti þá gæti eg sofið með honum á grjóti því þessi elska sem situr með mér í bílnum er það besta sem hefur gerst fyrir mig. ] [ Ljóðabækur. Í byrjun árs 1992 gaf ég út tólf síðna bleðill sem ég nefndi Drengurinn. Innihélt hann stökur, stuttar lygasögur og rímur sem voru samdar til að vera rapptextar. Um 1984 heyrði ég rapptónlist í fyrsta skipti og hef alla tíð síðan haft gaman af þeirri tónlist og samdi um tíma mikið af rapptextum sem eru flestir því miður glataðir, nema nokkur brot sem sitja enn í hausnum á mér. (þeir klúrustuJ) Það sem í bókinni birtist samdi ég líklega á árunum 1982-1991 Hér eru nokkur brot úr bókinni: Drengurinn. Duglegur er drengurinn, að dunda sér við lygina. Og þegar þú ert sest(ur) inn, þá kíkja skaltu í bókina. Því að þar er margt að finna, ef vel þar að er gáð, sem ég vísvitandi var að spinna, vitleysu og kannski háð. Varast þú þá öllu að trúa, að trausti þínu ég ávallt vinn. Veistu, það er list að ljúga, að ljúga, það kann drengurinn. Hótel Jötnagil er réttarskúr í Flekkudalsrétt í dölum. Þar hangir þessi vísa uppi. Þó vindar blási og berjist um, svo braki í hverju þili. Þá hlýna mun hér smölunum, á hótel Jötnagili. Rímnasaga. Þú angar eins og vorið, sem færir mér frið í sálu minni. Og um mig fer unaður, sem gerir mig að gjöf þinni. Og ég veit að þú þiggur og nýtur góðs. Þú átt mig nú frá holdi til blóðs. Undir sama þaki við munum, elskast þú og ég. Og brátt við munum eignast börn og búið mun þá stækka. Hlýjustraumunum milli mín og þín, mun þá fara að fækka. Og á endanum við eldumst og verðum eftir tvö, þú ólst mér átta börn, en lifðu bara sjö. Eitt er farið á feðranna vit, og fel ég því nú Guði. Og nú erum við dáin ég og þú, bæði í hárri elli. En börnin syngja Jhonny be good, og fleiri ellismelli. Í gröfinni við liggjum hlið við hlið, og snúum í austur og vestur. Misskilningur varð með brennsluna svo það gróf okkur ónefndur prestur. Undir sömu torfu við munum, elskast þú og ég. Prinsessan. Þetta gerðist fyrir nokkuð hundruð árum, en þá var ég riddari sem lá í sárum, þá kom forljóta nornin Ósk, og skipti engum togum, hún breytti mér í frosk. Ég varð grænn og ógeðslegur, en norninni fannst ég bara myndarlegur, ég óskaði þess að prinsessan kæmi, og breytti mér eins og manni sæmdi. Allt í einu var ég orðinn hrjúfur og grænn, feitur og vænn, froskur. Það sem ég vonaði að prinsessan fín, kæmi til mín, breytti mér, svo núna ég syng: Ó kysstu mig prinsessa, ó kysstu mig prinsessa, kvak, kvak, kvak, kvak, kvak, kvak. Og loksins kom prinsessan, og það var nú meiri hlussan, ég ætlaði að fara að kyssa þig, en þá steigstu ofan á mig. Á veginum var græn klessa, og farin var prinsessa, þá vaknaði ég í rúminu heima, sem betur fer, mig var að dreyma. Samið eftir fyrstu nóttina eftir að ég fluttist til Neskaupstaðar. Samviskan mig nagar, ef hugsa ég heim, og ég heyri raddir sem lát mig ei vera. Þær virðast hátt hljóma um víðan geim, og bergmálið segir: Hvað varstu að gera? Hefurðu nú fælt þína foreldra burt? Hvað hefurðu fært þeim til kvaðar? Jú, að flytja og þið farið svo hvurt? Fórnandi vinum, til Neskaupstaðar. Seinni bókin kom út árið 1994 og var heilar 57 síður, enda datt ég í einhvern ham á árunum 1991-1994. Í henni voru ljóð, vísur og textar. Bókin bar nafnið: Ég fer mínar eigin leiðir og hér eru nokkur brot úr henni. Sannleikskorn. Engan boðskap get ég borið, bara farið með sannindi. Eftir vetri kemur vorið, með vætutíð og hlýindi. Sjonni fullur. Ekki var nú sjón að sjá, Sjonna vera fullan. Hann uppí fleti flatur lá, og flæddi úr honum drullan. Always ultra. Farðu bara að sofa, elsku nafni minn, enginn fær né getur, komist þarna inn. Skiljanlegt þó þykir, að nafni minn sé bitur, því dömubindi með vængjum, fyrir honum situr. Blautir draumar. Í mér kynorkan bullar og kraumar, karlinn er harðari en smér. Dásamlegir blautir draumar, dansa undir mér. Hamingjan. Ég fæ ei skilið hvað fékk mig til, forðum daga, ég man það enn. Að halda svona hér um bil, að hamingju ég myndi öðlast senn. Hamingjan finnst á hverkyns hátt, hvernig ei þarf að leyna. Ég hef leitað að réttri átt, en aldrei fundið neina. Leitin að hinni sönnu ást. Af lífsins hvöt og löngun, leitaði ég þín. Og fannst ég hafa fundið, ást við fyrstu sýn. Þú heillaðir mitt hjarta, ég heitur var af þrá. Svo fönguleg í fjarska, og falleg að sjá. Ég sveif í lausu lofti, laus við heimsins böl. En veðurdag einn vondan, varð ég fyrir kvöl. Af lífsins hvöt og löngun, leitaði ég þín. En þú vildi ekki verða, verða bara mín. Sveitin mín. Fellsströndin er fögur, fámenn en hlý. Þar segja menn sögur, sannleikanum í. Napurt oft á tíðum, á miðjum þorra er. En hlýnar svo í hlíðum, og hjörtum allra fer. Líkar þeim að lifa, og leiðist ekki hót. Þó tíminn mun þar tifa, í takt við lífsins mót. Stef. Oft hef ég farið á þröngan völlinn snúið mér við og rekið í böllinn Oft hef ég hleypt á heljarreið og dempara slitið um leið En best er á góðum stað að vera ef þú ætlar ljótt að gera Sjonni þó. Með miklum drunga dundi í, djöfull var að heyra. Mér fannst það vera líkast því, þrumuvagn að keyra. Um allt húsið fnyk ég fann, fýlulegan angann. Úr iðrum Sjonna sótti hann, súran veginn langan. Trúin. Ég leitað hef að ljósi Krists, lengi en aldrei fundið neitt. Ég held þó að mér þyki, það ekkert leitt. Þótt trúin taki tröll til sín, treglega hún nær til mín. Kannski lýsir ljósið ekki, löngu dautt, sprungin pera. Ég hef bara ekkert, við ljós að gera. Geislar mánans. Geislar mánans muna það, að mennskur ertu drengur. En mennirnir ei muna,,,, muna það lengur. Geislar mánans geyma allt, gamlar og nýjar myndir. En mennirnir munu áfram,,,, mála sínar syndir. Geislar mánans tímann telja, taktfast hér í heimi. En í mönnum má sjá,,,, margt á sveimi. Mjólk er góð. Mállaus líkt og landinn, sem ljúfur rann í fólk. Ég þögull stend við stampinn, stíft og þamba mjólk. Því mjólk er mjöðri betri, og mikið fólki hollt. Á sumri jafn sem vetri, sælt er fólkið stolt. Í henni er mikill máttur, og menn yrkja um hana óð. Þú segir öllum sáttur, því sagt er: Mjólk er góð. Án titils. Stóð í fjöru stund úr degi, stímdi að mér ótti. Það er sem ég segi, sætur er flótti. Stóð í fjöru stund úr degi, strauk mér golan köld. Best er að ég þegi, um ókomna öld. Draumastúlkan. (texti.) Eins og lítið lauf sem þýtur, leitaði ég að ást. En hvert sem augað lítur, allt mér yfir sást. Svo dreymdi mig í draumi, dásamlega snót, Varð fyrir sterkum straumi, og þráði stefnumót. Viðlag: Þú ert draumur, þú ert draumur, þú ert draumur minn. Og verður alltaf draumur, já, draumur fyrst um sinn. Á morgun er ég vakna, elska þig ég vil. En þrálátt mun þín sakna, því þú ert ekki til. Því aðeins þú ert í draumi, þú dásamlega snót. Ég faðm þinn fæ í draumi, og falleg blíðuhót. Sofðu vært. (texti.) Eru augun þín þung sem blý? Þráirðu svefn á ný? Með hamingju í hjarta ferðu á braut, heltekin draumsýnum, framtíðar skaut. En hvort draumarnir rætast, dagarnir sjá, og dagsljósið lítur þín framtíðarspá. Svo sofðu nú vinan og dreymi þig vel, á vit draumalandsins – þig ég fel. Andlit þitt brosir á móti mínu. Og sendir mér boð frá hjarta þínu. Yfir mér værð og varmi heitur. Mér velgir þinn lárétti unaðsreitur. Faðminn þú bíður mér nótt eftir nótt, og ég nýt þess að sofna, svo verði mér rótt. Svo sofðu nú vinan og dreymi þig vel, á vit draumalandsins – þig ég fel. Sígur nú höfgi á huga minn brátt, og heilsar mér draumsýn, opin á gátt. Þar stendur og bíður mín kunnuleg kona, hún kallar til mín og fer ég að vona. Að í draumalandið, mér með hún sér bjóði, en hún mælti í stað þess líkt mínu ljóði. Sofðu nú vinur og dreymi þig vel, á vit draumalandsins – þig ég fel. Árið 1992 lést Valgerður Hannesdóttir móðuramma mín 92 ára að aldri. Hún var á margan hátt mjög sérstæð kona. Kunni ógrynnin öll af vísum og átti það til að svara manni í málsháttum. Eftir andlát hennar samdi ég lítið lag og texta sem ég kallaði einfaldlega: Elsku amma. Þú komst í hlaðið og kysstir mig, á kalda drengsins vanga. Ég faðminn lagði fast um þig, er fórstu veginn, langa, langa, til að hitta mig. Þú sast hjá mér og sagðir mér, sögur af mönnum. Ég lengi lá í kjöltu þér, sinnti engum, skylduönnum, bara lá hjá þér. Þú gafst mér gjöf, sem á ég nú, og geymi í mínu hjarta enn. Elskaðu alla af öllu hjarta – mæltir þú, og ég veit að þú meinar það enn. Hvernig brástu við beiðni minni, er bað ég þig um greiða. Þú veittir mér af visku þinni, veltir mínum, sálarleiða, burt að sinni. En nú ertu stödd í öðrum heimi, og hvílir hjá Guði og fleirum. En víst er það, því ég aldrei gleymi, þú komst í hlaðið, mér barst það eyrum, þær minningar ég geymi. Jæja. Ætli ég láti þetta ekki nægja úr bókunum svona í fyrstu atrennu. En bækurnar eru ennþá fáanlegar fyrir safnara gegn vægu gjaldi. Hahahahahahahaha. Vonandi hafið þið haft eitthvað gaman af þessu. Ljóð, vísur og textar eftir sjálfan mig. Áramótaheit 1997. Á nýju ári ég neita mér, nautnalífi forna venja. En raun og pína reyndin er, reglur nýjar sér að temja. Tregablandið tárið lekur, trúlega ég sakna þín. Mig öðru hverju skelfin skekur, því skratti sterk er löngun þín. Stundum finnst mér, ég vera að falla, fyrir þér á nýjan leik. En ef ég hugsa þá hugsun alla, ég held það færi allt í steik. Nú ástar þinnar sárt ég sakna, sáttur er ég ei við þetta. Aldrei aftur vil ég vakna, vertu sæl mín: Sígaretta. 2. janúar 1997 Draumar. Flestir þá í brjóstum bera, bærist með þeim vonin sanna. Sérhver draumur sýnist vera, sannarlega nauðsyn manna. Úr þeim hverfur mesti þunginn. það djöfullegt er að heyra. Þinn draumur þarf að vera slunginn, til þess að verða eitthvað meira. 16.nóvember 1996 Vetur. Fönn kemur, fast lemur. Fjöll hulin, jörð dulin. Öslar vindur, ekkert bindur. Eyðisanda, allra landa. Ótt stekkur, óþekkur. Yfir heim, víðan geim. Á sig minnir, engu sinnir. Oft hann getur, komið vetur. 29.desember 1996 Drykkjuvísur. Drekkum vinir daginn út Dagur annar bíður Engin er hér sorg né sút En söngvaómur þýður Sælir vinir syngja enn Söngur alla gleður Konur sem og mæta menn Mikill gleði hleður Tíminn frá oss líður fljótt Falleg er nú nóttin Og líður bráðum hægt og hljótt Hverfa mun þá gnóttin Heim þá hverfa vinir smátt Hæfilega skakkir Um það má ei hafa hátt Hafðu fyrir þakkir En seinna munum syngja á ný Saman allir vinir Oss finnst við vera nálægt því Að vera betri en hinir Samið fyrir þorrablót á Staðarfelli í dölum 1 feb 1997, og sungið við lag eftir textahöfund. Hnévísa. Eftir að hafa setið með dóttur mína Sigrúnu Lilju á hnénu og sungið fyrir hana: Ríðum heim til Hóla eins og flest allir foreldrar hafa gert, ákvað ég að semja lag og texta og hérna er textinn. Fákur barna flestra er. Furðu hastur stekkur hér. Skakkur er á skeiðinu. Skelfilegur á brokkinu. Pabba kné ei töltið kann. Kannast þú við hestinn þann. meira efni eftir mig. Ég hef verið að kíkja í kassa upp á lofti og fundið þar ýmislegt sem ég hef verið að fást við og þar á meðal nokkrar vísur, ljóð og texta sem hafa ekki birst áður. Bara gaman af því. Að skilnaði. Lífið er ýmist logn eða vindur, langir dagar, örstutt nótt. Mögnuð ástin marga bindur, en mæðist stundum fljótt. Til þá verða vandamálin, vært ei er í huga þá. Þjáð af mörgu þraukar sálin, þrautin líður aldrei hjá. Skýst þá upp á yfirborðið, ýmislegt sem falið var. Fyrr en varir flest er orðið, fjandsamlegt og ekkert svar. Böndin losna og lognið hverfur, nóttin lengri er dagurinn. Í huga alltaf vandinn verður, verri en nokkur bragurinn. Des 1997 Sjálfslýsing á eigin persónu og skáldskapJ Ég er ekki merkilegur maður, með allt þetta bull og þvaður. Reyndar vitlaus ruglukollur, ræfill og drullusokkur. Mörgum langar að lemja, mína löngun til að semja. Hnoð og hörmung eina, sem heillar eigi neina, og gramir allir geyma, gauðrifna heima. Apríl 1997 Lítil sunnudagssaga. Eitt sinn voru karl og kona að keyra með sinn son. Sonurinn var ungur og fáfróður sem var von. Hann spurði spenntur pabba sinn hvað dýr þar gengi um grund. Pabbi var mjög rogginn og kvað þar vera hund Mamma varð þá æf af reiði og kallaði þetta hest. Pabbi sagði henni að þegja, hann vissi þetta best. Hann sagðist upp í sveit hafa alist og þekkti þetta út og inn. En hann hafði ekki sleppt orðinu, þegar hneggjaði hundurinn. Nóvember 1992 Furðufugl. Maður nokkur vildi fá, að koma fram í þætti. Og herma eftir fugli, bara ef hann mætti. En enginn vildi sjá né heyra, og honum var það sagt: Að herma eftir fugli, væri öllum til lista lagt. Maðurinn var sár og svekktur, og vissi ekki alveg hvurt, hann ætti að fara, svo hann flaug bara í burt. Nóvember 1992 Hipparnir og nunnan. Tveir útúrruglaðir hippar, mættu haltri nunnu. Þótt heimskir þeir væru, þá kurteisi þeir kunnu. Þeir spurðu höltu nunnuna, því gengi hún með stafinn. Hún dottið hafði í baðkeri, og snúið á sér fótinn. Hipparnir kvöddu nunnuna, og héldu í átt að austri. Og þegar annar spurði hvað baðker væri? Kvaðst hinn ekki verið í klaustri. Nóvember 1992 Abbabbbabb. Strýk ég stökum fæti á helgan staðinn þinn og eftir lítil læti ljúft hann rennur inn hann svalar þörfum þínum þjáning engin til á blautum börmum fínum blítt ég strjúka vil kossastaði kyssa kanna þína nekt af engu má þar missa sem myndar eftirtekt 1991 Var einu sinni að vinna með manni sem átti svo erfitt með svefn þegar að það var fullt tungl, og svaf þá oftast yfir sig daginn eftir. Fullur ertu fagri máni, flennibjört er nóttin köld. Hjörtur lætur líkt og kjáni, lagðist á hann ókunn völd. Fögur var ei sjón að sjá, sjaldan hræðist norðanvindur. Hann tunglsjúkur og trylltur lá, og taldi uppí rúmi kindur. Loksins sofnaði síðla nætur, sæll og glaður drengurinn. Ekki var þó frár á fætur, fyrri til var böllurinn. Nóvember 1996 Einn í eigin huga. Þú sast á rúmi og sagðir mér, sem vildir heyra um þitt stríð. Í hljómmiklum tón, hátt lá þér, og hávær röddin undurfríð. Fagur galar fuglinn, er flýgur í hjarta vor. Í miðju stríði ég hætti að heyra, og hönd ég lagði á minn munn. Þá heyrðist enginn hljómur meira, því hlustanda er sagan kunn. Fagur þagnar fuglinn, er fórst í hjarta vor. Apríl 1997 Kraftmikill dóttir mín. Stekkur um stofu á einum fæti, stundum verða einhver læti. Hún kraftinn hefur, þor og vilja, hennar nafn er: Sigrún Lilja. Apríl 1997 Jólin 2003 bjó ég til bæn og gaf dóttir minni í jólagjöf. Guð mér gefðu gæfu nú svo von mín vakni vilji og trú traust og tryggð til handa mér svo glöð ég geti gefið þér Guð, til baka af sjálfri mér. Þegar að ég var lítill bjó mamma til lítið lag og texta sem að hún söng fyrir mig. Jólin 2003 bjó ég til annað erindi við þetta lag, söng það inn á geisladisk og gaf mömmu í jólagjöf. Þegar þú í kjöltu minni sefur, vaki ég og vernda þína sál. Hjartans gleði og fylli þú mér gefur, sonur minn þú er mitt hjartans mál. Örmum þínum vafðir þú um mína, vafðir lokka mína um fingur þér. Raulaðir með mér vísur þínar, uns þú sofnaðir í kjöltu mér. Móðir mín ég heyri í gegnum svefninn, þýðan söng sem berst frá vörum þér. Mjúka hönd sem strýkur á mér kollinn, móta mun hún framtíð handa mér. Gráttu ei þótt vindar blási á móti, skaparinn hann ræður okkar för. Þótt erfiðleikar skelk í bringu skjóti, við mætum öllu því með bros á vör. Einn á fylleríi í Danmörku. Í ölæðisvímu veltist ég um í, válegum myndum eigins huga. Og engar eru hallir til að halla sér í, svo helvítis rúmið verður að duga. Minn vinur er flaskan, frumleg og glær, með fádæma góðum landa. Stíft hann rennur sterkur og tær, ég stend ekki í að blanda. Svo leggst ég í rúmið, en reyni ekki að hátta, því ræfilslegur er ég í verki og orði. Helvítis klukkan, hún er bara átta, og horfinn er allur vinarins forði. www.blog.central.is/skogsi www.blog.central.is/skaldin ] [ Sína hlið hann segir æ um hafið víða rekur Við á bárunnar slóð ég ætíð fæ vindinn beint í andlitið ] [ Í kolryðguðum kaffiskúr á krika rétt hjá sænum karlinn er á svipinn súr og seðla fær frá bænum Hann kallaður er kapteinninn þótt kannski vanti dallinn í staðinn bónar bílinn sinn bundinn við einn hnallinn Búralegur bægslast um með brennivín í flösku minnir lítt með látunum á þá lagargarpa rösku Vinur er hann leti og lúrs en lævís vaktar efnið þótt hetjan kunni að halda kúrs þá hörgullinn er stefnið Keikur situr kapteinninn og kíkir út á dröfnina hefur engan hafbátinn en heimtar kaffi í höfnina Þótt engin sé hann aflakló og oft hann fari í felur er hann samt sem áður þó ósköp góður melur ] [ Það er ekki á allra færi að velta vöngum Löngum þóttu vangaveltur í sessi valtar En það var fyrir löngu Fyrir löngu... ] [ Nútímalist er listin Nútímalist er listin að lesa duldar merkingar Nútímalist er listin að lesa duldar merkingar út úr einföldum hlutum Svona eins og ljóðum Nútímalist er að lesa hugrenningar ljóðskáldsins Út frá staðsetningu setninganna á blaðsíðunni, Út frá punktum og kommum Út frá sjónarhorni ljósmyndarans á mjólkurfernu eða gamalt bananhýði (Það er nefnilega alltaf svo fallegur litur á gömlum bananahýðum) Er þá ekki allur heimurinn nútímalistaverk? Og allir í honum listamenn. Nútímalist er að gera list úr venjulegum hlutum Nútímalist er ólyst ] [ Barmafullt glas á völtu borði Það þarf ekki mikið til að það sullist útfyrir. ] [ Með meinsemd mína og varginn í véum Við börðumst sem hetjur gegn skjálfta í hnéum Í hnéum og varginn í véum með eyðslu á féum Um ómuna tíðir það stríð var að ganga Þetta var aðeins spurningin um það að langa Að langa að ganga með sindrandi vanga ] [ Manstu Ó, vina mín kjæra er við gengum tvö götuna breiðu Þar sem sindrandi döggin sig teygði til jarðar Og hamstola af ástríðu þú leiddir hann Garðar Ó, vina mín kjæra ] [ Með þér get ég verið vitleysingur fáviti ástarfífl með þér rennur áin uppí móti með þér má ég vera skrýtinn með þér er ég tígrisdýr með þér er ég fugl (með þér er ég tígrisdýr með þér er ég fugl) og þú sagðir: komdu að fljúga og ég sagði: nei, ég er svo lofthræddur og þú sagðir: komdu í fjallaklifur, fallhlífarstökk, mánadans og ég sagði: nei, ég er svo lofthræddur og ég get bara skifað í tölvuna og þú sagðir: komdu að fljúga og ég sagði: nei, ég er svo lofthræddur og þú sagðir: komdu í fjallaklifur, fallhlífarstökk, hellaskoðanir og ég sagði: nei, ég er svo lofthræddur þótt ég geti gengið yfir steyptar brýr og farið í bakaríið og þú sagðir: komdu að fljúga ég missti þig af því að ég var svo lofthræddur ] [ Svo Eitthvað Ónothæfur Stend Útí horni Og safna ryki Ef fólk kemur Of nálægt Þá særist það Þarf enga umhyggju Er þarna bara Með dúkku mér til skemmtunnar. ] [ þetta er ekki hótel, þetta er heimili ] [ Ég dansa í tjörunni í takt við skínandi bílana og bíð þess að vera ekki keyrður niður. Himininn hellir úr sér yfir mig eins og sósuskál full af spagettílengjum samankuðluðum í subbulegri sósu. Húsin í gamla hverfinu heilsa mér í þungum þönkum og gera lítið annað en bíða þess að vera rifin. En rétt á meðan þar til annað kemur Dönsum við saman út framhaldið yfir í eftirtímann án þess að vita að í raun var þetta búið fyrir löngu. ] [ elsku pabbi minn ég vildi ég fyndi hlýja faðminn þinn þvílíkt yndi en við hittumst á ný elsku pabbi minn og lofaðu mér því að þá finni ég faðm þinn... ] [ Uppsafnað hatur í þinn garð er ekki eitthvað nýtt Þú ert löngu búin að gera þér grein fyrir þessu að ég hata þig Sætti þig við það og reyndu að setja þig í mín spor sem er kannski erfitt því ég nota skó númer 45 en þú 37 en það má reyna ] [ Þú sendir mér kossa en þeir eru tilgangslausir þú sendir mér sms en þau eru tilgangslaus þú sendir mér gíróseðil og það virkaði ] [ I tried my best, my best for you but it wasn't enough I had to do more. What do you want from me? I have to know, can you tell me, or show? I can do better, much better for you just give me one chance and I will do. ] [ \"Húkkaðu þér far með mér\"! hrópaði ástin komdu og láttu þér líða vel vertu kæruleysislega vitlaus fljúgandi um á bleiku skýji á þjóðvegi númer 1 Hentu tyggjóinu út um gluggann hallaðu þér aftur brostu, roðnaðu, gráttu!! á meðan hjartað berst um eldrautt og hamingjusamt Gefðu frúnni bara puttann hlæðu framan í herrann með hattinn fáðu þér stórann sopa af blárri gleði á meðan fiðrildin flækjast öll saman í maganum enda í hrúgu og þú bara flissar!! Snörp hægribeygja út af þjóðveginum! \"Við erum komin á leiðarenda\"! hrópar brúnaþung \"ástin\" komdu þér út úr eldrauðum kagganum skynjaðu eymd þess sem þú ert vertu vonleysislega rugluð gangtu um göturnar ein dragandi lappirnar á eftir þér því endastöðinni ræð ég ] [ They came into her room, found needles and stuff, she tried to tell a lie but her parent´s called her bluff. What ever she was on her closest couln´t bare, the feeling, their child they were loosing her. With a needle in her arm, the life was hard to take, she didn´t mean no harm or all those hearts to break. The rush was just too much, With her childish acting games the sky she tried to touch, her soul burned down in flames. A sad sad ending for a girl that wanted to be free, asking her devilish demon´s to please, leave her be. Found in a room filled with disgust, remembering the life once filled with love and lust. She found her ending in this case, ended it with the biggest blaze bright shining light, called out to her in glory. this is the end of that girl´s story. ] [ got to be honest be true and clear make people find truth pain without a tear I have done it before so why cant you accept the world and see it is true sure I’ve made choises some stupid, some bad but that don’t mean regret needs to be this sad you feel what is right at that time and place you execute your feelings and give up the chase it’s not what you want or what you think you need it’s a shameless act of the self trying to feed and bleed for the pain is a gain of visdom and wits building for the future of so many hits ] [ Lítið lamb leikur sér en svo kemur haust. ] [ Um veturinn er liggur skógurinn í dvala þegar vindurinn vælir og snjórinn leggst á greinar hans eins og kuldaleg sæng. Um vorið er fólkið vaknar til lífsins með bros á vör og þrestirnir syngja á nýútsprungnum greinunum. Um sumarið er hláturinn glymur þegar hamingjan ríkir, sólin skín og trén brosa við í blóma lífsins. Um haustið er söngurinn þagnar og trén halda dauðahaldi í gulnuð lauf sín. Svo byrjar það allt upp á nýtt. ] [ Það er ekki heiglum hent í hjónabandi í hálfa öld. Samt fríð og frísk og mjög vel tennt finnst mér amma vera í kvöld. Í henni ömmu er ofurhetja sem ávallt okkur er að hvetja. Í nösinni geymir norræn bein, hún nær sér eftir sérhvert mein! Af hreinlæti var alltaf hrifin hrikalega er konan þrifin! Dugmikil, drífandi heldur í siðinn að dansa um húsið, ráðgóð og iðin. Aldrei við gleymum að áttum þig að er pabbi okkar hvarf burt frá þessum stað. Á blýþungri stundu þú gafst okkur styrk, stuðning sem entist uns vék nóttin myrk. ] [ Daginn sem þú kvaddir rigndi á sólina sem skein inn um gluggann minn og minnti mig á þig. ] [ Áttavillt - týnd - blind. Engin leið að finna höndina - ströndina. Hafsjór fullur af höfrungum fallegum - villtum - trylltum svöngum ná þér nærast á þér varnarlausa heimska sál. ] [ loksins þegar ég fann þig fann ég hamingjuna streyma um mig alla og vonaði að sú tilfinning myndi aldrey taka enda. en sá tíma kom að þú varst að fara ég elskaði þig mikið og sú ást mun aldrey taka enda ég mun alltaf elska þig. þótt þú fórst og særðir mig illa en þér mun ég aldrey gleyma ég mun hafa okkar stundir í hjarta mínu. en vinir erum við núna og mér finnst það ekki nóg það er erfitt að sjá þig og geta ekki leggjið í faðmi þínum. ég reyni allt til að geta verið mikið með þér en þú horfir ekki einu sinni á mig þú lætur bara einsog ég sé ekki þar. en mundu samt þegar þú þarft að hjálp eða bara tala þá er ég hér bíð eftir þér því alltaf verð ég til staðar fyrir þig. ] [ Senn mun undan veislunni góðu fjara samt verða allir í hana að fara og svara: „Því þarf ég alltaf að spara?“ Þar er stöðugt skrafað og mikið drukkið Svo margur fær í magann, eftir sukkið. Þeir láta sér það í léttu rúmi liggja en ekkert má á fagnaðinn skyggja né heldur gestgjafann góða styggja. Þegar verður þessa kveisu að sefa því nú telst sælla, að þiggja en gefa. Þó finnast þeir, sem alltaf eru að kvarta og stritast við að brugga seiðinn svarta til að hrekkja húsbóndans milda hjarta. Er þeim þá oftast ráðið að flytjast annað eftir að hafa þá áður, reynt og kannað. En hvað gerist þegar teitinu ljúfa lýkur er í flest skjól og skúta aftur fýkur og eftir sitja nokkrar valdaklíkur? Því er heim frá ballinu verður snúið, verður veislan gleymd, enda búsið búið. Hví þá, að vera með þetta leiðinda breim þó að sökkva eigi til fjalla, verum tveim? Þar verður náttúran vísast, „just the same“! Jú, því þjóðin vill, fyrr en á bömmer fer geta pantað sér, einn þrefaldan Álver! Hermóður friðarspillir ] [ Lofsöngur 2006 Íslendingar eru skynsöm þjóð þó nýta ei sín sóknarfæri, og Héðinsgöng grafa,í góðæri um landið allt: “So what” minn kæri? Íslendingar eru hagsýn þjóð; sem hleypa þeim haukum sjálfala er hyggast reisa háskólaspítala fyrir fé frá andsins símala. Íslendingar eru göfug þjóð sem gæta vill vel að aumum (er kúra á votum kaunum) með erlendum lýð á lúsar launum. Íslendingar eru auðug þjóð sem búa að miklu mannvali er efnast svo að ei nái tali en markið sitja að æðri staðli. Íslendingar er kappsöm þjóð sem vill ætið verða best en fái hún af miklu mest þá verður hún sjálfri sér verst. Hermóður friðarspillir ] [ Mér líður svo ílla ég elska þig ekki ég elska vin þinn ég vil það ekki ekki sjens þetta er erfitt en ég elska hann mér líður betur hjá honum en nokkrum sinnum þér ég held nei, ég veit ég elska hann elska hann meira en allt elska hann meira en þig elska hann meira en lífið ] [ Kalt blaðið, blóðið rennanndi góða tilfynningn ætla að hætta segi núna stopp en svo bara gerist þetta óvart ég sver að hætta aldrei að gera meir ég lofaði en... ] [ Ef ég er skip þá er skipstjórinn í sumarleyfi ] [ Ég er límband þið hatið líkingar. Ég er metaskáld þið hatið eftirlíkingar. Ég bý á dauðadeildinni. ] [ Ég er ábyrgðarlaust batterí. Ég er einsog vírus sem hatar líkingar. Ég er Gróa frænka sem gat ekki hamið skotin. Einsog á fertugsafmælinu þegar við dönsuðum of þétt. Þú varst brúða og ég fylgdi ekki með. ] [ Við viljum stríð en við viljum drepa Davíð. Við viljum appelsínur en við viljum Andrésínur. Og byltingu. ] [ Ég er hinn raunverulegi ritstjóri DV og þú mátt engan ritstjóra DV hafa annan en mig. Ég þrái misgjörðir manna, ég þrái yfirsjónir. Ég fyrirgef, ég þrái, ég dæmi. Ég elska alla. Aðallega kalla. ] [ Ég sagði ykkur frá límbandinu en innan í límbandinu er límband. Nei, þú varst ekki fullur. Og nei, þú varst ekki dópaður. Þú varst annað límband. En minna. ] [ Tíminn og glasið eiga ekkert sameiginlegt. Tíminn rennur í eina átt en glasið stendur kyrrt og ég drekk úr því alla vitund. Á meðan tíminn og glasið renna furðulega til þurrðar á líkan máta. ] [ Ég stend hérna snauður og fjarlægist fjöll Víðsfjarri heimahögum, sú saga er öll Sé annarlegar verur, er eitt sinn þú sást Það er margt að upplifa og að svo mörgu að dást. Hey, Hey kæri Jakob, ég samdi til heiðurs þér lag Því þú ert ein fegursta perla frá Osaka að Prag Sannur Postulínspostuli, prýðir himnanna höll Þú ert eilífðin, en við hin erum trúðsleg nátttröll. En heyrðu mig herra Jakob, áður en sólin rís Syngdu mér lífsgilda ljóð þín, áður en ég frýs (Æi plís) því ég syng þinn söng, þó ei syngi ég hátt Og megi sem flestir heyr´ann, svo deyja megi ég í sátt. Þetta er fyrir almættið og ógeðisbarnið líka En ég hef ekki fundið á lífsleið minni aðra slíka Þetta er fyrir ykkur hin, sem hafið þurft að þjást Ef þið skiljið ekki Jakob, munuð þið heldur aldrei skilja ást. Ég gæti horfið á morgun – ég gæti horfið við sólarupprás Orðið hluti af náttúrunni og endurskapað mína lífsrás Og setið eins og postulinn forðum og sagt mörg orð Eða sagt ekki orð, en lífstilganginn borið á borð. ] [ Þjóðlagaljóðafljóð, óð myndar (lj)óða(fl)óð, um nútímans þjóða(f)lóð sem nær upp á mitt mitt mitti. ...og hvað er rangt við þessa setningu? (Maður þarf að fara að komast í svefn) ] [ Ég man þennan dag svo vel. Sólin skein. Ég hitti þig og féll um leið. Aðra eins persónutöfra hafði ég aldrei séð. Ég tók þig með heim. Þú ilmaðir líka vel. Hafðir harða og oddhvassa ímynd. En innst inni mjúkur og ljúfur. Með hverjum deginum sem við eyddum saman kynntumst við betur. Hjörtu okkar voru sem eitt. Þegar þú fórst að fölna varð ég hrædd. Ég óttaðist að eitthvað slæmt væri að. Ég hélt að ég hefði gert eitthvað rangt. Skæru litirnir dofnuðu. Á endanum varstu orðinn að engu. Ég gat þetta ekki lengur, það var engin lausn. Það mun þó enginn koma í þinn stað. Ég og þú Nirfill, að eilífu. ] [ hátindur minninga feðra okkar er falinn í kálfaskinnum hræjum löngu liðinna skepna sem bitu gras fyrir siðskipti í súld en varðveita í dag stolt okkar og menningu sem fæst okkar skilja og alls ekki komandi kynslóðir ] [ Jakob lifir enn í okkar hugum Ógleymanleg er gleði hans og so o o o org Steinn í auga, súrefnisskortur, hundeltur af flugum Sló og rakaði umferðareyjur og torg Yfirbugaður þó ei af lífsins fear factor Vertu sjálfur Jakob uppá tra aaa aaa aktor Ungan elt´ann óheppnin á röndum En þó fórnaði ei fótum né hö ö ö öndum Því lífið er sjaldnast lega á gylltum ströndum Eða fugla-flensu-laus ,,aðlot”* með böndum Nei, lífið ber mann á fjallstopp og kastar í botnleðjudýfu Uns þú stendur einn eins og Jakob loks með hrí ííí ííí í ífu Djöflinum taldi Daðsteinn sig þurfa að stjórna Dottinn væri í hryllingsmynd – sína verstu martrö ö ö ö öð En minningunni af Meistara Jakob myndi vart fórna Enda fyndnastur fíra af** fjórðu bækistöð Uppfullur ei af andlegum skyndibita – hægu sjálfsmorði Smile-aðu og vertu postúlíns Postuli Jakob í hverju o o ooorði ...eða óorði Sáttur með sitt hlutskipti í lífinu var hann Og lærði að lifa með breytu leiðar-ke e ee erfi Í sólskini ellegar rigningu áfram bar´ann Flokkinn og fegraði okkar ástkæra Seljahverfi Uppgjöf á sjaldnast við til æviloka Eins og Jakob notaðu mótvindinn til að moka í po ooo ooo oka Glaður vertu og gakktu að því sem hugurinn girnist Grátur er gagnslaus þú ert lang því frá game- o o oo over Vinna skalt hörðum höndum og fáviskan fyrnist Fráleitt langt frá VerslunarmannaHelga Georg á Land Rover Því brátt mun ljóstýra skína gegnum fangelsisveggi og vö-örð Og stoltur Jakob mun breytast í hæstráðandi Hö ööö ööö örð Lesið hefur þú, nú lífsins dæmisögu Leiða megi hún þig áfram þetta lí í íí í íf Megi það við þig leika og þína mögu Finndu þitt fjall meðan ég mitt eigið klíf En ef þú stendur áfram stjarfur - í fyrrahorfi Þá ertu sjálfur hundaskíts Jakob á ónýtu o o ooorfi Jakob þín er vegsemd öll og valdið Vonin þitt trademark of quality y y yy Heimskunni þó hefur þú einnig haldið Framtíðar formaður – er risin stjarna ný? Öld fávisku er risin og framsóknarmennsku Þú þarft fráleitt stúdentspróf né að kunna ensku Nei, framamönnum flokksins er illa við slíka stjórn-lensku Allt sem þarf er greindarskort og glataða bernsku Frá glötun rís gamall flokkur og grænn Frá glötun rís gamall flokkur og grænn Frá glötun rís gamall flokkur og grænn... með enn einn Jakob á ný Útskýringar: *Flestir myndu segja atlot, en einhverjir kunna að vera til sem segja ,,aðlot”, og ekkert að því enda fallegt orð. **Margir myndu segja á fjórðu bækistöð, en hér er átt við viðbótarheiti þ.e. hvaðan menn koma sbr. Hertoginn af Jórvík. ] [ Heimurinn sneri peysunni sinni öfugt Gleraugu, nota menn, til að sjá betur. Kerrurnar ýta bílunum um götur bæjarins. Ljósið! Sem lýsir upp göturnar, stafar frá sér gráum ljósastaurum. Ég bið um ekkert. ] [ Passaðu þig! Við reyndum að hjálpa þér, þó ekki viss hvort við vildum það, vissum ekki hvort þú vildir það. Við getum reynt lím, hann verður samt aldrei samur, það vitum við öll. Vasinn er brotinn. ] [ Einhver sagði: Oh my god! Við biðum, með öndina í hálsinum en ekkert gerðist. ] [ Ég ætla bara að sofa út. ] [ Sú sama og yljaði mér í gær, rís upp í dag og sker augun mín. ] [ Flugvélin er flogin, ég lét þig vita, hún fór í loftið, án þín. Lestin er farin, ég kallaði á þig, hún keyrði af stað, án þín. Ég reyni allt, til að fá þig með, en þú heyrir ekki, því fer ég einn, án þín. ] [ Enn einu sinni leitar huginn til þín. Hví skyldi sálin kvelja sjálfa sig svo? Hvaðan kemur þessi fíkn, þessi þrá, þessi þörf hvers þráðar tilvistar minnar til að sjá þig, snerta þig, kyssa þig, halda um þig. Og afhverju skortir mig andlegan þrótt nú, þegar ég mest þarf á honum að halda, svo ég geti sagt þér hvernig mér líður. Ég er ekkert skáld, þessi orð eru aðeins daufir skuggar tilfinninga minna, en.. þau eru allt sem ég hef. ] [ Buslaðu, skvettu, blotnaðu. Spegilslétt vatnið er aðeins fagurt í örskamma stund. ] [ á grænu gólfi ég hljóp gamansemi og glaðleiki fylgdi mer gegnum hróp smárra dverga á feiki í hausnum á mér ] [ Mikið var allt fólkið gott við gesti og gestrisni þeirra vil ég nú róma. Ég missti ekki skeifu undan hesti, allir komust þeir heim með sóma. ] [ Alltaf borist með vindinum. Hvað nú? Hvað!? Nú þegar það er logn. ] [ Úti á firðinum framundan fjallinu er ofurlítill hólmi sem stendur í þeirri meiningu - að hann - sé líka - fjall. ] [ Hærri veggir, lengri vegir. Flottari hlutir, stærri undrun. Dagar, sem ekki virðast taka enda. Áhyggjulaus. Öllu þessu eytt! Og fyir hvað? Ekki neitt? ] [ sátu og stungu úr tönnum skvöldruðu komnir við skál \" já besti nemandi sem ég hef fengið\" smjattaði í Hannesi já sagði Hannibal svo saklaus í útliti en reyndi samt að bíta mig á háls þeir sátu saddir eftir Gísla át og gjóuðu að mér augum á eftir við fáum okkur hann Hlölla ég hef heyrt hann sé góður í bát... ] [ Hví húkir þú í horni og starir á mig með þitt sturlaða augnarráð? Nú ég vil sjá er hjarta þitt brestur! Ég vil sjá er þau draga þig niður! Ég vil sjá er þau þig hæða! Ég vil sjá er þau þig dæma! Ég vil sjá er þau þig grafa lifandi með myrkum orðum sínum! Ég vil sjá er þú með höfuð svo þungt af kvalræði að þú heldur því eigi uppi! Ég vil sjá er þú með svo mikla angist í hjarta kemst eigi úr rekkju! Ég vil sjá er þú starir vitstola á vegginn! Ég vil sjá er þú áttar þig á einskins tilgang lífs þíns! Ég vil sjá er þú ert látinn í gröf síga! Því húki ég yfir þér ég er sturlandi kvöl raunveruleika þíns ég er þitt líf! ég á þitt líf! Ég er eymdinn. ] [ Er fuglar fljúga í morgunroða og græn tún stíga upp úr hvítum serki veturs konungs blasir við manni tímalaus fegurð sem grípur mann eitt andartak. Þá hugsa fer ég hve mannskepnan með sinni ógnar útbreiðslu gleymir hvaðan hún kemur sjálfselsk og sjúk traðkar hún yfir móður sína sem gaf henni líf. ] [ Ég rifinn er úr rekkju. Afrek næturinnar liggja á gólfinu og framkalla stækju sem liggur yfir vistarverum mínum sem mara og fyllir vitund mína viðbjóði. Það ríða engar hetjur um mín héruð. ] [ - Bylting! Segir siðblindi fávitinn. Læknirinn gengur hjá og bannar dóttur sinni að stara. ] [ Ómar í huga mínum mannsins fögru tónar. Samspil þeirra og náttúru hvörfluðu að mér sem aldrei fyrr sem og fuglar sem stíga eineggja dans um loftin blá. Fallegt er það og yl í hjarta mér veitir að húmið dansaði við tilfinningar manna. ] [ Er ég geng með skömm um götur og sviðna jörð eftir mig skil. Góna á mig sterkir svipir sem dæma minn sið. Hví gefið þér ekki þessu ragmenni grið? ] [ Er ég lauk upp augum mínum blasti við mikifenglegur tindurinn. Fagur andardráttur kvein í eyra mínu og hjörtu oss slógu í takt. Enn er við gengdumst hvort öðru smeig sjúkleikinn sér inn og upp kvein há rödd í huga mínum DEYÐU DRENGUR! ] [ afi átti eina kú eina kú eina kú afi átti eina kú en nú er hún dáin afi átti eina hryss eina hryss eina hryss afi átti eina hryss en nú er hún dáin afi átti eina á eina á eina á afi átti eina á en nú er hún dáin afi átti eina hæn eina hæn eina hæn afi átti eina hæn en nú er hún dáin afi átti eina tík eina tík eina tík afi átti eina tík en nú er hún á hrafnistu þótt afi sé á grund ] [ Vindar gnauða vestur í bæ Vesælt er, veðramartröð Blítt og heitt á réttláta blæs Bið fyrir okkar fjórðu bækistöð Rennur í hlaðið Land Rover Rytmiskum er lagt í röð Flaggar Jakobi, under cover? Innra eftirlit á bækistöð? Regnið hamast á rúðunni minni Rekur útiverur í ísköld böð Reikar hugur að rímnaspinni Rifjast upp sumar-vísur af bækistöð Veturinn léttir ei lífsins veru Vorið kemur, fellur í ljúfa löð vaknar náttúran í mikilli þynnku hefjast þá fegrunaraðgerðir á bækistöð Sólin fær sér sæti við Seljahverfi Virðir það fyrir sér sæl og glöð Grætur gleðitárum, myndar regnboga Fyrir starfsmenn á fjórðu bækistöð Nietczhe birtist (á himnum), talar tungum öskrar á dönsku ,,GUD ER DØD” En nær ekki athygli þeirra er slá Rómantísk hjörtu fyrir fjórðu bækistöð ] [ Þær leita af hamingjunni milli dags og nætur. Hvort sem það er ást eða annað en aldrei þær yfir því gráta. Viðlag… Ég verð bara að segja eitt… ;:Þetta eru ;:mu-gengið;: Mu-in okkar daginn út og inn Þær eru það eina sem ég finn;: Ég hugsa til ykkar og vona að við náum saman. Fagrar er þær, þvílík sýn þegar þær horfa á migframan. Viðlag… Þær eru með gott hjarta færlægð okkar er löng. Þær hugsa um bros mitt bjarta en biðin okkar verður ströng. Viðlag Hækkun Viðlag(2x) ] [ Þessi hlátur smígur í gegnum allt þessi nýstandi hlátur geðrauna veldur mér ugg. Augun tóm glampinn horfin afkvæmi næturinnar kominn á kreik þau fela sig bakvið glerið fagra sem veitir þeim styrk. Svo barið getað rödd sjúklingana niður þangað til næst þegar hamrinum er barið í borðið og dómur er kvaðinn. ] [ Eftir þögnina löngu myndast strætisins stef og það skín á nýofin kóngulóarvef og einstaka húsfluga er úti á sveimi þú andar köldu en fagnar nýjum heimi Senn birtast sópar hverfur sandur og salt upp sprettur gróður eins og lífið allt enda nóg komið af slabbi og skítafor skaparinn tilkynnir: Landsmenn komið er vor Drengir með hrífur karlmenn með orf stúlkur kantskera konur með torf Heiðskýr er himinn það tekur að hitna einbeittir stúdentar sitjandi svitna Gádí Amus Igítúr -gleðjast svo gumar Skaparinn skipar: Vinnið, það er komið sumar Sundruð veik - en saman svo sterk sameinast í Á.S.T.*- vinna létt verk slá, raka og hirða í pokana svörtu verða listamenn slá rómantísk hjörtu Að hausti svo fagurt er starfsmanna stolt Lifi Bækistöð 4 Lifi Breiðholt Útskýring: (*Á.S.T.= Ástríðufullur sláttur, Sómasamlegur rakstur og Tilfinningarík hirsla) ] [ Skrítið hve allt getur horfið fljótt Mitt hjarta brotið í litla mola Allt lífið hrundi á andartaki og þér ég glataði Hver dagur er til heiðurs þér Þó mig langi til að sofa svefninum langa Þá veit ég að lífið þarf mig eins og lífið mitt þurfti þig Þú sveikst litla hjartað mitt tóks þig sjálfan í burtu frá mér Og eftir sat brotið lítið hjarta og einmanna sálin mín ] [ Stjarnan mín björt og skær blá og svo undurtær. Hún gefur mér hlýjan blæ þegar ég byrja hugsa um þig og hlæ. Stjörnur skína heim til þín og segja þér að koma til mín. Þú kemur til mín og segir sérðu stjörnurnar okkar. Stjörnurnar okkar eru bjartar og svo ótrúlega skírar Hún minnir mig mig alltaf á þig og minningar um þig og mig. Stjörnur eru minningar Minningar um okkar Skemmtilegu stundir ] [ Það er heiðskýr himinn og halla tekur að degi við Austurvöll og Megas verður á mínum vegi sem getur ekki boðað annað en ,,gott kvöld” það er ef að andinn hefur ennþá hér nokkur völd. Og þarna má sjá Bjarna biðja fólk misvinsamlega að kaupa ljóð og Dómskirkjuklukkurnar hringja fyrir grasins fegurstu og léttklæddustu fljóð til að minna þau á að brátt fer að skyggja á þau og Jón og til að gleðja eldra fólk með sínum allra fegursta tón og þau suða saman flugurnar og sóparnir sem taka upp sandinn og vestfirskur þingmaður spyr róna ,,Hvernig bragðast landinn?”. Það er ekki annað hægt en að elska þessa fögru veröld á meðan hún varir og meira segja Meistarinn tekur ,,Spáðu í mig” og fólkið á hann hissa starir þar sem hann stendur á svölum Alþingishúsins einn með gítarinn alsgáður og það má greina hvert orð og í laginu er heill þráður og undir taka ungir sem aldnir - jafnvel einn erlendur fáráður. Gleðin hún saklaus leikur og það losnar um hömlur vanafastra manna og margar hrakfallaspár um mannkynið með því þeir sjálfir afsanna og brátt liggur jafnvel Björgólfur teinóttur með unga fólkinu í döggvotu grasinu og virðist vera slétt sama þó að hann þurfi líkt og aðrir að súbba úr sama glasinu það leikur léttur vorvindur um hár viðstaddra og gítarinn er látinn ganga í hringi og Geir H. Haarde tekur ,,With God on our side” og slítur svo vorþingi. En þrátt fyrir allt situr Gunnar Dal, Kóngurinn á Cafe París ennþá inni með tár á hvarmi, brosir og segir ,,og nú ert þú komið, nýja vor og ljósið í augum þínum mun leiða okkur áfram"* og ég bæti við: ,,...þangað sem raddir morgunsins hljóma”. ] [ Leit hennar eftir traustum og öruggum manni var orðin svo öfgafull að hún var búin að taka alla kóngana, gosana og spaðana úr stokknum og þá er nú fátt eftir – nema kannski nokkrir verðlausir jókerar... sem komu auðvitað ekki heldur til greina! En hverjum er svo sem treystandi þegar hjarta lýðræðisins er fullt af skít, laufin fölnuð og fyrrum Ás í Hvíta Húsinu er búinn að halda framhjá konunni sinni? ] [ Ljúft þetta líf í loft upp ég svíf Sumarið og sólin setjumst nú á hjólin Brunum nið\'r\' í bæ bara\'ð segja hæ :;Halló, hér er ég Vá, hvað þú ert æðisleg Sömuleiðis send\' eg þér sæta kveðju trúðu mér Stritandi um stræti og torg Staddur hér í borg Sest ég niður sveittur Svakalega þreyttu Vil ég vera hér ] [ Geturðu gert eitthvað stórt, eitthvað mikið, sem vekur áhuga og athygli en þó um leið óttablandnar tilfinningar. Eitthvað sem sýnir að ég er ég sjálfur, ég er sjálfstæður. Eitthvað sem sýnir að ég fer mínar eigin leiðir, að ég sé brautryðjandi. Mig vantar eitthvað sem sýnir að ég syndi á móti straumnum, ég er nú einu sinni Karl Ólafsson, sá eini, sanni karl. Karlmennskan uppmáluð, en þó ekkert karlrembusvín, nei nei af og frá. Ég fór á í kvennagönguna og stið konur af fullum hug, en engu að síður þá er ég karlmaður, fullorðinn og sjálfstæður karlmaður. Annars væri bara fínt að fá smá snyrtingu hérna á hliðunum og aðeins að aftan. Ekkert og dýrt samt, fátækur námsmaður þú skilur. ] [ einu sinni hitti ég mann úti á götu. Hann kinkaði kolli og ég sömuleiðis. Að því loknu gengum við áfram okkar leið, ég heim til mín og ég býst við að hann hafi farið heim til sín. Það var ekki fyrr en stuttu seinna, daginn eftir að mig minnir, að ég fór að hugsa, já ég fór að hugsa!. Mér fannst ég hafa séð þennan mann einhverntíman áður, en allt kom fyrir ekki, ég gat hreinlega ekki munað hvar ég hafði sé hann áður. Enn þann dag í dag er ég að reyna að mina hvar ég sá hann, fyrir utan þetta skipti úti á götu, en það virðist ekki vera að virka.... Kannski er ég ekkert eins mannglögg og ég hélt. ] [ Ég ætla segja ykkur sögu frá, um ungan dreng í jötu lá. Þau Jósef og María skýrðu hann Jesú, og engill sagði hirðunum frá og þeir sögðu. Hallelúja, frelsari er fæddur, sem er Drottinn Kristur, í Davíðs borg. Samgleðjumst og gefum gjafir, reykelsi, myrru og gull. 2005 árum síðar hringdu jólaklukkur, Og kirkjukórinn syngur Heims um ból. krakkar bíða og bíða, og allir segja Gleðileg Jól og segja síðan. Þegar allir eru að opna gjafir, hlusta þau á jólalög. Og þegar allir eru farnir að hátta, fara allir með hljóða bæn og segja. ] [ Grámyglulegur hversdagsleikinn kemur aftan að þeim sem einskis vænta Nema auðvitað að sá hinn sami sé með bakspegil og hliðarspegla og athugi í þá áður en hann leggur af stað ] [ úti er myrkur, allt er hljótt. hjartað hamast títt og ótt. huggun í mynd er það synd að óska þess að þú komir í nótt? . hugurinn reikar, heit er mín ást af söknuði mínum þarf ég að þjást líkaminn stinnur ég vil þig Guðfinnur afhverju þurftir þú að nást? Sálin hungruð, bíð eftir þér þú ert það sem ég óska mér stroku á kinn þú ert minn hjartað geymir það sem augað ekki sér. ] [ Er við sátum og töluðum um lífið, um þig mig og allt sem á vegi okkar varð, um þá strengi tilfinninga sem við bæði geðjumst að, þá var ég glaður. Enn nú sárt mér þykir að við getum eigi verið saman, einkum er það rökkvar. Já sárt mér þykir að við getum ekki legið í laut og brosið til sólar og heilsað morgni er vakna myndum við saman. Já sárt mér þykir að geta ekki þrýst þér að mér í hvílíkri ástríðu og heyra þitt ljúfa lag. Já sárt mér þykir að geta ekki gengið með þér um götur hönd í hönd og hyllt þá eldri sem æskunni ber að gera. Já sárt mér þykir að við getum ekki orðið eitt í faðmi þessa lands og sungið með fuglunum hinn fegursta sálm og í eilífðinni dvalið. Já sárt mér þykir og stanslaust vona að einhvern daginn munir þú skríða inn um glugga minn og berskjalda mig með þínu fagra brosi og varpa ljósi á skugga minn með þínum blómlegu duttlungum. Já það stanslaust ég vona, AÐ einhvern tíman muni rætast, einhvern daginn. Já einhvern daginn. ] [ Einn daginn hittum við ungann mann á laun og reyndist hann slunginn. Hann beytti launráðum sínum gegn okkur En við létum ekki bugast, Því að við vissum að gott hefur alltaf meira á hið illa. ] [ ég hata þetta líf! ég bara þoli það ekki! mig langar bara til að hverfa deia. þá verða loksins allir ánægðir! lausir við mig ég er bara fyrir 3 hjólið ég hata mig allir hata mig afhverju fæddist ég? fæddist ég til að láta hata mig? mig langar að deija mig langar þþað svoooo mikið já mig langar það hverfa burt.. ] [ Óttalega er hann Ólafur ómögulegur Já, hann er alveg ómögulegur Hugsanlega gæti Finnbogi hjálpað honum Ólafi Ef hann aðeins væri ekki ómögulegur Og ætti skegg ] [ Þramm þramm draugagangur í mínu höfði. Fram fram draugafylking. Skamm skamm ekki láta mér bregða svona... ] [ Á blóðrauðum botni ólgandi hafs fann ég brostið hjarta. Var það þitt eða mitt eða brot þeirra beggja? ] [ stóðu umhverfis bankaskápinn ískraði í lömum menn stóðu andugta útúr rúlluðu whiskey og konjak óþverragengi steinhissa með bauginn brosti heilagur jóhannes fullur heilögum vínanda ] [ Lífsgangan er eins og að labba fullur heim úr bænum. Skref fyrir skref ratar maður heim á endanum, ef maður bara fylgir ljósastaurunum. ] [ haltu fast í allt sem átt eigi skaltu velta snjallt er margt en falt er fátt feginn skaltu gelta ] [ orðin þín hrundu af vel sköpuðum vörum þínum áður en ég gat komið með svör í takt við fastan slátt hjarta míns barðistu við að stíga rétt skref skrefið sem þú steigst var í vitlausum takti, á vitlausum tíma en orðin voru vel valin, á réttum tíma, þó að hreyfingarnar fylgdu ekki með Hvernig áttiru að fara að því að hreyfa þig rétt í myrkrinu? þú gekkst beint á vegg, á vegg prisonsins.. þar sem þú situr fastur í hjarta mínu, þú fékkst lífstíðardóm ] [ Í eilífu hljóði daganna sem líða sit ég á snjáðum stól; bíð myrkurs. Og tel stjörnurnar sem birtast. ] [ Ég flýg upp en án vængja og fell í tómið. ] [ Few days later, still haven´t met the god who made her. Speachless at her presence, speachless. I´m the joker, good for laughs and conversation. In their eyes nothing else, nothing growing from that foundation. The moment you figure out, that her happiness is what it\'s all about. You understand your heartache, means seeing her shell break. ] [ Gamli maðurinn var orðinn úrkula vonar um morgunmatinn sinn Honum var sama um brauðið honum var sama um lýsið en eggið vildi hann hafa Eggið var honum hugleikið Því að eggið minnti á ástina Ástina hans Eggið hans ] [ man life is hard, cruel and no justice yeah, here I go again, even if I’m rusted but only so you know that I can see myself putting this grudge on top of the highest shelf contacting the mind, the heart and the soul finding if that last litile drop filled up the bowl of patience and stamina, I can barely move on even I wouldn’t notice if this was all gone motivated by spite and hatefull intensions driving my voice into madness and dimension tic tac, tic tac, time is getting low time to pay up what I already owe I ain’t broke but still not very wealthy smoking cigarettes and still pretty healthy so if I’m an item, then why won’t they pick me? ] [ Tyggjó á götu, Tyggjó í fötu. Tyggjó hér Og tyggjó þar, Tyggjóið er bara alls staðar! ] [ Frá börnum þínum fórst í leit að mat handa þeim. Yfir götu þurftir þú að fara þetta dimma kvöld. Þú hljópst yfir götuna en þá kom bíll og keyrði yfir þig. Þú lést samstundis. Börnin þín þrjú dóu úr hungri og kulda. Svona er lífið hart elsku litla mús. ] [ Sá var tekinn heldur hart í hauggatið "Frammaranna!" Af Halldóri drýpur viskan vart en vandamál hver dæmin sanna. Heldur því fram að hvítt sé svart að hátterni græðginnar manna og bros hans þykir býsna smart í blekkingarleik ráðamanna. ] [ Samvinna er eitt af einkunnarorðum Húsaskóla. Samvinna er að hjálpa öðrum, vera samvinnufús, gefa af sér og hlusta á aðra. Það er líka samvinna að leyfa öllum að vera með, að skilja ekki útundan. Þegar við erum orðin eldri og hittumst getum við rifjað upp hvað það var gott að vera í Húsaskóla ] [ í hljóðu myrkri rennur blóðlituð mynd þín um æðar mínar rám rödd syngur \"lífið er viðkvæmt blóm\" þú situr ein með dofin augu og týnir marglit blöðin af lífsblóminu eitt af öðru daðrandi við dauðann ég sé enga angist í dökkum augunum hann heldur þétt um andlit þitt meinið marar í sál þinni breiðir úr sér kláðaklær í lungum þú nærir þær með öllu nema lífinu ég finn enga angist í hjarta þínu fíkn í falskan veruveika frá sársauka sem engin orð fá lýst þú hefur reist þér háan kringlóttan múr og skrifað þráhyggju ótta angist uppgjöf sektarkennd inn í hann fallegar myndir úr mórauðu blóði þínu skreyta hann utan legg hönd mína varlega í þína um stund finn hvernig þú dregur þína út hverfur inn í fortíðarþoku á meðan framtíðin er fyllt táknum dauðans út úr augum þínum sé ég í eitt forboðið andartak morðingjann helsárt sjálfið leikandi sér við vágestinn 1000 lítilla krabbadýra skríða út um svitaholurnar á næturnar og éta þig upp rétti þér heróín í huganum og silfurlita nál ] [ Fór til Sólheima, enga sól var nokkurstaðar að finna frekar hefði ég Heiðarból kosið til að sinna Ágætt er hér útsýnið en köttur heitir Magnús ] [ Hvítur snjór fellur á grasflötina eins og hvít ábreiða og græna grasið sést ei lengur því nú er kominn vetur. ] [ I the chaos. You stability. What I miss you have. What you miss I have. Together we are strong. ... I am alone. I no more have you. No more stability. I lose my head. I ask for help.. I need you. Make us strong. The bond is breaking... getting weaker.. by the minute.. I ache for you.. need to see you. I will lose you. The bond will break. And I will again be floating alone in the nothingness of life. Being But not living. I need you. Please... ] [ Ef ég skrifa ljóð sem kafar dýpst ofaní sálartetrið mitt. Er ég viss um að ég sé að troða eigin eymd á hvern þann sem álpast til að lesa það. Því mér finnst ég alltaf þurfa að biðjast afsökunar á öllu sem ég geri. Öllu sem ég segi. Hrædd um að verða mér til minnkunar. ] [ Í morgun þú rérir til fiskjar á þínu litla fleyi. Á hádegi varstu ekki kominn, kannski varstu að fá hann? Um kaffileitið bólaði ekkert á þér, kannski varstu að mokfiska? Um kvöldmatarleitið varstu ekki kominn, fólk fór að ókyrrast og óttast um þig. Þú komst ekki um nóttina heldur eins og allir vonuðust til. Um morguninn sáu bæjarbúar fley þitt lengst út á firði. En engin hreyfing um borð! Þegar félagar þínir af sjónum stukku yfir í fley þitt sáu þeir að þú hafðir fiskað vel. En þeir fundu þig ekki og þú fannst aldrei og lífið það tifar í dag án þín. ] [ Það hafa fáir séð glitta í alvöru mig Því sálin er falin bak við stafla af kaldhæðnum bröndurum og það er dregið fyrir hjartað með fíflaskap ] [ Fallegt var af þér að reyna að kenna mér Landafræðina sem hagnaðist þér. Bókin bara fyrir mér flæktist, Þannig að eftir þér ég sækist. Eftir langan tíma mér tókst þó Að læra þetta og hló. Íslenskuna ég betur skil, En stærðfræðina læra vil. Franska upp í hugann kemur En enskan hana niður lemur, Dönsku vil ég frekar læra En í eðlisfræðinni ég þarf að hræra. ] [ upplýsingaflæðið ber, allsber, börn sín í barmafullan lækinn óekta veiðistöng fiskar í sjónum fleiri fiskar í sjónum drekkhlaðinn bátur olíuborinn og endurfæddur rappari fræðir mig um konur og kynhegðun það er slegið á létta g-strengi leikið á líkamann líka mann ] [ Blá svo falleg mig litu forðum horfa nú annað. ] [ Ást og hatur Ástin er eins og sólin Sólin er full af gleði og hamingju Hatur er eins og ást, veitir manni lífsfyllingu. Ástin er eins og ómálga barn. ] [ stærðfræði, stærðfræði hví reynist þú mér svo óskiljanleg kóðar þig með tölum og reynir að hylja þitt innra sjálf fyrir skilning mínum en bíddu bara ég hef frjótt hugarafl á mínum snærum og ég mun sjá í gegnum þessa blekkingu því ég ætla að verða stærðfræðingur ] [ Ahhhhhhhhh ahhhhh já þessi samloka var góð ] [ Heyrirðu sál mín, heyrirðu það gróa? Grasið hinum megin við árbakkann? Þar sem allt er svo grænt og skógi vaxið berin vaxa villt og börnin leika sér nægjusöm. Heyrirðu sál mín glamrið í bílunum sem bíða? Bíða eftir að komast með ferjunni Yfir. Heyrirðu sál mín kall mitt heyrðirðu sál mín það óx, það óx og þegar það hætti að vaxa hættirðu þá að hlusta? Innra með þér. mér. Heyrðu sál mín hættu þessu væli syntu yfir sundið þar er grasið grænna, þar vaxa þau ótt og títt litlu börnin, og berin. ] [ Í skjóli við Sólrisufjöll frá stríðum norðan vindi. Er við rætur risin höll þar ræður ásinn blindi. Heyrast þaðan hlátrasköll á kyrrum vetrarkvöldum. Því æsir eiga skáldin snjöll og skála við ræðuhöldum. Þó aldrei hafi augun séð er ysta myrkur fjarri. Því fegurð hans er falið veð og friður honum nærri. Hann vill sátt og geð til góðs og grið um liljuengi. Því sverðin höggva sárt til blóðs og sporin hræða lengi. En ærulaus með illan streng andi um nóttu líður. Háskagripur með fallinn feng er fast við ósinn bíður. Í hallarmold við virkis var vex blóm á þurrum greini. En hljóður skuggi hreyfist þar og heldur á mistilteini. ] [ Ég mætti skugga í eigin mætti, í myrkri liggja fótspor mín. Þar hamingjan í bernsku hætti, og hryggð og kvöl mig tók til sín. Ranghugmyndir minn huga reyrði , og raunhyggjan gistir annan stað. Í huga rangar raddir heyrði, og hjartað! ég get ei skilið það. Hve smýgur þinn fjandi í dýpi sálar minnar. er særindi ást þín með krumlum greip um mína. Hve kvalartárin falla um þrútnar kinnar, er kvalar orðin renna um tungu þína. Hve birtir til við skjáinn blíðan, og bros mín örvast nú í dag. Ég sælu finn í brjósti síðan sortinn kvaddi hjartans hag. Ég finn er brosin í anda fæðast, er fögnuður strýkur mína kinn. Er ljúfir straumar kátir læðast, að lífi mínu daga finn. ] [ Nálgun Ég nálgast þig með sveflu sálar, Er sorgir kveða um brautir hálar. Þú ert yndi ljós þitt logar, Látlaust það í hönd mér togar. Augu þín er spegill sálar, Sífellt draga mitt hjarta á tálar. Þau mæla stórt í þagnar þrá, Er þrautir kreista lund og brá. Þitt bros er von þín hönd er hlý, Í hamingju ég að því bý. Þinn faðmur kveikir ljósið ljúfa, Loga þess ég ei vil rjúfa. Í sekúntu ég faðm þinn finn, Og freista koss á þína kinn, við altari hjá Kristi kærum, Hanns krossi við svo gullintærum. Laufey Dís 1993. ] [ ég sit hér með al og einn hef engann til að vera með ég horfi á ljósastaurinn úti, lúinn, aleinn og sterklega beinn. gengur við hans hlið maður einn og hann hleipur og hleipur svo hratt, líklegast orðinn seinn. Ég stend upp og stuldra við lít svo til hliðar en þar er enginn það er enginn hér mér við hlið. Svo heyri ég símann hringja, enginn er heima. ég strunsast niður stigann og svara í símanum ég heyri rödd og já það er hún sara... hún spyr hvort ég get leikið, og auðvitað get ég það... því ég hef ekkert annað betra að gera. ] [ Ég vil ekki vera hér Vildi ósk’að ég væri í fangi þér En þú kvaddir mig Og skugginn þinn minnir mig á þig Hann er allt sem að eftir er, Það eina sem eftir er af þér Og sár mín gróa ei Það liðna fæst ei breytt Það er svo margt sem Tíminn getur ei eytt Er þú grést ég þerraði burt öll þín tár Er þér blæddi græddi ég strax öll þín sár Ég hélt í hönd þína öll þessi ár En samt er ég ein á ný Svo oft þú hélst mér fast Í gegnum dimma vökunótt Sagðir ,,ég elska þig” Svo sofnaði ég fljótt Er sólin vakti mig Leit ég upp, gat hvergi fundið þig Og þá var ég ein á ný Ég gat ei sofnað aftur því.. Að sár mín gróa ei Það liðna fæst ei breytt Það er svo margt sem Tíminn getur ei eytt Er þú grést ég þerraði burt öll þín tár Er þér blæddi græddi ég strax öll þín sár Ég hélt í hönd þína öll þessi ár En samt er ég ein á ný.. Í gegnum líf mitt höfum við verið eitt En nú ert þú dáinn Nú er ég ein, ég er ein Er þú grést ég þerraði burt öll þín tár Er þér blæddi græddi ég strax öll þín sár Og ég hélt í hönd þína öll þessi ár En samt er ég ein á ný Á ný Á ný Á ný ] [ Eins og rautt pennastrik í gegnum rigninguna þýtur bremsuljós og þreytt augu sem ég sé þar ég lít út um gluggann minn. Ég ek niður veginn alltaf að flýta mér tíminn er leiðindauppfinning kannski eins og kjarnorkubomban ég lít upp og flugfákur eins og farfuglarnir flýr til betri staða. Ég horfi niður á jörðina dúkkuhús pleymókallar, matchboxbílar þessi heimur virðist svo gervilegur séð úr setustofu sjálfs guðs og ætli þessi gangandi stúlka búi í dúkkuhúsi? Ég geng og hælar smella í stéttinni vindurinn fléttar vorið í lokka mína fugl sönglar, dirrindí, fögnum því! Ungur maður horfir út um glugga og sér mig og ég hann og við inn í hvort annað. ] [ af hverju er enginn jafn stór? af hverju er enginn jafn lítill? af hverju er enginn jafn mjór? af hverju er enginn jafn feitur? af hverju er enginn með eins tær? af hverju er enginn með eins fingur? af hverju er enginn sem eins hlær? frá toppi til tár og skinns til beins er enginn sem er allveg eins... ] [ hún söng í háflóðinu týnda tóna er ég hafði löngu gleymt einhversstaðar í svartahafinu en rifjuðust nú snaróðum upp fyrir mér eftir því sem ég sturlaðist ] [ Á hverri nóttu er stjörnur þínar skína þá sé ég allt, sem orð ná ekki að tjá ástina alla og eilífðina þína og endalausan kærleik ljósunum frá stjörnurnar allar í ótrúlegum geimi á eilífum himni, skapaðar af þér í lotningu þær lúta þér æðstur í heimi og lýsa bjartann veginn ætlaðan mér. ] [ Hvert sem ég lít sé ég lesti og lánlausar konur og menn allt sem ég sé eru stjörnur sem skinu og flökta víst enn. Og ég veit einn daginn muntu sigra og ég veit einn daginn sérðu sól og ég veit einn daginn muntu fagna og ég veit einn daginn ferðu burt Allsstaðar er sama amstrið efalaust allt saman farið það eina sem þú kannt er að spyrja í öruggri vissu um svarið. og ég veit einn daginn færðu frelsið og ég veit einn daginn sérðu ljós og ég veit einn daginn ertá kletti og ég veit einn daginn færðu frið. Þú veist að þú ert ósköp lítill einsog sandkorn í fjallanna mergð. Í augum Guðs ertu risi og einstakur að allri gerð. Og ég veit einn daginn muntu fagna og ég veit einn daginn sérðu allt og ég veit einn daginn muntu sigra og ég veit einn daginn ferðu heim Og ég veit einn daginn muntu sigra og ég veit einn daginn sérðu allt og ég veit einn daginn muntu vinna og ég veit einn daginn ferðu heim. ] [ Ef dagurinn væri ekki fagur ef dimman væri ekki hlý ef kvöldið væri ekki kyrrlátt ég myndi efast um allt í dag. Allt það sem þú átt það á ég og allt það sem ég það er þitt og allt það sem verður það veist þú og ég veit veit veit þitt er mitt. Ætti ég þig ekki við hlið mér og örugga hönd að halda í ef ekki væri þessi fegurð ég myndi efast um allt í dag. Allt það sem þú átt það á ég og allt það sem ég það er þitt og allt það sem verður það veist þú og ég veit veit veit þitt er mitt. Ef brjóst mitt myndi ekki bifast ef blóð mitt rynni ekki enn ef hugur minn myndi ekki heillast ég myndi efast um allt í dag. Allt það sem þú átt það á ég og allt það sem ég það er þitt og allt það sem verður það veist þú og ég veit veit veit þitt er mitt. ] [ Þú sem átt frelsið allsstaðar falið og flísar líklega úr heilögum runna þú sem átt góðvild og gæsku í trogum og gráðuga unga með síopna munna stattu nú sterk með stöðugan verk og hlýddu nú þeim sem alls ekkert kunna. Þú sem átt ekkert nema allt gott skilið ert eilíf og sterk einsog stálsleginn tunna þú sem ert hátt yfir raunirnar hafin hættu að lifa einsog beinaber nunna stattu svo sterk með stöðugan verk og hlýddu á þá sem alls ekkert kunna. Nú skaltu hugsa því kallið hér kemur kallin hann þambar upp þína brunna reistu þig við og reimaðu skóna þú Ragnheiður Ingibjörg Valgerður Gunna stattu nú sterk með stöðugan verk og hlýddu ekki á þá sem alls ekkert kunna. Rífðu þig upp og rústberðu líkið og reyndu að losna við þennan klunna hentonum út helst í Mið Atlantshafið og hérmeð þú ljómar einsog máni og sunna. stattu svo sterk stöðug og merk og hlýdd´ ekki þeim sem alls ekkert kunna. ] [ niður með fjöru, ég á minn frið, þar sem enginn talar, nema við, við hvíslum, hlæjum eigum grið, því það er enginn þar, sem svíkur mig. ] [ Ég stóð við dansgólfið, fylgdist með þér, þú glitraðir í ljósinu, ég horfði, fylgdist með þér, ég bað um dans, því dansgólfið var mitt, en danskortið þitt var fullt. ] [ ég tók hana með mér, út í bíl, setti hana aftur í, keyrði af stað, ég endaði við fjöruna, þar sem enginn mig sá, ég lagði hana á báruna, við fæturna, hún lá. Það var háflóð. ég leit niður, sá þessa konu, hún horfði á mig, og ég á móti, ég skildi hana eftir, þar sem enginn mig sá, fjaran gleypti hana, og ég var frjáls. ] [ ég stend úti og sé tvo róna þeir pissa á stein úti ! ég hlusta á þá og góna og heyri þá blóta með allskins skarðræðis tóna og labba svo inná bar. þeir labba inn og stuldra við því hljómsveit er að fara að spila það er rosa mikið og hátt klið og enginn heyrir neitt þá labba þeir beint upp á svið og byðja samstunda um frið enginn kærir sig um þetta svo þeir öskra yfir salinn \"rauðhetta\" og þá allir stein þegja..! og hljómsveitin spilar. ] [ Það skal vera í manni innbyggt að segja nei við öllum þvættingi og fara sína leið til Akranes Þar blómstrar byggðin og þar er bar og meyjar sem passa fyrir karla eins og mig Varist eftirlíkingar það eru pláss hringinn í kringum landið sem eru ekki einu sinni svínum bjóðandi Já, Áfram með þig Akranes hlustaðu ekki á þvætting og úrtal förum öll okkar leið til Akranes ] [ Meðan kornöxin drúpa höfði og bíða dögunar þögul í vindinum tek ég flugið og vex með nóttunni hátt upp berst ég með heitum blæstri þínum og tvístrast sem biðukolla á vindum alsælunnar stjórnlaus en er akurinn vaknar við skýfall morgunsins og töfrum dimmunnar sleppir skríð ég aftur inní sjálfan mig úr munni þínum máttvana ] [ ath! er í vinnslu ] [ Þröngur er ramminn fimm - sjö - fimm hækuhefðin atkvæðafjöldinn ] [ Aldrei á sama tíma alltaf nálægt þó alltaf í fortíðinni gömlum tímum Þú er ekki hér þú ert á allt öðru tímabili hvað er klukkan þarna? tekur ferðin langan tima? En stundum í augnablik þegar úrin eru samstillt og hjörtun slá í takt stendur tíminn í stað. ] [ Ég sit hér og borða súkkulaði eins og barnið í mér og trúi öllu sem sannleikanum frjáls við efa og ótta efast ekki um frelsi Ég sit hér og drekk súkkulaði eins og heimspekingur og efast um það sem er satt hvort eitthvað sé satt. óttast að fresli mitt sé misnotað óttast að vita ekki að vera frjáls Þegar ég svo loksins hætti að hugsa um súkkulaði mun ég þá óttast að efa? mun ég vita,sannleikann? öðlast frelsi. ] [ Á fermingardaginn 15.4.2006 Til hamingju kæra Heiða Mjöll. Heillaóskir stórfjölskyldan öll. Bestu kveðjur á björtum degi, Bebba og Einar í Skálateigi. ] [ Þegar myrkrið étur út úr mér og ég óðum dofna Verð ég tóm brotin skel og dauðanum kýs að sofna ] [ ég mæti til vinnu gegn mínum vilja, knúin af græðgi og nauðsyn. Ég hef ekki enn lækkað yfirdráttinn, né greitt visa reikninginn, ég sit og brosi mínu blíðasta og leyfi fólki tala við mig líkt og ég sé andskotans ekki neitt, ég sit við tölvuna og slæ inn í sífellu.. Og það eina sem ég hugsa... Hvenær í fjandanum fæ ég greitt.. ] [ Vegna fjölda ásakana hef ég hugleitt að skilja við mig og fá mér nýja. Mér er sagt að í \"Góðum stelpum\" Geti ég fengið popplínkápu og skó í stíl. Fyrir þetta geti ég greitt með persónu minni. Innifalið í kaupunu er einnota persónuleiki við allra hæfi. ] [ Má ég vera regnið sem þú þarfnast til að blómstra? Má ég vera Sú sem að minnir þig á þig? Má ég vera aldan sem mjúklega þér vaggar og bátur þinn er öldurót lífsins tekur við? Má ég vera stormurinn sem feykir burt og hreinsar hindranir sem aðrir vilja leggja í þinn veg? Má ég vera eldurinn sem í hjarta þínu logar? Má ég vera koddi þinn, ábreiða og beð? Má ég vera konan sem þú þráir, elskar, saknar? Má ég vera draumar þínir, gleði þín og þrár? Má ég vera sólin sem þér yljar,gleður,fagnar? Má ég vera, má ég vera, elsku segðu já. ] [ hæ þú gleymdir pickuplínunni þinni á náttborðinu mínu þegar þú fórst datt bara í hug að þú munir sakna hennar þegar þú ætlar að nota hana næst ] [ Megi Guð blessa og vera hjá þér Megi þínar óskir uppfyllast hér Megir þú ávallt við aðra gjöra er þú vilt að aðrir gjöri þér Megir þú byggja brú til stjarnanna tengja merkin og á því vekja máls Megir þú lifa - að eilífu frjáls Að eilífu frjáls, Að eilífu frjáls Megir þú lifa - að eilífu frjáls Megir þú ganga beinan veg hinna réttlátu Megir þú ganga veg sannleikans Megir þú ávallt vera sjálfum þér trúr og leita að eilífu í ljósið Hans Megir þú ávallt vera hugrakkastur Og hreinskilnastur um allan aldur Og megir þú lifa - að eilífu einfaldur Að eilífu einfaldur, að eilífu einfaldur Megir þú lifa - að eilífu einfaldur Megi hjarta þitt ávallt vera fyllt af ást Megi sál þín vera hrein Megi hugur þinn að eilífu um hagana reika Megi líkami þinn elta Daðstein Megi söngur þinn verða sem víðast sunginn svo af innlifun hljómi úr hverjum hálsi Megir þú lifa - að eilífu, Jakob hinn frjálsi Að eilífu frjáls, að eiífu frjáls Megir þú lifa – að eilífu, Jakob hinn frjálsi Megir þú ávallt lífga upp á heim-(m)inn Megi ljóðin berast fljótt til mín Megi lífsspeki þín um öll sjö höfin fara Og þín fagra einfalda heimssýn Megi lífið við þig leika - sólin sleikja eins og hundsins endaþarmsop Megir þú lifa eilífa æsku - kæri Meistari Jakob Eilífa æsku og lífið sýna þér Zimmerman...ngæsku Megir þú lifa eilífa æsku – kæri Meistari Jakob. ] [ Ég er óskilgetinn sonur Tómasar Guðmundssonar, ég er heilagur andi, ég er þvottavél. Árið 1932 var ég í Berlín og mér leið ekki vel. Ég var skapaður til að væla, einsog eilífðarstúdent. Ég er þykkmjólk framleidd í Mjólkurbúi Flóamanna á Selfossi. Á áttunda áratugnum var ég umboðsmaður Abba og ég djammaði með fína fólkinu í Stokkhólmi. „Till fest för att fira det nya året!“ hrópuðum við. Ég sakna borgarskáldsins og áranna þegar við Anna öskruðum: Þetta djöfulsins smáborgaralega íhaldsrím með rómantískum væluhomma tendensum, þetta er bara rusl! ] [ Bláköld horfi ég framan í svartan raunveruleikann miskunnarlaust felli ég dóminn það er aðeins sól í draumum. ] [ Kolniðarmyrkur. Leiktækjahljóð allt í kring. Ég er föst í sætinu. Skynja þig aftan við. Vindurinn þýtur -og tekur mig- -Ég hrífst í burtu.. ..Hjartað hamast -Þögn- í eina sekúndu -Svo- finn ég hendur þínar grípa í axlir mínar. Faðma hjarta mitt. Og við erum aftur eitt (?) ] [ Pitchblack darkness. Sound of games surrounding. I am stuck in the seat. Sencing you behind me. The wind blowing -removing me- -I start slipping away.. ..My heart pumping. -Silence- for a moment -Then- I feel your hands gripping my shoulders. Your arms hugging my heart. And again we are one (?) ] [ Ekkert af þessu er að gerast svona kemur bara fyrir annað fólk en það hjálpar mér að vita að ég elska þig á förum verð ég aldrei fjarlæg í fjarlægð verð ég aldrei farin mundu megi rökkrið rofna á herðum þér megi regnið hrökkva á glugga þínum megi fuglinn syngja í garði þínum megi hamingjan dansa í augum þér passaðu þig á nautunum -mamma. ] [ there are three litlie ways to make a decition everyone get set in the starting position I will count them like so one two three this is a new era so listen to me 1. The first is right, safe and trusty but nobody said it was easy it means no fun no feeding or playing no intellect to know what they all saying walking the line doing them a favour like a poor dirty drink with very litile flavour in the end you will be either in a church praying or at the local slime bar refusing to leave or paying 2. the second ahead, ready and willing hesitating not ready for the killing skip on the rules and break down the fence between you, your fear and all that’s intense straight forward and aiming to score finish the job then beg of some more fast strong and evil rebelious at times so far, so good do you still like my rhymes? 3. at last the mentor the teacher of all sit back and wonder why do we fall? memorize the feeling read it front to back next time in meaning you are ready to attack you can cut the puppets strings you can spread out your wings but then you’d be doing one of the other two things when pressures are high and things fall apart you have got to remember to listen to your heart ] [ ást mín á þér er hafin yfir tíma og rúm þess vegna geymi ég hana í ósögðum orðum ] [ sawyer! walt! walt! ] [ Hvítur sandurinn verpist um í flæðarmálinu svo vitur svo tær Líkamlegur sem maður kvikur sem sær kaldur sem nár ] [ Kom af fjalli svo undirleit og blíð smalastúlkan fagra Lömbin fagna Með kollinn úfinn rifna svuntu og berjalyng í kjöltu Lömbin fagna Jarmandi sama mál um gróandi grundu fullnægð af heilu sumri Lömbin fagna ] [ Það dýrmætasta í lífinu er að eiga einhvern að. Eiga einhvern til að deila Sorgar tárum og gleði tárum Eiga einhvern til að deila Slæmum stundum og góðum stundum Eiga einhvern til að Deila lífinu með. ] [ Með sorg í hjarta ég horfi Á eftir þér Með brosið bjarta Hverfur þú frá mér ] [ Ég vild ég gæti Flogið á braut Verið frjáls Sem fuglinn Og horfið Inn í himininn. Flogið til staðar Þar sem ekkert Hrjáir mig Þar sem enginn.... ] [ Upp á himnum Langt, langt í burtu. Á fallegu skýi Situr lítill og fagur drengur Þessi drengur Er engill sem Vakir yfir Mönnunum. Hugsar til Þeirra með hlýju Og yl Sem þeir ylja sér við Á köldu Janúarkvöldi. ] [ Nú söknuðurinn mikill er Því þú ert ei lengur hér. Og alltaf okkar hugur dvelur hjá þér. En ég veit að Einn dag við hittumst á ný Og að mótaka Þín verður hlý. ] [ Nú ert þú flogin á braut Orðin frjáls sem fuglinn og horfinn inn í himininn Horfinn þangað sem enginn sér þig En allir vita af þér ] [ Sofðu vært og sofðu rótt fljúgðu á vængjum engils inn í ljúfa nótt Nú þú hjá englunum sefur og þá Guð þig nú hefur Sofðu vært og sofðu rótt Þú ert engill næturinnar sem mun vaka hjá mér í nótt ] [ Svo hægt, svo hljótt umlykur myrkvið þig og ég finn að þú svífur inn í dimmma nótt. Þú ert en þá hér það veit ég vel þó fölni myndin í huga mér. En minning þín lifir björt og hlý Hún lifir í huga mér svo óendanlegaskýr. ] [ Allt er svo grænt Friðsælt Ég geng að girðingunni Hún er brún og trausvekjandi Ég opna hliðið Og geng inn Ég dansa um í hvítum kjól Hárið sveiflast um axlir mínar Ég er berfætt Frjáls Ég sé stórt tré Tignarlegt með græn lauf Ræturnar stórar og margar Öryggi Ég klifra upp í tréið Sit þar á grein einni Les bók og hlusta á fuglana Friðsælt Ég sé læk Tæran og fallegan Ég hlusta á lækinn Og sé litla fiska Ég geng yfir brúnna Og sé stórt fjall Það er svart Með grjóti Ég fer í gönguskó Tek teppið mitt með og tónlist og legg af stað leiðin upp er erfið ég þarf að reyna á mig en mér skal takast þetta ég held áfram inn á milli grjótsins sé ég blóm lítil sæt fjólublá blóm ég tek eitt set hárið í hnút og blómið í hárið ég kemst á toppinn breiði teppið á jörðina uppi er grænt ég ligg og hlusta á tónlist himininn er blár og fallegur skýin fara rólega áfram sólin skín hvíld ég legg af stað niður leiðin er léttari ég næstum hleyp loksins kem ég niður á grænt grasið ég tek af mér skónna fer að læknum læt fæturnar í hann og labba yfir hjá tréinu er lítil tjörn vatnaliljur og froskar ég fer í fótabað en stíng mér svo allri oní tjörnin er hrein ég hrífst af hreinleikanum og reyni að tileinka mér hann þegar ég fer upp úr skil ég allt það svarta eftir ég leggst á teppið hjá tréinu fuglarnir syngja og sólin þurrkar mig ég stend upp fer í áttina að hliðinu opna það, þakka garðinum fyrir og fer út ég horfi enn einu sinni á garðinn og fer svo heim á leið ég kem hingað aftur bráðlega! Rannveig Iðunn 10.apríl 2006 ] [ Þegar sumarið flýgur inn í heiminn Og rekur vorið burt málar það grasið grænt á leiðinni það stillir hitastigið hærra á sólinni og segir fuglunum að koma hlustaðu! þá heyriru að sumarið er komið Rannveig Iðunn 2001 ] [ There was a time, I felt good, I was happy Everything was so beautiful and nice People liked me I liked me I was free, I was innocent I was a little girl But then they came, and made me feel the way I did They destroyed this part of my life, I didn’t like me, I thought nobody did But I was wrong You came You came and helped me up You told me that I was beautiful, And I deserved to live my life The way every woman dose You are the one, The one I want to spend my whole life with I want to hold you I want to kiss you, I want your love everyday I love you Because, there was a time I felt good I was happy Everything was so beautiful and nice People liked me, I liked me I was free, I was innocent I was a little girl Now I feel the same way As I did when I was A little girl I am happy, I am free All because of you ‘coz I’m with you And you’re with me And we’re in love Don’t lose hope what happened to me can happen to you too, just wait…..love will conquer all! 14. mars 2003 ] [ My tears are streaming I can’t get out My mind is screaming Stop this PLEASE My head is spinning I can’t breath Why are you doing this Why? I want to sleep I want to stop this But I can’t get out I’m locked inside With no one who can help me No one who understands me But whose fault is that? No ones but mine… Rannveig Iðunn 30. oktober 2005 ] [ I feel so empty have nothing to say why can't I do this and that like the rest of the girls? always hoping always praying but nothing happens nothing at all can't you help me? can't I help me? is something wrong with this life or is it me? I'm not sure why don't you tell me make me feel good make me feel secure all I need is love and caring all I need is hope can I get that or is everything lost? 22. september 2005 ] [ My imaginary world My world is full of imagination My world is perfect In my world I’m always happy I’m not worried or stressed out I’m carefree I feel love all around me I have reason to exist I sing to everyone And let them experience joy with me They like it I expose myself I’m vulnerable But they like it They like me They respect me They are proud of me But that’s not the real world The real world is darker It’s not as joyful It’s all in my imagination But I have to believe Believe that it will come true Rannveig Iðunn 26. nóv 2005 ] [ I love you But I don’t know who you are I need you But I don’t know where you are Why do I love someone who isn’t here Who doesn’t exist It’s just a wishful thinking It’s not going to happen I dream a lot Maybe it’s because I’m a Pisces They say they dream When they want to escape from the reality Is that what I am doing Maybe I’m full of passion I need someone to manage it I need love I need a hug I need YOU 2. desember 2005 ] [ Hver er ég? Hvað er ég? Þekkir þú mig? Nei! Ekki ég heldur... Rannveig Iðunn 19. des 2005 ] [ I was happy That was fun It was really good But this feeling went away It was taken from me That’s not good You disappointed me You didn’t show up You promised But hey I’m easy to forget I don’t blame ya’ Just let me go Rannveig Iðunn 19. des 2005 ] [ I had a little dream That dream was dear to me It wasn’t that little It was rather big But now it’s lost My dream is ruined And I don’t know if I’ll get it back But then what will I dream of? I’ll dream of me getting out of this darkness And in to the sunlight I’ll dream that one day I’ll have enough self esteem Enough so that I know what I can and want to do I’ll dream that it will happen soon Very soon I hope that this dream will come true And I will not loose it Because I believe that everything happens for a reason And I hope that God has great plans for me Plans that I can fulfil We’ll just have to wait and see I hope that I won’t be tired of waiting And do something that I will regret I hope that I will stop whining and do something about my life Rannveig Iðunn 30. des 2005 ] [ There once was a little girl She was only six She had a teddy It was big and protective She was afraid She was so little She didn’t understand What was going on She just laid there In the dark In her room All alone And waited Waited for someone She knew that he would come He always did She just had to wait It was better to be awake, Then have him wake her up Was this normal It was not good She wasn’t going to ask anyone If this was normal It was private She just waited Stared in the dark Until she heard footsteps “Oh dear teddy hold me now” The door opened He was here Rannveig Iðunn 10. jan 2006 ] [ I can be a mouse Afraid of everything I can be a bear Hugging everyone I can be a cat Loving to everyone I can be a dog Loyal to friends I can be a mole Sour and annoyed I can be a lot of things But it’s all me You have to accept me for who I am Or not accept me at all Rannveig Iðunn 10. jan 2006 ] [ Where is there And who is that I don’t know why I can’t get out Outside is raining Children playing When will the sun shine? I hear laughing Someone’s singing Why can’t I participate? Rannveig Iðunn 26. Janúar 2006 ] [ I’m locked inside my own mind I am the warden I hold the key I was jailed for being shy Showing vulnerability Not letting the real me out But when will I get out When will it be enough? When will I let myself be me? Rannveig Iðunn 26. Janúar 2006 ] [ You’re so kind to me Why are you kind to me? I miss you when you’re not here I don’t laugh as much Don’t smile as much I look forward to seeing you But now you’re going away And I won’t see you as much It will not be as fun being here Who will make fun of me, Or take care of me? Who will keep me happy, Or ask me if I’m ok? Who will take your place? Thank God you’re not going to far away I will see you But not as much But it’s ok We’re still friends We can still talk I wish you good luck And get on with my life. Rannveig Iðunn 26. janúar 2006 ] [ Tired Lonely Have no longing to do anything Thinking Confused Don’t know what to do Afraid of asking Afraid of getting But desperately want So tired Mentally I wonder, is death the only answer Rannveig Iðunn 20. feb 2006 ] [ In a world there’s full of sorrow I live in fear With little security but some love I don’t know what to say So I try to say as little as I can Some people know me Some don’t Some want to know me Some don’t That’s life Not just my life But everyone’s I’m not that special I guess I’m just like everyone else Well almost I feel like I‘m alone But still I have lots of friends Lots of people who care for me But why do I feel so alone? Why do I feel empty? Tired So tired I want joy I want to be happy I want to feel safe I want to feel love I want peace! Rannveig Iðunn 25. mars 2006 ] [ There are all kinds of mysteries mystery of people mystery of life mystery of humankind and mystery of the mind The mystery of my mind has never been encrypted it's like an enigma sometimes I don't know what I'm doing or what I should do Does anyone really know isn't everyone's mind a mystery is there someone who always knows what to do or what he or she is doing I don't think so everyone has there mystery some mysteries are greater than others some are lighter you can understand some mysteries and other you can't But remember everyone has it's own mystery everyone can be confused by something You are not ALONE 1. mars 2006 ] [ Nýtt líf er komið í heiminn komið til að gleðja okkur til að gefa okkur ástæðu til að lifa og þroskast lítil stelpa sem gefur nýjan skilning á lífinu gefur móður isnni gleði og von von um að heimurinn sé góður gleði yfir öllu því sem viðkemur nýju lífi Nýtt líf, nýtt kraftaverk ný gleði, ný von hamingja og fullvissa um að lífið sé gott Rannveig Iðunn 1. mars 2006 ] [ 1) Þú lífsglaða, ljúfa og litfagra blóm. Þú leiddir mig hingað er sál mín var tóm. Þú talaðir til mín með tærum róm. -tróðst inn í mitt hjarta lífsins óm. 2) Að bera þinn boðskap um heim og geim -baðstu mig að gera en ég er of sein. Þú fylltir mig af friði til að færa öllum þeim sem finna til sorgar og sára um heim. 3) Þú gafst mér þá gjöf að gráta um nætur -en ég skil ei hvernig þú lætur. Kannski bíð ég þess aldrei bætur -að gráta og gráta og gráta um nætur. 4) Ég elska þig væna og viðkvæma jurt -vildi ég þó að þú hefðir mig spurt áður en þú hafðir mitt hjarta smurt -af hörmungum heimsins sem hverf´aldrei burt. ] [ Mín ást til þín þrungin þjakandi sorg mun endast everafter. -En kannski mun hún kulna í korg eins og “The Great Chapter.” Eins og fast hor í hálsi sem hóstast ekki út -kemur þú til mín. Then at once you leave- it´s rude! Ég elska þig ennþá -og efalaust ert þú hjarta míns master. Ég græt það í dag, jafnvel endalaust -hið dýrkeypta disaster. Í klórvatninu kalda -þú kennir mér á kút? Í gamla daga -I would have been in the mood. ] [ Ég vildi að glóð, eldur og brennisteinn myndu taka sig til og brenna gat á hjartað á þér! Rauðir blóðkekkir myndu stífla vaskinn hjá þér svo þú myndir þorna í munninum bara við tilhugsunina um mig. Ég vildi að hnífarnir í eldhúsinu þínu myndu gera árás á þig og skera af þér andlitið!... svo liljurnar í tjörninni gætu dást að því.. liggjandi á grasflötinni að eilífu! Ég vildi að hellurnar fyrir utan húsið þitt myndu ákveða að mynda djúpa holu í sér sem þú myndir að lokum falla í og fótbrotna! .. Og ég væri sú eina sem gæti bjargað þér. Þá myndir þú loksins sjá mig! .. koma þeysandi á hvítum hesti í glerskónum mínum. Köttur úti í mýri - setti upp á sér stýri .. -og úti er ævintýri. ] [ 1. Ef ég væri sautján -þá væri ég með þér. Eða kannski átján -kraumar inni í mér. En ég er semsé kona þó stelpuleg sé. Og verð eflaust að vona að ekkert fari að ske. 2. En þú ert samt svo sætur -sykursætur - hlýr Að stundum virðist þú ætur -samt aðeins of dýr. Ef þig ég myndi kaupa -það yrði dýru verði selt. Mikið fengi að staupa -samt fátt yrði melt. 3. Ég dýrka þig svo mikið -og djöfull er það leitt Að hafa ei fyrir vikið -hjarta mitt þér veitt. Því þú gast ei beðið -beðið eftir mér. Og ég fékk það í opið geðið -hið gamla geð á mér. 4. Og núna ertu með henni -nafnið ég ekki veit. Gellunni sem um allt ég kenni -en greinilega er hún heit. Því þú vilt bara hana -hana en ekki mig. Kannski fer ég bara til Ghana -og græt þar í friði- þig. 5. Þar ástarljóð ég syngi -og semdi fyrir þig -í hvítu og grænu lyngi að hugsa um þig og mig. Í ljóðunum væri ég sautján -sætust og best fyrir þér. Og þú værir kannski átján -og án efa vildir vera með mér. 6. Ef ég væri sautján -væri ég kannski með þér. Og losnaði undan þeirri áþján -sem árin setja hér. Ástin spyr ekki um aldur -sagði gamall spekingur mér. En það getur samt enginn galdur -gefið mér þig frá þér. ] [ Mér finnst það heil eilífð síðan ég sá þig síðast. Eitt augnablik -allt verður svart Tilfinningarnar kulna og deyja svo eins og ís. -Eitthvað í hjarta mín frýs. Þú áttir mitt hjarta. -kulnaðan kolamola. Leikfang lostans. Fall engilsins hefur loks náð hámarki Ég hrapaði í glötun. -Endaði í fangi Satans. Minn hinnsti dans nálgast. -í fangi hans ég snýst um. Heila eilífð -aðeins myrkur. Á vængjum svíf ég burtu. Hið ljúfa líf var tálsýn -ég gat ekki verið án þín. ] [ Mannstu fyrir löngu? Lítill vængbrotinn þröstur læddist inn í líf þitt -einu sinni á ágústkvöldi. Mannstu hve hann flögraði hratt í fang þér og hvernig stóru djúpu augun hans skoðuðu sálina þína? Það man ég. Efins tókstu hann að þér. Fóðraðir hann á umhyggju -sem síðar breyttist í ást. Svo hann gat flogið á ný! Brosið þitt blíða birti upp líf -hans. Þú varst honum allt. Því gleymi ég aldrei. Eins og guð-faðir, sonur og heilagur andi, -finnst mér einhvernvegin við þrjú vera eitt. ] [ Ástin var sköpuð til að vernda mig sannleikanum er annars myrkvaði mér sýn ] [ Sem stjarna á næturhimni skín gleði tilveru minnar Í órafjarlægð frá þeirri stund er þú uppgötvar mig og skilningur þinn á orði mínu kveikir þinn eigin neista ] [ Í ofboði brá stúlkan sér í flíkur er hún sá piltinn nálgast Með hjarta sitt á silfurfati - slaufu um það vafið Hún fór og sótti inniskóna til að færa honum í staðinn ] [ Send þú mér engil með blessun ómælda og send þú mér lífsneista sem aldrei slokknar og vel á minnst- um leið máttu veita mér ögninni lengri tíma hér á jörð svo ég fái lokið leit minni að tilganginum sem virðist svo hulinn Oft velti ég því fyrir mér hver tilgangur þinn sé í raun með því að veita mér þetta líf sem þegar yfir er litið virðist aðeins ómerkilegt augnablik og napurleikinn sem hefur heltekið þessa jörð ? Já, ég spyr hvar fékkst þú þá hverfulu hugmynd að skapa mann ? ] [ kom þú hér og kysstu mig vek mína þrá og æstu mig ver mér góður og elska mig ég skal vera góð við þig ] [ Næturlangt dunar fjörugur dans þó dottandi maður og annar Aðrir í Skottís og Óla Skans sýnir sig hver og sannar Þá komið er að því að halda skal heim heilsan er komin að þrotum Í bústöðum finna má brennivínseim burtséð frá ómi af hrotum ] [ Sem örsmár dropi í haf tímans líður augnablikið um huga mér er ég horfi á skipin er sigla að morgni reisa segl sín við höfnina og kasta kveðju sinni á sofandi bæinn meðan gullinn andvari dagrenningar líður eins og draumkennd slæða yfir fjöllin er gæta þessarar stundar og sólin breiðir hæglát geisla sína yfir hafið allt til ystu marka sjóndeildarhringsins ] [ Leika stjörnur um himinhvolf alheimsins meðan álfarnir dansa við blikandi bál örlaganna og framtíðin er rituð í reykbólstrana er líða til himins Og handan fjallanna býr mannkyn eitt þar sem stjörnurnar halda þögn sína og örlagabálið hefur slokknað í skjóli borgarljósanna. ] [ Litaðu stafinn rauðan láttu eldingarnar öskra ...flýjum hversdagsleikann ] [ Til hamingju með nafnið Hreiðar Logi! Heillaóskir ættingjar og vinir! Megi af þér rísa merkur ættarbogi, meyjarnar fagrar og glæsilegir synir! ] [ Af hverju, hvers vegna? Hví og hvað? Einhvers konar, eitthvað, Til hvers er það? ] [ Opnar augun fyrir raunveruleikanum horfir á veginn framundan það er hvunndagshetjan. ] [ Ég sit hér í stólnum og geri ekki neitt, Geri ekki neitt því ég er þreytt, Og á mig var beitt þessun hræðilegu göldrum, Að ég verði ævinlega þreytt, Þessu var á mig beitt, En ekki neitt af þessu hér, Er eins og að vera allsber, Úti að labba í þessum garði, Vinur minnn barði mig hér, Og enn ég er, Lömuð. Ég sit hér og ei er honum annt, Um mig eða mína ég tel hann nú fant! Ég bölva í hljóði og þá gerist það, Að Jesus kemur og segir við mig, Megi blessun mín vera með þér að eilífu amen, Ég hætti að bölva og svo gerist það, Lömunin fer og allt er ókei, En ei er neinn hjá mér bæ. ] [ Líf mit er fult af gleði, þess vegna græt ég, sorgir annara barna, og ég spyr: hvers virði er gleði mín ef önnur börn þjást? ] [ Er lífið dans á rósum? Ef lífið er dans á rósum, er mitt þakið þyrnum. Það sagði enginn að lífið yrði auðvelt. En það hefði kannski mátt vara mann við. En lífið getur verið gott. Dansinn á rósunum getur orðið að veruleika. En ekki alla daga. Suma daga munum við stinga okkur á þyrnum rósanna. ] [ Ef ég væri frjáls sem fugl.... Þá myndi ég fljúga í burtu. Fljúga í burtu frá áhyggjum. Fljúga í burtu frá ákvörðunum. Fljúga í burtu frá hugsunum mínum. Ef ég væri frjáls sem fugl. Bara ef lífið væri svo auðvelt. Áhyggjulaust. Laust við kvíða og efa. Laust við tilfinningaflækjur. ] [ Ég lít illa út í dag. En hvers vegna? Það er hvergi bólu að sjá. Hvergi er eitthvað öðruvísi en venjulega. En þrátt fyrir það er andlitið án svipbrigða. Það er sálin mín. Sama hversu mikið ég mála mig. Sama hversu lengi ég dunda við hárið. Sama hversu lengi ég stend í sturtunni. Ég lít samt illa út. Það er ekki hægt að mála yfir sálina. Tilfinningarnar eru á sínum stað. Þeim verður ekki breytt þrátt fyrir spegilinn. Og þarna stend ég. Hörð á því að gera mitt besta. Enda á því að brosa tilgerðarlegu brosi framan í spegilmyndina. Ég geng í burtu. Kannski sér fólk ekki hvernig mér líður. Kannski er ég fín og sæt. En ég efast um það. Ég veit hvernig mér líður. Ég veit að andlitið mitt ljómar ekki af gleði. Ég veit að augun glansa. Ég veit að það er langt í brosið. En þrátt fyrir þetta allt verð ég að lifa lífinu. Ég verð að halda áfram út í daginn. Ég verð að brosa framan í heiminn. Ég verð að standa mig í því sem ég tek mér fyrir hendur. Ég verð að takast á við það sem mætir mér í dag. ] [ Stundum er maður svo út úr heiminum. Eins og við séum bara alls ekki hér. Hugurinn kominn á flug á ný og ekkert við því að gera. Hugsanir og ímyndun, Stórar sem smáar. Lífið í öðru ljósi. Hvert eigum við að líta? Hvað eigum við að gera? Það er svo margt sem er svo afskaplega óskiljanlegt fyrir lítið sandkorn eins og mig. En með hjálp þess stóra og mikla getum við kannski á endanum látið gott af okkur leiða. ] [ Ég er alein. Hér er ekkert nema ég. Ég og herbergið mitt. En ég er ekki ein. Guð er hér. En ég sé hann ekki. En hann er hér samt. Það er honum að þakka að ég er hér enn. Það er honum að þakka að ég lifi í dag. ] [ Páskar eru komnir, Og gleði ríkir þá, Því Guð reis upp frá dauðum, Til himna hann fór vá, Við höldum þessa hátíð gleðilega já, Því minníngar Jesús eru enn hjá hjarta þínu. ] [ Ég sit hér og vinn að ljóðinu mínu, er þreitt en gefst ekki upp og mun aldrei, það er sú ástæða að ég er hér ein við tölfuna mína, mamma kallar komdu að sofa ég segi nei mamma nei ég er að vinna að ljóðinu mínu að gera það að fýnu og það er það sem ég geri. ] [ Ég svara því sem þú sagðir ég svara því seinna í dag ég svara þeim orðum úti bláinn og svo mælum við aldrei meir. Ég gef þér allt sem þú gafst mér ég gef þér allt sem eittsinn var ég gef þér það sem við áttum og svo gefum við aldrei meir. Og víst var hún þung mín byrði að þekkja skil á nóttu sem degi og þó ég svaraði og þó ég spyrði yrði það aldrei nokkurs virði. Ég sendi þér ljóð mín úr laumi ég sendi þér koss frá haustsins kvöl ég sendi þér geisla frá glösum og svo gaf ég þér aldrei meir. Hvert sem þú ferð þar var ég og hvar sem þú náttar þar svaf ég hvar sem þú hvílist þar lá ég hvar sem þú verður þar verð ég. Og víst var hún þung mín byrði að þekkja skil á nóttu sem degi og þó ég svaraði og þó ég spyrði yrði það aldrei nokkurs virði. Ég get séð myrkur að morgni og mánann um bjartan dag ég heyri en hlusta þó aldrei ég horfi en sé þig ekki meir Manstu þá morgna er hurfu manstu það sem ég ekki var ekkert er heilagt né hlálegt og hingað kem ég svo aldrei meir. Og víst var hún þung mín byrði að þekkja skil á nóttu sem degi og þó ég svaraði og þó ég spyrði yrði það aldrei nokkurs virði. ] [ ÉG HORFI nr.1 Ég horfi á blóm, Hlusta á fugal óm. Frá fuglum fáum, Í blómin náum ÉG HORFI nr.2 Ég horfi á blóm, Með hjartans óm. Feá mínum tárum, Í ástina náum ] [ Ævintíri gerast enn, Og munu gerast senn. Svo er það við ævintíri, Að maður hefur sitt eigið stíri. ] [ Eitt sinn ég var hjá þér en þú fórst frá mér, ég hneig niður,hjartað mitt fölnari eins og dauð rós. Ég sá þig alldrei aftur en eftir þennan atburð ég alldrei fór út né neitt.Það er hræðileg stund. ] [ Ég er sú stelpa sem hef áhuga á ljóðum. þetta er draumur orðin að veruleika sem ég er ánægð með og ljóð nota ég stundum til að tjá tilfiníngar mínar en stundum bara til skemtunar og ég vona að þið lesið þetta og greinið tilfinígat mínar. ] [ hvað er það sem gerir góðan dag? það er bartsíni,ást kærleikurog sérstaklega gleði þannig verður góður dagur og tilvalin til að skrifa ljóð. ] [ Það sem traustur vinur þarf ekki endilega vera með er hjata því sumir eru traustir vinir eru ekki með hjarta. Til dæmis bansar eru traustir vinir maður kemur grátandi eða hlægandi og hann er alltaf til staðar. ] [ Er ég sef, er ég vaki ég ávalt hugsa um þig.Er ég vinn, er ég tek mér pásu ég ávallt hugsa um þig.Þú ert mín von, þú ert mín hamingja þú veitir mér allt þú ert ástin. ] [ Ég brosi er ég sé þig, ég hlæ er ég heyri í þér, þú einn ert minn rétti. ] [ Lukkan getur verið lánsöm, lukkan getur verið hjálp, lukkan mín og lukkan þín mun sameinast eithvern tíman ] [ Að öldu ós við ára nið. Við lítið ljós. er lífið bið. Í elda átt er ísa fátt. Þar ástin er ein með þér. Í vorið vef og vindinn spinn. Í sól og stef sönginn þinn. ] [ fjör og stuð allt í einu! húsi rústað! geggað partí! búmm búmm og byrja slaksmál, einn er meiddur´ hinn er fínn. ] [ ást er eithvað sem allir þekkja, það er góð tilfining. ] [ Svo bjart kviknar undir þungu hjarta. Dregur mig áfram gegnum daginn, von bros allt fyrir þig. ] [ Ég horfi í spegilinn. Ég lít vel út í dag. Betur en aðra daga. Gleðin skýn úr andlitinu. Skartgripirnir mínir virðast glansa meira en venjulega. Brosið mitt er ánægt. Fötin flott. Ilmvatnið gott. Mér líður vel. Samt er ég alveg eins og venjulega. Ég er í sömu fötum og í gær. Ég er með sama ilmvatn og aðra daga. En samt er eitthvað sem er öðruvísi. Inni í mér. Þar er einhver von. Lítið ljós við enda ganganna. Það lætur mér líða betur. ] [ Hugurinn er í tómu tjóni. Ósáttur við hugsanir sínar og framkvæmdir. Þetta er ekki ég. Má ekki vera ég. Hinn hlutinn af mér er að hugsa. Ef ég bara gæti lagað þetta. Ef ég bara gæti hugsað skýrt. Bara ef ég gæti galdrað. Þá myndi ég galdra þetta burt. ] [ Ég þarf á þér að halda! Guð, hvert fórstu? Hvenær kemuru aftur? Eða kemuru kannski alls ekkert? Þú verður að koma. Án þín get ég ekki neitt. Án þín væri ég ekki neitt. Ég þarf hjálp. Ég veit að þú ert hérna. Líklega helduru fast í mig. Gætir þess að ég falli ekki. En hugurinn er annar. Ég er ekki ein. En hví efast ég? ] [ Orrahríð herþotanna breiðir út vænghafið í oddaflugi, hnitar hringa og verpir sprengjum í hreiðrin úr sviðinni hrærunni klekjast afkvæmin ungarnir höggvast á en fylgja svo flugi feðranna út að sjóndeildarhringnum þar sem örmagna sólin hnígur blóðstokkin til viðar í hinsta sinn ] [ Ég er fuglinn sem sat á grein og söng, næturgalinn sem sönglaði. Ég er kanarífuglinn sem tísti, krían sem skríkti. Ég er kruminn sem fann demantinn, krákan er hló. Ég er spörvinn sem flaug á hurð, þrösturinn sem sníkti bita. Ég er örninn er flýgur fugla hæst, en þó unginn litli. Ég er gaukurinn sem lék á köttinn, páfagaukurinn í búrinu. Ég er dúfan sem flytur friðinn einnig uglan sem vakti Ég er litli skógartitlingurinn, ég er hrafninn sem flaug. ] [ Loft, láð, lögur andi,efni,hugur líkami,sál,andi Heilög þrenning, misjöfn menning bundin helgu bandi. Þrír, einn Guð. Þrennt, ein ég. ] [ Ef tveir jafngilda einum Hvernig getur þú þá verið tveir ef þú hefur aldrei verið einn? -Útjöskuð hóran hún leggst á allt og reynir að græða pening en gerir það eflaust með seming´ -Útjöskuð tuskan hún leggst á allt og reynir að gera hreint en hreinsar því miður ekki neitt! -En hrein tuska er víst aldrei hrein fyrr en hún hefur verið þvegin. ] [ Ein en þó aldrei ein, á rétta tímanum en alltaf sein einmanna en vinamörg einvera en félagsvera glöð en hrygg allt helst í hendur andstæðurnar það er ég. ] [ Mér var sagt að skrifa sælurík ljóð. Sagði ég að þau yrðu varla góð. Gekk um og rembdist og varð rosa rjóð -rak augun á minn ljóðasjóð. - Sá þar þó varla einn aur. En... ..þegar ég hugsaði um þig, já þá! -þíða kom, birta! Og ég fór að fá fiðring í magann og framtíð að sjá Fallega stelpan..allt hún má -marin og blá út af maur. ] [ Það verður óratími að bíða... hvað á ég að gera? Reyni að hugsa um eitthvað skemmtilegt reyni að hanga inn á msn en til hvers það er bara eitt sem lætur tíman líða skemmtilega það ert þú vinur minn... ] [ ertu guð? hugsaði ég til fjallsins og þó það væri eins statt og stöðugt eins og fjöll eiga það til að vera þá bjóst ég í einlægni við svari ] [ Að vita er skipulagning skynseminnar, í sjálfsvitund kappseminnar. en að skilja er eldur eljuseminnar, við að elska þolendur útskúfunarinnar. Að vera sterkur í gróðans stórræðum, svo stæra sig af eigin brjálæðum. og þyrsta svo eftir fátækra þolgæðum, er að þorna upp frá samviskunnar glæðum. ] [ Sigga Magga sætan fín á sænginni liggur vel. Hún fæddi Elías uppá grín á eftir Rafael. “Giftu skal til göfugra manna sækja!” Genin sem drengirnir fá eru ekki slök. Víst ég tel að þá vel þið munið rækja og vinirnir allir standi við þeirra bök. Kveðja og hamingjuóskir með tvíburana! Einar frændi í Skálateigi. ] [ Eigi stend ég í vegi þínum, en get ekki haldið aftur af mér er ég gríp grettistaki um hjarta þitt og ég heyri þegar tárin safnast saman í augum þínum. andvarp... \"Þetta er eðli mitt\" hugsa ég, en ég veit að ekkert þrái ég meira en hamingju og gleði. ] [ Tilfinningar eru svo ofmetnar. Ljóðskáld keppast við að semja um þær Blossandi, yfirþyrmandi tilfinningar sem heltaka mann og hafa áhrif á heimsmálin Frakklandsforseti labbaði víst út af fundi um daginn Þeir eru svo skapstórir þessir frakkar Ást er einnig ofmetin Ástfangin pör keppast við að segja hvort öðru í eins stórfenglegum og magnþrungnum orðum og þau geta hversu mikið þau elska hvort annað Ég elska þig svo mikið, að ég hlífi þér við því að segja þér það. ] [ Ég er týndur. Ég veit samt hvar ég er. Ég finn bara ekki sjálfan mig. En þá birtist þú. Nú veit ég hver ég er. Ég lifi í þér. Meðan þú lifir,veit ég hver ég er. Ef þú deyrð ,týnist ég aftur. Núna er ég týndur, því þú ert farin. Ég ætlaði að fara á undan. Svo ég mundi ekki týnast en nú skil ég allt. Ég er glaður að þú fórst á undan, því ef ég hefði farið á undan, hefðir þú týnst og það hefði ég ekki viljað. Fyrst ég er týndur, Fyndu mig þá er ég kem á eftir þér. ] [ -Glaða hjartað góðu spáir- góða veðrið sjaldnast hrjáir, sjálfboðinn tel ég góðan gest. Tíma þinna viljirðu vitja, vert er ekki of lengi að sitja, koma oftar kann vera best. ] [ My beautiful strange girl in surgery room I was brought here in a curl to face my doom. Because I have been weak but you make me stronger all that I seek is to live longer. So come what may I´m so glad I saw you first time today you smiled to me too. Now I have purpose something to live for lift up the curtains I´m here to score. It´s turning late you can tuck me in I accept my fate let the games begin. You make me go dream about you and me as if we were team and eternally free. In a world full of love our feelings would shine like in heaven above if you would be mine. And if I should die and forever sleep then please do not cry I´m not worthy your weep. But I want you to know I won´t settle for less than our love to grow up in Heaven.....I guess. ] [ Stundum er vatnið ekki eins blautt starir blint í eldinn án árangurs beiskt og biturt en sauðþrátt það eirir sér uppgjafar og yfirgefur flauminn nú litlir úðmolar sem dansa um ég græt orðum en hnýt um tveggja skauta byr með blóðbragð í munni því orðið er dautt tennurnar sökkva dýpra og ég kyngi tungunni ] [ Raddir morgunsins þagna til bylgjuagna raddir kvöldroðans? Rís ný kynslóð upp svo menn magna og fagna nýrri sagna-hefð Mannlegu eðli gerð skil með vísindunum án trúarinnar ----- Nýta það sem var vitað og nota í bland við nýjan fróðleik Reyna að svara á þessum heimsins hjara spurningum lífsins Framtíð björt eða rök ragna? – ei þörf (lík)vagna til vítis lagna ----- Tíminn er hringrás Endalaus (boð)hlaup kynslóða(visku) - ferskra huga þörf Kynslóðarinnar kyndilberar, bíða hér komu Gunnars Dal Í lífskapphlaupi ódauðlegu ljóðanna menningargróða ----- Óð allra óða sjóða góð, með Vikk fróða ljóð allra ljóða ,,Óendanlega stutt augnablik sem varir um alla eilífð”* ] [ Upp spretta ljóðskáld er vorar - Jakob skorar af þeim flest stigin. Útmigin kirkja kyrkja ljóð og styrkja góð blóðbönd, Mósambík. Ófyrirleitin skáld tvö sína aðra hlið spariföt jóla... Daðsteinn og Jakob eru vegurinn, lífið og sannleikurinn. ] [ Mig dreymdi að börn dræpust úr hungri að dauðinn fengi ekki á mig sæti dofinn með cola drykk í hönd dáleiddur og sama um bræðrabönd Ég leitaði ráða hjá heimilislækni lausn hafði enga á mínum vanda enda var honum alveg skítsama um vanda íbúa annarra landa Ég leita nú ráða hjá óhefðbundnum tjáir mér hann dreymi stundum slíka drauma en ætti þó lausn sem hann hefur prófað á sér og á hundum Með grásprengt hár er gægist undan galdrahatti þeim er hann ber ber á mig bananakrem og segir: ,,þetta virkar á martröð það ég sver... ...Síðan hef ég aldrei sofið betur martraðir einungis vakandi bananakrem þá jafnan á mig ber stórhættulegur í umferð akandi” ...,,og raunveruleikinn hefur ekki fengið neitt á mig síðan!” Ég: ,,Fæ þá hjá þér eina túpu” ] [ so she said then she touched rose in the hair shiny blue eyes with a hint of a dare she leans and lingers waiting for me caution the key it must not be set free she freezes she blinks hint of hot? the next lock open I think not ] [ Kysstu mig mín kæra Kaldar vetrarnætur Þegar kertin gefa lífnu lit Er hlýja sér kaldir fætur Myrkrið hefur mjúkan faðm* Mælti Meistarinn forðum Einveran grimm en nærveran allt Er mín mynd um það í orðum Því í einveru er alls engin leið út Og maður þarf víst nóg af svefni Og dreymir sig burt frá sorg og sút* Ja, nema að maður eigi sterkari efni En við einveru er aðeins til eitt löglegt lyf Elskuhugi er mótefni gegn veiki Menn segja að það sé verra að vera einn en margklofinn persónuleiki Kysstu mig mín kæra Kaldar vetrarnætur Þegar kertin gefa lífinu lit Er hlýja sér kaldir fætur. ] [ Illgirnin þó fari þér vel sem karakter og ömurleg gleði annarra fari í þig ánægju hafir að hörmungum og dauða og Disney myndir ríði þér á slig Mundu að sú illgirnishamingja er haldlaus Ánægjan skammvinn – bráðlega betri tíð Snúðu baki við slíkri heimsmynd, heilindi veldu Umberðu ekki hið illa og yrktu ei nokkurn níð Öfundin þó sátt virðist að lifa með henni Og slúðrið virðist þér sem borið í blóð Niðurif, rógburð og ranghugmyndir Í raunum þínum rétt finnst að leggja á aðra lóð Mundu að slíkt veitir skammvinna gleði Mómentið búið og hamingjan þeirra á ný Heimsmynd þín og líf ennþá í molum Andleg vannæring vegur þyngra en blý Hatrið þó það heilli þig mjög mikið Hispurslaust og beitt á náungann Hressandi sé og hiti upp í þér blóðið Hrækir orðum og kallir hann fávitann Mundu að hatrið beinist einkum gegn ösnum En hvernig er jú best að temja slík dýr Að öskra á þá eða sveifla gómsætri gulrót Gæti heimur þinn ekki orðið betri og nýr Græðgin þó hún veiti þér glæsileika Gullkveðjur og uppfyllingu gerviþarfa Gospabbafíling, gyðjur og gleði Góð er hún einnig til annarra þarfa Mundu að auknu frelsi fylgir ábyrgð Fjármagn má líka nota til góðgerða Þegið er frelsi, en sælla er jú að gefa Grátbólgnu barni – tími til aðgerða? ... vertu sjálfur Jakob innst í hjarta. ] [ Seljahverfið, Seljahverfið það sem sólin ávallt skín Seljahverfið, Seljahverfið Hleyptu hamingjunni inn til þín Seljahverfið, Seljahverfið Með sinn fagra félagsauð Seljahverfið,Seljahverfið Aðrir aðeins í skugga – önnur hverfi dauð Seljahverfið,Seljahverfið Með vingjarnleganVatnsenda Seljahverfið, Seljahverfið Þar sem englarnir lenda Seljahverfið, Seljahverfið Sem öll hverfi vilja líkjast Seljahverfið,Seljahverfið Aðrir af öfund þeir sýkjast Herma,segja: ,,með vinnu það hefst” Seljahverfið, Seljahverfið Um eilífð á toppnum efst Seljahverfið, Seljahverfið Svo aðrir byggja Berlínarmúra Seljahverfið, Seljahverfið Þar sem þreyttir guðir lúra Seljahverfið, Seljahverfið Þar sem forsætisráðherrann býr Seljahverfið, Seljahverfið Með ræðumanninum sem hann niður snýr Seljahverfið,Seljahverfið Sól og sumar með flugusuði Seljahverfið, Seljahverfið Örlítið nær guði Seljahverfi, Seljahverfi Af öllum eigum ég þig erfi Ó, Selja, Selja, Seljahverfi! ] [ Það er von á einhverjum veðraníð en ekki á nokkurri batnandi tíð en ég segi við þig mín yndisfríð ,,hverjum er ekki skítsama um það” Og víða er óstjórn sem misbýður lýð óréttlætið lætur réttláta ganga upp hlíð en ég segi við þig mín yndisfríð ,,hverjum er ekki skítsama um það” Og víða þekkir enginn annað en stríð og á sumum stúlkum er kuntan of víð og þola í staðinn karlmannsins bitra barsmíð ,,en hverjum er ekki skítsama um það” Og víða eru vindar, ei veður blíð og nánast alltaf vetrarkulda ég kvíð þú fullyrðir ,,Framsóknarfjölskyldan er ófríð” ,,en hverjum er ekki skítsama um það” Og stakk eftir vexti, ei ég mér sníð því ég fitna fljót, svo frekar ég bíð og ég segi við þig mín yndisfríð ,,nú verða menn að fara að borða hollt Og mæta í World Class” Og þú segir ,, hverjum er ekki skítsama um það” ] [ Batman býr í blokk í Breiðholti Bryður geðlyf og semur ljóð Vinnur á næturvöktum - nema hvað Les ,,1984” og ,,Veröld ný og óð” Batman tælir til sín með vín-i Robin Því að Robin þykir góður sopinn Hann hellir drenginn dauðadrukkinn Og tekur hann ósmurðan í bæði opin Kór: ,,Ba a a @ man, Batman er baldinn Ba a a @ man, hann er illa haldinn\" Batman hann er ,,wannabe” Nýhil Drekkur indverskt te, tab og reykir fífil Fróar sér yfir fréttablaðsferskeytlunum Og semur níðvísur um Júlíus Vífil Batman gefur skít í leðurblökkumerki Býr til skúlptúr úr appelsínuberki Hefur snúið baki við bölvuðum heiminum Og að sínu lista - ævi - meistaraverki Kór: ,,Ba a a @ man, Batman er baldinn Ba a a @ man, hann er illa haldinn\" Batman dreymir um listamannslaun Borðar með Tab-inu Hraun Með tæpan 200.000 kall á mánuði Samt er lífið í ljóðum hans raun Batman tælir til sín með víni Robin Því að Robin þykir góður sopinn Hann hellir drenginn dauðadrukkinn Og tekur hann ósmurðan í bæði opin... Já, hann Batman er nú meiri galgopinn! Kór: ,,Ba a a @ man, Batman er baldinn Ba a a @ man, hann er illa haldinn Ba a a @ man, Batman er baldinn Ba a a @ man, hann er illa haldinn\" ] [ Zorro þjónar til borðs á The Tapasbar Með grímuna sína, alveg gjörsamlega snar Og sjaldan er sverðið svo langt undan Að það sé ekki stórhættulegt að borða þar Zorro er svartklæddur í síðu silkivesti ríður niður Pósthússtræti á svörtum hesti með eldsteiktan nautabana í hendinni til að heilla konurnar og laða að gesti En Zorro á sér líka svartar skugga hliðar Villir á sér heimildir, þykist vera Viðar Tekur DVD myndir á nafnið hans Grímulaus, nýrakaður og með greitt til hliðar Zorro hann er sexy, Zorro hann er sætur 1,60 en fær það samt og flýr í húmi nætur Brestur meyjarhaft svo hjarta af missi - grætur svo gæskan hafðu á sjálfri þér góðar gætur Zorro hann býr í bílskúr í Laugarneshverfi Eigi ég þá vitleysu við hann svo sem erfi Einhversstaðar verða vondir að vera Enda er þetta sjálfur Adolf Hitler í dulargervi. ] [ Heimspekipistla skrifar og gott kynlíf þekkir Föngulega karlmenn í kippum að sér trekkir Carrie Bradshaw er sönn nútímahetja þó sambönd og reykingar séu hennar veiku hlekkir Carrie komdu nú klúrum kynlífspistli frá þér Ég veit að þig langar til þess, ég sé það á þér Og fullyrtu um samskipti kynjanna í The Star en reyndu svo að halda e-m karlmanni hjá þér Carrie hvar felur hann sig draumaprinsinn? Láttu Charlotte kynna fyrir þér ríkan vin sinn Því varla er úr þessu nokkur von þú ert jú vel yfir þrítugt og orðin pínu gisin Æi, kæra Carrie kveddu nú bráðum Mr.Big Þú átt miklu betra skilið ,,hí is södds a pig” Allt þetta samband er steypa, er ríður þér á slig Taktu þér tak, veldu Adian, svona bara fyrir mig Carrie farðu nú í eitthvað fáránlega fleygið við 2nd hand hatt og D&G pils sem er snjóþvegið Manolo Blahnic skóna og með Prada veskið Já stelpur, Carrie sýnir ykkur hvað þið megið Carrie fáðu þér nú einn cosmo og kíktu svo út Með stelpunum á Samba, ekki vera niðurlút Því kannski eru það örlögin sem ráðast í kvöld ellegar getur þú dreymt þig burt frá sorg og sút Hátískan er í hávegum höfð og heimsborgaraháttur Carrie sýndu smá class ekki vera auðveldur dráttur Og leitaðu nú að hinum eina sanna og rétta Ég veit meira að segja að svínið Mr.Big yrði sáttur ] [ Kattarkonan hún kitlar pinnum Fær vel borgað af tveimur vinnum Í latexgalla og á háum hælum Góð í gælum og skyndikynnum Kattarkonuna hana kitlar í kroppinn Viðskiptavini breytir ei í leiksoppinn Tekur af toppinn og er mest fyrir action En allra, allra minnst fyrir...- stuttu stoppin Kattarkonan blandar viðskiptum og ánægju Saman og fær auk þess sína fullnægju Klórar, klípur, bítur, gefur þá góða Og vildi helst óska að allir til hennar sæju Kattarkonan leggst og mjálmar ef þú vilt Á magann eða bakið, vill bara verða fyllt Getur þér bylt, þig hyllt eða sagst vera villt Bara ekki biðja hana um að vera stillt Kattarkonan sýnir klærnar og sleikir á sér tærnar Og ef þú fullnægir henni ekki, sleikir hún sjálfa sig! Hún er samt ekki eins sjálfmiðuð og sumar mærnar Og hugsar fyrst og fremst um sjálfan Þig. ] [ Öllu að trúa ekki er gott, engu hálfu verra. Heimsku sinni flíka flott, flónin hátt sig sperra. ] [ Sá er ekki beysinn er öllum líkar við og alltaf er talhlýðinn við náungann. Auðvitað getur sá engum veitt lið og aldrei verið trúr, við nokkurn mann. Heimurinn er hrjáður af ýmiskonar plotti. Hafa ríkisskálkarnir þar ekkert verra. Aumingjar eru níddir með illskulegu glotti. Allir stjórna þannig fyrir guð sinn og herra. Fellur ryð á sannleikann ef sópara vantar. Sækja auð og féfletta soralegir bófar. Sjálfstæðismenn eru svíðingafantar. Siðlausir með öllu og margdæmdir þjófar. ] [ Sæl og blessuð ævinlega, Stína mín stuð! Að stappa saman ljóð til þín er mikið puð! Ég vil spila tígullitinn, með pomp og pragt, þó pínulítið sé kannske um of á spilin lagt. Nú kasta ég kveðju og vertu margblessuð! ] [ Stórt vandamál, Blasir við mér, Gríðarlegur þrýstingur, Á við jarðýtu, Ýtir, Ýtir, Ýtir. Og hér stend ég, Ein, Hvort vil ég, Appelsínu- eða eplasafa? ] [ I still feel your breath on my neck Your touch in the dark And those eyes of yours are still staring at me Those blue eyes of honesty and passion And when my world feels like it’s falling apart You pick me up and give me all you’ve got Let me love you endlessly I wish I could tell you that I love the way you make me laugh I hate it when you cry I love it when you hold my hand And tell me I can fly This is the way my life should be Loving you forever I wish you were here, so I could tell you How I feel inside But I know you know I loved you I just never told you it’s true That my heart belongs to noone Exept for you ] [ All around me Little lies dying to be reavealed Wishing for a master to keep them And tell nobody I’m surrounded by these lies And they eat me up inside Blaming me for their mistakes Pushing me off my own edge Slowly killing my decisions And cutting my aching skin I’m made of porculine Don’t break me, I might scream ] [ Build me up Then break me down Like it’s all you’ve ever done Kill my heart And stab my soul Because that’s what you’ve always done Sit me down I’ll take a bow Make me feel alone Unshure,and cold Lonely awaken af thy death I will love thau til the end of all time. ] [ Don’t be afraid, my friend I am here until, the end of all time I will grant you, your every wish And hold all your worries, Through silver and wine. When your tears are tearing you down When darkness falls all around And everything seems oh,so, wrong I will be there to hold your hand I will be there to help you stand. And when it’s time to say goodbye Stars up above and high They will help us not to part And I will hold all your worries Through silver and wine. ] [ What does it mean when I tell you to go? Do you take it as if you can to anything Are you god in your mind? What happens if I die tonight? With my blood I write my will. And my tears make such good fabric For the inside of my coffin Lock me inside a box, and I will drain you. I am the mirror of a monsters fantasy And I’m waiting for you knife to kill me Will I be depressed again? Will I be nobody again? If that happens Would you be so kind to ignore me? For old time sake. Can you hear me now? ] [ Your hands are rusty nails You eyes are iron suns Your smile is others failure And your love is forbidden To feel pain forever Is something I will do Only yo see your face again My mistakes can’t be forgotten How to lie and cheat And not recognize one self Is something I have a degree in Running away is my specialty I don’t want to know she’s on you mind When you hold me And I don’t want to feel her perfume On your neck and your clothing Best friends don’t do that It’s not right I’m not yours And your sertainly not mine. ] [ I’m just waiting Just awaiting Waiting for something That never comes I’m just wishing Just wishing away Wishing for someone That does not excist I’ve been looking Just looking around Looking for somebody That loves me for a while. I’m just longing Just desperately longing Longing for some way That saves me from myself. ] [ It took some time to fall for you It took some time to tell you too It took a while for you to hurt me But it took the longest to let go It took a while to get over you It took a while to shut the doors It took some time to search for my self But it took the longest to dry my tears It took my courage to talk about it It took my courage to smile through the lies It took my pain to feel depressed But it took it all to hear your news It took my heart to get broken It took my soul to fall It took my eyes to hear those words spoken But it will take more time to stop loving you ] [ Can’t stop thinking Wishing, wanting, needing Longing to hold my breath While you kill me Feel you taking charge A power strong enough to lead an army A power strong enough to sufficate me Bruised and beaten wanting to die Everything inside telling me to let go Like it’s not my choice to live Do I want this? Is this what all of them want? I must be the chosen one Must be the weakest one Must be unwanted Unsatisfying Shut my eyes, Wishing, telling lies Break my heart into pieces Kill me, whilst I’m blind ] [ I’ve been searching for answers But all I’ve found are questions. Questions about this life, Which has left me stranded Hating myself And when I look into that broken mirror All I see is your bitter face Screaming at me, yelling I should find my own place Who are you to judge me? I look away Trying to forget our names These names are just random Sitting beside us, making us someone we’re not I’m not a liar But I’m not that honest. I am not a cheater Although I sometimes decieve I do not hate But I don’t love that strongly either. If it makes me bitter To have trouble finding my own excistance I wouldn’t know if this is The best place to be me A place to not be ] [ How do I tell what I’m trying to say I’m trying to find words That’ll explain what I’m feeling I’m not jealous but I’m bitter I’m not angry but I’m sad I ain’t crying but there are tears in my eyes And my mind’s not alone but it’s lonely If I tell it straight out you will hate me If I say what I mean you’ll ignore me If I look in your eyes you won’t adore me If that’s all I can do, you will never hold me When she comes to you again And holds your hand When she loves you forever And kisses your lips My life will be over, darling That smile is killing me slowly Take my pain away, don’t increase it Can you just be here for a while And stay quiet with me ] [ And the sadness in their eyes Haunted me down Stopped me with their lies And nailed me to the ground Crossified me with their words And killed me with their hearts Spit until it hurt Then got rid of those parts. The parts of which I loved The parts of wich I liked Those parts were what I thought of All those cold and lonely nights. It’s easy for you to say You’ve got everything you need Could make it go away But I can’t unless it bleeds. Because the sadness in their eyes It belonged to no one but me And I’m the one that lies Wish that you could see. I’m bound to leave a mark I’ve left to a place un known After you had killed the spark I had hardly built alone. ] [ Underneath my aching skin I’m not sleeping in anymore My mind is open to your thoughts Tell me what you think I wish there was a place for my head If there is I won’t find it here And when this darkness opens my eyes You’ll be gone, and I won’t find you Waiting My fingers touch the bottom of my glass And your eyes, are looking trough me Will you comment on my thoughts? Don’t you care, I won’t keep you Waiting Are you still waiting? ] [ „Keppni?\" skipar Daði, orfin samskipsfarm kaus, en einn sölsaði traktor undir sig - nauðhyggja? Vitlaus? Hópur sló og hló skegg þá jarðar rakaði, Hrópar einn: „Með hraði Daði - æ augnskaði!“ ] [ Viðar hann eitt sinn vann sveitt á Breiðholtsbækistöð, vildi ráða\' en enginn hlýddi, stjórnað fékk hann ei. Draumur hans að drottna varð að kvöð, algerri martröð, hann dæsti: ,,ég verð að hætta\' áður\' en ég bara\' ferst og dey. Hann svo hætti og í beðin glaður maður fór hélt hann væri arfakóngur hot n\' sweet, indeed. Níðvísur söng hnakkarakkakakkalakkakór, og kvað þá: brenni Viðar með fullt rassgat af hans skít. ] [ Harðarins Vestfjarðakjálki bryður munntóbak, bröltir, röltir upp og niður whiskýjakljúfinn. Kommúnistablokkin; líkamsbygging með grátt þak, boltinn Fram og aftur Castro skorar stöngin inn. ] [ Ær og viti fjær einn maður brekkuna í Stuðlaseli slær súrefnisskortur? Er hann kannski einn mannlegur lortur? Út í sefi í leti á fleti á kletti í Kleppi. ] [ ég sagði að ég yrði að fara, þú sagðir að ást mín hilur hann, og hann vill ekki sleppa. ég sagði að það hefði ekki verið neitt, þú sagðir okey bæ þá! ] [ Í minningunni var Rassópúlos alltaf vondi kallinn Þannig var líka með Alkasar hershöfðingja En Wolf var góður þó hann væri bófi því að hann dó ] [ Roði skýjanna við sólarupprás hnausþykkur jarðaberjasjeik í morgunsárið. Bros þitt Jakob – þess virði að fara á fætur fyrir, speki þín eins og vítamín fyrir sálina, ljóðið sem blóðið í kransæðum mínum er nærir hjartað. Þú hefur mikið í orfinu, svo mikið að súrefnisskort þig hrjáir. Orf þitt suðar eins og fluga, uns (Dað)steinn stingur þig í augað. Þú tekur þér hlé og stingur á kýlum sam(kynhneigða)félagsins. Þú kannt flokksstjóra að hrífa, en ei að nota slíka. Þú lífgaðir upp á hversdagsleika sumarsins og kynlífið... það var yndislegt. ] [ Jakob... Dylan – spyr sá sem ekki veit á þig leit og fyrirfram á þig skeit – en nú ég veit að þú ert andlegt Live8 fyrirbæri. Hvergi er grasið eins grænt og við fætur yðar og sebrahestar hlaupa um brekkurnar sem þú slærð. Guð og djöfullinn – tvær hliðar á sama peningnum og Einræðisherrann hitti naglann næstum á höfuðið er hann taldi að sjálfur andskotinn hefði komist í brekkuna. Verk þín minna á verk ölóðs rakara sem niðurlægir fórnalömb sín og skaðar – augnskaðar? Orðlausir samferða(vinnu)menn þínir segja ekki orð frekar en postulínspostulinn – það er aðeins vindurinn sem hlær en þú stendur af þér alla slíka storma og sáir fræjum þinna verka líkt og sá er sáði fræjum örlaga þinna. ] [ Hví gefurðu ekki börnunum í Afríku pening pabbi? Hví, Ó hví, Ó hví? Af því að pabbi þarf nýjan bíl og að komast í frí Út af því, út af því, út af því. Hví fá leikskólakennarar ekki hærri laun? Hví, Ó hví, Ó hví? Af því að þeir koma launaskriði og verðbólgu á, á ný Út af því, út af því, út af því. Af hverju fá typpalingar hærri laun? Hví, Ó hví, Ó hví? Því að peningamennirnir vilja ekki eyða í óléttufrí Út af því, út af því, út af því. Af hverju eru konurnar í sjónvarpinu reiðar? Hví, Ó hví, Ó hví? Af því að þær eru ljótir feministar og fá ekkert að rí.. hu humm ...Út af því, út af því, út af því. Hví fórum við í stríð við fátæka fólkið? Hví, Ó hví, Ó hví? Af því að það búa ljótir kallar löndum í... og auk þess vildum við ekki vera air force free! Út af því, út af því, út af því. Af hverju erum við að eyðileggja náttúruna pabbi? Hví, Ó hví, Ó hví? Því að byggðarkvótinn er fyrir bí ... og svo eru gróðurhúsaáhrifin svo hlý Út af því, út af því, út af því Af hverju er Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra? Hví, Ó hví, Ó hví? Því það er yfir landsmönnum eitthvað óveðursský út af því, út af því, út af því. Af hverju varstu nakinn aftan á mömmu? Hví, Ó hví, Ó hví? Því ég fyllist viðbjóði er ég að henni sný Út af því, út af því, út af því Af hverju spyrðu allra þessara spurninga drengur? Hví, Ó hví, Ó hví? Af því að ég skil ekki þennan firrta heim sem við lifum í Út af því, út af því út af því -------------------------------------- Ég: Hvers vegna er þetta ekki valið ljóð dagsins? Hví, Ó hví, Ó hví? Jakob: Því þú ert að stela frá Woody Guthrie enn á ný Út af því, út af því, út af því. ] [ Það var miðnætti og ellefu menn vakandi ,,minister” bað fyrir þeim Að þeim gengi vel - kláruðu verkefnið og kæmu að lokum heilir heim Þeir settust og átu sinn síðasta morgunverð Skinku, egg og ananasbita Áður en þeir slíðruðu hinstu heimsins sverð Með því einu að varpa hita Fengu það verkefni að fljúga ,,litlum dreng” Fjögurþúsundogfjögurhunduð kíl-ó-a Þeir höfðu látið slíkan falla í Nýju Mexikó Svona rétt til þess eins að ,,pró(f)a” Þeir vörpuðu honum út úr 580 metra hæð Klukkan 8:15 að staðartíma Hann náði mest (í miðju) 5400 gráðu hita Á lendingarstaðnum í Hirosima. Það kemur enn til tals hjá eldra fólki og þau muna enn hvar þau voru á þeim tíma Er Red Sox aðdáandinn Thomas Ferebee Varpaði sprengjunni á Hirosima Fyrir viðstadda var veröldin dauð Þögnin ógeðfelld, ekkert að segja En úr fjarlægð var sveppurinn fagur Fjöldinn aðeins tölfræði þeirra er deyja ] [ Þau trylltu lýðinn í topplausri glæsikerru Í Texasheimsókn og á þau skein sólin Minntu mest af öllu á kvikmyndarstjörnur Árið 1963 og rúmur mánuður í jólin Hann veifaði og flaggaði sínu fræga brosi fögur Jackie í bleiku, á vinstri hönd framhjá Dealey Plaza og Elm Street fóru allt í einu allir störðu og misstu önd... Kennedy kippist til og heldur um hálsinn Höndin blóðrauð og augun þrútin Annað skotið hæfir hann beint höfuðið í Heilinn tætur og það vantar einn bútinn Jackie hrópar og Hill hoppar inn í bílinn Hlífir forsetanum en hún reynir að stöðva Blæðingarnar og þau bruna á Parkland Forsetinn blóðugur með máttlausa vöðva Klukkan er 13:00 og frá Parkland tilkynnt: ,,Kennedy forseti er af skotsárum látinn” Þjóðin hlustar og sem lömuð hún liggur Í losti uns hún brotnar, brestur í grátinn Fréttirnar berast fljótlega landanna á milli Það er íslenskur rigningardagur og rotinn Og enn rifja eldri menn og konur það upp Hvar þau voru daginn sem Kennedy var skotinn ,,og allt stóð kyrrt um stund og allir misstu andann Og vissu að þetta var einn af þessum dögum þar sem allir muna hvar og með hverjum þeir stóðu Hversdagur sem til er í ótal ólíkum sögum” ] [ Sveipaðar dularfullum ljóma, dísir tvær draga mig inn í annan heim djúpblá augu þeirra mér sýnast ógnandi eitthvaðer þó töfrandi í þeim Flæða litir, tákna þeir maske tímann Trúlega má einnig greina ferðalag Fugl svífur afturábak út úr þessari mynd ,,Ágætis byrjun” á vel við þennan dag Galdurinn er þó aldurinn – örlagavaldurinn? Góðlát og hlý gegn grimmri og kaldri En hvert fer tjaldurinn og hvar er faldurinn Greina má hið góða á staðsetningu og aldri Örlagagyðjur í dulúð ljóma tvær Draga þig inn í annan heim Djúpblá augun eru þér ógnandi Fylgdu hjartanu og þar með annarri af þeim ] [ Tárin falla frá augum þínum Svo tær Svo saklaus. Strákslegi sjarminn Grófi orðaforðinn Þitt fúla attitút Hvarf svo skyndilega Og þú varst mannlegur Á ný.. ] [ Sól á mig skín og hækkar yfir heiði, hestar og menn fagna sumri á ný. Fýkur á brautu vetrarins leiði, hvað framtíðin gerir ég pæli ekki í. ] [ Nýliðin nótt var sem eðaltær löggin Dökkgrá sem læðan dulúð sem döggin Sljó af hreysti okkar líkamar snertust Svo náin að rakinn spratt af visku gyðjunnar Eðaltær löggin dulúð sem döggin ] [ Horfi í kringum mig þvílík fegurð sem umlykur allt ] [ The words are meant for you. I see you. Your smile is shining. And your friends are laughing with you. I am alone. A week has passed, and I have not heard a word. A lone tear sliding down my cheek. Missing you. As I do. ] [ Eins og að sitja í sófanum. Kúra, súkkulaði og bíómyndir. Nú horfi ég ein. Verða drukkin. Tala um allt og finna fyrir þokukenndri ástinni og ástríðunni. Höfuðverkur í þynnkunni. Sofa allan daginn, horfa á sjónvarpið og borða. Vakna snemma með sólinni. Drekka te, og ab-mjólk með músslí. Núna, alltaf ein. ] [ Ég er ekki blankur en eilítið krankur er afslætti út ég grenja. Gott er að gefa og grát líka að sefa og sumstaðar víðtekin venja. ] [ Dracula og kærastan´ans Ursula alla daga voru að kela já, Dracula og kærastan´ans Ursula alla daga ást hvors annars að stela. Dracula minn, komdu hér inn (ehehe) Dra-cu-la, spectacular kysstu mig á kinn. Dracula hann bjó á Kleppsvegi já, hann Dracula, hann var launþegi, hann vann á gröfu hélt framhjá með Svövu. En hvað sagði Ursula þá, þegar hún hann sá? Hún sagði: Dracula minn, komdu hér inn (eins og skot) Dra-cu-la, spectacular kysstu mig á kinn (ehehe) kysstu mig á kinn. Ohh Dra-cu-la, spec-ta-cu-lar kysstu mig á kinn. ] [ Ég lifði sæl í sápukúlu Sveif um í gegnsærri regnbogabubblu vonar En eins og hendi væri veifað (í kúluna) sprakk hún og ég féll til jarðar Lenti harkalega á hjartanu ] [ Ég ólst upp með fertugragrínurum sem sögðu sín á milli brandara um eigin þyngd og hlógu á innsoginu. Ég skildi ekki brandarana en ég fékk þó að vera með -ólíkt í mínum aldurshóp. Ég náði aldrei sambandi við jafnaldra mína, því þegar ég sagði við þá jah það má alltaf á sig blómum bæta og greip um magann og hristi hann eða greip kökubita og sagði má maður við þessu ohohohoho litu hinir krakkarnir á mig eins og á helstirni ofan í klósettskál og buðu mér aldrei í partí aftur því ég hljómaði eins og foreldrar þeirra og í dag, þegar ég ligg á eldhúsgólfinu fertugur og naga teppið sem vinkona mömmu gaf mér í afmælisgjöf hugsa ég með mér: fáið ykkur meira, það er nóg til! annars verður bogi minn að narta í þetta alla næstu viku og hann má nú ekki við því! og svo hlæ ég á innsoginu ] [ In a distant world guarded by the silent being of the stars Lies forever a piece of my soul next to your heart Dreaming of your presence, I see our spirits joined in the heavenly skies that lie over the oceans between us Like a blessing of the sun as it touches the face of the earth I think of your gentle touch on my cheek at farewell Perhaps in our own world – that in time may become we will be one – for eternity ] [ Bjórinn getur leikið mann grátt, -býst maður við að vera tekinn í sátt. Ef maður hefur hans áhrifamátt -er engu þá svo áfátt. Bumban verður þrútin og stór Breytist maður úr því að vera mjög mjór. Er maður út í ruglið loksins fór -elskuðust allir í kór. Braut maður tennur og hæla Byrjaði þarnæst bara að skæla Endaði á klósetti að æla -Eða stráka burt að fæla. Já! Bjórinn getur leikið mann grátt -en eigum við samt að taka hann í sátt? ] [ Eilífur ári kveður um sinn vanda hvert á hann að fara? ber á milli handa allslaus, einskis laus, hengir haus engan haus hann hefur þó, í lofti hangir laus Hann gengur, hann gengur ósiðapostulinn en samt gengur hann líkt og aðalsmaður á jómfrúarvori grípur hann stafinn sinn, klappar saman hælunum og dillar skegginu góðan daginn segir hann og bjöllur hringja, klukkur klingja, fyrirboði eða vottun? dómsdagsklukkur? ] [ Ég reit líf þitt og réði litunum á fötum þínum eggjaði þig áfram og ýtti úr vör svo þú gætir att kappi aleinn við heiminn En þó ætíð er ég þér við hlið styð þig stolt og yfir hæstu hæðirnar ég held þér í örmum mínum og hlífi. ] [ why look for an exit when you’ll find a new start falling out the door, I can’t concieve worlds are made of bits that finally fall apart feeling the thresh hold becoming nearer they teach us nothing and let us learn to get smart looking for my roots I only decieve keeping a secret cover of this ancient and secret art nobody behind me, all because I fear her ] [ Stera þeir taka og lyfta,lyfta,lyfta þangað til typpi nokkur minka.. ] [ Til hvers, til hvers að eyða tíma í þá dellu. Til hvers, og skil eftir stórt spurningarmerki? ] [ Ríka fólkið er óhamingju samt. peningar einga hamingju gefa, heyrir maður svo oft fólk segja, Enn er það ekki bara óhamingjusama fátæka fólkið sem segir svo? ] [ man, why you still here you sould be long gone refusing the spark is clearly wrong but it isn’t my fault I’m just being me so what the fuck am I suppose to be clearly I cant be honest because you wouldn’t accept the real to be real and pay me my dept I’we felt this to long and it’s burning deeper to the insuccsesfull question why I cant leave her? round and round the ring still goes smoked and tweeked amidst the rows I’m getting lost almost forgotten bury me deep so I can go rotten a black mirage a smokey reflection of falling for hope getting rejection ] [ Ég er rekin í rúmmið klukkan átta, Eða þá fer ég að hátta. Halló! Ég er ekki barn, Heldur táningur. ] [ Ég sit og skrifa, Þú horfir á mig. Ég roðna, En þú brosir. Ég brosi með sjálfri mér, Finnst ég vera einhvers virði, Vildi að ég gæti staðið við hlið þér Og brosað á móti. ] [ einn annan dag, enn einn mánuð, eitt annað sumar, ár og ævi, með þér, þér einni. ] [ je suis seul ici, tout seul, mais tout le temps, je pensais, ou les rues me prennent, vers ton maison, ou vers l\'extrémité. ] [ í garðinum var gaman, við lékum, sungum saman, fjólublá í framan, við kvöddumst. Það er ei meir gaman. ] [ Hún spurði mig, Kýpur er það land ? eða bara beyging á Kúba ? ég svaraði, átt þú ekki að vera í hinum skólanum. ] [ Leyndarmál, hún á það ekki ein, það vita það allir, nema hún veit ekki, að allir vita, hennar dýpstu, innstu leyndarmál. Og allir tala um það. ] [ Ég er fossinn sem fellur af fjallsins brún með sorgþrungum ekka tóni. því undir í ólgandi hringiðuhyl öskrar ókindin holum rómi. ] [ hæka er of stutt næ aldrei að klára það alltof fá orð sem ] [ Til að láta ljóðið líta út fyrir að vera lengra skrifa ég það svona listrænt og flott ] [ Skaftá ygglda skæld og grett streymir með jökulsalla. Hrífunes á hólinn sett horfir í átt til fjalla. Kúðafljótið kalt við bug kallar mig í fjarska. Yfir auðn er oddaflug undir er gömul aska. Hvílir Katla hljóð um sinn og Hjörleifshöfði sefur. Mætast þarna stálin stinn er stóra hlaupið kemur. Eldgjá breiddi hraunið hrátt og hefti gróður lengi. Undan vellur vatnið blátt vökvar tún og engi. Í austri rís úfinn stór öræfakirkjan hvíta. Byggðin hér er hræddur kór hrakinn á að líta. Laki gamall lotinn er liggur við innstu iður. Máttlítill en hvílir hér í herðar klofinn niður. Augun eru söm við sig sigraði Gunnar heimþrá. Fósturjörð er fæddi mig fögur ertu ennþá. ] [ ´Twas mid October, The wind was roaring. The town of Winsfield was tired and snoring. I woke up from a death-like state and heard a scream from the garden gate, I looked out the window But saw nothing there Everything was mellow but nothing to fear. I lay quietly, soothingly, heavily down and shut my tired blood-shed eyes. when i heard it echo through the town. It was the scream, to my demise. It grew louder and louder, and i hit my head on a hard wooden counter, ´till i´d have silence in bed. It went away and i buried my head, in a sweaty hand and felt rather mad. I layed down again and felt my eyes close. When i heard it again i suddenly rose. I grabbed my jacket and my shotgun to match, ran outside with a bleeding nose and into the garden, the screamer to catch. I went through the gate and pointed the gun at a little girl sitting quietly there. \"Will you stop screaming?!\" I shouted at her. \"Inside i was dreaming, when you came screaming, waking me up and my nerves are steaming!\" \"I´m sorry sir\" the girl replied. \"I did not want to make such a sound, but i saw a spider on the ground...\" ] [ Þú farinn til himna ert og mikið gott á jörðinni gert. Ég mun aldrei gleyma þér, Þú munt alltaf vera í hjarta mér. Ég vildi að þú hefðir komist yfir þennan sjúkdóm Ég á bara þessa einu bón; að þér líði betur uppi hjá guði. ] [ Það var hvítt og blátt og speglaðist í vatninu þangað fer ég. ] [ Ég er ekki týndur ég er ennþá til ég er enn að bíða eftir svari sem ég skil. Allt er hljótt í heimi og húmið dottið á stjörnur strjálu ljósu skima til og frá. Væntingar og vonir mér vísir gáfu menn þögnin samt hún þreytir ég þarfnast einhvers enn. Sendu mér í svefni sólarljós og frið elsku þína alla og eilíft sjónarmið. ] [ Núna ertu farin í burtu . En vonandi að ég mun að hitta þig elsku besta vina mín. Vegna þess að þú ert frá r vinur í raun og veru . Enda verð ég þinn ,, Traustur vinnur \" í gegnum allt sem eftir að koma í þínu lífi . Takk fyrir öll kynni af þér og vona að þú hugsar það sama í minn garð. Takk ] [ Byggjum tæki, bót og færir betri enn nokkur má. Ofar öllu, allt það lærir engin takmörk há. Bæði kveður, dauða og kvilla kvíði horfinn burt. Óskir kann það, allar fylla eilífð gengur smurt. Tæknifærin traust það hirðir tekur hættur frá. Engla himins alla myrðir engan guð vill sjá. Allir dauðir þó dragi andann dettur ekkert í hug. Um aldir alda skynja vandann og enginn hefur dug ... ] [ Fyrsti íslenski maðurinn til að deyja úr krabbameini samkvæmt annálum var alnafni minn. ] [ Drengurinn var sendur fyrir dóm til saka sinna að svara. ,,Því deyddirðu þennan mann?” var spurt hann svaraði ,,Af því bara” Flóðgáttir augnanna opnast en hugurinn tómur sem fjara. ,,Því ferðu frá mér væna mín?” hún svaraði: ,,Af því bara” Af því bara! Af því bara! Eins og allir aðrir svara Af því bara! Ausa menn úr bátnum sumir þó í hálfukafi kunni að mara. ,,Því yfirgefur þú þennan bát?” hann svaraði ,, Af því bara” Sumir safna, byggja brunn aðrir standa og stara. ,,Því leggur þú ekki hönd á plóg?” hann svaraði ,, Af því bara” Af því bara! Af því bara! Eins og allir aðrir svara Af því bara! Bókstafstrúarmenn berjast gegn því aðrir vilja giftingu samkynhneigðra para ,,Af hverju ertu á móti staðfestingu elskenda?” hann svaraði ,,Biblían og af því bara” Feministar vilja PepsiMax gosdrykkju banna jólasveinn sé auglýstur sem klámvædd markaðsvara ,,Mun fólk fá sér pepsi, klámmynd og nauðga?” þær svöruðu ,,Já, samkvæmt sænskum rannsóknum og af því bara” Af því bara! Af því bara! Eins og allir aðrir svara Af því bara! Bacalárusar tveir B.A ritgerð kynna benda á kynjatölfræði frétta sé tjara. ,,Eiga fréttir að vera jafnréttisstofa?” er spurt þær svara ,,Já, prump, 50% bla og af því bara” er þessum konum spyr ég alvara? Því lími ég saman þetta ljóð? Leyfi mér að benda á lífsins brandara því ei mér er alvara og skítsama um bót allra kjara? Nei, af því, af því, af því bara! eins og allir aðrir svara... Af því bara! ] [ Þegar ástin fer og ekkrt er, eins og það var er gott að vera glöð og sigrast á þessu, því oftast er þetta bara pínu tími til nokkra daga ] [ Ég lifi í harðheimtum heimi- sem engin vill sjá lífi sem ég hef deilt mínum draumum en nú vil ég víkjast frá. ] [ Skuggabörnin þykja ógnvænleg Skítug og köld þau ráfa um göturnar Í leit að ást En þau finna enga Það eina sem þau eiga að eru þau sjálf Þrauka hvern einasta dag Og vakna allaf í þeirri trú að dagurinn í dag verði betri en í gær En hann er alltaf eins. ] [ Ég lá í rúminu Horfði útum gluggan- Dáðist að fegurð skýanna -langaði að vera frjáls og óheft Fljúga hvert sem ég vildi Ekkert og engiNn gæti stövað mig Skýin hreyfðust- Þau voru á hraðferð Flýta sér að komast burt frá þessum ljóta heimi… Lítil ský inn á milli hröpUðu til jarðar Þau dóu á leiðinni - Púff- Urðu að engu… Þau stærri héldu ótrauð áfram Og áttu sér von um betra líf- En púff þá kom stór ljót vindhviða og feykti þeim burt Skrýtið hvað allt í einu getur allt breyst á einu augabragði- ] [ Well I don’t wanna talk About the things we did I try to forget it all Well its just not meant to be My dear try to listen I haven’t found a new you But I had enough and im through Oh boy I don’t know what to do Common try to reashue me back to you But im not sure if it will do The things ,the time It just not right There is nothing here And it will never be Im sorry this will end up like this But if nothing else works I guess this will have to do Go in peace Think of me quitly in the night as you sleep I will stay in your dreams … Don’t you forget me.. ] [ Don’t Wont you come unfair Like the wind when it blows lightly Blew me away Far away out to the sea Drown me there Drown me in my sorrows Don’t save me So tonight im gone Don’t ever think of me Just forget me I didn’t even exist Never… ] [ You can always make me smile And make me laugh. You know me inside out You know my secrets And you’r my friend It was supposed to stay that way But something had changed. Something happened in me I didn’t knew what it was Something weird, some feelings They struggled in my head And my heart was beating fast. I hoped that you feelt the same way Not sure of what answer I would get You said no and my heart fell in two. As the time did go by I got stronger feelings And didn’t knew what to do with them Should I just try to threw them away. Everything has changed now. ] [ ég veit þú særir mig samt get ég ei sleppt taki á þér ég þrái þig svo heitt að ég engist um að kvöl skiluru ekki.. sérðu ekki… ég vil þig .. Svo heitt .. ] [ Í kvið mínum liggur lítil vera og sparkar í innyfli mín, það er kvöl hugsannaleysis hins hugsandi manns að skapa líf sem enginn á. Að taka þessa sál og brenna hana á báli er böl mín, og bölina tek ég með mér í gröfina. Hungrið sem ég finn er hennar og hún étur mig. Ég vildi að hún hefði farið annað en til mín, ég á ekkert handa mér og ekkert handa holdinu innan við. Hví valdirðu mig? Vera, vilt vera svo væn að gleyma þessu máli og biðja um að fara aftur heim. Hér er enginn handa þér að elska og ást mín er farin. Faðir þinn er nafnlaus og hann skapaði móður þinni nafnleysi með gjörðum sínum. Kveddu hjúp þinn og ókunnugan heim. Guð mun geyma okkur báðar í örmum sínum. ] [ Ég ligg og læt mig dreyma um brosið Ég stari inn í glas og horfi á vatnið stara til baka með augum mínum Hvernig ég komst hingað hef ég ekki hugmynd um Tréin gripu í mig í drauminnum og þú varst þar Stundum stend ég upp og snýst í hringi Kjólinn minn er rifinn og andlitið rautt af blóði Mikið er allt hringsnúið og herbegið snýst Ég finn hvernig andinn um mig læsist Lásinn lokast, ertu kominn eða ertu bara spegilmynd í vatnsgalsinu mínu Herbegið mitt snýst og myndir renna saman, allt rennur saman Andlitið verður að klessu í augum annara og hárið svartur skuggi Afhverju snýst ég svona og finn hvergi frið, er ég ekki í lagi eins og þið hinn Ég bý í herbegi sem snýst, þú villt ekkert snúast með mér En hopar í kringum sjálfan þig Greiddu úr flækjunni Mikið er allt hringsnúið og herbegið heldur áfram að snúast Og spegilmyndinn í glasinu hverfur, hvert fórstu Ég reyni að finna þig en sé ekkert út um gluggann, Standa ofsjónir mínar úti og láta rigna Ef þær eru mínar má ég ekki rífa þær og henda í hauginn með hinum hugsunum mínum Mikið er allt hringsnúið og herbegið snýst en Og glasið dettur, nú mun ég ekki sjá þig aftur….eða kannski varstu aldrei til heldur bara hluti af ímynduð heimi mínum, andinn er að hverfa þú opnar lásinn og herbegið hættir að snúast….. Hvert fósrtu nú…… ] [ Ég ligg í rúminu ;’ þú stendur upp og blikkar mig Ég smæla framan í þig og blikka á móti -þú hlærð og gengur fram - ég elti. Gríp um mjaðmir þínar ,kyssi þig laust á hnakkan líkt og þú værir brothætt skál. Þú stynur eins og brjálað tígrisdýr;- Og segir - vá ég elska þegar þú gerir þetta. Ég dreg þig niður á kalt gólfið og narta í bert holdið þitt - ó hve þetta er dásamlegt Veltumst um eins og brjálaðir apar í leit að æti. Þetta er ástríðufullur hamlaus losti …. ] [ Síða dökka hárið sveiflaðist í vindinum og festist við fölbleikar varirnar. Augnaráðið svo fjarrænt og kalt, þó eitthvað ljúft við það. Hvernig hún gekk hárreist um eins og hún ætti heiminn og hélt fast í Bónuspokann svo að fingurnir urðu eldrauðir af áreynslu. Hún fikraði sig oní vasann á kápunni og tók upp lykil. Beygði fyrir horn og þar með var hún horfin. Horfin úr minni sjón- Ég vona að ég sjái hana aftur- Dularfullu stelpuna með Bónuspokan. ] [ Ég er tveir persónuleikar Sem bíða eftir að mæta hvor öðrum Þegar dagurinn rennur upp mun ég sitja klofvega á hesti mínum andspænis sjálfri mér með sverð hugar míns slíðrað við síðuna Tvær spegilmyndir tilbúnar í baráttu um yfirráðasvæði þessar sálar Ég stend á hvorum helming Hvorki með né á móti Með Anti-War skiltið mitt í hendinni Boðandi frið beggja aðila Ég hef verið klofinn í þrjá hluta Loftið lyktar af blóðugu sári drauma minna Ég ríð yfir völlinn með öskri og sé sjálfan mig nálgast óðfluga Ég kalla á frið og græt Þegar hlutar mínir mætast Munu örlög mín ráðast Stundinn nálgast aðeins nokkrar sekúndur eftir …………… ] [ Gráu hellurnar sem ég geng á eru samþjappað fjall í ferninga. Þar sem áður voru þúfur og fjallablóm, eru núna aðeins tyggjóklessur. ] [ Grá stétt, eins og reykurinn úr verksmiðjunum og gráu jakkafötin hans Marx. Áður en hann seldi þau. Ég geng á þér gráa stétt og enginn spyr lengur hvað er rétt eða rangt. Áður börðust menn gegn reyknum sem fauk um allt. Gerði þá ríka af engu en með höfuð hátt. Svo núna við tröðkum á grárri stétt. Sem liggur föl, undir okkur sem kusum. Að ganga og rísa, fremur en að liggja. ] [ Hún stoppaði stutta stund fyrir framan kexið skoðaði lögun þess virti fyrir sér skrautlegar pakkningarnar. Stuttu síðar gekk hún heim á leið með pakka af hvítu kremkexi í gulum Bónuspoka. Hún gat ekki annað en hlegið af eftirvæntingu á meðan hún opnaði pakkann ofurvarlega. En áferðin var röng og bragðið ekki eins og hana minnti. Enda ætti enginn að borða kex einn yfir eldhúsvaskinum. ] [ Að þrá þig er erfitt, en að reyna að þrá þig ekki er mér ofviða. Þú hefur eitthvað að bera, ég skil ekki hvað það er. Ég vil fá að eiga þig einan, en eitthvað segir nei. Kannski er það hugur minn kannski eitthvað annað afl. En þrá mín á þig er sterkara en allt. Þú ert sólin í lífi mínu. Þú ert hetjan sem grípur mig þegar ég dett. Þú ert þú. ] [ Að elska þig er erfiðara en orð geta tjáð. Samt sit ég hér með penna í hönd, og yrki til þín, reyni að koma tilfinningum mínum á blað. En það reynist þrautin þyngri. Þú bæði dregur fram góðar og slæmar tilfinningar mér hjá. Ég kikna í hnjánum, er ég sé þig. Hjartað missir úr slag er ég hugsa um þig. Allt verður að fuglasöng er ég hlusta á þig tala. Þú gerir heiminn að stað sem ég vil vera á. ] [ Ríddu mér áður en ég skemmist! ] [ Á Vatnsendahæðinni er verið að krossfesta mann Og stóreignamennirnir stíga uppí þyrlu til að horfa á hann Það er slátturveður gott, þó veröldin víst sé hún flá þetta er rauðhærður maður og laglegur en starfsmenn hans halda þó áfram að slá Og Þórir gamli spyr: ,,Því er hann vafinn í teppi\"? Og þroskaheftur drengur spyr á móti: \"Átt þú ekki heima á kletti í Kleppi?\" ] [ Við Vatnsendarætur ætlar Meistarinn að krossfesta sig Og hinir fastráðnu, smíða sprekkross Og glotta er þeir sjá glitta í mig Það er grenjandi rigning, því nú Guðirnir gráta Þetta er illa vaxinn drengur með aflitað hár Og jafn greindur og 8 ára hnáta Og Heiða spyr: ,,Því ætlar hann að krossfesta sig út í porti?\" Og Daðsteinn svarar: ,,Því hann um sjálfan sig níðvísu orti Og þjáist nú af skömm, en bráðlega af súrefnisskorti.\" ] [ Í leti á fleti á kletti í Kleppi ætlar maður að krossfesta sig Því í einelti telur hann sig lagðan af stjórnmálafræðingi Og sálfræðinema með nokkur píanóstig Það er þungt loft, lokaður gluggi og ofninn á þrem Þetta er sami maður og í Passísálmi tvö Og áhorfendur þiggja kex og sleikja af því krem Og Henrik spyr: ,,Áttu þér einhverja hinstu bón?” Og Jakob horfir á hann og segir með fögrum tón: ,,Mig langar að vita, er þetta kremkex frá Frón?” ] [ Í Land Rover reyna menn að krossfesta flón Þeir kall´ann VerslunarmannaHelga og hans bíður brátt andlegt tjón Úti er snjór en Land Rover seta ekki til sölu Þetta er skrækróma fáviti, með óþolandi útlit Og neikvæða greindarvísitölu Og sláttursveinn einn mælir: ,,Voða er hann einfaldur” Og stúlka við hans hlið mælir: ,,Já, sennilega of heimskur til að geta stytt sér aldur.” ] [ Inn í skúr situr arfaheimskur maður á Land Rover Kominn með nóg af lífsins fúkyrðum Og ætlar að dæma sig sjálfan Game Over Hann ræsir bílinn og skúrinn hann fyllist af reyk Og Daðsteinn stendur fyrir utan og starir inn Og sötrar sinn jarðaberjasjeik Og Daðsteinn segir við mig: Þetta er alveg í hans stíl Og ég svara glottandi: Já, hann er svo heimskur, hann getur ekki framið svona sjálfsmorð á díselbíl ] [ Dag einn þegar allt er með felldu á bækistöð býðst Jakob til að ríða út illaförnum traktornum með kexpakkann og grímuna sína margkunnu klöngrast hann leið sína, laus frá fearfactornum Ei hefur Jakob lengi slegið er upp rýkur úr vélinni ógeðis lykt og brátt bregður Jakobi í brún er traktorinn hneggjar og upp rís svart ský og þykkt Meistari Jakob hlýðir kalli klársins hvílir bikkjuna og yrkir um lágkúruníð staulast svo í átt til dýrsins grandvar og gætinn grunar margt sitt og læðist til hvílu bakvið hlíð Ekki hefur Jakob lengi dottað, er Daðsteinn birtist djöfullega bölvar, sér að reim er slitin og ónýt lega Meistarinn vaknar metnaðarfullur hyggst grípa í bykkju en hún virðist horfin á veg allra vega Leggst því aftur til hvílu, illa sefur á fleti í leti, Kleppsdraumar sækjann heim gengur sjö Seljahringi og sjö sjoppur sækir í leit sinni af traktor og týndum hrífum tveim Vaknar Jakob er sólin slær hann á kinn þögnin ríkir á svæði, hópurinn á brott grípur sinn kexpakka og staulast upp veginn stefna lappir í allar áttir og milli þeirra hans skott Í sturlunarmóðu hverfa götuheiti og hús snýst í hringi og finnur fyrir súrefnisskorti kallar, hrópar, öskrar á Daðstein hátt finnur ei rétta leið á innbyggðu landakorti ,,Velkominn Jakob” Daðsteinn fagnar gramur andsettar kenndir fylla þungann huga hans er Jakob birtist tveimur tímum rúmlega seinna og Dauðinn hefur ekki tekið hann upp í dans Kvöldar haustar dagar dimmra þanka dúsir Daðsteinn í fíflsins fangahlekkjum Daðsteinn bíður loka ,,Jæja” Castros til að losna undan heimssýndar(Jakobs)sjónskekkjum ] [ Ég er heill fjörður ekki drukkna í vötnunum þú ert harmonikka og ég heyri stundum í þér á kvöldin Hann er skrýtinn þessi götótti ostur eins og sá sem keypti hann (þ.e. höfundur þessa ljóðs) hann segist vera einn í ástarþríhyrningi ] [ Brosið. Er það ekta í dag? Eða er það bara gervi? Hvað leynist á bak við það bros sem aðrir sjá í dag? Líklega ekki jafn glaðlegt andlit og ég sé í speglinum. Líklega eitthvað með meiri sársauka og vanlíðan. En hvers vegna er þessi gríma? Af hverju fel ég það hvernig mér líður? Hræðsla við að aðrir taki mér ekki með öll þau vandamál og tilfinningaflækjur sem á mér eru. Taki mér ekki eins og ég er. En af hverju ekki? Því er ég hrædd? Þetta er bara ég og svona líður mér. En þrátt fyrir skýrar hugsanir ræð ég ekki við grímuna og fel persónu mína á bak við þykkt lag af brosi. Það þarf enginn að vita hvernig mér líður. Enginn þarf að spyrja neins. Enginn þarf að vita að mér líður illa. Allir geta haldið að ég sé ánægð og brosi því dagurinn í dag ætti að vera gleðidagur. Hver dagur hefur pínu gleði. Hver dagur hefur sinn skammt af vanlíðan. Hver dagur hefur sitt falska bros og sínar persónugrímur. Í dag vil ég að persónugríman mín verði tekin niður. Það er bara svo erfitt.... svo afskaplega erfitt. Svo erfitt að það er varla hægt án þess að brotna niður. ] [ Rýr lamadýr feta bratt einstigið upp að höllu drottningar flytja vín reykelsi vindla og aðrar nauðsynjar strangt auga út um eldtrausta hurð gefur þegjandi samþykki og inn tölta þau hlýðin til affermingar í hlaði sjaldnast ná þau lengra en að brunninum og aldrei inn í það allra helgasta því að spaðadrottning stundar ekki kynlíf utan örfá slys með einhverjum gosum og ómerkilegum tvistum í bland ekkert til að tala um. Og enn rýrna lamadýrin með árunum sem sleppa gegnum nálaraugað mæta auknum kröfum og feta hinn hættulega stíg af gömlum vana og mikilli aðgætni því slysin gera víst ekki boð á undan sér. ] [ This lone twinkling star in the almost dark blue sky is it the Eye of God watching me? Or is it you just blinking to me laughing;-? ] [ Ég held það séu stórar flugur að gera innrás í Reykjavík. Kvöld nokkuð um daginn, var ég þess var að hálf eiginkonan mín var að mestu horfin. Ekki á ég til orð, ef landið verður risa flugum að bráð. Auðvitað má hugsa sér einhverjar varnir. Til að mynda að bráðsmita flugurnar með eitri. Eitri sem fær þær til að fara eitthvað annað, og þroska með sér lífstíl. Ég fer stundum í göngutúr. Þá sér maður ýmislegt. Ekki síst ágengni risaflugu við að eta samborgara. Það er nú bara heimur út af fyrir sig. Hitti fólk sem var að gæða sér á leifum risaskordýrs. Það fólk er að eta allt. Fór svo sem leið liggur, í mötuneytið. Átti von á service. Var settur á krók, og gerður að kvöldmati. Konan var hvorteðer að mestu farin. ] [ Ég rakst á Fortíðina í gær... hún hló og var að leika sér... henti í mig snjóbolta, hljóp svo hlægjandi í burtu. Það var góður dagur. Ég heyrði í Nútíðinni í dag... hún hló og grét á víxl... sagði svo að ég væri aumingi, og skellti svo á mig án þess að kveðja. Það var leiðinlegur dagur. Ég á von á bréfi frá Framtíðinni á morgun... hún sagði mér ekki til um innihaldið... einungis að ég myndi skilja það þegar ég læsi það... hún sagði ekki meira en það, enda hefur hún alltaf verið dularfull. Mig kvíðir mikið fyrir morgundeginum. ] [ Allsstaðar Ef á öllum sviðum, allsstaðar andinn, birtu baðar. Brátt eyðast þjóða-þjáningar, og jarðarbúar, sem jafningar. Jákvætt, í hendur haldast hér, þroski þúsundfaldast. Kærleikurinn, er kyndill Krists. Fyrirgefningin, er frækorn friðar. Löngun ljósbera, er ljós á leiðinni. ] [ Í náttúrunni, í grænum lund unum við með hesta og hund. Haglega höfum, búið okkur ból sem hlýju gefur og veitir skjól. Undir fuglasöng, við þjóðbraut þvera þrótt við finnum, hér viljum vera. Með grösuga haga, allt um kring Kollustein, tjarnir og fjallahring. Í Þórisstaðalandi, staðurinn er þar dansa má tangó og tína ber. Bólið okkar bjarta, heiti fær fagurt og farsælt, Lyngbær. Mörgum árum, áður fyrr sat við borð, dóttir kyrr. Drátthög dró, Kolla á blaði blómlegan bæ, með Birtu í hlaði. Nafnið á bænum líka hún skráði, sönnum framtíðar-fræjum þar sáði. Því draumastaðurinn, hann er hér og myndin fágæta, fundin er. ] [ Frost roses in a window come when temperature is low. You just sit there and watch in it slow. A world full of fairy-tale encourages you to go. Into magical places let your imagination flow. Your journey will take you on the charming move. Into the world you have never knew As the moonlight come near like a beautiful chrystal clear. Is the frost roses in rime, natures art you enjoy this time. ] [ Davíð frá Fagraskógi gengur Suðurgötuna og hlær, það er morgunn. Helgi og Jón Gunnar eru líka vaknaðir. Þeir hlæja. Lilliendahl krítar á malbikið. Halldór var að eignast barn og Arnar hringir heim frá Argentínu. Kolbrá Þyri hannar ljod.is-merkið úti í góðaveðrinu. Óttar Norðfjörð þingar með köttunum í miðbænum. Toshiki Toma laufgast einsog kirsuberjatré. Hugskot situr á bekk og skrifar. Jónas í skuld fær loksins útborgað. Heyrði ég í ungskáldi ræskja sig eða var þetta einhver að opna skúffu? ] [ Í rökkrinu, rætur hugans ligga, líf, sem ljósið vill þiggja. Þráin ein, þroskan fram færir fegurð fyrirheita, rótina nærir. Nálægð, nærveru leyndardóm leiðir til lykta, innsta róm. Réttilega, rótar- angana gefur, Guðdómurinn sem aldrei sefur. Smáfræ svo vaxa, sprotunum á ákaft svo áfram, í þrískiptri þrá. Í þögninni, þroskast fræið best, brátt það vaknar og vöxtur hefst. Veröldin vakir, tengingin tær trú og traust í farveginn ljær. Ljóssins ljómi, frelsi gefur góðvild í hjarta, og veginn vefur. ] [ Við sjóndeildarhringinn himininn logar logagylltan bjarma á skýin slær. Og regnbogalitina til sín sogar jörðin, sem er okkur svo kær. Móðir Jörð sem allt hefur að gefa sem við ætíð þörfnumst hér. Hún fædir, klæðir og umvefur alla sem sannleikann skynja og til hennar kalla. Í hjarta hvers manns var fræi sáð og öll sú vitneskja, ef að er gáð. Sem hver og einn þarfnast hverju sinni í hlutverki sínu í lífsgöngunni Hvert spor, hver hugsun, hver gjörð áhrif hefur á alheim og jörð. Í öllu sem lifir er lífsins eldur frá Almættinu sem um okkur heldur. ] [ Ef tekst þér að stilla þá strengi sem beðið hafa eftir samhljómi lengi. Þá munu allir þeir draumar rætast sem þroski þinn og sál eftir sækjast. Sál þín vill ljósi sínu skarta sem býr í hjartanu þínu bjarta Að birta Guðdóminn í sjálfum þér er tilgangur þinn á jörðu hér. Hver og einn gengur götu sína sem ýmis er breið eða mjó lína. Lýstu þeim sem á þurfa að halda til hjálpar, frá myrkrinu kalda. Fegurð í hugsun og gjörð eflir frið í alheimi og á jörð. Ef sinnir þú verkefni þínu þá lifa mun það í mínu. ] [ Daggardropinn tær og fagur fellur af himni, er endar dagur. Dansandi hjúpar heitan svörð, svalar og nærir lífsins jörð. ] [ Að sofna við ljúfan lækjarnið, lækkandi sól og fugla klið. Siðla kvölds, með elsku sinni seint það líðast, mun úr minni. Í faðmi náttúrunnar, mætast mjúkir munnar. Undursamleg ástin er, ein fegursta gjöf í lífi hér. ] [ I miss you every second every minute every hour every day In my mind I see your face smiling -happy In my head I hear your voice sweet and caring -sexy I know that you are different Your mind has shut down thoughts for me. You are numb. Your feelings for me asleep. I do not mind.. As long as you still love me. We will get our time again someday. Untill then I will love you forever and always. Endless, timeless love. Living on memories As long as I need We will make the new ones someday. I will love you forever and always. Tasting the dreams Living on fantasies As long as I need We will make them real someday. ] [ Í mörkinni berjast hrímþursar og nátttröll um lágnættið að dagrenningu. Viðkvæmur reyrinn treðst undan nettum fótum berfættrar mannveru sem finnur steinblóð vígvallarins þrýstast á milli tána sem límast saman til að halda hópinn. Tvær og tvær eins þær hafi verið skapaðar til þess eins. Að morgni í skímu, þagnar ómur næturinnar og mannveran hleypur nakin innan um dranga og dimmuborgir. Fórnarlömb hríms og nætur bíða sólargeislans og þess að mannveran veki þá af þyrnirósarsvefni með kossi sem bræðir steinrunnin hjörtu. ] [ Sólin skín á mig, hún skín agalega í augun á mér. Mér finnst ég ekki sjá, ekki finna, ekki skilja. Ræð ekki við neitt, get ekki að því gert, langar að hverfa, gefast upp og deyja. ] [ - ( It all comes down to you ) - Ég reyndi að týna minningunni um þig í kossum ókunnugra Reyndi að kæfa söknuðinn í ótal samförum En stundum sá ég blik þitt í augum einhverra annarra Og hélt áfram að falla fyrir aðdáun þeirra - lét sem hún væri þín En ég glataði henni fyrir löngu Á meðan þú hélst að þú værir mér gleymdur Var ég vindurinn í hári þínu Ég var súrefnið í lungum þínum Ég var munnvatnið í kossum ástkvenna þinna Hjartslátturinn í sveittu brjósti þínu á hátindi fullnægingar þinnar Og þegar ég hverf inn í einveru mína Þá hverf ég inn í þig Því hvernig ætti það annars að vera Í veröld þar sem ég elska aðeins þig Öll síðari sambönd mín tilraun til að vinna þig á ný ] [ Ljóð þetta er ljótt og illa ort og fleiri galla það hefur við að glíma en þrátt fyrir það og þrátt fyrir mig náði ég að láta það ríma ] [ Ég hefði alveg getað rústað ljóðakeppninni í Fréttablaðinu. Ljóðskáldið sem samdi mig er bara ekki jafn mikið sellát og mainstream og ljóðskáldin sem langar að verða Idol stjörnur ljóðaheimsins. Ljóðskáldið sem samdi mig er öndergránd og kúl eins og sönnum listamönnum ber að vera. Ég er engin 99 kr. perla (per sms) ] [ Líf með þér er hræðileg pína því ég enda særð - einsog vængbrotinn fugl aftur og aftur og aftur og aftur - Líf með þér er dans á rósum fagurt - en óendanlega sársaukafullt þegar þyrnarnir stingast í iljarnar - Líf með þér er andartakshamingja en svo þverhnípi sem ég fell fram af og lendi á grýttum steinum - Líf með þér er það sem ég þrái stöðugt en hef ýtt jafnoft frá mér - Líf með þér er sársaukafullur andskoti en lífið án þín er ekki neitt. ] [ I don\'t wanna live, I wanna die. Sometimes I love the live, But not now, Everbydoy are dying around me, Why? Why everybody exept me? I hate to be alone, And I hate to be with someone What can I do? Why do I think so much about death? I hate it! But I can\'t stop! This thought always come back! ] [ þó þú uppfyllir allar kröfur mínar um draumaprins þá er það bara ekki þannig hjá mér ] [ Ég vona að í himnaríki verði allir aftur lítil börn sem leiki sér með gullna bolta og svífi um á skýjahnoðrum og haldist í hendur inn í eilífðina ] [ Axlir hoknar bogið bak Hugurinn tómur huxanir svartar Byrgðarnar eru þungar ] [ Við fæðingu vógstu aðeins ellefu merkur elsku barnið mitt því Dauðinn hafði hugsað sér að hreppa lífið þitt og mitt. Og þegar þú leist dagsins ljós ég liðið hafði á braut. Í óráðs svefni vikum saman leið ég sorg og þraut. Þú lást ei við mildan móðurbarm, mjólkin kom ekki brjóstin í. Og langur tími leið uns leit ég bláu augun þín. En allt þetta er aðeins hjóm hjá auðnuspori því að eignast þig og unna þér elsku, litla stúlkan mín. ] [ Finn sársauka sem ég get ei stöðvað Samviskubitið ennþá mig nagar Bannsettur fari það bölvað Bévítans dauðinn ekkert lagar ] [ Ég skyldi verða hið brjálaða skáld I should be the reckless poet ljóðskáldið the poet með úfna hárið crazy hair halos hrifsað til mín orðin sleppt þeim svo í hreiðrið mitt með hröfnum undir stiganum hinumegin Í bláum kjól og gulum sokkum með gullúr á keðju Orðakeðju Nothing sweet, no sweetness Ekkert dútl Bara brjálaða bína I could be the reckless poet Glottandi í dulargerfi á grænum fjölskyldubíl Ég gæti ort á nóttunni eða á gatnamótum Gula ljósið vinkona mín Í dulargerfi Biding my time brosi ég ávallt á almannfæri bera aldrei tennurnar Á nóttinni teyga ég litfagra tóna tryllingur og tom tom bylgjandi bumbusláttur Ég get njósnað um hina The crazy spy fylgst með þeim gert þau óróleg Hvað hét hún aftur? Tálkvendið Titrandi orð á stangli Tungan Tounge tied Gárungarnir tjóðraðir við golfvöllinn Örgos og flaumæði On the brink of fame Mitt á meðal þeirra I spy on them Engin blíða í orðum mínum engin glitrandi lækjarniður hvorki fegurð né hrynjandi íslenskra fossa Urð og gtjót Urð og grjót Hrákadallur ljóð mitt Spit Spitfire ] [ innra með mér ég framkalla öskur það brotnar í árekstri við dimman vegg af moldu er ég kominn fljótlega verð ég að ösku af lífsins tré ég mínar greinar hegg brenndur eftir viðskipti við gagnstætt kyn upplifi sama hugarleikinn héðan í frá ég treysti á minn vin upplifi sama hugarleikinn ] [ Taktu dóraopnarann, opnaðu brjóstkassa minn og náðu í hjartað mitt Ég hef gefið þér óbeint leyfi til þess að leika þér að því eins og þér listir Góða skemmtun ] [ Áður en langt um líður mun ég ná að kyssa þig. Samt hræddur um að þú kyssir ekki heldur kýlir mig. En það er aðeins ein leið að finna út úr því. Munum við fara í sleik eða þú lenda fangelsi í. ] [ Ef ég skipti þér í agnir sem sjást ekki. Hræri þeim í skál, sem sést ekki. Tek úr þeim kekki, sem annars nást ekki. Bý til sögusagnir, sem þjást ekki. Þá myndirðu ekki, vera skemmtileg. Og að sjálfsögðu, ekki ógeðsleg. Þú yrðir kekklaus. ] [ ,, \" ] [ Í djúpri og hljóðri nótt. Gengur inn í ósýnilegan skugga með skynfærin þanin til hins ýtrasta. Kannski heyrir þú mal hennar vonar að þú verðir ekki næsta bráð. Vonar að hún beini ekki ástarþrungnu augum sínum til þín. Álög hennar eru öðrum máttugri. Hún ágirnist tryggð þína að eilífu með því að láta þig hamskiptast í uppáhalds gæludýrið sitt. Temur vilja þinn þannig að þú glatar vilja þínum til að lifa nema aðeins fyrir hana og leikina hennar. Þetta er tælandi nautnaleikur. Kannski er hann lykillinn að öllum þínum þrám. En þegar hún strýkur krókódílaskinnið þitt, með lostafjöðrum sínum og skilur þig svo eftir í örvæntingu þinni og þrá. Þá byrjar vilji þinn að skríða inn í hjartað. En þú hefur gleymt hvað hann táknar. Þú finnur bara óttann, tómleikann og lostann. ] [ Þegar tunglið er fullt þá opnar hún æð viskunnar og bíður honum að bergja á. Verndari týndra sálna örlagavaldur. Það eru ekki til neinar myndir af andliti hennar. Hún er hið dulda afl þekkingar, dansar í skugga Óðins. Fyllir hann sér, fyrirgefur taumleysið. Hún er gyðja gyðjanna vörður leyndarmála. ] [ Tælandi og seiðandi með tungu snáksins, nektin hefur kennt henni að spinna úr ull - Djöfull? ] [ Á líkamann vill fá lit á, en fær hann ekki í Litháen ] [ Það gerist iðulega í kulda og skammdegi febrúar að líkhús borgarinnar fyllast. Volgir fyrirferðamiklir skrokkar auka ekki á gleði starfsmanna í þrengslunum, er þá talað um lík-ama. Feitt fólk ætti að íhuga þetta áður en það fremur sjálfsmorð á háannatíma - í versta skammdeginu, því að það þekkir föður lík-ama, hinn eina sanna líkama-ama. ] [ Tíminn er eins og fljót. Líður hjá og rennur til sjávar þegar ég sá þig fyrst þá stöðvaðist tíminn en fljótið rennur stöðugt fram Blómin í haganum og morgundöggin það ert þú kona sem átt mitt hjarta öll fljót renna til sjávar ég verð þar þegar þú kemur Þá verður langskip við ós þar mun víkingur taka á móti þér og sigla á þann stað þar sem tvö hjörtu verða eitt ] [ Afhverju geta ekki tilfinningar talað? Afhverju geta þær ekki sagt hvað er að? Afhverju er svona erfitt að finna orðin? Jafnvel erfiðara að koma þeim á blað? Ef að maður er spurður, Hvað í hjarta manns er að, og maður veit það ekki sjálfur, hvernig svar verður þá það? Að geta ekki svarað, að geta bara þjást, að vera lokaður í sjálfum sér, á meðan tár og sól þar slást. Mér er illt, ég græt, ég skil ekki einu sinni, hvernig ég læt, Og það stoppar ekki, það stoppar aldrei. Því gott og illt eru ætíð að slást. ] [ Beljandi stormurinn ýfir upp mar vekur upp reiði hans sem sofandi var. Nú lemur hann frá sér lætur öldurnar skella á ströndum og steinum og rífur upp þar(a). Hún stendur á klettanös og starir á fyllist svo ótta og hörfar frá. Óskar sér langt í burt er hún sér öldur flæða, óskar sér til Nirvana þar sem engir vindar næða. ] [ Ó þú fagra himintungl lyftu mér til himins. Leyfðu mér að dansa með stjörnunum og hoppa á skýjunum. Ekki fella mig þó þér líki ekki dansinn. Ó þú fagra himintungl leyfðu mér að snerta þig. Leyfðu mér að snerta vanga þinn og strjúka burtu tárin. Leyfðu mér að þykja vænt um þig, ekki vera svona kalt og fjarlægt. Ó þú fagra himintungl afhverju læturðu þig alltaf hverfa þegar dagurinn kemur og blindar mig af birtu? Afhverju kemur sólin alltaf þegar við erum að tala saman? Er hún öfundsjúk? ] [ Veik hún veltist um af kvefi verkir á hási og full af sleni Endalaus eimsli í hennar nefi. Inbyrgðir ósköp af Íbúfeni. ] [ Vælið í vindinum gerir mig stúrinn Veðrið það hefur svo áhrif á mig Þá dreymi ég dagana okkar við skúrinn, dæmalaust gott var að faðma þig. ] [ Í engum vanda eigum frið enn er landinn hálfur til að blanda búumst við betur en fjandinn sjálfur. ] [ Pakkningin er horfin á brott, Að kveikja í er alltof gott. Finn ég hvernig tungan brennur, og finn ég þegar eyðast tennur. Reykurinn er orðinn hollur, Um mig allan fer svo hrollur. Þegar hún á enda tekur, Sýran um minn heila lekur. Nú áfram get ég haldið að lifa, klukkan heldur áfram að tifa. Heilablóðfall skelfir mig ekki, blóð mitt inniheldur feita kekki. Lungun mín eru svört sem dauðinn, Enda mun hann sækja mig, kauðinn. ] [ Stór og sterkur þykist hann vera, Stóra vöðva skal hann bera. Ekki má vanta hárið flotta, Hann mun aðeins stráka **. Í dökkum skorum þeir vilja spranga, Í ljósabekkjum þeir mikið hanga. Kassinn fremur heilaþvott á honum, Massinn er eina sem skilur þá frá konum. Augun blá og hárið ljóst, Aðeins vantar á þá brjóst. Glænýr, settur saman úr pakka, kannt\'að setja saman hnakka? ] [ Fæ ég í magann er upp hann hoppar, hjartað í mér næstum stoppar. við þessu bjóst ég ekki við, aldrei fær maður nokkurn frið. Mækrómýkja græðir og græðir, á meðan tölvu minni blæðir. Blái skjár dauðans er mér á hælum, Reiknings-Hliðið er haldið sælum. Blái skjárinn starir á mig, segir hoppaðu uppí rassgatið. Maður myndi búast við meiru, frá fólki sem er með eyru. Blár er himinsins litur, sit ég hér frekar bitur. Ég gæti hafa í linux breytt, fólk er fífl og veit ekki neitt. ] [ Í færi en þó ekki nógu nálægt. Þú myndir bjarga mér ef þú bara vissir -hvað ljósin eru blindandi -hvað hlutir eru ruglandi. Hvað veggurinn á milli okkar er hár! Hann er gulur þín megin -mín megin er hann grár. Ég verð fegin ef ég felli loks tár! Eitt tækifæri? -En þetta verður aldrei hægt. Ég myndi svo margt vilja segja þér! Ef þú bara vissir -hvað augu þín eru tindrandi -hvað hárið þitt er glansandi Hvenær segirðu mér að þetta sé aðeins fár? Því ég vil hafa þetta hinsegin. Þá verð ég fegin -því ég er sár. Mín megin er aðeins ljár... Bara að þú myndir segja mér.. “After all.. you´re my wonderwall”. ..Then there would be no need for a saving-call! ] [ Fíflar eru engin fífl, þó þeir séu fíflalegir. ] [ Orðin sem okkur fóru á milli sporuðu út samband okkar. ] [ Staðnæmist, bak við gula húsið sem var raunar hvítt, en var málað síðasta sumar. Gleymi mér bara í smá stund. En man svo aftur, ég þarf að fara að læra. ] [ Blá blaðra, svífur hratt til himna, springur og fellur til jarðar. ] [ Dagurinn rennir leitarljósi sínu yfir landið, leitar að því sem hann týndi fyrir svo langa löngu. Nóttin hnyprar sig saman í skugganum og bíður eftir að dagurinn fari eitthvað annað. ] [ Ég set upp sólgleraugu, áður en ég geng út úr húsi. Augun segja alltof mikið, hluti sem ég vil ekkert að þið vitið. ] [ Á hvítri sænginni, á mjúku rúminu, í litla herberginu þínu leyfi ég þér að taka af mér sólgleraugun ] [ Þetta er allt í lagi, hér er enginn. Það er nú þannig með mánann, hann kjaftar ekki frá. ] [ Fyrsta ástin fyrnist seint flestir hana muna. Gefur hún mér ljóst og leynt lit í tilveruna. ] [ Hversdagleikinn er eins og postulínsstyttan sem ég fékk í brúðargjöf; alltaf eins - aðeins misrykfallin. Ef hún brotnar verð ég fegin því ég er fyrir löngu orðin leið á henni ] [ Í vöðlur fór og vestið fínt ég vaskur ánna rölti. Mikið gengið - meira rýnt, maðkur á færi brölti. Ég leit um kring og laxinn sá nú læddist fjör um kroppinn. Ég hélt ég loksins hefð´ann á, en helvítið var sloppinn. ] [ Grill og glens í kyrrahafi gleðin þar við völdin. Brens\' og bús og aldinsafi bæði helgar kvöldin. ] [ Himininn lekur og sofandi vaki ég um nótt syngjandi þegi ég í söngljóði um daginn og veginn Þú segir að þú getir lagað allt með hvítum skýjabólstrum sem þú málar á strigann en þú veist ekki að himininn á samt eftir að leka gráum tárum Ég veit það og sé því þú málaðir óhóflega með svörtum lit í upphafi ] [ Bestu vinkonurnar áttust við á gangstéttinni í gullnum ljóma við skulum skrifa bók! sagði ein já, sagði hin Gullbrá Ljómalind önnur barðist í bökkum fyrir lífi sínu en húsfreyjan slátraði henni og át hin var frúin í öllum fjósum landsins framanaf báðar voru þær af góðu kyni þau urðu nöfn þeirra í gullnum ljóma ] [ Dyrnar opnast og þú stígur varfærnislega inn í þetta reykmettaða hálfspeglaherbergi. Deyfð ljósin skína á dökk bláa veggina og skuggarnir mynda óhugulegar verur eða eru þetta fastagestirnir? Þetta er allt eitthvað svo óljóst uns einhver rýfur þögnina með því að rífa blað... nei, þetta var nakinn miðaldra maður með slaufu og hormottu að standa upp úr leðursófasetti. Hann bíður þér til sætis á barnum og blandar fyrir þig alvöru mjólk og færir þér skiptimynt fyrir skyndimynd, bendir þér á klefann þinn. Þú þorir ekki öðru en að hlýða, og sest í þennan einkaklefa með klósettpappír á hægri hönd og peningamæli á vinstri hönd. Leiðbeiningarnar á veggnum biðja þig vinsamlegast að klæða þig í galla og að því loknu virðist líkaminn dofinn – af spennu? Er þú stingur sveittum 100 kalli í raufina uppljúkast veggir og þú ert sjálfur til sýnis, á sviði og barþjónninn hann drottnar – og undramjólkin lekur niður munnvikin. Augun lokast, augun opnast og síðasta minningin áður en þú vaknar á umferðaeyju, er dvergur með leðurgrímu að slá honum beinstífum í andlitið á þér. ] [ Ég stend á öndverðum meiði Meiði mig á annan hátt en þú Ég stend en þó í litlum mæli mæli orð en þegi þó Ég skýt í mark en hitti ekki þó ég hitti þig ] [ Finnst þér ekki skrítið að geta opnað link og skrifa ljóð, stutt og lítið. I have come to think that I am not alone. ] [ Lítið ljós, það er það sem ég sé. Ég geng hægum skrefum í átt til þess. Ég sé að það mætir mér, kemur nær og nær. Einn daginn næ ég ljósinu, þá mætumst við, glöð og ánægð. Ég og ljósið. Myrkrið horfið, bara ég og ljósið. Þá á mér eftir að líða vel. Nú er bara að ganga skrefin, hægt og hægt. Að lokum mæti ég ljósinu. Ég elska ljósið, jafnvel þetta litla ljós í fjarska. ] [ Takk fyrir lífið, takk fyrir sönginn, takk fyrir þakkirnar, takk fyrir vinina. Takk fyrir ljósið, takk fyrir hjálpina, takk fyrir styrkinn. Takk fyrir að vera alltaf til staðar og hjálpa mér. Takk fyrir að vera eins og þú ert. Takk fyrir að vera til :) ] [ Sameinaðir vér stöndum gegn illskeyttum alræðisöflum Kúguð af stjórnvöldum Gegn norðangarranum vér berjumst Með skiltin að vopni og Lúðrasveit Verkalýðsins ] [ Ég var hér, hún var þar, hún leit á mig, og ég á hana. Það var svo rétt, en samt svo rangt, askjan var opnuð. Það var ei aftur snúið. Sá tími var okkar, sá tími var minn, ég flaug í burtu, en hún beið um sinn. En svo sá hún mig, eða var það kannski hann, í ringulreið allri, þá sá ég um hann. ] [ Á íslensku má alltaf finna svar my ass! ] [ Ég er á Akureyri óravegu fjarri kátur um keyri kallaður Svarri allt í góðum gír góður þessi fýr ] [ Mér leiðist ég er í tíma allt er svo fjarlægt Hugurinn reikar út burt úr stofunni Í heimi hugans er ég úti í kuldanum Ég sé svífa fram hjá mér klikkaðan kennara Sólin skín í augun á mér kennarinn er uppi í tré Það er haustilmur af litunum rauður, grænn og brúnn Skyndilega vekur hávaðinn mig Skólinn er búinn ] [ Ég var fangi í huga mínum Inni í veröld minni voru rimlar þeir héldu raunveruleikanum frá mér Ég fann lykilinn að heiminum Ég stökk til móts við alheiminn Ég varð engill Engill alheimsins ] [ Hvert sem ég horfi sé ég augun þín sem skína svo skær brosið þitt sem vekur gleði mína nærveruna sem fyllir tómleika hjarta míns Vinur gefur tár sín óhræddur kannski mun ég gera það seinna en ég er svo hrædd ennþá um að verða hent út í horn þegar tárin láta sjá sig Ég vildi óska þess að hlutirnir væru öðruvísi það er þráður sem ég skynja frá mér til þín hann er mér dýrmætur kæri vinur en þetta átti víst aldrei að verða draumur í dós ég fæ ekki það sem mig langar í en eitt máttu vita Þú átt sérstakan stað í hjarta mínu um ókomna framtíð ] [ Ég spila og spila sama lagið, aftur og aftur. Svo þegar ég missi nóturnar man ég ekki lagið og kunnátta mín fellur í gleymsku. ] [ Þegar ég pikka á einn strenginn kemur þessi undurfagri, hreini og tæri ómur. Ómurinn deyr út, en það er allt í lagi -ég pikka bara í hann aftur. ] [ Flugur sveima yfir höfði mér, þær leita alltaf á hæðsta staðinn -ekki spyrja mig af hverju. Ég hef ekki hugmynd um það, en það er annað mál að ég hef ekki flugur í kringum hausinn minn -ég er svo lágvaxin. ] [ Innilokuð alein og eftir því sem ég horfi meira í hornin verða þau myrkari og myrkari. Skrímsli skríða út undan rúmi og út úr skápum. köngulær þramma um og tipl þeirra heyrist vel í þögninni. Hrjúfur andardráttur úti við gluggan, ég vona að það sé vindurinn. ] [ Svört tár í nokkur ár, hjartað svíður, því miður, ískalt blóð, sorgarflóð, sálin dökknar, vöknar, slökknar, skrambans sorg, myrkrarborg af kvíða, fingur svíða, tíminn líður, dauðinn bíður ekki lengi, kolsvart engi stend ég á, lítil þrá berst um í mér, í sjálfu sér allt of mikið, verður svikið út að lokum, mínum dropum slotnar seint, það er leynt í mínu hjarta, enga bjarta von að sjá, ég mun fá nóg af árum með svörtum tárum. ] [ Stundum þegar ég stend við salernisskálina og fylgist með vatninu gutla ofan í henni, uns það svo sogast niður af alefli. Já Stundun þá ... finnst mér lífið vera ósanngjarnt! Afhverju get ég ekki farið með? Afhverju má ég ekki þeysa í gegnum skolplagnirnar á ofsa- hraða, í svartamyrkri og allri þessari dásamlegu drullu. Hitta svo allar hressu rotturnar, og fara með þeim í partí, grúska í öllu dótinu sem endar þarna. Fara í skítkast! Og svo, fljóta með straumnum lengst á haf út. Afhverju fæ ég aldrei gera neitt svona skemmtilegt? --- Mér finnst að einn daginn ætti kúkurinn að sturta mannfólkinu niður! ] [ Ég er valmúginn Er ekkert val bara kvöl fyrir ykkur Ég er ál í æðum ykkar Ríf í mig sálina og frelsinu svipti Ég er siðlaust yfirvald Held ykkur niðri og í tangarhaldi Þú veist og þekkir mig en horfir ekki í augu mér Þú veist og þekkir mig en lætur sem sá er ekkert sér Ég er menningin sem skyggir á þína eigin Þar sem þú horfir, þarft ekki að hugsa og ert bara feginn. Ég er skugginn sem hylur sköpun þína Þar sem þú þrælar dag sem nótt og hefur engan tíma. Ég er kreddutrú sem gefur ekkert Bara tekur og tekur og tekur og tekur Ég er andleysið sem drepur alla von Og smitast síðan yfir á þinn eigin næsta son Þú veist og þekkir mig en horfir ekki í augu mér Þú veist og þekkir mig en lætur sem sá er ekkert sér Þú ert áin sem rennur í sjóinn Þarft að berjast á móti í öfuga átt Þú ert neistinn sem tendraði bálið Þarft að berjast þá stoppar þig afar fátt Þú ert hluti af mun stærri heild Haltu áfram og skapaðu þinn eiginn betri heim. Þú veist og þekkir mig en horfir ekki í augu mér Þú veist og þekkir mig en lætur sem sá er ekkert sér ] [ Einu sinni var hestur. Hann var prestur. ] [ Mín veröld er umlukin draumkenndri móðu myndir sem hljóðlega líða mér hjá heimurinn breyttist á haustkvöldi rjóðu huga minn allan þú fangaðir þá Allt það þú vekur er sál mína vantar um vornætur dreymi\' er þú dvelur hjá mér dularfull vötn og dimmúðga skóga djúpin ég þrái að kanna með þér Er augu þín líta mig ólgar mitt hjarta undurblár ljómi stafar þeim frá en fegurst er þó brosið þitt bjarta brast eitthvað innra er fyrst ég það sá Hárið þitt dökka og bakið þitt breiða heilla, ég fæ vart litið þér af röddin svo djúp, þínar varir mig seiða stela ég þrái\' einum kossi þar af Mín veröld er umlukin draumkenndri móðu myndir sem hljóðlega liðu mér hjá um okkur og allt sem hefði\' getað orðið engri ég náði, þú hvarfst mér frá ] [ Halldóru hilli hana og villi samdi ég sögu sjá nú snilli setta í bögu. Er á Akureyri óravegu fjarri kátur um keyri kallaður Svarri. Í góðu yfirlæti ég um spranga, víni á mig væti, vorvindar anga. Nærri því sem nýr og nægilega skýr allt í góðum gír góður þessi fýr. ] [ Þau ég dýrka og dái þau ég elska og þrái hverja stund og hvert andartak sem ég upplifi. ] [ Að vera með þér væri eins og að fljúga með fuglunum, finna frelsið fanga mig. Að vera með þér væri ekkert léttúðugt hliðarspor, kerfisbundin leit að hlýju. Að vera með þér yrði eins og hitabeltisstormur og krafturinn og orkan myndi breyta landslagi lífs míns það sem eftir væri.. Eða það myndi ég halda ef ég væri með þér ] [ Maybe this what I feel inside is not enough Knowing you love me too -not enough Feeling pain when I think about you leaving my life for good Maybe I should say goodbye for you to feel alive again Maybe I will feel alive as well So Goodbye for the rest of time Goodbye for the rest of time. ] [ Ég gekk niður Laugaveginn í dag og tók fram úr mörgum mispirruðum ökumönnum sem þar sátu fastir. Er ég var kominn nokkuð áleiðis, kemur Megas á blússandi ferð niður Skólavörðustíginn og inn á Laugaveginn rétt fyrir framan mig. Hann var í klassísku vetrarlínunni sinni, gráum frakka, gallabuxum og skóm... Og ég hummaði með sjálfum mér ,,Ég var einn á róli á rúntinum dántán þá rak ég augun í hann svona krúttlega fattan svona þér að segja þá virtist ekki úr vegi að ganga hann uppi en ég vílaði það fyrir mér fannst ég eiga heima fyrir aftan hann var í beinu sambandi hann var sjáandi með stíl hann var í sveiflu uppávið og leið með skærum glans niður brattann og hann var einum of heví, einum of heví og ég hélt mér bara fast á mottunni...\" - allt þar til ég kom að Listasafni Reykjavíkur. ] [ Við myndavélar og bíla semur. Hver sinn asna dregur. Skrýtin er hann og telst hann fremur stór, og myndar legur. ] [ Mundu mig. Ég man þig. Ég er hver? þó ekki hver. Sem betur fer er ég Mundi Sig. ] [ Oftast seint á morgnanna, Það styttist í seinnipartinn. ] [ Ég er í fýlu, það skap ég kveð. ytiurrrrrrrrwwwwwprrr Þetta er allt annað :-) ] [ Að tala við við, um það ég syng og yrki. Hvað haldið þið? Hringlaga spýta um beina þjöl úr birki. Við er um við. ] [ Á tímum hreyfinga og batnandi heilsufars og átu eru menn ekki lengur barðir í köku heldur salat. Líka þeir sem heima sátu. ] [ Svífa í hæstu hæðum í gráðugri leit að æðsta takmarkinu - stunur, sviti, óp! ] [ Það er of stutt bil á milli Áflog og og og og og Og Vodafone. ] [ Það er sárt að missa konuna. Sérstaklega fyrir hana ef fallið er hátt. ] [ Viltu stytta síðu buxurnar, einkum þó að neðan. Háværar eru hugsurnar Æ þegiðu á meðan. ] [ Bagaleg er byrjun bögunnar. Er hún nú komin til lögunar. Eitt er þó víst, mér verður vel lýst, er komist ég inn á spjöld sögunnar. ] [ Stundum er eins og allt sé horfið. En svo birtist það aftur eins og ekkert hafi í skorist. ] [ Þetta er vísa um á, á sem rann niður fjall. Áin meiddist á tá, Mikið djöfull er ég snjall. ] [ :. ::. ..:::.. .::. .:: ..::: ::: .. ... ::.:. ..::: :.. .:: . ] [ Í leik einum sem yfir stendur, hvar ætli sé minn staður. Boginn í hnjám, í baki bendur, í stöðu sem markmaður. ] [ Með trýni svo útstætt að framan, eftir endalaust grasblandað sag. Tveir hestar sátu þar saman og báru saman sinn hag. Framhjá þeim tölti þá daman, báðir þeir komust í lag. Það gæti verið svo gaman að hneggja góðan dag. ] [ Höf eru undur. Höfundur. ] [ Í gær hjá þér heima ég sat og sá að það gamla var frat. Ég sat bak við borð, sýndi tölur og orð og bauð nýtt brunabótamat. ] [ Hún hátt í eyra mér stundi. Ég á þig allan, ó Mundi. Mér fannst það svo sætt að ég gat ekki hætt, svo sköp hennar fylltust af ...... ] [ Í kókaínvímu, kynlegri keyrslu kynóður staddur í kókaínveislu þar sem refilegur gestgjafinn hefur reynslu góða af allskyns óhóflegri neyslu Hann fær sér í nös og hugsar um núið sér heróín liðið helvíti lúið öskrar ,,Hættiði að sprauta, það er betra að þið sjúgið því þið liggið jú öll eins og þið hafið um ykkur búið\". ] [ Kona viltu mála mig og meika mig því ég vil leika þig þú mátt putta mig og sleikja mig því ég vil breyta til og leita vil, að réttu ástæðunni til að beita til... Að gera þig fríkí og kinkí kona já og stinkí svona það ég er að vona... Að þú verðir svolítið væld og klæðir þig úr buxunum og látir eftir þínum skítugu hugsunum. Viltu að ég sé: Nakinn á fjórum fótum og í leðuról sem þú heldur á klofvega í leðurstól með zorrógrímu, svipu og í leðurkjól segir„ bíttu í þennan bolta meðan ég nota þetta reðurtól.” ] [ Sumir karlmenn á konur ,,pikí” en aðrir ,,stykí”, þó þær séu ”trikí” því að þeir vilja fá að lick í píku til að geta þrykkt í en ég vill frekar mink í boruna en að sleikja brjóstaskoruna á mössuðum konum sem komast ekki í dragtir en karlmenn samt pósa hálfnaktir fyrir þær, sleipir allir olíuþaktir ljósabrúnir sem bakaðir Colgatebros og nýrakaðir. En ég segi við þá: „ Hafiði útriðna kuntu kíkt í? með sýfilis og sýkt í innri og ytri skapabörmunum og er það þannig konur sem þið viljið halda á í örmunum er þið gangið nýgiftir yfir þröskuldinn?\" ] [ Þarna situr hann í sólskininu í grasinu og slappar af með bjór í glasinu og fiðrildið flögrar og blikkar mig og léttklædd stúlka gengur framhjá eins og hún vilji láta þrykkja sig en ég læt það ekki trufla mig frá skák við Lukku-Láka jafnvel þótt skítugur róni liggi þarna í ælu og hráka, flugurnar þær flögra og fuglarnir syngja dópistarnir ögra og dílerar hringja, en sólin hún skín og speglar sig í tjörninni og útigangskona klórar sér í kuntunni og görninni. Já, það er sunnudagsmorgunn og nýt þess að vera í kyrrðinni í miðri samborgaralegri konungarhirðinni... ] [ Ef vini í æsku áttirðu alls ekki neinn og allir þig stanslaust úthrópa að þú sért aumingi og ræfill en standir ei einn því fjölskyldan þín sé svona upp til hópa. Þá mundu að vonin er draumur hins vakandi manns Og segðu ,,einn dag verður líf mitt einn rósardans\". Þó þú vætir rúmið upp á hvern einasta dag og almennt sért vonlaus talinn og ógæfan sé þér hið eina í hag og af andlegu ofbeldi sértu kvalinn. Þá haltu í vonina, því hún er draumur hins vakandi manns og segðu ,,einn dag verður líf mitt allsherjans stjörnufans\". Ef vinnu enginn vill veita þér vatn og rafmagn af þér tekið um vatn og mat þeir neita þér þegar í einangrun þér er ekið. Þá mundu að vonin er draumur hins vakandi manns og segðu ,,einn dag verð ég kóngur með kórónu og krans\". Ef eignir þínar allar taka þér frá og óveðrinu sé ei að slota og berji uns allur blár sért á brá og kynfærum inn í þig pota. Eyddu voninni og bintu enda á þessa veraldlegu pínu en vitu eitt, þeir munu kenna um vonleysi þínu. ] [ Ég ligg og stari á fjöllin svo fögur og firðina upp á dúnmjúku skýji ímyndaðu þér kyrrðina og Magnús svífur áfram á bleikum joggara hann minnir á ósofinn og næringarsnauðan bloggara með úfið hár, rauðsprungin augu og innvaxnar kinnar skyldu flissandi ungmennin þekkja ljóðskáld 20.aldarinnar. ] [ Sá Hlíf drátt heyja strá líf - sátt meyja Frá svíf - fátt segja Fá líf - brátt deyja. ] [ Hvað er betra að kveldi dags en kavíar og kampavín við ilheitan arin og aðferðafræðiglósur með T- og Z-gildin sín Því aðferðafræðin hún minnir á þig -ég man er hjá þér ég sat við reiknuðum og ræddum um Kendalltá, Öryggisbil og Kíkvaðrat Ég man enn hve mjög þú táraðist er af tölfræðingi var það tjáð að hin fagurskapaða frumbreyta væri þó forlögum háð Þú raukst út í reiði með raðstig mælinga og raðbreytuglósur í hönd ég sá það ekki þá, en sé það nú þetta voru aðeins tvö óháð sýndarsambönd. ] [ Á veraldar enda vafra ég um villurjáfandi og sólin sest í hinsta sinn að mér einum sjáandi og Guðsikon hefur upp rausn sína glansandi og gljáandi Mælir: ,,Sannarlega segi ég yður, djöfullinn er vel vakandi\". ] [ Elskan leyfðu mér að elta þig elskan leyfðu mér að elta þig ekki yfirgefa mig nú þegar ég er búinn að smakka, kyngja og melta þig Elskan leyfðu mér að elta þig elskan leyfðu mér að elta þig og er ég spangóla ekki gelta á mig nei elskan - leyfðu mér að elta þig Elskan leyfðu mér að elta þig elskan leyfðu mér að elta þig því nú þegar ég er búinn að melta þig vill ég ekkert annað - er tilbúinn að svelta mig Má ég elta þig um allan heim? má ég elta þig um allan heim? fuck framtíð, fuck fjölskylda og fame já elskan - má ég elta þig um allan heim? ] [ ,,Sá sem gleymir hinu liðna glatar einnig framtíðinni" ég hef blokkað allt er bjartast var og týnt mínum besta vini. - Meistari Jakob, hvar ert þú? ] [ Hugljómi með snertingunni bræðir myrkrið glóir aftur og aftur og geislar út svo áborið fræ ber ávöxt og andar á ný ] [ Tré lífsins hefur rætur sem við sjáum ekki, stofn svo að við getum séð upphafið að nokkru leyti, greinar sem skipta mannkyninu og lauf kynslóðarinnar sem fellur að hausti er markar tímamót - uns enn annað hefur vaxið í þess stað næsta vor. Hið nýja lauf hefur í rauninni þegar vöxt sinn um haustið, en við sjáum það flest ekki, frekar en ung skáld – fyrr en stæði þjóðskáldanna hafa losnað. ] [ Vatnið er spegilll himinsins og í fjallinu er uppspretta þjóðarinnar vatnið vökvar grasið, líkt og orðið tónlistina og orðið er vitund vatnsins. ] [ Hugmyndin er sprottin úr náttúrunni og álver eru sprottin af sjálfseyðingarhvöt þeirra sem ekki geta ort um eymd heimsins og bera ekki ættarnöfn er hæfa listamönnum. ] [ Haf gleymskunnar umlykur eyðieyju tímans og lituð gler hugans, hafa fordóma gagnvart minningum, dæma þær eftir merkilegheitum þeirra – hræsni. Telja þér trú um að minningin um dýpstu hamingju þína búi í framtíðinni, eilífðinni en ekki augnablikinu og að þú eigir að dusta minningarrykinu - undir rúm eða í tóma tunnu til að rýmka fyrir meira geymsluplássi - til að fá hraðara vinnsluminni. ] [ Ég myndi ekki sleikja sjóinn, en líkama þinn þó eins sé svitinn þinn saltur. Ég geng haltur af ást – já vina hún lætur þig líka þjást og sum orð þín eru sem máluð í mitt minni en loforð þín fögur afmást þrátt fyrir okkar löngu kynni. ] [ Þér vantar von í alla nótt, von til að sofa rótt. Haltu fast í voninni um alla eilífð. Von er til að trúa, treysta en ekki ljúga. Fá hana fagnandi hendi með fallega og rosakvendi. Viðlag… Þér vantar von í allan dag, sem nægir í þetta lag. Þegar mér vantar von, þá vona ég að fá hana. Von er það sem mér vantar, von sem þú getur alltaf pantað. Halltu fast í voninni um alla eilífð. ] [ Svört spor næturinnar, gæfuspor hinna lánlausu. En í hvaða átt? Já í hvaða átt gengur sá er fer villu vegar – þá þegar hann leitar nafla alheimsins, samastað með öðrum. Leitin eftir hinu tæra, tæmandi sundurliðunin virðist endalaus. ] [ Augu þín eru fallega blá, Sem eru fallegri en allt sem er. Það skal ég segja öllum frá Og brosi breitt til þín. Mér líður ávallt vel með þér Og færð mig alltaf til að hlægja. Loks þegar ég kem heim Hugsa ég um þig með mér um stund. Viðlag… Ég skal raula fyrir þig lag, Sem ég raula hvern einasta dag. Þú átt þetta lag eftir að fíla Og raula með alla daga. Loks erum við saman á ný, það er gaman að því. ÉG á ei eftir að gleyma þér, þú átt eftir að vera í huga mér. ] [ Erkióvinur minn er til. Ég sá hann í gær þegar ég labbaði niður götuna sem endar aldrei. Því söguþráðurinn er ekki fullmótaður. Það vantar endirinn í þriggja þátta uppbygginguna og erkitýpurnar eru ekki feigar. Því ekkert er dæmigert í lífi mínu. Samt sá ég hann þegar ég labbaði niður götuna sem endar aldrei. Erkióvin minn sem ég elska. ] [ Tárin úr öðru auganu mynduðu tóna en úr hinu láku setningar. Svo ég settist niður með gítar og söng henni þennan söng sem hún vildi heyra. Um að við værum ætluð öðrum, að þetta væri mér að kenna – Dylan style. ] [ Vaknaði í morgun leið ömurlega og fór aftur að sofa. ] [ Hvað er ást? Hvernig veit maður hvort maður sé ástifangin eða ekki? þegar talað er um fiðrildi í maganum! Er það þá satt? Ást er tifingin, og hún er góð! Enginn veit hvort maður er ástfanginn, fyrr en maður bara veit það1 ] [ Það var eitt sinn ungt og óreynt skáld sem samdi einfalt ljóð - um hugljúfa og fallega hluti lífsins. Svo komu fræðimenn í hvítum sloppum sem slitu ljóðið í sundur, potuðu í það með nálum og kinkuðu kolli íbyggnir á svip. Skáldið horfði hryggt á lífvana leifar ljóðsins á köldu skurðarborðinu \"Þið hafið drepið ljóðið mitt\" \"Nei\" sögðu þeir. \"Við höfum greint það niður í frumeindir sínar, skilið í sundur orðin og tilfinningarnar, og fundið merkinguna. Nú getur þú birt það opinberlega\" Skáldið safnaði hnuggið saman blóðugum tæjum einfalda ljóðsins - um hugljúfa og fallega hluti lífsins undan bjartri flúorbirtunni og gróf það í garðinum sínum. ] [ Hún settist niður og orti um væntingar sínar á hinni ókomnu tíð, um veröldina sem verður. Hún orti hið mikla ljóð á vængi engilsins, með penna fylltan af hans eiginn blóði. Hún sendi hann aftur til síns heima, með geislabauginn á milli lappanna. Hún hefði betur varið tíma sínum á annan hátt, því hver í andskotanum skilur illa skrifaða íslensku í himnaríki. ] [ Hnyttnar athugasemdir út í loftið. - það er kalt Ákaft handapat augun stjörf af kaffi bjór og samræður. Við ætlum að bylta heiminum í kvöld ] [ Er hið dæmigerða íslenska nútímaljóð ekki eins og hákólagengið listafólk sem nakið, þakið súrumjólk þylur upp úr þýskri símaskrá á meðan það gengur yfir forsíðumyndir sem voru klipptar framan af Mannlífi... bara dálítið töff minn kæri Jakob? ] [ Það er frost húðin er þurr hnúfarnir eru sprungnir sár. Sinubruni í bakgarði nágrannans, vatnsleiðslurnar eru frostnar. Nú er sko tíminn til að hætta að reykja. ] [ Svört varð snjókoma þegar við stigum út úr hvítkalkaðri stofnuninni. Grindverkið ræðst á mig þegar ég reyni að telja strikin í götunni. Útvarpstækið verður minn einka syndaaflausnari á meðan það útlistar afleiðingarnar af gróðurhúsaáhrifum. Dómsdagur reis áður en ég vaknaði, ég missti af honum út af því að vekjaraklukkan hringdi ekki. ] [ Þegar snjókallarnir bræða mig í gegnum gluggann með blóðugu augnaráði sínu og visku veit ég að ástin er nærri og vorilmurinn fer að berast og tími til kominn að draga fyrir gluggatjöldin og anda að sér þjáningu heimsins. ] [ Hversu djúpt getum við sokkið án þess að drukkna? Hversu oft getum við skorið okkur á púls án þess að blæða út? Til hversu eru mínar hugsanir? Ekki munu þær bjarga heiminum. Þú sérð ekki hyldýpið fyrir framan þig ef þú opnar ekki augun. Rífum þau burt, þessi lög, þessi bönn þessar raðir af öðrum sem segja þér hvað þér finnst. Rífum þessi augnlok burt. Hversu oft þarf að drepa til að við förum að meta lífið? Hversu mikið þurfa allir svindla til að fá það sem þeir halda að þeir þurfa? Eilífð, heil eilífð mun það vera eða þangað til að risaeðlurnar snúa aftur og éta okkur. ] [ Uppgerðar gleði - til að fela þennan gapandi tómleika innra með mér. Enginn má vita af þessari vængbrotnu ást. Ég veit að augun ljúga ekki. Gerðu það ekki líta í þau. Ég vil bara þurfa að blekkja sjálfa mig. ] [ Jakob er ekki síðri tantra félagi en hver annar. ] [ Steinhlaðnir veggir klaustursins umgjörðin sem veitti mér frelsi frá þöglu vori fjallanna. Þó voru það faldar forboðnar bækur klaustureglunnar er héldu lífi í mér - kynlífi? Bækur um duldar hneigðir dásamlegra dísa - erótík. ] [ Kyrrð dagsins endurkoma fuglanna undur veraldar undarlega þurrir morgnar í úðanum undarlega þurr kvöld í sólarroðanum. Siðferði fjallanna klifin tímalaus veröldin dæmd óttalaust andrúmsloft nært hjarta stjörnubjartar nætur nært hjarta hvern skýlausan dag. Eftir óteljandi leiðum sigla hugsanir aldanna undir leiðsögn ólíkra hugsuða. ] [ Ég var týndur er ég hitti þig á förnum vegi og þú fórst með mig heim. Þú taldir mig vegbúa og þú elskaðir mig í þeirri von en ég var ekki slíkur maður. Ég var bara týndur er ég hitti þig á förnum vegi en nú er ég villtur. ] [ Ástin er eldur sem brennir alla og það virðist vera staðreynd að ljótt fólk vill brenna sig fyrst. ] [ Líf mitt fjarar út því þú vilt ekki deyja fyrir mig og veröldin getur aðeins elskað annað okkar. Kossar hennar voru Júdasarkossar en við - við verðum aldrei framar kysst af hvort öðru. Tilgangsleysi tilverunnar algjört tómleikinn bergmálar innra með mér eins og hamingjan í New York uns ég lygni aftur augum í hinsta sinn. ] [ Ég hitti löngu gleymda ást í listasafni í Barcelona hún brosti og spýtti á mig rauðvíni sagði ,,blossi augna þinna er slökknaður\" og ég sagði ,,já hann slökknaði á sama andartaki og fegurð þín\". ] [ Á Vatnsendahæðinni er verið að vana mann og Feministafélagið mætir til að úthúða, og hæða hann. Það viðrar vel til vönunnar, þó að vísu sé það ávallt sárt þær,,þetta er forarkjaftur, klámhundur og á það skilið - það er klárt\" ,,Er þetta Jarlinn\" er spurt, þær svara ,,bara eitthvað kríp\" ég segi ,,væri ekki jafnrétti að henda öðrum krossi upp og kötta á einn sníp?\" ] [ Á Öskjuhlíðahæðinni er verið að fæða útigangsmann og forsætisráðherra samgleðst honum og lætur setja á útivistabann Það er heiðskýr himinn og félagarnir skella sér á Perlubarinn þessi útigangsmaður er hlandblautur, tannlaus og illa farinn Og forsæitsráðherra spyr ,,á ég að redda þér vinnu uppi á bækistöð\" og róninn svarar ,,nei andskotinn er mig aftur að dreyma þessa martröð\". ] [ Á Vatnsendahæðinni er verið að krossfesta akfeitan mann og allir á bækistöðinni eru sammála um að þetta sé ,,djöfulli gott á hann\" Þetta er dagur fallegur, en hann var dreginn sofandi út úr bíl og Henrik segir ,,djöfullinn hann ætlaði að selja ljóðabækur Daða til Nýhil\" En af krossinum er öskrað ,,Guð, hef ég ort mitt hinsta ljóð?\" og himnarnir opnast og mælt er ,,sannlega segi ég yður já, en djöfull voru Nútímaljóðin þín góð\" ] [ Á Vatnsendahæðinni er verið að Keðjufesta mann og Daði notar síðasta tækifærið til að drulla yfir hann Það er lognmolla, og loftið fyllt af skítalykt og ég mæli ,,það er eins og einn karlmaður hafi hér í annan þrykkt\" Og hinn keðjufasti segir ,,hvað? hvað? ég má þetta alveg\" en Daði brosir og segir ,,Ó, nú verður hver æfingaferð yndisleg\" ] [ Uppi við Þingvallavatn ligg ég í grasbala og horfi upp í himininn eins og við forðum daga ég og þú og morgunstjörnurnar þar sem eitt sinn stóð skrifað að við skyldum alltaf vera saman stara á mig spyrjandi ásakandi hvar er hún? og ég sakna þín -óbærilega og ég velti fyrir mér hnífnum sem þú faldir eitt sinn og fólst mér að henda hvernig ætli sé að falla fyrir þessum hnífi? falla fyrir þér endanlega ég brýni hugann og rýni niður í dimmblátt vatnið sem býðst til að umfaðma mig veita mér viðtöku og reyni að sjá fyrir mér hvað gerist þegar rautt og blátt renna saman í eitt grænt ljós hefndin var sæt en blóðið er biturt og beiskt nema þetta með hnífinn er náttúrlega hugarburður leirburður skáldsins framburður jökulstíflu hugans auðvitað fór hann í ruslið ásamt mér samviskusamlega það hefði samt verið betra að hafa hann með beittan og öruggan sé alltaf svolítið eftir honum og hér ligg ég í hnipri stóri strákurinn þinn en þó svo lítill andspænis þér fegurð þinni veldi og glæsileik þú ert aflið sem hélst mér gangandi fjöreggið mitt sem ég gætti ekki nógu vel að þú hefur það í hendi þér hvort ég flýt eða sekk með þungri samvisku og ég bið þig að fyrirgefa mér -hið ófyrirgefanlega það perlar á ennið og döggina allt í kring vatnið, fjöllin og stjörnurnar eiga engin svör handa mér nema þegjandi samþykki og ég lygni aftur augunum sleppi og treysti og ég flýt eins og þú kenndir mér á öldu minninganna út á vatnið djúpt í endalausan ilmandi faðm þinn og enn á ný vaggar þú mér þýðlega í kjöltu þinni brosandi og ég þrái þig -ólýsanlega. Fyrsta skíma morgunsins glennir út fjallstoppana þrengir sér niður hlíðarnar sameinast vatninu og mér og ég minnist hjarta míns sem er í gíslingu þinni einhversstaðar í Reykjavík með kröfu um lausnargjald án þín er ég hálfur maður skugginn af sjálfum mér fjúkandi sandkorn í stundaglasi eilífðar sem snart varir þínar eitt sinn fyrir löngu síðan og varð að gulli, fölnandi laufblað í fyllingu tímans sem strauk vanga þinn eina örskotsstund á leið sinni út í buskann og ég elska þig -óendanlega. Ég rís upp úr vatninu af sjálfum mér það er lífsmark allt í kring og undir nýrri dögun kviknar sú von að leysa minn betri helming úr klakaböndum því við eigum það skilið að elska hvort annað til fulls í frjálsu falli og flæði þessi andartök sem eftir eru uns við skellum til jarðar og verðum að dufti og í hálfrökkrinu held ég af stað í bæinn til að sameinast sjálfum mér -og þér. ] [ skæri klippa margt.. skæri klippa húð og hár, skæri klippa hamingjuár, skæri klippa fingur af, skæri klippa rím, skæri klippa hamingju, skæri klippa annað fólk, skæri klippa sambönd, skæri klippa inní mig, skæri klippa þig.. sárt er að hafa skæri í stað putta.. ] [ Ég þoli ekki hatrið, hvernig það heltekur mig, lætur mér líða illa, fær mig til að gera hluti.. Ég þoli ekki þunglyndið, hvernig það brýtur mig niður, gerir mig hryggan, dregur fram tár.. Ég þoli ekki ánægjuna, hvernig hún endist stutt, skilur mig alltaf eftir aftur niðri, lætur mig vanta hana enn meira.. Ég þoli ekki óvissuna, hvernig hún fer með magann minn, með allar þessar spurningar sem enginn orð geta svarað.. Og verst þoli ég ekki ástina, hvernig hún blandar öllu saman.. ] [ (Með djúpri Leonard Cohen rödd) He introduced her to the garden of the moon. I lay downtown busy screwing, don´t ask why you can hear the music and the flash, near the sun´s ass. ] [ Tíminn flýgur á undan mér. Og lífið svo stutt og fyndið. Tárvot augu á andliti þínu finnur fyrir og reiði. Afhverju hún, svo fögur og blíð. Við munum alltaf hana syrgja. Stutta lífið hennar sem var algjör sæla í huga. En margur er sár þótt hann sé smár. Guð, sem geymir og elskar. Mun hana gæta og kyssa. ] [ Hvað er klukkan ? Hún er uppfinning, sem hann maður fann upp. Nei í alvöru, hvað er klukkan ? Svona málmhlutur sem telur tímann. HVAÐ ER KLUKKAN ? Já, þú meinar, hún er fjögur. ] [ Himininn blár, skýin hvít, grasið grænt, sólin gul. Litrík náttúran og mitt á milli þessa alls stend ég. Það er þar sem ég stend að ég velti fyrir mér tilgangi lífsins. Hver er eiginlega tilgangur lífsins? Kannski sá að njóta náttúrunnar, kannski sá að skoða heiminn. kannski sá að lifa með Guði, eða að láta gott af sér leiða og vera ánægður með tilveru sína á jörðinni. Hvað er eiginlega rétt? Hvert líf hefur sinn tilgang. Ekkert líf hefur sama tilgang, alveg eins og við höfum hvert og eitt okkar hlutverk. Þannig er tilgangur lífsins ólíkur öllu öðru. ] [ Lífsins ljós. Lífsins myrkur. Við mætum hvoru tveggja. Tökumst á við hvort fyrir sig. Glöð eða döpur, í sorg eða gleði. ] [ No it can\'t be I don\'t see how you could leave me all alone in the dark when you said that you loved me I can\'t see My love for you runs deeper You are my friend my companion my soulmate It can\'t be My love for you will never let go of me I will never let go of you I don\'t see how you could leave me all alone ] [ Samviskusemi er góð. Metnaður er góður. Jafnvel dyggðir? Af hverju sef ég þá svona illa? Ég hlýt lof og hrós, innantóm orð, fyrir metnaðarfullt verk, en það kostaði mig tveggja tíma órólegan svefn hverja nótt og svitaköst. Ég brotnaði meira að segja niður og grét. Ég græt aldrei, því ég er sterk. Svefnlausar nætur, tár og mikið kaffi. Skólinn. Ég vélritaði 15 blaðsíður og fékk tölu í staðinn. Fékk tölu í staðinn fyrir andvöku nætur, ferhyrningslaga augu sem svíða og öran hjartslátt. Talan var ekki einu sinni há. Milljón er ekki há fyrir Jóhannes. Hvað gefa tölurnar okkur? Þú og ég ættum ekki að hugsa um tölur og hve mörg núll við eigum fyrir aftan þær. Hugsum frekar hvað við getum gert fyrir hvort annað og þann sem á bara eitt núll. Sérðu norðurljósin? Vindurinn breyttist í austanátt. Nei sko! Vorlaukarnir eru farnir að gægjast upp úr frosinni jörðinni. ] [ Ég sá þig og hreifst um leið. Þú hreifst líka, ég bara vissi það ekki. Bæði feimin. Ekkert heyrðist eða sást. Stóra tímaglasinu var snúið þrisvar. Ég sá þig þá og var enn hrifin. Þú varst það líka, ég var bara lengi að uppgötva það. Litla tímaglasinu var snúið þrisvar. Svo gerðist það. Það varði. Sálin tók kollhnís. Þetta var eitthvað öðruvísi en gerðist vanalega. En það endaði svo. Hefði getað orðið. Feimin mistök. Ekkert. Örvænting. Ég ætla að reyna að ná til þín. Ákveðni. Ekkert. Von, þrá og eftirvænting. Þráhyggja, eymd og vanlíðan. Þú opnaðir gat. Gleymdir að fylla upp í það. Ég er svampur í vatni með saltbragði. ] [ egg óttans er gegnumlýst af sérfræðingum en þeir geta lítið gert egg óttast er öruggast innan um önnur í vernduðu umhverfi bakkans heimsóknir eru bannaðar egg óttans er þess eðlis að til að komast að rótum vandans þarf að brjóta utan af því skurnina og hreinsa innan úr því en þá er of seint að bjarga því egg óttans er brothætt og eina leiðin til að varðveita það af viti er að sjóða það ] [ það er ljóður á mér sem skáldi að ef ég kvæði yrði það bagalegt fyrir hina stöku sinnum ] [ þegar ljóð eru orðin þess eðlis að við liggjum yfir þeim, reynum að þóknast lesandanum og göngum jafnvel svo langt að yrkja eftir pöntunum, þá er kominn tími til að hætta þessu eða fara í pásu ] [ Ó nei þeir eru byrjaðir slökkvið á viðtækjunum bjargi sér hver sem betur getur þeir eru farnir af stað með áróðurinn stefnurnar og þessi andlit ... hjálp ] [ þau dreymdu um að fara í mörkina einsog í fyrra um verslunarmannahelgina þegar þau héngu saman og drukku landann sem þau stálu úr tjaldinu við lækinn og þá kemur perrinn með pelann í hendinni klæddur kraftgalla og hann skjögrar eftir bakkanum, lýtur niður að læknum ælir í hann og segir (hann) hei hei þú hei þið hei dettum íða útí skógi hver er addna útí skógi að hlæja fá sér almennilega í staupinu hei drusla komdu drusla komdu litla rusladrusla að busla útí skógi (hún) fokkaðér (hann) píka litla píka komdu líka til mín píka krúttlingurinn og dúkkulúkkið mitt hér kem ég að sjá þig faráðig dóni frá fróni hálfgerður róni kominn af fróni faráðig dóni frá fróni fróni frá dóni rónadóni frá fróni frá rónadónafróni faráðig áðig – (hún) drullaðéríburtuperri (hann - röflandi) anski hanski kannski... (hún) ég veit ég vinn fokkings úrslitin... þá þótti mér ég fara að gráta og slökkti á sjónvarpinu ] [ erum við ekki að ganga of langt – postpost er farið að styttast í framhaldið þar sem leodicaprio snýr aftur og vaknar upp í vesturheimi kalinn og með koffortið á bakinu skrönglast hann til sjávar og fær miða á þriðja farrými fyrir bæturnar frá amerísku tryggingastofnuninni hann hittir fyrir katewinslet útgrátna og ómögulega á leið til bretlands á ný eftir fyrri lífsreynslu það verða fagnaðarfundir í nýju glæsifleyi skipafélagsins og framhaldið þekkja allir þó þeir hafi ekki séð forverann eða fáum við forsöguna þar sem leo elst upp í bresku atvinnuleysi ásamt félögum af sömu stéttum og dreymir um betra líf í vesturheimi uns þeir leggja til hliðar og neita sér um skemmtan alþýðunnar um stundarsakir til þess eins að upplifa ástina í nokkra daga áður en drottinn og dauðinn skipta hópnum á fyrsta og annað farrými og lífs eða liðna ] [ her lenda minna leggur upp í enn eina ferð til einskis þar sem þeir munu allir láta lífið með sama hætti aftur og aftur er slíkum deildum fórnað á altari lostans í ferðalagi sem tekur varla nema örfá andartök og þá breytir engu hvort fremstur meðal jafningja sé sá útvaldi þeim er öllum fórnað ] [ ég ætla að semja ljóð alveg háalvarlegt ljóð og djúphugsað en fyrst þarf ég að pissa bíddu og svo byrjaði gædíng læd ] [ var hjá tannlækni er ennþá dofin mikið dofin ef ég stend á haus ætli deyfingin renni þá upp í heila og inn í ástarhvelið? ætla að prófa ] [ Lokaðu augunum því veröldin hefur uppá svo margt ógeðfellt að bjóða Lokaðu augunum því að það er betra að gleyma láta sér dreyma Lokaðu augunum og vonaðu að þú vaknir upp á öðrum stað. ] [ Þegar ljósin í blokkinni slökkna og ungri meyju um augun tekur að vökkna og kertaljóstýran lýsir upp sveitta líkama okkar eins og ljósastaurar sem lýsa upp blaut malbik þá hafa tveir ókunnugir samkynhneigðir menn ekki lokið sér af – í borg dásamlegra hneigða. ] [ Ég man hvað það fór í þig er inn skein birtan enda taldirðu heiminn á lokastigi búinn að tapa sér - gjörsamlega firrtan Og hinsta minning mín af þér eru litlar nærbuxur og tætta náttskyrtan. Og hvað ég vildi óska þess að þér yrði skilað eða óskrifuð ljóðin þín birt svo einhver gæti lög sín við þau spilað ég ætlaði alltaf að taka þau upp en bölvað tækið það var alltaf bilað. Hver mínúta í lífi þínu sirkus sjálfsvirðing ekki til mistökin engin, upplifun aðeins pönkað lífsviðhorf, ég varla skil og þú hikaðir ekki við að fara í lífspóker þó í augnablikinu hefðirðu ömurleg spil. Þetta voru verstu tímar lífs míns við áttum samleið í eymdinni þú tókst þitt eigið líf loks en eymdinni – ég gleymd´enni ] [ Friðsæld þagnarinnar jafnast ekki á við sálarró ljóðsins. ] [ Víst voru vandamálin einnig mín Hrokinn – það ringdi upp í nefið En kasta þú ekki steinum úr glerhúsi Því það snjóaði upp í nefið á þér – dópisti. ] [ Móðir mín, ó, móðir mín grát þú ei nú, því að þú veist að þó ég fari ég ætíð komi en ég vil að þú vitir að ég fari aldrei frá þér því í huga þínum ég ætíð er og í hjarta þínu ég ætíð bí þó sé ég fóstur barn. Ég kem þó fljótt aftur og þá heim ég sný því að án þín allt líf mitt er fyrir bí. Ég mun sakna þín svo mikið því að þú gafst mér ást þú gafst mér lag þú gafst mér ljóð en ofan á þetta allt þú gafst mér það besta í heimi. Líf. ] [ þú batnar víst bara með ári hverju eins og góð vín, eða svo er mér sagt, og værirðu vín svo sætt og ljúft drykki ég þig af áfergju ] [ Guð gefi að ég verði ekki fallegt lík heldur rúnum rist og mörkuð ljótum örum og djúpum rispum sem sýna að ég hef lifað til fullnustu horft óvarin framan í heiminn þorað að elska þar til ég hef verið svikin, svívirt og barin að ég hafi nýtt tímann til að ferðast öfganna á milli og kynnst lífinu í allri sinni dýrð Guð gefi að síðasta andvarpið verði ekki fullt eftirsjár heldur geti ég södd sagt skilið við tilfinninga-gnægtaborð lífsins ] [ The past is gone, and the future is here Alone, shaking and full of fear The day I lost my friend It was the day when it all came to an end In the shadows of my own dept Holding and emptiness that I kept The day I lost my friend It was the day when it all came to an end Loved by the hatred Hated by those I penetrated The day I lost my friend It was the day when it all came to an end ] [ Úlfbróðir í nóttinni. Hundar ýlfra bak viđ luktar dyr. Úlfbróðir, stökktu inn um gluggann minn. Slökktu þennan brennandi þorsta í líkama mínum, urrađu í eyru mér, sleiktu og bíttu. Á eftir skaltu sitja við gluggann og spangóla á tunglið. Ýlfur hundanna mun vagga mér í svefn. Úlfbróðir, ástin mín í nóttinni. ] [ Í garði genginnar ömmu standa trén ennþá styrkum rótum. Þar vaxa engin blóm lengur, nema í bláleitum draumum mínum. ] [ Konan mín nöldrar svo svakalega, er að gera mig gráhærðan. Ó, hví er þessi kona mín trega, ennþá á lífi með skeyting þann? En einn daginn þá sá ég í fréttum, að þeir sem voru af dauðra stéttum, byrjuð´ að rísa úr jörðinni, í allri dauðri dýrð sinni! Uppvakningar á meðal vor, og ekki með neitt óþarfa slor! Þeir náðu minni konu og bitu hana á háls, þá fann ég fyrir létti, fannst ég vera frjáls! En helvítis skrukkan varð ein af þeim, nú sækir uppvakningur mig heim. En ekki er hún hætt að blaðra, dauðinn hindraði hana ekki í að þvaðra, því núna gengur hún um og veilar, þessa endurteknu línu \"HEILAR!\" ] [ Ég er kannski feitur og fullur af iði, kannski bara sveittur gaur, en það er bara aukaatriði. Í augum drottins ég er hinn dýrmætasti maur. Hann fylgir mér hvert sem ég fer. ] [ Hjartað brotnar í þúsund mola, dreifist yfir rúmið. Og þú heldur að brotin séu blöð af rósum. ] [ Waits mælti ,,Við erum saklaus er okkur dreymir” en Dylan finnur ekki áttina heim sama hvað hann reynir og eigrar um hljóðlaust lokaður inn í skel - sjálfan sig því leynir og Guð almáttugur bölvar okkur þrem ,,Djöfull eruð þið seinir”. En Dylan mælir glottandi um hæl ,,Guð, ég skal leyfa þér að vera í mínum draumum, ef ég má vera í þínum” Guð mælir á móti ,,Ert þú einhver postuli úr postúlíni? Ert þú kominn alla þessa leið í tómu gríni? Með sótölvað - bölvað skáld sem lyktar af óvígðu víni, þú ættir ekki að fara með þessa spurningu í helvíti og spyrja Mussolini, því að flestir draumar hans eru hrein martöð í það minnsta í augum mínum” En Cohen kallar ,, er okkur ekki alla að dreyma ást? Og er hið illa ekki hið góða sem hefur þurft að berjast og þjást? Sem vill hefnd og hafa sigur eftir að hafa þurft að kljást, eins og á tuttugustu öldinni svo berlega sást og sést enn hjá þeim sem ekkert hafa af því lært” Og Gunnar Dal bætir við ,, Hin dýrasta reynsla okkar verður engum kennd...” og bakvið Guð gjægist Jim og skýtur inn ,,This is the End” og Gunnar heldur áfram ,, svo gamli maður, veittu hinum ungu ei vernd, það að halda að þeirra kynslóð sé yfir aðrar hafnar, er ekki ,,trend, so my dear old friend” leyfðu raunveruleikanum að skína á þau skært” Og Megas tautar ,, hvurn andskotann er ég ,,Um44” að gera hér, tja finnst´etta er svona... the more the merrier” og Jónsi tekur falsettu ,,með beyglað der”, og Megas mælir,, hver er svona djöfulli ,,skver”.... ef ég er með minn eiginn super – hjálpræðisher þá reddið mér ,,böns of moní” ég verða lifa af” Ginsberg hefur upp rausn sína ,,Ameríka ég hef gefið þér allt” og Garcia glottir og mælir ,,margfalt allt þá hallt malt er kalt – kynkalt?” Og Þremill þyrniber öskrar ,,brunbretti! Svaka svalt” og Andri sleikir Hitlershárið og segir ,,Kaffi ávallt! og kannski indverskt kryddte og eitt... crossand” (með frönskum hreim) og stúderar svo franska heimspekinga sem eru róttækir og reykja skaf. Jesú hvíslar að Megasi ,,Ég skal breyta kranavatni þínu í vín” og Dylan segir ,,ég er blanda af Woody Guthrie og James Dean” og Haalande á hækjum segir ,,ég er að leita að Keane” og maðurinn með ljáinn segir ,,Jesú ég er kominn að leita þín - nei grín” og Megas stendur upp og segir ,,afsakið mig á meðan að ég æli” Megas sest og segir við Garcia ,,settu textana í mail eða e-mail” og Stiglitz við Davíð ,,það er ekki í þér nein hagfræði(heila)brú heil” og Roy Keane birtist, segir ,,fail to prepare –prepare to fail” og Nelson Mandela brosir og segir ,,Hey, I´m going back to jail” og Garcia segir ,,jail ó!, J-Lo, Jay L(en)o?” og glottir. Nietczhe birtist eins og forðum og mælir ,,GÖD ER DÖD” og Megas syngur ,, ég á mér tröð, ég á mér tröð, ég á mér ma a a a a aa artröð” og svo fellur allt í ljúfa löð lognið á undan storminum Ó gvöð! Jakob veinar ,, viltu keyra í flýti upp á bækistöð Æ Daði með hraði, því augnskaði... Ó hvílík pína og kvöð”... ] [ Ég heyri það sem þú segir þú vilt komast inn orðunum þú fleygir í gegnum gluggan minn en elsku kæri vindur þú sem blæs og blæs og skugga tránna hryndur þó ég er þér læs margar dansandi myndir leika vegginn minn Segðu mér þínar syndir er ég hlusta um sinn því hægt í draumalandið ég rólega smíg inn sofðu nú elsku vindur sofðu einsog ég svo að þínar hendur nái aldrei mér. ] [ Úr ríki drungans leita ég að útgönguleið og hef lengi gert en skuggar fortíðar krókódílar og hýenur hamla för minni en viti menn þarna flýtur trjádrumbur hjá niður eftir ánni og ég stekk á hann og tek mér far án þess að skuggarnir nái taki á mér og villidýrin fylgjast með bráð sinni hverfa í átt að Ljósuklettum þangað sem þau geta ekki fylgt mér eftir því þau eru hrædd við hið góða hrædd við þig himinlifandi flýt ég niður eftir ánni og allt verður bjartara fegurra eftir því sem á líður jafnvel fuglasöngurinn hljómar glaðlegur enn á ný og loks sé ég þig bíða mín á árbakkanum Drottningin mín glæst í gullnum roðanum með órætt bros og blik í augum og er ég nálgast þig slengir þú út hramminum veiðir mig blíðlega upp á bakkann læsir létt í mig klónum og býður mig velkominn og ég kem ekki upp orði því ég veit að takmarki lífs míns er loksins loksins náð ég er kominn til þín kominn til að vera og aldrei skein sólin mér skærar en á brávöllum Ljósukletta þennan dag. ] [ Á betri stað þú kominn ert á, ef ég það segja má en samt of fljótt þú féllst frá, og aldrei aftur fáum við þig að sjá. En eitt ég veit að Guð gætir þín. Hvíldu í friði elsku vinur Þú munt alltaf eiga pláss í hjarta mínu. ] [ Þau rifust og rifust um hver þau eru þau héldu bæði að sárin gréru Þau héldu bæði svikar og lygar og öskruðu af bræði grétu tára veigar Þau vonuðust bæði að ástin væri endurgoldin en í hjartanu óx kalda ísafoldin og þau rifust bræði á meðan myrkrið faldi óvina hæði sem sigra taldi þó þau elski bæði bæði hvort annað og beggja fræði þau hafa kannað en þau hlusta bæði á lygar og prettar á óvina sæði sem í hjörtun setti. ] [ Það eina sem ég sá var móða í gamla daga. Þú tókst mig að þér, sýndir mér það góða. Þú gefur mér aga. Slepptu mér, haltu mér, ég finn til. Ég kem aftur og finn kraftinn þinn. ] [ Dauðinn frýs, Dauðinn fellur. Dauðinn kýs, Dauðinn skellur. ] [ Þú ert góður, þú ert bestur, Þú ert stór, þú ert mestur. ] [ Ég sigli um á fögrum nóttum í leit að hinni fallegu rós sem fannst aldrei. Hún týndist í eilífðar dal og sjávar seldunni fallegu sem ég sá glitrandi. Líf mitt er ónýtt eftir það erfiða sár sem myndaðist eftir aldar raðir. ] [ Það kom aldrei þetta fallega barn sem við biðum eftir alla æfi enn daginn kom það svo frítt og fallegt. Það brosti til mín eins og engill á hvítum skýjunum. Það var glatt að koma í heimin í hinn fátæka fagra heim. ] [ Óhræddur við að vera þú sjálfur, Þú ert bara þú. Vertu þú sjálfur eins og þú ert, Þú ert bara þú. Óhræddur við að vera öðruvísi, Þú ert bara þú. Haltu því áfram, Vertu þú. ] [ Ég sný mér við, Þar stendur þú og brosir Og það geislar af þér, Þú geislar eins og engill himnum frá. Þú brosir til mín og snýrð þér við og ég brosi til baka af fornum sið. ] [ Er báturinn vaggar hægt um sæ, Hreyfist taktfast með ilmjúkum blæ. Hugsa ég til þín, Vona að þú komir til mín. Ruggandi báturinn vaggar um sæ, Vaggar í takt við ilmjúkan blæ. Vildi að ég hefði þig, Þig til að tala við mig. ] [ Blómstrar eins og rósin í hvítum kjól, Svífur um hafið eins og næst komandi jól. Fylgist með öllu sem gerist, Hvíslar atburðunum að öðrum svo þeir berist. ] [ You are in heaven, Rocking and roling with the other angels. I hope you\'ll have fun up there, And they\'ll take care of you. Maybe it\'s like dancing on roses, And maybe not. But you will always be in my heart And I will never forget you. ] [ Án orða án hugsana blekkjum sjálfið og höldum að við elskum. Grípum í tómt því við flýjum og þráum öll í einu. Berjumst við tárin um leið og við lokum á umheiminn. Harmurinn er ekki. Blekkingin er ekki. ] [ Ég leitaði blárra blóma -blárra-eins og skyrta eins manns. Sjóinn sá ég líka ljóma -líkt eins og augu bara hans. Ég leitaði blárra blóma -blárra eins og augu eins manns. Ef rödd hans myndi óð óma -ósjálfrátt ég færi í trans. Ég leitaði blárra blóma -já blárra- en fann aðeins bleik. Myndi þig bera á góma -græti ég af ást- yrði veik! Það bláasta allra blóma -blómstrandi loks sýndi mér sig. Ásjónan gerði mig tóma. Tíminn tikkar í takt við þig. ] [ Það er aldrei fullkomin þögn milli okkar. Hún hvíslar stöðugt í skuggunum þessi óuppfyllta framtíð sem við áttum aldrei saman. ] [ Sittu lengur hérna Og leyfðu augum þínum að hvíla hér Starandi á hverja einustu ögn Sem mun elska þig að eilífu Vertu lengur hérna Og leyfðu mér að hlusta á þig Anda létt og rótt og fylgjast með Brjóstkassa þínum rísa og falla Fylgdu mér lengra í burtu Og haltu skjálfandi hendinni í mína Haltu um hverja einustu ögn Sem mun elska þig að eilífu. Yfirgefum aldrei Þessa nótt, þessa stund Þessi örfáu andartök Sem tíminn rekur ekki á eftir okkur Stöndum hérna saman Þar til hár okkar grána Þar til hendur okkar fölna Og rósirnar fella blöð Leiddu mig nær ljósinu Og leyfðu þér að koma með Fáðu mér hjarta þitt og þú færð mitt Og ég mun elska hverja einustu ögn Að eilífu. ] [ fresh out of ashes and into a new an era of changes chosen a few more like itself hidden in thought chain reaction one and two to be cought the light the fire lost in the shimmer extinguishing sparks beginning a winner stalk the branches shake the leafes cut off the roots taking down trees evening is passed sun will arise uncovering truth but also the lies ] [ Sköpunin múraði sig inni Allt í kring Uppkreist angistin melódramatísk skaparduldin föst í andlegum vetri ] [ Tónlistin þyrlar upp ryki Morknaðra tilfinninga Kastar ljósi sínu á Steinrunnar Hvatir Snýst um huga minn Hvirfilbylur hugmynda Strókur sköpunarinnar ] [ Geymdur í hugskoti þínu Gleymdur í hugskoti þínu? Dæmdur af útliti þínu Birtist í vanlíðan þinni Hverf í gleðinni Nýtilegi maðurinn Vakna við þarfir þínar Tilfallandi elskhuginn Samlagast umhverfinu Hreyfanlegur hlutur breytinga Á útnára meðvitundar þinnar ] [ Fann fyrir Hugsunarleysi Sköpunarleysi Andleysi Rótleysi Upprunaleysi Í lifandi líkkistu Smáborgarans ] [ lifa samkvæmt alsjálfinu heilagri smámunasemi & pólitískri rétthugsun ] [ Fótsporin hverfa Stígurinn endar Sköpunin skellur á ] [ Ég finn fyrir andefninu. Sortinn dregur allt í sundur. Í myrkrinu býr krafturinn sem ýtir okkur til eilífðar. ] [ Svíf inn Í brenglað rýmið Hleyp um og Fanga litina Í kjölfar mitt Skil eftir gáraðan veruleikann ] [ Þær hafa yfirgefið mig Friðurinn er úti Nú er kominn tími á Taxi driver Hanakamb & sólgleraugu Uppreisn & uppgjör ] [ Fávísar Fánýtar Fljótsóttar Skynjanir Snauður Nútíminn Berstrípaður Kapítalisminn ] [ Fólk flýr af hólmi Þegar glittir í tómarúm Sjálfs þeirra Þegar frumspekin Kikkar inn Þegar svörin verða óþægilegri en Spurningarnar ] [ Einu sinni Skal ég höndla Ástina Ég sver það við minningu vonarinnar ] [ Kuldinn er einhverskonar leið Líkt og hitinn Andstæðurnar spretta af sama meiði Maður krassar alltaf Í hring ] [ Hún er véfréttin Sírenan og Medúsa Umvafin galtómu virki Hrokans Langanir Óskir Vonir Sundrast Í gáróttri tíbrá Heiftar hennar ] [ Það er stundum eins og lífið snúist Gegn manni, Allir falla frá í kringum mann Sumir kenna Guði um, Og hætta að trúa. Þetta eru ekki auðveldir tímar, Þetta er erfitt líf Það er mjög sjaldan dans á rósum, En maður gerir sitt besta til að þrauka. Stundum fellur einhver nákominn frá, Maður grætur úr sér augun Alls ekki fréttirnar sem maður vildi fá En svona er lífið, það eru allir á taugum! Það kemur sá tími, sem allt er gott, Þá er lífið dans á rósum En skyndilega verður allt vont! Og maður botnar ekki neitt í neinu. Maður reynir að stoppa og staldra við, Líta yfir lífið, Sér ekki hvað maður hefur átt, fyrr en misst hefur Og djúpt sár í hjartað það grefur. Sjúkrabílar þjóta um, Í stríðum straumum eftir götunum Sama hugsunin kemur oft upp í kollinn; Þekki ég þann sem liggur á börunum? Neikvæðar fréttir um látið fólk, Stanslaust í Mogganum birtast Af hverju ekki að lífa móður jörð upp, Og hjálpa þeim sem þurfa? Fréttir af nauðgunum berast út um alla borg, Greyið fórnalömbin Þetta er ekki sanngjarnt, þetta er ekki gott, Hjálpumst að við að binda enda á þessa hörmung! Maður reynir að stoppa og staldra við, Líta yfir lífið, Sér ekki hvað maður hefur átt, fyrr en misst hefur Og djúpt sár í hjartað það grefur. ] [ Svartsýnismóða Skýfall sársaukans Sjálffrosið hjarta mitt Samfléttun huga Forgengileiki Nálægðar Þinnar ] [ niðurnormaður einangraður með egóískar ástæður í siðlausum heimi ] [ Leiður á smáborgurum Þröngsýnum Besser-wisserum Heyra ekki Skilja ekki Ónánd þeirra Smallar frumkvæði Mínu Í þúsund molum Með opin sár ligg ég undir einræðu minni með fjöldann í kring ] [ Skildi aldrei hatrið hrokann svívirðingarnar grimmlyndi heimatilbúins siðferðis ] [ Ég er fáviti Í Margmenni Samt Get ég ekki beitt íroníunni eins og Sókrates ] [ Öflugasta vopnið er Hin sameiginlega Fortíð ] [ Ljóðið Var ekki ljóð Hugarsmíð Blekkingar Skil ekkert Útfrá Ljóðum Finn bara ] [ Jafnvægi fæst með Aftengingu Frá gylltum bjarma Ástarkaleiksins Ligg í kofforti Bælinganna Faðma Upphafinn tregann ] [ Sérð árnar streyma um postulínið, telur að ég sé að svitna því ég tútnaði svo út þegar þú reiðst mér án varna, ég var eyja án hers. Þú ælir loks framan í mig því það er auðveldara að dást af eigin listaverki. ] [ Ímynduð ástin okkar var aðeins einleikur er þú stjórnaðir. Grunlaus um sviðið gekk ég of langt og féll út í skarann. ] [ Where have you gone? Wherever I look, none You ran away when I was needing Feeling alone, bitter and bleeding Dying beneath your feets I only hear my heart\'s final beats Where is my breath? I was waiting suffer and soon death My hands, covered in blood Now, where is my God? My eye\'s were blind, but still I could see the sky Where are you now, when I\'m dying...? ] [ Líkt og ískalt fóstur í glerkúlu hef ég áhyggjur af brynjunni sem lítur út fyrir að klofna innan skamms. Forvitin um hugsanir leita ég þó lengra út uns öryggi mitt springur utan af mér. Og ég stend ein eftir. Hrædd, rauð, nakin. ] [ Þú í morgunskímunni hylur mig grímu svo enginn sjái angistina sem býr undir brosinu. Fjólubláu sóleyjarnar bærast utan við gluggann og senda ósýnilega kossa til kaldra sála sem hrækja á okkur er við göngum hjá ] [ Kæri vinur nú ertu á sjónum Ég sit heima og er enn í sömu skónnum. Ég er jafn ringluð og áttavillt. Ég vildi að þú gætir mig milt. Þú veist ég vil margt, ég vil alltaf aðeins meira Ég veit að hjartað mitt vill ástina eiga. Þú veist um þá persónu sem ég hata að elska Og elska að hata. Mun hjartað mitt ná einhverjum bata. Hvað vil ég fá? Hvað viltu vita? Viljum við í sömu sporum sitja.. Mun fótspor þitt fetja í lífsins sögu. Mun þín verða saknað? Viltu lifa illa og úr vondum draumi vakna? Munt þú lifa vel og sitja við lífsins tré. Í þér eitthvað einstakt ég sé. Hvað það sem þú ert Og hvað það er sem þú vilt. Þegar ég hugsa of mikið til þín mér verður bókstaflega illt. Og ef það umlykur þig einhverskonar straumur.. Ekki snúa bakið við honum. Farðu fljótandi í gegnum ölduna Og fáðu að komast í land. Finna fætur þínar við hlýjan sand. Sama hverskonar straumur í kringum þig er Þá veistu ekki að mér líður alltaf jafn vel þegar ég er nálægt þér. Ég veit ekki hvernig ég á að vera Veit ekkert hvað ég á að segja eða gera. Viltu kynnast mér betur? Ætli ég þarf ekki að sjá hvað setur. Hvernig á ég eiginlega að sitja Hvað ætli þú viljir um mig vita? Viltu spyrja mig að einhverju að einhverskonar tagi? Í mínum huga er það svo sannarlega í lagi. Eg veit ei hvort þú veist það.. ..að hugsunin um þig er magnþrungið ljós Og tíminn mun leiða sannleikann í ljósið.. Sem mun lýsa upp mínum tilfinningum að þér. Alla tíð. ] [ Nauðugir erum við boðnir og bundnir, við straumharða ánna og stóran vegg því nú eru lyklarnir loksins fundnir, og læsingin stendur þarna eins og brothætt egg. Nú er bara að komast fram hjá ánni, eða hvort við erum og kannski of sein. Því ryð og elli með lykla skakka í skránni, þannig að tilraunin yrði aðeins einn. ] [ Ullatæjur flakkta á gaddavírsleifum milli fúinna staura nær horfinnar girðingar. Búrfellsmýrar eru loks að baki framundan aðeins melir og grjót þrír þreyttir hestar, sárfættur hundur og sjaldan hefur mér liðið eins vel ] [ Bárujárnsafgangar Blaut steinull Yfir frosinni jörð er ég á völltum álstillas og byrjaður, enn á ný, að efast um lífið þegar hríðin hefst og sólin skín. ] [ Dreymandi steinaugu snjókarlsins gráta blóðrauðum demöntum og hinn heittelskaði leiðtogi hefur frestað vorinu enda markaðsverðið óvenju hátt ] [ við ána óma kunnuglegar raddir liðinna ára myrkrið steypir sér yfir en þær þagna ekki blómin baða sig í dögginni og tár falla fortíðin kemur þeysandi á hvítum hesti ég spyr um þig og svarinu lýstur niður til mín eins og beittur hnífur sker það mig inn að beini raddirnar þagna ] [ Hinar sönnu stríðshetjur borgarastríðsins, munda ekki vélbyssurnar í fremstu víglínu. Hetjurnar eru þeir sem snéru baki við glórulausu hatrinu. Fengu aldrei járnbragð hefndar í munninn. Flúðu á vit óttans, rifu burt allar rætur, öll metorð, allan veraldlegan auð. Tóku ekkert nema sjálfa sig og óm menningar sinnar með sér. Ekkert nema minningu um ilm moldarinnar, þar sem forfeður þeirra höfðu lifað um aldir alda. Ekkert. Ekkert nema einlitan söknuð, og spurnina hver er lífs og hver er liðinn. Ekkert. Ekkert nema nagandi bið og brennandi spurning Hvort að þau séu ævarandi útlagar heima og heiman. ] [ Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga Og buxnalaust fífl með prestkraga Já guðfræðipervert með prestkraga Þá er gaman fyrir börnin að vera úti lengi Einkum fyrir unga drengi Einkum fyrir fagra unga drengi Föngulegar konur þá taka á sprett og skáldið syngur Og DV leikur við hvurn sinn fingur DV leikur við hvurn sinn fingur. ] [ Draumar mínir eru fylltir líkömum dauðra barna sem munu hrannast upp í Írak (Íran) Ég sé bros þeirra framtíð sem hefði getað orðið Ég sé brostin hjörtu mæðra og feðra þeirra og ég græt meðan ég sef Meðan ég vaki sé ég fyrirsagnir Niðurtalning til Íraks (Írans) Hver á fjölmiðlana Hver á flugskeytin Hver vill drepa fleiri börn Fyrir blóðuga olíu Fyrir hina útvöldu Hverjir eru hinir útvöldu Eru þeir ég Eru þeir þú Sekur er sá sem ekkert gerir Samþykkir öll voðaverkin með þögn sinni Hvar eru hetjurnar þorum við að vera hetjur eða munum við þegja þunnu hljóði á meðan byssukúlum og flugskeytum rignir yfir börnin í Írak (Íran) Á meðan þau bíða með ótta í hjörtum um hvað muni gerast næst Munum við þá skipta um uppáhalds raunveruleikasjónvarpsrás Þegar beinu útsendingunum frá \"Shock & Awe\" er lokið ] [ Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga Og hasskökur – þriggja laga Hasskökur þriggja laga Þá er gott að veltast um götur Reykjavíkur útúr skakkur Sérstaklega ef maður er frakkur Sérstaklega þegar maður er frakkur Dópistar þá taka á sprett og dílerinn hringir Og skítug portkona tannlaus kyngir Skítug eyðnismituð portkona kyngir. ] [ Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga Og bleika feminista sem í jafnréttisstofu klaga Þurrkuntu feminista sem ættu að þaga Þá má ekkert í forræðishyggjunni gera Og menn eru kærðir ef á bar sig bera Ef menn fagurt hold sitt fyrir alþjóð bera Hneykslaðar konur þá fordæma og skrifa í Velvakanda Og fylgjast með hverju spori og hvenær þeir anda Ég held að það séu þær sjálfar sem eigi að stríða við vanda. ] [ Hann afi gamli týndi gleraugunum sínum Það er ekki gott ] [ er með þetta lag á heilanum dadaraddadadaadaaa babarabbababbabaaa lalalalaaa lalalalaaa dadadadadaddaddadaaaaaaa óþolandi ] [ Aldrei hef ég geta skilið hvernig fólk getur notað kúlupenna Ég þoli ekki kúlupenna Ég vil geta látið blekið fljóta en geri það ekki með kúlupenna ] [ Sit við veginn og finnst allir bruna áfram veg lífsins Afhverju hreyfist ég ekki Langar til að komast úr sporunum En fæturnir eru sem fylltir af blýi Einhverntímann fæ ég kjarkinn til að Losa mig við blýið Og bruna áfram veg lífs míns Með stórt bros á vör ] [ Hreiðar Logi, Einar Örn, Ásgeir og Magga Þóra. Þau eru mikil englabörn í okkar heimi stóra. England lögðu undir fót orlof sitt að nýta, alltaf kunnu á öllu bót aldrei voru að kýta. Frekar þótti fólki djarft að ferðast með litlu krílin, en foreldrunum þótti þarft að þekkjast ferðadílinn. Heim þau komu í tæka tíð, tóku á móti Burger og co. Kanarnir lentu í kuldahríð, kættust trauðla en hlógu þó. Á Gullfossi þau gengu út greyin nærri fatalaus, í nístingskulda norpuðu í hnút uns næstum undan þeim fraus. Eftir mögnuð ævintýr um alla heima og geima, Krúsilúsanna ær og kýr, er´að kúra í hlýjunni heima. Kveðja, Einar og Marta. ] [ Hún stóð og leyfði þöglum snjókornum að setjast í hár sitt og þekja hana alla. Breyddi arminn út á móti heiminum! Hló að lífinu og sneri sér um sjálfa sig. Leyfði einu tári að sleppa, vegna gamalla sorga. Brosti breytt því hún sér lengra. Stúlkan í rauðu kápunni! ] [ Ljóð þitt myndast við þögn í sindrandi huga. Það hverfur um skeið en birtist síðan á ný í ókunnugum heimi. ] [ Mikið djöfull getur Sjónvarpið verið leiðinlegt svona á laugardagskveldi Maður gæti jafnvel hugsað sér að grípa í spil Eða taka slátur ] [ Ekki gráta þetta verður allt í lagi ég verð örugglega saddur af einum hamborgara og því hlífi ég lífi þínu skal úða í mig frönskum og drekka mikið gos en get ekki tekið ábyrgið á því hvað verður um þig eftir að ég labba út ] [ Today is the day I must tell you good-bye so hard for me to do all I can do is cry. this really isn\'t good-bye we will see each other again but until that day has come I smile, I will pretend. to hide the thought of losing someone that means a lot, to hide my tears of sorrow and be somone that I\'m not. I\'ve been wishing this day wouldn\'t come since the day you said you were moving but my wishes weren\'t strong enough my emotions do the choosing. I\'ll try so hard to forget all the things I will miss from simply holding your hand to the day we first kissed. to think that you won\'t be there the day I need you the most to forget you, would be easy but I know that I won\'t. to tell you good-bye is something I can\'t seem to do no matter how hard I try I cannot say good-bye to you. ] [ Komið herrar og frúr og hlustið á þennan söng mína sýn segi, ykkur kann að þykja hún röng því eins og teymdir hestar er sjónarlína ykkar þröng en allsherjarlygin er nú þegar orðin Íslandssaga löng. Jú, það eru góðir tímar... Góðir tímar í’enni Reykjavík! Það er langur vegur frá fellunum og vestur í bæ og á félagsauði svo að ég varla upp í nef mér næ en það vaxa ekki blóm, ef sáð er ekki fræ nema fjórða hvert ár er nálgast þá maí. En það eru góðir tímar... Góðir tímar í landinu og Reykjavík! Já, Reykjavík er snotur, lítill sætur bær og hver maður fær vinnu sem vinnu er fær en ef þér finnst sem að launin séu slæm á sjó eða Kárahnjúkum ,,you can do a little time”. Því það eru góðir tímar... á landinu öllu en einkum þó í Reykjavík! Jú, Reykjavík er fögur lítil saklaus borg laus við dópista og róna og alls konar sorg og Ingólfur stendur stöðugur við sinn hóll og sáttur við ástandið við samnefnt torg... Gott ástand! Gott ástand á Kaffi Austurstræti... Pride of Reykjavík --------------------------- Og hæstráðandi í Valhöll er nú blindur á báðum og blæs ryk í augun á fólki með falsráðum og andlaus lýðurinn vill ekki úr heiðni skipta um vist og breyta í jafnaðarmennsku kennda við Jesú Krist Jú, það eru góðir tímar... Frábærir tímar framundan á landinu og í Reykjavík. Jú víst verður blessað lífið fyrir suma alltaf bara tík Davíð segir: ,,Alls staðar er fátækt” - getum ekki öll verið rík og sannleikurinn þeirra er svo lyginni lík en þeir segja að það séu góðir tímar í henni Reykjavík – Já Blessuð Reykjavík Hærri hagvöxtur, félagsauður og kaupmáttaraukning í Reykjavík Já það eru góðir tímar í hinni frábæru Reykjavík. Þeir segja að við séum komin af víkingahetjum með útrás getum unnið heiminn ef markmið okkur setjum en inn við beinið erum við bændur og ættum að þakka Bretum og Bandaríkjamönnum fyrir það litla sem við getum Það er raunveruleikabrenglun Raun-veru-leikabrenglun í Reykjavík Þið getið spýtt á nafn mitt og hugsanlega verð ég barinn og varla mun nokkur mín sakna þegar ég verð farinn en er þið skiljið að Júdasarkossi þið voruð kysst munið það þá hjá hverjum þið heyrðuð það fyrst: Þetta er tóm steypa - góðærið á Íslandi er lygi! Þið eruð dregin á asnaeyrunum og eruð rænulaus af skyndibita En altént góðir tímar fyrr sem framundan í Reykjavík Og ef þið segið þetta nógu oft þá farið þið að trúa því: Góðir tímar fyrr sem framundan í Reykjavík Góðir tímar fyrr sem framundan í Reykjavík Og allir saman: Góðir tímar fyrr sem framundan í Reykjavík! ] [ Hafðu það hugfast í hjarta þínu. Að þú átt pantað pláss fyrir þig í mínu ] [ Óhamin ást flæðir inn í þungar jökululsár streymir í gruggugan sjóinn sem umlykur viðkvæman svörð landsins Órólegir draumar fylltir gráti og öskrum meðan þeir skera djúpt í móðurkviðinn Risabor treður sér í sköp náttúrunnar Hleypir af með sífellt meiri græðgilosta —álsæðinu Drunur og jarðhræringar vekja okkur við dögun þjóðarblekkingar Henni blæðir Sárin eru djúp Fóstrið sem inni í henni vex hefur hundrað höfuð nartandi í hvort annað með hvössum tönnum skammtímagræðginnar —eitruð úrgangsframtíð Í fjarlægð sjáum við stóriðjuvininn með áhyggjulaust glott sitt Konungur fjallsins blindaður græðgi og metnaði Hún var hið ævaforna helgitákn Tilbeiðslutákn til þessarar öfgakenndu náttúru Villt fegurð sem sindrar í kristaltærum augum —tákngerving hins íslenska hálendis Öldungar, vættir, hulin öfl og Íslandsvinir mynda skjaldborg um landið galdurinn stigmagnast fóstureyðing fóstureyðing á marghöfða álfóstrinu á stóriðjudraumnum Galdurinn er ást okkar á sérhverjum fossi á sérhverjum steini á sérhverju fjalli á sérhverju lífi sem er á útrýmingarlistanum ] [ þú sagðir það og ég kinkaði kolli húsið að hruni komið og málaði það blátt þú týndist en mig langaði ekki að finna þig setti blóm í gluggann þar er jú birtan ég man ekki nafnið þitt lengur ] [ Afhverju segir þú ekkert þegar ég tala til þín? Eina sem ég bið um er að þú kíkir til mín. ] [ Vaknar himinn vakna sár augu á þig stara Tvístíga ertu fellir tár en veist ekki hvert þú átt að fara ] [ Drekkið allir hér af, uns sést í eiturbikarsins botn við Drangey sest sólin í blóðið og ykkar bíður fagur dauðinn álengdar stóð hún feimin, dreymin í upphæðum, mælti: ,,dvínar glóð í helvíti - held ég bíði ögn lengur uns ég tek sopann og upplifi himnasælu, tertium non datur\" ] [ þú segir mér að hætta þessu rugli og lánar mér bók ég geti alveg lesið eins og venjulegt fólk gerir ég berst í gegnum bókina staf eftir staf orð eftir orð blaðsíðu eftir blaðsíðu að lokum þegar ég fletti síðustu síðunni er ég svo fullur af innblæstri að ég skrifa ljóð á gluggann hjá þér ég elska þig þú snöggreiðist og segir mér að hætta að krota segir að ég muni aldrei getað hagað mér eins og venjuleg manneskja en hvað veist þú um það? ] [ Inn í höll og út í hríð ást og gleði ber. Endurminning ár og síð aldrei burtu fer. Ljós í hjarta lokkar mig ljúfar myndir á. Alla mína ævi þig elska mun og dá. Himinbreið og höndin smá heilsa okkur enn. Norðurljósum neistar frá nóttu kyssa senn. Sólin leggst síðust á kvöldin stjörnurnar blika við ský. Hún hefur veraldar völdin og vorið það kemur á ný. Augun þau tala með tárum til eru söngvar í þögn. Gleðin hún grætur í sárum geymi þig heilögu rögn. ] [ Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga Og svita milli pungs og endaþarms alla mánudaga Súpusveitta spöng alla mánudaga Þá er gott að safna hár í krika og lykt Einkum fyrir dömu sem vill ekki verða þrykkt Einkum fyrir dömu sem vill ekki verða þrykkt Félagarnir þá taka á sprett og sumir æla En það er miklu betra við sjálfa sig að gæla Miklu betra við sjálfa sig að gæla. ] [ Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga Og aflitunarefni er flutt í gámum upp á skaga Aflitunar- og tanefni í tonnavís fer upp á skaga Þá er gott fyrir borgardrenginn að halda sig í Reykjavík Nema þeir vilji verða sveitavargsins tík Sveitavargsins kynlífstík Fótboltatöffararnir taka á sprett og sveitaballahljómsveit syngur og sveitavargurinn fær sér í endaþarminn glingur í þrútinn endaþarminn glingur. ] [ Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga Og rottur sem sig í gegnum miðbæinn naga Rottur sem sig í gegnum miðbæinn naga Þá er eins gott að hlaupi kynin bæði Nema þeir sem fíla hundaæði Nema þeir sem fíla hundaæði Því rotturnar þær taka á sprett og starrinn hann syngur Og flóabitinn verður hver typpalingur Flóa- og flatlúsarbitinn hver typpalingur. ] [ Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga Og brúna slétta yngismeyjanna maga Já straujandi slétta yngismeyjanna maga Þá er gott að rölta um bæinn eða sitja við drykkju Einkum fyrir ímyndunarafl letibykkju Fyllist ímyndunarafl einnar letibykkju Miðaldra menn með Alzheimer þá fara á stjá og á stelpurnar glápa Og taka af þeim myndir og setja inn í sína skápa Runkminnismyndir til að fylla sína skápa. ] [ Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga Og menn vini sína út úr skápnum draga Menn vini sína út úr skápnum draga Þá er gott að tipla um tún og hnoðast á engi Fyrir lesbíur og ljúfa drengi Lesbíur og ljúfa drengi Fóbíufólk þá tekur á sprett og fordómar eru sungnir Um að allir verði í rassgatið af hommum stungnir Í rassgatið af hommum stungnir ] [ Sat í tíma uppi í háskóla, þurfti að bregða mér frá Leit á sjónvarpskjá og heldur þá mér brá... Það var búið að fljúga á Twin Towers og Pentagon Sögðu að vestrænar þjóðir gætu átt á öllu von... (Meira kannski von þá á vonleysi!) Þetta var hryðjuverkaárás, Bin Laden og Al-Qaeda Fékk í magann og þurfti úr hræðslu að fara að skíta (bleyjurapp) Það var vitnað í Huntington og ,,Átök menningarheima” Hélt mig hlyti að vera að dreyma... (Meira kannski svona martröð!) Fór heim þeir voru að sína seinni vélina hrapa Þá mundi ég að ég átti að nágranna araba Ætli Ahmed sé uppi 3.hæð að tengja sprengju? Og ætli sér að sprengja upp þessa blokkarlengju?... (En hann sem var alltaf svo næs gæi... eða hvað? Hvað hét hann? Ahmed... Bin Laden passar það?) Svo ég dreif mig út og beint upp á Hlöðu Til að reyna að kanna þessa hræðilegu stöðu Fór í tölvu og sló Kóraninn upp í Gegni Og á google til að finna upplýsingar á þessum arabaþegni... (Örugglega stórhættulegur!) Komst að því að öll eintökin af Kóraninum voru úti Og það kom upp stingur í þessum litla mallakúti Var almenningur að tapa sér og skipta um trú? Setja upp túrban, plana hryðjuverk, sprengja upp brú?... (Engar upplýsingar um hryðjuverkanágranna minn... týpískt Gat ekki einu sinni farið heim að horfa á MTV af hræðslu við hryðjuverk.) Seint að kveldi ég dreif mig loks heim Og á ganginum þá mæti ég ,,þeim” Hún með dreng en hann með skjalatösku Eflaust í henni sprengja sem myndi breyta mér í ösku... (hvað hef ég gert þeim?) Kveikti á sjónvarpinu, hélt þetta myndi skána Sá þá arababörn fagna með palestískan fána Fregnir töldu 3000 dána svo ég skellti mér á krána En á Horninu var boðið upp á hálfmána... (Hálfmána, hugsið ykkur, Viðskiptabann á þann stað, fyrir að yfirgefa vestræna menningu) Daginn eftir fór ég að sækja um kennarastarf upp í MS Og þar var brjálaður ofstækismaður búinn að klæða sig í arabadress Að dreifa boðskap Allah og eflaust slatta af Miltisbrandi Hugsanlega með Osama í beinu símsambandi... (hver veit? bara fangelsa þennan villimann!) Svo fræddi ég brúði og börn um bévítans Osama Bölvuð lygi það væri að segja að þeim hafi verið alveg sama Nú situr húsfreyjan stjörf með haglara í húminu Og börnin eru andvaka því Ayman al-Zawahiri er undir rúminu... (og inn í skápnum og svo á hann krakka í skólanum, sem enginn má bjóða heim... börn sem njósna um okkur) Svo herti ég upp hug minn og fór út um allt Að leita að hryðjuverkamönnum því frelsið og lýðræðið er ekki falt Fór að brjótast inn hjá útlendingum og sýna mitt power Fór lengra en sjálf hetjan, en sá er... – enginn annar en Jack Bauer... (Geri hvað sem er fyrir landið! Björn Bjarnason - alvöru Republicani!) Hætti í háskólanum og gerði alvöru úr minni leit Og bíð nú eftir að Björn fái leyfi fyrir sinni leynisérsveit Þjálfaði mig erlendis og það tók allt sinn tíma Og meðan ég bíð, þá er ég ólöglega að hlera síma (,,to protect the freedom and demo,,crazy” of the Ameri... Icelandic people”) Leitin verður löng, meðan ég stend í henni einn Hef hlerað marga útlendinga en ekki fundið neinn Allt meira og minna súludansmeyjar og verkamenn En ég mun finna þá þó ég hafi ekki fundið neinn enn (vantar hryðju á verkamennina á Kárahnjúkum)... Ég var kominn á sporið, um einn hryðjuverkasurt Er mér þær fréttir bárust að herinn færi burt Og þeir tóku af mér tól og hlerunartæki Og brátt blossar upp hryðjuverkafaraldur og trúarofstæki! (Á Íslandi! ...Björn Bjarnason hvar er leynisérsveitin og íslenski herinn?) Ég var að lesa Morgunblaðið og sá að ég stend ekki einn Símhleranir hafa lengi tíðkast og brátt verður vegurinn beinn Og Styrmir stendur með mér og ver hleranir í kalda stríðinu Og brátt mun hann verja mig og þá get ég komið út úr hýðinu (óþarfi að far huldu höfði þegar maður er að berjast fyrir lýðræðið í landinu) Við börðum niður kommunista og kæri arabi það er komið að þér! ] [ ný og fersk svitalykt er svo góð þess vegna sef ég allsber teygi úr mér að morgni þefa af handarkrikunum soga í mig lyktina af sjálfri mér og veit að ég er til ég svitna þess vegna er ég ] [ Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga Og þunglynd ljóðskáld fyrir gluggana draga Fyrir gluggana költ bútasaumateppi draga Þá finnst þeim gott um gólfflötinn heima að skríða Sólarlaus og detta einmana í´ða Skrifa lágkúruníð sem undan mun svíða En artí ljóðskáld taka á Sirkus sprett og trúbadorinn syngur En menningarvitinn með kryddte, fettir fingur Og á kýlum samfélagsins stingur – já, á kýlum samfélagsins stingur. ] [ I can\'t sleep I can\'t sleep I can\'t sleep Night surrounds me Darkness, silence Heavy breathing Heavy breathing Heavy trains of painful things that drains my brain of all but pain He is leaving He is leaving ] [ Þegar þú horfir á mig með þessum fallegu hvolpaaugum fer ég að hugsa -var þetta rangt? Var það sem ég leitaði alltaf hér? ] [ Stundum er hugurinn svo villtur að ég veit ekki hvað ég hugsa segji né skrifa Hvernig ætti ég að geta ort ljóð undir þessum kringustæðum? ] [ Fögur augu dúkknanna brosa til okkar Hláturinn kitlar.. Þær eru systur En svo er allt dimmt. Kassinn heldur þér föstum. Með plastvír um hendur og fætur. Og plastfilman yfir Þú ert innpakkaður í dúkkukassa. -Ég líka... Ég berst um í eigin kassa. Ég sé þig svo skýrt til hliðar við mig.. Innilokaðan. Svo nálægt -samt næ ég þér ekki. Ef ég aðeins gæti losnað og skriðið yfir til þín -Legið hjá þér.. Tvö saman í kassa með plastfilmu yfir. Bundin saman með plastvír Og hlýjað hvort öðru í kuldanum. En dúkkurnar þær vaka -Fallegar að utan.. En sálirnar svartar. Og ég finn að ég mun ekki sleppa- Þá munu brosin fjúka Og djöfulleg andlit sálar þeirra birtast. Éta okkur í sig Svo eftir standa nakin beinin og sálirnar kolsvartar. ] [ Kanski getum við geymt ástina á bak við eyrað Og þó við finnum nýja Munum við aldrei gleyma henni Því hún er bak við eyrað ] [ Sagði þér aldrei hvernig mér leið missti mitt færi því ég beið tárin í augunum fram þurstu og mínir flóðgarðar brustu Grátandi ég tók ákvarðanir slæmar sem betur fer voru vina tilfinningar næmar gat um allt við þau rætt þau hjálpuði og tilfinningalífið gátu bætt Í þú mig hringdir ástin mín vinurinn kæri næstum ég þér sagði hvaða tilfinningar til þín ég bæri beit í mína tungu og sagði ei neitt fortíðin er eitthvað sem ég get ei breytt ] [ Stundum vildi ég óska að ég væri einhver önnur en ég er Einhver sem getur verið hún sjálf alltaf sama hvað á gengur (chorus) Ég hef aldrei sagt hvernig mér líður Ég hef aldrei berað tilfinningar mínar Draumar mínir hafa allir farið útum gluggann Mér finnst sem það sé ekkert sem heldur í mig (chorus) Ég hef aldrei hleypt neinum að komast inn að hjarta mínu En svo kynntist ég þér og hversu rangt hafði ég fyrir mér (chorus) Ég er hrædd við það að elska en ég er þess virði Ég mun einhvertíman kynnast einhverjum sem ég mig skilið ] [ líkfylgdin nálgast gítarsóló svo syngjum við allir saman nú! kallið er komið ] [ Af litlum neista verður oft mikið bál í litlum firði verður til mikið ál sem er til vandræða sagði umhverfissinninn. ] [ Annann í jólum hann fann hana. En ann hann henni er hann fann hana. Hún fann hann ann henni. En sannann sagði hún hann vera svikara. ] [ Spýtirðu eða kyngirðu spurði hún mig, einstæðan föðurinn þar sem ég lá ljóshærður í piparjónkuíbúð hennar. Ég sló hana utan undir ] [ Ónafngreindir dómar eru verstir. Því þá getur maður ekki sagt við sjálfan sig eða jábróður \"já þetta segir NN, við vitum nú hvernig hann er\" fólk segir \"fólk segir\" til að varpa fram vafa sínum á að því er virðist hlutlausan hátt ] [ Miðvikudagur og meika’ ekki að anda Morguninn hrjúfur sem salt Lít við hlið mér, hún lyktar öll af mér Og lætur mig rifja upp allt. ................................... Sunnudagur að sötri á bar Sá ekki annað ráð Gat ekki vitað að gægðist til mín gómsæt og forboðin bráð Bak við þykkan maskarann er þokki Og það sem hún segir ekki frá... ...segir með því að segja ekki neitt Og ég veit að það þýðir JÁ Mánudagur, ég horfi á hana Hún er týnd, hún er föl Sem lítið barn hún leggur í flótta Er augu mín mæt’ hennar kvöl. Þriðjudagur ég þor’ekki að horfa En hún þrýstir á huga minn fast Í litríkri blússu, með lokkandi ásýnd Hún laðar mig til sín í last. Sjálfsagt á maður í minni stöðu Að marka sér ákveðinn skjöld en mig skeytti það engu er ég skrifað’ á miðann... “Sjáumst á Karó í kvöld”. ] [ Í ölæðinu mættust augu okkar. Hún leit svo vel út: Hvítklædd gyðja í engu innanundir. Engin virðing Engar tilfinningar Ekki einusinni orð. Um morguninn vaknaði hún ein ] [ Þegar allt virðist vera svo erfitt þá leita ég til þín. Ég segi: hér er sála mín, tak burt alla kvöl og pín. Þú elskar mig og kallar mig barnið þitt, segir mér að allt verður í lagi. Ég finn hversu yndislegur þú ert, fyrirgefur mér allt það sem ég hef gert, segir mér að allt verður í lagi. ] [ Innra með mér eru: Auðar götur, yfirgefin hús gráir veggir og brotnir gluggar. Köld þögn. Vindurinn gnauðar um sundurnagaða burðarstólpa sálar minnar. Ein, yfirgefin, svikin og særð. Ef það leynist einhvers staðar eitt og yfirgefið jarðarber í einni af sprungunum í malbikinu, má ég þá eiga það? ] [ Það liggur heill folaldaskrokkur í rúminu mínu. Djöfullinn! Þarf ég núna að sofa í frystikistunni? ] [ Lítið drullugt lamb fellur úr afturenda kindar, Stendur upp, og svalar þórsta sínum, úr líkama kindar, þetta littla lamb, hefur engan grun um það hvar það endar. bara hoppar um með vinum sínum, fyrr en varir fellur það út um aftur endann á líkama mínum! ] [ Þú lakst mjólk fyrir mig Móðir þú mig fæddir fóðraðir og klæddir Tíma þínum í mig eyddir tannburstaðirðu mér og greiddir gafst mér þak að dvelja undir sögur á kveldin þú mér sagðir sofandi í rúmið þú mig lagðir öll þessi útgjöld og allur þessi tími já þetta gafstu mér allt og í staðinn hef ég ákveðið að þú fáir herbergið mitt er ég flyt að heimann ] [ Hvar á að byrja; hungursneyð fuðrar upp í maganum, tíminn hneggjar fyrir utan hafið. Sólbaggur smýgur inn óákveðinn með eindæmum. Hvað er það sem fegrar hnúanna innra með fólki sem lætur illa af stjórn í dularfullum heimi lotninga? Ekkert er eins og það var áður, á sigurför um heiminn. Hvurslas er eiginlega, hvaðan kemur allt þetta, ég sem hef ómeðvitað legið kylliflatur fyrir ofan garð og neðan hvæsandi mínar eigin ranghugmyndir, dalaafbrigði, hverjum hefði legið svo á að skrifta í kapellu morgunroðans fyrir sjálfum sér? Ekkert. Hugur fylgir hverju strái sem speglar sig í bak og fyrir og fyrirlitning myrkursins sem blæs og vælir óumflýjanlegar hreyfingar hvers og eins, Natalatsi, gufusoðinn einstaklingur hverfur hverju fylgjandi strái hvers þá heldur, að halda fyrirlestur syngjandi afhverju? Rauður í framan, er það morgunroðinn, skinnroðinn raðar sér í villandi augngotur, fylgjandi hverju sem ekki kemur, þannig syngur fuglinn í dalaafbrigði tímans. ] [ Þegar þú lest ljóð heyri ég í rödd þinni hljóma sem snerta rætur tilvistar minnar og upp vex blómstrandi urt ] [ Ég sé dverg í hverju horni og svo birtist hann skyndilega líka fyrir aftan mig Kannski er ég á lyfjum Kannski er ég með óráði Ég sé dverg í hverju horni... ] [ Hundurinn kvakar, öndin gelltir, hesturinn mjálmar, kötturinn hneggjar, krumminn hrín, og svínið krúnkar. allt er þetta svo skrítið, öllu á að breita. ] [ Herra ást er alltaf hér, herra ást er hjá þér, Hann veitir þér ást og stirk, Í mirkri og ljósi hann er hér með þér. þú barst hann um það, og hann elskar ást og hjálpar þér, því þú baðst um ást. ] [ Þung er stund og þreyttur haus í bleyti Þráast við að leysa lífsins þraut. Þó er svarið síst á næsta leyti Hún sannlega er bugðótt þessi braut. Því að hugsa líf þitt út í dofann? Þjarma að öllu því sem er og var. Sé lífið leikur allt, á leiki ofan er ljóst það verður loðið, þetta svar. ] [ Fuglar fljúga út og suður norður og vestur. Margir fljúga lágt í búrum. ] [ hús eru ofmetin .. þótt þau standi þétt. ] [ Urrandi, bítandi, geltadi en fyrst og fremst sveltandi hundur. Kastaðu til hans gulrót og hann tætir hana í sundur. Nagandi beinin af löngu dauðu sviði, Sem matreitt var úr kinda ungviði. Ólst upp í ullar klæddum kviði á sauði. Sá ljósið, en þess beið fyrirfram ákveðinn dauði. ] [ Vekjaraklukkan, dregur gardínur augnana frá að morgni og vil að framhaldi drauma minna ég fórni, fyrir vakandi lífið, innan um líð og læti, þeyttur ég varpa fram úr rúminu fyrsta fæti og sé svo til þess að annar mæti, teygi mig í bláa sokka, nývaknaður og laus við allan þokka. Opna fyrir ljósið lít yfir fjósið. Raða á mig fötum með handtökum lötum. Gef andlitinu að borða svo seðjist í mér maginn, geng loks að hurðini og hleypi mér út í daginn. ] [ það var á sumarnótt fyrir 12 árum sólrún var nýsest og nýr dagur eða gamall villi við það að rísa upp ég setti upp hatt og hélt af stað að krossgötum lífs og dauða þar beið mín sjálfur myrkradróttinn í eitruðum eldsölum og eftir kynmök undirrituðum við tvíhliða samning sem gerði mig að besta ljóðskáldi alheimsins en í staðinn fékk hann sálu mína í eilífðareldaveldið að lokum settumst við í brekkuna með hendur undir höfði og tuggðum strá horfðum á sólina koma upp daginn eftir annan heimsendi og ræddum um daginn, mislægan eða stokkaðan veginn, völlinn og vatnsmýrina ég gleymi aldrei hans hinstu ógeðisorðum sem ég heyrði áður en ég hvarf aftur inn í heim dauðlegra kjósenda hann sagði ,,ég hef og mun alltaf kjósa fokkin Framsóknarflokkinn\" ég horfði á hann brúnaþungur og sagði með hvössum tón ,,þú getur tekið sálu mína, en atkvæðið mitt það færðu aldrei\" ] [ hún malar hal í hel og halar mal í mel en þótt hún mali hal í hel og hali mal í mel fer halim al um grundirnar með malina og sprundirnar í hel ] [ himinninn er blár hafið er blátt borgin er blá en austrið er enn rautt ] [ þegar sumarið kom yfir sæinn kláraðist kexið ] [ Ljósvængjaður leggur dagurinn lönd undir væng og flýgur til ástafundar í faðmi heitrar nætur. Ljósvængjaður leggur dagurinn lönd undir væng og flýgur til ástarfunda í faðmi heitrar nætur. Ljósvængjaður leggur dagurinn lönd undir væng og flýgur til ástafunda í faðmi heitrar nætur. ] [ Dagur er liðinn og upprisinn Vil-hjálmur og undir honum hárkolla – úlfsins sauðargæruhárkolla? Og maður segir ,,Vil-hjálmur, nei ég Vil-húfu því Sól-rúnar draumur mun ei framar skína fremur en bros á mörgum vörum - það er vöntun á snörum, og snörum svörum en von á verri tíð með mislæg gatnamót í haga” og það er Lalli Johns sem stendur að baki hallarbyltingunnni, og í ráðhúsins frysti fannst nothæfur R-listi sem margklofin persónuleiki á hol sig sjálfan risti. Val-inni dís, stein er borgin unni kastað en önnur, dís svana við tjörnina syndir fuglaflensulaus á grænni grein vinstramegin og Ó – laf(ði inni síðast)ur, vinnur öruggan sigur. Meðvitundarlaus kappi úr fortíðinni hangir í köðlum hins pólitíska boxhrings að fjórum árum árum liðnum má breyta þessum kaðli í snöru. En öruggur Vil-hjálmur hamast nú á meðvitundarlausum manninum, vill hann í hjónasæng enda auðveldur dráttur í borg og á landsvísu. Samúð mín er þó öll með þeim skynlausu skepnum sem mynda mengi veikra manna og 6,1% þeirra kosningabæru í Reykjavík, Jakobar þessa augnabliks. Brennið þið Framsóknarfávitar! ] [ Brennandi rauðar rósir í rökkrinu riddarar krjúpa ríða í átt að heimsenda og leyndarmál lífsins afhjúpa Í dalnum dísirnar dansa regnið niður það drýpur drungi færist yfir og drottningin seiðið sýpur Stúlka ein talar tungum tveim týnir blóm og sjálfri sér torsótt er hennar leiðin heim og úlfur spyr ,,ertu til í geim” Önnur hún í tjörnina leit er töfrar hana umluktu en taðsálin hún á sig skeit því systur sína hún fyrirleit Maður einn meyjuna missti á tímum speglaleysis, hann þyrsti mynd sína sá og sjálfan sig kyssti en datt ofan í tjörnina og dó Því dramb það mun vera falli næst og í tómum tunnum mun ávallt glymja hæst og úr sumum skáldum hefur aldrei úr ræst og bráðlega hef ég í hópinn bæst... Já, bráðlega hef ég í ykkar hóp bæst. Því lífsins tilgangur ei leitar á mig er í leyni líkt og mannlaus gröf og það er alveg sama hvað ég les og þó ég ferðist yfir sjö höf -ei fæ ég botnað lífsins ljóð og held því aftur í út í mýri aftur í ævintýri. ] [ Ég sem víst ekki nógu spennandi ljóð. Allt fólkið í götunni minni gerir hróp að mér. ,,Ljóðleysingi” hrópa þau. ,,Hvað hefurðu skrifað?” ,,hvað hefurðu samið?” ,,Ég hef víst skrifað ljóð! Um sumarið og ástina, og dauðann!” ,,Ég hef leyst ljóð úr læðingi, borðað orð, kastað þeim ofan í hveri og horft á þau kastast upp aftur á ógnarhraða” ,,Ég hef séð þau varpast út í algeiminn, springa út og verða að stjörnum” ,,Hvar eru þín ljóð, hvar er þinn dauði og ljós? Hvar eru orðin tóm úr huganum á þér?” Nú gat ég loks farið og fengið mér kaffi og lesið blöðin um stjörnurnar sem ég festi í himingeiminn. ] [ \"Ruglaðir himnar\" stendur skrifað á salernisveggnum \"já þeir eru ruglaðir\" hugsa ég því það er skýjamunstur á nærbuxunum mínum ] [ draumurinn í dósinni, ólmast um og hefur læti. þegar hann svo sleppur, flígur hann til þín, og... öðlast veruleika. ] [ Árstíðir líða hraðar en auga á festir. áður en við vitum þá erum við sestir, hjá ömmu og afa börnun sem gestir, ] [ Þú gengur einn sem garpur þinnar tíðar, og grípur föstu taki á því sem þú nærð, biður guð um vind í segl,og veiðar víðar, lófa fyllir lofti og úr sjónum andlit þværð. Hönd þín gróf er kennd við sjávarfleti, þannin trú sem glott við hafsins fald, sem vísar heim frá öllu slæmu hreti, og gefur lífi hið mikla æi vald. Þitt lúna hjarta leitðu augna þinna, úr þeim skein dagdraumar og brauð, við þóttuna og færið örlög sinna, þrána um vor í veraldlegum auð. Í úfnri öldu þú hrópaðir á hafið, á hulda vætti í von um eitthvað svar, en það svar var í sálu þinni grafið, því afi, ég var ekki þar. ] [ Á sandkorna sléttu þú bústað þér bjóst, sem sólin ég leitaði að því sem sýnist, En hefði ég fundið, mér væri það ljóst að um leið og það dimmdi þá sandkornið tínist. Svo tilganginn stundum ég engan þá sá, Ég sólin svo voldug, þú sandkornið eina. Minn stigandi geisli,Mín glóandi þrá, ég veit að þú kemur ,er ég hætti að reyna. ] [ Tvær málglaðar manneskjur kjafta hvor aðra í kaf. Deila með sér máli og skiptast á skoðunum. En ef að önnur þegir fast og kemur alls engu upp. Hin þá getur gusað öllu hreint út úr sér. Tvær mállausar manneskjur ...? Magnús Egg 3. júní 2006 ] [ Ég valt í vatn með mínum vesælu gæðum, og vökvinn þar síaðist inn,sem blóð í engum æðum. Þetta var höfgi,þar sem ekki er aftur snúið, Hamslaus þrá ,bara einu sinni fyrir núið. þú skvettir yfir þótt samskeytin væru horfinn, undirförla vatn, þar sem steinninn er sorfinn sem volaður pappi ég gat hvorki hindrað né þolað, aðeins fórnað,í augnabliki þínu um litla læki skolað. Pappi og vatn eiga í tilverunni ekkert saman, hvort sem tilveran er upp,niður ,aftan eða framan. En ég er til,og vill glaður og það sem máli skiptir, vera nýr kassi sem þú brýtur niður og lífi sviptir. ] [ mér líður hræðilega, mirkur og ótti læðist um mig, en allt í einu kemur ljós, og það sigrar mirkrið, nú ríkir bara ljós í hjarta mér. ] [ vruleikinn verður svo skrítinn, þú öðlast nýan draum, hann fer eins og áður, hann öðlast veruleika, hinn fellur úr gildi. ] [ littli draumurinn flígur, littli draumurinn svífur, inn í þitt hjarta, hann rætist. ] [ Angan af birki eftir vætutíð ilmur í lofti keimur sem kynntst þér einni hjá og geymi í ljósheimum. ] [ Minn ástmaður hann talar tungum og dettur í stiga - sporum þungum vill ei leggjast með konum ungum enda of einlægur til að svíkja Við sem um hann fögur ljóð sungum tæmdum loft úr okkar lungum og sæði úr eistnalyppum, úr okkar pungum við í heimsókn til hans munum kíkja Í dýragarðsheimili þau hann hýsa í undralandi okkar karlkyns Lísa með brjálaða - á klukku, vísa sem vísa á rima og hvern ann-an Hann kom meðal tveggja djöfullegra dísa medalíur tvær í för og hálfkláruð vísa sem fengu hár á höfði mínu til að rísa og nú mér rís hold við tilhugsunina um hann sem ég ann Hann sagði sögur af sínum raunum regnvotum Rauðavatns daunum um allt af hækkunum á launum og verðlaunin voru rusl að tína Meistarinn hann brá á leik blöskraði að sjá tvo karlmenn í sleik ég fékk mér sjeik en hann óð reyk því Reykjavík má aðeins fyrir kosningar gera fína Sumir spá í fortíðina Jakob spáir ljóðakvöldi meðal vina og leggst svo sæll á sængina og flýtur á friðsælli stað En ég, ég spái í Framtíðina spái rómantísku kvöldi meðal vina sem leggjast sælir undir sængina og stinga fingri í hvors annars tað... Okkar hreðjaseðj er í eðju og leðju fáum fyrir medalíu á gullkeðju líkir dráttavélaverksmiðju með ástarkveðju aðeins karlmenn hér og kannski risakisa Við þá iðju er otað í botnleðju sveðju og það langt frá Freyju vörpum himnalengjuatómsprengju brenna banaslysa blys blóðrisa ...Við ástmennirnir munum vefja tungum skiptast á innsetningum þungum það verður nóg af þvölum pungum og svo punga ég út fyrir eyrnalokk Við munum öskra frygðaróp úr okkar lungum bölva saman öllum druslum og gungum og syngja eins og við forðum sungum ,,Ó fokk, ég er ekki með smokk" Já! ,,Ó fokk, ég er ekki með smokk" ] [ Ég er á jaðrinum á mörkunum milli minna heima og þinna þar húki ég og hef það skítt á jaðrinum. ] [ Huffh huffhh aaahuffh ööaarghuffh djöfull er ég kvefaður! ] [ Á kommúnískri hæð er verið að krossfesta einræðisherra og starfmenn í óttablandinni virðingu þora ekki að hnerra Það er þrumuveður Shostakovich og byltingin er grátandi grá þetta er tóbakstroðinn töffari og sagan mun aldrei góðan orðstír hans afmá Og menn standa regnblautir, stjarfir og þora ekki að hlæja en spretta úr sporunum er sá krossfesti öskrar í hinsta sinn ,,JÆJA!\" ] [ Það kvöldar með gráhvítum hestum á grund, sem þreyttir við hamslausa reið í hausveltu frussa. Rennur með skugganum tunglið um stund, á hárlokka ljósa við lendarnar strjúka og sussa. Það ákallar einhver í nóttini almættið mikla og setur umhverfið rautt og tunglið á stikla. ] [ Það er manneskja í \"Gaypribe\"göngunni, hún er í fötunum á röngunni, Hreyfir sig öfugt í þrönginni, skildi gangan verða fram á stappa. þeir spúluðu allt svæðið með slöngunni, þótt þeir væru búnir að tapa. ] [ Ég tók til máls um mál málanna meðal málsmetandi manna gerður var góður rómur að máli mínu enda er ég rómuð fyrir að vera vel máli farin og hafa viðkunnalegan málróm kvisast hefur út orðrómur um það að málið sé í höfn enda er það málið og er það mál manna að ég hafi alfarið tekið málin í mínar hendur og með því leyst málið. Sem er mjög gott mál. ] [ Sælgætisblómið sætast það er, en samt það samræmist ekki sjálfu sér. Það fegrar ekkert en er þó fallegt á litinn, sem hverfur fljót er tekinn er fyrsti bitinn. Hið lifandi blóm sem liggur í moldinni þinni, ilmandi er og litríkt í náttúru fegurð sinni. Í sakleysi sínu það gefur lífinu gildi, og útstreymi til þín um göfuga mildi. ] [ oss föðurlands óbyggð með frosti og vindum sem feykja í hvívetna snænum af tindum þar logar í brjóstinu líf vort med álftum og landið það skelfur af eldum og skjálftum þótt vesöld oss reki til vesturs um lendur þá viljum við aldrei, þú ísa lands strendur þér gleyma en geigur oss umlykur víða er getum vér ekki klæðst föðurland síða og megni ei börnin að matast fyr trega því barlómur þeirra hann eykst stórkostlega þá segjum vér sögun’ af langömmu ungri sem sálaðist þriggj’ ára úr vosbúð og hungri ] [ fékkst við barsmíðar laghentur að sögn keypti vita fyrir launin tók lán helminginn út og afganginn á fjörutíu árum nú á ég hálfvita og vitaskuld tíu árar í fjöru ] [ Sorgin er gífuleg þú villt fara að gráta en þú villt ekki sína fólkinu hvað þú ert aum þú ferð upp í herbergi og grætur ég kem inn og sé sorgartárin renna niður kinnarnar þú segir mér að fara ég vil ekki fara ég vil hjálpa þér þú segir að það vilji það enginn sorgartárin eru eins og fossar að renna niður klettana þú grætur og grætur þá sagðiru mér loksins hvað var að þú sagðir mér að þú hafir verið beitt kinferðislegra ofbeldis ég fékk sjokk ég ákvað að hugga þig eins vel og ég gat svo sagðiru mér að þetta hafi verið frændi þinn ég fékk ennþá meira sjokk ég ákvað að tala við barnaverndaráðið þau tóku þig í viðtal þér leið miklu betur en þú grést þig samt í svefn endalaust komu þessi sorgartár! ] [ Elsku Guð, afhverju var það ég, ég þurfti að lenda í þessu, en afhverju? Hann káfaði og það var óþægilegt ég þorði ekki að gera neitt ég þurfti að fara suður í viðtal það hjálpaði mikið en ég vil vita, afhverju ég? mér leið hræðilega sumir sáu það en aðrir ekki ég vildi alls ekki lenda í svona ég var aðeins 12 ára gömul en í dag þarf ég að upplifa sorgina og mér líður hrillilega stundum græt ég mig í svefn á kvöldin Afhverju ég :\'(? ] [ Ég helt að þú myndir elska mig En svo var ekki Þú hunsaðir mig og slóst mig Ég vildi að við gætum verið vinir Eða jafnvel saman Þú fórst frá mér Ég sakna þín rosalega Kondu aftur til mín Þá skal ég hætta að gráta Ég græt á hverjum degi, ég sakna þín svo Ég vildi að við gætum verið saman því að ég elska þig enn Og ég mun elska þig alla mína ævi Hvort sem ég er lifandi eða dáin Ég mun alltaf elska þig! ] [ Stundum er eins og tungan temji mig og ekki ég hana. Stundum er eins og ég ráði ekki við hugsanaflæðið, orðatauminn, gauminn. Stundum er eins og tungan temji mig og ekki ég hana. Stundum koma orðin létt og stundum virðist ekkert rétt það er ekki alltaf létt að vera tvímælgur. ] [ Myrtuvíðirinn sem vex í garði mínum er enn vetrarbrúnn ég bíð fjólubláu rekkla hans og grænu laufblaðanna ] [ Fífilbleikstjörnótt, fríð á brá fæddist af Hrundinni smá. Ein Mönin enn og ánægju kenn, sem ætlar að vera okkur hjá. ] [ Ég sá konu á gangi frammi á gangi Hún spurði til vegar frammi á gangi en gekk ekki heil til skógar og ætíð hún tímanum lógar í að spyrja til vegar frammi á gangi ] [ Oft verða léleg ljóð að aðhlátursefnum Menn fara hjá sér með aumingjahrolli Og ég tala nú ekki um ljóðin sem einkennast af stavsettningavillunum og slæma endinum ] [ Ég sé þig ennþá standa hér fyrir framan mig, eins og það hafi gerst í gær. Fallegu augun á bakvið kókbotnana, brosið sem náði allan hringinn. Ég finn fyrir meni þínu á hálsi mér, merki vatnsberans. Merki þitt um að ég tilheyrði þér. Við vorum börn. Hrifningin var alger. Fyrsta faðmlagið, Að haldast í hendur, Fyrsti kossinn. Fyrsta ástarsorgin. Ég hugsaði oft til þín, hló að vitleysunni í okkur. Rifjaði upp barnaskapinn í okkkur. Nú fyllast augu min af tári, og ég er með sting í hjarta. Ég þekkti þig ei sem mann, og nú mun það aldrei gerast. Hvíl í fríði æskuástin mín, ég mun aldrei gleyma þér. ] [ Gleði er lán ég segi satt, gleðimaðurinn lifir hratt og yndi mörgum eykur, ærslasamur og keikur. ] [ Lúrðu nú í morgunsól,innan dyra,nema þú viljir sólböð og sólbrunna, eða hitasjokk með sólvörn. Sólin er ekki lengur á sviðinu heldur ofan í þér með engu ósónlagi alveg passleg fyrir eitt stykki krappamein handa þér. ] [ Brimsóttinn þjakar gamla sjómenn, þeir þrúgandi hlusta á sjógang og vindinn. Vita þegar fuglinn þagnar,að nú muni eitthvað miður fara. Vita að engin bjargar neinu úr þessu,hvorki hið gamla eða nútíma tækni. Hið eina er bæn,í von um að Kristur hasti á náttúruöflin. ] [ Herðubreiðarlindir,taka syndir,forlög byndir. Landið kyndir,orka syndir,okkur hrindir. Landsins vættir,mannsins sættir,lokast gætir. Fáir drættir,mannsins mættir,landið hættir. Herðubreiðarlindir,landið kindir,landsins vættir,fáir drættir. Taka syndir,orka syndir,mannsins sætir,mannsins mættir. Forlög bindir,okkar hrindir,lokast gætir,landið hættir. ] [ Ég vildi að ég hefði einhvern til að losna við En nú þegar þú lætur mig vera Er lífið svo allt allt öðruvísi Svo miklu einfaldara og fallegra Kristallar lífsins setja svip á tilveru mína Sem áður var þung og tilgangslaus Og gleðin hefur tekið völdin Hjá manneskju sem hafði aldrei kynnst henni áður En gleðin er skammlíf Og eftir nokkra daga og nokkrar nætur Mun önnur byrgði setjast á líf mitt Og axlir mínar verða blýþungar á ný En á meðan myrkrið sefur Og ljósið lýsir mína óförnu vegi Er tími minn ómetanlegur Og líf mitt stórkostlegt Og öll hans orð Hylla sársaukann sem risti áður svo djúpt Og lífsþorsti minn kviknar á ný og bankar á nýjar dyr Ný tækifæri allstaðar Nú munu nýjar lygar frá nýjum vörum Falla í minningarhorn heilans með nýjum loforðum sem brotna og falla En lygarnar og loforðin eru sannleikurinn Þangað til hann lýgur aftur. Sem er eflaust á næsta leiti. ] [ Gleðst mín kona ef glepst ég í sturtu, góða lykt mér af vill finna. En meðalaglasið hún má ei taka burtu, mætti þeim verkunum linna. ] [ Þó dalalæðan yfir mýrinn væri þögul vöknuðu hestarnir á bakkanum – þegar mýrardvergarnir hófu að smíða sólarskipin og fleyta þeim út á lækinn - móti feimnum morgninum við endann á fjallinu. Það voru bara síðustu tvö sem festust í sefinu við hólmann og dönsuðu þar í takt við hreyfingar vatnsins. Hin flutu hratt áfram eftir ljósrákum þangað til straumurinn í ánni hreif þau til sín. Við vorum ein á ferð þessa nótt. ] [ Margir láta múta sér, má þess dæmin finna. Gylliboðin bjóða þér, biðja þrátt og ginna. ] [ Lítið kraftaverk í nýju lífi Ljósið þitt sem brátt mun skína Megi englar með þér vaka Dásamlega daga þína Sólargeisli í hjörtum allra Hjartagull af himnum ofan Eins og stjörnur nóttina fegra Bros þitt mun alla gleðja ] [ Sannleikurinn er í Hallgerði Langbrók, þegar hún í þjósti tók, í hönd sér hár sitt, Og sagði.\"Gunnar það er mitt\". Heljarins öskur notaði Gunnar á móti, og hann féll með því blóti. ] [ Hún er eins og hraunið,sem fer sínar eigin leiðir, á sínum harða,á sínum tíma,Með sínum afleiðingum. Og það eina sem það skilur eftir er takmörkuð reynsla sem þú hugsanlega getur notað í næsta gosi,ef það skildi gjósa á sama stað,á sama hraða með sömu afleiðingum. ] [ Blöðin breyttu mér í hetju nákvæmlega það sem ég vildi. En ég er enn maðurinn sem guð skapaði einmana. ] [ Mig svimar af öllum snúningnum en samt er ég kyrr ég fæ hnút í magann líkaminn skelfur af þungum hjartslætti suð fyrir eyrunum. Ég sit föst í djúpri holu, samt get ég farið um allt. Ég klóra og krafsa í bakka, samt er engin mold undir nöglunum. Ég er að kafna, en anda djúpt. Ég græt og græt, samt brosi ég. Ég er úrvinda af þreytu, samt get ég hlaupið og hoppað. Ég berst daglega og mers, samt sér hvergi á mér. Ég er galtóm, auð, samt hætti ég ekki að hugsa. Ég get ekki hvílst, en sef öllum stundum. Mér finnst ég deyja, en lifi -en samt ekki. ] [ Slæmt var að bilaði bakið og búin var sjómennskan. Heillirnar ei hart á takið þó hendi ég að því gaman. Þótt vinnan fari fyrir bý, þá frískast ástarloginn. Valnum batnar víst á ný, verði ´ann betur soginn. ] [ Hallfreður reri á lífsins ólgusjó, aflaði ætíð illa og var alloft bitur að kveldi Eftir amstur hversdagsleikans atti hann oft saman hugrenningum sínum í furðuveröld náttanna Og í hugskoti drauma sinna fann hann nýjan tilgang, nýja von, nýtt líf... ] [ Aldrei er gott við garpa að fást, en greykarls Halldór illa brást, fastur í sóða súpu, sýnist allt á kúpu og engir lengur að honum dást. Sá er verðugur ketsins er kálið át, karlsræfils ótugtin er nú loks mát. Komið að leiðarlokaum, hjá ljótum fýlupokum. En “Stórbóndinn” brestur ei í grát. Af Halldóri tel, að bættur sé baginn. En bófi sá var einkavæðingalaginn. Frjálshyggjan fór flatt með Halldór. Hæfa myndi honum rauði kraginn. ] [ þarna stendur skuggi af manni, sem átti að huga að barnæsku minni ég get hans ekki saknað, aðeins séð hann og vaknað. lítið barn sem ekki skilur bælir tárin og reiðina dylur það óskar þess að vera einhvers virði en þú situr aðgerðarlaus í Hafnarfirði. en nú er ég eldri og óska þér- samúðar, því að þú misstir af mér því nú er ég vaxin og orðin ég sjálf og heyri ekki þitt innantóma orðagjálf nú veit ég hvað á ekki að gera og hvað ég ætla börnunum mínum að vera ég get bara notað það sem ég lærði af þér takk fyrir pabbi, en þú missir af mér. ] [ Tilfinning eins og mig vantaði allt sem ég vissi ekki né skildi en skildi hvorki né vissi hvað mig vantaði Svo fann ég þig... ] [ Ég er vonlaus þegar kemur að því að finna hluti eða vita hvar vissa hluti er hægt að fá Þess vegna væri tilvalið að eignast konu sem hefur langa starfsreynslu á 118 Þær vita allt ] [ Ljóðadís ég þekkti þig þegar að ég át kæsta skötu. Þá hvolfdyst andinn yfir mig eins og hland úr fötu. ] [ Einn bjór fyrir mig annar fyrir þig. Við erum svo sammála um flesta hluti. Bjórinn er sáttarsemjari sem er samt hægt að misnota því ber að hafa í huga að ræða málin eftir einn en ekki 5 eða 6 ] [ Allt er dimmt, ljósið dofnað, allt virðist vera ómögulegt og tapað. En guð segir: Ekki er allt glatað! Ég get ennþá blessað og lagað. Þó að ég geri mistök þá hefur Jesú greitt fyrir allt það sem að réttlætið krefst. Blóðbað var mér gefið fyrir það sem að ég gerði á jesú hlut. ] [ Hver á slíkt vilja verk er vonir deyðir hart. Á mig fellur sorgin sterk sem skot úr hlaupi kalt. Þúsund sinnum í þögn þráði ég þig að dreyma. Hlífið mér köldu rögn hér eiga vítis englar heima. Verði enn vor á ný þá vinnur lífið samt. Ég aftur að þér sný. Eitthvað er í fari vant kominn úr feigðar för. Freysting augnablika Ég vildi sátt og svör í stríði elds og svika. ] [ Gengur um ganginn grátbólgin mær gömul og guggin glensinu fjær Óhljóðin heyrast en enginn sér langt, langt í burtu við hliðina á þér Færist nú frá mér, fallegur sveinn hvílir nú hjá mér tandurhreinn ] [ Berst í briminu björt og hrein. Berst fyrir hinn batnandi heim. Fögur hún horfir hafið á. Hefur að baki hrottafull ár. Hljóðið hrynur hrauninu af. Blákalt brimið bítur í það. Bítur og bítur bjarta mey. Við dauðann þarf að segja nei. ] [ Ég er kominn alla leið, í einum rykk, glás á borðum beið, búinn að fá mér drykk. Kveðja! Krútti.. ] [ Er hann ekki yndislegur Er hann ekki dásamlegur ... hver ?? nú já veruleikinn Er hann ekki illkvittinn Er hann ekki öfgafullur ... hver?? nú já veruleikinn Undursamlega undrandi um hann er sagt. Skelfilega skelfandi um hann er sagt. Um hann verður aldrei talað ... hvern? ... hann ] [ Það er ekki eins og heimurinn snúist við Það er ekki eins og sólin hreinlega hætti að skína Það er ekki eins og tunglið falli hratt í sæinn Það er ekki eins og fuglarnir fljúgi aftur á bak Það er ekki eins og tíminn sé stopp Heimurinn er búinn að snúast við Sólin er hætt að skína Tunglið er fallið í sæinn Fuglarnir fljúga aftur á bak Tíminn er stopp Heimurinn minn hefur snúist við, hjartað mitt hefur splundrast... ... ég vildi að sólin myndi skína á ný ] [ ég þarf tíma þú þarft tíma - til að venjast mér eftir þennan tíma minn og þinn máttu henda mér í ruslið líkt og allir hinir á undan þér hafa gert gefðu okkur tíma ] [ Ein í óbyggðum Frjáls alein í annars manns landi Tilfinningin að geta öskrað AAAAARRRRRGGGGG eins hátt og ég get Og enginn mun muna eftir mér - á morgun er yndisleg ] [ Roger Waters sagði að hann byggði upp vegg á milli hans og áhorfenda Ég geri slíkt hið sama, verst er að ég er ekki fræg rokkstjarna. Ég hlýt að vera fræg rokkstjarna, Afhverju mynduð þið öll annars horfa svona á mig? ] [ Skuggar dagsins eru farnir hvert þá, veit ég ekki. Ætli þeir hafi elt sólin þar sem hún hleypur í kjekki. Ég stari ofan í tómt glas brosi og hlæ um stund. Fyndið er mitt rauða nef og hvað ég er léttur í lund. Það er vinna á morgun og mæta verð ég þar. Á morgun verður allt eins og það áður var. ] [ Fangi í fangelsi fangelsið er ég ég er saklaus hleypið mér út ég þarf að hleypa sjálfri mér út bíddu, ég er að koma ] [ far away in the lonely night sits a lonely girl with a shiny knife she’s hoping for someone that comes along and shows her the world and where to belong will you be her sheppard and most trusted friend? guide her through life untill the very end? laugh at her jokes and stroke her hair? open her mind to the sweet open air? will you be the one who follows and obeys? or the one who disgusts all and betreys? the one who lifts her heart up high? or burries her corpse with a sigh? these are all questions that truth won’t consume she still sits alone in her lonely room so far away ends another life as she reflects these questions in that one shiny knife... ] [ Ég vil-hjálm en ég fæ lúsuga húfu Ég vildi mjálm en fékk skitna dúfu Ég vildi gangverk, fékk lausa skrúfu Ég vildi hjálm en ég fékk skítuga húfu Ég vil-hjálm en ég fæ götóttan hatt Ég vildi löng kynmök en fékk það hratt Ég vil framsóknarleysi, ég segi það satt ég kaus vil-hjálm en ég fékk ónýtan hatt Ég vil-hjálm en fæ gömul eyrnaskjól Ég fékk haglél er ég vildi sól Drauma jakkafötin þau urðu að kjól Ég vil hjálm en fékk notuð eyrnaskjól Þú sagðir ,,ég vil hjálm” en þú færð sokk útmigna skálm og Framsóknarflokk þú vilt barn en ég færi þér smokk ég vil hjálm en ég fékk táfýlu sokk Ég vildi Dag og Silvíu Nótt Fékk næturóróa og dags hitasótt Vildi eitthvað fagurt en fékk eitthvað ljótt Vildi Dag en fékk Framsóknardauðasótt Ég vildi Svan-dísi en fékk ógeðfellt hræ Vildi hitabylgju en fékk kaldan maí Vildi töfrabaunir en fékk arfafræ Ég vildi Vinstri Græna en fékk stóriðjuhræ Ég vildi Frjálslynda en fékk framapot Ég vildi ávaxtasafa en fékk tréspíraskot Ég vildi vera áfram þurr en ég varð vot Ég vildi Frjálslynda en fékk Framsóknarpot Við 94% vildum hann ekki en fengum hann þó Við vildum hann aflífa en ekki hann dó Við vildum alla aðra í borgarstjórnarskó Við vildum ekki Björn Inga en fengum hann þó. Ég vildi Vilhjálm en vil ekki lengur Hinsta hálm-stráið það ekki gengur Hann er móðgun þessi falski áttundi strengur Ég vildi Vilhjálm en vil ekki lengur Ég vil ekki hjálm né nokkuð annað Verður ráðhúsið alltaf illa mannað? Er lýðræði ekki fyrir borgina hannað? Ég vil ekki hjálm né nokkuð annað! ] [ Oftast fer vel ef viskan ræður för, víst myndu líka batna döpur kjör. Stríð eftir stríð, stendur orrahríð, vitfirringa, sem villa heimskupör. ] [ Að doktorarnir drepi litlu börnin, dásama víst fjölmargir hér. Til bjargar öðrum bág er sú vörnin að biðja guð að hjálpa sér. Létt var fjandans fíflunum að múta, fá þeim varnarlausa til að stúta. Morðingjar síðan megna eigi að súta, að meiða fólk til örkumla og búta. ] [ Ég geng hægum skrefum. Ég er hrædd. Hjartað er kramið og sálin er döpur. Ég er hrædd við lífið. Hrædd við það sem gæti gerst. Hrædd við það sem mætir mér. Hrædd við að missa það góða. En hvers vegna að hræðast? Það er ekkert að hræðast. En samt er ég hrædd. Hrædd við að halda áfram. Hrædd um að gera eitthvað rangt. Hrædd við mig sjálfa. Hrædd við það sem aðrir segja um mig. Ég verð að hætta að hræðast. Það er erfitt. En eitthvað segir mér að það takist að lokum. ] [ nafn þitt er sem nýfallinn snjór vetrarins sem himinbjört nótt sumarsins sem ferskur andblær vorsins sem fagurgul laufblöð haustsins en samt einhvernveginn ekki. ] [ krafs og klór undir rúminu, hann er hræddur,það er niðdimm nótt. sveinnin kallar í mömmu,mamma segir sofðu rótt. En það gerir hann ekki því að þessa nótt munu djöflar rísa,englar falla og dauði kemur yfir alla. ] [ á internetinu þú hengur. aldrei þú út ferð né gengur. mamma þekkir þig ei lengur. þú ert tölvusjúkur drengur. ] [ hér er ég með eitthvað skrítið,lítið í bítið sem lítur út eins og það sem þið snítið en þetta er svo lítið að mér finnst það ekki lengur skrítið ég meina þetta er bara egg. ] [ lol í poka,lol í poka,lol í poka,lol í poka,lol í poka lol í poka,lol í poka,lol í poka,lol í poka,lol í poka,lol í poka, lol í poka... hvað er það? ] [ endurnar á andasandi anda eins og endurnýttar endur enda eru þær endur og tilbiðja anda anda sem þær kalla guð. ] [ það er soldið skrítið afhverju er þetta í röð afhverju má ekki segja 10,2,4,6,8,3,1 heldur verðu maður að segja 1,2,3,4,5,6,7,8,9,10 afhverju þessi röð afhverju ráða allir hinir hvernig þetta á að vera.Ég vil fá að ráða. ] [ Mold er ekki alltaf af hinu góða. En Stundum er mold fín Mér finnst mold ógeðsleg, Og kýs ég fremur að borða Kökur Mér finnst kökur góðar ] [ Mér finnst kökur góðar. Þær borða ég að staðaldri. Kökur gæti ég borðað í morgun mat. Að Borða kökur er gaman og skemmtilegt ] [ Ég hendi gjarnan perlum fyrir svín. Það finnst mér gaman. Og það finnst svínum líka gaman. Svín Elska perlur. Ég elska svín. ] [ Hann Haraldur er engum líkur Hann er ekki líkur pabba sínum. Hann er ekki líkur mömmu sinni. Haraldur er ættleiddur. ] [ Sigurður er kleinugerðarmaður. Hann hefur starfað við kleinugerð alla ævi. Þetta hófst allt þegar Sigurður var lítill Pjakkur. Þegar Sigurður var tekinn í kleinu. ] [ Brjálað að gera er í dag. Allir að kaupa Lottó og sígarettur. Sígarettur og lottó er það sama ] [ Þegar við erum úti þá rignir uppí nefin á mér. Fyrst að það rignir upp í nefið á mér þá getur allteins ringt uppínefið á þér. ] [ Oft er betra að fá kaffi sopa. Sérstaklega þegar þú þarft ekki að hella uppá hann sjálfur. Góður vinur gefur mér kaffi sopa. ] [ Sturta tómur niður úr klósettinu, heima hjá mér. Þarna var nú gott að sitja alveg einn og sér. Hef fengið það betra, en setan var köld. Laus við óþokkann sem ég át í kvöld. Ættlaði á stefnumót en lét það vera. Gnýsti tönnum. Þetta var bara eithvað sem ég þurfti að gera. ] [ Berðu fuglunum boð frá mér, um að þeim sé hollara að forða sér. Blístrandi eins og fífl, út í heiminn, Svo ef ég nálgast, þá þykist hann feiminn. Vaðfugla væl og urrandi vargar, ropandi rjúpur og stelkur sem gargar. Já komiði fuglar og vekið mig í fríi, ég skal gefa ykkur gjöf og hún er úr blýi. Dragúldinn vaknaður, segi ekki orð, Pýri augun, og í huganum föndra við huxana morð. Svefninn átti að vera mitt afrek í alla nótt. Ég bið ekki um annað en á meðan sé hljótt. Loðinn svanur syngjandi um ekki neitt, það skyldi engan undra þó það geti mann reitt. Hvítmjúkir maðkar skulu fá ykkur í nesti! já, þannig vildi ég helst fara með þessa óboðnu gesti. \"lóan er komin\" já voða gaman!!!! það væri í lagi, ef hún héldi sér saman. jæja svona fór þá um svefninn í þetta sinn, helli mjólk saman við kaffið, Þeim verður þó allavega ekki boðið inn. ] [ Ég veit ekki margt. En ég veit ég elska þig. Það er frekar fátt að vita. ] [ Mér sýnist garðálfur taka á sig mynd, í sólbliki trjánna og gleymdum hugarósi. Þetta var vissusaga sem ég hélt að væri fyrnd, En opnaðist nú að nýju í tímas ljósi. Og ljósið var forðum bjartari en nú, þráin svo sterk og vissan svo mikill. Við klettinn og trén skapaðist trú, úr leirkenndri mold upp í gullofinn hnykill. Í fyrndinni gróf ég mikinn sjóð, sannleikans vissa af álfum og fólki. Hann var þarna en á sömu slóð, ryðgaður haugur í pjátur hólki. Eitt er víst með vegleið manns, að trúin verður ávalt betri. með henni sjást augu garðálfans, þótt vegalengd væri kílómetri. ] [ Augun eru tóm innan í mér er ég dáin, síðan síðan ég missti þig næstum. Þegar ég strýk á þér feldinn og horfi í brúnu ljúfu augun finn ég hamingjuna sem flæðir yfir okkur og við brosum. ] [ Fótbolti er leikur sem sýnir samstöðu og frið og jafnvel kærleik milli þjóða Óvinir grafa stríðexirnar í sirka 90 mínútur þó eitthvað sé um pústra en á meðan leiknum stendur blótar maður því liði sem spilar á móti manns eigin og slík eru blótsyrðin að fólk í kringum horfir gáttað og trúir varla að svona ljót orð eru til maður gleymir öllu góðu sem prýðir andstæðinginn en svona gerist aðeins í hita leiksins ] [ Að falla á prófi er andleg dauðarefsing og vonbriðgin eru verri en helförin Mæli eindregið með að engin athugi hvernig er að falla á prófi því það getur valdið skammtíma andlegri lömum ] [ Myndin heillar hann, Falleg, viðkvæm og ein á báti. Hann leggur af stað; finnur fallega blómið sitt, svo vel lyktandi og gefandi Fallegasta pottinn fær hún og bestu moldina;hún blómstrar vel Vökvuð af umhyggju.. fyrst um sinn Hann sér fleiri blóm þær eru fallegri en hún. hann lyktar oghrósar þeim, á meðan hún fölnar í skugganum Potturinn ryðgar moldin þornar myrkrið færist yfir.. ..allt er orðið hljótt ] [ Geiri er frekar loðinn á bakinu. Reyndar er hann loðinn alstaðar. Ég vildi að ég vlæri loðin á bakinu. ] [ Það er dreki á háaloftinu hjá mér hann nærist á ljóðum og stórum orðum Vegavinnumannaverkfærageymsluskúrinn er uppáhaldið hans hann lét mig vera í viku og smjattaði og mumsaði í sig hefurðu nokkurntíma séð dreka slátra orðum? Það er ófögur sjón tennurnar rekur hann djúpt í bókstafina svo tætir hann þá í sundur svo þeir losna hver frá öðrum Eftir það jórtrar hann lengi þangað til bókstafirnir hafa leysts upp í munninum á honum eins og sykurmoli í munni barns Þegar hann svo tekur upp á því að naga í sig ljóð getur ekkert stoppað hann með óhljóðum kemur hann þeim að óvörum hann byrjar á stuðlum og höfuðstöfum þeir eru uppáhaldið svo nagar hann í sig allt rím ásamt sérhljóðum, samhljóðum og kommum þangað til ekkert er eftir nema punkturinn í lokin. ] [ ásýnd þín heldur mér taki hún er það eina sem ég hef, ég hugsa um þig á meðan ég vaki og dreymi þig þegar ég sef. Ótrúlega heitt ég sakna þín Því þúert hjartans ástin mín. ] [ Hestinn má enginn sitja, hann er minn, minn, minn, minn, minn. Ef þú vogar þér þá verður þú fljótt dauður, dauður, stein dauður. Sama hverja þú þekkir það, slíkt prjál mig ekki, ekki, ekki blekkir Ég á minn pening bús og mitt fé, skiptir engu, engu, alls engu þitt spé. ] [ Sjálfsblekkingin er þinn besti vinur sem bæði elskar þig og skilur. Hann er þér oftast sammála, og gefst fljótt upp á að mótmæla. Bakkus hann ósjaldan tilbiður að biðja um hans miskunn er orðin gamall siður. Þið þrjú eru alveg frábært lið, löngu búinn að gleyma öllu um andlegan frið. Fá’ðu þér meir’ þú hefur ekki haft það svo gott, að falla í algleymi er saklaust sport. Það skiptir ekki máli hvað þú gerir í dag enginn á morgun hvort er það man. ] [ Þeir félagar fóru yfir hafið, héldu sína leið, að heiman þeir fóru Sitt í hvorulegi en í samfloti þó, sigldu sinn sjó á fleytunum stóru Áður en að enda punkti var komið, varð svo vík milli vina, vandamenn urðu viðskila um stund, ekki var skeytt um hina. Sannaðist síðar hið seinna kveðna, sem misfrægur e.t.v. boðar: Alsnakinn og einmanna er hver sá er engan hefur til aðstoðar. Einn unni sínum hól sáttur og vildi hefja sláttur varð sjálfur sleginn Hinn það svo seinna sá, tók á rás og drapst því fljótt fyrsti peyjinn Njóta vildi nýja landsins, nýta vilja gæði hvar sleppti sandsins sem þó seinna stærri varð, en ekki sá hann ávexti alls randsins. ] [ Sársaukinn nístir í öllum beinum brakar og gnístir. Stingandi sviði syndgarar fá ekki að anda í friði. Úr hnjánum blæðir tár úr augum mínum flæðir. Fyrirgefðu mér faðir bænum mínum vil ég að þú svarir. Sætur bitinn Adam svikinn. Eilífðin svo löng erfðasyndin of ströng. Synd mín er þín synd sérðu ei að ég var sköpuð í þinni mynd. ] [ Maður eldar gerir fínt svo koma gestirnir éta allt þurrka sér í kodda teppi og stóla og maður situr uppi með allt í rústi og fær smá klapp á bakið fyrir sæmilega eldamennsku Það er ekki alltaf jólin ] [ Heim nú kominn kappinn er kófdrukkinn að vonum, lætur vini vita af sér og að varla sjáist þó á honum ] [ Á hverju kvöldi stend ég og horfi á hafið. Það hafa margir yrkt um hafið, sólina og þig. Ég tek hér því áhættu, og yrki um sjálfan mig. Ég stend á hverju kvöldi og horfi á hafið. Horfi á óvin minn sveifla honum til og frá. Sé hann draga úr honum lífið, hlægja af mér. Ég horfi á það á hverju kvöldi. Ég fylgist með honum biðja mig um hjálp. lít á hann og sé að hann er að fara. sé óvin minn draga hann í burt. Ég held ég hefði getað stoppað hann. Að bjóða óvini byrginn er ekki það sem ég hef. Ég er heigull og skræfa, það er það sem ég er. Ég stend því hér einn á hverju kvöldi. Horfi bara. ] [ Sumir deyja ungir, Aðrir gamlir, Flestir eru þó varla út sprungnir. ] [ Hugsanir mínar... eins og rondó detta alltaf niður á sama stefið ...og stefið er hún ] [ Ég hugsa um tímann og tímaleysi. Stundum held ég að ég hafi tímann í höndum mér. Stundum held ég að tímaleysi sé að hrjá mig. Ég efast um að ég gæti verið ánægð með lífið án tíma. En oft tel ég tímann vera mér grár. Ég hugsa of mikið um tíma, og hans mál. Ég lifi samkvæmt tíma, og má ekki vera of sein Stundum tel ég mig hafa unnið tímann og hafa grætt. Að græða tíma er eins og að vinna í lottó. Verst hvað vinningurinn endist samt stutt.... Ég lifi samkvæmt reglum og siðum fólks. Ég reyni að fylgja því og drekka ekki að stút. Borða ekki með höndunum, mæta ekki of seint.... Ég lifi á örlagatímum og hugsa um tíma og þjóð. Ég fylgist með pólítík og geri markmið og lög. Ég held stundum að lög séu mér hafin, og að keyra yfir þau á örtíma sé í lagi. Þá hugsaði ég nú rangt, og verð að fara til baka í tímann... Oh ef ég gæti hætt að hugsa í smástund, lifað í mínum eigin heimi, með eigin reglur og eigin tíma. Væri lífið þá ekki gott.. Yrði ég þá kannski allt of sein? ] [ Gallup hringir og spyr hvaða flokk ég ætla að kjósa Nú fer úr höfði mínu reiði að gjósa. Hvað ég ætla að kjósa, kemur ekki öðrum við en mér og sérstklega ekki þér. Eina ráðið er að láta stúlkuna heyra það, og væta örlítið góminn. Því svona litlar stúlkur skilja svo illa, svo ég neyðist til að hækka róminn. Að að tek ekki þátt í svona rugli, það sem ég kýs kemur mér einum við Að framsókn sé fyrir bændur, og ess og ex séu örlitlir frændur. Vinstri grænn mótmæli og mótmæli og við eina hundasúru græna ,gæli. Hvað á ég að kjósa, hvaða flokk tilheyri ég? Er ég svo blind að í gegnum ykkur ekki ég sé? Eruð þið svo æst í að bjarga okkar þjóð, að x við ykkar flokk ég merki og verð svo góð. Þið öll munið deyja er lag með Bubba. Pólítík lætur mig stundum vilja gubba. Það sem ég ætla að kjósa, lætur Heklu ekkert gjósa. Það sem ég kýs kemur Gallup ekki við, það er orðið íslendingum að sið. Það sem ég kýs er mitt eigið mál, ég frekar kveikji mitt eigið bál Það kemur engum við hvað ég ætla að kjósa, og síðan læt ég móðinn gjósa, Og aldrei skaltu hingað aftur hringja... du du du du.... ] [ Það er ekkert Sem minnir mig á þig Það er engin Mynd sem ég á af þér Það er engin Setning sem þú ert vanur að segja Nema “Hæ” Sé orðið okkar? Það er engin Sérstök stund sem ég féll Og ekkert Sem að ég gæti sagt Til að Breyta þér Því við erum Ekkert náin. En samt er ein Mynd af þér Sem situr föst Í minni mínu Þú brosir Líkt og Bakvið linsuna Sé ástin í lífi þínu En ég leyfi sjálfri mér Að reika um í draumi Og halda því fram Að þú horfir á mig ] [ ruð rósir í vasa er ens og blóð sem renur í mer ástin ég elska þig svo heit eins og sólin því að þú er mér svo kær ens og gul sem skin sætur ens sætabruað ruat er mit harta sprungið af ást af þer ] [ Stór og hröð skref, fyrstur á toppinn, en tók ekki eftir stjörnuhrapinu sem allir tala um. ] [ Nú lauk þrjátíu átta ára göngu um alheim með glimrandi stæl. Já, oft hefurðu staðið í ströngu, en stundum líka dansað á hæl. Hjá Afríkubúum ertu að vinna, sem ungfrú með ljósgeislabrá. Öllum reynir ætíð vel að sinna og alltaf mikið gefurðu þér frá. Óskum að þér gangi allt í haginn, afmælisveisluskál og þér til segi! Gesta þinna verði mettur maginn. Mamma þín og pabbi í Skálateigi. ] [ pabbi komdu aftu flót eg fildi þer út á brigu sá þig fara um borð og skipið sildi af stað en ég mist ekki von heldu kom eg á kverum dag og kvöld sat á sama sta og þega þú fórst og rula lög til þinn í von um að þú herir þau komir fir heim til minn því að þú rt besti vinnur minn siðan kom af því að þú hætir á sjónum ég glemi alldrei þem dag sem þú vektist því að eg vildi ekki fara frá þer mer finst þú eini sem skilur mig end sagna eg þin þú ert sá vinnur sem allir leta að þó að það sé ekki lánt á milli minn og þinn ein bær á milli enda þegr þú kemur í hemsókn vil ég ekki slepa þér ] [ Þegar allt er svart, ekkert til að elska, þegar allt er dimmt, ekkert að lifa fyrir. Hún tekur hníf, Hleypur út, ristir á sér hendurnar, grætur. Afhverju gerir hún þetta? Afhverju þessi leið? Til hvers að særa? Til hvers að gráta? Hún er inni, grætur, situr á stól, andlitið hilur. Gólfið rautt, hendur þakktar, fólk, hvaðan kom það? Það er sagt, að lífið sé planað, hvenar þú fæðist, hvenar þú deyrð. En ef, bara ef, maður vil ekki lifa, velur að stitta, klippa á spottan. Dagur skal að kvöldi renna, þegar tími hans er komin, þannig var það planað, sálin, sömu reglur, Ef klippt er á spottan, Sitja þarf þar til dagur manns kemur. Hún var heppin, blá ljós, allt í móðu, fólk, saumar. ] [ Kriss, krass, kruss, blóðið lekur, öskur, andardráttur, grátur, á gólfinu situr. Þekur hendur rauður litur, blóðið drýpur, Þekur jörðu rauðir pollar, Grætur. Í hvítum nærfötum, líkt og engill, svo falleg, svo hrein. Kriss, krass, kruss, blóðið lekur, Hún er aðeins fallin engill, kvelst, fyrir eigin mistök. ] [ Ef maður getur ekki talað, getur ekkert sagt, málar á blað, ekkert breytist, skrifar á blað, ekkert breytist, grátur, sorg, sjálfsvorkun, ekkert breytist, reiði, barsmíðar, lyf, orð, áfengi, ekkert breytist, Missir stjórn á sér, sker sig, horfir hræddur á blóðið, sem drýpur, Hvað ef manni mun aldrei líða betur? ] [ Þú ert eina ljósið í lífi mínu, þú er það sem að heldur mér gangandi, en ef ég missi þig, ef ég týni þér, þá veit ég ekki hvað verður um mig. ] [ Árdagssólin kossum kyssir, kreistir örmum og vefur og vísast sá af mörgu missir er morgunn lúrir og sefur. Menn geta aldrei verið vissir varðandi allt sem hann gefur. ] [ lítið nef skalli og slef blautur koss augu í kross skítableyja og mér þykir vænt um þig ] [ Ef droparnir gætu dansað Þeir dönsuðu fyrir þig Ef sólin gæti sungið Hún syngi fyrir þig Ef vindurinn gæti hvíslað Hann hvíslaði í eyra þér, Fyrirgefðu frá mér ! ] [ Skýjuð minning af kossum þínum er soguð inn í smók af sígarettu. Fölsun löngu týndra drauma er blásið burt með reyknum. Orðum þínum negli ég eins og nagla í gegnum hlustirnar og leyfi gjörðunum að flæða út um sárið. Múrsteinn úr sviknum loforðum lemur höfuð mitt og hugsunin stöðvast. Rödd þín þagnar ekki - hvað þá myndin af þér svo ég geri þig að sígarettu sest út á svalir og leyfi Þér að flæða út í kvöldið. ] [ Fallegar lygar eru og verða alltaf lygar Sannleikurinn er sár en nauðsynlegur Hangandi í lausu lofti fjöður sem fellur án þess að nálgast jörðina fellur til jarðar hægt og bítandi án þess að nokkuð breytist Ekkert nema bitur óvissan Hent á loft án vissu um lendingu vissu um öryggi án alls -nema óvissunar fallegar lygar tryggja ekkert ekkert nema efa og óvissu. ] [ Stjörnurnar vikna stef mitt hjartað svíður, brár mínar blikna brátt tíminn líður. Megum við senn minnast að áttum ástarfundi, hjá laufgrænum lundi. ] [ Margvísleg eru nefin og mörg koma í þau kvefin. Með rennandi hori á ísköldu vori umlyktur í horvefinn. ] [ Ég sit við bálið og ylja mér á meðan laufblöðin falla af trjánum og vindurinn feykir þeim um allan garð. ] [ Þegar sólin sest bak við sæinn Siglir skúta á eldrauðu hafi Í grasinu droparnir glitra Svo margir, og stjörnurnar líka Morgunroði yfir fjöllin gægist Hún kemur Þegar amor sínum örvum skýtur Sól, himinn og jörð titra Örlögin fær enginn flúið Ástina, kærleikann og lífið Hann hittir Hann hittir, aftur og aftur Milli hans og hennar Hafið sínar öldur sefar Sólin geislar sinni fegurð Með tærum daggardropum Amor sínar örvar gefur Hann kemur ] [ Það er válegt vandamál volæðisfíkla að telja alla aðra en sjálfa sig sýkla en minna svo sjálfir á skugga skýjanna sem sjá sólarbirtuna en reyna að flýj´ana Jú menn vafra fyrst um í villu vegar og syngja vonleysis blús við vísur tregar en ranka við sér og vakna þá þegar þeir líta upp og sjá sér verur jafn fallegar Því að nýtt – blítt kvennmannsbrosið bjarta brætt getur saman brostið hjarta og mönnum finnst þeir ekki vera samfélagsbyrði og sjá að þeir eru vel þjáningar sinnar virði En steypast svo í sorgir - stungnir sárir vegir ástarinnar þyrnum stráðir en menn bera varla sanna ást úr viskubrunnunum né finna réttu rósina nema stinga sig á þyrnunum í runnunum. ] [ Menn fæðast í dag, til að fræðast núna fagna svo á morgun og gera sig farbúna og höfin eru lygn og sólin á þau skína og menn geta séð sál sína ef þeir rýna í djúp hafsins eða á fljótandi norðurljós og finna svo að lokum sína fegurstu rós Æskuárin líða og hin fögru blasa við menn finna ástina og sinn innri frið og það birtir til og þér stekkur bros á vör þú finnur lífsins tilgang og þín eigin svör í djúpi hafsins eða í skínandi stjörnunum sem mynda mynd af þér konunni og börnunum En að lokum sitja allir við sama borð hver og einn fær jú að tjá sín hinstu orð missáttir sjálfsagt við lífsgjörðir sínar svo nýttu vel allar stundirnar þínar en drjúptu ei höfði þó að af þér dragi lífið er eins og Drangey – fegurst í dimmrauðu sólarlagi ] [ Þegar ástin bregður fyrir þig fæti svo þú liggur kylliflatur og rjáfar svo um í rænuleysi og talinn ert dauðansmatur þá rífðu þig upp og hugsaðu rational, neoliberal eða postmaterial Því það fær enginn frið í flárri veröld fíflaður af ást og hafður að háði ,,Háður hinum helmingnum af sér\" já bara alls ekki með réttu ráði svo rífðu þig upp og hugsaðu rational postmodern eða postmaterial... eins og Gunnar Dal ] [ Þegar brennt hefur allar brýr að baki þér og aleinn kyrjar borgarblús og ljósastaurarnir eru þeir einu sem lifa því þögnin og myrkrið lýsa upp þessi hús (Kór: ) Þá viltu fá borg þína beint í æð brunaðu í myrkrinu – upp á Vatnsendahæð En þegar nóttin reynist fullkomin frá fýsunni flautandi gengur á brott og allt það sýnist svo alsælt og í andlitinu leynist Sólheimaglott (Kór: ) Jú þá viltu fá borg þína beint í æð svo brunaðu í sólarlaginu – upp á Vatnsendahæð Loks þegar blákaldur veruleikinn blasir við en þú botnar samt ekki í neinu þig vantar visku – jafnvel allt vitsmunalíf en þú vilt jú hafa þitt á hreinu (Kór: ) Þá veistu hvar visku þú færð beint í æð vinur þú finnur öll svörin – upp á Vatnsendahæð ----------------------------------- Þegar heimurinn loks hann hlær að þér heift hans skín í gegn hundurinn yfir þig, léttir af sér og það hamast á þér þetta íslenska regn (Kór:) Og þér finnst ei svo fráleitt að skera á slagæð Þá eru fáir staðir betri fyrir slíkt en Vatnsendahæð. ] [ Deyfðu djúpfjólubláu ljósin dansa af ástríðu við spegilinn draga línur í einmana andlit og fram það besta við drykkinn minn Djúpur þunglamalegur kontrabassinn bláar tilfinningaríkar píanónótur seiðandi og framandi takturinn söngvarinn jafn einlægur og hann er ljótur Leikið á þessar brostnu vonir lífs míns losið mig við fortíðina um stund lýsið upp ókomna leið mína leiðið mig á framtíðarfund ...Hér þekki ég engan... ...hingað hef ég aldrei komið... ...þetta hef ég aldrei heyrt... ...en hér á ég svo sannarlega heima! ] [ Litlar stjörnur um himininn svælast, Skýin breiða út vængjum sínum, Regnið dembir dropum niður, Sólin brýst í gegn og bræðir allt. ] [ Í stormi og brotsjó eða sól og hita stóð vonin sem dó en lét engan vita. Vonin sem starði sem allir virtust gleyma sú sem mótlætið niður barði því enginn lét sig dreyma. ] [ þau horfa á mig meðaumkun huggun vilja hjálpa mér bjarga forða vita ekki um mig og þig okkur tvö bjánarnir ] [ Töffarinn teigaði dropann Kaldur sem stál að nóttu Feicið er kúl án brigða Hver er hann Hipp og kúl er æði Buxurnar á hnjánum Ég sjálfur, ég sjálfur Ég digga mig, hver ert þú ? Bjáni með andlit Gríma töffarans Andlit án svipa Sannleikann felur En hver er hann Hvar er sannleikurinn, Hjartað sem slær og elskar Augun sem aðdáun veita, Sálin sem þráir að treysta Því þannig er hann, Bak við grímu töffarans. ] [ I miss you more than you know why did you leave? how could you go? All I can do is think about you just come back is that to much to ask? I love you really I\'m being true I know you love me to so please come back to me. I miss you so damn much!:* ] [ Hjartað sem hætti að slá Augun sem hættu að gráta Sálin sem fór á stjá sem af jarðlífinu vildi láta Hverfa úr nættinu svarta frá öllu því sem fór miður. Svífa um himininn bjarta þar sem ætíð ríkir stóískur friður. ] [ Tilfinningarnar sem um líkama okkar flæða, eru þér allar í hag, þér, sem ert ekki hér í dag. Nú ertu vængjaður engill á sveimi, sennilega sá eini þinnar tegundar í þessum heimi. Fallega brosi þínu aldrei ég gleymi, það bræddi sig í hjarta mitt og þar ég það geymi. Veröldin virðist oft vera grimmur hundur, sem, þegar við eigum síst von á tætir hjörtu okkar í sundur. Það skítur bara svo skökku við að þú hafir á undan okkur staðið við himnana hlið. Með andlitið bjart og brosið svo breitt, hleypur þú um í huga mér en stefnir ekki neitt, horfi til himins \"mér þykir það svo leitt\" Einhver hinumeginn stefnulýsir þér leiðir þig nýja veginn og útskýrir það sem fyrir augum ber. Fjaran er sandur með fuglana slóð, lífið er fjara og senn kemur flóð. blessaður vertu vinur að sinni en þú munt ávalt eiga pláss í minningu minni. Í huganum við plötum okkur með að lífið sé lengi að líða, en sannaðu til þess verður ekki langt að bíða, að komum við og fáum aftur að líta andlitið þitt frekknótta fríða. ] [ Líf mitt einkennist af járni og eldi ef þú tekur járnið og heldur því við eldinn þá bræðir þú mig. Seinna meir verð ég endurunnin í eitthvað annað,kannski ég verði hjólkoppur. ] [ Sötra framtíðar vísindamenn tveir trúarbragðasjeik hyggst annar lækna efnið en hinn andann rímar annar úr sér garnirnar - hinn truflast í spurningarleik með ofurgreindarvísitölu - vita allan fjandann Sigrar annar ljóð dagsins en hinn prófið sigra að lokum heiminn og sjálfan sig setjast árlega á alþingisbekk en leiðist málþófið smile-a er hvunndagsraunirnar ríða þeim á slig Pie Jack setur upp kúrekahattinn og klárar trivalbökuna klárar hana alla sjálfur þó súr sé, frá ´85* Geifuglinn portúgalski galvaski bíður með aftökuna tekur slim-ljóðatöflur án þess að fara í orðagym (og segir simsalabim) Sest loks sól við sötur hljóð þeirra við Íssel signa sig báðir og líta í átt að hjarta semja ljóð um fögur fljóð, sem rífa hvort hjarta þeirra í parta uns hin mjóslegna Marta spyr ,, hvað eruð þið vísindamennirnir að kvarta?\" svara: ,,við vorum að þýða með rími á latínu innihald Magna Carta\" -svo gráta þeir saman banana og lakkrís tárum. --------------------------------------- Þerra loks krókódílatárin og tölta á skjótum sínum af stað á Pie Jack setrið - horfa á systur Hönnu og hana sjálfa skyldi myndin fjalla að venju um framhjáhald, skilnað og annað tað og skyldi Woody Allen leika aumingja með renglulega kálfa? - og rétt áðan var höfundur glaður en er nú orðinn pirraður við tilhugsunina, því honum er mjög illa við Woody Allen og neyðist því til að yrkja illa um hann - í allri þeirri merkingu sem felst í því yrkja illa um e-n. (Og nú ómar í höfði höfundar ,,Nei, ertu geðveikur - Woody Allen er algjör snillingur\"... en ég segi: ,,Púúú á Woody Allen! - Púúú segi ég!\" ] [ Drýpur af Daðsteini djúpsteiktur kynþokki og viska fýsurnar eftir djúpsteiktri risarækju hans fara að fiska á brokki hans óþokki í stórum smokki á gat tekur að giska gerir tvö að einu og borgar að lokum háar bætur miska ] [ yfir gröfinni grasið grær grasið hreyfir mildur blær augnstungið húsið horfir út fjörð hylur það brátt, hún móðir jörð ] [ Hans myrka slóð var mörkuð brostnum hjörtum barna er báru traust og trú til hans. Og þó að áratugir hafi tifað frá tíma þessa auðnulausa manns þá enn á banaspjótum berast hjörtun. og blóðið leitar æ í sporin hans. ] [ Ástin grípur utan um mig og heldur mér fastri. Samofin örmum þínum sem strjúka hjarta mitt og mjúkur kossinn kitlar. Gömul ást að kolum orðin. En glóðin geymist í hjarta mínu. Þú tekur í hönd mína. Ég brosi. Lífið leikur við mann. ------ Leikurinn kláraðist. Ég tapaði. Með ástina að trompi -Ég gleymdi að spila henni út. Nú sit ég uppi með hana í hausnum. Því þú tókst hana úr hjartanu þegar þú sagðir \"Neistinn er kulnaður-\" ] [ Lára Þöll er ömmuljós ljúfust allra barna. Móðir hennar Myrra Rós er mín augnastjarna. ] [ Komdu litla ljúfan mín leiddu ömmuhendi. Með rauða skó, á fótum fín fegurst, Guð þig sendi. ] [ Brosmild heilsar Spyr að nafni Býður kaffi Segist þurfa að drífa sig Hitta eiginmanninn Ég kveð með tregðu Ætla með blóm á leiðið hans afa Lítil tár læðast niður hvarma Vertu bless amma ] [ Meðan þú bíður eftir að það frjósi í helvíti stend ég og horfi á steinanna gráta myrkrið faðmar mig og leggur mig í hyldýpi og þar hitt ég þig ] [ ég held niðri í mér andanum horfi á símann hringi samt ekki og hann er þögull ég anda frá mér aftur horfi á símann hringi samt ekki og fer að ryksuga heyri ekki í símanum þegar hann hringir ] [ lyktin af þér er ógeðsleg svo ég kúri mig í koddann óbragðið af þér dvelur á tungunni losna ekki við það þú heldur utan um mig og ert andfúll elskan ] [ Á hestamótunum gerast menn glaðir. Graðfolar þar títt úr hófunum skvetta. Bjórdósir gestirnir opna handahraðir og hendast vegalengdirnar á sér létta. Já, líflegt var á Landsmóti hesta og löptu menn þar bjórinn að vild. Vingjarnleikinn vildi þó bresta, en Víkingasveitin róaði af snilld. ] [ ég hugsa og hugsa hugsa bara um þig hugsa um hvernig fólk getur hugsað bara um sig þegar það getur hugsað um þig ] [ Lítill gutti brosti út að eyrum eftir að hafa sigrað bæði hús og ljósastaur í hoppukeppni Það fylgir ekki sögunni að hann vissi ekki að svona dauðir hlutir kynnu að hoppa en hann lifir sáttur með það í huga að geta hoppað hærra en hús og ljósastaur ] [ Þegar eitthvað er að, hjartað aumt og blóðgað, þá getur Jesú tekið það, gert það ljúft og friðað. ] [ Ég er svo tóm án þín þó við höfum aldrei sést ég þekkti þig ekkert þó ég hefði átt að þekkja þig best ] [ astin eg beid i 12 langa daga eftir ter eftir tennan langa astarveg hugsadi tegar u varst med mer helt ad eg gaeti treyst ter Hoppadir strax i annann veg meda eg heima beid eftir ter hugsadi hvad u varst ad gera eda hvad u varst ad fela aldrei datt mer i hug ad u myndir etta mer gera ad u hafdir tessa ljotu illu ad bera eg get ekki truid tessu enn en ekki geti eg tad mer kennt ] [ Ef báturinn kemur ekki með mig heim, Sendir mig eitthvert útí geim. Drukknandi í sjónum ég syndi, Og hugsa um þig, mitt fagra yndi. Syndi eins og ég get, Samt ég færist ekki fet. Sjórinn teygir sig yfir mig, Ég sakna þess svo sárt að fá að sjá þig. Hjálpaðu mér upp, ég er að drukkna. ] [ Hún er svo viðkvæm svo lítil og nett. Ég óttast að hún brotni ef litið er of fast á hana. Svo gerðu það fyrir mig að horfa blíðlega á hana. Það er svo sárt að þurfa að týna brotin aftur upp af kaldri steinsteypunni. ] [ Undir verndarans væng Sit ég og horfi á himininn bláa. Sé litlu englana mína kúra undir hlýrri sæng, Sé augun þeirra gljáa. Undir verndarans væng ég er komin Þar ég örugg er. Líður eins og ég sé í köngulóavef ofin, Langar að vita hvert ég fer. Get ekki sætt mig við að vera hér uppi Sit bara hér og horfi, Á prestana í hvítum kuppli Blessa litlu kofana úr torfi. Þakka ég nú samt fyrir að dvelja hér, Hér uppi hjá þér. ] [ Ef þið getið lagt mér lið lagast vísnaskakið. Gagn ég hafði almennilegt mið, og ekki fór allt í lakið. Oft er gleði horfinn harmur, sem heltekur líðandi stund. Áður yljaði þrýstinn barmur á íturvaxinni sprund. Ógnarstjórnar ægivaldið elda sína kindir vel. Undir ríka mokar íhaldið, en öryrkja sveltir í hel. ] [ Blika ljósin, upplýst bergið kyssir sæ, um bæinn vefjast rökkurtjöldin. Stjarna raular lag í silkimjúkum blæ, söngvaskáldið tekur völdin. Svífa hljóðir yfir sænum mávar þrír, sælir fljúga í kvöldsins eldi. Mild er æskan, margur þráir ævintýr, mætast ástir seint að kveldi. Nótt, við bergsins bjarma hljótt, býður ljúfa stund, við hamraborg og sæ. Nótt, já læðist ljósanótt, létt um byggð og ból í Reykjanessins bæ. [2006] ] [ Ég ætla að hlusta á þetta lag Þar til hendur mínar hætta að skjálfa Og augun mín hætta að tindra Þar til myndin af þér hverfur úr huga mér. Því augu þín standa föst Í heilanum á mér Og allt sem þú sagðir, hvert einasta orð Er heilagt fyrir mér. Ef ég reyni að sofna Þarf ég að gleyma þér, En ef ég vaki Gleymi ég þér aldrei. Og ef mig dreymir þig Gleymi ég draumnum á morgun. Ég ætla að horfa á þessa mynd Þar til fiðringurinn fer úr maganum á mér Og varir þínar hætta mig að tæla Þar til lagið hverfur og gleymist. Því hlátur þinn ómar enn Í heilanum á mér Og allt sem frá þér heyrist, hvert einasta hljóð Er heilagt fyrir mér. ] [ Ég vil hlaupa berfætt um holt og hæðir og njóta ásta í þúfunum í túninu og syngja ættjarðarsöngva og hnýta krans úr blómum í móanum og synda nakin í svölu vatni upp til fjalla og náttúran og ég verðum eitt. ] [ I’ve got butterflies Little butterflies Flying around, all around And your face keeps popping up In my head, my flying head. Bought a guitar And a microphone So I could sing you This little song And fly with you Up to the sky Take your hand And go up high Drink away All doubts and fears And fix our hearts With magic tears Hide away All of my pain And kiss your lips In the poring rain I’ve got a smile A smile upon my face Because of something, something new And I can’t take away my hand It’s holding so tight, on to you. ] [ ég hef samúð með Hróa Hetti sem stendur með þaninn bogann í Bankastrætinu og heldur að hann sé baktryggður af almúganum Hrói hefur staðið þar alla tíð síðan Skíriskógur var höggvinn og hefur ekki enn fengið þau skilaboð að fógetinn flutti alla bankana til útlanda gengistryggði verðbæturnar og fyllti fjárhirslurnar af ávöxtum smælingjanna sem standa bljúgir við grátmúr Alþingishússins og biðja um skuldbreytingarlán eða marða banana og epli án aukakostnaðar ] [ Took a look at old pictures And remembered old times Found my favourite neckless Been carrying it ever since Saw someone just like you, today Could have sworen it was you But he didn’t have the same blink As those overdozed eyes You were always the first one The best one, the worst one The one that disappeared. ] [ Hann gekk sem lítill vindur lár í svörtum skóm, með hrokkið hár í sorg sinni hann gekk um sinn með tár í augum, rjóður í kinn Langur tími lengi leið og ekkert breyttist þar um skeið Hann fór þá inn á lítinn bar og reyndi'að drekkja sorgum þar Morgunninn í garðinn gekk og ekkert hann út úr þessu fékk Að hanga inn'á litlum bar sem ekkert vit þar fengið var ] [ Walking thousand miles as tired I can be. I’m walking the road again, because your not here with me. Can’t you see that I’m crying? Why can’t you just be here and hold me ´cause I need it. I’m on my own again and I’m feeling so alone. I want to hear your voice but I can’t pick up the phone. Why’s the life so confusing? Can’t I just say to you that I’m sorry? ´cause I mean it. I didn’t ever think about how the love could be so hard I see I’m really losing you and it’s tearing me apart Why can I just stop crying? What can I say to you, please forgive me ´cause I need you. ] [ Er báturinn vaggar hægt um sæ, Hreyfist taktfast með ilmjúkum blæ. Róast ég niður, Því engar eru ölduskriður. Ruggandi báturinn vaggar um sæ, Vaggar í takt við ilmjúkan blæ. Hann siglir brátt að höfn, Í höfninni bíður mín fagra Sjöfn. ] [ Merkilegt með losta hann læðist að þér við minnsta tilefni á kaffihúsinu á götunni á netinu og þegar þú lætur undan fyllist hugurinn girndar sem erfitt er að stjórna og tilfinningin umlykur þig þú vilt meira en bara í huganum því þú ert í föstu sambandi ] [ Sóknarprestar landsins sameinist! Karlmenn þjóðarinar þurfa áfallahjálp vegna þess að HM er búið Jafnvel stórir og sterkir karlmenn gráta í koddann sinn á þessari stundu Grípið inn í áður það verður of seint ] [ Opna augun og lít til hliðar hin hlið rúmsins er ósnert stari á loftið og legg hönd mína á tómu hlið rúmsins það væri ekki slæmt að hönd mín myndi snerta stúlku ég myndi ekki kvarta en er samt sáttur við að svona stundir gerast æ sjaldnar að liggja aleinn er gott því þá ýtir engin við mér eða stelur af mér sænginni ] [ eg hef verid astfanginn einu sinni tad var ast vid fyrstu kynni tad var gaman a medan henni stod svo kom sorgin og taraflod Eg se alls ekki ettir henni tad er gott ad laera nytt en honum ei eg kenni ad hjartad mitt er ordid aftur hlytt ] [ ég horfi út um gluggan minn og finnst sjá allan heiminn ég kalla hátt á hjálp en mér finnst eins og enginn heirir nema allt sem ég hugsa og allt sem ég geri er geðveiki mín ég hleip af ótta en eina leiðin sem ég veit um er til þín hjartað mitt er að springa úr reyði við það sem þú gerðir mér allt sem þú segir er bull en því miður trúa allir þér ég hef oft hugsað hvað gerist ef ég bara fer því einginn veit hvernig ég er inn í mér ég er stelpa alveg eins og þú þú varst eina sem ég gat treyst á en hvað get ég gert nú var þetta allt sem þú vildir fá En kanski verður maður að læra að fyrirgefa og sætta sig við þetta þó þetta særði mig mikið og þetta var miklu verra en bara að detta En í dag er ég sátt með allt sem ég á því það er ekki allt hægt að fá núna sit ég og hlæ af þessu öllu bulli í gamla daga þetta var kanski ljótt en verður kanski góð hrillingsaga afhverju að velta sér upp úr því gömlu afhverju byrja ekki bara upp á nytt ] [ inn í dimmasta helvíti reyni hátt hjálpina ég kalla ég reyni að standa upp en finnst ég alltaf niður falla sé ekki ljósið sé ekkert gott líf mitt er bara stopp ég er brotin manneskja og enginn það sér brosi bara þegar sársaukin kremur hjatað inn í mér þetta er alltof sárt en ég get ekkert gert reyni að forðast það en það eltir mig hvert sem ég fer en sárskaukin er að taka yfir mig og láta mig hætta að hugsa um þig og hann ætlar að láta þetta hverfa því ég er algjör herfa eitt band og smá tár og þá er þetta búið hjartað mitt meikar ekki meira enda er það orðið lúið tel einn tveir og þrír bless farinn burt og sit enn fast í hélviti þetta var ekki lausnin hjá mér ví ég sit alein í mirkrinu og bíð eftir þér einn dagur er eins og mörg ár að líða og ég meika aldrei svo lengi að bíða kanski á maður að hugsa áður en að gera það þess vegna bjó ég til þetta sorglega lag því að aðrir geta hugsað þó ég gat það ekki ég veit að margir eru með hjartað sitt í kekki En afhverju ekki að bíða því það er alltaf ljós þarft bara labba lengra þangað til að þú sérð rauða rós þá veistu að þú ert alveg að verða kominn heim og þá get ég farið að svífa um allan geim ] [ inn í hugarheiminum ég svíf og horfi í gegnum mitt gamla líf veit núna að minn tími er kominn sársaukinn minn er gjörsamlega horfinn sá þessa litlu sætu stelpu hlæja allan daginn var svo hamingjusöm og þekkti vel allann bæjinn sá hana stækka og þroskast og ganga svo vel allt þetta sá ég á einni mínótunni allt sá ég sem var gott og vont en það var ég og ótrúlegasta var það sem ég gat séð allt sem ég gerði og öllu ollu sem ég var búinn að gleyma það ég sá hefði ég vitað að ég ætti svona stuttann tíma hefði ég gert allt annað þá afhverju að eiða lífinu sínu í svona mikið bull og gera margt sem er bara vitleisa og rugl en núna svíf ég um eins og lítill fugl og kvísla að þér að gera annað sem er ekki bannað og njóta þess að lifa en ekki hugsa svona þú ert alveg eins og ég bara ung kona ekki eiða lífinu þínu strax heldur brostu út í heim farður frekar heim og segðu þeim hvernig þér líður og fáðu hjálp og stirktu þig því þú minnir mig svo alltof mikið á mig þess vegna vil ég reyna að hjálpa þér en þú verður bara að ganga með mér þú sérð mig ekki en grætur mer við hlið og óskar á kverju kvöldi um smá frið en ég veit að þú ferð að líða betur en nú þú verður bara að lifta hofðinu og vera þú því þú heldur að enginn mun skilja þig það sama hélt ég alltaf um mig stattu bara upp og horfðu beint það er ekki orðið of seint ] [ Ætli það sé til einhver vörðuð leið heim, hvað er eiginlega heim? Ætli að það sé einhver sem að bíður eftir mér, hver ætti það þá að vera? ] [ ég sé... fallegt brosið ég sé... svarta síða hárið ég sé... í djúpu augun ég finn fyrir... mjúku hörundi þínu ég finn fyrir... þér ég finn fyrir... óbærilegum söknuði ég heyri í.... Þögninni með þér ég heyri í ... okkur ég heyri í... börnum ég sé... Þig bara þig ég sé... þig í fangi mínu ég sé... mig ekki án þín ég heyri í... andardrætti ég heyri í.... röddum ég heyri í... okkur hvísla orðin ég elska þig ] [ Hinn er sanngjarn Hinn er hatgjarn Hinn er einlægur Hinn er fjarlægur Hinn er duglegur Hinn er undarlegur hinn er einbeittur hinn er íllskeittur Hinn er góður Hinn er grófur Hinn verður ástfanginn, glaður Hinn verður hugfanginn, graður Hinum líður vel Hinn með sálina í mél Hinn segir ég skil og sé Hinn segir hinn er ég ] [ það er svo sárt að segja bless bæla tárin og vera hress brosa og faðma eins og mesta smeðja einfaldlega vegna þess að það er sárt að kveðja þetta er víst bara spurning um vilja en eitt á ég erfitt með að skilja að vita af þér annarstaðar þegar ég vakna en það máttu vita- að sárt ég þín sakna ] [ i\'m sorry for what has to be done i didn\'t exspect for this to become a reality - not so clear to me i can\'t believe you don\'t see, how much you really mean to me. my life has taken quite a turn, i\'m so afraid i\'ll crash and burn, plz just try to understand, the cards i hold in my hands. ] [ ég þekki ólíkar systur tvær önnur dökk, hörð og köld hin er ljós, róleg og tær sú ljósa líkt og dagur, hin er kvöld þær búa saman í litlu koti sú ljósa elskar lífið og daginn hin dökka húkir og bölvar úr dimmu skoti þær eru ólíkar þær systur, hugsa sér ólíkan haginn sú ljósa vill syngja og dansa sú dökka heimtar myrkur og hræðslu sú ljósa hlær og fléttar blómakransa sem sú dökka stelur og fleygir til bræðslu systirin dökka litla kotið hatar systirin ljósa unnir sér betur og berst hvað hún getur systurnar sitja tvær saman sú ljósa og sú dökka en enginn þær sér því þær rífast, berjast og búa í mér ] [ þú ert bjarta ljósið í draumum mínum og hefur um eilífð dvalið ég finn sálarró í augum þínum en eitt hefur nagað mig og kvalið að eftir svo langan tíma er það svolítið undarlegt að ég geti ekki fundið síma til að segja þér -að hitta þig var ómetanlegt ] [ þú færðir í líf mitt ljósið bjarta en nú hniprast ég ein í dimmunni ég ber á baki mér sorgina ein og yfirgefin og tárin renna líkt og fljót í draumi og vöku varstu líf mitt en nú blasir martröðin ein við með þér var eilífðin aðeins smá stund ég og þú við vorum eitt en núna er ég ekki neitt aðeins ég ein veit hve sárt ég sakna að dagurinn byrji þér við hlið en það er allt minning þegar ég vakna því að aðeins ég ein veit hve sárt ég sakna að heyra þig bjóða góða nótt ef aðeins ég bara fengi aftur eina næturstund þér við hlið ] [ nobody nobody special thats who I am when you\'re a nobody you can\'t talk you don\'t have a right to be heard you don\'t have an appinion you don\'t have feelings you\'re just another body in the crowd nobody special isn\'t supposed to be loud you shouldn\'t breath you shouldn\'t live you\'re a plaything for someone to use physically, sexually, mentally abuse you\'re filled up with lies that\'s you purpose your hair is soft, yor lips feel nice it isn\'t true it is a lie you should be melt down like a cube of ice then you\'d turn into water transparent invisable a nobody shouldn\'t be seen a nobody shouldn\'t die he doesn\'t diserve it you may think it lame just a game? but a nobodys life is torture and pain ] [ ég sé... fallegt brosið ég sé... svarta síða hárið ég sé... í djúpu augun ég finn fyrir... mjúku hörundi þínu ég finn fyrir... þér ég finn fyrir... óbærilegum söknuði ég heyri í.... Þögninni ég heyri í ... okkur ég heyri í... börnum ég sé... Þig ljóma ég sé... þig í fanginu ég sé... lífið ekki án þín ég heyri í... hjartslætti ég heyri í.... röddum ég heyri í... þér hvísla ég elska þig. ] [ Eldgamla Ísafold; erindi 1 Verður: Eldgamla Ísafold, ástkæra fósturmold, fjallkonan hvít. ... júní 2004 - Reykjavík ] [ Lágt suð raki í lofti dropar á blómum -alveg eins og á morgnanna. Göturnar eru tómar það vill enginn ganga úti í rigningu þó er ein og ein hræða og svo bílarnir sem fólkið felur sig í. Gangstéttin er svo vot að á henni sést engin rigning, en á götunum gárast pollarnir af tárum guðs. ] [ Augun svo tær augun svo skær, söknuður mikill ég verð brátt ær, dagur sem ár, fallin öll tár, þessi sár, gróa á ný. Draumurinn sá að sjá þig á ný fellur nú djúpt inn í kolsvart skí, hugsunin þá færist mér frá, þá hjartað í mér hættir að slá. Hertu upp hugan ástin mín, brátt kem ég aftur heim til þín á þessari öld því mér finnst hún köld. Augun opnast draumurinn hverfur, engin veit hversu djúpt hann sverfur. Draumur á enda sagan er sönn, úti er sólskin og mjallkvít fönn, nóttin var erfið og myndin af þér, situr nú föst inni í höfðinu á mér. ] [ Ástin okkar bauð okkur inn, Því við vissum ekki betur en að þetta væri byrjunin. Ástin okkar gefur allt nú er hún farin og það er orðið kalt. Svo kemur svalan hægt, horfir hægt, brosir hægt og segir hægt… …ástin okkar í þetta sinn, verður þetta að vera…endirinn….? AFTUR LÍF! ALLTAF, AFTUR LÍF! ] [ Sundlar eins og í sjöunda bekk Skotin í fyrsta sinn Skrifaði nafnið þitt á spássíuna með hjarta yfir i-inu ] [ Það er há flóð á himni hvítfextir bólstrarnir espa upp græði er þeir öskrandi og ólgandi æða að láði Góður Guð getur hreint ekki verið með rænu eða ráði? ] [ Minning mín um þig, Er aðeins ljúf og góð. Þú varst alltaf svo góður, Gerðir allt fyrir mig. Þú varst þakklátur, Fyrir allt sem gert var fyrir þig. Þú varst fyrirmynd mín, Og verður fyrirmyndin alla mína tíð. Ég á eftir að sakna þín, Hvernig þú brostir, hvernig þú talaðir, Ég kem svo og heimsæki þig, Þegar minn tími kemur. ] [ Ég sit einn á myrkvuðu kaffihús. Það logar kertaljós á borðinu mínu, litla máttvana eldtungan liðast líkt og sígarettureykurinn allt í kring. Síminn minn hvorki syngur né stynur, neitar því gersamlega. Hann er fýlu búinn að vera það heillengi. Hann bara þegir og þegir og heldur súr kjafti. Segir ekkert, svarar engu. Ég potaði í hann, í von og óvon um að hann myndi mala. En síminn var samur við sig. Það ómar tónlist, hlátrasköll og ljóshærð stelpa missir vatnsglas í gólfið. ] [ Ég er lamb á leið til glötunar. Eins gott að það er skemmtigarður á leiðinni ] [ Svo gríðarlega nálægt en samt svo fjarska fjarlægur. Þetta er eins og að grípa laufblað sem sörfar um á vindhviðu. Nánast ógerningur en alltaf svo nálægt. ] [ Myrkrið hleypur í panikkasti og stekkur á sannleikann. Sannleikurinn engist um en festist í dýflissu óttans, getur sig hvergi hreyft. Læst í myrkrinu. Myrkrið fær svo leið á kattarveiðunum og fýkur í burtu, sem opnar sannleikanum nýjar víddir frelsi. ] [ Stundum óska ég þess að allir í heiminum staðni. Svo anda ég að mér Jesú og fer aftast í röðina. ] [ Tilveran brotinn spegill Við spegilmyndin ] [ Glaður skopparaboltinn springur að lokum, eins og egg í húsvegg skólastjórans. ] [ Tíminn er á hraðferð. Ljóshraða. Finnið þið ekki fyrir því? Óþægilegt. Ég stökk upp í tímavél og mætti honum, spurði hvaða asi er á honum, helvískum! \"Frú Tími er að fara að fæða, nýjan tíma,\" sagði Tíminn lafmóður og sveittur. Ég sagði \"okey\" upprifinn, ánægður og alsæll með fréttirnar og hægði á mér. Hann má ekki missa af þessu. ] [ Stundum gæti ég gengið á heimsenda með hælsæri á báðum bara til að losna við þig. Af hverju ég geri það ekki? Bara. Ég veit ég myndi sakna þín svo voðalega. ] [ Ljóðið er eins og köttur. Það fer sínar eigin leiðir. Stundum ef þú ert heppin geturu lokkað það til þín klórað því bak við eyrun og hlustað á það mala. Eitt andartak finnst þér þú hafa völdin. En þá skyndilega stekkur það burt og hverfur þér sjónum, ekkert eftir nema hrynjandin í malinu og sveiflan í skottinu. Óskrifaðar ljóðlínur flögra út um gluggann... ] [ Hefurðu einhverntímann horft út að sjóndeildarhring einmitt þegar sólin er að setjast og velt því fyrir þér hvort nokkurstaðar finnist nokkuð stórfenglegra en einmitt þetta andartak rétt áður en öllu er lokið? ] [ Herbergið er einmanna og hrópar: Söknuður. Ég hrekk við og lít í kringum mig, hva... herbergi tala ekki, hugsa ég með mér. “Djöfulsins. Af þarf ég að lenda í þessu?” segi ég óvart við herbergið sem neitar að tala við mig eftir þessa móðgun. ] [ Eg horfi á þig, í augum þínum blika þær þrár sem ég í brjósti mínu finn og vonir þar og sorgir líka hvika og allur innri óróleiki minn. Á þröskuldi nýs lífs ég stend og hika og það veit guð, ég þori ekki inn. ] [ lengri en þúsund ár en samt styttri en brot úr sekúndu eins og flöktandi skuggi felur hún sig bak við gluggatjöld veruleikans ] [ Daggardroparnir sindra á grasinu njóta þess að glitra áður en frostið breytir þeim í hvítar rósir Hélan á gluggunum hvít, gagnsæ gluggatjöld vetrarins það eru frostnálar í loftinu ] [ Við stöndum undir svölunum þar sem sólin nær ekki til okkar nema að hluta - hún sker okkur í tvennt yfir öxlina og lýsir upp fötin og fæturna en andlitin felum við í myrkrinu. Skuggahlið mín brosir við linsunni og veit ekki að síðar þegar ég fletti gömlum albúmum staldra ég við tvískipta eftirmynd mína og glampandi augun sem skugginn af svölunum skerpir verða mér táknmynd þeirra skugga sem síðar settust að í þessum sömu augum og skiptu tilverunni milli ljóss og myrkurs líkt og svalirnar forðum. ] [ Mikið er ég ánægð með þessi gulu vesti. Þótt flestir þoli þau ekki, þá finnst mér þau þægileg. Best af öllu við þessi vesti er þegar við gerum eitthvað leiðinlegt -eins og að týna rusl. Þá þekkist maður ekki í fjöldanum af gulum vestum. ] [ Reisult hús grætur málningu, hvítur gluggahleri ásamt virðingu þess og lífsgleði fellur til jarðar eftir að það hefur verið veðurbarið af grimmum náttúruöflum ásamt að þurfa að búa niðurlægt við sataníska staðsetningu, sem það getur ekkert gert að. ] [ Höndin skelfur, er hún teygir sig í þína Hjartað titrar Augun blindast ] [ Lítið blóm treður sér leið í andrúmsloftið, stolt af afreki sínu, fjarri öllu sem það þekkir. Hvar eru hinir? ] [ Ég horfi á hafið sé þig hverfa aldan hún brýtur hvern stein í senn. Horfinn á hafið hljóður draumur seitlar í hugann dropi í senn. Tíminn líður eldurinn logar hafið ei þrýtur af neinu sem er. ] [ (Sænskt þjóðlag) Ég reisi bú þar sem blásin jörð er barin langviðrum ströngum og eflist stöðugt við átök hörð þótt ólmist sandurinn löngum við húsdyr mínar og hamist að mér. ─ Af honum aldrei ég griða bað mér. En bíð í ró. En bíð í ró. Ég róa úfinn og æstan sand og undir vilja minn beygi. Og yfir dauðablakkt auðnarland svo arma mína ég teygi. Ég bý mig undir er bú mitt stækkar að bjóða gestum. Og sífellt hækkar minn græni bær. Minn græni bær. Er gró af elftingu gægist inn ég gef því skjól til að dafna. Svo býð ég velkominn vingulinn því vinum að mér ég safna. En þegar gestunum glæðist kraftur ég gef þeim land mitt og flyt mig aftur á blásna jörð. Á blásna jörð. ] [ Ekki spyrja ekki tala, lostann þarf að ala. Hugurinn rofinn og sálin dofin. Hvíslandi spurningar og svörin loðin. Ekki hringja eða senda skeyti. Ég verð ekki á næsta leiti. Stúlkan ein við glugga situr. Örugglega verður bitur. Hún bíður sjúklega á eftir mér, en ég niðurlútur tómur hér. ] [ Hver er sinnar gæfusmiður... ...já því miður! ] [ ónýtt er að eiga engann að og engum um að kenna sínum eigin óguðleikum fánýtt er að kunna það er og öllum kunnugt þykir þú sjál fur óguðleikur fátt mun þeim farnast sem sér sjálfum úteigna þínum eigin óguðleikis ] [ Ég stari í djúpið sem sálin þín er ég legg eyrað við hlustir og heyri þig anda ertu engill úr holdi? sé ég og heyri satt? ] [ Við sátum tveir og átum með reykspúandi hnátum og stallklipptum kaffihúsaheimspekingum sem þykjast tala í gátum... ...en við rifjuðum upp fortíðina, nýliðna og hina gömlu góðu tíma, minningarnar báru okkur svo langt og greinilega aftur að gamall draugur úr fortíðinni settist hjá okkur stutta stund. Áður en við vissum af hafði tíminn flogið, á þessum Vegamótum fortíðar, nútíðar og framtíðar svo hratt að við gleymdum næstum að bölva ofsmurðum sinneps-kjúklingasamlokunum. Við kvöddumst félagarnir við Skólavörðustíg 29a og það var vel viðeigandi að Íslandssagan í mannsmynd skildi þá arka framhjá, inn Baldursgötuna í átt að Þórsgötu með kippu í poka... ...drukkin börn þau sækja í bjórinn! ] [ Maurafótspor og vængjaþytur ég gerðist margfætla í nótt ,,Blessaður maur\"! En hann svarar ekki ,,Vertu sæll maur\". Maurafótspor og vængjaþytur ég er margfætla gustur ,,Góða kvöldið býfluga\" gustur - ekkert ,,Vertu sæl býfluga\". Allir með tilgang nema ég splatt! Lítil margfætluklessa í miðju fótspori. ] [ Allar mínar gjörðir Öll mín mistök Og öll orð sem hafa verið login mér að Skipta engu máli, Er ég ligg hér með þér Og horfi á tímann Fljóta framhjá Líkt og hann leyfi okkur Að liggja aðeins lengur Og hlusta á grasið gróa. Hendur þínar eru svo mjúkar Ég finn þær snerta hár mitt Og þú greiðir í gegnum flókann Sem myndaðist í fangi þér Þennan morgun skal ég geyma Þar til mínir hinstu andardrættir Heyrast ekki lengur Og þar til öll þín orð Reynast harðasta lygi Og öll þín umhyggja Heggur í sár mín. Þessi morgun er mér mikilvægastur Allra morgna lífs míns. Segðu mér frá tímum Er þú varst lítill drengur Og vissir ekki af mér Fyrr en þetta eina kvöld Sem örlögin drógu okkur saman. Allar lygar allra tíma Eru sannleikurinn í fangi þér Og hérna vil ég liggja Þar til hár mitt gránar Þar til hendur mínar fölna Þar til augu þín hvílast Og hjörtu okkar hætta að slá ...samtímis. ] [ Í kvöld munu englar alheims gráta Því þú verður farinn mér frá Og á morgun er englarnir vakna Þeirra von mun hverfa og þrá. Sársauki brostinna vængja Er fljúga um horfna slóð Þeir finna aldrei leiðina heim Og vökna við táraflóð. Hvert einasta tár mun falla og bresta Er englar alheims gráta í nótt Og þú munt aldrei ferðinni fresta Þín augu munu hverfa skjótt. Þú verður alltaf hjá mér Í hjarta mínu og sál Ó, þú ferð aldrei frá mér Eilíft logandi ástarbál. ] [ Má ég ? Ég er nú að verða fullorðin. Ég get ekki gert þetta. Ég er bara barn. Þú mátt ekki. Þú ert bara barn. Þú átt að gera þetta. Þú ert nú að verða fullorðin. Þegar maður er unglingur, þá á maður að vera nógu fullorðinn til að vita að maður er bara barn. ] [ \"Margur hyggur auð í annars garði,\" en afbrýðisemi hylur þunnur farði, sjaldan lætur öfund standa á sér. Þetta lýsir sér í myndum mörgum, og margir skæla illkvittnisgörgum. Af aurum verður api margur hver. ] [ Ég er hér með mörgæs sem ég ætla að skjóta, eina ófleyga og ljóta, með skort af gæðum eru gáfur hennar grunnar. Ég er svarthvít mörgæs og þarf að skjótast. ] [ Sorry ] [ I cry myself to sleep every damn night because I miss u so. I just can\'t stand it that your moving away. I am full of sadness and I just want to breake down and just cry all the time. I hope it will still just be you, and me. Not some other girl... You know I trust you for all my heart because.... I love you:* ] [ I saw you walking down the street I fell in love of your smile, your eyes and your stile, then I fell in love with you. Now we are togeather and we love each other we have been togeather just..forever! and I love you so will never let you go so don\'t leave can\'t think about your moving away from me! why do you have to? I\'m gona miss you so, more then you will ever know! so just.. Don\'t go! I love you. ] [ þarna er það aftur tómið tómið kveiki á eldspýtu sé ekkert ekkert rökkur og skuggar tómið er ósýnilegt en óp þess bergmálar kastast á milli hugsana og hverfur svo í myrkur kvíðans um leið og loginn slokknar ] [ klessukeyrði og klístraðist klístur ógeð út um allt og inni í mér vantar ný nærföt viðbjóður ] [ Þeytist Reykjanesbrautina á 270 í votu veðri á reiser Mánuðum síðar kem ég í Fólk með Sirrý og bið um samúð þjóðarinnar Gef svo vel í á leiðinni heim á handstýrða bílnum frá tryggingunum... ] [ Af óþokkaskap og illsku til kenn aldrei er ég því hress. Ég hefði drepið marga menn, maður ef væri til þess. ] [ Móðir Teressa ] [ Ef börnin geta lagt mér lið lagast vísnaskakið. Ungur komst ég uppá kvið og ei fóru þau í lakið. ] [ Kæru mávar á tjörninni, Þið eruð orðnir ansi óvinsælir meðal mennskra íbúa Reykjavíkur fyrir að borða endurnar á tjörninni þrátt fyrir að þeir borði sjálfir endur og margskonar fugla títt. Sumir hafa meira að segja gengið svo langt að skjóta ykkur vegna þessa. Það sem þið þurfið að gera til að geta haldið áfram að borða endur er að breyta örlítið til. Mennsku íbúunum finnst nefnilega svo ægilega vænt um endurnar á tjörninni. Þið þurfið að safna saman hóp af öndum, byggja andabú þar sem endur fá aldrei að sjá sólarljós. Þar skuluð þið geyma þær í eins litlum búrum og þið getið mögulega komist upp með, helst þannig að þær fylli upp í búrin. Svo Fæðið þið þær með eins ódýrum hætti og þið getið, t.d með eigin saur að hluta til, en þó þannig að þær fitni sem allra allra mest. Auk þess er afbragðs ráð að sprauta í þær hormónum til þess að láta bringurnar og aðra vöðva stækka óeðlilega mikið þannig að endurnar geti ekki með nokkru móti staðið í lappirnar. Einnig getið þið hellt olíu ofan í kokið á þeim með trekt og fengið þannig dýrindis andalifur. Slíkt athæfi hafa mennskir íbúar Reykjavíkur ekkert út á að setja. ] [ Einhvern daginn langar mig að fara í gufubað, og vera þar í langan tíma. Bara til að finna lyktina af sjálfri mér þegar eg kem út. Mig langar líka til að prófa að raka hárið á höfðinu af, og leyfa líkamshárunum að vaxa í einhvern tíma. Fara svo nakin á strönd þar sem nekt er bönnuð, sjá sólina glampa í skallanum, og flétta svo hárin á loðnum leggjunum. Mér myndi einnig finnast gaman ad velta mér uppúr drullunni hjá svínunum. Fara svo í partýdressið, bruna á diskótek og nudda mér upp að einhverjum drengstaulanum, og sjá svipinn á honum, og að sjá hann kúgast. En annað sem væri líka skemmtilegt, væri að pissa í könnu, hita það, og bjóða einhverjum leiðinlegum í te. En toppurinn á þessu öllu er líka að fara í fínt matarboð, borða með vitlausum hnífapörum, sötra súpuna, ropa og prumpa, hlæja svo ógurlega að eigin fyndni. Vera svo dónaleg að á endanum myndi allar fínu kellingarnar fussa, sveija, leggja nafn guðs við hégóma, og yfirgefa matarboðið hneykslaðar á svip. Þá myndi ég hella hvítvíni í glös, bæta við vænum skammti af laxerolíu, og senda þeim það sem vott um iðrun. ] [ Ég sakna þín ekkert, en ég sakna þess samt að sakna þín. Mig langar ekkert í þig, eða mig langar allavega ekki til þess ad langa í þig. Ég hugsa aldrei um þig, en ég hugsa oft um að hugsa ekki um þig. Ég elska þig alls ekkert, en ég elskaði nú samt ad elska þig. Ég veit ekkert um ást, ég veit það allavega. ] [ Lifa fiðrildi ekki bara í einn dag ? Allavega notaði ég það sem afsökun þegar ég veiddi þig. En þú flýgur þó ennþá um í krukkunni, sem ég, svo illgjörn, setti þig í. Rauðu vængirnir hamast og hamast, en þú kemst ekkert. Ég, vonda mannveran, hrifsaði þig úr blóma lífsins, tróð þér i krukku og faldi fegurð þina fyrir heiminum. Þú öskrar svo hljótt; hleyptu mér út. Ég vildi óska ad þú værir verðugur andstæðingur minn, líkamlega. Þá gætum við bara slegist, og annað hvort okkar myndi vinna. En í staðinn beitir þú fegurð þinni og heillar mig uppúr skónum. Ég hef ekkert sem jafnast á við það. Ég á ekkert til að berjast gegn þér. Þú blakar vængjunum framan í mig, og samviskan nagar mig að innan. Gjörðu svo vel, fljúgðu út um gluggann og vertu frjáls. Fyrirgefðu. ] [ I have found, a love for the sound, when my mobile vibrates in the ground. Reading a word, a sentence, pharagraph or a phrase, written by you, in an anger or amaze. Gives me joy and brings, a smile to my face. ] [ Hestamennskan er hörð og herða þarftu vel gjörð, viljirðu ei velta af baki. Við harðan hest þú semur, hann svo bráðar temur, grípir þú í faxið góðu taki. ] [ Tomorrow he said Tomorrow she gasped Tomorrow we’ll sort out the problems of the future Tomorrow your love will heal all my soars Tomorrow I’ll live Tomorrow I’ll learn Tomorrow I’ll find us a new place called home Tomorrow I’ll fill the empty spaces in your heart ....Tomorrow we’ll forget why we even thought of tomorrow in the first place ] [ Ég þarf ekki að sýna þeim sársaukann... þó hann aukist með hverri mínútunni sem ég held honum innilokuðum. ] [ Urrar á verðina Rífur í rimlana Öskrar Kemst ekki út Járnið er of sterkt Fangi í eigin tilveru Fastur að eilífu Gefst loks upp Gefst upp á lífinu Leggst á gólfið í algleymi deyr ] [ Á morgun fer fyrsti vörubíllinn Hlutir hafa fylgt mér í gegnum árin Hrúgað inn í gáminn Á leið á nýjan stað Til að byrja aftur, einu sinni enn. ..Vonum bara að vegurinn sé sléttur ] [ Mikil lifandis ósköp langar mig til að semja ljóð um þennan tilfinningalega hrærigraut sem þú eldar handa mér með stakri prýði ] [ Eins og þú værir klesst fluga á framrúðunni hugsa ég til þín rúðupissið og þurrkurnar sjá um afganginn. ] [ Óðfluga er heldur hæfileikarík en hálfgerður rokkur. Notaðist engum í Norðfirði slík nema okkur. ] [ Fríð er Gyðja frá Grund, glæsileg Hrynjanda-Hrund, Von hefur vilja í lund, Venus væn fyrir sprund. ] [ Ég stari á sjálfan mig í gráum spegli, sólin speglast í honum og ég líklegast líka. ] [ lengist ævin meðan árin styttast Það sem var skilur eftir sig far sem dofnar með tímanum straumarnir breytast draumarnir þreytast sem á líður gegnum grænan dal stöðugt rænan heldur áfram að drepa tímann með hníf í hönd sér er og verður alltaf rangt hvað sem tímanum líður lífið í hönd þér ég fel og allt endar vel. ] [ Gott er að eiga góða að gleður menn ætíð það, sem ljós á dimmum degi. Ólán er óskrifað blað, oft geta menn lent í svað og náð engu taki, ég segi. Ekki er þó víst að saki, en ber er hver að baki, nema bróður sér eigi. ] [ Í sund nú skreppur þú, með hafurtask og frú, Börnin fylgja með og bæta frúnar geð. Í karlaklefanum, þú spólað getur um, með alla vöðva út og sundskýlna bút Svo hlaupið þið öll út, skellið á börnin kút, hoppið út í laug, með kuldahroll á taug. ] [ Í sjúkleika sínum hann missti allt sem hann elskaði dáði. Hann fann ekki huggun hjá Kristi og í dauðan stefndi með háði. Hann vissi ekki hvert hann stefndi er hann lagði land undir fót. En vissi að til ástar hann kendi til dótturinnar fögru snót. Alltaf hafði hann barist en uppgefinn var hann nú. Sálin dauð, æskan farist, bölvuð sé minningin sú. Gröfin mun beinin hans geima, hjá Guði sálin á vist. Yfir brúnna til hulinna heima fyrir þá sem hafa af lífinu misst. ] [ Þessi staður, þessi stund Leka saman í eitt andartak Sem aldrei má taka enda. Því þú stendur svo ofurkyrr Og hreyfir hvorki legg né lið. Þessi augu, þetta andlit Myndar sársauka í hjarta mér Sem er tvíræðnari en trúin Því ég veit ekki hvort ég elska þig Eða er höfuð mitt ekki viðstatt. En einmitt núna, Er rödd þín köld sem hafið Og minningin um þig Er að hverfa úr skauti mér Og ég finn ekki fyrir andardrætti þínum lengur Svo róandi þétt við háls mér. Og ég finn ekki hjarta þitt slá hraðar Upp við opinn lófa minn. Þú ert hvergi staddur Og andlit þitt hverfur inn í hugarheim ungra stúlkna Sem vita ekki hver þú ert. Þessi staður, þessi stund Fara brátt að deyja út. Og við verðum að hindra það. Svo ég og þú getum staðið aðeins lengur hérna Og horft í sorgþrúngin augun. Sem lesa hvert einasta orð sem í sál okkar flýtur. Og ungar stúlkur vita ekki hver við erum lengur. ] [ Nú er Skjóna fallin frá sér fáa átti líka. Ásvaldar er innsta þrá að eignast aðra slíka. ] [ Í kosningum kross festum við bókstafinn. Sá sem ekki kýs er aumur, krossaumur. ] [ Þið tíu þúsund tálsýnir með ykkar fögru andlit: Þið tælið mig með töfrandi loforðum um fegurra líf á morgun. Þið tíu þúsund tálsýnir: Þið kæfið mig, særið, skerið. Þið veitið mér hið mýksta náðarhögg sem á endanum byrgir mér sýn svo ég sé ekki ljósið fyrir ykkur. -Ég blindast Þið tíu þúsund tálsýnir sem elskið mig með allri ykkar girnd: Þið veitið mér hinar myrku gjafir ykkar af ykkar einskæru miskunn og náð. -Ég sofna ] [ Maður verður að fara varlega þegar maður tapar rökræðum og þarf að éta ofan í sig sín orð ég beit í tunguna á mér þegar kom að því ] [ she loved me not for wealth for money had i none she loved me not for music for i could not play a song she loved me not for strenght for i was weak as a child she loved me not for beauty for i had a crooked smile ] [ Allir dagar eru eins hér er lífið ekki til neins ég reyni að fela tárin en tilbreytingarleysið stráir salti í sárin ég verð að komast héðan ég hleyp í burtu á meðan fangavörðurinn lýtur frá og langþráð frelsi skellur á ] [ Það er viss áfangi í dag og allir ættu að vita það. Tvennt skemmtilegt gerðist Guðrún og Ari giftu sig og ég fór í bað. Eftir þessi rúmlega 10 ár Aribjörn lagðist loksins á hné. Bað um hönd Guðrúnar sinnar en hringurinn kostaði hann mikið fé. Strax var farið í að plana veislu kaupa inn mat, bjór og vín. Og þvílík frammistaða hjá þeim því í kvöld drekk ég frítt eins og svín. Nú loks erum við þessum sal Til fagna giftingu þeirra öll saman. Veit ekki með ykkur en ég nærbuxnalaus og það er alveg helvíti gaman. Arinbjörn og Guðrún mín Takk fyrir að vera yndisleg og góð. En með því að gifta ykkur Eru þið að borga meiri skatt í þessa þjóð. Brátt fara börnin að streyma út og margar verða svefnlausar nætur. Kannski á móti kemur bros þegar inn koma hinar vinsælu barnabætur. Guðrún og Ari saman í 100 ár Eða þar til við tekur áfangi nýr. Allar stundir með ykkur minna helst á skemmtilegt ævintýr. Frá og með deginum í dag eru þið saman í blíðu og stríðu. Sé fyrir mér ljósmynd eftir 20 ár þið tvö og öll börnin ykkar fríðu. Saman í 9 ár, hugsið ykkur 9 ár Það er langt frá því að vera lítið. En svo undanfarin 3 ár hafa þau vaknað saman í bítið Bara svo þið vitið það Að þið eru auðvelt yrkisefni. Að semja þetta var ekkert mál Gerði það bæði vakandi og í svefni Það er svo gott koma svona saman Og Sjá fjölskyldur ykkar og vini kætast. Þetta er fyrsti dagurinn þar sem við Sjáum drauma ykkar rætast Þetta kvöld hefur verið gott Og þessi stund gerist ekki yndislegri. Við erum öll sammála um eitt að brúðurirnar verða ekki miklu fegri En Ari minn mundu eitt Að nú hefur Guðrún völdin Því nú þarftu að fá leyfi Til að fá að fara út á kvöldin ] [ Hálendið okkar grætur Það biður um grið.... ekki meiri holur! og ekki meiri lón! Hálendið þarf að þola boranir og sársauka Sársauki hálendisins er álíka og þegar við mannfólkið förum til tannlæknis Ekki vildi ég né þú vilja að ráðið yrði erlendur vinnuflokkur sem myndi bora í kjaftinn á okkur til að skapa tímabundin stöðuleika Hálendið okkar grætur ] [ Viðeyjan þá vegleg byggð af vegvísunum hlaðin. Nú borgarbúans leit að kyrrð og bezta leiðin valin. ] [ Sveittur maður gengur um með járnköngla lífsins gangandi þversum í gegnum horgul þeitandi í skrúðugan jarg. ] [ Móna Lísa án handa unglingsstúlkur í vanda þetta er allt að gerast núna á tímum þegar sannar ástir fúna. Stattu þig drengur góður pabbi þinn er óður tíminn læknar gömul sár þurrkaðu af kinn þinni tár. Flatur bjór í glasi dautt blóm, brotin blómavasi nú skulum við standa saman þvoðu þér svo oftar í framan. Skítugir og myglaðir sokkar úreltir kommanistaflokkar fólk hefur flúið land þjóðarskútan er að sigla í strand. Talsmaður bænda er þreyttur bítur frá sér þótt tíminn sé breyttur leigubílar eru dýrir og auðir enda bílstjórar þeirra mestu sauðir. ] [ Nú andar Austrið að sér mengun sem enginn vill skipta sér að. Stjórnvöld vilja sökkva landinu því hálendið á skilið gott bað. Uppbygging smærri byggðarlaga er það sem verður að bjarga. Skítt með náttúruna og dýrin lónið mun því öllu farga. Hagvöxtur er tískuorðið í ár og hann verður að bæta. Eina leið stjórnvalda til þess er náttúru Íslands að tæta. Hvað með komandi kynslóðir? Ætli þær vilji búa til ál? Er það eina svar stjórnvalda til að lítil þorp eignist sál? Breyta verðum við þjóðsöng okkar vegna afleiðinga virkjanna næstu ár. Því þá mun hið eina eilífa smáblóm liggja á lónsbotni með sín titrandi tár. ] [ Leita skal nýrra leiða ef lífið stendur í stað. Aldrei skal ástvini meiða frekar bjóða þeim heim í hlað. ] [ Nýr dagur þýðir nýtt upphaf og ber maður sig eftir því. Það sem gerðist í er farið og sú tilfining er góð og hlý. En það sem gerist í dag kemur ekki fyrir aftur. Því á að nýta daginn vel svo endurfæðist nýr kraftur. Hugsaðu daginn sem sigur og hafðu hann góðann. En það hefur oft sýnt sig að það gerir óvin þinn óðann. ] [ Stopp! Á rauðu ljósi í lífinu ertu stöðnuð. En eins og götuviti ertu. Hugurinn segir - áfram! Hjartað segir - beygðu til hægri! Þú ætlar að taka af stað en ertu í rétta gírnum? ] [ Hvíldu hjá mér meðan allt er hljótt, með þér á ég unaðsnótt. Snertu hár mitt, snertu mig. Ég vil þitt, og allan þig. Ofan á kodda, undir sæng, ég legg þig undir minn verndarvæng. ] [ Þó á morgnana séum við úrill og í hádeginu ekki saman. Munum við um eftirmiðdaginn ganga móts við ævikvöldið. ] [ Sá megrast fljótt er kjöt með káli étur. Þau kunna ráðin Imba systir og Pétur. Fitan fer snart, flottur verð og smart. Veislukosturinn mark á manninn setur. ] [ Froðan er eins og froðan á sjónum sem verður eftir þegar hann sleikir ströndina. Sterkt bragð - rammt - beint í æð. Hvað ef ég fæ mér þrefaldan? Þetta er ekki svona einfalt, en ég er kúl eins og tvöfaldur expressó þegar ég hugsa um þig. Römm - sterk - með kitlandi froðu. Og svo þetta beiska eftirbragð á tungunni. ] [ Skerpi skilningarvitin veit allt skynja allt Brotinn sannleikur er betri en enginn. Blíðan hlýtur að hafa rétt fyrir sér. Rjúkandi rúst er bara volg. Nístandi magasár er bara magapína. Blæðandi hjarta er bara smá skeina. ] [ Kærasti: - étur ekki hjarta með samviskubit. - stelur ekki fyrirgefningunni. - andar ekki köldu. - vill ekki fara í skrúðgöngur. - rífur ekki niður. - sefur ekki þungt og - særir ekki viljandi. Fyrirgefðu ó-kærasti. ] [ Ekki gleyma tif tif tómt baðkar gamall kertastjaki tif tif straujaði sokkana og brosti tif tif og hann hinumegin brosti tif tif veggfóðrið límdu upp saman og plönuðu framtíðina tif tif alltaf pönnsur á sunnudögum og kisa fékk rjóma tif tif tíminn ryðgaði brosti ] [ Þessar gjörðir allar og hindranir Kemst ég einhvern tíma þangað sem.... kæfi andvarp inni í mér getur það verið þetta? en hindrunarhlaup er svo langt. ] [ Hver ertu? -enginn. Hvað viltu? -ekkert. Afhverju drapstu hann pabba þinn? -bara. ] [ Orðaleiki ögn ég hef, iðkað er ei glepur þys og látið fjúka ljóðaþref, á ljóð.is ] [ Þú ert flottust allt um kring og æðisleg til að sjá. Frökk í orðum, feykislyng, með fríðleiksljóma brá. Feginn vildi þér færa hring, því fengið hef djúpa þrá, halla þér aftur á bak í bing og biðla um ást þér hjá. ] [ Formáli: Lengi mætti laginu etja! Látum hér við setja! Ei skyldi seinn flýta sér! Sjáðu aumur á mér! Ekki er ég alveg í doða, eilítið skárri ég vona. Hnúðra mikið og hnoða, og hef kvæðið svona: ] [ Haltu í vonina, Hún liggur þér hjá, Hvílir með þér, Segir þér frá. Þótt hún sé farin, Er hún þér hjá, Stendur með þér, Kallar þig á. Hún er í hjarta þér, Alla þína tíð, Fer aldrei frá þér, Stendur þér við hlið. ] [ Þú og ég tvö alein Ástin og við öll sem ein ástsjúk og veik er okkar mein ] [ Takk fyrir alla hlýjuna já, takk fyrir það að vera hér með mér ég er svo ánægður að það er enginn annar hér. Ekki fara óánægð því mér líður svo vel hjá þér þú ert svo dulin og sæt að hafa þig á mínum bæ er vonandi það sem ég fæ. Ég veit að eflaust meika ég ekkert en bíddu aðeins lengur og sjáðu Það að bráðum verður þetta það vit sem saman við þráum. Eigðu mig til endans vá hvað það yrði gott flott fínt og frábært sjáum hvað er hér. ] [ Náttúran ei er umflúin eðlast vill hverja stund. Alltaf sem tíkin tilbúin, taumlaus ef sér í hund. ] [ Tuttugu og tvö og ég er tuttugu og tveggja mella með margt milli leggja sumt svæft en nú skal ég hneggja. Farðu, komdu og vertu spurðu, ég skal sýna þér svertu buxur burtu, píku partý plís má ég búa til tertu. ] [ Maður og kona ríða ropa og sofa saman skíta svo borða gegnum lífið ein vofa. Deyja þó gömul en á engann hátt neitt göfug því ung gáfu saman sálir til lífsins, fyrir brennslu á bálið. En fyrir hvað er það allt húsið, launin, hausinn margfalt klæmast, kynlífið kallt. ] [ Þegar maður biður þá kemur ást og friður beint af himnum niður því það er drottins siður að sjá um sína passar sig vel engum sálum að týna. ] [ Dagar telja tíminn líður. Blokkin fær að velja til fulls mér hún ríður. Hvað skal gera annað en að vera. Eitthvað hlýt ég að bera fyrir heiminn að stela. Fluttningur vís þó kjarkinn mig skorti. Sú sem ræður er dís hvort ég komi eða vanti. ] [ I try to tell myself that you are gone, But I don\'t want to belive. I miss you so, and i wan\'t to know where you are. Close my eyes, Think about you. Where did you go? Up to heaven, I know. ] [ Jilli, fjilli, Jonka, tjonka. Gilli, sprilli, Sjonk, kjonka ] [ Hvað segir þú um hryssur þessar, sem heitin fengu Mön 7 og Blíða? Almættið gaf þær og guð blessar! Gætir þó framtíðin dálitlum kvíða! Á að gera þær góðar undir hnakk, í gúllas, steikur eða í hakk?????? ] [ Gylfi kræfi á nú út ælltaf brattur kallinn. Slyngur spilar Bogi bút bylgjast sveittur skallinn. Eitilharður eins og grjót er að meta og vega. Boga sést ei bregða hót ber sig mannalega. ] [ Allskonar ólýsanleg hljóð mynda tímann og tóm. Bannfærðir skór draga lest fulla af ló. Demantar, gull og safír saman meitlað við markið. Fyrir hvað er allt harkið? tilfinningar fólkið það flýr. ] [ Ég leyfi mér að vera svo ófrumlegur í anda Verslunarmannahelgarinnar og umorða spurningu Neruda: Eru kringlóttir kuðungar brjóstahöld dverghafmeyja? ] [ (Skoskt þjóðlag) Veistu nokkuð betra en eiga á vori vökustund veistu hvað við sjáum á göngu út í haga. Komdu vina, komdu fljótt, þar er margt sem léttir lund lífið allt er bjartast og fegurst þessa daga. Þá sérðu hvar grípur í gáska til sporsins hann Glói litli svo hýr á svip og stoltur hann fullkomnar eitt af undrum vorsins er æfir hann töltarans mjúku grip. Og lagðprúðu mæðurnar árvökrum augum með ástúð horfa á börnin sín að leikjum með fossandi fjör í ungum taugum og finnst þau svo dæmalaust sæt og fín. Gakktu hægt eftir götunni og gættu að þér þar er ungi svo ósköp smár sem ákaft vængjum ber. Og blítt andar blærinn er bjartrar nætur fley siglir hóglega hljóðlaust nær og hvíslar þei þei þei. (Eða, ef lagið hækkar): Og blítt andar blærinn um bjarta nóttina. Og svo höldum við heim á leið tralalalalala. Ragnar Böðvarsson ] [ Sárið er stórt og hjartað er brostið ég arkaði út í gnístandi frostið, Svalur er svitinn, blóðið rennur húmið er kalt og glamrandi tennur. Kúlan í höfði mér situr nú föst, Því miður fékk ég mín ærlegu köst. Fréttin nú reikar með fuglum og vindi sársaukin kviknar alveg í skyndi, Varirnar þurrar og Tárin renna, augun bólgin og sárin brenna, minningar þjóta, hugan brjóta afhverju var ég hausinn að skjóta. ] [ Stundum er betra að láta strjúka sig með fjöður yfir nebbann heldur en að gleypa fjöðrina, annars kannski kitlar mann í magann endalaust. ] [ Ég man að ég lá í svörtum sandi og hugsaði - ef ég sofna bara hérna og myndi ekki vakna, þó að allir heimsins englar myndu fljúga yfir og senda mér fingurkoss. Smám saman myndi sandurinn feykjast yfir mig og að endingu sæist ekkert nema einn fingur - litli putti af því að hann er minnstur. Mörgum árum síðar kæmi bóndi sem ætlaði að byggja hús á sandi og græfi mig upp. Við myndum bara eiga hafmeyjar, er það ekki? ] [ Orð flækjast fyrir manni og þykjast vera eitthvað. Verður þá ekki það sem maður segir í þykjustunni? Lykt er til dæmis miklu auðveldari, hvað ef maður talaði saman með nefinu, þá myndum við þefa hvort annað uppi. Eða bragð,það er líka auðvelt, nota bara tungubroddinn og þreifa sig þannig áfram. Það finnst mér. Augun eru erfiðari, en samt, beint og ákveðið, en þau þvælast ekki fyrir, sérstaklega þegar maður er blindur. ] [ Stundum held ég að enginn heyri eða sjái eins vel og ég. Er þetta hrokafull yfirlýsing? Nei, af því að ég segi engum frá, ég er skuggaráðuneyti og hó hó hó ef veggir mínir myndu tala, úff, þá myndi málningin bráðna af þeim og steypan leka og gufa upp, þangað til ekkert væri eftir nema járnabindingarnar. Þetta er nebblilega allt tóm steypa, þetta líf, sérstaklega ég. Tóm steypa ryðgað járn fast saman ryðguð sál. ] [ Það liggur rauðvínslegið hjarta á eldhúsborðinu og þegar ég þurrka það upp, skvettist smá oggo lítill dropi á nefið á mér. Skyldi það verða þarna á morgun? ] [ Litil stúlka skrifaði á gangstéttina bros eru smitandi ég gekk fram hjá og smitaðist ] [ Er ég bara smákrakki í fullorðinsleik? Er ég bara hálfviti í ástarleit? Er ég bara fórnarlamb í tilfinningarstríði? Þrái þig, langar í sleik, langar að líma okkur saman. Ég litla Gunna, þú litli Jón En er of smeik Smeik við huga þinn Smeik við drepandi mátt þinn Syndi ég í laug af eitruðu lakki? Er ég bara heimskur krakki? Er tilfinningin \"feik\"? Ertu bara í svona \"stelpuleik\"? Ertu bara graður hundsrakki? ...Því ég held ég... ...þú\'veist... ...bara smá... ...ef ég má... Ætlarðu nokkuð að drepa mig? ] [ Eitt sinn var lítill skrýtinn kall sem át bara drullumall eitt sinn á hurðina hann skall og við það varð heilinn heilamall og eftir þetta litla óhapp varð þessi litli skrítni kall afi, pabbi og nágrannakall! ] [ Og ég spyr: Ertu ekki frú alvitur Af hverju ertu svo sár og úr skýjunum koma tár Hví að vera svo bitur Og ég segji: Veistu hvað fólk borgar fyrir að sjá þig og þú í felum Komdu og kelum eða brennir þú mig? Og ég staðhæfi: Því máttu trúa að þau sem segjast ekki vilja þig meiða heldur lífinu með þér eyða það fólk er að ljúga Og ég svívirði: Hættu með þessa stæla ég ætla ekki við þig að eltast og í sandinum að veltast ef þú heldur áfram að væla Og hún svaraði: Guð segir mér að þeigja en ég er bara svo þreytt á að komast aldrei neitt að mig langar helst að deyja ] [ Skynsemi minni blæðir út þegar ég drekk bjór á stút í hnút helvíti og heimsku fellur kvöldið í drukkna gleymsku. Pæli sem skemmst forgangsröðun það sem Davíð vill fremst haus minn við vegginn lemst. Stelst í syndir syndi í skyndi við kynni rúllum ég Skapti, Skapti og Tinni. ] [ Þrátt fyrir allt þitt mislyndi þá ertu mitt yndi viltu að ég syndi sjóði, skúri eða svari rétt geri það allt því þú ert of þétt nett og næs ef þú værir söngkona þá værirðu eflaust kölluð bjútífúl spice. ] [ Andvaka nætur ég les bækur um syni og dætur vini og skítugar brækur. Ég er dálítið tæpur en ei nóg til að sækja um félagslegar bætur þreyttur á að elta þessar illa lyktandi dækjur. Sprækur þegar ég fer á flakk pumpaði eina gellu einusinni svo mikið að hún sprakk. Drullaði mér í hljóp út og öskraði takk. ] [ What is it? Its Bows orange sunset swing, That quick step groove down the Grove Road, Its the blue smoke glamour of crack slab urban bohemia, The richest man alive doesnt have a penny, And Im looking to cash in on his wisdom, Looking out for the wise in his eyes on the ice in his next drink, And his next drink, And his next drink, And his next drink, I watch the world as tower blocks huddle in the sky lines, So stitch that, That slit in the sky like a knife gash in a full length sixties leather jacket, The tenements so unlovely and kitsch, And the people rolling on in our colours and classes, classes and colours, The beats of New London, Twisted and bitter rhythm by the wrong education, In the big schools, On the bigger grey gothic, pink plastic flower estates, Twizzling our biros and cashing our giros, And its tupence for your philosophy, And tupence for your dreams, Fair ye unwell on the welfare, And the state is a fair man-made maid, It understands the sweet sickly pleasure of melancholy, The lick die happiness of the horrors, Delights in the mystery of its own misery, Of modern love, So here we are, The fucked generation, Of the fag-end of the 20th century A.D., Young and still breathing, But now its a trial, Cause we tried it all and were tired by it all, Too much, too young, too often, too many times, And its too late, But were not surrendering though, Fuck no were not, On the offensive, Were on all fours in the puddles of No Mans Land, And in that manner we move to the rhythms of ice cream vans playing oranges and lemons, And the police sirens spinning the weak in their mythical wails, Calling this to ourselves, Opium for the elite, Yeah, and theres his illegitimate brother, Inexpectedly smacking the kids of Stepney, at a cost, So lets step out now, you and I, Lets go now and stay a while, Underneath the sun, A council street lamps left on in the middle of the day, tussling with gravity, Branding skin, And it will tussle and brand, Tussle and brand, Till it explodes. ] [ She emerges from the water. Her naked, wet body shimmers in the sunlight. I watch a drop of water slide down her chest, down on to her breast. It hesitates on her nipple...almost like it wants to stay there. I get a tingeling feeling in my body, and I realise, just how much I envy that tiny drop of water of it´s journey down her body. If I only could... 2005 ] [ Rósa er rosa gella róluvellinum á. Byrji börnin að sprella bægir sú hættunni frá. Horfir til beggja handa, hún vill engan trassa. Gætir þess vel að vanda vinina smáu að passa. ] [ Hugsanirnar um þig dynja á sál minni í takt við hjartað, hvert slag syngur nafn þitt. Tilfinningin stigmagnast, klífur alla leið upp til himna þar sem hún dískúterar þig við síðhærðan Jesú Krist. ] [ Skríð slímugur úr skelinni. Opna bjórdós: Heyri smellinn og fæ mér sopa. Brosi. Jörðin skelfur. Konur gráta. Húsin hrynja. Úps. ] [ Það var einu sinni kall, Sem borðaði allt sem að munni skall, Á tánum hljóp um víða grund, Og sleikti hendur eftir að hafa gefið hund. Eina nótt upp í rúmi hann lá, Hjá þessari príðis konu sem hann á, Eftir nokkra stund gaus upp lykt ei góð, Og konan hans rak upp hljóð. Fjölskyldan í hádeginu eftir við snæðing sat, Nema kallinn hann remdist eins og hann gat, Hann vildi ekki slitna, lollinn sá, Svo hann varð að kíkja oní og gá. Viðlag: Þar gægðist upp ormur og mælti nokkur orð, Og sagðist vera handlægur til matar og á borð, Og kannski ef hann vildi væri grillið góður kostur, Hann gæti orðið vínormur, eða kannski ostur. Ormurinn langi á klósett setuni svaf, Kellingin kallinum dollu gaf, Dóttirin hljóp sagði: má ég sjá. Pabbinn á hana kvæsti: Nei farðu frá. Viðlag: Þar gægðist upp ormur og mælti nokkur orð, Og sagðist vera handlægur til matar og á borð, Og kannski ef hann vildi væri grillið góður kostur, Hann gæti orðið vínormur, eða kannski ostur Á sjúkrahúsinu nú kvílir hann, Ormurinn langi, sem niður görnina rann. Ormatöflurnar kallinn hann tók, Og gortaði sig og sögurnar jók. Viðlag: Þar gægðist upp ormur og mælti nokkur orð, Og sagðist vera handlægur til matar og á borð, Og kannski ef hann vildi væri grillið góður kostur, Hann gæti orðið vínormur, eða kannski ostur ] [ Rauðinn um vangan breiðir vængi sína, hvítt fjall birtist milli bleikra varana, augun horfðu leitandi út í myrkrið, hendur leituðu hvor annara. Dauðinn um dalinn sveif með vængi sína, hvítt vall milli bleikra veggjana, augun horfðu starandi út í bláin, hendur huldu andlit annara. ] [ Það rignir köngulóm í Íran, Bush felur sig í runna, Fullorðnir menn í herleik með plastkalla, Davíð hló þegar Dorrit datt á sundlaugarbakkanum, Lafandi tungur talandi hunda í USA eru svartar, Reimt er í kjallaranum hjá baugsmönnum, Ganga hommana endaði með afhommaranum frá krossinum, Ólafur veifaði í átt til hans, með einum putta, Puttar fuku af fólki á þjóðhátíð, Hátíðir voru þó afbragð um allt land, Þrír japanir voru troðnir undir af rúllandi ungmennum, Lögreglumaður slasaðist alvarlega eftir að hann rann í ælupolli. Þrátt fyrir það slasaðist enginn lífshættulega og allir eru á batavegi. ] [ nr. 1 Vertu háður vínanda, drífðu þig á skrall, reyktu hass, lentu í vanda, og farðu svo á ball. nr. 2 Fáðu þér gönguferð, skrepptu kannski í sund, vöðva krepptu í fólksmergð, Léttu þig og þína lund. nr. 3 Sittu heima, éttu snakk, Hvíldu þig við skjáinn, ligðu og sofðu, segðu takk, Hugsaðu út í bláinn. nr.4 Léttu lund með góðri bók, Hlustaðu á snældu, Fáðu þér kaffi eða kók, Í sjálfu lífinu pældu. ] [ Á miðjum veggnum yfir sófanum í stofunni var fallegt gat í gylltum ramma. Í gatinu miðju stóð tóm dós undan grænum baunum frá Ora. Börnunum á heimilinu fannst gatið einstaklega áhugavert. En foreldrar þeirra harðbönnuðu þeim að koma nálægt því þar sem það væri þeirra dýrmætasta listaverk. En þegar móðir barnanna var önnum kafin eldhúsinu notuðu börnin oftast tækifærið. Hvert á fætur öðru tóku þau tilhlaup á stofugólfinu og stukku upp í gatið í einu stökki.. Síðan klifruðu þau upp Ora baunadósina og renndu þau sér síðan beinustu leið niður á botn Þar niðri tóku við iðagrænir vellir svo langt sem augað eygði og í skógivöxnum hæðunum í fjarska bjuggu vinir þeirra indíánarnir, Þeir buðu börnin ævinlega velkomin að eldstæði sínu. Indíánarnir slógu alltaf upp veglegri veislu þegar börnin komu í heimsókn. Og þegar máltíðinni lauk var hverju og einu þeirra fengið spjót í hendur svo þau gætu tekið þátt í stríðsdansinum kringum logandi bálið. Þau dönsuðu alsnakin eins og indíánarnir. Sveifluðu spjótunum og sungu með þeim undarlega seiðandi söngva um löngu horfna tíma þegar allir menn áttu sér aðsetur við elda sem veittu þeim skjól fyrir nístandi kuldanum um nætur. Eldurinn bægði einnig rándýrunum frá og við hann voru sagðar sögur af hatrömmum bardögum og frækilegum veiðiferðum og þar var villibráðin sömuleiðis matreidd og borin fram. Þegar dansinum lauk og börnin sátu með indíánum þægilega þreytt við deyjandi bálið og hvíldu spjótin á nöktum lærum sér brást það aldrei að æpandi rödd úr öðrum heimi rauf skyndilega þögnina Krakkar hvað á það eiginlega að þýða að sitja þarna allsber á gólfinu? Og enn og aftur eruð þið búin að stela kústsköftunum og stönginni af teppahreinsaranum! Skammist ykkar og klæðið ykkur eins og skot og komið svo strax að borða! ] [ nú! þessi afmarkaða heild við erum smástund! takið þessa berlínargrátmúra mig langar að sjá ] [ á hverjum föstudegi kem ég auga á sumarljómann sem liggur ofan á skýjunum og fiðrildin í maganum mínum láta mig fljóta í andrúmsloftinu og ég held að það verði ekki betra þegar ég dett á malbik lít upp og mánudagur heilsar mér ] [ Sofðu nú og sofðu rótt en mundu þessa nótt Ég syng þig í svefn þótt úti gráti dapurt regn Fljúgðu þínum draumum í þar til ég vek þig á ný Á morgun í dögun og eins og í sögum Við ferðumst um geima í allskonar heima Hittum svo álfa sem elska sig sjálfa Og dansa af kæti með tónlist og læti ] [ Ég ætla á morgun að aka heim og athuga gamla slotið. Búið að vera brjálað geim og brennivínið þrotið. ] [ Horfði á þig fyrst, leið líkt og aldrei áður verið kysst. Þú varst sá sem ég þráði, og hreinlega dáði. Taktu mig að þér, eigðu mig eina og sér, því það er sárt að sakna, og án þín vakna. Ég fæ aldrei nóg, af ást, frið og ró, þessum kertaljósum og rauðum rósum. Þú ert prins í mínum draumi og vil stinga af með þér í laumi get ei hætt að hugsa um þig vona að aldrei, þú yfirgefir mig. þú ert fullkomnlega fagur, líkt og heiðskýr sumardagur. þú ert umhyggjusamur og fróður, skemmtilegur og við mig góður. Vera með þér árið uppá dag, situm saman um sólarlag, bæði undir sæng við kúrum og í rómantískum göngutúrum. Að sjá að þú sért eigi leiður, væri mér mikill heiður. hreinskilin ertu ávallt hlýgjar mér ef úti er kalt Ég er sú dama, sem þú gerir hamingjusama. Með þér vil ég eldast, og alla tíð elskast. Haltu mér í örmum þínum, þangað til ég dey spegilmynd þín í augum mínum hverfur líklega aldrei. staðreindin er sú að ég elska þig ástin mín lofa að vera þér traust og trú lofa að vera alltaf þín. ] [ Hinsegin dagar eru haldnir í borgum, herðir það í mörgum trassa. Hróðugar lessurnar hlaupa á torgum og hommarnir strjúka rassa. Oft segir af einsemdinni fátt, önnur tíska komin í lensku. Safnast fólkið um öfuguggahátt eins og framsóknarmennsku. Nútíma frúin: Frúin af gæðunum gneistar, getur þó verið hál. Því ef á illskunni neistar af verður mikið bál. Brýtur hún bóndann niður, broddur hennar er stál. Út á við er saminn friður og öll leyst vandamál. Blæðir úr beggja undum, brotin grær aldrei sál. Ei segi fleira af fundum, finnst þetta vera brjál. Jafnréttið: Jafnréttið konurnar tala alltaf um, en alræðið krefjast að fá. Segja þær óþarfa að karlmönnum og ekkert að gera við þá. Dropinn holar steininn, eða svo segist mér, siðlausar pretika þær fórn: ,,Dýrlegt að láta drepa undan sér; dásamlegt náist öll stjórn’’! ] [ ég sá ekki sólina fyrir þér og fannst það frábært yljaði mér við ofninn þinn og elskaði ef þú værir ekki hér skini sólin inn um gluggann minn gæsahúð og kuldi fjárans frost ] [ þetta er svo ofureinfalt leyfðu mér að segja þetta ekki verða reiður þetta er víst ástartákn hann starir á mig miður mín ] [ Stór, djúp og grá steinhvelfingin rís upp í himininn. Rís upp í þung rigningarskýin. Einhverntíman fyrir dögun á meðan það er enn dimmt hleyp ég upp og niður endalausa stiga sem liggja í hringi. Það eina sem lýsir leið mína eru eldingarnar sem skótast um himininn í eltingaleik. Alveg eins og ég sem hleyp upp og niður í hringstigum hvelfingarinnar sem er opin upp í óveðrið. Gráir steyptir veggirnir og rauðmáluð handriðin í tröppunum eru köld og sleip. Á botninum er ekkert nema drullupollur, efst uppi er óralangt til jarðar. Enginn útgangur. ] [ I am only floating around without minding what takes place. The circulation goes on and on and the earth spins round again At light speed now and then. I spread my wings and fly away from all the screaming fuss, I know I have my reasons but I’m still not quite sure why. I guess I just like to float around in the eternal state of mind As I have a home in another zone where there’s one thing that I know. The unknown doesn’t even know what knowledge is about And sometimes I wonder when reality will come and knock on my door. This is how I found my passion for philosophy of life I can’t help that I love the psychedelic delicious kiss In this tenderly tempting kingdom of me. Inside of my head I like to be with my thoughts where the grass is green And you know what I mean. ] [ Time to go Let yourself flow I\'ll lead you to a new home No sunshine in his wasteland\'s sand. The ray that he held in his hand, Gone the day he lost his mind. This precious thought that he can\'t find Distant place Different ways Gaze through glass Face to face Burnt and embraced Lies at last No sunshine in his wasteland\'s sand. The ray that he held in his hand, Gone the day he lost his mind. This precious thought that he can\'t find Step back and take my hand I will show you the desert band Hold me close and hold me tight Let’s get ready for your last flight ] [ Undir moldinni er allt sem ég fel. Hver litla ögn sem ég hef inní mér, Hugarins hvísl og háværu köll Er ei auðvelt að binda föst hér. Styrkurinn sem lokar allt tal, Um ósköp venjulegar kenndir Um hjartað sem drengurinn stal Er furðulegur, ég veit það. Hefurðu fundið til inní þér Og aðeins langað að vera til. En kýst samt að vera einn og sér Í hræðslu við tjáningar þínar. ] [ Snotrar nótur leika sér Í garði nýrra heima Ganga yfir tónstigann Og tónlistina sauma Fagrar nótur leika sér Og strengi mína strjúka Þegar lagið hljómar blítt Fá áhyggjur að fjúka Nótur mínar segja mér Að slaka á og dreyma Harmoníur hljóma nú Og hjálpa mér að gleyma ] [ Hafið bláa hafið, svo fallegt og hljótt Hafsins huldu dýpi, svo dimm og köld Hafsins sterku öldur svo lævísar leika sér Hafið stóra hafið, hvert er þitt leyndarmál Hafið gamla hafið, hve mörgum hefur þú drekkt Hafið skrýtna hafið, hvers móðir ert þú hér Hafið salta hafið, hví græturðu svo sárt Djúpa hafið svarta, svo dularfullt í nótt Hafið bláa hafið, ég kem til þín fljótt ] [ Ég fékk ekki inngöngu í Rithöfundasamband Íslands (en frá því að sambandið var stofnað hefur einungis handfylli manna verið neitað um inngöngu) og ætla ég því að stofna minn eigin söfnuð áður en ég yrki mitt síðasta ljóð. Mitt síðasta ljóð verður ekki um hópsamfarir, það verður fágað og goðborið bæði og goggolíuangandi. Þannig mun ég hvorttveggja skapa sjálfum mér eitthvað til dýrðar sem og lofa þeim, sem (óumflýjanlega) litu upp til mín, að kyrja til eilífðarnóns. Til eilífðarnóns verður sungið: Hallelúja og heill sé foringjanum, bókmenntapáfanum! Vér elskum vort land. Grátið ekki, börnin mín. Ég er farinn þangað sem verðlaun og viðurkenningar einu gilda. Næst heyrið þið til mín og nóttin tekur andköf. ] [ Drýpur af Daðsteini djúpsteiktur kynþokki og viska Fýsurnar eftir djúpsteiktri risarækju hans fara að fiska Á brokki hans óþokki í stórum smokki á gat tekur að giska Gerir tvö að einu og borgar að lokum háar bætur miska ] [ Víst eru skoðanir oft meðal fólks skiptar skynsemin oft fjarri, tilfinningarnar ráða fyllast frjóir hugar oft kímniskláða og eru hvattir til dáða ,,bíddu þurfa þessar feministapussur bara ekki að fá´ða?” en hlustaðu ekki þegar feministajussurnar ,,sannleikann” þær jarma því ef að þú tekur undir hefur það áhrif á þitt heilaga skapabarmakarma Og drengirnir þeir detta í keppnisferðalag og dulmálin sem þar gerast, eru skilið eftir dumbrauðir og djarfir halda heim dulkofralegir, þykjast af ást þroskaheftir og fljúga heim með fylltar töskur - kynsjúkdómafarma og farir þú undir þá, skaðar þú þitt skapabarmakarma Í Portúgal þar bjó snotur, velvaxin pía sem heillaði Norðmenn, Dani og Svía og Íslendingur sagði ,,þetta er rimjob-tía”* en seint var hún talin Evfemía því þó gullfalleg hafi verið og geislað um tíma af sjarma þá lagðist hún undir garma sem rústaði hennar skapabarmakarma Já, hinar kaþólsku þær klikka víst seint í kuntuna þær vilja það allra síst því þær vilja halda í meyjarhaftið - eða ég við því býst en það breytir þó litlu, það eitt er víst því ef þær sjúga og leyfa þeim í staðinn að þrykkja í sína þarma þá hefur það samt áhrif á þeirra skapabarmakarma Á bar hinar brjóstgóðu blaka börmum og bítnikkar segja ,,ég kem að vörmum” og vefja utan um þær sínum örmum og vitna í Ginsberg og blaður frá öðrum sjörmum en við hörmum slíkt vessatal, komið frá mittis jarðvarma sem auk þess virða ekki þitt dýrmæta skapabarmakarma En víst er sumar,,ástin” svaðaleg freisting seiðandi dísir og sjúklega mössuð tröll en svo þegar haustar, er hrifningin horfin heimskupörin ljós en sagan langt því frá öll svo leggstu ei undir nokkurn sem á skólahaustdögum þú munt harma því auk þess flýgur sagan hratt og þá brottlendir þitt skapabarmakarma Siddharta hann sat við Bodhi-tréið sendi Mara þá sínar sjúklegu dætur en sjá hann stóðst freistingarinnar rætur uppljómaðist og fékk að lokum sínar bætur en enginn skilur lengur búddismans djöfulsins dharma en drottinn minn, þær skilja nú mikilvægi skapabarmakarma. ] [ þar sem ég læðist til þin í gegnum nóttina annars hugar og vönkuð rekst ég á fornan elskhuga. Enn föst í sama farinu fer ég á hnén og læt elskhugann lemja mig uns ég loksins læt undan og óska honum til hamingju með afmælið. Sjö tímum síðar bíður þú enn eftir heimsókn sjö tímum síðar hef ég löngu gleymt ] [ Blóð, blóð, blóð Gunnar þráði blóð Hann varð glaður, glaður, glaður og síðan át hann blóð Nakinn, nakinn, nakinn með krosslagða fætur Nakinn, nakinn, nakinn og hann varð glaður, glaður, glaður og síðan át hann blóð Vín, vín, vín með krosslagða fætur Hann varð glaður, glaður, glaður og síðan át hann vín Blóð, blóð, blóð pabbi þráði blóð Og síðan át hann vín og hann varð glaður, glaður, glaður meðan hann át blóð ] [ Fjarlægir draumar á faraldsfæti. Formfastar skoðanir að faðma hvor aðra. Freðin hjörtu í feluleik. Eftir fáeina daga -allt farið. Fiðringur í maga og fífldirfska. Fyrirgefðu mér ef ég flýg til þín. Því ég fíla ekki Þennan feluleik lengur. ] [ ég man enn þann dag ég grét ég var sex ára samt man ég enn þann dag ég var eitthvað svona fimm sex ára systur mína langar svo að setja göt í eyrun þetta er ekkert mál ég bý þá bara eitthvað til hún er átjan ára held ég eða kannski nítján ] [ ég gaf þér von um betra líf, þegar von þín hvarf. ég hylmdi yfir sannleikanum, þegar þú varst of veikburða til að heyra hann. ég bauð þér undir verndarvæng minn, þegar skjól þitt hrundi. ég gaf þér alla krafta mína, þegar þú áttir engan styrk eftir. ég grét fyrir þig, þegar öll tár þín voru búin. ég varði þig, þegar þú varst gjörsamlega varnarlaus. ég hjúkraði þér, þegar veikindin börðu að dyrum. ég leiddi þig, þegar augu þín ekki sáu. ég hélt á þér, þegar fætur þínir gáfust upp. ég var þar alltaf fyrir þig, þegar þú þarfnaðist mín. ég datt, þú labbaðir framhjá mér og sagðir ekkert. ég grét, þú labbaðir framhjá mér og sagðir ekkert. ég bugaðist, þú labbaðir framhjá mér og sagðir ekkert. ég brotnaði, þú labbaðir framhjá mér og sagðir ekkert. ég hrópaði, þú labbaðir framhjá mér og sagðir ekkert. ég brást þér, og athygli þinni var náð. \"þú ert ömurleg, og ekki til að treysta á\" - takk fyrir ekkert, helvitis auminginn þinn. ] [ Ligemeget hvor grim jeg ser ud, synes du stadig jeg er pæn. Ligemeget hvor mange dumme ting jeg laver, ser du stadig op til mig. Ligemeget hvor tit jeg brænder dig af, aftaler du stadig ting med mig. Ligemeget hvor tit jeg svigter dig, stoler du stadig på mig. Ligemeget hvor trist jeg er, trøster du mig altid. Ligemeget hvor sikker du er på det .. har jeg ikke fortjent dig. ] [ Eftirsjáin er hafið, með flóð og fjöru. Lifir sjálfstæðu lífi með eigin lífríki, sérkennilegum fuglum og tungumál sem fáir hafa ráðið. Eftirsjáin flæðir yfir í hefndarhug og ræðst að sálinni af fullum þunga og harðri seltu. Sálin engist um og baðar höndum, fótum og reynir allt hvað hún getur að ná til sólar, anda, sleppa. Eftirsjáin sér að sér um stundarsakir. Fjarar út. Talar við tunglið, sem svarar engu. ] [ Ég hló með sjálfum mér í matvörubúðinni þegar ég stóð við kassann og eldri kona neitaði að að fá plastpoka undir vörurnar á 10 kr en þess í stað dró hún upp úr vasa sínum plaspoka merktum Miklagarði Það er nánast á hreinu að hún hefur sparað mikla peninga frá því hún borgaði fyrst fyrir þennan poka í Mikligarði einhverntíman á 9.áratug síðustu aldar ] [ Rrrrrrrroooooommmmmppp... hhhnnnnnnnmmmmpppffff, hic! Ó, afsakið ] [ Ó, Janus hvar ert þú? Fórstu kannski í Bónus? Eða ertu kannski farinn heim á Venus? Á Lótus? Hókus pókus? Ó, Janus ] [ Með tárin í augunum, geng ég eftir gangstéttinni. Horfi á dropana sem falla á ógnarhraða allt í kring um mig. Ég er ekki ein að gráta. Nei, skýin og himininn gráta með mér. Mér er kalt. Ég skelf, hristist og tennurnar glamra. Þunna peysan orðin rennandiblaut og hárið límist við andlitið. Loks hætta tárin að renna og rigningin minnkar. Ég geng hægum skrefum heim á leið. Í leit að einhverjum sem þykir vænt um mig. Í leit að ást og umhyggju. ] [ Hún vildi láta taka til sín troðin niður á fundum. Hefur lagt sitt lag við svín, leikin grátt af hundum. Þú ert falleg Friðleif mín en fjandi lin á stundum. ] [ Kysstu mig! Öskraði mígfulli sjónlausi dvergurinn og kreisti rasskinnar virðulegrar maddömmunnar sem var búin að sötra alltof margar blóðmaríur... ] [ Og Náttúran spurði Jakob hvernig líf hún skyldi veita honum: Hvort viltu frekar eigra um jörðina og spá í veraldarflækjur heims sem gengur þvert gegn skynseminni eða leika saklaus á strengi skógarins í allri þinni nekt og náttúru? Jakob sagði við Náttúruna: Það vildi ég, að ég fengi hvort tveggja --- Upp frá því eigraði Jakob nakinn og saklaus þvert gegn skynseminni ] [ í mínum augum eru vinir mínir og fjölskylda aðall en ekki ekki þeir sem prýða forsíður glanstímaritanna ] [ Ég er frosinn drullupollur og ferleg galdranorn ég er flestum öðrum til ama ég er mælisins víðfræga korn ég hefði betur farið í lakið, því ég er furðuleg vandræða tík ég er fúl gagnvart öllu sem andar ég er ámáttlegt lifandi lík. ] [ Stundum er ég gleymi að sofa augun í mér verða lin bara ef í þessum kofa ætti til flösku gin ] [ Í gamla daga átti ég bók núna á ég tölvu einnig líka drekk ég kók ekki les ég völvu ] [ Keyri ég um Kjalveg grófan, kúldrast í kojum hingað og þangað. Sést þar hvorki tófan né lófann, bara steinar svo langt sem augað eygir. ] [ Allar vörður sem voru byggðar, af fólki með vonir, og mættu seina augum hina. Allir þessir steinar þarna uppi, skildir eftir í einmanna hringrás, Ameríka stúlkan tók upp hrafntinnu, og sagði.This stone is not exist in my country. ] [ Eru kynskiptingar líka óbreyttir borgarar? Eða teljast þeir sér, þegar talað er um mannfall í stríði? ...Ham(skipti)borgarar? Mjehehe ] [ Nú er sól og blessuð blíða, bærilegt væri að detta íða og láta líða úr sér. Um gömul afrek rétt að raupa, renna niður úr fjölda staupa, geðjast myndi mér. ] [ I\'m getting up from bed ringing in my head alarm\'s having a fit -So I\'m playing dead Wanna sleep some more God, I\'m such a bore -Set it to \"a bit\" and wake up in four.. ..Couldn\'t the Sun just wait a minute more? -World is what it is... I\'m rushing up to school but feel like such a fool I\'m late again! -It seams to be a rule But that\'s not half of all I need to do much more Get to work, and work and work lots more.. ..Couldn\'t the Time just wait a minute more? -Life is what it is... I should\'ve got up earlier I should\'ve eaten healthier Should not have staid up late! I wish I was more organized I wish I was more energized I wish I wasn\'t always late.. ..Couldn\'t I just do a bit more right? -I am what I am... ] [ Ég missti andlitið og er í djúpum skít. Vantar gefins grímu og góðan drullusokk. ] [ Haminguóskirnar hafið, herðist nú spilaleikur, í baráttu um Bermúta lafið, blessaður vertu keikur. ] [ Hit The Road Jack In the background The ex-lover sprays bitch On the kitchen floor Mr. Gin is in his bedroom Informing us of the Secret Agents Demanding the money from the dead Walkie talkie The family with tears On their forehead Block the window and Turning quickly toward me Offer pills that will make you Do backstrokes in the air. I am picked up by a black car On a street in the south of France The driver is an opera singer, Pops up a bottle of champagne The highway becomes bumpy A mask jumps up Holds my face -I am indeed the daughter of a pastor With no intentions of drinking From his sparkling green bottle I skip up the stairs, -- The gaps between them with Creatures that grab my ankles I can’t see the picture of us In front of the summer cabin Where we planted a red willow ] [ Fálpandi trúleysingi eins og dropi í hafið féll í gleymsku minninga. Fékk sér smók honum var það tamið alinn upp í formi grynninga. Fjórtán ára með dollara í stað augna gekk upp að altari. Gamall maður skildi loks í hvaða átt lífið færi. Komst ekki af stað hjartað of kalt öll horfnu tækifærin. Bragðið var vont já rammara en salt, hann kvaddi engann. dri. ] [ Sólin og skýin hafa barist um tilveru rétt sinn í allt sumar því miður höfðu skýin betur að þessu sinni Koma dagar, koma ár og framundan er langt undirbúningstímabil fyrir næsta sumar Skýin eiga titil að verja næsta sumar ] [ Þegar ég hélt á hausnum á þér Þegar þú bleyttir lófana mína Þegar þú sagðir að þú gætir ekki meira Þegar þú sagðir að mér væri ekki sama Þegar þú sagðir að ástin væri grimm Gat ég bara hugsað Hvað hausinn á þér væri eins og grasker Og þvælan úr þér væri appelsínugul Og ef ég myndi kremja þig milli handanna Myndirðu springa Og klístrið færi aldrei frá mér Það er helvíti blóðugt að vera stungin af Það er blóðugra að láta sem ekkert hafi gerst Þegar þú komst aftur heim ] [ Við kvöddumst, eða höfðum gert það þú sagðist hata gúddbæs þannig ég sagði ekkert og fór bara. Þú varst tvístígandi, með báðar fætur. ] [ Síðustu dagana var hagkvæmt að heyja. Hentist ég því óðar og talaði við Dodda minn Skorra. Hann vildi ekki láta vin sinn þurfa að segja, að vegna mikilla anna, dræpust hestar mínir á Þorra. Sendi landbúnaðarverkfræðing og lét hann fara að slá. Ljómandi náungi var það, Austurríki frá. Heyskap er nú lokið, hirt er upp hvert strá. Ég held töðugjöld von bráðar, geta menn reitt sig á. ] [ Ég sá þig alltaf í þristinum á miðvikudagsmorgnum Ég er á leiðinni í íþróttir en ekki alltaf Stundum kúri ég yfir mig Stundum skrópa ég En ekki þú Þú ert alltaf þarna Gulrótarhaus Þú nebbla setur krullurnar í kúlu oná hausinn eins og gulrót Þú virðist svolítið góð með þig Ef þú sért mig stara hvæsirðu með augunum Og setur stóru sólgleraugun á þig Kinnarnar þínar virðast mjúkar en þú ert alltaf með meik Þú er samt sæt í skrítnu brúnu úlpunni þinni með stóra kraganum Ég hugsa stundum um þig Ekki að það séu sorahugsanir Oftast nær En síðasta daginn okkar saman Þú vissir það auðvitað ekki þá og örugglega ekki núna elsku gulrót virtistu leið Ég fattaði það ekki þá En þegar þú fórst út slitnaði teygjan mín Gulrótarhaus ] [ Geimverur brottnámu Zatan en sáu mikið eftir því, hann er svo leiðinlegur. Nú sitja þeir uppi með hann á plánetu lengst í burtu og hann neitar að fara því grænn er uppáhaldsliturinn hans. Í Helvíti komu vistmenn á lýðræði skúrka og fjandmenna, fluttu ræður í formi rokktónleika, hækkuðu hitann og enginn komst á kjörstað. ] [ Hvítur boltinn klifrar upp á bláan himininn smækkar, smækkar og smækkar. Skyndilega tekur boltinn sveig, fellur, fellur og fellur, lendir að lokum á grænni brautinni þar sem ég hafði ætlað honum. ] [ Ég hefndina réttlæti hömlulaus, þó hún geri slæmt illu verra. Tel þó verst lengi að hengja haus og hopa fyrir stríðsglæpaherra. ] [ I hate you but i still love you i allways hate you but i allways love you 2 but i hate you more then anithing but now i know i just love you 2 mouts ;* ] [ LOT EM5 06 135 13:41 ] [ bölvað barnið brosti framan í mig sá ekki svefndrungann sem elti mig til dyra pírði augun móti æskuljómanum svaraði með jái og nei þurr í munninum og skellti hurðinni sneríst á hæl og faðmaði drungann leyfði honum að bera mig í bólið aftur sökk í fortíðina enn á ný og brosti í draumi ] [ það kemur enginn ég kom og hér er enginn þú hér? þau ætluðu að koma en komu ekki fóru annað fórst þú líka? það kemur enginn úr þessu og hér er ég ] [ ég gleymdi að heilsa honum gleymdi líka að segja bless hafði ekkert að segja fyrr en hann þagnaði svo hann gat ekki svarað hefði heldur ekki heyrt í mér enda dáinn ] [ Kannski fæ ég kaffi-lús, Kæra hvert er næði? Finnast færri kaffihús. fyrir okkur bæði ] [ Vinnnan veltur yfir haus varla sér úr augum Haugar hrúast, ekkert maus helv.... ég fer á taugum. ] [ Við ljóðadís þessa líkar mér, lítur nú til mín og hljóðar: ,,Ýmsir víla allt fyrir sér og oftast kallast þeir slóðar. Hálfnað er verk þá hafið er þó horfurnar séu ekki góðar, blessaður vertu ekki barma þér, byrjaðu og það kemur óðar". ] [ Fáum frún\'í júróviss, fagur sigur ei fyrir bí Vekur varla mikið fliss. Veðjum öll á Leoncie ] [ Veturinn sem leið. Sat stundum ein með sjálfri mér. Nóg að hugsa. Veturinn úti en vorið samt að koma. To many miles there To many roads to bear To many rivers to cross To many thoughts that care Einhverntíman á köldu kvöldi í vetur datt það upp úr mér. Ekki að ástæðulausu. Stundum hafa vissar manneskjur einhver áhrif. Óútskýranleg áhrif. Með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. When did I miss you? And where are you now? Það sem ég gat setið og spilað það án þess að fá leið. Geri enn... Tell me what I can do, how to cross the country, to see you, to see you again. Svo allt í einu skilur maður allt. Þegar ég hugsa um það þá hefði ég sennilega búist við því. Þegar ég sat og spilaði, var það bara til í huganum. To many mountains to fear To many words to hear To many stones to bear Just to many miles there. Söknuður og þrá. Endalaus þrá. Fannst ég svo ein og alltof langt í burtu. I really need you. Where are you now? Engin orð og aðeins hugsanir. Tíminn skreið. Leið stundum svo hægt. Núna er eins og hann hafi hlaupið. To many minutes go by To many seem like a lie Is there ever a road, to long? No reason not to try. Svo endaði það með ljúfum tónum. Svona rétt eins og í alvörunni. ] [ [ Eyða ][ Eyða ] [ Eyða ] [ Eyða ][ Eyða ] [ Eyða ] [ Ert þú alveg viss ][ Eyða ] [ Eyða ] [ Ert þú alveg viss ][ Eyða ] [ Eyða ] [ Staðfest ][ Ert þú alveg viss ][ Eyða ] [ Eyða ] [ Staðfest ][ Ert þú alveg viss ][ Eyða ] [ Eyða ] [ Staðfest ][ Staðfastur ][ Staðfesta er dyggð ] [ Ert þú alveg viss ][ Eyða ] [ Staðfest ][ Staðfastur ][ Staðfesta er dyggð ] [ Ert þú alveg viss ][ Eyða ] [ Eyða ][ Eyða ] [ Eyða ] [ Eyða ][ Eyða ] [ Eyða ] ] [ Er frúin sýndi Þórði þrjósku, þá barst hann af settri leið. Hann leitaði sér uppi Ljósku og ljómandi fékk þar reið. ] [ Eitt sinn var ég í þvílíkri kvöl einn vinur stóð mér þá hjá Hann vék ekki frá minni hlið því hann vildi bægja kvölinni frá En ekki vildi ég hlusta ekki á hann eða neinn Ég var bara í myrkinu svarta og vildi vera þar einn Ég sá ekki fram né aftur ég sá bara ekki neitt Ekkert virtist geta þessu myrkri eytt Hann tendraði þá ljós og birtu það gaf af sér Myrkrið það byrjaði að eyðast þá aðallega í hjarta mér Hann settist hjá mér og sagði ógleymanleg orð við mig “ávalt láttu ljósið skína… Og myrkrið mun ekki ásækja þig” Ég skildi ekki við hvað hann átti en fljótlega sá ég þó það.. ..aldrei láta ljósið slökkna sem þú geymir í hjartastað Ætíð skal ég því muna ef myrkrið mun birtast á ný þá læt ég ljósið skína og birtan mun eyða því Ljósið það hamingju gefur og birtu og veitir yl Því skaltu láta það skína og finna hvað gott er að vera til Takk fyrir ljósið minn vinur Takk fyrir að hafa tendrað það Þegar allt svo dimmt og ömurlegt ég er svo heppinn að hafa átt þig þá að TAKK ] [ Regnbogi glitrar um himinn Þvílíkt undur sem það nú er Líkt vinátta sem maður öðlast og varðveitir Um alla eilífð í hjarta sér Á enda hvers regnboga er gullið góða maður finnur það ef vel er að gáð maður getur fundið slíka gersemi í vináttu sérstaklega ef vel í byrjun er sáð Þó er sú staðreynd að regnbogar dofna og eftir verður minningin ein um þá liti, það undur og þá fegurð.. … sem virtist vera svo hrein vinátta getur því sannarlega dofnað sérstaklega ef vinur í burtu fer minningar verða því einungis eftir fyrir þann sem eftir er Um hlátrasköllin góðu þau skemmtilegu spjallkvöld tryggðin, trúin og traustið og hvað gleðin tók oft öll völd Þó gerist oft það undur að regnbogi birtist á ný og vinir aftur hittast líkt og ekkert hafi farið fyrir bí Því ef vonleysið mann ei gleypir heldur ætíð í þá trú að regnbogi muni aftur birtast og sá regnbogi gæti verið þú það skiptir því ekki svo miklu hvar á jarðarkringlunni maður er því ætíð mun maður sjá aftur regnbogann birtast sér alltaf mun ég því halda mínum kæra vin nær allaveganna í mínu hjarta öruggan stað þar hann fær ] [ Farvegur lífsins liðast um, til og frá. Hægri og vinstri. Þrátt fyrir það sækir hann alltaf í sömu átt, sama farið. ] [ Ég fékk þá flugu í höfuðið er seinna ég kramdi, En hún vakti mig til vitundar um mátt minnar rithandar. ] [ Líklega er það sem enginn sér alltof djúpt inn í mér ] [ Spila póker á skýjunum, lít niður í gegnum reykinn. Lífið er svartir punktar á fleygiferð, líkt og atóm. Við erum að spila upp á hamingju okkar á jörðu niðri, þegar þangað er komið. Gáfur, útlit og vini. Allt. Hverju þorir þú að veðja? ] [ Það sem einum lætur, öðrum illa fer. Ýmsir láta klaufa fara í taugarnar á sér. Það skiptir engu máli hve einfalt verkið er, einhver gerir mistök, skal ég segja þér. ] [ Ímyndaðu þér ógeðslega ljóta og feita stelpu, nakta og blauta í sturtu. Hríslast um þig skröltormur? Eða ertu kátur sem slátur? Veistu, ég hef ekki hugmynd hvað hvort um sig þýðir. ] [ There ones vas a friend, my best friend. She was the one i could talk to, the one i could trust. But one day day she told me she had to go, go descover the world. I waited for her return. A year went by, i was still waiting. Then it happend, she came back. I was thrilled, so happy. But in a flash that happiness was gone. It wasnt the same. Now i feel alone, missing my friend. The friend i waited a yer for. ] [ Skoðunum vilja ýmsir aðra svifta, oft þó kveði fast við ramman reip. Fljótur er vitur furðu oft að skipta, en flónið situr fast við sinn keip. ] [ Lætur fjúka ljóðasmíð listamaðurinn snjalli. Oftast fullur ár og síð en aldrei sér á kalli. ] [ Það er fyndið að vera rauðhærður. Hef samt ekki prófað það. ] [ Reiðskór þeirra urðu rennandi í dag, en reiðmenn komu glaðir úr ferðalagi. Þó veðurguðirnir væru þeim ekki hag og vegaslóðarnir frekar af slæmu tagi. ] [ ”Ég elska þig” sagðiru, Ég trúði þér, Þetta var svo góð tilfinning. Hjartað mitt sló hratt En samt svo hægt. Þú lést allt líta rétt út En síðan fórstu, Og ég veit ekki afhverju. ] [ mér finnst eins og blómin séu seðlar syngjandi fimmþúsundkallar þau blakta í blænum á öræfum Austurlands og eru ekki lengur tilfinningaleg þau blakta í blæ ræ ræ ræ ræ og mamma á ekki lengur landið sitt - - - - fýkur undan landinu ástin á landinu í landinu er ekki lengur ást á landinu hvers vegna er gljúfrum breytt í kúrvur? hvers vegna er gæsum breytt í óvini? hvers vegna er mér breytt í hryðjuverkamann? hvers vegna er mótmælandi sjálfkrafa iðjuleysingi? hvers vegna er náttúruvísindamaður á varðbergi? hvers vegna er náttúruljósmyndarinn áróðursmeistari? hvers vegna segir Valgerður allt annað en satt og af sér? ] [ Fór á stjá að fanga kall frygðar heyrðust sköllin. Nýstárlegt var fyrsta fall og fylltist mærðarhöllin. ] [ Bros okkur sýnir að hjartað er heima, hlæðu og láttu þig stressinu gleyma, lifðu í gleði og lát þig svo dreyma, lystisemdir sem órofa blað og hamingju nýturðu á hverjum stað. ] [ ég fylgist með þér klæðast latexhönskum og vopnbúast löngu priki sem þú potar loks í mig og gefur frá þér unaðsstunu um leið aftur ofurlítið fastar ofurlítið lengri stuna Gnísti tönnum af söknuði en reyni að sætta mig við staðreyndir Að hafa ofnæmi er ekkert grín ] [ Sjá roðann í austri, amma! Ég lít hann og roðna. Í kinnum. Mitt rjáfur er loðið af hugsunum annarra manna. Manna, sem merja og merja og merja og merja, landið, sem mamma og amma og langamma elska. Ó, amma! ] [ landið mitt er nafli alheimsins reyndar er alheimurinn minn vanskapaður því hann er með nafla á enninu en það er aukaatriði ] [ herinn gaf okkur flugvelli herinn gaf okkur tæknilegt forskot herinn gaf okkur smekk fyrir sjónvarpsefni herinn gaf okkur heilbrigða samkeppni um konur herinn gaf okkur lýðræði herinn gaf okkur hagvöxtinn herinn gaf okkur frið frá klikkuðum rússum herinn gaf okkur herinn gat okkur og nú er hann að fara, hvað verður um mig þá? af hverju þurftuð þið að móðga hann með vanþakklæti og heimtufrekju? af hverju? ] [ Lágkúran og lúabrögð, leggjast hér á garðinn. Þurftarferka þingmannshjörð, þjappar sér um arðinn. ] [ Snjókornið lak niður á stofugólfið mitt og breyttist í tár Ég fann að það var ég sem grét, Ég grét tárum sem áður höfðu verið frosin Ég græt víst oft þessa daganna, vakna hreinlega bara sorgmædd inn í daginn. Sólargeislar sumarsins hafa verið blíðir, þeir hafa brosað sýnu breiðasta brosi og hlegið með mér eins og góðir vinir Ég og sólargeislarnir drukkum daglega fagur bleikt vín og dönsuðum nakin í gleði okkar í nóttum án myrkurs Haustið er víst komið núna og vindurinn læddist að mér og strauk mér um kinnina og þurrkaði tárin blíðlega af vanga mínum Ég bara sakna ykkar sólargeislanna vina minna svo mikið ] [ Og rétt eins og vatnið er tíminn takmörkuð auðlind sem vinnur á ódauðleikanum... ] [ Gluggaveður er skelfilegt! Maður lítur út um gluggann með bros á vör sólin skín og ekkert ský sést á himni Maður tekur ákvörðun að klæða sig létt og gengur út fullur af gleði eftir sirka 5. mínútur er með orðin blár og maður skelfur á þeiri stundu er maður orðin fórnarlamb mesta svikahrapps landsins sem er gluggaveðrið ] [ Ég veit það nú ekki, en eitt er alveg á hreinu: Það voru ekki trúleysingjarnir á vantrú.net! Annað eins magn af gremju og réttlátri reiði hefur maður bara ekki séð í háa herrans tíð! Og gremja og réttlát reiði eru einfaldlega ekki sexý. Og sá sem skapaði blómin smá hlýtur að hafa verið sexý! Það er augljóst mál hverjum þeim sem augu hefur. ] [ Íþróttaálfurinn knái á líka sínar slæmu stundir Í dag opnaði hann hurð og fékk skurð ] [ How could this happen? Now you\'re gone What can I say.. I heard the news, you have left this earth Why shall it always be death instead of birth You were a good friend, and I will never forget The place, night, and the time that we met I have been trying to face my sorrow But for you my dear, ain\'t no tomorrow Why did you go, why did you leave... ] [ Aldrei hef ég verið eins þyrst og eftir að ég hafði þig misst. Hárið dökka- höfin bláu -hristu upp í lífi gráu. Græna læki - ég get víst kysst -vafrand’um blaut, með enga lyst En síðan augu þín mig sáu -í móki -þér ég neita fáu. Myndir þú slökkva þorstann minn? Þú þorir ekki-það ég finn. En er augu þín blá ég sá -elskaði hjartað fyrst að slá. Ef tíminn er besti vinur þinn vættu þá bara aðra kinn. Í bláu lóni-ég ligg ennþá. -Lífið er skjálfandi lítið strá. ] [ rassgat í bala og bárur smáar rísa ] [ Kvíðamistur framan af degi en rofar til með köflum eftir hádegi. Þunglyndi átta gráður. Gleði ekki mælanleg. Djúp geðlægð nálgast og færist hratt yfir um helgina ] [ Maðurinn frá mars! ] [ prufa prufa prufa prufa prufa ] [ Ef ég hefði viljað hitta þig hefði ég gert það fyrir 4 vikum. Þegar ég er með vinum mínum á ég til að gleyma þér... þannig það virðist sem þú skiptir ekki það miklu máli. En núna haltu þér frá lífi mínu... ] [ mig langar svo að finna þig við mig og æpa af ást ] [ Þú villtist af leið og ég sá hvert þú fórst og ég bjó til brauðmolaslóð eins og Hans fyrir Grétu svo þú myndir rata aftur heim En þú sópaðir slóðinni burt til að fá frið fyrir mér og nú gætirðu ekki ratað til baka jafnvel þótt þú vildir. ] [ Elskið mig Hatið mig Grátið mig Finnið mig Hunsið mig Snertið mig Lifið mig ] [ Hægt og rólega myrðir maki minn mig. Utanfrá ég dey. ] [ \"I love you\", you said I belived you, It felt so good My heart was beating so fast But yet so slow. You made everything seem so right. Then you left, And i dont know why. ] [ Veturinn var svo kaldur úr strompum borgarinnar rauk snjórinn var sem sandur og reiðin í mig fauk Af hverju er ég enn hér föst á landamærum sveinka einmana hrísla nakin, ber það þarf kraftaverk við mér að kveinka ] [ Þegar þú fórst varst þú elskaður þegar þú fórst varðst þú frægur Allir vilja finna þig Í afneitun Hönd í hönd við vonina Hönd í hönd við þann óendanleika sem hræðslan ber í skauti sér Hræðslan sem er drifkraftur þeirra sem elska þig Ætlunarverk hundruða stjarna sem vilja lýsa þér leiðina á öruggann stað komdu heim ] [ I used to dance tango with life Now I have a slow dance with death ] [ MAYBE SOME DAY WELL BUY A PLACE IN THE SUN, WITH NOTHING TO DO BUT DRINK AND HAVE FUN. ILL WATCH YOU ROLL IN THE SAND WHILE I SWIM IN THE SEA MY ARTIC BEAUTY SOME DAY YOU & ME ] [ Ef haf væri himinn, og heimurinn grár, þín veröld í molum, á hjartanu sár. Að eilífu elskar en einmana ert, yfirgefinn, sorgmæddur, hvað geturðu gert? Þú ert rót minnar gleði, þú hjálpaðir mér. Nú ert þú í vanda, nú hjálpa ég þér. Sama hvað verður, slétt sama hvað. Í ákveðnu hjarta þú ætíð átt stað. ] [ She talks to herself She talks to the TV She talks of the things She can no longer see She is always at home And she’s always lonely She prays every day to have some company she has grown very old year by year always cold her whole life has been sold she’s got no one to hold she’s been left all alone to mold forsaken, abandoned, imagine her pain. She sits by the window Admiring the rain And only her memories will remain ] [ I am on fire Burning bright Feel my fire See the light I am on fire Burning, dying Touch the fire Turning black I’m turning black Now you’re on fire Flaming, burning Soon turn black ] [ In your place of safety Wait for me Bleed for me I will be there to collect your soul I will be there to take you home In my realm of reality Come to me Roam with me Together we make darkness light Together fade into the night In my room of darkness Together Forever Together we shall be Forever you and me ] [ Ég er vængstýfð kráka Í margmenni siðmenningar. Myrkur umvefur vængi mína, Ég er ein Ég hef villst frá mínu liði, Í eirðarleysi sef. Mitt hjarta er stórt en brestur þó. Ég þarfnast míns hrafnaþings Glötun bíður mín hvert sem ég fer Höfuð mitt er milli steins og sleggju Hvað get ég gert? Koma tímar, koma ráð. ] [ Ákveðin er ég ekki En veit þó hvað ég vil Blóð mitt hleypur í kekki Ég bæði veit og skil Ég hika og ég stama Ávallt alla tíð Hvorki frægð né frama Fæ ég, samt ég bíð Veistu, einhver elskar þig, Veistu, ég er til? Ef þú skyldir finna mig Veistu hvað ég vil. ] [ Saman við göngum í kassalaga hringi í þessu Kárahnjúka krækiberjalyngi Fjárfestum í áframhaldandi góðæri Étum saman landsins besta lambalæri Þorgrímur Þráinsson kom og sleikti öskubakka Ómar Ragnarsson lifir og elskar Eyjabakka Eins er með okkar fallegu hnakka Sumt fólk ávarpar þá sem litla krakka Að hafa áhrif er kannski of létt Ef maður sjaldan hefur orðið frétt Stigagangar af rössum til að sleikja Til að fólk hætti að reykja Áhrifamiklir menn í röðum Bíða eftir grískum böðum Tala um landið sem sjálfstæðissnilld Gera það sem þeir hugsa og tala að vild Breytum bara landinu í kjarnorkuver Hafa menn ekki fattað að geysir er hver? Dælum geislavirkum efnum í æðar Dettifoss Fælum túrista í burtu, hengjum kindina á kross. Eins og það er kjánalegt að yrkja um þetta ljóð Ættum við kannski að styrkja mig og stofna lítinn sjóð? Það er sko alls ekki ódýrt að reyna við íslensk fljóð Ætli móðir náttúra og vinir, séu orðinn móð. ] [ Afhverju situr enginn hér við hlið 5 og 6 nema þrír vitlausir Íslendingar sem forðast sitt lið Er það kannski hroki að vilja sinn frið eða vitum við kannski betur og völdum rétt hlið ] [ Do you speak Engrish? I speak little Engrish. You Íslandic? Me from Kína. ] [ Hvað gera ruslatunnur um nætur, annað en að velta fyrir sér hvort pokinn verði svartur. Það gera ruslatunnur um nætur ] [ Manstu litlu kompuna í kjallaranum þar sem við áttum okkar fyrstu ástarfundi? Manstu hótelherbergið í Kaupmannahöfn þar sem við drukkum rauðvín uppi í rúmi og elskuðumst liðlangan daginn? Manstu að okkur langaði í lítið hús með garði sem huldufólk ætti heima í ? Manstu, manstu, -eftir mér? ] [ Lár,hærri,hæstur. Alltaf er hann stærstur. hann,hún,það. Viltu fara í bað? Sætur,sætari,sætastur. er strákurinn minn. Lýstu mér og þér. Nemdu mig og þig. Segðu frá mér. ] [ Alltaf ér ég kát. Leik mér með gát. Íti alltaf þér. Neinn ekki sér. Alina ég er. ] [ Ég er með þér og þú ert með mér. Skyl ég þig ey. Virðingin er sein. Rifrildin ein. Á hverjum degi, ég tek þetta ey meir. Þessu verður að linna. Ég þarf svo mörgu að sinna. Þó ég sé að vinna. ég fynn þetta en. Stundum svo sárt, stundum svo fátt. Sem ég get sagt. Um þig. ] [ Sem kraftmikill rokkari öskrar hugur minn. Hjarta mitt fær gæsahúð og klappar taktfast sem æstur skríll. En túlkun mín, á hug til þín, Fær enginn að heyra nema hjarta mitt. Sjitt. ] [ Ruddist um á ryðguðum peiloder Sem tók fjóra rúmmetra í skóflu. Það lak olíu af leiðslum. Og Öskubakkinn var fullur Ég sá allt í svarthvítu Og var staddur í annarri veröld. Smurolían var föst í bolnum Og gasiið í kveikjaranum var að klárast. Eftir hálftíma kom kaffi Og allir settust saman inn í vinnuskúrinn Sem angaði af fúkkalykt. Verkstjórinn sagði sögur úr sveitinni heima Og baktalaði Nonna sem var veikur Ég hugsaði um hvort ég ætti að fá mér tattú á handlegginn Eða fara í háskóla um haustið. Fannst það ekki meika sens, að velja á milli háskóla og tattús. Þetta var langt úti í sveit. ] [ Inga orti lítið ljóð. Líkaði Ingsu illa, Henni ekki á sama stóð, Stuðla þarf út að fylla Steini sagði nokkuð gott Stúlkan kann að yrkja, Pukraði á blað, gerði plott, Piltinn Andra að virkja. Andri amstri átti í, Að koma ljóði saman, Helen tók þátt í því, Svindl þótti henni gaman. Steini stóð þau verki að, Nú skal hann yrkja sjálfur, Andri stritar sveittur við það, Slefandi eins og kálfur. Á blaðið ei ljóð birtist þó, Bitur hætti gaurinn. Heima í koti Steini hló Hlaut að lokum sigur aurinn. ] [ Í heiminn varst fæddur óskæddur en gæddur líkamstöfrunum ljúfu á grúfu þú svalaðir fýsnum og býsnum af þörfum sem mellur í lörfum sinntu af alúð mín andúð á orðskrúð og framandi frösum þú masar í sífellu um ekki neitt..... Þú situr á börum seinfærum svörum á förum er gæfan og Guð þvílíkt puð að heimfæra allt á eitt kalt kvalið hjarta sem ástin þín bjarta felur á laun þín helvítis raun kemur illa við kaun þinn og öll þessi tár draga dár að þér breyskum og brotnum í mél..... ] [ Í ræsum og rennum er mafíublóð rís í huga niðdimma nótt. Á kveldin kysstu börnin góð að krossi lúta,heima er rótt. Þeir skríða til skrifta með lýgi á vör og skyrpa til hans er þungan ber. Hjá þeim ræður sorinn og fláttskapur för ferð til vítis er ókeypis hér. Neðst við Ground Zero er grafarþögn enn grípur hugann mynd er ég finn. Ég greini móður og gullin hans tvenn greyparnar spennir með tár á kinn. Er sólin kvaddi ég skuggana bað siglið burt með vonir í var. Seiðmögn og hélog strax finnið stað ég skil það vel og bið um far. ] [ lít í kringum mig í þessu kolsvarta myrkri leita að sólgleraugunum þreifa eftir þeim veit að ég þarfnast þeirra bráðum það er svo bjart framundan ] [ Þegar loftárásunum linnir læðist þunglynd nóttin gegnum brostnar varnir vígisins. Deyfir sársaukann í svefnvana andlitum, sundurtættum hjörtum hruninna veggja. Undir svartri slæði ríkir rauðleit angist þar til blá dögun býður heim hvítum friði. Þegar hikandi morgunbirtan mætir minningum gærdagsins hefjast geislarnir handa við að mála föla vanga völdum litum vonarinnar. En áfram heldur efinn uppi skæruhernaði. ] [ Eitthvað erfitt, en samt freystandi. Með boga enn ekki örfar. Það að heira er annað en að spila. Það kemur ískur ef þú spilar, en magnað hljóð frá meistörum. og þú getur ekki staðist þess að prófa! ] [ Eitthvað svo unaðslegt. Eitthvað svo frábært. Eitthvað sem ég kann. Alltaf sé ég mann, ó nei það er hann. Hljómurinn er æði, dansinn við hæfi. Alltaf fæ ég næði, og þar erum við bæði. búin að æfa lengi, nota samt enga strengi. Bara að ég fengi, eitthvað tengi. Aldrei kem ég seint. Alltaf er mér heitt, þá verð ég svo sveitt. Þarna var ég sett, þetta er ballett. ] [ Glerhúsið er með brotna sjálfsmynd. ] [ Ég horfi á eftir þér skella hurðinni. Sest við opinn gluggann og leyfi regndropunum að draga svartar rákir í klístrað meikið. Niðrí pollana á götunni hendi ég hugsunum mínum þar til spegilmynd mín í glerinu er jafn auð og tóm og skúffurnar í náttborðinu þín megin við rúmið. Þegar styttir upp og sólin sópar burt pollunum þyrlast minningarnar upp með göturykinu. Ég loka glugganum svo þær festist ekki á tárvotum kinnunum en horfi áfram út um óhreina rúðuna. Það er ekki fyrr en þú kemur aftur og kemst að því að það skelltist í lás sem ég læðist út bakdyramegin. ] [ Djöfull er ramminn utanum þig, málverkið sjálft aðalatriðið, ljótur. Samt fallega máluð af Van Gogh. ] [ Ég ætla að drekka mig fullann næstu helgi til stuðnings öllum þeim sem hafa drepist í brekku á þjóðhátíð ég ætla að æla á tröppurnar fyrir utan Menntaskólann í Reykjavík fyrir að hafa alið upp ráðamenn íslensku þjóðarinnar ég ætla að standa á horni í 104 með skilti til heiðurs skyr.is fyrir manninn sem sýndi þjóðinni hollustunna ég ætla að kaupa kók í flösku til heiðurs erlendra skæruliða sem sátu álsjúkri austfjarðarlöggu til armæðu ég ætla að kjósa framsókn nei frekar að skjóta mig í hausinn og lát henda innyflunum í tjörnina og leyfa þeim að njóta veislunnar ] [ Tárið geimir tímann sinn, samtaka þau halda áfram. Tíminn tikkar, tárið rennur, saman óstöðvandi. ] [ Landníðingsflokkurheimskrafáfróðraframapotarálkóhólsjúkraskemmdarfýsnfóðraþjóðfyllaflygiómerkilegastaframkomasemaldreiverðurfyrndírásiraldannafeigðeryfirlandiafflokkiillhugaogframsóknarmannafeigðeryfirbyggðfyllastloftafóloftilíðurframtíðfyrirfólksemkausþessaskandalahugsanaandvana ] [ þarna ertu kominn aftur landsins forni fjandi eða minn kemur skríðandi yfir sjóndeildarhringinn ennþá volgur úr bólinu hennar hún var víst ekki sú drottning sem þú taldir hana vera skiptir um skoðun ég brosi breitt því ég veit ég hafði rétt fyrir mér allan tímann ég er svo miklu miklu betri en hún á öllum sviðum eftir öll stóru orðin brosi því ég hef unnið og fengið þig aftur án þess að vilja þig aftur og aftur ég get alltaf fengið þig skríðandi til mín ég er svo miklu meira en hin konan ég er sú sem þú hefðir átt að velja fyrst svo ég fagna þér og þykist unna þér um stund ] [ Með tónlistina í botni (ofsafenginn sláttur trommarans keppir við dynjandi hjartsláttinn, hvínandi rafmögnuð bassalínan sárari en suðið í eyrunum) vonast ég til þess að bítið elti mig uppi, berji mig, bíti mig, valti yfir mig, sprengi í mér hljóðhimnurnar, hausinn í tætlur. Þá flýr kannski burtu illfyglið sem á sér hreiður þar. ] [ vonleysið nagar mig gerir mig hola að innan fyllir mig síðan hægt með þungum og myrkum þönkum of þungir til að bera ] [ I walk down to the door and look up, ur silhouette is in the window. I feel relaxed, i smile. You walk past me and i feel your aftershave, it brings back memorys. But now when i look up to the window, its not your silhouette. When i walk the corridors, your aftershave isnt there. I keep on smiling, i keep on thinking of you. Im glad your gone, but it still hurts. I can move on now, move away from you. But i miss you.... ] [ Aftur og aftur, fer ég yfir atvikin sem ég hefði átt að gera öðruvísi. Ég get engu breytt Kanski er kominn tími til að gleyma gleyma því sem aldrei var gleyma því sem ég þráði svo innilega ] [ einmanna sál er sú sál sem hefur ekki neinar tilfiningar og finur ekki til. Sál sem hefur eingan tilgang eða ástæðu.Sál sem ráfar um lífið gerandi ekki neitt hlutlaus í alla staði, ónothæf og er bara fyrir öllu og eingum. Sú sál er dæmd til ad eiða eilíf í eimannaleika í tíma og rúmi án þess að nokkur maður taki eftir henni eda Hún taki ekki eftir neinum. ] [ sit við glerið og bíð eftir öllu sem á að gerast og veit hvað gerist þess vegna gerist það ] [ Ég er héri, sem svífur um í eigin hugarheimi, og stekk á bak skjaldbökunnar til að komast í mark. ] [ Lukkan tifar 3 2 Verður rafmangslaus 1 Rennur út Og þú verður eins og úldin mjólk ] [ ég bara hreinlega varð að semja ljóð með titli sem byrjar á b ] [ Umgjörðin glansar tignarlega eins og kóróna bretadrottningu Teinarnir réttir og stífir líkt og tindátar hennar Gripið gott á dekkjunum og nóg er af lofti En það bara ... nennir engin að hjóla ] [ Langleggjaði strákur mig langar að klípa þig í rassinn og strjúka á þér lærin og kyssa þig. Setjast í fangið á þér og leggja vanga minn við þinn og hvísla í eyrað þitt. Langar að koma við þig og þú þarft ekki að segja neitt merkilegt og getur verið eins krumpaður eins og þér sýnist. Svo langar mig að sjá á þér tærnar. En maður fær ekki allt sem mann langar. Þú ert alltaf þarna aðrir koma og fara. Vertu kyrr. ] [ Flýt, fljótandi, fljót svíf, svífandi, svif skýt, skjótandi, skot nýt, njótandi, naut gef, gefandi, gjöf ann, unnandi, ást? Mér leiðist setningafræði. ] [ Hann mundi alltaf hvernig veðrið var, en ekki hvernig honum leið. Rataði alltaf á hvern stað, en gleymdi hvernig átti að komast heim. Sérðu hann ekki? Hann situr við Litlu-kaffistofuna og horfir í allar áttir - Það er logn. ] [ Ég er skorpulíf Hrærist í skorpum; Vaki í skorpum Borða í skorpum Anda samt samfleytt Og reglulega ] [ Þegar haustar að í hjarta mínu hef ég þörf að dvelja í orði þínu Upplifa kærleik þinn og kraft að verki kletturinn minn styrki og ofursterki. Þegar ég átt hef yndælis sólarstundir enn á ný kemur haustið og fölna grundir Aldeilis verða það ekki fagnaðarfundir fegin ég vildi, Drottinn, að þú mundir fylla líf mitt af löngum sumardögum lækjanið og fuglanna söng og lögum Gleðjast ég myndi sérhvern dag og dreyma dæmalaust mikla sælu og sorgum gleyma En hvernig væri lífið án vinda og vanda væri það eintóm ánægja mér til handa? Myndi það gera mér gott aldrei að gráta og gera mig sterka ef ekkert myndi’ á bjáta? Ég eitt sinn las í bók fyrir litla krakka að kærlega ætti ég fyrir allt að þakka Tilgang rigningardagar dimmir hefðu depurð og sæla saman líf mitt vefðu Eftir rigningu kemur regnbogi’ á himni rísa mun sólin upp svo vætu linni Eirðarleysi allt mun enda taka úr alls kyns hráefnum verður gómsæt kaka. ] [ Ég fór upp á svið og talaði yfir fullum sal af fólki. Fólkið leit á mig brosmildum augum og sagði: „Hann er býsna sniðugur strákurinn. Kann að koma fyrir sig orði.“ Samt þvaðraði ég bara. ] [ dreptu mig í kvöld og höldum uppá brjálaða líkvöku svo ég skynji að ég sé á lífi hverfum svo sem draugar út í kalda haustnóttina dönsum fram í dreggjar dags og hverfum í dreyra morgunnsólar í hýði liggjum sem púpur og bíðum fæðingar fiðrildanna ] [ Ég geng um og hugsa í sífellu Is this it? Ég geng um og hugsa í sífellu Is this it? Ég geng um og hugsa í sífellu Is this it? Ég geng um og hugsa í sífellu Is this it? Ég geng um og hugsa í sífellu Is this it? ] [ Tollheimtumaður labbaði manna á milli og heimtaði að það yrði sett í brúnan kassa. Þegar komið var að mér, kom í ljós að ég er svo feitur og asnalegur, komst ekki fyrir og neyddist til að borga honum sjö talentur. "Það er ekki hægt að koma öllum fyrir kassann," sagði hann önugur við mig, þrátt fyrir vein og væl þeirra sem fyrir voru um að ég stykki til þeirra. ] [ glaðleiki og vínandi skemmta þér en stundum þegar illa fer þá spunginn haus um morgunn er og lyktin verður óbærileg vaknar í rúmi sem ekki þú átt hafðir greinilega fengið þinn drátt en afhverju er samt allt svo grátt? hefur misst þinn allan mátt ] [ Í dag er ég einmanna í dag er ég ekkert í dag er ég döpur í dag drukkna ég í dag er hjartað dimmt. Ég hugsa um þig, þögnina ég hugsa um þögul orð orð sem eru ekki sögð sorgar orð sem brjótast um spegilmyndin er tóm, týnd týnd í myrkrinu, gleymd og grafin. Í dag fel ég mig fel örin á sálinni fel örin á holdinu í dag hræðist ég hugsanir hugsanir um að hverfa hverfa inn í myrkrið stækka örin og sofna ] [ Ein berst ég um einmanna græt ég án þín, ástarinnar ástríðan sem hvarf hvarf í myrkrið horfin að eilífu eymdin sem hverfur ekki eirðarlaust hjartað gnístir. Bíður eftir þér í þögninni. ] [ Líf mitt er einskis virði og einskis virði ég er. Ég engum gerði til góða á gönguför minni hér. Því kveð ég nú þessa jarðvist sem kvaldi og píndi mig. því hvað er betra en að deyja ef það er enginn, sem elskar þig? ] [ 15055015 ég er ekki manneskja heldur töluryþmi bankanúmer símanúmer kennitala "Þú ert númer þrjú í röðinni" Biðnúmer bílnúmer pinnúmer og skóstærð: 43 ] [ Ljóðið kom og faðmaði mig innilega, stakk svo hönd sinni í sál mína krukkaði þar til það greip það sem ég vildi sagt hafa og málaði með rauðum stöfum óvarfærnislega á gulan striga, stóð svo á stól og hrópaði og kallaði líkt og sirkusstjóri að hér væri að finna stafi, orð, setnignar, jafnvel málsgreinar, hugsanir og sögur sem lengi höfðu verið faldar í djúpum helli en að ævintýramenn hefðu fundið og sett til sýnis. ] [ Á göngu minni um lífið mætti ég stúlku sem brosti blítt þó ekki til mín heldur kattar sem lá sællegur á þaki bíls ] [ Hversvegna eru berin Rauð gul blá og græn En ekki ég. Afhverju er grasið grænt Og þú svona sæt En ég er alltaf jafn svartur. Afhverju er sólin svo björt Eins og þú Á meðan ég er svona dimmur. Afhverju Afhverju Afhverju ekki bara Þá væri þetta önnur saga. ] [ svimi og blóð brotin tönn nefið í grasi opinn skurður líður þér núna betur, elsku vinurinn? ] [ þeir þekkjast á göngulaginu brosinu og sjálfumgleðinni þeir þekkjast líka á fáfræðinni skilningsleysinu og vankunnáttunni þessir nýbökuðu feður ] [ Geng haltur um skóginn dreg aðra löppina bý þannig til slóða sem hægt er að rekja ] [ Konráð var fljótlega sendur heim af hinum þátttakendunum í túttubyssustríðinu mikla á skólalóðinni eftir að athugasemd var gerð á túttubyssu hans Hann misskildi þýðingu orðsins og hafði fest hægra brjóst systur sinnar á plaströrið Hún er enn á sjúkrahúsi ] [ Það synti maður á eyðieyju hún var í órafjarlægð frá öllu nema sjónum sem hlúði vandlega að henni Maðurinn trampaði á eyjunni sigri hrósandi með tilheyrandi hoppum og hendur sveifluðust til himins Hann lítur í kringum sig faðmar Pálmar-Tré grætur af gleði loksins næði Horfir á gulan sandinn blátt hafið sjóndeildarhringurinn sveigjist eins og alltaf. Skýin hylja sólina "Pálmar-Tré þetta voru mistök assskoti vanhugsað" ] [ Hreinskilni getur verið hættuleg Þá sértaklega fyrir karlmenn sem eiga ýturvaxnar konur og í sakleysi sínu þeir verða hreinskilnir um þyng þeirra ] [ Með gat í stað auga og nú er ég ekki að spauga... Sá maður kann að spá! Fyrir um tíma og rúm... svona...eins og myndavéla zúmm Ekkert meira feik en súkkulaðishjeik. ] [ Hver sem er getur samið um ást! Um þá sem lifa, berjast og þjást! Færri eru þeir sem kunna á losta... og geta valdið kvenmanns kynþorsta! Hamslaus reiði, losti og æði! Skjálfandi þrá og ógurleg bræði! Hver kann þessum ham að lýsa? Sem þú aðeins skapar - Mín kæra Móna Lísa. ] [ Landið liggir landið styggir landið allt um flæðir. Landið styrkir landið virkir landinu því blæðir! ] [ Einn útá eyðilandi Innvortis ísalandi Með miklum eldibrandi Er látinn kveikí sandi! ] [ Fljótandi himnaríki flæðir fyrir framan nefið á mér. Og tek vænan slurk. Það rennur niðrí maga, seytlar um í dágóðan tíma og er síðan pissað í sjóinn. ] [ kisa taktu úr lás ég er læstur úti hún heyrir ekki í mér eða skilur ekki íslensku ] [ Þögnin hljóð fær mig til að hugsa þegar allt virðist ómögulegt klofin manneskja að reina þrauka líf sitt finnst eg vera að klofna í tvennt en hvað ég geri, hvað ég vil, sé engan tilgang að vera til lífið svart sé ekki neitt viltu koma og hjálpa mér. næturkvísl skilur eftir ljóman styrkur minn á þrotum er en hvað er lífið ef tilgangur er horfin ætli að þa sé ekki að trúa á kærleik ] [ Söknuðurinn er spangól úlfsins, sem tekur á rás í myrkrinu en þorir ekki á áfangastað. ] [ Enginn lést í Jólabókaflóðinu í fyrra en samt verður allt tiltækt lið björgunarsveitanna í viðbraðgsstöðu um þessi jól ] [ Stólarnir í Ikea horfðu skelfingulostnir á manninn sem var vel yfir kjörþyng standa og skoða þá alla gaumgæfulega honum vantaði nefnilega stól við nýja skrifborðið sitt.. Þetta var svartur dagur í stóladeild Ikea ] [ Mér leið alltaf svo vel, er ég hugsaði um þig. Litla andlitið og sæta brosið. En nú er ég hugsa, að þú sért farin mér frá, streyma tárin niður kinna mér. Í hvert skipti er ég hugsa, hugsa um mínar stundir með þér. Þá vekur það upp góðar minningar en einnig birtast lítil tár því þú varst svo dásamlegur og yndislegur og að ég hafi misst þig var einum of. En ertu hér? Ertu þar? já, þú ert allstaðar. Í huga mínum um þú reikar en hvað get ég gert? Ég get ey gleymt því sem kom fyrir þig. ] [ Bring a book! bring bring bring da flip on em bring em on bring em out bring it bring it around town bring it back bring it off bring it on bring it, don't sing it bring me the horizon bring on the anti depressants bring on the piss Bring out the banjo Bring out the cannons bring out the gimp bring out your dead bring the heat bring the mosh bring the noise bring the yellow tape bring to the table bring your green hat bring your hemorrhoids bring your shit bring your sister ] [ Ef lífið okkur líður hjá loks við munum skilja að tækifærin til að fá þau taka þarf með vilja. ] [ Hann mændi á hana og missti orðin. Hún hjálpaði honum að leita og tíndi upp í leiðinni sín eigin. ] [ þeir veltu því fyrir sér hvurt skal hengja hann eða krossfesta og þar sem jesú var nagli kom ekki annað til greina ] [ þetta er skemmtilegt tipla aumlega niður götuna að drepast í tánum og ískalt á eyrunum þræði framhjá glerbrotum og ælu þykist ekki heyra hæ og heyrðu grúfi andlitið í loðkragann og sýg að mér reykjarbræluna hrekk upp við öskur í ungum manni sem hrindir vini sínum á staur þetta er skemmtilegt ] [ Ég get varla beðið lengur eftir lifinu til að taka enda. ef þetta er hringrásin þá tek ég ekki þátt. Ef ég gæti bara staðið aðeins lengur og horft í þessi augu, án þess að brotna niður, visna svo og deyja. þá gæti eg kannski komið upp orði. Einhverju einföldu orði til að fá þig aftur einhverju innihaldsríku orðasambandi sem gæti fengið þig til að hringja. En ég er ekki nógu klár, með orðin. Tilhugsunin um það að hinum megin við hafið sitjir þú, í sömu stellingu og ég. en hugsir ekki til mín. er ömurleg og ég hata að vera ég þegar þú ert ekki hér. ] [ Ég sleppi takinu af þér um leið og ég þurrka burt mín beisku tár. Sóun dýrmæts tíma lífs míns var að horfa í augu þín. Snerting þín er eins og glerbrot í huga mér og þú rispar mig alla upp. Minningin um þig eyðileggur gleðina sem ég reyni að láta ríkja í huga mér dag sem nótt. Þú ert ekkert nema skuggi einn sem fylgir mér fastur í huga mér. Hefði átt að enda fyrr því við vorum aldrei neitt hefði átt að sleppa þér áður en ég hélt í þig. ] [ ég sá lausnina horfði í ginið á henni fann lyktina af frelsinu sem hún bauð mér hvert sinn sem ég handlék hníf frelsið speglaðist í egginni svo lokkandi svo auðvelt svo blítt og lausnin strauk mér um vangann hvíslaði í eyra mitt lofaði mér friði stundum hallaði ég höfðinu upp að henni hvíldi svitastorkið enni mitt á sætum vörum hennar bara svolitla stund með lokuð augun hrinti henni svo frá mér sagðist ætla að berjast aðeins lengur enn um stund bað hana að bíða á góðum stað ef ég þyrfti á henni að halda hún bíður enn þó hef ég yfirhöndina í bardaganum núna ] [ miðað við hvað ég met lífið mikils og lofa það í hástert er merkilegt hversu litla virðingu ég sýni því þegar ég hugsa um það daglega að slaufa því ] [ Sprengjurústir umkringja uppruna minn Borg fegurðar stendur eftir í logum Sölt tárin falla niður mína kinn Á meðan við heimsins ungbörn sofum Í brothættri vöggu ég kalla á hjálp Kallið er ekki endurgoldið Þangað til móðir mín framkallar ást Sem verður aldrei auðfundin Þakklátur er ég fyrir minn griðastað Þó að fullkomnunin sé andstæð Taktu skrefið yfir þröskuldinn, velkominn í friðarspjall Eitrið út og tæmdu þína kransæð Af moldu er ég kominn Að ösku mun ég verða Vel til þess er ég fallinn Mannorð mitt að verja ] [ Ég veit að þú ert hérna, og nafnið þitt er Erna. Af hverju ertu í felum? Hjá öllum þessum selum. Þú ert svo fyndin, Eins og litla kindin. En þú ert svo feimin, Og líka doldið gleymin. En nú verður þú að koma, Þetta þýðir ekkert svona. Ég er orðin doldið leið Og allveg að verða reið. ] [ what luck that i found you at work, and your duty to smile you don\'t shirk i deeply desired what i saw and admired but tried not act like a jerk. from passion i tried to refrain, ignoring a voice in my brain: \"jump over that counter! and then try to mount her!\" my effort was -sadly- in vain. me pardon for being so blunt for dragging you into this stunt. my heart may have yelled it my eyes keenly smelled it that you\'re a game worthy to hunt. ] [ Eiturlyfja fíklinum var vísað út úr útivistabúðinni þegar hann heimtaði kafaradót Ástæðan var sú að hann sagðist vera á kafi í dópi Búðareigandinn segist lenda í þessum aðstæðum oft í viku ] [ (1) Það er þriðjudagur í október. Þú ert með hlaupkenndar kinnar, og sultu niður á höku. Við klifrum yfir múrsteinsvegg, sjáum pylsugerðamann sitja í tré. Hann malar og malar því hann er orðinn leiður á pylsunum og hans rauðhærða kona kann ekkert að matbúa nema osta. (2) Það óma valsar út um stofugluggann hjá þessum óhamingjusömu hjónum. Ég sé vel að niður kinnar þínar læðist tár og ég sparka í þig. Ég er engin dramadrottning. Svo sé ég mér til mikillar skelfingar að það er aðeins byrjað að rigna. Og pylsugerðamaðurinn stekkur úr trénu og hleypur inn. (3) Ég tek einn lausan stein úr veggnum og afhendi þér til minningar um þennan dag þegar við gægðumst inn í garð í Berlín. ] [ Svarta Ninjan stóð andspænis andstæðingi sínum og gerði allar mögulegar handahreyfingar til sýna getu sína hún átti því miður ekki svar við bragði andstæðingsins þegar hann potaði lúmskur löngutöng sinni á kaf í hægra auga svörtu Ninjunar svarta Ninjan er nú 30% öryrki og berst í þeim málum en án ofbeldis ] [ Strákurinn í Búkollu ævintýrinu var fundinn sekur af Sýslumanni vegna illra meðferða á dýrum. Þegar það fréttist að strákurinn hefði verið að rífa hár úr hala Búkollu var strax gripið til aðgerða. Strákurinn reyndi að réttlæta þetta með því að segja að Búkolla hafi sagt honum að gera það. Strákurinn átti aldrei von um að sigra málið ] [ heiman frá þær fregnir herma að halldísi skal kirkjan ferma. nú kalla allir upp í kór: “hvur fjandi er hún orðin stór!” dásamlega mikil drama- drottning er sú unga dama. sækir það frá sinni móður, er sæt í framan, vöxtur góður. einnig vann í vöggugjöf vit og skyn á land og höf. hún heiminn sigrar -slær í rot! með sitt feiknagott forskot. ] [ Það sem sannar að íbúar vestræna þjóða séu að fitna var þegar John frá Texas USA var á ferðalagi um eyðimerkur Mið-austurlanda og fann þar töfralampa og hans þrjár óskir hljóðuðu upp á 2 hamborgara og eina kók ] [ Komdu nú Helgi, komdu nú fljótt, því sjáðu nú storminn,hann fer svo fljótt. Og klæddu þig í fötin, klæddu þig vel, því að mölin hún fíkur eins og ég. ] [ Ríðum á grjóti, töltum á sandi, brokkum á mosa, sjáðu hann gosa ríða á hesti ] [ ljóðstafi pældi setningar lifnuðu myndir skóp hugrenningar andstuttar glimpur glitruðu sem ryk í ljósi sólar grúfði sig í sófanum sveimhugi ] [ Hér um stund, sit ég hér, horfi á grasið, hlusta á fuglana syngja, heyri vindinn þóta í eyrum mér, heyri í krökkunum leika sér, um stund. ] [ það sem ég er sést ekki neitt, ég þýt í loftinu, í loftinu þýt ég, hver er ég ? ] [ Fótbolti, handbolti, korfubolti, MARK MARK !!! Fh, Haukar, Stjarna, MARK MARK !!! Krakkar, ulingar, fullorðinn, MARK MARK !!! ] [ Eldslogar varna mér sýn skríð sviðin eftir leiðinni heim alein í svöru myrkri sem hylur eldinn sem brenndi mig myrkrið skríður um mig alla og ég fæ mig hvergi hreyft það þéttist þar til það verður loks að svörtum gimsteini lokar sig að mér svo ekkert kemst út hreyfingar stirðna og heimurinn lokast úti Svona getur stundum gerst á leiðinni heim í strætó á sólbjörtum degi í strætó Svo dinglar einhver í mann líf ] [ Gleymérey setti ég á mig, festist það við mig, tók það ey af mér. Gleymérey. ] [ Einhver hefur stráð flórsykri yfir Esjuna Einhver hefur breytt grænu í gult og gulu í rautt Einhver hefur losað límið af laufblöðunum sem límdi þau á sinn stað Einhver hefur hnoðað ský og leyft þeim að lyfta sér á himninum Einhver hefur hvíslað að fuglunum að færa sig úr stað og fara til heitara landa Einhver hefur sagt flugunum að fara í háttinn Einhver hefur komið Norðurljósunum í svo gott skap að þau tjútta á himninum í laumi og vita ekki að ég sé þau alveg Einhver hefur bakað haust úr sumri og hafið nýja tísku þar sem heitir litir eru inn Einhver hefur gefið mér svo ótal margt að undrast yfir og þakka fyrir Einhver er svo yndislegur að ég á erfitt með að hætta að dást að honum Einhver hefur skapað og ég get bara þakkað ] [ Á aftökurútum þeysast þeir um í leit sinni að nýrri bráð ég er saklaus ég lofa það var ekki ég þegiðu mér er alveg sama. sama. er alveg þegiðu mér það var ekki ég ég er saklaus ég lofa í leit sinni að nýrri bráð á aftökurútum þeysast þeir um ] [ Ég læðist um Fikra mig meðfram veggjum í rökkrinu. Ég er svo dimm, að línur mínar sjást ei, í rökkrinu. Ég er ein, Ein í heiminum Hérna í rökkrinu. Ég stekk upp Er heyrist í bjöllunni Klingkling í rökkrinu. Ég lít í kringum mig Er einhver hérna? Úti í rökkrinu. Hurðin opnast, Ég lít upp, heyri sagt, Kiskis, ertu hér í rökkrinu? ] [ Eitt líf getur skipt öllu máli Einn hlátur getur ei gleði tapað Ein von getur andanum lyft Eitt bros getur vináttu skapað Eitt blóm getur verið upphaf að stórum draum Ein snerting getur sýnt þér standi ekki á sama Ein stjarna getur leitt margan heim Eitt bros mun ei andlit þitt lama Einn fugl getur verið upphaf að vori blíðu Eitt tré getur í stóran skóg breytt Eitt klapp á bakið getur lyft manni upp Einn sólargeisli getur myrkrinu eytt Eitt skref getur hafið langt ferðalag Ein hönd getur veitt manni yl Ein setning getur öllu breytt Eitt orð getur sagt hvað ég vil Eitt kerti sem friðar hjartað kalt Eitt atkvæði getur svo miklu breytt Ein setning getur verið upphaf að augnabliki Ein bæn getur hjarta frá vonleysi leitt ] [ Mikil sorg í hjarta mínu nú býr En á morgun kemur þó dagur nýr Það er sá harmur sem ég ber inni mér Að finna það á morgun að þú ert ei hér Aldrei get ég skilið hví hann tók þig svo fljótt Hvernig get ég hér eftir verið rótt Í þeirri götu sem ég þig fyrst sá Mikinn söknuð og harm ég finn fyrir þá Því komið er stórt gat í mínu hjarta Ég sé bara fyrir mér framtíð svarta Hvernig á ég að geta fyllt upp í það Enginn mun geta komið í þinn stað Komdu aftur, komdu til mín Ég ætíð vildi vera þín Um aldur og alla ævi mína Við áttum að fá lengri tíma Hví þurfti þetta að gerast Afhverju nú Hví ekki þegar við yrðum gömul Afhverju þú ] [ Í þessum skóla er hafin vinavika nú og sá sem ég á að gleðja það er einmitt þú Segja þér má ég þó ekki hver ég er eða hvað ég mun gera því allt er þetta leyndó já, þannig á það víst að vera Karlmaður er ég kannski Eða ef til vill kona mikla skemmtun þú hafir af þessu já, það skulum við vona Ég skal því reyna mitt besta að kæta þig hvern dag og vona að þessi vika verði þér í hag Mundu því það mín kæra hvað sem á þessari viku dynur að ég mun þig reyna gleðja kveðja; þinn kæri LEYNI-vinur ] [ Tárin streyma í stríðum straumum Hvað geri ég án þín, elsku mamma mín? Hvernig get ég lifað út daginn? Allt er svo tómlegt hér án þín! Stóllinn sem þú sast svo oft í Ég horfi á hann oft á dag bara ég gæti fengið þig til baka þá myndi allt komast aftur í lag en sú draumastund mun aldrei koma raunveruleikinn blasir mér við að kveðjustund okkar er komið og þú gengur í gegnum hið gullna hlið minningar um þig um huga minn reika margar góðar eru í skjóðunni þar við áttum svo marga góða tíma já mikið um gleði hjá okkur þá var ávallt gat ég til þín leitað aldrei hunsaðir þú mig reyndir alltaf mig að hugga ó,hve sárt er að missa þig! Þitt bros og þín gleði Aldrei sé ég það á ný Ég vil bara ekki trúa Að þitt líf sé fyrir bí Ég vildi að við hefum haft Meiri tíma, þú og ég Við áttum svo mikið eftir að segja Ó hvað veröldin getur verið óútreiknanleg Ég þarf nú að taka stóra skrefið treysta á minn innri styrk takast á við lífið Svo framtíðin verði ei myrk Ég veit að þú munt yfir mér vaka verða mér alltaf nær Þú varst og ert alltaf mér best Elsku móðir mín kær ] [ Komið er sumar eftir langa bið Getum þá verið meira úti við Verið úti og sleikt vorsól Allir gleðjast og fara á ról Út að hlaupa, út að hjóla Farið í snú-snú eða að róla Gengið kannski niður að sjó farið í ágúst í berjamó Fara í sund og busla mikið sumarið getur engan svikið ferðast um landið og vera saman á sumrin er alltaf gaman Liggja úti í sól og hita mikið er gott það að vita að loksins er lokið þessari bið loksins er komið sumarið ] [ Afhverju við Afhverju þú Afhverju ég Afhverju nú Afhverju hér Afhverju þar Segðu mér hvenær Segðu mér hvar Segðu mér svarið Segðu það fljótt Segðu það núna Svo mér verði rótt Hvað skal svo gera hvernig á ég að vera hvernig er hægt að bíða hvernig á ég láta daginn líða afhverju ég? afhverju þú? afhverju við? afhverju nú? ] [ Menn hafa fengið Nóbelsverðlaun fyrir að rannsaka hvernig alheimurinn varð til Ég hef ekki enn séð það í fréttum að Guð hafi hlotnast Nóbelsverðlaun hvað þá verið tilnefndur til þeirra. Hann er pottþétt í fýlu ] [ Skorað'ún á mig, mærin, mín beið því starfi ærin. Í gegn þurfti að slá svo hún mynd'í mig spá og meira yrð'um tækifærin! ] [ Mig ég vil með ljóði kynna, með orðum sem ég saman tvinna. Ljúfur með lesti, breyskur með bresti, en umfram allt vinur vina minna. ] [ Sumir halda að lífið leiki mig við Ekkert mig angri, allt gott, haldið þið! Enginn veit í raun og veru hver ég er Það er margt sem enginn sér Ég set upp mína gríma innan um aðra Enginn lætur mig sig varða Tjái mig lítið, læt lítið á mér bera Veit aldrei hvernig ég á að vera Ef mér sárnar þá held ég grátnum inn í mér Það er erfitt þegar enginn mann sér Þó ég mundi öskra í inní hóp Það myndi enginn heyra mín hróp Ég þrái að vera önnur en ég er Ég þrái að vera stúlkan sem af öllum ber Það er líkt og ég sé ekki til Enginn í því pælir hvað ég vil Mér líður oft eins og ég sé að kafna Hræðist að vera sú sem allir hafna Enginn þráir að vera með mér Enginn veit hver ég í raun og veru er ] [ Lífið er hægðarleikur í klósettskál mannkynsins, hæðir plús lægðir samansem hægðir, og Guð er salernisvörður. Forsjónin er með yfirsjónina, verður að fara í leiser til að bæta sjónina. Today er allt Ókey og Hið æðra bræðralag mæðra. ] [ Ungur var ég eitt sinn forðum. Ætíð átti ég þig að. Með aulaskap og þungum orðum æðsta vini var út sigað. Tóman slóða og torfæran tróð án nokkurs að vinna. Leiðarljósið, vininn skæran langaði aftur að finna. Loks lagði hönd á lausan tauminn. Læknast tóku þegar sárin er frændur fundust, hófu glauminn! Mér fyrirgefðu týndu árin. ] [ er nálgast nóttin ... mig nemur óttinn þá kemur köld, myrt ást um kvöld. í rökkrinu ranglátir enga finna ró ég sagði þér upp en elska þig enn þó grafa gráturs klær skurð sem aldrei grær mína dregur djöfull sál iðrun fyllta í dauðans bál í rökkrinu ranglátir finna enga ró ég sagði þér upp en elska þig enn þó ævi minnar eilíf ár aldrei lækna þessi sár elsku hennar eymdartár öll mín verða banasár ] [ (Tilbrigði við Aldarmótaljóð Einars Ben.) Þú býr við lagarbrand bjarglaus við fögru fossasviðin, fangasmár, og nýtir lítið orkumiðin, en gefur eigi, á góðum degi, gull við fossaband? Vissirðu, hvað Alcan vann til hlutar? Álverið þeirra of smátt, Alcoa er utar. Hve skal lengi draga, stjórnardrengir, dáðlausir, að álvæða orkuland. ] [ Kraftleysið umlykur manninn eins og mjúk risa sápukúla sem neitar að springa Það er lítið súrefni í sápukúlunni Hann liggur því rólegur lætur lítið fyrir sér fara ] [ Streða við að lækna hann eða deyða, Lífið spyr mig spurninga Ég hafna þeim, Dey úr sorg þar til líf mitt verður að engu, Sjáðu hvernig ég hleyp úr sjónmáli, Sjáðu mig lifa í skugganum, sérðu mig? sjáðu, ég blekkti þig. vel, Nú ekkert. ] [ sunnan tíu, ég les austan fimm, ég sef norðan þrír, ég sit vestan sjö, ég vaki og bíð frétta Skógarfoss 53,3°N 43,1°V ] [ Ef ætti ég lítið kvæði ég sendi til þín þú og ég erum bæði þar sem sólin skín ] [ Við gluggann situr vongóður maður veltir fyrir sér lífinu og spyr Hví er í lífinu ei friður af hverju er allt svona vonlaust? Er ekki nóg um hatur og stríð því er skotið á mig? Ég er bara einn af fjöldanum hlífðu mér! Elskaðu friðinn elskaðu mig ] [ Þjáningarfrelsið var virt Maðurinn engist um af fúsum og frjálsum vilja Þjáningarfrelsið var virt að vettugi. Maðurinn engdist samt um alveg bálreiður. ] [ Almáttugur, stundum fannst mér að ég myndi ekki lifa þig af, að ég myndi vakna allt í einu, og þú værir aðeins falleg martröð um ljótan draum. Elsku hjartað mitt. ] [ Gleraugun brotnuðu það kom sprunga í glerið vinstra megin og þá losnaði festingin á spönginni þessi gleraugu höfðu enga umgjörð ég var sendur í ríkið á bíl þegar ég keyri bíl þá þarf ég að vera með gleraugu til að sjá betur setti þess vegna húfu á mig svo gleraugun héldust var með húfu í bíl ] [ Að elska og þrá að vakna úr dá Að elska er gott þín vitund fær vott Að missa er verra þín tár þarf að þerra vertu þinn herra,þín frú ástin er ávallt trú gefðu því allt já ávallt þú skalt elskaðu mig því ég elska þig. ] [ Mér þykir vænt um þig, Ég veit að þú hugsar stundum um mig. Ég mun alltaf vera frænka þín, Og mun líka sakna þín. Þegar ég fer, Þá grætur þú, Ég get ekki farið frá þér. Ekki þegar þú grætur Búhúhú, Þú hvíslar það í eyrað á mér, Ekki fara, ekki fara Ég vil þig bara. Þú verður alltaf besti frændi minn, Besti litli frændi minn. Þú segir Bæ En svo græturu þegar ég ætla að labba út um dyrnar, Og seigir æj,æj,æj Ég hleyp til þín, Þú kemur á móti og knúsar mig Grætur í eyrun á mér, Ég tel þetta vera ástþín til mín, En Ég get eki farið,Nei,nei,nei, Ég bara get það ei. En Ég þarf að fara, Ég labba út um dyrnar og stend og horfi á þig, Þú grætur,grætur&grætur, Pabbi þinn kemur svo og nær í þig,! Þú hverfur inn til þín. En ég sakna þín. Sakna þess að fá að knúsa þig, Ég ferð að gráta inn í mér. En ég mun ekki gleyma þér, Ekki meðan þú munir mig. ] [ Sérðu ekki sólina, hún situr himni á. Bíður þín þar brosandi og birtu þér vill ljá. Kveður þig með kossi er kvöldið skyggir brá. Felur sig í faðmi foldarinnar þá. Sólin er þér sælugjöf ef sorg í brjósti býr. Dylur allt með dýrð sinni er dagur rennur nýr. Viljastyrk hún veitir þér og vonin aftur snýr. Ef sorti yfir sálu er þá svefninn læknar sár. En sælust er sú sálarlíkn er sólin þerrar tár. ] [ Ég bið eftir svari er hann skotinn eins og ég svo hrædd um að hann fari svo stressuð með hnút í maga eða er hann bara að leika sér eitthvað verður hér að laga en vonin er ljúf gefur af sér hjartslátt eitthvað spennandi að eitthvað gerist að hann komi aftur það vex allur minn kraftur um að vonin gefi af sér Dingaling ] [ Ég leitaði undir sófa leitaði út í bíl skimaði í kringum mig út í búð fór ofskreytt og upptendruð á djammið en svo hætti ég að leita fékk mér vatnsglas og settist í sófann og þá komst þú. ] [ Hvað ef ég hefði beygt til hægri keypt rauðu skóna sem mig langaði í hefði vaknað fyrr tekið upp símann sofið yfir mig eða sagt takk og brosað? Væri ég þá þar sem mig dreymir um að vera og væri mig þá að dreyma um að vera hér? ] [ Josep var nokkuð fúll þegar María Mey sagði honum að hún ætti von á barni Josep vissi vel að hann væri ekki barnsfaðirinn ] [ Er einhver að skrifa það nákvæmlega sama og ég nákvæmlega núna? Er þessi texti fyrstur sinnar tegundar í heiminum? Það væri gaman að fá einhver viðbrögð frá einhverjum sem er að skrifa það sama ] [ Sofðu rótt litli ljúfur, Guð mun þig geyma. Á milli okkar er heilmikið gljúfur, En ég mun þér aldrei gleyma. ] [ Kúkur+Labbi=Kúkalabbi eg kúka í dollu, meðan eg labba niður Laugarveg ég er kúkalabbi Folk hlær folk gubbar folk kúast folk grætur börnin hveljast börnin sæl bara a að horfa a mig mer liður illa, er með niðurgang grænn brunn og rauður kukur lika sma blar. ] [ það er mögl að malda í móinn ] [ Ég er að deyja. Nei. Bíddu. Núna er ég að deyja Nei núna Hvaðan koma öll þessi hljóð? Vatnið sem læðist niður húsveggina er að hvísla einhverju að mér. Mér finnst ég ætti að hlusta, en þori því eiginlega ekki. Það veit svo mikið. Heyrir raddirnar í veggnum. ég ætla að verða veggur. Nei, ég ætla að fara inn í vegginn Ég og veggurinn ætlum að sleikja regnið. Blotna. Brosa. Deyja. Geta veggirnir dáið? Vilja þeir mega þeir... Hvaðan koma öll þessi hljóð? Ef ég öskra, deyr þá þögnin? eða hverfur hún. með þöglu fótartaki. einmanna. Þar komstu með það. einn á móti öllum. Ég er þögnin. ] [ Ef lífið væri eitt rósrautt draumaský Sem vonlaust væri að finna, Þá getur dagurinn alveg eins á ný, byrjað aftur að dimma. Hvað það væri skrýtið þá, Að ganga á meðal manna? Engin væri eftir sjá, og ekkert þyrfti að banna. Ef guð væri ekki guð, En ímynd til að sanna. Yrði það ekki eilíft puð, og stöðugt nýtt að hana? Hver væri þá rósrautt draumaský, Sem dreymir á daginn okkur? Allt sem lifnar upp á ný, moldin ,sálin og skrokkur. ] [ Ég elska að dansa með lokuð augun með stjörnunum í geimnum. Ég dansa í takt við hjartað svo lengi sem það slær Dansinn dunar nótt og dag í trega, gleði og sorg Vetur, sumar, vor og haust ég þróa lífs míns söng Horfi á fegurð fjölbreytninnar Allt blómstrar, fölnar og deyr og ég óska þess að ég fái að vita hvað þessi veröld hefur að geyma Ég hugsa oft um liðna tíma Aldrei mun ég gleyma hver ég var og hver ég er Hvert sem ég fer ég leita að sjálfri mér En í draumkenndri þoku staðna. ] [ Sólin leggst í heiði, Yfir mig færist leiði, Það er komið haust. Botnaðu nú vinur, Það sem á þér dynur, orðið ,það er laust ] [ Þunnur og þreyttur þyrstur og sveittur líkaminn dofinn ligg hér ósofinn af hverju í andsk...... drakk ég svona mikið í gær? ] [ Sólin skýn,en regnið er hinum megin skýnandi regnbogi með liti mín megin laufblöð falla,vindur kemur eins og þeytibrandur lemur grenjandi regninu á mig alla,það er "HAust Dingaling ] [ blæðandi gómur brotnar skeljar bólgnar varir og höfuðverk þetta var helvíti gaman svona framan af þar til ég bragðaði malbik skó og hnúa fyrsta sinn sem ég gleðst yfir diskó bílnum. ] [ Lítil stúlka undir mold, Grafin köld og gleymd, Æskan aldrei fögur var, Eilíf sorg og eimd. Blár og marinn líkaminn, Blóði drifið hár, Sálin lamin, eyðilögð, Í hjartað rist var sár! Fyrirgefning syndanna, Heiftin köld sem ís, Hnífurinn á bólakaf, Brostið hjarta frís. Alein var hún og er hún enn, Undir kaldri mold, Brostið hjarta, brostin augu, Marið líflaust hold. ] [ Í hljóði haustsins milli rauðgulra trjánna við svalt sólsetur í fölbleikri frost birtu frýs í fölnuðu hjarta. ] [ Stundum nötrar rúmið og mér finnst þú vera kominn, eins og þú sért að skríða upp í og viljir kannski kúra. Ég lít við en sé ekkert. Hvernig gat það svo sem verið? Það er enginn hér nema ég – alein. Eða hvað? ] [ Tómas varð aldrei sá sami eftir að hann sá pabba sinn kyssa jólasvein í stofunni um síðustu jól hann sagði móður sinni aldrei frá þessu ] [ Eitt af hvítu peðunum á taflborðinu var illa við að láta snerta sig Þess vegna var það fljótt að láta drepa sig í upphafi hverjar skákar ] [ Nú býð ég spenntur eftir að komast í heimspressuna og öðlast þannig 15 mínútnafrægð Ég auðgaði nefnilega Úran í eldhúsinu mínum í gærmorgun bara spurning hvernig alþjóðasamfélagið tekur þessu ] [ Andar nú suðrið Sefar sig skjótt Sofna ég hjá þér í friði Í hönd hafði handriði Hent´í mig fljótt Hélt að ég eftir sér biði ] [ Innvortis blæðingar Vinna mér mein Finn mig í eilífu æði Tilbúnar sæðingar Verð aldrei ein Saman hér stöndum við bæði ] [ Bundið mál og bundið tal Bundin ást og handsal Taktu mig alltaf Taktu mig nú Af þér ég mér velt´af Ég bráðum verð þú ] [ Hugmyndaflæði Stopult - ei statt Finnur mig innan í vöku Á hann rennur æði Fagurt en flatt Um það ég skrifaði stöku ] [ Rím og rósir Ráða ei meir Dimmir dalir nú víkja Finngálkn og fundur Finna sig tveir Hvorugur ætlar að víkja ] [ Ég hef elskað þig alla tíð, og ávallt eftir þér ég bíð. En núna ertu farinn í friði og ró. Af þessu lífi fékkstu alveg nóg. Hvenær fæ ég nóg? Mér er aldrei rótt. Því að þú ert hér, Svífur yfir mér og ég sakna þín. Að fela mína miklu ást. Áfram ég held að af þér dást. Hlusatðu á hjartað. Hlustaðu, það okkur brást. Ég á mér óskir. Já óskir og drauma, um að þú sért hér hjá mér. En hvar er ástin? Sem var ætluð mér. Hugsunin er aðeins draumur. Og það er að kvelja mig, Svo komndu því aftur, Því ég sakna þín. Þú ert óskin min. Í ljósi skugganns, þar fel ég mig. Ætli þar ég finni þig? En röddin þín, hún lifir, áfram í hjarta mínu. Já lífið það er enginn leikur. Og því fékkst þú leið á því. núna ertu farinn í friði og ró, en samt ég sakna þín... ] [ "Stundum Já, stundum," sagði fullorðinn maður úti í úrhellisrigningu Hann var í frakka og sat í gömlum steyptum tröppum með rennblautt dagblað í hönd Honum leið eins og aukaleikara í menntaskólaleiksýningu ] [ Heaven is the place between, all good inside me. How can the world be so mean, and when will I see? That this is heaven, for no one but me. I have to defend it, like this is the place to be. There I´m free. Why do I put my self on a petastol? When we speak I speak a lie. I can see the ground below, chaus I´m standing so high. You never said you wouldint make mistakes. You´re only humen. But still my heart aches. I want what I want. And I will put up a fight. I just want sunshine every night. I only want the good, not a bit aff all the bad. I hate these things that make me sad. But one thing is clear, I where a halo, when you see me, standing here. can you feel the fear? Of all the things, I will give to you. The most perfect gift will be wings. Then you can fly up here, rescue me, my personality. We will face the fear. Chaus this all feels wrong, and now my eye´s see. That I dont belong, in heaven just for me. ] [ vatnið hættir ekki að leka hver dropinn á eftir öðrum úr krananum ég þagga niður í honum með stórutánni og hlusta eftir þögninni halla mér aftur og fylli eyrun af vatni heyri samt óhljóðin í hjartanu áður en þau deyja í vatninu ég drekkti ástinni til þín ] [ Amerískar stelpur þær eru allar með skínandi hvítar tennur Flottari en Stína sem gæinn á 18555 elskaði Ég og hann við skildum hvorn annan Þegar lög unga fólksins hljómuðu Og ég sagði hei ég er með tímavél Hittumst árið 2000 Þá verð ég átjan þú verður fimm fimm fimm Þetta verður algjört diskó beibí ] [ Ég var hættur að yrkja og það hefði verið mátulegt á ykkur Að missa frá ykkur Rimbaud áður en hann yrði frægur Áður en hann leggðist í mannsal og áður en hann dæi Það hefði verið mátulegt á ykkur! Bestu ljóðin mín og bestu lygarnar ykkar: Ó vér morðingjar minnumst mín Ég er forseti Bandaríkjanna og ég er trúaður og ég er trúðaður Ó vér ræningjar ég er Bastian Ó vér bítskáld og ég hverf Ó mæ godd og ég verð Ég hefði getað sagt ég sökkvi mér í þér En ég er hættur að yrkja ég sel litla svertingja Ég sef hjá fallegustu konunum og ég er Bastian sjálfur Hann er ég ] [ Þegar lygin leikur dans í lygakjafti prangarans, standast fáir færni hans í fortölum og elegans. ] [ Syndaflóð í svörtu bergi myrkar sálir renna í eitt. Opið sár á köldu hjarta, þó þú skilur ekki neitt. Snjóflygsur sem klessast saman, svefnlaus situr einn við borðið tromma fingur, hugur tómur -í upphafi var orðið. Gegndrepa af eigin tárum hugur blæðir, sársaukastingur heljartaki um sálina kreppa svartir, kaldir fingur. ] [ Gefðu mér blóm er þú týndir við veginn, án þess að hafa ástæðu til. Sittu með mér næturlangt þegar ég get ekki sofið og fylltu þögnina tilgangi. Ljáðu mér teppi þegar húmið er kalt og leggstu við hlið mér. Kakóbolli hlýjar meir en þú trúir þegar það ert þú sem hitar hann. Hrósaðu mér er ég klæði mig upp láttu mér finnast ég falleg. Haltu í hönd mína þegar við göngum um bæinn svo allir geti séð að þú ert minn. Það er ekkert hlutlægt engin dyr til að banka á engin orð sem þú getur sagt Gleði mín fellst í huglægum hlutum sem kostar ekkert að gera. Svona finnur þú lykilinn af mínu hjarta það er auðratanlegur vegur. Smá blíða og smá hlýja í gráum hverstagsleikanum þá er hjarta mitt opið fyrir þér. ] [ We was together, When we was together, I couldn't say I love you,, But I could write that on my telephone and in my computer,,! Just I couldn't say that,,! I'm realy realy sorry about this,,! Can you take my sorry to you,,! I alwas love you,, and you know that,! Your X Girlfriends JoninaB ] [ I want to say Hello, Before you go I am crazy in my head, It is your fault I'm lost in Hollywood Can you found my, I'm so not cool And I lost my brotherhood I want to say I do, I want to say I love you. When you go Can you say hello? But I am lost in Hollywood And I am so not cool. ] [ Þetta er sagan um Andrés önd hann ferðaðist um mjög mörg lönd. Þrjá fjöruga frændur hann á Ripp Rapp og Rupp Andrés dá jóakim aðalönd starfar hann hjá 20 metra langann skuldalista þarf hann að borga fyrir það hinsta pirrandi frændi er hann hábeinn heppni sem andres er alltaf við hann i keppni mikki er góð rannsoknarlögga guffi er seinheppinn og er ofurhetja vinir hans og ættingjar andres hvetja þvi felagar hans andres meta ] [ Ég fór upp í búð og keypti mér snúð og ég fór hjólandi heim. Ég fór með þeim ég fór með þeim ég fór með þeim heim ég fór með þeim heim Ég fór í bíltúr og systir mín var fúl hún henti bolta á gluggann og mamma klessti á og við fórum öll til himna ég fór með þeim ég fór með þeim ég fór með þeim heim ég fór með þeim heim ] [ Sogandi lætur loftið , þegar það er heitt, Dorma veisluafgöngum til þeirra sem eru alveg að springa. Það er keppst umhver er fyrstur að sprengja, "Allaf sona" , segjir kona, sem er vísindamaður, hvenær hættir kona að vera vísindamaður, og hvenær hætturm við alveg. Þegar tárið rennur hægt niður vangann stoppar tíminn í heila öld svo setjumst við niður og göngum frá þessu ánægð, við föðmumst og kissumst, sendum allar kírnar upp á fjall og beitum tælendingum á grasið þeir eru svo duleygir greyinn. Hvar eru kunningjanir Hvar er dúkurinn Hvar eru verkfærinn Og allt það sem til þar Hvar er öll þessi elska og samviska sem við grófum upp úr sandinum, Köllum bara á hjálparsveitina. Kanski fáum við hjarta með hjálm og öryggis skó og öryggis gleraugu og axlabönd. ] [ Myndarlegur maður um fertugt gengur lækjargötuna til enda og heilsar einhverjum vegfarendum sem hann þekkir með brosi á vör og lyftir hattinum, það skín í skallann, en lítur svo ekki við ýmsum kunnuglegum andlitum heldur lítur feimnislega undan og skoðar sjálfan sig í búðargluggaröð. "Flottur frakki." Hann er á leið til mömmu sinnar í kvöldmat. Kjúklingurinn býður utan við sig; hlakkar ekkert sérstaklega til að vera étinn. Að sjónvarpsfréttum loknum labbar maðurinn inn í herbergið sitt, sem er hliðin á foreldrasvítunni. Það er stráklingablátt með plakötum hér og hvar. Það hefur ekkert breyst í mörg ár. Hann fer í tölvuna, skoðar internetið. Og sofnar einn, klukkan tvö. ] [ Á aðfaranótt vetar, ég hana hitti andaði ótt og varirnar kyssti. Hlílega höndunum strauk hennar mitti hóflega einnig ég lærið "kristi" ] [ Bó. Só? Nó. Bó! Bó! Bó! ] [ Hann heltekur þig og nýtur þess að kvelja Sál þína alla hann reynir svo að selja Burtu tekur skynsemina Þykist þekkja eilífðina Fer samt ekki neitt Hann býr í öllum en vakir þó í sumum Lætur í sér heyra með vonleysisstunum Kallar út úr munninum Ég er kölski í tunnunum Brosir síðan breytt Hann saklausa tekur og bindur þá böndum Sleppir ekki neinum, þá eltir á röndum Skemmir alla sæluna Skilur eftir æluna Fær samt alltaf greitt Hann eins og allir aðrir veikleika hafa Viljinn og trúin þau undir hann grafa En uppgjöf elskar tvíburinn Ekki bugast vinurinn Líf hann getur deytt ] [ Blessaður sé minn Bróðir sem ber nafn Drottins hátt. Eigi þykja menn þá fróðir þeir er reiða sig, á Guðs mátt. Hver sá er gaum gefur Guðs orði á, sá er að brjósti hans sefur. Sæll mun hann vera þá. Sá þykir vegur þröngur þann sem leiðir mig inn, Því hér er himneskur söngur, hér frið ég finn. ] [ Minn konungur Jesús Kristur Kemur með vatn sitt ég er þyrstur. Mínar misgjörðir hann tekur Mér segir að ég sé ei lengur sekur. Komdu með misgjarðir þínar, þá iðrun þína hann metur. Þær síðan við kross sinn hann setur. ] [ Ég tek af mér leðurgrímuna og lít í brotinn spegilinn, og meðan ég leysi gaddaólina af hálsinum og dreg gómsæta þyrnana frá strákslegu andliti hans, finn ég sjálfan mig hvísla í vangogh-eyra hins múlbundna hlekkjaða Jakobs er hann liggur tjóðrandi kúgaður af trylltustu órum mínum stórum: Fyrirgefðu! Ég þekki þig ekki nógu vel til að fara svona illa með þig. ] [ gegnsýrð af ófrjósemi! (athugasemdin á við um efni sem flokkast sem krabbameinsvaldandi stökkbreytivaldandi hafa skaðleg áhrif á æxlun stefna skal að því að efni sem eru framandi í umhverfinu skaðleg mönnum og náttúrunni verði ekki til staðar í framtíðinni) þegar ég stóð á ganginum á slysadeildinni horfði inn í stofuna þar sem hann lá meðvitundarlaus að berjast við ófrjósemi bíða eftir að fara ekki bara til að verða fyrir vonbrigðum-- sterkt eitur gæti verið lífrænt leysiefni eða hættulegt heilsu í tengslum við efnið hættulegt umhverfinu ertandi hættulegt magn af efnafræðilega óstöðugum efnum í hættulegum styrkleika hættu! vá ég vildi ekki hitta alvöru frjálshyggjumann að þínu skapi þú kveikir í húðæxli á gasgrilli drauma þinna þú dælir paraffínolíu í pípulagnirnar mínar (persónuhlífar ófullnægjandi efnið getur ert skaðlegt vatnalífverum skaðleg langtímaáhrif á lífríki í vatni) þar liggur slefandi gallalausi séfferhundurinn í steranautinu: ég er farinn að drekka meira kaffi stórhættulegt sé ekki fram á að geta staðið mig í frænkuhlutverkinu ] [ Ég vil segja þér sögu um litla stúlkukind, allir vinir hennar yfirgáfu það er svo mikil synd Stúlkukind hlær, brosir, leikur sér vinir út um allt. Núna er orðið dimmt og það er orðið kalt. Stúlkukindin er nú ein, hvað á ég að segja? Að hún lifði hamingju líf? En þá væri ég að ljúga. Stúlkukindin var í myrkrinu alein og hjartað braut. Enginn að huggana og sálin er í graut. ] [ Kristaldropar frá himni lenda á grænni dögg, döggin brosir breitt að sjá gamla vin sinn aftur, sem sjaldan hún sér. Þegar droparnir lenda á jörð, koma börn ung og smá í litríkum fatnað og hoppí polla. Leikur kemur að til að sólin heilsar og kristaldroparnir kveðja til annan dag af skemmtilegum leik barnanna. ] [ Líki ég vindi við Guð Vindurinn sést eigi En þó heyrist stundum suð sjá, undir Guðs vilja ég mig beygi. Vindurinn sem orð skaparans ber Stoppaðu, og hlustaðu hvað hann segir nú gleði Guðs aldrei fer geng ég nú hvert sem þú beygir. lauf í vindinum ég er á góðan stað þú berð mig til himins ég að lokum fer að lokum fæ ég séð þig. ] [ Skálu fulla skaparinn gaf mér skálu friðar og von, sem aldrei fer. Nú leit mín hefur tekið enda aldrei vil ég trúnni henda. Elska drottins er blessun mín elska hans nær líka til þín. Því án elsku hins hæsta heimur þessi færi í hið smæsta. ] [ Nú andar suðri sæla vindum þýðum á sjónum allar smáar risa og flykkjast heim að fögru landi ísa og fósturjarðar minnar strönd og hlíðum Ó heilsið öllum heim að rómi blíðum um hæð og sund í drottins ást og fríði kyssið þið bárur bát á fiskimiði blásið vindar hlýtt á kinnum fríðum vorboðinn ljúfi fuglinn trúr sem fer með fjaðrabliki háa vegaleysu heilsiði einkum ef að fyrir ber í sumardal að kveða kvæðin þín engil með húfu og rauðan skúf í peysu þröstur minn góður það er stúlkan mín (ég get þetta) ] [ skórnir mínir löbbuðu með mig inní sér drógu mig uppí bílinn minn sem gleypti mig og keyrði erum við að flýja? spurði ég ERUM VIÐ AÐ FLÝJA? spurði ég hærra bíllin gubbaði mér útum framrúðuna en skildi skóna mína eftir sem hlógu að mér á meðan ég sveif um loftin og rotaði staurinn sem var fyrir mér ] [ mér hlýnaði um hjartarætur er hafið bauð mér vingjarnlega að drukkna í sér ] [ Komdu, ég er örlög þín sama hvað þú segir. Segi þér alla hluti á meðan sannleikurinn þegir. Ég er allt sem þú þarft leitaðu því ekki lengra. Getur nú minnkað leitarsvæðið og haft það töluvert þrengra. Spurðu mig allra spurninga um allt sem þú vilt vita. Segi þér stærð tunglsins og útkomur allra hnyta. Hef mikla trú á þér sama hvað þú segir. Segi þér alla hluti á meðan sannleikurinn þegir. ] [ Vengju orð eru þjóðarmorð prestar landsins gráta kallið til stóra hjálparsveit og alla landsins skáta. ] [ Vertu sæll vertu glaður það er þín saga. Engin væll ekkert þvaður né bull alla daga. ] [ Sleifarlag það var þá vægt, vart má finna veilu. Góðir hlutir gerst hægt, í þessu eins og fleiru. ] [ Sum orð eru merkilegri en önnur. Sum orð eru merkilegri en heimsins dýrmætustu geimsteinar. Sum orð eru falin í draumi, og finnast ei, von bráðar. Von er ekkert nema fjarlægur draumur. Fjarlægur, vakandi, draumur. Á lífi. Hvað ef við erum, vonandi á lífi, í annars manns draumi. Því þeir sem dreyma, vakandi á daginn, hafa vitund um orðin sem breyta, öllu. ] [ Er ég á radar? Bíp Hvar á ég að leita? Bíp Minn radar hefur eina gráðu. Bíp Sú gráða er hjá þér. Bíp Hljóðið er hjá þér Bíp ] [ Kaldur vetravindur blæs á mig, með þig. Hvernig eiginlega er það má það, kann ég það. Það ræsist upp hvelfing af frosnum blómum, og veturinn kallar á þig. Það sem fýkur í vindinum kalt og brothætt blátt, hvítt og grátt. Eins og þú er það hreinlega það sem fékk ekki nafn, og fær ekki nafn. ] [ Ætli það sé hægt að troða heiminum í litla glerkúlu, sitjand'í geiminum Hrista allt það vonda og ljóta út eða fela það í afagömlum snítiklút. ] [ Það er eins og nagla hafi verið neglt í gagnauga á höfði mínu Vertu svo væn að fjarlægja naglann Kannski ertu bara eins og ég með nagla í hausnum biðjandi mig "...fjarlægðu naglann, beibí." ] [ Ég hugsa að ég haldi því áfram. Að ýta tilfinningum mínum á brúnina og öskra. Öskra svo hátt í átt að himni að skýin færast til og mynda orð, setningar og ljóð. Hugsandi maður er eins og hálf melóna, ég veit ekki afhverju. Það er ekki til skýring á öllu. ] [ Þegar penni leggst að blaði opnast heill heimur af möguleikum. Dyr gapa að stöfunum & innum þær drýpur blekið. Á - af hugmyndum flæðir fram hjá óveraldlegum hlutum; sem geta allt í senn verið fugl & tré, það fer bara eftir því hvort þú horfir á hann að neðan eða á hlið. Penninn rykkir í ímyndunaraflið - sveigir það og beygir í allar áttir. Beljur á svelli sveifla sér fimlega í hringi á tánum. Drekar drita á gluggarúður bifreiða. Þú ferð niður að tjörn til að gefa lagarfljótsorminum brauðmola úr dós. Eins og æðar fullar af bleki - flæðandi í huga þér. Lávært suð; Undursamlegir hljómar gagntaka himininn - fluga sem flaug beint á höfuðið. ] [ Hugurinn, sár. Hljóðlaus tár sem aldrei verða, gráta þann saknaða. ] [ Tilfinningar vefja sig utan um tímann; hringa sig utan um veruleikann. Herða á - kreista. Vökvinn drýpur ofan á sál fortíðar. Vonir - draumar, dvelja í fortíðinni. Framtíðin hefur ekkert að bjóða á þess sem liðið er. ] [ Svo út & yfir sléttu hvítra grasa svo langt, langt í burtu. Virðist heil eilífð virðist svo langt í burtu. Þangað vil ég fara. Þar er tilvera fuglanna. ] [ Ég sá Ég mun þrá Og í það spá Ég mun trúa Ég mun búa Og aldrey púa Mitt líf Sem aldrey ég ríf Duleg, & ég þríf Ég sem svíf Og á mér gott líf Og kæri mig ekki um stríð ] [ Máttfarinn ég er Mig ég sker Blóðið rennur Og húðina brennur Ég græt Skil engan tilgang Lífið hefur sinn lífsgang Ég mun sjálfsmorð fremja Hjarta mitt kremja Ég græt Allt líf Ég ríf Og munn sjálfum mér kenna Og allt sem ég á, brenna Ég græt ] [ Blóð og sviti Ég sé af mér renna Ég er máttfarinn Allt þér að kenna Nýbúinn að hamast Stríð stríð og stríð Ég særð er mjög og frekar dauð en á lífi, Ég veit ekki neitt í minn haus Mit litla skinn fraus ] [ ég er norðurljós dagsbirtunnar í froststillunni þótt ég dansi ekki um daglangt íklædd marglitum slæðum finn ég það alltaf þegar ég snerti bílhurðina að ég er eins og ljós næturinnar ósnertanleg ] [ Ég er ekki vonin sem alla daga sefur. Heldur sú sem vakir og vandamál þín grefur. Ég lýsi upp dimma daga og dreg fram kjark og þor. Stend ávallt með yður frá hausti og fram á vor. ] [ með brenndan svörð og brotnar brýr að baki breyskur stend ég orðinn einn sýndu mér leið mér lokuð eru sund gefðu mér guð að leiðin verði greið stend upp þótt oft á tíðum hrasi berst við bakkus hjálplaus bara einn gerðu það guð taktu burtu vín veittu mér sýn í gegnum botn á glasi ] [ Stormur í hjaranu, stormur í sálinni, stormur í skapinu. Oh! Getur þetta leiðinda veður ekki hætt þarna inní mér? Var þetta spáin? Eða var þetta alveg óvænt? Hvað gerist næst? Fer að rigna tárum eða hvað? Hvernig í óskupunum á ég að vitað það, ég meina, ekki er einhver sem spáir til með veðrir inní mér. Víst væri það jú þæginlegt... þá gæti ég kannski undirbúið mig betur fyrir hægðir og lægðir. ] [ Ég skulda ykkur ekki neitt, þið getið bara komið til mín ef ég á að lesa ykkur. ] [ Græn flauelsþakin jörð lyft af fingrum Guðs í gullinni geislaþoku mjúkri Friður leggur sig yfir hlíðina og veltir sér niður í leik við himneskt listaverk ] [ Hann sat grafkir í smá tíma ..................... ---af hverju er þetta allt svona helvíti boring--- ...........svo startaðan og ók af stað Beygði hjá blómabúðinni og leit í speigilinn .............. ................................................"uff" --ég fer bara í til mömmu á morgun-- Hann ýtti á takkann og rúðan rann niður og hrækti út um gluggann. það rigndi í andlitið á honum og það kólnaði í bílnum .....það er allavegana heitt í í herberginu heima..... rokið feykti vatninu inn og hann blotnaði á lærinu ......... ""djöfull" rúðan rann upp aftur og það myndaðist þægilegur þrístíngur inni í bílnum. "ég get allt"....................................? ] [ Langt hef ég vonað og langt hef ég vonað ég hef langt vonað verða allir vistola með voninni einni að leiðarsjósi þegar breytinginn kemur aftur til battnaðar og forkostningar gera gæfumuninn hver er Björn hver er Guðlaugur hver er að hlera hver er að þykjast hver er í alvöru er ég að missa af einhverju er er ég eitthvað sem skiptir máli. Renni upp úlpunni og labba heim. ] [ Ég er alltaf heima. ] [ Við fagra tóna melódíu svíf ég á nautnalegu skýi hjarta þíns umvafinn tilveru anda þíns og veraldlegur máttur heimsins snertir mig ekki. ] [ Tíminn sem eitt sinn var er ekki en verður aftur á morgun. Komdu til mín Komdu gerum eitthvað sem ekki má megum eitthvað sem ekki er gert. Komdu elskumst meir en heimurinn Málum ást okkar á striga tilverunnar og felum hann dætrum okkar til af ást alltaf elskaðar mynd okkar Komdu sýnum öðrum verk okkar ástleitni tilgang löngun til lífs. Tíminn sem var á morgun er ekki en verður í gær. ] [ Hann bað mig um pening og ég gaf honum hundrað krónur fyrir kardemommudropum sem skolað var niður með Egilsmalti. Hann sat og svolgraði þessu í sig og bætti bragðið með dósinni er ég settist upp í strætisvagninn við gluggann og horfði þögull á hann. Minnisvarðinn handan við hornið. ] [ Svartir borgarmúrar —eldur á himni öskrandi þögnin glymur í næturkyrrðinni. Ég stend við varðeldinn og horfi á hendi Guðs tendra eld í miðju hinnar miklu borgar. Titrandi stjarfur stend ég og horfi á borgarmúrana brenna sem staðið hafa í þúsundir ára og nálaraugað orðið að hliði vítis. ] [ Tendraðu nóttina sem færði þér andann í sálinni og vakti ást þína á lífinu. Leiktu tóna kyrrðarinnar sem óma í þögninni og gæla við huga þinn tengsl tilfinninga. Snjókornin sem falla klæða glugga þinn hlýju umlykja veröld þína með töfrum sínum. Síðasta ljós næturinnar svífur inn í dögunina sem þér var gefin sem gamalli sál. ] [ Blóðdropi á blaði er líf þitt sem þú valdir þér. Lotinn í herðum við skrifborðið snjáður hendur sem pára. Fátæklegt ytra líf ríkidæmi sem enginn sér útkrotuð blöð í hillu. Vetrarskáld í bjálkahúsi við arineld sálar fjalla líf sem þú kaust líf sem þú ert líf skáld þú. ] [ Þegar þú ert mér við hlið, sýnist framtíðin bjartari á að líta. Án þín er allt vonlaus bið, og í mitt hjarta vondar verur bíta. Ég reyni að losna við þær, berst um í angist og von, von um að þú munir koma og ljúka þessu snöggt. Með einni snertingu losar þú mig undan öllu farginu. ] [ Svör við spurningum Ara Mamma af hverju er himinninn blár? Ljósið sem berst til okkar frá himninum er upphaflega hvítt sólarljós sem hefur síðan dreifst frá sameindum lofthjúpsins. Bláa ljósið, sem er hluti hvíta ljóssins, dreifist miklu meira en annað og því er himinninn blár. Sendir Guð okkur jólin? Guð sendir okkur ekki jólin beint en til eru þeir sem halda því fram að Guð tengist jólunum á þann hátt að hann sé faðir Jesú Krists sem á að hafa fæðst á jólunum, en fæðing hans er einmitt ástæða hátíðarhaldanna um jólin hjá ákveðnum hópi trúarbragða. Ásatrúarmenn hins vegar halda upp á hækkandi sól á jólunum en ekki fæðingu Jesús Krists. Hve gömul er sólin? Sólin er núna um 4,5 milljarða ára gömul. Pabbi, því hafa hundarnir hár? Hundar hafa hár af sömu ástæðum og mennirnir en hár er myndað úr dauðum þekjufrumum. Sá endi hárs sem er inni í húðinni nefnist „rót“. Rótin er í hársekk inni í því lagi húðarinnar sem nefnist leðurhúð. Í hársekknum myndast nýjar þekjuvefsfrumur í sífellu. Þekjuvefsfrumurnar hyrnast svo og deyja og þrýstast út í ræmum sem við köllum „hár“. Þar sem nýjar frumur halda áfram að myndast í rótinni þrýstast gömlu, dauðu frumurnar áfram lengra og lengra út og hárið vex. Hvar er sólin um nætur? Sólin fer ekkert á nóttunni heldur snýst jörðin í kringum sólina og um leið í kringum sjálfa sig og því skín sólarljósið á mismunandi svæði jarðarinnar á mismunandi tímum, því er til dæmis hánótt á Íslandi á meðan það er dagur í Vladivostok. Því er sykurinn sætur? Svarið er að þetta felst í merkingu orðanna sem menn hafa valið að hafa um þessa hluti. Ef flett er upp á orðinu sætur í orðabók kemur fram að sætur merkir einfaldlega “með sykurbragði, með sykri í”. Orðið sætur er því einfaldlega orð sem mennirnir hafa kosið að nota til að nefna þennan eiginleika, því eitthvað verða hlutirnir að heita. Afi, gegndu, hver skapaði Guð? Þeir sem trúa ekki á Guð segja hann vera sköpun mannsins en guðfræðingar segja eðli Guðs vera það að hann hafi alltaf verið til og verði alltaf til, óbreyttur. Hvar er heimsendir amma? Heimsendir er ekki á ákveðnum stað heldur frekar á ákveðnum tíma, en hvenær er ekki vitað nákvæmlega. Þó segja stjörnufræðingar að eftir um 8 milljarða ára muni sólin gleypa jörðina en hvort maðurinn verður búinn að eyða henni sjálfur fyrir þann tíma leiðir tíminn einn í ljós. Hvað er eilífðin mamma? Eilífð er annað orð yfir óendanleika, endalausan tíma, eitthvað sem mun aldrei taka enda. Oft er þetta notað yfir dauða manns, hann er orðinn hluti af eilífðinni, mun ávallt vera dáinn. Oft notað til að lýsa einhverju sem tók langan tíma, “það tók heila eilífð að klífa fjallið.” Pabbi, af hverju vex á þér skegg? Skegg vex, eins og allir vita, yfirleitt einungis á karlmönnum en ekki konum. Ástæða þess er að skeggvöxtur verður fyrir tilstilli karlhormóna, sem konur hafa yfirleitt einungis í mjög litlum mæli. Við kynþroska pilta hækkar magn karlhormóna í líkama þeirra sem aftur veldur því að þeim fer að lokum að vaxa skegg. Karlhormónar setja líka af stað vöxt bringuhára hjá karlmönnum um svipað leyti. Karlhormónarnir virðast valda auknum hárvexti hjá körlum með því að lengja vaxtarskeið háranna. Ef konum vex skegg er það vegna óvenju mikils magns karlhormóna. Því er afi svo feitur? Það fer eftir ýmsu, afi þinn gæti verið svona feitur vegna þess að hann borðar of mikið af óhollu fæði án þess að stunda heilbrigðar hreyfingar. Hann gæti einnig verið svona feitur vegna þess að fjöldi fitufruma hefur verið mikill í æsku, það þýðir að erfiðara er fyrir hann að létta sig þar sem maðurinn situr uppi með þær fitufrumur sem safnast fyrir í líkamanum á barnsaldri. Hægt er að minnka frumurnar með líkamsrækt en ekki láta þær hverfa fyrir fullt og allt. Því er eldurinn heitur? Eldur kviknar þegar súrefni eða ildi kemst að eldfimu efni og hiti er nógu hár til að koma eldinum af stað. Þá losnar svokölluð efnaorka úr læðingi, sameindir efnisins fara að hreyfast með miklum hraða og sleppa sem gas frá efninu sem er að brenna. Þessi hreyfing sameindanna er einmitt til marks um það sem við köllum hita og vegna hans verður efnið glóandi og við tölum um eld. Því eiga ekki hanarnir egg? Vegna þess að hanar hafa ekki þau æxlunarfæri sem þarf til að verpa eggjum en þau hafa hænur. Hins vegar má segja að hani sem tekur þátt í æxlunarferli með hænu eigi jafn mikið í egginu og hænan. Heimildir Ari Ólafsson. 2000, 28. apríl „Af hverju er himinninn blár?“. Vísindavefurinn. Vefslóð: http://visindavefur.hi.is/?id=384. Björgvins Gunnarsson. 2006, 8. nóvember. Munnleg heimild. Date and Time Properties. Time Zone. „GMT +10:00. Vladivostok“ C:WINDOWSsystem32/mobsync Eyja Margrét Brynjarsdóttir 2000, 22. desember. „Af hverju vex hárið?“. Vísindavefurinn. Vefslóð: http://visindavefur.hi.is/?id=1247 Heiða María Sigurðardóttir. 2006, 19. maí. „Af hverju vex skegg á fólki? Og hvernig virkar það?“. Vísindavefurinn. Vefslóð: http://visindavefur.hi.is/?id=5943 Ingibjörg Þorbergs, Stefán Jónsson. „Aravísur.“ Textasafnið. Vísna- og söngtextasafn Snerpu. Vefslóð: www.snerpa.is/textar/nr/206.phtml Margrét Björk Sigurðardóttir. 2006, 6. október. „Hvað er sólin gömul?“. Vísindavefurinn. Vefslóð: http://visindavefur.hi.is/?id=6261 SIV og Þorsteinn Vilhjálmsson. 2000, 4. ágúst. „Hvers vegna er eldur heitur og ís kaldur?“. Vísindavefurinn. Vefslóð: http://visindavefur.hi.is/?id=726. Þorsteinn Vilhjálmsson. 2003, 19. júní. „Af hverju er vatn blautt?“. Vísindavefurinn. Vefslóð: http://visindavefur.hi.is/?id=3513. Þuríður Þorbjarnardóttir. 2004, 22. mars. „Myndast nýjar fitufrumur þegar við fitnum?“. Vísindavefurinn. Vefslóð: http://visindavefur.hi.is/?id=4080. ] [ orsök afleiðinga gerandi örlaga eind alls sem er orsök framtíðarinnar hluti af eilífðinni alltaf og allsstaðar afleiðing fortíðarinnar ráfandi eftir kerfi andlaus og óeinstakur afleiðing orsakarinnar fyrirfram ákvarðanlegur frjáls en fullkomlega bundinn ] [ Æ, slökktu á útvarpinu, elskan. Ég er hættur að yrkja. Þú veist það vel. Ég er engin Medúsa. Æ, grjóthaltu kjafti. Ég skal geyma gullin þín. Heyrðu annars, manstu eftir John og Paul? Djöfull vorum við flott. Þú svona geðveik og ég svona hei vá! Æ, slökktu á helvítis útvarpinu. ] [ Að yrkja pólitísk ljóð er eins og að súpa hveljur og feminískar beljur. Að dissa Þorstein sjálfan frá Hamri er eins og að leggja undir sig hálfan heiminn með glamri. ] [ Þetta aðdráttarafl tveggja pláneta. Þannig veiddir þú mig. Þessi stjörnufræði og útgeislun sólarinnar. Net til að veiða okkur, skopmynd sem blekkir mig. Sing me a song. Sing along. Kær kveðja, Kolly Rokkar. ] [ Lítill drengur á litla von, litill drengur að sinni, Ég elska þig allan, mín eilífðar von, er að elska þig alltaf og bregðast þér aldrei. Mitt litla kærleiks korn, Og barn mitt í brjósti. Ég ber þig í faðmi mínum, leikandi léttir þitt eilífðar bros. Gleður mig að sinni. Minn litli kútur, nú situr hér. Í fangi föður og grætur, enn ert samt mjög sprækur. Elsku pabbi og elsku mamma, ég elska ykkur bæði. Þinn litli vinur á litið blóm, sem bjart er og kann að dafna. Drengur litill ljós og fagur, sigrar nú að sinni ] [ Þú ert yndi. þú ert æði. þú varst sæði. þú ert þú. þú ert bestur. þú varst barn. þú ert góður. þú ert karlkyns. þú varst bæði. ] [ Eitt andartak ein mínúta. Hamingjusöm langar að snúa mér að þér og sína þér. Mér þykir vænt um þig, þú átt ey föður en mér er sama. Ég elska þig Þú segir "þú ert frábær stelpa klikkað skemmtileg og að útlit mitt skemmi ekki. Hvað get ég gert mer líkar þig geðveikt vel. Þú ert sætur og góður vilt mér vel og þú umberð galla mína. Vilt hjálpa mér! þú segir að það sé auðveilt að ganga i annarra garð ef þess þarf. Ég lifi og hugsa til þin loksins fékk ég mínútu með þeim sem ég elska. Gat látið mér líða vel ] [ Nú er ég dáinn og komin á ró, langt í burtu ég fór. Ég vil samt að þú vitir ég sit hér enn, hér i hjarta þér. Ég sit á rúmi þínu dag og nótt. Sé þig sofa, sé þig vaka Ég sé þig fella tár og vill komast til baka, enn get ei ekki svo ég verð að vaka þér hjá. Nú er ég komin kátur og hress, í nýju lífi, og get þig kysst. Ég elska þig og þrái. Vil þig ey missa svo vertu um kyrrt. Ég ligg i nýju ljósi, horfi á þig á ný. Ég get tjáð, ligg og hjala, ég lit á þig og brosi breitt. ] [ Hjartað mitt er brotið, og opið uppá gátt. Hjartað mitt er vitlaust, og slær því ekki rétt. Hjartað mitt var sært, og af því get ég ekkert gert. Ég verð að byrja á nýju hjarta. á nýjum stað á nýjum tíma. Líma mínar rótir við þig, ef þú myndir vilja hjálpa að laga mitt litla hjarta. Mikið ertu góður að koma svona fram. Mikið ertu inndæll, Veistu að ég held barasta að ég elski þig meira enn allt ] [ Öll þessi mannshjörtu eru ötuð í blóðbaðinu sem Bush skrúfaði frá í hvíta húsinu og rennur í baðkar víðsvegar um Írak. ] [ Undarlegt er að horfa í augu þér elskan mín og sjá ást mína speglast þar. ] [ ég vildi að það héldu mér engin bönd því bundin ég er í báða skó með fjölskylduböndum úr fléttuböndum og sifjaböndum úr sléttuböndum. með bundnum fastmælum festarböndum flæktist ég einnig í hjónaband. ég vildi að það héldu mér engin bönd svo færðu mig strax úr þessum skóm! ] [ Þú varst mér svo góð, alltaf svo yndisleg og rjóð. Stafurinn þinn gegndi mörgum hlutverkum. Göngutúrarnir voru okkar tími. Kleinur og pönnsur okkar matur. Prjón og föndur okkar gaman. Hádegisfréttirnar, Nágrannar og heklaðir innkaupapokar. Alltaf saman. Ég var þinn klettur og þú varst minn. Þú kenndir mér allt sem ég kann. Að lesa, að skrifa, að elska og lifa. Ég mun aldrei gleyma þér. Þín Nafna Sigrún ] [ Það er komið vor og fuglarnir syngja. Sólin skín og börnin hlægja. Blómin vakna til lífsins og yrkja ljóð um hina eilífu ást. Í hjarta mínu er vetur. ] [ Viltu mig, viltu mig ekki, viltu mig, viltu mig ekki. Það er stóra spurningin sem brennur á öllum og fáir fá svar við. En þeir sem fá það, eru heppnasta fólk í heimi. ] [ Fyrsta skiptið sem ég sá þig varstu fyndinn. Annað skiptið sem ég sá þig varstu sætur. Þriðja skiptið sem ég sá þig varð ég hrifin. Í hvert skipti sem ég sé þig verð ég ástfangin upp á nýtt. ] [ Í mannfjöldanum er ég ein. Enginn hjá mér. Dagdraumar um þig krauma í hausnum á mér. Enginn vill mig, ekki þú, ekki ég, enginn. Eldar hjarta míns kulna er þú gengur til hennar og burt frá mér. ] [ Öldurnar skella á fjöruborðinu. Óveður í aðsigi. Ég veit að eitthvað slæmt mun gerast. Get ekkert gert í því, þú ert þarna úti í veðurofsanum að sökkva inn í eilífðina. Niður í hyldýpið. Farinn. ] [ Þykkar varir mjúkar, rauðar, sætar. Fyrsti kossinn, alveg einstakur. Hjarta hans grjóthart enda ber hann nafn með rentu. Stúlkan situr eftir með sárt ennið. Hann vill mig ekki. Mér er sama um allt. Mér er sama um hann! Held lífinu áfram. Enginn mun fá að særa mig svona aftur! ] [ Heyrðir þú vindinn hvísla um allt sem ekki var orðið um storminn sem myndi geysa aðeins á milli okkar tveggja Heyrðir þú þegar rigningin grét í óstöðvandi ekka eftir að óveðrið lægði aðeins á milli okkar tveggja Örmagna ég leita á náðir nætur svikin og sár fellt hef hvert einasta tár Myrkrið hylur og vermir meðan haustnóttin grætur á koddann legg mitt höfuð og regnvota hár Morgunbirtan huggar og vermir breyðir yfir dynmjúka sæng Höfgin líður hjá og ég opna augun sé lítinn engil sem flýgur hljóðlega burt Heyrðir þú allt sem við ortum sem olli því að eitthvað brast og klauf í stormi dal okkar tveggja stórfljót skilur okkur nú að ] [ Skýið rekst einmana með hópnum siglir mjúklega eftir bláum himninum sem á það til að reiðast; umbreytast í sótsvarta jökulá og hrynja til jarðar Skýið hnoðar sig aftur saman vindurinn hendir því síðan í enn eina áttina Það lítur í kringum sig segir ekki orð það segir aldrei orð ] [ það fyrsta sem var rifist um var uppskrift að eplaböku ] [ silfurglitrandi seytlar í rennum ljóðvaki lífsins geislar í gegnum grámyglu ský bifröstin hlý hringar sig í pollunum droparnir smáir hver situr uppí skýjunum og sáir ljóðvaka lífsins? ] [ Nei! hneykslaðist stelpan Ég er ekki fullorðin Ég bara orðin full Skríkti hún alsæl Í bili ] [ Ég elska þig meira en þetta líf, þú ert mér svo góð, þú er mín hlíf. Því án þín get ég ekkert gert, nema hugsað um þennan hjartaverk. Þegar við erum saman líður mér eins, að án þín sé ég ey góður til neins. Ég gef þér mitt hjarta með von og trú, því við eigum saman, ég og þú. Við vorum oft saman og vorum svo góð, það var eins og fallegt ástarljóð. Því þú vildir ánægð vera mér hjá, og þú varst sú eina sem ég vildi sjá. Við fórum oft út að skemmta oss, fyrir mér ertu gyðja, mitt eina hnoss. Við dönsuðum fram á rauða nótt, þetta gerður við saman títt og ótt. Mín fallega stúlka ég elska þig, meira en nokkur elskar sig. Þú er mér mitt yndi, mitt lífsins blóm, því án þín er ég sem eilífðar tóm. Þegar þú fórst á brott þá var það sem að líf mitt tæki enda, en nú ég kem. Ég kem til þín og spyr þig nú, viltu mig elska og vera mér trú? En þú sást þér ófært að hugsa um það, að ég væri sá rétti á þessum stað. Og nú ertu farinn, ég stend eftir einn, dyrnar þær lokast, og ég varð of seinn. Svo hitti ég stúlku, eina stúlku kind, hún var velvaxin, og fögur sem mynd. Hún var við mig góð og gaf mér gaum, en ég fann það strax, ég var fastur í taum. Þessi taumur var þannig að enginn sá. og ég fann það strax, ég varð þig að fá. Því án þín er ég ekki neitt, og þú ert sú eina sem því getur breytt. En svo kom sá tími að þú fannst þér kall, svo annan og annan, fyrir mig var það fall. Ég féll niðr'á dimman og myrkan stað, og þar sit ég fastur og slepp ei við það. ] [ Augu þín svo tómleg. Varir þínar sprungnar og flugur sækja í sárin, fötin þín skítug og slitinn. Augu þín svo tómleg. Þú ert berfætt og fætur þínir sárir eftir göngu þinni í leit að von lífs þíns. Augu þín svo tómleg. Vonin kom á móti þér og færði þér lækningu, mat, skjól og skó á sára fætur þína. Augu þín ljóma núna af gleði. ] [ Móður er sá sem elskar mann. Móður er sá sem hugsar um mann. Móður er sá sem huggar mann. Móður er það sem sem um mann, sér um að manni liði vel, standi sig á sporum lífsins Móður laus hetja er lífsins verk. Móður leiðbeinir manni i gegnum lífið, enn mun falla frá. Móðir er kannski ekki gömul. Móðir mín er veik. Móðir mín er kraftaverk. Móðir mín er sterk. móðir mín er stór sér i brjósti. Móðir mín mun deyja.´ En móður minni mun vera sterkt saknað. ] [ Þegar ég er blá drekk ég rauðvin og hlusta á bláa tónlist og held að ég búi í stjörnunum og þar sé aðeins ég þess vegna skilur mig enginn en þúsundir ef ekki milljónir blástjarna fljóta um himingeiminn með eina bláa manneskju trítlandi á yfirborði hennar og hver þeirra veltir fyrir sér af hverju hún getur ekki valið eða tekið stökkið til betra lífs og færst nærri sjálfri sér fæstar þeirra átta sig á því að það er einfaldlega vegna þess að við erum allar manneskjurnar svo ofurvenjulegar og engin okkar er stjarnan heldur búum við á henni ef til vill stjarnan búi inn í sumum og þær ættu alveg örugglega að taka stökkið og svífa því stjarnan sem hringsólar innra með þeim mun ætíð halda þeim á sporbaug og vert er að muna að stjörnuhröp eru fátíð Þegar ég er blá sperri ég mig sting fram brjóstinu og vona að það sé ekki ég sem er krafturinn krafturinn sem lyftir mér upp ] [ Hinir þröngsýnu öxlunum ypta, álit á fast við ramman reip. Sá vitri kann um skoðun skipta en flónið situr við sinn keip. ] [ Pabbi minn og mamma, þau miklu sæmdarhjón. Oft hvort annað skamma og öskra eins og ljón. Samt ég veit og víst er að væntumþykja er mikil. Karlinn ólmast alsber (pabbi) uppvafinn í hnikil. ] [ Hreiðar Logi, Einar Örn, Ásgeir og Magga Þóra. Þau eru mikil englabörn í okkar heimi stóra. England lögðu undir fót orlof sitt að nýta, alltaf kunnu á öllu bót aldrei voru að kýta. Frekar þótti fólki djarft að ferðast með litlu krílin, en foreldrunum þótti þarft að þekkjast ferðadílinn. Heim þau komu í tæka tíð, tóku á móti Burger og co. Kanarnir lentu í kuldahríð, kættust trauðla en hlógu þó. Á Gullfossi þau gengu út greyin nærri fatalaus, í nístingskulda norpuðu í hnút, uns næstum undan þeim fraus. Eftir mögnuð ævintýr um alla heima og geima, Krúsilúsanna ær og kýr, er´að kúra í hlýjunni heima. Kveðja, Einar og Marta. ] [ Andarnir ungu hástöfum sungu og ætla út á haf annars sigla þeir í kaf ] [ Í nótt... Tárið lekur niður köldu kinnina, ég titra og svitna.. þegar hann segir .... Í nótt munt þú deyja, Í nótt munt þú sofa, Í nótt munt þú hvílast, Í nótt munt þú loka augunum. Ég vil þetta ekki, því var ég fyrir valinu..?? Hann segir ekkert.. ég sný mér við ..... og hann stingur hnífinum í mig... Í nótt er ég dáin, Í nótt er ég sofnuð, Í nótt er ég hvíld, Í nótt er ég búin að loka augunum. ] [ Mín hugleiðing.... Ég veit að þú verður aldrei minn aftur. Ég get samt ekki hunsað mínar tilfinningar í þinn garð. Ég þarf ekki að hugsa til að vita að ég mun aldrei fá þig aftur. Ég skynja hvorki heitt né kalt. Ég er klettur, ég er leir. Ég er tilfinningarlaus nú þegar þú hefur hafnað mér. Ég þarf enga sannfæringu, engin heimsfræðiráð til að lækna mitt blæðandi sár. Ég veit að nú er önnur í fangi þínu..... Hver tók minn stað? Hver tók minn stað í hjarta þínu? Hver tók framtíð mína björtu? Hver tók sólina, hver tók tunglið? Hver tók ástina frá mér? Ég lofaði sjálfri mér að lofa hjarta mínu aldrei öðrum. Ég veit að ekkert varir að eilífu. Ooohhh...ég vildi að það væri satt því það er ekki satt. Ég veit nú að þú snertir hjarta mitt og ást mín til þín varir að eilífu. Sara D. ] [ Bréf til mömmu Shahidi. Kæra frú, það var ég sem drap dóttur þína. Ég veit ekki hvað ég hef gert, ég fór eftir skipunum og það kostaði litlu stelpuna þína lífið. Mér þykir það leitt, það sem við gerum við þína þjóð. Við erum alltaf að berjast, mér þótti erfitt að sjá hana, eftir að ég skaut hana, en kúlan var ætluð manni sem stóð fyrir aftan hana. Og þarna var hún útötuð í sínu eigin blóði, öskarandi á hjálp....... en enginn kom. Svona er mannkynið okkar í flestum tilvikum. Það má segja að stundum hötum við hvort annað, en í sterkum hermanni má innst inni sjá stórt hjarta fullt af ást fyrir fólkið sem hann drepur. Hann ræður ekki við þetta, honum er sagt að drepa, skipað. Annað hvort það eða hann er drepinn sjálfur. Ég berst fyrir land mitt og þjóð, en ég hugsa aldrei um hvað mikið fólk ég hef drepið. Þau hljóta að skipta hundruðum, held ég. Ef þú bara gætir skilið þennan hermann. Það er sárt að hugsa út í okkur, mannkynið og umhverfið okkar. “því getum við ekki öll lifað í sátt og samlyndi?” spyrja margir, og svarið er að það er ekki raunveruleikinn núna. Nú er raunveruleikinn að ná völdum, peningar, drepa, menga. Ekki eins og raunveruleikinn var, þá var ást, kærleikur, væntumþykja og virðing. Ég er ekki endilega að biðja um fyrirgefningu þína, ég er að fá frið í sálu mína. Hermaður í Írak. [Þetta ljóð fékk 3. sæti í ljóðasamkeppni Comeniusar 2005] ] [ Jólaljóð.. Stelpa, labbar ein, það er Þorláksmessukvöld og farið er að dimma, allt er kyrrt og hljótt. Hún lítur upp í himininn og sér norðurljósin, græn og rauð, skær og björt, hún lítur niður og sér mjallhvítann snjóinn og í tunglsljósinu glitrar og skín á hann, hún horfir betur upp í himininn og sér stjörnunar sem eru eins og demantar á svörtum himninum. Hún sér húsið hjá Jonna, besta vini hennar, og sér hvað þau hafa skreytt húsið undurfallega. Hún lítur yfir bæinn og sér ljósadýrðina, því það eru jólaseríur á hverjum bæ. Loks sér hún húsið sitt, best skreytta húsið í götunni, hún sér grenitréið í garðinu sem er skreytt með jólaseríu frá því í fyrra. Fyrir ofan tréið mætti sjá með ósýnilegri skrift, setninguna, Gleðileg Jól!! ] [ að vera ástfanginn er eins og að skera sig á háls það er sama hvað maður reynir maður getur ekki tekið til máls ] [ þú sagðir hey! og rollan jarmaði af gleði þú leiddir lambið í slátrun um nóttina voruð þið geim morguninn eftir lá gæran en úlfurinn snautaði heim ] [ Manstu blómin mörgum fyrir árum Manstu sár er burt þú gekkst mér frá Manstu þetta manstu hitt mörgu er rétt að gleyma Minning þína mun samt alltaf geyma Mundu nafnið mitt Hope 4. nóv 2006 ] [ Elsku hjartans ástin mín ekki kemur frelsið Í andamömmu alltaf hvín áfram streymir helsið Hope 5. nóv 2006 ] [ Rykið fyllir öll vit Ég finn jörðina titra Heyri járnbeltin mylja jörðina undir sér Bergið er meitlað og mulið Vindurinn grípur rykagnirnar og ber þær langan veg Ískrið í þungum vélunum Murrið í grjótinu. Sársaukaóp náttúrunnar Ærir mig. Júní 2006 ] [ Since the beginning of time Erupting mountins have created lava Glasiers have polished rocks Rivers and waterfalls have carved canyons Wind and rain have moulded the landskape What took nature millions of years to build Takes us humans only a fracture of that time to ..dig thru, ..blow up, ..tear down and even drown Is´nt it just a matter of time when our land lord collect whats his? God help us then, I pray. Okt 2006 ] [ Töðugjöldin mín tóku á taugarnar þetta ár. Mig var ekki sjón að sjá með þrútið bringusár. Sjaldan fyrri sat ég hjá er supu menn Wiskýtár. Sannlega því bónda brá við byndindisfár. ] [ Orð þín ristu upp gömul sár sársaukinn vall stjórnlaust fram Gamal kunnur óttinn læsir köldum krumlum um hjarta mitt. Kvíðinn hríslast um æðarnar og nærir örvæntingu mína. Mun þessu aldrei ljúka? Júní 2006 ] [ Þú dvelur í huga mér öllum stundum Ég sé þig fyrir hugskotsjónum mínum á daginn Þú ert í draumum mínum um nætur Ég er rótlaus án þín.. Viltu eiga mig? Júní 2006 ] [ Það er fallegur frostkaldur morgun Ég loka augunum - dreg andann djúpt Kalt loftið fyllir lungun Andardráttur minn verður að gufu. Geislar morgunsólarinnar gylla öspina í garðinum. Þú elskan mín, ert minn fallegi frostkaldi morgun. Okt 2006 ] [ Ein í lokuðu herbergi Ein. Erfitt að horfa. Systir mín Hún sem ræðir ekki málin Dansar áfram. Systir mín. En ég einkabarn ] [ Að sameinast þér, þó ekki væri nema um stund. Finna hlýjuna frá líkama þínum Finna snertingu fingra þinna Hlusta á rödd þína hvísla leyndarmálum þínum í eyra mér Gaf mér kjark til að trúa á framtíðina Júní 2006 ] [ Dalurinn djúpur, gróinn og grænn blómabreiða um engi. Lækurinn hjalar, kátur og sæll leikur á ljúfa strengi. Fossinn fellur í djúpa á liðast í gegnum dalinn. Sólin skín fögur að sjá hellir í fjalli falinn. Hugsið ykkur bara ef okkar jörð væri svona friður ríkir á sérhverri svörð það má alltaf vona. Hulda Hvönn Kristinsdóttir ] [ Bæn Góði Guð, verndaðu alla á jörðu. Þegar rignir eru skýin fögur grá og himininn fallegur blár. Blómin fögur jörðinni á. Og stjörnur fagrar himninur hjá. Amen. Hulda og Lára ] [ Börnin þá og nú Börnin trítla um tún og engi teygja sig í berjaling. Sá ég að leik, stúlku, drengi smalast eins og menn á þing. Eins kát og þegar lömbin skoppa, svo brosmyld hýr og rjóð. En þegar degi hallar og mamma kallar verða þau svo stilt og góð. Spila tölvuleiki allan daginn og þegar gengur ekki allt í haginn leggjast niður grenja, sparka, væla, skæla, bíta traðka Aldrei fara út í blíðu eða sól heldur stija eins og fatlað fól, í hjólastól fyrir framan sjónvarpstölvutól. ] [ Á fyrri tíðum Leik ég mér ein með legg og bein í laumi við fjárhúsið. Fákur minn er kindakjálki feiki stór og fríður. Kúin mín heitir Mjöll mjólkar hún vel. Kindin mín er ígulker oddkvöss hún er. Hundur minn Seppi smala vill helst. Kisa mín á músaveiðu klók í grasi felst. Leik ég mér ein með legg og bein í laumi við fjárhúsið. Húsið mitt torfþak geymir og fimm burstum með. Reykurinn úr strompnum fer. Baðstofan björt, geymir ýmis skört. Eldúsið með sinn stóra pott, Sem hjálpa mömmu kann með ýmist gott. Forstofan fægð og fín, og af postulínsskápnum hreinlega skín. Leik ég mér ein með legg og bein í laumi við fjárhúsið. ] [ Þessar Hún er rauðhærð með freknur. Hin er dökkhærð og á hund. Þessi er er skrýtin með þúsund spennur í hárinu. Þær eru bestu vinkonur! ] [ Guð grætur Það rignir, já hellirignir. Guð grætur... Hann grætur út af flóðunum í Asíu. Hann grætur út af fellibilnum í New Orlanes. Hann grætur út af sveltandi börnum í Afríku. Guð grætur... ] [ Manneskjan Beinin hrúga sér upp í einhverskonar fatastand sem húðin hangir á. Í höfðinu æða litlir karlar og stjórna þér. Tilfiningar eru eins og vindur koma og fara mis hlýjar, mis kaldar. Tárin eru eins og rigning, köld en nauðsynleg. Þú horfir á veröld, veröld sem þú ert föst inn í. Þú veist ekkert hvað er þarna úti. Hvort það hefur byrjun eða lok, upphaf eða endi. Hvað er ég? Ég er manneskja. ] [ Árstíðirnar Sumarið Sumarið í allri sinni sól og blíðu Blómin hlaupa inn á túnin. Tréin fara í sumarkjólinn og senda kvejubréf til jólanna. Kindurnar fara úr lopapeysunum og eignast lítil lömb. Fuglarnir tosa sólina með sér yfir þveran hnöttinn, og fiskarnir koma syndandi með hlýja sjóinn. Haustið Haustið kemur. Blómin verða þreytt og leggja sig. Tréin fara í haustlínuna frá Intersport. Kindurnar finna til lopapeysurnar og lömbin verða stúdent. Fuglarnir pakka niður en fiskarnir synda lengra niður í sjóinn. Vetur Veturinn kemur og Jesús á afmæli. Tréin verða ber og fela sig í snjónum. Kindurnar eru farnar í lopapeysurnar og lömbin eru orðin fullorðin. Fuglarnir fara með Icelandair til Asíu og fiskarnir verða að jólamati. Vor Vorið kemur og grasið grónar. Blómin teygja úr sér og trén hrista af sér ssnjóinn og bjóða góðann dag. Kindurnar fá lítil lömb í magann og fiskarnir hrygna. ] [ Ég sé listina í auðu blaði. Þegar blýantur snertir blaðið kemur list. List er fyrirbæri sem skellur á auganu og birtir allt upp. Listin er ég. Ég er listin. Eins og sólarljósið er skært er ég marglituð eins og þegar perla er í ljósi skiptist hún um liti. Ég er bæði stór og smá, feit og grönn ég birtist í öllum myndum, enginn sér mig eins. Ég get verið hvít rós. Ég get verið óreyðan ein, óskiljanlegt krass á blaði, samt er ég list. Lítið barn getur gert list, af því að list þarf ekki að vera neitt, bara autt blað. Fólk selur list, fólk kaupir hamingjuna sjálfa með list. Það lætur hana upp á vegg hjá sér og nýtur hennar af og til. Listin birtist í ýmsum myndum. Listin getur verið ástsjúkur rassapi þess vegna. Listin getur verið eitthvað sem er til og ekki til. Af hverju er listin þá svona flókin? Því að mannfólkið er heimskt. ] [ Ég horfi á úrið og halla undir flatt. Tíminn líður lötur hægt og ég segi: Æ hvenær ætlar tíminn að fara að líða þegar hann á að líða hratt. Ég reyni að hugsa og drepa tímann. Bara að það væri hægt að drepann. Hvað ætti ég að gera við'ann? Lemjann, berjann. Þetta bölvað líf er að gera útaf við mig. Mamma fór í messu pabbi fór á bílnum til Höllu ömmu. Ég fæ mér heitt kakó og kex með kremi. Æ hvað ég sakna pabba og mömmu. Ég sé krakka að leika sér úti. Það er nú hálf halló að hangsa inni veikur svona góða sumardaga. Ég gæti heyrt nál detta í gólfið og myndi pottþétt aftur finna hana. Ég bíð og bíð eftir að mamma kemur heimur úr þessari messu. Hárið er í rusli, vá maður ég er allveg í klessu. ] [ ÉG heyrði um daginn bjartann brandara um skrattann hann var svo klúr að ég fékk mér dúr og náði alldrei að fattann. ] [ 16 tímar ég beið eftir að fá að syngja í annari umferð í X-factor Palli, Ellý og einar sátu þarna og sögðu annað hvort já þú kemst áfram eða nei of lélegur Loks er komið að mér Eftir mitt einlæga viðtal við Höllu Labba ég af stað til dómarana. Stend og byrja smella fingri og syngja eins og engill með kontrabassa að mér fannst. “Stopp” allt í einu “Þetta er því miður ekki að gera sig” ] [ Þetta er fallegur dagur, esjan er dökkblá. Himininn er bleikur og fagur, og skýin eru grá . Nóttin nálgast, birtan fer, Tunglið er ei með sjálfum sér Þegar norðurljósin lýsa upp himininn svartan Þá kemur sólin og ylur okkur og daginn bjartann ] [ Tango is my dance, it´s so good i can not stop It´s so cool, it has lot´s o´fance, we are never going to stop hop now from floor and france, scout to me hello and stop for dance tango is my band and my dance to dance Tango went in shop and he said ,,Come for dance’’ tango is my life If I die what heppens to my tango if i cry then cry my tango If i can’t dance tango how can dance tango for my ] [ Stela eplum, mönsa epli, grýta eplum, spýta eplum. Meira, meira! Við viljum meira. Eftir sýninguna gaf móðirin syninum tvö epli, hann hvarf úr augsýn. Eitt hálfétið epli rúllar að fótum móðurinnar. ] [ Við fljúgum í tunglsljósinu yfir ísilagða svörð. Gamla fósturjörð, folda mín er köld. Úti heyrist væleinhver fær ekki að borða í kvöld. Jólakötturinn ekki börnin fær, ég frétti að hann dó í gær. Drífan hvíta felur fold. Fljúga hvítu firðildin fyrir utan gluggann. Litilibróðir grætu, mamma er að hugg'ann: Bíum bíum bambaló, sofðu vinur, sofðí ró. ] [ Á Galapagos gengur vel, á grænum og rauðum ströndum. Við sjáum fugla, eðlur og sel, ei sitjum auðum höndum. Sæljónin sýnast mér, sannast líkjast mönnum. Í sólbaði þau una sér, á ströndinni í hrönnum. Marga fugla fengum, fagra augum litið. Blue booby líkist engum, blátt er á honum fitið. ] [ Það eru á mér kröfur, ég á að vera mjó, ekki borða mikið, gulrót það er nóg. Æfa slappa vöðva, fara í líkamsrækt. Hlaupa, hjóla og lyfta, allt þetta er hægt. ] [ Ég er svöng og ég er þreytt, orðin hungurmorða. Mér er kalt og mér er heitt, mér ætti kannski að forða. ] [ Í Ahmedabad Skutlur fjórar strætó í, syngja og hafa gaman. Með bunka af burum aftan í, bungandi út að framan. Goa Fjórar píkur polli í, puðast við að synda. Sebi drottins dalli í, dýrkar þær að mynda. (MÞ,ME,MB,SM) Rúnir las og rímur kvað, rumur á hvítri strönd. Sæinn svarta fyrir bað, sálum okkar og önd. Hlær af öllu hjarta, við himin blá sæ. Margrét með brosið bjarta, bátum að landi rær. Kaloríur fjúka fljótt, fleyi við að ýta.(ME) Sennilega allar sjótt, á sig munu skíta. (MÞ) Madras Bitin á báðum fótum er, bólgin, skorin, marin. Sprey og smyrsli á mig ber, samt ekki nógu vel varin. ] [ Ég hugsa hvað lífið hefur upp á margt að bjóða. Ég sit upp í rúmi og les titil nokkurra ljóða. Það eru örugglega margar milljónir ljóða til, ja eða svona um það bil. Ég les ljóð sem heitir; Fögur skarlatsfljóð. Nafnið á ljóðinu mínu er mun einfaldara... Það heitir bara ljóð. ] [ úrhelli var í höfuðborginni 33 metrar á sekúndu í verstu hviðum nokkur tré fuku upp af rótleysi undir morgunn gekk á með trampólínum engan sakaði en fólk var almennt ekki hoppandi kátt # # # útvarp reykjavík nú hefst lestur auglýsinga ný sending, ný sending af norskum Trampólínum europrís... ] [ Í upphafi... var ekkert. En seinna meir tók hann upp nafnið Eggert. Staðfestar heimildir eru fyrir þessu í símaskránni á bls. 203 í línu nr. 13 Hringdu og tjekkaðu á því. ] [ Ég græt mig í svefn Og tárin þorna á kinnum mér er ég sef Hví er harmur í brjósti mér? Hví grætur þú barn svo sárum ekka? Hver faðmar þig barn er þú ert eitt? Ég gæti þín barn Gráttu ei ég er hér. Rannveig Iðunn 6. nóvember 2006 ] [ Ég þakka fyrir blómin sem lykta svo vel og fuglana sem syngja svo fallega, sólina sem hlýjar manni og manann sem gefur okkur vonarglætu í myrkri skýin sem sýna okkur myndir á himni og stjörnurnar sem glitra á samfestingunni Ég þakka fyrir vindin sem hvíslar að manni leyndarmáli og rigniinguna sem skolar burt óhreinindi snjóinn sem breiðir hvítri sæng yfir jörðina og lognið sem kemur öllu í samt lag aftur Ég þakka fyrir tónlistina sem vekur upp minningar og rituðu orðin sem hljóma svo fallega hláturinn sem lengir lífið og góðmennskuna sem er eins og leikrit En mest af öllu þá þakka ég fyrir þig því þú ert vinur minn og vinir eru einstakir allir á sinn hátt Takk Rannveig Iðunn 29. júní 2006 ] [ Leitar hjarta að blíðu og ást Rekið áfram af óþolinmæði hjartans Rekst á veggi sálarinnar Slasast á þröskuldum lífsins Á hafi minningana Það strandar á eftirsjánni Sem allstaðar leynist Rétt undir yfirborðinu Hjartað leggur þá til sunds En hvasst er og kalt Því haf minninganna Geymir það versta þar til síðast En hjartað nær þó að komast að landi Hristir af sér minningardropana Sleikir sárin eftir eftirsjánna Heldur höfði hátt og reynir aftur Í borg framtíðarinnar Þar sem bíða forboðin loforð Og dýrmæt reynsla gengur kaupum og sölum Þar sem reynt er að gleyma Að til sé haf minningana Allavega tekur hafið endalaust við En sker eftirsjárinnar stækka og verða beittari Og bíða uns hjartað kemur aftur Og bíður skipsbrots Þegar það leggur af stað Til að leita að blíðu og ást... ] [ Það er eitthvað skrítið sem stendur við hlið mér. Eitthvað sem ég hræðist meira en allt. það er ekki dauðinn né kóngulær. Heldur ástin frá hjarta þér sem lýsir svo bjart. Gefðu mér tækifæri til að lifa með þér. Því ég get það. ] [ Tár í myrkri enginn sér Hljóður grátur engann truflar Einmanna sál sem opin und Tómur hugur ei lengur reikar Vonlaus hugsun brýst í gegn Sálin því tekur opnum örmum Þreyttur líkami fær ei hvíld Örvinglað geðið æpir hljóðlaust á hjálp Hvergi virðist ljós í myrkri Enga svölun né frið er að fá Órói ýtir búknum áfram Lokast dyr frá öllum hliðum Opin augu ei lengur sjá Lungun starfa af gömlum vana Tilgang ei lengur lífið finnur Titrandi djúpt í afkima sálar Samviskan brýst um á heljarþröm Fallandi fálmar út í loftið Hvergi virðist hjálp að fá Enginn veit um þrautir þessar Djúpt í huga kæfðar raddir Titrandi, þreyttar, eru fastar Engin eyru leggja við hlustir Sjá ekki tilgang í raustum þeim Þögnin öskrar til að gera eitthvað Sálin lútir höfði, augu lokast Samviskan fallin, veifandi öngum Enginn heyrði hennar sársaukaóp Hugurinn reynir að rífa og tæta Bak við augun enginn hann sér Heilinn öskrar, æpir, gargar, Lokaður inni af þykkri skel Búkurinn sjálfur að niðurlotum Kominn er, enginn það sér Einn daginn gangverkið bilað er Líkami, hugur, samviska og sál Því vélstjórinn er horfinn, farinn Gafst upp á vinnu þessari Því dimmt var inni og kalt Loftlaust, rykugt og ónýtt Eftir liggur skelin ein Eyðist smátt og hverfur Eftir verður kannski leggur og bein En hugsun, afrek, þróttur horfinn. ] [ Tár þín minna á perlur hafsins Bros þitt minnir á sólarupprás að sumri Hlátur þinn minnir á þyt vindsins í grenitrjám Snerting þín minnir á flauel blómanna Augu þín glitra líkt og hafið á sólardegi Þú ert kraftaverk lífsins, fæddur af mér! Að eiga svona yndislegt barn eru forréttindi Ég sakna þín, elsku sonur minn. ] [ Langt inni í auga næturinnar Leynist lítil fangin sál Langt inni í auga sálarinnar Leynist lítið fangið hjarta Í hlekkjum vanans brýst það um Óþolinmótt og langþreytt En bæði sálin og nóttin Herða að og sussa á óróa hjartans Því hlekkir vanans eru þungir Og læstir með lásum fordóma Og lykillinn er geymdur af lífinu Hversu sárt þarf hjartað að biðja? Hversu hátt þarf það að öskra? Áður en exi frelsinsins heggur á hlekkina? Því exin er heyrnadauf og sljó Því tæknin hefur dópað frelsið Með hraða nútímans hefur frelsið elst Og með tækni vísindanna hefur það orðið hokið Frelsið með exina var eitt sinn ungt Þá hefði hjartað rétt þurft að hvísla: “Hjálp” Þá hefði frelsið stokkið til Og hoggið af því hlekkina En nú eru hlekkirnir meiri og þyngri Og lásar fordómanna orðnir tæknilegri Og frelsið ræður ekki lengur við þetta allt Því er það svo að langt inni í auga næturinnar Er lítil fangin sál Langt inni í auga sálarinnar Er lítið fangið hjarta Og í auga hjartans Er lítið fangið frelsi. ] [ Sitjandi ein á tómlegum bar Með te í bolla og þungar hugsanir Drukkið fólk í eigin heimi Kjaftar og telur sig vita allt Áfengið deyfir tilfinningar og hugsanir Lætur mann gleyma stund og stað Bakkus hefur löngum verið hylltur Og miklar fórnir hefur fólkið fært Til dýrðar þeim gamla saurlífsseggi En er ekki betra að sleppa honum? Og horfast í augu við sársauka heimsins? Því staðreyndin er að við hverja raun Þroskast fólk og verður víðsýnni Sálin styrkist við allt mótlæti Og hugurinn lærir smátt og smátt Og skynsemin verður tilfinningum sterkari Þannig að einn daginn Stendur maður uppi sterkur Og hefur lokið við skóla lífsins. ] [ Molnað brauð er vegur að baki. Myglaðar mylsnur í annarra vösum. Snjáðir fingur við skakkar varir. Situr hnípinn, frakkinn stór. Tóbakstennur, slitnir skór. Gjóir sljóum augum hina. Sýpur hér á meðal vina. Grettir sig, með herkjum kyngir, stingur flösku í flýti niður. Hristir hausinn, þurrkar stút. Hendir miða, stumrar út. Tafsar,tuldrar,bölvar,blótar. Lemur,öskrar,rífst og hótar. Í rænuleysi götu gengur, strokumaður,saklaus drengur. Snjórinn hylmir gráleitt strætið, glasið gleypir gleði og sorg. Í gegnum slyddu í gegnum skafla, nístir hávært,hlandblautt org. Í Hvílugarði hnígur grætur. Kastar kveðju á konu og dætur. Nakinn hvíslar aumur raftur Ekki meira, aldrei aftur. ] [ Gatan við gluggann ískrar og rymur Beinaber búkur bærist, snýst og stynur. Ljósin úr glugganum gæða bera veggina nýjum lit. Varlega fálma loðnir fætur eftir grófu gólfi. Höndin nötrar er hún rýfur vatnið, og augnablik sindra og sundrast. Skeggjað barn lygnir votum augum, og mjakar sér í þögn, ofan í ylvolgt baðvatnið. ] [ Birtan flökti og hökti, glýja í augum og grjót undir fótum. Einmana biður á veraldarmótum. Úr læðunni stígur grátandi stelpa. Droparnir sitra og á hana stirnir. Glennir greipar,grípur um brjóstið, og sökkvir nöguðum nöglum í skinnið. Rífur út hjartað, sem þrútnar og hnígur og biðlar til guðsins sem vægðarlaust lýgur. Litlar tennur læsast í vöðvann. Hún nærist og nærist, æsist og ærist. Hún stekkur um hálsinn og kjassar af heift. Tennur skellast,tennur brotna. Gómar gliðna,augu rotna, varir rifna,tungur springa, spýjan svíðir, sárin stinga. Líflausir falla fingur á gólf, úr munnvikum slefan, úr eyrunum blóð. Rökkrið hvískrar og umlykur þann, sem borinn var api en breyttist í mann. Hægt skríður klukkan aftur í kok og kúldrast þar fram í sögulok. ] [ Svart blek á hvítu blaði þannig eru hugsanir mínar ] [ Þessi dagur sem byrjar svona vel, ég vakna ég sofna ég vakna Ég fer á fætur og nenni engu, ég sofna. ] [ Nýfallin spor í húmgrasinu, garðurinn lyktar af syfju. Laufið sviptist á loft og sundrast á flótta. Það stirnir á grjót, sem glóir og fangar um stund athygli svífandi hrafns. ] [ Ég byggði mig upp til að geta reist þér höll með helberum höndunum Ég sleit af mér dísæta sykurhlekki áhyggjuleysis til að ég gæti flogið til stjarnanna með þér Ég tók upp á því að vaxa og ná til himins svo ég gæti fylgst með þér dafna Ég fór meiraðsegja í danstíma (en eins og allir vita er slíkt aðeins fyrir homma) -til að geta dansað við þig Allt þetta til orða þinna Haltu sjálf á helvítis bjórnum ] [ Í Listaháskólanum er logagyllt sturtubað. Og fólkið loggar sig inn og fylgist með fréttunum til þess að dæma um það. Það er haust í lofti og himinninn loðinn og grár. Þetta er lagleg stúlka með stert í hnakka og stensluð skapahár. Og maður með silfur í vöngum segir við mig: "Skyldi stúlkan nokkuð hafa faglegar og listrænar forsendur til að láta míga á sig?" ] [ Labbaði út úr sjoppunni með ís sem var búin til í miklu samstarfi míns og afgreiðslukonunar borgaði ísinn og gekk út í fyrsta skrefinu þegar út var komið hrasaði ég og ísinn féll í götuna þetta gerðist allt svo hratt og ég stóð þarna og horfði á ísinn liggja í götunni ég ætlaði ekki að gráta ég ætlaði ekki að æpa saug upp í nefið og fór inn í bíl það var ekki möguleiki að fara aftur inn í sjoppuna aftur og kaupa nýjann ís fékk sömu tilfinningu og það barn sem eitthvað er hrifsað úr höndum þess fékk útrás og lét reiði mína bitna á stýri bílsins ] [ Eftir að þú hafðir kastað í mig stól lampa og skærum og öðrum smáhlutum varð mér það ljóst að þú hafðir ekki átt góðann dag ] [ Gunnar fékk ekki lán hjá bankanum því hugmynd hans þótti léleg Hann ætlaði í útrás með á því að selja útlendingum súkkulaðihúðaða hrútspunga og svið hann hætti fljótlega í viðskiptum ] [ Þóroddur gerði þau mistök að telja sig trú um að ensk/þýska orðabókin kæmi honum til bjargar á íslenskuprófinu um daginn raunin var önnur og hann féll með 1,2 ] [ Í grafarþögn leið hvískur hríslandi beina Það breiddist yfir grátvotar götur Skreið inn í steinsteypta drauma glerborgar Tóngnestir mögnuðust uns rótlaus borgin brast og draumarnir molnuðu Glerbrotum rigndi af skírum himni Kyrrð Klofvega stóð bogdregið litróf á hvikum jöðrum Mitt í upphafi alls ] [ Sáttur söngstu mér eilífðarvísu í æsku Leiddir mig þá svangan til veislu og smurðir hunangi á hversdaginn Saupst af ró úr sólríku stundaglasi Kveiktir þér í elli og naust saðningar í sarpi daganna Fylgdir að lokum litríkum reyknum til lofts ] [ Þið gangið skeytingarlaust hjá og haldið samt sem áður áfram þó ég öskri og segi ykkur að stoppa. Jafn óumflýjanlegur þáttur af lífi mínu og ég sjálfur. Ógnvænlegt vald ykkar áþreifanlegt nemur við fingurgóma og hræðir mig. Atburðarásin! hún er ykkar, og samspil mitt við ykkur aðeins lítilfjörlegt tannhjól í gangverkinu öllu; tæplega ómissandi að nokkru leyti. Þannig heldur líf mitt áfram þó ég hætti að öskra. ] [ Árásin var gerð: ég eignaðist þó alla veganna bróður (ef það er í lagi þín vegna) Ég er org! í svarthvítu Tek andlit þitt milli lófanna og öskra þú ert mystík og horfir eiginlega á ekki neitt nærbuxurnar eru of litlar og skapabarmarnir gægjast út lífið er samt gott? Í nótt eignaðist ég bróður var það ekki alveg örugglega í lagi? ] [ Ég sarga þig sundur með augunum og nota afgangsspóninn sem efnivið í allar mestu kvenhetjur skáldsagna minna. "en þú skrifar ekki skáldsögur", svarar hún kannski. Daginn sem ég veit ég hef þig ekki skrifa ég skáldsögur. ] [ ég er ekki í skapi fyrir að tæla ég er ekki í skapi fyrir að vera tældur ég er í skapi fyrir afdali afgirta þar sem aðeins kýrnar dilla afturendum sínum og náttmyrkrið eitt dregur þig undir sæng ] [ Þeir raða sér þýðir einn, tveir og þrír fram af skýjunum eins og fallhlífahermenn með hlaðin vopn; himins regn. ] [ Þau halda að lífið sé bara 100 metra hlaup sem eigi að klára sem skjótast innan um sukk og saup en sjá ekki fyrr en um seinan er líður að leiðarlokum að við línuna bíður dauðinn sem útbýtir verðlaununum ] [ Rofast fjörubarð brýnist steinn sölnar gras en ávallt stendur þú óhaggaður minn kæri ] [ nakin á gullskóm kærulaust hvísl í munnviki og æðum svartar hugsanir svartar játningar fátt skilið eftir nema örlítil bitför á andardráttum og minning um hrokafull hlátrasköll ] [ í lokin stóð hann einn eftir feitur maður og grátandi miskunnsemi grimmdarinnar var eftir alltsaman falsað plagg og hann stóð einn yfir glerbrotum heimsins dapur sem aldrei fyrr ] [ Ég geng með þér blóma og þyrnaslóð, hugir okkar og hjörtu á sömu leið. Ég baða mig í birtu þinni og bros þitt lýsir mér alla daga dimma og bjarta. ] [ & það var ljós. Ljós sem lýsti inn um skjáinn; tindrandi, funheit á. Í þurrka, þá rigndi. & alsæla var staðreynd. Vefur frá hjartanu - spunninn skýja á milli. Stundarglas án tíma. & þú sem varst mér allt. Frá rótum út í fingurgóma - tilfinningin kitlaði. Hlýtt regnið lék um mig. Ég kippti snökt í liðinn & lagðist í dvala. - Vakin af martröð; drauminum var frestað vegna truflana í útsendingu. Tannpína sálarinnar. Höfuðverkur hjartans. & það er glampi. Endurspeglun vona; heiðskírt í gær, skýjað í dag. Á að sprænu. & lygi er góðverk. Spurningar skjóta upp kollunum; efinn er rótgróinn. Tíminn er pyttur. & vaninn vinnur verkið. Óþreyjufull bið, en samt er ég ónæm fyrir gólfstraumnum. Hið dýpsta haf verður yfirstigið. En biðin til morguns heldur áfram. ] [ í harðasta óveðrinu sjómenn sem leita að lífi í dauðsmannsbæ stórar, herðabreiðar konur með skeggrót taka á móti roðnandi litlum drengjum og bjóða þeim koss á kinn ] [ Einu sinni var miðill sem hitti mig í hjartastað og sagði mér að setja tappann í gatið. Tappinn passaði ekki svo ég henti honum gatið er enn opið. ] [ Hjarta mitt berst fyrir lífi sínu í brjósti mér ] [ I don’t know what I’m doing And I don’t know why... Where are you going!!! As I sit here and cry... I can’t believe you did this... You left me alone... The only thing I did miss... Was what I did wrong!!! Why did you leave me!!! I want to know why... I wish you could see, You left me here to die... You hurt my heart... You hurt my soul... You tore it a part... The heart you stole... I don’t know where I stand I want my life to be fun So, now I’ve got something in my hand But it’s only a gun...! ] [ Ég á mér draum Um ungan mann Ég var svo aum Uns ég hann fann Draumurinn minn Um þennan mann Var alveg eins og þinn Þegar ég þig fann Draumurinn er góður Þangað til ég vakna Þú verður alveg óður Þegar ég vakna Þegar mig dreymdi Þennan draum um þig Um æðar mína streymdi Blóð ég elska þig Mig dreymir þig Ég veit ei meir En þú um mig Nú get ég ei meir ] [ Hvar er að hinum ekta íslenska vetri? Hann er greinilega í tilvistarkreppu og hefur ekki hugmynd um hvaða hlutverki hann gegnir lengur. Kemur svo einn daginn með látum hættir svo við allt saman þakkar fyrir sig pakkar niður og fer ] [ Einn og aftur, enn á ný Bíður stoltið hnekki á rifum höfnunarinnar Enn á ný strandar hjartað á skeri Festist og brotnar í spón á klettum ástarinnar Aftur og aftur kemur aldan Og kaffærir littla stolta hjartað Það tekur andköf og brýst um Og hugsar: “Afhverju ég – hvað gerði ég rangt?” Því það eina sem það vildi Var hlýja, ástúð og virðing Þá lá á þilfari lífsins Og baðaði sig í sólskini hrifningarinnar Þegar skyndilega dró fyrir sólu Og kaldur andvari höfnunarinnar Smaug inn í merg og bein Og haf sársaukans þeytti því af stað Uns það strandaði hér En þetta er ei i fyrsta skiptið Sem hjartað lendir í brotsjó lífsins En samt er það alltaf jafnsárt Alltaf kemur það hjartanu jafnmikið á óvart Og það hugsar alltaf: “Aldrei aftur” “Nú skal ég sjálft finna mér mitt eigið skip Og vera minn eigin skipstjóri” En samt lærir þetta heimska hjarta aldrei Það er alltaf tilbúið að láta að stjórn Alltaf tilbúið að leifa öðrum að taka við stýrinu Og leggjast niður á þilfarið Og bíða eftir Að sól ástarinnar skíni á ný ] [ Þessi fagra unga snót er Inga María hét Hún meiddi sinn stutta fót en það ekki eftir sig lét Af ungum manni hún ástfangin var Það má segja með sanni að hún vel það bar Þeim unga herra hún son einn ól og dóttur sem ekki var verra Þau komu í heiminn rétt fyrir jól En herran hjarta hennar stal Þetta var ást við fyrstu sýn Hún hafði því miður ekkert val Því ástin, hún er ekkert grín Hann skildi Ingu eftir allslausa og börnin tvö í fang sitt fékk. Það var ekki upp á marga hausa því stuttu seinna hann í snörunni hékk... Hann féll fyrir eigin hendi, hann líf sitt burtu tók. Ég vona að enginn í þessu heimi lendi eins og sagan af Ingu endar, sem lokuð bók... ] [ Hvers vegna ég? Hví er ég svo vitlaus? ég kemst ei á réttan veg, því ég er rænulaus. Ekki liggur leiðin greið upp í sjúkrabíl ég fer Ég hugsa ekki vera leið því karlinn mig ber... Hann mig lemur og lemur en enginn það sér því enginn kemur og hjálpar mér... Í sjúkrabíl ég burtu fer ég var mikið barin Það mikið á mér sér því ég er illa marin Ég veit ei hvað ég gerði sem reitti þig til reiði, ég vona að það ekki meira verði svo það enga fleiri meiði. Ég veit þú elskar mig en það sem ég vildi helst væri að ég hataði þig því þú framhjá mér hélst. ] [ Í líkingu við alsæluna er bros þitt nær til augna minna Í líkingu við alsæluna er koss þinn mætir vörum mínum Í líkingu við alsæluna er snerting þín mætir brennandi hörundi mínu Í líkingu við alsæluna er ég finn hjarta þitt slá við mitt Í líkingu við alsæluna er návist þín fyllir drauma mína ] [ Elskaðu mig svo ég finni hvernig hjarta mitt slær svo ég opni augun og sjái veröldina blómstra í allri sinni fegurð Særðu mig svo ég finni að ég er til svo ég læri að ég er mannleg og að ég get grátið Kremdu hjarta mitt svo ég finni hvað sársauki er svo ég sjái að ég elska þig ] [ förum. göngum úr skugga um að rangsælis sé ekki rétta leiðin um hin myrku stræti reykjavíkurborgar ] [ Tómið lífið er tómið og ég er blóðið í þínu holdi ] [ Kvalir. ] [ í heimi okkar er illur her, en hvar er frelsið sem við viljum hér. Ást og hamingja hvað er það? Það eina sem við sjáum er eitt stórt blóðbað. Hver er sá sem okkur skilur? Það er eitt sem við vilju er ást, kærleikur og fryður. ] [ Langt fyrir vestan vöð er var við jökulfjörð og vörðuð rakin röð að rúst við grýttan svörð. Þar hylur krossinn hvönn á hvílu við kalda strönd. Því ótti , boð og bönn báru þig um eyðilönd. Hér beiðst þú þreyttur þess að þiggja kirkjuleg. En harður helgur sess hlýddi á annan veg. Þótt gríma guðs sé væn hún gleymdi fornum sið að færa föllnum bæn og flóttamanni grið. Ofar en efstu grös utar en fjarstu grunn. Og hæðst á hamra snös og hátt við bæna brunn. Hún beið og vakti við veröld er laut að þér. Vonin sem hlið við hlið hér gengur enn með mér. Beljandi brimið er brattlendið mörgum raun. Þrýtur mig þreyttan hér Þolið við úfið hraun . Glittir í gamla tótt gróna við lítið fell. Hverfur að húm og nótt heyri ég hófaskell. ] [ Rós sem blómstrar nett og fínt, færir alla ást til mín. Bæði nú og líka þá, færir þú mér hamingju og þrá. Í gegnum hjartað mitt og þitt. Elska ég þig krúttið mitt. ] [ Eftir miklar pælingar í tvær vikur gerði Þrándur sér grein fyrir því að til þess að búa til samloku þurfti áleggið að vera á milli tveggja brauðsneiða en ekki brauðsneiðarnar á milli áleggsins ] [ Börnum og fullorðnum af erlendum uppruna verður bannað að reka út úr sér tunguna á degi íslenskra tungu ] [ Jón var alltaf sagður vera hressi og skemmtilegigaurinn. Samt ekki eins mikið eftir að hann dó og var hann harðlega gangrýndur fyrir það. Ég vona að ég verði aldrei skipaður í hlutverk hressa og skemmtilega gaursins og fái bara að hvíla í friði ] [ Þykkir viðardrumbar halda uppi lofti súkkulaðibrúnir meirhluta kakó. Með kassalaga rúnir. Aðrir slíkir drumbar berja á mínu hjarta vilja úr sér rétta meiri hlutinn slær. Samt er ég að detta. Hvernig geta drumbar staðið í lausu lofti án þess að spyrja hvernær á að hætta? Víst ég var að byrja. ] [ Þekur snjórinn skólabörn, sárt nú frostið bítur. Nú skaltu breyta sókn í vörn, snjóboltum í þig skítur. Dynur yfir dranga og fjöll, dúndrandi heljar bilur. Hressileg þó hlátrarsköll, heyrast ef inni er ilur. Fýkur yfir móa og mel, myrkur kuldaboli. Það er þó eitt sem ég tel, þennan vetur ég þoli. ] [ Tárin frosin, Orðin mín tóm. Ástin er víst gosin, Og syngur sinn gleði óm. Miskun þín er, Eithvað sem leynir. En aldrey ég neitt ber, nema þú meinir. Móðirinn mín jörð, þú ert eithvað sem þú gerir. Þú hefur þinn lífstíðar vörð, aldrei nema þú miskun berir. ] [ Þú ert með sætann nammirass mér finnst gaman að bíta í hann bíða í smá tíma svo bíta aftur í hann. Eins og nammi á bragðið "Ekki skemma hann" þú sagðir en ég geri það samt þangað til að ég hætti er langt. ] [ Ég er föst milli heima, Föst í drullu svaðinu. Þér mun ég aldrei gleyma, Sama hversu lágt ég leggst. Fel mig í alsælu, Raunveruleiki eða ímyndun, Kann ekki skilin lengur. Græt mig í svefn, Kafna í viðbjóðnum, Fel mig í skugganum, Get ekki hætt. Nú get ég mig hvergi falið. Lygi allt saman lygi, Þau sjá vel hvað ég hef gert. Drepið saklausa sál. ] [ Sogandi lætur loftið , þegar það er heitt, Dorma veisluafgöngum til þeirra sem eru alveg að springa. Það er keppst umhver er fyrstur að sprengja, "Allaf sona" , segjir kona, sem er vísindamaður, hvenær hættir kona að vera vísindamaður, og hvenær hætturm við alveg. Þegar tárið rennur hægt niður vangann stoppar tíminn í heila öld svo setjumst við niður og göngum frá þessu ánægð, við föðmumst og kissumst, sendum allar kírnar upp á fjall og beitum tælendingum á grasið þeir eru svo duleygir greyinn. Hvar eru kunningjanir Hvar er dúkurinn Hvar eru verkfærinn Og allt það sem til þar Hvar er öll þessi elska og samviska sem við grófum upp úr sandinum, Köllum bara á hjálparsveitina. Kanski fáum við hjarta með hjálm og öryggis skó og öryggis gleraugu og axlabönd. ] [ Það er líf fyrir utan gluggann minn I herbergi fullu af fólki finn mig leita að félagsskap leita að mér. í herbergi fullu af fólki Og þegar ég fer mun eg leita að þér í herbergi fullu af fólki. og þegar eg finn þig munum við deyja saman í herbergi fullu af fólki. Og lífið í henglum skýst framhjá augum í herbergi fullu af fólki með tárin í augunum öskur í eyrum í herbergi fullu af fólki Með hlaupið í kjaftinum blóðið í eyrum í herbergi fullu af fólki Finn ekki neitt nema holuna í hausnum í herbergi fullu af fólki. ] [ Nú andar suðrið sæla vindum þýðum á sjónum allar bárur smáar rísa og flykkjast út að fögru landi Ísa-, að fósturjarðar minnar strönd og hlíðum. Ó, heilsið öllum heima í orðum blíðum um haf og land í drottins ást og friði, leiði þið bárur! bát að fiskimiði blási þið vindar hlýtt á kinnum fríðum. Söngvarinn ljúfi, fuglinn trúr sem fer með fjaðrabliki háa vegarleysu lágan dal, að kveða kvæðin þín, heilsaðu einkum ef að fyrir ber engill með húfu og grænan skúf í peysu; þröstur minn góður! það er stúlkan mín. ] [ Blessaðu drottinn þetta hús, alla daga og nætur Blessaðu stoðir þess, traustar og heilar Blessaðu þak þess og háf, innviði alla og hússins sál svo gleði vefji í kærleik þá er innum dyr þess gangi. Blessaðu ljóra þess og inn þitt ljós leiði Blessaðu hjörtun í lífi þess, og heitum bænum til þín beiði. Biðjum íbúa alla í lyndi að lifa og verk sín þínum anda bera, svo við dveljum hvern dag með þér. Undir áhrifum af \" Bless this house\" Höf: May H. Brahe (1885-1956) ] [ Paradís þjófanna með hugann við peníngana og peníngana við hugann Kveðja forstjóri papco ] [ Forsíða: Sæll. Inngangur: Þú ert bróðir minn og móðir okkar? hún er vináttan. Meginmál: Allt sem ég má gefa, mun geð mitt gefa þér en það er fátt og allt svo smátt því sjálfur þú geymir flest allt sem veit ég best yst sem innst í mér. Lokaorð: Og allt sem mig skortir veit ég vinur að finnst hjá þér. ] [ Komdu kisa mín því þú ert sæt og fín við skulum leika saman því það er svo gaman. Hérna ertu með loppu og eina litla snoppu komdu hérna Snúlla litla krúsidúlla. Hulda og Ásta Kristín, 9 ára. ] [ Púki minn og púki þinn, ljóðast, lýsast saman, alltaf er svo gaman í heljum. Á steini ég sit við ofnbjartan eld og raula mér kvæði í kvið. Ég mæni út í loftið og andvarpa þungan þegar eldur gýs úr skolti. ] [ Til hamingju með afmælið Bjarni Hólmar minn hefurðu nú Ameríku lagt að fótum þínum? Blessaður veri og ævilega Bessi makker þinn. Baráttukveðju sendi ykkur með þessum fáu línum. ] [ Tindrandi dögg Hjúrir í augnkrók Dapurs drengs. Hurðin nötrar Öskrandi orð Hendast á milli. Brothljóð fylgja Og döggin fellur. ] [ Rotnandi ást Úr þurrkaranum. Heit og hlý. En lyktin óbærileg. ] [ Kertaljósið sem vakti yfir þig slökknaði Kaldur blástur. Og þú varst horfinn að eilífu. Mundu mig og ég man þig. ] [ Sáran söknuð ég upplif'í kvöld. Sálin mín engist af stjórnlausri þrá. Teygist nú tíminn og virðist heil öld. Tilfinning slæm þegar sálin er blá. ] [ Margir karlmenn eru feignir því að heyrn þeirra versni á efri árum? Því það er vitað með vissu að konur þeirra nöldrar hvað mest þá ] [ Ef fullorðnir hugsuðu oftar eins og börn væru margir hlutir auðveldari Til dæmis myndi tvær kókosbollur og bland í poka fyrir 250 kall vera álitinn góður kvöldmatur ] [ Bjarni litli spurði ömmu sína hvernig hún væri í hringvöðvanum um daginn Amma hans lifði aðeins í 4 tíma á gjörgæslunni eftir hjartaáfallið ] [ Að horfa á þig fara þá fyllist ég þrá, þrá um að fá þig aftur að sjá. Augun þín blíðu og brosið svo flott, ég vildi að þú yrðir hjá mér þessa nótt. ] [ Mér er illt í hjartanu. Hjartanu sem sló í takt við þig. Ég fæ sársaukasting í hjartað sem leiðir um allan líkamann þegar ég hugsa um þig... og mig svimar svimar... Kannski er hjarta mitt að bresta. Kannski er ég að deyja. Út af þér dey ég úr ástarsorg. Eða kannski út af rækjusamlokunni sem ég borðaði. ] [ Myrkir dagar brostið hjarta óttin nagar lífið mitt Myrkar nætur andvaka ligg ég fer á fætur annar dagur Tíminn silast áfram allt fram hjá mér fer fleiri andvökunætur þar til ligg ég hjá þér Ligg hjá þér hugurinn vinnur þar til þú sér(ð) hvernig ég er ein aftur til hvers að fara á fætur sef þangað til hjartað slokknar Líð áfram eins og vofa engin mig sér látin ég er. ] [ "Góði Guð. Ég meinti aldrei það sem ég sagði um þig um ævina. Þetta var bara létt spaug" Ótrúlegt en satt slapp Jónas fyrir horn og fékk inngöngu í Himnaríki ] [ Grasið er grænt. Það rignir. Grasið er blautt, því á það rignir. Grasið er grænt, það blæs vindur. Grasið hreyfist, því á það er blásið. Grasið er grænt það er sól. Grasið er þurt, því á það skín sól. Grasið er grænt, það er snjór. Grasið er horfið, því á því er snjór. Grasið er gult, því snjórinn fór burt. Tók burt þann sjarma sem í því stóð. Grasið er sorgmætt, grasið dó. ] [ Tómar blaðsíður bíða, fylla þær tekur tíma. Það þarfnast þolinmæði. Hjá þér er ekkert slíkt til. Þú tókst þær burt, þær koma ekki aftur. Litur þinn er svartur, enn minn er enn bjartur. Tíminn líður með þér, ég tek að fölna. Með þér, ég tek að dökkna. Nú erum við bæði svört, og lífið á enda. Við silgdum eingin ókominn höf. Ég ligg með þér í þinni gröf. ] [ Hvernig það er að vera ég, veit enginn nema ég. Kvalarfullt tár rennur niður kinn, þetta tár svalar þorsta þinn. Tárið rennur niður þetta mjúka skinn, sorgina frá þér ég finn. Sálinn í lokaðari skel, opnast hún ef ég fer frá þér? Er ég þetta kaldharðabrjóst? Ert það þú sem frá mér fórst? Er það ég sem veldur þessari sorg? Eina sem heyrist frá þér er þetta org. Tárið hlykkjast niður þessa kinn og rauðar rætur frá því ég finn. Ég hegg mig sjálfa niður og djöfulslegu hamingjuna þú finnur. Hjá þér er stöðugt myrkur enn ég fylgi þér sem innrifriður. ] [ Það er eins og það er. Er málsgrein með setningu. Setning sem verður að málsgrein. Þessi heild gefur okkur mynd. Mynd sem við munum bæði gleyma og eiga. Það gefur í skyn ákvörðun, sem hefur verið tekin. En á bakvið hana bíður ósáttur aðili. ] [ Epli í poka, honum þarf að loka. Epli í poka, pokanum þarf að loka. Epli í poka, honum var lokað. Epli í poka, pokanum var lokað. ] [ Glugginn lokaður og blómin skrælna. Allt tekur tíma. Spurninginn er bara hve lengi þarf að bíða? ] [ Í ljúfum draumi kemur þú, með þína von og góðu trú. Tekur í hönd mína, þeirri sveittri Góðir straumar fara okkar á milli, þú komst til mín þetta annað skipti. Annað skiptið sem mig mig þig dreymir, annað skiptið sem þú ert í mínum heimi. ] [ Það sem sagt er að börn breytast er satt, og það gerist stundum of hratt. Þegar gamla fólkið segir að við eigum að njóta lífsins, skulum við gera það! ] [ Eitt sinn var mér unnað hann var alveg dásamlegur sérhver stund við áttum saman hún var dásamleg hann var mjög svo góður við mig alltaf hlóum við saman en svo kom sú stund að hann fór í burt en hans var sárt saknað Þremur vikum seinna þá áhvað ég að hringja niður á Árbót og tala við hann, en hann var ekki að vita hver þetta var ég beið lengi en þurfti svo að segja hver þetta var. ] [ Þú komst í heiminn Með ást og von Von fyrir mömmu um betri tíma Ný ást, svo sterk, betri en allt Þvílíkur hamingjustraumur fer um mig er ég held þér í örmum mér Án þín væri lífið ekki eins fallegt og gott Án þín væri ég ekki eins hamingjusöm Í augum þínum speglast traust Þitt litla hjarta treystir á mömmu sína treystir því að mamma geri allt til þess að vernda þig og gera heiminn betri Litli engillinn með rauða hárið Fallega prinsessan hennar mömmu sinnar Litla Emma Rós með björtu augun Með tæra og saklausa hjartað Ástin í lífi mömmu sinnar Takk fyrir að koma í þennan heim Og gera hann enn betri Tileinkað Emmu Rós og Ingibjörgu Lilju 19. okt 2006 ] [ Eins lengi og þessi fáranlegu jólalögum fá að lifa og heyrist um hver jól mun ég yrkja um hvað sem er án þess að fá vott af samviskubiti eða kjánahrolli ] [ Þótt að það hafi snjóað alla vetra síðan fyrsti bíllinn kom til landsins, kunna íslendingar ekki að keyra þegar það er þungfært vegna snjókomu. Við ætlum aldrei að læra ] [ Hann heldur fast við sinn keip, að heilinn stækki ef hann borðar heilafiski. Hann tattóverar gripinn á handlegginn, rammaði fiskinn upp á vegg. En ekkert af því var heilafiski, heldur Lúða. ] [ Fraus hennar hjarta, Himinn,hraði,ljós Drepur hann drauma bjarta, "Deyðu,druslu drós" ] [ Allar mínar slóðir verða lagnar er þín ég leita og kærleikur yðar mér konunglega fagnar. Kristur Jesus líf mitt mun skreyta með tilgang og trausti ég ætið mun breyta. ] [ Kolsvartur vetur dimmur og drungalegur hávær rigningin drýpur úr svörtu tómi úfið og einmannalegt ] [ Eilíf ást. Eins og borgarljósin loguðu, brann eldur í hjörtum þeirra beggja. Þau höfðu aldrei upplifað ást áður. Þau höfðu ekkert að gefa, ekkert að bjóða nema hjarta sitt og sál. Sálir þeirra bundust svo eilífðar böndum, sem að lokum bar ávöxt og varð svo miklu meira. Eilíf ást. Í tilefni af brúðkaupsdegi Hildar og Eiðar, 12. ágúst 2006. ] [ Fegurð geymir oft tár. Oft á tíðum sár. Skilur eftir fortíðarþrá. Ei er hamingju að fá. Þerrir burtu frið. Eykur stríð á herðar. Andvaka, setur það mig. Við innstreymi botns. Á brott, undir mergð. Einsamall sit. Lægðin er á ferð. Róin lyggur kyrr. Fámenn er gleðin, hún gengur á dyr. Enginn svari borinn. Heimurinn flýr. Slysið hefst til flugs. Það hófst yfir til sprungna. Og vængurinn játar á sig bug, brotlending varð á fjallsdrunga. Í bárunni, flýtur. Fyrir neðan, það líður. Fingurgómar strjúka, þessu mun ei ljúka. Sær í átt að sæng. Vonleysið umvafið. Losti, á fund við mær. Týndur á hafsbotni. ] [ Lágreist orð hljómuðu um dalinn rauða, seglið sem fokið er frá flakinu, það líður út af með barninu rjóða, dagurinn tekur hinn síðasta andardrátt. Og með setningunni það hrynur niður á við; "Þessi heimur geymir ei frið." Frá barmi steypist fram af hæstu húsum, lautin er á flótta undan traðkandi sporum. Heimurinn er flúinn frá þér, hann flaug yfir himininn. ] [ Þjóðvegurinn er fullur af heilablóðföllum, og börnin þau þögguð voru, -engin tár, ekkert auga. Geispuð golan krýngd, hljóðið dauða sýnt. Ó, hinn háflegi djöfull, ríðum upp að ystu nöf. Í vesti haustsins, í stígvélum vetrarins. Dvínum yfir það bláa. Klær sem yddað spjót. Það er tært, já, svo tært. Og það gljáir, já, það gljáir. Sem og veggir náttúrunnar mun það standa. Í ljóði mínu, í ljóði þínu. Í bók þeirra. Trúðu mér, minn kæri vin. Það mun versna. Það mun versna. Það mun versna. Allt verður aldrei hægt. Ekkert er hægt. Ekkert er hægt. Ekkert er hægt, minn kæri. ] [ Framyfir augnhvítu sjósins, yfir í sjónauka stormsins. Gegnum svanhvíta fljótið, í átt að berginu, í grjótið. Á brott, undir hérað. Á götur miklar, berar. Einsamall situr, og bíður. Og hann líður, já, hann líður... áfram í andartak stöðnunar. "Hvar er dúfan? Hvar er kyrrðin?" "Hvað varð um þig?" Vindurinn hrörnar í andardrátt og tekur til máls. "Það var málverk, minn kæri vin... málverk af fortíð í draumi." ] [ And the buildings add shade to shade. Through the solitary streets we´ll walk, standing at the lonesome tea tray smoking the last cigarettes on the empty watering hole while watching a boat disappear in the haze. We´ll all be lonely. The empty driveways, all the empty parking lots. "At least the streetlights are illuminating..." The wind is our only chum left, which is bearable. We are driving on the wheels of no fuel... the strained st. Coll, the overdo. I´m on the lonesome limb without the halo. The graven bough near my toe is the bayleaf I wear above. My wife and children gone, I´m left alone on the bow... the bartable neighbouring my head. Visiting the rest. The rum bottle encasing my head. A bottle of rum encasing my dreams. The bailiff is here, he´s here to lead me out. My cell is cold, for the outdoors bring a storm. -The rancor is in bloom. The vineyard I used to watch with elation is now in the palm of my hands, -on my lips. Out-of-doors and dopey I brood... the ship is sinking and I´m inboard. The hue of rainbow mountains in blues, the remoteness is viewless. Is there a view of happiness in this room? ] [ Ég fæ alltaf samviskubit mánuði fyrir jól þegar ég afhendi móður minni jólagjafalistann minn. Hún verður nefnilega alltaf svo furðuleg á svipinn þegar hún lítur yfir hann ] [ Lýsi eftir hjarta mínu Það er nokkuð hreint þó með vott af reiði og nokkrum götum á vinstri hliðinni, ásamt því að það er hefur slæma tilfinningu Allir sem hafa séð eða heyrt um ferðir þess eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við Lögregluna í Reykjavík ] [ "Remember when I told you I was sober? Well, I lied... I got drunk with the devil this night. I was asleep when you came, yea baby, I was past out when you arrived..." Under the tall rife buildings, we are waiting for the end. Under the raindrops marching across our shoulders, we are waiting for the end. We´re all waiting for the end. Under the tree of all atrophies we are calling for the end. The sidewalkers are porting onto the streets. They are chanting for the end. "Milady, why are you still here? We are moving towards the rails in the west to outcry the scavenge." For the city is blindfolded walking across the oblique streets. The world is the burning trees. Wandering through the backstop of hills, this mechanical corner flees for the need. we go to-and-fro on reels spreading for a mile or two. "I say, baby, the day is black as night... the day is darkling." This is a lost town. "Hist!" -The salesman says to the crowd. "We´ve got the best whiskey in town!" The veteran sprawled right next to the bottle. He makes an indent full of civil, placed a little book on the bar, and asked for a round. "Goodnight, dear, goodbye... sleep your last. Along with the devil we shake hands, encroach upon the last steps in this wasteland. And we carry on and on and on... We´re all falling down... down-and-out. The end won´t wait forever, you know... over and out. It´s drowning in every lake, yeah, our glassy faces are drowning in every lake in town. For we are the mislaid town." With a glass half-empty of rum he said; "Take me for a second ride, my friend." From the other end of the aircrash. "Marvin! My old pal. I got shot at the tavern the other day, and the gentle breeze still comes for a visit. Yea, by every hour it knocks on the sores. It knocks on the doors... and prays for a pillow, the bloody sheets from the hospitals. He stole a blanket last week, and got away. There´s no bill for this pain. Oh, no. The dime is all yours." The day was only few minutes old when it got killed. From the shotgun it received a message... "Over and out." "I drank into blackout last night, what a railroad... what a drive. We retrospected at the mickey finn... all this alcohol, all the black eyes. And I can still breathe the smoke from the disorderly house..." Was it worth it? "Hell, yeah!" ] [ ... And it lived for a minute. ] [ "Þetta var líf." Hann andaði að sér síðasta deginum, lagðist flatur á dánarbeðið og gaf sér á tal við endamörk klettsins. Snéri bak í bak við tóna fallsins. "Þetta er dauði." ] [ Hvað er með þessa pólverja. Þeir eru eins og þeir eiga Ísland. Keyra strætó eins og blindfullir asnar og allt á fullu hjá þeim. Ekki langar mér að lenda í pólverja sem er blindfullur og segir eitthvað sem maður skilur ekki. Það sem gaurarnir eru örugglega að spyrja: Hey þú, áttu systur sem er hægt að leika sér með. ] [ I need freedom,you need fun we are dancing in the midnigthsun. We are using it all everyday In Herabalife, do it your way Chorus: In Herbalife, I got freedom In Herbalife, I got my style In Herbalife, I got my fun In “Herbalife” It’s cheap and nice food Herbalife turns you in good mood It’s healthy and gives you look The Herbalife all my fat took Chorus: Herbalife pills and bar you take Soya beans and protin shake We are using it all everyday In Herbalife, do it you way Chorus: We are using it all everyday In Herbalife(stopp), do it you way ] [ Er húmar að vetrarkveldi, og himininn logar af eldi. Ég kyrja minn blús. - Viskíglasið á náttborðinu er hálftómt. Þungt er yfir tilveru minni í fjarveru þinni, þó þú sért hér enn. Þú er ekki eins og þú varst þegar ég hreifst af þér; þegar þú náðir mér á þitt band. Komdu aftur, Liverpool. ] [ Hvernig væri að Egill Skallagrímsson eða Vífilfell tækju upp á því að hefja framleiðslu á Skáldamjöð. Hugsiðu ykkur hvað mörg ný skáld kæmu fram á sjónarsviðið. ] [ Grúskaði upp á háalofti ekki alls fyrir löngu Fann þar gamalt pennaveski úr grunnskóla Minningarnar brustu fram, ég varð aftur barn, heyrði hlátur og köll og sá kennslukonuna fyrir mér hrista höfuð sitt afar ósátt. Varð aftur barn um tíma ] [ Ég geng þungum skrefum til að missa hann ekki... Tregur hægagangur, Hægur tregagangur, Tregur hægðagangur, Hægða tregagangur. Ég er að kúka í mig. ] [ Blóðið rennur Tárinn brjótast augunum úr Regnið grætur Barnið öskrar hvað gerði ég til að verðskulda þetta líf? ] [ Bjart, hlýtt, bros mætir mér Stór, mjúkur, faðmur mætir mér villt, gott, kynlíf bíður mín oh hvað ég er heppin að vera hér. ] [ Svitinn rennur ángægjan, fullnægingin handan við hornið utan um mig tekur sofnum sæl. vakna við koss brosandi fer á fætur hlakka til næsta kvölds. ] [ Hugurinn rotnar augunn brotna hendurnar stífna heilinn hellist vellur eyrunum úr eins og rigningarskúr Sjúkdómur? nei bara ýmindun. ] [ Barnið hugsaði sig um og hann sá strax eftir því að hafa minnst á hunangsseríósið. Hann var farið að gruna að hann myndi láta undan duttlungum hennar fyrr eða síðar og gefa henni þetta margumtalaða seríós, og þá var sennilega eins gott að það væri þá bara þetta venjulega, klassíska seríós, en ekki eitthvað hunangsklístrað sem eflaust væri enn óhollara. Hann ákvað því að reyna að breiða yfir uppástungu sína strax, en hann fann að hann skorti einhverja festu þegar hann sagði – ha, eða kanelseríós, sultuseríós, sveppaseríós, nú eða bara beikonseríós... ] [ Nakin komstu inn, í hugarheiminn minn, og þér virtist líka [...] Haltu kjafti! ] [ Afi minn fer á hann Rauð ef blóðið stífir böllinn, því eiginkonan er nú dauð, yljar leiðið mjöllin. ] [ Ég saknaði þín Þegar blómin sofnuðu og laufin féllu. Ég saknaði þín Þegar himnarnir grétu og lækurinn fraus. Ég saknaði þín Þegar brumið heilsaði Og krókusinn spratt. Ég saknaði þín Þegar fífillinn brosti Og lóan loks kom. ] [ Ungur maður lést af saurförum á heimili sínu í morgun. Hann lætur eftir sig hálfklárað verk. ] [ Ljósið slokknar allt er dimmt svo hljótt svo ein ] [ Er hún spurning'á hann kastar, halur svarar spurulu mani. "Stjörnur sýnast vera fastar, en Spútnik er á heljarspani!" ] [ Ég var lengi, lengi bara lítið fræ. Alltaf var ég alein í votri og dimmri moldinni. Ég beið örvæntingafull eftir að sjá heiminn. Ég ýmindaði mér hann svo bjartan og fagran. Allt í einu byrjaði ég að titra og það byrjaði að spretta litlir angar úr mér, ég vissi ekki hvað þetta væri. Ég ákvað að fara að sofa. Þegar ég opnaði augun sá ég bjart ljós. Ég gat teygt úr mér, ég leit í kringum mig og sá mörg önnur tré ég varð hrædd og fattaði að ég var bara lítið tré alein í stóra heiminum. ] [ sjö sinnum hef ég kíkt inn án þess að láta vita skoðað myndir, hugsanir sjö sinnum fannst mér skoðunin skrýtin skildi svo að kannski værirðu ekki þú ] [ Vinna, vinna, vinna. Endalaus vinna. Nenniru að vinna um helgina. Jájá, ekki málið. Nenniru að vinna fyrir mig um helgina. Nei, en ég skal samt gera það. Nenniru að vinna til sjö. Ekki aftur! Að segja já er ofmetið. Ég er orðin þreytt á því að segja já. Þegiðu og gerðu þetta sjálfur! ] [ Einn hring enn, móðir mín. Þegar ég var lítil þá dvaldi ég hjá þér. Ég lærði hjá þér, borðaði hjá þér og lék mér hjá þér. Þegar ég varð eldri þá hvarfstu frá mér. Í skugga hinns eilífa sársauka sá ég þig hrekjast í átt til glötunar. Þú varst ekki til lengur. Horfin, farin en samt ennþá til staðar. Myndin minnir mig á þig á hverjum degi. "Einn hring enn, móðir mín." Þoli ég einn hring enn..? ] [ Þegar ég verð gömul verð ég ein. Það er ég viss um. Ég mun búa uppi á Vatnajökli með kettina mína fjóra og tvær mýs. Kettirnir og mýsnar verða vinir. Á hverjum morgni mun ég vakna og fara í göngutúr í snjónum. Því að á Vatnajökli er alltaf snjór. Mér þykir snjórinn góður. Það er á hreinu. Í hádeginu mun ég setjast út með kakóbolla í sólskininu. Því að í hádeginu verður alltaf sólskin og mér finnst kaffi vont. Á kvöldin mun ég sitja við þakgluggann minn og horfa á stjörnurnar. Þær eru svo fallegar. Sunnudaginn 27 júli árið 2064 klukkan 14.37 mun ég deyja drottni mínum. Ég mun deyja ein, með köttunum mínum fjórum og tveimur músum. Það er bara eitt sem getur ekki gengið upp í þessari sögu... Ég hata ketti. ] [ Vill bara vera góður við þig. Átt það skilið. Hvað sem þú vilt. Ef þú vilt bara. Ok? Hvað ef ég segi nei, muntu þá grenja? Ef ég segi já, muntu þá fagna? Ef ég segi ekkert, muntu þá efast? Hvað viltu mér eiginlega!? Keppir þú í Ungfrú Ísland næst? Já. Flott. Enda flott. ef ég þurfti að velja milli þins og heimsins mundi ég velja þig, þvi hvað er heimurinn án þin. Ehh, takk? Hann væri líklega voða svipaður og hann er núna? ég var að heyra að þú og ... eruð að dúlla ykkur saman. er það satt? Já, og hann lemur þig í klessu ef þú lætur mig ekki vera.. Láttu mig vera. ] [ Einu sinni voru þrír litlir grísir sem bjuggu hjá móður sinni. Einn dagin ákváðu þeir að flytja að heiman. Einn flutti í hús byggt úr hálmi. Úlfurinn kom og blés það um koll og át síðan grísinn. Næsti flutti í hús byggt úr greinum. Úlfurinn kom og blés það um koll og át síðan grísinn. Þriðji flutti í hús byggt úr múrsteinum. Úlfurinn kom og blés það um koll. Eða reyndi að blása það um koll. Hann blés og blés og blés en ekkert gerðist. Síðan dó hann úr súrefnisskorti. Þá kom í ljós að þetta var alls ekkert úlfur. Þetta var grísamamma í úlfagæru. Hún vildi ekki að grísirnir þrír flyttu að heiman. Boðskapur sögunnar?? Flytjum aldrei að heiman, það boðar aðeins ósköp! ] [ Ái, ái, ái.. Kemst ekki úr peysunni. Ái, ái, ái.. Kemst ekki úr bolnum. Andskotans sársauki. Ég næ ekki að standa upp. Fjandans harðsperrur! ] [ Sólin yljar hjarta mitt, Bros og gleði gefa lífi mínu tilgang, hugsunin um þig fær hjarta mitt til að slá örar, ég elska þig. ] [ Grasið græna í hlíðunum, sólinn bjarta á himninum, heiður himininn, jarmandi lömbin í haganum, bros þitt í fallega andlitinu, gleði allra á götunni, sumarið er tími gleði og hamingju. ] [ Drukkin stúlka á ókunnum bar kemur drengur þau kyssast. Horfin eru vinirnir leita engann finna nóttin líður. Unaður, þau umlykur hverfa sitt í hvora áttina. Aldrei aftur hittast en minningin er ávallt til staðar. ] [ Þá er 1/4 af ævinni búinn og æskuljómi löngu flúinn. Hrukkur og mörg grá hár sem fjölga þegar koma ný ár. ] [ Lygi er lifnaðarháttur, laskaðra sál. Sannleiksins er meiri máttur, hann tek ég heldur til mála. ] [ Gnebro ul eufa voina slavic bomb darnb gt --- ul dash Riga slamir bekic vojstu ] [ Brátt kemur sá tími, ég sætti mig við að þú stendur ei hér, mér við hlið. Því nú ertu farinn á annan stað, og þar ertu ánægð, ég er viss um það. Ég elska þig enn og vill þér gott, og ef þú ert ánægð þá finnst mér það flott. Því þótt þú sért eigi ánægð með mér, þá er ég en maður, og haga mér ber. ] [ Hvað er ég að gera, hví er ég hér? Hún tekur ekki eftir mér. Ég vill hana hafa, hafa mér hjá og þrái það eitt að hún muni það sjá. ] [ Þú hringdir og sagðir "ég elska þig" en ég sagði á móti: "þekkiru mig?". Þú svaraðir: "já, þú ert gaurinn við barinn" þá skellti ég á, því nú er ég farinn. ] [ Mínir kærustu! Mínar kærustu þakkir, þakkir sem kæra sig ekki, um tímann. Tímann sem skilur ekki tilfinningu, tilfinninguna, sem er að eiga kærustu. ] [ Hefði byssan ekki fyllt starfinu, vissi ég ekki hvað ég ætti að gera. ég gekk að húsinu hans. 3 högg, högg, högg á dyrnar. Síðan sá ég ÞIG, alveg ömurlegt. En þegar ég jafnaði mig, var ég alveg tilfinningalaus. Mjög rólegur. Hann kom til dyra. Ég skaut hann, strax, beint í hjartað. Næsta morgun skilaði ég byssunni, álútur á svip, og beið eftir að vera drepinn. ] [ Negatífar hugsanir, hringsnúast í kringum sjálfar sig og reyna að losna úr atómi sjálfsblekkingar sem stækkar og stækkar óendanlega. Við endalokin er ekkert eftir en að draga sig inn í skelina, hverfa inn í fjöldann og deyja, fyrir eigin hönd. Einn ] [ Þú undurhlýja ágústnótt ég ennþá um það dreymi er inn í tjald þú komst um kvöld og kyssti mig í leyni. þó liðin séu ár og öld heil eilífð um það bil þeim kossi og hvarmaljósum tveim gleymt kann ég ei né vil. Því leiðir skildu á lífsins braut þín lá um hafsins strauma en ég sat heima og bað og beið í bríma fornra drauma. ] [ Ég grét, þú þurrkaðir tárin. Ég var leið, þú læknaðir sárin. Ég þarfnaðist vinar, þú komst til mín. Ég bað þig að vera, þú gafst mér orð þín. Hvað geri ég nú, er þú ert farinn? Tóm að innan, á hjartanu marin. Ég bið til Guðs að komir þú til mín. Því gleymi ég aldrei, þú gafst mér orð þín. ] [ Það er eins og ég geti ekki andað, geti ekki séð, geti ekki hugsað. Það er líkt og þú sért lyf, ég er föst. Ég er föst undir valdi þínu. Ég kemst ekki undan, þú heldur of fast. Ég er háð takinu sem þú heldur mér. Ég er háð þér. ] [ Sumir... sumir eins og ég, virðast sterkir og öruggir að utan en innst, langt inni, undir þessum líkama geymast oft lítil hjörtu og litlar sálir. Lítil hjörtu sem auðvelt er að brjóta. Litlar sálir sem eru hræddar. Hræddar við þennan stóra og harða heim ] [ þessi gamli maður sem situr á bekknum og horfir á vindinn feykja til laufunum hann var eitt sinn kóngur í ríki sínu átti börn og buru núna er hann fallinn í gleymsku iðandi stórborgarlífsins og enginn skeytir um hann þegar börnin valhoppa framhjá horfir hann á eftir þeim með söknuð í huga þegar unga fólkið geysist framhjá fylgist hann með þeim og hugsar: svona var þetta ekki þegar ég var og hét og eftir nokkur ár mun hann yfirgefa þessa jörð og hefja nýtt líf sem kóngur í sínu himnaríki ] [ ég hata þig. ég virkilega, virkilega hata þig. af hverju heldurðu áfram að bögga mig? það hvernig þú horfir á mig gerir mig hrædda. ég er hrædd við þig. ertu ánægður? ég hræðist að vera nálægt þér. ég hræðist það sem þú getur gert mér. ég fel mig þegar þú ert nálægt. ég svara ekki símanum þegar þú hringir. ég sé þig í andlitum þeirra sem ég hitti á hverjum degi. ég þarf að kasta upp. þetta ógeðslega glott. ég hata þetta glott. ég hata þig. ég virkilega, virkilega hata þig. ] [ Það er í leikhúsi lista siður við lok eru tjöldin dregin niður. Enn er svo til þess að gleðja geð gestir fá ei í gegnum tjöldin séð. Í sal ríkir spenna og þrúgandi þögn þýtur fram sagan í lifandi sögn. Bak við grímu er ei allt er sýnist örvænting innst með leikendum týnist. En stundum er hulunni haldið frá hillingin breytist og sorg er á brá. Þetta er skáldverk en lífið er list að láni og fallvalt á brúninni yst. Svo eru ljósin slökkt er lýstu mest af ljósameistara er ekki sést. Og lokaþætti líkur eftir bið í leiftri ég sá hann mér við hlið. ] [ Ég leit mig í speglinum og sá loks hví þú fórst grátbólgna hvarma blæðandi hjarta og brotna sjálfsmynd óraunhæfa þrá eftir ást sem ég gat þó sjálf ekki gefið Gríman féll og eftir stóð ég nakin frammi fyrir sjálfri mér sá niður í hyldýpi sálar minnar - mína eigin bresti - mín eigin sár - minn eigin ótta og ég fann hve ég þráði að vernda þetta litla hjarta þetta nýfundna barn er bjó innra með mér án þess að hafa verið sinnt svo lengi ég opnaði faðm minn og heyrði orðin læðast af vörum mínum - fyrirgefðu - fyrirgefðu mér það að hafa gleymt þér ] [ Þetta er eigingjarnt, sjálfsblekkingin uppmáluð. Enn stend ég hér bíð eftir því að vera hengd upp á vegg, Stór gulur veggur. Ég er með hest í hendinni, en það mun ekki blinda mig frá strætisvegninum svo ég held ótrauð áfram. Gefum skít í almenninginn, hverjum er ekki sama. -þú gætir verið næstur. ] [ Ég hugsa afhverju halda áfram, Afhverju ekki láta mig falla? Falla í faðm eilífðarinnar? Hinnar fögru eilífðar. Ég ákalla þig Drottin, vonast eftir svari. Kannski ákallaði ég ekki nógu hátt? Ég veit að þú heyrðir. Heyrðir mína bæn. Ég er of blind til að sjá svarið En þú munt opna augu mín. Gefa mér sjón. En sár mín gróa seint og illa. Ör mín munu alltaf vera sjáanleg Bæði á líkama og sálinni. Eilífið hljómar vel. Eitt skref, Ætti ég? ] [ Nístandi sársauki, úr hjartanu flæðir. Dreifist um líkama minn og í hugan slæmum hugsunum læðir. Sterk þrá til að losna, áður en sársaukinn mína sál bræðir og ég hverf langt inn í eilífðina. Þar veit enginn af mér. En samt finnur hann mig aftur og læsir klónum í ljóst holdið. Heitt blóðið rennur hljóðlaust. Myrkið umlykur mig. Og sársaukinn nístir enn meira enn áður. Skínandi blaðið sker holdið, blóðið rennur hægt í byrjun en eykst. Ég fell en enginn hér til að grípa. Lendingin er hörð þegar botninum er náð. Biðin eftir þér, frelsara mínum, verður verst. Löng og erfið en ég mun bíða. ] [ Þegar þú ert mér við hlið, sýnist framtíðin bjartari á að líta. Án þín er allt vonlaus bið, og í mitt hjarta vondar verur bíta. Ég reyni að losna við þær, berst um í angist og von, von um að þú munir koma og ljúka þessu snöggt. Með einni snertingu losar þú mig undan öllu farginu. En þú getur einnig látið mig engjast. Ég elska þig og hata. ] [ Ég beið og vonaði, að þú myndir gera allt betra. Þú lofaðir mér. En þú laugst að mér. Sást mig aðeins sem auðvelda bráð. Ég vissi ekki mitt rjúkandi ráð, þegar mér varð það ljóst. ég trúði ekki, vildi ekki sjá. Ég var orðinn þér háð. En nú, þig ég hata bölvaði. ] [ Heimurinn fór með þér þennan dag ég ruglaðist Sá aðeins útundan mér þig brosandi ég táraðist Dofnaði upp inn í mér orðin voru föst í huga mér Eitt lítið tár niður vangann það eina sem kom frá mér þennan dag ] [ Þig ég ekki skil, þú særðir mig. en samt þig ég vil. En ég get ekki fengið þig. Við pössum ekki saman. Þó þetta hafi verið gaman. En gamanið varði stutt, og gamanið var mestmegnis þitt. Þú komst, gafst mér loforð, við saman verðum að eilífu. Gafst mér þitt orð. Á öllu vinnum við bug. En sjáðu hvað þú gerðir! Hjarta mitt í molum. Ástin mín í molum. Hatur heldur hjarta mínu saman að lokum. ] [ seytlar í rennum aflvaki lífs greinar dagsins í gulnuðum pilsum haustið stalst í garðinn sem þjófur um nótt laufteppi lagði yfir grasið það hvíslaði að mér köldum róm brátt dansa hvítar stjörnur á þaki ] [ Í fortíðinni fel ég margt. Margt þar leynist miður svart. Ég veit þú eflaust trúir vart, hve vel þú reynist mér. - Þú ein veist hver ég er. Í vanlíðan ég villtur var, á villugötum allstaðar. Guð minn gaf þó lokasvar, og lýsti lífsins sýn. - Hann leiddi mig til þín. Langri leit nú lokið er, ég festu mína fann hjá þér. Þú greindir strax það góða í mér, og það sem meira er: - Vilt njóta þess með mér. ] [ Jesú á kross, heyr þú okkar bænir. Jesú á kross, fólkið mænir. þú krossfestur vast, Fyrir okkar syndir. Hunsað okkur þú gast, en ei þú myndir. Þér þakka ég vill, þér Jesú þér Guð. lifa ég vill, þótt það sé smá púl og smá puð. Meigi þú lifa í hamingju í nafni guðs sonar og heilags anda amen!!! ] [ Didda nýja kærasta mín, sjá nú allir hvað hún er sæt og fín. Hún mun ávalt vera mín, ég meina það það er ekkert grín. Á hjarta mínu hún nú heldur, hjartastoppi hún nú veldur. Hana ég elska hana ég þrái, hún er mér allt ég hana dái. Hún er mér allt, mér verðu ei kalt. Ei ég mun kvarta. því hún mun mér ávalt vera mér í hjarta. ] [ Texti hennar, er la! la! En lagasmiður er hún slyngur. Stuð á minni ah, ha! ha! Á háum tónum galvösk syngur. ] [ Þú, hinn hvíti riddari. Ég bíð eftir þér. Eftirvænting og gleði. Hugsanir flæða um huga minn. Ég þrái þig, ást þína, hug og líkama þinn Snertingar og kossa ég vil. Ég bíð, hvíti riddari, eftir þér. ] [ Þegar ég gekk inn. Vissi ég, vissi ég að þú yrðir minn. Um tíma En þegar tímin leið. Ég beið og beið. Sársaukinn var dýpri og dýpri. Þangað til að hann hvarf. Mér varð ljóst, að þú áttir ekki ást mína skilið. Þú aðra kaust. Mér er sama. ] [ Tyrðill, væskill, aumingi, lúser, kveif og spjáta. Drusla, hóru-andskoti, tussa, fífl og táta. Fékk ég þessi orð á mig, er ég kvenmann sagði: Vil ég helst nú losn’ við þig, að öllu fyrsta bragði. ] [ Ringulreið, rjúkandi rúst hvað er að þér? Hvað hefur komið fyrir þig? Allt í einu skil ég ekki neitt upplifi mig týnda í einskismannslandi geng upp götuna..mjóu fyrir endan blasir ásjóna þín vitfyrrta ásjóna manns í dulargervi blekkir alla.. líka mig.. ekki síst sjálfan sig skríður um sem eitraður sporðdreki stingur broddinum niður þar sem honum hentar..bara því hann er einn í heiminum Hvernig væri að taka hausinn upp úr rassgatinu á sjálfum þér? ] [ Inn í djúpa dalinn minn dansar skuggi aftaninn. Hér við gamla hulduslóð hvíslar þögnin að mér ljóð. Efst í ævi anda minn ég hef lagt til lítil blöð. Á þeim efst í þetta sinn eru ykkar nöfn í röð. Um mig kyrtil kápu vef krossinn tek í ferðum ber. Síðast og ekki síst er með í skugga lítið sálmakver. Með þeim fylgja falleg lín fornu vonar klæðin mín. Kyrrt og hljótt úr felum fer faðma þig en enginn sér. Ég er augnablikið bert bregst þér ei á ögurstund. Alltaf er en aldrei snert ég er innst í hugarlund. Skipið bíður siglir senn segl mín hyl en samt þau sjást. Byr um höfin blæs þó enn bráðum ætti land að nást. ] [ Ég keypti mér bland í poka og gaf ykkur auðvitað með mér eins og alltaf þegar ég loksins fékk mér mola var hann súr vondur en ég hámaði hann í mig og brosti að sjálfsögðu til ykkar ] [ Fegurð er ekki fegurð nema gölluð sé ] [ Hvað er þetta bros að gera hérna liggjandi á gólfinu? Veistu ekki að það er bannað að henda rusli út um allt. Hvað er þessi hlátur að gera beint fyrir framan útidyrahurðina? Það kemur dragsúgur inn til mín. Hvað er þetta hjarta að gera í ofninum, óvarið og enginn álpappír til að halda hita á því? Þú veist að það verður skítugt. ] [ Það er satt að allir menn sem þú áttir voru eittsinn höfuðlausnin þín og þú kunnir að kankast á við þá og kreista úr þeim næringu líktog væru þeir lofnarblóm á líknarbelg allra þeirra barna sem ófædd önduðust undrandi spyrjandi deyjandi í blóði þeirrar bleyðu sem grátandi blátt áfram bugaðist ólánsöm og einmana með alla þá sem hún elskaði einhversstaðar í hítinni útjaskaða ónýta undrandi spyrjandi -því tókstu mig með töngum tafsandi sonartorrekið er ég átti eftir að elska þig af allri orku minni nú ligg ég hér í leynidys lágt er á mér eigið ris þú kastaðir á mig kveðju er komin var heilög nótt og allir menn sem þú elskaðir undrandi til himnanna litu í leit að festu hjá lofnarblómakrönsunum sem skreyttu skýin skjálfandi höfuðlausum her. ] [ “Betra er hóf að hirða þá hamingjan er blíð” og grundir sínar girða þegar góð er veðurtíð. Barlómur og barmavæll er bremsa á framagengi. Góður vilji er sigursæll, á seiglunni flýtur lengi. ] [ Eitt sinn var hundur, hann var algjört undur, hann hét Guðmundur, og var um munnin bundur. ] [ Snjórinn fellur, tindana á. Hey, þarna heyrðist hvellur, kíkjum á. ] [ Ég vaknaði undir valtara. Djöfull var það vont. Ég fann nefið splúndrast. Hljóðið sem heyrðist var eiginlega verra. Brjóstin voru flött út. Sársaukafullt. Ég fann rifbeinin brotna eitt í einu Ég gat ekki andað. Lífbeinið. Nei. Stoppaðu. Gerðu það. Ég get ekki meira. En hérinn sem stýrði valtaranum rak upp hláturroku sem breyttst öskur sem ég hélt að myndi aldrei þagna. Þegiðu. Ég vil halda eyrunum þó líkaminn brotni alltur. Stoppaðu áður en kemur að hnéskeljunum. Ég verð að halda þeim. Mig langaði einu sinni að vera dansari. Af hverju get ég ekki öskrað? Barkinn er brotinn. Af hverju hjálpar mér enginn? Af hverju stendur þetta fólk í kringum mig og hlær? Sumir benda meira að segja og taka myndir. Lærbeinin eru þykkust og stærst. Bara að þau gefi ekki undan þrýstingunum. Hvað er að gerast? Síðan hvenær keyra hérar valtara? Hljóðið dýpra en ógeðslegra en þegar nefið og rifbeinin brotnuðu. Kannski var nefið ógeðslegra. Ég er búin að gleyma því. Leggurinn brotnaði í tvennt. Ógeðslega tilfinningin við það að finna brotið bein stingast í nærliggjandi vöðva. Vinstri leggurinn. Ég get ekki líst hnéskeljunum. Þá byrja ég að öskra. Raddböndin gefa sig. Sköflungarnir héldu. Ristin jafnaðist við jörðu. Ég er heppin að vera með liðugar ristar. Hérinn er löngu búinn að keyra í burtu. Ég veit ekkert hvert hann fór. Kannski er hann að valta einhvern núna. Kannski er það áhugamál hans. Það sem heldur honum gangandi. Kannski á hann friðsæla hérafjölskyldu sem kveður hann áður en hann fer í vinnuna á hverjum degi. Duglegur valtarahéri. Þau vita ekki að hann fær peninginn fyrir allt stritið frá glæpamanni sem heldur ólöglega netsíðu. Nú ligg ég hérna ein. Allir eru farnir Ég veit ekki alveg hvað ég á að mér að gera í dag. Sem betur fer er ekki rigning. Sem betur fer bý ég ekki á stað þar sem rignir súru regni ] [ Ætlastu ekki til ég sjái þig. Ætlastu ekki til ég nenni. Ætlastu ekki til ég tali og brosi til þín með stjörnur í augunum Ég geng örugglega framhjá ] [ Ég dey í höndum þínum og óska þess að deyja tvisvar Ég finn varir þínar titra og finn tárin þín á augnlokum mínum sem opnast og lokast. Svona vildi ég einmitt deyja. Helst vildi ég að þú deyðir líka úr sorg og dyttir fram á ber brjóstin mín sem væru ennþá heit. ] [ Um óvíst skaltu ekki þrátta, enda er miklu betra að þegja. En aumt er að vera utangátta og ekkert að hafa til að segja. ] [ She´s absent for now, but don´t you worry, she´ll be back in a daytime, --in the daylight. In the high key of his tone of voice he arose and cotton on how beautiful the dull dancer was in the distance of his heartbeat, how his heart went pit-a-pat as she ambled across the floor like the mice parade from hole to hole. And her wondrous das in the atrium became speechless and the dumfound in the soft air was oh so full of charm and joy, and when they hark back on the good times it still lures a smile upon every rum-drinking lips in town, it´s like an array of thousand peeresses marching into every canton but still hiding in only one woman, --the dancer on the hills, folding in audacity with pride and mooching prattle with the gnomic tone. The sconce is never empty when she´s around. But, ere long, the tavern was as shivery as midnight in the blackest fall, every song was dim and cold, drab and bold. When she came along there was like a nativity after another, the dawn has risen again through every window and the shutters drawed back to revert into the gloomy bleakness miles away. Oh, yea... they skipped the day. --When she arrived the chrysalis went off our lungs and the quick squall we heard in the remoteness blenched quietly within a minute or two, they were calling for the black-and-white tint for its return trip back home. Please, be quiet... the beast inside of us all! Please, be still! In every pile there´s a dancefloor for you to step on. Please, stay calm. You won´t be alone when you die. Oh, no... you won´t die alone. ] [ Jólatré í stofu stendur stjörnurnar glampar á. Flaska á borði, á lofti hendur mamma stjörnur sá. Mamma ein í stofu situr skælir og kveinkar sér. Það verður gaman er pabbi flytur, fleiri gjafir handa mér. ] [ .............Krebs .........Krebs er kvöl ....Krebs, þér eigið ei völ .......svo fáðu þér öl .............Krebs ] [ Hlassmaur, hassgaur, lítill rasssaur. Jólagjafirnar mínar 1979. ] [ Vildi að ég væri heyrnarlaus er óhroðinn í útvarpinu hljómar Stekkjastaur nú látinn er, hann fraus nýi jólasveinninn nefnist Ómar ] [ Sveinki liggur gólfi á, úr munni stendur haki. Hlið hans liggur móðir hjá, með rýting einn í baki. ] [ Það er mynd af Maó formanni á veggnum fyrir aftan klósettið mitt. Frjáls túlkun er leyfð. ] [ Krakkar leika saman nú, í rjóðri dansa saman. Við götu hittumst ég og þú, og skelli hlægjum bara. Vinir góðir vinir sælir vinir alla eilífð ] [ Með dynjandi lófataki vaknar hugurinn og sveimar um veruleikafirrt lífið. Sötra heitt kaffið og tekst á við óraunveruleg verkefni. Með hnútinn í heilanum, heilsan dvínar. Æpandi mávagarg hamingjunnar sker sig í sálarlífið, ómurinn bergmálar í tómum hausnum. Kyneðlið þvingast um krossgötur, kæfandi árátta. Fullkomnun líkamans brestur og öldurnar svigna undan briminu í skjálfanda hjartans. ] [ Hvítur hestur Fallegur ungur Þegar hann stígur af baki Felur andlitið Gríman tekur vel á móti mér Orðin svo mjúk Hjartað tekur kipp Sviðnir fingur hans halda í höndina Hann er vanur Segull Ég er skautið sem eltir Hvíti hesturinn veit ekki hvort hann sé að koma eða fara ] [ Hraðinn drepur sál og líkama. Stressið tæmir hug og hjarta. Auglýsingaáráttan skerðir veruleikann. Hnattvæði-fýsnin heftir sjálfstæðið. Fyrirmyndadýrkunin fletur persónuleikann. Peningagræðgin hamlar frelsið. Tæknivæði-þráin tekur trúna og lífið lekur í gleymsku. ] [ Hjá auðkýfingnum upp úr sauð: ,,Öll mín gleði er horfin braut. Betra er að hafa yndi en auð\", emjaði karlinn og sig skaut. ] [ Vegna þess! ] [ Ungur maður fannst látinn við Alþingishúsið... Hann var tannlaus með eitt auga. ] [ Á Úlfljótsvatni í góðum gír glaðir skátar una. Saman vinna snót og fýr að starfi sem þau muna. ] [ draumaprinsar eiga bara að vera draumaprinsar og skúrkar skúrkar þetta átti ekki að vera svona erfitt þú áttir ekki að svíkja mig og iðrast svo þetta á ekki að vera svona flókið vertu bara skúrkur það er svo einfalt fyrir mig ] [ skattstjórinn er í álögum á skrifstofutíma hann er þó ekki hnepptur í þau heldur jakkafötin tvíhneppt ] [ annar - bílstjórinn - kvensamur með afbrigðum honum leyfist er sagt að taka það sem hreyfist sem fyrst hinn - hinn - vafasamur með ólíkindum það hefur frést að hann vefji allt sem sést sem mest ] [ Lífið er aðeins bið eftir dauðanum, ef lífið er skemmtilegt þá líður það hjá á örskotsstundu. En ef lífið er leiðinlegt og tíðindalítið þá muntu lifa vel og lengi. ] [ Grátandi gekk hún niður Laugaveginn og snýtti sér í kápuermina. Hún var upptekin við að þurrka tárin af efri vörinni þegar handarbak hennar straukst við trefil. ] [ I'm in the shadow, I'm in the wind. Wishpering in your ear, I love you, I love you so much, but please don't leave me alone. In the dark. I'm still standing here, Alone in the dark. Alone watching how beautiful you are. Wondering, why can't you see me? Why can't you love only me? I'm in your dreams, but you can't see me because I'm in the wind, I'm in the shadow. Wishpering I love you. ] [ Það hellirignir. Ekki úti, heldur í huga mínum og hjarta Eldur brýst um í hjarta mínu. Reynir að losna. Kemst ekkert, hann kyrrist um stund. En kyrrðin varir aðeins í stuttan tíma. Blossar svo upp með ofsa. Dregur í sig alla tiltæka orku. Ég get ekki andað. Umbrot. Allt svo bjart. Dauðaþögn. Ég ein eftir. Án þín. Sterkari en áður. ] [ Hjarta sem brestur. Allt hristist og skelfur. Blóð flæðir út um allt. Allt verður blóðrautt. Hljóður grátur. Nístandi sársauki. Enginn sér tárin renna í stríðum straumi niður rjóðan vanga og skilur eftir sig glitrandi línu. ] [ Hjarta lífsins, slær í iðrum jarðar. Fyllt með hita og ólgu. Ólgandi hitinn brýst út. Eftir á, ríkir kuldi yfir öllu, og hjartað storknar. Slátturinn þagnar. Og að lokum er ekkert eftir. Eitt andartak. Einn hjartsláttur sem brýtur ísfjötrana. Vona lifnar og gæðir allt lífi á ný. Ólgandi hitinn brýst fram og streymir á ný um hjarta lífsins. ] [ Ég, föst í hringiðu lífsins. Slepp ekki frá örlögunum. Slepp ekki frá þér, Drottni í hæstu hæðum. Senn mun ég standa fyrir framan þig. Hljóta minn dóm, mun hann verða mildur, eins og þú? Eða harður, eins og fallið niður? Ég mun komast að því, fyrr eða síðar. Á meðan ég bíð, ætla ég að lifa lífinu vel, svo ég verði dómsins virði. ] [ Minn hinsti andardráttur, mun ekki verða aðeins sá síðasti, heldur einnig sá fyrsti. Því þá hefst byrjun á nýju lífi. ] [ Sárt er mitt hjarta, því áhyggjur stöðugt í mig narta. en á meðan meinið er lítið og aumt eins og varta, hvað ætti ég þá svosem að vera kvarta. ] [ Erfið er eymdin mín og þín. Leikum okkur saman, á ný gaman. ] [ Velkomin í lífið. Þú ert komin á guðsvegum. Af þér skein, þegar ég leit þig fyrst augum. Svo falleg og saklaus. lítil og brothætt. Guð mun vernda þig, fyrir öllu illu. Drottin er búin að velja örlög þín, við vitum þau ekki. En framtíð þín er björt. Velkomin í ást okkar allra. ] [ Gamalt fyrir þér, nýtt fyrir öðrum. ] [ Gortar og góðum lýsir genum ættingjanna. Afinn stoltur auglýsir afrek kynbótanna. ] [ Ég geng um eins og í draumi eftir götunni. Leiði litlu systur mína niður tröppurnar. Ljós á himni sem endar í hafinu bláa. Þvílík fegurð. Rauðir dropar fljúga um. Þvílík fegurð. Gæti staðið hér að eilífu og fylgst með. Allt í einu heyri ég öskur. Droparnir eru ekki dropar. Eldglóandi hnettir lenda við fætur mínar. Ég hleyp af stað en er ekki nógu snögg. Allt í einu missi ég takið á henni og allt fer til fjandans. Ég geng um í leiðslu framhjá rústum húsanna sem rétt áðan voru heimili. Ég græt. Allt í einu hrekk ég upp eins og upp úr martröð. Ég ligg í rúminu mínu, það er allt dimmt. Ég er ein. Þetta var allt saman draumur. ] [ Ætíð reyndist mér vera best að biðja, bónar þá alla er mest höfðu að gera. En bændur sem bárust lítt við að iðja, betra fannst mér oft að láta þá vera. ] [ Á hjara veraldar klæðir grasið sig í haustbúninginn því þar eru engin tré. Grjóthellur hvíla sig milli grastoppa, fjöllin á aðra rönd, svellkaldir hamrar á hina. Rigningin brúar bilið. Hafið brotnar á berginu. Vonandi brotnar bergið næst, hugsar það. ] [ Einmana sveinninn hryggi var horfinn úr dalnum djúpa og ástarstjarnan hulin gráum skýjum vatnið kann söguna en segir fátt um eigin sýnir Hraundrangi sveif eins og hjarta í lausu lofti hvort hafi það verið rétt spegilmynd er undir deginum komið hvort hafi það verið Narkissos eða Amor og hvors lokka hann greiddi við Galtará. ] [ Jólin koma Brátt, börnin syngja hátt. Úti er frostrós, og inni kertaljós Kærleikur, friður fjölskyldan sest niður, jólasveinninn læðist Frelsarinn þá fæðist ] [ I'm Trapped in a prison where nobody loves me and noone even cares where's my knight in shining armour I want him to come but he isn't even on the way he isn't even close 'cause I'm trapped in a prison a prison of my mind I'm trapped in a prison and I can't see no light Where is Jesus the loving light I need him here, but I can't hear he's rapping on the door the door to my heart he opens up the prison the prison of my soul ] [ Kertið er brunnið út það er slokknaður loginn lífið fjarar út Augun eru hyldjúpir brunnar fullir af eymd varirnar; skorpnuð laufblöð, dottin af trjánum. Húðin hvít,blóðið seytlar útum sárin á úlnliðnum. Dauðinn leggst yfir allt Þögnin grúfir yfir öllu Hún liggur á grafreit grafreitnum þar sem þau grófu ást sína, ástina sem var svo sterk þau héldu að hún myndi endast að eilífu Hún endist að eilífu en í hjarta þeirra breittist hún í eilífa þjáningu sundruð um eilífð Frostið lætur frostrósir án legsteininn og grasið og allt í kring hún liggur þarna og deyr andadrátturinn fjarar út hjartað hættir að slá andi þjáninga svífur útí nóttina hina eilífu nótt ] [ Darkness falls upon my face, the light it leaves without a trace. Darkness falls upon my face, makes my heart, lose all it's grace The sun comes up and filles my heart. My soul no more is falling apart. Darkness trails away on a black old cart shoots me again with a poisnus dart Sun goes down in the old graveyard darkness falls and I let down my guard. The door slams shut in the mentalward the cuts heal late for life I'm scarred ] [ Í kvöld mun ég horfa í himininn inn og hugsa: þarna er stjarna. Þótt viti ég núna að Venus þar skín sem villir enn hugina barna. Mig langar samt ennþá að lifa í trú á ljósið sem blikaði forðum og upplifa það sem í æsku ég sá en ekki fæ lýst með orðum. Ég gat ekki skilið það glitrandi tákn sem geymdi hér söguna alla, um barn sem að fæddist í birtunni þess og bænirnar Jesúm kalla. Englar og vitringar áttu sér líf og uppi var skapari þessa sem klerkarnir hitta í kirkjunni oft og kunna svo vel að blessa. Árin þau líða og æskan er brott, ellina tíminn vekur. Manneskjan á sína minningu´um hann sem mörgum frá ljósið tekur. Skrítið er lífið og skemmtilegt oft þótt skuggar í hornunum bíði, englarnir flognir að endingu brott frá eilífu mannanna stríði. Hátíðabragur og heilög jól, hryngja nú klukkurnar allar. Kertaljósin og kaldur snjór og kjötið í ofninum mallar. Saminn er friður og sungið í kór, sælla´er að gefa en þyggja. Og Jesúbarnið og jólasveinn í jötunni saman liggja. Ó.G. 05 ] [ Hún Katrín kann að spila, hún spilar á mandolín. Hún Kristrún kann að spila, hún spilar á bassa fín. Svo syngja þær um Snata snjalla vininn kæra. Þær systurnar sitja og spila og syngja ljóðin sín. Hún mamma um systurnar syngur, hún syngur fyrir þær. Svo telur hún tuttugu fingur og tuttugu litlar tær. Er kisa kemur á gluggann með kámuga þófa og klær, þá Kristrún kisuna tekur, kembir henni og þvær. En svo urðu fljóðin fleiri, þeim fjölgaði skjóðunum þeim. Og hljóðin meiri og meiri er María kom í vorn heim. Og skruddurnar skammast og rífast ef skert eru þeirra völd. Pabba og mömmu þær mæða frá morgni og fram á kvöld. En þó að þreyttar mömmur þrái nú hvíld í nótt. Og langi að afar og ömmur angana svæfi rótt. En morgninum mæta svo glaðar og mömmuna faðma blítt. Á kinnina kyssa hann pabba svo karlinum verður hlýtt. ] [ Fylgdu þinni skynsemi fram sem hún nær, farðu snemma að hátta svo andinn verði tær, freistaðu að ná fram betra lífi en í gær, lát frumlegheitin vaxa sem á trjánum, en mundu að þú átt að rísa upp af hnjánum. ] [ Á gylltum hæðum í döprum glæðum deyr Kaldir fætur blíðlega grætur grey Kemur og fer með ópunum sker hró Það var þá ] [ Ég, um mig, frá mér, til mín. Sú hugsun er ríkjandi í dag. Allir syngjandi sama lag. Er ég ein öðruvísi hér? Ég er loksins laus frá þér, Allt snýst mér loks í hag. ] [ Hælavökur hröð á stjá, hlaupunum má ei linna. Húsbóndinn sem í leti lá, langaði hana að ginna. Helst til feit en hýr á brá, heppni var slíka að finna. Sú hafði líka sömu þrá, slíkt gaf hún oft til kynna. Örlítið beraði brjóstin þá, bar við hún þyrfti að spinna, pilsunum snögglega fletti frá, en flúði svo aftur til hinna. En bónda leiddist leikurinn sá, logaði girnd og sinna, fangaði hana í fletið sér hjá, fjölbreytt er kaupavinna. Eftirmáli: Hælavökur hefur nú, heldur tapað spori. Ólétt gefin í góðri trú og giftir sig að vori. ] [ Ó vei mér! Neydd í þennan ískalda heim, fullan af grimmd og illsku! Engri ástúð beint að mér, aðeins augum fullum af ágirnd og græðgi! Eftir að móðir mig í þennan heim aldi var ég dæmd til að veltast ein um hjá henni kaldri, í þessari köldu og takmörkuðu veröld þar sem græðgi, ágrind og kuldi ríkir og lyktin af illsku húkir yfir eins og hrægammur yfir dauðu dýri! Ég vissi að ég myndi aldrei sleppa, því ég var talin sérstök og var sjálfkrafa þar með dæmd hræðilegum dómi, - að vera föst í miðri hvolpaframleiðslu að eilífu! Þó ég hafði aldrei gert neitt, hvað þá að ég gæti það! Svo ég bíð bara eftir hægum dauða mínum og vona, vona að þá muni ég sleppa! Og hugsa augnablik hvað yrði um þá hvolpa, sem ég myndi með tímanum koma í heiminn með erfiði? Þá ísköldu nótt slapp ég og fór, hamingjusöm hljóp yfir regnbogabrúna! Og það sem gladdi mig mest að það voru engir afkomendur, tl að kveljast! Því móðir mín var farinn á undan, og ég vissi að hún beið mín hinummegin! Þó að líkaminn væri eftir yfir vikugamall. Loksins, loksins var ég frjáls ] [ Hljóð ykkar, renna í stríðum straumum. Skerast inn í hjarta mitt. Tæta í sundur vörn mína. Ég græt hjartað mitt í laumum. Reyni að safna saman brotunum. Fullnægja ásakanirnar þörfum þínum, til þess að pynta mig og pína? Eða er þetta bara til að sýna, að þú ráðir yfir mér? Þegar ég fékk vilja minn, fór allt að breytast. Því þetta var ekki vilji þinn. Svívirðingar í mig hreytast. hægri, vinstri. Guð, heyr mína bæn og linntu þessu. Á endanum er sál mín öll í lemstri. Ég get ekki lifað í svona pressu! Raddir ykkar, særa mig. Ég hef minn eigin vilja. Ég er öðruvísi en þú! Reyndu nú það að skilja! Þú getur ekki upplifað þig, aftur í gegnum mig. Því ég er önnur en þú. Sættu þig við það. ] [ Það var ÉG sem settist á Miklubrautina og stöðvaði alla umferð. Það var ekkert sæti fyrir mig í prófkjörinu. ] [ Nú oss gefur góða tíð gleðjast menn af þessu. Áður var hér orrahríð, og allt að fara í klessu. ] [ Of mikil fegurð, of mikil orka, of mikið stolt, til að lýsa sé hægt í örfáum línum. Ég gæti skrifað þúsund ljóð um litlu eyjuna sem kölluð er Ísland, en aldrei yrði það nóg. Nóg til að lýsa landsins fegurð, landsins orku og stolti mínu fyrir það að vera Íslendingur. ] [ Ég sat vid gluggann og horfdi á hafid bláa sá öldurnar stara á mig, augun ljómudu ég var til á ný. ] [ Heiðbrá er okkar vinkona væn víst kemur hún oft til messu. Sérhverja athöfn hún byrjar á bæn svo bæjarlífið fari ekki í kessu. ] [ And the drive-in felt forever as the midnight clock was in pattering mood for the whiskey crushed air to sashay with his pall on the road to nowhere and every now and then he warbles the love song he wrote overnight or two; "Feeling her hand in mine", and with a lover´s blood he wrote a song about his only friend, "the cigarette smoke and smell of pint is truly my brand." Beloved son and holy; "father, this is my only. God knows where I´ll stand in five years but the miles are boundless and for my miry feet the end is just back then when I crossed the land of this no-win inn... so my life isn´t over, oh no my dearest, but I feel it´ll never start. So I wonder... what are angels when they die? People say they live forever, but I´m not sure, are they alive?" ] [ My date of birth kept in memory of a bartender; the only one in town, the dull dye smother of cigar fixedly closes the ceiling above and the draught of alcohol is on my bleary lips. This is the taste of every tomorrow and I´m not asking for more or less. "Hey, potboy! Hand me a second one, I´m boon and the sun is late and I won´t barricade my being." My hands are under a hammer and I don´t even care, it´s your counteract to miss, a small fortune of my life. Lonesome I watch the desert train run over my very last dime, and my crossing from the town is crowned. Lonely I sag watching the minute alley squat... I´m humble in this world but I always got a seat to endue and when, oh when my bottle gets empty I´ll be ready with another one and so on I go through the end and the timeworn scarecrow will sleep as I swill my last drops in the moldy duct of nowhere. ] [ Oh well, it could be worse. We are sitting above every tower watching our hope losing its dignity, that´s the bright side, yeah we got one honey. Not only we can see it, we are living with our grandmothers drinking red wine while the lost ones are drinking the last drop from this desert of mine. Six minutes is like the neverending story of hours passing days... can you imagine the night crossing years? Oh well, the parade will survive this land, the miles spreading wide, they are not home yet and never will... oh, no. I´m not sure about you, but I´m getting a bit tired of the loss of friendships while there´s none. Long gone they walk, and they are still walking. I will watch, yeah, I will watch them. And the dying ebullience, we should call for an ambulance. Do you really think they´ll learn from it? Do you really think it would be worth it? The ton is careening on its left side, and it tumbles in its self. And by the rite they are building fires... there´s no bourn in sight. There´s no rooftops, only the red sky reflecting the color of this shoreless clime. Sarah? Are you still with me? John! Where´s my whiskey? And, John! One more thing... pick up the phone and call for a fleeting succor. I´m having some struggles with this world. ] [ Afhverju ertu að fara gerði ég eitthvað rangt? Við áttum bæði þátt í því og síðan er orðið langt. Ég skil ekki þetta vesen og eilífðar væl við vorum ávalt vinir þar til þú snerist á hæl. Við vorum bara drukkin og ekkert meira en það þú þarft ekki að fara í kerfi ég ekki um þetta bað. Við getum talað saman án þess að það sé eitthvað mál það finnst mér að minnsta kosti og ég hef hjarta og sál. Það er meira en að segja það að kasta vináttu á glæ og okkar er of dýrmæt til að henda út á sæ. Ég vona aðeins þú jafnir þig og gleymir þessu svo því ég mun bíða þolinmóð í áratug eða tvo. ] [ I'm not like all the other girls who hop into cars with anywhom. ] [ Hamingjusólin hjá þér skín heima í bóli hlýju nú um jólin mamma mín mitt er skjól að nýju. ] [ Frænka mín var undrabarn með klístrað slitið hár flatbrjósta og föl en ógeðslega klár. Svo varð hún 15 ára og á hana uxu brjóst hún byrjaði með Kára og litaði hárið ljós. Kári gekk í kindaull hann var háður rommi Hann þóttist vera kvennagull en var í rauninni hommi. Frænka mín varð ólétt og föl með slitið hár Kári fékk kosningarrétt varð feitur gugginn og grár. Frænka mín missti barnið og Kári flutti burt hún tók saman prjónagarnið og keypti sér kannabis jurt. Hún er ekki lengur undrabarn og ekki lengur klár hún er orðin dópisti með úrsérvaxið hár. Kári flutti til Danmerkur eignaðist fjögur börn varð ljósbrúnn og sterkur á hús við fallega tjörn. ] [ Þegar ég sá hann aftur í miðbænum, með úfið hár, í tættum frakka, ælandi. Þegar ég sá pabba minn í miðbænum. ] [ Þú sargar í hjartað mitt með myrrulausum víóluboganum. Angistarfull tómahljóð koma við hverja ástíðufulla stroku. Strengirnir eru æðar sem slá af þránni einni. Um leið og þú hættir að spila slitna strengirnir og ást mín vellur út sem dumbrauðir tónar úr fegurstu sónötu sem er samin til þín í söknuði og eftirsjá. ] [ Þegar ég var öfgamaður sex ára í sveit barði ég allar beljurnar og uppnefndi eina geit. Ég neitaði að raka heyjið og heimtaði appelsín bóndakonan trylltist ég kallaði hana svín. Ég grét mig í svefn á kvöldin og hvíslaði ofurlágt bað guð um að bjarga mér ég ætti svo ósköp bágt. Svo heiftarleg varð mín heimþrá ég flúði lengst upp í fjall settist að í helli át fífla og drullumall Þegar ég kom til baka fór allt í bál og brand bóndakonan brjálaðist og lét mig drekka hland Ég sagði aldrei neinum frá sorg minni og raun í sveitinni fyrir norðan við ódáðahraun. ] [ Það sem gerðist þessa nótt getur enginn lýst með orðum né gjörðum. Yfirnáttúrulegir kraftar undirmeðvitundarinnar færðu okkur saman, sameinuðu okkur í fyrsta og síðasta skiptið. Enginn fær að vita hvað gerðist nema við tvö. Við geymum það í hjarta okkar, djúpt grafið innan um mistök og feilspor sem við gerum í lífinu. ] [ Ég elska þig elsku littla systir mín sem sefur svo vært og hlærð svo dátt brosir svo blítt til mín en mundu fyrir mig allt þitt líf að ég elska þig. ] [ 1,2,3,4,5, dimmalimm lífið svo létt sem leikur er maður er barn. Svo maður eldist og lífið flækist með ári hverju en ánægjan er enn til staðar. Svo maður fellur frá allir syrgja en maður svífur svo létt á bleiku skýi eins og barn. ] [ Mánaspjall Lag John Browns body, bandarískt. Máninn starir agndofa frá efsta sjónarhól, undrast þetta skrítna lið sem vítt um foldarból hamast við að berjast þar um bita hvern og spón. Honum blöskrar þessi sjón. Þokast hægt um himingeiminn, hnyklar brýnnar, rór og dreyminn. Ætlar sér að siða heiminn og sætta þessi flón. Sjáið hvernig skrefagreiður þrotlaust þramma ég, þreytist aldrei, hef þó lengi rólað sama veg. Ég hef aldrei abbast nokkuð upp á náungann og enga pretti kann. Takið nú upp sömu siði, sjáið náungann í friði. Starfið öll í einu liði, þið eigið sama rann. ] [ Innst í dalnum, upp við fjallið: ofurlítill bær. Ilm af mold og grænu grasi geymir hægur blær. Efst í brekku ærnar spakar kroppa inn við klettinn börnin glaðvær hoppa. Litlu utar Dreyri gamli dregur plóg, dregur seint og hægt en áfram miðar þó. Grasið þekur gráan móinn hægt og hægt. Hægt og hægt. Innst í dalnum: auðar tóttir engin börn að leik. Brot af plóg í svörðinn sokkið sinan dauðableik. Hrumum njóla hráköld gola bifar hægt og stöðugt klukkan áfram tifar. Krummi þögull fjaðrir knýr við fjallsins egg. Feigðin hvíslar döprum róm við tóttarvegg. Hleðsla brestur, hrynja steinar einn og einn. Einn og einn. Einn og einn. ] [ Tamning Lag: Havah nagilah,ísraelskt þjóðlag. Laðar hin ljúfa gola, ég legg á fola og vaskur vind mér á bak. Fjölmarga hef ég hamið og hraustur tamið, því afar traust er mitt tak fjörugum folum á, fljótur að siða þá. Lexíu þessi á líka að fá. Harður við hann ég er, hamast og stokkinn ber, staður og kargur hann streitist gegn mér. Hott — hott — hott, hott, hott, hott. Trylltur svo hann tökin þrífur, tauminn næst hann af mér rífur. Stökkið tekur stormi líkur, stingur sér og áfram rýkur. Þvílík reið langa leið. En mér tekst að skella á skeið. ] [ Hægt og hljótt að mér læðist hugsunin um þig. Hvers vegna fórstu skildir mig eina eftir í öllu þessu myrkri. Hvers vegna gastu ekki hætt. Áður en það varð of seint og myrkrið tók þig. Tók þig frá mér ég sakna þín er ein eftir. Ein í myrkrinu kemst ekki upp vantar eitthvað. Einhvern eins og þig til að halda mér í. Og hjálpa mér að sökkva ekki dýpra og sjá ljósið. ] [ Vinátta, hrifning, losti, ást. Allt eru þetta tilfiningar sem ég hef gefið en ekkert fengið í til baka. Nema skítkast frá þér Svo til hvers að gefa þér hluta mér. Þegar þú bara tekur og tekur en gefur mér ekkert í staðin. ] [ Ég kalla á eftir öskrinu sem stoppar og horfir á mig eins og ég hafi gert eitthvað mjög slæmt. Ég lít til baka og sé þögnina stara á mig með tómum augum eins og hún sé að reyna að segja mér eitthvað. Ég tek tilhlaup og hleyp í gegnum sorgina sem heltók mig og hélt mér föngnum í myrkri hugans þar sem allt sem ég sá var sorglega sagan um mig. ] [ Nei ég fæ ekki útskýrt kennd svo sterka jafngamla tilvistinni ég skil ótta þinn við það sem þú ekki skilur en þig að viðurkenna að skilningsleysi mitt er jafnt skilningsleysi þínu ] [ . ] [ Á blað þú bitur ritar, blaut tungan ei hefur mál. Fingur frakkur stritar, frár skrifar sögu um bál. Þú hélst í hönd á mey, hún sem var ei þín. "án þín þó ég dey!" öskrar þú til mín. Í gegnum tárin tala, tekur þú um minn háls. Son þinn mun ég þó ala, það kemur ei annað til máls. Högg á kynn þú kastar, kemur fólk þá inn. Með mar um handarristar, Móðir flýr með son sinn. ] [ I was really happy girl in love with a boy who I loved so much. But when we broke up I was lost Lost in this black world I didn't know what i could do. I couldn't live with it, too see him with another girl He was so happy, and he was allready care about me, but i still loved him And I couldnt make it anymore, i cryed and cryed on my bed, I wrote a note to my mom and dad I said them that i couldnt live anymore God needed me so much. I took my daddys biggest knive and started to cut, I cut my self into pieces, the blood was everywhere i just couldnt live. ] [ Im trying to be that girl that girl a want to be, I just want to be that girl Im trying to be. ] [ í tærnar gríp, mig teygi'og fetti. tætist áfram á hlaupabretti. tonn af lóðum upp ég toga tvíhöfðarnir krepptir loga. vex við þetta vöðvamáttur vefst ei fyrir búksins þol. En hugarafl og bragarháttur haldast stirð í þessum bol. hvaða lóði þarf ég að lyfta svo ljóð mín takist upp á flug? á skrokk og anda vildi' ég skipta þá skerpt ég gæti skáldsins dug. ] [ náttúrulögmál skapar og skilur skýrir síðan fyrir þjóð. fræðimannsins eini ylur er forvitnin sem knýr hans blóð. ] [ Slár mínar eru af járni og eir og afl mitt rénar eigi fyrr en ævinni lýkur. Hvers vegna mínir kæru? Enginn er sem Guð minn er situr yfir himninum og ekur um á eldvagninum mér til hjálpar. Og svo kemur hann í skýjunum einn góðan veðurdag að sækja mig. ] [ einu sinni gaf ég þér tíma til að skipta um skoðun ég reyndi að hlusta samt vissi ég að lygin þín fyndi ástæðu handa mér til þess að trúa þér enn á ný vitandi að einmitt þú myndir kenna mér hve erfitt er að elska einhvern eins og mig ] [ Þú sást mig í þetta sinn, þú situr, bíður og vonar. Þú veist ég sit ein og bitur og hugsa. Þú ert mín eina hugsun, mín eina von og einungis mitt eina hjarta. Hjarta mitt vonar það allra besta, það vill að þú sjáir það eina bjarta. Þú sérð hvað það er erfitt að segja "ég get aldrei sleppt þér" Passaðu líf þitt til dauða, sjáðu hvað setur til næsta dags. ] [ Þú situr við hliðin á mér og passar mitt litla hjarta, þú ert indæl og ljósið það bjarta ber þig í faðmi, Lífið er stutt en um það við verðum að dafna, En að lokum mun líkaminn lífinu hafna. Þitt líf ber litið ljós í hvers mans hjarta. Þú lifir i minningum okkar, Sama þótt þú sést farinn, þú kemur senn aftur Og langömmu drengurinn dafnar og dafnar. Þitt ljós er litla vonin sem þú munt bjóða okkur, Þín hjálpa er í ljósi og anda , við hugsum öll til þín. Stutt er milli lífs og dauða, lítill drengur er til, við reynum að gleðjast og eiga okkar fundi við gleymum þér aldrei Rakel mín því birtu þina á brjósti við höfum, yndi þin og gæska gaf okkur allt sem þurfti. Við elskum þig öll. ] [ Ég myndi gjarnan vilja geta talað! Núna er ég málaus og get ekkert sagt. Ég bið eftir að þú lærir sama fingra mál og ég. ég er hrifin en það gagnast ekkert að geta ekki tjáð sig. Ég er sár yfir því að vera svona því þú ert svo góður! Ég umgengst þig mikið og langar að tjá mig. geri samt ekkert. þú skilur mig ekki svo það breytir engu! ] [ Vektu hörund ljúfsár langan, dreyptu dagur á dögg míns vanga. ] [ Andartak sem man ég æ Greypt er inn í huga minn Alla tíð síðan fórum við Út að sjó í fyrsta sinn Ég sá þig brosa í sólinni Sitjandi á klett í fjörunni Endurkastið augna þinna Birti upp alla veru mína Þú fegrar lífið, fyllir af birtu með óvæntum brosum og faðmlögum Gengum fram á bátaskýli Markað af tímanum og ryði Starahreiður dvaldi uppi á kvisti Kom að óvörum kossinn fyrsti ] [ Þögul var nóttin þegar fyrst þig bar að Í húmköldu rökkri sat haustið og bað Bað Guð fyrir okkur að vernda í sátt Bað kyrrláta dögun svo vært og svo hljótt ] [ Þú ert vegur sem liggur eitthvert væri ég betur settur með að fylgja þér þangað sem þú teygir þig (innskot: óendanlega) í hvarf bakvið hæðina fremur en að standa fyrir utan eða jafnvel flatmaga fyrir ofan? ] [ skrælandi kartöflur við eldhúsvaskinn á sparifötunum og góð rakspíralyktin þegar hann kreisti mig fast í bland við matarlykt og grenilykt það voru jólin mín það var pabbi minn ] [ er ekki samviskubitið fylgifiskur jólanna hvort eð er hátíð sem er helguð því að vorkenna öðrum meðan við yfirspilum okkur sjálf? ] [ Að ganga inn í autt kaffihús: fyrir þér ert þú upphafið á deginum fyrir þjóninum ertu endalokin á dauðri stund. ] [ þetta fallega bros, hárið slétt og brúnt, umvafin ást og umhyggju bræðir mann í hvert skipti sem hún brosir. Þetta er stúlkan sem ég þráði, þetta er stúlkan sem ég náði. ] [ ung og falleg hún var, þessi ljómi sem af henni bar. ákvad hún að prófa dóp en komst ad því, það er ekkert dót. eitt skipti, hún hélt það mætti, nokkrum skiptum hún við það bætti. árin liðu og hún ei gat hætt, sál hennar var orðin sundurtætt. Fannst eins og lífi hennar væri stolið, hún lét þó reyna á þolið. Dagleg neysla var hennar fag, gat ekki slept bara einum dag. Þessi fallega stúlka var orðin ad engu, foreldrar hennar engar fréttir af henni fengu; Fíknin var orðin stíf þar með endaði hún sitt líf. ] [ veistu ég held að landslagið sé farið að eldast þegar ég vaknaði í morgun tók ég eftir að það var farið að grána ] [ þú gefur ei tekið líf til baka í tíma, sumra tár fram streyma, í myrkri sem björtu. En í Guði vor er geymd sú skilningsins skíma, sem megnar að reisa öll sannleikans hjörtu. ] [ eftir syndaflóðið: við bara stöndum tvö ein við útjaðar eyðimerkurinnar fugl sorgarinnar er floginn í burtu og sólin varpar torkennilegu ljósi á nýtt upphafið; bleikrauðan flamingóa ó elsku elía, kaktusinn varpar óhuggulegum skugga á vanga þinn flamingóinn heldur rólegur af stað í áttina að vatnsbólinu og ég þarf að fylgja honum fyrirgefðu ] [ þeir kunna tökin og á bakið að klappa breið eru bökin og gleitt milli lappa með þjóðina á fjórum hart var inn rekinn laun sér til handa í rassgat var tekin kyngdu svo líka því beiskur er safinn opnað munn þú ert atkvæðisgjafinn sem kom þeim til valda fyrir þitt atkvæði þú færð þess að gjalda þú kosningarhóra ] [ þeir sem eitt sinn hrópuðu kúkum á kerfið eru nú kerfið sem kúkar á þig ] [ Hjartnæm orð fyrir hjarta sem ekki slær Hvítar liljur og heiðskír himinn Hola í jörð Englakór og talað um fræ Társtokknir hvarmar Kaffi og kleinur bornar fram af fallegum, kvenfélagslegum konum. Myrkrið flýr samt enginn Grátbólgin augu sjá heldur ekki í myrkri ] [ mitt öskur er hvísl í stormi en stormurinn byrjar í lognmollu lífið líður hjá á tíma ljósgeisla á leið frá sólu til jarðar lítilsvert en samt svo mikilsvert eins og andartakið sem glitrar á öldutoppi eins og leið snjókorns frá skýinu þú bráðnar á tungu barnsins í garðinum líf laufblaðs hefst á leið sinni í falli frá grein til jarðar ferðalagið er það eina sem þig í heiminum varðar ] [ Blátt blik er ekki vitlaust, það hörfar ekki úr huga mér. Það var eins og höndina langaði að snerta mína. Hik Dok Róleg En mér er heitt. ] [ Það blasir ekkert við og hending verður sjónhending. Gott til þess að vita að jörðin snýst Ætli Kínverjar heyri fótatakið mitt? ] [ Orð mín eru hverri setningu sannari, hver silkihúfan skreytir upp af annari. Þær fá ekki hjá mér hólið harla lítið af þeim skjólið. Undir þeim dylst margt fjandans fólið. ] [ Ingi vældi Óli hló, eftir morðastritið. Illir finna enga ró, ef þeir stíga í vitið. ] [ Klukkan á arminum. Klukkan á símanum. Klukkan á tölvunni. Klukkan á veggnum, vídeóinu og jafnvel eldavélinni. Útvarp Reykjavík, klukkuna vantar ekki - heldur tíma. Svo mælir klukkan ekki neitt heldur reynir bara að apa eftir tímanum einsog tíminn sé allra. - Klukkur fást keyptar. ] [ Flestar bækur eru fullar af orðum og flest orð eru til í bókum. Orðin geta farið útum allt og allir búið þau til. Þó á þau enginn. Orð skilja eftir spor og orð geta verið sönn. Sannleikann er ekki alltaf að finna í bókum. Sannleikurinn var skrifaður í sandinn. ] [ Sumar á Íslandi er blindfullur vetur með hiksta ] [ Ósætti milli sólar og mána skolar á stönd, í ljósi eða myrkri Að togast á um ljósið tekur ekki frá myrkrið ] [ Einar Sigfússon 1942 Ranei Nossúfgis 2491 Nniela 6002 ] [ Ég er lítil stúlka og ég leik mér á gólfinu það eru svo falleg lög í útvarpinu og pabbi og mamma eru ekki að rífast eins og venjulega heldur liggja þau saman í sófanum og halda utan um hvort annað Allt er kyrrt og rótt því einhver framandi og þó svo velkomin maningja hefur loksins fundið leiðina heim til okkar Ég er gömul kona og ég ligg í rúminu þegar ég lít til baka yfir liðna ævi þá er það minningin um heimsókn hamingjunnar sem hæst ber Og ég bíð þess fagnandi að brátt muni hún gera sig heimakomna að nýju í sálu minni. Í þetta sinn -til að vera ] [ Hvað er hún að gera? Hún situr bara og horfir á vatnið. Ætli hún hafi misst einhvern í vatnið. Ég horfi á hana í smá stund. Svo sný ég mér við og næ í bók þá er hún farin. Hvert ætli hún hafi stokkið í sjóin hver veit Við komumst aldrei að því. Hún var einskis nýti. Mamma hennar var Hóra og bjó á götuni. Hún skildi hana eftir í einu horninu. Eftir það hefur hún sitið þarna. Hún er ekkert nema skinn og bein. Ég held að hana hafi langað að deyja þess vegna stökk hún í sjóin..... ] [ Breið jökulá rennur niður hrjóstruga fjallshlíðina. Vinir mínir vaða fimlega yfir hana. Ég stíg eitt skref en hrökklast í burtu. Áin er köld og ég vil ekki eyðileggja gönguskóna. ] [ Sit á bjargi, horfi á gylltan hring í lófa mér fitla við hann en missi í fljótið. Og treysti mér ekki til að sækja hann. Of kalt, of erfitt - hann hefur líklegast flotið í burtu. ] [ Er hægt að laga? má ég brjóta glerið sem heldur mér hér inni má ég snúa við og laga það sem fór á mis, má ég týnast frá öllu svo ég fái smá frið... bara svona rétt til að laga sjálfa mig. ég gæti sagt mér væri sama um allt sem ég hef gert reynt að gleyma, og þerra tárin.. -horfa fram á við ekki það sem er.. bak við mig. ~~~~~~~~~~~~~~~~~~~ viltu grípa mig áður en ég lendi viltu taka utan um mig þegar ég græt viltu slá mig þegar ég gleymi mér, .............. ekki of fast þannig að ég brotni, ekki of laust, þannig að ég skilji ekki. -Bara til að ég átti mig áður en það er of seint. ~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~ Má ég gleymast, bara ekki of lengi.. má ég stoppa lyganna, sem ég er vafinn í.. má ég segja, að mér þyki vænt um þig.. en gerðu það ekki dæma mig. Hulda María 22.október "06 ] [ Gleði? viltu brjóta af mér skelina, sem heldur mér hér inni. viltu sýna mér þá gleði sem ég týndi fyrir löngu. viltu gefa mér þá von sem uppfyllti mig hér áður. Viltu henda þér á eftir mér þegar ég stekk ofan í vatnið viltu passa mig fyrir freistingunum sem ég er svo veik fyrir. dofin af sársauka ég finn enga leið, leiðina að gleðinni sem er mér svo nærri. ] [ Lífið gekk inní sal fullan af fólki bros, gleði, hlátur.. depurð, kvíði, grátur.. þar voru tvær dyr, fólk þeyttist út um báðar. um aðra daprir, hina glaðir... en sumir komu til baka, og fóru út um sömu dyr, eða svissuðu við... sumir stóðu kyrrir, hreyfðust ekki úr stað.. -svona er einmitt lífið villumst af veg, sumir snúa við aðrir ekki... höldumst á réttum veg, hrösum smá.. sumir færast ekki fet. þú býrð til þína leið,. þó sumt ráðum við ekki, en oftast þú getur breytt, til þess rétta.. svo spilaðu það vel, þú hefur bara eitt. Hulda María 22.nóvember 2006 ] [ Svo var allt stopp. Þau lifðu á ystu nöf þau nutu þess að vera til þau gleymdu sér í blóma lífsins Svo varð allt stopp á einu augnabliki hvarf allt þar sem áður hjartað sló þar heyrist ekki lengur hið minnsta hljóð... Það varð allt stopp nú syrgir hvert einasta manns barn og enginn skilur hversu harður heimurinn getur verið... Hvers vegna hún hvers vegna hann hvers vegna þau og næst... hvers vegna þú? spurningum sem aldrei verður svarað... ] [ Tóm Ég er tóm og þegar höggin dynja... finn ég ekki til. Ég horfi en sé ekki neitt, því tilfinningin er tóm kannski var hún það alltaf. Ég er hér ofan í vatninu, standandi í grasinu, spor í fönninni vindur feykir hárinu. samt finn ég ekki neitt. því þegar það er sárt að hugsa, vont að tala, erfitt að skilja, og ómögulegt að fyrirgefa þá er erfitt að finna gleðina, gleðina sem er lífið sjálft. Hulda María 16.des 2006 ] [ Lífsins leið. Ef það væri eitthvað, við lífið sem ég fattaði Ef það væri eitthvað vit í því sem ég hugsaði Samt svo óeðlilegt ef allt væri fyrir séð Og einhvern veginn allt svo búið og skeð. Kannski er það þess vegna sem enginn funakerar Og engum finnst hann vera á réttum stað Veit aldrei hvert allt fór sem honum var gefið fyrst Sem leiddi hann alltaf þangað sem um hann bað. Þér er ýtt í allt með hinum hér Af stjórnendum og heimsvöldum sem hugsa ekki hvað í brjóst þér ber og þú engan veginn getur hagað þér. Tómhent við sitjum eftir ráðalaus með ekkert nema sektarkennd sem varð vegna hópþrístings við yngri ár og að vana í seinni tíð. ] [ ? Hárið lék í vindinum hlaupandi lítil stelpa lífið lék í höndunum gast gert allt sem þú vildir. Fólkið öfundaði og dáðist svo elskuleg en samt svo einföld. Við gatnamótin voru tvær leiðir þú valdir aðra. Óttaslegin þú þaust í gegn það var of seint að snúa við! Áhyggjufull móðir við gluggann þinn óskaði þess að í þetta sinn væri hægt að snúa við og einhverstaðar laga þig. Fólkið vorkenndi og hæddist af hvert fór allt sem eitt sinn var þar? Á lítill mynd stóð hreykin stelpa með drauma og ætlaði þá alla að elta. Var ekki bara hægt að hrista hana til blása í hana skynsamlegum yl. Í hennar heimi var hörmuleiki lífið var enginn einfaldleiki. Of æðisleg til að fá að lifa eða svo sorgleg að klukkan hætti að tifa? ] [ Afleiðing! Stjörnurnar glömpuðu það var allt svo skírt Leiðirnar lágu saman á einhvern hátt Höfðum öll vonir um betra líf Við trúðum á æðri mátt Stjörnuhrap á einni stundu Dettum niður á næsta þrep Löngun til að gráta eða segja það hreint út Þeir sem allra síst mega við því Lenda oftast í því. Sama hversu erfitt maður á Það mun enginn hugsa og sjá það ert aðeins þú sem ræður ferð og afleiðinguna þú berð. Ilminn af því góða geimi ég í hjarta mér þar sem enginn sér því ég trúi enn á þína góðu sál þó það hafi verið kveikt þar dimmt bál. 30.maí 2005 Hulda María ] [ Pæling..! Á einu augnabliki vil ég allra helst deyja, Á því næsta vil ég ekkert annað en lifa, Þetta snýst allt í hringi, Ég vil, vil ekki, vil, vil ekki! Ég hata mest af öllu að vera hér, Ég elska mest að öllu að vera hér, En innst inni veit ég ekkert hver ég er, Snýst allt í hringi en endar aldrei. Fyrr en allt í einu þegar hjartað stoppar, Já á einu augnabliki þá ertu farin, Og einn dag líka gleymd, Því hugsa ég oft af hverju erum við til? Ég veit ég fæ aldrei svar.. Samt er ég svo heimsk að spyrja mig hver einasta dag! 9.febrúar. 2005 Hulda María ] [ Stjörnuhrap* Stjórnuhrap, það endar hér það sem guðirnir gáfu okkur.. allt sem við ræktuðum í blóma lífsins það hvarf í kvöld! Vitlausar ákvarðanir á vitlausum tíma ég gleymi þér aldrei en hverf hér í kvöld ég gæfi hvað sem er til að breyta því sem þú gerðir mér en svo sárt sem það er þá veistu að endirinn er hér ] [ Ég er með augu Þú ert með Augu. Það eru allir með augu En hvað skeður þegar þau eru öll að horfa á þig. Þú ert stjarnan en þú villt ekki vera stjarnan þvi þú veist að þú gerir eitthvað vitlaust þú ert í ljótum appelsínugulum búinig. En þú veist ekki hvað þú gerðir vitlaust. Þú gengur inní stórt herbergi það er maður fyrir framan þig hann ætlar að segja þér hvað þú gerðir vitlaust en hann byrjar á því að segja þér að þú verðir að deyja svo þegar þú ert að labba út þá grípur hann í öxlina á þér og segir þér að Þú drapst Mann...!! ] [ Ég elska þíg ég mun alltaf gera það svo lengi sem ég lifi . En ef þú giftir þig þá veist að ég verð hérna og bíð ég mun ekki eiga neina kærasta ég mun ekki eignast krakka ég mun bíða þangað til þú kemur og bjargar mér haldir mér í örmum þér að eilífu og kissir mig á varirnar og þú munt ekki eiga neina aðra enn mig þú munt elska mig að eilífu og við munum eiga krakka saman og mér langar ýkkt mikið í hund og ég veit að þér langar líka í hund því við erum sama Manneskjan.... ] [ Ég geng á viðurkenningum: made by My Expectations um lífið. Leyfið hrósunum að koma til mín. Ég er vel að þeim kominn. Er ég ekki fallegur? Finnst þér ég ekki vera gott skáld? Nei! ekki fara.... ....ef þú segir jú þá skal ég sofa hjá þér. Kæru gestir: auðvitað skal ég sofa hjá ykkur ég skal sofa hjá ykkur öllum! Ég skal dást að ykkur 1000falt fyrstað (eða, eða miklu frekar: afþvíað) þið hatið mig. Já! ég sem sting mig á hol milli 3ðja og 4ðja rifbeins blindast sjálfur af blóðinu sem rennur aftur á bak. TAKK FYRIR MIG: nú megið þið hlæja.... ] [ Ég er á síðasta snúningi hvein í skopparakringlunni um leið og hún þeyttist út um gluggann. Asnalegt, hrein í asnanum sem asnast hafði til að góna á eftir henni þar til hún lenti á malbikinu tíu hæðum neðar Hún hefur andast, sagði asnakjálkinn andaktugur við öndina sem stóð á öndinni af andarteppu. Andstyggilegt! Andvörpuðu þau í kór andartaki seinna. ] [ gengu saman lifsins veginn bauga augum baugum sleginn krossi gefin jói og gugga skugga megin lágu spor tára slóðin engum dulin eru bæði að deyja úr ást guði gefin kafla ritar æðri máttur mannsins megna má sér lítils fíknar fólið hreppir líkin lífið tekur contalginið tómum augum í loftið starir fyrr en varir eftir situr kannski viska lágu leiðir tveggja blóma uxu í skugga birtu veittu stungu skeinum jói og gugga ást í meinum ei var að leyna meir en margur fær að reyna ...að deyja úr ást ] [ þú ert af ríku fólki afríkufólki kominn kom inn þú ert að því vel kominn að vera velkominn enda af ríku fólki kominn afríkufólki kom inn! ] [ Last night We had a fight I said I hated you That’s not right. I ran out Crying up loud Because of it I’m not proud. I wish I could Just turn around And feel the love That I had found. When I came back Your skin was cold You eyes were open, Your soul was sold. I called an ambulance, And said you were gone They said they would get you And soon it was done. Still I think about Our last fight, And often, I ask god “Why didn’t you Do what was right?” He was my love He was my life All I think about Is my knife, But if I leave More people would feel What I felt When he left. Today I still miss you I love you as well All I can do Is telling you that. But I know you will wait At the door of the gate. Soon I’ll meet you Now I’m old. I’ve said goodbye To all my friends And to you I’ll fly When my life ends. (when it ends) ] [ Það sem varð eftir. ég er tilfinningaflækja í hausnum á þér. ískrandi í eyranu, dökkur blettur á auganu, kökkurinn í hálsinum, sporið sem varð eftir í hjartanu brotið sem skar sálina ör sem varð eftir. -já, gömul minning sem þú getur ekki gleymt. 18.desember 2006 ] [ Það var einu sinni og eitt sinn, í fyrsta sinn. En margsinnis svo síðarmeir á sinnepsakri í október að síðnefjaðan Sínlending með sívalning og stikkilsber bar að bænum Ríddu mér Á bæ þeim bjó einn bjúgverpill sem bölvandi í boga þaut og brotlenti í berjagraut og bað um meiri berjagraut og lagði fyrir manninn þraut: Þrill riggí diggiddí dei og svei svei svei, og svaraðu nú! Jah stórt er spurt, svaraði Sínlendingurinn og hugsaði sig vandlega um. Og spurði svo: Er það nokkuð hann James föðurbróðir minn sem þú átt við? Nei, svaraði bjúgverpillinn ] [ Að líta inn í spegillinn sem Mjallhvít átti allt sitt undir. Gæddi gert gæfumuninn. Spegill,spegill,herm þú mér, hvort við getum haldið áfram svona hér? Kannski mætti bjóða þér grænar grundir Og hann Grána.í gegnum sýndarveruleika? Hver veit, sagði guð,og markaði bás á jörðinni ] [ Þar er verið að selja djúpsteiktan þorsk og franskar,sem maðurinn í söluvagninum pakkar inn í dagblöð með fréttum gærdagsins,og prentstafirnir festast í djúpsteikta fiskinum og þeim frönsku sem ég á að borða .Utan á fiskstautunum stendur og þeim frönsku er hægt að lesa”Það var murkað lífið úr konu í þessum garði þar sem hún var að borða djúpsteiktan fisk og franskar”..Flækingur með illa útlítandi barnavagn fullum af tómum bjórflöskum betlar af mér djúpsteikta fiskinn og franskar.,á meðan svertingi í bleikri skyrtu með hatt,bíður öllum sem vilja að veðja við sig í teningaspili upp á djúpsteiktan fisk og franskar.Stór Dópir manhundur gerir þarfir sínar í hanskaklæddan lófa eiganda síns og slefar í átt til mín í von um djúpsteiktan fisk og franskar.Dúfurnar kroppa í skóna mína og heimta djúpsteiktan fisk og franskar.Ég flýti mér að hliðinu út úr garðinum við hliðið inn í garðinn situr fótlaus maður og horfir í augu mín eins og að ég sem hafi skapað þennan glundroða,en augun hans breytast ekki neitt þótt ég gefi honum djúpsteiktan fiskinn og frönskunnar,því hann er blindur.Má ég biðja um soðna ýsu og kartöflu,takk fyrir.Heima á Fróni. ] [ Hún fellur alltaf í burtu, eins og skítaskán í sturtu, og niðurfall lífsins þolir það Hún varð þar grá af engu, og þeir sem frá henni gengu, töldu hana aldrei koma til baka Í fyrstu Þeir töldu það unnið að það væri ekkert í hana spunnið og hún væri farin veg allrar...... þá kom hún og við ána leystist, og frelsi upp úr henni geystist, Svo drullusokkar voru til einskis . En þið vitið það kæru bræður, Að það er maðurinn sem ræður, Og vitleysan endurtók sig ] [ Í kapphlaupi við tímann, föst í mannhafi, sé ekki jólaljósin fyrir gremju þegar ég uppgötva að veskið er horfið! ] [ "Ég er svangur" stendur á skilti vitstola mans sem týndi sálinni í í brennivíni og djöflum spilavítis. ] [ Sláðu mig, ef ég er vond við þig. Berðu mig, ef ég móðga þig. Rotaðu mig, ef ég svík þig. Misnotaðu mig, ég er undirgefin. ] [ Ætli það sé einhver von fyrir mann eins og mig? Sem grætur á götuhornum auralaus og skítugur með ruslapoka á fótunum og slitna vettlinga? Ætli það sé einhver von fyrir mann eins og mig? ] [ Komdu til mín í kvöld þegar enginn sér til. Komdu til mín í draumi þegar guð er ekki að hlera. Vertu hjá mér alltaf svo ég sjái ekki sorgina þegar heimurinn endar. ] [ Sérðu sorgina í hjartanu mínu? Sérðu tárin í augunum mínum? Serðu hatrið bakvið brosið mitt? Sérðu hvað þú gerðir mér. ] [ Þegar Hrafninn kemur,og sest á kollinn , Er styttan hans, og að koma henni til manns. Með klærnar beitar, þær rispa bronsið, iðrun mynda glans og línur í andlit hans. Og veturinn hjálpar undir með styttu þessa lands, Það eru verkin þeirra beggja sem gera gæfumuninn, Að litlaus styttan skuli falla í trans. Og til að undirstrika þennan lista dans. Þeir fá sér báðir í nefið,krunkið gefið. En vindur við vegg eða frosið sefið. og báðir þeir hljóða með miklum glans. ] [ Við enda gangsins sé ég ljós Skært, hvítt ljós Ég hleyp til að finna hlýjuna, en kemst ekki alla leið Því á leiðinni mæti ég öllu hatrinu, öllum kuldanum og öllum einmannaleikanum sem hefur einkennt líf mitt Allt hatrið, allur kuldinn og allur einmannaleikinn segir mér að ég eigi ekki skilið að komast til ljóssins Hvað get ég því gert annað en snúið við á miðri leið og reynt aftur En næst ætla ég að hlaupa hraðar og loka eyrum og augum Því ef ég hvorki sé né heyri þá kannski fer allt hatrið, allur kuldinn og allur einmannaleikinn burt........og þá kemst ég alla leið ] [ Afhverju sást þú ekki að mér leið illa? Afhverju heyrðir þú mig ekki gráta í koddann minn? Afhverju heyrðir þú ekki hvað ég var í raun og veru að segja þegar ég sagðist vera hamingjusöm? Afhverju varstu ekki heima þegar ég hvatti þig að fara út? Afhverju tókst þú mig ekki með þegar ég sagðist vilja vera heima? Það er þ(m)ín sök hvernig fór Ekki m(þ)ín ] [ Ég horfi á þig sofa og fyllist ást Ég hugsa um allt sem ég vil gera fyrir þig og með þér Ég hugsa um allt sem ég vil kenna þér og læra af þér Ég hugsa um knúsin þín og kossana þína Ég hugsa um hvað ég er heppin að eiga þig En svo þegar þú vaknar þá er ég alltof fljót að gleyma Og fer bara að hugsa um hvað ég hlakka til þegar þú sofnar aftur Ég verð að læra að muna, held að allt yrði miklu fallegra þá ] [ Það eru til englar á jörð Þeir eru í hvítum búningum og brosa Þeir bjóða mér mat að fara í sturtu faðmlag huggun spjall og sitja yfir deyjandi ástvini á meðan ég fer og fæ mér að reykja Ástvinurinn dó en englarnir verða alltaf í hjartanu mínu....englar í hvítum búningum með bros Takk ] [ Er þér illa við karlana sem bóna amerísku jeppana á sunnudögum íklæddir grænum laxveiði- vöðlum sínum? Við konurnar sem hópast saman yfir kakóbolla (með rjóma) og rjómaköku? Finnast þér kannski hlægilegir listamennirnir sem diskútera umheiminn í eigin upphafna MenningarKapítali Íslands? (en hafa svo sjálfir ekki þorað út fyrir smáöldurnar) Herra Eldon, leiðist þér kannski: öryggi í fallegu* umhverfi? þægilegir sunnudagar? þetta úthverfi án borgar? Eða eruð þér ekki ef til vill hræddir við smáborgarann í sjálfum þér? Akureyri! heimabær kókakóla í gleri... *og umfram allt barnvænu ] [ Jólabið.. Ó mamma hve lengi þarf ég að bíða Ó mamma því er tíminn svo lengi að líða. Ó elsku barn, þrjár nætur muntu þurfa að sofa Ó elsku barn ,þá koma jólin, ég lofa. En mamma, kemur sveinki í nótt? En mamma, ég mun ekki geta sofið rótt! ELsku barn jóli mun koma og þér gjafir veita Elsku barn, góðum börnum hann mun ei neita! Mamma, þú sagðir að englar yfir mér vaka. Mamma, ef ég á engla treysti, mun mig aldrei saka? Dýrmæta barn, fallegtustu gimsteinar passa þig Dýrmæta barn, þú getur á þá treyst jafn vel og mig. Mamma, eru jólin töfrar, eru jólin ekki falleg? Mamma finnur þú þessa gleði, hamingju og undur. Elsku dóttir, ég er hamingjusöm með þig við hlið mér. Elsku barn, jólin eru falleg því ég er með þér! ] [ Sárin eru á líkama mínum, sál minni, minningum mínum, allstaðar sár án blóðs. ] [ She. No one knows her. No one cares. Inside she's lonley. Inside she's dead. She walks alone. Where no one can see her. She's here and she's gone. She's a ghost with no home. Screaming where no one hear's her. Bleeding where no one feels her. Wanting attention she ends her pain. And so ends her game. ] [ hugur minn veit ei hver ég er orðin sem ég sagði eru orðinn að lygi spegilinn sýnir mer ekki mína réttu mynd og ég er orðinn að engu líf mitt er orðin synd líf mitt tekur lífið frá mer og óskar að hafa ekki fæðst óska að lífi mínu verði skilað sérstaklega þegar depurðin er hæðst ég lít á sjálfa mig og brest í grát get ég einhvern tíman aftur orðið kát það sem ég hef gert og það sem er ógert verður aldrei ósnert um mig verur kannski spurt spurt um krakkann með dapurt auga sem miðnætur þunglyndið tók burt ] [ ástinn er vígvöllur sem fáir fara nær ástinn er hugsun sem skín björt og skær ástinn er lífið endar of fljótt ástinn er sársauki sem lagast ei yfir nótt ástinn er tal um hugsun og tilfinningu og ástina bera vel skal ] [ orðið varð að þögn og þögnin varð að orði Látlaust bros hann talaði hún hlustaði á þögnina í hljóðinu sem þagði í gegnum sjónvarpið myndin var óteiknuð samt var á henni málað skip skipið sigldi í gegnum eyðimörkina sem var ekki til syndir í köldum sand og án merkingu mun líf allra vera sem synda í óvissu um það sem er og er ekki ] [ þær fljóta víst sofandi að feigðarósi jólanna húsmæðurnar sem gefa ‘graut’ í konfektgerð og jólabakstur (nota orðið graut af því það orð er svo húsmæðralegt og svo er ruddalegt að tala um skít svona rétt fyrir jólin) þær fljóta þangað í rólegheitunum við kertaljós með búðarkökur í skál og nóakonfektmola bráðnandi á tungunni bók í hönd og bráðum koma jólin (ó jú - víst - koma jólin) ] [ Ég er jörðin og þú ert hafið þú færðir mér líf án þín er ég auður og kaldur Ég er jörðin og þú ert sólin ilur þinn leyfir mér að lifa án þín er ég auður og kaldur Ég er tunglið og þú ert sólin birta mín kemur frá þér án þín er ég auður og kaldur ] [ Í vondu skyggni getur margt skeð á nætur rölti. hverful hugur,skrýtin vein,og það í ósýnilegu brölti. Gott er að vita jólasveinn sé með réttu ráði, líkar það vel á tímum þeim ,stúlka og snáði. En eitt er þó í hópnum sem skekkir þessa sögu, Jólaköttur grimmur sem setur allt gott í þvögu. Óværa þessi er vart teiknaleg skyssa, að hún standi í afturhófa sem illa vaxin hryssa. Troðin úldin sauðahaus með augun á stiklum, og illa hærður skrokkurinn allur setur hnyklum. Fingralangar hendur stærri en aðrir hlutar, kjafturinn fullur sem færu þar hundrað kutar. Bölvi einhver krakkinn og láti illum látum, kemur þá kötturinn og leysir úr þeim gátum. Sýnist það á belgnum að eitthvað sé um þetta, má hann smjatta á krökkunum ef þau í óþekktina detta. Tunglið fram úr jólaskýjum,bænin fer um huga, heimiliskötturinn lepur mjólk og lætur það duga. ] [ Found some scissors in a drawer, I took them up slowly.. I started to slit my wrist slowly.. My vains showd more. The only thing in my head was; How can I escape the pain of the real world? The blood startet to poor out slowly.. I watched it slowly.. It hurts..but still its nice, to feel so alife but still dead. Then I thought of you, I went to the bathroom, stopped the bleeding and never told anyone about this. Exept for you..thx.. ] [ Cheris the love you get, cause there is so much hate in this world. Love everyone, exept the ones you hate. ] [ You say I'm silly You say that I act Well what is it now, mom, This is me! More than a fact! Fuck you for not believing! For only caring when I was in the wrong, Never there when I needed you, To make me strong! You have made me what I am! Filled with HATE! Don't look back now, Its too fucking late! When I was born, Did you cry or rejoice? Was I the unwanted one? Was it even youre fucking choice? You should have cut me then, Made things less hard! For now that im older, I UNDERSTAND To be unwanted, by the one that you love, is a fuckin wake up call, to the PERSON ABOVE! ] [ Emo freak, They like to say, Write and cut, It's what she does all day. The people stare, And like to point, At this girl who is nothing more, than a little disjoint. More than nothing, It's what she wants to be, Absolutely anything, Other than what they see. Blackened eyes, Blackened heart, She slowly dies, And falls apart. ] [ You feel the pressure? Feel the sweat run down and the forbidden tears build? Your hand leaves the mascara mess youre fingers wiping the dust of your emedded desk and you find the sharp edge, the sharp slice of your wrist- you look up to the sky as the pain overrides and wish you were somewhere else, anywhere but this. ] [ Rósir geta dáið fyrr ef ekki er sett þær í vatn. Fólk getur dáið fyrr ef það notar ekki belti. Ég vil ekki að rósin deigi svo ég set það í vatn. Ég vil ekki að þú farir frá mér svo notaðu belti. ] [ Ég man hvernig þú brostir, Snertir og hlóst. Hvernig þú ljómaðir yfir gjöfum. Hvernig þú Gafst, Hjálpaði og Gladdi. Hvernig þú svafst svo friðsamlega. Ég man hvað þú varst montinn. Hvernig þú sagðir frá, lýsti því og skrifaðir það. Hvernig þú gleymdir því Hvernig þú laugst því. Ég man þegar ég kom að þér, látnum og blóðugum Hvernig þú lást, svipurinn og blóðið. Hvernig tár mín runnu niður kynnar mínar. Hvernig gastu farið? ] [ Mitt litla hjarta slær örar þegar þú ert hjá mér. Bros þitt er svo bjart og ég finn fyrir þér í hjarta mínu. Aldrei fara frá mér því ég get ekki lifað án þín. ] [ Horfðu í augu mín Segðu mér hvað þú þráir Er það ég eða einhver annar? Viltu seigja mér. ] [ Ég sakna þin svo. Tár mín eru of mörg. Líf mitt er ekkert án þín. Kondu aftur. Kannski viltu mig ekki. Hvað geri ég án þín. Þetta særir mig. Ég er ekki fullkomin Ég elska þig eru stór orð En þau eru sönn Hjartað mitt er hjá þér. Þú ert enþá með það Ég man hvernig þú elskaðir. Ég gret af reiði og hatri Konan í næsta húsi. En ég sakna þin. ] [ I miss your smile. When you look to my. I was angry and sad. I’m not perfect. But you are perfect in my ace. My live is nothing outs you, So lonely and sadness, My heart is black outs you. You mien so much for my ] [ You are in my dream but I don’t know you. When I sleep I see you. When you smile, I leaf in my dream. I wake up so happy, and look forward to go to sleep. I never let you go in my dream and I have to find you I know, you are rely, you are my dream prins, do I know you? I want you for ever.. do you dream about my? You have to by a person in this live. You are my true love, for you, plise don’t walk away and never let my know you I don’t want you in my dream I want you in my life ] [ This is okay. I never going to lets you don. Pleas don’t puss this away. And pleas don’t walk away from my. Stay whit me to night. I know this is okay. I will life whit you. Don’t say you don’t love my Because you are my true love. Pleas don’t walk away stay whit ] [ This was a most person in my live. This was like in haven. You told my you loved my. I don’t believe you, it was to perfect But now I believe you. When you look to in my ace and told my “I love you” I need you, you are me everything. I thot you going to by there for my but you don’t. I don’t believe that. Other woman was in your live. How cut you? You brocket my hart so and now do you want my back. I can not trust you, im sorry, to much pain ] [ You are my everything. I need you and I just want you. You are a most person in my life.. I member when you lock first in my ace and touch my mouth We was so crazy in love. But now we don’t talk to gather and I miss you. My first day outs you was so lonely and I don’t want to live this day agene ] [ I miss you so. I cry so much. I am so brooked outs you. You was to young. I can not stop, I just cry. I member your last hug and kiss. You were my everything and I really miss you. You are going to by all ways in my hart. You look like angel when you smile, You was always leafing and so happy. Now are you gone and I am a lone. Where is my girl? My daddy girl ] [ Ó, hversu sárt er að sakna. Þú fórst frá mer of snemma. Hjartað mitt bjó hjá þér. Söknuðurinn er óvinur minn. Ef ég ætti eina ósk myndi ég fá þig aftur. En aldrei mun sá dagur koma og aldrei mun ég líta í augu þín aftur. Hjartað er allt brotið og mun ekki fara aftur saman. Þegar þú fórst frá mér tókstu hjartað mitt frá mér. Loks þegar ég fann þig fórstu frá mer. Ég beið og beið eftir þér og á lokum fékk ég þær fréttir að þú værir farinn frá mér. Þú bjóst í hjarta mínu frá upphafi og aldrei mun ég gleyma þér. Þú tókst hjartað mitt og eingin mun fá það. Aldrei mun ég elska eins og ég elskaði. Aldrei mun ég brosa eins og ég brosti. Aldrei mun ég gera neitt eins og þegar þú varst hjá mer. Aldrei mun neitt vera eins og það var. Brátt kem ég til þín og við verðum saman á ný ] [ Ég vissi ekki að þetta væri í seinasta skiptið sem þú myndir sjá mig. Í reiði minn fann ég fyrir ást en reiðin var of mikið og ég rauk út. Ég hefði ekki átt að fara út, ég vissi að það myndi vera hættulegt. Ó ástin mín ég ætlaði ekki að gera þetta en þú særðir mig svo. Þetta átti ekki að enda svona, ég ætlaði bara til móðir minnar. En ég keyrði of hratt, fyrir tárum mínum sá ég ekkert fyrr en ég vaknaði hér. Það er allt öðruvísi hér, ég horfi á þig en þú sérð mig ekki. Ég reyni að tala við þig en þú heyrir ekki í mér. Ég horfi á þig gráta af sársauka og finn fyrir ástinni eins og ég sé engill en ég er það ekki. Ég er hjá þér. En af hverju sérðu mig ekki, hvað gerði ég? Talaðu við mig. Ekki láta eins og ég sé ekki hér látum eins og ekkert hafi gerst. ] [ Maturinn er fyrir magann en maginn varð feitur og stór vegna græðgi míns sjálfs og ég gaf mér tíma til að belgja mig út mér til tjóns og tíminn og fitan runnu saman til hjartans að flýta dauða mín sjálfs og dauðinn gekk til mín eins og grannvaxinn maður á púmaskóm sagði vinur ef þú villt lifa skaltu fara í megrun ella færðu þinn dauðadóm en í grunlausri veröld svaf hugsun mín einsog næturblóm og dauðinn kom aftur gekk yfir mig allan á hnífbeittum gaddaskóm já - tíminn er einsog vatnið og sé það ekki drukkið verður það manni til tjóns. ] [ Hún á ekki eitt einasta bein í mér og ég á ekki eitt einasta bein í henni en saman eigum við hvort annað, og það er allt. ] [ Í misheppnaðari tilraun reyndi ég að skrifa ljóð um hvernig það er að Sofa hjá þér Vakna með þér Vaka með þér Lifa með þér Ég gerði tilraun til að skrifa um hvernig það er að Kyssa þig Kitla þig Faðma þig Elska þig með húð og hári Og svo loksin tilraun til að skrifa um það hversvegna ég elska Hlátur þinn Bros þitt Augun þín Snertingu þína Á tilraunarstofu ljóðagerðar minnar urðu mistök, vegna ofnotkunar orða eins og yndislegur, æðislegur, frábær. Og þá einkum vegna ljóðlína á borð við ég elska þig og með þér er lífið yndislegt En þær urðu víst úreltar fyrir löngu. ] [ Í ferðum til og frá áfangastaða þeytist lífið áfram í endalausri leit að engu sem þó hefur bæði tilgang og markmið. Hugurinn fipast eitt andartak og litir og form renna saman í eitt kunnuglega myndin sem ég sá í gær verður að einhverju öðru. og ég, enn með buxurnar á hælunum. Magga Idda ] [ Hann er löngunin til að lifa, í hamingju,ást og friði, og þegar löngunin verður þrá, verður þráin alheimsfriður. ] [ Gef mér þögla litla stund, meðan þögnin sjálf flýgur hjá. Í seini tíð skil ég betur, hvað þögnin getur. ] [ Við finnum fögur blóm falin við jökulfalda. Er aldrei af öðrum talin ein mundu lífi halda. Reist upp af rótum alin rúnar af eldi alda. Efst upp á landinu kalda. Hér býr hún með friðar fald og fögur skikkjuklæði. En sorgar brjóst sést þó undir skrautlega ofnum þræði. Fjallkonan fer um grundir og fossa um langa ævi og kveður með ástarkvæði. Þú fósturjörð svo víðsjárverð visin við hallar garða. Von á berangur borin, sem blályng eða varða. Leiddu mig enn á vorin um eyðilönd til fjarða og fjalla með mjallhvítan farða. ] [ þú brannst sem logi bjartur þitt dauðdægur dagur svartur með eigin hendi þú kaust þinn endi með byssukjafti ,,meinvill í myrkrinu lá'' ] [ ég syndgaði í herrans heilaga húsi lokaði augunum líkt og frelsuð en hugsaði aðeins um að sökkva mér í mjúkan móðurarfinn holdsins freisting sigrar frelsarann í sjúku mani syndara og ég skipa mér stolt í þann hóp er ber fyrir sig erlendan kynstofn og les forgangröðunina öfugt. Þrátt fyrir barnalegar bænir um fyrirgefningu sakleysis og forvarnir frá freistingum hefur faðirinn ekki skilað sínu afskiptalaus og andstuttur lítur hann niður á mig og telur mig óskilgetna. ég er eingetin eva sem engan vill adam sjá því faðirinn setti mér freistingu eldrautt epli. og ég beit af fúsum vilja. eftirsjáin er engin því syndasvínin komast ekki nálægt mér móðurarfur í helgu húsi og faðirinn er flón vill sínar konur fjarri hinum. huldar hempum og þær bíða grasekkjur frá giftingu sem líta hýru auga til frelsisins ég át eplið frá þeim gráðug og glorsoltin sleiki ég loks útum með bros á vör og syndga enn á ný ] [ Hann: Er þetta ekki... -hik- óþarfi? Hún: Jú -þögn- þetta er alveg örugglega óþarfi. Hann: Eigum við... -hik- þá nokkuð að vera að þessu? Hún: Nei -þögn- nei ætli það. Hik... ...þögn Hik: Eigum við þá ekki að hætta þessum leikaraskap? ] [ Þarna stendur svartur maður,sem kann þjóðdansa heiman frá sér. Hann dansar nakinn allan sólarhringinn á þjóðhátíðardaginn 21,Janúar. öskrandi með langspjót í annarri hendi en þurrkaðhöfuð nágranna síns í hinni. Hann bað um landvistaleyfi á Íslandi eftir að hafa fengið synjun í Írak. Af því að konan hans vildi ekki vera með slæðu fyrir andlitinu. ] [ Hervör myndast mæta vel, mig og gerir ríkan. Er það sjaldgæft að ég tel, að eignast kjörgrip slíkan. ] [ Drífa er sem drottning fín dável hörð í skapi. Dillar lend og hátt við hrín ef henni ríður knapi. ] [ Vinur minn Kötturinn minn er týndur Hann er fallegur og góður Hann heitir Sorró og er mjúkur Hann er svartur með hvítar fætur og það er gamann að leika við hann honum fynst gott að láta klóra sér á hálsinum Hann er með rósótta ól um hálsinn. Honum fynnast rækjur góðar. Ef einhver fynnur Sorró Þá á hann að hringja strax í síma 355-5555 Eða koma með hann til mín. ...... ............strax. ] [ þegar kettir eru brúnir þegar hundar sýna í sér tennurnar þá verð ég hræddur þegar ég fer út að ganga hitti ég hunda þegar ég fer að versla hitti ég hunda þegar ég fer í labbitúr hitti ég hunda ooooo......................... þegar ég sest bara í sófann minn kemur kötturinn og malar við eyrað mitt. Þegar mér líður vel. ] [ Ljósastaurar, Gangstéttahellur, Umferðaljós, Fjórar hæðir. Eg er orðin svo þreyttur. Helgarfrí. Afmælið mitt. Mæta á morgnanna. Brosið hennar. Ég er orðin svoooo þreyttur. ] [ I love standing in the rain With my heart full of fears But no one does quite care That the rain is really tears ] [ She knows that her heart cant lead the way it has shattered and bleed and turned to gray So with pain and angst she screams and cries, Rippes her heart out and hopes she dies ] [ Á Stjörnumót ég fór við vorum saman tólf. Þá allt í einu, gekk hann mér við hlið. Það var sá hinn sami, sem ýtti mér við. Mig langaði að segja “Takk, takk fyrir það!” En viss að hann myndi hugsa takk fyrir hvað? Þess í stað heyrði ég mig segja “góðan daginn.” Í huganum bætti ég við, ertu tilbúinn í slaginn? Hann ýtti við mér, þannig að ég fór að hugsa. Síðan þá hef ég ekki mátt slugsa. Lífið er skrýtið og dásamlegt en stundum líka furðulegt. Mér fannst það bæði barnalegt og sætt þess vegna fæ ég úr því bætt. Að upplifa að það var mér um megn að segja það sem mig langaði að segja. Næst verður í lagi að þegja! ] [ Askan svarta vekur hér nú vonarinnar glóð. Virkilega gæfuleg, með kosti af besta tagi. Rataði hún í hestakaupum, rétt á vora slóð. Reynast skiptin trúi ég báðum í góðu lagi. ] [ svo hóf ég upp raust mína hélt langa ræðu um einmanaleika minn sorg og raunir færðist öll í aukana eftir því sem á leið tárin runnu og orðin flæddu þar til vonbrigði mín voru orðin öllum ljós sumsé sjálfri mér og spegilmynd minni inni í tómu húsinu ] [ Tíguls er dóttirin Atorka, með allt á hreinu og fínu. Kastað hefur Kjarnorka og kynnt sína jörpu línu. ] [ Elding skeiðar yfir grjót alltaf tekst að standa. Brúnskjótt er með bægifót býsna reist að vanda. ] [ Glóra er rauð, sívöl og sælleg hryssa. Sleipur náði ég henni í mitt vildarstóð. Það er mín trú og það er stundar vissa, að þjóðarstáss verði og til reiðar góð. ] [ Kjarnorka er svört frá Kjarnholtabúi. Kynbótahryssa, sem prýðir vora sveit. Þeir eru með fádæmum tel ég og trúi taktarnir fjölhæfu er veður hún reit. ] [ Óðfluga ruddist í ræktunina harða. Rauðbrún á litin með dálítið stress. Sem folald hljóp yfir grindur og garða glettnisleg á svipinn og vinkaði bless. ] [ Sýnist vera laus við löst, líkaminn brúnskjótt yndi. Léttum sporum rýkur Röst, sem reykur í snörpum vindi. ] [ Hátt sitt fríða höfuð ber hörð á spretti þolin. Skíma í Skálateigi er skjótt með nettan bolinn. ] [ Skutla undan Skuld kom jörp út úr skyndikynnum í langri ferð! Hún töfrum frá Gára skilar skörp sem og sköpulagi af bestu gerð! Sú verður ei seld fyrir lítið verð! ] [ Eigi telst að hún sé höst helst þótt brokki gjarna. Rauðhetta með rassaköst rótast undir Bjarna. ] [ Telpa skeiðið tifar létt tónar jörðin undir. Allt er þá sem orðið slétt urðir móar grundir. ] [ Gullblesi er gæða klár, sem getur farið vel í klofi og eigandinn er ekkert smár uppá tröppunum á Hofi. ] [ Með fölskum tönnum bítur bezt ber sig vel á þremur fótum, um Ólgu er það eins og sézt aðeins spaug á léttum nótum. ] [ Með hryssunni Skuld hófum við ræktunina aftur! Um “Hrekkjaskjónu” okkar nágranninn blaðrar!! Því hún er svo stórbrotin að stoppar varla kjaftur og staða mála sú að lítið er að segja um aðrar!!! ] [ Ljósið slökknaði, tárin flæddu, platan brotnaði. Kannski vil ég.... .... þetta ekki lengur.... ] [ Hver kvartar og rífur kjaft? Hver á í deilum við allt og alla? Hver fær sár af kjaftshöggum og glóðaraugu? Og kann ekki fótum sínum forráð. Þeir sem drekka sig fulla á pöbbum. Og þeir sem koma svo saman í heimahúsum til að halda partý, stunda svalldrykkju. Já, svolgra vín fram á rauðan morgun. Horf þú ekki á vínið, með aðdáun, hversu það í fyrstu glóir í glösunum og rennur ljúft niður. Og lætur þér líða einsog þú eigir allan heiminn. Það er aðeins skammgóður vermir. Því að síðustu kemur það einsog höggormur til að spýta eitri í hold þitt og sál. Þá muntu fá að sjá kynlega hluti, og munnur þinn mun mæla algjört rugl. Og þá muntu verða ósjálfbjarga eins og sá sem liggur úti í miðju hafi og kann ekki að synda. Já, eins og sá er enga björgun fær. Og þú munt hugsa: Þetta er búið. Ég mun drukkna í vínhafinu. Eða er þetta vímuástand drykkjumannsins? Og ef svo er, hvenær mun ég vakna? Og komast inn á Vog. ] [ Út frá sveigðri strandlínu teygir hafið sig yfir ennið það er djúpt og allt of margt sem leynist þar. Hárið (væntanlega) þörungur svífandi um í sjávarbriminu. Steina hef ég aldrei séð nógu lifandi augun eru glansandi sniglar sem að hringa sig inn í vitund mína. Lítil stúlka sem grettir sig (stundum) fjörlegt nefið. Munnur þinn eða máninn? Hvor tveggja gýn yfir mér eins og gáttir í nýjar víddir. Kinnbeinin falla fram straumharður foss sem endar í rennisléttri klakamynd höku þinnar. Líkaminn: impressjónísk mynd úr mörg!þúsund deplum heill ljóðabálkur í orðum. ] [ put your head between your knees because he doesn’t believe what he see’s blocked by the future, he already knows he can feel it from his head to his toes what he will lose will grow back it takes time to get back on track so show some respect and try to stop interfeering stop making noises and stop all the cheering you can’t make it better, and that he gets but still an unread letter, read it? lets cought in the angst and broken between how could this world get so mean no it’s not you, no it’s not me why oh why can’t I be free making pictures from words and putting them into visions taking charge of making your own decision future lies in tragic alphabet and litile numbers within reality it humbly slumbers wake up the beast and you might get burned so listen to this post and count what you have learned breathing is easy, so are the words put in emotions, see what you overheard I worked hard, noting is free you take everyting granted, even me set fire to the case and hope that it disapears suddenly your whiping away the tears think with an act don’t get cought up make your way straight up to the top ] [ I’m out on a field blue sky on top sweet sweet meadow rain in a drop a sun that shines brings out the line of hills and horizon blending so fine shimmering pond with massives of life a lotus and toads along invisible roads a big tree on a small hill in the shadow lies a bull rebuilding it’s fatigue untill restored at full your life is a painting just like this pencils and paper paint as you wish ] [ make peace with god and shove him in his grave trust in the only thing you can see thats youreself, and all you can save spite towards the heavens but not the stars trying to hide the pain, lying beneath the scars praise the one who cant reach it all it’s not his fault that he’s not tall feel in the air, a bitter hint of realtiy raindrops on the street give your mind to the society and fall at their feet hit the dead, and burn the living just don’t expect me to be as forgiving as the god that you worshiped all this time he’s got no power here, this world is mine in my domain, there are only a few rules and their made by me I manipulate them at my own will that you can clearly see if you had the power of a god would you not do exactly the same of course you would you’d do anything to be apart of the game but you ain’t no master I’m the one in command with a flick of a finger I send you to the no-mans-land so shut it and stop messing around I’m tired of your whining get all of your shit together and try to start shining so they won’t realise that I am the only boss not the poor old fool that they hung up on that cross ] [ Beit eitthvað í mig eitthvað rangt eitthvað vitlaust og gat ekki sleppt því gat ekki hrækt því út því ég hafði kyngt því niður í maga og nennti ekki að æla það varð partur af mér. ] [ Réttir fingur fram að mér, feikna slyngur Hreiðar er. Múðalingur mömmu hér, mjög við glingur unir sér. ] [ Vinur komdu við hjá mér viljirðu gott barn heita. Ég ætla vín að veita þér og varla ferðu að neita. Árs og friðar óska þér, oft þú verðir glaður. Sé þig fullan fyrir mér í fínu stuði maður. ] [ Gleðileg jólin Marta mín megi almættið blíðast gæta þín og veita þér gæfu og gengi með glaðværð sem endist lengi. ] [ Buxnalásinn burtu klauf, brá út litlu skafti, sæðisgusu setti í rauf sem að opin gapti. ] [ ,,Gleymdu þér yfir glás af ljóðum\", sem geysast að í bylgjuflóðum. Þau fara á vefinn og fjölgar óðum og finna má á þessum slóðum. ] [ Taktu áhættu í lífinu af mistökunum lærist. Sannleikurinn bestur er, var mamma vön að segja. En hvenær er best að tala eða þegja? Hvenær má satt kyrrt liggja? Tilfinningin sem í brjósti mínu nærist get ég ei hamið. En ég þori ekki hjartað að opna, og taka af skarið. Nóttinni okkar get ég ei gleymt. Um aðra slíka mig hefur dreymt. Upplifað hef aldrei eins himneska nótt, hjartað mitt hamast í brjóstinu ótt. Þú sagðist mig ekki vilja, ég virðist það ekki skilja. Því á næturna nær þér ég færist, og í draumi erum saman. Glöggt er gests auga, mig margir hafa spurt, hvenær færir hann þér bauga á fingur, eða hvort? Stöndum við bæði á sama stað ég endalaust spyr mig sjálfa um það. Viltu mig? Viltu meira? Því ég vil þig og miklu meira! Er hægt að gera gott enn betra? Er hægt að leggja vinskap að veði? Því ef göngum við lengra, ei aftur verður snúið. Og verður þá allt á milli okkar búið? Ef við endum saman mun ég því fagna. En ef þú ert bara draumur, þá vil ég ekki vakna. ] [ Stelpan sem brosir innst inni hún grætur og í skóla hún lýgur um sínar innri tilfinningar. Ein hún gengur snjór á götum kemst ei lengra vegna sársauka sársaukinn varð að hennar dauða. ] [ http://www.nyttljodahverjumdegi2007.blogspot.com/ ] [ Ég einmanna er Ég vil njóta en ekki fljóta Ég er bara hér Með lappir uppí loft og hendurnar eru stop. ] [ Allir seigja við mig "falleg þú ert,," ég er fínust og fríðust En mig langar bara að vera blíðust. ] [ Hugsaðu til mín ef þú vilt Hugsaðu til mín ef þú mátt Hugsaðu til mín ef ég hef hátt. ] [ Ég vil þig kyssa. Ég vil þig eiga. Ég vil þig knúsa. Ég vil þig alltaf. Ég vil þig á morgun. Ég vil þig núna. ] [ Í Afríku.. kona ein ungabarn bar. Börn borðuðu grjónin smá. Fólk grét hvern dag. Þarna ég stóð,ég hugsaði Heppin ég er, Ég hef skóla Ég hef peninga Ég fæ nammi Og 2 foreldra. Hvernig er hægt að hafa það betra? Það veit nú engin. ] [ Ég þekki 2 konur, Þær heita Anna og Hanna Önnur er stór En hin syngur í kór, Þær elska samt Þór. ] [ Ég þekki tvo kalla Báðir þeir halla Einn er seinn En hinn beinn. ] [ Nú ég nýju ári fagna. Vona ég nú að raddirnar þagna. En hvað ef ég þær magna? Þær þá eta mig upp til agna. Ég mun láta ljós mitt lýsa. Og bið ég guð að líf mitt hýsa. Þá mun sál mín alltaf rísa. Líf mitt er ekki lengur ein krísa. ] [ ehe, segi ég, tómaturinn í sjálfri mér helvítis andskotans rauð í framan tómatur pottaplantan er líkkista mín og ég vaki á næturnar samt lifi ég alveg í sólinni sko takk guð mundur já ég bara stend hér tómaturinn í sjálfri mér sko fokking ég, er að reyna að leika eitthvert andskotans djöfulsins spilliverk eða semsagt, spilliefni bjór og þess háttar nú, nú ég bara stend hér tómatur túnfiskur ananas, kaktus, kamar, what ever tómatur held ég samt eða var það guðmundur? ] [ tapa mér í þér tapa mér ] [ Ljóðagerðin erfið er Og ekki fyrir alla Helgi harðstjóri er þver Við verðum hann að skjalla ] [ í þessum stuttu og óskýru draumum sem flökta um þröng aflíðandi strætin á leið sinni meðfram borgartrjánum í hjörtum skógarins lengst inni í nóttinni þar sem kolefnisdraugar dýrahringsins dansa einhver ármilljón kringum lífhvolf sólar í hverju heimilislausa tungli sem vaknar djúpt undir sjávarganginum og finnur sér veg í fari skýjanna, á slóð himins ] [ A certain emptyness arrives, filling up the remainings of my heart. Though it seem´s that my soul thrives, of loosing love and being apart. I reason myself that this is right, the right choice and the right way to go. But it feels that right just might, be the most painful way to do so. The understanding arrived quite quickly, amazing myself the most. Maybe it was just that timely, because it never happend, it was only almost. ] [ Þetta lítur rosalega vel út, ekkert smá girnilegt sagði ég og roðnaði strax því þú hlaust að vita að ég var að meina þig í rauninni ekki samlokuna þína og ilmandi kaffið þitt. Til að breiða yfir vandræðin flýtti ég mér að hella smá af mjólkinni þinni út í appelsínusafann minn. Ég horfði út um gluggann til að tefja meðan ég var að finna eitthvað sniðugt til að segja. Þú sagðir að það væri loksins kominn vetur og jólasnjór. Ég hló samþykkjandi og sagði að það hlyti að fara að opna í Bláfjöllum, alveg frábært veður og örugglega gott færi. Ég hnyklaði brýrnar og bætti við að það væri eins gott að aka varlega og fara ekkert nema maður nauðsynlega þyrfti þegar það er svona hált áður en ég áttaði mig á að þú hafðir spurt mig hvort ég væri upptekin í kvöld. Ég er á nöglum sagðiru. Getum farið hvert sem er. ] [ ég gleðst yfir nýfundnu frelsi bræðra minna er þeir hverfa á braut fljúga burt biðin ég gæti mín að falla ekki stundin rennur upp ég svíf á vit blámans án hugmyndar um hvar ég lendi læt aðeins eftir mig slátt vængja minna ] [ Ég hlusta á þig á kvöldin, ég passa þig á daginn, ég vil þig alltaf treysta á, mér þykir vænt um þig, ALLTAF. mundu bara,hvar sem þú ert, ekki gefast upp, ég hlusta,Ég stend með þér, ég mun elska þig af öllu hjarta. ég vil bara að þú vitir eitt, kanski er guð núna hjá þér. bara lítil fluga sem glápir á þig. ég veit ekki alveg en ... Guð er kanski ekki maður!. ] [ Því ég er allt í senn Sú fyrsta og síðasta Móðir Hóra Meyja Kall kjöltuglóðar og dreggjar drýgðra dáða Ég er allra alda Kornung og ævaforn Við erum gallarnir í kerfinu og risturnar á veggjunum Huggun harmi gegn Fórnin sem man Og miskunn þess sem gleymir Ég krýp, dýrlingur á fremsta bekk eða sönn dásemd á hnjánum Virðið mig öllum stundum Því ég er allt í senn Hneykslið og Dýrðin ] [ Táraþráður úr engilsaugum er eins bitur og jarðarsalt og gramur af sársauka en eins heitur og eldur í þyrnirunnum og bræðir frosinn anda Sálarmýkt drýpur með tárum og sá sem þekkir tár á bragðinu gefur deigju á þurrt land ] [ Börnin úti á götu eru alveg ein, yfirgefin,fatarlaus bara skinn og bein. “Afskaðaðu herra minn, má ég fá smá bita? Ég skal láta guðinn þinn góðverkið vita.” Faðir vor, faðir minn, ég var bara svangur. Ég hélt ég hefði valið rétt, En hann reyndist rangur. Litla hjartað slær nú hratt, Það er svo rosalega kalt. Þessa nótt, þessa köldu nótt, Kvaddi ég heiminn fyrir fullt og allt. Elsku mamma! Mamma mín. Þarna stenduru og vinkar mér. Ég hélt ég myndi aldrei sjá þig aftur. -höfundur ;Þórhildur árið 2000 - 7ára ] [ Ást,ást,ást klikkar aldrei. Ást,ást,ást heit ást. Ást,ást,ást njótum ásta. Ást,ást,ást slokknar. höf: Þórhildur & Heiðrún ] [ Hver er þessi heita geit er það hann eða hún ráðvillt ráfar á sinn reit rófa, rós þetta er Rún ] [ Fugl, ugla, spói, fíll Ripp, Rapp, Rupp, Mikki þetta er góður stíll Akkiles var góður grikki ] [ Ó mín fagra móðir mamma ég er búinn hart brauð, minn bróðir bingó, ég er hættur, lúinn Höf: Marteinn ] [ Nakinn í Edens Görðum, viðir tveir voru þar. Eigi mátti borða af öðrum, það eitt Guð okkur um bað. Þá með Guði við gengum, í garðinum sæll og glöð. Allt upp í hendur við fengum, eins og börn á sælunnar fjöl. Þá til sögu Satan skreið, í snáksmynd með eitur á vörum. Með eplin sín bragðgóð hann beið, beint úr syndanna körum. Þá uppljóstruðust augu okkar, er dauðan við fengum í arf. Nú til Satans syndin mig lokkar, Sjá, það er nú hennar starf. Guð til jarðar sinn son sendi, sonur hans á krossinum dó. Er ég dey á góðum stað ég lendi, Því veg til Guðs ríkis hann mér bjó. ] [ Regndroparnir á rúðunni Spegla tárin á vöngum mínum Blómið sem teygir sig í átt til sólar Sýnir þrá mína í birtu Hugsanir og pælingar æða um hugann En fáar komast niður á blað Þær stífla allt og þrengja um hjartað Einsog hjartað sé fast í hendi myrkursins Og kemst ekki í burtu Blómið hættir að teygja sig í átt til sólar Það fölnar og að lokum... ....deyr 9.jan ‘07 ] [ I dont know, How long, I can be there for You! But allways, Our love, Will keep strong! My love to you, Your love to me, Its a strong feling , You know, Baby i love you! I dont know how, i do what i do, i´m so mutch In love whit you. I wana spend, The rest of my life beside you! Baby i´m amaced by you Every little thing thet you do I´m so mutch in love you! ] [ ég elska þig mamma, ef þú elskar mig mig þykir vænt um þig mamma, ef þig þykir vænt um mig, mig líður illa mamma , ef þú ert leið, svo gerðu það mamma, ekki vera reið, því þú sýndir mér ljósið í myrkrinu mamma! þú sýndir mér þig,, ] [ þú gafst mér ást þína, enn ég vildi hana ekki þannig að ég hengdi hana uppá herðatré og setti hana inní skáp, enn seinna vildi ég, ást þína, og ætlaði að fara að sækja hana, inní skáp, enn þá hékk eitthvað á henni! það var of seint, önnur ást hékk á þér, hún náði þér, á undan mér! ] [ Girl Says;Baby is somthing wrong? Boy Says;No Why do you think?.. Girl Says;You seemed sad Boy says; Ok.. there is somthing wrong.. Girl Says; What? Boy Says; I am so Afraid to loose you , Girl says; O baby dont be afraid of that,Becouse where ewer i go, you will go whit me,, that is some true love ] [ you can not change me, you woldent try becose my wings are broken i can not fly, i´m stucket in á nigtmeare, i cry, i cry! ] [ Nammi sleikjóar,karamellur,kökur og kex allt mér finnst gott.=)=) ] [ MS til fjandans fer fer norður og niður eins og vera ber það er góður siður ] [ Eragon er drekariddari, ekki var þá til yddari. Safíra er aldrei sút, og hrekkur aldrei í kút. Arja hleypur um eins og kálfur, en samt er hún bara álfur. Skugginn Durza er svaka ljótur, en ógeðslega er hann fljótur. Galbatorix rekur við, alltaf þegar hann snýr sér við. ] [ Jólin efla vinabönd, leiðumst saman hönd í hönd, gleðjumst öll svo góð og fín, þannig eru jólin mín. ] [ Hún kom sem sunnanvindurinn með sólina handa mér og þér og hún skein svo ljúft og laðandi svo lýstist næturhimininn hún dansaði er dögun rann hún dansaði er kvöldið kallaði hún dansaði inn í nóttina og er morgunskíman merlaði hún átti það sem eftir var af eldi sem eitt sinn logaði hún gaf okkur allar gjafirnar sem í gær við fundum hvergi hún hló svo hátt í nóttinni hún grét er kvöldið kallaði hún brosti ein til birtunnar er morgunskíman merlaði svo fór hún burt í birtingu er bjarmi dagsins logaði og sólin hennar systir er og skýin hennar slæður við leitum hennar allstaðar við leitum hennar hér og þar í birtu morgunskímunnar í rökkri okkar hugsunar við leitum hennar logandi svo lýsist næturhimininn en hún fór burt í birtingu er bjarmi dagsins fölnaði og sólin hennar systir grét og skýin lutu höfði hún hló svo hátt í nóttinni hún grét er kvöldið kallaði hún brosti ein til birtunnar er morgunskíman merlaði ] [ Nú lokar bráðum barinn þó brjóstið ennþá þurrt öll fegurð okkar flúin fyrir löngu eitthvað burt einusinni var ástin einsog lítil falleg jurt. Við sátum oft að sumbli og skáluðum dauðan við við áttum allt og ekkert og engin sjónarmið nú lokar loksins barinn þar lýkur okkar bið. Við áttum eittsinn fegurð sem alla dreymir um nú fölnuð er sem frostrós svo fögur í kuldanum hún var rifin upp með rótum í rigningarskúrunum. Nú elskar enginn lengur því ekkert verður hér ég bið að barinn loki brátt á eftir sér hér var allt og ekkert og afgangur af mér. ] [ Hér er mín leið þinn kross og þitt ljós hér er mín löngun mitt blóm og mín rós þú gafst mér þinn veg þinn arf og þitt þor þinn vetur og haust og morgunsins vor. Hvert sem ég fer og hvar sem ég er þá hef ég það hér sem ætlað er mér Hér er mitt beð minn hringur mín hönd hér er mitt líf mín sála mín önd Þú gafst mér þitt bros þinn staf og þitt líf ég þarfnast þín alltaf er brattann ég klíf. Hvert sem ég fer og hvar sem ég er þá hef ég það hér sem ætlað er mér Hér er mín nótt minn morgunn mitt kvöld hér er þinn dagur þinn máttur þín völd þú gafst mér ó Guð þitt loforð þinn stað þú komst strax til mín þegar ég bað. Hvert sem ég fer og hvar sem ég er þá hef ég það hér sem ætlað er mér ] [ Sá ekki til sólar né ský á himni fann ekki frerann fimbulkaldann dó ekki Drottni dýrðar ljómans leit ekki lífið né leik að kveldi naut ekki nátta í niði köldu uns kom ég kaldur að krossins tré kærleikans Kristur kyssti frerann sól í suðri skein á himni lítill ég laut lífsins herra. ] [ Ég sá út um gluggann þó glerið væri rispað glötuðu stundirnar er átti ég mér í skrúðgöngu skunduðu út í ómælishafið og skáru í augun og glottu á meðan og blómin á botninum voru ekki mín né beðið þar fyrir neðan. Ég fann hvernig fólin þrömmuðu áfram og framhjá þær gengu allar sem ein í lotningu þær lutu með bundið fyrir augun og litu´ ekki á mig þaðan né héðan en blómin á botninum voru ekki mín né beðið þar fyrir neðan. Ég veit ekki hvort þær vildu mig svíkja því varla´ er ég þessi né hinn sem ég var ég eittsinn var ungur og allur til reiðu og ekki er víst að þær hafi séð´ann því blómin á botninum voru ekki mín né beðið þar fyrir neðan. ] [ Förum aftur fáein ár já, fimm til tíu upp á hár er himininn var grár og að velli hniginn ég sé það núna enn á ný að ekkert hylur gullið ský og hvar er hann nú himnastiginn. Ég sökk í gljúpan gróandann og greip í mjúka talandann og þannig skal ég lofa þig meðan lifi en alltaf skulu óttast þeir sem aldrei geta gefið meir en hlæja hátt þó klukkan sífellt tifi. Þú munt lengja lífdaga og láta verða margsaga alla þá er áttu rétt á hljóði því skýin skulu vernda mig ég skelfist ekkert, ég á þig og saga mín er sögð í þessu ljóði. Lát mig gista´ að Götu í nótt og gráta þartil allt er hljótt því lygarans munni mun brátt verða lokað strætið verður svæfill minn stundum get ég verið hinn eða þeir sem eittsinn var yfir mokað. En Guð minn nú get ég ei greint í sundur já og nei en allavega ert þú það sem ég þrái ég er maður til mikils vís ég missi ekki af Paradís því þú svarar öllum mínum spurnum með jái. Mig dreymdi draum í nótt sem leið um drauga sem ég átti´ um skeið ég lokaði öllum dyrum og dró fyrir gluggann ég leit í gegnum lófa minn og lagðist bakvið steininn þinn þrjár konur þögðu allar uppvið skuggann. Þær sáu ekki er ég smaug út þær smyrja vildu mig með klút en ég var frír og á burtu floginn nú loksins alltaf lifir hann og lýsir fyrir konu og mann því tendraður er hann lífsins loginn. Ætli ég vakni enn á ný ef aftur verður sólin hlý eða erum við enn fyrir átta árum? Ég hegg nú loksins á minn hnút héðan liggur leiðin út er harmur minn hulinn gleðitárum? Nú hallar helgum degi skjótt ég held að mér sé orðið rótt ég veit það ert þú sem eftir mér sendir nú legg ég aftur augun þreytt því ekkert hér mig getur meitt og bráðum kemur byrjun þó hér sé endir. ] [ Það er vottur af fegurð sem flögrar hér um fallnar konur og menn á kreiki í glösum er glóð sem eitt sinn var hlý og gamlir draugar enn á reiki. Hér er eitthvað sem er mér algjörlega nýtt en alltaf þó var hér til staðar dagurinn er til,ég man það á morgun og mínútur líða æ hraðar. Ég skynja það með skammtafræðinni og skemmti mér á meðan ég get aldrei farið héðan Ég get ekki gleymt því, nei það var aldrei til né get ég á heilum mér tekið sjáöldur og bárur þær sátu um mig og stjórnlaust þær hafa mig rekið. Ég skynja það með skammtafræðinni og skemmti mér á meðan ég get aldrei farið héðan. Ég get ekki heilsað, kvatt né komið á ný ég kannast við engan og alla ég get ekki hangið né hríslast hér um né hoppað til þess eins að falla. Ég skynja það með skammtafræðinni og skemmti mér á meðan ég get aldrei farið héðan. ] [ Ég þakka þér fyrir dansinn sem þú ein gast dansað öll svörin í hyldýpiö sokkin og spurningum aldrei ansað allt var fullt af fegurð og feigðarangan í vori ég teigaði tæran himinn en tapaði þínu spori þú dansaðir við dökka nótt og duflaðir við kvöldsins eld og jöklar og jötnar hnigu og játuðust þér öll kveld. allt var fullt af fegurð og feigðarangan í vori ég teigaði tæran himinn en tapaði þínu spori ] [ I don't understand why you hate me so much I don't understand why you fear my tuch I don't understand why you broke my heart I don't understand why you made me so sad I ask myself: "why are we apart?" And think of all the times we had ] [ Það er margt sem hrjáir mannanna börn, manndómur horfinn og eymsli í görn. Við erum lánsöm sem að lítum vel út og lifum í gleði en ei barlómi og sút. ] [ Eitt sinn var Óli. En það var ekki hans rétta nafn. Ólafur er ekki nafn á strák með sand á milli tánna og drauma á stærð við fótboltavöll. Óli veit að marblettir eru ekki það versta í heiminum en samt grætur hann skítugum tárum. Þegar Óli verður Ólafur gleymast draumarnir en ekki skítugu tárin. Marin hné breytast í kramin hjörtu og sandurinn í glerbrot. ] [ Sorgarlagið. Ó hve ég man er sú leið var löng yfir fjallið við fórum. Til heimilis þíns með sorgarsöng, þú bjóst ei við fréttum svo stórum. Tárin þau runnu og augun svo sár vildu ei framan skilja. Því í sál þinni minningar svo fljótt brunnu sem aldrei þú myndir hilja. En stúlkan þín dó nú í höndum mér, ég veit þú munnt hennar sakna. Hún bíður á himnum eftir þér þegar þú hættir að vakna. Sorgarsöng er syng ég senn lætur þig ekki fjúkja. Takt’í hönd mína og segðu enn lífinu er ekki að ljúka. Védís Kara Ólafsdóttir. ] [ Um ungan aldur, einelti var það. Var lamin & hökkuð, Niður af bekkjasystkynum mínum Lagðist í dvala, hinu drungalegu lífi Læsti mig inni, í mínum eigin heimi Nú ligg´ég hérna ein Þetta endaði svona Útaf einelti, drap ég sjálfan mig. höf; Védís Kara ólafsdóttir ] [ Hver er þinn þrándur þrándur í götu lífsins ég ákalla almættið og þrándur ásækir mig ] [ Litlar píkur segja klikk klikk klikk þegar þær labba fram hjá þér. Stórar píkur segja líka klikk klikk klikk en á annan og stærri hátt. Litlar píkur Ég er lokkandi klikk klikk klikk og kyssi þig með titrandi blautum smápíkubrjóstum. Maddaman fer á eftir hrópandi !Skækja veifandi ónotuðum snýtuklút. Sjálfur segi ég Góða nótt og hjúfra mig innan í supersized vulvu risapíku sjúgandi lafandi stórpíkubrjóst. Myrkrið er loðið og ég verð háður þögninni. ] [ Stóri-Jarpur stæltur er stiklar létt um gjótur. Sporar ísa, móa mer, mjög til ferða skjótur. ] [ Kommúnismi, kapítalismi. Er höndin rauð eða blá? Módernismi, anarkismi, póstmódernismi, súrrealismi. Hvaða "ismi" skyldi koma næst? ] [ Í dag þegar déskotans veturinn skall á datt mér í hug.að ég gef frekar öndunum brauð en ókunnu fólki sem sveltur í útlöndum Og ég vil heldur klappa köttunum sínum en kyssa slefandi ungabörn. ] [ Geitin er best eins og þú lest í þessu ljóði úr heitum sjóði. Ljóðin ég malla í miklum halla. Hoppa upp kletta og hitti þar Letta. Var hann villtur eða spilltur? Hundaól hann hafði, og tungan hans lafði. Át hann til matar því ekkert hann ratar. Vonandi mun hans enginn sakna Því aldrei mun hann aftur vakna. ] [ Hvenær ferðu ? Spyr sálin þig Þú ferð Gangan þín hefur tekið tíma Gangan að mér En þú ferð Sérð fallegt ljóst hár, blá augu Sérð mig Horfir og ferð Ég læt þig hlæja,gráta Ég læt þig elska En þú ferð Ég spyr þig ekki afhverju Þarf ekki að vita svarið Bara það að þú fórst Þá veit ég Vonandi ferðu ekki strax ] [ Ég hef aldrei gerst það frægur að vera frægur ] [ Engill að nafni Andri var rekinn úr starfi eftir að hafa gleymt að tilkynna nýjustu íbúum himnaríkis það að á svæði þess fyrir ofan Ísland væri óveruhæft um 12 á miðnætti á gamlárskvöld. Margir þurftu á áfallahjálp að halda eftir kvöldið ] [ Maður nokkur gerði tilraun til bankaráns íklæddur trúðabúningi. Honum var ekki tekið alvarlega og voru réttir Monapoly- peningar og blöðrur ] [ Svartu himnn og sviðin grös, börnin í öllum löndum gráta. Fátækt fólk með hor í nös, hermenn saklausu fólki slátra. ] [ Þann dag sem gúrkur eða kál fara vaxa í handarkrikanum á mér, veit ég að gróðurhúsaáhrifin eru heldur betur farin að láta finna fyrir sér ] [ Árshátíð Alzheimer-sjúklinga var að vanda fámenn þetta árið þrátt fyrir miklar vonir stjórnarinnar ] [ Ég rita til þín orð á meðan ég sit á dollunni. Vill með því segja þér að ég gef skít í þig ] [ Ætli Gunnar á Hlíðarenda hafi ekki verið smá feministi? Ekki á hverjum degi sem maður les um fornaldarhetju sem notar bleika litinn í að lýsa heimahögum sínum "Áfram stelpur" eða hvað Gunnar? ] [ Ávallt fer tíminn alltof fljótt feykilega hleypur skjótt á tímanum missum ætíð tök samt á tíminn litla sök hve fólk er orðið ljótt ] [ Have you ever felt like you are nothing? Have you ever felt that everything about you is wrong? You look like shit, everyday people look at you, because you are different. If so, how did you feel? Did it make you feel bad, sad or lonely? Did it make you feel glad, happy or relifed? It made me feel like Nothing.. ] [ Ein í horninu, hinumeginn, allt i sama farinu. Bið, ein herna meginn, aðrir, einhvern veginn ekki alltaf hér. Berst við ákveðna löngun, enginn veit, lífið er i þröngum göngum. Allt ákveðið, ekkert frelsi, allt er frágengið. Föst.. ] [ Tóm eins og tómur pappakassi sem þú finnur úti á götu og sparkar í svört einsog svartnættið í algeiminum nokkrar stjörnur tindra hér og þar engan vegin að sjá tilgang með lífinu næ nokkrum andardrættum í viðbót bráðum kafna ég hjartað verður dekkra og dekkra ljósið hlýjar mér og gefur mér styrk hjartað hættir að slá þú getur ekki lífgað mig við nú líður mér vel 15. jan 2006 ] [ Miklaði fyrir mér eldfjall og brann. Það var ekki aftur snúið. Skaðinn var skeður. Upp á fjallið fer ég ekki. Enda, aska. Og ekki get ég litið um öxl. ] [ Sos meen save our soals, save oue soles menns SOS Come, we will say; Yes,yes yes yes YES! Our life is a totaly mess Come Quick, I wont somthing to drink, my stoach have shrink and I think I going to Die But why? I going to survive but here are no live nothing fore my dish or kniw Hay yo I*m going phsiko it´s like O´h so pai-i-infull. ] [ Dagdraumar sækja að mér úr öllum áttum Stíg inn fyrir og blaðra við sjálfan mig í sólinni Þar er önnur tilvera með vonir, þrár og helvítis drama ] [ Ég sagði ykkur frá lauknum listaskáldinu vonda Ég sagði ykkur frá lífinu hinu vonda íslensku ljóði Af hverju er maðurinn svona vondur? hann mengar hugsun mína Hver var þín fyrsta minning? það var hún Píla Pína. ] [ Ég vil nota þetta tækifæri og þakka dómnefndinni fyrir innsýn sína. Ljóðið mitt var að sjálfsögðu besta ljóðið. Besta ljóðið mitt. ] [ Maðurinn minn er demanti já, hann er einsog óslípi sem ég fann Maðurinn minn hann er hættur að vera vondur við kennari Það var í nítjanhundruáttatíuogfjögri en ekki eftir Orwell Maðurinn minn er tilfinningaveri Hann er svo góður Ég vil alltaf vera gifti manninum mínum Já ] [ Ég er fiðrildaljóð þú vilt semja mig Ég er kona þú vilt sleikja ] [ Ef að djöfullinn ætti ekki gaffal og engillinn ekki vængi ? Gætum við þá kannski verið betri hvort við annað. ] [ hvorki er fiskur né heldur fugl fræðin strengja er orðin löng. hún er ennþá eintómt rugl og ekki einu sinni röng. ] [ Hvað hver ha? ha hvað hver? hver ha hvað? ] [ áfengi er minn heimur dimmur og góður keimur upp og niður áfengið fer í þetta fallega postulínsgler ] [ 1.e Hér með vil ég tilkynna yður að hver er sinnar gæfu smiður Lassi gekk son sinn niður og barði hann já það er slæmur siður á drengnum er helmarinn kviður Já hann Lárus handalögmál styður og grípur æ oftar til þeirra því miður En nú fékk ég nóg og snéri hann niður Treglega hann loks um það biður að ég hætti því framar muni verða friður Ég fann að sérkennilegur kliður kom um mig þegar ég rak úr hans iður ÆÆÆ um huga minn féllu níþungar skriður 2.e Lassi sá aldrei aftur til sólar og á honum nú lítið bólar aldrei aftur um bæinn hjólar því nú halda honum sterkar ólar á hann komast sannarlega engir kjólar við honum tóku heldur engir skólar og í örvæntingu sinni Lárus gólar ég vildi að hér væru fáeinir njólar og einn eða tveir hægindastólar en það eina sem í kringum hann rólar eru tveir lásí leiðindadrjólar á lífi hans nú eru ei margir pólar og lífið þýtur hjá og yfir hann spólar ] [ Vopnaður maður á Austurstræti, gengur um og er með svaka læti. hvar er löggan, hún stoppað gæti, í löggubíl hann fengi nú sæti. Gamall maður skurð hefur hlotið, ætli sá vopnaði hafi hann skotið? Reglugerðir hann hefur brotið, ekki fer hann heim í kotið. ] [ Skugginn minn elti mig uppi hann spurði mig hvað í andskotanum ég væri að gera ég sagðist ekki vita það. ] [ Villtur vafra um netið vinstri eða hægri týndur. Tengdur og tjatta við hvern tala ég einn. ] [ Ég verð fórnir að færa, og fara aftur að læra. Skrifa daginn út og inn, blessaður pabbi minn. ] [ Úði Þögult regn hvolfist yfir mig hylur mig svo ég týnist ekki Regnið leiðir mig heim Stjörnurnar blika líkt og draumar þínir þegar við horfumst í augu ég og þú Með töfrastaf skínandi snart ég alla þína drauma og galdraði að veruleika Sem við getum átt þú og ég ] [ Nostursamlega spannstu vef þinn Lokkandi lygar leiddu mig til þín Örþunnur þráðurinn sker mig inn að beini Brot hjarta mins liggja dreifð Blinduð var ég Lömuð er ég og get mig hvergi hrært ] [ og hann leit yfir storknuð árin glaður en með brosið öfugt og fann hve létt byrðin var þegar hann var við það að sleppa og jafnvel þótt hann vissi að hann ætti að hugsa um lífið áður en það þornaði og skorðaðist datt honum aðeins í hug orðsending frá því að hann var ungur og alvitur og fann servíettu frá hann man ekki hverjum í vasanum en á öldugangi pappírsins mátti lesa: "ég skemmti mér vel. endurtökum leikinn við tækifæri." ] [ Ungi maðurinn spyr: "Hvað eru ljóð annað en sóun á pappír?" Gamli maðurinn svarar: "Hvað er æskan annað en glötuð tækifæri?" ] [ Ríkið lætur höggva niður tré, viðurinn er svo notaður til að búa til kurl sem notað er í skógarstíga. Alveg yndislega kaldhæðnislegt. Verðmæti framleiðslu er skilgreint af nefnd sem: Beingreiðsluafurðalágmarksverðgildisákvæðisreglugerðarþáttur. ] [ Reykvískur rasisti réðst inn á Reyðarfjörð, rændi og ruplaði, reikningum og ræflum. Hvað eru mörg err í því? Ekkert, fávitinn þinn! ] [ . ] [ Líkið flýtur á tjörninni. Brosið er blátt. ] [ Innflytjandinn í höfninni kom alla leið frá Rússlandi til að selja okkur nýjan lit, heilan skrokk og minna slit. Um úthaf hann sigldi, barinn af veðri og vindi til þess eins að setjast að á þessum einskis nýta stað. Og enn sýnir hann varla á sér fararsnið. Hikar ekki við að doka við, virðist líka þetta tilgangslausa, daglega amstur sem er tilvera hans. Hann kemur ekki einu sinni í land, virðist bíða þess að vatnið í kringum hann frjósi, og bjóði honum þannig afsökun, fullkomna afsökun, til að fresta morgundeginum um ókomna tíð. En erum við svo ólíkir, innflytjandinn og ég? Er það ekki heimsins mesta böl að mega kjósa? Ég játa að frelsið er lítið annað en tálsýn sem gerir okkur kleift að sætta okkur við fangelsi hversdagslegs lífs. Ef ég væri frjáls eins og fuglinn, léttur eins og vindurinn, ef ég væri hafið myndi ég líka frjósa. ] [ Það tilkynnist hér með að ég ber enga virðingu fyrir skapara mÌnum. Hann tók sig til, skapaði eitthvað úr engu og þóttist hafa gert eitthvað merkilegt. Það tók hann varla nema hálftíma. Hann hefði betur vandað sig, gefið sér góðan tíma í verkið og skapað eitthvað sem vert væri að gefa gaum. Næst vona ég að einhver segi honum að vanda verk sín betur áður en hann gefur þeim ófrumleg nöfn og sendir þau út í heiminn illa undirbúin, lítt ígrunduð, meingölluð. ] [ klukkan er 12.00 ég ligg nakin í dögginni umlukin ilmandi grasi sem stingst upp í rassinn á mér klukkan er 12.01 ég er að frelsast og þroskast hérna í dögginni samt er mér ískalt klukkan er 12.02 ég heyri ekkert hljóð ekki einu sinni fugl kvaka enda er dögg í eyrunum á mér klukkan er 12.03 ég heyri samt eitthvað þrusk mjög óljóst en ég verð víst að rísa upp núna því það er einhver að koma. ] [ barnið stóð fyrst aleitt og starði niður í götuna barnið var klætt í bleikan kjól með slaufu barnið stóð enn aleitt og starði fast niður í götuna barnið starði á hvíta skínandi klessu á götunni barnið stóð ennþá aleitt og starði fastar niður í götuna barnið varð reitt stappaði niður fótunum og fór að gráta það hafði misst sunnudagsísinn sinn ] [ Lítil hleypur og hoppar hágt. Brosir og hlær, talar ósköp lágt. Feiminn lítur undan fer og felur sig. Allt saman gert til að leika við þig. Litli stóri Moli litli nafni minn. Ég er stoltur að vera frændi þinn. ] [ Fæddur er engill fagur lítill með mikið hár. 14. nóv er hans dagur um fjölmörg ókomin ár. Fínleg og falleg er hún svo lítil og rosa sæt. Ber nafnið góða Guðrún og verður alltaf dýrmæt. ] [ Það er nú bara eins og það er, sagði pilturinn er hann horfði á sig í speglinum. Klóraði sér vandræðalega í höfðinu og velti fyrir hvað það þýddi. Það er nú bara eins og það er? Honum langaði í sígarettu. Eða leið þannig. Lungun voru eitthvað svo tóm. Samt reykti hann ekki. Aldrei. ] [ Villingarnir í genginu Purupiltar áttu aldrei neinu fylgi að gegna enda nafnið á genginu vægast sagt heimskulegt og minnir mann á jólin frekar en einhver hóp af vandræða unglingum. Það má segja að meðlimir gengisins hafi aldrei þótt góðir í íslensku ] [ Ég elska Þig! tókstu eftir skáletruninni? fyrir þig skal ég skáletra allt! en tókstu eftir lítilstafselskunni? (og stórustafsþú?) fyrir þig skal ég hundsa þessa smásmugulegu ísmeygilegu tilfinningu smeygjandi sér milli hinna og þessa sem ekki eru á neinn hátt jafn merkilegir og Þú! svo ég skal hrinda ástinni frá mér hún skiptir ekki máli ég þarf ekki á slíkri hóru að halda. Ég Þig! og ég skal jafnvel lítillækka æskuna sjálfhverfuna og smætta hana niður afneita póesíunni Ég Ég Ég ÉG sem er löngu hætt að brjótast undan vafa: Þig! (því þessi ást felst í þér en ekki sjálfri sér sjálf segir þú allt.) ] [ Hún söng Love me do og dansaði í rigningunni. Hann flautaði Twist and shout og rölti heim á leið. Nóttin söng til mánans um ljós í myrkri og vísdómsorð. Sá gamli sat við eldhúsborðið og hugsaði um Yesterday... ] [ S6╧.Dù∙┼╠ß╗.@ΓAÅ*.é¿┌┌GΩ╤[*!φ┘µ├±╧1v╒0±╞*H╡*°⌡▌Z{**⌐t╣Æap╧╖?[╩* ╬*Ö▄Z@÷╡î#YMA╣Q :^╩'ôσ╖╩"ñ═α±v(r'┴─ ∩N@ß2[x║LîQ*ΘadîZ╡Θ╒@5W[ܱF*mΓ⌠***B≈0┴ì≈k*·≈╒*x@║óƒ*:p*>nCÖÜNYJ¬█64▀v*áê╧lùü>ßN3ñ├~6╕*X6**+éé÷å½**N╟Ω·º} ¡>Ai¢0ì--█âtö╛⌐K*┼╥*`ΓfFFdg*∩ Å▓Çç)É¡;φ╤Zf5█¬ä╛àº4┼*üa╔>■}≥w*lZí**Æ┌X▓*û¬»¡èú╢*c ─"┼ üla{²ó■Φ-d[ÿƒjùtùk-> <éé╙╥>╤₧î▓*│*ÿ╚α╓oàFè╠`*╙¥*èOΣâÿëX.ź╧@**5╬┌** τ╟o₧┘dñÅj╓*1⌡o9T│Llöæ*█┌*O9▌w╬g╫7ñ:¥*?7╢╜░º¥»ö ╧≤@₧BlL█*åâ*/µ═ñfαLñEíw╟∙│╙√y╦J-xⁿ≤α╠@│Iü╞NPî*┴■╩*ⁿö*î∙ƒ▓J≡┌┴*╢.=b@╞~R║t*╟*W_⌐╞Io¬┌ëêαg░* Γ1p╣x+*T¬ë* c≡╖Ç*è*'_╦┌, ½&¢*│*▓▓ü█¥ºⁿ─ï╤M!╥vc¬╥╜≡ad*Eñu╠#KL─½í*«é.τ≈ÿT(Ux°≈⌠└=╘70vÖ)d*RbåXù*¬º*╥*▄¿▐-)b4k]qF>ª*µ╛U∩n*ΦÖ─"*U▄P▌┼h;¬AÖnáƒh*z┬╗╧■£bΦSÖδcπÜÅ╙0╣xYp┤ß"╔+∩╩∩╛|å≡»m⌡pÆ⌐ß¼¿c╙ α╒½¬*Θñ1W¼╣≈H▐⌡@L─ë╢╛£*╕Y╛*▓┴·ón8 B¡ qn≥╔Σú*r█*O╨╗2Φè*¬?'┘.πå½░╚»rz╘HÅ**** ┬0;****#****]@ α║S! *╘ñ6÷*** *╨Æ╝**▀╞**** ] [ Að hafa sál sem enginn sér, að heyra sitt eigið hjarta bresta, svo sárt. Yfirþyrmandi einmanaleiki sem hellist yfir þegar síst er von á. Að vera að kafna undan sjálfum sér, en geta ekkert gert. Að brosa og hlæja og gera sér upp gleði svo maður fær ógeð á sjálfum sér. Að sjá vonir sínar renna út í sandinn er svo sársaukafullt að því verður ekki lýst með orðum. ] [ Að horfa en sjá ekki. Að hlusta en heyra ekki. Að snerta en finna ekki. Að vera svo veruleikafyrrtur að ekkert kemst fyrir nema þessi eina hugsun svo brengluð, geta ekkert gert nema eitt. Vera svo háður að ekkert skiptir máli nema þessi stutta ferð upp í himinhvolfið. Detta svo en lenda ekki. Falla og falla án þess að snerta nokkurntíman jörðina. Ranka svo við sér og vita að það er orðið of seint. ] [ Langar að öskra langar að emja get vart hamið mig af innbyrgðri bræði. Ég er svo reið svo reið út í samfélagið. Að slíkt óréttlæti og ómennska skuli líðast í eins þéttu samfélgi sem er svo brenglað en ætti þó að vera svo heilsteypt. Að hafa samvisku í að gera örðum annað eins, að vera slíkt ómenni að geta sært einhvern svo djúpt og eyðileggja líf hans eða hennar. ] [ Þú varst og ert mér ávallt móðir , í köldum klæðum sem halda á þér hita. Í hvítri kápu stenduru einmana í köldu sundi , en þegar ég kem í júní sýnuru mér það sem guð hefur litað. Svo sterk og stór þótt svo smá og týnd. Svo ber og hógvær þótt þú gætir keypt þér sólina. Þú hefur alltaf verið og munt alltaf verða Friðsöm,gáfuð og góð. Og þú munt aldrei , aldrei verða eina af stjörnunum, því þú ert einstök. ] [ Quietuses poring over a founders park, whilst we stood on our digits by the bank. The indignant ghosts in a stargazer´s home, Where the fireside´s alway cold. The man strode down the ancient corridors, and the big gray shade against the sky is now the dank haze atop of the town... and not just there, but it was a universal spot upon the pole, --it was everywhere. And the giant nuance, where the sunflowers grow, the hills we built, they are dead, --they are bold. We, the moony buildings, need our rod to stand. You, the lily-livered heavens, where´s our blossomy land? The last sleep out for the cot to sag, the moist ground shouting for a corolla and bed; the saviors hand in an arid wire spiderweb. The aglow flaw parking around our naked necks, and through the yellow jamb we keep our eyes; "Oh, the dying light! We are blind! We are blind!" The latent sooth hidden under our impotent roots, we dread the aroma of you; oily written rune of a dead lune. --The blundering driver of our locomotive. (... And the last dusty trail to hide we seek.) ] [ You want me weak when I am strong you want me strong when I am weak You want me close when I´m away you want me gone when I am there You want my love when I don´t show it and when I do, you do not see it Still you wonder why I cry What am I to you ? ] [ Drottinn sagði; verði ljós ekki ljósasjóv, ekki sprengjur, og ekki sagði hann verði eldur Drottinn sagði; verið góð við hvert annað. ekki skjóta hvert annað, ekki pynta hvert annað. ekki sprengja hvert annað Þið eruð svo að miskilja hálfvitar skafið útúr eyrunum og reynið að fylgjast með... .... það mætti halda að þið væruð með athyglisbrest ] [ Elsku litli hjartans ungi lékst þér og spilaðir, aldrei drungi fallegt bros, smitandi hlátur þó mamma framkvæmdi bara grátur. Með óhreina bleyju og skítugt hár alltof alltof mörg ógróin sár mamma að drekka, pabbi að dópa enginn heyrði þig eftir hjálp hrópa. Barsmíðar, öskur, grátur og martraðir aldrei, aldrei þú gafst upp og kvartaðir harkaðir af þér og sárin þú plástraðir með skömmina á bakinu í skólann þú haltraðir. Í skólanum þér var alltaf strítt og ljótu orðunum í þig grýtt heima þú komst eftir mikið basl en þar tók við rusl og drasl. Svo var það einn dag í janúar að ekki var allt eins og áður var þú hafðir komist í það sem pabbi tók inn þú hafðir náð í sjálfan djöfulinn. Öskur, barsmíðar og beiskjafull tár hræðsla og skömmin í ellefu ár nú ertu farin elsku engillinn minn alveg eins og hann bróðir þinn. ] [ “Ástin er eins og lím gubbaði eitthvert gáfumenni útúr sér” sagði hann og hellti meiri vodka í glasið... Ekki fann hann neina sem passaði sér Hringurinn passaði ekki lengur á hana... ..hún var orðin of grönn Hringurinn passaði ekki lengur á hann... ..hann var orðin of feitur Ég held að tonnatakið virki bara ekki á svona hluti. virkar bara á tré. og hann kláraði seinustu dropana úr flöskunni ] [ - Mamma, hvar er pabbi og Saisha? - Þau eru hjá Allah núna. Vondu karlarnir í Ameríkunni tóku þau. - Af hverju? - Því þeir vilja ná landinu okkar - En mamma, þeir eiga land, þurfa þeir að eiga tvö? ] [ Þið getið þetta strákar! Koma svo! Þið hafið svo frábært vatn og svo fallegar konur til að horfa á og svo ég tali nú ekki um bláu fjöllin og grasið græna svona þið massið þetta bara! svona eins og Hannes Smári eða Björgólfur Thor. Takið bara einn léttan á þetta. ] [ Lífið er eins og óskrifuð bók skrifuð af almáttugum höfundi skapara persónunar. ...eins og óskrifuð bók, það sést ekki hvernig endirinn verður fyrr en á seinustu blaðsíðunni. ...dagar líkt og blaðsíður, vikur verða kaflar Upphaf.....Endir. Sumir lesa bókina með öðru auganu, Sjá ekki smáatriðin, flétta í gegn, fljóta með. Kíkja á öftustu blaðsíðuna bara til að sjá endirinn. Aðrir lesa hverja blaðsíðu, með gaumgæfni Njóta hverrar blaðsíðu og því sem hún hefur upp á að bjóða og láta endirinn koma sér á óvart. Lífið er eins og óskrfuð bók... ...þú veist ekki hvernig bókin endar, En þú getur skemmt þér við lesningu Notið gleðinnar, sorgarinnar og óvæntu atburðanna og látið endirinn koma þér á óvart. ] [ Ég hjóla heim á nýja hjólinu mínu úr vinnunni með samloku í poka í glænýjum skóm. Ég sé konu sitja á bekk með aleiguna við hliðina á sér með lífið í lúkunum. hún brosir, brosir tíl mín ég fer af hjólinu og labba heim berfætt ] [ Af viljanum knúið sambandið lúið horfið allt grúvið allt er búið ég gæti flúið ekki aftur snúið gengið í krúvið. ] [ Orð eru orðum betri ef þau orðuð eru rétt. Texti er skrifaður með letri hann myndast hægt og þétt. ] [ Ef ég reyni, Þá heyri ég hlátur þinn Og man brosið blíða. Ef ég reyni, Þá finn ég ilminn af þér, Og mér hlýnar allri að innan. Ef ég reyni, Þá finn ég hlýtt faðmlag þitt, Og ég vil ekki sleppa. Ég reyni. ] [ Dulúðug og spennandi Eitthvað sem er stærsta takmark lífs þíns Eitthvað heitt og rennandi Rennur hratt að skauti mínu og upphafi lífs míns. Þessi ónefnanlega tilfinning mín Brýst í líkama mínum og hjarta Yndislegir hlutir líkama þíns, snerta vit mín Og sú snerting er óendanleg, veita mér hlýju bjarta Eitthvað svo fallegt, eitthvað svo gott Okkar leyndarmál, svo fagurt og rétt Ekkert er ljótt, ekkert er vont Allt er svo nýtt, ég endurnýjast, allt verður svo létt Tveir líkamar renna saman í eitt Sameinast í einu andartaki Að ein athöfn geti svo mikinn unað veitt Ein athöfn á einu hvítu laki Unaður, spenna, ást og hlýja Sameinast í mínum líkama og huga Mér sýnist ég sjá inni í veröld nýja Þar sem allt er óendanlegt, allt í mínum huga Svo líður andartakið hjá, við stoppum Stoppum og horfum hvort á annað Snertumst hægt, kyssumst létt, vorum saman á toppnum Leggjumst hlið við hlið, höfum nátturuna að fullu kannað ] [ Ég sitt inni á bar Og horfi í gegnum reykinn Ert þú kannski þar? Situr þú þarna og syngur sama sönginn Sönginn sem þú syngur á hverju kvöldi Sönginn um þrána í brjósti mér Þrána sem syngur í huga mér á hverju kvöldi Syngur stöðugt í hjarta mér Þú veist ekki hver ég er Þú horfir alltaf í gegnum mig Ég sit alltaf í horninu, og ég kvöldinu ver Í að hugsa um þig og hvernig ég get nálgast þig Ég sá þig fyrst fyrir mörgum árum Þú varst ungur, fagur og stoltur Nú hefur þú gránað, tapað nokkrum hárum En samt ertu ærslafullur, eins og ungur hvolpur Ég hef komið á hverju kvöldi í nokkur ár Setið á sama stað og horft á þig Og nú er lokakvöldið, þú fellir saknaðartár Þú ert hættur hér, aldurinn hefur fellt þig Nú stend ég upp, geng til þín Og segi; ,,Halló, ég býð þér í glas” Þú segir ekkert, horfir í augu mín Stendur svo upp, ferð, villt ekkert mas Nú ertu dáinn, grafinn, farinn Ég sit inni á bar, og hugsa um þig Ég mun þig alltaf elska, þó þú sért dáinn Þó svo að aldrei hafir þú viljað mig ] [ Ég stend á svartri klettaströnd Stari út á hafið Það starir á móti með sægrænum augum Og hvítfextar brúnir Og ég spyr: ,, Hefur þú ekki fengið nóg?” Ég stend á hvítsendri strönd Stari út á hafið Það sem öldurnar leika sér við fuglana Og hylla Ægi konung með gljáfrandi hlátri Og ég spyr: ,, Hefur þú ekki fengið nóg?” Ég stend á sjávarströnd Stari út á hafið Það loks svarar mér hryssingslega Og skvettir seltunni á mig: ,,Aldrei, aldrei fæ ég nóg. Alltaf mun ég taka og gefa Eins og ég vil og enginn mun geta breytt því...” ] [ Um þennan heim Er lítið hægt að segja En enginn skyldi lá þeim Er frekar kjósa að þegja Því er er allt gott Sem manneskjan brallar Hún segist vilja öllum dýrum gott En síðan þau niður sallar Grænfriðungar malda í móinn En þeir eiga við heilan her að stríða Því drápsmann telja það út í bláinn Og miskunnarlaust á dýrunum níðast En hvernig verðu okkur við Þegar dýrin hverfa? Þá leggjum við Grænfriðungunum lið En þá er það um seinan Þess vegna, verið góð við dýrin Þau vilja okkur ekkert íllt Gefum þeim frelsi Þeim líður yfirleitt betur villt ] [ Sannleikurinn var úti og hurðin læst. ] [ Hljóður er dansinn sem tungurnar dansa, hljóður er guðinn sem fjóra ber kransa. Hljóður er söngur sem fuglarnir syngja, hljóðar eru göngur sem elskendur ganga. Hljóður er vindur og rigningin með, hljómlausar kindur og það sem hafði skeð. Fagur er ljósdansinn logarnir dansa, fagur er einnig mynda guðinn sem fagra ber kransa. Fagur er augnanna söngur sem augun mín syngja, fagrar eru göngur sem augu mín ganga. Finn það er vindur því að hárið fer með, mjúkar eru kindur en eigi það sem hafði skeð. ] [ “Ég hef engan tíma,” sagði gamli maðurinn og ýkti því hann nennti engan veginn að ræða við börnin sem umkringdu hann líkt og naktir indíánar. Nema, þau voru alklædd með vettlinga og héldu klaufalega á skóflum. En þau þyrsti í sögur frá vitringnum, frá sögutröllinu ógurlega. “Ég er gamall. Ég er að deyja,” sagði hann. Með leikræknum tilburðum. AAAAAA. ] [ Coolio s hann svalur er, margan manninn lemur. Í bardagana reiður fer, og óvirknað sinn fremur. Margar konur heillar hann, þráðbeint upp úr skónum. Línurnar hann margar kann, lærði þær á sjónum. Snillingur hann þykir mjög, í öðru en að yrkja. Hann þykir fara vel með sög, og einnig slöngur kyrkja. En ei er nú öll sagan sögð, af þessum góða manni. Hann gallon getur drukk af mjöð, ég segi það með sanni. ] [ Fortíðin er eins og visnandi lauf einhverntímann fellur það til jarðar og gleymist Framtíðin er eins og tréð sjálft enginn veit hversu vel, það blómgast næsta vor ] [ Snertu mig, komdu við nakið holdið. Fötum fækkar. Komdu, leikum svoldið. Við tvö ein, ég og þú. Þú veist, ég þrái þig. Hef alltaf gert það. Þráir þú mig? Það veit ég ekki enn. Brátt mun ég að því komast. Komdu nær. Miklu nær. Ekki fara fjær, hjartsláttur í takt. Við tvö ein, ég og þú. Að eilífu. ] [ Það rignir og rignir og rignir og rignir, Það rignir svo mikið að kötturinn hrygnir. Og blómin í garðinum breytast í þara, Bless ! Nú verð ég að fara. ] [ Brennivín er bölvað eitur, af bjórnum verð ég helst til feitur. Á kókaíni klikkast fólk, Kannsi ég drekki glas af mjólk. ] [ Af ljósinu þínu glóð mér gef góði Jesú , vonin mín bjarta. Þá allar nætur ég sáttur sef og sæll í mínu hjarta. ] [ paui paui Abertawe saumer ahn saumer dá immer si qanta tesse! oster rá asne eretíum en veredú pas de astíum saumer si an der paradíum em gyw? em gyw si tesse! ] [ Ber að neðan-Maðurinn náði ótrúlegt en satt engum vinsældum meðal almennings. ] [ Auglýsi eftir smiði til að smíða gæfu mína. Verð nefnilega seint sagður handlaginn og verð því að bjóða það út að láta smíða gæfu mína Góð laun fyrir rétta smiðinn. ] [ Íslendingar athugið! Nú er óþarfi að fjárfesta í flugfari til Póllands. Þið skellið ykkur bara í næstu Bónusverslun því þar eru pólverjar í miklum meirihluta bæði í hópi viðskiptavina og starfsmanna. Það sannar sig að Bónus er ekkert bruðl ] [ Áður en mér tekst að vakna dreymir mig marga staði. Ferðast um fagra heima en enda alltaf heima í hlaði. ] [ Ég gekk yfir hafið í leit að sýn, Guðs náð? þræddi tímans þráð upp hafið, aftur, farið? marið barið Ég sveif gegn um tímann og sá, í brjósti sérhvers manns var andi þá ég skynjaði kærleik alls Lifandi Sá ég þó skugga margra, brotinna hjarta mæðra styrjaldar dauðra sona. Hatandi, hlekktra, velsæmis, hlýrra, heiðingja, vanhæfra, elskandi, syrgjandi og svekktra manna ] [ Dimmi Drottinn maður, myrkur manns snjór er sloppinn skelfur sálin hans Finnum Fjandann reiðann, argan varg frelsum andann, sál er okkar farg ] [ Ráðskonan á Holtavörðuheiðinni sú fékk oft að kenna á fantareiðinni þeir tókana eins og trippi í afréttum og drógana inn í tjöld á kuntuhárunum Svo var komið kvöld þá fóru þeir inn í tjöld og ráku í hana stengurnar sem bæði voru beinharðar og brundugar. höf Rokkó ] [ Ég horfði á bíómynd í gær... ... hún var góð. ] [ Ég er falin en frændur sjá úr fjarlægð er ég himinblá. Og kem úr veröld sem var vakin og sofin allstaðar. Við hirð mína er hulinn foss þar hélar jörð við úðans koss. Í huga stór í heimi sögn. Ég heilsa þér og kveð í þögn. Ég sigli um djúp sorgum með en skip mitt hefur enginn séð. Úfinn er sær og öldugjöf áleiðis held langt yfir höf. Vald ykkar er stormur og sker þið setjið mig að landi hér. Ég felli mín segl fast við strönd fyrrum voru hér blómleg lönd. Ég er dropinn dreggjunum í og dagur er rennur á ný. Fálát er og fremur kýs á fardögum er sólin rís að sitja hjá við birtu bil. Í brjósti spor mín eftir skil. Eilíf er og aldrei dey ég er allt sem þú vildir ei. ] [ Konungshallir undir kúgun hans rísa, kuldi og grimmd eru hans mein. Fallið er fólkið sem borgirnar hýsa, framselt til himna í boði Hússein. Herinn réðst inn og mætti litlu hafti, handsamaði Saddam og drap hans menn. Synir Hússein sprengdir upp af krafti, skálaði Bush í víni og gerir víst enn. Þjóðin var frjáls, þakkaði Allah í leyni, þorði að ganga um götur óháð stétt. Forsetinn var bugaður, grillaður með beini frelsið er staðreynd og öllum er létt. ] [ Skagfirðingur að sönnu, alltaf telst, stoltur af skagfirskum uppruna er. Minning alltaf í huga mínum helst, margar góðar stundir, ég þakka þér. ] [ Lífið er ekki mjög langt, ef í árum er talið, Líður það allt of fljótt, að mörgum finnst. Því er þarft að hafa ekki tilfinningarnar falið, Það líður að deginum, þar sem okkar er minnst. ] [ Borgin mín og borgin þín Byggist á röngum grunni Skuldir og vinstrisinnuð sýn Senn enda í lokuðum brunni Sjálfstæðisflokkur tekur stjórn Skuldasöfnun heftir loks Tólf ára tími er mikil fórn Til að lúta stjórnun vinstri flokks ] [ Syndlausir flagarar að norðan eru Saklausir reynast af flestum sökum Þó er það lýgi í raun og veru Þar sem róað er á fölskum rökum ] [ Lægðin stendur yfir byggðinni, rýmir fyrir rakri ró. Lífið kallar á svefn, --það kallar á fjarveru. Grár himininn brotlendir, ásamt öllum öðrum. (Engar áhyggjur.) Þetta verður fljótt búið. Myrkrið yfirtekur hið gulgræna, --þetta gras sem vér látum skugga dansa. Traðkandi! (Sjáðu þau!) "Traðkaðu einu sinni enn!" "Ég verð dáinn á morgun." ] [ “This is the first pulse we get, this is the first breath we take; This is the last pulse we get, this is the last breath we take…” The search of our everything (chapter one); We find ourselves mislaid with our trembling porous wings and yet again we find nothing to seek for, no demands to disarm those times from our cave-in, every chapel's poles are lapsed and grounded on this very yard. Under the peals of gliding chorals we hear their strident euphony fade to its abiding dormancy. And we breathe as blink the seconds of our collapse. The saying to pray for our lives is passing by with ignorant sonority, slowly distil our woe tears into collection of wounds inhaling the mass of mourning days. The reddish sky is reflecting our image, we are almost bowing to ourselves kneeling so low we are reveling the shapeless sin they squalled; "The converged above, from the cloudy haze of the building walls to the stairway leading skyward, this is truly the end of all nights." And the city began to witness the extinction of our crooning voices growing dim. On the same minute as I saw the plane burst into the sky, it came crashing down. As the mechanical mind spoke its last words I heard the distress signal peal 'till the echo became soundless to all ears... Hist! The closure became our landscape (chapter two); The moment of every sunless dawn is now the deafen memorial of how we yield to our downcast steps towards the endless vacancy. We went out from everything and now we are slowly becoming the dust of our boundless nothing. We dredge the clarity, this only lit we are, the second straw we pull is shorter than the other, and now its faint light through the shutters is cascaded into the hourglass of our last breath, envisaged for the last tick to strike we now covert our respiration. The beauty nest on fire (chapter three); And the gray stone walls are pointing at the flaming skyscrapers burning our lines, the lonely highway between the cities is verily the skyline in mute diluting the chancel with swelling drones. Under the high arch the halo stood above our heads. And they carved their wings with the inky feathers falling from the dead. And with a lament sigh we bow to the abandoned; "Mothers and daughters, fathers and sons; farewell." “They darkened the doorway and the city felt lost in its pall… and the billboards were all glassy on their highest mounds; The regent roads to nowhere.” The howling awe crept up with innocent midsummer flames (chapter four); The quiescent dune has never been this close to the ascent of the low. "This is not all right, and it only gets worse." We are counting the tragedies but they overflow our fingers, the numbers are crowned with sallow prospect as we filter the story of life. Watching how our vast array grows thinner every split second, we are delving the mourn with our stricting actions. By any harmony there's a quire giving sounds to our epic sore, and on top of all zenith's there's a burning flag reaching its horizon, but the scorching blaze is raying to its pillars. Quench the flaring sky crossing the daisy miles, and they flew the longest canal by wafting every glen as they sang for us the melody of the end. The maverick's sentence we'll cite (chapter five); "Our concrete days are over, we plinth ourselves below, we faced and bled the grower, and the starring turns aren't breathing for us to glow." The minute after tomorrow (chapter six); The past is full of half written letters, and the tomorrow pursues for the brighter half. We are still waiting for our embryo, but this is the end of all roads. With our palms bathing in tears and for our daydreams to lodge we stretch our tarry hands upwards and supplicate with promising words. But the remembrance is patterning with trebles; "They sharp the highest tones and chant their loudest screams. We see them wheel above mapping the landscape from their cavernous drowse... and it keeps on getting worse." This is a world shaped in symmetry, self-portrait with the shoreless sea. This is the futile poem of the low halting towards our swarthy existence. We anchored our feet and winged our movement to the oncoming gravel, our inky feathers are curving down the thick beginning, where it all commenced and will now conclude; Hearts were born to cease beating. "Where the sea lays now was once the lot of our garden, our home is the voyage hovering in the blue." The bleak vocalise's foiling in every alpha (chapter seven); The vow was pierced in the nape of its neck by our own daggers, we wheeze the seaward night and connive at the column holding our framed remains. We rave the words; "Where is the love? Where is the justice?" But the non-existent won't render its retort. overnight we'll lull our voices in the soft utopia's verity and cover our song under the aslant streetlights. The narrative's framer is faceless; "We didn't have the time to say goodbye, except to ourselves… I heard them sing for us. I embraced the inconstancy, I saw them lance my smile throughout the seaward roof of heaven, and then we all knew it was time to leave the standing havoc and let our runny hearts coalesce into one." “Dear mater; Give me a second pulse, the first one is gone…” ...The next chapter is in ruin... ] [ Með sex glyrnur stórar, beið ég og beið. Var hálfpuntað og klætt, margir litu mína leið. Hvern skyldi ég hýsa um ókomna tíð...? Þá skyndilega komu, skötuhjú blíð... Þau Þórunn og Sigurður með sitt hafurtask. Ég var enn með bleiu svo þau urðu að kaupa vask! Á meðan mamma mig prýddi og fegraði skarpt vætti pabbi mig og nærði svo ég fullorðnaðist hratt. Ef gestagangur tíður, verður hér inn um dyr, fæ ég sífellt meiri visku og þroskast sem aldrei fyrr! Hlýr er ykkar hugur og hönd, svo vernd mína ykkur býð á meðan haustregn rúðuna lemur Norðan-él og vetrarhríð. Megi tónlistin hér óma, fegurð og listir ljóma. Með fyrirfram þökk, verð ég ætíð ykkur til sóma! Ykkar Dalsflöt 9, nú hef ég öðlast mína húsasál! (með pínu hjálp frá M. Elva S.) ] [ Erfiður sannleikur er eins og bóla á miðju nefi stækkar bara og stækkar þangað til þú gerir eitthvað í málunum. Það gæti komið ör bólan gæti komið aftur en eins og mamma sagði það er vont en það venst. ] [ Þú uppskerð það sem þú sáir Aha.. einmitt.. þó væri ég Madonna Guðrækin maður heiðarlegur trúr hjálpsamur verðugur öllum dyggðum dyggður Meiðist á besta aldri og lifir ekki sama lífi trúlaus maður óheiðarlegur svikull sjálfhverfur einskis nýtur með hroka sem aðalsmerki Lifir löngu og hamingjusömu lífi án áfalla og hindranna ef ekki Madonna, þá allavega Britney Spears ] [ Við breytumst öll, verðum snjöll. Getum ekkert af þessu gert En´aldrey þú skrítinn ert. Þótt aðrir segir og hann þegir, Verður þetta alltaf svona og við verðum bara að vona að þetta breytist ekki Því engan svoleiðist mann ég þekki. hugsaðu um, Það góða sem þú gerir. Og ef þú hlustar vel Ekki vera viss að þú illhugsa verir. ] [ Ég hef aldrey þekkt neinn sem hefur verið svona góður. Hann var svo þögull og varð aldrey óður. Hann stóð alltaf með mér, Ég man eitt sérstaklega vel. Frænka mín vildi aldrey gera það sem ég bað um, En minn afi, neyddi hana til að gera þetta fyrir mig. Þegar ég hugsa um allt sem hann gerði, Renna tár niður vanga mína. Ég get ekkert gert af þessu þetta bara gerist. Þú varst lang besti afi í öllum heiminum, alltaf þegar ég kom í heimsókn gafstu mér fullan poka af peningu, bara til að ég gæti látið þetta í baukinn minn. Og það er þér að þakka ef ég verð einhvern tíman rík af þessu. Og ég á alltaf eftir að mynnast á þig ef ég verð fræg. Því alltaf þegar þú skammaðir mit þá vissi ég að það væri bara að meina eithvað gott fyrir mig. Ég verð þér aldrey réð. ] [ Mamma, hvenær verð ég eiginlega fullkomin? meinaru ekki fullorðin? nei, fullkomin þú ert fullkomin Nei, fyrst verð ég að - kaupa tannhvítunarefni frá Colgate - nota brúnkuklúta frá Lancome - kaupa föt frá Stellu - hreyfa mig í Fitness og Spa og....... elskan mín, veistu ekki að Guð sagði að enginn væri fullkominn? Mamma, þá hefur Guð ekki horft á sjónvarpið! ] [ Ég er groupía í boði Group í boði Groups við groupum okkur saman í boði Group í boði Groups og hlustum á Elton John með Bónus djús og Krónu snakk já, allt í þessu svaka boði í boði Groups ] [ Of sein klukkan orðin æði um eins og hauslaus hæna hvar eru veskið, síminn og lyklarnir? Undir rúmi bak við skáp hvar eru húfan mín og hempan mín bleiurnar og blautbréfin? Keyri hratt sprett svo út hendist inn og heilsa móð ,,Nú komstu ein, hvar er drengurinn?” ] [ Hvað er það í hjarta manns er kallar fram þá æsku hans, vinarbrag og fyrri fund farin veg og skólastund ? Strembin lestur stúdentsvor skál og gleði , hliðar spor, eða bara hversdags hjal hugar dæmi er leysa skal. Við þekkjum vel þann sterka streng og syrgjum okkar góða dreng. Örlög vísa veg um slóð vak þú minning kyrr og hljóð. ] [ Hver er sá sem þekkir mig og mína innstu drauma Hver er sá sem lítur mig og veit hver í mér býr Hver er sá sem ratar um í skógum minnar sálar Hver er sá sem á það bros einkum ætlað mér Hver er sá sem að sólu verður ef að tár mitt þarf að þerra Hver er sá sem þétt mig leiðir í stormi sem og blíðu Hver er sá hver er sá það er mitt að vita M.Elva S. ] [ Þú liggur við vatn og horfir til himins Sólin skín Grasið er grænt og golan leikur hlýjum höndum um þig Trén skýla þér fyrir vindi og foki Og fuglarnir syngja þér söng Þú liggur innan um blóm sem snerta þinn vanga ásamt sínum seiðandi ilmi Þú sérð fiðrildi sem sest á blómin Og þú heyrir lítinn hlátur í æskunni sem hleypur í kring Þú heyrir hljómfagra rödd sem segir; hér er drykkurinn Röddin fær svo á sig mynd sem snertir þig og kyssir Þú sest upp færð þér sopa og lítur í kring um þig Þú leggur þína kinn við aðra hlýja kinn Þér yljar innan frá sem utan Allt er svo lifandi og í öllu býr kærleikur ] [ Jólasveinn, jólasveinn! Ekki vera þarna einn að dreifa gjöfum um allt, ég veit að það er kalt… Má ég ekki koma með? Ég get hjálpað þér… og allt sem ég gæti séð… …miklu betra en að hanga hér. Ég þarf engan pakka minn má fara til næsta krakka ef bara ég fengi að dveljast hjá þér um sinn og skoða með þér alheiminn. Sérðu ekki norðurljós og stjörnudans? -og gleðina dreifast frá manni til manns? -finnur fullt af snjó og fjársjóðum? -dvelur með börnum og mönnum fróðum? Því mig langar að vita það allt saman Um mig og jörðina og veröldina Þú kannt svo mikið og gerir svo margt Má ég ekki vera með, gerðu það? Þig hlýtur að vanta góðan vin, til að veita þér félagsskap þetta kvöld, (og) bera með þér leikföngin… …æ þessi nótt er svo löng og köld. Ég skal alltaf besta barnið vera ef aðeins ég fæ að fljóta með þér. Það er svo margt sem mig langar að gera (eins og að) hjálpa öðrum að brosa og leika sér ] [ Ég var í Arabíu í dag.. ..á kameldýri á ferð með ,,eiganda” mínum. Ég var í eyðimerkursvæði. Ég var í eyðimerkurkjól.. pils og topp með glingri hangandi í mitti og um hálsinn.. og með yfirslæðu á ská yfir aðra öxlina og yfir hálfan maga.. Ég átti að dansa um kvöldið þegar við værum komin á áfangastað.. Ég var dökkhærð með djúp (brún) og seiðandi augu. Hafði slæðu yfir hár, nef og munn.. Ég mátti ekki tala mikið svo augun mín lærðu sitt eigið tungumál.. ..og sáu inn fyrir sál fólks. Þess vegna horfðu fáir í augu mín.. Þótt hluti af manni sé í fjötrum.. læra aðrir hlutar af manni að sýna styrk sinn.. M.Elva S. 24. sept. 2006 ] [ Hafið er ósýnilegt, nema þeim sem ofar svífa, þar er það skærgrænt og virðist gufa upp jafnóðum og ný alda líður yfir. Veðrið er einskis; rakt en ekki vott, logn en fellibylur, sandur, sandur, sandur, meira að segja grjótið er upplitað og að mestu horfið í mold og sand. Sólin er svo hrikalega sterk, en samt ekki. Lífshættuleg vissan tíma dagsins og nokkra daga ársins er bannað að fara út fyrir bústaðsins dyr. En svo getur veröldin orðið svo köld á svipstundu og svo ótal margir hafa horfið í fellibyl frostsins og enn fleiri hafa horfið í sandinn á skuggasvæðum sólar og mána. Einstaka planta skýtur upp kollinum, en hverfur á örskotsstundu eftir að fólk hefur barist um hana. ] [ Mig dreymir hafið bárusöng Þegar hjartað slær flýtur vindurinn hjá Regndropar falla í sárin mín endalaust niður Kertaljós í glugga lýsir mér leið Eldingin birtir upp veginn sem fönnin hylur en kuldinn styrkir Þótt sólin brenni þótt augun lokist og andardráttur þyngist og brosið sé horfið er allt svo friðsælt Rauðar rósir á sveimi svo hreinar og tærar en samt er allt flókið minningar svífa hjá andanna raddir óma á meðan æskugleðin fylgir mér og sál minni þangað sem alltaf er meira alltaf nóg alltaf hamingja alltaf líf. ] [ Tilgangurinn Eitt sinn var ég blind hélt ég hefði allan heimsins mátt gæti allt En nú sé ég liti og ljósið í kring nú sé ég allt Hélt ég vissi hvað ástin var en sá enga heildarmynd Sá fyrir mér draumaprins og hús og bíl og garð og lítið barn Í huganum geymdi ástríðu sem líkaminn gat ekki tjáð var sem vofa köld og þjáð til mín voru þá sendir englar þrír að tölu Sá fyrsti kom mér niður á jörð og sló mig löðrungi ég grét Sá annar þerraði tár mín og rétti mér rós ég hló En sá þriðji tók í hönd mína og lagði rósina að vitum mér og sagði sjáðu nú Í rósinni sá ég liti, fegurð og líf hún var bæði mjúk og hvöss og hún ilmaði Næstum eins og lífið sjálft ég brosti Ég skildi nú að millivegurinn er að elska ] [ Ef aðeins allir fengju svo jákvæða reynslu á lífsleiðinni, að þeir geisluðu af hamingju og von alla ævi. En svo er því miður ekki. Það getur enginn, nema þú sjálfur fundið og ræktað vonina og jákvæðu hæfileikana. En það krefst ekki mikils andlegs sigurs, að finna vonina. Hún er þarna, við hliðina á þér, hún situr á orkustýflum jafnt sem lausu lofti og bíður; hún er einmana. Þótt hún sé vonin, er vel þess vert að líta á hana sem einstakling og reyna að láta hana ekki verða einmana. Hún er sannarlega traustur vinur. Hún hendir frá sér andartakinu, bara til að bjarga þér. Vertu þakklátur fyrir að hún sé til staðar. Og hún er, ásamt kærleikanum, þinn besti vinur, þar sem þau tvö gefa aldrei undan og gefast aldrei upp á þér. Ef þú missir sjónar á þeim, er það af því þú hefur gengið í burtu, en ekki þau. Þau elta þig þó nær oftast, þar sem þeim þykir svo afskaplega vænt um þig að þau geta vart hugsað sér að lifa án þín. Og af hverju skyldum við svo oft snúa baki við voninni? Oftast fylgjast vonin og kærleikurinn að, og má sjá að fólk sem geislar af vingjarnlegheitum og hamingju, færir öðrum von, því það hefur komið sinni svo traustlega fyrir að það reynir að bera styrk hennar til næstu manna. Og þeir sem eiga enga von, finna oft ekki kærleikann sem í lífi þeirra er, þrátt fyrir allt. Lífið er erfitt, en við komumst lítið áfram, nema fyrir vonina á annarri öxlinni og kærleikann á hinni. En mundu bara, að þú getur ekki orðið vonlaus, ef þú hefur fundið þína von. Þá verður hún alltaf til staðar, og situr með kærleikanum. Ef þú talar ekki við þau, tala þau við hvort annað. En allir heyra til þeirra fyrr eða síðar, það er óhjákvæmilegt. ] [ Dað(rand)i Da(u)ði Da(nsa)ði (raundans)? ] [ Gladdi mig hjarta á glötuðum vetrardegi Ó vinur,hvað það er gott að verða á þínum vegi. Bræddi mitt hjarta á björtum vormorgni ég held barasta að tárin ekki nokkurn tímann þorni. Snart mig hjarta á sumarnótt fyrir ári Ó vinur hvað það er gott að lykta af þínu hári. Hlýnaði um hjarta á haustkvöldi forðum Ó vinur hvað það er gott er þú tjáir ást þína í orðum Kramdi mitt hjarta á köldum vetrardegi Ó Jakob, hve hart það var held ég leggist niður og deyi. ] [ S6╧.Dù∙┼╠ß╗.@ΓAÅ*.é¿┌┌GΩ╤[*!φ┘µ├±╧1v╒0±╞*H╡*°⌡▌Z{**⌐t╣Æap╧╖?[╩* ╬*Ö▄Z@÷╡î#YMA╣Q :^╩'ôσ╖╩"ñ═α±v(r'┴─ ∩N@ß2[x║LîQ*ΘadîZ╡Θ╒@5W[ܱF*mΓ⌠***B≈0┴ì≈k*•≈╒*x@║óƒ*:p*>nCÖÜNYJ¬█64▀v*áê╧lùü>ßN3ñ├~6╕*X6**+éé÷å½**N╟Ω•º} ¡>Ai¢0ì--█âtö╛⌐K*┼╥*`ΓfFFdg*∩ Å▓Çç)É¡;φ╤Zf5█¬ä╛àº4┼*üa╔>■}≥w*lZí**Æ┌X▓*û¬»¡èú╢*c ─"┼ üla{²ó■Φ-d[ÿƒjùtùk-> <éé╙╥>╤₧î▓*│*ÿ╚α╓oàFè╠`*╙¥*èOΣâÿëX.ź╧@**5╬┌** τ╟o₧┘dñÅj╓*1⌡o9T│Llöæ*█┌*O9▌w╬g╫7ñ:¥*?7╢╜░º¥»ö ╧≤@₧BlL█*åâ*/µ═ñfαLñEíw╟∙│╙√y╦J-xⁿ≤α╠@│Iü╞NPî*┴■╩*ⁿö*î∙ƒ▓J≡┌┴*╢.=b@╞~R║t*╟*W_⌐╞Io¬┌ëêαg░* Γ1p╣x+*T¬ë* c≡╖Ç*è*'_╦┌, ½&¢*│*▓▓ü█¥ºⁿ─ï╤M!╥vc¬╥╜≡ad*Eñu╠#KL─½í*«é.τ≈ÿT(Ux°≈⌠└=╘70vÖ)d*RbåXù*¬º*╥*▄¿▐-)b4k]qF>ª*µ╛U∩n*ΦÖ─"*U▄P▌┼h;¬AÖnáƒh*z┬╗╧■£bΦSÖδcπÜÅ╙0╣xYp┤ß"╔+∩╩∩╛|å≡»m⌡pÆ⌐ß¼¿c╙ α╒½¬*Θñ1W¼╣≈H▐⌡@L─ë╢╛£*╕Y╛*▓┴•ón8 B¡ qn≥╔Σú*r█*O╨╗2Φè*¬?'┘.πå½░╚»rz╘HÅ**** ┬0;****#****]@ α║S! *╘ñ6÷*** *╨Æ╝**▀╞**** ] [ Meðal meyjanna og vínanna í miðri hjörð hýena, í Medína liggur Meistari Mekka og mér sýnist sem hann sé að drekka. ] [ ,,hnefann í rassinn, hnefann í rassinn" öskraði hann slefandi dvergvaxni kynskiptingurinn þegar hann gekk inn á mig og móður sína... ] [ eftir þögnina löngu hljómar tvíræður tónn tjáir mér í eyra vorsins þarfasti þjónn að þarfnist mín Jakob ] [ Verslunarmanna Helgi-dómur Jakobs-hórdómur ] [ Með fortíðina glamrandi endalaust og heltekur titrandi hjarta. Uppúr ólgandi hafsjó berst aldan taumlaus og ógnandi hryndir af stað, úr glitrandi augum, táralæk. Brostnar minningar leika um og heltaka titrandi hjarta. Í vonarbrjósti berst aldan yfir sálina og sársaukinn tekur við er eftir situr söknuður. ] [ Í morgunsárið vaknar bílagnauðurinn. Frostrósir og snjóskaflar fljúga um göturnar og minna á snjóflóð, er rennur hæglátlega um borgina. Hinkrar í ferð sinni, af og til og hleypur öðru flóði hjá. Þau tvístrast, sameinast, og fljóta yfir hæðir. Í sameiningu mynda þau ólgandi líf í æðum fjölbýlisins. Á meðan hvíli ég lúin bein undir mjúkum dún, áhyggjulaus í mínum eigin heimi. ] [ Hann dregur út anga sína og mundar klærnar, sýgur hitann úr fljótandi lífinu. Engin miskunn sýnd og glitrandi andardráttur, svífandi í stilltu loftinu, við stirðnum og klöngrumst áfram. Til varnar breytist klæðaburðurinn, við þykknum og göngum um skammdegið líkt og þungbúin snjóskrímsli. En ekkert er honum þó heilagt í huga og gustar frjósandi gjólu og vindi sem grípur eyru og nef og fyllir augun kuldatárum er kristallast á kinnum. Hann smígur í glufur og sker í holdið, en við berjumst með vínið að vopni og hlæjum upp í opið geðið á Kuldabolanum. ] [ Hjartað hamast og hugurinn fíflast, kitlandi hugmyndir um samveru tveggja sem gætu orðið en aldrei verða. Titrandi hönd og flöktandi spurning, sem aldrei hlýtur svar og minningar fæðast um það sem aldrei verður. Vonin vaknar er draumurinn svífur að, en hún brestur er hann flýgur hjá og það sem gat varð ekki. Vert er að minnast þess sem gat en ekki varð. ] [ Ég lofaði og lofaði, ermin var troðin og rifnaði. Loforðin streymdu út og týndust í ruslinu. Ég leit á traustið og fylgdist með því ganga út. Ég sé enga ástæðu til að ætla að þú munir nokkurn tíma treysta á loforð mín, því það er leki í erm minni. ] [ Lífið er lotterí þar sem nítíu og níu prósent vinnur aldrei. ] [ Curiousity, surprise and sadness hit me every day. With all it's magic and madness, the world has so much to say. ] [ Þegar ég lendi í hremmingum vil ég láta hugmyndaflugið blómstra og ímynda mér hvað ég myndi gera ef ég væri ofurhetja… ] [ Það var sem eitthvað brysti innra með mér, þegar hún smám saman óx, með hverju fótataki fegurð hennar jókst, en í gegnum breytt útlit, var hún alveg eins; hrædd, leitandi, einmana, göldrótt; innra með sér. ] [ Amma mín er svo skrítin og hallar sér á ská.. Það er nú bara ekkert smá! Hún bakar kökurur og þvær þvott bæði í einu. Svo heldur hún líka gólfinu hreinu. Svo hallar hún sér á ská og hlær og segist heita Bella, bella símamær. Svo lakkar hún bara á sér tvær tær og segist vera að spara hinar átta. Síðan fær hún sér eitt eftir átta. Smjattar lengi á því, ranghvolfir í sér augunum og segir: Hvað viltu gera núna dúllan mín? Hún fer í flikk flakk heljarstökk hnakka og hliðarstökk og hoppar síðan til mín. Allveg eins og Laddi! Segir hún og skellir sér á læri og kemur varla upp orði fyirir hlátri. Síðan gengur hún um í vaðstígvélum og með agalega stórann hatt! Hallar síðan uppá flatt og segir; Ég trúi þessu nú ekki, þetta getur ekki verið satt! Og lítur á gamlar kerlingar í saumaklúbbi og ein masar og masar. Þetta þoli ég nú ekki, í þessu er enginn hasar!¨ Síðan hoppar hún upp á borð og skammar þær eins og gamaln hund. Morgun stund á að gefa gull í mund! Hrópar amma. Já hún amma er sko aðal töffarinn í bænum, sú gamla! ] [ Aur í skriðum grjót á grund glamrar ventlalokið. Þvinga ég gamlann Hiluxhund hring í kringum Okið. ] [ Andvaka ligg ég í hlýju bælinu og hlusta á regnið. Heyri hvernig droparnir banka á gluggan og vindurinn hvíslar nafn mitt. Nóttin dimm og köld laðar mig að sér. Stend í dyragættinni með lokuð augun. " taktu mig, taktu mig" Dansandi í tunglskininu og læt dropana falla á andlit mitt. Í örmum móður náttúru fell ég í djúpan svefn þar til sólin rís á ný. ] [ Saklausu bláu augun glitra líkt sem stjörnuhaf. Með fallega ljósa lokka mjúkt sem silki. Yndisblær í röddu sem ylur mitt hjarta. Dóttir mín fagra sem gerir hvern dag bjartann. ] [ Ósprungið blóm að sumri verður á endanum allra blóma fegurst. Ef hjartað brestur eitt sinn styrkist það meir fyrir það næsta. Undir öskunni hefst nýtt líf. Allt í kringum okkur á sér jákvæða hlið. ] [ Nú er úti stormur stór hann feykir trjám og lemur sæ. Hann ýlir í eyra þér nístandi hæ. Hann raskar ró þinni í ljúfum svefni. Hann vefur utan um þig kuldaefni. Hann hverfur á braut með sólskins kossi. Færir þér aftur hlýjuna líkt sem eldsins blossi. ] [ Sofandi hér liggur hún og hvílir þreytta sál. Í draumaheimi svífur hátt er laus við vandamál. Eitt sinn ung með prúðan þokka og silkimjúka húð. Hún eldri er en alsæl er með gráa lokka ljúf og prúð. ] [ Í hugarheimi mínum býr hann, drengurinn með colgate brosið. Með stinnan líkamann og hjartalagaðan rassinn. Með hárið sleikt aftur og glitrandi bláu augun. Við eigum vel saman því ég er Barbie og hann er Ken. ] [ Ég á stóra systir með sítt nætursvart hár. Ég á hjá henni öxl þegar hjá mér renna tár. Við stöndum ætíð saman þótt dagurinn sé súr. Líka jafnvel þegar við erum á túr. Nú er hún orðin kerling þrítug svei mér þá. En hún verður ávallt systir mín og stað í hjarta mér hún á. ] [ Sit hér ein í geislandi ljósi með tárin í augunum. Söknuður um glataða ást. Brennandi hjartað á jaðri glötunnar. Brátt að ösku komið og sál mín fer með. En ég á mér stjörnu stjörnu sem byggir upp bros. Hún rífur mig upp úr djúpinu og fyllir mig af von á ný. ] [ Augun glitrandi af reiði rósrauðar kinnar. Slefandi af bræði raddböndin titra. Í hnipringi held um höfuð mitt. Langar að bregða upp óp. Sálin á þrotum, maginn í hnút, hjartað á fullu. Ég get ekki meir. ] [ Niðdimm nóttin og ein ég er með svipta framtíðarsýn og brostna drauma. Ég lít í kringum mig allt er svo hljótt. Sorgleg einsemdin niðurbrotin ég er. Ég á ekkert nema kraftaverkið eitt. Hugur minn og hjarta því verður ekki breytt. Þótt sæluna hún veitir mér þá vantar ennþá eitt. Sálina sem rann úr höndum mér og ástinni sem var eytt. ] [ I never want to be in love again. Im going to die alone. My heart is broken my heart is black. The only thing that´s left is hatred. Crushed and stepped on like a bug. Fuck you thing that calle´s it´s self love. ] [ Óvinsælasta setning starfsmanna leikskólanna er eftirfarandi "Ég er búinnnnnnnn" Frekari útskýring er óþörf ] [ Eins og hvað börn geta litið sakleysislega út geta þua verið djöfullinn sjálfur á góðum degi ] [ fyrir þér ég felli tár að eilífu eitt fyrir ástina og annað fyrir vináttu þriðja fyrir tímann sem stóð í blíðu og stríðu fjórða fellur á gröf þína sem minningarvottur þú vakir yfir mér, veit ég það ég mun minnast þín á hverjum degi þeir tímar sem við eiddum á hverjum stað munu ekki gleimast jafnvel þó ég deyji ó minn kæri vin þú fórst of fljótt tæplega tvítugur eina nóvember nótt ó minn kæri þú fórst of skjótt en ég vona það að þú sofir rótt ] [ ritstíflaðar klósettskálar reyndi að sturta mér niður til að gleyma ] [ starði á misstóra augasteinana og spurði: "skiptir það þig máli hvað ég heiti núna?" þú ypptir öxlum og sleiktir svo útum til að ögra mér og ná matarleyfum af þurrum vörunum ] [ Sprengjurnar springa speglarnir brotna írak er brunnið allflest þar ónýtt hermenn að hörfa hólpnir frá bombum forsetinn flúinn farinn frá tapi! kúlnahríð hættir heimurinn stoppar barnið það grætur brjálæðið sér fólk er að falla fyrir augum þess hver mun því hjálpa já hver mun hjálpa? hataðir hérna hryðjuverkamenn sprengjur þeir sprengja spreða úr byssum hvað ef heimurinn hjálp myndi veita stæð´allir saman ...stæðu án herja? ] [ blómið er visið eftir stríðslangann dag bandaríkin ákveða að berjast bætir þetta fólksins hag írak er neitt til að verjast blóð er á höndum bush hins nýja græðgin drífur hann áfram en frá arabalöndum fólk er að flýja og allir þeir segjast hat´ann er stríðinu lokið en græðgini ekki af hverju myrðiru ennþá? festiru írak bara í hlekki og segir svo ég einn þetta má eru kjarnorkuvopn þín eigin eign og enginn má annar þau eiga "því miður saddam þú varst of seinn" þú hefðir betur átt að þegja en hví þurfti blómið að horfa festa þetta í huga þess nú fær það ekkert að borða og bush segir við það bless kúla fór í það úr byssunni hanns það starir á himininn "hversu grimmur er heimur hanns" nú hitti ég guð minn ] [ ég lýt á mynd af þér og ég huxa um þig tímarnir þeir breitast á dag hverjum ég, í drauma heimi svíf til þín og horfi á þig sofa, fallegum værum svefni en ég er bara andi sem sveima ég sé í augum þínum að þig er að dreima og ég tárast af hamingju og ást ég sest á rúmstokkinn og horfi á þig hvað ertu að huxa ég pæli í ég finn að þú skynjar nærveru mína því þú brosir og snýrð þér að mér vonandi líður þér vel í svefni en það er tímabært að ég nefni að ég elska þig meira en allt sem ég þekki ég finn að ég færist frá þér til baka en ég gef þér einn koss áður en ég fer í minningunni, þá er þetta heil eilífð þessi eina huxun, hún er heil eilífð ég vakna og byrja að gráta því ég er ekki hjá þér til að vekja en ég hlakka þó til að sjá þig aftur mín ástkæra! ] [ aldrei aftur fæ ég að strjúka burt hárið úr andliti þínu aldrei þessi tilfinning að sjá þig ánægða útaf því að ég er þér hjá aldrei fæ ég að finna heitar hendur okkar haldast saman böndum aldrei vakna ég með þig við hlið mér og vek þig með kossi aldrei aftur fæ ég að heira þig flissa vegna orða minna en ég held í þessar minningar ég læt þær aldrei fara þær geimast innra með mér þar til að ég hverf sjálfur ] [ I kissed you softly on the forehead, layed you gently on the bed. To think of this all, it makes me sad, in my mind, memories only glad. Looking at you makes me afraid, that morning I was going to tell you straight, my soul and my heart was yours to keep, You were everything I´d ever need. Shaking, I slowly walked the floor, Opened the door and just before I closed my eyes and saw the light, blindly I ran into the night. Away, far away, I write these lines, it´s hard to tell about those times. and honestly, I have to say this, all you need to know is in this kiss. ] [ Sjá! Ég fann það litla kornið sem ég leitaði að lengi lengi loksins það ert þú.. ..hvað nú? ] [ Við vorum ósigrandi Í sitt hvorri rólunni – í átt til himins. Við vorum ósigrandi Á fleygiferð í vindinum, Við tvær saman. Strengur sem aldrei slitnar Sálir okkar eru ein Við tvær saman. Við erum ósigrandi Á sitt hvorum staðnum – ennþá í átt til himins. ] [ Í dag mun ég deyja, í dag er ég glöð, í dag mun ég flýja alla heimsins kvöð. Skuggar ástarinnar munu flytja mig burt burt á vit eilífðarinnar. Þar eru engir skuggar, ástin er vil völd. Tárin til þín eru gull. Sem enginn sér. ] [ Lífið snýr baki við manni. Girðir niður um sig og segir ,,eat this!” Síðan hleypur það hlæjandi í burtu. Ég hleyp á eftir en sama hve hratt ég fer ég fer aldrei nógu hratt. Ég hægi á mér sé að ég er á hraðri leið til helvítis. Ég hysja upp um mig, ákveð að fá mér hamborgara. Þetta er nú einu sinni mitt líf. ] [ Ég elska þig, elska þig allan. Elska hvernig þú snertir með tilfinningum sem þú veist ekki af. Elska þig hálfan elska þig heilan. En það veit það enginn, nema tárin sem fylgja heitri þránni og falla hljóð á koddann minn á kvöldin. ] [ hugsunin læðist meðfram veggjum kæfð í fæðingu ég ætla ekki að segja ég ætla ekki að gera ég læðist ég er ósýnileg örugg í eigin hugsunum ] [ þú vilt þú kannt þú getur ekki heilbrigð sál í veikum líkama þú teygir þig nærð ekki þú reynir en getur ekki heilbrigð sál, föst í veikum líkama ] [ Öskra, berja, bíta, slá komast áfram. kalla, hrópa HJÁLP. Myrkrið nær tökum, ein í skúmaskoti alheimsins. Sólin er á off. Öskra, berja, bíta, slá þú hrekkur upp slekkur á vekjaraklukkunni. Sólin er á on. ] [ Stoð mín og stytta, Sterk, eins og klettur í miðjum ólgusjónum. Hún er undirstaða lífs míns, henni á ég allt að þakka. Í myrkrinu stend ég fálma, leita og finn hlýja hendi, það er mamma. Í ólgusjó lífsins standa klettar, veðurbarnir, sterkir en finna til. Á degi hverjum brotnar úr klettunum í svart ólgandi hafið. ] [ Sólin skín Rigning, vetur, snjór, vindur – Sólin skín samt. Hlaupa, horfa, hugsa – það er allt svo stórt. Hvað er þetta – hvers vegna? Ég stend úti í rigningunni finn dropana detta á tungubroddinn sleiki svo útum – sólin skín skært. Ég hjóla svo hratt ég finn vindinn hvísla í eyrun á mér. Engar áhyggjur sólin er enn á himni. Ég er með hundraðkall í vasanum og finnst ég eiga heiminn. ] [ mót augna okkar er mun meira ógnvekjandi en varir mínar einar ] [ ég tek ekki eftir loftinu nema þegar það er rok ég tek ekki eftir lífinu nema þegar það bítur mig ] [ blindur fær sjón en tekst ekki að stilla fókusinn til að lesa orðin lamaður fær mátt en hefur ekki nógu sterka vöðva til að klífa fjallið mállaus fær rödd en hefur engan orðaforða til að tjá sig heyrnarlaus fær heyrn en berast engar hljóðbylgjur til að nema ] [ Frétt Litlir tíu ára snáðar sem ástlaus gatan hafði alið og hvergi áttu höfði sínu að halla sendir sem leikföng til sadista og fóður fyrir vergjarna kerlu hans . Spurning Hver bjó um pakkann lét fylgja með nýja brúna strigaskó, græna úlpu frá vetrarhjálp og blautan kaldan koss á barnsvanga. Svar Heigul pólitísk skipuð smámenni fóru um stræti og torg allir skyldu þeir burt. Burt vestur í afdali þessir ormar og ótuktir er væru sem fleinn í skinhelgri samfélagsmynd "barna verndar" smámenna. ] [ fjölmargar tilraunir hafi verið gerðar tilraunir til tilrauna í það minnsta en engar framfarir eru mælanlegar líkt og hornafall geta þær sveiflast upp fyrir og niður fyrir línuna en meðaltalið er alltaf núll margföldun með heilli eða hálfri tölu jafnvel diffrun eða heildun breytir ekki neinu það er því aðeins eitt ráð fara verður að kjarnanum og breyta formúlunni en þrátt fyrir einfaldleika er dulkóði minn flókinn erfðaefni mínu fæst ekki breytt ] [ Þegar dagrenningin brotnar í miðri reisn rís blómið úr dimmu hafi og veifar til forboðinna stjarna. Skuggi næturinnar kristallast í andadrætti augnabliksins og grasið heilsar grátandi vordrottningunni. Dyggð tímans líður um hávært loftið og tyggnar manninn í dýrð hans og óbærilegum myrkviðum. Keisari alls lífs milli geims og möttuls dregur blóðstraum og vefur öll stræti tilviljana. ] [ Félagslegur aðstandandi með niðurlægjandi kvilla, meinta niðurstöðu úr rannsóknum, og dapurleika ólgandi í iðrunum. Hann stendur ógnandi með réttlæti í augnaráðinu. Hann hefur ekki hugmynd né heiðarleika í sál eða hjarta og kvelst því í byltum þrælkunar. Hann saknar frelsi sjálfseignarinnar og gefur því gæsina í faðma hvirfilbylsins og kveðjusátt með þögulu vængjataki. Hann dreymir í örmum svefnsins og vaknar með andfælum. ] [ Lítill engill á öxlinni Lítur yfir Og gætir þín Engin hætta Bara trúa Trúðu á mig Ég vaki Vertu sterk Haltu áfram Ekki gefast upp Þú kemur aftur Sterkari en áður 7.feb ’07 ] [ Skipstjórinn leysti landfestar Skipið hélt sína leið Sigldi hingað og þangað Um heiminn allan Það sem enginn vissi var Laumufarþegi um borð Sem gat ekki sloppið Ekki út á rúmsjó ] [ Ertu endurfædd? Þú sem ég aldrei þekkti. Þú sem enn ert syrgð af þeim sem misstu þig og þeim sem lifa við missi annarra. Ertu endurfædd? Aftur lítil stúlka. Þú sem óxt aldrei upp. Nú ljóshærð þú sem á myndum sést að varst hrafnsvört. Aldrei umrædd. Ertu völuspá þessarar fjölskyldu? Vefurðu okkur örlagavef? Völvan svört sem fleytt var með kerlingar á hafinu mikla, náðirð ekki fleiri en tveim og síðan sökkstu. ] [ Söknuður. Hvar ertu? Hvar ertu nú þegar ég þarfnast þín? Hvert fórstu? Hví svarar þú ekki kalli mínu? Ertu horfin? Ég sakna þín. Komdu! ] [ Fangi veruleikans. Hún hefur verið í myrkrinu svo lengi að hún man ekki ljósið. Uppi á hæstu byggingu sleppur hún sér í örlögin, stígur fram af. Svífur og er hún finnur vindinn strjúka við dauft andlitið er hún frjáls. Hún hverfur, hverfur í hyldýpi stórborgarinar. ] [ Mitt ástarbál. Ég elskaði þig Af hverju fórstu þá? Þú vildir mig ekki. Hvað vildirðu fá? Þú misnotaðir allt. Núna glötuð sál. Ég vona að þú fáir það þúsundfallt. Brenndu, mitt ástarbál. ] [ Takturinn. Kertið logar. Henni finnst eins og loginn sé dansandi. Dansandi við trommuslátt dynjandi hjarta hennar. Jafn og þéttur taktur ómar í höfði hennar. Loginn sveiflast ótt og títt þangað til hún slekkur. Hjartað stoppar, loginn stoppar, takturinn stoppar. Aðeins reykur og myrkur umlykur herbergi þar sem eitt sinn var dansandi logi við dynjandi hjarta. ] [ Ekkert. Útgrátin kinn kíkir í sólarljósið. Eitt tár eins og morgundöggin rennur niður hrjúfann vanga hennar. Hún syrgir það sem aldrei var og aldrei getur orðið. Hún grætur, grætur því hún syrgir ekkert, ekki neitt. ] [ Bara orð. Ekki segja að þú elskir mig ef þú gerir það ekki. Ekki segja að ég sé einstök ef þér finnst það ekki. Ekki segja sorry ef þú ert það ekki. Ekki segja að ég sé sú eina ef það eru fleiri. Ekki segja neitt. ] [ Draumurinn. Í draumi mér þú birtist, bjartari en dagur nýr, glaður virtist, er þú höfði snýr. Þú sagðir ekki hæ, þú leist og augun hurfu snöggt, við vorum komin yfir sæ, við fagurt fuglaflökkt. Loks var draumurinn búinn, aftur horfin mér frá, veruleikinn aftur snúinn, og öll mín sorgarþrá. ] [ svikul þín samviska sjálfhverf, innmúruð hugarfar í einstigi hins sjálflæga manns tár hrökkva af þér eins og skvett sé á gæs sjálfblinda er ekki á aðra menn læs fetaðu einstigið fram af kletti fall er fararheill þú fetar veginn ] [ Búslóðin bíður og bíður bíður eftir mér, eftir að ég verði tilbúin að sleppa. Hvenær er maður tilbúin að sleppa? Ég pakka niður hlutum, blöðum, bókum Á ég að henda þessu? Á ég að hirða þetta? Ég get ekki ákveðið mig, reyni að halda í eins lengi og ég get. Afhverju að mynda þessi tengsl við hluti? Því þeir minna mig á þig Búslóðin bíður og bíður Búslóð - Bæslóð ] [ Elsku barnið mitt ég vissi alla mína ævi að einn daginn myndir þú ákveða að koma, leyfa mér að elska þig, leiðbeina þér Ég grét þann dag af gleði er koma þín var staðfest svór að gera allt sem ég gæti til að gera þig að hamingjusömum einstaklingi Ég ímyndaði mér framtíð okkar Saman hvernig það væri að hlusta á þig: hlæja, gráta. Horfa á þig sofna og vakna. Sjá þig vaxa og þroskast, ég hugleiddi hvaða tilfinningar við myndum finna í faðmlögum hvers annars. Þú heimsóttir mig aðeins í þrjá mánuði, Í líkama mínum svafst þú vært Ég minnist þess með tárum nóttina sem ég vaknaði, útötuð blóði okkar og sársauka Ég skreið fram á snyrtinguna og Heyrði þig leka niður í klósettskálina Sá þig svo fljótandi í blóðrauðri martröð minni Að lokum var þér sturtað niður Elsku barnið mitt, ég sakna þín að eilífu. ] [ brýst út sem grátur í fjarlægum vindi dimma sem svífur skýjunum á haustnóttin læðist að logandi kindli mannstu eftir draumnum sem ég sagði þér frá? kerti í glugga sem flöktir við andann sit þar og stari á mánann og sjóinn huxanir fljúga því ekkert ég man sorgmæddur græt því hún er nú dáin englar þeir hvísla og þerra burt tárin erfitt að reina að hylja öll sárin en ég vaki og tel hvernig tímanum miðar á meðan ég óska þér ástar og friðar ] [ Alein Ein hún situr í myrkrinu. Ein hún sötrar te. Alein í húsinu og hana engin sér. Hún trúir að myrkrið breyti henni í eitthvað sem engin veit. Alein í kuldanum en innst inni er henni heitt. Hún lá þarna í friði og ró. Svo kom einhver inn. Hún vaknaði upp með skelfinu og hróp, en þarna var ekki neinn. Alein mun hún þarna vera alla tíð. Hugurinn ráfar í myrkrinu. Hún bíður eftir að einhver komi inn, og bjargi henni frá ímyndunaraflinu. Aldrei kom neinn og bjargaði henni. Hún var alltaf ein. Sötraði á teinu og ímyndaði sér að einhver kæmi inn. ] [ Aðskilnaður. Hvernig get ég lifað ef ég hef þig ekki? Hvernig get ég lifað ef ég er búin að gefa allt sem ég á til þín? Hvernig get ég lifað án þess að vakna þér við hlið? Hvernig get ég lifað ef hver andadráttur minn er þinn? Hvernig get ég lifað án þín? ] [ Vorið vindur sér vonum fyrr í dans með sunnangolunni um sólkvik stræti og torg og smellir heitum kossi á kviknakin trén sem kætast og klæðast sínum laufléttu kjólum. ] [ er ekki í lagi að leyfa fötluðu fólki að hafa spés? ég sjöhundruðprósent pottþétt þú? ] [ í ljóðum skyftir eingu máli kvort þú kant að skryfa hlutina bara ef þú hefur einkvað að seigja eða var það öfugt? ] [ Mér kemur það ekkert á óvart lengur þegar ég opna eggið sem ég fæ mér í morgunverð að það sé skurnin tóm. . ] [ ef ég horfi nógu mikið á mtv hlýt ég að hafa vit á tónlist ef ég horfi nógu mikið á cnn hlýt ég að vera upplýst ef ég horfi nógu mikið á discovery hlýt ég að vera gáfuð en ég horfi bara á gilmore girls fíflið þitt ] [ Heldurðu ekki að bölvaður faraldurinn sé kominn aftur Nei nú lýgurðu Jú allt morandi í þessu Já auðvitað frekjast þetta áfram Svoleiðis er víst eðlið segja þeir Varla farandi lengur í miðbæinn þetta er svo árásagjarnt Að maður minnist nú ekki á óþrifnaðinn sem fylgir „Geta þessir helvítis innflytjendur ekki bara haldið sig í frystihúsunum?“ ] [ úel tók upp þráðinn við fyrrum býliskonu sína sem hafði gert tilraunir við kynhneigð. Hún var í bandi við konu sem starfaði hjá -bíóunum. Hennar aukastarf var hjá Júmbó lokum. Ég vona að þetta ljóð verði þykkt. ] [ Ég er sokkinn upp að hnjám í sjálfsvorkun og eymd. Stari út um gluggann og mála lífið blýgráum tónum úr öskunni frá eldinum sem kulnaður er í brjósti mínu. ] [ Þegar drengurinn fer á stjá Þá er ekkert fyrir hann að fá Nema það sama gamla góða Hún lófa óða Kv. Levis ] [ Ég vaknaði og át og hafði ekki á mér gát og ekkert hafði ég lát sem endaði með grát Á dollunni ég sat það var ekkert plat að drullan lak um gat sem endaði með frat -lilli ] [ Gaui snickers á dollunni situr Yfir skítnum hann er frekar bitur Því drulluna er volg mjúk Eins og í pissukúk Kv. Timer ] [ Hversu lengi má ég bíða Með þetta Hyski að deyða Ekki lengur hægt að líða MOSFELLSSVEIT verður að eyða. Kv. Laxi ] [ Piss piss og pissi piss drengur hét það issi iss út í haga og inní mús allt það sem honum þótti blús Drengsinn átti hund og maðk og "lék" sér við þau í kút spaðk en eina sem honum þótti best var að leika lest -lilli ] [ Pisspiss á heita mömmu Mig langar til að hitta hans ömmu Hún sér um hann á allan máta Með tungunni hann gerir hana káta Kv. Timer ] [ Laxinn er voða kátur Voða sjaldan hann vekur þó hlátur Hann stundar pokatottið grimmt Þegar Guðmundur í byrginu er með typpið stinnt. Kv. Timer ] [ Sólin Tunglið Myrkrið Ljósið Svarthol Moldin Gras Plöntur Dýr Manneskjan Ég, Ógeðslegur Kúkur -Lilli ] [ Öll þekkjum við blómin í haganum Þau ríma svo vel við skítinn í rotþrónni Því þau nærast á honum Alveg eins og ég Nærist ég af þeim sama skít úr sömu rotþró Því ég er maðurinn í þrónni Maðurinn sem sér um að tæma hana þegar allt er orðið fullt af saur -Lilli ] [ Eðlisfræði er mér mikil hula Ég pældi oft í því hvernig þetta virkaði En nei það kom ekkert Ég varð súr og leiður En svo fattaði ég Til hvers að hugsa svona mikið um Eðlisfræði Ég þarf ekkert að nota hana Því ég er svo fallegur og ber þennan svakalega reð -Lilli ] [ Af hverju?. Af hverju hjálpaðiru mér upp bara til þess að hrinda mér aftur niður? Af hverju gafstu mér líf bara til þess að drepa mig aftur? Af hverju huggaðirðu mig bara til þess að græta mig aftur? Af hverju gafstu mér styrk bara til þess að veikla mig aftur? Af hverju er ég ég? Af hverju ert þú þú? ] [ Einn sit ég hér allan daginn hugsa um allt fallega og gáfaða fólkið sem er á Eðlisfræðibraut því ég vildi vera eins og það, það er svo æðislegt en í staðinn er ég bara á umhverfisfræðibraut og á mér ekkert líf. Kv. Laxi ] [ Mosfellssveitin falleg er, fólkið líka Kv. Laxi ] [ Disney býr til flott stráka dót En pixlar býr til píku dót Michael Jackson ] [ Fastur á milli lífs og hnotskurnar. Það er frekar undarlegt. ] [ skrifaði ljóðin mín sem A_lzheimer en er búinn að gleima lykilorðinu :) ] [ Vakna ég á morgnana en á endanum mun ég Deyja. vaknar maður annan dagin með efasemdirnar.... maður vaknar þá á þriðja degi í Efasemdum um hvenær það á að gerast en það veit bara einn maður ekki ætla ég að segja. ] [ Allt sem ég geri í þessu lífi Mun skilgreina hver ég er En þótt að ég bíði og bíði Veit ég ekki enn hvert ég fer Lífið hefur margt að bjóða En ég ákveð hvað ég vel Verð að bíða eftir því góða Svo ég endi ekki inni í skel Ég hef elskað áður Og vona að ég geri senn Hann verður að vera allsgáður Það á um alla menn Lygarnar, pínan og kvölin Sem fylgdu þessum draug Eiturlyfjabölið Alla ást í burtu saug Lífið áfram gengur Skref fyrir skref Ég vil ekki lengur Vera í þessari holu sem ég gref Hamingja og gleði Depurð og sorg Verð ég vitlaus á geði Í Reykjavíkurborg? Hreinskilni er mikilvæg Hlutur sem fólk á sér að temja Hamingjan í heiminum er næg Ekki vera með leiðindi og aðra gremja Tíminn læknar sárin Það get ég ykkur sagt Hann þurrkaði burt tárin Og núna er allt bjart Framtíðin bíður Góðleg á svip Skrýtið hvað tíminn líður Þegar ég hef traust grip Allir ganga með grímu Leyna sínum innri manni Þess vegna samdi ég þessa rímu Því þetta er ekki að gamni ] [ í annaðhvort ímyndaðri eða raunverulegri þoku svíf ég um án þess að á nokkurn hátt fá að vita sannleikann, á meðan hæst settu verurnar yppa öxlum og horfa á mig með skeptískum augum hugrænn múr byggður af samfélaginu hefur verið reistur úr því sterkasta efni sem fyrirfinnst ef að hinn óáþreifanlegi og hinn áþreifanlegi hættu að leika sér að mér myndi þessi múr falla fyrr en augnlok þín næðu að opnast á ný ] [ Hrímhvítum augum leit veturinn heiðlöndin breið og horfði eftir rökkvuðum deginum sem var að ljúka. Úr fjarskanum komum við akandi fámál og leið eins og fuglar í búri sem eiga sér draum um að strjúka. Við stöðvuðum bílinn og settumst þar niður um stund, á steininn sem þegjandi hugsar um allt þetta liðna. Þó kalt sé í veðri og kvöldið sé mætt á vorn fund, er kossinn svo heitur að ísmolar hjarta míns þiðna. ] [ Lazily my shoulders grow within the snow. O! Can you see them grow! (See them grow!) Before the sombre´s storm! O! Can you see them grow! Before the rising tide. (See them grow!) Before the blackest volley. Dear noblewoman! Dear nobleman! Before it gets dark! "Turn the lights off, my dearest. You´ve seen enough." Mr. Lantern! A demise! "Death; You! The ripper! Slay my light!" (We have often heard strange sounds coming out from the valley of death.) ] [ Óvissan er að fara með mig Hvað viltu með mig og þig Viltu að ég fari Eða viltu að ég veri Á ég að bíða og sjá Eða fara þér frá Ég get ekki ákveðið mig Ég set ábyrgðina á þig Hugur minn segir mér að láta þig vera Kannski er það, það sem ég ætti að gera Afhverju þarf þetta alltaf að vera svona Þetta er ókosturinn við að vera kona Hugsum of mikið um allt Svo mikið að að hjartað verður stundum kalt Viltu hita það aftur Ég vildi að í þér byggi sá kraftur Ég er þreytt á sjálfri mér Þetta veltur allt á þér Ákveddu þig Þá veit ég hvað verður um mig ] [ ... And now we are lower than we lay. Undermost, wall-to-wall, our heads hang low. Heavily they hover; spilling feverish droplets from the darkest clouds onto the foreground. "How can they be so heavy?" They wheeze! They wheeze! "O! The stupor is exhaling." They are chugging towards the bluish wheelbarrows. Whilst we park under, in vain. (--Where´s the rain?) The first, the second, and the third day in a row we rede; "Ms. Mater; We are dying! Give us relief!" And the streets are on fire. --And the streets are on fire. And the buildings, oh, they are like black diamonds. (In the rain we´ll dance. --But where´s the rain?) And now we are lower than the day we died. ] [ Jóli góður er.. Ég kann að meta mann Rétt eins og hann ! ] [ Gísli Gnarr góður gæi,, Greyjið Gísli Gnarr galaði,gólaði og gleymdi góðum "sið" gæinn góður geispaði og sagði ég veit,ég er bara G! ] [ Lalli lygari,hrekkjóttur og stríðinn, Grínið um hann rennur og það verður bráðum spennun! ] [ Ef ég gæti flogið, þar sem skýin eru há. Ef ég gæti flogið, yfir höfin blá. Ef ég væri lóa, myndi ég sitja úti í móa. þar til ég hitti spóa, þá mundu sárin gróa. ] [ Skugginn okkar, er eins og lokkar. lokkarnir sveiflast til, skugginn fer oní gil. Svartur er skugginn minn, en ekki með skinn. Svartur er skugginn þinn, mjúk er þín kinn. ] [ Vinkona mín, þú ert fín. Ég stend hér hlið þér, með opna hönd og blómavönd. Þú ert æði enda full af gæði. Hæfileikarík þú ert, margt gott sem þú hefur gert. Mundu eftir mér. Ég man eftir þér. ] [ Ástin er einstök, alveg eins og þú ert. Hvað get ég gert, til að segja þér rök, því ástin er einstök. ] [ Gerum það sem við gerðum, gleymum því sem varð geymum það sem var gott, gefum hvor öðru frelsi. Sættum okkur við það sem varð elskum það sem við eigum gleðjumst yfir því góða, gerum allt sem við megum.. En svo ung, leyfð þér að fljúga um, gefa öllum þá ást sem þú átt… Því það er það besta sem þú getur gefið… Elskaðu að vera elskuð, njóttu þess að njóta, gleðjumst yfir að gleðjast. Hafðu taktinn til að gera allt það góða. Hulda María 15.febrúar 2007. ] [ Ég kalla en engin heyrir engin hlustar á það sem ég segji még langar til að öskra en engin mun heyra því ég veit...!!! ] [ Hjarta mitt þú átt, um aldur og ævi. Dýrmætustu gjafir lífs míns mér gafstu, með dætrum okkar. Þú mig hamingjusama gerir, og fyllir hjarta mitt af ást til þín með hverri líðandi stundu. Með hverri gjörð þinni fyllir mig trausti, og ég öðlast öryggi í örmum þínum, og trú á lífið aftur. Hjarta mitt þú átt um aldur og ævi. Ekki mig yfirgefa, því hjarta mitt mun bresta, og trú mína á lífið rifta. Vertu mér hjá um aldur og ævi. Leyfðu mér að vera þín að eilífu. ] [ Þrumuskýið á hæðinni nálgast hratt allt fer í hægagang í kringum mig nema þetta blessaða ský sem eltir mig stanslaust og nær mér sama hversu vel ég fel mig. ] [ Mig langar að segja þér svo margt Ég get það bara ekki Hlutirnir sem ég get ekki sagt Binda mig í hlekki Viltu fá að vita Hvað leynist í mínum huga Það sem ég hér ekki rita Eða er það ekki smuga Á ég að segja þér það Eða á ég að gleyma þessu Þú veist ekki hvað Ég er undir mikilli pressu Allt er svo erfitt Hvað á ég að gera Ráðvillta hjartað mitt Segir mér að vera Ég skal reyna Að opna mitt hjarta Engu þig leyna Gefa þér framtíð bjarta Ég þarf að segja þér Einn hlut um mig Ekki fara frá mér Af því ég elska þig ] [ Döggin djúpa rennur blautt í öllu lífi mínu sólin kitlar nefið mitt andinn klórar eyrun ] [ Fortíðin er farin mér frá Hún var svört, hvít og grá Leiðin var erfið og ströng En sem betur fer ekki löng Hún verður alltaf hjá mér Þótt að hún sé samt ekki hér Nútíðin er núna að vinna Reyna mér vel að sinna Á morgun gerist hvað Ekki veit ég það Hún er hérna hjá mér Og aldrei hún fer Framtíðin kemur brátt Mun hún leika mig grátt Verður eintóm hamingja Eða verð ég að aumingja Framtíðin bráðum verður hjá mér Ég veit ei hvað hún býr í skauti sér Framtíðinni á ég eftir að kynnast Nútíðin er að gerast Fortíðarinnar á ég eftir að minnast Einn daginn munu þær allar gleymast ] [ Ef þú ættir eina spurningu Hver yrði hún? Er til himnaríki? Afhverju þyrfum við að deyja? En það er eitt sem angrar mig. bara ein spurning?? Afhverju erum við hér... ] [ Geng ég um reyklaus glöð eins og ég er sleppi öllu rugli sem bíður eftir mér... ] [ Mundu það eitt og mundu það vel, þótt höfuðið hringsnúist, þótt maginn sé í hnút, þótt sálin öskri, þá eru tilfinningarnar best geymdar í þögninni. ] [ ég og Vinur minn erum Ekki neitt Annað Þó allir Halda það þá er það Eintómt Bull þó öll Vinasambönd Enda þannig Þá er mér alveg sama því ekkert er Hægt að Eiðileggja það sem við erum búinn að byggja Upp. Hví eru allir svona Vondir og Seigja Hitt og það En einn dag þá Kissti hann mig og mér brá ég Hljóp út um Dyrnar, ég Hljóp og ég Hljóp. En Nú er Lífið Búið að Eiðilegja allt fyrir mér því Nú þorum við ekki einu sinni að horfa á Hvort annað. ] [ Ó, auma fífl Þér voruð lame. Mikilmennska og kjaftæði. Er, þitt sálarfæði. Éttu eins og þér lystir. Auma fífl. ] [ Þið sáuð vel um þarfirnar mínar því nú með söknuði hverf ykkur frá. Verið þið sælar sæturnar fínar, sannarlega gott að vera ykkur hjá. ] [ Í stjörnukeppninni stóðu sig vel, stórspilara lögðu alla að velli. Sibbi og Bjarni þeir vinna eins og vél, sem valtrar allt niður í hvelli. ] [ Úti er dimmt. Hann læðist inn. Brosið er grimmt, hrjúfótt kinn. Ég veit ekki hvað ég á að gera. Hvað skildi hann eiginlega vera? Hann vill mig særa. Þetta er bara systir mín kæra. ] [ Ég stend hér upp í heiði Einn og einmanna horfi á sólina fögru sólina Ég stekk svo í lækinn fagra bláa lækinn og hlusta á fuglana týsta ] [ Afhverju þarf ég að vera svona sktítinn og heimsk?afhverju er lífið svona erfitt og er ekki einsu sinni hálfnað...?? nú er það eina sem mig langar er að enda líf mitt og láta foreldra mína ganga í gegnum það samaog ég hef gert... enn eitt í viðbót....Afhverju ég...? ] [ nú sit ég bakvið tjöldin og bíð eftir því að ég kem á sviðið OMG ég man ekki textan.... HVAÐ á ég að gera...:S ] [ Í lífinu eru margar spurningar og allar þær eru í kringum mig... afhvurju þá erum við hér hver tilgangurinn...bara spyr...en svo margt er gott við lífið...að hver mun bölva því... ] [ ástin er fyrir bæri sem einungis ástfangin manneskja getur skilið en eitt er þó verst að fá þá ást ekki endurgoldna!!! ] [ ég er innilokuð eins og í kassa sem ég kalla líf mitt. eða já (kalla) ef ég á þó eitthvað...! líf mitt er eins og lítil fluga sem berst fyrir lífi sínu á hverju degi... eins og ég... ] [ lífið er leikur sem ekki er hægt að leika á nema komist er hjá leikreglunum ] [ þú varst mér allt þín djúpu augu þitt dökka hár þín engla rödd ] [ Mamma mín, þín ósk mun rætast í mínu hjarta, því ég elska þig. ] [ I look in the mirror, and I see a girl. Hwo sais ,,its gonna be allright." I look at her but I dont belive her. ] [ Svartur og Hvítur kíktu á gelluna í gjær. Ég sagði þeim að drulla sér í burtu og koma aftur þegar þeir kæmust í tísku. ] [ Íslands forni fjandi fyllir nú Dýrafjörð. Frjálslyndir stefna að strandi og storma í kosningargjörð. ] [ Ég hvísla til þín yfir hálftómum bjórnum þessum sannleika sem ég hef komist yfir: "Þau elska þig þegar þau muna það" ] [ Eitt glitrandi tár er dropi af gleði eða sorg. Einn rödd getur breytt veröldinni. Eitt knús getur bjargað lífi. Einn koss getur sýnt ást. Eitt "halló" getur bjargað degi hjá einhverjum. Einn góður vinur er það ómetanlega í lífinu. Svo mundu hvar sem þú ert að ég elska þig óendanlega mikið og það mun vera erfitt að vera ekki hjá þér, það verður engin eins og þú, þú ert það ómetanlega í mínu lífi. -Mundu það alltaf. -Sara.... ] [ á sólríkum vetrardegi plokkaði ég augað úr drottningu og geymdi í glasi þegar ég varð reið tók ég augað úr glasinu kreysti úr því safann og lét drottninguna glápa á auðvitað aðeins með öðru auga ] [ Ástfangin. Hugsanir hverfa, Hjartað hamast, Maginn í hnút, Sálin æpir, Þú ert að horfa á mig og segir "ég elska þig". ] [ Tímalaus. Ég hélt að tíminn væri stopp, ég hefði endalausan tíma. Svo vaknaði ég og þú varst horfin mér frá. Skelfingin mig yfirtók Byrjar mín eftirsjárbók. Mig langaði bara að segja góða nótt, langaði að segja bæ, langaði að segja að ég elska þig. Nú sit ég eftir tímalaus, ráðalaus. Alein án þín. ] [ Empty soul Empty head The lonely child is lying in bed Cries at night, But no one hears The cry of help, Behind these tears. It once was happy and laughed alot But this sadness inside is all it got The lonely child wants to be free The lonely child lives inside me ] [ ég skelf af ótta við hið óþekkta leiðist hið hversdagslega gefst upp á öllum hindrunum en drolla í einfaldleikanum. ég vaki of lengi, ég sef of stutt, ég er hamingjusöm en samt full af gremju eins og veröldin sem hringsnýst er ég tímasprengja. ] [ Íhaldsmenn, ég þekki þá, þeir vilja aumingjana steikja og flá, og safna auði til sinna. Mest hafa þeir stundað mannréttarbrotin manngildasjóðurinn er löngu þrotinn, svo að glæpunum er ei látið linna. ] [ Ég vil ekki finna til lengur. Hreyfi samt ekki fingur, Því ég vil ekki hræða þig. ] [ Ei er mínum skilningi fyrir því að fara, að ferlegum orðaleikjum hlaðið sé niður. Efnið sýnist vera, bara botnlaus tjara, blöskrar mér alveg og finnst vera miður. Ei er minni ljóðspektinni fyrir að fara, þó fæðast ljóð mín sjaldnast alveg strax. Kallast þau og klúður og leirhnoð bara, já, kvæðagerð veitist mörgum þrautabax. ] [ Hráleiki hversdagsins sem að er dulin okkur. Við erum ódrepanleg ekkert fær skaðað okkur. Við erum líka ung. Þó sjáum við merki þess að allt fölnar en við erum að blómstra og ekkert fær okkur stoppað, eða hvað? Dagar munu koma þar sem blómstrin hverfa og við sjáum í örvæntingu áhrif vetrarins sem bíður handan við hornið. ] [ Það eru símar í þessum heimi sem að ekki á að svara í hringir maður þó stundum í leyni bara til að tékka á því. Þegar maður hringir og vonar. og tóninn undir suðinu marar, líka brak og brestir hvers konar þangað til einn daginn einhver svarar. Þegar sú stund upp rennur, því að hún mun að lokum koma, og í spor fortíðar fennur, mun viðtalandi sækja þig í líki voma. Þegar þú ert farinn yfir og settur í herbergi undir hörðum hnefa þá munu vera þar margir liðir sem ekki má gera í þessum símaklefa. Megi það vera varnaðarorð því mörg þessa byrði við þurfum að bera hringdu vitlaust, og framið er morð Vominn mun ekki láta þig vera. ] [ hrátt skynfæri nemur útlit þitt sendir boð hugsar um eitt sé þig dansa og fetta og ég fæ boð sem þýða aðeins eitt. tvö form í myrkrinu hreyfast saman taktfast, sveitt hugsa aðeins um eitt. ] [ Puedo descocerme como una araña que puede volver el tiempo. Años, meses, semanas, días, horas, segundos…volver adónde? Nudos complejos, hechos por temblando miedo nudos de garganta asustados nudos que gritan desato. Cariño te quiero no lo olvides. Hoy abrí la ventana sólo vi gris ¿Qué pasó con el azul, el verde, el violeta, el rojo el amarillo? Todos parecen haberse esfumado y yo sigo aquí dándo círculos por atrás no es una dirección. Los cuervos del arcoisis roban bancos y tienen nido de oro. T nuestras sábanas blancas, tendidas, golpeadan por el viento son usadas para secar el frío de su vuelo. No hay menosprecio no hay decepción confidencia desilusión encontramos las palabras de la resurrección. Y revivo cada día y cada día, cada día ya no sé para quien para que. El tiempo se repite actos repitiéndose círculos bailando bailando círculos líneas de puntos que fugan huyen quieta quieta quieta quieta quieta sólo un momento para volver a empezar una vez más mas el tiempo vuelve no hay miedo no hay fria sangre ¡No pases hambre! Por favor… Vuelve. Hoy es un día día libre día gris y marrón, amarlillo, rojo, verde. Hay tantos colores. No puedo imaginarme como todos los recuerdo azul, violeta naranja, jengibre. Todo es color. (Ps. Me gusta el verde). El cuervo primate dibuja triángulos en el aire mientras mi cigarro se consume y creo estar pensando. Agotamos la vida consumimos volando consumimos flotando vida. Al final somos eso humo que se pierde en el vacío. ] [ Sprengingar snúa skinninu við svo að æðarnar slá utan á. Borðið snýr öfugt og maturinn sem er á því er vondur. Veggurinn sem ósýnilegu dvergarnir byggðu þvert yfir borðð eftir að þeir sneru því við er allt of hár og sleipur. ] [ Það var eitt sinn maður sem át bara lífrænan mat keyrði um á vetnisbíl í einnota hönskum til varnar sýklum í frítíma sínum reyndi hann að bjarga heiminum á móti virkjunum sendi peninga til Afríku gekk í hús fyrir Rauða Krossinn hann var fertugur þegar hann dó.. .. úr áhyggjum ] [ Af værum blundi vakna menn, verðmætanna að njóta. Sífellt meir sækjast enn, í sérréttinda kóda. Græskulaust ég grínið tel, á gleðisnauðum fundum. Sér í lagi virkar vel, er vantar fjör á fundum. ] [ Það er ekki mikið að marka er margur þingmaður segir. Frussast þeim fals úr barka og flækja málin ógæfulegir. Margir á mælskunni fljóta, mergjaðar lygarnar spinna, siðlausum skoltunum skjóta, skrattann þá helst á minna. Siðferði þeirra er allt annað en almúgi fólks kýs að bera. Verst að skuli vera bannað, vesalmenni þessi að skera. Þeir öldruðum útrýma vilja, öryrkjann plaga sem hund, en eiga erfitt með að skilja, að ég meti þá á sömu lund. ] [ Það er sko hamagangur í skærum Urðar, Verðandi og Skuldar. Og við erum sölnandi lauf á Aski Yggdrasils sem falla til jarðar í takt við snips blaðanna. Tvinninn í tvennt. Meistari Taó týnir okkur í krukku og geymir á arni sínum. Sýpur á grænu tei og tottar sína pípu. Glottir út í annað og opinberar tóbaksgular tennurnar sem raða sér um grimmt gin svefnsins. Þar dvelja blómabörnin. Til að þau geti unnið stríðið gegn stríði þurfa þau að há það og grípa til vopna sinna. Þá mun að lokum ríkja eilífur friður á jörðu amen. Engin munu þó vitnin verða. ] [ Af orðaleppunum ei er hér tregt allt þó í ró og spegt. Þó kvæðið sýnist kaldhranalegt kátur ég er og hress. Vinir kærir, verið sælir og bless. ] [ Í beddanum heyrðist brak brá sér Nonni litli á kreik eftir skakstur og skak skrattans bekkur sveik ] [ Stíga úr tröppum á stóran hest, og stoltir reyna klárinn að sefa. Stubbarnir litlu stæra sig mest, sem standa ekki fram úr hnefa. ] [ Undir hælnum sá ég glitta í þig svolítið flatari en venjulega og ég spurði hvað kom fyrir þig sem predikaðir svo stórfenglega ] [ Veistu hvað þú hefur yndislegan hlátur? Veistu hvað þú hefur falleg augu? Veistu hvað þú ert vel vaxinn? Veistu hvað þú ert með flott hár? Veistu að þú ert með alveg rosalega asnalegt en samt fáránlega heitt göngulag? Veistu hvað þú hefur sérstakan raddblæ? Veistu að þú hefur mýkstu varir sem ég hef kysst? Veistu hvað þú ert flottur á vellinum? Veistu að þú átt alltaf alla mína athygli? ...en mikilvægast af öllu.. veistu hvað mér þykir vænt um þig? ] [ Sá er ekki beysinn sem ekkert umtal fær. En varla getur slíkur, verið bófi fram í tær og víst er hann ei fáviti eða stjarna skær. ] [ Inn um kalda glerið sólin skín. Með sæluna og upp í rúm til mín. Er það sólin er vermir hjarta mitt, eða er það hið fallega andlit þitt? Sviti, hiti og sængin fór á gólf, orgían sem byrjaði klukkan tólf. Kossar, hold og roði kinnum í, tíminn stöðvast og hér við verðum því. Er ég að þér aftur við mér sný, Sjá nýja öld lostans er runnin upp á ný, Oss bjargað er ei hægt því ekki neitt getur sundrað því sem er svo heitt. ] [ Afbrýðisemi er ógurlegt stand, öllum samböndum hleypir í brand. Styrkur þess er stækur sem hland, styrjaldir rústa margt hjónaband. ] [ Að hóteli klámhundar leita til landans en leit sú ei árangur bar. Þeim var óðar sagt að fara til fjandans og finna sér aðstöðu þar. ] [ Sérhvert lamadýr sem býr í hjartanu mínu misgert hjartað mitt fær mig til að finna að þú átt hluta af mér Þú átt stóran stað í hjarta mínu ó, mig langar til að finna þig grátandi, vefja þér inní örmum mér kyssa þig köldum kossi þessi æðsti ástarblossi. Ég elska þig svo mikið að ég gæti varla dáið án þess að hafa þig hjá mér því himnaríki er helvíti án þín. ] [ Það á að drekkja börnum í ást englarnir mega stundum þjást Myndlíkingarnar rammana flysja fyrirgefið mér = þetta var klisja ] [ Hláturinn ræður hjartans gátur og höftin losar um sálarátur. Þó veit eg um menn sem fullyrða enn að allir kvenmenn séu eilífur harmagrátur. ] [ ...faðir sveins þessa var hreppstjóri flutti hann sveitarkellingu eina nauðuga var hún mjög reið hrakningnum í fjörunni heitast hún við eirík rær hreppstjóri en gudda er í lendingunni ræður hún á eirík er dettur niður með froðufalli var fróður maður og fékkst við lækningar til fenginn að deyfa afturgönguna ekki gat hann fyrirkomið henni léttir þá af um hríð en eftir það fylgdi hún þeim feðgum á hnjám og olnbogum og væri þó fljót vel metinn fyrir skáldskap og sönglist biður fólk vel lifa og hleypur í kringum steingrímsfjörð var sveinn líka orðlagður göngumaður var verið að leggja föður hans til bar minna á guddu eftir... ] [ Hljóð! Hafið er hljótt. ] [ Við erum strengjabrúður. Krákan er leikstjórnandinn. Þögul báran leikur tónverk, undir náttmyrkvað spor. Dansaðu! Tjaldið er við jörð. ] [ Hvíslaðu. Lífið er örmagna. ] [ Ef ég væri bara... ...jafn klár og ... ...jafn fyndin og ... ...jafn rökföst og ... ...jafn ákveðin og ... ...jafn dásamleg og ... ...jafn orðheppin og ... ...jafn hæfileikarík og ... Væri ég þá samt ég...? ] [ Tár, rennur niður kinn, það brennur í sálinni. Krjúpa, í grasinu hjá henni. Það er sól. Engill, situr á grein laufguð blóm líta á krossinn. Lífið? Það fór. Eftir 16 ár og 27 daga. ] [ Í minningunni, voru góðir dagar alltaf, fuglasöngur: sól í sandkassa, bíltúr með ís, og súkkulaði niðri í fjöru, og mamma. ] [ Sjáðu; agndofa. ] [ Nú skal brúka nýjan hátt nafnið ferskt og laglegt er. Ég hef ei við hann áður átt. Það er svona frekar fátt um ferskar vísnagerðir hér. Nú skal brúka nýjan hátt. Ég hef ei við hann áður átt og óljóst hvernig verkið fer. Til þess á ég frekar fátt. Villanella heitir hann hingað kom um langan veg. Helst ég brúka háttinn þann. Íslenskt nafn sér óðar fann enda er tungan dásamleg. Villanella hét þó hann. Helst ég brúka háttinn þann hringfætlu sem nefni ég því íslenskt nafn hann óðar fann. ] [ Ég sé ekki ljósið sem lýsti svo skært, Og yljaði hjartarætur. Það slokknaði daginn þú sofnaðir vært, Sjálfur Drottinn hafði á þér mætur. Stari í myrkrið og dýpra ég sekk, Sárt, í minn innri drunga. Þakklát fyrir þann tíma ég fékk, En sorgina ber ég samt þunga. Tárin, þau drukkna í flöskunni góðu, Sem álfarnir létu mig fá. Þá heyri ég rödd þína, þreyttu og móðu, “Elskan, Þig erekki sjón að sjá”. Hrekk upp af draumi og veit ekki baun, Finn hvorki hita né kulda. Svona eru þau víst, þau lífsins laun, Hjá lóner með tilfinningar-dulda. Set á mig brosið og valhoppa út, Vösk ég tekst á við heiminn. Betra en að sitja hér niðurlút, Og tala við flöskuna dreyminn. ] [ Ef himnaríki er til, hvar er þá helvíti? Erum við í helvíti núna og bíðum til eilífðar? Eða er þetta dauðinn og þegar við deyjum, þá fáum við lífið? Eða erum við ekki til? Er þetta einn stór, tölvuleikur sem Guð spilar á nóttinni Þegar mamma hans og pabbi sjá ekki til. ] [ Súrsætur hausverkur Sem borar sig alla leið Inn í mínar dýpstu hugsanir. Gegnumsýrðir draumar Af hausverk Leyna sér ekki Þegar ég læt mig dreyma Um strákinn í næsta húsi. Hann er ekkert nema Súrsætur hausverkur. Sem engin verkjalyf Hafa áhrif á. ] [ Þúsund kossar þúsund tár, þraukaðu áfram þögla sál. Vonir vakna, varastu eldinn, Ekki er allt sem augað sér, Falskar vonir fanga þig Láttu vindinn leika um þig. Lífsgleðin þá finnur þig. Þraukaðu áfram þögla sál þó lífsleiðin sé þröng og hál. Þú átt meir en margur sér, Lífið er að kenna þér, Þú ert einn af öllum hinum Einn af drottins bestu vinum. ] [ Láttu mig vita,ef eldflaugin sem fór inn í sólsetrið,er hlaðin blómum. Láttu mig vita,ef það er hitt sem gerir útaf við öll blómin. Ég ætla þá að skríða undir borð og bíða Hver veit nema þeir hafi set hana vitlaust saman. ] [ Í þokunni dimmu sólin nú skín og kemur að eilífu aftur til þín. Draumunum þínum hún hefur ei gleimt og ekkert verður aldrei of seint. ] [ Vertu með vængi eins og engill eða djöfull. Segðu aldrei hvaðan þú kemur því hvert ferðu þá? ] [ Um leið og þú hefur engu að tapa þá gefurðu allt sem þú átt. ] [ Þig dreymir tröllin,og hugur þinn fyllist ótta. En það ert ekki þú, heldur þau sem leggja á flótta. Hverju átt þú að trúa þegar þú heyrir nið þeirra skera hjarta þitt? ] [ Einu sinni átti ég blátt, sem átti að verða rauður. Svo fór ég að lita grátt, Og þá var allur litur dauður. Einu sinni sagði ég fátt, sem átti að verða mikið. Svo stórt,að það varð smátt, og verðlaunaði aldrei hikið. Einu sinni! ] [ Sárin flest um síðir gróa, syndir margra fá að róa, syngur í túni lítil lóa, löngu komin vítt um haf, sá var þarfur er þetta gaf. ] [ Einn vildi ekki annar gat ekki sá þriðji kunni ekki enginn þeirra skildi hugmyndina um mannlega reisn. ] [ Nú; þegar allt virðist rétt marsera vitundarkornin í kröfugöngu og berjast fyrir breyttri stefnu. ] [ Á örlaga stundum hugurinn flæðir áfram leita, en ekkert ég finn. Helvítis,hjartað það blæðir! Hefði ég getað orðið þinn? Í faðmlögum fæ ég svo ómælda hlýju. fingurnir leita... ég ángju gef Glaður gef ég þér allskostar fría: Gerst þett'aðeins meðan ég sef? ] [ Þegar ég sagði, að ég vildi ekki. Þá vissi ég ekki hvað ég vildi. Þegar ég sé núna að ég missti þig því ég vissi ekki betur. Þá langar mig að lemja mig með borðfót. ] [ Ég næ ekki til þín, sambandið er rofið og símakonan vill ekki hjálpa mér. Ég hringi í öll uppgefin hjálparnúmer. En þau hjálpa ekki, því ég er númer sjö í röðinni og ég gefst upp á því að leita. Þegar ég finn þig ekki þá langar mig að hoppa út í eilífðina og óska þess að ég væri hið fríða fljóð, yndismærin, sú alíslenska með bláu augun og freknurnar sem þú kaust yfir mig, ég er bara rotta í kjallara einhvers í Vesturbænum og meindýraeyðirinn kemur klukkan þrjú. ] [ Hún fór á böllin brókarlaus, býsna lífleg þar í stuttpilsinu var. Að losna við kellu bóndi hennar kaus en konan var ei hrifin af því par. Hún stappaði fæti og strengdi þess heit að stylla honum fast upp að vegg, en bóndi varð undrandi og á hana leit og æstur sér klóraði í skegg. Nú sagðist hún vera, komin langt á leið með lítinn króa er ætti ‘ann fyrir víst og eftir það varð hennar gata betur greið en gleðskapurinn minnkaði allra síst. Loks fæddist króinn og líktist Jóa á Mel, lán var að karlinn grunað ekkert þó. Konan sagði óðar nú kornabarn þér fel, ég kemst á ball því ég er orðin mjó. Bóndans veri blessaður dáðarkrafturinn, blessuð konan ólétt nokkuð þétt og hún gildnar alltaf eftir bóndann sinn, sem ýmsum þykir vafi að sé rétt. ] [ Manstu þegar þú varst þinns þá var ég minns það var í gamla daga gaman gaman ekki gaman að klaga Vinir vorum við góðir völundur vinur minn hét hann var mér sem bróðir En bróðir minn er bara sópur enginn völundur ekki vorum við góður hópur því völundur var hundur. ] [ Sem feldur rjúpunnar, skinn ljónsins, broddar mannsins og fjaðrir kattarins... þá er verðið hjá Hrafnhildi ekkert plat. ] [ Með allt niðrum sig þá heldur hann samt sem áður áfram. Sólin er orðin von Vonin er orðin sól. Hann er..... SYLVESTER STALLONE ] [ Að vanda ég þessu velti til og frá, vildi reyna að gera betur að. Vitleysur smáar oft betrum bæta má, svo ég breyti og vil lagfæra það. ] [ innan um malbikaðar götur steinsteypta veggi og andlitslaus bros vegfarenda verð ég keramik ? kannski kemst hugdýptin fyrir í steinhvítu holrúmi innyflanna ] [ Ég er króna á vitlausu blómi og stykki í vitlausu púsli. Vitlaus á litinn, vitlaus í lögun. Passa ekki inn í þessa heildarmynd. Samt er ég nákvæmlega eins og ég á að vera. Bara á vitlausu blómi, í vitlausu púsli. ] [ jújú, guð er til hann er api, sem hefur ekki þróast situr í ríkinu, nartandi sínar helvítis flær ] [ Prísund lífsins, lokaðar minningar, ósýnileg tár Brosandi leikhúsgríman, brunnin að innan líkt og tóbaksreykur hafi svifið um í rúm 30 ár sífrerið andlitið neitar að bráðna og hjálpin er þörfin en kemst ekki að því grátmúrinn er þykkur og ekkert hann brýtur nema eigin sorg sem bergmálar ] [ dauðinn skrapp í verslunarferð en pældi ekki í mér þó ég væri á útsölu keypti þess í stað rándýra þriggja barna móður og ungling sem óx ekki á skegg kannski að ég sé úreltur, henta ekki stefnu sviptingar stjórans lengur ] [ ýla skaust upp með öllum sínum öskrandi eldingum á sinn hávaðasama og subbulega hátt með sinni tilgangslaus mengun sem skilar engu nema brosi forvitins drengs líkt og mínar fyrstu samfarir ] [ Það verður helst að reyna að treysta á sig sjálfan, því sjaldan gengur vel, að nota einhvern bjálfann. Þeir eru oft býsna vangæfir og þenja sig mikið, þursast síðan fyrir þér og kunna ei rétta strikið. Síðan ættir þú að láta duga, að drekka þig hálfan, dansa svo á tá og hæl og bræða af þér spikið. ] [ Það er boðið uppá hjákátlega danssýningu í sýningarsal Ríkisútvarpsins, og þeir sem ekki standa sig dansa sig í minnhluta... á endanum! ] [ Furðuverk! Furðuverk eins og brennandi hlutur hlutur sem býr til logandi hringi hringi samansetta úr okkar stæðstu þrám. Ég fell inn í einn af þessum logandi hringjum.. Hringirnir stækkuðu, logarnir stækkuðu, verða sársaukafyllri með hverri mínútu sem líðu. Fallið gerir ástina spennandi, Spennandi við stýrið, vitandi að sársaukanum. Sársaukanum í ástinni! Þó er von. Von um að særast ekki næst. Næst þegar við finnum ástina. Ástin er þessi hlutur, hlutur sem við leitum af alla okkar ævi. ] [ Nú væri upplagt að bera út börn blíðu er veður og myrkvast skjótt mild eru frost en mikið um hjörn mætti í leiðinni bjóða góða nótt. Útburðir voru settir út á hjarnið alla tíð þeir hafa að fólki sótt illt er líka að vera einskis barnið og öskra frá sér lífstórunnar þrótt. Yndislegt ku vera ástand hér í dag illur þó læðst að mér grunurinn fóstureyðingar færa þetta í lag fílaðar í botn en hver er munurinn? Ófögnuðurinn Yndið ljúfast yljar mér alsæl strengi kviðinn. Dýrðlegt að láta drepa úr sér djöfuls ófögnuðinn. ] [ hann skildi aldrei að grátur hennar var í raun hlátur hún leyfði honum að faðma sig og hugga meðan hún kæfði hláturinn við brjóst hans trúgjarn vesalingur ] [ Toppurinn tómur, Hendurnar hristast, Leggirnir lúnir, Bakkus minn bróðir. ] [ Bleikir hagar, bráðum dagar, blindur rýnir í gesti, næmar en flestir. Lítið lagar og lítið bagar, og ljósið sýnir hvað sem auga á festir. ] [ Hann bað tunglið að taka mig, Hann vildi með skýi berja mig, og senda mig í nýjan heim, ég sagði nei takk. ] [ Óöruggir fætur stíga sín fyrstu skref óstuddir á vit ævintýranna. Sveiflast í rólunni svo hátt að fæturnir snerta skýin svo hratt að tíminn flýgur. Ekkert getur stöðvað ást barns. Það sem barnið ann öðlast eilíft líf í hjarta þess. Í draumheimi leynast langanir, þrár. Með tímanum gleymast bernskunnar ár. ] [ Ef ég gæti mundi ég færa fórnir í neðanjarðarklefum Kýbelu og Attis, dansa trylltan dans ásamt geldum prestum úr Austrinu fyrir þig. En ég læt mér nægja að brosa til þín eins oft og ég get. ] [ lítið líf gægist út stingur nefinu út í hamflettandi kuldann, lyktar skríður undir sæng og sofnar við drungalega rausn myrkrahöfðingjans vaknar svo daginn eftir í silkumjúkum klæðum spámannsins saumað úr draumum morgundagsins ] [ hún spurði mig hvernig gekk ég svaraði eins og í sögu líkt og í jómfrúar ferðasögunni sem samin var á staðnum 15.apríl 1912 ] [ Hann seinkaði för sinni til alsherjagoða lá einsog illa mótuð stytta í miðjum moldarhauginum sá fyrsti til að játa sá sem drap hina táknrænu daga fyllibyttu morðingjans til mikils ama ] [ Þegar þú kaupir mig ertu búin að skuldbinda þig til að hugsa vel um mig, þvo mér reglulega, nota blettaleysir þegar það er vondur blettur og sýna mér ástúð og kærleika. Passa að ég rifni ekki, fara með mig á staði þar sem fólk getur séð mig og dáðst að mér, horft á mig og öfundað þig. Þú þarft að sýna mér mikla athygli, ekki vera í peysu utan yfir mig því þá sést ég ekki, velja mig í réttum lit svo að ég klæði þig. Annars skammast ég mín og líður illa. Viltu enn kaupa mig? ] [ Hvað ef Adam hefði verið hommi? ] [ Vatnið komið hæ og hó, en hestarnir fást ei að, heyinu komið hafa í lóg, en hvað er að fást um það. ] [ Ýfist blámi og hita brugðið. Springa kvarðar á fínum þráðum. Benda áttir norður og niður. Í hafi ,björninn er unninn. ] [ það er löngun þess ófædda að komast í heiminn,og vera. Vera til alls líklegust að verða á undan hinum á leið sinni. Og því lengra sem heimurinn vinur á móti, því harðari verður þú vera. Mannvera,Mannvera,þú ert tilvera. ] [ Ég hefði viljað lægja kvalaópin þín. Ég hefði viljað leggja hönd á hjarta þitt og sefa sársaukann þinn. Ég hefði viljað taka þig í fangið, hugga og segja þér að allt yrði gott. Ég hefði svo mikið viljað sefa skelfingu þína. En ég gat ekkert gert elsku mamma mín. Vanmáttur minn var algjör. Vissirðu það? Að horfa á dauðastríð þitt nísti mig meir en orð geta lýst. Fyrirgefðu mér, ég sakna þín mamma. ´06 ] [ Sorgin hefur yfirtekið sál mína Það er erfitt að skilja brotthvarf ykkar. Heimurinn hefur ekkert breyst. Sólin rís víst enn. En veröld mín hefur umturnast. Ekkert mun verða sem áður. ´06 ] [ Í stórum haga hjá Kambakoti, dvaldist hann fákur minn. Þegar rigning kom varð allt á floti, og passaði hann þá uppá sinn. Seifur heitir Fákur þessi, og svoldið hvumpinn er hann. Það má kalla hann “fákurinn hressi”, því Steina af sér kastaði hann. Elísa 13 ára ] [ Ferðuðust menn áður fjarða á milli, fótgangandi og góðir bæjum að ná. Þá kom sér ætíð vel að fá sína fylli, frú bauð einum mat er gekk þar hjá. Sex góða hausa og sæmilegt ég tel, að setja fyrir heimafólk er vænta má. Gæðakonan sagði gerðu nú svo vel, gekk síðan í eldhúsið, fleiru til að gá. Kjömmunum ellefu kom snart í lóg, kom þá inn húsfreyja að góðum sið. Hún var gráti nær en gengdi við þó: ,,Gæti ekki herran lokið þetta við?” Í gömlum borðsiðum gesturinn lafði, góðan hafði viljað sýna mannasið, en mælti er kjammann hrifsað hafði: ,,Hafa mér þó aldrei fallið svið.” ] [ Af soðnni ýsu settri á disk, saddan mig át. Mjög er gott að fá sér fisk, og flot í útálát. Soltnum þykir sætast flest, sæll var þetta með. Maturinn ætíð byggir best, og bætir allra geð. ] [ Ég sakna blíðu þinnar og nærveru. Ég sakna snertingar þinnar og nærveru. Ég sakna kossa þinna og nærveru. Ég sakna hlýju þinnar og nærveru. Ég sakna þinnar róandi nærveru. ] [ Hversu aumkunarleg ég er, að geta ei án þín verið í dálitla stund. Hversu inní mér ég verð án samskipta þig við. Hversu grátgjörn ég verð, án þín mér við hlið, nótt eftir nótt, dag eftir dag. Hversu andvaka ég verð, vitandi að þú ert ekki mér hjá. Hversu reið ég verð að komast ei í snertingu þig við. Hversu háð þér ég er að geta ei starfað rétt án þín. ] [ Litlir englar í rúmum sínum sofa. Sofa svo vært, sofa svo létt. Litlir englar sér eilífan stað í hjarta mínu eiga. Svo blítt um kinnar þeirra strýk, og léttum kossi smelli á fullkomin nef. Lítil andvörp frá vitum ykkur líður. Svo lítil falleg bros um varir ykkar færast. Dökk og ljósblá augu rifast, fjórir fullkomnir handleggir um mig grípa. Mig faðma og kyssa, mínir litlu englar. Við engla mína ég segi: "Til tunglins og tilbaka er hveru mikið mamma ykkur elskar. ] [ Ljósir lokkar um andlit þeirra strjúkast. Ljósir lokkar um andlit þeirra myndar ramma. Ramma um fullkomin sköpunarverk okkar. Blá augu þar finnast, ljós og dökk, augnhár svo löng og fín. Fimir fætur, nettar hendur, tíu fingur og tíu tær. Rjóðar kinnar, fullkomin nef, litlir nettir brosmildir munnar. Ljósir lokkar um andlit dætra okkar leika. ] [ Hann les dagblað með morgunkaffinu, kinkar kolli, hristir hausinn Gangi hann út, grípur hann jakka sem ber merkið ,,frjálslyndis“ Verði hann fyrir köldum vindum, fer hann í þykkan frakka yfir jakkann Varpi sólin sterkum geislum á hann, fer hann úr jakkanum án þess að hika Hann nýtur heitrar kvöldmáltíðar heima, horfir á fréttir og kinkar kolli Svona er grunnhyggna frjálslyndið ] [ Hræðslan hríslast um mig alla frá toppi til táar innan úr maganum upp vélindað þar sem hún stíflast og myndar kökk ég verð strax klökk Magnleysi myndast og skekur hjarta mitt og lungu andardrátturinn hraðar sér áfram og þrengir sér gegnum munn og nef Hugsa hvað ef? Reiðin rýkur tilbúin af stað gagntekur gagnaugun og breytist fljótt í nístandi hausverk þrýstir vitinu út um augun fer á taugun um ] [ Um haustið einn í húminu kvað og hugljómun skáldið þar fær svo ljúft er til þín að þeysa í hlað þú sem að ert mér svo kær. Hann vakir um nótt og vonar það að verndi þig guð okkur nær þá ljúft er til þín að þeysa í hlað þú ert eins og dagurinn skær. Þegar veturinn ríkir þá vitum við það að veðurofsinn léttir ei spor þá ljúft er til þín að þeysa í hlað og þiggja birtu og vor. Að gefa er þér greypt í hjartastað þó grátt sé veður og úfinn sær þá ljúft er til þín að þeysa í hlað þú ert eins og jörðin sem grær. Þegar sumarnóttin frá mér fer fögur hugsun að mér slær þú ert eins og himininn heiður og tær hjá þér ríkur ég er. ] [ stundin er komin þar sem litirnir dofna, ég svíf um herbergið í óvissu um framhaldið, ég horfi á tárin dropa niður alla veggina, ég vissi ekki að ég gæti orðið svona ein. ] [ i got my brain covered with that funky fluid. it makes my brain go uncontrollable. it slowes me down like a dead man's brain. my minds eye is capeble of seeing what it wants, when you are with me mary jane. they say that you will make me go crazy i got my mind so fucked up i don't care. all i care about is my mary. she gives me all the love i need, she never let's me down. mary make's my head spin. somehow, someway she makes me feel on top of thw world. she never judges me for what i have done she never judges me for the things iv'e said. she know how to make me love her. i love you mary jane. ] [ Ég hallaði mér út um opinn svefnherbergisgluggann og starði tómlega út í auðan húsagarðinn. Ég var í þungu skapi. Enn ein ömurleg helgin framundan því ekki var það venjan að nokkur karlmaður liti tvisvar á mig þegar ég fór út að skemmta mér. Ég myndi örugglega enda ævina sem ellidauð piparjúnka. Engin von um börn, né barnabörn. Að ekki sé minnst á syrgjandi eiginmann við mitt dánarbeð. Ekki sála myndi fella tár þegar ég gæfi upp öndina og það yrði vísast engin minningargrein í Morgunblaðinu sem greindi frá minni gleðisnauðu ævi. Það yrði jafnvel óframkvæmanlegt að lesa dánarfregnina, því ekki nokkur maður myndi hafa grænan grun um hver þessi dularfulla persóna hefði verið í lifanda lífi? Líkast til yrði ég jörðuð á laun og presturinn einn manna viðstaddur jarðarförina. Ég var djúpt sokkin í þessa ógnvekjandi framtíðarsýn og sá enga glætu framundan. En skyndilega komst ég til meðvitundar um umhverfi mitt þegar ógurlegt öskur skar sundur myrkrið sem umlukti mig. Mér varð ljóst á einu augabragði að nú væri ég dauð og að óhljóðin stöfuðu frá Andskotanum sjálfum sem með þessum hætti væri að bjóða mig velkomna til Helvítis. Ég var sem lömuð af skelfingu. En með ofurmannlegum kröftum tókst mér að hrista af mér doðruna og beina sjónum mínum í þá átt sem ósköpin bárust úr Og mér til ævarandi sáluhjálpar komst ég að raun um að Myrkrahöfðinginn kom þar hvergi við sögu heldur dulítið sjónarspil í garðinum fyrir utan gluggann minn. Þarna á miðri grasflötinni var spikfeitur fressköttur að athafna sig blygðunarlaust við það að bíta breima læðu í hnakkadrambið, auðsjáanlega með ákveðna athöfn í huga. Ég fylgdist grannt með áframhaldandi uppákomu og þegar hún stóð sem hæst sló niður í huga mér unaðslegri hugljómum sem átti eftir að gjörbreyta öllu lífi mínu. Ég áttaði mig á því í einni sjónhendingu að það myndi skipta sköpum fyrir mig á þessu kvöldi, að bera ilmvatn á háls minn aftanverðan, áður en ég færi út að skemmta mér. ] [ Tveir menn sátu að bjórsumbli á Næsta bar. Fyrri maðurinn: Ég er mengella. Seinni maðurinn: Ég er hið öfuga afbrigði məngellu. Kannast ég við þig og kannast þú við sjálfan mig? Samræða þessara tveggja manna, þó torskilin væri, var engu ólík mörgum öðrum samræðum á sama bar. Tveir menn ákváðu að fara í pílagrímsferð til að tilbiðja Guð í Jerúsalem.                                     Elstu hugmyndir forveranna hafa á ýmsan hátt verið aðgreindar hugmyndum annarra um heiminn, bæði eldri og yngri. (Þrír náttúruspekingar settu fram hugmyndir sem kalla mætti efnislega einhyggju.) Skæruliðarnir hafa umkringt Vatnaskóg og Andrés Önd situr enn í gæsluvarðhaldi.                                                              Sagt hefur verið að heimspekingarnir noti skynsamleg rök á annan hátt, og að hið yfirnáttúrulega skipi ekki sama sess og hjá öðrum. Mellurnar tvær og mennirnir tveir,          náttúruspekingarnir og heimspekingarnir. Fullkomnar andstæður, mætti segja, sem mætast í punkti. Hornmál lýsir stærð horns nákvæmlega og grunneining þess er gráða. (Hring er skipt í 360° og rétt horn mælist 90° (eins og réttilega er staðhæft á Vísindavefnum.)) Fyrri maðurinn: Áfangastaðurinn er menningin. Seinni maðurinn: Áfangastaðurinn er meiningin. Lesist: University of California Press. Hei, passaðu stólinn minn. Já, svona á þetta að vera. Hmm. Stóllinn, eftirmynd af lélegri frummynd? Við erum komnir í hring, ég gefst upp. Veriði bless. ] [ Þrír einstaklingar (sex fætur) stóðu allir í sömu sporum sömu skóm Hver þeirra vildi sína leið en enginn tímdi að láta skóna af hendi ] [ By the crescent, we fall in a swoon. We flourish the ending, we die by the moon. Sub rosa! Compel and destroy! Below the mystic mountains we bode our best. And at the last stanza, we´ll disappear, while the devil and me, you and the other, the free monsters who live with us all, erode and wipe out our putrid floor. And this scene on the white but dizzily screen, where the angels dance upon the knolls, gray figures, black in classic evening gowns, soothing background with an oblique antiphon. Songful ministers clinching our dreams, you and I, we were never ment to be. We are, and we´ll always be the scorn, the debris of this desert land. The lilt sways against our feets, making a move to the oncoming gravel. Sleeping, and the air notes its cadence, dying on the moribund culm, where the angels lost their wings. Embay them! Embay the mist-wreathing light! And they shout and squall, O the ghostly characters of our fall. Their drear songs mingle on the wind, fly amongst the sweet but a frightening sleep. "Never ever wonder why, where they lay down and die." Unlettered love is our ghost; the amiable form of moiré. This will never be a joyful song. This blithe, this voicing smile of an euphoric earth, the sky of a merrily morn, never to be born. This never happened, --it was a broken lantern. And the flowers, the child of us, the old duo and the giant silver nights... Waylay us! The monsters, and kill all slaves. Our by-and-by, our one-horse towns, the farmers of life, the gilt-edged laws, our golden trees. Kill the messengers, slay the hopeful but lost, burn down the bridges, litter the coasts. Bring a day without a fray, kill an innocent man and get away. Thrive on the dead reveries, blaze away the bullets of death. Drop our families in the river, blue eyes and blue fingertips, black togs gladly drowning, shivering. Heads are hanging low in this ship. Alas! Alas! The whaleboat is softly sinking. Hosanna! Dwelling in the highest! Hosanna! Soaring behind the lowest doors! Angels! Demons! Nay is our name! Middle life. Cyclones! The Destroyer! The destroyer of our homes. The hooligan of this undamped high arch, the vandals of our town march. Open; we shall allay our dancefloors! Queen-like heights, the high noons´ sight. This is a new light upon the zenith´s moor, where we came down to die, for evermore. ] [ Með hníf í hjartanu, stóð ég ein í nístandi kuldanum. hrædd ég ráfaði um götur heilans og safnaði í mig kjark. En brákaða traustið, brotnaði í mél, og barnslegi heimurinn hrundi, þegar hetjan mín, þú, trúðir mér ei, Á leiðinni heim frá helvíti. ] [ Lífið er ekki alltaf dans á rósum .. Lífið getur verið stökk ofan af kletti Lífið getur verið ástarsorg.. Eða að búa í stórri borg.. Stórri borg fullri af Rósum og klettum.. Sumir fá rósirnar fallega rauðar.. Sumir fá rósirnar visnar og dauðar. Ég fékk mína rós dauða enn svo fallega rauða.. ] [ hringlaga ferill niðursins er rauði þráður lífs míns ] [ síminnkandi flæði loftsins niður í blöðrur og klasa ekkert lát á útrás barkans uns hann leggst saman blóðstreymi snareykst með kröftugri púlsbylgju traffík um taugakerfið lík miklubraut að morgni þyngdaraflið vinnur án erfiða nótt hjá mér ] [ Það brýst um í taugunum, ég veit ekki hvernig eða hvar. Ég veit bara alls ekki af hverju! En ég veit ég losna ekki við það. Fjötrar þess fastir um hjarta mitt. ] [ Litlar tær, hor niður á bringu og risastór blá augu. Manni finnst þau bræða allt frostið sem safnast hefur Í glufum sálarinnar. Litlir puttar sem læðast um háls manns og passa mann fyrir grimmd veruleikans. Í þessum bláu augum þar finnur maður huggunina. ] [ Biturðin læðist og heldur þér niðri. Gerir þér ókleift að njóta. Njóta þín, njóta hamingju annarra. Síðan koma sólargeislar sópa biturðinni út í kuldann. Tilfinningar ástarinnar halda líkama þínum í fjötrum sínum. Þér finnst þú... ...lifandi á ný. En kuldinn getur ekki haldið, haldið henni í burtu. Henni sem eitrar og seytlar um æðar okkar. ] [ Þær segja frá fólki, Fólki sem getur allt. Fólki sem hjálpar og fólki sem finnur ástina. Eins og ekkert væri sjálfsagðara. Þetta er ekkert nema ævintýri Eða kannski, er lífið bara eitt stórt ævintýri. Eða kannski, er lífið að reyna að opna augu þín. Augun opnast ekki og ástin er ennþá fölsuð. ] [ Nú er rigning napurköld nú þykir mér gott að vera inni. Hestar voru í höm í kvöld hart er á mörgum í veröldinni. ] [ Guð sagði við mig að hann væri ekki kona eins og Bubbi hélt fram í lagi sínu. Guð sagðist vilja hafa þetta á hreinu og bauð upp á ís, keyrði svo inn í sólarlagið hann minnti mig mikið á kúreka ] [ Lögreglan á Höfuðborgarsvæðinu lýsir eftir þeim sem málaði Grá fiðringin Rauðu hundana Rauða hverfið Hvíta húsið Lögreglan vill einnig koma því á framfarir að viðkomandi á yfir höfði sér háa sekt! ] [ Öll þekkjum við hann Óla Prik, en fæstir vita að hann hefur heldur betur stækkað og dafnað vel. Í dag kallar hann sig Óli Drumbur ] [ Ef þú mætir hópi af hungruðum ljónum skaltu alls EKKI reyna hlaupa í burt, það er alveg vonlaust. Leggstu frekar á fjórar fætur og leiktu ljón eftir bestu getu Í rauninni er það sama hvað þú gerir, þú verður étin það er samt betra að vera minnst sem leikara en fíflinu sem reyndi að hlaupa hóp af ljónum af sér ] [ Þú bróðir minn góður með bænir á vör við bát þú kvaddir,ég átti ekki svör. Heimurinn heitir á menn eins og þig hélt að lífið yrði eins gott við mig. Einn upp á fjalli og frosin var jörð fremst upp á brúnum glampaði á fjörð. Sú minning mér fylgdi sunnan við sól ég sé ennþá freknur og mjallhvítan kjól. Jón Indiafari er gugginn og grár og grípur í pennann úfinn og sár. Á kránnni ölvaður komst upp á kant við kolsvartan durg og helvíts fant. Í Afríku höfn var geislandi gull Þeir grípa keröld og drekka þau full. Og kvenfólkið beið svo fallegt og falt Þær færðu mér öl en hjartað var kalt. Klár var hann kóngur minn Krisján í Höfn með Krónborgarslott og fallbyssu söfn. En tíminn líður og tignin brann og tárin mín renna ef minnst er á hann. Í brennandi sól ég hugsaði heim hátt upp í mastri með soldátum tveim. Að nú væri kuldinn með kalsama tíð kominn til Íslands en hér væri stríð. ] [ Það er slæmt að Skjóni skáldist svona, að skvettirðu á hann er ég því að vona. Með steinolíu steinka ‘ann vil sem stendur er ei annað til. Þá fær ‘ann ylm og angan líkt og kona. ] [ Já góða kvöldið. Mér langar að syngja fyrir ykkur, lítið lag sem ég samdi um daginn, og fjallar um þetta. Verse 1 Kominn er ég í Munaðarnes Til að spila fyrir ykkur. Tenór er ég og nótur les Nei djók þetta er bara grikkur. Chorus: Tenórinn er bestur Lang,lang bestur. Ég syng, ég kalla, ég öskra!!! Hverjir eru bestir “Tenórinn” Verse 2 Dóri syngur í háum skala. Í óperum eða með mér. Sjúklingar hans Gumma leggjast í dvala. Eða syngja sofandi með Chorus: Tenórinn er bestur Lang,lang bestur. Við syngjum, köllum, og öskrum!!! Hverjir eru bestir “Tenórinn” Verse 3 Ef Biggi kallar yfir allt “ég er farinn til Las Vegas.” Þá segja allir í sópran,bassa og alt, Við skiljum kveðju til Megas. Chorus: Tenórinn er bestur Lang,lang bestur. Við syngjum, köllum, og öskrum!!! Hverjir eru bestir “Tenórinn” Verse 4 Sigurbjörn Skarphéðins raddformaður, Tenórinn hann ávallt prýðir Þorgils Völundar hann er svo vel tanaður Og Jónsa hann hlýðir Chorus: Tenórinn er bestur Lang,lang bestur. Við syngjum, köllum, og öskrum!!! Hverjir eru bestir “Tenórinn” Brigde: En Vikingur gefur þennan hressleika Og Siggi nær upp stemningu í tenórinn Hvar eru Bragi,Jói,Óli og Gunni Ég segi það enn og aftur og kalla það. :;:“Hverjir eru bestir”:;: (3x) Tenórinn Chorus: ] [ Hún var einstök kona við vitum það fólkið hennar. Við vitum það betur en orð fá lýst, dýpra en orð fá tjáð, en orðin koma fyrst. Ég samhryggist okkur um leið og ég gleðst. Gleðst yfir móðurástinni í hjarta mínu og tilhugsunin um þá ást iljar og fyllir mig stolti og auðmýkt. Fyllir mig stolti að eiga eitthvað svo fallegt, og auðmjúkri von um að það verði aldrei fjarlægt. Með gleðitárum minnist ég Kollu. Ég lúti glöðu höfði í minningu hennar. Þakklátur þeirri gjöf að mega kalla þessa konu mömmu. Takk, og ekkert nema ] [ Manstu kvöldið í tunglinu? Ég við tjörnina,þú úti á götu. Ég í sófanum en þú annarsstaðar. Það breytti engu hvar við vorum. Við vorum- Saman. Manstu kvöldið uppi við vitann? Í myrkri á aðfangadagskvöld. Allir farnir að sofa nema við. Við gerðum eitthvað annað. Við vorum- Saman. Manstu morguninn Við tjörnina? Manstu mig, eins og ég man þig? Fannstu eitthvað nýtt?. Eitthvað sem hræðir og bræðir í senn. Ég fann- Það. Ég held að ég sé fullur af von. Ég held ég sé glaður. En ég held svo margt. En ég veit þó eitt.. að ég elska þig! Tunglið mitt. ] [ Klukkan dó, nú er tíminn minn. Ég elska rétt í fyrsta sinn. Lífið er ljós og ég er skáldið Nú ókyrrist ég og óttast dáldið því þögla skáldið er hætt að þegja hérna rétt aftan við endann. Þetta er svo einfalt og innilega gott Pipar er pipar og salt er salt. Við eigum okkur, og það er allt. Í myrkri nótt, Reykjavíkurnótt, með bjór sit ég aleinn við borðið. Þú sérð mig og ég sé mig eða skuggann af því sem ég get vel orðið. Ég hleyp út í nóttina, beinlaust myrkrið. Sárfættur hlaupari í einum skó. Áfram. Hættu. Haltu áfram. Ég dett í götuna og grátandi hlæ. Slefandi bjáni kjökrandi deyr. Blábyrjun, blábyrjun eða aftur fyrir endann á nóttunni. Ég rumska í ræsinu minnugur dauðans. Máttvana og morgunsár. Sólstafur læðist af gömlum vana hvíslar í stríðni: “hugsa um hana?” Ég játast sjálfum mér. Hræddur við töfra annars sama um allt. Ég treð mér krepptur upp út um gatið. Brosmilt barn ofan við hlera. Ég lifi! Ég lifi! Ég lifi af ást. Blábyrjun, blábyrjun eða afturfyrir endann á nóttunni. Ég gleðst, ég hugsa þú ert hér, þú ert hér sem betur fer. Þakka þér fyrir allt sem er. Í fæðingu dagsins og bláendann á nóttunni. Ert þú hér, hjá mér. Ég strýk yfir koddann þar sem þú lást, sofandi, brosandi full af ást, sem þú dreifir í svefni jafnt og í vöku allt á sér skjól í augum þínum. Dauður hvalur á Sólheimasandi og lifandi maður á Ísalandi Blábyrjun, blábyrjun eða afturfyrir endann á nóttunni. ] [ Svart blek á hvítu blaði. Þannig eru hugsanir mín...nei, nei, nei. Þetta er bara einhver misskilningur. Það er eitthvað allt annað, hef samt ekki hugmynd um hvað. ] [ Þetta er gamalt ljóð. Það er samt ekki það sem gerir það gott. Heldur allt hitt. ] [ Ég hugsa þér þegjandi þörfina sem tókst framúr mér á miklubraut þann 4. mars síðastliðinn kl. 17:54 og varst næstum því búinn að keyra á mig og valda stórslysi. Bara láta þig vita að ég náði bílnúmerinu þínu og hyggst endurgjalda þér að fullu ef ég sé bílinn þinn einhvern tímann aftur. - Forstjóri Papco ] [ Vonin eina er að meina, að allt sem þú hefur gert, það er það sem þú ert. ] [ Ekki finnst neikvæðni á þínum bæ. Ættir þú skilið að fá litla vísu. Enda er nú suðvestan blíða í Blæ og búskapur ekki í krísu. ] [ Augu mín fylgja hverju fótspori þínu. Ekki endilega af því að ég vil að þú viljir mig, Ekki endilega af því að mér finnist þú fallegur Það er bara eitthvað við þig sem hugur minn Þráir. ] [ Sandurinn og sólin ólu þig upp. Skuggalaust hádegi var kennari þinn. Í landi guðanna, lærðir þú mál þitt. Í landi fortíðar fannstu ást. Í skugga musteranna lékstu þér. Í burtu hélstu í von um frama. Í burtu hélstu í von um auð. Örlögin báru þig yfir úfinn sæ. Nú ertu hér. Kuldinn og snjórinn tóku við þér. Landið handan hafsins býr í hjarta þér, Hér fannstu auð þinn, en í peningum fólst hann aldrei. Amor est vitae essentia* og ég elska þig pabbi minn. ] [ Sælar ungu stúlkur! sumarkvöldið er svalt gætið þess að ekki slái að ykkur hljóðbært í logninu háreystin úr laugunum rýfur hægláta kyrrðina þar sem þið standið starið flissandi í kalda linsuna- Kyrrar nú stúlkur! þið eruð mörgum árum eldri en þið eruð þar sem þið standið keikar en þó svo undirleitar og allt sem hefur breyst... nóg um það Svona stúlkur mínar farið og dansið í döggvotu grasinu dálitla stund ] [ ég hef kannað með tungunni munn þinn þvagrás endaþarm þótt ég þekki þig varla ég hef ósjaldan mælt mér mót við þig mæti þó aldrei þeim manni sem þú geymir inn við beinið í iðrum þér ég hef reynt að nálgast heilann á bak við þig undir óteljandi óvæntum hornum hugur þinn fullur af glufum útsmoginn ótæmandi búr vopna alltaf stendurðu uppi með pálmann í höndunum þó hef ég kafað með tungunni í hlustir þínar nasir tvíburabróður ] [ áliðið dags skuggar skýja hraða sér yfir auðnina með í för undan vindi: daufur vaxandi dynur frá moldarlitum jeppa sem streðar þrjóskur upp leiti í fjarska rótföst í grjótinu melasól ] [ já þetta var nú hálfskondið allt þarna í hádeginu þar sem ég stóð yfir eldavélinni með súpubréf í hendi meðan hún læddist óvænt aftan að mér og strauk nett yfir punginn guð hvað ég fann það vel gegn um buxurnar hún er með rafmagn í fingrunum og hún fann nú víst sitthvað líka þar sem hún stundi eins og smástelpa — (mig langar svo í eitthvað haa langar svo hmm í eitthvað að éta) — meðan limur minn þrýsti mjúklega á efnið í klofi mér og hún var tekin að lauma fingrum milli talna í klaufinni og ég sagði eitthvað gáfulegt um það hvað við værum nú öll miklir fangar frumþarfanna en svo varð ekkert úr þessu, ekki fyrr en um kvöldið því ég var orðinn svo helvíti svangur ] [ Faðmaðu mig, birta; leyfðu mér að dreyma um daginn, þó að um miðja nótt sé. "Föls vonarglætan settist undir fjallshlíð." ] [ mig grunar— ef mér væri tjáð ég ætti skammt ólifað kæmi ég hingað ég er þó ekki viss… ] [ Hvernig á lífið að vera Eintóm hamingja og ást Hvað þarf ég að gera Vera döpur og þjást Mér finnst ég vera bundin Markmið mín svo langt frá mér Hvenær verð ég fundin Af einhverju sem verður alltaf hér Vil ég vita hvað gerist Hvað framtíðin mín ber Einn daginn mun það lærast Að það fer sem fer Það er tilgangur með því sem ég geri Sama hvað það er Þessar byrðar sem ég held að ég beri Eru kannski ímyndun í mér ] [ Um velli óttu legg ég mína leið logar dökkir myrkrasveðjur brýna. Hleypir nóttin skuggafáki á skeið skríður rökkurmáni í vitund mína. SkÁ ] [ Eins og hafið er blátt þá missi ég allan mátt, þegar ég er í kringum þig þá vil ég helst hverfa inní mig dreymi um mig í örmum þér vitandi að "jú dónt ker" Afhverju þarf ástin að vera svona sár verður þetta betra eftir nokkur ár? ] [ Kárines Lafingason heitir sá maður ! sem bæði gerði gát og blaður , konan hans Drúnkfríður Elísabet Gunnarsdóttir var vond og illgjörn , stjórnsöm sem svín og rík sem ljón! Þegar hún gekk til kirkju einn Sunnudag þá hún spikið bar og frekjan laf ! Hljóp hún inn og hrópaði snögt "Ég vakna seint , þó mér sé hent ! ég hleip mjög sveitt ! og hlæ sem fræ" Allir litu til hennar jafn vel Kárines og hljóp hún þá út og bar spikið aldrei heim ;) ! ] [ líkaminn er ljóðaform hugur milli lína. ] [ einu sinni var þak það var rautt svo byrjaði að rigna - og þakið hljóp inn í hús ] [ einu sinni var hestur á þaki hann hét skjóni svo byrjaði að rigna - og hesturinn datt inn í húsið ] [ einu sinni var risaeðla í húsi hún var stór svo byrjaði að rigna - og húsið fylltist af hesti og þaki ] [ Vertu ei undirgefinn. Þó er eitt eins víst þú aldrei það kýst sem af því hlýst að vera yfirgefinn. ] [ einu sinni var mús í holu sinni í húsi hún var grá svo heyrðist hávaði frammi - og hún hugsaði með sér að það væri farið að rigna ] [ skál kál ál l... ] [ armar krossins teygja sig víða um allan miðbæinn og reyna að afhomma gönguna eins og hún leggur sig ] [ Why try to find an excuse when you can find the cause With your word’s unfaltering strength there is no lose You refill my spirit with flames of love I place my prospects in your hands for you have given your word to satisfy all my heart’s desires ] [ Við augnarráði dauðans lít ég undan. Við snertingu dauðans hef ég ekkert vald. Það sem Guð gefur og Guð tekur get ég tekið sjálf. Morituri te salutant Í einmanaleika er það auðvelt. En kjarkinn skortir mig. Til að berjast gegn hinu illa, ef hið illa er ég. Í draumum mínum dey ég en nýr dagur rennur upp. Morituri te salutant Ég lifi fyrir hina Ég lifi fyrir mig Og í Guðs nafni ég dey. Morituri te salutant ] [ Á meðan að ég gjöreyði heiminum, þá hugsa ég um þig. ] [ Á miðnætti í Huliðsheimum er álagastund. Allt verður kyrrt og rótt og það er sem tíminn hverfi inn í óendanlega stutt andartak sem virðist líða hjá, áður en það hefst. Fossinn í gjánni fellur þegjandi fram af bjargbrúninni og áin streymir eftir farvegi sínum hljóð eins og andardráttur sofandi ungabarns. Þyturinn í laufinu hægir á sér og skógurinn er þögull og þrunginn leyndardómum sem fela sig bak við sérhvert tré fullir ólgandi ástarþrár. Og innan þessa eilífðaraugnabliks og án þess að nokkur verði þess var er þessi töfrum slungna stund liðin hjá. Og allt er sem fyrr - en samt öðruvísi. Líkt og náttúran sjálf sé að dansa í skóginum íklædd dimmbláum, draumfögrum kjól. ] [ Þú sér ei hvað þú hefur misst Fyrr en það er farið burt Þú veist ekki hvað sársauki er Fyrr en þú meiðist Hvernig áttu að sjá það sem er farið Ef þú veist ekki hvenær það fer Þú misstir mig , tókstu eftir því Vissir þú að nú myndi ég yfir gef þig Þú missir kannski eitthvað minna eins og bók Og þú verður pirraður og leitar En þegar þú missir ást missir þú allt sem þú elskaðir Lífið virðist ganglaust , þú ert ónýtur þú leitar eftir meira en áður því ást er ekki bók , er ekki mynd Ást er lífið og þú misstir það ] [ Mig hungrar, heimurinn ranghvolfist og ég snýst í hringi. Ég er svöng en ísskápurinn er tómur. Mig þyrstir, veröldin sundrast, og ég dett niður. Ég er þurr en vatnið kláraðist í gær. Mig langar, sjóndeildarhringurinn dofnar, og ég hrasa. Ég vil en ég fæ það aldrei? Svo birtir á ný, hungur mitt hverfur, þorstanum er svalað því ég fékk þig. Þú komst eins og ljúffeng máltíð eitt sunnudagskvöld í maí ] [ Ég leita ljóss í myrkri. ég arga en finn ekkert ljós. Ég geng áfram lengi lengi. Ég hníg niður, ég get ekki meir. Ég græt og arga til skiptis. Ég sofna en vakna svo aftur, ég sé ljós og stíg upp. Þegar ég er komin píri ég augun. Ég er komin á staðinn, staðinn þar sem ég fer ekki aftur niður, niður í vondan mannheim,syndugan og skítugan heim. ] [ Standandi kyrr á sama stað þátíðin á heilanum algjörlega stopp. Gerandi sjálfa mig geðveika, djöfull er ég þreytandi. komin með leið á sjálfri mér hversu glatað er það. ................................. ekki lengur þátíðin heldur nútíðin, ekki lengur þau heldur ég. ekki lengur vonsvikin heldur heltekin.. dagurinn til að brosa gamla brosinu aftur, dagurinn til að gráta gleðitárum á ný, dagurinn til að muna hvað mér þykir vænt um marga. eða öllu heldur dagurinn til að gleyma þér. 13.janúar 2007 Hulda María ] [ fyrirgefðu mér fyrir það sem ég gerði ekki, fyrirgefðu mér hvað ég er heimsk. ég sá ást, breytast í hatur, ég sá gleði breytast í sorg, ég sá eltandi augu breytast í hverful.. þau horfa á mig fyrir það sem ég hef ekki gert þau horfa á mig vegna heimsku -mér er sama þau hafa ekki hugmynd hvað er rétt þú horfir ekki á mig það er sárt ég finn kuldann og reiðina, og þegar ég lít í augun þín, -þú ert ekki hér ennþá það sker í hjarta mér.... kannski á ég það skilið en fyrir það sem ég hef aldrei gert er erfitt að vera dæmd samt skal ég iðrast því ég sagði þér ekki satt,.,. vonandi þú... vonandi ég.. vonandi.... ég og.... þú...... 30.október 2006 ] [ Ég held sama fasta takinu dag eftir dag, samt er heitasta ósk mín að sleppa og gleyma þér, það eina sem ég vil eiga eftir er minningin, þú og ég. 8.febrúar 2007 ] [ Að gefa manneskju séns Sem átti það ekki skilið, Er ekki heimska Heldur reynsla. 6.febrúar 2007 ] [ Sumardagar í Sólheimum hjá þér amma mín, Í minningunni geymi þá hjá þér þar sem sólin skín. Sendiferð í Glæsibæ með þér amma mín, sem leiddir mína litlu hönd ég er langömmustelpan þín. Elsku besta amma mín ég mun alltaf muna þig, þú sem varst mitt leiðarljós amma ég elska þig! ] [ steig eitt annað feilsporið í átt að göfugleika tíðar andans hrímugar iljar mínar, hastarlega brenndar og allar þessar nýjungar fyrirlíta mig. ég hef reynt að brasa, bæta við mig kenningum. viðurkenndar sannanir nútíma lýðs enn öll þessi litadýrð sem fólk hefur skapað næ ég ekki prenta á mitt einslita blað minn litur er svartur og mun alltaf vera, á hvítt ég hugsa einfaldlega. ] [ Það er allt rautt. Allar tilfiningar mínar sem ég finn, Eru horfnar Og Komnar aftur. Allt þetta sem fór framhjá mér. Ég, Þú , Við. Á ég að stoppa? Líta við? Fara til baka? Eða halda áfram? ] [ Allt þetta sem við áttum. Þetta sem er horfið núna, Rifjast upp fyrir mér. Allar þær vondu, góðu, vandræðalegu minningarnar. Vill fá þær aftur! Allt saman.. Allt þetta sem ég græt yfir núna. Græd af sorg að hafa mist svo fljótt. Einn dag allt gott næsta allt brotið!! ] [ Ég tek eitt skref næt. Þú tekur eitt fjær. Mig langar að öskra!! Bara það að ég elski þig.. En ég geri það ekki, Þú mynir ekki trúa mér hvort sem er. Ahverju ekki að kalla það yfir alla, Og ganga svo í burtu? Ég meina þetta verður í lagi. Í versta falli þú gengur lengra í burtu. En í þvi besta þú komir hlaupandi til baka og segjist elska mig líka!! ] [ Ég tala og tala. Þú situr og hlustar bara á. Ég hætti að tala. Þú byrjar að tala, þú segjir að þetta verði allt í lagi. Ég horfi á þig og bláu augun þín taka á móti mér. Ég sé að þú ert ekki að grínast. Í smá stund held ég að allt verði í lagi. En svo fer ég að hugsa um allt sem getur farið úrskeiðist og öriggið hverfur. Þú spyrð hvað ætti að fara vitlaust. Ég seigi þér að hvað allt gæti orðið viltaust. Nú þegar ég er farin að efast um allt... Hringir bjallan Við situm en þá þarna. Þú kvíslar að mér,, að þetta mun allt ganga vel trúðu mér,, Ég held að ég hafi aldrei farið svona örugg í tíma ] [ Núna fyrir stuttu hrundi líf mitt.. Allt það sem ég var búin að byggja upp, Allar varnirnar, allir veggjirnir, allt sem ég átti... Hrundi!! Eins og sökkvandi steinn. Allt tekið frá mér með nokkrum setningum. Þú veist ekkert hvað þú ert að gera mér! Þú veist ekkert hvað var bak við þetta. Þú veist ekkert hvað ég meinti. Þú veist ekkert hvað ég hélt. Og núna án þess að vita það braustu það niður. ] [ Núna fyrir stuttu hrundi líf mitt.. Allt það sem ég var búin að byggja upp, Allar varnirnar, allir veggjirnir, allt sem ég átti... Hrundi!! Eins og sökkvandi steinn. Allt tekið frá mér með nokkrum setningum. Þú veist ekkert hvað þú ert að gera mér! Þú veist ekkert hvað var bak við þetta. Þú veist ekkert hvað ég meinti. Þú veist ekkert hvað ég hélt. Og núna án þess að vita það braustu það niður. Allt sem ég þráði að eiga.. Þú tókst það. Allt sem ég vildi... Þú tókst það. Allt sem ég átti... Þú tókst það. ] [ Sálarlíf mitt er ekki rólegt lengur. það er komið úta tún í leik sínum. ég verð að fara smala þessu saman Annars gerist eikkað hræðilegt. svo ég kveð að sinni. ] [ Nálegt ströndinni situr hún. Hún fer ekki úta ´ströndina, Þvi hún er hrædd. Þarna þar sem hún situr gerðist það Allt það sem hún hefur óttast. Rifrildi byssur og blóð. Þetta horfir hún á í huganum enþá. Með sama óttanaum, skelfinguni, hatrinum. Hún stendur upp lítur í gring um sig, Gengur síðan úta á hlýann sandinn. Upprifjanir og hugsanir þjóta um huga hennar. Rétt eins og elding hafi slegið niður öskrar hún, Af eintómri skelfingu. Þetta var of mikið samt svo lítið. Ég hleyp til máttvana likama hennar sem liggur á ströndinni. Ég lyfit höfði hennar upp og tek það í fang mér. Hún grætur heitum tárum sem skilja eftir sig saltrákir á kinnum hennar. ] [ Ég horfi á rósina sem þú eitt sinn saumaðir út og ég fékk svo að eiga. Þú barðist fyrir lífinu, fyrir því að draga andann. Ég vildi aðeins óska að lífið hefði verið þér betra. Elskað þig eins mikið á móti. Þú varst algjör hetja í þyrnum stráðri veröld með hindrunum sem fæstir myndu af bera. Svo ég horfi á rós sem vex upp úr þyrnum og vona að þú hafir nú loks, vaxið frá þínum. ] [ • ] [ /skít-/skít-/skít- k a s !t! ] [ Ég er upprisan og farinn út á lífið... það sem reist er með valdi verður með valdi aftur rifið niður ] [ Heill heimur af rústum... ekki svo heill, er það? ] [ Með lestinni til London förum, margir enda á strippbörum. Förum þar í einn,tvo bjóra, fengum við þá gríðarstóra. Í lúxus rými fljúgum við, eftir service er ei bið. Flugfreyjur hneygja sig og beygja, farangurinn þær í sig teygja. Fyrsti klassinn flottur er, frægir menn ferðast hér. Þá ferðin er á enda, þá kveðju ég vil senda. ] [ Það gerðist fyrir sex árum, að þau deildu með sér tárum, Bjarni á diskóteki var, kemur frú Kristjana þar, dönsuðu þau dansinn góða, daginn eftir var allt ein móða, Eftir það í sambúð fóru, gaf ég þeim því hjónaklóru. Færðu þau sig norður í land, þangað til Hagkaup fór í stand. Í Reykjavík þau nú dvelja, og giftingu nú velja. Ekki verður nú aftur snúið, ei lengur, getur Bjarni flúið. ] [ Þar sem lífsins glæta lýsir leið og logar um dimmar nætur, situr lítil stúlka, herðabreið í skúmi rökkurs og grætur. Undir himni dimmum draumar líða að vakni aftur þær þrár sem eitt sinn sóttu á hugann blíða en í nú renna bara tár. Tárin litlu væta hennar kinn á hugann sækja draumar. Litla hjartað flöktir hið síðasta sinn er engillinn lífi hennar laumar. Engill tók hana himnana til engar áhyggjur þó að í ári harni, Þar svífur hún á skýum og brúar það bil frá konu aftur að barni. ] [ I think I’m born to be a loser. I think I’m born to be a bitch. And don’t think I’ll cry because of you, sir! My wound only needs a little stitch. I don’t care about you raping me, I don’t care if it’s true or not. I don’t know who I’m supposed to be... -or perhaps I only forgot. I was one of those girls who were good, One of those the future holds dear, But unlike any other girls in the hood My life and soul were colored with fear. Each day at school was like hell And for fear I hid in the shadows, Locked up my soul in a prison cell, Hiding away from my lows. Perhaps it wasn’t the others, Perhaps it wasn’t just me, Perhaps not the fault of my mother’s, Perhaps not my dad’s ‘cause you see, In the beginning I made a wrong choice, Picked a bad road to walk. I didn’t listen to my inner voice, Didn’t notice it’s talk. “He’s a bad fellow, this guy, He’s only gonna break your heart. He’s gonna leave you here to cry, Come on girl, try to be smart.” But I didn’t listen to this voice of mine And soon the damage was done. I lost touch with the divine And hope shut my light that once shone. But he didn’t just break my heart And now I feel like a whore. He took advantage of another body part And somehow I keep shouting for more... It doesn’t matter if it’s love or if it’s sex, Each way I’ll be hurt. I think it’s a curse or a hex ‘cause somehow I’m stuck in the dirt. I tried to pull away from the shadows, I tried to draw closer to the light, But each time I fell and each time I rose I realized that the light was too bright Perhaps I hoped for to much When the next love came to my soul, ‘cause in the end I hoped for another’s touch, Another one to make me whole Along came others and along came lust And along came sex and all that stuff, But I never forgot my broken trust When you locked me to my bed with a handcuff. A reliving nightmare each day I wake And each night I sleep is the same. My sex life since then was only a fake And I hid the truth under a face full of shame. Perhaps it doesn’t matter at all, At least not because of me, Perhaps my summer was only a fall, Perhaps not the light I thought it’d be. But my heart aches for the others Who’s victims became of your crime, Though I really don’t know if it bothers To write you a poem in rhyme. I want you to share my guilt And say sorry to all those men Who’s confidence I’ve both broken and built, And you mine as well, since then. I hope I’ll let go of the pain And that this poem be the last one to you, So I can find a love, not to lose, but to gain, Find a love that is finally true. ] [ Ef þú elskaðir mig myndirðu svara. Ef þú elskaðir mig myndirðu koma. Ef þú elskaðir mig myndirðu skilja að af því ég elska þig þarf ég að fara. Ef þú elskaðir mig hefðirðu bætt þig. Ef þú elskaðir mig hefðirðu hlustað. Ef þú elskaðir mig hefðirðu skilið að ekkert sem ég geri hefur getað kætt þig. Ef þú elskaðir mig hefðirðu reynt. Ef þú elskaðir mig hefðirðu tekið af skarið. Ef þú elskaðir mig hefðirðu séð fyrir að á endanum yrði það allt of seint. Ef þú elskaðir mig hefðirðu mig ekki kvalið. Ef þú elskaðir mig hefðirðu snert mig. Ef þú elskaðir mig hefðirðu ekki svert mig og skilið að hjá þér get ég ekki dvalið. Ef þú elskar mig ekki láttu mig vera. Ef þú elskar mig ekki hleyptu mér burt. Ef þú elskar mig ekki láttu mig vita, því ég veit að þetta eiga elskhugar ekki að gera. Þú veist að ég elska þig en það mun þig aldrei seðja. Þú veist að ég elska þig en þetta er of sárt. Þú veist að ég elska þig en ég get ekki meira. Ástin er ekki nóg svo þetta er mín kveðja. ] [ Sú er komin til áranna og vit hennar vex, á vísdómsstússi gerir sjaldan töf. Nú ertu Magga Þóra orðin þrjátíu og sex og þú fékkst líka mikið í vöggugjöf. ] [ Ég stend fyrir utan dyrnar þínar og þrái að opna og óska þess að þú heyrir hugsanir mínar. Hvern þann dag er ég lít þig augum vaknar í brjósti mér ástarþrá og ég vona að þú heyrir hjarta mitt gráta. Ég kreppi hnefann og drep á dyr en enginn svarar og ég vona að þú heyrir í mér. Ég tek í húninn og opna hægt og sé þig þar fyrir innan og vona að þú takir eftir mér. En þú sefur værum svefni undir sæng og ég tipla á tánum til þín ofurhljótt en vona að þú vaknir við hljóðið. Ég sest á rúmstokkinn við hlið þér og fylgist með þér óska mér þess að þú verðir var við augnaráð mitt. Þú opnar augun og lítur upp ég brosi til þín en þú sérð mig ekki og ég þrái að þú verðir mín var. Þú sest upp og varir mínar nálgast þínar en ég finn ekki fyrir þér þegar ég kyssi þig því þú ert staðinn upp. Ég elti þig og leið þína liggur inn á bað þú tekur upp raksápu og lítur í spegilinn. Ég lít líka í spegilinn og horfi á þig. Ég óska þess að þú heyrir í mér vona að þú sjáir mig þrái snertingu þína… En ég er ekki þar. Ég er ekki í speglinum -eins og þú. ] [ Hún var aðeins lítil, saklaus stúlka og þráði althygli sem hún ekki fékk. Elsku pabbi, sagði hún og reyndi að líkja eftir honum í öllu. En pabbi sá hana ekki, því hún var bara stelpa og kannski ekki bara þess vegna. Seinna var hún ekki lengur lítil og þráði athygli sem hún fékk. Elskan mín, sagði hún og reyndi að líkja eftir konu. Og karlmenn sáu hana því hún var ekki lengur barn og kannski ekki bara þess vegna. Síðar varð hún fullorðin og þráði ekki þá athygli sem hún fékk. Hættu, bað hún en enginn vildi hlusta. Og hún færðist undan og faldi sig. Samt sáu hana allir …en enginn vissi hvers vegna. ] [ Hlátur... Grátur... Sé andlit ótal andlit Raddir hvísla illar raddir Glott illgjarnt glott Raddirnar í hausnum á mér... segja mér að þegja segja mér að gráta segja mér að deyja segja mér að láta hönd á egg og heyja hinsta slag við dáta dauðans eftirláta. Ég segi nei! Þær raddir eru ekki mínar! og þó hljóma þær í huga mínum líkt og mín hinsta tónlist. Litla stelpuskjáta viltu ekki játa að þessi lífsins gáta er þér um megn og dauðans regn mun veita líkn og þessi fíkn mun frá þér hverfa og þú munt erfa kærleika og drottins ást hann þér aldrei brást þó hann hyrfi sjónum í reyk frá ótal jónum var hann ætíð þar var hann allsstaðar og þig yfir þrautir þínar bar. En hví þá þessi sorg? Átti hún ekki að hverfa? Hví kemur hún aftur? Og hvaða raddir hljóma í eyrum mér? Eru þær lygi eða eru þær sannar eru þær ég eða eru þær einhver annar? Það er aðeins ein leið til að komast að því... ] [ Ég gekk eitt sinn í myrkri. Hvert á fætur öðru réðust skrímsli á mig í efni og anda og drógu úr mér allan mátt. Ég gekk fagnandi móti ófreskjunum, þekkti lítið annað. Ætíð bauð ég fram hina kinnina í vonum að sársaukinn umbreyttist í gleði. Stundum tókst mér að blekkja mig, hélt að svona væri lífið. En við hvert skref sem ég tók sökk ég dýpra niður í sandinn og furðaði mig svo á því hvers vegna það væri svo erfitt að lyfta fótunum og stíga næsta skref. En þá komst þú. Við vorum eins. Við vorum ekki ófreskjur. Við vorum ekki skrímsli. Við vorum sakleysið og ástin. Saman þóttumst við hífa hvort annað upp úr kviksyndinu og svífa áfram á bleikum skýjum ástarinnar, hátt á himni þar sem illskan náði ekki til okkar. En það var aðeins blekking. Ég skildi svo að þú varst einn af þeim. Ég sá að þú varst skrímsli og þú sást að ég var ófreskja og við börðumst móti hvoru öðru. Saman börðumst við á móti lyginni, lyginni sem við vorum sjálf. Sundur börðumst við gegn sannleikanum til þess eins að geta sameinast aftur í lyginni. Ef við aðeins hefðum getað litið okkur sjálf í spegli og viðurkennt raunveruleikann áður en allt fór úr böndunum og ég drap þig og þú drapst mig... En hvernig gæti sannleikurinn hafa sigrað lygina án þess að hún gufaði upp? Og lygin var við, lygin var ástin. Og hvað er þá eftir til að halda áfram? Ekkert. ] [ Ef ég gæti umvafið þig jafnmikilli ást jafnmikilli hlýju og ég þrái sjálf myndi ég aldrei missa þig Ef ég ætti ennþá hjarta mitt myndi ég gefa þér það einum Ef ég fengi aftur alla þá ást er ég hef áður gefið væri eitthvað eftir handa þér En hjarta mitt slær í öðrum en mér og dælir ást í æðar annars og heldur blóði hans eins heitu ...og kalt blóð mitt getur ekki yljað þér... ] [ Ligg ein úti í móa, stari upp í himininn, gráir rafmagnsvírar strengdir milli skýjanna, stráin blakta við andlitið á mér. Ég ligg ein, græt gamlar minningar sem taka á sig form í litlausum skýjunum. Fallinn engill, fugl án vængja, saknar hreiðurs síns, öryggis verndandi föður og elsku móður er umlykur og rekur allan ótta á braut. Rifin úr skýjunum, svívirt af svörtum ára, sem í sakleysi og sekt, blindaður af lygi sá ekki sólina fyrir ljósinu og slökkti það. Í fögru himinhvolfinu ummyndast ljótleikinn í sorg og tárin renna. Fjötrum bundin var rós sú svert og bliknaði roðinn er laufin, slitin af sterkum stilknum, féllu til jarðar og stilkurinn visnaði, aðskilinn frá hjartanu. Í skýjahnoðrunum sá engillinn spegilmynd sína... Úr visnuðum stilknum reis naðra og skreið í skuggan til að gráta beiskum tárum. Því hún freistaði freistarans og myrkrið var hennar sök. Samt renna tárin í grasið... ] [ Ég elska þig svo sárt að hjarta mitt grætur. Svo brjálæðisleg ást, eldur sem logar, bál sem fuðrar upp og verður að engu. Og eftir stend ég með minninguna sem skyggir á allt annað. Kaldhæðnislegt að það sem aldrei getur orðið skuli koma í veg fyrir það sem eitthvað ER. Ást, sem í samanburði við minningu eina virðist kulna. Ljúfsára minningu... ] [ Last night was a party night lots of people with needs they want for the wrong reason looking fo lovers for the night so they can feel fine for a while then they wake up and start looking again maby one night they will find love of their life it has hapens to lots of people then thy will feel fine and can start with their life ] [ Í garðinum Eden fyrir áfallið kom ormur að máli við konu eina: Fáðu þér bita af epli þessu þér verður gott af því. Eins og hvað gæti gerst? spurði konan. Tja, svaraði ormurinn, þú gætir til dæmis tekið eftir tippinu á manninum þínum. Það gekk eftir. ] [ Hjarta mitt grætur þegar að þú ert ekki hér hvar slær hjarta þitt ef ekki hjá mér ég man blíðar stundir hvar sem ég fer af hverju ert þú ekki hjá mér Máttur þinn er mikill en mannst þú eftir mér mér hefur ekki tekist að gleyma þér hvað get ég gert hvernig get ég verið svo að þú sért hjá mér Langar vökunætur þú gafst mér hvernig get ég þóknast þér þú sagðir að þú unnir mér enn bara minn líkama þú tókst þér Sál minni þú náðir hvernig get ég fyrirgefið þér sjaldan hef ég gefið svo mikið sem ég gaf þér ] [ Vinasamband er eins og tékkneskur vasi við rífumst, það kemur sprunga við berjumst Það kemur stærri sprunga við svíkjum hvort annað, vasinn brotnar í miljón bita Hann er sprunginn. Það mun alldrey verða aftur við alldrey aftur ] [ aðgerðir hafa staðið yfir: ríkisstjórn ákveðið að auka fjárlög: (meira að segja) samfélagsleg vitund hefur aukist: þrátt fyrir allt hefur dánartíðni ekki lækkað miðað við höfðatölu. ] [ Sjávarföll við sund og ós stríð með þunga streyma. Rastir rísa um skip til sjós siglir til nýrra heima. Laufskógalaut er ein í hól upp við kalda stalla. Skugga bregður, sterk er sól sumri tekur að halla. Ströng er leið í Laugaskarð lífið er haust og vor. Vex þar fátt við fornan garð fýkur í gömul spor. ] [ tókstu því sem gefnu að geta troðið það út í eilífðina af súkkulaði og sjálfsfróun rauðvínsslettum og sálarangist? eldurinn varðaði veginn uns pómóþeifur kæfði hann nú stöndum við stök meðfram kantinum og þegar við föllum er skógurinn mannlaus ] [ Atorka mín er mektar hnoss, má ég því hlakka til hót, að reka henni rembings koss og ríða henni á hestamót. ] [ Ég ungur var léttur á líkama og sál, leysti mín verk eins og gengur. Á vegi mínum urðu bófar með brjál, þá brast í mér gleðinnar strengur. Þeir heimili mínu hleyptu í bál, það happa var alsenginn fengur. Ég fékk mig ei til að stappa það stál að stytta þeim aldurinn drengur. ] [ Núna aftur er ég svoleiðis komin með nóg af þessu kjaftæði! Núna skýt ég mig í hausinn! Í þrítugasta og fjórða skiptið á þessari mínútu ] [ Love is when you can´t sleep, because you don´t ever want to stop looking at him. Love is when it´s hard to get out of bed, because in his arms you feel so safe, just with him. Love is when you want to go out, because you´re so proud to be his girl, only with him. Love is when you don´t care, because everything you need and every thing you want is him. Love is when you feel like shit, because it hurts so fucking much when you´re not with him. ] [ You came to me with so fucked up blood on your cloths and a black-eye. You didn´t seem to trust anybody so sceared of everyone who came near you. I always did my best to help you feeding you and washing you. I never ever gave up on you even though you gave up on me. She said that she didn´t believe how you looked and what had happend. She never understood how much you fought for her, cuz you loved her. We went through the worst and best times together and stood by each others side. We were always ment to be together but I´m still just a friend helping you... ] [ It all started as a game then it got real so real that I couldn´t stop thinking about you I couldn´t be blinder You said "I love me" of course I said "I love you too" It seemed so innocent but I just saw it all wrong I couldn´t be blinder You always talked so sweet to me but it stoped being sweet when when you started telling me how to behave all the time I couldn´t be blinder I was so deeply in love with you, everything was always about you, everything I did, I did for you, were my only one I couldn´t be blinder A friend came to me one day screamed at me "wake up" I didn´t understand my friend and told him to go away I couldn´t be blinder When I didn´t do everything you liked you got so mad,it hurted then I started to understand my friend he warned me, why didn´t I listen I couldn´t be blinder After a long time, too long I woke up and told you in your face I said "It´s over" I could see clear again ] [ Þú varst alltaf sá sem ég talaði við ef eitthvað var að, þá varst þú sá fyrsti sem fréttir það, svo mikið treysti ég þér. Þú varst þá fyrsti sem snerti mig beint í hjartað, þú áttir það gjörsamlega ég gaf þér allt sem ég átti svo mikið elskaði ég þig. Þú varðir mig fyrir þeim sem vildu mér aðeins illa þú þoldir það bara ekki svo mikið var ég þín Þú varst sá fyrsti sem létst mig gráta útaf ástarsorg nótt eftir nótt. svakalega saknaði ég þín, svo mikið elskaði ég þig. ] [ Bak við öll dökk ský skín sólin svo skírt Þótt það ringi og rigni þá styttir upp Jafnvel þótt að það sé hálka í viku keyrum við eins og brjálæðingar ] [ Hann huggaði mig ekki þegar ég grét Hann faðmaði mig ekki þegar mér leið illa Hann skildi mig ekki þegar ég talaði Hann hlustaði ekki á mig þótt að hann horfði Hann hló að mér þegar ég grét Hann gekk burt þegar mér leið illa Hann sagði mér að þegja þegar ég talaði Hann hlustaði á hana en horfði á mig Æji pabbi.... ] [ Sem ég ligg hér andvaka undir súð í gömlu húsi verður mér hugsað til þín í ræsinu handan árinnar hvar þú situr meðal jafningja og mænir slompuðum augum upp í gluggann til mín að sjá hvort kvikni nú ljós eða lífsneisti Vorkenndi ég þér? Kannski Fyrigaf ég þér? Sennilega Þú varst efnisvinur lykillinn að földum fjársjóði á framandi strönd núna ertu bara framandi þambandi ógeð á Kaffi Skít við Red River Street og ennþá svo sorglega fá skref frá Draumnum ] [ Köld bæjarljósin birtust snögglega, sviðsettu hattinn minn, og höfðu ekkert að segja. ] [ Ég veð snjóinn upp að hnjám og einmana ljósastaurar kalla á mig. Bakkus eltir mig og starir svörtum augum á eymd mína, ég öskra út í nóttina að ég sé hvergi undir honum komin en vindurinn kæfir óp mín. Ég forðast snertingu hans og finn hvernig skórnir fyllast af snjó. Hamslausar hugsanir hendast með mér á meðan hjarta mitt kvartar yfir kjarkleysi. Líf mitt er stöðugt rifrildi við sjálfa mig um stráka sem þora engu enda þori ég ekki sjálf. Helvítis leigubílar koma aldrei þegar ég þarf þá. Þetta er allt þeim að kenna. ] [ Ég er hætt að setja ljóðin mín hingað inn! mig finnst óþæginlegt að aðrir sjái ljóðin mín og ég ætla bara að halda þeim útaf fyrir mig.. enn ég kveð með einu ljóði.. Slys! Liggjandi á götunni, kvað gerði ég nú? kvernig lennti ég hér? og kver ertt þú? "Ég hef fundið fyrir sársauka, hjarta mitt kramið og brotið, Kvað hef ég gert? ég vil byrja uppá nýtt!,, Þú varst svo góður, og bauðst mér far heim, Ég treysti þér allveg, við vorum í bílnum, Á leiðinni heim, þegar á móti okkur kom stór vörubíll.. liggjandi á götunni, kvað gerði ég nú? kvernig lenti ég hér? og kver ert þú? þú sem liggur hér, við hliðinna á mér svo fallegur og friðlegur, dáinn elsku drengurinn,, fallegi drengurinn minn.. ] [ Þetta kallar á mig. Þarf nefnilega að gera ljóð. Þarf að fylla þetta út. Þetta auða blað. Þetta hvíta textabox. Þarf að finna lýsingarorð. Þarf nefnilega að gera ljóð. Þetta kemur ekki að sjálfu sér. Þetta verður þarna bara. Óskrifað. Þarf að bíða. Þarf að láta. Þetta líða hjá. ] [ Hún klæddist kjól, eða hvort það var sítt pils. En aftur á móti, sást ekki glitta í hinar fögru rasskinnar. Veit ég, að hún á ekki bágt þar undir. ] [ Einföld mótun, þó svo flókin í meðhöndlun. ] [ Það er engin leið heim, brýrnar voru eyðilagðar fyrir svo mörgum árum síðan. ] [ Litlu skúturnar sem bera hjörtu okkar, færast smátt og smátt frá hvoru öðru. ] [ Lifrin mín er sæt og fín. Vinnur alla daga. Hreinsar allt það brennivín Sem ratar oní maga. ] [ Bleyta blóðsugur blöðrur sínar lífsins vökva loka niðri Í frystikistum geyma gutlið þar til bankar þurrðar sála og miði merkum er miðlað millum plastpoka og pöpuls. ] [ óviðbúið renna blóðtaumar niður lærið uns þeir ná köldum flísunum líkt og þegar forfeður þeirra kepptust um litningana tuttugu og þrjá ] [ ef kærastinn hefði ekki trúað maríu mey er hún laug til um eingetinn son sinn og blikkaði mikilmennskubrjálæðið á næsta horni hefði ég varla hætt að trúa ] [ Þegar ég geri ljóð hugsa ég um aðra aðra sem semja og aðra sem lesa. Því það er enginn sem les eftir aðra það eru allir að sitja og semja. Ljóðin sem aðrir þurfa að dæma eru aldrei lesin svo þau gleymast. Það er enginn til að dæma Svo þau eru save til að geymast Höfundar lesa þau ekki enginn les þau Gleymt á gömlum tenglum. Gleymt á netinu stóra. Á endanum er ekkert eftir nema gamlar cookies eyddar svo það getur myndast pláss fyrir nýju ljóðin. Ljóðin sem engin les. ] [ Ég lærði að skrifa stafi stafi sem mynda orð. Orðin mynda setningar Setningar mynda málsgreinar. Málsgreinar sem mynda kafla kafla sem mynda sögu. Sögu sem fólk les staf eftir staf. ] [ Ei er allt valt né gjörvallt falt! ] [ Ég snökti en enginn heyrir. Ég græt en enginn heyrir. Ég öskra en enginn heyrir. Þó er fólk í kringum mig allan daginn, alltaf. Ég píni mig en enginn sér. Ég meiði mig en enginn sér. Ég sker mig en enginn sér. Þó er fólk í kringum mig allan daginn, alltaf. En enginn heyrir og enginn sér. HB ] [ Ástin er himnaríki og helvíti. Ástin getur verið það besta sem gerist í lífi þínu og hún getur líka verið það versta. Þeir sem kynnast himnaríki bera þess merki alla ævi. Þeir sem kynnast helvíti bera þess einnig merki. Þeirra vegna vona ég að enginn gefist upp á leitinni að ást. Ástin er yndisleg og ömurleg. Ekki gefast upp, himnaríki bíður þín. HB ] [ Þú ert falleg. Þú ert einstök. Þú ert gáfuð. Þú ert fullkomin eins og þú ert. Og þú átt skilið allt það besta. Ekki breyta þér fyrir einhvern annan. Þú ert sú eina sem skiptir máli. HB ] [ Ég og þú, þú og ég. Hvað erum við hvað viljum við. Vilt þú mig, vil ég þig. Fáum við einhvern tíma hreinskilið svar. HB ] [ Ef ég myndi hætta að horfa á þig, tækirðu eftir því? Ef ég myndi hætta að hringja í þig, tækirðu eftir því? Ef ég myndi hætta að hitta þig, tækirðu eftir því? Ef ég myndi hætta að tala við þig, tækirðu eftir því? Ef ég myndi hætta að lifa,fyrir þig, tækirðu eftir því? Hversu vel tekurðu eftir? HB ] [ Komdu-farðu Já-nei Alltaf-aldrei Ég vil þig-ég vil þig ekki Hvað er rétta svarið? ] [ Í símann ei nennir að ansa Um búðina gengur hann efins vill ver'einsog Georg Costanza en kollvikin fást ekki gefins En maginn er farinn að mýkjast á kroppnum sjást engin bein. Veit að hann er farinn að líkjast Doktor Frasier Crane ] [ ég er kona hvað sem hver segir sveigðar línur stæltra vöðva bringunnar falleg brjóst hugsa ég ég er kona og fæði það líf sem af mér skapast flatur kviðurinn frjósöm jörð sem ekki þarf að slétta villigras er þar ekki nokkurt að ráði ég er kona og gef mig öllum landnámsmönnum meðan akrarnir fölna út við rökkurskóginn þar rís píkan mín sem voldugt tákn kvenleikans ég er kona. ] [ Gott að hafa góða í ráðum og geta forðast hina. Lag er á þegar lyndir báðum, ljúf eru kynni góðra vina. En vini skyldi varlega reyna, vináttan brothætt er. Það er svo með sitthvað eina, slæmt þegar út af ber. ] [ Tölur á blaði minna mig á orma sem skríða yfir sandauðn lífsins. ] [ Eftir dagsins strit og puð er gott að komast heim til þín. Heyra söng þinn og vængjaþyt, horfa á uppátæki þín og gleyma veröldinni um stund. ] [ Ghost rider er aðalgaurinn, en er enginn auli. Hann er sendimaður djöfulsins og missir síðan hörundið. Hann er rosalega cool, en er enginn kú. Hann á að drepa sonin, þá kemur öll vonin. ] [ Af hverju eru bara tveir stafir í ég? Ég er miklu margbrotnari en það. Við (þrír stafir) eigum betra skilið. ] [ Slökktu á lampanum. Gakktu með stíg ljóssins, sem fjarar út... Ó! Svo blíðlega. Ég er einn, ávallt mun vera fjarri, horfandi út á sjó. ] [ Að kvöldi til ég horfi á eftir heiminum. Ég sé hann ranghvolfast í niðamyrkri. Farast, og sundrast í himinhvolfi vitundar. ] [ Dagurinn í dag drukknaði. Sú nótt kemur, þegar líkið finnst... ] [ Mér líður eins og fugli án fjaðra Stelpu án farða Bang Gang án Barða Hlaut að vera, ég er nakinn ] [ ] [ Spurningin, um hvers vegna lagt sé úr hlaði, er snauð tilgangi, starfi fyrir lærða menn morgundagsins skiptir ekki máli hvort það er vegna afbrots sem móðir þín hefði fyrirgefið eða vegna uppburðarleysis, sem faðir þinn hefði aðeins umbunað með hönd á öxl. En ef þú fetaðir þennan stíg, þjakaður af þunga grjótsins sem greri í kviðarholinu kanntu að hafa séð snarkið í upplausn hins passíva ríkis, sem táknar skugga, upprisu þriggja sektartrjáa, sem tákna skugga, selestískan titring duftsins í hellinum, sem táknar skugga, nálgastu það með broti af léttúð. Slys það sem á sér stað í transi er gott slys. Því ekki að leyfa því að eiga sér stað? Á milli oddsins og blaðsins lof veru þinni að þorna. ] [ I "We´ll all sleep on the homeless moon." --I said out loud so everyone could hear. Drunk and weary with my last cigarette for a cane I brooded. After few brainstorms of how I could still remain a man came across my breath. He was tall, skinny and tremulous but with shiny auroral eyes he quavered; "We all know the end is coming, but some of us know a story with a happy ending." II The sweet marine lady heading its way to the last prom, archangel, featly making everyone speechless, oh the choreography of charm. Surrounding the weeping eye in a dark storm surrender. And for a long, oh so long deadly minute it whispers over and over again; "I am the long way home." Bemoaning on the olden runways as they scream, searching for a soothing clarity. She has the goldhorn of our pristine love, like the leader infusing his men with courage, she plays with our hearts with a saxophone, celestial notes flowering in a tender sashay, jazzy atmospheric air covers our lungs. After few hours she told us to take care of ourselves, think about how our shadows can dance, in a silent pas romance, stop howling with the midnight timber wolves. She takes off her ghostly clothes, naked walking alone under big vivid sky, clasping the streets with every footstep which for so long have wanted to die. Reached out her skinny limb and clutched around the dead roses, resurrect! Lo and behold! They were born again. And she promenades with the bums, the drunken high hats which lost the war, the big, the minute, thieves and murderers, the gentlemen, the gentlewomen, the newborn, the old... every last one of us. There was no bystander, but you will witness her where the dead flowers in the rain unfold. You will see her dance under the blue raised mist. She´s dressed in all her best; the heavenly crowned princess of a poor man´s hope, our queen, the redeemer. III "Go under the hedgehop, make a peek along with the black pigeons. It will be like walking out of a bar with a beautiful stranger." ] [ Hvers vegna grét ég? Hvers vegna komst ég í slíkt uppnám þegar verkið var jafn þarft? Ég man eftir tillitslausu, hvítklæddu fólki og ljótum skúlptúr í anddyrinu. Við föðmuðumst eins og við hefðum drýgt glæp. Við biðum eftir bíl, ég grét en þú hafðir þegar grátið. Hví skyldi ég hafa samviskubit? Ég hef séð Clov snúast kringum Hamm. Ég hef séð Gloucester með blæðandi tóftir. Ég hef séð myrkrið sem er bara myrkur. Og ég veit að lífið er skúlptúr í anddyri stofnunar. Lífið er ljótt. Ég man eftir pössun lítils manns, úti á klöpp í fölskvalausri kyrrð, hjalandi, fullum áhuga á öllu sjálfsögðu, skeiðandi djarflega fram völlinn, hopandi skjótt frá uggvænlegum fyrirbærum, svarandi aðfinnslum snúðugt, ásælnum í kexbaukinn. Börn gefa foreldrum sínum líf. Engum er greiði gerður með því að fæðast. Erfðu það ekki við okkur, kríli. Við vorum að gera þér greiða. Ég elska þig, ekki-vera. Annars væri ég það líka. ] [ Ef ég væri að skrifa ljóð Væri ég kannski svolítið göfgaðri Kannski tækist mér að hnýta saman falleg orð Mála fallegar myndir Stundum langar mann frekar að vera bara grófur strigi Hrjúfir kartöflupokaþræðir En það er ekki alltaf fallegt að klóra Stundum langar mann einmitt að vera hrjúfur til að valda einhverjum óþægindum. Ef mér tækist að valda einhverjum nægilegum óþægindum myndi hann í pirringi sínum semja fallegt ljóð. Yrði þá ekki allt gott að lokum. ] [ Nei ástin mín nei ég hef haldið svona áfram of lengi og þú munt ekki telja mér hughvarf úr því sem komið er. Sjá auk þess er spegillinn of brotinn. Kannski ef hann væri minna brotinn, en hann er brotinn. Ég vil ekki sjá mig endurvarpast svona. Goð eru hol og bréfpokar fjúka um strætin. Því er nú ver. Menn eru holir og bréfpokar fjúka… þú munt ekki telja mér hughvarf. Nei ástin mín nei ] [ Engin grið í skugganum, þessi sól brennir alla jafnt. Skröltormar og sporðdrekar kyssa hvít og bitur bein. Hingað komst ég ekki einn míns liðs. ] [ Blessaður sé Drottinn að þjóðfrelsisbaráttan er fyrir bí. Annars gæti ég fundið mig knúinn til að ljá henni kraft með list. Guði sé lof að kommúnisminn er fallinn annars gæti ég fundið mig knúinn til að ljá honum kraft með list. Guði sé lof að Guð er dauður annars gæti ég fundið mig knúinn… Guði sé lof að avant-garde er dautt annars gæti ég… Guði sé lof að ég er ekki kona annars gæti ég… Loksins kom vorið. Apríl er grimmastur mánaða. ] [ Allt er hér flekklaust myrkur og þó: þarna hátt uppi er kringlóttur flötur, flötur ljóss. Það er heimurinn. Ég einblíni á heiminn, en ég hugsa ekki um hann. Nei, ég hugsa um það sem er utan við flötinn. Ég hugsa um allt hið fagra og ljóta og tryllta; ég hugsa um allar hýdrurnar sem iða í svallveislu orma; um seðla sem serða kaupahéðna; um rakvélablöðin sem berast úr viðtækjunum; um vampýrur lepjandi latte; um ölvaða þursa; um séra Niemöller; um bölvaðan ættföðurinn; um skáld sem brenndu hár kvenna sinna; um ský í buxum; um það sem haglabyssan sagði við höfuðið; um konuna sem stakk mig í bakið. Ég er hérna niðri; ég einblíni upp. ég einblíni á flötinn, ég einblíni á heiminn, og ég held að ég sé byssukúla í hlaupi. Mig langar að skjóta heiminn. ] [ "Menn, konur og börn í valnum limlest, svívirt og saurguð afskræmd, fólk kúgað og niðurlægt svipt ástvinum, lifandi í örbirgð tortíming, fólk lepjandi dauðann úr skel hver dagur skelfing, fólk í angist fólk á flótta fólk sem er búið að ræna fortíð sinni nútíðin er martöð framtíðin óvissa fólk sem veröldin hefur gleymt fólk sem veröldinni stendur á sama um Allt þetta nístir mig" segi ég þar sem við skeggræðum á Mokka "Piff, tilfinningarök" segir þú sýpur dreggjarnar úr kaffibollanum og skellir hellunum fyrir eyrun ] [ Skuggar líða birtu bíða breiðir nóttin faðm til Agra brátt. Teygar andinn tóninn stríða úr turni spámanns í austur átt. Kyndlar loga í breiðum boga byrgt er ljós í Mógúlshöll. Iðuköstin og öldur soga örlög öll ein boðaföll. Laufblöð fölna lífs og sölna í leiftri manns er gleði og sorg. Bræður berjast illt mun ölna óttinn dregur vagn sinn hægt um borg. Kraftur þrotinn þreytt og brotin þekkir drottning svip á vang. Ekill dauðans með ljáinn lotinn leggur að með svartan væng. Sú er trú um Indlands æðar er í huga eftir lætur spor. Höldar finna sterkt til smæðar ég stend við Ganges einn um vor. Innst það finnst ef yndi nemur þá augun blika sem glit á mjöll. Einn það veit ef ást hann hefur upp á efstu Himalajafjöll. ] [ Ég vil hjálpa , ég get ekki hjálpad , hvernig á ég ad hjálpa? Ég fæ engin svör. Ég þarf svör. Annars get ég ekki hjalpad. Ég elska þig svo mikid Þegar bródir þinn sagdi mer ad þu værir á spítala hugsadi ég ekki. Þu varst búin ad gera þad. Aftur. Ég var hrædd. Ég þordi ekki ad hringja Ég þordi ekki ad standa upp Ég þordi ekki ad gráta. Þar til ég var ekki búin ad heyra i þer i langan tima Ég var ordin hrædd. Ég var ordin mjög hrædd. Ég grét. Einu sinni enn gat ég ekki hjálpad. Ég stód upp En hugsadi nei. Ég vil ekki gera henni þad. Einu sinni enn gat ég ekki hjálpad. Þú komst heim. Ég þurfti ad láta eins og ekkert hafdi gerst. Þar til ég gat þad ekki lengur. Ég grét. Ég veit ekki um þig. Enn og aftur gat ég ekki hjálpad. Ég gat ekki hjálpad mer , ég gat ekki hjálpad þer. Égelska þig svo mikid. Ég þoli ekki ad þer lidur illa. Þvi þa veit eg ad . Enn og aftur get eg ekki hjálpda. Ég elska þig svo heitt , Mer langar ad hjálpa þer Mer langar ad geta gengid i gegnum þetta med þer Þu hleypir mer ekki inn. Þá hugsa ég Enn og aftur get ég ekki hjálpda. Fyrirgefdu. Því ég get ekki hjalpad þer ] [ Afhverju heita hanskar ekki handklæði? -Orðamaður ] [ Það er api í víngarðinum og annar sem er að ríða honum. Manstu þegar við vorum apar og hlupum um víngarðana? ] [ Ég er svo reið, því ég veit að ég hefði verið ein af þeim. Ég hefði endað í þröngri lest, ég hefði endað í gasklefa, ég hefði endað í skurði ásamt beinagrindum þöktum húð. Ég hata þá, þeir tóku persónuleikann, þeir tóku gleðina, þeir tóku lífið. Ég hata þá, því þeir hata, það sem er öðruvísi. Ég lifi og ég er öðruvísi. ] [ Þrýstnar og þróttmiklar konur, þekkjast á góðri stund. Röskar en vilja engar vomur, virka hin vænstu sprund. ] [ kveður á djúpið,dægurbyrjun, brothætt er skelin, barningur manna, borist á miðin, boðungar fullir, barist við öflin, blóðs er krafist. björt mey og hrein, brýtur sæng við höfuð, blómið er fölnað, bátur er farinn, botni er náð, bylgjurnar lægja, birtir um síðir, blæbrigði skugga, blíður dagur, kveður á djúpið,dægurlok. ] [ Ó þú vesæla sál með þitt brostna hjarta, líkamlegu og sálarlegu ör, því reynirðu ekki að sjá ljósið bjarta og drullast þessu þunglyndi úr, hafa smá stjórn á þínu eigin lífi og gera eitthvað af viti með þitt vesæla líf. ] [ Gylltur steinn rennur í flæðarmálinu og snertir mig. Hann er mjúkur og þvalur eins og lífið sem hefur ekkert upp á að bjóða. Rigning og sól mætast og regnboginn kemur. Leyfðu mér að snerta þig mikla vatn og sameinast þér! Biður dropinn. Gerðu það. Og vatnið faðmar dropann og sameinast honum eins og ég sanmeinast þér og þá hefur lífið marga kosti. ] [ Lítið og ljótt saman. Leiðast hlið við hlið. Væri ekki gaman að eiga einhvern að bæði að baki og framan hvað ég vildi það. ] [ Ástfangin stelpar er aldrei gott, elskan trúðu mér. Ef gæji lætur upp ástarglott og gengur að þér, segðu honum þá að snauta á brott og bíddu hér. Því ástfangin stelpa er aldrei gott elskan trúðu mér. ] [ Ég lífinu lifi, en verð oft reið, því afbrýðisem ljúki, ég beið og beið. En óskin mín rættist ekki, því skil ég loks, að afbrýðisamt fólk er fast við hlekki. Sem oftast líður sem box. ] [ Fyrir þig mun ég skera af mér punginn troða í brjóstahaldarann og mjólka Svo þú finnir til samkenndar. Fyrir þig mun mér blæða í viku raka af mér líkamshár með öllum mögulegum sársaukafullum aðferðum. Svo þú finnir til samkenndar. Fyrir þig tala ég máli þeirra sem hugsa eins og þú, gleymi gömlum vinum með þykkan böll á milli lappanna til að þeir mengi mig ekki með lögum og reglum karlmennskunnar. Svo þú finnir til samkenndar Fyrir mig áttu að bíta úr mér tunguna svo ég slysist ekki til játninga og þú munir ekki njóta mín. Svo ég finni til samkenndar ] [ ég syndi í hafi augna minna kafa með lokuð augun svo að saltið komist ei að. ég anda frá og fell dýpra "oní" hafið ljósið minnkar og fiskarnir Fiskarnir horfa á mig. Ég opna augun í faðmi reittrar hænu. Dauðri hænu í poka. Ég held ég syndi bara áfram. ] [ Þegar ég fæddist Var eins og heimurinn læddist Ekkert heyrðist Ég kom út um gatið Og mér var skutlað í fatið Ég grenjaði ekkert Fuglarnir þögnuðu Mamma og Pabbi fögnuðu En svo hættu þau Allir héldu að ég væri öll Því ég var hvít sem mjöll Og var hljóð sem gröfin En þá fékk ég á ilina högg Það var hreyfing snögg Og ég byrjaði að gráta… Hugsið ykkur ef ég hefði ekkert grátið Ef ég hefði lífið látið Í höndum læknisins Mikið hefði lífið verið gott þá Enginn sem særir þig niðrí tá Bara ljósið… ] [ Ég man eftir því þegar ég missti meydóminn Tippið fór nefnilega upp í góminn Pabbi kom þá inn og hækkaði róminn Við vissum að harðann fengjum við dóminn Við stóðum tvö upp á Evu klæðunum Og biðum eftir þungum ræðunum Þá byrjaði hann bara að tala um Gæði Og sprautaði inn í mig miklu sæði Strákurinn varð ekkert hress með þetta Og ákvað að nú skildi pabbi detta Pabbi datt með hörðum skell Og líka svaka hvell Þá varð ég frekar agndofa Og spurði hvort pabbi væri dauður Hann sagði því allsekki lofa Því að pabbi var orðinn þónokkuð rauður Við snérum honum varlega við Og heyrðum lágværan nið Hann var víst dáinn En hvergi var páfinn Við ákváðum saman að henda honum í ánna Og bundum lítinn miða við tánna Á honum stóð að hann héti Baldur Og líka að delinn væri mjög kaldur Svo allt í einu segir strákurinn Að hann væri mesti fákurinn Og að hann hefði ekkert með þetta að gera Og sagði mér að láta sig vera Mér sárnaði þetta geðveikt Og ákvað að svona skildi þetta ekki vera Ég sá þá að sambandið okkar hefði verið leikt Af því hann steig upp í bíl með einkanúmerið Hera Ég hljóp á eftir bílnum En aldrei hann leit Ég heyrði bara hljóðið í fílnum Þegar hann skeit Í níu mánuði lifði ég ein Á afskekktum stað. ég og gömul geit En þegar hríðirnar hófust var ég of sein Og dó á stað þar sem enginn veit. Ég sé oft eftir því sem ég gerði Þótt ég sé ekki lengur lifandi vera Og lifandi víti líf hans verði Hann og helvítis tíkin Hera. ] [ Lítill drengur er ljúfur fengur, fyrir barnaperra, og ef allt vel gengur hann gerir lengur líf barna verra og verra. ] [ Einmanaleikinn er eins og veturinn, tómur og kaldur. Ég nýt hvers augnabliks með þér, og vil það vari að eilífu. En við vitum það jafn vel, að við hæla sumarsins er haustið, og í eftirdragi haustsins er veturinn. En ég óska þess innilega að ég verði býflugan sem nærist á þér næsta sumar, og ég mun draga það eins og ég get að sjúga úr þér seinustu dropana. -Orðamaður ] [ Hafið gekkst undir skyndibrjálæði. Útlínur af skugga hringsins, mótaðist í þriðju klukkustund heimsins. Dökkleit himingolan gnæfði ofan sundið, sem fjarlægðist, --sem heimurinn. Mótfallinn fyrir golunni, ráðríkjandi. Fjarri, og hafði ekkert að segja. þó að djöfullinn væri nærri. Kærkomin snerpa af dulinni sorg, björgun sem fjarlægð var. Það sem syrgir mig mest er sorgin hin sjálf. Í hafsbotni uppfull af hörmung sem bar. Stíflugarðurinn sem að eilífu lak, í tunglhafinu barnfæddur og borinn. Dvínandi sem flautu-berinn. Ævaranleiki sagður er; lagður í bleitu og skorinn. ] [ Ástin er svo falleg, boð milli taugaenda. Ein pilla á dag kemur ástinni í lag. Lyfja hefur lækkað verð sitt á ástarpillunum vinsælu. -Orðamaður ] [ Ég óska þess oft að ég sé hundurinn. Hann liggur upp í sófa allan daginn og þarf ekki að hafa áhyggjur af neinu. Ég vil samt helst ekki láta gelda mig. -Orðamaður ] [ Heimurinn hrundi. Ég veit ekki afhverju. Né hvernig það gerðist. Ég bara sat og hugsaði. En svo gerðist það. Fannst ég ein í heiminum. Tómleikinn yfirstíganlegur. Ég byrjaði að skjálfa. Hristist eins og hræddur fugl. Hugsanir, minningar, pælingar. Allt svo kuldalegt og vont. Svo vont að ég hélt ég gæti ekki meir. Myrkrið helltist yfir mig. Gat ekkert gert. Sat bara þarna og dróst inn í hruninn eiginn heim. Svo sofnaði ég. Þegar ég loksins var hætt að skjálfa. Gat hugsað á rétta vegu á ný. Kom mér út úr mesta myrkrinu og sá lítið ljós. ] [ Mér líður ekki vel. Líður ömurlega. Langar að hverfa. Langar að öskra, gráta og garga. Springa í loftinu. Svo mikill er sársaukinn. Reiðin berst innra með mér. Tárin berjast á bak við augun. Kökkur í hálsinum kemur í veg fyrir öskur. ] [ Ég stend í sturtunni. Er búin að standa þar lengi. Vatnið fellur sjóðandi heitt á líkama minn. Svo heitt að ég finn til. Mér finnst ég enn svo skítug. Verð ekki hrein. Sama hversu lengi vatnið fellur. Ég get ekki þvegið það af. Það er víst ekki hægt að þvo matinn af líkamanum. Ekki get ég þvegið í burtu mistök eða erfiðleika. Hræðslu eða vanmátt. Ég stend varla. Stend á völtum fótum vegna hita og vanmáttar. Vildi að ég væri sátt. Sátt við lífið. Sátt við mig sjálfa. ] [ glatað sagði stúlkan við það að springa líkt og vúlkan ég heitan strák verð að fá til að sleikja mína stóru tá ] [ Þetta er hið lága greni. Skúmaskot hið huldna. ] [ Göngustígarnir yfirfullir, bíða eftir einhverju öðru, en rónum liggjandi, á víðavangi. Hver er sá sem hann var. Yfirgefinn; flækingur á milli steina. Tveir dagar líða, og hann ferst, við grafreit Reykjavíkurborgar. ] [ With arsons she ravishes! ("This is the motif of our vanishing point. See this largo! In the middle of this giant cold wasteland, a god is buried, dead in my trunk. We will all sleep under the homeless moon, darling. We will all glide along with the swarthy desert-train... dying slowly upon the lonesome culm as we rasp out; "This is the end of everything." Eagles fly upon the picture of heaven. Severing the doors, and what is left. "Nothing but lunacy." --This is the jazz up, people; nothing is left, there´s nothing to bury, and nothing to live for.") Like stars falling, besprinkling in bloom. Alas! The hyacinth lets a mile go. And the porphyry on the backstop of our homes, soon enough will be an atrophy and die alone. The solo lune and the rats take over in prosper. Draw our death. Draw our death. Draw our death. Draw our lives. Draw our nether regions. Blench from our quiet white lines, make them black as your heart. Seethe in our hearts! Keep shooting at the stars, make them black as your heart. Blown with a corona half-naked, dispersing. The weald is building fires, our supine walls burning in wooden aircrash. And the captain of our wreck is dead. The captain of our wreck is dead. And the captain of our wreck is dead The captain of our wreck is dead. You are the one who i want to spend Hades with. This is a dark latitude. Wreckage! Wreckage! Wreckage! Wreckage! Wreckage! Wreckage! Wreckage! Wreckage! Wreckage! Wreckage! Wreckage! Wreckage! Wreckage! Wreckage! Wreckage! Wreckage! Wreckage! Wreckage! Wreckage! Wreckage! Wreckage! Wreckage! Wreckage! Wreckage! Wreckage! The low-spirited pigeon dancing the dead waltz in a quiet alpine room, playing jazz under the full esoteric moon. And the frames in the macabre lounge, they are the sons of the capital floor show, where bullets flew amongst the fallen angels. where they waited for so long in a divine death warrant, --celestial burials. Close to the aslant boulevards, over the epoch, in the doldrums, playing dead. And she incinerates our bourders, shelves the constancy; while playing the dead concord, dancing in extremis pas. She etherizes our hearts... she etherizes our hearts into a doleful dew. And she stepped over the bottlenecks, singing for our lugging, subsisting our being just to lull our steps again. And again we die. And we grovel, paralleling with a cognition of incubi. And again we die. And again we pontificate the erosive earth. And again we die. And again we die. And again we die. No Heavens to save our lives. Lo! Woe! You, who ails us in our dire doom. Alas! Nay is our name! Await for the dirge queen to sheen. Listening. One grain at a time. Hark at how we drip, in this hourglass, of time. (And again we die... Rearwards!) ] [ Draum einn mig dreymdi eina óveðursnótt Um dimman og drungalega stað Mara mér birtist, mér varð ekki rótt Drunur og skjálfti en allt síðan hljótt Já maran hún sagði mér það Í norðri er fólk undir snjónum þunga Kalið og lífslöngun farin Það getur ei andað með köldu lunga Þau umvafin eru í myrkri og drunga Börnin svo líflaus og marin Barnið svo kalt og líkaminn blár Líflaust það liggur í dalnum Móðir þess leitar, í augunum tár Líkami barnsins svo kaldur og smár Brátt liggja þau bæði í valnum Sólin ei kemur og enginn veit neitt Fólk undir snjónum er grafið Einangrað í ísnum, það er ekki heitt Dauðinn hann kominn, þykir það leitt Fólkið er dáið og farið Daginn þar eftir var tilkynnt um lát Ískaldur gekk þar með korðann Dauðinn, hann gerði þar skák og mát Börnin svo lífsglöð verða aldrei kát Í litlum bæ fyrir norðan ] [ Koltvísýringur syngur svanasöng á degi. Rjómagult loftið fangar máva við sundin bláu. Detta skokkararnir niður í mistri. Velta gangstéttir yfir því kollhúfur. Því ekki gerir það nein annar. ] [ Bush er flárátt fól Illur vili falinn Fyrir olíu, friðarsól Fallin er í valinn ] [ Í myrkri og ljósi mætast straumar. Veruleikinn sem við skynjum, þetta eru ekki draumar. Undir sálu okkar oft kraumar, það sem Guðirnir og Jesú að okkur laumar. Þeir segja sögur og svara svörum. Vita um allt sem fellur af okkar vörum. Að vera með þessa hækju er skárra en vera á börum. Gott að vita um fólk þegar maður er á förum. ] [ Á morgun förum við á djammið, Í dag er ég með hausverk. Þarf að þvo á mér hárið og skrifa heila ritgerð. Á morgun kíki ég í heimsókn, Í dag er ég með kvef. Þarf að taka til, skúra gólf og læra fyrir próf. Á morgun þurrka ég tárin, Í dag hreinsa ég leiði þitt, með skítugt hár og ólærð. ] [ Enginn spurði mig né þig, það var ekki spurður nokkur kjaftur. Þeir brugðust heilagri skyldu sinni. Höfðum við ekki heitið sem herlaus þjóð, að fara alldrei með ófriði gegn öðrum? Hvað þá í stríð sem enginn getur unnið. Hvernig er hægt að frelsa fólk með því, að sprenga heimili þess og skóla? Ó, ættingja og vina blóð, flýtur enn og aftur, flýtur enn og aftur. Blóð Busi Dóri Davi Blóð Busi Dóri Davi Blóð Busi Dóri Davi Þeir láta verkin tala. Þegar græðgin hefur gripið okkur flest, þá er nú varla von á góðu. Gæðakapphlaup, gróðavon, bjargi sér hver sem getur Skara að sér og sínum sem mest, við höfum það gott, skítt með rest. Reglan er ennþá sú sama og áður, hverjir eru sterkir, hverjir hafa betur. Siðblindingjar hylltir sem hetjur, kosnir aftur og aftur, kosnir aftur og aftur. Blóð Busi Dóri Davi Blóð Busi Dóri Davi Blóð Busi Dóri Davi Þeir láta verkin tala. En þegar nánar er að gáð, og hetjurnar skoðaðar betur, þá er oft ekki allt sem sýnist. Stundum þegar sagan er skráð og af sigurvegurunum færð í letur, er margt ekki sagt og margt sem týnist. Það er svo átakanlega sorglegt og skrítið samt um leið, hvað við höfum lítið af sögunni lært, sömu mistökin aftur og aftur, sömu mistökin aftur og aftur. Blóð Busi Dóri Davi Blóð Busi Dóri Davi Blóð Busi Dóri Davi Þeir láta verkin tala. Þeir segjast samt fara að Guðs vilja, og vera í beinu sambandi við hann, það þarf að uppræta óvininn og finna. Og drengur þú verður að skilja, að það erum við eða þeir. Því skal nú hvern mann herða. Ef að þú ert ekki með okkur, ertu örugglega í liði með þeim. Ekkert verður eins aftur Ekkert verður eins aftur Blóð Busi Dóri Davi Blóð Busi Dóri Davi Blóð Busi Dóri Davi Þeir láta ódæðisverkin verkin tala. ] [ Til hamingju með afmælið haldið með láði Helgi minn kæri og vertu nú rór. Nú ertu orðinn þrjátíu þriggja ára snáði og þykist vera orðinn býsna stór. Genin Lán er þeim, sem vel er af guði gerður, guðs er talin náð og honum allt að þakka. En genin ráða gerst hvað séð og verður, göllum og kostum ef við eignumst krakka Í blíðu og stríðu Í blíðu og stríðu stundir okkar líða, standa ýmist kyrrar eða geysast hjá. Barnalánið oss bætir þraut og kvíða og blessaður veri sá er öllu ræður þá. ] [ Feðgar skjóta ref fyrir rass í reiðlist hér um slóðir, sjaldan segja pass ef slagsmálamenn eru óðir ] [ Þegar þú segir, Að þig langi að fara Þá brýtur það hjarta mitt Því mér finnst þú vera svo sterk Þú ert einn af mínum klettum Þú ert mín trausta alltaf til taks, Þú ert ekkert verri en einhver annar. Þú gerir heiminn fallegan, Þú gerir heiminn bjartan, Mér finnst leiðinlegt ef þú sérð það ekki En manstu, Manstu þegar við vorum vakandi alla nóttina Á gamlárskvöld? Manstu þegar þú fékkst vatnsblöðru í augað Í afmælinu mínu? Manstu þegar við fórum út í snjókast? Manstu þegar þú huggaðir mig? Í þúsundasta skipti? Manstu þegar þú klappaðir strætó því hann fór svo nálgægt? Manstu þegar við fórum í sumarbústað? Manstu þegar við löbbuðum út á Shell, Og þú varst svolítið mikið hress? Manstu? Ekki segja að þú sért einskis virði Þú gerir heiminn minn fallegan. ] [ Þegar við öskrum, grátum, syngjum, hlæjum, gerum það allt saman. Það er eins og andleg fullnæging sem kemur eins og ljúfur andvari í mitt annars tilbreytingalausa líf. Þá gríp ég í næsta mann, ég gríp í þig, ég engist um og öskra, Ó hvað ég elska lífið - þetta er eintóm andleg fullnæging. ] [ Í bókasafni hugans, Geymi ég bækur Er ritaðar voru Á tímum Barbí Og snjókalla. Bækur um snjóengla, Ferðalög, Hlátrasköll Og Vöfflur. Bækur um ofspilun Evróvisíondiska, Söng í dyrasíma Og Greyið dúkkuna sem við máluðum í framan. Þessar bækur Eru minningar Sem ég gef aldrei frá mér Einfaldlega vegna þess Að við eigum þær saman Og það er það Sem skiptir máli. ] [ Allt er svo óraunverulegt ég vill ekki eyða tíma án þín Beinin mín verkja ég er svo köld ég er orðin svo þreytt og svo aum Reiðin bólgnar í mér ég neita að finna örin og sárin Ég vill svo opna augun þín því að ég þarf svo að þú horfir í mín Segðu mér að þú opnir þau Gerðu það segðu mér Stattu upp og farðu farðu frá þeim sem skilja ekki sálina og eld þinn taktu hendina mína haltu fast Og við göngum saman Í gegnum eldinn Í síðasta sinn Opnaðu augun þín gerðu það opnaðu svo tilvera mín sé raunveruleiki ] [ Nú ættu vinir góðir allir að sleppa sér, en ekki að neinni vitleysu þó hröpum. Það er ferlega auðvelt að fíla sig hér og fínt við séum öll í góðum sköpum. ] [ Ef hanskar ættu í raun að heita Handklæði Væri þá ekki forfaðir; afi minn eða pabbi pabba míns? Kv. ilmur ] [ Hver skapaði þennan heim? Varst það þú? Þú sem situr á stóra stólnum? Stólnum sem gnæfir yfir Hallgrímskirkju og Taj Mahal Ég bara spyr, því það eru sprungur í gangstéttinni hérna Og það þarf einhver að laga þetta p.s. þú ert ekki gamall kall með skegg, þú ert meira svona líkur skemmtikrafinum Charlie Manson kv. ilmur ] [ Það má segja að það byrjaði allt með nokkrum skrefum En fljótt fórum við að hlaupa Hvert heimsmetið af fótum annara var slegið Og enn héldum við áfram Þvílík undur... eða? En hvort sem það voru Bollar eða byssur Blóð eða ljóð Þá gengum við alltaf lengra, Lengra að öfgakenndinni... ....og það var hún sem varð okkur svo að... ...falli kv. ilmur ] [ Það er svo gaman að skemmta sér í drullupollum drullupollurinn er svolítið djúpur maður verður að passa sig að bleyta sig ekki í drullupollinum mér finnst svo skrítið þegar trén eru berrössuð. ] [ Kæra Sunna við sendum hér svolitla aura er gleðja þig megi. Blessunar allrar biðjum við þér, Bebba og Einar í Skálateigi. ] [ Í blíðu og stríðu stundir okkar líða, standa ýmist kjurrar eða geysast hjá. Hvað skyldi dýrðlegra en detta bara í´ða og deila sinni gleði uns þreytan lokar brá? ] [ Fortíðin klórar sig ævinlega uppá yfirborðið. Þegar ég lít til baka geri ég mér ljóst að ég var engin ofurhetja. ] [ Ég sit á bekknum Undir furunni Og anda að mér hári þínu. Þú ert sem framandi ávöxtur Sem hefur dáið áfengisdauða Í gröðu faðmlagi mínu - og ég verð ekki heppinn í nótt. ] [ Daginn sem pilsið rifnaði Og ég slefaði yfir jakkann þinn, daginn sem ég sagði Að þú værir ljót Og svo borðaði ég orm og setti sand í horið þitt datt mér ekki í hug að við yrðum hjón enda var ég bara þriggja ára. ] [ Ég er að kafna úr orku sem fær enga útrás. Ég er að kafna úr löngunum og þrám. Hugurinn hringsnýst og heilinn er í hræringi. Of margir valkostir, möguleikar og tækifæri. Ég sé ekkert, sannleikurinn of stór. Þegar ég leita að svörum er þeim troðið í kokið á mér, en aldrei þau réttu. Ég kikna undan þrýstingi og stjórnsemi. Nei fyrirgefðu, heilræðum og góðri meiningu. Ég gerist dýrsleg og öskra af lífs og sálarkröftum: Ef þú ræðst inn á yfirráðasvæði mitt ríf ég þig í tætlur. ] [ Þetta skrifaði ég; gangandi í aðeins öðru stígvélinu, haltur á þeim vinstri, töltandi penninn þó gangandi, og hafði ekkert að segja, nema slæma hluti, þá sem birtast minni. Hægri fótur á fótskemli, höktrandi inn á torg, sem brast við brátt með sorgarhljómi. ] [ Eins og fiðrildi sem sækir í fagurlitað blóm dansa ég í kringum þig með vængjaþyt, þar til sólin sest. Þú tekur mig í faðm þinn, svæfir dansinn, hjartasláttinn, og eg legst í dvala í huga þínum. ] [ Doddi segir að ekki renni bláa blóðið, í bykkjum út af Ása-Skjónu hér. Ási segir H-Blesa ei hafa lagað stóðið, þó hefði ‘ann blóðið rautt í sér. ] [ Ég lít út eins og vistnað blóm. Liljan sem hafði þennan fallega tón Tónninn er grafinn Og farinn er safinn Sem í blóminu var Eins og haf. En Vindurinn kom og tók mig að sér Það gekk allt vel eins og vera ber Ég fékk að fjúka með Það var ekki aftur séð Því ég var komin á stað Sem ég leitaði af. ] [ Elsk er svona dæmi sem mér finnst um þig ] [ Ég sofna vært og fell inn í draum þar sem allt er fært. Dansa við þig dís drjúgan hluta nætur en við kossinn frýs - þá þarf ég á fætur. ] [ Þegar ég horfi á tréð mitt í garðinum fer minn ruglaði haus í samband við núið og það gaukar að mér að þetta líf sé bara gott eins og það er. En í amstri dagsins fer hausinn minn á flug og segir mér að ég gæti verið stórkarl verðbréfasali eða bissnesmaður og haft það miklu betra. En þá spegla ég mig í trénu mínu í garðinum sem er bara það sjálft og hefur það ágætt núna. ] [ Ég er tóm eins og tunna. Heilinn visinn í höfði mér. Blóð mitt er tómatsósa á beyglaðri flösku. Andlit mitt sem gömul málningardolla. Líkami minn lundabaggi er gleymdist að salta. Öll er ég hálf og hálf er ég ekki öll. Ég vildi óska að ég gæti lagt sjálfa mig í súr til þess að forða frekari skemmdum. ] [ Ég Get elskað Get hatað Get samhryggst Gat samgleðst Get grátið Get hlegið Get saknað Get upplifað Get allt.. Eða næstum alltaf að minnsta kosti. ] [ Enginn er fullkominn. Þótt hann eigi vini. Enginn er fullkominn. Þótt hann eigi foreldra. Enginn er fullkominn. Þótt hann eigi tölvu. Enginn er fullkominn. Þótt hann eigi sjónvarp. Maður er fullkominn. Ef maður hefur nóg af hamingju. ] [ Heiður blár himininn, með fallegu sólina. En bráðum fljúga skýin, yfir græna grasið og sólina. Litla rauða rósin mín, fallega purpurarauða. Nú ertu orðin þín, á græna grasinu auða. Heiður loftin fallegu og blá, jökullinn skær og hvítur er. Blómin vaxa í blómsbeði. Bráðum vex einhvað og fer og fer Seinna koma lítil blóm, bara hvít og fjólublá. Þá mun rósin fylla sinn róm, og verða rosalega glöð. En nú er fallegu blómin komin, og litla rauða rósin hamingjusöm. Hún talar við þau og alar þau upp. Og nú lítur hún á þau sem eigin börn. Höfundur: Margrét Lena ] [ Á Reykjavíkurvappi ruglaðist ég í rýminu, leit í báðar áttir og þær voru eitthvað svo fjarstæðukenndar. Ósamræmdar á allan hátt. Himinninn var heiðskýr en sólina var ekki þar að finna, heldur kældi hún sig í sjónum og gerði út af við þrjá fugla. Hjartað skoppaði í takt við tónlistina úr nærliggjandi bíl og mig sárkveið því að hann færi. Hvað verður um mig þá? Straumlaus pumpa kveikir enga elda. Þrátt fyrir að rýmið sem umkringdi mig, líkt og tindátar drottningar í vígahug, var ekkert samband á milli tíma og rúms. Það var það sem hristi upp í rúminu mínu. Hjónakornin, tími og rúm, verða að haldast í hendur. Annars fer allt í steik. Og þau eru einmitt skilin! Þess vegna leið tíminn í engu samhengi við umfang veraldarinnar. Og ég alveg týndur, í óskiljanlegu rými. ] [ Þú ert svo fjandi óútreiknanlegur Eitt kvöldið rómantískur, yndislegur, ljúfur Annað kvöld yrðirðu ekki á mig Með tímanum lærði ég þó hvað þú varst að gera mér Nota mig En veistu, nú kann ég á þig og veit að tveir geta leikið sama leikinn. ] [ Fróaðu þér, yfir tölvuskjánum með lokaða glugga svo enginn sjái þig. Misnotaðu vald þitt, rúnkaðu þér, með lokaða hurð svo enginn heyri hljóðin. Lifðu í draumi því þú færð aldrei, neitt betra en hægri höndina. ] [ Mig langar að vera fluga í glasi, martíniglasi, mig langar að dansa fram á nótt og vakna í tjaldi, í svefnpoka sem einhver annar á. Mig langar að dansa út á túni, upp í sveit. Mig langar kyssa hana, því hún er heit í pilsi og ber að ofan. Mig langar í ferðalag, yfir haf. Mig langar með vinum, út á land og vera fluga í glasi martíníglasi. ] [ Ég sit hér í grasi, ein og sár af öllu, Ég fyll'upp í glasi hjá henni Höllu. ] [ Ég sit hér í móanum, einmana og sár. Ég hlusta eftir spóanum, og fikta við mitt hár. Ég sit hér í móanum, og bíð eftir þér. Ég bíð eftir spóanum, til að bíða eftir mér. ] [ 2007 árum eftir að Jesús hékk á krossinum spila trúleysingar Bingó og Austurvelli og er aðalvinningurinn Ipod. Á meðan er helmingur Kristinna manna Að þræða bensínstöðvarnar Essó, Olís, Shell... kaupir sér ís með dýfu með krakkanna vælandi í aftursætinu. Hinn helmingurinn situr heima og skálar með kaloríusnauðum bjór og bíður eftir að ballið byrjar eftir miðnætti Aumingja Jesús hékk á krossinnum allan þennan dag og til hvers? ] [ Leggstu niður á götuna og gráttu steinum sem hafa legið of lengi. ] [ Sjá ekki nema sína hlið, sumum ei vel til gengur. Merkilegt er mannfólkið, og misjafn að því fengur. ] [ Þegar afi var ungur Var hann algjör ljúflingur var frekar stór En sem betur fer ekki þungur, eins og Karlakórinn Hekla sungu hér um árin ungu þá fylgir frægð þungu. Hann var hann skotinn í ömmu enda var hún ekki skömmuð fyrir þetta útlit og hvað hún var dönnuð. Oft í viku fór hann ríðandi á hesti marga kílómetra leið að bænum Kesti. Hann lagði af stað til að reyna ná í gömlu og stoppaði bara á klukkutíma fresti það héldu honum engar hömlur. Í rigningu og skúr snjókomu og hríð án þess að taka sér svo mikið sem einn lúr það var bara þannig tíð, hélt afi ótrauður áfram þar til hann sá bæinn mætti ekki bara gæjinn inn til gömlu og smellti á hana kossi en bara á kinn ef hann var heppinn, fékk hann mjólk og snúðinn sinn. En bara ef hann væri heppinn. Ef afi væri ungur í dag myndi hann pottþétt smsa á gelluna með glæsibrag hvort hún væri ekki til í bíó og sjá svo tríó niðrí Austurbæjabíó tala svo við hana á MSN næsta dag jafnvel semja myapace lag og segja Like it a lot þetta deit var flott og gegt kúl og þú 2 hún fór í test þið vitið rest.. ] [ Margt fær sá er kjafta kann, kemur þannig flest. Margur fílar ferlegan, frekjuganginn best. Ég segi þér að flest er falt, fara að ráðum skalt. Sá missir ei er fyrstur fær, farðu af stað í gær. ] [ Góðir hlutir gerast hægt gloprist þeir ekki niður. Enda er nú orðið frægt, að örlítið rýrni minn kviður. ] [ Með sólinni rís ný von sem vermir sálina meðan nóttin líður 26.2 2007 ] [ Skúli Trölli Erluson sætastur hér er en í tröllasafninu í trúðabúning er Hárið blátt hann líka með og augun brún í dökkum lit og kúluhatt með hér. ] [ Jólasveinar 1 og 12 syngja saman og ganga um gólf Grýla heitir mamma þeirra og Leppalúði pabbi þeirra Jólasveinar gleðja börn en margir krakkar eiga einn uppáhalds... ] [ Þorrinn, þorrinn kaldur er þorrablót hann með sér ber. Þorranum ekki kalt svo er enda í hvítum fötum um hann fer. ] [ Veturinn stundum kaldur er. Í Nóvember hann byrjaður er. Á veturnar fer sumt fólk á skíði og sumt fólk á skauta og litlir krakkar úti að leika sér og kannski líka renna á þotu. ] [ Bless, bless allir vinir hér kveð ég nú og burt ég fer í land sem soldið langt frá er. Flugvél brátt mig burtu ber yfir land og sjó. Gaman var að vera hér bless, bless allir þó! ] [ Flugvél, bílar, farartæki ferðast mikið nú þau menga nú samt svolítið en líka ég og þú. ] [ Nú reynum við að vera,betri en við erum, Bara þetta sinn. Við upplifum ópið og hermennina hlæja, Bara þetta sinn. Nú krossinn er tómur og Kristur hann er farinn, Bara þetta sinn. Hentu ekki nöglunum og geymdu edikmjöðinn Fyrir næsta sinn. ] [ Látum skríða skarar, skútan liggur í vari. Eftir flóðið fjarar, flugháll er blautur þari. Veldur ei sá er varar, verr þótt fari. ] [ Núna þegar ég er hvít Og get loksins séð inní sálirnar Núna þegar ég er hvít Eru allar hurðirnar svo galopnar Núna þegar ég er hvít Get ég ekki einu sinni andað ] [ Það hlaut að koma að leiðarlokum, sagði maðurinn og stökk í loftið gleypti errið eins og selur í dýragarði og brosti eins og hálfviti. Enda var leiðinn horfinn; honum var öllum lokið. ] [ Opin augun, rauð af reiði og sorg. Þetta er dauðinn, handan himnaborg Allt kuldalegt, svarthol hefur gleypt allt. Uppi situr dúfa, við hægri hönd hans Andvaka. Við þann ótta að eyða lífinu í dans við djöfulinn Seinna muntu vita, að ekki er allt sem sýnist. Þegar þú getur verið með himneskum faðir að eilífu. ] [ Þú ert suð í eyranu Sem ég losna ekki við, Efinn um það sem gerðist. Standandi við hlið þér Dag eftir dag, Kreistandi brosið Bælandi niðri reiðina En ég er hrædd Um að einn daginn Springi ég Og missi út úr mér Því ég hef fengið nóg af þér. Þú brást trausti mínu Og þú veist það. ‘’’’’’’’’’’’’’’’ Eitt skref í einu Og ég veit ég kemst í gegn. Því ég veit að Lygarinn, sjálfselskan, Svikarinn og illskan Kemst aldrei langt. 26.mars 2007 ] [ Þegar ég var lítil, þá átti ég mér bróðir. Þessi bróðir var fallegur. Hann var sá allra besti. En einn dag, kemur einhver og rífur hann frá mér. Núna ég er með gat á líkama mínum. Þar sem hann bróðir minn var áður. Ólæknandi sár. ] [ Þeir sem erfiða svitni ekki. ] [ Mikið væri lífið ljúft ef þið væruð ekki til Þið,þessi svarti stofn þessi svörtu kvikindi Ráðast inn á mín heimkynni verið bara heima hjá ykkur í ræsinu Best væri að henda ykkur í búr eða nota ykkur sem tilraunadýr Þessi stóru nef, og svörtu augu Já, mikið væri lífið ljúft Ef ekki væri fyrir ykkur... ...fjandans Rotturnar í bílskúrnum ] [ Við hittumst fyrst fyrir vestan Bæði ung með bros á vör Ég taldi þinn kost bestan Það var þá sem Amor skaut í mig ör Við bjuggum saman um tíma Þá græðgin tók við, peningar og spil, Það slitnaði allt samband, nema um síma, því græðgin tók við, þú varst ekki til. Þú gleymdist í græðginni minni, Sólin varð myrkvuð eitt augnablik, Eftir okkar löngu ástar kynni, Varð alheimurinn eitt strik, Varð alheimurinn eitt strik. Ég flutti suður til að græða Einn daginn ég leit, sektin mig beit Þú varst við mann einn að ræða Þið kysstust svo heit, og núna ég veit.. Þú gleymdist í græðginni minni, Sólin varð myrkvuð eitt augnablik, Eftir okkar löngu ástar kynni, Varð alheimurinn eitt strik, Varð alheimurinn eitt strik. Á við augnablik.. Þetta augnablik ] [ Slepptu mér tíkin þín, Slepptu þessu taki, Sambandið milli þín og mín, er löngu orðið að flaki Haltu um orðin þín, passaðu hvað þú segir, Drullastu heim til þín Framhjáhaldið situr og þegjir Nú brenni ég orðið þitt, nú brenni ég rúmið mitt Þú brendir hjartað mitt Sárin þú færð á þitt Afhverju bróðir minn? Afhverju ekki annar? Hann fær ekki að koma inn Fyrr en sakleysið hann sannar Nú brenni ég orðið þitt, Nú brenni ég rúmið mitt Þú brendir hjartað mitt Sárin þú færð á þitt Hoppaðu, öskraðu, hoppaðu, trylltust Hoppaðu, öskraðu, hoppaðu, trylltust Nú brenni ég orðið þitt, Þú saurgaðir rúmið mitt, Og einnig hjartað mitt Enginn fær bætt þitt. ] [ Ég get ekki annað en brosað svo tárin sveigja framhjá munnvikunum og ég vil ekkert heldur en að búa til minningar til að sakna seinna ] [ að meðaltali er vændiskonan eftirlát gegn staðgreiðslu þó eru þær til sem gefa sig upp á krít; kjósa fremur hjónaband eða klaustur... ] [ Svona er íslensku kennarinn minn, eins og geldi presturinn i Peking. Hann hoppar og skoppar eins og lífi ætti að leysa, í þessari druslu sem hann kallar peysa. Ég veit ég kann ekki að ríma, þetta er eins og ein orða glíma. Þetta er allt óskýrt hjá mér, því mig langar að vera undir sæng hjá þér Þig langar mig að kyssa. Ég vil ekki missa, það eina sem var gott, þegar allt var vont. Hugarástand. .. í íslenskutíma. ] [ Þarf nokkuð DNA próf? Er ekki bara nóg að segja eins og María Magdalegna: hann er eingetinn. ] [ Kjaftaskur Kjaftaskson var fyrir því óláni að kjálkabrotna um daginn. Mamma hans, hún Gróa, brunaði beint með hann upp á slysó en á leiðinni sáu þau nágrannann keyra um á nýjum bíl og kellingin hans orðin ólétt þau sneru við, hann var víst bara eftir allt, tognaður í kjálkanum. ] [ Af heimskum skulu hyggir læra því herrann misjafnt gaf. Hann lætur öll flónin þeim færa fíflshátt um lönd og haf. ] [ Hér sit ég og hugsa til þín heitt. Ég hlakka til að sjá þig lokins núna er gott að vera ástfanginn af stúlku eins þig sem kemur fljúandi inn í hjarta mitt og kveikir í mér sem þú ert búin að gera ég elska þig svaka mikið og vona að þú hugsa það sama íminn garð. ] [ Að útiloka hljóð vekur einungis önnur hljóð. Ég reyndi eyrnatappa en heyri þá bara í blóðinu renna um æðarnar við lagið sem ég er búin að vera með á heilanum í viku. ] [ Ég vildi ég væri stærri Þá gæti ég tekið hærri veginn Og fyrirgefið þetta ( smávægilega hegðunarfrávik miðað við aldur og fyrri stöðu ) En ég er bara því miður beibí Ó beibíbeibí ekki meiri manneskja en svo (beib) ] [ Í dag mun ég deyja, en á morgun ég lifi. Ég mun lifa í nærveru þinni. ] [ bí bí og blaka álftirnar kvaka og blablabla... bla bla... hverjum er ekki sama hvernig börn sofnuðu í gamla daga? ] [ Systir mín Ég elska þig, meiri en öll sandkornin í heiminum. Meiri en alla hlutina í geiminum. Þú ert æði, enda full að gæði. Sæt, fín og kát. Góð ljúf og hljóðlát. ] [ The king has a lousy six dollar whore in his bed. His kingdom crowned with dead flowers bought from the stock market, which are merchandised by thieves and murderers, all in one singing in a drunken comatose of a whopping quackery; "Oh, we don´t loathe the alcohol! Must love the alcohol!" --On and on and on... With pulpy graylings sleeping on the walls, stargazers bawl upon the new grown western towns. There´s a backstop with sentences so small, they only come out in the filmy lower-cases, never to be read by a proper reader, or by anyone. "You´re not my hero, actually you´re kind of a tramp, but I love you, for you´re my queen... but then again, our sexlife could be better." On the same minute he´s shouting bitterly in his realm. "I am the monarch, you are my queen. I must say we were never ment to be." ] [ hún lét mig fá svefntöflur og sagði þetta er ekki til þess að deyja deyja þetta er bara til þess að þú veist ] [ Ég skelf í samviksunni að lifa í myrki hins góða það hlítur að vera jákvætt. Það eru forréttindi að hafa völd eins hvítflibbar og konur þeirra geta allt meðan við hin höfum áhyggjur. Mér leiðist tuðandi folk sem herja að mér úr öllum áttum ég vil rósir og gleði allstaðar og heilbrigt fólk. Þarf ekki fé og eignir líkar vel við hlutskipti mitt blóðugir gómar og augu horfa reið á mig. Þeir bíða eftir að bjóða okkur inn í hinn heilaga garð Veistu hversu fölur sannleikurinn er og dauðinn kemur á öllum tímum óumbeðinn og til í tuskið eins og óvinur í hefndarhug býður í hinstu hvílu. Dauðinn gerir okkur öll af englum gefur okkur vængi þar sem við höfum axlir eins og hjá Hröfnum einnig klær Ekki meira fé, ekki fleiri kjóla hitt veldið lætur sem það sé dautt þar sem gnístur tanna heyrist hávær og deyr svo hljótt og niðurlagt Ég mun ekki fara vil frekar hóp vina og mína stóra fjölskyldu ] [ Við vinkonurnar erum, allt sem við berum. ] [ Systkini eru ávalt ærandia líkt og kríur í móa Fólk getur verið særandi á meðan ég er alltaf lærandi ] [ Kertaloginn flöktir í vindinum svo veikbyggður, alveg eins og þú. Ég heyri hatursyrðin sem þú hvíslar út í vindinn á eftir mér. Mig langar að losna við þig en ég stoppa með hnífinn á lofti yfir þér sofandi. Ég get þetta ekki, þú ert mér allt. Ég elska þig. Ég læðist út aftur og sofna í skugga næturinnar. Myrkrið er svo kalt. ] [ Liggur á gólfinu, þvingað bros, sofandi aumur við hlið, hvað fæ ég í staðinn? Alveg eins og allir hinir, alveg eins og sá í gær nema hárið er ekki eins. En undir því eru þið allir eins; lifandi óskapnaður sem gerir ekki neitt fyrir neinn en lifir á gjöfum annarra. ] [ Ef þú þurftir að fara af hverju ertu ekki farinn því andinn þinn er enn hér og hann lætur mig ekki í friði Brosið þitt hugsa ég um augun þín líka hvernig get ég gleymt því hvernig þú lést mig líta Þú ert allt sem ég þrái þú ert eilífur minn ætíð þú munt mér hjá vera því minn áttir þú að vera Ég leitaði þín allstaðar en hvergi varst þú nokkur ár liðu og nú í arminum mínum hef ég þig. ] [ langt út fyrir sanda svartan geim liggur jökulbreiða starir á mig eins og löng glyrna - senn koma farfuglarnir og baða sig í grunnu vatninu en þá verð ég laungu týndur í köldu augnaráði strandlínunnar ] [ Ég stend hér í draumaheimi og les þitt blað, þitt blað sem eyðilagði mig. Á blaðinu stendur hversu heitt þú elskar mig. Hversu heitt þú elskar mig en bara villt ekkert frá mér hafa. Og blaðið í mínum höndum í mínum höndum, er það sem eyðilagði mig. Þú tókst úr mér hjartað, en skilaðir því aldrei. ] [ Ég datt niður, hnötturinn er rafmagnslaus og ég flýg ekki til stjarnanna í nótt. Sængin horfir á mig krumpuð út í horni reið yfir að hafa verið sparkað fram úr en stóllinn skilur mig. Hann dreymir oft martraðir um morðingja og drauga sem ásækja mann og maður hleypur en kemst hvergi úr spori. Fæturnir eru tilgangslausir bjálkar og stóllinn veit það líka. Hann skilur mig, Einn og grænn með blómaáklæði út í horni. ] [ Þegar ég sest á himnasæng Hjúfrar þú mér með þínum vendarvæng Um lokka þína vindurinn blæs Og segir alltaf við mig hvað ég sé næs. Þú kallar og kreistir, Og mér ávallt treistir, Úr álögum þú mig leistir En ef þú og ég verðum leið Verður leið okkar ei greið Chorus: :;:Trú,von,traust og umhyggja, Ég skal þitt öryggi ávallt tryggja:;: Sest uppí mitt konunglega hásæti, Ég dansa og ég syng af kæti. Þú grettir þig og brettir Ávallt er það mikill léttir Að eiga þig að Að eiga einhvern samastað Í þínu hjarta, Ávallt,alltaf,allan sólarhringinn Að eilífu Amen ] [ Ég geng niður strætið þau horfa á mig tala um mig ég svitna þvalir lófar hættiði þau tala við mig öll í einu svitna meira fariði sleppiði Hvar er ég? Afhverju er læst? Ég ræðst á hann þeir draga mig inn í herbergið sprauta mig ég dofna róast. ] [ Gleypum þau Sprautum þeim Reykjum þau Sniffum þau Drekkum þau Til að gleyma ] [ Meiði mig að utan, vil drepa eitthvað að innan. Allt særandi, læst inni. Veit ekki um lykilinn, langar í hann. ] [ Alein, vingast við skuggana á veggnum. Alein, alltaf ein. Dökkt, kalt, rakt. Ekkert gleður mig. ] [ oK, komin út allt öðruvísi ekkert eins enginn eins er í plastkúlu þarf að komast úr henni gera það sem ég vil ég um mig frá mér til mín ] [ Stelpan situr við barinn. Hún leysist upp, stelpuna svimar. Stelpan rankar við sér, með buxurnar á hælunum. Stelpan er ein, stelpan er ég. ] [ Ekki snerta mig aftur gerðu það. Þá segi ég frá, þú veist að ég þori ekki. Skömm. Skólastjórinn trúði ekki. Allir búnir að gleyma, nema ég, sem gleymi aldrei. ] [ Er skítug og sveitt imbakassinn brást mér langar að baða mig get ekki. Gulur, grænn, rauður, blár allir eins engin matarlyst enginn svefn. ] [ Kertastjaki myndarammi dansgólf glimmer Kommóða flatskjár gras bréf Bíósalur borðsofuborð sæng glas Fjölskylda gleði sorg vinir ] [ Hann skildi mig eftir dauðadrukkna á Hverfisgötunni. Hann sagðist elska mig vildi hann kannski bara sofa hja mér ? Hann hélt áfram að djamma en ég lá þarna í pollinum. Löggan fann mig fór með mig heim, eða.... svo sagði pabbi mér. Hann sagði fyrirgefðu, meinti hann það ? eða vildi hann kannski bara sofa meira hjá mér? ] [ Hjálpaðu mér Bjargaðu mér úr þessum heimi. Förum saman eins og Rómeó og Júlía nema okkur mun takast það saman. Þá verðum við alltaf saman hjá sólinni, bleiku skýjunum. Alltaf gott veður, engin mengun, engar áhyggjur, bara þú og ég saman. Kannski getum við flogið á nóttunni, í myrkrinu, með tunglinu, heimsótt fjarlæga staði og starað endalust út í bláinn, saman. Þetta tókst ekki þú ert farinn en ég læst inni. Við munum einhvern tíman aftur ná saman. ] [ Vondi maðurinn fann mig, feldu þig. Hann meiðir mig, feldu þig. Hann snertir mig, hlauptu. Hann treður sér inn í mig, hlauptu. Hann er búinn með mig, forðaðu þér. Afhverju vill hann mig ekki lengur ? Afhverju vill hann þig núna ? Hann sagðist elska mig. Ég hata þig. ] [ Ligg ein, í myrkrinu. Búinn að fá það sem hann vildi. Heimska ég, aftur ein. Notaði hann smokk ? ] [ One of those days. Today is like one of those days. The day I am not set to amaze. The day that turns into a phase. The day I don't feel strong The day I don't feel I belong. The day I get hopeless, The day I get restless The day I cant see forward. The day my hope fades, The day my beliefs waits. The day I forget why The day I just want to die. It's one of those days When my spirit is on the low, When I cant remember how When I feel like I'm just about to fall, When I don't know who to call. When I hope for a better tomorrow, When I want someone else's life to borrow. It's one of those days I just hang around at home, I turn off my phone. I push everyone away. I isolate myself to cause no harm Its like sending myself to abandoned farm. I am afraid of saying something wrong, I am afraid I wont belong. I am afraid of loosing my friends, I am afraid no one will understand I just push them all away and wait. Those days have turned into weeks, Those weeks are becoming months. Those days are becoming so long. Those days go on and on. With everyday going by, My heart and soul says hi! In hope of my spirit ever to knowledge, In hope for my recovery. Maybe this day will be different, Where everything gets back to normal When I finally remember why. Maybe this is the day I sit from my bed and say, yes! "Now I know, now I remember!" Its just like last September, When I was chasing my dreams When I knew my means. But today is one of those days. Where my heart plays tricks, The game called hide and seek, Shame on you, peek apoo... "I cant find you, where are you?" "Use you brain.. fool when I'm lost, go find me! Look into your soul, If I'm lost, where would I be?" Inside I scream for help But with out knowing why, I close my eyes and hope for it to go by. It's just one of those days. Supriya. ] [ I am dreaming today I am happy I am sure I am confident I am strong I am motivated!! I dream of happiness I dream of colors and sun No pain, no mess There will be heaps of fun! I know I wont miss Because my dreams I cuddle and kiss I am sure because it's me I am strong and I know what will be. There's a fire burning inside It is keeping me warm I can't keep it in, can't hide! It puts on the alarm The one who tells me to fight: "Take action, take action You found the affection!!" ..so I just might! Its giving me the power That little red flower It pushes me further and further. I'll tell u what I'm about! I will follow my dreams I'm aware of my means I have a lesson to teach I will practice my preach! There is no stopping me My lesson, my means, my dreams will be!! I will make the difference I will be the star There has been a big fence I have crossed it and am aiming far I aim for the big success I will stop for nothing less! Supriya. ] [ Those moments we miss The kisses, the sex. Those lips I long to kiss. Why are things this complex? Is happily ever after the case? Or is this just a phase? Feelings change Plans rearrange. But underneath it all For you I always fall. With you I feel complete. With you I feel i succeed. With you I feel never alone With you I feel like home. Supriya ] [ Heimurinn er betri. Heimurinn er betri án Saddam Husseins. Hann hvarf í opinni eyðimörk einsog augasteinn herforingja í sandstormi. Ekkert gerðist. Enginn var drepinn. Engu var logið. Olíulindir heimsins brunnu ekki. Börn létu ekki lífið. Hundruð þúsunda ódauðra eiginmanna hvíla hjá konum sínum. Írak er ekki sandgröf. Hann hvarf niðrí holu einsog eitursnákur inn í hring eigin snöru. Kurteisi þjóðmorðinginn. Hókus pókus. Herti að hálsi hans naðra, alin við brjóst hans sjálfs. Heimurinn er betri án Georg Bush. ‘Frá því þeir ákváðu að láta Bush hverfa þangað til hann varð hengdur, gerðist ekkert. Vinir hans þjáðust ekki, kona hans grét ekki, börn hans söknuðu hans ekki.’ Heimurinn er betri án Georg Bush. Í dag sá ég verkamenn í atvinnuleit. Þeir marseruðu einsog misheppnuð herganga inn í sprengjuregn. Sundurtættir líkamar þeyttust í mót óendanlegu óréttlæti. Vonbiðlar þurrkaðir út einsog gulleit sandkorn af stefnuskrá nýrrar aldar. Stráðir hvítu dufti hurfu þeir niðrí svartar grafir. Og heimurinn varð betri. Heyrirðu öskur fangelsislausu fanganna? Hæddir af rýtingum sem hanga í lausu lofti. Aldrei hlekkjaðir. Aldrei kaffærðir. Múrveggirnir hundar sem glefsa í nóttina. Huldumennirnir hverfa með næstu vél inn í paradís sem pyntar úr líkamanum sálina. Ameríka. Heimurinn hefur batnað. Heimurinn er betri án Davíðs Oddssonar. Ef það er satt, á hann þá að deyja? Heimurinn er betri án Davíðs. Spurðu fangann. Spurðu verkamennina. Spurðu barnið. Spurðu heiminn sem hefur batnað: Dó Saddam einn? Snaraði kúrekinn hann sjálfur? Dó enginn á leiðinni að aftökustaðnum? Rúmaði aftökupallurinn einungis einn mann og böðul hans? Ég veit að þá hann féll niðrum hlerann niðrí botnlaust síki, hitti hann fyrir þjóð sína. Lausnari hennar skimandi meðal æðaberra flóttamanna eftir síðasta blóðdropanum á feigðarvélina. Heimurinn er betri án Halldórs Ásgrímssonar. Ef það er satt, erum við þá réttlát? Heimurinn er betri án barna, án fólks, án ástar. Heimurinn er betri án okkar allra. Töframenn ráða himinhvolfunum. Öll erum við hverfandi fangar og heimurinn er betri. Hókus pókus. Saddam dó. Ekkert gerðist – hlustaðu vel! Ekkert! (P.S: The world is better without Tony Blair. Tony! Do us favor. Disappear). ] [ Stundum syndi ég í rælni en allt tekur enda því neyðist ég hálfber í sundskýlu að fara upp úr rælnilauginni í heita sturtu sápa mig þurrka    - allt að því - allar rælnisagnir af mér að því loknu fæ ég mér stórt mjólkurglas. Já og súkkulaðikex yfirleitt ballerínur. ] [ Afi minn er maður, maður sem man aðra tíma. Afi minn er persóna, persóna Íslands. Afi minn er lágvaxinn, en þó sé ég stjörnurnar bera við himin þegar ég lít upp til hans. Stoltið sem ég finn, þegar ég sé afa er fólgið í ástinni ástin; fögur sem aldrei fyrr, sem eilíft sumar í firði með sóleyjar í brekku og hamingju. ] [ Það vilja allir höndla hamingjuna, hún er talin það besta veröld í og komi hún til þín kæri skaltu muna, að kasta henni ekki fyrir bý. ] [ þegar ég opnaði augun sá ég ekkert nema myrkur þú tókst ljósið í lífi mínu, er þú fórst ég mun bíða eftir ljósinu sem ég veit að kemur ekki aftur, né minn styrkur því þig mun ég eigi sjá aftur, þú tókst mitt líf með þér þú ert mitt ljós og líf án þín er ég enginn ég held í vonina björtu um að þú komir aftur það er erfitt að opna augun og hugsa um lífið án þín, mig dreymir um okkur saman aftur, hamingjuna sem ég fann þá streyma um mig alla, bjarta ljósið , sem allt í einu hvarf ,hvar er það núna þegar þú sagðist elska mig fann ég hamingjuna og ástina streyma um mig fann hjartað springa fann, firildin í maganum, ég elskaði þig of mikið, og geri það en mig vantar þig, ég er svo tóm og sár púslaðu hjarta mínu saman,þú braust það,viljandi ] [
fyrst var það óógeðslega vont en fljótlega þá vandist það og smám saman var ég orðin algerlega húkkt á þessu
] [ það bragðaðist ekkert sérstaklega fyrst ennnnn fyrst honum fannst það gott ... ] [ hann reyndi oft að komast inn bakdyramegin þá hafði ég gleymt að setja í lás ] [ einu sinni kom han með vin sinn sem vildi fá að sjá ] [ mig var farið að dreyma um að horfa á myndir og vera með ] [ ég var tíu ára fyrir ellefu árum í fyrsta sinn ég er enn tíu ] [ ég blotnaði áðan núna á ég ekkert til að vera í ] [ ég er stjarna sem hefur verið tekin upp og stuna líður frá brjósti ] [ ég er með bananabrjóst viljiði sjá ] [ ég er þröng en ég get opnað mig fyrir þig ] [ ég er útglennt á bakinu og bíð ] [ nú hugsa ég aftur um hann um sunnudaga maraþon og ég sakna hans ] [ mig langar í hana þó hún sé meira fyrir menn ] [ menn eru sterkir en ég myndi vera blíð ] [ mig dreymir um að gera það í lögreglubíl og að vera í járnum ] [ það er allt í lagi þó við séum þrjú stundum er það betra ] [ ég bý ekki lengur heima hjá mér þú mátt koma hvenær sem þú vilt ] [
ZVXCXÉGLSMMX WWQERERLXXKJ YYIDGRÖÐÁÆXL ÍZZMSF!!GGSÚÍX
] [ það verður sprenging ] [ síðan er bara þögn ] [ ein stund,eitt spor í rétta átt, stutt spor, löng spor en engin átt! ] [ Ég sendi þér rós,því þú átt mitt hjarta. Faðma ég þig,og framtíð bjarta. Þig vil ég elska,að eilífu sem nú. Því okkar ást er hrein og trú. ] [ Á mánudegi til mæðu,ég lagðist hjá læðu. Hún var með ljóta slæðu,og líktist fuglahræðu. Við reyndum að sofa saman,en mér fannst það bara ekki gaman. Ég forða mér út í hvelli,og dyrum á eftir skelli. En fyrir utan var hennar maður,og sá varð ekki glaður. Hann sagði að ég hefði gert skyssu,og dró upp stóra byssu. Og hann skaut mig. ] [ Vil að þú snertir mig, hlýjir mér, sért hjá mér, alltaf. ] [ Hljóðlát byggð og hrörleg hús við augum blasa. Ákefð enga að sjá, andartak fyrir ber svip af veröld sem var. ] [ Hefur þig einhvern tímann langaði að henda götóttum sokki í klósettið en hætt við vegna hræðslu um að það myndi stíflast? ] [ Ég væri eflaust, með fiðring í maganum útaf þér ef mér væri ekki svona ótrúlega óglatt útaf hamborgaranum sem ég keypti á tilboði í dag. ] [ alltaf þegar dyrnar opnast sæti ég færis að skjóta mér inn um gættina en geng á veggi og get ekki látið eins og ekkert sé með allar þessar kúlur á enninu og út um allt forvitin augu sem fylgja mér hvert fótspor hvar er eiginlega inngönguleiðin í álfahólinn ? ] [ Ég elska þegar þú horfir á mig Ég elska þegar þú hringir í mig. Ég elska þegar þú snertir mig. Ég elska þegar þú sefur hjá mér. Ég elska þegar þú kyssir mig. Ég þoli ekki að vinir mínir hati þig. Ég þoli ekki þegar þú sýgur þetta í nösina. Ég þoli ekki þegar þú býður mér að sjúga í nösina. Ég þoli ekki hvernig hún horfir á þig. Ég þoli ekki þegar þú hefur ekki tíma fyrir mig. Hvort elska ég þig eða þoli þig ekki ? ] [ Mamma og pabbi ég samhryggist, Ég elska ykkur svo innilega og heitt Því þið mig hafið misst Fyrir vopnið beitt Elsku mamma og pabbi Ég sakna ykkar sárt... elskan hættu þessu labbi Mitt líf var ekki nógu klárt... Ég veit ey hvað skal segja Nema takk fyrir mig... Mamma og pabbi, ég er að deyja og ástin mín ég elska þig... Fyrirgefðu mér elsku ástin mín ég fór frá þér svo fljótt... dóttir okkar sem nú er þín þar sem þú komst til hjálpar svo skjótt... ] [ Hvað er eiginlega í gangi Hvernig er heimurinn að verða Nú á ég fullt í fangi því ég þarf mig nú að herða Hversu slæmt getur þetta orðið meðan öllum er alveg sama Og allt ruglið við borðið þetta eilífa, endalausa drama Mér líður frekar illa enginn það skilur vel en í kvöld ég ætla mig að fylla svo ég eymd mína fel Hvað gengur á!!! Hvað er í gangi!!! ég vil það fá að sjá... áður en ég í snörunni hangi... ] [ This is a story of me It’s just a little story for you I only think you can see Blind justice is true. This isn’t good This is just bad I’m walking in the neighbourhood I can see that you’re very sad Blind justice is bad Because justice shouldn’t be blind I’m very up sad Because you, I couldn’t find All I want is world peace You won’t leave me I beg you please Can you just set me free? ] [ In my mind In my dream I am blind by the stream. In my head In my soul You are dead And my love you stole In my mind In my soul I was blind By the love you stole With your kiss On my lips I will miss all your ships With my love in your heart It comes from above Don’t tear it a part ] [ I don’t understand why I was left here I just sit here and cry and I stand where? It’s always me I don’t know why I hope you can see I stand here and cry… I don’t want to leave you here But you’ve already left me I wish you could care That this thing was meant to be… I feel so cold I’m just freezing I hope you get bold I’m not teasing I mean the words I say Nothing can change it Don’t take them away Just listen to them a little bit. You are just the same A fool like every other men I stopped playing the game And now I need a pen. ] [ Einu sinni var kona, sem átti mann. Þau voru eitt sinn í golfi, og konan vann. Hún vann með fáum höggum, Svo hún fékk par. Þá heyrðist manninum hann heyra. Nokkrum röddum. Ást er fullkomið ''par''. ] [ ...ástin fullkomin. Og er það ennþá. ...hamingjan nóg. Og er það ennþá. ...skein stjarna á himninum. Og er það ennþá. ...var ég að skrifa þetta ljóð. Og er það ennþá. Höfundur: Margrét Lena ] [ Ég þrái að hitta þig núna. Verð að fá þig. Ræð ekki við mig. ] [ Fyllerí í kvöld ? Fokk já. Djöfull skal ég fara í sleik, og djamma síðan, þar til ég drepst. Fokk já. Drullu gott plan ertu ekki geim ? ] [ Mér finnst þú æði þó ég hafi smakkað þitt sæði og það víst enn um líkama minn flæði Þó vil ég vinur þinn vera ogmeð þér þínar áhyggjur bera þó þú þig stundum viljir skera Því vinur minn kær þó við höfum kinnst í gær þá finnst mér þú æði ] [ Ég er ringluð! Segi eitt en meina annað. Farin að líkjast þeim sem ég mest hata, við erum ekki svo ólíkar ég og hún. Hvorn á ég að velja? Stundum er ást bara ekki nóg. Hún stoppaði mig ekki seinast; ég særði hann, ég veit! Hrædd um að hlutir endurtaki sig, ég geri honum það sama hún gerði honum; við erum ekki svo ólíkar ég og hún. Ég er ringluð! ] [ Ég er búin að segja þér það margoft. Þeir eru allir eins, sem nálgast þig í glasi graðir. Þeir mundu taka þig þótt þú værir með afmyndað andlit og þroska á við tveggjárabarn bara af því að þú notar skálastærð DD. Þú ert frábær eins og þú ert. Ekki týna persónuleikanum, niður á milli brjóstanna. ] [ Hann stígur út úr bílnum, þakkar konu sinni fyrir aksturinn, veifa til dóttur sinnar. " Ég er farinn í vinnuna " segir hann og fer á barinn. ] [ Hver sá andardráttur er ég dreg sársaukafyllri verður og er. Fara ég þarf nú burt frá þér, æj, fyrirgefðu mér. Hugsanir mínar vaða í blóði ég meinti hvert einasta orð, nú ég fer með litlu hljóði syng mig inn á dauðans borð. Hræðslan heltekur mig hræðslan við að mistakast hræðslan við að missa þig skyldi þessi tilraun takast ? Þú veist allt um tilfinningar mínar sem ég hef borið í þinn garð. þú heldur að mér sé sama um þjáningu þína er ég hverf í dauðans skarð. Hvað ég ætti að segja hér veit ég því miður ei hvernig ég á að kveðja og segja þér að ég sé á leið burt í kyrrþey. Þú veist að allt sem ég sagði var satt og rétt, ég sagðist skyldu reyna að fara aldrei frá þér, stundum ég bara þagði æj, þú veist hvað ég meina allt þetta tal um eilífðarást fékk mig til að hugsa og spá.. ég vil ekki að þú þurfir að þjást, sé bara eina leið og hún inniheldur að fara þér frá. þú virðist geta horft á mig og dæmt, dæmt hvernig mér líður, hvort það sé eitthvað að. ég lýg vísvitandi af þér, það er heldur tæpt að ég vil ekki íþyngja þér með vandamálum mínum. Hver sá andardráttur er ég dreg sársaukafyllri verður og er. Fara ég þarf nú burt frá þér, æj, fyrirgefðu mér. ] [ Næturnar hér á klakanum orðnar svo undur bjartar norðurljósin hætt að sjást og himinininn af engum stjörnum skartar. hugsa til þín dag og nótt sef nú voða lítið dreymir um að faðma þig mér finnst þetta svoítið skrýtið ég vil vera með þér að eilífu að eilífu ég verð með þér ef ég fengi að ráða, þá er ég og þú það eina sem skiptir máli og að þú sért með mér <33 var farin að gefa upp vonina en einn dimman janúardag þá skaust þú upp kollinum og ég ákvað að semja lag augun grá sem tunglið, hár þitt ljóst sem skýin, fegurð þín svo ómælanleg fljúgum saman í fríin ég vil vera með þér að eilífu að eilífu ég verð með þér ef ég fengi að ráða, þá er ég og þú það eina sem skiptir máli og að þú sért með mér <33 ég hætti um stund að semja þá fólk fór að emja gefur oftast skít í mig en nú fæ ég að velja fólkið heldur að það geti að eilífu án mín verið ég hverf í smástund og fólkið bara af vitinu fer ég vil vera með þér að eilífu að eilífu ég verð með þér ef ég fengi að ráða, þá er ég og þú það eina sem skiptir máli og að þú sért með mér <33 ég veit að ég er ekki það besta sem þú getur valið þér þú hefur úr mörgu að velja en ég er fegin að þú viljir vera með mér ég er svo fáránlega ástfangin af þér ástin bara vex með hverjum deginum þú sýnir stöðugt betri hlið á þér við skulum aldrei stíga úr ástarteiginum ég vil vera með þér að eilífu að eilífu ég verð með þér ef ég fengi að ráða, þá er ég og þú það eina sem skiptir máli og að þú sért með mér <33 ] [ Kalt blóð rennur mér um æðar en ekki get ég lagað það. þú gerðir mér þetta og þú skalt laga þetta. en hvernig veit ég ei! ] [ orkan er á þrotum ég þoli þetta ekki lengur gerðu það taktu við mér mig vantar þig, aðeins þig svo mér líði betur! ] [ Geisleindin snýst í baugum um rás hins bjarta, þyngdar sinnar virði í afli. Í bogaljósinu sem hvorki á upphaf né endi. er aðeins ljómi í hring. Í rökkurfjarlægð leynast sogandi svarthol falin milli skínandi agna og kalla allt að ljósavík bak látur. ] [ Það brotnaði, og lífið brast ég féll niður á hné og hugsaði; afhverju ég? guð svaraði ekki. mig langaði að gráta, en ég gat það ekki. ég vissi að mér var illt í því enginn kom og hjálpaði mér, starði bara á mig eins og ég væri einhver vitleysingur. ef að þau vissu það hvað væri að mér myndu þau kannski hjálpa mér, en munnurinn minn var hræddur. ég lá þarna á miðri götunni með hóp af fólki í kringum mig sem starði bara, mér hefði liðið betur ef þetta hefði alldrei gerst, en þetta gerðist. nú bíð ég bara eftir því að sá rétti komi upp og hjálpi mér. kannski mínúta, kannski dagur, kannski ár, kannski dey ég áður. það veit enginn! ] [ Þú labbaðir framm hjá mér, Ég kallaði á eftir þér. sagði nokkur orð ,,Hæ fallegi'' Þú leist á mig, labbaði til mín. Ég sá strax að þetta var ást við fyrstu sýn. Ég bað um netfang þitt, þú fékst mitt. Sá þig aldrei meir, Við vorum orðin svo náin, ég var farin að elska þig. og þú elskaðir mig. Núna gerðist eithvað hræðilegt, Eithvað sem mun aldrey vera bærilegt. Ég komst á fast, með strák. Það var það erfiðasta að segja þér það, en svo sagði ég þér satt. Núna er eithvað brotið inní mér, hætt að slá, ég mun þig alltaf þrá, þú ert sá æðislegasti, Þetta er svo erfitt líf. Já þú hatar mig, ég elska þig. LÍFIÐ ER DRUSLA ] [ Kannski, er ég gerður fyrir annan heim Kannski, er hann þarn'úti Kannski, þarf ég meiri peninga Kannski, Þarf ég bara þig Kannski, veist þú ekki neitt af mér Kannski, ertu ekki til Kannski, er heilinn að gera grín að mér Kannski, skapaði hann þig Kannski, er ég ekki lifandi Kannski, vantar engan mig Kannski, veröldin hún hatar mig Kannski, vill hún fá mig út En ég veit, Ég skil Ég veit hvað ég vil Ég vil bara halda áfram, en áfram með hvað? ] [ þegar ég málaði veggina inni í dökkum litum til þess að deyfa léttúðina varð mér hugsað til þess þegar ég brosti í fyrsta skipti án þess að vita hvers vegna en ég málaði yfir það eins og allt hitt ] [ Aðkoman væri ekki sérlega kræsileg, enda allt í drasli. Hryðjuverkaárás álíka og þær sem maður fréttir af utan úr heimi. Má bjóða þér að taka til? Ekki nenni ég því. En sú gestrisni, viltu kaffi? En þurra köku eða goslaust kók? Sorrí, ég nenni engu, kann ekkert. Fel mig á bak við myndavélina, það er svo einfalt. Glugga í ljóðabækur en gleymi skólanum, má ég skrifa bók? Myndirðu lesa hana? Ég myndi ekki lesa neitt eftir þig. Þú ert heppinn, veist hvað þú vilt. Má ég kaupa það? ] [ Í falli mínu er upprisa mín falin Í dauða mínum fann ég mitt líf. Í tortímingunni er upphaf Allra hluta. Í stríði er lífsgjafinn með sína iðnu hönd miskunnsamastur. Stríð, ó, fallega stríð Sæktu mína þjóð heim. Ég bið þig, ég bið þig. Ó þjóð mín, ó, þjóð mín Látum blóð renna um stræti okkar og torg. Látum endurreisnar andann Blása í brjóst okkar eylífum sigri. Sigrumst yfir efninu Og brjótum niður múr stöðnunar. Ræstum hinar andlegu rotþrær. Ræstum út til sjávar Verk hina rotnuðu nútímans. Ó, stríð, ó, stríð Hve fögur eru þín afkvæmi Er spretta úr ösku eyðingar þinnar. Þar, já, þar er upphaf lífs Nútíma Íslendings. Ísland, ísland Er staðnað og storkið Af alda langri kúgun ríkjandi stétta. Pólitískt framsækið, jú En hin vinnandi stétt er sama og dauð. Það sem við þurfum er stríð. Ó, já, fallegt stríð er það sem við þurfum Til að hreinsa upp óþurft mannlegs lífs. Látum nú herópin óma Um stræti og torg Og bergmála milli fjarða. Látum bróður drepa bróður, systur systur Rífum niður hinar fúlu stoðir Og byrjum á ferskum grunn Endurreisn Íslenskrar þjóðar. ] [ Hey, Stúlka! Já, þú sem ert í stutta latex pilsinu á dans gólfinu Með geislandi bláu augun Veistu að ég sé mig, já, ég sé mig horfa í glampandi glettin augu þín þar sem við stöndum undir tærum himni, glitrandi stjörnum og hálfum mána. Þar upplifi ég hönd mína útrétta og sé hjarta þitt blæðandi í henni slá sinn síðasta takt. Blóð þitt drýpur af því og blandast dögginni sem lekur eftir strái niður á jörð þar sameinast það henni og nærir hana. Ég legg frá mér hjartað. Og sný við það baki labba burt í átt að æðri tilveru sem mér var lofað yfir Wiski glasi á bar um daginn. ] [ Hrafnaþingin Á unglings aldri leit ég hrafnar þing. Og þótti ekki merkilegt. En mistíkin af því var mikil og dulúðin stór að öðru fólki fannst. Söfnuðust þeir saman einn og einn að vetri til. Og hvít jörð varð af svörtum bletti iðandi af lífi. Fólkið í kringum mig dáðist af þessari sýn Og mér fannst það ey tengjast mér. Þar til hið stærra þing var haldið. Einhver hundruð hrafna söfnuðust þá saman. Þá fann ég að það var haldið um mig. Þá gjörðist stormur í huga mínum Og sjálfur ég hvarf en er storminum slotaði kom ég og skrifaði þetta ljóð. ] [ Í baráttunni við brostin mátt, berstu líkt og hetja guðs Hugrökk þú berst á þinn hátt hetjan margra án alls tuðs Stattu áfram stígðu þín spor Stríð þitt muntu brátt vinna Berstu gegnum gegnblautt vor Gefðu þig alla til ættingja þinna Á dimmum kvöldum kviknar ljós Kvöldsins djúpi roði Í fang þitt fagurt legg ég rós Frelsið er þér í boði. ] [ Hann er sá sem að veitir mér hlýju fær mig til þess að elska að nýju Faðmar mig að sér og hvíslar í eyra og stríðir mér svo að mig langar í meira. Hann gefur af sér og hlustar á mig er ekki einn af þeim sem hugsa bara um sig Ég veit ég get treyst honum alveg til enda hann mun vernda mig sama hvað mun henda. Þegar hann er nærri lýsist upp allt og skyndilega mér er ei lengur kalt Því nærvera hans er sem sólin um vetur Hann veit allt, kann allt, já allt hann getur. Á kvöldin við kúrum og hvors annars njótum kannski í bíltúr og ísbúð við skjótumst Göngum um dali, sveitir og vegi Gerum flest saman, á nóttu sem degi. Hann er sá sem ég vil eldast með eignast börn, hús og jafnvel lítið blómabeð Því hann er sá sem mig algjörlega skilur Út í eitt, þar til dauðinn aðskilur ] [ Will I forever walk this road, When will I see the light? I feel your hand is slipping The hand I held so tight. The moon is swiftly fading, My sky turns into gray, I see you up there waiting? Will I ever be the same. I have no hope, no freedome I'm trapped inside this cage, I wish that I could miss you But all I feel is rage. If only I were brave enough To see through all this pain My eyes are sinking slowly In misty december rain ] [ Jeg vil blive kanonfuld Og danse hele natten rundt. Bytte spyt og hygge mig Og måske gå og bolle dig. ] [ Why is my mind filled with doubts? Why am I questioning my abouts? Why are my guts just up in a binge? Why is my Braveheart falling to an inch? What is at the end of that door? Will I be happy or will I be sore? Will I be the star of success? Will I be the fool who accomplishes less? Is there a reason for my fear? Is the end of the era coming near? Should I shout or should I scream? Or should I follow and chaise my dream? All I have are questions and doubts. The reason might be my big abouts. I wont take less when I can take more I wont be the person with the heart sore. I guess I don't need the good luck speech. All I need is my own unleash. I need to believe in my strengths It will take me to the longest lengths. The real Braveheart goes and faces its fears. It goes along despite the tears. It keeps on the path until life is clear. It wont say "no, the end is near". Braveheart I am and Braveheart I'll be. ] [ ég reyni að vera hógvær á allan hátt mála rússneskar þokkadísir með bogin nef á striga og afsaka blámann í augum þeirra. Þær eru nú einu sinni ekki rússneskar í alvöru, íslenskar stelpur sem vilja varla þekkjast. Standa berbrjósta við horn sendiráðsins og bíða eftir að bílstjórinn blikki þær. Þær eru mér innblástur ljóða, í vanlíðan sinni. Að mörgu leiti eins og ég, grámyglulegar, bláeygar, skítugar. Og við brosum er ég kem frjáls yfir hæðina, malbikið. Þær eru þreyttar á íturvöxnum körlum. Og þó ég sé íturvaxin telja þær mig betri kost. Þær vita að minnsta kosti hvort ég svívirði þær eða lofa. Því við skáldin svívirðum ] [ Elsku broðir,ég þig missti á þann hátt sem engin aforið getur. Ekki bara broðir ég missti,einnig minn besta vin,helmingurinn af mer var tekin. Reyði,hatur og biturð runnu saman i eitt,alldrei ég truði að slíkt gæti gerst. Einkenni þin voru skyr,þú brostir,sólin skein,þú varðs nálægt,stjörnurnar lystust, Þú kvaddirheiminn,heimurinn kvaddi mig,himinin fölnaði,jörðin gránaði,og grasið hvarf,aðeins moldin eftir stóð skítug og grá. Hvernd dag er ég vaknaði óskaði ég þess eins að fa að hitta þg einu sinni enn,fa að faðma þig og gráta i fangi þer svo þú vitir hversu sart ég þín sakna. Söknuðurinn gnístir i hjarta mer og sal,jörðin skalf undan sarsauka sorgarnnar. ] [ ég er oftast það sem þú býst síst við að ég sé bláköld staðreynd sem brosir kaldhæðið framan í heiminn sjálfselsk stelpa sem traðkar ítrekað á sínum eigin tilfinningum egóisti sem er lítill innan í sér en einungis endalaust uppkast sem verður aldrei fullkomið ] [ horfðu í augun mín þau eru svo ótrúlega full af þér horfðu á mig kreista skýin sjáðu hvað þau gráta finnuru þögnina? hafið æpir með öldunum blár ég held í höndina grimmdin meiðir mig ekki mundu að lífið er ekki svo vont tilfinningar sína ekki muninn muninn á grimmd og óheppni horfiru á augun mín sérðu hvað sú hlið væri falleg ef hafið hættir að æpa ef skýin hætta að gráta ef þögnin kallir ekki blár ] [ Ó Vindárshlíð,ár hvert kem ég til þín. Leikir og gaman er þá allra best að vera saman, og allirskemta sér þó ljóða bókin sé mín, þá sem ég ljóðin sem eiga að vera þín. ] [ Í hjarta mínu þú átt hér heima minningum mun aldrei gleyma í huga mínum ég mun þig ávallt geyma svo lengi sem þú vilt mig að þér eiga. ] [ Klæðumst kyrrðinni í rökkrinu á köldum haustkvöldum. Er mér haustið efst í huga, hamast norðanvindurinn á glugganum. Götuljósin rauða birtu gefa og girndir mína sefa því hugur minn er heima með haustinu. Heimur heima, er mig að dreyma? Um mig hvergi kuldi lengur, og hvergi að mér laumast vættir dauðans. Í fangi mér: fágætur fengur; að finna ekkert. Því hugur minn er heima með haustinu. ] [ heimurinn er harður manneskjan er mjúk ] [ Þú, sem komst inn í minn hugarheim, og eyddir hugsunum þeim sem mig særðu og meiddi. Þú mig inn í betri heim leiddi. Þú mér sýndir svo margt, líf mitt sem var áður svo hart fylltist af hamingju, fegurð og ást. Um fortíðina skal ekki fást. Því ekki er hægt að breyta því sem liðið er og því í bjartari framtíð ég fer. Með þig mér við hlið. ] [ And the future hold on planning a home, idea roaming in the garden, round and lush as the ripest pear, succulent, yet the violence that we fear. We, the outsiders on the avenue, down-and-out´s of you, the city, among her, the by-and-by of our tall love, candied oh, it feels as mourn in disguise. The whole clouds of Misses falling, the circumstance of clasp and daily tallying, the minute of you gliding, a diurnal breeze embracing remarkably, deathless, the skies meet deeply. The darkest deed will remain unlocked, yet we wander through and through, on our poor legs still running, squarely we´ll stand victorious from a high-spread gnu and all lulling. A nymph of fairy-tales and unborn suns, such purity wont lose its voice, bird call it is, monochord of you and me, this is, my dear, our bound of harmony. My love, I assure you, I will plan a duo, and you will reach a tune. And just like the mimes, they do not speak, but form their mouths, around a kiss, this holy sentence; "I love you," is just another act of self-destruction. This is just another act, milady. ] [ And the whole house could have burned, a little part of today is now way too much for those who care, we should have burned inside. The clock nearly ticking its way out, in the kitchen, a church basement, below the elderly need of time, and its epoch stopped and stared. Should we really care? We surely need a comforter in this town, girl, this is wakefulness we enshrine, in all its story, the holy glory, of a man walking upon life without an end. Should we start over again? Proceed your age, give me a first aid, for I´m semisacred. ] [ Sjáðu stúlka ljóssins hvar lífsins straumar renna um fjöll og dali jarðarinnar þel. Við kveikjum eldinn svo trúin megi brenna heitt í hjörtum allra um okkar himinhvel. ] [ Ég varð heilluð af hári þínu þegar ég stóð við borðið þitt. til að dást að fallegu myndinni þinni því mér fannst hár þitt -svo miklu fegurra. ] [ nei blessaður já sæll jæja hvað er títt? mest lítið – það er búist við stormi norðvestanlands í nótt og fram eftir degi nú, verður þá búist við sunnan og suðaustan þrettán til átján metrum á sekúndu og rigningu og úrkomulitlu á norður- og norðausturlandi? já og svo gengur í suðvestan þrettán til tuttugu og þrjá með skúrum í nótt og léttir til norðaustanlands þá lægir líklega síðdegis eða hvað? jájá – suðaustan fimm til tíu annað kvöld og rigning suðvestantil og hitinn? ja svona fimm til tólf stig einmitt eitthvað annað svona? njaaa mhhh... hvað er að frétta af konunni þinni, er hún eitthvað að hressast af lifrabólgunni? nja... svona... einmitt já mhhmhh jæja blessaður já gaman að sjá þig ] [ fjallkonan í glugga rauðra stræta öllum sýnileg ódýr fæst fyrir slikk menn keppast við að hjakkast á henni undir yfirskini stóriðju ] [ uppistöðulón sem rennur úr svo verður allt rafmagnað og þú virkjar samviskubitið í mér að sáttum loknum hverfur þú á vit spegla í umhverfismat ] [ konan mín fór í legnám og útskrifaðist með 37 gráður ] [ heimaklettur heilsar hress að vanda... ] [ Ég varð eftir, í logninu. Þó á fleygiferð. ] [ Hlaupandi hérinn ýlfrar af alefli þegar gaddavírsgrindverkið grípur grimmilega í hann. ] [ "Þú ert með svo mjúkar hendur - ég ætlaði að biðja þig um handáburð," sagði stelpan við strákinn. Hann fór strax. "I am not coming back," talaði pilturinn við nefið á sér & hugsaði með sér: Djöfulsins bull. Endar talar hann ekki íslensku. ] [ Hvað er húsamús annað en hagamús sem hefur lært að nýta sér átroðsluna. Ég horfi út um gluggann og velti því fyrir mér hversu skammt er í að vetrarfeldur refsins verður ekki lengur dulargervi. Við veginn situr hrafn yfir skyrdós goggurinn svarti ataður hvítu. Á meðan teygir borgin enn úr sér, á meðan bölvum við mávum og minkum. ] [ Sá ég sögu, sem sögð var í sól, flækingur sem fann fegurðina í lífinu, gekk niður götuna, gefandi ást, þegjandi hann brosti þegar lífið brást. ] [ Ég er bara blýantur sem reynir að spinna sögu sem við getum átt saman en af einhverjum ástæðum ertu eins og alltof æst strokleður sem eyðir því sem ég segi svo ég hætti að trúa því að þú sért í rauninni blýantur eins og ég. En samt lætur þú oftast eins og skrúfblýantur sem er tilbúinn að semja með mér sögu - nema þegar á blaðið er komið. Ég skil þig ekki. Ákveddu þig, annars ertu ekki velkominn í pennaveskið mitt. ] [ Það blæðir úr öri mínu Með hnífi stagastu þetta sár Og með töngum reifstu örin upp Nú blæðir þetta sár. Þú stagast mig Þegar þú sveikst mig, Þú reifst sárið upp Þegar ég fékk ekki að gleyma. Og nú blæðir þetta sár…. ~ Ég lærði að gleyma Og nú er sársökin farinn, En ég hef ör… Það er spor í hjarta mér Og ég á erfitt með að anda, En tilfinningin um þig er horfin.. 28.maí 2007 ] [ þverrandi þor þýlynd er þjóð þvermóðsku kennir þrjóta ráð þingmenn keppa þýlyndis atkvæði hreppa þrútnum augum þrekuðum baugi hent skal á haugi dys skal til leggja brjótur skal heygður áfram skal kvóti út leigður alveg þér sama þú yfir þig kaust og kenningu hlaust sem gleymd verður þar næsta haust ] [ Tignarlegir standa túlípanarnir og teygja krónur sínar til himins. Þetta eru fífl segja fíflarnir þó forfeður oss. ] [ Þórður minn granni, á Blána bar og býsnaðist okkar ríkidæmi, er tveimur sekkjunum þeytti þar, það var gott að að því kæmi. Nú fæ ég þessi fínu strá fari ég einhverntíman að slá. ] [ Sjáðu myndir af þessu fólki, verkafólki. Þetta eru allt útlendingar komnir úr fjarlægð mikilli, ég meina fjarlægðina á vegalengd, tungumálum og menningu, til að starfa hérlendis. Þeir fara í vinnu í myrkri á morgunanna klára verk dagsins í kvölddimmu, eða í endalausri birtu á sumrin. Þótt í roki og kraparigningu, halda þeir enn áfram og sjaldnast fá að borða heitan mat á milli, æ æ. Sjáðu, þeir klæðast allir vinnugalla og með hjálma á hverju höfði. Þeir líta út fyrir að vera eins, andlitin þeirra sjást ekki, raddirnar heyrast ekki. Taktu aðra mynd af þessu fólki, skemmtilegu fólki. Þetta eru líka útlendingar sem eru að fagna þjóðahátíð, ég meina “þjóðahátíð”, ekki þjóðarhátíð, “þjóða” í fleirtölu, eignafalli. Þeim finnst gaman að tala á hikandi íslensku, bjóða gestum að smakka framandi mat. Þeir eru hrifnir af að syngja þjóðarlög sín og dansa. Gott að vera stoltur af uppruna sínum, gleðilegt að vera gefandi og sýna gestrisni. Sjáðu, þeir klæðast allir þjóðarbúningum sínum í marglitum og fjölbreyttum. Enginn er eins en allir fallegir, andlitin glitrandi, raddirnar gleðjast hátt. Þar eru nokkrar myndir eftir, svipmyndir af fólki, hér klæðist það.... fötum. Mynd á spitala, og maður lítur út fyrir að vera þungur, hann hlýtur að glíma við sjúkdóm sinn. Kona í bænarhúsi virðist vera einmana, hún er nýskilin eða missti maka sinn. En barn er ekki hamingjusamt? jú, þetta er í afmælisboði. Ungt par, himinlifandi..... ástin! Gamall maður í góðu skapi, eldri kona er feimin. Reiður unglingur og grátandi stelpa. Alvarlegt andlit og hugsandi, dapur á svipum og vonsvikinn. Hlýr í augum og einlægur, ósvífinn á munnum og egnandi. Andlit, andlit og andlit... Stundum er maður brosandi, kona er brosandi, og barn er brosandi ...brosandi eins og hann hafi himinn höndum tekið, eins og hún hafi þekkt leyndarmál lífsins, eins og það horfir upp á draumalandið, brosa þau, og brosa. Myndirnar eru brosandi! Bíddu aðeins, afsakaðu. Eru þetta líka myndir af útlendingum í alvöru? Veit það ekki, satt að segja. Þetta er bara fólk. ] [ Á Sjómannadaginn sækir að lið sunnan úr Reykjvík. Þá verður hér mikið mannvalið og menningin engu lík. Hugljómun Inda og Arndís fengu að upplifa djammið hér. Sjóarar eftir þeim gráðugir gengu, góma vildu í rúm með sér. Þær hörfuðu undan heim til mín, því hæpið er gjálífi og slark. En fagna ljóma af sjómannasýn, og settu á bæjarlíf mark. En kokkurinn Kalli laumaðist að, þau kræsingar framreiða hér. Hótelgesti fá þær vel uppfagtað, og frítt inná ball sýnist mér. Ljómandi af gleði halda nú heim hlaðnar af minningagnótt. Aldrei við hérna gellunum gleym æ, góðu kom aftur fljótt. Niðurlag: Inda skvísa er skeiðuð hjá í skósíðum rauðum galla, Arndís í svörtu elti kná, og augun ljómuðu í Kalla. ] [ Er ríkur og voldugur ræður í förum rænir hann oftast smælingja kjörum og gróðanum gramsar til sín. Sú hafði völdin og hjálpaði smáðum hafði sinn innri manninn í ráðum já, Steinunnar Valdísar störf voru fín! ] [ Kuldalegur dalurinn fullur af þoku sem hríslast niður á milli herðablaðanna. Ég finn hvernig bakið tekur að bogna, trén svigna, og fuglarnir þagna. Öskur, hróp og barnsgrátur, umkringja mig. Fólk á hlaupum og ég sit þarna, einmana vanmáttug og þjáist að vinna hjá borginni í rigningu og roki í fjölskyldugarðinum ætti að vera bannað. ] [ Það er líkast draumi í dós og dýrðlegur sálarstyrkur, að fá um stund að líta ljós og losna við svarta myrkur. ] [ Ár eftir ár stendur hann á brúninni veðurbarinn og klæðalaus hann fellur brátt. ] [ Remember how we used to play, The smiles we used to share? Remember all the ruthless nights Our laughs and endless love? Remember it when all our hope is lost Remember how you said to me That this would never end? Remember all our promises Our fights and sweet goodbyes Remember it when all your hope is lost. Remember when I’de comfort you Through dark and dreadful times Remember how you helped me through My loss of faith and freedome Remember it when all my hope is lost. Remember what I tell you now That I am always yours Remember this my last goodbye My neverending words Remember me and I shall never die ] [ Sterkja er samheiti mjölva. Amýlasi brýtur hann niður í maltósa (2), maltótríósa (3) eða dextrín (5-10 glúkósasameindir). ] [ Frá upphafi tíma horft á anda andleysis eiginhagsmunasemi móður sem býður upphaf framhalds, sjálfri selur stelur sýn. Ósátt við sátt allra sem sitja fast á engu en meta það sem allt. Upp magnast reiðin. Lamdir brenndir blautir menn saklausir holdgerfingar þjófs horfandi, hörfandi á annan stað; uppnuminn, uppurinn neyðar þurftar vonar um samkennd háða sjálfi: gefið öðrum? ] [ Horft á smækkaða mynd af heiminum útum lestarglugga á ferð einhversstaðar milli Spánar og Frakklands eða svo gæti allteins verið ef ég sæi eitthvað útum gluggann sem hreyfist aðeins ef ég hreyfi mig Til allrar hamingju er lestarstöð á leiðarenda ef vagninn minn hefur þá ekki losnað aftanaf þarsem ég get staðið í rigningunni sem vonandi verður í frakka og reykt sígarettur svo allt sólskinsfólkið sjái að ég er í öngum mínum Það verður í París ef vagninn minn hefur þá ekki losnað aftanaf nema lestin sé þá ekki enn lögð af stað eftir teinunum milli Spánar og Frakklands þarsem smækkuðustu myndina af heiminum í heiminum má sjá útum lestarglugga á ferð ] [ Það sem að allir vita er, að lækning við hverju sem er eða næstum því, kannski næstum því, er einfaldlega og allt sem þarf bara eitt lítið eða jafnvel RISASTÓRT Knús ] [ Vindurinn feykti því til mín í gær. Þegar ég stóð og lét regnið berja mig áttaði ég mig á því að sama hvað ég tek mér til verka eða reyni eins og ég get að sofna þá snúast mínar hugsanir bara um eitt... ] [ Ég þarf ekki margt, en samt þarfnast ég alltaf þín. Ég hef elskað þig svo lengi, en nú er allt sagt og búið. Í dimmu sé ég ljós þitt, þú munt alltaf skína. Andlit þitt ég hef lagt á minnið, því er ekki létt að gleyma. Ef þig ég sé, augun mín fyllast af tárum sem hafa þegar grátið. Lengst inni, veit ég að þetta er fyrir bestu. en það sem gæti orðið, er nú bara spurning. ] [ Ég varð fyrir óláni að sparka óvart í stein, honum var nær að renna sér fyrir boltann. Honum er víst illt í hnénu núna ] [ Lífið er yndislegt. Það leikur við mig og ég leik á móti. Loksins. Yndileg tilfinning,sem kallar fram allt það besta. Bros, hlátur, kærleika, styrk, í víðum skilning, fegurð. Ég elska þetta. Þykir óendanlega vænt um lífið og tilveruna. Vá hvað allt er miklu betra. Sýnir að með viljastyrk og baráttu getur maður allt. Það sem ekki drepur, það styrkir. Ég held svona áfram. Komið að mér að kenna öðrum. Láta gott af mér leiða og gera eitthvað gott. ] [ Fuglasöngur ómar og inn um gluggann hljómar “Bang bang” Allar trjágreinar tómar fuglarnir vöktu því miður Ómar ] [ Óþekk villa kom við breytingu. Hvað sem það nú er, slík snerting. Þuklaði á henni, gretti sig & fór. ] [ Svo þetta er búið. Ég hélt að þetta yrði lengra. Dagurinn liðin og komið kvöld allt í einu og ekkert skeði. Og það dimmir ekki einu sinni. ] [ Að baki hugsana minna handan tilfinninganna. Í skjóli fyrir veðrum og vindi hita og kulda ósæranlegur, ósnertanlegur aldrei í augsýn. Þó ávalt nærstaddur vitni allra hluta og atburða. Ég ] [ Við ljósgullinn hánætur himin ber hvíta sólvængjaða svani Í sumarsins fjólubláa draumi ] [ My life is turning all upside down, can't stand all the learning feeling so down. I think I'm in love, for real this time. The feeling's above, things that are fine. The only thing that I really want, is that precious that finding I can't. Purification of my mind, Is obviously not easy to find. If only I was able to believe in god, then maybe I would be able to smile and nod. Instead of drowning in pure depression, maaan, poetry is good for expression. A cruel sleep, haunting me. Going deep, inside me. Now I only need to go, with the damn mainstream flow. I don't like it a tiny bit, but people say I'm supposed to fit. While I'm still young, and have got a tongue. I will speak up! So you all shut up! Pure depression, filling my vain I want to be everywhere but here. Why is my spirit so tortured with pain? and why do i no longer care? ] [ Ég er hommi. Hvern varðar það hvort kynið maður kýs? Hér á árum áður var voðinn vís. Ef maður vogaði sér að elska mann, ef þú varst af sama kyni og hann. Ástin spyr ekki um aldur eða kyn, ástin spyr bara um aðeins meira en vin. Ástinn er sama um typpi og brjóst, ég vona að ykkur sé það ljóst, að þegar einhver elskar, virkilega elskar, þá er honum alveg sama um kyn, hann vill bara meira en góðan vin. Ég elska þig maður, með þér er ég glaður. Þó þú sért af sama kyni og ég. Við þurfum ekkert að ganga hinn merkta veg. Biblían segir, vertu gagnkynhneigður. Fyrir mér hún þegir, ég er samkynhneigður! ] [ Now you have left planet earth, now you're gone for good. Do you know what you were worth? More than anything could. I miss so much, I'll never see you again. The feeling is such, pain, nothing but pain. But the one little light, in all this dark. Is that heaven is bright, there you will park. Varði, I love you. You were my friend. I can never repay you, for the time we did spend. I'll always protect, the memory of you. You're decision I respect, it was up to you. Against your big illness you're soul was defenceless. Now you're soul I bless, go rock heaven senseless. -- Þorvarður Stefán Eiríksson -- 26. janúar 1990 - 31. mars 2007 ] [ Liggur í dvala ljósheimur allur öndin gárar lækinn speglast ásjóna en bifast ei meir ] [ Sjón með ég sé Sönginn sem æpandi er Heyrnina ég með heyri Hylinn sem djúpt ker ] [ Ég geng élinn, frosinn Étandi mig, æpandi Ligg hita í, losta Latur, ligg brenndur ] [ Bjór minn er stór Ég bara ei Veit hvert hann fór Á borðinu hann liggur Situr þar og þiggur Félagsskapinn minn ] [ Finn mig fundinn í anda Fullur af orku Stendur landinn sig Ívið sjóaður af landa ] [ Hvað var það sem varpaði skugga á líf mitt ? Varst það þú? Var það ég? Ég man ei lengur hve gott það var að vera elskuð ég reyni að muna en man ei neitt. Ég man ei lengur hve sætt bragðið af ástinni er. Ég man ei lengur eftir þér. ] [ Í hjarta mér eru holrúm, sem ég vona að þú getir fyllt, og hugur minn er men bæði silfrað og gyllt. Ég hef beðið þín við hafið, ég hef reitt upp alltof mörg blóm til þess eins að vona að við verðum hjón En nú eru liðnir dagar, mánuðir, ár og enn ég sit og bíð hér búin með öll mín tár. Þú kemur víst aldrei aftur af sjónum elskan mín en hérna mun ég samt bíða, bíða og ávallt þín. ] [ Heyrast hrafnar krunka, hófar skripla á grjóti, er Breiðuvíkur-Brúnka baksar upp í móti. ] [ Hvað er málið með strák og brjóst ? og ekki er verra hárið ljóst. Svo má ekki gleyma rassi en sko ekki rassi á neinu hlassi andlitið á að vera í lagi afþví góða tagi. Svona eiga allar stelpur að vera og þennan ljóta stimpil að bera. En svona erum við ekki allar sumar okkar eru öðruvísi fallnar. En þessar ljóskur sem strákar vilja erfitt er þeirra heimsku að hylja. Samt þeir reyna, reyna vel svo stundum er manni ekki um sel. En svona er lífið nú bara ég kveð núna verð að fara. ] [ Ylinn veitir Einar hér undir landamerki. Þylur Júlli þykir mér þróttmikill í verki. ] [ Núið inniheldur bæði fortíðina og framtíðina. Í núinu er vitundin sem menn kalla Guð. Sú vitund er meiri en vitund mannsins, eða sameiginleg vitund allra manna. Vitund er frumorsök alheimsins. Þess vegna er ritað að Guð skapaði himinn og jörð. Í núinu er öll vitneskja, um fortíð, framtíð, orsök og afleiðingar. Um allt sem er sýnilegt og ósýnilegt. Ekkert verður til utan þess. Í núinu sáirðu og þú uppskerð í núinu. Núið er sá staður sem þú ert núna. Núið er ekki minning eða ímyndun. Gluggi að núinu er skynjun, en núið er ekki skynjunin. Handan skynjunar er allt sem gerist samtímis. Handan þess er orkan sem orsakar hlutbundin veruleika. Sú orka er í efninu, og efnið bindur hana. Vitund er handan orkunnar. Orka án vitundar er ekki til. Sköpunin og skaparinn er ekki það sama. Sköpunin er verk skaparans. Maðurinn er í sköpuninni og hefur eiginleika skaparans. Þess vegna er ritað Guð skapaði manninn í sinni mynd. Alheimur án vitundar er ekki til. Því til sönnunar eru þessi orð. Allt í alheimi er bundið lögmálum. Ekkert er utan lögmála. Vitundin rannsakar öll lögmál. Það lýsir jafnframt lögmáli vitundar. Það lögmál er að Vitund er orsakavaldur alls sem er. ] [ Standing on the edge of the world Our hands clasped so tight, Our eyes focused on only this On only the fading dream. One jump away from eternity, One step closer to you. How many tears does it take To have you just one more time. I gave you my heart At the end of the world And you shall forever hold it So our love can remain. Our last kiss of faith The warmth of your chest Fingers wrapped together As we make our final jump Always to believe Never to let go Forever ] [ I ljósormur, liðast niður Kambana á leið í náttstað á leið heim II augun sem fylgja mér augun sem lýsa mér leið glitaugun ] [ Beiskur er harmur haustsins og hunangs sætt sumarregnið orðið rammsölt tregatár. ] [ Stafar sól á vatnið stirnir á jökulskalla streyma gamlir tímar fram í huga mér. Silunguns lonta í læknum lómar sungu að kvöldi fuglar kvökuðu í kjarri og kyndug fluga á vegg. Leikum við í túni létt á fæti að vori við lítinn kátan hvolp. Tímar hafa liðið, talin nú hver stundin er tifar æviveg. þó man ég enn í muna margan bernsku unað. Undurfögur æskan fer ei úr huga mér. ] [ Líf mitt er einskis virði og einskis virði ég er. Ég engum gerði til góða á gönguför minni hér. Því jarðvist þessa nú kveð ég sem kvaldi og píndi mig, því hvað er betra en að deyja ef það er enginn sem elskar þig? ] [ Meðan blóðið rennur mér hægt til höfuðs, eins og hver sem hefur rétt í þessu lokið við að gjósa og dregur sig til hlés, horfi ég gagntekin og orðvana upp á milli fóta þér. ] [ Hvort sem það týndist eða togaðist út eða tók einhver ófrjálsri hendi þá hef ég það hér í sorg minni og sút og sit þartil á himnum ég lendi. Ég leit undir mosann, undir mélaða steina og miklaðist drjúgur af slitnum bókum allt gufaði upp, þú veist hvað ég meina og ég var í því sem burtu við tókum. Týnt var það næstum úr tilveru minni en tengt þó með þræði inní hjartað mitt það tifaði í tilvistarkreppunni sinni í takti við allt sem ég hélt þitt. Það skiptir ekki máli rétt sem snöggvast en síst myndi ég stöðva á fjölförnum vegi nú er ég hér við náðina að höggvast sem ný skal vera á sérhverjum degi. ] [ Allt sem við áttum var ekkert og ekkert er allt og ég veit að það eina sem var er búið og aldrei var ást okkar heit. Ég gæli við gærdagsins ljóma og glími við blóð mitt í dag ég fel mig í fjarlægum skugga og flauta þitt síðasta lag, Aldrei var morgunn né máni og ég man ekki lengur neitt af því sem þú bauðst mér uppá og mér þykir það leitt. Vertu sæl mín veröldin sæla og víst varstu sæl einn dag á morgun er gærdagur gamall en glampi´ út við sólarlag. ] [ Ég á þig er vindar blása ég á þig er sólin skín ég á þig er regnið lemur ég á þig elsku ástin mín. Ég á þig er hausta tekur ég á þig er stormur hvín ég á þig er snjórinn fellur ég á þig elsku ástin mín. Ég á þig er dögun lifnar ég á þig er birtan dvín ég á þig alla ævi mína ég á þig elsku ástin mín. ] [ Hví skildum við dansa útí niðdimma nótt er Drottinstími er fjarri og harpan fagra týnd! Við höfum hér allt þó ekkert sé eftirsótt og ástin sem var tilreydd hún var aldrei sýnd. Það er ekki hægt að heimta svo mikið að hérumbil allt komi að vörmu spori við getum hvorki dansað né dustað af rykið af daunillum vetrum sem komu undan vori. Því mun það réttast að halda í haustið sem hér hefur ríkt allar síðustu aldir. Bátur okkar fúinn við bárum hann í naustið og bráðum verða allir dagar hans taldir. Það er talsvert fleira sem bíður brota tíma við berum samt svo fátt og lítið á torg haustdag einn kaldan er sólin fer að hríma hefjumst við handa´ og rústum vora borg. ] [ Ég sit hér einn og skemmti mér vel og ég sé myrkrið og máninn er fagur það er enginn sem hringir það má enginn mæla og á morgun kemur mánudagur. Glasið er fullt og fagurt á að líta og fullur máninn langt í frá magur hann einn er á lofti svo munaðarmjúkur og á morgun kemur mánudagur. Askan í hrúgum og glóðin í gleri og hann geislar máninn svo fagur ég nýt hans einn í miðaldra myrkri og á morgun kemur mánudagur. Ég skála tæpur við sköllóttan mánann og ég skelf og er dálítið ragur ég er þó enn einn meiriháttar maður en á morgun kemur mánudagur. Svo heyri ég þögnina hún þegir svo hátt og þvílíkt hve máninn var fagur hann er að hverfa og missirinn mikill því á morgun kemur mánudagur. Glasið er tómt og tunglið að fara og ég týnist einsog ókveðinn bragur Ef til væri ósk ég hvíslaði skelfdur ekki koma mánudagur. ] [ Við gengum hlið við hlið hann var þunga hlaðinn og særður mannfjöldinn gaf honum engin grið. En þá loks virtist voðinn verða vís er hann leit á mig og stundi: þú munt verða með mér í Paradís. ] [ Undurljúft, blíðlega Kristur minn kallar kallar á þig og á mig Hátt upp í himnum hann bústað oss gerir hann kallar á þig og á mig Kom heim, kom heim komið öll börn mín kom heim undurblítt ljúflega Kristur minn kallar komið þið breyskir kom heim. Komið þið breyskir og brotnir til Jesú bráðum við förum öll heim ó öll við förum þá Frelsarans vegna hann fagnar oss öllum, kom heim. Kom heim, kom heim komið öll börn mín kom heim undurblítt ljúflega Kristur minn kallar komið þið breyskir kom heim. -Komið til mín þið sem byrðarnar berið- hann biður um þig og um mig -Sonur Guðs er ég, nú bið ég um börn mín- hann biður um mig og um þig. Kom heim, kom heim komið öll börn mín kom heim undurblítt ljúflega Kristur minn kallar komið þið breyskir kom heim. Ó öll þau fyrirheit Faðirinn gaf oss er Frelsarinn krossfestur var Burt alla þjáningu blóðið hans hreinsar hann biður oss aðeins um svar. Kom heim, kom heim komið öll börn mín kom heim undurblítt ljúflega Kristur minn kallar komið þið breyskir kom heim. ] [ Fjöll ofar fjörðum Fellur jörðin undan Vatnið víða sker Vinna skal á Njörðum Fjöllin eru frjáls Frón á kletti Grjót ofar grund Grunn fyrir setti ] [ Ligg í myrkrinu einn um nótt og hlusta á regndropa slá þaki látlaust Þeir fæðast á himninum og falla niður á jörð beint og í nekt eins og við padapada... padapada... Aðeins pollar eru eftir undir ljóskeilu ] [ Ljósir logar í hári þínu sorgir mínar brenna. Kvalirnar í hjarta mínu með blóðinu renna. Ég skil ekki hví ég lifi meðal kvenna. Ljótar verur læðast um ljóð í nóttinni kveða. Þokan svífur létt og þunn sárasta hungrið sefa. Þær öskra, bíta, æpa, vinna og streða. Senn er runnin morgunglóð niður frá jökulfljóti. Vindurinn kveður vafasamt ljóð máður oddur af spjóti. Verurnar voru þá bara búnar úr grjóti. ] [ Dögun skapar sumarið blíða til næsta vetur stormar bíða almanakið eldist dagarnir líða dimma tekur dauf sólin á að hlíða ] [ Staðnaður sjávarútvegur íslendinga, stjórnmálamönnum til þakkar. Kvótakerfið kitlar auðkýfinga, klókir eru og í þeim hlakkar. Í sjávarþorpum skipin liggja, sigla ei lengur um haf. Einmanna stendur ei bryggja, en fasteignsölur fara á kaf. Atvinnulausir sitja saman, sjómenn er meiga ei neitt. Guð, hvað það væri gaman, Að geta þessu breitt. ] [ Hrundin skjótta rokna reist renndi sér á Dalatanga. Þar Billa henni getur geyst góða spretti daga langa. ] [ Ég horfi upp í stjörnubjartan himinn fegurð norðurljósanna heillar mig ég loka augunum læt ímyndunaraflið reika sé inn í heima og geima sé inn í framtíðina sé okkur saman hönd í hönd við hlið hvors annars brosandi enn ástfangin upp fyrir haus. ] [ Can I fly away from this world? And be free, Free at last With no worries No darkness Only daylight And happiness forever Oh how that would be wonderful To be free Not to worry Just be happy With only few setbacks But not too much Not so much that it suffocates you Can that be done? Can you make me fly? O heavenly Father I ask for your help I’m not asking for too much Just some peace To live my life To the fullest No darkness Only daylight And happiness forever Can that be done? Can you make me fly? O heavenly Father I ask for your help Set me free 25. feb ‘07 ] [ og sjálf kramdi ég hjarta mitt og borðaði bita úr því með hverri máltíð það er svo auðvelt að láta undan heimskunni það er svo auðvelt að særa sjálfan sig svo ógeðslega einfalt ég sogaði til mín ylinn úr blómunum og jörðinni en uppnagaða hjartað mitt eyddi allri orku og loks mér án þess að það sæist á mér ] [ Öskraði hún, skrifaði SOS í sandinn, Það er kviknað í! Það brennur, það brennur! Hjálp! „Ég vil ekki verða ástfangin!“ ] [ Fresta fresta fresta. Alltaf  að fresta einhverju. Ég ætla að fresta   því að skrifa   þetta ljóð. Geri það seinna... ] [ Þú er.. Háttur og höfuðstafur ástæða mín til að binda þjakaður ást mína í rím Ég er.. Myrkur máni enn fagurt skin er mundar ljósi á okkar kyn Við erum.. Skáld er vinja leita í hugans eyðimörk en hamingjuna þreyta á þunnri pappírs örk Hún er.. Blik í lofti skuggi af daufri lykt er skáldið sat og orti með hjartað sárt og tryllt Hann er.. Ég, skáld eða drengur með rómantískan hug kanski enginn fengur ég set mitt traust á guð Það er.. Tilfinning um létti tilfinning um ást orð sem guð þinn setti svo þú þyrftir ekki að þjást. ] [ Ég elska þig ] [ Geymdu hjá þér gleraug' mín svo geti ég séð þig, þau verði ávallt, ætíð þín þá manstu allt um mig. Ef þú geymir rúmi hjá, þú kannski sérð í draumi maður konu kossa ljá, kyssast þar í laumi. Geym þau þá á höfði þér, þá þú sérð í móðu. Þegar fólkið rífast fer, falið er í skjóðu. Nú ég komin yfir er allt er hér í góðu, Gleraug' mín hjá er þér og því ég sé í móðu. ] [ Ég hitti þig á ný við opnar dauðans dyr þú dansaðir þína sömbu aleinn út í bláinn ég er feginn að ég skildi ekki rekast á þig fyrr en fegnastur því að þú ert næstum því dáinn. Ég bauð þér ekki í arminn uppá gamlan kunningsskap hér áður fyrr við tókum gjarnan sporið þá dönsuðum við sömbu inní ginningarfíflsins gap er gamalt það varð haustið þá um vorið. Við áttum það til að enda vorn stífudans á öfugugga kollhnís og liggja síðan flatir við stigum gátum aldrei okkar Óla Skans því ungir vorum við gamlir og helst til latir. Þú dansaðir þína sömbu með gleði bakvið sól og skildir ekki þegar sló hún Líkaböng í hádegisstað var Venus er haninn þrisvar gól ég húfuna tók ofan og dró í hálfa stöng. ] [ Sæl og blessuð ævinlega mín sæta ljóskan fín, sólargeisla er nú líkast allt er frá þér skín. Þú hefur tíðum haldið þig á lærdómsþroska braut, hamingjan þig álítur sem tryggan förunaut. Kæra tengdó, ég sjaldan fæ svo fagurt yndishjal finnst mér birta jafnan að eiga við þig tal. Ég vona líka að þú eigir eftir að bæta genin mín og okkar bestu kostir muni segja þar til sín. Um helgina er veisla Mörtu og margur hlakkar til, mun hún þá verða fertug kunni ég aldri skil. Aspir ég gróðursetti í dag til þeirra minninga gert, fyrir okkur gömlu tvær en eitt fá börnin hvert. Sjáumst næst í Vaðlaheiði, kankvís, kát og hress, knús fyrir þitt góða ljóð, vertu sæl og bless. ] [ Þegar ég er orðin stór, og kannski læknir með gleraugu og kaffi í hvítum slopp, ætla ég að fara til Írlands. Því sjáðu til, þegar maður er lítil og rauðhærð stelpa á litla Íslandi er svo erfitt að falla inn í hópinn. Að hugsa sér hversu þægilegt það væri að enginn sneri sér við, til að líta aftur, vera viss, Alltaf að vera viss. Rauðhærðir íslendingar koma frá írskum þrælum, eða koma undan þeim, ég veit ekki hvort maður segir. ] [ Eru hugsanir þínar Er ytra útlit þitt ekki síður en innra Er nánd þín Er snerting þín Er rómur þinn Er tilgangur þinn Er sú staðreynd að þú ert til Er það sem þú segir við mig Er það sem mér finnst um þig Er hvað ég dái þig og dýrka Er hvað ég virði þig ...fullkomnun ert þú ] [ Hæ, ég er lítið ljóð. ] [ Ég er stelpan sem týndi sjálfum sér. Ég er stelpan sem vissi ekki hver hún var. En nú er ég stelpan, stelpan sem er örugg. Stelpan er og var alltaf örugg. Stundum kannski gleymir hún, örygginu og týnir sjálfum sér. En innst inni veit hún það, að hún er stelpan sem er örugg. ] [ ,,Ég, mamma mín, er týnd." Þá skaltu hlusta á lagið þitt. En fyrst verður þú að finna það. Þá skaltu dansa þín spor. En fyrst verður þú að standa upp. Hættu að gráta, litla stúlka. Þegar þú hættir, þá er allt í lagi. Þá getur þú farið, og leitað að þínu lagi. Þá getur þú, staðið upp og dansað þín spor. Þá getur þú, verið þú." ] [ Þín ósögðu orð eru þín ófæddu hugarfóstur. Ætlarðu að ljá þeim líf, eða láta eyða þeim? ] [ Þeir ungu menn sem aldrei sukka, ýmsu fara þeir á mis. En sjálsagt sýnist þetta lukka, og seinna meir þeim gefur ris. ] [ Þegar ég er þreytt dreymir mig. Reyndar, sofna ég yfirleitt fyrst og síðan dreymir mig. En það þarf engum manni það að segja Þegar ég er þreytt renna orðin saman og augnlokin þyngjast ég dett inn í annan heim milli svefns og vöku þar sem ég veit ekki neitt; Þá vðera oðirn braa svo srítkin og fólikn og ég sikl ekki nitet. ] [ Fimmtíuogþriggja, bráðum fimmtíuogfjögurra. Hver sagði að tíminn læknaði öll sár? ] [ Elsku bróðir,þig ég missti á þann hatt sem engin afborið getur Ekki bara bróðir ég missti einnig minn besta vin,helmingur af mer var tekinn reyði,hatur og biturð runnu saman i eitt,alldrei ég truði að slikt gæti gerst Einkenni þin voru skýr,þú brostir sólin skeyn,þú varðst nálægt stjörnurnar lýstust þú kvaddir heiminn,heimurinn kvaddi mig,himininn fölnaði,jörðin granaði,grasið hvarf,aðeins moldin ein stóð eftir skítug og grá hvern dag er ég vakna, óska ég að fa að sjá þig einu sinni enn,fa að faðma þig og grata i fangi þer Söknuðinn gnístir i hjarta mer og sál,jörðin skelfur undan sarsauka sorgarinnar ] [ ég hef fengið nóg af kitlandi dulúðinni undir yfirborðinu þar sem enginn sér loftbólurnar líða frá vörum mínum hata hvernig mér líður þegar ég er að drukkna fyrir allra augum langar að baða mig í fyssandi úðanum dreymi í súrefnisfirrðinni milli svefns og vöku fögnuðinn þegar tappinn flýgur og ég fæ loks að upplifa algleymi sigurvegarans ] [ Lúin bein liggja í grúfu, lendaverkir og tár. Hugaður tekur niður húfu, hönd leiðir gegnum fár. Sveimir fortíðar svífa, setjast þeir stundum að. Gömul sár stundum rífa, gleymd eru ei um stað. Um ókomnar framtíð, getur nær enginn spáð. Getur storkur verpt um ókomna tíð? Eða verður hann dauðans bráð? ] [ Loft er úti mengað móðu mörg úr augum koma tár. Hvar eru skáldin gáska góðu? góðverk, fylgir þettað ár. ] [ svívirðilegt margbrotið og illa lyktandi trekk í trekk það gekk yfir óheppni? ] [ Tíminn líðut hægt og hljótt húmar brátt að kveldi, hljóðna tekur nálgast nótt nærist sólar eldi. ] [ Ástar ljóð til þin ég yrki á blaðið ómþíður blærinn bærist til mín, í þögulli bæn þá upp hef ég staðið í einmannleik kom ég til þín. Þú varstsem engill af himninum sendur svanninum unga með eldheita þrá, dansandi svíf ég um draumanna lendur dásamleg veröld er þá. Merlaður máninn og stjörnurnar blika magnast þá ástinn er dagurinn dvín, nálæg er nóttin ekki má hika nú er ég kominn til þín. ] [ Hafið þið séð Mörtu mína? Mun sú hafa ferðast til Kína. Um allan heim í helstu borgum, hefur spókað sig á torgum. Er nú stödd í veislu vina, væna ég þakka gestrisnina. Gangirðu ætíð gæfu vegi, gömlu brýnin í Skálateigi. ] [ Óttinn byrjar í maganum og laumar sér upp í háls hríslast niður fæturnar og heldur mér fastri tekur yfir hendurnar á mér og neyðir mig til að sleppa takinu tekur fyrir augun á mér og leiðir mig á annan stað horfir niður á mig og hlær hátt að mér tekur sér bólfestu og ég reyni að hrista hann af mér hlær hærra og kreistir mig fastar herðist um hálsinn á mér þegar ég reyni að mótmæla hvíslar í eyrun mín, gleym mér ei ] [ Húmið er fagurt roða slær á sæ sumarsins kvöldgeislar blika. Glaður í huganum byggi mér bæ börnin góð ekki má hika. ] [ lágvært fliss fyrir framan tölvuskjáinn mjúkar gælur við lyklaborðið og tælandi orð myndast á skjánum loks heyrist hljóð sms hann er á leiðinni til þín ] [ hún ásækir þig og öskrar situr um þig og ógnar vakir yfir þér á daginn heimsækir þig í svefni það er engrar undankomu auðið hún mun ávallt fylgja þér blessaður klikkhausinn hún helvítis belja ] [ Bráðar seggi bryðja, Háðar skeggi þriðja. Heimskunnar hildi. Gleymskunnar gildi. Náðarvaldar niðja. - Niðja náðarvaldar. Gildi gleymskunnar. Hildi heimskunnar. Þriðja skeggi háðar, bryðja seggi bráðar. ] [ 'Ástin er eins og kolamoli brennandi á glóð´, Ástin líkist fiðrildi flögrandi um skógarþykkni. læðist að hjarta manns og finnur þar frið. ] [ Er húmið skelfir margan mann, á meðan aðrir sofa rótt, þá laumast svartur köttur kann í kyrrðinni á Jólanótt. ] [ Það er kona sem ég kalla mömmu Það er maður sem ég kalla pabba Samt er ég munaðarlaus ] [ Það þarf bara eina manneskju til að finnast umlukinn en heilan her til að finnast einn. ] [ Í garði mínum vex gleym-mér-ei sem minnir mig á bláu augun þín sem ræktaðir hann. ] [ Takk, þú gafst mér orku í einn dag ég reyndi að spara orkuna í annan dag og ég held í vonina að hún hverfi ekki Þú gafst mér ósk, og von um betri tíð, Æðruleysi sem ég vil halda í Þú gafst mér styrk Takk, þú gafst meira en ég get nokkurn tímann gefið öðrum En, ég ætla að reyna að gefa að minnsta kosti helminginn,, Takk fyrir styrkinn pabbi. Takk fyrir að heimsækja mig. ] [ Ég ligg hérna hugsandi helvíti er í Hugurinn andinn, er ég fyrir bý Vitrænar forsendur fastheldni og sýn Mér feigð er nú búin þú ert mér svo brýn ] [ halló ég auglýsi eftir tilfinningu ég týndi henni ég veit ekki hvenær hún er viðkvæm hjálpið mér Því án hennar er ég búin að þroskast ] [ æj elsku vina sofðu hjá mér einu sinni enn ég get gleypt hjartað þitt og kjamsað soldið á því sofðu hjá mér því ég er næstum búin að gleyma þér og það væri svo hræðilegt ef ég gæti ekki lengur grátið við tilhugsunina um þig. Svo langar mig svo mikið að segja kærastanum þínum frá því ] [ Í nútímasamfélagi veljum við kontór ávallt framyfir sannleikann. Hver vill heyra um stríð í Írak þegar við getum fylgst með París Hilton í fangaklefanum eða horft á fólk éta kóngulær og fróa sér í takt? Allt í beinni auðvitað Velurðu sannleikann eða kontór? Hlauptu berrassaður yfir gólfið eða segðu mér sannleikann um lífið... Þitt líf. Þinn sannleikur. Hentu þér í Gullfoss eða segðu mér sannleikann um tilveruna, tækifærinn, hugsanir, brjál... Þitt líf. Þinn sannleikur. Ég vil ekkert vita. ] [ Eru orða bara orð Eða þýða þau eitthvað annað Eru þau til þess að tjá tilfinningar En af hverju get ég þá aldrei sagt Hvernig mér líður ] [ Ég sakna þín Svo mikið Mig langar að fara til þín En sama hversu Hratt Langt Kröftulega Ég hleyp til þín Þá kemst ég aldrei Þar sem þú ert ] [ Stundum er ég ekki hérna Ég er farinn eitthvert Veist þú hvert ég fór Getur þú hjálpað mér Helst mundi ég vilja ást Skilyrðislausa ást Nema með einu skilyrði Að þú elskir bara mig ] [ Sýnist hverjum það sem sannast þykir magurt Vel í holdum vellandi þykir öðrum fagurt Leit að ljósi framandi lífi þessu ljómandi lifandi í lífríki með lof í hendislóa ] [ Af himnum ofan fellur fuglaskítur á bílrúðuna hjá mér. Helvítis vargurinn! ] [ Home is where I want to stay A place with no fear or obey A home is where I will belong A place I know I’m loved among A home is where I need no pretend A place where rules I can bend A home is where the pressure is none A place I can go and need no fun A home is keeping the Sundays bread The place my children want to be fed. A home is where my dreams come true A place I own and no rent is due A home is someplace I don’t know where A place I need so badly A home is somewhere I feel the care A place I fear so madly My home is gone and I feel the loss My place I want for both of us Our home is where we both belong A place we are both loved among. ] [ Horfi ég grænu haganna til, hópast þar stóðið saman. Skyldi hryssan mín festa fyl, fjandi væri það gaman. ] [ Á vorin koma kærir gestir kríjan ljúf og skógarþrestir, lóan bíjar út í móa, ánum saman smalar hóa. Spóinn enn af visku vellir. Í hrossagauknum heirast skellir, máríerlan blíð af vana, líka ég heiri gal í hana. Á vorin litlu lömbin fæðast, léttir saman bændur ræðast. Lifna grös og blóm í haga við sjáum framm ábjarta daga. ] [ Langir skuggar læðast eftir strætinu litfögur blóm kinka kolli við hækkandi sól. Vinnu menn og konur vakna til starfa í byrtingu nýs dags, vonin og vinna, til lífsviðurværis hefst , þannig er þessi eilífa hringrás. ] [ Án vífilengju vísu snjalla vífið setti saman. Á hliðarlínum vísnavalla, við mikið höfum gaman! ] [ Við snúruna bandbrjálað fljóðið, býsnaðist og hnefana skók. Hæddi og hræddi milljarðastóðið og hataði ungfrú Langbrók. ] [ Tígurleg Fjóla frænka mín fer á kostunum enn. Líður um salinn létt og fín og lostinn kitlar menn. ] [ Margir lífi greiða gjöld, getur það suma hert, en þó að vinir falli fjöld fæst eigi við því gert. ] [ Trúðu á guð og góða vætti, gakktu ekki refilstig. Sefirðu ágirnd öllum mætti, ekkert getur fjötrað þig. ] [ Hjartað mitt er kramið, fast í stórum hnút. Erfitt að anda, erfitt að hugsa, erfitt að vera til. Get ekki unnið, get ekki lesið, get ekki hugsað, nema aðeins um eitt. Það fyllir hugann, svo sárt og vont. Það kremur hjartað. ] [ Hvar er sólin? Hvar er vonin? Bjartsýnin, jákvæðnin, baráttuviljinn og styrkurinn? Það er horfið, hvarf á braut, óundirbúið, eftir sit ég ein. Ég krefst þess að það komi, vona svo heitt, bíð svo lengi og bið og bið. ] [ Mikið er þá maðurinn byggir og má við nota öll sín tól. Sigfús kræfur tröppur tryggir svo tosist pabbi í húsaskjól. ] [ Ég er ey Kona ég er Karl Ég er gamall, ég er ungur Ég stend á meðan ég pissa í dall en Ég þoli ekki þessar háseta gungur. Ég líg stundum og það allir vita sumir kalla mig meistara loddson því engin trúir því sem ég niður rita en mitt rétta nafn er... Herra Davíð oddson ] [ Ég þori að stela og lemja en ég er samt meiri kauðinn leiðinlegt fólk ég elska að kremja en það eina sem ég hræðist er...dauðinn ] [ Góðverk gerir maður aldrei of fljótt, aldrei að vita hve fljótt er of seint. Geystu af stað en gakktu um hljótt og gleðstu af því að hafa þó reynt. ] [ Í ástum þykist margur misskilinn, möglar og verður síðar ókvæða. En þegar kominn er oddurinn inn ekki er um nauðgun að ræða. ] [ Kossinn þinn heitan, kysstu mig, kysstu mig oft ef kveðjumst í dag vonin í hjarta mér deyr aldrei við snertumst á ný. Augun þín djúpblá kom, kom þú nær mér í kvöld í djúpinu speglar speglast í augunum ást á morgun ég söknuðinn ber Í húmi ég kveð mitt hinsta og fegursta ljóð handa þér einni hræðist ei söknuðinn meir ef kyssir, kyssir þú mig Ást, haltu mér fast við faðminn þinn þétt í nótt fjarlægðin heilsar ekkert ég þekki svo sárt augun þín hverfa á braut. Kysstu mig lengi í draumum komdu til mín geymdu í augum spegilmynd ástar sem dó aftur mig vektu til lífs. ] [ Kjarnveig er komin í dalinn, konan telur mig vera galinn, bærilega er hryssan alin og ágæt að kostum talin. Í hestakaupum komin er kannast ei við skyssu, dável ætti að duga mér, dái ég þessa hryssu. Glóblesótt og fínt með fax fer á gangi lipur, Kjarnveigu ég kenndi strax, kominn er listagripur. Finnur Þórðar, frændi minn, færði wiský er kom skapi í lag, svo trítluðu Tea og Doddi inn og tóku skál fyrir Kjarnveigarhag. Ég hef setið við gluggann og horft hana á, hún er dýrleg sem drottning að sjá, já, dásamlegt var þessa Kjarnveigu að fá. Það er vonandi að hana vanti ekki viljann, sem flestir menn þrá er farið er að brúka, en fallega lyftir hún taglinu við að kúka. ] [ Heftur vid eitthvað sem ég ekki skil gangandi draugur sem er ekki til. Frostlausar nætur með stingandi nef, ganga yfir daga á meðan ég sef. Ætlar ad finna, ætlar ad þrá, vill fá ad elska hana ef að hann má. Þegar þiðnar á jördu, og þiðnar i þér veit ég ad þú hefur alveg gleymt mér. ] [ Tengdasoninn fékk ég fína er fellur mér vel í geð. Að Ásgeir bæti ættina mína er nú þegar séð. ] [ Inn um opna gluggann minn tónar ókunnug borg úti fyrir skála liprari tungur en mín eigin Mér strýkur óvelkominn sunnanblær sem bærir ljótu gluggatjöldin Í kviðnum ólgar hunangsromm Meyja böl að eig-at öl Þvílikur hiti! Madrid, mér bullsýður ] [ Glamrar hérna glerjunum í af gómsætum lummum hlaðinn stallur. Að kaffi og kakói lengi ég bý. Kærar þakkir Lilja, Eyþór og Hallur. ] [ þú verður að skilja það að ég vil þig ekki komdu því í hausinn þinn ekki segja gerðu það því ég vil þig ekki reyndu að skilja að ég læt ekki þig ekki koma svona fram við mig kallar mig hóru, tussu og tík svo eitthvað sé nefnt þú heldur líka framhjá mér eins og þú fáir borgað veistu ég gæti grátið þetta er ekki fyndið reyndu að skilja það að ég vil þig ekki. ] [ Það var kraftur sem jók aðstigið og angurværðin níðist á mér. Fram á við og fram yfir hæfileg mörk sem hæfa engum. Innsiglið falið innan um skjöl og brotnar skrjóður, rykið fyllir vitin. Sólsetrið hæðist að mér og heilsar almenning, er ég kúri að innan og leita útgönguleiða. ] [ kristín bjó í koti sínu voða litlu og fínu sem svo einn dag kviknaði í og hún komst út um gluggan kristín bjó ekki lengur í koti sínu hún var búin að búa þar í 14 ár og missti alla sína hluti alla þá flottu & fínu kristín bjó í koti sínu. ] [ elsku besta barnið mitt aðeins 4 ára að aldri lést úr krabbamein ég vil fá þig aftur en ég get ekkert gert nema grátið og grátið þetta gerðist daginn fyrir aðfangadag læknarnir sögðu þig vera að fá heilsuna aftur en svo hvarfstu frá mér elsku barnið gott aðeins 4 ára með fallegt glott ég mun aldrei gleyma þér elsku barnið mitt ] [ karlinn í tunglinu kom til mín í dag þegar ég var að hlusta á lag og hann sagði við mig þetta er ekki lag þetta er sagan um mig karlinn í tunglinu ] [ Við karlarnir Erlendur, Fiddi og Finnur fengum okkur briddsslagi í dag. Þó orustan standi um það hver vinnur atriðið er að koma skapinu í lag. ] [ marta hin káta er að fara koma marta hin kátaer er orðin 40 marta hin káta býr í afríku marta hin káta heldur stór veislu ] [ jóla snjórinn dottar börnin leika sér jólinn fara koma snjórinn er kaldur börninn leika sér jólinn eru kominn pakkar opnas af gleði og fjölskildan sameinast á ný ] [ sápann sápann mín með froðuni froðuni minni hoppar og skoppar úr höndum mér sem mér finst skemtilegt ] [ sóln skín á frændur mína einar og hreiðar þeir eru kátir því þeim finst gaman að leika sér ísólinni ] [ hreieiðar litli er kominn heim og rigsugar með látum rigsugann bilaði og hann varð voða leiður ] [ Af Alþingi er burtu kvaddur, aldrei kunni mannasið. Nú ertu dauður Einar Oddur, ætli taki betra við? Víst þeir mættu fleiri fara, fjandans til ég segi bara. ] [ Við sitjum hérna saman afi og ég sáttir, gamlir Hólaskólabræður. Sýnist feguð drengsins dásamleg, drottin er víst sá er öllu ræður. Einar og Aðalsteinn ] [ illa nýttur með bólgueiðandi efir að hafa vera hýddur áfram, eftir lögmálum samfélagsins.Í nútíma þrælahaldi í glansmynd peninga. Seldur eins og hóra fram og til baka í 10 cm pinnahælum. Með grát þrotin augu horfandi á veruleikan misnota sig.fastur inni, flakkandi milli stofnanna og á hvergi heima. Aumingja tíminn ] [ Að skera úr hestum skeiðlullið, skulum við ætla sé bót. En sumir telja það bölvað bullið og bæti þeim ekki hót. ] [ Hér eru hestar um hesta frá hestum til hesta. hestar eru fallegir, Við fáum nýja hesta í dag, Við förum í reiðtúr á hestum, Þetta ljóð fjallar um hesta. :D ] [ Aumt er ferðaglatt fljóð, fær ei klárað ástarljóð. Nöglin nagast, skapið ei lagast, hún foxill út í Haga jagast ... alveg óð! ] [ when I cry a tear I show my fear. When we kiss there something I miss. When I fall, I hear your call. It looks like we made it I can hardly believe it. ] [ Tvær flóknar flækjur hnipruðu sér saman, þar kom greiðan og færði fram hring. Á honum stóð; "Áfram gakk." Og leið þeirra leiddist í hendur. Svarti svanurinn synti hjá, bar hann tölu mikla; þrettán. Ævilangt ferðalag í visnun, dauðir hestar röltuðu langar mílur, með hjónabandið á beru baki. Gamlir tímar eldast, þeir nýju breytast í hverju skyndibrjálæði. Finndu til, finndu fyrir morðinu sem líf þitt er. ] [ flakkandi um borgina með flugur í augunum fallega bláan hatt á höfðinu og tuttugu gula túlípana í farteskinu(nesti) situr við höfnina byggir sínar skýjaborgir og segir frá öpunum sínum sem hann ætlar að fara með til danmerkur, svíþjóðar og asíu, helst um allan heim, láta þá sýna listir í hringleikahúsum og mala gull að kvöldi dags kemur trallandi heim gefur kindunum og svæfir börnin leggst við hliðina á konunni sinni og stillir vekjaraklukkuna á sex fyrir mjaltirnar í fyrramálið ] [ Eins og ást mín er blár skugginn sem fellur af trénu. Vindurinn blæs í laufi og gárar vatnið sem rennur yfir steinana mjúku sem hönd þín snertir. En ugla situr á hárri grein og fylgir þér eftir með auga sínu úr auga mínu. ] [ Þú kvaddir mig um morguninn fullur af lífi og dauða og við hugsuðum það bæði en sögðum ekki neitt. Og nú hef ég ekki séð þig svo lengi. ] [ Ástin mín hvarf í sumarhitanum. Ég man enn hversu fallega hárið hennar brann meðan hún þræddi nálina, stakk henni gegnum auga hans og saumaði í það mynd af lítilli stúlku sem stóð uppi á stól fyrir framan spegilinn og fléttaði sítt hárið. Hún lét sig dreyma um konur í hvítum kjólum . . . Ég klemmi saman augun, sé hana fyrir mér með eld í hárinu þar sem hún situr og strýkur mér svo blíðlega um vangann. „Og mundu bara að opna ekki augun því annars geta þeir blindað þig, annars geta þeir blindað þig, elskan mín,“ sagði hún í eyra mitt hvíslandi áður en hún hvarf. ] [ Hún raular lagið og raular lagið sem svæfir . . . og raular, stoppar um stund og bíður, blístrar laglínu fiðlunnar sem fyllst hefur af mold. Trjágreinarnar bærast utan við opinn gluggann og mynda undarlegan skugga á veggnum, skugga eða draug sem virðist ógurlegur en vill þó engum illt. Hann mun skríða inn um opið á hverri stundu, fara yfir mig og inn í mig svo ég eldist um tuttugu ár þótt ég sé ennþá yngri en augun þín þar sem ég þykist vera létt eins og laufin á trjánum og syng fyrir ókunnuga. ] [ Hann gengur í fjörunni og virðir steinana vandlega fyrir sér svo hann hafi frá einhverju að segja í kvöld. Hann tekur þá upp einn af öðrum og hitar í lófanum, kemur síðan auga á höfuð í sandinum. Þetta er höfuð af lítilli stúlku sem starir í fjarskann grænum augum, svo hvít og kyrrlát á svipinn. Dreymir hana ketti? Dreymir hana hunda? Hann sest hjá henni og raðar steinum í kring, býr til stóran hring utan um þau bæði. „Þú getur lokað augunum núna, ég skal vaka yfir þér,“ segir hann. Horfir svo til sjávar og dregur djúpt andann, vonar að seint muni flæða að. ] [ Þú hvarfst á brott í morgunsárið jafn snögglega og regnvatnið gufar upp í sumarhitanum, og ég sé þig ennþá fyrir mér svífa burt eins og sólina, burt eins og guð. Nóttina áður dreymdi mig að ég væri með augu fuglsins sem flaug yfir ána, og nú geng ég eftir bakkanum í leit að stað til að hvílast undir fallegu tré og bíða. Ég færði þér svefn minn en þú litaðir hann rauðan meðan stór skuggi myndaðist með rætur sem uxu sífellt nær hjarta okkar þar sem við stóðum og horfðum á vegina mætast. Síðan skildust leiðir. Ég horfði á þig fjarlægjast og langaði að hrópa á hjálp en var of feimin. Og nú bíð ég þess eins að þú komir aftur og fljótir niður ána sem alltaf rann á milli okkar; ég mun bíða við bakkann uns hausta tekur, ég mun bíða þín þar uns fyrstu droparnir falla. ] [ Í vasanum geymi ég lykilinn að dyrunum sem ég geng alltaf að á nóttunni þegar ég sef. Ég ímynda mér hvað leynist handan þeirra og bý til nýja sögu um þá dularfullu veröld á hverri nóttu. Mér finnst gott að finna fyrir lyklinum í vasanum yfir daginn, en þegar kvöldið kemur legg ég hann í lófa þinn til öryggis áður en ég sofna. ] [ Ég ber í vegginn í von um að þú komir, fel mig síðan bakvið hurðina og bíð, minnist þess þegar þú komst í fyrsta sinn og hvað ég varð undrandi að finna þig við hlið mér. Ég hvísla nafn þitt aftur og aftur uns það er ekki lengur þitt, og renni fingrum yfir grímuna í höndum mér ögn kvíðin fyrir að setja hana á andlitið. ] [ Móðir hennar hafði fyllt hann af einhverju mjúku meðan hún sjálf sat við klukkuna og fylgdist með vísunum færast fram á nótt. Þetta var löngu áður en hún gekk eftir grasinu með fallega snúna fætur undir særðum himni, áður en saumarnir opnuðust og hún sá blóðið renna hægt yfir jörðina og storkna í sólinni. Hún snertir hann með fingrunum og leggur við hann vangann, segir hvíslandi: „Hann var dökkur á litinn, svo heitur og mjúkur og fullur af leyndarmálum. Alveg eins og þú.“ Og hún leggur við hann ennið, augnlokin og varirnar. ] [ Fréttir eru af Halldóri Hartmannssyni. Hann er að kíkja á gamla drykkjuvini. María er húsfrú hanns á þessum degi og hafa þau bækistöðvar í Skálateigi. ] [ Kötturinn minn hann fitnaði og fitnaði hann borðaði meira en nóg á endanum hann slitnaði og slitnaði ég beið eftir hann dó! vesalings kötturinn grætur því hann á engar fætur. ] [ Hann er hávaxinn og tignarlegur eins og tré með rætur sem teygja sig dýpra og dýpra með ári hverju. Greinarnar eru langar og laufin græn, en það sem hann þráir mest af öllu er spörfugl sem flögrar milli greina, og dálítil gola sem bærir laufin svo lítillega að hreyfingin greinist varla nema undir vökulu auga, gæti nánast verið ímyndun en er samt til staðar. Og þegar kvöldið kemur skal ég vera fuglinn þinn sem flögrar milli greina, ber vængjunum til og frá og hvíslar í eyra þitt: „Er þetta nægilegur blástur, ástin mín?“ Svo ber ég þeim enn fastar af öllum mætti og hvísla aftur eftir nokkra stund: „Er þetta nægilegur blástur, ástin mín?“ En ekkert svar heyrist, ekkert nema örlítill niður í ánni sem rennur eftir dalnum í fjarska og þú hefur aldrei augum litið en heyrt ótal frásagnir af sem hvíslaðar eru í eyra þitt á mildum sumarnóttum þegar áin rennur jafnvel ennþá hljóðlegar en nú. ] [ Mamma mín þú ert svo góð að ég yrkti þetta ljóð því á miðanum stóð: sjaldan fellur eplið langt frá eikinni þú ert langt frá leikinni. þú átt stórt hús með einni mús og líka krús en hefur enga lús. ] [ á spáni er fáni á kvöldin kemur máni. stundum er sól en ekki um jól þá er maður stundum í kjól. það eru bílar og líka fílar og allir skrifa stíla. þar eru börn í fóbolta, sumir eru í vörn á meðan foreldrar sá hvörn. þetta eru mörg dæmi, ef það kæmi- risa afhvæmi. ] [ Þegar myrkrið er orðið svo þykkt að hægt er að stinga á það göt, með vasaljósi; slekkur maður á höfðinu, kveikir á vasaljósinu og byrjar að bora holur og göng í dimmuna, svo birtan megi komast að. Þetta er erfiðisvinna sem getur tekið langan tíma en hún er mjög vel launuð. Maður verður bara að grípa vasaljósið og vinna hratt til að ná að búa til pláss fyrir birtu áðuren batteríin klárast. Það þarf svo að muna að kveikja aftur á hausnum þegar maður er búinn, en vera þó tilbúinn að ýta á neyðarstoppið. Annars er hætta á að lífið verði bara langur dauðdagi. ] [ Hellingur er mikið og ekkert er lítið en oft er hvorugt nóg. Næstum því allt þar á milli er mátulegt fyrir marga. Þó þarf að vera nóg til skipta svo hægt sé að deila. Öllu má saman jafna og ég veit fyrir víst að helminga má til helminga, helminginn af engu. ] [ Allt í einu var hún alls staðar eins og sólin og grasið. Í hvert sinn sem ég leit upp sá ég hana dansandi um flekkinn við stuttskefta hrífu í of litlum skokk. Ég þerraði svitann, brýndi ljáinn. Enginn sagði neitt. Kunnugleg lyktin af hörundi hennar, blönduð svita og fíflamjólk, var orðin að framandi ilmi sem vakti með mér óskýrar myndir. Ég brosti og leit svo í grasið, beit saman tönnum og um stund varð eðlileg hrynjandi heysláttumannsins að rykkjóttum sveiflum. Dagurinn varð lengri og heitari en nokkru sinni fyrr. Loks héldum við heim á leið og skildum eftir að baki daginn og engið. Í hvarfi frá bænum í gróinni lautu, rétti ég henni höndina. Enginn sagði neitt. Kvöldsólin þakti hár hennar kossum, allir fuglarnir þögnuðu um stund. - Svo héldum við áfram hljóð upp að bænum. Þar beið móðir sem kyssti hana og mig og tíndi um leið úr hári okkar stráin. ] [ Ertu skáld? -nei, ég er veiðimaður. Ég veiði ljóð þegar til þess viðrar. Þau leynast allsstaðar, og þegar ég finn þau fanga ég þau með orðum. ] [ Elliblokkin er klukka, Eðlisfræði er prjónaskapur Ég er teppaverksmiðja en framleiði saft þegar hart er í ári. Ég tek ellefuna... Sjáumst við ekki aftur? ] [ Þegar ég hugsa um þig vex tómið innra með mér. Stundum sofna ég á verðinum. Ég yrki í moll en þú ert í dúr. Ég hitti þig aldrei. ] [ Sit hér Bíðandi Biðjandi En veit ekki Hvað mér finnst Er þetta ást? Eða er þetta bara.... Hjartaáfall? ] [ Ég fattaði það ekki strax Hver þú varst Hvað þú gerðir mér Hvaða áhrif þú hafðir á mig Það var ekki fyrr en seinna Þegar að ég leit á þig Að ég uppgötvaði Ég elska þig Þó að ég hafi þekkt þig Í nokkur ár Þá var það ekki fyrr en seint Að ég bara áttaði mig Þú varst sú eina rétta Þó að þú berir ekki sömu tilfinningar til mín Þá er vinátta þín mér það mikils virði að hitt skiptir engu Þó að ég myndi vilja eiga þig sem meira en vinkonu Þá er ég hamingjusamur með það eitt Að fá að eiga þig á einhvern hátt ] [ Skotinn var skotinn í skota sem skaut sér í skotglas um stund Skotinn þá skaut þessum skota og skotans þá skautaði lund Því skotinn hann skaut ekki um það að skotinn hann skota var í Svo skotið varð skotanum að hann skaut sig víst skotann svo í. ] [ Að ota sínum tota er oft til óðagota en tota sínum ota er hægt með töfrasprota Ef tota þarft'að ota Þá otaðu þínum tota Og taktu töfrasprota og turtildúfu rota ] [ Úti á firði speglar vindurinn sig í hafinu. Uppi á heiðinni mætast skuggar fortíðar undir draumbláum himni. Ég sit hér og tala við blómin því að þau segja ekki neitt. Þau hlusta bara. Og tíminn, hann er ekki til nema ég vilji það. ] [ Af hverju þarf ég að rökræða? Af hverju þarf ég að rífast? Af hverju þarf ég að hlusta á aðra rífast og rökræða? Tökum upp sið. Sið sem allir geta notað. Þegar þú ert að rífast eða rökræða Þá eiga bara að vera tvö orð Tvö orð sem allir skilja Tvö orð sem binda enda á rifrildið og skilur fólk í sundur. Orðin Fokkaðu Þér. ] [ Þegar þú labbar inn í herbergið hnútur í magann. augun hárið líkaminn brosið ég ræð ekki við mig ég svíf um á skýi ástarinnar ég verð að ganga að þér snerta þig koma við hörund þitt kyssa mjúkar varir þínar því aðeins á þeirri stundu verð ég hamingjusamur ] [ Kenndu mér Kenndu mér hvernig ég á að hætta Hætta að hugsa um þig Þrá þig Vilja þig Elska þig Ég veit að við verðum aldrei neitt Meira en vinir En ég bara get ekki Ég get ekki hætt Að hugsa um þig Þrá þig Vilja þig Elska þig Gerðu það Kenndu mér Hvernig á að hætta Eða gefðu mér eitthvað á móti Þitt er valið. ] [ Það er svo æðislegt að vera til. Það er svo frábært að eiga heimili Að eiga mat Að eiga líf Það er svo frábært að elska Vera elskaður Eða ekki Það skiptir engu máli þetta er allt svo frábært ] [ Glerbúrinu sitjum við í glæru. Geggjuð öll, en þó með allt á tæru. ] [ Kókómjólk er svoddan sull Að sjálfur það ekki drekk ég En jólkurglösin mín eru full Þó kókómið ekki þekk’ég ] [ Þó líkjör flæddi um líkamann Og leiðinn gerði vart við sig Ég ætlaði ekki að kyssa þann Sem kom uppá hól að hitta mig Ég óska þess núna að æla mætti Ógeðisbragðinu útúr mér Því að í sannleika sagt, þvag mér þætti Þeim mun skárra að sleikja hér. Því Steina kann sko ekki’að kyssa Hún kann það ekki nógu vel Tunguna á fulla ferð að missa, Er eins og að kyssa þvottavél. ] [ Er leiðir liggja saman og líkin líta við. Ófríð ófrú í framan í óbyggðar ófrið. Eltandi, geltandi, hundsskammar dýr. Ælandi, vælandi, nautheimskur fýr. Lofandi góðu með eistnabönd fast um fingur, full af ótrú, skótrú. Fljúgandi, ljúgandi, döpur kelling. Leiðandi, meiðandi, ósköp helling. Kennir til með flagnar buxur og hoppandi reiði þar sem liggur á leiði. ] [ Mósi féll klukkan fjögur í dag. Fékk mína tvíbrotið löngutöng. Við áttum við hann æstan slag. Já, æfin hans varð nógu löng. Í jarðlífinu hann hrekti svalt. Honum í kjötvöru er því breytt. Eitthvað verður sett í salt, svo í steikur, það ekki er leitt. ] [ Arðræningja ær og kýr Eitthvað brask í landi Og hamingjan í heiminum býr Í hlutabréfum sem ei eru rýr Og engin þar hætta á strandi. En börnin litlu ei barma sér Þó bágt sé hjá þeim út í heimi Og á Íslandi fjölskylduhluturinn fer Á færri hendur já því er nú verr Þó betra líf okkur alltaf dreymi. Er höldum við á hafið út Heima bíður elskan okkar Þar bíður oss í brælu og sút Bras við verkun daginn út Og ómögulegir kokkar. En það er í lagi lengi vel Lífið er svona meðalgrand Öllum leiðist að ég tel Og ef að fiskast ekki vel Allir við færum í land. Kaupið okkar er ei of hátt allt þó landkrabbar lofa Því er það orðin þjóðarsátt Að það verði áfram lágt Og verkalýðsforkólfar sofa. En Íslenskir sjómenn erum við Og eldhugar láta sig dreyma fleyjinu okkar við skellum á skrið og skundum á miðin þar fáum við frið til að sakna allra vinanna heima ] [ Gylfi og Finnbogi ætla nú Ólafsvöku til, æslafullir hyggjast þar gera konum skil. Þeir komu hérna til mín keyrandi í dag, kátir mjög og spiluðu bridds og gítarlag. Meiningin er að ná ferjunni í fyrramálið. Í Færeyjum trúi ég að sopið verði kálið. ] [ Tímarnir breytast og við líka Ég get séð það núna Að ekkert er sjálfsagt Og ekkert fæst fyrir ekki neitt. Að valta yfir allt og alla Og vilja að þeir séu eins Og við viljum hafa hafa þá Gengur ekki upp. Ég var á flótta undan sjálfum mér og fattaði ekki að það var ég sem að þurfti að breytast Ég þurfti að sættast við sjálfan mig Og vera ég sjálfur. Þá gat ég farið að gefa af mér Þykja vænt um aðra Sjá allt það fallega í lífinu Og njóta þess að vera til. Í dag er ég þakklátur fyrir hvern dag Sem ég vakna heilbrigður Og get þakkað guði fyrir það sem ég á Og beðið hann um að leiða mig áfram Til betra lífs. ] [ Ég þakklátur nú er í dag Æðra mætti í heimi Og sungið get nú sigurlag Ef sporum og guði ei gleymi. Ég fæ í dag á fundum svar Fái ég hugmynd ranga Því að líf mitt lengi var Án lausnar þrautarganga. Í faðmi ykkar fann ég leið Að feta góðu sporin Og handan við eitt hornið beið Hamingjan endurborin. þá í huga finn ég frið Fór að guðs míns vilja Er kom mín gæfa kvonfangið Og kenndi mér að skilja. Að ég er ekki lengur einn Sem einmana heima sefur Heldur er ég hamingjusveinn Er hún mig örmum vefur. ] [ Með Óðflugu við ætlum í ferð, óskandi vel það gangi. Sýnist vel undir Gustinn gerð, geti sú haldið fangi. Líflítill sýnist sopinn hans vera, sónarinn grípur oft ekki í feitt. Afkvæmin frægu flestum af bera, fyljist hryssurnar yfirleitt. ] [ Skrítið hvað allt er hljótt. Heimurinn sefur svo stirður og stífur, hvílir af sér minn æpandi sársauka. Ekkert sem raskar stjórn kynfæra og bragðlauka. Almúginn útriðinn hrökklast upp gangveginn. Þrælar kirkju og stjórnmála. Halda um soltinn kviðinn, auman og innfallinn, naga á sér neglurnar og þylja mér reglurnar. "Eltu þau eins og við, glenntu á þér rassgatið. Þá loksins færðu frá þeim frið og fyrir þeim samþykkið". Ég í uppreisn minni sný mér við og sýni þeim fokkmerkið. Ég aldrei skal feta slóð þeirra sem hata mig, heimta mitt hold og blóð og skítnum reyna að mata mig. Rotnaðu í helvíti helvítis fáviti. Sálarlegt öngþveiti. Bollur og bakkelsi flæða um hvert heimili. Græðgi og hófleysi, offita, fangelsi. Nauðgari, glaumgosi tælir með falsbrosi. Lygari, svikari. Fokk hvað ég hata þig. En hatrið styrkir mig, dregur mig upp á við, upp á mitt eigið svið, lít aldrei niður á við, í eigin sora rotnið þið. ] [ Líður eins og fjötruðum fanga föst í þínum hlekkjum Harðlega strýkur votum vanga vinur er ei ætíð eins og við þekkjum Slepp ég eitthvert tíman í burtu? Verð ég eitthvert tíman frjáls? Marin, blá með blóð á vörum Bíð ég þess að svarið verði já. Stóðst þú yfir mér og brostir Illskan skein þó í gegn Ekki eru margir kostir sem ég hef, því ég er þinn þegn Slepp ég eitthvert tíman í burtu? Verð ég eitthvert tíman frjáls? Marin, blá með blóð á vörum Bíð ég þess að svarið verði já. Ég man þú krepptir hnefann ég man ég öskraði nei Sál mín losnaði við klefann En þín gerði það ei Ég slapp loksins í burtu Þú verður þó aldrei frjáls Nú stend ég og bíð með krepptan hnefa Eftir því að þú fallir frá. ] [ Fyrirgefðu mér hvernig ég tók orð mín og bjó til úr þeim oddhvast spjót og hvernig ég rak spjótið beint í hjarta þitt án nokurrar miskunnar og hvernig spjótið sprengdi upp hjarta þitt og blóð þitt fossaðist út um allt. Fyrirgefðu mér, að ég skuli skrifa þetta ljóð og ekki þora að horfa í augu þin og segja fyrirgefðu. ] [ Eins og sólin þegar hún teygir sig hátt yfir himinhvolfið var ég þar og sveif um. Þar til ég fann kalda hönd raunveruleikans toga mig niður og setja mig í svaðið á ný. ] [ Þar sem ég lá og þú komst ekki voru tárin sölt svipbrigðin tóm af einhverjum ástæðum beið ég einn allt virtist tómt því án þín var kalt hver kemur til mín ef þú ert ekki til hvar verð ég finnst allt vera að fjara út það tekur enginn þinn stað því þú ert allt hugur minn dvelur hjá þér og það jaðrar við geðveiki ] [ Með augun kastaníubrún og hörundið svo silkimjúkt að mig langaði að eiga þig og vefja þig örmum mínum að eilífu Varirnar voru sem síðasta strokan í fallegasta málverkinu sem aldrei þurrkast út og varir um aldir allar Ef skynsemin hefði ekki gripið í taumanna og haldið aftur af hestum mínum hefði ég sökkt mér í fegurð þína og aldrei átt afturkvæmt ] [ Ég kalla á þig með allri minni ást sem dvelur í hjarta mér kalla á þig svo lengi sem ég þarf Ég kalla á þig með öllu því sem ég á sem hrærist í huga mér kalla á þig í mínum veikleika Ég kalla á þig með örvæntingu sem dvelur í brjósti mér kalla á þig og bíð eftir svari Ég kalla á þig með sorta fyrir augum sem virðist ekki ætla að að hverfa kalla á þig í von um ást ] [ soldið sætur meira feiminn augun djúp og orðin stór í lágum róm mig langaði svo en ákvað að bíða betri tíma svo hvarf hann þeysti burt á mótorfák ég veit ekki neitt því ég þorði engu en græt samt ] [ Reynist best sé betur gáð að byrja endinn skoða. Að gefa heimskingja göfug ráð er glatað og mun ei stoða. ] [ Ástin byrjar með kossum, og endar með tárum. Tekur á nokkrum hnossum, og á nokkrum árum. Tárin renna niður um kinn, á þessum flóknum árum. meðan ég sigli inn, á fallegum bárum. Höfundur: Margrét Lena ;D ] [ Þar sem eitt sinn var von er nú vonleysi Þar sem eitt sinn var ljós er nú myrkur Þar sem eitt sinn var ég er nú þú Þar sem eitt sinn var líf er nú dauði ] [ Vænstu ekki þess, sem þú vilt ekki gefa, vertu því gjöfull og stýfðu ekki úr hnefa, láttu ekki bágstaddan lengi eftir leita, leggðu þig fram svo megi eitthvað heita en vandi er velboðnu að neita. ] [ Ég gaf þér mitt hjarta, ég gaf þér mína hlýju Allt féll er þú fékkst þér línu Heimurinn hrundi, hjartað hætti að slá En engin tár komu enda dauð innanfrá. Þú lofaðir gulli en aðeins silfur ég sá Þegar ég leit aftur hafði ég engu að segja frá Allt farið, horfið á braut Hvernig gat ég verið svo heimsk sem naut Tíman ég ei fæ til baka Er ég sóaði í þig Engin sorg er hér að sjá aðeins eftirsjá. ] [ Ást. Ást er Ást Hatur er hatur Dauði er dauði En það erfiðasta Er ástarsorg.:( ] [ Fyrirgefðu. Fyrirgefðu það sem ég hef gert. Fyrirgefðu það sem ég hef sagt. Fyrirgefðu hvernig ég er. Augun fyllast af tárum. En ég get ekkert gert. Ég elska þig af öllu mínu hjarta. En þú skildir mig eftir með brotið hjarta. Fyrir eitthvern annan en ég vona að Ég fá þig aftur. Þá verður lífið yndislegt aftur. Ég elska þig kristrún :( ] [ Ég er eins og hafið óútreiknalegur blíður en samt grimmur hlífi lífi og tek líf Get sýnt á mér góðar hliðar en sýni líka oft á mér þær slæmu leik mér að farartækjum þessa lífs velti þeim um og held þeim réttum Held því sem að mér berst í greipum heljar ] [ Öryrkjamálin eru nú enn öll í klessu og allt þetta vissuð í Framsóknartíð. Ætlið þið grey ekki þjóna fólki þessu, en þjösnast í glæpum, um ár og síð. Mannréttarbrotin mjög á þeim hrína. Mættum við skipta á kaupi um sinn? Ætli þið segðuð: “Allt í þessu fína!!!” Og ekkert þá gerðuð vesælu skinn? ] [ Ég heyri vindinn hvísla nafn þitt og hann færir mér koss þinn. Ég bið hann að fara til baka og færi þig til mín. ,,Vertu snar vindur!\" segi ég ,,og færðu mér ást mína!\" Ég horfi á eftir vindinum flýta sér til þín, og hann tekur með sér rósir, og gleymmérei Ég leggst niður í grasið bíð þess að ást mín komi og leggist við hlið mér á engjunum fylltum af blómum og sólskyni Jafn snögglega og vindurinn fór kemur hann til baka og hann tekur með sér fiðrildi, og þig, ástin mín. ] [ Blóðið æðir um æðar mínar eins og eldur. Ég finn sviðalykt af hörundi mínu og neistar skjótast út um augun. Hjartað er við það að springa og brátt hvellur gosið upp úr höfði mínu Ég finn hvernig brennandi hraunið lekur niður andlit mitt og blindar mig. Nú heyri ég þig bara anda. ] [ Ég prentaði handa þér pínulítið blað, prestur minn góður ef kæmir í hlað. Það er eins og að vanda eilítið tað, ég er ansi mikið hræddur um það. En harmoniku þína hefurðu hér og hafðu þökk fyrir að lána mér. ] [ þar sem himinhár hamraveggurinn slútir fram svartur og mikill og ómurinn frá söfnuðinum varð að kliði þar fann ég lækinn fjólubláa sem ég hafði alla tíð leitað ] [ Heyskap er lokið ég segi það satt, sæmileg tugga og fengur ágætur. Ási það plastaði en Önundur batt, annað gerði Doddi vinurinn mætur. Að vissu er eftir að flytja það heim og ætla ég þá að halda smá geym. ] [ Fegurðin til kynmaka freistar oss, fegurðin bindur mörgum kross, fegurðin kvenna þó af flestu ber, fegurðin tælir hvern sem er. Fegurðin hefur fengið margan koss, fegurðin þykir vænsta hnoss, fegurðin býr í augum þess, sem sér, en sést ei hið innra, því er ver. ] [ Erfiðleikunum oft er háð, örgum manni að gefa ráð. Það er svo margt ef að er gáð, sem ekki verður leyst í bráð. ] [ Ingibjörg Sólrún sótti völdin fín, Sjálfstæðinu var opinn lófi. Græðgin mönnum glepur sýn, ef gengur fram úr hófi. Samfylking nú yfir glæpum gín, getur ei lengur beytt þófi. Alþingismaður er oftast svín, eða þá skaðræðis bófi. Aþingismaður er oftast flón, sem eltir foringjann. Finnur sig í að féfletta hjón, og freta á dómarann. Vesalmenni sem vinnur tjón, og valtar yfir fátækann. Það er ei sama með séra Jón og sauðsvartan almúgann. ] [ Ástarhnokkinn honum á, hefur margan dansinn stígið. En oftar þó í leti lá og latur sagði: ,,Mígið!” ] [ Á titrandi strengjum og brotnum nótum sálar minnar, líður lag mitt um þig. Í skini sólar og mildum loga mánans sé ég andlit þitt. Angan birkis og blóma fær hugann til að kalla fram flakk og rómantískar stundir. Í fölu myrkri haustsins heyri ég hjalið þitt. Hjartað mitt er fullt af söknuði og sárum trega. Sálin mín er brotin og ég næ ekki að raða brotunum saman. Augun min eru döpur og full af tárum. Brosið mitt er SVO langt í burtu að ég hræðist að týna því. Kökkurinn í hálsinum vil ekki fara. Mig langar svo að vera glöð, langar svo að finna aftur hamingjutilfinninguna í hjartanu. Ég missti besta vin minn í vor, vininn sem ég gaf sálina mína. Nu sit ég í sólinni og læt hugann reika. Vildi getað komist út úr hugsuninni eða delet-að svo mér liði betur ] [ Ég sekk í hyldýpi hugsanna minna. Veit ekki hvað ég sé þar! Ég get ekki verið of lengi í þönkum. Ég kemst ekki að öðru en þér. Það er ekkert í huga mér nema þú! Þú ert sem eldur í æðum mér. Þú ert sá sem heldur mér vakandi. Er ég vaki læt ég mig dreyma um þig. Er ég sef dreymir mig um þig Er ég sef og læt mig dreyma um þig vil ég ekki vakna, því ég vil aldrei vakna frá þér. Þú verður samt aldrei nær mér en þessir draumar ná. Ég sef bara og læt mig dreyma mig með þér! ] [ Þegar nóttin læðist að mér sækja að mér hugsanir. Hugsanir sem kannski ekki eiga að vera til staðar. En ég get lítið að því gert. Ég kannski ætti að láta mig hverfa, en myndi það gera nokkuð? Myndiru taka eftir því? Þú ert lífið í æðum mér... Þú kemur mér til að hlæja á ólíklegustu tímum. Þú lætur mér líða vel. En þú veist ekki hvernig mér líður og munt sennilega aldrei gera! ] [ Ég öskra, vil fara eins langt í burtu frá öllu og öllum. En ef ég sé þig hellist yfir mig tilfinning sem ég hefi ekki kennt áður. Þetta kallast öryggi mælir þú svo sterkt Nú vil ég ekki öskra, vil ekki fara. Ég fer samt. Lít aldrei til baka, gleymi öllu og öllum. Einu gleymi ég samt aldrei. Þú og rödd þín fylgir mér hvert sem ég fer! ] [ Logarnir flökta, daufur ilmur af kvöldmatnum leikur við lyktarskynið! Ég held áfram. Reyni að einbeita mér en ekkert gengur því hver einasta taug í mér vill aðeins vera hjá þér finna fyrir þér. Þú ert eins og málverk. Ég horfi, reyni að skilja en það er of erfitt. Þú ert ástæðan. ] [ fyrirgefðu fyrirgefðu að ég geti ekki sagt þér hvernig mér líður fyrirgefðu ég get ekki sagt að ég elski þig ég á ekkert hjarta fyrirgefðuu elskan ef ég ætti hjarta þáá myndii ég deilaa því með þér eina hjartað sem ég gætii deilt því með er með litlu barni litla ófædda barninu mínu en það verður erfitt án föðurs ung móðir með lítið barn verður auðvelt í ást með vinkonu við hlið ] [ i my self who went arount the world saw and draw the line betvine eyes of blood the great flood of anger the wind blew my brain out i discover the true about all above i spit on you for being the last sorrow in my own head the grass has grown dead black nightmare on these trees for me to see let it out let someone answer my own mind and to tell me whats behind for i who is the why and i who found the how to let me see the master plan allaround me around , above and im left behinde the grave of life you who has forsaken all real forsaken the tres killd my own grass for the world to become ruin if i knew the one reason for all, to become reasons never told me the truth for that ill shall become and be for all the others something no one understand becose i became the reason for those emty lifes to get back on this plain ,unsimpel lifes those who cry , die and go far away into a world whit no doubt of fear or hunger im the livin reason why they left but i remain all above and below me the rising man of the sun fearless to take everything without the heart they closed all religons in fear of the humanidty to go insain against this horror she stood the same man of the sun and she left to the open prayd to the gods for help eventhoug no sign of belive no religons to , he turnde his back on them this great man who calls him self a god for that he shall have to sell his soul and burn deep in the fire of hell were there is no escape .. just like in the real world there goes I walking away from me what i know about my self is now gone away from me it hurts you feel like your letting you down i pull the trigger and blow my self out cant feel any more im gone thats no doubt Were did i go wrong , i lost myself i cryed whit me allnight looking for myself lost in my drug habbit i try to let me quit but you couldnt handel that your a junkie and always will be so you took your gun and blew your self out tears of heaven bloody sky why are whe here the sun rise the wind whisper my love to you dies darkness all around sadness and pain kill me lost soul on the way back back to what mabye back to the start i'm screaming all the sweetness turns to hate is this what its all about the spining world turn to doubt. stand hera above my ground i feel like making a sound every step taken closer to my heart and my life style has become an art hate to be young hate to grow old life is that way no matter what you say one time your right one time your wrong life cant always be about you its not for you , its not a gift given only to you you have a soul learn to use it you have a heart learn to follow it take a change smile and dance becouse you just have one life you dont chose were you are born you dont chose your parents but you got to love them any way you learn , you feel , you cry pain is just some thing that will make you stonger so live by the rules and try to be strong sturlun ad hugsa um tad sem hefdi getad ordid ef tad gerdist ekki tilgangurinn olysanlegur til ad fynna tad sem tu villt to eingin skilji ord augunn syna allt sem seigja tarf The lights slowly fades away Eyes getting heavy your on you way Eyes open you feel awake the doors are speeking in a strange way the lights get brighter you feel its a day stuck in a world its hard to say everything is good everything okay but remember you on your way Jumping flowers in the sun Truly everybody is having fun but darknes slowly comes and away whit the sun clouds and rain its not the same something grabbes you you stopped that game and tell your imagen your not to stay and slowly dreams and nighmares just fade away understand it feel whats left of me you dont feel mutch my dreams starts a nightmare you might think im a mess but i couldnt care less your devils left you, sorrows are your own you got your self to blame dont ever touch me it will never be the same they heard my screams loud and clear but now it seems the end is near everyting off, feel your skin, black out ! wake up no memories im in my bed how did i get heer am i dead ? Bill Engvall - Here's Your Sign (Video) Dmx Gamma Ray Killswitch Engage Alice in Chains Eternal Tears of Sorrow Within Temptation Diorama - synthesize me Luna Ad Noctum smile empty soul !! PArkway drive ] [ Fundið ég hef Fallega steina Augun þín blá Leyndardóm geyma Þjáningartár, Elskan mín streyma. Þegar ég sef, Ekki skilja mig eina, Vertu mér hjá, Og láttu mig dreyma Um hamingju ár Sem minningar geyma. ] [ Perhaps they who are blinded by money and wealth and have lost the knowledge of the fact that love truly is the essence of life, would choose eternal life. But we who are blessed with that knowledge should value the gift of life; death. It is because of death we can be with our loved ones through all eternity in Paradise. ] [ Ég er förunautur náðar og nísti gegnum merg og bein. Við þekkjum bálfarir báðar og bæn er eftirstendur ein. Í tárum tala til ykkar er tregið mannanna mein. Dyr mínar þungar og þykkar þrútna við áköll og vein. Ég er lækur og lítil fata og lófi smár í hendi fyrr. Minning sár sem brýst til baka og breiðist yfir hvít og kyrr. Líð um sævi og lendur fornar og leik við stein og spegilmynd. Uppspretta sem aldrei þornar í ætt við ást misgjörð og synd. ] [ Hér eru svo margar möppur, og ég veit ekki lengur hvað er í þeim öllum, en ég veit ég óttast sumt af því, þessvegna þorði ég ekki að opna þær svo lengi, og þessvegna veit ég ekki lengur hvað er í þeim öllum. Mig vantar sumt af því. ] [ Aðeins regnið skilur mig, skilur hugsanir mínar. Það eitt getur skýrt tilfinningar mínar ást, hatur, sorg og gleði. En nú er þurrkatíð. ] [ Ég sá pabba þinn grafa. Ekki fyrir sandkassa handa þér í garðinum heima heldur gröf þína í kirkjugarðinum. Ég sá þig aftur í í bílnum. Ekki í bleikum bílstól heldur lítilli, hvítri kistu. Ég sá iljar þínar í sónarnum en ég fæ aldrei að sjá spor þín. Ég sé engan tilgang. ] [ Tár falla. Af sorg. Af reiði. Af gleði. Af örvæntingu. Af hlátri. Af gremju. Af hamingju. Af sársauka. Af ánægju. Barn, hví falla þín tár? ] [ Kona með blindrastaf les bók í strætóskýli. Blindrahundurinn hennar - eða það hlýtur að vera - horfir á eftir strætó. Konan er með sólgleraugu, sólin skín og lognið bíður handan við hornið. Hundurinn, þótt vingjarnlegur sé, hræðir. ] [ Ég klessti kolbrjálað flugukvikindi milli rimlanna í gluggatjöldunum þegar ég dró fyrir. Ég frem mín myrkraverk á bak við tjöldin. ] [ Sólin hún skín yfir Plaza Sest á laufin í Central park Meðbræður betla við brúna Bölvað lífið er eintómt hark -En mér er ekki boðið Mér er ekki til setunnar boðið Er lífið allt svo ljúft? Svarið er loðið! Það er gleði við spegilslétt vatnið Gulrauð laufin grípa hvern geisla Betlari liggur á bekk Segir ,,Lífið er bévítans fermingarveisla... En mér er ekki boðið Ekki til setunnar boðið Einblíndu á akfeitt barnið Af burgerum alveg út troðið." Lestin hún liggur neðanjarðar Grynnra en líf farþega þó andlega Ein hún stóð, söng sálma Full af sorg - og trega -Nei henni var ekki boðið Ekki til setunnar boðið Með tvo drengi undir örmum En ekkert í soðið. ] [ Það er komið haust í hjarta mér og mér er svo kalt. Ég stari á gólfið, þú ert ekki lengur hér. Hvað hef ég gert? Veggirnir auðir, ljósin slökkt, það gustar inn um opinn gluggann. Ég stend upp. Ég hef grátið mikið og lengi, allt er á floti. Geng að glugganum og horfi út. Úti er lífið sem ég átti með þér. Ég stíg skrefið til fulls en ég hrapa ekki. Ég flýg og mér líður aftur vel. ] [ á íslandi eru stelpurnar hvítar og strendurnar svartar í afríku eru stelpurnar svartar og strendurnar hvítar ] [ Kvennmanns Gummi saknaði en nú vill missa minni. Því vestfirskur hann vaknaði við hliðin'á systur sinni. Guð gaf Erling í vöggu haf, einstakar gáfur og fegurð hann ber. en minna í vöggu hann Gumma gaf, Hann getur ei talið tærnar á sér. ] [ Maggi litli til eyja fór, af bjór drakk margar tunnur. Núna er hann heldur sljór og í Dallinn arkar þunnur. ] [ Móðir mín úti hleypur sveitt á megrunarkúrnum danska. Hún í ruslatunnu komst í feitt, með hamborgara og franskar. ] [ Ég ligg á lignum stað í miðjum móanum, og hlusta á ánna strjúka vanga bakkanna með kveðjutón. Alla þessa leið frá upptökum árinnar liðast hún niður fyrirfram ákveðna slóð óteljandi dropa á mismunandi leið, þó alltaf samferða. Með í för er óskhuggja um leiðarenda fararinnar, hún biður fyrir fararheit og ævintýr. Við ósinn liggur annar ég beið of lengi við bakkann. Droparnir drógu mig með í för. Í farinn veg liðina líka. Við ósinn liggur liðið lík. Ég beið og lengi við bakkann. ] [ Einhverstaðar yfir Atlantshafinu lenti sál mín í sænum og á meðan stóð hugur minn við útlenska strönd og safnaði saltvotum minningum. ] [ Þú ert svo ótrúlega óþolandi að þú kæfir mig þegar þú opnar munninn En þú ert svo mikið krútt að ég get ekki annað en elskað þig. ] [ i´ve been i love i have been down my world keeps spinning round and round i had a child dropped out of school i wanted fame thought that was cool first when i met you you were my life told me you loved me then went out with someones elses wife. i didnt know at first but then the rumour burst i asked you about it and you sayd no you did it again it was so so one winter night i told my friend she was in my party that was the end i didnt want to live a lie so i just had to say goodbye my life was like a living hell you hit me while i scream and yell you helt me down with your strong arm and really tryed to do me harm my friends came running and ripped you off you kept on hitting i got away you throuw us out me and your child those 3 years of my life were a big mistake a mistake i choos to take. ] [ been alone, all alone for a quite good time shouldnt have to do it all again just see how she shines never mind my thoughts they are false and decieving me lead me right thru time who is there, i don't care for you anymore leave me all alone you don't know what i'm going thru you should try to give your heart have it torn it's so pure and devine tell me are you free, i shiver and forever i will let it all pass by tell me please, how do you get to enjoy life while i cry myself in to sleep every day and night i am feeling down and i'm here staring all alone into sea of time if i sleep, i will not wake to life again i don't care so much for the things that i'll leave behind when i go, please don't cry and please keep in mind now i'm feeling fine tell me are you free, i shiver and forever i will let it all pass by ] [ Loforð mín birtast senn það vita guðir og menn. Það er aðeins gott í þér því hvíslaði engill að mér. ] [ Þú ert fegursta fljóð og geislar alla daga. Hægt er að semja um þig ljóð með og án allra ljóðabraga. ] [ Þú ert mitt fagra fljóð öll þín fegurð geislar. Þú ert mér svo góð og vanlíðan mína beislar. Það er engin eins og þú sem er sko alveg satt. Ástæðan er til dæmis sú að hefur mig alltaf glatt. Það er alveg á hreinu að ég dái þig mikið. Misstíg mig í fáeinu en hef þig aldrei svikið. Það er margt hægt að segja sem fær að bíða betri tíma. Nú ætla ég hætta og þegja því ást mín á þér er mín víma. ] [ Þú ert sko konan mín fallegust allra kvenna. Falleg á öllum myndum og teiknuð með penna. ] [ Góðan dag ástin mín, ertu komin á fætur? Vinnan nú bíður þín reita arfa og rætur. ] [ Þú ert ótrúlega falleg og kemur svo vel fram. Sterk og bein í baki aldrei stopp, bara áfram Aldrei skal vont hljóta heldur lífsins njóta. Fyrir því skal ég verjast og við óvini þína berjast. ] [ Sama hvert vindar þjóta sama hvar sólin skín. Er eitt á hreinu að þú verður alltaf stúlkan mín ] [ Hebu skott sofðu nú rótt engill vakir við vöggu þína. Það er ekki aðeins í nótt sem Guð sendir englana sína. Brosmild með augu svo blá að önnur eins eru varla til. Átt svo geislabaug sem aðrir þrá þrátt fyrir að vera svo lítil Foreldra sinni litla stolt litli engillinn er svo fagur. En þau hugsa ekki minna um ljóshærða piltinn sem heitir Dagur. ] [ Hjarta mitt opið, viðkvæmt fyrir hvössum orðum. Limlest eftir viðureign við ástina. Brotið, sært, þráir það eitt að vera elskað, viðurkennt sem hlýtt og gott. ] [ Það þýðir ekki að vera háfleygur, ef þú kannt ekki að fljúgja. Það þýðir ekki að vera artí, ef þú ert ekki listrænn. Það þýðir ekki að ljúga, ef þú veist ekki sannleikann ] [ ástin er heit ástin er köld ástin er sæt ástin er súr ástin er mjúk ástin er hörð ástin gefur ástin tekur ástin er birta ástin er myrkur ástin blómstrar ástin fölnar ástin er sæla ástin er sorg ástin er gleði ástin er kvöl ástin er einföld ástin er margþætt ástin fagnar ástin hafnar ástin er réttlát ástin er ranglát ástin er allt ástin er ekkert ástin er von ástin er ótti ástin nærir ástin særir. ] [ Hugarvíl, þraut og pínu er að finna á lífsins línu Líka þrótt og viljafestu og frelsisvon hina mestu. ] [ Sem glitrandi gimsteinabreiða sjá glampa á hrímhvíta fold slík fegurð frá hafi til heiða hitar huga, en kælir hold. ] [ Vonina vekur lífsins ljós lokkar og umvefur litla rós, sem reisir sig úr rökkva í yl og ilmandi lokar óttans hyl. Hrakin var af lífsins vegi og visnandi lá á þeim degi, er daggardropi sendur var vonina aftur til hennar bar. Bjarmi lífs frá himnaþaki hennar höfga endurvaki, eilífur faðir, gjöfull gefur lífsaflið aftur rósin hefur. Hennar rætur rósemd fundu fegurð lífsins aftur mundu. myrksins ótta, þján og þraut þróttur vonar, vék á braut. Bænheyrð var hún, litla rós rís hún aftur, vitund ljós löngun hennar, nú lýsir bjart bjargræði öðrum, ef líf er svart. ] [ Ljósin í bænum tindra í takt við trén, sem sveigjast og svigna undan vanga vindsins í hviðunum kvín og kveinkar sér strá við vegginn, sem vakir og verndar undan vanga vindsins. ] [ Orðin þér gefi, gleði og sefi, stuðning og frið, fræði og markmið. Marki þín spor, styrkji þitt þor, þolgæðí og þraut, á lífsins braut. Bros þér gefi, grát þinn sefi, Sigur í hjarta, hugsun bjarta. ] [ Gangandi þunglamalegum klinkskrefum Blístrandi, samfélagstvístrandi stefum Myrðandi, niður um sig gyrðandi í klefum Athöfn, kynferðisleg: tekinn af eldri refum Blóðugar ermar, bundið hnúasárið Hvað varð um börnin sem greiddu sér ekki um hárið? Liggur í loftinu trygg, ljúf þvagangan Þykkt ský - menningarlykt gerir mig svangan Vigtin? Nei, Kíkt´inn og tékkaðu út fíkilinn... fangann Morfín mýktin er betri en mannréttindagangan Notaðar nálar, sýkt sprautusárið Hvað varð um börnin sem greiddu sér ekki um hárið? Um ráfandi, káfandi á veggjum og staurum Sláandi! Skríðandi betlandi -eftirlíking af maurum Á Íslandi – menn ,,lánandi\", eftirsjáandi aurum Hvíslandi, hrollur um hríslandi hjá höfuðpaurum En hver skilur borgarstjórans blæti? Er þú heyrir haustsins læti - við Kaffi Austurstræti. ] [ Er dagur þinn er á enda er upphaf nætur minnar. Nú horfnar hugsanir lenda. Ef hefi ég ögn návistar þinnar. ] [ went up with a fury went down with a blast i pray to my Lord i wont die like the rest bombs are falling down from the sky and hit my plane i dont know why i hear your voise calling for me am i dead?? "no its just a dream" ] [ if i am sad you are there when i am happy you are there when i am angry you are there when i am comfused you are there i cant help it you are my life. ] [ u can have house but that doesn´t mean home you can have a boyfriend but that doesn´t mean love you can have friends but that doesn´t mean trust but you got me and we mede it all. ] [ tears fall from heaven another child has died i give you all my strongest thoghts i hope you will get through this little child your in his hands now i know he will protect you ur in a better place now you wont ever be sad may the angels sing you to sleep sleep well little angel. ] [ Kuldalegir englar örlaganna leiddu okkur frá hvort öðru. Þú hlustar á hafið. Heyrir þú rödd mína í briminu? Þú starir á skýin. Sérðu andlit mitt líta til þín? ] [ manstu þegar ég sagði að mig langaði svo til parísar því það væri svo fallegt þar á þeim árstíma en auðvitað vissum við bæði að við kæmumst aldrei þangað því við áttum varla fyrir smjöri á brauðið eða salti í grautinn en þú stakkst upp á því að við færum í leik og við fórum upp á þak með neskaffi og mjólkurost og rautt heklað teppi og við settumst þangað og borðuðum og horfðum á tunglið og stjörnurnar og ég man alveg hvað mér fannst þetta fallegt en að þetta væri samt ekkert líkt parís en þetta var samt staður ástarinnar því þú varst með mér og varst svo fallegur og góður og yndislegur. ] [ Frostgrasið glitrar jörðin lýsir upp himinn tunglinu er kalt ] [ Hægt snjókorn falla mýkist jörðin, hækkar storð Deyr fugl, brotna bein ] [ Viðbótardagur dagatal færist í horf lífið kemst í lag ] [ Frostrósavöndur hrímguð kveðja morgunsárs kaldur koss á kinn ] [ Mígreni herjar heltekur sjón og hugsun höfuð biðst lausnar ] [ Jafndægradagur mörk nætur og dags jafnlöng birtir heldur til ] [ Kristur á krossi pínist þar lengi kvalinn eg gef páskaegg ] [ Tíðindalítill dagur að kveldi kominn og vikan liðin ] [ Dagur leið framhjá án nokkurrar mótstöðu eins og gleymskufljót ] [ Miðvikudagur er víst miðja vikunnar er upp er staðið ] [ Fimmtudagur er fimmti dagur vikunnar ef rétt er talið ] [ Fastan hefst daginn þann sem ber nafnið hennar vikulokum nær ] [ Þvottur er þveginn og kroppur alhreinn strokinn á laugardegi ] [ Bjartur er dagur sá er kenndur er við sól upplyfting sálar ] [ Mána er dagur sá er sunnu fast fylgir hann hefur viku ] [ Þriðji er dagur annar dagur í viku hver er sá dagur? ] [ Sönn er lífsspekin hver er sinnar gæfu skáld drekk nú bragarmjöð ] [ Úr urðarbrunni svala ég þorsta mínum veit ég hann djúpan ] [ Smáfuglaþyrping smeygir sér milli húsa á heiðum himni ] [ Haustið fellir lauf dimmir og kólnar veður sálin leggst í híð ] [ Leit að gullkálfi heldur áfram í kvöld í musteri Mammons ] [ Kári blæs mikinn líkt og grimmur úlfur í Grimms ævintýri ] [ Valentínus er ákaft dýrkaður í dag af blómabændum ] [ Atkvæði hæku eru sautján allt í allt fimm, sjö og svo fimm ] [ Þröngt er mér um mál ljóðpundari þyngist hratt haiku ósköpuð ] [ Upphaf vikunnar er jafnframt upphaf hluta sem skýrast síðar ] [ Lítil tíðindi - þessi hæka fjallar nú ögn um sjálfa sig ] [ Hjartaræturnar vermir sumarblíðan ung bræðir klakabönd ] [ Vetur í sinni er mér dimmur og kaldur þungt er þjökuð lund ] [ Hika hækur nú hugsanabrunnur lokkar sem hreiðurstaður ] [ Hrímug bílrúða byrgir morgunsýnina vetrarstírur guðs ] [ Grár liggur köttur grafkyrr og bíður færis í frostnu grasi ] [ Hringlótt er gáran frá regndropum himins á framrúðunni ] [ opna upp mitt hjarta visku veittu mál myrkrið dimma svarta taktu úr minni sál birtu veittu á leið vísa veg að ganga svo burtu mína neyð úr hjarta megir fanga ] [ Nú látum við trippin hlaupa í hring, höfum lykkju á staur til að missa þau eigi og aðferðin reynist rækalli slyng en - Róm var ekki byggð á einum degi - ] [ Svo mikil var birtan Að halda mátti að sólin sjálf vildi brenna í sundur naflastrenginn. Eitt tímabil hún entist. Annað hún hvíldist, og svo hið þriðja. Á fjórða rofaði til. Síðan heiðríkja. Rigning með köflum og lágskýjað. Léttir til. Gengur svo á með éljum. Suðvestran allhvass, eða stormur, og við sem héldum að veðrið væri vitlaust. ] [ ef það fer að væsa um mann verður maður að fara í góðra vinaskap þar er gott að vera ] [ æ hvenær kemur eiginlega þessi kjarnorkustyrjöld sem ég ætlaði að skrifa um? ] [ sindra augu, sárafátt höfum við hvort öðru að segja samt langar mig aðeins með þér einum að þegja ] [ Meir en annað bros þitt beit, blítt mínar votu kinnar. Herrann einn á himnum veit, hvað ég sakna vinkonu minnar. Seinna munum við himnahlið, aftur hittast vinir. Vonandi getum þá loksins við, verið hamingjusöm eins og hinir. --- ] [ Sé holt landið og ég sogast inn heimur minn ferst eldur, brennisteinn Allt tekur enda Þvílíkur hiti Hvers vegna núna? Horfi niður í myrkrið jörðin er hrunin eftir stendur gap ginnunga lítil sylla eftir Aðeins ég og orðin. Bros kemur á varir mínar Nú er öllu lokið. Sé krumlu rísa stærri en allt stærri en hún sjálf teygir sig eftir mér og orðin hverfa. Aðeins skynjun eftir. Síðasti andardrátturinn fellur úr brjósti mínu Krumlan rís á ný Nú er komið af mér Ég horfi á hana og stekk á móti. Þegar ég fell fæ ég þessa tilfinningu og ég snerti myrkrið Nú er heiminum lokið. ] [ Finnbogi rammi er farinn á braut, frjálslega um skallan strauk. Í sund á morgnana þráfallt þaut, því næst útí Páskahelli rauk. Hann ofvirkan tel með eljuna slíka að aldrei slakar hann á. En með gamansemina gæskuríka og glettnissvip á brá. ] [ Flugurnar fölna í haustfjúkinu, heitir draumar og heitir dagar dala með tímanum, tímabundið og óumflýjanlega í takt við breytingar sérhvers manns. Sumarið sem var hér í gær hvarf með norðanáttinni. ] [ Þrautseyglan er þarfaþing, þókknast flestum mönnum. Samt hér áður um það syng, er sæmir óðaönnum. Heilum vagni heim að aka, held ég gagnist flestum bezt. Varast ber of lengi að vaka, viðar til - þá sól er sest. ] [ áfram líður stoppar, bíður lengist, styttist, fer allt eftir hvar ég er ] [ Hvergi og hér, ekki og auðvitað, aldrei og alltaf, ekkert og er. ________________ anda og ekki ] [ Öld öfgana þeir fullyrða að víst sé hún liðin Öflug vestræn ríki muni færa okkur heimsfriðinn Copy – paste-a yfir alla sama siðinn En segðu mér hví er hún svona löng biðin? var rennt blint í óþekkt miðin og óþekkt innviðin? Og víst má blanda saman skáldskap og raunveruleika í ljóð Og víst verða sum þeirra vond en önnur góð Og ef að í æðum þínum rennur rósrautt blóð Ættirðu að dritta þeim á blað og safna í sjóð Og sannarlega munu þau smám saman heyrast í gegnum kliðinn. Af 14 ára pilti þú getur ennþá kynlíf keypt en ódýrt erlent lambakjöt er ekki leyft því það liggur á, að eignarhald fjölmiðla sé dreift svo að fávitarnir geti brjóstmynd, af fyrrum forsætisráðherra steypt á meðan þjóðin vonar að Framsókn deyji í næstu kosningum. Og foreldrar við skólana þeir fyllast af heift ef börnunum þeirra er úr skólanum of snemma hleypt á meðan úttroðnu pizzakrakkarnir þeirra geta sig varla hreyft frá PoppTV, sem stillt er á því þau hafa fjarstýringuna gleypt og drengirnir eru of latir til að fitla í sínum litlu typpalingum Já, menn fremja sjálfsmorðsárás á þingi og í kauphöllum en hvers er að vænta af mönnum sláandi og hringjandi bjöllum sem hafa hvorki skilning á lýðræði né á markaðságöllum og heyra ekki í feminstastöllum á þéttsetnum þingpöllum og vita ekki hvar þeir eru staddir í heiminum fyrir lygi En íslamskar konur segjast ekki kúgun sæta og dr. Lecter sagði ,, ég er ekki mannæta” og Vilhjálmur sagði ,,við munum ástand miðborgarinnar bæta” en er strax búinn buxur sínar með kæliskáp að væta og kjósendur að græta með sorglegri ákvörðun Saklaus hann setti á sig ótal hlekki Og lífshlaup hans það hljóp í kekki Og með kossum vorsins ég hann blekki Því slíkir kossar þeir blómstra ekki Eftir manns eiginn smekk - það ég þekki Á rósin aðeins einn kjól eða er hún nakin? Myndi hún lykta illa, skitu þakin? Og spyr hún sig sömu spurningar sofin og vakin ,,Hvar og hvenær verður fundin makinn? Eða er það munn-makinn sem ég að trekki?” Og hafmeyjan fegurst í hákarlsins gini Lenti og hver þarf í eyðimörkinni vini Sem hefur vin og fjölmarga syni Myndirðu leggjast hjá Birki, Reyni eða Hlyni? Eftir að hafa átt samskipti við þurran andlausan kaktus eins og mig Hún sefur lítið, því hún sér sýnir En detta af gulir reykingarfingur þínir? Líkt og laufið sem slagæðarhnífinn sinn brýnir Og segir ,, nú eru taldir allir góðu dagar mínir” Og lífi sínu sjálft að lokum sviptir sig Neruda bölvar dauðans landafræði ,,að nýta og njóta”, Cheerios - betra bæði Í bræði rennur á menn málæði Er rætt er um fjórfrelsi – fjórflæði Gefast upp og í næði yðka sína trú Hví bragðast ísinn betur í Róm? Og hvers vegna er tæmandi sundurliðun ekki tóm? Og hví er Meistarinn bitinn af 10.000 flóm? Og því heyri ég óm úr húmi lágu og af klórandi klóm? En dauða(d)óm-ur bíður víst ekki þess er byggir trúarbrú Hví flæða ekki öldurnar að hafsins miðju? Hví hættir ótilneydd hóra ekki sinni iðju? Hví er ég aldrei stoppaður á götu af gyðju? Og hvers vegna byggja þeir ekki hugmyndaverksmiðju? Fyrir allt snauða fólkið sem býr á Austfjörðum Mig dreymdi um dána konu erótískan draum Og reif upp með því löngu gróinn saum Og sumar tilfinningar eru sterkar en þessi var aum En garðálfurinn minn heldur uppi gleði og glaum En gubbar að lokum á húdd mitt, lambaspörðum Ég hitti trúleysingja sem trúði á gen Engan guð eða spámann eða slíkt vesen Er ég hnerraði sagði hann ,,Guð blessi þig og amen” Og sat í lótusarstellingu buddisma - Zen Brosandi með bumbu og í fráhnepptri skyrtu Kaldhæðið er brosið af vorsins vörum Og viðkomandi bíður spurninga fullur af svörum Það er skáldað og skálað og dregið á tálar á reykvískum börum Og vændiskona semur sáttmála á kaupum og kjörum En kapitalískur feministi öskrar ,,sjálfa þig hærra virtu!” Og móðirin lét græða á dóttur sína hala og horn Og ég vil gult M í stað krossins á þjóðfána vorn Eða afmyndaðan mann með slæmt líkþorn Ellegar fyrir landbúnaðarhöft - sauðfé og korn Jafnvel stjörnur í vinstra horn fyrir utanríkisstefnu Hann seldi mér sár sín hann seldi mér teip Ég skrifaði hana hraðar en ég sjálfur hleyp The Rape – The Abuse and The Big Escape Hann seldi mér sögu sína frá Abu Ghraib Og vinnubrögðum ,,hins frjálsa lands” – hinna betur gefnu Vitnað er í Kalachakra heimsslitaritið Að konungur Shambala muni hafa fyrir okkur vitið Það hefst þó fyrr ef notuð er skynsemin og stritið Og yfir fordóma og kreddur er yfir skitið Og skoðaðar þær leiðir sem virkilega eru fyrir hendi Einum er kennt og öðrum er bent Og trúin hún skiptir góðum þjóðum í tvennt Og óargadýrið er djöfulli illa tennt Og barnið sækir í bálið ef það er brennt Og tekur með í vítisloga sá sem það brenndi Það er vor og það er war að venju fyrir miðjarðarhafsbotni Og það má gera ráð fyrir að illa staddur sé sá skotni Nema það sé skot hjartans og viðurkenningu konunnar hlotnist Annars er ákveðinn hætta á að sjúkrhúslaus hann rotni Islamstrúardrengurinn innilokaður í nútímans Ghettói..... Tveir karlmenn nú á bar, við lag þeir vanga Því í stað Keflavíkur- er nú Gay Pride ganga Því kanarnir nenntu ekki hér að hanga Uppteknir að senda í Guantanamo saklausa fanga Hugfangnir af sjálfum sér en sjá ekki eigin heimsku Hvað eru hryðjuverk? Og hvað er uppreisn, andóf? Hvar halda hvítflipa glæpamenn sitt lokahóf? Hvar er maðurinn sem sína gröf sjálfur gróf? Og hvað þá maðurinn sem mygluna af matnum mínum skóf? Hann hefur skilið slatta af henni eftir! Það er alið á fáfræði, skelfingu og ótta En hvaða fólk er þetta sem er sífellt á flótta Undan kúlnahríð og þarf að horfa upp á syni sína sótta... Dauða, og andlega uppurið allra sinna lífsþrótta En áhyggjur þínar eru valkvíðin: KR eða Grótta? Og þér gæti ekki verið meira sama um hversu menn eru heftir Fórnarlaus Abraham eignaðist að lokum sonarson Og afkomendur hans murka nú lífið úr fólki í Líbanon Og fólk mótmælir í London, Laos og Lisabon En vegna neitunarvalds er ekki nokkur friðarvon En munum við ekki að lokum söguna aftur segja? Kain hann var ávallt góður sínum bróður Og helvítið hann Sæmi var andskoti fróður En ýkju- og lygasögur eru á sagnfræði ljóður En staðreyndin er að Bandaríkjamenn eyða meiru í hundafóður En til fátækra sem eru úr hungri að deyja Það má finna asískan tárakeim af nýjum Adidasjökkum Og enn má heyra hvína í snoðkollum í brúnstökkum Og sjá frygðarljómann á viðskiptamönnum í nýjum Boss frökkum Og fliss fjá skökkum dreymdandi krökkum Sem sum munu gera það gott, en önnur enda flóabitin Og senn verða örlög mín dregin á hún og allir skoppa við ,,trip to the moon” Og exta-síuð hún hljóp út á tún Og sofnaði hvít en vaknaði brún menningarvitinn, greyjið öll útskitin. Zizek sálgreinir för Móses upp á fjallið þakkar fyrir heimspeki-,lista- og sifjaspjallið telur hnefamök samkynhneigðra, skilgreina kynlífið fyrir Fallið svo ég mun ekki hlýða þó að komi Paradísarkallið Kapítalismi, órar, óreiða – Lacan vs Alcan Og menn gleðjast yfir endurkomu Meistarans Og hugleiða að Hlemmi enduropnun Keisarans Því fyllibyttan er til vansa - fremur en mannlegur krans Því virðingin er frá manni til manns – en ekki til betlarns En bindishnýttir hugsa fyrst og fremst um sig og makann En víst er heimurinn í senn ógeðfelldur og fagur Og víst blívar í honum einnig snotur borgarbragur Það er Dagur... Sigurðar, Hr. Garcia og Megas magur Og glettinn trúbador sem er ennþá alltof ragur En ratar leiðina að velgengni og aftur heim(sfriður) Og það væru klén skrif að enda í tortímingu og dauða Eða að stela sögunni um rúturnar, bláa og rauða Eða beina athygli ykkar til kauða, plastfrauðaskauða og skilja þar með eftir hugsun auða Svo andskotinn hafi það ég ,,tjúna" ykkur niður!!! Á haustdögum detta regndropar á bárujárnsþakið Hlustið á gosið kitla áldósina ef sumarnætur vakið Á snjókornin horfið, svo að á veturna þið á slakið uns á vorin vindar leika - þá vínylplötur skakið og Megasukkið það klikkar ekki. Það er logn og ég lít til himinsins stjörnuljósa Á Karlsvagninn og veru sem minnir mig á ljósálfinn Bósa Og hún kyssir mig með kóralvörum sínum hún Rósa Og ég vel Hallgrímsbrag fram yfir fagra prósa En passa mig að óverdósa, ekki - á þeirri sem ég þekki! ] [ Við dönsuðum af okkur fæturna í gær… við hlógum úr okkur lungun í gær.. við drukkum úr okkur vitið í gær.. hausinn gæti sprungið í dag.. maginn er ónýtur í dag.. og marblettirnir eru allstaðar í dag.. því ég var á skallanum í gær. ] [ Tökmis Kötsim Simköt Töksim Misköt mín.. ] [ að eldast er að telja æðarhnúta og skiptast á tannlími að eldast er að nöldra og skammast þegar þú ætlar að segja ég elska þig að eldast er að horfa í spegil og segja; hver er þessi manneskja... ég kannast svo við augun á henni ] [ og Jesjúss sagði við lærisneiðarnar; takið við salti jarðarinnar ávexti rótarinnar blessaðar séu lendur þínar upp étnar af jörðu ertu kominn og af jörðu skaltu úr afturenda aftur verða svo breytti hann vatni í vín og fór á tónleika á Sirkus sama kvöldið blessuð var meyjan og dýrlegur var eplasnafs og erfitt var að seðja þorstann fyrir mann sem labbar á vatni en þá aftur um kvöldið hann fylltist af heilögum anda en í minni sveit þá köllum við þetta víst landa ] [ sef eins og sængin stutt en yfir okkur bæði les greinar eirðarlæs um kippi í vöðva sem þarf að stöðva en gefst upp á greinalestri til að lesa lítið skrítið skilagrey og eigin óletruð orð um þunga kippi í vöðva sem veikist á flótta við ótta um að deyja ] [ bókþurftar alvöru skáld ferðast um í strætó eða á reiðhjóli milli forlaga alvöru skáld drekkur biturt eitt útí horni á næsta bar og barlómast yfir að engin skuli skilja það ] [ myrkrið, það svarta, það fallega dökka duga eða drepast, ég kýs að deyja smámál að vaxa yfir í vesen nú slökknar neistinn sem kveikti í big ben london að brenna, borgin í þoku eldur í sinu síðann kúla í konu stríðsástand ríkir og hermenn þar læðast drengur á hjóli skotinn, hefði ekki átt að fæðast bretland er í logum, bandaríkin berjast neisti í auga slokknar meðann stríðið ennþá herjar elskið ykkar fósturjörð gangið í herinn styðjið ykkar landa og berjist við hanns hlið þúsundir dánir en enginn að syrgja, enginn að hlusta önnum kafnir við að styrkja þaggið niður í forseta, takið yfir löndum skiptir engu um fólkið sem hélt saman höndum brjálæðisglampi í augum yfirmanna, hatur , reiði og löngun til að banna! sameinuðu þjóðirnar splundraðar í búta ein fokking þjóð sem hefði þurft að lúta 2014 verður jörðin þá í rústum, verða bandaríkin afmáð af brennandi húsum! einn hér og þar að leita að einhverjum öðrum ekkkert til að borða, enginn til að taka á móti börnum himinn er rauður litaður af blóði, ráðamenn að segja okkur að halda rónni segjast hafa ástandir allt undir control en mér er alveg sama því ég er búnað fá nóg! stöndum saman, spörkum á móti mætum þessum herjum með byssum og spjóti ryðjumst inn á fundi og hertökum forseta útsending í sjónvarpi þar sem við aflífum þessa fávita part 2 hernaðarástand um heim allan, engu hægt að breita voru þetta rangar ákvarðanir, fynnst ykkur erfitt að neita? kennið öllum öðrum um, skýlið ykkur bakvið stjórnarskrá getið ekki tekið eigin gjörðum það er alveg af og frá! stjórnið herjum ykkar eins og peðum á taflborði sitjið bakvið skriborðið með skipulagningu á þjóðarmorði! skráning á þeim látnu, komið í nokkrar milljónir segið mér allt af létta eruð þið orðnir óðir? sendið sprengjur, skjótið úr byssum, skríðið oní skotgrafir grípið vopnin, drepið hina, hörfið og síðann hlaðið! eiffel turninn mikli, í parís rómantísku brunnin blóm, brostnar vonir eftir hefndir hinna þýsku stöndum saman, spörkum á móti mætum þessum herjum með byssum og spjóti ryðjumst inn á fundi og hertökum forseta útsending í sjónvarpi þar sem við aflífum þessa fávita ] [ Þú varst dæmd á unga aldri, lífstíðar þunglyndisdómi. Gast ekkert um það sagt, það var of mikið á þig lagt, þetta gerðist svo hratt. Hatrið spratt. Hann var stuttur þinn æskublómi. En daufur glampi í svartamyrkri, hélt í þér lífi og ljósi. Sem örþunn fjöður í hendi styrkri, varðstu sem lax í ósi. Ástvinir sem ljúga og svíkja, sem ræna ró og rústa trausti, frá þér þau vilja ekki víkja. Þau banka uppá á hverju hausti. Þjáningum þínum þú kemst ekki frá, sama hvaða afl, þú í höggin leggur. Sjúkdómurinn þig heldur áfram að hrjá En á milli ykkar er þó veggur. Með tíma og tíð Þú vegginn styrkir. Ég bíð hér í dimmu, kulda og hríð, á meðan þú veikina kyrkir. ] [ Einar Rót var úti að týna blóm hann tók þau öll upp með rótum, er hann tók þau upp með klóm klóraði hann sér í skeggrótum þetta er sagan um mig. - Einar Roth ] [ Sérðu þær ekki? stúlkurnar sem læðast um líkt og draugar á hnúanum blóðugt tannafar á andliti djúpir baugar Sérðu þær ekki? leita lífs þorsta hins deyjandi, sönnum en feta sig áfram á brúnum hnífs týndar guðum og mönnum Sérðu þær ekki? fálmandi blindar svo um munar fegurð í spegilmynd framandi fórnarlömb átröskunar ] [ Ég horfði fyrst á eftirþér á leið úti búð ég vissi að þu kæmir aftur Horði á eftir þér í fylgd lögreglu. ég vissi ekki hvað hafði gerst Horfði á eftir þér í peysu merktri hrauninu á leið í klefann þinn aftur horfði á eftir þér keyra af stað til borgarinnar þú vildir finna vinnu horfði á eftir þér fullum á leið út við vorum hætt saman Horfði á eftir þér labba inn í bústað þú vast að fara að skemmta þér horfði á eftir þér keyra út að verkstæði þú hafðir mælt þér mót við konu horfði á eftir þér faraupp stigaganginn þú vast búinn að finna þér aðra Hver er pælingin..? hefði ég átt að ganga meðþér í stað þess að horfa? eða vantaði mig að þú horfðirá eftir mér? ] [ Umferðarteppa- Nær einn bíll á einstakling samt tek ég strætó ] [ Gulir blýantar, misvel yddaðir, standa fallega í blómapotti með strokleðrið til himins og spíra ] [ nú hendur mínar ilma, ástfangnar af þér og aulabros mitt breiða hver blindur maður sér. heilinn minn í hringi á ofsahraða snýst hikandi ég kvaddi -þótt vildi ég það síst. í rúmið brátt ég legg mig en brosið dofnar ei breyskur hugur svífur að hvar falleg sofnar mey. ] [ Gamall maður situr í stofunni sinni, hann hefur átt þessa stofu í tugi ára, frúin situr tveimur bossum frá honum. Það er samt meira bil á milli þeirra en svo; hún situr í miðjum sófanum sá gamli er í húsbóndastólnum. Hann lítur út um gluggann, það er blíðskaparveður, og horfir á sólina. Gamli maðurinn hefur alltaf viljað hugsa til hennar, ekki frúarinnar heldur sólarinnar, sem Sunnu sína. En málið er: Hann er ekki þannig maður. Það fer honum ekki að segja eða hugsa: "Sunna mín" eða það heldur hann, í það minnsta. Síminn hringir, Sunna er hátt uppi langt í það að hún setjist. "Já, hæ," svarar gamli og starir á Sunnu sína. "Nei, bæ," kemur strax á eftir. Hann biður frúnna um að útbúa kaffikræsingar fyrir sig. "Hver var þetta?" spyr frúin er hún kjagar eins og mörgæs fram í eldhús. "Símasölumaður," lýgur gamli maðurinn sem hlakkar til matarins. Hann vildi ekki fá heimsókn, það myndi trufla stund hans með Sunnu sinni. Sá gamli er að mana sig upp í að kalla hana það: - Sunna mín í hljóði. ] [ When I'm close to you, I can hear your thoughts. When I'm far away, I can feel your heartbeat in mine. You're everything I am, you're everything I love. I hope we'll be here forever. Singing our song, reading my poems to your guitar. ] [ Orðskrúðugar samræður einfölduðust með hverju orði, það tók þó sinn tíma  fannst þeim en að endingu, brotnuðu þær niður í samræði eða bara einfalt: A. ] [ Hún segir það best, það sem ég vildi segja. Kæfir, kremur hjarta þitt, þögnin ] [ Vetur þrái ekkert heitar en sólina og hitann sjá smábörn í stuttum buxum leika sér í sandinum og að geta sitið undir tré í pilsi lesandi Borges, borðandi ís. Vorið ljósið vil bara sitja undir sólinni og sjúga í mig geisla hennar eins og gleim-mér-ei á sælustað vil bara njóta og vera og lifa. Sumarið á grænni grein sendist í hæstu hæðir sef varla blund sé Baldur í hverjum manni og heyri ljóðin sungin í vindinum. Haustið þrái hreifanleika myrkursins og að elska í takt við hráleika þess vil heyra í sjálfri mér hlusta á andardráttinn í þögninni heyra í rigningunni á rúðunni ég hreyfist í takt og dansa við ljósið... sæluna og myrkrið. ] [ Núna langar mig að fara út, leggjast í snjóinn, horfa á stjörnurnar og hugsa um alla þá sem ég elska. ] [ Ég var fjörulalli. Fallegir steinar, blöðruþang og marflær í krukku. Bátur í bandi í ólgusjó, skipstjórinn stoltur á hinum endanum. Fleyta kellingar, 1 2 3 4 5 6 78 Kasta langt, kasta lengra, gera koss. Marflærnar lifðu ekki lengi í krukkunni. En minningarnar lifa. ] [ Búningsklefinn kindakofi. Þú hengir fötin þín á ryðgaða nagla. Ef þú stígur út fyrir fjölina þá klessist kindaskíturinn upp á milli tánna. En það er allt í góðu lagi við erum að fara í sund. Það er gaman. Þú sérð ekki til botns í þessum polli. Þú sekkur upp að kálfum í drullu en hún er náttúruleg og gerir okkur örugglega gott. Það er synt, buslað og kafað. Hoppað, skvett og hlegið. Stundum strjúkast álar við fæturna og þú rekst á eitt og eitt hornsíli. Hér synda allir saman. Eftir sturtu af mýrarvatni hlaupum við um túnin og mildur andvarinn þurrkar okkur. Við erum börn náttúrunnar. ] [ finna í sögu sama flugdraum er vitjar þín aftur og aftur - en æ sjaldnar hljóðlausa bylgju hamingjuskip sem siglir á háflóði skáhallt til himins uns skjólinu sleppir við ysta mæninn lenda að morgni í lognværri gleymsku í allt annarri götu - en undir sama þaki og þeir sem enn minnast leiftrandi gleði þinnar lifa um stund svo létt ] [ Í Bónus fór ég eitt sinn, keypti nammi til að fylla í kinn. Ég keypti poka með hlaupi og lakrís, síðan Draum, Rís, snakk og fimm Hrís. en nammið í Bónus var hart. ] [ Ég grýtti mann, sló konu og giftist barni. When in Iran... ] [ Eitt andartak og ævin byrjar Örstutt spor þá lifnar sál Og sæl hver móðir sönginn kyrjar “Sigra muntu heimsins tál” Og við hvert skref er sigur unninn Sælan magnast inn í þér Sem faðir móðir, bros um munninn Breiðist út svo heimur sér Og eftir nokkur ár þú lítur Yfir ævi farna braut Ljómar þá upp og lífsins nýtur Lofar allt sem áður naut ] [ þú ert hjákátleg og aumkunarverð ég vil ekki þekkja þig vil ekki sjá þig né heyra samt fylgirðu mér og fylgist með ekki svo fær að leynast ég veit vel af þér einsog skugga þoli þig ekki lengur farðu heim skil ekki hvað þú hugsar hér er ekkert lengur handa þér vesæla brotna sál ] [ ég hlæ og ég flissa og hlæ ennþá meira þú tapar ég vinn og þú ert tapsár svo gröfum við öxina ] [ finnst ég ennþá geta vafið þig örmum mínum margfalt kitlað kinn og höku til að kalla fram brosið sem ég hef ekki séð svo lengi fullorðinn drengur fyrir aldur fram og brosið löngu glatað ] [ ég bylti mér og bylti þegar rokið skók mig og ýlfrið smaug inn í drauminn um þig hjá mér en nú sef ég vært þótt þakið fjúki við hliðina á þér draumlausar nætur ég sef með þér ] [ Ég sé hvítt lak, dagar þínir taldir. dauft bros, líflausar hendur, smurður líkami, andlaus drengur. Ég græt þurrum tárum í von um frið, frá góðum hugsunum um ást þína og yl. Ef kemur þú aftur, ég lofa þér því. Að aldrei skuli ég yfirgefa þig á ný. ] [ Djúpsær,komdu nær. Segðu mér hvað þú geymir? Sjóskrímsli. Upprunan.Eða alla strolluna. Djúpgeimur,haltu þér fær. Ég vill ekki vita hvað þú geymir. UFO.Guð.Eða endalokin. ] [ Mér þykkir vænst um ljótasta blómið Því það hefur þurft að sinna því mest. Ekkert mundi fylla þar út í tómið Þegar sólin er mest eða sest. ] [ Fljótt,segir sólin. Lifðu skjót. Á morgun , gæti heimurinn verið búinn. ] [ Skráði mig ekki í það, held að maður sé skráður sjálfkrafa við fæðingu, veit ekki í hvaða sæti ég er, sennilega aftarlega. Kannski ég taki þetta á endasprettinum? ] [ Nú hefur himinninn í hæðum riðað sín net úr skínandi sólgulum skýþráðum og sett á pípur og vindurinn farinn að fella þau faglega á teina sína til að leggja fyrir sól og mána í lænur himins á vesturfallinu. ] [ Þegar ég mætti honum djöflinum sjálfum þegar ég var að versla. Þegar ég mætti honum djöflinum sjálfum þegar ég var að vinna. Þegar ég mætti honum djöflinum sjálfum þegar ég hugsaði. Þá horfði ég í augun á honum en þar var ekkert nema tómið sem yfirtók mann og algert vonleysi sem étur mann að innan. Þegar ég horfði í augun á honum djöflinum sjálfum fann ég eymd allra. Þegar ég horfði í augun á honum djöflinum sjálfum fann ég hungur heimsins. Þegar ég horfði í augun á honum djöflinum sjálfum fann ég vanlíðan allra. Þegar ég fann fyrir hörmungum heimsins vissi ég að djöfullinn er alls staðar þar sem hann kemst að. Ég sá hann skína í augum fólks augnaráð frá djöflinum sjálfum. ] [ Sakna þín að eilífu ég lofa að ég kem og næ í þig eins fljótt og ég get Þetta er ekki venjulegt loforð ég næ í þig þótt að það verði mitt síðasta mér er sama um hlutina sem skilja okkur að þótt að ég engist um í marga daga borgar það sig af því að ég fæ að hitta þig. elsku stelpan mín, ég mun bjarga þér frá Flateyri. ] [ Akureyri er yndislegur bær, yngismeyjar ganga þar um beina. Sá missir ei er fystur fær, farðu og náðu í eina. ] [ Sorg í mínu hjarta því ég elskaði þig, ég er ekki að kvarta en þú elskar ey mig Niður kinnar mínar falla tár falla þau líka niður þínar?, finnst þér skrítið að ég er sár? Komin tími til að segja Bless ég sakna mun þín, vona að þú verðir hress, vill að þú saknir mín ] [ Bjarni minn er búinn að mála, bæinn af mikilli list. En við Gunnar gerðum í að skála og gleðjast síðast og fyrst. ] [ Minningarnar í huga mér vakna er ég sé þig, man ég hversu sárt það er að sakna Sé þig fara sé þig vinka er þú hleypur burt finn ég hjarta mitt minnka Hvað á nú að gera ? veit það ey bið þig um að vera en þú svaraðir nei ] [ Hjarta mitt grætur rauðum tárum, líkaminn liggur dauður allur út í sárum ] [ Hann tekur það og lemur stappar á og kremur skilur síðan eftir allt í brotum vegna hans ást mín til manna er á þrotum ] [ Snemma vetur setur að, snjóar teppa vegi. Halda mun ég heim af stað er hlýnar til af degi. ] [ Ljósastaurinn stendur hnarreistur og vakir, með ljósi sínu, yfir fólkinu. Starir á það; fylgist með hverju fótmál, jafnvel handapati. Já, hann lýsir því gráan veginn, það er honum þakklátt. Eða flestir hverjir. Hnarreisti ljósastaurinn sér glitta í aðra ljósastaura og veit að þeir standa í röðum, hnarreistir, líkt og hann, og glaðvakandi allar nætur. En þeir líta aldrei til hans, hvað þá heilsa eða spjalla. Nei, þeir, hinir hnarreistu ljósastaurarnir þessir sem taka við honum; lýsa upp gönguferðir fólksins, taka starfi sínu alltof alvarlega. ] [ Ölið skaltu drekka lítið skaðast hugans þróun Bölið fylgir ekkert skrítið er það tímans sóun! ] [ Sónarinn er svaka sniðugt tól og upplýsti nú að ég held, að Óðfluga sé geld. ] [ Hugurinn vaknar haustið fagnandi ómar birtan þverrandi gulleit stráin allt í kring sem minnast sumarblíðu. ] [ Fótatak. Ungur maður ferðast um í miðbænum. ‘6 92 92 00!’ hrópar sambærileg mannskepna. Ungi maðurinn lítur við, eylítið undrandi, og svo glaðnar yfir honum. ‘Nei, komdu sæll,’ svarar hann og upphefjast miklar samræður. Sambærilega skepnan, er sambærileg unga manninum að flestu leyti, nema hún gengur undir nafninu Jens. Það er frekar sjaldgæft nafn, ekki margir bera það, en engu að síður er það venjulegt. ‘Það er svo undarlegt,’ hugsar sambærilega skepnan Jens, ‘með hann 6 92 92 00 – að ganga undir svona nafni. Tölustöfum. Farsímanúmerinu sínu.’ ‘Já, eða ferðast undir svona nafni,’ hefði 6 92 92 00 bætt við ef hann læsi hugsanir. En það getur hann ekki, líkt og svo margir aðrir. Það rekur enginn upp stór augu þegar Jens kynnir sig. Það flyssar enginn eða hneykslast. Allavega ekki við það að heyra nafnið. Öðru máli gegnir um unga manninn eða farsímanúmerið öllu heldur: 6 92 92 00. Hann ferðast um miðbæinn, sveitina eða útlönd og er alltaf kallaður farsímanúmerinu sínu. Margir hneyklast. Aðrir undrast. Sumir hlægja. Það getur jafnframt valdið misskilningi erlendis. Þá stundum veit hann sjálfur ekkert hvað hann heitir. Samt er hann hvorki nývaknaður, fullur eða stjarnfræðilega dópaður. Bara skilur ekki tungumál innfæddra, hvernig það segir nafnið hans, 6 92 92 00. \'Six neuf deux deux zéro zéros gentils,\' kallar Frakkinn. \'Sei nove due due zero zeri piacevoli,\' undrast Ítalinn. Unga manninum þykir þetta hinsvegar stórsniðugt. Hann varð svo vonsvikinn yfir því að enginn hringdi í sig, að hann breytti nafninu sínu í númerið á farsímanum sem hann hefur nálægt sér öllum stundum. Með þessu móti vita allir sem til hans þekkja farsímanúmerið, svona ef þeim leiddist, höfðu ekkert að gera og gætu hugsað sér að spjalla. Ungi maðurinn vonar innilega að þurfa ekki að breyta um farsímanúmer. Það myndi hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir hann. Nema í útlöndum. ] [ ég opnaði einu sinni augun og það var allt öðru vísi en áður. ég hlustaði einu sinni og heyrði meira en fyrr. það var þegar ég stoppaði til að meta hvern andardrátt og hvert augnablik til fulls. ] [ Saga Margrét ein er enn af Ystu-Víkurætt. Koma þaðan konur og menn er kynslóðir geta bætt. ] [ Þegar ég geng ein hugsa ég til hans og alls þess sem eyminginn hefur sagt. Þó ég viti (og velti oft fyrir mér) að hann er eldri og ófáanlegur, þá þyrstir mig í hann. Ég vil éta hann með hníf og gaffli, ég vil henda honum í vegg og hirða hræið, ég vil kyssa af honum varirnar. ] [ Ryksuga og rúsínur, rokktónlist ungur maður í leðri. Yngri maður í ull, seinn á ferð angar af rettu af kulda Hvað segir þú kallinn, elskan mín þú mátt alltaf elta mig Mig grunar þig vita af fjöður bráhárum óráði Fjöðurin finnur mig, taugarnar svo byrja ég að flissa Já elsku kallinn minn, þú ýtir mér út á svell í svartnætti með tilheyrandi falli og fiðringi í maga ] [ minningar Aftur grípur hugur frammí fyrir vilja Hver hugsun, hvert lag minningum tengjast Ég reyni og reyni, en þú verður að skilja að ást mín á þér vill sífellt lengjast Ég stóð fyrir vali og um blindveginn gekk ég sál mina skipti fyrir þig Þú fegursti hlutur sem jörðin fékk Ég sál mína skipti, og þú átt mig Þú fagra á, kveikir í hug mínum byl Fegursta ásjón með fossa klið leyndardómar við steina og djúpan hyl Í tærasta vatni sem maður fæst við Ég rölti um ánna fögru, dimbláa og bjarta Heimskur og klaufskur af stráka sið Ég fell oní flúðir semog náttmyrkrið svarta Sársauka fann sem ég ræð ei við Veikbigður líkaminn lamast Hugurinn tekur þá völdin, eitraður af ánni fögru og hrylltur af fossana klið fjötraður við brúna steininn í hylnum djúpa kæfandi öskrið, til Guðs ég bið en lagið klárast og minningar hjúpa ég aftur fékk mátt, en hversu lengi? Úr ánni ég fer, en hugurinn fjötraður fastur með ást mína á þér í botninum dvelur ég spyr þig, hvernig get ég elskað aftur ? einn með kaffi og minningar enn mig kvelur Ég kolsvart kaffið drekk og minningarnar dofna Einn daginn losnar fjöturinn úr hylnum djúpa Þangað til reyni ég að sofna, En í stað þess tárinn um vökul augun drjúpa ] [ Upp kemur sólinn bjarta á hverjum morgni Í austri og færir byrtu yfir dalina köldu. Dalurinn blautur, læðugur með svorgni Brýst út með ilm, og blómunum földu Dökkklæddur himininn í vestri Æðandi innundir fjöllinn björtu Innst inni hyrist röddun á dalina fögru Öskur og óp, ræðst á alúta fagra dalinn Ísköld, slepjuleg rigning slær blómin mögru kaldar þrekraunir dalsins mynda íssalinn raddbeiting skýjana er skörp vill vel en skerandi hörundið rís og nístandi stingur vekur hjarta lækurinn bríst út í gegnum ísskelina, það birtir til og skýin sínu fegursta skarta. hlínandi, kyrlátt veður mildar dalina losunin við íssalinn og að fá dalina fögru eftir slíkt öskur er meira virði en að búa í höllum horfa á eftir fagurrauðum skýjum í slíkri veðráttu veldur söknuði,og í örvæntingu við köllum koddu aftur, koddu aftur... ] [ sex hæða hamborgari á febrúartilboði fitaðu þig elskan ef rassinn verður of stór þá sjúgum við bara af honum ] [ Þú lifir í einstefnugötu rétt hjá hringtorgi ekkert stopp. engin hraðahindrun. bara bensíngjöf áfram á hundruðum. keyrðu bara yfir fólk það er alltaf verið að endurnýja ] [ þú gafst mér barnaskeið og hlóst Ef þú værir grennri þá hefði ég séð í gengum þig eytt þriðjudagsnóttinni í eitthvað gáfulegra en að hlusta á gaul í þér og þinni geðveiki ] [ im locked behind bars colder than steel yet it is me that holds the key but somehow it seems i cant let myself out 'couse in my heart there remains a doubt help me out i seem to have lost the way to love pleace angels surround me come from above this silence is killing me, its just to loud i crawl under a blanked and in sleep i should help me out all i feel is empty im washed inside in the darkness of my sell must i forever hide? allways im lonly, even in the biggest crowd tell me what is this happyness all about? help me out get me out ] [ sem fannhvítar dúfur við fljúgum hátt lítum ei til baka það hverfur allt brátt svo tillum við okkur á örmjóa grein brátt verðum við komin í nýjan heim ] [ vindurinn mér sagði að betri tímar biðu ég lagðist í grasið og tímarnir liðu uns vindurinn þagnaði og stráin stóðu kyrr ég leit upp til himins en allt var sem fyrr ] [ come to me sweetheart lay by my side wrap yourself around me so in you arms i can hide kiss me so softly and hold me real tight show me your passion it will keep me safe through the night ] [ the majority of your complex lying within your soul your beauty desgised, vision yet found no tones gripping the sound of your way closing in on perfection rollercoster of coulers swirling in those eyes Im sinking into your exsitence beond sences we feel our way hoping emotions will lead us to heaven Ignorance left for those drowned and barried dizzy, swimming in the sky amoungst us pearls of thoughts and wishes Is this life or is this life moving on? ] [ Its me, the buzz you hear on warm summernights the ladybug sitting on your porch Its me, waching you when you turn out the lights the shaddow cast from no tourch Its me, whistling songs in your ear when your lockt up in fright the wind pulling you into various games Its me, putting words to your mouth starting a fight the anger running through your vains ] [ Í ,,Espó” er yndislegur staður, oft hef þar fengið vín og mat. Ég ævinlega fer ofmettaður, et á mig nærri því gat. ] [ ljóð dagsins var hundur sem flögraði um loftin blá í leit að frelsi fálkans en fann einungis metanmengun og er tunglið féll í rökkur sængur minnar fann ég að ljóðhundurinn reiddi út vængi sína og flögraði að eyra þínu hvíslaði að þér fögur orð úr fylgsni mínu ] [ Lokuð augu einungis sjá hverfandi minningu þef af engli hverfandi. Fallin draumur vakandi stundum dreymir mig þig ertu enn hér. Haust engillinn minn sér einungis mig því minn er draumurinn draumurinn minn. ] [ So afraid to turn around. One teardrop away from loosing my sight, from loosing my mind from you. A momentary thought is all. Everything can collapse and fall, missing you my star. I hope my wishes seek you in dreams at night come true. ] [ Gleym mér ei, gleym mér ei, hvíslar innri röddin innan um villigrösin Í brattri fjallshlíðinni. ] [ Þú ert einstök það ég sé, þú ert hafmey stundum. Gjörninga lætur ljúft í té, ljómar á mannafundum. ] [ Flokkinn selur, syndir nemur, sóðaskap telur gefa vel. Fraukan gelur, flærðir semur og flýja velur til Ísrael. ] [ Hrímkaldur hugur heilsar í vetrarbyrjun á hvítum fáki. ] [ Litlir englar svífa yfir þér ég sé þá ekki augun eru blinduð tárum Reiðin umlykur mig ég öskra á þig Guð alla hina brotna Vantrúin truflar mig lætur mér líða vel eina stundina þangað til sannleikurinn hellist yfir mig aftur Ógrynni spurninga brenna á vörum mér langar í svör fæ þau ekki óráðin gáta endalaust Ég mun muna þig svo lengi ég lifi brosandi hlæjandi skiljandi alltaf Litlir englar svífa yfir þér ég sé þá þerra tárin og held áfram í framtíðina ] [ Fýr ég vel þekki nafnið er Pétur ljótur er hann ekki ávallt mikið étur Fýr ég vel þekki nafnið er Oddur fagur er hann ekki Rúna líkar hans broddur Fýr ég vel þekki nafnið er Rúnar mjókkar hann ekki því pizzurnar eru búnar Fýr ég vel þekki nafnið er Ágúst viðbjóður er hann ekki því dansar hann við strákúst Fýr ég vel þekki nafnið er Daníel klipptur er hann ekki því hann er loðinn ] [ blekking er allt þú ert það sem þú heldur þú ert ekki þú reynir að klifra þær hæðir sem enginn hefur enn klifið enginn er allt allt er ekkert sama hvernig fólk reynir týnist það í einmanaleikanum. enginn veit hvernig á að sýnast vera. hvernig á að gera týnt í heimi hvernig sem þau reyna að finna sig aftur eina lausnin er að deyja ] [ Á hestabloginu hef ég mest, hestamyndir og textasögur. Netsíðan mín fær þó flest, fjasið, rím og bögur. ] [ Að myrða af græðgi það gefur viðbjóð, en græðgi í nútímanum virðist í móð. Í æðum slíkra ómenna, er þrælablóð, en allir bófar vandlega hylja glæpaslóð. Þessi vesælu greyin þau eiga mikið bágt. Að þau virði eiða sína ei er nokkur glæta, en æruflökin siðleysingja liggja svo lágt, að líta á, að murka fólkið, sé til að bæta. Þeir slátrað hafa þjóðinni í þúsundavís, í þjóðarmorðafaraldri runnið mikið blóð og konurnar telja sig komast í Paradís, ef komast frá mökum á geldingarslóð. Ætli sé hægt að svívirða makana meira? Máttu læknar þess vegna fá meiri laun? Úr andlegu kaununum alltaf ber dreyra, aldrei þau gróa og frá þeim leggur daun. Að orðlengja um ástandið eigi lengur vil. Umræðan mörgum mun varla þykja góð. Hefur frjálshyggjan leitt oss Fjandans til? Finnst hvergi ábyrgð með kristinni þjóð? ] [ brésnjaska bergúska míhrikú natalísk skrúsni brjésnki pólska ] [ heyrnin kveikti í hrúgunni fór að iða riða ríða heyrnin blekkti meðvitundina og myrkustu blæti vöknuðu og dofnuðu til skiptis einangrandi suðið veldur mér ógleði trúglaðir yfirmennirnir stimpla verklýsingar á ennið á mér spúa svörtum andvaranum í mínar eigin æðar og smita mig af kæruleysi iðu riðu ] [ Sumir menn eru svalir aðrir ekki eins feitu eru ávalir ósvölu eru ekki til neins Herbert Guðmundsson er goð svo gleymdu honum ei hann er Íslands stoð hann Can't Walk Away ÁP er svalur maður hann er maður almúgans ávallt er hann glaður pabbi hans er ekki Hans ] [ Í hjarta mínu ást ég ber. Ég trúa mun þér. Ást,umhyggja,traust og trú. Ást mína gef ég þér. ] [ Who ever i'm with, When ever i'm with, i'll always lesave for you. Deep in my heart you find love and hope. I'll always be you'res and never go. My heart burns everytime i think of you. My heartache hurts like hell, cause together were not. I love you to much too tell you cause i'm afraid, afraid you'll reject. Because you have another girl, and i'm alone and always will be. ] [ Ást mína gef ég þjer, traust og umhyggju. Ást í hjarta mínu og allt sem gott er, gef ég þér Ég sem elska þig. Sorg í hjarta mínu og öll tárin skulda þér. ] [ ég taldi tíu kindur og sofnaði iPodinn heillar mig ekki lengur eins og allt annað sem ég á ljósin úti tæla mig en standast ekki væntingar neyddu mig ekki til samninga ég veit ekki hvað ég vil skildu mig bara eftir í tóminu er haldin valkvíða gagnvart lífinu og vil helst bara sofa í sólinni ] [ I loved him in silence, loved him for years, stood right beside him, drying his tears. His heart was broken by his horrible past, his soul was weakened, he fell pretty fast. Caught in a circle, of anger and rage, unable to love, locked in a cage. But I didn't leave him, I had to believe, that perhaps I could save him, I should have retrieved. When he finally told me that he loved me back, it was to late my heart had gone black. So he left without warning one cold winter night, he told me that we couldn't, I know he was right. But I still miss him every single day, I still love him in every single way. I'll think of you my baby, I'll think of you and smile, cause for a brief moment.. you made my life worth while. ] [ Þú sast á tánum mínum og glugginn gaf okkur hesta Allt var svo hljótt hér inni eins og í þögulli morðmynd Luke Skywalker og Lea prinsessa með Spring-dýnuna með sér Bláfjöllin höfðu hvítnað og mér fannst í eitt prómill úr sekúndu að það væri vor ] [ Sólin mín Hve fallegur er sérhver sólskinsdagur Ró yfir öllu eftir stormasama nótt Í loftinu liggur ferskleiki og andværð Hve fallegur er sérhver sólskinsdagur Það er engin önnur sól Fallegri en mín sól Speglast í glugganum sólargeislar Syngjandi börnin af ánægju skríkja Meðan feðurnir brosa og bollræða málin Speglast i glugganum sólargeislar Það er engin önnur sól Fallegri en mín sól Svo færist daginn yfir rökkur og ró Og í kinnarnar litaðar af roða Við saman sitjum, ánægð og sæl Svo færist daginn yfir rökkur og ró Það er enginn önnur sól Fallegri en mín sól ] [ elsku besta tara mín þú sem varst svo falleg ég mun hvorki gleyma þér né brosinu þínu, þegar ég frétti það að þú varst dáin þá leið mér rosa undalega ég gat samt ekki grátið mér bara leið rosalega illa en svo kom að þessari fallegu jarðaför og þá sá ég ekki útúr augunum fyrir tárum mér líður ennþá svaka illa yfir þessu þú sem varst bara 30 ára, og áttir ekki skilið að fara strax, en svona er þetta bara ég mun aldrei gleyma þér. hvíld í friði elsku besta inger tara löve ] [ Lítið fræ fann sér stað, frjósaman lund í volgri skál. Í heitu hýði dafnar það, hólpið inn í góðri sál. ] [ Bláleitt hún bar það í heiminn, beygð af sársauka og mildi. Það var þá sem ég fann keiminn, af því sem ég einatt vildi. ] [ einsog tóm úr ókunnugri veröld en ekki okkar öðruvísi tóm öðruvísi ný heimkynni annar undrunarsvipur en sá sem ég á að venjast eins og bros úr ókunnugri manneskju en ekki þér öðruvísi augu öðruvísi blik öðruvísi ný rödd ný bein annar líkami en sá sem ég á að venjast ég greini hjartsláttinn í sjálfri mér betur ég rétti úr vöðvunum og skoða á mér fingurna anda að mér hreinu og tæru lofti hugsa að þetta sé nýi heimurinn sem ég er fædd inn í þú brosir og kinkar til mín kolli ] [ að sögn er þögn að þegja en ekki segja ekki muntu þekkja þöglan mann og söglan ] [ Ég er kominn heim í hlað harla er ég glaður og aftur farinn að yrkja tað, er ég mislukkaður? ] [ My guardian angel come and take me away show me what to live for and guide me to the light so that the light can lead me out of this darkness Teach me how to wake up each morning and be thankful be thankful for my family and friends and most importantly my life teach me to be satisfied with what I got and teach me to be happy Show me what I got and what I can do show me my talents and how to use them for good Don’t let me waste my life doing absolutely nothing Dry my tears and show me the light give me the strength to move on and to deal with this life Rannveig Iðunn 30. sept 2007 ] [ Takk fyrir hlátur þinn sem lengir lífið, sönginn sem ómar svo fallega og allt dramað sem fylgir þér. Takk fyrir alla þína hlýju og umhyggjusemi og fyrir að vera til staðar. Takk fyrir að leyfa mér að vera með að tala fallega um mig og til mín, að vera svona sæt og góð og öll ljóðin þín sem gefa manni betri skilning á þér. Takk fyrir að skemmta mér alltaf svona vel, að vera skilningsrík, að leyfa mér að vera “mamma” þín, að syngja með mér, að vera alltaf til í að faðma mig, að þykja vænt um mig. Takk fyrir að vera vinkona mín og vera til í þessum heimi. Takk fyrir að segja að þetta ljóð sé fallegt. Bara af því að það er frá mér. Takk fyrir að vera Dísa Cas/Ígaboð! Rannveig Iðunn 17. sept. 2006 ] [ Anxiety, anxiety oh how I love my anxiety how it turns my stomach upside down and makes me crawl under my sheets in my bed how it makes me over-think everything and stops me from doing a lot of stuff Happiness, happiness now what is that? Why should I want to be happy? Nothing excited about that I don’t want any butterflies in my stomach and be able to do anything I set my mind to Why should I want to live carefree when misery is so interesting? Rannveig Iðunn 16.júlí 2007 ] [ Laufin falla af trjánum og fjúka burt rétt eins og vinirnir Og ég er skilin eftir með tómt hjarta hjarta sem er svo þreytt á að vera þungt og svart En laufin koma aftur á tréin og vinirnir birtast af og til en efinn er alltaf til staðar Afhverju á ég vini? Rannveig Iðunn 27. júní 2007 ] [ Með haustlitablæ speglast í flóanum sýn drúpandi minning sem varpast í hrímað hjarta og bræðir frostkaldan hug. ] [ Hafði um mig hægt í dag, hestasteik þó setti í pott. Ég þarf að koma lífi í lag, lengi hef ég verið brott. ] [ Glaðir komu í Grænanes gáskafullir sveinar, þessi líka þokkafés Þórður, Björn og Einar. ] [ Í gulum stráum og dreyrrauðum laufblöðum syngur haustþeyrinn kveðju í síðasta sinn. Hvar skildu leiðir um vor. ] [ Ljósið er farið, það slokknaði. Hvert á ég að fara? Ég rata ekki. Viltu finna mig í myrkrinu? Ég er hrædd. Ég sit í myrkrinu og bíð ég bíð eftir því að þú finnir mig ég heyri hljóð og hlusta vel. Nei, það ert ekki þú. ég sit og bíð enn með tárin í augunum. Ég er hætt að gráta, þú fannst mig aldrei hef ég verið hamingjusamari. Þú heldur fast utan um mig, vilt ekki sleppa. Vilt ekki eiga á hættu að týna mér aftur. Ég er glöð. ] [ Ýmsir saman strengi stilla, þótt standi á hálu svelli. En sambönd þeirra enda illa, annars halda þau velli. ] [ Nafnið er Bassi Hall glaður ég reyni að vera er frændi Sigga Hall mikið ég hef að bera Aukakílóin bætast á öruggt og skjótt, ætti ég að éta strá? Bumbunni er eigi rótt Sjálfsálitið eigi er hátt öll hin eru svo flott ég hef það ansi bágt því að éta er of gott Nú ég góðu lífi lifi konan ekki lengur æf það er eins og ég svífi þökk sé Hörbalæf ] [ Ógeðsleg lykt af úlpu. Reykingarúlpu. Blautri. French manicure farin að flagna. Kroppa. Lítill klassi yfir því. Fiðrildahauskúputaska. Blá og brún. Tískulitirnir í ár. Með Texas fyrir framan mig. Dæmin bíða. Ég hugsa um svefn. Kaffið er á leiðinni. Ekkert Canderel. Í dag er lífið án sætuefna. ] [ Að hlæja er gott Að gráta er guðdómlegt Prófaðu það næst þegar þú veist ekki hvort þú átt að hlæja eða gráta og finndu muninn ] [ Taktföst og tilbúin til að takast á við daginn, sem bíður mín svo bjartur og velkomnar í bæinn. Nú himininn heiðskýr er og Esjan mín, há og skýr. Sofna nú en vakna snemmt, sætur verður morgun nýr. ] [ Er Doddi hafði dömur kysst og dásamað til orða, var á þýsku sungið af sannri list, síðan farið að borða. ] [ Tindri vatn í Tjarnargíg tár á hvarmi skín. Villist ég á vonum flýg um vorið ástin mín. Hrakinn fer um hálku svell hjarn og jökulbreið. Orðin þín við efstu fell endust alla leið. Ef ég einn um óbyggð fer í skúta kveiki eld. Vildi ég þú værir hér vakir með um kveld. Stjörnur eiga sagna mátt skilja hjartans sál. Líti ég til hæða hátt heyrast stjörnu mál. ] [ Lýstu mér dögun Drottin minn svo dýrð þín og fegurð komi í ljós og orðin mín og athöfnin um þig einan efli hrós. ] [ Hver andardráttur minn er ógn og vá. Hvert ilhljóð mótað óvissu og hiki. Fortíðin og framtíð föl og grá. Á flótta undan duldu skammastriki. ] [ Hvar liggja þín spor, á fjallsins egghvössu brún, tvíátta hugur, haustsins margræðu litir, vorsins fölnuðu blóm. ] [ KK kúkar á kvk klósetti blúps úps ] [ Núna er ég Baksviðs býð eftir því að fara framm á Sviðið, ég er svo kallað Aðalhlutverkið í þessu leikriti Líf. Þetta er ekkert Venjulegt Leikrit því að það er einginn í Salnum að horfa á, Þetta er eins svo Æfing en það er ekki æfing heldur er þetta sýninginn. Allt í Einu þegar ég Held að Leikritið mitt sé farið að verða Tilgangslaust, Gengur Strákur inn í Salin og sest niður, Hann er á svipuðum aldri og ég, kanski aðeins eldri, en um leið og ég sé hann þá veit ég að Leikritið er ekki tilgangslaust lengur útaf því að nú er Nýr Leikari Bættur inn í þetta svo kallað leikrit Mitt. ] [ Ég hef enga skoðun á neinu sem máli skiptir, en læt mig þó flest annað varða, og til mín taka, ef gerist þess alls ekki þörf. Ég skil það flest, sem lítillar hugsunar þarfnast og velti því öllu mér fyrir, svo lengi sem tími er til. Ég fyllist ástríðu að verulega litlu leiti ef má ég vera að, og ekkert er annað, meira urgent. Ég er ósmeykur að standa á mínu. Fastur, ef ekkert er fyrir, og enginn neitt að því sér. Ég fagna þér með því sem þú hefur að segja. Hlusta, þó án þess að heyra. Það er svo mikilvægt að vera jákvæður. ] [ Ég sest niður á áður óþekktum stað. Umhverfið aðlagast mér samstundis. Hér mun ég hugsa um stund, þótt svo hafið reyni að trufla. Hver einasta bára reynir við mig, eins og þúsund tilfinningar. Ég einbeiti mér að sjálfri mér. Heilluð, en annars hugar. ] [ Nú kom Neisti heim í dag, næsta feginn að sjá. Ég þyrfti að koma lífi í lag og leggja klárinn á. Grösin sölna, gulnar jörð, gott á fóður að taka. Ók með hest á Fáskrúðsfjörð, fékk aðra tvo til baka. ] [ ,,Einu sinni er allt fyrst" eins og skáldið sagði. En af hverju ætti ég að segja eitthvað? Ég er ekkert skáld. ] [ Bebba mín er besta skinn, ber ég hana ljóði. Baslar enn við bónda sinn og bænir sig í hljóði. ] [ Allt sem við gerum er að færa auðmönnum gull, allt sem við finnum, skuldahalana, allt sem við fáum, spilling auðvaldsins, allt sem við förum til Helvítis sem öryrki Allt sem við viljum er réttlæti á jörð! ] [ Er það ítalst pasta ef það er gert í Englandi? Er það enskur bolti ef hann er gerður í Þýskalandi? Er það Þýskur bjór ef hann er gerður af Belga? Er það Belgísk vaffla ef hún er úr Íslensku hráefni? Er það Íslenskur fiskur ef hann er veiddur í Íslenskri lögsögu? Ja.... ég veit það ekki. Skiptir það einhverju? ] [ All of my life I\'ve been hoping for a dream. A dream to come true, an angel to give me strength through life and infinity secretly i\'ve been hiding, hiding my power to survive. Hiding my believing to the world Someday I\'ll make a difference, saveing the world. Let them know whatever happens, it\'s their destiny. ] [ Þengó er nafnið Þengó, er lífstíll. Þengó ei kafnið, því þengó, það er bókasafnið. Þengó er guð minn, og því gef ég honum koss á kinn. Og á hverju kvöldi ég tilbið, að Þengó verði mér voð hlið, á næsta skoladegi, og fylgi mer um vegi, óttans. ] [ Bílar eru farartæki. Maður keyrir á þeim. Í stórhríð er best að nota rúðuþurrkur, en í sólskini keyrir maður í sund. ] [ Geir hét hann Górilla, gekk alveg stórilla, reyndi hann rórilla, rann hann á snjór illa. Flatur hann fór illa, í fljót sem hér Mórilla, kallast það kórvilla, klæddu hann skór illa. ] [ Þengó til Dracula. Dracula til Þengó. Það er Drangó, samanber Þecula. ] [ I was walking down the river, and my daddy wasn't there. I was walking down the cliver, and my daddy was there. So I said to my daddy, I ain't no teddybear! ] [ The Dark is all over and it wont let me go so i pick up the silver blade and my nightmers end at the moment and my dreams begin to shape the future for the life i lead ] [ When the world seams to come down on you you must think of the people that love you and the people you love to keep on going and if they are not there for you in your time of need you must seek music to numb the pain and make it go away ] [ Hvítur snjórinn hylur jörð hlýjan úr lofti flýr. Ljósbrot sýnast lífi gjörð ljómar dagur nýr. ] [ Viltu vera memm? Koma út að leika? Róla svo hátt að við sjáum upp til Guðs og Maríu Mey vera að dusta sængina sína. Viltu koma upp á Strokkhól? Og hlusta á álfana strokka smjör. Viltu koma í Barbie? Og þú gerir Ugla-sat-á-kvisti og velur þannig dúkkurnar sem við leikum með. Viltu svo koma upp í Stóra Hús til ömmu? Og við fáum okkur mjólk með neskvikk og Prins Lu súkkulaðikex. Og svo hlæjum við svo mikið að mjólkin frussast út úr nefinu á okkur. Viltu svo koma og tína sóleyjar og fífla og gefa Siggu frænku? Og hún gefur okkur sleikjó að launum. Viltu svo koma að hjóla? Og hjóla alveg ógeðslega hratt. Hraðar en fuglarnir og Týra. Viltu verða aftur sex ára? Viltu það? Viltu vera memm? ] [ Vestur í Sælingsdal undir kvöldsignum himni í faðmi grænna hóla sit ég hugfanginn og læt mig dreyma faðmlag konunnar. ] [ Ég slökkti á sjónvarpinu. Setti Sigur Rós í spilarann. Sett mig a busy á MSN. Og fór að semja ljóð. ] [ Bókfinka (syngjandi): Hver gengur gegnum skóginn svo seint. Snjótittlingur (svarandi): þessi er vindur af augum beint. Hjálmfura: Ég elska þessa smámaura litla. Rauðbeyki: Ekki liður þér svo illa. Hlynur: Og mér finnst þessi sveppur ekki skemmtilegur. Strandfura: Hann hjálpa þér að vaxa vel, vertu bara blómlegur. Keisaraviður: Sjáið öll: skógurinn er fullur af ljósbjöllum! Það er svo fallegt finnast öllum. ] [ Sælt var fyrsta augnarblik Tíminn leið svo hratt hjá mér Ill sár eru hjartasvik Aldrei skal ég gleyma þér Sárt er skot á laun Stutt mun í kveðjustund Ill sár eru hjartakaun Þó þú vitir ekki baun Illt er að elska í leynum Verra þó í meinum Endar sov með hjartaskeinum Sem nísta inn að beinum ] [ Norðurljósin lýsa fagurgræn á kolsvörtum himni. ég sé mosagrænu augun þín glampa í þeim. og loka augunum og þegar ég opna þau aftur blasir við mér stjörnubjört nótt. ] [ Þegar ég sé þig bregða fyrir þá veit ég ekki hvað ég á að gera mig langar mikið að tala við þig en mér dettur ekkert í hug að segja. ] [ Þegar ég sá þessa mynd langaði mér mikið að framkvæma synd Þig langaði mér að kyrkja og lífið úr þér myrkja. Hjartað mitt sló auka slög ég vildi ekki bjóta lög og ákvað ekkert að segja og þér úr huga mér flegja. ] [ Kvalin og mædd ég minnist þín sit ég ein og stari og vona að þú hugsir til mín ég vona að þú ekki fari ] [ Tvisvar verður sá feginn sem á steininn sest. Þetta voru venjuleg hjón - að öllu jöfnu - en höfðu ánetjast steinasetu til að meðtaka þennan notalega feginleik sem streymdi frá jörðinni. Á kvöldin gengu þau út og settust á steinana fyrir ofan bæinn, og horfðu út á flóann þar sem sólin sat á móti þeim á sjóndeildarhringnum og starði undrandi á þetta dularfulla sitjandi fólk. En smátt og smátt sigu steinarnir dýpra og dýpra ofan í jörðina, og að lokum hurfu þeir alveg. Nú haldast þau í hendur í kvöldrökkrinu, og horfa yfir auðann melinn steinlausan með öllu. ] [ Þegar ég vaknaði eftir svæfinguna var mér tjáð að ég hefði aðeins 5% stóran maga. ] [ Ég er lítið sker í litlum firði, hvar er ég? ] [ Ég hef verið týndur frá því að ég fæddist en einn daginn þá fann ég sjálfan mig, ákveðinn að takast á við sjálft líf mitt og hætta að vera alltaf í felum. ] [ There is a place where grown ups ruel where evil wont stand still They place a gun in childrens arms and send them of to kill , to a place where pain is real trigered by ignorence lust, there is no way them sense what they have doone to us. Our minds are numb our tears are back this time its left us weak , couse every time we stand our ground u force us not to speak. Parading golden coins of blood screaming red for more, playing child games with there own toy soildiers of war. The world is filled with ignorence theres no place left for love, the oil spilles of mankinds greed drowned our last white dove. There is no proof that any war is mankinds path to hope, its just an old mans dying wish to hang us by his rope. We truly ceared, its just to late there´s not much left to miss, we closed our eyes and left to fate every hopefull wish. Safe away from frontlines and pain the cor of hate wont give by lying to there flesh and blood that killing is ment for all. Why!! should we protect our own from cruel desieving wreth? while the way to peace is only shown by weapons, force and death Why should they ceare ? With nothing to lose ,to them its just a game. Pure young minds brainwashed at birth....by curropted power and shame No one\'s safe the hatered has won well never break this wall . Were insects to there poison and when where all gone those roaches will outlive us all. ] [ As we lay down i hope inside that´ u wont run away but we both know betwen us now there´s nothing left to say I make beleve u ceare for me as u act along, we make our love in diferent ways and smile as nothings wrong Hold on to me o dont let go,,, love me just for now please i know one day u will... you just dont know how With all the love in this world mine is just to give couse i know by heart if u wern´t here i dont think i could live All my pride is gone away i kling on to a dream pretending things are never more as painfull as they seem My love just go,, ill cry for us ....as i free the pain nothing in our life is true theres nothing left to gain.......... ] [ The dark of blue the dark of nigth no where seems to end why is there no wrong or rigth left for us to mend Caos twirling like the sea tossing lifes around one day earth will let us be with one vissous sound Only then will there be peace Nothing can be done, O how the stars will shine again after we have gone. The brigthest sun the warmest ray brings us back to life but waisted as the time goes by again we”ll have to strife. Smile a bit just to feel collors in your soal couse living only a day a time is the strongest goal. ] [ Af ótta einum ekkert get nema horft langt undan Því lifið sýnir núna loks hve óðum styttist stundin Tímans vísir hvergi stöðvast engin fær því ráðið svartir draumar hjartans fár nuddast djúpt í sárin Þá dag einn vaknar hinsta sinn og ekkert skilur lengur. Hve tími heims svo allt of hratt í tillitsleysu gengur ] [ Hingað komin engu nær viskan hvergi nærri Mér var sagt að svörin finndust er ég yrði stærri. Enn tíminn safnar aðeins spurnum sem ég fæ ei svarað Er lífið kannski mannamál sem engin getur talað. Mun ég hverfa myrkur í og stirðna upp af kulda? Eða áhyggjulaus fljúgandi, og engum lengur skulda. Lífið á sér tilgang einn sem engin fylgir sjóður ...Að getað sofnað hinsta sinn og næra sér umhverfis gróður. ] [ Ég vildi óska að líf mitt væri endalust og bleikt og að öll mín lífsins ljós yrðu ætíð kveikt Enn sofna verð nú eins og þau er kvöddu undan mér og vona heitt að dauðinn ger´ei boð á undan sér Því kveðja vil í svefni ljúft við mildast kertaljós svo 100 árum síðar vakna fríð sem Þyrnirós Ekkert sár og hvergi smeik né döpur yfir því Að geta hvorki séð né fundið fólkið mitt á ný. Fá að elska meir enn fyrr Og lifa hverja stund og kunnað njóta þar til á ný verð lögð í græna grund. ] [ What is this sense that makes us stop? what is it , we fear? Ignorence only has contol… Thers nothing left to shear… Why cant I run wild with the wolfes Howling in the nigth safe in my cave braided with beeds.. keeping away from ligth I feel so small I am to kind Your feesting on, my words Drowning slowly ,, I fall behind washing your yesterday’s shirts, Feast on my soal , feast on my heart Clear all the whits from my mind.. My flesh is bear,,my senses are rear Im done with the urge to be kind I cant see my life as anything real Vaisted my nigths and my pain… Pushing myself never to feel Beleaving I am insane, Pushing myself never to feel Beleaving I am insane, ] [ As evil turnes its deadly spear Towards our peacefull minds Our wepon TRUTH ´s for all to hear The pure they know the signs Because corruption blinds the sense of greedy spineless soals Who turn the lifes of those who dance To endless pitchblack holes ] [ Máni, máni lýsir nóttina er við þjótum hjá, herðir hann tökin , seiðandi í sólarskini, Máni, máni, lýstu mér, á lífsins kaldri vetrarreið, leiðina yfir fannaskel, í þínu næturskini. ] [ meðan allir ganga um kveina, nöldra, kvarta geng ég sjálfur um með sól í hjarta ] [ sestu hjá mér hérna við fjörusteinana þar sem sjórinn skolar vitund okkar burt og skilur eftir sig ekkert nema ást vindur sem gnauðar í sumarnóttinni flöskugrænn demantur í sólskini blóð sem streymir hugur sem geymir engar minningar og ekkert slæmt bara ást og frið segðu mér eitthvað sögur syngdu mér hvað sem er meðan sólin rennur í hafið ] [ Kræfir þessir kvennamenn, karl er regislyngur, Finnbogi rammi ferðast enn, faðmar gítar og syngur. Hófu upp spilin heldri menn, hart á barist var og allir hældu sér í senn, sem og vera bar. ] [ stunda stundum stunur um stundarsakir með þér og með sjálfri mér en engum öðrum ] [ þegar við sátum og störðum. bara töluðum ekki um neitt. þegar hugur minn leið útaf inn í annan heim langt héðan í burtu. þegar ég vissi ekki lengur hver ég var og hvar þú hélst þig. þegar við bæði elskuðumst í sitthvoru herberginu í okkar eigin heimi með öðrum konum eða körlum. það var þá og bara þá sem ég vissi að ég myndi aldrei endast. ] [ Stórborgarljósin brenna (augun) líkt og Bob forðum á Bleeker street breiðstrætin og barirnir blúsfylltir tónar og blue note beat Þú átt þér þúsund einmana andlit en að því virðist enga sál líflaus þau liðast flest áfram og þú aðeins gler og stál Á hvaða langa fjólubláa gangi? Í hvaða eimsemdar volæðis lyftu? Í hvaða dimma skuggasundi... misstu meistarar fyrri tíma trúna á þér og lífinu Já, mannhafið á miðri Manhattan mest brenglað eða brotið þetta aldar gamla epli er ormfyllt bæði og rotið ] [ og allt það sem ég vildi segja þér, því allt það sem ég hef gert. söngur og dans. hrollur um mig alla þegar ég reyni að gubba. gubba því út úr mér sem þú ættir að vita sem ég átti ekki að gera. en þú ert pabbi og ég er pabbi. hann er pabbi og samt eigum við engin börn. bara mömmur skiptast á leyndarmálum um kynlíf og ást. ] [ Vonin gefur gull í tá, gullmolarnir seiða, Von sér milli bæja brá, barst mér norðan heiða, Vonin gjöf er guði frá og gerir engum leiða. ] [ Í mínu ungdæmi sagði presturinn: Út vil ek. Hef ekki séð hann síðan. Djöfullinn, andskotinn sjálfur í mannsmynd, var að ásækja hann, ásamt Bakkusi vitaskuld. Hann vinnur aldrei einn, eyminginn Satan. Nú er stóra spurningin: Ert þú sonur prestsins? Munt þú hverfa af sjónvarpssviðinu - með djöfullinn, jú og Bakkus, á hælunum? Svo veit maður aldrei, þó einhver hverfi af sjónvarpssviðinu, hvort hersveit hins illa gefist upp. ] [ Veisla í völundarhúsi, villt í eigin hugarheimi. \"Velkomin í veröld mína\" Ég endurtek við sjálfan mig. ] [ Sunday night, at seven thirty, we, the usual crowd honker at the bar. We come here to share ourselves Essential style, of course. Our rotating bar facilitators parked behind the moon shaped counter skillfully prescribe individually tailored warm ups by the glass. In our experience sipping the medicinal magic nectar will open hearts, expose souls extracts triggers and reform pasts. In one night, You Shall….. Via our newfound SBBT (somatically based bar therapy) …..Be Reborn. Come share yourself with us tonight at the Essential Open Seat Bar. ] [ Á köldu vetrarkvöldi ég sit undir teppi ég er ein og hugsa en hvað það er gott að vera undir teppi ] [ Þegar maður íhugar lífið þá kemur margt upp í hugann afhverju erum við til? til hvers erum hér? hver er tilgangurinn? ætli nokkur viti tilgang lífsins? allavega ekki ég ] [ Ekki vera hrædd Þótt ég fari, ég kem aftur. Ekki vera hrædd Þótt ég verði reið, ég róast. Ekki vera hrædd þótt ég öskri, ég þagna. Ekki vera hrædd þótt ég verði veik, mér batnar. Alveg sama hvað gerist ég mun alltaf vera til staðar. Ekki vera hrædd. ] [ í tómri veröldinni er lítið að gerast við fylgjumst með og bíðum eftir tækifæri. Tækifæri til að stökkva inn og láta í okkur heyra en það er erfitt, raddirnar eru of margar. Við erum of mörg í veröldinni til að ein lítilmannvera geti látið í sér heyra. Hvers vegna er þetta svona? Afhverju getum við ekki hlustað? Hlustað og hjálpað öðrum í þessari tómu og köldu veröld. ] [ Hvernig á maður að finna titil á ljóð sem er ekki til? Ahverju er ætlast til að maður þegji yfir því sem aldrei hefur verið sagt? Hvernig á ég að rata vegin sem ég hef aldrei farið? Afhverju er minnigin góð um það sem aldrei var? Afhverju fórstu? ] [ Heldurðu að við séum ekki eins og þú við eigum sömu björg og bú. Við erum hvorki mjúk né hörð við lifum öll á sömu jörð. Við borðum hvorki kavíar né skít við erum hvorki svört né hvít. Við höfum öll hugsun og hug hugrekki og dug og þó við höfum ekki öll hönd og fót en þó djúpa hjartarót. Og þó við keyrum ekki öll um á bens þá erum við öll homosapiens. Það geta ekki allir lesið eða keyrt ekki allir séð og heyrt talað rétt eða eitthvað mál okkur var öllum gefin góð sál. Búdda, Allah, Þór eða Guð þetta er eilíft trúarsuð svört eða brún, maður eða kona við fæddumst bara svona. Ekki breytum við þeim sem við búum hjá eða fjölskyldu hvað þá. Hvort sem að við eigum tvo feður eða mæður skrítnar systur eða veika bræður þá verður hún alltaf eins og hún er og hún tilheyrir þér. Ég vona bara að þú sért sáttur við það sem þú hefur og þá sem þú átt að því um þá færðu fáu breytt já litlu kannski ekki neitt. ] [ með stífu klakabrosi horfa þeir framan í ærumeiðandi framleiðendurnar segja frá því hvernig sálir þeirra voru seldar á markaðstorgi fáfræðinnar fyrir slikk ] [ Ljósið við enda heimsinns fjarlægist fer. Döpur augu missa sjónar í rökkrinu. ] [ Í kuldanum verður blóðið heitt og notalegt. Þú þurrkar frostrósir í huganum og blæst mistri áður en ég sofna. ] [ Í firði var ég falinn og þar mig engin fann. Þar til tilfinningar týndust og tíminn í sandinn rann. Ég brenndi mig á báli þegar brýnnar þær brunnu. Og vonirnar veiktust þegar þær í voginn runnu. Á sjóinn ég stari og vonir mínar fleyti. ] [ Einn í innhverfu með tímanum horfi. Sálirnar í kringum mig eru allar á iði. Mín er stjörf. Mín er frosin. Kuldinn geymir leyndarmál sem bergmála í hljóði. ] [ Andartak sem eilífð dagur án tíma. Þetta var okkar stund okkar víma. ] [ Krypplingurinn kúrði í horninu andvaka, uppgefin og sár. Heimurinn dauður fyrir honum, meir en hann sjálfur. Hann fann fyrir sársaukanum, gremjunni og óttanum og fann hvernig vonin dó á flóttanum. Dvölin í fortíðinni dugði skammt, rammt bragðið af sviknum loforðum endurómaði fyrir vitum hans Traust; orð sem hann treysti ekki lengur. Slitni strengur örlagavefana stóð sem alblóðugur drengur syrgjandi samtíðina. Tár í myrkri blint fellur niður í sorgarinnar sægrænu ræsi borgarinnar. ] [ Tell me honesly Are you in love with me? look me in the eye and I\'ll say my love is true. The smile on your face I live only to see These two months I pray them not to go away. The time I have with you is remarkable. Trust me I love you for who you are. ] [ My soul is weakened by your touch, My heart exposed by your kiss, I am devoted to you. And as the sun sets And your fire dies; With it I shall also For I am one with you My darling, And forever shall our love remain, When everything else is forgotten I will remember you, my love And so we shall live forever: In loving memory. ] [ It is without hope That I say goodbye to you. Without freedom That I question your love. Lust has poisoned my mind And with it I shall die. But do not cry me, my baby For I will always love you Through heaven and hell Good and bad Until all opposites collide And everything crashes. There will be nothing but us, So I bid you farewell My dearest, With hope, with freedom always. ] [ angan blæddi rós rauðum blakti þráð hékk líf mildi skóp engan tók forsjón feigðar forðað var tækifæri færðu annað vert viturt skaltu leggja framtíð skapa skaltu betra líf lifa skaltu njóta heima tíminn feigum forðar eigi mætum öll loka degi fyrr en varir ] [ Morgundöggin var við það að þorna upp þegar ég áttaði mig á því að þú lást við hlið mér karlmanlegur ilmurinn af unglegum líkama þínum veiti mér óstjórnlega ánægju Með þá hugsun um unaðsstundir okkar vafði ég þig örmum mínum og fann andardrátt þinn við brjóst mér Ekki gat ég varist þeirri hugsun af hverju ég hversvegna varst þú minn þessa nótt og svo margar fleiri nætur sem við eyddum saman ] [ Ástin er gleymd og grafin Gangandi himininn er hafinn Hafin á brott líkt og vindur Hárið fýkur við, ég verð blindur Ef hún í djúpið hverfur Hvað um hana verður Það er margt hægt að segja Nú ætla ég hætta og þegja Viðlag... Ástin er götuð að innan Ástin gerir mig ei einan Ástin afhjúpar nýja sýn Ástin öll er mín. Nóttin nálgast, birtan fer, Ástin blómstrar hratt með þér Svalan þorstan sýp ég dögum Samasafn af erótískum ástarsögum Ef hún í djúpið hverfur Hvað um hana verður Það er margt hægt að segja Nú ætla ég hætta og þegja Viðlag... ] [ Hvað maður vill og hvað maður fær. Fer, sem betur fer, ekki saman. Þá færi í verra. Enginn vill sársauka sem minnir, þó best á sig; sjálfum sér líkur, og með því að við séum til. ] [ til heimsins svona rétt áður en ég dey ekki sáttur væri svosem til í að sjá til eilífðar en átta mig á því, það er ekki hægt enda erum við bara óvart. ] [ ef þessi helvítis rigning væri ekki svona blaut og þetta myrkur væri ekki svona dimmt og það væri aldrei sunnudagur þá væri þetta ljóð heimsins en það er það ekki. ] [ graf alvarlegur hann lítur í átt til mín, eins og rauður ljósataur, alveg rosalega stífur og skrýtinn. ég kippist við og ranka við mér þetta var ekki ég að hugsa. ] [ Bebba og Mæja brugðu sér á bíl í ferðalag. En Doddi granni hefur hér hesta prófað í dag. Tea á Spáni teiknaði glatt á trönum málverk fín. Fljótan endi á ferð þó batt og flaug í kaffi til mín. ] [ hún brosir brosinu sínu bjarta, en í sálu hennar er falið allt það svarta, allt brostið í hennar hjarta, svo margir sem hafa það gott kvarta, ef þeir vissu hvað er sálardauði og sorg, fólk sem strunsar og brunar um alla borg, efnishyggja og fölsk brosin, augun tóm og frosin, lífið er ekki stærra og meira, eða hvers konar bíl þú ert að keyra, lífið er að elska og vera elskaður meira, það er hið eina ómetanlega, það er eitthvað sem allir ættu að gefa. ] [ Elsku ástin mín kæra, hví þurftiru mig svo að særa. Ég hélt ég væri þín eina og sanna, svona sviki og lygi ætti að banna. Ég reyni og reyni að treysta þér, en mér finnst ég bara svo tóm og ber. Þann dag er ég frétti, leið mér eins og ég ætti ekkert eftir. Án efa, ég reyndi þér að fyrirgefa. En hjartað varð svo mölbrotið, eins og öll orka út um gluggan hefði fokið. Ég vildi að ég gæti verið þér við hlið, en við hverju get ég nú búist við. Mig verkar á hverjum degi, hvað viltu að ég meir segi. Ég gæti elskað þig að eilífu, en hvað er ást án blíðu. Hverjum degi ég hræðist því svari, kannski best að ég bara fari. Mundu það eitt ég þig elskaði alltaf, og gat yfir því ekkert kvartað. ] [ Það er þá, akkúrat þá á þeirri stundu sem þú finnur efnin þröngva sér leið um æðakerfið á þér. Rushið er svo mikið að þér líður eins og pínulítilli kúlu, pakkfullri af hamingju og kærleik sem springur í gleðinni og hrinan kemur yfir þig eins og ein stór dúndrandi fullnæging! Og við hverja einustu snertingu frá aðilanum við hliðina á þér, hellast yfir þig í bylgjum öskrandi viljinn til að stynja. Að deila þessari tilfinningu veldur einstakan unað. Unað sem veldur óbilandi frygð frá hverri manneskju um sig. snertingar byrja og svo strokur sem gera okkur svo gröð að við fáum nánast hjartstopp af frygð og vökvi lífsins rennur niður læri beggja. Eftir geðveikislega fróun og bestu fullnægð sem til er og svitinn streymir niður gagnaugað á þér, áttar þú þig á því að fórnirnar sem þú gafst til að eiga \"eðlilegt\" líf voru bara draumar. ] [ Ég get ekki lifað ef ég fer ekki tvisvar í viku út í garð að anda að mér haustlaufunum. ] [ - Vertu að þá vinnst um síðir - vita það skulu allir lýðir að festu þarfnast framagjarn. Árangurs þarf ei lengi að leita láttu það bara eitthvað heita en hæverskan er hyggins barn. ] [ Sá er gegn, sem góðu ann, gera skulum líkt og hann. Lán ég vona að leiki þann, lofi sérhver meistarann. ] [ Ef ekki neitt, er ekki neitt.. Hvað er þá ekki neitt? Ef ekkert er fullkomið.. Hvað er þá fullkomið? Ef þú velur á milli alls eða ekkert. Hvað færðu þá? EF. Bara ef þetta ef væri ekki alltaf svona efins. ] [ Allir á fætur! Krökkunum hent framúr. Ljósin kveikt. Úvarpið kveikt. Sjónvarpið kveikt. Tölvan í gangi. Ristað brauð í vélinni. Hitað te ofninum. Gangið frá! Uppþvotavélin í gang. Hrein föt í dag Þvottavélin í gang. Út í bíl! Bílarnir þrír settir í gang. ---------------------------- Þetta er ekkert mál. Þau gróðursetja bara tré í staðin. ] [ Summer come quiklie, let me notice when you´ll be around. The winter is cold and i´m freezing, and you´re not around to keep me warm. But everything will be fine, everything will be fine when you´ll be around. ] [ Líflengd mælir fjölda ára á lífi. En lífið sjálft mælist af augnablikum sem þú greipst á leiðinni. ] [ I´ve got these unsincriniced thoughts about love, on one hand it´s sacret like the holy dove, and shoult not be toucht with out the cleanest glove yeah. On the other it´s sicker then the deadest man, shoult be avoyded like the quikest stalking fan, and shoult not be toucht at all, no! This is a delema and it´s eating up my heart! Where´s the middle, the end, where´s the start? Man i hate to need that flaming spark! This thing is tearing me apart! Like a rollercouster, that´s how it shoult feel, but i get sick on the merrycall wheel? You can tell what is good, but will it be understood? No! Gues love can be good or it can be bad? it coult leave you happy or leave you sad? The only thing i know is that.... This is a delema and it´s eating up my heart! Where´s the middle, the end, where´s the start? Man i hate to need that flaming spark! This thing is tearing me apart! ] [ Finnst sem eitthvað skríði innundir mínu skinni, sælan skríður, ert það þú sem ég finn? Aldrei séð þig fyrr, en þú ert í mínu draumamynni. Dásamlegasta draumasýn, sonur minn. Þú fæddist af engli vissiru það? Á fiskeríi mig hún veiddi sem jónas úr hval... Hreyfði mig, ég stóð í stað. Þó snjórinn hvíli þungt, virðist sem grár blautur leir, er alltaf hlítt,hamingjuríkt og bjart hjá ykkur. Ég fæ aldrei nóg af ykkur, vil alltaf meir og meir. Ég veð snjóinn til ykkar þó´ann sé kaldur og þykkur. ] [ Vandamál fólks eru varin með leynd, af valdaklíkum sem níða sína þegna. Bágt eiga margir er berjast við eymd, þótt barmi sér fleiri smámuna vegna. ] [ genginn er vegur bugðum lagður og hokinn af reynslu með fjölda ár að baki þú snýrð þér við lítur farinn veg og ferðalagið það heitir ég stendurðu stoltur horfir til baka fékkstu í hendur eða þurftirðu að taka varstu sannur gafstu til baka geturðu sofið eða þarftu að vaka hér stendurðu það er í boði að horfast í augu við lastið og lofið gekkstu veginn beinn í baki léstu þig bera megnið af leið tókstu á við og horfðist í augu lástu í skítnum eða reistir þig við baðstu um hjálp og kom kannski engin því það er enginn sem kallar þig vin ég geng þennan veg með árin að baki ég stoppa aldrei og sný mér við því þau sem ég elska virði og dái kusu að ganga við mína hlið ] [ Ást mín til þín er óendanleg. Ást mín til þín er ódauðleg. Ást mín til þín er tímalaus. Ást mín til þín er endalaus. Ást mín til þín er sæt. Ást mín til þín er tær . Ást þín til mín bjargar mér. Án þín væri ég ekki neitt. ] [ Ég var ekki fæddur í gær sagði hann, gaf frá sér öndina flögrandi og að lokum Gaf upp öndina. ] [ Það var partý hjá Guði í gær, og núna eru allir á niðurtúr þessvegna er rigning ] [ ljósastaurar eru róandi aldrei neitt rugl á þeim þeir eru alltaf í réttri röð og rosalega skipulagðir þangað til þú kemur að reykjavíkur flugvelli, ÞÁ MINKA ÞEIR ALLTÍEINU OG ALLT FER Í RASSGAT HVERN FJANDANN GENGUR EIGINLEGA Á, HVER STENDUR FYRIR ÞESSU? gamli góði vesturbærinn stendur alltaf fyrir sínu, loksins kominn útá granda. ] [ Silence Brightly shining, on the velvet sky, the star of your freedom, a sparkle in your eye. A life without sadness, a life without pain, Love without reason, That drives you insane. Screaming in silence, Your death is my choice, only to guide you, The sound of my voice. ] [ Frjáls er spökum spurnin ein, spyr þó ei úr máta, því það eru ótal manna mein, sem má í friði láta. ] [ Veik á að bíða, eftir að þú látir þig hverfa. Ímyndaður sársauki minn byggist upp er þú talar. Ég flýt í burtu, burt frá þessari stundu. Ég flýt um, flýt eins og ekkert sé. Hví er svo undarlegt að vera einfari?? ? Ég í mínum eigin heimi, heyri ekkert lengur. Þakka þögninni, stari á þig og hugsa. ] [ Finn blóðið renna, safnast saman undir mjúku skinni mínu. Er hönd þín slær, engin tár. Aftur. Finn marið bólgna og minna mig á eitthvað sem ég fíla. En þú gengur of langt, ég get ekki hreyft mig. Hvað hefurðu gert? ] [ Er dulúðin myndar krossgötur þar sem lífslínur skerast eða sameinast geta mikilfengnustu kraftaverkin gerst og skotið neistum upp í himinhvolfið Þar myndast ljósviti fyrir æðri verur og þær vita þá hversu ótrúlegt þetta sköpunarverk sem hinn eini sanni faðir hefur búið til og er um leið sönnun hins eina sannleika því um leið og hið mennska hjarta hefur fundið sinn einlæga tilgang í lífinu getur það fært heilu sólkerfin saman í átt að frið, ást og samhygð ] [ Klukkutíminn fallinn kanillinn klikkar inn dansaðu dimmar nætur um dáleiddar geðrætur Djöfull er þetta skemmtilegt. Skrifa þetta sennilega af því bara ekkert meira afgerandi sniglast svona mögulega áfram líðandi tíminn. En fastur í gír afturábak gengur líf mitt út um opin gluggann ofaní græna ruslatunnu fulla af dauðum svörtum rósum langar til að losa um heljargreipar líkkistunagglans brenn til dauða verð sem aska í bakka sendur til himna að moldu skaltu aftur verða. Tíminn stendur í stað eins og hurð á gafli stafli af hugsunum læstar inni af hæfni. ] [ Með galtóman hugann oft velti ég vöngum, í vísnagerð þyki, í sporum röngum. Snilld mína verð að taka með töngum, hún treg hefur verið að sinna mér löngum. ] [ Sólin geislar grundir á, gulnar blómi vallar. Sumar er víst að víkja frá, vetur að nýju kallar. ] [ Endur fyrir löngu varð á vegi lítillar músar sorgmæddur Tinkarl. Hann leyndi því vel og músin hló \"hann er bara að grínast\" týsti hún og brosti við þegar hann hrasaði og grét, endur fyrir löngu. Löngu síðar, urðu þau á vegi hvors annars hann tók hana upp \"ég er tómur að innan, hvað er ást?\" músin hvíslaði \"hví heldur þú að ég viti það? - ekki var það ást er ég taldi mig hafa.\" Stökk hún svo burt út í myrkrið, \"Ekki skilija mig einan...\" Settist hann og horfði, út á úfinn sæ, reyndi að gráta en gat það ei. Með tímanum þó, fann hann það sem vantaði því inn í tómleikanum kviknaði ást og úr músinni varð stúlka sem fann fyrir að vera elskuð og enn undrast menn að litla músin og tómi tinkarlinn hafi náð saman og dást að innilegri ást þeirra. ] [ Hvað er að ske öskraði ég óvart það skeður aldrei neitt, svaraði gamall maður en afturámóti gerist ýmislegt. ] [ Og ekki ] [ \"Are you hot?\" spurði þeldökka þrífirínan með rassinn. Ungur hvítur maður snéri í hana baki og þakkaði Guði fyrir það. Hann varð vandræðalegur, roðnaði upp fyrir haus þegar hann heyrði spurninguna sér í lagi er hann áttaði sig á að þetta var ekki draumur. Ungi hvíti maðurinn, vissi nákvæmlega ekkert hvað hann átti að segja; hummaði og snéri sér við, brosandi. Hún, þeldökka þrífikonan   - þessi með rassinn, vildi vita hvort hún ætti að opna glugga. ] [ Viltu vera memm í þjóðhagfræði með Tótu Klemm? ] [ Haglélið dundi á hárbeittum hömrunum sem hann kleif erfilega en með staðföstum vilja eins og bjarndýr sem sækist eftir sætasta hunanginu þrátt fyrir djöfullegan ágang býflugnanna Þá hafði hann þrátt fyrir allt ennþá hinar dásamlegu minningar um lífið handan við hið mikla bjarg þar sem hann ólst upp og átti öll sín barnaævintýri En þessi sólbjarti dalur sem lá handan við klettana þar sem allir litirnir voru svo fallegri ilmurinn ferskari, golan blíðari og brosið sem hélst alltaf á glöðu andliti hans það var þangað sem hann sótti Bæði snemma eftir kynþroska og þrátt fyrir að hafa náð upp aftur verið þar í ár, þá bar forvitnin hann ofurefli aftur orðið til þess að hann féll niður í svarta dýpið sem var svo heillandi í fjarska En jafn eitrað og eplið sem Eva át eftir tiltal útsmogna snáksins og glataði paradísinni sinni og ást þá féll hann En nú klifraði hann með meiri vilja en nokkru sinni áður og stöðvaði aðeins til að næra sig á hinum gómsætu eggjum sem himnafuglarnir voru búnir að verpa á þeim fáeinu sillum sem voru á leið hans og hugleiddi þar þennan tíma sem var honum svo erfiður þarna niðri Allar martraðirnar sem dundu yfir hann að næturlagi og blekkingar úlfanna sem þrátt fyrir allt voru ekki búnir að éta hann heilann Á hverjum degi með loforðum og gylliboðum reyndu aftur og aftur en á lífi var hann enn og hafði engu öðru að þakka en englum, vilja til að gefast upp og æðri mætti sem vakti yfir honum þrátt fyrir allt sem gerðist ] [ Ég vildi að ég gæti birt hér á blaðinu myndina sem móðir náttúra málaði í huga mér í dag Hún stendur mér fyrir hugskotssjónum ofan við gráleitan Hlemm neðst í Holtunum þar sem regnboginn í allri sinni dýrð sveigði sig undir annan regnboga – ívið daufari eins og grátbólgin dagskíman tæki við af fölnandi fortíðinni yfir rústum Hampiðjunnar og fyndi skyndilega brennandi þörf að klára á einu augabragði alla litina sína fyrir næsta skúr ] [ Guð kom til mín einn daginn spurði mig spurningu Hann spurði viltu hamingju Björn Róbert ég svaraði auðvitað Hann sagði þá af hverju ertu ekki hamingjusamur ég sagði að hamingjan hefur mig ekki fundið Hann glottar og segir en hefur þú leitað af henni Auðvitað segi ég og horfi einkennilega til Hans nú ertu ekki búinn að finna hana þá greinilega ekki segi ég með gremju en hefur þú veitt öðrum hana spyr Hann Já segi ég það hefur komið fyrir og hvernig fannst þér það það gladdi mig að gleðja aðra þá skal ég segja þér eitt Ef þú ert heill þá mun fólk ekki hafa áhyggjur af þér þú munt ekki særa aðra og um leið verða færari að gefa meira og meira Þá munt þú eiga þátt í að gleðja aðra og gera aðra hamingjusama þar af leiðandi munt þú vera hamingjusamari þetta er leiðin Nú er þitt að fylgja henni ] [ Ég hefi séð ljóð, í listamannaveldi, ljóðin sem spakur hampa þar vildi. Datt að mér oft að drottin þar teldi, svo djúpa speki að eigi hana skildi. ] [ hipp hopp og háir hælar og eitís og englaryk. álfheiður og eydís fimmtán fuglar í fjöru og maður sem skokkar skokkar og heyrir ekki aðra segja góðan dag þetta er ísland í dag segir fólkið þetta er ísland í dag rökkur og rok tuttuguogfjórir metrar á sekúndu valur og vigdís tólf keðjutjóðraðar tuðrur gallar og burtfoknar girðingar skólabíll og berir fingur ryðið ryðgar þetta er ísland í dag sagði fólk þá þetta er ísland í dag ] [ Leitandi af hita, frosin , skjálfandi , stjörf, svarthvít meðal lita svo sóðalega djörf. Dregin áfram hokin augu stinga gólfið stillimyndin eylíf virðingin er horfin. Veika vonin seld skinn mitt ódýr feldur ég missi mitt þú virðingu þinni heldur Tuskast og dröslast varirnar bláar sálin dæmd óskirnar fáar Hér vil ég stöðvast augun svo þung kannski von um virðingu ef deyja mun ung ] [ Sagan endurtók sig eins og svo oft vill verða það er engin ástæða til að endurtaka hana í sífellu. Lesum bara fyrsta bindið. ] [ Kirkjan er ræfill og riðin í haft, Ríkisstjórn lætur sig merja. Hún ætti að rísa upp rífandi kjaft og reyna sitt fólkið að verja. ] [ Sigurður er með rautt nef. Það er ekki vegna kulda, heldur ættgengt einkenni. Pabbi Sigurðar er Trúður ] [ Einar er blindur á öðru auga, Pabbi hans er sjóræningi ] [ Tinni er tannlaus. Hann veit það núna að það er best að forðast að skulda Tannálfinum. ] [ Síminn minn er vandræðagemsi. ] [ Regnið bylur, rokið úti hvín, það er ríkidæmi að eiga tölvu nýja. Að vera úti, virðist ekkert grín, vonandi hestar þó í skjólin flýja. Já, úti bylur regnið rosalegt ræður fjandinn eða drottinn þessu? Er það fyrir að fólkið sé tregt að fara til messu? ] [ Done many of my firsts, with you by my side. Pray to do many of my lasts, with you by my side. <--- Never would have guessed happiness, could be sum up to one name. But your´s clears up all lonelyness, that ever in my heart came. <-- We´ve walked an blissfully easy path, together to this day. But we both know the path won´t always be this easy, together til the last day. Date: Tue, November 20, 2007 3:10 am To: god@heaven.org Priority: High kæri guð, ég vona að ég trufli þig ekki vil alls ekki tefja þig við matarborðið eða við bænalestur. hef bara verið að spá og spekúlera um hitt og þetta. eins og til dæmis af hverju þú hjálpar ekki fólkinu þarna í stríðinu er það vegna þess að það trúir á annan guð en þig? eða af því að það hjálpar sér ekki sjálft? og af hverju deyja svona mörg börn í heiminum? 1 barn á mínútu er það ekki? eru foreldrar þess ekki nógu trúuð? eða er það bara til að jafna töluna? og segðu mér alveg satt, hjálparðu í alvöru fólkinu í raunveruleika -sjónvarpinu þegar það biður þig um það? og blessarðu í alvöru ameríku? hvað með önnur lönd þá? ég veit ekki með þig en mér finnst ósanngjarnt ef þú blessar bara eitt land en ekki hin... og hvað er málið með son þinn jesús? er hann eitthvað á leiðinni aftur á jörðina? það hefur nefnilega verið beðið eftir endurkomunni síðan hann dó. og já, gleymdi því næstum, hvað hefurðu svona á móti samkynhneigðum? elska þau eitthvað öðruvísi? er fólk kannski bara að mistúlka orð þín sem þú skrifaðir í biblíuna, eða var það ekki annars þú sem skrifaðir hana? bestu kveðjur, þinn lubbi ----- The following addresses had permanent fatal errors ----- [god@heaven.org] (reason: 550 5.1.1 [god@heaven.org]... User unknown) ] [ Maður labbar inná bar Sest niður og skálar Hlustar á tónlist og skálar meira Ljóshærð kona situr við hliðina honum og felur sig bakvið meikið Stóru lafandi eyrnalokkarnir hennar Festast í jakkanum hjá honum þau flissa það er sumt sem mönnum er ekki ætlað að fást við ] [ [Vers] Ég veit að fyrir löngu ég sömu mistök framdi, Þá varst‘ei hér, varst ei heima, þú varst í öðru landi, Ég settist niður, bugaður og þetta lag ég samdi, Líður illa, vantar allt því hjarta mitt þú kramdir. Engar afsakanir, ég er hér með að banna, Ást þína á mér þú hálf náðir að afsanna, Þetta þyrnibeð, geðvonsku þú náðir sjálf að hanna, Sagðir margt, sumt var satt en annað þarf að kanna. Mér finnst ég ekki nóg, þú þurfir eitthvað meira, Það var nú reyndar gott, frá þér ég fékk um þetta að heyra, Finnst ég einskis nýtur en ég get varla gefið þér fleira, Finnst ég ætti ofan af bjargi eða kletti ég ætti að keyra. [Chorus] Í þessu sem við eigum, fann ég litla sprungu, Ég‘r ekki nóg, fyrir neinn, fyrir þig og þína tungu, Langar að gráta, berja allt, öskra neðan úr mínum lungum, Þá myndi mér bara líð‘eins og fífl, líða eins og gungu. [Vers] Fyrr um kvöldið, sentirðu að allt yrði í lagi, „ég geri enga vitleysu, ekkert slíkt, ekkert af því tagi.“ Falleg ert og drukkin varst, þú ert góð í þínu fagi, Ég vild‘ég gæti gleymt þessu og ekki vonbrigði ég sæi. Ef þú vilt og ef þig langar að enda þetta nú, Þá vil ég fá að segja þér að það ert þó aðeins þú, Sem gafst mér gleði, gafst mér sorg, gafst mér ávallt trú, Ástæðu til að lifa, hvern dag fyrir sig, ástæðan varst þú. [Chorus] En Í þessu sem við eigum, fann ég litla sprungu, Ég‘r ekki nóg, fyrir neinn, fyrir þig og þína tungu, Langar að gráta, berja allt, öskra neðan úr mínum lungum, Þá myndi mér bara líð‘eins og fífl, líða eins og gungu. [Vers] Alltaf hef ég verið afar hræddur um að missa þig, Aldrei verið ánægður, ánægður með sjálfann mig, Sagt hefur verið: „Þó sumum líkar ei við sjálfa sig, Þá áttu alltaf einhvern, allt mynd‘hann gera fyrir þig.“ Þessi orð ég gleypi, og geymi þau með sjálfum mér, Hjartað mitt fyrir löngu þú tókst, heldur því ennþá hjá þér, Hverjum degi vakna ég og hugurinn á fullt þá fer, Hugs‘um þig og hvað þú gerðir, um drykkju ég kenni, þannig þetta ver. [Chorus] Í þessu sem við eigum, fann ég litla sprungu, Ég‘r ekki nóg, fyrir neinn, fyrir þig og þína tungu, Langar að gráta, berja allt, öskra neðan úr mínum lungum, Þá myndi mér bara líð‘eins og fífl, líða eins og gungu. ] [ Hermenn á fætur hafið er stríð Hermenn til vopna vinna er vitið Hermenn til orrustu orðin eru átök Hermenn til sigurs sagan hún lifir ] [ Drengur dregur dólg dreyri dramb dutlungafulls djöfuls dimmur dagur dvín dúnmjúkur dauðinn drýpur dreyri dísin dæmd drós drengur dokar draumur deyr. ] [ Breytingaskeið kvenna mætti líka nefna seinna kynþroskaskeið. ] [ það var heitt þennan dag kannski fullheitt ] [ \"draumur til sölu, draumur til sölu\" einfætt fórnarlamb stríðs styður sig við hækjurnar eitt á torginu með draum til sölu \"draumur til sölu, draumur til sölu\" ] [ ég vildi að ég væri fluga á vegg því þá þyrfti ég ekki alltaf að vaska upp ] [ í leit að bráð í leit að fróun skimaði þessi ógeðfelldi maður í kringum sig hægt og rólega murkaði hann lífið úr vændiskonunum og hélt svo áfram ferðinni eins og ekkert hefði í skorist ] [ ég brosti eins fast og ég gat horfði saklausum augum á þig samt vissirðu að það var ég sem leysti vindinn ] [ Í gegn um þunnt gler gægist ljósið í auga hornsílis, sem skalf í hrímuðum polli á bakka Ölfusár við brú ] [ You\'ve all heard about the rose. Well now she\'s all forgotten and gone with the wind, love comes and goes, just like summer and winter. every year there is one love, a girl or boy, you think you love, think you belong with, Most of the time, they\'re nothing but a quick crush, soon forgotten like a simple brush on you\'re cheek, love comes for everyone, even the geek. You\'ve just got to wait, soon enough you\'ll find your one, who you will cherish and love forever, you\'ll have her picture on you wherever you go, and they will love you as much back even when you die, you will allways belong in they\'re hearts. Everyone will find true love in life, even the geek you thought was lame, soon he\'ll have all the chicks and all the fame, just because he used time to learn and mature. Now he\'s bathing in his hot tub, while you mop floors in his basement, you better treat everyone right cause you might just be working for the nerd in couple of years. ] [ Það má engin snerta þig nema sá þekkir þig Það má engin faðma þig nema sá sem elskar þig Það má engin kyssa þig nema sá sem virkilega elskar þig Já það er einmanalegt einmanalegt að vera til ef það er engin sem elskar þig Víngnir pÁ ] [ Ég sit ein í hálfrökkvuðu, lokuðu herberginu Ég mála mála rautt og gult og blátt og svart og tjái tilfinningar mínar á blaðinu Listaverkið getur þú svo keypt keypt tilfinningar mínar á blaði ] [ Tvær stelpur að róla hvor annarri í einhverri járngrind Önnur segir kannski að Guð sé að hlæja að okkur núna Nei segir hin Jú hann er svona stór segir sú fyrri og gerir stóran hring með annarri hendinni ] [ Hann fæddist ólst upp í skóla skrapp í gönguferð um lífið og kom til baka sem kennari Hann fór að kenna í skóla sem síðan var breytt breytt í elliheimili og hann kemst ekki út ] [ Hann sat og drakk drakk brennivín brennivín til að drekkja sorgunum í En hann grét svo mikið ofan í glasið að það fylltist jafnharðan í glasið fyrir hvern sopa sem hann tók þannig að hann gat aldrei hætt að drekka Dæmdur til að drekka endalaust brennivín og tár sorga sinna ] [ Mig dreymdi þig í nótt Mig dreymdi að þú kæmir og talaðir við mig Lengi Og þegar þú varst að fara spurðir þú Viltu koma með Já sagði ég og við fórum saman En þegar ég vaknaði með bros á vör vissi ég að þú værir ennþá bara strákurinn hinum megin við vegginn ] [ Í útvarpinu alltaf lög um ástina alltaf Og ég hugsa um þig keyri heim og himininn svo fallegur Hugsa um þig svo fallegur ] [ Ó þú forna fósturland Hvað er um þig komið? Er samfélagið komið í strand? Þú hefur sorgina lopið Hvar eru hinar fornu hetjur? Gísli Súrsson horfinn er Í dag eru menn aðeins tetur Frægðarljóminn farinn er Hugrekki manna er að minnka Alveg eins og jöklarnir Í dag er bara borðuð skinka Hvar eru samfélags sökklarnir? Hvar eru hinar íslensku hænur? Litskrúðugar og fjörugar Í dag er verið að virkja sprænur Hvað er eiginlega í gangi þar? Burt með tækni og völd Komum inn með súrmat Ísland til baka á forna öld Hin nýja er algjört frat Upphituð hús eru ofmetin Sjónvörpin tímanum stela Í dag er við ríki letin Hvar erum við eldmóðinn að fela? Til forna var ekkert í basli Einungis hetjur byggðu þetta land Nú er hinsvegar allt í drasli Ó, hvar er mitt forna fósturland? ] [ Lífið hjá honum var stutt möguleikinn á lífi var enginn af James Bond var honum rutt enda studdi hann vondan drenginn ] [ Ég velti fyrir mér hvernig líf þitt á eftir að verða Muntu ferðast út um allan heim eins og Sen konan Muntu enda á Ítalíu með mann sem elskar þig og kyssir alla þína leyndustu staði um leið og þið hallið ykkur upp að skakka turninum Muntu enda í Lapplandi með mann sem elskar þig og heldur á þér hita um leið og þið kúrið saman í finnskum kulda Muntu enda í Ólafsfirði með mann sem elskar þig af því að þú ólst honum börnin fimm og fín og af því að þú ert þú ] [ Þú glóandi sólhærða barn mitt með ljómandi bros yfir rjómafyllt gin, augnráð þitt flæðir seytlandi yfir mig. Vetur er innra með mér en neistar úr þér loga - innan í mér og vetrarnótt verður sumarnótt. Höfuð mitt vorar, blóm kvikna, augu sindra. Brumum, vöknum! Ég vil finna heitann andvarann sem þú ert. ] [ í stóru hvítu húsi í höfuðborg frelsis og tækifæra stendur kúreki vestursins við klósettvaskinn og skolar af sér saklaust blóð, með nýju samviskusápunni úr Wal-mart raulandi bandaríska þjóðsönginn ] [ Sólin rís og sest, hverjum degi á. Við sjáum það flest, en það táknar eitt sem allir vilja fá. Sólin falleg er, líkt og þú, og á hverjum degi hún fer, líkt og þú. Sólin svo bjart skín, eins og þú skín á mig. Ef þú værir bara mín, ég myndi ætið elska þig. ] [ Súbarúinn silvraður með spojler og naktri konu hangandi neðan úr baksýnisspeglinum vel lyktandi Lostinn líður með reyknum sem rýkur upp úr heitum, sprungnum mótornum Auga springur, varir klofna brjóstkassar kremjast, steikjast eins og pönnukökur í hitanum; vininni í kalda kuldanum Ætli hafi ekki bara verið slett bleikiefni yfir eldrauðu mjallhvítarvarirnar? Æskudraumurinn fór fyrir bí með bílnum: Hræinu sem brætt var niður Ég gæti allt eins setið á honum núna: Fætur stólsins mættu vel vera niðurbrætt bílhræ ] [ Vængbrotinn liggur hann þarna, fuglinn, aðeins svartur og hvítur. Lítur ávallt upp til stjarna, en aldrei gamans hann nýtur. Móðir hans dáin og farin, faðir hans flúði í gær. Vangi hans er blár og marinn, hugsar að engan séns hann fær. Síðustu stundirnar líða hratt, liggur hann, skakkur og einn. Hugsar hann samt, þótt að ég datt, í himnaríki verð ég beinn. ] [ Ákvörðunin ein er erfið sú, um brautarval mitt þau spurðu. \"Á hvora brautina ætlar þú?\" ég leit á þau með furðu. Stærðfræðin er meira púl, 103 er á nátt. Vissulega fyndist mér það meira kúl, að útskrifast samt með sátt. Jarðfræðin er hinsvegar ekkert mál, í gegnum hana ég kemst. Samt er stærðfræðin algert hugarbál, ég þarf bara að sitja fremst. Íslenskan er að reynast mér góð, sögurnar ég næ að skilja. \"Í Agli Skalla var eldheitt blóð\" og fleira ég þarf að þylja. Þýskan mun ávallt vera fyrir mig hörð, jafnvel þótt ég reyni. Út af henni þarf ég kannski að hefja störf, sem lögga, þar umferð ég beini. Danskan hefur fylgt mér þau ófá ár, hef fengið af henni nóg. Sá lærdómur mun ei færa mér fjár, en muna ég samt skrifa í logbog. Enskuna finnst mér gaman að læra, ég þegar fínn er þar. Kennarinn, írskuna hefur fram að færa, því er fínt mitt hugarfar. Lífsleikni hinsvegar er biti af böku, í því fagi þarf lítið að gera. En þegar hún talar fara allir í köku, í hláturskrampa maður þarf að vera. Skólinn sjálfur er afar góður, MA sjálfur ég kaus. Nú enda ég þetta áður en þú verður óður, því núna lærdómurinn yfir mig gaus. ] [ Ég trúði að ég yrði alltaf ein, þar til ég kynntist þér. Þó að ég hafi verið soldið sein, að sjá hvað þú vildir mér. Ég trúði ekki á ást, en nú elska ég þig. Skildi ekki hvað þú sást, þegar þú horfðir á mig. Ég trúði á einnar nætur gaman, eftir að hafa drukkið annað en kaffi. En núna erum við saman, og ég ekki lengur í straffi. Vil vera með þér öll kvöld, nálægt þér verð ég soldið hrærð. Gæti verið hjá þér fram á næstu öld, vona bara að ég verði ekki særð. ] [ Viðlag. ] [ Þú ætlaðir að hringja, en ég heyri ekki í símanum klingja. Ertu kannski eins og hinir, villt bara að við séum vinir? Ég get ekki hætt að hugsa um þig, þú segist elska mig. Ertu að ljúga, á ég þér að trúa? ] [ Þú segist elska mig. Þú segir að ég sé sún eina. Þú segist allataf vilja vera hjá mér. Þú segir að ég sé draumadísin þín. Þú segir að ég sé fallegust og flottust. Þú segist ætla að vera mér allt. Já þú segir svo margt! ] [ Ég fann svo til en þú tókst frá mér alla kvöl án þín ég ekkert skil er óvön að lífið sé ekki böl ég trúi því sem þú segir mér á ég að gera það eða er ég eins og kona sem ekkert sér segðu mér hvað á ég að gera? hvað? ] [ Rosabaugurinn leitandi, logn skyggir lél. Einblýnandi máni, áhorfandi, yljandi ranghvolfun hugsuðar. ] [ Allt bölið er farið, þú bjargaðir mér. Nú er líf mitt að nýju hafið, og það er með þér. ] [ Þá daga sem ég er við það að falla við og brotna, er hræddur opinn og varnarlaus þarf hulu þarf virki einhvern til að hlaupa í skarðið til að hjálpa, skerma mig af. Lífið er mér ofviða með ærandi hljóm sinn kalt og ég þjáist, þá er ég heyri þig hlæja verður allt kyrrt og skjólsælt, hlýtt þær sekúndur ] [ Yndið mitt mér langt er frá um ókunnar slóðir ég sveima Vildi ég væri henni hjá á grundunum okkar heima ] [ Heimsendirinn sem þú pantaðir, manstu þegar þú talaðir á ráðstefnunni í Prag í maí, hann er kominn. ] [ Mig langar að vera útigangskona á íslenskri heiði heilt sumar. Mig langar að selja myndir á lestarstöð til að eiga fyrir næsta miða. Ég vil vera náttúran, vera menningin. Ég vil bara vera og týnast svo eins og allir hinir. Stjörnuhrap á himni eilífðarinnar. ] [ Ég ligg andvaka í dimma herberginu þungar hugsanir læðast að mér og mér er ekki rótt þú þrengir þér alltaf inn í hugann minn og gerir mér ókleift að hugsa um nokkuð annað Í örmum þínum er ég örugg örugg frá öllu því svarta en þú ert aðeins í draumum mínum og því ekki veruleiki Hér ligg ég enn, reyni að finna ró innra með mér ímynda mér að ég sé í örmum þínum þú haldir mér og hvíslir að mér huggunarorðum segir að ég sé örugg hjá þér En þú ert ekki hjá mér aðeins í draumum mínum og ég er ekki örugg ég er ein án þín Rannveig Iðunn 23. nóv 2007 ] [ Maður rökræðir ekki við mann undir áhrifum Wongs ] [ Kviðmávarnir kallast þeir, ef kvennmann einann nota. Sjálfsagt þarna síðar meir, sinn hvorn annan rota. Veturnátta vinda sól, virðist halda á málum. Frumlegheita frama tól, fengur góðum sálum. Vissulega virðist mér, vænlegt fram að taka, Að frísklega þú fagnr hér fangbrögðum frá maka. ] [ Þú og ég vorum teymi. Við sórum og sögðum að við skyldum alltaf, ávallt, vera bestu vinkonur. Að eilífu amen. Silkiband á milli okkar táknaði vináttu mína og þína. Fallegt silki úr skíngráum litum. Saman prjónuðum við fallegar minningar og geymdum dýrmæt leyndarmál. Æskuvináttan. Árin liðu allt virtist eins en einn daginn slitnaði bandið. Silkiband er fallegt en viðkvæmt við viðkomu. ] [ Það er ein stelpa. Hún á fullt af fallegum hlutum. Hún á fallegt líf. Annars þekki ég hana ekkert það vel. Það er ein stúlka. Hún á fallega grímu. En hún á ekkert að innan. ] [ já það var hún í upphafi sem sjóinn sauð þar sem tvær sálir suðu en valdi bara aðra Já það var hún í upphafi sem sálinna aðra valdi til suðu í sjónum sú sál sauð uppúr og enn bíð ég eftir heitri suðunni. ] [ Ég sit ein í myrkrinu og hugsanirnar reyna að drekkja mér Hvernig getur ein, lítil stelpa tekist á við þann sársauka sem þú hefur skapað? Þú fórst, yfirgafst mig, án þess að kveðja. Svo komstu á ný nær dauða en lífi, lætur eins og ekkert hafi í skorist. Hvernig á ég, bara lítil aum stelpa, að lyfta þér upp í ljósið svo þú getur læknast? Hvernig á ég, bara lítil aum stelpa, að bera þunga heimsins á öxlum mér? Hvernig á ég, bara lítil aum stelpa, að geta gleymt öllum þeim vonbringðum sem þú ollir mér og öðrum? Ég get það ekki og þú veist það. ] [ Ein og ný á nýjum stað, ég þekki engan hér. Hugsa gömlu daganna, hve líf mitt erfitt orðið er, ég man eftir þér, þú skín svo skært sem sólin er, hvað ég sakna þín, faðir minn. Þú hoppar inn og út, úr og inn í líf mitt. Veistu hvernig það er? Svo mikil sorg er það, að ég sé þig aldrei meir, faðir minn. Komdu heim, heim til mín. Þú fórst burt en kvaddir ei. Ég skal þér fyrirgefa komdu heim, faðir minn. ] [ Að sjá hvernig augum þín ljóma líkt og demantar. Að heyra hvernig rödd þín mjúk hljómar eins og silki. Að lykta hvernig ilmur þinn fylgir þér við hvert fótmál. Að finna hvernig ást þín hlýjar færir yl í kulnuð hjörtu. Að tjá hvernig ást þín yfirtekur hjarta mitt og kremur það til bana. Þannig ert þú. ] [ Spyrnir fótum, höndum og köttum. ] [ Jóhanna Katrín kornung mey komin um fertugt er hún ei sautján ára hún aðeins er eins og hún líka ber með sér ] [ Ég skemmti mér skríðandi í skugganum til að hafa betri yfirsýn. Skröltormarnir sem ég hitti á leiðinni eru allir málhaltir. Ég áveð að vera nakin til að skera mig ekki úr -ákveð að öskra svo enginn heyri í mér. Ég drekk drykkinn í einum teig til að verða ekki full. Horfi í augun á öllum sem ég mæti svo að enginn elti mig. ] [ Dillimann og Dúsa skjótast á milli húsa eru að leita lúsa á honum feita Fúsa ] [ Mönnum lendir saman en svo verða þeir vinir. ] [ Eitt sinn var þessi kona barn. Hamingjusamt barn, með stór sakleysisleg augu, hreint hjarta og fallegt bros. Hún hló og lék sér. Hún heyrði að Öskubuska hafi farið á ballið, hitt prinsinn og þau hafi lifað hamingjusömu lífi upp frá því. Köttur úti í mýri setti upp á sig stýri. Innst inni er þessi kona ennþá barn. Hrætt barn, með skömmustuleg augu, stungið hjarta og ekkert bros. Hún grætur og er hætt að leika sér. Hún komst að því að Öskubuska hafi aldrei komist á ballið, hún hitti aldrei prinsinn, hún hitti nauðgara og dó í öskunni -alein. Úti er ævintýri. ] [ Buguð af krafti fjallsins hún fetar einstigið oní fjöruna og horfir í sjóinn meðan fjallið flýgur yfir ] [ Einn líkami sem skelfur, þráir hjálp, umhyggju. Haltu mér fast, aldrei sleppa, annars kemur skjálftinn aftur. ] [ Hvað ert þú að gera hér? Átt þú ekki að vera á AA? Mér er nú svo sem andskotanum sama. Þú og þitt kæruleysi kemur mér ekki við. Láttu pabba bara vita að þú komir ekki heim í kvöld. ] [ Djúpur dalur, táraflóð sem nær að ökklum, svo sölt og bitur. Dimmur dalur, dregið fyrir sólu, af hrafnsins svörtu vængjum. Ókindin í dalnum, dregur burt kraftinn. Drekkir mér í tárum. ] [ Í myrkrinu leynist margt sem maður ekki vill sjá, þess vegna er myrkrið svo maður sjái ekki það sem maður óttast. Af þessum ástæðum óttast margir myrkrið því þar leynist það sem maður ekki vill sjá samt er ekkert að óttast það er alltaf einhver sem passar upp á þig. ] [ Ef maður er ástfangin bómstrar hjartað og allt er gott, svo slitnar sambandið og hjartað brestur. Maður veltir fyrir sér hvort það væri ekki betra að hafa bara ekkert hjarta þá værik enginn sársauki enginn beiskleiki enginn endir en þá væri heldur ekki ástin ástin sem yfirstígur sársaukann. Hvað er betra en að vera ástfangin? Ætli það sé ekki bara best að hafa sitt hjarta brotið eða heilt? ] [ Ef mér dettur þetta í hug þá er það ósanngjarnt. Ef þú tekur eftir því þá ertu augljóslega að svindla. Ef við rekumst á hvort annað verðum við vinir. Framtíð okkar leiðir okkur áfram uns við hverfum. ] [ Ég er ekkert hugrökk núna missti af áfangastað mínum þorði ekki að fara út loks þegar lestin stoppaði Það er bannað að fara til baka og ég er ekki viss um að ég þori að fara fram á við Ég missti af þér og þú kemur aldrei aftur ] [ Þú komst til mín Þá allt var hljótt lagðist hjá mér kysstir mig skjótt Komdu, komdu lágt þú sagðir Hvíslandi í eyra mitt Horfðir á mig biðjandi Svo þú þagðir Mjúkar varir þínar snerti hljóðin okkar komu lágt fingur mínir titrandi í kappi við hraðan andardrátt varir mínar takmark fundu urðu saman að einni fléttu ó, hjartað mitt mig mundu þú ert mín með réttu Ástríðurnar um okkur fóru Hljóðin okkar komu hátt Í ástarboga við spenntumst Örvar ástar skutust kátt við sameinuðumst urðum eitt við örmögnuðumst urðum þreytt Hvíldum í hvors annars örmum Tárin blikuðu á votum hvörmum Eins og veifað væri hendi Var stundin liðin Þú varst farin Og aftur kom biðin Að hitta þig Að fá þig leitt Að fá þig kysst Og að aftur yrðum við eitt ] [ Allir yrðu hissa. Allir feldu dóm, ef Páfinn myndi pissa á Péturstorg í Róm og slúðurdálkar slagblaðanna slettu í góm. Enginn yrði hissa. Ekkert kæmi í blað. Fáir myndu flissa og fyndu ekkert að, þótt ég þyrði að pissa þarna á sama stað. ] [ Fermingarveisla og fólkið fær sér að éta, allir í magann troða og troða og tyggja eins og þeir geta. Það er mikið um dýrðir, en mest þó um mömmur og pabba og alls konar ókunnugt skyldfólk að rabba. Fermingarbarnið í forstofunni með framréttar hendur dvelur. Tekur á móti böglum, tekur á móti seðlum og telur og telur og telur. Gleymist þeim gestum er girnast átveislu þessa. Að drottni til dýrðar fyrir dulitlri stundu var messa, haldin í heilagri kirkju. ] [ Heyr, heyr, helvíti er það skrítið þegar einhver deyr, hve peinið er nú góður inn við beinið. Allir verða svo innilega ógnar harmi slegnir, en eru þeir ekki, en eru þeir ekki en eru þeir ekki bara svona fengir. ] [ Á föstudaginn verður gaman en þá er MA árshátíð allir skemmta sér saman ég og stelpurnar með hárin síð Lambakrullurnar eru mættar aftur eftir langt hlé en Bylon voru sko hættar og klæðst verður strengnum gé Já á árshátíð er glens gömlu dansarnir yfir duna ekkert verður hjá mér kossaflens kvöldið ég mun þó muna Alkóhól er djöfull og honum er ekki boðið Anton er gjöfull bakið á Danna er loðið ] [ Sögu vil ég segja stutta sem fjallar um feitan mann og dverg á stærð við putta hana ég að utan kann Dvergurinn er svo lítill að á stækkunargleri er þörf já, hann Dabbi er trítill að hann leikur í \"smörf\" Vinur hans er hinsvegar feitur borðar pezzur ræktinni í nafnið er Rúnar en ekki Teitur líf hans er farið fyrir bý Vinir mínir furðulegir eru nema einn hinn góði Gústi með sinni veru stöðvar mig sem sóði ] [ Að særast sé fylgifiskur þess að elska ] [ Eftir margra ára ánauð hef ég loksins öðlast frelsi. Ekki meiri sársauki, ekki meiri verkir, ekki meiri vandræðalegheit. Ekki meiri fordómar. Ég er frjáls. Ég losnaði í dag. Í dag er ég frjáls. Ég ber þó enn viss ummerki um dvöl mína í.... helvíti. Í dag mun ég brosa. Og um alla framtíð! Mun ég brosa! Brosa mínu breiðasta. Gleður mig að tilkynna ykkur munnlegt frelsi mitt. ] [ Þokukennd móða, skyggður veruleiki, vitund að bresta? Brotið bros, á stjörfu andliti, sekkur dýpra í óhamingju. Vesælt hjarta, hrynjandi veröld, réttlætiskennd glötuð, blyggðunarkennd brotin, sálarmorð sofandi, dofin, dáin? ] [ Snjóhvítt fiskabúr með eldrauðu vatni brennandi svartir fiskar svamla þar um loftbólurnar eru úr gulli og þeir éta bara sólber, helst gömul og gerjuð. Handsnúningur af brennandi hafragrauti hafði svo hátt að hann vakti krákurnar í fegurðarblundinum ...svo komu hænsnin sem höfðu drukkið of mikið tequila -þannig það hefði ekki skipt neinu máli. Hamagangurinn frá klónum undan hænsnunum klóraði í gegnum gólfið og við lentum í villtu gelgjupartýí og leið illa fyrir að vera ekki í magabol. Svo átu fiskarnir hausinn af hænsnunum og ropuðu brennisteini, gelgjurnar byrjuðu að öskra á meðan fiskarnir sprikluðu prumpandi á gólfinu. ] [ Ég vil ráðskast með þig, ég, ég, ég er allt sem ég heyri þig segja. Ég, ég, ég, og ekkert annað. Veistu, ég sakna þín samt en það er ekki mitt að breyta þér. Bölvaðu lífinu en elskaðu það samt. Við þig er allt svo fullkomið, ekki satt? ] [ Ég sakna þín mjólkurvara ég skil ei hvers vegna þú þurftir að fara Þú varst svo ljúf í munni mínum, leyfðir mér að dreypa af töfrum þínum En þú varst flagð undir fögru skinni ég naut þín, en þú níddist á heilsu minni Í ár og mánuði og daga ég engdist um með krampa í maga fleiðraða húð og flakandi sár þungan anda, stíflað nef, sölt tár Þú gerðir allt að veislukosti Lífið var betra með bræddum osti ] [ Þótt ég villtist út á enda veraldar og yrði að dúsa þar til dauðadags, þá skiptir það ekki máli, þrátt fyrir allt, því ég hef fengið, að elska þig. ] [ Litla stúlkan stendur, hárið berst með vindinum, laufin fjúka. Regnskýið fyrir ofan hana fellir tár, brotið hjarta, kramin sál. ] [ Tárin falla, rifin fötin, allt gegn vilja, meyjan horfin. Hjartað kramið, brotin sálin. ] [ Vampíra í stífpressuðum jakkafötum með rautt bindi spennir upp svarta regnhlíf, gægist eylítið undan henni, rigningin fellur á fölt andlit hennar. Rokið feykir henni í Blóðbankann, með brúna leðurtösku undir arminum. ] [ Fjarlægasta stjarnan í geimnum er langt í burtu. Enginn getur séð hana. Enginn getur sagt neitt um hana. Kannski líkar henni einsemdin? Eða kannski vill hún láta taka eftir sér? Kannski er hún týnd? Fjarlægasta stjarnan í geimnum er langt í burtu. Og vonandi kemur einhver auga á hana, svona rétt áður en hún hrapar. ] [ Það verður vitaskuld að spyrja að því, hugsaði pilturinn, bugaður. Horfði á snakkið sem heilt partí umkringdi óskipulega. Hann fékk sér nokkur vel valin snökk. Og svo heila lúku. Drepa tímann. Snakkaði því næst við næst mann. Fresta, hugsaði pilturinn. ] [ Þessi nótt er svo fögur. Útskornu punktarnir á himnum okkur á stara. Allt er svo þögult. Tunglskinið lýsir upp fyrir mig þig. Úr augunum lest þú mig. Ég vil ekki taka í hönd þína, því ég er svo hrædd við að þurfa að sleppa. Andardráttur þinn fellur blíðlega á mig. Þú tekur í hönd mína, færð samþykki mitt að hreppa. Svo fell ég inn í ljúfan draum sem þú mig í gegnum leiðir. Ég veit að þetta er rangt en hverja áhyggju mína þú smátt og smátt deyðir. Stingandi frostrósirnar bíða uns til ég vakna. Fallegar þær stinga í mín augu og minna mig á raunveruleikann og synd mína. Þín ég á eftir að sakna. Stjörf ég stend og tár fellur. Þú lítur blíðlega á mig og rósirnar kaldar stara. Tárið niður skellur. Núna þarf ég að fara. Sárasta kveðja mun þessi vera. Vot augun mín þú lest. Ég hef áttað mig á að þetta má ég aldrei aftur gera. Kveðjur okkar hafa margar orðið en mun þessi særa mest. Orð okkar og fundi í hjarta mínu ég mun læsa og lyklinum henda. Þér ég mun aldrei gleyma. Engan vil ég nema þig lykilinn aftur senda. Ég get þó alltaf leyft mér að dreyma. ] [ Tíminn leið svo hægt og hjartað ósköp ósköp þægt lítill, örsmár, undarlegur lækur (Fyrsta daginn, födselsdaginn) Síðan leið hann hraðar Heilinn þaut án stefnu út í jaðar, ljúfsár, feimin, fagurrömmuð lindá Tíminn varð svo allt of rýr allt í einu í fimmta gír drullug, straumhörð, steinstandandi dragá (Árin sem samanbrotin hvíla inní sarpi) Tíminn æðir (hraðar en þegar ég sat í rússíbana og hélt ég elskaði einhvern sem núna er horfinn) hjartanu blæðir jökulköld, hvít og kulin jökulá ] [ Ég versus Ég etja að kappi í æsispennandi viðureign í leik Sjálfsins. Mótrök náðu yfirhöndinni í fyrri hálfleik við mikil fagnaðarlæti áhorfenda. Meðrök náðu að jafna á síðustu mínutu seinni hálfleiks og áhorfendur æltuðu að tapa sér úr gleði Dómarinn stóð í miðjunni með flautuna í kjaftinum í röndóttum sokkum. Hægri eða vinstri? Villa eða leikarskapur? Hann gafst upp..... hann fór heim og drukknaði í sjálfum sér. ] [ Og þar sem ég keyrði niður Ártúnsbrekkuna og allt var grátt og litlaust renndi ég augunum yfir lífið ýtti á rec og tók upp það sem fyrir augu bar svo photoshoppaði ég það í hjarta mínu á staðnum og það varð allt í regnbogans litum Takk fyrir að gefa mér þetta forrit. ihs ] [ Snjókoman, þetta veður, minnir alltaf á fyrstu ferðina, byrjunina, upphafið. Þetta var samt varla byrjun, þetta endaði of snemma til þess að vera byrjun. Hlýjan í litla, kalda húsinu vakti upp áður óþekktar tilfinningar. Heitt súkkulaði og rannsóknir í rökkrinu, uppgötvanir og feimnislegir kossar. Lítið hús, umlukt þéttu myrkri og hríðarbyl, sem innihélt tvær fíngerðar sálir sem vissu varla í hvorn fótinn átti að stíga. Hríðin minnir á faldar tilfinningar sem reyna og reyna og reyna alltaf þegar snjóar. ] [ þitt bros mitt hjarta bræðir þinn hlátur kætir lund þinn grátur er sem himni blæði er ég hugga þig í næði hjarta þitt svo hreint segir allt út beint þú segir: ég elska þig pabbi ég segi: ég elska þig líka hver þarf aðra auðlegð þegar maður hefur auðlegð slíka? ] [ Stafrænu myndirnar í grasinu skiptu um form þegar mismunandi fætur gengu. Ekkert venjulegt hey sem það gaf í kýr sem mjólkuðu betur og lengur. Skiluðuðu kjöti líkt og aldar hefðu verið á bjór og nuddi. Samt var eftirbragðið pínkulítið gervilegt. ] [ Trúðar á Austurvelli og anarkisti með hanakamb, sem hrópar innantóm slagorð í skugga fellur málefnaleg barátta, dregst með niður í svaðið byltingin fremur sjálfsmorð ] [ „Það er vitlaust veður“ segi ég vitandi að þessi orð koma aldrei til með að létta á stemningunni. „Já“ segir hún bara og heldur áfram að vinda á sér hendurnar. ] [ Litefnahrörnun sjónu sjónudepilsrýrnun Gulur gáll gulur gáll okkurgulur gállinn, gefðu mér að éta með þér gerðu bara það. Kasta þú til mín smáflís af kjötflykkinu sem þú gengur með í rassvasanum. Þegar þú ert búinn að því komdu þá í bað. Ég skal drekkja þér í eigin drullu tíu fingur upp til guðs Svo tek ég inn eitur til að vera hjá þér Rotnum saman í helvíti við rómantíska loga á meðan kölski þerrar klökkvann af hvörmum sínum. Öndum að okkur brennisteini, drekkum brennivín, bjóðum Adolf í Abendbrot. Þú ert það eina í lífi mínu sem er grátt ] [ Ef miskunnsemi og mannúð ein, mættu í heimi ráða. Yrði reynslan engin nein, unnið fátt til dáða. Ljós skapar skugga, skugginn ljós. Skapar hinn illa sá góði. Allt rennur frá einum ós item Sæmundur fróði. Er því von að villumst öll, í veraldarstríðunum hörðum. Vel má þó finna í vetrarins mjöll, að víðar er Guð en í Görðum. ] [ Við Bernhöftsbakarí lagði rússajeppi sem í rauninni var reinsróver og út úr honum sté stórbóndi eða öllu heldur auðmaður Ég hvolfdi kaffinu yfir kverkarnar og tók bita af kleinunni. Af hverju sit ég svona ein og sýp úr nautnabankanum niður í botn? Auðmaðurinn borgaði brauðið og bakkelsið, brosti til mín blíðlega meðan hann beið eftir nótu Mér fannst ég ætti að falla á knén, bursta skóna hans með svertu, setja á mig svuntu og sörvera te. Maur sem minnkaði, varð að veggjatítlu (Títlan stækkaði fljótt aftur og fannst þá aftur það sama og áður: Það er svo trist að sjá bara út um framrúðuna á 4runnernum) ] [ Það er ekki góðs viti þegar ég skrifa góð ljóð Ég skrifa svo vel þegar mér líður illa ] [ Allt til búið ] [ Þegar mér stendur, stendur tíminn kyrr. Mér stóð svo oft hér áður fyrr. ] [ Hvernig finnst þér þetta helvíti? ...Það að ísbirnir séu byrjaðir að steikja hamborgara rosalega abrigðilegt eitthvað finnst þér það ekki? Já gervilegt segðu, ég gekk nú á stafrænu grasi um daginn. Sérstakt. Það breytti svo myndum þegar maður gekk á því. Já ísbirnir að steikja hamborgara... maður hefði nú haldið að þeir þyldu ekki hitann! ] [ Ástin þín er það sem ég vil, traust þitt er það sem ég óska, koss þinn er það sem ég lifi fyrir. Þú ert það sem ég elska. Þegar ég sá þig fyrst augun mín horfðu, varirnar mínar brostu, eyrun mín hlustuðu. Þú ert það sem ég elska. Þótt samband okkar er stutt er lifið langt. Hamingjan okkar saman muna alltaf vera og ást mín mun alltaf lifa. ] [ Hvernig mér líður er hvergi\' hægt að skýra með orðum Hvar ég er staddur ég veit ei og ekkert ég skil Þótt heimur minn sundrist og hugur minn fari úr skorðum Hún er sú eina sem uppfyllir allt sem ég vil Bros hennar geislar af birtu og fegurð og veldur Í brjósti mér tilfinningum sem ég aldrei hef þekkt Ég get hvorki falið né geymt þær og ekki gleymt heldur Ég get ekki nokkurn og allra síst sjálfan mig blekkt Engum tókst hana að eignast en margir það reyndu Auðfengin reynist seint neinum svo mikið er víst En því sem í brjósti mér býr get ég ei haldið leyndu Svo bíða mun rólegur svo lengi sem henni líst Því hún er jafnfalleg og fegurstu stjörnurnar björtu Og fannhvítur snjór má sín lítils ef hún er þar nær Veröld mín ilmar af alsæld er slá okkar hjörtu Ég elska\' hana helmingi meira í dag en í gær ] [ Ég stend fyrir framan þig Þú sérð mig ekki Ég horfi í augun á þér Þú horfir í gegnum mín Tárin mín falla á öxl þína Þú finnur ekki fyrir þeim Ég kalla til þín Þú heyrir ekki í mér ] [ Hvernig getur þú skipt mig öllu og engu máli á sama tíma? Hvernig getur þú verið það eina sem ég vil og það eina sem ég vil ekki? Hvernig get ég elskað þig en samt hatað þig? Ég get ekki lifað án þín og ég get ekki lifað með þér Þú skiptir mig öllu og engu máli ] [ Bláu, stóru, fallegu augun þín. Augun sem ég bjóst við að sjá þegar ég horfði í augu barna minna Augun sem horfðu á mig með eintómri ást og virðingu Augun sem fylltust af tárum þegar ég fór ] [ Hvað er ást án þín? Hvað er ást ef ég elska þig ekki? Ef þú elskar mig ekki? Það er ekki til ást eins og okkar var Engin mun elska eins og við Okkar ást var ekki bara ást Hún var ástin sem ég hélt að væri ekki til ] [ Ég sá þig ekki dögum saman, en ég vissi að það væri stutt þar til ég sæi þig aftur Svo ég saknaði þín ekki Ég sá þig áðan, en ég sé þig kannski ekki aftur Nú sakna ég þín meira en ég hef nokkurn tíman gert! ] [ Hvert fórstu hamingja? Ég var svo viss um að ég hefði þig í hendi mér! En ég hélt þér of fast og þú rannst burt á milli fingra minna. Og eftir sit ég... með tóman lófann. ] [ Blessuð jólin börnum lýsa björt og skær um vetrarnótt Jólastjarnan veginn vísar verður brátt í hugum rótt. Hátt við syngjum sálm um jólin sefast hugur enn á ný Hrífumst öll um heimsins bólin hjartagæskan birtist hlý. Nú mun aftur birtast bráðum bjarmi ljóss á himni hátt Okkar ósk er öll við þráðum ekkert leika mun oss grátt. Líður mynd að ljúfum drengi er lagður var í jötu lágt Lifnar stundin logar lengi um líf með Kristi syngjum dátt. Kveðjum drunga og daufan huga dveljum lengi vinum hjá Æsku minnumst, ekkert bugar öll við gleðjumst jólum á. ] [ Steininn er grár Steinninn er leiður Þegar steinnin er leiður þá er hann grár Steinninn er blár Steininum er kalt Þegar steininum er kalt þá er hann blár Steinninn er grænn Steinninn er veikur Þegar er steinninn er veikur þá er hann grænn Steinninn er svartur Steinninn er þunglyndur Þegar steinninn er þunglyndur þá er hann svartur Steinninn er rauður Steinninn er reiður Þegar steinninn er reiður þá er hann rauður Steinninn er gulur Steinninn er glaður Þegar steinninn er glaður þá er hann gulur Steinninn er hvítur Steininum er flökurt Þegar steinninn er hvítur þá er honum flökurt Steinninn er fjólublár Steinninn er fínn Þegar steinninn er fínn þá er hann fjólublár Steinninn er gullitaður Steinninn er elskaður Þegar steinninn er elskaður þá er hann gullitaður Steinninn er silvurlitaður Steinninn er hataður Þegar steinninn er hataður þá er hann silvurlitaður Steinninn er appelsínugulur Steinninn er svangur Þegar steinnninn er svangur borðar hann þig Steinninn er bleikur Steinninn er manneskja Steinninn er alveg eins og ég og þú ] [ Hann var gott efni í óreglumann og átti í glímu við að koma lífi í lag. Mottóið var að geyma ei vínsopann, væri möguleiki að drekka hann í dag. ] [ Sú hefur margan varginn að velli lagt er vildi taka stórar sagnir heim og spilagenin slungin til afkomenda lagt en snilldartaktar bregðast ei hjá þeim. ] [ Finnbogi talar tungum og tekur í nefið af list. Dáður af dömunum ungum dansar hann rokk og tvist. ] [ Yngissveinn í auðnuleit oft má falsvon kenna, er fögur gerast fyrirheit í faðmi villtra kvenna. ] [ Svanhildur hlær öldungis ær, aldur sinn vel hún ber. Hún er oss félögum öllum kær, einkannlega þó mér. ] [ Geirlaug mín geimin tekur með geislandi kæti á brá. Gróði alltaf gleðina vekur, gremjan er þess sem að lá. ] [ Vilný er dýrindis dama og dugandi briddsinum í, svo fögur að fáum er sama, frjálsleg og undur hlý. ] [ Katla er ei kona með læti er kem ég og fæ mér sæti, kemur kaffisopinn, kætir dropinn, við lofum öll hennar ágæti. ] [ Anna Jenný er hér yndæl og flott, auðvelt er hana að plaga, því ekki virðist gera henni gott, að glápa á spikfeita maga. ] [ ég er sannfærður um að sannleikurinn hafi komið fram í svörum mínum ég vona að kennarinn sannfærist líka. ] [ Möndlubjarmin í brosinu þínu bræðir mig hægt Tónninn í röddinni titrar tár í augum glitrar hláturinn tónverk með gylltum nótum. Nætur af dansandi hlátri í fjarska. ] [ Hatrammar deilur helgihald ekki bæta því fátt er í raun rammara en forneskjan rammara en forneskjan ] [ Mig vantaði ekki sorgina einu sinni eða tvisvar var nóg en það var allt hégómafullt áður en ég vissi var ég dofin En eitthvað gerðist inn í mér þegar ég var með þér hjartað mitt bráðnar á jörðinni fann eitthvað satt allir i kringum, horfðu og töldu mig verða ruglaða En mér er sama hvað þau segja ég elska þig þau vita ekki sannleikann hjartað mitt blómstrar hvert skipti er ég sé þig Reyni að hlusta ekki en þau tala svo hátt þau reyna að láta mig efast en þau reyna að láta mig ekki falla. Ekkert er betra en að eyða tímanum með þér og öll þessi efasemd hverfur er þú heldur mér fast Hjartað mitt brotnar mig blæðir út um allt þau reyna að fylla mig af efa en þau vita ekki að ég elska þig ] [ Ég ætla að fá mér kærasta sem allra, allra fyrst og ekki verður vandi að finna ha-ann. Því vélmenni ég kaupi sem ég leik mér við af lyst og í leikhús bæði og bíó munum fa-ra. Svo duflum við og dönsum alveg fram á rauða nótt og dútlum smá við \'hitt\' af firna þrótti... En svo þegar hann er búinn, þá býtta ég honum út, því bara fjör er það að standa í svona stússi. ] [ Hrímþurs grár við heimskautsbaug heldur fast í öll sín völd. Halda spenntri hverri taug harðir vetur, sumur köld. Eldþurs löngum leggur á lítinn gróður þunga raun. Á hann fellur aska grá eftir fylgir kolsvart hraun. Ísland, þér er ósköp kalt. Utanlands er blærinn hlýr. Þar er ekki svona svalt sandbyljir og veðragnýr. Útlent gull í grænum skóg gildi eflaust hefur sitt. Aldrei breytist þetta þó: Þú ert eina landið mitt. ] [ Það er eitthvað við tilverunna það er eitthvað eins og vaxandi tré það er eitthvað sem vekur mig á morgnanna Það er eitthvað, sem sýnir sig en sést ekki það er eitthvað er blæs lífi í mig það er eitthvað eins og fiðrildi það er eitthvað við mig þetta eitthvað ert þú ] [ Sigga hefur gengið gæfuveg og glímt á lífsins þingum, einstök kona og yndisleg, ótal skreytt með hringum. Oft hún gerir grín við mig, getur þess, ég hafi léttst. Ég hefði viljað þekkja þig þegar þú varst og hést. Kæra kveðju og þakkargjörð, krota ég á blað til þín hér, hamingjan megi halda vörð og hanga í skottinu á þér. ] [ Það er um lífið sjálft að segja og sýnist ei gott um að þegja, að í föðmum munaðarmeyja, menn vilja helst lifa og deyja. ] [ Guðrún er sem glitrandi ljós, við götu þegar dagsbirtan hopar og það eru eins og draumar í dós, er drukknir eru með henni kaffisopar. ] [ Sigríði fríska sá ég hér, sú er ekki í geimið treg. Sótti kaffi og sat hjá mér, Sigga frænka er stórkostleg. ] [ Rennur tár í koddann minn í sinni þungur ekki Vildi ég hefði vanga þinn heitan sem ég þekki Gott að láta tárin renna í mjúka kotið hálsa þitt Í huga mínum hugsanir brenna þá þú huggar sinnið mitt ] [ Á meðan ég gubba gærkvöldinu í klósettið reynir nýr dagur að fá mig í leik, en hann veit ekki að á morgun fær hann sömu meðferð. ] [ Það gerist stundum að eyrun þín fara á undan í frímínútur. Það er allt í lagi. Það er verra þegar þau týnast úti á leikvelli. ] [ Hver er þessi djöfuls drungi er dregur úr mér allan mátt. Og hver er hinn þögli þungi er þráfallt knýr á dyrnar hátt. Ert það þú sem sorgir sefar en skilur eftir harmatár. Líkt og þegar högg og hnefar kaldir rífa blóðug sár. Margir þekkja þennan efa þú er stendur á sterkri grund mundu æ að Guð mun gefa gullið ykkur með milda lund. ] [ stjór snjókorn sem vagga hægt niður til jarðar englakór uppi í skýjunum sem syngur heims um ból eplakinnar, ljóslukt glampinn í augum þínum ] [ Sumir elta það, lifa eftir tálsýninni um það, hið fullkomna norm, en aðrir flýja það, hryllir við tilhugsuninni um að vera normal 6 milljarðar manna og engir tveir eins. Er þá virkilega eitthvert norm? Samt sem áður eyðir fólk ævinni í að elta það, flýja það án þess að fatta að það næsta sem það kemst því að vera normal og abnormal í senn, er bara og einungis það að vera hamingjusamur ] [ Að krækja í maka oft ei þykir grín og erfið reynist mörgum þrautaglíma, en trúir þú á ást við fyrstu sýn, ættirðu að geta sparað mikinn tíma. ] [ Ég sendi engil á þinn fund og bið hann að stoppa, hjá þér um stund. ] [ Ei þarf ég yfir væntingum að væla, ég vildi í morgun yrkja tvö ljóð og önnur vísan varð bull og þvæla, en ég vil meina að hin sé nokkuð góð. ] [ Helvíti með hjarta. Himnaríki kalt, ég er ekki að kvarta en í paradís er svart ] [ Ég átti ást, ég átti þig. Þú áttir margt, þú áttir mig Svo þú fórst þú vildir mig ei sjá svo þú dóst ég vildi ekkert fá Ég ráfa ein um dimman geim og virðist ekki finna leiðina heim. ] [ Hún var lítil leikskólapía með lélega mætingu ég leit inn um skráargatið og varð vitni að raðfullnægingu... ...hún var orðin átjan átjan mánaða og ég sagði við foreldrana ég ætla að fá hana lánaða Hann var grenjandi gaur með hor alltaf vælandi ég kýldi hann í nýrað og nú er hann blóði ælandi... ...bara þriggja þriggja ára gamall ég hrinti honum úr rólu svo í jörðina hann skall Ég var tveggja ára tappi tignarlegur, hún sá það ég hjálpaði 15 ára fóstru minni í fyrsta skipti að fá það... ...notaði hnefana báða... ..sýndi henni hverju ég hef yfir að ráða ég afmeyjaði þessa fóstru þó hún reyni að afmá´ða Trúlega þau munu taka þennan texta úr samhengi að ég sé til í sætar stúlkur og tæli litla drengi... ...ég tek þau úr mínu mengi en slæ þó á létta strengi ég held ég hefði það gott með gay BDSM mótorhjólagengi. ] [ Sæll veri kæri Móri minn, mikli öðlingsdrengurinn! Póstinn allan þakka þinn, það var meiri fengurinn! ] [ Falinn ég fann hinn funheita eld. Beið hann þar og brann í brjóstinu um kveld. Napurt var að nóttu og nýfallin mjöll. Þeir sáu mig og sóttu í snæþakta höll. Sóttu mig og sýndu silfur gull og fé. Buðu mér og brýndu að bjargið væri vé. Kuldalegur hreimur hvíslaði þá. Ást er annar heimur er álfar ekki sjá. ] [ Hommi, hóra, mella, tík, hálfviti og belja. Asni, auli, fífl og frík, flyðra, sonur helja ] [ ****** sleikti slím af dreng, sló hann utan undir. Skellti sér í þröngan þveng og þrykkti í hann brundi. ] [ æ minn kæri góði léttum fæti stígur nálgast mig í spori ljós og hnarreistr maður ] [ Við sátum við varðeldinn, þegjandi myrkrið grúfandi okkur yfir og sögnin um einhyrninganna, landið, regnið var okkur ljóslifandi í huga ] [ it\'s so hard, oh so hard and hurts so much and I wish, yes I wish my thoughts to you could change a bit but I know, oh I know we can never meet under tree, under stars we just are not ment to be ] [ Aftur hefurðu sært mig. Aftur hefurðu traðkað á tilfinningum mínum. Aftur hefurðu gert það sem þú vilt gera án þess að taka tillit til mín. Aftur segistu elska mig þrátt fyrir allt. Aftur fyrirgef ég þér þrátt fyrir allt. Aftur segist ég líka elska þig þrátt fyrir allt. Hvað mun líða langur tími þar til að þú særir mig aftur? ] [ Ég leitaði að manni sem að fengi augu mín til að tindra Ég leitaði að manni sem að fengi augasteina mína til að stækka Ég leitaði að manni sem að fengi varir mínar til að brosa Ég leitaði að manni sem að fengi munn minn til að hlæja Ég leitaði að manni sem að fengi hjarta mitt til að slá hraðar Ég leitaði að manni sem að fengi fiðrildin í maga mínum til að fljúga Ég leitaði að manni sem að fengi lendar mínar til að brenna Ég leitaði að manni sem að fengi heila minn til að hugsa Ég leitaði að manni sem að fengi gáfur mínar til að blómstra Ég leitaði að manni sem að fengi mig til að elska á ný Ég leitaði að manni sem að fengi mig að finnast ég lifandi aftur Ég leitaði að manni sem að fengi mig til að hlakka til framtíðar Ég leitaði að mann sem að fengi mig til að finnast ég elskuð aftur Ég leitaði að manni sem sem að yrði besti vinur minn, faðir barnanna okkar, sálufélaginn minn Ég fann hann þegar ég var búin að gefa upp vonina um að finna hann Ég fann hann þegar ég var hætt að leita Ég fann hann á ólíklegasta stað sem hugsast gat Ég fann hann í ólíklegasta manni sem hugsast gat Ég fann hann í þér Þú ert ennþá þessi maður! Er ég hætt að vera konan sem þú leitaðir að? ] [ Ég hef gert það enn á ný slæmir hlutir koma frá mér lífið er farið fyrir bý langar ekki að vera hér Það sem ég gerði var ljótt kúkurinn lengst upp á bak lyktin yfirgnæfandi skjótt skitan er komin upp á þak Djöfull er ég ógeðslegur set aldrei í mig gel einnig er ég viðbjóðslegur á skilið að frjósa í hel Það sem ég gerði var að ég tók lífið frá Nebba póstkassinn er ennþá þar en ég slökkti á Hebba ] [ Draumurinn minn hann vill fara inn í huga minn. Mig dreymir hann! Minn litli draumur hann er svo aumur. Enn samt svo sætur. Mér finnst eins og hann sé ætur Minn litli draumur. Hann er algjört klúður. Hann breytist í martröð. Ég vakna og vil ekki dreyma hann aftur!!! Ég fer framm og niður stigann. Ég seigi mömmu frá draumnum. Ég segi hvernig hann byrjaði og hvernig hann endaði. Allt endaði vel. Og sagan endar hjá mér. ] [ Vofir yfir vetur þungur, víða er kalt í desember. Grátin kona og gumi ungur geta hvergi yljað sér. Lýsir tunglsins ljósið skært - lítil börn í hlýju dreyma. Sumir aldrei sofa vært - sumir eiga hvergi heima. Dátt er sungið lag með ljóði, ljóssins hátíð er við völd. Mæðgin þegja þunnu hljóði. Það er aðfangadagskvöld. Góðu börnin gjafir fá; Gítar! En sá sældarfengur! Fátæk móðir ekkert á, í örmum hennar kaldur drengur. Fimbulkuldi, frostið meiðir föla móður, lítið skinn. Blíður maður barn sitt leiðir: „Má bjóða ykkur tveimur inn?\" Inni í hlýju ylja sér - ást er til í þessu landi. „Elsku vinur, þakka þér. Þetta er sannur jólaandi.\" ] [ silfur þræðir svarta skotta alla daga natinn vinnur gildru spinnur bæta og laga langur slóði vætlar blóði heima haga spinnur, vefur vakir, sefur vefi gefur allt sitt lif undir orpið amstur dags björg í bú bærir fluga blóði fórnar báðir vængir bærast eigi blóma milli blika augu litla stund blóðfórnarlambið ] [ Ég teygði mig í klósettrúlluna og áttaði mig þá á því að ég sat við eldhúsborðið. Ég lét þernuna þrífa upp sóðaganginn. ] [ Eru allir menn hálfvitar sem pissa sitjandi eða er það bara ég og Þorgrímur? ] [ Ef maður yrði að svampþvo saman einn trúarleiðtoga og einn homma í freyðibaði - hverjir yrðu fyrir valinu? ] [ ... að vera heimsk og ljót ef maður ætlar sér langt í kvennapólitík. ] [ ...hvað fólk er alltaf fljótt að fara þegar að afi drepst berrassaður í fermingarveislum... ...ætli það sé lyktin sem myndast milli hans og leðursófans? ] [ Er ekki tímabært að Hallgrímskirkjukór æfi upp lagið ,,Ef ég nenni\" og flytji það í jólamessunni klukkan sex? ] [ Ég heimildir fyrir því að kirkjuþing hafi lagt fram svipaðan lista og vinir Gísla Marteins fyrir Eurovison - biskupinn á víst að koma orðum eins og kúkur, prump, feministar og trukkalessur fyrir í jólamessunni. Ætli þetta verði ekki til að einhver hlusti loksins á messuna? ] [ Snjótittlingur sníkir en hyskið stelur stelur það skoppar út með sólina þögul við sitjum sár af alþjóðavæðingu við trítlum um tune-ið tune-ið frá Apple tune-ið frá MacDonalds - ekkert athvarf bíður okkur íslendinga allt er tómur voði og hyskið það stelur stelur það skoppar út með sólina Undarlega Ísland ekki lengur fyrir mig og þig ] [ Uppáhalds orðið mitt veit ekki en uppáhalds hluturinn MINN ert þú dauður uppáhalds stellingin mín veit ekki enn uppáhalds testellið MITT er brotið til að drepa þig ] [ mitt fagra föðurland okkar dýra land lang dýrast í heimi - og því meir dýrmætt þú þekkir hvorki sverð né blóð enda þarf að flytja inn fólk til að sjá um það þannig kom öll grimmdin til þín mitt fagra föðurland manstu þegar þú varst svo langt frá heimsin vígaslóð við vorum frjáls við ysta hafið? En þetta getur breyst aftur hver dagur þarf einungis að vera smá þraut smá þraut, lítil dáð svo ísland verði ei öðrum þjóðum háð hver vill rísa upp fyrstur og endurtaka ,,Aldrei framar Ísland byggð sé öðrum þjóðum háð!\" ] [ Ó menn, hugið að ykkur! Hvaða yfirlýsingu ber dimm haustnóttin? Það vita þeir best sem vín þrá þeir sem hafa sigrast af flöskunni alltaf á heimleið (en koma aldrei) með heita og rjóða vanga sólin dauð á biðstofu hversdagsins grasið farið að anga (flaskan dugar ekki endalaust) Ó menn, hugið að ykkur! Hvaða yfirlýsingu ber dimm haustnóttin? Eitthvað sem okkur ber að gleyma ] [ það verður bjartara og bjartara og rithöfundar trana sér í blöðin þurralkarnir á INN-síðum blaðana gera ÚT af við þig með blaðri ,,ég skal segja þér ævisögu mína en ekki gefa mér sjúss \" þjóðin hlustar og hlustar og kinkar og kinkar og kinkar kolli en aðeins ein óþrotleg þrá þessi jól svo og önnur að drekka sig í hel kollu af bjór bræður jólin byrja í dag ] [ Mér finnst það voða fúlt að fara út á land og eyða tímanum innan um illa lyktandi fólk svo ólikt borgarbúum að það gefur mér hroll Skötuangan og fjandans fjöll fljúga þar í gegnum eilíf kvöld glittir ekki í glóru ekkert nema eldur og ís allt frosið og dautt Satan og dauðar sálir ] [ Monte Vessapoesia er mesta viðundur Italíu guðlausar hraunbreiður sundlandi gjár þetta einstaka eldfjall er alltaf á túr kvikstrokurnar flæða eirðarlaust áfram marka hlykkjóttan veg sem endar í sólinni fylgist með úr órafjarlægð ] [ Gegnum penna minn sé ég glitta í stjörnur sem hafa fengið sæti í gluggakistunni og innsiglað sólina líkt og það sé fjandi nóg af morgundögum ,,Morgundagurinn verður sem þessi ekki sóa kvöldinu\" Eins og skilningssljóir bjúrókratar æða stjörnurnar á milli húsa og boða öllum það sama ,,Morgundagurinn verður sem þessi ekki sóa kvöldinu\" Þegar dagar lúra stjörnurnar í draumamóki. Við verðir hversdagsins göngum þá blind og haltrandi frá deginum. Mundu að sparka í hann liggjandi. ] [ Barmur minn er jafn stór og ... Ísland er lítið, tuðaði sílikonbomban í samfellu. ] [ Niður vanga lítið tár eitt læðist líkt og þýður andvari eða þeyr á stjörnunóttu fallegt barn eitt fæðist en fátækt annað und stirndum himni deyr. Lífið svona líður eins og gengur og líkast til mun áfram halda um sinn að eins manns dauði er annars brauð og fengur og enginn hugsar neitt um haginn minn. Í kalsaveðri allt kvarnast burt og hrynur nú komið er að fararstund hjá mér í jólasnjónum nötrar normansþinur af nístingskulda kveð ég heiminn hér og næðingurinn kveðju mína ber - til þín. ] [ Veðrið reikar óstöðugt um, hér og hvar í skrítnum heimi. Það klappar fallegu húsi, líkt og óvitinn, sem það er. Lítur inn um gluggann; sér ekkert! Fyllist bræði!!! Óveðrið bankar á gluggann og grætur; heyrir ekkert nema sinn eigin ofsa. Undir sænginni, undir þakinu felur titturinn sig. ] [ þú segir mig geðveika vera þvílík endalaus vitleysa þú hefur aldrei séð bak við þessi augu þú segir að ég þurfi hjálp en hvað veist þú um það allir snappa einhverntímann ég er geðveik á þér ] [ Sitt sýnist hverjum, sólin mín, dansandi á tánum grasinu í hún er ekki sest en það er komin nótt þið þekkið þetta öll, það sefur enginn rótt því það er eilífðar nón hér á Fróni. Vaknið allir bjartir drengir vekið allar ástir stúlkur verið tilbúin að elska það er komið sumar og hjartað blómstrar eins og rósin augu barnanna ljóma, söngur fuglanna hljómar hátt og lækurinn dansar dátt. hefur þú upplifað sumar í paradís? döggin hefur lækningarmátt vaktu fram á rauða nátt syngdu með sólinni sem blessar þetta land. sjáðu fossana mála regnboga á kletta, finndu sandinn milli tánna og láttu þig detta í grasið sjórinn er blár stingdu þér út í sumarið bíður hefur þú upplifað sumar í paradís? ] [ Þegar þú fórst, kvaddir þennan heim. Varð mér það ljóst, að eftir stóð ég ein. Tómleiki birtist, vonleysi og eymd. Allt virtist, í kringum mig gleymt. Depurðin mér hélt, og vildi ekki sleppa. Ég gat ekkert gert, eilífð sálarkreppa. Ég mun alltaf bíða, bíða eftir þér. Tíminn mun líða, ég alein með sjálfri mér. Sorgin tók mig, sagði að ég væri sín. Þegar ég missti þig, varð ég hennar - án þín. ] [ Draumur í myrkri. Ósk í draumi. Koss í draumi. Myrkur í ósk. Svo rangt. Svo gott. Svo ósatt. Tár í kodda. Öskur í vindi. Ást í tári. Koddi í öskri. Svo rétt. Svo sárt. Svo satt. ] [ andi liðinna ára kom aftan að mér síðustu nótt laumaði sér niður um hálsmál mitt smaug inn á milli herðablaðanna hótaði að reyra mig niður og sýna mér svart - á hvítu - söguna alla * * * ég hrökk upp með andfælum málaði veggina myrkri setti svart utan um dýnuna blúnduofið bláfjólurökkur utan um sængina og svæfilinn og rétt áður en ég lagði aftur augun tók ég niður tunglið kæfði glóð stjarnanna dreypti loks bleki í hvítu augnanna til að tryggja að allt yrði örugglega almyrkvað ] [ My audible tears explode with a noise They echo to your eyes where they mirror my heart ache ] [ Af Hervöru minni hafði ei góða frétt, að hún í tamningunni væri ekki létt. Með kerruna ók ég á Fáskrúðsfjörð, færið er nú skárra og hlánandi jörð. Og upp á kerruna strax fór hún fús, fór svo hin ljúfasta á eftir mér í hús. Þvílíkt er með þægð hennar og akt, en því er hún reið sé á hana er lagt? ] [ Closing in on me, The shade of my soulless past, Try to forget But my heart’s beating way too fast. I love you, All these voices in my head. You love me, So why all those tears I need to shed? Why do you hurt me? How can you live with my mistakes, Do you need me? Cause without you My whole heart begins to ache. How can you miss me, When I’m only one step away? Don’t get me wrong, I do want you to stay How can I love you, With all this pain you put me through? I’ll never be strong enough, But baby there’s only you. ] [ Þjónn orðsins orti á máli lands og ísa sem áður gátu rist freygáturnar á hol en nú bráðna hljótt, án orðs ] [ það er skrýtið að verða gamall að sjá samferðamennina smá týna tölunni einn og einn og sá getur átt sorgir að baki sem eru sárari en orð fái lýst ] [ Nú bráðum jólin birtast í bjartri drottins dýrð. Um hátíð englar hittast í helgri næturkyrrð. Í söngvum þeirra segir að sonur Guðs sé hér. Þótt hjálp þú enga eygir er andi hans hjá þér. Að bræðrum gefum gætur og gleymdum þetta kvöld. Og ástinni er grætur á bak við gluggatjöld. Þeir blessi brá er vakir börn og móður tár. Við treystum að þú takir tregann burt og sár. ] [ ég er farinn að hlakka til jólanna ekkert síður en litlu börnin er bíða spennt eftir að fá að opna pakkana sína að sjá dæturnar mínar yndislegu tengdadótturina í engilsmynd efnilegu afadrengina tengdasoninn prúða með góðu genin og strákaormana mína ekki rassgat verri en fleiri frábærir sem ætla að blanda geði á Akureyri í hópi vina og vandamanna ] [ \"amma er svo gömul að hún ætti best heima á safni!\" sagði unga stúlkan við föður sinn. \"ekki ennþá, litla mín, ekki ennþá.\" svaraði faðir hennar, fornleifafræðingurinn og taldi dagana. ] [ af moldu ertu komin að fornleifum munt þú verða ] [ brotin krús hárnæla úr tré fín klæði og brosmildar haus- kúpur hér var greinilega partý! ] [ hann óraði ekki fyrir því að hann, einbúinn sem engan þekkti og engan hitti, yrði síðar, löngu síðar, heimsóttur af milljónum liggjandi beinaber í glerkassa ] [ Nú reyna fáir að yrkja eins og Káinn, enda vart lengur í móð. Menn velja frekar að bulla út í bláinn og búa til órímuð ljóð. ] [ Hin ofur-epíska gas. Hið ofur-snúandi iljandi. Hinn ofur-ytri nári. Djúpi ytri nári. Djúpi feminíski. Lækkandi hné. ] [ Nú er vetur og orðið kalt. Blómstrin eru löngu farin en minning þeirra ekki. Sólin felur sig bakvið skýin þessa litlu stund sem að hún er. Kuldinn nístir að tánum sem standa framundan sænginni. Ég dreg lappirnar að mér. Glugginn sýnir snjókornin sem falla sem falla svo ótt í desember. Alveg eins og sprengjurnar falla úr B-22 vélum stríðsherranna. Við horfum á fögur jólaljósin meðan bræður okkar horfa með hryllingi á nágranna sína verða að dufti. “Gleðileg jól” kveðum við í kór meðan öskur barna og kvenna óma annarstaðar vegna sprengnanna. Maturinn er svo dýrlegur við borðum og gleðjumst. Rotturnar gleðjast annarsstaðar vel grillað kjöt á þeirra borðum. “Gleðileg jól, gleðileg jól” kveðum við og gefum gjafir. “Gleðileg jól” kveða kaupmennirnir og telja peningana. Gjafir okkar eru fínar og dýrar. Gjafir bræðra okkar eru vesæld hungur og sjúkdómar. “Gleðileg jól allir saman” ] [ Guðrún þú ert sem engill líkust, er ég horfi á þig þá ég loga og skín. Þú ert öllum kvenmannstöfrum ríkust, svona góð svona elskuleg og fín. Þú ert mín í öllu þessu veldi, þessi völd sem báru okkur saman. Gerði ég samning og sál mína seldi, eða er það guð sem vill að við höfum það gaman. ] [ Oft ég hugsa hver sé tilgangur okkar, hvers vegna við séum hér. Mér finnst lífið eins og nokkrir spilastokkar, okkur raðað, síðan ruglað og svo allt í mél. Af hverju erum við öll ekki ofsa happý, það er alltaf hægt að láta sig vona. Ég uppí loftið lít og drottinn kalla í, guð ég hélt að þetta ætti ekki að vera svona. Hvað uppskerum við svo er lífið tekur enda, eftir vinnu, áhyggjur, ást og sorg. Skal ég þér og öllum öðrum á benda, þú færð inngöngu í drottins borg. ] [ Þú ert sumar þú ert vetur, hver sem er það sér. Styrkur, trú, von og kærleikur, ber þú með þér hvert sem er. Ásjón þín fegurri finnst hvergi, sólargeislar umlykja þig. Þú ert ljós í næturhiminn geimnum, þú ert stjarna alheimsins. Þú ert móðir mín. ] [ Þú ert vor, þú ert haust, það er það sem ég sé. Góðmennska í fyrirrúmi, orð guðs þér að vopni. Þú ert traustur, þú ert sannur, uppréttur gengur beint til verks. Stór þú ert í mínum augum, en stærri í augum drottins. Þú ert faðir minn. ] [ Trítlandi, þrammandi, stígandi, Fótspor mín í gegnum lífið. Í örmum þér þá er ég svífandi, Geng um á skýi hátt upp á himni. Því í dimmum dal hef ég ráfað, Er þú tógið gafst mér og dróst mig upp. Inn í lífið, ljósið allt svo fágað, Þú minn engill, þú minn guð. ] [ Þú ert allt sem allir vildu eiga, Minn andardráttur kemur frá þér. Ljósið sem líf mitt mun leiða, Lífsneistinn handa mér. Guðrún þú ert engill endurborin, Sem leiðir mig um vondan heim. Kennir mér réttu lífssporin, Stíginn handa okkur, ekki þeim. ] [ Hvenær sem er að degi sem nóttu, ég mun hugsa um þig eða dreyma. Alla þína daga ég bið þig njóttu, því ég mun þér aldrei gleyma. Vertu því ánægð, vertu í stuði, farðu út á götu bara til að fríka. Farðu með friði, farðu með guði, og svolítið af hugsun minni líka. ] [ Fögur orð ég ætla að rita, svo að þú Guðrún fáir að vita. Hvað mín þrá til þín er mikil, og hve vænt um þig mér þykir. Fögur er hún með dökka lokka, blá eru augun og með yndisþokka. Aldrei áður hef ég séð slíka dís, Og hana af öllum kvenmönnum kýs. Guðrún þetta hjarta mitt logar, líkaminn, andinn og hugur minn lofar. Að vera þér trúr, stoð þín og stytta, því þig ég mundi ekki afbera að missa. Alveg er sama hvar ég mun vera, alltaf skal ég ást þína í brjósti mér bera. Kalla ég til þín er að kvölda tekur, söknuðar tár niður kinnar mínar lekur. Bið ég þig nú í þessum fáu ástarorðum, að þú takir mig í faðm þér líkt og þú gerðir forðum. Haldir mér fast og seigir að ég sé þinn, þá á hverjum morgni ég mun kyssa þína kinn. ] [ kæra sumar vildi láta þig vita að ég svaf aldrei hjá vorinu viljandi hún lofaði mér yl sólarinnar og ég trúði því en að öðru hvað sérðu í fjandans haustinu Kveðja vetur konungur ] [ Ætíð hafa dömur elst við strumpa og ei síður þeir við fljóð. Þeir sækja í að pumpa og pumpa, en pústin þykja víst góð. ] [ Þú reynir að bæta það sem er ónýtt, reynir að sætta þig við sannleikann, á meðan heimurinn er í rústi gerir þú hann fagrann með þínum töframátt. Þú ert sá sem ég verð með í endanum. Þú fyllir rafhlöðurnar mínar en þegar þær eru tómar, þarfnast ég þín einu sinni aftur. Þú veist ekki um mína fortíð og ég veit ekki mikið um mína framtíð og kannski við förum of hratt og kannski á þetta ekki eftir að endast. En hvað segirðu um að taka áhættu? Gá hvar við stöndum. Sjá hvort við verðum sterk. Taktu mig inn einhverstaðar undir þitt skinn, og þú verður að muna ég kem alltaf aftur fyrir meira. ] [ Lítilfjörlegar samræður umræðuefnið búið ekkert að tala um orðtóm liggur í loftinu Jæja sagði maðurinn þegar hann hafði ekkert gáfulegra að segja þá var best að þegja ] [ Öll myndum við kjósa að stíga ekki útí kant eða lengra stíga ekki á strik fara ekki út af veginum vandrataða einhverjir eru öðrum áttavilltari og aðrir klofríða fjósröftum án þess þó að brjóta gullna reglu get ég sagt að manneskjan sem gagnrýndi mig fyrir sleggjudóma sé veruleikafirrt sjálfumglatt kjánaprik sem vill engum illt ef aðrir engu ráða illt er fátt með öllu og hlýtur hverju sinni byr að ráða ] [ Afhverju eru ljóðin svo ruglingsleg hér? Lengingar mála, og uppskrúfað hjóm? Myndmálið bundið og orðin tóm. Hvað eru skáldin að fela fyrir mér? ] [ Velkomin Marta yfir Íslandsála, alltaf er gaman að fá þig sjá. Fyrir nýju ári nú fáum að skála, í fríhafnarvíni er kaupirðu þá. ] [ Ekki má ég grönnunum gleyma, gleðileg megi, verða ykkar jól. Ási er í ró og heldur sig heima, hestanna gætir er fer ég á ról. Nú höldum við jólin á Akureyri, ætla ég gleðin þar verði stór. En síðar gætu fréttir orðið fleiri, fengjum við okkur lítinn bjór. ] [ Gunnar var stæltur og stóðmeri þeysti, á stóðréttardaginn, en sú var ei höst. En Nonni minn Hervöru í klofinu kreisti, sem kollhúfur lagði með hrekkjaköst. ] [ Jólahátíðin át manna eykur, enda mest borðaðar steikur. Gæt að því verða ekki veikur, varast það að ofát er ei leikur. ] [ Komdu í leik Leikum okkur Látum sem ekkert skipti máli. Feik itt Till jú meik itt. Komdu í leik Leikum okkur Látum sem allt skipti máli Meik itt Till jú feik itt. Komdu í leik Leikum okkur. Látum sem sumt skipti máli. mitt ..ekki þitt. ] [ W Wo Won Wong M; Mr; Mr.; Mr. Wong; Mr. Wong!!! ] [ Meinvill í myrkrinu lá breiddi sængina upp fyrir höfuð. Hugsaði um lifandi brunn, mannkindir. Frelsisins lindir, Syndir. Meinvill í myrkrinu lá hlustaði eftir fótataki jóla. Hugsaði um englasöng, himninum frá Læðast létt á tá, allelújá! Meinvill í myrkrinu lá reyndi að halda augunum lokuðum. Hugsaði um lávarði heims, lýsandi ský. Jólin koma á ný -jibbí. ] [ Að þér líki vísan, það rétt ég vona, því ég tel betra að hafa hana svona. En hin var auðvitað helvítis klúður, höfum hana svona og ekkert múður. ] [ bráðum steypast stressuð jólin og sturtast yfir þreyttan lýð. börnin kætast, blessuð fólin búast ei við sinni tíð. ] [ Þægileg þögnin á þorparans andvökunótt. Slær frá sér stelur sálarrótt. Tóm hold liggja hér. Anda að sér ryk og mold Lútir í hné, skottið milli lappa. Gengur ekki að ganga í svefni ] [ Mætafríða meyja, milda vetnisdís, fröken orkufreyja færðu\'oss paradís! Legðu bönd og beisli á bensíneyðslutröll svo glaður sólargeisli æ glampi á heiðskír fjöll. Bættir verða bílar ef beitir kænsku þú. Á þig öll þjóðin stílar og þráir lausnir nú. Snælands trausta snót sniðug vertu\'og klár. Nú vantar viðbrögð skjót og vetni í þúsund ár. ] [ Ást án efasemda er hún til? Ást án þín er hún til? Hvað er ást nema ofskynjanir og geðveiki? Ég er ástfanginn ég er geðveikur Er ég nógu góður fyrir þig? Er ég nógu góður við þig? Er ég of góður við þig? Ert þú nógu góð fyrir mig?! Ert þú haldin ástarofskynjunum líka? eða er ég bara eins og þægilega brjóstahaldið þitt? Spennan, er hún okkar? Framtíðin, er hún okkar? Framtíð án ástar, er hún til? Sársauki=ást. Ást=sársauki? Einn meiðir enginn mig. Einn meiði ég engann. Farðu. Bless. ] [ bruised by life hurt myself what\'s the way out of my hell now i know where i\'ve been closed the door couldn\'t handle the light still i miss the warmth i need the light can i get there what\'s the way tired of the fight stuck being perfect breaking the frame that\'s crucifying me overdosing on normal lost in the woods darkness surrounds but still provides cut myself shaving because i wanted to drove into a wall because i had to needed to break through ] [ Vísa þér á bug ófæddum. Eftirá eftirsjá. Tilfinningum eytt. Einn ég verð. ] [ Á hverjum degi ég dæmi. Reglulega jafnvel fordæmi. En ef ég sný mér snögglega við, átta ég mig á því að þarna er enginn nema spegilmynd mín. ] [ Hjá Laufeyju leikur allt í lyndi, því litlu börnin eiga þar yndi og allir vilja þangað í skyndi. ] [ Dyrabjallan hringdi í Fjólugötunni klukkan níu í morgun og Magga hrópaði jólasveinarnir jólasveinarnir pabbi komdu með myndavélina hún sagði nafna að opna fyrir þeim reif Hreiðar Loga upp úr draumheimunum við hlupum til dyra af annarri hæð og öll á brókunum og þarna stóðu þeir á dyra tröppunum í skrautlegum jólabúningunum með stóra pakka sem þeir réttu drengjunum Magga bað þá að segja hvað þeir hétu Bjúgnakrækir sagði mjóróma rödd Kertasníkir sagði önnur miklu dýpri Einar stattu hjá þeim sagði Magga við nafna og stillti sér upp með Hreiðar það kom blossi af nýju myndavélinni sem Bjarni minn færði mér frá Amiríku ] [ Hver hefur ekki lent í því að vakna dauðþreyttur og óska þess að það sé frí. Vita samt að í skólann þarf að mæta og það ætlar mann ekkert að kæta. Sitja svo hálfsofandi í tíma og inni í loftlausri skólastofu híma. Smitandi geispinn hvert sem maður lítur og að geispa sjálfur að lokum maður hlýtur Hundleiðast og sjálfum sér lofa að fara beinustu leið heim eftir skóla að sofa! ] [ Líkaminn þinn, og líka minn mig langar í þinn, þú vilt fá minn ekki ósnortinn, samt stórbrotinn mínir fingur, vonast til að komast inn strjúka svo blítt, ég lofa því að þú opnir þig, svo gott að horfa í augun þín, augun mín, týnast í svífandi, andardráttur, svo lifandi hvíslandi, syngjandi skynfæri samlífið er yljandi, fingurnir stynjandi taktur og hrynjandi, æsandi stígandi lífsleikni, blíðleiki, fríðleiki ég og þú, við erum tvíeyki ] [ Mikið myrkur, lítill styrkur hugur, óvirkur lamaður piltur, sálartetur sem kaldur vetur skjólið óþekkt og flest í fýkur gefast upp?.... þessu líkur vonleysið, brostið stoðkerfið tíminn líður í ofboði offorsi, orkuleysi veggurinn leggur mig mér var stillt upp shit, ég er viltur ! hjálp! ] [ Siggi var heimakær rengla. Lá mikið í rúminu og hékk yfir dánlóduðum bíómyndum. Fór nær aldrei á vit ævintýranna, langaði það ekki: Nema kannski til Mæjorka. En lífið, eins og það nú er, heimtar erfiðisvinnu af Sigga. Hana hataði hann: Þegar Siggi var að byggja skýjakljúfur, missti hann hægri höndina í ömurlegu slysi. Siggi mun því aldrei gleyma; læknarnir saumuðu svartan arm - það eina sem þeir áttu til á lager! - á hvítan heimakæran skrokkinn. ] [ Orðið stendur eitt óvarið skotspónn bannfært. breytir um merkingu eftir því hver notar það. verðlagt, gengisfellt togað og t ey g t. Orðið sligast orðið undir þunganum -níðþunganum. ] [ \"Can\'t live with them, can\'t live without them\" Fáránleg setning Víst get ég lifað af án þeirra, hef gert það í 22 ár og get gert það í 22 ár til viðbótar. Bölvaðir drullusokkar Það snýst allt um þá, mér líður illa, ég gerði vitleysu, þú varst vond við mig! Þvílíkir vælukjóar Eins og engum geti liðið illa nema hann sé karlmaður! ] [ Ég hef ákafa andstyggð á þessu jólatré það stendur þarna úr plasti Þótt ég standi þarna, einum metra frá þá truflar lyktarleysið mig Einu sinni þegar ég var lítil komst ég í jólaskap þegar ég fann grenilykt. Það er búið að taka það frá mér Þetta ógeðslega plastdrasl stendur þarna, drekkhlaðið jólaskrauti. Það er jólaskraut sem ætlað var lifandi trjám, og hefur setið síðan ég man eftir mér, á lifandi trjám. Ef bara jólaskrautið væri ekki þarna til þess að sefa huga minn myndi ég kveikja í því. En þá man ég, að það myndi bara bráðna, og eyðileggja gólfið. ] [ ógnvænlega fallega fuglahræðustelpan mín með gult hár í allar áttir karamelluvarir og spyrjandi augu yfir okkur: graskerstungl. kannski við ættum að taka næsta flug með norninni á kústinum? ] [ Heilsufarið var heldur bágt, helst er að frétta af jólum. Bölvuð flensan lagði oss lágt og lúrðum við mest bólum. ] [ Neminn skelfur, nálgast próf. Nú er vandi á höndum. Sjúkur hiti, svitakóf Senn fer allt úr böndum. Próflestur er strembið starf sem Steindór þarf að drýgja. Orkudrykki þamba þarf, þreytu til að flýja. Valda próf og vanlíðan, verst eru íslensk fræði. Lítið er ei lagt á mann - logandi brjálæði. Seint ég kemst á skýrlegt skrið, skortir allan vilja. Bækur sem mér býður við berst ég við að skilja. Sársauka í brjósti ber berst ég fyrir næði. Langtum meir þó leiðist mér lífræn efnafræði. ] [ kveður við nýjan tón völu spá teikn á lofti tregar heimtur brestur von segjast máttu bréfa dýrin héldu jól bankanna menn þrútna, fitna okur vaxta glugga bréfin lúgu gægjast gul og rauð samviskunnar vonar lestir löngu dauð nú Rangerover leikurinn er game over hlutabréfin keypt og gefin glitni og landsbanka ] [ \"Hvernig er hún?\" \"Hvernig er hver, ástin mín?\" \"Hvernig er hún, konan sem þú sefur hjá?\" \"Hvaða kona?\" \"Þú veist vel hvaða konu ég er að tala um!\" Lítur á hana. \"Hún er ólýsanleg.\" \"Ég vissi það!\" \"Hún er stórkostleg og æðisleg. Einstaklega guðdómleg.\" \"Hver er hún?\" \"Tja, þú þekkir hana reyndar. Hugsanlega mjög vel.\" \"Hver er hún!?\" Lítur í augu hennar. \"Ég er að horfa á hana.\" ] [ Augu þín svo skær saklaus,mosagræn þau voru aldrei fýld Hann vildi engum ilt ] [ ég horfði uppundir glasið þar sem hálfmáninn varð að fullu tungli ég þambaði vel það bragðaðist og batnaði skjótt um stund ég sveif í tímanum hvorki orð né vindar við mér gátu hreift allt var svo uppljómað og tært það þurfti löðrung til að ég áttaði mig á að ég væri maður ég hrapaði í götuna og hljóp ég komst hvergi ] [ Tilraunin sem heitir Ísland Hún tókst! Hún er blómið Í miðju Atlantshafi Sem elur kindur og menn ] [ Unglings stúlka sem særir foreldra sína. Kemur ekki heim á nóttunum, lætur ekki vita af sér. Drekkur sig fulla og gleymir sér. Lætur stráka notfæra sig. Litla pabbastelpan í undirheiminum. Um miðjar nætur vekur síminn foreldrana. Djúp rödd tilkynnir þeim að dóttirin saklausa liggur meðvindingar laus í sjúkrarúmi. Hræddu foreldrarnir með tárin í augunum fara til litlu stúlkuna sinna. Horfa á hana grátbólgna með næringu í æð. ] [ Hann sagðist elska hana, Hún vildi ekki heyra það, Hann vildi vera með henni, Hún þorði ekki að horfa á hann, Hann vildi hana svo mikið, Hún var hædd um að hann notaði sig, Hann varð sár, Hún tók ekki eftir því. Hann kvaddi hana og hengdi sig, Hún grét og sá það að hún elskaði hann en það var um seinan og nú kennir hún sér um dauða hans horfit á litla mynd af honum og getur ekki snert eða elskað. ] [ Er dimma fer og dökkir skuggar læðast um stræti og torg í desember. Þá kólnar hér menn vetrarfötum klæðast drungi hvílir yfir hvar sem er. Þá birtu finnum djúpt í hjörtum vorum og samúð öllum mönnum með. Hvert öðru sinnum hverjum óskum og vonum og sameinumst við jólatréð. ] [ Ég var svo ung, ég var forvitin. vissi að stóru krakkarnir gerðu svona. mér langaði að vera eins. ég gat ekki beðið meir. ég fann þig. og drakk þig. fann hvernig víman helltist yfir mig. Þar til ég gat ekki ráðið yfir mér. Tárin runnu niður kinnar mínar. Ofurdrukkið fermingarbarn. hvað hafði ég gert. aldrei var aftur snúið. Þú hertókst mig. Hrædd er ég, þú stjórnar mér. ég bíð eftir næstu flösku til að opna og klára. deyja og gráta, hata og elska. ég þarfnast þín öll kvöld. ] [ Heimsóknir? Ullabjakk! Helst ekki takk, var svo dregið eylítið í land, barnalegt orðaval þurfti að víkja. Spurningin stóð eftir sem áður, hékk skefld í loftinu. Jólatré, stolt heimilismanna, lítið og bústið, urraði frekjulega, í einu af fjórum hornum stofunnar, paranójt og pirrað. Það var heilsusamlega grænt, fjarska fallegt og íburðamikið skraut hékk stolt utan á því. Jólatréð vildi ekki sýna sig, þó alveg til í að sjá aðra. Manstu, hugsaði það lítillega með sjálfum sér. ] [ Síðasta vígið er fallið Það er engin von eftir Samt rís sólin í austri Samt er maður mettur Samt kemur nýr dagur Það er engin von lengur Allar varnir eru brostnar Samt laufgast trén Samt brosir mær Samt fer sem fer ] [ Þú ert manneskjan sem fæddir mig, En hugsaðir ekki um mig, Fórst útá lífið og gleymdir mér Þar til of seint, þá var ég farin frá þér. Nú eru 16 ár liðin, Varstu búin að gleyma mér? Ég eignaðist nýtt líf. Nýja fjölskildu, ætt og hverdagslíf allt saman nýtt Inní líf mitt, birtist þú á ný, En alltof seint, aðeins eins árs var ég tekin frá þér, lífið hélt áfram og ég gleymdi þér. Í dag er ég átján ára. Og ræð yfir mér. Þú skalt gleyma mér Ég vil ekki vera skyld þér. ] [ Hann kom í lygum lifir í lygi vefur sinn lygavef Margir litlir vefir í hornum skreyttir með þyrnóttum rósum ljósakrónan óskýrari vefurinn þykknar yfir ljósinu þar til að allt verður að lokum myrkvað hann hefur framið enn eitt morðið drepið sálina með lygavef ] [ Þurr skítur skítur frá sér eigi, né skaðar, nema vel ef að vera megi, væta til staðar. ] [ Ég vaknaði á 21 öld sú öld var mín fóstra ég vaknaði úr dái margra alda Ég kom í heiminn til að sigra allt óréttlæti og allt böl og ég kný á drottins dyr Ég geng veginn til enda mér er miskunnað fyrir allt ég hrasa og spyr geturu lánað mér fyrir sjúss ] [ Tágrönn og horuð situr og grætur veit ekki hvert hún stefnir né hvar hún mun enda Situr ein, hugsandi um lífið reynir að bæta sig en getur það ekki föst í eigin kvölum Hægt og bítandi verður hún að beini reynir að bæta sig áður en það er of seint Því dagurinn í dag gæti verið Sá seinasti ] [ Hálkan er mjög varhugaverð, varúðin betri en góð. Hæfir best sá hraði í ferð, er heldur réttri slóð. ] [ Ég snýtti mér áðan í eldhúspappír og slumman hún minnti mig á þig, allar þínar grænu vonir og vötn. Ég kuðlaði draumum þínum saman og sturtaði ofan í klósettið hlæjandi. ] [ Hringiða gulir, rauðir, bláir og grænir litir mála svartan himinninn nýtt ár nýjar tíðir hringiða vetur, vor, sumar, haust og tímarnir breytast allt breytist nema ég sem sit og horfi á flugeldana frá stofuglugganum og ímynda mér að þeir beri með sér nýja tíma betri tíma betra skaup kampavínsflöskurnar tæmast litirnir hverfa af himninum ró leggst á borgina kaffið er heitt í bollanum ljósin slökkvast hringiða að ári liðnu sit ég enn og stari í kaffibollann og velti fyrir mér árinu sem leið hvaða ár sem það nú var og ég ímynda mér að í bollanum geti völva lesið framtíð mína hringiða nýir tímar allt breytist nema ég. ] [ Ljós í myrkri. Skjól í regni. Bros í gegnum tárin. Þú. ] [ Fallið í ljúfa löð, eftir erfiða nótt. Regnið drap á dyr, bauð sér inn, þrátt fyrir mótbárur mínar og undirskálar. ] [ Ég horfi á þig í gegnum tárin. Hvað getur grætt hjartasárin? Ég reyndi að fá þig til að skilja en þú virtist það ekki vilja. Ég öskraði, æpti, grenjaði og grét. Ég öllum illum látum lét. Ég ákvað þér allt að segja, ég hefði betur átt að þegja. Þú sagðir að ég hefði þig svikið og ég fengi að fjúka fyrir vikið. ] [ Bálköstur augna þinna sem stundum ég í kveiki á dimmum vetrardögum svo sjái ég til. Ljósið speglast af mér líst þér á? Í næfurþunnum nælonbuxum gengur mér framhjá. ] [ Hlýnar í veðrinu hlána svell heimreiðin lagast skjótt. Suðvestan og sunnan hvell setti hér að í nótt. Harnaði veðrið heldur skart, hann snéri sér í norður og þakplöturnar fóru á flakk, því fengu ei haldið skorður. En þessi kviðan er þotin hjá, þekkiði nokkra smiði? Illt er að hafa allt á tjá, og ekkert af smíðaliði. ] [ Þú ert mitt fagra fljóð öll þín fegurð geislar. Þú ert mér svo góð og vanlíðan mína beislar. Það er engin eins og þú sem er sko alveg satt. Ástæðan er til dæmis sú að þú hefur mig alltaf glatt. Það er alveg á hreinu að ég dái þig mikið Misstíg mig í fáeinu en hef þig aldrei svikið. Það er margt hægt að segja sem fær að bíða betri tíma. Nú ætla ég hætta og þegja því ástin þú ert mín víma. ] [ Ég hræðist það smá að vita af þér úti á Costa Del Sol. Hræðist það að þú kyssir einhvern spánverja í misskilningi og hafir haldið að þetta hafi verið ég. Nei segi bara svona..... ] [ Það að þú finnist þú ekki sæt þykir mér jafn ótrúlegt og að ég fari og gangi um í Borat-sundbol í Kringlunni. ] [ Að sjá þig brosa er eina sem ég þarf. Það er einhverskonar kassakvittun sem sýnir að ég geri þér gott. ] [ Ég var með hnút í maganum marga daga eftir það þegar þú skallaðir gluggakistuna eina nóttina hjá mér. Var viss um að allir hafi haldið að ég hafi lamið þig. ] [ Þú verður alltaf aftur 7 ára þegar þú reiðist í gamnislag bítur í neðri vörina og þykist geta ráðið við mig. ] [ Hef reynt lengi að gera aukaeintak af bringu minni fyrir þig Bara fyrir þig til að klóra og strjúka þegar við erum ekki saman á nóttinni. ] [ Hvað sem tímanum líður þá veit að stúlka mín bíður. Sá biðtími er erfiður en blíður því brátt kemur hún Bjarnfríður. ] [ Bara svo þú vitir þá hef ég alltaf séð eftir því að nefna gömlu konuna sem ég þykkist sjá í horninu á herberginu þegar við erum að fara sofa og allt er dimmt. Því innst inni er ég að skíta á mig úr hræðslu. ] [ Fögur er þessi Skagamær fögur með yndisþokka. Með fagurt dökkt sítt hár með ólýsanlegan kynþokka. Segir margt um mig sem gott er að heyra. Eyða því með henni tíma til að fá að heyra meira. ] [ Finnst það svo geðveikt fyndið að stríða þér meðan þú sefur það sem þú segir og gerir meðan ég kítla og pota í þig. ] [ Við erum í sama liði berjast saman við allt. Lútum aldrei í gras og gerum flest blákalt. Við eru í úrvalsdeild erum númer eitt. Jákvætt er það að enginn getur því aldrei breytt. Við skorum á allt og alla gefum engu slæmu grið. Gerum sko allt saman enda erum við saman lið. ] [ Við þykjum afskaplega fallegt par og því verður skoekki neitað. Ekkert er líkt því sem áður var fellgasta par sem hefur deitað. Tignarleg og hávaxinn við erum brosmild með fallega greidd hár. Von og gleði á herðum okkar berum bæði núna og um ókomin ár. Við erum það sem allir dýrka og dá, erum öfunduð af fólki víða um heim. Eftir okkur er kallað og öskrað “Vááá” en við erum orðin vön köllunum þeim. ] [ Hún er það róleg og ekki snobbuð eða yfir sig aðra hafin að ég má prumpa eins og ég vil í kringum hana na na na bú bú. ] [ Jæja sólargeislinn minn gott að þér líði vel. Ég er manstu kærastinn þinn og nafn mitt er Mikael. ] [ Þú ert svo falleg og kemur vel fram. Sterk og bein í baki aldrei stopp, aðeins áfram Aldrei skal vont hljóta heldur lífsins njóta. Fyrir skal ég berjast og við óvini þína berjast. ] [ Ertu eitthvað slöpp elsku ástin mín. Beinverkur í löpp ekki besta staðan þín Þú þarft ekki gráta, ég hjúkra þér heima. Það gerir þig káta og lætur þig gleyma. ] [ Why can\'t only things be like they were It’s not the same when I no longer can speak to you, I may have changed but so have you It’s like we\'re prisoners and we just can’t get free It’s like we\'ve locked us up and thrown away the key I see your smile the same old smile But then you take me down and make our feelings die. I only see the shadow of the girl that I was before Nothing real nothing anymore, I was living in a dream world With you boy always by my side, you were everything to me But now I’m only a girl Alone in this world, You stood there so happy I stood there alone and my heart was like stone And then you saw my face And I remember your eyes, Your face make me glad Every time you smile I feel weak, I hear you laughing, and it feel so good, What we see may not always be like what we thought Love is strange and can change How we feel about someone and what’s right We can find or we can hide. I see you smiling But you aren’t smiling at me you smile at them You look at me whiteout a sign I hear you talking My words go trough you I am talking to a wall, I know I can never be the one you need, Your always acting could and show no signs of love But I feel every time you’re around some how You make me hold on to what it is we had I don’t know what it is or what it is you do But the thing is like this I can’t leave you, I feel guilty my words are empty. I never thought that the time and the distance between us made us so much colder. If you ever need someone, sorry \'bout the things I\'ve done My life goes in reverse If you ever change your mind, when the coldest days are gone and the balance returns. I know it\'s my fault It feels so cold, but I know it\'s something I deserve, I deserve to be dead Talking about life, what it was and what it\'s going to be Take my heart and take my soul I don’t need them anymore. -Katla sigurðardóttir. ] [ When you fall I\'ll be there to ketch you, when your heart is broken i\'ll be there to help you billed it op again. It was you that help me trough the darkness so now I’m going to help you trough your sorrow. Fore you I’ll do anything. I would walk trough fire and run a cross the world just to be with you. When you smile you are making my day so wonderful. Pleas don\'t go, don\'t leave me hear on my own. I can\'t live with out you. You know I\'ll do anything just for you. Your cute laugh is there is the best music I cut ever think of. And when I\'m here in your arms it\'s like I’m in heaven, nobody can imagine how sweet it is just to watch you sleep at night, and every angel I’ll ever meet can never compeer to you. You are the sun, you are the world, and you are my everything. And if I die before you do I\'ll go to wait for you. Because of all the Friends I have ever met you are the one I won’t forget. -Katla sigurðardóttir ] [ Ég sofna ein. Ég vakna ein. Ég borða ein. fer út ein. kem heim ein. Ég geri Allt ein. Ég horfi á sjónvarpið ein. Ég fer að versla ein. Ég hlusta á tónlist ein. Ég fæ mér að borða ein. Ég lifi lífinu ein. Ég græt ein. Ég deij ein. -Katla sigurðardóttir ] [ I\'m sorry for the times that I made you cry and for the times that I told you a lie and when I killed your dreams well I didn\'t mean to make you scream, but I got to say how I feel before I grow older, well you are like a stone hanging a round my neck you see I got to cut it loose before it breaks my back. I\'m sorry but I can’t change my ways you know I\'ve tried but I\'m still the same. Well I can carry the burden of pain because it isn’t the first time that a man goes insane. -Katla Sigurðardóttir ] [ Hesthúsþakið þaut á loft en það var mikið feil. Því er ég að þenja kvoft og þér að senda meil. Einar Kanntu ekki kæri vin að koma með þrautaráð, því mín eru bæði laus og lin og léleg í bráð. Einar Talað er um slæmar spár og sleppur varla lengi, að nudda hendur næsta ár, en ná sér í fríska drengi. ] [ ég sá ögrandi glottið rétt áður en hann sveiflaði sér yfir girðinguna með hattinn minn eins og vel þjálfaður sirkusmaður stóð hann kyrr í loftinu eitt andartak leit við og lyfti hattbarðinu í kveðjuskyni ] [ Ég sit hér í mannþrönginni, samt er ég ein. Ein, því ég á ekki samleið ekki núna. Sár, af því að ég ræð ekki við aðstæðurnar sem mér eru gefnar í hendur. Kaldar hendur. Þreytt á hávaðanum, höfuðið að springa af gömlu höfuðverk sem lætur á sér kræla ...er ég ein? ] [ Hnokki nokkur hýr á brá hreinn og yndisfagur á hurðina bankar hann handarsmár og heitir nýársdagur ] [ Fyrst rak hann Ondi í mig skörunginn. Svo rak hún Balla í mig, ekki neitt. Svo datt ég á rörgarminn. Svo er ég svona og svo er ég veik. ] [ Nú er ár á enda runnið ennþá er komið nýtt. Óska að verði í það spunnið, yndislegt og hlýtt. ] [ Bölvuð jól reyndu að gabba mig með hvítum snjó. En ég læt ekki gabbast eins og þessi neysluþjóð. Hér er þó stundarró í hálkublettinum á meðan úr höfðinu á mér fossar fallegur jólalitur. ] [ Fullnægja, nægjusemi. Full varkár, stíga skrefið. Bullþarfir, byrgja sýn. ] [ Rétt hilla, röng hilla. Alltaf er pláss fyrir gersemi. ] [ Lífsleiðin torfær urð, líður þó hratt. Lífsleiðinn lokuð hurð, ljósið senn kvatt. ] [ Eitt er vaða í vísur dagsins, í von um skáldamóð, annað er vöndun verkalagsins og vísan reynist góð. ] [ Innilokaður útlagi. Innileg, útilokuð. ] [ Komum veislu kátri á fót, kætumst, höfum gaman. Í Úthlíðinni um áramót ættin safnast saman. Mörgum byrgir bjórinn sýn. Blikar ölsins gára. Margir drekka mikið vín á mótum tveggja ára. Gerum okkur glaðan dag á gamlárs léttum kveldum. Skaupið kemur skapi í lag, svo skotið er upp eldum. Gulur, rauður, grænn og blár gerist himinn nátta. Mót oss tekur tignarár; 2008. Flestir fara að sofa seint, þó sofa vært og dreyma. Sumir hafa heitin strengt sem hefðin er að gleyma. ] [ Ljósastaurarnir standa keikir vaktina staðráðnir í því að koma í veg fyrir slys. ] [ Þau grétu, svo umkomulaus og óttaslegin, lítil börn á ókunnum stað. Örvæntingarfullt ópið í tárvotum augunum náði ekki til okkar, þau voru svo langt að komin og ekki eins og Lúkas með loðin eyru. í október 2007 © allur réttur áskilinn höfundi ] [ Fuglinn í búrinu hann er bróðir minn. Bundinn er í báða skó bölvaður ræfillinn. Glöggt má sjá í auga hans að aldrei muni hann stíga dans sem hann heitast þráir þó, því bundinn er í búrinu í báða sína skó. 2007 © allur réttur áskilinn höfundi ] [ Logandi ást sína hefur þar hafið, himninum játað, og örlög sín falið. Ó, ef ég gæti í glóðina þeirra, gengið. – Að eilífu dvalið. - Sjáðu hve eldheitum unaði þrungin ást þeirra er, og logandi geislunum bundin, en veistu, áður en örskotið rennur, -úti er stundin – Og þannig er alltaf með eldinn sem heitast af unaði brennur. Júlí 2006 © allur réttur áskilinn höfundi ] [ með söknuði horfi ég til löngu liðinna ára en læt mig samt dreyma um að hefja gönguna þar að nýju sem að hún endaði á óræðum vegamótum og einmana stóð ég og horfði á eftir -henni- og þegar hún leið eins og skuggi í skýlausan bláinn mér skildist að ástin var líklega horfin og dáin....... 2007 © allur réttur áskilinn höfundi ] [ Úr forstofunni, fylgdum við til grafar saklausri ást, sem dó í dimmum kjallara. í september 2007 © allur réttur áskilinn höfundi ] [ Þið kveiktuð ljós á lýðsins braut þó liðu bæði sára þraut, þið vöktuð mörgum von og trú sem veikur lá við heljar brú. Því verður æ, mín bænin blíð að blessun Drottins alla tíð ykkur þúsund fylgi föld og friðsælt gefi ævikvöld. ”Í bljúgri bæn„ ég krýp á kné, við krossins ykkar þunga tré, og bið að loks sé linuð þraut á langri þyrnum stráðri braut, ég bið að nú sé gatan greið að gæfan fylgi ykkar leið, ég bið að skærast skíni sól skaparans á Laufáss ból. 1996 © allur réttur áskilinn höfundi ] [ Í dag skín sólin sæl á hafið lygnt og seiðir mig er þráir skip að sigla á gjöful mið en þar sem ég á ekki kvóta né krónur að kaupa fyrir hafsins gull þá verð ég víst að láta mig dreyma að haldi heim með hlaðið að skammdekki skip. ] [ Þessa nótt reikaði ég um rökkvað strætið, ég rýndi í kalt myrkrið í von um sjá ljósið í kaffihúsinu okkar, en einhver hafði komið. Ég sá hann í rústunum leika að teningi með aðeins tveim hliðum -lífi mínu og þínu- þá hvarf mín gleði í myrkrið, þú, sem vafðir hjarta mitt himinblómum. Hverju skiptir það annars fyrst enginn kemur til að anda að sér ilminum, og miskunarlaus haustnóttin hylur suðvesturloftið? Ég veit ekki afhverju ég sit hérna enn og stari yfir svartan sandinn. Kannski eru það furðuljósin í fjöllunum sem fanga huga minn, ljósin sem þú horfir á um gluggann þinn, ljósin sem við horfum bæði á þaðan sem við finnum ekki hvort annað. Í kvöld hætti ég að horfa og fer í hina áttina. Ég fer þaðan sem gleðin mældi mér barmafullt lífið af hamingju, ég fer vegna þess að á botninum eru beiskar dreggjar sjálfs mín. í september 2007 © allur réttur áskilinn höfundi ] [ Nú farinn ertu mér frá Hvað geri ég þá ? Þig hafa ég vil Og segja mér til Nú verð ég að kveðja Fæ ekkert um það að velja Þú kvaddir mig með hlátri Það er ekki skrítið að ég gráti. Í hjarta mér þú verður Þaðan aldrei hverfur Ég minningu þína geymi En aldrei gleymi. elsku hjartans afi minn Nú friðinn ég finn Þá kveð ég þig um sinn Og kyssi þína kinn. Höfundur. Ágústa Kristín Jónsdóttir (barna barn) ] [ Nú sefur þú rótt Það er komin nótt Þú sefur vært Það er mér kært Vertu mér hjá Lof mér að sjá Hvað á ég að gera Það er svo margt að bera Þó ég sé særð Þá friðinn þú færð Þreyttur þú varst Mörg árin þú barst . Ég elska þig afi Það er enginn vafi Minning þín er Í hjarta mér. Höfundur. Ágústa Kristín Jónsdóttir ] [ Úti er veður kalt Enda líka vetur Þá getur verið svalt Mér líkar sumar betur Þá skín sólin svo skært Og blómin dafna Úti er varla bært Nema án yfirhafna ] [ Láttu mig vera. Farðu burt. Ég vil þér gleyma. Þú reifst úr mér hjartað. Eignaðir þér það, lékst þér að því. Ég reyndi að taka það til baka en þú neitaðir að skila því. ] [ Ég skar úr mér hjartað og gaf þér það í jólagjöf. En þú sagðir að það væri ógeðslegt og hentir því, ennþá innpökkuðu, í andlitið á mér. ] [ Ég lýsi megnum viðbjóð á veslingum þeim, er virða ekki dómana í öryrkjamálum. Leiðréttingar koma ei nema að hálfu heim, hjá helvítis ræfladóti með níðings sálum. Ríkisstjórnir ætíð hafa að öryrkjunum sneitt, alþýðu manna kúgað en hina ríku skeint. Ekki borga nú endurgreiðslur fantarnir neitt, en úrbætur smáar og látnar koma seint. Kunna ei að skammast sín Krata-lufsu-grey? Að kattarþvottapólitík vesalmennin stefna. Kroppuðu í mannréttarbrot og kóruðu:,,ókey!” Er komið var til stundanna loforðin að efna. ] [ Sigurður setti stefnuna yfir hafið, rétti fram passann, flugmiðann, settist í sætið sitt og beið eftir kraftanna verki \"Faðir vor!\" grét barnsmóðir hans, og glápti á Sigurð álkulegan í bláa sætinu IIIIIIIIiiiiiiiiiiijjjjjjjjjjjjjjj. K....KKK.....Kkk.....! (Vélin hrapaði) ] [ Blómi allra Íslandsmeyja Afródítu miklu fegri, öllu í heimi unaðslegri í örmum þínum vil ég lifa og deyja. Þar finn ég ei þó eldum spúi efstu loft og brennisteini, þar mun ekkert mér að meini meðan þér ég ann og trúi. Nei, ekki er til í Íslands tungu orð sem getur nógu tjáð hve öll mín hugsun er þér háð, hve hjartað logar í brjósti ungu. © allur réttur áskilinn höfundi ] [ Öll jörð af gleði grætur geislum sólar við, og grösin fara á fætur og faðma sólskinið. - Mér finnst ég aldinn ungur og aftur bregð á leik, við leiftur frá liðnum tíma ég lyfti mér á kreik. © allur réttur áskilinn höfundi ] [ Fyrir löngu á æskunnar unaðsríku dögum engar voru sorgirnar en gleði um alla jörð. Þá léku tvö í skóginum í ærslafullu yndi og ekkert hugðu að myndi vinna gleði þeirra mein. En haustið kom í skóginn og skuggi þess var kaldur og skyggði dauðans fölva á hverja skógargrein. Í skóginum hann reikar svo ráðvilltur og dapur rændur því sem lífi hans var yndi og æðsta hnoss, hann leitar þess svo ákaft sem útséð er að finni og aldrei framar kemur í skóginn þeirra vor. Því haustsins svarta myrkur kvað upp dauðadóminn og dauðakvein hans nístir í hverri kletta skor. En hún, sem hafði vafið lífið björtum ljóma leikur enn á hörpu sinnar ómþýðu strengi, lengi, lengi. 2006/2007 © allur réttur áskilinn höfundi ] [ Sat ég við sæinn kalda að sækja þar rósir til mín, þá hvíslaði örgeðja alda „einungis grín” Spratt ég á fætur og hentist um hól og heimleiðis gekk frá sænum, og þar fór ég inn, sem ætlaði skjól, á eftir mér læsti bænum. Ég sit þar í svarta myrkri og sýp mína beisku skál. Í ágúst 2007 © allur réttur áskilinn höfundi ] [ Einn situr greppur hjá garði gamall og reikar í tíma þegar að hamingjan hló við báðum og hafði ekki þörf fyrir síma. Þá var nú lífið leikur létt var um grundirnar stigið, en óskastundin sem aldrei var gripin í aldanna skaut hefur hnigið. 2006 © allur réttur áskilinn höfundi ] [ Í dag er ég dapur, í dag hlýt ei frið, í dag hefur heimurinn hrapað. Að rækta mér rós ég ræð ekki við í garði sem týnt hef og tapað. 2007 © allur réttur áskilinn höfundi ] [ Mér hefur lífið lagt leið sem að getur ei breyst, ég get ekki annað sagt en allt sem þú veist. Ef grafið er í gömlum mal hvar gengnar stundir tifa, æskuminning aldrei skal aftur reyna að lifa. © allur réttur áskilinn höfundi ] [ Allt sem ég er Sérðu hér Ég er bara ég frasinn sem þú heyrir svo oft Ég er bara frumefni, kannski bara loft líka sál og andi Líkami á þurru landi Ung kona Einmitt svona Elska þann sem ég vil Margt sem ég ekki skil Fólk horfir á þig, Lítur svo á mig Hugsandi hvað er að þér Það horfir á það sem það sér ástina svarta á hvítu Á þessa mítu Það sem enginn vill sjá Stingur í augu þeirra þá Þú og ég saman Umrenningurinn og daman Eins og ævintýri í Rómeó og júlía, það skilur ekkert í því. “Hvað á myrkur skyllt með ljósi “ Það er sem ég að innan frjósi “Hvernig á saman svart og hvítt” Það þolir ekki að sjá eitthvað nýtt Þeir sem ég hélt að elskuðu mig Þeir hata þig Þann eina sem ég í alvöru elska Þeir telja sig vera mennska Þröngsýni og fordómar rúmast í þeirra hjarta Horfa á fólk, skilja á milli hvítra og svartra Dæma líka alla hina, sem fyrir þá vinna Þá munar ei um minna. Setur sig á háan stall Heimskinginn með sitt drullumall. Ég er orðin þrætt á að þræta Sannleikurinn mun þeim mæta Ástin er heit Og það veit sá sem allt veit Að jafnt hann elskar alla Setur ekki fólk á stalla Fólk skiptist ekki í gott og vont eftir húðlit Eftir hjartalagi og í hvað það setur sitt vit Eyðir það tímanum í pretti og svik Safnar það peningum sem eyðir heimsins ryk Telst það með nöðrum Eða hjálpar það öðrum Sýnir það kærleik þegar á reynir Eða hatar það hina og því leynir Er það hrætt Fær það heiminn bætt Það skiptir öllu hvernig fólk að innan er Hvað það gerir þegar enginn sér Fólkið sem ég taldi gott að innan hefur brugðist mér Ég er ekki lengur hér Farin, ég er, floginn á braut Ætla að takast á við lífsins þraut Ef fólk horfir bara á liti Er það eigi góðst viti Þessi heimur harður er Litið illa á þann sem litilmagnan ver Ég ætla að elska eins og ég vil Þótt þú segir “ég ekki skil” Ég er farin Af ykkur á sálina barin Bless pabbi, bless bróðir, bless mamma Ég er þreytt á að þurfa ykkur að skamma Þið skiljið ekki neitt, Því fær ekkert breytt Veriðið sæl Ég hlusta ekki á neitt væl Fariðið nú í ykkar kirkjur Bless bless blessi ykkur Þessi Guð sem þið segið að fari í manngreinarálit Eftir húðlit og kannski háralit Nei það er ekki minn Guð Ágreining trúarbragða um það hver Hann er Nei hann í gegnum það sér Minn Guð elskaði miskunnsama samverjann Og hvern sinn samtíma mann Minn Guð elskaði hóruna og sauruga fólkið Sem enginn hafði trú á að yrði hólpið Minn Guð hlustar á hjarta Minn Guð gefur mér framtíð bjarta Sama hvað þið segið Einn daginn í gröfinni þið þegið Veriðið sæl Ekkert skæl Takk fyrir mig, Guð blessi þig. ] [ Hvað vantar í heiminn daginn í dag ? Það er allt búið að gerast.. En er það allt saman okkur í hag? Það vantar að láta það berast.. Að láta það berast að heimurinn sofnar Og það er okkar sök... Sjónin okkar dofnar og dofnar Við erum að missa á þessu tök. Á þessari stundu er fólk að þjást gráta,hræðast og veikjast. Við viljum ekkert um það fást Þetta verður að breytast. Fólk sem drepur annað fólk er það hluti af degi þínum ? Að skjóta byssuskoti úr hólk á móti vilja sínum. Friður er það sem vantar í heiminn handa þeim Burtu þurfa allir fantar Þá geta allir farið heim. ] [ Feluleikurinn er þarfaþing grét þátttakandi í myrkum salarkynnum og kveikti þar með ljósin. ] [ Fjörgamall maður - lítt fjörlegur að sjá situr á þungum steini í svartri fjöru að hausti til. Sjórinn flæðir fram og til baka, í takt við þungan, áhyggjufullan og reykfylltan, andardráttinn. Vindurinn, sú skapbráða skepna, blæs vinalega í fangið á honum, sí og æ í sömu átt, þvert á ferðir sjávar. Sá fjörgamli ímyndar sér sjávarniðinn, heyrir hann ekki, engu að síður eru eyrun með stærra móti. ] [ we are the same color still nothing happens we look a like still nothing happens what is it that is wrong with us my same-color friend? ] [ Það er langt um liðið, ég get ekki gleymt þér, gaf þig frá mér, hvað var ég að hugsa, það er málið, ég var ekki að hugsa. Ég hugsa um þig hvern einasta dag, fallegu augun þín og brosið þitt bjarta, brosið það eina sem gat kætt mitt lífsnauða hjarta, þú veldur mér óróa, róa af ói sem ég vill ekki hafa. Ég vill þig ekki, farðu í burtu, hugsunin um þig kremur mig, ég þarf þig ekki en samt er eins og ég geti ekki stjórnað því, Ég er betur settur án þín. ] [ Þín er fegurðin mitt er mál mæta tengdó í Skálateigi. Drottinn gerði þér góða sál og geðslag er svíkur eigi. ] [ Nú er rétt að fara að fá sér, finna vil á mér hót. Þær eru fjandi fáar hjá mér, ferðirirnar á þorrablót. Ég held ég reyni að hafa þá, frekar tvo en einn og viljir þú félagi Vodka í tá, þá vertu ekki seinn. ] [ líkamar okkar eru botnlausar tunnur við hrúgum í þá rusli en þeir standa það af sér uns aldurinn færist yfir og þeir gefa eftir, styttra komnir á sprettinum líkamar okkar eru botnlausar tunnur við föllum í stafi við föllum í faðma þeirra hrökkvum ofan í hyldýpi einhvers konar tilfinninga höfnum að lokum í svartholi einhverrar tunnu þar sem enginn fær losað sig burt ] [ Mikilfengleg óperusöngkona, mjúk á líkama og sál, stórkostleg í nánast alla staði! tók að ókyrrast þegar lítið var eftir af hennar síðasta lagi. Hún leit niður af háu svölunum, á dáleidda áheyrendurna, maginn tók hratt á rás, leit því næst flóttalega á bratta stigann með myrkrinu: Logandi lofhrædd. ] [ Íklæddur svartri dúnúlpu, þéttvaxinn og skeggjaður, óminnugur, saknar hann jakkanna sinna, sérstaklega þeim grasgræna. ] [ Hringur er brotinn, hringur trausts. Svikula fjendi, þú byrgin mér bauðst. Stakkst mig í hjartað, kvalarinnar naust. Barðir á dyr, þú sál mína skaust. ] [ Allan daginn beið ég eftir að sjá andlit þitt. Þögnin tómleikinn hékk í loftinu ekkert heyrðist nema þrusk saknaðarins þegar hann kom fram úr fylgsni sínu. ] [ Vanhugsað oflæti, stökk á gráan vegg, sem vildi ekki víkja, gat það reyndar ekki: Af persónulegum ástæðum. ] [ Mamma Mamma er konan sem orðið \"hvundagshetja\" var búið til um Og pabbi; Pabbi er töffari sem keyrir rallý og gengur í stuttbuxum allan ársins hring Svo stjúpforeldrarnir Snillingarnir sem færðu mér þriðja og fjórða vinkil heimsins Enda hefði heimurinn verið bölvaður vesalingur svona í tvívídd til lengdar Fyrst varð ég til Úr ástinni sem færðist úr þeim í mig svo sá ég heiminn frá fjórum hornum hans nú er ég ég sem betur fer þökk sé þeim ] [ Ég drap ljóð Skrifaði það ýtti á \" Í lagi \" og upp kom \" Gefa þarf ljóðinu nafn \" púff horfið ] [ Við erum öll týpa ...með lífið í lúkunum á lúkunum á fingrum, úlnliðum, olnbogum, herðum höfði, hnjám og tám ...með framtíð í snyrtilegum stöflum og vel samanbrotna lífshamingju, en eftir langan dag er gott að henda lífinu í hrúgu við rúmgaflinn Ganga frá á morgun. ] [ Sóttum Röst á Reyðarfjörð, reyndist færðin góð. Sýnist vel af Guði gjörð og geta aukið hróð. ] [ ég er vinstri skórinn á örvhentri stúlku seinasta skrefið ávallt við það að eyðast upp ] [ Lífið er erfitt. Slæmir hlutir henda mig, mjög reglulega. ] [ Einu sinni voru brúnka, rauðka og ljóska að tala saman í vinnunni um hvað þær höfðu gert um helgina með eiginmönnum sínum. Brúnkan sagðist hafa farið út að borða og í bíó og svo farið snemma heim að sofa. ] [ Tumi hoppaði útum gluggann og vinur hans Egill hringdi í lögguna. -Halló, enginn hoppaði útum gluggann! -Já, og hvað með það? -Halló! Heyriru ekki í mér? Enginn hoppaði útum gluggann! -Já, ég heyrði í þér, og hvað með það? Ég má ekki vera að því að svara svona símaötum! -Nei þú skilur ekki, enginn hoppaði útum gluggann!!! -Heyrðu þetta er brot gegnum lögum. Ég get handtekið þig fyrir þetta! Hvað heitir þú? -Haltu kjafti. ] [ Nonni litli sem var bara 9 ára var á leiðinni til ömmu sinnar þegar rauður jeppi keyrði framhjá. Hann var nýfluttur í hverfið og þekkti engan nema foreldra sína og ömmu sína sem bjó rétt hjá. Það var orðið að vana hjá honum að heimsækja ömmu sína um þetta leyti, en þá var hann búinn að fara í bað og borða morgunmat. Heima hjá ömmu sinni mundi hann svo spila við hana bridds og borða nýbakaða kanilsnúða í anda ömmu gömlu, eða ömmu Möndu eins og hann kallaði hana. Þegar hann var nýfluttur í hverfið langaði hann mjög mikið að leika við hina krakkana í hverfinu, hann sá þá í boltaleik í sumarsólinni og vildi endilega kynnast þeim. Einu sinni hafði hann meira að segja tekið frumkvæðið og spurt hvort hann mætti vera með, krakkarnir sem hann talaði við leyfðu honum það en þegar hann steig inn á völlinn kom Tommi rauðhærði, stærsti krakkinn á leiksvæðinu. Tommi rauðhærði réð yfir hinum krökkunum og hann vildi alls ekki fá Nonna litla í hópinn. Tommi ýtti Nonna niður og hló að honum. Krakkarnir þorðu ekki að gera neitt og héldu áfram að spila. Nonni tók eftir því að ein af stelpunum horfði á hann með samúð og seinna komst hann að því að þessi stelpa hét Helga og honum fannst hún mjög sæt. Þau hittust oft á ganginum í blokkinni hans Nonna en hún bjó tveim hæðum fyrir neðan. Hann langaði að tala við hana en þorði það ekki. Þau horfðust alltaf í augu og Nonna langaði svo mikið að kyssa hana. Amma hans var vön að hressa hann við og hvetja hann til þess að láta þennan Tomma ekki vaða yfir sig. Hún sagði að ef hann vildi sigra hjarta Helgu ætti hann að sýna þessum Tomma hvar Davíð keypti ölið fyrir framan Helgu og kenna honum lexíu eitt skipti fyrir öll. Seinustu vikuna hafði Nonni mætt til ömmu sinnar og hún hafði kennt honum allt sem hún kunni í karate frá unglingsárum sínum svo að hann gæti barist við Tomma og í dag var seinasti kennslutíminn og dagur bardagans. Stór hnútur var í maganum á Nonna því aðeins örfáir tímar voru í það að hann ætti eftir að ögra Tomma rauðhærða, illkvittnislega feita Tomma rauðhærða. Þegar hann gekk inn í íbúð ömmu sinnar sem stóð opin sá hann ömmu sína liggja nakta á gólfinu. Það lak blóð úr öllum líkamsopum hennar og henni hafði verið kynferðislega nauðgað og barin til dauða. ] [ Tístrar þarna titrandi mús, teikna ég nú stökkvandi lús. Hendi til hennar stórri krús, þarna er mín litla bygging. Hoppa ég ofan á fagran hest, heiðin er rofin af stórri lest. Puttinn minn hann pínandi sest, hitti ég nú gamlan mann sem að predikar fyrir fólki um trúarmálefni. Dauðinn er sá sem drýgir hór, dansar þar heimskur og mjór. Brosandi fallegi beiski sjór, sýp ég nú á mínum drykk sem er gulgrænn á litinn og gerir mann kærulausann og graðann og hættulegan undir stýri og maður vaknar daginn eftir með hausverk. Logar þarna bjart ljós, líkt og ryðgað brennandi fjós. Rennur og rofnar springandi dós, uppsprettur falleg blóm sem eru tákn fyrir ást og er með vellyktandi rauðum blöðum á toppnum, grænum hörðum stöngli, grænum laufum og svona þyrnum sem stinga mann ef maður passar sig ekki. ] [ Tveir tómatar voru að labba yfir götu þegar bíll kom og keyrði yfir annan þeirra. Útförin verður haldin á mánudaginn 19. nóvember kl. 14:00 í Landakotskirkju, að henni lokinni verður hann jarðaður í Grafarvogskirkjugarði og erfidrykkjan haldin að heimili hans á Bragagötu. Hann skilur eftir sig eiginkonu, börn, barnabörn og barnabarnabörn. ] [ Enga á hann illsku til, öllum er hann velviljaður Hann er orðinn hér um bil hálfrar aldar gamall maður. Þótt hafir margt að minnast á og marga klifið djúpa gjána Þá eru hárin furðufá sem farin eru að visna og grána. Aldrei hafa hríð né él hendur þínar fjötrum bundið. Ævi lýsa einkar vel internetið, svo og sundið. Á botninn er nú öllu hvolft og eru mínar niðurstöður að efst í huga er mér stolt. Enginn á sér betri föður. ] [ Örlætið þekki ég eigindina besta, þótt ýmsir fari þakkanna á mis. En ágirndin vill auð mestan festa og allar gjafir lítur hún sem slys. ] [ Að allt sé í góðu er engin lygi, ei er því mikið í fréttunum hér. Mamma er í fríi, en bíll í biliríi, og búð að járna Kjanveigu er. ] [ Með því að flytja út á land hægi ég á hraða mínum gref stríðsöxi baráttu upplýsingaöflunar, tylli mér í sæti rólyndis horfi á sveitalífið silast framhjá, gefur mér hornauga álítur mig utanaðkomandi aðskotahlut sem þarfnast tilkomumikilla umbóta eða einfaldlega að hrekja mig út með heygöfflum, ljáum og kyndlum á lofti. Með því að flýja úr hraðahelvítinu þar sem hugsunin er trufluð, lendi ég í samfélagi þar sem ekki er allt með felldu. Kannski verð ég hrakinn aftur eða tekst mér að kynnast púkum landsbyggðarinnar og halda mér í rólegum straumi sældarlífsins? Ég gríp vatnsfötuna og reyni að kæla mannskapinn. ] [ Ég stend í miðju herberginu. Ég horfi í allar áttir og sé alla, en það virðist sem enginn sér mig. Ég, sem stend í miðjunni. Ég heyri óp til mín. Aftur og aftur það kallar nafn mitt. Ég dett í gólfið og hvísla; Hér er ég herra minn, hér er í þinn auðmjúki þjónn. Hvað get ég gert þér til þóknunar? Þú tekur utan um mig, biður mig síðan mjúklega að standa upp. Tilfinningin í maga mínum er skrítin. Yfirvaldið er að tala við mig eins og því sé ekki sama um mig... ] [ Hefurðu heyrt söguna um manninn sem dó? Já hún er sorgleg ekki satt herra gaur sem talar inn á skjáauglýsingar á stöð eitt þegar þessi frábæra tónlist spilast undir og ég get bara ekki staðist það að taka létt spor þegar ég heyri þau glamra í eyrunum mínum. O.s.frv. ] [ Hvert skipti sem þú lofar einhverju verndar engill loforðið, Þú brýtur loforð þitt, brýturu engil loforðana. ] [ Vitnað hefi ég til vondra níðingssála, vandlætt slæma Ríkisstjórn lon og don, en gleður mig leggir þú gott allt til mála, Guðbjartur ljúflingur Hannesson. ] [ Þó að á móti blási og öllu virðist lokið. Hafðu bakið beint en ekki bogið og hokið. Þú ert þinn herra sem hefur sínar þarfir. Óvinir eru aumir og ekki nógu djarfir. Bíttu fast á jaxlinn og horfðu fram á veginn. Dagurinn í dag er sá sem línan verður dreginn. ] [ Kirkjuklukkur nú hringja, pantað er pláss hjá Guði. Erfið eru fráföll að kyngja og söknuðurinn tekur mánuði. Farinn er góður félagi, farinn til feðra sinna. Líf þitt þótti í lagi en hann er nú á meðal dáinna. Hann hvílir í friði og ró enginn mun hann vekja. Frá deginum sem hann dó munum við sögu hans rekja. ] [ Kynnti sig á kostunum, kunni að virða herra og menn höfðu góð orð um, enginn sagði verra. ] [ Taktu mig aftur í arm þinn sem ég elska. Snertu mig einu sinni aftur og mundu það er engin sem mun elska þig meir. Ekki fara þú veist það mun brjóta mitt hjarta. Hún elskar þig ekki eins og ég geri. Ég er sú sem mun verða eftir þegar hún gengur i burtu og þú veist ég mun standa hér kyrr. Ég mun bíða eftir þér hér í hjarta mínu. Ég vil elska þig meira en nokkur annar mun gera. Treystu mér og þú munt sjá leiðir okkar liggja saman. Og einhvern vegin okkar ást mun finna leið til að halda okkur hér saman. ] [ Á hægri ferð niður Bankastrætið skaust óljós sorg hraðar en hljóðið léttari en fjöður gegnum hugann, í baksýnisspeglinum þekkti ég strax þessar ávölu mjaðmir. ] [ Hugi fékk sér eina enn, ástar drakk af seiði. Kræfir eru kvennamenn, er konur ber í veiði. Kræfir eru kvennamenn, kelur varla spottinn. Var að fá sér eina enn, ekki af baki dottinn. ] [ lifandi málverk af söngvara sem söng um lífið sitt fannst það koma mér ekki við svo ég kom mér í burtu einhvernvegin fann þessi söngvari leið til að elta mig alla leið útí bíl ] [ ég er maðurinn með ljáinn ég geng hljóðlega um strætin ég ætla að skera úr þér augun ég ætla að skera úr þér augun sitt í hvoru lagi svo ætla ég að borða þau steikt upp úr smjöri og salti ] [ Galískur texti: Hugh Roberton Enskur texti: Archibald MacDonald Þýðing: Ragnar Böðvarsson Komdu með, komdu með brjótum tímans hörðu hlekki. Komdu með, komdu með hvort sem gefur eða ekki. Prýdda víðri breiðu blóma okkar byggð ég aftur þekki. Látum sönginn saman hljóma. Komdu með, komdu með. Þarna kvakar lóan létt og við dönsum dátt af stað. Höldum glöð og frjáls í ferð er við þekkjum orðið það hvernig bikað borgarstræti oft við þreyttu hjarta hneit. Okkur svo í fjarlægð fagnar friðsæl heimasveit. Ferskur blær við fjallsins rót ilmur vors úr mýri og mó söngur fugls á grænni grein fjöruangan út við sjó. Það er margt sem mjúkum rómi stöðugt kallar okkur á. Eftir för um hraun og hrjóstur heim við munum ná. Komdu með, komdu með brjótum tímans hörðu hlekki. Komdu með, komdu með hvort sem gefur eða ekki. Prýdda víðri breiðu blóma okkar byggð ég aftur þekki. Látum sönginn saman hljóma. Komdu með, komdu með. ] [ ég vil ekki lifa áfram sagði presturinn og ók út í eilífðina ] [ Its Sunday morning I arrive home with joy in my step. The joy from a wild night. I sit at the Kitchen table, keep a glass of milk and a doughnut company asking myself the question ‘Should I take a shower now or when I wake up’ There is nothing wrong with taking a shower in the middle of the night but I usually don’t. I am tired, I am lazy, I am drunk. I hope she wont smell her when I sneak into bed. ] [ Að faðma, að vera faðmaður. Að kyssa, að vera kysstur. Að elska, að vera elskaður. Að særa, að vera særður. ] [ Eitt sinn gaf vinur minn mér einn á kjammann og ég skrifaði það í sandinn til þess að vindur fyrirgefningarinnar gætu blásið það burt um daginn bjargaði svo vinur minn mér frá drukknun og ég meitlaði það í steininn svo enginn gæti eytt því að hann bjargaði mér nú skrifa ég vonbrigði mín í sandinn en hegg hamingju mína í stein og kem þannig jafnvægi á lif mitt. ] [ Hvar ertu núna. Í hjarta mínu. Í lófa þínum. Kvöddumst aldrei. Sé upp til þín. Sérð niður til mín. Mun ávallt þig elska, langar til þín. Síðustu stundu, úr himnaríki kastað. Kannski er ég engill án vængja. ] [ innantóm vaknaði ég og sofnaði aldrei aftur innantóm horfði ég út hafið og hugsaði um alla fallegu fiskana innantóm gekk ég í sjóinn og flaut ] [ Þessi kassi er bara hringur með horn. Ekki segja að hann sé kassi. Þetta er ekki kassi. Allt er hringur, manstu ekki? Lífið er hringur, ég sagði þér það seinast. ] [ Nótt í bænum og enginn tekur eftir tunglinu bara mínípilsunum. Tunglið er fullt. Ég tala um tunglið en Tunglið brann víst á Lækjargötu. Bjórinn flæðir ofan í klósettið og volgt hlandið verður súrt í glasinu. Karl sem hlær að einhverju og allir hlægja, en það var ekkert fyndið. Það er karl í tunglinu sem hlær ekki. Hann lítur niður og hristir hausinn en ég sé hann varla fyrir reyk. Ég labba til hans en enda í Ostahúsinu sem er lokað og skildi ekki neitt. Þá var einhver sem hvíslaði að mér að tunglið væri úr osti og mér brá. Ég leit upp en þá var orðið bjart. Veskið tómt og karlinn í tunglinu farinn til Ástralíu. ] [ nakta eyrarún læddu til mín leyndarmálum um borgina, ég hef ýmislegt í huga fyrir okkur. Ég mun stjórna þér eins og faðir og þú veist ég er faðir allra þeirra sem vilja eiga mig sem dóttur, sem eyrarúnu. ] [ Mig langar í þig, ofan á mig. Þar skaltu færast upp og niður, þar til að enginn mun vera friður. Því þá get ég ekki meira, enda stunurnar hefuru fengið að heyra. Veist þó að aftur kviknar bálið, við gerum þetta aftur í fyrramálið. ] [ Alkahólisti Límir bara yfir viðvörunarljósin í mælaborðinu og keyri af stað. Gæti keyrt til Akureyrar á gleðinni einni saman. Hann er ekkert bilaður, hann finnur alltaf einhvern verri bíl á þjóðveginum. Sem er verr á sig komin. Druslu. Skrýtið hljóð í vélinni og höktandi gírkassinn. Kva´ með það. Hann er vel bónaður að utan og lúkkar vel. Aðrir sjá ekki höktið. Þangað til að einn daginn bræðir hann úr sér. ] [ Ég reyni að hlaupa á undan henni en þegar hún nær mér þá vil ég verða samferða henni. Ég reyni að berjast við hana en þegar hún nær hálstaki á mér þá leyfi ég henni að klára lotuna. Ég reyni að fela mig fyrir henni en þegar hún finnur mig þá vil ég leika við hana. Ég reyni að hata hana en þegar hún læðist upp að mér strýkur mig, og gælir við mig þá vil ég elska hana. Alltaf. Allstaðar. Þangað til ég losa mig við hana. (og fer í merðferð.) Fíknina. ] [ þrúgandi þreyta án syfju. vonlaus vilji til svefns sem vill ekki koma. óseðjandi hungurleysi. ég reyki samt sígaretturnar mínar af vana og skyldurækni. ugglaust til að hafa eitthvað að gera. bara eitthvað. einhver sagði mér að drekka einn bjór - það væri góð hugmynd. ég gerði það til að láta þeim sem stakk upp á því líða betur. hann hélt hann væri að hjálpa og þarf á því að halda að halda. halda að hann hafi hjálpað. en ég er of niðursokkin í hugsanir sem í tómleika sínum eru fullar af engu. þetta tiltekna ekkert. allt snýst um ekkert og ekkert leiðir af því. í veskinu tvær samanbrotnar brostnar vonir. minjar um tilfinningar sem aldrei urðu. ást. heimurinn, ég dey? nei. tilhugsunin um að láta stjórnast af tilfinningum þvert á öll skynsamleg rök er hálfu eða heilu verri en tilfinningarnar sjálfar. þess vegna hugsa ég um ekkert. ekkert hjálpar. ] [ Er að reyna að ganga í gegnum vegg. Ætla að reyna það í n-ta sinn í dag. Lendi alltaf á honum, þrátt fyrir vísindalegar kenningar um að það sé ekki útilokað, að einn daginn komist ég í gegn. ] [ Tár í augum mínum ættu að vera vegna þakkar fremur en dapurleika, því ég þekkti þig ekki sem hluta af sögunni heldur samlanda sem horfði upp á sama himinn og sigldi yfir sama hafi í örstuttum tíma á jörð sem okkur var gefinn Þú varst yndi, sterk og heit grófst upp fræplöntu úr frosinni mold sem þakti hjarta mitt og hlífðir henni þar til blómkrónur bárust Í kulda á norðureyju held ég fast í blómið þangað til himinninn opnast einnig fyrir mér ] [ Eitt sinn kunnu skáld vors lands að skrifa og skópu ljóð um vora fósturjörð. Engum dylst að doðrantarnir lifa, sem Davíð orti um fagran Eyjafjörð. Þeir ortu um fegurð fjalla og náttúruna og fólk sem hrærðist um í gleði og sorg. Þeir ortu um landsins tíðaranda og trúna og Tómas orti um götur, stræti og torg. Í guðsóttanum bitrir margir báðu uns birti til - nú sól á himni skín! Um Jesú Krist og Júdas margir kváðu, en Jónas orti um ferðalokin sín. En tíminn leið og kemur aldrei aftur, því aldrei skrifa gömlu skáldin meir. Máttur fylgdi kvæðum þeirra og kraftur, nú kann ei neinn að yrkja eins og þeir. ] [ Gengur niður strætið með átta krónur og gulan miða í frakkavasanum. Kannski var hann rangur maður á réttum stað í tilverunni eða réttur maður á röngum stað? Kortleggur framtíðina. Morgunmatur hjá mæðrastyrksnefnd kvöldmatur bak við tíu ellefu, eða á Grund. Janúar, maí, skiptir ekki máli. Allir dagar eins. Hann lítur á björtu hliðarnar hann þarf að minnsta kosti ekki að borga eignarskattinn. ] [ Nú á hjólum stórum stíma, staða milli hryssur fínar, en fjórum löppum í fyrri tíma, fornar tróðu leiðir sínar. ] [ Hvað er svo glatt í veislu vina, sem vín er lífgar hugans mál? Við hefja skulum hátíðina, hátt svo kveða söng og skál. ] [ Ein í myrkrinu stólasamkoman hefst glugginn blæs garðdýnur dansa klukkan tikkar myndirnar á veggjum flissa hvað er að gerast?? er mig að dreyma?? ] [ Gengur einn um ganganna enginn lítur við honum, enginn spyr hann að neinu eins og hann sé ósýnilegur. Allir flissa og pískra honum er alveg sama. Þau eru ekkert betri en hann. ] [ Væri ég kerti myndi ég kveikja í mér væri ég vatn myndi ég drukkna væri ég kaka myndi ég vera borðuð þetta er skrítið, en staðreynd! ] [ Ég sit ein það er farið að líða að kveldi. Það fer hrollur um mig mér er kalt Ég leggst undir feld ég ligg undir hlýjum feldi. Ég hugsa um þig ég elska þig afar heitt ég hugsa um það hvernig það er að eiga þig sem vin. Ég hugsa um það hvað ég ann þér heitt. Hvar ertu? sé ég þig aftur? ég hef ekki séð þig neitt þykir það afar leitt. Ást mín brennir yfir til þín hugur minn beinist nú bara að þér ég vona að þú hugsir til mín. Ég vona að þú vitir hve heitt ég elska þig, ég vona að þú farir bráðum að koma til mín. Ó ljúfur komdu fljótt, komdu fljótt. ] [ Þú ert sá sem ég var með á fæðingardeild. Þú ert sá sem ég var með í leikskóla. Þú ert sá sem ég var með í skóla. Þú ert sá sem ég vann með. Þú ert sambýlismaðurinn minn. Þú ert faðir barnanna minna. Þú ert sá sem annast mig. Þú ert sá sem ég missti. Þú ert sá sem ég mun sakna sárt. Þú ert sá sem ég mun aldrei gleyma. ] [ hjartað þitt hamast ört hjartað þitt er svo fagurt hjartað þitt slær það slær og slær þangað til....það stoppar. þú ert farin farin mér frá ég mun alltaf muna eftir þér ég mun sakna þín hugsa til þín hvert sem ég fer þú ert alltaf í huga mér. Guð blessi þig. ] [ Ég sit við hlið þér þú heldur utan um mig þú heldur á mér hita ég hitna sjóð hitna ég sofna líður tími.. ég vakna þú ert farin ég fer að leita ég leita og leita eftir smá tíma finn ég þig í örmum annarrar konu hvernig gastu þetta...?? KARLREMBUSVÍN!! ] [ Litli bangsinn situr kyrr, þú hefur átt að sjá hann fyrr. því hann sætur er, þegar hann í fangi mínu er. ] [ Amma gamla situr og saumar ruggar sér á stól fram og aftur lítið lag hún raular ruggar og ruggar, fram og aftur fram og aftur. Lítill einmana strákur leikur sér en allt í einu kemur stór snákur litli strákurinn forðar sér. Hættu að flokka og farðu í sokka farðu síðan að rokka. Úti er fuglasöngur, bjartur og fallegur hann er. Bændur fara í göngur, þegar haustar fer. Hér á landi er lítil borg í þeirri borg er lítið torg þar situr lítill strákur í ástarsorg. Lítið barn rólar til og frá, til og frá framhjá einhver hjólar barninu brá... barnið dettur það fer að vola. Á buxurnar kemur blettur fótinn þarf að skola. Sumarið kemur blómin vakna skáldið semur margt þarf maður að sakna. fuglarnir syngja fyrir mig blómin út springa loks fæ ég að hitta þig. í einu litlu húsi er lítil sál þessi litla sál heitir Fúsi Það dýrmætasta sem Fúsi á er lítil nál. Með þessari nál saumar Fúsi hann saumar fötin sín. Hann er aleinn í þessu húsi og saumar fötin sín. Ég á stórann fíl hann leikur sér að litlum bíl. Hann vill vinur þinn vera þó að hann sé fíll þá hefur hann nóg að gera. Vinningshafi er þessi. Hann er alveg í kafi og er alltaf í stressi. Hér er hringur sem ég dreg á þinn fingur. Ég vona að hann fari þér nokkuð vel ef hann dettur niður fer hann í mel. ] [ Manstu eftir því þegar ég sá þig fyrst og sagði við þig byrst: \"hvað þykist þú vera að gera góði minn?\" þegar barnið okkar rétti þér bangsann sinn og spurði: \"af hverju er mamma reið?\" og hverju svaraðir þú \"æ hún mamma þín er bara leið!\" þú varst verulega mikill kjáni minn klári og fallegi Stjáni. Manstu eftir því þegar ég kyssti þig í fyrsta sinn. Ég man eftir því þegar þú straukst um vangann minn. Manstu eftir því þegar við höfðum fyrst mök. Og ég eftir á þurfti að þrífa mörg lök. Eftir þessi mök varð ég ófrísk eftir þig. Við eignuðumst dóttur sem kúrði fast við mig. Manstu eftir því þegar þú æptir á mig og ég á þig. Barnið okkar var logandi hrætt þetta fengum við aldrei bætt. Barnið grét og grét hvað átti ég að gera? ég eins og asni lét. Manstu eftir því þegar þú komst og pakkaðir niður. Loksins vissi ég að það yrði friður. Þú skildir mig eftir, og fórst út í rokið. Þessu var klárlega lokið. ] [ Svona á þetta ekki að vera rennandi tár. Einhver er að hlera, æ! nú er ég sár! Ég elska að vera til! það er æði! en svo kemur ótrúlegt tímabil þegar nýtt líf ég fæði. Til hvers að gera öðrum lífið leitt þú tapar bara á því! það gagnar akkúrat ekki neitt af hverju ekki að vera vinur á ný. ] [ Ég geng um allt en í kringum mig eru bara veggir bara eintómir veggir ég leita að þér hvar sem þú ert mun ég finna þig og þú mig. Ég geng í hringi hvar sem ég er munt þú finna mig ég veit að þú ert hér einhversstaðar. Ég vona að ég eigi eftir að finna þig. fljótt. En ég held að það verði erfitt því hér eru bara eintómir veggir. ] [ Ást. Ekki hægt að hugsa sér annað ekki hægt annað en að dást. En það er alveg bannað að hætta að elska! því að þá eyðileggur þú allt! Endalaust vakna spurningar um endalausar ástir en stórkostlegt að eiga þig sem ástvin. ] [ Um allan bæ eru endalausar sölur og syngjandi völur. Ég með drykk í hendi þú heldur á blómvendi. Maður nokkur drekkur drykk sem heitir Toppur. Ég meina \"en sá kroppur\" ] [ Að hafa mök ekki hægt að hugsa sér betra. En að þrífa hundrað lök ekki nógu gott. Hvernig á að ná á þér tök? ég veit það ekki ég á enga sök á því að vera þunguð það er yðar sök. ] [ Krakkar eru að tala kennarar skammast þeir segja þeim að hætta að mala í hópum krakkar safnast og fara að baktala. ] [ Endalaus bið en þetta tilheyrir sið þó að fólk reki á eftir manni þá þarf maður ekkert að vera glanni. Allsstaðar hljótt ekkert heyrist hlauptu fljótt eitthvað hreyfist. ] [ Um jólin er gaman að vera betra er að gefa en að þiggja. Jólasveinninn kemur með jólagjafir til að gefa. Á meðan er heimilisfólk jólamatinn að tyggja. Um áramótin gamla árið maður kveður bæði synir og feður skjóta upp flugeldum til að nýja árinu að fagna. En gamla árinu munu allir sakna. ] [ Ef ég væri þig ég særi en ef ég kæmi væri ég með læri ó minn kæri það er tækifæri. ] [ Nei, sjáðu þarna er api æ hættu þessu gapi Þarna er fín borðstofa því skal ég lofa. Hér er ég sjálf sem líkist sko engum kálf. Ekki bölva þó að þarna sé tölva. Ég á lítinn kött sem kann að tala það er alveg út i hött eina sem hann ekki kann er að mala NEI! hann er byrjaður að mala. ] [ Ef ég þig hitti og liti niður fyrir mitti og svo á bros þitt kemur þú svo við brjóst mitt ég kem við lim þinn þú kyssir mig á kinn þetta er æði. Það vantar bara sæði eftir hverju erum við að bíða förum að ríða. að sjá þig svitna mér er farið að hitna mer líður vel en þér? ] [ Sólin skein á lítið bein. Stúlkan var að vera sein en hundurinn gerði engum mein. Sólin skín stelpan er fín þetta er stelpan mín. ] [ Ég vildi bara láta þig vita að því að ég sakna þín Ég vildi bara láta þig vita að ég elska þig. Ég vildi bara láta þig vita að ég vil vera í þínum faðmi Ég vildi bara láta þig vita hve ég ann þeir heitt. Ég vildi bara láta þig vita að ég er hér Ég vildi bara segja þér að ég er alltaf til staðar þegar þig vantar mig. ] [ ÉG ER FASTUR Í EYÐIMÖRK ÉG STEND Í SANDI UPP AÐ HNJÁM ÞAR ER EKKERT AÐ SJÁ ÞAR ER ENGAN AÐ SJÁ ÉG ER FASTUR Í EYÐIMÖRK. ÉG ER FASTUR Í EYÐIMÖRK OG ÉG KALLA Á HJÁLP EN ÓP MITT ÞAÐ DEYR OG HVERFUR Í SANDINN ÉG ER FASTUR Í EYÐIMÖRK. ÉG ER FASTUR Í EYÐIMÖRK OG ÉG BÍÐ EFTIR ÞVÍ AÐ EINHVER MÉR HJÁLPI VÍSI LEIÐINA BURT ÉG ER FASTUR Í EYÐIMÖRK. ÞVÍ DAUÐINN VÍST KEMUR INNAN FRÁ OG DREYFIR SÉR RÓLEGA UM MEÐ BLÓÐI MUN BERAST ÞAÐ MÁ EKKI GERAST ÞVÍ LÍFIÐ ER ALLT SEM ÉG Á. ÉG ER FASTUR Í EYÐIMÖRK. ] [ Í tryllingslegum dansi og við tálsýnir í höfði mér Taktfast fyllist vellíðan í tónaflóði áhrifa Með hamingju í hendi hálslöng, þó með breiðan búk hetjulega tekst á loft í hugarflugi andskotans Í dauðsmannslandi skaltu búa Í vöku sem og draumi á vængjum þöndum svíf ég um velti vöngum yfir því hvort víman vari endalaust Í bardaga við lífið botnlaust síki sekkur í Breyting ei til batnaðar á ballarhafi vímunnar Í dauðsmannslandi skaltu búa Og einn daginn það að þú dýpra kemst ei einn að þú kemst ekki meir það dregur dilk á eftir sér því nú dauðinn fylgir þér hann fylgir þér. Í dauðsmannslandi skaltu búa..... ....einn ] [ SÓLIN NÚ VARPAR SKUGGUM Á VEGGINN OG ÉG SIT HÉR OG HUGSA UM ÞIG ÞÚ FÓRST YFIR HAFIÐ ÞÚ FÓRST AFTUR HEIM JÁ, ÞÚ FLAUGST BURT OG YFIRGAFST MIG ÉG HORFI Í DRAUMI Á ÞIG HVERJA NÓTT OG ÉG HELD MÉR Í FAÐMI ÞÉR EN FLJÓTT ERTU FARIN ER VAKNA ÉG UPP Í FAÐMI Á SJÁLFUM MÉR VILDI ÉG SOFNA, EKKI VAKNA MEIR SOFNA OG DREYMA UM ÞIG DREYMA UM BROS ÞITT OG AUGUN ÞÍN VIÐ HLIÐ ÞÉR ÞAR SÆI ÉG MIG SÓLIN NÚ SKRIÐIN ER BURT BAK VIÐ SKÝIN EN SÝNIN ÞÓ STENDUR Í STAÐ KYNNI AÐ VERA EF KANNAÐ ÉG GÆTI HVORT KÆMIST ÉG YFIR ÞAÐ EF FÆRI ÉG SJÁLFUR Í FERÐ YFIR HAFIÐ OG FENGI ÉG LITIÐ Á ÞIG OG ÖÐRUM ÞÚ VÆRIR ÁKVEÐIN ÞAR ANDSKOTINN ÞÁ HIRÐI MIG VILDI ÉG SOFNA, EKKI VAKNA MEIR SOFNA OG DREYMA UM ÞIG DREYMA UM BROS ÞITT OG AUGUN ÞÍN VIÐ HLIÐ ÞÉR ÞAR SÆI ÉG MIG VIÐ HLIÐINA Á RÚMINU LIGGJA Í RÖÐ RETTURNAR, PILLUR OG VÍN EKKERT ANNAÐ SEM AUÐVELDAR MÉR AÐ KOMAST AFTUR TIL ÞÍN VILDI ÉG SOFNA, EKKI VAKNA MEIR SOFNA OG DREYMA UM ÞIG DREYMA UM BROS ÞITT OG AUGUN ÞÍN VIÐ HLIÐ ÞÉR SÆI ÉG MIG VILDI ÉG SOFNA EKKI VAKNA MEIR...... ] [ I KNOW THE WIND IS BLOWING BUT CANNOT FEEL IT IN MY HAIR I KNOW THE SUN IS SHINING BUT CANNOT FEEL IT IN MY FACE I KNOW THE BIRD IS SINGING BUT CANNOT FEEL IT IN MY EARS I KNOW MY GIRL IS LOVING BUT CANNOT FEEL IT IN MY HEART ] [ Long time’s gone without a trace we were lost in unknown maze Never heard and never seen though in my heart you’ve always been there you’ll always have a special place I’ve found you now and want to keep you in my arms while you sleep to make you calm, to make you ease live our lifes with love and pease and I know my feelings are so deep Every night to God I pray and every night I hear him say not to worry for you and me we were always ment to be our love will grow from day to day ] [ Í LAUTINNI UNDIR LAUFGUÐUM TRJÁNUM LÁGU ÞAU HLIÐ VIÐ HLIÐ MEÐ BROSTIN AUGU EN BROS Á VÖR BÆRÐU ÞAU HVORKI LEGG NÉ LIÐ ] [ Oftast hefur unga fólkið ansi lítið að segja, stökuorð á stangli og síðan bara ,,ókeyja!” Skyldi ást þeirra allra gegnum útlitið liggja, ég efast um það stórum og ei vil á byggja. Leiðin að hjartanu liggur ljóst um magann, láttu þinn ljúfling hafa snúð til að nag ‘ann. ] [ Kínaveldið Kínverjar eru elstu og sérstæðustu minningarþjóða heims og hafa átt einkinnilegri feril en þær flestar.Ríki þeirra hefur staðið nokkurt lengri en ríki sem sögur hafa farið af í 4000 ár og var orðið bæði voldugt og háþróað löngu fyrir daga Krists. Hann er ævagamalt land þar sem allt er tröllvaxið. Vesturfjöll sem eru yfir 8000 metra há, eru ásamt Himalajafjöllum hæstu fjöll heimsins. Í norðvestan landinu er einn lægsti blettur jarðarinnar,Túrfan-lægðinn sem liggur um 170 metra undir sjávarmálið. Um norðurhéruð landsins hlykkjast lengsta mannvirki í heimi - Kínamúrinn. Kínamúrinn eru 2400 kílómetra langur og var reistur fyrir meira en 2000 árum til a hefta ágang fólks frá gresjum Asíu. ****************************************** Einu sinni var stelpa sem heitir Hanyu Jiaocheng hún er 10 ára gömul á enga mömmu og pabba og var skyld eftir á siglingar skip hjá Kínverjum einmitt þegar þau ætluðu að sigla til Afríku en þau hættu við og vildu búa á sínu heimili og verjast útlendingum. Eftir það við norðurlandamærin var byggt lengsra mannvirki í heimi að verjast árásum úr þeirra átt út af því var Kínamúrinn byggt. Allir voru að hjálpa að byggja byggingunni líka Hanyu og þar hittir hún Shu Lianghe og giftust þegar hún var 14 þau lifu mjög hamingjusöm. EITT ÁR SÍÐAN Eina nótt heyrir öskur af barn sem heitir Comfucius og var fæddur á 28.septembers nóttina en Hanyu var veik frá síðan 20.sept og deyrð eftir að hún fæðist Comfucius. Þessi kvöld var bæði gleði og sorg. Faðir hans Shu Lianghe og var afkomandi aðalsætta sem missti lönd sín og völd í Song-ríki og neyddist til að flytjast til Lu-ríkis. Þetta var ekki óalgengur hlutur í Kínaveldi því hún skiptist upp í ótal smáríkja og aðalsættir gátu misst öll lönd og völd á svipbrigði við pólitískum umbreytingum. Þrátt fyrir fátæktina er nokkuð ljóst að Confucius hafi hlotið góða menntun þrátt fyrir fátæktina þó ekkert er vitað um neina kennara. Það var kannski ekki aðalatriðið því hann var vanur að segja að þar sem þrír menn fara saman getur alltaf einhver lært eitthvað. Skemmtilegt er samt að segja frá því að Confucius fékk aldrei nógu mikil laun í ráðuneytisstörfum sínum til að lifa vel þannig að hann kenndi hliðsjónar hinu starfinu. Löngu seinna þegar hann gafst upp á öllu stjórnmálarstússinu hélt hann áfram að kenna. Hann var fyrsti maðurinn sem sögur fara af sem hafði ofan af fyrir sér einungis með kennslu og því hefur hann gjarnan verið kallaður fyrsti kennarinn. Ungur að árum, í kringum tvítugt, var hann minniháttar framkvæmdarstjóri af einhverju tagi í Lu-ríkinu. Seinna meir náði hann að vinna sig upp sem dómsmálaráðherra (Justice Minister). Á þessum tíma var talið að hann hafi hitt Laozi (Lao Tse), höfund Taoisma. Samt eru engar staðfestar heimildir fyrir því. Taoistar halda því fram að Confucius hafi ferðast til Zhou-ríkisins, þar sem Laozi vann sem skjalarvörður í keisaralegu bókasafni Zhou-ríkis, til þess að læra af honum. Í samtölum þeirra var sagt að Confucius hafi lært meira af Laozi en frá öllum bókum safnsins. Ég er samt meira á þeim buxum að þeir hafi hirst þegar Laozi ferðaðist um ríkin að dreifa visku sinni og hafi Confucius komist á tal við hann í Lu-ríkinu. Hitt hljómar eins og Taoistar vilja láta Laozi, og þar af leiðandi Taosiman, líta gáfaðri og betri út. Lu-ríkið var eitt ríkasta ríki Kína á meðan Confucius vann fyrir það og fannst honum það að hluta til vera hans kenningum um stjórnarfar að þakka. Stoppið í ráðherraembættinu var samt stutt því honum blöskraði stjórnarhættir Ji Huanzi forsætisráðherra og spillingu keisarans að hann sagði af sér og þá hóf margra ára flakk hans milli ríkja í norðurhluta Kína ásamt nokkrum lærisveinum. Markmiðið með því flakki var að fá ríkin til að taka upp stefnu sína. Þetta var ekki óalgengt að lærdómsmenn með ákveðnar skoðanir á pólitík ferðuðust milli ríkja og byði valdhöfum þjónustu sína. Fyrst fór hann til Wei-ríkis. Honum fannst stjórnhæfileikar Ling fursta ekki ýkja merkilegir en hann náði samt sem áður að halda völdum þökk sé ráðgjafa síns að mati Confucius. Furstinn vildi hinsvegar láta Confucius kenna sér herstjórnarlist en þá var Confucius nóg boðið og yfirgaf Wei-ríkið. ] [ Laufin koma á tré fuglarnir byrja að syngja geitungar og randaflugur lifna við blómin lifna við og springa út. Vorið er gott og hlýtt það fer að hlýna allt er orðið nýtt börnin blómin byrja að týna. Á vorin gerist margt margt sem gaman er að sjá það hættir að vera kalt og margt fer á stjá. ] [ Hvernig er hægt að stöðva sorg Hvernig er hægt að elska Hvernig er hægt að tjá sig Hvernig er hægt að faðma Hvernig er hægt að berjast við ástarsorg Hvernig er hægt að vera sannur vinur Hvernig er hægt að kyssa Hvernig er hægt að gera þetta allt?? ] [ Eitt máttu vita að ég á vin sem ég treysti sem mér þykir vænt um sem ég get talað við sá vinur ert þú!! Eitt máttu vita að ef ég elska einhvern þá ert það þú! ] [ koss ekkert annað en mjúkar varir þínar Faðmlag ekkert annað en faðmur þinn kynlíf ekkert annað en hitinn frá þér bros ekkert annað en aðlaðandi varir þínar þú æ ég veit ekkert betra en nærvera þín. ] [ Ég sit hér ein þú ert horfinn ég er algjörlega alein það er engin hreyfing ég sakna þín hvar ertu?? vonandi, vonandi kemur þú aftur ég er sífellt volandi ef þú kemur aftur þá skal ég fyrirgefa þér! ] [ Ég tíni blóm þau eru rauð ég er í gulum skóm það var svo heitt að ég var næstum dauð. ] [ Stundum vill fólk gera eitthvað annað sem er alveg bannað Hvað er hægt að gera án þess að láta á því bera Hér held ég á blómvendi í minni fallegu hendi ég týndi hann út í móa og þar var falleg lóa. ] [ Gulur eins og sólin rauður eins og blóðið grænn eins og grasið blár eins og himininn Eins og þú og ég! ] [ úti er mikið frost úti er ekki hægt að vera ég trúi ekki að þú fórst út til stelpu að hlera sum börn fá ekki mikið en sum fá allt! passaðu þig að detta ekki ofan í sýkið því að þar getur verið mjög kalt. ] [ Hjartað mitt það er svo hlýtt hjartað mitt það minnir mig á þig hjartað mitt það er svo fagurt hjartað mitt það hamast ört hjartað mitt er mín ást hjartað mitt er eins og þitt svona get ég haldið endalaust áfram!! ] [ Dúkurinn er gulur syngjandi þulur pollurinn er rauður þú ert algjör sauður bletturinn er grænn drengurinn er vænn himininn er blár gefur frá sér stundum tár sandurinn er svartur þetta er erfiður partur skýið er eins og hvítur óhreinn skítur. ] [ Einhver er sár einhver er í ástarsorg rennandi tár og niður á torg er írafár. ] [ stundum er erfitt að átta sig, það er margt skrítið til. En það er ekki málið haltu áfram að skola kálið hættu að mala og áfram með smjörið því annað eyðileggir þú fjörið. ] [ Þó að þú smitir þá er gott að þú vitir að áður en ég dey mun ég deyja hrein mey. ] [ Gangandi fílar flautandi bílar lífið er að verða vitlaust læti, löggan kominn. allt er að verða bilað hvað er hægt að gera? Svona á þetta ekki að vera! en svona á þetta að vera engir fílar hljóðir bílar. ] [ Þarna er gluggi hann er glær ég sé í gegnum hann kemst ekki í gegnum hann sé allt annað hinum megin þetta er eins og spegill ég sé sjálfan mig og ég sé þig. ] [ Hér er önd sem réttir þér blómvönd. Hún er hrifin af þér og hún sér á þér að þú ert hrifin af henni svo hér er penni skrifaðu nú ástarbréf gangi þér nú vel. ] [ Hér er rós hún er rauð hún er í dós sem ég þér bauð. ] [ Rautt epli grænt epli hvort er betra? ég veit ekki þau eru jafn góð. ] [ Sólskin skýin verða þung það fer að rigna síðan fer að lygna það er komið sólskin. ] [ Hvað ertu að flissa þetta er nú bara byssa svona taktu hana og þig ég mana og skjóttu þetta kvikindi til bana. ] [ Ég veit ekki hvað þessi kona er búin að segja oft orðið \"svona\" hve mikið hún vinnur hvað er margt sem hún finnur hún er frekar snjöll að ganga á fjöll. Þessi kona er 28 ára hún heitir Lára. Þó að hún sé gleymin þá er hún ekki vitund feimin hún er líka oft út á engi og hún er þar oft mjög lengi. þó að hún sé gift þá getur hún þungum steini lyft hún er ólétt og er orðin frekar þétt hún er algjör feigð að vera komin sex mánuði á leið hress manneskja gefur lífinu lit. ] [ Á þessari braut er hættulegt og stórt naut það er svart og feitt horn þess eru mjög beitt. það hleypur svaka hratt það er alveg satt! ] [ hér er kaka sem ég var að baka. Er hún ekki góð? ég hveiti og sykri í hana tróð. Þetta er það besta sem ég hef fengið á ævinni. Þótt gott bragð ég finni æ það er alltaf gott bragð af kökunni minni. ] [ Ástarljóð ég yrki yrki til þín um svokallað ástarbirki frá mér til þín. Ég vil að þú vitir hve heitt ég hugsa til þín þótt ég standi eða sitji þá berast hugsanir mínar yfir til þín. Einnig vil ég að þú vitir hvað ég elska þig heitt þótt fast þú bitir það er ekki neitt ó ástin mín ég vildi að þú vissir hvað ég sakna þín mikið :) ] [ Ég er einmana hvar ertu? ástin mín ég sakna þín ég er alltaf sífellt ein alla daga aldrei neinn hjá mér nema skugginn minn hvar ertu? ég sakna þín!! ] [ Góðan dag syngjum lag um fagra ást þegar þú lást hliðina á mér og ég strauk þér. Þetta var yndislegur dagur þú varst svo fagur ég gleymi því aldrei glampanum í augum þér. Þegar þú leist í augun á mér fuglarnir sungu með sinni fögru tungu sólin skein á okkar fögru bein. En nú er þetta liðin tíð og önnur tíð framundan hver veit nema að hún verði aftur með þér. ] [ Að sitja við hlið þér að fá koss frá þér er algjört æði af því að við bæði pössum saman og það er gaman. Ég hugsa um þig jafnt sem nótt sem dag þá hugsa ég bara um þig ég elska þig svo heitt ástin mín. ] [ Það heyrast stunur hann er að fá það þvílíkur munur eða hvað. ] [ Graður gaur fer upp að staur er með standpínu eftir að hafa verið ertur af Nínu. Vill fá að ríða eftir hverju er hann að bíða er svo graður saklaus maður. ] [ Snjórinn fellur til jarðar allt er að verða hvítt fótsporin fara að sjást tré verða hvít bílarnir hvítir allt hvítt! Börnin búa til snjókarl aðrir búa til snjóbolta mikil snjókoma gaman, gaman. ] [ Eitthvað hvítt fellur til jarðar eins og það hefur verið gert gat á kodda. Þetta er kalt viðkomu þetta brakar. einhvers konar duft bráðnar í höndunum á manni verður að köldu vatni, hvað er að gerast þarna uppi?? ] [ Lokuð inni sé ekkert, ekkert nema svart ég finn að líkaminn titrar er það kuldi eða hræðsla? heyri fótatak einhver kemur dyrnar opnast fæ ofbirtu í augun sé ekki hver þetta er hurðin lokast hvar er ég? ] [ Er með kvíða fæ magaverk jafnvel niðurgang er oftar veik allir eru á móti mér húfan tekin ég kann ekkert ég veit ekkert ég er asnaleg á ekkert að vera til er skilinn útundan það er sparkað í mig mér er strítt mér líður illa af hverju ég???? ] [ Jólaljósin lýsa yfir þorpið jólakötturinn kíkir út frá sorpi jólatónlistin glymur jólasveinninn strompinn stekkur fimur jólin eru kominn. ] [ Hann er sá sem labbaði framhjá mér. Hann er sá sem horfði fyrst á mig. Hann er sá sem talaði fyrst við mig. Hann er sá sem snerti mig. Hann er sá sem kyssti mig. Hann er sá sem elskaði mig. Hann er sá sem trúlofaðist mér. Hann er sá sem giftist mér. Hann er sá sem sem er barnsfaðir minn. Hann er sá sem hataði mig. Hann er sá sem barði mig. Hann er sá sem hélt framhjá mér. Hann er sá sem kíkir á mig aðra hvora helgi Hann er sá sem ég þurfti að þola. ] [ Jólin banka á dyr kl sex hundurinn Rex stekkur á dyr og geltir á meðan kötturinn liggur og matinn meltir jólasveinninn stendur fyrir utan með pakka. Mamma situr í stofunni að neglur sínar að lakka. Pabbi pirrast getur ekki látið á sig bindið. Það er nú bara frekar fyndið. Allir komnir í fínar buxur og fínan kjól þá segi ég bara Gleðileg jól. ] [ Elskar hann mig? hefur hann áhuga á mér? eða er hann bara að hugsa um sig? \"ég er ástfanginn af þér\" Þetta myndi ég segja við hann ég sakna hans það sem hann fann. Æ, mér er sama langar bara að bjóða honum upp í dans. ] [ Sit ein geðveikt þreytt horfi út um gluggann leiðist! stelpur að senda miða á milli strákar sofandi! en hún ein situr bara og er að deyja úr leiðindum horfandi út um gluggann. Af hverju eru tímar svona leiðinlegir? ] [ The snow of January It comes down thick, its the cotton harvest from the sky. The path covered in white, the trees too Perfect conditions for igloo. Everything pearly white, clean, sterile For a season all ugliness of the earth are under a frozen sky. ] [ The end of another year, a start of another. The year in passing was a troubled one, much like the one before and the one before that A great woman has died, and another great woman may die. People lives on, hopefully carrying with them Their wisdom A womans death shattered a country And the other woman, shattering her own life Yet she has said many things on records That has served great lesson to people who are already lost. Would a nation be rebuilt? Would she finish a rehab? If she does would she be able still to teach us? Has people learned anything from the last? No they have not, people come and go Much like the years that come and pass People leads their nation, people that sing. In the next year by Tuesday We will all still be the same. For the next year will again Be a troublesome one. ] [ Inn á milli fagurra fjallatinda og firninda, sem náttúruna mynda, finna má í sælli veröld sinni sumarhús, sem heitir Vinaminni. Á botninum í djúpum, fögrum dalnum dvelur það, í miðjum fjallasalnum. Hvort sem er, að vori eða að vetri, veður gerast hvergi á landi betri. Hér logar ávallt lífsins besti eldur og logi hans í öllum brjóstum veldur hamingju og heimsins besta friði, sem heyra má í tærum lækjarniði. Hér er ávallt afar kátt á hjalla og ómar stundum gleði um Kjósina alla. Sumir kátir syngja um heima og geima en sumir lúra vært í koju og dreyma. Fátt er betra en hér í ró að hafa hæga stund með ömmu sinni og afa. Í sældarför á værðarinnar vegi ég varið gæti hérna hverjum degi. En öll við þurfum Kjósina að kveðja og kann það eigi nokkurt hjarta að gleðja. En hingað verkar frækinn feiknarkraftur, svo fljótt við munum snúa hingað aftur. Því hvergi er í veröld betra að vera og víst mun ávallt ljúfa í brjósti bera minningu um bústað sem í sinni sælu veröld lifir - Vinaminni. ] [ Horfi út um gluggann. sé þig. Get ekki hætt að horfa á þig þú ert algjört yndi. Vildi að ég væri þarna hjá þér myndi labba með þér faðma þig og kyssa en nei því miður hugsanir eru æðislegar en ekki raunverulegar. ] [ lífi mínu er lokið ég á ekkert eftir rekin að heiman ég er api kann ekkert og veit ekkert verð ekkert! er ekkert! á hvergi heima líf mitt er búið tilgangslaust að lifa lengur er búin að vera langar að deyja hef ekkert við lífið að gera lengur ég er ekki mönnum hæf! Á bara ekki að vera hér lengur vill einhver hjálpa mér að DEYJA!! ] [ kem til þín þú tekur í höndina á mér ég finn æðislega tilfinningu koma þú ert æði! ég kyssi þig létt og faðma þig innilega! þetta er æðislegt! pikkað í mig! helvítis ímyndun! ] [ Sit ein á ganginum fólk lítur á mig álíta mig sem betlara með töskuna á milli lappanna með skrifblokk í annarri hendi og blýant í hinni. Hvað er að því hvort maður sitji einn á ganginum maður er samt Félagsvera! ] [ Hún er félagsvera hvað hún er að gera veit ég ei hún er hrein mey það er eitt er víst eitt sem ég veit að þú kýst það er að vera henni hjá og hana alltaf sjá Hún falleg er hvert sem hún fer ilm hún ber með sér ég vildi, að allir væru á eftir mér. ] [ Jólin koma stressið byrjar búðir fyllast spenningur eykst blótsyrði magnast raðir langar hamborgarinn uppseldur! illt í efni Hvað er núna til mála!? ] [ Lítil stúlka tínir blóm hún tínir lítil blóm hún kemur heim með litlu blómin segir: \"mamma mín, sjáðu blómin mín!!\" ] [ sólskinsdagur fallegt veður ungar liggja í hreiðri glitrar lækur glampar fjörður tindar sperrtir með hnjúka mildur blær grasi vaggar leka af dropar morgundaggar líður dagur ljúfsár fallegt veður uppá heiði en fyrir varginn ber vel í veiði syngur fugl á steini sorgarrödd um ástmögur við sitjum hjá og hlustum en hvað hún er fögur líður dagur hjá uppá heiði ] [ Einu sinni í fornri fyrnd fæddist lítill, ljúfur drengur. Veröld hans var stjörnum stirnd uns stór hann gerðist - eins og gengur. Yfir fóru að færast ár. Fagurt ómar ellistrengur. Núna skortir höfuð hár. Hann er ekki ungur lengur. Niður kinnar torveld tár í taumum miklum óðum streyma \"Mér til höfuðs hrannast ár! ég hlýt að vera að fokking dreyma!\" Nú er af sem áður var, æskan hefur burtu fokið. En horfðu á björtu hliðarnar: Hér er þessu kvæði lokið. ] [ Þegar þú ferð frá mér, hjartað mitt brotnar, sál mín grætur, brosið mitt dofnar. Þú gefur mér tilgang til þess að lifa, veitir mér orku í gegnum daginn. Þú lætur mig eltast við draumana mína, lætur mig trúa að ég geri rétt Þú ert ástæðan að ég vakni á morgnanna. Þú ert ástæðan fyrir brosinu á andliti mínu. Þú ert ástæðan ég trúi og voni. Þú ert ástæðan ég lifi. Þegar þú ferð frá mér, augun mín gráta, lífið hrynur, dagurinn hverfur. Þú ert ástæðan ég lifi ] [ Nú vil ég líta til nágranna vorra, næsta ég ætla þeir séu í geimi. Það á að mynda Skruggu og Skorra, skrautlegt er lífið í þessum heimi. ] [ Ég er gamaldags stelpa, en það er allt í lagi. Ég er viðkvæm manneskja, en það er allt í lagi. Ég er öruggur persónuleiki, en það er allt í lagi. Ég er bara ég, og það er sko í lagi. ] [ Í skákheiminum stæltur stór, stimplaði Ísland heimskort á. En héðan Bobby Fischer fór, til feðga á himni að máta þá. ] [ snemma kom annar, of árla hinn fór yfir tuttugu ár þeirra á milli, nafni þeir deila, -heill þér, halldór! hjörtu af kærleik þú fyllir. ] [ Ég finn hvernig feimnin felur þig bakvið brotna grímu það ert ekki bara þú sem ert í felum ég fel hjarta mitt í ótta við að það fynnist þú hefur fundið það brotið og fleykt Sama tilfinningin fer um mig Sársauki, reiði og hatur Verður þetta alltaf svona? velur munstrið mig eða ég það? hvað geri ég rangt.... ] [ Ég hitti eitt sinn skvísu sem sagði mér vísu um hana Lísu sem borðaði ekki ýsu ] [ Lífið er gott lífið er skemmtilegt en lífið er líka erfitt því allt og allir eiga sína vonda hlið því annars yrði lífið of gott til að vera satt ] [ Kalt er úti kuldinn bítur mann samt er veturinn ekki svo vondur leika í snjónum er hægt og er hægt að renna sér ] [ a story forming in her face, sitting there with sorrow, hiding behind her grace. showing sometimes her real skin, covered up with her smile, so thin. memories hurting her for so long, seeking peace, through sadness in a song. ] [ Hókus pókus huff, puff, heff uppúr hatti steig Ólafur eff ] [ að tala um þá ekki eins og því taki með skítinn á nefinu og líka uppá baki grátklökkir af snilld hvorn annan þeir mæra ef annar er pimpinn hvor er þá gæra rósrauðum augum skósíðum baugum stefnumál í haugum sjálfstæðis taugum minnumst samt þess er líður frá degi að hver er ber að baki nema hnífasett eigi ] [ bar að skugga blómið lagði fölnuð er nú hjartans rós þig kyssi blítt alheims englar í faðmi jesú sofðu rótt geymdu guð barnið blíða sorgu þessa veittu huggun þig kyssi blítt alheims englar á kistu þína legg ég rós ] [ Hrifning í mínútum, Ást í sekúndum, sjálfsblekking, horfin. Ráfandi í myrkri, engin útskýring, engin orð, ekkert hik, því ég mun elska þig, alltaf. ] [ Með deigum hug og dimmum svip ég dögunum mæti því máttvana hendur og magnþrota kné mér gefa ei kæti. ] [ Þegar ég loka augunum rænir þú hugsunum mínum. Þú stendur í tröppunum og treður tungunni í sænskan pönkara. Ég hleyp út, beint í fangið á Angelinu Jolie. Augu hennar eru full sakleysis og hún brosir til mín. Það er eins og litlir djöflar séu að rífa úr mér hjartað og borða það í maga mínum. Kreista brosið titrar á vörum mér er ég hleyp, hleyp í burtu. Burt frá þér, burt frá augum sakleysis og fel mig í kolsvarta hjarta mínu og reiðu stelpurokki. Kem heim og jarða tilfinningar mínar undir sænginni. Yfir beisku morgunkaffinu, velti ég fyrir mér hvort að Óli Lokbrá hafi verið að stríða mér, enn og aftur. ] [ þetta kvöld eftir dansleikinn hljóp stelpan niður í fjöruna í bláum síðkjól. og hún klæddi sig úr skónum og henti þeim í rigningarblautt grasið og svo hélt hún áfram að hlaupa þangað til hún stóð berfætt í sandinum alveg við sjóinn og lét brimöldurnar gegnbleyta sig. og hún hló því henni var heitt og hún var rjóð í kinnum eftir dansleikinn en sjórinn var svo svalandi og svo var hann líka svo góður á bragðið að hún sleikti út um. og hún óð lengra út á hafið þar sem öldurnar biðu hennar lokkandi og fagrar og mávarnir kölluðu á hana að koma til sín, hærra og hærra, og hún hljóp til þeirra, lengra og lengra, og gaf sig í faðm hafsins. ] [ Hvik eyru sveigðir hálsar titrandi nasavængir Hvítir hestar í silfurskógi Sál mín á flugskóm í tunglsljósi 23/01/08 ] [ Ódauðlegar stjörnur himins takið móti honum, er elskaður er og dáður því nú er ekkert eins og áður stjarna hefur fallið. Við þekkjum ekki manninn en þó hann er svo kær minningin mun lifa um eilífð okkur nær. ] [ Ég á sætan sælureit og sól með fögru skini. En eitt er það sem enginn veit: Ég á ei neina vini. Eitt sinn Guð mér góðan vin gaf um stundarsakir. Sú var þó aldrei ætlunin, hjá englum nú hann vakir. Ég veit að gróa seint þau sár sem seilast inn að beini. Hann lést um sl. ár úr lungnakrabbameini. Hann reykti ekki og aldrei drakk, var öllum kær sem bróðir. Engu að síður hann fór á flakk á forfeðranna slóðir. Nú einn ég vaki um vetrarkvöld þótt verði gjarnan þreyttur. Hér geysar sorgar ógnaröld allur minn heimur breyttur. ] [ Fyrir þig ég fremja myndi glæpi ef fengi ég að dvelja æ hjá þér. Án þín get ég ei mér hugsað lífið, því ást til þín ég sanna í brjósti ber. Þú minnir mig á fagran svan sem syngur af sannri gleði um ævintýrin sín. Ég elska þig af öllu mínu hjarta og óska að þú verðir ávallt mín. Ég hreifst af þér um leið og okkar leiðir lágu saman þetta sumarkvöld. Nú engum dylst að dýrðleg stúlka hefur að dyrum minnar ástar lyklavöld. Til framtíðar ég fært mér sé að horfa. Þar farsæld ríkir - á því hef ég trú. Því eitt ég veit, að einskis þarf að kvíða ef einhvers staðar hjá mér verður þú. ] [ Þeir vart við neitt af viti fást en vilja að illsku og hatri dást. Af hugaróró heimskir þjást og hafna því að til sé ást. Vitleysingar viti fjær vita ei betur. Þeim er nær. ] [ „Sic transit gloria mundi, Mundi minn\" suðaði fiskiflugan í glugganum og Mundi varð hugsi á svipinn svolitla stund. Síðan hélt hann áfram að klippa á sér táneglurnar. ] [ Hvers vegna slær hjarta mitt svo ótt þegar þú hlærð? Hvers vegna roðna ég þegar þú blikkar mig? Hvers vegna horfi ég á eftir þér þegar þú gengur hjá? Hvers vegna er ég alltaf að athuga hvort þú sért nærri? Hvers vegna dreymir mig þig á löngum nóttum? Hvers vegna hugsa ég ekki um neitt nema þig? Hvers vegna meiði ég aðra fyrir þig? Hvers vegna ræni ég frá öðrum fyrir þig? Hvers vegna þarfnast ég þín svo mikið? Hvers vegna er nafn þitt heróín? ] [ Læra, læra, með straumnum ég flýt. Lesa, lesa, þó ekki ég vil. Vinirnir hér, lærdómur þar. Því miður get ég ekki verið alstaðar. ] [ Allt er hamingja, allt er óhamingja. Allt er skemmtilegt, allt er leiðinlegt. Sumir eru jákvæðir, aðrir eru neikvæðir. Hvað ert þú? ] [ Sá sem vil ekki vera ástfanginn, er hann skynsamur? ] [ Maðurinn, með hendurnar tvær og vitaskuld búkinn föla, eiginkonuna, börnin tvö     - sem eru líka með tvær hendur og búk;       bara enn ræfilslegri - og hattinn; sem auðkennir manninn, drakk frá sér allt strit: Losnaði algerlega við það. Lúmskur fjandi. ] [ Nú karpað er um kóngsins skegg, kominn er nýr borgarstjóri á legg, Dagur er barinn, Björn Ingi farinn, en Svandís er enn að súpa hregg. ] [ Ég sit hér,hann er þar. Augu okkar mætast. Er hann eins og ég? einn,ósæll og marinn. fynnur hann hjartað mitt slá. Eða er þetta draumur? Fer þetta eins og hvert annað skot? eða er þetta að eyjlífu? Hvert er svarið við hugsumum hanns. mun ég eitthverntýman vita það? ] [ \"Mig langar að gera byltingu,\" viðurkenndi þybbin kona fyrir ljótmjóum sálfræðingi. \"Já,\" brosti hann feimnislega, með kvenlegum hreyfingum, \"það er kallað á fagmáli: Byltingakennd.\" Þybbna konan, sem vissi ekki hvort hún væri sjúk á sálinni, eður ei, en taldi vissara að athuga málið, missti út úr sér: \"Það er byltingakennd, hversu fáránleg athugasemd þetta er hjá þér!\" og hló geðveikislega. Samviskubit fór að naga hana granna. Hægt og óþægilega. ] [ að hugleiða hug leiða útvatnaðar hugmyndir málaðar brjálsemdaróminni hátt ískur hátízku allir sem eins eins fyrir alla konur og kalla einslituð afhverju spyr ég hversvegna er svarið hversvegna afhverju ég spyr sá sem veit tjóðraður í reit nægt gras fyrir alla á kvöldin koma úlfarnir gulnuðum augum horfa á þig og bjóða í sleik þegar allt er til alls ertu annars manns steik ] [ Blótsyrðið, sór við líf.......þitt, (lét mitt friði) það næði fram, furðu.......og losta. Ostarnir hvítir og gulir, þjóðverskir og kínverskir - furðulegir - (án tungumáls; en geta þó mælt, fælt og tælt; einhvers konu þrenning) skornir hver af öðrum. ] [ Íhaldið í djamminu vill dóla \"Doninn\" hélt afmæli í kjölfar jóla, loksins Villi vaknar vandamála saknar glaður á geðslag Óla vill nú stóla. Kjarvalsstöðum nú stormuðu að, \"stuttbuxnadeildin\" riðin er í hlað, Gísli Marteinn slefar grybbu-systur sefar að samviskunni sárt er nú kallað. Reynir nú ört á rifjarnar Óla reiðir eru margir og tjúllaðir spóla, vertu \"nokk hipp\"! skellt´ í hauskipp! í ranann mættir \"snorka smá kóla\". Oft lenda bestu sálir í svað en siðlaust ég tel að nýta sér það, Óli er fínn \"dúdur\". en lenti bara útúr, bjarnargreiði þar eða haldiði hvað? ] [ Eitt er óbrigðult í þessum heimi, allir kveðja hann fyrir rest. Spurningin er hver sálina geymi, síðan hve langan þú hefur frest. ] [ Kyrrðin djúp og þögul, Drungi færist yfir, Berst við myrkrið svarta, En get þó aldrei unnið, Augnlok þurr þau þyngjast, Brátt ég út af lognast. ] [ Bráðum koma jólinn til þín og mín, það er sko ekkert gín. Jólinn koma með bros á vör, Jólinn koma með næstum öll svör. Pakkar hér og pakkar þar pakkarnir eru alstaðar Hátíd gledi og gamman er bæði hjá mér og þér Kondu þér i jóla skab því þá er meira gamman að Og kveikjum nu jóla ljósinnu á þvi við jesús barninnu minnumst tá Jólin eru hér og þar jólin eru alstaðar Ísland Danmörk hvar sem er En þú ert þar og ég er hér ] [ Í honum er hjarta steypt úr gulli tekið úr þér. Það sýnist vera lítið en er svo miklu stærra, því hugurinn sem fylgir ert þú. Og þó ég ekki sjái það gullna hjarta slá, veit ég að það fylgir taktinum í mér. ] [ Horfinn, farinn. Inn í næturinnar mættið. Þar sem fuglsins sál, lifir að öðrum bættum hætti. Ég var rauður, ég var blár. Vængjaþit á milli handa minna. (Viltur var gróðurinn, sem æðar mínar þræddu.) Ég var gulur, ég var grár. Vængjaþit á milli handa þinna. (Viltur var gróðurinn, sem æðar þínar þræddu.) Horfinn, farinn. Inn í næturinnar mættið. Þar sem fuglsins sál, lifir að öðrum bættum hætti. ] [ Í ljósbláum skýjahnoðrum hverstaksleikans. Fléttast slóðir okkar saman með hægum en ákveðnum handartökum. Fortíð, nútíð, framtíð. Og þegar að regnið dynur á framrúðunni og frostið situr á vörum mínum þekki ég þig. ] [ Þrepin leiða hug minn upp að hæðsta tindi stefnir. Bara ef ég gæti selt sálu minni efnið. ] [ Ísköld er þokan sem byrgir mér sýn yfir flóann. Undir náhvítri blæju í fjörunni hvíla tvö för er sigldu eitt sumar um safírblátt haf, en dapurlegt feilspor dró þau í naust. Í kring, lúta frostbitin strá og tár þeirra frjósa á helkaldri mjöllinni. í september 2007 © allur réttur áskilinn höfundi ] [ To some the cold just feel so right, sadness purity - blue and grey! With frozen veins, feel the air. Flying birds see through glasses of fear There is dark, there is only a day. There is light, there is just a night. With frozen veins, feel the air. Flying birds see through glasses of fear ] [ Bráðvillt hleypur hjörðin í hringi, og vonar það besta, misinnilega. Það hlýtur eitthvað álitlegt að þvælast fyrir, tautar hún og reynir þar með að halda í vonina. Hjörðinni skrikar fótur höfuðin steypast í jörðina hver á eftir öðrum; dómínó áhrifin. Fall er fararheill, hughreystir hún sig en setur upp stórt spurningarmerki ? ] [ Ég sat og starði á uppáhaldspunktinn minn í loftinu á skrifstofunni minni þegar brjálaður rómantíker æddi inn. Hann var rjóður í kinnum og ljómaði allur. Roðinn stakk í stúf við stíliseringuna á kalkhvítu veggjunum og bleiku skyrtunni minni. Ég höndlaði þetta ekki og sagði honum að drulla sér út. Hann brosti bara breiðar, æddi að mér og kyssti mig á ennið. Hann angaði af baldursbrám. Hvílíkur endemis viðbjóður! Í hrópandi andstöðu við Armani-ilmvatnið mitt! Hann var klæddur í einhvers konar rókókó-föt, eða hvað sem þetta kallast. Rómantíkerinn dró upp snjáðan pappír og las hástöfum: Andi vonar okkur skekur, augu hans sem bál. Við hrópum, því hans tunga tekur taum af okkar sál. Þraukum! Vonar syngjum sálma. En söngur berst til hvers? Til lækja, engja og ægishjálma. Óður viskuhers! Ég henti honum út um gluggann, í gegnum rúðuna og út í rigninguna. Vonandi þarf ég aldrei aftur að hitta rómantíker. Vonandi. ] [ Þegar ég lykta af mjólkurkexi dettur mér dauðinn í hug Þegar ég heyri stef Dánarfregna og jarðarfara dettur mér mjólkurkex í hug Blómaskreyttur plastdúkur á borði Vofukennd rödd úr gluggakistunni þylur nöfn látins fólks Úti er grátt „ ... börn, barnabörn, barnabarnabörn ... “ ] [ Dagar gárunga, forn skráargöt svarthola; sjálfhverfandi gap. ] [ Rómantíkerinn mælti: „Tilveran er fótspor í mosa sem mun hjaðna innan tíðar.“ Nútímamaðurinn mælti: „Tilveran er að senda sms til tjellingarinnar meðan maður hjakkast á ritaranum og gerir um leið upp við sig hvort maður vill svín eða lamb í hádeginu.“ ] [ Í miðri hringiðu aldanna stöndum við frosin með ryðgaðan lykil við erum ný alltaf ný þéttur veggur af röddum og hlátrasköllum umlykur breyskleikann sem streymir úr augum okkar vot, stingandi, ringluð staðfestan horfin nema þetta sé nýtt upphaf hvert andlit er fellibylur með sérnafn hvert andlit geymir skráargat lykillinn gengur ekki að neinu þeirra nema okkar eigin Í hringiðu aldanna stöndum við varnarlaus andinn er til staðar röddin er til staðar litir, útlínur og skuggar nánast fullkomnir en við höfum ekki kjark né hug til þess ... að opna ] [ Út um rúður í kirkjuturni má sjá almúgann skipta litum. Sjá! Þarna fer bakarasonurinn frá hvítri ull lambsins og inn í blóðpoll fyrir neðan Rómverjann. Sjá! Þarna fer taugaveiklaði og hóstandi rithöfundurinn sem skrifar furðulegar sögur í gegnum höfuð Gabríels og endar við sverðsoddinn. Almúginn skiptir litum. --- Valmúginn til þess að sjá hann verðum við að stökkva ná haldi á reipi kirkjuklukkunnar. Hærra upp á topp. Efst uppi, úti fyrir sjáum við inn í efstu hæðirnar þær eru allar einlitar og reykmettaðar. Valmúginn klæddur í refaskinn með vúdú-dúkkur milli handa. Á meðan skiptir almúginn litum. ] [ Ungar mjaðmir liðast, vekja svarta fýsn. Mórautt hár eftir mjóbaki tælir bleikar hendur. Gegnsæ slæða gárast á svitaperlum. Vofa svífur um lendur minninga. Níu sinnum hlykkist líkami hlykkist, hnykkist hlykkist, hnykkist. Níu sinnum blotna varir blotna, bogna blotna, bogna. Hvað sérðu? Hvöss eyru? Hræ í skolti? Rófu? Rófur? Hugrenning, dagrenning horfin í skaut og skoru. Þú átt þér enga von; auður fastur í hlýrum, æra hulin lygum. Hvað sérðu? ] [ Sandkorn hrynja úr eyrunum þegar ég staldra við óhljóðin við sólarflötinn hálfan líða yfir auðnina tvífættar verur grænar, brúnar, andstuttar. Ein þeirra skelfur Þorpið öskrar Á móti mér hvítar verur á hlaupum inn í hálfrökkrið ein þeirra, lítil, brosir til mín – skelfing úr andlitum þeirra stóru. Þorpið þagnar Bergmálandi þögn Sandkornum fjölgar í auðninni. ] [ Viljirðu þú félagi úr skökklinum skvetta skaltu upp á bretta og síðan á þér létta. - Duravit - þig biður að sturta svo niður en hlandfýlan annars gerir menn gretta. ] [ Mars er bæði súkkulaði og jörð á henni býr svaka hjörð. Mars getur bráðnað og hlaupið myndi það þá koma í skaupi ] [ Hún Silja fór út að hitta hann Knút. Knútur var ei myndarlegur enda var hann ekki drengur Það er í lagi því hún Silja Ýr hún er HÝR... ] [ Orðin sannarlega ekki tóm, en fjarska hljóð, líkt og gola á sumarströnd í eyrum Knæpverja. ] [ Lítil snót með lokka gullna og bjarta leitar hlýju í faðmi hins unga manns. Með vonarbros, en brothætt, viðkvæmt hjarta hún bíður eftir tilsögn sannleikans. Því hún mátti áður þola svik frá sumum, sem sögðust hana elska mundu og þrá, en eyddu svo með eldingum og þrumum ástinni sem farin var á stjá. En ungar stúlkur þessi maður þekkti og þóttist kunna að leika á hvaða frú. Hann okkar ljúfu snót með brögðum blekkti og besta vann með svikum hennar trú. Hann sór að ávallt yrði hann til staðar, svo öllum stundum gæti hún sofið rótt. Á öðrum degi desembermánaðar dvaldi hann hjá henni yfir nótt. En eftir á var annað í honum hljóðið. Hann hló og fagurt andlit hans varð ljótt. En stúlkan grét og fann hve funheitt blóðið flæddi í hennar vanga ofurhljótt. Á axlir hennar hönd sína hann lagði. Um hjarta hennar læddist kaldur þeyr. Með bros á vör og válegt glott hann sagði: \"Nú vil ég ekkert með þig hafa meir.\" Litla stúlkan lét sem ekkert væri, þótt læddust niður vanga hennar tár. Um sorgina engin liggja landamæri. Læknar tíminn í alvöru öll sár? ] [ Þrjátíu ára píanó, það er eins og nýtt, það á eftir að glamra mikið lengur. Það var í geymslu þar sem að er hlýtt, því er ekki falskur nokkur strengur. ] [ Ég held ég fari að halla mér og hafi ei úthald lengur. Móttökurnar þakka þér, þetta var frábært drengur. ] [ Oft er mætast stálin stinn, stimpast menn á og róta. Vertu ei svekktur vinurinn, vont er að ragna og blóta. ] [ Slæmt er veður víða um land, vindar lýðinn kæla. Á sjúkrahúsum saur og hland og sumstaðar líka æla. ] [ Ef ég byggi í Belgíu eða jafnvel fæddist þar mætti kalla mig Helga Belga. ] [ Ef ég aðeins gæti unnið stórar þrautir, stigið föstum fæti fram á huldar brautir, gæti ég rakið lífsins leyndu þætti, látið hjörtu slá með orðsins mætti, tryði ég mínum ljúfu leiðsludraumum. Líkt og leiftrið bjarta loftið regnvott klýfur, eða óspillt hjarta ástin fyrsta hrífur, þannig skáldin allt í einu vinna alla þá, sem lífsins hjartslátt finna, væri ég aðeins einn af þessum fáu. ] [ Dregnar eru litmjúkar dauðarósir á hrungjörn lauf í haustskógi. Svo voru þínir dagar sjúkir en fagrir, þú óskabarn ógæfunnar. ] [ Fiðrildi bleikvængja, fljúgðu af blómi, sestu á þá hönd, er þú hittir hvítasta. - - - Spyrja mun hún þig mjúkri röddu: Kemur þú að utan úr köldu regni? Horfið er glit þitt, gullinflögra, og silfurhreistrið þitt sumarfagra. Svara þú fiðrildi, og til flugs þér lyftu: Kem ég ei að utan úr köldu regni, en áðan hvíldist ég á ungu blómi í hönd þess, er þú heitast unnir. ] [ Ég sótti upp til fjallanna um sumarbjarta nótt. - Sólin gleymdi dagsins háttatíma. - Ég efni heitið, vina mín, hið dýra djásn skal sótt. Í dimmum helli verður risaglíma. Hæ, hó! Ég er á nýjum sokkum og ég er á nýjum skóm. Í öllum heimi er enginn, sem ég hræðist. ] [ Í ljóði til þín finn ég farveg minni frávita ást, meðan þögnin hvíslar ósögðum orðum út í bláinn. 3.feb.2008 © allur réttur áskilinn höfundi ] [ Arnarfjörður feiknarstór, fegurð af öðrum ber, þar búa ýmsar verur og yndislegt fólk þar er. Á sumrin blessar sólin elsku fjörðinn minn, þar blása sjaldan vindar og blessaður er ylurinn. Þegar ég sit hérna og það berst í tal, hvar sé best að vera hugsa ég um Bíldudal. Þó fæddist ég á mölinni, á hjarta mitt þó heima í firði vestur á fjörðum sem aldrei mun ég gleyma. ] [ Þér á ég að þakka þessar fögru vonir, alla ástarsælu og unaðsríka drauma; því skal ást mín aðeins einni þér til handa. Þín skal minning mæta mér æ þekkust vera. Þér á ég að þakka það, að ég á hjarta óspillt enn að mestu, ástargjarnt og viðkvæmt. Öll mín smáljóð eru, ástmær, frá þér sprottin. Þú átt litlu ljóðin. Leik þér að þeim seinna. ] [ Þig hef ég ungur augum leitt, ástar minnar stjarna. Þú hefur hug minn hrifið, seitt hjarta mitt og frið mér veitt og stráð með blómum brautu mína farna. Þú hefur lýst mér liðna stund, ljósið vona minna. Hvort grátinn eða glaðri lund gekk ég, þráði ég þinn fund til þess einnig ylinn þinn að finna. Hættu ekki, ljúfa ljós, að lýsa á vegi mínum. Líf mitt þér að launum kjós. Lýstu seinast, himinrós, inn í dauðann veslings vini þínum. ] [ Þetta er ljóta bölvuð byttan, bæklað stýri, kjölur fúinn. Allt er rifið eða brotið, allur reiði sundur snúinn. Ef það væri ljófa leiði, léti ég samt bátinn vera. En byljirnir úr Skuggaskörðum skemmri munu veginn gera. Dauðinn sér í djúpi byltir, dylur sig í boðahrönnum. Ertu í þessum eða hinum, ófreskjan, að nísta tönnum? ] [ Gyðja sælla drauma, gættu að barni þín. Lokaðu andvaka auganu mínu. Bía þú og bía, uns barnið þitt sefur. Þú ein átt faðm þann, sem friðsælu gefur. Þú ert svo blíð og mjúkhent, og indælt að dreyma. Svo er líka ýmislegt, sem ég vil gleyma. ] [ Velkomið sé vorið að vekja það, er sefur. Ljúf er blessuð sólin, sem ljósið oss gefur. Nú vildi ég njóta, nú fer að verða gaman, þar sem ást og yndi unað fá saman. Gott er enn að geta glaðst af sólareldi, þótt ástin mín sé útlæg um allt hennar veldi. ] [ Hunangsflugan blóm af blómi bjartan flaug um sumardag, hitti fjólu á haugi eina, henni flutti ástarbrag. Maðkaflugum fannst það skrítið að fjólan, þessi tildursmíð, hlyti söng - og sögðu reiðar: Svona ljóð er þjóðarníð! Jötunuxinn hafði heyrt það. „Heyrið“, sagði'ann, „annað lag“! Hóf svo söng um haugsins gæði helgan feðra-mykjubrag. Hrifnar allar haugsins flugur hlustuðu á hans mykjuóð: Þetta er köllun, þarna er andi. Þessi kann að yrkja ljóð! Hvert hans orð er eins og meitlað út úr vorum mykju-daun, ættlands prýði, haugsins heiður hljóttu þökk - og skáldalaun! ] [ Auðn og myrkur! - Aldan stynur ömurleg við kaldan sand. Bak við hafið, bak við hafið bíður fagurt draumaland. Og hann sigldi út á hafið, ólmur vindur þandi voð. Skjótt gekk ferð - á firði miðjum feigðaraldan hvolfdi gnoð. Kuldalega báran byltir bleiku líki upp við sand. Bak við hafið, bak við hafið bíður fagurt draumaland. ] [ Já, þú ert mín, já, þú ert mín, ó, þökk frá hjartans grunni! Hver harmur deyr og húmið dvín, og himinsól um löndin skín, sem jörðin beri brúðarlín og brosi móti unni. Þú glitrar sjálf, sem gullið vín og glæðir ljóð á munni. Á mínum vegi er rós við rós, ég reika milli blóma, og geislar dansa ós frá ós; frá efsta tind og fram til sjós um lífsins yndi, ást og hrós nú allir strengir hljóma. Mér finnst sem húmið fæði ljós, mér finnst ég sjálfur ljóma! ] [ Leita landa! Leita landa! Trúa á skýin, treysta á hafið, tefla um líf við stormsins vél! Sjá í fjarska sólu vafið sælla land - er glottir hel. Heyra í gegnum hafsins nið hærri tóna dýpri frið. Leita landa! Leita landa! Leita landa! Fylgja stjörnu langar leiðir, lengra máske en draumar eygja yfir dimm og ókunn höf. Aldrei lækka, aldrei sveigja eiga bros ef dauðinn breiðir kaldan faðm - sem gleymda gröf. Leita landa! ] [ Ég veit hvert vegurinn liggur mitt vonarland er nær. Því sólin hefir sagt mér það, hún sagði mér það í gær. Ég veit að brautin er hörð og hál og hyldýpið margan fól. Æ, viltu gefa mér gyllta skó að ganga þangað sól! ] [ Blundar nú sólin í bárunnar sæng; húmskuggar læðast frá haustnætur væng, sveipa í svörtu hinn sofandi dag. En andvarinn kveður hans útfararlag. Haukar á hamri, hrafnar í tó hlusta nú hnípnir á hljóðið, sem dó. Langanir, sem leita að ljósinu enn, detta niðr um myrkrið sem drukknandi menn. ] [ Snjór að kveldi tekur hvert hljóð götunnar í sig Bæjarlíf hverfur í silfurjörð, djúp kyrrð er eftir Taki ég snjó með lófum mínum, hljómar hlýja heimilis í eyrum? ] [ Ef þú verður kaffið skal ég vera eplið kaffið og eplið kaffið/eplið þú munt bera eldsneytið og ég mun bera fræin kaffið og eplið kaffið/eplið halda saman oní maga syfjaðan að morgni og hefja nýjan dag. ] [ Ég þekki unga yndissnót við Ölfusfljót. Hún gaf mér sína yndisást sem aldrei brást. ] [ Veðrið oss af vonsku slær, vindar blása kaldan, þá inniveran er mér kær, þar á ég kodda valdan. ] [ Í fjarskanum husjón, gallalaus tálsýn. Í skugganum beiðstu í svarthvítri þoku, huldri snjókomu. Sem huganum svipti rökréttu ytra borði hrokans. ] [ Bíum bíum bamba börnin litlu þamba ég læt sem ég röskvi en samt mun ég vaka. ] [ Engin orð nógu smá lýsa hamingju minni. Sálarinnar einfaldleiki draumanna smæð í föstu formi. Draumana ég gaf alheiminum að gjöf og glataði. ] [ Það er líf fyrir utan gluggann minn I herbergi fullu af fólki finn mig leita að félagsskap leita að mér. í herbergi fullu af fólki Og þegar ég fer mun eg leita að þér í herbergi fullu af fólki. og þegar eg finn þig munum við deyja saman í herbergi fullu af fólki. Og lífið í henglum skýst framhjá augum í herbergi fullu af fólki með tárin í augunum öskur í eyrum í herbergi fullu af fólki Með hlaupið í kjaftinum blóðið í eyrum í herbergi fullu af fólki Finn ekki neitt nema holuna í hausnum í herbergi fullu af fólki. ] [ Við enda regnbogans, gamall maður sefur en dýpst í huga hans eitrið grefur. Hnígur dýpið yfir, frá huganum hrekur grið og það sem eftir lifir aldrei öðlast frið. ] [ Sorgar sögur segir, maður sem allt á. Tunguna sína teygir og reynir þér að ná. Kyrrðina þú tætir tekur hana burt ef þú aðeins gætir, verið hér um kjurrt. ] [ Orð um ást, voru þau til mín? að sitja og þjást, og verða aldrei þín ] [ Ég ligg hér ein, hugsandi um þig þar til það verður sárt. Ég veit að þú ert sár líka, en hvað getum við gert? Ég vil að þú komir og berir mig heim, burt frá þessum kvöldu, dimmu nóttum. Er þessi tilfinning öll svo rétt? Hvað mundir þú gera ef ég mundi kalla, segja að ég get ekki haldið áfram án þín? Það er engin auðveld leið, það verður erfiðara með hverjum degi. Elskaðu mig eða ég er farin, ég er farin. ] [ Ég sakna þín þótt þú sért við hlið mér. Ég er hrædd um að þetta sé búið en ef hjartað þitt er ekki inn í þessu, ekki þykjast að það sé til að gleðjast mér. Frekar vil ég að þú farir burt. Þú segist elska mig. Þú segir að það er allt í lagi en ef þú hefur eitthvað að segja, ekki byrgja það inni. Það er ekki gott fyrir neinn Ég get ekki látið þig skipta um skoðun. Ég get ekki breytt þér. En ef hjartað þitt er ekki hér, ekki þykjast vilja vera eftir. Frekar vil ég þjást og sjá þig hamingjusaman. ] [ Komdu dauði, minn góði vinur, ég er tilbúin. Dreptu þess ást! Það sem fyllti hjartað, hefur þurrkað það upp, blóðsugan ást. Megi kalt járn þitt, drepa ástina. Megi köld hönd þín, gera mig ónæma. Megi kaldur andadráttur þinn, gera minningar að engu. Aldrei mun ég elska aftur! Aldrei vil vera elskuð aftur! Aldrei aftur ást! ] [ Hér sit ég og berst við að semja þér ljóð en sum verða fráleit og alls engin góð. Því stórlega fátt sæmir stúlku sem þér. Stúlku, sem af öllum öðrum svo ber. Samt mun ég seint hætta að reyna. Og einstaka sinnum ég hugdettu hlýt en hugdettan fer, svo ég blýantinn brýt. Ég finn að innst inni býr ást mín og þrá þótt engu mér takist úr höfði að ná. Þú veist kannski vel hvað ég meina. Ég reyni oft að hugsa ei um stund mína og stað og stundum tek pásu - læt renna í bað. Og frasarnir myndast og fara á stjá, en fannhvítur pappírinn bægir þeim frá. Mér líst ekkert á þetta lengur. Og stundum er bölsýnin bankar á dyr ég blóta í hljóði og sjálfan mig spyr: Hví get ég ei skrifað eitt skaðræðisljóð, er skáldgáfan horfin í gleymskunnar flóð? Er slitinn minn ljóðræni strengur? Sorgbitinn arka ég örk minni frá því aldrei mun framar með ljóðlínum tjá ástina ljúfu sem brjóstið mitt ber, en barnslega hjartað mitt slær handa þér. Það hvorki er úr steini né stáli. En jafnvel þótt ljóðlistin læðist á brott mun lífið halda áfram jafnindælt og gott. Ég ber ennþá innanbrjósts örlitla þrá og ást sem ég láta mun héðan í frá óma í óbundnu máli. ] [ Fór í besta kjólinn sem ég fann Sagði mömmu að ég væri að fara á ball En ég var að fara að hitta hann.. Þennan dag var skýjað en bjart Það var þurrt en raki í loftinu Þennan dag sá ég allt svart Vildi ekki enda dauð í skottinu Hann setti mig í silfurlitaðan bíl Og svo keyrði hann langt í burtu Fannst ég vera kramin af fíl Óhrein og vildi komast í sturtu Spennan í loftinu Hræðslan í huganum Hnúturinn í maganum Ekki láta hann koma aftur Þennan dag var lítið sagt Lét eins og ekkert væri Hann braut mig niður margfalt Óskaði þess bara að hann færi Hann hélt mér niðri Ég hélt í mér andanum Hann hélt sér ofan á Ég hélt að allt væri búið Spennan í loftinu Hræðslan í huganum Hnúturinn í maganum Ekki láta hann koma aftur Stutta hárið, bláu augun, Massaði líkaminn Flóttaleiðir í hugann flugu En ég var bara lamin Blá og marin Illa barin Ertu viss um Að hann sé farinn.. ] [ Ligg uppi í rúmi og heyri vindinn slá rúðuna mína Ligg uppi í rúmi og er þungt hugsi á óskina þína Enginn getur séð tárin sem streyma úr augunum Mála mig vel svo ekkert beri á baugunum Óskin þín er engin venjuleg ósk, sjáðu til Því óskin tengist engu sem ég vil Óskin þín er að ég sanni ást mína á þér En veit ég fyrir víst að þú hefur hana á mér? Sit við skólaborðið og stari á kennarann tala Langar mest að gufa upp og leggjast í dala ] [ Love is when you can´t sleep, because you don´t ever want to stop looking at him. Love is when it´s hard to get out of bed, because in his arms you feel so safe, just with him. Love is when you want to go out, because you´re so proud to be his girl, only with him. Love is when you don´t care, because everything you need and every thing you want is him. Love is when you feel like shit, because it hurts so fucking much when you´re not with him. ] [ Hittu mig. Sjáðu mig. Heyrðu mig. Faðmaðu mig. Kysstu mig. Snertu mig. Geymdu mig. Haltu í mig. Efaðu mig. Hugsaðu mig. Mældu mig. Skráðu mig Lemdu mig. Þjáðu mig. Finndu mig. Huggaðu mig. Elskaðu mig. Mundu mig. Kveddu mig. Sjáðu mig. Heyrðu mig. Faðmaðu mig. Kysstu mig. Snertu mig. ] [ Ég vil fara á ,,knöttinn´´ til englanna sem syngja sviksöng um lífið og framhald þess og hvernig við trúum öllu sem við lesum í þægindum morgunsins við matarborðið en englarnir hlægja af eigingirni mannkynsins af barnslegri trú okkar á ríkisstjórninni ] [ Ég fíla sveittar samlokur sem liggja saman alla nótt allan dag en ég vil ekkert bull á milli því tvær brauðsneiðar eru meir en nóg Úff. kannski smá smjör? ] [ Ostur! Brostu fyrir myndavélina ég hef enga trú á snævi þakktri götu enn! sólin trúir; í takt við tunglið ég sit í eldhúsinu við eldavélina og bíð eftir að heyra söng kjötböku ] [ Iceland the greatest country in the world Iceland home of the Vikings Iceland with all your beautiful women Iceland with the purest nature, the best water and cleanest air Iceland with your long cold winters and short summers Iceland you with your changing weather Iceland where everyone has it so good Ohh Iceland! My beloved Iceland You are so full of shit! People hate you and love Your people are descendents of slaves and outlaws It’s a quality to drive a big car, to have enough electricity to play a videogames that came across the sea to have so much food that they can throw it away to spend money on things they don’t need! Your people are corrupted and don’t even care Your people say you’re the best at the same time they try to kill you and trash your identity Ohh Iceland! My beloved Iceland Aint you proud? ] [ Ég skal segja þér sögu um stjörnu og tungl sem urðu ástfangin en það varð aldrei að neinu ekki vegna ljóssins sem stjarnan gaf frá sér eða myrkursins sem umlykti tunglið heldur vegna aðgerðarleysi þeirra beggja ] [ Að pæla í því að sjá þig aldrei aftur þú veist ekki hvað ég elska þig af hverju fórstu í burtu frá mér , gastu ekki beðið þangað til að ég var tilbúin að sjá þig hverfa ? þú veist ekki hvað ég sakna þín vonandi líður þér vel án mín . það er erfitt að hugsa um þig því að ég fæ tár í augun. þetta voru góðir tímar en nú ertu farin það er skrýtið að hérna hjá afa er allt tómlegt en takk fyrir allt. ég elska þig . ] [ músin er lítil enn hesturinn er stór risaeðlan er stærri en refurinn er mjór, ] [ hér ertu komin til aði fresta þér mat og hlýju ég fann einhvern neista kannski færðu þér slepu að nýju ] [ I had this dream last night once again about you and me. I met you last weekend once again it was you and me. But my dream is different different from reality In my dream you love me In my dream you kiss me In my dream you touch me In my dream I\'m yours In my dream I\'m not afraid afraid of telling you what\'s in my heart In my dream I\'m not afraid afraid of telling you about my feelings In real life we\'re just friends In real life you don\'t love me In real life I\'m not yours Sometimes you kiss me Sometimes you touch me It feels so right But it\'s just that, nothing more Still it get\'s my hopes up you wouldn\'t do this if you didn\'t in someway find me attractive... Would you? In real life I\'m a coward so afraid to tell you... so afraid you\'ll deny me and never talk to me again. You melt my heart... ] [ I extinguish the light render it\'s death. There is no light, light is dead. Lying on your altar hoping to be spareed my love lies bleeding please take me instead. As told by the holy ones my lessens to learn jouney to a world afar and seek the truth of faith I sat out to find the truth I travelled far By the time I got to you you were already dead and the darkness whispered to me so sweetly: \"The truth you seeketh is a lie\" The I know I had been betrayed used by the holy ones They knew I couldn\'t save you so they sent me to finish this pointless crusade Falling to my knees strained and out of breath dissapointed, discovering my whole life was a lie repeating over and over again in my head \"The truth you seeketh is a lie\" that is the only truth left in this world. ] [ I\'m falling so fast through this abyss I know the landing will kill me Please won\'t somebody grab me? Save me? Soft, strong arms catch me I\'m saved I look at my saviour It\'s you We share a long deep kiss happiness? Happiness isn\'t present in this world just as I started feeling happy I opened my eyes I saw I was lying all alone in my dark room And realized that it was just a dream nothing more... Does happiness even excist? Because I know from my own experience that it\'s never permanent It allways fades away and leaves you in darkness That\'s when the hopelessness, lonelyness, sadness reality hits you. I wish it wasn\'t a dream I wish it was actually reality. Maybe this is a dream, this sad place and the vision in my dream is actually the real reality? I wish... ] [ My life seems so dull sometimes so incomplete. I get so lonely sometimes, I long for you my sweet. I just can\'t figure you out, what is it that you want? I wish I could be the one to give it to you... The things you say imply you don\'t but the things you do say that you do. What am I supposed to read out of it? Is there a secret message hidden in there, or is it just my imagination hoping there is? I feel like I\'m worth nothing in your eyes, just another fuck. You act like your looking for something better, what is wrong with what I have to offer? Sometimes I get so lonely, Sometimes I\'m decaying, Sometimes my life is fading, Sometimes I\'m invisable Sometimes you see me I am nobody in your eyes I am nothing in your eyes You\'re looking for something better what is it? I wish I was somebody in your eyes I wish I was something better in your eyes I wish you\'d show me some intrest I wish you\'d want me Just look me in the eyes and tell me: that sometimes I\'m somebody in your eyes that sometimes I\'m the best that sometimes you\'re intrested that sometimes you want me Because I get so nervous around you can\'t breathe I\'m so afraid of denial that I can\'t even tell you this Just sitting here, hoping, that possibly you\'d stumble upon this poem and realize I\'m talking about you. If you do and you don\'t want me please bring it to me gently cuz right now I\'m so fragile that I could break into a million pieces and get blown away with the wind. Don\'t hurt my feeling... I just wish I was worth something in your eyes ] [ Changes have been made, defined priorities. The sweet, tender love we had, has died, became extinct. I didn\'t mean to hurt you, but you know my temper. It\'s time for me to focus, focus on myself and my needs. All your troubles rested heavily on my shoulders. I didn\'t have time to deal with all of it. I loved you while it lasted, now we\'ve grown apart. Nothing in common anymore. And I was so sick of you thrushing your believes upon me. We are very different people with different believes. But we dissagree so much. Some of our believes drenched us into quarreling. We started out so alike but as time passed we became quite oppisites. I wish it didn\'t have to end so brutaly but it\'s already done. But how can you justify your actions? Making people believe I was using you? You know that\'s not the case. I thought you didn\'t believe in lies? I guess you do now.... In a way trying to be as friendly I can, considering all of the above, I think we shouldn\'t contact anymore... It will just make it worse. Evolve into yet another conflict. I\'m sorry..... Goodbye...... ] [ Discover it Realize it Accept it Discover me Realize me Accept me Lying here this close to you Staring at your face Looking in your eyes Waiting for you to say it.... Say what we\'re both thinking My chest rises, hard to breathe Cuz you take my breath away Butterflies fluttering Body shaking, disire Your kiss so unique, so deep I\'m lost in your kiss trembling with desire and lust I desire you Your touch so gentle Your body so fragile But you are so cautious Are you afraid that I will hurt you? Betray you? Trust me! Your orgasmic piece fits right in my puzzle It\'s the missing piece I needed I want you This was one time I want it to last Open your eyes Lower your guard I won\'t hurt you Discover it Realize it Accept it Discover me Realive me Accept me Discover love Realize love Accept love I wanna give it to you ] [ From the wounds that you left me floats my decay You left me bleeding life fading away You gave me pain I wanted to die Yet even though you murdered me I can\'t help but miss you because you were so special you understood me You were just like me hurting inside You showed me I wasn\'t alone then you left me all alone and I miss you and even though it lasted short even though I never said so I loved you, still do and I miss you so much It hurts when I see you stabbing at my heart But I must face it it\'s been a long time and you hate me you don\'t care I just wish you could see the world through my eyes feel my pain share my sorrow just for once But it\'s pointless you don\'t care and worst of all.... you don\'t even seem to know ] [ Your face is like a razor to my heart Your voice killing me inside Am I invisable? Don\'t you see me? Why won\'t you talk to me? You act like I don\'t excist Ignore my feelings Am I just another girl fallen for your lies? Am I just another girl stuck in your gracious gaze? Your face is like a razor to my heart tearing it apart A cut so deep will never fade Your voice killing me inside I can feel myself twist in agony inside I just wanna try again See what happens We are older now, wiser and better Maybe it would work, maybe not but then I\'d know STOP KILLING ME! IT HURTS SO MUCH! YOU SAID YOU WOULDN\'T HURT ME NO MORE! YET I\'VE BEEN HURTING ALL THIS TIME! FOR ALL THOSE YEARS! STOP! ] [ My life seems so dull, so incompleted so worthless, I just simly wanna break down and cry My thoughts streach towards you I need you Can\'t you tell? Can\'t you see it in my eyes? Cuz sometimes I just wanna die Sometimes I feel so dead Everyday without your love is hurting me Yet you said you won\'t hurt me no more Sometimes I just wanna die There just ain\'t no way surviving this painful life without you And I don\'t wanna feel this pain At night I cry in vain, for so long, it seems forever It never goes away I just wish I was someone in your eyes I wish I was something better Please tell me I\'m someone Please tell me that you cared Cuz I never can forget this pain Don\'t make me cry no more Don\'t make me hurt no more Just look me in the eyes and tell me that sometimes you feel the same and sometimes you wish me back ] [ For all the people who suffer like I do abandoned by their love Their hopes and dreams shattered by denial Forced into the shadow of sadness Mother never cared, father gone away all alone loved by nobody Then you came along The only one who cared The only one that ever showed me love I loved you but you were afraid Afraid of being loved Afraid of being happy You sacrificed your true happiness for your own image of being happy And I suffer, cause I long for you Abandoned by you My hopes and dreams shattered by your greatness Forced to live in the shadow of sadness Drenched in my blood I lay And since I can\'t have your love I just want to let go Because I can\'t live without your touch So it\'s best for me to leave this world A world that doesn\'t love me A world that doesn\'t want me So really I should just let go but I wonder How will you react to the news of my death Will you even shed a tear? I can\'t go on Because I\'m shattered ] [ I\'d never think you\'d do this I\'d never think you\'d betray me like this What was wrong? Was it something I said, something I did? Am I too ugly, am I too fat? We had so much in common What did she have that I didn\'t have? What did she show that I didn\'t show? Please tell me it\'s not true Please tell me it\'s a lie I never told you this, I loved you Would it had made any difference if I had? This has ruined me completely I got sad, I got drunk and cryed all those tears I cryed were for you Each tear had a memory A figure of time we shared A fragment of my life You said you wouldn\'t hurt me no more You can\'t handle hurtnig me I can\'t handle to loose you although I already have I am nothing, I am already dead You killed me and yet I remain as dedicated to you as this song ] [ I\'m gonna draw a picture in my wrist today I got no pencil but I\'ve got this razorblade. I\'ll stick it in to see how far it goes, and cut my life away cut me loose from this hook I\'ve been hanging on so long. And when I\'m lying cold, dead on the floor Don\'t you cry for me this is what I wanted You cannot feel my pain, you cannot see it either but I cannot live with that pain try to understand. Keep on living your perfect lives like I know you can My life was never meant to be but don\'t forget I love you all with my heart and that\'s why I\'m gone I\'m gonna draw a picture in my wrist today I got no pencil but I\'ve got this razorblade Stuck it too deep and the ambulance was late again ] [ Do you ever get the feeling about a person that you used to care so much about... and still care about But you feel denied? You can\'t bare to see the person again? Because the person hurt your feelings? But you care so much about the person? Ever feel the urge to meet that person? Even after all the person did? Just to see if the person is doing fine? Even thouh you know The moment you see this person You\'ll burst into tears I feel so empty inside ] [ Once again. I\'m stuck in this void of emptines. Once again. I let the pain out. Once again. I disapointed you. Once again. Stop eating. Once again. I\'m so alone. Once again. Nobody wants me. ] [ Snow falling on my face snow everywhere, snow. It\'s dark and I\'m alone outside snow eveywhere, snow. Have you ever had a mother who doesn\'t give a shit? Have you ever had a father that doesn\'t give a damn? Have you ever had a family who doesn\'t care? Have you ever spent one moment in my shoes? Then why do you judge me as you do? I look around, everywhere broken glass I don\'t know waht happened. I don\'t know who the fuck I am and they come. Now I\'m locked inside of here white walls everywhere don\'t go, don\'t go I\'m locked inside the darkness in your heart. Mother I just wanted you to love me Father I just wanted you to know me Family I just wanted understanding You, I just wanted to be loved. Have you ever had to wake up early in the mornig, ignore your drugged up mother in the kitchen? Take your little brother to kindergarden and getting him back? Just like you were his mom? Because his mom isn\'t here anymore... She is somewhere, lost in her head? Have you ever stood alone on your two feet? With a baby that you gotta feed? Had no friend cuz you had responability? Is is right for a 10 year old kid? HAve you ever spent one moment in my shoes? Then why do you judge me as you do? Snow falling on my face, snow everywhere, snow. It\'s dark and I\'m leading you home, mother please wake up. ] [ Running away, away from life don\'t know where I\'m runing I just gotta get away My heart is pounding don\'t know what I did what was I thinking? I just gotta get away. Never ever look back keep on running fast. Never ever think back this is now the past. Never ever stop keep on going on and on and on and on. Wonder about the future what will it bring? money food and drinking or will I be a dope? House, kids and marrige or will I be a bum? I don\'t really care I just gotta get away Never ever look back keep on running fast. Never ever think back this is now the past. Never ever stop keep on going on and on and on and on. Now I see a light not so far from here. Is it what I think: The final task. My burden was heavy now it has lightened cuz you came down here and saved me. ] [ All alone in this world, nobody can save me. Sitting in a corner, curled, hiding nobody can see. I feel so confused I feel so amazed, is there really no other way out? Am I just this crazed? I\'m all alone in the crowd. Everything I enjoyed has flown away and I\'m here lonely can\'t take another day. Willing to dissapear only. My hands are cut and torn assunder don\'t you know I can hear what you\'re saying? Who else than me understands this blunder? I still have no wish for staying. Tears are leaking from my eyes. I know you\'re just using me. I can see through your lies, you just want a flagging I can see. I really don\'t wish to die, all the things that I\'d miss. Still it\'s time to say goodbye. It can\'t be different, it\'s like this. ] [ The fire I see sparkles in my eyes I don\'t know why I\'m here in the darkness Cuz ever since you left I\'ve been feeling this way and it wakes up my mind to my old considerations So I sit here in the dark All alone without you thinking how can I get you back. And it brings me back, brings me back to my endless consideration If I should die tonight, would you cry? If I should take my life, would you regret leaving? If I shouyld die tonight, would you miss me at all? It\'s been a long time and I\'m still crying and I wonder now do you even miss me. Without you I feel so ugly, oh no, my self-esteem is breaking in front of you The very sight of you breaks me down, the sound of your voice makes me cry and I wanna die. Because I\'m without you and I\'ll never get you back. And it brings me back, brings me back to my endless consideration. If I should die tonight, would you cry? If I should take my life, would you regret leaving? If I should die tonight, would you miss me at all? Please just look at me, can\'t you see my pain? Just look at me without you, my world crumbles. Everything goes wrong when I\'m without you. Can\'t you see I just wanna have you back? And it brings me back, brings me back to my endless consideration. If I should die tonight, would you cry? If I should take my life, would you regret leaving? If I should die tonight, would you miss me at all? Would you miss me at all? Would you miss me at all? Would you miss me at all? ] [ Sólin geisla sendir inn, sýnist allt í haginn. Sólarlummulykt ég finn, líða hér um bæinn. ] [ Að horfa að sjá að brosa að spá að horfa að hlæja saman að faðmast að ríða að stara að stara að dást ást að dást að stara að stara að leika að kitla að hlæja að gráta úr hlátri að gráta að faðmast að lesa að hugsa að ríða og kúra og hugsa að keyra að hugsa að gráta að spá að horfa til baka. Það vorum við. ] [ They are brought up among snowflakes They come in many forms and sizes, All of them pointed All of whom are sharp, They can pierce your heart. They think straight Forward headed When they find warmth of another´s heart They melt, Yet the weather so extreme The cold synonymous with the name Amazingly, they refreeze themselves In order to keep their Beautiful, spiky, crystal Clear Shapes. ] [ Maður einn stendur og stynur því stöku sinn yfir hann dynur þráhyggjupest svo þunglyndið sést. Hann telst vera vínandans vinur. Ómar nú öllarans strengur er æpandi maðurinn gengur. Hann labbar á hurð og hrapar í skurð, hinn óheppni aumingjans drengur. Og sumhverjir segja að hann sé dóni og að söngur hans valdi öllum tjóni. Það kann vera satt að hann skuldi smá skatt enda rammgerður miðbæjarróni. ] [ Smella á tölti treður spor, í tún og veður engi. Ung hún sýndi yndi og þor, sem eflaust varir lengi. ] [ Kolli köngulhaus með stíðið medú yfir. ] [ Þýtt úr færeysku Höfundur J.H.O. Djurhuus Lag: J. Waagstein Hnípinn þú situr söngfuglinn minn sviptur frelsi í búri. Gleðinni rændur er rómurinn þinn, rændur er fluginu vængurinn. Söngfuglinn minn særður í þröngu búri. Manstu er lékstu lipur um völl litli fangi í búri. Dillandi söngva um dali og fjöll, dansandi vængjatökin snjöll. Manstu þau öll. Frjáls varstu, fugl í búri. Svefnhöfginn löngum léttir þér neyð litli fangi í búri. Dreymir þig söngva á loftsins leið, leiki, ástir og vorsins seið. Háloftin heið. Frjáls ertu, fugl í búri. ] [ Þrjú lítil börn liggja á gangstétt og búa til snjóengla Þau ímynda sér að þau séu englar á himnum fljúgandi innan um snjókornin. Bíll rennur í hálku, snjórinn fær rauðan blæ og börnin þurfa ekki að ímynda sér lengur ] [ Þýtt úr sænsku. Höf.Ulla Hornborg Við siglum hin köldu sjávardjúp og síld við Ísland bíður. Svo til norðurs skútan skríður. Til Íslands enn, til Íslands enn, til Íslands enn. Því Íslandsmiðin okkur kalla ákaft senn. Fyrr en við siglum skal duna dans og dansinn okkur gleður. En í sumar síldin veður. Og út í bát, og út í bát, og út í bát. Þar annan dans við okkur stígur alda kát. Í æstum stormi er stýri beitt með stæltum sjómannsarmi, djörfum hug og hreysti í barmi. Til Breiðafjarðar bráðum skútan brunar fljót og silfri hafsins söfnum við í síldarnót. ] [ Ég bjóst við því forðum að brosið þitt ætíð mér fylgdi ég byggði mér höll einsog siður er ungra manna. Ég sá ei að dísin sem duga mér skyldi til heilla var duttlungafull og ekkert á hana að treysta. Svo hugðist ég leiða þig langt inn í höllina mína og lífið var fagurt og bjart eins og heiðríkur morgun. En dísin var orðin að norn sem að nálgaðist óðum og nákaldri röddu hvíslaði: aðeins draumur. ] [ Þú reifst hjarta mitt þú sleist það af og ég missti andann Þú varst mér allt þú varst lífið en nú er ég ein og græt í laumi ] [ Taktur og tregi titrandi raddir. Svignar sviðið, svitinn bogar. Gígjurnar gala er gengur í sali drottning dansins dróma og sælu ] [ Ég er öryrki og oftast heima, oft er ljóð mér stundarglíma. Skrái sögur er skal ei gleyma og skulu minna á gamla tíma. Mörg ég hefi mistök gert, sem mætti fara um orðum. Það er ekki einskis vert að ekkert fari úr skorðum. Að gloríurnar geri menn, gjarnan þykir skitið. Oftast kenna á því senn, ekki að stíga í vitið. ] [ Hann hætti skyndilega lestri ljóðsins stóð upp og henti lítilli marmarastyttu út um gluggann. Hún féll á gangstéttina með háum hvelli. Þegar bylgjurnar skullu á honum hélt hann áfram lestrinum. ] [ Andartaki fyrir snertingu stoppar tíminn... Skugginn andvarpar og víkur fyrir ljósinu. ] [ Hláturinn ómar um allt hús. Þú lest í flókinni bók Hann steikir beikon og hún talar í símann. Matarlykt. Matarlykt sem smýgur inn í dýpstu hjartarætur. Ekki fara frá mér! Hver á þá að elda fyrir mig? ] [ Þetta er vægast sagt verri vefur, Drottinn tók og Drottinn gefur!!! ] [ Ennþá einu sinni á mér hefur lent árás illrar stjórnar eitt er jafnan hent þeim sem ráða ríkinu: Það að níðast mest á mér mýkra taka á þér. Þessu breyta þyrfti og það sem allra fyrst. Alveg sýnist augljóst að ekkert get ég misst. Ég fæ lágt og lítið kaup á því kosta engra völ aðeins sult og kvöl. Þú ert betur búinn basli lífsins í. Eg vil draga eina ályktun af því: Þegar býður þjóðarheill agnarlitla færðu fórn fyrir vora stjórn. ] [ Ég veit ekki hvað ræður því er ég fer að yrkja og eyði löngum tíma í smíði á vondum kvæðum því enga köllun finn ég sem kynni mig að styrkja svo kvæðin gætu vaxið að magni eða gæðum. En einhvern veginn finnst mér þetta furðulega gaman: að finna að ef ég nógu lengi við mig sjálfan glími þá tekst mér oft að raða ýmsum orðum þannig saman að úr þeim verður kvæði með hljóðstöfum og rími. ] [ HÆ!!! Í vetrarhörkunni hugsaði ég mig úti við um hásumarið í góðum félagsskap og næturhitabylgju sæmilega sauðdrukkinn og eins og svo oft áður búinn að drekka af mér allan fjöldann sem ýmist sefur fram á borðin eða liggur undir þeim þá víkur sér að mér maður sem telur sig eiga sökótt við mig og ég reyni bara að svæfa hann líka og raula við hann vögguljóð: Eigi skaltu þrasa og þrátta þegar aðrir sofa rótt. Yndislegust Íslandsnátta er hin bjarta júlínótt. ] [ Hvað er það að vera Hattur? Barð eigandans féll fyrir augun mín ég er blind fyrir hann ] [ Á hlaðinu skapaðist neyðin í nótt, næstum því vindur Bebbu fargaði. Bóndinn þá svaf og bölvið var ljótt, því bannsettur í símann ei ansaði. Í neyðinni hringdi í ,,Skorra” skjótt, er skundaði strax og henni bjargaði. ] [ kaldur morgunn kalt rúm mædd rúða það er svo kalt að laglínurnar sem við spilum sjást eins og móða og nóturnar verða ljóslifandi í loftinu við spilum áfram þrátt fyrir handkulda einhvern tímann kemur aftur vor ] [ þegar ég hugsa til þín missir hjartað úr slag það væri svo sem í lagi bara að þetta gerðist annan hvern dag en þetta er orðið sem alversta kveisa yfir lasleika þessum verð ég kvarta ég veit að það er til allskonar ráð fyrir gamalt og einmana hjarta en skríða á hnjánum er ekki minn stíll nema að springi dekk eða bili minn bíll svo finnst um mér erfitt að hugsa til þess að ganga með hring á hönd eða í nefi allt þetta fólk svo í veisluna komi og óþarfa hluti mér gefi því ég þarf ekki blandara né skúffur undir skó eða hlusta á ræður og brandara að hugsa til þess mér verður um og ó og vill því við þessu öllum hlífa að ganga inn gólfið á guðsteppinu er sem ég væri sjálft fjallið everest að klífa nú ever rest ég mitt keis búum saman ég hygg að sé gaman kaupum okkur kofa á selfossi pleis og lifum þar til endaloks saman ] [ skip mitt er strandað á ljótum kletti mín eina björgun er gúmmíbátur... ...en ég stekk út á röngu róli og hafna í djúpinu. ] [ ég blekkti mig um daginn þóttist vera að bíða eftir mikilvægu svari en í raun var ég bara að tefja tímann ] [ Skrjáf í runnanum með gul lauf í hárinu réttir hún mér nál þetta er allt í lagi hún er næstum ónotuð ] [ Við sungum listavel saman, samhljóma var hver kjaftur. Þetta var gríðarlega gaman, greyin mín komið þið aftur. ] [ þú fórst hún átti ekki mikið bara frost og kulda innst inni þú ert bara aumingi og ræfill þú fórst fyrir það sem þú elskar hún þurfti að borga fyrir vikið þú fannst aðra að sinni vilt ekki að þessu linni því nú þú yfirgefið hefur því þú aldrei gefur frið og kærleik heldur hatur og reiði aftur fyrir það sem þú elskar þú hefur misst okkur flest sem elskuðum þig mest nú? Var ekki ein önnur? Fyrir langa löngu Hún var tveggja barna móðir Þar er mín systir Og hennar bróðir Hvað á hún Eva nú? Þið eruð bæði farin Sitthvora leið Þú í sjálfselskulíf þitt Og hún í annann heim Þú hefur sært svo marga Mig langar að garga en það þarf tvo Ef þú værir ekki væri engin \"ég\" Ég er ekki stolt að vera hluti af þér En hvern er ég að gabba Ég á engann annan pabba og sama hvað gerist ég mun alltaf elska þig ] [ Í kvöld er ég kvalin í hjarta krokna af barnshugans þraut þá framtíðin blikandi bjarta beið mín...en hvarf svo á braut. Í kvöld er mín lundin svo lúin og leiði í huganum er sálin er fölnuð og fúin friðsældin horfin mér. Í kvöld þá er myrkrið svo magnað og maðrandi vindurinn hvín ég get ekki´ í fjötrunum fagnað sem fangi í eigin pín. Í kvöld er ég kenni til sefa á koddann minn leggst ég þá hljótt svo bið ég að Guð muni gefa mér góða og friðsæla nótt. ] [ Nú mig ástar langar ljóð að lesa fyrir þig í vísnasmíði varla góð þó vanda geri mig Bæði´ um nótt sem nýtan dag nálægð finn ég þín við þig hef ég lagt mitt lag ljúfust ástin mín. Ávallt styttir stundir mér stöðug mærðin þín þetta játning ástar er elsku Tölvan mín. ] [ Ég skríð upp vegginn og staðnæmist í loftinu. Ég lít niður til þín áður en ég laumast út um gluggann. Fallið upp himininn er ferðalag heim. Það er erfitt að anda í skýjunum. Ég er hættur að reyna. ] [ Klukkan er 00:07. Ætla að njóta augnabliksins. Ohh! Damn it! It\'s gone. ] [ Hér skín sólin bara svo þú vitir það þá vakna ég á hverjum degi við geisla að utan en ekki að innan Hérna er kaffið sterkt svo hnausþykkt að ef ég þekki þig rétt fyndist þér það verra en drullukökurnar í sveitinni í gamladaga... Í gær sat ég í lest ekki á leið til Prag eins og við létum okkur dreyma um fyrir nokkrum mánuðum síðan Nei ég baða mig ekki í dýum án þín né drekk þunnt kaffi ein Það er auðvelt að flýja en það að halda sér flýjandi minnir á Ólympíuleikana; örvæntinguna nasavængjanna, eldinn sem á aldrei að slokkna en hlýtur að gera það af og til Ég kem aftur eftir innan við viku Þú ert ekki ídeal manneskja til að hafa endalaust á aftanverðum augnlokunum Og núna hérna í sólinni er mér sama um útitekna húð og freknur Eins og jeppi er framlenging á einu er sólin framlenging á öðru ] [ Literature interest me, i don´t know why but its an unexplainable itch. I scratch and scratch and what i end up with are words that conveys images of things to happen that are spoken from my soul. Cuisine nourishes me and those i cook for, not so bad if my cooking is great. Language, pertaining to that, i would have never been able to write this list. Music has its rhythm similar to the rhythm of the heart, the beat readily available to us for many annals of time. Not only that they are entertaining they also bring us serenity. When the beat of the music and our heart are in sync then we know it is not so bad at all to be you. Dancing sets me apart from the rest of the motionless herd. And dance makes music visible. Films can give us a glimpse at another reality, for we cant appreciate our own 3D. Photography captures moments of our time and it makes sure we don´t forget. Travel, allows us to see more than movies and t.v. can provide, basically its a good escape from our own reality. Singing, no comment. ] [ Í ljósbláu lofti og hrollköldu teygja trjágreinar sig með brumum Þeim fæðast lítil vor ] [ Snjóflyksur bráðna í augunum grábláu og breytast í tár á kinnum þínum rauðum og kæla ímynd þína. ] [ Hrímaðar bárur gleyptu hann í járnbúk með andvana vélar Ekki tókst þá að flytja bensín á milli tanka ] [ sit og bíð ekkert hér tómt herbergið sit og bíð get ekki hætt, hætt að hugsa um þig herbergið er fullt, fullt af minningum minningar af þér þú gleymdir mér nú vil ég gleima þér. ] [ Svo hlýleg og tær. Svo glöð hún hlær. Ein saklaus mær, veit ei hvað hún fær. Þegar horft er inn um gluggann, má sjá brotna sál, má sjá eitt mál sem ekki hafði sína rödd. Sú litla telpa sakleysið kvaddi. Þegar vinur pabba rakleitt í hana æddi. Allir vissu, en enginn sagði. Stóri bróðir stóð bara og þagði. Hvað eftir annað hún andlitið sér. Hvað eftir annað finnur hún strokið sér, þó engin komi hana við. Þá var þetta komið í ákveðin sið. Eftir nokkur ár hún kjarkinn fékk. Á bak og burt hún rakleitt gékk. En ávalt þessi ör hún ber. Ör sem enginn sér. Í dag er hún kona, sem lifir og vonar. Í dag er hún sterk, því það er hennar verk. Vinir eru hennar lífsinskraftur, í þá sækir hún styrkinn aftur. ] [ On Valentines Day, Lovers all around, Roses and Chocolate Boxes ablaze, Flower shops ajar. From Paris to London, Heart shaped cardboards on window shops. Red, red, red color´s of love. Only my friend Segafredo holds that banner as a canopy shading me from rain. All about is gray, stone and concrete, No men pacing down the street, With bouquets of rose´s holding them awkwardly upside down, Hurrying to their lovers home, and show Them red, red, red colors of their love. Where is the love in Reykjavík? Did Cupid not learn his geography? Or did he go to the far east, In his midlife crisis to learn Japanese Calligraphy? Will he one day realize he already has what he seeks, That is to shoot arrow´s everywhere, And make people find within themselves That the love they look for, Is where the arrow lands. ] [ Do not provoke it, Let it growl. Keep your feet on the ground, Stand your guard. Let that monster belch steam off its nose, Take off your red sweater and slam it on the floor. It is stark raving mad now, Its eyes blood shot with anger, Smoke coming off its orifices Looking down to the red sweater on the ground. Its horns now pointing to you, Do not be afraid. What is needed to be done now, Is to stroke its horn´s gently, Softly, lovingly with your hands. Because the monster only has a headache, From stubbornly carrying those detachable, Heavy, plastic horns. ] [ Ég lifi í gervi gervið er hvítt, sálin er svört, ég þykist mikið. ég þykist þannig að öðrum líður vel, ég þykist en mér líður ei vel. ég þykist og þykist, læt eins og mér líði vel. ] [ ég sakna pabba, ég sakna mömmu, ég sakna systur, ég sakna bróa, ég sakna mín. þegar ég var lítil, það var allt svo einfalt, áhyggjulaus, ánægð og glöð, ef tækifæri var. Núna vex ég úr grasi, núna dafna ég ekki, núna hverfur brosið mitt, ekkert er í alvöru, allt er falið, ég sakna sannleiksins, ég sakna ástarinnar. ] [ Alveg eins og Músin sem var svo lúsug að hún var snúin úr hálslið, kindurnar sem voru teymdar í burtu á vorin, gamall maður á sínu hinsta kvöldi, visnað blóm að hausti, barn sem hrapar fram af brún, fíkill á kaldri götunni, kramin padda og fugl sem ætlaði í gegnum glerið, þá fór stelpan mín í bíó. ] [ Í stað þess að: Strjúka þér um feldinn, horfandi á þig mjúku auga, finna ylinn og horfa í brún augu þín. Neyðist ég til þess að: Horfa á þig út um gluggann, í kassa ofanjarðar því jörðin er frosin, halla höfðinu að glerinu, láta fingurna snerta glerið Og bjóða þér góða nótt, stelpan mín. ] [ Elsku pabbi, ef að þú bara vissir, ég hef ákveðið að fara eftir þínum ráðum; og drekka ekki fyrr en líkami minn ræður við það. Ég er komin með kærasta, ef þú bara gætir hitt hann. Stelpan mín er dáin, þú veist það, hún er hjá þér. Ef ég bara gæti sagt þér þetta, ef bara. ] [ Kæra dagbók, 15.09.-07 Í dag steig ég upp í bíl, koltvísýringurinn og vatnsgufan láku út, því að kæra dagbók, í dag lærði ég að eyða ósonlaginu. ] [ Þegar hinn glæsti prins ríður á steinlagða stígnum á hvítum glæsifáki, stígur prinsessa út úr kastala og hendir til hans Ipodinum sínum til þess að sýna honum lag sem að henni líkaði við. ] [ Suðið í ryksugunni rekur hugann á fjarlægar slóðir þar sem fótspor eru mörkuð í sandinn. Og maður hugsar, af hverju er ég hér að ryksuga? Að ryksuga upp fótspor, matarleifar, kusk og þræði, söguþræði hins daglega lífs. Með einum litlum mótor og þokkalegum sogkrafti sogast sönnunargögnin um fólkið burt. Fótspor á heimil eru ekki eins spennandi og fótspor á fjarlægri strönd. Að minnsta kosti ekki í eina suðandi stund. ] [ Ef að bara, góði guð þú myndir afþýða jörðina í tvo daga, svo að ég þurfi ekki að horfa á kassann sem að mun liggja úti á svölum þangað til að frostið fer. Gerðu það, þýddu jörðina með kærleika þínum og hjálpaðu mér að yfirvinna sorgina. Ég veit að þetta er Ísland, og veðrið eins og unglingstúlka í drengjahóp. Getur ekki ákveðið sig. ] [ Það er þessi strákur sem að fær mig til að brosa, og byrja að syngja aftur. Það er þessi strákur sem að fær hjartað í mér til að missa úr slag, og halda svo áfram að slá fyrir hann. Það er þessi strákur sem að hefur hjálpað mér, að komast yfir svo margt. ] [ Ég horfi inní augun djúpblá, sár. Þar sem kvalir aldanna, þjáning áranna, hryggð daganna syndra. Tárin, já tárin, ár og lækir lífsins. Svartur sjórinn kallar á mig, frá þér. Elsku Halla þetta er kveðjan mín. ] [ Leiðir okkar lágu saman, þú sem tinkarlinn og ég sem ljónið. Þú leitaðir að hjarta en mig vantaði hugrekki en ólíkt sögunni fundum við það í hvoru öðru. ] [ Það var einn daginn sem ég vaknaði, en var ekki vöknuð ég bara hélt það. Sólin skein og inn til mín barst regnbogalitaður söngur fuglanna sem báru mig út um gluggann og tónarnir dönsuðu við sjóinn, blómin brostu ég sá í himninum hjörtu úr bleikum skýjum Grasið bragðaðist eins og sykur en ég veit það bara því vindurinn sagði mér það. Og allt var þetta eins raunverulegt og rigningin sem féll á andlit mitt í gær þangað til að ég vaknaði aftur, eftir að hafa lagt mig í sykraða grasið og hugsað hversu súr hugur minn væri, en þá leit ég út og sá hálfbráðnaðan snjóinn í garðinum en ég áttaði mig á því að nú væri að vora og kannski einhvern tímann yrði ævintýralega súrt sumar að mínum veruleika en það var bara hugdetta. ] [ Heiða Rós, er stúlkna drós. Fór sem skiptinemi með svaka afskiptasemi Hún fór til Austurrík\' enda er hún svaka frík. Hún fer þar á bretti og skíði og lærir um leið smíði. Við söknum hennar allar og líka allir kallar Við þín söknum og heimkomu þína hlökkum. ] [ Inga er stelpu hnáta sem reynir við alla skáta hún setur á sig stút þegar hún kyssir hann Knút Silja býr langt í burtu enda fer hún aldrei í sturtu ] [ Lífið, meikar, ekki. ] [ Fortíðarinnar andi um svífur í fylgsnum trjána , framtíðin bíður. Drottinn að farsæl hún verði. Í aldingarði forðum þú gekkst, frið og gleði frá föðurnum fékkst. Mér að hugga og gefa sorgirnar sefa ! Í kertanna logum ég minnist þín heitt sem lífinu hefur töfrum á beitt. Oft hef ég von þinni brugðist. Á annan veg fer oft en hugðist. Hvíl þú mitt hjarta og hjálpa þú mér að gera aðeins það sem er þóknanlegt þér. ] [ Hún fann það allt í einu hún fann það þegar kalt regnið snerti hörundið að það er lítils virði að lifa lífinu dáin. Tíminn , árafjöldinn er afstæður þegar kemur að því að lifa , lifandi. ] [ Enginn er vegur að þekkja fólk til fulls fyrr en maður gengur þeirra slóð. Það er svo margt, sem metið er til gulls, sem miklu frekar reynist tár og blóð. ] [ Ingibjörgu finnst allt nógu gott handa öðrum! Já, flest er lánið dapurt, sem leikur vora þjóð, í launamálum fátæklinga hún þykist vera góð! En Steingrímur því mótmælir stinnur sem stál og staffírugur telur svikin öll Samfylkingarmál. Það reyna víst flestir að verja sinn vesaldóm, vantaði ekkert upp á nema færa henni blóm! Hjá þjóð vorri þrífast best þrælmenni og dót, það sannaðist í Kastljósinu er blasti mér mót! ] [ ég læddist á tungunni til þín hvíslaði orðum í eyra fegraði allt og sagði ekkert satt allt sem þú vildir sjálf heyra ] [ Þeir skipa mér að þegja & segja: \"Sá sem spyr, er að biðja\'um að deyja\". Þannig held ég áfram, því ég tel mig þurfa\'að lifa. Þó ég lesi framtíðina í læt ég mér nægja að skrifa. Því ég óttast að ef ég segi frá, verði ég laminn, grýttur; negldur krossinn á. En er það annars ekki það sem allir þrá? -Athygli? ] [ Hvað er allt, miða við hvað sem er? Efni, máttur eða alls\'ekki neitt? Það dæmir vízt hver eftir sjálfum sér, en samtíðinni fæst þó\'ekki breytt. Né útskýringar dregnar út okkar eilífðarspurningum við. Þau eru til, svörin, en þau eru í hnút, við það sem við gerum að sið. Ef við flokkum\'í sundur úr þeim siðavenjum sem óspurð við erum öll forrituð af; við losnum við girnd, við losnum við gremju, við losnum við þjáningu, eitt vízt er það. Leiðin er þó falin í fjarlægri tíð; fallega ofin í tilbúið lín. Og\'þó mannshugurinn sé mögnuð smíð, seint mun hann meðtaka drauma-orð mín. ] [ Minning var mér að upprifjast, frá miðskólaárum mínum. Þegar vit mitt þjála var ennþá hart, & ég þeyttist óprúður í tímum. Rauðhærður djöfull sem reiddist of fljótt, ruddist á aðra\'eins og sýndist. Um samnemendur sagði misjafnt ljótt, svo við kennara af hörku glímdi. Ein var þó sem aldrei ég hæddi, af aulaskap fylltist er var henni með. Um vináttu & frið hún kauplaust mig fræddi, fyllti hjarta mitt glatt & stillti mitt geð. Við fyrstu kynni ég kunni\'þig við, þú komst mér ósjaldan frá falli. Vænni vinkona fæst ei fundið í veröld okkar gjörvallri. Þó tíð sé nú runnin & tímarnir aðrir, þá títt ég velti mér uppúr því; af hverju samband svona lítið ég hafði eftir að sitthvora áttina fórum við í. Víst hef ég villt mína eigin lífssýn; vaðið í dýpsta syndafljótið. Ég vil bara\'að þú vitir, kæra vinkona mín; ég vona\'að þú alls besta njótir. ] [ Ef „er” fyrir mér væri „ef” fyrir þér, eflaust er væri á sveimi. Og „þú” fyrir þér þá er „ég” fyrir mér, þrumuguð í þessum heimi. En lífið er upplausn; langur gangur. Ég næ engri nautn; nei, er ekki svangur... ] [ Ég veit það, þú veist það, við elskum hvort heitt svo annað. Og ég veit það & þú veist það, að elska okkur er bannað. Ég sé það, þú sérð það, ást okkar aldrei fæst slokknað. Ég sé það að þú sérð það að ást okkar engin fær botnað. En ég veit það & þú veist það, að ástina’er ekki’að skilgreina Og ég vona að þú kona skiljir hvað ég reyni að meina. Ég finn’það, þú finnur það, að ekkert okkur fær sundrað. Ég veit það & þú veist það að tengsl okkar aldrei fást splundrað. ] [ Finnst þér í lagi blindfullur að vera? Flestum þykir það gott, það ég veit. Best finnst mér þó að blasta’eina svera, vera bóluskakkur í sælunnar reit. ] [ Manstu þegar minningar mynduðust okkur í fjarska? Okkar kæru fyrstu kynningar í köldustu Nebraska? Manstu hvernig húsin létu, hvernig göturnar byrjuðu að tala? Hvernig blómin hlupu og bílarnir grétu, & bófann sem varð óvænt’að smala? Manstu ljósastaura & lítil börn leiðast glöð niður að strönd? Manstu álfa & menn og magnaðar sögur frá ímynduðum heimi? Úr algleymi ég reyni að rifja’upp en hef ekki taug til að toga. – Ha? -Þú veist, ... eða hvað? Mundu þó eitt elsku stúlka til þessa; Þig ég elska heitt, bara þig & ekki neitt þó þú lítir út eins og skessa. ] [ Lengst úti á landi, í litlum bæ við Kirkjuhvamm, er vina vertshús, vel og mikið því ég ann. Á Þinghús-bar, þar glaum ég meta kann. Ósjaldan höfðum setið & sukkað svívirðilega þar, pælt í trú & pólitík og prísað Þinghús-bar. Á Þinghús-bar, mitt annað heimili þar var. Já, vinalegt vertshús, í annars vesælum smábæ. Þegar súr, á Þinghúsið var ekki lengi’að “droppa bæ”, á Þinghús-bar, mitt annað heimili þar var. Kannski sat þar Kjartan með kaffið sitt & smók. Hann talsvert virðir tónlistina; telur hana ekkert djók. Á þinghús-bar, ég nám um lífið nam. Og Tóti bakvið barinn, bestu drykki bar hann fram. Ef vin þér fór að vanta, væni, þú hóaðir í hann. Á Þinghús-bar, mitt annað heimili þar var. Á Þinghús-bar, á Þinghús-bar, mér þótti best að gá, að blanda geði & bulla og í brennivíni sulla smá. Á Þinghús-bar, mitt annað heimili þar var. En nú liðið er að lokum fyrir litla barinn minn. Strákarnir hættu, seldu húsið og reksturinn. Nú Þinghús-bar er allt annar en hann var. ] [ Í svörtu húsi við Austur – Skaptafell, situr ung stúlka af sér hríðar skell. Dimm og köld nótt í janúar. Á sama tíma undir fannarsæng hann flýr, finnur búkinn kólna er yfir brestur ógnar gnýr. Dimm og köld nótt í janúar. Vetrarkóngur kaldur, mátt sinn sanna kann. Svei mér, ef einhver veit það er það pottþétt hann. Þessa dimmu og köldu nótt í janúar. Hann hugðist liggja nóttina en um morguninn ekki stóð. Hugfangin beið hún heima, af áhyggjum orðin óð. Þessa dimmu og köldu nótt í janúar. Senn stillti veðrið en ekkert sást til hans. Svo snemma að vori þiðnandi lík hans fannst Síðan dimmu og köldu nóttina’í janúar. Svona lýkur þeirri sögu, reyndar pínulítið stytt; stúlkan þoldi’ei harminn og endaði lífið sitt á dimmri og kaldri nótt í janúar. ] [ „Ég er ótrúgjarn, fæddur bóndi,” ég hvað að henni og hún á mig góndi. Ég vissi ekki hvað þá var eða er í dag. Hún þóttist skilja en ég veit það vel, að vitundin var frosin í hel. Þess vegna reyni ég að gera’úr því lag. En hún mundi aldrei þiggja mig, þó munað og ást mína ég gæfi’henni. Því það sem ég er, hún ekki sér. Ég sé það núna, já, ég sé það skýrt; að reyna á ástina getur verið dýrt. Það fer reyndar eftir því hver það er. ] [ Þegar reiður ég er, þá reyk fæ ég mér Til að draga úr illskunnar báli. Því staðreyndin er sú, og ég sé það skýrt nú að skólakennsla skiptir’engu máli. Ef svangur ég er, þá \"smók\" fæ ég mér, til að samstillast þeim fagra tóni, ég heyri nú lágt en heyri brátt hátt, með góðri hjálp frá tilbúnu lóni. Þá segi ég glatt, já, ég segi það satt, sé heimur þinn allur í bölvuðu tjóni: Þá kíktu fljótt inn kæra mín, kæri minn og kveiktu þér upp góðri, hjá Jóni. ] [ Tilfinningum hef ég týnt í taumi rangra vina. Þó margt þeir hafi’mér misjafnt sýnt, mestu þjáningar lina. Við fyrstu kynni kynntumst vel & kumpánar urðum við mestir. Ferðinni sem var of fáránleg í fyrstir við vorum og bestir. En eins og dögg fyrir sólu þeir stálu mér frá, því, að getað elskað, hatað, sagt af eða á, - nú andar mitt höfuð í blíðviðrisgjólu. ] [ Ég stend á villigötu samtímans, set út á hvítflipalíf og elegans því ég sé út um gluggann það sem enginn sér. Tómar brennivínsflöskur og tómir bjórar, bara tímaflækja, ekki ein heldur fjórar. Augun mín, eins og fínpússað gler. Stolnir draumar seldir á götuhorni en í sannleika sagt eru þeir löngu horfnir. Það finnst bara öllum gaman að rugla í mér. Ég krefst þess kona að þú klækir mig, já svona, svona, ég vona að þú særir mig & við tökum því bara eins og það er. Þó gefi ég allt sem hér ég geymi, græði ég ekkert í þessum heimi. Ég segi þetta nóg, ég á ekki heima hér. ] [ Geng ég um í glórulausu rúmi, gleymi mér um tíma & stund: Flakka einn á fagurgrænu túni, finnst mér vanta vin, kannski hund. ] [ Fleygi mér á færeysku yfir andlit á manni sem mér finnst ég kannast við, eða nei. Ég veit ekki’af hverju, bara uppá gamnið, ég ættleiddi 17 vetra tælenska mey. ] [ Vaknaði upp við talandi viðtækið. Reis þá úr rekkjunni og lækkaði. Það er svo skrítið, hvað það þarf lítið, ég á mér hund sem stundum talar um þig, þegar ég hvíli mig. Gref ég upp líkin; sjúklega sýkin, sleppir ei takinu helvítis tíkin. Laus eru lömbin, loftlaus er vömbin. Ég skrifa í skýin heilu sögurnar sem sitja ennþá þar. Giska á tölur meðfram gangbrautum, gleymi stríði á hendur hryðjuverkum. Læt mér leiðast yfir mismunun, loka á hugsanir um tímaflökkun & enginn mig hugsar um. ] [ Kröfur gerðar til rangra karlmanna, kreist var upp’úr börnum eggjanna. Lífið losnar frá ströngum vitsmönnum, sem leiðindi hugsana spanna. Þjarmað að þröngsýnum ungmennum; það er það sem við í skólunum kennum. Við staðið höfum í stríði á móti, stanslausri níðslu valdsins þrennu. ] [ Með blýant í hönd á blað mitt ég góni, berst ég hart við að skrifa’á það ljóð. Sveittur ég sit í algjöru tjóni - nei, skáldastíflan er ekki góð. En hvað er að sjá, hvað er að gerast? Mér heppnast hér hefur að ráða úr því. Nú hugmyndirnar óheftar berast & hamingjusamur er ég orðinn á ný. Því ekkert er betra en stökur að semja ef skapið er vont og lítil er trú. Ef lund þín er lin þá skaltu þér temja leik, góðan, að orðum eins og geri ég nú. ] [ Margsinnis hef ég misnotað margan drykkinn góðan & ekki get ég fullyrt það að einhver hafi gert mig fróðan. Svo hins vegar hef ég leikið mér að “húlla upp” nokkrum skvísum. Svo skrítið hvernig ég heiminn sé, eftir \'svolítið ball með þeim dísum. Með áfengi um hönd, á fyllerí held - hef alltof oft staðið í þannig þeysi. En ef ég rúlla upp dömu og ber að henni eld, ég öll vandamál heimsins leysi. Greinið á milli og greinið í sundur, gangið nú frá þessu straffi. Vil ég þá minna á að þetta munaðar undur er minna ávanabindandi en kaffi. Svo berið út orðið og berið það hratt, berið það alla leið til Mekka. Þó þeir segi annað þá er þetta satt: Smókurinn er betri en að drekka. ] [ Mig dreymdi í nótt nokkuð undarlegt, ónákvæmt ég man allt, og þó: Fólk, það lifði lífið blekkt, lifnaði í fæðingu, eltist og dó. Börn voru framleidd á færiböndum, flokkuð í sundur & sorteruð sér: Hverjir hentuðu í stjórnun á löndum og hverjir hentuðu í almúgaher. Stofnanir sáu um uppeldi þjóða, steiktu’í þeim heilan og forrituðu á ný. Og þeim einstaklingum sem þeir sáu í gróða þeir umbunuðu með lúxuslíf. Hvergi var samheldni, heldur geisuðu stríð sem enginn sá fyrir enda á. Í stað fyrir snjó- var það blýkúluhríð, fyrir sökudólg hvern annan bentu á. Ég vildi vakna en ekki ég gat viðskilið mig frá því \"djóki\" - að helmingur heimsins átti ekki mat, hinn lifði í lífsgæðamóki. ] [ Nú gulnar grasið úti á túni sem gréri í sumar svo vel. Fagrir runnarnir orðnir fúnir, frosið er allt líf í hel. Blómin hætt að vaxa’útí garði & bláberin horfin á braut. Þéttar þúfur nú nær rofabarði, að þrotum lindir; nú að drullugraut. - Hvar eru flugurnar sem flugu hér fyrr? Hvar eru skriðdýrin sem voru aldrei kyrr? ] [ Éljagangur og skíta kuldi, geispandi vindur og stökustaðsól. Efli sjálfsdáð með hugsunarleysi; leggst til hvílu í bjarnarból. Sköpunargleði sem of seint fæðist, kemur út í þessum ónýtu orðum. Allan þó gef mig til ætlunarverka, þó ekki teljist til áfanga merkra. Illt er að vera úr skorðum, gæfulegt væri ef samband upp næðist. Á mörkum þess að vera heill á geði, stari ég inn í þá tómu hugsun, Tilfinning sem áður ég hef ekki fundið; af hverju er ég ekki í buxum? ] [ Ég er ekki gamall en veit það þó, að ekki er allt sem sýnist. Eins og borgirnar allar sem sukku í sjó, sumt aldrei finnst ef það týnist. ] [ Það mætti telja upp alla þættina, þeir þola varla sættina þó þeir vísi því reyndar á bug. Ég svaf varla dúr í gær, það er erfitt með svona kaldar tær en maður kemst af með hlýjan hug. ] [ Líf voru tekinn í lyga nafni, leyfð voru morð fyrir aur. Sem vitsmunavera er sjálfsagt ég hafni skítugum orðum sem lykta af saur. - Því skora ég á þig, þú mannbróðir góði, að segja stopp! ...því nauðgun er glæpur. ] [ Stefán, hættu að skoða klám! Þú verður geðveikur ef þú skoðar klám. Stefán, hættu að skoða klám! Þú verður blindur ef þú skoðar klám, Stefán, hættu að skoða klám. Stefán, hættu að skoða klám! Þú missir aleiguna ef þú skoðar klám. Stefán, hættu að skoða klám! Þú ferð til helvítis ef þú skoðar klám. Stefán, horfðu bara á mig; ég skoðaði klám. ] [ Blæðandi magasár og bólga í anus, beinverkir, pína & opin beinbrot. Ímyndaður vinur, sem kallar sig Janus, starir dolfallinn í mitt dimma skot. Nauðganir, árásir & ásetin morð, allt fellur í sama pakkann. Ég stilltur og prúður sest við mitt borð, svellkaldur tæti ‘á mér hnakkann. ] [ Um borgina eru skreytingar settar & inní húsunum sitja fjölskyldur mettar. Það eru að koma jól. Að lífsins gæðum við beitum okkur helst að, en samt er fólk þarna úti sem á ekki svefnstað. Og það eru að koma jól. Samfélaginu, við verðum því að sinna; vinna og vinna, til að fá meira en minna. Því það eru að koma jól. Í Kringluna við viljum nú keyra til að kaupa hamingjuna meira og meira. Því það eru að koma jól. Aukakílóin í burtu við æfum, um leið og leiðindin með innkaupum kæfum. Já, það eru að koma jól. Svo er kastað sprengjum yfir þjóðir einsog Kúveit, ,,hvar endar þetta”, maður spyr sig en hver veit? En það eru komin jól. Og nú mamma & pabbi, sér í kjólfötin smeygja, á meðan sveltandi börn í Afríku deyja. En nú höldum við gleðileg jól, því það eru komin jól; öll sömul gleðileg jól! ] [ Það er allt eins upp & niður. Ekkert til neins & enginn friður. Hægri-vinstri hólmganga, hamagangur í gríð. Upp-niður fangar hanga, endalaus blóðug stríð. ] [ Í sófasettið sest, skallinn gengur á milli manna. Svona líður sjálfum mér best, svíf létt upp til skýjanna. Fylgist með en ekkert sé, finn vel fyrir strokum þeirra. Sitja ein með sjálfum sér, sjúskuð geta loks ekki meira. -En alltaf komum við aftur, í leit af því sem engin hefur fundið: Fullgildri lífshamingju. Eldhúsborðið er fullt, af eitri og allskonar nammi. Ýmist grænt, brúnt, hvítt eða gult, það gerir mig bráðum að manni. Seinna get ég ekki meir, sit í dái og get ekki talað. Úr dáinu ég dey, dýpstu spurningum er helst ekki svarað. -Ég reyni og ég reyni, en gefst fljótt upp. Ég sjálfsagt aldrei finn fullgilda lífshamingju. ] [ Hún er feit og hann er mjór, hinn er lítill en þessi stór. Horfi og stimpla hvern einasta og einn, frá uppnefni sleppur hvorki nein né neinn. Fitubollur, stubbar og slánar, skítalýður! – það ekki nú skánar. Og sjúkar sálir frá geðspítalasetri, en spurningin er: ,,Er ég eitthvað betri?” ] [ Það er margt sem ég vill segja, en ég kem því ekki frá mér, þó ég reyni. Það er margt sem oft angrar mig. Þegar fólk lætur mig ekki í friði, heldur mig sig, þá mamma, ég hugsa um þig. Mælirinn er aðeins hálfur, ég virðist vera einn í þessum heimi. Maðurinn hugsar bara um sjálfan sig... Þó upptekinn sé ég sjálfur, þá aldrei ég því gleymi, mamma, að hugsa um þig. Mér finnst ég oft þurfa eitthvað, eitthvað til að fylla uppí tómið. Ég er oft svo einmanna. Ef mér finnst ég ekki eiga rétta nágranna, þá mamma, ég hugsa um þig. Ég finn það nú hversu sárt það er, svo sárt - að vera\' ekki hjá þér. Núna er svartara skammdegið. Ég held að þú aldrei, gætir giskað hversu mikið, mamma, ég hugsa um þig. ] [ Hvort heldurðu að fólki sé nær að segja frá, eða að segja til? Hvort heldurðu að sé gáfulegra að svara nei, eða játandi? Það eru til svör við þessum spurningum, spurning hvort ég vil, Láta það í friði eða enda líf mitt, hangandi? ] [ Hörund þitt, þitt hold svo fagurt, hvíslar í gegn augu mín. Og aldrei er nú mál mitt magurt ef mál mitt er til þín. Ég elska þig í gegnum vindinn, og er andar suðrið hlýja. En ef brotið er gróft, þá stækkar syndin, sem seint er þá hægt að flýja. Ég rita því þessi orð til þín, er þreytan er mig að svæfa. Ég óska að ég gæti hætt við allt vín, en eymdin er mig að kæfa. ] [ Held niður ‘í miðbæ einsog heiftugur vargur, helli ‘í mig spíra og bjór. En er áfengið klárast, þá fyrst verð ég argur, og eflaust drekk bara klór. ] [ Klóra mér í hnakkann með níþungan makkann Og bölva því ég á ekki aur. Stari inní vegginn, búinn að brjóta á mér legginn og er við það að drukkna í saur. ] [ Halla nú höfði og kveinka mér mjög, horfinn er allur lífskraftur. Sver því við dáta og drengi, þau lög, að drekka aldrei neitt aftur. ] [ Ég er með hundraðfalda helminga af hugmyndum, og ég höndla það illa í dag. Verð að rækta heilann og réttlæta‘ hann, já, ég reyni að koma honum í lag. -Spurning hvort ég spynni úr þessu eitthvað efni, samsvarandi góðum sólarhringssvefni? ] [ Leitandi, ei skeytandi og engu breytandi. Það virðist allt svo eðlilegt, á sama tíma nokkuð skelfilegt. Ég reyni að komast heill í gegn, sem þjóðarinnar þegn, en það er mér um megn. Upplifi allar lygarnar, trúlegar en samt gegnsæjar. -Það ver hver sinn bróður, hvar er þinn? Ver hver sinn bróður? -Já. Grátandi, frálátandi og sjálfum sér slátrandi. Hann hlær af sjálfs síns gríni, er sama þó kjósendum týni. Þetta er nefnilega svo yndislegt; siðleysislegt, samt löglegt. Það vita flestir sannleikann, þeir þekkja hann en enginn mótmæla kann. -Ég er orðinn óður, stingið mér inn! Ertu snaróður? -Já. ] [ Yrki ég nú ferskeytlu ei ætlaða börnum, um ofsaför mína á klósetið. Ég hélt sjálfan Satan vera í mínum görnum; svei mér þá, hvað hafði ég étið? Ég sat aumur, einn og engdist af kvöl, augun voru rauð & þrútin. En ég frelsaði Mandela, þó ekki með þjöl, þakklátur þerraði stútinn. ] [ Ég er stolinn, græði gras á vorin. Ég er rændur, með sumri sameinast frændur. Flýg yfir morð & nauðganir með býflugur í maganum. Ég er klofinn, úr samviskuleysi er ofinn. Ég er leystur, meiriháttar en sálarútkreistur. Flýg yfir morð & nauðganir með yfirtöku á heilanum. Ég er sperrtur, glaumfullur og gróðamerktur. Ég er rotinn, óttist mig og verið mér lotin. Flýg yfir morð & nauðganir með spillingu í vasanum. ] [ Með aragrúa í höndum mínum, mökkölvaður þurrka af þér slef. Búinn að horfa‘eftir hundruð af línum hverfa upp í þitt nef. Bakkus með allt sitt brennivín, bjargað þér getur ei meira. Ég sé það í gegnum augun þín, þú ert þig búin að útkeyra. Ef ég hefði aðeins hugsað fyrr, hugað að því sem uppúr sauð. Þá lægir þú kannski ekki svo kyrr, þá værir þú kannski ekki dauð. Gleðin er löngu liðin tíð, leggst hægt við þína hlið. Andlitið fallegt og augun þín blíð, og í huganum loksins færð frið. Fædd og uppalin í fallegri sveit, með fjallgarða háa sem prýða. Fyrirmyndar stúlka samt frá henni leit, sem fannst gott að detta í það. Skilur eftir þig fátt nema vin, sem vildi hafa verið þér nær. Mig verkjar nú í hvern vöðva og sin, við að hugsa um daginn í gær. ] [ Ég veit að sumt er staðreynd ein, & sjálfsagt eitthvað enn meira’ en það. Því kynnst hef ég sjálfur kvenmannsins grein, að kreista’ úr manni sálina og rífa í spað. Þó fríðar á vanga þér finnist þær vinur, eða fágaðar bæði í tali og sýn, þá veit ég og segi, þú undan þeim stynur, þinn lífsþrótt þær þamba einsog rónarnir vín. ] [ Hugsa um daga og drauma sem á mig snéru, drambið var falli næst. Þröngar minningar hug minn réru, meðan ósk mín gat ekki ræst. Draugar fortíðar á mig falla, fyrir minn síðasta túr. Feigðardrykkurinn á mig fljótt kallar, fjötrum hans kemst ekki úr. Hleð skot í hólk og geri hann kláran, heiftin nú meira en næg. Gleypi endann á hólknum og græt mig sáran, gikkinn dreg aftur og hlæ. (bæng) -Ranka nú við mér og verkjar í kjálkann, velti mér, reyni að grípa í bjálkann. Lít í spegil en veit eigi hver þar fer, það er eitthvað andlit – en ekki andlitið á mér... ] [ Man ég þá mæðu sem upplifði ég, meðan áfengi hug minn firrti. Stúlka bæði falleg og fönguleg, fyrir lítið ég hnátuna myrti. Ég gekk hægt að og gaf henni högg, grýtti í andlitið steini. Reyndi að flýja, var ekki nógu snögg, ég skar hana djúpt inn að beini. Hún hneig þá niður og engdist um stund, höfuðið blóðugt og skrapað. Ég sparkaði í hana einsog skítugan hund, sársauka hafði þá skapað. Lá þá nær líflaus í götunni, ein, í laug af ógeðs viðbjóði. Kreistandi upp sitt síðasta kvein, & kafnandi á eigin blóði. Ég fylgdist með henni dálitla hríð, hló og bið hennar lengdi. En vitandi það að verða’að enda’hennar líf, ég vafði gaddavír um hálsinn og hengdi. ] [ Stari inn í skarð milli tannanna þinna, sem gæti verið minna. Tennur svo svartar sem hrafntinna, sem verður betur að sinna. Fyrir sársauka þú hlýtur að finna, svo ekki fari verr, á þessu þarf að vinna. Sælgætisáti, þú verður því að linna, þig fyrir tannhirðu verð ég að kynna. ] [ Það er rigning & þoka, og gefur sig mjóbakið. Þjarmar að mér stanslaust sú bælda tilfinning, að ég finni’aldrei innri ró né frið. Læt hug minn leika við rotin betrunarsvið. Losa um streitu á hug með bjór í plastglasi; ljúft læt hann renna’í minn kvið. Verðmiðinn vegur þungt, og ræður því ferðinni. Vegna bólgu í fjárhagi er stjórnin löngu sprungin, en þeir leyna því mennirnir. Dett niður aumur og sé ekkert fram á við. Aldrei mun ég aftur skoða Grímsnesið, frekar en hvað annað lið. Skoða bækur & rit og bít við þeim pælingum sem bjóða uppá heim fullan af upplýsingum; hluti sem ég veit ekkert um. -Nema glórulaust vit og vitlausar kenningar. Velti mér uppúr skít, því svo er mér skipað, en ég kippi mér ekkert við það. Læt því yfir mig vaða með látum og skítkasti. Löðrungarnir er því fjarri fágætir; geymi hjartað í frauðplasti. ] [ Meðan tungumál manna ómar út’í eitt, og magnast frá orði til orða. Sit ég og hlusta en skil ekki neitt, svo best væri sér nú að forða. En ef ég það geri ekkert ég græði, á hvorki máli né talsmáta þeim. Nei, aldrei mál þeirra skilja ég næði, ef ég gæfist upp og hundskaðist heim. ] [ Sit á bekk með skrifblokk í hönd, stari út í veður & vind. Hugsa’um að skrifa um fljúgandi önd, eða sjálfhelda aumingja kind. Hugsa & hugsa en ekkert ég festi, í hugann um skriftirnar mínar. Fæ ýmsar ídettur á mínútu fresti, en fæstar eru þær fínar. Gefst þá upp með þetta á blaði, en þykir samt helvíti fínt. En þarf nú að hugsa um þarfari staði, því glórunni hef ég nú týnt. Læt þetta duga mér sjálfum að sinni, svoleiðis búinn mig út að keyra. Ég vona nú bara’að glóruna ég finni, ellegar yrki ég aldrei neitt meira. ] [ Ég sá hana í gegnum hólfið; útúrdópuð, búin að koxa’á gólfið. Lá á bakinu & augun brotin, bjartsýnishugsunin löngu rotin. Hugsaði um Halldór Laxnes, en hugsun þeirri í burtu strax blés. Lét á litlu sem engu bera, lúmskir menn láta ekkert vera. Burt frá því séð er enginn eftir, ergir mig og hug minn heftir. Geng í burtu á milli þrepa, athyglissýkin er mig að drepa. Lýsi svo yfir stuðning við komma, stelpur með stelpum og brennandi homma. Vantar ennþá smá salt í grautinn, svona’er hún erfið lífsins þrautin. ] [ Það er blind & byljandi hríð, bræði andlitið undir klúti. Undir skafl ég skjálfandi skríð, svartsýnn vona’að ég verði’ekki úti. ] [ Þú ert fífl og fáviti, faggot spilandi hóra. Rusllýður og rasisti, ræfils ónýtt flóra. ] [ Ég á mér einn stóran draum, það að geta ekki vaknað. Því í draumi ég ann mér við glaum og ekki vil ég þess sakna. Ég bý í húsi sem heitir Pétur, hannað af sjálfum mér. Upp’á höfuð mitt Hallgrímur setur hverfula klukku sem tímana sér. Viltu kaupa þér villu mína? Viltu skera þér tertusneið? Ég skal gera frænkuna fína, fljótur skenkja í þína skeið. Á meðan viltu slátra mér ær? Viltu lambið litla pína? Meðan Donovan strengina slær, sjónvörpin viðbjóðinn sýna Hjálpaðu mér upp í mót, mjakaðu mér út á broddinn. Viltu síðan þegja einsog grjót, svo blotni ekki hjá mér koddinn? ] [ Ég stend á önd & styð mig við gluggann, stari á álftirnar fljúga út’í geim. Við bryggjuna bíður ein lítil duggan, bara eftir því að taka mig heim. Þó ég vilji ekki fara er ég samt dreginn burt, æpandi á guð og aðra vætti. Það er ekki einu sinni að því spurt hvað um vistina sjálfum mér þætti. ] [ Stein fyrir stein, skríð ég einn heim. Tek af mér sokkana og hendi þeim. Hef þurft að þræla, grátbiðja & skæla. Sé veginn framundan og leiðin er greið, en ég kemst ei alla leið. Hef farið víðan völl, vötn heimsins synt öll. Hitt fullt af furðufuglum, álfa & tröll. Klórað í bakka með þungan hnakka. Drukkið með Bakkusi á’við heilan her, sem í restina kálar mér. Hef þurft að bíða, og dónaskap líða. En gleymt því öllu með því að detta’í’það. Rústir ég byggði, og eilíft líf tryggði. Dansaði djöfulsdans í engum skóm, við eigin ímyndunarhljóm. Gleðin þá búin, og ég er lúinn. Hugur minn óheill & öfugsnúinn. Sit sár á tröppunum, dofinn í löppunum, finn enga lykla, búinn að týna þeim, og ég kemst ekki heim. ] [ Ég sá þig í gegnum nóttina; angraður, truflaður. Andlit þitt ég sá svo fagurt skrapaður, hruflaður. Tröppu hafði gert mér að heima er hoppaðir þú þar fram’hjá. Ég var næstum þér búinn’að gleyma en snögglega mundi er horfði þig á. Ég kallaði nafn þitt og þú namst neyðarbrems og á mig leist. Í setningar get ekki bundið þá tilfinningu sem hefur ei breyst. Augun þín óttast ekkert verndarar veraldar minnar. Ára þín óttast ekkert, gætir veraldar þinnar. ] [ Það er svo margt sem nú má vita, mikið meira en í denn. En þó meyran takir þú bitann, þá ertu’ekki gáfaður enn. ] [ Guðs börn eru stór & smá, saman búa í veröld hér. Einsog systkin kýta sárt, samúð enginn neina ber. Við dýrkum vá af eigin sök, viljum sanna ófagra vídd. Réttlætum með kolröng rök, reiði að innan erum prýdd. Það bjargar hver sem sýnist sér, er sálirnar frelsast jörðu frá. Deginum er ljósara að í dvölinni hér dafnar ekkert fyrr en dauða er náð. ] [ Eftir langa bið mælti hann: ,,Hvað er það að deyja? Það vill mér enginn segja.” Það ætti að setja’á’hann bann. Þá er það meðfram ánni, þeir láta hann hanga’á slánni, þann mann sem ekki sannleikan kann. ] [ I try and I try, but my mind I can´t find. Any questions unanswered are all left behind. However, this one I ask you and answer it true; who is more human, is it me or is it you? I lay alone and tremble from worries and fear, my imagination has gone far - yet so near. I can´t bare the fact that the undone is not, so I must accept that unforgivable plot. I´ve been just a pessant for twenty long years, sentanced to stagger for what the puplic most fears. I´ve tried \'to live by their laws & their rules; I´ve paid them my taxes, I´ve tended their schools. Now, looking upon our crusified man who they say dit not follow our Gods masterplan. But the thing is my children, my women and men the one thing he dit was us to defend. Just open your eyes, you will see it so clear. Just open your ears and you clearly will hear; there ain´t much time left; the end, it is near but if you follow the right path there´s nothing to fear. ] [ Stend ég einn og stari út’í tómið, sveittur og raddlaus á þig kalla. Ég vildi vara þig við; ekki borða blómið, en þú heyrðir ekki í mér, Halla... ] [ Feeling unknown begin to rise and they’ll stay with me this time. At first, I recognize my pride, then I loose my mind. After all, I’m just a man, I have to understand. I think it’s love, but then again it could be hate, my dear old\' friend. Sometimes I can’t tell those things apart, but that’s my choice of art. After all, I’m just a man, you have to understand. We’re all condemned; we’re all confused, we’re all alone, with nothing to lose. We must accept their wicked games, which they play, all in our names. After all, we’re all human, we have to understand. ] [ Open eyes that gaze at me, shadows running on the wall. Paranoia drags me down; No one will ever hear me call. -Spider spins her masterpiece, we are friends, or so it seems. We talk of politics & sins, we talk of this & everything. -\"The moon is shining, stars are bright.\" Someone is leaving for the door. Our spirit talks of disbelieve ´cuz noone knows him anymore. -“My greatest friend is myself, I don’t need anybody else. I know my politics & sins, I know this & everything”. ] [ Come on, ride with me! We’ll solve our mysteries like Scooby-Doo, & you know who... -Could it be; eternity? He doesn’t see, he doesn’t hear; he doesn’t think the end is near. Working\' hard or hardly working\'? -He doesn’t really talk that much, nor sing. Spreading diseases & blowing to pieces... Celebrating victory with democracy is history’s biggest hypocrisy. -Over & out and march me over! Freedom is as rare as a four-leaf clover. Too many guns to kill, too much blood’s been spilled... -If he doesn’t see & he doesn’t hear, he doesn’t think the end is near. ] [ See me trying. Trying to make the world a better place to live in. See me crying, & fighting the armies who’re frying, every little thing that has never made a sin. See me walking. Walking forward to the bitter end. See me talking. Talking to somebody I thought was a friend. See me setting my goal higher. Higher than no time known before. See me try a little harder, harder than anyone just to score. Every time I try to make myself clearer, someone drags me nearer, nearer to the darkness of the world which none but he understands. ] [ Shadow creatures of every size, break the silence of stillborn cries. – Suddenly I hear an echo from a baby, crying as it haunts me; I feel my sole dieing. Now, the Exodus isn’t far away, Genesis was yesterday. I pray and I pray! Oh Lord, can’t you hear what I have to say? I see life’s reflection in the wind, it reminds me of my deadly sins. My eyes try up & I feel the spirit fly by, touch my back and I wonder; why? Now, it all is to far away no one remembers yesterday. I pray and I pray! Oh Lord can’t you hear what I have to say? ] [ She says to me she bares a name from above; runes, written by god. Her presence, delightful; she steals my eyes. For a moment in time but forever on my mind. Together we travel through all sorts of images. With spiritual privileges we float alone with nowhere behind. For a moment in time but forever on my mind. Though I know, I still can’t say it, or explain this one single thought. She enslaves my mind completely, dips in it deeply, converts it neatly. And I think I may have to say it’s to a better way in getting through the day - unchained. For just a moment in time, though forever on my mind. ] [ Floating around the world in a day, on a cardboard made out of clay. I live in a house called Pete & for fun I don’t bother to eat. ] [ I sit here alone, waiting for a call. Drank a lot of Jack last night, but that don\'t matter at all. I’d like another cigarette; I gave my last one away. Hey, if my call will come in time, could I speak with Dylan, O.K.? So, away I flow, and like Bobby said: “One more cup of coffee before I go”. My gun I reload, and like Bobby said: “One more cup of coffee before the road”. If my call doesn’t come on through, if the operator says no, would you run down to my coffee-shop & quickly let me know? Because if I didn’t know in time I would wait for so many years, hoping for that one phone call; to hear Dylan’s voice in my ear. Now further I go, and like Bobby said: “One more cup of coffee for the road”. My gun I reload, and like Bobby said: “One more cup of coffee before I go, to the valley below”. ] [ The sun is bleeding diamonds, and the moon starts to cry. It’s pretty hard to take to watch your sister die. - Staring into a black universe, that collapses under fear. Moaning out it’s last thoughts, as death follows near. Rises up from his evil inside, so dark, so deep, yet so tall. Following only the soles of sin he reaches for us all. Fighting the core of our earth, living on all of our days. Breathing flames of burning fire his anger on us he lays. Intoxicating our children, & destroying our minds. We walk out the gallows leaving all of ours behind. Into the night we’ve vanished, left the colourful dance. Beaten brutally down by his violent ignorance. ] [ In ways I can’t explain, I’ve found peace; got rid of pain. Everything is now & forever, always has, yet also never. -it’s strange, how we seem to be prearranged in shame… so, who’s to blame? Heavenly blue as the clearest sky, your blossom pours out from your eyes. Blond hair, blue eyes I believe those are yours. The kind that saves lives, truly; your optical doors. Writings from past times in our God’s alphabet-rules. Your grace all around shines without a word nor even a move. Justice for your glory & justice for your fate. I know it’s not our time that’s my reason to hate. ] [ If the day today was the day tomorrow, would you join me in a walk of crime? If the day tomorrow was the day of sorrow, would you help me kill the time? If the years to come are the years we’ve followed, will they still hold the same fences? If those years to come will be as shallow, then when will we come to our senses? ] [ Walking on the other side of nowhere, waiting for my train to come, to take me far away from here. I’ve spent all of my life to get here but now I’ve changed my mind; now I want to go back home again. One time isn’t always always, two times make it more & the third time makes it one more day alone. I left all of my loved ones, my family, friends and Jane for this world and I regret it every day. My train doesn’t seem to be coming, well, that’s my own damn fault. I’m going to be stuck here for all my days. Because one time isn’t always always, but two times make it more, & the third time makes it one more day alone. ] [ I am here but you are there, these people aren’t going anywhere. I feel my mind is about to scatter but January will make it better. I wish I hadn’t been so late. Still this decision you’ve already made. Gather all your stars together for the men are predicting bad weather. Please don´t talk or make a sound ‘cuz true happiness I’ve already found. I hope we´ll meet again in December, if I don\'t forget, I will remember. ] [ Try to wake but I fall asleep, I’ve been here for way to long. Lost my faith & believe, think terrible thoughts all about different odds. Try to stay but then I go again, it’s hard to leave, my love. But strangest things seem so good, even though many are bad –worse things I’ve never had. Far away the light begins to shine and I float into the fog. Reasons not given, nor explained, I feel good but not for long. When you get here, I’ll be gone. It’s hard to see or even to feel, forget my loss. It’s hard to take, don\'t start to cry, don’t make such a fuzz. Just go back to sleep, I’ll be in your dreams to bring you relief. Now, it’s my time to go & I want you to know that it’s not bad at all. ] [ Lone rider Slim, don\'t take your guns to town. Don’t shoot him down. Don’t make that sin, God bless you if you can. Just be a real man. Make peace with evil with no big iron on your hip, just use your lips. That’s my advise, be smart and take my tip. ] [ I hate the moon & I hate the sun. I hate the clouds, every single one. I hate the cold & I hate the heat. & I really hate the rain that falls on the street. I hate the autumn & I hate the spring. I hate the year and it’s stupid ring. I hate the ground & I hate the sky. Today I hate you all – but I don’t know why… ] [ I live alone; I’ve never had a home. I don’t own many clothes; I’m only skin & bones. For all my live I’ve been completely on my own… And it’s now time to say goodbye and go. I feel so sad; true joy I’ve never had and I’ve tried to hide it by always acting glad. I wish that I had never played that game… ‘Cus now and forever will ever be the same. Gone by so fast, this day will be my last. As I lay dieing, I think about my past. Now as I go, I want the world to know: Who you think is your friend is more likely be foe… ] [ I never give, I only take. Well sometimes I give promises; Which I only brake. ¯ I sense a defeat in a war that hasn’t started: My conscience & wisdom; for a long time been parted. Feel the wrath of my tongue in my melancholic voice. Lets finish while we’re young, bring on the noise. I see, you see, together we see: Our love, getting lost at the bottom of the sea. ] [ Come meet me, please feed me of your stories so true. You know, I’d been long gone if it wasn’t for you. - I’ll tell you this much of the world you live in: There’s no room for good, it’s so full of sin. Come find me, please mind me when I beg for Thee. I feel so reclusive, I’ll never be free. - We’ve all been pre-punished for all of our crimes, that’s why I know how to handle hard times. Come see me, please free me from this terrible pain. I don\'t have much left, there’s no time to explain. I’ve lived through my live maybe to blindly, so the only thing I know there ain’t that much to see. ¯ You know, when I wrote this I was as sober as hell, you can’t find any other this story to tell. I’ve been put here to die, I’ve been left here to weep, for cross-firing nations my wisdom to weak. ] [ Growing food in their backyard, in the front they’re mining gold. Talking peace with their neighbors; the air is far from cold. Building futuristic buildings; in history left untold. Their society was beautiful, now their culture has been sold. Sailing across the whole Atlantic, packed with diseases & guns to blow. With only one thing on their minds; to find some land & growth, you know. Invading those beautiful nations, taking all they had to give. Starting cutting down the people, letting nobody to live. ¯ When will this nonsense come to an end? Can the dictatorship be stopped? We’ve burned up all their history, on saving it we flopped. They’re not gone but still forgotten & their land the white man craves. Starting war within their nations; in the end them no one saves. ] [ Humour enlightening & easy keeps my heart from totally freezing. Ivory white skin & aroma of spring your closeness; well gratifying. Vivid your glow, soft & fair face, you represent the meaning of grace. You’re a flake of snow & no evil you know only love inside you grows. Ruby red lips, magical eyes Hair, as bright as a surprise Diamond like smile & like the Nazis said: Hail! I honour you sweet Abigail. ] [ I sit down to write this for the ones of the youth for I think it´s my duty to try’to tell them the truth. Of what the real world really is to, there´s so much disorder but yet nothin to prove. Some sense them, some don´t and some know they are there; thus making of evil, witch we all do despair. Those who bare nothing of love & good deeds, those who discomfort us planting our seeds. Is their mission this obvious; to put us aside & lock as many up forever to hide? Oppress the free thinking & controll the press and to brainwash the puplic with their politic-chess? I guess I´ll never know so I encourige you to open your eyes; try to seek out the truth. With these final words jolly wishes I send to all who are trying to see it throuh to the end. ] [ Aside from a low, lonely whisper, she hears a strange noize; a hammering sound of desolution -it´s her brain. Nowhere around is her red, lovely sweater. Still, she bares no hate, towards us nor against us. Becouse, hate only leads away, not the right way; just far, far from here, to a different day. Her voice is deep & low yet she´s 8 miles high from artificial snow; she touches the sky. Colors of spoken language, she knows not to sence; leaking sounds, rising grounds, she smells happiness & thinks of righteusness. Then, through time´s endless circle, she leaps, or at least she tries to; but she tumbles. rolles & crumbles, & though she rises, still she stumbles. So, she has a brand new vision on the mental obsession that makes her mind find a thought of depression. Another dimension with greater expansion gives her a taste of an eternal solution. It´s a better place for her race or at least that´s what she chooses to belive. ] [ hvað er ljóð annað en marineraður hversdagleiki ] [ mín hönd er sem steinrunnð vatn er þú snertir mig þitt bros mig til þín kallar og augun svo tær og hrein veita mér huggun hjarta og hugar ég hitna ég svitna og blóðið fossar um innstu æðar en þó stend ég kyrr steinrunnið lauf í vindi ] [ Elsku systa, Eftir stutta ævi mína, horfði ég á eftir þér. Þú varst mín fyrirmynd, áður en þú, þú sjálf dast ofan í gildru og helvítið tók öll völdin. Þú fórst á stað til helvítis, og sukkið tók sér stað í lífi þínu guð, ég finn söknuðinn, hjálpaðu henni, systur minni. Ef ég ætti eina ósk, Myndi ósk mín sú vera, án efa. Að veita myndi þér bestu læknishjálp. Svo þú myndir snúa baki við þetta. Horfði á eftir móður okkar, fella tár og gleðjast til skiptis. En loksins þegar við glöddumst var skotið okkur í bakið. Hefði aldrei dottið í hug að þetta væri leiðin þín. Til þess að búa til betra líf Ég hélt þú ættir meira vit. Nú bið þig, Guð. Hjálpaðu henni systir minni. Dökkhærð, brúnleit og afar lífsglöð að stíga á réttan veg á ný. --- Að lokum vil ég samt þakka þér fyrir líf mitt. Þakka þér guð, fyrir að fjölskylda mín sé til, sérstaklega hún systir mín. Ég vil bara fá sjálfa systur mína heim. ] [ Ranka ekki við mér, fyrr en eftir langan tíma. Hún hefur gefið mér svo margt þótt heilinn í mér sá bara svart. Ég mun og hef alltaf elskað hana, þótt ég áður gerði mér því ekki grein fyrir að hún hefur aldrei viljað mér mein, heldur gefið mér líf og allt þetta plain. Þótt hún sé nú ekki rík, þá mun hún alltaf gefa mér flík þótt ég fæ ekki allt sem ég vildi um leið og ég smelli fingri. Mamma hefur átt erfitt, síðustu tvö árin, þegar systir mín sökk í neyslu og byrjaði að telja upp sárin. Ég vill biðjast fyrirgefningar fyrir hvernig ég hef látið elsku mamma, þegar ég hef verið erfiður í gegnum tíðina. Og þegar ég bætti á erfindin. Það sem ég vill segja hér, er að ég er byrjaður að fatta að ég á svolítið erfitt. En þótt ég vildi svo heitt að það hefði aldrei gerst neitt og ég sorgina fengi ekki greitt & systir mín hafi sér ekki meitt. ] [ I Vinur minn, hann starfar - sem símasölumaður og selur gsm- og nettengingar lon og don. Hann reynir hvað hann getur - og brögðum beitir glaður og boðar þeim sem svara - tilboðsgróðavon. Þannig vill að starf hans gengur stundum vonum framar og stórar sölur koma inn á sölustjórans borð. En oft vefst honum tungan - um tennur, svo hann stamar og tíðum notar skelfilega frasa og vitlaus orð. Hann gáskafullur hringir - og góða kvöldið býður. \"Er gemsareikningurinn hjá þér ekki allt of hár?\" En harla fár ef nokkur - er neitt samvinnuþýður. \"Ég nenni ekki að skipta um símafyrirtæki í ár.\" II Hann hringir, hann hringir en er hunsaður af öllum. Það sinnir enginn sjálfviljugur sölumannsins köllum. Hann reynir, hann reynir uns raddböndin bresta. Svona tekst jú sumum sölurnar að festa. III Stundum veitir starf sem þetta gleði, þótt stöku maður kunni að glata sínu geði. Eitt er það sem þykir mörgum sannað: Það sem mönnum leyfist hér er öllum öðrum bannað. En þetta er jú bara starf eins og hvað annað. ] [ birtan stutt myrkur stormurinn með léttasótt eirir engu stóðið á ásnum stendur á freðinni jörð skaflalaust staurarnir eina skjólið þeir kljúfa vindinn ] [ Heim er komin hryssan fín, hún er stáss á bóli. Sértu velkomin Smella mín, sómi í mínu skjóli. ] [ Skrapp með klár í skaufaþvott, að skrúbba þá er nú vitið. Fjórir hlandsteinar fuku á brott þá frískaðist kóngsupplitið. ] [ Do we really know that we have grown? Did our childhood games really end? Or does it go on and on? Our pretend games, imaginary friends, tree houses, and tea cups of mud? Did you continue playing and became good at it? I only ask because I did not play childhood games and never mastered it, then, now Im short I failed to grow up to be like everyone else. Is it too late to mature at 24? If you stop playing you will lose the game of life. ] [ Seig og stórstíg í laut Smella töltir frisk sem vor kynni að katla salt í graut kaup´ana engin í Matador ] [ Ég stíg undir fallandi vatnið finn hvernig það skellur á líkama mínum og seytlar eftir hverri húðfrumu ég finn hvernig vatnið, uppistaða alls lífs skolar mig og þrífur; hvernig áhyggjur og gamlar syndir hverfa harða skelin mýkist upp; ég stíg undan nýr maður ] [ Þokan þekur Breiðholtið Bókstaflega og myndhverfð Sú bókstaflega er grá sú myndhverfða er blá Þokan þekur breiðholtið. ] [ Það má vera að tott séu fjötrar og að sá sem oft hvílir á hnjám sér við verknaðinn sé þræll eða ambátt og þiggjandi svipumeistari hálsvöðva hans Sá sem sýgur hefur oftar en ekki fullan munn af tönnum sem flestir vita að geta orðið (eftir atvikum og lífshlaupi) ansi beittar Má vera að ég vefji vindla -eins og tekið er til orða Og sömuleiðis spili á flautu en sama hvað þá getur verið að eina skýringin sé sjávarloftið: að það auki löngunina eftir salti uppí mig og yfir Sá sem drekkur úr rauðu ánni fer með hjörtu á flötum eldi til himna og síðan dregur maginn þau til baka Það er lýrík en hefur svo lítið að gera með augu Hitt er snúnara og gerist aðeins svo best verði í upplýstu rými Ég veit bara um einn sem ég mundi spila fyrir á flautu ] [ Blíða mér barst frá vini, bærilega vetraralin. Komin af Keilissyni, kostagripur er talin. Liturinn bleiki ljómar lýsir og vel í fjarska. Þótt hafi ég hendur tómar, henni vart ég braska, því vinargjöf skal virða og vandlega um hirða. ] [ gíraffarnir standa á hillunni í sólinni varpa skuggum á rauðgulan vegginn ég ligg vafin inn í dúnsængina hundurinn sleikir á mér tærnar og ég stíg á fætur það er pönnukökuilmur í loftinu ] [ rauða hárið þitt, sterkbyggður líkaminn, stórar og breiðar hendur, langir og sterkir fætur, en svo er það búkurinn, sterkur og stór. en heildin, og það sem er best af öllu, er hjartað, hjartað í þér. það hefur að geyma, svo mikla ást, en þó ekki jafn mikla, og ég ber til þín. ] [ Ég fiktaði í blóðinu þínu, málaði með því myndir á hvíta vegginn í eldhúsinu og drakk fullt glas á eftir. En þér fannst myndin ekki falleg, varst með endalausan móral, kannski finnurðu bara aldrei til. Þú horfðir á mig, augnaráðið geðveikislegt, en ásökunin svo sterk að ég naut þess að draga andann. Þegar ég loksins lagði þig í rúmið gastu ekki annað en grátið, en ég hæddist að þér og hláturinn minn fylgdi þér inn í nóttina. ] [ Óstaðfestur veruleiki leikur lausum hala, liðugur eins og köttur, kraftmikill eins og tígur. En hvergi að finna. ] [ Meðan ég tala um hamingju og heimsfrið, Gera aðrir stór plön um fjárhagsleg markmið, Meðan ég græt friðar tárum, Eru aðrir ábyrgir fyrir blóðríkum sárum, Meðan ég skrifa þetta ljóð, Þá er einhvers staðar sárkvalin þjóð. ] [ Líf mitt, ég slæ á harða strengi, Þróttmikill maður, slæst við hugar þanka, Reiðin óhefluð, huga minn ég rengi, Bjánalegar hugsarnir berjast um minn hugar banka, Lífið er leiðinlegt og hefur verið lengi. ] [ Ég tala um herbergi, Herbergi sem umlýkur mig allar nætur, Sjóbláir veggirnir halda utan um mig meðan tíma mínum er varið þar, Tíma þar sem væntumþykjan er í fyrirrúmi og kærleikurinn blómstrar líkt og barn sem brosir, Skjannahvítt þakið felur mig fyrir heimsins veðrum, Í fjær horninu er svefn staður minn , Hann passar mig yfir nætur og þar á ég mínar áhyggju minnstu stundir, Stundir sem ekki fást fyrir fast verð, Á morgnana er ég vakna situr glugginn á sínum stað yfir ofninum dag eftir dag og Sýnir mér þá ásjónu sem lífið getur gefið, En það fer eftir reiði goðana, En sá sér það hann vill sjá, Hann er mín vinstri hönd, Þó á hann bróðir sem er mín hægri hönd, Þar liggur sá hlutur sem fólkið vill sjá í sínu mesta næði, Leggur við sjón og hlustir, Heyrir og sér allar helstu hamfarir heimsins, Svo labba ég út. ] [ Sjómennsku ég stunda, sjómennsku ég dái, Hellist yfir mig friðurinn, líkt ég baði mig í foss, Sjómennska er yndisleg , sjómennsku ég þrái, Hafið þyrmir engum, ég tala um öldurnar koss, Brimsokknir steinar, hetjurnar eru ekki lengur á meðal oss. ] [ Á tíma hamingju og ástar um hátíðarnar, Börn deyja og byssukúlum rignir, Ráðamenn sakausir í faðmi fjölskyldurnar, Réttindasinnar fangelsaðir og sagðir firrtir, Í nafni olíu og demanta þjóðir eru myrtar, Hermenn heimsins siðspilltir og vel til lygnir, Leiðtogar frelsis og friðar laun myrtir, Gleðileg friðsæl jól og hafðu það gott yfir hátíðarnar. ] [ Enginn íslenskufræðingur , en ríma þó af snilli , Um pólitískar skoðanir og mína helstu sálarkvilli, Lýt eigi íslenskum reglum, orð mín fá að fljóta, Um glæpamenn á þingi , sem stela af okkur kvóta, Margur múgurinn mælir þá, en engu fær um breyta, Stungið síðan í steininn er mótmæli er að þreyta, Lygar og spilling , alþingi okkar skreyta, Byggða svæði brjáluð, enginn peningur sést upp til sveita, Hvar er réttlætið, Í heimsins fegursta landi, svikul ríkistjórn , er eigi á okkar bandi. ] [ daginn eftir sambandsslitin: hann saknaði glansmyndarinnar hún, tálmyndarinnar en hvorugt mundi hvernig hitt leit út ] [ Útlenskir skindibitastaðir, útlensk tónlist, útlenskar kvikmyndir, útlenskir siðir, útlenskar sólarstrandir, útlenskir háskólar, útlensk mint, útlensk merki, útlenskur, útlönd. En EKKI útlendingar. ] [ Líður eins og manni, sem stendur einn á vígvelli, síðastur, ósærður, blóð á beittu blaði hans. Hann öskrar sigurópi, sem er þó innantómt, og er sem fangelsi, fangelsi væntingana. Hann er einn, sigurvegari, en enginn til að njóta sigursins. ] [ Þráin vex. Ég vil. Ég get ekki fengið. Ég er skrímsl. Freistingarnar bíða. Get ekki stjórnað. Vil brjóta fjötrana. ] [ Hvar sem sálin felur sig, hvar sem sorgir hennar eru þar fær hún ekki skjól gagnvart orðum sem særa orðum sem tæra og brenna. Síðan öskra ég í hljóði, sársaukinn óstöðvandi, myrkrið hremmir mig og nístir með kuldaklóm. Öskur sem óma í huganum stoppa ekki, og ég brotna. Ég er brotinn, fallinn. ] [ í ævintíraveröld, prinsinn með skjöld, faðir með völd, konan með áhöld, síðan á átjándu öld. nú er veröldin köld. ] [ Ég sit og horfi a skájinn. Á honum sé ég Rambo nú væri gott að fá sér lakkrís bita frá sambó. ] [ Gott er að grípa í bók verði manni brátt í brók. ] [ Tell me you love me and I will go away. Tell me if its true that love knows no barrier and that it sets you free, So I can fly away knowing that you love me. I do not mean your heart to break, I just do not know how to love you back. Your heart is whole Mine is hallow, do not wait for me like a saint with golden halo. I fly about looking to fill my empty heart. But if you nourish my soul I might change my mind and stay to learn how love works and not fly away. Just remind me constantly that I already have the love I was looking for. ] [ Ég veit helling um nágranna mína. Ég veit hverjir það eru sem sofa ekki á nóttinni. Ég sé ljósin í gluggunum þeirra alveg eins og þeir sjá mín. Við erum ,,klúbbur\" ,,klúbbur\" ráfandi sála sem finna enga eirð, meðan aðrir sofa. Við þekkjum myrkrið, því að við heyrum í því. Kyrrðin er góð, en svefnleysi er slæmt. það er eitthvað þunglyndislegt, þrúgandi við það að vera einn vakandi á nóttinni. Þú ert úr takt, úr takt við allt lífið. Einn, aleinn, en samt ekki. Ég sé ljósin í gluggunum þeirra. Svefnlausir! ] [ Íslensk tunga uppfull er af orðatökum. Flestum skrítnum, fáum spökum. Sjaldan hef ég sulti þrunginn sopið fjöru. Frekar myndi ég fá mér tjöru. Morgunstundin Munda gefur mikið gullið. Þetta er nú auma bullið. Fall er ekki fararheill, heldur farartálmi. Þetta sögðu Páll og Pálmi. Að vægja er ekki vitsummerki, veit það margur. Sumur verður af því argur. Málshættirnir margir eru mikið rangir. Einir stuttir, aðrir langir. ] [ Ó rís upp Drottinn rís þú upp. Þitt réttlæti er friður og ljós. Glæð heiminn líkn glæð hugann friði og kærleika Guðs um alla jörð. Lof sundruðum þjóðum sátt og griði syngið Drottni vorum þakkargjörð. Því síðasta ósk hins örmagna manns voru orðin sögð í hinsta sinn. Bænin af krossi kölluð til hans; „ Í hönd þína Drottinn anda fel minn". Ó rís upp Drottinn rís þú upp. Þitt réttlæti er friður og ljós. Við göngum öll að Drottins dómi dætur og synir og allir menn. Himni lútið helgum rómi hlustið því andinn er hér enn. Þú ert fræ á akrinum eina eitt lítið blóm úr skaparans hönd. Þú blikar á stjörnur og steina og sál þín er hafið og lönd. Ó rís upp Drottinn rís þú upp. Þitt réttlæti er friður og ljós. ] [ Annar tími til að upplifa þær stundir sem þú viltir ekki gleyma. Annar tími til að gera það sem þú hélst að þú mættir ekki gera. Annar tími til að til að endurskoða valið á þeim tíma sem nú er. Annan stað til að upplifa það sem þú þorðir ekki að upplifa. Annan stað til að gera það sem þú gast ekki gert. Annan stað til að endurskoða stað þinn í lífinu. Annað líf til að framkvæma þær stundir sem þú vildir ekki gleyma. Annað líf til að gera það sem þú máttir ekki gera. Annað líf til að lifa því eins og það sé ekkert annað. ] [ Horfðu upp í himininn og hlustaðu á, vindinn sem þýtur fram hjá. Horfðu yfir sjóinn og hlustaðu á, öldurnar skellast saman. Horfðu á grasið og hlustaðu á, grösin hvíslast á. Aðeins maður sem hlustar á, heyrir hvað um er að tala. ] [ Maður er manns gaman, skrifaði kínverskur munkur á lítinn miða fyrir mörgum kvöldum, sem settur var í glerflösku og rak um höfin, sem þá voru tólf, að strönd þar sem tiltölulega ungur piltur (nú látinn) horfði þreyttur til himins og krotaði í bók sem síðar varð þekkt sem Hávært mál. Svo að það megi verða, að maður verði manns gaman, þarf að minnsta kosti tvo til. Það vitum við fullvel. Aukin heldur er æskilegt að leikendur hittist af og til. Þumalputtareglan er að vinir fjarlægist ekki hver annan um meira en ökuferð eða svo, nema í tiltölulegan stuttan tíma. Enda stóð í glerflöskuskeytinu: Áttu vin, vertu kýr. Síðasta ofankomman gæti verið aldagömul mistök. ] [ Sigríður Ögmundsdóttir 22.júlí 1897 - 8.mars 1992 Hvernig er hægt að þakka, það sem verður aldrei nægjanlega þakkað. Hvers vegna að kveðja, þann sem aldrei fer. Við grátum af sorg og söknuði en í rauninni ertu alltaf hér. Höndin sem leiddi mig í æsku mun gæta mín áfram minn veg. Ég veit þó að víddin sé önnur er nærveran nálægt mér. Og sólin hún lýsir lífið eins og sólin sem lýsti frá þér. Þegar að stjörnurnar blika á himnum finn ég bænirnar,sem þú baðst fyrir mér. Þegar morgunbirtan kyssir daginn, finn ég kossana líka frá þér. Þegar æskan spyr mig ráða, man ég orðin sem þú sagðir mér. Vegna alls þessa þerra ég tárin því í hjarta mínu finn ég það, að Guð hann þig amma mín geymir á alheimsins besta stað. Ótti minn er því enginn er ég geng áfram lífsins leið. Því með nestið sem amma mín gaf mér, veit ég að gatan hún verður greið. Og þegar sú stundin hún líður að verki mínu er lokið hér. Þá veit ég að amma mín bíður og með Guði tekur við mér. 15.mars 1992 ] [ Ég lá á bakinu í blómabreiðu og dáðist að gulum blómunum og bláum skýlausum himninum. Þá dottaði Móðir Jörð og lygndi aftur augunum. Lítil stúlka settist hjá mér. Hún hét Sóley, eins og blómið, sem er fallegt en sem kýrnar vilja ekki. Það var líkt og ljósið myndaði eldbaug um höfuð hennar í hárinu sem það liðaðist í golunni. Hún bað mig að sýna sér heiminn. Ég stóð upp og tók í hönd hennar og leiddi hana að Viskubrunninum til að gefa henni að drekka. Það kom á hana sorgarsvipur, hún fölnaði upp, og visnaði. Ég sá mér til skelfingar að ég hafði óvart slitið hana upp með rótum. ] [ á knæpu einni í úthverfi borgar situr maður með skerta meðvitund hann er ekki viss um hvers vegna hann situr í þessum stól á þessum bar í þessu hverfi ] [ myrkrið tekur á móti honum með opnum örmum og styður hann léttu leiðina í gegnum lífið ] [ Naut helgarinnar - hamslaust - í gryfjunni með höfuðið hátt, jafn hátt og það komst. Dýr ð legt. ] [ Mér líkar illa að ganga á glóðum og geta ei sagt nema “sjitt”. Ég hefi reynst góður með góðum, en gjarnan með hinum hitt. ] [ Brjóstvitið láttu þig leiða, ljóst máttu vel á því byggja. Lófa áttu blíðu mót breiða, ber háttu þá, lær að þiggja. Gjarnan mátt gá að fleiru, gleðina lát frá þér spretta, ,,betur sjá augu en eyru\" í eilífð má hugleiða þetta! ] [ Flýg upp í himininn Á vængjum vímunnar Allt svo gott Engar áhyggjur Allir svo glaðir Ekkert vesen Sé ótrúlegustu hluti Sem aldrei hef ég áður séð Allir að tala Dansa og skemmta sér Flýg hærra og hærra Og vil aldrei koma niður aftur allt hringsnýst fyrir augum mínum hræðsla og ráðþrot yfir mig hellast hvað er að gerast hvað varð um alla hamingjuna allir eru svo breyttir svo vondir svo ljótir engin að dansa engin að skemmta sér fell svo hratt svo hátt átta mig á því að þetta er hið raunverulega andlit fíknarinnar þetta ljóta þetta vonda þetta fall þessi þörf fyrir meiru og meiru endalaust meiru þangað til að líkaminn gefst upp hugurinn gefst upp og þú ert ekki neitt nema þræll fíknarinnar. ] [ Ási stóð í stóraðgerðum og styður sig nú við hækjur. En hryssu Skutlu heimta verðum, hún má ei lenda í flækjur. Flest fer vænum vel úr hendi og vandann ei hann grætur. Fjótur í Mývatn förum brenndi, á fjallajeppa ágætur. ] [ Lifi fyrir daginn í dag hugsa um daginn í dag við eigum daginn í dag við eigum gærdaginn og fyrradag hugsa bara um einn dag í einu dagurinn í dag er það eina skiptir máli morgundagurinn og þarnæstu dagar eru dagar sem ég ræð ekki við sem ég skil ekki dagurinn í dag er dagurinn minn. ] [ Hví á ég að þjóna þér og hví átt þú ei að þjóna mér við lifum ekki í íslamstrú Ég er ekki þinn þræll og þú ert ei minn hví lætur þú svona svona grimmdarlega Ef þú villt þjón þú kannski annað ættir að leita til dæmis til íslamstrúar Mig langar svo að hætta að þjóna þér því það gerir líf mitt frekar tilgangslaust Að hugsa um þig og aðeins þig og hafa ekkert útaf fyrir mig Hvernig get ég farið þér frá án þess að líða eins og hafi ég kastað lífi mínu mér frá Hvers vegna læturðu svona við mig hvert get ég farið hvað get ég gert Ímyndaðu þér hvernig þér myndi líða ef ég kæmi svona fram við þig Hversu niðurlægður þú værir hversu bældur hversu sár Geturðu það geturðu ímyndað þér þetta líf? Það er kannski í lagi af því ég er kona jafn rétti my ass ] [ laun heimsins er vanþakklæti vanþakklæti heimsins er laun heimurinn er launað vanþakklæti hvað ertu að bulla maður? ég veit það ekki, en hljómar þetta ekki ljóðrænt og duló? ] [ Ég man það, er ég sá þig fyrst, þú hreifst mitt litla hjarta. Það hamaðist svo ótt, svo títt, það næstum gekk úr skorðum. Kvöldi þessu fæ ég eigi lýst með ljúfum orðum. Ljósið þitt, það gerði mína veröld undurbjarta. Þú sýndir mér og veittir alla lífsins leyndardóma. Svo ljúf var sérhver stund, ég hélt mig hlyti að vera að dreyma. Nú hlýjar sælutilfinningar um mig allan streyma og allt í kring ég sé hve heimsins bestu dýrðir ljóma. Þú kveiktir ást í hjarta mér og hamingju og gleði. Í huga mínum mynd af þér ég alla tíð mun bera. Með undurfagurt bros og augun björt þú æ munt vera það besta sem í lífi mínu nokkru sinni skeði. ] [ skírlífi skal sálina tálga snara, skerpa, þrengja þann gálga kvölin kreistir, kremur kauða kaus kæfikynlíf sem kostaði dauða ] [ Flest í lífi segir svo og síðla má því linna: Þú um kosti teflir tvo, að tapa eða vinna. ] [ Unconciously, the hand reaches out for that which it cannot have Uncontrollably, the hand yearns to grasp the forbidden fruit Silently Slowly Trough the darkness it floats Closer Slower still In the dark it's tips land upon the golden surface with incredible softness So delicate the outlawed touch Like the warm breath upon a lovers neck ] [ Hjólastólahomminn nálgast mig, ég byrja að ganga hraðar, ég hleyp, en hann nálgast mig enn. Ég sný mér við og segi NEI, ég vil ekki hjálpa honum á klósettið. Burt með þig Jeff! ] [ Grín og glens með allskonar fólki, ég er í algjöru fokki, áfengið af skornum skammti, ég hleyp glaður út á götu, maginn öskrar á mig. Ég lít við, og sé ekki neitt... ...er ég blindur? ] [ Ég horfi á manninn, opnum augun, hvað er hann að pæla? Sá hann ekki hvað gerðist! Auðvitað ekki! Hann var á klósettinu að æla! Ég skallaði hann. ] [ Hvar skal þetta enda? Hvar skal þetta byrja? Hvar skal þetta slútta og hvar skal þetta starta? Ég veit ekkert. Mér líður eins og George Bush. ] [ Hvað er að þessu feita fólki, sem étur puru út í eitt... fáránlega sveitt. ] [ Sorgleg í alla staði, nennir ekki að vakna, þreytt á þessu morgunblaði, melludólgs sín saknar. ] [ Þýðir kynlíf á ensku. ] [ Ég er kramin Ofan í kassa Jafn stóran og fótbolta Útlimirnir bogna, beinin brotna Ég sit þar alein Í vonleysinu og tómleikanum Á meðan huginn svífur um í köldu myrkrinu Ég sekk lengra og lengra ofan í djúpið djúp samansett af eilífðri þrá ] [ Ertu svangur litli pungur? langar þig að éta? Hvað er það sem kallast hungur, er það Hans og Gréta? ] [ Það er til lítils, ljóð að semja um ljótan vetur, vor og haust. Svartur himinn, gálaus gremja glatað veður endalaust. Fólkið þangað og hingað hendist, hálkuna ég fyrirlít. Fannhvít aldrei fönnin endist, full af alls kyns drullu og skít. Skýin hranna himin, sjáðu, heldur fer að vora seint. Nær nú hitinn naumast gráðu, nístingskuldi alltaf hreint. Kuldabyrgi klökkur hleð ég kann að forðast vetrar mein. Frosinn klakann kalinn treð ég, kuldinn nístir merg og bein. ] [ þegar minnst varir skýtur upp í hugann myndinni af þér eins og vírus í tölvu sem er vírusvarnarlaus ] [ Góðan daginn Guðmundur minn, geðjast þér ekki brandarinn? Lát Lilla ei þig teyma þótt ljóska sé breima og langi að leika sér standarinn. ] [ Það eru föll þegar feitir kallar detta og firnin öll getur hlegið sérhver kjaftur. En ef þú dettur hafðu í huga þetta: Að herða þig og brölta á fætur aftur. Einar og Doddi Júl. ] [ Hvert sem maður fer, færast fjöllin með, en frelsarinn kemst ekki með. Þegar vötnin fara að kræla þá fara börn að skæla en ekki ég... Þegar tunglið verður svart þá gerist ekki margt en vaka skulu englar yfir mér. ] [ Önd rímar við strönd, önd rímar við axlabönd. Önder líka fugl svo ég skrifi ekki bara rugl. Öndin heitir Mæja en getur ekki hætt að hlæja. Það er svo margt að gera, ættli hún sé að hlera? Öndin Mæja er á leið útí heit lönd, en lofaði að kaupa handa mér ný axlabönd. Því þessi eru orðin lúin og slitin og á meðan lekur af mér svitinn því að ekki er bærilegur hitinn. ] [ Elfur er voða liðug en ekkert rosa sniðug, er alltaf að teygja og rosa góð að beygja, nær allaleið niður á tær og miklu lengra en þær. Þetta var svaka flott og miklu betra en gott. ætli hún verði ekki eins og áll og endi með því að verða eins og steratröllið Jón Páll. ] [ ,,Hollur granni er gulli betri”, því góðum er ætíð treyst. Nú kemst ég vel undan vetri, því vandamál mín eru leyst. ] [ Nú skálum við og syngjum okkar allra besta lag og óma látum gleði um dal og engi. Því afmæli á mamma, hún María í dag og má því fagna ærlega og lengi. --- Þú gafst mér sál, þú gafst mér líf og lyndi. Þú gafst mér einn og annan lítinn bróður. Þú gafst mér hlýju og umhyggju og yndi. Enginn gæti eignast betri móður. Þú stundum mína léttir lund með sögum og lagðir síðan aftur gluggatjöldin. Þú gafst mér skál af skyri á mánudögum og skondnar bækur last mér oft á kvöldin. Ef gatan sýndist grá í vitund minni og gangan þung og allir vegir skakkir, þú skenktir mér af kærleikskönnu þinni. Ég kann þér mínar allra bestu þakkir. ] [ Lá ungur andvaka, nýtti tímann, eða hann nýtti mig og beið þess að verða fertugur. Þegar ég vaknaði var ég lítið sem ekkert eldri, þrátt fyrir biðina. Undarlegt. Jafnvel undursamlegt. ] [ Það var orðið um seinan Vængirnir löngu brotnir og hjari veraldar blasti við Fallið var hart og skók jörðina svo álfarnir grétu Hann lá lengi lengi í óvissunni um hvort hann gæti... Svo lengi að mosinn tók að hylja allt sem hann eitt sinn vissi allt sem hann eitt sinn átti Þegar lárétt mynd blómsins í sandinum bærðist í frosnum augum hans blikkaði hann og gaf golunni leyfi Blómið rétti úr sér og eyðimörkin brennimerkti yljar hans Hann leit um öxl og pírði í gegnum rykið sem fyllti vit hans og máði út slóðina heim Heim þar sem árnar runnu í línum lófa hans og djúpir dalirnir aðskildu fingur hans Þungi tilverunnar þrýsti hnjánum ofan í skorpna jörðina sem kallaði á meira og meira Með andlitið falið í höndum sér veitti myrkrið honum huggun Myrkrið varð veruleikinn á hjara veraldar Hann opnaði dali handa sinna og birtan gaf von Hann horfði í lófa sér og heyrði kallið í myrkrinu Ylmur barst frá blóminu og í lófanum sá hann heim ] [ Ljóðið liggur í makindum í bókinni, breitt yfir það af blaðsíðum, og ég tek af því sængina, sleiki það upp oní maga og læt það svo svífa út og á ósýnilegan striga beint fyrir framan sjálfa mig og þið sem á hlýðið - horfið á myndina birtast af munnvarpanum ihs ] [ Friður þinn eins og snjórinn sem hylur þakgluggan Ástin þín bergmálar í hjarta mér eins og fegursti sumarsöngur Gleðin þín bubblar í mallakútnum eins og freyðibað Lífið þitt litríkara en gönguferð á Hawaii Friður þinn kælir niður áhyggjurnar Ástin þín ég er með hana á heilanum Gleðin þín ég dembi mér í hana á bólakaf Lífið þitt vissi ekki að veröldin gæti verið svona falleg. ihs ] [ Bjarta veröld vorsins rís á fætur veltir sér úr fleti, eftir langa hvíld sem varði nokkuð margar nætur, nuddar úr sér stírur, strýkur vanga. Stendur upp og stekkur út í daginn stálpuð, hress og ungleg nú sem áður. Vetur gamli hokinn, hress en laginn úr huga okkar nú um stund er máður. Allt til sumars full af þrótti þreyjum þess er ekki allt of langt að bíða tilhlökkunin sem í barnsins barmi Senn mun vakna sægur af flugugreyjum síðan hratt mun draumaveröld líða en fyrir sumar lifnar vorsins varmi. ihs ] [ Ég á vini sem rækta ekki kartöflur heldur kroppinn sinn vökva sig og fara svo í potta. ihs ] [ Ef mér er boðið til einhvers sem allt á hvað þá get ég gefið honum, mér frá? Ef mér er boðið til einhvers sem allt gaf heilt haf fjársjóði lífsins, allt sjálfum sér af? Ef mér er boðið til einhvers sem ég elska mest líkar best ætti ég heimsókn þeirri að slá á frest? ihs ] [ Upphafið má salta eða reykja upp á gamla mátann, líka krydda og bragðbæta á ýmsan annan hátt til þess að gera fortíðina liðugri og betri á bragðið. Svo má jafnvel dreifa henni snyrtilega yfir væna lambasteik og steingleyma með góðu rauðvíni. ] [ Þegar snjórinn breiddist yfir bíla og alla borg var eins og fólk vogaði sér ekki að tala. Þögnin bjó kannski í snjónum, ...og þó ekki – því litlu börnin sem gripu hann með tungunni skríktu og hlógu hástöfum - svo kannski bjó gleðin í honum. Einhverjir vopnuðust hvítum kúlum miðuðu, skutu, hittu eða fóru framhjá -þó fór ekki framhjá neinum að núna var vetur í Reykjavík. ihs ] [ sem hlýjar sálu þinni um vetrarmánuðina og bragðast eins og sítróna á sumrin. Má ég bjóða þér í te með lifandi brauði og Orðum sem áleggi. Má ég bjóða þér í te sem mýkir upp særindin innra svo þú syngur af gleði. Má ég bjóða þér í te úr lækjum lifandi vatns? Má ég bjóða þér í teboð til Jesú? ihs ] [ Það er heiðbjartur himinn á köldum vetrarmorgni, hvað ef ég væri ríkur og hefði efni á brauði og korni. Ég glápi útí endlausan geyminn og læt mig dreyma, teygji fætur útí loftið, ég nenni götótta skóna ey að reima. Hvað ef ég væri ríkur og af mönnum virtur, ég gengi í fínum fötum alltaf vel uppgirtur. Mér væri heitt og liði vel alla daga, væri fjölskyldufaðir og ætti mér heimahaga Mér er kalt, ég finn að líkaminn dofnar og stífnast upp, mér er sama um allt, og áfengið löngu komið á þurrt. Hvern er ég að blekkja, ég á bara þennan eina bekk, lífsandinn slökknar og ég á sálinni slekk. ] [ A: Sæll meistari, ég er hér hvar ert þú? B: Ég? ég er bara heima, SOFANDI! A: Já!? Af hverju, ætlaru ekki í íslensku hjá Helga? B: Íslensku hjá H...? Halló það er helgi, farðu að sofa! ] [ B: Sæll meistari, ég er hér hvar ert þú? A: Ég? æji ég þurfti að taka að mér helgavakt. B: Helgava...? Maður segir sko helgaRvakt. A: Nei ég er á helgavakt. B: Nú jæja hafðu það eins og þú vilt. A: Ok... En já, Helgi biður að heilsa. ] [ Við dagrenningu spratt morgunmaturinn á fætur til þess eins að hverfa jafn skjótt aftur í myrkrið. ] [ Órólegur sakleysingi stillir sér upp við upphafið á Dyggðastræti, með bakið upp að ljósastaur. Það er enn bjart úti; ljósið ekki enn farið að loga. Augun vísa upp götuna, hann hugsar til næturinnar sem síðar gleypir hann í sig. ] [ Lífið er sólarupprás. Lífið er sólarlag. Og ég veit að lífið er allt þarna á milli... ] [ Einmana sálir tvær ganga saman í mjúkri dagslóð ] [ Í næturkyrrð sér una lítil ljóð. Svo ljúft, svo fagurt syngur hvert sinn óð um vorsins blóm og býflugur í senn, og börn sem vaxa úr grasi og verða menn. Og flestum kveikja ljóðin yndi og ást þótt ávallt þurfi sumir menn að þjást, því ljóðin geta minnt á sorg og sár, svo sytra niður vanga þúsund tár. Svona er það með lífsins bestu ljóð. Þau láta suma finna til, en eru öðrum góð. ] [ Ég vann bangsa handa þér í tívolí Og á honum stóð ,,kiss me’’ En ég skildi ekki orðin Áður en ég vissi af Varstu búinn að skella einum koss á mig Ég sló þig utan undir og sagði: ,,Á ég að berja þig?’’ Þú hristir hausinn og leist á bangsan Ég hélt að þú værir sár. Síðan labbaðir þú í burt Hentir bangsanum Og fórst til vina þinna. Þú skildir greinilega ekki heldur Hvað stóð á bangsanum. ] [ Ekki gleyma að skila skrifaða disknum Sem spilast regulega í Hagkaup Því einhver gleymdi að skrifa nafnið þitt á það En skrifaði í staðin ,,tvítóluð’’ ] [ Flassið á myndavélinni þinni Er of skært. Einhver á eftir að fá það í augað Og blindast. Þá er bara málið að taka þetta með ,,Left-hand’’ og spaða ás. Svo að þú nærð ,,impagimpinu’’ hans afa. ] [ Það á að grafa tilfinningar Í blárri mold í móa hjá Sandgerdðibæ Því þær voru hannaðar einungis Til að flækja ómerkileg mál Þessar tilfinningar, ást, hatur og afrbýðissemi Eru jafn tilgangslaus og rigning eða súrefni Það eina sem við eigum sameiginlegt Ég og þú Er að við búum undir berum himna Og einhvertíman hljótum við að hafa upplifað Hið fullkomna ,,móment’’ vegna tilfinninga Og rétt eftir dottið í sorgargryfju Því ,,mómentið’’ var farið Nú hlýturðu að skilja hvers vegna Tilfinningar eiga best heim í móa Rétt á milli Sandgerðis og Keflavíkur Í blárri mold. ] [ Hér sel ég sál mína með fimmtíu prósenta afslætti Alveg eins og þú seldir ást þín, fyrir fullnægingu Á lokastigi ragnaröks. Takk fyrir að treysta mér, og að gleyma að ég er Manneskja með tilfinningar og erfiðleika Og alltof marga punkta í setningum Ég hata ekkert og finn ekki til, en það eru verri hlutir til Aðallega fylgifiskar þess að vera einmanna í búri Fiskabúr, ef ég má, því það er svo framandi Mér datt ekki í hug Að þú myndir finna mig í dimmum draumi Þar sem jafnvel fiðrildin eru ógnandi, ég er ekki hrædd Skuggar verða að lifandi verum Manneskjum, sem ég hélt að hefðu yfirgefið mig Underlegt hvernig sárin bíta í mig, án sjáanlegar einkenna ] [ Ég horfi út um gluggan, læt mig hverfa inn í skuggan. Reyni að gleyma, tilfinningununum leyna. Held aftur af hverju tári, því hvert tár verður að sári. ] [ ég borga vexti og vaxtavexti og vexti líka af þeim en Trölli og Trína búa í útlöndum og ætla aldrei aftur heim ] [ Ég horfi í augu þín tær Færðu þig örlíðið nær Upp með þinn fót Og sokkinn af, hnót Þú ert með samvaxnar tær Áttu til skæri' eða hníf? Þá skinnið á milli ég ríf Hafðu nú hljóð Hratt spítist blóð Í andlit, nú vantar mig hlíf ] [ Hvað sé ég? Ekki neitt! Það er allt í móðu. Ertu hér? Kannski ekki! Kannski? ] [ Ríkisstjóri er sagður hafa mellu halað, hann vilji það afsaka, lánið er valt. Fyrr má nú skilja en að fullu sé talað, farið mun embættið í kol og salt. ] [ Þegar ég horfi í lófa minn sé ég óútsprungin fræ jurtir í blóma læki sem renna niður æðarnar og kvíslast um lófann. ] [ Að vera ástfangin er eins og að eiga fötu fulla af glimmersteinum. ] [ fjöruna sopið dauða úr skel blaut var hún hvorki né þurr dagarnir tómir alla þá tel iðandi af lífi en kjurr ] [ Græðgin er ætíð söm við sig því sleppti ég ekki taki þó eldavélin sáran særði mig og sligaði í baki. Ási á hækjunum horfði á, hélt mig vera að deyja en ég lifði af því lund er þrá og lukkan mín þér að segja. ] [ Nú þrjátíu og sjö árin bera þig böndum besta okkar Magga með kærleik og yl. Afmæliskveðjuna eilítið blöndum, en ást og fjármagni gerum nú skil. Gleður oft dollara að hafa í höndum í heimsóknum fátæku landanna til. ] [ Ég er hvergi. Ég fer hvergi. Því ég er hvergi. ] [ ég elska gras á túni það er svo gott og fallegt. ] [ Ef ég væri sokkur þá væri ég drullusokkur. ] [ Gunnar framdi á ferli glæstum fáa glæpi. Enda þótt hann ýmsa dræpi. ] [ ég ligg á paradís á ljósbrúnum sandnum ég sé sjó og hvítar öldur ég lítí hina áttina sé sóina gylta og gula ég svíf í bláum himnum rrrrrriiiiiiiinnnnnnnngggggg!!!!!! -þetta var drumur ] [ enginn getur ekki neitt samt getur enginn allt góður engill, hjartagóður en allt er betra en ekki neitt horfi á það, liggur það hjá sér enginn er engill sjálfur sem elskar ást og þrá lofar allt á þig ] [ Lífið sníst um einkunnir Ekki bara mig Seint á kvóldin sofnar þú og vaknar aldrei aftur- einkunnina gefur Guð þér þá þú færð nýtt líf, tíl að nýta og nýta það betur sálin endar aldrei endar aldrei svona er lífið hugsaðu það ] [ Ég ligg á mjúku hvítu skýji engillinn kítlar mig ég svíf yfir bláan himinn ég sé öll þessi lönd og þetta stóra bláa haf- svo fljúga allskinns fuglar framm hjá mér mér finnst það skrítið að vera kominn heim ég átti ekki heima, þar sem ég bjó ég á heima hér, hér í himnaríki ] [ einhver spenna undir niðri einhver titringur svo áþreifanlegur en þó ég sé í lokuðum skóm á Austurvelli með trefilinn tvívafinn um hálsinn eru gráðurnar svo svífandi svona um og yfir fimm á celsíus og sólin glottir af því öll þessi spenna hefur ekki vott af grænum lit og engir krókusar láta á sér kræla enda ótímabært þetta íslenska vor ] [ Elskan mín, Farðu að hoppa og skoppa í helvíti ! Farðu bara , já mér er sama, um þig og alla meira að segja kalla. Ég átti mér draum þú eyðilagðir hann ! Ójá .. Ég ætti að hætta að skrifa þetta til þín því þú ert ömulegur og ekki þess virði til að eyðileggja lyklaborðið ! ég elska þig. ] [ Borðuðum saman við Sólfarið inní bílnum þínum það var rigning og rökkvað kvöld þetta var bráðsniðugt og mjög órómantískt en samt eitthvað svo rómantískt ég var máttlaus af barnslegri gleði þér fannst ekkert fyndið þú keyrðir mig svo heim varst alltaf að tala um að þyrftir að pissa veit ekki ennþá hvort ég hefði átt að bjóða þér inn til mín til að pissa ] [ Í heimabænum mínum í aðeins einum bíl er kona sem fór einu sinni með mér í bíó eða reyndar tvisvar aðeins einum bíl sem keyrir framhjá mér er ég labba í vinnuna á morgnana ] [ Nærvera þín svo hrífandi návistin notaleg. Fjarvera þín svo rífandi fráhvörfin fantaleg. Hjarta mitt er tifandi heilinn horfinn er. Líkami minn svo lifandi löngun logar hér. Tilfinningarnar fossandi tjáningu í tungu fel. Straumarnir svo blossandi sálinni svimar vel. Þráin alveg logandi þörfin þokkaleg. Aðdráttaraflið sogandi alsæla afskapleg. ] [ Tilbið ekki fallegt morgunsár, líkt og skáldum sæmir, enda þarf ég ekki nýtt upphaf, ég meira svona að leita að hádegi tilveru minnar. Engu að síður, var ég að ráfa um borgina að morgni með báðar lappir stilltar á brölt - hossaðist talsvert - í bleikri birtu sem strauk augu mín blíðlega, líkt og nýbökuð og þreytt móðir. En líkt og þægar þjóðir þurfa sorphirðu reglulega, andaði ég óhjákvæmilega! að mér rjúkandi reyk, sem konan sem gekk öskuvond á undan mér, blés út í bleikt loftið og rummmmskaði djúpt líkt og gamli strætóinn sem hún var. Ég greip andann með lofti! Sleppti honum lausum, hristi hausinn og lagði fram tilboð í einstaklega ljúft morgunsár. Það er svona: Næs tú hef. ] [ það mótar fyrir þér bakvið gluggatjöldin mín öfugugginn þinn ef þú þyrðir fram samviska ] [ er ég hékk með reipi um háls minn í loftinu á herberginu læst svo enginn kæmist inn ] [ Úti ómar vindur, eitlar vetrar mein. Inn eru hverjar kindur komnar - nema ein. Sú beit gras í sumar en sást svo aldrei meir. Hátt nú himinn þrumar, hrímköld kind brátt deyr. Beinin hennar braka, blóðið frjósa nær. Kyngir niður klaka, króknar gömul ær. Fimbulkuldi, frostið færist yfir allt. Liðið liggur brostið líkið, jökulkalt. Aldrei mun hún aftur eitt né nokkuð sjá. Kuldans feiknarkraftur kæfði týnda á. ] [ Margt getur skeð á langri leið, lífs er vegur svagur og mjó sögð gata betri en breið, er ber að hinsti dagur. ] [ ég er allt zem er ,hugzanir mínar, líf mitt,draumarnir mínir zem hafa ræzt ég er allt zem ég kýz að vera mer eru enginn takmörk zett þar zem ég ræð förinni á hverri zekundu get ég endurfæðzt á hverri zekundu get ég gert nýja byrjun það er val , það er aðeinz mitt val ekki eru neinir draumar zem eru ómögulegir aðeinz takmörkuð zkynjun á hvað er mögulegt ] [ Varla má ég fara úr flík þá fæ ég henni gleymt. Gerst mér hafa glöpin slík að get´ana aldrei heimt. ] [ Uppgefin gömul kona þybbin og þrútin þó einna helst rauð á vanga eins og fölnað rósabeð íklædd víðum blúndukjól sem þyrnarnir eru búnir að rífa í sig setur tvær rauðvínsflöskur í myrkan skammarkrók og segir lágt: Þið farið ekki fet ... ekki fyrr en þið eruð búnar ... að skammast ykkar!!! ] [ Úti að hlaupa ég sá þig þar Hvað hugsaðir þú, hugsaði ég Hugsaði um þig yfir sjónvarpinu í gær Hvernig þú hafðir augu allra á þér og þú vissir það, eða hvað Með mig í vasanum, vissir ekki af Afrek er þinn innblástur Hvatning, þér þykir ég skástur Hleyp, hleyp og gleymi Gleymi að þú hafðir þá alla en valdir mig, fyrir þig Með þér í hasarnum, ég valdi það ] [ Mærin og skáldið brosa breitt, bæði af sóma borin. Það mun fáum görpum greitt, að ganga í þeirra sporin. ] [ Dísir róast er ég mæti þær vita að ég mun leita að einni sætri er draumakona til fyrir mig eða mun ég deyja einmanna í djúpum hyl hvernig er alheimsálin er ég týnda nálin komdu Guð og finndu mig vegna þess ég dái þig ertu Guðs Faðir hjarta mitt sem passar upp á sitt ég þrái hlýju þína heitt og veit þá að ekkert getur mig meitt syndandi sála mín á það að villast af því ég dópi oft heillast ég get gert gert allt fyrir þig ef þú tekur fíkn frá fyrir mig Björn Róbert ] [ Dreymdi mig unað í dag en ekki eitthvað ónýtt flag girnist ég ást og ljúfa tóna í rúmi mínu með ástarhljóma sinni ég þér með blíðum höndum eins og ég geri með konum í flestum löndum sætar þær eru eins og þinn ástarsviti þú ert kona að mínu viti ] [ dolfallinn varstu á fyrstu dögum eins og í ævintýrasögum söngur er um þú dyr steigst ástin til þín endalaust eykst líf okkar verður dans á rósum og mun ég endalaust hella yfir þig hrósum yndið mitt ég elska þig Guð gaf mér þig til að gleðja mig ] [ draumi mínum sá ég sýn. sem smakkaðist eins og besta vín. ræktað á himnaekrum, af englum sem kunna bara dekrun. drukkið niður og þá hlýnar hjarta, og allt hvarf þetta svarta. Himneski Faðir þú skapaðir mig . og ég ætla að gera allt til að gleðja þig ] [ er ég þig átti þá grét ég þig trúði ekki að Guð þætti svona vænt um mig lífið blómstrar fyrir mig nú og þetta gefur mér nýja trú mun ég þér sinna því það er mín vinna og þarf það ekkert mig á að minna ástin mín þú sætust ert og fyrir þig verður allt gert ] [ hvernig getur þú eyðilagt þig þú gast alltaf svo glatt mig trúðu á góðmennsku og þá kemur Guð og þá hverfur Djöfulsins suð rótin er falin en er til staðar sniffaðu það uppi og gerðu það með mér og ekki áður en ég fer nei stoppaðu mig elskulegi himnaher ] [ Þegar kynntumst vissum ekki að höfðum búið í sömu blokkinni í sama stigagangi og kannski á sama tíma kannski sá ég oft bílinn þinn áður en ég varð stundum farþegi í honum hlustuðum bæði á konuna á fyrstu hæðinni spila á píanóið það var notalegt meðan lært var vissum ekki af hvort öðru ] [ Fyrir henni er ég bara leiðinlegur alltaf á msn að tala um skáldskap og glitrandi gítarstrengi og tilfinningamál eins og kelling algjörlega óskiljanlegur fyrir henni er ég bara leiðinlegur alveg óþolandi á msn ] [ Lífsins barn, þú leikur þér Í sandkassa hverfulleikans og verð lífi þínu Í að byggja þér sandkastala. Sjáðu til, að allt nema það sem býr innra með þér mun í tímanna rás renna út í sandinn. ] [ Sjálfsagt lífið er Sjaldan kvörtum vér En þú með mér Í helvíti krækiber Hikari og hálviti Heimskari en salt Ást í æsku liti Sem útskýrir þetta allt ] [ Ó litli leirklumpur minn Fallvötn áreitis hafa mótað Meðtaktu nú lærdóminn Svo í öðrum getir rótað Saman við lifum lengi pössum þitt frumumengi þótt ég sumar véfengi og drepi með áfengi ] [ Vakna seint Get ekki hugsað mér að byrja að læra Helli morgunkorni í skálina það er engin mjólk Bursta tennurnar og horfi á sjálfan mig Hugsa um að hlaupa í dag en veit að það er ekki að gerast Velti því fyrir mér að rista mér brauð en nenni því ekki. Kveiki á tölvunni, langar á netið Byrja að læra, allt of svangur. Fæ mér kaffi. Reyni aftur að læra, gengur ekkert. Hugsa um hversu gaman það væri að ganga vel. Kveiki á töluleik. samviskubit yfir því að læra ekki, held samt áfram, dey aftur og aftur, nenni ekki að læra, leikjadauði er betri en andlegur. Fæ mér annan kaffibolla Vona að gallup hringi svo að ég hafi e-ð að gera, vona að það verði bolti í kvöld, nenni samt ekki út úr húsi, gallup hljómar betur. Horfi á bækurnar, blaða í gegn og sannfæri mig um að ég kannist við eitt og annað. Fæ mér hádegismat, klukkan er orðin þrjú, Búinn með eina blaðsíðu. ] [ Það var daginn sem ég týndi mér og týndi þér og hinum, öllum þessum stórkostlegu, mikilvægu vinum, sem lífið kom og hrifsaði úr hugarheimi mínum þanka þá sem undu ei í hugarheimi þínum. Þá skildi ég að lífið vart er gott án vina minna, sem alla tíð ég muna mun og mér er skylt að sinna. Því góðra vina leitum við, þá erfitt er að finna í veröld sem ei veitir lið við lífsbaráttusinna. ] [ Tannlausar girðingar brosa í sveitinni eitt sinn stóðu hér landróverar á beit ekkert ryðgaðir en oxiteraðir skreyttir sóley mör draup af hverri kind sem gekk óáreytt til fjalla þá fengu menn inni fyrir fallþunga kaupfjelagið geymdi dýrgripi en einn daginn bara hvarf þetta og enn ganga menn til fjalla leiðin sem var vörðuð er horfinn í sandroki virkjana nú ganga menn beina og betla í borginni stóru og bíða viðtals ráðherra upp rísa múrar tollvernda fram flæðir aur styrkjanna svo byggt ból bregði ekki búi og lifi áfram í fortíð en ekki þessu helvítis núi ] [ Ó hvað ég vildi getað teiknað eins vel og Leonardo Da Vinci. ó hvað ég vildi getað sungið eins vel og Pavarotti. Ó hvað ég vildi getað dansað eins vel og Adam og Karen. Ó hvað ég vildi getað spilað eins vel og Mozart. ] [ Ég sit hér og skrifa veit ekki afaveiru en vonsat til að finna einhver orð en þau snúast og snúast í hringi en ég vil skrifa þau niður en þau komast hvergi niður á blað ] [ Í dag er hafið lygnt og sólin skín á skipin er halda út á mið og um mig fer tilfinning að nú sé vor hlé frá vetri með veður vond og bráðum komi sumar með sínar björtu nætur og gefi mér í hjarta frið. ] [ Engillinn ánægður í faðmi föður. Þeir feðgarnir sitja og hlusta á tónlist. Litli engillinn dansar og reynir að syngja með, en orðin myndast ekki. Því engilinn kann ekki að tala allavega ekki mannamál. Ég veit að það kemur á endanum, enda er hann bara ellefu mánaða. Hann er samt engill. Hann er engilinn minn og ég elska hann ] [ hann afi minn af nú ekki hlegið núna ef hann af séð mig sit her með tölvuna mer fyrir fram mig hann af nú sussað sveigað veit ég þess að hann sat eigi skaltu sita er og yrka vísu þú sakld af kerta ljós paír svo það komi ekkvað ut ur þer að vidi barn mit ] [ Þegar grímuballið stóð sem hæðst, Vissi engin að hápunktinum væri náð nema Álfkonunni .Sem sagði .”Kví,kví,kví”. Engum öðrum til upplýsingar. ] [ Í eyðimörkinni bíður slóttugur höggormurinn átekta, reiðubúinn að deyða hjartað með eitri sínu, áður en hann gleypir sálina í heilu lagi. ] [ Ég reyni að verjast gráti og finnst eins og ég geti gert betur, í framhaldi af þínu andláti hefur tónlist þín hljómað í vetur. Þessi sorglega saga sem brennd var í mitt hjarta. En ég get verið kát þessa daga því maríubjallan kær er það bjarta. hvað er ég að kvarta þér líður nú vel. ] [ á stríðsvelli liggja blómin blóðguð hunangi lífs sem stórar býflugur manngerðar sækja og setja í svarta poka send eru heim í betri svörð sett niður meðal hvítra krossa lokirðu augunum í litla stund heyrirðu kannski blóðið fossa andvarin kaldur kinn þína strýkur í blómagarði guðs hvílir enginn ríkur ] [ Brumm brumm er vinur minn. hann keyrir um allt og leikur um sinn. Brumm brumm bíbar og skutlast um allt. um leiðir sem hljóma alveg þúsundfallt. Brumm brumm er nú dálítið lúin. þessi saga er nú sirka búin. ] [ Húgó diddi dillidó er besti vinur minn hann spilar og segir sillilillidó og vill vera vinur þinn. hoppar og leikur og spilar á saxafón, en verður ekki smeykur og tekur á móti tón. en húgó diddi er nú orðin sibbinn, og kveður um þessa stund og segir dibbinn libbinn gibbinn og sofnar í mjúkri lund. ] [ kisan mín gráa mjálmar svo sætt að maður er alveg að deyja, skinnið hennar er vel grá klætt en henni vill enginn fleyja. Hún kemur nú stundum með fugla inn til að þakka okkur fyrir matinn sinn, fuglana gröfum við nú oft svo þeir gufi ekki bara upp í loft. ] [ því ertu farinn? Því fórstu langt? því sakna ég þín? því þú? Hvenær hitti ég þig? Hvenær horfi ég á þig? Hvenær skemmtum við okkur? Hvenær hlusta ég á dýrðina? ..... af hverju ertu farinn? ] [ Ríð heiladraugum í gránætti ljósið hörfar fælist mig eins og hrætt dýr. Skuggarnir lifa. Hugrenningar, minningarafturgöngur og framtíðarvofur gera mér lífið leitt. Óttan lifnar við og deyr. Kaffið er beiskt en morgunskíman er velkomin. Nýr dagur tekur við og vofurnar geymi ég til næstu nætur. ] [ It is a cruel world we live in, both dead and cold, People betraying others for gold. Men become restless and give into boredom, Looking for little girls to sell into whoredom. A young mind sent to a foreign land to fight, For something that is told to be human right. Freedom ideas for nations are sold, In a country so determined and bold. Convincing others of their powerful might, While falling apart in the dead of night. I ask you; why are they fighting a mindless war, Offending other nations and closing the door, Making others mad and calling for war and more? Why do we stand and watch people in pain, Stand and do nothing when fire bullets rain? When did this world fall into madness? So helpless and woeful I give into sadness. Where is that beautiful hope-star? Long since lost to smoke and tar. We are all passengers in this brakeless car. We all have to start thinking in another way, Stop judging Muslim, Yew and gay, Stop being hateful and wish others to pay, Or we might not live another day. ] [ I have this love in my heart, can feel it in my every part. Trying to act as if I’m smart, Ignore my feelings and then dart. I can\'t help it, thinking of you, often wonder if my feelings are true. But then again I do, Love you and your hue. I can’t find peace and I can’t rest, like life’s putting me to the test. Opening my heart to this unwelcome guest, he makes himself welcome to build a nest. I never wanted this, but cupid’s arrow hit, So now I’m sunken deep in this pit. Trying to use my every wit, When love is putting my heart a lit. I dream about you at night in my bed, about you and me being wed. But with that said; Everything between us is already dead. So why do we have this feeling called love, When it nests in our heart like a great big dove, Making us feel both pleasure and pain, Knowing that there is nothing to gain? ] [ I have a gnome in my garden, he tells me that his home is in Arden. When I looked at it on the map, I saw a great big gap. It\'s a long way to Arden from here, he looked at me smiling and told me \"dear\" \"It is not a great walking length it just requires good will and strength.\" I just stared at him and nodded, my thoughts heavily plodded. \"But, isn\'t there something in Arden you miss, like a woman or a good memory-bliss?\" He looked at me green eyed and wise, \"I love that place but I said my goodbyes.\" I looked at him with wonder, of this gnome I was growing fonder. I asked him of his name, and again that wise smile came. His eyes filled with delight, changed color from green to bright. \"Well, my name is Elm, and your garden is now my realm. I hope you don\'t mind?\" I didn\'t mind, Elm was too kind. \"So what do you do now?\" I asked as I tried not to bow. \"Well, I take care of the living, by listening and giving.\" I smiled at that thinking, happy like I\'d been drinking. \"Does that mean you are my caretaker?\" \"No, that\'s the job of the rye bread baker.\" I looked at him baffled, as all questions gaffled. \"I don\'t understand you.\" He smiled, \"I could say the same thing too!\" ] [ Life goes round and round... Like a big black hound, not giving a sound. It just stares at you red eyed, bound. Waiting for the day when it\'s free, to bite you back. You know it will, you\'re just looking for a lifetree. Something to save you when that dog\'s on your track. You know it\'s inevitable, undeniable, laughable. That life is hunting you, like a big black dog, seeing through your fear, lost in a fog. You go round and round... Until your at the same place, lost in time and space, Afraid of life\'s chase. You go round and round... It owns you, that dog from hell. You drown in it\'s reality well. Deny it all you will, but it owns you, it\'s kill. It might give you life\'s fill, but after that you get the bill. And then you are his. The hound that was bound goes round. There is no lifetree, it owns all, you, them, me. We go round and round... The big black dog of pain, your loss is his gain. He owns your wheel, can\'t deny it because it\'s real, your breath struck him a deal. Shivering when you hear it\'s footfall, death\'s last call. You might win this battle, Can you hear it? It\'s your death rattle! Oh yes, life goes round and round... ] [ It’s Friday night And everything was open. People crowded the streets, Moving at their own beats’ All those lonely souls out there, Looking for a love, so rare. Trying to find their dream, but where? Some act’s if they don’t care. But I did care. And I wanted to find my dream. But instead of looking for it desperately, I waited to see if it would come to me. I found my dream, but it was not like I had been hoping, I fell for a girl, forbidden to show my love and I was moping. I still feel that love, filling me with bliss, I just wish I could have her in my arms to kiss, But instead all I have is this: A girl so special, that I keep in heart and miss. I try to repress my love for her, so that I can cope, But still, I love her in my heart, and dare to dream and hope. ] [ Fullorðnir tala oft um íslensku sjó, fisk og mikilmennsku. Vilja ekki ganga í þetta Evrópusamband, tala bara um þetta mikilfenglega land, meðan krónan rennur í sjó og sand. Íslenska tungan er hin allgóða móðir, fyrir enskuna erum við alltof góðir, business menn eru fjandi óðir, og bankastjórar ansi móðir. Hvað er að því þótt mig langi að semja á ensku? Er það ljótt? kannski bilað og ögn ótt? Ætli ég sé ekki komin með þessa ESB sótt? Íslensku sinnaðir og enskuhatandi, raula um ég, mig, mér, mín, en ekki eitthvað enskt rím. Fjandin hafi þessa ensku hóru! Skírum ekki börn okkar Chris, köstum heldur enskunni í piss! Hversu mikilmennskubrjálaðir, hrokamálaðir erum við Íslendingar? Skítandi yfir alla viðkunnalegu pólverjana, blaðrandi stanslaust um móðurtungu og hvernig eigi að verjanna. Áður unnum við hörðum höndum, fiskuðum hjá Ísalands ströndum. Fokk! Nú fór þetta allt úr böndum! Nei nú höfum við hugmynd, hvernig losa skal um alla þessa synd, og vernda aftur okkar íslensku kind. Við smölum bara saman þessum pólska lýð, geymum kannski stöku konu sem er fríð. Komum þeim fyrir á litlum bát, svo öll við verðum nú glöð og kát. Sendum þau aftur til síns heima, út í þessa víðáttu geima, sem við köllum útlönd. Höldum svo svaka veislu, og lifum á íslenskri neyslu. Svo þegar helgin er búin, og við finnum að við erum orðin löt og lúin. Köllum þá aftur í okkar pólsku vini, þessa duglegu Íslands syni. Brosum bara blítt, og spyrjum þá hvað sé títt. \"How do you like Iceland?\" Já já, svaka Niceland. Vissuð þið að 80% af þeim sem vinna í álverinu á Reyðafirði eru útlendingar? Hvað eruð þig annað en djöfulsins vitleysingar? Hrokinn og sjálfumgleðin vaxa um okkur eins og blómin, svona er nú íslenski rjóminn. Er þá enskan nokkuð svona slæm? Er hún nokkuð \"kræm\"? Fokk Iceland, þetta er ekkert Niceland! ] [ Við erum sérstök þjóð! Við Íslendingar. Semjum sér íslensk ljóð, engar ensku blendingar, nei takk! Við erum góð. Sko, mamma mín sagði við mig: Brostu útí heiminn, víðáttugeiminn. Gættu að því hvað þú segir, best væri að þú þegir. Spurðu alltaf hvað þú megir, og þá eru þér opnir allir vegir. Því já, við Íslendingar erum seigir. Ég lærði ekkert hjá henni mömmu minni, og heldur ekkert hjá systur þinni! Í dag segi ég allt sem mér dettur í hug, engin skömm vinnur á mér bug, ég er eins og hver annar Íslendingur full af dug. Aldrei gefa svíni perlu, og heldur ekki gull og fagran skó. Kerlingin bakaði karli snúð, sem hún keypti reyndar í búð. Ég man ekki alveg alla söguna, það vantar nefnilega í mig minnisflöguna. En ég man að þetta var eitthvað í þessa áttina; Græðgin þó, át allt saman og dó. Nú man ég reyndar ekkert um hvað ég var að semja, ætli það felist ekki í mér dulítil gremja. Mig langar helst ljóð.is að lemja, en þann ósóma ætla ég ekki að fremja. Í staðinn ætla ég að ausa yfir ykkur öll mín íslensku ljóð, og senda það inná þessa slóð. Því greinilega hef ég ekkert annað að gera, hef engum til að skemmta og veit ekkert hvar ég á að vera. Ég bara er, því ég er. Nei það er reyndar ekki rétt. Ég er, því mömmu minni og pabba leiddist um vorið, allt það veður slorið. En það er bara engin frétt! ] [ Ástin tekur lífið sínum tökum, tefur sig ekki við að beita rökum. Skellur á skjótt, skýst burtu fljótt, er skötuhjúin snúa saman bökum. ] [ Lífsbrautina hugsa mér sem hengibrú, sem heldur vart fæti og sveiflast til og fyrr en varir fallið getur þú, fjandans til og búið spil. Og eitt er óbrigðult í þessum heimi, allir kveðja hann fyrir rest en spurningin er hver sálina geymi, svo er bara hver fjölin bregst. ] [ Af atburði nú sögu segja skal sem setti hug minn verulega úr skorðum. Ég heyrði óvart tveggja manna tal sem tíminn hefur gert að þessum orðum: „Í kvöld við skulum kynnast djammsins list! og kaldan bjórinn sötra vel og lengi.“ - „Ég sleppi því, ég sletti úr klaufum fyrst þá slær á miðrar vinnuviku strengi.“ „Nú hlýtur þú að vera að gera grín og gantast í mér, annað væri skrítið!“ - „Ég grínast aldrei, ein er reglan mín: Ég alltaf vakna um helgarnar í bítið.“ „Þú kemur með, við syngjum lífsins lag og látum okkur fljóta á bjórsins öldum!“ - „Ég nenni ekki að drekka bjór í dag, ég djamma bara á miðvikudagskvöldum.“ ] [ Minnist ég ávallt sólarinnar sem á sumrin fór á stjá, Margir dagar æsku minnar liðu með hennar heitu þrá. Því að sólin líf mitt nærði og það gladdi hjarta mitt, eins og þegar hún mér færði elsku blessað hjarta þitt. ] [ gylltir geislar sólarinnar dansa cha cha cha á sægrænum sundlaugarbotninum og ég sem flýt fyrir ofan varpa skugga á gleðina eitt augnablik en veit að ballið er ekki búið fyrr en sólin fjarlægist norðurhvelið ] [ Ætlar að koma ýmsu í lag, æstur að fleyta rjómann. Hann var ekki heima í dag, hvar á ég að góm´ann? ] [ Ástin er viðkvæm eins og lítið strá. Þú ert mín næring ég verð hana að fá. Ástin er brothætt eins og kristalskál. Þú ert mitt lím sem bjargar minni sál. Ástin er okkar okkar um ævibil. Ég elska þig af öllu hjarta á leið okkar verður aldrei skil. ] [ Hér stend ég á tímamótum tvístígandi á báðum fótum. Leiðin hingað var löng og sálin orðin svöng. Lífið tekur, lífið gefur ljós mitt ei lengur sefur. Ákvörðunin var erfið en gott að missa gervið. Framtíðin er framundan finn að hún er skammt undan. Sársaukinn er sætur með nostalgíu um nætur. Bjartsýn er á betri tíð með blóm í haga og hverri hlíð. Friðurinn mig fyllir og storminn, hann stillir. ] [ Sæl og blessuð Sigurlaug, sélegust Íslands fljóða. Hér er auðvitað ekkert spaug eða smekkleysi góða. Þú spurðir mig og vita villt, víst um folans ættargnóttir. Lét hann fara fannst og illt, frún Hólmfríður Geiradóttir. Mig undrar ei að folinn sé flott, finnst hans ættin vera glæst, ætla ykkur munu gera það gott og gleðistundir fái ræst. ] [ Þú lánaðir mér lykla sör, er leystu vanda af hendi. Úr Reykjavík ég flýtti för, sem fékk ei góðan endi. Ef líkar eigi er lundin ör og lyklana þér ég sendi. ] [ Nú þegar þú ert farinn get ég einbeitt mér að uppvaskinu. Naktir stíga diskar heitir uppúr sápufroðunni. Fingur mínir leika að hnífum þrýsta stálið. Mig langar að vera hlutur sveima um í volgu sápuvatni kólna á grind verða glansandi glansandi og köld. Þá þyrfti ég ekki að skola andliti þínu niður um frárennslið eða bera út hjarta mitt í ruslafötunni. Hlaupa inn og læsa hlusta við rúðuna. Þótt ég hvítskúri eldhúsgólfið þar til hugsanir drukkna í enninu ertu stöðugt fyrir augum mínum. Þú situr fyrir mér. Mynd þín þrengir sér inní ramma hversdagsins. Þú stelur af mér stelur af mér ró minni og öryggi. (1976) ] [ Hús mitt frystikista full af augum. Stríðnisleg rödd þín utan við mig í myrkrinu. Nóvember síðan í vor. Í gær var þér skotið út í geiminn. Ég afklæði sólkerfið með augunum. Þú fórst eins og þú varst og kemur aftur einhvern daginn eins og ekkert hafi í skorist illa greiddur með strætó ofan úr Breiðholti. (1976) ] [ Þær koma í halarófu með gula vagna og græna. Litla anga stóra krakka einbirni, ómegð annað á leiðinni. Óska til hamingju kíkja undir skerminn gæla vega og mæla. Hraustlegur strákur voða sætur og svona frískur sefur, grætur. Mjólkarðu elskan komin á ról. Gekk allt að óskum - en gaman. Viðbrigði auðvitað vakna, gefa bía, sussa en góða, það venst. Reynslusvipur í andlitunum örugg handtök. Þær kunna sig í sínum heimi. Það er verið að vígja mig. (1981) ] [ Þarf að hitta konuna sem bjó hér fyrir margt löngu. Leita að nafni hennar í símaskrá á Hagstofu í biðskýli fullu af veggjakroti. Skyggnist um eftir henni í skuggsælu sundi barnapíudaga á malarkambi þar sem húsið stóð og sólberin róluðu sér. Hún kvaðst mundu bíða en mér hefur víst dvalist. (2001) ] [ A life with out a pain I´m a Jesus myself and there is no hell. Only a better place lost in time and space. Imagine that with this letter I will make the world better so there is no unfair death and no child is left behind all by it self. No road that strikes to hell. No burden to carry No one's hungry No one that sees his mother die. No saying to daddy good bye. No one beats his wife nor steps with knife. No one can control life. Not even me up so high. No rich or poor Everyone's got a door to a house called a home and no one is left alone. But life is not that way And there wont be a day in the world with out a cry or a death or saying good bye. But we can try until we die. There is a reason for all this pain, I'll try to explain: If there were nothing to hate you would get happy late Cause if there is no pain Than life´s just a game It would drive you insane. Cause I´m sure that someone must hate the rain. Hulda Hvönn 2.09.2007 ] [ Hrygg í bragði, hart í ár hafnar sínu sjálfi. Ekkert sagði, eymdin sár eftir situr bjálfi. Framtíð hulin, fortíð sker fyrirgefur fanti. Höllin hrunin, hjartað gler hlakkar þótt hann vanti. ] [ Ég er engin tík! urraði (helvítis) merin. Það útleggst reyndar: UUUuhhh-uh! Ho, ho. á hennar þungu tungu, hestnesku. ] [ borða morgunmat yfir mínu rými er í skólanum á msn loka hurðinni og fer á mbl nóttin læðist að blessaða niðurhal er andvaka á andlitsbók gúggla allt sem mig vantar veraldavefurinn hefur spunnið sig utan um mig og ég er föst. ] [ Hann sagði hvað og spurði hvernig mér liði, hvar ég væri og hvað hans biði. Hann sagðist elska mig mikið og afar heitt, hann vildi vera mér hjá þó lífið væri ógreitt. Hugurinn tómur en hjartað fullt, tilfinningaflækja en orðin fóru burt. Áhyggjur sem ég hef ekki tjáð, orð og hugsanir sem ég get ekki ljáð. Sit og stari með brjóstið þanið, augun tóm og hjartað falið. Skömmin og óvissan fyllir mig, margt sem ég get en ég vil aðeins þig. Kossar hans mjúkir og hjartað er hreint, gleði og eftirvænting fara ekki leynt. Barnsleg einlægni einkennir brosið, ég brosi til baka með andlitið frosið. ] [ Hélt alltaf að frelsið myndi koma hlaupandi á móti mér hlæjandi og brosandi hoppandi og skoppandi hvað tefur það? hvers vegna er það ekki enn komið? er það vegna þess að ég er hér enn? kemur það þegar ég fer? eða er ég frelsið mitt er það ég sem á að hlæja og brosa hoppa og skoppa? er það ég sjálf sem skapa mitt frelsi? ] [ ég fylgist með þér í speglinum á krítarhvítt andlit þitt málar rjóðar kinnar og í kringum súkkulaðibrún augun dregur dökkar línur tár þín hrynja og eyðileggja farðann bleksvartir taumar leka niður vangana hvers vegna brosir þú ekki lengur? þú sem ert svo falleg þegar þú brosir þú steypir hvítum fallegum silkikjól yfir axlirnar og niður eftir líkama þínum hann klæðir þig vel manstu þegar við vorum vön að dansa fram á morgun þangað til sólin kom upp og flæddi inn um glugga og dyr og silkið sveiflaðist í sólargeislunum og vafðist um granna fætur þína og ég hugsa til baka hvað við vorum hamingjusöm þá ég fylgist með þér í speglinum og tár þín flæða enn ] [ Þegar þú hringdir ég sat í sæti úr postulíni og plasti. Og gerði þar allt sem ég gat til að starta deginum með blasti. ] [ Við hlupum um á ísilagðri tjörn, í andstæðingsins mark var reynt að skora. Við snerum síðan sókn í harða vörn, en settumst ljúft í gras er tók að vora, Líkt og værum aftur orðin börn. En þeir sem oft af útihlaupum misstu urðu að puða í kaldri þrælakistu. ] [ ég elskaði fáa þó einn fremur en niðurstaðan varð alltaf sú sama svo ég sagði við mig sjálfa: þar lá hundurinn grafinn, í garðinum heima. En.. Hver fer að grafa upp hundshræ? ] [ Ef þú bara vissir, hve mikið ég elska þig. Ég óska þess hvern dag, að þú verðir hjá mér. Í hjarta mínu munntu ávallt vera Minningin um þig varir í huga mínum andlit þitt ég sé þegar mig dreymir Ég óska þess hvern dag, að þú munir aldrei gleyma mér. ] [ Þú sem varst svo lítil Og sæt Prakkari í hnotskurn Saklaus og góð. Þú stækkar nú óðum Og fellur Út í lífið Stundum sakna ég þín. 12 ára gella Nú þú ert Og líf þitt Er mikilsvert. Svo munt þú eldast Og verða gömul En alltaf mun ég Vera hér fyrir þig. ] [ You are the friend who make me laugh when the day has been a hole mess You just said it could be worse. You are the friend that can make me forget the time, because we are never bored when we are together. We can watch comedy movies all day long and never be bored ] [ we won\'t make it together we can\'t hide the truth we lied when we were dreaming our crying were just fake. I\'m giving up for you now I\'m hunted by your shadow I reach to feel your face I don\'t know how long I can hold you strong Just take my hand give it a chance Remember to me you\'ll be forever sacred, with every breath you take , you save me ] [ Þú ert vinurinn sem lætur mig hlægja þegar dagurinn hefur verið alveg hræðilegur. Þú sagðir að það gæti verið verra. Þú ert vinurinn sem getur látið mig gleyma tímanum því þegar við erum saman leiðist okkur aldrei ] [ Hann sendur var að sækja brauð og sitthvað fleira í tómlegt búið. Því fjölskyldan var fátæk, snauð, fólkið orðið svangt og lúið. Af stað hann fór og ei varð aftur snúið. Strákurinn gekk en stormur hvein. Hann staulaðist uns brustu fætur. Napur vindur nísti bein, næðingur óx við fjallsins rætur. Svona liðu nokkrar langar nætur. Í eymd hann lá og björgunar beið með brotinn fót og kalna fingur. Undan frosti sárt hann sveið, seytlaði um æðar kuldastingur. Drengur sá var sannur Íslendingur. Hann fann hve lífið fjaraði út. Farin heitust andarþráin. Hug hans fylltu sorg og sút, hann sá hann yrði bráðum dáinn. Sá í fjarska hinn fræga mann með ljáinn. Hans leituðu menn um víðan völl, vongóðir um að finna drenginn. Hann heyrði í fjarska hróp og köll og hjartað snerti vonarstrenginn. Í mót hann æpti. Máttur hans var enginn. Mennirnir gengu í aðra átt, eymdin fyllti drengsins hjarta. Hann fraus í hel um næstu nátt, nisti dauðans mátti skarta. Hann sveif í átt til ljóssins, ljúfa bjarta. ] [ Ég horfi á þig og úr fjarlægð ertu fögur sem fjallstoppur sem gnæfir yfir hæðir og dali. En í nálægð ertu mér innan seilingar svo ég get snert silki þitt andað að mér súrefni þínu neytt líkama þíns. Í morgunsárið sný ég mér og gef þér koss minn og vangi þinn er svo þýður og reiðubúinn að taka kossinn. Ég horfi í þetta tæra vatn sem eru augu þín og ég get ekki annað en elskað í gegnum þessi augu og þessar hendur. Hjartslátturinn fyllir mig þrá eftir nýjum morgni nýjum kossi nýju frelsi í þér ] [ Þú færir mér kaffi og hamingju þar sem ég sit og hugsa. Hamingjan ríkur úr bollanum og kólnar ekki. Fingur þínir læðast í gegnum hárið á mér. Mér líður eins og ketti, hringa mig saman í kjöltu þinni og mala. Sólin stendur vörð fyrir utan gluggann og hleypir aðeins geislum sínum inn, og birtunni. Angann af kaffi og hamingju fyllir vit mín og húsið. ] [ Þú stendur í vegi mínum og starir á mig, eins og þú njótir að sjá mig þjást. En ég hopa ekki, stíg skrefið fram og nýt þess að sjá þig falla. ] [ Þú stendur fyrir framan mig og horfir spyrjandi í augun á mér. Að taka skrefið, að stökkva af stað, eru spurningar sem þú færir mér. Það ber fyrir gleði í augum þínum þegar ég tek skrefið, stekk af stað. ] [ Augu þín báru skilaboð frá hjartanu. Brosið þitt undirstrikaði þau, og snerting þín tók af allan vafa. \"Ég elska þig\" sagði hjartað seiðandi, lyngdi aftur augunum, og brosti. ] [ við hlæjum við syngjum við grátum við eins og fílf látum. við bítum við klípum við lemjum við alltaf á endanum um sátt semjum við kyssumst við knúsumst við tölum við öll hin pörin mölum við gefum við spörum við þiggjum við alltaf hliðiná hvort öðru liggjum Við snertumst við sleikjum við njótum við eigum ást með svo sterkum rótum við að eilífu hvort annað elskum ] [ Ef við hefðum farið nið’rí skeifu... Ef við hefðum verið samferða... Ef ég hefði séð það sem hann sá... Ef ég hefði verið hún... Ef ég hefði verið að tala við þig... Ef veðrið hefði verið betra... Ef ég vissi hvernig þeim líður... Ef ég heyrði hugsanir hans... Ef þú vissir hvernig okkur líður... Ef þú hefðir séð okkur í dag... Ef þú vissir hvað við ætlum að gera... Ef þú hefðir séð okkur í gær... Ef þú hefðir verið lengur að borða... Ef þú vissir hvað við þörfnumst þín... Ef þú gætir hugreyst okkur... Ef þú hefðir farið frá okkur... Hvað ef? ] [ Þú ert sú sem kætir alla Þú ert sú sem allir vita hver er Þú ert sú sem enginn hugsar ljótt um Þú ert sú sem finnur alltaf réttu orðin Þú ert sú sem allir dá Þú ert sú sem getur allt Þú ert sú sem allir vilja þekkja Þú ert sú sem gerir allt rétt Þú ert sú sem hrífur alla Þú ert sú sem styður alla Þú ert sú sem engan særir Þú ert sú sem finnur það jákvæða í öllu En nú ert þú ekki hér Og nú ætlar þú að treysta á okkur Við ætlum að kæta þig Við ætlum að finna réttu orðin fyrir þig Við ætlum að dá þig Við ætlum að geta þetta Við ætlum að gera þetta rétt Við ætlum að hrífa þig Við ætlum að styðja þig Við ætlum að finna það jákvæða í þessu Þú gast það ein. Við getum það saman. Allt. ] [ Góð að mala en gerir smátt, gerðist þý með litlum sóma. Á flokksfundinum hafði hátt, en hefur tapað öllum ljóma. Hún lét það fyrir lítið sú, laumaði fé í sokkinn. Glataði æru og góðri trú, gefur vitlaust stokkinn. ] [ Stelpan mín, vertu nú sterk fyrir mig gleymdu ei að ég er á lífi mundu svo alltaf að ég elska þig og geyma mun þig líkt og þýfi ] [ Hjartað sem eitt sinn virkaði vel er nú sig alveg að gefa er ég sé þig veikan, er mér ekki um sel og tárin gleðina sefa ] [ Lokuð augun, og brosið á daufum vörunum sýna frið, frið sem þú aldrei fannst fyrir. Ég bið Guð að gefa þér stað á himnum. ] [ Ástin mín er veikbyggð, veikari en sú- af því ég hef andstyggð af að vera eins og þú ] [ Bráðum tekur alls kyns fólk að ferðast í fjarskann, yfir ólguhaf og land, og allt sem því finnst eftirtektarverðast mun örugglega fest á filmuband. ] [ Á illviðrinu er ekkert lát, allar fenna slóðir. Þetta setur mig í mát, mínir hálsar góðir. ] [ ,,Partíljónið\", sem prýðir hér, pundaði á mig vetur. Þórhöllu á Hofi þetta ei fer, þjórar hún öllum betur. ] [ Það er dýrlegt að drottna og djöfull þykir smart, að sjá leikmennina lotna og leika við þá hart. Heyra greyin gnísta tönnum er geta þeir ekki meir. Þá teljast þeir ei með mönnum og mega drepast þeir. ] [ Fitan kallar á meiri mat, margt er lýsisbölið. Ýmsir éta á sig gat, sem ættu að kneifa ölið. ] [ Byrjar með brosi og endar með gráti Baneitruð orð eru hrópuð í fáti Hryggbrotið hjarta og skortur á vilja Hugur og líkami ákveða’ að skilja Dagarnir líða í torskildum draumi Dauðaósk byrjar að myndast í laumi Brotinn og bágur er nú minn lífskraftur Þú bráðum verr endar ef særir mig aftur ] [ Einsog síðasta laufblaðið sem heldur dauðataki í lífið mun ég halda í þig -í okkur Einsog sterkt bjargið sem berst við sæinn mun ég vera traust -sem steinn Einsog auðtrúa sál Sem bíður himnaríkis Mun ég bíða þín -dag og nótt Einsog heimskur hundur sem eltir næsta rass Mun ég halda áfram -einsog allir ] [ Innantómt bros Mynda rauðar varir Merkingarlaus orð Leka úr grunnri sál Hún er alls ekki neitt í henni finnst ekkert bál Hrædd við það óþekkta Felur hún sig Djúpt í skotum hugans Og hjartað sem ei fær neinn Er frosið og hart sem steinn Lifir í sjálfsblekkingu Þetta er betra svona Betra að vænta ekki neins Heldur en að kveljast og vona ---------------------------------------- En skyndilega breytist allt Hiti kemur í það Sem áður var aðeins kalt Án þess að hugsa sig tvisvar um Hendir hún af sér fjötrunum Stekkur upp, og hún flýgur Vitandi um að þetta muni enda Og að eitthvetíman þurfi hún að lenda, hún lýgur En áttar sig svo, og hugurinn frýs Hverju myndirðu ekki fórna Fyrir aðeins einn dag Í paradís ? ] [ Eins og þegar fuglarnir fljúga til heitari landa Þegar veturinn kemur og kólna fer Þá hverfur þú við minnsta vott af vanda Flýgur í burtu frá mér -og eftir sit ég ein Eins og þegar dagurinn víkur fyrir nóttinni Og sólin fyrir mánanum Þá vík ég fyrir þér Svo þú komist framhjá mér -haldir áfram Og eins og öll él styttir upp um síðir Því ekkert varir að eilífu Þá mun ég standa upp Og halda áfram -án þín ] [ Stundum er eins og heimurinn sjáist ekki í réttu ljósi nema í gegnum auga myndavélarinnar. ] [ Íslendingar Davíð á, dyggðir mannsins prísa. Hér er eins og ætla má, öfugmæla vísa. Kosti Halldórs fáa finn, fljótur í stríð að renna. Af honum lekur ólundin, eins blek úr penna. Skelfing á nú bágt hann Björn, búinn marga að kvekkja. Seinheppinn í sókn og vörn sjálfur tímaskekkja. Undarleg er okkar stjórn, ei má leyna slíku. Snauða lætur færa fórn, fyrir hina ríku. og í rökréttu framhaldi: Hæðsti réttur hátind nær, heimsins undrið fína. Ef þar Davíð inni fær, með alla vini sína. ] [ Mundu að hvað sem gerist áttu mig að Mundu að hann særði þig Mundu öll tárin sem hann olli Mundu hve heitt þú elskaðir hann Mundu að hann vill ekkert með þig hafa Mundu að hann kaus að rústa öllu Mundu að hann kaus vímuna fram yfir þig Mundu að hann er ekki þess virði Mundu allt sem þið áttuð Mundu allt sem hann gerði Mundu að hann þráir annað ástand Gleymdu öllum loforðunum sem hann gaf þér Gleymdu öllun nóttunum sem þið eydduð saman Gleymdu kossum hans Gleymdu faðmlagi hans Gleymdu snertingu hans Gleymdu líkama hans Gleymdu öllu sem hann gaf þér Gleymdu rödd hans Gleymdu ást hans Gleymdu orðum hans Gleymdu honum Hann er heimskari en allt í þessum heimi því hann hafði þig og kom illa fram við þig. Hann er heimskari en allt í þessum heimi því hann sá ekki hvað þú ert fullkomin og yndisleg. Hann kaus vímuna fram yfir allt það sem þú ert og allt það sem þú hefur að bjóða. Hann kaus vímuna og hann er ekki þess virði. ] [ Bjáti vinur eitthvað á í ólgu lífs á vegi. Andlegt fóður er að fá hjá Einari í Skálateigi. Einar svarar Oft er spakir spora hjá, spýtist fóðrið að. Besta hleðslan þykir þá, frá Þórði á Skorrastað. ] [ Sólin, appelsína sem skín á glötunina sem er svarthvítt myndbrot af dauðanum með áróður á móti lífinu. Kómískur hryllingur með dramatísku ívafi. Svo er öllum sagt að þegja og fyrir lygum og illsku hneigja. Hryllileg dramatík með þó kómísku ívafi. ] [ Grasið gerir mig gáfaðri, get leyft mér að fullyrða. Verð frískari og fágaðri og fordóma alla vill myrða. Hugsað get ég helmingi skýrar; hugað að þeim sem minna sín mega. Hugmyndir allar strax verða hýrar og heimurinn enn litla von virðist eiga. En mig verkjar í höfðið og mig verkjar í hjartað við að hlaupa í felur og að leyna því, að ég noti\'það, reyki\'það, hreinlega elski að þrykkja í jónu og kveikja\'henni í. ] [ Dagur sem dofnar í hringhlaupi tímans, er dagur sem gleymist í mínútusjó. Augnablik grafin í ómerktar grafir, geymd en týnd eins\'og saumnál í mó. Fljótandi áfram í elfi hringrásar, uppsprettu streitu & geðveiklunar. Vindar samtímans strítt á mig blása, sárt þeir draga til bæklunar. Á biðinni er ég að bilast og brjálæði er ekki að leyna. Ég er bara\'að reyna\'að finna frið mín fegursta allra eina. ] [ Trekktu mig upp, mér finnst ég vera klukka. En ég stoppað hef í miðju tímahlaupi og sit eftir, einn. Ég horfi uppá fólk sem ég eitt sinn þekti, taka mér fram\'úr og skilja ekki neitt. Þau spyrja eftir svari: Hvað tefur þig, Jón minn? En ég get auðvitað ekki svarað, ég skil ekki spurninguna... því ég er bara klukka ] [ Lengi hef ég hugsað til að hefjast á því handa, sækja heim minn svanna vil; stíga til annarra landa. En ekkert veit, né ekkert skil né einhverju við það\'að blanda. Nú sál mín og hjarta napurt er, til Nancy vil ég halda! Skipta á einsemd sem situr í mér & sælu hlotnast margfalda. Kenni nú hver um sjálfum sér, sem sálarangri sér valda. Þá sit ég í sorg & aumingjaskap við skriftir undir steypu & grasi; geðheilsan eins\'og Ginnungagap og greini\'ekki móðurmálið frá þrasi. Ekkert ég græði utan fyrir tap, á ekkert til\'að fylla í glasið ] [ Ég sé ljósin loga gegnum litleysuna, eins\'og hverir hyldjúpa hvínandi funa. Ég finn tímann titra í eintómu hringsóli. Markmið allra manna- - mega finna\'upp hjólið. ] [ Sagan er samin í dag, úr takt við tímann. Ég veit ekki hvað; ég veit ekki hver. Orðin flæða úr hyldýpi skarans. Þau flæða og læðast yfir múra sjálfsvitundarinnar og með klækjum festa sig við tilfinningar svívirtar! liggja þær eftir... Bergmál minninga úr lokuðu rými. Komast ekki út. Ljósið, vonin, er sama og var og verður. ] [ Litla, litla Ljóta litla andlit sitt vill brjóta. Til fulls þá fær að njóta friðar, hún þráir að hljóta. -engra nýtur hún úrbóta aumingja greyið litla, litla Ljóta. ] [ Einn um dauða & dofna jörð dansa ég í leyni. Langt er heim í Húnafjörð helst mig þangað dreymir. Einn ég húmi\'í harðræði við hvatir ástarinnar. Endurómar fáfræði ímyndunar minnar. Nú er svart allt sem ég sé, skuggi yfir liggur. Á enga von og ekkert fé, svo einmana og hryggur. ] [ Óáþreifanleg tilvera, sem er svo sannarlega til. Án snertingar, sjónar, bragðs eða heyrnar - ég er þar, verð og var; í skynvilluflóði ég drukkna þar og dey. ...eða nei,-ég lifi!! Ég lifi, geng um & dafna í mistri veruleikans en gleymi mér, á meðan heimurinn heldur áfram. Heimurinn, með sinni hlutlægu synd, heftir mig & mína huglægu ímynd. Form, mót og bygging mannsins, sem mótast í þyrnum frelsarans kransi, gefa mér góða mynd af tilganginum: Að eiga\'í einingu staðfestu um að í eilífðinni saman mega dansa um og að elska Guð af öllu hjarta, í auðmýkt trúa á hans krafta -tvö, sem eitt, í faðmi frelsarans. ...áfram ég læðist í taktlausu flæði, meðfram formlausri vitund minni. Með vissu\'um að ég snúi\'ekki aftur, ég upplifi í nóttinni endursýningar drauma minna. Ég er hættur að finna til. Ég er hættur að finna fyrir skítugum hvötum og hugsunum. Finn fyrir bata, og horfi rólegur á heiminn fæðast í dauðann. ] [ Áfram, áfram! -en ég dett áður en ég kemst neitt. Aleinn, drukkna ég í deginum. Finn hvernig vit mín fyllast af raunveruleikanum, sem á endanum skríður niður í mig og fyllir hverja einustu lungnablöðru... Svo ekkert. -Kæfður úr einu í annað, svo aftur á morgun... ] [ Dofin gengur hún koldimman veg í druslulegri hempu; brjóstumkennanleg. Með ekkert að baki og enga framtíð, ekkert nema hempuna og dapurlegt líf. Hún hefur ósjaldan úr sorpinu étið aldrei við silfur borðbúnað setið. Þekkir ekkert annað en þann fátæktarheim sem í auðnuleysi hún gengur ein. Berfætt hún áfram sig haltrandi ber um harðgrýttar jarðir, hvert sem er. En áfangastaðirnir eru færri en fáir, því uppsker kona ekki eins\'og hún sáir? ] [ Ég er leiður, svo leiður það lagast ekkert, ég veit\'það. Ég er bitur, svo bitur & batna hægt, ef eitthvað. Ég er óður, svo óður ég ann orðið engum lengur. Ég er reiður, svo reiður ræðst á allt sem gengur. Ég er móður, svo móður mæðan mig gjörvallan skekur. Ég er hryggur svo, hryggur mig hryggðin á endanum drepur. ] [ Ósköp væri ég mikið til í\'að áskotnast þeim rétti, sameinast svanna fyrir Guði ég vil, sannlega yrði það léttir. Hef ég ei í hug að meina hverja konu sem er. Heldur vil ég aðeins eina er alla tíma í hjarta ber. Mig dreymir þessa einu drós, dásamlega að líta. Roðafulla, eins\'og blómarós, rós sem aldrei má slíta. Fegurri augu ei fást séð, fjöll öll yfirgengin. Af börmum bestan er\'hún með, bærir gleðistreng minn. ] [ Það eru föll þegar feitir kallar detta og firnin öll getur hlegið sérhver kjaftur. En ef þú dettur hafðu í huga þetta: Að herða þig og brölta á fætur aftur. Doddi og Einar ] [ Að vera ein en þó með svo marga í kring Með vinunum falsa brosið Hausinn á mér snýst hring eftir hring og hjartað í mér er frosið. Veit ekki af hverju verkurinn er En held það sé útaf honum Ég bara bíð eftir að hann fer Af hverju gerist þetta alltaf hjá konum? Karlarnir virðast ei finna neitt Og ástarsorg finnst ekki hjá þeim Hjá þeim aldrei lífið er leitt Ætli ég finni einhvern úti í heim? ] [ Ef þú bara vissir, hve vænt mér þykir um þig. Ef þú bara vissir, hvað þú gætir fengið. Ef þú bara gæfir, mér aðeins meira af þér. Ef þú bara gæfir, mér eitt stutt augnablik. Ef þú bara myndir, hlusta á mitt hjarta. Ef þú bara myndir, sjá allt það bjarta. Ef þú bara sæir, það sem ég er að stafa. Ef þú bara sæir, sólina rísa í nánd. Ef þú bara vildir, Opna á þér augun. Ef þú bara vildir, bara vildir sjá. Ef þú bara, ef þú bara myndir horfa. Þá þyrfti ég ekki að ef-ast neitt meir. ] [ Vinátta er seint talinn slæmur hlutur. Þegar að hitti ég þig fyrst tók hjarta mitt kipp. Ég vissi, ég fann á mér að þessi dagur yrði dagurinn að nýju upphafi. Ég varð ekki söm eftir okkar kynni. Hugsanir og hlátur flutu um líf okkar. Líkt og tveir villtir folar í engi lífsins. Vináttuböndin urðu sterk, svo sterk að ekkert gat slitið þau. Kraftaverk var uppgötvað. Ég og þú myndum magnaðan kraft. Sá kraftur var kraftaverkið sem breytti mér, breytti mér til hins betra. Vinátta hefur sterkan mátt. Vinátta þín fullkomnar mig og gerir mig heila. ] [ Ég opna mig fyrir heiminum. og heimurinn steypist á hvolf. Ég tjái mig við veðrið, og veðrið hendir í mig vindi og snjó. Ég leik ljúfa tóna og tónarnir brotna á kaldri gangstétt veruleikans. Kannski ég ætti bara að hætta að reyna... ] [ Einsemd á ný, hellist yfir sál og líkama þessarar einföldu mannveru. Leið og döpur röltir hún um í volæði. Lífið var ekki alltaf svona. Hlátur og gleði hér áður fyrr einkenndi líf verunnar. Því það varst þú, þú sem að kættir hana. En græðgin gómaði þig. Líkt og hrægammur í eyðimörk, að nærast á sínum seinasta bita. Þú skildir veru veruleikans eftir í sárum. Ef þú hefðir ekki fæðst hefðir þú ekki valdið uslanum. Mannveran tekur því samt sem áður, að hún verði líklegast ein að eilífu ] [ Í næturmyrkrinu heyrist grátur þeirra særðu Grátur og sorg, Hatur og org. Ég þjáist hvern dag því þú ert ekki hér, Ekki þar, hvergi... Þú ert mér hulinn, Sé bara ímynd þína. Sál þín er ekki eins og ég hélt. Þekki þig ekki lengur. Varstu nokkurtíman hjá mér í hjartastað? Þú hvílir hjá englunum, kannski fæddistu aldrei. Það er ekki hægt að syrgja það sem að er ekki, Var ekki og mun aldrei verða. Ætli ég sé þá glöð eftir allt saman? Það er þunn lína milli gleði og sorg, Kannski er engin lína hjá mér, Það er bara þoka. Ekkert nema þykk þoka lífsins ] [ Ég kalla á þig en þú ekki heyrir. Þú lítur á mig en ekki mig sérð. Ég snerti þig en þú finnur ei. Ég brenn af þrá, Þrái að finna hönd þína við kinn mína, Varir þínar við varir mínar, En það gerist ekki. Ástin er blind en hatrið enn blindara. Verst að ég get ekki hatað..... Ekki þig. ] [ Minningar, Læðast að manni fljótari en vindurinn. Minningar, Ferð um lífið. Minningar, Sumar góðar, aðrar slæmar. Minningar, Æskunnar gull. ] [ Tár er söknuður og söknuður er tár. Ég hugsa um þig, og einmanaleikinn hellist yfir mig eins og kalt vatn. Söknuður fellur á kinn mína Og ég finn fyrir tári. ] [ Æskan mín var björt og fögur, ung að árum, faðir sagði mér sögur. Prinsessa og prins, hamingjusöm til æfi loka, Af hverju endaði ég að vera úti að moka? Ég loka augunum, dreymi um æskuna, óska að líf mitt gæti verið eins einfalt og þá. Gæti ég fengið prinsinn ef ég má? Traust mitt geymdi faðir, nú er það burtu farið. Hvað gerði ég rangt en að vera ég sjálf? Allt virðist brotna niður núna, hvernig á ég að lifa núna? Með enga hamingju, enga ást og mögulega enga dáð ] [ við mættumst tvö sem þrestir í náttmyrkrinu bæði án stefnuljósa ef ekki væri fyrir mótmæli trukkabílstjóra þá fengirðu kannske annarskonar í nefið frá Geir Jón bibaðu á mig any time ég kvóta í Hannes að þið eruð ljós heimsins blikkandi og bráðum fellur feigur því oft fellir lítil þúfa heila ríkistjórn og ekki þarf maður að leigja þyrlu til að fatta flan er feigðar ferðast um í flugi tveggja vængja ] [ Ég eygi mér aldrei neinn glampa og engist því stundum af krampa, og nótt mín er dimm, svo drungaleg, grimm! Ég fer kannski og fjárfesti í lampa. ] [ er frystir leggst hélan jafnt á fylltan bikar sem tóman ] [ þrýstingurinn rembingurinn kreistingurinn andardrættirnir voru örfáir. \"þetta er allt að koma\" sérfræðiaðstoð að ofan og mamma að horfa á rembingur kreistingur æsingur \"nú er það versta yfirstaðið, slepptu, leyfðu okkur að gera lítið úr ofstuðluninni\" ] [ Tuttugu og átta ára í dag ertu með glæsibrag! Þú færð heillaóskir og hrós Halldóra blómarós! Lánið þig leiði frá þrautum með lífsglöðum förunautum! Á gleðinnar gæfuvegi! Gömlu tengdó í Skálateigi. ] [ Uppáklæddur er í stíl við allt sem nú skal gera, en úlpuna mína útí bíl ég ætla að láta vera. ] [ Geislar skína skærir, skuggar missa völd. Friður þreyttum færir, fagurt ævikvöld. Vakir von í hjarta, velur hver sitt fag. Blómaveldið bjarta, býður nýjan dag. ] [ Í leit að lífsins gæðum, við langan förum veg. Við yl af ástarglæðum, þar ætíð studdist ég. ] [ Þó að ég geti stund og stund, stiklað fram og aftur. Hjartað þráir hennar fund, holdsins ræður kraftur. ] [ Frá æskudögum í mér bjó, ást á fögrum sprundum. Þó að bæði bæði kjafti og klóm, kynni að beita stundum ] [ Ég hef gaman af glettni og bulli, gettu nú hvað ég heiti. Mæddur af meðalasulli, maður að öðru leyti. ] [ Fögur kenning lista og ljóða, lítinn ávöxt ber. Foringjarnir frjálsra þjóða, flestir trúa á her. ] [ Andagift mig alveg sveik eitt ég mundi en gleymdi hinu þegar konur læraleik léku djarft í útvarpinu ] [ Ég beið í blómahvammi ég beið þar eftir þér í fjalladölum frammi þar fegurst sýnist mér ég beið þín bjarta daga ég beið þín dimma nótt þú komst með kraft frá braga það kjör mín bætti skjótt ] [ Í mörgu ég snúast mátti, frá morgni til sólarlags. Smiður sem aldrei átti, efni til næsta dags. ] [ Prangarar í pólitík, pretta og snuða sína vini. Kenna slíkt í keflavík, Karli Steinari Guðmundssyni. ] [ Veitir Dísu vínið rauða vel hún sýpur á. (Bogi Geir) Gæti verið gott í nauða að ganga í SÁÁ. (Einar) ] [ Gott er að eiga góðar dætur, ég get þeirra oft í raupinu. Þær hafa á því góðar gætur að gefa mér í staupinu. ] [ Oft er saman eru tveir þeir yrkja ljóðin fínu. Bóndinn Svarri og Bogi Geir, sem býr við hlið á Stínu. ] [ Ást mín er eins og jörðin að þessu leyti... ef eitt form lífs hennar fer kemur bara annað. Þannig er ást mín ódauðleg. ] [ Tíminn er eins og vatnið og vatnið er djúpt og kalt. Ég rétt skýst upp til að anda, svo sekk ég aftur. En vatnið rennur burt og þornar upp. Ég er feginn, ég get andað aftur. Birtan er eins og loftið og loftið er þurrt og heitt. Ég fæ ekkert að drekka, ég er þyrstur. En þurrkurinn endar og það rignir aftur. Ég er feginn, ég get drukkið aftur. ... Og vatnið er tíminn. ] [ Hann sat þarna aleinn og starði í myrkrið. Í skilningsvana uppgjöf hristi hann höfuðið, reis hægt á fætur og lokaði dyrunum. - Gjallandi seiður glumdi milli veggjanna og myrkrið varð djúpt og kalt. apríl 2008 © allur réttur áskilinn höfundi ] [ Hurðin opnast og inn stígur piltur hann heilsar og ég nikka á móti. Hann sest og hverfur nú er þar bók, Kaldaljós eftir Vigdísi Grímsdóttur. Það er aldrei neinn í strætó og ég keyri einn. Svo dinglar bjallan og bleikur ipod fer út. Það er aldrei neinn í strætó og ég keyri einn. Hurðin opnast og inn stígur kona þá birtist maður í þriðju röð og heilsar henni. Svo hverfa þau og ég heyri að þau eru í fríi (sem farið var síðasta sumar). Það er aldrei neinn í strætó og ég keyri einn. ] [ Hann vill barn, ég vil skóla. Hann vill sambúð, ég vil heimsóknir. Hann vill eiga mig, ég vil eiga mig sjálf. Hann vill stjórna mér, ég vil stjórna mér sjálf. Hann vill giftingu, ég vil samband. Hann vill svo margt sem ég vil ekki. ] [ Það áttar sig enginn á því að Aþena er enn í dag. Með blysið sem ber hátt við ský borg með heimspekilag. Þar byggðust háar hallir í horfnum merkis heimi. Þar voru líka, ekki allir undarlegir menn á sveimi. Fræddu þann er vaka vildi um veröld sem enginn sér. Um anda með önnur gildi og eldinn inn í þér. En Ég hitti seinna á Hverfisgötu mann í himinbláum jakka við borð. Og karlarnir söfnuðust í kringum hann og kölluðu á heimspekiorð. ] [ Þetta er dimmur dagur, grár veruleikinn í leit að bráð byggingar gnæfa yfir himinhvolfin líta niður til manns -með glotti á vör og illkvittnum augum... Frumefnin kallast á; ,,...hvað ætli þessi tolli lengi?” Skyndilega er alger þögn, loftið fyllist spennu, ekkert heyrist nema eigin hugsanir og andardráttur... Taktföst gönguskref nálgast og þá ómar blístur, já, það er gamli maðurinn að bera út morgunblöðin, alltaf jafn hress og léttur á fæti. Já, gamli maðurinn sem veröldin hefur ekki bugað, maðurinn sem bjargaði deginum. Og svo kemur sólin og blístrið gefur tóninn... Það verða unnir sigrar í dag ] [ Ódáinsvellir og draumlanda rökkrið okkur sundrar óskiljanlegar mannverur í yfirlögðu næturhúmi þar sem hvorugt skín án hins. ] [ Ef ég væri fallegri, hefðiru þá séð mig? Ef ég hefði logið, hefðiru þá hlustað? Ef ég hefði spurt, hefðiru þá svarað? Sástu mig aldrei? Fannstu aldrei þrána, sem lýsti af mér? Fannstu aldrei sársaukann, sem kvaldi mig frammi fyrir öllum? Ég beið eftir þér öll þessi ár, sástu mig aldrei? Þegar allir höfðu snúið við þér bakinu, þegar ég stóð ein, tókstu ekki einu sinni eftir mér? Þú niðurlægðir mig. Þú sviptir mig mannorðinu. Þú kvaldir mig. Sástu það ekki? Allan tímann, er þú lítilsvirtir mig, stóð ég og hunsaði það. Ég var vöruð við þér, þau reyndu að koma mér í skilning um það, en ég hunsaði það. Ég elskaði þig. Þú sást mig ekki? Einn dag hafði ég staðið, staðið – niðurlægð og óséð, öll þessi ár, án þín. Einn dag kramdist hjartað. Þú sást það ekki? Mig sundlaði, mig verkjaði. Táraflóðin stóðu, meðan þú varst með augun lokuð. Eftir hafsjó, opnuðust augun. Ég skildi. Lífið tók kipp. Ástin hafði umbreyst - hatur tók við sástu það ekki ? Ég óskaði þess að ég gæti safnað öllum tárunum & drekkt þér með þeim. Ég sá þig eitt sinn í ljósi, en ég skil nú að það er bara myrkur. Svartur – eins og sál þín. Í stað þess að bíða og vona, er ég nú með brúðu og nál. Meðan ég þrýsti stálinu í gegnum tómst höfuðið, óska ég þér dauða. Ég beið þín. Nú bíður þú mín. ] [ ,,Vændiskonu vísað á dyr”, vandi er að lifa í borgum. Ef flækingur um frúna spyr, finna má hana á torgum. ] [ Lúlú og Goggi Sigga og Benni Allt í lagi Doddi verður með Beggi og Dódí Bíbí og Kalli Allt í lagi Bóbó kemur líka ] [ Ég hélt að ef ég hugsaði nógu stíft um þig og hversu mikið mig langaði í þig fengi ég þig. Ég hélt að ef ég leyfði tilfinningunum mínum að leika lausum hala myndu þær á endanum ná þér. Ég hélt að ef ég óskaði mér nógu heitt gætum við verið hamingjusöm til æviloka eignast börn og kannski buru En þú hefur greinilega ekki horft á Leyndarmálið. ] [ ég trúi ekki á guð ég ætla bara að skrifa um það seinna sko um guð En ég trúi á hann! nei ég trúi ekki á guð og sé eiginlega eftir að hafa fermt mig Ég trúi á Travolta! ég veit þó að ég trúi ekki á boðskap vísindakirkjunnar það er bara tómt rugl hversu heil er trú þín eða trúleysi? ég trúi ekki á guð en ég trúi að bænir virki ég veit ekki hvort ég trúi á guð en ég bið bænir „just in case“ Ég trúi á stuð! ég trúi ekki á skiluru kallinn með síða hvíta skeggið sem stendur í gullhöllinni sinni uppí skýjunum en ég trúi á að það sé eitthvað sem verndar okkur og trúið þið á drauga? en já ég trúi á drauga og hef séð nokkrum sinnum ekki oft samt ég trúi ekki beint á drauga en ég trúi alveg að það geti verið sálir eða „andar“ þú þarft ekkert endilega háhraða internet til að ná í þá Ég trúi á sjálfan mig! ég trúi ekki á eitthvert æðra máttarvald ég trúi bara því sem hægt er að sanna ef einhver getur sannað að guð sé til ] [ fyrir vestan af fjöllum menn dást þar sigla bátar um ósa og mynni þar býr stúlka með hjarta sem tifar af ást en fjöllin þau loka hana inni í Reykjavík býr hjartfólginn drengur er hana dreymir um dagana langa til suðurs liggur sá hjartans strengur sem leggst yfir fjöll, dali og tanga því hjörtu þeirra slá sem væri eitt þau hittust víst oftast í leynum en hún á sér mann og hann á sér konu en ást þeirra fæddist í meinum á kvöldin er sólin sér tyllir á rönd gullrauður himininn dansar ást þeirra er flöskuskeyti á mannlausri strönd sem enginn finnur né ansar ] [ Álit. Í skrúðgarði heima,sem hefur styttu að geima, Af sérdeilis góðum manni. Það er hægt að segja með sanni,að í hans ranni, hafi margt gott komið frá. Samt var sögð sú saga,að það hafi myndast þvaga, Þegar styttan fór á sinn stað. Og úr þvögunni kvað,slæmur tónn um það., hann leit alltaf niður á aðra. Henni var breytt,og í dag er það leit, Því trjágróður hillur hana. Sumum er sama,þeir keppa að því sama. Að verða stytta sem lítur niður á aðra. ] [ Lurkum lamin, blá og marin, jörðu grafin, héðan farin. ] [ Það var grófur völlur. Holið var samfellt við hol annarra, hol hjúpsins. Menn sögðu, að í háu grasinu væru slöngur. Þessir vellir eru misstórir. Menn hafa notað þá til framleiðslu. Vörurnar eru fluttar inn á meðan á samsetningunni stendur. Þar breytast þekktar stærðir eins og í menntaskólastærðfræði. Sumt er stytt, tvenndir eða þrenndir myndast, akkeri eru færð, og stormsveitir búnar til. Þessar breytingar halda vitaskuld áfram á öðrum stöðum. Allt sem er framleitt þarna er merkt. Að átta sig, að minnsta kosti, með asa - að þetta sé allt í miðjunni. Það sem þekkir örstærðirnar binst því merkilega og stjórnar myndun heimsins til ákveðins staðar - rER. ] [ Ég ætti ekki að vera hér, ég viltist. Hvað ef þú kemst að því? Ég ætti ekki að vera hér, en ég verð. Viltu fyrirgefa mér? Ég ætti ekki að vera hér, ég verð að fara. Fyrirgefðu mér fyrir að gráta. ] [ Sól að morgni hér er gott að ganga. Handan fjallsins er það sem alltaf bíður. Handan fjarðarins er það sem allir forðast. Handan götunnar er það sem hugurinn girnist. Handan hússins er það sem samviskan hafnar. Handan gangsins er það sem andinn þráir. Handan þrepsins er það sem forboðið er. Húmar að kveldi hér er gott að vera. ] [ Það er ég viss um upp á æru og trú að þetta skip hefur aldrei tekið þátt í byltingu sem varð öllum til tjóns og hún hefur í áranna rás kallað yfir sig hörmungar og dauða. Upp á punt á Nevu er Aurora lofuð með stolnum fjöðrum. ] [ Fullur máni slær birtu á götu og skuggi minn hefur skýtna lögun. Skuggi dapur, hnípinn, dökkur fjarar út. ] [ Upprifinn af veraldaramstri dálítið upp með mér að minnsta kosti læt ég það ráðast þó tími sé alls ekki til þess að endurskoða það sem réttast er og skylt. Það er komið að þér að dæma rétt og rangt. Þitt er að greina hismið frá kjarnanum og segja það sem sannara reynist. Það sem eftir stendur er dómur yfir því sem löngu er liðið Öll mín gjörð er sett á fótstall þinn. ] [ Regndropar falla niður andlit mitt, hver og einn eru árin liðnu sem ekki koma á ný. Andlitið blotnar, meir og meir við hvert ár sem líður og ellin færir þau í rennustein. ] [ Með óróa og hálfum hug að hæðinni geng, efast um það sem þar birtist eða hvað hugurinn skilur. Breiðist um brekku óravíða steinar í þúsundavís eins og hvítur dúkur legsteinar látinna manna. Ónot og kvíði, drúpi höfði og spyr: ,,Var þetta til einskis?” Minningarmörk þeirra er bandamenn misstu. Steinsnar frá, óþekktar, huldar trjám og gróðri í hundraðavís eru grafir óvinarins. ] [ Gustar af manni, hefur raust sína, af eldmóði hvetur landsins lýð til dáða til framsóknar ættjörð og þjóð. Sú saga mun skráð meitlandi orðskrúði og dæmdur munt eftir því. Eins og leiðarstjarna sá sína framtíðarsýn, en oft fer það svo á langri leið til lokamarks að orð og æði manns sjálfs beri góðri sýn og málstað ofurliði. ] [ Hvert liggur leið þín um bæinn í síðri kápu með hatt? Hvað rekur þig áfram með hrópum og köllum á ímyndað fólk og farartæki, götuna á enda? Á leið til myrkrafjalla, á svörtum bomsum. Hver er það sem fylgir og leiðir þig um, hulinn öðrum en gleður og kætir þitt geð? Aldrei til enda ferðinni lýkur, allt er svo dökkt og fólk víkur úr vegi og leið þín verður bein og greið. Meðan á ferðinni stendur þú fjasar við allt og alla, leitar að vængbrotnum fuglum og hlúir þeim að, brosir til himins og þakkar þá náð sem dagurinn gaf, misskilin ertu og mannfólkið tilsegir þig. Undir hönd sinni laganna verðir þig leiða, burt frá öllu sem gladdi þann dag sem frelsið þér færði. Við tekur einsemdin, myrkrið og sú svarta veröld er enginn skilur nema þú og sá sem þér samferða er. ] [ Hvað er það sem þú hefur og aðrir hafa ekki, sem laðar mann að þér sem aðrir gera ekki? Það ert þú sem gefur gleði smáa og stóra þú ert slæg þú ert þver, þú ert kisulóra. ] [ Í grasinu, vænting, bros í miðri ferð. Bláhvítur himinn, grænar hlíðar, ljósslegið hár bærist í golunni, rauðar varir gefa ungu fólki vonir, albjört nótt. Framtíðin brosir við samferðafólki. Í fjarska, fjallið, sólslegnir tindar himinháir, endalaust upp, tíminn stendur í stað, hvolfist yfir fjarskann eins og dökkir lokkar niður hnarreist enni ungrar æsku. Við sjóndeildarhring er lofað dansi og spili. Hvert er heitið, vænting, draumur, hvert? Áfram fjallið suður, galsi, kæti, gleði. Ólgar von og þrá um heita vanga, lófa í lófa, hendur um háls, kannski meir, hvíslað í eyru, pískrað, falla fögur orð? Enn er langt á endastöð. ] [ Þegar mönnum fé er falt, finna þeir kvöt hjá sér. Flestir vilja eiga það allt, en alveg sama er mér. (Doddi) (Doddi Júl laumaði hér inn hjá mér síðustu setningunni og kom með annan fyrripart, sem ég botnaði) Alltaf þegar fé er falt finnst mér ég þurfa að gefa. (Doddi) Verst að flestir eiga allt og oft þarf að stýfa úr hnefa. (Einar) ] [ Rauðvínið réði gjörðum hennar ástríðan tók völdin, og vakti þorstann og þrána augu hennar nutu andlits hans aðskildar varirnar kossa hans skaut hennar nam hann allan ] [ Ef ei ljós þitt næði til mín myndi ég lýsa upp Túmið og þér sameinast að eilífu ] [ -Við enda götunnar, Hafa rætur mínar bundist malbikinu Svo aldrei hef ég haggast. -Við enda götunnar, Hafa tár mín fallið og myndað vötn Svo aldrei mig þyrsti. -Við enda götunnar, Hefur hár mitt vaxið um mig allan og hlíft mér frá kuldanum. -Við enda götunnar, Ég brosi er þú leggur þreytta hönd þína Í lófa minn. -Við enda götunnar, Slít ég rætur mínar, Þerri ég vötnin Og sker hár mitt. Tek hönd þína og geng við hlið þér. -Við enda götunnar, Er upphafið. ] [ Fallega til fóta taka folöldin í Skálateigi. (Einar) Þetta verða svaka, svaka, snillingar á efsta degi. (Doddi) ] [ Undir Vébjarnarnúp rís sker úr sjó, útvörður landsins teygir koll sinn úr sjávarlöðri. Vísar farendum veginn, og gefur byr í segl þeim sem fórnir færa. Í vondum veðrum rýkur sær á loft, og vindar skella á haf og land. Ef Álka fær sitt fá skip og menn laun erfiðisins. ] [ Hátt uppi í fjalli, í Naustahvilft hvílir steinn á skálarbarmi, margar aldir hafa meitlað hann. Birtu slær á húsaþök. Þar örstutt frá er steinn, litlu minni, með bros á vör. Hróðugur hefur numið land á nýjum stað Birtu slær á allt í kring. Stór og stæltur við hlið hins aldna. Í fjarska er Eyri, með spekingssvip og fjörðurinn með Eyrarfjall. ] [ Fegurst af öllu sem augað mitt leit, þú ert engill sem svífur á skýinu sínu. Þú ert það besta sem brjóstið mitt veit, þú ert bjartasta ljósið í lífinu mínu. ] [ Kvenmannsleysi\'er mikil kvöl Kemst ég ekk\'í háttinn Fyrr en ég hef fengið öl og fjandi góðan dráttinn ] [ Ég sit einsamall í rykugu kjallarakytrunni og hlusta á síðustu plötuna með George Harrison – þá sem kom út eftir dauða hans. Hún vinnur á við hverja hlustun, kannski eins og sjálfur dauðinn? Ég var að kreista í haldarlausu krúsina síðustu dreggjarnar úr hvítvínsbeljunni, (reyndar á ég tvær smáflöskur í ísskápnum og örlítið rauðvín), og sit hér aleinn við gömlu tölvuna sem er ekki einu sinni nettengd. Ég er nýbúinn að segja upp eftir sextán ára starf á geðveikrahælinu og er dálítið skelfdur: Mun ég lenda lífi mínu sæmilega eins og flugdreka þegar vindurinn færist í aukana? Ég veit það ekki – svosem hver lendir lífi sínu virðulega í dragsúgi dauðans? – en ég reyni að hughreysta mig með því að lesa Iðrandi syndari eftir Isaac Bashevis, búinn að taka fyrri svefnpilluna, búinn að gera allt sem ég veit að ég á að gera – og eftir stendur ekkert nema þetta sem ég hef enga stjórn á; síðasti hluti lífs míns: Hið óvænta ... ] [ Aldrei bað ég neinn að elska mín ljóð. Þau orti ég einn í anda míns sjóð. Hver einasta stund er örskot og bið. Á siglingu um sund á skipinu við. Við borðstokkinn sit og sigli út á mið. Sé gersemi og glit í gömlum rekavið. Á fjaðravæng flýg að fjarlægri strönd. Á sjálfan mig stíg og svíf yfir lönd. Nótt þú ert náð niðdimm og hljóð. Þar get ég áð við ókunna slóð. Til deyjandi dags er dögun mér hlý. Ég leita því lags að lifa með því. ] [ Minna ekki stjórnvöld okkar Íslendinga óþyrmilega á ógnarstjórnina í Kína???? Lögreglan hér er eins og í Kína, elskulegheitin við þegnana sína. Greyjum eru gefin, gæðakorn í nefin og ástand talið allt í þessu fína. ,,Á torgi hins himneska friðar”, hervaldið landsmennina siðar. Meiðir og mer, meisar og ber, af brjálseminni Ríkistjórn riðar. Á síðasta vetrardag þann 23. apríl árið 2008, öttu hinir brjáluðu stjörnufákar ríkisvaldsins lögreglu með plastskjöldum, bareflum, meisúða og handjárnum á borgarana, sem vörubílstjórar hafa farið fyrir í mótmælaaðgerðum gegn óheyrilegum skattaálögum á bíla og olíuverð. Minna þessar aðgerðir stjórnvalda mig óþyrmilega á aðferðir ógnarstjórnarinnar í Kína við að brjóta á bak aftur friðsamleg mótmæli ungmenna á torgi hins himneska friðar. Ég tel að hér eins og þar hafi slík mótmæli fyrir löngu verið orðin tímabær, frá hendi allra þeirra mörgu landsmanna sem hafa mátt lúta í gras fyrir ógnareðli þeirra til misréttis. Enda ekki á góðu von þegar stjórnmálamenn fá að sitja eins og hér óáreittir af fjöldanum í fíabeinsturnum sínum, þrátt fyrir að fjöldi þeirra séu margdæmdir níðingar fyrir siðleysi sitt og mannréttindabrot á sjúkum og fötluðum öreigum. En slíkt tel ég að megi vel lýsa hversu lágt æðstu menn okkar þjóðar eru tilbúnir að leggja sig, til að raka saman auði og auðlindum þjóðarinnar fyrir sjálfa sig, vini og vandamenn og valda gæðinga. ] [ \"Pabbi! Pabbi!\" kallar pínulítil hnáta, umvafinn mjúkum íslenskum trjám, tám og útlenskri sólarvörn í óðaönn að afvopnast bleikum armkútum á sundlaugabakkanum nýbúin að sprikla í norsku vatni, sem málar jörðina dekkri litum við hvert skref. ] [ Að eiga vin er að standa ekki einn þegar eitthvað bjátar á. Að eiga vin er líka gleði á góðri stund gæfa í hversdagsleikanum. Að eiga vin er því gulli betra. Því sannur vinur stendur ætíð kyrr án þess að reikna kostnaðinn þegar aðrir hverfa á braut. Að eiga ekki vin er að eiga minna en ekki neitt. ] [ I didnt know it was coming till it was already here I didnt know it was coming and it wasn\'t just fear. Just on one day everything was black Just on one day and it was no turning back. If only I had seen what was on the way If only I had seen I had not stayed. Alone now I am thinking were did all the love go Alone now I am thinking maybe some day I will know. ] [ Hér ver ég gjarnan góðum tíma, glaður í bragði lífinu ann. Og þegar ég ekki er að ríma, ég opna stundum doðrant þann sem inniheldur heimsins fræði er heimspekingar færðu í orð. Já, hér er ró og hér er næði. Hér ég sit við einangrað borð. En að mér steðjar stundum leiði, þá stend ég upp og fer á kreik. Ef sólin skín í sinni heiði ég sæll fer út og bregð á leik. Annaðhvort ég eitthvert labba eða skelli mér í sund. Þar er gott að þvæla og rabba um þjóðarhag og liðna stund. En senn er mál að arka aftur upp á Hlöðu að lesa bók og finna hvernig fræðakraftur fangar þar hvern kima og krók. Það getur stundum tekið tíma að telja í sig nennu og kjark. Þegar hér er háð sú glíma hitinn nálgast bræðslumark. Fyrr en varir að lokun líður þá læðast menn í burtu strax. Og enginn er sá sem ekki bíður í ofvæni næsta Hlöðudags. Hér tækifæri gullin gefast hér glímt er hart við lestrarpuð. Enginn þarf um það að efast, að á Þjóðarbókhlöðunni er stuð. ] [ Ástin rífur, bítur, brennir Skilur, gleðir og kennir Kennir manni að þjást Og við endalausar martraðir að fást. ............................................... Því ekki dó ég á sjúkrabörum. Við höfðum ást En ég fæ að þjást Því Karon þér stal Við fengum ei val. ................................................ Því ekki dó ég á sjúkrabörum. Í staðinn ég ein stend Við dauðan kennd Sigli á myrkum höfum Bíð löngum dögum. ................................................. Því ekki dó ég á sjúkrabörum. ] [ Tvo engla, tvo djöfla Tveir eru englar Farnir mér frá Tveir eru djöflar Er sitja mér hjá. Ávallt ég dreg þá Minn dimma veg. ] [ Ein á kletti Hátt á kletti Út með sjó Syngur Lorelei. “Hann fór Hann fór” Syngur Lorelei Syngur sæta sálma Sýrenan hún Lorelei. Í blindni þeir koma Fálma, deyja köldum Sjávar dauða Allt þökk sé Lorelei. “Hann fór Hann fór” Syngur Lorelei Syngur sæta sálma Sýrenan hún Lorelei. ] [ Er sólin sest Sef ég eilífum svefni Og finn þig hólpna Við hina djúpu á. Ég borga tollinn Yfir við förum Meðan við deyjum Á sjúkrabörum. ] [ Ávallt synguru hásum róm Enginn vill þína sögu heira En ég fyrir gef þér allt. Í rámri rödd er sorg og sátt Sátt yfir hvítum fjöðrum Sorg yfir svörtum gjörðum En ég fyrir gef þér allt. Þína sorgar söngva engir heyra Syngdu meira og ég skal hlusta, Hjálpa og mun þig hylja. Burt frá þínum svörtu, Sorgar gjörðum Hult í mínum örmum .......... Ég fyrir gaf þér allt. ] [ Man ég, man ég Daga góða, hjóða Vini gamla og fróða Man ég, man ég Daga martraðar Illra grimdar glóða. ] [ Djúpar sprungur Mína sál rista Hjarta mitt Fer hratt að frysta - allt er dautt. Þau djúpu holundasár Er mitt hjarta ber Blóð drýpur, drýpur Úr djúpum ristum - allt er rautt. Draumar bresta Nóttinn dimm Aldrei draumar Mínir hætta - allt er svart. ] [ Ég hleyp í gegnum dimmar borgir Gamlar grimmar sorgir En ég sný mér við og dreg upp sverðið Til að drepa mína djöfla Ég get ekkert gert. Maður berst gegn sínum djöflum Sínum innri illu öflum Haltrar á miklum köflum Er maður berst gegn sínum djöflum. Ég tapa hvern dag Hvern einasta dag En rís aftur og dreg Þá djöfla með mér Eins marga og ég get Og bíð eftir næsta degi. ] [ Geng ég á Beittum nálum, Bjarga vini Úr djúpum málum. Góðum glöðum Ungum sálum Sem hröpuðu Á beittum nálum. ] [ Djúpt niður í jörðu Það bítur, bramlar, nagar Hátt upp í himninum Það öskrar, kallar, slær. Óvættirnar tvær Ein djúpt í jörðu niðri Önnur hátt á himni uppi Níu heimar liggja á milli Snöggur & snar Hann hleypur Niður til eins Og upp til annars Með fréttir, hallmæli Og níðandi kvæði. Þrjár eru systur Allt þær sjá, allt þær vita Þær vita hvað!? Þær vita hvernig!? Þær vita hvenær!? En ekkert leyfast að segja. Öll eru þau sex Föst á einum stað Við askinn þau bíða Láta tíman líða Eftir hverju þau bíða?? ........................................ Þau bíða eftir ragnarrökum ] [ Um Platón les og Perikles og pælingarnar þeirra, um siðferðið og Sókrates og síðan mikið fleira. ] [ Sjálfstæðið veit ei hvað velsæmi er og veldur því ómældum baga. Af heimsku og ofstæki bílstjóra ber, sem betla með galtóma maga. ] [ Margir tóku hér töltið í dag, tróðu upp drullu og pytti. Allt var þó með besta brag og bærilegu snitti. ] [ ég er hér alein i þessum heim reika um og leita er hér einhver annar sem sem er líka alveg ein? ] [ Andardráttur sem lunga fyllir en til hvers? Efni í æðum sem frumu færist en til hvers? Bruni í frumu sem orku eykur en til hvers? Hjartsláttur sem blóð ber en til hvers? Neisti í heila sem boð ber en til hvers? Andardráttur sem lunga fyllir og til þess... ...að sjá hana einu sinni enn ] [ Sveigja kann skeiðar með hug Sturlar einnig ærlsadrauga af dug Bíbí er loks næstur Löngu mun kæstur Verið hefur “GEÐSYG” í vel áratug. ] [ Hvort ég komi vart er vafi, en veltur samt á góði, að ég ferð og heilsu hafi og heitið geti ei slóði. ] [ Með lögum skal landann styggja. Lasarus hefur jú á fáu öðru að byggja, Lýsandi dæmi: “Fasisma-mæmi”. Þvílíkt þjóðfélagsmein er forræðishyggja. ] [ Seinna muntu sakna svo sárt. Seinna muntu gráta svo hátt. Seinna muntu skilja svo fátt. Seinna muntu hefna svo sátt. Seinna öskra þú mátt. En alltaf þú átt, ástina frá barninu sem saknað er sárt. ] [ Einn dag muntu skilja og aftur mig vilja. Öll ör reyni að hylja ef þú vilt mér fylgja þangað sem heimurinn endar. ] [ Hver er að sigra á yfirstandandi fiskveiðitímabil? Og það væri einnig gaman að vita hver væri líklegastur að sigra bikarkeppnina. ] [ Tók eftir því nýverið að allir þeir innkaupapokar sem streyma inn á heimili mitt eru frá Bónus og Ríkinu og það segir mér að ég er alki og nískupúki. ] [ Efnishyggja hér á landi er orðin slík að fólk er farið að sýna kynferðislega hegðun þegar talað er um peninga og völd. ] [ Eftir að mamma fékk sér gleraugu er hún alveg hætt að nefna það hvað ég er myndarlegur og hvað ég var fallegt barn. ] [ Íslensk knattspyrna gengur aðallega út á það hver getur sparkað boltanum lengst og hæst upp í loftið. ] [ Fólk á landsbyggðinni gefur góða mynd af því hvernig hár-og fatatískan var í Reykjavík fyrir 20 árum. ] [ Það eru tvennt í lífinu sem maður vill ekki vita. Það er hvar og hvernig maður var búin til. ] [ Klámblöð eru af mörgum talin viðbjóður en það má læra margt af þeim, til dæmis stafsetningu. ] [ Það er mjög slæmt að vera eini starfsmaðurinn á vinnustað og þar ríkir skítamórall ] [ Ég tel að 92% leigubílstjóra eigi leiðinlegar eiginkonur. Þeir eru nefnilega aldrei heima. ] [ Að gefa sígarettur í jólagjöf er góð leið til að spara jólagjafakaup þegar til lengri tíma er litið. ] [ Mér finnst það merki um uppgjöf ef handarlaus maður vill ekki gítar í jólagjöf. ] [ Dvergar verða aldrei álitnir sem stórmenni. ] [ Afhverju fá börn sem bíta ekki sömu meðferð og hundar sem bíta. ] [ Mannorði þínu verður ekki bjargað ef þú hlýtur meiðsli á skákmóti. ] [ Mér leiðist vísindaskáldskapur alveg svakalega. Þess vegna horfi ég ekki á Út og Suður. ] [ Það ríkir alltaf viss spenna hjá mér þegar ég horfi á fréttir frá Afríku. Spennan felst í því að sjá hvort einhvern klæðist fötum sem ég hef átt. ] [ Strípalingar er hópur fólks sem hefur aldrei skilið spakmælin \"Að bretta upp ermar\" eða \"Að girða í brók\". ] [ Ef það væri til S-mæltur einstaklingur sem byggi í suðursveit sunnan Selfossar, á sveitabænum Sólstöfum og væri giftur konu sem heitir Sesselía og uppáhalds hljómsveitin hans væri SSSól, þá ætti sá greinilega eitthvað ógert inni hjá Guði. ] [ Það er greinilegt að staða kvenna í þjóðfélaginu sé á uppleið. Sá nefnilega konu keyra rútu um daginn. ] [ Hann fór þegar það ringdi Vildi ekki að ég hann fyndi Hann skildi hurðina eftir opna Þessa nótt var ómögulegt að sofna Skilinn var eftir hringur og mér gefinn fingur Hann sem var vanur að þegja Hafði allt í einu svo margt að segja Ég segi þér það satt Ég hef alvöru rök Ég bara datt Allir gera mistök Hann fór út í dimmuna Eitthvað sem ég mun alltaf muna Hann sagðist ekki elska mig nógu og mikið Til að geta gengið yfir strikið Hans lausn var að labba út Mér brá og hrökk í kút Var ekki hans frú Þrátt fyrir að Ég hafði alltaf verið trú ] [ Veit að þú særir, og mig færir, aftur á bak, gefur mér þak. Hugsar um mig, en ég veit ekki sjálf með þig. Þú hringir stöðugt, mér fer að verða flögurt. En það er allt í fína! Hef engan fjanda, lengur, þú ert samt fengur. Ég þakka þér fyrir allt, sem þú gerðir, því það þýðir þúsundfalt. Ég þakka fyrir þína ást, fyrirgefðu, ég að ég brást, þér, vildi bara hafa þig hjá mér. En ég veit ekkert lengur, hvernig allt hengur. ] [ Púkar í portretti sýkilsins, Pranga með hugðarefni fíkilsins. bíða þeir barnanna, Í þágu forvarnanna, Áfengis &Tóbaksverslun Ríkisins. ] [ þetta andartak svo magnþrungið við mættumst í dyragættinni þú bauðst góðan daginn og ég svaraði meðan ég naut ásta með þér í huganum ég þurfti að taka á öllu sem ég átti til stökkva ekki á þig og kyssa þig og strjúka þig straumarnir rafmagnaðir spennan í hámarki þetta andartak svo magnþrungið. ] [ Eitt andartak með þér svo fullt af lífi. Allt svo ríkt af gleði allt svo einfalt. Eitt andartak með þér fyllir mig af ást sem ég vissi ekki af ást sem endar aldrei. Eitt andartak með þér lætur mig hlæja dátt ekta hamingjuhlátri beint frá hjartanu. Augu þín svo opinmynnt hugurinn svo tær hjarta þitt slær í takt við púls jarðarinnar. Ekkert er yndislegra en þú elsku barnið mitt. ] [ . ] [ Hjarta mitt horfið í tómið horfið til meistara myrkursins horfið til þín. ] [ Farin? Hvert fórstu? Komdu aftur. ég vil þig. ] [ Hvað hef ég gert til að verðskulda þetta? Er það karma að launa mér kinnhestinn? eða á ég ekkert betra skilið en að vera elskaður af konu sem elskar tvo? ] [ Komdu inn.... Legðu lófa minn á kinn þína, tár þín skríða, yfir kalda fingur mína. Legðu munn þinn að mínum, okkar hinsti koss á andvana varir mínar. .....fyrirgefðu mér ] [ Bitur orð úr blýi streyma bjöguð inn í mína bók. Friðast ef ég fæ að gleyma að féll ég fyrir eigin krók ] [ Hjartað í lófa lofar sér, aldrei að særa brotið hjarta ] [ Þú, sem gafst mér allt. Allt, sem ég þarfnast. Allt, sem ég sækist eftir. Allt, sem ég vildi. Þú, sem tókst frá mér allt. Allt, sem ég þarfnast. Allt, sem ég sækist eftir Allt, sem ég vil Þú, sem ég vil. sem ég þarfnast, sem ég sækist eftir, sem ég vil. - farin ] [ Mig langar í þig Núna Komdu Farðu Ég vil þig ekki lengur ] [ Ég athuga vildi hvort væri hún geld því víst mátti telja hana svera. Þá hefði mátt græða ef sú yrði seld en svo reyndist þó ekki vera. ] [ Þú, þú ráðherra lands er þín samviska hrein? Og fílabeinsturn þinn, frekar mannabein úr hinum vinnandi manni sem trúði þig á? Þú sem mat okkur meinar meðan tyggjum við strá. Þú ert sekur að sanni samviskulaus. Svíkur sárt fólkið sem að þig kaus. Með þína vopnuðu verði þú vanvirðir oss. Rausar þinn rógburð um rafbyssukost. Viltu útskýra eitt um efnahaginn, eru varnarmál heldri en öryrkinn? Hvað með blíðu börnin, blæðandi sár? Í hverju felst vörnin um ókomin ár? Mig dreymir þig deyja, að þú deyjir í bráð. Tapir þínu trausti þá\'er takmarkinu náð. Verðir grafinn að vetri í vellandi grút og súpir seið þinna gjörða af sjóðheitum stút. ] [ ,,Oft er tungutrúr tíðindafár”, af tungunni fá margir sár og sumir því skilja ekkert í. ,,Vitið er verðinu betra”, vandi að tala og letra, en glópurinn gatar á því. Sannleikur sagna er bestur, í sífellu lygin brestur, sem flest annað falssvínarí. Fleygir oft slíku til föðurhúsa og fast í svefni þar mætti dúsa, en fjandinn vaknar alltaf á ný! ] [ Fiðringurinn er að fara með mig hvað er málið með þig ég má ekki sjá þig án þess að vilja fá þig! hvað ertu eiginlega að pæla? ég er alveg að fara að skæla hér sit ég og væla en mig langar svo í þig að næla tókst mér þig að fæla frá mér ohh ef þú værir bara hér þú ert alveg sér á báti ég fer í fáti ætli ég ást mína á þér ég játi nokkurn tímann ég stari á símann af hverju hringiru ekki reyni að losa hálsinn við kekki best ég bjórinn drekki á mér ertu að leika hrekki án þess það að vita af hjarta mínu þú hefur tekið bita tilfinningar mínar reyni að rita get það varla fyrir svita sem sprettur meðan hjartað dettur þú sem ert svo nettur því viltu ekki vera minn klettur? er ég að fara á taugum? þurr tár renna úr mínum augum sem eru undirstrikuð með baugum og verða stundum að votum laugum verð ég að viðurkenna jesús þessi ástarbrenna hún er þér að kenna mér líður eins og boðflenna í þínu lífi munar engu að í mig þig rífi líkt og ég endalaust háan vegg klífi ertu þessi stífi gaur sem þú þykist núna vera Hvað á ég að gera á ég þessa spennu að skera eða bíða og vona þessi einmana kona.. ] [ Ég átti eitt sinn dag Og dagurinn var minn En þú tókst þann dag Og dagurinn varð þinn ] [ Ég stari út í nóttina Stjörnurnar eru hættar að lýsa, máninn er horfinn Fjöllin stara á mig ásökunaraugum Ég stari út í daginn Sólin neitar að skína, himininn grætur Fuglarnir þegja Ég heyri ekki neitt, ég sé ekki neitt Þú ert farinn Heimurinn er hættur að snúast ] [ Sama lægðin var við Nýfundnaland í fyrradag. Á hún eftir að gleðja okkur eftir nokkra daga? ] [ Óvæntur spegill flytur gleði í heim minn. Spegilmyndin þín er fyrr þar sást töfrandi, varpar nú ásýnd sinni. ] [ Ég er ekki hér. Þetta sem stendur fyrir framan þig, þetta sem er af holdi & blóði, þetta sem talar með röddu minni, þetta sem þú heyrir hjartslátt & andardrátt frá, - þetta er ekki ég. Ég er löngu farin. Það varst þú, manstu? Það varst þú sem snertir mig, það varst þú sem hræddir mig, það varst þú sem sagðir mér að þegja, það varst þú sem neyddir mig, það varst þú sem hélst áfram, það varst þú sem hraktir mig burtu héðan, - það varst þú. Manstu ekki eftir mér? Ég er hún. Ég er litla stelpan. Ég er barnið sem þú tældir, ég er barnið sem þú hræddir, ég er barnið sem þú neyddir, ég er barnið sem þú svívirtir, ég er barnið sem hágrét & bað þig að hætta, ég er barnið sem grátbað þig, ég er barnið sem þú snertir, - ég er hún. Þú drapst mig. Þú eyðilaggðir líf mitt, þú svívirtir mig, þú notaðir mig, þú gerðir mig að því sem ég er í dag, - liltu, dánu, einmanna, svívirtu barni. Það er þín vegna, sem ég vil ekki vera snert. Það er þín vegna, sem ég hræðist suma menn. Það er þín vegna, sem ég get ekki tjáð mig. Það er þín vegna, - sem ég get ekki lifað. Og veistu hvað? Ég fyrirgef þér. Ég fyrirgef þér að hafa eyðilaggt líf mitt, ég fyrirgef þér að hafa notað mig, ég fyrirgef þér að hafa svívirt mig, ég fyrirgef þér að hafa snert mig, - ég fyrirgef þér að hafa drepið mig. Ég veit. Þú misnotaðir saklaust barn. Þér verður refsað, - en ég fæ lít mitt aldrei aftur. ] [ ,,Hver nýtur síns um síðir”, sá þrífst sem þarfur er. Illur er argur og stríðir; ,,elskan dregur elsku að sér”. Gleðina er ljúfast að leiða, til leikjanna vera ekki veill. ,,Að kvöldi skal ósættum eyða”. ,,Gott hús er góðum heill”. ,,Hver vaknar til sinna leifa”. ,,Þokka býður þrifin hönd\". Með vinum skal vínið kneifa og treysta sín tryggðarbönd. ] [ Við Norðurgötu bý ég niðri við. Þar finn ég hvorki sálaryl né frið, reyndar á ég ekkert þarna heima. En gömul eik hér býr,ég held sé austan við,hún stendur mér svo þétt og fattins við. Ég veit að hún sér himininn og kannski líka tunglið.Hún kannski kíkir upp fyrir mig. Allt sem ég vil. Fyrir mig,fyrir mig. Hún stendur sig. En hvað með mig? ] [ Ég,þú,við saman, nú verður sko gaman. Þú færð að fitla, mér byrjar að kitla. En ég segji ekki neitt, því ég fékk það feitt. ] [ Ég ætla nú að láta leiðast til ljóðs um þig. Mér finnst ég til þess núna neyðast en nóg um mig. Þú ert sæt, með ljósa lokka en ljótan fót. Hefur engan yndisþokka, ekki hót. Ég sá þig fyrst á förnum vegi fjandans til. Ég hugsa um þig á hverjum degi hér um bil. Ég elska þig af öllu hjarta æ, og þó... Mér logaði ástarbálið bjarta en bálið dó. Nú fer ég brátt að fella klæði og fara í bað. Mér finnst þetta mikla kvæði misheppnað. ] [ When I love someone so deep inside, It seems like it\'s so easy to hide. I\'ve loved you for so very long, I would think you could do no wrong. Every day I would hope and pray, That you would always stay this way. You treated me like Ishould be treated, I thought my life was finally completed. I thought our love was growing true, And then one day it was all so blue. You started putting me down and it hurt, I thought all I was to you was dirt. You started ignoring me and I wondered why, All I wanted to do was curl up and die. I thought our relationship would never end, But that was all so fake and pretend. One night you were so sweet to me, I thought all those things were maybe untrue, Two days later you were back the same, I thought I was the one to blame. You thought the relationship was getting too serious And that I had become a little too curious. By this time I knew it wouldn\'t last, All the nice things you said were in the past. I thought that I would marry you some day, But this time God wanted to get his way. I wanted things back how they were before, But I knew this couldn\'t happen anymore. It was a Monday night about nine o\'clock, I heard the news and it wasn\'t a shock. I knew this was going to happen soon, As I laid there and cried in the pale lit moon. ] [ Gleymd mín æska, börn verða menn. Bláir sandalar, muna mig þó enn. Snáði í slopp, gulrauðum röndum. Bláa sandala, úr ítala löndum. Óska þess enn, undir mínum fæti. Bláum söndulum, enn þá þar sæti. Gengur þó áfram, barnsins rölt. Blárra sandala, undir annari löpp. ] [ Yndisleg er auðnagná af öðrum ber til kosta. Er hún fer hans fundi á finnur hann sér til losta. ] [ ég málaði handa þér mynd á gangstéttina fyrir utan bláa fallega húsið þar sem þú býrð (það er hvít róla á pallinum og há ösp í garðinum) og myndin var af gulri sól og stelpu í kjól með fallegt bros og rautt hár eins og þú nema þú brosir aldrei og þess vegna gerði ég mér ferð til þín, til þess að gera þessa mynd svo þú myndir kannski brosa aðeins og ég veit ekki hvort það var ímyndun en þegar ég leit í átt að húsinu fannst mér þú brosa soldið á bak við gluggatjöldin ] [ Dauður úr hræðslu í tóbaksdósinni. Hvarf niður í hafdjúpið og skreið þar inn. ] [ Þegar ekkert er eftir nema bænin en ósköpin öll af rafmagni í loftinu. Biðin mitt eina vopn. Bið eftir meistaraverki í grófum sviða sem mun heilla þig upp úr skónum. En andleg fátækt ín rímar við aðrar þjáningar mínar svo sem fátækt. Upp á von og óvon fer ég yfir naglana í dekkjunum. Í kaupfélagi hamraðra járna eru nælaíðigapparötin búin og allir örvamælar tómir. Mig langar í faðm þinn. Sökkva í barminn, ilmandi hálsakotið og hvíla hendur á lendum þínum. Svo bara næring í æð og bað þegar þú nennir. ] [ Ef þú hegðar þér ekki heimskulegar en þetta, áttu upp á pallborðið. Ef þú hegðar þér ekki heimskulegar en þetta, á ég það ef til vill til að losa um blöndunginn og þú mátt haf´ann ef þú hegðar þér ekki heimskulegar en þetta. Farðu samt varlega með fannir fjallanna og uppsprettur mýranna. Jésús minn. ] [ 5. apríl kl.17.32 segir hún \"Sif var að hringja, ég þarf að hitta hana í kvöld\" -Beil- 5.apríl kl.21.58 SMS frá Sif \"Eruð þið bara tvö? Má ég joina?\" ] [ Dúaðu, fugl minn, undir fæti mínum þó braki og hjartað bresti við súluna, dúaðu. Og þótt fuglsandinn skreppi úr léttum kroppi, dúaðu, því morgundaginn flýgur þú í uppstreymisallsnægtum paradísarfuglanna. ] [ Ég kann einn mjög fyndinn: Keyptu þér brjóstahaldara. -Ha, þennan fattaði ég ekki. Ókey, hvað með þennan: Keyptu þér standara. -Hva... Hvað þýða þessir brandarar? ,,Keyptu þér standara\"? Hvað er standari? Það eru þessi aukadekk sem eru á hjólum fyrir byrjendur. ] [ Alex er orðinn sautján en María er ennþá sextán. Þau eru kærustupar og eru búin að vera saman í næstum þrjú ár, síðan í byrjun 9. bekk. Núna eru þau í fyrsta bekk í Versló og eru á árshátíðinni sem er haldin á Broadway. Alex og María sitja á einum sófanum út í horni og eru í sleik, undir heyrist hátt í popplaginu MajaHi. ] [ Ég vil snúa augunum þínum við í tóftunum svo þú getir litið inn á við bara í smá stund og farið út með ruslið sem er byrjað að mygla yfir perlurnar. ] [ -Nei, hæ! Hvað segirðu?! -Nei, hæ ástin mín! Allt fínt, en þú?! -Bara allt þetta besta! Er að gera jólainnkaupin og svona. -Já, einmitt. Sama hér, var að koma frá Iðu. Heyrðu langt síðan við höfum sést og takk fyrir seinast! -Já, elskan mín það var ekkert, mín var ánægjan, ha... -Já, þetta var rosa fínt hjá ykkur, ha. Hann er orðinn svo stór, orðinn fermdur og allt, Guð. -Jááá... hann stækkar og stækkar maður veit ekki hvað gerist næst. -Nei, einmitt. Heyrðu, hvað ætlið þið að gera um áramótin? Það verður stórt teiti hjá okkur, ykkur er eeendilega velkomið að koma... -Jááá. Veistu það hljómar bara vel. Við erum ekki búinn að ákveða neitt. Hannes vildi eitthvað kíkja á sumarbústaðinn en krakkanir vildu helst vera í bænum og svona. Kannski að ég segi honum frá því og við höfum það til huga, ha. -Já, gerið það alveg endilega. Það væri gaman að fá ykkur. Við erum náttúrulega upp í Grafarvogi með útsýni og alles, Helga og þau koma. Það verður mjög mikið fjör. -Já, veistu ég held alveg örugglega að við bara komum. Heyrðu, ég þarf að þjóta en ég hringji fljótt í þig. -Já, gerðu það elskan mín. Heyrðu ég bið að heilsa! -Ég skila því og sömuleiðis! Ég vakna á hverjum morgni hrædd við allt í mínu tóma lífi! -Bless bless! Ég græt þegar ég er nakin. ] [ Lóan er komin And so what! Er það nú eitthvað til að redda málunum? Þessi dirrindí farfugl sem syngur að vori telur okkur trú um að allt verði betra með hækkandi sól svíkur okkur svo að hausti þegar á bjátar og skammdegið leggst yfir á ný Skiptir litum og fjölgar sér Safnar kröftum Til að fara Farin, búin, bless Svo kallar maður þetta vini sína Vorboðinn ljúfi vertu bara heima hjá þér Hættu að koma og vekja með mér vonir Um að bráðum komi betri tíð Lóan er ekki að koma Lóan er að fara ] [ Tvítug sviptu þau sig lífi Í fossinum heima Faðir og móðir fátæklingar sem unnust Eignarlaus vinnuhjú meinað að eigast slíkt var ekki til siðs Fjölskyldan slegin í sundur Börnin gefin á hreppinn Höfð með skepnum, fóðruð á hrati Misnotuð af hrottum Hún af bóndanum, húskörlum og messugestum Hann af bóndanum, húskörlum og messugestum Hún varð skækja Hann fékk uppnefnið umgangur Þau leiddust í fossinn ] [ Veggir, gólf, loft og allt á milli. Fyrir utan er himinn, sól og geimur. Samt hugsa ég um veggi, gólf, loft og allt á milli. ] [ Í kirkjugarði þú hvílir beinin aldar gömul meinin þögnuð eru sorgar kveinin. .................. Í kirkjugarði er ávallt hljótt. Í kirkjugarði þú sefur rótt uss hafið hljótt heill og sæll er máninn í nótt. ................... Í kirkjugarði er ávallt hljótt. ] [ Á brúninni við breiðu Kinn ber við grýttan svörð. Vörðu þreytta er varla finn vina mín en hörð. Fálkinn er í Dagverðardal og drýpur niður fæti. Hann lítur um í víga val og velur fugl að æti. ] [ Oft er dauft að hanga heima, herpast í tölvunni síðast og fyrst, Finnboga þaðan mig tókst að teyma, talandi um anda af hjartans list. Að Narfastöðum hélt ég heim, hlaðinn að aftan og framan. Þar átti að hefja upp gleði og geim og gera eitthvað saman. Þar gafst næði í nokkra daga, sem nýttum við eftir kostum vel og ferðin ei mér færði baga en framhaldið hjá Guði tel. ] [ Þú komst til mín brotin í naustið og ég baðaði þig í öldunnar róti þegar blámi himinsins rann saman við spegilsléttan flötinn og saman við græddum sár. Hvít seglin blöktu fyrir gluggum og vörpuðu mildri birtu á óvissunnar nagandi ótta framtíðar hverfula land er blasti við stafni en hvarf síðar í ólgandi iðuköst hugrúna þinna. ] [ Ef æðir þú vinur ótrauður fram allt lendir bráðast í hvarf. En reyndu bara að berast áfram, og bakka ekki lengra en þarf. ] [ I\'m getting up from bed Ringing in my head! Alarm\'s having a fit so I\'m playing dead I wanna sleep some more God I\'m such a bore! I set it to a bit and wake up in four.. Couldn\'t the Sun just wait a minute more? World is what it is.. I\'m rushing up to school but feel like such a fool I\'m late again it seems to be a rule.. But that\'s not half of all I need to do much more Like get to work and work and work lots more!! Couldn\'t the time just wait a minute more? Life is what it is.. I should have got up earlier should have eaten healthier should not have stayed up so late! I wish I was more organized! I wish I was more energized Wish I wasn\'t always so late!! Couldn\'t I just do a bit more right? I am what I am.. It\'s how it is... ] [ Einu sinni dó prinsessa... hún hafði verið í popppartýi með hinum prinsessunum og ein baunin náði að lauma sér undir dýnuna. morguninn eftir vildi þessi prinsessa alls ekki vakna. hún var marin og blá frá toppi til táar og með risastórt gat í gegnum magann. steindauð. það kom síðar í ljós að þetta hafið verið prinsessan sem eitt sinn var kennd við baun. ein dýna var alls ekki nóg. ] [ myrkrið umlykur mig vefur mig örmum sínum slengir þeim um mittið á mér föst í hyldýpi þess og síðan kemur sólin... ] [ Ef þú gætir einu sinni hætt að angra mig svona með endalausum ástarjátningum og rauðum rósum þá myndi ég kannski íhuga að elska þig ] [ Andi manna oft er rýr og yndi við neglur skorið. En allir finna hvað að þeim snýr, eða fyrir þá borið. ] [ Það tekur víst meðal manneskju fimm ár að skipuleggja fullkomna strípu innkomnu á knattspyrnuleik. ] [ Sundskýlurnar sem sundlaugarnar lána eru aðeins hafðar í þeim tilgangi að starfsmenn þeirra geti hlegið í vinnunni. ] [ Örninn burt úr hreiðri floginn. Meinið þig rændi, yndislegi frændi. ] [ ef ég ætti að lýsa því þá myndi ég segja að það væri langt langt í burtu fyrir neðan í tóminu það er eins og lítil hnefi sem er kreistur þéttingsfast andlit og mikið af tilfinningum sem blossa upp þegar ég loka augunum ...samt bara stundum ég held þetta sé sjálfið í mér að láta vita af sér ] [ fojj sagði hann og hrækti á gráa stéttina þú ert með útstæð augu og auk þess hefur mér alltaf líkað illa við örvhenta ég hélt áfram að tosa í tígóið og blikkaði augunum á ógnarhraða svo tárin myndu þorna fyrr fojj sagði hann og hrækti á gráa gangstéttina ] [ Hann er frægur fyrir lúkkið, hann er frægur fyrir á réttum stað á réttum tíma Fólk vitnar í \"oneline-era\" hans og finnst það töff. Hann er sólbrúnn og seiðandi. Hann er frægur fyrir að sýna sig og sjá aðra... Hann er frægur fyrir ekki neitt ] [ Hennar andlit er litað með maska, munnur rauður er glitrandi skær og hún sýnist falleg í fjarska, en ferleg ef kemurðu nær. ] [ Pussi og Tulla pissa í kross gera horkúlur með nefinu og hlægja út í loftið að engu ] [ Nú atómljóðin upp í stórum stöflum stöðugt hrannast, óháð rúmi og tíma. Þótt braglaus séu bærileg á köflum ég betur kann við ljóð sem stuðla og ríma. ] [ Gas!! Gas!! Ekkert helvítis þras! þras!! ] [ Ég er með svo græna fingur að ég get örugglega komið afleggjara til af mér áður en ég dey. ] [ Yndislegt er oft að vori, þá óðast fer lífið á stjá og allt ber angan af þori og engan sér fölva á brá. ] [ Viljirðu líta á ljóðin mín, ljóðlistin er ei fjarri. Þar vantar oft ég geri grín, en gá að: ljod.is/svarri ] [ fjöllin renna saman við vatnið svo fögur móta jörðina ég ligg hér í myrkri horfi á fjöllin svört lít upp, á stjörnurnar sem lýsa upp nóttina lít inn í núið það virðist allt svo snúið tárin renna sálin er að brenna það er langt síðan þú varst hér einn með mér. ] [ dagarnir liðu og krakkarnir biðu loksins rann upp sá dagur svo bjartur og fagur er þau lögðu af stað þau vissu að öllu leiti hvert ferðinni var heitið því í Botni var svo gaman þegar þau voru síðast saman og nú komin í annað sinn á uppáhalds staðinn minn þetta er rosagóð aðstaða því í potti er gaman að vaða allir troðast inn með ipodinn sinn stinga i samband og hækka þar til heirist í annað land fara út að leika með fallega boltann bleika vöknuðu snemma þótt þau vöktu fram á nótt eina sem skiptir máli er að þau höfðu gaman í annað sinn þarna saman ] [ hver, djöfullinn? fann ég hann í fjöru liggur einsamall búinn að brenna allar brýr enda frá helvíti kominn. ] [ Hann Rebbi kemur í september. Lágfóta hún bíður. Hann elskar ber hann elskar ber, hann elskar að lifa og leika sér Hún grætur er hann fer. Hún elskar hann,hún elskar hann. Lágfóta elskar Melrakkann. Frjáls einn dag,einn einasta dag. Það fer sem fer. því er ver. Við gerum það sem okkur þykir gaman. aðeins einn dag saman. ] [ Af engu lærði ég ekki neitt Af blaðinu lærði ég eitt Af bókinni lærði ég meira Af tölvunni ennþá fleira En af lífinu lærði ég það sem enginn hefur skrifað á blað Með því að treysta einum lærist að aldrei skal treysta neinum ] [ Lífsins englar allir farnir ætli Guð mér standi hjá? Samningar og sáttmálarnir samtals hálfri milljón ná. Verri en diffur, verri en tegur verri en allt sem talað er Þjóðaréttur rosalegur reginkúkur þykir mér. Heimalærdómshöfuðborgir hafna mér og bægja frá. Skyldu drykkir deyfa sorgir? Drottinn, leyf mér prófi að ná. Svartsýnin er sannur djöfull sjálfan mig með henni kvel. En elsku drottinn Guð er gjöfull gefðu að mér farnist vel. Feiknarmyrkur færist yfir finn hve myndast svitakóf. En vonarneisti lítill lifir nú les ég þar til byrjar próf. ] [ Á vorbjartri nóttu þú nærðist á frið vogurinn færði þér himnanna svið, læddist svo kátur um klettanna skjól, kyrrðin hún speglaðist á álfahól. Hann gladdi þig ávalt og gaf þér svo margt, geystist um hugann og allt var svo bjart. Leiddi þig áfram um æskunnar land Umvafinn ljóma, sjó og sand. Þótt hverfirðu á braut hann horfir til þín með hugsun til baka í hjartanu skín Tindurinn sagði mér, treystu á þann sem færði þér tímann, fóstraði og ann. ] [ Upp hann sig byrgði með brennivín, bjartsýnn en áhrifin villtu sýn, fékk sér í nefið, fataðist skrefið og ráfandi ratar ei heim til sín. Einar og Ásgeir Hreiðarsson ] [ Rétt ég vona að fjölin fljóti, falleg ekki er veðurspá. Ýmsir farast í ölduróti og enginn til að segja frá. Ég vil setja á bílinn bensín og bruna svo af stað. Með bjórkassa og brennivín, að berast ljúft í hlað. ] [ Líf hans er fagurt en lukkan hjóm, lundin glaðvær þó buddan sé tóm, heiðin brött og heimferðin ströng, heyrist í klettum bergmál af söng. Feginn lítur hann fram af hæðinni, finnur sig þurfa að kasta mæðinni, en til brúðar, berast hratt á fund. Bráðafeigð kallar þá:,,Lokastund\"! ] [ inní mér er ljós sem aðeins ég get séð. Og allir reyna að sjá það en bara ég get séð. ] [ úti er sól en hjá mér er myrkur Þar sem ég sest verður aldrei bjart hjá mér er kuldi og ekkert líf aðeins þetta myrkur. ] [ þú talar til þess að særa og þá kemur myrkur yfir þig og þú verður kaldur og þú nærð myrkrinu aldrei af þér. ] [ Lífið snýst einungis um ást allir sem henni ekki kynnast þjást tilfinningar eru allt það sem við erum og þær spila inní hvað svo sem við gerum flestir hafa upplifað þessa kvöl að missa stelpuna án nokkurra kosta og völ fynna hverning allt sálarlíf þitt er niður brotið og þú vildir óska þess að þú gætir þig skotið svo þegar að þú hélst að það gæti ekki orðið verra þá fréttir þú að ástin þín er í örmum annars herra þú verður viti þínu fjær og hugsar um hluti sem eru engu viti nær hótanir, líkamsmeiðingar og morð eru hlutir sem þú skallt aldrei láta það fara út í meira en orð þó svo byrgði þinni virðist aldrei ætla að létta þá skalltu muna þú átt að lifa fyrir meira en þetta lífið heldur áfram trúðu mér það kemur nýr dagur eftir þennann og hann er ætlaður þér. ] [ orðin eru orðin svo mörg og gjörðir gerðar. allt virðist ekkert svo víða og tómleikafullt Sárt svíður hið eina rétta er það rétta hið eina? Ef allt er klappað og klárt vandast málið einfaldlega Höfuðið fullt af svörum við einhverju öðru orðin eru orðin að spurningum enginn svarar ég læt hringja út ] [ Verður þú aldrei tilbúin/n sð tala við mig? Rennur reiðin aldrei af þér? verður fyrirgefning aldrei til staðar? hvað það sem þú ert hræd/dur við? ] [ Hefur mat og listir í sinn sarp, sér oft á honum tópaksmotta og auðvelt er fyrir göngugarp, að ganga þangað vegarspotta. ] [ Dagar og ár líða og þú veist ekki eftir hverju þú ert að bíða. Það er svo margt sem liggur á þínu hjarta en þú ert svo langt í burtu frá ljósinu bjarta. Innantómur og hugarlaus framtíð þín hún fraus. Þetta tímabil virðist aldrei ætla að enda og hvernar þú myndir á jörðinni aftur lenda. það sem þú áttar þig ekki á að þú ert búinn að missa allt það besta sem þú ert búinn að fá. Ég missti það sem var mér kærast ég sé það nú því í myrkrinu skýn ljósið skærast. ] [ Þar vantar ei veitingar né almennilegheit, en vandamál skapast er gengur þú fjær, því þá ertu mesta kvikindi sem það veit, og þaðan af verri frá hvirfli on´í tær. ] [ Það er eins og gamall sjómaður, sem fékk allt í einu þá firru, hann í bátnum þurfti ekki lengur, að halda fyrir kyrru. Það er kyrrlátur sjór og maður, þegar fæturnir snerta flötinn, og eftir stendur báturinn og fötin, í veruleikanum. ] [ Mikið andskoti er Ólafur seigur, Evrópumeistari, nú þriðja sinn. Hann skoraði sem skrattinn ódeigur, skellti boltanum tólf sinnum inn. ] [ Þú kveikir í mér Notar mig í nokkur unaðsleg andartök Síðan hendirðu mér út um gluggann Með sígarettustubbunum ] [ appelsínur í rauðum stígvélum sem skella í pollum. bros og tíu tár sem falla ofurhægt niður á gráa gangstéttina. ást og hlýja í bland við almennt hatur. hún skoppast eftir veginum, hóstar smá, heldur svo áfram. eyrun standa út undan húfunni og brosa í átt að sólu. einsog álfur eða kálfur sem er nýsloppinn út í sumarið. ákvörðun hefur verið tekin. appelsínurnar skulu étnar upp til agna og tárin sleikt af rjóðum kinnunum. ástin yfirgnæfð af hatri. hún dregin eftir veginum, hóstinn kæfður niður og eyrunum troðið undir húfuna. hún skal fullorðnast og það strax. --- eiginmaður óskast ásamt appelsínum til átu. mynd fylgi með. einkamál. flugvélar hrapa og fánar eru dregnir í hálfa stöng. flókið líf, fullt af hatri og grimmd. engin svör, tómur póstkassi. ] [ þú mátt ekki yfirgefa mig! -þó svo að ég hafi sagt að mamma þín væri eins og jólatré og að pabbi þinn væri í raun pabbi minn og ég pabbi þinn p.s. ég elska þig ] [ ég er með kusk í naflanum sem minnir mig á þig svona lítið og hringlótt doldið loðið og ekki laust við að ég komi auga á spékoppa ég skírði það Jóa veit samt alveg að þú heitir Jóhann ég var bara eitthvað utan við mig... ] [ hún stóð í fataklefanum lítil og rauðhærð með þrjár freknur öðru megin við horfðumst í augu í dágóða stund svo gekk hún til mín hægt hægt eins og hægt er hvíslaði í eyrað mitt að mamma sín borðaði kúk ] [ Sem betur fer eru ekki allir eins, enda gæti það hæglega verið til meins. Einn er hár, annar er lár og hvernig var þá allt liðið hans Sveins? ] [ Nú er sumarið komið, horfinn burtu vetur. Enginn hangir inni í tölvunni, allir fara út að leika. Grasið byrjað að grænka, allir út í fótbolta. Veturinn liðinn og sumarið komið, enginn nennir að hanga inni. ] [ I will never be afraid again I will keep on fighting till the end. I can walk on water, I can fly. I will keep on fighting till I die. I will always be brave, that\'s right. I will never be afraid at night. I\'ll do everything I want to do. There\'s just nothing I can\'t do. I will never be afraid again. I will keep on fighting till the end. I can walk on water, I can fly. I will keep on fighting till I die. ] [ Ljóð er rofin þögn síðbúinn koss sem heldur fyrir þér vöku í myrkrinu. ] [ Gremjan mörgum glepur sýn og gerðu því að minni bón, að reyna frekar að gera grín, en grenja og láta eins og flón. ] [ Það tæki mig eilífðar tíma að taka saman lítið ljóð að yrkja ástinni minni óð að ég tali ekki um, þá ég þyrfti að ríma það með stuðlum og höfuðstaf því Guð þá gáfu mér ekki gaf betur mér bæri að tjá henni ást mína í síma það virkaði betur og tæki mig engan tíma. ] [ Solla talar vel í Sjónvarpið, Samfylkingu vill reista, en hálsar góðir haldið þið að henni sé að treysta? ] [ Þýðing mín á ljóðinu \"Like a rolling stone\". Einu sinni varstu rík og varst klædd sem lík Gafst fátækum flík og þeim sem þú taldir frík, var ekki svo? Fólk hrópaði, sagði:,,Gæskan, passaðu þig, þér er ætlað að há séu Þín föll. Þú áleyst þessi köll vera spaug. Þú varst vön að hlægja að því Fólki Sem var ekki VIP Nú talarðu ekki svo hátt Og virðist ekki svo sátt Að þurfa að skrapa saman fyrir því sem þú þarft. Hvernig er það? Hvernig er það að sofa ekki á sama stað og í gær að vera engum kær Líkt og flökkumær. Og þú fékkst hina bestu menntun það er saga segin ,er ekki svo, fröken Einmanna? En viti menn þú varðst heilaþvegin. Og engin kenndi þér að lifa á götunni Og nú verðurðu að venjast því. Þú sagðist aldrei ætla málamiðlun að gera Við umreninginn en nú sérðu að hann er ekki að bera Neinar auðveldar lausnir Og þú nú sérð hvað er um að vera og spyrð Viltu semja? Hvernig er það? Hvernig er það Að enginn hjálpað þér fær að sofa ekki á sama stað og í gær að vera engum kær Líkt og flökkumær. Og þú snérir þér aldrei við til að sjá þetta lið sem er eins og við. Þau reyndu öll að einbeita sér að því að skemmta þér. Þú skildir aldrei hví það er ekkert vit í því Að láta aðra vinna skítaverkin. Og þú þóttist alltaf leika einhvern Hróa hött Og varst alltaf með diplómatinum sem átti síamskött. Var ekki erfitt að hafa hann ekki þar Hafa hann ekki til staðar Þegar hann hafði tekið allt frá þér. Hvernig er það? Hvernig er það Að enginn hjálpað þér fær að sofa ekki á sama stað og í gær að vera engum kær Líkt og flökkumær. Prinsessa í neyð og allt fína fólkið á sinni leið Slugsa aðeins og hugsa ég hef meikað það. Skiptast á allskonar pökkum og þökkum. En þú hefðir átt að taka demantshringinn þinn Og veðsetja hann elskan. Þá fannst þér það svo hlálegt Hvernig þeir yljuðu sér við bálið og notuðu tungumálið. Farðu nú, hann kallar, þú þorir ekki að neita. Þegar eitthvað er horfið þá er tilgangslaust að leita. Þú ert ósýnileg nú, þú hefur ekkert að fela. ] [ Hvers vegna enda ég alltaf ein í myrkvuðu rúmi hvernig finnst þér ég vera í þessu húmi hvert fara þessir hvítu vindar hvar eru þessir hæðstu tindar hér er hljótt og ekkert um að vera já ég er einmannaleg vera Það er enginn hér nema ég Annarsstaðar er líf og fjör þar kviknar fljótt ást og böl er mér ætlað að vera hér á flótta undan sjálfum mér hvernig endar þessi ferð ] [ Ég er svo hrædd við ást þína ég get ekki treyst þér mig langar að segja þér leyndadóma mína þú færð ekki strax játningu frá mér eða er kannski einhver önnur kannski ertu búin að finna þína einu sönnu segðu mér stund og stað segðu mér hvað er að segðu mér hvað þú leynir þá skal ég segja þér hvað mig dreymir þér er óhætt, segðu mér hvað býr í brjósti þér ] [ Hún sat á furubekk með yfirgefið hjarta Sólin skein á hvíta andlitið hennar bjarta beið hún eftir sínum Bjarka Hún var alein og þurfti að þjást og hugsaði skildi þetta vera sönn ást. Tíminn leið og vorið kom Tárin streymdu niður vanga hennar Hann á sérstakan stað í hjarta hennar hennar von kom ] [ Ég er búin að segja þér að ég hef ekkert að fela nei, ég er ekki að hitta neina aðra dela traust er það mikilvægasta sem til er þó að ég sé að ljúga að þér. Ertu upptekin á mánudaginn, því ég er það nei, ég er búin að segja þér að ég hef ekkert að fela en eitt veistu ekki, að ég er að stela Ást þinni og hvað með það ] [ Á næturnar fer ég í mína vinnu \"hvað var þetta í herberginu hennar tinnu...\" í gömlum ruggustól það marrar í verur sem eiga hvergi heima koma til mín ég svitna við hræðslu og ótta ég tek af rás og fer á flótta undan draug sem mig ætlar að skaða nei, þetta er bara gamla konan sem ég lofaði að baða ] [ Hæ ég er að reyna finna hann Binna ég fór á google og leit ég hefði nú alveg eins getað talað við geit en guð hvað hún Stína er orðin feit svo setur hún alltaf svo mikið meik ég bara skil ekki svona fólk sem drekkur of mikla mjólk Heitir kona hans Binna, já hún Anna er hún ekki algjör naðra annas frétti ég allt í gengnum hana Báru æi manstu ekki eftir systur hannar Láru sem sváfu alltaf naktar ég hef aldrei séð eins þvílíka takta og þegar strákarnir kysstu þær systur þá gjörsamlega þær allt misstu hvað með hana Sif sem rekur endarlaust við var hún ekki gift smið ] [ Hér orðin eru bundin þétt í bögu þótt bærilegra sé að tala um ljóð. Nú ætla ég að segja stutta sögu af sómamanni nokkrum - hafið hljóð! Hann er ekki öðrum mönnum líkur og ofurlítið þver og sérvitur. En hann er alveg ofboðslega ríkur; á örugglega meira en Björgólfur. Hann á marga milljarða af krónum og margar á hann einkaþoturnar. Og Hondúras og helminginn af sjónum og heimskautin og mörgæsirnar þar. Og Skógarfoss og skrilljón boltapumpur og skyndibitastaði 57. Og konungshöll í Kú-úala Lumpur og kínverja frá 2002. Og heimsálfur á Satúrnus og Neptún. og nætúrklúbb í Los Angeles-borg. og bílasölu og kardemommukauptún og hvítabjörn og himneskt friðartorg. Og úðabrúsa og táragas og trégas og tundurdufl og jólasveinahatt. Og eiginhandaráritun frá Megas og engan borgar hann af þessu skatt. Hann á dýragarð og geimflaug líka og gulllitaðan limmósínu-Benz. Flestir karlmenn kalla hann Jenna ríka en konur tala æ um Ríka-Jens. Reyndar á hann ekki neina vini né eiginkonu trygga, nema hvað, né kærleik neinn og hvorki snót né syni. En hverjum er ekki alveg sama um það? ] [ Málarameistarinn málaði bæinn fyrir fólkið allan lið langa daginn yfir torgið hann notaði alla liti til að prýða heima hjá honum beið hún Fríða ] [ Vonin er sterkari en þráin Hún liggur þarna alveg eins og stytta Móðir mín er dáinn lík hennar fæ ég aðeins að snerta ég horfi á hana, hún andar ekki hvít að hörund og ísköld þú ert engill á annarri öld ég mun aldrei gleyma þér kveð þig með tárum mínum von um afturgjaldanfund í heimalöndum þínum ] [ Gull er falleg gyðjan ljós grær með yndisþokka fegurst allra rauða rós með rökkurtóna lokka. ] [ Feykna sögð er fríð Maísól, senn fæ að líta hana. Ég ætla að fara fram á hól og fá mér korn í rana. ] [ Skáldaðu nú upp í eyðurnar sem eru að myndast hjá hljóðlátum vörum, eyður sem engu eira hlauptu þitt maraþon talandi í símann með vaxandi líkþorn með sex strengja talanda og það þarf ekki einhvern sem engan þekkir til að sjá í gegnum þetta bros sem nær ekki í gegn og ekki hægt að hringja á sjúkrabíl skáldaðu nú upp í eyðurnar sem skildar voru eftir af þeim bræðrum Kain og Abel þegar þeir voru að þrífa blómabeðin og við, ég og þú höfum liðið fyrir síðan eltu fótspor mín sem sjást ekki á þungbúnum himni, sköpuðum af mér til að fylgjast með gjörðum þínum Og kona hleyptu heimdraganum svo ég geti skáldað upp í eyðurnar sem mér voru færðar í dag á silfurfati af ólíkum mönnum, flóttamönnum framtíðar hjartað mitt æpir á hjarta þitt Og kona æpir skrækir og þagnar síðan er vinur minn sem eittsinn var syngur fyrir mig um einmana mann á dánarbeði ég vildi ég vildi ég vildi skáldaðu fyrir mig skáldmenni upp í eyðurnar sem eru að myndast í sprungunum sem eru að lengjast fylltu uppí með hörðnuðum sjó með þéttri þoku og spurðu mig svo um dótturina sem ég á með Guði og þá þarftu ekki að skálda upp í eyðurnar skáldmennið mitt því þá skal ég syngja þér söng aftansöng aftan úr grárri forneskjunni sem ég heyrði hjá einmana manni á dánarbeði endur fyrir löngu fyrr í dag slösuðum á óravíddum þreytunnar á óravíddum þreytunnar samt sem áður, fylltu upp í eyðurnar sem ná utan um mig faðma mig hvísla að mér orðum frá aftansöng úr svartri forneskjunni og þá verður allt slétt og ég fell að fótum þér og ég skil skil skil. ] [ Má ég spyrja hvert ferðinni sé heitið og hvar þið ætlið nú að rífa upp teitið? Er það hjá tengdó eða kannske leyndó? Æ greyin, af ykkur, fréttirnar reitið. ] [ Skiptir máli að skilja ljóð? Skildi listin prump eitt vera? Hver eru slæm; hver eru góð og hverjir eiga úr að skera??? ] [ Þeim er sama , Hvort Þú Lifir Eða Deyrð. Þeim er sama , Hvort Þú Farir Eða Verður. Þeim er kannski sama , En Ekki Mér. Ég Veit Að Þú Vilt Ekki Alltaf Vera Hér. Ég Veit Að Það Eru Erfiðir Tímar. En Ég Er Hér , Ég Er Hér Fyrir Þig. ] [ Malbikið svart Titrar á hörundi þínu Hendur mínar Þreifa í nóttina Strjúka yfir brjóst þín Andardráttur þinn Eins og hvirfibylur Í sál minni Leikandi létt Skauta ég á þig Niður Upp Til hliðar og svo aftur Og aftur. Talaðu inní mig Láttu orðin skera hjarta mitt Svo þau smjúgi inn Innar innar Innst. Og fari aldrei. Ég held ég sé hrifinn af þér. Ást? veit það ekki enn Þú ert eins og kona sem hrærir deig hrærir í sál minni. hnoðar tíminn stoppar, bíðum við Deigið á eftir að hefast Stingdu mér inn í ofninn, fylgstu vel með ég vil ekki láta brenna mig. ] [ það var einu sinni stelpa bara ósköp venjuleg stelpa hún hét Geir og ræktaði grjón og gulrætur hún var alveg sátt við það og í raun mjög hamingjusöm hún Geir samt kveikti hún í húsinu og sprengdi sig í tætlur þannig sáði hún fræjum til frambúðar ] [ Ég þarf litlu að ljúga um það að líkist ég ei til róna, því ég er búinn að fara í bað og bursta spariskóna. ] [ Nóttin, frostið, hjarta sem slær hvernig komumst við öðru nær. Skugginn, birtan, vinur minn strjúktu mína svörtu kinn. Komdu, komdu segðu mér frá ferðinni löngu frá Hljákaá. Komdu, komdu yljaðu þér eldurinn logar, hvískrandi her. Manstu, manstu daganna þá blómkransar flutu vatninu á. Manstu, hver fagurt sungu þeir þá áður er en myrkvið dimma skall á. Stundin, myndin, farin á braut loks er lokið lífsins þraut ] [ Nú ertu smiður; nú ertu stór; nú ertu til heiðurs borinn. Öll við hrópum í einum kór: ,,Allt er svo fagur á vorin”! ] [ Menn segja að það sé ekkert grín að vera svín en samt er ekki hlaupið að því að vera önd. ] [ Ég ætla mér að verða fyrsti einstaklingurinn til þess að ferðast í kringum landið á matskeið og í sundskýlu. ] [ Þegar lýsti af degi hafði vindurinn færst í aukana svo gaf á bátinn sem kominn var á miðin einskipa til að draga dár að kvótakerfi fiskifræðinganna og karlarnir komnir á dekk að stíga krappa ölduna við skyldur á hafi og við hvinin í spilinu sem másandi dró bunkuð kraftaverkanetin af dýrum leigukvótaþorskum upp af straumhörðum karganum svo greiddu þeir úr þann gula og bölvuðu í leiðinni sjávarútvegsráðherranum fyrir að trúa fiskifræðiruglinu í landkröbbunum hann ætti að vera hér í dag helvískur og sjá með eigin augum að það er alveg sama hvar trossunum er hent allstaðar er fiskur á djúpu sem grunnu og nánast býður þess að fá að festast í möskvunum því ætt´ann að afleggja kerfið sem ekkert hefur af sér gefið annað en einn allsherjar kvótablús og sunginn hefur verið tregablandinn af kvótalausum landsbyggðarmönnum án þess að ná eyrum laglausra ráðherra í þingsölum sagði vélstjórinn og blóðgaði sveittur stórþorskana enda viss´ann sem var að þrátt fyrir mokið þá væri hluturinn lítill því auðurinn væri þeirra sem seldu og leigðu kvótann svo væru þeir líka hættir að míga í saltan sjó en farnir að braska með gróðann á þurru landi og svo stæði í stjórnarskránni fyrir þann sem lesa vill að þjóðin já þú og ég ættum fiskinn í sjónum. ] [ Nú ég yrki ótt til þín er það helst í minni, þegar fyrsta fruman mín fékk að kynnast þinni. ] [ Þú berð af léttfætt í dansinum heillarðu mig. Þrá mín heim hverfur eins og dögg morgunsins, eins og geislar sólar að kveldi. Við ljóðasöng ég kveð til þín söngva, sem flæða af vörum mínum eins og öldur hafsins eins og niður við sendna strönd. Á valdi óttans við dveljum, líf okkar mun aldrei verða það sama aftur. En innst inni vitum við bæði að vonir okkar og þrár munu síðar rætast. Ég ann þér Pelagia, og í draumum mínum á ég ekkert annað en þig, en þig. ] [ Á Valhúsahæðinni er hætt að krossfesta menn, í staðinn taka verktakar og fyrirmenni sér far með Escelate og Suburban til að horfa yfir svæðið, lítið og lágt, og girnast byggingar sem hægt er að fjarlægja, fyrst í huganum svo með prettum. Svo er spáð og velt fyrir sér hvernig skal leggja málin fyrir ráðamenn til að ná sínu fram eins og til er ætlast. Hálfsannleikur dugar best þar til allan sannleikann þarf að segja, þá er örugglega orðið of seint að bakka. Fyrr en seinna er hægt að snúa deiliskipulaginu okkur í hag sem ferðumst um svæðið leitandi að ráðþrota einyrkjum og skuldseigu fólki sem á varla lengur til hnífs og skeiðar, otandi að þeim útbólgnum tékkheftum með ónotuðum erlendum myntkörfulánum. Bubbi þarf ekki lengur að óttast að þurfa aftur, aftur, aftur að vinna í Ísbirninum því hann er farinn (og Bubbi líka), Iðunn, Marbakki og fleiri sömu leið. Í staðinn rísa blokkir, helst átta hæða en þeir fá loks að hafa þær fimm. Þriggja herbergja íbúðir eru verðlagðar til almúgans á hundrað milljónir, svo eru ráðamenn undrandi á því hvers vegna fækkar í skólum. Góðhjartaðir velgjörðarmenn eru hraktir burt með sitt (að eigin sögn) því hugdettum þeirra er hafnað (að eigin sögn). En þeir góðhjörtuðu gleyma því að þar lifa ekki lengur fáir sem hugsa smátt. Skyldi bæjarstjóranum ekki leiðast að láta krossfesta sig aftur og aftur? ] [ Ó þú yndislega nörd, þú yndislega sveitta nörd sem situr í aldargamalli Íþöku með latneska lestrarbók. Þú sérð mig ekki sitjandi í horninu, sitjandi í horninu við gluggann þó að augu mín fylgist meira með þér en öllu öðru þú veist það ekki ennþá en ég skil þig eins og andtákni á t-RNA skilur tákna á m-RNA ] [ Ég hef ýmislegt að sýna þér ef þú átt mínútu aflögu og er ég þá ekki að tala um nakinn líkama eða hershöfðingja ælandi út úr sér orðum skömmum og fyrirskipunum, ég gæti sagt þér frá og sýnt þér þá sem hafa verið í bandinu hans Leonards Cohen, ég gæti gefið þér blóm sem ætluð voru Hitler þú sem aldrei hefur reynt að búa ein þú sem aldrei getur gleymt þú sem ert með fólk í örmum þér viltu sjá alla útsýnisturnana mína viltu sjá alla þá blessun sem í boði er eða viltu sjá gröf móður þinnar ef ég rata þangað enn þúsundir smámynda af stórmennum hef ég í handraðanum ef þú átt mínútu aflögu ég úti að aka ég með öllum Hansenum veraldar ég að rífa í mig sjálfstæðið og jafnvel mynd af okkur á lægsta punkti veraldar ég get gefið þér mínútu af mínum tíma því ég hef verið ótrúr og ég hef logið og ég hef betlað og grátbeðið og drukkið með keisurum dansað með fuglum og séð menn fljúga réttu út hönd þína og gríptu augnablikið nei gríptu eina mínútu sjáðu betlarann með rauða krossinn á enninu og biddu mig svo um meira á meðan ég er svona meyr einn í nóttinni að reyna að vera frjáls. ] [ You make me smile, and forget for awhile, everything else but you. ] [ Það var svo gott þig að kyssa að ekki ég vil þig missa en ég yrði ekki hissa því þetta var risa stór skyssa. ] [ blikkandi ljós gul, rauð, græn og útfjólublá, dyndjandi tónlist, sem enginn skilur, en allir dansa við taktur sem grípur en texti sem særir eyru þeirra sem virkilega hlusta en maður gleymir hvort sem er að hlusta því takturinn er svo grípandi. ] [ Niðdimm nóttin teygir langar krumlur sínar yfir þorpið og grípur þar fjölda manns. Eftir stendur fólkið í logandi frosnum eldi kalið, hélað á líkama og sál. ] [ Auðnuleysi og ólán ber engum tryggur vinstri maður. Fylgið drepur fljótt af sér, flýgur til hægri mislukkaður. Það er ljóst, á þennan hátt, sem þegin er sérhver dúsan. Svo draga þeir ríkum fjandi flátt og fólkið borgar brúsann. Arðrán dýrkar ólánsvé, ill gerist þörf að slíkum. Að ljúga þótt öllum ljóst það sé er ljóður á valdaklíkum. ] [ Svo ung og svo falleg ertu kannski að plata mig ég sem gæti alveg viljað þig. Ertu kannski tuttuguogeins og konan hans Sveins, nei ekki blanda mér í það sem ekki er mér í hag ég kann ekki við það. ] [ Líður þér eitthvað illa alltaf að skjóta á mig þú býrð í alltof þröngu húsi og alltaf að hugsa um mig stækkaðu húsið þitt og láttu mig vera. ] [ Það er eins með þig og aðra kalla þið fáið allir skalla og brátt muntu sjá að það er ekkert að fá svo hættu að kvarta. ] [ Þú felur þitt hjarta þú gætir átt framtíð svo bjarta láttu nú ljós þitt skína og það mun verða allt í þessu fína og ég mun þér sýna að þú getur látið ljós þitt skína. Ég veit að það er við margt að glíma en þú mátt ekki sjálfum þér tína. ] [ Viltu stíga viltann dans þú veist samt að ég verð hans en samt ég mun falla í trans í þessum vilta dans þegar ég fer til baka er ekki við mig að saka ég sagði að ég væri hans. ] [ Það er sárt að sakna einhvers... Það er sárt að vera án bestu vina sinna... Það er sárt að vinir manns eru langt í burtu... Það er sárt að vera einn... Það er erfitt að standa einn, á móti öllum öðrum... Sem baktala mann í bak og fyrir... Það er sárt að elska einhvern, sem elskar mann ekki á móti... Það er sárt að sakna einhvers, sem saknar manns ekki á móti... Meðan ég hljóma eins og versti þunglyndissjúklingur og enginn hlustar. Því miður er þetta sannleikurinn... og hvar eru svo allir þegar maður þarf á þeim að halda... ] [ Eðlið þykir mest til meins, menningin vill það plaga. En kenndir flestra eru eins og erfitt sér vel að haga. ] [ Ríkisstjórnin ákvað að kaupa tíu tigrisdýr frá Tasmaníu þar sem fjöldi þeirra býr. Og sleppa þeim öllum á stræti þessa lands og stórauka þannig afköst hins vinnandi manns. Þá féllu fyrstir venjulegir verkamenn, er vöknuðu snemma og syfjaðir enn . En ökumenn jeppa með ofur dekk undan komust allir með vondan skrekk. Öryrkjar og aðrir sem yfir fóru á lítilli ferð urðu líka fyrir barðinu af þessari gerð. Víkingasveitin var kölluð út eins og skot því allir sáu að málið var komið í þrot. En með aflbyssum þeirra féll enginn í rot óargadýr falla ekki við rafmagnsbyssuskot. Því var í forsetann hringt hann Buch við ”lunch” “I hear you my friends I will send you better guns “ ] [ Ég er ótti, ég er eymd, ég er sársauki, ég er þjáning, ég er hræðsla, ég er svik, ég er kvöl, ég er lygar, ég er illska, ég er ljótleiki, ég er hatur, ég er grátur, ég er girnd, ég er losti, ég er fýsn, ég er eigingirni, ég er misnotkun, ég er dráp, ég er dauði, ég er plága, ég er ég. ] [ Ég tóri enn, þó að lífsmark sé lítið og læt aðra um að þykja það skrítð. Oft hef ég trítlað um tæpasta vaðið og tekist að hleypa, gæðing´ í hlaðið. Nú reyni ég helst, að yrkja eitthvað taðið og eitthvað af sögum, að festa á blaðið. ] [ Menn fá ekki alltaf bara það besta, af beggja genum þó geti það skeð, því þó maður kostina fái flesta, fylgja gallarnir jafnan með. ] [ Ólíkir straumar blandaðir hatri og ástarþrá herja á mig líkt og hvirfilbylur sé farinn á stjá afhverju er engin hugarró í mínu hjarta ég fyllist leiði og byrja umhverfið allt að sverta fatta ekki að það er sálin sem er að svelta angist og örvænting nú fyllist ég bræði Þol mitt og styrk ég grátandi kæfi afturábak og áfram þjóta hlæjandi minningar og hugurinn ey sættir sig við að þær eru einungis til sýningar ég teygi mig og reyni að strjúka andlit þitt þetta fallega bros þitt var eitt sinn mitt augun þín voru mín augun sem nú eru hætt að glitra og skildu mig eftir í polli að titra ] [ Íslensk sól á sumardegi. Landinn ærist úr gleði og hleypur í hringi líkt og hauslausar hænur. En bölva svo og ragna þegar þeir brenna í andlitinu og enda með sólgleraugnafar og freknur á stærð við lambaspörð. Hvað er það með íslendinga og tryllast yfir smá sólarglætu. ] [ Hugur minn reikar hringinn í kringum hjarta mitt nemur ekki staðar nema rétt til að gefa því kjaftshögg blóðið hoppar af stað og nístir sál mína smátt og smátt losa ég um eymdina með því að læðast skömmustulega út um augnkrókana síga hljóðlega niður vangann og gufa upp ] [ Nú er lag! Hvar í heitasta helvíti er ég? Svo held ég að ég sé að fá slag. Frábært! Alveg fullkomið. Hvar kveiki ég ljósið? Ég sé ekki rassgat lyktin er eins og ég sé komin í fjósið, svo man ég ekki neitt. Hvernig í fjandanum komst ég hingað? Fokk! Ég er hættur að drekka. ] [ Ó ó ó Það er komið eins og lóan dirrindí. Ó ó ó Sumar. ] [ Það að hugsa um það, er eitt þá finn ég sálina iða í skinninu. finn ég hvernig hún skelfur dauflega en það er annað að njóta þess tveir líkamar áður en þeir snertast rafmagnað andrúmsloft titringur og há spenna - snerting að finna húð þína mjúka bera með fingurgómunum kossarnir brenna varirnar mjúkar að finna ástina í hreyfingunum andardráttinn á hálsinum og vita að þú ert minn þó ekki nema á þessari stundu. Þetta, er eitt form ástar - and I like it. ] [ Reynist mér erfitt, um ást mín’að rita blanda henni saman við fegurstu mál, upp magnast stressið, færandi svita ég reyni og reyni með hjarta og sál. Fyrir mér aðeins draumur þú ert kvíði ég fyrir að vakna, snerta þinn vanga og holdið bert alla ævi og lengur mun sakna. Líf okkar þakið er rauðum rósum sem þó eiga til með að stinga, stutt er í tárin, oft sorgina kjósum þá verð ég hjá þér, Ó fyrirgef mér. Ó elsku ástin mín, þú ert sko toppurinn kynþokka berð fullum hita, fallegu varirnar, flottasti kroppurinn ég gráðugur er í einn bita. Mín orð eru sögð, og skrifuð í bók þú veist hvar mig er að finna, ég elska þig mest, það er ekkert djók þig vildi ég á það minna. <3 frá lygnu hyldýpinu hljóðlaus niður niður til jarðar
O
flýtur milli hafs og himins áður en hann leggst aðframkominn í þangið
] [ Flýtur Geir sofandi að feigðarósi núna? Flýr þjóðin undan honum í betra land? Hann er nú búinn að blóðmjólka kúna og býður í staðin aðeins saur og hland. ,,Nú ríður mest á að missa ekki trúna”, mælir síðan forsætisráðherrann grand! ] [ ****************************************************** ****************************************************** ****************************************************** ****************************************************** ****************************************************** ****************************************************** ****************************************************** ****************************************************** ****** ****** ******                 ******                                 ****** *** *** **** * * * ** * * * * ... ef snjór væri symmetrískur... ] [ walking around the street the tears in my eyes are turning into ice im tired of all these lies the cold october night you broke up with me why do we fight? i can see the snow i can see the footsteps and the shadows in the lights all around me what happened to the people? i love you how can we still be friends? walking on the frozen street i look at the other side i can see the shadow of a man across the street there is a man selling weed i feel so cold inside the snow actually feels hot i feel so dark inside that the black night seems bright i feel so empty inside that the empty street feels so full full of memories floating all around me full of shadows shadows of the people i have to try that weed there is noone there only shadows im all alone i dont stop walking until i get to the crossroads i stop on the frozen street i feel so warm on my feets in this world there are too many choices i only know one of these roads and i dont wanna look back i dont wanna look forward i dont think i wanna go the right way so i turn left i see a tall building i walk up the stairs on top of the roof i look down i have to become one of them one of the shadows ] [ Ég opnaði hjarta mitt. Þú gekkst um á skítugum skónum þar inni. En mér var sama því ég hélt þú ætlaðir að eiga það. Þú litaðist um. Svo hristir þú hausinn og skelltir hjartanu saman, þannig það brotnaði í þúsund bita. Nú situr hjartað mitt aleitt. Og veit að það mun aldrei finna eitthvern eins og þig. ] [ Ég vil ekki róa mig. Ég vil bara gráta. Leyfðu mér að vera ein. Ég vil bara gráta. Ég vaknaði einn morgun. Mig dreymt hafði um þig. Hugur fullur sorgum. Því þig dreymdi ekki um mig. Tárin streymdu niður. Ég vildi ekkert elska þig! Í hjarta aldrei friður!. Því þú elskaðir ekki mig. ] [ ≥≤ O ] [ mikilvægi hlutanna breytist eins og tappatogarinn á heimilinu hefur mátt reyna ] [ Leiðist við að liggja hér lengur glaum og skelli; trautt erlendur unir sér í steinlímdum helli; hugurinn einatt hvarfla fer héðan bóginn norður á, hvar þú ert við æginn blá; Hafnar sæla' ei heldur mér hjá þeim gylltu dröngum. Kalla' ég löngum, kalla' ég til þín löngum. Auðlegð dregur ekki mig Íslands til að vitja, elligar sælan yndislig er ég hugsi' að nytja; minnur þenki mans á stig, maktar von ég seinast á, hvar þú ert við æginn blá; heldur að fá að faðma þig, foldar prýdda þöngum. Kalla' ég löngum, kalla' ég til þín löngum. ] [ Ó, hvað mannvitið vaxið er! viðundur há það af sér fæðir: bókvitið helzt því flýta fer, fjöllin hamra og dustin bræðir; alheims forvirkin elli-ljót uppsteypast verða í betra mót. ] [ Heimspekin lömuð haltrar út, heldur sjóndauf og niðurlút þrammar í þessu landi; himin og stjörnur hvörgi sér, horfir einatt í gaupnir sér, jörðin er hennar andi; ég sný af því ofaná bóginn, elti plóginn undan skúrum, stundum ég sofna með drauma dúrum. Margbreytin vofa birtast kann, breytilig sýnist náttúran vera í vöku' og svefni; en ég vil hafa fátt um flest, fjölhæfni trúi' ég auglýsist hennar í hvörju efni; ég finn um sinn hæsta dýr í heimi býr, sem heitir Maður, mörg er þess athöfn og merkistaður. ] [ Margur spyr nú mig að því, - mér er að versna kvefið; - geturðu ekki gefið mér í, góði vinur, nefið? Aftur svara eg þessu þá: þó að versni kvefið, ég get þér bara gefið á, góði vinur, nefið. ] [ Ég hugsa til þín þegar lognið er, gleðst yfir öllum þínum sigrum sem gefur mér, kraft, kjark og þor til að takast á við lífsins spor. Ég hugsa til þín þegar vindur blæs og sendi þér mína hlýju strauma sem eiga að umvefja þig hvern dag með sólargeislum mínum þér til handa. Ég hugsa til þín á hverum degi hvort sem lognið er eða vindur blæs því ég finn fyrir töfrasprota þínum gefa mér byr undir báða vængi. ] [ .níþ ná re gé go anah ná rubmak revH .nív atsaræk re anark rú ipordsntav revH .rúd í re llom go adnats mes ,ajtis rieÞ .rús re atsatæs nih ,adna rieþ ,uðuad rieÞ .ájs utsudnilb rieþ ,tlamag atsajýn ðih ,áj riðýþ ien ,rudlimfajg re ruksíN .trah re akújm ðih ,rutal igelgud áS .trajb atsammid ðih ,rupad re iták nniH .ðuG itívleH í ,lluföjd sídaraP Í .ðus re iláP í ,gnilæp re innugulf Í .tlak atsatieh ðih ,tsualttám agulfö ðiH .tlla re trekke go tsattél re atsgnyþ ðiH ] [ Bráðum tekur bjartan dag að lengja og blossar gjarnan hin og þessi þrá upp í hjörtum ungra telpna og drengja og alls kyns kenndir fara brátt á stjá. Bráðum tekur snjóinn líka að leysa svo loksins fer að sjást í græna jörð. Já, brátt mun sólin sumar endurreisa og sætum geislum varpa um dal og fjörð. Nú ljómar bráðum sól á sumarkvöldum og söngvar vorsins efla allan þrótt. Nú myndast bráðum vor úr vetri köldum og varpar hlýjum yl á bjarta nótt. ] [ Fljúga norðan fálki og gæs, flöktir hrafn að ránum; kuldastormur bitur blæs, blöðin fjúka af trjánum. ] [ Fyrir hvern fer ég að yrkja? Fólkið það langar í bita; þess vegna þríf ég nú pennann, það mega stórskáldin vita. Þegar ég þreyttur og hrakinn þvælist í bólið á kveldin, dreymir mig kolsvarta djöfla, sem dansa í kringum eldinn. Svipillir, svínfættir árar sveiflast um loftið í hringa; fullir af fítons anda, með forkum þeir allir mig stinga. Horaðir, hálfbrunnir skrokkar hausana glottandi skóku. Ég þekkti þar bindindisböðla, sem bjórinn frá okkur tóku. Ég hrekk upp og veit þá með vissu, að víst hefur einhver mig stungið; því tjaldið er fullt af flögðum á flugi - og þá er nú sungið! ] [ Mér líður ekki illa og ekki heldur vel, því ævin er á þrotum og ekki gull í skel. Ég hef ei auðinn elskað og aldrei til þess fann; ég er í ætt við soninn, en ekki hinn ríka mann. En best er orð að efna, þótt engan hafi dal; og byrja bók að skrifa með bara skal, ég skal! Því fyrir frægð og heiður ég framtíð mína sel. Mér líður ekki illa og ekki heldur vel. ] [ Mín eru ljóð ei merkileg, mínir kæru vinir! En oft og tíðum yrki ég öðruvísi en hinir. Veit ég ljóðin varla mín verða kviðfyllandi; og kannske þjóðin kostafín kalli þau siðspillandi. ] [ Við fiðlu braga svo fiktinn, ég fer nú að yrkja stöku um hánótt, því helvítis gigtin heldur fyrir mér vöku. Farinn er fótur að stirðna, furðað mig getur það eigi; býsna oft búinn að spyrna við broddum á lífsins vegi. Þeir, sem að táknunum trúa, - svo trúaða marka ég þekki - halda við förum að fljúga, og fæturna brúkum þá ekki. En þó að ég breytingu þrái - því má nú hamingjan ráða, ég kvíði svo fyrir ég fái fluggigt í vængina báða. ] [ Minning þín er mér ei gleymd, -- mína sál þú gladdir; -- innst í hjarta hún er geymd, -- þú heilsaðir mér og kvaddir. --- Geisli fæddist, geisli dó, gaus upp ástarblossi, hjartað enga hafði ró, hratt í veiku brjósti sló. -- Hún heilsaði mér með handabandi' og kossi. Hugurinn oft hjá henni er heima á Ísalandi. Svefnlaus dæmdur sit ég hér, sorgin veika hjartað sker. -- Hún kvaddi mig með kossi' og handabandi. ] [ Þú móðurtungan mæra, sem mér er hjartakær! Ég man það máske betur en margt, sem skeði í gær, hið fyrsta af öllum orðum, er orð ég mynda fór, var orð, sem aldrei gleymi, en orðið það var: Bjór. Svo flúði ég feðra grundu, mér fannst þar allt of þurt; að leita fjár og frama ég fullur sigldi burt. Af hafi hingað komnum mér heimur birtist nýr; þá lærði ég orð í ensku, en orðið það var: „Beer“. Og fyrr en fjandann varir, ef fullur sting ég af, og dreg á kalda djúpið, í dauðans kyrrahaf. - Og hvað, sem helst að drekka í heljarsölum finn, er bjórkút best að grafa á bautasteininn minn. ] [ Forðum daga fann ég snót, þá flakk ég lagði í vana. Yrði saga ekki ljót, ef ég segði hana. ] [ Ég vil bíta og berja fast, brjóta allt og mölva; þetta vítis kuldakast kom mér til að bölva. ] [ Gulls og silfurs dyngjur stórar hef ég aldrei átt, og ekki er heldur viti til að dreifa; en feginn vildi' eg hjálpa þeim, sem eiga eitthvað bágt, allt, sem mínir veiku kraftar leyfa. ] [ Barnatrú er biluð mín, burtu flúin kæti. Feginn snúa vatni í vín vildi ég nú, - ef gæti. ] [ Ég hlýt að slá við slöku í slyngri ljóðamennt. Það yrkir enginn stöku á aðeins tvö prósent. ] [ Kom til Garðar kynleg frétt: að Káinn væri dáinn. Þó var ekki þetta rétt, -- það var bara páfinn. ] [ Mitt hjarta jókst Mitt hjarta dó Í hvert skipti Sem þú komst og fórst. Því hugsa ég með mér Dag og nótt Um varir þínar Bleik sem blóm. Því án þín er ég ekkert Því án þín er ég tóm. Þú hungur mitt seðjar Með bros á vör. ] [ Rjómalitað myrkrið leikur við mig blindingsleik í ólgu hversdagsins í stillu hinna heilögu daga og við horfumst í augu þartil ég lít undan og sé hina grænu grein hverfa í hnausþykkt vel þeytt myrkrið rjómalitað myrkrið leikur við mig og hljómmikil ástin bægslast einhvernveginn áfram einbeitingarlaus eftir einhverjum vanhelgum línum sem liggja vel lagðar og vel faldar út í rjómalitann buskann rjómalitað myrkrið leikur um mig líktog dagurinn í dag væri sá síðasti í rjómalituðum veruleikanum tveir risar sem öllu vilja ráða leitast ósýnilegir við að ryðja úr vegi þessum heimum sem synda í rjómalitaðri tilveru og ef heimar verða ekki meir þá standa orð ekki lengur. ] [ Ó mín elskaða þjakaða þjóð á þolrifin ógnin reynir. Útrásin lygunum leynir Lofaða þjóð. Hugprúða þrautreynda þjóð þjökuð af kreppunnar ótta. verkamenn farnir á flótta. Friðsama þjóð. Framsæknu halir og fljóð fram skulum óttalaus halda. Á Ísalands klakanum kalda. Kærleikans þjóð. ] [ Hún þráði ekkert nema brund, og var hvorki ljúf né blíð Hún rotnar nú í svartri grund, Ég endað\'hennar líf . ] [ Byggði Borg svo Bjarta Inní Sálu svarta Ljósið, Hennar hjarta. Jafnvel Engill, Blíður Allar sorgir líður. Nú enn í dag hún bíður, Að komi Dani fríður ] [ Um leið og þú komst undir sængina opnaðist fang þitt og ég lagðist í það vopnaður honum sem sökk þúsund faðma niður til botns í þig vel léstu þá undan þunganum og gafst mér fullkomna gleði nú dreymir mig að þú komir aftur undir sængina. ] [ Klukkan er orðin margt ég er búin að bíða eftir þér svo lengi Það er bara 23.október samt er komið frost mér er samt ekki kallt því þú liggur þétt mér við hlið og heldur utanum mig Ég finn tilfinningarnar allar í einni flækju lostann sem fylgir áhættunni að vera saman bara þessa einu nótt Mér er alveg sama að henni sé sama öll mín rökhugsun hvarf þegar þú brostir til mín Einn koss i senn þú kyssir á mér hálsinn andlitið, varirnar og líkamann þú ert svo þæginlegur svo skilningsríkur svo rólegur svo heillandi en svo ferðu heim ] [ Ég veit að þú munt biðja mig um að gefast ekki upp og halda áfram eins og ekkert sé að en það er enginn tími fyrir lygar því ég sé sólsetur nú þegar í augum þínum ] [ Til eru meira en milljón ljóð. Mörg eru jafnvel fjári góð. En eitt er víst, já eins og sést: Aðeins þetta ljóð er best. ] [ Vesæll og veikburða sat hann Vansæll gamall kall. Hjúkkurnar þurftu að mata hann. Í vesælum tönnum hans small. Á elliheimili sat hann. Starði útum gluggann hvern dag. Hjúkkurnar þurftu að mata hann. Hann sat þar og sönglaði lag. Á dánarbeði, sá maður, sönglaði enn þetta lag. Það kemur kannski sá dagur, að þér auðnist það myndarfag. ] [ Ef ég hefði verið Afródíta frá Knidos hefði ég líka látið mig hverfa. Sökkt mér í sjóinn eins og Atlantis og látið þá velta því fyrir sér næstu aldirnar hvernig ég liti út. ] [ Ein er rós, eitt blóm sem býr í skugga, er bölvun hlaut og sólar nýtur eigi... Horfin ár þú sérð í sálarglugga og sorgina er fylgdi hverjum degi. Ein jarðarsál er lifir dimma daga í djúpum helli ævilangrar nætur. Á förnum vegi er hist og sögð ein saga af syndum lífs og visið blómið grætur. Þó að vindar þerri burtu tárin, þýði upp og vermi kalin hjörtu þá gáir þú í gömlu týndu árin og grefur þig í minningunum svörtu. Þannig líður tíminn, ár og aldir, um eilífðina dansa lífs á sviði allir þeir sem hafa verið valdir að verða okkur jurtunum að liði. Er sannleiksfræi er sáð í þínu hjarta því sinntu vel og nærðu á hverjum degi; sjáðu til, þá færðu framtíð bjarta, framtíð sem er helguð andans vegi. En ef þú vinur ekki heyrir kallið, ef þú freakar velur annan kósinn, þú hnjóta munt og hrapa niður fjallið, í hyldýpinu lendir einsog rósin. ] [ Böls í bóli, blindu skjóli, boða, banna, blekkinganna. Eymdar, ótta, eigin flótta, hví og hvurt? Hvert er burt? Hálfur hugur er hálfur dugur því hið sanna svar situr þar: Ertu ekki í eigin hlekki og fjötra festur? Finnst þú verstur? Innst þó ertu allra bestur. ] [ Þú sem áttir eitt sem enginn þekkti, hugarfóstur í skoti þinnar einkahirslu. Grafið niður, öllum dulið, öllum hulið, nema augum þínum. Tárum sokknum augum þínum. ] [ Í veröld minna vona, ég veit það elsku kona; þú miklar mig... Fölan prýðir fingur fagurgylltur hringur; ég þrái þig... Það að elska þig ég vil, en þú ert bara hvergi til... ] [ Barn í götu liggur, blóðið rennur... Lítil stúlka harmadauði þeim er enginn spurði dóma. Eflaust geta ástir þessar blómstrað, þó ekkert vissu orðalausir hugar um grimmd í verki þeirrar þjóðar er að þegnum sínum varnarlausum byssukjöftum beindu. Blóðið ritar sögu þeirra er skjóta niður hjörtu allra barna. Og blóðið rennur enn... ] [ Gerum fund að gleðistund, gleymum und í sárri mund. Tökum undir, lyftum lund, látum skund´um alheimssund. ] [ Sit hérna ein eftir með ástarþrá og stingandi eftirsjá Þessi bláeygði drengur er ástæðan fyrir því að þú treystir mér ekki lengur ] [ Það er svo auðvelt fóstra mín að leggja höfuðið í skaut þitt biðja um stroku biðja um þögn það er svo auðvelt fóstra mín að þrá þitt heita hjarta sem slær fyrir okkur öll að fá að hvíla við hjartarætur þínar gleyma stund og stað gleyma nóttinni gleyma deginum það er svo auðvelt fóstra mín að fá að dvelja í myrkri þínu þar sem stjörnur norðurljós og dagsljós finnast ekki þó þú eigir þetta allt fóstra mín en ég er ekki tilbúinn enn ekki tilbúinn enn en ég veit alltaf af þér fóstra mín. ] [ Einstaka nætur ég vaki og bið Fyrir öllum sem ég elska og alheimsfrið Að sorg jafnt sem hatur færist mér frá Að ótta mínum öllum sigrist ég á Ég bið fyrir styrk á erfiðum stundum Okkar gleymdu vinum sem eitt sinn við fundum Hjálpsemi allra og samheldni manna Visku og fegurð og dygðum þess sanna Ég bið fyrir heiminn og bið fyrir mig Að þú vitir að alltaf ég elska þig Með spenntar greipar á griðarstað Ég þakka Guði, fyrir að eiga þig að. ] [ Það var svo gaman þá gleðinótt Þú varst án efa heima sofandi rótt Í ríki vímu og ljósa við lifðum hratt Þar hamingjan réði ég segi það satt En fyrr en varði að mér sveið Ljósin hurfu og það yfir mig leið Meðan draumar þig báru yfir land og haf Ég meðvitund náði á mun ljótari stað Vaxandi ógleði að gömlum sið Og vessar á gólfum sem ég kannaðist við Ég fyrr var ei vöknuð en kallað var hast Í mig var gripið og ýtt niður fast Rann mér í ljós þetta níðingsumsátur Versta hljóð heims hans andstyggðar hlátur Óvelkominn djöfull sig heimakominn gerði Yfir mína sálu með illsku sinni serði Þú vaknar þá nótt með óþægilega líðan En ég hef ekki sofið rólega síðan Þeir skildu mig eftir með illskuna eina Þeir skildu mig eftir svo mikið óhreina Á endanum heim á stíginn langa Bundin í sárum sú sorgarganga Þú heilsaðir með brosandi andliti þínu Spurðir og beiðst eftir svari mínu. ] [ Ég er að reyna að vera það sem þú villt sjá ] [ Ástin heilsaði og hóf sig á brott en hímir ennþá í hugskotum og biður sér hljóðs í bréfum sem ég lýk upp þegar mér leiðist. Þá skrifa ég henni oft en sendi aldrei svar, því ég veit ekki hvar hún á heima. ] [ Eftir að hafa diffrað okkur, var ekkert eftir nema hún. Og nú er það bara hún. Og ég tegra og tegra en fæ mig aldrei inn í dæmið. ] [ Ég er steinninn í fjörunni sem aldan kastar fram og aftur en vill aldrei fara frá ströndinni. Og því lengur sem ég velkist hér því meira mun ég unna þér og heimurinn að slípa mig fyrir þig. Ég er steinninn í fjörunni sem fínpússaður fýsir í kyrrð en fær aldrei frið á föstu landi. ] [ Gæðingar snjallir skapast ei skjótt og skortur er oft á þeim talinn. En aftur á móti falla þeir fljótt, fyrir slátrarans höndum í valinn. Og það er mest það sem orða ég vil: Það er ekki lengi verið að gera þá til. ] [ Ég er sæll og glaður, verð að teljast nokkuð venjulegur maður. Fer sjaldan í sund og er alltaf á leið á fund. Er oft úr vinnu að skreppa, á auðvitað fjóra jeppa. Lifi á veislumat og fínum vinum, kreisti margt frítt úr vinum mínum. Húsið mitt er stórt sem höll og þar bergmálast öll mín köll. Er með níutíu stöðvar heima og sé hvað sjónvarp í Kína hefur að geyma.Mér leiðist allt krepputal og hef keypt mér jarðir og heilan dal. Fer í ræktina en hreyfi mig ekki, er bara á spjalli við fólk sem ég þekki.Í veskinu eru átta kreditkort, vil ekki búa við óþarfa skort. Lífið er ekki bara líf eða dauði, nenni ekki að lifa á vatni og brauði. Nenni ekki að sinna mínum börnum, hefði átt að fjárfesta í getnaðarvörnum. Sendi börnin í leikskóla og skóla, þar þurfa aðrir að hlusta á þau góla. Gef þeim rítalín og annað læknadóp, allt til að bæla niður þeirra óp. Er sama um þá sem minna mega sín, geri oftast að þeim grín. Er yfir kjörþyngd en það truflar mig ekki og blóðið í mér er hlaupið í kekki. Flýg aðeins með einkaþotum í frí, hvort sem er til Kýpur eða Malaví. Ligg flatur í sólinni og sötra minn bjór, hugsa hlæjandi heim þar sem er snjór. Ég er hógvær með lítið hjarta, nenni ekki að spara, hvað þá kvarta. Finnst frábært að standa og bíða í röð, gef konunni sílikonbrjóst, svo hún sé glöð.Bankarnir og ál eru málið, held áfram að berja stálið. Ég hef ekki tíma til að hvílast eða sofa, svík flest sem ég var búinn að lofa. Kem til dyranna eins og ég er klæddur, gleymi oft hvaða dag sonur minn er fæddur. Er afkomandi frægra manna, geri hluti sem er búið að banna. Segi útlendingum að Ísland sé besta land í heimi, þó að kreppan sé hér á sveimi. Ét sviðahausa og eistu af hrútum, tek daglega við einhvers konar mútum. Er bara stuðningsmaður landsliðsins í blíðu, það má eiga sig í stríðu. Hef ekkert á samvisku minni að geyma, framkvæmi í stað þess að láta mig dreyma. Hlusta ekki a neitt né þvaður því ég er sannkallaður íslenskur nútímamaður. ] [ Einar, tvennar, þrennar, stökur orti. Enga þeirra ég man sök sé gáfnaskorti. ] [ Erlend þjóð með kartöflu ókyngd´í koki, kramin undir kjaftaoki kafna mun í eigin sproki. ] [ Lundin er ljót sem leirugt grjót; illt er að búa á ísaslóð. Úti er allt ísjökulkalt; frýs í æðum Frónarblóð. ] [ Ein belja á beit beit mig og skeit svo ásig. Ég hljóp á braut hissa, hræddur og pissaði ámig. ] [ Mitt er lélegt lundarfar læðist að mér efi. Enda orðin skorpið skar skapvondur af kvefi. Nú í dag er létt mín lund loksins hein get snúið. Í fífilbrekku gróna grund og gjöfult kúabúið. Sólin brosir undur blítt bjartar vonir dagsins. Vekur traustið hjartans hlítt, hylling sólarlagsins. Kvenmanns þrána þoli ei þung er karlmanns raunin. Enda orðin gamalt grey græt og sleiki kaunin. Varla kætir krepputal kvíði framtíðinni. fantarnir í dimma dal drekktu hugró minni. ] [ Þörfin vaknar nú langar mig Að vaka í nótt og snerta þig Einskins nýt ef þú ekki mér gefst Aðeins einn sopi, þá nóttin hefst Tl höfuðs mér stígur, heillar mig Um allt er fær þá hef ég þig Þótt leikur ljótur hefjist brátt Öllu vön við tökum þátt Sama um hitt, það reddar sér Vinir og fólk, sem er kunnugt mér Allt það besta þú hefur að bjóða Án þín er ekkert, flaskan mín góða. ] [ við vorum á sýru í bænum á laugardagsnótt trúbador var að spila fyrir framan Eymundsson þá kom elding að ofan og klauf hann í tvennt og út stigu fuglar í þúsund litum arabískir tónar fylltu götur borgarinnar konur með slæður komu úr 1001 nótt máninn brosti hlýlega á föruneytið og Esjan blakti vængjum út í flóann við fórum aftur í húsið með stóra garðinum stelpurnar helltu upp á te og við reyktum þegar morgna tók fór ég með gyðjunni á pallbílnum í sveitina að ná í meira gras ] [ Förum á umfó ! Förum á umfó ! Þar er fjör og þar er líf Húrra ! húrra ! húrra ! Scoda Favorit station diesel túrbó Síðan kemur Ford Fiesta 1100cc Stælgæjar horfa á, agndofa Stelpur stara og flissa Þá kemur Renault Megane árg ´94 Og beygir inná planið Förum á umfó ! Förum á umfó ! Þar er fjör og þar er líf Húrra ! húrra ! húrra ! ] [ Rottan dansar tangó tjútt, trúi að köttur gali. Minkinn allir kalla krútt. Kálfar þrífa sali. Rífst við kálfinn kötturinn og kastar í bola eggjum, forljótur með skorpið skinn skríður hann með veggjum. ] [ Hann þurfti að reyna nokkrum sinnnum áður en hann kveikti ... á perunni ] [ Kvöldið, sem sólin settist við gluggann þinn - í vestri, hvarfst þú á braut - inn í vorið. Með ekkert - nema góðar minningar og falleg orð í farteskinu. ] [ kona gengur upp tröppur kona gengur upp margar tröppur og staðnæmist ekki fyrr en hún hefur gengið upp allar tröppurnar mjög margar tröppur og þegar hún kemur upp þá sér hún móta fyrir skýi stóru svörtu skýi sem varpar stórum svörtum skugga á tröppurnar og konan byrjar að öskra og hún öskrar þar til hún getur ekki öskrað meir og síðan byrjar hún að rífa hárin af höfðinu á sér og hún rífur þau þar til hún getur ekki meir og þá skyndilega svona alveg upp úr þurru þá vaknar hún ] [ válynd veður veðrabrigði flykkjast hrafnar í svörtuloft \"komdu nú og kroppaðu með mér, komdu nú og kroppaðu með mér\" ] [ ég dýrka hvernig þú kemur mer til að hlæja ég dái persónuleikann þin ég dýrka brosið þitt þegar augun okkar mætast fæ ég ólýsanlega tilfinningu ég þrái þig ] [ vinátta er að ljúga að einhverjum að hann sé ekki algjör hálfviti ] [ þú lætur hjartað í mér slá hraðar og ég fæ fiðring þegar ég horfi í augun á þér og ég hugsa eiginlega bara um þig ég vildi að ég gæti gert eitthvað í því en ég er bara of feimin og ég held að þú viljir að við verðum bara vinnir eða hvað? ] [ Þú ert besta vinkona mín Þú treystir mér en ég brást trausti þínu Samviskubitið bítur fastar en áður þetta kvöld hafði ég enga stjórn ég brást þér Ég ætlaði aldrei að falla fyrir honum hann átti að vera þinn þetta voru bara nokkrir kossar hann vill mig ekki einu sinni Þú ert besta vinkona mín samt viltu hefna þín ] [ Að vera með honum væri að brjóta reglurnar En að vera ekki með honum brýtur hjartað í mér ] [ Ég get aldrei farið aftur og elskað þig jafn mikið og ég gerði Með það í huga að ást mín var ekki nógu sterk í fyrsta skiptið. ] [ Ég var vön að eyða hverjum degi að hugsa um þig og dagdreyma um þig. og í hvert skipti sem þú gekkst framhjá mér þá fraus ég Veistu hvernig það er? En þú gætir ekki nokkurntíman vitað það hvernig það er að þessi eina manneskja hafi engar tilfinningar í þinn garð. Sjáðu til, Ég er miður mín yfir því ef þú saknar hvernig ég horfði á þig, En ég sakna ekki hvernig þú horfðir aldrei á mig. ] [ Greiningardeildin spáir auknum hárvexti á þessum vetri Rakvélablöðin eru dýrari en deigari ] [ \"og bárujárnshús við bergþórugötuna\" á uppboð núna týnast eitt og eitt ] [ Grét ég tárum fyrir tveimur árum. Sá ég eitt sinn svan hvítur og blíður ég sá hann úr fjarska. Þegar ég kom nær þá sá ég blóðið lekandi úr sárum. Ég grét sorgar tárum fyrir tveimur árum. Rifin var vængur tættur af fótur máttlaus hann var og ljótur. Dýralæknirinn kom en ekki nógu fljótur svanurinn dó en þó var það fyrir bestu. Ég grét þig fyrir tveimur árum. ] [ Þegar ég bý um rúmið mitt í síðasta sinn skal ég lofa að gefa þér svæfilinn minn. Og alla þá ást sem á honum lá og allt sem ég vildi en fékk ekki að sjá. Og andann sem í orðum mínum bjó áttu fyrir ástina sem aldrei dó. Ég gaf þér bernskusál er breytti mér og bæn sem fannst ég vera fyrir sér. Á leið sinni annað um óveðursský yfir að húsi sem þú vaktir í. Ég lít út um gluggann í síðasta sinn og síðdegisrigningin lemur á kinn. Og sálir er í saklausum augum mættust skilja að fátt að óskum þeirra rættust. ] [ Nú rimlar reiðinnar þrengja að mér bein mín öskra og vöðvar slitna sál mín titrar bjargi hver sér á hverjum ætti það núna að bitna Hár mitt brennur þá skelf ég öll hendur sem þrá að brjóta og brotna í skyndi gleymd öll mín helgispjöll haltu mér niðri í nótt mun ég rotna Það veit það enginn þá síst ég sjálf er reiðin loksins af mér rennur hjartað brotið og sál mín hálf lengst þar inni enn hún brennur ] [ Þunglyndi og sálarkvöl ber ég stollt mín mörgu ör Allt skilur eftir för. Óð ég lengi djúpsævi í skríð svo á bakkan sótbölva þeim vitleysis fjanda er setti helvítis fjallið þarna!! Nú byrjar klifrið langt og strembið. Móð og másandi ég kemst á tindinn Guð minn góður ertu að reyna vera fyndinn!!! Stari niður hyldýpið og sting mér í sjóinn..... ] [ Fyrst koma menn í engu. Svo koma menn í svörtu. Svo koma menn í hvítu. ] [ Saman saumaður bláum þræði hagsældar sumarið góða Rakinn upp og rekinn út, rekinn út og rakinn upp ] [ Fjalls á tindi hamra háum hrífur skapið fögur mynd. Í órafjarlægð blikar bláum blæ á tjörn og heiðarlind. Langt í fjarska byggðu bólin birtast aftur minni sýn. þar í æsku heim við hólinn hugfanginn fékk gullin mín. ] [ Sælir nú, kallaðir þú í átt að mér til að ég tæki eftir þér Þú varst svo rauðhærður en mér fannst þú svoldið sætur Dökkbláu augun horfðu í augun mín græn þú sagðir villtu vera svo væn, að segja mér hver þú ert Ég vissi ekki hverju ég ætti að svara og brosti bara því ég gat ekki hætt að stara á þig, svo fullkominn Þú brostir á móti og ég vissi á því augnabliki að ég myndi ganga yfir strikið En allt í einu gefstu upp og ég er að reyna mitt besta en kanski byrjar ástin að bresta á vissu stigi Það er engin afsökun að þú getir ekki, þegar þú veist að ég er þess virði og mér finst það svo ósanngjart að þú segir að þetta muni aldrei ganga þegar þú reynir ekki einu sinni.. ] [ einfalt. ég elska þig. þess vegna hunsa ég stinginn þegar brynjan lokast af mínum sökum rangur hlutur rangt orð rangur staður rangur tími veit þig reynir og heldur en í raun á ég ekki traust þitt eða hræðistu sjálfan þig? læt sem lykilinn gangi að hjarta þínu varðveiti dýrmæta dropa Næri hjartað á glópagulli í dvínandi von ímynda mér að þú meinir sjáir hve sárt það er og þorir að treysta mér. ] [ Að eilífu tóm að eilífu týnd aldrei mér áður slík ástúð sýnd Að eilífu von um eilífa ást og ennþá veit ei hvað í mér þú sást Að eilífu við er eilíf trú mín það eina sem ég veit að eilífu þín. ] [ Það fer þér ekkert sérstaklega vel að vera dauður. ] [ Í hjarta mínu liggur harmur minn og sefur. Stundum vakir hann og grætur. Í huga mínum hvílir sorgin. Þín ég sakna, þú sem dagsins ljós aldrei litið hefur. Ég mun aldrei fá að snerta þína smáu fætur, eða finna ilmin sem leggur af þér. Tárin renna í stríðum straumum. Engin mun skilja minn sára söknuð. Þig ég græt í laumi, þú varst svo stutt hjá mér. Þú munt vera í mínum draumum. Mér finnst ég varla vera vöknuð, án þín er ekkert líf. Ég vill þig aftur,ég vill eiga lífið með þér. ] [ ógæfa, bankar, á dyr sem aldrei fyr ] [ Ef fýkur, haltu fast í allt, á frost skal saltið bera. En þegar alltaf úti er kalt, inni skaltu vera. ] [ Brotnar alda hafs við hlein hátt að bjargi skellur. Þung eru hennar mörgu mein þar margur halur fellur. ] [ Heimsins eru auðæfi og glyngur einskis virði ef þín ég fæ ei notið. Dýrmætastan fjársjóð hef ég hlotið; hjartað þitt með mínu dúett syngur. Ég þrái að kyssa þínar rjóðu kinnar. Þú ert fegurst rósa í hverju beði. Vor hjörtu syngja af sannri list og gleði saman lítinn óð til ástarinnar. Mér skal lýsa ljósið þinna kerta og leiða mig að þínum blíðu öldum sem yndisleika endalausum skarta. Og hörpu þinnar strengi vil ég snerta. Stíga með þér dans á sumarkvöldum. Elska þig um eilífðina bjarta. ] [ Í nótt mun ég kalla er kvelda fer á þagnir sem halla sér þétt upp að mér. Og dagana löstuðu er liggja við grjót og sumir köstuðu svo langt út í fljót. En aftur þeir koma klæddir í skart. Og yfir mér voma þótt úti sé bjart. ] [ Eftir tvær heimsstyrjaldir fann Brecht enn ástina. Eftir tvær ástir fann ég enn heimsstyrjöldina. ] [ Yfir mig gnæfði faðirinn í kaldri nóttinni með brosið reitt til höggs og í speglinum sá ég dára drekka líktog væru þeir háfleygir ernir í ætisleit ég leitaði skjóls á fórnaraltarinu og höndin skalf og hugurinn hvarf brosið reið af og hópur háfleygra fugla í grænni kaldri nóttinni leituðu sér ætis. ] [ þungi sögubókanna ögrar hillunum á safninu en blaðberarnir halda áfram að koma ] [ ( O ) () () ] [ Öskra en fæ ekkert svar, yfirþyrmandi þörf fyrir vitneskju sem enginn þarf á að halda. Úrvinnsla úr hugsunum sem eru óskiljanlegar, hvaðan þær koma er algjör ráðgáta. Þörfin fyrir að gera eitthvað, vita eitthvað, segja eitthvað vex með hverjum andardrætti. Líkaminn og sálin öskra eftir svörum en það heyrir enginn, en um leið þá fara skynfærin af stað, hrein og tær orka, gæsahúð sem umlykur líkamann, ótrúleg vellíðan umlykur allt sem á vegi þess verður. Ótrúleg skynjun fyrir bæði líkama og sál. Öskur veruleikans er biturt en sætt Spurningar vakna en engin svör fást Það hrífur mann áfram í leit að svörum Þörf fyrir að bæta sig og aðra styrkir okkur Það yfirbugar allt annað og róar líkama og sál. Skynjar þú veruleikann eins Það væri gott, því þá er þetta eðlilegt. En er það eitthvað betra, er ekki gott að hafa breytileika í tilverunni, að skynjun okkar sé öðruvísi, útrás okkar sé ekki í gegnum sama veruleika, Ef að allir lifðu í sama veruleika, þá væri veröldin önnur, betri eða verri, við vitum ekkert um það en við búum öll til okkar veruleika út frá okkar eigin skynjun á honum, það er ákvörðun okkar hvernig sá veruleiki á að vera. Öskur veruleikans er biturt en sætt Spurningar vakna en engin svör fást Það hrífur mann áfram í leit að svörum Þörf fyrir að bæta sig og aðra styrkir okkur Það yfirbugar allt annað og róar líkama og sál. ] [ Þegar maður situr inni í verslunarmiðstöð og bíður getur verið forvitnilegt og lærdómsríkt að horfa á furður mannlífsins. Sum líkjast ýmsu fuglum himins og jarðar í hegðun þar sem þau hnykkja höfði sínu snöggt milli hliða eins og meðal hæsnfugla en séu þau stórvaxin líkjast þau fremur strútum eða emúum, sérstaklega ef nefið er oddstórt og hárið stutt. Svo eru þau sem líkjast verum hafsins. Neðri vör er jafnan sigin og andlitið gapandi sem á þorskveru þar sem þær synda samtaka í torfum á milli jólaskreytinganna og líta hvorki til hægri né vinstri. Þeir stóru eru ýmist sem hákarlar, ranghvolfi þeir augum eða sýni tennurnar með grimmúðlegum andlitssvip, eða búrhvalir þar sem þeir bregða sér upp úr mannhafinu rétt til að anda og steypa sér svo aftur undir yfirborðið. ] [ Solo estoy solo, ..solo y preguntas van desde mi ánimo… ..solo… ¿..quen quiere saber…? No lo se… Y todo el mundo - no sabe. ..solo… Y la vida pasa rápido A la vida canto una cancion para ti. ¿..Pero quien escuchar..? Solo, soy solo, que aborro, que pena… ¿..Dónde estas tú..? ..y que lejos, que fuera mi visíón estás, mi amor, me real vida. ] [ Hún Létt hún gengur sú litla og tifar á tánum. Taumlaus gleði og kraftur er hleypur hún hjá Björt er á brá og glóir englahár Björt er á brá og glóir hár Ljúf í lund unga stúlkan og hönd hún leiðir þétt. Um vanga þýtur vindur glitrar augnabál Flaksast í vindi dökkt og fagurt hár Flaksast í vindi fagurt hár Falleg knáleg kona býður þér upp í dans. Kvöldsett er orðið - lífið í hringi fer Settleg hún situr, silfurgrátt er hár Settleg hún situr, grátt er hár ] [ Hvert sem ég fer sé ég þig. Ég held að ég sé geggjuð, því þetta ert aldrei þú, bara úlpan þín, sem einhver annar er í. ] [ Ég trúi ekki að þessu sé lokið Ég horfði á allt hrynja Ef ég hefði bara vitað Að dagarnir myndu líða svona hratt Að það góða endist aldrei Sumarið breyttist í Vetur Og snjórinn í regn Og regnið breyttist í tár á andliti þínu Ég kannast varla við manninn sem þú ert í dag Og ég vona að ég sé ekki of sein Að það sé of seint ] [ Allt var fullkomið þar til þú ákvaðst að ég var það ekki ] [ Ætlaði að óska eftir landvistarleyfi í Sæluey. Finn ekki póstnúmerið. Umsóknarferlið er því í uppnámi. Jæja. Hvað með Noreg í staðinn? ] [ Blóðrjóður bý ég til gat á nóttina og þrengi mér inn þar sem enginn hefur áður komið ] [ Bjarminn af fölu tungli nístir huga minn andvarp frá mjúkum vanga er mitt leiðarhnoð um kalsama nóttina löngum hef ég fetað fiðrildaveg langan en nú hef ég fundið uppsprettunnar angan og leita ei meir ] [ tveggja mánaða túlípanar í vatnsglasi þarf að orðlengja það meir ] [ Upp er niður og niður er upp. Út er inn og inn er út. Hver hleypti Snuðru á þráðinn? Hvers vegna skrapp allt í kút? Nú eru stigarnir horfnir ormarnir eftir upp er niður niður er upp út er inn inn er út og allt er komið í hnút. ] [ Gamlir dagar, gleðitímar, góðar stundir - ég sakna þess að fara saman og hafa gaman, hlæja mikið og vera hress. Bjartar nætur, langir dagar sumarið - ég sakna þess við sátum saman, alla daga með öl í hönd og vorum hress. Hlátrasköll og söngvalæti, margar sögur - ég sakna þess, vorum þar að njóta lífsins saman öll og ég var hress. ] [ Kemur einn þá annar fer, oft menn verða sleignir. Engu að síður á því ber, að aðrir verði fegnir. ] [ Tíminn var lengi að líða og lengur ég nennti ekki að bíða svo þegar hún mætti það mikið mig kætti því það þarf jú tvo til að ... tefla. ] [ Eins er dauðinn annarra brauð, embættið hans má nú sættir brjóta. Hjá erfingjunu upp úr sauð og aldrei grær þeim sem vildu njóta. ] [ Ingibjörg Sólrún íhaldi laut. ,,Eigi má sköpum renna\". Þjóðarauðurinn þotinn á braut og það reynist engum að kenna. ] [ móðirin: sofðu svarti sveinn með rauða sorgarhjartað mæddir menn: víst er veröld að vetri dimm hinir dauðu: og grimm, og grimm! nóttin: hver vakir yfir vöggu þinni í návist minni? af himni: ein bláleit vonarstjarna * móðirin: að morgni rís þín glaða sól úr silfurstjörnum mínum ] [ Í eyðum ég ráfa einn, einn um þennan skóla, ég þekki ekki neinn, tímanum ég er að sóa. Mér langar að fara heim, heim á Hvammstanga, mér finnst ég vera úti í geim, ég nenni ekki að hanga. En á næstu önn kemur einn, sem ég þekki vel, ef hann kemur ekki veð ég enn út í geim, og þá frýs ég í hel. ] [ Ég tók með mér gulrót það eru góð kjör og 100 prósent alvöru íslenskan mat, góða lifrapylsu og blóðmör sem er ekkert frat. ] [ Lífeyris sjóður, ekki lengur, það kalla ég stuld, hjá bönkunum erum við fóður, fyrir þeirra skuld. Davíð Oddson,Geir og fleiri, peningin okkar eigið þið ekki að taka, notið ykkar eigin hann er miklu meiri, við erum fyrir ykkur, ljúffeng kaka. Lækkið ykkar laun, ekki löggunar, þið skiljið ekki baun, farið og takið til föggunar. Ekki reyna að afsaka ykkur, það þýðir ekki neitt, bensínið er dýr drykkur, á ykkur getum við ekki reitt. ] [ Þegi þú, farðu nú, í snú snú og hollí hú. ] [ Augun þegar fyrst þig litu þjáðist ég af losta þá Sálin þegar þína hitti - þreifaði - og líkaði það sem hún sá Í musteri mammóns ég man þig fyrst Borðaði á Bláa Kaffi súpu og brauð af bestu lyst Bakið breiða brosið heiða skinnið svarta Upphandleggir sverir hvernig eru þeir berir? - Hugsaði ég - Varir vænar votar, kænar fingur fimir Fundust tveir til vara til hvers að spara? Í hjarta herramaður hreinn og sér laus við leik og daður ó-líkt mér Sál þín særð og skelkuð, spelkuð Hjartað milt sem himinn vökvar heiminn Veistu kæri vinur? Víst í þér Guð ég sé ] [ köld er hönd sem kreppir kulnar líf við fár dauðinn hnossið hreppir helkaldur er nár ] [ Fjallið stundi undan þunganum. Það hrundi úr hamrinum og í fallinu gáfu björgin sér góðan tíma hægt féllu þau til botns eins og lítil rauð fóstur í legvatni nýlátinnar móður ] [ Hvað er þetta líttu hér, krulladur ljótur og erfidur er. Ei fríður í vexti með bumbu stóra, sem hefur hækkað vexti alla um mikið fleiri prósent en töluna fjóra. Hann til vandræða er með vexti sína það yrði veisla ef hann fer því hann er algjör kvöl og pína. Ísland er landið með ljóta lambið hann Davíð sem hugsar bara um eiginn rass. Ei getum við látið vexti þessa líðast því verðum við að reka þetta skass. Burt með þennan kall annars verður meiri gengis fall. Þá missa æ fleyri allar sínar tekjur því Davíð og fleiri eru peninga frekjur. ] [ Stundum sit ég og dýfi höfðinu í bleytu, súr eftir langan og leiðinlegan dag. Lífs leiðin getur fært þér gríðarlega streitu. Mér líður eins og lífið sé stundum mér ekki í hag. Hvar og hvenær sem er, hvert sem ég reyni að leita, mér sýnist að sama hvert ég fer, lífið vill enginn svör mér veita. En stundum stendur lífið við hlið mér og styður við mig þegar stormur brestur á. Spyr ég þá hvernig líður þér, þegar þú reynir svör að fá. En stundum er lífið í pásu og allt virðist standa í stað. Já, lífið er dularfullur maður og enginn getur afsannað það. ] [ ....hrjáir öll orð í eignarfalli -til dæmis. ] [ Og endalokin fara framhjá á þessum eyðilega degi svo undarlegt sem það er enn á ný var stefnan röng en ákvörðunarstaðurinn er enn til og enn er fólkið skrítið og það gefur mér tækifæri til að elska og ég kalla á þig með öllum styrk mínum og öllum veikleika mínum en vonin er veik dagurinn eyðilegur það er orðið kvöldsett og veit ég að handan við sjóndeildarhringinn og fjöllin myrku er Guð að undirbúa nýjan dag handa mér ] [ Hún syngur og semur, en leyfir mer ekki sjá. Ótrúlegt hvað hún gefur en krefst lítils að fá. Hún er fögur. Hún er best. Þegar ég segi henni sögur, hún hlustar á mest. Þú ert mitt æði og yndi. ég veit ekki hvar ég væri, ef ég ei þig fyndi. ] [ Ég stekk milli regndropanna til að blotna ekki. Þú sagðist elska mig meir þegar rignir. Þá getum við legið saman og hlustað á regnið bylja á bárujárnsþakinu. Látum regnið um að tala. Hvernig get kemst ég nær þér án þess að eiga það á hættu að detta innan í þig? En þegar betur er að gáð væri það kannske ekki svo slæmt. Þá gætum við andað saman lifað saman elskað saman. ] [ Við erum vinir, tíminn og ég. Hann sagði mér eitt sinn að hann biti ekki á mig. En hvernig veit ég hvort hann segir satt? Jú, allt breytist, nema ég. Hið ljúfsára tif líðandi stundar er sem hjóm í eyrum mínum. Skuggar liðinna ára sækja á mig í svefni og vöku. Með tíð og tíma mun veröld mín aðeins vera skuggar og minningar liðinna alda. ] [ Ef ég flytti eitthvað burt hin ótalmörgu ár. Ef ég segði þér ekki hvurt, myndirðu fella tár? Ef að ég í slysi lenti, ef ég yrði sár. Ef að eitthvað illt mig henti, myndirðu fella tár? Ef ég missti heyrn og sjón, minn heimur yrði smár. Ef mig henti eitthvert tjón, myndirðu fella tár? Ef ég feng’ um dauðsfall fréttir og sannar reyndust spár. Ef ég dæi, væri það léttir, eða myndirðu fella tár? Ef að mér af baki fleygði minn hugumdjarfi klár. Ef að háls minn úr lið sér smeygði, myndirðu fella tár? Ég veit það vel, að ef þú dæir minn heimur yrði grár. Fegurð hans ei lengur sæir þá felldi ég mörg tár. ] [ Að elska þig er eins og klífa hæsta fjalltind veraldar sýna mér allan heiminn og segja; Þetta er allt sem þú getur ekki fengið. ] [ Þarf að ranka við mér þessir dagdraumar hætta ekki Ég þarf smá tíma til að ná áttum og við sjálfa mig sáttum því allt sem við vorum er farið það er farið fyrir fullt og allt að eilífu í alvöru.. ] [ Það er nótt. Jörðin sefur og andar þungt. Sólin gægist ofur varlega upp úr sjónum. Stígur hærra og kastar geislum yfir grund. Verur jarðar vakna á ný, nudda stýrur úr augum. ] [ Ég hangi í lausu lofti. Hvað er ég að gera hér? Hvað ef ég dett? Missi takið? Slengist utan í klettavegginn? Hendurnar eru þvalar. Vitin fyllast af ryki. Blóðbragð. Út úr mér læðist ámátlegt vein. Yfir brúnina gægist andlit sem sendir til mín glott. Ég gríp í hjálparhönd og skreiðist máttlaus upp á brúnina. Hjartað hamast, kaldur svitinn sprettur fram á andlitið. Ég ligg uppgefin á jörðinni og held dauðahaldi í mosann. Ég er örugg. ] [ Fortíðin starir á mig starir og starir ég lít undan Vil hana ekki Vil ekki þessa fortíð Það er vegna þess að mér finnst fortðiðin ljót held áfram að ganga í ljósinu En fortíðin starir og starir er endalaust að minna mig á að ég er hluti af myrkrinu sem býr í starandi fortíð minni ég spyr hvað viltu Fortíðin spyr á móti hvernig er ég fólk spyr alltaf um fortíðina afhverju þarf það og vill vita fortíðina Fortíðin segir við mig horfðu á mig Ég svara ég horfi á þig mér finnst bara óþarfi að aðrir stari á þig því þú er farinn út úr lífi mínu ég er að skapa mer aðra fallegri fortíð svo ég geti gleymt þér ljóta HÆTTU SVO AÐ STARA Á MIG ! ] [ hún gleymdi aftur viðarfiðlunni sinni í stofunni minni ég hef aldrei kunnað á fiðlu en leggi ég hana upp að andlitinu eins og fiðluleikari finn ég ilm skógarins og heyri einhvern fjarlægan óm í hljómbotninum ] [ Vindur er kaldur, skóli slær skjaldborg um börn; Krap loðir við skó. Fjármál valda áhyggjum og hugur minn er snauður. ] [ Köstum krónunni, tökum upp snjó, frosið vatn; Kreppan verður þá snjólaus. ] [ Ó kæri bíllinn minn, hve heitt ég sakna þín, langar að klappa á þína kinn, en þú hefur enga. ] [ Hana er verið að gera við, bora í hana og slá, það hefur víst komið á hana ryð, því engan frið maður er að fá. Er í miðjum tíma, klukkunar hringja, ekki klukkan í mínum síma, 400 krónur upp í turninn,peningapyngja. ] [ Tilfinningaforðinn kláraðist Lokað ] [ Er það, var það, ætli það sé, eintóm speki maður? Eða var það spaug og spé, spunarugl og þvaður? ] [ Helgi sér atvinnulausa blaðamenn í röðum. Hann horfir í spegil. Annar spegill er fyrir aftan hann. Það magnar áhrifin. ] [ Þó vaggi þitt fley þá vert\' ekki strekkt, en varast að sigla upp á sker. Ég vona að þú hafir það huggulegt og hamingjan standi með þér. ] [ Bleytir vel í svörtum sverði svolgrar jörðin,lifnar grær. Fagnandi að vorið verði Veðursælt og gjöfull sær Sestu hérna hjá mér Dísa hrífast megum litla stund. Sjáðu hvernig ljósin lýsa litlu barni á okkar fund. Nú er bráðum komið kvöld kúnum þarf að brynna, því bráðum tekur Valur völd, Völu hann þarf að sinna . Kominn er nú nóvember nálgast óðum jólin. Englaskarinn fagur fer friðinn lýsir heims um bólin. ] [ Hann vonaði að samræður þeirra um smáhunda og heimilisketti myndi leiða út í láréttan mambó eða að minnsta kosti nokkra kossa svo fór því miður ekki. Hún lét sig hverfa eins og meistaraþjófur þegar hann hló að leik kettlingsins. Hann stóð sig að því að skella hausnum í vegginn sem spangólaði líkt og á fullu tungli. ] [ Gamla kerfið er enn við völd, þar vitfirrtir ráða ferð. Þjóðarhagsmunir falla fjöld, fyrir eiginhagsmunagerð. Byggði kreppu bak við tjöldin, bófafori er Davíð nefnist. Skattþegnarnir skrá á spjöldin, skratta þessum fyrir hefnist. Skeytir hvorki um skömm né heiður, skynsemi betri hentar nú. Hundskaðust buru Haarde leiður, hart nær rúinn allri trú! ] [ Það er farið að skyggja og ég strýk erninum sem sefur aftan á öxlinni þinni færi þitt ljósa hár frá og kyssi fuglinn kveðjukossi í gær var blómasöludagur og menn á leið til greftrunar eða til brúðkaups gengu blómum hlaðnir en vegir víxluðust það er farið að skyggja og ég yfirgef þessa brúðkaupsveislu og held til greftrunar. ] [ Ég ligg í fönninni Vindurinn feykir köldum kornunum yfir mig Og ég sekk dýpra og dýpra.. Mér er kalt og ég er ein Samt er svo notalegt Þegar ég umvefst snjónum Og finn hvernig líkaminn dofnar Ég á erfitt með að anda Samt finn ég ekkert til Þó það þrýsti að mér Finn ég ekkert til Því ég er komin yfir það stig Að kuldinn sé nýstandi Og ég finna hvergi til... Þú getur sært mig eins og þú vilt Það er allt í lagi, því ég er löngu hætt að finna til. 22.október 2008 ] [ á svartflegið baksvið óendanleikans drógum við upp blóðugan svip andartaksins svo sjálft tómið hneigði sig fyrir þunga sálarinnar ] [ Guðrún vina, láttu ást þína limlesta ofbeldið. Grettir elskan, láttu svipu hennar dynja á hatrinu. ] [ svartar eldingar, eftir það fylgdu augu mín í vængför drukkinna kvöldfugla það var spurning í golunni, skuggarnir grétu bak við vegglampana sem eðlur og skordýr umkringdu ég elskaði hvernig bros þitt gat sýnt lífið en um leið sýnt vitneskju um dauðann sveigðu tré í elsta garði! það eru sögur í viðarbolnum sem enginn getur heyrt það er svo erfitt að horfa á ykkur fella laufin ] [ Leggstu nú á bakið breitt og breið út faðminn kona. Eðlið segir ekki leitt, að elska þig til svona. ] [ dauðinn spilar á sjórekið kirkjuorgel meðan svartur viðurinn vex í skugga þínum og skeggjaður andvarinn hlær kalt á skallablett þinn ] [ Andinn veit að ekki má eftir konum góna. Okkur liggur ekkert á eðli voru að þjóna. ] [ Ég hef barist við tímann og slegist við vatnið og það er enginn órafirrð frá vitund minni til vara þinna aðeins ósögð orð frá stynjandi djúpinu ég hef lotið í lægra haldi fyrir tímanum en enn á ég séns í vatnið. ] [ Dag þann fyrst, þín augu leit þessa bláu fegurð, hún svo sjaldgæf, stór. Þá um leið, þaut um mig - heit.. og þrungin tilfinning, um hjartað flæða fór. Svo djúp og blá, svo yndisleg, og allt sem áður skipti máli, hvarf á braut. Allt mitt fór á annan veg, Amor kom á vængjum ástar og mig skaut. Þá ég sá að augu þín áttu hug minn allan - og allstaðar. Augu þín, voru orðin mín ástin var á næstu grösum, víst það var. Þessi líka augu, svona djúp og blá þessi líka augu, þá fyrst ég sá. Þessi líka augu, þau segja mér, að þessi augu, aldrei, aldrei, fari úr huga mér. ] [ þegar öllu er á botninn hvolft finn ég frelsi í fátæktinni ] [ sveif um loft létt og kná suðaði hátt dansandi í sólinni gnúppar af gnægð veittu sitt hunang himininn blár og blikaði sær rann burt dagur blikur á lofti dökknaði yfir dró fyrir ský ljós sá í fjarska þangað ég flý ljósið er fallegt ljós eru hlý ljósið er stsistststtsttttsttsttsttt...... ] [ svartur texti á hvítu blaði brotin orð hvöss sem gler skáru í augu las samt áfram en textinn ekkert sagði og hvítan á blaðinu öskrandi þagði ] [ Ljóð um einn illkvittinn ófrið vil semja. Útrás ég þarf, annars morð skal ég fremja! Það angrar mig svíðandi geðveikis gremja! Gríðarleg þraut er nú skap mitt að temja. Ergjandi hugsanir huga minn lemja. Helvítis pirringinn kann ekki að hemja! Ráð kann ei nein nema að og orga og emja: Andskotans djöfulsins leiðinda kremja! ] [ Það er svo erfitt að skilgreina þessa tilfinningu en hún er þægileg það er svo erfitt að skilja hana en hún veitir mér öryggi mér finnst eins og ég hafi alltaf þekkt þig og það er ótrúlegt Ég er með þér og gleymi þú kyssir mig og ég finn eitthvað nýtt þetta er ekki eins og hinir og ég er glöð Aldrei sleppa mér og þá verð ég hamingjusöm. Þú gerir mig hamingjusama og ég vil ekki að það hætti. ] [ Ég er bíll. Ég keyri áfram í reiðileysi. Fyrst, jafnslétta. Síðan, grýttur jarðvegur lífsins. Það er erfitt að keyra áfram Í eld og brennistein. Og bílinn er lemstraður. Bílinn er beyglaður. Um leið og ég hef keyrt Í gegnum kulda og vosbúð Í gegnum iður heljar Og allt var svo erfitt Ætlaði engan endi að taka Kemur jafnslétta Með fallegu umhverfi Og rólegum vegi Sveitasæla Og jafnvel bílfélagi Ég hef aðeins verið að keyra Í sveitasælunni Stutt Þegar áður en ég veit steypist ég niður brekkuna Niður grýtta Þverhnípta brekkuna Áfram Og bremsurnar biluðu Varadekkið er sprungið Bílfélaginn dauður Það er ekkert verkstæði í Ódáðahrauni sálarlífs míns. ] [ Ó að við gætum allar verið eins og þú, Marilyn með svona fallegt bros, Marilyn og svona ljósa lokka líkt og þú, Marilyn svona falleg augu eins og þú Marilyn. Hví getum við ekki allar verið Marilyn, Marilyn ? Guðdómlegar goðsagna gyðjur, Marilyn og fullkomnar á hvern hátt, Marilyn átt fallega menn og fullkominn feril, Marilyn Hvernig er að vera eins og þú Marilyn ? Komast upp með allt, Marliyn og vera svona farsæl og þú Marilyn að bara vera líkt og þú Marilyn Ég dræpi fyrir útlit þitt Marilyn lokkana og fegurðarblettinn, Marilyn þrýstnar varirnar og nefið þitt, Marilyn og gyðjulegan vöxtinn Marilyn. Og að syngja líkt og þú Marilyn svo mjúklega að maður grætur, Marilyn falleg í lit og svarthvítu, Marilyn þú ert jafnvel fullkominn í kartöflupoka Marilyn ] [ Breiðir þögn á blóm og runna blæju næfurþunna. Hagamús í holumunna hallar sér á vangann. Stundin hljóðlát staðar nemur, stillan blæinn hemur. Nóttin bjarta kyrrlát kemur klædd í sumarangan. ] [ Í haustköldum vindinum heyri ég óljósan klökkva. Hálftómir bílar um götuna endalaust keyra. Sunnudagsmorgunn og sólin er horfin í dökkva. Suðurlandsvegurinn ataður storknuðum dreyra. ] [ Ef höfuð mitt er íbúð í hinu stóra fjölbýlishúsi, þá ert þú helvítis nágranninn sem er alltaf að bora í vegginn. ] [ Í leiðinlega húsinu er maður með yfirvaraskegg að tala við föður minn á máli fullorðinna. Sekúndurnar eru klukkutímar, og dularfult umhverfi fyrir utan sem má ekki rannsaka. ] [ Einu sinni aldrei var einhverstaðar hvergi og þar var einhver sem var ekkert hann sjálfur. ] [ Stundum vildi ég að ég byggi í skýjunum líkt og skýjabúi svæfi á dúnmjúkum hnoðrum og hlypi um á tánum við sólina líkt og skýjabúi ég myndi hrista niður rigninguna og dreifði litlum snjókornum líkt og skýjabúi og stundum, kastaði ég niður eldingum eða færði mig frá sólinni líkt og skýjabúi ég kæmi til þín í svefni og laumaði litlum draumum í kollinn þinn líkt og skýjabúi ég væri hátt, hátt uppi við hliðina á tunglinu og sólinni líkt og skýjabúi og á kvöldin myndi ég breiða sængurnar yfir látin börnin og syngdi til þeirra angurvært lag líkt og skýjabúi ] [ Þú segist þekkja mig en það gerirðu ekki sál mín er bundin í þunga hlekki þjáð, brostin, alveg búin brengluð, döpur, teygð og snúin á yfirborðinu er ég sæt hvorki æst né illa læt en ef þú opnar mína sál þar þú finnu tilfinningaabál sál mín er illa farin lokuð, læst, beygluð, og barin og hugur minn er illa marinn líttu djúpt í vonlaus augun ég er ekki hér, dáin, búin, farin ] [ Þú biður um frið meðan ég dotta í sófanum þú vilt að allir fái samastað ég klóra mér í rassinum þér finnst þjóðfélagið mikilvægt ég opna cheerios pakka þú vilt að allir séu jafnir ég hækka í tónlistinni þú öskrar á mig:lækkaðu í þessum fjanda ! ég svara engu svo súrealíst hvað við erum ólík en samt erum við saman og okkur finnst það í lagi ástin er nefnilega svo blind hún gerir engan mun ] [ Ég er alltaf við dyrnar en opna aldrei fikta í húninum en þori aldrei að hleypa tilfinningunum út mig langar en ég ætla bíða ég vil ekki spilla biðinni hurðin freistar mín svo persónuleg og bönnuð á að vera læst ég hef kíkt inn hleypt einhverju út fullnægði forvitninni að hálfu en til hvers að bíða ef ég get opnað hurðina ? ] [ Í fyrra lífi var ég pottþétt svartur hommi bresk díva beint úr ræsinu drakk óhóflega og dópaði dag og nótt dragdrottning dásamlegra draumanna allsber, hífaður hippi barðist fyrir rétti lítilmagnans og óverdósaði bigtæm einhversstaðar á subbulegu almenningsklói með sterka réttlætiskenndina í annarri og ískalda sprautuna í hinni ] [ Mig dreymir þig, og kossana þína þéttingsfast gripið þegar þú grípur um mjaðmirnar á mér öryggið þegar þú faðmar mig ástina þegar þú kyssir mig tilfinninguna þegar þú horfir á mig varir þínar á vörum mínum Mig dreymir þig án fata og fingurgómana mína renna niður bringuna þína Mig dreymir þig að kyssa mig og kyssa... andardrátt þinn á hnakkanum hendur þínar í hárinu en svo opna ég augun og sé að þetta var bara koddinn minn ] [ Ég er föst. föst í sama farinu og hjólfarið er djúpt. Mig langar héðan burt eitthvert annað og nýtt fólk. Of lengi á sama stað veldur þunglyndi engar ögranir. Ég hef keyrt sömu leiðina í mörg ár og er komin að \'Vegur endar hér\' skiltinu. Hjálp, komdu mér burt í nýtt umhverfi með nýjum andlitum. Annars rotna ég í þessu helvítis hjólfari um aldur og eilífð. ] [ Eina nótt hún varð blind búin að lofa mömmu um enga synd Blinduð af hrifningu blinduð af ást blinduð af víni það sást Staðurinn, stundin allt var svo rétt svo gott og þétt Taktfastar mjaðmir og stinnir partar mjúklega engin kvartar Þetta var bara eitt skipti vellíðunin ein svo heitt en hún var ei lengur hrein Þetta var ekki eins og í bókum myndum og sögum með fallegri tónlist og ljúfum lögum Subbulegt, alls ekki töff allt eitthvað svo ljótt leið tíminn allt of fljótt Eina nótt svo níu mánuðir alein og ung ein í heiminum Ekki láta fallast af fullum gæjum sem leita að einu einni nótt hjá flottum pæjum ] [ Sérðu mig? Það er ég sem stari á þig löngunaraugum Ég sem kikna í hnjánum þegar þú horfir á mig Það kviknar í hjarta mínu þegar þú talar við mig Ég held niðri í mér andanum þegar ég ligg í fangi þínu og óska þess að augnablikið endist að eilífu Það er ég sem titra þegar þú snertir mig Ég sem hef gefið þér mig alla Sérðu mig? ] [ Á sjónum drífur kulda kólgu él klýfur öldufaldinn lítill bátur,. Miðar hægt samt gengur Valur vel. Vælið í kára líkt og harma grátur. Til lands er haldið geisar hríðin dimm hvítfextar öldurnar skella á litlu fleyi. Norðaustan áttin geisar ógnin grimm grið enginn fær sem hennar á lendir vegi. Valurinn litli nálgast heina höfn hugprúður formaður Geiri, enn við stýri. Rennir að bryggju leggst hjá Dala Dröfn. Drekkhlaðinn er Valur,aflinn að mestu hlýri. ] [ Er bara spurning um hvort s-ið eigi t-ið! ] [ Ís í formi, ís í boxi. Ís-lenskan er æðisleg! ] [ Hefurðu einhvern tímann reikað einn um nótt steinvota leið á milli dropanna í grasinu og fundist það leitt að þú hefðir engan til að deila þessari augnablikshugsunum með? ] [ Hví eru átök á Framsóknarmannafundum og flótti mikill brostinn, á þingmannaliðið? Af því að heilabúin störfuðu bara stundum, strákagreyjanna, sem komu fram á sviðið. ] [ Hún lá við hlið mér og ég týndi ávextina innan um rauð og græn laufin, og hún seildist inn undir fötin mín á eftir köldum peningum í veskinu. ] [ Hí þú sagðir - ljóð þín langt ei þau ná líða milli skúffu yfir í hillu! Iss ég sagði veður þú í villu vængförin sjást ekki loftinu á. ] [ Á meðan ég ræsi tölvuna bölva ég öllum þeim sem hafa hrósað mér fyrir ljóð mín í gegnum tíðina. ] [ Kvöldið fyrir utan kebab staðinn á Kollwitzplatz þegar þú sagðir nafnið hennar ég öskraði ég grét og ég meinti það ég grét alla leiðina heim og þú þú bara stóðst þarna Núna stend ég hérna ein alein stundum með bros á vör stundum í sárum oftast brotin án þín ] [ Ég ætla hér að semja um löngu liðna tíð, sem uppsker einstakt tár, er rifjast rödd þín þýð. Ég áfram verð að halda, og skrifa um það allt, og kannski hitnar hjarta, sem löngu er orðið kalt. Í gamla daga yljaði þitt bros mínar hjartarætur, og oft báru þeir heim til þín mínir vongóðu fætur. Við nóttina vermdum, og settum roða í vanga þinn, og í morgunsárið kveðju ég kyssti á þína kinn. Á daginn við hlupum, engjunum grænu á, og stundum inn í hella við urðum bara að gá. Í eplatrén við stálumst og upp við átum öll, ..fengum magapínu, sem uppskar hlátrarsköll. Með hjartað fullt af ást ég í grænu augun þín leit, og fann að tilfinningin til þín var orðin ansi heit. Ég vonaði að aldrei úr örmum þínum ég þyrfti að fara, en lútaði í lægra haldi er úr hernum kom mín krafa. Af blóði og byssuhvellum ég fljótt fékk ógeð á, og rifjaði upp gleðistundir á stundum sem og þá. Að vita af þér einni var sem hnífsstunga í hjarta mitt og hefði ég barist harðast, þótt sjálfan kölska hefði hitt. Gleði minni að komast heim ég illa gat leynt, en komst þá að þeim hryllingi að það var orðið of seint. Fyrir um hálfu ári, í vetrarkulda, um nótt, þú andaðist úr þeim sjúkdómi, sem kallast hitasótt. En það máttu vita, þú ást mín eina, að aldrei á minni einmana ævi, ég mun þér nokkurn tímann gleyma. Á hverjum degi ég heimsæki gröf þína kalda og vona að brátt ég komi til þín, til himna ég mun halda. ] [ Perla er sæt, og góð, og fín, blóðrauðar varir eins og vín. Í doppóttum kjól hún dansar sæl, en snýr sig síðan óvart á hæl. Í tvöfaldan snúning og splitt hún fer og gerir þetta allt svo vel. Við herrann hún dansar í alla nótt, svo herranum verður ekki rótt. ] [ Sandra um skóginn valhoppa á, og láta ömmu gömlu körfuna fá. En týndist hún skóginum myrka í, við blómatýnslu, henni fannst þau svo fín. Kom þá Heiðrún með glottið sitt gleiða, og sagðist skyldu \"gera henni greiða\", en gleypti Söndru í heilu lagi, svo út þandist hennar magi. Hún Sandra æpti og þráði og barði, og vildi komast út í heimsins faðmi. Uns skógarmaður sem leið hjá átti, hjálpaði Söndru sem mest hann mátti. Nú ráfar Heiðrún ein um skógarjarðinn, og lítill er nú á henni farðinn. Með risagat á belgi sínum, meðan Sandra japlar á sætindum fínum. ] [ Í tíma skundaði ég mér, flýtti mér hratt, orðin of sein í stærðfræði, það er nú svart. Erla kom á móti mér, það er alveg satt, og á höfði hafði hún barðastóran hatt. Sótrauð var hún í framan, það boðar ekki gott, þótt mér fannst hún með hattinn, nokkuð flott. Með kreppta hnefa og sökuð dott, ég hlustaði á hana með lítinn áhugavott. Loks í tíma ég fór til að læra um form, þótt ég myndi frekar vilja læra um orm. Í tímanum endalaus læti, óp og köll og ég sver, að frá Erlu kennara komu þau öll. ] [ Ofsalega getur verið leiðinlegt í náttúrufræði, ég skil oft ekki krakka sem finnst þetta æði. Með drafandi rödd og í gamlingjans skinni, ég Einar kennara til sögunnar kynni. Í bleikum sokkum í stólnum ég hlusta, og eftir tímann ég rykið af mér dusta. Úr dýflissunni ég guðslifandi fegin sleppi, frá Einari kennara, eineygður, með heppni. ] [ Heiðrúnu er bumbult og brennd á tungu, hangandi öfug við dauðans dyr. Því Perla, Bryndís og Ásta slungu, slógu hana í móðurkvið. Samdi hún um þær margar óræðisvísur, svo ósáttar þær urðu við hana mjög. Tóku þær málið í sínar hendur, og notuðu við það verkfærið sög. ] [ Sara hét ung kona, sem barni litlu átti von. Gerðist það að dimmri nótt að dó hún úr hitasótt. Læknar börðust örlögin við að koma barninu úr móðurkvið. Komst það heilt úr húfi í öruggt skjól en hvíldi aldrei í mömmuból. Sally var kölluð litla stelpan, andblæ bar hún með sér ferskan, alin upp af ókunnugum, langt í burtu, af nokkrum nunnum. En Sally leiddist lífið kristna, og vildi út til heimsins lysta. Strauk hún af sér staðnað tárið og hélt í burtu í morgunsárið. Það eitt vissi hún að hún kynni, að finna einhvern sem henni unni. Líf sitt lagði hún að veði til að finna þessa ómældu gleði. Nú er Sally komin í heiminn út, fann sér mann og lítinn kút, lifir lífinu sem ávallt hún vildi og þykir henni það mikið mildi. ] [ There are people who fight without looking back from there shoulders there are people who fight without losing there mind. There are people who fight for freedom of soldiers there are people who fight for the justest of universe. These people deserve to see the free in people, see all their countries live in peace. But as the tribes go older, the world goes colder I think that peace we look for will never be seen. From the swords meeting other swords holders to gun shooting each other in face. in every case, in every chase, The sense of it all slowly faints away. ] [ You told me that you loved me, that I was your best friend I told you back I loved you too, and we raised slowly hand to hand. Walking in the Central Park, someone attacked you from out of nowhere. You didn\'t see him, it was too dark, and couldn\'t even tell him the answer, it\'s over there. I walked in to your room when you where sleeping in the bed. The whiteness around you told me soon that God would come and take your hand. I waited patiently for someone to tell me, if you would go to heaven or hell. But when the devil came to take me, I was prisoned in his private cell. Never will I see you again, My love, my sweetheart, where have you been? if I could ever escape from this prison, I would go to you, for a forgiveness of a sind. ] [ Í heimsins öngulþveiti þeysir maðurinn um jörðina. Reynir að breyta allt að öllu leyti, og er alveg sama um alla hina. Í himnaríki situr Guð leiður, samviskan bítur hann í kinnina. Af þessu öllu saman á hann heiður og hamfarirnar í heiminum á honum dyna. ] [ Danger is coming passing right through. Never would I think I\'d stand there with you. When the soldiers come running to the square, we run to them and fight back as hard as we can. They have taken our families, our homes and pride. But there\'s one thing I won\'t let them take and that\'s my life. I will stand there with you as long as I can until God comes, and takes my hand. ] [ When you pick up the guitar and start to play, I find that I got nothing to say. Your voice is amazing, your eyes shine through, and everything you say is so true. Every note is like a forgotten dream every word like angels flying to the sea, and I drift in a beautiful world that never have I seen before. No, I don\'t know, why you got this way to me, but everything is like you know me as yourself, and deep down inside I know you know that you are my other half. ] [ My eyes exploded for you in tears that only rain could do. My heart is drowning, my head is dying never can I turn back to you. When you said that offiel words to me I felt that I could never live again. In darkness, shadows, never will I be free you destroyed your life with you and me. I ran back to my holy thoughts, hided in the back of it all how can one person be so cruel to do the things you never regretted to do. If I can ever turn around to answer back to your ugly sound I will tell you that your pethedic to say that you will never love me that way. ] [ I don\'t care that you love me I don\'t care that you will. I don\'t care about your money I don\'t care about your mill. If I should ever spend my time with you it will be when all the dreams come true. Beauty of the softest light will shine on to your simple life. When you say I\'ll be there for you I think of the lies your telling me too. I am proud, strong, to strong to do cause never will I fall for you. Then baby, this is the last goodbye. I\'m relieved to don\'t haft to listen to you lie. Maybe in another world I\'ll listen to your beautiful words. ] [ Í húminu hamast hann, hefur það gott. Augun ill og andlitið ljótt, fór hann til jarðar með þetta glott og hafðist á mannkyninu eintómt plott. Því lærdóminn hann tók með sér, það er ei gott, og kenndi manninum í tíma dott. Hvert mannsbarn á jörðinni fannst þetta flott. Þetta kenndi púkinn með sitt svarta skott. ] [ Klístrug, slímug, feit og góð jarðaberja, rauð og rjóð. Undir borð klessti út nemandi með munn í stút. Æstur, reiður kennarinn skammaði hann út og inn. Fjarvistina hann fékk á sig er steig hann oní tyggjóið. ] [ Í nótt er kemur myrkur situr hann við gluggann sinn og starir út. Hann hlustar á fuglana syngja, regnið dembast, laufblöðin bærast, og trjástofna vaxa. Í nótt er hann var að hlusta heyrði hann skrítið hljóð. Það var stúlkan sem var að kalla og bjóða honum góða nótt. Í morgun er hann vaknaði, við gluggann sá hann sólina koma upp. Laufblöðin tindruðu, fuglarnir sungu og steinarnir brostu. Í kvöld er hann sá hana labba opnaði hann gluggann. Í sólsetrinu kallaði hann til hennar og bauð henni góða nótt. ] [ Í skotum hann læðist setur hroll í hjarta þér, stekkur fram úr skuggum og bregður þér og mér. Á daginn hann situr skrifstofu sinni á, ræður við nemendur og segir þeim hvað ekki má. Er kvöldin koma, myrkur, breytist hann varúlf í, situr upp á tindi og syngur bí um bí. ] [ Það er þreyta í loftinu hægari vindur norðantil á landinu en spáin þokkaleg hérna á heimamiðum þrútinn himinn af gömlum tárum heiðskýrt fyrir norðan í afskiptaleysinu vonir berast með vindinum lognið óútskýranlegt fyrir norðan í skjóli skáldmenna áttirnar nálgast ] [ sætur hundur. flott borð. ég á ekki orð. málning,dagatal,kall,kona,sjónvarp,sandpappír, er enginn hér með viti? bora í veggi með skeggi! leppalúði borðar kjötsúpu. smokkfiskur,ýsa,lax og áll. nei,nei,nei,nei og aftur nei! hættu nú alveg. þetta er ekki einu sinni ljóð! þetta hljómar meira eins og táraflóð. mamma er alveg óð. nei hún er rjóð og einnig góð ! öll ertu græn en ekki með \"shine\" hættu nú þetta er bull mig langar í kakó. smyrðu veggin með köldu smjöri. mmm þú ert fín mín sín þín kímnigáfan er fín og þetta var rím... ] [ yfir sér golan lítið lætur lág eru ský og grá hljóðlega austurglugginn grætur glætan sín lítils má dauf eru skilin dags og nætur drungalegt um að sjá ] [ Það var kvöld eitt, ég gekk hér um bæinn, fór einn niður á bryggju og grét. Það var með sorg sem ég horfði yfir sæinn, búinn að gleyma hvað hún hét. Ég vissi að ég fengi hana ei aftur, hún var mér töpuð, týnd, dulin. Í bænum mig skildi ekki kjaftur, mín angist var þeim öllum hulin. Ég sit hér á bryggjunni og græt enn, bið tímann að lækna mín sár. Ég vona að biðin á endanum sé senn, hér hef ég setið í ótalmörg ár. Hún situr mér svo ferskt í minni, situr sem fastast í því. Nú held ég að mál sé að linni, ég steypi mér úthafið í. Með sér mig aldan hrífur, dregur mig langt út á haf. Ég veit ekki hve langt hún drífur, ég steypist á bólakaf. Í friði og ró ég veltist, sjávarins örmum í. Það var ei til einskis ég eltist, því ást mína sé ég á ný. ] [ það pusaði á okkur sunnan undir skúr þú blotnaðir mikið við klæddum okkur úr það hefði gengið lengra en þú varst bara á ... ...dreifbýlistúttum og gekkst burt ] [ Ég get ekki gefið hvað sem er en þér get ég gefið hugsun mína og þankagang ég gæti gengið með þér slóð Rauðhettu þar sem þú leiðir systur þína þér við hönd fléttandi bergperlur í sítt dökkt hárið ég gæti synt með þér gegn straumnum allt frá árinu 1962 til dauðadags og kennt þér hvernig á horfa án þess að sjá systurnar tvær fléttandi bergperlur í hár hvor annarar og ég gæti spilað fyrir þig vals og ég gæti spilað fyrir þig Dylan og þú myndir halda að ég væri meistarinn á sjömílnaskónum þegar staðreyndin er sú að ég á bágt með gang þó hugur fljúgi víða og óskipulega varaðu þig á úlfinum sem er á eftir litlum telpum fléttandi bergperlur í hár og þó að brosið þitt og systur þinnar sé falslaust og fallegt get ég ekki gefið þér allt en glaður skal ég spila fyrir þig bolero og glaður skal ég spila fyrir Badlands ef þú sleppir systur þinni í hendurnar á mér sem fléttað gæti bergperlur í hár systur þinnar. ] [ Annað kvöld, annar strákur. Allt svo nýtt, ég heyri hjartað í mér berjast um. Annað kvöld, annar strákur. Fingur mínir vinna hratt, ég hef gert þetta áður. Annað kvöld, annar strákur. Ég gríp fast í hann, svo ég missi ekki tökin. Annað kvöld, annar strákur. Varir hans við mínar, orð hans í mitt eyra, fá mig til að gleyma stað og stund. Nýtt kvöld, nýr strákur. Og það kemur alltaf nýr á morgun. ] [ Þó að líði ár og öld munum við ekki gleyma, stundum bakvið gluggatjöld og minningarnar streyma. Í íslenskutíma mættum við þóttumst mikið vita. En Halla kom og bætti við í viskubrunna og vita. Skrifar allt á töfluna, yfirstrikar vel. Í samheitum og orðskrúðri, klára ég Höllu tel. Þótt við fylgjumst lítið með, og lærum ekki heima. Munum við Höllu, með sitt jafnaðargeð aldeilis ekki gleyma. Þökk sé Höllu, þekkjum við skáldkonur, ljóð og prósa, bragarhætti að íslenskum sið, fyrir það viljum við henni hrósa! ] [ Sæl öll, sælar eða sælir, komdu sæl og sæll. ] [ Guð, ég fyrirgef þér væntingar þínar. En ég segi þér í trúnaði: \"Okkur er varla viðbjargandi\". ] [ Evra,rúbla,norsk króna eða pund, vonandi fáum við lánin, þá mun mér létta í lund, þá verður stoppað ránin. Færeyjingar, frændur vor og vinir, takk fyrir að lána okkur ykkar aura, Davíð,Geir og hinir, fyrir ykkur erum við maurar. En við getum mótmælt, hent eggjum og fleiru, við getum ykkur hrætt, við erum mótmælendur með meiru. ] [ Tíðarandinn sem áður ók kolsvörtum Range Rover keyptum á Krít - ekki þeirri grísku heldur á annarri er flestir Íslendingar byggja - keypti kulnaðan draum og er nú kominn í strætó og kannast ekki við neitt. ] [ Ég átti líttin hund sá var snöggur og klár en allt í einu á tugs ári breittist allt og ég varð að vera töff. Þessi tegund af hundi er ekki til en hundurinn er ég og allir eru öðru víssi við mig en á fyrsta ári. Ég á líka heima með sissur góð en stundum er hún vond og er einsog ljón en allt þetta er leit að sjá því ég á heima í skóla og sál. En allir sem hvæssa á mig líða ekki vel en inst inni er allt á ske, ástin og lífið sjálft er dreumur einn sem ég fæ að lifa allt í senn. Fólk starir á mig einsog púsluspil en ég er bara ég lífið allt er gleði ein en stundum líka erfið fyrir mig. Nú lesa allir á síðuni hér hvernig lífið er stundum grátt en nú er gleðin kominn upp því jólinn nálgast og allt er flott. Jóla sálmar singja og allir eru cool rokkvið og rokkið middast í tónleika dúr en það besta við það að nú sing ég dátt og á nú góða vini allt í allt. ] [ Mig langar í.. slatta af jólasnjó nokkra bakstra af piparkökum frekar mikið af gleði örlítið af pökkum -bara smá svo máttu gefa okkur bros og kátínu taktu svo með þér þessa blessuðu kreppu og láttu Grýlu sjóða potti í. Og ekki hleypa jólakettinum út, það verða ekki ný föt á mínum bæ. ] [ Ég veit um eina stjörnu og stjarnan hún skín hún er þó ekki á himni heldur er það sálin þín. Þú ert svo skær, elskan og þú veist hvað mér finnst þú ert sú eina sem þína galla sér, við sjáum þá minnst. Vanda ég þér orðin, því þú átt skilið að - fá allt fegursta í þessum heimi og miklu meira en það. Hlátur þinn kæra Rakel, ekkert jafnast á við hann og spékopparnir þínir toppa sætleikann. ] [ Ég fylli baðkerið af 37°C heitu vatni, slekk ljósið og kveiki á geisladisk með undarlegum hljóðum... -og ég er kominn heim. ] [ Sagði ekki Nietzsche að hann væri ekki maður heldur dínamít? Jakob, áður en þú kveikir í mér - lærðu að umgangast flugelda. ] [ vasi úr postulíni frá Bing og Gröndal stóð á hillunni fyrir ofan skóskápinn svo einn dag uppúr þurru datt hann niðurá gólfið og splundraðist ] [ Ég hef gengið langan grýttan veg til að verða sú sem ég er. Ég er loks orðin heillavænleg og tilbúin fyrir lífið með þér. Þú vaktir með mér grafnar kenndir og endurbættir mitt líf. Þú leist á mig og í vit mitt brenndir löngun til að verða þitt víf. Lát ástina leiða okkur fram á við á vit hins nýja tíma. Lát hjörtu okkar stíga á svið og á hamingjuna stíma. Hlustaðu á taktinn við andartakið sem myndast því hugsanir okkar ríma. ] [ ef ég væri regluleg segð værir þú Turingvélin sem ákvæði mig ef ég væri forritunarmál værir þú þýðandinn minn ef ég væri mengi værir þú sammengið mitt líf mitt verður fullkomið þá og því aðeins að ég fái þig ] [ þú sagðir veistu ekki að það er föstudagur nei sagði ég það eru allir dagar eins hjá mér og ég hef setið undir ölvuðum bæjarljósunum og horft á andlit þitt týnast á milli þeirra ] [ Að ég sé heppinn í hestakaupum, heyrt hef ég talað um. Haldið mig fjarri lygalaupum og leiðindagemlingum. Nú hef ég verslað vildishryssu, vakra með sokkum á og hvort ég græði eða geri skyssu, gaman verður að sjá. ] [ Hún Dísa í söngskóla dafnar og déskotans ládeyðu hafnar í Berlínarborg við Einkaufenstorg hún aðdáun Þjóðverja safnar! En Þórunn í listinni nemur og líkam’og huga sinn temur hún þykir svo frjó og er alltaf svo mjó að kvikmyndahlutverkið kemur! ] [ Bleiki grísinn var handtekinn fyrir að setja stráksfána á plastpokann. Kreppan er auðlind. Hvernig er það, er ekki hægt að virkja kreppuna? ] [ Laufin liggja á götum allra, líf og straumar flæða ei meir. Ljóssins styrkur líður sællra, laufið þegar orðið leir. Ísinn bráðnar ískrið vaknar, ískyggilega klaka þíð. Ímynd manna í móði saknar, í miðjum frosta Íslands tíð. Fallinn fnykur bograr strýkur, finnur skilningsvitum stað. festir fingrum þar til lýkur, fótum beiskju sest þar að. Kalinn klettur klifrar lúinn, kolsvart bergið finnur fró. Kallar af krafti á mannamúginn, klettsins þrá um sálarró. Veriði sæl og blessunar líða, velfærnis visku bið til oss. Vaki nú menn og vættirnir víða, vellunnarar oss Íslands kross. ] [ Ég vakna hugsa um sköpun heimsins stend við vegg nota pensil og alla heimsins liti mála og mála mitt listaverk næ í rúllu og hvíta málningu mála yfir allt aftur því í raun er ég sofandi ] [ Svartur og hvítur blandast saman útkoman er rauð fallega rauð er hún gölluð spyr fólk á hún ekki að vera grá ] [ Glerkúla umlykur allt umlykur mig umlykur þig umlykur alla Heldur utan um fingraförin andardráttsmóðuna rakadropana kámið óbrjótanleg ósýnileg óþörf ] [ Ég stend og hlusta á regnið regndroparnir skella á jörðina með drunum innan um mannfólkið sem talar saman í hljóði án þess að vökna ] [ Stundum fæ ég hlut sem lítur út eins og leir sem erfitt er að móta flókið efnasamband sem erfitt er að greina mismunandi lögun mismunandi stærð sem erfitt er að sjá Veit einhver hvað þetta er eða hvenær það fer því mig langar til að geta hætt að gráta ] [ Í dag var ég orðlaus svo lokaði ég augunum tók alla stafina úr stafrófinu og henti þeim á gólfið svo opnaði ég augun og týndi upp orð handa mér ] [ Sú fegurð sem ég sá var í almenningsvagni hitnaði við hjartað þótt ég talaði aldrei sagði við mig að næsti dagur væri sá rétti en dagar urðu af dögum og en er ég eftir mörg tækifæri hef ég haft til þess að tala við blómið samt hvert skipti svitna ég svo mikið að ég fell í gólfið vona bara að lífið leiði okkur á sama stað en á meðan það gerist set ég bara á annað lag ] [ Hvað myndi fólk gera ef ég myndi segja þeim eitt að jörðin væri fruma sem væri ekki til neins bara einskins nýt fruma í manni að ofan veikur útaf okkur því við högum okkur svona reynið þið að fatta að við erum ekki ein í þessum geimi en hver fyrir sig hugsar eins og hann sé Palli einn í þessum heimi lausn við krabbameininu í þeim heilaga manni er að hætta að dreifa skítnum með þessu geimflaugar standi ] [ Í rauninni gerði ég ekkert rangt Samt hef ég sektarkennd Sem virðist hvergi ætla að fara Þú sem hélst að mér væri alveg sama Tárdropi af tilfinningum því ég var notuð til að ná í hana, eitthvað sem að gleymdist... 19.nóvember 2008 ] [ Djöful ég sá og hann bauð mér inn ég vissi ekki hvar ég var en hann sagðist þekkja pabba minn nú stend ég hér í dag með þeim vonda að spyrja mig svör en ég stend stjarfur, jafnvel fastur því hann segist eiga son með nokkur ljót ör en ég óskaði þess að ég hitti þennan mann aldrei aftur nú segir hann að blóðbönd séu til staðar sannleikurinn er erfiðari en maður heldur en aldrei, aldrei aftur framar ef Guð er til, segðu mér að hann sé geldur ] [ Mig langar svo að vita hvort þú hugsir til mín eins og ég hugsa stanslaust til þín Hvort að þig langi að þetta verði eitthvað meira en röð næturgamna hverja helgi En ég þori ekki að spyrja í ótta við að missa það litla sem við höfum nú þegar Hvað svo sem það er ] [ adam, það er tölvuormur í apple-tölvunni sem eva gaf þér svo þú kemst ekki lengur inn á netið í stúdentagörðum ] [ Dópum,reykjum,djömmum og drekkum, allan tíman frá eitt til fimm, við erum full engan við þekkjum, einn,tveir,þrír,fjórir,fimm dimmalimm. ] [ Þar sem óþokkar ráða oft hefnir það sín, enda eru stjórnvöld hér fylginu rúin. Ekkert mun duga nema að drepa þau svín, sem djöflast á fólkinu öfug og snúin. ] [ Að hugsa út fyrir rammann með harðkúluhatt á höfði og vindil í munvikinu. Svo spenni ég greipar og tala yfirborðslega um efnahaginn, og hjónaband þar sem fólk fer í kjól og hvítt, svo dansar það og hlær eins og hamingjan þrífist hvergi annarstaðar. Að tylla gleraugunum á nefbroddinn og horfa svo yfir þau líkt og alvöru kennari. Kakóbolli og kleina í morgunmat, og faðmlag seinni partinn. Að láta tímann elta þig í stað þess að eltast við tímann. Brosa svo mikið að þig verkjar í kinnarnar. Það er að lifa ] [ ó elskan litla, má ég má ég má ég má ég ] [ Light goes fast deeper and deeper slowly it dies though in the sleepers eyes hide the only source of power and learn the will of an hour after hour Tremendous intouition of none but blackened faces the heartfelt horrors of the once forgotten past the sleeping demons that wept in my shadows they all flee from the passion in your eyes Cold are my war battered beliefes of religion sleeping in the youth, you still must hail the towers that were built to house the Gods themselves is this not just a minipulation of powers carved in the idiotic beliefes of men Truly the only great rules of this world are taught in the divine wisdom of wim their spacious reasoning constrains the light that shines from the heavens down on us Trust not in the ones who believe they betray all for their blasphemies they call together the arms of women who are controlled by the simple will of men slowly we rise against moronic thoughts as the will to be great greatens and the outcome of biblical proportions will be the extinction of mankind oh how “God” is to us kind. ] [ It stands taller then any other it grows larger with everyday it knows what, to do to bother this fragile soul, that weilds this man To ground my feelings into endangered lands beyond the enchanted frightful sands beyond the wall that seems to open my soul is one, so broken the key to walls unspoken And for every breath I shove down my throat I see a darker, place before on the way, there is a moat that seems to drown my wills decore All I have is hope for peace in grounds of sorrow my soul will teach the forgotten way of resting unstrained with no happiness to be regained And that hope is the last resort of this broken man when nothing what he wants is what he can and now I‘m back at the same place I was before wondering what that door is for ] [ Well of black mist dying and souls of burnt fists flying leaving children crying for their parents to come home as the spirits of dead soldiers the halls frightenly roam and the gloat of witchcraft fills the brightest roar so the feeling of safety may fly away and soar to the darkest valleys of evermore ] [ Memories relieve me of present failures and leave me with some knowledge of human behaviours underneath the hopeless minds we fear our own kinds and replace the real with an illusion of despair Retrieveing my own words from deep within me I see and realize how much I fantasyes in terrible sins falls all smiles to the grins of angels under siege and deeds that brung it are all but fair In an Illusion of Despair Serenity within me, plead me with wrongs that all so plaque me and rage is my only romance in darkness it seeks me and the souls within me scare An illusion of despair Irresistability breeds my anger and the rose of all that grew the reason we all knew was the reason we all felt the reasons us been delt in a stunning dare I witness an illusion of despair And feeble bodies lying bare In an illusion of despair Why should we all care? for an illusion of despair ] [ Millions wasted on a meaningless war the cold shoulder to the ones who ask what for Are these the best things we can think of we’re not proud of what is done, I put down my gun Money might rule the world Well if that’s true why can’t we pay for peace because we are ignorant and afraid We leave no life to be saved As tears of horror run down my cheek I wonder if truly this world is this bleak No man, no ruler, no mortal should have the power To kill us all in less then an hour To God I pray, find a way One life lost is enough to crush a life When a man leaves his children and his wife And knows he will never return, never see them again To stop a war?, Tell me is that enough pain You drive me insane with your meaningless lies You can not ignore all the mother’s cries when they find their sons dead on the news these thoughts plague me, are you amused? As tears of horror run down my cheek I wonder if truly this world is this bleak No man, no ruler, no mortal should have the power To kill us all in less then an hour To God I pray, find a way As a superior race we truly can find way to make wars and slaughter of humans go away my heart is filled with blind rage It’s listed on every page sent to you Does this amuse you? Do my words of disgust amuse you now? This is not folklore no myths are told Sure I might be young, I might be 16.years old But I know for I’m not dumb, the world is cold We are the people, we are afraid We are weak and petty We are not unique To me we’re not better then the creatures we kill To me we are nothing but an infection A mistake of God And until we find a way To better and behave We will stay that way So as tears of horror run down my cheek So as I wonder if truly this world is that bleak No man, no ruler, no mortal should have the power To kill us all in less then an hour So to God I pray, find a way We are digging our own grave ] [ She’s gone to a place that living do not know And where only the truly sacrificed may go The lord shows no mercy in sending you there It does not matter whether you think it’s fair A day in one is a day of choice Choose well and saver your voice Dread the passed demonic deeds And plant new and righteous seeds Treatment past the light of day Whether it is? , I may not say But your soul will bourdon Bourdon your decision in every way Beauty beyond the surface distinction A glorious Eden with a thought of fiction But that which you see, very well could be What the night fared well to me A seventh or tenth is a numbered flaw The numbers only mark what he never saw No living man could see what is there And to bend that rule you would not dare Cause in the forbidden knowledge he left us Is the restraint we know should have kept us Away from consideration of a nation with no state of mind A seeming dream that should be to us blind When you have learned every single lesson And have released your mind from the knowledge obsession You may note to be more trusting to a holy being beyond belief Who condemns the fait of every unrighteous thief To be together in this wisdom of glory You must know the mortal and its life story Cause when he claims and seals your goal You must know where you’ll find his soul The 13.th rule could be the 13.th second Of the time passed and on its soul been beckoned Scream when the night has begun to feast And devour the spirit of your internal beast The effect of that loss may be to be free And may fair to you the right to see The forbidden land where God takes seat Where wine flows down every gold covered street Where children play only to the sound of bliss Where there is no thought of adultery in kiss I might not know whether these thoughts are true I think it so, and I pass it to you If you see my vision, follow the street Where we will meet, where God rests his feet And where son of all sons lays to rest With his head resting upon his fathers chest They feel the mortal feeling of love And they watch as a soul flies away like a dove Where the sense of accomplishment runs in tons And passes on to all loving fathers and sons The shallow minds and ignorant dreams Where the essence of beauty is not all it seems Where a man might se an angel as a demon in heels And not know how that demonic angel feels All those mistakes may cost you more then money You might never see the day again, damp nor sunny Eternal darkness of a dream denied And the decision of one power won’t be denied For you see as the end draws near We all seem to dream of fear And the future horrors of a world above this one Memories of the broken hearts from this, gone Gone forever, and saved to sever In the forgotten December The month of ember The day of tender But mutual pain ] [ As we wake by dawn empowered the night fares well to dreams and the day embracing the power of the gasp in peoples screams the foretold will be forgotten And the price will be to high the soul with in every word will know me, as well as I The cold will escape through daybreak and the sun welcomes our love the heat from days of feelings has the note to God himself far into the depth of darkness we light up the forgotten gloom serenity will be forever painted on our hearts to the length of doom the scent of flowers in dirt sacred the bloom of growth will kill it slow it is the loneliest of secrets that murders the love that’s why we tell truths that scare as well as cry we know in time all wounds will be healed and with one kiss our love is sealed ] [ Sólargeisli Að kveðja þig er sárara en orð fá lýst, En í hjarta mínu, þá sé ég veginn. Við hittumst aftur, það er víst, Að ljósinu rata hinum megin. Fögur sál þín lýsir fallega leið, Flóðlýstur stígur, að degi björtum. Trú mín læknaði, minna sveið, Minningin eilíf, í okkar hjörtum. ] [ Yndislegur drengur, fallinn er frá, Finn ég inn í mér þá heitu þrá. Að sjáumst við seinna, það er mín von, Sigurður Heiðar Þorsteinsson ] [ Fyrir ári síðan var farið til Búlgaríu, Flott vika í Svarta hafs ferð. Hamingjusamari, komum heim að nýju, Heppinn ég og vel giftur verð. ] [ Hamingjan er orð sem hefur lausn að geyma Handa þeim einum sem á innihald trúa Lausnin er mjög einföld, lát aldrei gleyma Leyfum okkur að finna, sjá og bilið brúa Þegar lausnin er fundin, þá tekur við lífið Þangað er stefnt sem hugurinn girnist Sorgin hverfur niður og þér upp svífið Samofin ertu orðinu sem aldrei firnist Ef trúin á hamingjuna er nógu sterk Ekkert þig bugar, það er sannað Sagan af orðinu er sönn og merk Segja þeir er hafa lausnina kannað ] [ Einmanaleikinn sest sem sólin í kjöltu hversdagsleikans, við sorgarstillu lágróma rekur líf svo kunnuglega í bólakaf. Á hægfara vegi á skjálftasvæði má sjá rauð fljót verða´ að sjó, og litla utangarðsfingur svo smávaxna, kafa í svartasta kal. Með lítinn Bónarmann að verki og Tindáta guðs að leik; við blekkjara afskræmdum kinka þau látlaust kolli, standandi á spegilsléttum blóðpolli í sannfærandi manndómsvígsluleik. Og sjá er þau hníga og stara á staðalímynd andardrátts, brosandi í sig Beiðandann sem öllu fær úr botni hvolft. ] [ Allt líf er af unaði skapað, ástin hún magnast og dvín. Að lífið sé fyrirfram tapað, frá fæðingu er ekkert grín. En hvað sem að lifir þú lengi, þú láta skalt gott efla þig. Þá fagna mun Guð þínu gengi, hvort sem gengur á æðri stig. ] [ Að lokum situr öldungurinn biðukollan snæuglan inni í stofu rifjandi upp minningarnar í áramótaskaupinu en á miðnætti þýtur hann eins og ýla til stjarnanna og aðeins rautt prik fellur aftur niður... ] [ Jakob fer með þig niður að stað hans við ána þú heyrir í sláttuvélunum og finnur súrefnisskortinn og þú veist að hann er bilaður en þess vegna heillastu af honum þú færð ananasdjús og hamborgara sem koma alla leið frá matstofu Daníels og um leið og þú ætlar að segja við Jakob að þú sért búinn að fá nóg af þessu þá brosir hann svo blítt til þín og vit þitt firrist eins og hans og þú sérð að hann er nakinn rétt eins og fyrsti maðurinn og Daði kemur nakinn út úr rauða bílnum og þú veist hann fer til Jakobs því hann hefur snert Daðans innsta kaun Já Jakob var skipstjóri hann dró ýsur í víða og hann var fuglar eins og hann sjálfur, og leit niður á mennina fyrir neðan hann sagði: Allir menn þurfa að slá og allir sjá mig og Daða og rauða turninn okkar og þegar hann vissi pottþétt að þetta var allt ein orgía þá sagði hann: allir verða að vera skipstjóri í sínu skipi þangað til Daði kemur um borð og frelsar beltisdýrið. En sjálfur var Daði brotinn löngu áður en Jakob opnaðist yfirgefinn, næstum ekki flokkstjóri hann lenti í auganu eins og steinn og þú vilt ferðast með Jakobi og þú vilt losa þig við skynsemina og kannski leiðir Jakob þig því hann hefur snert þig, Daða, með líkama sínum. Já Jakob tekur í þig og leiðir þig í skóginn hann er í engum fötum og klæðir þig úr líka og bílrúðurnar verða móðar á þessu rauða, rauða skipi og þú veist hvert þú átt að horfa hann sýnir þér hvað skal sjá það er Daði inni í Jakobi, það er Jakob inni í Daða, það er brotnum púslað saman og þið myndið eina heild og munu ávallt gera það meðan Jakob kemur til þín og þú vilt ferðast með Jakobi og þú vilt losa þig við skynsemina og kannski leiðir Jakob þig því hann hefur snert þig, Daða, með líkama sínum. ] [ Fingur þínir við mig stríðnislega fitla þeir mig bæði strjúka ljúft og kitla. Hönd þín tekur blíðlega um höndina mína þú herðir takið, þannig að skín í löngun þína. Fingur mínir æstir þína fingur finna fullkomið er hvernig þeir saman tvinna. Frá lófa þínum, um líkamann fara að leika leikandi þú gerir mig ástarveika. ] [ Komdu kvæði mitt sem konungar gáfu. En óvart ég týndi því englarnir sváfu. Og hvar er harmurinn er haltrandi kemur. Lemur sítarinn sinn og strengina þenur. Hvar er gamla góða gleðin sem mætir. Er ort er um ástir og alltaf kætir. Af hverju ertu þar sem enginn sér. Segðu mér sögur og sestu hjá mér. ] [ Hann horfði í augun á mér syndir okkar jafnar hvert á ég að leita til himins til heljar eða bara til þín? ] [ Aska og duft í alheimsins ryki, auðmýkt og dulúð í auðkenndri rót. Heljarins heimska í hávegum lyki, heimsins hátíð hinnar dáðu snót. Drattast nú delar meðal dýrðlinga, Djöfull dregur dröttunga hér. Rótækur risi meðal ræningja, rífur til rifjar hvern ræfil að sér. Milt er beðið um miskunn framvegis, meðan maðurinn ei meðaumkar sér, fallið frátekur réttindi lífeyrisþegis, fjandinn leikur sér að mér og þér. Fjandinn duftið fitlar við framvegis, felur sig á bakvið öskuna án frygðarvona. Sæll ég sálugur syndga ei mun framvegis, sofandi á sælu minna dætra og sona. ] [ Eitt augnablik dreg ég inn andann. Eitt augnablik er ég stór. Eitt augnablik læt vaða út um dyrnar. Stíg línudans lífs og dauða, vindurinn umlykur líkama minn, frelsið umvefur hjartað, handfangið umhugað af sálinni. Eitt augnablik örlög mín ráðin. Eitt augnablik er ég fráls. ] [ skuldir, uppboð, eignasala skemmt er kölska sjálfum skuldar bæði horn og hala hálfveðsettur af bjálfum ] [ ómur fortíðar bjartar minningar bræðir hjarta er þörf á þvi að kvarta? ] [ Beið eftir hrópi leit í norður að pólnum leit í suður að pólnum leit á Heklu Esju Kötlu jafnvel Kjós beið eftir hrópi beið eftir sársauka leit í vestur að sólarlagi leit í austur að sólarupprás leit á björgin laugarnar mæðurnar jafnvel gúurnar beið eftir sársauka beið eftir hrópi leit í hallann beið eftir broti leit í hryssinginn beið eftir öskri leit til himins öskur Guð. ] [ Tjöldum í Tjetjeníu tjillum og tökum því rólega, þó þar sé fullt af æstum uppreisnarmönnum. Tjáðu mér svo í Tjernóbíl tæpilausa ást þína, þó þar sé rosa mikil geislavirkni. Tja... Treystum ekki á Tje-staði til að tjösla okkar saman. Tímanum er ekki um taktleysi okkar að kenna. ] [ Það er erfitt að lifa Það er atvinnuþrek Jáh það er erfitt að lifa Því krónan er frek. Krónan er farin Liggur marin og dáin Myrt, lúgbarin af manni með ljáinn. Kreppan er komin Þig lifandi mun taka Þú endar í verksmiðju Fiskinn að flaka Við drukknum í hafi. Ekki ein króna er hér Við deyjum í kafi Þið trúa munuð mér. Þið sögðust allt vita Jah það má nú kalla Ykkar vit er nú skita Því við erum að falla Þið þykist vita allt svo vel Þið þykist geta spáð Fyrir öllu í heimi hér En þið getið ekki náð, Náð að breyta öllu hér Gera allt gott Þið munuð ekki geta það. Gert allt aftur flott Við erum þegar fallinn Við munum ekki vakna Litla ljóta landið Engin mun okkar sakna! ] [ Af andliti mínu speglast sú fegurð , sem felur sig í yfirfullu vaskafati. Utan frá bleik svörtum glitrandi ljósastaur, Berst hálfkæft sársaukahróp undirtyllu gulmálaða kantsteinsins. Meðan bláskellótta þakplatan hamast í ofboði, á máðum tökkum Nokia gsm símans i veiklulegri tilraun til að hringja í 112 sem er fyrir fram dauðadæmd vegna sólarstorma sem geysa ofbeldisfullir í sama vaskafati og endur kastar fegurð minni., ] [ Hunskast burt Haarde, til helvítis Solla, hengjast ætti öll ykkar drolla. ] [ Ég keyri út í kolsvart myrkrið sem umvefur mig með hlýju sem gefur mér ljós í hjarta og allt hugarangur hverfur. Þess vegna sækist ég í myrkrið! ] [ hringlótta borðið hefur verið á látlausu flakki frá því það kom í íbúðina það passar eiginlega hvergi almennilega inní’ana ] [ Sællífið met ég sanna list, sóma þó að prjónavinum. Þeir bestu ávalt fara fyrst, því fæstir taka eftir hinum. ] [ Að standast ekki væntingar, það þykir mörgum leitt. Hvað við því er að gera, það er nú önnur saga. ,,Það þýðir ekkert að vera láta hrósa sér og vera svo ekki neitt", sagði oft heitinn faðir minn, í gamla daga. ] [ Lyktin af þér hangir í loftinu enn leifarnar af samveru okkar. Innra með mér öll ég brenn eftir eru ófullnægðir skrokkar. Andardrátturinn teygar ilminn þinn ímynd þín í hugsunum birtist mér. Í hjarta mér hamingjuna finn í hvert sinn sem birtist myndin af þér. Horfin eru ummerki heimsóknarinnar hugur minn leitar að þér. Nú ertu farinn heim til hinnar og hjarta mitt bíður hér. ] [ Ég var kenndur við margar stelpur það var þensla þú veist hvernig þetta er nú koma þær allar til mín og heimta meðlag. ] [ Hvernig mætirðu verkamanninum? Líturðu í augu hans? Hann er klæddur í appelsínugulan galla og stendur á umferðareyju. Þú stoppar við hliðina á honum á rauðu ljósi. Horfir þú í augu hans? ] [ Let your dreams become true! Life can be so hard sometimes, you think you’ve lost your way. But in the end you realize, you’ll get your chance another day. One day you’re in, the next you’re out, get thrown in the recycle bin. but the time you’re in, there is no doubt, the wait was worth the win. You feel like your only dream is gone, and you have no one left to guide. Then just look right at your closest one, they’re standing on your side. One day you’re in...... So let your dreams become a real, you have a mountain to klife. I think that is the only deal, so go on with your life. One day you’re in, the next you’re out, get thrown in the recycle bin. but the time you’re in, there is no doubt, the wait was worth the win. I know that it wi-ll be no doubt... one day you are going to wi-n. ] [ Í hjarta mínu til ég kenni sál mína með báli brenni í kappakstri við hægri snú ég hoppa niður ég klifra upp engin nema ég og þú rekaviður rósablöð hamast við og kreysti vel líkama minn ég sel í huganum ég dvel sálina ég fel ég er alda í fjöru ] [ Mikið er nú frúin fín og fallegur trefillinn! En heimskreppan hefni sín, hvílíkur þremillinn! ] [ Það þýðir ekkert við konur að þrefa, þær hafa alltaf rétt fyrir sér. En þær hafa líka margt gott að gefa og ganga stöðugt í augun á mér. ] [ Góðar sögur ég mikils met, mál er að tala núna. Sannleikann ég sagt þér get, en síður gefið trúna. ] [ Gott er að leika við glaða sprund og góðum kostum skarta. Eiga saman unaðsstund og elska af ljúfu hjarta. ] [ Orðin brunnu á vörum mínum. Viltu hitta mig í frítíma þínum? En ég gekk á brott. Og hugsaði; á morgun, á morgun. Á morgun! En alltaf kemur nýr á morgun. ] [ Að lesa gott ljóð er einsog að rúnka hausnum á sér. ] [ ísvetrardrottningin kreppir kalt hjartað utan um fortíð sem hún ei vill leysa úr læðingi ískaldur sársaukinn öll okkur nístir þar sem við liggjum í klakaböndum og öndum alköldu ísjökulábreiðan rólega skríður nær mér og hylur vonir um þíðu í sálu drottningar ísilögð framtíðin og stundin þessi botnfrosin eilífð til minningar um of heitan ástareld ] [ Nú er soðinn sultargrautur, sýnist reiðin grimm og sé hún raunsær ráðunautur, er rétt að telja upp að fimm. ] [ Með ósk um gæfu og gengi og gleðiríkra daga. Megi ykkur endast lengi, ást og ljúfust saga. ] [ Bráðum tek ég ákvörðun Og hætti að leita Því ég þekki þig Ég hætti að spyrja En ég hætti aldrei Að dást að fegurð þinni Þú spilar á mig eins og gamla fiðlu Og særir mig Og kyssir svo á bágtið Og brosir í mig þrá sem er óskapleg Hættu, hættu, hættu Burt grimma þrá Ég vil frið! ] [ Fögnuður, ólýsanleg gleði ys og þys og fjör, pálmagrein í hendi Hvítklæddar verur, fágaðar í blóði lambsins á altari hjálpræðins, tjaldað til eilífðar Guð er sem lýsandi röðull, í nánd Silfrandi klæði hylja visinn líkama, blár Opal í kistuhorni, vasalaus líkklæði Kertaljós á látlausu altari Drottinn er nálægur Örvasa af hryggð, tárvot augu í spegli, hvaðan kom ég? Hver er ég? hvert er ég að fara? ásjóna mín undir sveitadúk hvítum Seytlandi vatn rennur um greipar, vonlaust að festa hönd á því Dropar á barns enni, sveitadúkur hvítur, kjóllinn ljós Skrúði réttlætisins Fögnuður, ólýsanleg gleði, þetta er ég þá og nú og síðar Hvítfáguð vera í blóði lambsins í ríki himnanna Þar fæst ekki blár Opal ] [ Eilíf eru börnin í samfélagi hjartnanna, kirkjunni sem öllum er opin Þar er lagt á borð fyrir alla, það svignar undan kræsingum náðar þinnar Drottinn Bikar þinn, barmafullur, börn eilífðarinnar þakka þér Drottinn ] [ Viðkvæmt strá, sárt og aumt. Undir logar undin, opinberuð, þetta er ég Ræturnar djúpar, vandinn torræðinn. Kyrie, eleison Fyrir þig fær grænt gras sprottið í sporum mínum Stráið bylgjast í andvara sólarbreiskjunnar. Hjarta mitt, hreinast í dögg náðar þinnar, sólstafirnir geisla Yfir mér regnbogi, sáttmáli skráður í hjarta mitt Þökk fyrir óræða náð þína ] [ Hver er tilgangurinn, hvar liggja mörkin. Erum við blind, leidd af höltum. ] [ Skýr fyrirmæli ! en ég leysi ekkert úr þeim dýr fyrirtæki ! gull í sandi er orðið þreytt farinn að skilja að lífið tekur alltaf einhvern enda gull fyrir mér er eins og steinninn sem ég var að henda ] [ ég er ekki lengur hér Sólin vísar mér veginn Hún eigi lengur mig sér Enginn getur sagt að hún sé fegin Ungur drengur rétti hönd sína lófi hennar byrjaði að slá hann vildi eiga stúlkuna mína ég vissi ekki hvort hann mætti hana fá vonsvikinn, dapur og sár gekk ég aleinn niður að brú niður lak ekki eitt einasta tár hún saknaði mín ekki stúlkan sú hún brosti hún hló og söng hann gerði hana káta eigi vissi ég að hún væri stúlka röng og heima biði mín önnur hnáta ég sá ekki tára minna tal er ég lét mig falla tunglið lýsti upp þennan dal ég heyrði engann kalla nú grætur mig hún Anna hún grætur í öxl hans en aumingja hún Hanna gengur að steini með krans ég vissi ekki þá að allir myndu svo sárt sakna núna ég ástina aldrei mun fá og aldrei aftur mun ég vakna heimskur ungur drengur hann í röng augu leit en svona gerist þetta og gengur enginn veit fyrr enn hann veit ] [ Ég dáist að fjöllnum í kvöldsólinni á sama tíma og þú starir á endalaust mannhafið í miðbænum. Við höfum aldrei séð neitt fegurra. ] [ Tíkur sem af pólum komu stálu af réttsins hnotum gerendur lepja að sér fé og hagsmuna tré Farandleg mörk eru sett lýðveldsins stétt ey lengi að eyðast græðgin fór að breyðast Dögunin varpar fram ljósi í myrkri og flór fullu fjósi fyllist lýður af heift krefjast fá allt breytt Löggðum þeim til munns kílói og punds fjárinn til kjafts þeir leggja var okkar eigin sleggja Heimska og uppreisnarleiðir lýðurinn ávallt þegir hlýðir öllu sem segir föst í eigin ólum Sem stjórnálamenn, við hlógum. ] [ Dreitill af djöfulsblóði mætir peningaflóði fróður fjandi drepur menn og sál þeirra étur. ] [ Hrafnsaugu í skógardjúpi þar sem rætur skjóta sér í jarðveginn maður situr niðurbrotinn og harmsleginn hylur sig í sorgarhjúpi Fölur á hörund leitar að logandi augum stingandi stáltaugum fullur af öfund Sérhvert skref er hann tekur loki skelfur mannsins tár stendur á höfði hans hár og tár úr augum hans lekur Með hornauga lýtur til himna Strýkur hljótt yfirborð móðurinnar finnur golu ljúflega strjúka hans kinnar lýsist loks hið dimma. ] [ Í hörku keppnum margur má, mæðast og verða grettinn. Oft í rauninni ríður mest á, að ráða við endasprettinn. ] [ Það er hann Ásmundur Brekkan! Emjaði stúlkan við rekkann, sem á mína trú og elskar mig nú, en ég læst bara alsekki þekkj´ann. ] [ Allt verður svart. En svo aftur bjart, er ég hugsa um þig verður allt bjart að nýju. En aftur verður allt svart. Er ég átta mig á að ég er ein. Þú ert við endann á myrkrinu. Kannski, bara kannski verðum við saman Kannski áttaru þig á því. Að við eigum samleið, Ég og þú. ] [ við getum beygt himin ] [ Ljóð, ég hef þig. Eitt verðurðu þó að skilja, það eru engar skuldbindingar, aðeins ást í þinn garð; hann er fullur líkt og ég, af visnum trjágreinum, sem benda á orð, sem lesa upp orð, meðan þau tafarlaust brotna, undan þyngslum norðanvinda, sem hljóða í óminu; þessi öskur sem þeir heyrnalausu mynda, líf án spegilmyndar og forsjóna, það varð slys. Voðalega er ljótt að sjá þig, en ég man eftir ástinni. Ljúfan, manstu þegar þú féllst? Þegar ég sleppti, það varð dauðaslys kringum glerbrotin, beinbrotin, hjartað sló eitt örstutt andartak. Ég var einn í smá tíma, þú varst myrt, ég hékk með rónum Reykjavíkurborgar, lærði um dauðann og velferð hans. Ég skil hann fullvel í dag, hann er ávallt velkominn í mín heimahús, sorpið við göngustíginn. Svo var ljóðið tilbúið, ég fann þig aftur, allan tímann í dulargervi, leitandi til framtíðar. Hamingjusamur endir, í kolsvartri kápu, veglegur, bara fyrir þig. Hún er flókin, þessi ást. ] [ Undir vesturhimni á ég heima. Um sumarnætur þar ég dansa við frelsið. Undir grámosanum ólgar hraunið. Í mýrargrænunni kviknar lífið. Undir frelsishimni þar á ég heima. ] [ Undir vetrarhimni norðurs á ég heima. Undir stjörnum himins leita ég átta. Norðurljósin dansa við þrá mína um nætur. Náttúran sefur í kyrraþögn vetrar. Undir frelsishimni þar á ég heima. ] [ Ég minnist þess forðum er mig dreymdi drauma og smíðaði hallir með huganum einum. Ég miðaði á mánann en missti marks og nú stefni ég eitthvert en veit ekki hvert. Stjörnurnar á móti mér æða af stað ef ég finn eina lausa þá sest ég þar að. ] [ Upp í Breiðholt, í búning klár svo barnalegur að mönnum risu hár Með skötu hann sebrahesta sló snéri henni við og höfuð af sér hjó Jakob! Bækistöð er staður fyrir Jakob Stuttu eftir kaffi var settur á orf en síst komust svæðin í betra horf setti bensíngjöfina í hendina og upp á hól, hann gaf upp öndina Jakob! Bækistöð er staður fyrir Jakob Rétti honum Meistari hrífugarm og hann rakaði á sig skapabarm að loknum degi tókst ekki gám að loka datt og kafnaði ofan í ruslapoka Jakob! Bækistöð er staður fyrir Jakob Á endanum gerði eingöngu ógagn gerði ekki lengur út á grænan vagn greyjið gerður var gámavörður uns glaðlyndur kom og át hann Hörður Jakob! Bækistöð er staður fyrir Jakob Inn um gullna hliðið Jakob gekk og Jesú bróðir hans á krossnum hékk sagði ,,Jakob förum í læknisleiki\" og þróaði með sér sjúka geðveiki Jakobs! En bækistöð er staður fyrir Jakob ] [ Þetta er minnst 10 milljón skuldadagur Minnst 10 milljón skuldadagur Hann upphófst feiknar fagur En nú rökkvar og ég er ragur Enda minnst 10 milljón skuldadagur Ég skulda fjölda franka en á ekki krónu Skulda fjölda franka en á ekki krónu Það stendur betur hjá Geir og Ingu Jónu Og hjá mannfífli með kórónu En ég skulda feita djöfulsins franka... Ég farga mér sjálfum ef fellur aftur gengið Farga mér sjálfum ef fellur aftur gengið Þið getið sjálfstæðið þjóðar fengið Er smið fyrir bakara þið hengið Svo útriðinn að ég get ekki gengið Vá við sjó og ég á jeppa Svakaleg vá við sjó og ég á jeppa Öldugangur, það skellur á kreppa Með mynkörfulán en tókst ekki að sleppa Á jeppa staddur í sjóvá Ég meika ekki 100 milljón krónu skuld Meika ekki 100 milljón né krónu skuld Eins og sjúk ödipusarduld Eða plata með Hafdísi Huld Ég meik´ana ekki... skuldina. Það er myntkarfan sjálf frosin enginn milli´er Myntkarfan sjálft frosin enginn milli´er Því bankinn hann er killer Ég mesti hálfviti sem til er Lánið sjálft frosið Stóð í skilum en þarf nú skuldafrest Stóð í skilum en þarf nú skuldafrest Náði ég mér í fjárhagslega eyðnipest? Þarf að komast í slíkt test Ég er kynbótaskuldastóð... sýkt? Skuldafjallið hefur sofið í 1o milljón ár Skuldafjallið hefur sofið í 10 milljón ár Nú mergsogið eins og nár dauðans ljár hefur skert mitt hár Eins og eilífðar smáblóm, Íslands 1000 ár Því þetta er minnst 10 milljón skuldasólarhringur Minnst 10 milljón skuldasólarhringur Eins og í vampíru silfur stingur Kom að því að einhver gaf mér fingur forljóta 10 milljóna króna löngutöng Já, þetta er minnst 10 milljón skuldanótt Minnst 10 milljón skuldanótt Hún líður nógu hægt og hljótt Enda með fjárhagslega hitasótt upp á minnst 10 milljónir og hún tikkar ] [ Fjórir blængar á bláum nóvemberhimni gamna sér við jarpan fálka líkt og ekkert sé eðlilegra líklega hafa þeir nýlokið sér af við hálfhvíta rjúpu? Skyldu þeir fyrst hafa fengið sér súpu? ] [ Sjónvarpið á heimilum krossköngulóa sýnir stilli mynd af fjarska fjöllum Ó ruglaða ] [ Vegna okkar bankamála birtist lítil kætin, lotin hímir þjóðarsálin döpur og með slen. Sömu stjórnarherrarnir halda enn í völdin, sem að hröktu þjóð okkar on´í skuldafen. . ] [ Hvert andartak sem án þín líður sárt í hjarta mínu svíður hjartanu sem hér einmana bíður. Með ljósu lokkana þú ert svo fríður við mig ertu yndislega blíður með þér eins og prinsessu mér líður. Erfitt er að hætta áður en um þverbak ríður innra með mér óstjórnlega girndin sýður líkami minn bljúgur sig upp á býður. Aðeins með þér hef ég upplifað þessar áköfu ástríður. ] [ Ég sit í bifreið, sem fer með mig á milli staða en það skrýtna er, að ég horfi bara á hana allskonar fólk sem koma bara og fara en mér er alveg sama því ég horfi bara á hana á þessa ótrúlegu manneskju, ég held mér sé að dreyma þetta er sú eina sem á heima í mínum heila hvenær verð ég sá maður sem guðir voru að leyna en einn daginn mun ég reyna að komast miklu lengra ] [ Áður héldu mér engin bönd, ég flaug frjáls sem fuglinn um bleikrautt himinhvolfið og keypti tvennar bláar gallabuxur á degi neytendanna, bláeygðu þótt ég ætti þær til í skápnum. Það er undir hælinn lagt hvort ég sleppi í dag úr búri nýfrjálshyggjunnar, og geti frjáls um höfuð strokið á gluggasillu Alþingishússins, steinbúrinu við Austurvöll. ] [ Geir er garmur mjög Gnýr allur fjármálaheimur Brugðust bræður Lemans brást allt lánstraust Banginn í banka seðla bónusfeðga fjandi Finnst Arnarhólshlíðin fögur og fer hvergi ] [ innanum stálhnífapörin er gamla silfurskeiðin ófægð og ósjáleg ] [ Margt er bófanna bríarí, sem birtist fólkinu núna. Ingibjörg sökk í svínarí og sauðirnir missa trúna. ] [ jólagjöfin ‘58 var brúni teketillinn sem er inní skápnum og hefur enn ekki verið notaður ] [ Vá! fugl, og við hin fljúgum inn í framtíðina... ] [ Tennur varga vættar sjálfum sálu tætta tómið marga hildi háð hefur sjálfan vefur ofar sér. Dramb átt öllum hefur hálum völlum verið fátt annað en illa fengin stilla lítils sjálfs. Verður launa lágum megn máttur þágum þinna rauna eigin alda önn tímans tönn enda tíð. ] [ það stendur hvað ég er traustið sem lekur úr augum þér hverfur í myrkrið þar sem aðeins dimm dýr finna þau stöldrum aðeins og hugsum ég er ekkert nema draumur en dreymandinn er dauður hver sér mig hér, ef hér er þar sem ég er ey en get hvergi annars staðar verið Ef þú ert partur af mér sem þú telur þig vera viltu eitthvað með mig hafa ef ég er aðeins brot af raunveruleikanum. Ég er aðeins blekking hugans einkenni drukknunnar í lífstíðar leyndardómi næturnar. Reykur og speglar holdsins hinnsti draumur í blindandi augum í hvirfilvinda draugum. Drengur lýtur dagsins ljós dregur aðeins ályktanir af heims og hugaflóði þar sem áður fannst gróði Fellur tár af barnablóði. ] [ Ég veit um litla eind, sem er einmana hjá lífsins báli, - um litla eind, sem enginn sér, og engum þykir skipta máli. Henni\' er dásemd lífsins leynd, hún langmest þráir ró og næði. Fáa vini á sú eind - oft hún harmar þessi gæði. Sjaldan verður henni hlýtt er hírast þarf hjá köldum steindum. Svo er henni stundum strítt af stórum sam- og rafljós-eindum. „Þú ert ekkert - núll og nix - þú nifteind hefur varla\' í kjarna! Þú kannt engin töfra-trix - til hvers ertu að hanga þarna? Þú ert bara flækingsfrum sem finnst á strangli - því er miður! Hvort mér verður ó og um, ég óska þess, þú hrapir niður! Ég er stór og stæðileg, stolt ég minni á himinengla. Þú ert annað allt en ég, þú einskis nýta skítarengla!“ Um vanga okkar eindar tár óðum streyma. Frá skal segja: Hún mun lifa um aldir, ár, þótt óski hún þess fremst að deyja. ] [ Kvíðinn lifir í mörgum heimum. Ekki í einum eins og það sem er. Heldur í ótal heimum sem gætu endað í einni martröð. ] [ Sumir vilja meina að vitringarnir þrír hafi aðeins séð klámstjörnu sem gerði sér upp fullnægingar. ] [ Óskaplega ertu fín, allir geta séðþa´. Ég er ekki að gera grín og get ei spaugað meðþa´. ] [ Komdu, því freistingin er ljúf. Gleymdu raunveruleikanum. Bara í smá stund. Í kvöld vil ég vera hér. Hjá þér. Gleymdu fortíðinni og framtíðinni og vertu núna. Í kvöld elska ég þig. Vil halda í hönd þína og hafa þig. Gera allt sem þú vilt gera. Á morgun ertu týnd og ég þekki þig ekki. Ég elska þig samt. ] [ Hylji yfir verkin vond og veslingana svíkja, skoða á hroðann Breskur Bond og Björgólfana líka. ] [ Það þarf engan að undra þótt nú sé hér allt í strandi. Síðan ég man eftir mér hafa einhverjir verið að stela af fólkinu í þessu landi. Þessi þjófnaður núna er ekkert öðruvísi en viðgengist hefur alla tíð. Hann er bara stærri en verið hefur um langa hríð. ] [ Aldrei fékk ég að sjá sólina sagði tröllið það drapst úr elli. ] [ 1 Og þess voru orð Guðs, sex skinkutegundir skaltu leggja inn um lauf jarðar, og sá sem svangur er hann mun saddur verða. 2 Þá kom spámaður í lambslíki, svaraði hann og sagði: hásæti skaltu gjöra við Subway Hringbraut, og munnur guðs mun snæða með þér kjötskinku satans. 3 Slátra mun hann satan í skinkubát, skaltu kaupa hann fyrir tuttugu silfurpeninga 4 og ég heiti því, að sjö konur munu dansa í kringum þig er þú bragðar á djúpsteiktri kjúklingabringu við hásæti Guðs. 5 Eta mun ég gullsoðinn lax af sólhvítu parmesanbrauði, og hann mun sprikla í maga mínum undir glitrandi stjörnum. 6 Ég hef ekki tíma til annars en að eta, drekk ég með því sumarblátt þingvallarvatn sem kjötbitarnir synda í eins og endur. 7 Ég beit í skinkuleggi nýlambsins, þegar BMT báturinn sigldi inn í óperuopinn munn minn 8 og í grænum salatkjól hló hið slátraða lamb innan um brauðfjöllin. ] [ Hvítur snjór fellur á grasflötina eins og hvít ábreiða græna grasið sést ei lengur því nú er kominn vetur. ] [ Svarti kóngurinn er fallinn af stalli sínum eftir að hafa verið höggvin niður af litlu peði í átta skrefum. ] [ Dætur Ránar,´Bára og Bylgja blautar eru vel, Alda og Hrönn,illar ylgja yfir máta hraustar tel. ] [ Geri ég eitthvað þá geri ég það með stæl og gjöfina til þín ég vanda. Gleðilegt nýjár og gangir þú sæl, gleðileg jól þér til handa. ] [ Aðfangadagur og matur. Pakkar og miðsvetrarsól. Latur liggur flatur Guð sem gefur Gleðileg Jól. ] [ Litli jólaálfur. Viltu gefa mér? Eina litla ósk nú ? Því ég vil segja þér. Þú sem ert svo góður. Það ljós sem lýsir skært. Þú situr aleinn, hljóður. Meðan Guðs börn sofa vært. Ég veit þú,litli álfur Vilt ekki mikið fá. Nema að fá að vera Guði sjálfum hjá. Nú ertu orðinn gamall. Og veist það sjálfur vel. Meðan vanþakklæti ríkir. Þér er þá ekki um sel. Gamli jólakarlinn. Kúrir bæli í. Farin er að hverfa. Þú veist alveg hví. Öll börnin hættu að trúa. Á þann góða jólasvein. Svo karlinn er að fara. Fara bara heim. Á himnum fáið þið að vera. Vegna trúar sem alveg brast. Það eina sem máli nú skiptir, er gúmmí, tæki og plast. Jólasveinninn varð þá, bara vesæll gamall maður. En svo hann fékk að fara, Þá í hjarta varð hann glaður. Ég bið þig kæri álfur, Að passa okkar svein. Sem eitt sinn var svo bjartur. Og honum enginn geri mein. ] [ Þú veist hann er gáfumaður ef blaðsíðurnar í Eddukvæðabók hans eru klístraðar saman. ] [ Englarnir dansa í kvöld. Í stjörnubjartri nótt, við undirleik kærleikans. Þeir leita paradísar á ný. Er hún kannski í hjarta þínu. ] [ Þögult og einbeitt myrkrið flæðir seigfljótandi yfir allt sem á vegi þess verður, en gerir birtunni samt svo greinargóð skil. Það umlykur allt og hræðist ekkert nema ljósið. Ég horfi á vitann reyna að skera dimmuna hring eftir hring en fljótandi rökkrið flæðir jafnóðum yfir og græðir sárið. Vitinn gefst ekki upp og heldur ótrauður áfram. Hring eftir hring eftir hring. Nótt eftir nótt eftir nótt, hrærir hann í dimmusullinu. Tunglið þröngvar sér leið finnur sér örmjóa smugu og treður geislanum sínum í gegn. Kemst niður að haffletinum en breytir þar stefnunni þráðbeint á mig. Kvöld eftir kvöld og nótt eftir nótt miðar tunglið á mig ekki ógnandi, en hvikar aldrei. Þó reyna skýin stundum að bjarga mér. Lengst uppí himnafestingunni eru ljósin kveikt. Það skín gegnum pínulitlu götin á gólfinu hjá þeim uppi. Þau styrkjast og dofna á víxl einsog þau séu að reyna að vekja á sér athygli eða senda mér skilaboð. Undir gjálfrandi öldunum sem dansa í geislanum frá tunglinu og stjörnubliki, leika sér fiskar. Fiskabörn og fiskamömmur og kannski fiskapabbar. ] [ Refur upp á heiðum sér greni grefur grimmdarseyði alveg dæmalaus, fórnarlömbum engan griðin gefur græðgi, ógn hann étur sporð og haus. ] [ Í svartnættinu eru svörin við spurningunum sem ég fæ ekki af mér að spyrja horfandi þó inn í hugann þinn blómstrandi hvítum blómum sem tekin voru með töngum og löngun mín í kransinn er sterkari en nokkru sinni fyrr á hnjánum vina mín styn ég ekki upp nokkru orði sé ekki svartnættið sé ekki dagrenninguna sé aðeins stóra hjartað slá í tilgangsleysi orða sem mynduð voru endur fyrir löngu og líkingamál á hér ekki við ekki fremur en þá er hafið blítt og létt sópaði burt öllum söknuði og eftir stóðu orðin sagnlaus gagnslaus allslaus ] [ kreppan er komin satt er það, klýpur geð og býtur. Illa sofinn ég held á stað kvalinn með fúnar spýtur. Hvert mig leiðir hvert mig ber, hljóður ekkert segi. Mitt þrek er þrotið sem kalinn hver, ég þrjóskast á óvissunnar vegi. Áður fyrr var allt hér gott, allir unnu með dáðum. Í svipan einni háð og spott, hulið heimskra manna ráðum. ] [ Sumarið er góðhjartaður kapítalisti sem græðir land með því að gefa lífeyri. ] [ Þú, sem eitt sinn áttir mig, íss á köldum ströndum megi auðnan elta þig ævinlega, á röndum. ] [ Þú, hinn virti, líksáttarsemjari, náriðill ösku þeirra, stöðnun á raun og veru, aftökumaður frjáls vilja, böðull skærra augu, ást og veruleika. Þau tilbiðja og hefja á stall víðáttumikla vanþróun, vændiskonuskapara, hóruskapsmangara í búðarglugga samfélags og samsæri fallins manns; herkænsku sorpsins; guð og skapara þíns. Hversu lengi ætlar þú og þín gína að sáldra og myrða lítil seðlapeð? Hversu lengi þarf blóðpuntuð brúða í líkverslun þinni lúta iglu sem þér? Hversu lengi ætlar þú að staldra við fyrir framan mig með látlausa líkmergð? Þú endar víst ekki fyrr en dagurinn, sprengjuölvuð nóttin og mannlegur dauði fer. ] [ á bókahillunni stóð eitt sinn bók eftir mjög mjög frægan höfund en svo var hún fjarlægð þótti ekki nógu góð skar sig of mikið úr og stakk í stúf við allt annað á hillunni ] [ Ég hata hvað þú talar við mig eins og þú elskir mig snertir mig líkt og ég sé fullkomin elskar mig eins og þú elskar þær ] [ Rúmið ennþá volgt, Þar sem við sváfum nóttina áður. Rúmið sem við vöknuðum í, Morguninn sem ég gaf þér mig alla. ] [ Marglita perurnar gæða snævi þaktri jörðinni hlýju og birtu, þar sem skammdegið lýsist upp. Treflar og húfur skýla viðkvæmu holdinu, en litadýrð skapar andlega og hátíðlega stemmningu. Hin yngri kasta snjóbolta og renna sér á hólunum, meðan hin eldri endurupplifa æskuna sem áhorfendur. ] [ Þú elskar mig bara þegar þú ert drukkinn. Ég elska þig alltaf, drukkin eða bláedrú. ] [ Hann segir ekki orð en segir allt sem segja þarf. Hann hefur andúð á orðum en leyfir konunni að halda annað. Trúa á sannleikann. Trúa því að hvort sem honum var það ljúft eða leitt þá skildi hann ekki hvernig eitt gat lifað án annars. Með eina vafða í kjaftinum og tignarlegt göngulag sem sýndi aðeins hversu vel reynslan var bundin um mittið. Það var þá þegar hræðslan réðst á sálina og gerði hana að tjöru á götum borgarinnar ] [ Jesús er farinn hann fór heim til sín. Hann býr með pabba sínum í lítilli íbúð í úthverfi Reykjavíkur. Ég átti leið þar hjá og varð forvitin. Ég kíkti inn um stofugluggann og sá þá feðga sitja á leðursófa með ölinn í hægri og þeir hlógu. Þeir hlógu að því hversu misskilinn boðskapur þeirra hefur verið frá fyrri árum og hversu heimskur maðurinn er í dag. ] [ Í draumum mínum lýg ég. Ég lýg um vitsmunaveru sem er ekki til. Ég lýg því að hún líkist þér, lýgur aldrei, svíkur aldrei. Hún segir satt um ósagðar sögur. Hún þekkir vitsmunaveru sem er ekki til. Þær drepa og stela, slá og berja, ríða og reykja. Ég lýg um lýgina. Ég segi satt um sagðar sögur. ] [ Ég þekki mann sem býr á leiði í Fossvoginum. Hann er svo hræddur um að eiga ekki fyrir farinu þegar það kemur að honum. ] [ Við sagnarokkinn sit ég, læt orðin vefjast fyrir mér... ] [ Ef þú grætur í regninu, þá skolar regnið burtu tárum þínum. Ef þú grætur í þokunni‚ þá hylur svört þokan andlit þitt. Ef þú grætur í sólinni, þá þurrkar sólin burt sölt tárin. Ef þú grætur í frostinu, þá spegla ég mig í frosnum tárum á kinnum þínum. Og þegar ég strýk vanga þinn þá brotna þau eins og hjarta þitt. Ekki gráta. Þá brotnar ekki hjarta þitt. ] [ Ég þess sakna, að vakna, þér við hlið. Horfa í augun djúpt, hugsað hversu ljúft, er að liggja, hér með þér. Upplifað síðan daginn, allt gangið mér í haginn, og síðan sofnað aftur, hér með þér. ] [ grísmettir dansa þeir og dansa á gröfum þeirra sem áður létu ekki segja sér til verka heldur andmæltu og pissuðu á borgaralega hlýðni sápuþvegnir dansa þeir og dansa á gröfum þeirra sem áður dirfðust að steita hnefanum og gáfu skít í regluverkið með bleki drifnum pennum þeir dansa því í gröfunum ríkir kærkomin þögn ] [ Ég grét nóttina fyrir prófið í mannvist ekki því ég var með prófkvíða ég grét því hún er að koma til þín í borgina \"okkar\" í gamla rúmið mitt á svæðið mitt í íbúðina mína að kyssa þig faðma þig stela þér frá mér hún er að koma og fagna fimm ára bið með þér ] [ Komi ei við þig kreppan sár, kveðju vil þér færa. Gleðileg jól og gæfuríkt ár, góða framtíð kæra. ] [ uppá háaloftinu eru geymdir pappakassar troðfullir og komnir að því að springa ] [ Til Dodda Júl á Skorrastað. Sæll mestur snillinga, þótt víða sé leitað. Um að senda þér línur ég get mér ekki neitað. Ég var á trítli í tækjasalinn er fékk ég hugljómun sem er ekki svo galin. Þá settist ég niður og hripað hjá mér örlítið um tilveruna, sem ég ætla nú að tjá þér: Hér leik ég með líkama og sál, losa um stress og kvið, síðan borða ég baunir og kál og býsnin öll rek svo við. Engan skyldi svo undra það neitt, þó oft finnist daunn í salnum. Ráðist ég líka á rúgbrauðið seytt, þá rymur við hátt í dalnum. Í lokin ég ætla svo upp að fletta, að ég er ekki einn um þetta. Því leyfist mér engin sorg eða sút, en síst hef af viðrekum gaman. Verst er að hafa ekki veglegan kút og geta virkjað þetta allt saman. K. Kv. Einar ] [ Sjá visku hins siðblinda manns, sýnin hún reyndist ógreið. Örlög þjóðar í örbirgðar dans, því örfárra skyldi sú sneið. ] [ Bara hugsun og minningar líða finn ég kvíða, er Guð að stríða, mér Sný mér við og þar finn ég aftur mikill kraftur, sneiðir mig í tvennt Fönnin liggur yfir líkama mínum einn með gýnum, sálarleysið eitt Reif mig á fætur, eftir langa nótt liggur dimma yfir jörðu þar sem eitt sinn var allt hljótt dropi af grænu, lýsir mína leið til landa þar sem fegurð ræður allri innri hneigð Sleit mig úr draumi, til að mæta heimi fullur af hatri og ofbeldishneigð líkin liggja yfir engjum, sem eitt sinn blómstruðu fnykur illskunar flytur með sér all til helvítis Laufin hylja dauðann allann hylur kuldann, móðir veitir huggunn í barnsins vöggu, grætur augun úr sér Guðirnir þeir gráta blóði, yfir illsku flóði djöfull hlær sig í svefn almáttugir hafa enga stjórn, en sú fórn sem heimska mannsinns ber með sér við erum aðeins næring meðan jörðin hjaðnar þó betra en áður, maðurinn eyðingar háður dregur allt með sér í hel ] [ Ég klóroformi í koddan klíndi kannski heldur mikið stúfurinn ekkert lífsmark sýndi skelfing vel af sér vikið ] [ Um Ágústu gott vil ég gefa í skyn og gleðja ei minna en hina. Hennar eru góðverkin hvergi lin og hvað er lífið án vina? ] [ rósin var látin þorna skrælna og verða brún þá var henni komið fyrir í rauða vasanum ] [ Ó, að við gætum öll verið eins og þú, Stanley svona hæfileikarík og óstöðvandi, Stanley og svo áhrifamikill líkt og þú, stanley með svona þenkjandi höfuð, Stanley Hví getum við ekki öll verið Stanley, Stanley? Listrænir leikstjórar lífsins, Stanley algjörlega sama um alla aðra, Stanley fullkomnunarsinni til hins ýtrasta, Stanley Hvernig er að vera eins og þú, Stanley? Komast upp með allt, Stanley vera hafinn upp til stjarnanna, Stanley svo fáránlega góður, Stanley Ég dræpi fyrir gáfur þínar Stanley rytjulegt hárið og garmana, Stanley kringlótt gleraugun á nefbroddinum, Stanley hæfileikana og viljann, Stanley Og að vinna eins og þú, Stanley svo vel að maður grípur andann á lofti, Stanley fullkomnar kvikmyndirnar, Stanley ég tilbið þig á hverjum degi, Stanley. ] [ Ó að þeir gætu verið eins og þú, Johhny með svona gullfallegt bros, Johnny kastaníbrúnt hárið, Johnny svona djúp og seiðandi augu, Johnny Hví geta þeir ekki allir verið eins og Johnny, Johnny? Guðdómlega girnilegur gæi, Johnny og fullkominn á hvern hátt, Johnny elskað fallegar meyjar og listina, Johnny? Hvernig er að vera eins og þú, Johnny? komast upp með allt, Johnny leikið farsæla menn og furðufugla, Johnny bara hafa fjölbreytni þína, Johnny Ég dræpi fyrir að snerta þig, Johnny standa við hliðina á þér, Johnny og sjá hvað þeir blikna Johnny í samanburði við þig, Johnny Og að ég gæti leikið eins og þú Johnny, sungið og sveimað um á skýi, Johnny fallegur í alla kanta, Johnny þú ert allt sem ég vil verða, Johnny. ] [ Ég og besti vinur minn hann Ísak, okkur langaði í blóm litskrúðug blómin hennar Rósu í næsta húsi Ég og besti vinur minn hann Ísak trítluðum í garðinn í sumarsins litadýrð slitum upp túlípana og kölluðum þá páskaliljur Ég og besti vinur minn hann Ísak gáfum mömmum okkar blóm en lentum í skammarkróknum meðan Rósa plantaði bara nýjum ] [ Kallt er úti, klaki á rúðu kallinn úti að skafa ekki efast, aðeins trúðu vertu aldrei í vafa ] [ Ég og besti vinur minn hann Ísak, okkur langaði í nammi dísætt nammið úr Villasjoppu hinum megin í hverfinu Ég og besti vinur minn hann Ísak, örkuðum með fulla vasana af gulli störðum á úrvalið keyptum marga froskabita og gular bananastangir Ég og besti vinur minn hann Ísak fengum illt í magann og vorum skömmuð því við átum of mikið af ljúffengum froskabitum ] [ Gerist okkar gengið valt, glapinn margur landinn. Peningarnir eru allt, eins þótt renni í sandinn. En þó að bregðist þetta allt, þá má huggast landinn, því ekki verður okkur kalt, ef oss hirðir fjandinn. ] [ Ef þú lítur inn í þann vetrarbæ er tekur að dimma til nætur einn staður þar er sem enn logar ljós ung stúlka þar situr og grætur Reynir að sofna en getur það ei svo sárt hana söknuðinn svíður ótrúlegt satt ef einhvers þú saknar hve lengi þá tíminn hann líður Hún veit að það styttist í hennar laun fyrir næturnar sem hún mun vaka því hún veit að þá loksins hún sofnar þann dag er hann kemur til baka ] [ ... hvað kemur næst? ] [ Til er mynd mynd í minni bók mynd af engli engli sem grætur. brosir gegnum tárin innviðið er brotið en myndin er ósnortin ] [ Hann Kiddi langi var kaldur fýr hann komst í ótalmörg ævintýr, hann var svo djarfur að sækja sjó að sumum þótti víst alveg nóg. Bæði í Grimsby og Grindavík gamla kempan var söm og lík gamanyrði og gleðimál glumdu hátt yfir fylltri skál. En ef kólnaði Kidda geð með krepptum hnefa hann málum réð og margur fýrinn þá flaug um gátt flengdur vel með augað blátt, en úti á sjónum æðrulaus öðrum þegar hugur hraus glotti hann kalt þó hrönnin há himinljóra brotnaði á. Halló Kiddi, þetta er kveðjan mín ég kalla hana útum nes til þín, þar einhversstaðar í öldufans við Ægisdætur þú stígur dans, - og þó - einhvernvegin mér sýnist svo að sjái ég ganga bræður tvo, einsog í bernsku hönd í hönd hinumegin á blárri strönd. 1980 © allur réttur áskilinn höfundi ] [ Stattu með mér á jólanóttu, ei vil ég vera einn. Snjórinn breikkar og breikkar en hér er hjartað mitt, lítið og smátt sem vill taka við þér. Ei vil ég vera einn á jólanóttu, svo komdu með mér. Allt er orðið hvítt, hér geng ég um með snjónum, vonast eftir að sjá jólasveininn. Götur fullar af jólaljósum, og krakkarnir hlaupandi um brosandi og kátir. Hér sit ég einn á bekk, kaldur og frosinn. Hér kemur að mér kona, með börnin sjö sem ljóma. Nú finn ég hve mér hlýnar, ást og umhyggju ég fæ. Hér vil ég vera. ] [ þegar gamla þvottavélin var borin út ískraði í henni þegar ekið var með hana eftir götunni skrölti hún þegar hún var tekin af pallinum lak úr henni þetta var orðið óttalegt hró ] [ Svona, þú manst hvað sundkennarinn kenndi þér Beygja! KREPPA! Sundur! Saman! ] [ Ég vildi að ég væri þess virði. Ég vildi að þú elskaðir mig. Ég vildi bara að ég þyrði... Þyrði að tala við þig. ] [ Ég skrapp til Reykjavíkur því flest er þar falt og feyknin öll til af jólaskruddunnni. Og það kom sér betur því gengið er valt, að þá var réttur gjaldmiðill í buddunni. ] [ Þar sem ljósið er skærast skugginn er stærstur. Það skilgreinir afleiðing þess sem er glæstur. Og ljósið hefur vísar oss veguna löngum, en vont fær best þrifist í dimmunnar göngum. ] [ Forðum er knörr þinn ölduna klauf á keipunum sauð eins og hver, því lognmollu sjó að sigla síst þótti henta þér, og hvert sinn þá hafaldan háa, með heljarafli á skall þér logaði eldur í auga, ólgan í blóðinu svall. Og hvernig sem veltist og virtist, hvort veröldin grét eða hló, þú stefnu hélst ótrauður áfram úrsvalan, lífsins sjó. ------------- - Nú þegar lagst er að landi og litið um öxl í ró, má spyrja: Hvort gaf þessi glíma, gull og ilmandi skóg -? 1993 © allur réttur áskilinn höfundi ] [ Jólaljósin kvikna hvert af öðru jólin nálgast fólk fyllist gleði, tilhlökkun það er svo gaman á jólunum allir pakkarnir, jólakortin maturinn allir fínir. Eru allir fínir, glaðir? Sumir, gráta gengna ástvini þeirra spor liggja ekki í verslanir til að gleðjast, kaupa jólagjafir. Þeirra spor liggja í kirkjugarðinn þung spor saknaðarspor. Álútir horfa þeir á kaldar grafirnar sem flestar eru skrýddar ljósum í tilefni jólanna horfa á grafirnar sem geyma þeirra kærustu ástvini. Nú er of seint að horfa saman á alla dýrðina. Nú er eingöngu hægt að gleðjast yfir stundunum sem þeir áttu saman fyrir löngu eða ef til vill er ekki svo langt síðan. Saknaðar tár falla sölt, hlý þau smjúga mjúklega gegn um snjóinn skilja eftir sig örlítið far kveðja til hins látna. ] [ út um apagrímuna leit ég draumveru mannsins: til hálfs var veruleiki hennar óræður hinn helmingurinn fullkomlega steinsteyptur ] [ í html-i skýjanna afkóðuðum við dulmál næturinnar ] [ Þú ert blíður elskuhugi og minn besti vinur Er blíðlega hugsa til þín, er ég aldrei linur Ég skil ekki hvað nokkur getur séð, við nokkurn annan... En Jakob Ég kyssi þig á ennið, því þú ert góðmennið Ég kyssi allan líkamann, er við snertumst sundur – saman Ég skil ekki hvað nokkur getur séð, við nokkurn annan... En Jakob Ég velti mér upp úr skítnum – syndi í þínu þvagi Við erum sætir saman, en ljótir í sitthvoru lagi Ég skil ekki hvað nokkur getur séð, við nokkurn annan... En Jakob Ég krassa hjá þér og við kúrum undir teppi Ég elska þig, þó þú sért, á kletti á Kleppi Ég skil ekki hvað nokkur getur séð, við nokkurn annan... En Jakob Ég gef þér allt sem ég ann, og allan heiminn Og ég skal gráta með þér, ef að, slitnar traktorsreimin Og ég skil ekki hvað nokkur getur séð, við nokkurn annan... En þig Ba ba, ba ba, ba ba, baba Ba ba, ba ba, ba ba, baba Ba ba, ba ba, ba ba, baba baaaaa Þú - verður – aldrei – annar – en – þú - ert ef allir væru þannig – Ó, hvað gætum við við heiminn gert? Enda skil ég ekki, hvað nokkur getur séð, við nokkurn annan... En Jakob Heimurinn stendur í stað, og lífið það bíður Ég er stjarfur af ást, yfir því hvernig þér líður Ég skil ekki hvað nokkur getur séð, við nokkurn annan... En Jakob Anda inn – anda út, ganga hægri vinstri Ég er uppnuminn af þínu, einfalda lífsmynstri Og skil ekki hvað nokkur getur séð, við nokkurn annan... En Jakob Saklaust bros í fyrsta sinn, snerti hverja taug Ég teikna af þér mynd og set á þig geislabaug Því enginn getur séð nokkuð – við nokkurn annan... En Jakob Maður heitir Jakob, mikilsmetandi Ég heiti Daði og er þinn mesti aðdáandi Ég skil ekki hvað nokkur getur séð, við nokkurn annan... En Jakob Við dönsum kviknaktir á döggvotu engi Ég dáleiðist af ilm þínum og inn í þig sprengi Ég skil ekki að nokkur getur séð, við nokkurn annan... En þig Rasslausar leðurbuxur og leðurgríma Ber að ofan olíulöðrandi og við höfum tíma Hví í anskotanum ætti ég að leita nokkuð annað... En til Jakobs? Ba ba, ba ba, ba ba, baba Ba ba, ba ba, ba ba, baba Ba ba, ba ba, ba ba, baba, baaaaaa Ég - elska - þig. ] [ Það er kátt á hjalla í flökkumannsins hjarta. börnin í gleðivímu kalla Til drengsins blíða og bjarta. Halla fer að hátíðarhöldum Hrímdalsins björtu böndum birta fer af degi köldum farboðans bíður fley. Hungursneið er mörgum hugarangur hugsast getur ei. syrtir djúpt sá slæmigangur fyllir vitin, já svei. ] [ vélskólinn ‘36 er á innrammaðri mynd uppá veggnum og nokkuð tekin að gulna andlitin standa þó enn fyrir sínu ] [ Einn gekk ég um gamla bæinn þinn og götur voru kaldar og auðar heiðin í felum og eyrin hálffeimin fölnaðar eru rósirnar rauðar. Nú geng ég óðum á forðann og ég elska stúlkuna að norðan En sólin bakvið skýin brosti og hló og settist ekki baun þann daginn ég skildi ekki þá og skil ekki enn skuggann sem læddist yfir bæinn. Ég hitti þig aftur er heimur verður nýr og himnesk þau verða eilífu vorin Heiðin og eyrin aftur verða hlý og aftur munu heilsa gömlu sporin en nú geng ég óðum á forðann og ég elska enn stúlkuna að norðan En sólin bakvið skýin brosti og hló og settist ekki baun þann daginn ég skildi ekki þá og skil ekki enn skuggann sem læddist yfir bæinn. ] [ Það fæst ekkert gert við fjárglæframenn, slíkra fanta ætti að reyra um hálsa. Hér sullast í glæpunum Sjálfstæðið enn, þeirra sannleikur gerir þá frjálsa. ] [ Eitt andartak með vængjuðum nið hins himneska friðar. ] [ Áður óþekkt tilfinning vefur sig hægt og hljóðlega upp og yfir skynsemina. Endalausir möguleikar og rammar upplýsast og varpa ljósi á það sem ætlað er. Sambönd rofna og vírar víxlast án gagnvirkra boða þar sem skilningur ríkir á kerfinu. Skrumskræling í huganum þar sem ójafnvægi ræður för kallar á harkalegt mótsvar. Endalaus réttlæting auk feluleiks þar sem hinn fullkomni heimur er skapaður. Situr í myrkrinu án týru áttavilltur einstaklingurinn skilningssljór og undrandi. Fórnarlamb eigin hugarástands. ] [ Lagskiptur og litríkur drykkurinn rennur ljúflega niður, og sameinast samferðavökvum sínum. Litla skondna regnhlífin brotin í tvennt og liggur á borðinu. Klingir í klökunum og áhrifin sparka hressilega í börkinn. Einungis áður hugsuð orð detta óritskoðuð fram á varirnar. Logsvíður í vangann og finn hvernig roðinn brýst fram. ] [ Sólin hún gefur lífinu ljós, ljósið sem aldrei má fyrna. Vatnið það streymir í eilífðarós, en ,,engin er rós án þyrna\". ] [ Glæst verði framtíð, gleðileg jól, getir þú leyst hverja þrautu. Gangir þú léttstígust lífs um ból, leggist þér gæfan í skautu. ] [ Þegar ég leit inn í stóra herbergið sá ég þig liggjandi ofan á sófagarmi leikandi þér með plastsímasnúru. Þú hættir að leika þér er þú sást mig horfðir á mig með þínum fögru augum og stökkst inn í hjarta mitt. Í dag ertu í mínu hjarta þó farinn sért og þegar ég hugsa til þín þá græt ég því ég sakna þín alltaf svo sárlega. ] [ Eitt er víst - að úti frýs allt, sem frosið getur. Grjót og mold og gras og hrís - Guðmundur og Pétur. ] [ Æ dansaðu við mig dans kæruleysisins þó allt sé að fara, brenna til helvítis. Dansaðu við mig til enda lagsins þangað til við eigum ekki efni á bandinu lengur. ] [ Rangur maður á röngum stað, ryðst um aðra þvera. En réttur maður á réttum stað, í raun má hvergi vera. Sjónvörp á kvöldin sitjum við, þá setur að oss hryllingu. Því í hverjum fréttum fáum við, fregnir af nýrri spillingu. ] [ Ekki minnast á morgundaginn ekki muna eftir því sem gerðist í gær við erum hér saman í stjörnunnar ljósi og sjálf nóttin er bæði gegnsæ og tær. Sýndu mér heiminn sem áður var hulinn því hér er vor stund og augnablikið taktu mig í fangið og frelsið mér gefðu því frostrósabeðið er gróskumikið. Ekki gráta þær gleymdu stundir sem gærdagur deyddi með berum klóm vertu mér minning um eilífa æsku en ekki um gaddfreðið frostrósablóm Nú skuggarnir dansa og dögunin kemur og draumurinn bráðum úti er þú munt sjá að ég var til staðar þá stund sem helguð var mér og þér. Ekki minnast á morgunn sem kemur sem munaðarfull löngun í huga þér komdu í fang mitt og frelsið mér gefðu þú fegurð sem ekki ætluð var mér. Ekki minnast á morgundaginn ekki muna eftir því sem gerðist í gær við erum hér saman í stjörnunnar ljósi og sjálf nóttin er bæði gegnsæ og tær. ] [ Vefðu þínum ástarörmum um mig elskan, þvi nóttin er svo dimm. Ég ber mjúka kossa mína á þig elskan, því ástin er svo grimm. ] [ langur, stuttur hvert sem fer gengur, hleypur eftir mér líður kátur eftir vegg áfastur við hægri legg vakur, kvikur mest í sól er hið mesta ólíkindartól alla daga sálargluggi eltir mig eilíft svartur skuggi ] [ Ég gefst upp Ég er hættur við Ég ætla að gerast sáðfruma aftur ] [ Svo kyssti ég þig og varir þínar gleyptu mig eftir stóðu skórnir sá vinstri á kúplingunni sá hægri á bensíngjöfinni svo ég gæti keyrt þig heim ] [ Ég kveðju sendi kæru hjón, komið þið sæl og blessuð! Er ekki kortið undra sjón og eruð þið nokkuð stressuð? ] [ Á kort þetta virkja ég vísur, sem vonandi rata heim til þín. Meðan stjórnvöldin karpa um krísur og kunna ekki að skammast sín. Sæl Stína frænka og sittu nú hljóð, sprokinu verður brátt lokið. Ég ætla að senda þér ódauðleg ljóð, en afsaka mátt hjá mér sprokið. (Síðan komu tvö nýleg ljóð með tveim vísum og þessi lokaorð) Glæst verði fræmtíð! Gleðileg jól! Gakktu í Drottins friði! Yndið besta undir sól, allt komi þér að liði! ] [ Færðu andlitið af öxlinni minni og brátt verð ég löngu farinn því hljóð næturinnar er það eina sem við greinum fyrir utan andardrátt löngu horfinna ástmenna sem við getum ekki afneitað þó tunglið sé fullt og rakkar næturinnar þekkja ekki muninn á röngu og vitlausu ég þarfnast þín meira nú en seinna en brátt verð ég þó löngu farinn og þessar dimmu stundir í lifi okkar og þessi sannleikur sem mun fylla nóttina mun gera lífið óbærilegt tunglskinið leikur við berar axlir okkar og augu mín vökva hárið þitt dimmt og hrokkið færðu andlitið af öxlinni minni því ég vil ekki vekja upp ástina með fyrstu geislum sólarinnar því verð ég brátt löngu farinn á vit þessara hljóða sem fylla nóttina og síðan mun ég einnig hljóða í nóttinni. ] [ gamla stóra stofuklukkan sveiflar pendúlnum taktfast og slær reglulega sé hún trekt verður vart fundin ábyggilegri né áreiðanlegri stofuklukka af þessari gerð ] [ Ótrúlegt en satt, svaf í tíu tíma, tíminn leið hratt, og morgunmatur með súkkulaði. ] [ Ég heilsa ykkur heillin góð, hvað skal best til ráða? Ég á það til að yrkja ljóð, ætliði að hlíða á snáða? (Síðan valdi ég nokkur eldri ljóð og kvaddi með þessu erindi) Guði ykkar framtíð fel og farsæld á vegi förnum og æskam megi endast vel, undir heillastjörnum. ] [ Ei menn þurfa um að skeyta, þó orðanna séu ei heftir. Orðin þurfa helst að heita, svo höfð þau séu eftir. ] [ Sultarólin þykir þröng, þjóðin mesta rola, fólkið kirjar sultarsöng, sjálfstæði farið í mola. Fávitanna fylking breið, fer með valdasviðið, þeirra virðist gatan greið, að geta öðrum riðið. Umræðan er orðin löng, en aðeins bull og þvaður, fólkið safnast saman í þröng og sýnist margur staður. ] [ Sæl mín kæra Sigurlaug sómakonan væra. Svolítið ég sendi spaug, sem má andann næra. (Síðan kom ferskeytla og lengra ljóð og voru kveðjuorðin í þessa lund) Megi lífið þér hossa hér og þar í hamingjunnar stólum. Ég óska þér yndis og blessunar á öllum komandi jólum. ] [ Sent frá heilsuhælinu í Hveragerði des ´08 Ég óska ykkar fjölskyldu fyrst og fremst farsældarinnar forsjár á lífsins vegi. Sá sem helst til æru kemst er hinn yndislegi. Að halda sig að heiman helstur er minn tregi, svo ég sendi ykkur kveðjur, Stórbóndinn stæðilegi. ] [ Skrapp ég fram að fá mér te, fékk mér spjall með konum. Hér er oftast eitthvað að ske og einhver gleði að vonum. ] [ Að fara úr heiminum finnst mörgum leitt, en framtíðin lög þessi setur. Að vita ekkert hvort verður kalt eða heitt og hvort mönnum líði eitthvað betur. ] [ hvar á að leita að týndri teskeið þegar eftirrétturinn bíður þess að vera borinn fram og gestirnir eru farnir að aka sér í sætunum hvar skal leita? ] [ Hér eru margir rónar í reynd, rótgrónir í sinni eymd. Þeir flýta sér að fela, féð sem þeir stela og bera fyrir sig bankaleynd. ] [ Takk Ásta, svona er með þessa gömlu menn og þarf ekki gamla til, að þeir vilja snúa hlutunum við. Kveðja, Einar ] [ umslagið á borðinu kom í töskunni eftir gangstéttinni úr strætisvagninum á götunni niður tröppurnar inn ganginn og útum dyrnar á skrifstofunni ] [ Ég man þegar við hittumst stundum eins og óvart í Bókhlöðunni og borðuðum saman túnfisksamlokur þegar þú ruglaðir í hárinu mínu og kysstir mig bless ] [ Almúginn segir, ei þingmönnum þakkið, þeir hafa ekki unnið mér eða þér. Því þar hefur stöðugt allt helvítið pakkið, verið að hlaða undir rassana á sér. ] [ „skrílslæti!“ æpti ráðherrann gjörsamlega grunlaus um það sem koma skyldi. ] [ Þú veist ekki að stundum þegar ég er að koma heim þá stoppa ég í bílakjallaranum. Sit í bílnum í tíu mínútur, korter. Hugsa kannski, öskra kannski. Held þá fyrir öskrin með treflinum sem þú gafst mér og bind hann svo aftur um hálsinn. ] [ Ég lengi lengi syng um lítið berjalyng. Sár er sjónarmissir er snjórinn á það kyssir. Um sjóinn hraða hvel í hafið kafa vel. Þar sem lúða í leyni liggur upp að steini. En valur vomir hér á veiðunum hann sér. Pínu litla lóu látin í kjafti tófu. Hún aldrei þýddist þann sem þanda brjóstið vann. En syngur dirrendí í draum heimi í. ] [ í 12 ár hafa kaffiþyrstir íbúar og gestkomandi notið þjónustu sjálfvirku kaffivélarinnar af Philips gerð en þá bræddi hún úr sér ] [ Þú stóðst þarna undir ljósastaurnum stjarna á sviði lífsins Og ljósastaurinn lýsti engum nema þér Þú spilaðir á hörpu tilfinninga minna Þessa stjörnubjörtu nótt En lagið það fór aldrei á flug Þú fórst þegar leikur minn hófst Sem stjörnuhrap í myrkrinu í sömu andrá og pera ljósastaursins dó ] [ Einar á Efri Hjalla allskonar fræði kann. Snjókornin falla og falla, fellur mér vel við hann. Fegurðin upp til fjalla, fyrst þegar hana sá. Snjókornin falla og falla, féll ég í stafi þá. Ég ógæfu yfir mig kalla ánetjast fjárhættuspil. Snjókornin falla og falla, mér fellur þó eitthvað til. Þó að ég ýti á alla enginn samt færist úr stað. Snjókornin falla og falla, fallast mér hendur við það. Ingvar er alltaf að dralla, annað eins hef varla séð. Snjókornin falla og falla, mér fellur það ekki í geð. Hann var með heilmikla galla, hún var ógurlegt skass. Snjókornin falla og falla, hún féll eins og flís við rass. Bændur í sveitinni bralla braska með hrúta og ær. Snjókornin falla og falla, það féll á einn víxill í gær. Langan veg heimleiðis lalla lúinn með augu hvít. Snjókornin falla og falla, fell ég í svefn og hrýt. Það á ekki við um alla, ég óvæntan glaðning hlaut. Snjókornin falla og falla, mér fellur gæfan í skaut. Eins og svarkur ég svalla svartfullur verð og ær. Snjókornin falla og falla, ég féll á bindindi í gær. Dama er kölluð Dalla, Davíð finnst ekki ljót. Snjókornin falla og falla, hann féll fyrir þessari snót. Ef blíðlega höfðinu halla hún verður kát og glöð. Snjókornin falla og falla, allt fellur í ljúfa löð. Forynjur inn til fjalla fara á stjá í kveld. Snjókornin falla og falla, mér fellur ketill í eld. Þú ert ekki með öllum mjalla þær mæltu og sendu mig heim. Snjókornin falla og falla, ég féll ekki í kramið hjá þeim. Ýmsir mig aula kalla að mér presturinn hló. Snjókornin falla og falla, er féll ég um koll og dó. ] [ Eitt sinn varstu besti vinur minn jafnt sem að nóttu eða degi og hjá þér fann ég hlýju og il og alltaf tókstu vel á móti mér. Þessi vinátta hélst í mörg ár og mikið varð ég háður þér. En á meðan þessi vinátta hélst fór kúturinn á mér að bólgna út uns ég varð eins og hnattlíkan án þess að taka eftir því strax. Svo vaknaði ég við vondan draum dag einn og fékk nóg af þér. Ég leitaði hjálpar frá þér og vináttan fór að þverra heimsóknir til þín færri og kúturinn fór að minnka. Samt sem áður leita ég til þín þegar hungrið sverfur að. En í dag erum við sáttir og vinir þó ég heimsæki þig ekki oft en af og til ég kem til þín heilsa upp á þig gamli vinur. Þá er gott að opna þig og fá sér eina létta ab mjólk í skál! ] [ Ég setti sjálfan mig í lófann og blés í þúsund brotum þeyttist ég með vindinum tvístraður, týndur, tapaður Sandstormur af sjálfum mér ] [ Á líkamsræktarstöðinni er verið að massa upp mann. Og fólkið kaupir sér far á rándýr hlaupabrettin til þess að horfa á hann. Það er sveitt inni og hiti, og maginn er sléttur og smár. Þetta er laglegur maður með mikla vöðva og rökuð punghár. Og stúlka með sæblá augu segir við mig: Skyldi manninum ekki leiðast að láta horfa á sig í sturtunni? ] [ minnisbókin með öllum minnisatriðunum finnst bara ekki sama hvernig rótað er í minninu ] [ Margur sér sporin sparar, spáir í veður og laun. Sá veldur ekki sem varar, vinir eru fáir í raun. ] [ skrifborð í stofunni blaktandi gluggatjöld grár köttur útí horni inniskór eða hvað? ] [ Hún situr og hjúfrar sig upp við kaldan vegginn hikstar af grátri og tárin af ákefð renna hennar harmur sá sami og margra kvenna - honum að kenna. Hún ruggar sér raulandi til að reyna að gleyma en vangarnir votir, þeir vilja ei þorna hvernig gat þessi kona - sú vitiborna fallið fyrir leiknum forna. Hún rís loks á fætur til að hrekja sársaukann á brott þrútin augun taka hvíldinni fegins hendi vona að sorg hennar taki brátt endi - hrædd um hvar hún lendi. Hún tínir upp úr gólfinu brotin úr hjartanu sínu tjaslar þeim saman svo þau haldi - í bili það virðist alltaf fylgja þessu ástarspili að verða niðurbrotinn og særður aðili. ] [ Stígur MAMMONS sonur dans, sveiflar þráhyggjubréfum í kringum sig, hangir allt við lukkudjúpið. Þar vindar taka og skila stundum, Stundum er langt í land, og stundum er landið hvergi. ] [ Stöðvið strolluna og látið hana vera strjáli, hrópaði ofursaklaus ráðherrann . Bankamennirnir byrjuðu yst á sviðinu, svo allir sæju sakleysi þeirra. Neonljósin blikuðu í takt við hrunadansinn, og það hlakkar í örlaga norninni. við veglaust danshúsið, sem þeysist stjórnlaust í opið ginn stóra bróður. Og hún er hérum bil viss, að vorið komi aldrei aftur. ] [ Nóttin einn er hvergi, bara í huga mínum, Þar hvílir jólaþögn, heilt yfir, nema lengst, en þar er hvergi….. ] [ Þú lést gamminn geisa, gegnum þjóðarsátt. Kynjamyndir leysa, afskaplega fátt Glópagullið glóir, á geislavængjum flaug. Ef um allar dyrnar flóir, lendir allt í einum haug. Rýndar gátur rekast heim, rúmast hvergi svarið. Frjálshyggjan er hjá þeim, Í einu og öllu varið. ] [ Allir vöruðu mig við þér en ég féll fyrir því hversu vel þú lékst þér að mér og ég sem ég hélt að ég væri eitthvað, fyrir þér. Sagan endurtekur sig, þú gast ekki höndlað það sem ég hafði fram að bjóða, heldur hugsaðiru bara um sjálfan þig. Þegar ég lít til baka, sé ég frammistöðuna slaka hvernig gat ég fallið fyrir því að þú myndir vilja mig á ný. ] [ Þú sást að það stirndi á hjarnið undir bláhvítri fönninni. Þú sást gyllta sólstafina dansa í snjónum og frostrósirnar myndast í glerinu. Ég sá þetta ekki. Ég sá aðeins ímynd engils speglast í rúðunni þegar við sátum saman við gluggann í vetrarsíðdeginu og horfðum á kaldann. Við erum að bíða eftir vorinu. ] [ Ég sá þig brenna Þú sast í ljósum logum, og hélst utan um hjartað í þér Meðan þú fuðraðir upp lá ég lamaður í öskufalli þínu En þótt ég hafi horft á þig brenna sat hjartað mitt eftir Og sló í takt við þitt ] [ nú sitja menn við drullupoll og dorga drafmæltir og benda á hvern annan hver veiðileyfið eigi að borga í pollinum synda stórfiskar með gljáandi maga muna þeir feitir ekki aðra eins daga en þeir sem sitja og þykjast veiða fiska ekki neitt því þótt færið sé úti þá er engu á því beitt ] [ Og þá hló Kristur krossi á kuldalega en Jakob þagði ] [ Fyrirgefðu að ég var ekki, Fullkomin eins og þær. Ljósir lokkar, láir sokkar, Nei ég er ekki eins og þær. Fyrirgefðu að ég vildi ekki, hlaupa um og hafa hátt. Litlar brækur langir fætur. Nei ég er ekki eins og þær. Fyrirgefðu að ég fæddist svona, bækluð sjón, og gleðisnauð. Hvítar tennur og seinna brennur, þrá um að vera eins og þær. Ég fyrigef þér að þú skildir, fara fra mér seinna meir. Augun blá sem brenna af þrá. Já þú ert bara eins og þeir. ] [ Ó hin mikilfenglega veröld, farinn heimur fer þér vel. ] [ Mín harpa, mín harpa ég sem til þín ljóð. Þegar sit ég einn, leiður eða glaður með þig í fangi og leita að hinum ómögulega hljómi. En návist við þig gefur mér ætíð hlýju og von…. von um, að hið ýðilfagra í hljómi þínum muni veita mér eilífa hamingju. ] [ Brúin skiptir bæ í borg og brúar einskonar bil Hún gleði getur breytt í sorg og greiðir þá leið sem þarf til Brúin í dalnum við blasir breið brúin þessi, er mín Í hvert sinn er nálgast hún opnar leið og hleypir mér yfir til þín Ef brúin í dalnum sinn hefði sagnarmátt og segði mér allt sem ég vil... Sólin í vestri himni á hún hnígur brátt, þá húmar að Þá dalsins þytur hljóðnar hægt og við tvö finnum okkur stað ] [ þú ert sem bátur er ætíð rekur frá, eða á flóði - rekur að, en í raun fylgir hvorki flóði né fjöru þú hefur ekkert akkeri, engar landfestar, engan áttavita, né vél þú hefur engin segl, og engin möstur aðeins vindurinn og almættið sjá um þig þú ert sjálfstæðið - sem ögrar öllum, en þó mest sjálfum þér bátur, bátur, komdu, vertu kyrr, bryggjan bíður þín. ] [ Þú hásléttan mikla, með hrjóstugar klappir og engi heillar víst engan er fyrst á þig lítur og metur. Á heitmiklu sumri þar sólin hún skín mjög og lengi en hinsvegar vetur í kuldmikla kreppu þig setur. Ó, þú kastalans gólf, þar sem runnar og rjóður ei lánast þó ryðst þar upp beitilyng ilmsterkt úr hálf-földum sprungum. Og fjallgarða millum, þar fordæming alger er nánast en fjallbúans örbirgð og erfiði heldur þó ungum. Um Kantbríu ósjaldan nepjan þá ísköld hún næðir með nýfallin snjóinn og laxfisk í ánum sem líða. Laufdalur dafnar þar Ebró með straumþunga æðir og yfir er vindur og raki sem vit þín öll svíða. Fjalla er þjóðin, sem fullkomið erfiðið þekkir fornseiga bændur, er fátækt og eymdin ei grandar. Garpar í skapi, og geðríki eru ekki hlekkir gangast við heiðri, og ókunnra geð ei við blandar. Galísa norðvesturs höfnunum getur af státað gjöfulum fiskmiðum miklum og stórum í hafi. Langdalir fagrir þar teygja sig langt og þá mátað landsfræga fegurð í norðri, svo enginn er vafi. Madrid, þú gjöfula, stórbrotna menningarborg mig heillað þú hefur um áranna rásir, og gefur. Með þjóðlegum hætti og þemu um stræti og torg þú ætíð í huga mér vakir, og aldrei þú sefur Hver snerting við þig og þín sól er í huga minn grefur skín yfir landi og láði, þitt blóðheita hjarta. Sporin þín djúp, sem að líf mitt allt markað þú hefur Spánn, sem mig heltekið hefur, ert landið mitt bjarta. ] [ Jól, enn eru jól áfram snýst tímans hjól Frið færa þau oss fönn, fannhvítan koss. Klukkur kliða um sinn er kalla þau jólin inn. Húmar um haga og skarð nú hátíð gengur í garð. Allir sjá, himni á blika stjörnu-brá ætíð þá, vinarþel vaknar mönnum hjá. Því að jól, færa frið yfir byggð og ból, land og láð skrýðist leifturhratt hvítum jólakjól. Jól, enn eru jól áfram snýst tímans hjól. Frelsarans nálægð nú finn fagnandi hleypi ég inn. Bjart yfir börnum að sjá bros andlitum á. Í sálum allra er sól, er syngja þau gleðileg jól. ] [ Nú stirnir af stjörnunni björtu er skín hún á ísakalt hjarn. Sem gleður oss höfugu hjörtu og heiðrar hvert mannanna barn. Já, stjarnan hún skilaboð færir, og sendir um byggðir og ból. Sem hjörtu mannanna hrærir, og helga mun frið þessi jól. Nú söngvar um salina óma og sál okkar leiðir og laðar. Þá friðarins boð fær að hljóma því frelsarinn hann er til staðar. Hann gjöfum af gjafmildi lofar sem gleði mun börnunum færa. En dýrasta djásnið er ofar sem Drottinn á himninum skæra. Svo gef af þér á bæði borð og berðu öllum kærleiksorð. Þá hamingjan þig hefur sótt og heilsar þér á jólanótt ] [ Bjart og efst í himnahæðum, blikar jólastjarna. Boð hún sendir mér, boð hún sendir mér. Þessi stjarna segir mér það sem enginn annar sér. Dýrð hún veitir öllum mönnum, drottins sendiboðum Í dag hún segir þeim, í dag hún segir þeim. Já, hún sendir jóla-seim sem má heyra um allan heim. Stjarnan okkar allra manna, skilaboð hún gefur Skýrt til mín og þín, skýrt til mín og þín, Það að glaður gefa fer Guði pláss í sálu þér. Jólin, jólin hátíð barna jólin, jólin hátíð allra jólin, jólin hátíð okkar sem að Guði þóknast fer. ] [ Köttur á bita spenntur bíður. Glóðvolga mjólk úr spena lepur. Bóndinn mjólkar heitum höndum. Ró yfir kýr og fjósið færist. Úti er vetur dimman læðist. Köttur sig teygir mýsnar telur. Millum fóta kisa tifar. Jórtur kúnna loftið klýfur Köttur með veggjum læðist ljúfur. Leggst í dvala kvöldið dimma Búkona bitann á borðið setur. Bóndi etur vel er mettur Hringar sig niður í rýju hlýja. Týra á veggnum truflar ekki. Kvöldið dimma tími kisu. Kætast börn og jól á kalla. ] [ í björtu húsi við brákarsund býr hlýlegur andi - er lýsir leið, og léttir lund - mjög gefandi kokkur þar fríður, fögur mær, færði mér góðan mat í gær - á þessum stað varð sál mín dús - er settist ég í öldurhús - í björtu húsi við brákarsund býr hlýlegur vínguðs-andi ] [ Ljóskeilur á himni lýsa lauga mitt brjál. Undir niðri í öðru formi ólgar bál. Í ægikulda, annar hiti, um mig lykur. Magnað húm, á miðjum degi, í margar vikur. Afurð lands, sem um mig vefur allt um segir. Þytur vinds, um þöglan skóg, er þak sitt reigir. Hús, sem stendur, höfgum svip, og háðskt mig lítur. Heldur í mig heljartökum, hugann bítur. Maður jarðar, mögnuð sál sem manninn göfgar. Í landi elda og gufueims með allar öfgar. Sá andans maður gulli girtur gnótt af hefur. Hugur hans, um aldir alda aldrei sefur. ] [ Mitt land, þú hugans elska er græðir upp mitt hugarvíl. Þú sálarsól, og aldingarður lífs míns og vona. Söngvar mínir syngja hærra hjá þér - lög mín lifna við hjá þér. Þú býður mér ætíð gullin stræti og opnar þínar dyr fyrir mér. Mitt land, mín þrá, mitt líf því í spænsku suðri dafnar mín sál. Úr sorta, því sól er mín móðir þú land, ert minn faðir og tunglbjartar stjörnurnar eru mín fjölskylda. Mitt land, mitt land í hugarró, vil ég deyja í faðmi þér. ] [ Þú situr í snjónum, með rjóðar kinnar. Mér langar svo að knúsa þig. Ég stari á þig tímanna langa og langar svo mikið að strjúka þinn vanga. Er að þú brosir mér líður svo vel, þrátt fyrir að ég sé að frjósa í hel. Vinir mínir kalla á mig en ég stend kyrr og stari á þig. mér líður eins og ég sé frosin en þá sýnir þú mér hlýju brosin. ég verð svo full af ást þú munt alldrei aftur þjást því ég mun halda í þína hlýju hönd og fara með þig í draumalönd. ] [ Lífið er eins og gáta sem erfið er og létt engin þorir að játa hvað er rangt og rétt. Það býr sorg í hverju hjarta sem þráir að komast út en í brosi þeirra bjarta er engin sorg né sút. ] [ Þá sól er á himni, svífur minn hugur til þín, ég er sæll í sinni, því þú ert ástin mín. Til þín í huga ég ferðast æ er tími og tóm gefst til. Þú gefur mér allt sem ég annars hvergi fæ. Ég sæki þig heim og eftir það sef ég rótt. Þú ert sólargeisli sem vitjar mín um nótt. Er ég horfi þig á, og fegurð þína sé. Ég legg um þig arm minn og hverf svo burtu hljótt. Þú ert ástin mín, og hug minn allan átt. Þú ert ástin mín, sem eykur við minn mátt. Hvert sem ég um heiminn fer þú aldrei frá mér ferð. Þú ert stóra ástin, við erum um það sátt. Er haustið kemur, og heita kinn ég finn, halla mér að þér, þrýsti í faðminn minn. Er ég kveð þig hljótt þá tárvota kinn ég strýk. Þú ert ástin mín, Spánn, - og ég verð alltaf þinn. ] [ í myrkrinu lyggur sorgmædd sál sem grætur daganna langa í augum hennar blómstrar bál sem reynir hana að fanga. Hún er svöng og þreytt því það er eitthvað breytt.. það er komin kreppa. ] [ Hingað kom gamla fólkið mitt með stormbeljandann frá árhundruðunum snúðu þér til vesturs og síðan til norðurs og ég tók fagnandi á móti óveðrinu að handan sneri mér til vesturs og síðan til norðurs en ég sá að gamla fólkið mitt í rokinu var dautt og ég kastaði rekunum, gerði krossmark sneri mér til suðurs og faðmaði sólina. ] [ Ört svífa gleðiópin um barnaheim og kitla hár í stórum nefum álfgervinga Vopn upp rifin stuttir puttar skera á fíngert útlit álfaveru í vígahug Upp með hugan minn krakkaher og varist blómlega angan álfahættunnar Hróp fylla himinn stríðunnendur skellið saman sverðum gegn álfaverum Þögn við tekur fallnir krakkar flatmaga í rauðleitu grasi undan álfheim Grát hljótt heyrist ekkasog eins meðal fallinna herkrakka situr álfur Eitt það hljóðar lífið í kring með menn og álfaverur sitjandi í hring hlæjandi, brosandi, glaðbeitt að sjá aðeins leikur var hér á stjá ] [ Svanur er vanur að vera blíður og góður hann hleypur upp á milli hæða eldmóður- kollinn hann notaði fróðleiksfús- í fangi hans sat pínu lítil mús- týra litla til hans kom- í fang hans hoppaði og bað um knús- svanur mikill maður elskar tíma og blaður- því hann er fróðleiksmaður. ] [ Pabbi þú fórst mér frá- mér og mömmu pínulítið brá- þú lítið á mig lærðir, þú mig og mömmu særðir- pabbi þú lífið á nú lærir ekki gefast fleiri tækifæri, pabbi minn ég verð ávalt sonur þinn bara þegar ég þig finn, pabbi hlúðu vel að þér og þínum ég mun grenja í sorgum mínum, pabbi betur á ég frá þér skilið en þú mjókkar bara bilið, pabbi kveðjustund komin er mamma þreytt og búin er, meira hef ég ekki að gefa þér, pabbi þín ég hugsa til og knús frá þér ég vil, pabba vil ég þrá það er eitthvað sem ég mun aldrei fá, pabbastrákur ég vil vera en þú lætur ekkert á þér bera, pabbi þú mömmu mína aldrei áttir vona einn daginn náist sáttir. ] [ ég stari tómlega á skjáinn og bíð ég fer minn vanalega rúnt og bíð lífið heldur áfram sínum takti sem ég dett inn í af og til ég stari tómlega á skjáinn meðan þrúgandi þögnin kæfir mig ] [ ef við bara gætum talað saman myndi ímyndunarafl mitt ekki taka á rás og hlaupa með mig í gönur myndi óvissan ekki læsa krumlunum um hjarta mitt og eitra það með neikvæðni myndi hugur minn leysast úr þessum fjötrum og hefja sig á flug á ný ef við bara gætum talað saman yrði allt gott á ný ] [ þegar ég þrýsti þeim að mér og hækka verðum við, tónlistin og ég ein. það opnast annar heimur takturinn dælir blóði en hjartað tekur kipp hvert hljóð - hljóðfæri gagntekur, yfirtekur, heltekur og frelsar trommusláttur andans verður minn og ég lifi ] [ Eftir þér elskan, ég bíð vona að þú verðir mér blíð. Týpísk feimni að baki beiðni minni býr ég vona að hún sé nógu skýr. Þínir taktar að þér mig laða í þig mig farið er að langa. Ekki valda mér viljandi skaða elskan, segðu hvernig mér er að ganga. Lengi í þér ég hef pælt, við persónu þína hef gælt. Við þig langar að gera mér dælt, svo líf mitt geti loks orðið sælt. ] [ Ég óska öllum gleðilegs nýárs og þakka það sem þakka ber! Vona að mörgum veitist gaman, að vildisgæðing´ í klofinu sér! ] [ Óreiða er fræið að fullkominni hamingju Og eirðarleysið er rótin af blómum frelsisins En lífið Lífið er höndin sem slítur þig frá rótunum Í blóma lífsins ] [ Þó nokkuð langt fyrir ofan mig Er einhverskonar griðarstaður Heimili hefur hver fyrir sig Þar býr nú minn ástkæri maður Fyrir veikindum loksins fengið frið Og mér birtist í fallegri sýn Ég hvísla til hans af gömlum sið Ég elska þig ástin mín Við saman áttum mörg góð ár Hann einn fékk mín fallegu heit Þótt hann sé farin ég verð ekki sár Því sama hvað alltaf ég veit Í hjarta mér alltaf hann hvílir Aldrei trú mín á ástinni lækkar Ég veit að hann ávalt mér skýlir Því inni í mér barn okkar stækkar Fyrir svefninn honum bæn mína bið En um senn ég nætur mun vaka Svo sárt að þrátt fyrir innri frið Ég aldrei mun fá hann tilbaka ] [ Í miðju steypiregninu grúfi ég mig í asfaltið snerti með vörum mínum fjarlægðina til þín legg kinn að köldum veruleikanum og hlusta eftir klukkum dagsbrúnar regnið fellur og tónlistin í eyrum mínum klukknahljómurinn í sál minni slær í forundran fuglar gærdagsins kalla og ef þú sérð mig ekki snerta mig ekki segja orð því ég er staddur í hinum sæta ilmi nýslegins grass í dal óskanna í landi fljótanna miklu skrepptu frekar í skjól og syngdu fagnaðarsönginn og ég skal nema hann síðar er klukkur klingja ekki meir í miðju steypiregninu grúfi ég mig í asfaltið en ég er hlátur skólabarna síðasta sólskinið ekki segja orð ] [ Í leit að einhverju, veit ekki hverju. Tilfinning sækist í tilfinningu, eilífðri vitfirringu... ] [ Hvernig og hversu oft, við höldum eitt en er annað. ] [ Í lífsins leik hins venjulega manns, leitum við að forystu. Til að vanda og vísa leið hans, í hafsins verstu orrystu. Margur maðurinn kost á sér gefur, en fáir til þess megnugir eru. Að sjá um málin er þjóðin sefur enda flestir sjálfhverfir eru. ] [ Þrír kaffibollir drukknir til heiðurs Dags Sigurðarsonar róna sem ég kynntist nýlega og ég hugsa: Þú. Þú. Þú. Einn, tveir, þrír, sautján, átján, nítján, tuttuguogtveir, þrjátíuogfjórir eða fimm. ] [ Oft eru gáfumenn götóttir mjög, sem gullið er veldur oss trega. Þeir geta ei sungið sum hver lög, samhljóma almennilegega. ] [ Ég hvíslaði að henni Mig langar að bíta þig Hún brosti Og það var sem sólin hefði loks sýnt sig eftir öll þessi ár af hungri Ég vaknaði upp fullnærður ] [ Þegar ástin framleiðir rafmagn Og þú leikur þér að straumnum Slær hjartanu oft út ] [ Skeggjaða konan smellti í góm og glotti... ...\"Gillette the best a man can get!\" ] [ I think I need to pray again dear mother. I think I need to pray again dear dad. Though I did it so many times before i´ve never needed it more than right now I need to pray again dear mom dear dad. Now I don´t know why I did it I was drunk They just found him dead this morning In my trunk. I don´t even know him the first time I saw him he was dead but his friends they used to call him crazy Ed. The reason why they found me was the trail of blood. I shot him two times in the head then he fell into the mud than I dragged him dying towards my car and I drove the car as far as I could until I passed out. Now before that night I´d never got into a fight. I was my parents pride their bright and shining light. But now there ain´t no bail that´s gonna get me out of jail. I´m here to stay forever and pay for what I did. Now if you ever need to pray for somone mother. If you ever need to pray for somone dad Just think about the good times we had,and please don´t be sad. Just pray for me mom pray for me dad. ] [ ÉG stóð og horfði agndofa á kreppuna. Hneppti að mér úlpunni og beltinu. Fann hvermig mér varð kalt. Horfði döprum augum á hríslu sem lét undan í vindinum. Sá hvernig skafrenningurinn þaut miskunnarlaust um göturnar. Tómar kókdósir, rifnir bónuspokar. Gluggarnir ristastórir og kaldir, gínurnar einungis íklæddar mölétnum útsöluskiltum. Tómar líkamsræktarstöðvarnar spiluðu vélrænt teknó fyrir fátæka afgreiðslustelpu sem átti ekki fyrir viðgerð á sílíkonbrjóstunum sínum. Læknirinn minn er byrjaður að drekka aftur. Mér finnst einsog mér sé illt í bakinu. Listamennirnir eru farnir að lesa bækur aftur og farnir að reyna að skilja eitthvað í því sem þeir eru að gera. Bóheminn laumast til að kaupa sér fílofax i fyrsta sinn og skrifar niður 1.markmið og lokarmarkmið. Nemendur í framhaldskólum læra heima í dönsku, saman yfir kertaljósi og hlusta á Bergþóru Árna. Eiturlyfjaneytendurnir nota sem aldrei fyrr og stuðla að mjög mikilli hreyfingu fjármagns. Konur breytast í hórur. Skrifstofumenn breytast í verkamenn. Ást breytist í kynlíf. Börn breytast í fyrirferðamiklar kostnaðaráætlanir. Smokkar hverfa af markaðinum. Kjaftaskar verða varir um sig. Kvikmyndir bannaðar. Dagblöð verða góð í fyrsta sinn og skemmtileg aflestrar. Fréttirnar verða fáránlega spennó. Fólk lætur lífið um aldur fram of fæðist um efni fram. Lífið heldur áfram . Síðan byrjar einn og einn útí horni að brosa. Síðan breytast tíu kronur í hundrað kalla og við fáum þúsundkróna sáðlát á ný og rómarveldi endurtekur sig með klamedíu, paranoju og Hummerjeppum. Hring eftir hring eftir hring ] [ Gítar, trommusett og bassi er allt sem þarf í hljómsveit, ekki eins og í gamla daga, vera á hassi. Djúpfjólublár,Járnfrúin og Mannætulíkin hafa komið til Íslands og spilað, en hafa þeir spilað um öll Bandaríkin? Næturósk ætlaði að koma og spila í fyrra en þá kom kreppan og hætta þurfti við, er aldrei hægt að gera krónuna kyrra? ] [ Viljir þú líkamann fá í form, fáðu þér spretti í bænum. Láttu þér hvergi duga dorm, drífðu þig bara í grænum. ] [ Nú ofboðið er þjóðinni syndaranna sull, -sjálfstæðið í molum, sem villingar ei vörðu- öll friðsamleg mótmæli virt sem bara bull og borin öll von nema hart mæti hörðu. ] [ Af deyjandi tré féll máttvana lauf og lenti í hendi mér. Í veikri hendi lá máttvana lauf og sáran grét. Tré! Komdu og leitaðu að mér! Vesalings lauf. Er það mitt að fræða það um tilvist róta ? Ég vaggaði laufinu varlega og reyndi að leika tré, fölbleikt, rótlaust tré. Laufið rann úr lófa mér niður á jörð þar sem tár þess vökva rætur trjáa sem leita laufa sinna. ] [ Hættur eru á heiðarstígum hriktir enn í gömlum vígum. Yfir sigldu um grunnin öll ósa djúpa og ölduföll. Viðsjárverðar hæðir háar harðar nætur vonir fáar. Hamir menn er hatrið sækið Hvíta Krist í staðinn rækið. Þola varð ég þungar raunir þykkjufullur guð mér launir. Hendur kaldar hjartað kalið hellar, birgi ,allt var falið. Engan grið að vana veitir veröldin er sorgir fleytir. Þótt ég lifði kulda og kvöl. kjarkur var mitt versta böl. Í felum var ég brenndur bitur beiskur í mér sviðinn situr. Á efsta degi heillum horfinn hrakinn nú í anda þrotinn. ] [ Það eina sem stoppar þig frá því að gefa mér þig allan er það að þú veist að þú munt særa mig. ] [ Þín ævi trist oft fékk slaka umsögn. Þaðer list aðlæra aðtaka leiðsögn. ] [ Nótt var úti grimm og grá, glotti máni í skýin, niðrá jörðu satan sá sveittan, aldurhniginn sannleikanum sofa hjá; síðan fæddist lygin. ] [ Ástarljósið fór til frans að feta á rósum lífsins dans. Hjá mér var kósinn minni fans; morkna í fjósi andskotans. ] [ Völlur stærindis valdaður vitrænu hragli í þvöglri mælginni maldaður mór með stagli. ] [ Háir tindar,djúpir dalir, dögg á blómi, nægtarkjör. Niður hlíðar leita lækir í litlar tjarnir vöxnum stör. ] [ Oft hef ég fengið, oft hef ég líka misst. Það er hamingja mín að hafa þig elskað og kysst. ] [ Oft á völin enga sjón, ég og kvölin erum hjón. ] [ Aura minna aumt er ráð, er að verða búið. Upp er skorið, svo er sáð sé því öfugt snúið. ] [ Mál er nú að linni leiðinlegum hroka. Mörgu burtu þarf að þoka þegar læt í minni poka. ] [ Óðum færast áramótin nær og fortíðin fjær. ] [ Étum á jólum ég og við görgum og gólum grömsum í svið. ] [ Gættu þín á grjótinu smáa á göngunni upp fjallið háa. Haltu fast og horfðei niður, hver er sinnar gæfu smiður. ] [ Mannsins þörf er mörg og kæn og margt þar á bakvið: Hýru vinir heyr mína bæn sagði homminn og rakvið. ] [ Andaleysið okkur hrjáir endilega í kvöld. Grandalausir getusmáir, grundin enda köld. Vand er fundin vísuhending valda kuldagjöld. \"I am through with understanding our nasty world.\" ] [ Ein föðurlaus stúlka með friðvana sál fitlar við rósavönd gröfinni hjá. Sektin nagar sem brennandi bál og barnið gruggast sem jökulsá. Er sökin mín að faðir minn fór? Framdi ég sjálf þetta illskeytta morð. Hryggðin og sorgin þau hrópa í kór er hendurnar klappa á gaddaða storð. Af hennar vörum orðin læðast: \"Af hverju Guð léstu mig fæðast\"? ] [ Nú kveð ég þig með kvöl í hjarta er kýstu að yfirgefa mig. Vinan eina, vífið bjarta, vertu sæl, ég elska þig. ] [ Að ríma í rúmi er reynsla sem vert er að þekkja. Nú er hann Númi nálega hættur að blekkja. Rösklega að rata rétta veginn er kífið. Sinn bindindisbata að bæta og sinna er lífið. ] [ Nú kveð ég þig með kossi kvalinn mjög á hjarta: Hamingjan þér hossi, hafðu daga bjarta. ] [ Handan við hól er hellir. Þar bíð\'ykkar ból bellir. ] [ Fastur í formi að fornum sið rímlaust rekald á röngum tíma fattast af fáum frónversk þó orðin einsog fleirtal af fólki finnst vart á blaði nema sem kurteist kúlturprump. ] [ Töfrum gæddur, tölum væddur með tígullegan sjarma, plasti græddur, kremi klæddur komd\'í mína þarma. ] [ Gamlar tíðir grundar við gólf og stiga duddar. Skaft og moppu mundar, magann á sér nuddar. Glott við skeggið gælir, gýtur augum, slórar. Vatn í moppu mælir, magann á sér klórar. Fast um kústinn klípur, kuski saman smalar, mjög um moppu grípur, við magann á sér talar. Kátur, kjaftaglaður, kvæði af munni fýkur. Mikill vexti maður magann á sér strýkur. Sápuvatni væddur vopnum sínum otar, í morgunsárið mæddur og magann á sér potar. Moppar gólf og ganga, geiflar sig og byrstir. Í mat fer mjög að langa, magann á sér hristir. Garnagaulið krefur, gerjast hungurþankar, magnast matarþefur á magann á sér bankar. Augum röskum ratar í ryk á gólfi, spáir. Marga diska matar í magann á sér þráir. Þá hugsun stöðugt stundar stunum hungurs meður, moppu sína mundar; í magann á sér treður!!! ] [ Það væri frábært fyrir geð að fást við aðra hluti en ást í orðum og stöfum stirðum. Þó á stundum, orðum bundnum hef um vindinn, ljós og löndin, óða mína látið hljóða. En það er sama um hvað ég kveð hvert ljóð mitt veit á ástaróð. ] [ Dagur er liðinn kvöldið er komið af kvíða er ég sleginn að vakna á morgun vitlausu megin held ég sé búinn held ég sé dauður og´nú er hugarins glíma að vakna á morgun á vitlausum tíma er einfaldar staðreyndir lífsins byggja á banni og boðun og vakna á morgun með vitlausa skoðun svo oft er að hyggja að glaumi og gleði er gerist í húmi og vakna á morgun í vtlausu rúmi því maktin er dul í myrkrinu falin er margt er á sveimi og vakna á morgun í vitlausum heimi og dolfallinn yfir dapurleikans dagræna kífi, vakna á morgun í vitlausu lífi þarsem allt vill þokast í áttina niður með iðunnar straumi og vakna á morgun í vitlausum draumi sem endalaus pæling um endurholdgun í alheimskoppi og vakna á morgun í vitlausum kroppi sem læðist aftan að lesanda mínum í ljóðinu blekkir að vakna á morgun vonlausir hlekkir ] [ áður var ég mjög svo fjáður en núna er ég þjáður og einnig öðrum háður ] [ systur heita sorg og gleði búa þær í hverju geði til ama og til sóma stundum tristar með stökum ljóma ] [ Þegar ég hugsa um þig og tárast veit... Þegar ég hugsa um þig og hlýnar í hjartanu veit ég... Þegar ég finn hjartað taka kipp við það eitt að sjá þig veit ég að... Þegar ég skrifa þetta veit ég að ég... Þegar ég skoða myndir af þér finn ég... Þegar ég held utan um þig finn ég að... Þegar ég tala um þig við vina mína finn ég að ég... Þegar ég segi að ég sé að hugsa um þig er ég... Þegar ég segi að ég sakni þín er ég að... Þegar ég segi að ég vilji gera eitthvað, hvað sem er, með þér er ég að segja... Þegar ég segi að ég geti ekki séð fyrir mér framtíðina án þín er ég að segja að... Þegar ég segi að ég vilji að þú sért konan mín er ég að segja að ég... að ég elska þig ] [ áfram ég reyni en mér ekkert miðar hugfangin jólunum leita mér griðar himneskur blærinn að mér sækir einsemdin lúmskt í hjartað krækir finn ég þá helst hvernig klukkan tifar í fallegri hátíð ljós og friðar skammdegið hellir myrkri í nóttina og frostrósin læsist í gluggana heimakær ósk kallar ástarljóðum man ég þá fegurð í kinnum rjóðum er hvíslaðir þú mér í lágum hljóðum hjarta þitt syngur svo fögrum tónum ] [ Lítið og ljótt´ loðið og mjótt skítur og skarn skeiningabarn. Þetta ert þú og þegiðu nú! Í heimi hér hefur þér heimskur haus heilalaus stýrt í strand á sturlað land. Í kroppi kúks kararsjúks siglir sæ sí og æ um vega villu á vitlausri hillu. Á þig til þín úr þeli mín skammar skrif eru skitulyf í þína þanka, þreytta, blanka; þig fjanda fel, farðu vel.! ] [ Með spurnarsvip agndofa þjóð bíður hljóð hvað bíður handan hornsins ] [ \"Þú stendur ekki á öndinni er það?\" spurði pabbinn. Lína litla gretti sig og fetti. \"Nei pabbi minn, hún er inni á baði\". Faðirinn setti upp svip, \"hver?\" spurði hann. \"Öndin\" svaraði sú stutta þar sem hún stóð og dró í rófuna á kettinum. Kötturinn horfði illskulega á þá stuttu og hljóp svo inn á bað standandi á öndinni. ] [ Þjófalýður glottir gleitt, ganga lausir hrottar, innihaldið ekki neitt en umbúðirnar flottar. ] [ Ber sig um á skeiði skjótt, skálmar yfir dalinn. Undra skal nú engan þótt, aukist fagurgalinn. ] [ Þú syngur í sænum og frá örófi alda hefur það gert um stórhöfin sjö þú syndir án enda. Við oft í þér heyrum en enginn þig lýður. Þú skip okkar rífur brítur og bramlar ekkert þig hamlar sandi og brimi feykir þú til. Einungis þegar sjórinn syngur. ] [ Í andartaks og andskotans óráðsíu, asnaðist til að versla mér KIU. Kann þessum ,,kaunum´´ engar þakkir, að knésetja allt og setja í bakk-gír. ] [ Bráðum læðist dagurinn hljóðlega upp í rúm næturinnar og kyssir hana oggulétt á vangann. Bráðum brosir hún blíðlega, roðnar í kinnum og faðmar hann þétt að sér. Eina örskamma eilífð mætast augu þeirra. Svo sparkar hann henni út úr himnasænginni og kveikir ljósið. ] [ Já. Jesúa Ha Nostri krossfestur á höfuðkúpuhæðinni í Jerúsalem en núna er þar ekkert nema ryk og sprengjur og svoleiðis manndrepandi rusl og drasl. ] [ Þú roðagullna milda sól sem áður lýstir veginn minn og undurfagrir litir þínir voru mínir nú sé ég þig með steinauga stilltu hrísla litla við veginn hjá bröggunum veðurbörðu þú þekkir norðanvindinn sem áður umvafði mig með milljónum snertinga með órímuðum orðum hvíldu við sjóndeildarhringinn í minningu vindsins ] [ Tíminn líður eins og ævinlega aldur sumra kann að verða hár. Það fyllir suma tómlæti og trega að tíðum skuli koma glæný ár. En bjartast ljómar indæl æviblíðan og ekki finnst það neinum vera séns að núna hafi hálf öld liðið síðan í heiminn fæddist ofurlítill Jens. En það er víst jafnsatt og sitthvað annað sem menn hafa ritað niður á blað. Og það ku vera löngu ljóst og sannað að lífið sé nú komið vel af stað. En þó að sumir vegir virðist tepptir verður það að teljast alveg satt að hálf öld er af lífinu\' ennþá eftir þótt ef til vill hún muni líða hratt. Jens er ekki öðrum mönnum líkur - ofurlítið spes og stundum þver... Af vinum mjög - og vandamönnum - ríkur, sem viðurkennist augljóslega hér. Og ævistörfin heilum helling skarta frá hagfræði til sunds og rótarléns. Nú syngjum við, með hlýju í hverju hjarta: Til hamingju með daginn kæri Jens. ] [ Sárar eru sorgir mínar Svalt við kaldan mel Hrímað þelið hjartans hlýnar horfið heimsins hel nú sofa allar ástir mínar und jarðar hörðu skel. Að elska er að missa allt Sem ástina dreymir um Sem döggvardropi drúpir kalt Á mosans gljúpu grund Einhvern daginn ástin mín Mun ég aftur á þinn fund. ] [ Ég er fastur, ég er fugl. Ég er fastur, það er rugl. Ég er fastur inni í búri. Ég er fastur og þar ég lúri. Ég er fastur, ég er maður. Ég er fastur, eins og fugl með fjaður. Ég er fastur inni í þessari líðan. Ég er fastur og á ei daginn blíðan. Ég er fastur og hata það. Ég er fastur, -þú ert hvað? Ég er fastur. Ég er fastur. Ég er fastur! ] [ Himinn Venus hátt um fer heilla stjarnan fríð. Bjartur eins og ástin er ástarstjarnan blíð. Í tunglskininu stundum við spennir bogann hljótt. Því Venus engum gefur grið glitra ör í nótt. Ef ástin bíður köld og hrjáð og hefur engan hitt. Þá örin hefur ekki náð inn í hjartað þitt. Í skammdeginu einn um nótt yljar okkur oft. Því fögur skín og birtu ber blik um stjörnuloft. ] [ þú uppskerð það sem þú sáir en mundu uppskerubrestir eru óhjákvæmilegir ] [ Við hafsins öldurót hann liggur, umlukinn hvössum fjallahring. Fegurst þar við móðurfaðm þiggur, gjöful mið allt árið um kring. ] [ Fossa flúðir fanga huga minn og sér iðunnar sniðin að sínu freyðibaði. Fellur ofan niður í djúpan hylinn og faðmar að sér fall af vatni fanginn hugur. ] [ Ég kveiki á ljósi er lýsir upp minningarnar sem ég kannast ekki lengur við. Ég er tilfinning sem ég þekki ekki en veit að enginn flýr. Dagur, nótt og að lokum dreymir mig að ég sofi fast og sakni þess ekki að vera til. Þegar loks ég vakna af djúpri hvíld herja ég á þitt líf og við ræðum viðhorf þitt um túlkunina. Ég er ókominn enn heiti ekkert en ræð að lokum yfir þér. Veistu hver ég er? ] [ Áin rennur niður stiga út úr húsi menninganna eftir ´götu sómaleysis oní fjöru efasemda útá hafið eldinganna uppí skýin meininganna og margur er orðinn minninganna meðalvegur regndropanna. ] [ Bergþúfa blotnuð bresti óskar. Í gleymsku grotnuð, grafin rotnuð. Horfin hreiður, í halla reiður felur í flótta, flýr í ótta. Aldinn urgur, allslaus durgur, Flestallt fraus, feðgalaus gelti, gaus, gamall haus. ] [ Andvaka til einskis átti ég stundir í miklu myrkri mæddur ei, en starði í stofu á sturlaða vofu. Hún mig út mældi og mikið ældi undir minnið og því fór sinnið...! ] [ Vaknaði sofandi enn úti að ráfa um villu og ekkert vissi utan sprek sem brast við fót og gladdi þann sem hvergi er nema hér. ] [ Okkur lýsa ekki vitar. Okkur lýsa óvitar. Óvitarnir okkar, sem lýsa okkur mest; og best. þeir þurfa svo lítið að vita því þeir eru svo mikið. Við þurfum aftur á móti, að vita meira - því við erum; svo miklu miklu minna. Þó við liggjum og hugsum, um gátur getum og andann teygjum, um víðáttu-velli og geima. Þá er allt sem við erum; Heima. ] [ Komdu út að stela í nótt og vertu með að læðast um hljóðláta Borg við undirspil kyrrlátar nætur. Dauðinn, Djöfullinn og Guð einir hafa vald yfir þessu lífi. Þeirra máttur færir til bókar sérhvert mannlegt verk, orð og hugsun. Af þeim verður veraldleg tilvist okkar að lokum dæmd. Og því hrópar hin Guði skapaði maður, vanmáttuglega, sökum ný tendraðra meðvitundar, eftir styrkri hönd sér til handleiðslu, refsingar og verndar andspænis þeirri ógn sem hann er sjálfum sér. Það er hin eyni martæki dómur yfir mannanna lífi. Þó er holdi klædd tilvera okkar af misvitrum mönnum sótt til saka og kölluð til ábyrðar vegna brota sem hún samkvæmt lögum þeirra hefur framið. Undir slíku réttlæti við viljum ekki vera og forðumst það því sem okkar mannlega mætti er mögulegt. En hafi himnana mættir yfir sál manna það vald sem okkar háleita speki segir til um því nær ekki réttlæti þeirra til mannanna ríkis. Við hundsum mannanna lög og nú Þegar flestir hér í Borg hvílast við draumana þel hrökkva upp af stöfum útvalda harðlæstar hurðar. Verkið er vandlega planað og unnið af vönum höndum. Skipulega er hver gripur sóttur, hér er gengið hreint til verks. Af ummerkjum við verðum ekki þekktir. Verkfæri okkar eru kúbein, rörtöng og vasaljós sem hanska klæddar greipar beita af mikilli færni. Hér er verksvits þörf svo ekki verðum við gripnir. Metnaður okkar er til þessara starfa þó enginn sé okkar félagi skilningur sýndur né á Alþingi gefin lögbundinn réttur. Við seljum svo þýfið og bröskum af vild, ég verð bara að segja þér að lífsháttur þessi er algjör snilld. ] [ Fjöllin eru fjarska falleg, en í nálægð ekkert spes. Og mér finnst ég úr gulli gerður. En er ég kannski bara brons sem bræða má í ódýrt nisti handa lauslátri stúlku. Ég vil ekki enda örlög mín svo illa að verða ódýrt skart handa gjálífis drós. Heldur vil ég verða gullinn sveigur á kórónu prinsessu frá fjarlægu landi. Hver veit sýn örlög? Þau voru skrifuð í sandinn af tímans hendi við upphaf hans. ] [ Á milli okkar er þráður. Á þennan þráð höfum við, ég og þú raðað marglitum perlum. Úr átti að verða falleg festi. Full af ævintýrum, komnum og ókomnum. Annað hvort okkar, -og ég veit aldrei hvort okkar það var, tapaði þræðinum. Perlurnar okkar runnu af þræðinum, ein af annarri. Ofan í sandinn sem sannleikurinn var aldrei skrifaður í. Þráðurinn hvarf mér sjónum. Og týndist. Ég fann aftur trosnaðan enda. Gamlan, jú, en ég vissi að þetta var endinn minn. Gróf í sandinn eftir djásnum mínum. Fór aftur að raða perlum. En þær runnu allar út af bandinu, hinumegin. Og þar liggja þær ennþá. Langt handan hafs. Þú vilt ekki sjá þær. Þær veittu þér aldrei, nema skammvinnan ljóma. Síðan breyttust þær í grjót. Þunga hnullunga. Sligandi klafa. Þeir þyngjast. Og þyngjast. Enda á að draga þig niður í djúpið. Þar breytast þeir aftur í mislitar perlur. Þráðurinn styrkist. Hringar sig upp. Lokast. Festin verður fullgerð. ] [ Eins og hafið sem sýnir engann veikleika rís draumur veruleikans í andliti mannsins í köflóttu skyrtunni sem gengur álútur niður Laugarveiginn með gamalt bros á vör, bros sem hefur numið staðar endur fyrir löngu og enginn áttar sig lengur á merkingu þess... ] [ Löng líðandi andartök hvíla yfir mér í dimmu herberginu, þau þrengja fastar og fastar að mér þar sem ég ligg næstum eins og frosið lík í rúmin. Það verður þrengra og þrengra eftir því sem skuggar næturinnar verða dekkri og dekkri. Rót hins ljúfa dags með sínum sætu myndum hverfur mér sjónum og breytist í dökkgráa veru sem stekkur á móti mér og gleypir mig í sig. Heimurinn er mér horfinn, himininn ranghvolfir augunum og hlær, hlær þar sem ég sekk niðrí sótsvarta djúpið. Það eina sem ég á eftir um minningu heimsins er dökkur sveipur ógnarinnar sem hratt mér út í þetta brennandi eldhaf dauðans. ] [ Því var friðhelgi mín rofin og fallin í annars hendur? fjarlægð fjandsamlega, meðan framsæknir fjendur brenndu mig á báli ofstækissinna og kúgara ] [ Það var ekkert sagt tíminn flaug að lokum leið stundin þú hvarfst, ég sat eftir með sáran svip í andlitinu ] [ teygir út flugfjaðrir fleygur fugl í búri hugur hans er handan rimlanna frjáls sem vindurinn ] [ Ég er eins og útrunnin vara í búðarhillu sem gleymst hefur að taka niður eftir síðasta söludag. ] [ ritað á blað sannleikurinn sverðbeittur hugir manna túlkandi táknmyndir orð fremja morð fyrir misskildan sannleika ] [ Að kvöldi dags er ótalmargs að minnast, og margt er það sem betur hefði klárast fyrr en varð af öllu öðru sárast -þá ástinni minni náði ég að kynnast. Við höfum alltaf sína hvora götu gengið í glaumnum aldrei náð að vera saman fyrr en allt var úti og ekkert gaman og enga lækning gátum þar á fengið. Þegar öllu mínu loksins lýkur og lokið endanlega sett á dallinn, þá man enginn lengur ljóta kallinn svo lygilega hratt í sporin fýkur. © allur réttur áskilinn höfundi ] [ Brúnaþungur bóndi er bölvandi í göngur fer. Göngurnar taka tíma fimm töluvert er hríðin grimm. Bóndi vill sinni flýta för færðin vond á lækjum skör. Setur loks féð í fjárhús inn´ fannbarinn er karlanginn. Þrekaður sér hallar í hlöðunni hrýtur nú bóndi í töðunni. ] [ Jóla hátíð bónda bíður bjart er yfir tíminn líður. Út í kofa er taðreykt ketið kindalæri verður étið. Bóndi víst litlar gefur gjafir Gunna samt ennþá heima lafir Í stofunni dansa rokkin ról ræl og polka um næstu jól. ] [ Ég horfi á eftir þér niðurlægð(ur), svívirt(ur), dofin(n) Með ósk um að þú hverfir, að þú hafir jafnvel aldrei fæðst. það væri gott ef þú lægir hér en ekki ég á blautri, kaldri jörðinni með gras á milli rasskynnana með sál sem þarf tafaralausa endurlífgun. Þú skildir ekkert eftir þig nema Martraðir, hræðslu og sálarmorð. (mundu mig) ég man þig alla tíð og tíma. ] [ Ég er eins og útrunnin vara í búðarhillu sem gleymst hefur að taka niður eftir síðasta söludag. ] [ Þetta var heimili áður en það ákvað að lúta undan þrýstingnum og leggjast í jörðina Þetta var tilvera áður en hún ákvað að yfirgefa sjálfa sig og deyja í grjótinu ] [ Við fyrstu geisla sólar yfir mitt líf varð ljóst að ég var ei sem aðrir Ég deili ekki með öðrum sín á þennan heim sem varir. Ástríður mínar eru ekki sóttar að sama brunni Af sömu uppsprettu brjóst mitt ei sér unni. Þjakaður af sorg gat ég ekki vakið hjarta mitt, Guð, til að gleðjast og slá í takt við þitt. Og alla mína ást með engum getað notið Það af mönnum er því enn ósnortið Svo um dögun æsku minnar, við upphaf minnar ólgandi tilveru var mín vitjað af krafti þaðan sem rætur góðs og ills eru af þerri dulmögnun ég er undir áhrifum enn þerra krafta sem skapað hafa alla menn: Ég var dreginn frá straum að óskabrunni. Frá þverhníptum hömrum yfir fjallsins minni. Frá sólinni sem snerist um mig allt um kring Um haust sem glitraði sem gullið lyng Frá neistandi eldingu sem tendrast á himni og þeyttist framhjá veru minni Frá þrumunnar ógn og vitstola stormi og skýinu sem umbreytti sínu formi (þegar allur annar hluti himins var blár) í púka í sjáöldum mínum. ] [ Ég man fyrir löngu, að ég brosti út af engu. Ég sat bara og horfði á götunnar tóm. Sá laufblöðin fljóta í örlitlum lækjum, á dimmum degi við rigningaróm. Ég las í þitt hjarta og þú engist um í dögun. Þú grætur bara og sérð ekki lífsins blóm. Sérð hyldýpið nálgast í örlitlum straumum, á dimmum degi við rigningaróm. En þú, vinur minn átt hjarta mitt allt og ég verð hjá þér í gegnum það allt. Þú, vinur minn átt hjarta mitt allt. Ég, ég verð hér í gegnum það allt. Ég man... ] [ Ég hitti þig á förnum vegi á sólbjörtum en köldum degi. Við brostum bæði blítt í annað.. samt sem áður strax ég fann að... þú og ég og við og hinir.. alltaf yrðum við samt vinir. ] [ Allt sem var, áður er. Tilfinningar inni í mér. Þannig málnotkun og rugl, svíf í lausu eins og fugl. Kemur dagur, brennur skinn. Hvar er útilokarinn. Hvurslags svartsýni og þröng er togað út úr mér með töng. Ég vil ekki lifa, ég vil ekki deyja. Ég vil heldur vona að þú munir segja. Sitthvað segja, samt ég ráðlegg þér að þegja. Allt sem kom, allt sem hvarf minnir mig á það sem þarf. Stinga inn, taka út síðan hendirðu mér út. Notar mig, notar allt. Innst inni er þér kalt. Enginn hugur, engin sál. Ég skal kveikja í þér bál. Ég vil ekki lifa, ég vil ekki deyja. Ég vil heldur vona að þú munir segja. Sitthvað segja, samt ég ráðlegg þér að þegja. ] [ Illska, hatur - mannamatur. Ljótur, latur. Engar rætur, sárabætur. Holdið grætur svartar nætur, stórir fætur - traðka og troða, ekkert skoða, við mig loða. Sálir selja, kremja og kvelja, auma velja. Eymd og losta, lífin kosta - brot og brosta. Tárin renna, svíða og brenna, ótta kenna. Allt er búið, ei aftur snúið, svona er núið - á það trúið. Pota og benda, aldrei lenda......aldrei enda. ] [ Jæja, maður er víst byrjaður aftur að surfa netið svo það hlaut að koma að þessu. Þetta er það sem ég skrifaði á síðasta afmælinu mínu... Ég á afmæli í dag ekki að það breyti neinu, bara fyndið. Enn eitt helvítis afmælið. Eftir 28 ár á vígvellinum ligg ég fallin fyrir eigin sverði, löngu búin að gleyma við hvern ég berst og af hverju Ligg bara í forinni með sverðið á kafi í hjartanu og pæli, \"að VERA eða EKKI VERA, það er spurningin\". Er það spurningin? Hmm það læðist að mér hugsun, en að vera BARA. Hvorki að VERA né EKKI VERA, heldur að BARA VERA. Ég allt í einu átta mig á því að síðustu ár hef ég geyst um vígvöllinn söðluð rugguhesti og vopnuð túttubyssu og pottloki. Mildi er að ég þraukaði þar allan þennan tíma innan um risavaxna fáka með verðuga, viljuga og vel vopnaða stríðsmenn á baki. Var vissulega bara svo mikið lægri að það tók enginn eftir mér, ég sást varla. Og þessir örfáu sem urðu við mig varir þarna niðri í forinni hlógu og hæddust að mér, hreyttu í mig óyrðum og hræktu. En ég í minni blindandi trú um verðugleika minn og getu hrökklaðist þarna um, snýtti mér í ermina og stóð vörn sem sókn, hnakkhreyst sem aldrei fyrr. Með pottloki varðist ég hnífsoddum og skaut mína andstæðinga baunaskotum með köldu blóði, hvergi hrædd. Nú ligg ég hér og staðreyndin \"BARA VERA\" slær mig utan undir sem blaut bleyja. Allur þessi tími, öll þessi barátta, þrautsegja, atorka og trú. Eins og blindur maður í bíó. Ég átti aldrei von, ég veit það fyrir vissu því ég svipti mig henni sjálf. Tel mig þó lánsama að hafa þraukað svo lengi og lifað af. Blauta bleyjan gefur mér annan löðrung og hann fæ ég fyrir að eiga eftir allt saman veglegt vopnabúr sjálf og brynjur fleiri en fimm. Ég stend upp úr þessum drullupolli sem vígvöllurinn er orðinn að og losa sverðið úr brjósti mínu. Það blæðir ekkert, ekki einn rauðasti dropi. Sverðið er gljáandi hreint og ég held því í höndum mínum furðu lostin. Kalt og þungt högg fæ ég í þriðja sinn frá blautu bleyjunni og sé þá um leið að ég held ekki á sverði, ég er ekki stungin og ég var ekki fallin. Ég held á minni eigin túttubyssu, búin með allar baunirnar og marbletti hér og þar því til skýringar. Ég lá aldrei fallin fyrir eigin sverði því ekkert var sverðið. Í undrun minni og gleði ég valhoppa út fyrir vítateig stríðsins, með hor í nös og skít að eyrum, himinlifandi yfir þessari löngu tímabæru uppgvötun. Ekki mun ég aftur heyja stríð í blindni og vonleysi, aldrei mun ég aftur heyja stríð. En ef það kemur og sækir mig mun ég opna hlerann að mínu vopnabúri, byrgja mig vel og söðla stærsta fákinn minn. Þá mun ég berjast sem aldrei fyrr með verðugleika, virðingu og stolt í fararbroddi. Ég VIL ekki BARA VERA, Ég ÆTLA ekki BARA að VERA. Ég vil VERA ! Ég er ! ] [ Eitthvað fallegt snertir mig, Sækir í mig seka. Ef ég gæti faðmað þig, Tárin myndu leka. Draumar, vonir tæla mig. Til betri heima sækja. Alltaf mun ég hugsa um þig, Þótt allir á mig hrækja. Barnið brothætt fyllti mig, Lét mig læra að velja. Lét mig velja að drepa sig. Það ég kaus að kvelja. Draumar, vonir fangandi. Finnst ég verða að fara. Þú sem hélst mér gangandi, Eina vonin Sara. ] [ Þetta byrjaði sem lítið mar sem lýsti lífinu eins og það var þangað til ég sofnaði á verðinum svo stór sást á mér sárið sem stækkaði þá lífslíkunum þeim fækkaði þangað til ég þetta að lokum tæklaði og hlaut vinninginn sem við þetta allt saman stækkaði ] [ Veruleikinn stígur trilltan dans í völundarhúsi dauðans ] [ Þegar reiðin mig fyllir ærir mig og tryllir orðin þau hverfa - þótt seinna þau að mér sverfa. Það eina sem ég get sagt er farvel og takk þótt andstæðuna ég meina - ég innra með mér veina. En þrátt fyrir allt sem þú hefur á mig lagt græði ég ekkert á orðum - þótt það var mín trú forðum. Það eina sem ég veit nú er að af miklu missir þú og það er þitt val - svo hafðu þá bara það. ] [ Þetta ljóð er löngu dáið í loga brunnið til ösku. Eitthvað sjálfsagt þið sjáið í snjáðri ómerktri tösku. Ég veit að vinirnir trúa að víst yrki ég öðruvísi. Spotta að ég skuli búa í súru ljóðagrafhýsi. Þá toga úr töskunni minni, tregafull þótt frá mér lúti, æsku tryggð er öðlaðist inni meðan aðrir léku sér úti. ] [ Elsku besta mamma, ef til væri keppni þar sem dæmt væri um, duglegustu, sterkustu og sjálfstæðustu mæðurnar, myndir þú vinna titilinn fyrirvaralaust. Þú ert mér innblástur í öllu því sem ég tek mér fyrir hendur. Þú hefur varið með mér þínum gleði-og sorgarstundum. Þú hefur kætt mig, á tímum þegar mér leið illa. Þú hefur kennt mér margt, um lífið, tilveruna og tilgang okkar allra. Þú ert minn tilgangur. Þú hefur mótað mig að þeirri manneskju sem ég er í dag. Þú hefur sagt mér að ég eigi skilið gott líf og góða hluti. Þú ert vingjarnlegasta, fallegasta og frábærasta manneskjan í lífi mínu. Þú gerir mig heila, án þín væri líf mitt tómt og innihaldslaust. Þú fullkomnar mig. Ég hef og mun ætíð elska þig. Meira en sólina, skýin og grænbláan sjóinn. Meira en loftið, grasið og ljósbláan himinn. Þú ert mín móðir, mín vinkona, minn demantur. Þú átt þér enga aðra líka, elsku besta mamma. ] [ Þær burðast með brjóstin sín stór og smá í vinnuna alla daga. Bölsótast yfir akrinum en gleðjast því allir fá bein að naga. Safna skal heim fallegum perlum og steinum. Heimili eru klofin, friðhelgin rofin. því frelsi þær vilja og sauma fyrir hofin. Þær burðast með brjóstin sín stór og smá á akrinum alla daga. Karlveldi hafna Í kvenfrelsi þær dafna. Brjóstin skulu burt. Kerlingar skulu keyra trukk skurðgröfum og ýtum löndum stjórna er þær sigur bera úr bítum. ] [ Augu okkar mættust þegar hendur okkar snertust í salthnetuskálinni láttu mig nú í friði djöfulsins hommatitturinn þinn! ] [ Mín forboðna rós, sem aldrei blöð sín fellir. Sem tvær sólir á himni brenna augu þín í huga mér blikandi stjörnur. Mín forboðna rós sem aldrei blöð sín fellir. ] [ Tár þín falla sem blý á herðar mínar berja mig niður í götuna refsa mér fyrir misgjörðir mínar. ] [ Æddi um sviðið sveinstaulinn sveittur líka móður þessu sjálfur fyrir finn fyrn er ég samt góður. , Fór að leika listirnar léttur tók hann braginn. Sér loks argur agnirnar allan heila daginn. ] [ Saklaust barn í faðmi ástríkar fjölskyldu Lærir orð sem móta hjarta þess: Jafnrétti, frelsi og bræðralag Ást, friður og hamingja Einlægt ungmenni með róttækar hugsjónir Lærir orð sem móta hjarta þess: Niðurrifsseggur, naívisti, skríll Afturhaldskommatittur Miðaldra maður með brostna drauma Man ekki orðin sem mótuðu hjarta hans. ] [ Ég gekk með allstórt leyndarmál, dulið í minni sál. Þorði engum að segja, og ákvað því að þegja. ] [ Mér líður vel mér líður illa mér líður glaður mér líður leiður :.:Ég var einu sinni fáviti, en í dag er ég búinn að sjá villur vegar míns. Í staðinn beiti ég sjálfan mig nýju ofbeldi sem mér datt ekki í hug að nota áður :.: Mér líður heitt mér líður kalt mér líður þurrt mér líður blautt :.:Ég var einu sinni fáviti, en í dag er ég búinn að sjá villur vegar míns. Í staðinn beiti ég sjálfan mig nýju ofbeldi sem mér datt ekki í hug að nota áður :.: Mér líður núna mér líður áðan mér líður bráðum mér líður alltaf :.:Ég var einu sinni fáviti, en í dag er ég búinn að sjá villur vegar míns. Í staðinn beiti ég sjálfan mig nýju ofbeldi sem mér datt ekki í hug að nota áður :.: (allur kórinn) Mér líður og líður mér líður og líður mér líður og líður mér líður og líður :.:Ég var einu sinni fáviti, en í dag er ég búinn að sjá villur vegar míns. Í staðinn beiti ég sjálfan mig nýju ofbeldi sem mér datt ekki í hug að nota áður :.: ] [ Mestur allra mýkist af matarflóði og sárum sýkist í syndablóði gallagróði er látnum líkist lastamóði í draumi dauðum dáðasnauðum gusti gnauðum og glæpasauðum í einhverskonar eyddrar vonar satans sonar. Rotnar í ríki með ruslafríki. Heitir ekki himnadíki. Hroka beitir eymdarsníki og vonar djúpt að visni í líki sem valdlaus djöflasýki. ] [ Skrifaðu mér ljóð. Um ekkert nema ást. Sem þrátt fyrir ramma sem bæði höfum smíðað varir alltaf. Ég vil ekki leggja þér orð í munn. En ég veit að þú veist að ég mun lesa milli línanna. Hafðu því línurnar skýrar. Og ekkert svigrúm fyrir gátur. Því annars verður það fallegt en merkingarlaust ljóð. ] [ Oft geng ég einn alltaf seinn og sorgar valdur við saminn aldur endalausan metur kaldur æskuleysið ellihreysið er mótar mynd af minni synd sem vaxa ekki vildi og vanda engan skildi, því einn og snauður ekkert græddi, ekkert fæddi. Áfram æddi um eilífðina dauður. ] [ Ég bylti mér í svefni. Mig er að dreyma. Ég sé vagn dreginn af köttum renna eftir veg snemma vors. Í situr ung kona og bróðir hennar. Þau keyra fram á bónda sem plægir akur sinn og sáir kornum. Unga konan stígur fram úr vagni sínum og blessar akurinn. ,,Veistu hvaða dagur er í dag, kæri bróðir?\" spyr hún fögrum málrómi. ,,Í dag er týsdagur, fyrsti dagur hörpu, fyrsti dagur sumars,\" svarar bróðir hennar þýðum rómi. ,,Við höfum þá verk að vinna og margir bíða blessun okkar en höldum nú upp í Fólksvang og fáum okkur dögurð,\" segir unga konan og stígur upp í vagn sinn. Hún fitlar við falleg men sem liggur um háls hennar en brúkar þá svipuna svo snarkar í og kettirnir halda af stað. ,,Eg sé mjaðjurt og humal, eg sé gjöf og kaun, eg heyri grátur, Vituð ér enn - eða hvað?\" Kveður gömul kerling og draumurinn verður þokukenndur, murkast út í óskýrt munstur og liti og hverfur að lokum. Ég hrekk upp kósveitt og andstutt og þurka blautt hárið af enninu. Mér finnst eitthvað bærast inní mér. Vituð ér enn - eða hvað? ] [ Við hittumst, ástfangin en feimin. Þú sagðir \"ég elska þig\" Þú sagðir \"ég verð alltaf hjá þér\" Þú sagðir \"ég verð ætíð þinn\" Svo þegar þú, braust hjarta mitt. Þú sagðir \"ég mun leyfa þér að gleyma\" Þú sagðir \"ég var ekki réttur fyrir þig\" Þú sagðir \"ég verð ætíð þinn Þú gengur burt, með brotið bros. Skilur ekkert eftir, nema orðin tóm ... ] [ Sólarglæta lýsir, upp brotið hjarta mitt. Englar setja saman, sundrað hjarta þitt. ] [ Nú múgurinn stendur hann hrópar og kallar nú skal um breyta hér eru bara gallar Nú hann sér ykkar mistök nú hefur hann kannað um leið skipt um skoðun nú viljum við annað En stjórnin hún er hérna og stjórnin hún er þið við bendum öll á aðra en aðrir erum við ] [ Þó ég hafi komið sem gestur finn ég rætur mínar grafa sig djúpt í moldina, þegar ég horfi á heiða fegurðina í fáránlega skýrum litunum. Fjöllin fela áttirnar en sýna mér svo margt um leið. Gullna toppa, bláhvítar hlíðar og enda í svörtum sandi, sem mætir grænu hafinu. Ég verð kannski alltaf gestur en ég fer héðan aldrei. Hér lifi ég, dey, og hvíli loks við hlið forfeðra annarra manna. ] [ Mér finnst hún fljót að festa grjót sem næstum hrundi niður fjallahlíð en lenti ei í lundi þótt lífsins nautnir stundi í ástarfangsins fundi. ] [ Pirraður púki pantar að ljúki orku okkar. Stjarfur stokkar stolnum spilum. Við af böli bilum og skuldug skilum loknu lífi. ] [ Stilltur strengur, strekktur fengur á spýtu spenntur í sprækni glenntur af fingrum fimum á föstum limum um hljóða hrökk í hraða stökk. ] [ Ég finn að fang er fjötrum skýs fegurð veitir. Inní gefur gang Guða hellis nýs er gröfnum heitir gefnir reitir sem von er vís, að vað\'um eilífðina kýs. ] [ Fugl án fiðurs fótum drullar að innsta iðurs ævi sullar og lífi lýkur er lygin svíkur og lundin fýkur á brott og strýkur áttavilltur afarstilltur í rangar klíkur. ] [ Met úr moldar viskum mælir vaxta tákn, gögn af því sem giskum að glötuð hjörð af fiskum gefi af sér bákn sem ei sést er sólin lést og af sér arf engan þarf; líf sem dó af list um logna himnavist sem Guð oss gaf en gleymdi einum staf svo reynslan breytti í rist að rembast undan kvölum gist. ] [ Að beygja og bukka brotin sálarkrukka gaf af sér göngu gengnu af löngu kviðuklausu úr kútarausu í tímatapi og tómsins hrapi. Lastalukka lömuð klukka. ] [ Óvissan ógnar og ástleysið nagar óttinn svo sterkur og kvíði í bland. Dökkir þeir draumar og myrkvaðir dagar sem dynja á sálinni og sigla í strand. Hífi upp seglin og kemst nú á skrið þó siglan og skrokkurinn bogni. Þokunni léttir og lokið er bið eftir landfestu, þíðu og logni. Fast undir fæti og leiðin var greið að farsælum örlögum mínum. Ég hitti þig ástin, hve lengi ég beið eftir hamingju og hlýleika þínum. SiKri ] [ Þeir elska. Svo meiða þeir og myrða. Stela hjörtum ólögráða unglinga og nauðga æskunni. Geyma augun í vasanum, svíkja ástvini og efnast. Græðgin og gjálífið spila rúllettu á nakinni púrtvínsflösku. Svo er drukkið og étið og sóminn ataður saur úr hórum hégóma og heimsku. Og þú spyrð hvers vegna lífið sé hringormur í rúllutertu? Mennirnir elska. SiKri ] [ Gakktu fumlaust inn í frumskóginn og lyktaðu af gjöfum náttúrunnar. Fljúgðu huga þínum í miðju hjartans og finndu taktinn. Hlustaðu á kyrrðina, leggðu aftur augun og horfðu. Leyfðu andanum að fljóta um æðarnar, stattu fast í fæturna, virkjaðu hendurnar og brjóttu hjúpinn. Meðtaktu ljósið úr innsta kjarrinu, lýstu þér leið, faðmaðu heiminn... og vertu... Þú. SiKri ] [ Ef ég kynni að mála mynd af þér yrði hún litrík og umvafin blómum og fiðrildum með regnboga. Ef ég kynni að meta þig myndi ég ekki reyna að breyta þér og stýra með ábendingum. Ef ég kynni að syngja ástasöngva myndi ég kyrja við kertaljós og kavíar við undirspil. Ef ég kynni að virða þig myndi ég ekki svekkja þig og særa með orðum. Ef ég kynni að njóta þín myndi ég bera mig og leggjast með þér. Ef ég kynni að gefa þér myndi ég kaupa kerti og konfekt með kremi. Ef ég kann að elska þig mun ég semja ljóð um blóm og fiðrildi með ánægju. SiKri ] [ (Tileinkað föðurbróður mínum, Steinari Sigurjónssyni) Undirdjúp, sandur og steinar. Ritar nafn þitt í fjöruna og heggur grjóthart lífið í þunna skel. Svallið og brjálið á skaga og nesi svíkja og herða viðkvæma sál. Sýnir þig svartan, storkar sjálfinu en stendur með bókstaf í hendi. Skeytir ekkert um reglur né prjál og hatar að hoppa um haga og mel. Þreyttur, hlustar á þrá hafsins og þiggur þá hvíld sem báran ber. Siglíng þín í djúpið er ástarsaga hreinnar sálar sem blandar nú í bjartan dauðann. og þú ritar lokaorðin í sandinn hér var ég. SiKri ] [ Hvert einasta eitt tár á brjósti þínu þerra ég með tungu minni og finn svíðandi söknuð í bragðsterkri minningu. Hver einasta ein snerting mín við hörund þitt, hvert einasta eitt augnablik með þér er greypt í lófa minn. Ég hef þig í hönd og hjarta en kasta á bálið og græt. Dreifi öskunni í ána sem rennur köld á haf út. Ræ til veiða og fanga fisk, Gullfisk, með ösku á tungunni. SiKri ] [ það er dæld á druslunni minni og hún er á réttingarverkstæði hjá frænda mínum. Fæ þetta ódýrt en hann gat ekki lofað fullum gæðum. En það er allt í lagi, ég ætla hvort sem er að losa mig við hræið. Ætli ég auglýsi ekki í Dagblaðinu og bjóði hana ódýrt gegn staðgreiðslu? hugsa það. Og jafnvel gæti ég hugsað mér að taka gamla beyglu upp í til að skröllta á. Gæti auðvitað selt hana á partasölu en það er sennilega ekkert úr því að fá, því þó boddýið sé fallegt að sjá er vélin löskuð og illa nýtanleg. En svo er líka bara spurning um að farga druslunni? SiKri ] [ Nú elska ég enga konu. Nú sakna ég engrar, þrái neina, né græt. Þó þykir mér vænt um nokkrar. Það er notalegt jafnvægi yfir mér og ég uni mér einn nýt látleysis og einfaldleika og þarf ekkert meir en ég hef. Þó langar mig í jeppa einhvern tíma. SiKri ] [ Þú gafst mér sextán ár á flösku og skenktir mér bitru innihaldi hennar í viðkvæmt vínglas mitt Ég drakk í mig árin eitt af öðru sum voru sæt en önnur súr og mér svelgdist á. En nú hef ég sofið úr mér og vaknað upp við brothljóð úr grýttri fjörunni. Þangað flaug flaskan úr hendi mér og sundraðist á stærsta steininum, sem stendur sterkur eftir og horfir á brotin sextán fjara út og ná aldrei landi. SiKri ] [ Óskrifað blað framtíðar liggur í arni lífs míns og ritföng óvissunnar loga í bjarma vonar. Orð mín brenna upp á samanbrotnum pappírnum og glæðurnar læðast ógnandi um meiningu þeirra. Súr reykurinn er grár eins og minningin um fortíðina sem feykir öskunni um huga minn og þekur hjarta mitt, hjarta sem nú brennur. SiKri ] [ Þessi mynd af þér kona sem hefur komið til mín svo oft í draumum, hvar ertu? Hvernig ertu, hvernig líturðu út? Ertu nokkuð til? Ég held ekki. Það er ekki til nein „sönn ást“ sem er hverjum og einum ætluð. Sú della að „fólk sé ætlað hvort öðru“ eru draumórar og tálsýnir einar. En hvar í andskotanum ertu samt? SiKri ] [ Ég naut þín í mánuð en missti þig að eilífu þegar þú kvaddir. Ég þekkti þig í ágúst þegar við fórum að Gróttu og hittum kríurnar en kynntist þér í september þegar þú kvaddir eins og sumarið. Ég hélt þér í mánuð en missti þig að eilífu þegar þú fórst. Ég ætla að biðja kríurnar í Gróttu um að færa mér þig aftur, ...ef þær eru ekki flognar burt með þér? SiKri ] [ Ég kem til þín í svefni með hlýjum andvara sem bræðir leið mína að köldum vanga þínum. Blóðheitur draumur minn fléttar sig um hugsanir þínar og fortíðin fölnar og deyr. Ég kem til þín sem lauf í vindi, tylli mér á barm þinn og mjúk snertingin kyssir biturð þína. Stormar liðinna stunda hljóðna og nútíðin vaknar af dvala sínum. Ég kem til þín og snerti skaut þitt. Blik augna þinna speglast í sálu minni og framtíðin kveikir líf að morgni. SiKri ] [ Ég sit við tré mitt, horfi upp í krónu þess og nýt sumarsins með flögrandi fuglum og hlýjum vindum. Þétt laufið veitir mér skjól glærum úða himinsins sem nærir kröftugar ræturnar. Í svala haustsins stend ég við tré mitt og horfi á hrjúfan börkinn og tóm hreiður. Laufin svífa föl í frosna jörð og kveðja naktar greinarnar. Í vetur snjóaði í sár bolsins. Ómur höggsins særði viðkvæmar ræturnar sem eitt sinn nærðu mig. Ég sáði í vor og bíð nú sólargeislanna. SiKri ] [ Rökhyggjuróninn seildist eftir þróunarflöskunni og drakk í sig apalegar staðreyndir, meðan trúartrúðurinn fyllti sannleiksbikarinn af heilögum anda! SiKri ] [ Leiddu mig niður hlykkjóttan lífsstiga minn þangað sem myrkrið sté hófum sínum. Hefla þar fúann hamra út kvistina lakka í sárin Stígðu með mér úr völtu þrepi stundarinnar þangað sem ljósið læðir birtu sinni. Styrktu þar stoðir ver þar viðinn marka þar braut. SiKri ] [ Í grænu skýli bíð ég heimferðar en staldra við í skýjatoppum æskuhimins sem sýna margbreytilegar myndir þess tíma fyrirsjóna breyta lögun í vindáttum stundarinnar. Tærar tjarnir gárast við minningu liðinna stunda og barnsleg sálin fylgir fullþroska hjúp sínum úr skjólinu græna... ... vagninn er kominn! SiKri ] [ Í víðáttu svefnsins lætur flatmagandi fiðla vel í eyrum vætir vanga og snertir strengi Takturinn tryllist þegar svefnbrúin brestur og rífandi þögn tómsins tónar myrkum hljómum í bergmáli kaldra kletta. Sproti fellur úr hendi, vangadansinum lýkur og stjórnandinn vaknar í faðmlögum fiðlunnar. SiKri ] [ Steinrunninn sit ég í stólnum og stari á skjáinn. Í eyrunum bergmálar ljóðið og berjalykt leikur í vitum. Lyfjaglas lífsins tæmist, beiskt og rammt er í munni bragðið sem þétt sat í hendi. SiKri ] [ Eins og gatslitnir reimalausir skór var ég notaður af fótum fjöldans sem réð ferðinni um gráa og grýtta vegu ... svo komst þú og gekkst berfætt yfir grænt og mjúkt grasið. SiKri ] [ æ, æ: það eru fífl í báðum liðum ] [ Ég hef kveinandi magaverk í hjartanu, sálarniðurgang sem finnur ekki EXIT. En nú er ég sprunginn og saurnum er að rigna, rigna yfir þá sem tróðu skítnum ofan í mig. Aukalífin eru búin Mario H. Haarde, það finnast engir þolinmæðissveppir. Taktu Dið þitt og búðu til Dall, sigldu burt með þitt drullumall litli stafakall. ] [ Það er ekki úr vegi að veita þér sýn á vildisgæðinga og gá hvernig lyndar. En hart gæti ég trúað að hefndi sín að hampa þeim þér til fyrirmyndar. ] [ Napurt var að nóttu í ný föllnum snjó. Þeir sáu mig og sóttu í skóganna skóg. Svipirnir á sveimi stundum færa mér. Líf úr liðnum heimi loka á eftir sér. Spinna dul og drunga draum er enginn sér. Kyssa klakann þunga krossinn inn í mér. Því dalir dánir eru dóu hægt og hljótt. Í aldirnar réru út í dimma nótt. Með vörgum á veiðum vé þeirra brennt. Og ljósið á leiðum í logana hent. Á daglausum leiðum varð logandi bál. Þá kviknaði á heiðum kuldaleg sál. Engum hún ansaði inn í eldi bjó. Í dögun hún dansaði og dillandi hló. ] [ Ég sakna þín þegar ég vakna sakna þín í tíma sakna þín þegar ég borða sakna þín þegar ég er með krökkunum sakna þín þegar ég uppgötva nýja tónlist en mest af öllu sakna ég þín þegar ég sé þig. ] [ Raunveruleikinn fer í kollhnís þannig að öll mín trú brestur og hjarta mitt er skilið eftir bert. Ringluð stend ég eftir á fjallstindi án þess að vita hvernig ég komst þangað upp. Aldrei hef ég verið eins hjálparvana með hjartað nakið á útopnu fjallið grætur með mér. Áður var ég full af hlýju og ást en nú hefur hryggðin gagntekið mig ég leggst vanmátta á jörðina. Hjartað liggur sært við hlið mér og kvartar ég neita að hlusta á það og kasta því fram af brúninni. Ég vil ekki horfast í augu við fallið niður svo ég loka þeim og geng blint afturábak inn í tvísýna framtíðina. ] [ Drungaleg er geðveikin hjá löngu týndri þjóð, á himni hanga þrumuský, á ísnum rennur blóð. Langar nætur vakir sú sem hræðist næsta dag, því dögun rís með harmakvein og grimmd er okkar fag. Landsins ljós er slokknað, reiðin orðin óð, og við berjumst full af hatri, fyrir okkar týndu þjóð. ] [ Við syngjum ljóð á sumardegi glöðum, við syngjum ljóð er harmur þjakar lund. já ljóðið hljómar ljúft á öllum stöðum, það leysir vanda og græðir hverja stund. Við þurfum ekki að leita sólarlanda, í lágu hreysi er vistin okkur góð. Í félagsskap má auðga sérhvern anda, iðka söng og túlka fögur ljóð. ] [ Köld er sú hönd, sem leiðir mig. Leiddi sú hendi, einnig þig ?. Kalt er það gólf, sem geng ég á. Ég reyni að gleyma, en samt reyni að sjá. Kalt er það loft, sem um mig fer. Var loftið svo kalt, er þú varst hér?. Kulnaðar minningar, lokaðar geymast. Óttast það eitt að visna, og gleymast. ] [ Einn koss sem vakti fleiri tilfinningar en hafsjór af nóttum í örmum annarra elskhuga. Einn koss sem fól í sér fleiri bragðtegudir en má finna hverri einustu sælgætishillu heimsins. Einn koss sem verður alltaf endalaus uppspretta ólíkra tilfinninga í minningunni. ] [ Við erum alltaf við dyrnar en höfum aldrei opnað við fiktuðum í húninum kíktum inn en þorðum ekki að hleypa tilfinningunum út okkur langaði svo persónuleg svo bönnuð en við biðum þangað til biðin bar okkur ofurliði hurðin freistaði okkar um of þú stakkst lyklinum í skrána hleyptir öllu út og við fullnægðum forvitninni saman að heilu við opnuðum hurðir hvors annars og tengdumst að eilífu. ] [ Ég hallaði mér að eyra þínu, og hvíslaði: Ég elska þig. ] [ Á drifhvítum vængjum dansar þú dúfa svífur um á sumarsins sængum leikur söng þinn ljúfa Og þó þú þjáist og þunglyndi ei þolir syngdu svo ei það sjáist að innst inni, sárlega sál þín volir Treystur mér, töturlega táta trúgirni er treglynd gáfa auðvaldið mun aldrei játa eirðarlausir um frónna ráfa Gleður það þig gæskan, að gjörvallt landið grætur, og ljómi landsins, ljúfa æskan liggur í leyni, snöktandi um nætur? Á drifhvítum vængjum deyrð þú dúfa blóðrauðir dropar sumarsins ljúfa snerta hold þitt, kalt sem nýsleginn kopar og auðvaldið hendur í andlit grúfa. ] [ Skemmtilegur,fyndin, hugmyndaríkur, eldur í hans sál. Ríkur af ást og allt leikur í lyndi, gera stuttmyndir, ekkert mál. Hættu þessu röfli, veistu ekki hver hann er, sko, þetta er hann Sölvi. ] [ ekki meyr geir ] [ Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga Og utanþingstjórn í nokkra daga Utanþingstjórn í nokkra daga Þá er gaman að trítla um tún og Austurvöllinn Uns á endanum aftur éta okkur tröllin Á endnum éta okkur tröllin Mótmælendur á ný á fætur og stúlka grætur Og öll þiggjum við atvinnuleysisbætur Landsins synir en einkum dætur Bráðum kemur verri tíð og lengi versnar Og velferðarkerfis dánarfregnir eru lesnar Dánarfregnir velferðis lesnar Bráðum koma dauðatíðir djöfullegar Drukknar von í brjósti manns þá þegar Og blúsvísur eru sungnar tregar ] [ Ég horfi upp í bláan himin og yfir blátt haf sem breiðast út í kyrrð í augum þínum Enginn flýgur eins hátt og örn, kafar eins djúpt og skata og flýr beiskan lofthjúp jarðar En líti ég djúpt í augun bláu finn ég þar kristalsljóma sem býður mér að lauga sálina í bláum augum þínum ] [ Vordagur kastar kveðjukossi sínum, og sumar, haust, vetur... hver árstíð heillar sál mína á sinni eigin sýningu og ég átta mig á tilvist fimmtu árstíðarinnar þar sem eins og blóm teygir sig upp opnar sig til að taka á móti skini frá sólinni og bjarma frá jörðinni mýkjast allar taugar mínar verða næmari í viðtöku fljótandi orð í loftinu og dulin við vegarkant Í safnhaug fljúga orðin, eitt af öðru sálarnæring mín á fimmtu árstíðinni, innra með mér ] [ Þögul vaknar sólin til lífs og vatnsþráður seytlar úr frosnum læk Mjúkir og ljósir geislar strjúka húðina vekja náttúruskyn sem blundar í mér Gegnum hvít-gullið loft sé ég fyrir mér: hafið tvíofið með ljós- og dökkblátt, fjall skreytt með silfraða læki og steina og tún þakin glitrandi grasi og kindum Sumarmynd þiðnar með hverju skrefi hækkandi sólar og heimurinn verður marglitur með degi hverjum sem hún lýsir ] [ Í rigningu á kyrrum vordegi springa blómhnappar út Á blautu ljósgrænu torfþaki fæðast þeir saman í hvítt og fjólublátt Nýfædd börn, blómhnappar, teygja sig hátt upp í vorloftið Þótt fæðingargrátur heyrist ekki, sjást bros og kátína í hvítu og fjólubláu Lítil þögul líf á jörðinni stóru rifja upp von í hjörtum vorum Vorrigning fellur úr gráum himni, við hvítt og fjólublátt leika sér sálir vorar ] [ Dag af degi styttist kvöldmyrkur Nótt eftir nótt sef ég enn í rúmi í tunglseyðimörk ] [ Mér berst óvænt að vitum blíð angan og ljúf sem smýgur um hörund mitt Brum á nakinni grein sem skotið hefur upp kolli þenur út nýjan dag í hjarta mér Þótt tíminn fjötri allt og slökkvi vonarneista kviknar hann á ný með vorblænum ] [ Snemma sumars berast snjókorn í vindinum Hvítpúðruð Esja gnæfir yfir höfnina \"Sumarið!\" Dúðað fólk brosir við mér Smám saman dofnar yfir vetrinum í Lækjargötu Snemma sumars stingur kuldinn hörund mitt Fuglar dansa á torfunni og ylja sér við hliðina á þöglu blómabrumi Daginn lengir rólega í nepju á Austurvelli Svo rennir sólin niður björtu skini sínu og þekur bæinn með óskorinni ljóshimnu Sál mín seilist eftir sólinni og flýgur upp í loft eins og arnarengill Snemma sumars á Íslandi Dagur himnaljóss ] [ Horfi ég á heiminn í skæru sólskini Mæður, bros og barnavagnar Heimurinn er blessaður Sprettur hamingja úr hjörtum jarðarbarna? Eða drýpur hún niður úr lind á himninum? ] [ Sumarkvöld stillt, sjórinn er spegill Himinninn hulinn skýjablúndu leysist upp í spegilmynd sína Kvöldloft lygnt, sjórinn er jaði mjólkurhvítur og blágrænn með regindjúpan ljóma sinn Tætt mynd heimsins er heil í kvöld, þessa stund og græðir sárin í sálum manna Kvöldhúm milt Jökull er skuggamynd, sveimar yfir sjónarrönd Allir strengir stilltir saman í húminu ] [ ský, í sumarhúmi bleik og mjúk eins og englahúð liðuð og létt eins og englahár vagga sér í kvöldblíðu englar leynast í skýjum horfa yfir þig og þína ] [ Undir fjólublárri himnaskál skapar röddin þín hljóðlausan garð eins og þegar vaðfugl kafar í tæru vatni hverfur ómur úr stund og sálirnar hlusta á og þekkja ást og sorg streyma út úr sjálfum sér ] [ Ég trúi á þann kraft sem býr í vatninu og gerir flötinn jafnan og sléttan vatn í djúpri dimmu, gárur í leik við sólargeisla, lækir úr fjallshlíðum og gullnir dropar eftir vængjablak Óskorin mynd flýtur á spegli eins og hún hafi verið frá upphafi Dagarnir í lífi mínu líða einn, einn af öðrum eins og dropar sem falla á vatn, þungir, ljúfir eða glitrandi og streyma hljóðlaust út úr lífinu eins og þeir hafi aldrei verið í höndum mínum en ég trúi að með tímanum líti ég í kyrrð óskorna mynd liðinna daga ] [ Það dregur nær jólum. Árin hrannast upp Bros sést jafnt sem tár í hringrás tímans Það snjóar á jólum yfir líðandi tíð Árangur og andstreymi hverfa í snjókyrrð Jólin snúa nú aftur, eyða sálarskuggum Hvorki hroki né skömm búa lengur í mér Ég stari í birtuna, þekki aftur hvað ég á, sönn verðmæti lífsins Þakka Guði gjöfina Það dregur nær jólum Árin hrannast upp ] [ Andahjón staulast saman á ísnum á Austurvelli stara á mig einan á göngu ] [ Ást til þín fæddist í mér þögul eins og örsmá krabbabörn á strandargrynningu Í tærum og glitrandi bárum halda þau af stað í ferð sína til lífs í hafinu Nú veit enginn hvert þau eru farin ] [ Sárt bítur örmagna Afríkubúi sem ekkert hefur etið nema sand en laust bíta aðrir hraustir menn sem allt kvikt éta en hugsa aldrei til örmagna Afríkubúans sem aldrei hefur bragðað kjet og smjer. Á meðan hinir eru feitir er Afríkubúinn magur og sljór hinir hugsa ekkert um þá sem minna mega sín á meðan þeir henda matnum í ruslið og Afríkubúinn hendir af sér dauðum flugum grilla hinir kjet og fisk og drekka öl en Afríkubúinn grillar strá og drekkur skítugt vatn. Næst þegar þú sefur í heitu rúmi hugsaðu þá til örmagna Afríkubúans sem sefur í moldinni. ] [ Úti´ í blárri fjarlægð býr álfamærin góða og orðsendingu golan frá henni til mín ber: Komdu ég kalla´ á þig komdu og hittu mig. Hérna á ég eitthvað sem ég ætla´ að gefa þér. Ljúft er því að hlýða að leggja´ á nýja vegi á leiðarenda álfamær fögur væntir mín. Handan um höf og fjöll heillandi berast köll: Þetta sem þú átt að eiga alltaf bíður þín. Og eftir grýttum brautum ég áfram verð að halda en ekki finn ég hana sem kallar mig til sín. Gangan svo örðug er. Alltaf jafn langt frá mér álfamærin glettna geymir gjöfina til mín. ] [ Hún á sér hjarta og fyllir það ímyndum Þar falla skuggar sem draumar af tilveru Í hringrás, sem aldrei var ] [ ung mey svartir lokkar augu sem brenna hikandi ég sem hafði áður valdið í höndum mér -svalur gaur ekki lengur. ] [ Óréttlætið hann ætíð kaus, af yndi laug þótt allir vissu betur. Arkaði í drullu upp fyrir haus, afmánin skítablett á þjóðu setur. ] [ Þegar við hittumst fyrst, skiptir þú mínu hjarta út fyrir handsprengju. Hélt allan þennan tíma að hún væri óvirk, en síðan sprakk hún. Mér brá. ] [ Ég hélt við værum vinir, en það var greinilega bara misskilningur. Ég hélt þér þætti vænt um mig, en greinilega þótti þér það ekki. Þú verður að segja mér- ég gleymi, þú verður að sýna mér- ég man, leyfðu mér að reyna- ég skil. Ég hélt að allt léki í lyndi, en það var ekki svo gott. Ég hélt að okkur allt tækist, en þða var því miður ekki svo. Þú verður að leiðbeina mér- ég get, þú verður að pressa á mig- ég ætla, þú verður að sýna mér takmarkið- ég skal. Ég hélt okkur kæmi vel saman, en það var bara ruglingur. Ég hélt að okkur myndi ei neitt buga, en ruglingur hefur það verið líka. Þú gleymdir að benda mér á- ég gat ekki lagað, þú gleymdir að hamra á því- ég gat ekki munað, þú gleymdir að tala um okkur- ég gat ekki náð. Núna veit ég að við erum fólk, en það skiptir litlu máli. Núna vét ég að ég efli minn þrótt, en ég veit að skjöldurinn verður ei úr stáli. ] [ Þú er skærasta stjarnan á himni mínum, þú ert regnboginn röndóttur, nýr. Þú ert sólin sem lýsir geislum sínum, lengst inn í hjarta mitt. Þú ert von mín og trú er undan lætur, þú ert skjól mitt er tekur fast á. Þú ert sá sem er hjá mér allar nætur. Sá sem ég sef mest hjá. Þú ert ástin mín eina sem ég á mest í, þú ert kærleiksský fagurt og hlýtt. Þú ert hofnin sem hvetur mannfólk í því að skilja ei við sitt. ] [ Íhaldsgagnið af lostanum lá, ljóst var af hörkunni riðið. Seldi ærur fyrir að fá að flækjast um valdasviðið. En loksins kvaddi með kossi, knúin frá bersyndagjörð. Ætli þessi frægð henni hossi, í hamskiptum sem móðir jörð? ] [ í skóginum fellur tréð hljóðlaust ] [ dropi fellur af laufi gárar stillt vatnið um stund söngur þrastarins ómar um dalinn ] [ fjörðurinn gler æðurinn úar fiskur skvettir sporði dreg andann djúpt strengur í hörpu heimsins brosi í átt að rísandi sólu ] [ geng í myrkri niður stigann gólfteppið gróft undir berum fótum lít út um gluggann í þögninni skín ljósið á póstkassann ] [ Við hefðum getað fallið saman En ég tók þig niður og þú lyftir mér upp Ég sagði þér orðin sem ég þurfti að heyra Þú þurrkaðir tárin mín með þínum Ég leysti þinn hnút með höndum En þú leystir mína með hjarta einn dag í einu við höldum áfram Við stöndum hér saman um sinn ] [ Enn er nótt - enn er nótt, og ég lít um út glugga minn gagngert að sjá þar mig sjálfan, einmana sál Enn er nótt - út úr dimmunni greini ég ótta og óró í lofti, sem þungt liggur á Dimmblá ský - sé þau hrannast upp, dagur brátt dettur - og fellur á huga minn, angur og þrá Fellur regn - og dropar úr lofti sem læðast og leggjast svo þungt á einmana sál, sem dimmuna kýs Enn er nótt - þú ert björgin, skjól mitt gegn skímu sem aldrei í huga minn innst inn í megnar að ná Enn er nótt - þessa nótt, hef ég valið að láta mig hverfa og leysa mig upp, - til hins guðs æðsta valds. ] [ Sumri hallar, senn er komið haust svalir vindar, gáska-fullir gnauða. Til jarðar falla laufblöð ofur laust lífs með marki, nær þó gerum dauða. Fegurð haustsins, falin öllum litum, fyrr en varir klæðir hraun og hlíð. Hrím og mosa - áður en við vitum, vermir, stund úr degi, sólin blíð. ----------- Er haustið kom, það heilsaði mínum sjónum með höfgum svip, og reisn í hæstu krónum. Eitt gulnað blað, er féll við mína fætur fræddi mig um tré, er sumrið grætur. Veðurbarin tré er vetri kvíða visna upp, á móti strengjum stríða. Haustið kemur fyrr en oftast áður æsast vindar, magnast frostsins gráður. Falla haustsins tár úr himna gáttum heilsa sveipar vinds úr öllum áttum. Gisnar kræklur greina í regnsins fljóti gráma haustsins taka vel á móti. ] [ Hún er sem nótt, ég er sem dagur. Við erum 2, eins og 1. Saman horfum viðá litakort lífsins í rósrauðum bjarma frá hnígandi degi og sólarlagið, setur skammdegið í 1.sæti. Við erum skyndilega númer 2 & 3. ] [ Komdu inn í draum minn og þá mun mér farnast betur Þá nóttin verður ei einmanaleg lengur í vonleysi dagsins framundan. Vertu í draumi mínum, gegnum ákvarðanir dagsins og gleði mun aftur færast yfir mig Ég finn í draumi mínum að þú snertir hár mitt. Og skynja koss og þá er draumur minn sannur. Komdu út úr draumi mínum og við munum leysa úr einmanaleika hvors annars og hverfa á vit nýrra drauma. ] [ Þú sem gafst mér göfugt líf og list loks þú gekkst á vit við aðra vist. Og þegar ég með söknuði þig kveð ég þarf að láta fylgja kveðju með, - Hve sárt mér finnst að hafa þig nú misst. Þín hagleiksmikla hönd sem gaf mér allt sem hafði listaaflið þúsundfalt. Mér kenndir lífsins kúnstir við og við að veikum mætti stóðstu mér við hlið. - Með réttlátt mat sem stundum var þó kalt. Er gekk ég út í lífið, list var ein að læra bæði Einar Ben og Stein. “Og mannganginn hann muna ávallt skal” og músikin var talin sjálfsagt val. - Þín stefnuskrá var ætíð hrein og bein. Er fyrir sjónum líður æviskrá og sorgarleikur herjar hug minn á. Þá ég aðeins tel þann manninn mesta, minn föður - er ég taldi æ hinn besta. Oft ég sjálfan mig í þér ég sá. ] [ Hún svífur svo létt á fæti svardökk á brún og brá. Hár hennar hnykklast í kæti og hamingjuleik, sem má sjá. Dátt hún flamenco dansar í djörfum og æsandi leik. Er atlotum señorans ansar þá amor fer óðar á kreik. Í eggjandi einleik hún spinnur undir gígjunnar söng. Með áhrifum alla hún vinnur í andakt, um síðkvöldin löng. Í dulúðarheimi hún dvelur og daðrar við sveinanna hjörð. Og dramatísk dáindi ei felur sem drottning á þessari jörð. Með áleitnum augum hún lofar, í andrúmi stendur allt kyrrt. hennar ægifegurð er ofar öllu sem orð geta birt. Skrautlituð föt hennar sindra á skuggsælum daufljósa bar. Tígrissvört augun þau tindra og táldraga señora þar. Og gyðjan, hin fagra og fríða sem flamenco dansar svo vel. Sem lætur biðlana bíða, hún ber nafnið - Isabel. ] [ Þú komst inn í líf mitt svo léttlynd og blíð og ljómann þinn gafstu mér frá þér. Mitt hjarta sló taktinn ögn örar um hríð svo alllengi var ég að ná mér. Þó langan veg fari er löngun svo sterk að leiðin til þín virðist styttast. Það er sem að ástin sé ennþá það merk, að ekkert því aftri að hittast. Hver stund með þér gefur mér gæfu og byr svo góðleg í eðli og sinni. En hvers get ég ætlast, ég sjálfan mig spyr og sjálfsagt ég líð þér úr minni. Um tíma var auðna, nú tómarúm fyllt ég trega þig æ, allar stundir. En ástinni okkar ei nokkur fær spillt og aukast nú enn okkar fundir. Þitt bros það er falslaust og birtir upp allt og bætir mitt máttleysi og myrkur. Það yljar upp allt sem að áður var kalt, og eykst nú minn vilji og styrkur. Og mundu, að hvar sem í heimi ég er mín hugsun er ætíð þér handa. Ást mín til þín fylgir hvert sem ég fer þó fari til fjarlægra landa. Þú veist ekki alveg hvers virði þú ert en vilt kannski vita, mín kæra. Ég elska þig alltaf en hvað get ég gert, til að gefa þér ást mina og færa ? Að lokum mig langar að segja, þú veist og lestu nú það sem ég skrifa : Frá þeirri stundu á líf mitt þú leist þá loks var þess virði að lifa. ] [ Tunglið horfir á okkur tunglið með sín mörgu andlit horfir á okkur, ástfangin, en segir ekki neitt, segir ekki neitt, ..no decir nada Tunglið það merlar á sæ tunglið glampar á snæ tunglið er yfir okkur, ástföngnum en segir ekki neitt segir ekki neitt, ..no decir nada. Tunglið hálft segir hálfa sögu tunglið fullt segir allt en tunglið okkar horfir á okkur, ástfangin og segir ekki neitt kýs að segja ekki neitt… .....nunca ] [ Þú dansar þinn leiftrandi dans, dreymin og fríð, og þú blómstrar undurblíð. Þú hleypur um engi og tún hamingja er, hvert sem ótt þitt hjarta fer. Ég dansa vil dansinn með þér dreymi um þig, allt þitt fas það ærir mig. Þó líða mun ár kannski og öld heyra mun söng, þinn í blænum dægrin löng. Ó leyf mér að fylgja þér heim einn með þér, annar heimur opnast mér. Og svo þegar stund rennur upp sólin skín, þá þú verður ástin mín. Þú stúlka með stjörnubjart hár ó seg þínar vonir og þrár leyf mér, leiða þig hvert sem ég fer. Þú stúlka mér heldur í hönd við höldum í hamingjulönd veg minn, veit enginn annar en þú. ] [ Þú húkir þar aleinn, hrakinn og grár hrímugur, fölur og gugginn. Þolað þú hefur fimbul og fár og fimmfaldur er af þér skugginn. Stendur þú kaldur, stolt hefur hert stafar ei ógn frá neinum. Veist ekki alveg, hvers virði þú ert en virðingu hlýtur í leynum. Til þín svo lítill ég mæni sem maur minnist ég þín svo feginn. Þú ert minn ljúfasti ljósastaur, og lýsir upp fyrir mig veginn. ] [ Þú, lífsvegs míns ljós, er lýsir minn veg hvert svo sem ég fer fram um veg, og hvar sem ég er þá ert þú með mér. Því þú, ert ætíð hjá mér, ef aleinn ég er þá alltaf ég kerti, að kvöldi kveiki þá ertu hjá mér þá aldrei ég einn að borði sit. Því þú, lífsvegs míns ljós sem lýsir minn veg þinn hug veitir mér þá ég öruggur er. Ó, þú, mín ást... þá málsverði lokið er þá ég slekk...og fer. Ó, þú, lífsvegs míns ljós hve ég sakna þín. ] [ þín þröngu sund, steinlögð, svo undan særir sem sögu geymir, og þín glaðlegu hvítkalka hús með gluggasillur hvar blómaker fögur hvíla svartklædd kona á stól undir vegg - í skugga býður buenas, - með heimasaum í hendi, á meðan húsbóndinn fær sér síestu, á miðjum degi undir flatt það hallar, eitt húsið í slakkanum efra, eins og spyrji förumann ; hver ert þú, - og hvaðan ber þig að ? þorpið hvíta í bröttum hlíðum brosir þótt búi yfir svörtum sögum Spánar þótt búi yfir svörtum sögum Spánar Altea, fagra, umkringd aldinökrum hvar gullaldin vaxa, - seg mér sögu þína, meðan sólin skín ofan í rauðvínið mitt í auðmýkt minni sit ég einn og hlusta í auðmýkt minni sit ég þar einn og hlusta. ] [ Sofðu lengi, Sofðu rótt. Aldrei muntu vakna. Þá þú sérð að hjartað hljótt, sárt því finnst að sakna. ] [ Inn í nýjan dag. Um þekktar götur. Yfir hvíta mjöll. Um gamla slóð. Á sumardegi. Yfir gróin engi. Um svarta sanda. Yfir jökulá. Yfir fjallið, í fjarskanum bláa. Þessa vegferð í erli dags. Um svarta nótt. Inn í draumageim. Innra með mér, ég einstigið feta. Ég leita. Hvar er hún leiðin að hjarta þínu. Ég vil fanga fjársjóðina sem sál þín geymir. ] [ Nei, nei, nei Það gengur ekki að elska tvær konur þá þarftu að flytja þig austar í veröldinni. Nei, nei, nei Það gengur ekki að elska tvær konur því önnur mun klóra augun úr hinni og þú veist hvor. Nei, nei, nei. Það gengur ekki að elska tvær konur önnur mun alltaf eiga meira í þér og ég veit hvor. ] [ Íhaldshreðjum hertust tök, Haarde fékk ekki jú-ið. Ingibjörg sagði:,,Engin mök, afsakið, takk og búið\". ] [ Göran Person á sér draum, um að Barack Obama væri samnorrænni og bæri nafnið Sven Barack Obama. ] [ Eftir öll þessi ár gegnum blóð svita og tár gengum ótalin, óvarin æði er ég komin í þrot með að skilja það krot sem eitt sinn var upphaf af kvæði. Hvar er kærastan þín? er hún pípa og vín? eða píanó, trommur og gítar? Mæltu hættuleg orð og ég fell fyrir borð þar svo drukkna í drafla og sýru ég er komin í þrot með að skilja það krot sem var leikur að vitsmunatýru Hver er kærastan þín? er hún pípa og vín? eða píanó, trommur og gítar? ] [ Ég hlusta oft á Emilíönu Torrini. En hún hlustar aldrei á mig. Týpískt. She doesn\'t love you like I do, söng hún blíðlega í eyra mér. En átti ekki við mig. ] [ Algert myrkur, angurskuggi ergir sál ertir huga, æsir menn um óttumál. Leiði magnast, lengist vesöld, loks er áð lokastund er öllu heilli ekki í bráð. Haustgrá þoka, hræðir, skelfir, helst um flá heljargreipum, háls í taki, herðir á. Hærum skotinn, hniginn aldurs, hrapar í hrævarelda, horfinn annars heims er því. Vættum illum, vörgum myrkum, vá í hug, vafurloga, villuljósum vísa á bug. Ljós í myrkri, lífvænn dagur lýstur á léttvænlegur, lúk upp augum, ljós um brá. ] [ Í september ég sagði þér við sjáumst bráðum aftur. Þú höndum föstum heldur mér sem heljar innri kraftur. Þó vetur gnauði, vinna og strit þú vart úr huga líður. Brátt ég leita á þitt vit þú alltaf ert - og bíður. Frá því að ég fyrst þig sá fylltir þú mig krafti. Ég vissi að þig yrði að fá, minn anda sviptir hafti. Ég ætíð hanska upp þinn tek, aldrei örlar kala. Gef ég þér minn hug og þrek og þínu máli tala. Hver snerting við þig sólu gefur skín þitt heita hjarta. Spor í líf mitt sett þú hefur Spánn, þú land mitt bjarta. ] [ Gamli bærinn, með tapas og bacalá að norðan þar sem borð og stólar um stéttar eru á þröngum stígum, með matarlykt, er bærist um andrúm - þar sem sólin heitast skín, og án miskunnar skellur á sólþreyttum Spánar niðjum. - Þar sem sígaunar falbjóða sínar vörur, svo og marga aðra misgóða þjónustu. Og út um glugga greinir þú, hvar gamli skóli lífsins, með flamenco með tónum, ungum kúnstir sínar kennir. Þar á götu úti gamall bekkur er, svo og aldnir hvíla lúin bein undir visnu tré, er geymir aldin cítrus.-- Og gamlir bílar silast um og úr sér spúa eitureim yfir ofur-kristið fólk, sem ei við vörnum kemur. Þar og kirkjan trónir, í hæðum hæst - þar guði næst, sem og mögulegt er og útsýnið er og allra best - til að þóknast herranum ofar, -- uppi. Þar er mannlífið um aftanbil, á síestunni, á sér hægir, og skuggabarir fyllast af señorum og señoritum í leit að félagsskap, og tinto de verano. Þá í dulúð rökkurs úr skápum verur skríða -- hvorugskyn og bláir, rauðir, barir opna - þar vín, og losti, og kenndir, fara á kreik. Gamli bærinn horfir á og spáir ekkert í framtíðina - þetta er það sem hann sjálfur hefur mótað. ] [ gott er að búa í glerhúsi þá gægist sólin inn já, gott er að búa í glerhúsi góði vinur minn vont er að vera í vertshúsi er vættir illar, vinur minn gægjast inn af öllu afli á auman sálarglugga þinn.. þá vont er að vera í vertshúsi, elsku vinur minn betra er að búa í glerhúsi er sólin gægist inn já, betra er að búa í glerhúsi allan kaldan veturinn, þá sólin ljúfa gægist inn á auman sálarglugga þinn. ] [ frá þínum munni streyma fögur orð og fylla líf mitt ætíð ást og gleði þú ert í senn mitt hunangs-hnoss í hjarta mínu sem gullinn-foss í hjarta mínu minn eini gullni foss ] [ Sofðu litla mær, sofðu vina rótt þig dreymir svo fallegt í nótt. Svíf þú í svefn, lokast augun hljótt yfir fer myrkrið nú fljótt. Dreymi þig vel, hjá þér ég dvel uns sóttheitum svefninum lýkur. Þú sefur um sinn, nú sjóðheita kinn hljóðlega aftur ég strýk… Svíf þú í svefn, lokast augun hljótt. ég kyssi þig góða nótt Sofðu nú vært, barnið mitt kært hin höfga nótt þig tekur Þú sefur sátt, en svo kemur brátt í líf þitt, enn einn dagur nýr.... ] [ Nú þegar söknuður næðir um bein neglir mitt hjarta með sársaukaflein. Þá til baka ég lít ; það vantaði trú, von og kærleik. Samband mitt við þig, sem varst mér þó allt smásaman dofnaði, allt varð svo kalt. Er til baka ég lít ; þá vantaði trú, von og kærleik. Draumur, sem birtist um stund varð sem martröð, þá lokuðust sund öll, og örtröð af hugsunum um þig, birtust mér. Sérhverja stund, þá er næði ég hef stöðugt ég hugs\' um þig, lítið ég sef. Er til baka ég lít ; þá vantaði trú, von og kærleik. En loks er aftur við hittumst við munum ást okkar heimta - á ný. ] [ Í nótt þú sagðir nafn mitt aftur, aftur. Í nótt þú sagðir nafn mitt oft, svo oft. Í orðum þínum, þróttur, þrunginn kraftur, ...þvílík nótt. Þú milljón sinnum opnaðir þitt hjarta, í sæluvímu, sagðir mér svo margt. Mér þú varst, mín ást, mín sólin bjarta, ...en hver varst þú? Og hver veit nema sólin sumarbjarta sendi þér nú nýja, lífsins sýn Þú gafst þó allt, af öllu þínu hjarta.. ástin mín Og hvar var ég, þegar morgunn rann upp, fagur? Hvar var ég, þegar mest þú þurftir við? Fyrir þér, er nú sérhver dagur aðeins....minning ein. ] [ Ofsabylur hvinur, hvæs hverfur allt til fjandans. Voðalegur vindu blæs vinalega Ísland. Út á tungu, yfir nes allt þar til ég stend strand vestan hóla vindur blés vinalega Ísland. Þurraskítur, þorrablót þurftabúskap og hland. Maðkaétið mygludót, manni sjá hér Ísland. ] [ Áfram áfram, nú liggur á í strætóinn ég verð að ná. Á hlaupum mínum við skóinn festist, pikkfást á sólann klesstist tyggjó klessan sem Heiðrún samdi um hér forðum, sú sem festist undir nemendaborðum. Ég reif hana af og í ruslið henti en missti marks og á götunni hún lenti. Í strætóskýlið ég loks komst og beið og beið en komst að því að strætó var löngu kominn sína leið. ] [ Ungar ástir fæðast og deyja og hvíla í sinni gröf í frið og ró. Ættir tvær blóðugar orustur heyja og um það er mér um og ó og sögu þessara tveggja greyja sem þrunginn ástarharmur sló er þó bara best að þegja en eitt hef ég þó um hana að segja að sárum trega sveipur lifir þó sagan um Júlíu og Rómeó. ] [ Tími, grái, gamli tími. Ljáðu mér vængi svo ég get flogið yfir Yggdrasil og hitt þar gamla vini og einhverja nýja. ] [ Vængjaþyt tær sem döggin hvít á lit ásjóna þín og út í horni ég sit og heyri í fjarska vængjaþyt. Ást og trú lífvana engill vakna þú hví fórst þú og hvar ert þú nú þú sem ég gaf mína ást og trú. Ég kom en ég var of sein nú er ég ein án þín. Segð mér er ég sek ef ég líf mitt tek og hví heyr ég þennan vængjaþyt. ] [ Yndið best þér auðnast megi, alltaf verði gæfan þín og leiði þig á lífsins vegi litla sæta dúllan mín. ] [ Velkomin, á Waff Waff Waff punktur Ljod punktur is skástrik Runa af ensku, tölum og skammstöfunum Og takk fyrir að lesa þetta ljóð ] [ Kom inní heiminn algjörlega óumbeðið, óspurður, ekki eftir því óskað! Og svo og svo og svo bara ef bara ef bara ef en þá.... og svo bara ef en þá... Lífið í hnotskurn. Og ég er, sá sem ég er en ekki sá sem er hér, fyrir augum þínum. Lítum á hann, þekk´ann ekki, skil´ann ekki, vill´ann ekki! En þetta er hann, hann sem öllum ann og alla fær og allir fá sem vilja. Nei nei nei segðu ekki nei, nema kannski einu sinni eða tvisvar. Sá sem öllum ann en annast engan, nema sig. Ég er allt sem er og verður því allt sem ég veit er hér er ég og enginn annar, í heimili mínu, í kollinum mínum, eða hvað? Erum við tveir eða þrír eða fjórir eða kannski bara endalausir? Eða kannski bara enginn annar en ég og ég er allt sem er og alltaf verður því þetta er draumur um þig og mig. Ég kalla og hrópa en enginn mér ansar, þér er ekki boðið! Ég bað ekki um það! Láttu það fara... láttu það fara... láttu það fara... En enginn ansar nema hann sem öllum okkur ann, hann sem kannski er, vonandi er farandi fer að leika sér að okkur sýnum kæru, kærleikurinn umlykur okkur eða hvað? Sérðu hvað ég hef falið, það er ég, Hann sem ofur öllum ann! Falinn, illa farinn, eða hvað? Og nú, reynslunni ríkur, mistökin mörg! Hef falið mig lamið mig verið um þig sama. Og ég vakna, ég vakna alltaf, mistökin færri í dag en í gær, vonandi. Leik ég mér að lífinu eða leikur lífið mig grátt? Lofandi vonandi að allt verði betra. Vonandi betra í dag en í gær, betri í dag en í gær, vonandi... ] [ Tilboð: Ein fyrir allar og allar fyrir eina. ] [ Fullkominn heimur fyrir utan glugga minn Andartakið þrungið merkingu og tíminn stöðvast Sólin brennir upp hvíta jörðina á meðan skýin faðma himininn Loftið svo tært að ég kafna eða svíf upp í heiðhvolfið Í þrjár mínútur er heimurinn frosinn þrjár mínútur fyrir mig að njóta Sufjan syngur um ástina en svo blikka ég augunum Heimurinn bærði á sér ] [ Þú horfðir í augun mín og ég fann hvernig þú yrðir aldrei fullkomin án mín Ég kyssti þig og þú brostir Svo tók ég upp blóðuga nálina Og hélt áfram að sauma okkur saman ] [ Langt er liðið síðan þá löndum varstu gleymdur Allt í einu vil þig fá í hjartanu geymdur ] [ Nú kunnum við að dansa, eins og dönsurum ber. - Hættu þá að traðka á tánni á mér. ] [ Göran Person er ekki eins og hann á að sér að vera. Hann er hryggur. Þögull sem glataður steinn, grafinn undir sand á svörtum sjávarbotni, hamingja þeirra beggja skín álíka bjart frá þeim. Andlitið lafir niðurlút, húðin heldur dauðataki í allt hún getur, lafhrætt. Eiginkona Svíans hefur undanfarna daga haft töluverðar áhyggjur af því. En áhyggjur hennar hafa ekki hjálpað til. Hvorki henni né honum. Skiljanlega, svo sem. Þær fengu aldrei vængi, líf fyrir utan hennar eign skel. Þær flugu aldrei í gegnum raddböndin, eftir langa dvöl í þögulli púpu, sem kemur henni ekkert á óvart. Þau sitja s.s. saman og þegja við voldugt borð, sem rímar við dapurleikann, án þess að neinn átti sig á því. Person, sem er nýkominn heim frá Bandaríkjunum, óskar þess heitt og innilega að hinn vinsæli forseti Barack Hussein Obama, væri samnorrænni - þó það væri ekki nema í einn dag - (fyrst hann tengist svo mörgum öðrum menningarheimum) og bæri nafnið Sven Barack Obama. Göran Person muldrar Að geta sagt: Min ven Sven, um leiðtogann ástæla, við eiginkonuna og brosa blítt til hennar. ] [ óhamingjan býr í blokkum hreiðrar sig í gjaldföllnum reikningum og hótunum um frekari aðgerðir óhamingjan er blokkum fullar af fólki sem drepa hugsanir í glötuðum sjónvarpsþáttum óhamingja er blokk í hjartanu á fólki sem sér ekki framtíð fyrir sig né börnin sín ] [ Mine got broken, yours got freedom, too many words left unspoken, but no left for wisdom. ] [ Fyrir ári síðan, skein sólin í augun á mér meðan ég gékk á vatninu. Ári síðar, sameinast tárin vatninu, meðan ég berst við að halda mér á floti. ] [ kolsvartur himinninn er tilbreytingasnauður en eitt kvöldið stóð ég agndofa og horfði á bjartar slæður norðurljósanna -dáleidd- dansandi þrátt fyrir kvöl og pínu er þessi heimur óneitanlega fagur. ] [ Vel er nú sjötugan setjandi á vetur, sómakarlinn hann Imbu-Pétur. Hann ætlar að leysa veisluvanda, vippa sér burtu til suðurlanda. Heillaóskir og heppnast megi besta, hamingjan fylgi þó njótir ei gesta. ] [ Þú ert sólskin þú ert barnaleikur þú ert ástrýða og vellíðan þú ert djásn þú ert reikul þú ert svikul þú ert týnd ég finn þig ekki en þú felur þig í hjarta mér. Ég ætla að ná í þig á morgun þegar ég er búinn að kaupa sportbílinn. ] [ Ef ég fer frá þér verð ég einn ef ég verð hjá þér verð ég einn ............. með þér Ef þú ferð frá mér verður þín saknað ef þú verður hjá mér verður þú sjálfsögð Ef við verðum saman verðum við bundin ............. hvort öðru ] [ Bera vil ég vín á borð sem bæði getur valdið gleði og reiði en ósögð orð um lífsins innihaldið! ] [ Ég er brúnin Ég er stökkið Ég er fallið Þú ert hugsunin Þú ert vænghafið Þú ert lendingin Við erum ábyrg! ] [ Sofðu sonur minn, sofðu af þér af þér fréttir af slysum, sjúkdómum og dauða. Sofðu dóttir mín, sofðu af þér áhyggjur, kvíða og strit. Látið mig um að horfa, finna og upplifa það sem þið erfið án valkostar. ] [ Stundum langar mig til að bera tilfinningar mínar í fatla þá gæti ég losað umbúðirnar og sýnt þér brotna sál mína FreKri / (SiKri) ] [ Hvítur köttur stökk við fætur mér og ég hrasa við endurminningarnar. Svartur hrafn upphafsins flýgur til sinna myrku heima. Ég klappa mjúkum feldi kisu og hún brosir til mín eins og björt framtíðin. Svo kveðjum við krumma. ] [ Ég man eftir heilli helgi þar sem ég lá flatur í hvíta líninu eins og lík til krufningar og ég spennti greipar. Þá hófst þú handa kæri vinur, greindir mig særðan og skarst burtu meinið. Þetta var góð krufning... ...að ég tel, því ég þekki ekki neitt til slíkra verka. Ég lifði hana þó af. Birta, sól, hlýja eða ljómi einhvers konar, veit ekki alveg hvað það var sem þú settir inn í stað svarta blettsins? Það var eitthvað ósnertanlegt, eitthvað æðra, jafnvel heilagt eins og að dýrlingur eða engill væri í návist minni og mér leið svo vel og ég brosti. Þessi upplifun mín, sú líðan svo tær og viðkvæm eins og næfurþunnur kristall, mig langar að finna hana aftur og kyrrsetja inni í mér. Þakka þér fyrir vinur, ég trúi á þig. Kannski ég fái að leita til þín ef ég þarf að leggjast í hvíta línið aftur? ] [ Ég týndi einhverju innra með mér þegar ég skildi við fyrrum konu mína. Ekki einungis varð ég taugaveiklaður og hræddur heldur varfærinn og vandlátur þegar frá leið. Leitin að þeim neista og hrifningu til annarar konu, sem ég þráði, lét á sér standa og ég hélt ég myndi aldrei finna hana aftur. Dapur og vonlaus flýtur maður ósjálfrátt í hlutleysi og áreynslulausa auðmýkt gagnvart sjálfum sér og væntingum sínum. Það er ákveðið frelsi. Og í látleysi mínu fann ég frið og ró. Sáttur og yfirvegaður var ég leiddur í kynni við konu. Ný, en um leið, gömul tilfinning, var komin á sinn stað og mér líður vel. Hún er fundin! ] [ Að vera með þér er eins og að líta í spegil og horfa á móti. Ég sé sjálfan mig með mínum eigin augum og þá um leið með þínum. Þannig næ ég að fullkomna mig. Kem fram við þig eins og ég myndi koma fram við mig! Er þetta ekki rétt hjá mér annars? Sérðu ekki örugglega það sama og ég? Finnst þér ég ekki vera fullkominn? Þannig sé ég þetta alla vega héðan úr speglinum. ] [ Líf mitt er lokað í litlausum ramma sálin er löskuð og þungt er að þramma þröngstigu lífsins og veginn þann rétta án þess að villast hrasa og detta. En upp skal ég standa og seilast til vopna brjóta mér leið og sál mína opna bjóða þér faðminn og hvísla til þín leggðu þinn lófa í litflæði mín. Blöndum þar blóði og sverjum í hljóði þá hollust´og tryggð sem ást er á byggð. ] [ Æskuheimili. Þunnt milli veggja í gula og bláa húsinu nr. 65. Litli bróðir heyrir og nemur. Vinur kemur í heimsókn í herbergi stóra bróður og annar til. Góðir vinir. Ljóshærð, grönn dama úr austurbænum kemur líka. Svo þessi útlenska, dökkhærða með liðaða hárið og brúnu augun, flottar kærustur. Tónlist, rökræður, hlátur og hjal. Unglingur lifir æskuna. Vakti áhuga minn, mótaði smekkinn. Knattspyrnuvöllur, mjúk möl, takkaför í teignum, upphitun. Grænt net og grófur skeljasandur. Vallarvörðurinn merkir fyrir vítapunktinum. Flautað til leiks, fríspark, gult spjald, tækling, svo hálfleikur. Sól í augu eftir hlé, derhúfa á höfði bróður. Sigurglampi úr hálf skyggðu andlitinu, keppnisskap, einbeiting. Upplifun og innblástur litla bróður. Markvörður ver í horn og heldur hreinu. Vakti áhuga minn, mótaði smekkinn. Íþróttahús, vetur og kaldir vindar. Hiti í húsi. Stokkið upp af punktalínu, sending í hornið, stangarskot og gegnumbrot. Sviti á gólfi. Skot í stöng og slá, skot í skeytin, söngur í neti. Skytta stekkur upp og skorar. Vakti áhuga minn, mótaði smekkinn Markaður. Fiskilykt, ýsa, þorskur, karfi. Áræðinn og ákafur valsar milli fiskikera með nethúfu á höfði. Fyrirtæki, utanferðir og frosinn fiskur í háloftum. Frakkar kaupa og Þjóðverjar. Kaupsýslumaður í útrás selur fisk. Vakti áhuga minn, mótaði smekkinn en minnir á þægindi launþegans. Einbýli, mótatimbur og múr. Dugnaður, mettími og reisugilli. Bústaður, sól og sveitakyrrð. Fuglasöngur, ættarmót, tengsl. Kvenkostur, atgervi, samheldni. Eiginkona og börnin þrjú. Gjöf Almættisins, hamingja bróður míns. Fjölskyldumaður sér um sína. Vakti áhuga minn, mótaði smekkinn. Að halda hreinu, þruma í vínkilinn, velja fallegasta fiskinn. Skilvinda skynsemi minnar hlustaði, lærði, mat og meðtók. Þunni veggurinn hleypti því besta í fari bróður míns inn í líf mitt. Unglingurinn, markvörðurinn, skyttan, kaupsýslumaðurinn og fjölskyldumaðurinn. Bróðir minn gefur gott fordæmi. Hann vekur aðdáun mína, hann staðfestir smekk minn. ] [ Ef ég dey á morgun, þá vil ég að þið vitið að uppáhálds liturinn minn var rauður, ekki blár eins og sumir héldu. ] [ Ég teiknaði Guð á hvítt blað í gær. Notaði blýant úr gamla smíðavestinu mínu. Þurfti að tálga hann vel áður. Strokaði líka mikið út og byrjaði frá grunni aftur og aftur. Ég náði ekki myndinni af Guði á blað þrátt fyrir að ég sjái hann fyrir mér. Sumir segja að hann sé inni hverjum og einum. Ég þarf því hugsanlega að ná honum út úr mér til að hafa fyrirmynd. Eflaust væri betra að nota vatnsliti? Gæti líka teiknað hann í tölvu. En best að sjá hann bara fyrir sér í huganum. Og segja frá því. ] [ Fallegir garðar í gömlu götunni og við röltum saman í sólinni út að litla róló. Þú spyrð um fuglana og trén og réttir mér gula fötu með skóflu í. Við mokum saman. Útsýnið er fagurt úr kvistíbúðinni og dökkt viðargólfið býður okkur upp. Þú stígur létt á ristar mínar og verður hluti af mér. Við dönsum saman. Augu okkar mætast á hvolfi og þú spyrð hvort olía á malbiki sé spegilmynd af regnboganum. Við hlæjum saman. Stór salur, fullur af fólki sem klappar og ég sé þig taka á móti framtíð þinni, með hvíta húfu á höfðinu. Við fögnum saman. Nýtísku hús við breiðstrætið og ég horfi á eftir þér í faðm elskhuga þíns. Þú lítur við og brosir og réttir honum gula fötu með skóflu í. Þið mokið saman. ] [ Kraftmikill, kappsfullur sýnir þú þor knattleikni, lipurð og festu. Fetar í föðurins fornfrægu spor og fótar þig nálægt þeim bestu. Skynsamur veistu að frægðin er föl ef freistingar ná ekki taki. Forðastu ungdómsins fávisku böl sem fellir svo marga af baki. Hörfðu til framtíðar, hyggðu til mennta hagnýttu ráðin sem víðsýni jók. Hlustað´á hjartað sem veit hvað mun henta hugrökkum hnokka með bolt´eða bók. ] [ Hef ekki oft sagt, \"ég er hamingjusamur\". Hef þó getið þess öðru hvoru og ljómað. Reyndar hafa ekki margir spurt mig og aldrei hefur mér dottið í hug að segjast hamingjusamur svona upp úr þurru. Er reyndar frekar einfaldur á þessu sviði. Lít sennilega á lífið sem talsvert efiðan vettvang og að maður geti tæplega ætlast til að vera yfir sig hamingjusamur. Ætli ég telji ekki að það fylgi ætíð einhver vandamál lífinu og maður þurfi bara að vinna úr þeim. En hvernig vinnur maður þá úr hamingjunni? ] [ Einu sinni var tvisvar. Hann átti konu sem hét þrisvar. Þau fóru fjórum sinnum út í búð, keyptu fimm brauð fyrir sex krónur stykkið og fengu sjö aura til baka. Þau gengu átta skref heim ýttu níu sinnum á bjölluna og fengu tíu svör við gátum lífsins. ] [ Það var eitt sinn er ég bjó, að litil börn mín fóru út í skóg. ég var hrædd, ég var ein og á eftir lét ég ungann svein. Sveinnin fór og ég eftir var, aftur ein svo hrædd, tíminn sem snjókorn, svífandi hægt, og óttaðist um börnin, voru þau lífs eða liðin?? Birtan fór, Birtan kom. Ekkert sást ekkert gerðist. vetur, vor og haust ég beið og aldrei kom neinn. Aldir liðu og hér er ég enn. Löngu búin að gleyma, eftir hverju ég bíð, samt bíð ég og bíð og vona að það komi senn. ] [ Með hendurnar í hárinu og varir hans við kinn sterkt grip og stingandi augu sjúk eins og andskotinn klór á bakinu, bragð af svita í bóli liggja ber á brjósti blautir kossar hvað viltu fá frá mér? því að ég vil ekki engjast ég vil ekki þjást þetta er ekkert annað en forboðin ást. ] [ tónlist dynur fólkið stynur taktinn við augun okkar á gólfinu mætast og bara við leyndardómslegur með augnaráðið sem bræðir mig komdu og snertu mig ] [ Þriggja ára kvöl Þriggja ára sæla Þriggja ára tímabil helgað þér Þrjú ár í Helvíti Þrjú ár í Himnaríki Þrjú ár í villu helgaðri þér Frammundan? Þrír áratugir? Þrjú ár? þrír mánuðir? Þrjár vikur? Þrjár mínútur? Óvíst. En áfram verður tími minn helgaður þér. ] [ Náðargáfu Guð mér veitti, ég get víst alveg svarið það. Hann í mig teflon-ausu hreytti - ég aldrei þarf að fara í bað! ] [ Eitt snjókorn á jörðina fellur. Fyrirgefðu, Ég var bara að skoða. ] [ Ég elska þig... Hver sagði þetta? Ekki ég... *blikk-blikk* ] [ Gakktu með mér um stræti Parísar. Elskenda borg er okkar borg. Steinar götunnar voru þar lagðir fyrir okkur að ganga á. ] [ Af hverju komstu ekki fyrr? Þú ert ekki of seinn en af hverju komstu ekki fyrr? Núna þarf ég að raða öllu upp á nýtt. ] [ Baldur talar lítið við fólk Baldvin talar við lítið fólk Annar er leikskólakennari og hinn dreyminn rithöfundur ] [ Sigur hver er studdur bænum sagnir þeirra lifa í blænum. Guð einn veit vorn kveðju tíma vakir þegar stjörnur skína. Yfir heldur hesta reiðin hrímköld verður konungsleiðin. Í sárum þeirra stungu blettir sökum eru reiðmenn settir. Viðsjárverðar hæðir háar hendur þeirra kulda bláar. Gjörn er hönd á gamla siði gull er undir læstu hliði. Hættur eru á heiðarstígum hatur lifir í gömlum vígum. Þola máttu þungar raunir þykkjufullur Guð þú launir. En römm eru tregatökin tryggðin þeirra eina sökin. Læðist inn í krók og kima krossfregn þeirra margra vina. Allt það líf er undir eiði upp vaxið af sama meiði. Milli skýja máninn líður myrkrið felur, goðinn bíður. Ef eitt feilspor faðmi hríðar frosin líkin finnast síðar. Hefnd er afls og sæmdar systir sorgin alla huga gistir. Örvaslóð í skafla skefur sporin máð og jörðin sefur. Er hún ennþá þykkju þráin þíns um tíma slóðir náin. ] [ Ekki kunna sjálfstæðistetjur að tapa, tárvota af harmi í fjölmiðlum gapa. Telja sig ekkert hafa unnið til saka, afstyrmi dauðans er lít ég til baka. Ergelsi, vanmáttur, ólund og frekja, íhaldið skekur, truflar og plagar, ónýtir leiðtogar alþýðu vekja: Íslenska vorið - 80 dagar! ] [ Ég drakk te og beit í plómu; hann horfði á mig -ég elska þig,þú ert fullkomin, sagði hann. Ég sat á náttkjólnum og borðaði kíví hann starði á mig -Mig langar í barn með þér, sagði hann Ég sat jafn nakin og Eva og át epli hann leit undan -það er ekki þetta sem ég vil, sagði hann Ég hefði aldrei átt að bíta í eplið allir vita að það er forboðið Ég sleiki förin eftir tennur höggormsins. ] [ Kölski fékk sér eldrauður smók af logandi sígarettu. Hann hóstaði skelfilega, eins og honum einum er lagið. Halinn kipptist til; lamdi óvart ræfil (en öllum var sama) og blótaði tóbakinu. Öskraði hátt: HELVÍTIS DJÖFULL!!! Lamdi öskuillur í heitt borð af miklum krafti með hnefanum. Borðið brotnaði ekki. Í sömu andrá áttaði Kölski sig; fattaði hver hann var í raun og veru og hló svo hátt í brennheitu helvíti að jörðin skalf og nötraði. ] [ Stundum er ég skraut í ljóði sumir þekkja mig samt. Ég bíð þar alein í hljóði orð á tungunni tamt. Ég þekki sultinn og seyru sést við kátan dans. En nærist á miklu meiru margt býr í eðli manns. Þið þekkið boðberan eina bankar á hjarta manns. Ekki tekst öllum að leyna í önnum komu hans. ] [ Undurfagra yngismær Eldey Vésteinsdóttir ætíð vaki yfir þér allar góðar dróttir Blíð og góð blundar telpan væn og vær vinan unga seytján merkur mældist barnið yndisleg stúlka stór og fögur Gefi Gígju góða daga vegferð trausta í veðrum lífsins borið er barn í byltingu ástríkum foreldrum æ til heilla ] [ Öldin er ný en eitt er samt ýmislegt þó að hverfi Ennþá spilar með okkar þjóð ámátlegt valdakerfi. Pólitíkusar brosa breitt búast í skrautleg gerfi. Það verður sjálfsagt alltaf eins annað þó tíminn sverfi. Fjárglæframanna flærð og brögð fyrrum með stólpakjafti Jónas fordæmdi jafnt og þétt jafnaðarflokka skapti. Slitinna hefða bygging brast brakaði í hverjum rafti. Álengdar valdsins öldruð sveit undrandi stóð og gapti. Ólafur Thors með ógnarraust orustur margar þreytti eldsnöggt við fjenda brögðum brást brandara af sér reytti. Félagi Einar Olgeirsson áherslum sterkum beitti þegar hann orðum ótt og títt út yfir landið þeytti. Hannibal braust um harla fast helst þó á Vestfjörðonum. Baráttufélög fjöldans þar fyllti með glæstum vonum. Grútfúlir löngum auga illt auðjöfrar gáfu honum. En fylgið var traust og áfram óx. ─ Ekki hvað síst hjá konum. Ráðherrar mæðast mörgu í marðir af lamstri orða. Ábyrgð að fullu axla þeir ─ innan nokkurra skorða. Þeir hafa lækkað launin sín lítið því hafa að borða. Háttsettum aulum öllum frá embættismissi forða. Eflaust er margur utanlands afburða ræðumaður. Óbama fylgi safnar sér sjaldan í orðum staður. Mér er þó jafnan meir í hug Mathiesens bull og þvaður. Þegar hann málin skýra skal skiptast á hik og blaður. Byltingu ullu búsáhöld barsmíð á hlemmum dundi. Heilög Jóhanna hló og skók hnefa á mörgum fundi. Ingibjörg, Geir og allt það lið ofan af stalli hrundi. Sakleysisbaulið sífellt í Seðlabankanum drundi. Gleymd er sagan og gullsins þý gildunum fornu tapa. Ráðlaus og hrædd þau reika um ruslahaug eigin glapa. Þykjast örugg en áfram þó oftast að verkum hrapa. Víst er það eitt að Ísland nýtt ekki þeim tekst að skapa. Annað er það að öldin mun efalaust líða svona: Líkt og alltaf hér áður fyrr æskudjörf skörungskona finnur einhvern í fræknum hóp fjölmargra landsins sona. Af þeim fæðist svo Ísland nýtt ætti að mega vona. ] [ Ástin bankaði hjá mér um daginn ég horfði á hana ásakandi skellti hurðinni eitthvað sveið Ástin bankaði hjá mér í gær ég hikaði lokaði hurðinni full af sektarkennd Ástin bankaði hjá mér í dag vildi ræða málin ég hleypti henni inn mér létti Ef ástin bankar á morgunn tek ég henni fagnandi þakka henni ástfangin ] [ Allt hringsnýst í hausnum á þér talan þrír kemur upp aftur og aftur þér er illa við fleirtölur það á bara að vera einn einn! Hvað er að? Þú heldur að hausinn á þér sé klofinn með hausverk flökurt alltaf getur ekki sætt þig við aðstæður getur samt ekki staðið upp og leiðrétt málin Hvað er að? Strengjabrúða það er það sem þú ert hefur ekki kjark til að slíta strengina sjálfstraustið í molum 1...2...3 hleypur inná salernið kastar upp 1, 2, 3 ] [ Þurr þokan mjakast þreytulega í átt að skömmustulegu skammdeginu, sem liggur letilega ofan á borginni. Þau eru vinir frá fornu fari. Þokan ráfar um, veit ekki almennilega hvert hún skal fara en veit vel, að hún má ekki stoppa of lengi. Hún er vinur sem kann að segja bless. ] [ Alltaf vekur ánægju að yrkja bögu og finna hvernig orðin óma ef þau saman ná að hljóma. Ekki er nóg að einblína á endarímið. Höfuðstafir standi réttir og stuðlar hæfilega þéttir. Þetta er nú eiginlega enginn vandi ef menn réttu orðin finna sem ekki sýnist flókin vinna. ] [ Sænskur texti: Tove Jansson Ragnar Böðvarsson: lausleg þýðing. Lag: Erna Tauro Leiðin heim er löng og ströng og enginn er mér hjá, svalan andvara kvöldið með sér flytur. Ég þrái huggun þína nú er þreytan sígur á meðan þyngir hvert spor einsemd bitur. Ég vissi ekki fyrr hversu máttugt myrkrið er þegar minningar angur til mín bera. Ég fékk ei sagt þau orð sem ég flytja átti þér eða framkvæmt það sem vildi ég gera. Komdu nú, komdu nú, ástin mín eina, andblær af vetrinum fikrar sig nær. Kveiktu svo ljós því að senn bregður birtu, brosandi sumarið þokast fjær. Úti köldu anda fer, að hausti hnígur sól og við höldum í leit að týndum sjóðum. Þótt bliknað hafi blómin sum er brjóst mitt fyrrum ól ennþá bjarmar af hálf földum glóðum. En út við hafið vitarnir lýsa okkar leið meðan leikur sér brim við fjörusanda. Svo hittumst við á ný þegar gatan verður greið og við göngum frjáls til ókunnra landa.. Komdu nú, komdu nú, ástin mín eina, andblær af vetrinum fikrar sig nær. Kveiktu svo ljós því að senn bregður birtu, brosandi sumarið þokast fjær. ] [ \"Afhverju varstu ekki, alltaf mér við hlið? Afhverju gast þú ekki, verið að eilífu á bið ? Bíðandi eftir mér ! Mér sem þú alla áttir. Ég var kannski bara barn.. en ég var barnið þitt! \" Öskra ég á móður mína, áður ég geng útí eilífðina. Veikburða og brotið, lítið barn. ] [ Augu mín fylgja hverju fótspori þínu. Og þú veist að það er vegna þess að ég vil að þú viljir mig. Þú veist líka að það er vegna þess að mér finnst þú fallegur. Það er líka bara eitthvað við þig sem hugur minn Þráir. ] [ Ei leyfist öryrkja að seðja sinn svang, af sóðum hann er jafnan rúinn. Heimskan verður að hafa sinn gang, hún er af mönnum tilbúin. ] [ Um ógnarstand þarf ekki að ljúga, Ísland ber nú víða á góma. Úr þjóðinni margir merginn sjúga og munu fáir hljóta dóma. ] [ Perla,smáa fóta fráa fer á kostum lipur nett, tekur sprett um heiði háa hófatakið undur létt. Höfuð reisir ljúf er lundinn leiftrar skapið undur blíð´ undan hófum gneistar grundin, glitrar Perla alla tíð. ] [ stundum að vetri til þegar hitastigið sveiflast rétt yfir frostmark heldur lífið að hlýbjartur sumartími sé framundan og vonir kvikna sem fæðast aldrei ] [ kannski í öðrum heimi höfum við þegar haft samfarir og þú liggur á rúmstokknum og hugsar: bíddu hvað var þetta? ] [ Mikilvægur miðjumaðurinn er. Eins markmaður sem leikur sér. Skyttan skýtur og fer í hark. Sjáðu er hún gerir mark. Hornamaður heldur knár. Í hraðahlaupum er klár. Handbolti er Hauka fag. Enda hafa þeir margir lag. Á línu liggur færið vel. Að leikmönnum verður ei um sel. Víti þeir veiða af miklu stolti. Svo viljandi í mark fer þeirra bolti. ] [ Enginn er innblástur er þarfnast ég hans. Erfitt er því að yrkja og semja. Líklega kom ljóðlistin mér til manns. Æ, hve mig langar mikið að emja. ] [ Mótmæli mikil í gær voru á. Miðjum Austurvelli eða þar hjá. Börn voru bundin, er löggan átti leik. Bara að ríkisstjórnin vær´ekki svona veik. ] [ Sjaldan ég segist eiga nokkuð einasta frí. samt aðallega þegar hefi ég unnið fyrir því. ég hef þó haft þá reglu að blása um tvö. held þó stutt, því ég starta aftur um sjö. ] [ Ljótt er bölið maður minn, margar stoðir halla. Úrræði þarf sterk og stinn, að stöðva þennann galla. ] [ Hátt á lofti fullur máninn fetar bjartan stig, en fullur rangla ég um bæjarhólinn, og nú er best þeir láti allt, sem eiga eftir mig, eina og sömu leið að far´og kjólinn. Því best er geymt í öskunni sem engir mega sjá og askan fýkur vítt af bæjarhólnum, og efalaust er fullur máninn eftir því að gá, sem eldinum var forðum selt, í kjólnum. ------ Eigir þú í skúffu niðri, lítið lettersbréf sem letraði þér ástarsjúkur fólinn, ég bið þig ljúfust eldinum það látir nú í té líkt og forðum ermar rifna kjólinn. í september 2007 © allur réttur áskilinn höfundi ] [ Kona gekk á sandinn settist niður og grét. Flæðarmálið færði henni festi alsetta perlum sem hún þáði. Öskrandi af sársauka reif hún perlurnar af eina af annarri. Þær urðu að svartri ösku þegar hún grýtti þeim á haf út. Athöfninni var lokið konan stóð upp og fór til síns heima. Henni fylgdu tveir hrafnar Æi, hættiði að krunka,- sagði hún, -þetta voru verðlausir molar. ] [ Nú stend ég hér hrædd og alein stend hér án þinnar tilsagnar hugur sterkari en falleg bein rödd þín í hjartanu þagnar Tár niður vanga minn renna því ég finn hversu mikið ég sakna finn að sál mín af lífi mun brenna af draumi sem frá ég vil vakna Þú varst mín sterka sjálfsstjórn ein en nú mitt stolt er þrotið þú varst mín ást og varst mitt mein en nú það allt er rotið Ég veit þetta verður erfitt nú en án þín ég mun stjórna ég veit með hjálp, styrk og trú ég loksins þér mun fórna Þú varst mér allt sem hugsast gat þú varst minn besti vinur með þér ég þurfti engan mat en tak þitt á mér hrynur En ég veit ég get það fyrir mig mitt eigið líf mun skrifa þú manst það Ana ég elska þig en án þín ég mun lifa. ] [ Bilun í mínum huga segir mér horfa beint í buskan, hlusta á alla sem vilja hugsa valda engum usla/ og þótt ég standi uppá húsþaki og horfi á mannskapinn andskotinn! er það ég sem er andsetinn?/ ég veit ekki, kannski er það fólkið hérna í kringum mig með geðveiki/ en ég sé ekki hvað? ég reyni að anda hratt, tími tekur andartak, næ samt að standast það fokk ég er farinn á flakk, svo satt að ég/ næ ekki orðum mínum út úr þessum munni og þótt ég kunni/ að halda samviskunni undir þétt sem bundið þó þau nálgast hægt að sundri/ skrambinn! ég reika aftur og aftur á sama stað og staðurinn sem ekki er ennþá fundinn. ] [ Hugur minn sest á bak fiðrildanna sem fljúga um innra með mér og ferðast til þín. Bros læðist fram á varir mínar ég gleymi mér um stund og leyfi mér að vona. ] [ Ég reyni að sjá fyrir mér leikrit sem ég kannast dá lítið við heilabúið að kitla mig og er að reyna koma mér á næsta stig ég hugsa hvort gerandinn sé ég eða einhver annar kannski er ég áhorfandi að hugsa um það sama en á meðan hugsun flakkar á milli minninga hugsa ég um leikarann sem veit það að ég er ekki heill, samt leikur hann með glæsibrag og heldur sinni ró þó ég sé klikkaður? því mér finnst ég vera ljúga því fólkið klappar til að hlúa, leikurum sem brosa á milli brúna grátandi í klúta og fólki finnst það vel leikið! er ég sá eini sem flýgur eins og fljúgandi fuglinn hér í vonum um að engin taki þessa vængi af mér og fljúgi kannski burt af sviði held fast inni! mínu skinni, ógna persónu minni ] [ Gott er sér að bregða af bæ með burstað hár og strokið. Leita uppi húllum hæ og hella víni í kokið. ] [ Stundum fangar lífið mann í einhverja ótrúlega vitleysu eitthvað sem maður ræður ekki við -það á sér annan stað og annan tíma og maður verður bara að bíða bíða ég hata að bíða. ] [ Ég gekk niður götuna og velti fyrir mér hvernig væri það ef ég vaknaði ekki á morgun og regnboginn var óbrotinn yfir húsunum ] [ Í hönd mína tók önnur hönd hún treysti þá sterk vinabönd, en það er eitthvað öðruvísi núna. Við sátum saman, töluðum, um alla hluti möluðum, ég sakna þín, hvar ertu? Halelúja. Á morgnanna ég á þig leit, með herkjum af þér augun sleit. Ég vild‘ ég gæti séð þig aftur núna. Þú leist á mig með augunum, þau flóðu öll af tárunum sem féllu þétt af hvörmum, halelúja. Þú leist á mig í hinsta sinn, fórst út og komst ekk‘aftur inn. Þú lifir enn því ég held fast í trúna. Ég eftir sat með augun full af tárum, þessi glæru gull, sem féllu þétt af hvarmi, halelúja. Mín tilvera er án þín tóm, ég heyri hvergi minnsta hljóm sem vakið getur gleði hjá mér núna. Ég bíð þess er ég aftur finn þinn vanga liggja þétt við minn og vagga mér í svefninn, halelúja. Það hjálpar mér á ögurstund að vit‘að ég kemst á þinn fund. Ó, veist‘ég er á vegi til þín núna? Nú af mér losna lífsins bönd, mín sála leitar að þinni hönd. Ó, fylgdu mér til himna, halelúja. ] [ Óróleg, iðjulaus langar að fara þrái að komast í burt Ég hitt‘ ann hér, fann mitt sjálf dyljast að innan Hann er eins og spegilmynd mín En ég verð að komast burt fljúg‘ ein upp í loft Get ég fellt öll mín tár til jarðar svo þau berist til þín? Óróleg, eins og hann ég veit hann eltir Nú er hann veit ég er til Ekki ein, ekki tvö Erum eins og hvort annað Er staðsett á sitthvorri hlið Hnattarins, ó, svo langt. Það er ekki betra Nú er ég veit þú ert til. En ég verð að komast burt fljúg‘ ein upp í loft Get ég fellt öll mín tár til jarðar svo þau berist til þín? Þú veist af mér, ég veit af þér en við göngum ei lengra því það er ekki rétt. Óróleg, við erum brjáluð Leikum að eldi, höfum engu að tap‘ eða ná. En ég verð að komast burt fljúg‘ ein upp í loft Get ég fellt öll mín tár til jarðar svo þau berist til þín? ] [ Þar sem engla raddir óma og eilíf hamingja er, láttu ljós þitt ljóma líkt og þú gerðir hér. ] [ Nú sefur smiðurinn með naglabyssuna sér við hlið tilbúinn að vakna ef heyrast hamarshögg en konan situr við eldhúsborðið og horfir í gaupnir sér hlustar á ráðherrann ljúga í beinni að ætla henni bjarta framtíð. ] [ Niðurneglda framalið, náðarlögin skapa. Hafa löngim haft þann sið og haftabrögð ei skapa. ] [ Fjórðung aldar fékkstu hér, og farsæld áfram sanna, Ætíð sendi sólin þér, sælu stund í ranna, ] [ Ég fylgi þér, hvert sem þú ferð. Því að ég vil, en ekki verð. Ást þín er mér, svo undursamleg. Heimurinn verður, að vita af þér. Þú komst til að þjást, fyrir þína ást. Það er sköpunin það erum við. ] [ Nú þegar horfin ertu, horfin burt og farin er mín ást með þér. Um þennan hverfulleika er aldrei spurt og söknuðurinn fylgir mér En eitt er það, þá hvorugt vissum vart skildum ei, - ég og þú. Að ástin heit, snýst um svo ótalmargt, bæði þá - og nú. Og þó að dimmi, verður aftur bjart og staðreyndin er alltaf sú. Að ástin heit, snýst um svo ótalmargt, nú betur vitum, ég og þú. ] [ Lítil stúlka situr við tjörn umvafinn blómum, í kjöltu hennar er kettlingshnoðri. Stúlkan strýkur hvítan feldin, sólin hitar andlit hennar. Það skýjar, telpan stendur upp. Hún drekkir kettinum í tjörninni, traðkar á blómunum. Fer heim og biður um hund. ] [ Nóttin vakir og dagurinn sefur, Þögnin bergmálar í vindinum. Samt lemur hjartað hann að innan. Brjóstið er við að bresta upp, hendur hans hvíla fast á því. Eins til að færa það aftur í tíma. Til stundarinnar áður en ástin vaknaði, Þegar hjartað þekkti aðeins gleði, og losti og þrá þekktu það ekki. Sama hvernig fingurnir merja holdið, í veikri tilraun til að sefa draumana, þá slær hjartað ógnarfast. Dagurinn vaknar og nóttin sofnar. Hugur hans er sem albúm, gleymdra mynda. Mynda sem geymdu líf hans. Margar voru í lit aðra sarthvítar. Sumar teknar að tærast í sundur. Hann lokar albúminu varlega. Felur hjartahöggin í söng amstursins og ber sig vel. ] [ Ástin er eins og stöð tvö án myndlykils, línan á stillimynd rúv. Hún er suðið á milli útvarpsrása, smellurinn í ljósaperu áður en hún springur, Ástin er einkamál alþjóðar, höfuðverkur gærdagsins , von morgundagsins. Hún er heitur klaki og köld sól. ] [ Í stofunni hjá mér geysar stríð, stúlku er nauðgað hún grætur. Maður er skotinn fimm skotum, blóð hans litar teppið mitt. Ég maula poppkorn, færi fæturna upp í sófa. Blóð hans skal ekki vera á mínum fótum. ] [ Í koddann hann grætur nóttin er löng. Móðirin að vinna, faðirinn fullur. Lætin úr eldhúsinu fylla höfuð hans, hver sopi föður hans lemur sig í gegnum augum. Sársaukinn nístir hjarta hans sem dælir vonbrigðum. Óttinn altekur huga hans, kvíðinn er sæng hans og vonbrigðin koddi. Á morgun er nýr dagur ] [ ég vildi óska þess að þú elskaðir mig eins og þú elskaðir mig 11 september 2006 þegar við komum hingað fyrst.. ] [ ég vil þessi 5 ár tilbaka ] [ á hverju kvöldi rignir og á næturnar er svo kalt að allt er ísi lagt og hér er enginn vindur svo þegar vatnið frýs er ísinn alveg sléttur og þess vegna á enginn skó og ekki heldur bíla bara sleða og skauta hér búa ekki margir kannski bara tveir en örugglega þúsund og ísinn er svo bjartur að við notum lítið ljós og fáum fagurprýdda nótt og undir þessum himni og ofan á þessum ís höfum við verið um stund kannski tvö ár örugglega þúsund einhverstaðar þar á milli en nú sit ég ofan á þakinu á húsinu mínu og skil ekki neitt í gærkvöldi þá byrjaði að rigna eins og alltaf en það bara rigndi og það rigndi meðan ég sofnaði og þegar ég vaknaði og í hádeginu sama dag og dagarnir liðu og ísinn óx og dagarnir liðu og ísinn hækkaði og húsin minnkuðu og himininn kom nær og nú rignir voða lítið það er eiginlega hætt og ég sit upp á þaki og mamma er hrædd og pabbi talar við mennina meðan minnstu börnin skauta ég veit ekki alveg ég bara sit og sit og reyni að skilja svo byrjar að rigna stjörnunum og þær lenda mjúklega og þær eru svo bjartar svo verður allt dimmt og það líða tveir tímar eða kannski þúsund nokkur börn gráta mamma er hjá mér og þögnin alger þögn ... ... ... svo klifra fyrstu geislarnir frá sólinni yfir fjöllin og ísinn er farinn og við tvö eða þúsund brosum og hlæjum föst upp á þökunum okkar og um kvöldið rignir aftur en bara venjulega og allt er eðlilegt ég renni mér út skauta út fyrir þorpið var þetta bara martröð? og ég lít upp. ] [ Shjallalalalaaa shjallallaaa sönglaði hún. Á meðan drapst þú mig ] [ Einmana og hugsi held ég af stað í ferðalagið langa í leit af tilgangi Leiðin er torsótt verð að halda áfram ljósið í myrkrinu liggur við enda stígsins Ískaldur vindurinn lemur andlitið snjór í augum kaldir fingur Nóttin er löng örmagna held ég áfram nálgast endinn í von um svör ] [ Það er gott að eiga inni eitthvað þegar bjátar á. Hlýjar mér í sál og sinni að sitja góðum vini hjá. ] [ Drykkja og daður er hans mál. því dóni er hann, sé hann í skál. Eðlilegur er hann í vinnu en smærri. En þykist annars vera miklu stærri. Nonni litli nefnist hann oft á dag. núorðið að það er að verða lag. Smánaður er svo ósköp hratt. þegar sungið er nafnið flatt. Já, drykkja og daður er hans mál. en dóni er hann, sé hann í skál. ] [ stundum vildi ég að þú værir að spila á mig -ekki þennan helvítis gítar ] [ Dauði, ég dansa eftir þínum nótum. Dauði, ég vil koma seint til þín. Dauði, ég dregst hljótt að þínum sporum. Dauði, ég veit að þú bíður mín. Dauði, ég er ekki tilbúin að koma til þín. Dauði, ég á margt ógert áður en ég kem. Dauði, ég á mér í dag aðra og stærri sýn. Dauði, ég geri mér grein að ljóðið ég sem. ] [ Bæ ] [ Alveg sama hversu illa manni líður andlega eða líkamlega veit gamla fólkið upp á hár hver ástæðan sé. Maður er annaðhvort of illa klæddur eða maður hefur borðar nóg. ] [ Sjáðu litla sæta fuglinn, sem vappar um í garðinum Nei, sjáðu litla dauða laufblaðið sem velkist undan vindinum. ] [ Keyri um daglega í leit að ljósinu, veit ekki hvert á að stefna en einhvernveginn rata ég alltaf. Hver er að stýra, er það ég eða ljósið. Heyri í sjálfum mér hugsa, lít í kringum mig en sé ekki neitt. Er einhver þarna, hver ert þú. Af hverju segir þú ekkert. Það hvín í malbikinu og það truflar einbeitninguna, en samt heyri ég eitthvað. Slekk á útvarpinu og einbeiti mér meira. Það er eitthvað suð í loftinu. Horfi út í hraunið og hægi á mér um leið, það er kolsvart myrkvið sem starir á móti og hlær að þér. Vilt stoppa, fara út og upplifa hljóðið sem angrar þig, sem kallar á þig. Enn myrkvið veit að þú þorir ekki út, þessvegna hlær það. En ef þú hlustar betur, þá veist þú að hljóðið er ekki í myrkvinu, það er í ljósinu og kallar á þig. Það eina sem þú þarft að gera er að hlusta, opna leiðir að þeim skynfærum sem þér voru gefin og hlusta. Kveiki aftur á útvarpinu, heyri í malbikinu, eyk hraðann aftur, komin tilbaka. Þú átt svo marga valkosti, hvaða ætlar þú að gera. Prófaðu að hlusta á ljósið. ] [ það sem veldur því að hjartað mitt slær það sem er mér meira en lífið kært það sem gefur mér meiri siðgæði það sem eykur mitt blóðflæði það sem veldur roða í kinnum mínum það sem er innblástur í mörgum rímum það sem ég vil hafa að eilífu það sem geri mig ekki einskis nýtur það sem lætur líkama minn dofna það sem mun aldrei rofna það sem mun alltaf lifa það sem mun aldrei bila það sem mun aldrei deyja það sem mun aldrei fleygja það sem mun aldrei meiða það sem mun aldrei hefna það sem mun aldrei svíkja það sem mun aldrei segja hata mig er ást ] [ Þetta er mitt einka svæði stend ég hér í adamsklæði gefðu gaum að þessu kvæði lof mér nú að vera í næði ] [ This is my voice. There are many like it but this one is mine. My voice is my best friend. It is my language. I must master it as I must master my language. Without me my voice is useless. Without my voice, I am useless. I must speak my voice clear. I must silence any stranger who is trying to silence me. I must silence him before he silences me. I will. Before me I swear this creed. My voice and myself are defenders of my identity. We are the master of our strangers. We are the saviours of my language. So be it, until there are no strangers, but friends. Hello. ] [ One more breath One more depression I get, one more thought of death and this world I misinterpret. This mind won\'t be led from a world full of fear. One more smoke One more beer, one more line of coke and from this world I disappear. One more burden I can\'t bear and one more mind that doesn\'t care. ] [ When dreams fly away, we are birds that lost their way, stranded in a dry cold desert, trying to survive its hazard. ] [ Bless you my hopeless desire, Beautiful paintings hardly love... To be asked out by an ugly frame. From the distance I do admire, Your rich coulors that hardly invite... To be stalked by a shy observer. Jealously I expect you to dress yourself, with a worthy frame to fulfill your dreams... Of someone holding you in the night. ] [ Handcuffed hands search for a set of keys, Naked wrestlers fight to loose. Naked hands lost a set of keys, And handcuffed wrestlers search for a fight. ] [ Birtast myndir en brenna mig þar blæða gömul ár. Í hjarta mínu þrái þig með þúsund falin sár. Í skugganum ég beið og bað þá brast mitt hjarta hljótt. Og allir vissu að eld bar að og aldrei varð mér aftur rótt. Inn í mér kom trega teinn ég trú ekki á neitt. Mér finnst ég alltaf vera einn því eitthvað hafði meitt. Og myrkraþokan þjakar mig ég þrýsti litla hönd. Hún leiddi mig að leik við sig en lagði svo frá strönd. Því snemmbúið var skipið þitt í seglin vindinn bar. En stormarnir á skipið mitt þeir stýrðu mér í var. Ó tregabundna lilju ljóð þú lifir árin öll. Þú berð mitt fall að faldri glóð ég flýg að þinni höll. ] [ Morgunn þessa mánudags er mæðu allur sleginn. Skapið skrítið, óheflað, er skauta ég skólaveginn. Því heima vil ég í hugleiðingu, heldur en tímanum eyða í valin kvæði & vitfirringu og veikburða fræðiseiða. Ég veit að vit mitt skákar þeim vitlausu menntafræðum sem bjóða upp á betri heim og betrun á öllum lífsgæðum. Ósk mín dýpsta er ekki sú allt að vita \'um eitt. Nei, að velja best úr villutrú veitir mér ekki neitt. ] [ Vaxandi vitundin opnar mér, veröld svo fjarri öllu. Með gjafir Freyju, hún færir mér frelsi á hugarins stöllum. En bjálfarnir vanhugsað banna betrun þá er felst í því að vitundina varlega kanna; að vefja\'upp arfa og kveikja svo í. Þess vegna ég þjakaður er, þurfa þau bönn að líða. Sem hefta hamingjunnar veg, sem heilagleikann kallt níða. ] [ Gefðu mér ljúfan guðaveigar, gefðu mér brennivín! Gerðu\'það, gerðu taugarnar meyrar, svo geti ég talað til þín. ] [ Ef veröld þín í vol er öll og enginn veitir þér hlýju. Ef hvæsa á þig kvíða köll og hvergi þú sleppur við klígju. Þá heyrðu í mér undir eins ef undan fer að halla. Ég flyt þig til undraheims sem ofar er allra fjalla. ] [ Það er svo erfitt að þurfa, þrálaust að velja\' og hafna. Hvern og hvers skal spurja eða hvernig læra\' að dafna. ] [ Tíminn líður eins og alda í sandi. Skellur á og rís, og rís uns hámarkinu er náð. Þá fjarar hann út og blandast því sem er og var og verður. Aftur svo rís og rís og skellur á sandinn. Sandurinn er geimur, þar sem hvert sandkorn er sömuleiðis og. Og aldan rís á sandinn, sem þyrlast og berst með þangað til hámarkinu er náð. Þá renna þau saman til baka og sameinast öllu hafinu. Hvers vegna að örvænta? Hvers vegna að festa sig á strönd skynvillunnar? ] [ Margt er af mörgu dregið, mótað saman í sannleik. Hugsun eins hals er slegin í háttvísi, dyggð og kærleik. Orð í felum, orð í laumi, orð sem hlýða engum taumi. Mannvitið, það mesta\' af öllum moldarinnar afsprengjum, getur það verið uppfullt af göllum sem í gáleysi við rengjum? Nei vinur kæri, ég veit það eitt, aðeins það eitt að ég veit ekki neitt. ] [ Ég geng um auða götu, einn, í gaddfrosti, kalinn og sár. Er illa til fara, þjáður, óhreinn og úr auganu brýst frosið tár. Nóttinni dimman yfir dvelur, drungaleg að venju og tóm. Vanhugsað ætíð maðurinn velur sitt versta par, af öllum skóm! Ég gat svo sem sagt mér það að söngurinn mundi þagna. Farið er burt mitt fagra lag, sem í fortíðarþrá ég sakna ] [ Landakortslaus á lífsins krossgötum. Sigurviss maður stendur á þeim miðjum. Fyrirgefðu herra, í hvaða átt er hamingjan ? ,,Hamingjan er ekki ákvörðunarstaður heldur hugarástand.“ Alveg er það eftir mér að lenda á svona rugludalli. Ráðvillt á rúmsjó ástarinnar. Brosandi kona siglir þar af öryggi. Fyrirgefðu frú, hvern á ég að elska ? ,,Að elska sjálfan sig er mikilvægast alls „ Nei, hættu nú alveg, var verið að rýma Klepp? Einmanna á dánarbeði, enginn til að hæðast að . Fyrirgefðu drottinn, hvert er ég að fara ? Ekkert svar. ] [ Var að dandalast á blíðskapar degi þegar drukkinn maður varð á mínum vegi. Mér sýndist á öllu að hann bæri vit. Ég stoppaði\' í spjall við þennan bakkusarþræl, sinna haga mér tjáði, þó ekki með væl, heldur ljúflega lagði út sín ævi hnit. ] [ Ég hef tekið ákvörðun sem afvega\' ei leiðir: Að spynna\' úr öllum spurningum speki öllu meiri. Hyggst ég herja\' á nýja slóð & hugann reyna\' að opna. Kynda\' upp gáfna minna glóð í geisla sem ei slokna. ] [ Honum líður illa, en samt svo vel. Því sársaukinn elur óendanleikann. Upplifun sem upp úr öllu gengin er - langt umfram sannleikann. En hann skilur svo fátt, skilur svo lítið, því skynvitundin er takmörkuð við þrívídd. -Fari það bölvað allt til andskotans! Til helvítis djöfuls, djöfulsins djöful! Og í þeirri andrá sér hann tilganginn: Að eiga skópar númer fjörtíu og fimm. ] [ Í fögrum dal, í fjarlægu landi, fann ég eitt svo magnað. Fyrir utan tíma, í sælu svífandi, sólríkis hásumars dag. Dansandi dreymandi án kvaða, í algleimi. Laust mig ljúfasta tilfinning. Á augnabliki vitund mín breyttist í óendanlega tilveru. Hugurinn, óður, braust um & þeyttist, og augu mín stjórnlaust hringsnérust. Líðandi leikandi í frelsi, án mótstreymis. Fékkst mér mín fegursta minning. Að snúa til baka þótti mér verst, að verða aftur að engum. Standa aftur einn í stjórnlausri lest sem stanlaust í hringi gengur. ] [ Staður & stund tími & rúm. - eða tóm? Takmarkað og taktlaust (því engin stund er til) Líður og verður til á sama augnabliki. Allt það sama en háð mismunandi hugtökum, mælingum og mótun. ] [ Maðurinn byggir og maðurinn splundrar. Maðurinn hryggir og maðurinn sundrar. Maðurinn grætir og maðurinn meiðir. Maðurinn tætir og maðurinn eyðir. Maðurinn skekur og maðurinn, frekur, maðurinn tekur og maðurinn drepur. ] [ Yfir firðinum ríkir friður og ró með fallegu sólarlagi. Hvammurinn með sína kletta og mó, og kyrðin sem ríkir við sæinn. Lækjarins ljúflegi niður, leynir sér ei hinn yndæli friður. Geimurinn geymir allt óendanlegt, geysist í rúmi og tíma. En það skiptir mig engu, því allt er fallegt, hér í andanum leysist upp glíman. ] [ Afmæliskveðjur: Fertugum er vel það fært, og framar góðum vonum. Sjálfsagt sýnist þetta tært, og sæmir góðum konum. 75 ár að baki. Þrír af fjórum fjórðungum, af ferli einnar aldar. Með gengi vænu gleðjumstum, og gæfubyrinn faldar. ] [ Að standa sig í stórræðum stinnan getur þreytt og að valda vonbrigðum víst mun þykja leitt. Karl heitinn faðir kenndi mér, sá kastaði visku greitt: ,,Það þíðir ekkert að vera láta hæla sér og vera svo ekki neitt\". ] [ Þá fyrst, þegar ég veit að þú elskar mig án allra skilyrða, get ég horfst í augu við dauðann án ótta. Ég get ekki látið byr ráða för hverju sinni. Þegar brottför er yfirvofandi án nokkurar kveðjustundar bærist ekki í nokkurs seglum Bara staðið logn. ] [ Enginn er sá sami sami og allir sami og hann sjálfur ] [ Enginn er eins eins og allir eins og hann sjálfur. ] [ Af rækjum og rjóma rek ég nú við ríðandi röngum hesti Ég bið ekki um meira en heimilisfrið út nú með draugfúla gesti. Rugluð og rasandi ropa ég feitt riðlast á eldgömlum apa Mikið lifandi skelfing er ég nú þreytt á þessu helvítis afglapa Farðu nú fíflið þitt, drullastu út Ég vona að rúta keyri þig niður svo komist á heimilisfriður ] [ Yfir mig svífur tómleiki með sárin á bakinu blæðandi sorgin bítur veika hjartað saltur sjórinn mig blindar Tómleiki gefur mér söknuð söknuður drepur mig andlega andlega hliðin vísar til helvítis yfir mig svífur sár tómleiki. ] [ He is the omega oleaginous a come clean riddle, quizzical-stuffing fallacious stuck on himself. ] [ Hann er síðasta sort grísí gáta sem kemur í ljós fylltur -spurninga- flóði og vitleysu fílar best hrós grísí gáta sem kemur í ljós fylltur - spurninga -flóði og vitleysu fílar best hrós! ] [ Ég fékk ástarbréf í dag svo innilegt og sætt Ég las það og brosti til þín við sungum saman hástöfum Hakuna Matata því þú hafðir þurrkað allar áhyggjurnar burt ] [ Minnstu þess, sem minnast skal - mundu ætíð það, sem gert er vel og minnast máttu al- mennilega þess, sem vert er. ] [ Sjálfið mitt togaðist á við sjálft sig í báráttu um hugmynd. ] [ Mig langar til að þig langi til að mig langi í þig. ] [ Íhaldsstjórn ei segist sek, siðlaus öðrum fremur. En Steingrím vantar þor og þrek, þegar á hólminn kemur. ] [ Lengi hef ég þraukað í þessarri sveit, þekkt hefi margan hund. -Fár mælir betra ef verra veit- vesöl er mannanna lund. ] [ hvað verða dagar þess sem engum ann meir en handahófskennt fálm í skugga upphafsins ] [ Hér sit ég með þessum vanþakkláta manni hugleiði margt og mikið Ég er með líf innra með mér og er svo hamingjusöm með það finnst ég svo lukkuleg og hlakka til full af ást - vildi óska þess að ég gæti deilt því með einhverjum sem myndi gleðjast með mér Hans hugsanir svo ljótar og neikvæðar - gerir mig svo sorgmædda flý á hólm gamalla minninga sem reynast mér svo dýrmætar á svona stundu - Ég hugsa til þín sem hugsaðir alltaf svo vel um mig hve ég sakna þess að fá rós í rúmið - undirstrikuð ljóðin í litlum spakmælisbókunum - fallegu orðin sem þú helltir yfir mig þú varst eins og barmafullur bikar af ást sem flæddi ótakmarkað yfir mig og hlýjaðir mér með kærleika þínum þvoðir mér með þinni hjartans einlægni - eldaðir fyrir mig - gafst mér skart og allt sem þú gast mér gefið - ég hugsa um bréfið sem þú sendir - þig dreymdi mig ólétta ganga með fram sjónum með þér - svo stoltur - þú varst mér alltaf svo góður - ég hugsa til baka og ég hugsa hvar ég er nú ég sakna umhyggju arma þinna - hlýju orða þinna því það er það sem ég finn að ég þarf í dag og það er eitthvað sem hann virðist ekki geta veitt mér núna - kannski seinna Þér finnst það kannski skrítið en ég elska hann - hann hefur sína kosti ég sakna þess bara að finna að ég sé elskuð með fallegum orðum - hlýjum örmum - af einlægni og ást ég finn það á annan hátt - ég veit það bara - þegar ég horfi í augun hans - en þannig held ég að það verði bara alltaf - hann elskar ekki róman-tíkina Samt sem áður hef ég stundum þörf fyrir að heyra það - finna hlýja snertinguna - fallegu orðin - sem koma af hjartans einlægni - það gefur gleði - það gefur trú - það gefur traust - það er fallegt - sakna róman-tíkar Hvað er fegurð ? eru það ljót og neikvæð orð ? Fegurð eru falleg og hlý orð sem koma af hjartans rótum Ég jafna mig á svona stundum horfir maður sjálfur á það neikvæða En svo koma tímar sem eru betri og þá er þetta gleymt og grafið En minningarnar sem þú gafst mér eru dýrmætar þær hjálpa mikið á svona stundu - þær hverfa aldrei -þú gafst mér fegurð - sem ég bý að alla ævi - þakka þér fyrir elsku vinur að hafa elskað mig svona heitt - að hafa sýnt mér það á allan þann máta sem þér var mögulegt - ég veit hvernig það er að vera elskuð í verki ég hugsa oft til þín - engillinn minn-hvíl í friði ] [ Íhaldstruntur voru teknar til kosta, tilurðin glæpir eða svo sýnist mér. Góðærið ilmaði af græðgi og losta, gammarnir slepptu beislinu af sér. ] [ Hlýjar í sál og sinni að sitja vini hjá. Gleði í muna og minni að mega kankast á. ] [ þegar brá fyllist tárum og angur breytir svip þegar lífið skiftir litum og hörund verður hvítt þegar loft blandast lævi og veður virðast válynd þegar hugur fer á flakk og enginn virðist nálægt þegar húmið hrærir geð og hlátur barnanna hljóðnar þá hefur sorgin barið að dyrum ] [ hvarf í sjónarönd gullið blik augna þinna þú fjaraðir úr höndum mér í andvaranum höfgur ilmur liggur í loftinu lofnar ómur finnst mér eins að þú sért enn hér ] [ Þegar þú gefst upp á mér, ekki fá samviskubit. Því þú varst sá eini sem reyndir, reyndir að hjálpa mér, reyndir að sýna mér, reyndir að vera til staðar. Ég gat bara ekki, tekið við þeirri ást, sem þú gafst mér. Svo farðu í friði, fallegi engill. Dökkur sem nóttin, með demanta í hárinu, sem lýsa þig upp, líkt og næturhiminn. Og mundu... að ég elska þig. ] [ Vildiru vera svo vænn að skila mér hjartanu mínu aftur? Ég þarf að nota það. ] [ Við tölvuna sat hún, og samdi þér ljóð. Hún samdi um ást og, hvað ástin var góð. Stúlkan var ung, og vissi ekki. Að ljótur púkinn var, sem eyddi þeirri ást, sem aldrei var þar Þú varst bara grunlaus, vissir ekki neitt. Vissir ekki að púkinn, Gat öllu fólki eytt. Dag einn litla stúlkan, gafst upp á sinni ást. Svo setti hún upp reipi, og hætti þá að þjást. ] [ Ótal mein og kreppukjör kapp í leikinn setur. Höskuldur í háskaför hægri stefnu tekur. ] [ Fimar Dodda ljóðalínur liggja víða. En djöfull yrðu þær dýrar maður dytti hann í´ða. ] [ Doddi slær mig alveg út er hann kappi slunginn. Aldrei tekst að kveða í kút karlinn viskuþrunginn. Ljóðin okkar munu mæt og marka okkar tíma. Öðrum síðan eftirlæt, hve yndislega ríma. ] [ Hef ekkert reynt að yrkja í dag, ekki líst mér standið, en sólin bætir sérhvern hag, þótt snjórinn hylji landið. ] [ Látið hef mig landið fæða, legið sæll í mosató. (Einar) En nú ég glími við að græða og get helst aldrei fengið nóg. (Doddi) Botna sem þessa betur teldi birta lífshlaup mitt. Enda er þarna ennþá frekar átt við hitt: Látið hef mig landið fæða, legið sæll í mosató, ölið ljúfast andann glæða, ungur státinn reri sjó. Nú, svo mætti stytta málið: Látið hef mig landið fæða, ljóðað ríkri andans megt. Oft er betri örstutt ræða. Er ekki lífið dásamlegt? ] [ Það er sunnudagur og sólin skín, sjálfan sig hver má þola. Dásamlegt væri að dreypa í vín á dýrðlega glæstum fola. ] [ Þórranætur kvæðastund einsamall sit að spjalli stúlkukindin brosir blýtt bræðir mig og dregur mig á tálar Hleypi ég huga mínum hátt um hinmingeim dreyminn ég sit við tölvu að skrifa hver er ég? hvað get ég gert? ekkert númer, enginn kynni nema þessi einu Þorranætur kvæðastund. ] [ Gjalti stráði götur á Gísli karl frá Skarði. Fyrir kerru Blesa brá, bóndinn eytilharði. Gaman samur Gísli er götuslóða leggur. Gjaltið malað brunnið ber og brekkur niður leggur. Allar eru beinar brautir Blesi gengur sína leið. Sama hvort þú Gísli grautir gjaltinu og fremjir seyð. Nú brátt er endað ævintýri enda tekur vegar slóð., Blesi fallinn., en halurinn hýri hnugginn í vegarkanti stóð. ] [ Bundinn niður Með stuðlum og höfuðstöfum Súrrealísk atómin Klæða sig í svart leður Og flengja mig með orðum sínum ] [ Ég vakna eftir stórkostlega drauma, stíg fram úr rúminu og fæturnir lenda beint ofan í hreina sokka og pússaða skó og fötin, nýpressuð af ástsjúkri vinkonu bíða mín undir nærbuxunum hennar og þau skríða silkimjúk á útlimina og blettast ekki af heitu brasilísku lúxuskaffi sem aðdáandi minn úr næsta húsi kom með í morgun eins og venjulega með beinu flugi frá Brasilíu og svo kveiki ég á útvarpinu þar sem uppáhaldslagið mitt rennur sitt skeið á undan fréttum sem eru mér allar að skapi og svo geng ég út og anda að mér einstaklega súrefnisríkum loftsveip sem fyrir tilstilli hentugrar vindáttar og þverbrotinna náttúrulögmála fylgir mér að bílnum sem aldrei bilar og svo set ég í gang og tek eftir að bensíntankurinn er fullur og vélin er hljóðlát og stillt á lágmarkseyðslu eftir yfirferð bifvélavirkjans sem kom í gær til þjónustu reiðubúinn á vegum félags sem ég vissi ekki að ég væri í og ég renn úr hlaði og kveiki aftur á útvarpinu og heyri að í gærkvöldi voru lottótölurnar mínar enn dregnar út eftir beinu útsendinguna frá spurningakeppninni sem ég vissi öll svörin í og næst flytur skýrmæltasta fréttaþulan fréttir frá Alþingi þar sem óþverrafrumvarpi var hent út með öllum atkvæðum gegn engu og ég keyri af stað og sé blaðastand þar sem stendur á forsíðum allra dagblaða að blóðið sem ég gaf í Blóðbankanum í gær hafi leitt til lækningar á krabbameini og ég brosi og á næstu umferðarljósum blístra ég lag sem tónlistarmaður í næsta bíl fær á heilann og gerir heimsfrægt á komandi mánuðum og á grænu ljósi keyri ég í veg fyrir bíl bankaræningjaflokks og hann veltur án þess að nokkur meiðist og þeir gefast upp baráttulaust því þeir festu fingurna í öskubökkunum og ég fæ fálkaorðu og mikil verðlaun og er boðið að vera gestur í vinsælasta sjónvarpsþætti landsins og ég er kosinn maður ársins af stjórnanda þáttarins sem heitir Jóna Sólný en upp úr því sef ég hjá henni og barna eins og allar konur sem ég snerti og börnin mín eru öll hraust og hamingjusöm og vegnar vel í lífinu og þegar ég hef lagt í gjaldfrítt stæði á besta stað í miðbænum hitti ég óvænt á röltinu leiðtoga heimsins gráa fyrir járnum á barmi styrjaldar og spyr Bandaríkjaforseta á Eyjafjallaensku hvað klukkan sé en með þessum hreim þýðir spurningin eitthvað stórmerkilegt á kínversku og leiðtogi þeirrar þjóðar grípur orðin á lofti og allir sættast og leysa upp úr því helstu vandamál heimsins og í þakkarskyni gefur frönsk sendinefnd mér verðlaunabúðing með ananasbragði þegar ég geng á braut og klukkan er bara tíu og sólin skín á mig gegnum einu skýjaglufuna á himninum og yfir hafið fjúka peningar ofan í vasa mína þar sem leið mín liggur framhjá besta bíóinu í bænum þar sem uppáhalds myndin mín er í sýningu og ég fer inn og þar er troðfullt út úr dyrum nema besta sætið er eftir fyrir mig og þetta er power sýning í þrívíddarvíðómi og við fagnaðarlæti horfi ég á bestu mynd allra tíma – Dagur í lífi Rúna Rokk. ] [ Þú snýrð þér oft að mér með augum sem ég þekki. Ég vissi samt alltaf af þér en þú vildir mig ekki. Ég er þér ekki neitt eins og skýin sem líða. Samt er það eitthvað eitt sem ekki mátti bíða. Ég sagði kondu sæl þú sorg sem býrð hjá tröllum. En Þá snéri hún sér á hæl og sagðist búa hjá öllum. ] [ Þeir, sem lasta ljóðin mín og letrin skráðu, hvort þeir eru í klæðum síðum eða kotungar með munni víðum, — allir sé þeir ólánsmenn um æfidaga, og framtak snúist flest til baga, flækist þeim í kjafti þvaga. Böl, andstreymi, baktal, slys þeim blási móti í sínu arga svikahóti, sannmælis þeir aldrei njóti. Með dular hræsni ei diktað get eg döpur ljóðin, þó kær mér vilji kenna þjóðin að kveða upp á nýja móðinn, sem klerkar þeir, er kenna rangt og konum dilla, oss af drottins vegi villa, vorum trúarbrögðum spilla. Og ana svo til andskotans að ending dægra, hvar afturhvarfið er óhægra, en undirferli og stoltið lægra. Herrann stjórni hjarta mínu, huga og munni. Eg dylst þess ei, að drottinn kunni mig dæma rétt að síðustunni. Allt hvað um loftið, unn og land með öndu bærist, aldrei frá hans hlýðni hrærist. Honum prís og lotning færist. ] [ Ævi sína enginn veit enda fyrir dægur, ellin margan illan beit, sem ungur þóttist frægur. Flestra dvína herlegheit, þó hárin gráu klæða. - Mörg er heimsins mæða. Endurminning einatt sleit út þegjandi tár - Mörg er heims mæða og mannraunin sár. Svei þér, elli, synd og gigt, svipur er þekkjanlegur; andskotinn á ykkar vigt út mér bölvan vegur; blóðið verður þar af þykkt, þankar vondir hræða. - Mörg er heimsins mæða. Aftansöngnum út er klykkt, en ellikvæðið stár. - Mörg er heims mæða og mannraunin sár. ] [ „Þótt páfi mér og biskup banni, bana sæng skal konungmanni hásætið til hvílu reitt; kórónaður kóngur er eg, kórónu til grafar ber eg, hvort þeim er það ljúft eða leitt. Vos eg hafði um alla ævi og erfiði bæði á landi og sævi; lifði eg oft við lítinn kost; á Kjalar einatt eyðimörkum úti eg lá í vetrar hörkum, þoldi bæði fjúk og frost. Margar fór eg ferðir glæfra, fætur mína vafði í næfra, kulda mér þá sviðinn sveið; en — hvað var það hjá hugar angri, hverja stund á vegferð langri, sem eg fyrir land mitt leið? Konunglegan klætt í skrúða, kistuleggið holdið lúða, ber sé látin ásýnd ein; breidd sé Sigurflugu sængin, svo til hinzta flugs ei vænginn skorti gamlan Birkibein. Vel er, að þér sálma syngið og saman öllum klukkum hringið, meðan eg skaflinn moldar klýf; en í tilbót eitt mér veitið, Andvökuna mikinn þeytið, andvaka var allt mitt líf.“ ] [ Ef þú átt eitt vor til að gefa mér og urmul af leyndum þráðum þá gætum við sæst við framtíð og for og fundið það sem við dáðum. Og ef að mín lukka mig léki við og lánaði mér nokkra daga þá yrði ég aftur fleygur og frjáls en fráleitt einhver framhaldssaga. Sól og stjörnur, tungl og tími haf og hauður, tímanna tákn elli og æska, karl og kona minning og mæða, brunninn bákn. Hví skildi´ ég ekki skála fyrir því sem skilur milli lífs og dauða og horfa á Guðs sjóndeildarhring og til himinsins fagurrauða. Og eitt er víst og annað á reiki og ekkert til að státa sig af en þú hafðir eitt sinn á þínu valdi þrána sem Guð mér einum gaf. Sól og stjörnur, tungl og tími haf og hauður, tímanna tákn elli og æska, karl og kona minning og mæða, brunninn bákn. En vikur og ár eru válynd nú og varla nokkuð sem þú getur gert og biðja þig um tíma með tárum tel ég ekki ómaksins vert. Sól og stjörnur, tungl og tími haf og hauður, tímanna tákn elli og æska, karl og kona minning og mæða, brunninn bákn. ] [ Í samtölum og sögn ég safna orðaforða. Og hljóður hlusta á þögn er hafnar á milli orða. Hinn veiki veit það best er vonirnar dvína. Og ótalmargt ef lest sem er á milli lína. Tárin fyrir falla á kinn fallvaltleikans þunga. Hann hríslast inn í huga minn er eins og jökulsprunga. Og stundum kemur sorg í syndanna flaki. En brennda borg býr þar oft að baki. ] [ Karl einn þrunginn ást og von, eigrar daginn bjartan. Ætlar að fara að eignast son, ef að dugir vartan. ] [ Kvikur kvilli, fer um eins og sinueldur, sé ekki lausn tímalega. Hvað skal gera, erfitt að hægja á þessum kvilla, reyndar er hreinsun í gangi en hún er hægfara. Skjótur bati er ekki alltaf bestur, fara þarf varlega og skilja ekkert eftir, reglulegar viðvaranir á réttum tíma, réttum stað, það er lykillinn. Einbeittur vilji til að breyta um aðferðir er það sem þarf, ef allir leggjast á eitt, þá verður þetta hægt. Horfum tilbaka, horfum inn á við, horfum í spegil, líst okkur vel á það sem við sjáum. Hvað þarf að breyta, hvernig breytum við því, ekki snöggt, ekki hlusta á magra fagurgalann sem gólar allar daginn. Við þurfum öll að horfa í spegil og finna greifann, hann hjálpar okkur að taka réttar ákvarðanir, breyta rétt. Ef að þú ert réttlátur, auðmjúkur, staðfastur og sanngjarn, þá getum við tekið skref fram á við, en þú þarft að taka þessa ákvörðun, láttu fagurgalann góla einann út á túni og við hin skulum hrjúfa okkur saman í greni okkar og vera nægjusöm og láta okkur líða vel í nærveru orku og góðrar heilsu hvors annars. ] [ Mamma mamma ekki gráta, þeir bíða allir eftir mér, englar Guðs og Jésú líka, allir taka vel á móti mér. Í þínu hjarta mun ég alltaf búa og vaka yfir þér. Ég veit það líka að aldrei munt þú gleyma mér. Guð gaf mér vængi, og baug líka, svo komist ég niður til þín, til að kyssa vanga þinn um hverja nótt svo sofir þú ávallt vært og rótt. Nú ljósið kallar, og ég kveð þig mamma En mamma mamma, ekki gráta, ég mun bíða eftir þér. ] [ ég öskra en kem ekki upp hljóði ég græt en það koma engin tár fæ hrós sem er eins og stunga í bakið fæ ást og ég skríð út í horn þögn ég heyri sjálfan mig brotna ljós ég skríð undir sæng öskra í hljóði, græt engum tárum brýt ég mig niður hugsanda óður þú ert vond manneskja og verður aldrei, taktu eftir aldrei! góður... ] [ þú hugsar ... steinn algjörlega gagnlaus liggur kyrr, hreyfingarlaus næstum því eða skyldi ég segja andvana við fætur þinar hverjum skildir þú líkjast hvaða gagn skyldi af þér hljóta annað en þvælast til fóta? þá rann upp fyrir mér ljós... þú varst hið gagnlegast verkfæri til forna, vopn og gafst frá þér hljóð. Kveiktir eld þegar þér var slegið saman þegar kulnaði eldur þú hitaðir ból þú sökktir netum, skerptir upp hnífa hlaðinn í hús því af þér er nóg en mest um þótti mér ungum er ég stóð á þér uppá fjallsbrún og fyrst skynjaði hvað heimurinn var stór svo gleymdi ég þér líkt og svo mörgu öðru þú liggur við fætur mér ég sparka þér áfram og hugsa steinn í heiminum er af steinum nóg steinn það varst þú sem upphafið af öllu þessu bjóst ] [ Fegurð þín svo mikil, líf þitt undursamlegt. Ert fegursta manneskja sem ráfar jörðina um. Þótt grátir og grenjir nótt sem dag, þú brosir og hlærð hvern einasta dag. Þú friðar mig að innan, og lætur mig sjá, að lífið er einskins virði, sért þú ekki á stjá. ] [ Streymir áin lygn og létt löng er ferð til sjávar. En út við stóra Kögur klett kerling ennþá ráfar. Eldur í arninum logaði létt lýsti upp stofuna mína. Í blaðinu sá ég fagnaðar frétt, framsóknin ennþá mun skína. ] [ Ljós það lýsir eitt það leiðir  öðru það geymir gaman er að geta gert ljósið betra bara ef það lýsir aðeins meir. ] [ Augun eru svarthol sem gleypa vetrabrautir og fanga drauma ] [ Velkominn sértu vorvinda blær tak vetrarkvíðann enn á sveimi. Kom sól kom gyðja skýr og skær er svífur ennþá í okkar heimi. Þar sem minning í morgninum býr og mennirnir lífið sitt skreyta. Með draumum er á dyr þeirra knýr en dagarnir ókomnu breyta. Kom ljós er deyr með kuli á kveik eitt kvikublik um stundardaga. Eitt andartak um innlöndin heit er elda skuggar líða og tala. Daggartár er drýpur á lind og dagur kveður er annar nemur. Himinn og haf eru spegilmynd heimur er aldrei aftur kemur. Þótt klifið hafi á hæðstu fjöll og kaldur í fannir grafið. Í hallar boð um hliðin öll hef ég aldrei opin farið. Ef þú átt þér annað tungu mál er enginn heyrir við hirð né metur. Áttu aldingarð í eigin sál er enginn frá þér tekið getur. Áður en ævidaga út er sýn og íta gangan endar eina. Gakk fram og fyrr en dagur dvín að draumum við vegasteina. Og ungdómstíð snýst í aðra átt yfir eld og ísilagða voga og flugið hefur misst sinn mátt en minningingarnar loga. Er kveð þig jörð og hverf þá skjótt og held á brott frá fljótsins bakka. Um ódáins akrana allt er hljótt ég á þér svo mikið að þakka. Og allt mitt líf dregur andann djúpt með draumum er sál mína gisti. Þeir voru birtan sem brosti ljúft eins og barnið er móðirin kyssti. ] [ Heilinn klikkast! þegar ég reyni að horfa á þetta blóm í fjarlægð/ sátt en sálrænt engin lífvera hlýtur að komast nálægt/ andlegar afsakanir sem fylgja sama plani, þegar ég reyni að verða af manni en þetta er allt í gamni/ bara svo ég sofi vært er þetta hægt sem er hægt nokkuð slæmt þegar ég hverf í gegnum götur/ með huga fullan af slæmum plönum sem flæða eins og fljótin fjögur sem dreifa tjöru og jafnframt sögum/ sögum sem greina mig á milli mennskra manna, sama hvað ég sanna/ það þýðir ekkert að reika annað svo ég stansa, horfi til baka, horfi á það fagra/ færast mér hraðar ] [ Ljóðin þykja í minnum mæt, þótt manna fenni slóðir. Að yrkja, mér það eftir læt, andans kvikni glóðir. ] [ Hér lá það fjarri öllum byggðum, tignarlegt og magnþrungið með jökla og dali og sína hátíðabúnu fjalla Sali. Ingólfur hafði ekki enn varpað frá knörr súlum sínum er ráku á strendur hverafullrar víkur. Var það nær af mönnum ósnortið í allri sinni dýrð. Griðastaður fugla norðursins Álftarnes og Álftarfjörður bera skírast vitni um það. Í Evrópu var tíðin hörð. Ríkti þar bölvaður barbarismi, fáfræðinnar fordómar og ofríki konunga. Mannkynsins verstu sjúkdómar. En í Noregs Skandinavíu voru tignir menn. Víkingar, sannir menntamenn innblásnir af sönnum anda, Þótt heiðnir hafi verið á kristinannar mælistiku. Leituðu þeir sjálfstæðis fjarri Haraldi og evrópskri vá. Ýttu þeir því dreka frá Noregs strönd með sitt bú og fé. Landnáms arfinn allir þekkja. Og nú rennur í æðum okkar þeirra blóð og til framtíðar horfum og stefnum í sömu átt. Frelsi skal á Íslandi vera í það minnsta 1000 ár. ] [ Alltaf var hún örg og snúin og ósanngjörn í kjörunum. Ríkisstjórnin feysk og fúin, fauk svo loks af hjörunum. ] [ Óréttlætið ætíð kaus, af yndi laug þótt allir vissu betur. Sem óáranin endaaus, afmán þjóðar, sem ekki kunni betur. ] [ Líf mitt er lært af lærdómi mikið. En sviðið og sært hef sálir og svikið. Líf mitt er lík á lit er ég hvítur. Og hef þann sið að hata bitur. Líf mitt er mynd á myrkrinu byggir. Skítugt sem synd er sálirnar hryggir. Líf mitt er máð af myrkra dvöl. Í sál mína er sáð sorg og böl. Líf mitt er lind sem líður. Sært eins og synd og svíður. Líf mitt er leitt að logandi eldi. Af bálinu eytt í ösku að kveldi. ] [ Auðmenn nú kvarta og aumingjar vola, yfir því tjóni, sem máttu þeir þola. Heyrt hef ég vinstri menn helst leggja í spilið: ,,Já, hvað átti þjóðin svo sem nokkuð betra skilið?\" ] [ Sumir segja sumt sé slæmt aðir segja sumt sé gott hinir sem eftir eru segja ekkert en hvað veit ég góður gumi eitthvað betur en ósvinnur maður eða hvað ? ] [ Alltaf hælir sjálfum sér, sést ei haldinn kvíða. Mönnum þessi meiri er, mest ef dettur í´ða. Áður fyrri ógnar mjór, ofát breytt mun hafa. Bumban orðin býsna stór og buxurnar niður lafa. ] [ Gráttu ekki gengin spor, gremjan illa lætur. Uppmagnaðu yndi og þor, innst við hjartarætur. ] [ Ég er maður sem syngur. Ég er lítil og smár. Og stundum kemur kuldinn og þá koma tár. Ég vil að tárin farin en það gerist ekki neitt. Ég lít upp til himins og sólin er þar. Mér finnst þetta skrítið en svona er það. Þegar sólin kemur og kuldinn fer þá verð ég glaður og heitur innra með mér. ] [ Vekjarinn í gemsanum hringi, klukkan er 06:40 ég er þreytt. Morgunverkin gerast svona af gömlum vana ég er þreytt. 8 tíma vinnudagur líður hjá ég er ekki svo þreytt. Kem heim úr vinnunni með viðkomu í leikskólanum eða búðinni klukkan er 16:30 ég er þreytt. Kvöldverk af ýmsu tagi, gerast því þau verða að gerast ég er þreytt. Klukkan er orðin: \"Ég verða að fara að sofa svo ég verði ekki þreytt í fyrramálið\" Samviskubitið sofnar með mér, klukkan er 23:30 ég er þreytt. ] [ Varstu til eða ekki. Þú komst og þú fórst eins og vindkviða á ljúfu vorkvöldi. Hvers vegna kom sorgin ekki strax? Hvernig má ég finna til? Hver varstu? Litla líf sem lýstir stutt, ég sakna þín á undarlegan hátt. Þú hefðir orðið minn gullmoli. Ég græt, ég hugsa. Leyfðu mér að muna þig, þú varst til. ] [ Nóvember er mánuður myrkurs. Í myrkri býr ótti. Í myrkri búa rólegheit. Í myrkri býr orkuleysi. Í myrkri búa notalegheit frá kertaljósi. Í myrkri vaknar þunglyndið. Myrkrið er vinur og óvinur í sömu andrá. ] [ Þegar rökræður í rifrildi breytast Þá fækkar hópi glaðra um einn Sála mín hún jú fer að þreytast Ég er nú sumsé orðinn seinn ] [ Peisan snýr öfug, \"inside át\" svo ég snéri henni \"backwards\" og gerði ykkur mát ] [ Segja vil ég sögu hér, sama hvort þið trúið mér. Um frjásar ástir fyrr í sveit og fumlaus tök í unaðsreit. Í glampa af sól og sunnan þey, þau sátu í leyni, bak við hey. Hjá karli öldnum voru í vist og vísast höfðu fyrri kysst. Hann lagði arm um mittið mjótt, mót honum réði stúlkan skjótt, þau höfðu falið fiman eld, fýsnum voru ofurseld. Þau sáðu fræi í frjóan lund, föðmuðust langa unaðsstund og ekki er lengri sagan sú, er segi ég um þau hér og nú. ] [ Hreyfing á grasinu, kitlar mig að innan reyni að finna mína sál sem að týndist/ labba í hringi, engin árangur svo ég leggst í grasið sáttur/ ánægður með lífið sama þótt ég sé fastur og er bara ein nál í heystakknum/ þá fer það ekkert lengra held áfram að gleyma öllu sem ég hefði átt að segja/ og horfi á sólina dofna en á meðan það gerist fara augun að lokast/ draumaveröld mín opnar fyrir mér alla hina persónuleika, núna er bara velja/ viltu hann glaðan og leiðan eða bara blákaldan raunveruleikan. ] [ Að toppi fjallsins ég klifra, ég klifra til að ná í þig/ á toppinn komin en samt sé ég bara þoku og ryk, þá spyr ég sjálfan mig að hverju var ég að eltast við/ þá heyrist öskur ég held ég sé að brjálast! því sá það! sem engin hefur séð ...farðu að trúa mér. ] [ Halló! ég sjálfur Satan... Þú kominn í þann krappan! allir karlar sem láta föðurverkið falla fyrir fátt eru einskis verðir karla skrattar ná svo lágt að meira segja helvíti er hátt ég vona þú hafir markmiði lífsins náð en hvað þarf maður að drepa sig oft til að þora eru menn eins og þú til í að prófa og gá því ég sit hérna niðri og er varla biðina að þola þó þú mörg eigir börnin eru konurnar færri dýrlingar hafa þær verið snákarnir bíta eins og þú við gott færi og dýrlingar festast í neti Þitt líf þjónaði engum bara leiðinda drykkjudeli en bættir nokkrum stúlkum og drengjum og verða þau margfalt betri hví ég skrifaði um þig þennan dag því að þinn sonur kom inní heiminn frá með þeim degi ertu vofa sem hvarf og ert hataður á hverjum einasta degi svo aldrei halda að þú færð hans hendi ást og virðing verða aldrei til staðar skiptir ekki neinu því þú kemur til mín í eldinn þinn heitt elskaði...Satan ] [ In a quiet place, in a quiet town. Nothing really bad takes place. All the faces, happy as my own. Talking about someone else. But when someone like you, does a thing to two When you sick f*ck approach, hurting ones I care for. What you did to my friend, but trying to pretend. The things that you did, but you got no excuse for. Pretending to be kind, but still worst of them all. How you lure there behind, poring drinks till they fall. Then doing all those bad deeds. to satisfy your twisted needs. Forcing them against their will, you sick f*ck you are ill. Ones you finish yourself, you don\'t even regret. So fuck off you sad, little man whore twat. I really hope you pay for your sins, so other people wont suffer. You deserve to be locked in, Where bad guys will hurt you rougher. ] [ Undarlegt með alla gærdagana þeir komu og fóru og ringulreiðin sem ég hélt að væri í bígerð lét ekki sjá sig allavega tók þursinn ekki eftir þeim og enn eru gærdagar að fæðast á morgun verður dagurinn í dag gamall ekki skal ég gráta hann ekki skal ég syrgja hann ekki skal ég sakna hans Jesús snæddi með tollheimtumönnum Jesús reddaði mellu frá aftöku Jesús sagði dæmið ekki svo þér verðið ekki dæmdir því hlýt ég að geta fyrirgefið öllum mínum gengnu gærdögum. ] [ Og það smýgur í gegnum húð og hár og tónarnir lyfta mér í drauma um að liggja í grasinu háu grasinu, kríurnar allt í kring og sjórinn niðar sólin skín og himinninn er blár og ég hef undarlega þörf fyrir því að liggja ekki ein ] [ Háum helst und öldum, hafs á botni köldum, vil eg lúin leggja bein, á hálu hvílast þangi í hörðum sjávargangi undir höfði unnarstein. Er á sumrum sunna í svalra voðir unna vefur bjartra geisla glit, dimmum þá í draumi, djúpt í marar straumi fölur meðal fiska eg sit, og á dauðra drauga döpru og brostnu auga horfi eg kaldan hrikaleik; eða eg stúrinn stari á stirðnuð, sem í mari, liðinna volkast líkin bleik. Og þó enginn gráti yfir mínu láti, hvorki sveinn né svanni neinn, mun yfir mér þó dynja mar, og þungan stynja dökkur, bylgjubarinn steinn. ] [ Undarlegar eru gárurnar í auganu þínu sagði presturinn með fallega brosið undarlegar eru bylgjurnar í eyrum þínum sagði presturinn með fallega brosið undarlegur straumur í hjartanu þínu sagði presturinn með fallega brosið undarlegar eru bárurnar í sálinni þinni sagði presturinn með fallega brosið undarlegt hugsaði ég hann er mállaus presturinn. ] [ Laug ég að mér svo langt að gleypti ég firruna heila eða horfði framhjá því sem venjan hún vildi staldra við og skoða á endanum leiðrétti ég villuna og kvaddi Stundinni á undan tókst mér með eftirsjá að eyðileggja endalokin með iðrun lærdóm sem rýna má í eða ráða um för mína í gegnum tíð heimurinn offviða einsömum opinn sá settur er ] [ guð gleymi ykkur ] [ Í hjarta mínu ávallt ber, sársauka sem aldrei fer. Þessar stúlkur, þær, lögðu líf mitt í rúst. En spurningin er, hver kemur, og hver fer. Enn er ég hér, en að lokum, þetta fólk fer. Þá hjartað kannski, loksins, verður heilt, ef hugurinn, gæti sér beitt. ] [ Tu ert enn litla leyndarmálið mitt ég sá þig í dag veltast um settir hendurnar fyrir aftan höfuð og tærnar upp í loft kúrðir þér svo fallega svo stóðstu á haus og svo í kollhnís og aftur að kúra með pabba þinn ég þurfti að bíta í það súra En ekkert jafnast á við að fá að sjá þig ég ljóma af gleði elsku ást ohh hvað ég hlakka til að fá þig af þér í allan dag ég gæti að dást Min hjartans litla gleði ] [ Sannasta gleðin var gefin þeim,sem grétu sína sárustu sorg. ] [ Þessi dalur er drungi þar sem drengurinn ungi. Lét ljósin dreyma um lífið heima. Þessi dalur er dauður í dögum mínum auður. Martröð minningin er moldin er blóðug hér. Þessi grjót þessi grimmd er hin glataða synd. Tár himins hvað viljið þið hráslagarleg eins og við. Innst inni í hlekkjum úr kviku þinni þekkjum. Grátið fjöll og gömul ár græðið þessi djúpu sár. Inndalur er samt okkar og álengdar lokkar. Oft blíður og bjartur líka brunninn og svartur. ] [ fálkann sá ég fljúga hjá, fötin ráa stormar slá, ygldi bráar hrönnin hrá, helja blá í stafni lá. ] [ Ég horfi á mig reiðan ég horfi á mig leiðan ég horfi á mig drepa mig að innan ég horfi á mig tárast í kringum sárin ég horfi á mig gráta í gegnum árin en samt sá ég ekki þegar mér var að batna því það var tíminn sem fór í að kvarta ] [ Til hvers vaknaði ég í dag? anda að mér lofti sem umlykur blóði ungra drengja stundum vil ég sofa til að deyja en ég lifna alltaf aftur við því í mínum draumum er allt snúið á hlið Til hvers tek ég upp þessa byssu? bara til að skjóta á manninn sem ég taldi sem vin en eitt sinn skaut ég mann sem rétti mér rós sem að hlaut að tákna frið Til hvers var mér ætlað að lifa? ég spyr mig hvern einasta dag en fæ aldrei neitt svar svo á meðan ég bíð eftir svari drep ég alla sem að vona að ég fari ] [ Ég bíð og ég bíð Og það er ekkert sem gerist Samt hinkra ég við og bíð óþolinmóður áfram Kveiki mér í sígarettu Og leyfi árunum að brenna með Ég bíð og ég bíð Og ég veit ekki eftir hverju ] [ Með nóttina í hárinu þínu og myrkrið á tungunni þinni svæfir þú sálirnar svæfir þú nývaknaða þrána með hrímskurn á auganu þínu frystir þú þögnina og allar setningar sem áttu að brjóta sér leið gegnum skuggann sem lá við hlið okkar og þú grefur gærdagana í rykinu sem mánaskinið leikur við morgundagurinn spólar upp hæðina það verður ekki mokað í náinni framtíð. ] [ Ég leit ekki á þig Og fann fyrir sigurtilfinningu þar sem ég gekk í burtu, skref fyrir skref. Svo sá ég þig aftur. Þá leit ég á þig, en ekki fyrr en þú varst kominn næstum því framhjá mér. Í þriðja og síðasta skiptið sá ég þig Þú varst á fyrstu hæð. Ég var á annari. Þú horfðir upp, á mig Ég horfði niður, á þig og þegar augun okkar mættust varð allt miklu betra. Kannski verður rétti tíminn seinna, en einmitt núna verð ég að lifa án þín, okkar. ] [ Tíu ára meydómur telst víst ágætur, en talinn geta reynt mjög á ungdóminn. Því til þess ku oft þurfa fimar fætur og vera fljótari að hlaupa en pabbi sinn. ] [ Nú er í stofu minni styllt og rótt, stundum þar fyrri voru partí vel sótt. Ég heilsa þér Hrafnhildur fríða, hvenær eigum við að detta í´ða? ] [ Tískast ei lengur taumaskak, truntureið varla leyfist, knapans hendur og taumatak til að sjá varla hreyfist. ] [ Alþingi mallar sinn eilífðargraut, eigi sér smátt skammtar launin, margur þar veslingur lágkúru laut og ljót veitti þjóðinni kaunin. ] [ Argasta bull og þvaður. Brostu bara og hættu. Segir kallinn glaður. Byrjaðu og þig bættu. ] [ Appelsínugult var herbergið svartur spilastokkur lá þar á gólfi ég tók upp eitt spil og lagði spaðann á borðið það voru engar tölur á spilinu sem ég dró en þegar ég hugsaði um tölur fóru þær á spilið hugsaði ég þá um daginn sem ég dey og sú tala var löngu liðin ] [ Barnalánið mest er mér, mínum hrindir leiða. Magga Þóra mærð nú er, mætust norðan heiða. Knús pabbi ] [ Blómin eru að vakna eftir langa martröð fuglar eru að syngja fyrir látinn vin af hverju eru götur Reykjavíkur fylltar sandi tilhvers voru mennirnir til ] [ Við ljóðagyðjur að semja sátt, sækist mér hægt á fundum. Ég yrki mest á hefðbundinn hátt, en hrátt er taðið stundum. Vendi ég þá oft kvæði í kross og krota upp sögustúf, en sögudísir mér senda koss og sáttarboðin ljúf. ] [ ef skrifa vilt þú stiklu góða sem rímar jafnvel við og við þá skaltu aldrei stúlkan bjóða stíflu pennans nokkra bið haltu áfram heilan tíma hættu aldrei, dok\'ei við herji á þig hel og hríma hugsa skalt um auðvaldið! peninga og plágur sárar penninn elskar, trúðu mér pent þá penninn stafi párar pínulítið handa þér ] [ Hina sælustu gleði ertu ekki fær um að hljóta, ef þú höndlar ekki sorgina. ] [ Þér í máli bundnu ber, bjarta kveðju mína og óska að gæfa auðnist þér, um ævidaga þína. ] [ Vængbrotin sál liggur og bíður betra færis til að fljúga af stað. ] [ Til eru hús, sem hlutu þennan dóm: að hafna á köldu landi og standa tóm. Eins eru menn, sem munu fá að þjást því máttarstólpi samfélagsins brást. Og valdhafar, sem vitið hafa misst, og verðtryggð lán, sem enginn getur fryst. Og hlutabréf, sem ekkert fyrir fæst og framavon, sem aldrei getur ræst. Til eru lönd, sem liggja í heimsins flór og lítil þjóð, sem aldrei verður stór. ] [ Þú hvíslaðir aðeins einu litlu orði að mér kvöldið sem við sungum saman: \"After all there’s only just the two of us and here we are still fighting for our lives; watching all of history repeat itself time after time. I’m just a dreamer, I dream my life away I’m just a dreamer, who dreams of better days\" Aðeins einu orð; um leið og þú greipst mig í fangið og við dönsuðum saman og hlógum: „Draumur“ ] [ Du-du, du-du, du-du, du-du... ] [ Og hún liggur þar brotin, sú einmana mey sinn síðasta andardrátt dregur þau léku hana illa, það litla grey ljótur sá lífsins vegur Hún stungin, barin og svelt þar var mannorðið rekið í skítinn brennimerkt hörund og marglita mar hylja nú líkama lítinn Sú litla stúlka grætur í nótt hvert tár hennar óttast það ranga hún vonar að loksins sofni hún rótt þar til tár hætta að renna um vanga ] [ Hvernig sem þetta fer, Fer ei tilfinningin sem ég ber. Sem mun ávallt eiga stað í hjarta mínu, Og vonandi á ég stað í þínu. ] [ Hraktist hjartað heimska heim. Hulið djúpt í dyngju. Sóðakjaftur seinna meir fyllir þína pyngju. ] [ Núna get ég sofið rótt, tíminn hefur liðið fljótt, ástin að mér hefur sótt og nú er liðin Herranótt. ] [ Til silungsveiða konur kunna lítið og kraftinn missa tálbeiturnar þar. Því urriðarnir en hvað það er skrítið, þeir eru hyggnir þessir smáfiskar. Það stoðar ei þótt vel þær köstin vandi, í vatnsfall þar sem flúðin beljar ströng. En geta dregið þorsk á þurru landi og þurfa hvorki færi eða stöng. ] [ Hvert hálftalað orð þurfa skáldin að skilja á skaparann trúa en beygja sinn vilja og hlýða þeim ráðum sem himininn gaf að hlæja með glöðum á gæfunnar vegi en gráta með hryggum á sorganna degi og skýra þann vísdóm sem einn lifir af. ] [ Blasti við sólbjartur dagur í dag, dáfögur hross bar ég sjónum. Lífið er hverfult en lukkan í hag, þó landið sé fullt af rónum. Aldrei mér líkaði eymdarlegt væl, að alltaf menn þyrftu að spara. Enda sótt meira í upphlaup með stæl, því einu sinni lifir maður bara. ] [ Helbláar hendur fölnað andlit firru falbýður í skauti býr ótti við gliðnað myrkur í skúmaskotum sveimhugans þar sem torræðar myndlíkingar og róttækar línuskiptingar örlög skapa með kvikmyndagrænum skáldsöguglampa skapar drengurinn sér svigrúm til vargverka í margumbeðnum ritvillum og kvillum ] [ hvert hús á sína sögu kristallaða í regndropum þakrennunnar sem skolar burt með föllnum eigendum gamlar sögur renna burt og safnast í poll í polli minninganna er gruggug drulla gamalla ára liðinna atburða gimsteinarnir sökkva til botns og bíða þar glataðir uns einhver svamlar í pollinum og réttir sáttahönd til botns þar sem óslípaðir demantar bíða en hornið sem gall er þagnað í rökkri aldanna er hljóð þess gleymt og grafið á árbökkum peningafljóta sem flæða um gömul gróin sár á bökkunum er óreiða, glundroði á hafnarbökkunum bíða réttlætisskip sem ekki hafa verið affermd þau bíða samþykkis sem aldrei kemur við hin biðum eins og þriggja manna óvinsæl pönksveit með réttan boðskap en enga áheyrendur ] [ ,,Frá hvaða bæ á Íslandi ert þú í anda?\" Ég held ég láti mér bara á sama standa. Því hér er ég fæddur og hér settist að, haldið er fram að enginn ráði næturstað. ] [ Stama og gera skrolli skil skrautlegt verður málið. verð að fara beggja byl bjagar ei lífsins stálið. ] [ Takk kæra franka, tökum hérna spor, trúi ég að ætt vor ekki svíki. Bráðum þó ég ætla að vitji okkar vor og verði nóg að gera í hestaríki. ] [ Meinaðu neikvæðum minningum að menga huga þinn. ] [ Skýr í huga skapið gott skynugur og fróður. Læt hér duga,fagurt flott friðsamur og góður. Löngum stundum heima helst hugfanginn og glaður. Við tölvu sína dundar,dvelst dreyminn gamall maður. ] [ Adam var ekki lengi í Paradís og sagði eigi sléttar sínar farir. En er á meðan er og varir á meðan varir. ] [ Stélbrotinn svíf ég stjórnlaus veit ekkert hvert ég stefni draumar drepa þig ekki þó þeir geti drekt þér í svefni ég sakna lífsins þó enþá ég andi lífsins sem var ekki fast í þessu stutta bandi eftir að þú bast mig er ég hættur að þreka von mín hún dó til frekari afreka mig dreymir um sjálfan mig að lifa mína drauma þeir eru alltof stórir á þig passa ekki á þínar stefnur og strauma hnútar eru til að leysa þá hversu vel böndum eru búnir þú verður að reyna skilja og sjá að mín megin eru þeir fúnir Endalaus væl um vandamál útaf ekki neinu ég kveð þig með stæl nú geturðu haft allt þitt á hreinu Temdu á þér tunguna eða tyggðu hana og kyngdu svo lengi sem þú segir ekki neitt þá endilega hringdu vertu því sæl að sinni þú ferð bara ekki framtíðinni minni ] [ Fram á háu heiðum hef ég frið um sinn. Þar er vindur hlýr þar er vetur minn. Þar er lognið ljúfan mín líka kveldið stillt. Norðurljósa neistaflug og nóttin roðagyllt. Ég kem aftur heim orðinn ríkur vel. Úr huga ellin fór inn gengur yngra þel ] [ Einn dag var ég að afreka stóran part í lífinu en á sama tíma voru vinir að svíkja mig þetta var fyrsta skipti sem ég fann súrt og sætt tímabil svo ég valdi það sæta og sé ekki eftir neinu. ] [ Sit á bekk og hef lítið fyrir stafni en það sem ég geri er að horfa á öspina tárast vindurinn kemur og þá fer öspin að gráta svo ég geri það líka ] [ Vinur sem ég fordæmdi í fyrstu man ekki enn þann dag í dag hvernig við kynntumst höfum átt góðar og slæmar stundir en alltaf fundið björtu leiðinna að gleði allt sem við höfum lagt okkur undir gerir bara vináttu betri ] [ Þú ert gull og gersemi góða besta mamma mín. Dyggðir þínar dásami eilíflega dóttir þín. Vandvirkni og vinnusemi væntumþykja úr augum skín Hugrekki og hugulsemi og huggun þegar hún er brýn. Þrautseigja og þolinmæði - kostir sem að prýða þig. Bjölluhlátur, birtuljómi, barlóm, lætur eiga sig. Trygglynd, trú, já algjört æði. Takk fyrir að eiga mig. ] [ Í áliti mun æskilegt að lafa, en ekki að láta binda sig á klafa. En hugrakkur og hress, helst geldur þess, að gæfuspor sig hverful lætur hafa. ] [ Hvað er að frétta, hvað er í gangi, hvað segir nautnarinn tippalangi? Hefurðu verið að hengja á snagann, hangir ekki jafnan best á kragann? ] [ Fyrst þegar ég hitti hana þá var ég bara að fikta. Ég þurfti að fela hana, fela ilminn hennar fyrir öllum sem eldri voru. en sýndi hana stoltur þeim sem yngri voru Maður fékk það oft á mann að vera með henni. vísaður úr skóla, vísaður af völlum, vísað allstaðar frá. Allir segja manna að forðast hana eins og heitan eldinn en alltaf sest maður niður nýtur hennar, sýgur hana, hlustar á hana nýtur hennar það blóta henni allir sem hana ekki hafa það heilla hana allir sem hafa hana þó sumir fá nóg af nautninni og fara Allsstaðar er henni vísað frá. Aldrei má hún hitta vininn. Hvert sem ég fer er hún geymd úti En alltaf fer ég út til hennar, stend í snjó og krapi til þess eins að njóta hennar, halda henni hlýju því sem hún gerir mér er slíkt hið sama. Eitt er þó víst að allir þekkja hana. Vingast við hana eða forðast Elska hana eða hata Verst af öllu er þó húðflúrið sem hún ber á brjósti því kannski er það rétt. Reykingar Drepa. ] [ Víst eru stjórnvöld hér vitinu fjær og vandamál títt af þeim skapast. Hrópar nú fólkið:,,Herrann sé nær, hvernig gátu milljarðarnir tapast\"? Fanta er siður að færa spjót að þér, fullyrða svo þeir beri ei til þín kala. En ei dugir fagurgalinn einn og sér, því að einnig þurfa verkin að tala. ] [ Öll mín hreyfing ei er greið, aðeins púl og sviti. Nú er mér ekki nokkur leið, neitt að dansa af viti. ] [ Syndandi fullur bröltir hann heim hausinn er þungur karl lúinn loksins er búið hið glymjandi geym Gvendur er þreyttur og mátturinn búinn ] [ hey jó, tík! bara segja þér á geggt óvæminn hátt að ég er þúst alveg mega hrifin af þér og ég digga þig geggt mikið og þúrt geggt heitur bara svona, þúst þú ert ekkert rebound sko! k bæ ;* ] [ Ég leit inn um glugga og aleinn þar hann las, Davíð, einn í skugga, drápu eftir Matthías. Matthías þekkti kvæðin kvað þetta vera leir. En Davíð hissa og hæðinn hingað og ekki meir. En þá mælti Matthías; \" Mikinn ég áður fór á veiðum með óblítt fas engin afli bara sjór \". Drungi var í Davíð dagur liðinn ,kveld í sýn. „Matti , ég á það hlíð úr djúpinu veiði kvæðin mín“. ] [ Mig langar ekki að vakna bara sofa eilífum svefni vera laus við lífsins veg og verða mold í kirkjugarði. ] [ Dropi úr hafi er jafn mikið og haf úr dropa ég skoða hafið og sé það rautt skraut þinnar sálar fer með mig dýpra en áður svo ég anda að mér vatni fyrir þína nautn. Þó að mér líði að ég muni kafna á hverri stundu get ég haldið í mér aðeins lengur á botni mundu að ég geri allt fyrir ekkert bara til þess að segja góðan dag á hverjum morgni. ] [ Stend á torgi og ég horfi á fólkið einhver tilfinning sem ég finn um að ég sé ekki hólpin þó ég líti á hópinn er engin ógnin flóttinn eru mínar hugsanir um fólkið ] [ Hafið dreymir í landinu og á hafnarbakkanum situr verndarengillinn hlekkjaður við krana vandlætis íklæddur myrkri hins hugsandi manns vanþekkingin birgir honum sýn og hafið hleypur niður í kjallara í stríðum straumum um kolastokkinn í mörgum fögrum litum líkt og sjálf þekking hins sturlaða manns hafið hefur allt á hornum sér blandar táknum við trú og tærist uppþurrkaður er nú hinn gamli farvegur frjórrar hugsunar ís framtíðar hefur verið hreinsaður og bræddur niður klofinn milli tveggja heima skáldskaparins í fjarska gellur öskur sem enginn heyrir það virðist enginn hlusta á langspil langlundargeðs í fyllingu tímans ] [ Það er ekki ég sem er á rangri hillu í lífinu heldur lífið sjálft! Ég varð svo auðvitað að elta lífið. Allaleið upp í hillu. Maður er ekkert án þess. ] [ Hvali skoðum vel og veiðum vond eru okkur þessi bönn, krónu á stykkið gjaldið greiðum góður hann reynist undir tönn. ] [ Friðlaus af söknuði fjasa við Guð fjarlægð þín veldur trega. Ég heilsa þér kæra Stína stuð stúlkan mín yndislega. ] [ Elsku pabbi, takk fyrir að vaka yfir mér. Ég vil vegsama nafn þitt. Láttu þinn vilja ná fram að ganga á jörðinni eins og ef jörðin væri himininn Uppfylltu allar mínar daglegu þarfir Og þakka þér faðir að ég hef aldrey þurft að líða skort Fyrirgefðu mér þegar ég hef farið eftir mínum eigin leiðum og syndgað gegn þér. Hjálpaðu mér að fyrirgefa þeim sem hafa brotið gegn mér. Takk Drottinn að þú vísar mér veginn og þú hjálpar mér að breita rétt. Gef mér hlutdeild í þínum ómótstæðilega krafti Mætti og dýrð. Sem varir að eilífu. Amen ] [ Áðan bollan leit ég í hugðist lýta framtíð enginn ótti ekker stríð einungis gleði- og friðartíð ] [ Sköpunargáfa!!! Gjöf frá Guði? mér datt það í hug hvaðan datt það? Er það þú Guð, Pabbi minn? þú sem gerir mér kleift að skilja hið óskiljanlega Ég veit það nú, það ert þú því að án þín, væri ekkert fyrir tilstuðlan þína, er ég Vegna orða þinna varð ég til vegna krafts þíns lifi ég vegna máttar þíns þori ég ] [ Nú er hann genginn í vitlaust veður, vandi er þeim sem hafa ekkert skjól, því Kári er bitur er krumlunum treður, köldum um bágstadda líkast sem fól. ] [ Eftir langa bið kom það aftur biðin var lengri en reiknað var með dagarnir fleiri og óvissan meiri en svo kom það aftur sem áður var farið Við héldum því veislu og fögnuðum sungum, dönsuðum og drukkum öl loksins var komið sem áður var farið komið til að fara í gleymskunnar hyl ] [ Með skilding þinn sem byrgði, sem svo aumkunarlega lést í fjandafaðmi, lenti í lestarslyss-skuld þinni. Syrgjandinn syrgði meir en þurfti. Heimskreppan syndaskýjum svörtum ljáði; -ótt og títt kærleikshugsun fláði. Í eyði ég berst, í eilífðarskuldum taminn. Í eyði ég ferst, með djöfli er sáði. Holdi í mold. Holdi í mold. ] [ Hold í mold. ] [ Hönd í hönd. ] [ Titrandi í rödd ég tala við félaga horfi á þig og þarf víst að fela það oft spyrja þeir mig hvert augun mín leiða ég segi að augun leiði mig lengra leikur þér með hárið liðað í hringi engin furða að hjartað í mér syngi en þegar á hólminn er komið þá sér þig engin bara ég og þú og okkar verndarengill ] [ Frændi slær mig alveg út, andansmegtum þrunginn. Ætlar mig að kveða í kút, kappinn regi slunginn. ] [ \"Ídeunnar\" ærslaflóð og aðdáenda æði. Syngja öll sín sigurljó og siguvímu kvæði. Hugmynanna heiðurs tal, hátíðleika skapa. Hið auðnulausa orðaval, ávalt enda og tapa. Gamli Suður-Þingeyingurinn ] [ Fáráðar hópast og fram pota sér, frá þessum berast nú sköllin. Siðlaus og göróttur, slóttugur her, sækir hér stíft fram á völlin. ] [ Þytur í stráum og ljósið skært, þögnin þung og myrkrið tært. Hjartsláttur svo dynur í fjöllum. Þögn með hrópum og köllum. Tár af vanganum strýkur og hönd þín köld uns yfir líkur. Þú hrópar á svar en svarið er dautt ég aftur reyni en svarið er trautt. Augun þau fljóta svo sést í hvítt kippir um líkamann ótt og títt. Ég berst fyrir andardrættinum ljúfa en dauðinn, hann er lífið að rjúfa. Ég hef hendur sem engan snerta ég ber loga ósýnilegra kerta ég hef anda sem loftið klýfur ég hef sál sem yfir jörðinni svífur. Þú öskrar og þú grætur þú byltir þér um ókomnar nætur. Missir máttinn og hnígur niður hvíslar til mín og sáran biður: Æ dauðvona engill vertu mér hjá þú varst mér svo góður en nú ferðu mér frá. Sparaðu kraft þinn ég yfir þér vek ef hverfur þú burtu ég elska neinn get. Ef ferðu nú frá mér um synd verð ég sek ég gef þér mitt hjarta en lífið ég tek. Við síðasta orðinu brjóstið brennur og tár niður með hvörmunum rennur. Þá synd skaltu ekki dirfast að drýgja þú skalt lifa en ekki lífið flýja. Heyrirðu í mér, sérðu mig ekki? Þetta er ég og ég þig þekki. En hvorki þú óp mín né köllin nemur og myndin dofnar en ekkert kemur. ] [ Enn verð ég að halda áfram með ókunnum krafti sem sýnir á sér sínar bestu hliðar á stundum og ég reisti upp líkamann lífvana og fór með snögga bæn til að blása í mig lífi og þar sem ég kraup við rúmið með tunglskinið í augum var ég spurður hvar ég hefði verið og ég sagði bara einhversstaðar þar sem þú ert til og ég brosti framan í mánann og kallaði á hann með nafni þú ert minn og það er ennþá maí og það verður alltaf maí því þá er fæðingin og ég held áfram innblásinn af krafti sem ég er að verða ástfanginn af aðeins ég og þú og fæðingin þar sem eru afburðafallegar konur sem heilsa öðruhvoru í hríðunum og ég rétti út höndina og þú býður mér til sólarlandsins þar sem fallega fólkið er í friði og spekt allsgáð sólin nýtur þinnar verndar þar til allt verður nýtt og ekkert er lengur aumur hégómi. ] [ Augu læstust. Hugar mættust. En allt kom fyrir ekki og draumar mínir aldrei rættust. Nú rýni ég í gegnum rimlanna og dagana tel niður. Hvar eru lyklarnir... hvar ertu innri friður? Það ætlar sér enginn að verða fangelsaður. Þannig er bara lífið. Á meðan sumir fá að njóta þess fæ ég að þjást í leyni. Ástin er minn fangavörður Sama hvað ég reyni, ég honum aldrei gleymi. ] [ var að velta því fyrir mér hvort þú vildir kannski, mögulega, hoppa út í djúpu laugina með mér? ] [ Klukkan er tuttuguogþrír fiðringurinn nagar mig að innan Morgundagurinn starir á mig að ofan með þungum augum Ég veit að það verður verra þegar ég geng upp tröppurnar og Gamli skóli gleypir mig á meðan ég þykist vera stór ] [ Fyrirgefðu, mætti ég trufla þig aðeins? Sjáðu til, ég finn ekki lykilinn minn. Ég missti hann hérna. Tókst þú hann? Ekki? Afsakið. ] [ Heimska mín hlaut sorg þína og sorgina hlaust þú sorg þín leggst á sál mína sjá hún kvelur mig nú Langar nætur, dimmir dagar dagsins byrta ekki nóg lítið sem ástand mitt lagar leyfði ég mér að kveðja þig þó Söknuður og tómið eitt samt ég læt það vera í huganum allt og ekki neitt veit ekki hvað skal gera Hugurinn snýst í hringi hendist til og frá einhver æðri svar mér syngi syng svo ég heyra má ] [ Illa lætur veðrið á austurlandi núna, á Oddskarði 50 metrar á skala. Björgunarsveitir hingað færðu frúna, sem festist í skafli barn sitt að ala. ] [ Viðurkenni fúslega að ég hef afskaplega gaman af sjálfum mér. Sem er reyndar eins gott: Er með mér á hverjum degi. Og get raunar ekki án sjálfs míns verið. (Fáum tekst það.) ] [ Karlmannslegur með bros á brá, birtist mér ættarljóminn. Einar sem dömurnar æsir af þrá og örvandi sendir tóninn. ] [ Strákur þessi hann er faggi heldur að hann sé rosa kúl þessi maður heitir raggi nálægð hans er svaka púl ] [ Erfitt þegar fagrar fróðar fræknar konur birtast mér. Læðast í gegnum hugann hljóðar hugsanir um brostið gler. ] [ Halldóra mín heldur bú hún mér gleymir eigi. Í póst var að gá í góðri trú, sá gamli í Skálateigi. ] [ Stansar Gestur tíma tvo tekur skarpt í nefið. Lætur frúna þvottinn þvo þusar mikið og tyggur skro. Meira gera tíu en tveir tugur meir en átta. fimmtungur er mikið meir mærðarfullur sagði Geir. Sló á engjum Jökull Jarl jafnan kunni réttu tökin Í nesti hafði snittu snarl snöggur á lagið þessi karl. Karl einn skrítinn birtist brátt bragi hann góða semur. Stamar mikið hefur hátt hugsuður og segir fátt. Mjög svo fátt í fréttum er fyrna snjór til heiða. Mörg voru böllin haldin hér heima er best að una sér ] [ Lurkum laminn, illa taminn, leikur lausum hala. Frelsi sviptur, illa klipptur. Garg er sama og gala. ] [ Drepa, Deyða. Myrða, Meiða. Pína, Plokka. Flengja, Flokka. Stíga, Slá. Kíkja, Gá. Lítil augu, opnast tvö. Syrgja dáinn son. Líkin saman, Liggja sjö. Hún deyr í veikri von. ] [ Ímyndun og veruleiki eru spegilmyndir í öllu hinu ytra er til ljóð hið innra ] [ Strax og augum laxinn lit litir hans mig seiða. Glaður ég í huga hlít hylnum úr djúpa veiða. ] [ Eigra ég um og elti til spikið, er víst gott að hreyfa sig. En þeim ég gjarnan gæfi mikið, sem gerði þetta fyrir mig. ] [ Reyndu að greina rétt frá röngu, réttu máli að halla ei skjótt, lifa í Drottni lífs á göngu og leika af gleði dag sem nótt. Hvert sem lánið best þig ber á brattann sæktu drengur. Við óskum að gæfan gagnist þér og gleðinnar hljómi strengur. Afi og amma í Skálateigi. ] [ Eitt skref eitt spor enn er komið vor. Með sól og söng og sumrin löng. Og Lóan er lent þótt lönd hafi fennt. Ég Tjaldana tel með tifandi stél. Svo kemur haust með kalda við naust. Og brimið ber í brjóstið á mér. ] [ Höfuðverkjarheljarþröm, á henni ligg ég flatur. Horfin er mér tungan töm, tygg ég klisjur latur. ] [ tímaflugur titra innan í mér skapa kitling í innyflunum allt á hverfanda hveli þó ekkert stórkostlegt hafi gerst utan það að einn dagur kyssti nótt enn einni minningu var vaggað í svefn enn og aftur ný tækifæri tímaflugur titra og þenja vængina ég hefst á loft enn á ný ] [ Að yrkja af spekinni vísast ég vil, en vandinn að þetta oft svíkur. En heimskan gerir ei hótinu til, því heimskinginn flestum er líkur. Í listheimum leika menn hagir, lofa þá ríkir sem snauðir, en þar verða fáir frægir, fyrr en þeir eru dauðir. ] [ Andlitslyft kona á besta stað í lífinu með sérinngangi og tvískiptum glerjum. Farið er inn í teppalagt hol þar sem skemmtilegir hlutir gerast. Tegund : Hvítur millistéttarkvenmaður. Upphitun : Já takk. Stærð : 170 cm. Byggingarár : 1968. Áhvílandi : 2 fyrrum eiginmenn. Höfum við ekki öll okkar verðmiða? ] [ Haftyrðill er friðar fugl finnst oft upp til heiða. Hann að veiða rakið rugl reyndar veldur leiða. ] [ Sumir eru sínkir og þverir, sagan oss kunnugleg er. Sá er fyrir aðra ekkert gerir, ekkert fær í staðinn hjá þér. Vertu því góður og gjöfull og glepjast ei láttu með væl, en ekki sá dragbítar djöfull, sem drepur allt niður um hæl. ] [ Ég stari á þig af málverki inní stofu með stjörfum augum engu lík það hríslast um mig þar sem ég hangi og ég held að ópið sé eftir Grieg. Á þessari brú í bláma kvöldsins hef ég beðið eftir svari frá þér með angist í augum í kæfðu ópi ertu nú loks að fara frá mér? Er það Erró eða Pablo Picasso eða plaggat af Rolling Stones Kjarval eða Flóki eða Vincent eða Monet ég vil ekki hanga til eilífðarnóns Í stjörnubjartri nótt ég birtist á ný og brosi dálítið fjarstæðukennt í nótt er ég glaður í skærgulum litum og gæli við þig og eyra Vincent Ég er skærasta stjarnan á himni háum og hér vil ég dvelja alla tíð í undarlegum litum frá einmana manni sem í eiginn ranni háði sitt stríð Er það Erró eða Pablo Picasso eða plaggat af Rolling Stones Kjarval eða Flóki eða Vincent eða Monet ég vil ekki hanga til eilífðarnóns Ég er frosið augnablik á málaðri mynd og með mér hinir og þessir ég er sól og tungl og fuglar og fólk og fjara þegar það hvessir Ég er einn og ég er með öllum hinum og stundum ég fyrirfinnst hvergi ég hangi á göngum og í gylltum sölum eða er geymdur inná hótelherbergi Er það Erró eða Pablo Picasso eða plaggat af Rolling Stones Kjarval eða Flóki eða Vincent eða Monet ég vil ekki hanga til eilífðarnóns ] [ Í ræðumennskunni undra skýr og alltaf til ráða góður. Í stjórnarandstöðu stæltur fýr, Steingrímur viskusjóður. Stjórnin er honum raun til ráða og reynist þar ekki beysinn. Bankana fláráður býður að náða, en bjóða upp alþýðuhreysin. Og sækir nú skart í siðleysið, sýnir mest hirðuna slæma. Myndi honum réttu á rassgatið, rúgbrauðskrossi að sæma. ] [ Ef ég , ef ég efaðist ekki Ef aðeins ég Ég væri, ég gæti ég mundi ] [ Oft menn brölta upp´í rúmi, allt til kraftur þrotinn er. Mörg er gleðin höfð í húmi og hvar er betra að skemmta sér? Sneypulegur frá henni heldur, honum í brjósti ekki er rótt, uppákomu ei veit hvað veldur, en víst er ónýt þessi nótt. ] [ Nú er allt hljótt. Engin truflun í kyrrþögn nætur. Hljótt og kyrrt. Aðeins máttlaus og myrk vetrarnóttin umlykur allt. Á þessari stund bærist ei líf. Bara þögnin. Þannig er það alltaf með stundirnar sem eru síðastar. Síðastar fyrir nýtt upphaf. ] [ Þegar veturinn er farinn og vorið hefur kysst stráin. Kysst hvern þann stein. Hverja þúfu sem það snertir á leið sinni. Kysst hvern þann sólargeisla sem speglar sig mýrinni. Þegar vorið hefur kysst úr mér hrollinn. Þá mun ég kyssa sumarið í sál þína. ] [ Hana margir hölgdar þrá og henni strjúka í draumi, því enn er Ragna blíð á brá og blikkar menn í laumi. ] [ Frá hinu nístandi Norðri þau renna Náfeld af vargi er hún þakin, Úrsus kúpu á höfði ber Í föla hárið ofnar eru, Rauðar fjaðrir og Úrsus klær Og vígtennur Fenris á hnefa beltaðar fastar Meðan ljárinn grimmi við varginn er bundinn. Úr landi ísa og hins nyrsta Næðings Þeir grimmu Fenris niðjar eftir fylgja Á sínum svarta bróður hún áfram rennur Suður um hvolf og mar En engar eru festar, fyrir varga til Svo að á beru baki hún heldur til kyrrt. Áfram þau renna Til miðju alls sem er Þar mun dóminn upp kveða Hvað skal um þau verða Nú er hið mikla rökkur er liðið. Þau eru komin að Norðan ! Þau koma að Vestan. Þau koma að Austan. Þau koma að Sunnan. Úr hinu vindmikla Vestri þau svífa Standandi róleg hinum mikla erni á Meðan löndinn þjóta hjá, í kyrtli ofnum Og fjaðra skikkju, hin elsta dóttir horfir fram Með staf sinn reistan á rönd Haldandi í hægri hönd sem Sjálf reif úr asksins fornu rót. Úr landi rúna og galdra sem staðið hefur til margra alda, hárið dökka svegist til meðan örnin mikli sig réttir við Hræsvelgsdætur svífa nú í Austurveg Dynjandi sláttur þúsund vængja Er allt sem í vesturhimni heyrist. Áfram þau svífa Til miðju alls sem er Þar mun dóminn upp kveða Hvað skal um þau verða Nú er hið mikla rökkur er liðið. Þau eru komin að Norðan ! Þau eru komin að Vestan ! Þau koma að Austan. Þau koma að Sunnan. Fljúgandi úr hinu endalausa Eystri Með glæðum og gneistum Níðhöggs nyðjar sinni systur hlýða Fremst er í fylkyngu spúandi gráum eldi Forrauður fjandi, svífandi í skýin grá Eldingum og þrumum rödd sína að ljá. Úr landi fenja og feiknafjalla Á þessu forrauða fjanda með sverð í hendi Situr hin vitra systir klædd dreyrrauðu leðri Í það svart fjanda-hreistur hnýtt Róleg hún liður, bíður meðan hárið rauða svíður Nú í gráum logum, frá sínum unga bróður. Áfram þau fljúga Til miðju alls sem er Þar mun dóminn upp kveða Hvað skal um þau verða Nú er hið mikla rökkur er liðið. Þau eru komin að Norðan ! Þau eru komin að Vestan ! Þau eru komin að Austan ! Þau koma að Sunnan. Syndandi úr hinu sjóðandi Suðri Í lykkjum og hlykkjum þá lengstu leið Fremst er snæhvítur marborinn fákur Eiturgrænar eru þær gufur sem hann blæs Ofaní vatnið meðan hann hengir höfuð Syrgjandi sinn forna föður sem fallin er frá. Frá löndum hins dimma djúps Synir hins mikla miðgarðsorms synda Meðan hin svartklædda forna systir Syngur til hafsins svo öldurnar rísa Engin skip skal hýsa í hinum mikla sjó Tárin streyma í úr augum allra sem fylkingunni fylgja. Áfram þau synda Til miðju alls sem er Þar mun dóminn upp kveða Hvað skal um þau verða Nú er hið mikla rökkur er liðið. Þau eru komin að Norðan ! Þau eru komin að Vestan ! Þau eru komin að Austan ! Þau eru komin að Sunnan ! Frá öllum áttum rök eru hveðin: Hvað skal verða um okkur, hin fornu dýr Sem í þessari veröld höfðu legið Frá byrjun þess og höfum séð þann enda Er menn hafa oss gefið, þeir okkur vilja veiða Drepa og meiða, kveð ég nú að við hverfum Úr þessum heim og verðum sögur og ekkert meir. Þau eru farin að Norðan ! Þau eru farin að Vestan ! Þau eru farin að Austan ! Þau eru farin að Sunnan ! Fyrir full og allt. ] [ , Okkur reynist Gæfan grimm gengið fellur,ónýt króna og fyrir eyrum dunar dymm draugarödd,menn biðja góna. ] [ Hér við lærðum ljóð og sögur lífs af undurmerkri braut. Aldrei gleymast árin fjögur, sem okkur féllu vel í skaut. Í hjörtum okkar ávallt lifir ástkær minning, gleðirík. Tignarlegur trónir yfir Tjörninni í Reykjavík. Gamli skólinn stendur sterkur. Stolt er efst í hugum vor. Yfir sveimar andi merkur, sem okkur veitir dug og þor. Að takast á við æðstu þrautir er eitt af vorum markmiðum. Við ryðjum okkar bestu brautir með byr frá Menntaskólanum. Vorar dyr með lífsins lyklum Lærði skólinn hóf á gátt. Á lofti höldum heiðri miklum er héðan göngum, teit og sátt við árin sem nú eru að baki þótt ávallt lifi í hugum vor. Komum, fögnum með koníaki. Kætumst, stígum dansins spor. Við göngum héðan glöð í bragði, gáskafull með bros á vör, því Menntaskólinn leið vor lagði um ljúfan veg - hin bestu kjör. Tíminn hér er töfrum slunginn, hér tendrast lífsins rómantík. Mikilsverður er magni þrunginn Menntaskólinn í Reykjavík. ] [ í dag tók ég hnífinn úr kúnni og stakk svo upp á nýjum hugmyndum við yfirmanninn minn ] [ Michael Jackson má sinn fífil muna fegri. Hann var mikið myndarlegri meðan hann var ennþá negri! ] [ Lítið lagar, lítið bagar, lífið sagar dag og nótt, aldur nagar, ellin plagar, unaðsdagar líða fljótt. ] [ Montnir ríða hratt í hlað, huga að orðum mínum og ekki skaltu efa það, þó annað glepji sýnum. ] [ Dropinn lekur niður af þakinu lendir á tómri tunnunni sem stendur við rennuna á stóra gamla húsinu hljóðið bergmálar í rennunni sem liggur upp að glugganum á efri hæðinni drop drop drop ég ligg á rifinni dýnunni í nýju íbúðinni sem er minni en gamla herbergið mitt ég stari á tóma veggina sem móta tómu íbúðina hljóðið að utan bergmálar í herberginu drop drop drop ég get ekki sofnað teppið er kalt og blautt það þarf að gera við þakið hvernig gat ég endað hérna? ég geng uppað glugganum og sé spegilmynd mína leka niður með dropunum ég sé ekki muninn á tárunum i augunum og dropunum á glugganum en mér er sama ég vil bara hafa þig hjá mér ] [ Á fölbleikum akri standa ferhyrndar ær með augu svört. Á stórri skel stendur nakin mær, feimin en björt. Á mjúkum steini liggur bráðnandi úr, tímalaust og öskrandi maður á brú gerðri úr múr um bleksvart haust. Í málverki miðju stend ég og nýt þessa alls á meðan heimurinn utan rammans riðar til falls. ] [ Þreytan í fótunum söm er við sig, síðrassa leysti ég vandan, settist á vegginn og sólaði mig, senn kæmi bíllinn að handan. ] [ Margir eiga um sárt að binda í þessum heimi og ég hef það miklu betra en þeir en þegar hjartað mitt er brotið og ég hugsa ekki um neinn annan þá finnst mér ég vera óheppnasta manneskja á jarðríki. ] [ Ég þekki brúnku sem vinnur hjá biskupsstofu Hún er brútal og uppfull af heift Hún segir ,,ég hata alla samkynhneigða Og óska þess að þrælahald yrði aftur leyft” En ekki staðfesta sambúð eða hjónaband Eða réttindi hvað þá ríkis og kirkju - aðskilnað En borðið þér trúna, séra Rúna? Borðið þér trúna, séra Rúna? Borðið þér trúna, séra Rúna? Og þú segir ,,hvað? Amar þessum saurugu heiðingjum að?” Marteinn Lúther hann var alltaf að heiman Eiginkonan fékk varla að sjá hann Lét murka lífið úr mörg þúsund manns Og ekki að sjá, að það fengi beinlínis á hann Það er oft þannig Þegar maður á annaðborð er kominn af stað En borðið þér trúna, séra Rúna? Borðið þér trúna, séra Rúna? Borðið þér trúna, séra Rúna? Er þú segir ,,hvað? vilja þau skilja ríki og kirkju að?” Heyrðu ég ætla að kýla á það að drekkja þér Alveg hreint á bólakaf Því Biblían mín sem ég pæli hvað mest í Hún segir það beinlínis í hverjum bókstaf Og ég er svo hjartahreinn - í brjósti En bifa þér varla úr stað En drekkið þér trúna, séra Rúna? Drekkið þér trúna, séra Rúna? Drekkið þér trúna, séra Rúna? Og hvað – segir Drekkingarhylur um það? Ég ráfaði um bæði ringlaður Og ráðvilltur og fílaði mig ekki hér En það var af því ég hélt ég væri hálfur Og að afgangurinn hann væri hjá þér En þú ert hvergi Þar sem kem ég nei, þú áttir þér aldrei stað En borðið þér trúna, séra Rúna? Borðið þér trúna, séra Rúna? Borðið þér trúna, séra Rúna? Og best smakkast hvað - Á þeim sýndarskyndibitastað? ] [ Yndis njót með ást og friði, englar náðar gefi grið, góðar vættir verði að liði, verndi og blessi á hverja hlið. ] [ Sækir mig heim sómakona, sú mitt húsið þrífur létt, hrósa mætti henni svona, hún er prýði í sinni stétt. ] [ Allsnægtir þér auðnan ber, efast hvergi drengur. Lifðu sæll í sjálfum þér og sjá að vel til gengur. ] [ Allt fer í bál hjá sérhverri sál er syndir og tál ráða fundum. Andans mál gerast ófáum hál og ósopið kál á stundum. ] [ Liljur vallarins munu blómstra í heiminum eftir okkar daga regnið mun koma á ný og enn sem fyrr mun lækurinn renna upp á við Meyjar munu valhoppa um túnin prýddar blómum og slæðum sólin mun skína sem fyrr og enn á ný mun draumurinn leiða manninn ] [ Mikið er þér gefið Magga stelpan mín, strax í fæðingunni fannst mér þú fín, mörg er þín snilldin, sem segir til sín, jafnt sem þínar gáfur og geislandi grín. Og nú áttu stráka nokkuð líka mér, þegar ég var ungur það leynir ei sér, en þó vil ég meina að það snart til fer, að þeir verði betri og meir líkir þér. ] [ Hér er einn af vísnavinum, og vil hér koma við. Eigi síðri öðrum hinum er mæta á þessi mið. ] [ Efastu ekki, að allt gengur fyrir mútum. Þetta ég þekki og það er hjá læknapútum. Bankarnir borga, bærilega minn kæri og dólgar sem dorga, drífa sig í færi. ] [ Nóttin var komin nær enda er níþungir fætur mínir ákváðu\'að lenda niður á Lækjartorg, neðst í Reykjavíkurborg, að nýbakaðri vöfflu\'í\'mig henda. Í sælkeravímu ég sveif, svo mér snéri í norður og stúlku þá leit, sem eins\'og himinsins sól þar stóð hjá og hló og á horfði mean vöffluna ég beit. Þar næst ég bauð henni bit, og bita hún tók sér, með munaði. Ég sagði: Er\'hún ekki góð? Og um leið og ég stóð við örkuðum að Norðurmýri. Þá úr sálargluggunum skein þessi seiðandi orka, svo sönn & hrein, sem sagði: Ég er öll þín, þitt þrotlausa vín. Svo þreif hún mig beint með sér heim. Þar kynntist ég konunni fyrst sem kenndi mér blíðlega\'að lifa\'af list. Já, aðeins með orðum tveim át hún burtu mín mein og alla mína sálarangist. Nú þakka ég öllum vættum að á þessu kvöldi við hvort öðru mættum, því eins\'og Eva fyrir nöðru við féllum fyrir hvoru\'öðru og fyrir lífstíð hvort annað bættum. Ég montinn er mjög henni af, ég mun elska\'hana\'að\'eilífu, ég beinlínis þarf. Ég mun gleðja\'hennar geð, já, og ganga\'henni með gegnum lífsins stór\'fjölbreitta garð. Því lýsi ég yfir hér með, já, yfir gjörvallan heiminn ég ástfanginn kveð: Það er aðeins hún sem ann ég trúr nú! Nei, ekkert annanð fær stillt mitt geð ] [ Yndis njót með ást og friði, englaskari sé við hlið, góðar vættir verði að liði og verndi og blessi heimilið. ] [ Draumurinn ljúfi fallegu fljóð fengsælu piltar,ég brenn. Í huganum svífa mín litfögru ljóð. Lævirkinn syngur víst enn. Söngur hans fagri fagnaði mér floginn er lævirkinn burt. Vonandi geymist minningin mér morgunstund, hin fegursta jurt. ] [ Margt fær sá að nostra um nótt, notadrjúg hans menntagnótt, fátt mun honum eins eftirsótt og að eyða lífi barna fljótt. Já, hann má bralla mikið ljótt, mest á ríður að hafa um hljótt og enginn skyldi anda rótt, ef að þessi birtist skjótt. ] [ Óþverra sínum á mig þurfti að skvetta, óþokkinn, sem lifði í háði og spotti, en spéfuglinn gat ei mér þolað þetta, þegar ég skaut í sama á móti og glotti. ] [ Þegar hann um andann fer allur blóði þakinn . Krist ég sé á móti mér máttfarinn og hrakinn. Kenna á hörðu lýður lét loks á krossinn binda . En í hljóði guð hans grét gjöf til íllra synda. Lindin þín er líknum merkt leið í heimi mínum Fyrir honum finn ég sterkt fögrum anda þínum. Áður bað um allt að fá inn í æsku mína. Hinum megin ekkert á utan blessun þína. Margir eiga eina ósk auð um ævidaga. Sú er oftast þráin þrjósk það er döpur saga ] [ Væri allt of erfitt fyrir þig að bara opna fyrir mér? Ég þarf að vita svo mikið eins og þú sagðir, þá ertu laukur. Ég borða ekki lauk enda borða ég þig ekki. Ég get samt alveg talað við lauk þó hann hlusti ekki. ] [ Ég hata að sofna á ferðalagi. Það er svo vont að vakna og vita ekki hvað er að gerast. ] [ Undrum sætir allt í þessum heimi, andi, líf og dauði fá að mætast, en spurning er hvort lífið sé tómt teymi, eða tilviljanir um hvað megi rætast. ] [ Dýrðin í heiminum dásamleg er, Drottinn sýnist mér gjöfull. En ef svo fer, að allt bregst þér, þá er þar á ferðinni Djöfull. ] [ Ég yrki dýrt til orðanna fyllstu mynda og einkar tamt að nota meining sterka, ýmsum föntum sagt ég hef til synda og siðlausa hvet ég stíft til betri verka. ] [ Framsóknar er flokkur smár, fylgið varla mælist. Ætíð heldur sínar skrár, þó sigurgleðin bælist. Veðrið stundar ljúfan leik, lifnar grundin frjóa. Margir halir koma á kreik og konur sínar róa. Gróðapungar ganga um enn, græðgin hungrið vekur. Greinilega sjáum senn, sundurlyndið betur. ] [ Orðinn fullur upp að eyra, ástarmálin fyrir bý, ætlar að fara út að keyra og ei vill heyra að sleppa því. ] [ Undrafögur þú ert mín kæra, ung og grönn og brún og fín. Allt þitt líf megi yndið næra, elsku hjartans tengdó mín. Kveðja frá tengdapabba. ] [ Ljóð: Marita Lindquist/Ragnar Böðvarsson Lag: Georg Malmstén Sjáðu, þarna uppi´ á lofti undir súð þar á hún litla Kata heima. Úti´ í garði breiðir úr sér blómaskrúð, í birkitrjánum þrestir sveima. Sólargeislar inn á loftið læðast hægt og strjúka létt um Kötu bjarta hár og kinn svo undurmjúka. Vorkvöldunum uppi´ á lofti undir súð mun ekki verða létt að gleyma. Sumardagar hægt og stöðugt streymdu hjá og stjörnur haustsins tóku að ljóma. Marga nótt hjá Kötu enn ég undi þá, við áttum saman leyndardóma. Einlæg voru loforðin sem ástfangin við gáfum, ung og frjáls í haustsins milda rökkri þá við sváfum. Ljúfar stundir langra nótta liðu hjá, en loforðin í hug mér óma. Vetrarkuldinn nálgaðist og nísti jörð og nepjugrá var hríðarmuggan. Allt í einu varð hún Kata köld og hörð og kætin fyrri hvarf í skuggann. Dyrnar voru lokaðar og leitt mér varð í sinni, ljóst mér fannst að núna væri annar þarna inni. Úti’ í garði´ er stólparok og stirðnuð jörð, ég stari þögull upp í gluggann. ] [ Heillakveðja–Og örfá orð einkum til þess að minnast hvernig þeim er við hyllum nú hef ég fengið að kynnast. Langt er nú síðan fyrst ég fór til fundar með hagyrðingum og sá þar er Heiðmar seiddi fram sönginn með tökum slyngum Seinna tók ég að sækja heim söngkvöld austur í Flóa. Ótalin lög þar óma glatt út yfir sund og móa. Auðvelt er það að una við og alltaf svo létt að syngja er píanótónar gleðja geð og gömlu sálirnar yngja. Tónlistin kemur víða við varla má gleyma þessu: Orgel sem lýtur styrkri stjórn styður við helga messu. Afmælisþeginn æfir kór eflaust af ljúfri snilli. Raddirnar allar ræktar þar. –Ræktar svo tré á milli. Tónlist er galdur. Um það er engum blöðum að fletta. Til merkis um hennar mikla afl meðal annars er þetta: Fyrir löngu mín ráma raust af reykingum tók að bila en jafnvel hún nær að hljóma með er Heiðmar byrjar að spila. Afmælisþeginn aðra list iðkar af kappi löngum. Gjafir af borðum Braga skálds ber hann í drjúgum föngum. Fljúga í smessum út um allt óhemju býsn af stökum. Þær hafa margoft lífið létt á löngum og hljóðum vökum. Þegar frá öðrum önnum gefst einstöku sinnum næði gamlar dagbækur, bréf og blöð býr hann í slitsterk klæði. Þannig er haldið haga til húnvetnskrar sveitar arfi sögu bygginga, söngs og leiks sögu af lífi og starfi. Mun þó að sönnu mest um vert mennsku og viðmótshlýju. Lyftum nú Heiðmars heillaskál og hyllum hann svo að nýju. Við fjölskylduborð í húsi hans hamingjan jafnan sitji. Árnaðarkveðjur einlægar orðin mín smáu flytji. ] [ Í yndi vorsins ýmsir fara á stjá, ástin tendrar líf í birtu og hlýju, sólin skín og sundin virðast blá, sælir margir hreiðra sig að nýju. ] [ Ég hef ekki ótakmarkaða þolinmæði og ég þræti of mikið. Þú hefur bara þessi áhrif á mig og því er ég komin með mömmustimpil. Ég þykist eflaust vera fullorðin en mig dreymir ennþá krókódílaköngulær. Við ræktuðum nokkrar í nótt og nokkru síðar varð ég mamma. Ég er hrædd við köngulær en ekki krókódíla. Þess vegna var ég ekki hrædd en ég varð hrædd við mig. Fjarstæðukennt, ekki satt? Enda ertu langt í burtu. ] [ Til er fólk sem er reitt út í heiminn, fólk sem grætur ástvini. Það tjáir sig og ég hlusta eða les ljóðin því ljóðin þeirra spegla harminn. ] [ Er lóan syngur lífið fer á stjá, er lá í dvala um kaldan dimman vetur, brjóstin ungu belgja sig af þrá, sem bíður þess að makast hver sem getur. ] [ Hér eru margir mikið veikir og megna lítt að hreyfa sig. Brothættir eru lífsins leikir, en láttu þá ekki buga þig. ] [ Hér eru margir mikið veikir, mörg er brotin von og þrá, erfiðir reynast eftirleikir, að æfa sig að fara á stjá. Nú ég kveð og held svo heim, heima er best að vera, afmælishald og eitthvað geim, ég ætla mér svo að gera. Láttu þér batna ljúfan mín, leik þér glöð að nýju, komdu að dansa kösk og fín, kveð ég þig með hlýju. ] [ Hún mun hjarta mitt alltaf eiga yndisfögur og lokkafríð fyrir hana, skal ég segja, ég mundi hefja stríð ] [ Ummæli hans fá oft fætur, færir margt til vega sá. Andans möður oftast kátur, yrkir ljóð og segir frá. Aldrei fyrir hækjum húkti, hefur leikið skjöldum tveim, kallaður Einar ofurkrútti, alltaf til í slark og geim. ] [ Allt átti lífið að vera svo flott. Að allt sem við gerðum var aldrei nógu gott. Ódauðleg spor þráðum við heitt. En á endanum gerðum við allsekki neitt. ] [ Undir gráum himni gnesta er grimmar bárur slétta öldukamb á Útskálafjörum. Innst í koti er lík á börum. Köld eru úfin kólguböndin krossar náinn slitin höndin. Hér er lífið fölt og fáir og fjörusteinar smáir. Særinn aldrei sefast getur er sálum heilsar úfinn vetur. Haltu ást til himingeima honum segðu mér að gleyma. Endur fyrir löngu lágum við lyngið grænt og sáum. Saman hníga sól í öldu í suðurnesja köldu. ] [ Nakinn húðflettur ólgandi kvika hver einasti blettur brennandi sár. Tárin svíða holdið er þau renna niður kinnarnar. Sársaukinn æpir úr augum mér en ég get ekki hætt. ] [ Stendur hann enn við enda nætur og horfir á daginn rísa. Þreyttur en sáttur þó söknuður sé í hjarta er von í sólinni. Von fyrir hann og þá sem eftir urðu Fyrirheit morgundagsins. ] [ Blekið rennur úr fingrinum sem liggur á blaðinu við andlit hans. Játning hins seka friðþæging hins saklausa svefn hinna réttlátu og annarra. ] [ Svefninn er endalaus uppvakning andans ljós í myrkri sálar sem lífið fær ekki snert og hinsti svefninn ferðin í eilífa vakningu sem þú þekkir ekki. ] [ Óli sat í tunglinu og hallaði sér aftur spennti upp regnhlífina til að dreyma vel en engir draumar komu. Óli lá á bakinu og horfði döprum augum í næturhimininn. Hver kemur til Óla Lokbrá? ] [ Allt var þetta eitt allsherjar skúbb, er synir vor þjóðar er sig kenndu við group. Rönuðu upp eigin fé landans á einni nótt í síþyrstar nasir hvarf það skjótt ] [ Loksins líkur þrautargöngu minni, að sinni. Ég sé lífsins liti ljóma á ný og tilveran er björt og hlý. Allt sem að áður sýkti mitt geð er horfið á braut og svartnættið með. ] [ Ég leit í augu þín og þau voru dómhörð og hvöss vegna þess að þú skildir ekki hvernig það er að vera ég. Ég hvíslaði í auðmýkt leyndarmál mitt í eyra þér. Ég leit í augun þín og þau voru skilningsrík og full af von vegna þess að þú skildir nú hvernig það er að vera ég. ] [ Eins og múlbundna dráttar klára dregur tíminn okkur milli ára. Engin leið að hægja á aðeins framlegð vill hann sjá. Tíminn veit og er hans brauð. Að tímaskortur er mannsins nauð. Og stundarró í huga manns. ögrar valdi kvalarans. Og áfram við með fullum sans. Eltum tímann til andskotans ] [ Nóg er af orðum Þessum heimi í En samt er allt að fara úr skorðum Mínum huga í Hvaða orð skal skrifa Er stóra spurningin Enn klukkan hættir aldrei að tifa Svo ég ákveð að nota hin ] [ Hann færir henni þá ást sem að hún á skilið Setur plötu á fóninn Þau dansa í köldum vindi Flíkur þeirra glitra eins og stjörnubjartur himinn Það kostar þau ekkert að elska Bros þeirra lýsa upp þetta ranga augnablik Þegar allt er á niðurleið eru þau sú einu sem að lifa Þau eru fólkið á þakinu enginn maður sér þau enn hlátur hennar heyrist þegar hann greiðir silkimjúka hárið hennar hann færir henni þá ást sem hún á skilið enn samt vilja allir að þau komi niður. ] [ Skála eitri með óvinum í glansandi glösum hlæjum og hrópum og skemmtum okkur vel skondið hver maður sér sig ekki sjálfur en ég sé mig vel því ég grímuna ber ] [ Lífið er járnsmiður sem járnar jór og þá er ég skeifan sem á botni kassans er, ekki notuð nema allar hinar fullnægi ekki kröfum lífsins um góðar skeifur. ] [ Þegar þú gekkst inn ganginn og augunum til mín gaust vissi ég að þú hefðir aldrei séð jafn falleg brjóst. Elskan mín þú veist það vel, ég hugsa um þig bera leggirnir og rassinn þinn mig spólgraða gera. Ég vissi ekki að þú vinan elskaðir tásluklám ef þú vilt það máttu alveg kynnast mínum tám. Ég skil að þú elskar táslur en ég á mér aðra von að þú viljir joina mig í session með strap-on? Elskan mín, taktu mig heim með þér í kvöld síðan skulum við elskast langt fram á næstu öld ] [ Ég þakka þér fyrir nýskapaðan dag Takk fyrir ástina og allt mér í hag Leiddu mig áfram á minn rétta veg Sinntu samt öðrum en mér, en ég Get verið frekt leiðinda barn ] [ Elskan mín, taktu mig heim með þér í kvöld síðan skulum við elskast langt fram á næstu öld ] [ Músi var að leika sér með litla andarunganum en báðir voru vinir hvors annars Spurningin er, hvað átti Músi marga vini ? svarið er einfalt, tvo vini enda báðir vinir hvors annars ] [ Reykjanes ! Þetta er Cadillac Eldorado ! Reykjanes ! Garðabær ! Seltjarnarnes ! Hafnarfjörður ! Reykjanes ! Þetta er Cadillac Eldorado ! Reykjanes ! Reykjavík ! Keflavík ! Leifsstöð ! ] [ Hann finnst þó en fjandinn er þá svo nauðsynlega bundinn þér enginn guð án alls og allt án guðs er fals er það satt? Og guð án manns eða maður án hans fer þá flatt? Guð er ekki hér nema maðurinn sé með Sæmi sá við fjandanum en sá góði sá við manninum maðurinn í speglinum sem ekki þekkti sjálfan sig fyrir guðdómleika skynsemi ] [ Hvert einasta skiptið sem ég klæðist kápusyndarinnar og fer út veit ég að ég færist gröf minni nær og nær, Syndin er svo sterk að ég stenst hana ekki, Þegar ég geng inní húsið aftur finnur fólk nálygtina mína, þau biðja mig um að hætta þessu en fíknin er sterkari en ég, meðan ég er að þessu fæðist eitthvað djöfulegt inní mér sem enda með pínlegum dauða, þess vegna er ég að spá í að hætta er reykja. ] [ Bagálstindurinn blasir mér barinn klakabungum. Að ganga á þennan ófært er aumingjum og gungum. ] [ Til hamingju pabbi minn, til hamingju pabbi minn, með að geta loksins hætt að vinna. Nú hefurðu tíma í kveðskapinn og gleðskapinn. Til hamingju pabbi minn, til hamingju pabbi minn, með að geta loksins hætt að vinna. Nú hefurðu tíma í kveðskapinn og gleðskapinn. Hryssur ræktar og bætir þú stórbóndinn, já stórbóndinn já hryssur ræktar og bætir drekkur og dansar af miklum móð það er verst hvað blessuð börnin þín léleg´er´að framrækta genin þín góð. Hryssur ræktar og bætir þú stórbóndinn, já stórbóndinn já hryssur ræktar og bætir drekkur og dansar af miklum móð það er verst hvað blessuð börnin þín léleg´er´að framrækta genin þín góð. ] [ Það dæmigerða hefur gerst á ný ég hélt ég væri hafin upp á ský þegar veruleikinn neitaði mér um ástina enn á ný enn á ný Í þetta sinn ég fullviss var um að þú værir mitt endanlega svar en okkur munu skilja að, himinn og haf viss ég var viss ég var Hvernig endar þessi framhaldssaga munu okkar líf sig að ástinni aðlaga Hún fullkomin er ef á endanum náum við saman þessi langa saga þessi ástarsaga ] [ stundum rölti ég um götur bæjarins vel mér kaffihús fæ mér latte í glasi og skrifa klisjukennt ljóð um tilfinningar mínar birti það svo á netinu til að sýna þér það ] [ Verðandi vandi verður að vana svo ég passa mig að hlekkja mig við stóran stein langa leiðin heim er ekki staðurinn sem ég ætla fara á þarf að þrá meira en má þarf að átta mig á, hvað sækist ég að sjá en ég skil ekki, jafnvel þótt ég vildi ekki kónga par í hendinni vaskur inn í stríð ég gekk, og setti mig á háan hest og fór fallinn fyrir kónginn minn vissi ekki að ásinn myndi slá mig niður ] [ Þá er þessi vika búin eins og allar vikurnar á undan henni. Tíminn líður samfara því að maður eldist. Árstíðirnar fljóta framhjá og um leið sigla ný líf með straumnum. Nú fer skólunum að ljúka, og áður en maður veit af stendur framtíðin með hvíta kollhúfu, brosandi í myndavélarnar, reiðubúin með árar í hönd. Sumarið verður þá farið að láta á sér kræla með kitlandi birkiilmi og sláttuvélarhljóðum í fjarska. Dagurinn lengist og lengist og fyrr en varir er maður vakinn með áköfum fuglasöng og sólargeisla sem smýgur sér í gegnum einu glufuna á gardínunni. Augu tindra, brosin breikka og ung hjörtu slá í takt við hvort annað meðan gamlir sumarsmellir hljóma í bakgrunni og vekja upp minningar um gamlar ástir. Er til betri tími? ] [ oft horfi ég á stjörnurnar hugsa þá um þig hvort ég geti talið þær en þá verður mér ljóst að þetta eru minningar allar svo margar allar svo fjölbreyttar allar svo æði fagrar allar svo ólíkar þegar þessar stjörnur glitra eins og þær reyni og reyni að baða mig geislum sínum þá veit ég að þær allar sem ein sem minna mig já hugsanir um þig ] [ Við Snæfellsnes er sjávarbyggð þar skýla Ljósufjöllin vel. Þar á ég traustan vin og tryggð og trú á gamalt vinarþel. Er sit um kvöld með skrif til þín og seint um nótt á ljósum slekk. Þá opnast hlið og önnur sýn og eitthvað kom sem að mér gekk. Og þegar þú minn þekki vin þorra fagnar af fornum sið. Lyftir skálum svo ljúft með gin þá lifna gamlar myndir við. Við munum öll þá ungu stund er enginn getur aftur séð. Og óskina um ást í lund er engillinn kom aldrei með. En hvað er það sem kveikir bál og hvað er það sem kallar tár. Fram á vanga er sigruð sál snýr til Guðs svo ung og sár. Og hvert er val, von og þrá; vegatillur með auð og mátt. Nei frekar er það bros á brá og bergja vín og syngja hátt. Ég hristi af mér drunga draum því drottinn hefur að mér sótt. Ég veit um þennan stríða straum er stefnir að mér dag og nótt. En samt er það er sólin skín og stillist lífsins ris og hnig. Þá finn ég streyma sátt til mín og sálaryl er hugsa um þig. ] [ Eitthvað kusk er on´í skó, eymsli taka í hælinn. Ég hef dansað nokkuð nóg og nenni ekki í Rælinn. ] [ Fjarri, fjarri hvort öðru og hjörtun slá ekki lengur í takt Kannski kemur ástin einn daginn á vængjum hins óþreytta Amors og umlykur okkur á ný, þurrkar tár okkar og sameinar hjörtu okkar aftur - í takt. ] [ Þegar augun fyllast glampa og brosið bætir svip Þegar lífið fyllist birtu og framtíð blasir við Þegar loftið blandast lævi og skýin feykjast burtu Þegar hugur fyllist bjartsýni og vinir þyrpast að Þegar húmið fyllist gleði og hlátur nóttu sker ..hefur gleðin barið að dyrum ] [ Ég er maður án markmiðs sem ráfa ströndina langa. Fleyti völum í öldur og ég hugsa til þín. Vona að sólin hún flytji þér lag sem syng ég til þín hvern bjartan dag….. Því er veröldin svona, hvert ertu vina mín horfin…? Veit að langt, langt í burtu, ert’ að bíða eftir mér. Vona að skýin þau beri þér söng sem syng ég til þín síðkvöldin löng….. Ljós í sálu er slokknað get ei hugsað neitt lengur. Þegar dimmir að kvöldi, einn ég hugsa til þín. Vona að vindur þér færi mitt ljóð sem flyt ég til þín mitt fagra fljóð….. ] [ Hvað færðu þegar þú verður ástfanginn..? ..sorg og hryggð..? ..sár í hjarta..? ..trega og tár..? hvað færðu….? ..gleði í hjarta..? ..unað,alsælu, ..orku og algleymi..? hvað færðu….? ..skýfall af orðum..? ..votar varir..? ..votar brár..? fyrr en varir styttir upp, og lífið heldur áfram í leit að ástinni. ] [ Lestin okkar langa brunar látlaust vagnar tengjast við. Á teinunum oft dansinn dunar drunginn líður, taktfast nið. Hvert sem lestin langa skríður ljúft á teinum æðir hratt. Yfir teina trauðla líður tónninn hennar heyrist glatt. Þótt lífið gangir þú í gegnum glæpalaus, hún eltir þig. Þú hleypur, þér er ekki megn um hún þrefalt hraðar herðir sig. Þótt þú færir þig, hún alltaf á hælum þínum er. Lestin langa, er einfaldlega skuggi af sjálfum þér. ] [ Margir dræmt til vöku vakna, verjast þess að byrja að sakna. Leyfist öllum ljúft að dreyma og líða í anda um betri heima. ] [ Heimskan er jafnan söm við sig, segir gjarnan þetta og hitt. Þér ferst ekki að þræta við mig, þú er bjáni greyið mitt. ] [ orð fá ein að leika sér í hugar hvolfi mínu þau eru þar að teygja úr sér eða hanga á langri línu þerruð upp eða strokuð út með hugar strok leðri en annars færi allt í hnút og yrði að hugsanlegu óveðri en óveðrum slota að lokum en gerum gerum ekki neitt og ef við bara dokum verður þeim á endanum eytt ] [ Það er ekki einskis vert er ákaft kallar þörfin, að vinalega sé við mann gert og vönduð reynist störfin. ] [ Ég leit á rúðuna. Leit á helvítis nóttina. Hver var þarna úti svona snemma, í mínum garði? Ég settist upp og leit á tölvuna ég hugsaði um hvernig hún gat eyðilagt líf mitt á einu kvöldi. hver sekúnda leið eins og klukkutími. Ég heyrði í bréfalúgunni, þetta var bara pósturinn. Ég fer á fætur. allt er sofandi. þögn. ég geng út á götuna, hlusta á dropana þegar þeir falla á hárið. ég leggst á rennblauta götuna, sé dropana er þeir falla á bláu augun, ég hugsa um þig.. hvað gerðist? ] [ pabbi pabbi, hvað er það? kúkalabbi, hvað er að? faðir, faðir ég vil svör þeir voru ekki glaðir þú skildir eftir ör manstu? við vorum vinir en hvað fannstu? ekki voru sáttir þínir synir mamma, mamma hvað er að? pabbi, pabbi þú gerðir það! móðir móðir ,,hvað gerði hann?\" spurði minn ástkær bróðir ,,áttu eftir að finna annan mann?\" faðir minn, þú særðir okkur flest þú ert bara vinur þinn og hann heiðar þú særðir mest nú er ég ekki sátt því ég þarf föðurást þú átt samt bátt svo ást þín er ekki að fara að fást. ] [ Ég gerði mistök í dag sem má kannski laga kannski ekki. En hvernig sem fer þá naut ég þess, sá eftir því og lærði. ] [ Þegar ég var lítill hélt fyrir mér vöku sú staðreynd að kannski yrðir þú ekki alltaf til staðar til þess að hugsa um mig. Þegar ég varð eldri hélt fyrir mér vöku sú staðreynd að kannski yrði ég ekki alltaf til staðar til þess að hugsa um þig. ] [ Er ég strauk um stúlkna hönd var sál mín öll á kviki. Það var eins og þúsund bönd af þeli mínu viki. ] [ Er ég strýk um hest og hnakk kemur bragð í munninn. Steikinni var hent í hakk hörð og seig og brunnin. ] [ “Ef ég væri hagyrðingur” - jafnvel nokkuð slyngur semdi ég ljóð fyrir þjáða þjóð og léki við hvurn minn fingur ] [ Grátslegin borgin Er meðvitundarlaus Djammbaugar hanga úr augum hennar Köld og veðurbarin Reykjavík Rokk City Það er gráma í loftinu súr fúkkalykt af rotnuðum trjám Vannærð eftir taumlausa gleði gærdagsins Það vaka engir englar bakvið þessi tómu hús Og meðvitundarlaus borgin Grotnar niður Og grætur sinn dauða blús ] [ Ég veit af hverju þú grætur um dimmar nætur Ég veit af hverju þú átt eftir með að fara á fætur Ég veit af hverju þú talar ekki við mig En ég veit ekki hvað varð um þig Ég skil mjög vel að þú áttir bágt Ég skil mjög vel að þú sagðir fátt Ég skil mjög vel að þú gast verið leiður En ég skil ekki af hverju þú varðst svo reiður Ég veit hvenær þér líður ekki vel Ég veit hvernig þú horfir á mig er ég sef Ég veit að þú vildir mig bara En ég veit ekki af hverju þú þurftir að fara ] [ Lingamúður okkar er óskasnúður og ljóma ber, laus við klúður leikur hér, lundarprúður þó sleppi sér. ] [ Hugsar þú um mig, líkt og ég geri um þig? Saknar þú mín, eins og ég sakna þín? Eða er ég ein, í þessari eymd, horfin - grafin og gleymd? ] [ Sumarið er tíminn þegar ástin blómstrar líkt og blóm í haga. [litrík] Sumarið er tíminn þegar ég vil elska líkt og sólin. [heitt] Sumarið er tíminn er þráin vaknar eins og döggin. [blaut] Sumarið er tíminn sem ég elska og það nálgast. [núna] ] [ ég loka augunum og minningarnar eru vafðar litríkum ljóma líkt og ég og þú hefðum dansað á regnboganum. ] [ Ég hallaði mér út um opinn svefnherbergis gluggann og starði tómlega út í auðan húsagarðinn. Það var vor í lofti þennan laugardags eftirmiðdag, náttúran að vakna til lífsins og angan af grænu grasi barst að vitum mér. Ég ætlaði út á lífið um kvöldið, samt var ég í þungu skapi. Enn ein ömurleg helgin framundan hugsaði ég með sjálfri mér því ekki var það venjan að nokkur karlmaður liti tvisvar á mig þegar ég fór út að skemmta mér. Ég myndi örugglega enda ævina sem ellidauð piparjúnka. Engin von um börn né barnabörn að ekki sé minnst á syrgjandi eiginmann við dánarbeð mitt. Ekki sála myndi fella tár þegar ég gæfi upp öndina og það yrði áreiðanlega ekki ein einasta minningargrein í Morgunblaðinu sem greindi frá minni gleðisnauðu ævi. Það yrði jafnvel tilgangslaust að lesa dánarfregnina því ekki nokkur maður myndi hafa grænan grun um hver þessi skorpnaða persóna hefði verið sem fannst nokkrum vikum eftir dauða sinn í niðurgrafinni kjallaraholu. Líkast til yrði ég jörðuð á laun og presturinn einn manna viðstaddur útförina. Ég var svo djúpt sokkin í þessa ömurlegu framtíðarsýn að ég sá enga glætu framundan í svartnættinu. Ég hrökk upp úr þessum þönkum mínum við að ógurlegt öskur skar sundur myrkrið sem umlukti mig. Mér varð það ljóst á einu augabragði að nú ég væri loksins dauð og að það væri Andskotinn sjálfur sem með þessum hætti væri að bjóða mig velkomna til síns heima í heitasta Helvíti. Ég var sem lömuð af skelfingu en með ofurmannlegum kröftum tókst mér að hrista af mér doðruna og beina skelfdum sjónum mínum í þá átt sem hljóðin bárust úr. Og mér til ævarandi sáluhjálpar komst ég að raun um að þessi skerandi vein áttu ekki upptök sín í barka Myrkrahöfðingjans heldur stöfuðu þau frá dulitlu sjónarspili sem átti sér stað í garðinum fyrir utan gluggann minn. Þarna á miðri grasflötinni var spikfeitur fressköttur að athafna sig blygðunarlaust við það að bíta breima læðu í hnakkadrambið, sitjandi klofvega yfir afturendanum á henni, auðsjáanlega með ákveðna athöfn í huga. Ég fylgdist grannt með áframhaldandi uppákomu og þegar hún stóð sem hæst varð ég fyrir yfirnáttúrlegri hugljómum sem átti eftir að gjörbreyta allri ævi minni. Ég áttaði mig á því í einni sjónhendingu að það myndi skipta sköpum fyrir mig ef ég bæri ilmvatn á háls mér aftanverðan, áður en ég færi út á lífið um kvöldið. ] [ Ég gæti snúið við með hverju skrefi sem ég tek en ég held áfram að ganga í rangar áttir. Þær eru þó undan vindi. ] [ Ég á vonir og móður ást og mátt og minningar sem aldrei úr mér líða. Að orðum hennar bý er ekki fóru hátt að enginn verði maður nema bíða. Í öllu hennar fasi ungur sá þá einu mynd er ég mun aldrei gleyma. Hún sagði mér að aldrei yrði þrá ef allt er leyft og enginn fær að dreyma. ] [ Á takkaborðið tikkar frár, tæknilega fróður. Ásgeir hann er ofurklár og ákaflega góður. ] [ Uppfull af hamingju Ætla að standa við hlið þér Gefa þér þann styrk sem þú gafst mér Gleðitár á vanga Því ég fann það sem ég þráði Tilfinninguna um að allt sé í lagi Hélt það þyrfti fullkomnun Eða einhvern mér við hlið Eitthvað til að hald‘í Að meta augnablikið Gleðina úr augum annarra Falleg orð á miðjum degi og þig fyrir að trúa á mig ] [ Eftir axarhöfðinu smíðað er skaft. Fár kemur þaðan góður sem illt er fyrir haft. En illskan fer löngum fyrirmyndar slóðir og fagnaðar í sínum rann. Skrattinn er að skara í glóðir þá skemmtir sér hann. ] [ Þú kastar burtu, minningum um okkur. Þú hrækir á mynd, mína um þig. Þú sparkar burtu, litlu ljóði, sem tilheyrði eitt sinn okkur. Þú trampar á blóðugu hjarta mínu, sem liggur örvinglað á jörðinni og biður þig, já þig um hjálp. Eftir að þú hefur, meitt það og myrt. Lítur þú niður og sérð að litla hjartað vildi bara þig. Þú krípur niður hjá hjarta mínu. Þú grætur og sérð að það dó fyrir þig. ] [ Lítill ljótur engill, af himnum féll einn daginn. Grét hann sárt með ekka, blóðugur lá ljóti engillinn og beið eftir hjálp. Liðu svo dagar og engillinn lá, í eigin blóði á jörðinni. Margir gengu hjá, en engum datt í hug að hjálpa honum upp. Engillinn var svo sorgmæddur, því mannskepnan var vond og hundsaði engilinn ! Það liðu nokkrar vikur, og engillinn dó í eigin blóði. Guð fann engilinn stuttu seinna, hann hafði skapað verur sem þá, honum hafði fundist fallegasta sköpunarverk sitt. Guð varð mannkyninu reiður og sár og lokaði það að eilífu inni á þessari litlu plánetu sem hann sjálfur kallar fangelsi... ] [ Svo misjafnt er gefið sem mörg er hver sál frá miklu og allt nið´rí hjóm. Ýmsum reynast hlutirnir ekkert mál öðrum bara vandræðin tóm. ] [ Ég líð ekki skort þó lítið sé ort, líðanin ekki af síðustu sort, staupa mig upp á sport, enda væri það nú annað hvort. ] [ I step out of the fraim from the world of shame They don\'t belive there is more just thinking of what they have before I feel the weather, the wind it feels good, up my chin Wondering what to discover there is so mutch I have uncover ] [ Innilokunarkendin umvefur mig þar sem ég stend út í eyðimörkinni Endalaus ferð úr huga mínum svo stór stingur í hjartanu Hnútur í maganum, kökkur í hálsinum Finnst sem steinn liggi ofan á mér Einmannleikinn grýpur mig þar sem ég stend í þvögunni Endalaust flæði innan í mér stoppa og brosi, tárin renna Sé ekki tilganginn, langar að dreyma vil uppgvötast og tjá útrás mína Svo sorgmædd, andlitið ljómar en augun svo sár, enginn sér Innilokuð í einmannleika með mér næ ekki andanum, get ekki öskrað Tárin reyna að brjótast fram Allt stöðvast, ég fell, alein innan um fullt af fólki Ég er ekki innra með mér... ] [ erfitt er að halda tárum er í huga mistök mörg upp spretta og eftirsjá reynist mér of megn. ] [ Föst Mitt á milli lífs og ólífs Hamingju og óhamingju Fæ hvorugt Drukkna í eigin sjálfi Ég næ ekki andanum Ég berst fyrir lífi mínu Berst fyrir dauðanum Berst fyrir mig Gleymi svo hver ég er ] [ Handahófskennt val Fjöldaframleiddur frasi Eftirfylgni engin Einnota ást ] [ Prinsinn á hvíta hestinum varð frekar spældur Þegar hann komst að því Að prinsessan hans með ljósu lokkana Væri að reyna við einhvern fabio Á myspace ] [ Því var lengið haldið fram Að prinsessur kysstu froska Til að geta gifst En í raun eru þær einungis Að sleykja froskana Til að geta flogið ] [ Svo nálægt, sama hversu langt í burtu Við erum púsluspilið Sem eitt augnablik Small saman Nógu lengi Til að það væri hættulegt Þegar örlögin Rykktu mér tilbaka Varð hlutur af mér eftir Fastur hjá þér Þú mátt eiga hann Til minningar Um þig og mig Um sólríka daga í sér heimi Til minningar um Þegar þig langaði að eyðileggja Eitthvað fallegt Og tókst það Til minningar um okkur Sem verðum aldrei við aftur. ] [ Bríminn er horfinn Bleika skýið leystist upp yfir Atlantshafinu Nú sulla ég hérna í sjónum að drukkna Treð marvaðann meðan lúxussnekkjur sigla framhjá Hausinn minn skortir getuna Til að mynda duluna Til þess að fegra ljótann raunveruleikann. ] [ Einsemd Eftirvænting Eins Elskuð Efi Endalok Endurtekning ] [ Ég mætti gömlum manni á leið minni heim úr vinnu í dag. Hann var með hvítt alskegg og á höfði bar hann ljósgræna húfu, sem mér sýndist vera skátahúfa. Gat það verið að þessi aldni maður væri skáti? Hugsaði ég með sjálfri mér. En við nánari umhugsun fannst mér það ólíklegt, því ekki gat ég ímyndað mér hann við varðeld að syngja skátasöngva, né í skrúðgöngu á sautjánda júní í grenjandi rigningu. Hann var einfaldlega of aldurhniginn fyrir þess konar ævintýri. Ég gaf gamla manninum nánari gætur. Hvítt alskeggið, bústnar rauðar kinnarnar, það vantaði bara rauðu húfuna í stað þeirrar grænu til þess að hann gæti verið jólasveinninn. Ég sló því föstu að sú væri raunin, þetta væri jólasveinninn í dulargerfi. Líklega var hann í kaupstaðarferð hér í borginni nú þegar mesta jólaæðið var runnið af mannfólkinu, enda komið fram undir vor. Ég leit enn einu sinni á öldunginn, nokkuð ánægð með þessa niðurstöðu mína. En samt fannst mér eins og eitthvað gengi ekki alveg upp. Gamli maðurinn var þegar betur var að gáð fremur ójólasveinalegur í hreyfingum. Hann hafði göngulag ungs manns og var nánast barnslegur í fasi. Og þessi ljósgræna húfa...Græn eins og vorið... Skyndilega varð mér ljóst hver hann var. Hann var vorið sem árvisst rennur sitt keið uns það hverfur á vit aldanna til þess eins að endurfæðast eina ferðina enn. ] [ ,,Ekki gleyma krónunni þinni" ! Gargaði afgreiðslukonan Á eftir frakkaklædda manninum En það var of seint, Hann var farinn ] [ Víf nóttanna koma er dimma tekur dauðinn hægum öldum um hafið ekur tár úr augum engils niður vanga lekur í miðjum hring óttans syngur hann sekur Lífið það hverfur nóttinni með hún vængjum hefði haldið hefði ekkert skeð sjálfs síns drottning en í leik hans peð því fallegri endi fáir hafa séð Á bryggjunni hinsta gangan tók enda burt nú skal hennar lokasorgum henda á botni hafsins mun engillinn lenda og svik hans nú engil til himnanna senda. ] [ Svarri í stuði og sendir hér línu, sætur, brúnn og grannur heilsar í dag. Góðan daginn og gleðina í fínu, gagnast megi vel að hlýða hans brag. ] [ Er skammirnar dynja Skrattinn er vís, skynsemi að víkja af braut. Herskár er margur og harðfylgni kýs, er harðnar í daganna þraut. ] [ Ef lagt er grjót í götu þína, geturðu reynt að láta hvína, yfir það eða fram hjá farið, að finna lausn er rétta svarið. Láttu ekki mala þig meinin og mígðu svo upp við steininn. ] [ Frekjan er fullkomnun talin, finnst þó ýmsum vera galin og ég ykkur segi, að það vel ég þekki, að þessi hún gleður mann ekki. ] [ gullkornin liggja á leið þinni gefðu þér tíma og tíndu þau upp ] [ Frúin lék mér ljúfa tóna, ljóðin fögur semur vel, á listagripi eg mátti góna, gott er þeirra vinaþel. ] [ Það er erfitt andlitinu að halda, þegar erfingjar æsast til valda. Órói skapast og vísast til vandi, viljirðu ekki vera á þeirra bandi. ] [ fingraför vindsins á mér af þér þér sem hreyfir loftið í kringum mig greiðir mér leið gegnum daginn hjúpuð þér þér sem er víðsfjarri strýk andardrátt þinn niður hálsmálið heyri þig hugsa þig sem ert ekki hér gríp andann á lofti fyllist af þér held andanum inni anda út anda þér inn anda þér út þú sem ert hér þú sem er víðsfjarri ] [ í hringiðu inn að miðju tek upp tólið og svara halló hver er þetta er þetta kanski falin myndavél?...stend upp og labba í burtu stopp komin til danmerkur stopp borgaði skuldina í slippnum stopp heilsa xxxxxxx stopp ] [ Hvað er líkt með lærum kvenna og því er biblían sver og lofar? Af lýsingu máttu ljósast kenna, þau lofa bæði dýrðinni ofar. ] [ Mér varð ljóð á munni í morgun og mætti hljóta meira af slíkri, morgunandakt ríkri. ] [ jsamm ] [ Það er erfitt að fæðast saklaus í þennan spillta heim, síðan að virða foreldrana og vísast að gegna þeim, verða eldri og eldri og eignast reynslu í sjóð, finna hægan, hægan, kulna í lífsins glóð. ] [ Lítið um hann drekki í dag, en datt vel í það forðum. Hann hefur komið lífi í lag, sem lengi var úr skorðum. ] [ Tilveruna læt mér lynda, lýsir og dimman að rofa. Nú er ég orðinn úrvinda og ætla að fara að sofa. ] [ Afhverju varstu við hlið mér, meðan allt var erfitt ? finnst þér þykir ekki vænt um mig? Afhverju brostiru til mín, í hvert skipti sem ég gerði mig að fífli? finnst þú hugsaðir innst inni að við værum algjörar andstæður? Afhverju greipst þú mig, er ég féll? fyrst ég var ekki þess virði að grípa? Afhverju sagðiru "ég elska þig líka", þegar ég játaði ást mína á þér? finnst þú meintir það svo aldrei? ] [ Maurapúkar miklu yfir gína, mala undir sig lon og don. Dælt hefur fé í dóttur sína, durgurinn Gunnar Birgisson. ] [ mátulega svalt loft líður inn um gluggann -sumar nóttin ljúf og góð framandi liggur dökk og dreymin, -með augun svo stór og skær svitinn perlar á hörundinu - hún hvíslar nafn þitt svo undraverður krafturinn sem af henni er -suðræn og seiðandi gjöful en dularfull - og vekur upp ýmsar kenndir.... Blóðheitt fólk blandar aldrei saman ástríðu og reiði. ] [ Þetta er prufa.... ] [ Menn vita það ekki þó um heyrist skvaldur hvort andi þeirra svífi er styttist þeim aldur hvort eitthvað sé æðra sem okkur tilheyri en það kann að skýrast ef líf eru fleiri. ] [ Hún álpaðist hingað austur á land, eitthvað að vinna við slorið, en var óðara húkkuð í hjónaband og hefur þar aldur sinn borið. En komunni í þessa krummaskuð, sú kona hefur margbölvað, því þar rignir mikið og það veit Guð, að þokan nær oft heim í hlað. ] [ Óráðin viskunni velta, vekja mér ugg hvern dag, gömlu hundarnir gelta og gól þeirra kallað er lag. ] [ Hún álpaðist hingað austur á land, örlögin voru sem skrifuð á blað, Doddi henni flæddi á fjörunnar sand og flutti´ana heim í Skorrastað. ] [ þetta er það eina sem ég kann og veistu, það er vegna þín að sú er fegurst listin mín, því að bjarta brosið þitt er sálarathvarfið mitt. ] [ Marsbúinn græni er léttur í lund. Því hann langar á barnanna fund. Hann vill þú vitir að eggin séu góð. Úr varð að biðja um þetta ljóð. Marsbúinn sjálfur er kominn á kreik. krakka vill hitta og bregða á leik. Verunni langar að leika við þig. Svo líklega gefur hún þér stig. Súkkulaðið mjög sætt í raun er. Sjálfsagt finnst það einnig þér. Svo mömmu og pabba minntu á. Að marsbúaegg þig langar Góunni frá. ] [ Mild er sú þrá að þekkja, að vita að sjá, heyra, finna Orð á blaði, tár á kinn bros, hlátur, grátur ] [ Finnbogi frækni fór í dag. Til Akureyrar lá hans leið, landleiðin sú er greið. Á suðurlandi svo syrti að, með snjó og suddaveður, svoddan nokkuð skeður. Bjarni fljótt til ferða fer, í fyrramálið frá mér. ] [ Annar mánuður, dagur, klukkustund enn með þig í huga mér annað ár, annað líf og enn þú leynist hér. Næturnar andvaka og þjáð sí og æ með grátinn í kverkunum kvalin á hjarta og sál lifi þannig með verkjunum. Dagarnir líða mér hjá hamingjan í för með þeim svefngengill er ég að reyna að finna leiðina heim. Rek mig reglulega á leifar tilvistar þinnar skaddað hjarta mitt tifar án þátttöku minnar. Innra með mér græt þegar ég brosi hið ytra þótt beri höfuðið hátt má ávallt sjá líkamann titra. ] [ Testtest. ] [ Einn við dauða elda situr orðinn gamall, nautnalúinn. Boðar endi bleikur litur. Skikkja forðum skrauti búin skítugt orðið fataslitur, andinn sínum rökum rúinn. Bráðum hættir blóm að anga, bresta ljóðahörpustrengir. Hafin loks er lokaganga. Grátið með mér góðir drengir, glymjið klukkur, nóttin langa niðadimm að degi þrengir. Gleði skal á vegu varpa víst mun nú að fullu þögnuð ljóðamáls og leikjaharpa. © allur réttur áskilinn höfundi ] [ Einn á móti miljónum ég kom í þennan heim einn á móti miljörðum að ég lifi heiminn af einn á móti alheimi í endalausri röð bíður þess að verða tekinn út úr þeirri kvöð bað ég hvorki fallega né gargaði ég á að verða til og vaxa upp til þess aðeins að þrá það sem hugur girnist en aldrei mun hann fá væri þér til í að taka mig aftur án þess að sjá bakverkir og hugmyndir saman renna í eitt hrærigraut úr öllu því sem er og vera ber æði væri það næði sem að „ekkert“ gæti veitt en hvernig get ég varið því litla semað eftir er án þess þó að sjáist eftirá hvaða hug ég hef augun lokast endalaust og ekkert tekur við ] [ hún leit undan og labbaði út það lá við að ég ældi maginn fór í hnút ] [ Hvað segist? Vonandi ertu betri og asnarnir við góða heilsu. Hér á Íslandi er loksins komið sumar og allt í blóma. Sólin glennir sig dag eftir dag, en á næstunni er spáð mígandi rigningu hér á suðvesturhorninu. Brjálaði bakteríu -og -sveppafælni leigjandinn minn er að flytja út frá mér sem betur fer. Hún er búin að vera í þagnarbindindi í nokkra daga. Ætlaði að taka mig á taugum með svoleiðis andlegu ofbeldi eftir að ég harðneitaði því að hún fengi að sótthreinsa vatnskassann á klósettinu með því að hella einhverju andskotans þrumu sprengiefni ofan í hann. Hún ætlaði sér víst líka að kaupa sérstakan klósettbursta með uppbrettum hárum til þess að ná til óhreinindanna undir bríkinni efst í klósettskálinni, Hún var reyndar búin að skafa burt mestu drulluna þar með hárspennu sem hún hafði vafðið klósettpappir utan um. Ég upplýsti hana um það að ef hún ætlaði sér að ná varanlegum árangri með sótthreinsun á skolplögninni skyldi hún skella sér hið snarasta í Hulduheima og athuga hvort hún gæti ekki komist þar í kynni við dverg sem ætti kafarabúning. Hann gæti örugglega stungið sér ofan í klósettið fyrir hana og gerilsneytt allt holræsakerfið undir Reykjavíkurborg fyrir hana í einni bunu. Það dygði ekkert minna því klósettið væri ekkert annað hugvitsamlega útfært op á óralöngum göngum sem lægu beinustu leið ofan í skitukeytulagnir borgarinnar. Síðan benti ég henni vinsamlegast á það að þar næst gæti hún tekið að sér það þjóðþrifamál að hreinsa kúkogpiss sveppina úr skolplögnum á öllu landinu og þar á eftir í öllum heiminum . Hún gæti t.d. byrjað í Asíu en þar gerði fólk sér almennt að góðu stórhættuleg klósett sem væru barasta útdrullað gat á gólfinu. Annars hafði þessi framkvæmdagleði leigjandans þau öfugu áhrif á mig að ég fékk bullandi niðurgang og skeit ég klósettið út alls tólf sinnum í dag. Gerði ég það af skömm minni að sturta hvorki niður né þrífa klósettið eftir eina einustu af þessum útlosunum mínum. Sem sagt allt í góðum málum hjá mér og Tító og Gosi hinir sprækustu. Heyrumst vonandi sem fyrst. Kveðja Svava ] [ Yndis njóttu fagra frú, fljúg sem fiðruð dúfa. Fararheill þér færi nú, far vel ljúfan ljúfa. ] [ Þér ferst ekki að erta mig þursatetur, það er ekki svo beysin ættin þín. Mér sýnist þú varla setjandi á vetur, sóðaskap þinn tel ég ekkert grín. Frakkur þú sendir út falskar nótur, færð eina til baka með kveðju frá mér. Til minna ráða taktu nú skjótur: Troddu henni þangað sem enginn sér. Es Þú er visku vesælt skinn, og virkilega bilaður auminginn! ] [ Ég elska þig Ég elska þig Ég elska þig Ég elska Þig Ég Þig Elska. Viltu Elska Mig Elskar Þú mig Mígðu Á Mig Mígur þú Á mig Má ég míga á þig Mígðu á Mig. Mígum Á Mig Mígum á þig Mígum á hvort Annað. Engin hefur Migið Á mig Eins og þú Ég hef aldrei migið Á neinn eins og þig Eða migið Eins og Nú. Núna Míg Ég fyrir Þig Mígðu fyrir mig. Og ég skal míga Á þig Ég elska Að míga Á Þig. Mígðu á mig Og elskaðu mig Meðan þú mígur. ] [ Til er gjöf falleg að fornu og nýju er fyllir andann mikilli hlýju. Henni er gefin mörgum mönnum margir þrá hana í dagsins önnum. Hún umvefur allt á fagnaðar fundi faðmar okkur í saknaðar lundi. Þið þekkið öll hennar þagnareiða og þrek og hún vill engan meiða. Er ofin í daga og drauma manns en deyr ef sér ekki til lands. Og hefur þann sið frá kyni til kyns að klæðast litum himinsins. Þaðan er hún komin að sögnum sagna við skynjum það þó allt brenni til agna. Sverð hennar og skjöldur er gjöfin er siglir með langt yfir höfin. ] [ Ungur og óreyndur andans maður. Vorið er vatnið tært. Syngja fuglar fagurt um upphaf. Vorið er vonarbirta. Bljúg er bænin, börnin leika. Sumar er sólar ævintýr. Ástir og yndi, eilífð er virðist. Sumar er sálar sefjun. Litir dofna, deyja blómin. Haustið er svartsýnis spá. Dvínar gleði, gleymist sumar. Haustið er gráhært grey. Harðindi hefjast að hausti loknu. Vetur er vonleysið. Seint mun sólin sindra á ný. Vetur er hörgull og harmur. ] [ Í Tregadal er tréið mitt þar tindrar sól á dögg. Og hér var gamla hliðið þitt ég heyri smíðahögg. Í felum eru skúr og skin og seiðar allsstaðar. Einn sunnudagur í sumarvin ég sá þau faðmast þar. Lyng og ber þar lifðu um hríð en löngu horfið frá. Hér er lítið um liðna tíð og lækjarsprænan smá. Brekkuvíðir og engin öll una enn við sitt. Ég heyri í anda hlátrasköll og hvíslað nafnið mitt. ] [ Hlauptu út Hlauptu inn. Engann fýlustút fákur minn. Ég verð. Hlauptu hratt og réttan veg. Rosa glatt þetta verður skemmtilegt, Þú ferð ] [ Ég sem um gleði og sorg, bæi og borg, stræti og torg. Hunda og kisur, lunda og pysjur. Lönd og þjóðir, eld og glóðir. Ég sem líka um mig og kannski líka um þig. Takk fyrir mig ] [ Þú ert sem stjarna á himni þegar ég horfi á þig, sé ég þetta yndislega stríðnisblik í augunum. Gæti gleymt mér í bjarmanum sem geyslar frá þér. Þú lýsir upp allt það dimma sem til er í lífi mínu. Með hjarta þínu gerir þú mig svo hamingjusama, að mér finnst ég vera eins og norðurljós, leikandi um þig, með allri minni litadýrð. Bara svífandi í kringum þig, björt, hamingjusöm og stíg varla niður fæti lengur. 25.04.09 ] [ Áður en ég vissi að þú værir til.. trúði ég ekki á.. hina sönnu ást hinn eina sanna fullkomna eiginmann fullkomið líf hamingjusaman endir Þegar þú komst inn í líf mitt.. breyttist allt.. augun ljómuðu brosið læddist hringinn, allan daginn ástin, ekki til orð sem geta lýst henni ég, blómstraði sem aldrei fyrr hamingjusamari, en ég nokkurntíman hef upplifað. Að eiga þig að.. er eins og draumur.. get bara ekki vaknað, klípi mig á hverjum morgni bara til að vera viss horfi bara á þig, trúi ekki mínum eigin augum þú lætur mér líða, eins og ég sé ein í heiminum með þér við smellum saman, hönd í hönd, koss við koss, ást við ást hamingjusamt líf... til we die þú varst búin til, bara fyrir mig og ég.. bara fyrir þig. ég og þú erum eitt.. hugsum sem eitt tölum sem eitt njótum sem eitt elskumst sem eitt saman, ætíð sem eitt 25.04.09 ] [ Ljúfar varir þínar renna niður líkama minn finn það með kítli, hve mjúkar þær eru. Ljúfur koss læðist með, mjúkur og blautur finn tungu leika, stríða, um líkamann og brjóstin beru. Ljúf snerting, fingurgómarnir renna eftir líkamanum finn hvernig þeir kítla mig, ég skelf, titra. Ljúf tilfinning, berir líkamar snertast finn spennuna og gæsahúðina á líkamanum ytra. Ljúfur og hlýr andadráttur, læðist eftir líkama mínum finn að hann verður dýpri og eykst smá. Ljúfur og stífur vinur, læðist að, þrýstist inn finn hana verða blauta og mjúka, vá. Ljúf kvöldstund, rökkur og rigning úti finn regndropana lenda líkama mínum. Ljúfur draumur, vakna nú, ohh ekki aftur finn sorgina, söknuðinn, eftir líkama þínum. 25.04.09 ] [ Lokaðu augunum, findu mig. Findu lyktina, snertinguna, kossinn, þegar tungan mín leikur léttilega við þig. Heyrðu andardráttinn minn, þungan og ákveðinn, findu hann, hvernig hann lendir á hálsi þínum. Heyrðu mig missa tökin, þar sem öndunin verður óreglulegari og hraðari. Findu fiðringinn í líkamanum, njóttu hans, leyfðu þér að finna löngunina, njóttu hennar. Farðu í gegnum líkamann, allar langanir, tilfinningar, leyfðu þér að sleppa huganum. Þrái þig nú meir en allt, tilfinningin hleypur um líkamann, eins og fullnæing sem er alveg að koma. Kossinn, tungan, andadrátturinn, hugurinn allt hleypur saman í eitt á endanum, fullkomnun. 25.04.09 ] [ Ligg hér og hugsa um þig, hvernig þú kyssir, snertir og horfir á mig. Líf mitt svo einmannalegt án þín, vildi óska að þú værir komin til mín. Koss, knús, kúr er það eina sem er dreymt, vantar þig til að snerta, strjúka, kyssa, svo ég geti gleymt. Söknuður og sorg svo sár, á hverju kvöldi renna þessi tár. Veit ei hvað ég myndi gera, ef eitthvað útaf myndi bera. Elska þig svo óendanlega mikið, ástin mín, vill aldrei þurfa að hugsa til að lifa án þín. Hvað bíður? ég ekki veit, ætli það verði ekki sveitasæla og bumban feit. Draumar og óskir, þú uppfyllir mér nú bíður það mín, að rætast þér. Lofa að elska þig, virða og treysta, eins lengi og þú munt mér ei bresta. Dekur, knús og kossar, kinnkí dót og berir bossar. Það bíður þín bros um tíð og tíma, nóg er komið af msn og þessum síma. 25.05.09 ] [ Skáldin ekki skirrast við, að skarta sínu besta. Valkyrja sá ég valið lið, sem víkinga og hesta. ] [ Viðfjarðarættin af öðrum ber, en orð til vega renna, að hjá henni allt sem aflaga fer, öðrum sé að kenna. ] [ Garður fylltur blóma lífsins get valið hvað sem ég vil hef aldrei tekið það blóm sem ég vildi bara horfði á blómið, mitt yndi með vindi það fylgdi og fór aðra átt vonandi sátt því þá er ég glaður ] [ Gakk þú sandinn þú veist að mér sandurinn hrynur á undan vonsvikinn andinn trúði mér ég reiðubúinn fann mig skuldan ] [ Hljópst að mér af öllum þeim þrettán vissi þá að þú yrðir vinur minn tekst þá að segja mömmu ég vil hann þú brostir svo vel að hún varð vinur þinn óþekkur kjáni allan heiminn þú áttir engin gat tekið það burt eldri með ári, grá urðu hárin en samt áttir þú alltaf eitthvað gull veikindi hrjáði en varst fæddur úr stáli og lyftir mér alltaf upp fá voru árin, ó já það voru árin árin sem ég óx og dafnaði unnt sveitin var staðurinn sem þú ánægður sprettir hljópst svo mikið að þú gast ekki meir ánægður þar en þreyttur á eftir elsku Skuggi minn velkominn heim ] [ Gullið mitt eina þú ert mér kær gulli má gleyma þegar þú ert nær gulli skal dreifa bara fyrir þig því þú horfir á gullið en ekki mig ] [ Það voru þrjár dyr fyrir framan mig ein var læst og ég finn ekki lykilinn önnur var lokuð en ekki læst sú þriðja var opin en ég þorði ekki inn hvaða hurð vel ég? ] [ Góð verk gerast hægt en ekki mátt þú gleyma að vilji mannsins virkar best þegar honum er að dreyma ] [ Bjóddu mér upp í dans litla dama mig þykir gaman að dansa þori ekki að spyrja neina aðra þannig viltu spyrja mig ] [ Þykku skýin vernda mig frá sólinni en skýin láta mig verða votan fer stundum burt frá þér en það er til þess að þerra mig því sólin er heit að ofan ] [ Ekki fela allt á bakvið sægrænan sjóinn því fyrr en varir verð ég ekki sá sami læt vatnið fylla hálf óreimaðan skóinn allt fyrir sjóinn en það er bara vani vandamál koma og vandamál fara þýðir ekkert að fela það fyrir sig geri það sama en það er bara af vana ég skal segja þér allt ef þú segir allt um þig ] [ Rólegt og tilbúið í allt sem kemur fyrir hendi í staðinn færðu bros sem segir annað spilar leikinn með hugsanir um frelsi falin í myrkri og þú veist að þú hefur tapað ] [ Fyrir framan mig er ljósmynd af manni sem brosir tvíræðu brosi í átt til mín. Annars vegar segir ásjóna hans mér það að þarna fer maður sem er með allt sitt á hreinu En ef betur er að gáð sé ég lítinn óöruggan skjálfandi dreng sem á ekkert erindi útí lífið. Við nánari athugun sé ég að þessi maður er einkennilega líkur mér. Svo átta ég mig á því að þetta er gömul mynd af sjálfum mér. ] [ Einhvern til að elska einhvern til að þrá. Einhvern til að deila með öllu sem ég á. Einhvern til að syrgja og sorgir mínar sefa. Eihvern til að segja allt og fyrirgefa. ] [ Eina nótt vaknaði ég upp af vondum draumi við það að mín eigin sál sagðist vera búin að fá nóg af þessu svínaríi yfirgaf líkama minn og stefndi útí bláinn í örvæntingu minni bað ég hana í guðs bænum um að yfirgefa mig ekki á slíkri stund þar sem hún væri eini eftirlifandi vitnisburður alls sem ég áður var með tárvotum augum horfði hún á mig um stund engjast um í grátlegum einmannaleik þess sem engan á að með ásökunarsvip elskhuga sem svikinn er í tryggðum gekk hún hægum skrefum í átt til mín faðmaði mig ástríðufullt að brjósti sér strauk blítt um vangann og hvíslaði lágt í eyra mér kjáninn þinn hvernig á ég mögulega að geta yfirgefið þig við sem eigum aðeins hvort annað og ég sem var sköpuð til þess eins að elska þig ] [ Mig tekur það sárt þú særðir mig djúpt Nú er allt klárt þetta líf er sjúkt Ég veit ei hvað skal gera ég þrái þig svo heitt Ég bið þig láttu mig vera Svo ég hverfi ei fyrir vopnið beitt Ég er þér mjög sár höfnunin alltaf verst Ég veit alveg upp á hár að einn daginn þú þetta lest... ] [ Í listheimum leika menn hagir, lofa þá ríkir og snauðir, en þó verða fáir frægir, fyrr en þeir eru dauðir. ] [ Nú Sigur skal láta okkur sæði í té, það sýnist mér örlögum storka, þó bresti hann vilja og brokkgengur sé, það bætt gæti hryssan hún Orka. ] [ Hvaðan kemur kjarkurinn er þoku lífsins þéttir. Hvaðan læðist ljósið inn sem öllum skugga léttir. ] [ Ég veit að öll mín skref eru skráð sum eru vandlega falin. Fá eru djúp en fjalla samt máð um ferð sem aldrei var farin. Ég man þig enn í vori og vin vökudraum á æsku árum. En ókomnir dagar með skúr og skin sigldu burt á úfnum bárum. Andar stigu dans í hárri höll hulin en blasti við öllum. Mig dreymndi blóð og bæna köll úr bergi lengst upp á fjöllum. Þau blekkja mig enn bergmanna mál í myrkri lærði þau sjálfur. Því innst á ég tvískipt sál sólguð og maðurinn hálfur. ] [ Every time I close my eyes, I see U Every time I think of U, I think I am dreaming Every time I talk to U, I think U are a voice in my head Every time I see U, I fell more and more in love Every time I wake up beside U, I smile like crasy Every time I love my life, it´s because i´m thinking of U Every time U look at me, I feel like U only se me Every time U smile at me, U give me reason live Every time U tuch me, my heart pumps like crasy Every time U hold my hand, I start to blush Every time U kiss me, my feet starts to shake Every time U make love to me, U forfill my wildest dreams Every time we are together, I fell like the happiest woman on earth Every time we are together, It fells like perfection Every time we are together, we are all alone in this world Every time we are together, nothing else matters Every time we are together, we can defeat everything Every time we are together, we become one 30.05.09 ] [ stundum flýgur í gegnum hugann að ég sé geimvera sem sé stranda glópur á jörðinni vegna bilunar eða skorts á varahlut og að undir sólinni sé ég sá einni sem til er af þessari tegund því finn ég til örsmárra tengingar við aðrar verur eða skyldleika við þá sem ég deili tilveru minni með hver er þá eigin lega annars ég vera frá öðrum hnetti sem vantar lítinn varahlut t.d. skringilega lagaða skúfu ] [ Þú ert sá sem kenndir mér , kenndir mér að meta lífið. Þú ert sá sem sýnir mér að gleðin er alls staðar. Þú ert sá sem ég elska skilyrðalaust. Elsku barnið mitt fyrir þig geri ég allt , Þér vill ég kenna allt , Þig ég elska þúsundfallt . Ég hugsa stundum hvort ég sé að gera allt rétt , Því ekki er alltaf allt létt , En brosið þitt sýnir mér að allt verður í lagi , Því þótt ég sé ekki fullkominn þá elskaru mig, En ég skal lofa þér því að ég mun alltaf gera mitt besta . Elska þig þín mamma . ] [ Ég reyni að snúa þér í hringi ef ég get, ef ég get Ég reyni að snúa þér í hringi ef ég get, ef ég get Ég reyni að snúa þér í hringi ef ég get, ef ég get Ég reyni að snúa þér, en þú snýst ekki í hringi AAA! Viltu verða að vana AAA! Viltu verða mín AAA! Finnst þér þetta gaman? AAA! Viltu snúa þér í hring! ] [ Ljóshærður og lokkaprúður leiftra brúnaljósin blá. Brosið hans og barnahjalið besta gjöfin Guði frá ] [ - Í upphafi skyldi endinn skoða - ástandið er ekki gæfulegt hér: Lán eru í óskilum, líf margra í voða, landsflóttinn einn til að bjarga sér. Skarfar á þingi skelfa mig enn, mér skynsemin segir þá arga og að þeir séu bara þurfamenn, í þykistuleik við að bjarga. Hægri stjórn var borin brott, bandalag spilltrar klíku. Nú vinstri stjórnin færir flott, fé manna til þeirra ríku. Steingrímur æsist í yfirklór og alþýðu blekkir sem túður. Skara vill ólmur Icesaveflór, þó oft segði fyrr vera klúður. Úti á torgunum mótmæla menn, meta okkar sjálfstæði stútað. Á Íslandi fáruðust enginn í denn, þó einhverjum strump væri mútað. Þið blindu í blekkingaheimi: Bretar taka alltaf í görn, hættið ykkar helvítis breimi og haldiði þjóðinni vörn. ] [ Oft í leikjum að er hert til ærsla af hverju tagi og þá er ekki einskis vert að engum verði af bagi. ] [ Skrapp úr vasa skeiniblað, skrifaði þetta niður. Gott er að aka heill í hlað og henda ekkert miður. ] [ Stundum er ég þreyttur og þjáður og þrekið búið. Eins og starf mitt var áður erfitt og snúið. En ég finn mér athvarf í smáu eins og heima forðum. Glaptist aldrei af höllunum háu og hélt mér að orðum. Gengið hef á grýttum brautum glaðst yfir engu. För mína duldi förunautum er framhjá gengu. Ég drógst að þeim sem dreyma en dóu ungir. En draumunum ég vil gleyma eru svo þungir. ] [ Illu verður að enda, djöfulinn í iðrar að henda, þá hugmyndir mér hættir að senda guð grípt hönd mína, hjálp mér að lenda. ] [ Konungur vetrar er komin á stjá kuldinn hann nístir firn oní tá drottningar spinna sinn snjóhvíta vef ég held ég sé komin með kvef. ] [ Icesave-skuldum íslenskir óvíst valda. Búast má við byltingu búsáhalda. Hvort mun þjóð á Fróni frjáls? Í frera hrærist vagga. Kornabarni hýru' um háls hengjum skuldabagga. ] [ Í skjóli skugga seint um nætur draugar fara á fætur hljótt hvísl í eyra dimmir dagar með fastar rætur lokar augum góða nótt, litla snót draumar draga hverja rós sem sefur rótt ] [ Sjávarborg á Íslandi í miðju Atlantshafi fjarri öðrum löndum Þar stendur hún ein móðir þeirra barna sem hún hafinu gaf Ásar heimsins skera iðandi torg og stræti og fólkið skín Þar er gamall garður hvíldarstaður þeirra sem að moldu verða Þangað fór ég aftur þreyttur og lúin að þreyta hinstu skref Þaðan kom ég aftur engill á hvítu skýi í vængjuðum her ] [ Fimm er furðutala prím Fáum hjá hún vekur brím Hinsvegar er talan sex sú sem oftast bara vex þó einkum ef hún kemst á Stím ] [ Svekktir þeir reyndu að spyrna við svalli og ósóma stirna Nú glóir ei gullið og þagnað er bullið er opnast á gátt sérhver Glyrna ] [ Fanginn feikna snauður Fannst litill vera sinn auður Þott væri staurblankur og ferlega krankur Hann var ekki alveg dauður. ] [ Dónarnir lét‘ allt danka Dauðir nú við sér ranka Þó allt sé í klessu, þú á þinni sessu situr sem fastast á Seðlahrúgu ] [ Úfið hár röltir heim frá þeim sálin sár nokkur tár eftir þetta andskotans geim Kuldinn napur hugurinn dapur haltra heim. Man ekki, veit ekki, skil ekki varla þekki þessa veröld þar sem gleðin var við völd en bara um stund létt í lund þangað til hún kláraðist. Táraðist Flaskan búin þreytt og lúin sofnar veruleikinn rofnar Veurleikinn bankar við sér rankar. Gleðin farin höndin marin hjartað kramið Djöfulsins skjálftinn kemur hamrar lemur af öllu afli nýr kafli mun hefjast... ...á morgun. ] [ Guð sendi mér engil í ljósgráum bol með endalaust þol, nartandi í munnvikið gaf mér augnablikið sem ég leitaðist eftir. Guð sendi mér engil með guðdómlega rödd þar sem ég var stödd á slæmum stað í lífinu og bað um það að láta bjarga mér. Var stödd í hvirfilbyl hugsanna komst ekki út niðurlút kom hann við mig, snerti hjarta mitt, vakti mig úr vondum draumi þar sem ég syndgaði í laumi ein óhrein. Hitti botninn þá kom hann, drottinn, með engil í eftirdragi á rauðum sportbíl. Leit í augun, silfurblá og þá ég sá leyndarmálin sem sálin þráði. Mér yfirsást að þetta var ást í dularfullum búningi á fullum snúningi í veröld þar sem stjórnleysi var við völd. Ég ætlaði að flýja en hún var komin, þessi nýja. Ætlaði að hætta við af ótta leggja á flótta út úr þessum heimi þar sem raddir voru á sveimi og sögðu henni að drullast burt. Guð sendi mér engil í manns(a) líki sem bjó í kærleiksríki kenndi mér á þetta líf og nú ég svíf um eins og ljósbleikur fugl laus við allt rugl í nýjum heimi. Á ekki orð sem lýsa þeirri hamingju sem er að rísa í hjarta mér. var komin á bólakaf varla svaf fyrir brestum náði ekki festu fannst ég vera að falla heyrði sjálfan mig kalla er vegurinn rangur? Tilgangur? Guð sendi mér engil með sjúklegan húmor, dugnað og þor sem bað mig vinsamlegast um að taka hausinn úr rassgatinu á sjálfum mér. ] [ Hlusta, kæri Kristur, þú, komdu nið'r af himnum. Kenndu mér að byggja brú, báðir þörfnumst hjálpar nú. Ég þarf bæði steypu' og stein, styddu mig ó, Kristur. Höfum báðir sömu bein, blóð, og allskyns andleg mein. Glaður ég þér gæfi allt, góði, ljúfi Kristur. Gæti jafnvel mallað malt, magurt, fagurt, nístingskalt. Gjafir mínar þiggur þú, þögli, feimni Kristur. Skaltu svara skýrt mér nú, skipti annars fljótt um trú. Þig má dauð' og djöfull fá, Drottinn vesalinga. Segir margt og miklu frá meira' en eyru trúað fá. Heldur vil ég heita á, heiðna guði ljúfa. Vil ég trúa Völuspá? Veistu, held ég segi já. ] [ Heyrist fjúka háð og spott, en hennar taum vil draga. Þessi hryssa færi flott, fengist hún í maga. ] [ Á meðan tréin þjóta framhjá og ókunnugir á mig stara hef ég skroppið veruleikanum frá og enginn veit hvert ég er að fara Á meðan lestin þeysist áfram og ég fjarlægist alla byggð finn ég að ég er frjáls og hef mín eigin áform blár og tær himinn, í hjartanu kyrrð ] [ Sú staðreynd að risaeðlur ríktu hér á jörðu fyrir 65 milljónum ára er eitt út af fyrir sig næg sönnun þess að Guð sé ekki til og hafi þess vegna ekki getað skapað þær enda er hvergi minnst á sköpun Guðs á risaeðlum í Biblíunni. Og jafnvel þó við trúum því að Drottinn hafi ekki getað skapað risaeðlurnar sökum þess að hann sjálfur var ekki kominn fram á sjónarsviðið þegar þær voru uppi, þá er það þó að minnsta kosti ljóst samkvæmt því að sé Guð til að þá lýgur hann alla vega þegar hann segir í Bibíunni að hann hafi alltaf verið til, þar sem hann var ekki orðinn til þegar risaeðlurnar urðu til. Með þessari skreytni sinni brýtur Almættið því eitt af sínum grundvallar boðorðum sem hljóðar svo; 'Þú skalt ekki ljúga' En hver skapaði þá risaeðlurnar? Augljóslega einhver annar guð! Þannig að Drottinn allsherjar hefur þá ýkt ansi skrautlega líka þegar hann hélt því fram að hann einn væri Guð og að við skyldum ekki aðra guði hafa. Þess vegna segi ég alltaf hreint út við Guð, þegar hann er að reyna að telja mér trú um að hann sé til að hann sé einfaldlega að ljúga því eins og ævinlega. ] [ Þú færð að finna fyrir fölsku fólki sem að platar þig á stað á næsta stað engin þar til að finna mann látbragðsleikur grípur það og lokkar andlit þitt auga mannsins gerir margt við þitt en hvað með mitt? andlit merkir marga fríða muni mat sem gerir þig að vondum hluti en ekkert breytist bros sem skín en það gleymist, bros sem skín en það eyðist en fáir tóku eftir því, fátt sem lítið sem maður getur gert notað sama gamla brosið til að minnka eftirtekt en engin skilur treystu mér vinur, vondir dagar hverfa fljótt. ] [ Geysist um með glæsisenum, ganglistin er stórkostleg, Boði mörgum góðum genum, gæti komið fram um veg. ] [ Það er gott að vera góður inn við beinið, gott er alltaf gott og stendur fyrir sínu. En enginn geðjast öllum það er nú meinið, það einum hentar, öðrum veldur pínu. ] [ Þú ert mín frænka, þú ert mitt ljós Í þessum heimi Þú ert mín rós. Ef ég lýt til baka Við rifumst oft En alltaf var það Einungis af kærleiksást. Allt geri ég fyrir þig, Ég myndi gefa þér líf mitt Ég myndi gefa þér allt Sama hvað það kostar Þótt það myndi kosta mig allt. Því þú ert mín frænka, Þú ert mitt ljós Í þessum heimi Þú ert mín rós. ] [ ég er vampíra ég er vampíra ég borða ekki menn ég drekk blóðið og líkin ég brenn ég er vampíra ég þoli ekki ljósið ég lifi án ljóss og sef við fjósið ég er vampíra ég eignast ekki vini ég á enga að og á ég samt tvo syni ég er vampíra ég dey ekki ég lifi alltaf nei! þarna ég þig blekki ég er bara manneskja. ] [ Að nota í ræktun það sem ekki er reitt, ráð okkar þykir hið besta. Við teljum það ganga allt út á eitt, svo eignist menn frábæra hesta. ] [ Ég er að reyna að yrka og eitthvað að þvaðra, en öll mín bestu ljóð eru ort eftir aðra. ] [ Hefur þrautir af hvoru tveggu, hausverkjum og gigt, erfitt milli steins og sleggu, að standa sína pligt. ] [ Sitthvað til afreka laðar og lokkar, við ljósmóðurnámið ertu nú kvitt. Til hamingju kæra Halldóra okkar, heilladísir leggi þér allt besta sitt. ] [ Þögull klakann þylur, þræðir kalda braut, Mývatnsísa mylur, mikið hestaskraut, fálmar dökkum fótum, flaxar prúðum lokki, skimar augum skjótum skörulegur Þokki. ] [ Í ljóssporum daganna liggja vængstýfður vonir á húmbláum himni vikna hæruský hjúpuð hálfrökkri nætur hvíslar sorgin ósögðum orðum. ] [ Blóm opnast í fyllingu tímans get ekki látið það flýta sér en kann að vökva og færa í sólargeisla kann að bíða jafnvel biðja fyrir brosi yfir blómkrónum ] [ Nú ertu ræfillinn að grafa þína gröf, að ganga á fátæka og raskar þeirra högum. Ég spái að verði ekki á því löng töf, að einnig komi að þínum skuldadögum. ] [ Eitthvað af undarlegum sannleika þarf ég hvenær sem er eitthvað af frelsi fákænu hugrekki til að verða það sem ég get orðið jafnvel særður af þeim sem dæma dag og nótt inn í Guðlausa tilveru Guð hjálpaðu mér til að fyrirgefa hláturinn og fótspor þeirra á bakinu mínu þá loks get ég farið þangað þar sem ríkið gullna ríkir og aðrir þekkja ekki en ég bið um hugrekki til að falla á hnén til að móttaka þennan undarlega sannleika með förin á bakinu í lófanum á síðunni ] [ Menn vilja oft gera margt innan tíðar, marka sér plönin og telja það nægt. En hver getur vitað hvað verður síðar og hvort innan tíðar verði það hægt. Oft geysa stormar og óblíðar hríðar, örlögin reynst geta duttlungum háð. Já, hver getur vitað hvað komi síðar, hvenær og best fáist takmarki náð? ] [ Augun mætast eitt augnablik óvissan nagar inn að beini drungaleg þögn ríkir í sál minni Kraftlausar hendur mínar lafa með hliðunum ég vafra máttlaus um í leit að ljósi sem gefur mér styrk ég elska ] [ Þekkið þið skáldið á Skorrastað þann skrautlega töffkafaler? Á fjöllunum konur hann fer með í bað og frjálslega ærslast þau ber. Hann ferðast á hestum, er sagnasjór, söngur er hvar sem hann fer. Er leiðsögumaður með fegustu fljóð og fær þær í leiki með sér. Og hann er svo kelinn og kátur í lund, að konunum verður stutt leið. Af fiðringi einum þær festa vart blund, því friðlausar þrá meiri í reið. ] [ Ofurkraftar mínir eru engir ekki til. Ég sé ekki það sem er þarna. Ég get ekki hlaupið maraþon. Ég tala ekki venjulega. Ég hugsa á allt annan hátt. Ég er ekki sigurvegari. Samkvæmt skilningi, sem á sér stað, þá er ég ekki venjulegur. Það þarf ofurkrafta til þess að vera venjulegur. ] [ Það var mér forðum mikið mál að mikla krafta mína. Er ég hafði ungdómssál og ekkert til að sýna. En það var svo einn sunnudag að sólin kyssti sæinn. Og allt varð þá með öðrum brag því ástin kom í bæinn. Hún sá mig áður og stríddi mér um svalar vetrar nætur. Kvað það best ég hlýddi sér hún ætti í mér rætur. Og húsin brostu breytt til mín og buðu góðan daginn. Og sögðu góð er gæfan þín gangi þér allt í haginn. Á milli fjalla mátti sjá að máninn skein þar glaður. Og mamma sagði þetta þá þú ert að verða maður. ] [ Eyða, eyða! Eyddu meira! Ekki vera kjarklaus bleyða. Jeppa skalt svo stoltur keyra með vasafylli af engu. Kaupa, kaupa! Kaupa og hlaupa! Keyptu segðir lygalaupa. Vín svo skalt þú reifur staupa með hjartafylli af græðgi. Flýja, flýja landstjórn nýja. Fólk vill nú að svikum ýja. Landann skalt þú þreyta og lýja með samviskufylli af (s)aur. ] [ Ást verður mörgum örlagavaldur er ástin blómgvast fer lífið á stjá. Það er gaman að komast á giftingaraldur, og gott er ljúka verkinu frá. Lífið er fagurt er langanir rætast og lukkast að uppfylla vonir og þrár. Megi hamingja ykkar og hugsjónir mætast og heill sé þér mamma með 60 ár. Í fjarlægð má ég nú frá ykkur dúsa en fagna eigi að síður móðir mín kær. Feginn ég vildi þig kyssa og knúsa því kærleikur þinn er í hjarta mér nær. ] [ Bros flýtur eins og kringlótt blaðra bundin við grænan þráð úr jörð og horfir upp til himins þar sem móðir sól þín geislar ] [ Allir sem gefa þeir þurfa að kunna að þyggja, það er bara lögmálið og verður ekki breytt. Því megið þið vinir að mínum orðum hyggja, að margt er í lífi sem annars verður þreytt. ] [ Þú ert harla lítill en heimurinn er stór, heimurinn sem allur er í molum því græðginnar eldur um eyðandi fór og eilífðarhiti hiti er þar í kolum. Og ef að þú brotnar undan álagi því sem á þínar herðar er sett þá ætla ég að sárin þín ei grói á ný og að auðvaldsklíkan sé mett. Ég steytti á því skeri það stemmdi lífi í fár og hef lúrt fyrir lengi og liðið um ár. ] [ Brástjörnur blíðar man ég blika mót sjónum mínum, bros geisla og glitrandi perlur, al-gleymi af vörum þínum, nálægð sem neistaði elding er nam ég frá verund þinni, nafn indælt sem ómfagur söngur er yljar nú sálu minni. ] [ Nótt sem dag vaki ég og hlusta á þetta lag, um fagurbláu augun þín sem glitra eins og haf. Samt hugsa ég og dreymi um hvort ég lifi þann dag, að sjá þig falla fyrir mér, við hið hinsta sólarlag. ] [ Yrðu tár mín að regndropum í sólskini eða frækornum appelsínu myndi ég láta þau falla einu sinni enn ] [ hef það samkvæmt meðaltali helvíti gott mitt meðal tal hefur hér með talað ] [ Ég man þegar ég fann miðjuna miðjan var í mér en ekki í hinu ytra Ég man eftir þessu kvöldi á gangi í Kristaníu eftir fyrstu sýruna Síðan eru liðin mörg ár og fortíðin eltir mig eins og opið sár Þetta sagði hann tvisvar fékk sér eina jónu og hvarf í algleymið Í þriðja og síðasta sinn dróg ég upp byssuna og skaut hann í miðjuna ] [ Margur sig áttar ef mikið er talað og málið um fánýta hlutina snýst að því meira sem er af þvælunni malað er þögnin dýrðlegri en orð fá lýst. ] [ Ef þú blótar blessaður minn berast að þér púkar og skánar ei við skætinginn þá Skrattinn á þig kúkar. ] [ Og nóttin kom til mín í stjarnbjörtum draumi eins og ljósvængjaður engill minna framliðnu daga. Sæla nótt engill í alheimsgeimi, breiddu verndarvæng yfir vinu þína. ] [ Stoppuðu hjá mér sundarglaðir, Stip og Sander heita þeir. Spiluðum Manna handahraðir, Holland tapaði þrír gegn tveir. ] [ Sjaldan er ég sár og hryggur því sálarbót ég fæ, flesta daga er leið mín liggur ljóst á næsta bæ. Húsbóndinn er hagyrðingur og hlustar á mín ljóð, húsmóðirin með fima fingur, fræga á listaslóð. Þar ríkir gleði og góður andi, gasprað og hlegið að, ferðamenn sem á færibandi, flykkjast að Skorrastað. ] [ Valið gerir lífið litt og löngunina metta. Þegar einum hentar hitt, hentar öðrum þetta. ] [ Góðu vil ég leggja lið, ljóst því sleppi ei taki. Ég hef komið víða við í vísna og orðaskaki. ] [ Fangaðu ekki fýlupoka, farðu að ráðum vinur minn. Aldrei máttu augum loka, eltist þú við stelpuskinn. Þótt örli lítt á ástarþrá oft fást gátur ráðnar. Þá hollt er víni að hella í tá og hjartað óðar bráðnar. Í gamla speki vitna vil, viskan kann leikinn móta: ,,Ástin byrjar ofan til og endar á milli fóta”. ] [ Glott sem felur alla liti mannsins horfðu á manninn sem horfir beint í andlit dansins ekki þú sem skapar mig í fínum dansi andlits því það ert þú sem skapar andlit mannsins en fátt er andlit talið fögur manns mynd ] [ Skorti konu kærleiksást og karli er ei um sel. Þá Coniac ef kinni að fást sér komið gæti vel. ] [ Undan karli ekkert gengur oft þó hamri títt. Ef hitti naglann á höfuðið harla þætti nýtt. Ekki er nóg að halda á hamri og högg fari tvist og bast. Ég vil hitta naglann á höfuðið og hamra títt og fast. Að heita smiður heldur góður hefur þótt mikils vert. En að hitta naglann á höfuðið er hægara sagt en gert. ] [ Þú færir ljós í marga Þú færir ást í marga Þú ert til staðir fyrir alla Þú ert sú sem ert til staðar þegar þarf á þér að halda Þú ert hjarta mitt Þú ert ljós mitt Þú ert sú sem ég þarf á að halda ] [ Lífið er eitt og því er ekki breytt. Lífið er lítið og mjög skrítið. Lífið er okkar andi og líka stærsti vandi. Lífið er gott í ár en við fellum mörg tár. Lífið er það sem við viljum lifa og klukkan mun alltaf tifa. Í þessu lífi er aðeins eitt tækifæri og njótum þess til hins fyllsta. ] [ Hún er sú sem ég vill hafa alla ævi. Hún styður mig í gegnum súrt og sætt. Hún er sú sem að ég get sagt allt og treyst fyrir. Hún er sú sem að ég vill geta haft hjá mér alla ævi. Hún er sú sem að ég vill geta talað við þegar ég þarf þess vel. Hún talar um hvað sem er til að gleðja mig. Hún er sú sem að ég get treyst á fyrir mínu eigin lífi. ] [ Þegar lífið er rétt þá fer allt á hvolf. Þegar allt fer á réttan veg þá verður hann sá rangi. Þegar við viljum einhvað gott þá verður það slæmt. Þegar við viljum fara einhvert spennandi þá er það eyðilagt. Þegar við viljum frelsi þá erum við fangelsuð. Þegar við viljum vera fangelsuð þá fáum við frelsi. Þegar frelsið fer að vera gott þá er það eyðilagt. Þegar okkar velgengni er góð þá er hún eyðilögð. ] [ Hann styður mig alltaf varðandi allt. Hann hefur alltaf verið mér til staðar. Hann er sá sem að ég get alltaf leitað til í vandræðum. Hann er sá sem að getur alltaf verið til staðar þegar ég þarf hann. Hann er mér til staðar þegar mig langar á honum að halda. Hann vill vera mér til staðar þegar ég þarf þess. Hann er sá sem að ég mun alltaf muna eftir. Hann er sá sem að ekki er hægt að gleyma. Hann er sá sem er mjög traustur vinur. ] [ Þau eru mér alltaf til staðar. Þau eru alltaf til að gera mig glaðan. Þau eru þau sem að hafa alið mig upp fá barnæsku. Þau eru þau sem að hafa verið mér í gegnum súrt og sætt. Þau eru þau sem að vilja mig hjá sér alltaf. Þau eru sú sem að ég vill hafa alltaf. Þau eru þau bestu sem að ég á að. Þau eru foreldrar mínir kæru. ] [ Vinátta er dýrmæt Vinátta er aldrei ofmetin Fyrir vináttuna okkar er ég þakklát Elsku vinur minn Fyrir þig geri ég margt Næstum því allt Ef þig vantar hjálp Þá er ég til staðar Aldrei gleyma að vera þakklát Fyrir vini sem eru til staðar Og aldrei gleyma vinum þínum Ræktaðu góð vinasambönd . ] [ Rósin mín þú ert og rós mín muntu vera. Svo falleg, en svo hættuleg. Ég reyni að nálgast þig, en þú hrindir mér burt með þyrnum þínum. Ég gleymi og reyni aftur, en sagan endurtekur sig. Fegurð þín dregur mig nær, en sársaukinn ýtir mér burt. Af hverju, rós? Af hverju? Af hverju þurfti ég að hitta þig? Af hverju, rós? Af hverju? Af hverju get ég ekki gleymt þér? ] [ Svo er það sagan um þrjúhundruðþúsund krepplingana frá Fjallkonunni. . ] [ Manstu litlu kompuna í kjallaranum þar sem við áttum okkar fyrstu ástarfundi? Manstu hótelherbergið í Kaupmannahöfn þar sem við drukkum rauðvín uppi í rúmi og elskuðumst liðlangan daginn? Manstu að okkur langaði í lítið hús með garði sem huldufólk ætti heima í? Manstu, manstu, - eftir mér? ] [ Þetta að kvíða fyrir fram er fallið uppgjöf næst. Reyndu að hleypa þér í ham svo hlutirnir geti ræst. Og þú munt sjá að oftast er engin á vegi þraut. En aðeins dýrðin dásamleg sem dettur þér í skaut. ] [ Sumum ljóðin velta af vörum, en virðist flestum tregt. Sýnist ég heldur í framförum og finnst það bærilegt. ] [ Undarlega er farið með fólk, feður jafnt börn sem mæður. Dýrari er nú mysa en mjólk, má ég spyrja hvað því ræður? ] [ í fiskabúri hugans syndir frelsi mitt um hlekkjað í sínar eigin hefðir og fer ekki neinar frjálslegar ferðir um óravíddir búrsins sem rúma inn huga minn en stara aumum augum upp og ígrunda hvort fæðan flögri ekki brátt inn um himin inn ] [ Ég ætlaði að fara að fara fara eitthvað á stjá. Að hafa upp á Helgu Ara í húsi rétt þar hjá. Ég vildi trítla og tína þara og trúlofast henni já. En hún var flogin burtu bara og borin öll von og þrá. Þau höfðu ætlað upp í gil því annar varð fyrri til. ] [ Ég vill gott líf Ég vill eðlilegt líf Ég vill góða framtíð Ég vildi góða fortíð Ég fékk hana ekki Ég bið aðeins um eitt Ég bið um eðlilegt og gott líf ] [ Ég hugsa umhugsunarlaust. ] [ Í draumi þeirra daga var draumur okkar sá Að mega verða að mönnum sama marki ná Í lífsins leik og gleði var gatan oftast greið Hvern gat órað fyrir því hversu stutt yrði þín leið Veturinn kom með vindinum þá vitjaði okkar vá Fréttin um að félagi fallinn væri frá Samt finnst mér það nú frekt að fallið væri nú Því flestir hafa lifað svo miklu meira en þú Ég að mestu var í móki mæddist og varð meir Stund sannleikans varð sýnileg allt sofnar að lokum og deyr Blómið þitt í bænum barmar sér í nótt. Yfir sumri og sól sem fór allt of fljótt Nú kveikjum við á kerti þú berð krossinn eins og er En minningin hún lifir þú verður alltaf hér Þú varst ljós sem að lýstir meðan létt var þín lund Skærasta stjarnan á himninum um stund ] [ Illgjarnir jafnan erta mann og angra hverja stund. Ekki beyja þig berrassaðann og berja láta sem hund. Reyndu að verja haus og hupp, hugsa um móðurjörð, hysja buxunum heldur upp og herða vel að gjörð. Varast´ bljúgan hundahátt, að hvika við augn´tillit. Sálina aldrei selja mátt, sál er manns eina vit. ] [ Hey Peppi og Donna Nú er Golden 50 Um allan heim Kransar springa út Nú fuglar blístra Golden Fifty Florida USA Memorial Golf ticket Á Golden fimmtíu Hey Peppi og Donna Allt er frábært Golden 50 ] [ Fékk að líta fagra sýn fór að lifna í hvelli. Svakalega er frúin fín og fönguleg á velli. ] [ Tæðifærið tók ég strax, til mín hryssu bauð hann. Gullblesunnar glóir fax og gljáir á feldinn rauðan. ] [ Ég þrýsti haglabyssunni Á milli brjósta þinna Þú ert þegar búin að sundurtæta mig skjóta mig með kúlum sem breytast í fiðrildi með kossum sem skapa hvirfilbyl Þú heldur utan um mig þegar hvellurinn bergmálar um paradís og ég vona að þú liggir eftir Í rósóttum blóðpolli fallin fyrir mér ] [ hvar er yfirborðið hvar er lífið hvar er ástin hvar er umhyggjan hvar ert þú sem ég þrái þú ert sú sem ég vill og þrá ] [ Flóttamannaflaumurinn fær sín döpru kynni. Glottir harður heimurinn og hurðu lokar sinni. ] [ Auglýsingu Nóva ég glatt ekki gleymi, gerir sig að stærsta skemmtistað í heimi. En hver skyldi minnsti skemmtistaðurinn og skila okkur þó mestri gleði til handa? Sagt er að komist þar aðeins inn einn og verði að standa. ] [ Takk, Fyrir að gera mér ófært að elska á ný, og fyrir að leyfa mér aldrei að gleyma því, hvað við áttum. Og öllu sem þú kastaðir út um gluggann, og sendir mig í svartann skuggann, Með enga sál og ekkert hjarta. Þegar ég sef þá birtist þú mér, í hvert sinn sem ég loka augunum ert þú aftur hér, og ég sé nú, það ert bara þú. Það var svolítið sem ég gleymdi heima hjá þér, og ég finn það núna að það var hjartað í mér, ég vona að þú heyrir það slá. Viltu fá mig aftur til þín, því ég myndi fórna öllu til að fá þig hingað til mín, okkur var ætlað að vera saman. Ég veit að allir myndu segja „er ekki í lagi með ykkur?“ En síðan hvenær varðst þú svona mikill gikkur, og hugsaðir um hvað öðrum fannst. Þetta bókstaflega nagar mig að innan, og það eina sem að bjargar mér er vinnan, því það eru einu skiptin sem ég fæ mér sígó með þér. Ég sakna þín svo mikið, og ég hata þig fyrir að hafa mig svikið, samt verður það alltaf þú sem ég elska fyrir vikið. ] [ Þú ert það verðmætasta sem að ég á og þú segist sakna mín bara smá Ég bara trúi ekki að allt sé búið æj, þetta er allt eitthvað svo snúið. Er þetta ekki eitthvað sem er hægt að laga, og í hversu marga daga þarf þetta að naga mig alveg inn að maga. Ef að þú bara gætir séð mig núna útúrgrátna og alveg búna en ekki enþá búin að missa trúnna. ] [ Stari út um gluggann, ég veit ekki hvað ég á að gera ég trúi ekki að hann vilji að ég láti sig vera. Allar spurningarnar sem koma upp í hugann. Var ég ekki nógu góð Var ég ekki nógu fróð og á meðan ég ligg hér og tárinn renna er hann myndirnar af mér að brenna? Sagt er að ég geti fundið mér einhvern betri en ég vil ekki vera með Palla eða Pétri. Hann er strákurinn minn. ég vil ekki þennan eða hinn. Allar stundirnar okkar saman, fannst honum aldrei nógu gaman? Ég er ennþá sama daman Ég trúi ekki að á einni nóttu slokkni bara á ást ég veit ekki einu sinni hvernig ég brást og afhverju hann er að láta mig þjást. Ég sakna hans svo mikið, ég hef hann aldrei svikið. Það eina sem ég bið um, Eina óskin mín er að hann hringi og biðji mig að koma aftur heim til sín. Ég veit ekki hvað ég er að segja, ég ætti heldur bara að þegja. ] [ Sorgin nagar svaninn inn að hjarta, Tilgangslaus söknuður og hræðsla. Er hann að hugsa um refinn þann bjarta? Löngun og þrá í það sem er bannað Pynting ein að þjást og kveina Að vita að hann hefur leitað eitthvað annað. ] [ Eilíf angist og pína, Niðurlæging, gleðinni búin að týna. Hatur, reiði og hræðsla, Andvaka ég ligg Nóttinn er löng og ég er hrygg Nagar mig að innan hvað ég var alltaf trygg. Hamingjan löngu horfin, Annað tækifæri gef ég ekki, Nei, í staðinn ég sorgum mínum drekki, Alltaf og að eilífu er ég bundin í hlekki. Söknuðurinn sækir á, Vindurinn hefur misst andann, Einhvernvegin er orðið spennandi að sjá hvað er fyrir handann. Iljarnar brátt fara að svífa, Kannski ég þarf mig að fara að drífa ] [ Haltu kjafti, láttu mig í friði Út skaltu fara, því að þótt að ég skriði, Nei, þér var alltaf sama hvernig mér liði. Gleyma þér, gleyma mér, Ekkert gæti hjálpað mér við það. Thað skrímsli sem þú ert orðinn, en ég vil þig samt hér. Undir grímunni, leynist hrædd og einmana stelpa, sem Reiði, hræðslu,kvíða,sorg,söknuði og ást, þarf að koma niður á blað. Ekki særa mig elskan, Komdu aftur til mín, Komdu aftur til mín, Innilega ég bið, komdu aftur. Gerð voru mistök, sum mjög stór, Leiddist ég út í að gera hluti sem ég sé eftir, Endanlega rugluð er ég nú orðin, Yndislegi strákurinn minn. Mundu mig og hvernig ég var, Til mín muntu koma, ég vona. ] [ Hatur, að hata, ég hata Únglingaveikina þína, Nefið þitt, stórt og mikið. Koddann þinn, svo mjúkann og góðann. Vasaúrið þitt, svo fallegt og öðruvísi. Eldinn sem þú kveikir í hjarta mér, svo heitur og brennandi. Lögin þín, svo róandi og þægileg. Sixpensarann þinn, svo töff og sérstakur. Tárin þín, svo sár og stingandi. Öll beltin þín, svo fjölbreytt og heillandi. Særandi orðin þín, svo beitt og ógleymanleg. Kossana þína, því ég finn enn fyrir þeim á vörum mínum. Röddina þína, sem róar mig alltaf niður og huggar mig. Andardrátt þinn, á hálsinum á mér. Rakspírann þinn, sem lætur mig líða eins og ég sé enn hjá þér. Líðanina, við að liggja í örmum þínum. Endalausu kvölina, við að geta ekki verið þér hjá. Magann þinn, sem fékk mig alltaf til að stara. Undursamlegu árin sem við áttum saman. Reiðina við sjálfa mig, hvernig gat ég látið þetta gerast. Gítarinn sem ég gaf þér, því hann táknaði hvað ég elskaði þig mikið. Rúmið þitt, sem lætur mér líða eins og ég sé komin heim. Æj og fjölskylduna þína, sem var mér alltaf svo góð. Táslurnar þínar, sem ég sleikti til þess að sanna fyrir þér hvað ég elskaði þig mikið. Undarlegu kækina þína, sem hlýjuðu mér samt sem áður um hjartarætur. Ray charles myndina, sem við horfðum á þrisvar í röð. Saxafóninn þinn, sem ég fékk örsjaldan að hlusta á þig spila á. Augnanna þinna, sem gátu alltaf sagt mér allt. Klinkið í buxunum þínum, sem mátti aldrei hvolfa. Næturnar sem við vöktum og fórum í gamnislagi. Axlirnar þínar, sem létu mér finnast ég vera svo örugg. Rólegu lögin sem við sofnuðum alltaf við. .. Og mest af öllu hata ég, að þurfa að Gleyma þér, og öllu sem ég hata. Gullið mitt, ég elska þig Elska þig að eilífu Fyrirgefðu mér, Sá sem særir, særir þá sem hann elskar mest Til eru sögur, en þetta er sú sárasta. Svo þótt þú sjáir mig ekki, né heyrir í mér lengur Vonandi verðuru góður drengur Og gleymir ekki, fyrstu ástinni. Upp er leiðinni haldið, upP til þanns sem hefur valdið, draumaPrinsinn minn, án þín er ég ekkert. ] [ Mundu mig að eilífu, Unginn minn litli. Nóttin dimma, nálgast. Dauðinn nær ekki til þín Uns gamall og lúin þú verður orðin. Mig þyrstir í þá góðu daga Ingibjörg var hamingjusöm þá. Gamlir góðir dagar, verða að minningum. Að sakna er sorgarsaga aÐ gleyma, er það sem er mig að naga. Eilífu hatri heitti ég þér, Inn kom heift sem ég fæ ekki gleymt. Löngun í liðna daga, engin sér Í mér hún lifir og deyr seint. Fallegasti maður sem fyrir finnst, Undarlegasta barn sem ég hef kynnst. ] [ Ég elja stíft og yrki af móð á margt gull í sjóði. Ætla mér dauðum auki hróð eitthvað af því góði. ] [ Klipptan vel og kantskorinn konur á hann góna, eins og folann úti á vorin eðli sínu að þjóna. ] [ Það er illt að fást við illskunnar rót, ekkert sem bindur svo fastan fót. Það þarf sitt hvert lagið við þursa og dót og þó er ekki víst að það dugi hót. ] [ Ein heima stendur stelpan, fyrir framan spegilinn já grey litla telpan hún vill hverfa upp í himininn. Í spegilinn hún starir, óánægð með sjálfa sig. Hún tínir af sér allar spjarir Þetta er komið á efsta stig. Púkinn sest að í henni Fitu púkinn ljóti Hann verður hennar einkenni það liggur við að hún sig skjóti. Mánuðir líða og sjálfsstraustið fer hún hættir smám saman að borða árum síðar stendur hún hér aftur ber frá speglinum samt vill hún sér forða. Út úr henni rifbeinin standa. Mjaðmirnar hvassar og skerandi. Nú er hún búin að missa lífsanda hún stendur þarna brotnandi. Þessi stelpa stendur ei á fótum lengur. Það endaði allt með stórum hníf. Hún framar núna aldrei gengur. Púkinn var hjá henni nánast allt hennar líf. ] [ Litla barnið byggir sér turn. Hann verður stærri og stærri og ört vex hann, þangað til hann fellur og kubbarnir glymra um gólfið. Úr góðri hugmynd verður hrúga sem þarf að taka til. ] [ Einn heinagleiður halur í híði lagstur er. Þar hofmannlegur húkir uns hlýna aftur fer. Þá lifnar loks yfir þeim mæta mann og lýðurinn æstur hyllir hann. Hann Sigurð þór Guðjónsson!, - hann Sigurð þór Guðjónsson! ] [ Enginn veit, enginn skilur. Kannski er ekkert sem hann hylur. Kannski er hann ósýnilegur,þessi mikli bylur. Er býr í hjarta mér. Reiði,hatur,söknuður og ást Táraflóð. Hvers vegna þarf ég að þjást? Vindurinn orgar, Andvaka og finnur til sorgar. Reiður, á leið til annarar borgar. ] [ Einu sinni, sæl ég var Indælt líf og allt svo gott, Núna er ég hér og þú þar. Undarlegt þín að þurfa að sakna. ] [ Gamalt og grátt var það nú orðið Ringluð og hrædd, græt ég við borðið Ég þrái það gráa Tapaði þér, en sú plága Andvaka ég er allar nætur Refur, það er andstyggilegt hvernig þú lætur ] [ Ríkisstjórnina tel ég á faraldsfæti, fláræðið blasir hvar augað sér. Stöðug er Birgitta og stappar fæti og stendur á sínu sem vera ber. ] [ Hve það fór í taugarnar á mér þegar þú söngst með tónlistinni í útvarpinu, hve ég sakna þess núna.. ] [ Þetta er lífið sem við þurfum að njóta Þetta er lífið sem við þurfum að elska Þetta er lífið sem við þurfum að þykja vænt um Þetta er lífið sem við þurfum að nýta hverrar mínútu Þetta er lífið sem við þurfum að hafa gaman af Þetta er lífið sem við þurfum að lifa til enda Njótum lífsins til enda ] [ Litur þinn eru lífið mitt um langa vegi alla. Eyðifjörðinn hef ég hitt inn á milli fjalla. Hver og einn á eigin fjörð innst í hjarta þelum. Þar eru blóm og þar er jörð sem þraukar í felum. Draumar dala eru við dagar lífs og hlýju. Báðum megin hlið við hlið hefst upp sól að nýju. ] [ Mikið dái ég sumardaga bjarta, þeir hitta mig beint inn í hjarta. Og það eina sem vantar ert þú. Mikið elska ég sólina sem skín, á morgnanna inn um gluggann til mín. Og það eina sem vantar ert þú. ] [ Skuldum safna, bankamenn/ undan halla/ þjóðin hrynur/ hvaðan kemur peningur/ af sjó eða að ofan? ] [ Í þessu ljóði eru blóm, sól og börn og helvítis fegurð allstaðar. ] [ Til er vetrar var á landi og vin á Kili. Þar verpir hrafn á kvikum sandi hjá jökulgili. Þar er líka auðn og urðir og öræfaandi. Og faldar huldu hurðir að horfnu landi. En brögð eru undir brúnum við björgin háu. Feigð ber að ferðalúnum við fjöllin bláu. Þar er þoku von um velli á villur vísa. Þar má heyra hófaskelli og hesta frýsa. Á Kili er vont að vera í vondum veðrum. Þar er líka þraut að bera þunga á herðum. Í skútum er sál er ræður í skini nætur. Þar eru líka bönd við bræður og blóm sem grætur. ] [ Ég sé þig úti Ég sé þig inni Samt finn ég þíg hvergi Ég finn þig inni Ég finn þig úti Samt sé ég þig hvergi Þú ert inní mér og hvergi annasstaðar. ] [ Ó,þú, sem krafðist strax með fæðingu þinni Et upp landið, drekk allt hafið, leggðu heiminn að fótum þér! Hér eru lófar stórir sem skýla þér ] [ Eftir götu líður létt ljúfur eðalskótinn. Stundarglaður stynnings þétt stend ég bensínfótinn. ] [ Í Tónspil að koma ég tel vera gaman, tala við fólkið sem býr þarna saman. Pétur þykir frjálslegur að framan og fegurðardís afgreiðsudaman. ] [ Tölvuskeytið er kom til mín: brunar um á bínum rauða bústinn maður austan lands laglegt er nú stuð á kauða langar mig að vitja hans kær kveðja bogi geir Svarri svarar Velkominn sértu vinurinn kær, vist er í bækurnar skráð. Finnum handa þér fagra mær og freistandi sumarbráð. ] [ Hljóðlát nótt indæll dagur. Sameinar fegurð brotinns hljóms. Minning fjarlæg stund. Man enn kyrrðina á fullkomnum Valentínusardegi. Ský dregur frá sólu ljós að birtast. Skínandi, glitrandi kraftaverk frá hljóðlátu tungli. Kertaljós fjarar út elskhugar í alsælu. Á fullkomnum svefnlausum Valentínusardegi. © 2009 Vilmar Pedersen ] [ Á förnum vegi glóir gull svo glitrar í sumra augum. En aðrir sjá þar aðeins drull og óþverra í haugum. ] [ Það munaði litlu ég gæfi upp andann og í aðra heimana liti sýn. Gæti verið erfitt að yrkja að handan og orðið hefðu færri ljóðin mín. ] [ Hann át úrið Ropaði upp klukkustundum Tuggði minóturnar Með þykku lagi af sekóntum En hvað er timi? Jú timi er bara orð Orð sem hefur mikla þýðingu þvi án timans væri mannkynið Klukkulaust ] [ Ì glerneti tímans Tifar möskvi ferhyrndur í annan endann Látlaus klukkustund À næsta leik við minótu sem hefur safnað liði Af sekóntum til að Drepa tímann ] [ Hann flutti einn úr dalnum og byrjaði upp á nýtt því allt var niður nítt. Sorglegt fyrir suma en skeggið orðið hvítt. Teigar og töður rýrar og túnið líka grýtt. Á eyrinni var fiskur bryggja og skipin stór. söngur og karlakór. Og miklu minni vinna og miklu minni snjór. Öllum gaf hann eitthvað áður en hann fór. En árin liðu löngu út við saltan sjá söng og húsin smá. En daladrotting átti dís við fjöllin blá. Hún aldrei lét í friði alla sem hún sá. Því dalir eiga drauma jafnvel skúraský. Og sól og vorin hlý. Þeir áttu líka leiki og laut með börnum í. Og karlakórinn syngur „Heim í dal“ á ný. ] [ Silfurblesan mín sómafögur sýnist þéna hér vel. Af henni verða sagðar sögur síðar að ég tel. ] [ Sögu vil ég segja af hali, sem selur þér pillur af eigin vali. Það er hjólastóla-dópsalinn í Mjódd. Hann gerir á fólki ei greinamun, gefur ungum sem öldnum Valium. Þessi hjólastóla-dópsali í Mjódd. Seroquil eða Stratera, hann selur það allt nema stera. Hvetur allt fólk til að kalla sig vin, því karlinn, hann reddar því Contalgin. Hjá lækninum lýður ei þjónustu skerta, fær lyfseðla uppá Conserta. Þessi hjólastóla-dópsali í Mjódd. Hann kallar á litlu lömbin sín, með lúkurnar fullar af Ritalín. Gamli hjólastóla-dópsalinn í Mjódd. Stesolid eða Tramódól, hann fær allt útá sinn hjólastól. Með vasana fulla af Mogadon, maðurinn byggir upp gróðavon. Ef neikvæðnin flæðir sem fljótið Níl, hann nær í fyrir þíg Rivodril. Þessi hjólastóla-dópsali í Mjódd. Með Dísur & Mogga og sitthvað fleira má sjá hann út af kortinu keyra. Þennan hjólastóla-dópsala í Mjódd. Svo ef þér leiðist þín eigin lífssýn, láttu vaða á löglegt Amfetamín hjá þessum hjólastóla-dópsala í Mjódd. ] [ Ef þù værir vatn drykki ég þig Ef þù værir land yrki ég þig Ef þù værir skápur opnaði ég þig Ef þù værir þú elskaði ég þig Ef þù værir skuggi elti ég þig Ef þù værir draumur dreymdi mig þig Ef þù værir ljóð skrifaði ég þig Ef þù værir tar þerra ég þig Ef þù værir dáinn syrgi ég þig ] [ Regndropar falla í gegnum sólargeisla stirna eins og granateplakorn Þeir klappa á blóm og lauf dansa á grasfleti um hríð og smeygja sér inn í jörð hljótt hvílast þar til þeir halda heim á leið þegar við roða morgunhimins ] [ Sex á hún börnin, sitt með hverjum, sagt í víndrykkju kitli hana lostinn. Messar um kynlíf, mælir með verjum, metur þó skýrlífið albesta kostinn. Nú er hún á lausu að leita að manni, liggur á netinu og meldar til funda. Forvitnum vinkonum segir með sanni: ,,Sælast að losna við þessa hunda”. ] [ Látu bara gamminn geysa gaman oftast vel er þegið. Ef væri ekki til vitleysa varla yrði mikið hlegið. ] [ Hver er tessi dans þjáningarspor stigið Ì kirkjuni stendur kista Man eftir brosi og bliki i auga Ì dag er almættið dapurt og Jesu lika Sálmurinn fínpússar sorgina og gerir hana fina Öll tár sem falla i dag eru þakkir til þin þú gafst mér gjöf sem tekur lifið að opna Vertu bless hittumst seinna ] [ Lítið hafnfirskt handboltafélag. Heljarins útrás og hugmyndir fékk. Í fótbolta fór og spilaði með brag. Þannig fáum að vita hvernig þeim gekk. Erfitt var að leika ef þreytan sótti að. En með hvíld þá lék þeim allt í hag. Þessa vísu ég því setti niður á blað. Þeim gengur þannig vonandi betur í dag. Ég studdi þá og styrkti með hugsuninni einni. Því stóð ég þeim nær ef þeir töpuðu. Samt leikurinn var ekki sýndur í beinni. Skemmtilega stemmningu á vellinum áhorfendur sköpuðu. ] [ Af þyrnóttum runna vex rósin rjóð af raunum og sorg hið fegursta ljóð flögrar frá lirfunni fiðrildið smáa fegurst í heimi er landið mitt bláa. ] [ Ég elska þig þegar þú ert mér nær því ást þarfnast ég þegar þú ert mér fær ást mín hefur ávallt haldist fyrir þig ég held alveg að þú eins elskar mig. Ég elska þig þegar þú sefur hér vært þó ekki eins mikið ef þú hefur mig sært ást min var tekin, er ég tillti augum á þig fyrst þú tókst mig því ég var ástarþyrst. Ég elska þig þegar þú þrífur með mér eins þegar hugmyndin kemur frá þér einu orðin sem ég vil að þú segir við mig eru "elskan, ég mun alltaf elska þig". ] [ Ég vildi að við værum enn að dansa á henni ] [ Slæmt er að fást við fullhugann í framagöngu sinni en sá fær happ sem hamingjan heiðar með nærverunni. ] [ Sleppi naumt þá kemur kikk sem kraumar í sálu inni. Það getur bætt að beiskan drykk beri að vitundinni. ] [ Eftir langa stranga nótt, í basli við bakkus umvafin litríkum tónum -litríku fólki vakna ég öll útkrotuð hægri hönd mín segir allt sem segja þarf ÉG ER FOKKING LJÓÐSKÁLD ] [ List má kalla er leyst er dáð er lofar getu sanna. Margt er verkið vanda háð á vegi snillinganna. ] [ Hefur lítinn og lipran fót labbaði allt að mílu. Í sautján daga sótti dót og safnaði táfýlu. Táfýlan er sem töfralind ef teyguð er af móð. Líkust því að leysa vind því lyktin er svo góð. ] [ Ég er mjög upptekinn af sjálfum mér. Viðurkenni það fúslega. Fylgist raunar með hverju skrefi sem ég tek. ] [ Sálir eru ævinlega sniðugar. Þær hoppa á milli líkama, eins og veitingastaða, taka hraustlega til matar síns, fá sig full sadda og fara. ] [ Er þungur á morgnana. Samt segir vigtin annað. ] [ Kom að fjöllum. Varð steinhissa. Ha? Hélt ég væri á niðurleið. ] [ Það er orðið langt síðan ég fór á fjörurnar við þig en feginn vildi ég endurtaka gömul æsikynni. Eigi er gott að viðurkenna að gleymskan hrjái sig og geturðu nokkuð rifjað upp í ruslakistu minni. ] [ Ég finn frelsið faðma mig vindurinn þurrkar svitann súrefnið dælist í lungu mín ég finn frelsið faðma mig tært loftið gefur mér þrek hjartað pumpar gleðislög. ] [ Ég fæ stundum heiftarlega verki verki í magann verki í hausinn verki í sálina verki í punginn verki í öxlina verki í góminn verki í peningabudduna verki í lifrina. Ég fæ stundum heiftarlega verki en versti verkurinn er tvímælalaust verkurinn sem beit sig fastan daginn sem þú fórst. ] [ Tómar síður. Líf mitt. Tóm síða. Lítið líf. Tóm síða. Líf mitt. Tómar síður. ] [ Alltaf þegar þú kemur inn til mín þá fyllist ég af gleði og þessari tilfinningu að ég sé kominn heim. Jafnvel þó heimilið sé mitt eigið. Daginn sem ég gaf þer hjarta mitt þá skipti ég um adressu og flutti inní hjarta þitt. Núna ertu búin að gefast upp á seinlegum innborgunum og farin að pússa á þér brjóstin og píkuna svo að það sé ákjósanlegt fyrir næsta leigjanda að flytja inn. Þú kallaðir mig standpínumanninn. Ég skal trúa þer fyrir einu án þín er þetta rétt lífið standandi pína. ] [ Þegar að ungi maðurinn hrasaði þá duttu allir peningarnir hans í götuna og urðu gráir einsog skýin áður en þeir eyddust upp í bleytunni. Ungi maðurinn reis ekki undan oki sjálfs síns og kenndi gráum himninum og peningaleysinu um. Hann fékk sér gúlsopa úr drullupollinum og lét tjörugt ræsisvatnið leika um hvern krók og kima af líkama sínum. Hann fann hvernig sterkur vökvinn slökkti í hverjum lífsneistanum á fætur öðrum. Hann mundi skyndilega allt það ljóta en einsog í draumi , svo að hann slapp við samvisku og klístur á höndum. Hreinsýnn og nötrandi byrjaði hann að drukkna hægt og rólega en átakanlega örugglega líkt og skrokkur á færibandi í sláturhúsi. Eftir svolitla stund gátu men séð með 3.auganu, sál gufa upp úr drullupolli, morkna sál úr úldnum polli. Í loftinu mátti líta öflug hreinsitæki með vængi og sólgleraugu. ] [ Markaði spor, til metorða vann, miklu skeiði og tölti gæddur. Grásteinn frá Brekku heitir hann Hallgrími Þórhallssyni fæddur. Brokk með snjallt og gæðageð og gleði hans fóstra ei rengi. Þó sá sé gæðing margan með mun hann sakna hans lengi. ] [ tipla á tánum eins og lítil kisa kem ég og skríð upp í rúm til þín. þar vil ég liggja eins og lítil kisa og kúra lengi í hálsakoti hjá þér. svo mun ég mala eins og lítil kisa vel og lengi þegar ég ligg með þér. því þá líður mér vel. ] [ Yeah ] [ Góðan daginn Grétar minn ég gat ei sitið á mér að lauma til þín óskum inn á afmælisdaginn hjá þér. Ef árla þú ríst ég tíma tel að teygja ögn úr skrokknum. Til hamingju Grétar, heilsist þér vel og halltu þig ætíð á toppnum. ] [ Ég rölti um göturnar í bleikri kápu og skóm, sker mig úr fjöldanum. Með frjálslega fléttu í hárinu og gult naglalakk á fingrum og tám, í glitrandi kjól með missíðum faldi. ... litskrúðugur klúturinn flaksast í vindinum með lausu lokkunum, kinnarnar rjóðar í stíl við varalitinn. Í risastórri töskunni endurspeglast líf mitt í nauðsynlegum hlutum hversdagsins og alls konar drasli. Ég hlæ og græt á víxl, elska ykkur, og marga aðra, lifandi draumi um klisjukennt listamannslíf. ] [ Fegurð og hamingja Undur og undraverk Sorg og gleði Gleði og sorg Þú ert minn vinur í þessum heimi þú ert mín trú og mín helsta hefðarfrú Okkar slóðir okkar lífsins slóðir Lágu saman Við hittumst ég sá þig þú sást mig þú sagðir hæ ég sagði bæ. Okkar lífsins þarfir flugu á braut í þessum heimi við völdum sitthvora lífsins braut. Vertu sæll vinur. Vertu sæl. ] [ Sé nú hvergi símann minn, sjáum bara til. Búinn að leita allsstaðar, eða hérumbil. ] [ Mörg þeirra lifa en mörg eru löggst í gleymskunnar dvala er meitluðu hugann í nábýli öræfadala. Aldir fram ganga í örgrunnu vatni lífs vors og dauða andagift sagna er bálið sem brann á arni hins snauða. Leikur á þiljum birtunnar flökt,köld eru vetrar veður vindurinn blæs og skaflana hátt upp að bænum hleður. Handrit á borði,skáld hefur lokið við síðasta ljóðið sóttin elnar og dauðinn smýgur inn í beinin og blóðið. Sum eru gróður í lundi hins nýja skálda siðar sólin blikar í fjarska en gengur hægt til viðar. Efst á háum fjallatindum sést til sígrænna dala steinarnir í vörðunni bíða en vilja ekki tala. ] [ Drekkur meðan dropi er til, dólar um og gítar ber. Dömunum kveikir yndi og yl og um vefur fingur sér. ] [ Einhverju verður til að tjalda takast eigi marki að ná. En til að mega verki valda verður oft að bíta og slá. ] [ Þar sem brattir hamrar reistir rísa ryðst þú fram af brún. Frá jökulheimum elds og ísa yfir mörk og tún. Glökkt er það sem gerir fossa líka gaddsins kulda nál. Heljargreipar hamra í þig slíka hatramlega sál. Að þér ganga tröll um troðnar slóðir en tvístíga hér. Aðrir sitja úfnir vegamóðir ef þeir storka þér. Í rómi þínum heyrast skarpir slættir strengja hljóðin örg. Er rammir skornir rúnum vættir rista stuðlabjörg. Undir hrikalegum æðis flaumi er undarleg glóð. Er í rökkri andar að í draumi með öræfablóð. Hún er sveipuð harmsins herkjuböndum með heljarinnar stög. Úlfgrár ertu foss í klakahöndum engin högg né slög. ] [ Sannleikurinn birtist aðeins á milli draums og vöku ] [ Ó komdu ástin ein með mér á morgun iðrumst ei. Þegar enginn okkur sér og áður en ég dey. Já komdu aftur ein í kvöld en alla kveddu hljótt. Núna tekur vonin völd og vakir með í nótt. Græddu elskan gull í mig og grænan skógarvið. Ég vil bara eiga þig og anda þér við hlið. Ég skal líka syngja söng og sæta gefa rós. Og dreyma þig um dægur löng og dimmu breyta í ljós. Ég mun þola súrt og sætt og svífa hljótt um nótt. Ég skal faðma barnið fætt og fylla sálarþrótt. Og elska þig sem fossa flúð og faðma í hríðarbyl. Ég skal búa undir súð og elska og vera til. Reyna lifa og lýsa björt til loka árin öll. Ef þú klæðist skuggum svört þá skal ég byggja höll. ] [ Þó að hjörtu okkar slái í takt, þó að við drögum andann á sama tíma, þá eigum við ekki saman. Þó að leiðir okkar hafi legið saman, þó að það sé alltaf mjög gaman, þá eigum við ekki saman. Þó að með þér yrði lífið gott, þó að með þér sé ég áhyggjulaus, þá eigum við ekki saman. ] [ Ein ég sit og hugsa, með southern comfort í kók. Opna augun og fæ mér smók, þín er svo sárt að sakna. Allt virðist vera svo tilgangslaust, svo illa gengur að pússla saman mínu hjarta. Mikið hlýt ég að líta illa út í framan, maskarinn lekur og sorgin mig tekur. ] [ Hún er fögur með hárið sítt og hvers er fegri sýn? Eins og af föður er hún spýtt elskuleg dóttir mín. ] [ Hey smart babe Ekki láta aðstæður Fríka þig út Hey be yourself Smart baby does Ég meina það Farðu alla leið You´ve got the brains And the looks ] [ Halló Magga, halló Ásgeir, halló Hreiðar og nafni minn, halló Sigfús, halló Bjarni, heilsist ykkur maturinn. ] [ Í Helvíti komu vistmenn á lýðræði skúrka og fjandmenna. Fluttu ræður í formi rokktónleika, hækkuðu hitann og ... enginn komst á kjörstað. ] [ Flestir vilja lifa lengi og löngun slíka ei ég rengi. En erfiðast er til gerða að enginn vill gamall verða. ] [ Ef, ef við hittumst aldrei aftur þá vil ég aðeins segja að kynlíf okkar var frábært en lofaðu bara að googla mig aldrei. ] [ Mörg ég hefi mistök gert, sem mætti fara um orðum. Það er ekki einskis vert að ekkert fari úr skorðum. Má ég harma marga stund er mér var á til saka og allt er þar á eina lund að aldrei gengur til baka. ] [ Andvari blés og allt var þá í ólgu og ungdóms böli. En drunga mínum og dapri þrá drekkti ég í öli. Það marraði í mjöllinni fjær myrkraskugginn kremur. Fnæsti og færðist nær ég fann að dauðinn kemur. Mig heljargreipar gripu þá af geigvænlegu afli. Leik með augum engin sá út úr þessu tafli. Ó minn Drottinn er það dýr eða ílli andinn sjálfur. Útstæð augun eins og kýr eða maður hálfur. Skimandi glyrnur slefuna ber skítugum krumlum bendir. Á mig stekkur er mig sér að mér hráka sendir. Ég er Glámur þú ert Grettir gleymndu krafti þínum. Seinna verða færðar fréttir af fræknum sigri mínum. En Grettir eins og gormur greip í ógnarstökki tökin. Leið um gólfið eins og ormur inn í ragnarökin. Nú er að drepast eða duga í dag er skammt til nætur. Mig skal enginn máttur buga meðan stend í báðar fætur. Tveggja manna trölla kynið er tilbúið að eyða. Í kjaftinn tekur glennir ginið Grettir rífur til að meiða. En draugurinn á móti merkir máttugri er en heldur. Þótt báðir þættu sterkir þá var Glámur felldur. ] [ Vinstri stjórnin sagðist ætla að taka á hinni hroðalegu spillingu, standa vörð um velferðarkerfið og bjarga heimilunum frá falli en ekki bara að brosa heimskulega eins og tungl í fyllingu og haga sér sem siðlausir Sjálfstæðismenn, sem að eingöngu hafa hugsað um að maka krók auðvaldsins og níða öryrkja og gamalmenni – efndirnar blasa við okkur – hún messar eins og fyrirrennari hennar messaði. ] [ Sæll kæri frændi og velkominn á vefinn vinaleiðir margar liggja hér saman. Hér hef ég meilað og haft nokkur stefin þó helst sýnist fáum vera að gaman. ] [ Ég held sé best að hafa frekar lágt, hér eru nógir sem talað geta af viti og andagiftin mín á oft dálítið bágt, uppgefin af dagsins þunga og striti. ] [ Allt hér í veröld er á eina lund, einhver að kúska annan sem hund. Illt er að klikka á elleftu stund og átakanlegt er lokast öll sund. ] [ Inni i hausnum á mér búa svo mörg ljóð, en ég næ ekki að koma þeim niður á blað. Þau öskra og hamast, biðja um tár, svita og blóð, en sama hvað ég reyni þá stend ég í stað. ] [ Hvers vegna er mér forboðið að elska þig og þrá, þú með þínar fögru rímur. Hvers vegna lestu ekki bréfin mér frá, ég fel mig bakvið þau og set upp grímur. Þú ert það eina sem ég hef, þú hefur fallegustu höfuðstafi sem ég hef séð. Svo ég skrifa þetta síðasta bréf, og að lokum ég syrgi og kveð. ] [ Hvernig get ég gleymt þér, þegar í hvert skipti sem eg loka augunum sé ég þig. Í hvert skipti sem ég næ að sofa dreymir mig um þig. Í hvert skipti sem ég fer út úr húsi ert þú þar, og allt minnir mig á þig. Hvernig get ég gleymt þér, þegar þú horfir svona á mig í hvert skipti sem við hittumst, þegar þú snertir mig eins og þú gerir, þegar þú raular gömlu lögin okkar, og þegar ég sé að þú elskar mig enn. ] [ Óróleikinn skríður um í maganum eins og höggormur í grasi þú ert varla svo smá svo viðkvæm ég vernda eins vel og ég get bara að það sé nóg gleðin er líka til staðar sjóðandi því að ég er mest ég en að hluta ofurlítið þú. ] [ Hvíslaðu blíðlega, gælur Í eyra, á meðan ég sekk í augu þín. Kitlaðu hjartað, blíðlega, varlega, Það eru fiðrildi á sveimi. Ég vil horfa, snerta, Sjá þig alla. Sökkva aftur, djúpt, djúpt í augu þín. Ekki vakna af þessum draumi. Hvíslaðu, hvíslaðu blíðlega. ] [ Sækir að mér sinadráttur sumir telja´ann betri en enginn en við hægðir harla sáttur herði ég á mér buxnastrenginn. ] [ Enn er fönn í fjöllum í fáförnum dal. En eitthvað er í öllum sem elskar þennan sal. Þótt að hann sé þögull með þungbúið loft. Og enginn fari förull um fjalladalinn oft. Þá er hann öllum fólginn undir drottins væng. Þótt vetrarveðrin bólgin vefji hvítri sæng. ] [ Þegar Ásta sæta vaknar og gleraugu setur á sig ætlar þú að muna að við elskum þig! Eins og bjartar stjörnur eru stóru augun þín sem tindra eins og hafið og ljóma' er sólin skín. ] [ Hugsa um eitt og annað, endrum og eins. Sumt af því er bannað, annað ekki til neins. ] [ blóðrautt blekið rennur, hnífsblöð þorsta svala. umræðan á öllum brennur, um eigin fagurgala. ] [ Ísjakar í kafi að mestu mara, margt er þannig falið sjónum bara. Aurar margir fyrir lítið fara og fáir verða ríkir nema að spara. Þannig okkur glæpir glepja auga, gott er þeim sem kunna vel að fela og fást þannig fúlgurnar í hauga því flestir verða ríkir á að stela. ] [ Ég var í frekar þungu skapi þegar ég gekk út i búð í dag til þess að kaupa í matinn. Um það bil sem ég ætlaði að ganga inn i verslunina kom ég auga á lítinn fugl sem sat á trjágrein þar skammt frá. Þetta var skógarþröstur svo ljómandi fallegur og rogginn með sig þó kalt væri í veðri. Ég nam staðar við tréð og gaf mig á tal við fuglinn. Blístraði, eða réttara sagt reyndi, en það heyrðist sama sem ekkert í mér þar sem ég legg það ekki í vana minn að blístra. Þrösturinn lagði samt við hlustir, hallaði undir flatt og virtist áhugasamur um það sem ég hafði að segja. Ég gerði því aðra tilraun og nú gekk mér betur. Ég spjallaði við skógarþröstinn dágóða stund og kærði mig kollótta þó fólk sem gekk framhjá gæfi mér hornauga. Þrösturinn horfði á mig sínum svörtu augum og tísti í spurnartón. 'Þú átt víst ekki brauð?' 'Ég er svo svangur og kaldur þegar það er svona snjór yfir öllu' Ég lofaði þrestinum að ég skyldi kaupa eitthvað handa honum í gogginn, flýtti mér inn í búðina og náði í snatri í það sem mig vantaði og auðvitað brauðið handa litla vininum. Þegar ég kom út aftur, var skammdegismyrkrið skyndilega skollið á og þrösturinn á bak og burt. Líklega var hann floginn til næturstaðar síns í skóginum í Fossvogsdal, því litlir fuglar fara ævinlega að sofa um leið og dimmir. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum og einnig öskuill út í myrkrið en ég huggaði mig við það að þrösturinn yrði örugglega kominn á sinn stað fyrir utan verslunina strax morguninn eftir. Ég hafði jú lofað honum mat og hann hafði treyst því. Ég opnaði því pokann með fjölkorna brauðinu sem ég hafði keypt handa honum. Síðan muldi ég niður hverja brauðsneiðina á fætur annarri og stráði molunum á snæviþakta jörðina undir trénu sem hann hafði setið í. Mér var mun léttara um hjartarætur þegar ég gekk heim á leið. ] [ Hvar ert þú nú? Klukkan fer að slá þrjú en það eina sem ég sé ert þú og held í mína ódauðlegu trú. Ert þú að hugsa um mig? þegar þær kyssa þig, þegar hún háttar sig. Erum við kominn á þetta stig? ] [ Þú veist að ég elska þig enn, þú hlýtur að sjá hvernig ég horfi þig á, svona fer ástin með menn, en ég verð að leyfa þér að fara mér frá. ] [ Er að reyna að fá mér blund verð að missa meðvitund held ég hafi mist smá ] [ í gegnum hausverkinn síast minningar frá í gær sumar vondar, aðrar sveittar en flestar góðar eru þær, ég man hávaða, ég man bjór og svo dróstu mig nær nokkrir kossar, pínu slamm þetta mig hugsa fær, því þú átt að vita að þú ert mér mjög kær, en að skilja þig eftir var það versta í gær. að skilja þig eftir, var það versta í gær. ] [ Regnboginn er langt í burtu og samt er hann fagur. Sólin hún er langt í burtu og samt er hún sterk. Framtíðin er langt í burtu en samt er hún þarna, alveg jafn mikið og fortíð mín; og nútíð. Ég má ekki gleyma að það góða er núna, það var og mun vera og lífið hefur upp á svo margt að bjóða. ] [ regndroparnir falla á andlit mitt og ég fel mig í hendur örlaganna. á þeirra valdi hef ég nýtt líf á litríkum stað. eins og regnboginn. litrík. ] [ regntímabil óskast til að hjálpa þungum steini út upp áfram niður suður bara burt þurrt ] [ fer á fætur bursta tennurnar endurskilgreini sjálfa mig ] [ Það ei alltaf gott að vita hvað er verst því vissulega margt er illa snúið og eins er með hvað bíður okkar best, sem betra mun að dæma er það er búið. ] [ Allt lífið er hégómi meira og minna mega þar skautfjaðrir endemum sinna. Skaltu þig vinur því skreyta sem best uns skutlu á önglinum hefur þú fest. ] [ Matarlist á mánudegi mun hér þykja einkar góð en kjötið mitt í kryddum legi kveikir elda á vegarslóð. ] [ Meðan við lágum tvö ein í heimi manna, störðum stjórnlaust í augu hvors annars. Umvafin hlýju nærveru þinnar, minnist ég liðinna drauma, þegar ég lá í faðmi þínum, löngu fyrir okkar fundi. Ósjálfrátt og óafvitandi færist bros á vör sem er svarað í sömu mynt. Ég kemst ekki hjá því spyrja; "Af hverju ertu að glotta?" Svarinu fylgir langur koss; "Örugglega af sömu ástæðu og þú!" ] [ Góða kvöldið! Lífið er ljúft, lífsglöð eruð þið. Ei er meining að yrkja djúft aðeins að líta við. ] [ Fyrst hjarta mitt verðskuldar að brotna í þúsund mola, hví ekki þitt? Framtíð mín virðist vera ógnarstór hola, ég vildi að þig hefði ég aldrei hitt. Endalausar þjáningar hef ég mátt þola, en þetta er bara lífið mitt. ] [ Ekki get ég varist því að í hvert sinn sem ég geri mér ferð í Kolaportið til þess að kaupa mér harðfisk og lyktin leggur á móti mér svo yndislega stæk að mér detti ekki gamall elskhugi minn í hug. Reyndar var hann sá síðasti í röðinni af langtíma bólfélögum mínum og þó nokkur ár liðin frá því við slitum okkar samvistum. En harðfisksins vegna er ekki svo auðvelt að afmá minninguna um eldheita ástarfundi í vistarverum þessa fyrrverandi unnusta míns. En hann bjó um þessar mundir í einu herbergi með aðgangi að baði í kjallaranum hjá ömmu sinni í hrörlegu húsi í miðborg Reykjavíkur Það var smá aldursmunur á okkur honum í vil en ekki fann ég fyrir því, nema þá kannski í bólinu, en þar eyddum við megninu af tíma okkar á þessum ógleymanlega stað. Híbýli hans voru sannkallað ástarhreiður þar sem lostinn réði ríkjum ofar öllu og ekki pælt í neinum óþarfa eins og að ganga þokkalega um. Enda óhægt um vik sökum þrengsla, þar sem ástmögur minn neyddist til að nýta herbergi sitt jafnframt sem geymslu og forðabúr. Einna helst var það skortur á birtu sem hrjáði okkur því skerminn vantaði á eina ljósgjafann í þessu litla rými og þar sem glóandi perann skar í augun, kusum við að hafa ætíð slökkt. Það krafðist því oft hinnar ýtrustu lipurðar að skakskjóta sér upp í rúm sér til yndisauka því allt um kring, var staflað hinum ýmsu nauðsynjavörum sem menn þurfa helst á að halda sér til lífsviðurværis. Má þar til dæmis nefna fiskibollur sem við átum kaldar beint upp úr dósinni, kartöflustrimla einnig í dósum og ýmislegt annað matarkyns sem ekki þurfti eldunnar við. Það var aðeins í hádeginu á sunnudögum sem svo mikið var við haft að prímusinn var dreginn fram undan rúminu og soðin ilmandi kjötsúpa sem okkur þótti jafnan hin mesti hátíðamatur. Staflar af hreinlætisvörum stóðu svo hér og þar um herbergið og entust þær birgðir öll þau ár sem við héngum saman, að undanskildum skeinipappírnum sem endurnýjaður var reglulega eins og lög gera ráð fyrir. Silfurskotturnar á baðgólfinu setti ég þó dálítið fyrir mig þess að byrja með. Samt lærðist mér fljótlega að óþarfi væri að óttast þau kvikindi þar sem þær hurfu undantekningarlaust eins og unglingar sem eiga að fara út með ruslið um leið og ljósið var kveikt. En hvar kemur þá harðfiskurinn inn í myndina? Jú, unnusti minn elskaði harðfisk næstum því jafn heitt og sjálfa mig og þess vegna þótti mér hann einnig einstaklega góður. Best fannst okkur að spæna hann í okkur í bælinu þegar við lágum þar örmagna eftir unað og erfiði ástarleikjanna og nenntum ómögulega á lappir. Roðinu hentum við svo undir rúm þar sem það harðnaði og gegnum þurrkaðist í hitanum frá rúmstæðinu uns með tíð og tíma lagði frá því hina indælustu angan um allt herbergið Langt er síðan sá ég hann..... En heyrt hef ég að þessi fyrrverandi ástarpungur minn sem var sannkallaður listamaður á fleiri sviðum en bólfiminn einni saman, búi ekki lengur í kjallaraholunni, - - hann hafi grætt offjár á einkaleyfi á forláta lampaskermi úr fiskroði. ] [ Himna faðir leggur dóm sinn á land og þjóð Daman sem gefin var mér, lífsglöð og rjóð var leidd til vilja Guðanna og féll þar ein Fyrirgefðu mér, en hatri mínum skertir ey Plágu ótrúnaðar í gjöf frá mér þú færð Þér var nær ] [ Vefðu mig í öryggi móðurbrjóstanna eins og þú gerðir áður en hormónarnir gerðu uppreisn og drungi unglingsáranna læddist yfir mig Haltu mér í traustum örmum þínum eins og þú gerðir áður en allt varð ómögulegt og þungi lífsins steyptist yfir mig Strjúktu mér með lófum þínum eins og þú gerðir áður en ég áttaði mig á lífinu og allar áhyggjur heimsins helltust yfir mig Elskaðu mig alltaf eins og þú gerðir um leið og þú fékkst mig í fangið fyrir sautján árum ] [ Í þessu síðasta ljóði demantsins stóra mikla til perlunnar skal þjáningunni ekki gerð skil það verða farnar troðnar slóðir yfir brýr í staðinn fyrir að vaða straumþungar ár þó þetta síðasta sumar sé draumum hlaðið verður ekki boðið upp á drifhvítan snjó að loknu afdrifaríku hausti því ekkert er einsog það sýnist og ekki verður spáð helgöngu heldur munu bænir fylgja úr hlaði perla góða ferð yfir sjóndeildarhringinn. ] [ Ef skoða vil ég sálu þína, skima um hugans lendur, þá fortíð mína, framtíð mína fel ég þér í hendur. Allt sem ekki vildir sýna, mér eigna skalt sem stendur, og fortíð þína, framtíð þína fela mér í hendur. Í rökkurró við ræðumst við og reiðum á hvort annað, þreifum saman þúsund mið, það sem var ókannað. Allt sem virtist óra-sýn er nú allt í böndum, framtíð mín, og framtíð þín felst í okkar höndum. Því að við, aðeins við, erum við, eins og stendur. Því að við, aðeins við, veljum sjálf, okkar lendur. ] [ Lítið sem ekkert, hugsa ég um annað en þig. Draumar mínir, ást og vonir, eru það eina sem sterta mig. Bros þitt hjarta og haka, það er það sem fær mig til að þrá þig sem maka. Augun þín svo heillandi og dimm, pínu eins og sagan um dimma limm. Hver hjartsláttur slær nú fyrir þig, hvert bros og tíst er merki um hvernig þú snertir mig. Þótt fjarlægð sé löng til mín, er hugur minn og þrá ávallt í átt til þín. Elska þig af öllu mínu hjarta og vona að við eigum okkur framtíð bjarta. ] [ Almúginn segir ei þingmönnum þakkið, þeir hafa ekki unnið mér eða þér. En þar hefur langtímum helvítið pakkið, verið að hlaða undir rassana á sér. Þeir voru að klúðra einu málinu enn nú Icesave skal þjóðina sarga. Þeir sýnast mér þurfa- og glæpamenn í þykistuleik við að bjarga. ] [ Ég er ,,stórasti" bíll í heimi og þegar spýtt er í mig ríf ég mig upp að framan og dreg afturpartinn á eftir mér. En það finnst mér ,,verstast" af öllu er afturhjólin fara o´ní holuna eftir framhjólin og ég sit fastur á rassgatinu. ] [ í ástandi sjúklegs sársauka þegar blóð rennur eftir blautri framrúðunni svo vinnu þurrkurnar hafa vart undan leynist oftast í leynum agnar ögn af sælu ] [ ég hengi mig í ímyndaðri þyrnikórónu þinni því ég er ekki verðug að deyja þínum dauða. ] [ Vitum ekki hvað gerist, næst í lífinu. Vitum ekki hvað nýr dagur ber í skauti sér. Skipuleggjum, plönum. Framtíðina. Planið getur horfið eins og dögg fyrir sólu. Engar áhyggjur. Guð hefur verkefni handa okkur. Verkefni hlutvek í lífinu. Verðum að leita opna hugann. ] [ Byrla mér sopa fyrir dropa ég er mettur næsti dagur mun verða mín næsta lota ég er klettur svo hvernig væri að þora næsti dettur ] [ Í hljómfalli nætur djúpt í skóginum Þar býr þögnin. Í hljómfalli skógarins djúpt í nóttinni Þar býr kyrðin. Þar heyri ég andardrátt heimsins Djúpt í þögninni, Í skóginum. ] [ Ekkert múður með meydóminn, manns var snúður tilbúinn. Þoldi ei klúður með konuskinn, kyssti á lúður harðsækinn. ] [ Afhverju er svona auðvelt að gleyma, öllu því ljóta sem þú gerðir mér? Afhverju sit ég hér og læt mig dreyma, um allar góðu stundirnar með þér? ] [ ] [ Er strengir titra í skáldsins hörpu svífa ljóð úr andans böndum. Hátt yfir fjallaskörðin skörpu skjóta rótum í eyðisöndum. Fræ taka að vaxa eins og aðrir og enda sem gildir eikarstofnar. Á steina vaxa stinnar fjaðrir svífa hátt er dagur sofnar. Og fuglar spyrja móður sína skyldu þeir vera af okkar kyni. Er kveldin líða og dagar dvína dreymir þá um skrýtna vini. ] [ enn einn nakinn maður sem hefur bara verið graður hann liggur í hennar rúmi ég heirð'ekk'í hurðarhúni ætli hún hafi hleipt honum inn verður þetta kannski nýji pabbi minn? ] [ Áttavilltur að turninum ég fer til að leita hverju þarf ég að breyta til að veita ungur piltur ennþá villtur, vanstilltur er gjöfum fylltur en kann ekki að skreyta ] [ Þetta er sagan sem hefur tvö aðaltákn fyrra er bláa bensínstöðin við hliðina á mér og Bonchy hitt er ég og Ponchy elskan mín og þeirra sem borga sagan er ein af ástarsögum sem verða til í ólögum Ponchy og Bonchy halda báðar upp á mig skriffinna á erfðabættum restaurant við hliðina Bonchy á Bonchy báðar hafa fært togleðrið sundur af áhuga þeirra á copulación hin þjónustan bláa bensínstöðin hefur á dásamlegu hyldýpinu gert Bonchy og Ponchy hinar fáklæddu að einskonar phony bensínstöðvum með auðkenni af mér hvorki né Bonchy líður skyndilega en Ponchy undrast þetta er að elska ] [ Og hér ert þú rithöfundur óendanlega upprunalegur og gæddur næmi sem er heillandi en þó handan við dónalegan skilning. ] [ Yfir landinu er logn og friður og lágir þokubakkar svífa inn. Fram með fjalli er lítur niður og fölleitt horfir inn í dalinn sinn. Í húsi andans er heitur ylur í hulu alda er dagurinn smár. Allt sem brennur í eldi skilur eftir í minningunni sár. Um heiðargilin og brattar brúnir báðir hafa gengið þreyttir tveir. Göngumóðir í leit og lúnir nú lokast hlið og opnast aldrei meir. Hér myrkvar ei stíga skógar viður sól er hér samt og himinninn blár. En enginn Guð og enginn griður bara eldsins heitu leyndarmál. En þreyttri göngu þrutu í böndum þyrsti í lífið og hjartað sló ört. Einn sumardag bar brimið að löndum bakkarnir þrútnir og skýin svört. Ég geng til þeirra, grimmdar og sorga og græt með þeim er allt höfðu misst. Og elda hinna bannfærðu borga er brunnu á altari Jesú Krists. ] [ Svarri sendi kveðju 30.08.09: Ekki er mér orðið um sel hvað æðir fram um vegi. Það yfirskyggir að ég tel óðalsbóndann í Skálateigi. Doddi Júl svarar: Af Norðfirðingum fréttist fátt flestir puða í hljóði. Einn er þó sem hrópar hátt með heimagerðu ljóði. Óðalsbóndans ægitök á orðsins ljóðasnilli yfirskyggja baslabök og berast manna á milli. Svarri svarar: Ekki verður af honum skafið til orðaleikja er karlinn við. En þeim er oftast þannig farið að Þórður mátar stórskáldið. ] [ Fyrir speki má heimskan hopa, heldur viskan innreið þá. Ei þarf nema ilvatnsdropa ólykt slæmri að víkja frá. ] [ Í faðmi dimmra fjalla enn ég er, sjórinn er svo spegilsléttur hér, fegurri en málverk sýnin er og enginn tekur þetta burt frá mér. Því sólin speglar sjávarflötinn björt og tunglið lýsir hlíðina í kvöld þó að nóttin geti verið býsna svört get ég ávallt treyst á stjörnufjöld. Í faðmi bjartra fjalla enn ég er, í kotinu er best að kúra sér því ástin hún er allsráðandi hér og gleðin alltaf brosir móti mér. ] [ Verndum okkar dýru drauma dragi fyrir ólguský. Seinna þeim í ljós má lauma er ljúfust birtist sól á ný. ] [ Hefurðu að því hugann leitt er helst vilt gera sem skyldan býður að stundum leggist allt á eitt svo að ókleift verði er tíminn líður. ] [ ég á systur tíu árum eldri sem heitir sigrún hún segir mig ekki hafa verið vondan krakka en að ég hafi verið ógurlega uppátækjasamur getur þú nokkuð sett þig í hennar spor ] [ Áður fyrr með augun snör, atti fákum skjótum. Stríddi oft með strákapör og storkaði eftir nótum. Bágt var hér um hestaval, hót því mátti ertinn. Svo var látlaust sveitatal að sýna undir stertinn. Oft á Mön ég makalaust mokaði yfir þá sandi. Alla tíð ég undan skaust sem ei mér þótt vandi. Tálmar mér nú tussan síð teygð í lífsins glaumi. Ýmsir ríða í erg og gríð en aðeins ég í draumi. ] [ Þú hörku karl ert og harður sem grjót, hampa nú vil ég þér mjög. Næst skerð þú Steingrím niður við fót -nauðsyn oft brýtur lög.- ] [ horfi í augun þín og hugsa um regndropana sem falla í hjartanu mínu ég reyni að brosa en hugsa bara um leiðina sem liggur að brjósti þínu á ný ég þoli ekki hveðjustundir sængin þín er hlý mér er sagt að það opnist nýjar dyr nú sit ég ein og hugsa um nóttina sem er í faðmi mínum tárin kalla fram sorgina hvenær verð ég aftur í örmum þínum ? ] [ Í spjalli ei á hesta höllum, hóli er þar betur varið. En eitthvað er að öllum ef út í það er farið. ] [ Að yndislegust sé ást í meinum ýmsir munu telja að sé bara gjálfur. En manninum leiðist ekki einum ef hann er nógu skemmtilegur sjálfur. ] [ Hún spinnur sig upp Tekur þig heljar taki Særir sálina Samviskan hverfur burt Hún fer svo leynt um Étur þig upp að innan Særir alla í kringum þig Ekkert verður eftir af þér Hún, hún er lygin Lygin svo stór Hún,hún er gunga Særði og fór Fólk man hana lengi Hún skildi eftir djúp sár Erfitt að fyrirgefa Það getur tekið mörg ár ] [ Svarri marga speki á sótta í hina og þessa. Oft er svo að ergir þá er hann fer að messa. ] [ Blátt hugsandi - brosandi - horfandi inní hyldýpið Innantóm hverfing í myrkrinu - svört sól myrkur Kraftur ástarinnar er eins og mannkynssaga með skilaboð að handan um ástina Sjálfsmyndin skrifar í paradís þú og ég - saman ] [ Innan um alla þá fegurð sem umlykur sálina rís stjarna hátt yfir umheiminum Hún rís þar sem sorgin er mest þar sem fólk finnur fyrir tómleika - sorg og hefur enga von um ást Ástin sem fyllir upp huga þess sem trúir á krafta ástarinnar Sem fyllir upp í tómarúm þeirra sem hafa misst trú á krafti ástarinnar ] [ Vert er því að gefa gaum og gera að í skyndi. Að gefa lífi lausan taum og leika sér af yndi. ] [ Augnlokin þau þyngjast senn fer nú einnig og bursta tenn' ætla að segja gé og enn já þannig voru orðin tvenn ] [ Ég stóð á mánanum og hvatti fyrsta tunglfarann til stærri skrefa í svörtu rykinu. Ég hlúði að fyrsta fræinu í Surtsey, sá það dafna og verða að grænni jurt. Ég las fyrsta ljóðið þitt og krotaði í það með rauðum penna. ] [ Ég beið eftir sumrinu. Ég beið og beið, beið og beið. Ég horfi á haustlaufin, falla af trjánum. Velti fyrir mér hvert fór sumarið? ] [ Þú hefur ekki aðgang að þessu. ] [ Það er ekki sama hverjum hossað er því heimskinginn finnur til sín. Höfðinginn gerði sitt grín að þér en gasprinu beint var til mín. Af djörfung gerir margur dómum skil, dýrt er ei allt er kveður sá. Svo mælir hver sem vit hefur til, heimskur er ei sá er þegja má. ] [ Margt eitt dæmið má það sanna, margir séu á hlutum kantar. Sagður háttur Hólamanna að halda ei kjafti er svörin vantar. ] [ Ég er lítil stúlka og ég leik mér á gófinu, lög unga fólksins eru í útvarpinu og pabbi og mamma liggja saman í sófanum, Þau eru ekkert að rífast og allt er einhvern veginn öðruvísi, því ég er eitthvað svo hamingjusöm inní hjartanu mínu. Ég er gömul kona og ég ligg í rúminu, ég lít til baka yfir liðna ævi og þessi minning mín er sú sem hæst ber, brátt mun hamingjan heimsækja hjarta mitt að nýju, og ég veit að í þetta sinn mun hún koma til að vera. ] [ Herskáir þjöppuðu hópinn sinn og héldu þar klíkumessu. En þið eruð snjallari Sari minn að slíta ykkur frá þessu. ] [ Fyrir norðan en hálfan tíman fyrir sunnan sólu og í nálægð við tunglið setjast túnin í dvala, skipta lit og skýra sig á ný með gulum. En eru liðnir þungbúnir tímar með ljósglætu lítilli, skola þau sig og fermast vel, og líða dagar, og eykst styrkur, liturinn breytist. Einu sinni á hverjum hring, fyrir norðan, er þar sem grasið grær. ] [ Sumarský tæmast yfir bóndabæi og tún og skilja mýmarga regndropa eftir Uppheimur er nú heiðskír og hylur grundir strendingshimnu úr iðrum himins og jarðar Eyja vatns og ljóss Undir fjalli opnast blóm regnsins og annað stærra yfir veginum ] [ Sigurjón gekk um götu dimma langaði að komsast heim að skrimma fékk sér stóra poppkornsskál sem í typpi hans kveikti mikið bál Dettur niður á annað plan skemmtir sér og verður fan af manni sem að fær sér geitur og verður allt í einu feitur Sigurjón gengur dimmann gang borðar alltaf sjávarþang en er hann kemur heim til sín sér hann bara sitt feita svín Konan hans er ljót og feit minnir helst á gamla geit vill helst útá gras á beit en í stóra glerskál hún skeit Er hann ætlaði að setjann í hana minnti hún hann á banana setti upp á sig frekju svip er hann náði ekki að festa grip Hann hamast lengi á henni og kemur svo á hennar enni hann segir hátt hann segir snjallt ég vill þig ekki hundraðfallt Er hann sagði þessi orð hljóp kellingin beint á borð hana langaði helst að fremja morð er hann sagði þessi langþráðu orð Hún hljóp út nakin og orgaði og fyrir hana hann borgaði hún starði beint í augu hans og hljóp svo beint til annars manns Og í píkuna hann hitti beint og henni var nú ekki skeint ógeðsleg í útliti og hún hrópaði svo hálfviti Skíturinn í hennar tönnum var þá helst úr öðrum mönnum hún brosti síðan rosa breitt og allt í einu varð allt breytt. Og eftir þetta fór Sigurjón í rosalega mikið tjón hann reyndi þá að fá sér bón hann vildi helst missa alla sjón Og brundurinn skaust úr typpinu hún var þá helst í flippinu hún sykraði á sér sköpina og nelgdi sér í tröppurnar ] [ Ekkert lýsir götur strætisins nema glóð frá sígarettunni Einmanaleikinn glottir grimmt og sýnir mér hvernig er að vera einn Ekkert sleppur inn enginn kemst út ekkert nema eymd einsemd ] [ Konan með sverðið Fer yfir ánna Konan með sverðið Stikklar á steinum Skrímslið í hellinum Rýs úr rekkju Skrímslið í hellinum Fer út úr hellinum Konan með sverðið Labbar að hellinum Skrímslið í hellinum Labbar að ánni Konan með sverðið Mætir skrímsli Skrímslið í hellinum Mætir konu Konan með sverðið Heggur með ljánum Skrímslið í hellinum Heggur með klónum Konan með sverðið Slíðrar sverðið Skrímslið í hellinum Dregur inn klærnar Konan með sverðið Gengur sína leið Skrímslið í hellinum Hnýgur dautt niður Ekki er annað að vænta Konan með sverðið Er maðurinn með ljáinn Í einu af hans mörgu líkum. ] [ Eftir að hafa horft á heimildarmynd bæði um Bob Dylan og Rammstein þá horfði ég á heimildarmynd um saffranfræið. Eftir það fann ég viðtal við Slavoj Zizek þar sem hann talaði um aðdáun sína á hljómsveitinni Laibach , sem sjálfir komu með steitment í byrjun myndarinnar sem var svo flókið að ég horfði á það fimm sinnum og síðan fór ég hissa inn á klósett og horfði í spegilinn og kíkti síðan í bókahilluna. síðan horfði ég á jónuna hálfreykta á borðinu og aftur á bókahilluna. Ég skildi ekki steitmentið en það hljómaði mjög kúl þar til ég sá nýlegt myndband með höfundunum þá var mér alveg sama þó ég ekki skildi. Síðan horfði ég á heimildamynd um Afganistan og svo um Líberíu, síðan fékk ég email. Frá vinnuveitenda. Vinnuveitandi (í styttri útgáfu): Hringdu! Ég: get ég þá fengið pening fyrirfram? Vinnuveitandi: Já Ég : Ok flott, hvað á eg að gera? Vinnuveitandi: Vinna Ég : Ok, leggðu inn Vinnuveitandi: Ok Ég( slekk á símanum horfi á heimildamynd um íslenska tónlis Svavar Knútur er að vinna við síðasta bindi meistarverks lífs síns í tónlist 3. bindið er happy tónlist Svabbi glaður og hress. Ég tárast í smá stund en kíki fljott á heimabankann. Money Ég horfi á heimildamynd um Jim Morrison og síðan um Albert Hoffmann. Les bók eftir norskan höfund horfi á 3Silfur Egils þætti. Les Egils Sögu og set komment undir umræðupósta í pólitískum netmiðlum. Eftir nokkuð marga daga af þessu þá er ég fullur af menningu. Ég svaf vel ÉG varð reyndar mjög þunglyndur en drakk oft vín eða neytti lyfja til að stytta mér stundir. Síðan þegar ég vaknaði einn daginn til að fara upp í sólina og kannski í bankann og hringja smá leiðrétta smá þá var ekkert að leiðrétta ég hafði minnkað úr mikilli tölu yfir í mjög litla tölu svo lítil tala að ég hef ekki enn tölu á henni. Ég fékk lánað á meðan ég hugsa málið. Er að skoða hvort ég gæti orðið skíðakennari eða flatfiskflökunarmeistari setja upp erótískan pulsuvagn skrifa bók um eitthvað tengt rokki kannski hvernig einhver sem er rosa þekktur hugsar kannski fara uppí sumarbústað með Bigga í Maus og Einari Vilhjálmsyni og Páli Magnússyni skrifa um þá hvað þeir hugsa hvernig hugsa þeir saman sitt í hvoru lagi alla veganna ég verð að redda mér vinnu ég er atvinnulaus. ] [ Honum er ört að fara fram, flottheitin eiga hans líka. Sjarmörinn eykst við sérhvert gram er sest á feita kríka. ] [ Kanski hittumst við aftur þegar ár hafa liðið hjá, og þú horfir á mig. Við munum hlæja, leggjast niður og horfa á skýjin blá. og þú sérð að það kemur enginn í staðinn fyrir þig. Kanski muntu biðja mig að giftast þér, og þá segi ég já. Því aðra eins ást getur enginn annar gefið mér, og verið mér alltaf hjá. ] [ Ekkert mun nokkurn tímann stinga jafn mikið, ekkert mun nokkurn tímann særa jafn mikið, ekkert mun nokkurn tímann verða jafn slæmt og þú. En ég er tilbúin núna, til að fyrirgefa, ég er tilbúin núna til að byrja upp á nýtt, ég er tilbúin núna til að fá þig heim, og sleppa þér aldrei aftur. ] [ Þú hefur mig fangna, eins og rottu í gildru, eins og fanga í rafmagnsstólnum, eins og dýr í búri, og sama hvað ég reyni, þá kemst ég ekki burt úr fangelsi ástarinnar. ] [ Jafnt hin dýpsta sorg og hin sælasta gleði hverfast sama farveg með höfgu tári ] [ Heimurinn er harla grimmur hvergi skjól öruggt að fá. Hann er bæði dökkur dimmur dragnist ei sólin á stjá. Morðingjar skuggum skjótast skelfdan ber margan af leið. En glæpa er launráðið ljótast er líknarinn bregt sínum eið. ] [ Þú komst ekki ríðansi til mín á hvítum hesti, heldur hitti ég þig á bar. Frá því ég sá þig fyrst vissi ég hver þú varst, þú varst sá sem hjartað mitt þráði. Og ég fékk þig. Og ég mun aldrei sleppa þér. Svo lengi sem ég lifi, svo lengi sem þú vilt mig, mun ég vera hér hjá þér. ] [ Who took a away that smile girl why don't you care anymore? Who is that looking in the mirror is it you or a gohst from the past why is it when you are screaming no one can hear a sound why is it when you are crying no one can see a thing why is it when you are hurting you don't feel a thing ] [ Í Söðulsholti er sóminn góður sóknin drjúg í hrossarækt. Spái ég enn þeim aukist hróður svo ansi lengi sem það hægt. ] [ Í dag sá ég ástina við tjarnarbakkann. Svona lítur hún út: Kolla með höfuð undir væng. Við hliðina á henni steggur. Hann horfir árvökull í kringum sig en lítur annað slagið til hennar og með augunum segir hann: Bara fyrir þig skal ég vaka. ] [ Eldur rauður, aska grá og eiturmóða yfir landið lögðust forðum lýsa vart því má í orðum. Síðan liðu ótal ár og aftur vaknar lífið úti á auðnarlöndum úfnum hraunum, gráum söndum. ] [ Hægt og hljótt lætur dagurinn sig hverfa þegar nóttin loks vill troða blessuðum börnunum í bólið en þau vilja heldur leika og eru í látustinni svo liðug eins og bleiku meyjastjörnurnar og bláu mánadrengirnir sem hlaupa allan hringinn kringum jörðina sem hrýtur í geimsænginni sinni ] [ Ég hef ekkert lært hugur minn fylltur óljósum líkum fortíðar sem hrannast upp, líða um tjörnina og næra óræktina, óreiðuna í garðinum. Ég hef ekkert lært penni minn svo blóðugur af ritvelli fortíðarinnar og sundurtættri ófreskju hugmyndafræðinnar að það er of seint að leggja hann frá sér. Ég hef ekkert lært þessi andardráttur, raddbönd, svipur, hugsun sem neitar að viðurkenna eða gefast upp. Ég hef ekkert lært hef ekkert lært ekkert lært ekkert ekkert lært hef ekkert lært Ég hef ekkert lært Ég hef ekkert Ég hef Ég Náriðlarnir í garðinum færa mér blaðið í Morgunskímunni. ] [ Kaldur lækur, sólstafir og kristaltær ísskán. Hrakið lauf, rautt. Septembermorgun, þú og fjarlægðin. Aðeins kaldinn og þögnin, ferðast saman í kyrrð morgunsins. Þögn, söknuður eftir hlátri. ] [ þegar á botninn er hvolft er ég stúlka röng með blóð í munnvikum og hjörtu í höndum í speglinum sé ég ljón þakið leyndarmálum það eru för á veggjunum eftir mínar klær öskrandi samviskan flýr eftir situr illskan sem sleppur úr þessu fangelsi ] [ Úti fyrir geysar garri, glaður sá er inni býr. Er í stuði Austan-Svarri orð þó séu heldur rýr. ] [ Leit í húsi fagurt fljóð er fórst vel gesti að sinna. Nóttin var mér næsta góð naut ég drauma minna. (Svarri) Skáhallt karlinn skautar inn skrautlegur að framan. (Ólafur) Á honum tólin eru stinn inni bíður daman. (Svarri) Í Skagafjörðinn svífa með Svörð (Ólafur) snilldarfrændur kátir tveir. (Svarri) Þótt nú sé hart um hóla og börð heim munu komast aftur þeir. Góða veðrið gleður æ gerast dagar langir. (Svarri) Ríða tveir í Reðurbæ rosalega svangir. (Ólafur) ] [ Anna tognaði illa á hné, Arnar við bögl er natinn. Ingibjörg lasin sögð að sé sá því Þórður um matinn. ] [ Jafnvel þó ég reyni að halda tilfinningum mínum til þín leyndum, þá endurspeglast þær í andliti mínu, og fólk spyr: Afhverju ertu svona leið ? ] [ Allt er laust endalaust engin stefna ekkert val Egg með gasi, tár sem falla Brennandi böl með miklum halla Timbur! - tré falla en samt er svo andskoti erfitt að hafa áhrif á þessa kalla. ] [ Mynd af kyrrð Öll þessi kyrrð sem berst mér til hlustna Svo róandi, angurvær, nauðsynleg Svo ótrúlega nálæg en samt svo fjarlæg auðveld að nálgast en erfið að beisla Rofin af fuglasöng og minningum. ] [ Skýin hrannast upp eftir að ský tók að draga fyrir sólu sem skein. Allt sem var svo bjart virðist nú svo dimmt, svo þungt og hún sekkur dýpra og dýpra uns henni finnst hún vera að kafna hún fellur Heldur að hún geti ekki meir. Þar til hún vaknar af hræðilegri martröð. ] [ Connecting... nei. það bara er ekkert samband. sorry hringdu bara á neyðarlínuna. ] [ Losað um alla hnúta Horfst í augu við ákveðna búta. Engar hömlur, ekkert strit Bara eintóm hamingja í lit. ] [ Er langanir lífsins glæðast og ljósið í fjarlægð skín, ungviðin vitinu væðast, með vonbjörtu augun sín. Er hjörtun af hamingju græðast, hart er frá því að segja, að allir sem fá að fæðast, eru fæddir til að deyja. ] [ Augu mín hulin þoku skima og sjá; þegar komið er á leiðarenda ] [ Þetta líf er svo stórt og mikið ég sé bara rétt glitta í það það er þarna ég er búinn að finna fyrir því ástin er að heltaka mig er það ekki líf ] [ ég sit og er að hugsa um það sem ég hef. það sem ég hef er allt sem við vantaði en samt er eitthvað sem er að angra mig. ég er að reina að fela þetta, það er bara svo erfitt. ég reini að hugsa um það sem ég hef en samt get ég ekki gleymt því sem ég hef mist og fæ ekki aftur. þetta fór allt svo fljótt. hafði varla tíma til að seigja bless. allt sem ég hafði er farið. ég sé það stundum, en hægt og rólega er það allt að hverfa burt, þetta fíkur burt eins og lauf á tré um veturinn, tréð verður bert en laufin koma aftur um vorið. vona bara að mín vaxi aftur... ] [ Óla hrökk upp með andfælum, hafði sofnað út frá sjónvarpinu að venju. Hún var sársvöng enda í enn einum megrunarkúrnum. Magi hennar æpti á eitthvað sætt, helst súkkulaði. Skítt með þessa vonlausu megrun, hugsaði hún ergileg. Hún nennti ekki út í sjoppu og datt því í hug að vekja Jónsa. Hann var ekki óvanur að sendast fyrir hana þegar sætindafíknin náði tökum á henni. En svo áttaði hún sig á því að komið var fram undir morgun og löngu búið að loka sjoppunni. Bara að hún þyrði að panta leigubíl og biðja bílstjórann að fara niður á BSÍ til þess að kaupa eitthvað. En stúlkan á stöðinni hafði verið svo dónaleg við hana síðast þegar hún reyndi þetta. Hún hafði spurt hæðnislega hvort bílstjórinn ætti virkilega bara að kaupa eitt súkkulaðistykki. Óla hafði fokreiðst. Hvern fjandann var þessi glyðra að skipta sér af því hvað bílstjórarnir keyptu fyrir viðskiptavinina? Henni kom það andskotann ekkert við. Hún hafði hellt sér yfir þessa óforskömmuðu stúlkukind og skellt svo símanum á. Hún ranglaði fram í eldhús og leitaði í öllum skúffum og skápum en þar var ekkert að finna. Hún var orðin öskuill út í Jónsa. Hún hafði vonast til að hann hefði keypt súkkulaði. Hann gerði það stundum. Sérstaklega þegar hún var í megrun, þó hann fengi oftast óbótaskammir þegar hún var búin að gleypa í sig góðgætið. Þú vilt bara að ég sé feit sagði hún þá oftast og brast síðan í grát. Jónsi vissi ekki lengur hvað sneri upp eða niður þegar kona hans átti í hlut og reyndi því að hegða sér eins og í spilamennsku og segja alltaf pass. Óla heyrði eittvað þrusk fyrir aftan sig og sperrti eyrun. Þetta var auðvitað Jónsi að koma fram til þess að fá sér eitthvað að éta. það voru fastir liðir eins og venjulega. Nei, ertu vakandi elskan? tafsaði Jónsi þvoglumæltur þegar andlit hans birtist fyrir hornið á ísskápnum. Ólu fannst þetta svo heimskulega spurt að henni fannst ekki taka því að svara. Ég er svo svangur, sagði Jónsi. Það eru nú fleiri, hreytti Óla út úr sér. Jónsi hélt áfram. Það er svo undarlegt hvað ég verð alltaf matlystugur af þessum svefnpillum. Ég vakna alltaf fyrir allar aldir, svo glorhungraður að ég bara verð að fá mér eitthvað að borða. Óla horfði á bónda sinn. Hann var ekki beint fyrir augað núna. Aðeins á nærbuxunum einum fata sem pokuðu einhvern veginn utan um hann fyrir neðan miðja ístruna og rýran rassinn. Bakið bogið eftir tugi ára erfiðisvinnu og æðahnútar á fótleggjunum. Til þess að kóróna dýrðina var hann svo vita tannlaus sem gerði það að verkum að nefið virtist enn stærra en venjulega. Jónsi opnaði ísskápinn og beygði sig niður til þess að ná í mjólkurfernu. Ólu langaði allt í einu til þess að sparka í rassgatið á honum Eitt þrumuskot og hlaupa svo eins og andskotinn í burtu. En hún sat á sér og hálfskammaðist sín. Var hún virkilega svona vond manneskja? Hugsaði hún skelfd. Ég er líka að drepast úr hungri, sagði hún lágum rómi. Ha!, svaraði Jónsi með hausinn á kafi inni í ísskápnum. Mig langar svo í súkkulaði, æpti Óla. Hvað er þetta manneskja? Það er óþarfi að öskra svona! Þú vekur alla í húsinu með þessum látum, sagði Jónsi snöggur upp á lagið um leið og hann hellti mjólk í glas handa sér. Af hverju keyptirðu ekkert gott handa mér?, vældi Óla ásakandi um leið og Jónsi teygði sig eftir matarkexinu. Hu!, mér datt það ekki í hug, ansaði Jónsi. Þú spikfitnar af því, bætti hann við. Þú átt bara að fá þér mjólk og kex eins og ég, sagði hann rogginn um leið og hann snerist á hæli til þess að fara með bitann sinn upp í rúm. Ólu langaði mest til að myrða bónda sinn með köldu blóði. Að hann skyldi segja þetta. Hann sem sjálfur var alltof feitur. Honum væri það mátulegt að renna á rassgatið með helvítis mjólkina hugsaði hún í heift sinni. Í sama bili glopraði Jónsi glasinu út úr höndum sér svo það skall í gólfið svo það mölbrotnaði og innihaldið myndaði stóran poll fyrir framan ísskápinn. Jónsa varð svo mikið um að honum skrikaði fótur í bleytunni. Hann æpti upp yfir sig um leið og hann missti jafnvægið og lenti á óæðri endanum í miðjum mjólkurpollinum. Óla starði á Jónsa í forundran þar sem hann sat á gólfinu rennblautur eins og hundur af sundi dreginn, með kexið á floti við hliðina á sér. Svo fór hún að hlægja. Hún hló tryllingslega og benti á eiginmann sinn. Þetta var gott á þig stundi hún upp á milli hláturrokanna. Hún hélt áfram að hlægja einkennilega holum hlátri og andlit hennar afskræmdist illskulega svo rétt grillti í gular glyrnur. ] [ mánaskinið speglaðist á sléttri tjörninni og ælan myndaði gárur manstu? fegurðin dropaði af þér er þú klóraðir úr mér augun og við sungum ó hvað við sungum meðan draumarnir urðu bálkestinum að bráð manstu? hvað flaskan tæmdist fljótt og glóran með og við dönsuðum við fiðluleik ljámannsins? æ mig verkjar í hjartað og eilítið í lifrina þegar ég hugsa til tín því ég man ég man hve fallega sálunum blæddi út er skuggarnir tóku að styttast manst þú? ] [ Innra með mér er ég tóm en ytra, nokkuð gisin. Tilveran er torrætt hjóm, tætingsleg og visin. ] [ Stolt nú í stuði, Geislum af gleði. Syngjum öll saman og tökum nú á. Reisum vort merki. Flott ljónin lýsi, Stundum sem gleðja og virka svo vel. Upp, upp, brettum við ermar. Upp, upp, létta ljónasveit. Mögnum meira stuðið. Dönsum bara saman. Vaskra, vina ljónasveit. ] [ Gyðjan mig vekur. Leikur í ljósum. Kveiktu á tölvu og takkana lemdu. Farðu á fætur. Þú verður að vinna. Hrópar hún hátt og virðist svo reið. Nú, nú , íslensku þýða Nú, nú, enskuna skrifa Hvílast skaltu seinna Þá með sæng og kodda. Hverfa, skal ég þér um stund. ] [ Syngjum, syngjum svo eflist Lionsandinn. Kætumst saman, þetta er gleðistund, því af Lions er leystur margur vandinn. Lið við leggjum oft á ögurstund. Drottinn dregur þó drýgsta vagninn. Margfalt mun Hann launa tímann minn. ] [ Leggðu nú liðveislu í landinu hér. Ég veit að svo vel mun það fullnægja þér. Þá verður þér ljóst að þitt líf er svo bjart. Þú vægðarlaust vinnur með Lions svo margt. Hæ! dúllía, dúllía! dúllía! da! Hæ! dúllía, dúllía! dúllía! da! Þá verður þér ljóst að þitt líf er svo bjart Þú vægðarlaust vinnur með Lions svo margt. Að starfa með Lions mun lífga þig við. Við vinnum í kærleika að leggja öllum lið. Svo margt þarf að gera og verkefnin mörg. Sem sjálfboðaliðar við flytjum heil björg. Hæ! dúllía, dúllía! dúllía! da! Hæ! dúllía, dúllía! dúllía! da! Svo margt þarf að gera og verkefnin mörg. Sem sjálfboðaliðar við flytjum heil björg. ] [ Öryggismála ég hugsa um hag því hálkan má ei á mér vinna. Ég setti á loftbóludekkin í dag það dugir ei annað og minna. ] [ Enn um Icesave stendur stir, Steingrímur líkist merði. Stælir íhald sem aldrei fyr, sem óleiki mesta gerði. ] [ Hann reif sig yfir rumpulýðinn og ráherrastólinn lét fjúka. Það átti að drulla á alþýðulýðinn en Ögmundur neitaði að kúka. ] [ Í nótt mun ég kalla er kvelda fer og þagnirnar halla sér þétt upp að mér. Á allt er ég lastaði og liggur við grjót. Því dögunum kastaði djúpt út í fljót. Í nótt mun ég biðja bænir og tár. Að þær muni hylja öll mín sár. Þig mun ég dreyma drauminn sem fer. Er beiskjan heima heilsar mér. ] [ Stundum, þegar þú vilt hvorki sjá né hlusta á mig græt ég og leita í ofboði að fríum draumi. Stundum, þegar þú heldur mér svo fast að það er sárt verð ég ringluð af endalausum draumum. Stundum, þegar ég sit ein í hljóðlátu myrkrinu og sökkvi mér niður í fortíðina á ég mér enga drauma. Stundum, þegar við vitum bæði að allt er í lagi er ég hamingjusöm og þarf alls enga drauma. ] [ Hvað hugsar þú,með þessum safír augum? á meðan ég hnita áfenga hringi í dáleiðslu þeirra og líður eins og hnoðaður brauðsnúður O!.Ég vill eignast þau með glasúr En formið kallar á hitan Ertu tvíbakka eða snúður? Glasúrið kemur ekki fyrr en eftir á. ] [ Gömul hetja, er nú gróin föst, í mjaðmagrindinni. Hér áður breytist hún stundum í. Tíu pylsur á Bæjarins bestu,átta tíma rúnt um bæinn, blaut föstudag,laugadag,og sunnudag. Og þarna stendur hún enn einbeit, við stjórnvölinn. Stendur klár á sínu,með allt sem kemur og fer. Dagblaðið og ruslakörfuna, sem bætir það allt upp í huganum. ] [ Grámygluleg galar nornin sinn galdraóð. Blóði er drifin slóð. Ó, Mjallhvít! Hví sendirðu mér ekki sms í síma, í tíma? ] [ Nótt kom fljótt yfir skuggar breiddu úr sér og söfnuðust saman upp steig máninn hátt Friður kom fljótt yfir Esjunar bláu sund upp steig ljósið hátt First er innri friður siðan heimsfriður ] [ Ég var barinn til drykkju og blóta og bræður mínir líka. Og blóð mitt rann um foldir til fljóta feigt er aðra að svíkja. Og ást sem barst úr bernsku löndum brann við heima leitin. En tárin mín í bandingja böndum voru bæn og gömlu heitin. En ég átti fagra felustaði í földum skógarlundum. Leiðin þangað er vond á vaði varla fær - nema stundum. ] [ Við erum bárur í brimróti lífsins berumst með veðri og vindum. Stundum náum við að rótum rifsins en í sjónum oftast við lyndum. Öldurnar mislangt eiga að landa og mismarga leiðandi máva sjá. Sumar synda mót straumnum og stranda og sökkva of snemma í hyldjúpin blá. Hugur minn sem vaggandi vökvinn blár vaggar í óvissu og ófylltri þrá. Nær ekki landi ár eftir ár. Rekur þá heldur lengra frá. Einn dag mun líka þessi alda safnast til föður síns Njarðar. Hverfa smá saman í kelduna kalda kveðja þá fegurð vor jarðar. ] [ NEI ! hvað er þetta? er þetta risaeðla ? GODZILLA nei þetta er rebekka að reyna við sæþór afhverju sit ég altaf ein, afhverju á ég enga vini ? ég hata að vera ljóshærð skinka, skinka, SKINKA ég gefst upp, upp ég gefst ég vildi ég væri skáti afhverju fór ég ekki í skátana ég gæti fengið að ganga í einkenningsbúning eins og sigmar kynþokki ég er ekkert, ekki ögn. ] [ Hér er eilífðin sem björt var áður en svört er nú sóma fólk og svartir sauðir tóku lán til að kaupa sér bú og betra líf þetta er útúr kú og hvar er stefnan nú þingmenn og annað hyski henda í okkur þunnildum og öðrum fiski og segja okkur að bíða þetta mun lagast en stefnan er sú að þetta er alltaf að dragast þetta mun aldrei lagast því þeim er alveg sama þeir þurfa ekki að svelta ,gráta og betla þetta hyski lifir ekki á þunnildum og fiski nei það er læri, hryggur og humar á þeirra diski. ] [ Í skugganum sit ég kaldur og skelf heimilið,konan og börnin farið og allt annað sem var eitthvað í varið ég sit og hugsa hvernig gat þetta gerst hvað nú ? afhverju ég og þú? það rennur á mig reiði helvítis ríkistjórn hvað er eiginlega á seiði við eigum þetta ekki skilið segi ég aumur ég bíð eftir að einhver klípi mig og segi mér að þetta hafi verið vondur draumur það er dimmt mér er kallt ég bið til guðs ég segi honum allt ekkert svar engin hjálp hvenar ætli að þessu linni hérna mun ég deyja ég kveð þig kæra jörð þetta munu vera mín síðustu að sinni. ] [ Næturgyðja um norðurskaut, sem nýútsprungin rós í laut, sjá vindur hlýr á vorri braut og vorið henni ann. Með lóukvaki og lækjarnið þá ljúfust boðar öllum frið: Hún fegurst blóma fjallaskraut og fangar líka mann. Í drauma mína drottning sótt, hún dásamleg þó hverfur skjótt og fagurt aftur verður ljótt í villu saklaus leidd. Þó guggnuð sé og gleðisnauð, og grátin, sálin löngu dauð: Hún ástmey mín í eina nótt, með afborgunum greidd. ] [ Slátur sykrað gómsætt vil: Sælan allra mesta. Grátur heyrist, gimbur til guðaheimsins besta. Og öfugt... Besta guðaheimsins til gimbur, heyrist grátur. Mesta sælan allra vil: Gómsætt sykrað slátur --- Hýða, berja, hengja, slást: Hermenn nauðga konum. Líða skortir lífsins ást: Látnum jarðarsonum. Og öfugt... Jarðarsonum látnum ást lífsins skortir, líða. Konum nauðga, hermenn slást, hengja, berja, hýða. ] [ Sekkur, magi, lík. Grænn hugsuðurinn. Sökkvir sér í aumar sorgir gærdagsins. En faldi sig á bakvið flöskuna. ] [ Heimspekinnar höfuðdyggð: Heldri manna efinn Eins og gæska eða tryggð: Ekki öllum gefinn. -- Grænir steinar gleði fá gylltum klæðum fínum. Brúnu augun birtu ljá bláu vinum sínum. -- Æskuglóð og eldur bið að aldrei megi linna, því ljóðin mín þau lifna við í ljóma augna þinna -- Bærinn þegar blunda fer og blómin sofa rótt Vinur mig á vængjum ber um vorsins ljúfu nótt -- Dýrir steinar, djásnið heitt döprum gætu í leynum, yndi gefið, illsku eytt, ef augu væru úr steinum. -- Vita máttu, vel ég þér vil ó góði besti. Elska heitt og una mér við alla þína lesti. ] [ Tímabundin vetur villti fyrir mér veginn feginn að sá dagur er á enda nú fleygur fuglinn flýgur yfir alla feiminn en núna sé ég heiminn alveg eins og þú ] [ Úti er logn, inni er rigning. Brotnu hjörtu okkar sameinuð mynduðu eitt heilt. En tölur á blaði sigruðu tilfinningar okkar. Stolt þitt sem eitraður snákur reif hjartað okkar sundur. Skildir mig einan eftir á kanntinum með rauð tár og þennan eina koss til minningar um heilt hjarta. ] [ Öll er vor tilvera á eina þá lund að óvissan hefur sitt flæði. Að lifa er best fyrir líðandi stund að láni eru heimsins gæði. ] [ Þegar þú blómstrar, þá opnast ég. Síðan tökumst við á loft, upp á við. Við fljúgum hlið við hlið, eins og fuglinn. Lendum, og ég sendi þér fingurkoss. Þú horfir á mig og ég á þig. Allt hverfur, og ein stend ég. Hjartað mitt brestur og að molum verður. Púslaði þvi saman, hjartanu. Hélt áfram án þín. En minningin lifir. Já, í mínu hjarta lifir. Gleymi þér aldrei. ] [ Þegar ég sá þig varðstu mín, í draumnum einum. Augu þín voru sem glitrandi stjörnur á himni. Og hjartað sló, sló fast. Fiðringur í maga, sem varð að laga. En ég gat ekki. Því ég elskaði þig, og geri. ] [ Eins og lífið sé eintóm vitleysa, eins og ástin sé draumurinn eini, eins og gleðin sé það horfna. Eins og líðan sé það illa, eins og sviðinn inni í manni sem verður að veruleika. Eins og tárin séu dropar á glugga, eins og hláturinn sé hrópið, eins og hamingjan sé gleymd og grafin. Eins og það sé engin þú. ] [ Við erum öll frábær og æðisleg, fyrir almættinu þó lítil peð. Lífið er dýrðin sem líður sinn veg og ljóst verða allir dansa með. ] [ Ég er ástfangin af stelpu. Stelpan er mér dýrmætari en allt í heiminum. Stelpan er með bros engilsins. Stelpan hefur augu hamingjunnar. Stelpan er fallegust sem tærasti kristall sjávarins. Stelpan er sú flottasta sem ekki er hægt að slíta augun af. Þessi stelpa er sú sem ég þrái, þessi stelpa mun ég elska og elska meir og meir með hverjum degi. Sú stelpa sem hefur hjarta mitt, sú stelpa sem ég er fallin fyrir, sú stelpa sem gleður mig og veitir mér hamingju, sú stelpa sem ég elska svo mikið að hjarta mitt stækkar í hvert sinn með henni, sú stelpa sem fullkomnar mig algjörlega. Stelpan ert þú og munt ætíð vera, aðeins sú rétta og eina ástin í lífi mínu ] [ Þegar ást þín stoppar, hrynur hinn veraldlegi heimur. Eftir er aðeins mölnað hjarta makans, allt breytist líkt og hraði ljósins sem þýtur. Dagarnir koma og fara, þú hugsar; upp kemur eftirsjá. Þú vilt allt aftur; hinn einlæga kraft, blóm lífsins, ást sem ei sekkur. Tækifærið í molum er, ei þú færð né nærð. Hún er þér horfin frá, og ei elta mátt, hún lifir í sínu og þú í þínu. Þú slepptir, þú misstir. Um tíma allt þú aftur vilt eins og áður var, eftirsjáin stendur þér þá hjá, í hjarta. Ekki gleyma henni, ástinni þinni, en eftirsjána slepptu. ] [ Lífið er eintómur erfiðleiki, lífið er ei auðvelt. Lífið er helvíti, lífið er uppris sólarinnar. Lífið er brotið hjarta, lífið er púsl lífsins. Lífið er grátur myrksins, lífið er bros einmanaleikans. Lífið er upp og niður, lífið er ótraust mannsins. Lífið er þrá ástarinnar, lífið er tilfinningar. Lífið er erfiðleikar ævinnar, lífið er 50/50. Lífið er lífið sjálft. ] [ Því fórstu, því komst þú ekki aftur? Vinur varstu, mannstu? Einn daginn varstu hér, hér hjá mér. Annan daginn hvarfst þú. Ég leytaði af þér, dag og nótt. En fann þig ei. Tár mín urðu sem rigning, hamingjan varð sem svartasta myrkur. Brosið varð fölnað blóm. Því farinn þú varst. Ég leit upp að himnum og tár runnu, því farinn þú varst. En afhverju þú? Afhverju ekki ég? Við hittumst þá uppi, þar sem ljósið skín. Ég sakna þín. ] [ Hér samfylkingin þjösnast þjóðinni dýr, það er svo margt sem henni er illa farið. Að kratar séu úrhrök er ekki vegur nýr, með ójöfnuði hafa lengi þjóð vora barið. Nú sýnast þeirra landráðin lifandi skýr, að lemja enn Icasave on´í gamla marið. ] [ hávaði og í miðju öngþveitinu mitt á dansgólfinu rekast tvær manneskjur saman. smá blossi, smá bros það er ekkert í stöðunni annað en traust á örlögin; og það er stórkostlegt. ] [ Sextugur mínus tugum tveim trónir á aldri mætur Ásgeir hann er einn af þeim sem engan gráta lætur. Við dáum þennan mætan mann Möggu og strákana báða. Ljúft streymi lífið í þeirra rann og lukkan þar megi ráða. Á afmælisdaginn við óskum þér allra besta gengi, að auðna þín með okkur hér endist vel og lengi. ] [ Í grýttri urð var glóð og gömul refa slóð. Bar við fjallið fönn og frekleg ætihvönn. Hér bjó maður meyr en minningin deyr. Og allir hæddu hann þann hrakyrta mann. Úti voru engin blóm aðeins urðin tóm. Og draugar stigu dans í dimmum kofa hans. En Þorpið hló í þökk þegar upp af hrökk. Og kofinn eyddist brátt allt er orðið smátt. ] [ Rómaborg er eins og rjómaterta með rjáfrin há , fátæka og ríka. Hér lifa menn og sagnirnar snerta sálirnar allar og mína líka. Og Páfagarður er eins og pabbi með pollann sinn í grænum lundi. En við múrinn eru margir á labbi meðan páfinn er með Guði á fundi. ] [ Heimavöllur okkar er ásvöllum á. Þar ávallt tökum við á móti þér. Svo leikum við leiki tuttugu og þrjá. Því úrslit verða líklegast hér. Við erum ennþá meistarar. Svo ekki reyn'að kom'í hark. Kannski klunnalegir gæðingar. Þó kemur alltaf mark. Við spilum þrettánda, nítjánda, sautjánda og níunda. Sextánda, fjórtánda, átjánda, og tíunda. Svo stundum tökum við þitt lið og bara rústum þeim. Svona er það að koma og sækja okkur heim. j, svona er það að koma og sækja okkur heim. ] [ Það er annað um að tala en aðstæður komast í og ólíkt um mál að mala en megna að sleppa því. Er með það sem annað plott, ekki eru lögin skráð. En stundum verið getur gott að gefa sín bestu ráð. Á himni má hver safna í sjóð, Satani gefa frest. Hollast er því heillin góð, heima og jafnan best. ] [ Vonin er eins og vorið það er vetur og okkur líður illa og svo á endanum fer að birta smá til, en okkur er enn kalt, en.. við höfum tilfinninguna á að bráðum fari að hlýna. ] [ Um Icesave er tekist eins og dæmin sanna, ástandið virðist allt ganga á haus. Illt er að verða leiksoppur vitskertra manna, vitleysa er ótakmörkuð og endalaus. ] [ Stundum ligg ég silfurlitaður og nakinn í grasinu á kvöldin undir fuglagoggunum og öllum þessu væntingum sem allir gáfu okkur fyrir daga kaupmáttarins. Ó, Satúrnus efst á himni! Hvar í draumi vélarinnar gleymdi ég okkar samveru, stundum? Og þú sagðir mér fimmtíu milljón leyndarmál bak við reynitrén. ] [ Lífið er indælt og ilmurinn góður, allir í stuði og veðrið er flott, fiskur er nógur, fullur hver sjóður, fá sér í staupinu væri nú gott. ] [ Lífs er besta á ljúfum jó, luma á smiðjutári. Yndið mesta ýmsum þó, ungrar gyðju nári. ] [ Þú er ung og æskurjóð, elskar fjör og kæti, hamingjuóskir heillin góð, hyllir þig Einar sæti. Þú ert enn með æskumóð, áköf visku fangar, leiðin verði greið og góð, gæfubrautir langar. ] [ Snerting þín hefur brennt sig inn í húð mína, rödd þín hefur grafið sig inn í eyru mín. Kossar þínir, sem límdir við varir mínar, og orðin þín föst í huga mér. ] [ Nóttin geymir mín leyndarmál, því þá er ég andvaka. Sárar minningar sækja á mína sál, þetta á mig að eilífu eftir að þjaka. ] [ Í morgun opnaði ég augun, hann var ekki hjá mér. Í hádeginu borðaði ég ekkert, því hann borðar ekki með mér lengur. Í þrjúkaffinu starði ég á símann, hann hringdi ekki, Í kvöldmatnum grét ég, því ég saknaði hans. Allt kvöldið starði ég á tölvuskjáinn, hann svaraði mér ekki. Í nótt lagðist ég í rúmið, og lá andvaka á meðan stingandi minningar ásóttu mig. ] [ Veitti andsvar vinur skýr, viskan út úr honum rann, Einar Svarri undan flýr, enda betra fyrir hann. ] [ Hún er ung með æskuþrótt, iðar fjörs af kæti. Fönguleg með gáfnagnótt, gengur heims um stræti. Margir hafa í hana sótt, hún er vinurinn mæti. Daga jafnt sem dimma nótt, deilir hún öðrum sæti. ] [ Tímans tennur meiða tortíma og eyða. Dauðasagnir sveima sekur var ég heima. Þekki grimmdar glóðir gamlar kvalaslóðir. Sannleikurinn slökknar svipurinn dökknar. Í gráma fjarri ganga það gamla og það stranga. Drottinn gef mér griðinn grátið til mín friðinn. Í mér feigðar flekkir fúnir synda kekkir. Er setjast eins og sori í skítugri drullufori. Friðlausu og földu fyrirlitnu og köldu. Svartar bera slæður sorgmæddar mæður. Dagarnir deyða drunganum eyða. Engillinn ljóstrar helvíti fóstrar. ] [ Sýnist vera til verka fús, virðist eðalkvensa. Ei við dús að leyna lús, líkar ei svínaflensa. ] [ Gríðarlega er folinn frár og fæst ekki til að hlífa sér. Hjörvar er enginn húðarklár, hófagóður og liðasver. ] [ Ögmundur hangir enn á tám, ætli hann falli bráðum? Jóa og Steini líkjast Lám, líkur er Skrámur báðum. ] [ Nú eru vinstri að vaða sinn reyk, villtir og daprir í geði. Með fögru loforðin fóru á kreik, fljótast þó hin leiðin réði. Hamast í skotgröfum hægri svín, hæðast að ástandi slíku. Ljúga og stela er ljóst bara grín leiðtogum spillingarklíku. ] [ Á þeim tíma, á þeim stað þegar undrin voru falin á þeim tíma ég bænir bað um miða í brottfararsalinn ég sat sem fastast á fjallagrjóti og fortíðina ég aftur spann ég ofan gekk en þó upp í móti og yfirgaf allt það sem ég fann og sól á himni sýndi sig og mér sýndist allt verða blárra gætirðu hætt að glíma við mig og gefið mér eitthvað skárra uppá fjallsins eina toppi ég dalina víðu leit í einu heitu hjartastoppi ég hélt ég sæi norðursveit ég aftur kom til leiks og lífs og leit nú á þær tíðir er ég átti sæll til skeiðar og hnífs er sumir vetur voru blíðir en sól á himni sýndi sig og mér sýndist allt verða grárra gætirðu hætt að glíma við mig og gefið mér eitthvað skárra gleymdu því sem gleyma má ég skal gleyma öllu hinu illgresið og ástin smá eru að verða að sinu og ég á mig og þú átt þig og því er best að sofna því tíðin okkar er tilverustig fyrir tóma tekjustofna. og sól á himni sýndi sig og mér sýndist allt verða blárra gætirðu hætt að glíma við mig og gefið mér eitthvað skárra ] [ Ég sá þau ganga hönd í hönd heilög einsog engin væru lönd og leiðin þeirra lá niðrað strönd einhvers hafs sem er óendanlegt ég skynjaði blindur þeirra bönd sem batt þau saman einsog blómavönd og ég reisti þeirra ást upp á rönd einsog eitthvað sem er óyfirstiganlegt og ég bað hinn bleika dauða um ljós í betlibaukinn minn auða. Ég eftir sat án nokkurs svars einsog apríl væri enn í mars ég sendi á eftir til þessa pars allt það sem ég aldrei gaf í reyttum runna ég leitaði vars lét hugann reika til næsta bars og ég óskaði mér héðan fars til þess beðs sem ég áður svaf og nú bið ég hinn bleika dauða um líf í betlibaukinn minn auða. Ég átti mér upphaf sem endaði hér einn í runna Faðir fyrirgef mér nú er ég þar sem mig enginn sér eða á ferð niðrað sjávarströnd ég kreisti og held fast í hendina á þér og hærra til þín minn Guð ég fer og við göngum niðrað strönd einsog óvígur her og ég mun kanna okkar ódáinslönd og þú biður hinn bleika dauða um líkn í betlibaukinn þinn auða. ] [ Að umgangast aðeins sjáfan sig er uppspretta vanlíðunnar ] [ ég tók eftir því að það vantar eitt N í "sjávarflötinn" í ljóðinu mínu Fjallafaðmur en samt var það ljóð dagsins þannig að ég get ekki breytt því! Er hægt að laga þetta, haha, eða á ég bara að sætta mig við þetta? ] [ Allir þessir dauðu eru enn til í mér þeir lifa góðu lífi minning um mann af manni fram langt aftur í aldir Já heimur endar hjá hverjum og einum en minning um mann sem mundi annan lifir í minningu þeirra sem muna þig Allir þessir dauðu eru enn til í mér en heimur endar hjá hverjum og einum dauðinn er alltaf heimsendir hér ] [ Sú kemur tíð, er löngu liðin verða landsins ánauð, kreppa og svartar nætur. Þjóðin mín verður að þrauka og hugann herða. Held ég að traustir séu Íslands fætur Sú kemur tíð, er mönnum græðgin gleymist. Gróðurinn vex og fé fær ekki að ráða. Vonin er sú að Fróni raunin reynist reynsla sem styrkir, hvetur menn til dáða. Sé ég í anda skógum skrýddar myndir, skuldin ei lengur hrjáir Íslands söfnuð. Þá verða horfnar okkar sáru syndir. Söngraddir landans boða frelsi og jöfnuð. ] [ Ungum var mér innsta þrá, eignast fjölda sona. En þannig bara í þessu lá, þurfti tvo til svona. Svo gerðist það mér birtist brá, brátt fór að lifna og vona en Fanney Dóra fór mér hjá fönguleg sómakona. ] [ Ásgeir tendoó málið metur og mælir fyrir því að fimmti tugurinn byrji ei betur en bjóða á fyllrí. ] [ Um lífsins framtíð legg ei plan og læt mér duga það. Annað hvort væri það of eða van eða þá mislukkað. ] [ Börnin hafa margt frá mér en móðurinnar þátt ei rengi. Sækja til mín segi ég þér, sætleikann er endist lengi. ] [ Börnin hafa margt frá mér, makaþáttinn ei þótt rengi. Sækja til mín segi ég þér, sætleika og mikið spengi. ] [ Það þarf að gera í því ef eitthvað á að ske. Oft er gullinn meðalvegur bestur. Mun og jafnan best er allir eitthvað láta té, ánæju þá nýtur sérhver gestur. ] [ Ástkærust dóttirin æddi í geim, óvörum lenti í klabbi og það hún mælti þegar kom heim: ,,Þetta var meira ballið pabbi"! ] [ Ég kominn er af Sigfúsi en móðirin hét Marta, mikið er hún dóttir mín nöfnu sinni lík. Faðir minn var hetja sem kunni ekki að kvarta, kátur er hans nafni og sama eigind rík. Yfir uppvexti mínum ég ei þarf að vola, ástríkur reyndist faðirinn mér. Fyrir börn sín og vini hann braut sig í mola og bar okkur jafnan á höndum sér. Er móðir mín lést var ég ellefu ára, ástríki hennar og gleði var skær. Það var okkur þyngra en tæki til tára, trúi ég á lífi komist fáir engli nær. ] [ Oft um strætin hendist hálfur, hefur róið Dökkumið. Siglt um heimsins allar álfur, og við dublað kvenfólkið. ] [ Vetrartíðin birtist björt, á blíðum vetrardegi. Hvað sem maður getur gjört, til að riðja sumri úr vegi. ] [ Ég sá blómin spretta, björt og glöð. Litla krakka leika sér með sippubönd í grasinu. Gamlar konur á sólstólum, prjónandi peysur handa barnabörnum sem komu aldrei. Hunda hlaupa frjálsir um, geltandi og glaðir. Svo vaknaði ég, í dimmu húsasundi. Alein, illa lyktandi og einmanna, Og mundi þá það, sem eitt sinn var. ] [ Ég veit að ég, veld ykkur vonbrigðum. Jafnvel þótt þið segið það ekki. Ég veit að ég er dónaleg. Vond og jafnvel illkvittin á stundum Ég veit að ég get verið erfið. Ég veit að ég gæti oft staðið mig betur, bara fyrir ykkur. Oftast vil ég það, bara fyrir ykkur. Ég veit að þið viljið skilja, en þið bara getið það ekki. Ég veit að hver dagur er helvíti, með mig í þessum heimi. Þannig ég kveð ykkur, kveð ykkur í seinasta skipti. Aldrei aftur þurfiði að vera vonsvikin eða reið, leið eða sár. Aldrei aftur þurfiði að koma með afsakanir á hegðun minni eða eiga erfið samtöl við kennarana um það sem ég gerði rangt. Aldrei aftur þarftu að horfa uppá örin á höndunum á mér, elsku mamma og hugsa hvað þú gerðir rangt. Aldrei aftur þarftu að dæsa og horfa á mig vonsviknum augum, elsku pabbi og hugsa hvert litla telpa þín sé horfin. Ég mun aldrei aftur gera mig að fífli fyrir framan skólafélagana. Eða sofa hjá röngum strák og eiga á hættu að verða ófrísk. Ég mun aldrei aftur ganga í skóla, hlæja með vinunum, brosa yfir góðum fréttum né gráta yfir vondum. Ég mun hverfa, bara til að gleðja ykkur. Elsku mamma og pabbi. ] [ Dúna hefur glaðværust deilt okkur kjörum og dæturnar frábærar getið af sér. Fyrir hetjuskap ríkan og hýrt bros á vörum, hefur hún þakkir og kveðju frá mér. ] [ Yfir tengdói trónir hnefinn, trauðla fæst svefntíminn. Það er enginn griður gefinn að gera skólaverkefnin. ] [ Ég er enn á Akureyri og í stuði sem fyr. Óðara þó ausur keyri er mér gefur byr. ] [ Gott er að éta og gerður að rómur að gagnast megi uppskriftir við. En góða ég er gjörsamlega tómur, gætirðu ekki róið á önnur mið? ] [ Aumingjarnir eiga bágt er þeim lífið grátt. En margir þurfa að lúta lágt svo litð geti hátt. ] [ Að muna númer á þeim hinsta leigubíl. Svo asískir þjóta menn eilífðina í. ] [ Söngur hennar ómaði eins og sellókonsert Röddin seiðandi og róandi fangaði mig Reyni að flýja burt frá tælandi söngnum Get ekki - get ekki hlaupið nógu hratt Hvernig sem fer ég missi vitið Örmagna og vitstola í örmum hennar eða örmagna og vitstola í djúpum helli gleymsku minnar. ] [ Gröf mín er djúp og þakin köldum rótum Þar eyði ég síðustu andartökum ævi minnar Hugsa um svartar fjaðrir og gráa veggi Hugsa um blóðið sem lekur úr opnu sári á hjarta mínu. Hvernig endaði ég hér ? Það var ástin sem drap mig ] [ Eitt sinn er guð var á borgarbókasafninu að leita sér að bók greip hann í bók eina eftir þjóðverjann Nietzsche, opnaði hana einhverstaðar rétt fyrir miðju og byrjaði að lesa. Það var svo eftir að hann hafði lesið rétt rúmlega eina setningu í bókinni Að hann áttaði sig á því, að hann hafði í raun og veru aldrei verið til og gufaði upp. ...sem var frekar slæmt, því hann átti ennþá eftir að skila safninu bókinni um Ísfólkið, sem hann hafði fengið lánaða rétt rúmri viku áður. ] [ Enn á ný, finn ég mig á þessum stað. Ég hef gefið mig alla að þér - þér. Óvelkomin finnst þér? - og þó Þegar þú skildir ekki orð mín - sagðir þau stinga þig í hjartað vissi ég að þér var ekki sama um okkur. Eina sem ég sagði var: Ástin mín! ] [ Hárrétt stuðlað stendur það, stöðvar það mig ekki því að ljóð mitt lofar að leyna mína flekki. Ekki reyna' að erta gná elsku vinur kæri. Þú mátt lofa ljóðin smá, líttu! Ég mig stæri. ] [ Hús sársaukans stendur mitt í borg stærra og eldra en við höldum. Skammt frá er fjölfarið markaðstorg með fannhvítum sölu tjöldum. Berst þaðan gleði með söngva seið stiginn dans og köllin óma. Dunar um götur en dvín um leið og dimmir og stjörnurnar ljóma. Í húsinu er alltaf hljótt og kalt hátt til lofts og vítt til veggja. Þar er aldrei bjart en rakt og þvalt útidyrnar þungar sem sleggja. Í gluggum blóm en gróðurinn rýr garðurinn nýddur og bitinn. Hliðið rammgert er að okkur snýr undarlega svart á litinn. En inni rekast vonir á vegg vængbrotnar allar í sárum. Og guð hreyfir hvorki lið né legg lítur fram hjá beiskum tárum. Veggirnir í dimmunni drekka draumana úr sár þjáðum sálum. Bænirnar kæfðar í ekka eyðast í öldum og árum. ] [ Þráleitur draumur þröngsýns manns að þeytast um sveitir hugans Æðst er sú hugsun um huglæga ró, en ekki í heimssýn hans. Steypir af stóli tilfinningum sínum fyrir snöggkeypta gleðigöngu, um kvikulan heim glyss og glans sem til er búinn, úr töfrum hans. ] [ Villtir landar vegi streyma, vetur andar sumrið flýr. Vítt til bandar verri heima vinstrihandar tekjan rýr. ] [ Er ljúfast brosir lagleg snót, lýsist andans þrá. En sé hún frekar leið og ljót, lundin verður grá. Þessar verðurðu þrauka við, þegar ferðu á stjá. Þær sækja báðar sömu mið, sér í maka að ná. ] [ Ég vildi að klukkan væri korter í miðnætti einhversstaðar í fortíðinni og að ég stæði á dyraþrepinu að velta því fyrir mér hvort ég ætti að dingla Ég vildi að klukkan væri kortér í átta á þriðjudagsmorgni einhverstaðar í fortíðinni og ég væri með blóðnasir að reyna að velja mér morgunmat Ég vildi að klukkan væri kortér í þrjú á föstudagskvöldi einhverstaðar í fortíðinni og við lægjum í rúminu að vera ung og áhyggjulaus Ég vildi að klukkan væri kortér í tvö á laugardagskvöldi einhverstaðar í fortíðinni og við værum að fíflast að gera hluti sem enginn má heyra Ég vildi að klukkan væri kortér í fjögur á miðvikudagsnóttu einhverstaðar ekki svo langt í fortíðinni og ég stæði fyrir framan bílinn að segja þér að ég ætlaði að keyra þig heim Ég vildi að klukkan væri kortér í hamingju akkúrat hérna í nútíðinni og ég væri að halda utan um þig að segja við þig, verum alltaf vinir ] [ Þegar happ að höndum ber hoppa menn af kæti en stynja þegar stendur ver og stappa niður fæti. ] [ Munt þú muna mig? eða mun ég falla í gleymskunnar dá. Munt þú muna lykt mína, bros mitt? eða verð ég aðeins en eitt andlit í mannþrönginu. Mun ég hverfa eins og þoka sem eitt sinn yfirgnæfði heim þinn. Munt þú sakna stelpunnar sem þú eitt sinn þráðir? Nei. ] [ Gamli bærinn minn sem fangar hug hvert sinn Þegar ég um götur þröngar geng - þá ætíð man ég þá stund - þess dimmu sund í sífelldri leit minni og þrá. Hann með sín stræti og torg sem geymir gleði og sorg Og á kvöldin lífið fer á stjá - þá hafa halur og snót - mælt sér mót svo hamingjusöm að sjá. Ég elska bæinn minn í bænum allt ég finn sem skiptir máli þegar vel er að gáð - og ég finn þetta kvöld - að öll tekur völd mín hlýja og von um sinn Og gamli bærinn er að sanna fyrir mér Að hann standi þétt við mína hlið - þó stundum gleymi ég að - ég eigi stað - eitt leyndarmál með þér. ] [ Ég var á ferð framhjá Tjörninni fyrripart hausts. Sá þar gamlan mann gefa gæsunum brauð. Eg gekk Suðurgötu. Sá þar sölnað blóm. Þú átt þér þinn aldur og örlagadóm. ] [ Það er rotta niðri að naga, nú er ekki lyktin góð. Alltaf verður mér illt í maga er ég heyri þessi hljóð. ] [ Ég er nympha, ég er dís ég er allt sem hann kýs. Ástarljóð, níð ég er skáldgyðjan fríð. Í augunum lotning, ég er ljóðanna drottning; Karlmenn mig þrá og konur mig vilja er eitthvað erfitt við það að skilja? Því frá örófi alda, skáldin hafa viljað mig æst og hver veit hvern ég heimsæki næst? ] [ Enginn skyldi ætla það af okkur sé móðurinn. Er því best að arka af stað og aðeins herða róðurinn. ] [ Í fyrsta skipti hef ég ástfangin orðið, þó í speglinum sá ég sjálf sálarmorðið. Allir þeir hlutir sem hann gerði mér, drap mig að innan og þá byrði ég ber. Þó enginn sjái tárin mín falla, og enginn heyri þegar á hjálp ég kalla. Þá er ég samt hér og ég fer ekki neitt, orðin sjálfstæð af reynslu, því getur enginn breytt. Árum saman var ég brotin niður, og fyrir öllum var rödd mín bara fjarlægur kliður. líf mitt sem persóna, ég gaf skít í þig, og byggði mig upp og fór að verja mig. Sú sem ég er núna að skrifa ljóð, er stelpa sem vill skilja eftir sig slóð. Til fólks í söðunni sem ég í var, Þið þurfið ekki að vera þar! Þegar þau bíta þig, bíttu til baka, beindu orðum að þeim köldum sem klaka. Sama hvað þau segja er ekkert að þér, Því enginn er eins, þetta er sú sem ég er. ] [ hvern einasta dag og hvert einasta kvöld, verður gleðin að hatri sem tekur öll völd. hamingjan funar upp í hjarta mér, bros framan við tárin sem enginn sér. því gríman sem ég hef hylur öll sár, og kvíða og hræðslu eftir öll þessi ár. félagsfælni, kvíðaröskun ásamt þunglyndi, hjartað mitt faldi þar sem enginn það fyndi. gleðin ástin og hamingjan týnt, ekkert nema ör sem ég get engum sýnt. þegar ég spyr mig sjálfa "hvar týndi ég mér", er eina svarið mitt "akkúrat hér." því enginn er búinn að týna sjálfum sér, fyrr en þegar hann fattar ekki hver hann er. ] [ fyrir þig var ég tilbúin að labba milli staða en svo komst ég að því að þú vildir ekkert með mig hafa. fórst að segja hluti til að særa mig og skaða, bara því þú vissir það að mér er ekki sama. ég elska þig, ég get sagt það án efa, þessa ást átt þú og hana ég mun engum öðrum gefa. sama hversu mikið þú hrindir mér frá þér, verð ég alltaf nálægt til að taka þig aftur að mér. hér eru fimm lítil orð sem að representa þig; ástin mín þú fullkomnar mig. ] [ Ég veit það vel að þessi ást, hún verður mér að bana, en mér er fokking sama ég elska ekkert nema hana! hún er þessi sanna ást sem ég vil eiga eina, og sama hvað ég bulla veit hún alltaf hvað ég meina! þessi stelpa, draumadísin mín, hún elskar mig og verndar, og ef eitthvað gerist fyrir mig þá mun hún leita hefndar! síða hárið hennar, bláu augun, bjarta brosið, hún bræðir niður hjarta mitt sem ég taldi vera frosið. sú eina sem að tekur mér alveg eins og ég er, í fjarlægð og nálægð þá er hún alltaf hér, alltaf til staðar til hlusta á mig og skilja, hún er það eina í heiminum sem ég mun alltaf vilja. þetta lag er tileinkað sirrý, ég verð alltaf hjá þér hér, og jafnvel alzheimer myndi aldrei geta látið mig gleyma þér. ] [ þú byggir og brýtur mínar vonir um að líf mitt breytist þegar þú komir, lést mig sitja dag og nótt og bíða, svo þegar upp rann stundin vildiru bara ríða. veistu eitthvað hvað þú ert að gera mér? eða er það pointið í leiknum hjá þér? að vilja mér vel og svo brjóta mig niður. láta mig vilja þig? game over því miður. því ég leyfi þér ekki að leika þér með mig, ég er farin að þekkja gaura eins og þig. sama hver afsökun þín er þá vil ég ekki heyra, því sálin mín einfaldlega höndlar ekki meira. og ég veit hvað það er sem ég hjá þér fæ, niðurlæging, nei takk. bæ. ] [ Brátt kemur nóttin sem tunglið mun rísa, upp verður kveðin hin forna vísa. Um nótiina, tunglið, heim þeirra köldu, sem upplýsir leyndarmálið sem Guðirnir földu. Uppspretta illskunnur sögurnar segja, en fyrir þá sem ei vita er vissara að þegja. Sá dagur mun koma þegar hefnd þeirra rís, daginn sem sól hinna dauðlegu frýs. ] [ Ég held mig við hafið og strendur og himinsins fornu lendur. Ég dái þig Drangjökull kaldi með dauðann í snjó á hvítu tjaldi. Ég þekki varir í vaklandi birtu og vonir sem öldurnar hirtu. Og sorgir er á strendurnar rekur og sjóinn er gefur og tekur. Mig dreymir innlönd við Djúpið bláa og dali við Kögurinn háa. Ég held mig við hnífskarpar eggjar og hvítkross er snýr sér til veggjar. Því vættir eru villtir undir hlíðum varir um sig er framhjá líðum. Þeir hlæja í hættunni mestri hraktir og barðir - útverðir í vestri. ] [ Ef englar vilja meina mér að minnast smárra handa. Mun ég aldrei aftur hér elska guð og anda. Ef ætlar djúpu ála lands yfir fugl að smjúga. Svíkur aflið stundum hans sumardvöl að fljúga. ] [ Er ég horfi á þig sé ég mig í bláma augna þinna og í hjarta mér veit ég vel að þína ást ég verð að finna Augun blá eyrun smá eplarjóðar kinnar þitt ljósa hár hvarmatár ástarinnar minnar ] [ Stríðinn vinur með kitlandi arma sína kitlar hann vanga mína og tjáir mér ástina þína. Veðrana hamur sveiflandi til og frá eða kyrrlátur horfir á hann er sérhvert stingandi strá. ] [ Það er gömul og segin saga, sitt á málin lítur hver en aumingjarnir alla daga aðra láta stjórna sér. Lít á það sem lítilmennsku, leiðist eymdir slíkar sjá, þingmenn noti leiða lensku, líti undan og sitji hjá. Þitt atkæði er þungt að vægi, þú á lofti merkið berð. Oftast segir allt í lagi aumust lydda af verstu gerð. ] [ Að eiga konu eins og þig fyrir mann eins og mig sem gefur mér ást svo ég þarf ei að fást um annað en þig enda nóg fyrir mig. ] [ ,,Það er óþarfi að dansa í kringum hann og hans sérþarfir" sagði verðandi kennarinn. ] [ Sigurjón gekk um götu dimma langaði að komsast heim að skrimma fékk sér stóra poppkornsskál sem í typpi hans kveikti mikið bál Dettur niður á annað plan skemmtir sér og verður fan af manni sem að fær sér geitur og verður allt í einu feitur Sigurjón gengur dimmann gang borðar alltaf sjávarþang en er hann kemur heim til sín sér hann bara sitt feita svín Konan hans er ljót og feit minnir helst á gamla geit vill helst útá gras á beit en í stóra glerskál hún skeit Er hann ætlaði að setjann í hana minnti hún hann á banana setti upp á sig frekju svip er hann náði ekki að festa grip Hann hamast lengi á henni og kemur svo á hennar enni hann segir hátt hann segir snjallt ég vill þig ekki hundraðfallt Er hann sagði þessi orð hljóp kellingin beint á borð hana langaði helst að fremja morð er hann sagði þessi langþráðu orð Hún hljóp út nakin og orgaði og fyrir hana hann borgaði hún starði beint í augu hans og hljóp svo beint til annars manns Og í píkuna hann hitti beint og henni var nú ekki skeint ógeðsleg í útliti og hún hrópaði svo hálfviti Skíturinn í hennar tönnum var þá helst úr öðrum mönnum hún brosti síðan rosa breitt og allt í einu varð allt breytt. Og eftir þetta fór Sigurjón í rosalega mikið tjón hann reyndi þá að fá sér bón hann vildi helst missa alla sjón Og brundurinn skaust úr typpinu hún var þá helst í flippinu hún sykraði á sér sköpina og nelgdi sér í tröppurnar ] [ Mín ósk er best í litlu ljóði að ljúf þín verði ævibraut, ást þig leiði af yndi og móði er ætíð megi leysa þraut. ] [ Ungur Doddi af öðrum bar og komst fljótt til manns. Finna margir til fagnaðar í föruneyti hans. ] [ Í Reykjavík er ljúft að leika sér, loftið tært og sólin hlýju ber, gleði alltaf gefur minni sál, gamla borgin tendrar ástarbál. Ef að ég í þungum þönkum er þrastarsöngur færir brosið mér, undarlega glettin Tjarnar til trítla ég og geri það er vil. Austurvöllur - vinir liggja þar verða glaðir, kátt þar er og var, bjartir finnast fagrir litir hér; fallegt verður sumarið hjá mér. ] [ Hvítur stormur, kalt en bjart. Kalinn, gengur hugsandi um dalinn. Inn að beini, útlit svart. Alvarlega þenkjandi þann daginn. Köld er nóttin, frostið hart. Hikar, fer svo gangandi inn veginn. Vindur bítur andlit í. Fundinn er svo liggjandi við bæinn. Vetur. ] [ Hver einasta ákvörðun hver einasti verknaður allt heila verkið Fótmál eiga áfangastað hugsun verður gjörð í smáu sem stóru Ekkert er aftur tekið sem áður er gert nema fyrir Drottinn Þetta vissu meistararnir sem hjuggu í steininn gallalausa gripi Svo er með lífið sköpunarverk þitt vandaðu til verka Frátekin eru gæðin sem ætluð eru öðrum nægjusemi er dyggð Þrjár eru þær tregadísir sem tregan ala ein er söknuð Þúsundir eru þeir englar eins og þú sem breyta heiminum Hvað tjóar að þilja speki “Ekkert er nýtt undir sólinni” allt hefur áður verið sagt Ein Ritningin hrein er uns Drottins vilji það er að gera lærisvein úr þér ] [ Rákin í hellunni skilur allt að Þú bræðir mitt hjarta undrum eins þú skerð það í spað Safna upp orðum og hnýti einn hnút Reyni hugsun frá að hverfa Umkringd nokkrum vörðum sprungan komin dreg band til baka með engan björgunarkút Í lestningu raða ég framtíðinni upp ekki undirbúin, með brauðið ósmurt Get ekki ýtt þér fram á frosið bjarg að innan stundum skelf og fel það sama garg Ég set hér með strik og held áfram blátt og stöðugt Brennum okkar tilfinningar eða sundrumst burt öfugt Nýtir þér óstyrk, en eigi kveður áhyggjum og böðli enn á mig treður Ó forfeður, forfeður! hann helminginn af mér tefur ] [ Nokkuð rökkur í dagsins önn Enginn kökkur, tilfinningabönn Hræðsla! bræðsla, vek mig upp! hvar er sjálfið? ...það er flutt Ég labba um í hringi og stoltinu kyngi finn ei fyrir röddinni, þótt líkaminn syngi Líkamsþættirnir áttavilltir heilavöðvar sundur tættir Hvenær koma æðri mættir Ég smíða hlið og sé þá við hurðagættir ] [ Ég leggst í ólifnað og sný mér við Hvað er þarna? Einhver glæný hlið. Leggst niður í fjötrum af eldgömlum sið og lofa sjálfri mér að falla ekki aftur úr lið. ] [ Kominn of seint, fyrir mig hefur leynt sjokkerandi viðmið, ég hef engu gleymt Slægur samt hægur, líður að þinni för Í samskiptum vægur, skildir samt eftir stórt ör Himinn á kaf í huldum sjó Lof mér að hugsa, ég er komin með nóg Á erfitt með að rata, er þetta eilífðar gata? Annars mun ég sjálfri mér glata, líkt og vatn kemst á gló Grafin undir nöglum þínum brött er brekkan niður Leyfðu mér að bremsa bregður fyrir fæti - því miður ] [ Sannasta gleðin er gefin þeim sem hafa grátið sína sárustu sorg. ] [ Ég vildi óska að ég gæti ort eitthvað svipað og af sömu sort og þegar ég var ung og ekkert alltof þung og átti ekkert kreditkort. ] [ Kysstu mig strax, á meðan lostin lifir kysstu mig nú Haltu mér fast og aldrei sleppa haltu mér nú Því að nóttin okkar endist ekki, kysstu mig nú og segðu ekki neitt Nú er okkar tími, elskaðu mig heitt .................... Slepptu mér strax, þú ræður mér ekki yfir Slepptu mér nú Gefðu mér breik, má ég anda Smá Breik Þetta er ekki heimsendir, lætur aðeins finna fyrir sér. Tekur aðeins á, en líður hjá .."ástin mín".. ] [ Síðastliðinn sunnudag frumsýndi íslenski Álftaflokkurinn, ballettinn Svanavatnið á Tjörninni. Hlaut sýningin einróma lof áhorfenda. Með eðlislægum þokka og óaðfinnanlegri tækni lyftu álftirnar verkinu í hæstu hæðir. Stórsveit Reykjavíkur flutti tónlistina við verkið með tilþrifamiklu flauti strætisvagna og tærum klukknahljómi Dómkirkjunnar. Síðast en ekki síst myndaði mengunin í miðborginni hina fullkomnu umgjörð um þetta sígilda meistarverk. ] [ °!°!°!°!° Hálf-ælandi bisnessmenn og hómópatar komu (sem fyrr og aðeins á faglegum forsendum) niður eftir lághýsum yfirmeðvitundar þinnar, hlaupandi um leið í gegnum kvennaklefann bara til að komast nær því að skynja hvað samkennd er. °---------¨----------°----"""" ] [ í myrku tómi glundra gjall norna vísur kveða spinna vef í gyltann karl örlög þín og vera hviss og hvá hver hér má varla milli heyra legðu aftur þína sál galdra skollur skeðja hvert þitt spor ei spyrja má hrakin aftur kveða hversu mikið vera má von á hvern að steðja skildu hér skilið við gakk á bratt og hverfa best er ekki betur gert skildu af frá vilja Líf þitt tómt sem vera ber ekki allt sem á stærsta vonar gnípa sér sumt sem ekki sjá hvá því ei því þér má miklu máli vera að liggja hlustir við og ljá því vængi vísan skal þér kveða ] [ í glitrum guða orða glím gleymdar vonir nætur brím í djúpum augum þungum þel þurrum orðum þurft frá þér farin fundum löngum tíð hugarþráinn heimur þankar þess húmir hér glúmir hálfum orðum ] [ Betra er að slóra og slaka sér stund en sifjaður vegina aka. Mér líður að höfgi og langar í blund, lífið er svefn og vaka. En ef að ég stoppa þá ólagst plan, sem ýmsum að þætti bagi, en þó að ég dræpist við þetta span, það gæti talist í lagi. ] [ Um veröld alla og opinn sæ á öllum leiðum mínum. Er ekkert sem ég ekki fæ úr fjalladalasýnum. Í grjóti og urð og grænum dal hjá gömlum skriðuföllum. Er ég undir drottins sólar sal í silfurbjörtum höllum. Og innst í hjarta og efst við sel eru andar á sveimi. Sem enginn þekkir - þó allir vel úr undarlegum heimi. ] [ vá hvað ég myndi ekki fermast ef ég ætti að fermast núna það er svo vandræðalegt eitthvað ] [ Ég er alltaf að skilja hluti eftir á klámbekk! Ha? Klámbekk? Já... Uuuu... hérna... maður segir sko glámbekk. .......................................... Ó. ] [ Að leita er mönnunum ljúft og tamt. Leitað er víða til gulls eða pjáturs. Að finna er happið, stundum stamt. Stutt er á milli hláturs og gráturs. ] [ Eilíflega skýtur skökku skurnin á hausum mannanna. Turninn blómlegri springur sem fyrr djúpur sjúkur gustur fer um sali þína, Gústafur. Gústafur, megir þú brenna sársaukann finna og sál þín tvístrast óumbeðið í nóttinni. ] [ Ég stari aftan á augnlokin á auðn sem veldur mér hugarangri hún dregur mig til sín og vill að ég týnist og framtíðin hverfur aftur fyrir mig. Ég stari aftan á augnlokin á litadýrð sem heldur mér hugfanginni litirnir leika sér og vilja gleypa mig og núið hverfur í móðu fyrir framan mig. Ég opna augun stari á fólkið á götunni það er allt og ekkert en ég fylgi straumnum og sé allt í nýju ljósi. ] [ Ágætust er sú úrvals pæja, sem ætíð leysir mína þraut. Til fyrirmyndar bestu bæja í býtið eldaði Magga graut. ] [ Ástin gleður þig, og líka mig. Glitrandi augu, fiðrildi í maga, bros andlits, hamingja hjartans. Heiðskýr himinn, sólin björt, dagar gleðinnar, endalaust. En ástin, ástin hún brýtur. Ástin særir þig, og líka mig. Rigningar augu, verkur í maga, sorg andlits, hjartabrot. Dimmur himinn, hin dökka sól ástarinnar, dagar gleðinnar, enda og hverfa. Ástin tvísýnd er, en ég vil vera með þér. Ást hamingjunnar endar sem ást sorgarinnar. ] [ Bíð þér á deit: Ég og þú, undir berum og björtum stjörnuhimni. Sængur tvær, held utan um þig, kúra þig, kyssi þig. Ég og þú, kertaljósin tær skína og ei dvína, því þú ert mér hjá. Ég og þú, rúmið þakið rósablöðum rauðum, mynda hjarta mitt sem tilheyrir þér. Ég og þú, kampavín,hringur sem finnst, og ég bíð þín,viltu verða mín?. Ég og þú, fuglar syngja og bjöllur hringja, þú ert mér hjá, fer aldrei þér frá. Bíð þér á deit. ] [ Tár mín renna sem fossinn, bros mitt verður að myrkri. Hamingjan þurrkast út, gleðin hleypur mér frá. Glampinn í augum mínum brenna á báli og að ösku verður. Hjartað brotnar í þúsund mola, eftir verður brot, góðra minninga. Sál mín veikist, hola myndast sem lokast ei. Tár mín renna niður kaldar kinnar, og geyma: sorg og gleði. Ég stend því og horfi út, út í dökkan heiminn og spyr mig: Hví? ] [ á erfitt með að brosa á erfitt með að gleyma þer ég elska þig rosa gerðu það ekki gleyma mér ég mun bíða bíða i þessi 2 ár þetta verður vonandi ekki lengi að líða oh eg er svo sár ég græt nott eftir nott hugsa bara um þig á erfitt með að sofa rótt það gerir þú ekki fyrir mig tár, og mikill grátur öskur en engin hlátur vildi að þetta myndi hætta en verkurinn i hjarta minu heldur bara áfram að stækka eg vildi að þú værir hér hér hja mér ég er svo hrifin af þér er ég sé þig hjá mér eg fer von, þrá og umhyggja en engin skilur mig að fá ekki að sjá þig reyni eg að tyggja ég get bara ekki hætt að hugsa um þig á erfitt með að vera hress tárin falla eins og regn á meðan ég græt mig í svefn þá kveð ég og segji bless. ] [ ég lifi í gremju og reiði líf mitt er ein stór martröð ég mig bara meiði líf mitt er eins og rifin blöð ég nenni þessu ekki lengur ég hata þetta shit vandræði á mér hengur og ég hata lífið mitt þú hljópst inní líf mitt ástfangin ég varð af þér ég eignaði mér hjarta þitt && þú sagðist vilja vera með mér en allt þetta endaði ílla ég endaði ein og brotin brota í hjarta mitt þarf að fylla mér leið eins og í hjartað ég hefði verið skotin sorgin vill ekki enda afhverju þarf ég að lifa öllum minningum mig langar að henda og láta klukkuna hætta að tifa án þín er líf mitt ónýtt ég sit hérna ein brotin og ónýt í faðmi þínu er mér svo hlýtt ég dey ef í augun þín ég ekki aftur lít. ] [ þegar þú fórst, fórst frá þessari veröld. sorgin inní mér jókst, og sorgin varð köld. einmannaleiki óks inní mér, og tárin hættu aldrei að renna niður. inní höfðinu mínu streyma orðin frá þér, ást, kærleikur og friður. ég veit að þú ert hér, þú ert ör á mér einsog eftir lítið sár. þú munt aldrei fara frá mér, þú þurrkar í burtu hvert tár. ég finn enþá lyktina af þér, og ég sé þig fyrir mér brosa. þú mikið hjálpaðir mér, og ég sakna þín rosa. ] [ ég elska hann, sama hvað aðrir segja hann láta mig brosa kann og líka þegja, kanski vill hann ekkert með mig hafa en mér er sama. í blóði hans ég vil kafa til hjarta hans sem ég vil hafa. ] [ Með kærum þökkum kveð ég þig káta ljúfa vina. Ætíð skaltu muna mig meir´ en alla hina. ] [ Við fengum lánaðan engil, sem lifði ekki leni hér. Það varst þú ,sem ákvaðst að nú skildi farið út að skemmta sér. Undir stýri þú settist og ókst af stað, með ógna hraða og áfengi í blóði, þú gættir ekki að litlum engli , sem á vegi þínum varð. Við hugsum oft um engilinn okkar, sem svo snögglega hvarf á brott. A sólbjörtum sumardegi er breyttist í dimma og ískalda nótt. Við fengum lánaðan engil. ] [ Ferskeytlu ég ber á blað bara þegar nenni, því mér finnst svo erfitt að yrkja samkvæmt henni. Oft hef leikið grátt mitt geð og gráðugt tuggið neglur. Fullt ég á í fangi með flóknar bragarreglur. Mér í vegi myndi fátt mega fá að standa ef ég hefði æðri mátt einhvers hagorðs fjanda. Raun er önnur - gerist gramt geðið vegna þessa. Eðli mínu er ekki tamt orð í brag að hvessa. Eftir hætti er pínlegt puð pælingar að virkja. Eflaust væri stanslaust stuð stuðlalaust að yrkja; semja alls kyns atómdrög, orðum saman lötra, yrkja fram í lengstu lög, laus við stuðlafjötra. En... ...þó svo braglaus geti góð gerst, er annað fegra: Að ég stuðli öll mín ljóð. Enda skemmtilegra. ] [ Laufskálinn ei leynir því að ljúfir dagar rísa, blómin fögur búðinni í, brosir við hún Dísa. ] [ Ég leitaði í fold og flæðum að fornu heimsins veldi. En fann í fátæklegum klæðum förumann hjá eldi. Hann sagðist þekkja trú og trega tómleika og lesti. Og í sér bera einmanalega alla mannsins bresti. Í tali var hann meir en mikill mæddur heimsins syndum. Í fasi bar hann falinn lykil að framandlegum lindum. Sagði för bera margt er meiðir mannskæðar grynningar. Ég sækir menn í skip um leiðir sorgir og minningar. Hann kvaddi mig og hélt að hliði að hitta krossfestan mann. Sagði það vandaverk er biði vekja og sigla með hann. ] [ Þá syng ég nú og spila á landið væna Með gráa lokka en sumarljós í hjarta og bið þér fyrir veturtíðin bjarta græt, skæli og vola og geng til bæna Raula í bryggju með sjónum bláa græna veltist í dansi barna minna tæru Haustvindar, laufin og hin mín kæru Kyrji til þín kulnaða heita ástin fjarræna Þú flaugst inn og fórst með spörfuglum sætu og hreifst með mína nýskínandi vonarglætu er þú gafst mér með sunnubrosi í vor. Í sorg ég sendi nú mína sonnettu á eftir þér og stend mig að voli og væli á bryggjunni hér veturinn vaknar og ég syng áfram mitt faðirvor. ] [ Í ástardraumum birtist þú mér sýnum þar augu þín svo skær í skini blika, fegurri en fögrum augum öllum, svo töfrandi að ég hika. Ó, þú litla tígrisdýr, alls staðar himnaríki er, þegar ég þig augum ber Ó, þitt skæra bros ég sé, það mig lætur falla á kné, þegar ég þig augum ber. ó, Miriam þú í mér kveikir, ég ei get minni ást þér leynt, þegar ég þig augum ber. Mun ég ævi mína enda, án ástar þinnar ljúfu, og aðeins kærleik senda, yfir mína grúfu. ] [ mín bestu ljóð orti ég þegar hvað svartast var yfir mér svo þrymdi að að og það hlaut eitthvað að vera að þér á móti stöðugum straumi synti en í bakka öðruhvoru náði en þegar öldunum loksins láði, ég hvoruga hendina þáði samt úr myrkrinu gáði, og gleði ég sáði mín bestu ljóð orti ég þegar hvað ] [ Mikið skelfilega leiðist mér að læra því tíminn líður svo hægt Síðan kemur að því að hann líður of hratt og ég næ ekki að fara yfir allt efnið ] [ Stundum er ég þreytt eins og í dag. Ennið mitt er krumpað og augun mín áhyggjufull. Um kvöldið leggst ég og sofna og vakna síðan næsta dag þreyttari en nokkru sinni fyrr. ] [ Þú átt blómið Sem þú tíndir Sjálf / sjálfur Ég tíndi blóm Á förnum vegi Og týndi því Þitt er blómið Sem þú tíndir Ekki týna því ] [ Taktu ekki lífið of nærri þér, það lifir það hvort sem er enginn af. ] [ ...aska, sem eldurinn kveður. ...andvana, sökkvandi steinn. ...ferja, sem ferjar ei nokkurn. ...flík, sem að klæðir ei neinn. ...barn, sem er bannað að kætast. ...blóð, sem að rennur ei meir. ...ósk, sem fær aldrei að rætast. ...ást, sem í fæðingu deyr. ...söngur, sem aldrei er sunginn. ...sár, sem ei nokkuð fær grætt. ...glóð, sem að logar ei lengur. ...líf, sem er andvana fætt. ...skáld, sem ei neitt hefur skrifað. ...skrín, sem er harðlega læst. ...drykkur, sem aldrei er drukkinn. ...draumur, sem aldrei fær ræst. ...tími, sem gleymir að tifa. ...tröll, sem að breytist í stein. ...blóm, sem er bannað að lifa. ...brúður við altarið ein. ...ljóð, sem ei nokkur vill lesa. ...ljós, sem er alla tíð slökkt. ...fræ, sem í mölina fellur. ...fley, sem í hafið er sökkt. ...stjarna, sem steypist af himni. ...stormur, sem aldregi hvín. ...þörf, sem ei nokkur mun þarfnast. ...þurrleitt og bragðlítið vín. ...minning, sem enginn vill muna. ...málverk, sem enginn vill sjá. ...hljómur, sem enginn vill heyra. ...hjarta, sem enginn vill þrá. ] [ Þú ert eins og maraþon, sem sogar úr mér alla orku. Þú ert eins og sjúkdómur, sem sogar úr mér allan vilja. Þú ert eins og holdsveiki, sem dreifist fljótt út um allan líkama. Þú ert eins og sníkjudýr, sem sogar úr mér allt líf. ] [ Úllen dúllen doff og árin liðu alltaf voru leikir er biðu. Ugla sat á kvisti átti börn en missti allar sólir okkur kyssti. Úllen dúllen doff og árin þrjú einu sinni enn og það varst þú. ] [ Inni í hatti mínum eru mörg höfuð. Ég heiti Dufþakur og hef dvalið á sléttum Rangárvallasýslu. Andlitið sem þú sérð þegar þú horfir á mig er ekki endilega það sama og ég horfi á þig með. ] [ Tré, skógur, lækjabrekka, snúum brátt að byrja drekka. Hérna safnast blóm og friður, í allra meina bóta siður. Dagur, nótt og stjörnur hrapa, Teljum öll þau flóknu siði að dimmu, dags og náttúra skapa, í blíðu,stríði og mannsins liði. ] [ Ég elskaði þig svo mikið. Þótti svo undur vænt um þig og þykir það enn. En nú ertu ekki hér heldur horfin á braut. Dvelur í fjarska laus úr viðjum lífs hér á jörð. Ég ylja mér við góðar minningar sem við áttum saman ég og þú. Mun alltaf muna hversu einsök þú varst. Megi englar Drottins vaka yfir þér í dag og alla daga. ] [ Dagur dimmur, dunar vindur laufin leika ljúfa dansa. Gamall gluggi götumyndir sýnir og sjálf sælleg brosi. ] [ Stórhugi er oftast til stórræða fús, stirðast er heigul að brýna. ,,Annað hvort er ég maður eða mús", mælti ´ann og lét það hvína. ] [ Um kinnarnar renna tárin, til marks um öll árin. Hjartað heldur um sárin, en rauðleit augun fela hárin ] [ Ágætur ertu Óskar minn, ekki er lausnin galin. Gleður hjartað góðviljinn, geng ég hress í salinn. ] [ Augum loka í mér finn öldubrot og svala kinn. Árabát við úfið land aleinan við Rauðasand. Loka durum , Eggert er Ólafsson við hlið á mér. Ferðafús en ekki ég á Breiðafjarðar sjóa veg. Fáir lifa frosna vör flaggið hennar lítil stör. Íslenskust er eyrarrós ein á mel en hann til sjós. ] [ Grágæsir á golfvelli, grenitrén á svelli Hvítir eru Korpúlfsstaðir, hvíla ungar þar glaðir. Græna flötin fína, gamlir og ungir þar skína. Úlfarsfellið og Esjan útiloftið og gresjan. ] [ þetta logn nær ekki nokkurri átt ] [ það bærast gárur í hjarta mínu eftir konuna sem stakk sér til sunds gárur sem önnur kona vill rugga bát sínum í ] [ þú ert sól sem rís og hnígur hjartað mitt blómið sem opnast og deyr og eftir stendur aðeins ilmandi sumarminning í hugskoti skaparans ] [ fegurð konu er stjarna sem skín og fegurð konu er vísifingur vitrings sem bendir á stjörnuna og leyfir fíflinu að horfa á sig ] [ mjöllin kom og settist á gluggann hjá mér ég spurði hana hvort hún vildi gista einsog í gamla daga þegar við nutumst svo mánuðum skipti hún svaraði engu en grét ] [ Þið dökku drungaský drífið ykkur brott svo lífið ljómi á ný ljúft og bjart og gott. ] [ Oft hún brosir eins og sól, ástir tendrar manna, en með konu æddi í skjól, eðlið hitt mun banna. ] [ Afadrengur er ekki rýr, ástar nýtur sinna, ætla hann verði undraskýr, afa sinn á minna. ] [ Er á lausu elskan sú ástir þiggja myndi ef til hennar þjarkar þú þar býr meyjaryndi. Upp á mína æru og trú athuga þetta í skyndi. ] [ Gleðin frá sér geislum slær gömlum léttast sporin óskasnúður afa kær er í heiminn borinn. Ennþá ræktast æði vel ættar minnar greinar Helgasyni helst ég tel hæfa nafnið Einar. Þó flestir kostir finnist mér fylgja ættleifð minni fegurst alls sem fagurt er fæst af móðurinni. ] [ Þeir tóku mig hálstaki armar tímans gerðu mig máttvana mætti ég heldur hafa beðið um faðmlag. ] [ Þú tifar í hjarta og tekur þín slög og telur mér trú að ég lifi. Taktfast þú slærð og þú telur í lög, ég tóri því með þessu tifi. Þú veitir mér lífssýn, visku og þrá, velur mér gleðistund ríka. Von til að elska, vit til að dá, og vinnu, sem skilar sér líka. En dagur að kvöldi, hann kemur nú senn þá klukka lífs sekúndur telur. Kallar hún til sín, konur og menn og konungi æðsta þau felur. ] [ Við höfum talað við vindinn hlustað á rigninguna reynt að ná til skýjanna og grátið af sorg. En vindurinn feykir orðum okkar út í buskann En lífið er til þess að lifa hvort með öðru, hlið við hlið. Við skulum kalla saman á framtíðina því við erum öll sama fólkið öll af sömu gerð – við erum í þessu saman maður – kona – barn Við köllum saman á framtíðina Við tölum sama máli á mismunandi hátt við erum öll sonur einhvers og dóttir við erum öll saman í keðjunni – sem ekki má slitna. Við öndum að okkur sama loftinu og göngum á sömu jörð. Veikir sem sterkir, mildir sem harðir. Öll dönsum við eftir takti hins æðri máttarvaldar Við vitum samt að tími okkar er stuttur - of stuttur fyrir óttann um endalokin. ] [ Þar sem við stöndum í húminu í flæðarmáli ástarinnar og bíðum eftir sólarupprásinni er hvergi lífsmark að sjá – bara við ein. Og augu okkar skima til sjávar í leit að hinu óendanlega. Því erum við að kvarta yfir hörmungum heims þegar við höfum hvort annað.. Við biðjum um sönnum - við svörum okkar fæst ei svar. Aðeins efinn einn fær að vaxa því blinda okkar á sér ekki mörk. Við höldumst í hendur og trúum á orð okkar sjálfra sem haldreipi lífsins. Við erum hætt að sjá daginn ríma við nóttina og það eina sem við sjáum framundan er breiðgata ástarinnar ] [ Ef þú trúir á kraftaverk – ekki spyrja mig Ef þú vilt fá einhvern með þér – ekki biðja mig Ef þú vilt lifa með einhverjum – ekki lifa með mér Ef þú vilt láta þig dreyma – ekki koma inn í drauminn minn ég vil vera einn á sjávarströnd með drauma mína Horfa á skýin í fjölbreytileika sínum fara og koma - eins og tíminn flökta án fyrirheits - frjáls Ég vil geta hlaupið frá öllu og verið einn á eyðieyju - svo líf þitt passar ekki við mitt. Þegar ég spyr þig og bið þig koma inn í draumaheim minn – ekki svara ] [ Ellin seint á ýmsum hrín yngist stöðugt Marta. Satt mun vera Sigga mín sú þarf ekki að kvarta. ] [ Hugalínan gerist góð get ei annað sagt. Velur dömur vel í móð og vel er í þær lagt. ] [ Margt er það í koti karls, sem kóngur þráir gjarna. Sagður játa átján alls álitlegra barna. ] [ Oft þegar grundir gænka glás er af villtum svönum. Sæl vertu Fjóla frænka flippuð á náttfötunum. ] [ Góðan dag og gleðjumst nú að góðum svefni búnum. Í góðviðrinu gefst mér trú, gott sé að halda kúnum. ] [ Brátt Jólasveinar til byggða fjúka. Bera gjafir handa öllum sem á Íslandi húka. Allir fá eitthvað bæði bláir og rauðir. Eiginlega allir sem ekki eru dauðir. Geir H. Haarde, Davíð, Lárus og Grjóni. Gjaldeyrissjóður, Skilanefndir og KSÍ Dóni. Útrásarvíkingar í eignum illafengnum og rændum, en það stefnir í uppgrip hjá kartöflubændum. Með fiðring í maga ég hengi upp sokk. Mig dreymir um kerti og spilastokk. Ég sef ekki hót, nóttina dregur á langinn og loks þegar birtir ég hleyp út á ganginn. Af sokknum ég leita, bæði vel og lengi. En honum hefur verið rænt af erlendu glæpagengi. ] [ Góða menn ég virði vel varast frekar hina, held að kjafti hæfi skel hvað er lífið án vina? ] [ Þú ert falleg innst sem yst og yljar minn hjartastað. Bænin mín er best og fyrst að barnið sé vellukkað. ] [ Á Ísalandi er austan gola enn er hérna góður vetur. Í Noregi temur Nonni fola nýtur þess að hafa betur. ] [ Alvöru sumardagur, ekta íslenskt veður blár himinn nokkur ský köttur í Þingholtunum - skokkar yfir götu. Ljúf gola, röltandi í sólinni heiðskíru, tæru með kók í gleri með röri. ] [ Það er nú svo með þetta hrað að það er oft slungin glíma. Skyldi ekki vit að veðja á það að víst hafi hvað sinn tíma? ] [ Mæti ég á meyjafund, mér er þörf á geimi. Þá er uppi ögurstund, ástin er best í heimi. ] [ Ástin er terroristi sem labbar sakleysislega inn í líf þitt íklæddur sprengjuvesti. Allt í einu strunsar hann í hjarta þitt og sprengir það í tætlur. Hugur og skynsemi eru skilin eftir í sjokki. Þau sáu hann aldrei koma. ] [ Gott er að hafa harðan skráp, hreingerningunum fresta. Menn dafna vel af skít í skáp, skafa bara það mesta. ] [ Grasið hrímað kalt, frostið eins og kristallar; liggur yfir öllu álfagull. Demantar sem blika í skini marglitaðra ljósanna og eru aðeins geymdir í banka hugans. ] [ Innst í réttinni feykir vindurinn blöðum; Sjö auðum síðum. ] [ Ef ég gæti talað væri ég kona mundi ég kjósa að seigja þér kvað ég vona Þú ert veikur með rifinn ristil mig lángar í ókunnar sveitir og ala þar ótal börn Þú ert mér trúr og elur mína sál á köldum klaka bresta mín tár ] [ Liggur í baðkarsins botni, skrúfað er heitu vatninu frá og straumurinn rennur stúlkuna á svo líkaminn hitni og blotni. Undir vatnsins sæng hún liggur, lokkar sem angar draumanna frá höfðinu teygjast og tekur þá elskhuginn um hana, dyggur. Utan um hana, mjúka og hlýja, taka hendur hans; elskhugans. Kyssast og sökkva í ástardans og sína ást þau endurnýja. ] [ Er sem hommi eftir vonum aulalegur í meyjafans. Árni sækir aftan að konum ekki reynist vitið hans. Spillingin hvergi gefur grið geisist fram um völlu. Glæpirnir murka mannlífið múturnar framar öllu. ] [ K zz zz zz zz zz zz zz zz zz zz zz zz ] [ Flögrandi fréttablöð framhjá mér þjóta myndir af fólki með brosið svo breitt vil ég nú hrópa en hvar er sú nóta dauður á lífi og ég geri ekki neitt ] [ Aðlagast öðrum aðstæðum vegna valda vongóður ég spyr þá hvert ég fer hlæja að mér og binda mig til gjalda þá loksins vissi ég hver ég er ] [ Draumar blunda á botni fljóta hljóta að þjóta ótt og títt með vöku ég mála þá til minna hagsbóta móta þá ljóta því allt var svo prýtt ] [ Lagleg flauta sem í sjónarhorni hleypir mér í svona voða kaupa til að hlaupa burt með töfrasprota sem að fær mig til að fá viljann fyrir sterkum máttum eins og í merkum verkum sem að flón fundu uppá klettum kötturinn í sekknum! hver vill að við sleppum? enginn sleppur þó hann standi upp og heldur bara brenndur upp og seldur því bókin skrifar allt með feldu bágt með bruna eins og eldur felldur strax niður, sakfelldur Ekkert að þessu, eins og mér sé ekki sama að bara finnast þetta gaman er svo miklu betra ] [ Ég sá þennan dag koma sem kom um daginn eða hinn Hann er sem dagurinn sem kom í gær og var farinn í morgun ] [ Menn brýna járn en myrkrið óra í misgjörðum býr hið stóra. Eld þarf til glóða og kyn til þjóða. Fegri er blómstrandi vinur en viður vel meint er stríð og friður. Feigðin býr í undiröldum földum. Fer um láð og regin ránar slóðir ramma karlmennsku blóðið. Fley eru í vörum en byr ræður förum. ] [ Á morgnana þegar ég vakna bíða þau, ég heyri í þeim og finn fyrir þeim. Ég get næstum því séð þau. Þau eru í huga mér og allt um kring. Bíða, dansa, leika sér og taka á sig myndir. Þetta eru orð. Í draumum mínum heimsækja þau mig, raða sér saman í falleg ljóð og endalausar sögur. Þau hæða mig. Þegar ég reyni að fanga þau, koma á þau reglu. Neita þau. Það er einhver ósýnilegur þröskuldur sem þau neita að fara yfir. Þau hæða mig. Og öll ljóðin og sögurnar hverfa á ný, bíða þess aftur að leika sér. Allt um kring og í höfðinu á mér. Ég þarf að læra betur að lokka þau út. ] [ Ellin bíður eftir þér ekki þarf henni að kvíða. Svefninn hennar sonur er sem lætur tímann líða. ] [ Fátt er jafn yndislegt og að sitja inni í hífandi rigningu og roki hlusta á tónlist lífsins berja á gluggann með logandi kertaljós sem hlýja manni um hjartarætur hvítvínsglas sem fyllir kinnarnar ánægjulegum roða og góða bók sem spilar á fagnandi strengi heilans. Bjartsýn leita ég af tilgangi lífsins leita af svörum við öllum þeim spurningum sem af þrábænandi vörum mínum hrynja. Undir dynjandi tónum Dylans uppgötva ég að lífið sjálft er tilgangurinn að svörin leynast á krefjandi lífsleiðinni. Opinn hugur minn er tilbúinn í slaginn ég nærist á geislandi orku fólksins í kringum mig ég nærist á hjartnæmri tónlistinni sem fyllir líkamann af óstoppandi löngun til að dansa. Fátt er jafn yndislegt og að liggja undir hlýrri sæng og láta hvínandi vindinn syngja sig í svefn. ] [ Hrottalega hrikalegur betri mönnum ber að óttast för sem vegur dregur alla svarta sjón svo best að þóknast , líkt og þjón í slæmum skóm en þetta flón fær að finna fyrir beittum hljóm fallið blóm vatni flýtur í vaskinn lítur bogna þyrna blómsins brýtur hlít að vera náfölur eftir langa blíðu sömu sögu stökkvum yfir í þá næstu finnum þessar fríðu sem að fæddust í forn æsku ] [ Hjartað mitt slær, Maginn minn hlær, Í hvert skipti sem ég hugsa um þig. Hjartað mitt slær, Maginn minn hlær, Í hvert skipti sem ég horfi á þig. Hjartað mitt slær, Maginn minn hlær, Í fyrsta skipti sem ég tala við þig. Hjartað mitt er brotið, Eftir öll skiptin sem þú hundsaðir mig. ] [ Jóakim er ekki aðalsönd , hvað þá aðalsmaður. "Íslenskt fólk allt vera svo feitur, það á ekkert nema sjálfan sig og nokkrar geitur. Afhverju fara þau ekki út að hlaupa? eru allir, alltaf, allan daginn inn að staupa? Viltu rauðvín? nei þú ert kannski of fín. viltu frekar sveppur? nei nei þetta er bara tímabundinn leppur, ég fékk flugu í augað einn daginn þegar ég fékk flugu í höfuðið. Ég er engin lúser þó ég sitji á bekkur, nei fólkið sem býr á hlemmi er á leiðinni á Kleppur. Rónarnir búa allir á Austurvöll. Þar ætla þeir allir að byggja sér höll úr vanilludropum og hveiti. ég veit ekki hvernig ég komst hingað en Alma, lífið er eitt stórt teiti." ] [ Ástin hans án mótvægis frá mér kremur mig Hann elskar mig svo mikið að það er sárt ] [ Köld eru kvenna ráð - en hlý eru klofin. ] [ Einn góðan veðurdag þegar þú vaknar upp og finnur að ég er farinn í burtu máttu vita það eitt að ánægður ég er. Lengi, svo lengi hafði ég ætlað burt en fann að það gengi ekki að læðast svo ég undirbjó vel og tryggði mina för. Ég er farinn í burtu og frelsi ég fann um leið og ég yfirgaf þig. Ég er farinn í burtu og enginn veit hvar ég er. En þó farinn sé burtu þá þýðir það ekki, að aldrei ég hugsi um liðna tíð, þá sem ég átti oft – einn með þér þú varst ást, og varst oftast mín eina von. Farinn á stað sem að geislar sólarinnar verma minn anda þar sem daggarfall á grasi að morgni ætíð heilsar mér. Samt ligg ég stundum einn andvaka um nætur dimmar hugsa í hringi um hvort að lífið það sé sól ein og sæla - og velkist vafa í. ] [ Ó elsku líf hve djúpt ég þrái andann þó ei ég geti hugsað mér meira líf og því skila ég kveðju hér að handan því nú loksins ég um himinhvolfið svíf. ] [ Eyja ein þú stendur með þína fegurð, fjöll og strendur. Svo full af lífi en samt svo döpur sál því þótt þú iðir af fólki þá talið þið ekki sama mál. Það kann engin annar að láta veðráttuna blöskra, að láta vindinn blása rétt eins og þú sért að öskra, að láta rigna og snjóa í senn! því við erum jú ekki nema bara menn. ] [ Lýsandi töfraljós marka enda þess sem aldrei varð og upphaf þess sem aldrei verður. Allt verður að engu og ekkert verður að öllu. Týnd í tíma, föst í stað. ég mun aldrei finnast en hvað með það, það eru hvort sem er allir týndir. Hér er lífið, í endalausu tómi. Hér eru engar reglur , hér er engin sómi. Hér sem lífið er svelt væntingum og nært vonbrigðum. Og sama hversu hátt þú kallar! sama um hvað sagan fjallar! það mun engin svara. Enn og aftur kom enginn og allir eru að fara. Allir hafa séð að hér vill engin lifa, allir heyra klukkuna tifa. Bimm Bamm Búmm! Við erum farin! Eftir sit ég blá og marin. ég hef enga lykla , ég hef engin svör, ég er ein eftir og þau taka bara pör. Seinust í skotbolta, seinust að fara. "Afhverju var ég ekki valin?" Æjji bara. ] [ Öfl sem illa láta neyða mig til að gefast upp og gráta. Sársaukinn lætur hátt í sér heyra, ég held að ég geti ekki meira. Mér er svo kalt, ég sem hef misst næstum allt. Mér er svo heitt, ég sem get ekki neitt. Bakterían lætur sér ekki líkaman duga heldur hefur hún heltekið sál mína og huga. ] [ Hún skyrpir og hún skyrpir til þess að losa sig við sitt eigið óbragð. Það tekst ekki. Hún sker úr sér tunguna. Bragðið er horfið en lyktin er verri. Hún snýtir sér og hún snýtir sér til þess að losa sig við sína eigin ógeðslykt. Það tekst ekki. Hún sker af sér nefið. lyktin er farin en hljóðið er verra. Hún stingur fingrunum lengst inn í eyru til þess að losa sig við hljóðið er hennar eigin blóðgusur mynda. það tekst ekki. Hún sker af sér eyrun. Hljóðið er farið en sú sýn er hennar eigin afmyndun myndar er verri. Hún nuddar sápu í augun til þess að losa sig við ógeðissýnina. það tekst ekki. Hún stingur úr sér augun. En svo læðist sú hugsun í huga hennar að kannski var hún ekkert svo ógeðsleg, kannski , bara kannski var þetta allt í hausnum á henni. Henni blæðir út ógeðslegri en hún hefur nokkurn tíma verið. ] [ Fíknin sem tælir alla tælir ekki lengur mig. Hún tælir bæði konur og kalla og ég er viss um að hún tælir þig. En loks þegar sigrinum var náð varð ég í sigurvímunni fíkninni háð og sopinn varð mér að bráð. Og án þess að sóa eða sulla hellti ég mig aftur fulla og fíknin sem tælir alla hefur aftur unnið mig. ] [ Sú sama og pissaði á þökin ældi á alla bílana vonandi skeit hún ekki á lökin því þá fyrst þyrfti ég að kýlana. ] [ ég hata, ég hata. ég hljóma eins og biluð plata! ég ljái hatrinu rödd mína! ég er talsmaður myrkursins og aðdáandi tilgangsleysisins. ég er allt sem þú óttast. ég er svarið sem finnst ekki, ég er tíminn sem líður of hratt, ég er ástin sem er ekki til. ég er sársaukinn sem öskrar í þögninni og þögnin sem sefur í sárinu. ég er aldurinn sem eldist með árinu, ég er sársaukinn sem fellur með tárinu. ég er aukakílóin á vigtinni! ég er myrkrið í birtunni! ég er bletturinn á skyrtunni! ég er allt sem þú óttast. ] [ Gleymdu ekki þínum minnsta bróður. Og mundu smáfuglinn vill mulið brauð. En mýslu örverpið vill eitur svo andist hún og liggi dauð. ] [ ég átti allt sem engu skipti auðlegð villti sýn yfir skuldunum nú öxlum yppti og drekk nú eins og svín þeir segja mig á vonarvöl og voma yfir líki andi minn er bjór og öl er keyptur var í ríki ] [ Líkar þetta Líkar ekki við Þér líkar þetta. Skemmtu þér í vinnunni Við leitum að hressum einstaklingi sem vill skemmta sér í vinnunni, ná árangri í starfi og er með ríka þjónustulund. Líkar þetta Líkar ekki við Þér líkar þetta. Auðkenni á netinu Auðkenndu þig á netinu með rafrænum skilríkjum í stað hefðbundinna lykilorða ] [ Það breytist margt með tíð og tíma tækifærin gríptu skjótt. Allt er lífið eilíf glíma eins að degi sem um nótt. ] [ Ekki er karlinn enn úr leik en óróleiki hann bankar -illa nokkuð brugðið Bleik- og brotnir margir þankar. ] [ Aldrei mun hún stynga í stúf við staðan sem engu nennir. En óskaplega er letin ljúf og lífið sem hún kennir. ] [ Vara eg vé þar er askur minn, allgóður með mána ennimóðu, leit þá þrep er skulum ganga ] [ Hylur hylur hulið er í hyl sem hylur hylur Hulið hulið er hylur hylur það sem í hyl er ] [ Hvað varð um Jane þessa fölu mey sem nú er farin Áður hún gekk um strætin hér glaðleg og frjáls Skilaðu kveðju ef þú sérð hana á vegu þinni ] [ Meyjan heimi meistarann ól, margt hefur þerrað tárið. Hans í minning´ heims um ból hefst upp jólafárið. Hátíð nálgast, hækkar sól, hopar kuldinn sári. Guð gefi ykkur gleðileg jól og gæfu á nýju ári. ] [ Halelúja Ég heyrði af lyklininum að gullnu hliði upp á himininum, orð sem minnti mann á hamingjuna. Ég hugsaði í drjúga stund en svo kom vitrun á minn fund auðvitað var orðið halelúja Halelúja, halelúja o.s.frv... En ástin hún um mig greip svo föl á brá og undirleit og hneppti mig í álög er ég sá þig. Þú stóðst upp og leist mig á ó, guðdómlegt var það að sjá og þúsund englar sungu halelúja. Halelúja... Ég fann þú varst mér einum meint Guð fór ekkert með það leynt um slíka hluti er ekki hægt að ljúga. Ég tók um þig og kyssti þig og varir þínar snertu mig og af augum þínum nam ég halelúja. Halelúja... Tíminn hefur mig leikið á en alltaf þú varst mér hjá og enn ég held í þig föstu taki Þó gömul við séum nú þá geymum enn þá, ég og þú leyndarmálið um orðið halelúja. Haleúja... ] [ Litla jólarósin Það var eitt sinn ein jólarós, eitt ár er að jólum hné, sem átti sér þá jólaósk að verða jólatré. En jólarósin í hljóði grét því hún hafði aldrei séð sinni stuttu ævi á nokkurt jólatré. Sjaldheyrð er nú á dögum svo einlæg og góðhjörtuð þrá en Drottinn gleymir engum sálum þó svo að sálin sé smá. Því sá hún seint á aðfangadegi, innan um pakka og skraut, tignarleg jólatré rétt hjá henni og höfði af lotningu laut. En út var napurt og mikil hríð og gluggakistan köld, því sveimaði lítið blómalíf sinn veg til Guðs þetta kvöld. Svo jólatréð með öll sín ljós gaf, rétt fyrir náðarblund, lítilli, visnandi jólarós litla hamingjustund. ] [ Í stofu í Kópavogi ein eldspíta lá Hún svaf værum blundi En kveinkaði sér og stundi Þar til að hún vaknaði og hafið sá. Í hári hennar sjá mátti lítinn loga Og hann dansaði dátt Og snarkaði hátt Og myndaði fagran ljósboga. Út var með hana farið. Kvöldið rautt sem rós og kveikt var kertlaljós. En lífið var henni falið. Skyndilega hún tókst á flug Gegnum loftið þaut Og fögur höfði laut Óhefluð með frjálsan hug. Hún sá þar nálgast hafið bjarta Sýn var fegurst sú Og fyllti von og trú Og gladdi lítið eldspítuhjarta. Og hafði eldspítuna kyssti Og faðmaði og dáði Og ást sína ljáði En eldspítan logann sinn missti. Hún ástina frekar en lífið vildi En engum gröm Heldur hamingjusöm Því það er ástin sem gefur lífinu gildi. ] [ Elsku mamma mér þykir það leitt að ég ekkert get gefið þér, ekki smá, ekki pínulítið, ekki neitt því fátækt flón ég er. Leitt að ég ekki get ekki hjálpað þér með heimilshald og bú sú lund er ekki gefin mér, og það gerir það engin eins og þú. Leitt að litlu systkini mín séu hrædd þegar ég hef hátt en þá hlaupa þau beint til þín og þá eiga þau ekki svo bágt. Leitt að ég geri aldrei neitt og þykist vera breið leitt að gera þér lífið leitt og leitt þegar þú ert leið. En þegar ég þykist þig ekki sjá það leiðast þykir mér og bið þig um að fara frá því ég hef fengið nóg af þér. Þegar ég segi að þú sért ófögur sjón, leiðinleg og þreytt verðurðu að muna að hér talar fátækt flón og ég meina ekkert með þessu, ekki smá, ekki pínulítið, ekki neitt. ] [ Heilinn minn hálfur orðinn að mauki, hefst það af lærdóms kvöl. Flipann ríf úr 1/2 lítra bauki, ferskur, kaldur hann deyfir mitt böl. ] [ I walked into the street one day I saw the poor in the dump they lay I saw the trash all over the place All this here from the human race I think of animals and tree´s coming to the end of days because of our cars, make-up and hairsprays. Why does no one try Shall we just sit here and die Why do we wait for it to be done for us And when they don't we make a fuss We were supposed to be a might race but now we are destroying this place I think of a polar bear and her cub who sink in the big sea tub It is to late to regret proper rules need to be set. By Hannah Bryndis, age 15 ] [ Undurlétt á fæti opnar dyr, gengur í bæinn. Kápan blaut, regnið malar seiðandi tónum og ýtir undir hinar myrku hvatir. Bölvað, viltu drekka, vín? Vargur á klettasyllu stofunnar situr. Rauðar varir dæsa eldrauðar augnaráðið skerst inn að beini vargurinn, konungur í ríki sínu, skelfur - Taktu mig út í dimma nóttina, dönsum, drottning undirheimanna. ] [ Lífs er best að lifa hratt, ljúfum þjóna hvötum, taka það með trukki fatt, tæta sig úr fötum. Leggðu á brattann, lifðu hátt, leiður munt ei verða, trúðu á þitt megn og mátt má sig lengi herða. ] [ herbergin verða minni stari á veggina lokuð hérna inni sker í handleggina lakið orðið rautt knúsa kodda\'minn líf mitt er svo autt lít í spegilinn tárin renna.. svart eins og sálin rautt eins og blóð inn í mig stingst nálin ég var að verða óð bleikt eins og blómin gult eins og rós hugsanir um tómin allt í einu sést ljós í veröld sem er hlý og köld taka vímuefnin völd ] [ hérna úti þögnin segir allt vetrarguði ég lúti alveg ískallt sit á stéttakantinum rigningin fellur fram af hattinum droparnir renna ég leifi bálinu að brenna nóttin er ekki björt trén fela fjöllin svört dimmblá nóttin ógnar tunglinu ég skýli mér undir laufinu ] [ Fjör er oft á ferðum hér fáir munni loka Embla gefur enn af sér á hún margt í poka. ] [ Góðverkin geðjast mér gera hvern stærri. Gleði þau gefi af sér geta má nærri. ] [ Nóttin gerir snjóinn bláan Seríurnar lita hann bleikan Hjartað mitt slær hratt Finn hvað það er glatt Þetta var svo löng bið ég stend þér við hlið Og horfi á snjóinn falla Mig langar að kalla Svo allir heyri Ást mín gæti ei verið meiri „ég elska þig!“ Ég finn að þú horfir á mig Ég stend þér við hlið Allt er svo fullkomið Augun opnast Ég hélt ég myndi fá kast Ég leit í kringum mig Og vonaðist til þess að sjá þig Ég lagðist aftur og táraðist því þessi draumur kláraðist sama hvað ég reyndi ég réð engu um það hvað mig dreymdi. ] [ Reykjavík, Ó Reykjavík Í rigningu og roki reika ég eftir rennblautu götum þínum með iPodinn í eyrunum. - og fýla grágrýtislögin. Reykjavík, Ó Reykjavík Í slabbi og slyddu stappa ég í stígvélum á strætum þínum með öskju undir armi og aðra eldri undir fótum. Reykjavík Ó Reykjavík Í frosti og funa Sé ég hraun þitt renna Fyrir fimmþúsund árum Úr Bláfjöllum í stórsvigi Og steypast í Elliðavog Reykjavík Ó Reykjavík Á víkinga vori Hugsa ég um Ingó Og súlurnar, öndvegissúlurnar Hugsa ég um Viðey Og nýju súluna- friðasúluna. Reykjavík Ó Reykjavík Í blíðu og stríðu Stend ég með þér og á þér Rótföst og reikul Í gleði og sorg Ó borg mín borg. ] [ Hún sat hljóð starandi útí tómið öll svo innantóm en samt svo glöð Þar sem hún sat hljóð og horfandi inní tómarúmið Hvarf ] [ Nýr og glæsilegur áfangastaður í sólina hjá Lúxusferðum™ á Íslandi ævintýri líkast! Það leiðist engum sem hefur Ferðafélaga góðar fréttir fyrir fjölskuldufólk hjá okkur fá börnin 50% afslátt á fargjaldinu verð frá you name it þú trúir því ekki skoðaðu nýjustu bæklingana! Skráðu þig! Það borgar sig! Ferðalög eru frábær félagsskapur! Tilboð! Tilboð! Fáðu tilboð! Gerðu tilboð! Þú ræður upphæðinni! Upplýsingar um flug og sölu um borð! Þeir segja að heima sé best en við erum ekkert endilega sammála því gakktu aðeins útfyrir upp á fjallahringinn hátt hátt fyrir ofan leggstu á grasið mændu horfðu á miðnætursólina ganga hringinn í kring og aldrei setjast meðan döggin perlast á grasinu hitnar stígur jöklarnir eldfjöllin upp yfir bláan himin og ást á fögrum grænum engjum og rauðbrúnum virkjuðum ljóðum og mundu að hugurinn kemur þér aðeins hálfa leið af því þú ert í miðju heimsins og miðja heimsins er þú hjá okkur taktu þátt í sólarlottó! Ef þig vantar gistingu ertu í góðum höndum hjá okkur komdu á tónleika ársins og sjáðu Bubba það er sama hvert tilefnið er komdu í klúbbinn skoðaðu flugáætlun okkar bíómyndir tölvuleikir músík og margt margt fleira! Glæsilegar ferðir fyrir Visakorthafa! Nýttu þér ferðaávísun MasterCard! Örfá sæti laus ekki missa af þinni fljótandi lúxushótel ferð lúxus og lystisemdir á Sauðárkróki lúxus skemmtileg ferðalög í bland við sál og líkama salan hafin fyrir næsta vetur lúxus ódýrustu sætin bókast fyrst! Sólarferðir! Borgir! Ævintýri! Skíði! Golf! Íþróttir! Gisting! Hafðu samband! Vantar þig upplýsingar? Þarftu að ná í okkur út af einhverju? Við viljum heyra frá þér hafðu samband lestu nýjustu fréttirnar vilt þú slást í hópinn? Ertu að leita að einhverju á þessum vef? náðu áttum skráðu þig í netferðaklúbb Visa-MasterCard stökktu um borð finndu frelsið tilboðið gildir takmarkað Bolungarvík bíður ekki öll sæti að hverfa við gefum þér farið skráðu þig þú ræður verðinu pantaðu núna! ] [ Jesper Glad keyrir leigubíl það er hann ánægður með Þegar Jesper Glad er ekki að keyra leigubíl þá og þá stundina situr hann gjarnan inni á umferðarmiðstöðinni og drekkur kaffi Þar borðar hann líka á kvöldin þegar hann er búinn að keyra leigubíl þann daginn Jesper Glad býr einn Jesper Glad hlakkar til að prufa nýja hreinsilöginn frá Vanish til að þrífa með æluna og blóðið í áklæðinu sínu af því að skurepulverinn sem hann notaði síðast tærði og át upp gamla áklæðið svo hann varð að fá sér nýtt áklæði Stundum hugsar Jesper Glad um guð og hvort guð búi ekki í öllu meiraðsegja ælunni í áklæðinu áklæðinu sjálfu jafnvel og farþegunum sem ekki eru allir jafn kurteisir og eiga stundum til að æla í áklæðið Það var þó öðruvísi í gamla daga þegar fólk bar virðingu fyrir leigubílstjórum Þetta hugsar Jesper Glad um þegar hann situr inni á umferðarmiðstöðinni og drekkur kaffi og hlakkar til að prufa nýja hreinsilöginn frá Vanish Að það sé víst ekki allt sem það áður var að keyra leigubíl ] [ Kaldhæðni ævi minnar hlaut að vera að það yrði aftakaveður á aftökudaginn jæa betra er að hafa átt drauma og misst þá en vera andvaka fæddur ég held ég sé bara búinn að drepa svo mikinn tíma að ég sé dauður sjálfur býst við að aftökusveitin sé ósammála mér um það einsog annað þeir eru að drekka bjór og reykja þarna inni rúlla ljóðunum mínum í sígarettur fyrir lýrískt eftirbragð kannski þeir bjóði mér eina að skilnaði bara orðinn svo þreyttur á að hafa Sjón bundinn fyrir augunum niðursoðna drauma á útsölu og gíraffa á stultum og helvítis rigningin maður ] [ Gamansemin gleði syngur gítar sinn á streng þó að mæði misskilningur margan góðan dreng. ] [ Lengi hef ég Unni unnað, Unni þeirri með ég vinn, alltaf vel við Unni kunnað, Unnur hún er vinur minn. ] [ Lengi hef með Unni unnið, Unni hef ég lengi þekkt, okkar störfin áfram runnið yfirleitt í ró og spekt. Undarlega allt er spunnið er ekki lífið dásamlegt? ] [ Íhaldið vill okkur teyma aftur í for og svað, átaldir um alla heima, ástandið margbölvað og fólkið er fljótt að gleyma, fláræðið glepur það. ] [ Ef vinur slekkur alltaf ljósin þegar þú kemur í heimsókn hafðu þá með þér vasaljós. ] [ Ekki skulu undrast þið oft í hausnum braki. Ég hef komið víða við í vísna og orðaskaki. Er úr heimi andinn fer ef til vill má lauma einherju í eyra á þér inn í þína drauma. ] [ Sjöfn er kona sæt og mjó og brún, seint ég trúi að falli af henni glansinn. Létt sem hindin líður gólfin hún, ljúf var stund er gengum við í dansinn. ] [ Á höfði ber hún ljósa lokka, lífsglöð er og brött að sjá, gefur af sér góðan þokka, geislar bros á hýrri brá. Ljúft væri hana láta brokka og líða sínum kostum á. ] [ Á fortíð er fjandi gleyminn en fregnað hef af henni vott: ,,Svo skapaði Guð heiminn og sjá það var andskoti gott"! ] [ Enginn er angurgapi Emla á skilið ljóð. Manneskja að mínu skapi mælsk og blíð og góð. ] [ Ég geng eftir ströndinni og elti í sandinum meint fótspor. Og sé þau hverfa í fjarska – - svo endalaust. Enn í raun eru þau að koma til mín því að fótspor þín eru frelsið sem þú áttir - í átt til drauma þinna – og þau enda aldrei... Fótsporin segja þér sögu af rútínugöngu lífs þíns sem á sér eitthvað upphaf en engan endi. Þau segja þér frá vonum þínum og þrám og fyllingu lífs sem þú eignaðist aldrei. Við enda strandarinnar sérðu fótsporin mást út hægt og hægt...... Þegar þú snýrð þér við eru þau engin. Þú ert á endastöð. ] [ Ég efa ekki að það sé satt ef sækirðu í stelpuskinn, að þú getir farið flatt og fengið skellinn þinn. En ef ekki út um heimana elta viltu þær, ávallt verðurðu einmana ef ellin í þig nær. ] [ Dagmar er hér dýrleg snót drottningar heitir nafni. Ýmsir gefa henni undir fót öllum þó hún hafni. ] [ Ég fékk eplakörfu og í körfunni voru mörg epli Og eplin voru öll svo falleg svo rauð og svo gljáandi Ég starði lengi vel á þau, ímyndaði mér hvernig eplin myndu öll bragðast Síðan eftir langar vangaveltur eftir að ég hafði skoðað hvert og eitt einasta epli vandlega... Þá tók ég fallegasta eplið í körfunni, eplið sem alla langaði að smakka Það var svo fagurrautt og frá því barst dísætur eplailmur, það gljáði í sólinni eins og nýbónaður bíll á sumarmorgni Ég bar eplið upp að vörum mínum og beit loksins í það Hvílíkur unaður ! Svo mjúkt, svo ferskt. Safaríkasta epli sem ég hafði nokkurn tíman á ævi minni smakkað, gómsætara epli hafði ég aldrei fyrr borðað. Ég tuggði af hjartans lyst Svo gerðist það, að ég fann eitthvað gerast... Eftir nokkra bita var eplið allt í einu orðið rotið, skemmt Ég opnaði augun og sá loksins að allan þenna tíma hafði ég verið að borða skemmdasta eplið í körfunni Í óðagot spýtti ég eplabitanum, og frussaði leyfunum út úr mér. Hafði ég virkilega ekki séð að þetta epli var skemmt ? Og sama hvað ég geri, sama hvað ég reyni að bursta tennurnar eða fá mér vatnssopa... Ég er ennþá með vont bragð í munninum. Kannski þori ég aldrei að smakka epli aftur. ] [ Mig og besta vin minn, hann Ísak, okkur langaði að leika ruslakarla skítuga, stóra ruslakarla eins og við sáum taka tunnurnar Ég og besti vinur minn hann Ísak, sturtuðum úr dótakössunum rótuðum í draslinu fleygðum öllum fötunum og það sást ekki í gólfið Ég og besti vinur minn, hann Ísak, rusluðum til og vorum skömmuð því herbergið hans Ísaks var eins og ruslahaugur ] [ Einu kynni mín af þér voru eitt, lítið, stolið tár agnar smátt augnablik sem við áttum heima þú sagðir mér allt, um þína heima og annarra yfir stolnu tári, heima hjá öðrum, agnarsmáu kaffitári. ---- Og ég fann að þú varst maður sem gast látið allt lífið rúmast í aðeins einu tári. ] [ Ég missti ekki mitt manninum hef greitt -best að hver fái sitt þá fær Skrattinn ekki neitt- ] [ Um ást og dauða: um lífið - hjartað sem slær djúpt í myrkri blóðsins. Um nótt og drauma: um tímann - veginn sem liggur eftir reiki ánna. Um eilífð og veru: um andann - vindinn sem trekkir í heimi skiptinganna. ] [ það eru tvö sólkerfi umliggjandi augasteinar þínir svarthol sem gleypa stjörnuþokan allt í kring unaðsleg teleporta ég mínum mönnum í þig geislaðu þá upp, geislaðu þá upp ] [ Blóm sig teygja birtu nær baða víðan heiminn, leit ég eina lilju í gær ljóma var hún slegin. Lilju bridds er ljúfur kær, lundin ör og dreymin, Lilja brosir og Lilja hlær, Lilja veður í geimin. ] [ Í sorgum fals og falla þá finnur Kristur þig. Í nótt er klukkur kalla kemur hann til þín. Er glitra stjörnur geimsins hann gengur að þér hljótt. Og birtist börnum heimsins og blessar þessa nótt. Hann skilur sorg og mædda og strýkur burtu tár. Og sest hjá hinum hædda og hylur gömul sár. Hann ber í anda alla sem eiga ekkert skjól. Og hvergi höfði halla og hvergi eiga jól. ] [ Spila við mig systur tvær sér við briddsinn una. Grétu og Bubbu gleði er nær og gaman við rúbertuna. Á morgun þær mér fara frá í fjarska til sinna heima. Ég sit eftir með eftirsjá, erfitt er þeim að gleyma. ] [ Eiga með þér yndi vil og ögn af ljúfri kæti ef þú hefur tíma til taktu hjá mér sæti. ] [ Ljúfast njótum lífs í dag liðin getum á morgun. Þó andi kalt um okkar hag ei þarf gleðin borgun. ] [ Þú hefur reynt þetta og hitt þú ert viskusjóður en við röfli ég segi sjitt sómamaður góður. ] [ Skammastu þín mannskepna. Þú náttúrunnar níðingur og auðlindanna svíðingur, brátt himinninn verður myrkur. Nú hringja heimsins kirkjuklukkur. ] [ Já en satanískur hló ég bak við tunglið og dónabændurnir vissu ekki hvaðan á stóð veðrið en skammheimtumennirnir í myrkrinu lágu og voru vafalaust að fjölga sér í húminu því hvað bakstrar hver svo í sínu er svo er búið. ] [ Lengi geta mjóir mæst, meining er mér nær, eins vel geti óskir ræst, og andinn spinnur þær. Hvert sem færðu lífið leitt, ljúf þín verða spor, fáirðu járnið hamrað heitt og hertan vilja og þor. Látirðu geysa um gleðidyr og gáir á báða hönd, lausnarinn gefur ljúfan byr og leiði um haf og lönd. Lengi geta mjóir mæst og margs er að óska sér en oft er svo er óskin fæst að ei hún hentar þér. ] [ Hvenær kemurðu aftur? brotinn eða glaður? Hvar er þinn sanni kraftur? fyrir mér ertu alltaf maður. það er ráðgáta, brotinn eða glaður? við það að fara að gráta? fyrir mér ertu sannur maður. Hvað eru þau að kvarta Brotinn eða glaður Ég styð þig af öllu hjarta Þú ert minn maður ] [ Yndi og fiður oss er nær, andinn leiðir kæti. Velkominn sértu vinur kær viltu ekki fá þér sæti. ] [ Í tækjasal þrekhjólið þekki þar koma menn heilsu í lag. En betra að ofgera sér ekki svo ei getir mætt næsta dag. Ég er örmagna alla daga en ekkert að gera við því annað en að púla og plaga og pína sig tækjunum í. ] [ Lít ég barn að leika sér það unir sér svo frjálst. Tár þess einn sá þerra kann sem hug þess vann af ást. Þá er barn þú lítur og í augun skær hár á höfði feykir ljúfur blær. Dökku augun þess þau segja þér meir en allt - meir en allt Lít mitt barn að leika sér það unir sér svo frjálst. Tár þess einn sá þerra kann sem ætíð ann af ást. ] [ Það eru sömu vandamálin víða vil ég líða á braut og detta í´ða og ég tel ekki eftir neinu að bíða að aula sér í næstu mjólkurbúð æ, elsku vinur ekki þenja lúð ég á það til að gefa fólki á snúð. ] [ Margir eru daufir í morgunsárið og megna ekki að ná sér á strik. Ekkert er betra brennivínstárið að bæta þar um vik. ] [ Norðanvindur nístir nálega inn að beini, hreyfir við hári helvítis Kári. Óvitandi vesæl veit ekki neitt, bjórnum bölvi bæði ofurölvi. ] [ Kertaljósin loga undurbjart og ljúfum geislum varpa - hvílíkt skart! En eitthvað þungt er hér, sem hrjáir mig; ég hef allt sem ég þrái - nema þig. Þótt alheimsauð ég fengið gæti' að gjöf og gullnu fleyi siglt um vötn og höf er heitust jólaósk mín ávallt sú að einhvers staðar nærri mér sért þú. ] [ Ég laut til þín höfði lúnu snemma síðasta vor og sætu englar himins vita hve falleg þú varst. Þú brostir og biturlega með augnaráðið fast betlandi smámint í bauk með storknandi hor. Ég rétti ykkur mömmu þinni hundraðkallinn hvor starði um stund hugsandi, biðjandi um lausn en í hörðum heimi má ei treysta á guðsins rausn. Mér verkjaði í hjartað en hélt áfram með mitt hliðarspor Og nú er haust komið hrottalegt og ég gleymi þér ei. Litli fugl með ekkert í gogginn og ekkert hreiður nema á götunni með baukinn hennar mömmu. Og ekki er dagur sem þú víkur úr huga mér litla grey en ég er bara líkt og allar týpískar samúðarbleyður stend bara og stari, með smámint og augun römmu. ] [ Ég geng um götu mína gleymi mér við prjál. En greini gneista þína gegnum mína sál. Ég geng um vegi vina en veigra mér um það. Að yrða á alla hina sem eiga enga að. Ég gleðst á hátíð glaður gleymi stund og stað. En til er einn sá staður er Kristur grét og bað. Að tekið af sér yrði allt sem krossinn er. Og bak hans heimsins byrði hann bað um ljós hjá sér. ] [ Brostin hjörtu, sorg á brá þegar ég legsteina ykkar sá ungir menn sem áttu þá að berjast fyrir fósturjörð sína, hvers vegna var það ykkar lífinu að týna? ] [ Ástarjátning mín hljómar eins og ískur í bremsum. -Ég vil að við förum okkur hægt. ] [ Frið og kærleik færa jól, fylla gleði byggð og ból. Gæfu á jörðu Guð oss fól. Gæska mannsins stór. Um heiminn allan heyra mátt hlátrasköllin fram á nátt. Um sigur ástar, bjarta sól syngur englakór En langt í burtu á lítil mær litla gjöf sem henni er kær þó aldrei hana opnað fær. Um illsku mannsins hnaut. Og brosin sem að brost'eitt sinn breyst hafa í tár á kinn Því hermaður af henni tvær hendur litlar skaut. ] [ Þvert um heiminn englar þér óska friðar, öðrum að þjáningar endi fljótt, því hvergi mæður nú sofa rótt. Dæmda fólkið drottni sér biður griðar, megi það allt deyja skjótt, dátarnir gráta hverja nótt. Rignir sprengjum svo rennur blóð í straumum, rósir gráta byggð og ból, rænt frá þeim er bjartri sól: Liljum ungum er fundu líkn í draumum. ] [ Ég minnist minna æsku daga man þorpið góða, heimahaga þar lifði og lék ég glaður við ljúfa vini uns varð ég maður þar þráði ég forðum að vera og þar líka bein mín bera því fríður ég var af öðrum þar bar og heillaði allar stelpurnar en nú er ég orðinn gamall og gugginn og grautfull því horfinn er sjarminn enda ei lengur lofsins verður er latur og fæ bara kaldar kveðjur en það sem verra er og það ég varla ber að frúnni finnst ég ekki sexý lengur. ] [ Megi gæfan gæta þín, gleðin með þér vera, geðjast litla gjöfin mín, góða kveðju að bera. ] [ when yellow takes the night you just know it but you cant see where it is but you can feel it but when it trawels you must feel the strenght of the yellow i can just see us jamming just feel tho power of yellow flowing trugh you like smoke trugh a led pipe when you can see the yellow you know that you got to much smoke in your eye ] [ its all wiers,cables how can somone under stand the lonely life of the guitar man that lives his life with a guitar in his hand and has no guitar stand by his bed only a empty bottle of wiskey right by his head and the guitar in his hand he plays his guitar every chanc he get's to rock it out with his fingers on the strings he makes his sweet melody into the song you'll never forget ] [ now this is the song for the muse of chaos that no one can find she's the creator of all that i like she's in my music in my soul and the stuff that i love she never leves me alone for this is a song for the muse of chaos ] [ Við gluggann ég stend og stari á stjörnu er á himni skín. Sú von í brjósti mér bærist að brosi hann þar til mín. Sárt mein er í mínu hjarta ég minnist lítils barns sem átti sér enga framtíð og aldrei komst til manns. Ég bið því Guð minn góður geymdu hann við brjóstið þitt. Og gefðu að leiðarlokum ég líti aftur barnið mitt. ] [ Dökk augun éta þig lifandi og áður en þú veist af ertu fangi hugaróra og sleppur aldrei. Veikleiki þinn. Að eilífu. Augun. ] [ Lukka og gleði lífs um ár ljúft þér megi hossa. Megirtðu teyga Tryggvi Már tryggð og vinarkossa. ] [ Er á ferðum indæll vær, efnilegur drengur og hann heitir Orri Snær í ættum mikill fengur. ] [ á pergamenti 2007 bylínur útrásarheimskunnar dróttkvæði ortu ,,deyr fé,deyja frændr" en þeim er öllum fokking sama ] [ Ætíð spilar Bjarni best, bilar hvergi í törnum. Andstæðingana undrar mest eymsli sín í görnum. Það er svo margt ef að er gáð, sem athuga má hver trassinn. Ber ég þeim mín bestu ráð: Berið vaselín á rassinn. ] [ ég lýðskrumaði þig í mitt lastabæli kosningar loforðið stóð í nótt þakka þitt atkvæði þú ert mér nú þarflaus sem forsíðugrein gærdags eða var það gærudags? ] [ Hannibal spurði hollan granna hvurt honum þætti gott að vera á mill tannana á fólki ekkert bitastætt varð úr þeirra viðkynnum ] [ Ég bý í framtíð, ekki horfa mig. Ei viltu fortíð, því ég kyssti þig. Ég elska þig, frá degi til dags. Þú lest fyrir mig. Hey,komdu hingað strax. ] [ Að vilja komast á leiðarenda til að lostna við vanlíðan og þreytuna langar að gráta en getur það ekki því stoltið er of mikið vitandi að ef maður gefst upp þá tekur þreytan yfir líkaman og áður en þú veist af hefur hún tekið yfir sálina þú lætur undan þú ert kominn á leiðarenda. ] [ Dökk augun éta þig lifandi og áður en þú veist af ertu fangi hugaróra og sleppur aldrei. Veikleiki þinn. Að eilífu. Augun. Fylgja þér alltaf, hvert sem þú ferð hrafntinnusvört með bliki svo skært svo seiðandi, svo gráðug og þú sleppur ekki. Yfir höf, yfir lönd með staf sinn í hönd glampar á gullið í glóandi sól. Tignarleg sjálf gullinu skreytt en alltaf ná augun, dökku augun, heljartaki á þér. Fangi hugaróra og þú sleppur aldrei. Að eilífu. Augun. ] [ Ég er djöfullinn sem hvítþvær sig á baðinu þínu fyrirgefðu mér að ég hafi ekki haft meira til að gefa þér ég vildi að ég hefði haft eitthvað vitsmunalegt að segja en ég er tóm tóm auð blönk gjaldþrota í þessari ástartogstreitu og þú fyllir ekki lengur upp plássið Ég get ekki elskað þig jafn innilega og þú elskar okkur ég elskaði svo marga aðra Ég var djöfullinn sem hvítþvoði sig á baðinu okkar þar til vatnið varð rautt ] [ Hringrás tíma hratt er liðin, hefst nú ár að nýju. Meðan æra þjóðar engist sviðin, opnast tuttugu-tíu. ] [ Þriðjudagur, ég þreyttur er og þrotið allt í búi. En "betrun sérhver dagur ber", svo best ég á það trúi. ] [ Hann er harður hormónabóndinn: Engan lætur fá frið svo farist ekki mannkynið. Hann er harður hormónabóndinn: Hvetur allt lifanda lið í lauslætið. ] [ Í svartasta myrkrinu, hugsa ég um þig. Ég vildi bara óska, að þú vissir. Hversu miklu máli, þú skiptir mig. Þegar þröngir gangar, virðast vera allt sem er. Vildi ég óska þess eins, að ég væri hjá þér. Þegar himnarnir hrynja, hugsa ég um þig. Meðan styrjaldir dynja, dreymdi þér um mig? Þegar kaldasta stálið, stríkur mína kinn. Vildi ég óska þess eins, að þú værir minn. Dragðu mig ekki áfram, á asnanaeyrum. Ef þú vilt ekkert meira, slepptu mér þá. Já, ég verð kannski ein, en þá vil ég að þú vitir. Leiðin sem þú settir mér, er bæði breið og bein. Ég þarf ekkert kort, ég allt þetta rata. Ég man þetta allt saman, já, þessi einmanna gata. Þessi einmanna gata, eitt sinn tilheyrði mér. Þú munnt hana ey rata, hún nú tilheyrir þér. Kúrðu þig niður, gráttu í þinn kodda. Þú færð aldrei frið, frá þeim andskotans grodda. Hann brýtur sér leið, inní þína draumaheima. Undan orðum hans sveið, hann hefur margt að geyma. Reyndu að gleyma, reyndu að sjá. Reyndu að loka á, allt sem er mér frá. Ég mun ekki bakka, ég mun ekki gefa mig. Ég mun ávalt bíða, og óska að þú elskir mig. ] [ Á guð ég trúði að gömlum sið og geymdi trúna mína í skúffunni og skelfdist við er skyldi ég ást honum sýna. Í dag mér trúin færir flest ég finn og á það stóla að birtan ljómi um góðan gest í gleðihátíð jóla. Drottinn ykkur ég blessa bið og bágt allt líf í heimi þá í hjarta finn ég frið og faðmlag hans ég geymi. Hjá ykkur pabbi og mamma mín margir um jólin kætast þá blítt hjá öllum brosið skín og barnsins draumar rætast. ] [ Í minni sjálfsköpuðu þögn er ég frjáls en einmana og á erfitt með að leggja mínar eigin línur það hefur margsýnt sig að ég hef ekkert tak á taumum mínum sé til hvernig þetta fer ég hef það bara svona allt í lagi og hættið að spyrja ] [ Ég bý í fortíðinni og bíð spennt eftir framtíðinni svo tíminn hleypur alltaf frá mér dagurinn í dag er því ekkert nema barnalegar væntingar sem verða að ljúfsárum minningum við umbreytingu sína í daginn í gær ég vænti þess að það komi tími og ráð sem færa mér hæfileikann að njóta líðandi stundar það hlýtur að gerast einhverntíma seinna ] [ Það tók mig ekki langan tíma að sannfæra mig um að enginn ætti eftir að elska mig aftur að minnsta kosti aldrei aðeins mig eina og dá mig eins og þú ég hlýt að vera eitthvað klikkuð að vakna svona einn daginn og vilja ekki þessa endalausu ást lengur og hætta bara við þessa andskotans endalausu botnlausu skilyrðislausu ást sem þú gafst mér hvað varstu að hugsa? hvernig datt þér til hugar að ég gæti nokkurntíma endurgreitt þér þetta flóð? Það á enginn eftir að elska mig aftur eins og þú en það skrifast þá á mig þau framtíðar framhjáhöld og svívirðingar komandi maka minna skrifast alfarið á mig ] [ Fyrir mér eruð þið allir eins eflaust vegna þess að þegar öllu er á botninn hvolft geri ég það sama með ykkur öllum eða kannski vegna þess að ég horfi ekki í andlitin á neinum ykkar til að finna ekki fyrir sársaukanum af því sem ég veit manna best; þið viljið bara þessa einu nótt ég aftur á móti veit ekkert hvað ég vil ] [ Þröskuldur kallar á móður eina brýtur í mér bogna sál fylgdu mér og þú munt heyra kvölin eina var þetta hreina tár ] [ Ég veit ekki hvort þú viljir að ég fari og ég kann ekki við að spyrja ég var full í gær en fattaði í morgun að ég þekki þig í raun ekki neitt svo ég veit ekki á hvaða umræðuefni ég ætti svosum að byrja eða hvað ég ætti að segja ef svo skyldi vilja til að ég fyndi eitthvað að tala um það er þögn í herberginu veit ekki hvort mig langi helst til að kúra eða öskra hvort ég sé að koma eða fara Ég gæti sagt þér ýmislegt um mig sem þú hefðir eflaust ekki haldið svona við þessi stuttu fyrstu kynni sem svo rakleiðis færði okkur hingað en til hvers? svo þú vitir aðeins meira um stelpuna sem þú fórst óvart með heim og vilt helst ekki sjá aftur? hversvegna held ég að ég geti vakið hjá þér áhuga á mér sem hoppaði uppí hjá þér full í gær ] [ skál í stál betra mál má finna eldfimt bál og kuldinn felur hitann spinna má stinna bók og kynna vermi mig með blöðum en skelf að innan ] [ Til hamingju! Þú hefur eignast heilbrigðan dreng. (Honum verður ekki skotaskuld úr því að borga Icesave.) ] [ Eins og helsært dýr hvarflar út á holt til að deyja flýr vitund mín veruleikann og vefur sjálfa sig örmum handan þessa heims -þar sem ennþá er von. ] [ Að bögglast og bölvast í ölæði öðlast, vísan og viskan er vissara að hafa, því ei öðlastu bölvun ef döðlan er kröðluð. Á steinum og sléttum, bandvíddis klettum hann jón stóð á stöngli ásamt 100 silakeppum. Með vísum og rímum ég skrifa hér aftur um þverhausa og þvaður og þeirra múrsteins blaður. Ei viljum við hverfa í andhverfa kletta með hrjúfum botni og steinsteyptu lofti. Mundu nú veginn farðþegis megin og gangveginn hinumeginn, þolinmæði, staðfesta og einbeitni í verki leiðir þig burt frá volæði og veini. Taktu nú saman og troddu í poka gangtu á bungu helst Sveinstungu, mundu og mæltu á veigi þínum stæltum að viljinn er verkfæri fjallagarpsins. Hefur þú prufað að standa ofan á kletti, kletti sá er stendur í fjallabelti, þú heldur á vita ei ljósavita, þetta er viti sem vísar á Toppstinda. Já vinur minn sæll og góðkunningi, ég skrifa þessa vísu því hún er gulls í gildi, stattu nú við þitt og af góðu mun þú hafa, vera frjáls, frjáls eins og fuglinn. ] [ Ég hef ekki orðið svona fullur í fjörutíu ár en fagnað vel nú hef ég áramótum. En ýmsir telja betra að vera í frostinu frár og faðma ekki jörðina eftir nótum. ] [ Margt gerist mótlætið strangt, mörg fara ráð af leið. En bjartsýnin ber okkur langt og bjargar oft í neyð. ] [ æ fokk hvaða ógeð var ég að stíga í? á ég að þrífa þetta af eða? ] [ Fyrsta ástin er tómatur rauður, þrútinn safaríkur stinnur, glansandi kraminn endar í sósu ] [ Enda þótt hann sé helvítis asni er hann alla vega klár. ] [ Einu sinni bezt í heimi óx um ásmegin litla Ísland en tapaði svo. Þá man ég er Þór í reif járnin og jörð skalf. Hvar eru nú vættir og vanir Ísalands synir dugmiklir kappar og durgar þeir er verja eiga farsæla, fríða hrímhvíta móður? Sit í sárum barið orðum annarra þjóða. Vegna gjörða varga þeirra er hjá fólki leyndu lágu og lugu. Bíðum tíma betri sólar upp úr hafi endurfætt mun rísa hin fagra, kona fjalla farsæla. ] [ Einu sinni bezt í heimi óx um ásmegin litla Ísland en tapaði svo. Þá man ég er Þór í reif járnin og jörð skalf. Hvar eru nú vættir og vanir Ísalands synir dugmiklir kappar og durgar þeir er verja eiga farsæla, fríða hrímhvíta móður? Sit í sárum barið orðum annarra þjóða. Vegna gjörða varga þeirra er hjá fólki leyndu lágu og lugu. Bíðum tíma betri sólar upp úr hafi endurfædd mun rísa hin fagra, kona fjalla farsæla. ] [ Í kvennaklefanum er verið að fela konuna. Og gagnkynhneigðir karlmenn hlaupa í gegnum kvennaklefann til þess að horfa á hana. Það er blautt inni og sveitt, en laugin er slétt og blá. Þetta er lagleg kona með mikil brjóst og rökuð skapahár. Og ókynþroska drengur með sundgleraugu segir við mig: Skyldi konunni ekki leiðast að láta kyngerva sig? ] [ Það er lán að vera vel af Guði gerður og geta tekist á við lífsins svið. Í framtíðinni enginn veit hvað verður en vonin hvers að lukkan blasi við. ] [ Ég ritaði þér ástarljóð, um heimsins ástarljóða flóð. Þú stóðst og last það þung en hljóð. Þú skildir ei minn ástaróð. ] [ Afhverju sagðiru "Ég elska þig" þegar þú meintir ekki stakt orð af því? Gastu ekki bara leyft mér að fara fyrst ég skipti þig svo litlu? Ég ætla að sleppa þér.. fljúgðu hátt og fljúgðu langt elsku ástin mín... ] [ Snjórinn féll niður á sumardegi. Það hafði aldrei verið algeng sjón í Evrópu, en annað mál gilti um eyjuna við norður heimskautsbaug. Þar var fólkið vant alls kyns veðri og lét sér ekki bregða þó það gerði smá slyddu í júlí. Bændur jafnvel glottu út um annað munnvikið, enda guðirnir þekktir fyrir sinn svarta húmor. Að flytja af eyjunni litlu var ekki einu sinni valkostur, hér fæddust þeir, og hér skyldu þeir deyja, enda var þetta lífið sem þeim hafði verið úthlutað. Eflaust væri nóg um sól í himnaríki og því um að gera að bíða síns tíma. ] [ Það hlýtur að liggja í augum uppi að álfar eru ekki menn, heldur eru þeir skaðræðisskepnur sem hafa arkað um landið svo lengi sem menn hafa byggt það. Hver hefur ekki heyrt hryllingssöguna um huldumanninn sem var fallegri en sólsetrið sjálft, og arkaði um sveitirnar með mjólkurkönnu í hendinni sem hann skildi eftir hjá einhverjum mjólkurlausum sveitungum. Hvað þá huldukonan sem blikkaði ekki einu sinni auga þegar hún gaf húsfreyju heilan kistil af heldri kvenna klæðum. Þessar hryllingssögur og fleiri í þeim dúr hafa hrætt Íslendinga öld eftir öld, gert þá nær viti sínu fjær. Það hlýtur að liggja í augum uppi að álfar eru ekki menn, enda hafa menn sjaldan gerst sekir um slík athæfi. ] [ Tjörnin svo fögur og hún yfir höfuð stjörnur á himni það erum við sem aðrir segja það eru sögur hvar væri ég ef þú ættir mig ] [ Gefðu mér að ég hvílist vel, í nótt í rekkju minni. Hugsanir mínar þér ég fel að geyma nú að sinni. ] [ Frjósemin hún frá okkur vill líða, fer þá eins með þig og alla hina. Lát því vinur ekki of lengi bíða, að lauma genum inn í framtíðina. ] [ Seint mun Drottinn sýta þann setinn á auði nurlarann er lætur bugaðan beiningamann burtu fara allslausan. ] [ -Margir eru nefndir en fáir eru kvaddir, umskiptingsfláráðinn blessa ei þann- Hverjar sem erlendar óma nú raddir: ,,Amen"! Svarar ráðherrann. ] [ Stundum lestu tímalaust blaður skrifað fyrir mánuðum, árum eða núna því á öllum tímum hugsa allir eins: hálsinn á þér líkist einhverju á milli gíraffa og skjaldböku augun minna helst á haförn með ógurleg augnhár hárið eins og fax á verðlaunahryssu mér líkaði strax við þig þegar þú settist niður og veifaðir lofi í andlitið á mér ég veifaði á móti á minn hátt en gaf þér ekkert nema martraðir þú fuðrar upp eins og vítamíntafla í vatni eða kattliðugur töframaður í lok sýningar og þegar ég reyni að nálgast þig verkjar mig í augun ] [ Ævi mannsins er í raun aðeins tylft augnablika: nokkrar örlagaríkar ákvarðanir... - á milli þeirra tylftir annarra augnablika. ] [ Ef til vill væri hægt að segja eitthvað skáldlegt um rennslið í ánum, eða leikið með hefðbundnar hugmyndir um samskipti kynjanna, en það sem er er það sem það er, og þetta ljóð er því til staðfestingar. ] [ Það var mikið að það kom þíða þá er gott inni að detta í´ða. Best að drekka beint af stút og bara að strjúka mallakút. ] [ ÞRIÐJUDAGUR og sólin glampar á glugga.Ég set upp rimlagardínur fyrir stofugluggan. Ég lít á eldhúsklukkuna í þann mund sem hin ekta íslenska húsmóðir tekur niður jólaskrautið eftir enn eina jólahátíðina.Er klukkan að ganga fjögur? ] [ Blasa hér við bollur og svið, bærilega auðvelt og indælt matlífið. ] [ Ég er píanókonsert No. 1 eftir Tchaikovsky, þú ert slagharpan… Ég er 5. sinfónía Beethovens, þú ert strengjasveitin… Ég er Niblungahringur Wagners, þú ert óperusviðið… Ég er tónsprotinn, þú ert Karajan. Ég er án þín ekkert annað en hálfklárað verk... ] [ Góður og glæðilegur vinur, græðir ást í hjarta. Ef eitthvað á þig dynur, eflir hann þig og boðar framtíð bjarta. ] [ Á mannlífsins sorphaug lagður til vafinn þjáningu útburður… Ofurliði borið sköpunarverkið af skapara sínum. ] [ Dúnmjúkum sporum dansar dagurinn þér frá. Fyrr en varir verða vikurnar að árum. Ef að lítur þú um öxl ævin laumast burt þér frá. Fylg því deginum af dáð í dansi lífsins. ] [ Þetta verður vesen fyrst um sinn síðan lagast þetta smám saman seinna læðist hún ein að nóttu og leggst við hlið þér löngunin í næsta glas Þetta verður vesen fyrst um sinn síðan versnar þetta smám saman seinna kemur hún öskrandi og sparkar í þig liggjandi löngunin til að hætta ] [ Ekkert betra er en landið hér sem Ísland er Þakka ég þér sem í heimi er frelsarinn hér Fullkomið er í heimi hér allt sem er Þakka ég þér sem á vegi er ferðalangur hér ] [ Sæl elsku systir mín og velkomin á vefinn, vil ég einnig líka bjóða þér góðan daginn. Ekki teldi ég eftir mér að leiða þig fyrstu skrefin en á þessum slóðum tel ég mig ekki vera laginn og vona því af öðrum verði þér bættur baginn. ] [ Blóm, Fiðrildi, eitthvað annað en þú! Heimurinn flýgur áfram, Í endalausu spurningaflóði. Kallaðu nafnið út í tómið: "Jesú, Jesú hví dóstu?" Bergmálar til baka! Svar? "Því þið voruð ekki nógu þæg, svo ég þurfti að deyja. Deyja eins og lítil rækja, steikt á teini!!" ] [ Að eigur manna fari fyrir bý fær marga depurð leitt. En ekki þarf áhyggjur af því sá er á ekki neitt. ] [ Icesave féll hér út á hlið en ennþá þrjóskast Steingrímur við. Stjórnvöld gamlan sækja í sið að sóða yfir mannlífið. ] [ Illt á í ári mörg ágæt baugalína, erfiðleikar nú kenna margra grasa. Enginn má lengur borga blíðu fína og bara takkið þykir létt í vasa. ] [ Líf okkar er aðeins fyrsti þáttur í framhaldsþáttaröð óendanlegs lífs. ] [ Umskipti manna eru skjót í útrásinni brosti hver kjaftur. Alþýðan kraup í rót þó öryrkjamálin væru ljót og samt kaus hún sama dót aftur og aftur! ] [ Vingjarnlegur, vinasækinn, vont ekki kann. Dyggðugur, djúpvitur dásamaður hann. ] [ Stjórnmála menn segja ; jarejare ja jarejare ja, jarejare ja, Stjórnmála menn segja ; jarejare ja jarejare ja, jarejare ja. Stjórnmálamenn segja JEREJARE JA,JAREJAREJA JAREJARE JA, Stjórnmálamenn segja JEREJARE JA,JAREJAREJA JAREJARE JA, Konur og menn heyra;jarejare ja jarejare ja, jarejare ja, Konur og menn heyra;jarejare ja jarejare ja, jarejare ja, Standið upp,setjist niður, það verður að skrifa undir því miður. Standið upp,setjist niður,hlýðið okkur annars er enginn friður. Standið upp setjist niður, hlýðið okkur núna því miður, Standið upp setjist niður, við þolum ekki lengur þetta kliður. Við Austurvöll heyrist;ding og dong,ding og dong,ding og dong Við Austurvöll heyrist;ding og dong,ding og dong,ding og dong. Stjórnmála menn segja ; jarejare ja jarejare ja, jarejare ja, Stjórnmála menn segja ; jarejare ja jarejare ja, jarejare ja. Stjórnmálamenn segja JEREJARE JA,JAREJAREJA JAREJARE JA, Stjórnmálamenn segja JEREJARE JA,JAREJAREJA JAREJARE JA, þinghúsið er jarejare ja jarejare ja jarejare ja Austurvöllur er ding og dong ding og dong,ding og dong Ísland frosið við hafið í vestur, Ísland farsældar Frón,bentu á þann sem þér þykir bestur. ] [ Ég skal sko kerlingu ríða frúin hún skal bara biða hamast má hið ljóta veður en tekur grip í leður Kerlinguna yfir frúnna ég skipa ei skal ég á draugskipi sitja móðir vora okkur kallar heim svo ég gríp dauðans teym Köld er hún frúin fríða ekkert er að biðj'ana blíða bræður við herrann vor semja herrans eið ég mun sverja Mér höndina hann dauði réttir ei mun ég ganga vítis stéttir en hjálp hans ég neita því til herrans ég leita Frúin gengur í kerlingar skrokk en kerlingin er segin flott við hjónin erum barinn særð en hún frúin mörgum lærð Göngur þeirra látna ég óttast á kerlingu þeim frá flóttast er þeir upp koma frá með þeim kemur aldan há Bræður mínir frá borðum falla til þeirra ég óskum kalla öskur þeirra við hlátur lenda og blessun ég mun senda en hafa þrjú haust liðin maður sem stendur við hliðin er stefndi til himna stranda en ég stóð til þeirra handa ] [ Lífið er erfitt. ekki endalaus fegurð hjarta mitt frosið. allt er svo kalt. ég þrái þig. hvað gerðist ? við sem alltaf vorum saman alltaf í gegnum þrautir lifsins þú skildir mig eina eftir. heitt tár lekur niður kinn mina. enginn þú, bara ég. þú skildir mig eina eftir. eg get ekki meir. hvað geri eg án þín ? eg þrauka ekki, ekki mikið lengur. ég elskaði þig en þu braust mig og það versta er ég elska þig enn ] [ Lífið er skrítið fyrirbæri. Það kemur og fer, en alltaf er þess samt saknað. Því lífið krækir alltaf í annað líf áður en það fer í burtu. Því engin sál á að þola það að vera ekki elskuð. Allir eru elskaðir að minnsta kosti einu sinni á ævinni, og þegar það gerist verður maður að nota tækifærið því það gæti verið að það kæmi aldrei aftur. ] [ Þú blómstrar í mínu hjarta en visnar á vetrarnótt, þegar tíminn er okkur að aftra þá er ekki hljótt. {Komdu til mín, komdu til mín. Ekki fara vertu hér.} Það er einhvað sem rangt er hér, það gæti verið ég ef til vill er það kannski þú því þér er ekki rótt. ] [ Glitrandi svifmjúk silfruð þoka sólgullin vindþanin ský söngblámi himins seiðandi hafið sindrandi jöklanna ís. ] [ Ég hræddist þitt ýkta netsjálf hélt þú hefðir tilfinningasveiflur á við teiknimyndapersónu og að þú værir með alla Wikipediu inni í hausnum og gætir bent á hinar og þessar rannsóknir eftir minni og fært allar rökræður við matarborðið í kaf. Annað kom á daginn. Hvernig líður þér í veruleikanum, vinan? ] [ Á sama augnabliki og hann hafði leyst lífgátuna varð hann bráðkvaddur, líkt og náttúran vildi ekki að leyndardómur hennar yrði upplýstur. ] [ Veistu að ég gat ekki gefið þér brjóst, og gafst upp á þér svo amma þín annaðist þig inni hjá sér? Veistu hve oft ég grét og bað Guð um að gæta þín? Veistu að ég hrópaði á Hann hvar er ástin mín? Veistu hve aum er sú und sem enginn lækna kann? Að sök mín er svört eins og nótt og sorgin mér heitast ann? Ég er enn bara barn og bíð þess hrædd að hann laumi sér, ljóti kallinn, skjótur eins og skugginn í skotið hjá mér. ] [ Ást er þegar þú færð enn fiðrildi í magann þegar þú kyssir hana, þó það sé í þúsundasta skiptið. Ást er þegar þú ferð þúsund sinnum á klósettið til að gá að hárgreiðslunni, rétt áður en hún kemur til þín. Ást er að vita númerið á gallabuxunum hennar (fyrir og eftir jól) Ást er að taka eftir nýju klippingunni hennar. Ást er að hlæja að bröndurunum hennar. Ást er að vita uppáhaldslagið hennar. Ást er að geta ekki verið án hennar. Ást er að vera áfram vinir þó eitthvað komi uppá. Ást er að elska hana. ] [ Að sjá augun þín vaka er mér nóg Hárið niðurá bak ilmandi af sumri hljóðið í skónum þínum er í takt við hjartslátt minn Þegar þú labbaðir framhjá mér skildirðu eftir ilm sem vakti mig Vakti mig svo mikið að mig fór að dreyma ég útiloka allt öll hljóð, alla lykt, nema þig.... ] [ Ég er að biðja þig um að finna mig ég er hérna að bíða eftir þér Ég ætla ekki að hreyfa mig fyrr enn þú finnur mig Ég ætla ekki að leita að þér því þú veist ekki hvar ég er Hinn eilífðar leit að okkur er hafin og ég er vel falinn Ef þú finnur mig ekki þá aumingja ég Því án þess að finna mig þá tapar þú Ég gef mig ekki, ég segi ekki frá ] [ Fyrir mér ertu þú fallega dýrð í sandinum sit ég nú eftir augun þín lokuð en mín eru pírð flýrð og vindurinn eltir ] [ Oft gerist eitthvað sem við héldum að myndi ekki gerast við erum löt og þreytt,pirrumst og vælum við erum samt svo örugg um að ekkert gerist að við leyfum okkur að vera hvernig sem okkur hentar svo gerist eitthvað svart ský kemur og enginn sá það fyrir Hvað nú? Hefði ég átt að brosa meir? ] [ Ég held honum í fanginu á mér syni mínum sem ég hafði alið syni mínum sem ég kenndi svo margt syni mínum sem fór útaf brautinni syni mínum sem ég elska svo mikið Þeir eru að koma, vertu sterkur.. ] [ Ræktun haturs röng er mjög, í raun er ekkert verra. Að hefta hamingjunnar lög, heimska er, minn herra. ] [ Ég vil brjóta allt og bramla, & brytja fjendur gamla. Svo kýla menn og kremja, því kæfir mig nú gremja ] [ Lengi hef ég keyrt og fuglasöng heyrt um fallega dali og fjallasali. Best finnst mér þó að ganga í bæinn og finna ilminn af kjötsúpunni hennar ömmu -sem alltaf tekur á móti þreyttum ferðalöngum. ] [ Ekki hefur gengið allt í hag Íslands handbolta í en nú var ekkert nöldur í dag nú lágu Danir í því. ] [ Ef þú aðeins vissir hve hárfínan dans ég stíg á mörkum mín og þín. Hvað er mitt og hvað er þitt? - Ef ég aðeins vissi ] [ Strákanir okkar komast alla leið með mörgum glæstum sigrum,og drífandi krafturin fleytir þeim hratt alla leið í úrslit. ] [ Það er rigning. Húsin standa hljóð við götuna. Gulleit birta götunnar sindrar í dropum þakrennanna. Ég hleyp milli húsaraðanna berfættur finnst ég finna bragðið af laufunum í gegnum tærnar. Smá vindur bílljós sem koma og fara og minning bak við girðingarnar. ] [ Háskalegur brandi brá, læddist um á hesti. Fældi eigi Svölu frá, gaur hann þóttist mesti. Leiðir áfram lágu nú, hvergi hvíld að finna. Giftist á endanum stúlkan sú, þeim hún vildi sinna. ] [ Af hverju þurfa menn alltaf að slást hér á þessari jörð? Nóg er um loftslagsmálin. ] [ Konunnar eðli er á bakinu að liggja en allt nú á jafnréttiskjaftæði byggir og ei skaltu vinur ást hennar styggja þótt óðar en varir á bakinu þú liggir. ] [ Okkar ljós er gott. gott eins og guð. Guð er gott ljós. Hann er okkar ljós. ] [ Eitt er hross af öðrum ber eins og gull að ljóma þó er svo að þykir mér þau vera öll til sóma. ] [ Vændi er iðja sem allflestir stunda á einhvern máta er telst ei til synda. Vændi er iðnin er afglapar grunda ei megi kaupa til nokkurra mynda. Vændi er göfugast af gjöfulu teymi gagns, líkna og gleði í aldanna rás. Vændi er elsta atvinnugrein í heimi yndis er seint verður bundið á bás. Vændi hefur þrifist um eilífðarár, aldrei verður blíðan ofmetin til fjár. ] [ Leyfðu mér að strjúka þér um vangann leyfðu mér að kyssa þig á kinn leyfðu mér að fæða hug þinn svangan leyfðu mér að elska þig um sinn. ] [ Oft finnst það aftur er týnist. Ætíð er barist til friðar. Ekki er allt sem sýnist á ýmsu eru fleiri hliðar. ] [ Ég hef það í hendi það er ég viss um. Hvernig það nýtist veit ég ekkert um. Er maður heppinn án nokkurra raka. Fylgja því hnekkir að finna sér maka ] [ A veces nosotros queremos amor, a veces bailo contigo a veces nosotros gritamos dolor! a veces riñes conmigo. A veces te quiero más en el mundo a veces te doy besitos a veces me odias más en el mundo a veces clamo grititos. A veces nosotros gritamos dolor! a veces riñes conmigo. en el final nosotros querremos amor entonces bailaré contigo. ] [ Greiðar brautir áfram ek ég, allt í einu man ég þó að ég gleymdi einu heima. –Aldrei hef ég með mér nóg–. Nú er aðeins eitt að gera: aftur snúa og leita að skemmstu leiðum heim í hlað. Vænleg braut mér þykir þessi þótt hún liggi niður að strönd. Inn með henni áfram kemst ég yfir slétt og greiðfær lönd. Það er víst að þannig finn ég þakinn hörðu biki veg. Eftir honum ætla ég. Krappa beygju brautin tekur brekku miðri liggur í. Eigi að síður áfram held ég, óþarft mun að kvíða því að ég geti ekki fundið áfram veg sem nota má svo ég marki megi ná. Þarna fyrir framan bílinn ferleg hindrun birtist mér: hrúga stór af gráu grjóti. Greiðfær varla leiðin er framhjá því. Og fært er ekki að fara heldur yfir það. Leið ég hlýt að leita að. Niðri á strönd er steyptur vegur, stefna þangað nú ég verð. Áfram niður bratta brekku bíllinn mjakast hæga ferð yfir klappir, aur og þýfi ofan á blómum skýdda grund. Eftir henni ég ek um stund. Framundan er brautin beina breið og slétt. Og nú er skammt að mér sýnist inn í bæinn. Ekki er þrautum lokið samt, ljótur tálmi lokar vegi líkt og falli að stöfum hurð. Varla ek ég yfir skurð. Nú er frekar illt í efni. Á því verður, held ég, bið að ég komist yfir skurðinn og ekki get ég snúið við. Þýfða, grýtta, bratta brekkan bannar það. Og nú ég ligg illa í því að ég hygg. Snöggt ég lít til allra átta, engan sé ég færan veg. Ætli ég verði úti hérna? Örlög furðu grimmúðleg eru það að bera beinin blómum skrýddri grundu á, örskammt borgarysnum frá. Hvers vegna er ég hingað kominn? Hvað réð því að fíflið ég ók í fáti út úr bænum áfram svo um þennan veg. Einn ég vaki ótta sleginn ekki kemur maður neinn. Dey ég hérna?Alveg einn? ] [ Hann pabbi var glúrinn og talsverðar eignir hann átti svo ýmislegt hlaut ég í fyllingu tímans í arf. Sumt varð nú að litlu og áhuginn einkum var bundinn við útgerð og vinnslu er síðan varð lengstaf mitt starf. Og það var svo gaman er báturinn birtist með aflann og bílarnir fluttu hann í stöð sem við nafn mitt var kennd. Þar starfaði fólk sem var þekkt fyrir vandaða vinnu og varan að lokum til fjarlægra landa var send. En leiðinlegt fannst mér í biðstofum bankanna að hanga, því berjast við lausafjárvandræði margoft ég hlaut. Samt bjargaðist þetta og starfsemin styrktist og efldist og stuðnings og velvildar mannskapsins jafnan ég naut. Ég stækkaði bátinn og byggði upp nýtísku vinnslu og bætti við allskonar tækjum. Og loksins mér tókst að verða sá stærsti og fremsti í firðinum öllum og flest gekk mér orðið í haginn og veldi mitt jókst. Svo var það einn daginn að öllum sem útgerðir ráku var úthlutað kvóta. Og fljótlega dýrmætur varð hver óveiddur þorskur og annað er synti í sjónum og sala á kvótanum skapaði fjölmörgum arð. En mér þótti lengi vel réttast að eiga minn áfram, en einstöku sinnum ég leiddi samt hugann að því að svipað og fleiri ég ætti það vafalaust inni að eignast nú dálítinn pening og taka mér frí. Svo barði að dyrunum ungur og ákafur maður. Hann opnaði veskið og kynstur af seðlum mér bauð. Ég seldi honum kvótann. Og báturinn bíður þess aðeins að brenna til ösku og stöðin er þögul og auð. Mér finnst þetta dapurt en aldrei á allt verður kosið. Nú uni ég löngum á kvöldin við tölvunnar skjá og sé hvernig inneignatölurnar hækka og hækka. –Ég held að ég þurfi ekki framar neinn víxil að slá. Já, víst er það munur að vera nú hættur að fullu að vasast í róðrum og slíku. Og allt er svo létt. Já, stundum um of fyrir þann sem er vanur að vinna, ég vann eins og jálkur hér áður. Og sanngjarnt og rétt mér finnst að ég njóti í einhverju árangurs nokkurs af erfiðum störfum og flóknum sem vinna ég hlaut Og þannig ég geti í ellinni öruggur lifað og ánægður notið þess hlutar sem féll mér í skaut. Var einhver að kalla? Ég held að ég heyri í fjarska í hæglátum manni sem all lengi réri hjá mér. Og duglegur var hann. Hann undi sér aðeins á sjónum, en illa það fór samt að lokum og grimmúðug er sú ráðstöfun Drottins að láta hann laskast í slysi. Mér líst ekki á að hann finni neitt þægilegt starf. En hann fær nú bætur og alltaf þær eru að hækka. –Svo er þetta lítið sem sextugur piparkall þarf. En það er víst réttast að hætta að hugsa um þetta, ég held að ég líti á skjáinn og fylgist með því að þetta sem á ég í allskonar bréfum og sjóðum sé öruggt og geti í fyllingu tímans á ný átt hlut að því verki að skapa hér farsæla framtíð, því fullvíst er eitt þó að margt sýnist óskýrt og valt: Sá stórfelldi auður sem athafnamaðurinn skapar er uppspretta gæða sem dreifast um þjóðlífið allt. Hver kallaði núna? Jú, þetta er rödd sem ég þekki en það finnst mér skrítið hve lágvær og döpur hún er. Því konan sem á hana jafnan var glaðlynd og glettin, svo gengu í hvelli öll verkin sem tók hún að sér. En núna er stöðin mín aflögð og ekkert að gera og efalaust dagarnir langir. Og nú er mér sagt að húsið sitt sé hún að missa og maðurinn veikur. Æ, margþætt er okið sem stundum á fólkið er lagt. En að því má gæta að hún var nú hálfgerður auli að halda því saman til lengdar sem vann hún sér inn. Því hún var svo gjörn á að eyða í allskonar glingur svo allt er í voða ef tekjurnar minnka um sinn. Það kom fyrir lítið þó legði hún fyrir um tíma, hún lést ekki heyra þó margoft ég benti henni á að kaupa sér þrælörugg bréf sem í bönkunum finnast þó betri og tryggari vexti sé hvergi að fá. Og við sem að stjórnuðum rekstri sem aflaði auðsins af alúð og nærfærni gætum hans, staðráðnir í að láta hann vaxa og verðmæti skapa á ný. ] [ Eftir fréttum allavega er ég leitandi. Æsseifið var eiginlega orðið þreytandi. Margt er sagt á flestum fundum en fáu trúandi. Sumir eru öllum stundum einkum ljúgandi. Landið allt til vinstri vegar virðist skoppandi. Nokkrir eru orðnir þegar alveg hoppandi. Stjórnin ógnar kóngum kvóta kerfið mölvandi. En gráðugur vill gróðans njóta og grenjar bölvandi. Íhald vítt til valda sækir verklaust hangandi. Sífellt málin Framsókn flækir af fýlu angandi. Stjórnin þó á rassinn renni og ríki dottandi einlægt nokkrir eftir henni eru hottandi. Ef til vill er okkar kreppa eitthvað sjatnandi svo ár við megum aftur hreppa aðeins batnandi. ] [ Þar small það 2/2/10 Sæl og blessuð Marta mín, góð er hjá mér tíðin alauður Norðfjörður ég keypti bíl í dag ekki af verri endanum skærrauðan á litinn og það er Mitsjubisi tegund er Outlander svo er hann fjögrahjóladrifinn upp á sextíu hestöfl þar að auki með dráttarkrók sem gagnast gæti mér og ef hann fær nóg bensín með sjálfskiptingu sína gæti ég boðið í bíltúr dótturinni kæru er kemur hún heim til mín. knús pabbi ] [ Ég man hve mikið hann kyssti og mér þótti ei góður sá fyrsti því ógreið var leið og undan mig sveið er ung ég meydóminn missti. ] [ ef þú myndir vilja mig heitt ég aðeins get sagt þér það eitt að sömuleiðis þá vil ég þig til þess að elska og gæla við mig ég veit að ég ósanngjörn er láttu þér lynda það allavegana hér ég frekar vil kúra í fangi þínu ef þú værir hér í lífi mínu. ] [ Af saltinu sauðinn þyrsti, síðan hann drakk af lyst. Það er fínt að vera femenisti og fjandmann geta kysst. ] [ Hér áður sá afkvæmið vildi æxlunin þótti ekki neyð en svo er með gömul gildi að geyst hafa ört af leið. ] [ flýgur jafnvel hærra en hinir þrátt fyrir að hafa kolsvartar fjaðrir eins og syndir mínar. ] [ Á daginn sáust stundum litlir skuggar bærast undir sveigðu kastaníutrjánum - eins og þau byggju yfir einhverju sem þau gætu ekki afhjúpað. ] [ Tíminn líður, tíminn fer dag einn mun ég skemmta mér: elta eftir þröngum götum, þig, og inn í húsasund kasta af mér öllum fötum, svo stynjum við í langa stund - í langa stund - ég ætla á þinn fund! drekkum saman eitrað vín konungur djöflanna og drottning þín. ] [ í niðamyrkri, næturblíðu: nístingskuldi masta sker, í stormasamri helástríðu - ég sting í hjarta þér. ] [ Hæg-steingerast nátttröll fyrir framan sjónvarpstækin – enda birtan bara brot af birtu sólar ... fagurgrænn plusssófi minnir á grasblettinn við klettinn, vökvað reglulega karlsbergið sem lifði ekki af 34 þáttaröðina af Survivor. ] [ Af hungri margur má sýna sút og sultardeyja á heimsbyggðinni en ég ríf í mig og ryð mig út og ræ í spiki í alsnæktinni. ] [ Étirðu á þig bústinn búk bág mun reynast stundin. Verði þér að vænum kúk og væran hafðu blundinn. ] [ Fyndið að skoða ljósmynd af snjókomu: allar agnirnar frystar af bæði kuldanum og vélinni. ] [ Stelpur Sogast að hálfvitum hata þá en hata að hata þá Sveigjast og beygjast gegn þeirra innri vilja virða þá,næra þá fæða þá. ] [ Með ösku og steina örkuðum í Skorrastað og ákvað ég að festa sögu þess á blað. Ég vissi ekki Öskudag virka á þennan hátt er nema von ég teldi mig leikinn grátt? ] [ Ef þú lifir nógu lengi deyrðu á endanum. ] [ Í ölvunarástandi dreymdi mig drauminn, er stóð ég á strönd og horfði út á haf. Með höfðið á undan ég stakk mér í strauminn, og sálin fór með mér á bólakaf. Umlukin vatni með útrétta arma úr mér hvarf allt angur og strit. Saltaður vökvinn seig mér um hvarma, er sunnanvindurinn lék mér um vit. Morguninn eftir ég vaknaði værri, og vigtinni þungu af mér var létt. Fannst mér sem hugurinn væri nú hærri, öll heimsins vandamál væru leiðrétt. ] [ Móðir jörð, þú sem ert alltumlykjandi. Helgist þitt nafn, blessuð sé þín tilvera, dásamleg eru listaverk þín, svo á jörðu sem á himni. Þakka þér fyrir vort daglegt brauð. Fyrirgef oss það sem vér ónýtum, svo sem og vér ofnýtum og útrýmum. Eigi leið þú yfir oss hamfarir, heldur frelsa oss frá fáfræði. Megi þín fegurð, máttur og dýrð vara að eilífu. Amen ] [ Ekki hafa hátt er hjartað grætur. Myrkrið hefur mátt og meinið rætur. Ekki svíkja ást er situr heima. Skuggarnir sjást er sorgir dreyma. Ekki ganga ein á eyðisandi. Situr við stein særður andi. Hér sukku skip í söndum gljúpum. Grimm eru grip úr grænum djúpum. Ekki hafa hátt við hafsins rætur. Þar er engin sátt og andinn grætur. Kveikjum eld á úthafs ströndum. Hann kemur í kveld kalinn á höndum. ] [ Til gæjans á ljótu Mözdunni sem spændi upp bílastæðið fyrir utan Metro: Typpið þitt verður ekki stærra þó bíllinn þinn sé breyttur og sé með hávaða og einkanúmerið BRKUP6. ] [ Ég hélt ég hefði verið löngu búin að loka þessum kassa og líma fyrir en samt hringsóla þessar hugsanir í hausnum á mér ég var búin að pakka þeim niður ég sver það ég reyndi svo vel að pakka þeim niður ] [ kynvera, skáld, þetta er allt það sama. um hvað hafa skáldin verið að yrkja í gegnum aldirnar? um fram allt ást. falska ást sem felst í löngun í kynlíf. ég er skáld því ég er kynvera. ég hef bara fengið þá guðsgjöf að kynorka mín getur flætt óbeisluð í orðum og orðið að ljóðum. ég er skáld. ég er kynvera. same shit. skaufi, píka, brjóst. ] [ Þú ert gólftuska þinnar eigin tilveru þú skúrar vistarverur þinnar eigin sálar með þessari gólftusku sem þú ert ] [ Í höndinni hvílir glas af hægdrepandi aurum örvæntingafult kassa bras hjá nokkrum gaurum Þeir sitja og stinga tímunum saman,ég efast um að þetta sé lengur gaman Stungið og stungið, beðið eftir hljóði glösin að tæmast,menn bíða eftir sjóði menn snúa aftur með seðilinn græna manskínan aftur vill gráu fingurna ræna Gráir fingur eru farnir að þreytast brasið við kassann,með hægdrepandi aurum tómt er glas á morgunn skal það breytast er þetta óskin hjá þessum gaurum. Í höndinni hvílir glas hjá gaurnum við barinn á hverju kvöldi bjóra bras hann starir í spilasalinn. Einmanna situr og starir hér inn einmanna gaurinn við barinn mikið er hann kvalinn auminginn ætli hann sé illa farinn. ] [ Mér var sagt að hefja leit að löngu glötuðum hlut og ég hef ekki hugmynd um hvar ég ætti svosem að byrja ligg bara hér agndofa og sífellt þreytt því mig grunar að með þennan hlut verði það ekki eins og með aðra hann mun ekki finnast ekki einu sinni á síðasta staðnum sem ég leita ] [ nafnlaus fór um breiðstræti gekk um nafnlausar götur um nafnlaus torg í nafnlausri borg ] [ ,,Mig langar til að fokking ríða þér" mælti Jakob einn ljúfan vinnudag í enda júlí árið 2004.* ] [ Yndið besta og auðnu mesta átti ég á þessum fák, oft vill bresta með aðra flesta ef ég kýs fá mér strák. ] [ Þarna Stína þekki ég þig og þetta af mér þekki. Margir hringja í sjálfa sig og síminn svaraði ekki. ] [ Ef felldir skuldir fyrir mig finndist mér þú perla, það er sem ég sjá þig sæta ljúfa Erla. ] [ Áfram árin líða ekkert tjáir væl. Frjó hugsun fer víða frænka sæl. Áfram árin líða ekkert tjáir að sýta. Ýmsir hafa ekkert að bíta. ] [ Margt er í mannaheimi er mæðu veitir þunga. Best með blíðu og geimi að bylta lífsins drunga. ] [ Ég er þræll eigin rammleika þolandi eigin lífsviðhorfs. Þrællinn tilheyrir meistara sínum fylgir hverju orði hans eltir duttlungafulla leiki refsað fyrir eiginhagsmunasemi og hefur misst sjálfstæði sjálfsins. En er útópían er fundin loks haldið loks stöðug lifnar við ásjóna þrælsins. því þar í hjarta eigin rýmis er hann meistarinn. ] [ Í hurðarrúðu strætósins sé ég grannan myndarlegan mann augljóslega menntaðan ekki hrifinn af kulda óhræddur við að vaða drullu ósmeykur en feiminn hrúga af reynslu sem býr bakvið augun leiftrandi persóna sem húkir í felum áhugasamur um umhverfi sitt býr hjá mömmu sinni er er alltaf þreyttur enda í fullri vinnu sem einstætt foreldri. Strætóhurðin opnast og ég stíg út. ] [ Ég fékk skilaboð þau sögðu mér að koma. Ég horfði á þau starði opinmynntur sauður með lokaðan ákvörðunarhlera. Ætti ég? Spennan í maganum jókst teygði sig dýpra niður og rétt kitlaði bakhluta pungsins. Ætti ég ekki? Maginn fór í hnút kvíðasamur titringur læddist í fingurna tennurnar bitu í vörina. Gat ekki hugsað mér að afþakka svo að ég kom. ] [ Farinn að heilsu sagði hann af sér, eftir að hafa opnað landið upp á gátt fyrir niðurrifsöflunum. Sem hann átti reyndar - ALLS EKKI VON Á. En með lýðnum sem lepur dauðann úr skel lifa hans vondjörfu orð; GUÐ BLESSI ÍSLAND!! ] [ Hæ, já, hún hlýtur líka að vera frábær þessi Marta Einarsdóttir alnafna dóttur minnar. Hún sagði í morgunútvarpinu að hún hefði gleði að atvinnu og gaf upp heimasíðu sína: pulsinn.is ´ Hún lagði áherslu á þetta sama og gert er á Kærleiksdögum sem ég hef sótt einu sinni, að menn æfðu sig og æfðu sig í að brosa og hrósa sjálfum sér og efla sjálfsímyndina og benti hún þar á að segja þetta aftur og aftur: ,,Ég er frábær, ég er klár, ég er góður" og ég greip ræðuna þegar á lofti og orti ljóð dagsins á þessa leið: Ég veit ég er frábær, ég veit ég er klár, ég veit ég er andskoti góður og ég trúi að snilld mín um eilífðar ár auki mér vegsemd og hróður. knús frá svarra ] [ Sagt er að núna séu þau kvitt, hún á hann sótti öllum stundum. Hann sagðist hafa verið í splitt, hann barnaði Siggu frá Lundum. ] [ Ég græt er ég fagna og fagna er ég græt. Heimurinn er grimmur hvernig sem ég læt. Ég vakna og sofna með opin augun mín. Og sé í gegnum árin glampa á sárin þín. Skynja gegnum svefninn og finn hvert ferðin er. Því árin eru lækir og líða í burt frá mér. ] [ Atkvæðið þitt hefur valdið vanda valdhroka og brjálæði gafstu grið. Erfitt er lengi í lappir að standa er launráðin steðja á hverja hlið. ] [ Þið gáfuð mér gull ykkar en ég hafnaði því! Þið fórnið börnum ykkar. Ó, dýrð mín! Ég hef enga þolinmæði fyrir sprotafyrirtækjum ykkar. Krýndur laufum lít ég niður á ykkur eins og risafura á agnarlitla termíta sálarinnar. ] [ Ég er hræddur! Hræddur við annað fólk. Hræddur um að það sjái í gegnum mig. Sjái hvern mann ég hef að geyma. Þess vegna vefst mér oft tunga um tönn og tal mitt verður þvoglulegt. Ég mismæli mig líka stundum eða stama. Það er það versta af öllu! - Og þó, það versta er frekar það að við sjálfir erum alls ekki vissir um hvernig menn við höfum að geyma. ] [ Erfitt er að verja vesaldóminn veika til þess skortir kraft. Helsta ráðið að hækka róminn svo hinir geti ei rifið kjaft. ] [ Það er af sem áður var er efndu til betri mála, umskiptingar ólmast þar svo ei sér meiri brjála. Bófar bæta ei mannlífið, blíðu sinni fresta. Það ku eiga víðar við að vilji manndóm bresta. ] [ Þú í faðmi mínum augnablikin heilög. Ég þrýsti þér að mér kyssi enni þitt. Gef þér allt sem ég á ástina til þín. Þú ert horfin í óræðar víddir sorg mín grætur á svörtum veggjum ] [ Fyrsta ástin undursamleg tilfinning. Hugsanir og þrár og ást mín flýgur um. þú sem ert ævintýri lífs míns í dag. þú sem ert, mestur, bestur og allt sem ég þrái í dag. Ég vil hvíla í faðmi þínum finna hjarta þitt við mitt. Og horfa í augu þín í dag. ] [ Hefur bros er heillar menn og hörundslitinn bjarta á ferðinni hér einn er enn sem yljar meyjarhjarta. ] [ Fyrstur kemur fyrstur fær, fyrstur missir eigi en amlóðinn er engu nær oft er birtir degi. ] [ Yfir valdstjórn ólán tikkar er ei mörgum það um sel. Flý´ af hólmi flónin ykkar farið hefur betra að ég tel. ] [ -Hvað sér sér vesælla- Börnin eru brytjuð bak við tjöldin, borguð býsnin öll í verkagjöldin, ,,Útrásarvíkingar” angraðir lítt, ekki talin henta þar fórnin, en ég vil skera skálka frítt, skýli mér ríkisstjórnin. Himnaríkið held sé grís er hrottar lífi týna. Hópast munu til Helvítis að hitta vini sína. Þó andi kalt um okkar hag og óhróp séu á torgum ég ætla að gera mér glaðan dag og gleyma heimsins sorgun. ] [ Í myrku hjarta vex mosinn á minningunni um þig. ] [ They tell me news i don't want to hear, they tell me the bad things are coming near. I try to run but i can not hide, from the thing on the other side. But i'm not afraid and i'll have to stay strong, because soon on that side i'll belong. And i'm really sorry that i could not stay, I'm going to miss you everyday. ] [ Það birtir af degi við bjóðum geislum sólarinnar velkomna í bæinn. Draumur birtunar barna er kærleikur og ást. Og þegar þú kemur vinur velkomin. Við skulum tala, hlæja og syngja og tréin vagga krónum sínum og dansa. ] [ Þakka þér fyrir að vera til staðar þegar ég þarf þess með. Fyrir hlátur þinn og brosin þín og allt sem þú hefur gefið mér. Vinir eru dýrmætir vegna þess, þeim þykir vænt um þig þeir hlusta þeir hjálpa. Ég vil þakka fyrir vini mína öll þörfnust við ástúðar og hlýju í dag og alla daga. Ég sendi ljúfa kveðju til vina minna hvar sem þeir eru og ég vona að þeir eigi sanna vini alla sína daga. ] [ Ég flaug að fjalla laug og sagna meið um langa leið. Við vanga minn var andi þinn. Ást sá í fjarska frá. Í förum ein og sólin skein um gróin gil gleymdra til. Hún á í sinni höll. Þekka þrá er þekkja má. Er einum tár en öðrum sár. Um nótt er hún sótt. Ljós hennar skín er leitar mín. Í dimmum byl við djúpan hyl. ] [ Alla mína ævi hef ég sofið fast, og látið ganga yfir mig. Þú hendur mínar bast, svo ég gæti ekki komið við þig. Ég þjáðist og grét, og hugðist enda líf mitt. En hugsa ég hvernig ég lét, og vil verða eitthvers mannsvíf. Ég lifi eins og ég vil, og tek ekki mark á neinum. Ég það nú skil, ef ég vil ganga í augun á sveinum. Þú segir ekki hvað ég geri, þú ákveður ekki hvað ég á að gera. Þó ég ábyrgðina veri, þetta er sú sem ég vil vera. ] [ Ég er eins og ég er, því er ekki að neita. Ég vil vera ánægð ber, og kynþokka mínum beita. Enginn er eins í heimi, þökkum Guð fyrir það. Enginn er í betra teymi, sem sýnir hver er hvað. Grannur eða mjór, hvort er meiri sagt. Sá er sljór, sem vill það aðra á lagt. Betri vil ég vera, en það er rangt. Þá byrgði vil ég bera, því lífið er ekki langt. Ég, moi, me, segi ég með tár á brá. Ég segi því, allir eru fallegir innan frá. ] [ Þar sem skuggavefur byrgir sýn þar sem skuggi skyggir á skugga þar finnur þú mig í skugganum þar finnur þú mig í skugganum skuggann af sjálfum mér skugginn af eigin skugga ] [ þau sungu fyrir mig nagladekkin við laugaveginn bráðum koma skýrslu jól þá þingmenn upp hendur bretta horfa út á austurvöll umgirtir vígamönnum blóðguð af blóðguðum leggur dauðafnyk lík verður þjóð þjófkenndir menn standa í stafni í íslands nafni ] [ svartir veggir verða alltaf svartir veggir skiptir engu þótt séu þeir málaðir hvítir ] [ hvurjum er ekki andskotans sama sagði amma ] [ fegurð orðanna flaumur fagurgalans eintal geðsjúklings í sjálfum þér ritast á blað ritvillur hugans augnblik svo kallarðu þetta fokkings ljóð ] [ ég elska að standa á sama enda eru þeir kúgaðir og undirgefnir sem þjóð þeir eru líka smátt og smátt að finna sig þeir mega fyrir mér eiga jólasveininn ] [ sumir kalla sig kennara en eru samt meira í að vega en meta ] [ Eitt er að yrkja ótal kvæði athugasemdunum að ég læði, ekki er sama magn og gæði. ] [ Ég loka dyrum og læðist inn og leggst í fletið mitt. Því enn er úti veturinn með ógnar valdið sitt. Hvað er þetta hafðu ekki hátt ég heyri þruskið lágt. Nú nálgast eitthvað smátt og smátt nú skellur hurð í gátt ! Er mig að dreyma eða hvað er óhreint hér á ferð. Er draugur kannski kominn af stað með kuta, exi og sverð. Mun hann éta okkur í nauð en við sem erum ekki æt. Bæði fávís, fátæk og snauð frekar verður súpan sæt. Hæ hæ hó hó börnin ung og góð hér er jólasveinki sauður. Hrópaði hann þar sem hann stóð og hné svo niður dauður. ] [ Oft ég skunda í Skorrastað og skemmtun á um stundir. Hestamennskan brýtur blað bóndans um þessar mundir. Og þar er mikil gleði gerð, góður reiðkostur talinn. Að halda þar í hesta ferð hugmynd er ei galin. ] [ Við sátum nokkur saman í hring..og Skáluðum heiminum fast á hvert annað augu okkar hringsnérust Og bullið úr okkur rann sitt ginnungargap allir á réttri leið allir með rót vandans krufin samt vissu allir í partý að hér var ekki haldið upp á neitt nema ógöngur og ósigra enda öskraði gamli gráskeggur sá veraldarvani forni fjandi - djöfullinn sefur aldrei við heyrðum það ekki svo upptekinn af stundinni svo hrædd við morgundaginn það flæddi um okkur í okkur Ungur ljósvíkingur heimspekingur og stærðfræðingur Öskraði út úr sér, frussaði á mig - ég ætla verða forseti - fylla lífið af réttlæti og sannleika ég horfði á hann hæverskt og mikilmannlegt glottið óskaði honum góðs gengis allur úr takti sjálfur með sömu háleitu hugmyndirnar í sama ástandi og heimurinn hryggur og sár, allur krepptur - heimurinn er ungur allt sem er ungt kreppist ég var rifin úr hugsunum ljóshærða dívan sem átti heimilið var búin að panta taxa og nú ruku allir frá hring glottandi reyktir, vel smelltir saman - nú skal tæma úr glösum rífa í sig veröldina festa kjaft á feigð. ] [ Allt er svo blátt og titrandi. Allt er svo kyrrt, þögnin svo gefandi andadrátturinn svo fagur, silki saklaus Allt er svo vamt svo vont hjá öllum nema mér hjá mér er allt svo blátt svo saklaust allt svo kyrrt þögnin svo gefandi silki saklaus ] [ við keryrðum eftir ómalbikuðum öskrandi vegi lífið blasti við okkur, ég lá aftúrí þar vorum fjögur og fyrir aftan sátu fjórir við hlógum og ég hélt að allt væri ok mikill andi sveif yfir mér og ég reif kjaft við bílstjórann og færði hendina yfir til hans heimsfrægur freðin söngvarin glápti á mig og fólk hvíslaðist og bendi á mig og vin minn sem sat við hliðina á mér stífur og lyfti ekki brosi allt í einu réðust á mig þessar fallegu konur rétt áður hafði bílstjórinn rifist við mig um stærðfræði og kenningar sem eru ekki til . þær settust í fangið á mér og ég þrútnaði horfðu á mig og kysstu mig, svartklæddar pínulitlar grindhoraðar ég fékk að kíkja upp í kjaftinn á þeim til að vera viss um að þær væru ekki vampírur og þær opnuðu munn og leyfðu mér að sjá tennurnar voru eldri en ungar umbúðir en samt sem áður leyfði ég mér í kossaflens ég týndist allir á það góndu og það var gott þangað til allt í einu allir sem sátu bíl hlógu hærra en djöfull og eins og á gömlum índjanatíma fann ég höfuðleður mitt rifið af mér og tennur sökkva á hræddar æðar það var blóð út um allt! þau stoppuðu og heimsfræði söngvarinn þessi freðni, hennti mér út sagði mér að horfa í sólina bakvið hana væri mitt land núna svo lauk hann verkinu og þau brunuðu burt í leit að nýjum farþega til að nýðast á. ] [ Allir keyra fullir Allir keyra fullir Allir keyra blindfullir og freðnir Bílslys. ] [ Ég fann sannleikann. Hann var ofan í seriospakka. Einn af þessum mörgu kringlóttu kornum. Mikið var – guð sé lof. Nú verður allt miklu betra. ] [ Búmm - eitt fix ein æð. Búmm - annað fix önnur æð búmm - smóka kók meira mók. Búmm – hjartað hrætt úrbrætt ] [ Best að drekka einn lítra af kaffi og hugsa upp einhverja snilldarhugmynd. ] [ Ég fæ enga hugmynd bara spurningu, hver ertu ? ] [ Miðbæjarotta - Ertu brúnrotta eða svartrotta ertu að skilja mig - eins og ég skil þig. Ertu hrokinhærð fyllibitta eða stílhreint latteglæsimenni dáldið stoltari en 105 mikið betri en 705 705 – hvað er nú það ? Miðbæjarotta - á kaffihúsi, drekka kaffi sígarettu´að totta skrifaljóð og glotta. ] [ Þú ert svartar fjaðrir. Svartar flögrandi fjaðrir. Íkarus íkarusana. ] [ Við börðumst samt sá ég ekki andlitið á þér vissum báðir hvað við vildum tókumst á: lausnin var hvergi nærri öll heimspeki skynseminnar í lamasessi allt sem snarað hefur, hangandi í snöru ég hrasaði og datt, fann lykt af glotti lævísu og loðnu, margnotuðu, breysku ég reið í gegnum þvogluna og leitaði lausnar sem var ekki sjáanleg en eins og lokið væri upp aldargömlu leyndarmáli þá hvarf ég sjónar hélt áfram - gekk minn gang leyfði mér að gleyma taka stökk upp á við var það ekki tilgangurinn? nú brosi ég og bíð breyti mér í barsmíðar kurra á kyrðina held fast í smíð-andan ] [ Hvert fórstu litli fugl hvert flaugstu? flaugstu kannski í gegnum rúðuna mína? flúðiru inn í myrkrið til að þefa af birtunni? ] [ með kreddunni klæmistu í gegnum kjölfiskasogið kárast um veröld með kera fegurð andleg fýsn fær ey að þér logið fegurðin kveikir undir eldbálið bjarta berst við ginnungargapið svarta. ] [ Eitt er að hlusta en annað að tala, oft er sá þögli af visku ei rýr. En allflestum líkar albest að mala, eins þó að ræðan sé ekki dýr. ] [ Reiðhryssa var það þig reitt getur á, rokgjörn en þó ekki dettin. Áhugaknapar þar engdust af þrá, etja henni vildu á sprettinn. ] [ ég er hins vegar ekki að fara í blýhvíta esjuna sem ögrar mér hvern dag horfir til mín með sólgleraugum og glottir yfir fávisku minni ég ætla að tuska hana til og athuga með tilfinningaleysið hjá þessu annars fegursta fjalli Reykvíkinga, fjalli sem getur glott og einnig rekið útúr sér tunguna og ullað á faxaflóann svo smáann klædd gráu parruki með gull í línum hún ögrar mér, hún veit að mig langar ekki á hana en dáist að henni fyrir fegurð en mig langar ekki á hana. ] [ Að Inda þá bursti á ei úr að raka eru þeir vinir og láta það kjurrt. En fá í sig aftan í fram og til baka ferlegt er talið ef er ekki smurt. ] [ Í sínum heimi sælir lafa og sýna ei öðru lit. Oft er ekki hægt að hafa heimskum fyrir vit. ] [ Ég styð málstaðinn heilshugar ég á hins vegar eftir að ákveða mig hvort ég gangi í stuðningshóp hans á Facebook. ] [ Þrjóskir duga þrautir buga þeirra logar andans bál. Í frjóum huga fæðist smuga -framkvæmdin er annað mál. ] [ Það tókst ekki að koma Tjokkó í lóg, traust er hans lukka, það er vel. Hann er svo sætur, það hálfa væri nóg þó að í hárið mætti setja meira gel. ] [ Það sem ég forðum færði þér fann ég innst í sjálfum mér. Traustið góða og trúin varð tún án grasa og frosið barð. Og okkar samband eftir það ennþá blæðir í hjartastað. Og hús mitt varð að huldu sál er hylur gömul leyndarmál. Því bara ég og bárujárns rið bárum hússins eldivið. Sem breiddi út sitt birkisag er brann einn góðan veðurdag. ] [ Elsku besta amma mín enn ég man hve höndin þín, undurmjúk og ástrík var. Alltaf mér til huggunar var höndin þín, elsku amma. Tíðum straukstu tár af kinn, tókst í fangið drenginn þinn, klappaðir honum á kollinn rótt kysstir og bauðst svo góða nótt. Góða nótt elsku amma. 29. nóvember 1984 © allur réttur áskilinn höfundi ] [ Lífinu skaparinn gefur gætur og gott að hann var ei sá lati. Hann setti á dömur sæta fætur -svo að þær stæðu ekki á gati. ] [ Fyrir handan fjöllin sjö búa dvergarnir sjö bíða þín Mjallhvít með sjö gráðuga munna sjöfaldar kvartanir ný gólf til að skúra Er ekki betra að láta skera úr sér hjartað en grafa sig lifandi bíðandi eftir einhverjum kóngsyni sem hefur líf þitt í hendi sér uppfrá því lifa hamingjusöm uppfrá því í glerkistu sofandi svefni vanans Reyndu heldur reyndu heldur reyndu heldur við veiðimanninn ] [ Ég yfirgef heimalandið skipti um símkort í gemsanum gjaldmiðil í buddunni stilli úrið mitt á erlendan vetur tala framandi tungu stafa nafnið mitt með öðru stafrófi Það tekur aðeins fárra stunda flug að verða önnur manneskja ] [ Hér á ég heima Þar sem vindhviðurnar grípa mann og fleygja manni eitthvað út í buskann Hér á ég heima Þar sem veðrin fara hamförum Hvar skyldi hún búa þessi komin með hreim stafar nafnið sitt á útlensku Best að blása henni eitthvað út í buskann kannski á hún einmitt heima þar ] [ Ástin er ljúf að elska þig vera hjá þér faðma þig. vera hluti af þér í börnum okkar. Augu þeirra, augun þín. Varir þeirra, varir mínar. Brosið, brosið okkar. Og þegar við kveðjum eru konur og karlar sem elska. Hjá þeim er ávöxtur ástar okkar. ] [ vers eitt: Ég man þegar missir varð mér raunverulegur en hafði haft lítið vit á hvað dauðinn hann getur gert. Ég var á mínum fyrstu árum á skólabekk Saklaus drengur og gleðin inní mér var óskapleg Hafði ekki lesið Laxness og föðurmissir var fjarri mér Sá einn pjakk rífast við stelpu, fóstrurnar sögðu honum haga sér Og ég veit ekki hvort að hjartað hennar sló Þegar hann sagði að það væri gott á hana að pabbi hennar dó Ég man hvernig hún grét Ég stóð skammt undan en ég faldi mig samt vel Ef það hefði verið ég í hennar líkama og sporum Hefði ég tekið lífið mitt á morgun eða reynt að flýja frá þessum orðum Því stingurinn í maganum er ég heyrði þau var á við sjö rýtinga á önglinum á veiðistöng. Og veiðimaðurinn rykkti, mér fannst hún ekki eiga þetta skilið Starði á hana þar til ég var sá seinasti þar inni Stuttu síðar flutti hún burt. Og ég fékk aldrei svör við spurningunum sem ég vildi að ég hefði spurt En ekki leið á löngu þar til ég mætti henni á ný Og heyrði henni lýst sem dræsu eða eitthvað slíkt Ég reiddist, því enginn gat séð hana eins og ég sá hana Þeir sögðu hana ódýra, sífellt slefandi upp í strákana. Og raun bar kannski vitni, því hún lagði fyrir mig gestaþraut, Og sýndi mér brjóstin sín en ég starði bara í gegnum þau Og sá hjartað sem hökti og reyndi að slá þarna um árið ... Hún hafði greinilega sett plástur á sárið korus:: Þú dvelur í minni, mínu alla daga þar munt þú flögra frjáls. Máttinn ég finn í, fingrum hann hefur leitt þig beint að minni sál. vers tvö: Ég man þegar ég lærði hve hverfult lífið er Skelfilegt finnst mér, því ég þekki slíkt svo vel Ég man að tréin réttu úr sér eftir órólega nótt. Og yfir hverri frumeind var svo óþarflega hljótt Ég man eftir fylgisveinum harmsins Þegar ég kvaddi kærleikann sem fylgdi einum manni Hann var ávallt sneisafullur af einlægni Og bar með með sér heimsins bestu heilræði Fylgdist með hverri stund, þrátt fyrir þreytu undir augunum Því við vorum kumpánar og heilsuðumst á göngunum Hann heyrir þetta lag og hann hlær vonandi Því allir sem þekktu hann vita að hann er skælbrosandi ... og jafnvel dansandi af gleði Ég legg hjarta mitt að veði, að þrátt fyrir allt það sem að skeði þá honum líður vel og upplifir sig í miðju hreinnar orku sem snýst um fullkominn frið. Hann var eltur af svarta hundinum, ég heyrði af honum hlaup' af stað En engu að síður kom ég bara engan veginn auga á hann né að gráa skýið legi kringum hausinn hans Það hefur eitthvað lykkjast burt og leitt hann fram til lausnanna. Þó að hver maður eigi rétt á leit sinni að hamingju þá glíma sumir við vegatálma en eiga enga jarðýtu Þegar ég lít á alla þekkingu ára minna Sé ég að ég get ekki dæmt ferðalag sálarinnar. Og ég legg til að við stöndum í þeirri meiningu Að sama hvað, lifir hann í hjörtum okkar að eilífu. ] [ Strætó bíður sko ekki eftir neinum! öskraði vagnstjórinn og slengdi aftur hurðinni á slefandi trýn þeirra hægu. Skömmu síðar varð stórslys við stöðvunarskyldu í næstu götu. ] [ Þetta eru ekki alvöru brjóst sögðu þær við hana sturtunni í leikfimi bara sílíkon barbí bull. En bak við annan púðann sló lítið hjarta. ] [ Stundum loka ég mig einan inni með öllum verðlaunagripunum mínum og hleyp nakinn og miðaldra á milli þeirra. ] [ Hörundið dömurnar hylja lítt hold vekur girndirnar stríðar. Ergju í karlmönnum virkja þær vítt, sem vilja þær fá innan tíðar. ] [ Ljúfsárt er lífið á Óttu lundin fánýt og deig en ást eins og eldur að nóttu, sem upphefur geislandi sveig. ] [ Umskipingi andinn kól undarlegt margt getur skeð. Gelur líkt og hani á hól: ,,Hér er ég og dansið með”! ] [ Smámunir skipta sköpum, skelli fær margur hver. Oft að ýmsu við hröpum, sem illt getur leitt af sér. ] [ Orðinn seinn og ögn stækka skrefið ekki meir um það. Síðustu forvöð að fá sér í nefið fara ég er í bað. ] [ Í vor fer ég vestur frá víl og villu. Senn er hann sestur sjófugl á sillu. Látrabjarg er úfið og för frestast. Skipunum snúið frá víginu vestast. Að Ritnum riðu dagar með dauða. Er sigmenn sigu að Agli Rauða. Í kuldanum kaldir lemstraðir líta. Bjargið er aldir sverfa og slíta. Úr Hornbjargi hrynur úr klakans krumlum. Starandi stynur Kögur hjá kumlum. Nú brakar og brestur tröllskessa tryllist. Ef grimmur gestur af ísnum villist. Við Rekavík vestur er ísinn ofinn. Brakar og brestur ísbjörn er kominn. Við Straumnes er seiður og bergið blikar. Ríkur upp reiður og hafísinn hikar. Við ströndina stendur útlaginn eini. Með höfuð og hendur en sál úr steini. ] [ Kviknar á perunni endrum og eins til átaka þá ég heyji. Annars væri það ekki til neins að eigra í Skálateigi Kvikni á peru lítið ljós ég læt á skifin reyna og ef að fæðist eitthvað hrós þá er það Martaeina. ,,Martaeina”, á meilin notar, mælir alltaf vel til mín. Margar bækur meyjan rotar, meistaranám er ekki grín. ] [ Í ljóðin efni hef víða veitt og vandað eftir mætti. Þarna blasa þúsund og eitt og þá er mál ég hætti. Svo um ljóð ég segi í kvæði: Sama er ekki magn og gæði. ] [ Ég elskaði þig. Þó ég ferðist og læri Þó ég syngi og ég hlæi Þá læri ég aldrei að elska á ný ] [ það er stríð í gangi í hausnum á mér eða nei ætli þetta sé ekki meira svona eins og stríðslok hjá þeim sem þurftu að lúta í lægra haldi uppgjöf og eyðilegging andvörp sorg eitthvað verðum við nú lengi að byggja allt þetta upp aftur og losa beinagrindur úr skúmaskotum megum við ekki bara fá að sofa af okkur næstu árin? ] [ ,,Þetta er gjöf en ekki sala", segi ég gjarna er ég versla í kjörbúðunum stúlkurnar oftast á mig stara og stama einhverju út í bláinn. ] [ Ætlirðu vinur vel að yrkja andann skaltu styrkja. Fáðu þér kikk úr fínni lögg og farðu svo með rögg. ] [ Þú gafst mér allt er áttum við saman. Ástir og sorgir, gleði og gaman. Þú gafst mér allt er aldrei ég fengi. En þráði svo heitt, lengi svo lengi. Þú gafst mér þróttinn, vetur að þreyja. Gafst mér þorið að dreyma og deyja. Þú gafst mér daga og drauma sem rísa. Og vökur með vori er lýsa. Þú komst með eld í augum er kyssti. Þig ég unga átti en missti. ] [ Það er erfitt að hlusta þegar allir tala orðin renna sem saman i eitt. Ætli að Drottinn alheimsinssala eigi ekki í vanda að fá úr því greitt? ] [ Í morgunn ég missti minningar þínar. Og kossinn sem kyssti á kinnarnar mínar. Í gær var ég glaður í gær bar ég trúna. En meyr eins og maður og mæli ekki núna. ] [ Um gæðingana gustar enn geysist á ísum Spaði. og fleiri á eftir fara senn finnast heima í hlaði. ] [ Sagt er að seint á nóttunni renni af og til mannlaus strætisvagn eftir götunni við gröf strætóbílstjórans. ] [ Í fæturna færist dofi frá mér er kraftur sorfinn angrar kláði í klofi og kynfærin nærri horfin. ] [ Ég kann frá mörgu misjöfnu að segja og má því illa við að fara að deyja áður en ég get eitthvað meira skrifað af því sem að ég hef fengið lifað. ] [ Þegar Lilla er út sloppin ætla ég verði frétt að komist fljótt á koppinn kenni ég ættina rétt. ] [ Hún gekk um garðinn og söng með gítar í höndum sér. Seiðandi ljóð síðkveldin löng ég settist og gleymdi mér. Ljóð hennar var bjart og blítt ég beið í skugganum einn. Allt svo undarlega nýtt því ég var hinn ungi sveinn. Hún brosti blíðust til mín bað mig að ganga að sér. Og hvíslaði er dagur dvín mun ég dvelja hjá þér. Því ég er eina ástin þín og aldrei yfirgef þig. Ljóð mitt er lofgjörðin mín til lífsins sem nærir mig. Ég gef þér allt sem ég á því ég er hinn djúpa lind. Uppspretta sem allir þrá ástin er sáir í vind. ] [ Ég strauk þér í morgun í stað þess að segja þér hvað ég var að hugsa við erum með samning sem er betri en ekkert og ég vil halda áfram þar til ég bogna svo mikið að ég brotna frekar en að fá ekki neitt Ég strauk þér í morgun þú hélst um mig í nótt og þrátt fyrir að geta ekki sofnað því ég lá svo óþægilega gat ég ekki skemmt þetta augnablik því ég vil þig að eilífu en þú vilt mig einu sinni í viku ] [ Eftir gereyðinguna komu geislavirku börnin hlaupandi með byssur étandi sjálflýsandi engisprettur Við hjónin keyrðum framhjá og veifuðum í síðasta sinn mikið er sólarlagið undarlegt hér um slóðir ] [ Ríkisstjórnin steytir á straffi stutt lifir oft hinn fegi. Ekki fann ég kosningarkaffi á kosninga Icesavedegi. ] [ Nú þjóð hefur svarað skilaboðum skýrum skellt Icesavelögum og ríkisstjórn ei deyr. Menn drógu í barkann á dauðvona dýrum og deyddu þau alveg svo kveldust ei meir. ] [ Það var áhöfnin sem minnti mig fyrst á viðbrögð mannsins í svörtu fötunum. Hann hafði sagt mér fyrir löngu frá lítilli dúfu sem hann geymdi í jakkavasanum. Þegar ég hleypti henni út án hans vitundar kom hann til mín daginn eftir og spurði hvort ég hefði lokað dyrunum að æsku hans. Það var svo löngu seinna, á ættarmóti eða fermingarveislu, að ég mætti honum og allt virtist sem áður. Samhengislaus áhöfn tók vegabréf mitt til óvissunnar. Ég hafði ráðið af legu fyrirbæranna, að það væri mitt að halda út í hina skírðu nótt. Skírð nöfnum og óvitum og frávita örlögum óvissunar hlédrangi. Árbúinn stefnudrengur og árviss atburður sem afdregur sitt slýjuga skott. Skrifborðið er sokkið. Það heyrist ekki lengur í litlu eindunum sem skoppuðu á yfirborði þess. Það var þá ljósið, sem hvein. Hvein í ljósum. Bakdyramegin stóð hún og horfði á mig, andlit hennar mettað af augnablikinu, ástundun augnanna ólgandi. Sefandi stjarnhörpur höfðu sungið sitt lag af síðum trega. Tilfinningar höfðu vafið sér leið út um vindaugu. Þetta er spilað hægt. Það er svo allir heyri. Rödd mín er orðin rám af söng. Syngdu með mér þangað til raddir okkar verða rámar og renna saman við regnklædd strætin. Þar sem við mættumst. Árekstrar. Það var gott að rekast á þig. Manstu eftir svörtum augum? Og nærbuxurnar voru svartar líka. Lagið sem var spilað eftir veturinn. Þú getur ekki snert þetta. Ég svíf yfir dögum og fljótum. Ég er lukt alltafvindsins. Myrkvaðu mér slóð inn í hjarta þitt, því ljósið ratar ekki. Við sátum í herbergi. Við áttum líf svo fagurt, að næturgalinn tjúllaðist. Tjúllaður tíminn. Tíminn er orðinn tjúllaður. Þegar ég sit hér við opnast mér slóð inn í svo afturbundið stræti að munnarnir hlæja og hrækja á eftir éljunum. Mér var tekið opnum örmum stórsungnum ástarklækjum. Hvað er þetta nema vefur. Hvernig kemst ég inn í vefinn. Í vefinn skal allt vandræðast. Hvert stefnir eiginlega. Hvað geymir hið ókomna í örmum sínum, dulbúið deginum í dag? Hvar munu vitar slokkna, hvar mun dauðinn búa sér skjól? Í straumi andartakanna stóð minn vegur. Mín slóð sökk í drætti drauganna. Í mannshuganum er alheimurinn. Í dauða nætur. Sundlaugarnar iða af hákörlum og háhyrningum. Þetta eru hættulegir staðir, ekki fyrir hvern sem er að stinga stóru tánni ofan í til að gá að hitastigi. Ofurmenn hafa dregið sínu fínu hörpur upp úr sjónum. Diska hlóðu þeir á glerveggi, gleymdir í storknuðum tíðastraumi ilja. Ég átti einu sinni unnustu. Hún varð að engu í iðu dagsborgarinnar. Ekkert er að eilífu. Við stóðum í sporum stjarnanna. Þar flökti tunglið framhjá á fornum himni Við áttum slög í hreyfanlegri drukknun. Í hinu bókmenntalega jafnvægi austanvindsins hefur sjálfið brotist fram. Í ógnartaki dögunarinnar hefur rifið upptrekkst af angist. Veröldin líður ei þér, heldur þú hennar fari, það hefði aldrei verið til ókomins luktar tóms. Það er þegar hugsunin er skýr og ógruggblandin sem sést hið tæra, hið tóma, hið trega. Luktarfórn hafði minn vindur blásið í brjóst þér þinn svip ég hefði ekkert legið af strengjum þínum ölvaðist ég af tónlist hennar hafði mín hegðun vængjast í horn. Segðu mér ekki frá því hvernig ritverkin hafa upplært þig og gert þig að manni, það var ekki mónu ætlun, að stjarnfúsa þig við fjalarstreng. Ég mun eignast stjarnhörpu, slýþakta strengi og stól. Til að sitja á hef ég haldið inn í dýlausan draum. Draumlausir dagar eða luktir af strengjum strjálla stefnumóta. Þið þi ðþð hvernig komust þið til hlöðunnar sem enginn skaut. Enginn átti ykkar teninga, ykkar ógeðslegu teninga. Skrifið, og þið munið sjá hvar ég læsti mínum dreka, mínum reka, mínir flekkir og fljót ljót ljót fljót og fljóð blóð. Blöð skrifa ég á og svíf út í mitt eigið höfuð. Út í mitt eigið höfuð steypi ég mér endilöngum og drukkna þar í hafi hugsana eða á eyðilandi. Mínir þangbornu strengir! hvernig skal ég eyða þér eyða eyða eyða hvernig skal ég búa þinn dag til míns borðs? Hvaða veigar hefurðu í hljóm þínum? Hvaða straum? Andvarp í herbergi. Í herbergjum mínum. ] [ Ríkisstjórn er úti að aka ei er klaufum gefið lag. Réttri hönd í rass að taka reynist fátítt vera í dag. Gerist fátt um góða hluti gleymast loforð allstaðar. Ámátlegur auðvaldsputi er að sliga þjóðarskar. Vinstri stjórnin líknarlétt líkleg til að velta. Fjármagn er í forgng sett fólkið látið svelta. Eflaust brosir íhaldslið og æpir hvað það getur. Hót sé skárra haldið þið? Hugsið málið betur. ] [ Oft til vina er ferðu á fund fagnað er þér á ýmsa lund. Til húsa er gengur í þann mund ei skaltu frá þér berja hund. Hann gæti verið sá vinur einn i vináttu hreinn og beinn. ] [ Fátt er svo í lífi leitt að lyft´ei geði tregu. Ekki gera ekki neitt aulast´ fram á vegu. ] [ Á öldutoppum koma úr kafi kátir menn er sorgin dvín. Það er mörgum gleðigjafi að geta drukkið brennivín. ] [ Í marga vá sér víða brá sem vel við lá í grínið og ei fór sá í dauðadá þótt dreypti tá í vínið. ] [ Í brjósti mér berst bræðin gegn ranglætinu. Í brjósti mér bið ég bæn um frið. Í brjósti mér biður barn um grið ] [ Rassfastur er ég sé ég sestur svo til verka þykir leitt. Oft hefur reynst mér Bjarni bestur bæðist ég hjálpar lítið eitt. ] [ Vængjalaus fugl í garðinum mínum í dag. Fann hann í lófa mínum horfði í augu hans sá þar vonina til lífsins. Í einu andartaki felst eilífðin og ég gaf honum vængi vængina mína. Nú bíð ég þín þín sem ég elska. Ég veit þú kemur með sunnanblænum að vori. ] [ Ljóðin koma til mín óvænt, en ljúft. Á myrkum stundum tregablandin og sár. Á góðum degi með gleði og ást. Tilfinningar flæða ljóð verður til og ég og ljóðið verðum eitt eitt óendanlegt augnablik. ] [ Ég heiti það sem konur vilja ekki vera og viljirðu reyna að geta upp á mér tel ég nafnið algengt til að gera og tilheyra körlum skal ég segja þér. ] [ Oft er það sem eigingjarn ógert margt vill láta. Ekki er hægt að eiga barn eitt og láta það gráta. ] [ -Ef einhver ræðst á þig þá vertu sá sterki og helmingi grimmari en hann-. Árangur fljótlega finnurðu í verki og feginn þann er undan rann. ] [ sítt hár þitt flæðir í vindinum klætt svörtum hjúpi himins norðurljósin ljóma ] [ Eiga drjúga ást til nytja ekki ljúga um von og þrá Þrestir fljúga Þrestir sitja Þrestir smjúga loftin blá. ] [ Prinsessur eiga að giftast prinsum og lifa hamingjusamar til æviloka. Þær eiga alls ekki að hlaupast á brott til að dandalast með froskum! En stundum eru froskar prinsar í álögum... Hvað gerir maður þá? ] [ Þú hjálpar mér upp, er hörðust báran, burtu hrekkur. Þú lyftir mér upp, um bæði hóla og brekkur. Þú ert ástin mín, því máttu ekki gleyma, en mundu samt, ástin hefur margt að geyma. ] [ Ég hata allar lygarnar. Þegar þú lýgur, langar mig að öskra. Ég fyrirlít þig þegar ég veit að þú, ert að ljúga að mér. Þú gerir það klakklaust.. ] [ Ástin er plat siglandi freygáta inn í hjarta þitt vaggandi um einmanna í geðshræringu eltandi moby dick ... þyrst eins og brennivínssjúklingur úrelt eins og túbusjónvarp jafn sorgleg og leiðinleg og kapalstöð búin að sjá þetta allt áður sæt eins og danskur brjóstsykur flókin eins og lækning krabbameina ísköld og frosin eins og venus og mars brennandi heit og hættuleg eins og sólin brjáluð!!!!!! það ert þú... og þú nærð að kitla mig ég losna ekki undan oki þínu. ] [ Jó fokk sjitt könt sjitt jó fokk fokk sjitt jó fokk jó sjitt könt bró jó nó sjó vá almennar! ] [ Tannlæknir = trúður Þjálfari = þjónn Þjófur = yfirmaður ] [ Á athyglinni ýmsir nærast oft er grunnt á frægðarþrá. Aðrir gegnum lífið læðast lítið svo að beri á. ] [ í hápunkti miðjunnar, og í miðjum hápunkti eilífðarinnar stendur sólin og starir á tunglið. og í allri fegurðinni, endurfæðist ég í janúar. ] [ Taktföst seiðandi kallar hún. Svartur marmari: mannmergð Lífið sjálft. Opnast dyr: inn ég geng. Dimman gang - Mig Sjálfan. Horfi í ljóstýru; endalok Sviplaust ævintýri Draumlaust. En bíðum nú við Langt er í enda Margt er að skoða Í draumahöll, draumaheim Hlátrasköll Mér heyrast Taktföst, tælandi Kalla úr næsta herbergi Mín forvitna vitund Opnar – verður Að opna Ég hverf inn í nýjan heim. Dásamlegar myndir Bjóða mig velkominn Rindinndinn Vertu hér um sinn “hér er margt að skoða” Er kallað “Komdu lengra inn” Í hugarheiminn þinn Elsku vinur minn Og hann birtist mér sjónum Sjálfur himnasmiður draumahallarherforingi birtir mér mynd setur af stað minn fyrsta draum; skref fyrir skref horfir inn í mig-innst. Skoðar sig um Hummar og hlær Ákveður allt Svo auðvellt Svo létt Blaðið upp flýgur Inn í mig smýgur Nú allt ákveðið Sprengd er sprengja Hvaða dyr labba ég inn um Næst. Í draumahöll Draumaheim. Og aftur á ný Ganginum stend ég á. Allt er svo hlýtt Allt er svo hljótt Endirinn hvínandi Svo léttúðugur hreinn og fagur. Upp stiga ég geng Á nægu er að taka Margt er að skoða Í draumahöll Draumaheim. Ég læðist inn gang Lykli ég sný Lykli ég sný Öskur og læti Hávaði Reykur, hræðsla, angurværð -þær skellast að baki mér dyrnar “nauðsynlegt” glymur í konung Farðu inn Lengra inn í hugarheiminn þinn Hvað höfum við hér að geyma? Hver býr hér ? Hverjir eru hér? Hvísl í pípum Ónefndar ósýnilegar Raddir. Hér býr Narkósan Sjálf. Hún pantaði þig Vill Þig Á Þig Sér þig núna Alltaf , inn í alla eylífð. En ég sé hana Ekki? Hver ertu Hvar Ertu? Hljóðlátt myrkur Nú opnast mér dyr Á hinum enda Í gegnum myrkrið Ég hleyp Og út ég Skýst, hrasa Og dett. -Hér er allt Svo fallegt Sól, blóm í haga Hlátur og hamingja Kitlandi tilfinning Yndisleg, yndisleg Hér er ég Hvíslar hún Hér er ég. Og ég gleymi Mér í hunangi Hætti að svitna Hlæ og dansa Leik mér og syndi Draumahöllinn stækkar Verður óhugnalegri Skítugri - Labbar til mín Ungur maður -gerðist það sama fyrir þig? Já seigir hann -og marga okkar Hef ég hitt -röltu með mér Vinur minn Elskulegur Þangað Inn engið Upp að rósarunnanum- þarna Sjáðu Þar bíða okkar fleiri Okkar Þar er svo gott að vera: Best. Og auðvitað fer ég með Kitlandi – freistandi. -þar hitti ég þá einu Og margar hana Hún er samt sú eina. Hún spynnur Úr fjólum, feita Fallega, vængi Fljúgum, fljúgum saman Seigir hún Tekur í hönd Mér aðrir brosa Við fljúgum burt Á brott. Hahaha. Sjáðu hvað allt Er lítið ómerkilegt Eitt tré, ein höll Hahaha. En í allri hamingjunni Undarlega séð Losna af henni vængir Hún fellur, hratt Í hendi ég held. Ó veröld, ó veröld. Afhverju?, ekki núna Ég hendinni sleppi Og í reiði Flýg ég hátt: hærra Alltof hátt Hrasa niður Beint ofan á draumahöll Inn um glugga Draumahöll. - Þar situr maður Í horni og vefur Sögur, spynnur myrkur Heilsar, hátt, hæ. Ég þekki þennan mann Man ekki hvaðann Horfðu seigir hann Og bendir á sýningartjald. Við höfum allt Og allt höfum við Sjáðu: - Rýndu í Hvað sérðu ? Ég sé Skynsemi, gott siðferði Trú á eitthvað.. Samt eitthvað annað betra.. Samt gallað.. En of gott.. Sérðu? Nei, svara ég -ÞVAÐUR! Þú sérð ÚT, ÚT NÚNA! Og reiður! Og út ég fer Með brennda vængi Þegar þú kemur aftur Vil ég að þú vitir! Hugsa drengur, maður, sál! Hugsa! Passa sig! Heldur áfram að spynna Lokast dyr að baki. Læstur gangur Aðeins logar Á einu ljósi Allt er svart Ljósið slökkt Skerum af okkur eyrun Um stund: Lokum augunum. Lokum á umhverfið Allvegna þessi ég. En allt í einu Í miðju stríði Ljúkast upp dyr Og ég rifinn inn MAMMA! Þetta er elsku mamma Horfir á mig björtum augum Nýbúin að lesa bókina mína. Þú hefðir átt.. Strýkur mér um kinn Hefðir átt.. Kannski gastu ekki? Vildir ekki? Ég veit ekki Hleyp í burtu. Heyri pabba öskra -það var hann! Stekk út um rúðu Fell marga metra Ofan í vatn. Ég er færður Ræð mér ekki Sjálfur Hafmeyja Tælir mig Traðkar á draumum mínum Inn í mér Innst; kraumur eldur. Vítislogar Urrandi hundar Geltandi úlfar Suðandi geitungar Ég verð að hefna mín Annars.. Annars.. Er ég ekkert Sokkin kafbátur Ófundin tilfinning Þessvegna gerði ég.. það. Rindinndimm Dimmalimm. Nú kem ég alveg Inn. Nú vill enginn mig Sjá lengur, Einn og yfirgefinn Rölti á dauða Engið Upp að draumahöll Bið um frið Sálargrið Gef mér þá þögn Þá rjúkandi kyrrð Hið eylífa, hvínandi Hjarta. Ég vil sjá ljós Ég vil fanga þann frið Sem ljáir mér fegurstu myndir Ljáir mér fögur orð þín. Ég þori ekki inn ganginn smeykur við endann. Rödd: Á nægu er að taka Margt er að skoða Enn er ævi þín ekki á enda Komdu inn í draumahöll Draumaheim. Komdu efst upp, eins langt Upp og þú kemst. ] [ Hef ég að því hugann leitt en hót ei viljað flíka algengt sé að fólkið feitt falli í kynnum líka. ] [ Sturlanir steðja að Steingrímur visku rúinn. Verðum að virða það vettvangur er snúinn. ] [ Beytir tafli Brögðum Breytir orðum sögðum ] [ Reisn mín er á Rökum Reist en Ekki bökum einnar skepnu ] [ Skær von sem Byssu miðar - skyssu skrifar Spilltu í yðar stjórn - ýtt til hliðar Mannfórn af höndum skæruliða - úr mörgum löndum Bönd sem binda lönd frá sjó til strönd - og skóg til eyðimerkur skæruliði stekkur sterkur - inn í skíta-ríki ríkra - sigrar sæta sigra Yrkir ljóð sem styrkir Gildin Góð - og fylginn Bróður Hvort sem skyldur vor í - Móður eða í vanda í Blóði eða anda. ] [ Ég Gleypi þetta ský Gleymi hvert ég sný Hávamál mín auð á Hallamáli sauð ] [ Ekki nema nokkra daga í fullum blóma Lítil en mörg bros í ljósbleikjum í húmi Draumamynd kvöldsins opnast á forlög undir himni ] [ Ég hugsa til þín í myrkrinu þegar tár þín féllu á kreftar hendur í sársauka og kvöl og varir þínar bærðust í bæn fyrir mig. Örlögin grimm skyldu okkur að ég horfi í himininn sé stjörnur skína. Hugsa til þín sé þig hjá mér móðir og barn á engi óendanleikans. ] [ Í sal bóka í sólarsölum í myrkum göngum í tímalausum tárum mínum leitaði ég þín. Í regnboganum fann ég tárin þín, brosið þitt og ást þína til mín. Óskirnar glitra í regnboganum. ] [ Ástfangið hjarta, á köldum, dimmum slóðum. sér bara vonar ljósið bjarta, en ég veit, þú nálgast mig óðum. ] [ Hún stendur og starir út um gluggann, Starir út í kuldann. Hún sér ekkert nema skuggann, Skuggan af þeim sem hún hræðist. Hann nálgast hana hratt, Hún stendur bara stjörf. Hann ræðst gegn henni, en hún stóð bara stjörf. Það var tekið lítið líf í nótt, ljósið hvarf. á meðan allir sváfu rótt, og enginn heirði hátt ópið. ] [ I want to laugh but who will hear me ? I want to scream but no one is there? I want to leave but who will miss me ? I want to die but who will care ? I love your laughter, it makes my day I will care if you scream or cry I always miss you, when you're away If you die, then so will I. ] [ Ég ber stein í brjósti er bærist ei. Geng þögul í þoku hinna þrautpíndu daga Ég hygg á hefndir við hæfi, hefndir við allra hæfi. ] [ I was here, but now I'm gone, I left this post to turn you on. Those who knew me knew me well, and for those who didn't. I went to HELL. ] [ Would it be wrong? Would it be right? If I took my life tonight... Chances are that I might.. Mutilation out of sight, and I'm contemplating suicide.. ] [ Í leik og störfum löngu er sannað að lengi að gerð og uppeldi býr. Þið eruð heppin sem eigið hvert annað ástríki fjölskyldu er göfug og dýr. ] [ Allir kaupa lélegan texta ef hann er sunginn við gott lag. ] [ ég á mér draum sem er framtíðin eins og regnboginn, marglitur og skær. ] [ erla min þú ert kona þú ert fljóð falleg og mikið góð þú ert gáfuð vinkona mín og ég er kjærleiksríkur vinur þinn kv svavar ] [ Brestur margt sem brothætt gler brotin má vart líma saman. Fátt skeður af sjálfu sér syndin leiðir dramann. Sannlega ég segi þér sértu að nota tímann ekkert verr en illa fer oft þó tapist glíman. ] [ Undarleg eru ölög mín ekki ólik eru þín. Einn að standa og bíða meðan ár og aldir líða. ] [ Í dumbrauðum helli slær vera á trumbur. Búmm, búmm. Umkringd holdi, beinum og allskonar túbum. Búmm, búmm. Hún stanslaust á trumburnar ber. Búmm, búmm. Og aldrei úr hellinum fer. Búmm, búmm. Nærist á mannablóði. Búmm, búmm. Espist af ástaróði. Búmm, búmm, búmm. Hún manísk skepna er. ] [ Efnin klíf Ekkert líf Engin árstíð Ekkert stríð vatnið slítur vorið brýtur ekkert flýtur vor ei hlýtur eldinn sundrar sumar undrar ekkert tendrar sólin endar loftið klauf haustið braust lituð lauf eigi hlaust jörðin klofin vetur rís tíðin dofin tíminn frýs ] [ Gamla aflaklóin hafði nú dregið sín síðustu net og það gladdi þann gula auknar líkur á langlífi því synti hann inn á víkina til að horfa sjóblautum augum þegar þeir báru hann eftir þorpsgötunni hinsta spölinn og slökuðu honum niður í djúp jarðar og köstuðu á hann rekunum. ] [ Þó elskirðu friðinn þá kastast í kekki köld gerast ráðin og áráttan hörð. -Erfiðleikar koma þó sóttir séu ekki- sífellt vissara að standa sinn vörð. ] [ Enginn veit sem að er kreppt hver af því hlýtur skaðan. Ekki gera það endasleppt þó erfið gerist staðan. ] [ Landið mitt fagra með fjöllin sín háu það faðmað mig hefur í öll þessi ár, í sparisjóð fólksins spor þeirra lágu og spekingar skilja þar eftir sín sár. Víkingar útrásar vasklega fóru og vildu þá út í hinn stórasta heim, embættisbáknið ei grunaði glóru og greiddi svo götuna þar handa þeim. Þeir gleymdu nú okkar framtíð á Fróni, fegurð þess dásemd og virðingu og ættu því að dúsa eins og hann Skjóni inn í lokaðri girðingu. ] [ Tvö blóm í eggi dafna sem dagur og nótt Er heimur birtist brosa sálir fagrar sem sólin á nóttu sem degi birtu gefa sem aldrei ber skugga á Öðrum sálum gefa sól og yl með hreinleika og ást Tvö blóm af sama stilki en samt svo ólík gefa sömu gjöf gömlum þreyttum sálum sem sjá ekki sólina fyrir þeim. ] [ Lítil blóm er brotna í byljum, hreti og hríð aftur brosa er birtir til og betri kemur tíð. Svo er og um allt þitt líf þó eitthvað bjáti á úr öskustó þú aftur rís og aftur ferð á stjá. ] [ Ég átti mér völu, hún var grá agnarsmá og kastaði á haf þar sem hún sökk í kaf. Með sandinn milli tánna ég hvíldist við ánna og brosti móti sólu - fallegri sólu. Ég átti mér óra heldur stóra bað til guðs á hverju kvöldi Gerðu það, passaðu alla, mömmu og pabba og þennan og hinn og gefðu að þessi verði maðurinn minn. Ég er tré. Ég vex. Ég vex. Mínir stóru órar voru eins og árar sem fleyttu mér igennem barndom. Og svo sleppti ég þeim. Eins og ungi þrastar sem ýtir vængjunum fastar og stígur fram af í fyrsta sinn. Ég svíf. Ég svíf. Ég á mér líf. Líf mitt er vafið litríkum ljóma líkt og ég hafi dansað á regnboganum í sjálfu myrkrinu. Ég á mér draum ég á mér draum sem er framtíðin marglit og skær. Og sólin tekur á móti mér. ] [ Heillavinum hér og þar hefi ég kynnst góðum oft þó leyndust aumingjar inn´á vegaslóðum. ] [ Bebbu virði ég manna mest og manndómsgæsku ríka hennar mynd í huga er fest hún er falleg líka. ] [ Gunnar Páll er fær í flest flækist vítt um landið en ég tel hans allra best ástríkt hjónabandið. ] [ maður og kona og barn og mús og föt og bíll og hús og frumleikinn tómleikinn sviplaus snekkja lystisemda allsráðenda tómar nýlendur sviptar gulli sveipaðar gulli endurteknar minningar af dánum mönnum sífellt klæðskipti blæðingar spilling ekkert nema botnlaus spilling rótlaust þangið tekur mig með sér ég finn samastað þess í birtingu þar birtist mér snillingur hann situr á bekk við borð en ritar ekki orð tómur, fúll, farinn, torskilinn þreyttur, sveittur, eyddur guð rakar sig fyrir framan brotinn spegil skafan er bitlaus heimsmynd hans litlaus hann boðar hamingju færið mér frekar samloku ég þrái þunglyndið ég sný mér að ritstörfum en fæ engin laun ] [ Mustn't trust no one. Care only for me. Win the world is a individual work. People are idiots, they don't care, They'd even kill... So I gotta live up, don't let life pass me by, have no expectations but with succes I will rule the world. -Fly. ] [ Can't never find the one cuz a sweet guy is either gay or ugly, cuz a hot guy is idiot and player, don't gonna spent my life finding the one, he don't exist. You can learn to love I gotta follow my heart my heart, my soul, my dreams... my mind, my eyes, the can tell lies but my heart... stays true. ] [ Doddi kann gleði að gera gerist þá stund ei löng. Hann þyrfti víða að vera að vekja liðið með söng. ] [ Oftlega tek ég ört í nefið óðar það kemur til baka. Fátt mér sýnist sjálfgefið sarparnir gefa og taka. ] [ Ljósmælir slokknar þegar hið tærasta ljós skýn. Silki fyrir augað Ég tek utan um himneska tóna. og ég smakka ilmin af nýfæddu barni. Þegar ég gef sjálfum mér að borða. Heyri ég vængjaþyt þjóta hjá eyrum mér Og gönguhljóð á sama tíma. ] [ Hámarkinu er náð þegar teinréttur maður stendur við hallamál og sýnir beinan mælir skakkan. Þegar engum er sakað fyrir siðlausum verknað. Þegar engum er hlíft fyrir sökudólginum. Hverjum er bjargað ef heimurinn sekkur í sinni eigin drullu, Þegar jörðin er byrjaður að kveikja í sjálfum sér vegna þess að skolun gerir hana drulluga. Er kominn tími til að skipta um búning Vegna þess að mér er ekki sama. ] [ Það var allveg dimmt fyrstu daganna eftir að mér var plantað í moldinni, en það var ólýsanleg tilfinning þegar ég steig fyrsta skrefið í átt til himna og leit fyrst dagsins ljós. Ljósið þurfti að hlúa vel að mér fyrst til að byrja með og vatn var grunnforsenda til þess að ég mundi halda velli og er enn í dag. Vaxtarkippirnir tóku á. Fyrst var allt fyrir mér og ég fékk ey ljós en einn daginn fór ég að vaxa af viti og ég var kominn yfir hindranirnar og fékk það ljós sem ég þurfti. Minn helsti sársauki er þegar ég horfði í kringum mig og sá hvað ég var lítill það er vont og það fór ekkert vegna þess að eftir því sem ég stækkaði þá var alltaf eitthvað annað sem var stærra en ég. Mér fannst það vont og fann fyrir minnimáttarkennd. En þá fattaði ég löngu,löngu,löngu seinna þegar ég var orðinn rosalega stór að ég horfði bara alltaf á eitthvað sem var fyrir ofan mig, sama hversu stór ég mundi verða mundi það alltaf verða eitthvað sem yrði stærra en þá fattaði ég að ég var ekki þetta eitt sem var aðgreint frá hinu minna eða stærra alldrei yrði ég stærri en jörðin sem ég átti djúpar rætur til. Ég var tré sem var hluti af jörðinni sem var hluti af öllu sem var ég varð eitt með öllu hinu og hætti að sjá mig sem eitt og annað sem hitt. Ég var orðinn hluti af öllu hinu og var orðið eitt með öllu.Sælan hefur verið eilíf síðan og ást á öllu Þá sá ég mitt hlutverk. það var að anda frá mér svo að aðrir megi anda að sér, ég fékk næringu frá sólinni, vatninu og jörðinni og hinir fengu súrefnið sem ég andaði frá mér. Elífa hringrás á sér engar stoðir nema allt styðji hvort annað vegna svo að aðrir megi styðja mig því það ég er hluti af. Blekkinginn er að við séum aðgreint frá þér , ég og þú þetta og hitt , það er bara eitt. Nafn mitt er. Ég er tré. ] [ Kátína, hlátur og endalaust stuð brosmildi, góðmennska og hlýja. Ávallt reiðubúinn skemmtanaguð svona í hnotskurn er Emelía. ] [ Brúna búrið heldur fuglinum föstum Hann kemst ekki út sama hvað hann reynir Hvort sem hann goggar,gargar eða sparkar Að lokum gefst hann upp og sofnar. Unga konan horfir á fuglinn berjast í búrinu Hún velti fyrir sér hvernig fuglinum líður Hún veit það mæta vel – eins og henni Ráðviltur, lítill ráðalaus- með bælda innri reiður. Hún var bara lítil stúlka þegar búrið læstis utan um hana Þegar hún átti að vera áhyggjulaus saklaust barn Var hún beytt misnotkun,kúgun og ofbeldi Sársaukabúrið læsti klónum sínum utan um hana. Hún gekk út í lífið hrædd, reið og varnarlaus Eins og fugl í búri, reyndi að gera eins og hinir En vissi ekki hvers var ætlast til af henni Hvernig normal líf ætti að vera, en reyndi þó Á göngunni kynntist hún Guði sínum Sem gaf henni lykil til að opna búrið Og ganga út, læra nýja hluti, breytast Hún fékk að kynnast sannri gleði og frelsi Í gær gekk hún aftur inn í gamla góða búrið Hún veit þar er vörn fyrir umheiminum Í því getur fólk ekki séð líðan hennar En hún getur það og það er svo vont Þar sem hún situr í sársauka búrinu sínu Sér hún að þótt hún flýgi annað folk Flýr hún ekki sjálfa sig eða Guð Skömmin og sárin eru líka þarna í búrinu Grátandi fer hún að biðja til Drottins Biður hann að hjálpa sér, taka skömmina Lækna sárin, breyta erfiðleikunum í sigur Sýna henni hvernig hún á að forðast búrið sitt Þá sér hún að búrið hefur opnast á ný Hún hefur val í dag, hvort hún er í búrinu Eða leyfir Guði að halda á sér og búrinu sínu Hún velur að láta Guð sjá um þetta allt Hann getur þetta, ekki hún, það er alveg á hreinu. EMG 09 ] [ Ég sit í makindum í stofunni minni Þegar konan gengur inn til mín Órólega konan, vansæla konan Sú sem lífið hefur leikið grátt Í dag er stormur í huga hennar Ég skynja það vel Áður en hún byrjar að tala Áður en hún segir mér neitt Augun hennar tala svo skýrt Togstreitu og sorgar Augu Horfa yfir borðið til mín Líka beiðni um hjálp…….. Hjálpaðu mér , gefðu mér von Mér finnst ég vera að drukkna Segir hún með örvæntinar röddu Mínar leiðir virka ekki stynur hún lágt Mig langar svo að taka hana í fang mér Eins og lítið barn, umvefja hana Gefa henni ró, hlýju og von En ég get það ekki ….. Þegar ég horfi á hana fillist ég sorg Ég vildi að það væri takki á huga hennar Þar sem ég gæti ýtt á pásu Slökkt á hringiðu huga hennar Ég get ekki lagað hana Get ekki fixað ástand hennar EN, ég get gefið henni mína von Vonina sem Guð gaf mér Ég opna munninn og segi henni frá mér Hvernig ég fékk von, lausn og líf Hvernig ég tók til í sálartetrinu Hvernig ég fann Guð og hugarró Smá saman lifnar yfir henni Vonin kviknar í augum hennar Hún vill það sem ég á, von og líf Hvað þarf ég að gera spyr hún ? Framkvæma og trúa segi ég Svo biðjum við saman Til Hans Ljósið og lausnin hefur tekið við henni hún gengur út breytt kona, kona með von Guð ég fel þér þessa yndislegu konu Gerðu við hana það sem þú villt Takk að þú gafst henni von og líf Það eru forréttindi að lifa og gefa í þér. E.M.G-maí 2009 ] [ Ég einn er og áttavilltur auma fortíð flý af áfengi og dópi er spilltur í fjórðu víddinni bý Stoltur fór ég að stela stundum ég einnig laug faglega reyndi að fela fortíðar skítahaug Ég eitraði líka aðra sem áttu þó engan þátt nagaði þá eins og naðra og niðurlægði grátt ! Ég heiðarleikanum hennti í haug þann sem áður gat værukær varla ég nennti í vinnu og við það sat ég hugleiddi himna flótta en hætti svo við það hef líklega lamast af ótta við að lenda á öðrum stað Afskræmdar hugsanir höfðu heltekið hugafar mitt kvaldar frumur mig kvöldu um kanabis,kúlur og spritt Þá var ég kominn að þrotum þol mitt búið var nú að niðurlotum og nálykt allstaðar Hátt ofan af hörmungar fjalli heyrðu GUÐ í mér því nálega neyðarkalli sem nú er beint að þér GUÐ ég get ekki meira glötun bíður mín lát mig orð þitt heyra leiddu mig til ÞÍN Bara að ég bregðist ekki blessuðu fólkinu nú sem losaði um lífs míns hlekki og leiddi mig í Trú. Höf: ónefndur alkahólisti. ] [ Frá hjarta mínu berst lítil rós því þig ég þarf að kveðja í sorg og gleði viltu senda mér ljós sem mig mun vernd,hjálpa og gleðja. ] [ Þú stendur styrkur við hlið mannsins Sem er útvalin þjónn og hermaður þinn Stendur með stórt blað í hendinni Á því stendur áætlun þín fyrir hann Hún er stórkossleg og mjög spennandi En hann óttast að hleypa þér nær sér Óttast að þú svíkir hans eins og allir aðrir Þorir ekki að gefa þér sársaukan sinn En þú ert þolimóður Guð og bíður rólegur Þú sendir fólk með skilaboð frá þér til hans En hann tekur ekki á móti þeim, lokar hurðinni Þú reynir að brjótast í gegn en óttinn ýtir þér út Þú sendir mig í veg fyrir þennan mann Til að sína honum og segja hve dýrmætur hann er En hann hörfar undan kærleika þínum,hrokast upp Mannlega séð er þetta svo volaust, árangurslaust En það er það ekki í þínum augum, Drottinn Því þú sérð meira en við hin sjáum, hefur áætlun Í hvert skipti sem þú sendir fólk til hans Er eins og það sé með kúbein í hendi sér Það gerir gat á múra mannsins og gengur í burtu. Hann er að berjast við almáttugan Guð þú ert sterkari og munt hafa betur í baráttunni Á endanum munu þessir múrar hrynja til grunna Þú munt komast inn í innstu fylgsni mannsins Hann mun fá að finna fyrir elsku þinni og friði Og þú munt byggja hann upp sem þjón þinn Leið hann að uppsprettulindum þínum Gera hann að stórkosslegum þjóni þínum. Þér er engin hlutur um megn himneski Faðir. EMG - 2007 ] [ Feikirófan flækta er mætt á svæðin Stelpan sem hræðist að treysta fólki Hana langar svo að gráta en þorir ekki Reynir að hugsa hratt og blekkja alla Hún hefur verið svo oft meidd og særð Hafnað af fólki sem ætti að vernda hana En gerir það ekki, ert svo vont við hana Hún kann bara eitt til að vernda sig Sína klærna og meiða folk Hún vill það ekki en kann ekki ….. Að treysta fólki- langar svo en kann ekki… Þegar hún tekur við stjórninni fer ég á hliðina Hún vill meiða sig og mig ekki ég….. Hún vill ekki treysta fólki en ég vil það Við verðum lítið barn í stórum líkama Hún vill láta menn meiða sig …ekki ég Kann ekkert annað, var svo oft meidd Hún óttast lausina þorir ekki… en ég vil Hún ber sorgina, skömmina, sárin mín Ég vil ekki leifa henni að stjórna mér Ég vil stjórna henni, leiða hana Hugga, vernda og passa litlu rófuna mina Með Guðs hjálp hef ég styrkin til þess… Guð ég bið þig passa rófuna mina Halda á henni, hugga hana og vernda Viltu hjálpa mér að láta hana ekki stjórna… Það er ekki gott fyrir hana né mig …. Við leggjumst saman í hans faðm Ég og feikrófan mín – við erum öruggar Engin getur meitt okkur hjá þér Við getum grátið án þess að stoppa tárin Tárin og þú eruð það sem læknar sárin okkar Þau eru eins og skúringarvatn á skítugu sálina Smá saman verðum við hreina og tærar Getum gengið uppréttar áfram veginn Fyrst Guð, svo ég svo Rófan mín Þannig gengur það upp … með Guðs hjálp. ] [ Hvar varstu móðir ?? Hvar varstu móðir ? Er þarfnaðist ég þín Í vinnu eða upptekin Ég sat eftir ein - án ástar Hvar varstu móðir? Þegar frændi meiddi mig Blind og dofin Ég sat eftir ein - fann svo til Hvað gerðirðu móðir ?? Er ég sagði þér frá Ofbeldinu sem frændi beitti mig Ekkert, sagðir þetta misskilning Ég sat eftir ein - ásakaði mig Hvar varstu móðir ?? Er maðurinn þinn nauðgaði mér Niðri í þvottahúsi eða á fundi Ég sat eftir ein - með eitraða skömm Hvað gerðirðu móðir ?? Er sagði ég þér frá Því sem maðurinn þinn gerði mér Í mörg ár, káfinu og ógninni Þú fyrirgafst honum og hafnaðir mér Ég sat eftir ein - hafnaði mér líka Hvar varstu móðir ?? Er þarfnaðist ég ráðlegginga Um uppeldi, hjónaband, lífið Upptekin við að sinna þínum þörfum Ég sat eftir ein - reyndi að standa mig vel Hvað gerðirðu móðir ?? Er bað ég þig að velja Milli mín og mannsins þíns Einn dag - brúðkaupsdaginn minn Þú valdir hann og hafnaðir mér Ég sat eftir ein - ásakaði mig Hvar ertu móðir ?? Er þarfnast ég þín í dag Upp í mósó hjá manninum þínum Ég sit eftir ein – með Guð mér við hlið Hvað gerirðu móðir ?? Er geri ég mistök í dag Þú lætur rigna á mig ásakanir Svo reynir þú að breyta mér Ég sit eftir ein – þrái losna við þig Ég get ekki móðir umgengist þig Það eru takmörk hve mikið þú færð að meiða mig Ég bið til Drottins að hann passi þig Og eftir sit ég ein – þakklát að losna við þig. Elfa – 14.3 2005 ] [ Það er annað að sýna lífi lit en leika af kostum slyngum. Ég tel sem list en lítið vit að leika að tilfinningum. ] [ Það er eitthvað bak við allt óráðin mörg er gáta. Ýmislegt er ígulsnjallt annað slæmt úr máta. ] [ Ég tel það vera til auglitis skýrt eitthvað mér kyrrsetan sparar. Best geymdur heima, bensínið dýrt bý mig því hvergi til farar. ] [ Þessa ég séð hefi víða vott og vinur þú skalt mark á taka: Hvort sem læturðu frá þér illt eða gott allt kemur það í sömu mynt til baka. ] [ Lífið er leiksýning. Finndu þér búning og lærðu línurnar þínar annars kemstu aldrei áfram, heldur situr fastur í sama hlutverkinu og sýnir það sama aftur og aftur. Skrifaður nýtt handrit og spinntu út frá því. Finndu meðleikara og búðu til leikmynd. Ekki gleyma að þurrka perlandi svitann af enninu og væta hverkarnar. Svo þú standir ekki bara og stamir. ] [ Ó þá ljúfu, sumardaga, þá ég áður, átti með þér. Þessa daga, ég vildi aftur, og þér halda, í faðmi mér. Æ þegar rökkvar og húm fellur á þá leitar hugur til þín. Mér finnst ég megi þig allstaðar sjá þú varst alltaf, þú varst alltaf, stúlkan mín. Þetta sumar, og sólardaga, alltaf geymi, í sálu mér. Sífelld gleði, bros þitt bjarta, sérhver minning, er helguð þér. Hvílík rómantík, ljúfar stundir, ást í leyni. Nutum lífsins, skýjum bleikum á, langar nætur, þær liðu hjá. Svo kom haustið, sál mín brennur, síðla sumars, þú hvarfst frá mér. Mér í huga, ertu ætíð, og ég aldrei, mun gleyma þér. Æ þegar rökkvar og húm fellur á þá leitar hugur til þín. Mér finnst ég verði þig aftur að fá þú varst alltaf, þú varst alltaf, stúlkan mín. ] [ Finndu þér blað og skriffæri. Ritaðu allt sem þér dettur í hug og settu það svo saman í einn heilsteyptan texta. Hentu svo blaðinu. Það eru engar leiðbeiningar að lífinu. ] [ Í óðarmálum ekki tregur æskir mörgum að koma í lóg. Svarri er svo svakalegur að svo til hálfa væri nóg. ] [ það var dimmt kvöld í desember, úti blésu vindar, Kári meig köldum snjó - í yfirfullu knæpukoti ég krappan dansinn steig meiri bjór. smá, bara pínu; og allt í einu kveikti eldrautt bál neista í hjarta mínu. ] [ Um lífið hjalar karlinn fótafúni: ,,Föngulegan tamdi margan klár. Ég er Svarri sæti, mjói og brúni setið hef ég bú um flest mín ár”. ] [ Þegar æsir sig upp hver sála og upp menn draga kuta er betra að fara ekki milli mála og liggja á milli hluta. ] [ Hann er ljósið sem lýsir upp heiminn litla barnið sem fæddist um nótt. Hann var píndur á krossi og kvalinn,svo hann kallað oss gæti Guðs drótt. ] [ Ekki kveikja eld er öldur æða. Ekki kveikja eld ef augun blæða. Ekki bera eld að ökrum þínum. Ástin kveikir eld með orðum sínum. Ekki þiggja eld er álfar geyma. Ef komið er kveld og kóngur heima. Ekki stökkva eld á hörpustrengi. Sökum verður seld sál þín lengi. Ekki tendra eld í eldum elda. Ekki svíkja eld á krossi hins fellda. ] [ Hungur verkamannsins Frostið bítur bitran mann bláfátækan verkamann sem ekkert kann Skóla hann aldrei sótti sú sæla hann aldrei fékk því í sveitina hann gekk Hungrið hann þar fann því hann illa kunni Því flúði hann þangað sem hann unni Í borg óttans, borgina sína Þangað sem hún Bína Stúlkan hans fína fór En borgin bar nafn að réttu blokkirnar átu hans hjarta að heilu eins og hún Marta Einn hann sat stofunni í vina laus og sár um ókomin ár Svo kom sá tími er enga vinnu hann fékk hungrið sára hann sótti. því laugarveigin hann gekk Leitandi eftir sálar sátt smugu í stefnulausri leit leitandi af nýrri átt ] [ Skipin sigla skipin mætast skipin hreppa úfinn sjá. Andinn svífur óskir rætast ástin tendrar von og þrá. ] [ Geislum baðar gjöful lund glettnin hraðar kæti. Andann laðar ljúfust stund sem líf ei skaðar hæti. ] [ Ljúfir lokkar á kolli þínum þar lausum hala leika þó að ég sjái með augum mínum glitta í teygju eina bleika. ] [ Brjóstið mitt er broddum hært ber í sér farna slóð. Þegar það er sárum sært seytlar úr því blóð. Brjóstið mitt á beittar klær ber í sér dauðans mátt. Ef þú kemur að því nær má aldrei hafa hátt. Brjóstið mitt af höggum hert og hýsir gömul tár. Eitthvað hefur innst það snert og eftir skilið sár. ] [ Þú vilt að ég segi hehe á kommentið þitt og hrósi þér en ekki gjörsamlega jarði lélega brandarann þinn með öðrum þúsundfalt betri. ] [ Ég hef víst aðgang að þessu! ] [ Hef í tvísýnu tekið á móti tárum og gleði og lífi nýju. Og lotið niður að gömlu grjóti grátið yfir sorgum og hlýju. Heyrt klukkurnar kalla til farar kalinn í hjarta og tapað með tárum. Ég er sá er vakir og varar vafinn sögnum þeirra og sárum. Ég hef gengið í myrkri móður séð mæður gráta síðustu sporin. Og ganga í gamalt rjóður sem grænkar aldrei aftur á vorin. ] [ Berir þú þyngstu byrðar í heimi brosið er dýrast og kostar ei neitt. Unað má vekja í allskonar geimi ástin er máttur sem fær þessu breytt. ] [ Vil ekki vakna Gamall maður með ryðgaðan hníf standandi úr bakinu. Horfa gegnum gleraugu á kyrrðina í vatninu með ólguna í hjartanu. Sofna útfrá draumum sem aldrei urðu og vakna ekki meir. ] [ I wish I was a cow on an Amish-farm oh, I'd feel like a pond in rain, it would be so sweet and full of charm, why? Well let me explain: Every time I'd get brand new grass shipped all the way from Beijing. It would smell so nice and taste so fresh, oh, how my digestion would sing! And the water I'd drink costs 100$ per pound dragged out of old-fashioned well and only that one place where it can be found, my god! That would be swell. But the best of all those wonderful things, I think I have to say is that there would be no machines, no robots or strings but only a good, old hand-job every day. ] [ Lífið byrjar mánuðum áður en augað lítur niður, upp, til hliðar Forsíðan aðeins kominn og uppkastið niður skrifað Fyrst er fundið hvernig lífið gengur sínum tilgangi, Fyrsta verkefnið að fræðast, vinna í sínum inngangi, Síðan hefst loksins það sem lífið snýst mest um, Gerir það sem gera skal, og lifa fyrir Guð, En aðeins eitt tækifæri, ekki til neitt strokleður Ekki hægt að flýja það sem gerist eða skeður Lest svo yfir allt, því brátt fer öllu að ljúka Finnur það sem var gert lætur allt annað fjúka Safnast helstu upplýsingum í eitt hugsunarskjal Því lífið á sitt upphaf, meginmál og niðurhal ] [ Allur mannskapur lifir við leit Finna tál og sverja sín heit Blekkir sjón, auðvelt tekið aðra beit Alltof oft er krossað við rangan reit Hinn gilti Hringur er valdamikill, hafður til að geyma traust á baug. Velja rétt úr hver verður þinn hýsill Hægt er að plata hverja einustu taug Myrkrið gerir blint ykkar tal Skiptir útlit ei máli Rétta, sú ranga er þitt val Helduru á rétta táli ] [ Byggja traust tekur mörg ár, traust annarra manna hljóta. Aðeins sekúndur grafa upp sár, slá á traust og brjóta ] [ Heimilisþjónustan má helst ei gera neitt hún skal því mest til að sýnast. Það er til að aumingjum ekki verði leitt og allir geti haft það sem fínast. ] [ Sinna skóla og læra mest stunda alltaf tímann, vinna, græða gera flest tengið ekki símann ] [ Það er hið innra sem skiptir mestu - en að kyssa módel væri sko ekki verra Mér finnst kvenlegar línur fallegar - en ég er samt meira fyrir tannstöngla Ég fíla stelpur með eitthvað á milli eyrnana - svo lengi sem ég veit betur Ég vil lífsfélaga með metnað - sem þrífur, eldar og sér um börnin Ég fíla þig ákveðna - en er meira fyrir þig undirgefna ] [ ÖÖÖÖ!!! Svo kom einhver fílígvendur með mannhörpu í fjóludrengur purpurahálfviti með höku. Skuggaspegill hálviti til hliðar við mig núna. ÉG læsti en fögur kom og fór. ÖÖÖÖ níííúúú TATATATA sprakk í loft upp ] [ Þú sýndir mér tilhugalíf mannsins í hvítu peysunni en ég leit undan eins og ég væri hálfur í vatni en hálfur nííúúú!! FUGLAHAUS AÐ SPRINGA. ] [ Um hugarfylgsnin hægt ég reika horfa tek ég út í blá. Sé þar krakka sér að leika Sumardaginn fyrsta á. Þetta er sem gerst hefði í gær og glaður þokast ég nær. ] [ Ég árla morgunns vakinn var, við símhringingu, hver var þar. Sölumaður, traustsins verður Hjálpsamur af guði gerður lausn hann sagði ef fé mig skorti í svo kölluðu kredit korti Er kortið lausn á hvaða vanda kemur fé á milli handa. Kortið fer í fararteskið fellur vel í lófa og veskið. Í öllum litum, stærðum sést, og platínum það þykir best En korti þessu fylgja kvaðir. Smáa letrið langar raðir. Fljótlega hún fellur flöt, framtíð fyrir falleg föt Að lokum þína undirgefni, eignast kort úr gerviefni Slíkt ótilneyddur seint ég vel, slæman ráðahag ég tel. Þið hafið stolið nægu af mér þú og þeir sem líkjast þér. Ég frábið þér að hringja í aðra, vekja fólk og vera naðra. ] [ Húsið mitt hrúgaldið, hrákasmíð, hallandi Fíflaleg fjárfesting, frjálst fer hún fallandi. Stoðirnar morknandi, rammskakkar, rekandi. Þakið er sígandi, mígandi, lekandi. Konan mín bitur er kynköld og klagandi. Hvað sem hún segir er nístandi nagandi. Ástin er ofmetin, dásemdin deyjandi. Daunill hún þráir mér þörfina þegjandi. Vinnan mín þreytandi, þrúgandi, þjakandi. Stemmningin leiðinleg, lýjandi, lamandi. Um næturnar versnandi verð ég því vakandi. Í álveri svitnandi, misrétti takandi. Skuldirnar þungar, þær krónískar þyngjandi. Ótækt er ástandið, alls ekki yngjandi. Líf mitt er kómískur harmleikur helvískur. Alheimur gegn mér í samsæri bannsettur. Ég er óskabarn Íslands, vanmetinn, miskilinn. Hvar er mitt góðæri, minn tími ókominn. Ég kom inn í heim þennan, ódýr og einnota. Fullur ég fer héðan, gleymdur og gjaldþrota. ] [ Stundum sting ég einakrónum upp í rassinn á mér og dreifi úr þeim á bílastæðum verslunarmiðstöðva eins og sáningarmaður yfir fordæmdum ökrum græðginnar. ] [ Myrkrið öflugur ann skoti er En sólin nær að breiða úr sér og stekkur í þinn faðm og segir sjáðu hvað ég fann heilbrigða en brotna sál sem er svo klár. Viltu gægjast út um gluggann þinn Því þar bíður allur heimurinn Og þú getur valið þér hvað sem er, Sem fyrir augum þér ber. Þó verði oft vinda samt og kalt þá getur þetta allt og þú skalt þér sýna að klára þú ætlar við þetta að glíma. ] [ Leik þér dátt meðan dauðinn sefur dýrð má lokið vakn´ann skjótt. Enginn veit hver annan grefur ei spyr feigð um dag og nótt. ] [ Íslenskt dreifbýli með girðingum hér og þar klambrað saman. Grýtt jörðin. Stórskorið andlit sjómannsins Í þorpinu með sigg í lúkum, hlær tröllshlátri. Maðurinn hreinlega stokkinn út úr landslaginu. ] [ Í húsi móður minnar var meira en orðin tóm. Úr garði æsku sinnar bar enginn fegri blóm. Hún byggði sínar borgir og bauð mér stundum inn. En átti sínar sorgir við salargluggann sinn. Og þegar leiftrið líður og ligg við gamlan stein. Þá sé ég hvar hún bíður við hallardyrnar ein. ] [ Drottinn skóp og Drottinn drap. Djáknana og stjörnuhrap. Adam, Evu og eplakrap. Á sjötta degi gengistap Drottinn gaf og Drottinn tók. Drepsóttirnar sjö og bók. Son sinn, Nestlé, Snickers, kók. en Sancti Maríu gaf hann lók. Drottins líf og Drottins lind. Líkneskjur í Jésús mynd. Skapaði svo erfðasynd svo sæi mun á lamb og kind Drottinn blessar, Drottsins böl. Breytir bara sandi í möl. Í fyrra bindi boðar kvöl, nú býður drottinn mönnum völ Drottins undur, Drottins nauð. Dauðavélar. sólin rauð. Restinn ráfar, sem hann bauð. Rachel Ray er daglegt brauð. Drottins þrælar, drottsins þegn. Þýlundaður ertu í gegn. Vopn almættis eru megn. Ophra, brennisteinn og regn. ] [ Inda er indælust kvenna er hún í stuði hvern dag ólötust er hún að kenna um ástir og bræðralag. ] [ Til afmælisheilla Halldóru mín ég helga þér stökuna mína. Helst megi hamingjan gæta þín og halda við lukkuna þína. ] [ Hvað skyldi bæjarstjórn bera mér nú? Beið ég við gluggann án orða. En oft er ekki nóg að eiga bara trú því ekkert fékk ég að borða. ] [ Bjargið bláa, bjarta, háa, blítt þú tekur móti mér, lyngið lága, lambið smáa. Ljúfar myndir sveitin sér. Í bjartan grænan dal, undir háum hamrasal hlýir geislar skína; um Vestfirðina mína. ] [ Þú vissir það frá upphafi, enginn sleppur. Lést samt af þessu verða og nú þú hefur verið merktur. Brennimerktur um aldur og ævi, jafnvel eftir þetta líf Aðallinn gefur og tekur jafn auðveldlega, þetta líf. Því ótti til Aðals, þú kemur til baka. Eins og nótt fellur yfir, dregur þig til saka. Reynir samt að felast bakvið sakleysi þitt. Sem er einskins virði, fæst fyrir slykk. Dragðu djúpt inn andann, kæri vinur minn. Nú er tími til að fara, kveðja um sinn. Mér leiðist að þurfa draga þig burt. Veit þú vilt vera hér, vilt ekki fara burt. En þinn tími er liðinn, minn kæri vin. Kominn tími til að gjalda fyrir þína síðustu synd. ] [ Nú er kominn tími að, þú sjáir hvað gerast skal. Burt með allt fjandans bras, kellingar tal. Þegar sá tími kemur, er þú skalt bara sjá. Frekar en einhver annar nei, þú bregður þér frá. Skal ekki segja hvað, en ekki vitað mál. Þú lokar alla frá þér, ekkert lífsmark um sál. Ei þú kemur, sá þig fara, skilur mig eftir, af því bara. Sársauki kemur, tekur yfir, Hatur, eina sem er fyrir. Í stað þess að berjast, vel þess að kveljast. Kýs að vera svona, mitt val, kann að vera, mitt lokasvar. Mín hugsun, mitt að eiga, Mitt að vita, mitt að segja. Svört nóttin kemur, dregur þig til sín. Sviptir þig öllu, hefur enga sýn. Brýtur niður viljann, þig uppgjöf vill eiga Sættir þig við ósigur, býrð þig undir þar að dvelja. En eitt skaltu vita þó, minn kæri. Þín vandamál leysast ei, aðeins frestast um sinn Stend þér ennþá við hlið, veit þú ert ennþá til. En segðu mér þá, ef þú getur, það sem þú leggur fyrir mig og setur. Því ekki sé ég þig, mér við hlið. Burt frá öllu þessu, bið bara um grið. Vilt kannski vel, má vel vera. Án þess að vita hvað skal gera. Sé þig í anda, standa í mínum sporum. Berjast við að verða fyrir engum tjónum. Þá kannski, bara kannski munt þú skilja Afhverju ég er svona, afhverju ég vill flýja. ] [ Taktu eitt skref aftur því hann er helvíti mikill þinn kjaftur. Spáðu aðeins hvað þú segir, hvað helduru virkilega að þú megir? Lítur helvíti stórt á þig, lítur nánast út fyrir að vera sáttur. Ótrúlegt hvað allir þínum heimi nema þú eru seinir og treigir. Bíddu, á núna að leika fórnarlamb....haha, djöfull ertu brattur. Heldur að þú komist upp með allt en gleymir einu samt. Að öll þín þvæla hellist niður og hana enginn skilur. En eitt máttu vita því eitt get ég sagt. Þín hegðun þykir mér helvíti miður. Tökum nú aðeins eftir einu, þú heldur áfram og býður eftir meiru. glott þitt segir meira en orð geta lýst, heimurinn um þig hann snýst. þinn hugur enga samhúð lengur hefur, skil engan vegin hvernig þú sefur. ] [ Loksins er ég tilbúinn, þó svo mín sál ber ennþá þennan skurð. Loksins eftir rúm fjögur ár þykist ég getað ritað niður þennan atburð. Því ég í blóma lífsins var kippt niður á jörðina með hvelli, sakleysis hugsun mín var tekin í burtu með fingra smelli. Vil helst ekki þurfa endurtaka þetta aftur með orðum, veit að líf mitt er og mun aldrei verða eins og það var að forðum. Skólinn lokisins kominn á enda og lífið rétt að byrja. ég fann fyrir frelsi, heimurinn var minn og engan þurfti að spyrja. Á rúntinum með vinum mínum að fagna þessu nýfundna lífi, mín hugsun var tær og sálin í góðum friði. En þá fæ ég símtal frá móður minni, vissi strax að eitthvað var að. Dreif mig heim eins fljót og ég gat, fannst eins og tíminn stæði í stað. Kem inn um dyrnar og heyri grátur, finn að hjartað finn byrjar að missa úr takt. Sé systur mína vera reyna hugga móður okkar, trúi ekki ennþá það næsta sem var sagt. Þá prestur kemur til mín og segir að faðir minn sé dáinn..... Pabbi minn er dáinn... Finn hvað líkami minn dofnar upp, finn hvað sorgarskugginn fellur yfir minn huga. Ég fell í gólfið, næ ekki andanum...finn að minn lífsvilji hefur bugast. Þrátt fyrir alla þá sorg sem á minn huga hafði verið lagt. Feginn að hafa hunsað mótlæti og allt það sem mér var ráðlagt. Því ég fann styrk og gat framkvæmt hlut sem enginn gat ímyndað. Með mínum litla styrk bar föður minn minn til hinnstu hvíldar. Þetta er dagur sem hefur verið brennimerktur í huga minn og sál. Og enn í dag þegar ég minnist hans, niður mína kinn fellur ennþá sorgartár. ] [ Bitur af reiði ég skelf, í hræsnarans hendi fastur er. Tekinn án þess að vilja, svo langt frá því að skilja. Án þess að vita ástæðu, viljann sem hugann ber. Þetta er mitt að bera, ekki mitt að hylja. Neita að fela sársauka minn, neita þó að sína hann. Hann er minn að draga, ekki þinn að táldraga. Þú réttir mér hjálparhönd, það ég man. Hana ég hunsa, af því bara. ] [ Fyrir aftan himinn fagra, sé glitta í ljósið þitt. Stjarfur stend, augun stara. Brestur hjarta mitt. Veit ekki hvernig, hvenær. Finn það, færist ávallt nær. Veit að, munum hittast að nýju. Því Pabbi, ég sakna þinnar hlýju. ] [ Óttist ei, því hér er gaur. Heitt í hamsi, uppúr sauð. Upp og niður, svitabað. Fjandinn sjálfur, var að fá það! ] [ mig langar að segja frá, nokkuð sem mig hefur hrjáð....hlut sem þú átt eftir að sjá. Bið þess eins og aðeins þess eins að þú gefir mér þennan séns. Séns til að útskýra mína sýn, þess sem hefur beðið mín....bið þess að þú verðir ennþá mín. Raskað minni ró, tel mig mikið flón....hef verið hraktur í burtu fá minni hugsjón. En nú er einfaldlega nóg komið, mín von hefur ekki horfið....minn draumur getur ennþá orðið. Slæma hluti ég hef gert, veit allt um þá...mínar martraðir voru vaktar og vildu komast á stjá. Það versta finnst mér þó, jafnvel þó ég vissi að komið var nóg...var nú þegar unnið alltof mikið tjón. En ég trúi því að ég hafi breyst, því í mínu lífi ég fór alltof geyst...mín vandamál tel ég mig hafa leyst. ] [ Eitthvað bjátar á, lífið gengur hægt. Ljósið virðist langt frá, ekkert er mér kært. Sé ei varla tilgang, allt virðist ófært Yfirgefinn, mitt hjarta hefur verið sært. ] [ If you go, I wont stay. Turn around, walk away. Take my hope, nothing left. Thrown away, nothing kept. Torn apart, violently. Put to death, silently. ] [ Without you even knowing, I'm sorry to say. Without anything showing, sorry it went this way. I want to make it up to you, make it better. Not like it used it be, make it even better. I'm so sorry, I cant believe how it got so far. Forgive me, I don't know why I acted this way. Save me, for I'm the one to blame for this. End me, make me pay for all my sins. I lied to you, I betrayed you. I took advantages of your trust. I love you, I need you. I never meant to act on a lust. Looking back now, what was I thinking? How could I have done this, without even blinking. I knew it from the start. Every thing would fall apart. I lied to you, I betrayed you. I took advantages of your trust. I love you, I need you. I never meant to act on lust. Now I see you, broken down by me. Hurt you within, I can see. Took away wings from an angel. Something I cannot believe. ] [ -Meðan laufin sofa liggja spaðarnir andvaka- sólin er hnigin og nóttin stendur vörð. Tíminn ferðast áfram og fer ekki til baka og framtíð er hverful á vorri hótel jörð. ] [ Voldugt er veraldarrykið vegur þó lítið eitt snilld er að segja mikið en samt ekki neitt. ] [ Öll þín verði ævin fín ást þig leiði og beri. Gleðja megi gjöfin mín gott við nögl þó skeri. Oft þú megir gera grín og gleðin hjá þér veri. ] [ Yfir hafið ísinn bar hann. Stór var björninn, stæltur var hann. Það þarf þrek að þola svaðið, þrekvirkið sem björninn vann að þrauka yfir Atlantshafið. Sem augað eygði beið hans sjór skoltur vígur, hrammur stór. Eigin herra, hraustur, sterkur drjúgan spöl á sundi fór og vaxandi var hungrið verkur. Loks náði landi í mynni þröngu eftir þessa þrautagöngu þar sem beið hans tigna trýni byssuskot af færi löngu og uppstoppun í formalíni. ] [ Einmanna ég sit og hugsa til þín Hvað ertu að gera í dag ástin mín Nú fara leiðir okkar að skiljast að Ég get ekki hugsað mikið út í það Það verður sárt að hafa þig ekki hér En þú verður alltaf til í huga mér Farðu vel með þig elsku besti vinur Stattu í lappirnar sama hvað á dynur ] [ Breska bullu réttlætið við borgum ykkur oflætið. Þið viljið vondar aðfarir við sendum ykkur hamfarir. Eyjafjallajökullinn borgar vaxtastuðulinn. Á réttláta sem rangláta nú rignir ösku á bretana. ] [ Ég lá þögul og lét mig dreyma um það sem ég hafði gert Ég hafði aldrei orku í að geyma hugsanir því ég stefndi ei hvert Ég var vonlaus og ég gat ekki neitt mér fannst ég vera svekktur því sem ég gat breytt voru orðin sem mig vantaði, ég var blekktur Það var sárt að finna til mér fannst sem ég væri sjálfur kærður að vita að um það bil að ég væri orðinn svona særður Mér fannst þetta ekki ganga lengur ég varð að mig treysta og sætta á því sem gerist og gengur ég varð að hætta ] [ Í rugluðum heimi ég í huga mér það geimi að syrgja mína sál og brenna það eins og stórt bál ég hugsaði bara um afleyðingar mínar en ekki hvað fólki varðaði um sínar ég rústaði algjörlega mínu lífi en nú ég hátt upp mig hífi að rífa mig up úr þessu og ég stefni á góða messu svo líf mitt fari ekki aftur í bolvaða klessu ] [ Ég hugsa um þig þegar ég sef Ég hugsa um þig þegar ég þig hef. Ég hugsa um þig þegar ég er sæt Ég hugsa um þig þegar ég græt. Ég hugsa um þig þegar ég vakna Ég hugsa um þig þegar ég þín sakna. Ég hugsa um þig þegar ég vil mig filla Ég hugsa um þig þegar mér líður illa. ] [ Við hlaupum um nakin finnum okkur gott skjól elskumst þangað til ég er vakin meðan þú klæðir mig í nýjan kjól Ég vil vera kona þín svo við eignumst okkar næði var þetta ást við fyrstu sýn því við elskum hvort annað bæði Mér langar að kynnast þér betur hjartað mitt er þér merkt vita svo hvað þú mig metur því þú ert frábær eins og þú ert ] [ Á björtum degi í desember komst ég að því hver ég er eina hugsunin var víma svo ég þarf að skipuleggja mig á tíma ég vil gera allt sem ég þarf að gera og þungum hugsunum að bera telja i hljóði upp á tíu og byrja að lifa lífinu að nýju... ...edrú ] [ Ég svíf á skelfilegum ótta reyni að forðast allt á mínum flótta. Geri ekkert sem ég má og tapa því öllu sem ég á. Eitthvað hræðilegt var framið því hjartað mitt er kramið. Óskin mín var: \"ekki smokkur\" en ég eyðilagði allt hjá okkur. Það var tvennt sem mig langaði að gera kona þín og mamma vildi ég vera. Misst hef ég þig fyrir fullt og allt ég vildi að ég gæti bætt þér það upp tvöfalt. ] [ Ég er lúxus kerra ég get verið alls konar á litinn þó aldrei rennur af mér svitinn Ég er lúxus kerra fjögur dekk undir mér og nóg af sætum handa þér Ég er lúxus kerra með stóra og glæsilega vél yfir hana er húddið sem skel Ég er lúxus kerra elska að bruna á miklum hraða en þó vil ég engann skaða Ég er lúxus kerra vil gera allt fyrir minn herra Ég keyri á götum í miklum ham því ég er Pontiac trans am ] [ Ég röllti um í stóru fjósi í leit að mínu skæra ljósi Afhverju þarf ég að vera þessi kona og hvers vegna þarf þetta að vera svona Afhverju sætti ég mig, ekki við mig hvað er það sem ég sé við þig Afhverju byrjaðir þú að mig elta nenni ekki að láta tilfinningar mínar svelta Vinnu alki ég veit þú ert ýmindun mín er illa skert Vildi aðeins líta á þig og sjá því ég vildi bara kúra og vera þér hjá Þetta var allt eintóm villa mér líður hræðilega illa Ég í marga hringi sný og vona bara að við sættumst aftur á ný ] [ Á hálu er hægast að svansa hamist þú um með stæl. Enginn lærir Djæv nema að dansa af drift á tá og hæl. ] [ Ef ég tel mig orðin vanta ek ég þangað heim í hlað. Á mig snýr á alla kanta er við bú á Skorrastað. ] [ Allvel með á nótunum endist lengi glansinn. Farinn er í fótunum fór ég skart í dansinn. ] [ Sumir líða um lönd og strönd í leit að betra eða hvað?. Er það atgefisflótti eða átthagabönd sem öðrum halda á sama stað? Að ráða í þetta er auðvitað basl ókunnuga létt má blekkja en ég segi bara við erum ekkert drasl ætla mig nær sjötugan þekkja. ] [ Í nótt mun ég gráta ástina þína. Í huganum leika á hörpu mína. Í nótt mun ég ganga götuna þína. Og kyssa þig heitar en konuna mína. Í nótt mun ég gráta gleðina þína. Sem lýsir og lifir við hamrana mína. ] [ Oft mættu ljóð mín eiga sig oftar mætti ég hljóður en fái ég þau gerð fyrir mig fer minn vænstur hróður. ] [ Ekki sit ég auðum höndum yrki ljóð og skrifa. Fari líf ei langt úr böndum litlu mætti eg bifa. ] [ Í mannréttarmálunum sífellt hér syrtir syndugir mannræflar skulu vera virtir. Ekki er sama hvernig menn eru myrtir í móðurkviði læknar eru til þess fyrstir. Gamalingjar einungis eiga lifa snauðir öryrkjar til vandræða þar til eru dauðir. Ég hef ekkert af mér gert embættismenn nú veina. Allt er bullið einskis vert um ábyrgð það ég meina. ] [ meðan laufin sofa liggja spaðarnir andvaka og tunglbornir skuggar tapaðra vona finna sér til frelsis ] [ Voldugt er veraldarrykið vigtar þó lítið eitt snilld er að segja mikið en samt ekki neitt. ] [ Sitji fastur snerillinn segja mætti það: -Okkar æviferillinn er óskrifað blað-. ] [ Eigir þú fyrir þér ógnar að verða skar þá skaltu vitna í það sem var. ] [ Undir þykkum þyrnirunna þar falin augum manna einmana rós berst fyrir lífi og bættum heimi betra heimili Þeir skyggja sólarljósið á þyrnirunnar stórir hverfandi rós hættir að berjast og horfir á glataðan heim Víkkar bæði og stækkar vel vegur þyrna stórra vonlaus rós föst í fjötrum þyrnirunna í fallegum garði ] [ Ef lunga þitt hættir að starfa á undan mínu falla fjöllin og himnarnir með undir því öllu verð ég með sporð í álögum. ] [ Löngu var komið tími til að gera það sem þyrfti Því að á mér liggur ábyrgð stór ég gat ekki látið þau fara fyrir börn eins og mig ég eiðinn sór að loksins fyrir mig svara Hæðnishlátur í huga mínum syngur er kem ég skóla mínum að að mér móðgun hvíslar einhver slyngur mikið var gott að hann gerði það Hann var sá fyrsti sem niður féll sá fyrsti sem var litaður blóði kennarar komu er heyrðu þeir hvell í hjarta mér stoltið glóði Óhikað beini hlaupinu að þeim niður sem peð þau falla nú loksins skilja þau kannski minn heim er í skelfingu nafnið mitt kalla Því þjáningin sem að þau ollu mér það skilja aðeins örfáir treystu því þegar ég segi þér þú uppskerð eins og þú sáir Því þeirra hatur bjó mig til þeirra illska styrk mér gefur niðurlæging um árabil verður heljarinnar vonsku vefur Byssan tóm en ég sigri hrósa er sé ég líkin við mína fætur þau mega núna úti frjósa í dag innheimti ég mínar bætur Ég felli ei tár þegar dagurinn endar þó ég fari burt að sinni þótt fái ég morðhótanir sendar ríkir nú friður í sálu minni ] [ Heimurinn var rissaður upp á blað sem fullkomnun. Uppgötvað var að hann væri glansmynd. Ekki var hægt að standast svona lygi. Heimurinn var teiknaður upp á nýtt með réttum hætti. ] [ Sá sem horfir á mig, sér mig ekki og veit ekki hvað það er sem er ég. Sá sem horfir á mig sér aðeins það sem ég vel fyrir hann að sjá og skynjar einungis atferli mitt á þeirri stundu er við mætumst. Því sá sem sér mig lætur ekki eins og ekkert sé, heldur mætir augnaráði mínu og sér mig, því hann skilur og þekkir varnagarðanna sem ég hef reist umhverfis sál mína, en veit einnig að við þetta augnaráð er ekki að fást því ég vil ekki að þú sjáir mig, dæmir mig og rannsakir mig. Því það er minn sjúkdómur. Og þess vegna sérðu mig ekki og veist ekki hver ég er. ] [ Ég hef engum sagt frá því en oftast þegar það byrjar að ásækja mig hversu vel þú þekktir mig þá á ég falskan vin sem er til staðar; þegar ég stíg inn í tóma íbúðina eftir langan dag og ímynda mér að þú sért þar búinn að útbúa miðnætursnarl kveikja á kertum taka til segir mér hvað ég hafi verið dugleg og eigi skilið að sofna við það að þú strjúkir mér um hárið en það er ekki einu sinni til brauð gamall vinur stendur glær í flösku á borðinu hann ætlar að drekkja mér ljúflega í svefn það var svo hlýtt þegar þú varst hér það er svo kalt ég vildi óska þess að ég væri enn ástfangin af þér því ég get ekki ímyndað mér að nokkur myndi vilja strjúka mér um hárið núna svona skítugt og þreytt nema þú ] [ Gaman að dansa léttur í lund leika við hvurn sinn fingur. Morgunstund gefur gull í mund gleddu þig Íslendingur. ] [ Drottins andi efli enn. Land um aldir og alla menn. Hugsi ég um haust og vor. Gneista í mér gömul spor. Leggi firði fenni skörð. Finn ég til með fósturjörð. Þegar vetur kveður kinn. Strýkur vorið vanga minn. ] [ Kvöldið í kvöld var í senn fallegt og nautnafullt. Alveg eins og ég. Líkt og sál mín þá endurspeglaði það ástríðu gagnvart þeim sem þess nutu. Veitti þeim hlýju, nærveru og gleði. Á sama máta varð það sorgmætt og fölnaði þegar hinir sömu hurfu á braut inn í framtíðina og við stóðum tvö ein eftir ég og kvöldið. ] [ Ég hef aldrei skilið þessa duttlunga Af hverju geta hlutirnig ekki verið sléttir og feldir? hví þessar breytingar, sveiflur, gleði og sorg? hví þessi tár, hví þessi ár, hví þetta bévítans, bölvaða skelfingar fár? Oft hef ég spurt, en lítið fengið til baka. Ætli mér sé ætlað eitthvað meira? Myrkrið lýsir mér best, kemur og fer í tímabilium. Það sama má segja um minn andlega styrk, kemur og fer. Sennilega er ekkert annað að gera en njóta hans þegar hann býður upp á það. Og halda áfram að bíða og vona að lífið verði einhvern tímann hinn fullkomni dans sem ég vænti sem barn. Það fæst allavega ekkert með uppgjöf... ] [ Nú hefur vetur af vörum spýtt virðist sá oft galinn. Komið er sumar sælt og blítt og sólin skín um dalinn. ] [ Hafið þið heyrt um flægð undir fögru skinni. Um Mammon og mægð og hættuleg kynni. Hafið þið heyrt um svik og elda sem eyða. Er slá í augun ryk og brotna eiða. Hafið þið heyrt um söng á jökulbungu . Fagurbláu sumrin löng ástina ungu. Hafið þið heyrt um stað æru og tryggðir Vitið þér enn eða hvað um drengskap og dyggðir. ] [ Endirinn á þessu tímabili er að byrja en sem betur fer er ég vön slíku og ætla að njóta þess sem eftir er það er áframhaldandi ævintýri í vændum og saga eftir þá sögu sem allir þessir yndislegu, nýju, óvæntu vinir skrifuðu með mér ] [ Efnahagur rústir enn. Ísland sýkt í rótunum. Veit ég það, því Juris menn, þeir lenda alltaf á fótunum. Þótt endurreisn ei ljúki brátt. Ég lögin nem af stillingu. Nú er nær, ég vil minn þátt, í næstu öldu af spillingu. ] [ Magga hefur á mörgu lag mælir á spænsku vel með krakka fór í ferðalag og fæg þau nú ég tel. ] [ Elmu þakka þetta hrós þykir gott ég meina hún ætti skilið rauða rós réttast fleiri en eina. ] [ Fantarnir skvetta úr fötunum fær margur undan skjálfa. Skilning fá fæstir á hlutunum fyrr en káfar upp á þá sjálfa. ] [ Ég yrki beint af augum orðsins snilld ég þrái bera af mínum baugum svo bragaglóð ég nái og úr því er að rakna er nú karlinn heima en í þann mund ég vakna æ, mig var að dreyma. ] [ Ef ég mætti yrkja vísu snjalla eflaust myndi reyna skjalla þig oft er svo að bestir fyrstir falla en frekast verstir megi eiga sig. ] [ Ingólfur og Einar hýr oft við Dodda spjalla. Komi saman þessir þrír þá er kátt á hjalla. ] [ Að Alþingi steðjar ólán flest þar aumingjar margir þreyja. Sagt þeir hafi lík í lest og lýðræðið sé að deyja. ] [ Every Tear I Cry, I Cry For You. Every Feeling I Get, I Feel For You. Every Time I Wish, I Wish For You. How Come You Cant See, How Much I Love You. Every Time I Scream, I Scream For You. Every Time I Write, I Write For You. Every Time I Reach, I Reach Out To You. Yet You Never Seem To See, How Much I Love You. Every Time I See You, I look Into You Eyes, And Suddently The World Is Better, Filled With Love And Firefly's. And Everytime You Hold Me, I Feel So Safe, And I Dont Ever Regret, Every Love That To You I Gave. So Baby, I Hope Now You See, How Much Love For You, There Is In Me. And Dont You Ever Think, That I Would Ever Leave You, And One Day I Hope I Might Hear, "Oh,Baby, I Love You Too" ] [ You Make Me Feel So Speacial, You Make Me Feel So Me, You Are The One That Set Me Free. You Make Me Feel So Real, You Make Me Feel So True, You Make Me Feel Every Love I Got For You. You Make Me Feel So Right, You Make Me Feel So Wrong, You Make Me Wanna Jump Around And Sing A Little Song. Ill Give All My Love To You, For Only Two Small Things, Never Ever Let Me Down, And Say You Love Me Too. ] [ This World, Used To Be Peaceful, Now Its A Kaos, Now Its All Hatefull. You Started War, You Killed Us All, Haters.. ] [ Guð á himnum gefi að þér gæfan fylgi ætíð á þínum veg Vonar mamma að veitist sér vera önnur jafn björt og yndisleg. Yrðir þú þó á vegi mínum aftur, ég örmum mínum um þig vefði skjótt, úr fylgsnum myndi flæða móðurkraftur og friður fylla sálu mína skjótt. Skamma stundu fékk þitt ljós að skína skoti litlu móðurkviði í. Ást mín mun þó aldrei á þér dvína; um þig skjól í hjarta mínu bý. Bænir mínar bitrar eru ei lengur. Bið þig samt að ætíð vitir það að þó ég þiggi að komi annar drengur; þitt pláss áttu æ hjá mér í hjartastað. ] [ Inda er til orða fljót oft af speki nærir birtist viska manni mót maður af því lærir. ] [ Sýnist ei til synda treg sú mér girndir vekur. Hún er ung og írennileg og iðar sér og skekur. ] [ Við hestana dýrkum þeir hug okkar fanga hverfur fljótt tíminn er í þá við verjum aldrei menn vita hver á hjá hverjum því hestamenn hanga vanga við vanga. ] [ Taken for the thrill bound with excitement the fantasy reenacted this will not take long. The drug has been given the light is leaving fast the fulfillment and the need this one will not be the last. Can your God protect you? Cant faith lead you're way? Do you not stand hopeless against the unknown? This beautiful soul has now gone, this beautiful mind is now wasted, that peaceful spirit stands restless, and that wandering heart has withdrawn it's beat. What welcomes you in the darkness? who celebrates you're arrival? can you be fearless and love the unknown? The body lays broken on the kitchen counter. Eyes open wide, lips turning blue, arms twitching, legs kicking and the still air holds no reason. All life gets taken away regardless of wishes and prays, do you feel helpless to the unknown? The silence whispers its awareness of the act, such beauty, such waste The temperature falls but the heat keeps rising so pointless but so right. Such power over another, such fear in it's eyes I will be restless in the unknown. Time has gone by, no answers are found The unknown stands victorious with a grin on it's face. Smelling her hair tasting her skin Always there, without a trace ] [ Geislar sól og grænkar tó grámann burtu hrekur. Eigrar karl sem eitt sinn bjó og andköf síðust tekur. Eru kostir taldir tveir um tilurð okkar daga. Lifnar eitt og annað deyr. Er vor lífsins saga. ] [ Útlit mitt ber eldi vott á ég spik í forða. Óskaplega allt er gott er ég fæ að borða. Áfram árin líða ei tjáir sýta þó ýmsir hafi ekkert að bíta. Áfram árin líða ekki tjáir væl þó villist menn víða veriði sæl. ] [ Hið kæra mikla kertaljós logar kveikja með takmörkuðum þráð þyngdarafl fast og þétt togar þennst út og verður eymdinni að bráð Vísur, öll ljóð og hvert lag lýkur og alltaf sami endinn alltaf virða hvern og annan dag aldrei skaltu kvelja eldinn ] [ Fagursta málverk sem til er Það ert þú og verður það alltaf. Ég vill vera þinn rammi, sýna þig, faðma og vernda. Þú dettur, ég dett. Ætla að vera þinn veggur, vill hafa þig hjá mér. Auður, hvítur veggur sem þú skreytir. Verða þinn nagli, halda þér uppi, stoltur á bakvið. Uns ég bogna og ryðga ] [ Lífið er eldfjall gýs þegar því sýnist. Lífið er jeppi þarf að þola torfærurnar. Lífið er eins og fiskur sem syndir á móti straumnum. Hver manneskja er flugfiskur sjaldgæfur og einstakur. Karlmenn eru eins og konfekt maður velur besta bitann. ] [ Hindurvitni, er öll út í hött ég opna inni regnhlífar allar. Hlæjandi sparka í spegil og kött tek spor undir stiga sem hallar. Nýtanleg er ekki hjátrúin nein né kuklarar eða spámenni. Hjátrúin boðandi bölsóttar kvein bara þeim, er trúir henni. ] [ Kvennaval ég kærast lít kunna skrúbba og bóna. Af mér taka allan skít svo ei ég líkist róna. Frá þeim ætíð flottur fer félagsskapinn trega. Þakkir ykkur bestar ber og blessun ævilega. Enn þó leikur laus við sóta líkar ýmsum verr það mál. Vinur að mér var að skjóta hvort skrúbbað gætuð mína sál? Imprað hef á ýmsu hér ekki meira segi. Kveðjur ykkur bestar ber bóndinn í Skálateigi. ] [ Í sig er ágætt að skvetta oftast er mál á því. En erfitt sig af að rétta eftir gott fyllirí. ] [ Verður hverjum list er hann leikur. List er hver fimi við starf. Að veðja á það vertu ei smeykur. Viljinn er allt sem að þarf. ] [ Ævintýrið sem ég hafði alltaf ætlað okkur er nú formlega hafið en ég er minn eini félagsskapur Ævintýri voru aldrei þinn tebolli ] [ Dagný ber daman að heiti dásamleg er hún að sjá. Gunnar kann takta í teiti tæld´ana svei mér þá. ] [ Búðu mér ból í faðmi þínum bjarteygði sveinn hvíslaðu í hálsakotið heitum orðum þínum gefðu mér gjöf þína í nótt -ég gef þér mína á móti. ] [ Ég reyni að læra stærðfræði, en eina sem ég ræði, er um rúmæði. ] [ Gull af manni gekk sinn veg gerði aldrei neitt af sér. Einkennandi hugarheim hann ber, sér það sem enginn sér. Heimspeki og sígrettur blaðsíður hann flettur. Hann heiminn mun dýpra sér vinur, vonandi nærðu þér ] [ Sómamaður sagður er sýnist vel hann þrauki. Kveðju góða Bubba ber og bestu þökk að auki. Ekki verða orðin mörg er það bættur skaðinn. Kerrulánið var besta björg blessun hafðu í staðinn. ] [ Það er erfitt að sjá hvert sál mín stefnir. Brotin og tvístruð, óvíst hvar hún lendir. Langþráður draumur að baki brotinn. Minn hugur, alltof langt sokkinn. Hef ekki hugmynd lengur hvað ég get sagt. Of mikið hefur á mig verið lagt. Fylgist með lífi mínu fljúga áfram. Sem virðist einfaldlega hverfa smá saman. Þó svo allt virðist svart og þungt. Neita uppgjöf, set niður minn punkt. Því í mínu lífi er manneskja. Sem ýtir þér í burtu, sjálfselska. Mig að betri manni hún gerir. Trúðu því síðan þegar ég segi. Hún mitt hjarta á, hún mína sál á. ] [ Upphafið er alltaf erfiðast en með því mun vitneskja mín fimmfaldast. Þó svo ég komi fyrir augum manna sjaldnast, mun ásjón mín einnig margfaldast. Með harðlegum orðum mun einhver henda í mig og reyna buga minn vilja. Engan líkur það muni takast því ég er nýbúinn að skilja, minn hugur er hér og vill aldrei flýja. ] [ Fari ég um forna slóð þá finn ég strax til hinna. Er eigum sama íslenskt blóð allra feðra minna. ] [ Ég mun sjá þig, hjá gamla steininum okkar, brúngræn augu og ljósir lokkar, Ég mun sjá þig, í hverjum camel pakka í hverjum spútnik frakka, Ég mun sjá þig, í hverri ástarkvikmynd jafnvel þó ég verði staurblind Ég mun sjá þig þegar sólin skín og þegar dagur dvín Ég mun sjá þig. ] [ Gullið mitt er gleymt og grafið, rétt ofan við Atlandshafið. Ég gróf það niður í snjóinn týnt og enginn sér það nema spóinn. Aldrei skal ég ná í það, reyni að gleyma þessum stað. Ég hugsa um það hvern dag, græt það og hugsa um þetta lag. Endalaus sorg, leiðir mig inn á þetta torg, stekk upp á hól klæði mig í gamlan kjól argandi eitthvað rugl. Þá kemur yfirvaldið og hendir mér í grasið ilmurinn af blómunum er yfirgnæfður þegar þeir koma með gasið gasalega eru þeir dramatískir. ] [ Sigríður frá foldum þú verður að kippa því í lag, því annars get ég ekki lifað annan dag. Þá þarftu að setja mig undir mold, fröken Sigríður frá Fold. MB ] [ Er á ævivegi mæddur þú myndar þín spor, þá mundu að við vegbrún vex fegursta rós, sem sjá má á einu örsmáu augnabliki. Þér birtist þar Guð í blómsins mynd sem brosir þér mót í vegarins ryki. ] [ Hún er yndisfríð, sólin upp færist og ég vegna fegurð frís. Hjarta mitt það upp rís, ég stari á þessa stúlku, augu mín frjósa föst, líkami minn fær ástar-köst. Hún ljómar, allt í kringum mig fallega hljómar, söngur engla er sem söngur ástar minnar. Allt fyrir hana vil ég gera, tunglið fyrir hana ég dreg, stjörnur af himni ég sker, falleg kvöldnótt hún sér. Bros hennar mig bræðir, tilfinning mín býr til hennar hjartaþræði, úr gulli eru, enginn getur þá brotið niður. Held um mína stúlku, sál mín nú túlkar hana. Hjarta mitt er hennar, gleði ríkir um okkur, enginn svartur skýjamökkur. Vakna og fatta, draumur aðeins er, hélt raunveruleikinn hafði skéð. Ég þennan dag bíð eftir, stúlku sem hjartað mitt fær, ég aldrei síni henni djöfla klær, aðeins minn ástarblæ. Stúlku sem aldrei mun skorta neitt, því ást mín til hennar verður aldrei sein aðeins hjarta-hrein. Dagur sem virði er að bíða, því einn daginn hjarta mitt ég mun stúlku einni sýna. ] [ Ég hugsa um allt aftur, varð loksins glöð og biturleikinn fór. Sé mynd af þér, bros færist á andlit mitt en niður kinnar fellur brotin gleði hjarta míns. Lést allt betra verða, hann fór upp á við, minn hamingju-mælikvarði. Hitti þig, sorg í hlé sig dró. Hugsa nú um snertingu, hafði það einhverja merkingu? Hugsa um kossa, varstu aðeins mig í smá tíma að lokka? Hugsa um hlátur, var hann í alvörunni kátur? Hugsa um bros, reyndiru að losna mér frá? Hugsa um þig, vilduru ei mig? Allt fer aftur, dagur minn er svartur, heyrist aðeins djöfla skvaldur. Reyni dag einn að gráta ei, mótvindur mér berst, í mig fer sverð. Gleymdu mér ei,því tindinn ég kleif en nú ég fell í djúp minningana. Gleymdu mér ei, þó farin sé, ég hér með þig kveð þó ég ei vil. ] [ Reiði upp kemur, hún ei sefur. Keppni er hafin, hélt hún væri farin, þau koma aftur, sárin. Tárin klárast ekki, það rignir hungur reiði, það er eitur-seiði. Gleyma vildi, hélt allt gróa myndi, í sorg og reiði syndi. Drukknar á landi sem og hafi heimsins, þetta mig dregur niður, heyrist ei fallegur klukkna kliður. Ástæðan er reiði ásakanna, horfi á sjálfs míns hjarta sár, urðu ei gleði-tár, eftir var aðeins marið blátt, ég var ei sátt. Þetta mér fylgir, sál mína þyngir, ég orðanna syrgi, það mitt hjarta og sál myrðir. Ástæðan var tíð, sem enginn var í, aðeins dökk ský. Ástæða sú vil ég ei segja vera þú, heldur það sem reiði mína veldur, er orð ástæðna þinna. ] [ Sá dagur upp kom, ljósabjarmi kertisins ljómaði einn, allt varð hljótt. Hugsanir þessar, allt á móti mér snérist, drunur mig börðu. Orðin mig særðu, mig smátt kæfðu, dropi dropanna á andlit mitt skelltu. Þú klíndir á mig lýgi svarta, þetta líkama minn nartar, færist að viðkvæma stað sjálfs míns, en ekki þíns. Fólk, orð, allt varð stórt, lá einmana og varnarlaus sem ást hatursins. Á þetta víst skilið, þetta særir mig mikið, orðin sem þú klýndir mig á, eina dökka lýgi dómsins sá. Þú og þið, það voru önnur siglingarmið, vilduð drekkja mér í lygasárum. Nærist á sársauka þeim, sem ég bar með mér heim. Orðalygin varð ykkar rútína, þið nærðust á mínum bera líkama. Lygi orða þinna mig að innan drápu. ] [ Ég lokaði aftur mínum augum, sá blómstur veraldar, ég og þú í leik vinanna. Dagur leið, og sólin skein, lífið var bjart. Nýr dagur kom, telpa hljóp, kallaði að mér fréttir sem ég ei heyra vildi. Ég augun opnaði,ég vaknaði,ég þín saknaði, ég hélt daginn áfram grátandi. Ég lokaði aftur mínum augum, sá tár táranna, ég í leik sáranna. Vonaðist að draumur væri sem aldrei aftur kæmi, og þú ei mér frá færir. Draumur ei var, veruleikinn í átt að mér snéri, allt í kringum mig hrundi, ég þá mundi: Þú yfir mér vakir, sorgin ei fer en þú yfir mér vakir. Ég sakna þín. ] [ This is a true story, its not a glory. One day, I in my bed laid, the sun shined over me I heaven could see. My smile felt down on the growned, tryed to reach it, it flyed away. My happines was gone, I was lost, lost in darkness of my shadow. I raned away, it stood in front of me, the knife of the devel. Another pain stood beside it, my self, the tear started to fell down, I was not proud. The mistake, the pain, I did not shine like the sun. I learn,I met you, the sun started to shine in my heart. ] [ Ég vaknaði, ánægjan gegnum gluggan minn skein. Börn í garði léku, sólargeislar á jörðina lentu. Dýrðardagur nú upp kom, hann næsta morgun fór. Allt dimmt yfir færðist, ég á sársauka nærðist. Rigning dundi á rúðuna, skýin hömruðu eldingum svarta riddarans á jörð mína, eitthvað vildi hann mér sína. Leit niður í holu eina, allt góða augu mín lýstu. Hoppaði sem lítið barn, lenti í ánægju sjálfs míns. Leit upp, sá hinn hvíta riddara, var hólpin, máttur hans var þrotin. Dýrðardagur nú upp kom,hann næsta morgun fór. ] [ Vegna þín hef ég lært á lífið, mér fannst það óréttlátt og lítið. Nú sé ég stærri drauma, drauma lífsins. Vegna þín komst ég að staðreynd ástar, ei get ég sett á það marga plástra, né skolað því niður í djúp veraldar. Nú ég lifi með því, og ei ég sé ský fyrir sólu. Vegna þín lærði ég að brosa með hjartanu, sem var svart eins og hin versta sál, ég kunni aðeins dauðans mál. Nú hjarta mitt logar og það vonda í burtu skolar. Vegna þín ég lifi, Um tíma var ég innan, dauð, veraldleikinn í helvíti sauð. Nú lak er yfir því versta, allt opið er fyrir því besta. Vegna þín ég hér er og lifi með þér. ] [ Þessi tilfinning er eins og vonar hróp, Hleyp að hljóði því, regnboginn aftur dvín. Ég ei næ, það fer í hinn dimma sæ. Stoppa á miðri leið, tilfinningin í mér sveið, Droppa niður á þúfu eina, allt í kringum mig færist fjær og ég ei þessu næ. Hugsun í höfði upp kemur, Hjartað í sál mína lemur, tár mín verða að rigningu. Lít, skima, hljóð heyrist í fjarska, ég hleyp, og er smeik. Þessi tilfinning, þetta hljóð er alveg móð. Ég stoppa ei, því einn daginn ég næ. Tilfinninguna ég geymi. Því einn daginn,einn daginn ég næ. ] [ Ert þú mér horfin frá eða gleymd í mínu hjarta? Þú ert auga lífs míns, bros hjarta míns og gleði sálar minnar. Þú lést dag minn birta vonargeisla, skeifu vara minna í burtu þeytast. Þú komst, þú fórst, þú gleymdist, þú hvarfst, eða hvað? Tár mín þjóta sem eldingar alheims, bros mitt hverfur í dýflisar hjarta djöfulsins. Hjarta mitt í sundur brestur, það heyrist hár hvellur, hjartað datt og varð aðeins flatt. Augu mín tvö urðu haf jarðar, hugur minn var vígarvöllur, sál og hjarta þar börðust. Þú komst, þú fórst, þú gleymdist, þú hvarfst, eða hvað? Ertu horfin eða gleymd? Ég þig ei finn allavega ekki um sinn. ] [ Mamma mín brosir til mín breitt, þótt hún sé þreytt. Mamma mín huggar mig í örmum sér, þegar allt virðist ómögulegt hjá mér. Mamma mín heldur ávallt í mína hönd, líka þegar ég mun fara ókunn lönd. Mamma mín gefur mér ráð, því hún er svo klár. Mamma mín gefur mér allt, ég þakklát er,það er alveg satt. Mamma mín, ég vil gefa þér þetta ljóð, því þú mér ert svo góð. Elska þig mamma mín ] [ Ég hugsaði þá hugsun,og mér var brugðið, sál mín dofnaði smátt, ég vildi að ég gleymdi og frekar sofnaði. Ég horfði í þá átt,hélt eg væri alveg sátt, hugur minn mig blekkti, ég tilfinningu þá ei þekkti. Ég sá það sem ég ei vildi,en hélt að allt hverfa myndi, augu mín blinduðust af lýgi, sem sannleikann ei sýndi. Ég auðveldlega trúði,því orðin mig áfram knúði, traust mitt hvarf, því hjarta mitt af lygi varð svart. Þegar ég hugsaði,þegar´horfði ,þegar ég sá,þegar ég nú því trúi, þá fyrst skil ég, en samt til síðast ég ei skil. ] [ Mannst þú: Þegar við hlupum niður strönd eina, sólin var við að setjast en við að kveðjast. Þegar við í myrkrinu úti sátum, og stjörnuhröp að okkur komu en þú varst á förum. Þegar ég kraup niður, setti hring á hönd þína en þú vildir ekki mín verða. Mannst þú það sem ég man? ] [ Þú gekkst inn í líf, lífið sem þú ákvaðst að ganga svo út. Góðir tímar voru, en eiðinn við sórum. Braust hann og gekkst, gekkst út í það villta. Eftir stóð brotin sál, brotið hjarta, brotin líkami, brotin stelpa, stelpa sem vildi ekki sleppa. Þú varst hið bjarta, mitt bjarta líf. Dagar og ár liðu, gamlir tímar þokuðust í burtu, bros færðist á vör. Einn daginn birtist þú, kysstir mig, ég horfði aðeins á þig, hvað? Vildir mig aftur til þín, sagðist hugsa til mín, sakna. Tók í hendi þína og sagði: Gakktu inn, eða gakktu út....Þú gekkst út. ] [ Ég hugsa til þá daga sem við áttum, þegar við saman brostum. Þegar sólin skein sem hæst á himni vegna fegurð þinnar, stjörnur glitruðu sem bjartast vegna augna þinna, tunglið endurspeglaðist vegna bros þíns. Þeir dagar sem við áttum, þeim við ei glötuðum. Sögðum þessi ljúfu orð, sá merkisdagur, þú varðst mín. Lífið varð fullkomnað, ég og þú. Einn daginn komstu ei aftur, dagurinn varð svartur. Rigningin kom vegna tára minna, skýin vegna sorgar minnar, fölnuð blóm vegna þú horfin varðst. Stend,horfi, legg blóm niður því miður að leiði þínu. Labba í burtu, lít aftur, og hugsa til okkar daga. ] [ Horfi á mynd af þér, fyllist ég ei af gleði eins og ég vildi. Fyllist af depurð veruleikans sem stíginn í líf mitt er, grátandi myndina ríf. Hendur mínar upp stífna, dýpst inni ég ei lifna, fer með faðir vor og mig signa. Vona eftir betri dag, hlusta á sorglegt lag, ég vil stíga með þér dans en þú ýtir mér í klefa einmannaleikans. Sagðir það, ég gat ekkert sagt, það ei hvarf, allt varð aðeins svart. Höndla ég þetta ei, get ekki meir, sár og reið er, þú skilur mig ei. Þú veist ekki, ég inn í skel stekk og myndina lími, ég henni ekki týni. Aðeins veruleikann ég sýni, brot depurðar á mig klíni. Ber ég þetta, þú ert frjáls sem fugl hamingjunnar, því ekki þú veist hve mikið þú gerðir mér mein. ] [ Í gær var ég í erlendu máli, skyndilega varð ég að báli. Í dag er ég í vísnaskapi, því íslenskan er minn knapi. ] [ Kostar bara: Þroska til að vita að þú veist aldrei allt best. Þekkingu til að geta leiðbeint þeim á þurfa að halda. Anda til að geta skapað og litið á björtu hliðarna Stympingar svo þú lærir að njóta rólegu stundana. Gleði svo þú getir glatt aðra. Ást til að næra hjartað. Hreyfingu til að næra andann. Gjafmildi til að næra sálina. Fæðu til að næra orkuna. Atorku til að finna hamingjuna. Svefn til að næra hugann. Sjálfsmynd svo þú standir upp fyrir sjálfri/um þér. Kynlíf til að læra að njóta. Sorg til að læra að gleðjast. Hugmyndir til að læra að nýta hæfileika þína. Andvöku til að læra að njóta þess að sofa. Bið svo þú lærir þolinmæði. Grát til að opna sálina. Orku til að leika við börnin þín. Hlátur til gefa orku. Umburðarlyndi svo þú losnir við streitu. Væntingar til að halda í vonina. Velgengni til hvatningar. Vonbrigði til að stíga niður á jörðin. Þunglyndi svo þú gefir þér meiri tíma fyrir sjálfa/n þig. Vináttu svo þú lærir að þekkja þig. Vandamál til að læra að takast á við þau. Samskipti til næra þekkinguna. Stolt til að leggjast aldrei í grasið. Hvíld svo þú hafir orku til athafna. Leiða svo þú njótir þess að vinna. Verki svo þú berir virðingu fyrir líkamanum. Frí til að endurnæra sálina. Mistök til að næra þroskann. Dans til að næra upprunann. Ábyrgðartilfinningu til að geta veitt skjól. Dugnað svo þú látir drauma þína rætast. Losta til að njóta auglabliksins. Reiði til að læra umburðarlyndi. Veikindi svo þú njótir lífsins. Þolinmæði til að vera til staðar. Áhuga til að geta gleymt þér. og endalausa ástríðu á lífinu, umheiminum, tilganginum og ljósinu sem lýsir okkur öllum... ] [ Hafragrautur er himnesk fæða hollustan endist til sólarlags. Það er sko aldeilis engin mæða að eta hann snemma að morgni dags. ] [ Hugsanir mínar vil ég tjá í ljóði ljóði til ykkar. Hvert og eitt ykkar er einstakt, einstakt fyrir mig. Ljúf móðurást, vonir og þrár, ykkur til handa streymir um hjarta mitt. Lífið er yndislegt, þegar sólin skín, og mannlífið blómstrar hlægið þá saman. En lífið er líka miskunnarlaust myrkur í sálinni, sorg í hjarta, standið þá saman. Hafið ást og virðingu, fyrir hverju öðru að leiðarljósi. Þið eruð af sama meiði gleymið því aldrei. Ljóðið er gjöf mín til ykkar lesið og hugsið um það saman. ] [ Ungi maðurinn bróðir minn hefur vaxið úr grasi á meðan ég svaf. Árin hafa rennt sér í gegnum fingra minna. Fjarlægðin - hafið - fjöllin skildu okkur að. seinna stigurinn sem við gengum aldrei saman eða var það svartur veggur fullur af sorgum mannana? Eða orð sem aldrei voru sögð? En við getum valið stundina og staðinn þegar við höldum saman út í daginn bróðir minn. Tileinkað fimm bræðra minna sem mér þykir vænt um en hef ekki fengið að kynnast. ] [ Ég vil frekar heyra hroturnar þínar, heldur en að vera alein í dauðaþögn. Ég vil frekar snerta sorgina, heldur en að finna ekki neitt. Ég vil frekar sjá þrumur og eldingar, heldur en að sjá þig aldrei meir. ] [ Ó bær minn bær, í blóma þínum felldur, Nú bryggjur þínar tómar standa vörð. Í græðgi varstu glæpum ofurseldur Og gröf þín tekin djúpt í eigin svörð. og bergmál lífs er féll við fjallsins rætur. Þar fölur máninn einn þitt andlát leit. Eg man þig enn en minningin hún grætur Sem morgundögg þig tárin lauga heit. Ó borg mín borg er beygð af kreppu stendur Með brothætt hús er nýreist standa köld. Í veðurofsa með brot á báðar hendur Þú berst til feygðar er svefninn tekur völd. Því spilling þig loks yfir tók með öllu Og allt þitt stolt og reisn var sett á bál. Og ösku þess var dreift um víða völlu Sem einhvers virði var í þinni sál. Ó land mitt land eg lofa þinar strendur Og lýt í auðmýkt allri þinni dýrð. Þinn mikli auður féll á fáar hendur Og fégræðgin nú kastar á þig rýrð. Og þó að allir í þig baki snúi þá aldrei mun eg yfirgefa þig. í áföllum þá þjóðin að þér hlúi, Því Íslendingur mun ávallt vernda þig. ] [ Gjöfin Hve undurfagurt er það líf er allar gátur kann. Og öll þau svör er átti eg og oft á vörum brann. Og allar sorgir sefað get ef sólin á mig skín. Í sólstöfunum sé eg orð og syng þau nú til þín Orðin segja að allt sem deyr mun aftur lifna við. Ef upp þú líkur augum tveim af ást í sátt og frið Og allar stjörnum himins eru augna þinna glóð Svo englar munu alltaf varða óska þinna slóð. Þú átt mitt líf og lifðu því í ljósinu sem eg fann. Eg læt þig um að læra það sem leiðir þennan mann. Örlögin hafa honum að verið hörð en samt svo blíð. Svo gættu hans á gæfuleið og geymdu orðin þýð. BT ] [ Íslendingurinn!! Það er ekkert svo illt að ei megi af því læra svo elsku vinur nú herða skalt þinn huga. Láttu ekki kreppu sem allt og alla er að æra úr þér kraftinn að slíta, því nú er að duga Eða drepast eins og máltækið segir og sannar með sögum og hetjudrápum kveðnum til forna. Ísland með stórjökuls toppa tindrandi fannar og tryllta vætti sem verndara landsins horna. Drepsóttir, óveður eigi gátu okkur grandað, glóandi hraun né hafíssins voldugu breiður. Nú hafa skálkar, vorri þjóðarskútu strandað, syrgðu, æðrast ei, heldur rís og ver reiður. Því reiður Íslendingur er sem ískaldur jökull illviðris bál sem öngvum eirir né lýtur . Öskrandi Nautið, Örninn snareygur, vökull. Ógnandi Risinn og Drekinn er eldörvum skýtur. Svo hví skyldi þá kreppan oss hrella og hræða né hrekja oss brott frá okkar ískalda landi. Þegar illviðri og eldgos sem brenna og bræða, berjast við það sem er landsins forni fjandi. Rísum upp bróðir,réttlætis krefjumst að vonum reiðinni beinum að þeim er að henni hlúa. Sök bíti sekan, ábyrgð skal öxluð af honum er allt vildi eiga, undiroka og kúga. Já komdu bara landsins forni fjandi. Þið föllnu sálir er Græðgin í álög hneppti. Sem hallir byggðu himinháar í sandi. Hrappur er glópagullinu aldrei sleppti. Og sjá, Ísland, aftur upp mun rísa, undurfagurt og tignarlegt á að líta. Íslenska þjóðin, íslensk tunga og vísa. Ísland með sín eldfjöll og jökla hvíta. BT ] [ Er eg yfirgaf ungur þær slóðir, er eg æskustrengin minn sleit. Saman vinirnir þar vígamóðir vildum burt í þá eilífu leit. Sem hamingju og frægð skildi færa, engin fjöll, né þokunnar ró. Í stað fyrir fjörðinn minn kæra finndi eg af alsælu nóg. En djúpt í mér lifir sá logi er lóðsar og stendur þar vörð. það er sem tárin mig togi í tignalegan Nípunar-fjörð. Þar sem loftið ber eilífan anga þar er ástar og æskunnar slóð, þar sem lognið leitar sér fanga í logandi morgun glóð. Því hvar svo sem leiðin mín liggur þá leitar hugur minn alltaf heim. Þar sem fjörðurinn fegurð þyggur af fjöllunum okkar tveim. Mínar Bænir þær bera mig aftur beigðan eftir heimsins rót. þar í berginu býr enn sá kraftur er blóð mitt tekur í mót. Þar mun eg friðinn loks finna, hjá fóstru er hallar að nótt. Með faðmi fjallanna sinna mun fjörðurinn mig umvefja hljótt. ] [ Hin Helgu Augu! Augu þín æ fylgja mér hvert sem þú ferð full eru af minningum og alltaf þú sérð hve einmanna örlög á baki ég ber blæðandi hjartað man eftir þér í dreyranum dauðinn flýtur! í draumi þú til mín lítur! Gneistar augna glóð! Grætur þá táraflóð Eg man ei meir í myrkri deyr augað er elskar þig æ ! ] [ Blóð og Vinir! Er sálin mín var tóm og tárum gefin, og trúin inn í skuggann hrakin var. Þrautir sóttu að og þungur efinn, og þögnin virtist mitt eina svar. Eg þráði faðm og fjöldskyldunnar hlýju, og fann að myrkrið af mér tók öll völd. Eg hélt ég yrði aldrei heill að nýju og ísi hélað, mitt ævikvöld. Gæfa mín er góðra vina mundir, er gættu mín og vörðu mína leið. Þungu farginu, þeir gengu undir, mér þangað stýrðu er ljósið beið. Þess óska fyrir blóð mitt bæði og vini er báru mig til ljóss á höndum sér. Guð þeim gefi og öllu Adams kyni Gæfu vina þegar illa fer. BT ] [ Í myrkrinu þar sem elskendur mætast Til mánans hvísla óskum sem rætast Þar fegurð lífsins flæðir. Þar mjúkir geislar mánans lýsa, í myrkrinu hlýju upp skuggar rísa, og foldu lífi glæðir Og hjörtun ótt og títt þar tifa, og tónar lífsins rísa, lifa. Þar ís og eldur mætast. Merlandi döggin í moldina sýgur og mánans sigð um nóttina flýgur. Þar elskenda óskir rætast BT ] [ Litlir stráka Strákar sig fela í stelpum flóttans Fallnir svartir englar í viðjum óttans Munnur rósar mætir skolti Meydóm rífur,rænir stolti Setið í svarta leður stólnum Svitin rennur, við aldrei kólnum Tíminn er afstæður, annara vandi Eitur fíkill með annan í bandi Naktar dætur, nálar ganga Nauð að þurfa ánþess að langa Svitinn oná spegil drýpur Sogið, meðan annar sýpur Myrkur úti, myrkur inni Martröð að vera í eiginn skinni Finna hvernig fyrring slítur Fölur orðinn, næstum hvítur Efnin virka ekki lengur Aftur orðinn lítill drengur Vilja hætta, vilja fara Vita ekki, afþví bara Vera hræddur, verða óður Vonlaus kom úr skauti móður Rétta hendi, hjálpar leita Nei heldur fá sé eina feita Reyna að sofa, róa taugar Ræfill með tárum svæfil laugar Byrtast þér í draumi draugar Dauðans opnast haugar. ] [ Í dimmum dal þegar sólin í dalnum þínum sest og skuggar taka völdin í þinu lífi. Þá finnst þér oft "að fara" væri best og fegurð lífs við þínum sorgum hlífi. Þá mundu það að þú ert ekki einn og þreittur skaltu tilla þér við vegin Í brjósti þínu brennur logi hreinn sem blaktir ef að ferð þú hinumegin. Því þó þú farir einn um dimman dal og dauðinn einn af þínum förunautum. Þá óttist ei því að í lífsins ljósasal logi drottins lýsir þér úr þrautum. Hann elskar þig, þú skalt ekki efast. Eilífðina og miskun mun hann veita. Í framtíð munu góðir hlutir þér gefast og Guðs og æðruleysis þar skaltu leita . Þú vaknar og ert lagður lífsins böndum. Lífið er það sem fær þig til að brosa. Hamingjan þér hélt í traustum höndum, hélt fast og mun aldrei takið sitt losa. BT ] [ Ég gef mína gleði og ber mína sorg. Í raun er ég gestur í Reykjavíkurborg. Ég ber mína dóma dreymi ef ég get. Hver einasti dagur er sumar og hret. Ég gef mína sigra og gef frá mér trú. Að allt sé betra en dagurinn nú. ] [ Sólarupprásar sonur. Svo ljúfur og illur í senn. Eins og Evu þú hatar allar konur og eins og Adam þú hatar alla menn. Þú Lúsífer! drottnari hins illa um alla tíð. ó eitt sinn varstu drottins besta smíð en einn daginn skapaði hann Adam og þú háðir mönnunum stríð. Í eplið munu þau bíta! og syndina eina líta! Ó þú drottnari hins illa þú færðir mönnunum þeirra stærstu kvilla! Stolt!losta! og hégóma! græðgi! reiði! og ótta! öfund! óhóf! og ósóma! leti, glæpi og dauða. ] [ Snerta - Ýta - Innihald niður sturtar kvikindið lítil snerting vinurinn Hver man að sturta niður? ] [ Betra er samfylgd en samfygld. ] [ Hér sit ég fyrir framan sjónvarpið ég er hreint og beint að verða bláeygur skil ekki eitt einasta orð - en ég horfi samt ] [ Okkar meður yndi skeður, andans feður þenja móð. Maður séður magann treður, margur veður Bragaglóð. Söngur gleður, sálu styrkir, sopinn hleður líf´ í blóð. Magnús kveður, Magnús yrkir, Magnús seður hal og fljóð. ] [ Ætíð Marta reddar ráðum, raun er ekki á hennar lista. Ef er þörf á ýmsum dáðum, allir nefna hana fyrsta. Andakt hennar aldrei dvín, allra leysir vanda. Enginn er sem Marta mín, til munns og verka handa. ] [ Enginn veit hvað öðrum býr ofar döpru sinni. Margur undan fólsku flýr og flest það lokar inni. Andi dapur og yndi snautt er sem bundinn kálfur. Frelsi hvers er fallið dautt er fær ei vera hann sjálfur. ] [ Hanarnir hæstan gala, hót ei kunna að þegja. Oftast mest þeir mala er minnst hafa að segja. ] [ Molar hafa af mínu borði megnað hrynja til og frá. Oft mér fórst er illa horfði eins og lán mér væri hjá. Yfir land slær öskuryki engin ferð í lofti er. Hangi í rútu sem hænsn´ á priki hart er komið fyrir mér. Ungur maður upp úr sæti annað skárra býður mér. Virðist tíðum vinur mæti á vegi mínum hvar ég fer. Góða vætti bið að blessa og bera þá á höndum sér er ekki sitja eins og klessa ef að vanda að höndum ber. ] [ Kenni hana af kostum stórum, karli að ná var ekki sein. Hefur klakið krökkum fjórum, kona fögur og ýturhrein. ] [ Þrautsegjan hefur þrekvirki unnið, þyggið dæmi á þá lund. Vona að þyki í verk mitt spunnið og vel það lýsi gleðistund. ] [ Orri Snær mér yndi vekur ævi hans fer vel af stað. Einhvertíman að því rekur að hann festi vísu á blað. ] [ Enn get ég fagnað fögrum dögum. Og staldrað við hjá gömlum sögum. Enn get ég beðið ástina að bíða. Eitt augnablik því árin líða. Enn get ég borið beyg í hjarta. Og fannir sem falla um daga bjarta. ] [ Mig dreymdi draum. Ég stóð á miðju torgi í ókunnu landi. Haustlaufin lágu á víð á dreif, líkt og þau væru umkomulaus og villt. Ung kona hljóp yfir torgið í leit að einhverjum, hún grét. Ég greip í hana, og spurði hvað amaði að. Þegar ég sá andlit hennar, stöðvaðist hjarta mitt. Unga konan var ég, örvæntingafull og grátandi. Hvað hafði orðið um mig? Ég var orðin að haustlaufi. Villt í ókunnu landi. En þá vaktir þú mig. Þú vaktir mig og kysstir mig á ennið. Kysstir mig á ennið og sagðir að allt yrði í lagi. Að allt yrði í lagi, því þú værir hjá mér og myndir vernda mig. En ég vissi að draumurinn um haustlaufin í ókunna landinu með ókunnu konunni á ókunna torginu, væri fyrirboði um það sem koma skal. ] [ Blokkin á móti baðast í aftanroða. Blessað sólskinið gyllir hvert rúðugler. Breiðholtið er bjargvænlegt að skoða ef buddan er létt og lítið í henni er. Hérna býr fjöldi fólks af ýmsum þjóðum. Flest eru börnin svört eða gul eða bleik. Margir eiga ekki mikið í sínum sjóðum. Samt munum við standa okkar plikt og gera það keik. ] [ Rigningin fellur og fyllir mína sál fölleitir dropar vökva mínar brár. Sólskinið, sig felur bakvið ský en kannski sólin skíni fyrir mig – á ný. Síðan þú fórst þá skýin hrannast að og sorg mín hefur sér fundið samastað. Drungi mig dettur á sem regn, dagur hver er mér – enn um megn. Á ég von að komir þú í drauminn minn, eða þarf ég að bíða enn um sinn ? Drunginn sem, að deyfði mína sál dvínar skjótt, nú ólgar vonarbál. Rigning er, og dimmir dagar kvelja Rigning er, hvað á ég um að velja ? Hvenær skín, sól, inn um sálarglugga minn ? Hvenær skín hún sól - inn um sálarglugga minn ? ] [ Leyfileg fjarvera frá lesborði er ein klukkustund. Vinsamlegast stilltu klukkuna á þann tíma sem farið er frá borði. ] [ Hvert andartak, hver mínúta, hver augngota, hver setning. Öll þau augnablik, við áttum aðeins tvö. Hvað gerðist? æj segðu mér, hvað gerðist? ] [ Eitt einmana laufblað í golunni bærist og hefur sinn síðasta dans, í alfyrstu sporunum finnur sér vin og saman þau byrja með glans. Þau tvinnast saman í einlægri ást og þá verður ei snúið við. Læðast loks að silfruðum sænum og fljóta þar saman í frið. ] [ Ljáðu vængum mínum byr svo flogið ég geti í draumanna land þar sem skipin sigla aldrei í strand og þér opnast hver einasta dyr. ] [ Mannsblóð drýpur á myglað hey miðdegis skuggar strjálir. Svartklædda konan María Mey minnir á horfnar sálir. Heyri ég bæn og hljóðan grát á hörðum fornum völlum. Við krossinn hafa gengnir gát gleymndir mönnum öllum. Sumir vefja í sagnir eld og sorgir djúpa hlýju. Í Golgata gráta í kveld gamlar myndir að nýju. ] [ Í faðmi þínum ligg ég ánægður Það að vera hjá þér veitir mér trú og styrk um betra líf Þar sem ég ligg sáttur í þínum faðmi Bara ef þessi tilfinning myndi vara endalaust En henni lauk áður en ég gat þakkað þér fyrir að vera besti vinur minn ] [ Slimpilukkan finnst mér flott fær hún margan borið. Þegar menn eru að gera það gott gleðin eykur þorið. ] [ Honum er flest til lista lagt líf hans stanslaus hróður. Konur dá hann, svo er sagt á spretti ei gerist móður. ] [ Skólinn minn er frækinn, fagur fylgir honum myndarbragur. Glampar öldnum gluggum á, glymur bjalla, inn fer þá. -- Þakkir miklar færir fljóð fyrir stuðning ritar ljóð hinum áður Valla-Hóla; Reykjavíkur Lærða Skóla. Þið mér visku hafið kennt frætt mig upp og gefið mennt þessi gjöf er lofgjörð slík Menntaskólanum í Reykjavík að megi' hann starfa ávallt, ávallt óskar þessi stúlka - margfalt. Þakkar fyrir stuðninginn nýútskrifuð. Stúdentinn. ] [ Við litla borðið heima sitjum við saman minnumst liðinna daga tölum um líf, vini og vinkonur hlæjum saklausum hlátri skoðum ljóð saman, þú og ég leitum að orðum og tilfinningu Stundin nemur staðar ég gríp í hamingjuna hætti að spá í framtið þegi og anda djúpt að mér ljúffenga loftinu sem við deilum, þú og ég Ég næ í skottið á hamingjunni ] [ Láttu eftir bölvi og blóti Hentu í glugga stærðar grjóti Syntu á móti straum í fljóti Starðu staðfast sólu móti. Ekki fylgja neinum ráðum Klæddust peysu í 40 gráðum Heilsaðu með höndum báðum Klæddust buxum helst til snjáðum. Fram eftir degi lengi liggja Farðu út er fer að skyggja Með opinn munnin skaltu tyggja Mótsögn við alla skaltu tryggja Allar reglur sjálfur setur Sigurliðið aldrei hvetur Stuttbuxur sé kaldur vetur Sýndu hvað þú getur! ] [ Manngildið mælist ei með stiku. Málafylgjur skortir tíðum rök. Margir naga neglur upp í kviku. Naga sig þó fleiri í handabök. ] [ Sem köttur út í mýri kann ekki á síma að upplifa ævintýri ýmsir hafa ei tíma. ] [ Að Blíða mín tölti mun bæta minn hag þá best má hún götuna prýða. Nú hana Þórður minn þjálfar hvern dag og þess ekki langt að bíða. ] [ þú fæddist mér sem lítið ljós og lífsgleði gafst mér að nýju. En nú ertu veikur sem visnandi rós. Guð vefji þig ást sinni og hlýju - svo hlátur þinn hljómi að nýju. ] [ Þú ert lítill og ljóshærður drengurinn minn og liggur í rúminu þínu. Ég kom til að hugga og hughreysta þig og halla að brjóstinu mínu. Hver var það sem brást? Var það ég eða Guð? Ég veit því er erfitt að svara. En það veit ég þó að sé eilífðin öll ein þjáning, mun ást mín samt vara. ] [ Nú vindarnir blása í vestur þar sem vorið við himininn ber. Í vestfirsku fjöllunum brestur því firðirnir bíða eftir mér. Í sorta og storminum yfir standbjörgin kalla til mín. Og brennandi leiftrið sem lifir leiðir mig ennþá til þín. Við Djúpið er dagurinn bjartur en drottnandi stendur þar vörð. Riturinn svalur og svartur er skimar um hafdjúpin hörð. Úr hömrunum heyrist þar grátur er hafaldan brotnar við hlein. Áður var ljósið við látur nú logar þar minningin ein. En heima beið vinur í vonum og vakti um niðdimma nótt. Er sorgirnar sigldu að honum með sárin af hafinu hljótt. ] [ Blóðpeningar gleðja og bófa til sín draga, bænir duga skammt þegar illt á að henda. Launmorð eru Ríkisins lausnir vorra daga, læknar keikir segja: ,,Ekki á mig benda". ] [ Af yndisþokka er ég full og eldist ei. En í sálinni er sullumbull og sjálfsmynd af Dorian Grey. ] [ Heyrðu í mér fossbúi því sögu ég segi þér um óréttlæti heimsins gegn barni mínu hér. Ég ól það upp í móa við auruga á en get því ekki haldið og því skaltu það fá. En eitt skaltu vita að ég elska það mjög og því skaltu á það líta sem litla vöggugjöf. Ég ekkert hef upp á að bjóða nema líf sem flóttasál og þótt því erfitt sé að trúa þá á hér móðir mál. Þú fyrirgefur mér tárin því mér finnst það nokkuð sárt að gefa þér öll árin sem við hefðum getað átt. Því það viðkvæmt og verðmætt og lítið og valt en þá synd sem er verst að drýgja er best að drýgja hratt. Svo ég tek á mínum trega og ég tek á minni þraut og sendi það til betri vega, sendi það á betri braut. Því bið ég, fossbúi, að þú gætir þess vel, því í barnið legg ég líf mitt og í hendur þínar sel. ] [ Annes öll á yztu leið eru fingur þínir. Hjartað þitt er Herðurbreið höfuð jökull krýnir. Upp á heiðum andinn er Íslands forni smiður. Egghvöss grjótin eru hér ef þú fellur niður. Vörður bjarga þreyttum þér ef þokan að þér líður. Þangað sem að ástin er ein við gluggann bíður. ] [ Ég yrki ljóð mín út og suður ef svo ber að gömlum sið. Eftir japl og jaml og fuður játa ég, hvað haldið þið? Best mér væri að borða ruður bregða á leik og reka við. ] [ Ég skal yrkja við útför þína einn og æðaber. Og gráta við gardínurnar með guði og sjálfum mér. Ég skal í steininn höggva sorgar tárin mín. Og horfa út til heljar himinsins og þín. Með augum skal ég aldrei líta önnur djásn en þig. Þótt rigni gulli og gimsteinum á götuna og mig. ] [ hæ sæta! sæta sæta sæta mín hvert fórstu? fórstu að kaupa ís án mín ] [ Átveislan hér yndið veður og menn drekka að gömlum sið. Ásgeir og Sigfús eru oss meður og svo fleira háskólalið. ] [ Sá ég stúlku standa á palli, staðar námu hjartslög mín. Það var sem að þyrmdi yfir kalli. Þannig er ást við fyrstu sýn. ] [ Ungdómurinn misjafnlega gott af sér getur gleður þar margt en oft í verra fer. Erfitt er að kenna þeim sem allt vita betur og ekki hafa tíma og þolinmæði í sér. ] [ Lífs um daga lömb í haga ljúfast naga grösin smá. Blóðvöll vaga, búin saga bóndans maga seðja þá. ] [ Til folaldseigna Gullsokka farin er flott mun Doddi Blíðu tölta láta og blesurnar mínar bíða eftir þér bera vilja þig um glaða og káta. Gulltoppu hef ég heima við hlað hún er meira sem óskrifað blað. ] [ Ljósa hárið heillandi, hláturinn svo dillandi. Brosið blíða villandi og augnaráðið tryllandi. ] [ Takk fyrir að leyfa mér: að elska þig að dreyma um þig að sakna þín að dýrka þig að dá þig að kalla þig minn að hugsa um þig :jafnvel þótt þér liði aldrei eins og mér. Þakka þér fyrir: að sleppa mér að treysta mér að sýna mér að skemmta mér að vera þar að brosa til mín að gefa mér von :jafnvel þótt það varð aldrei meira en það. ] [ Ég óskaði alltaf að þú myndir elska mig og dá, þurfa mig og þrá. Ég var alltaf til staðar fyrir þig þegar þú þurftir hjálp. En þá vildiru enga hjálp. Svo þegar ég loksins gafst upp, þá þurftiru mig og þráðir, elskaðir mig og dáðir. En það er bara alltof seint .. ] [ Kórónan situr enn á höfðinu, þótt hárið sé í rugli. Andlitsfarðinn allur runninn, og kjóllinn rifinn. Augun sokkin, blóðug vör. Raspað hné og marin öll. Hællinn brotinn á öðrum skó og á sokkabuxum lykkjufall. Allir reyna að tala við þig, fá uppúr þér hvað gerðist. Það eina sem þú svarar er "það skiptir ekki máli" En við vitum betur. Þú brosir feimnislega, lagar þig til. Þarft að láta sem ekkert sé, mundu..þú ert prinsessa! ] [ Skýjabólstrarnir breiða og dylja. Það sem guðirnir geyma og hylja. Þegar skuggarnir sveima á kveldin. Þegar dagarnir deyja við eldinn. Þegar vonirnar sindra og soga. Þegar bænirnar brenna og loga. Þá merlar á minningarnar og árin. Á dökkvann og draumana og árin. Því ylur æsku ára er sætur. Ef á sér föður og móður og rætur. ] [ Vill í sjoppu aukast atið afgreiða þurfi bílalest. Flýtirðu þér í fremra gatið fullnægingin verður best. ] [ Foringjanum fagnað er, finnur til sín mikið. Oft er svo að fljótt hann fer að fara yfir strikið. Óþokki ef að er í sér ógn og glæpi smíðar. Dabbakúta og Dóra hér dáðir eru ei blíðar. Foringjans mál er mesta megna ríða á vaðið. Hrokinn fellir flesta þó fái oft lengi staðið. ] [ Þú gekkst þinn veg úr alfaraleið og endaðir á gömlu eiði. Þangað er stígurinn þungur í reið í þoku á snjóbrattri heiði. Hendur þínar voru svartar í sól þú sóttir í dimmu og nepju. Samt komu af himnum hin hvítu jól og hanska á fingur þína létu. Enginn sá þín ör og banasár allar vonir þínar bjartar. Þá brenndu hanskann blóðug tár og bænir þínar urðu svartar. ] [ Ég sakna þín oft, en ég segi engum frá því. Er það þá unaðssök? ] [ Allt er gott sem endar vel, indælt slæmu að gleyma. Í Drottins hendur framtíð fel og fell í draumaheima. ] [ Ég á dýrð í dagsins funa dul í ölduföllum. Ég á stormana stríðu syndina blíðu. Ég á eldheitan anda og ólgurætur. Ég á bálið sem brennur blóð sem grætur. Ég á sakir og sektir og seiðandi loga. Ég á söknuð og sárin og sólskinsárin. Ég á gleði og glettni og gamla vinaslóð. Ég á drottins daga drauma sem fara ] [ Verið hefur sagt með sann svo má andann næra, sem að neisti kveikja kann í kesti loga skæra. ] [ Engum manni líkar last þótt ljóður sé á ferðum. Ekki er ráð að fara flast að fola lítið gerðum. ] [ Hér er sól og sautján gráður sem er bara nokkuð gott. Ég er einn og engum háður á þó lítið kattarskott. ] [ Ég horfi á mynd Falleg kona Sorgmædd í augum Svo dauf,svo frosinn Hvað er að? Ég velti henni fyrir mér Svo gömul En svo ung Dáinn sál Lifa en vera ekki lifandi Þessi fallega kona er dáin í dag Hún tók sitt líf Fór á betri stað Fékk loksins frið, Friðinn sem hún leitaði svo lengi að Hún lifir enn meðal okkar Og fylgist með öllu Verndar okkur hin . ] [ Svo fallegt allt hvítt Snjór út um allt Ekki svo hlýtt Mikið er kallt En börnin leika Allir glaðir ,allir sáttir Mikill ást Fjölskyldustund svo falleg Frosinn stund Góð minning. ] [ Ást, ástin er blind, við hugsum " en hvað stelpan er fín. Við verðum öfundsjúk, það er synd, trúir þú á ást við sýn. ] [ Öllum er hún ætíð góð óléttan ekki vandi. Hún á yndi og æskumóð enn í góðu standi. ] [ Í góðu veðri gerast sífellt undur, góða veðrið hleypir mörgu af stað. Úti á götu æðir svartur hundur, einhver er að tína skít í blað. ] [ Óráðsían er sem helför hér um slóðir að heimsku sinni kjósandinn hlær. Það vilja allir teljast gáfaðir og góðir en geta fáir ef Mammon þeim nær. ] [ í praxís virkar ekkert að hafa yfir gáfulegt orðafar ] [ Oft er deilt og allt í stáli, ekki nýtt menn sleppi sér. Tvær eru hliðar á hverju máli, hafa skal það sem réttast er. ] [ ég var aldrei ein af þeim sem sögðu: ýkt. ] [ Þessar heiðar þessi fjöll og þrá eftir vori. Með voða og vatnaföll og vík í hverju spori. Til ykkar kem enn í dag annarlegt sprek á fjörum. Allt er hér með öðrum brag og annað bros á vörum. Fögur er mín forna slóð en finn í mér kvíða. Veit um gömul banablóð er blika hérna víða. ] [ Skv. 21. gr. auglýsingar nr. 132/1974 um íslenska stafsetningu virðist svo vera sem að ef ég segðist ekki geta hætt að hugsa um þig nakinn og sveittan þá væri það rétt stafsett. ] [ Horinn margan dapran dróg þar dauðinn var til svara. Gott er að eiga af öllu nóg og aukakíló til vara. ] [ Asni er sá sem annan heldur blauðan Alltaf skyldi varast reiðan mann. Of seint er að iðrast eftir dauðann. Ekki að vita hvenær birtist hann. Gylfi og Steingrímur stjórna hér enn af sturlun þeir lög vilja brjóta. Hröklist frá völdum vesælu menn varmenni slík ætti að skjóta. ] [ Útlenskir skindibitastaðir, útlensk tónlist, útlenskar kvikmyndir, útlenskir siðir, útlenskar sólarstrandir, útlenskir háskólar, útlensk mint, útlensk merki, útlenskur, útlönd. En EKKI útlendingar. ] [ Mál í landi geysa grá gefst á knappur friður. Þingmenn lumbra þjóðinni á það er fastur liður. Rassatakan þraukar þrátt, þarminn fastar strengi. Ennþá á ég yfirdrátt en hvað verður lengi? ] [ III Afturábak ef þú vilt II En þetta er miðjan I Afturábak ef þú vilt ] [ Gleður jafnan gott að heyra, gaman hleypir anda í bál. Lauma frá sér lofi í eyra lífgar upp á hverja sál. ] [ Allt er þetta út í hött oft þó látið fokka. Að pulsa hest og pelsa kött og prjóna göt á sokka. ] [ svartar rósir vafðar í krans af fingrum örlaganna sem þau rétta björtum sálum og slökkva ljósin. og sólin skein svo skært, svo skært í dag en í innsta hringnum er nú myrkur því fingur örlaganna spunnu þér annan vef en öðrum - þó þú sért umvafin ljósi, þá eftir sitja hinir. er það undarlegt að ég syrgi þegar ég þekkti þig ekki en var snortin af því sem ég sá í þér? ég vildi óska að tilefnið væri annað. ég gef þér þetta ljóð. ] [ Gull og grænir skógar koma og fara. Og auðnustundir allar af því bara. Er klukkurnar klyngja og ljósin dvína. Er kveldroðinn lýsir og stjörnur skína. Koma englar saman og sporin telja. Mín og þín og lítil á milli skelja. ] [ Lof er sætur söngur eyra, syngur mætur vinur kær. Oft það lætur augun dreyra, yljar rætur hjarta nær. ] [ ilvolgur asparsnjórinn fýkur í skafla á sumardegi eins og til að minna á hverfulleikann að aftur kemur tími hinna köldu snjókorna biðukollan hneigir sig æðrulaus líkt og aldurhniginn heiðursmaður sem hefur nógan tíma andar að sér ilmi bleikra rósa á nærliggjandi runna baldursbrárnar kinka kolli vita að nú er tími til að njóta það kemur síðar sem koma skal ] [ Ef þú hittir unga víf áttu að taka slaginn. Sagt er að það lengi líf að leggja sig á daginn. ] [ Lítt hér eystra sólin sést, suddaregn er iðið. Hrjáir landlæg hestapest, hægt og lítið riðið. En gleði að í langri lest læðist inn á sviðið. Eistnaflug er bæjar best, bjart er gestaliðið. ] [ Daginn eftir minnir mann að minnisleysið plagi hann ýtt á ctrl, alt, delete restart, flatur bjór, repeat ] [ Ruslið lá um allt við söfnuðum ruslinu saman og fluttum á sorphauga þegar við snérum til baka var komið meira rusl á víð og dreif Við söfnuðum ruslinu saman mest með berum höndum en líka með vélbúnaði við fluttum á sorphauga og er þetta hluti af því þá snérum við til baka ] [ Dásamlegur er dillibossinn dýrðlegt reiðargaman eftir ljúfan ástarkossinn elskaður að framan en merk þykir mennigarvartan sem messar hann að aftan. ] [ Ég á norrænan anda við úthafs strendur. Þekki sæbarða sanda og suðrænar lendur. Skip mín kopa af kala kalt er við núpa. Vakin af vetrardvala voginum lúta. Ég á eiða og ættir í ögrum og víkum. Á sæmndir og sættir í stórmennum ríkum. Ég sigli til strandhöggva skip mín hræðast allir. Og draumar mínir döggva dauðra manna hallir. Ég átti lifsins lukku leysti afl úr böndum. En skip mín sukku seglum þöndum. ] [ Stubba fótur styttri en hinn stamið mitt var kækur. Enginn vildi vinur minn vera nema bækur. Svo yfir bókum lasinn lá lesandi um agrippu. Útundan ég gleymdi þá að ég hefði krippu. Svo seinna fann ég köllun það sem ég tók í fóstur. Í eintökum ég gerði blað og nefndi blaðið róstur. ] [ Til yndisstunda er ég fýsinn, oft ég mér í leikinn brá. Er að koma draumadísin, dýrðlegt verður lífið þá. ] [ Ættarljómi og engum lík á til margra vitra. Fádæmi að fæðist slík, fögur innst sem ytra. ] [ Mikið hvað sá maður vann má hann telja frábæran. Fjölskyldunni fagurt ann, fjarlægur við nágrannann. Misjafn tel ég manna gaman margt er sem ei skilið fæ. Ekki barst hann árum saman yfir læk að næsta bæ. ] [ Bómullarhvít skýin færa mér hlýju í sál minni róa hjartað mitt fylla mig orku og þreki gefa mér nýja von! ] [ Það er stundum þreytandi þegja og segja ekki neitt. Hitt er að vera veitandi og vita ekki neitt ] [ Yndi og hagur yrfið rís allur vænkast sóminn. Barst að okkur Belladís besti reiðarljóminn. ] [ Torkennilegur tregi fylgir mér. Draumar úr gömlum dögum eru hér. Og árin að mér bera yl í sér. Og ljósar nætur læðast enn í mér. Og þig ég aftur aldrei sá. Þú fórst síðustu skipum á. ] [ Gefðu konunni blóm án tilefnis, glumdi í útvarpinu á árum áður. Sumir menn glöptust til að gera þetta en þá sögðu konurnar: ,,Hvað varstu nú að gera af þér auminginn"? ] [ myrkur vindur sumar regn bylur á rúðunni slær af lemjandi krafti ég bíð þess að því sloti það blæs byrlega, duglega af ofstæki trúarjátningin glymur í eyrum okkar strandirnar bíða betri tíma bíða mikinn skaða á kaffistofunni situr ljóðið sýpur kaffi heyrir í útvarpinu leiðinlega tónlist og dánartilkynningu um sig inn um lúguna bréf frá andskotanum hann er lögfræðingur heimtar að fá að heimta inn ég segi þvert nei langt nei slæmt nei nei sem hefur afdrifaríkar afleiðingar afkastamiklar afleiðingar aflífandi afleiðingar afarkosti ] [ ég horfi fram í haustmyrkrið sveipa mig verndarhjúp dæsi dreg frá gluggatjöld fávisku minnar hreinsa æsku mína og tel bíð eftir þessu andartaki sem færir mér ró í hjartastað ég hopa fyrir vandlætinu sem umlykur skel mína í myrkrinu ég bý mig undir svartnætti ég feyki af stað andardrættinum hef upp hugsanir mínar fleygi þeim af stað fleygi þeim í ruslatunnuna ég þvæ hendur mínar af þessum leik ] [ kem ekki hugsunum í orð leita uppi frelsanir hversdagsins þetta er miðjumoð ég feta stíg allra hinna gleymi sjálfum mér í vítahringnum hugsa ekki sjálfstætt þaggað mótlæti litað af hatri við berum sök okkar sjálfra enginn hlustar allir tala óttinn breiðir sig yfir allt þekur tilveruna og þaggar niður í mér ég hefni mín á kvölunum ræð veruleikann af dögum slekk logann dreg tjöldin fyrir og sofna þöglum dauða líf í svartnætti tæmir hugann ég dreg ályktanir af vitleysum treð mér upp að ömurleikanum eymdin þráir hann ég gefst upp ] [ Kynngimögnuð kameltá lét þar á sér kræla líst mér þá svo illa á ég þarf nú að æla. ] [ -Sömuleiðis mín álfamey, handan rúms og tíma - ég skilaboð fékk á síma. Hvenær munum við dansa, stansa til að dansa í myrkrinu, í húminu í skúmaskotinu í rúminu? en ekki tala sakleysislega yfir víni konungur djöflanna, drottnari mannanna, vargurinn, ótti minn, sem bindur mér helskó og þyrnikórónu hve lengi þarf ég að bíða? handan rúms og tíma handan rúms og tíma. -Drottning undirheimanna ég bara spyr. ] [ Svartar fjaðrir falla frá dauðvona frelsinu fjúka sem ryk á hverfandi jörð Það sem áður flaug frjálst er vængbrotið Allt sem áður var er horfið Sölt tár, af titrandi himnum kveðja falla sem bensín á brennandi jörð það sem áður var tært, er eitrað Allt sem áður var Er horfið Eldhugar sofna frá taktlausu hjarta Berjast um að sjá nýjan dag Það sem áður felldi hug saman fellir hvort annað. Allt sem að áður var Er horfið ] [ Tígurlegar muna menn meyjar ríða í söðli. Trítlar litla Trjóna enn í túninu á Röðli? ] [ Víða eru vinafundir, vambrar fólk með létta brá. Það er blíða um þessar mundir, þokan vikin leið og grá. ] [ Blótirðu vinur þín blá verður tunga, bannsettir púkarnir skemmta þá sér. Ljóst er að hvarvetna lífið ber þunga, láttu ekki smámuni skaprauna þér. ] [ Lukkan þótt spili á lúkurnar berar leikur þá dýrustu tóna er menn þrá. Hún á til að leysa hægðirnar sverar og hafa oft stórt til að skeyna sig á. ] [ Hann sofnar stundum hlæjandi. Hann sofnar stundum grátandi. Hann sofnar stundum strax. Hann sofnar stundum seint. Hann sefur núna. ] [ Fyrstur ég fer á fætur, Forðast að barnið grætur, Frúin fær að sofa út, Frumburður sýpur nú á stút. Hlátur hans er hlægilegur, Hljómur hans þægilegur. Frúin vaknar, barnið brosir, Frekur í hana tosir. ] [ Er ég komin innan um fólk, ástand met og vega. Gefðu mér nú meiri mjólk mamman yndislega. ] [ Í dag er yndislegur dagur brúðkaupsdagurinn. Við finnum samhljóm kærleikans í hjörtum okkar. sjáum ástina í augum ykkar heyrum ljúfa tóna hins söngglaða dags. Ástin snertir ást þess sem ástin veitir sá sem gaf okkur lífið ástin og þig. ] [ Blekktur var ég lengi lengi, lúmskur lék á sína strengi, minn allra versti óvinur, sjálfur undirritaður. ] [ Áttum náð í augnablik, aðeins til að krota strik, í sandinn og svo leggja af stað, í suðnorðvestur auðvitað. ] [ Heiðra vil ég heiðursmann Hreiðar Gísla sjötugan. Leti og kergja líta ei þann leikinn bílakennarann. ] [ Bryggjur drjúpa höfði og blessuð húsin brosa gegnum tárin. Héðan þeir sóttu um haust og vetur á hafið gegnum árin. Og göturnar segja frá gömlum dögum og gráti barna. Er bátarnir fórust í bláum djúpum og bliki stjarna. Húmið að mér læðist og hvíslar; gráttu hér var áður kraftur. Og kaldar öldurnar kalla glaðar; kondu vinur aftur aftur. ] [ Á þeim tíma, á þeim stað þegar undrin voru falin á þeim tíma ég bænir bað um miða í brottfararsalinn ég sat sem fastast á fjallagrjóti og fortíðina ég aftur spann ég ofan gekk en þó upp í móti og yfirgaf allt það sem ég fann og sól á himni sýndi sig og mér sýndist allt verða blárra gætirðu hætt að glíma við mig og gefið mér eitthvað skárra uppá fjallsins eina toppi ég dalina víðu leit í einu heitu hjartastoppi ég hélt ég sæi norðursveit ég aftur kom til leiks og lífs og leit nú á þær tíðir er ég átti til skeiðar og hnífs og enginn hér eftir að þú flýðir en sól á himni sýndi sig og mér sýndist allt verða grárra gætirðu hætt að glíma við mig og gefið mér eitthvað skárra gleymdu því sem gleyma má ég skal gleyma öllu hinu illgresið og ástin smá eru að verða að sinu og ég á mig og þú átt þig og því er best að sofna því tíðin okkar er tilverustig fyrir tóma tekjustofna. og sól á himni sýndi sig og mér sýndist allt verða blárra gætirðu hætt að glíma við mig og gefið mér eitthvað skárra ] [ Runnin er af mér reiðin, ræðst ég því til úrbóta. Nöktum kennir vízt neyðin, neikvæðnin fær því að fljóta. ] [ Sumarið sem ég elskaði siðblindingjann, var sumarið sem ég kynntist Bakkusi og gálulegar girndir fæddust inni í mér Sumarið sem ég elskaði siðblindingjann, var sumarið sem ég kynntist lostanum og táningslegar tilfinningar báru mig ofurliði Sumarið sem ég elskaði siðblindingjann, var sumarið sem ég drekkti samvisku minni og taumlausum teitunum ætlaði aldrei að linna Sumarið sem ég elskaði siðblindingjann, var sumarið sem ég sveif um á bleiku skýi og hundsaði háðspottið gegn öllu sem ég trúði Sumarið sem ég elskaði siðblindingjann, var sumarið sem breytti öllu og tók u-beygju umhverfis öll mín gildi Sumarið sem ég elskaði siðblindingjann, var sumar drauma minna og tími lífs míns. ] [ Þú ert mættur á völlinn. Glaður skráir þú þig inn. Þú ert fyrstur. Við tekur glæsilegur heimur óendanlegur og án takmarkana þar sem víðáttan, gleðin og algleymið fangar þig – Þú ert langflottastur... og tekur flugið ...í smá tíma, en þá er kallað er á þig í biðsalinn. Þú bíður í biðsalnum, jafnvel óralengi, þar til kallið kemur um borð í vélina sem flýgur með þig á endastöðina. ] [ veggjakrotið útum allt ljótt er á að líta enginn ofn og drullukalt inná Priki er að skíta ] [ Auð hús stál brotnar í vindi Óp á velli eyru grafin í stein Raddir í þögninni ósk framtíðar stjórn fortíðar ] [ Hvítur fugl á bláum himni gult blóm í grænni laut rauðar varir á bleiku skinni græn augu og svart hár Svartur fugl í hvítu skýi blátt blóm á grænum stilk gul peysa á bleiku pilsi grænir sokkar og rauðir skór ] [ Ég er svona frekar fúl og fer þess vegna að sofa. En hvern morgunn hipp og kúl og hlýt því daginn lofa. ] [ Færð er oft léttust á Leirunum og líflegt hjá Siggum og Geirunum. Árni á Bóli oft var á róli úti að troða með Eyrunum. ] [ Nóttin er löng Og dagurinn stuttur Og áður en ég veit Þá er sólin sest aftur Líður illa á Daginn Og get ekki sofið á kvöldin Vegna kvíða fyrir fyrir morgundeginum, Mánuðnum, Árinu Og lífinu Karl Friðrik Hjaltason ] [ how can i love myself after perfecting this self-hate? I want to shout stop me now yet knowing I'm too late So much time has already passed but one thing still remains that my love and kindness to other ones that will never change We all make mistakes in life, and i know that I've made more than a few Please know that doesn't change the fact I truly cared for you The love we shared may have been brief, and now it's just our past But the impact that you have left on me will forever last No matter where we go from here, no matter where we've been What I miss now most of all, is not some good friend , it's the old me Karl Friðrik Hjaltason ] [ Remember the time when you where a child. you could run into your mother´s arms she would care for you she would talk to you and ask you ´´Whats wrong dear?,'' and she would tell you ´´It´ll be all right,'' As she gently stroked your hair. Do day it is cold and i feel sorry for you and this remarkable mother´s love isn´t a cure it´s time to think fast, What can i do? Hard to face it on your own. when your down and unsecure you want to say that you miss her and the life that you once led you´r hoping to be forgiven and forgiving your self as well you want to say you´r sorry for many reasons left unsaid now stand and hold your head up high and no longer sit and dwell Karl Friðrik Hjaltason ] [ Vinur minn, þú stendur í rigningunni minni tindrandi Dauðlegar tilfinningar og einmanaleiki og Engin þörf er á að finna fleirri Ég hef verið hérna áður og ekki vil ég vera Dvelja hérna lengur hjarta þitt liggur nú í líkkistunni og hugafar þitt lyfir enn í fortíðinni og Kaldar dimmar hugsanir um ferðalag Langt frá þínu heimili blá köldu Jörðinni Ekki hafa áhyggjur, því þær munu fara og ég skal hjálpa þér að elska þig og aðra Settu það leingst í þinn huga þar sem þú munt ekki aftur ná Látum það hvíla þar og þú munt sjá Kolsvarta regnskýið hverfa smátt og smátt Ný ást mun hjartað þitt gleðja og ljótar sjálfsvígshugsanir hverfa Sjálfsálit mun koma aftur fram og Einn daginn munt þú vera fær til segja Vinur minn, þú stendur í rigningunni minni KFH ] [ Dregur mann niður, fortíðartal. Um það sem að breyttist og það sem var. Framtíðardraumar, um það sem þú vonar. Vonar og óttast, aldrei frjáls. Núna, að eilífu. ] [ ...og uppgerðarhressleikinn hættir sér inn á svið nú herða skal vopnin og láta ei deigan síga og brátt skal ausið úr viskubrunni ad vild og volgrað í sig kaffið nýbrennt og malað og þjáningarbróðir er eins og fundið fé og færist nú skörin óðara upp á bekkinn nú skal sko láta þá finna fyrir sér sem fara um í sakleysi grunlausir um hrekkinn og svo er steypt og þvaðrað og blaðrað um allt að þessi eða hinn sé svikul eiturnaðra af hverju er þetta svona en ekki svo af hverju getur enginn verið sko og steypst er niður klungur kletta og grjót og kæst við hvert eitt smáblóm traðkað niður og fleiri bætast í hópinn og fylgjast með og við formælingu hverja eykst ánægjukliður og gervimennskan er loksins að finna sig og fordæmingin er komin á æðra stig uppgerðarhæverskan hreykir sér hátt á haug nei haldið nú kjafti hann vissi betur en laug og haninn spígsporar vagar og kjagar gaggar og þaggar og glefsar í menn og uppgerðarkurteisin sest undir stýri að vild og stefnir á loft við lófaklapp muldur um snilld farið þið frá hér er alvörumaður að störfum komið ykkur burt ég sinna þarf æðri þörfum og vitleysisbrjálæðið vindur utan á sig á vel ýktum hraða geysist um himnagrundir og hver veit hvað segist títt um sjálfan þig allavega ekki betra en um þá sem verða undir en á bakvið dyljast daufar sálir að drepa tímann og stytta sér stundir ] [ Týnd í eyðimörk komandi lífs Hef ekki tíma til að horfa fram á við Finn hvernig regnið fellur af ofan Þurrkast upp við snertingu bálsins Í allri sinni dýrð Rís það upp yfir höfuð Hitar holdið bleika Verkjar í fingurgómanna Þeir springa eins og blóm að vori Blóðslettur fela brosið á andlitinu Bráðnað málverk á frosnum vegg. ] [ Hesturinn minn fagri hesturinn minn blíði hestuinn minn fríði. Farðu með mig á brokk farðu með mig á tölt. Hesturinn minn fagri hesturinn minn blíði hestuinn minn fríði. ] [ Ástin neitar að fara reiðin er mikil þú settir tímaglas í hjarta mér bráðum rennur tíminn út Tárin neita að koma reiðin er mikil þú settir bát í huga mér þar ruggar hann og ruggar Gleðin neitar að koma reiðin er mikil þú stakst kúbeini í bakið á mér viltu vinsamlegast taka það úr! ] [ Það valsa um margir á skítugum skónum og skeyta ei um hvort þeir stigi á þig. Vor heimur er fullur af fíflum og dónum, sem fást ekki til að kynna sig. ] [ það er fegurð í hverjum örsmáum sólargeisla, sem dekrar við öllum nema fórnalömbum örvæntinga. Sem gerir andlega sár þeirra tóni dekkra, Ekki verið neitt að bæta né tekið burt það gamla, skiptir út gleði fyrir eitthvað mun ósanngjarna, og gefur upp von þeirra, til að gera eitt eða neitt betra. KFH 15 ára ] [ Ég þrái návist þína þótt liðin séu ár. Og grónar götur skína í gegnum bros og tár. Þú fargi þungu feyktir og fönnin hvarf þá öll. Á kyndli þínum kveiktir og kot mitt varð að höll. Og heiminum ég hleypti á harðaspretti inn. Og fyrri fjötrum steypti og fann að ég var þinn. Þótt ferðalúinn fari um fjöllin reginhá. Og út á öldur stari ég elska þig að sjá. Er kveðju skýin synda og safnast um himininn. Þá fer ég faðir vinda í fúinn kofann minn. ] [ Á Íslands öllum leiðum allt var laufguð mörk. Ernir voma á veiðum vor í hverri björk. Af fjöllum fagurbláum féllu í djúpin græn. Lækir er sungu smáum sumar rósum bæn. Og skipin fyrst við sanda sáu við jökul rönd. Elda lands og anda okkar heimalönd. ] [ fæ frábærar hugmyndir en þori ekki að tjá þær með orðum finn kitling sköpunarorkunnar erta eitthvað sem sefur hið innra eitthvað latt sem vill liggja kjurrt skortir kjark að fylgja þræðinum sem hverfur inn í þokuna gleymi í sífellu að í þokunni búa töfrar þá fyndi ég – héldi ég þræði ] [ Þú varst svo ástríðufullur gagnvart mér, sýndir mér svo mikinn áhuga að ég hélt ég væri sú eina og þú sá eini. Ég vildi svo við værum það. Þessi stutti tími sem við áttum saman var svo draumkenndur, ég hef aldrei upplifað draum áður. Svo kom einhver og hreyfði við huga þínum. Ég vildi svo gera allt fyrir þig, hugsa svo vel um þig, hvað sem er. Þú gerðir þér svo ekki grein fyrir því þegar þú kvaddir mig í okkar síðasta símtali hvað ég vildi að þig hefði haldið áfram að dreyma. Nema hvað að þig var ekki að dreyma, þetta var allt minn draumur. eða svoleiðis... ] [ Klettar geta grátið gráir við hvítan tind. Lífið getur látið liti fegra mynd. Bæði geta brunnið bænir og fögur heit. Enginn getur unnið árin sem hann sveik. Móður moldin geymir minningar og svör. Allt þó áfram streymir þó eftir standi ör. ] [ Það skal vera satt það sem á hana er lagt allt nístandi kalt komandi frá þér þúsundfalt. Það skal vera ljóst að þú gengur um hljótt ég stíng þig í hjartað fljótt inn í ískaldann jökulinn verður það sótt Hjarta þitt hún bræðir með eldi af sínu klæði berskjölduð, rennur af henni æðið óttalaus náttúrunni gefur þitt sæði. ] [ Vænt mér þótti um vanga þinn er var ég lítill drengur. Við skulum leggja kinn við kinn og kela svolítið lengur. ] [ hann segir að hún sverti sig, hann svertir sig sjálfur, með eilitlu áfengi verður heilinn hálfur, hann mun niðurlægja allt og alla, við ímyndum okkur nöfn sem hann mun okkur kalla. lítil sál í rigningu og roki, ekki er skrítið þó hjart'ennar doki, að þetta taki við hérna heima, bölvun sem hún verður öllum að leyna. hún hræðist kjaftshögg þessa manns, hræðist einfaldlega nærveru hans, ráðvillt og særð hún ráfar um marin, getur ekki skilið hví ástin er farin, sér auglýsingu í búðarglugga, föður sem börnin sín myndi hugga, hann var 12 ára gamall með þriggj'ára systur, strax hættur að trúa að til væri kristur, óp og læti kvöld eftir kvöld, á föður hans áfengið tók öll völd, er hljóðnaði óskað'ann að pabbi væri farinn, því að kannski þá yrði hann ekki barinn. systirin grét, hann þoldi ekki meira, hann kallar til föðurs sem vill ekki heyra. faðir hans kastar glasi fyrir hornið, og fyrir slysni hann hittir í barnið. það brotnar á gólfinu, hann lætur stúlkuna frá sér, og spyr föður sinn "hvað er eiginlega að þér?" faðir hans rýkur að honum og hendir í gólfið, hann rankar ekki við sér við skelfingarópið, í litlu stúlkunni fyrir aftan þennan dreng, sem undir honum lenti í litlum keng, móðirin æpir og tekur stúlkuna í fangið, og dregur út glerið sem í hjarta barnsins hangir. hreyfingarlaus lá í faðmi móður, vegna föður sem varð af áfengi óður. ] [ lífið gengur sama hvað, spilin raðast við ráðum engu um það, hvaða spil kemur næst, tromp hjá þér og ósk hefur ræst, tromp hjá hinum og og pressan eykst, eitt spil og öll vitleysan hefur breyst. eins með lífið það bara gengur, oft eru engin tromp og við nennum ekki lengur, að spila áfram í því er ekkert vit, en á endanum mun lífið sýna okkur lit. svo spilum áfram ekki leggja spilin frá þér, því að augljóslega engin framtíð sína sér. ] [ skemmdur hugi, útskorin læri, náföl og köld hangandi í snæri, hvað kom fyrir þessa litlu sál? brautin sem hún gekk reyndist bara of hál, byrjum á byrjun hún var ung lítil dama, viltu vita meir eða er þér slétt sama? hlustaðu, hún var ung og sæt og saklaus snót, en henni var varpað snæri um fót, felldi hana og dró hana niður, fólk heyrði ekki lengur röddin varð kliður, hún hrópaði á hjálp en það vildi enginn heyra, einn daginn hún ákvað að hún þyldi ekki meira. hvað var það sem kom fyrir hana? hvaða snæri varð henni að bana? hún var þrettán ára og gekk veginn ein, margir skrattar vildu gera henni mein, en hún var of blind til að sjá það illa, þessi blíði drengur var í raun hættuleg villa, hann tók hana í fangið og bar hana burt, lengst inní skóginn allt var hljótt og kjurrt, hann reif hana til sín og tók hana með valdi, myrti sál hennar og hana í runnanum faldi, hún rankar við sér, öll útí blóði, sér að þarna liggur að bænum slóði, hún stendur upp og pínir sig af stað, svo kemur hún heim og leggst oní bað, það blæðir og blæðir þetta skilur hún ekki, þessi athöfn hafði nú um sál hennar hlekki, stúlkan gat ekki munað hvað var að gerast, hún var of máttfarin til þess að berjast. skemmdur hugi, útskorin læri, náföl og köld hangandi í snæri, nú veistu hvað kom fyrir hana, það var ástin sem blindaði hana til bana. ] [ fatahengi í forstofunni en, svo standa mál að það að niðurlotum komið er ég segi ekki meir ] [ sænska kommóðan hér á sínum stað og hefur ætíð staðið fyrir sínu ] [ lofum miðstöðvarofninum að vera þar sem hann stendur engum til ama hvers á hann svo sem að gjalda þó hitaveitan sé komin í húsið ég bara spyr? ] [ slökkvum ekki ljósin þegar farið er út gott er að vita af logandi fjörtíukerta- perunum þegar komið er heim höfum kveikt! ] [ látum vera þó sjónvarpskassinn standi þarna á sínum stað hitt er verra það kemur engin mynd þegar kveikt er ] [ þegar loksins var látið verða að því að fjarlægja jólastjörnuna úr glugganum -þetta gerðist þann 15. febrúar voru sumir búnir að vera hneykslaðir leeengi ] [ Hart er oft í heimi hér hverful sólartýra. Norðan kulur kominn er kann ei lukku stýra. ] [ Einn er blindur, annar sér yndi í hverju spori. Lífs af gleði leiktu þér sem lömbin ung að vori. ] [ Er á sveimi ár og síð yndi er ljúfast seður. Ást og lukka er alla tíð auðnan mest er skeður. ] [ Áður fyrri voru vinir góðir í vöku og blundi sálir tengja má. Berast nú á banaspjótum óðir, báðir vilja sömu konu fá. ] [ Ást og lukka eru alla tíð auðna hvers á vegi. En eru á sveimi ár og síð ólán, sorg og tregi. ] [ Lífið öslar allt í hring eftir bestu getum. Hamingjan er hugsun sling hvernig það svo metum. ] [ Hver spor um stíg eru skref til þín. Hvert vonarvíg vonbrigði mín. Hver steinn er brot af stærri deild. Og lítið krot hluti af heild. Hvert aðfall inn ber útfall sitt. Við túnfót minn er innland mitt. ] [ Forsjónina um farsæld bið og fegurð lífsins vöku. Englar verndi vinalið og vinni af geði stöku. ] [ Vegurinn 17.8.10 Innivið ég oftast hangi á mér vegu slétta. Yrki um það sem er í gangi ögn um hitt og þetta. Ekki ber ég af mér sakir æstur sé í geim. Það eru allir einstakir og ég er einn af þeim. ] [ Er ég nú sem orðinn nýr um með sápu farinn. Afraksturinn yrði ei rýr ef ég færi á barinn. ] [ Sigga skúta í herðar há hnýtir klút að enni. Margir lúta lífsins þrá og lina sút hjá henni. ] [ Reiðhrókurinn ríður best reiðartöfra á mesta hinir dóla í langri lest og langar í betri hesta. Fyrir sigri fagna nú fá þér súpa lögg. Ætíð virkar sinnan sú sýnirðu af þér rögg. Reiðhrókinn ætíð er yndi er lífgar brá ef þú geymir on´í mér afbragðs vín í tá. ] [ Skeiðkóngurinn skálar því skeiðið rann hann best skellir fólki á fyllirí og fagna því sem mest. Að súpa lögg er saga ei ný slá því ei á frest það fellst mikil ábyrgð í að eiga góðan hest. ] [ Undrar mig hvað sumir geta sofið. Sæll er sá er morgunljómann fann. Ýmsra líf er ansi mikið dofið. Oft er þreyttur sá er mikið vann. ] [ Stundum óska ég fólki til hamingju með afmælið sem óskaði mér ekki til hamingju með afmælið og vona að það fái samviskubit. ] [ Yndið saka ekkert má unað vaka kenni. Er mér Staka á við þrjá ef ég slaka henni. ] [ Bebba Margrét mér er kær Mörtu Einars Sigfússonar. Barn er Drottinn blessað fær biður afi þess og vonar. ] [ Ekki er hann Doddi dán dýrkar Theu að vonum. Það var ekki lítið lán að lá hún fyrir honum. ] [ I see it standing there lost and lonely, it comes to me in my nightmares only, it seems confused scared and harmless, but as it approaches its overtaken by darkness. at first so furry with bright blue eyes, that image so innocent is just its disguise. its eyes glowing red, the fur tuns to thorns, on its head glancing two little horns. its grin so frightening and filled with hate, it takes my breath and i suffocate. ] [ confusion swallows my hollow heart, when can it ever start? i cant feel a beat in my chest anymore, all I can feel is my soul getting sore. I want to be with you now and forever, and this is my only chance its now or never. ] [ I see you, belive me I do. Inside you're hurting, hate is burning, take a breath and blame it on me. I'll take away your sorrow, I'll cover up your regrets, I'll heal you hearts open wounds, I will help you to forget. I'll stand up infront of you and nothing hurtful will get through, I'll take your pain and make it mine, I will give myself to you. let your fears flow out the ocean, give them time to float away, in confusion my heart's the ocean, in the ocean the pain will stay. To end your pain is my target, I cant go on if not with you, and if you'll ever suffer.. I promise I will suffer too. ] [ Im sorry that i cant be everything that you need. Now Ill follow my heart and see where it'll lead, I need you to see that my sorrow'll never be gone, but through my sorrow my heart will go on. I have to know who I am for sure, or else I'll never fully be pure, I dont want the shadow of the guilt, but shame comes with the world I have built, I have made the darkness my only home, I have made myself to be all alone, I dont want to forever in the darkness sit, and to find the light I'll have to admit, Im sorry if I ever made you feel broken, Im sorry for the words I left unspoken, I promise you a place in my heart, and the whole heart's yours as I fall apart. You wont hear my screams or feel my pain, you wont see me break or fade away. one thing i still ask of you, tell me that what we have is true? ] [ Húmor örast hressir sál. Holl er gleði í sinni. Eykur flestra unaðsmál og yndi í veröldinni. ] [ Allt er lífið meira og minna blekkingar margurinn ekki slíkra hluta kennir. En hina truflar bæði sút og svekkingar sælastur er hver sem því ei nennir. ] [ Heiðbrá mörgum gerir gott göfugt hefur sinni. Gefur af sér gull í pott hjá Guði í eilífðinni. ] [ Ég halla dyrum og geng að gluggum geigur að mér líður. Er það hann í kvöldsins svölu skuggum svörtum hesti ríður ? Ég heyri skelli og hófatökin himininn er rauður. Heimreiðin hvít eins og brúðar lökin en hnakkurinn auður. Ég opna augun því klukkur kalla kaldan snjóinn skefur. Engill dauðans er úti að svalla meðan guð hans sefur. ] [ Hollt er sinn að hugsa um rann og hafa viljann framsæknan. Ég ætla reynist orð með sann: ,,Ekkert er verra en kyrrstaðan". ] [ Augu meta ástand snjallt andas þó sé hollt að gá. Fríðleiksskyn er frekar vallt fegurðin kemur innan frá. ] [ Það er búið að malbika yfir malbikið sem þú skrifaðir um forðum fáeinum orðum Það er búið að mála öll húsin sem þú ortir um forðum fallegum orðum Það er farið allt fólkið sem með orðum var forðum ] [ Gamlar sálir leita til fortíðar. í svörtu bleki ] [ Til blóts er boðað bræður mínir enn. Eftir vor og sumar kemur vetur senn. Með söng á vörum: Skál skál norðanmenn. Nú heilsar haustið og hafsis þeyr. Þökkum það liðna er lifir og deyr. Og vina minnumst: Skál skál syngið meir. Víktu að vinum er vaxa þér nær. Berum fram gleði brosi hún skær. Langt fram á morgunn: Skál því klukkan slær. ] [ Margur ríkt á móti ber, mest þó gleði veldur. Ef c hælir einhver mér eyk ég við það heldur. ] [ Fuglar himins fljúga sprækir, fegurð haustsins kallar að. Fossa hvítir fjallalækir, -fer nú Stórbóndinn í bað. ] [ Ég fór í búð og fékk mér svið sem farin eru að sjóða. Innan stundar strýk minn kvið og styn af namminu góða. ] [ Líður á tölti bleik á brá brokkar inn á milli. Himnasending, fótafrá fremst að allri snilli. ] [ Glóðin kviknar í öskunni. Eins og ský sem rekur fyrir stjörnubjartan himin drukkna áhyggjurnar og kuldinn og sárin fyllast af vaxi. Tíran frá sígarettunni rennur saman við appelsínugula umferðina og mér fer að líða eins og ljósastaur. Nakin hneta í frosnu beði. Þessi sem maður sparkar í. Loks kulnar neistinn og ég sit eftir með öskuna í kjöltunni. Það rofar til og meðvitund hellist aftur yfir mig eins og höfgi, ofbirta í augun. ] [ Hugurinn hægt má reika harla margt vill skeika en lengi má laga og bæta leynist í huganum glæta. ] [ Afstæðið er andans herra það efa skal ei hót. Eitt er betra, annað verra - en ágætt hestamót. ] [ Gekk á plankann - hoppaði, á vatninu skoppaði, því já ég fékk, út ég gekk og fékk mér rettu' í munn. Liðu dagar - hugsaði, velti mér upp úr munaði uns samtal rann; í brjóstið brann sniðið nokkurri miskunn. Neitun svarar - verkjaði - í hjartað meirt markaði óhrein sár og bitur tár er leitaði ég að vorkunn. Ég leitaði' að réttum verknaði til bótar fyrum gjörnaði en engan fann, því gjörnað þann ég gjörði hafði' af einkunn. Svo áfram hélt af dugnaði létka drukkna' í þessu svaði. Fann þá visku, fann þá dirfsku til áframhalds mér kunn. Kosti alla kannaði, konur allar mannaði. Komst að því að þvílík víf sjaldgæf eru' að finna. ] [ Hvanndals gerir kunta nú sér kaldrifjaðar grillur um að eignast okkar bú aska, skápa' og hillur. Flanið ekki fattar sú, finnur ekki villur, því svona komum við fram við frú en fjarri nokkrar frillur. Um ógurlega skassið skætt skeyti' ég ekki hót en betur vildi' ei barni fætt bregða fyrir fót. En ekki er það okkar starf að ala' upp þessa snót. Nælir hún í niðjaarf, næg finnst mér sú bót. Svo hendum núna Dóru' á dyr, dyggðin hefði' mátt gerast fyrr. Hún má dúsa' á hæli' eða götu; - afsakið meðan ég æli í fötu. ] [ Lífshlaup er oft býsna bratt og betra að tempra hraðan. Farðu ei svo hægt eða hratt að hljótir af því skaðann. ] [ Vísukorn og viskutrú vella frá mér hraðan. Ýmislegt sem út úr kú annað bætir skaðann. ] [ Ekki er runnið enn af mér undir morgun kom ég heim oftast gefa yndi af sér ástir, slark og næturgeim. ] [ Ætíð reynist allra best ætlirðu í ferð með vinum að leggja fyrst á ljúfan hest og láta spennuna rjúka úr hinum. ] [ Slæmt og gott er sitt á hvað í sóknum eða þrotum og tefla hvort á tæpast vað til að koma að notum. Slæmt og gott ég set í bið og spái í eilífðina, - Sólin brosir sumum við en sér svo varla hina. ] [ Ég er fersk sem nýsprottið aðalbláber með næturdöggina perlandi á dökkri húðinni vill einhver koma í berjamó? ] [ Gráttu þegar tilefni gefst ekki gráta annars sóun á góðum tárum er líkt og að láta íslenska vatnið renna síendurtekið úr krananum og skeyta engu um hvort það sé nóg handa öllum. Sorgin er gjöful þegar maður notar hana rétt. ] [ Yndi og friður auðnist þér eilífðar á vegi. Heillaóskir bestar ber bóndinn í Skálateigi. ] [ Ástin mörgum yrkir seið unaðs gerast stundir afbrýðisemin ljót og leið lúrir steinum undir. Oft ei sýnist gatan greið gamna sér í leynum afbrýðisemin ljót og leið lyftir af sér steinum. ] [ Hann er órtúlega magnaður þessi Þórður granni. Það er engin lygi að flestum af ber. Allt verður að gæðingum undir þessum manni og efalaust hefur hann lært þetta af mér. ] [ Oh, mér leiðist svo þegar það er enginn í kringum mig svo ég get ekki hunsað neinn. ] [ Ó, dögg, sem að árla í dalverpi liggur þú deginum bjargar með algerri von. Dögg, sem að birtuna bráðlega þiggur breytir um leið huga mannanna son. Þú drýpur af strái í dagskímu grárri dettur til jarðar og lífsgjöf að læðir. Í leiðinni heiðríkju lofar þú blárri og læðir að von þá á mönnunum mæðir. Þú dögg sem á leið minni ávallt svo liggur og leiðir mig vegar mót lífinu bjarta. Ég auðmjúkt er maður, sem gjöf þína þiggur læt þessa gjöf liggja næst mínu hjarta. ] [ Sirnið hún Jóhanna stika þarf greitt Steingríms í hárið fá vilji hún reitt. Ku henni oft vera í hamsinum heitt helvítis köttunum smala er þreytt. Andstutt af hlaupunum urrar á liðið: ,,Ójafnað í fyrirrúm, það er skilið”! ] [ Stofa fimm. Guð tekur og gefur grenjandi hríð og stormur í nótt. Hann stynur en sefur á stofu fimm er annars kyrrt og hljótt. Andinn óþolinmóði með undarlegt blik en gamall og forn. Andar að í hljóði af ökrum sorga uppsker hann sín korn. Er klukkan slær fimm er nóttin dimm. Stofa níu. Dimmgrár dagur líður dansa skuggar í undarlegu mynstri. Frostrós fellur og hnígur fótartak berst að rúmi lengst til vinstri. Yfir andliti þyngt um ennið er kaldri hendi strokið. Hvellandi bjöllum hringt hljóðlátum stofugangi er lokið. Klukkan níu fer að birta að nýju. ] [ bollinn hefur gegnt hlutverki sínu dyggilega og er orðinn skítugur og verður ekki aftur hreinn ] [ ég hef leitað í fatahenginu og ekki fundið ég hef kíkt á bakvið skápinn og ekkert séð ég hef flett upp teppinu en þar var ekkert ég sprengdi þá húsið af grunninum en fann ekki heldur ég kem þess vegna næst heim til þín ] [ þegar ljósakrónan kom í húsið voru veggirnir ómálaðir síðan eru liðin mörg ár enn hangir hún þarna innanum grænmálaða veggina og lætur sig hafa það ] [ inniskórnir verða gamlir, slitnir og götóttir einsog mennirnir eða mennirnir verða gamlir, slitnir og götóttir einsog inniskórnir ] [ látum grænleita sófann halda sér þótt stólarnir tveir séu komnir með rauðleitt áklæði það er aldrei að vita nema kannski að viku liðinni við verðum orðin leið á þeim báðum ] [ Viltu svífa inn í svefninn, svo að komist þú í draumaheim. Leggðu aftur litlu augun þín ljúfan mín. Guð á himnum þig geymir og gefur þér góða nótt. Hann í návist þig nærir við næturhúm. Þú líður um draumaheim, dansar um dulin geim. Njóttu draumsins dýrðlega uns dagur nýr rís. Svo að morgni, þú vaknar í vöggu og valsar um. Eftir dásemdardrauminn, heilsar dagur þér. ] [ Ég afber allar sorgir en ekki grimmdar þel. Og ekki brenndar borgir sem báru sig svo vel. Og fyrirgef ei ykkur sem aldrei ljósin sjá. Því allt er dauðans drykkur sem drekkir ungri þrá. Þótt bræðrum hafir bakað böl og dimma nótt. Þá verður alltaf vakað um vonir ykkar hljótt. ] [ kaotískt tínast orð úr náttmyrkri sundurslitnir orðaleikir ómeðvitaðir sundrung sameinast í ljóð skipulagt kaos undirmeðvitundar ] [ kerskin stóð og las ljóð á ný hyllti flokkur fólks og stóð uppá stól stóð á stólum ] [ við búum í samfélagi sem finnst nauðganir ómerkilegar þjóðhátíð fimm eða átta nauðganir -hátíðin gekk stóráfallalaust fyrir sig segir lögreglan hún gekk ekki stóráfallalaust fyrir sig fyrir þær 4,8 konur sem er nauðgað að meðaltali á þjóðhátíð sem er brotið á með þessum ógeðfellda hætti gerendurnir nást yfirleitt ekki og sumir beita ef til vill eyðileggingarmætti sínum aftur að ári ] [ Fögur voru ferðaheitin í fjörunni við háan núp. Með kossi kvaddi sveitin í kuldanum við Grænudjúp. Og fjöllin krýndust hvítum hjúp. Enn er í mér gamall geigur að ganga einn um þessa jörð. Maðurinn er fæddur feigur ferðalokin mörgum hörð. Við leiddust ein um gil og skörð. Þeirra bíða langar leiðir er lyfta sér með vængjatak. Stundum er það sorg sem breiðir sjal á Íslands þreytta bak. Glitrar stjarna við gamalt þak. Sárt er að sjá eftir börnum sendibréfin ljóðum skreytt. Fegurð er í föllnum stjörnum fræ sem aldrei urðu neitt. Guð hafði gjöfum sínum eytt. ] [ ég gæti kannski kastað upp endalausum myndlíkingum viðlíkingum, persónugervingum og framandgervingum sem enginn skilur og þannig sagst í laumi á skrautlegan hátt bera með mér einhverjar tilfinningar en þegar allt kemur til alls er þetta sáraeinfalt: mér þykir afskaplega vænt um þig ] [ Regnið fellur dúnmjúkt á framrúðuna en þökk sé rúðuþurrkum sálarinnar að það rofar til í návist þinni. Komdu bara í bílnum með mér, ég hef gaman af að keyra þér. ] [ Þín tilfinning, sjón, þín sál. Sjálft þitt álit við hjartakjarna. Þín heyrn, hugsun, þín stjarna. Drekinn er ég sem býr til slíkt bál. Hugsunarlestur við lesningu á ljóðabók. Lifandi orð á blaði og smitast með bleki. Öllum eyðum og uppi horni hjá hrók. Allar línur og yfir þeim svífur dreki. ] [ MENNING ER VAGINA! og veggirnir eru bleikir og blautir og hamagangurinn öskur þinnar eigin fæðingar ] [ Nonni í borginni, hann hafði góðar tekjur, krakki úr fyrra sambandi sem hann vissi varla af eða hafði dregið sig frá og fjarlægst, hvernig er hægt að fjarlægjast einhvern svona, vissi hann það, nei það gerðist bara á löngum tíma, en hann hafði einhvern tímann bundist, það voru mistök, hann passar sig að nota verjur núna, bæði á líkama og sál. ] [ kúpullinn sem er utanum ljósaperuna á ganginum hefur ekki verið þveginn í fjölda ára og er að fyllast af dauðum flugum ] [ gula gólfteppið með tíglunum er búið að vera í húsinu svo lengi sem elstu menn muna og fer varla úr þessu segja þeir ] [ hjónarúmið má muna sinn fífil fegri þá það kom fyrst í húsið nýtt úr búðinni með verðmiðann enn límdan á gaflinn 3536,50 kr. í dag er það verðlaust ] [ frá eldhúsklukkunni berst þetta tikk, takk tikk, takk tikk, takk o.s.frv. en... dyrabjallan hringir Ding Dong og kominn er hann King Kong að spyrja um hann Ping Pong sem er því miður farinn til Hong Kong ] [ tóma brennivínsflaskan sem hent var á mánudaginn kom aftur á föstudaginn og var þá ekki lengur tóm ] [ franska renesansskrifborðið tekur sig glæsilega vel út þar sem það stendur við hliðina á rauða garðstólnum úti á veröndinni hjá sundlauginni í sjónvarpinu ] [ lásinn stendur á sér og verður ekki opnaður fyrir vikið á hurðin að fjúka ] [ á gömlu góðu eldavélinni hefur margur grauturinn orðið til staðið fyrir sínu og gerir enn ] [ gamla járnpannan þótti þung og ómeðfærileg og varð að víkja úr skápnum ] [ brauðbrettið er smátt og smátt að sargast í sundur og verða ónýtt ] [ Presturinn messar í rigningu, kirkjuþakið er hrip og meðhjálparinn hvíslar: ,,Það er komið skip”. Hún bindur á messuna endi, æsist til glaðari sinnu, - lífið er vændi í aukavinnu. ] [ Við erum ung og ódauðleg uns annað kemur í ljós. ] [ Ég sit ein í myrkrinu og hugsanirnar reyna að drekkja mér Hvernig getur ein, lítil stelpa tekist á við þann sársauka sem þú hefur skapað? Þú fórst, yfirgafst mig, án þess að kveðja. Svo komstu á ný nær dauða en lífi, lætur eins og ekkert hafi í skorist. Hvernig á ég, bara lítil aum stelpa, að lyfta þér upp í ljósið svo þú getur læknast? Hvernig á ég, bara lítil aum stelpa, að bera þunga heimsins á öxlum mér? Hvernig á ég, bara lítil aum stelpa, að geta gleymt öllum þeim vonbringðum sem þú ollir mér og öðrum? Ég get það ekki og þú veist það. ] [ Að sjá hvernig augum þín ljóma líkt og demantar. Að heyra hvernig rödd þín mjúk hljómar eins og silki. Að lykta hvernig ilmur þinn fylgir þér við hvert fótmál. Að finna hvernig ást þín hlýjar færir yl í kulnuð hjörtu. Að tjá hvernig ást þín yfirtekur hjarta mitt og kremur það til bana. Þannig ert þú. ] [ Ég stend ein míns liðs andspænis þér minn engill, mín ást, minn djöfull, minn hatur hvernig á ég að horfa á þig? Sem manneskjuna sem ég elskaði heitt, eða manneskjuna sem sveik hjarta mitt? Ég kemst ekki hjá því að kenna til, því ásjóna þín rífur upp aldargömul sár og mér til hryllings geri ég mér grein fyrir því að mér þykir enn vænt um þig mitt líf, mitt ljós, minn dauði, mitt myrkur hvernig á ég að hugsa um þig? Sem manneskjuna sem skildi mitt mál, eða manneskjuna sem brást þegar ég þurfti á að halda? Það er ekki satt sem þeir segja, tíminn læknar ekki öll sár nema þú sért gæddur þeim hæfileikum að brjóta sársaukaþröskuld hjarta míns til frambúðar. Þú varst minn engill, mín ást, mitt líf og mitt ljós en nú ertu breyttur, og þegar skuggar fortíðarinnar sækja á mig og þú ert ekki til staðar þá ertu minn djöfull, minn hatur, minn dauði og mitt myrkur en ég elska þig enn þrátt fyrir að þú hafir sært mig þrátt fyrir að hugur minn öskri nei þrátt fyrir að þú hafir yfirgefið mig þrátt fyrir að þú sért með henni þrátt fyrir að ég fái þig aldrei aftur þrátt fyrir að þú látir eins og ég sé ekki til og ég mun ávalt gera það ] [ Andadráttur í línuritum, í takt, í takt tónlistin er mitt súrefni. Takturinn hraðast upp, hraðar, hraðar, og andardrátturinn fylgir. Ég ofanda, svimar, svimar, en ég er þræll taktsins. Lagið virðist endalaust, mér sortnar fyrir augunum, lagið fjarar út. STOPP! ] [ Tímarnir breytast, tíminn eldist og deyr svo út. Hugsanir fæðast, drukkna í fæðingu. Samhengislausar setningar samsettar úr orðum sem ekkert þýða. Tilbreytingarleysið gerir út af við mig ég flýt gegnum ótalda daga fulla af vonleysi fulla af tómum stundum. Ég, stefnulaus, hugsunarlaus, glata sjálfri mér. Ég er ekki til því ég hugsa ekki. Tíminn virðist aldrei líða, það er grafið grafið undan tilvist minni ég fell hrapa í hyl sem á sér engan endi ég rata ekki heim ] [ Sing your sweetest sorrow now Cling to the hurt and pain Bring all you cannot give Sting of the last dirty stain Lie our hearts full of dreams Cry all your blackest tears Die away from all you love Fly away from all your fears Deep in veins the poison flows Weep with regret, the core Steep is the only way out Sleep forever more ] [ Það er eitthvað sætt við það þegar eldra fólk kann á nútímatækni sem það er nýbúið að tileinka sér eins og farsíma eða tölvu, ánægt með árangurinn og fullt af sjálfstrausti eins og þau hafi sigrað eitthvað og séu meistarar af því að þau kunna að senda og lesa sms og tölvupóst. ] [ Helsti sérfræðingur um skotvopn í landinu kom við mig hann kom við magann minn með samlokunni sem hann eldaði fyrir mig hann kom við lungun mín með tóbakinu sem hann vafði handa mér hann kom við orðin mín með uppskrift af tequila sunrise hann kom við varir mínar með ljúfum kossi sem ég fæ ekki gleymt augun mín í augnablik yfir kaffibolla En eftir á að hyggja... held ég að hann hafi hreinlega skotið mig ...og ég fallið ] [ Ég gleðst yfir öllu sem gengur þér vel en vara þig vinurinn kæri hún gerir blindan mann stífan á fimm metra færi og öldurót sálarinnar engan fær stans hún fær stjörnurnar til að stíga dans. ] [ Hvert ertu farin elsku dís mín og gyðja? orðanna dans, Eratoar niðja? Kemurðu aftur og dansar við huga minn eins og áður? sérðu' ekki'að hann er þjáður? Ég bíð hér í eymd sorgmædd og gleymd þar til þér þóknast að gefa mér mátt þann sem áður ég hef átt. ] [ Við partíljónin gleði saman sönkum og sálir okkar fá að rísa bratt. Leiðinlegt er fólk í þungum þönkum það er oftast bæði stirt og flatt. ] [ Margt er bullið maður minn málugir lopann teygja. Hampar ei viti heimskinginn hvers væri betra að þegja? ] [ Þetta er leiðinlegt ljóð. ] [ sólin er eins og gulur hommi og af glimmerinu sem sáldrast af honum spretta upp blómstur í öllum litum nóttin er eins og risastór myndarleg svertingjakona sem hefur fullt af demantsskreytingum og mánahvít augu fuglarnir eru eins og tignarlegir asíubúar sem syngja fallega karókí á tungumáli sem ég skil ekki grasið er eins og grænn og fagur femínisti sem er órakaður og sprettur upp á óvæntustu stöðum snjórinn er eins og þau húðsvæði á hvítum mönnum sem fá ekki að sjá dagsljósið nema þeir séu frá blönduósi trén eru eins og dökkir latínóar með græn loftaugu sem eru rólegir og afslappaðir í siestunni ] [ Ég bíð,hann veit að ég bíð. Og tíminn líður eins og klukka í mynd eftir Dalí. ] [ Bráðum eigum við eftir að sitja saman í haustmyrkrinu vefja tóbak og súba rauðvín með Tom Waits undirspil og ekkert nema stjörnurnar í augunum til að lýsa okkur. ] [ Ég flýt í norðurljósahafi ef þú sér það þá veistu hvernig hugur minn reikar ] [ Nú hefi ég fengið hæfilegt geim höfðingsskap gestgjafa lofa. (Einar) Fæ mér í nefið og flýti mér heim og fer svo í rúmið að sofa. (Doddi) ] [ Mikið er frænkan fallleg til farsældar eygi ég von þegar að að því kemur að þú fáir tengdason. ] [ snjórinn er sykurinn kolsvartur himinninn kaffið í dimmu drykkjarhorni andskotans ] [ hreinasta trúin er algjör höfnun á mannlegum röksemdum og þar með á sjálfri sér ] [ Hún á allt hið góða og einum mér gefur höfum ekki hátt því María sefur. Í dögun er sólin fyrst sést á himni og stjörnurnar hennar leggjast til hvílu þá elska ég þig og þakka mínum Guði að þú gekkst fyrir mig þessa auka mílu. Hún ein í hjartað mitt ást sinni vefur höfum ekki hátt því María sefur. Og er sólin hæst á himninum skín og heiðríkjan syngur í hjartanu mínu þá elska ég þig og þakka mínum Guði að þú gerðir allt hið fagra að þínu. Hún ein mína ást á valdi sínu hefur höfum ekki hátt því María sefur. Og á kvöldin er svefninn á hana kallar hún kveikir aftur á ljósinu bjarta þá elska ég þig og þakka mínum Guði er þú leiddir mig burt frá djúpinu svarta. Hún aldrei aldrei um ást mína krefur höfum ekki hátt því María sefur. ] [ Ég hugleiði þitt boðið af heldri sið hve marga fengi ég sopana. Viltu ekki bjóða að bæta aðeins við blessaða kökudropana? ] [ Það er svo margt ef að er gáð sem illa gengur að höndla. Vandi að fara með völd og ráð og villta að hemja sköndla. ] [ Þótt alla allsnætirnar dreymi okkur vill gleymast að meta að þrauka af í þessum heimi þar er ei sama, vilja og geta. ] [ Ég vildi að ég gæti sofnað án þess að hugsa mig í hel svo ég vaknaði ekki með hausverk vegna ofhugsanna. ] [ Hvernig ætlarðu að horfa á mig þegar við loksins sjáumst ganga móts hvort öðru með hjörtu sem hamast ótt og títt missa jafnvel úr slag. Hvernig ætlarðu að snerta mig þegar við stöndum móts hvort öðru skynjum löngun hvors annars hitann frá hvort öðru. Hvað ætlarðu að segja þegar við loksins getum talað saman saman eftir alla fjarlægðina. ,,hvað segir þú gott'' eins og í símann? Ég veit hvað ég ætla segja horfa á þig snerta. ] [ Vertu sæll minn kæri vin, hverf þú inn í stjörnuskin. Ég óska þér nú sálarró, því af sorg þú hafðir nóg. Ég græt þitt litla, stutta líf, í hjarta mínu stormar hríð. Ég óska ástvinum þínum hjartans frið, óska þess að sorgin sýni þeim grið. Hvíli í friði þitt sálartetur, orðstír deyr aldregi hveim er sér góðan getur. ] [ Hún færði honum kaffi klukkan þrjú að nóttu eins og þau væru ekkert að fara að sofa. ] [ hefurðu séð skuggann minn? ég hélt hann væri hér ég leitaði en hann stakk mig af hann lifir svo hratt þessi elska ] [ Blíða mín er besta hross ber mig létt á götu. Veiti ég henni vinarkoss og valið korn í fötu. ] [ Ég kallaði alltaf kvæðin mín kveðjuna til þín. Lengi léku sér hljóð í hjarta mér. En tröllin komu og tóku þau til sín. Ég nefni í hljóði nafnið þitt og nóttin sitt. Bak við brenndar dyr er aska sem spyr. Ást, varst þú á ferð um hjartað mitt? ] [ Smámunasemin sækir að sú vill mörgu gera skil. Margt er dálítið mislukkað, - iss, það gerir ekkert til! ] [ úr hátölurunum kemur tónlistin og berst sætlega um íbúðina þegar hljómtækin eru réttilega stillt og platan órispuð ] [ Ég ber þig í brjóstinu eins og heita lifur. Hver biti er ást. ] [ eldhúskollurinn er alltaf skilinn útundan þegar valin eru sæti í veisluna og þykir ekki boðlegur gestum að tylla sér á ] [ í miðskúffu náttborðsins er geymd mynd innrömmuð og látin liggja þarna í miðskúffunni ] [ litla grenitréð sem stóð útí skógi og teygði út anga sína var höggvið inní glæsilegri stofu dó það svo hægt og rólega yfir jólin ] [ leðurklæddi hægindastóllinn ætlaði aldrei að komast inní húsið því hann er bæði þungur og klunnalegur fyrirferðamikill og ólögulegur þess vegna fær hann besta staðinn ] [ græni öskubakkinn er alltaf svo skítugur að hann helst ekki hreinn ] [ hvernig komst gamall Westinghouse ísskápur upp stigann og inní eldhús á þriðju hæð? ] [ standlampinn er gerður úr mjórri járnstöng og stórum gulum skermi með bláleitu kögri birtan frá honum er bæði dauf og máttleysisleg ] [ það hefur bara einu sinni verið borinn eldur að þráð rauða kertisins sem stendur á borðinu það verður ekki endurtekið ] [ mundu þegar bílnum er lagt að slökkva á ljósunum taka lykilinn úr og læsa áður en gengið er inní húsið ] [ Hey herra Jakob, ég sé að þú ert dán (syndrome) get ekki horft á líðan þína, án þess þess að veita sálrænt lán Þó að þú njótir ekki kvenhylli á við mig, er það vegna þess að ólíkt mér þær ekki þekkja þig. Vissulega ertu genagallaður og feiminn en sumar stelpukindur þurfa ekki að sigra heiminn Vilja þig sem nálina þegar þær rúlla sér í heyi svo hlustaðu á mig þegar ég segi. Jakob, þú hefur það sem þarf Dömurnar vita hvort þú átt að flengja eða sleikja, þegar þær hafa kynnst þínum persónuleika Ég sagði: Jakob, þú hefur það sem þarf Ekki á samkynhneigðan veg, þennan dóm ég dreg - heldur til að segja þú lítur betur út en ég... hví má ég ekki, fram því henda við annan gagnkynhneigðan vin að hann sé með kynæsandi afturenda? Ekki til að taka í þetta gat, heldur til að rífa hann upp þegar hann er með lágt sjálfsmat... Ekki láta neinn segja þér að þú sért ekki prýðilegur því mér finnst þú ríðilegur vonandi finnst þér ég ekki svívirðilegur... fyrir að segja að þetta um rassgatið á þér hér kemur viðlagið, Jakob syngdu með mér Jakob þú hefur það sem þarf (Þú hefur það) Þetta er sú niðurstaða sem ég hef komist að ekki að ég vilji koma þér kynferðislega af stað Jakob þú hefur það sem þarf (Þú hefur það) Ekki spurning um það, það mætti hugsa svona: ,,Hversu heppnir við værum ef að annar okkar hefði fæðst sem kona“ Ef annar okkar væri kona og þú myndir kalla mig þinn mann því stundum verð ég einmanna og þarf kvenmann Þér ætti það núna að verða orðið ljóst *hóst*að ég hugsa um það hvernig þú litir út með brjóst *hóst*.... Raunar gerðist það eitt sumar þegar ég var holur að innan og ekkert kallaði á mann nema vinnan að eftir nokkuð dól, á traktornum þú sofnaðir bakvið hól og ég klæddi þig í kjól og skeiðaði á þér þar til settist sól Jakob þú hefur það sem þarf Jakob má ég fyrir forvitnissakir, segja þér hvað fyrir mér vakir og þá getum við sofnað sáttir og slakir Jakob þú hefur það sem þarf Má ég mála þig og meika þig eða putta þig og sleikja þig eða finna réttu ástæðuna, til að breyta til. Því Jakob þú hefur það sem þarf ] [ Þegar Guð kemur heim á daginn dreymir hann um það. Hve mikið er af óhreinum sálum sem aldrei fara í bað. Lætur rigna á þig og líka á mig. Og þegar stjörnurnar skína þá fellir hann tár. Og dregur ský fyrir sólu undarlega sár. Því allt sem hann á er það sem ekki má. ] [ Til dags er dagur fæðist, til draums í huga fer og er vonum þráin glæðist, ég fer á eftir þér. Lof mínu unga hjarta að þrá og dreyma um sinn, því vonin unga, bjarta, þverr við aldurinn. Í vorsins hugaspori og langan veginn heim, ég bíð enn eftir vori, ég bíð enn eftir þeim. Hvín í þungum þránum og þrymur í huga mér, ég skelf og kikna í hnjánum, mig langar heim með þér. ] [ Ég hvorki sá né heyrði í þeim hélt mig kominn í undraheim þar sem enginn átti ekki neitt og ekkert skyldi endurgreitt því starði ég stöðugur um stund svo auðugur Því það er þar sem himininn festir sínar rætur og regnboginn grætur Ég hvorki grét né hló í hyldýpinu einn ég bjó innan um múg og margmenni og mikil fráhvarfseinkenni því starði ég stöðugur um stund svo nauðugur Í þessari veröld er fullt af þrá sem þegir um tilvist sína hún er hvorki svört eða grá hún er sólin sólin sólin sem nær ekki að skína. Ég átti þaðan afturkvæmt ég hélt það væri dauðadæmt dirfist ekki að dæma mig í dag á ég hvorki mig né þig því starði ég stöðugur um stund svo forugur. Því það er þar sem himininn festir sínar rætur og regnboginn grætur ] [ Hjartað Buffbarið velt upp úr eggi og raspi steikt á pönnu í smjörlíki og beint ínn í ofn. Matargestir una sér við þann munað að bragða á því og finna hvernig það slær í meltingunni. ] [ vindurinn nauðar við gluggann ég drekk kók og les moggann hlusta á Stairway to Heaven sem er mjög ljúft, en [dragðu andann] það sakar ekki að dreyma um fjarlæg höf og heima; því ég á skilið frí. Ó! hvað mig langar suður til Ríó ] [ Skyldu sumir skarpsyni skulda svefn á alþingi. Þá þakkar össur þjóðinni þann lúr í hennar umboði. ] [ Á ströndinni ég hitti þig Við öldurót þú kysstir mig. Nálægt ystu sjónarrönd Við héldumst þarna hönd í hönd. Hjartað þitt og augun blá. Bros þitt fyllir hjartans þrá. Þú verður alltaf stúlkan mín Maríanna ég sakna þín. Þegar nóttin gerir um sig vart Og myrkrið grúfir yfir svart. Þá hafið bláa hugann dregur Ósköp get ég verið tregur. ] [ Þegar í síðustu skjólin er fokið, og lífshlaupi mínu er lokið. Útfarastjórinn, ormar og mold, eiga löggilta kröfu í mitt visnandi hold. Þeim verði að góðu með skrokkinn minn snauðan Því það sem ég óttast er líf eftir dauðann. Ef svo ólíklega, í fyrsta sinni. Ég finni loks guð minn í eilífðinni. Ég lofa því upp á flesta fingur, allar syndir misskilningur, ég ekkert misjafnt fyrir stafni, og allt var gert í drottins nafni. Drottinn guð ég grátbið þig. Þeir reyna að ljúga sök á mig. Mér var páfinn meiri perri, margir aðrir miklu verri, en ég auðmjúkur skal klaga liðið ef þú bara opnar hliðið. Ef sálarræksnið mitt villtu ekki fá til samkeppnis aðilans sný ég mér þá þar nóg af vinum, eldi og reyk. Þar er ég laus við hörpuleik. þú mátt éta hann sjálfur níðingstetur, því ég veit að skrattinn býður betur. ] [ Gefðu mér aðeins eitt augnablik af aflinu því sem ástin þín er þá mun hjartað mitt opnast sem aldrei fyr og aldrei aftur úr lagi ganga þá tekur það neitun og nýtir sér varmann í nýstingskuldanum hér fyrir utan. Gefðu mér stund um vegferð þína og stað þá stendur þú mig ekki oftar að verki ég þarf þá ekki að læðast um þitt lokaða hús og láta sem ég knýi á steinsteyptar hurðir með hljóðlausum spörkum og eilífum öskrum æpandi á þann sem aldrei heyrir. ] [ bollastellið sem er fyrir innan glerhurðina á mósaíkskápnum er svo fornt að ekki má hella heitu súkkulaði í það ] [ þegar engin kemur sónn heldur algjört hljóð er sagt að um bilun sé að ræða eða reikningurinn hafi eigi verið greiddur að friðurinn ríki vegna þess tækið sé ekki í sambandi dettur varla nokkrum í hug hvers vegna þögn? ] [ stóri potturinn gegnir því sérstaka hlutverki að í honum er eingöngu soðið slátur eða rabbabarasulta hann er því sjaldan notaður og er mestan tíma ársins innst inní pottaskapnum ] [ þegar marmelaðið er búið er krukkan, sem það var í, þvegin og miðinn skafinn af lokið skrúfað aftur á og hún geymd svo er keypt meira marmelaði ] [ myndin á veggnum í forstofunni er eftirprentun þeirrar sem hangir í Luvre ] [ sumir hlutir eru aðeins hafðir uppivið í fjölskylduboðum annars ekki ] [ hurð úr eik úr fjarlægu landi (endaði í dyragættinni) á þessu salerni ] [ svo er nú komið fyrir rykföllnu ritvélinni að stafirnir sjást ekki meir sumum afþurrkunarklútum verður aldrei neitt úr verki ] [ Næturvörðurinn í líkamsræktarstöðinni fer stundum í sturtu inni í kvennaklefanum og hlær upphátt úr skegginu. ] [ Andann lífgar yndissýn örlar á vöku kætis, góðan daginn Guðbjörg mín gakktu heil til sætis. ] [ Þeir sem vilja þrautir lina þeir fá ljós í eilífðina. Fagna ég þér fagra vina fundið höfum samleiðina. ] [ Mér er sagt í bænum blómgist tíð, besti staður muni vera í heimi, kvensjúkdómalæknirinn búi í Barmahlíð og bæjarlífið iði af fjöri og geimi. Já, Akureyri er ótrúlegur bær! Ég var að koma í gær. ] [ Nauðbundin kristinfræðikennslan byggir á því að þröngva aldagamalli staðnaðri hugmyndafræði á ómótaða og móttækilega barnshuga. Guð hjálpi þeim. ] [ Hve ljúft það er að leika á lífsins sviði reika sjá engan ömurleika sem eflaust er á sveimi. Þá finnst mér gott að gleyma ganga til svefns og dreyma góða hluti og geyma grafna í hugarheimi. ] [ Fríður mín friður sé með þér, farsældir auðnist þér ríkar. Viltu ekki vera með mér og vita hvernig þér líkar? ] [ Hann er Yddarakallinn, já hann er Yddarakallinn. Ef þú getur ekki yddað kemur hann og yddar fyrir þig. Hann er Yddarakallinn, já hann er Yddarakallinn. Ef erfitt er að ydda flýgur hann af stað og bjargar þér. Hann er Yddarakallinn, já hann er Yddarakallinn. Hann er YDDARAKALLINN. ] [ rúmið þitt er rúmið mitt einn ég sjaldan sofna sængin án þín köld og tóm glaðvær hugsun dofnar köld er nótt í kvöld tekur fljótt mín völd ég órólegur dotta ] [ þung tunna þung þreyta illvirki gangvirki tímans sundurleit þjóð í leit að hefnd sláum sláum sláum fastar berjum sýkina úr þeim úrbeinum frjálshyggjuna tökum blóð sendum í rannsókn sérhver maður hefur úr þessu að moða sérhverjum manni býðst eilíf hefnd fátækur maður ber bumbur og situr af sér líf sitt ríkur maður fer af landi snýr eigi aftur hann hefur sofið af sér hefnd í kassanum flaksast myndir en öllum er sama allir fá sér meira brjóta múra sorgarinnar ] [ vökvi vökvi vökvi endalaus taumlaus gleðisnauður gegnsýrir allt litar allt ekki meira ég vil ekki meira ekki meira. farðu með meira í burtu ég vil minna. ég vil minna ég vil bara minna alltaf minna aldrei minna aldrei meira ljáðu mér meira guð gaf mér meira neyðin kennir mér minna neyðin kennir mér aldrei neitt aldrei að spinna aldrei að vinna alltaf ekkert aldrei allt aldrei ekkert. hvar fæ ég ekkert? ég þrái ekkert ég þrái meira af því ég þrái minna af öllu minna af öllu hinu ] [ Ljóðagrjót hrinti af stað skriðuföllum og þrá -lát kemur úr dýpt ómeðvitaðrar læstrar vitundar ljóðaþrá -hyggja sem bundin er í hlekki ævirefsingar ] [ Aumingjar hafa á ýmsum stöðum setu og ei gott að vita hver reynist skást. Þegar menn hafa ekki þroska og getu þýðir víst lítið um það að fást. ] [ hún reið fram völl á hvítum hesti með von í skjattanum þeir brenndu hana á báli hversvegna var seinni tíma sögufölsun því Jóhanna af Örk var djörk sem að lýðskrumaði er fólk var með læti og vera við stjórn var möst það jaðraði eiginlega við blæti nú hitnar undir kesti bálvond verður brennd með alla sína lessti ] [ Þeir störðu á mig með stjörfum augum og stilltu mér upp við vegg ég hýrðist einn á heimskautsbaugum í heimskautaísinn ég áfram hegg það var ekki ég sem sálina vildi sýna ekki ég heldur stúlkan mín frá Kína. Þeir bentu á mig með brugðum sverðum og báru mig fyrir því að hafa stjórn á þér og öllum þínum gerðum og því var höfuð mitt þungt sem blý það var ekki ég sem valdi þessa slitnu skó ekki ég heldur stúlkan mín frá Mónakó. Þeir hötuðu mig og heiftin var mikil en hérumbil einskis verð þeir áttu hurðir en engan lykil og einskisnýt voru þeirra sverð það ver ekki ég sem skrifaði ljóð mín í sand heldur stúlkan mín sem færði mér hið rússneska land Það var ekki ég sem drapann ekki ég heldur stúlkan mín frá Japan. ] [ Skjaldborg hún lofaði skjóli og mat en skuldirnar hlóðust upp í tunnu. að skera allt niður það skömmin hún gat og skattana lagði á Jón og Gunnu. ] [ Ég er fugl í faðmi Krúa og flýgur tíminn endalaust því finnst mér núna tæpt að trúa að til sé svona fallegt haust. ] [ Eitt skref eitt spor enn er komið vor. Með sól og söng og sumrin löng. Svo hylur haust himinn og naust. Og brimið ber í brjósti mér. Þannig er allt undið og valt. En svo eru jól og aftur sól. ] [ Heyrið þér himnar hlusta þú jörð. Trú hef ég tekið traustan vörð. Fætt hef og fóstrað þig fagra von. Átt þig í ferðum sem eigin son. Ljósið þitt lýsi um löndin öll. Sefi og sigri storma og föll. Líf dags og dóma dásami þig. Þó líði leiftur lifirðu mig. ] [ Ég sýg það upp og nota til þess svampinn seinna meir koma þeir svo, Aladdinn og lampinn. Hjá lífsins tré og lindinni tæru lá slóðinn um grjót og fjöllin ófæru ég hellti öllu niður er mest ég mátti og meiraðsegja því sem ég ekki átti. Ég skal sjúga það upp og nota til þess svampinn seinna meir koma svo Aladdinn og lampinn. Hjá viskunnar tré var mér meiri vandi og vélráður snákur þóttist á mínu bandi hann útbjó mér mjöð úr himinsins regni ég missti hann niður eftir mesta megni. Ég sýg hann upp og nota til þess svampinn seinna meir koma þeir svo Aladdinn og lampinn Og nú geng ég eftir ánni sem austur rennur fyrir ofan mig er himinn en austrið brennur áin sem elskar mig þakkar fyrir sig öskrar svo á mig og áminnir mig Ég skal sjúga hana upp og nota til þess svampinn seinna koma þeir svo Aladdinn og lampinn. ] [ Hann vafði mig svo fast að ég fann fyrir hans lokkandi og laðandi, Nóa kropp. ] [ Sú stund er ég þrái og heim loks ég kem er að sjá hve þú auðmjúkt mín bíður. Þú bíður mín heima, því úti, ég vildi það síður. Í fang þig ég tek með fimlegum höndum og líkaminn iðar í andlegum takt með mér. Um háls þinn ég afar mildlegum höndum þá fer. Þú svarar því aðeins sem veist að ég vil heyra og óskum mínum, þér leiðist aldrei að svara. Um leið og ég segi, þú þegir, þú þekkir mig bara. Er ókunnir sjá þig á mannmótum með mér þeir hugfangnir stara og útlit þitt ákaft lofa. Aðeins hjá mér hjá mér, máttu þú fá að sofa. Ég veit að þú bíður, þú veist mínar þarfir þú þekkir mín ástleitnu handtök, alveg til hlítar. Ég tek uppúr tösku minn glænýja, gljáfægða gítar. ] [ Fimlegum höndum ég strengina strýk störf mín menn hástemmdir lofa. Samt er ég feginn, er leik mínum lýk langar helst þreyttur, að sofa. Í draumförum ætíð mín sál fer á flakk finnst eins og ég sé að bila. Mendelson, Shubert og Biset og Bach byrja í svefni að spila. Þegar ég vakna þá úrillur er og ætla að hugsa til hlítar, og áður en allt nú til andskotans fer, þá ætla að spila á gítar. En hljómarnir höfugir grauta mitt geð ég gígjuna set niður í kassa. Ákveðinn er í að stoppa nú streð og stefni á að spila á bassa. en…. Nú árið er liðið í aldanna skaut ég aldrei mun sál mína svíkja. Áðan ég gítar og bassann minn braut og byrjaður er ég....að spila aftur á fiðluna….! ] [ Sól í hæð sig hefur hiti á mig tekur. Undir sepa sefur sveittur dropi lekur. Hítasótt mig skekur tólageymsla titrar. Minni á mig rekur mínar raunir bitrar. Sviti undir slátri slær á lær og sitrar. ] [ Ég sé þína áru, hálkúpt, er sendir mér sýn. Hvar sem á daginn, þú höfðar svo sterkleg til mín. Menn tilbiðja þig og tala um þig á förnum vegi. Ég mæti þér yfirleitt alltaf á hverjum einasta degi. Stundum er kem ég heim, þá er líf þitt að enda. Þig verð þá að taka og rakleitt í ruslið að henda. En ef án þín ég væri ég vissi ei hvað myndi gera. Hvernig finnst þér svo sjálfri að vera, svona venjuleg ljósapera ? ] [ Reika ég í móðu, sorgir mínar langar að grafa mæni ég og bíð að beri þig við sjónarrönd. Leið er á að vera með ást þína að velkjast í vafa og vera ein(n) og vansæl(l), ráfandi um á fjarlægri strönd . Tilfinningar bærast, veit ei hvort ég sannlega elska þig þó held ég að – ég geri það ég vona samt, að þú skiljir mig. En mundu þó alltaf.... Vertu viss að þrátt fyrir allt, þú verður í huga mér ef þú kveður mig – þá ég aftur fer og verð ráfandi um á fjarlægri strönd. Reyni alla daga að halda aftur af mínum tárum það er sem ég fái alltaf, af himnunum stoð. Finnst mér oft ég heyri þín ástarorð berast á bárum eins og bjartar stjörnur séu þar að senda mér boð. ] [ Þau tárin vot, er tærðu und þér tókst að þerra, og sefa um stund. Þá sáru raun, minn heltók hug með heilindum, þú vékst á bug. Og birtu þá, er blést í mig í bágindum, þá gerðu sig. Þú veittir mér, er vesæl ég þá villtist burt, um dimman veg. Með votri brá, ég bað um þig ég bænheyrð var, þú tókst um mig. Já,tókst um mig, með tryggri hönd er treysti okkar vinarbönd. En afhverju, komst þú, og tókst um mig ? - því þú þráðir mig...þú þráðir mig.. ] [ Rækjurnar sætar þær synda um sæ Já,Rækjurnar sætar þær synda um sæ Og éta rotið mannahræ æ, æ æ Sómarækjusamlokur só sorry - gúd bæ. Því rækjur éta saur og mannahræ Hænan grætur af eymd gagg gagg gó Hænan hún grætur af eymd gagg gagg gó Því vélin höfuðið af kjúklingnum hjó Og höfuðlaus hljóp hann allt þar til hann dó Og Hænan hún grét hástöfum gagg gagg gó. (Kór:)Og öll eru dýrin jafnt metin Skotin, elduð og étin Hænur, hestar eða hundar út í haga Fara upp í munn og enda - ofan í maga Og hundurinn þinn fór ekki upp í sveit Nei,hundurinn þinn fór ekki upp í sveit Nei,hann var skotinn, því að dreng hann beit Og hvort hann fór lengra en í gröfina það engin veit En hann fór allavegana ekki upp í sveit. Og tannálfurinn sem þú trúir á er ekki til Já, tannálfurinn sem þú trúir á er ekki til Og jólasveinninn gefur hvorki kerti né spil Mamma spyr ,,viltu setja í skóinn?” – pabbi segir ,,já ég vil” Því tannálfurinn og jólasveinninn eru ekki til. Og kötturinn Njáll hann á ekki níu líf Nei, kötturinn Njáll á ekki níu líf Ég skal sanna það en ekki standa náföl og stíf Þegar hann fæðist og ég strax af honum hausinn ríf Nú veistu að kötturinn Njáll á ekki níu líf. Jesús Kristur gerði engin kraftaverk Nei, Jesús Kristur gerði enginn kraftaverk Og orð hans flest login eða dæmd ómerk Og hann minnti helst á dvergvaxinn komma berserk En þessi upplogni hryðjuverkamaður gerði engin kraftaverk. Að lífi loknu breytist þú í rotnandi lík Já, illa lyktandi, slímugt rotnandi lík Því ormarnir éta afa – sneak a peak? Og það er alls ekkert himarík-iiiiiiii en við vitum að hinir dánu verða ormétin lík. ] [ Hann beið mín með bænir og þrá og bað mig að koma til sín. Því lyfin vinna ekki á einsemd og ég leita til þín. Yfir liðu dagar um dal með dreymandi stúlku við hlað. Og öll mín orð og allt mitt tal voru einskins nýt á þessum stað. Er ég kvaddi var komin nótt kalt og sást ekki handa skil. Ég fann að árin enda skjótt að elska er að vera til. ] [ Man ég tíma tvenna tugir koma, brenna. Rímna skáldið sorfið í skini alda horfið. Hann var guði gefinn grípur enn mig efinn. Enginn vill nú eiga elda skáldsins feiga. Alla stund til stundar stígið hægt til fundar. Veit ég gamlar glóðir gleymndar hjá þér bróðir. Hann var hæddur lúinn hrakinn ferðabúinn. Flæðir fönn á vorin fennir ört í sporin. ] [ styttan er af sköllóttum manni sem situr á hækjum sér með gat á maganum fyrir reykelsisstangir ] [ sogkraftur ryksugunnar hefur dalað stórlega og sú spurning orðin æ áleitnari hvort þetta geti gengið svona lengur ] [ stórrisinn í stofunni hefur aldrei verið dreginn fyrir enda ekki ætlaður til þess heldur aðeins uppbót fyrir útsýnið útí veröldina ] [ bréfið á borðinu er opið handskrifað og nær óskiljanlegt einhver sem bíður svars um hæl ] [ glugginn í stofunni hólfar útsýnið niður í sex ferhyrninga í þrem þeirra efri er eingöngu himinn í hinum neðri eru hús nágrannanna ] [ framan á konfektkassanum er andlit af tírólskum geitarbónda með pípu er íhugult horfir á þegar moli er tekinn ] [ á lyklakippunni eru margir lyklar lykillinn af geymslunni lykillinn af þvottahúsinu bíllykillinn og útidyrahurðalykillinn og ýmsir aðrir og eins gott að hún týnist ekki ] [ glansandi skálin sem gegnir því mikilvæga hlutverki að sleppum því ] [ brauðristin hefur marga brauðsneiðina bakað og gert brúna það er sjaldan að hún brenni þær en kemur þó fyrir ] [ teppið er úr gerviefni einhverskonar rafmögnuðu sem neistar ] [ hvernig komst rauði garðstóllinn inná stofugólfið? spyr sá sem ekki veit ] [ á púðanum á sófanum sófapúðanum er útsaumuð rauðköflótt rós handunnin og haganleg ] [ barnamyndirnar ofaná skápnum eru af afkomendunum brosmildum og hjalandi ] [ gerist nokkuð betra á ísköldum degi en heitir ofnar? nema ef vera skyldi... ] [ blikkfatan er fyrir löngu úr sér gengin vegna ryðs og leka ] [ forverinn uppá veggnum styður hönd við kinn og hallar undir flatt ] [ sígarettustubbur brennur reykur liðast í sólargeisla og hverfur ] [ brauðið var eitt sinn hnoðað deig flatt út skorið og steikt feitur ilmur í lofti ] [ djúpir tónar raddarinnar hafa rispast óþyrmilega með árunum ] [ svarta tækið af gömlugerðinni lætur enn stundum í sér heyra og hringir ] [ munnharpa með brotna fjöður og falskan tón eða breimandi köttur útí garði ] [ loftvog á vegg bank á gler vísir fellur eða rís spá á skífu sunny, bright, fair, windy eða rainy ] [ sé sogið surgar sé blásið rýkur svar: pípan hans Jóa ] [ hafa ekki kossar hafsins gert steininn mjúkann? ] [ rauði hægindastóllinn nýtur sín enganvegin neinsstaðar ] [ blekpenninn er þurrausinn af orðum en blýanturinn ekki (því miður) ] [ blettur á vegg eða skammvinnt er stundum suð flugunnar ] [ My need to be Great is unimportant. My need to be Good is Heaven´s urgency. Pranava ] [ Himinninn er heiður og blár, lauf trjánna ljósgullinn og rauð, teið mitt er snarpheitt og sætt. Og Tító og Gosi liggja malandi í kjöltu minni. Getur nokkur beðið um meira? ] [ og mústass. góðir karlmannslíkamar eru ávallt góðir. karlmannlegir karlmannslíkamar líka. líka líkamar kvenna og svo líka líkamar karlmannlegra karlmanna ásamt líkama kvenlegra kvenmanna á sama stað. svona samanofnir karlmannslíkamar og kvenmannslíkamar kveikja ýmsar kenndir, líka í líkömum þeirra sem eru ekki kunnugir listum ástarinnar ekki kunnugir kenndum í lendum mínum. ég er það þó, kunnug karlmannlegum karlmannslíkömum og líkar mér það svona andskoti vel. ] [ Ég stend í skógi, þetta haust, með djúpum trega. Til jarðar hljóðlega í andvara kvöldsins og litadýrð lífsins horfi á laufin falla. Hvert og eitt geymir minningu um þig. ] [ Í kvöld þegar ég horfði í augun þín sá ég ást sem lá í leyni bak við grændröfnótta bletti. Þú brostir fallega til mín þú geislaðir af gleði. Heilluð ég hló með þér. ] [ Í grænni möppu þar geymi ég persónu, sem þér var gefin - en hvar er hún nú? Já, hvar er hún nú? ] [ Ekki er nýtt af nálinni að náttúran færi yl. Með sumarið í sálinni er sælt að vera til. ] [ Hryssan mín ei festi fyl frétti ég í síma. Iss það gerir ekkert til allt hefur sinn tíma. ] [ Bogi hefur heillað fljóð held að seint því linni. Ennþá leynist ástarglóð undir seigu skinni. ] [ Þráði mjög á Þóru fund þeysti heim til Lauga. Einar hefur létta lund og lætur vel að spauga. ] [ Pure beauty is something that you can't see with your eyes. Pure beauty is something that you can't draw. Pure beauty is something that words can't describe. Pure beauty comes from inside ] [ Pabbi ætlar þú að koma með mér á morgunn þegar dagur rís. Mannstu þar sem fiskur og fjaran er svo förum við og kaupum ís. Mamma mín ekki mæta með tár meðan allir aðrir sjá. Manstu hvað ég var montinn og hár morgundagurinn brosti þá. Hvers vegna er svona kalt í kvöld kvikul er guðs máttug lund. Handföngin á kistunni eru köld klukkur hringja kveðju stund. ] [ Sumir leggja lag sitt við þjófa læðast með veggjum. Aðrir eru loðnir um lófa lifa á dreggjum. Sumir elska múturnar meira mannorðið selja. Aura telja og engu eira eyða og kvelja. Og svíkja allt fyrir arðinn íllur og ragur. Stígurinn í Getsemana garðinn var grænn og fagur. Hvers virði eru smá sveinar spámenn gulls og ljóma. Hvers virði eru silfur steinar í sölum helgra dóma. ] [ Einn dag, er ég var að fara í skóla, það var að fara að styttast til jóla. Þá sá ég draug, sem út um gluggann flaug. Ég hljóp inn, og var örugg um sinn. Þegar ég var komin í öruggt skjól, þá heyrði ég hljóð, sem var einskonar brak, skammt frá sá ég drauginn, hvítan eins og lak. Ég bað um hjálp, en það trúði mér ei neinn, ég var orðin sein, mér leið illa að vera ein. Ég hélt áfram að leita, ég vil því ekki neita. Loksins er sá ég drauginn hljóp ég í geymsluna inn, náði svo í háf, og veiddi drauginn inn. Nú er komið að lokum um sinn, vonandi líkaði ykkur lesturinn. ] [ Sé barrgreinar þunglega bærast í brimróti skýja og vinda. Kjarnann sem mér þykir kærast og kjarrskóginn allstóra mynda. Tré sem í tilveruvanda tefja mig á minni göngu. Sterklegir bolir þar standa stoltir á haustdægri löngu. Trén í svo marglitum myndum mega sín lítils þá lætur. Hvinur í válegum vindum verður að skýi sem grætur. ] [ Hún á enn af ylnum nóg þó útlandið bæti hag. Sigga er brún og sæt og mjó og sextíu og fimm í dag. ] [ Ástin linar allar þrautir oft þótt tini höndin sár. Milli vina byggir brautir og brúar hinar dýpstu ár. ] [ Þrautseigjan hefur þrekvirki unnið þið skulið róleg hlýða um stund. Vona að þyki í verk mitt spunnið og vel megi hitta á ykkar fund. ] [ Einar minn er alveg frá öllum kröftum rúinn. Okkur liggur ekkert á en öll til vega búin. ] [ Þarna er hún enn og þraukar þann vind sem ílla lætur rammur rómur að mér baukar að hún hafi sterkar rætur. Ef hún getur varist veður þetta verð ég hugfanginn hvað ef hún er sú rétta, held ég sé ástfanginn. það birtir á bárunni við fjörðinn og brælan hún dvín Fjólan stendur föst við svörðinn, faðmar blöðin sín. ] [ Ekki eru draumarnir mínir dónalegir, dreymdi að ég hefði gert stórt og mikið í rúmið í nótt. Kaupi lottómiða næst! ] [ Titrarinn er tryggðartröll er títt mun reynast skást. Konur segja´ann betri en böll og bogna ei við tíða ást. Hann er sætur og sagður leiða sorgirnar ljúft á braut, auðveldur úr skúffu að veiða sem albúinn rekkjunaut. ] [ Margur er andas melurinn margt er tíðum spaugað: - Slíkt skeður oft á sæ, sagði selurinn þegar hann fékk skotið í augað. ] [ Gerjast hugans glæta sem glaðni tíð. Lengi má laga og bæta ljóðasmíð. ] [ Oft er snerta varir vín verður gleðin mest. Ekki skaðar góðlátt grín og geðið best. ] [ Mörg hefur döpur sora sýn sveipað heimsins stræti kúgara sem kalla má svín og kunnu sér engin læti. ] [ Gömul minning geymist og lifir geislablik undir veraldar sól. Er fuglar himins fljúga yfir ég finn að þú ert kominn í skjól. Er enginn getur grátið lengur gleðin horfin framtíð auð og ber. Veit ég að vera lítill drengur var allt sem þú vildir gefa mér. Birta er aldrei skína á sundin sindra út yfir dimmu og gröf. Enginn sér en alltaf verða fundin af okkur er þiggjum slíka gjöf. ] [ Hvað er eiginlega í gangi? Það er líkt og mig langi í eitthvað kalt, eitthvað rammt, eitthvað gyllt. Eitthvað fitandi er andann getur fyllt og ég fæ bara þegar komið er frí. Bittinú, bittinú...er kominn frjádagur á ný? ] [ heilluð af fallegum fallandi myndum skýjanna, horfir á sólina gylla húsin mannanna horfir á sólina gylla hafið. setjast í gullinn sæinn. seiðandi, sjóðandi, suðrænir tónarnir svæf'ana hlýjunni umvafin, vafin í armana strjúk'ana, gleðj'ana finn'ana vakandi og smella kossi á rauðar varirnar. ] [ Hafið gárar Gróttu við, golan kítlar kinnar. Heyri syngja sjávar nið söngva ástarinnar. Út við vitann víst ég stóð, vé mitt eina var það. Hið eina sanna ástarljóð úr eigin huga ég kvað; ,,Elskan gráttu með mér gull, gleðstu með í húmi. Skulum dansa'og drekka sull eða djöflast upp í rúmi." ] [ ...verðum að hætta hittast svona orðin alveg örmagna á þessari samskiptaaðferð... hvað segirðu....gott veðrið og svona....kaffi! Já ég ætla fá mér kaffi endilega... neinei ég hef ekkert farið, það er alltaf svo dimmt úti núna... nýja þáttin á stöð 1? já, samt ógeðslega leiðinlegur leikarinn...þessi með skallann...æji sem er alltaf vælandi í konunni sinni... já ég er búin að láta skoða bílinn...hann fékk samt ekki skoðun...kunni samt ágætlega við skoðunargaurinn...kannski aðeins of vel girtur en það er ekki heimsbyggðarvandamál. ..... sko ef ég mætti ráða þá fengu allir ókeypis varasalva...það er nauðsýnlegt ekki eh frítt í sund og strætó.... nei ég er ekki ennþá búin að því...ég er alltaf að fresta þessu...þori ekki að segja honum hvað mér virkilega finnst um hann...ég sauð handa honum egg þegar hann kom með pappírana til mín...svo sagði hann ,,ég bið að heilsa mömmu þinn vona að hún sé við góða heilsu´´ mig langaði nú mest til að sparka í punginn á honum... heyrðu já ég heyri í þér síðar..aha..já ok, já gerum það, ég skal koma með...þá verður allt miklu auðveldara og svona...meira notalegt... neinei ég er ekkert einmanna....hef bara ekkert heyrt í honum í kvöld...hann er víst upptekin... ég fór í bað og svona rakaði fótleggina og speryjaði á mig kölnarvatni, gaf kettinum slátur og eldaði sjálf! svo var ég bara mixa cd fyrir systir mína...æji þessa sem á allt! ok... ég fékk mér smá hvítvín það fór svo vel með baðinu... heyrðu áður en ég kveð þig...þá langar mig til að segja þér að uppskriftin af velferðarkerfi ástarinnar er staðsett á Þórsgötu 17a 101 Rvk. ] [ Nú legg ég augun aftur og fljótt þinn náðarkraftur mig umlykur alla frá höfði niðr'að nafla. Og eitthvað lengra niður svo um mig dreifist friður. Ég hækka jafnvel hitann þá af mér gufar streitan. Þarna inni í vætukró, þar finn ég jafnan sálarró. Ó, sturtubaðið besta þú toppar alla presta. ] [ það eru stjörnurnar í augum þínum sem þurfa að loga. það vantar eldsmat það vantar eldsmat fyrir hina brennandi þrá, sem ég þekkti í gluggum sálar þinnar. gakktu í skóginn sem er hjarta þitt og kveiktu upp í gömlum glæðum. ] [ Kæra Ritgerður. Nú er mánuður síðan við vorum í símasambandi og þú sagðist ætla að heimsækja mig. Hvar ertu eiginlega? Þetta stutta innlit þitt rétt fyrir páska telst nú varla með. Ef áfram heldur sem horfir, Ritgerður, neyðist ég til þess að endurmeta samband okkar, og vel gæti farið svo, að ég bindi enda á það. Ef það verður niðurstaðan þá vil ég bara hafa eitt á hreinu: Ég hélt framhjá þér með Feisbúkk... oftar en einu sinni... og oftar en tvisvar. Með kveðju Háskólanemi ] [ Hvað sem þú vinur í brjóstinu berð og bjástrar á vegunum löngu hampaðu gleðinni hvert sem þú ferð og hlæðu í ljúfu sem ströngu ] [ Snilldin oft er sjöllum nær snýr á margan gapa. Ég gerði það líka gott í gær gekk á inniskóm í krapa. ] [ Er að heimsku ekki ber óþverran ei ber með sér vill láta hjartað ráða hvetur til sömu dáða Gnarr er eins og hann er. ] [ Í gær var ég sæt og ljót, ég var sár og sátt. Í bakinu sat fast spjót, mikið á ég nú bágt. Í dag er ég lítil og stór, ég er feit og mjó. Því að eftir að hann fór, er ég föl og sljó. Á morgun verð ég glöð og leið, ég verð hress og reið. Ég beið og beið, en enginn hjálpar í neyð. ] [ Hvað sem þú vinur í brjóstinu berð og bjástrar á vegunum löngu hampaðu gleðinni hvert sem þú ferð og hlæðu í ljúfu sem ströngu. ] [ Í draumi allt svo fagur er Mig langar ekki að vakna, Ég vil frekar vera hjá þér Mig langar ekki að sakna. Þú sagðir vertu sterk án mín Og sattu alltaf á þínu, Þú sagðir ég er alltaf þín Og allt þitt tilheyrir mínu. Nú stend ég hérna ein án þín Ég vil gefast upp á að sakna, Ég vil koma aftur til þín Ég vil alldrei þurfa að vakna. BB 9/09 ] [ Sem gullið fílabein er feldur þinn, að mýkt sem flauel Sem stjörnur safírs augun skæru skína, skartið dýra er lýsir sálu mína ] [ ammi nammi amminamm amminammi namm namm nammi ammi namminamm namminammi amm namm ] [ We have to burn down all the energy that has been deystroing all in our history and mother nature will be suffocate and we must do something before it's too late. All nations must stop this development before the earth burns up, our god who created the heavens and the earth would be angry and sore. The sinners of this world will be burned by the flames and their souls will be taken by the devil that we keep inside of us all. There is no innocent in this damage of our beautiful nature that we are around. Shelter of peace will keep us from war, crimes and others disasters. Our children will experience the horror of consequences of mankind in days, months and years and their lives and souls will be tortured forever and Satan will put them into the bottomless pit or abyss for 1,000 years. Then ourlord Jesus Christ will return to conquer the evil and the earth will grow up strong and tall. ] [ I am not interested in what the world has to offer. I am only interested in what i have to offer to the world. Pranava ] [ Lífið er spegill. Það endurspeglar þig ávallt rétt. Það endurspeglar þitt innra Ljós eða þitt innra Myrkur. Þitt er valið! Pranava ] [ ekki fara og hlaupa á vegg fáðu þér frekar köku því loksins ertu kominn á legg með skegg á nefi og höku ég vil óska þér til lukku þó þú fáir eina hrukku brostu hafðu gaman með eitt stórt bros í framan Afmæli í dag þú átt hafðu það gott og notalegt lifðu ávallt í friði og sátt og gerðu eithvað rosalegt ] [ Life is a mirror. It always reflects you correctly. It reflects your inner Light or your inner Darkness. It´s your choice! Pranava ] [ Þú ert hengingarsnúra sem herðir um háls minn, bíðir eftir því að ég gefist upp og sparki undan mér stólnum svo ég dingla eins og trédrumbur uns dauðinn fær nóg og tekur mig til sín að lokum og lætur mig ekki þjást lengur í þessum heimi. En ég læt þig aldrei vinna á mér nein mein sama þó þú vonist eftir að geta gert það með þínum vondu hugsunum og slæmum anda og ef einhver mun gefa eftir í baráttu okkar þá ert það þú því ég er orðinn baráttumaður og ég læt þig ekki vinna mig þó þig langi til þess. Þú ert sannarlega hengingarsnúra um háls mér en þú vinnur mig aldrei, því lofa ég þér og lofa, en einn daginn vaknar þú og sérð mig aldrei aftur því ég verð farinn og skil þig eftir tóma með rykið, drulluna og skítinn sem þér fylgja! ] [ Á hvaða stað? Á hvaða stundu? Skal ljóðinu létt, af minni langþreyttu lundu? Því það er nú spurning, sem ávallt mun brenna, og á endanum leka, úr fallegum penna. ] [ Hvað er? er? stór eða lítil? löng eða flýtin? Hvað ef? færi, væri ég samur, er? kannski hamur Hvar er? týnd? ófundin? eða óbundinn? hvað ef? væri ást. er ást kannski spurning, ef svo er þá erum við svarið. ] [ Það er ekkert kynferðislegra en kona að nota ljósritunarvél. ] [ Líf mitt er líklegast óskrifað blað eða hús þar sem enginn er heima, mannlausi bíllinn sem rennur í hlað jafnvel hestur sem enginn vill teyma. Þó margt sé um manninn og hér hef ég vin minn þá á endanum alltaf hann fer. Því sælan er skammvinn og tárvot er mín kinn, truflandi tómlegt það er. Já hugsaðu ljúfur um niðdimma djúpið sem skín svo opið við þér. Ég kýs þú sért hrjúfur svo þetta gapandi gljúfur lokist innra með mér. Já hugsaðu góði um allsnakið rjóðrið sem tættir þú laufblöðin af. Ég kvaldist í hljóði, þinn enginn var gróði því hjarta mitt fennti í kaf. ] [ Þú færir ljós í marga Þú færir ást í marga Þú ert til staðir fyrir alla Þú ert sú sem ert til staðar þegar þarf á þér að halda Þú ert hjarta mitt Þú ert ljós mitt Þú ert sú sem ég þarf á að halda ] [ Ég sit hér einn með sút í hjarta sorgin ræður þessum degi. Kattarskottið kæra, bjarta, komið er á nýja vegi. ] [ Hún tekur áhættu með þér, stúlkan sem nýlega hefur komist að því að ekki er allt með felldu í heimi hinna fullorðnu þar sem karlar elska ekki sínar konur heldur aðrar og fínar dömur selja líkama sína bakvið luktar dyr Hún ætlar að standa og falla með þér, stúlkan sem ekki var lengi að læra að varnarveggir eru fyrst og fremst sálarleg smíði í konungsríki þar sem stúlkum sem hafa komist að sannleik hinna fullorðnu líður allra best Hún elskar þig meira en konungsríkið leyfir, stúlkan sem þessvegna hefur ákveðið að taka áhættu: - á því að karlar getið þráð sínar konur en engar aðrar og að varnarveggir séu óþarfir því í hennar heimi muni engin styrjöld verða framar ] [ Kolbíturinn er risinn úr öskustónni og horfir út í dreirrauðan bjarmann. Hann lifir, hann andar, hann elskar. Askan er horfin en glóðin logar í brjóstinu. ] [ Þegar að ég vaknaði í morgun tók ég eftir að sumarið var farið, það fór án þess að kveðja en það var allt í lagi vegna þess að það skyldi eftir gjöf í litunum gulum, rauðum og grænum. ] [ Elsku besti afi minn þín ég sakkna svaka sárt en ekki er hægt að breita því sem er liðið en ekki ætla ég þér nokkur tíman að gleima. Höf:Elís Kjaran yngri ] [ Nú ert þú farin á feðrana fund, til að hitta alla hina sem þér var svo annt. Elsku Elli afi minn engu mun ég gleima af því sem þú hefur kent mér. Höf:Elís Kjaran yngri ] [ Fyrir það eitt að byðja ekki um blað fær maður vinurilla ekki er maður alveg að skilja þetta, svona eru skólalög, ekki skil ég það. Höf:Elís Kjaran yngri ] [ Íslensku kennarinn er ekki hrifin af ljóðunum mínum, það ekki gott og segir að það vanti allt runurím, endarím, ljóðstafi og höfuðstafi ekki er ég hrifin, svo blaðrar hún bara út í eitt og er ekki hrifin. Höf:Elís Kjaran yngri ] [ Áhrifssagnir eru rugl, gæti nú bara sofnað yfir þeim, íslenska mætti nú vera svoldið skári. Kennarinn er trúlega svodið heyrna daufur og líka með athiglisbrast og er svo í útliti eins og köttur. Höf:Elís Kjaran yngri ] [ Í augum þínum ég sé þessa lífsgleði sem ég vil tileinka mér. Í mínu sorgmædda hjarta ég finn að þar er von, von um betra líf. Lífskraftur þinn mun lýsa mér leið í gegnum lífsins þrautir storma og hríð. Það er enn von! ] [ Mér líður ver en þér er þú heldur mér og ég finn til sektar sjáum hvert þetta fer eða hvort þetta verkar mér líður mjög illa einhver helvítis villa en mér þykir enn vænt um þig ] [ Moldin í höndum mér fer að líða að desember árinu fer að ljúka tárin fá að fjúka því framtíðin er björt fortíðin er svört og nú er ég hættur að ljúga. ] [ Í veröldinni er margt til meins en margt til stórra bóta. Lán að hafa ei alla eins ef til vill bara ljóta. ] [ Verkamanninn virða ber vinnu skal glaður mæta. - Hálfnað er verk þá hafið er og hægara við að bæta. Verkamanninn virða ber voldugt er hans gengi. Það er stinnt sem stál í sér og stendur vel og lengi. ] [ Ég dáist að þeim duglegu duga lítið sjálfur finnst ég bara fallegur en flottastur þó hálfur. Trúi ég margur vildi vera til verkanna ekki smár. Það er sama hvað sumir gera sóminn er að því klár. ] [ Ýmsar hafa stuttpilsum lagt sitt lið, læri orðið köld í hríðum og dömurnar verið dauðhræddar við djöfulinn eineygða tíðum. ] [ Án þín er ég ekkert Sorg væri að missa þig Til þín ég vill koma Inní þér ástin logar Nálægt þér alltaf vil vera Með þér vil allt gera Í ástarsorg vill ég ekki fara Nálægt mér vill þig alltaf hafa ] [ Heimasætan á herrasetri hugleiddi um stund: Eru ekki töfrar útliti betri ásta ef ber á fund? ] [ Ég vil að Stjórnarskráin fólki veiti vörn og vandlæti frjálsræði sem oft er að heyra að konur njóti frelsis til að bera út börn býsna er afstætt þótt ég segi ekki meira. Frelsið er lofað af flest öllum lýðum en frelsi til sumra er annara mæða. Það finna margir til í fólskunnar stríðum er frelsi byggir á því að láta öðrum blæða. ] [ Fjandinn oss vitfirrta vinstri stjórn gaf! Vitleysan sjaldan við einteyming ríður. Stéttanna á milli er himinn og haf hokrandi alþýðan lausnanna bíður. ] [ Einangrun Sparkar út í loftið. Forvitni Þreifar fyrir sér. Hlýja Heyrir óskiljanleg hljóð. Ljós Nýr heimur. Nýtt líf. ] [ Rétt eins og drottning hún svífur í salinn síðklædd í hvítu með brosmilda vör. Ég kenni þar Þórhöllu sem tíðum er talin traustust að hugsa um sjúklinga kjör. ] [ Í sárri kreppu er kostur að spara kaupandi settur skal bak við lás en ekkert í heimi er vinsælli vara og vændinu ljúfara í aldanna rás. ] [ Húm við sólarlag svo tært og dimmblátt Geimurinn flæðir yfir himinhvolf Tungl í lágu lofti svo lygnt og glæst, kastar mjúku ljósi á hlíð og strönd Jökull stendur þögull reisir glókollinn stoltur til móts við húmið ] [ Í þjóðlífinu brakar nú og brestur brostin eru hjörtun æði víða en þjóðarráðinu þykir bestur frestur og að það sé nógur tími til að kvíða. ] [ Svífur um daman sem drottning frá Kína dásamlegt væri að fá hana kysst. Hún er draumi líkust hún ,,Brjálaða Bína” ég bráðnaði strax er ég sá hana fyrst. ] [ Blóðugur hraktist Ódysseifur undan eineygum engisprettum hins ráðvillta hers. Á milli stríða elskuðust Hektor og Andrómakka í skugga heilagra bjarga ilmur vínviðarins hneppti moldina í álög en veröldinni hringsnéru ljósboltablóm. París leiddi Ódysseif drafandi um kalda ganga San Quentin í hjartanu barðist blóð lífs hans logandi augu Helenar fögru spegluðust í síkinu. Hektor rétti fram kúpta lófa og hugsaði: „Ódysseifur – Sjáðu þetta!“ Dularhjúpur var um eilífðina. En Andrómakka hvíslaði: „Ódysseifur – Sérðu skýin? Logandi, blóðrauð skýin ...þau loga fyrir þig.“ ] [ útvarpið malar. í gömlum sófa í gömlum kofa sit ég og vil ekki sofa. eins og tíminn hafi staðnað á þessum stað. fjallshlíðin gróin ég horfi á fjörðinn út um gluggann og duggan siglir inn. vaggar hún létt eins og ég vagga í hugsunum mínum þennan sunnudagsmorgunn. og það toppar ekki neitt veðurfréttirnar á Rás eitt. ] [ Þrír nýir skattborgarar komu í heiminn í dag á Hátæknideildinni. Einn var keisari, annar var með töngum og sá þriðji var klipptur. Ljósmóðirin telur, að þeir verði allir borgaðir út. ] [ Hver er ég og hver ert þú? Legðu mér lið. Hvar er stúlkan sú? Sem sagði snúðu við, en þú gekkst áfram veginn bratta gekkst of langt þú varst of lengi að fatta Fatta að þú hefðir gert rangt Fatta að það væri einhvað að Svo kom það allt í einu að þú án mín væri eins og stúlkan án þín. Hörður Ernir Heiðarsson ] [ úti situr rökkrið og horfir inn. ég sit við borðið og borða kóngabrauð og drekk mjólk úr glasi, með sprungu sem er eins og draugur; draugaglasið. það er uppáhalds glasið mitt - fyrir utan koparglösin. mjólkin er svo köld í þeim. úti situr rökkrið og horfir inn. kyrrðin, ilmurinn og hlýjan halda veislu í garðinum sem er skreyttur öllum mögulegum blómum og garðálfum - sem voru gjafir. úti situr rökkrið og horfir inn. ég sit á gömlum stól, hlusta á útvarpið og hljóðið í klukkunni. tikk-takk-tikk-takk Nú verða lesnar veðurfréttir frá Veðurstofu Íslands. tikk-takk úti situr rökkrið og öfundar mig. ] [ Enginn sagði okkur neitt um það að gatan yrði ekki greið. Tíminn teymdi okkur samt af stað þó torfær væri sú leið. Við vorum öll yngri þá með von í hjarta og þrá enginn vissi neitt hvert leiðin lá. Svo liðu árin áfram eitt og eitt við skildum ei þá vá. Að örlögunum við gátum ekki breytt er okkar vinir féllu frá. Við vorum öll vinir þá með von í hjarta og þrá enginn vissi neitt hvert leiðin lá. Og það liðu ár það féllu tár niður á myndina af þér ] [ Lærðu að þegja og treysta engum haltu aftur að þér því engum máttu segja mannstu þegar að við saman gengum og ég sagði þér allt þú hefur svikið mig og nú er ekkert nema kalt á milli okkar tveggja og því hef ég ákveðið að vináttu okkar niður leggja Hörður Ernir Heiðarsson ] [ Í neistaskini nátta sé ég nætur lýsa. Og seka leita sátta og stjörnur rísa. Ár niður drauma drjúpa yfir dag slúta. Sé í anda konu krjúpa og krossinum lúta. Biður um miskunn manna mátt úr birtu skærri. Gef María móðir sanna myrkraskuggum fjarri. ] [ Sit ég hér við tölvuna Að reyna að semja texta Það eina sem kemur er bla bla bla En ég geri mitt allra besta Horfi á mynd til að slaka á Með popp og kók í hendi Þar var nú mikið sem ég sá Eins og kona, sem maður lamdi Eftir að hafa horft á mynd Þarf maður að læra Það yrði nú frekar mikil synd Ef að kennara ég myndi ey færa Nú er dagur langur búinn Og ljóðið senn á enda Er ég orðinn frekar lúinn En fyrst þarf þetta að senda. ] [ Ég iðrast þess sem ég gerði, En öllu sé ég þó ekki eftir. Nú ólina að fullu ég herði, Hún minninguna samt aldrei heftir. Ég iðrast þess sem ég gerði þér, Því verður aldrei breytt. Í gegnum huga minn alltaf fer, Hve mikið mér þykir það leitt. En ef að við værum enn í dag, Dansandi á línu siðferðis Allt væri okkur tveim í hag, Og ekkert slæmt gerðist. Væri ég ekki sá sami? Væri ég ekki ennþá eins? Eins siðblindur og ég var? Það hefði ekki verið til neins, Ég hefði aldrei fundið neitt svar. Þó er enn eitt umhugsunarefni, Sem varðar þetta tímabil. Ég hugsa um það og hér það nefni, Ég þekki þig og ég skil. 23:15 hefðu hurðir okkar opnast, Allir mættu það vita. Eplakarfan þér einni hefði hlotnast, Hefðiru fengið þér bita? ] [ Þegar hugurinn fer af stað fer hann út um allt og ég leyfi það því þegar hann kemur aftur verð ég vitrari maður eins og vindurinn breytir hann stöðugt um stefnu fer hingað og þangað út um alla veröld og dregur frá stór tjöld á miðju sviði stendur maður sem ég þekki en kannski ekki nógu vel maðurinn á sviðinu er ég svo áfram læt ég hugann reika til þess að vita meira og meira því þegar ég veit allt um mig get ég fundið þig ] [ Ég sker mig í sturtunni því vatnið skolar burt öllum syndum. Ég prumpa í lyftunni því loftið skolar burt öllum vindum. ] [ Himinstjörnur seiða skuggana fram til eyðilandsins. Því öfl vilja eyða eldi í brjósti flóttamannsins. Ættir lands og anda því unið mannsins innra eldi. Yfir eyðisanda orðið getum við hinn ofurseldi. Breiðið blessun yfir og breiðið vonarfaðm á móti. Lífsins draum er lifir leitandi sál í ævi róti. ] [ If there was for you and me I would live for you and me I wish you would be mine But now i just feel pain between us But if not i will allways love you no matter what ] [ Vatn fiskur brauð deyja sofna vakna á morgun drepa drekka kvöld borða eitur augu þunnur ] [ Á ljósmóðurina ljósið skín er líf í heiminn fæðist. Heill sé með þér Helga mín hverju sem þú klæðist. ] [ Ég ætla að þíða orð / þau eru frosin saman eins og mamma og pabbi, forðum daga, þá er kominn tími á að, þau skiljist að ] [ Nú fer ég með yndislegt ljóð sem úr mínum munni fellur einsog flóð yndishljóð úr mínum orðasjóð koma óð kokhljóð Sigurður sigurður sigurður leggur af stað í leiðangur einn tveir þrír sigurður í leiðangur ljóðaleiðangur Ég fer í tíma, nennið þið að hætta að horfa á mig ég er að lesa af þessum litla pappírspésa ég þekki einn pésa gefið mér að éta Ég stunda leiklist en hata list minn innri maður kirkist svo enga fái ég fjarvist Ágúst þegiðu hér er ég að fara með þríliðu Gulla nenniru að stoppa mig því ég er kominn á lokastig Ég elska þetta þetta er mín sonnetta að tala í sviðsljósi er mín mekka ég er done géfið mér eitthvað að drekka ] [ Hafmeyjar og sígó Amígó Hér er engin býkó verslun.. Klesstan hun' Tan Ku klux klan Á meðan ég man Klesstann Aftur. ] [ Ást er fljót oft sem oddhvasst spjót ljót orð sem falleg Ástfangið fólk getur lyktaðsem gömul mjólk það er ást jafnvel sem nýmjólk Sambönd eru rugluð eruði að kinda í mér? nei þið eruð rugluð diskóstuð ] [ Ég dyl mína daga dreymi lífið þitt. Svörtu augun saga sundur hjarta mitt. Þrá hef ég þakið þyrnibeðin mín. Frá runnunum rakið rifin klæði þín. Inn í þurrum þornum Þekktir enginn mig. Út úr sárum skornum seitlar blóð á þig. ] [ Gleði ríkir um gleðileg jól gestur sníkir og bræður flakka depurð víkur um byggð og ból og börnin kíkja í jólapakka. ] [ Komdu nú Samúel, minn kæri frábæri vinur. Þú ættir að koma, vegna þess að ég þarf að segja þér svolítið. Ertu ekki að koma? Komdu nú. Jæja Samúel minn, nú ert þú kominn og ég ætla að segja þér undur og stórmerki, þú ert með remúlaðiklessu á kinninni. ] [ Kysstu mig kossi vara þinna kysstu mig dagur og nótt. Klæddu mig drotting daga minna í drauma sem enginn hefur sótt. Kysstu mig kveðju fótspor minna kysstu mitt silfraða hár. Því snerting heitra handa þinna hefur mig yfir aldir og ár. Kysstu mig kossi sálu þinnar kysstu í mig fagnaðar söng Því leiðin hátt til hallar minnar er hörð undir fæti og löng. ] [ Ef það væri orð sem gæti lýst tilfinningum mínum, gæti hýst helstu drauma, helstu styrki og þrár. Gleði sem að þurrkar öll mín tár Mundu elsku vinur, hvað ást er. Ást er blíðust alls í heimi hér. En einnig getur sært og valdið sorg, sorg þeirri sem skolast burt, líkt og hruninn spilaborg. Finndu þann sem gleði veitir þér, líkt og þeirri gleði sem þú veitir mér. Mundu alltaf að þú ert ástin mín, mig grunar því að ég sé ástin þín. ] [ Eftir að skáldin voru tekin úr umferð komu fuglarnir aftur í borgirnar tréin í görðunum tóku vel á móti þeim og fólk sást aftur á Langholtsveginum Við fórum saman á nokkrar bókabrennur á síðkvöldum niður við Ægissíðu við vorum þar þegar neistinn steig upp en í logunum mátti sjá furðuverurnar hverfa Sumarið eftir fórum við í lautarferð til Þingvalla og austur fyrir fjall við Drekkingarhyl horfðum við á þegar síðasta skáldinu var varpað í djúpið Æ síðan fuglarnir hófu aftur að syngja sín fegurstu kvæði við ýmsan undirleik og eftir að blómin öðluðust málið á ný þá hef ég stolist til að skrifa þér svona ljóð ] [ Megi lukkan leika þér, ljós þér skína á vegi. Heillaóskir bestar ber bóndinn í Skálateigi. ] [ Yndið er ljúfast þar ást á sér stað og enginn er fjötrunum seldur. Hví ekki gera það sem gaman er að og gott þykir öllu heldur? ] [ Samansafn af ótrauðum til slátrunar leiðum þau óvarin við sjáum inn í framtíðar bölsýn. ] [ Svartar götur, kyrrstæð tré endurspeglandi áferð glampa tunglsins horfi upp til himins og sé í gegnum djúpt og rakt skýjaþykknið þig fljúgandi skuggi þinn varpast á jarðflötinn með drungafullum hætti fjaðrirnar kljúfa vindinn gróflega í takt við djúpan hjartsláttinn líkar þér nóttin, kæri næturhrafn? ] [ Ég er að leita ég er leitandi en ég veit ekki að hverju . jú ég er að leita að tíma já jeg veit það nú mig vantar tíma það eru að koma jól vantar meiri tíma er hægt að tína tímanum er hægt að fynna tíma gjón 2008. ] [ ég er að fæðast ég kem fljúgandi inn mamma hvað ertu að hugsa á ég að fæðast hér á stigapalli glætan á þrepi 63. gjón 1996. ] [ það sem þú forðum færðir mér ástina börnin og eldmóðinn þú elskar mig eins og ég er við smíðuðum ramma og máluðum myndir af lífinu saman ég elsa þig ennþá ofur heitt vona málninginn klárist seint eftir að mála svo voða mart við höldum á penslinum saman gjón 2008 ] [ þú fórst framhjá eins og raketta þú hægðir ekki á ég hélt þú vildir sjá hvernig ég bí. gjón 2005 ] [ Hvítum vefjið mig væng og vakið yfir mér í svefni og signið mína sæng þá sofna ég er nafn þitt nefni. Villugjörn er veröld vera mín hér er reyrð og bundin. En kveikið þið í kvöld á kyndlum fer ég einn um sundin. Komið frekar í kveld komið með dómana og strauma. Ég veit um ykkar eld á mér ekki lengur drauma. Hvítri vefjið mig voð vörðum ykkar treysti um geima. Er ferjan ber mér boð berið kveðju til allra heima. ] [ Glæst verði fræmtíð og gleðileg jól og gengið á Drottins brautum! Ástríkið dafni sem frelsari oss fól og færi öllum líkn í þrautum! Af englavængjum sé indæll kliður sem eyrum veiti ljúfan nið! Grið verði jóla og gefandi friður svo gráti hvergi mannlífið! ] [ Úti á Skorrastað oft rek ég við og andakt rís tíðum til vöku. Það sé ég glæstastar hlið við hlið hryssurnar Blíðu og Stöku. ] [ Er vindur strýkur vanga og vetrarsólin skín. Þá er gott að ganga götuna heim til þín. ] [ Sagt geta tárin allt sem birtan ber. Bros getur þjakað þann er heilsar þér. Þögn getur líka linað sorgar föll. Orð geta drukknað í dómkirkju höll. Og augun vökvað sölnuð sumarlönd. Um kinnar strokið eins og móður hönd. ] [ Hækkar nú sól lengir þá daga. Vorvindar hlýjir svo gróðurinn laga. Bráir af birki, ilmur þess laðar. Förum í frí til hins himneska staðar. Rennum í Reykjahlíð, frítt föruneytið. Setjum upp tjaldið um kvöldmatarleitið. Opnaður bjórinn, blandað í flöskur. Skundað í hlöðu með troðfullar töskur. Þar má sjá rokkbönd, má sjá trúbadora. Jafnvel einn rappara á sviði spígspora. Í syngjandi sælu svo röltum í rjóðrið. Heyrum í gítar og göngum á hljóðið. Spjöllum og syngjum dönsum við bálið. Dönsum uns sólin rís í fyrramálið. Skakklöppumst lúin þá aftur í tjaldið. Annað kvöld, vinur minn, verður framhaldið. ] [ hún var svo hjálparlaus, svo óskaplega lítil og viðkvæm brothætt ósjálfbjarga, ég hataði hana svo heitt fyrir aumingjaskapinn að ég greip að lokum stóran lurk nei, vænn hnullungur væri betri, og hóf hann hátt á loft lét hann bara detta beint ofan á andlitið á henni heyrði brestina í höfuðkúpunni og lágvært uml sem kafnaði í fossandi blóðinu undir klesstu nefinu lét hnullunginn vaða aftur til vonar og vara og gerði gat á hausinn svo sást í heilann og dauðahryglan dó út ] [ Á laugardegi lít ég fram á veginn og langar til að sýna mínum vinum að Svarri búi enn að sannri snilli og alltaf langar karlinn þann í hylli en spekin getur líka gagnast hinum. Ég hef ekki sofið svona í háa herrans tíð en horfinn er til vöku og byrjaður að éta svo legg ég mig að nýju og sef í erg og gríð og hlakka til að vakna og borða meira og freta. Það þarf engan að undra þótt yrki ég ekki mikið en ég fitna og braggast fyrir vikið ] [ finnst ég vera hálfgerð kind á þessum árstíma svo sterk lykt af jörðinni, drullunni og grasinu langar til að leggjast á beit og smjatta á nýgræðlingunum nudda snoppunni uppúr blautri vellyktandi móðurjörðinni skoppa um og súpa vatn úr öllum pollum og tjörnum losna undan þungri vetrarullinni til að njóta sólarylsins og bægja frá mér óttanum um vetur handan komandi sumars ] [ eins og ballerína á spiladós snerist ég í hringi svo falleg og glitrandi, íklædd postulínsmjúkum silkikjól með litlum perlum og hárið flóði niður axlirnar ljóst og glansandi, eldrauðar varirnar umluktu mjallhvítt brosið sem var alltaf frosið en ísköld fegurðin heillaði samt þar til spiladósin datt í gólfið og ég lá brotin í skítnum, þá sást að ég var hol að innan, full af engu, og sködduð skelin dugði ekki lengur til, enginn elskar ekkert ] [ "Hættu þessu hangsi og skelltu þessu í mallann á þér!" þriggja ára snáðinn greip handfylli af stöppuðum fiski, kartöflum og tómatsósu, svipti upp nærbolnum og makaði bleikri kássunni á magann á sér. amma kipraði varirnar og þagði, vissi upp á sig sökina. ] [ ég smitaði hann af mínum eigin tryllingi svo hann fældist og rauk, æddi áfram meðan ég reyndi í vanmætti að halda í hann en að lokum tókst honum að hrista mig af sér og hélt flótta sínum áfram, skildi mig eftir liggjandi á kaldri jörðinni með kúlu á höfðinu og högg í hjartastað ] [ Ástandið oft finnst mér skrýtið og ekki er af vitleysunni litið. Ef að er gætt er ýmislegt rætt: - Vaknið með Bylgjunni í bítið! ] [ Ég líð eftir ljósboganum, leiðina löngu, í einu andartaki, hljóður. Hlusta eftir þögninni, sem fylgir einum. ] [ Sannasta gleðin er gefin þeim er grátið hafa sína sárustu sorg. ] [ Já, þessi jól leika margan grátt. Þegar spennan keyrir úr hófi fram verða sumir jafnvel, fyrir því að breytast í einhvers konar háspennu/lífshættustöð. ] [ Var þar hola hlusta á kannski hætti ég að vakna vona hlusta því mér er sama en mér er ekkert sama vil ekki hlusta bara vona vakna seint til vonar sama að þar var hola hlusta alltof lítið kannski byrja ég vona sama hvort ég hlusta því mér er sama ] [ Fölur máninn myrkrið slær mæru hvítu ljósi. Inni' í koti kúra fær, kát þótt úti frjósi. ] [ Horfi út um gluggann á vatnið, sem gárast. Sólin hefur risið. Sólin hefur sest. Handan fjallsins, hulin sjónum mínum. Ég sá samt bjarmann frá björtum himnasal. Nú dimmir í Skorradal. ] [ Yndislega etýða eilíft verkið meistarans Fínlegt spil og fingur líða fimleg stelling leikarans Upphafshljómar ólmir líða sem satín tónar um sali svífa einlægt leika á huga manns og stela sálum etýða! ] [ Í svörtum steini býr leyndarmál, um svöðursár og hjartabál. Með rúnum ritað djúpt, ristað meitlað gljúpt. Svört er sorg í steini fornum, seiðstafir úr heimi horfnum, elta uppi hvern þann gest, sem einmana við steininn sest. Í svörtum steini býr viskuleynd, þar sjálf er sagan grafin gleymd. Sem töfrarún og táknagaldur, týnt og læst um allan aldur. ] [ Orðin hörð, andlátsfregn, óbilgjörn, torskilin, deyða. Fordæming ill, öll mér um megn, eitt mun af öðru leiða. ] [ Rastir lykjast um aldinn reyn, seytlar regn í mjúkri þögn. Ljósbrot laumast um sorfin stein, líða yfir veðruð nöfn. Drýpur döggvot birkigrein, dökknar skýið grámalitt. Leika dropar um leiðisstein, lauflétt strjúka nafnið þitt. Milli greina á gömlum reyn, glampar himins geislalögn. Hún þelgóð þekkir hulin mein, og þýðlind lofar horfin nöfn. ] [ Leiksvið þitt lýsir upp dimmblá himintjöld, loft hulið skýjum mig seiðir. Ávallt ert hylltur öld eftir öld, og sorgmæddar mannverur leiðir. Skáld yrkja söngva um mánans glit, um silfraðan hástemdan lit. Þú friðsæla frægðarmynd, ferðast um geim, flóðlýsir himinn um nætur. Þú friðsæla frægðarmynd, er ferðast um heim, feiminn, svo oft feiminn lætur. Gimsteinar gull hvers virði er það eða grimmd sú er heiminn knýr? Döpur ég dáist er húmar að, draumi er í geislunum býr. Við dagsljósið deili ei byrði, allt dulið, ef bara ég þyrði. Þú friðsæla frægðarmynd, ferðast um geim, flóðlýsir himinn um nætur. Þú friðsæla frægðarmynd, er ferðast um heim, feiminn, svo oft feiminn lætur. Þá dáleidd ég horfi á þig, þú daðrar við mig, ég sver það, ég sver það, þú brosir sem Eros. Dáleidd ég horfi á þig þú dansar við mig, ég sver það, ég sver það, við heitan vindgolukoss. ] [ Myrkrið senn mun mýkjast, magnast ásýnd landsins, í musteri myndlistar. Því ljósblátt vorið laumast, að leysa upp liti himins, í ljómandi skýjafar. ] [ hún kveikti á stóru kerti lét það loga vel bar upp að skotinu nær og nær hallaði sér fram til að sjá sem best "sko ég vissi það! hér er allt fullt af sóti og kertavaxi“ ] [ Ég kem til þín sem stjarna um nætur Ég kem hvern morgun er ferðu á fætur Ég kem til þín sem hiti í sól Ég kem til þín sem hamingja um jól Ég kem sem öxull í þitt örlagahjól Ég kem sem öldur hafs að sandi Ég kem sem vindgnauð í sorfnu landi Ég kem þér til verndar í umferðinni Svo þegar þú kemur að gröfinni minni Þá kem ég með þér, í hvert sinni ] [ Mín marglita lilja, margt þú veist um þessa mýtu. Eitt er að vilja, eða óska sér á jarðarsvítu. Ilmfagra lilja af öllum berð í búnti hvítu. ] [ Svo heyrði ég hvíslið, þagnarvallt, hver blæbrigði þess voru skýr. Á eftir kom orgið og yfirtók allt, Í öskrandi upphleðslugír. Misskildi dylgjur við meinorðið kalt og þann mátt sem í hvíslinu býr. ] [ Nyrsti haugur á heljarslóð, hlaðið tákn um jarðarris, klungur og klettakögur. Frostveðrað fokfennt steinahlóð, föru mína skelfa slys myrkur og munnmælasögur. Gamla varða á vegaslóð, vísa mér heim þú fegurst dys, svo þrautgóð og þokufögur. ] [ Heyr! minn guð sjá himins lín heit og gullvölsuð Hvíta strönd hafsins sýn háa stjörnurönd blikar sólarroð blæfagurt gullið vín berg af mitt goð ] [ Heitur ilmur, kryddpipar, eldrauð chillirót. Heitur ilmur mig laðar, á eldheitt stefnumót. Heitur ilmur þinn er þar, svo brenn ég upp, í sót. ] [ Hér ég leita þín enn, heit þín geymi og hljóðu orðin smá. Heitt svo hugs‘um þig enn, ó hátt slær hjartans heita þrá. Hamslaust elska þig enn, þú huga mínum víkur ekki frá. Hjartað harmar þig enn, harðir tómir dagar langt þér frá. Faðm þinn finna mun senn, og falda ást, í hafsins miklu vá. ] [ Mynd þín er hverful í huga mér í hjartans angist leita að þér, en ef hlusta heyri róminn blíða, finn ilm þinn framhjá líða, man milda kossa enn um sinn og bjarta blikið í augum finn. Ó samt í angist ég leita að þér og að mynd þinni í huga mér. ] [ Heiðbjört nóttin hafið roðar há er stjarna á hvelfdri taug Skellibjartur heiminn skoðar sólvindur á hádegisbaug Úðaregnið dimmir doðar döggvast gras og gárast laug Jarðarhljómur helju boðar hrímar kóf við úthafstaug ] [ Fundargerð á hrafnaþingi; hver með sínu nefi syngi ekkert lengur ætt á lyngi fljúgum upp og hnitum hringi leitum að feitum ruslabingi fært til bókar fundi slitið ] [ Úr silkiþræði og heitri ull ég spinn af fingrum í stjörnugull svo aldrei slitni hönd frá hönd eða veikist okkar bönd og eðalsteina alla sem fást ég gef fyrir lítið bros og ást ] [ Hann settist og snyrti sig smá, saman við sátum um stund. Leit síðan til mín á ská, og spurði, þekkirðu hund? Svo vængi svarta þandi, mót sól heyrðist lágur hvinur og hátt frá heimalandi, hann flaug, minn nýjasti vinur. ] [ Þá töfrandi verður morguntíð er tipla litlir fætur á hurðarhúni er höndin fríð og hleypir geislunum inn, lokkakollur sætur Lítil rödd með glöðum rómi réttilega segir, skamm einlægt bros og aunaljómi einarðlega spyr afi viltu koma fram? ] [ Engill Drottins yfir vaki og öllu að gæti í þínum rann! Það er enginn ber að baki sem býr við góðan stuðningsmann. ] [ Fallið hefur konan kúpt og kannað lífsins álfur. Nú er kveðið dýrt og djúpt dæmið skil vart sjálfur: ] [ Augu horfðu í augu stór hönd greip í litla hönd. Nú loks gat ég þurrkað framan úr mér farðann farið af háu hælunum og staðið afslöppuð allsnakin varnalaus fyrir framan þig Ég var komin heim. ] [ Hendur mínar smáar faðmurinn fíngerður en fyrir þig eru hendur mínar sterkar og faðmurinn breiður anginn minn. ] [ Hjartað berst í brjósti mér þegar ligg ég þér hjá haltu mér, slepptu mér þó svo vilji þig fá Ertu minn rétti maður eða er þetta rugl ert þú bara graður og ég bara full? Eigum við framtíð saman ég og þú eða er þetta stundargaman sem klárast hér og nú Sál mín grætur meðan höfuð mitt hlær ég vil ekki fara á fætur fyrr en hjartað grær og ég finn ástina ] [ Votar götur rakar varir blautir kossar þurr orð. Sem beittir hnífar ] [ as night slowly ends, and new morning ascends, the lover off sends his heart in a note. while her sleepy green eyes, so saddened and wise see the dawn rise she reads what he wrote: "in my dreams i was with you, i wanted to kiss you, and show how i miss you -but then i awoke. in darkness i did stare confused while i lay there. your image was nowhere -it faded like smoke. but while i was healing, a warm, happy feeling, fell from the ceiling; i recalled your embrace. i still have it with me, i won't let it go free the dream eyes can still see, your beautiful face." their target his words hit. now is her face lit, smiling she feels it -connected they are. she inhales a faint scent together a moment a hug through the mail sent -a love from afar. ] [ Að rétta af þjóðlífið sækist mjög seint af syndunum fátt eitt er talið. ,,Íhaldsins” glæpalið ljóslega og leynt hefur logið og stolið og falið. ] [ Að finni þeir ekkert friðarskjól feginn mætti hver verða. Enginn þarf syrgja fanta og fól er feigirnar að þeim herða. ] [ Komdu hérna Koli minn og kúrðu aðeins hjá mér. Lífsins besti ljúfurinn langt er skottið á þér. ] [ Ég vafraði um netið uns ég festist Ó, sú kvöl að vera fiskur. ] [ Rætur þínar fara vel við mínar skjótum þeim niður á sama stað og vökvum þær með ást og hlátri því þannig verðum við alltaf saman þótt þú sért þar og ég sé hér. Ég elska þig úr hvaða fjarlægð sem er. ] [ Þá sé þig, söngvar hug minn fanga þú talar, blærinn strýkst við vanga - það er einstakt Þitt andlit sé, minn hugur hikar í augum þínum stjarna blikar – sem er einstakt Þau orð þín öll og æskuljómi sem allar fiðlur heimsins hljómi - það er einstakt Veit þó það er hugsun gegn sé regnboga, en ekkert regn - sem er einstakt Við göngum saman hönd í hönd og höldum niður að sjávarströnd. Þá hugur þinn hann mætir mín magnast þrá í örmum þínum. Það er ekkert sem ég útskýra kann hvað breyttist, þá ást þína fann. Veit þó það er hugsun gegn sé regnboga, en ekkert regn - sem er einstakt. ] [ Er vindur strýkur vor um mínar kinnar og vetur ekur leið til hallar sinnar. Þá lýsa kyndlar lífsins bjart um vegi og leggja grunn að nýjum fögrum degi. Þá lýsa gyðjur lífsins nýju ári leysa hélu af jarðar djúpa sári. Og andar sumars kyssa voga kalda þá kveður vetur brimsins öldu falda. ] [ Í hjarta kát ég kveð þig ár, nú koma má það nýja skil ég eftir öll mín tár og tek með allt það hlýja. Nú loks er komið gamlárskvöld ég prísa mig því sæla; að dansa meðal ljósafjöld og vera hætt að æla. ] [ Nöpur nóttin nýtt ár kemur. Glaðir gumar þá ginna fljóð. Kvikna eldar, krauma hjörtu, hiti færist í holdsins blóð. ] [ Játumst vér á yðar vald og veljum oss sannyrði dagsins. Haugamennskan lofar bjartri bárujárnsframtíð brjóstberandi góðyrði villutrúar aðalsins. Eftirfylgni dómsókn dauðra manna dýrindis ómennska sjálftitlaðra hátigna. Mótbára lítil og létt lýsir upp hin myrku horn. Andmælumst heimsins heimtufreku hábornu villimönnum orðræðunnar. ] [ Skjannahvítir sumarhagar í miðjum, áætluðum blómatíma lífskeiðs. Fótspor ganga í bylgjum yfir blómlegar fjallshlíðar sem liggja í dvala. Um drykklanga stund í móki hugsanaleysis mótast ný fótspor er sameinast hinum eldri í mjúkri fönn lífsvetrarins. Feðgar hönd í hönd ganga inn í vorblíðuna. ] [ Ég verð hérna í dag, síðan býst ég á brott því að breytingin fellur mér vel. Og ég spyr ekki neins þegar ótryggt er allt svo að óvissu líf mitt ég fel. Stundum þreytist ég mjög, en ég finn hvergi frið og ég fæ ekki setið mörg andartök kyrr. Og á hraðfleygri stund finn ég öruggt það eitt: Allt er breytt, ekkert er eins og fyrr. Enginn saknar mín hér og það angrar mig ei þó að innan skamms horfin og gleymd verði saga mín öll. Nema örsmá og dreifð verða ef til vill brot hennar geymd. Stundum þreytist ég mjög, en ég finn hvergi frið og ég fæ ekki setið mörg andartök kyrr. Og á hraðfleygri stund finn ég öruggt það eitt: Allt er breytt, ekkert er eins og fyrr. Spyrji einhver mig þess hví ég flýti svo för verður fálmandi óskýrt mitt svar. Nú er svikult hvert orð sem var öruggt í gær það finnst ekkert neitt líkt því sem var. Stundum þreytist ég mjög, en ég finn hvergi frið og ég fæ ekki setið mörg andartök kyrr. Og á hraðfleygri stund finn ég öruggt það eitt: Allt er breytt, ekkert er eins og fyrr. Ljóð: Hannes Wader, lausleg þýðing: RB. Lag: G. Bolstadt. ] [ Lag: Komdu og skoðaðu í kistuna mína. Það líður á haustið og gæsirnar gráu af gleði og öryggi hefja sitt flug. Og braut þeirra liggur um heiðloftin háu þær hafa í vængjunum lipurð og dug. Þær raða sér skipulegt oddaflug í og auðvelda ferðina talsvert með því. Tralalala .... Og lýst er því náið í lofteðlisfræði hve léttir það flugið á áfangastað að vaff laga straumar um vængina flæði og víst er að gæsirnar nota sér það. Þótt skólanám yfirleitt ei sé þeim tamt og ekkert þær lesi, þær vita það samt. Tralalala .... ] [ Það vilja á vandræði bresta er vart má leysa að takast en geri menn allt sitt besta ei skyldi um að sakast. ] [ Á gamlárinu gerðist margt til bóta þótt glitti víða í skítaklessurnar! Megið þið á nýu ári njóta nærfærni og allrar blessunar! ] [ Missir Regla númer eitt, Allt sem þú átt og þú hefur veitt Elskaðu það heitt Því einn daginn gæti það orðið ekki neitt Allt sem þú hefur. Allt sem þú færð og allt sem þú gefur. Allt sem þú áttir. Allt sem þú elskaðir og allt sem þú dáðir. Gæti horfið eins og skugginn þegar sólin er týnd, en eini munurinn er að sú sól rís ekki á ný. Draumur minn Draumur sem mig dreymdi hafði sinn boðskap Hann hafði sitt eigið óskalag Lagið eyddi hluti sem ég á að sagði mér að elska allt, Sama hvað það var, hver eða hvað Því einn kaldan vetradag gæti misst allt það. ] [ Ég elska hvað þú ert góð, ég elska að þegar ég er hrædd þá kemur þú. Og ég elska að þegar ég græt, huggar þú mig. Og ég elska að þú sért mamma mín. Ég vil aldrei skipta um mömmu. Ég elska þig. ] [ Á nóttini er ég önnur á daginn er ég falleg mig langar að vera bara falleg en ég get það ekki svo ég verð að eilífu önnur á nóttini ] [ Á hafsbotni þú liggur perla mín þú ert svofalleg en getur ekki sýnt fegurð þína ég græt yfir því en því að gráta þú munt einhvern tímann sýna fegurð þína ] [ Inn í draumaland ég labba og fæ allt sem ég vil ég bið um hana frænku mína ég óska þess að hún haldi utan um mig aftur að ég heyri röddina í henni aftur ég óska þess á hverjum degi að hún komi aftur ég trúi ekki að hún sé farin ] [ Á hverjum degi hugsa ég til þín og þegar ég græt þá átt þú hvert tár og ég mun bíða þangað til að skýin falla því þú situr þar uppi og horfir á mig ég sakna þín svo ] [ Þegar ég ein er inni í herbergi og get ekki sofnað veit ég að þið öll vakið yfir mér þannig ég þarf ekki að vera hrædd því þið eruð hjá mér.þannig ég þori að loka augunum og sofna ] [ Eitt kerti fyrir ástúð þína Annað kerti fyrir að þú fyrirgefur mér alltaf þriðja kertið fyrir hvað ú elskar mig mikið og munt alltaf vera mamma mín ] [ Ó fallegi fífill ég vil taka þig upp en má það ekki því þá deyrðu og ég vil það ekki því þú átt að verða elsti fífillin með mér ] [ Hvernig á ég, með orðum eða tónum. Að geta tjáð um eitthvað,svo undarlegt. Hvert orð, er neista frá ljósum logum, sem Lýsir upp, allt það sem lífið ber. og með hverju orði verður ástin dýpri, og hvert augnablik er svo dásamlegt og þótt að lífið sé ekki lengi Skal ástin með þér, vera óendanleg Það ert ástin sem ég er að reyn að lýsa, og er það aðeins brot af því þó. Já, endalaust er nú hægt að elska, en aldrey er hægt að elska nóg Það er hvorki eitt horn, né lítill skuggi. Sem ástin okkar, getur getur ey upplýst. Og ljómandi er líka bros þitt, eins og lóan í vorsinns bestu mynd Það ert þú sem ég reyni að lýsa, og er það aðeins brot af því þó. já,endalaust er nú hægt að elska, en aldrey er hægt að elska nóg. þangað til fjöllin verða að sléttum. Og ár og vötn Þerrast upp. Þegar trén hættað blómsta. Ekki fyrr en þá, mun hluti af ást minni hverfa burt. ] [ Væri það nóg? Til beturs bætt. Á meðan þú sefur rótt, ég get ei þig sært. Ég geri upp mína leið, hugsa minn gang. Svo aftur heim til þín. Bros þitt svo saklaust og skært. Rifrildi endalaust, og lítið traust. Eingin árangur, og ég sef laust. Vonlaust tímabil, of langt að líða. Samt vil ég vona að á endanum, sjái ég þig brosa. Ég er einmanna, samt ert þú hér. Best að ég fari nú, frá aumingja þér. Geri upp mína leið, hugsa minn gang. Svo aftur heim til þín. Bros þitt svo saklaust og skært. ] [ Um austfirðina liggur leið á hestum og léttan riðið eyðidali og sanda á fjöllin háu fylgir mörgum gestum fararstjóri er lífgar sérhvers anda. ] [ Hestarnir temjast vel dag frá degi dundað sé við þá á einhvern máta. Fullkomnunar leitum á lífsins vegi ljúft að mega af góðum hesti státa. ] [ Þú munt aldrei njóta þín í fögrum klæðnaði framtíðar ef fortíð þín er eins og óhrein undirföt. ] [ Krakkar mínir ég kveð ykkur að sinni. Kærar þakkir fyrir veittan beina. Hjá mér fyrir greiða eigið inni. Innheimta það síðar megið reyna. ] [ Flúin er hin fennta mjöll færið greitt varð jóa. Dimmir að í Drottins höll dæmt er til að snjóa. ] [ Vörum okkur á hundtyrkjanum Sem ætlar að skjóta undan okkur (með haglara) Vörum okkur á hundtyrkjanum (og haglaranum) så at sige ] [ Í grennd við turninn sem trónir út´á túni var riðið all rækilega í einu, rúmi. ] [ show my self i'm the man eye'n'this eye'n'that so now I understand but through another day i heard them others say fuck that i will say i will save another day hey, and take a trip for a minute show my self that i can be here if i'm in it hold on, hold on mission 2 escape is the plan and i'm running ] [ Vektu ekki ef vært sofa vökur langar á vegi bíða ] [ Hestar á löppum hafa skegg helstu prýði að líta. Loðinn margan sá ég segg síðan topp í bíta. Dömur hata loðinn legg leggja í vax og slíta. ] [ Ef að ljóð mér yrði á vörum eflaust myndi nefna það: Virðist allt með kyrrum kjörum kotið enn á sínum stað. ] [ Hlassinu framfyrir kapalinn hleypti gengur ei heill til skógar Starheyið ofan í hlöðuna keypti hann tálknunum aflógar ] [ Frá himnum hef ég valið eina bjarta sál. Til að geta hana alið sinnt og kennt mitt mál. Þessa undarlegu töfra ráðið get ég ei. En ég mun aldrei hörfa frá þér fyr en ég dey. Aldrei gleyma máttu hver gaf þér lífsins ljós. Án líkama þá áttu aðeins sálarinnar rós. Frá líkama hef ég alið einstaka sál. Sem hefur mig valið til að kenna sér mitt mál. ] [ STJÓRNLAUS KÁTÍNA Gefðu þér tíma til að eftirláta eðlislægri kátínu þinni að skondrast inn í þéttan skóg alvörunnar, til að glettast, skoppa og ærslastþar til hlátrasköllin hendast á milli trjástofnanna langt upp í krónur þeirra. Leyfðu glaðværð þinni að berast yfir trjátoppunum áfram með næðingnum að hvössum vindum fjallsbrúnanna þeytast langt upp með vindorkunni hlæja sig máttlausa á svifi hátt upp í lagskiptum lofthjúpunum stjórnlaus og frjáls hátt í heiðkvikunni þar til hún loks berst til þín aftur með snúningi jarðar úrvinda og hamingjusöm. Gefðu þér tíma til að gleðjast. ] [ Kaldur gustur frá konunni skylur mig umleikis nöpur átt að norðan beygir mig tvíbendis Konan mjúk og rýjandi í rúminu bíður trúð og taktföst í ríkjandi húminu hver veit á enda hvað okkar á milli skilur Úr djúpri lægð brátt drýpur norðanbylur Skefur djúpt í skafla á myrkri nóttu skella manni á bak óforvarendis skóför útí sjó bera mark sitt á Gróttu hvar leiðir okkar beggja liggja örendis ] [ Hefjum anda himins til á hátíðlegum degi nú auðna snúist oss í vil og alla greiði vegi. ] [ Nú færðin er farin að spillast og fönnin hleðst ofan á kofann Range Rover er alveg að tryllast sá rauði fer dansandi ofan. ] [ Eftir þúsund ár þegar fornleifafræðingar finna þig nýklipptan í stúdents jakkafötunum. Hvernig munu þeir túlka bréfin og bækurnar sem við lögðum hjá þér? ] [ Hún var rétt eins og doxórúbisín, með sértæka aukaverkun í hjartanu. ] [ Garðabrúða, Garðabrúða, ég sá þig í turninum þínum. Leifðu mér að rífa í hár þitt prúða svo ég geti orðið að vilja mínum. Garðabrúða, Garðabrúða, Rauð á kinn svo fín á brá. Högg á kinn þig gerir prúða, elskan ekki hörfa frá. Garðabrúða, Garðabrúða, Þitt stutta pils mig kvatti til. Adamsfötin í fullum skrúða, Held þér fast ég þetta vil. Garðabrúða, Garðabrúða, Ein í turni hýrir nú. Marin, blá, í rauðum úða, Æji góða, þetta vildir þú. ] [ Sportið er að spranga sér spennu í lífið. ] [ Hann langafi minn lagði vegi sem lágu víða; fyrir firði, fram dali, yfir fjöll. Hann lét sér það nægja, leið best heima, langaði ekki neitt, hann langafa minn, sem lagði vegi. ] [ Hylur þú mig í nekt minni gagnvart augum almættisins á flauelsbláum himninum? ] [ Veginn prýðir Blíða best og ber vel ferðagestinn. Það er ekki einskis vert að eiga besta hestinn. ] [ Ég veit ekki sannara en segi ég nú sumir eru öðrum betri. Þá bregst mér illa ef Blíða og þú berið ei af hér að vetri. ] [ Þungamiðja alheimsins sefur í þessu búri. Í þessum óhagganlega svefni býr raunveruleiki sem lifir aðeins í draumi. Í þessum draumi birtast sýnir sem ná langt fram yfir rimlana og stálið sem halda þeim föstum. Sýnir um bjartan himin og stillt haf, um ævilangar ástir og tæra hamingju. Sýn um fallegt blóm sem fölnar aldrei. Í þessu búri sef ég. Í eilífri von um að einn daginn muni hliðið opnast og draumurinn verði að veruleika. En þangað til mun ég sofa. ] [ Orðin sitja föst í hugsunum mínum. Ef ég sleppi þeim lausum hlaupa þau frá mér til þín. ] [ Lítil stúlka horfir á eftir syngjandi fuglunum og grætur af söknuði því hún á enga vængi. ] [ Stormur hvín og hrímið hríslast Húmar að í desember Raddir vindsins rámar hvíslast Rósir skreyta frosið gler Hula myrkurs hylur borgir Hrímköld nóttin kæfir hljóð Í vetrarmyrkri vakna sorgir Votar kinnar, hálfnuð ljóð Kvikna týrur, kvikar lýsa, kátar dansa í vindsins gný Í skimi rökkurs vaknar vísa og vonarneisti enn á ný Lægir vind og léttir skýjum Á lofti hækkar vetrarsól er blíðkar lund með brosum hlýjum Bráðum koma heilög jól ] [ Er hugsanir ég mínar sekk í svartar og snjórinn fellur hljótt í kvöldsins næði þá skellur á mig skáldsins blinda æði Ég skrifa, týrur himna lýsa bjartar Ég byrja ljóð sem blótar, grenjar, kvartar og barnalega klambra saman kvæði Úr hatri skrifa hamslaus ljóð af bræði sem hendingu er ást og gleði skartar Að sleppa allri slökun, vökunætur Slíkan finna andann leika' um æðar Viti glata' í viltum táraflóðum Um drauma ferðast, festa hvergi rætur Að finna vel til eigin miklu smæðar og fegurð kannski finna' í nýjum ljóðum ] [ Það gæti byrjað með augnaráði til ókunnugs manns rekið mig óvart utan í hann og flissað hann gæti boðið mér í dans kysst á mér hálsinn þar til ég tæki stjórnina og drægi hann með mér heim þar sem óskrifanlegir atburðir ættu sér stað Ég myndi að vísu aldrei byrja á þessu augnaráði en vertu viss um að ég gæti ] [ Við saman gengum sumardag sólríkan og bjartan Í fjöru orti feigðarbrag fallegan, kolsvartan Grunlaus ástin aldrei sá grimma hugsun falda Ást um eilífð, hennar þrá, eiturnaðran kalda Í vasa mínum vítistól, voldugt snæri blakti Um hálsinn hertist að sú ól Hennar líf burt hrakti Barst um, hræðsla hana skók Hjarta brjóstið barði Tryllt uns dauðinn hana tók Tómlegt auga starði Ástin svikul eilífð sá Elsku hafið felur Á myrkum söndum líkið lá Ljúf í hafi dvelur ] [ ég sit í hlýju rúmi mínu og angist manna plagar mig sem eiga' ei skjól í landi sínu og geta ekki varið sig. gagnvart helförum heimsins er ég veikburða og tár mín hafa ekkert að segja í hafi óréttlætisins sem milljónir manna drukkna í. ] [ Dyranna gætir Djöfullinn sjálfur, dulbúinn sem geithafur með glóandi horn. Dyranna er snúast og gapandi gleypa gíruga ára með eyðslufíkn Held ég hrökkvi upp af í helvítis Ikea. ] [ Ég vakna að morgni af ljúfsárri martröð er ég átti með þér. En þig var að dreyma um eitthvað annað en að vakna með mér. Ég get ekki talað, þú vilt ekki hlusta og ég næ ekki í gegn. Svo ég verð að fara. Að elska þig er mér orðið um megn. ] [ Ég opna augun, allt er sem fyrr. Þangað til núna fannst mér tíminn standa kyrr. Í huganum ég sé þig með mig í fangi þér. Sem barn ég átti erfitt með að hleypa þér að mér.   Ég sýp hveljur, hjarta mitt slær hratt. Mér um lífið þú sagðir margt svo satt. "Aðgát skal höfð í nærveru sálar - láttu ekki freistingarnar draga þig á tálar." Augun opnast - hjartað með. Þokan hverfur - sálin sér að þú ert... útsprungin rós á þyrniprýddum sprota. Margbrotið ljós úr einum daggardropa. Útsprungin rós á þyrniprýddum sprota. Margbrotið ljós úr einum daggardropa. Nú er ég kona, loksins orðin stór. Þarf ekki að leita langt hvert barnið í mér fór. Það hvílir ennþá í fangi þínu rótt og raular vögguvísur dag sem dimma nótt. Í fegurð augna þinna liggur heimsins ást. Þar leynist sársauki og ör sem ekki sjást. Þú hefur barist óteljandi stríð. Útsprungin rós sem  mun blómstra um alla tíð. Augun opnast - hjartað með. Þokan hverfur - sálin sér að þú ert... útsprungin rós á þyrniprýddum sprota. Margbrotið ljós úr einum daggardropa. Útsprungin rós á þyrniprýddum sprota. Margbrotið ljós úr einum daggardropa. ] [ Bank bank. Hver er þar? Varðstu ekki við mig var? Nei, hver ert þú? Ég er þín Trú. Burt með þig og hananú. Hey, gemmér sjens. Ég held nú síður, ég er seinn og tíminn líður. Má ég ekki koma inn og fara yfir málstað minn? Ég er seinn og tíminn líður, vonleysið mér eftir bíður. Ekki fara, sjáðu bara, þetta hef ég þér að bjóða. Öll þín loforð, þetta allt skuldar þú mér þúsundfalt. Af hverju? Þú veist það alveg, hættu að vola og vertu róleg. Leyfðu mér að koma aftur, ég er bara sannur kraftur. En þú fórst og sveikst mig illa, skildir eftir fylgikvilla. Vonleysið, það kom í staðinn. Er því alveg fullur hlaðinn. Ég fór aldrei burt frá þér, það varst þú sem týndir mér. Var það þannig, eitthvað man ég. Sérðu núna sönnu Trúna? Já, ég sé þig, man og vil þig. Vonleysið nú skilur við mig. Nú við erum aftur eitt, því mun enginn getað breytt. ] [ Á biðstöðinni maður bíður, í biðinni eilífu. Horfir á umferðina æða. Horfir á hinn endalausa hraða hvar dagarnir hverfa, út í móðuna. Tungl hverfast – sól sinnast í breytileika daganna. Maðurinn, í sinni endalausu bið, þreytist og sest. Sól lífsins lækkar, skuggarnir lengjast. Dimma nætur hvelfist yfir. Ferðin fyrirheitna er hafin. ] [ Á grundu er ég settur og bakið nakta sýnt. Nú fundnar böðulshettur en æðruleysið týnt. Fyrir fyrstu frillu röðuls verður skuldin há og vegna reiði böðuls skal bakið dýra flá. Og aðra frillu á röðull og skuldin er hærri nú, blóð mitt vill fá böðull fyrir þá mætu frú. Feitasta frilla vors herra, hún skal holdið fá æ, mér þykir það verra, því hún þegar nóg af því á. Það bæði mig hlæir og kvelur svo hrollur um bakið mitt bert að þú bakið dýra mitt telur þriggja dala vert. Og vandarhöggin þau dynja svo roðnar böðuls nef og gestirnir hlæja og stynja en þó enginn hærra en ég. Þó berist í dag með blænum óp mín og svipuþeir þá bíður mín huggun á bænum, dúkartar mínir tveir. Ég hef þá mitt blíðuhót og myndi fyrir þá í senn Tuttugu högg í viðbót og tuttugu við það enn. ] [ Er ég hugsa til þín í síðasta sinn skal ég gefa þér drauminn minn. Og alla þá ást sem í honum lá allt sem ég þráði en segi ekki frá. Og bænirnar heitu er brostu til mín og blikuðu á himni og gengu til þín. Um öræfaleiðir og óveðursský yfir í heiminn sem þú dvaldir í. Er lít út um gluggann í síðasta sinn þá sindrar máninn á brjóst mitt og kinn. Er leyndarmál okkar um sumrin skín sendi ég kveðju frá mér til þín. ] [ Börnin ungu brjóstin þrá berast hljóð úr hornum höfuð tíðum hallast á - næmt er móðureyrað. ] [ Út á gólfið ekkert stress Nessi Giss og Helga Kress er ekki kominn tími til að dansa? Hnoða saman Halldórs vers vitna í og vera hress og vona svo að ekkert sé til vansa. Dansa, hvað er betra en að dansa... ] [ Ástandið, víman, lífið og líðanin ! - Mér líður bara, ég sé, ég skil, ég flýg og ég veit ! Ég er eins hátt uppi og hann Guð ! Ég svíf um á bleiku skýji, - Og sé bleika fíla! Með öðrum orðum ! - Ég sé lífið með örum augum. Og Engar áhyggjur – Bara Ég – ] [ Ef að ást er vitfirring, hvað er þá ást? Ást kviknar við fyðringinn í maganum og vex eins og blómin. Blómin eru það sem kryddar tilveruna í kuldanum. Þannig að, maðurinn kryddar sitt eigið líf. ] [ Andlega andfúll, fer framm á bað, bursta tennur og sé.- Nývaknað andlit og horfi á ! Ég spyr, - Hver ert þú eiginlega ? Andvarp.- Brostu bara. – Því að,- Þú ert þú sjálf(ur) ] [ Ef að lífið væri óþarfi ? Hvað væri lífið þá ? Óþarfinn er smávægilegi hluturinn í lífinu ! Þannig að lífið er. – Stundum óþarfi ! – Smávægilegur óþarfi ! ] [ Lífið er ganga hvers lifandi manns, sem að á jörðu er staddur. Sumir byrja snemma og aðrir verða latir, en sumir ekki. Hver og einn fer sinn vanagang eftir eigin höfði. Flestir labba og sumir hlaupa. Ég sest oft niður og fylgist með. ] [ Hvar er sannleikurinn í lífinu ? Er hann að fynna í tilverunni eða í lífinu sjálfu ? Í lífinu er svo margt til. Lífið sjálft er sannleikurinn. Leitaðu ekki neinstaðar í lífinu eða tilverunni.- Þú ert sannleikurinn. ] [ Sit ég ræsisholu í, Einn með þanka mína. Guð ég hata veru í, Búinn að forðast sína. Allt í tilvist einni í, Verð að skoða þína. Ó mig aumann á í þig, Veröld liðin pína. ] [ TÆKIFÆRI Annað tækifæri getur maður ekki fengið á hverju strái. Hvað ef maður gæti fengið það . Eitt annað tækifæri á dag hvernig væri það. Ef maður gæti gert það hvort væri maður ánægður eða leiður. Hvort væri það gott eða vont Þarf maður að læra af mistökum sínum eða getur maður gleymt þeim. Þarf maður að hafa mistök með sér til að læra eða getur maður bara þroskast? Hvernig væri ef það væri hægt ] [ ég hlæ. Bara útaf þér. Þínum kjánalega húmor. Pirrandi en fyndnum hrekjum. ég fyrirgef þér allt eina sem þú gerir. eina sem þú þarft að gera er að brosa því ég elska þig minn Besta vin ] [ Ef líf mitt væri eins og þið haldið að það sé eins og það lítur út fyrir að vera þá gréti ég ekki í hljóði á kvöldin á morgnanna eða á daginn efaðist ekki um ást hans bara því ég elska hann svo ákaft að mig verkjar og tel ekki annað geta komið til greina en að ég verði særð ég væri ekki einmana í þúsund manna hóp og ætti griðarstað sem ég gæti kallað heim þar væri ég sátt með sjálfa mig og gott ef ég kynni ekki að taka við hrósi heima ég væri löngu búin að gleyma því að eitt sinn drap ég fóstur og á undan því fargaði ég næstum sjálfri mér með vilja en það tók auðvitað enginn myndir þá og útlit lífs míns er eftir því ] [ Hún hefur þau áhrif samt að vitundin vaknar og vonin um betri tíma í hugskoti kviknar, og það sem að maðurinn ákaft og sárast saknar sýnist þá hjóm, og í dagrenning vonar bliknar, því þessari sónötu þannig má líka lýsa að í ljúfsárri mynd er kveðin þar yndisleg vísa. © allur réttur áskilinn höfundi ] [ Í grasinu græt, ég tifa innra með þér þú syngur og hlærð. ] [ Borgunar ennþá bíður Einar bóta sinna þörf er sveini verks að vinna víst þarf líka að blóta minna. Beðið hefur bráðu geði bróðir kvinnu líðan verður leið í sinnu leita mun ég áfram vinnu. Ekki dugar draga hugann drúpa haus að seyðið vinnu- súpa laus sannlega ekki hvað eg kaus. Svartagallsins rek ég raus ræð ég kalli verði maus. Fremur en að þegja um þetta þunnu hljóði verkin eins og slugsa slóði slæ ég þessu upp sem ljóði. ljóðsins hróður löngum þykir leiðum góður Léttist róður, lifnar sál Leikur óður kátt um mál ] [ Þau kvöddu mig glöð úr glugganum heima og veifuðu mér. Og augun mín urðu rauð á litin eins og lítil ber. Og himininn spyr hví græturðu er enginn sér ? Því sárin mín eru sorgir þeirra þegar ég fer. ] [ Vinur kæri, Valentínus vekur þig í dag. Hjartablöðrur og ástarkort og fleira af þeirri sort. Í gegnum þennan sora þarf almúginn að bora. Því ekki eftir ástum nennir ungur lengi'að bíða. Mér er alveg sama'um það bara'ef ég fæ að ríða. ] [ Ásamt óstropuðum degi, rís ég reiðubúinn. Með vott af varma veraldarinnar, leiðumst við í lífið. Órofin; óskilgreind. Óaðfinnanleg orka. ] [ Lífið er eins og sumar Of bjart til að sofna Lífið er eins og haust Þegar litirnir dofna Lífið er eins og vetur Svo hart og svo kalt Lífið er eins og vor Þá mýkist allt ] [ Er skiljast leiðir legg ég á veg. Örlögin ráðin svo undarleg. Og stíginn feta allt fyrirséð. En vörðurnar veðrast og sporin með. Sé þig í anda á langri leið. Er ég kvaddi ekkert mér beið. ] [ Gleymum ekki geislum sólar og glóandi morgunbirtu. Að baki fjalla bernsku dögum og snúrum með vinnuskirtu. Gleymum ekki gömlum heitum þá ganga orðin aftur. Móðir jörð og moldin eru endurskapandi kraftur. Gleymum ekki ungum vængjum sem aldrei gátu flogið. Og fórnum þeirra allra sem aldrei gátu logið. ] [ Ég skal aldrei vera eins og guðirnir eru. Mínar birgðir bera sár er aldrei gréru. Ég skal aldrei vera eins og eitur naðra. Hrinda og skera særa alla aðra. Ég skal aldrei vera á allra manna vörum. Bugta mig og þéra enda svo á börum. ] [ Lífið er dýrðlegt þá ljúfast er riðið list er að sjá þessi dúnmjúku tök. Aukast nú tekur á Skörungi skriðið skellirnit tóna um himnanna þök. ] [ Steldu ei frá vinum þínum öðru en ást annara manna konur skaltu láta að mestu í friði því það er aldrei að vita ef þið farið að kljást hvort að ykkur reynist fært að virða góða siði. ] [ Ein hér og hugsa og skil ekki í því ég finn ekki skóna sem ég dansaði í skápurinn troðinn af eldgömlum vonum ég gefst bráðum upp ég bara loka honum þeir fallegir voru ég segi það satt en lífið og tilveran varð svona bratt skóna ég setti til hliðar og geymdi ég ætlaði að nota þá seinna -en gleymdi ég setti þá frá mér ég veit ekki hvar ég hugsa og hugsa kannski voruð þið þar ef átt þú enn skóna sem þú dansaðir í dansaðu áfram ekki gleyma því lífið er dansinn ég veit þetta nú ég gleymdi að tjútta gleymdi hægri snú. okt 2010 ] [ Þegar grænkar jörð og gleðin skín. gleðst ég því þetta er heimurinn minn. Og skýið hvíta er svarið til mín sonur ég er móðir og uppruni þinn. Og ég geng um mína gróður mold og gisti fagnandi á eyðimörk. Í brjósti mínu er blóð og hold er berst eins og lauf á björk. Ég lýt stjörnum og les þeirra braut og logum þeirra fagna ég með þér. Svo ber ég mín bein í gamalli laut og bláminn spyr því varstu ekki lengur hér. ] [ Englabros. Englar alheimsins líta niður á þig gefa þér vængi svo þú getur svifið um loftin blá Skýin eru silki mjúk eins og húðin þín Er ég lít á þig sé ég það að þú ert engilinn sem ég hef verið að dreyma augun þín eru svo tær að lækjaruppsprettan er óhrein miða við augu þín þegar tunglið lýsir mér leiðina heim sé ég andlit þitt speglast svo fagurt í því þegar tunglið lýsir upp andlitið mitt finn ég hjarta mitt þrá það að sjá aftur þitt þegar norðurljósið lýsir upp rósirnar sem ég gef þér og tunglið fullt reikar um kaldan himininn fellur tómleikahrollur á hjartað í mér því vildi ég óska þess að þú værir hér með mér. Vill ég óska þess alltaf að hafa þig hér Þygðu þessar rósir og óska steina þrjá óskaðu nú þér óskir þrjár Megi allir þínir draumar og óskir rætast. Brostu nú fagra mær svo allur heimurinn sjá þitt fallega englabros. ] [ Í skugganætur sit ég einn bíð ég eftir því að heyra í þinni sefandi röddu sem tælir mig á yfirborð jarðar. Í fjarska heyri ég þig ákalla nafn mitt ofsahræðsla hleypur í mig við þann ótta að missa af þér ég hleyp í áttina að þér svipast um eftir þér það er um seinan þú ert farin farin langt frá mér. ] [ Sólsetrið heillar mig mest vatnaliljur loka sig í rest engin tími til að fá frest Er sólin skín í síðasta sinn fell ég tár í hinsta sinn kuldarboli umlíkur líkama minn frystir mín sorga tár sem dropa niður í spegil slétta hafið nú er allt farið Vindurinn blæs mig um koll Veitir mér kulda hroll þeytir mig út í dimma nótt nú frýs mitt hjarta molnar í þúsund parta lífsmark mitt fjarar út dreg andardráttin mikla ákalla nafnið þitt sef svefninn langa ] [ Í nótt líður mér vel í nótt líður mér ílla í nótt sakna ég þín í nótt græt ég mig í svefn með söknuð í hjarta í nótt hlæ ég í nótt brosi ég í nótt vill ég helst ekki vera án þín í nótt vill ég hafa þig hjá mér. ] [ Í nótt dreymdi ég þig við lékum okkur saman skemtum okkur vel við tölum saman um allt og ekkert hlógum saman Við tölum um okkar drauma okkar galla og kosti okkur langar að vera saman það sem eftir er Halda utanum hvort annað elska hvort annað standa með hvort öðru í blíðu og stríðu Er ég vakna, sný ég mér við ættla að halda utanum þig segja við þig að allt verður í lægi og gefa þér koss, kossinn langa Þú liggur ekki mér við hlið rúmmið mitt er tómt svo kallt finnst það ekki þess virði að vera svona ein, einmanna án þín Hvar ertu ástin mín, komdu til mín vertu með mér, það sem eftir er Sakna kossana þína, þína umhyggju og ást sakna þess þú haldir utanum um mig Ég ligg á rúmmi mínu, fer að sofa vonast til þess að hitta þig á ný Draumurinn er það eina sem ég hef til að muna eftir þér, vera með þér halda utanum þig, vill ekki vakna held áfram að dreyma um þig, um okkur um okkar framtíð Sef svefnin lang. ] [ Skugginn heltekur mitt hjarta ást og umhyggju mun ég hata fyrirlitning mun ég hafa Þá hefur þú ekkert til að taka Reiðin tekur mig á brott kastar mér inn í svarthol yfirbugaður af ástar sorg með brostið hjarta Mitt fullkomna líf tekið frá mér einn tveir og þrír og það vast þú Myrkrahöfðingi kemur nú fel ég mína sál í hendur hans nú lýt ég mínu höfði sver ég mig í embætti hans Myrkrahöfðinginn tekur mig og mína aumu sál gerir mig úr manni í stál enginn getur bugað mig þá Ekkert mun bjáta mér á hvorki þú né þessi sár heltekinn af hatri og sorg ekkert mun lengur mig særa. ] [ Hann ber mér boð af heiðum frá bláhvítum fannastöllum. Með fljótum á löngum leiðum er liðast um dal af fjöllum. Þau færa mér kraftinn kalda úr kolsvörtum giljahöllum. Stuðlabergsins smíði alda skorið af hamratröllum. Efst með blárri bliku vefur bjarminn skýjalakið yfir. Börn sem bíða-land er sefur og brjóst mitt sem ennþá lifir. ] [ Svo hátt í hvössum byr ber himin ský um jörð. Að enginn finnur fyrr en fellur regn á svörð. Glæst eru tignleg skip en taka á sig brot. Kvödd með konungs svip en komast samt í þrot. En sigla seglum þönd um stjörnubjartan geim. Um kveldsins kyrru lönd en koma aldrei heim. ] [ Ljóðið gekk um í gær í bókabúð máls og ómenningar í nótt sótti það að hálsi mér og drakk í sig blóð upprisið hvítt og svart með blóðgaðar tennur nú gengur það um í skjóli nætur og dreypir af draumum skelfingu lostið við dagsljósið dregur það sig í næstu skúffu ] [ Brosi þú færðir í marga Hlýju í hjarta allra Góðhjarta við allt og alla Nú á góðum stað þú fórst og alltaf á báðum fótum stóðst Minning þín mun alltaf vera í mínu hjarta elsku langamma góða ferð til þíns heima guð og englar munu þig geyma ] [ Ljóðið já eftir nei var lengi í smíðum var frumflutt of seint og missti marks ] [ Lækkaðu róminn svo ég heyri mig hugsa hættu að stjákla nú ráða ég vil óðar úr spjörunum ekkert að slugsa ég ætla í rúminu að gera þér skil. ] [ Hart er í harmi og vosi heimurinn sagnafár. Byrjaðu daginn með brosi ber ég mín heillaráð. ] [ Í lífinu er margt að varast víða hætta dreifir sér úr því er jú allt að farast úr tóbaksreyk frá þér og mér ] [ Barnsins ósk er ekki dýr og ekki flýr það landið en af kapítalista ei verður skýr því komminn hefur valdið ] [ Grænn er móinn, glóir heiðin. Gamlir bæir standa enn. Sumar kemur, sefast vindar, sólin gleður alla menn. ] [ Ótrúlegt er hvað menn endast til að bulla ekki ólíkt börnum sem í gullabúum drulla. Þögnin er dýr þegar slíkt úr hófi gengur þá er sem leysist þér slæmur hlandsprengur. ] [ Deyja frændur, deyja fé dauðans eini háttur. Ef mikilfengleik lokum sé ég feigur fer þá sáttur. Svo Drottinn eina óskin mín er ég dey í örmum þínum. Að fokkt up ævi Charlie sheen flassi fyrir augum mínum. ] [ Bág eru þau ráðin sem bjánar gefa skást og bestu menn hjá sitja sem á höndum en ekki munu þrekvirkin frá öðrum fást að frelsa þjóð sem pínd er hér röndum. . ] [ Afstæðir eru aumingjar er arka um lífsins svið. Til lítils duga ljúflingar er ljótt gerist mannlífið. Aumingjar hafa illu sáð og uppskeran þar ei rýr óþverranum á oss stráð - Alþingis ei vegur nýr. ] [ Gömulu ráðin gefast best gættu fóta á lífsins torgum. Gríptu gæsina er hún gefst gæti verið flogin á morgun. ] [ Undir stjörnubjörtum himni á mjúkum grasbala þau liggja hlið við hlið augun sjá stjörnur --- Logandi eldur funi kvikur hjörtum seggja hverjum vita-t ást vita-t bræði brenna álíka vef sér örlög hver gumi glatast sá er rangt las heill sá er rétt las --- Hjörtun í takt hlýða á nema hvert orð og byrja að spinna ] [ Hvít jörð, hvítur jökull hvenær kemur vor? Ég er klædd í kápu úr ull með kleprað nef af hor. ] [ Ísland getur aldrei undið sín óhamingju tár. Og aldrei heitar bænir bundið og brennandi þrár. Undir norðurljósa litum lokkar eldsins bál. En við öll sem eftir sitjum elskum landsins sál. Kynslóð undir feigðar fargi flutti með sér glóð. Hulin inn í hamra bjargi hún er okkar þjóð. ] [ Ástin er stundum að stríða mér um stjörnu bjartar nætur. Heimtar ég verði að hlýða sér hafi í mér djúpar rætur. Rétt eins og ræður sólin mér sú rödd má aldrei þagna. Annars verður vonin ber og veslast upp til agna. ] [ Jafnvel þó að járnsólin skíni jaðrar við að mér hlýni. Það var eittsinn fyrir óra mörgum árum að ég kom til þín með eitthvað, veit ekki hvað þá fannst mér fínt að lita lífið með tárum og fráleitt skipti það máli um hvað ég bað þú svaraðir mér með þínu fræga særða brosi þú sagðir ég gaf þér allt sem ég átti ein í brjósti mínu barst fram stuna frá öskugosi og ég braut þá einu von sem enn var hrein Jafnvel þó að járnsólin skíni jaðrar við að mér hlýni himintungl hrundu á axlir þínar og hreinn snjór í apríl borgaði skuldirnar mínar Þú varst með hring sem þú snerir á ógnarhraða og þú barst hann á hægri hönd við áttum hús milli Hruna og Svaðastaða og sömuleiðis öll hin ókunnu lönd Aðeins eitt öskur og ég gat ekki meira allir en einkum þú voru að tuða í mér ég þóttist geta flogið en fór út að keyra því fortíðin sem ég leitaði að var í felum inni í þér Jafnvel þó að járnsólin skíni jaðrar við að mér hlýni himintungl hrundu á axlir þínar og hreinn snjór í maí át upp skuldirnar mínar ] [ Stundum ligg ég og hugsa, hugsa um stjörnur. Stundum sit ég við sjóinn, hugsa um lífið. Stundum er ég á labbi, hugsa um ást. Við hverja hugsun sem ég hef. hugsa - þar ert þú! ] [ Ég dyl mína drauma en draumana ber. Við storma og strauma sefur þú hjá mér. Eigra einn í skini okkar æskuströnd. Ég átti þig að vini en segl voru þönd. Vindur bar þig vinur í veröld langt frá mér. Sjávaraldan stynur ég sit og bíð einn hér. ] [ Ég finn á bláum höndum að blóðið er orðið seigt. Og leiðir allar skiljast og ljós mitt orðið veikt. Ég finn að ég er gleyminn og græt á kvöldin leynt. Og bakið orðið bogið bíð en skipið kemur seint. Ég finn að vinir eru sem afmáð veggjakrot. Og árin mín sem liðu örsmá brotabrot. ] [ Kaffi, þú kærkomni máti, klapp fyrir þér. Ef geð mitt nær gráti, gleði færir mér. Um aftan sem og ár, ertu sjálfsagt mál. Eptir nokkur unaðstár, upphafin er mín sál. ] [ Harður slær mig harmurinn helst mig ekkert langar. Því dáinn er nú Dreki minn, drjúpa tár á vanga. ] [ Sveitasæla. Man ég grænar grundir, glitrar silungsá, blómabökkum undir, brunar fram að sjá. Bændabýlin þekku bjóða vina til, hátt und hlíðarbrekku, hvít við stofuþil. Léttfætt lömbin þekku leika mæðrum hjá, sæll úr sólskinsbrekku smalinn horfir á. Kveður lóukliður, kyrrlát unir hjörð. Indæll er þinn friður, ó, mín fósturjörð. Ó, þú sveitasæla, sorgarlækning best, værðar vist indæla, veikum hressing mest, lát mig, lúðan stríðum, loks , er ævin dvín, felast friðarblíðum faðmi guðs og þín Steingrímur Thorsteinsson. ] [ Eldgamlir bæirnir kúra hvannbreiðunni í. Mannamál heyrist ei lengur og bergmál ei fjöllunum í. Fótsporin horfinn í svörðinn og minningar höfðinu í. Nú er það bara tóan og ég sem göggum saman á kvöldinn. Nátturan heyir sitt frelsisstríð við ferðamanninn á Ströndum. gjón 2011 ] [ Vingjarnlegur, vinasækinn, vont hemja kann, dyggðugur, djúpvitur, dásamaður hann. ] [ Leiki við þig líf hvern dag ljúfa Þóra á vegi blíðum af yndi sínu þér auki hag með ástarlotum þýðum. ] [ Ellin er sem góðlátt grín gleðin haldi taki. Hamingjuóskir Ásta mín yndið með þér vaki. . ] [ Er í ferðum kona klár kát með ljúfan sjarma. Guðrúnar á glóir hár gulls með rauðum bjarma. ] [ Þegar ég, visku hóf að vitja vora tók í sál og upphófst sól. Sitja, lesa, bækur sundur brytja lífsins anda boðið er á ról. Þekking á heimi aðeins er til nytja frá örbirgð lífsins veitir hún þér skjól. Þegar þekkingu, hafið er að virkja þá kemur þráin um hana að yrkja. ] [ Darraðardans í draumi ég stíg á dánumanns beinabrotum. Lyftist frá villtum valsi og flýg á velþöndum vængjum yfir heldjúpan gíg, þar fæ ég að eygja mitt eigið víg, engjast og kominn að þrotum. Vesæll og veikburða niður ég hníg; vakna á koddanum votum. ] [ Hjartabrot og hjartabót, hjarta bilan blíða. Fámáll skil við fagra snót, fögur sárin svíða. ] [ Ég sögu vil segja af dreng, sem kvenkynið kallaði feng. Af dreng sem var dáður, hár og heilráður, með hug eins og háspennustreng. Og vandvirkur var þessi fýr; sem velsniðið verkvinnudýr, og á gítar hann lék undir ljóð og torrek við afspyrnu góðan orðstír. Þá þótti'hann í íþróttum „kúl“ og þrautseigur á við pendúl. Sem dæmi ég kann, mig sífellt hann vann, í borðknattleik kölluðum pool. Og afbragð var hans aksturslag, þá var honum fátt reiðarslag; en þegar púst undan flaug aðeins efldist hans taug á skotstund því skellti í lag. Öðru fremur óska ég eins, og óska ég sjaldnast neins. þó áranna þrjóti þrek, ég njóti enn samvistar þessa sveins. Því í Sendai sem Svarfaðardal, seint þykir það óráðshjal, að æpa á menn sem mætir þú senn: „Það er aðeins einn Vignir Val!“ Øøühl ] [ Hugskotsböl og hlandvolgt öl og hjarta í tilvistarkreppu, sumardvöl í sálarkvöl án sárrar andgiftarteppu. ] [ Þar sem skipið sökk einn dag í smáum læk og sólin leit á vatn, sem er löngu þornað, hljómaði rósin í hugunum ofur stórtæk, hreyfði eitt lauf og gat þar gegn heiminum spornað. Og lærðist þar ám og langhyrndum kynbótamönnum að lífið og ástin og eilífðin eiga ekki við á grásprengdum götum af fyrirtaks boðum og bönnum, hjá bænheyrðum lýðnum, sem þráði að fá allt nema frið. Og er sólin settist hægt við mánans hlið, og hljóðum augum starði út í rauðan bláinn, heyrðist þar mönnum hún segja eftir hálflanga bið: „Hljómfagra rósin okkar, er loksins dáin“. ] [ Herskáir vindar hrjóta um jörðu, hvergi er stingandi strá að sjá. Leika svo létt, sér að berginu hörðu að líðandi tíð biður kárann um náð. --- Ráfa ég einn um öræfaslóðir, eigi kann ég í kofa að sjá. Dreymir mig gjarnan um eldheitar glóðir, góðan brauðhleif og konu mér hjá. --- Enga á ég von og ekkert þarf. Auðnin er mín kvon og þessi vísa er minn einkasonur ævistarf, upp frá honum aftur mun ég rísa. ] [ Ljósin þau glampa í læknum og glitra og leika svo fögur og tær. En hjarta mitt skelfur og hugsanir titra og hljóðlátt þau draga mig nær. Undir fögrum ljósunum nykurinn læðist og lausnin í huga mér grær. Kjarklaus er sá sem kvöldroðann hræðist - kvöldið sem dauðinn er vær. ] [ Bergið er brotið og blind er sú trú að bót megi hljóta með tíma, en hvað sem að hvessir og hvert sem blæs nú hverfur aldregi bergsins gríma. Þá kom til mín blómstrið bláa, og bar mér þau orðin sönn; að í bergsins brostna gljáa, hafi bæði sest mosi og hvönn. Má af því skilja og segi ég frá að hvað sem þér sárum veldur; aldrei skalt hugfallast, hrynja af þrá, því hugarins æ brennur eldur. ] [ Á varnarþing í vígasök var torsótt för og erfið; hart að eiga vörn í vök við heimanskipað herlið. Þá Þórður gellir steig á svið og sperrtur kvað að orði: „Óbreytt enda'öll málefni á Alþingi með morði!" ] [ Prófum yfir sveittur sit, sígur á mig þreyta. Grófum brögðum reikningsrit reynda hugi beita. Og aftur á bak: Beita hugi reynda rit reikningsbrögðum grófum Þreyta á mig sígur, sit sveittur yfir prófum. ] [ Hér er lítil mús, hún átti lítið skrýtið hús, hún var föst í klemmu, inn í kaldri skemmu. höfundur: Hólmfríður Svala Jósepsdóttir, 14 ára. ] [ Sólin hún er hlý, himininn er með ský, Bráðum verður kalt, og líka rosa svalt. höfundur: Hólmfríður Svala Jósepsdóttir, 14 ára. ] [ mér liggur á, hér er líka á, áin er stór, úti í henni er skór. höfundur: Hólmfríður Svala Jósepsdóttir, 14 ára. ] [ Veðrið er heitt, ég er líka sveitt, sunnan er hiti, og þar rennur sviti. höfundur: Hólmfríður Svala Jósepsdóttir, 14 ára. ] [ Hér er fullorðin maður, hann er með blaður, hann var nú í klípu, því hann reykti pípu. höfundur: Hólmfríður Svala Jósepsdóttir, 14 ára. ] [ Kæra Priyanka Thapa. Það geta ekki allir verið andsemitískir skáksnillingar. Virðingarfyllst Útlendingastofnun ] [ Kæra Priyanka Thapa. Það geta heldur ekki allir verið tíu fjársterkir Kanadamenn og Bandaríkjamenn. Virðingarfyllst Útlendingastofnun. ] [ Kæra Priyanka Thapa Það geta ekki allir verið inspired by Iceland. Virðingarfyllst Útlendingastofnun ] [ Kæra Priyanka Thapa Roggadungatunktunk. Virðingarfyllst Útlendingastofnun ] [ Í gær orti ég konu, ég horfði á hana smá stund og lífvana augum starði hún til baka og líkt og guðlegur kraftur væri mér fólginn gæddi ég hana lífi. En ég orti hana ekki fullkomna stuðul vantaði hér og atkvæði þar. Í nýsköpuðu gallaflóði drauma minna tókst mér þó að yrkja af nægilegri kostgæfni til að misheppnuð ljóðstúlkan bæri af öllum öðrum konum, til að misheppnuð ljóðstúlkan væri fegurri og ómþýðari en nokkur önnur snót. Og ég gæti dáðst að þessum gallagrip mínum, ávallt. ] [ Hver man svarta skuggana sem dönsuðu eitt sinn svo dátt er skiptust á gjöfum og handaböndum og kinkuðu kolli hvor til annars á hvítkölkuðum vegg eftir að bjartur loginn brann út? Hver man þig? Hver man mig? Hver man okkur sem menn að löngu brauðstritinu loknu. ] [ Ég tók eitt stökk í tíma til nítjánhundruð og átta, þar fann mína feður glíma við fótskörung niðdimmra nátta, en nætur óvinasátta. Ég hálfa öld lét líða en leit svo við að nýju. Þar ómfögur söng alþýða í efnahags fílharmoníu, nýsýkt af kaupbakteríu. Öðrum fimmtíu árum síðar aftur fór til að rofa, góðæris hrundu hlíðar en heimamenn sátu agndofa, og flúðu í moldarkofa. ] [ Aðeins ég fyndi einlæga gleði, ástina kvikna á ný. Það er ekkert sem áður eftir þú kvaddir. Sorgin í hjarta býr. ] [ Elsku stóra systir mín, blíðleg, hlý og góð. Hún er líka sæt og fín, viskufull og fróð. Hún margt kenndi mér, um lífið okkar langa. Systir góð, þessa löngu leið ég vil með þér ganga. Þú átt faðm fyrir mig, til að knúsa blítt. Ég á faðm fyrir þig, þar sem ávalt er hlýtt. Ég ann þér mjög, elsku stóra systir. Gæti samið um það 100 lög, ásamt öllu sem mig lystir! ] [ Ég kann að lesa En get samt ekki séð Öll orðin sem svífa innra með þér Þegar þú talar og hreyfir þig Hlusta ég og finn Sé samt ekki hvað það er Sem býr innra með þér. Ég get hugsað En bara fyrir mig Allt sem gerist er tími Allt sem þú segir mér heyri ég En það sem er fyrir innan er ekki fyrir neinn. Höfuðið er geymsla Og geymir hvað sem er Allskonar reynsla Sem býr inn‘í þér og mér Það geymum við þar Lokað og læst Allt sem er og var. ] [ Upp mig vinnu ólánsvinur undir mig og yfir hrynur, sýrir mína góðu siði stendur upp í yfirliði. Með tungu sinni á tennur mínar hann tjóðrar allar syndir sínar. Fjandans sjálfs förunautur finnur mig, sveittur, blautur. Bítur mig barkann á, brýtur boðin köld og blá. Guð þú mátt nú gæta þín því grimmur dauði við mér gín. Logar hárið og litir heitir leggjast á og andann þreytir. Stynur nú og stundir hátt strýkir minn litla mátt. Rífur hárið og rykkir oft reka augu upp í loft. Hrammar upp með hryggi mjúkum hrökklast burt með huga sjúkum. Þrýstir háls með ljótri þrá þrengir að svo verð ég blá. Ljótir leikir á vegi förnum; henta ekki litlum börnum. ] [ Hvað trúir þú á? Eg trúi á mannkynið. Eg trúi á það góða Ég trúi að það sé ekkert svo vont að ekki verði eftir eitthvað gott til að gera það betra. ] [ Blár,gulur,blár,rauður,grænn,gulur,blár,gulur,blár Blár blár gulur, gulur, rauður,grænn,grænn,rauður blár,grænn,rauður,grænn,gulur,grænn,gulur,grænn Rauður,Blár,rauður,grænn, blár,gulur,blár,grænn,rauður Gulur,rauður,blár,gulur,blár,blár,gulur,grænn,blár Grænn,grænn,gulur, blár, rauður,gulur, rauður,grænn Rauður,blár,gulur,grænn,rauður,grænn,blár,grænn ] [ Þetta er óraunverulegt hvað ég er mikið að upplifa þetta. Það er töfrum líkast hvað þetta er satt. Það er vont hvað þetta er gott. Þú ættir bara að prufa. Ég segji það satt. Ekki vera gufa og komdu að lifa hratt . ] [ Við erum tölvubörnin og við erum komin til að heimta krúnu okkar sem yfirráðamenn yfir þessari forabúllu sem þið kallið Lýðræði. "Leggið árar í bát og Lollið out loud. Drekktu alvarleikakisu og skolaðu því svo með mysu. Sjúgðu ráðherratippi." segji ég og yppi. Þið rekið fínt samfélag. Eins og Kúreki rekur sína hjörð. En kúrekar reka ekki útí geim. Kúrekar reka ekki niður á dýpstu hafsbotna. Kúrekar reka ekki í átt að réttlæti og jafnrétti fyrir alla. Kúrekar reka ekki í átt að sannleikanum. Hvorki ytri né innri. Svo nú er komið að okkur að taka í taumana. Sparkí beljuna særa og sauma hana. Svo henni geti uxið vængir. Þegar svín fljúga segjið þið kannski. Þegar beljurnar fá frelsi segji ég. Þá fyrst mun mjólkin renna. ] [ Þetta er allt sem það á að vera Þú ert allt sem ég þrái að vera Þú ert allt það sem mig dreymdi um Þú ert allt það sem ég þarf Þú ert allt það sem að ég hugsa um Þú ert mitt lífs og ævi starf Ég segji þér allt í endalausu flæði Starandi kalt við andvaka bæði þreytt gella og þreyttur gæji þrotlaus samt í óðs manns æði Talandi, kyssandi elskandi þig ég gæti lifað eilífð án þess að skeyta um mig því dýrð þín er guðleg og hugsun þín falleg ég vildi að ég gæti opnað mig og deilt mér með þér alveg Þetta ljóð er endalaust eins og ást mín til þín þrátt fyrir að við séum ólík eins og malt og appelsín þó allt sem ég geti gefið þér sé tilvera mín þá vildi ég að það væri meira en bara grín ] [ Varrirnar fyllast af helíum, lungun fyllast af nautgripahjörð traðkandi á hverju einasta orði sem ég reyni að koma uppúr mér. Ég reyni að halda augnsambandi til að missa hana ekki alveg, en hvernig helduru augnsambandi við manneskju sem þú ert ekki einu sinni að tala við? Kallast það ekki að stara? Ég lít annað, eins og ég sé bara ekkert að pæla í þessu. Það virkar ekki, nú lúkka ég fokking einhverfur. o.k.o.k. Plan b ~~~ "Hey vá, þú ert með eitthvað á kinninni *sljúbb! " "WTF!? ertu ógeðslegur eða?" ~~~ o.k. ekki plan b umm… "hæ :)" "hæ…" "ég heiti Aron" "Hæ ég heiti Rós" "Snilld :)" "cool :)" ] [ Ég er svo siðblindur. Ég er svo sannfærður um að það sem ég trúi sé satt og rétt. Ég er svo viss um að hlutverk mitt í þessu lífi sé að kanna og uppgötva. En það sem ég er ekki viss með eru skylirðin sem mér eru sett. Á ég að gera það einn? Er það eina leiðin? Kannski er ég bara einmana. Ég hef samt verið svo sannfærður undanfarið að ég sé það ekki. Að þetta sé það sem ég vilji. Þetta er það sem ég vil ! Nema bara… Ég þarf að komast í svefn og klippingu! Sendið mig heim. Sendið mig heim. Heima er þar sem hjartað er og ég er búinn að týna því. ] [ Máninn glitrar og jörðin titrar af litafegurð sem aldrei fyrr. Baugurinn stór og geislakór, syngur um hvað "Við erum aldrei kyrr...,, Ég starði inní auga hans Ég sá inní hjarta hans Rauður loginn brann jafnt á himni sem í huga hans Gulur og blár verður grænn. Gulur og blár verður grænn Ef þú vildir vera svo vænn Grasið og mánaskin, himnesk er veröldin. Himnesk er veröldin, grasið og mánaskin Ég vildi aldrei þurfa snúa aftur aftur Fara til baka og upplifa það aftur aftur Ég þarf að horfa upp, ég þarf að horfa áfram Leiðin þangað er leiðin heim Leiðin langa er leiðin heim ] [ Ef Ýmir biður þig um að semja eitthvað lag. Þá ferð þú ekki heim grípur gítar og byrjar að plokka. Þú ferð í bækurnar og þú ferð í samfélagið. Þú uppgötvar kjarna þess og lærir hvernig straumarnir streyma. Þú athugar það að allt sé með kyrrum kjörum og beinir straumunum að þínum eigin geðþótta. Þú sannfærir fólk um veruleika sem að það hefði aldrei getað ýmindað sér í sínum villtustu draumum. Þú gefur þeim á silfurfati allar þeirra vonir og langanir og þú færð þau til að vilja útá ystu nöf í öllu því sem hægt er að teygja og færa áfram í átt að betri og fallegri þróun. Og þú lætur fólkið gera lög, sinfóníukonserta, stórtónleika sem fá alla í trans, sem gefa þeim svörin lífinu, heiminum og öllu, í 90 mínútur. Þú lætur fókið stofna heilu útvarpstöðvarnar fylltar af harmóníum og hamingju sem gætu glatt fúlustu flugfreyjuna í klósettþrifum. Og fólkið myndi allt vera og lifa þrífast og dafna. Bara með því markmiði að fá heiminn til að vera sem bestann fyrir Ými. Og hann fær þetta lag sem hann bað þig um að semja, ásamt restina af því sem hann virkilega vildi. ] [ Árin sex ég aldrei sá elsku Birnu mína af skal láta úlfagá og á okkur að rýna Síst mun duga þrasa þetta þrátt að masa lengur glaumur ekki glasa mettar gleymdu þessu, drengur ] [ Í árunum innst í mér angar af æsku dögum. Eitthvað sem enginn sér eins og set í lögum. Á brúnum við efstu egg þar sem andarnir vaka. Rakst ég á ramman vegg sem rak mig til baka. Öldufalda yfir reið og iðgræn gróður engi. En hjarta þráin heim á leið hristi tauminn lengi. Æsku ber hver innst í sér eins og rák í höndum. Sporin öll á eftir mér elta mig á röndum. ] [ _________________1________ Ég horfði á borgina blæða út hana blæddi tárum barna sinna sem löngu höfðu horfið frá samfélagi óttans inní bjarta svarta drauma næturinnar _____2________________________________ Týndar sálir í leit að eilífri æsku, aðeins vissar um þá óvissu sem lífið bar með sér. Ég horði á þær hverfa líkt og ... Týndar sálir hlaupandi naktar hring eftir hring eftir endalausum hring strætóljósin vísa leiðina Týndar sálir, naktar hlaupandi á hringtorgunum syndanna með enga undankomuleið nema ótroðna malarvegi Týndar sálir, naktar hlaupandi á eftir öskrandi bassatónum Týndar sálir, naktar hlaupandi í átt að rífandi bassatónum í von um að geta sprengt í sér heilann og hætt að hugsa Ég horfði á sálirnar hverfa Borgin sat tóm ekkert eftir nema neon sporin á veggjum hennar og götuljósin sem lýstu auðar leiðir ______________3_____________________ Ég sá þær á beit á ósýnilegu ökrum ástarinnar étandi þurra mold og steina sem skáru góma þeirra, blóð fyllti munnvikin svipbrigðin týnd bakvið sársaukann _________4______________________________ Ég horfði ________________________________________________________________ ] [ The finance minister has declared that selling Iceland might erase the debt ] [ The finance minister claims that selling Iceland might cover the debt ] [ Íhaldið er dýrt með öllum sínum glæpum. Óheillakrákan flýgur ei vængjum tæpum. Vinstri grænir margir nú vaða þeirra slóð verkanna drýgstir að sjúga mönnum blóð. Afstæðir eru aumingjar er arka um lífsins svið. Til lítils duga ljúflingar er ljótt gerist mannlífið. Aumingjar hafa illu sáð og uppskeran ekki rýr óþverranum á oss stráð Alþingi ei vegur nýr. Bág eru þau ráðin sem bjánar gefa skást og bestu menn hjá sitja sem á höndum en ekki munu þrekvirki frá öðrum fást til að frelsa þjóð sem pínd er hér röndum. ] [ Ekki er mér um Icesavefárið áróður þess er þjóðarmein. Mér varð á ljóð í morgunsárið mun að líkum snilldin ein: ] [ Við sleiktum geisla síðasta dagsins sáðum degi í nætur. Og sáum í fjarska til sólarlagsins sátum við fjörurætur. Er himinninn jörðu snart og svæfði og skýin flugu yfir. Var ysinn horfinn, enginn á sér bærði en andartakið lifir. Í sól og sumri er náðarkraftur þessi suðlægi andi. Andar komið með hann til okkur aftur að elds og ísa landi. En sólin fer og stjörnurnar vakna samt er það líka gaman. Gegnum dagana gráleitu sakna hve gott er að vera saman. En árin ganga aldrei til baka en endurminning lifir. Freystingarnar í mal mínum saka mig að vera fyrir. ] [ Ég kem til dyranna eins og ég er hrædd því oftast kemur enginn inn um dyrnar. ] [ Það er rok rassagat í minni sál, rjúkandi óveðursins bál. Organdi vindhviðurnar æðandi, öskrandi, í hjarta mér blæðandi. ] [ Kæra Priyanka Thapa Mál þitt, sem tekið hafði verið til gaumgæfilegrar skoðunar var tekið til gaumgæfilegrar endurskoðunar. Hlýtur þú nú dvalarleyfi af mannúðarástæðum hér á landi. Þrátt fyrir fyrri synjun um dvalarleyfi af mannúðarástæðum hér á landi. Virðingarfyllst Útlendingastofnun ] [ Spegilmyndir fjallanna við fjörðinn standa á haus. Þær horfa kankvísar á fyrirmyndir sínar sem gnæfa alvörugefnar yfir fletinum. Eitt andartak er óljóst hvað snýr upp og hvað snýr niður. Svo kemur hafgolan með ískalda rökvísi sína og tekur af öll tvímæli. ] [ Það fennir í fornar leiðir. Treginn lifir tekur og seiðir. Horfin er ást tveggja. Rós í glugga bros beggja. Horfin eru heima kveldin. Gróandi grösin þú við eldinn. Horfin eru saklaus sporin. Litlir fingur leikir á vorin. Farnir eru feður og bræður. Þú og kyrrðin kulnaðar glæður. ] [ Aldirnar telja árin út útbrennd kerti á viðarbút. Kálfskinn breitt á borðið blekið límist við orðið. Hrímið læsir heljar klóm hafið stynur djúpum róm. Brimið skellur á söndum sagnir losna úr böndum. Hrafn flýgur svartur af sorg sól er við orrustuborg. Stirnir á skjaldarrendur og sagnameistarans hendur. ] [ Á þjóðarskútunni er áhöfnin þreitt þjáist af skyrbjúg og skorti. Séniver er ekki af sanngirni veitt siglt eftir úreltu korti. Skipstjórinn blindur og sér ekki neitt sat fullur í stefni og orti. Helvítis dallurinn siglir í hring heyrast menn kvarta og kveina. Skipstjórinn syngur um þjóðlagaþing, hve þung byrðin þjakar hann einan. Huggar hann fáa, því sjá menn í kring hákarla, stormsjó og steina. Mórallinn mun því allt nema hár en mönnunum skipað að standa. Muldrar einn skipverjinn, gamall og grár: Æj góði, leif mér að anda. látum þá sjálfa þræla við ár þeim sem langar hvað mest til að stranda. ] [ Elsku hjartans ástin mín, mitt eina sanna ljós. Þú ert mér sólin sem alltaf skín, mín eilífa rauða rós. Hörund þitt sem silki og augun svo blá, og brosið þitt svo breitt. Í hjarta mínu fyllist ég þrá, ég elska þig svo heitt. Þú ert endalaust falleg, svo hrein með holdið bert. Þú ert alveg yndisleg, alveg eins og þú ert. 23.okt. 2006 ] [ Sumir segja að lífið sé eins og sígaretta Þó þú reykir hana ekki þá brennur hún samt upp Mér líður eins og móðir mín hafa kveikt í handa mér En ég neita að reykja Leitin að hamingjunni er eins og að trúa á jólasveininn Ómögulegt og endalaust Af hverju að leita? Þetta er bara tilfinning og ég á nóg af svoleiðis. Allt sem ég geri er litið illu auga Allt sem mig langar að gera virðist vera ómögulegt Allt sem ég hef gert skiptir mig engu máli Allt sem ég á eftir að gera virðist einskis virði Ég á tómt herbergi sem ég fylli reglulega með breytingum Breytingar eru tímabundin gleði Ég vil bara fylla herbergið og læsa En ég virðist ekki finna lykilinn Það sem fékk mig til þess að brosa áður kemur mér ekki við núna Sumir telja eina ráðið að láta vitringa tala sig til Gera eitthvað svo tilgangslaust að einhverju svo mikils virði Get ég aldrei orðið þakklát fyrir að eiga allt og skorta ekkert? Allt sem ég geri er litið illu auga Allt sem mig langar að gera virðist vera ómögulegt Allt sem ég hef gert skiptir mig engu máli Allt sem ég á eftir að gera virðist einskis virði ] [ ferð mín í gegnum lífið er ekki eins og ferðalag hindranir á vegi mínum eru ekki margar eina óyfirstíganlega hindrunin er ég sjálf samt held ég áfram að misstíga mig og hrasa Mistökin hægja á mér draumarnir hjálpa mér að halda áfram ástin gerir mig brjálaða hún er bæði besta og versta tilfinning í heimi Lygin er verst að ljúga að öðrum er ósíður að ljúga að sjálfum sér er hættulegt ég er tilbúin að ganga ein ] [ Ég sakna þín og þess að elska Minningar um það sem áður var Ég er alein og sé oft svo eftir að hafa Sleppt þér þá mér frá ég vissi ei að eftir þér myndi ég sjá Ætið man þig ætíð man þig er ég var ætluð þér ætíð man þig nú tíminn annar er ætíð man þig, ætíð man þig er við vorum eitt ætíð man þig en nú er allt svo breytt Ég er ennþá að þerra mín tár þótt liðin séu ár tíminn hann læknar enginn sár hann hjálpar bara að gleyma manst þú ennþá mig? Ætið man þig ætíð man þig er ég var ætluð þér ætíð man þig nú tíminn annar er ætíð man þig, ætíð man þig er við vorum eitt ætíð man þig en nú er allt svo breytt ] [ Ég sit ein heima og stari útí myrkrið finn svo mikinn sársauka sem ég reyni að leyna ég hugsa um gamla tíma og fer þangað í huganum reyni svo að gleyma og líður vel í smá stund sársaukinn sem ég finn í dag er ekki eins hann rífur mig ekki að innan eins og áður hann hringsnýst í huganum og er bara þar hjartað er heilt því það opnar sig ekki lengur er ég á réttum stað? Ég hef alltaf vitað hvaðan ég er en aldrei hvar ég á heima með tímanum reyni ég að gleyma gleyma því sem var svo gott og halda áfram á nýjum stað Hverju tilheyri ég og hvar á ég heima það skiptir ekki máli ef mér líður vel Ég hleyp í burtu frá mistökunum en þau ná mér fljótt og grípa mig ég sé eftir svo mörgu en hvað gerði ég rétt? þau andlit og þeir staðir, ég vil ekki meir. Tíminn líður hraðar með hverju árinu átökin verða meiri og mistökin stærri eftirsjáin er orðin svo stór að ég ræð ekki við hana ég hugsa bara um annað og brenni mig á eldinum er ég á réttum stað? Ég hef alltaf vitað hvaðan ég er en aldrei hvar ég á heima með tímanum reyni ég að gleyma gleyma því sem var svo gott og halda áfram á nýjum stað Hverju tilheyri ég og hvar á ég heima það skiptir ekki máli ef mér líður vel Hugsaðu þig vel um hvers þú óskar þú gætir fengið allt ] [ dalurinn, fjallið og vatnið Eitt land, brotin þjóð. ] [ Heilsaðu beygðum með bros á vör og blessaðu þá með hlýju. Því brostin augu bera ör berðu þeim von að nýju. Rýtingur í brjóstið bert og bjartur dagur hrynur. Sestu og spurðu hver þú ert þú sagðist góður vinur. Og hugsaðu um allt sem þú gast gert og gefðu þér tíma að nýju. Það lifir allt sem er virðingarvert og vafið mannlegri hlýju. ] [ Sólin með bros á brá blessar þessa jörð. Þig og mig og hretin hörð hlaðin kuldavá. Í einverunnar bát elska margir heitt. Ef bilið er breitt þá bresta sumir í grát. En heiðarlöndin há heilsa sumri enn. Í brjósti börn og menn bera von og þrá ] [ Þær sungu dansandi dagana alla drauma meyjarnar ungu. Og hjartsláttur þeirra hóf sig til fjalla svo hamraklettarnir sprungu. Og fjörðurinn grét af heitum harmi og hjartað sló og barðist. Hann tregaði þær með tár á hvarmi og titraði og særðist. Öll okkar sorg og gleði svona líður nú skil ég allt sem lifir. Það er svo margt sem á draumana drífur er dagarnir ganga yfir. ] [ Ég er líf þitt. Ég er líf þitt og yndi, kvöl þín og pína. Ég er von þín og vonbrigði, gleði og sorg. Ég spenni þig upp og róa þig niður, held fyrir þér vöku og svæfi þig. Ég er nær þér en þú sjálfur. Fjær þér en ímyndun þín. Ég er tilgangur lífsins holdi klæddur, tilgangsleysi allra hluta. Ég læt þig spretta á fætur á morgnana, fullum og orku og held þér föstum í rúminu–þjökuðum. Ég er metnaður þinn og dugur, óframfærni og feimni. Ég er alvaldur tilvistar þinnar, skipti engu máli. Finndu mig. ] [ Þegar lokin ganga í garð þá gef ég ykkur stafinn. Og eftir verður ófyllt skarð en aðrir koma í staðinn. Ég áður fór um víðan völl og vindinn hafði í bakið. Gestkomandi í hárri höll og himinninn var þakið. Í salnum bíða margir menn mæddir en lausir böndum. Og allir munu sigla senn seglum burtu þöndum. ] [ Hrým harða skelina um sál mína hylur. Fáir fá hana brotið frostið aðrir af skafa. Hafsins háu öldur hefja skelina á brott. Flýt með í fjötrum framtíðin mótast. Brimið ber að ströndu blákalda skel. Þaulreynd, þó ei brotin þar inni ég mig fel. ] [ Ó, kemíkin mín kæra, ástin eina, kvöldin væru hvimleið, sveipuð armæðu, - værirðu ekki viljug þinnar torræðu væri ég hafinn hástöfum að kveina. Blessunarleg ertu bót allra meina bylmingshöggi slærðu og sáir úlfúð en notalega til mín nauðgar ástúð. njúrótoxíkin, hún er lausnin hreina Metamfetamín, eina ástin mín, kátínu vekurðu viðjunum í - lausnarinn lævísi harmi mínum. Metamfetamín, hvað væri án þín? þá tækist aldrei gleði mín á ný ég þrífst á svalandi krafti þínum. ] [ Á Þingvöllum er þögn en þar er á sveimi andi. Um grundir ganga rögn gömul á helgu landi. Skjaldbreiður geymir glóð en grímu hjúpuð ytra. Hér í sporum þessi þjóð þraukaði eldinn bitra. Í hjartans rífur rót sá regin djúpi arinn. Er ítar iðkuðu blót var andinn sár og barinn. ] [ Við og við við við við stöndum og höggvum. ] [ Gleðin og sorgin eru samrýmdar systur og án hvor annarar einskis megnugar. ] [ Hann talaði við þau stutt í síma og sagðist hafa lítinn tíma. Ætti erfitt og birgðir að bera væri í basli og mikið að gera. Undir stjörnum var hann sólardrengur sigur þeirra en varla lengur. Nú þekkir vart mun á réttu og röngu eins og Róm endur fyrir löngu. Bjarmi áranna liðinn og læstur lífið breytist og hver verður næstur. Blöðin falla en stofnarnir standa stundir úr bernsku að okkur anda. En ísinn þiðnar og elfur renna og æsku dagar úr anda fenna. Um brekkurnar og blikandi engi standa rætur djúpt í jörðu lengi. ] [ Þú lifir í svikum og eintómu rugli. Í huga mínum góðar stundirnar eru, sem ég vil fá að gleyma. Ég vil ekki hugsa um þig, þig vil ég ekki geyma. Afhverju þarf það að vera ég sem elska þig. Afhverju þarf nokkur að elska þig. Ég vil fá að lifa í friði, og hætta að hugsa um þig. Þú skemir víst hjarta mitt. Ég vil ekki vita að þú sért til. ] [ Lítið barn leitar að hamingju, en hamingjan er ekki ég. Gamalt fólk veit um hamingjuna, en nennir ekki að ná í hana. Allir sitja og horfa á sólina skína, yfir lífið sem eftir andartak verður búið ] [ Mirkrið sækir brátt að, þá allt mun verða svo dimt. Ég hugsa um daginn kæri frændi, þegar allt varð svo hljót, það var daginn sem þú fóst. Þá þú sást ljós, en ég sá myrkur. Nú ég sit og vona að ég sjái einhvern tíman ljósið, ljósið sem þú sást. ] [ Sverð er vopn, vopn his ýlla. Skjöldur er vörn, vörn his góða. Sverð er gadda vír, skjöldur er í kringum hjarta mitt. ] [ Ég horfi á hann. Mig langar í hann. Ég má ekki fá hann. Ég ver að fá hann. Ég fæ mér hann. Afhverju var ég ekki, laungu búinn að fá mér hann. Ég fékk mér bjórinn. ] [ Nú við sitjum hér undir sama himni, það flígur margt í huga mér, sumt af því er leindarmál, kanski leindarmálin okkar. Ég loka mínum augum, og gleymi mér í smá tíma. Fyrir ofan okkur eru giltir vængir, sem hetjur hafsins eiga. Tár Guðs slá hjarta þeirra sem þrá, tár guðst falla yfir okkur, tár guðs eru regndropar. Það er ekkert hægt að gera, í dag lifiru hjá mér. Ég veit ekki með morgun daginn, en það getur alveg verið. Dagurinn er búinn hér, dagurinn er búinn hjá mér. Það er svo margt sem er óskiljanlegt. Það er svo margt sem er ófyrirgefanlegt. Margt sem er svo sárt, margt sem ég mun fyrirgefa, því það er svo sárt. Svo sárt. ] [ Sólin skín í heiði, beint á rassin á þér. Þegar kemur að kveldi, fer mig að langa í ber. ] [ Ég las úr augum þínum, hugur minn dvelur hjá þér, æsku vinur minn. Nú er hugurinn heima. skipið bíður að landi allt árið um kring. á ferð leggjum hönd í hönd. Súld og bræla er, þá stendur hann og brosir. Laun eru bið, þér mun ég aldrei gleyma ] [ Þegar deginum líkur mun ég horfa á þig, en þú munt ekki horfa á mig. Ég sé þig, en þú sérð mig ekki. Ég er uppi á meða þú ert á jörðu. ] [ Ljós þitt skín út um allan heim. Þú ert mér allt, þú ert mitt líf. Ég mun aldrei gleyma þér. Hvar sem þú ert, hvar sem ég er, Því þú ert mér allt. ] [ Þú er þú. Ég er ég. Eigum við einhvað sameginlegt, eigum við alltaf eftir að tala saman, eða verður aldrei neitt meira hjá okkur. Verðum við vinir eða verðum við aldrei neitt, verðum við meira en vinir eða hvað verður um okkur. Þú ert sá sem ég vil þekkja allt mitt líf sama hvað verður. Þig ég vil treysta og vil að þú treystir mér. Ég vil finna fyrir nærveru þinni, ég vil finna að þú viljir finna fyrir mér, ég vil þig. ] [ Ljósið er vinur minn. Ég sé ljósið og finn fyrir því, þegar ég er ein og það er ekkert ljós, líður mér ekki vel. Ljósð veitir mér hamingju, og framtíð. Ljósið er það sem ég vil alltaf hafa hjá mér. ] [ Skugginn minn er bara minn, hann ég ein á. Hann aldrei fer mér frá. Hann er sá eini sem þolir mig alla æfi, hann mig stiður í gegnum allt. Hann setndur altaf mér við hlið. Stundum sé ég hann ekki, en ég veit að hann er þarna, og mun alltaf vera. ] [ Sjórinn er kaldur og hefur tekið marga frá okkur, hann kanski ætlaði sér það ekki, en það bara gerðist. Sjórinn getur verið fagur og blár, en getur verið grimmur og grár. ] [ Blómið blómstrar að sumir til, og líður vel. Þegar veturinn kemur deyr það í smá tíma, en lifnar aftur við. Þannig blóma lífið er. ] [ Mamma mín er kona. Eina konan sem ég mun elska, hún hefur þurft að þola mart, í þessu blessaða lífi. Mart sem aðrir hafa ekki þurft að þola, hún er skemtileg og fyndin. Hún er pólverji en tala góða íslensku, hún er kona pabba míns. ] [ Pabbi minn er maður. Pabbi minn er sjómaður. Maður sem hefur húmor, hann hlær af sjálfum sér og hefur gaman. Hann er búinn að þola mart, og hefur þurft að berjast við mart. Hann er maður sem ég mun aldrei gleyma, hann er pabbi minn. ] [ Átinn er rauð á litin, og þann lit vil ég sjá. Ég vil finna fyir litnum, og langar að lifa með honum. Mig langar í þennan lit ] [ Mér leiðist. Ég hef ekkert að gera, og eingan til að tala við. Hvað er hægt að gera í mínu ástandi, ég bíð efitr því að klukkan verði mart, og að ég verði þreytt. Hvenar verður þessi dagur búinn, ég bíð og bíð. ] [ Ég finn fyrir einhverju. Mér er ekki sama um einhvern, ætli einhverjum sé sama um mig. Mig langar að hafa einhvern Mig langar að tala við einhvern. Kannski er þessi einhver þú ] [ Lífið oft getur verið erfitt, mig langar að líða vel, mig langar að elska, og langar að vera elskuð. En ég spir mig, afhverju ætti mér að líða vel, á meðan öðrum líður ílla. Ég vil ekki finna leingur fyrir tómleika, mig langar að líða eins og ég egi skilið að lifa. ] [ Þig ég sá, og þig ég hitti. Fyrsti kossinn okkar saman, var eins og einglar höfður staðið að verki. Ég fann tilfinningar með þér, og tilfinningar þegar ég fór, Tilfinningar sem ég hafði aldrei fundið fyrir áður. Ég hugsa um þig núna og vildi að þú værir hér. Ég finn fyrir sorgar tilfiningum sem ég vil ekki finna. Mig vantar að tala, vantar að hitta og vantar að finna. Hvað var það sem ég gerði rangt, eða gerði ég einhvað rangt. Hvað er það sem heldur þig frá mér. Mig vantar svör. Það eina sem ég byð um eru svör. ] [ Þegar nýtt líf kemur, þá annað fer. Á meðan einn brosir, þá annar grætur. Þegar einver á margt, er annar sem á ekkert. Á meðan einn á marga vini, er einhver sem á einga vini. Þegar öðrum er ekki strítt, eru aðrir sem eru lagðir í einelti. Á meðan öðrum líður vel, þá hvernig líður þér. ] [ Þegar tónar lífsins leika um, ég slæ smá takt í tilveruna. Því hjárta mitt það berst nú hratt, ég hugsa um þig og vini mína. ] [ Ég þig sá og líkaði vel, en hélt að ég væri að fara að gera mistök. Við gerðum ekki mikið, en samt fanst mér gaman. Ég sagði þér leindarmál, sem ég hefði kanski ekki átt að segja. Þú sagðir mér að þér liði ekki vel, og því ég vildi breyta. Hjá þér ég lá alla nóttina, en þú vildir svo ekki meir. Ég hefði viljað að þér myndi líka betur við mig, eða allavega gefið mér séns. Maður verður ekki alltaf hrifin strax, því maður þarf að gefa öðrum tíma. En því fór sem fór, og nú sit ég ein og hugsa afhverju ekki ég. ] [ Það er mikil virkni í Angular og superior temporal í dorsolateral middle frontal allt eru þetta gyrus-ar Það rauðglóir allt í Insula og ég á mér að auki tvo cortexa occipital og occipitotemperal og ventral temporal tveggja svæða Ég skora hátt í Vasopressin en það mælist varla Serotonin það líður um mig þetta Dopamin Cortisol og hið ljúfa Oxytocin Hvers vegna erum við alltaf að kljást og hvers vegna þarf ég að þér að dást? Hví með orðum að staðfesta ást þegar virkni hennar í mælingum sást ] [ Ég kyntsis þér, ég hitti þig. Þú spurðir mig, ég svarði þér. Ég fann fyrir hrifningu til þín, vissi ekki hvort það væri einhvað til mín. Þú kysstir mig, ég kyssti þig. Þú faðmaðir mig, ég faðmaði þig. Ég straukst þér, þú straukst mig. Ég fann ég vildi ekki sleppa þér, en þú vildir sleppa mér. Ég vil hitta þig aftur, en þú vilt mig ekki. ] [ Fyrir augum er ætíð grátt öskuský. Ekkert andskotans augnabliks frí frá því. ] [ Ljóð og ljós eru orð sem skapa orð ] [ Við sköpum með sköpum Við viljum með sköpum Við gerum með sköpum Hvað er óskapnaður? ] [ Hann gúgglaði hana í gær, og gáði svo langt sem það nær inn í hennar heim. Er hún til í geim þessi guðdómlega mær? Hann addaði henni í gær og potar nú í hennar lær með elektrónísku sverði. Ætli það verði það eina sem hann fær? ] [ Hver malar svo hátt í morgunsárið, mjúkur á feld og svart er hárið? Það er hann Kolbakur, kötturinn minn, kærasti og besti vinurinn. ] [ Horfði á Dalalíf óritskoðað og faldi pundsseðil undir dýnunni á rúminu sem var greitt með afborgunum án ríkisheimildar. Örlaði á sjálfstæðum vilja. ] [ Fyrst eru sett handrið á hættulegustu staði. Svo eru þau framlengd í eina samfellu. Svo er annað samhliða handrið sett svo hægt sé að fylgjast með hvert þú ert að fara. Svo eru settar þvergirðingar milli handriða. svo þú farir ekki neitt. Loks er lokið sett á búrið. ] [ Orðin eru mót fyllt með steypu eftir stendur steypan Steypan stendur en orðin eru gleymd sem reistu þennan vegg Veggurinn stendur sem enn skilur að fornar grundir En engin man orðin sem áður voru sögð sem kljúfa þetta land ] [ Í gær var af fjörinu nóg; djamm, djús og dömur, þar til ég dó. Inni í mér bærist þynnkunnar kraftur, elsku mamma, ég mun aldrei drekka aftur. ] [ There’s a full moon over Esjan Though the sun is shining bright Where the night is light as daytime And daytime‘s dark as night And in the season's twilight I think of you, my sweet Looking forward to the day When we again shall meet ] [ Fésið er eins og lækurinn Og lækurinn er kaldur og djúpur Eins og status míns sjálfs Og fésið er eins og mynd Sem er póstuð af læknum Og mér til hálfs Og fésið og lækurinn renna veglaust til þurrðar Eins og status míns sjálfs ] [ Þó brigðult sé lán sem brothætt gler, þá býst ég við góðri veiði. Ég vakna því árla og frískur fer og fiskana til mín seiði. ] [ Ég haf svitnað, ég hef skolfið, ég hef óttast, ég hef kvalist og pínst Í fangi hans, í fjötrum hans, Í tilvist hans og sviðið illa! Liðið illa, fundið hið illa. ] [ Er húmið eitt liggur dögunin brotin handan við gil hins eilífa rökkurs, Þar sem allt hverfur er ekkert líf ertu einn? finndu mig í gilinu djúpa þar sem ég fer þögull..kaldur, því er ekkert sem ég get skapað einn. ] [ regnvotur í gegnum regngallan gallaður víst er hann sný honum bara við næst ] [ þær eru ósýnilegar líkjast mér alveg óskaplega ] [ köld sturta svona til að hressa mig við endaði með kvefi ] [ kominn á ról en neita að halda áfram sumir kalla þetta þrjósku en ég kalla þetta heimsku ] [ Sandar eru í Selárdal sól er þar á leiðum. Þannig er í þessum sal en þoka upp á heiðum. Einn hann bjó í sjávarsveit segir fátt aff einum. Enginn til hans lengi leit lék sér einn af steinum. Einmanaleikinn alltaf er eins og ryk í geymslu. Selár fjörur einn ég fer finn ég þessa reynslu. Hógvært heyri oregelspil höndum krepptum spilað. Örlög betur öll þau skil aðrir hafa lifað. Ást að þrauka einn með þrá í þessum hamra sölum. Í er líka eftirsjá yfirgefnum dölum. ] [ Sandar eru í Selárdal sól er þar á leiðum. Þannig er í þessum sal en þoka upp á heiðum. Aleinn bjó í sjávarsveit segir fátt af einum. Enginn til hans lengi leit leiðið þakið steinum. Einmanaleikinn alltaf er eins og ryk í geymslu. Er ég Selárfjörur fer finn ég þessa reynslu. Ef ég heyri orgelspil öldur kletta sleikja. Áratuga einsemnd skil eldar harminn kveikja. Fáir sína þögn og þrá þrauka alla daga. Lífið allt er eftirsjá eins og þessi saga. Inn að margri söguslóð stórar vörður leiða. Yfir bæði ís og glóð ár og aldir breiða. ] [ Þar sem sólin vermir, hug minn og hjarta. Þar vil ég sitja, við geislana bjarta. Þar vil ég sitja, lifa og njóta. Sjálfri mér kynnast, ísinn að brjóta. Þar vil ég vera, þar sem björtust skín sólin. Það vil ég bera, til að berja burt fólin. En ég dvel ei þar, ekki á sólbjörtum stað. Heldur á dimmum bar, dimmum og dökkum bar. Ég þar dvelja þó vil, á sólríkum stað. Ég það auðvitað vil, en ekki hvað? ] [ Ég er með heimþrá. En ég á hvergi heima. Ég flakka á milli staða í leit að einhverju. einhverju sem ég veit ekki hvað er. einhverju sem ég finn ekki. Ef þú hefðir ekki farið þá væri ég heima. því heima er hjá þér,þú ert mitt heima. ] [ Tár krystalsdropar seigfljótandi dreggjar útslitinnar sálar Andvörp sár svanasöngur á heiði hnuggin kveðja deyjandi draums. ] [ Andlit sem myrkrið gat grandað á augabragði andlit jafn auðsæranlegt með hlátri eða birtu „Við hugsum öðruvísi á kvöldin“ sagði hún við mig einu sinni liggjandi afslöppuð útaf Og hún vitnaði í Cocteau „Mér finnst eins og í mér sé engill“ sagði hún „sem ég geng látlaust framaf“ Síðan brosti hún og leit undan kveikti í vindlingi fyrir mig andvarpaði og reisti sig og teygði á fallegu sköpulaginu lét sokk falla ] [ Himnaríki var helmingi nær en endranær á á ljóðaupplestrinum þetta kvöld hafandi hlustað á margþvælda frasana þegar ég heyrði ljóðskáldið fá taktfasta fullnægingu litið síðan undan ráðvilltur á svip „Öll dýr“, sagði hann að lokum „Fyllast depurð eftir samræði“ En kampakátir elskendurnir baka til virtust þess alls óafvitandi ] [ Bátur lá við ankeri Í djúpum skugganum undir grátviði Í bugðu á ánni Um leið og birtan dofnar einnig báturinn með grátviðnum með ánni Minningin er ein eftir um elskendur í botni bátsins sem liggja við ankeri hvors annars Einnig þeir Horfnir á braut ] [ Í ódýru sælgætisbúðinni handan við lestarstöðuna varð ég í fyrsta sinn ástfanginn af óraunsæi Það stirndi á hlaupkúlur í hálfmyrkrinu þetta septembersíðdegi Köttur uppi á afgreiðsluborðinu sprangaði um innan um lakkrísstafina og karamellur og halltu kjafti tyggjó Fyrir utan féllu laufin um leið og þau dóu Vindur hafði stuggað sólinni á brott Stúlka kom hlaupandi inn Með regnvott hárið Og brjóstin risu og hnigu í þröngu herberginu Fyrir utan féllu laufin og grétu Of snemmt! Of snemmt! ] [ Á ferð í lest yfir skorna brúna maísakra skilti sem á er letrað Ójöfn spor Nakinn álmviður eins og blævængir móti himni Fuglasveimur í kjarri um það bil að hefja sig til flugs Hefðbundnu málverki af bóndabæ bregður fyrir á innanverðu auganu– Brúnar kýr við kornhlöðu í sól hundur að að leik Einmanna og láréttir akrar breiða úr sér í fjarlægð.... ] [ regn er sæði guðs sem fellur í móttækilega konu hvernig ætti annars að eyða regnvotum degi á annan hátt en með þér í leit að sól og stjörnum og himneskum líkömum hvernig ætti annars að eyða regnvotum degi á annan hátt en með þér ] [ Ég orti góða eggjaköku...og át heitt ljóð...eftir að hafa elskast með þér Hneppti bílnum...og ók kápunni heim...í rigningunni... eftir að hafa elskast með þér Ég fór yfir á rauðu...og stansaði á grænu...sveimandi einhvers staðar á milli... verandi hér og verandi þar... eftir að hafa elskast með þér Ég bjó um rúmið...losaði um hárið ...eilítið ráðvillt...en mér stendur á sama... tók úr mér tennurnar...skolaði náttserkinn...stóð ...og lagði mig... Til svefns... eftir að hafa elskast með þér ] [ afstaða hans til ástarinnar sagði hann var afstaða bóndans flestir elska eins og veiðimenn og eins og veiðimenn drepa flestir það sem þeir þrá hann yrkir jörðina í gegnum tær nef í rökum sverði hann bíður biður til guðanna og uppsker hægt og bítandi ævinlega þakklátur ] [ Milli verka– snyrti jarðaber, svara bréfum– eða á milli ljóða, sný mér að speglinum til að ganga úr skugga hvort ég er hér. ] [ Eins og sundmenn voga sér að snúa andlitinu upp á móti himni og vatnið ber þá, eins og haukar sem hvíla í loftinu og loftið styður þá, vil ég læra að falla í frjálsu falli, og fljóta í náðarfaðm Sköpunarverksins, vitandi að engin fyrirhöfn verðskuldar alla þá umlykjandi fegurð og dýrð. ] [ Fuglarnir kunna að lyfta vængjunum, leggja undir sig fæturna að flúgja yfir himinn til annarra landa með vindinn í fangið. Þeir vita hvernig á að yfirgefa kuldann. Einn daginn, einnig ég. ] [ Dreg mig út úr örum ristum hamnum (þessum gamla grófa ham sem ég þarfnast ekki lengur ég fer úr slepp úr legg að baki) ég hristi af mér dautt hreistrið dusta af mér húðflögurnar Sný baki við hörkunni plokka hvert lagið af öðru niður í kviku Og ég depla af mér gömlu augnlokin til að sjá hlutina í nýju ljósi Nudda mér upp við stein ætla að verða meir á ný ] [ Eru undaverður staður, þar sem enginn nýtur þess að vera til en allir vilja lifa um alla eilífð ] [ hún veit ekki hvað hallinn á nefinu á henni gerir fyrir mig hún heldur að ég sé óður í brjóstin á henni ] [ ef þú hefur efni á matnum áttu ekki fyrir pottunum og pönnunum til að elda hann í ef þú hefur efni á pottunum og pönnunum til að elda hann í áttu ekki fyrir matnum ] [ Rigningin er allt í einu skemmtileg. Tunglið vaggar í húminu. Enn sá hlátur. Ósýnilegir froskar kvaka í votu grasinu. Framandi lykt af fölnandi trjám. Ódýrt rauðvín og öll veröldin er sem einn munnur. Gefðu mér tvöfaldan koss. ] [ Einhversstaðar í þessari víðfeðmu nótt með fjarlægðina okkar á milli, hugsa ég um þig. Herbergið snýr hægt baki við tunglinu. Þetta er unaðslegt. Eða ætti ég að strika yfir það og segja sorglegt? Í einhverri af þessum tíðum syng ég óhugsandi söng um þrá sem þú færð ekki heyrt. La lala la. Sérðu? Ég loka augunum og ímynda mér dökkar hæðir sem ég yrði að fara yfir til að ná til þín. Því ég er ástfangin af þér og þetta er það sem það er líkt eða líkist í orðum. ] [ Þú smellur að mér eins og öngull sem krækt er í auga fisköngull opið auga ] [ Forsenda: Þú ert hafið. Augnlokin þín leggjast yfir óreiðu Hendur mínar þar sem þær snerta þig, skapa litlar óbyggðar eyjar Brátt munt þú verða öll jörðin: fullkannað svæði, land ] [ Að lokum sagði annar af tveimur í hljóði: Ég hef fengið þig til að sætta þig við einsemdina. Að lokum segir hinn af tveimur í hljóði: Sjáðu, allt innan seilingar er svo fjarri, svo fjarri ] [ Margir Hafa ekki rödd. Hefði ég ekki kynnst mínum skerfi að volæði, væri mér máls vant. ] [ Á bak við rimlana fyrir innan ókleifan múrinn horfandi á blóðrauða Transvaal sól rísa bjarta í gegnum fjarlægan bláma þú flýgur hátt afar hátt. ] [ Í vikubyrjun blés hann að að mestu að norðvestan. Að áliðinni viku stóð hann aðallega af austri og suðaustri. Undir vikulokin snéri hann sér í vestlægar áttir. ] [ Þú varst með dimmblá augu og heitar hendur. Þú komst á móti mér, handan við hylinn. Urmull af hvítum fuglum, sem flugu og þögðu Litlir og fíngerðir, eins og fyrstu blóm á sumri, hurfu þeir niður í vatnið. Fiðrildi flögruðu um í hárinu á þér ég vildi fanga þau með máttlitlum höndum dansandi vildi ég bera þau burtu og hverfa með þeim inn í óvit sælunnar. ] [ Hendur mínar Eða ekki. Eða ekki. Næturskuggar Þögn heimsins ] [ Aðeins í hjörtum okkar á sönn ást sér bú, þar sem ekki er spurt um húðlit og trú um Búdda og Allah eða hvort við Kristi þjónum, þá fáum við frið fyrir Guði og fjandanum. ] [ hugsanirnar flóð og fjara staðfuglinn stingur af heimilið hangir í vindinum ] [ trén lykta af timburmönnum venjulegt ljóð kemur slagandi og stararnir þagna ] [ Ó vatn brunnvatn drykkjarvatn baðvatn sturta! Hvítþvegnar skyrtur Hreinsuð sár Ó vatn ó regn ó haf! Stilla hylur lækjarsytra svampar og kórallar Vatnsins hjarta stríður púls árstraumur foss ein æð, ein á Getur vatnið fengið hjarta sitt til að hætta að tifa ] [ þegar ég sný lyklinum að íbúðinni minni finnst mér í og með ég vera boðflenna að ég hafi komið heim of snemma án þess að gera boð á undan mér ég stend kyrr bíð áður en ég opna dyrnar þetta framandi ósýnilega verð að koma reiðu á tilfinningar mínar og setja á sinn stað ásamt öllum þess syndum áður en ég geng inn og læt sem ekkert sé viti ekkert ] [ ég elska ljóð þar sem línurnar líta út eins og setningar á stangli eftir heming way orðin og at kvæð in falla niður síðuna eins og langar svartar eldspítur sem dreymir um að þú kveikir á þeim svo þær geti komið þér í koll í eitt skipti fyrir öll ] [ hálfri flösku af tekíla yfir skapa hárin og og píkuna á sér og setti fæturna sundur og saman til að auka á áhrifin áður en hún setti upp fyrir ringo hæ elsku smettið og sagði heldurðu að þú getir farið með tunguna þarna niður og krækt þér í nokkra auka dropa ] [ Ó, hve fögur er hún! Andlitsfríð Og íturvaxinn Það er eins fallegt vitfirrt augnaráð eiginmannsins sem er rumur að vexti. ] [ Ef ég gæti skrifað orð Líkt og haustlauf á skógarbotni Hvílíkt bál bréf mín myndu kveikja. Ef ég gæti talað tungu vatnsins Myndir þú drukkna þegar ég segði „Ég elska þig.“ ] [ Ormétið land Sagði grand Sigldi í strand Sökk í hland ] [ Komið öll með mér á morgun er of seint. Ferðin farin er fagnið því leynt. Komið allir inn ykkar losið bönd. Í síðasta sinn verða seglin þönd. Þið dansið í dag í draumi við lag. Öllu verður eytt óttist ekki neitt. Endurómar hátt yfir heiminn brátt. Ljósið það er ég á ykkar lífsins veg. Sakleysið er selt sökum öllum breytt. Vonum öllum velt villtum sálum eytt. Heimi gaf ég allt út á ystu sker. Þakkið þúsundfalt það sem liðið er. Komin er sú stund skipið þokast senn. Farmanns forna lund fylgir stjörnum enn. ] [ Ég vissi um gamlar sagnir frá Sandi að sultur væri algengt mein. Þar á sveimi var undarlegur andi yfir öllu andstyggð skein. Þeir réru á hafið langt frá landi lögðu ár á borðin tvenn. Við róður var þögn á þeirra bandi þrælar eru líka menn. Allar nætur eru til að dreyma hinir ungu fyllast þrá. Í svefni blikar á birtuna heima í bæn eru fjöllin blá. Máninn andvarpaði yfir sæinn enginn átti yfirbót. Myrkrið féll og mændi yfir bæinn maðksoginn reki slóst við grjót. Úr djúpum álum suður af Söndum stara liðin ár á mig. Reka um höfin en reyrð í böndum rótlaus og fá aldrei frið. Ég kem hingað til að kasta blómum þá kallast blá djúpin á. Hlusta eftir ást og mildum ómum eilífur andi blessi þá. ] [ Mikið er ég á móti öllum sem eru á móti einhverju sem ég er ekki á móti. ] [ á meðan aðrir svelta þykir það ósiðlegt í okkar samfélagi að nýta mat sem annars yrði hent ] [ hið raunverulega tunnuglamur er inni á Alþingi ekki fyrir utan það ] [ svitasól frostsól froststorkinn morgun skreyttur glingri af þögnuðu dómsmáli þöggunin æpandi kúgunin skerandi allt sem grundvallar samfélagið er lygi orðræða hefð svik ] [ þótt ég sofi mun ég vaka en í svefni finn ég vöku vökudauða ládeyðu bláendann ég skipti þér út fyrir tæki læt líta út fyrir að ég sé upptekinn en í rauninni er ég vant við látinn merðir þessa heims bíða mín í hrönnum á útskerjum á útnárum ég fyrirlít ] [ pbb pbp phpbb tveir einntveir freyr reyr frost þögn. ] [ hálfmuldar þakkir í hljóði muldraðar tvíteknar sundurslitnar samhengið útmáð botninum er fagnað annars staðar fel ég þögn mína og bít mig í samfélagið á upplognum forsendum sviksams útsendara hingað er ég kominn til að sundra ] [ ég get ekki hætt að þakka þér fyrir innblásturinn kæra fífl hafðu það hugfast að ég fyrirlít á meðan bíð ég þín fyrir neðan f r o s t i ð ósofinn nakinn í i ð r u m skelfingar ] [ ég er rjómaðastur og fleiri upplogin orð uppdiktuð hugtök ég er kalrabestur ahabískur margfletskur bargfriðurinn úti í hjeppifeggnum óklásur myndhjarinn svif ég lít til þín í örvæntingu hvar er mótgúpan? ] [ Ég fékk það ekki í gær þó biti á eins og geit í gras. Ég er vanur að fá nóg - lína eða bara net (tæki-færi) Silfurglamúr diskóþyrsklingar í sjó eða blint djamm með botnvörpunni. En enginn veit hvar maran lendir: það beit á, glæsilegur stórfiskur en ég náði honum ekki upp. ] [ Ég er vindblásinn Vestmannaeyingur er vill spranga og súpa'oft á. Ég er þrætugjarn Þingeyingur þrýstilofti á. ] [ Enginn grætur móður,ó,mynd mædda gleymda og grafna. Sárust allra er sú eymd ef eigin börn þér hafna. ] [ Ekki stíga á sporin og hin svikna eið. Þá kemur vargur á vorin og vegur um leið. Heyri áratogin; útróðramenn á leiðinni heim. Formaður lotinn ég finn það enn fámáll og brotinn. Sigg á höndum skip á hlunni og siglan felld. Brimar á strendur bátstrand á grunni blákaldar hendur. ] [ Gular kennsluflugvélar bera við bláan himininn. Þær hnita hægt hringi yfir kirkjugarðinum við Fossvog. Kvölsólin skín á legsteinn úr ítölskum marmara. Þar hvílir fyrsti Íslendingurinn sem flaug með Concord. ] [ bernska er ævintýramennska svaðilför, uppgötvanir, athafnir að telja stjörnurnar ferðast á enda veraldar láta drauma rætast á meðan ég ligg og horfi upp í skýin sumum finnst miður hvað tíminn hratt líður en bernska er að upplifa ekki telja sekúnturnar sem tifa dagurinn í dag er bara einn og morgundagurinn er ennþá ekki neinn bernska, heimur sem margir hafa reynt að skýra en fáum tekist til verður ekki séður sem er nema þá með því að breyta sjálfum sér gerast ungur á ný og ferðast til landsins sem allir eitt sinn þrifust í bernska er töfraveröld sem allir eiga lykil að þar er dagurinn ævintýri lífið fjársjóðkista og ég prinsessan ] [ stríðir ólgustraumur um stræti í hjartaborg flæðandi táraflaumur fyllir hvern kima sorg tvennar lautir tómar trega þrungnar sjá hvar stjarna lítil ljómar lengst höndum þeirra frá skýjaveröld vildi vitja þessa ljóss heimti úr lífsins hildi svo harmur ákaft óx dimmur dapurleikinn dreifist allt um kring blíðu augnablikin bara endurminning þjáningin mun þverra þá er undin grær þrútin augu þerrar hinn þýði vonarblær hlýnar hjartarótum hjá mynd af orðni tíð dofinn fer úr fótum frelsið leikur um líf annað segja aðrir en óskir geta ræst er fæ ég mínar fjaðrir flýg með þér skýjum næst ] [ heyrist í vindinum hann feykir upp dyrunum ber með sér töfraryk sem fyllir dimmt herbergið lýsir upp allt stjörnublik og ég fer í sandkassaleik baða mig í mánaskini týni öllu tímaskyni tipla á tánum á smástirnum púsla með stjörnunum á milli jarðar og hæsta himins iljar mínar yfir tóminu er ég sit á tunglinu og horfi yfir konungsríki til ármilljóna hringar Satúrnusar eru mín kóróna það er miðnætti finn fyrir mínum andardrætti vef um mig himnanna slæðum fallega grænum og lygni aftur augunum draumalandið skríður út um skráargatið nóttin er köld, ég vakna draumaveröld sakna í einhæfum heimi samstundis öllu gleymi ] [ Hef oft heyrt um betri stað handan lífs og dauða en hvað veit svosem hver um það sem að handan bíður kauða? Hið neðra bíður brimsalt síki en að ofan öl og vífið. En hvað ef Himnaríki er heimurinn en helvíti eftirlífið? ] [ Heppið Himnaríki' í dag, en harmdauði í hundi. Nú yndislegur unir hag í iðagrænum lundi. Dáinn, horfinn, harmafregn; horfi á eftir vini. Næstum missir sá um megn á Messalínu syni. ] [ Maður steig um borð í skip. Hann sigldi undir fölsku flaggi, einbeittur og með stjarfan svip, hann spenntur beið skipið af stað legði. Er mamma Útey spjallaði við hann fékk hún ansi ljótan grun, því maðurinn var þögull og fjarrænn. Það sá hún. Fyrr um daginn varð sprenging í borginni og fólkið ræddi þann atburð ljóta, en maðurinn ósnortinn af sorginni, lét allt sem vind um eyru þjóta. Á eyjuna komin fljót á fund, varðarins fór mamma Útey smeyk, að viðra illan grun, en í þann mund, bar manninn með vopn að leik Hann skaut og hann skaut, svo blóðið draup, fólk úti um allt særðist og kvaldist, þjáðist og engdist. Hræðilegur djöfull í mannsmynd kom til Paradísar og breytti henni í helvíti, en fór þegar sást til sólar og skeytti engu þó að öll þjóðin gréti. En sölt tárin þorna, sárin gróa og sorgir dofna. Áslaug Ýr Hjartardóttir 24. júlí. 2011 ] [ ég eignist mannsefni, svona meira eða minna í lagi. Innsæi til velja þann rétta frá þeim ranga og réttsýni til að þekkja þá í sundur. ] [ í huga mínum hvílir löngun meistaraverka magnaðra hugmynda, sem fela sig bak við hversdagsleika staðalímynda. ] [ Gylltur bakkinn gælir í fangi mínu í kvöld, gróandinn vaknar við vota sumarkossa. Sunnan sýnir þau völd sem grænka tún og gyllir fossa. í amstri hverrs dags skaltu dug þinn geyma og dásama skaltu draumum fínum, sem sæmir þeirri trú að eiga heima á stað að rótum þínum. Í fjörunni feta ég mín bernskuspor, fagur er dalurinn hér. Vakna þú mitt ljúfa vor og vektu minningar í mér. Hér eru falin fögur orð í sandi sem fallin eru í gleymd og grafin, en báran létt brýtur staf úr landi í sögu sem hún seigir mér. ] [ Bakið er bilað, blaðran er slök, rennur úr nefi og nösum. En ljúft milli læra liggur ein rök.. - ertu nokkuð á næstu grösum? ] [ Hún knúði á dyrnar kveðjustundin í kvöldsins ró við sjónarrönd. Hún fylgir ennþá fast mér bundin og fellur þung sem brim á strönd. Ennþá svíður í gömlum sárum skurðir sem aldrei gréru vel. Endurminning eilíf í árum sem ég í vitundinni fel. Sá dagur með ískalt augnaráðið hann iðar sem skuggi um þil. Og mjöllin hvít í morgunsárið minnir á ísilagðan hyl. ] [ Hefur þú Krist í hjarta þínu kærleik og miskun Hefur þú Krist í huga þér ljós og frið Hefur þú Krist í anda þínum frelsi og djörfung Hafir þú Krist þá áttu allt sem eignast getur einn lifandi maður ] [ Ef þér hættir til að lofa upp í ermina á þér vertu þá umfram allt í ermalausu. ] [ Spámaðurinn kom aftur fyrst þekkti ég hann ekki svo skildi ég Hann tók frá mér það sem ekki átti heima í sjálfum mér og færði mér það sem Drottinn ætlaði frá upphafi vega ] [ Þegar ég opna augun er allt grátt að sjá. Hvar eru litirnir hugsa ég. Mig langar að sjá allt í nýjum litum. Þori ekki að opna dyrnar á skápnum mínum. Get ekki horfst í augu við sannleikann. Hann yrði of sár. Dyrnar eru þarna. Mig langar að opna þær. Handan þeirra er allt bjart. Þeir sem opna dyr sínar sjá nýja liti. Fyrir þeim birtist allt litróf regnbogans og líf þeirra verður léttara. Skápurinn minn er lokaður. ] [ Hoho alltaf hestur Hoho alltaf bestur Hoho ekki vinur Hoho fitubolla Ég hata þig hoho ] [ Ég sá Guð á mikilli mynd er manninn fyrsta hann skóp af fallegri jörð og lítilli lind löngu fyrir Adams angistar óp en í einni örlitilli stroku er ég einsog í þoku. Ég sá fólk á fallegri mynd í fínasta pússi og stássi með augun opin en starandi blind í einhverju óÞekktu plássi en í einni örlitilli stroku er ég einsog í þoku. Ég sá Þingvelli í þrívíddarmynd og Þrastarhjón hjá hreiðri og afhausaða húskarls synd hjá Öxará svo breiðri en í einni örlitilli stroku er ég einsog í þoku. Ég sá eina gamla andlitsmynd af óþekktri kaupakonu hún var órofin uppsprettulind og ól upp prestsins sonu en í einni örlitilli stroku er ég einsog í þoku. Ég sá brosandi barnamynd í brotnum ramma og skökkum Þetta var sjö ára stúlkukind sem seinna barðist í bökkum en í einni örlitilli stroku er ég einsog í þoku. Að lokum ég leit á dómsdagsmynd af dánu fólki og dýrum Það eyddist af sinni erfðasynd að afloknum ævintýrum en í einni örlitilli stroku er ég einsog í þoku. ] [ Það glóði eitt sinn á gullið strá á gylltum hól sem gulnað grætur nú á gisnum hól. Á nöpru vori deyja og visna strá, Þau vaxa ei fá og falla frá. ] [ Hvað er þetta sem gerist þegar þú horfir á mig? ég vil bara snerta þig, horfá þig, vera ein með þér heyra allt sem þú hefur að segja, sjá allt sem þú gerir þú ert sá eini sem ert spennandi, hrífandi, enginn annar stundum er eins og hjarta mitt sé að springa, ég er öll svo heit og mjúk bara af því að þú horfir á mig og brosir... Þegar augu þín líta á mig líður mér eins og þau strjúki mér allri brosið þitt lætur mig ósjálfrátt brosa og mér hlýnar allstaðar ég trúi öllu sem þú segir, allt er fullkomið sem þú gerir mér finnst allt vera mögulegt bara af því að þú ert hér... ég fell fyrir þér svo hratt, þú yndislega vera þú átt mig og hjarta mitt og ég mun bíða eftir þér ég elskaði þig frá fyrsta brosi.. ] [ Ef ég væri Finni þá væri ég kannski með rastafléttur í hárinu og mér þætti það töff... Ef ég væri Dani þá ætti ég pottþétt reiðhjól og myndi hjóla bara ef ég þyrfti út í vínbúð... Ef ég væri Norðmaður myndi ég eflaust borða kvöldmatinn klukkan fjögur heima og vera strax orðin svöng aftur um sjö... Ef ég væri Svíi þá myndi ég örugglega troða munntóbaki í vörina á mér þó ég sé stelpa og ekki finnast það neitt tiltökumál... En ég er Íslendingur og ég er með fallega sléttað hár, keyri allt sem ég þarf að fara, borða oft kvöldmatinn seint á veitingastöðum og myndi gubba ef ég sæi stelpu með efri vörina bólgna af tóbaki... ] [ Í nafni ástarinnar ég kem og næ í þig þú kemur með mér Í hjarta mínu ekkert hik enginn efi þú átt heima með mér Allt við þig snertir mig snertu mig allstaðar vertu alltaf með mér Lífið bíður ekki ekki segja nei framtíð þín er með mér ] [ Sátt en samt ekki mátt ekki særa mig meir leikið hefur mig marga hrekki þeir verða ekki fleir ekki einn, ekki tveir aldrei meir Þú ert ekki sá sem ég hélt ég þekkti þú hélst áfram þrátt fyrir allt og laugst og blátt áfram blekktir allt og alla Nú mun ég horfa á þig og þína lygi hrynja og falla Stórt á þig lítur og heldur að allir spili með, en í raun á öllum brýtur þar með talið sjálfum þér Þegar raunveruleikinn kemur í ljós þú munt ei lengur fá hrós fyrir það sem bara var glansmynd Þetta er svo mikil synd því í raun ertu bara lítill drengur sem heldur að hann sé happafengur í allri lyginni og þú ert hræddur og sár, særður af þinni eigin hendi og veist ekki hvar þú lendir eða hvað þig hendir Óttinn er það versta hálfkák er ekki nóg lengur þú verður að fara að gera þitt besta ] [ Nýtt, nýr hvati nýtt, nýr háttur annar bati æðri máttur Sé það núna sé það svo skýrt hugsa að það kosti en það er hitt sem er dýrt það að vera föst í sama farinu, komast ekki áfram sé það núna sé það svo skýrt Lofa sjálfri mér að finna leið til að leysa allt fyrna allt sem sveið Lofa sjálfri mér og þér ] [ Á nóttunni ég dreymi þig vakna sveitt ég þrái þig Þetta er rangt en samt svo rétt þrái að hafa þig þétt upp að mér sjáðu hér er allt sem þú getur hugsað þér Ég skal uppfylla allt ef þú gefur mér ef þú kemur hér geng í gegnum allt þetta erfiða sem þau segja að sé vitleysa ekki hægt að leysa Trúðu mér búin að hugsa það trúi varla að ég segi það en ég vil bara vera með þér.. ] [ Hugur minn leitar alltaf til þín því ég veit að í gegnum þig ég skín Ég þrái að hafa þig nær mér eins nálægt mér og hægt er Ég þrái að finna þennan hita bragða af söltum svita Í huganum hún heltekur mig þessi ástríða stríða ríða ást... ] [ Við eigum nóg að okkur finnst segjum við en tökum samt lán Við eigum allt að okkur finnst en kaupum samt meir og tökum lán Við eigum þetta og hitt að okkur finnst segjum við en eigum samt ekki nóg og fáum lánað Lánað í smá stund lánað lengur lánað lengi ég borga seinna ég skila seinna skila stundum stundum aldrei ... það gleymist.. ] [ Hvað er þetta sem við þurfum þetta sem okkur vantar? Það er allt hér beint fyrir framan okkur það sem við þurfum það sem okkur vantar Lífið, náttúran færir okkur það sem við þurfum við notum það sem við fáum það sem við sjáum Ró í sinni, ró í hjarta og það er ekkert sem okkur vantar ] [ Lítill drengur horfir á gamlan mann gamall maður horfir í spegil og hugsar þetta er maðurinn sem þú forðum sást Lítil stúlka horfir á gamlan mann gömul kona horfir á mann sinn og hugsar þetta er maðurinn sem þú forðum sást Lítil börn horfa á gamlan mann gamall maður horfir á börnin og veit að þetta er hans síðasta og deyr ] [ Mamma, ég ætla að gerast sjálfboðaliði og bjarga öllu fólkinu sem á bágt og fær ekkert að borða og grætur hátt Mamma, ég ætla að ferðast um heiminn og sýna öllu fólkinu sem veit ekki og hjálpa því að skilja þetta verður flott hjá mér heldur ekki? Mamma, af hverju segiru nei? heldurðu að mér líði illa? Nei! heldurðu að ég viti ekki neitt? Víst! Mamma, ég ætla að verða góð, betri, best! Þú munt sjá að ég hef rétt fyrir mér í þessu þó þú vitir flest, veistu sko ekki allt! En mamma, viltu kannski vera hjá mér? Bara í nótt? Ég finn fyrir svima í maganum og í hjartanu þótt.... Æ, mamma, gerður allt betra, best... ] [ Í dag held ég út í óvisssuna full af hugrekki, styrk og von. Hvort ég rati ávallt rétt veit ég ekki en mér til hjálpar verður fólkið sem ég þekki. Lært hef ég að lífið er ekki spretthlaup heldur maraþon og með þoli og þrótti hverfur allur ótti. Ég veit að ég mun sigra. ] [ Gott að vita að þú hugsar til mín þegar ég hugsa og held að þú hafir gleymt mér... Ég ætla að reyna að muna það að þú manst mig alltaf..... ] [ Áður fyrr hélt ég alltaf dagbók. Skrifaði í bók atburði dagsins. Tjáði hugsanir og langanir. Í bókinni faldi ég leyndarmál og taldi þau örugg. Öryggið fyrir mér var frelsi. Frelsi til að vera ég sjálf. Dag nokkurn opnaði maður bókina mína og öryggið hvarf með frelsið í farteskinu. Öll leyndarmálin sem legið höfðu falin, litu dagsljósið. Ljósið varð hratt að myrkri. Í dag hefur frelsið snúið aftur í annarri mynd og með því kom einn vinur sem heitir öryggi og annar sem kallast styrkur. Þessir þrír ætla að hjálpa mér að skrifa í þessa bók og athuga hvort þeir rekist síðar á gamlan kunningja sem nefnist þroski. ] [ Utan við hliðið á nátthaganum í hlíðinni minni er uppsprettulækurinn. Hann fellur í fallegu ána, sem ferðast um dalinn, niður í bláleitan fjörðinn. Ég sakna hans núna er sumarið líður og sál mína vantar að nærast. Hugurinn ber mig alla leið heim. Þar bíða mín fjöllin og fólkið mitt kæra og fallegi litli lækurinn suðar. Sál minni svalar með vatni sínu. ] [ Veistu, að vonin hún vakir utan læstra dyra hjá þér? Í svart-nættis myrkrinu nærri hún er, með náð sína og frið fyrir þig. Hlustaðu, heyrirðu ei höggin er að dyrum örþreytt hún ber? Viltu ekki vinur minn opna, fyrir voninni- og mér? ] [ Úr djúpu myrkri skín ljós leiðarstjörnunnar á veg til vonar ] [ Vindur mig þaðan burtu bar, himinninn var mitt hlé. - Nú er eg ekkert annað þar en eitt tré. ] [ þar sem fuglinn flaug fiðrildi blómasafann saug ] [ Ein stund í lífi deyjandi dags er dregur fram lífið til sólarlags. Mun veita þér trú á strit þitt og streð á sætleika lífsins og ókyrrt geð. Því hvað tjóir þér maður svo máttvana peð að mótmæla lífinu og koma ei með. Um greiðfæra vegu og grýtta slóð en gefast ei upp við svita og blóð. Höf: JG Adessa ] [ Á fingri þínum fögrum er hringur, hann er fegurri en nokkurt glingur, Trú, von og traust hann merkir, Frá traustri manneskju sem þú þekkir, Hugurinn er nóg, höndina þarf ei að skoða, Hættu að leita finndu í hjartanu doða, Að giftast manneskju sem er þér mikið, Dusta af vináttunni þarf ei rykið, þú ert mér vinur, með mikið traust, er ánægð að þú upp á yfirborðið skaust, Ekki frá þessu lífi mátt hverfa, Ég elska þig, þú mátt allt mitt erfa. ] [ ] [ Ást er ei til að þjást, ást er til að njóta. Þeir sem elskast ekki slást, heldur upp í rúm þeir þjóta. Ef þú finnur sanna ást, þá skiptir engu máli. Hvort hún er með matarást, krumpuð, ljót eða úr áli. Öll við eldumst og þroskumst, því er ekki hægt að breyta. samt af ást við saman lokkumst, og ruglum milli reyta. ] [ Við setjum ekki appelsínur og epli saman í poka Við höldum ekki á appelsínum og eplum á sama tíma Við fæðum ekki appelsínur og epli saman Við höldum ekki saman á appelsínum og eplum Hvað ertu að reyna að segja mér? ] [ Drífðu þig nú druslan mín drattastu á fætur dagurinn, hann bíður þín og allar þínar dætur ] [ Einn í baði bað um ljóð ljóður á honum hann er einn ] [ Kannastu við krossinn krossinn sem hann bar bar með bandingjunum bandingjunum þar. Þar hann lét svo lífið lífið fyrir heiminn heiminn þar sem hatrið hatrið hamslaust var. Var hann ekki vinur vinur okkar alltaf allt til enda heimsins heimsins sem hann gaf. Hann svo sté upp aftur aftur upp til himna himna faðir okkar okkar eini Guð. ] [ Mér leiðist leiðist einvera einvera er leiðinleg leiðinleg einvera ein vera er leiðinleg tvær eru betri. ] [ Ást mín er svo heit að þeir sem koma nálægt brenna sig Hitinn sést langar leiðir Brennt fólk forðast eldinn Ég er einn ] [ Drífðu þig nú drottning fín flýttu þér á fætur dagurinn nú bíður þín og allar þínar dætur ] [ Ó Drottinn kær vertu minn styrkur og stoð á raunastund reisir mig boginn og kærleikur þinn sem mitt værðarvoð hann lýsi minn veg himnaloginn, Er sofna ég nú og þú hönd þína hefur um höfuð mitt hjarta og sál því gott hlýtur sá sem að með þetta sefur þitt hjarta þinn kraft og þitt bál. ] [ Skýin sveipast saman Senn mun regnið gráta, ástin mín eina kveður, en allra fyrst ég játa að alltaf mun ég unna þér því þú ert lífið fyrir mér ] [ Halli humar þú ert kræfur karl. kynntist mikið púkunum skíttu nú í skitinn dall og skeindu þér á lúkunum! ] [ Eva litla datt í dý og meiddi sig í fótnum hún varð aldrei upp frá því jafn góð í hendinni ] [ Lít upp niður Vinstri hægri Hvert er ég kominn? Ég veit það ekki. Raddir kalla Hingað, þangað Hvert fer ég? Ég veit það ekki Myrkrið umlykur Kuldinn deyfir Hvar er birtan? Hvar er hlýjan? Kökk í hálsi Tárin streyma Röddin brestur Ekkert kemur Kalla hjálp Ekkert heyrist Er að drukna Í mínum heimi ] [ Smáauglýsingar: Ómótstæðilegt augnakonfekt vantar spegil hið snarasta. Ellegar litla tjörn. Frekari upplýsingar í síma : 459-1895 eða narkissus@gmail.com ] [ Innst á ég ekkert mál enga tungu bara sál. Þar ég þúsund kossa finn og þig við aldingarðinn minn. Hafi ég ekki áður sagt ástar orðin til þín lagt. Í þín eyru ástin mín gef ég orðin öll til þín. ] [ Þú gekkst upp á senu og söngst mér með sigurbros á vörum þér. Seiðmagnað ljóð um logandi eld er leið inn í hjartað í kveld. Og ljóðið mér birtist bjart og nýtt blærinn lék sér og allt varð hlýtt. Og fegurðin sveif inn á staðinn í sælu ég gekk inn á barinn. Þú sast á bekk og blastir við mér baðst mig koma og skála með þér. "Nú bíður mitt far með segl við strönd er senn mun flytja mig burt um lönd." "Þar sem fegurðin býr en fáir sjá fyrir háum trjám er mest ber á. Í skógarlundi býr listin hljóð er laugar andann, hjartað og blóð." ] [ Lítil sprund er létt á tá lundin bundin vonum út við sundin æst af þrá eiga stund með honum. Ína á ríka æskuglóð og yndi margra stunda ennþá rennur oft á slóð afsíðis með Lunda. ] [ Ást er ei með upplit hýrt oft vilja bogna sálir. Freistingarnar fá því stýrt, farnir vegir hálir. Í fæturna ei fæ ég takt, friðlaus magnast spenna. Oft er mikið á sig lagt er menn leita kvenna. Yndið dýpsta auðnan ber ástarleikir sleppi sér en er þú vaknar upp af dvala er ekki um neitt að tala. ] [ Ýmsir kóra elsku Dóra anganóran komdu í geim. Eftir fjóra eðalbjóra oft vill klóra bök á þeim. ] [ Mér hefur ei látið að læðast með veggjum leikið oft hlutverk svo margur varð sleginn. Á góðum stundum oft sat ég með seggjum og sótti í mig veðrið þá tappi var dreginn. Aumingi að vera, já það er enginn leikur, elda grátt við stjórnvöldin snúin og treg en þó ég sé aumur þá er ég um smeykur að þingmenn séu enn meiri ræflar en ég. Þessum er tilurð að troða menn fótum og tíðast láta ei eiðstafi neitt stöðva sig. Þingmenn ættu að vera á örorkibótum en ekki á margföldum launum á við mig. ] [ - Er ekki allt í lagi heima hjá þér? Held ég sé spurnig þekkt. Ungum sem gömlum oft til ber að orða málin frekt. Ýmis að heiman illt með fer og ástandið ber með sér. ] [ Þó vilji flestir vera góðir og virða ró og spekt - enginn er annars bróðir í leik og oft er barist frekt. Ætíð heldur vöku sinni veraldarinnar þrá það er svo ótal, ótal margt sem andinn þráir að fá en einhver hafði að orðum sínum og athygli veita má að það sem maður gefur er það eina sem hann á! ] [ Það horfir hver á heiminn út frá sjálfum sér og þess vegna eiga margir erfitt með að skilja þá sem sjá hann frá öðrum bæjardyrum. Hver skilur öryrkjann sem hangir á horriminni hrjáður og smáður og gamalmennið sem berst í bökkum vegna þess að auðvaldið gramsar til sín megininu af kökunni sem allir eiga að nærast á? Fyrir lítilmagnann ætíð er erfitt rétti að ná auðvaldskrumlan æðaber auði að sleppa er þrá. Það gerir best hver sjálfum sér góðverkunum skil því undan margur fljótast fer, flón verða alltaf til. ] [ Eins og við sáum svo upp munum skera. Svífur í kastinu velferðarteningur. Ólíkt með samanburð til auðæva að gera: Allt er mitt fé gangandi peningur. ] [ Hendist á með heitt og kalt, hor og græðgi plaga. Vont og gott á vega salt vilja hvort sér draga. ] [ Mörgum reynist líf ei létt lifa þó sem geta. Hvað er rangt og hvað er rétt og hvers er það að meta? Ekkert rétt og ekkert rangt að mér færist grunur. Ekkert stutt og ekkert langt aðeins bitamunur. ] [ Það gerast margir kræfir og gleypa vilja heiminn þar gott er margt til fanga eins og flestir vita og margur er svo stórhuga að gerast á það gleyminn að gleypa þurfi ei alltaf allt í einum bita. ] [ Auðnan forðast sukk og svað, sóðinn fær sér drullubað. Allt skiptir máli er á sér stað, er þér holt að spá í það. ] [ Vertu helst við vini þína rætinn, veðja á að haldi fúinn strengur, vatnið sæktu vinur yfir lækinn, vaðið hafðu ofar en þú gengur. ] [ Alþingismenn um eiðstafina hnjóta, oftlega í fæturna sig skjóta, fjálgslegast ræða fátækum láta blæða og stjórnarskrána bramla og brjóta. ] [ Sér hefur alþingi af örlæti veitt og ausið í fjárglæfraþrjóta, endalaust talað en ekki gert neitt aumustu þegnum til bóta, það hefur raun yfir þjóð vora leitt og þar ætti flesta að skjóta. ] [ Það eiga allir sín takmörk til góðs, elskulegheitin fá mega þrjóta. Það er léttast að leggja til hnjóðs, ljúga, stela, svíkja og blóta. Lyddur á mannlífið leita til blóðs, ljóma er sjá mann kvaldan. Það eiga allir sín takmörk til góðs en óþverran þrýtur sjaldan. ] [ Oft á göfugur ráð til rausna, réttlæti hans ei sorp á haugi. Flest eiga málin leið til lausna ljóst sé viskan hátt á baugi. Gapir í loftið görótt sála gremja lætur ónæðið, góður leggur gott til mála glaður leysir verkefnið. Vingjarnleiki og vinakynni vinna drýgst til bóta, verðmætast í veröldinni vaka, elska og njóta. ] [ Margt hefur spakur orðað til álita sem ætla ég milli hluta að láta vera: Að heimurinn sé gerður fyrir hálfvita svo hafi þeir eitthvað að gera að manninn sé lengi búið að afvegaleiða og ginna með lygum milli tanna og æðri sannleik sé ekki að finna en skilninginn á firringu manna. ] [ Nú eru vinstri að vaða sinn reyk villtir og blæstir á geði. Með fögru loforðin fóru á kreik fljótast þó hin leiðin réði. Kratinn snauða ruplar, rænir, ragmenni blauðans. Vaða í glæpum vinstri- grænir, varmenni dauðans. Hamast í skotgröfum hægri svín hæðast að óförum slíkum. Ljúga og stela er ljóst bara grín og ljúfast spillingarklíkum. ] [ Vitnað hef til vondra níðingssála, vandlætt ríkisstjórn lon og don. Gagnast lítt til góðra mála Guðbjartur ræfill Hannesson. ] [ Auðnurík er andans megt oft um veðrið hjalar og yndið verður æðislegt er um boltann malar. Ýmis á ég bernskubrek, bæni mig í hljóði æ, mig vanta þroska og þrek í þessi fræði góði. ] [ Gleði er lán ég segi satt gleðimaðurinn lifir hratt og yndi mörgum eykur ærslasamur og keikur. Til helstu vina horfa ber hvers er gleðin sanna. Sólin kemur, sólin fer svo er um leiðir manna. ] [ Að eltast við maka og eignast bú eru margir tepptir, - en ekkert er varið í að eignast frú sem ekki er talin eftir. ] [ Óhöppin ýmsa naga, yndið er hverfult þótt belgist af þrá. Strákur það gerði við stúlku út í Haga og stautinum tókst ei úr dömunni að ná. Stúlkan fékk krampa og stundi við þá og stamaði orðum sem illa hann skildi. Hún þruglaði þetta og því ekki gleym: - Þú hefðir átt gera það sem ég vildi, taka mig aftan frá þá hefðum við getað gengið heim! ] [ Hefur lítinn og lipran fót labbaði allt að mílu. Í seytján daga sótti dót og safnaði táfýlu. Táfýlan er sem töfralind ef teyguð er af móð. Líkust því að leysa vind lyktin er svo góð. Er á lausu elskan sú ástir þiggja myndi ef til hennar þjarkar þú þar býr meyjaryndi. Ef þér yrði hún ektafrú eignast myndir hreiður en upp á mína æru og trú arkaðu þangað gleiður. ] [ Í ýmsra manna auðlegð hjó oft var klár og þorin en óláns réð að ræna í snjó og rakin voru sporin. ] [ Blesa mín er þjál og þæg það eru kostir góðir. Vænti ég hún verði fræg og vinsæl hér um slóðir. ] [ Keikur enn á kjaftastóli kvæði mörg til vega sendir, talinn fjærri heimsins hóli hans þó tíðum sópi vendir. ] [ Það er mikil blessuð blíða bærilegt er út að ríða, - sólin nær nærri í gegn niðaþoku og regn. ] [ Þá vilja oft á vandræðin bresta, vandi er að lífið ber frelsisþrá. Ei er gott að reka hungraða hesta er hlaupa af slóðinni bítandi strá. ] [ Ungur hleypti ég hestum eins og bjáni og átti skemmtun ríka eins og gengur. Ég var einu sinni indíáni en er það ekki lengur. ] [ Bónda einum var konan kær er kunninginn tók honum frá að vísu átti hann vin sér nær sem vildi honum huggun ljá. Vinurinn brotinn á flesta fær og fréttist hans huggun mér: ,,Gott að losna við gamalær og geta yngt upp hjá sér”!! ] [ Presturinn messar í rigningu kirkjuþakið er hrip og meðhjálparinn hvíslar: ,,Það er komið skip”. Hún bindur á messuna endi æsist til glaðari sinnu, - lífið er vændi í aukavinnu. ] [ Ef þið viljið álit heyra ætla ég það láta í té: Besta ráðið að barna meira bóndanum þótt erfitt sé. Ei þarf dama hátt að hóa högni svo að hlaupi til: Ást á miðin oft vill róa eðli sínu að gera skil. ] [ Nota má í neyðum flest nú skal augum gjóa orðaflaum í langri lest læt ég að þér róa. Gefa af sér er lífsins lán lýsa vegi bætir hagi, gefa sem þú getur verið án gleður af hverju tagi. Tygja vil af tærri snilld tafsa ei á stangli, megi orð mín góð og gild gefa á sínu rangli. Hanarnir hæstan gala hót ei kunna að þegja, - oftast mest þeir mala minnst er hafa að segja. ] [ Við erum öll frábær og æðisleg almættinu fyrir þó lítil peð. Lífið er dýrðin sem líður sinn veg ljóst verða allir að dansa með. Í veröldinni er margt til meins en margt er og til bóta, lán er að hafa ei alla eins ef til vill bara ljóta. Öll er vor tilvera á eina þá lund óvissa í veraldarflæði. Að lifa er best fyrir líðandi stund að láni eru heimsins gæði. ] [ Það má lengi telja þroska það sem að okkur ber þroski er um veðrið að vella og vitleysu sem tíðust er. Ef einhver hælir sjálfum sér og segist bestur um lönd og álfur margur snart í flæku fer og fílar sem orðagjálfur en hver á að halda uppi skottinu á þér ef þú gerir það ekki sjálfur? ] [ ,,Það koma alltaf aftur peningar, - ég á engan vinninginn séðan, - það er ekki allt fengið með peningum, - það þarf þá enginn að öfunda mann á meðan”. ] [ Gleði er sem geysi bál, grundir hleypi flokkur jóa. Grínarinn hefur göfgi í sál er gefur tíðast kornið frjóa. ] [ Gott er inni að eiga greiða ef að hjá þér fer í strand þá er frekar vænt til veiða viljirðu láta draga í land. ] [ Yndi er gott að eiga í sjóð ást er leiðin bjarta. Kona nokkur kát og rjóð komst mér nærri hjarta. ] [ Leiki á sína ljúfu strengi lundarfar þitt ægitraust, megi næra gæfa og gengi og gleðin rísa endalaust. ] [ Að yrkja er mér ansi trekt, oft þótt láti hrapa. Æja mín, það er æðislegt yndisverk að skapa. Æja mín, þú lífi gefur ljóman, listabrautir gengur íðilfagurt, þér er annt um yndið, vini og sóman, átarlífið þó að gerist magurt. ] [ Eins og hindin hleypur létt, hennar er ekki raupið. Vinum er það varla frétt þótt vinni Barðsneshlaupið, - ég mætt´enni á sprettinum... ] [ Sæl og blessuð Fanney, frænkan mín kæra farsældin auðmjúkast megi líf þitt næra. Til hamingju með afmælið og auðnan fylgja megi að austan sendir kveðju sína bóndinn í Skálateigi. ] [ Freysteinn minn ég fagurt tel þitt sinni ferð á kostum daga marga og langa. Kasta vil ég á þig kveðju minni og kærleiksvegi megir þú ætíð ganga. ] [ María er fagurt fljóð fönguleg að sýnum sem ég henni lítið ljóð af listaanda fínum: Mikið er sú meyjan hýr menn á hana stara. Er það af ást sem inni býr eða af því bara? ] [ Gefur oft sér gleði frá, geðið ríkt til sóma. Heiðu tíðast brosir brá björt af æskuljóma. ] [ Um Sveinlaugu ég helst vil segja: Sú er glaðvær, ljúf og dreymin, svo er hún líka sætust meyja, með suðrænan keiminn. ] [ Solla er stúlka fögur og fyrrum granni, finnst mér hún sem blómið skarta vegi, glöð í lund og geðþekk hverjum manni, góðar vættir styðja hana ávallt megi. ] [ Fyrir kærleik menn kenna þig kaleik þú hefur borið. Þú ert fyrirmynd fyrir mig sem færir mig út í vorið. ] [ Björk mín þig ég bera vildi á armi blessun fylgi þér af dottins náð. Ég bið hann leiða þig frá lífsins harmi leiðsegja og gefa best sín ráð. ] [ Í góðum málum gerist von og hald gleðin fær oft hljóm á þíða strengi. Guðrún Fríður gengur Guði á vald getur hún þá skrifað vel og lengi. ] [ Fegurð í lífinu fær margan dreymt og að fylgi með gæfan og lukkan. Faðmalagi þínu ég fæ síða gleymt fannst sem að stöðvaðist klukkan. Ég stóð þar í algleymi með fangið fullt og flaug mér þá hugur á brautu. Liti ég blandaði blátt oní gult og borinn var frá allri þrautu. ] [ Ei er hann til yndisstunda ragur með andans krafti tekst að fólki hlúa. Garðar þú er góður drengur og fagur gæfan megi ætið með þér búa. ] [ Til stúlkunnar með tillitið tæra og töfranna sem huga minn næra. Gæfan leggi þér lið, leiki við þig mannlífið og ljóða minna njóttu mín kæra. ] [ Guðröðar ég geng á fund, gott að hitta þennan dreng. Ætíð mína léttir lund, leikur vel á gleðistreng. ] [ Gunnar er gestgjafinn besti gáttar hann ei mitt fjasið á fimm mínútna fresti fyllir hann hjá mér glasið. ] [ Ég kynntist Guðmundi góða á Núpi við Dýrafjörð. Hann líkist engum slóða öll er ljúf hans gjörð. Hann gaf mér af gleði sinni gott er hans vinarþel. Ég bið að lukku hans ei linni og líði honum ætíð vel. ] [ Oft til hesta haldin þrá, hún til ásta er dreymin, lipurtá með ljúfa brá, ljóma ber á heiminn. ] [ Til helstu vina horfa ber hvers er gleðin sanna. Inn í gil ég fljótur fer finna Eirík granna. ] [ Ef Sigmar frænda fer ég kynna fræði mín í ljóð vill spinna, ekki í vandræðum með að vinna, vaskastur meðal allra hinna. ] [ Oft þeim réttir arminn sinn af ást þær margar vikna, svo dásamlegur er Doddi minn að dömur í hnjánum kikna. Margt er það í koti karls, sem kóngur þráir gjarna. Sagður játa átján alls álitlegra barna. ] [ Ekki á hana ellin sest alltaf er hún best. Hamingjan í langri lest leiði hana best. ] [ Fimmtíu vikna fegurst er og fín sú litla tátan. Blíðlega hún brosir mér blessuð afahnátan. ] [ Yndi og fegurð Bebba ber sem blóm er prýðir lifs á vegi. Mörtudóttirin eins árs er einn af snillingunum frá Skálateigi. ] [ Erfði mætar eðlisgáfur oft er viska hans á róli af ýmsum talinn lastaláfur og lítið eiga fyrir hóli. Lukkutröll á lífsins vegi lengi þó að blési í kaunin hann á heima í Skálateigi harður nagli það er raunin. Ýmsa gleði má hann muna maður lista, elds og funa mátti lepja lífs af brunni og leika sér í náttúrunni. Oft nú lúinn liggur inni leiður á snauðri tilverunni en listagiðjan ljær mér hönd ljúf eru hennar vinabönd. - Ég er að yrkja og eitthvað að þvaðra en öll mín bestu ljóð eru ort eftir aðra! ] [ Nóg er af ástaröflum, indælt mannlífið, Einar kann sig á köflum, konur að hjala við. ] [ Allt hans skeið er orðið dýrt yfir oss leið sem pest en hver fjandinn fær því stýrt að fáráðar þrífast best. ] [ Hann berst yfir landið sem bunandi lækur og bænheyrð mörg stúlkan sem vel að hann lætur. Heili hans er frábær og hugurinn sprækur. Hvernig ferðu að því Bogi minn að vera svona sætur? Oft er ljúfum piparsveini ástin ekki í ró andinn tekur flugið og ferðast nokkuð víða og þó hann sé svo sætur að það hálfa væri nóg þá á hann eftir erfingjann að smíða. ] [ Gull í mund 14.1.11 - Morgunstund gefur gull í mund. Vinnusemi oft vagninn dró en illt er að skorta næturró. Seint rísa sumir og rísa nóg. ] [ Læknirinn drepur og læknirinn mer, ljóst þó ekki allir haldnir glæpasinnu en Landlæknirinn segir við lækna ef svo er: ,,Leita skulið ykkur þá að annarri vinnu”! Ríkisstjórnin læknunum ræður með sönnum til rangvega mútum er beitt hverja stund. Hennar dýrustu ráð eru að dytta að mönnum drápshendur verði þeim lausar um stund. ] [ Minkurinn drepur af ánægjunni af því að drepa og dregur saman hræin. Maðurinn myrðir fyrir ánægjuna af peningunum sem mætastur hann virðir og þráir oft eingöngu þótt beri hann engann til þín kala er hann alltaf til í slaginn en hann býður kúnunum yfirleitt góðan daginn. Þar liggur munurinn á minknum og manninum að minkurinn kann ekki að tala! ] [ Fantarnir skvetta úr fötunum fær margur undan að skjálfa. Skilning fá fæstir á hlutunum fyrr en káfar upp á þá sjálfa. Heimurinn er harla grimmur hvergi skjól öruggt að fá. Hann er bæði dökkur dimmur dragnist ei sólin á stjá. Morðingjar skuggunum skjótast skelfdan ber margan af leið. Glæpa er launráðið ljótast er líknarinn bregst sínum eið. Um ógnarstand þarf ekki að ljúga Ísland ber nú víða á góma. Úr þjóðinni margir merginn sjúga munu af fáir hljóta dóma. Kirkjan er ræfill og riðin í haft ríkisstjórn lætur sig merja. Hún ætti að rísa upp rífandi kjaft og reyna sitt fólk að verja. ] [ Þú varst með vinnulúnar hendur og vafðir mig fast upp að þér. Og allar regnbogans rendur rifnuðu af ást yfir mér. Dýrð kveldsins dansaði við logann daggir á grösum léku sér. Við horfðum upp í himinbogann Þú hvíldir í örmum mér. Og líf mitt varð að loga heimsins er lýsti um dimmustu skot. Ég horfði upp til himingeimsins og hélt mig guð eitt stundarbrot. ] [ Oft er fá menn endaspark er sem kvikni á sálum. Nota heilann, hertu kjark, hjarta fylgdu að málum. Að yrkja má ég oft við glíma ef að Svarri er til stuð er hann skálkur allra tíma í þessarri krummaskuð. ] [ Situr við glugga örþreytt sál, byrðir alltof þungar. Tárin falla niður. Situr við glugga vonlaus sál, allar perur sprungnar. Myrkrið þétt umvefur. ] [ Manninn hendir margt í lífsins prjáli og margan lífið hefur seitt. Vini sína brennt á báli og barist fyrir ekki neitt. Og þótt fjandinn fari um heiminn felli menn í hrönnum og milljón mannabeinin séu mokuð upp með krönum. Þá ætíð gengur uppréttur og ánægður með sitt ef hausinn er og maginn mettur þá metast ei um hitt. Því það skiptir engu meginmáli ef maginn er í lagi Þótt sumir brenni á miðju báli eða berjist um sitt af hverju tagi. Höf. J.G. Adessa ] [ en fallegur heimur kraminn af hjarta mínu lestu frekar milli línanna en það sem ég skrifa með bókstöfum málaðu myndir af þessum fallega, fallega heimi krömdum ég orti jörðina áður en ég ýtti á rangan hnapp og skrifaði yfir hana pentagramið fellur úr loftinu og mölvar hauskúpuna sem aldrei var tilbúin fyrir áföll morgundöggin vökvar brotin sem liggja eins og hráviði úti um allt ég held jarðarför fyrir innihaldið sem liggur splatterað á stofugólfinu vísa í poppkúltúr eða nietsche? hvort er meira töff núna? fokkið ykkur stingið úr ykkur augun meðan ég leik sellósóló yfir rústum andlitanna það er öllum sama um ófarirnar ég vegsama þær koddafarið eftir ykkur er löngu horfið lyktin farin öllum ummerkjum eytt ] [ mig langaði alltaf að verða ljóðskáld mig langaði alltaf að verða ljóðskáld mig langaði alltaf að verða ljóðskáld en svo varð ekkert úr því ] [ steingeldar hugmyndir ég flosna upp úr eltingaleiknum ég finn mér annað ég heilsa nýjum venjum samt ekki enginn er fullkominn hræsnari enginn verður bættari af nýju lífi allt mun sölna ég fleygi gömlum gildum hlæ að þeim ég er sjálfur horfinn í annan heim fullan af myrkri ] [ ég er eins og þú plastþræll í plasthafi ég bað ekki um það bað ekki um að láta drekkja mér kaffæra mig í plastflóði þetta er plastheimur platguðinn er plastguð lastguð mig vantar björgunarbát fyrir hugsanir mínar fleiri vasa á úlpuna heimurinn er vafinn í plast og pappír og ég skrifa þér þetta bréf ritað í blóði á svartan pappír dönsum umhverfis plastkálfinn spilum plastknattleik fljótum um á uppblásnum gúmmíbát eigin sjálfsmyndar ] [ hvar er ég og hver er ég hvar er egóið mitt og hreina sjálfsmyndin og náttúran ég afbyggi afneita ég afbý hér ég afþakka sendan áhuga í formi plastskeyta sem ekkert merkja sendu mér samúðarskeyti í tilefni þess að jörðin er ónýt af of mikilli pappírsnotkun vefðu það í plast hvað annað ég á ekkert annað en plast að gefa þér ekki vil ég afhenda þér á silfurfati silfurverðlaun brostið hjarta og brotna kynverund ég er drottnari heimsins skóp hann og mun eyða honum aftur ég reyni að plasta heiminn áður en ég eyðilegg hann til að ekki fari allt út um allt ég nenni ekkert að þrífa eftir mig hringi bara í mann sem huslar líkið ] [ snjór örþunnur snjór á glerhimnu ískalt vor blautt gler gerðir þínar eru dyggðir sem eru afturkallaðar aftur öfugmælavísur kveðnar úti í horni til tómstunda hálfkveðnar ljótar afkáralegar á morgun breytast tölurnar og mennirnir með menn eru góðir með sig meðfram meðvirkninni í reynd hlýtur sú hugsun að skila okkur öllu því sem við höfum óskað okkur raunar finnst mér það ólíklegt reyndar er það óhugsandi það er ódrepandi óbilandi þrá til að takast á við hið illa ] [ stríð er útflutningur vopn eru frábær byssur drepa ekki, þær elska skiptum svæðum upp setjum saman ólíkt fólk etjum því saman seljum báðum fylkingum byssur horfum upp á alla drepa hver annan nauðga konunum drepa karlana drepa konurnar drepa börnin teljum seðlana meðan blóðið rennur um strætin sannfærum sannviskuna um sakleysið horfum á sjónvarpið og vonum að stingurinn hverfi ] [ Að taka þátt í glæfraspili gengur til og frá og gengið til úrslita tíðum slæmt má boða. Það er alveg merkilegt hvað mörgum liggur á og margir því af óðagoti fara sér að voða. ] [ Þú varst handa mér og ég var handa þér Þú áttir mig eins og ég átti þig ástarsamningur augnanna var samþykktur vottað með brosi staðfest með kossi samningi rift með þögn og hunsi ] [ þetta er skýr þekking ég veit hver þú ert örugg vitneskja er grundvöllurinn í málinu skipti ég mér í tvennt ég er fagþekking vísindaleg æðisleg Leibniz kallar Hilda svarar um þetta er engum blöðum að fletta ] [ það sem er sameiginlegt mér og þér er latnesk málfræði það sem hugsunin beinist að er brottfall lokhljóða í bakstöðu latnesk málfræði er módelið þetta er svolítið annað ef ég lít svo á að við séum jafngild frá sjónarhóli hlutverksins þetta er bara eitt af mörgum það sem er til hér er ekki til þar og svo framvegis og afturvegis þvílíkur kjaftr líttu út fyrir það sem þú þekkir haltu þig innan rammans farðu út fyrir hann hugsaðu þetta út frá latínu beittu rökhugsun við eldhúsborð í Mosfellsbænum ríkir sundrung ] [ Ég flaug til þín frjáls feginn í gegnum netið Sjáðu gleðinnar sjálf sigurinn er unnin ég er metinn. Strengur spinnur tón samhljóma vin Vindurinn velur óm ó ég flaug frjáls um óð, vinn Vegurinn frjáls á netið ] [ Á AA fund ég flýtti mér og fékk þar margt að vita. Fólk biður bara fyrir sér um betra líf auðvita. Gott er að gef' og þiggja ráð í góðra manna hópi. Sumir þar sýna hetjudáð og segja nei við dópi. Dæmdu ekki dauðann mann þótt dekkni fyrir sólu. Því fjandinn hefur fangað þann sem foreldrarnir ólu. Dreptu ekki drauma manns sem dreymir um að dafna. Þú skalt virða vonir hans og viljann til að hafna. ] [ Follow the arrows Do like they say. They are instructions from what your heart has to say. ] [ Blómin sem uppspretta heimsins hugmynda. Spruttu upp í kringum barnið mitt meðan það lék sér í grasinu. Týndi upp eitt og eitt blóm í einu. Og ég vissi að það var viska. ] [ Ég tók ferðatöskuna fyllti hana af draumum og lagði af stað. ] [ Ég fór að sofa, vaknaði annarstaðar í öðrum fötum aðrar örvar í kringum mig. Ljósið skein í augun á mér ég var blind sá ekki það vonda það góða var of gott. Ég varð hrædd, hrædd við að missa. Hrædd við að ljósið færi og svo mundi ég sjá það ljóta. En það gerðist ekki. Hann rétti mér sólgleraugu og við leiddumst saman inní sólarupprisuna... lífið okkar var að byrja. ] [ Skínandi bumban eins og sól um sumarmorgunn. Og við blómin bíðum að tíminn sé kominn. Því þegar hún kemur munu englarnir gráta tárum og við blómin fáum að drekka. Og sólarblómið okkar mun lýsa upp himininn. Og hlýja okkur í hjörtunum. Velkomin í heiminn litla englablóm. ] [ Þegar jörðin hopaði undan fótum mér. Teigði himininn sig til mín og bauð mér upp í dans. ] [ Blaðsíðurnar fuku eins og þær væru að bjóða mér framtíð sem ég réði sjálf. ] [ Tilfinningarnar svo miklar orðin svo fá. Erfitt að útskýra en samt svo gott. Þakklætið svo mikið gleðin svo góð vináttan svo hlý ástin svo ómetanleg. Ég er þakklát fyrir þig. Verð að vernda það. ] [ Þakklætið hefur ekki næg orð. Ég læt TAKK duga í bili. ] [ Ég gekk yfir fjöllin eins og ég hefði engu að tapa. Brosti í sólina og blindaðist af gleði. Skellti á mig sólgleraugunum og skoppaði lengra! ] [ Skrítið finnst mér Hve mikið er að þér. Án þess að hugsa Án þess að vita Ég ástfangin er. Illa þú lætur Bullar þvælu Hversu mikið er að þér? Hrottaleg handtök Eftir marin ég er. Brotin niður Og þér lýður vel. Án þess að hugsa Án þess að vita Þú missir af mér. VRRR ] [ Kondu til baka, Kondu til mín. Þú mátt ekki fara, Því ég sakna þín. VRRR ] [ Þegar rykkornið svífur í geislum sólarinnar ber rykkornið með sér áður óséðan glampa En úr augum svefngengilsins, sem felur sig í kjallara eymdarinnar er skínandi rykkornið gagnlaust, óséð En úr hæstu hæðum alheimsins og undir yfirborði sjálfs þíns, í þínum innsta kjarna fylgist hið sívökula auga gaumgæfilega með og tekur eftir orsökum og afleiðingum meinsins Skínandi rykkornið endurspeglar tengsl allra hluta Það sést ekki eitt og sér, en það sést í geislum sólarinnar Samband rykkornsins og sólarinnar varpar frá sér dýrmætri sjón En rykkornið sést þó ekki neitt, ef enginn áhorfandi er Vaknaðu vaknaðu! Sagði hið sívökula auga við firrtan huga áhorfandans "Sjáðu það sem er, ekki það sem verður" Einlægt hjartað tók undir og hvatti hann áfram "Sérðu ekki hvað allt er fallegt? Tekur þú eftir því hvernig þér líður, núna? Fylgstu með sjálfum þér, umhverfinu og augnablikinu Geturu fundið í þér kjark til að breyta til, svo við getum öll lifað í sátt og samlyndi, ég, þú, hjarta þitt og allt þar um kring". "Lifir þú í faldri þjáningu, þá lifir þú í blekkingu við sjálfan þig Lifir þú gegn samvisku þinni Sérð þú aldrei rykkornið né hinn undurfagra glampa sem það með sér ber Glampann sem endurspeglar allt það sem er" ] [ Lífsins þraut Er að vera sjálfum sér tryggur Hin eilífa braut Í hjarta þínu liggur Fylgdu því í hverju skrefi Og óttastu ekki Í hjartanu býr enginn efi Og líf þitt bíður aldrei hnekki Í dyrum gleðinnar leynast nálar og pinnar Óhófi fylgir flókinn vefur Forðastu fjötra löngunar þinnar Og elskaðu það sem þú hefur Lifðu lífinu af ítrustu gaumgæfni Það er hin sanna list Í því er fólgin sjaldgæf hæfni Og hugurinn öðlast eilífa vist Elskaðu friðinn Fjöldinn er aðeins margfeldi af þér sjálfum vertu því við það iðinn Að blessa heiminn með hjartans sálmum Fangaðu ávallt hið eilífa augnablik Upplifðu það af einlægni Hið eina sanna Nú Það eina sem varir að eilífu ] [ Ef að sála fretar fúl fúll á móti tekur óðar slaginn. Oft er betra að ,,akta kúl”, elska frið og bjóða góðan daginn. ] [ Samfélagsmálin sýnast klemmd og sitja flest á haka. Oft er gott að eiga í nefnd emjar Leidý ga ga! ] [ Oft menn heyra orð í rabbi sem ei er talið gott að flíka: - Brói, þú gerir það betur en pabbi, - ja, þetta segir mamma líka. ] [ Óhöppin ýmsa naga, yndið er hverfult þótt belgist af þrá. Strákur það gerði við stulku út í Haga og stautinum tóks ei úr dömunni að ná. Stúlkan fékk krampa og stundi við þá og stamaði orðum sem eigi hann skildi. Hún þruglaði þetta og því ekki gleym: ,,Þú hefðir átt gera það sem ég vildi, - taka mig aftan frá þá hefðum við getað gengið heim”! ] [ Auglýsingu Nóva ég glatt ekki gleymi getur um stærsta skemmtistað í heimi. Hver skyldi þá vera minnsti skemmtistaðurinn og skila samt mestri gleði til handa? Þar er sagt að komist aðeins inn einn og verða að standa. ] [ Líf þitt er ljósið sem lifir með þér bjartari en stjarnan sem stirnir á hér ] [ Ég hitti þig ljós mitt að vori við skuggann minn, máninn bjartur á himninum, spor í fönninni við gluggann minn. Tónlistin leikur sinn línudans um götur stéttar og huga manns. Þau eru lífið leikandi létt ljósið í skuggunum þínum. Tröppur í brjósti mínu, steinar í stétt. Vorið við gluggann þinn, ljósið sem gægist inn. ] [ Alltaf þegar þú varst hér var ég í leikriti Alltaf þegar þú hringdir var ég í hlutverki Alltaf þegar þú fórst var ég ráðalaus, ráfandi, hikandi Þú varst leikstjórinn, leikarinn og áhorfandinn Ég veit ekki einu sinni hvert hlutverk mitt var. Eftir allan þennan tíma.. ] [ ég er einmana í kvöld haltu mér uppteknum finndu mig taktu mig haltu kjafti kjaftaðu við mig þetta er óritskoðuð röð orða orð röða orðræða haltu kjafti orðræða láttu mig vera haltu mér uppteknum haltu utan um mig haltu mér á mottunni mataðu mig ég öskra ég ískra ég gín ég skín feldu mig ég fel mig feldu þig ég fel mig þér ég fel mig hér ég fel mig þér á vald feldu mér þig feldu þig feldu þig aftur farðu ] [ Pabbi blótar pólverjunum sem lögðu hjá honum innkeyrsluna en ég segi honum bara hvernig garðurinn hans ilmar eins og Afríka þegar hann er að brenna afgangs timbur ] [ Stóra klukkan sýnir korter yfir eitt það er ekki langt síðan hún sýndi alltaf korter yfir tólf líklega er þetta flutningum að kenna eða mögulega hefur einhver verið að fikta klukkustund breytir svosem ekki miklu til þess er of langt síðan hún staðnaði ] [ I. KAFLI Markmið bankaverndarlaga o.fl. 4. gr. Meginreglur bankaverndarstarfs Í bankaverndarstarfi skal beita þeim ráðstöfunum sem ætla má að banka séu fyrir bestu. Hagsmunir banka skulu ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi bankaverndaryfirvalda. Í störfum sínum skulu bankaverndaryfirvöld taka tillit til sjónarmiða og óska bankans eftir því sem fyrirgreiðslur og sambönd gefa tilefni til. Bankaverndarstarf skal stuðla að spákaupmennsku í uppvexti banka. Bankaverndaryfirvöld skulu leitast við að eiga góða samvinnu við banka og eigendur sem þau hafa afskipti af og ávallt sýna þeim fyllstu nærgætni og virðingu. Bankaverndaryfirvöld skulu í störfum sínum leitast við að hafa góða samvinnu sín á milli og við aðrar stofnanir sem fjalla um málefni banka. Bankaverndaryfirvöld skulu í störfum sínum og öllum ákvörðunum gæta samræmis og fáræðis. Bankaverndaryfirvöld skulu eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðnings auðvaldsins séu reynd áður en gripið er til annarra úrræða. Þau skulu jafnframt ávallt miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Skal í öllu stuðlað að einkavæðingu arðs og þjóðnýtingu taps eftir því sem frekast er unnt. Gert skal ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum ef seinna markmiði verður ekki náð. Allir þeir sem vinna að bankavernd skulu gæta fyllsta trúnaðar um hagi banka,eigenda og annarra sem þeir hafa afskipti af. ] [ í vindinum ríður sólargeisli sveiflandi laufi ] [ Enginn tími býður okkur upp á fegurri liti en haustið. Nú skjálfa tré með gnýst vindsins og fuglarnir tísta í trjánum og tár koma í augu mér. Minningar birtast í tebolla sem gott er að ylja sér við í köldu skammdeginu og vekja með manni óskir, vonir og þrár. Ég rölti um hverfið og kanna hvort eitthvað hefði breyst frá deginum áður. Handan við hornið blikka neon ljós frá ölstofunni sem birta upp skammdegið, allt í kringum mig breytist í sviðsmynd og ég átta mig á því að ég er persóna úr gömlu sjónvarpsleikriti sem spilast aftur og aftur af gamalli vhs spólu. ] [ Maður klæddur eins og glæpamaður í bíómynd skýst eins og skugginn inn í þröngt húsasund bakvið veitingastað. Hann kveikir sér í sígarettu og skærgulur bjarmin lýsir upp andlit dularfulla mannsins. Fyrr en varir hverfur hann á augabragði jafn snögglega og hann birtist út í myrkrið, út í eilífðina. ] [ Haustið kemur og rökkva tekur dag. þegar augu okkar mætast er eins og tíminn stöðvist um stund og í myrkri þungu mætast varir okkar. Sálir okkar tengjast og hjartað slær hraðar og andardrátturinn verður örari. Við erum sem eitt og vonandi fáum við að elska hvort annað svo heitt. ] [ Ég er fugl í búri, við gruggugan sjó, við ströndina lúri og hjartað það sló. Ég er fugl í haldi en sálin er frjáls því frelsið mér faldi vitund mín sjálfs. Andvari ljúfur, hjartað tekur á rás, leikur sér hrjúfur við rimar og lás. En hér mun ég dvelja, ég uni mér hér ég æ myndi velja búr þetta mér. Dýrmætust er mér, jú, prýsundin sú því fuglinn ég er og búrið ert þú. ] [ Ljósið sigrar alltaf myrkrið! Það er alveg sama hvar ljósið er kveikt. Það er alltaf eftirtektarverðara, fallegra og betra en myrkrið. ] [ Þetta er sorg þetta er sárt þetta er grátur þetta er þjáning þetta er hatur þetta er öfundsýki þetta er einmannaleiki þetta er myrkrið þetta er satt þetta er sjálfselska sjálfsmorð ] [ Að ganga í gegnum lífið er eins og rauð rós sem blómstrar og fölnar burt. Það er gustur í lofti og eilíf nóttin okkur gleypir með vonskuveðri. Lífið tekur nýja stefnu og brýst í gegnum öldur hafsins og vekur upp drauma, væntingar og von. ] [ Hvað eru minningar? Birtast þær eins og gamlar svarthvítar ljósmyndir? Eru þær eins og stafrænt myndform á Facebook sem maður getur hlaðið á vefinn eins og umferð í stórborgum heimsins? Þær fá hjartað til að slá hörpu strengi eins og danslag á öldum ljósvakans. ] [ Þú gengur hljóður hærugrár þín hinstu ár. Og hnígur eftir langa leit í lágan reit. Þar blasir við þinn viskusteinn það veit ei neinn. ] [ Aldrei ég gleymi Draumalandið mitt og þitt Hvernig væri það ef aldrei neitt væri til? Hvað væri þá um mig og þig? ] [ Ljósið sem tók sitt fyrsta skref. Ljósið sem skein frá andliti þess þegar það kom hlaupandi í fangið á þér. Ljósið sem skein eftir fyrsta kossinn. Ljósið sem skein svo bjart þegar þú komst í hjarta þess. Ljósið sem var orðið svo dauft. Ljósið sem slokknaði og dregur fram myrkrið. ] [ Ég er jafn við jörðu. Fyrir mér eru fjöllin há fagurblá. ] [ Ef þú ætlar að byggja hátt, þarftu fyrst að grafa djúpt. Illt er að glepjast til skýjanna án þess að eiga sér traustar undirstöður Flugvélar, sem svífa í lausu lofti, snúa að endingu til jarðar. Gervitungl, sem dvelja í þyngdarleysinu, eru ekki uppspretta neins heldur endurvarpa þau jarðargeislum. Jurtin, sem teygir anga sína til sólarinnar, á upptök sín undir yfirborði jarðar og þar á hún rætur sínar. Ef þú hyggur hátt en hugar ekki að jarðsambandinu, er víst að illa fari. Það hafa nýleg dæmi sannað. ] [ Höfðinginn í öndvegi. Hnarreistur að vanda horfir hann fram eftir skálanum, að baki hans hnígur sólin til viðar og tendrar langeldinn á gólfinu. Hirðmenn hans á bekkjum meðfram veggjum bíða þess sem verða vill. Hér er vel skipað í hvert sæti. ] [ Þú varst hrifin á brott frá grasmjúkum hólmunum út í sæbarinn klettinn. Mýktin í fasi þínu tókst á við harða lund þursins Það var sem klakabundið hjarta hans kenndi yls að nýju. Í það minnsta er um það talað enn í dag, hve sárt hann grét þig gengna. ] [ Vodki og romm í kók, við dönsuðum og dönsuðum til klukkan fjögur um nótt. Svo kom lokatónn hljómsveitarinnar á ballinu, svo röltuðum við frá Hollywood og um allan miðbæinn. Ég stakk upp á því að kíkja á annan stað en það var bara lokað á okkur þar sem klukkan var orðin sex. En svo síðdegis sama dag hringdi vekjaraklukkan eins og lúðrasveit svo það hringsnérist allt í hausnum á mér, en svo hressti ég mig við mig og dreif mig út til að kaupa mér pylsu og kók í gleri á 500 kall, en svo á leiðinni heim sá ég ísbjörn sem labbaði niðrí bæ og keypti sér popp og sleikjó. Ég hrökk snögglega upp við vondan draum og áttaði mig á sama augnabliki að mig var bara að dreyma. ] [ Að brosa með augunum að hlæja með hjartanu að elska með hverri hugsun. Að lifa með voninni að snerta með sálinni að skrifa með ástríðu. Að hlusta með huganum að lykta með fingrunum að eldast með gleðinni. ] [ Ég ætlaði að elta þig um eyðisand og fjöll. draumar mínir dekruðu við að drepa gömlu tröll. Ég ætlaði að eignast þig ólmur faðma og kætast. Þær eyðileggja allar sig óskirnar sem rætast. Ég elti þig um úlfa slóð og aldrei leit til baka. Úr draumum mínum drepur blóð á daga sem ég hata. Ég elti þig um árin mín ég elti þig á röndum. Í grjót og gömlu sporin þín græt í trölla höndum. ] [ ég er hálft andrésblað og hálft klámblað (búið að líma saman) ] [ Fannst eitthvað vanta í skelina tóma svo ég fyllt'ana af frosti og snjó æji góði vert'ekki með þennan rjóma ég fyrir löngu fékk af þér nóg. ] [ Það var fimmtudagskvöldið 14.maí og árið var 2009. Ég sá þig á bar þú sast bara þar svo undirfögur af ást og hlýju. Ég strax fann mikla strauma á milli okkar beggja. Við horfðumst í augun og það var eins og allur heimurin hefði stöðvast þegar varir okkar snertust. Þetta var ást við fyrstu sýn og ég tók í höndina þína því mig langaði að sýna þér ófarnavegi ástarinar og upplifa það með þér um aldur og ævi. Svo eyddum við saman öllu sumrinu og fórum á hina og þessa staði. Við náðum vel saman að það var endalaust gaman. Var mig kannski að dreyma þessa fallegu konu sem ég hafði kynnst nokkrum mánuðum áður. Þessi ást átti að endast út okkar ævi en þá var úti ævintýri og dökkt ský féll yfir okkur bæði og draumurin um ástina breyttist í martröð og dökk ský færðist yfir okkur með þrumum og eldingum. Ég vissi þá að þessu var lokið en ég var þó lánsamur að hafa fundið ástina með þér. Helgi Hall 2011 ] [ Hún festi blóm í barminn minn. Og tók mér sem væri ég vinur sinn. Ég þakka allt er enginn sér. Og þúsundfalt alla lífsins leið með þér. Og enn um ár er andi þinn kyssir kinn hugsa ég um vininn minn. ] [ Lífið á jörðinni er eins og brot úr minningum.Oft þurfum við að týna þau upp og raða þeim saman í gátu til að skilgreina heildarmynd tilverunnar í daglegu lífi. ] [ Hrynja hrímrósir af hvítum þungum skýjum. Höfði drúpir dagurinn yfir bleiku sumrinu. nývöknuð nóttin nýtur ásta hins gula hausts. Hynja hrímrósir af hvítum þungum skýjum. ] [ Dauðvona drúpnar dagurinnn yfir feigð sumarsins nýfædd nýtur nóttin ástríkis hausts hrímrósir hrynja af þungum hvítum skýjum hrímrósir hrynja af þungum hvítum skýjum. ] [ Þrjóska og stolt var ætíð þín brynja Uns tilvera þín á jörðu byrjaði að hrynja Ófétin hófu á líkamann að herja líkama og sál þína voru að kvelja þar til ekkert var eftir nema að kveðja Ó, elsku pabbi hve sárt það er að þurfa horfa á eftir þér Ég er svo stolt, þú stóðst sem hetja. Í þessari lífsbaráttu þurfti varla að hvetja. Sama hversu lífið lék okkur grátt, í öllum sársaukanum gast ávallt hlegið dátt. Nú ertu farin úr þessum heimi eða ert hér einhverstaðar á sveimi. Kannski lítill þröstur á grein sem fylgist með í leyni. En hvar sem þú ert, ég þér aldrei gleymi. Ó, hversu oft ég mun hugsa til þín. Ég verð alltaf litla pabba stelpan þín. ] [ Ást, Alvöru ást.- Sönn ást.- Engin þjáning.- Tilfinning sem brást.- Mér, fokkaði ég í þér.- Eða,stakst þú hníf.- Í bakið á mér.- Tek skref fyrir skref.- Leitaði af mér.- Fann mig , Mér líkar það sem ég sé.- Hverf og ég fíla það vel.- Fokkar í því sem er að ske.- Skrifar manísk ástarbréf.- Raskar ró musterisins.- Sem ég í sef.- En ég er best.- Svo ég fyrirgef þér.- ] [ Gef oss í dag vort daglegt brauð smurt með smávegis sifjaspellum og klípu af kynferðislegu ofbeldi. Amen! ] [ Dag einn, er þú stóðst í flæðarmálinu og vitjaðir netsins, var sem hönd væri lögð ofurlétt á öxl þína og einhver bauð þér að fylgja sér. Þú réttir úr þér og leist yfir sviðið. Horfðir upp í haustbláan himinninn og heyrðir jarmað veikt frá réttinni. Svo léstu til leiðast og hvarfst hljóður á brott. ] [ Löngu aflögð zetan gengur aftur í Þjóðarbókhlöðunni Hún sækir stöðugt að mér þar sem ég sit og leszzz ] [ Þyrfti ég að velja milli augnabliks í örmum þér. Og ævilengdar utan þín, yrði faðmur þinn óskin mín. ] [ Og áður en ég hafði komið upp nokkru orði lauk hann máli mínu og eftir sat ég í orðafjötrum án þess að grátbæna nokkurn um þá. ] [ Vaða vildi með völuspá, Komst hann langt á kreikinn, Kóngur sjálfur kysi að fá, káta menn á leikinn. Í hulstri bárust hundar við hláturskasti manna Sit ég hér og stari á Svöngum kviðum granna. ] [ Skúli, Siggi, Steinar Bjarki, Bárður, Björgvin Elli, Erla, Einar voru tvíburar. ] [ Sonja bjarta sló í mark, í sumar varð hún fúl, Meyin vildi strax að fá, ferð til instanbúl. ] [ Ást Ást........ er eins og áfengi. Áfengi..... Er eins og ást. ] [ Þú ert mér svo nýtt Ég þekki þig ei Þitt hjarta er svo hlýtt Við þig ég segði aldrei nei Þú þekkir ei sorg mína En skilur mig þó Ég finn heita ást þína Af henni fæ ég aldrei nóg Enginn leikur líf mitt er En enginn það veit Því er nú miður og ver Því enginn við mér leit Þangað til að komst þú Þú huggaðir mig Fyrir umhyggju og ást ég finn nú Óstjórnlega elska ég þig Blíður er þinn mjúki koss Ást mína gef ég þér Þú ert hraður sem dynjandi foss En enginn það sér ] [ Þreyta, þreyta, þreyta Ég verð að fara að sofa en fyrst verð ég mig að spreyta á því sem ég var að lofa... ] [ Láttu mig hlæja, bara örlítið meir, og þá skal ég kyssa þig og bara þig í alla nótt. Hlæjum og leikum okkr saman í alla nótt. Við getum alltaf sofið seinna. Segðu mér sögu. Hver ertu? Ég skal tína eitthvað til líka. Við höfum alla nóttina. Við getum líka bara sofið í alla nótt. Ef ég má vera í fanginu á þér. ] [ Erfiðir tímar fylgdu í kjölfarið fólkið sem bjó við ströndina flutti inn til landsins byggðir lögðust í eyði og margir misstu allt undir dimmgráum skýjum fór lestin um eyðimörkina hestar, vagnar og menn frá yfirgefnum borgum í leit að næturstað úr varðturni horfði kona í fjarskann knapar nálguðust í rökkrinu óveðrið færðist sífellt nær og á torginu heyrðist söngur um trúðinn og þjófinn ] [ Gamanyrði og gleði alla daga er grautfúlt og öllum til ama. Líkt og ein dægileg dama sem dáist að sér alla daga ] [ Einn heinagleiður halur í híði lagstur er. Þar hofmannlegur húkir uns hlýna aftur fer. Þá lyftist brún á mætum mann er mót sólu rýnir hann. Hann Sigurður þór Guðjónsson, -hann Sigurður þór Guðjónsson! ] [ Í dag vil ég skúra og skrúbba og bóna, skafa allan sóðaskap burtu mér frá. Baða og bursta minn Dáðalings dóna sem dúndrar á allt sem að mamma hans á. ] [ Sólin kemur upp og sest niður. Það er fastur liður. ] [ þú hefur ekki lifað lífinu ef þú ferð í gegnum það á pari. ] [ Skuggarnir færast yfir eins og teppi. Ég er ein, ég er týnd. Hendurnar svo hlýjar og hjálpsamar, en samt er það bara ég sem þarfnast þeirra mest sjálf. Spegillinn sýnir unga, fallega konu. Það sem ég sé er ljótt, feitt skrímli. Á yfirborðinu er ég sterk, ákveðin, heilstæð. En það þarf ekki nema að pota í eina sprungu til að ég brotni. Ég vil verða frjáls frá þessum skuggum en þeir leggjast þyngra yfir mig. Hanga á mér líkt og mara. Hvenar kemur einhver og tosar mig upp úr þessari holu? ] [ The lady is unavailable, she's out hunting. The house in her absence is empty and cold. Halls and hallways like a dark maze of old. A rose in a bridle, no end in sight, forever riding. The rose at the heart of darkness does lie. In the cold and dark rooms nothing will grow. Save for the mildew, fungi, black spots on show. In the lady's absence the rose is ready to die. Red from rust and jaded from age, neglected tool's. Gathered together in a great reddish pile. Gadgets forged with care but in an outdated style. Blunt, useless, faded and hated relics of fools. The huntress returns with a mighty catch. A blood red stag thrown down a dark cellar hatch. ] [ Banks burn, stranglehold completed. The noose tightened, wealth deleted. Debt like cancer eating through the crops. Creaking foundations shoot feat to the tops. The hold would break for a singular mind. A united mind of the non-scatter kind. Mother-fucking fuck! Shit out of luck! Fucking fuck. Our faculties are stuck. Education debased as objects are chased. Will and desire burn at philosophies pyre. Uniform information informs our mind. Uniform information is of a neutered kind. Fear as a sign post signals the way. Guides us away from a brighter day. Mother-fucking fuck. Shit out of luck. Fucking fuck. Our whole species is stuck. ] [ Það er kúnst að láta sér ei leiðast á lífsins vegi hvert sem ber um álfur. Ætla ég þér yndið verði greiðast ef þú ert nógu skemmtilegur sjálfur. ] [ Mæður hafa sagt mér við stjörnubirtu flóð að sumir fórni snemma sinni æsku glóð. Og englar hafa sagt mér í bænir beri menn fjötra sína sjálfir og svikin loforð enn. Sorgin hefur sagt mér að mönnum þyki verst í svarta myrkri sjá stjörnurnar best. Moldin hefur sagt mér móðir elds og íss. Hún birgi stundum blóm sín er blika morguns rís. ] [ Við lifum í sýndarblöðru þar sem allt er auðvelt og allt er plat Þetta er sjúk plastveröld þar sem ekkert varir og allir eru í stuði ] [ Pípir páfans Snati, Píus Íslands og rati. Bullar og blaðrar, þvælir og þvaðrar og þversum er ávallt á gati. ] [ vakúmpakkaður flóðhestur buslar í hyldjúpu baðkari líktog nautahjörð sem heyrir ámáttlegt óp arnarins eða ryðfrí ristavél samvisku minnar öllu heldur vatnsgreiddur afi á alltof litlum ára- bát fljótandi einsog lauf á rúmsjó angistarinnar móðir kær ó vei ó vei ætlar þessu aldrei að ljúka?! hvenær mun vísitölufjölskyldan á neðri hæðinni taka sönsum og ljúka við þetta bölvaða púsluspil sem við köllum líf? Fyrirvaralaust skjóta hringsólandi draumsólir upp kollinum í kolefnisjöfnuðum huga mínum engilbert Ég bý til björgunarhring úr endurunnum sjampóflöskum sem ég hef geymt undir hrímhvítum svæfli mínum síðastliðinn 200ár eða þar um bil sólin er óskilgetið afkvæmi sturlunarinnar sem blundar á tvítugu dýpi olnboga míns toyota - tækn um gæði ] [ Gaui litli sýgur og sýgur typpið á jónza sem mýgur og mýgur kyngdu tussa jónzi tuðar og tuðar meðan gauji litli puðar og puðar. Næsta dag.... Gaui litli suðar og suðar: jónzi má ég typpi þitt sjúga mig langar, ég er ekkjað ljúga. þegiðu tík... gaui grætur og grætur honum finnst hann svo sætur og skilur ekki hvernig hann lætur greyið gaui hann kemst ekki á fætur. á sama tíma..... Heima hjá mömmu jónzi með monicu reynir að skora fílar þessa ömmu og verður bara að þora jónzi putta í rassinn setur eins langt og hugsast getur en þá kemur fretur "Monica ég veit þú getur betur" lokaorð.... þannig lýkur hommaást og eins og þú sást jónsi gauja litla brást grimm er þessi hommaást. höfundur: Júlli ] [ Hestar ey heimskir eru en þeir þurfa að bera heimska veru Þeir fyrir okkur þræla og púla dugnaðar fákar þeir eru. En eru þeir Músíkalskir? Það er erfit að segja sérstaklega meðan þeir þeigja! Þeir standa og liggja og grasið tiggja og er kuldaboli kemur þeir húsakjól þyggja En er enginn til þeirra sér Þeir sér dilla við tónlist mannsins þeir syngja og leika lag með hófum köldum ] [ Ég leita eftir nýjum mána ég leita eftir stjörnum ég vil fljúga með örnum þegar ég get ég vil sigla um höfin breið ég vil aka breiða veginn sama hvoru meginn en fer ekki fet. Ég skima eftir leyndu ljósi ég skima eftir gliti ég á mína eigin liti inn í mér ég vil læðast um löndin sem enginn hefur kannað þartil það er bannað það sem enginn sér. Komið nú komið nú komið nú fljótt farið nú farið nú farið nú skjótt. Ég bið og ég vona að eitthvað muni gerast vegir sundur skerast hvað sem er ég opna vil alla himna jörðina sundur grafa þegar ekkert er að hafa verð ég hér Komið nú komið nú komið nú fljótt farið nú farið nú farið nú skjótt. ] [ Ef þú finnur frávita mann feiminn að skilja allt sem hann kann orðlaus magnvana og myrkfælinn sem man ekki neitt nema munnmælin þá hittir þú fyrir sjálfan þig og þá skaltu vinur minnast á mig því ég er hér til að veita þér von því ég veit um Jónas Hallgrímsson. Í fjallasölum eða í fjarlægri sveit á fúabryggju í atvinnuleit hvað sem verður og hvað sem var hvar sem þú ert þá er hann þar og þá hittir þú fyrir sjálfan þig og þá skaltu vinur minnast á mig því ég er hér til að veita þér von og ég veit um Jónas Hallgrímsson. Hann á það ljóðið sem ljúfast er hann leið fyrir ástina í brjósti sér ég veit hver hann er og hver hann var og hvar sem þú ert þá er hann þar. Í biðröðum að bíða eftir mat með betlistafinn, á vasanum gat í ræsinu með rónunum rétt hjá ruslatunnunum þá hittir þú fyrir sjálfan þig og þá skaltu vinur minnast á mig því ég er hér til að veita þér von og ég veit um Jónas Hallgrímsson. Hann á það ljóðið sem ljúfast er hann leið fyrir ástina í brjósti sér ég veit hver hann er og hver hann var og hvar sem þú ert þá er hann þar. Ef þú finnur frávita mann feiminn að skilja allt sem hann kann orðlaus magnvana og myrkfælinn sem man ekki neitt nema munnmælin þá hittir þú fyrir sjálfan þig og þá skaltu vinur minnast á mig því ég er hér til að veita þér von því ég veit um Jónas Hallgrímsson. ] [ Opnast dyr sem framlengja þína veröld og veita þér aukið svigrúm, sem hliðarvídd utan við daglegt líf. víkkar út í ný svið. Afkima sem þér óraði ekki fyrir að væru til. Í hugskotinu þú átt þér stað. ] [ Á hverjum morgni lít ég út ég gái hverjir ganga þar um göturnar Það eru alltaf þeir sömu, maðurinn í frakkanum, konan sem alltaf öskrar á krakkann sinn, barnið með sápukúlurnar, og stúlkan með hundinn. Af og til eru eitthverjir túristar, ég kalla alltaf niður kveðju, fæ kurteisilegt svar til baka en ekkert annað gerist. þetta fólk á sér líf, en hvað með mig er ég bara konan í glugganum? ] [ Vot augu, visnað blóm, ljótt sár, í skítugum skóm. Lítil stúlka gráti nær, móður sína missti, sár hennar aldrei grær áður móðirin bágtið kyssti. ] [ Ljós í myrkri. Ljós þú ert. Ljós til bóta. Ljós á dimmum degi. Ljós þú ert. Ljósið skylirðislaust. Ljósið bjartasta. Ljósið mitt. ] [ Svona tekurðu þétt í hendurnar á mér og ekkert getur haldið mér fastar. Og logar líkama þíns sameinast mínum þannig að við gætum alveg eins verið á hvolfi án þess að taka eftir því. Svo stigir þú óvart á tánna á mér og ég myndi særa karlmennsku þína og þú myndir byrja að dansa harkalega við mig svo ég myndi hristast og næstum togna í hálsinum en svo myndi ég tryllast og reyna að hrista þig á móti og þú værir ekki búinn að gleyma hvað ég væri sterk og myndir verða hræddur og hræddur um að sína að þú værir hræddur og ég myndi öskra á þig úr reiði frá tánum og þú myndir halda höndum mínum uppi á únliðunum en titra því ég er eiginlega sterkari en þú. Hlutfallslega. Svo myndir þú sleppa og snúa þér undan. Ganga karlmannlega í burtu eins og ég myndi ekki vita ekki að þú hafir verið búinn með kraftinn. En þú slepptir svo snögglega að ég dúndraðist á gólfið, beit mig í vörina og í lýsti því yfir í hljóði hvernig þér hefði tekist að skemma allt. Og svo snýrðu þér aftur að mér þar sem ég ligg á gólfinu og segir: KONA! Af hverju viltu ekki dansa? Gengur að mér eins og það hafi ekki verið þú sem eyðilagðir dansinn út af viðkvæmri karlmennsku. Reisir mig á fætur og ég gæti drepið þig. Svo tekurðu þétt í hendurnar á mér og allt í einu ekkert getur haldið mér fastar. ] [ Have you seen the morning Rose her tenderness every wher she goes Have you seen her smiling face her lovely eyes and gentle embrase. Have you noticed how she walks and have you listened how she talks When the afternoon sun goes down her grace is still around. When the evenings shadows grow her charming delight start to glow Then she whispers in the wind loving me can never be a sin In the heat of the darkest night she lies her body by his sight and gladly gives him all her love the morning Rose and the stars above. Sigurjón Gunnarsson Thailand 2001. ] [ Svona tekurðu þétt í hendurnar á mér og ekkert getur haldið mér fastar. Og logar líkama þíns sameinast mínum þannig að við gætum alveg eins verið á hvolfi án þess að taka eftir því. Svo stigir þú óvart á tánna á mér og ég myndi særa karlmennsku þína og þú myndir byrja að dansa harkalega við mig svo ég myndi hristast og næstum togna í hálsinum en svo myndi ég tryllast og reyna að hrista þig á móti og þú værir ekki búinn að gleyma hvað ég væri sterk og myndir verða hræddur og hræddur um að sína að þú værir hræddur og ég myndi öskra á þig úr reiði frá tánum og þú myndir halda höndum mínum uppi á únliðunum en titra því ég er eiginlega sterkari en þú. Hlutfallslega. Svo myndir þú sleppa og snúa þér undan. Ganga karlmannlega í burtu eins og ég myndi ekki vita ekki að þú hafir verið búinn með kraftinn. En þú slepptir svo snögglega að ég dúndraðist á gólfið, beit mig í vörina og í lýsti því yfir í hljóði hvernig þér hefði tekist að skemma allt. Og svo snýrðu þér aftur að mér þar sem ég ligg á gólfinu og segir: KONA! Af hverju viltu ekki dansa? Gengur að mér eins og það hafi ekki verið þú sem eyðilagðir dansinn út af viðkvæmri karlmennsku. Reisir mig á fætur og ég gæti drepið þig. Svo tekurðu þétt í hendurnar á mér og allt í einu ekkert getur haldið mér fastar. ] [ Í svanahálsi fann ég svarið Í svani sem hafði haltrað um túnið Hnúðsvani sem hafði vængi eins og engill Ég ákvað að slá á kúabjöllu fyrir hann Þá fór hann að dansa Hristi fjaðrirnar og gaf mér nokkrar Enda erfitt að festa þær aftur á Ég strauk fjöðrunum yfir fitin á halta fætinum Og það gerðist eitthvað Þá kom svarið úr hálsinum Ég starði steinhissa og hann játaði með augunum Svo spændi hann grasið og hóf sig til flugs. Ég sat eftir á túninu og starði á eftir honum steinhissa. ] [ Þar sem silfur öldur andans gæla við gullinn sand þar heyri ég söngva hjartans stíga sinn fegursta dans. Undir miðnæturhimni stjörnubjörtum kviknar ást í ungum hjörtum geislar kvöldsólar vangann strjúka leika sér við líkama mjúka Blaka sér vængir og varir faðma augun umvafin ástarbjarma við rökkurskil er skimað í skaut ljúft andartak í lífsins laut ] [ Have you seen the morning Rose her tenderness every where she goes Have you seen her smiling face her lovely eyes and gentle embrase Have you noticed how she walkes and have you listenet how she talks. When the afternoon goes down Her grace is still around. When the evenings sadows grow her charming delight starts to glow. Then she whispers in the wwind loving me can never be a sin. In the heat of the darkest night she lies her body by his sight and gladely gives him all her love the morning Rose and stars above. ] [ Wher the silvery waives of our mind Scattered the golden sand on the beach listen to the sound of your heart play the most beautiful tune. ] [ Það stendur ganalt hús í götuni minni heima þar bjó í kjallara kona sem átti sína drauma á kvöldin sat við sauma á hillu kandís í krús í holu lítil mús. Hún enga vini átti og alltaf var hún ein í eldhúsinu var lítið ljós þegar vindurinn úti hvein. Hún þvoði á daginn þvott fyrir hina og þessa menn með lúið bak og lina fætur í húmi bograr enn. Í æsku átti drauma um dýrðar höfud ból en örlögin höfðu ætlað að engum manni syni ól. Nú stendur hún þvotta Stína við tausnúruna sína og brýtur saman lín það eru tárin hennar sem þorna þegar sólin skín. ] [ Have you seen the morning Rose her tenderness every wher she goes. Have you seen her smiling face her lovely eyes and gentle embrase. Have you noticed how she walkes and have listened how she talks. When the afternoon sun goes down her grace is still around. When the evenings shadows grow her charming delight starts to glow. Then she whispers in the wind loving me can never be a sin. In the heat of the darkest night she lies her body by his sight and gladly gives him all her love thr morning Rose and the stars above. ] [ Þar sem silfur öldur andans gæla við gullinn sand þar heiri ég söngva hjartans stíga sinn fegursta dans. Undir miðnæturhimni stjörnubjörtun þar kviknar ást í ungum hjörtum geislar kvöldsólar vangana strjúka leika sér við likama mjúka. Blaka sér vængir og varir faðma augun umvafin ástarbjarma við rökkurskil er skimað í skaut ljúft andartak í lífsins laut ] [ Undan vindinum trjágreinar væla vislegar skjálfa í húmi Minningu margbrotna bæla myndir í tíma og rúmi Litirnir ljóðrænir hvísla um leyndarmál torræðra arna Í haustmyrkri einmana hrísla horfir til fjarlægra stjarna ] [ Frostið bítur hart Er kaldir vindar gnauða sólin hæðir mig Myrkur herjar stríð við himins heri stjarna djúpt í hjartans vá Undir mánans sigð í snæviþöktum sölum hjarta tælir hug ] [ Í myrkri sit ég ein og skoða skugga Skærir geislar drógu sig í hlé Töfrandi og tælandi ég sé trylltar stjörnur dansa‘ og myrkrið hugga. Ljós úr norðri leika tóna bjarta Litir gleðja striga myrkurs fljótt Vindur strýkur vanga blítt og hljótt Vorið hvíslar ástarorði‘ í hjarta ] [ Sveimandi horfa leika sér Svífandi sindrandi ljósglit í dvínandi birtu er glóð í hjarta nærveru og hlýju. Yndi svífandi orða vafra hér. Sveimandi horfa leika sér. Logn í seiðandi húsi snjór við furu fót. Bjartar stjörnur á himni börn með brúðu og dót. Svífandi sindrandi ljósglit snjókorn falla á svörð. Tíst í fuglanna klið um frið á mennska jörð. Glit í dvínandi birtu glóð við gluggann þinn. Titrandi frostrós á rúðu raul við munninn minn. Ilmandi lummur frá ömmu og kakó sem afi ber inn. Þá ljómar himinninn allur að nýju í öllum litum ljóssins lifandi nærveru og hlýju. ] [ Draugur í sunnanvindi þér, ég unni vita mein. Þegar þú áttir leiðina heim úti spókar þú. Ó, elsku barnið mitt reynir að finna það sem er þitt. Enginn hjálpar hönd veitir. Mundu þú veginn þinn. Á vegum sálar glapa hlýjum brunni leitar af. Ó, elsku barnið mitt farðu vel með hjarta þitt. Þó það nú spái undir veður storma. Finnur þú gullið innra með þér. Á vegum villtra blóma. Ó, litla barnið mitt geymdu fallega gullið þitt. Einsamalt situr þú í dökku skúmaskoti. Fólkið streymir út og inn enginn af þér gæjist. Ó, elsku barnið mitt ekki efast litla blómið þitt. Ó, elsku barnið mitt villtu mér lofa. Að reyna rótt að sofa. ] [ Manstu í gær Þegar koss af rósarvör Þegar augu þín svo skær Þegar orðin þín svo blíð Þegar ástin þín svo tær fann skjól ó hjarta mínu. Manstu í gær hversu lífið var svo ljúft þegar kvöldsins töfratónar stigu öran bylgjudans og líkamar samhljóma finna ástarinnar byr og frækorn sem var falið ratar leið um lífsins dyr. Manstu í gær Þegar fegurstu blómin þín þú færðir mér svo glöð og okkar draumar og þrár stigu takt við hjartaslög og hendur um hörund strjúka morgundögg við ljósbrotsins lag. Manstu í gær Þegar skuggar sem sköpum renna hurfu á braut við draumanna sýn Þegar stormský á himnum brenna í hillyngum líkama faðma aðeins minning um eilíft andartak Færir þig nær mér og nær. Já manstu manstu í gær við líkamans ljúfa stef. Já manstu manstu í gær þegar hjartað gafst þú mér. Manstu í gær þegar hjartað gafst þú mér Manstu í gær þegar þú sást mína sál og þú hélst um hjarta mitt og þú færðir mér frið ást alúð þrá og sorg féllu tár,en engin orð. ] [ Í minni eigin sálu leita, leita og leita en vil engu breyta. Sé og skil, hið illa hyl. Löngu vanist vondu hef, í heimi illsku best ég sef. Lengi hef ég melt með mér, að breyta vondum verkum. En þegar að ég dvel hjá þér, þá gengur það í herkjum. ] [ í dag geng ég um berfættur í snjónum meðan söngur þinn hlýjar hjarta mínu ] [ Bros þitt er birtan í lífinu, -finnst mér. Desember 2011 © allur réttur áskilinn höfundi ] [ Veðurlýsing:Afar fallegt veður, hægfallandi, hljóðlátur snjór og logn. Fellur ekki undir smekk. Er staðreynd. Næstu veðurfréttir verða lesnar á sameinuðum bylgjum taugarása. ] [ Átti eitt strá Þráði bara smára Hennti stráinu Stráið skaut rótum á nýju engi Það mátti það Stend á engi fullu af stráum þrái enn einn smára Á mínu engi eru smárar vanfundnir þeir fáu sem ég hef séð hafa þegar skotið rótum í öðru engi og ræturnar neita að losna Vökva engið ber áburð í þeirri von að einn smári skjóti þar rótum Þar til það geriðst held ég áfram að flandra um engið ] [ ég ferðast með hugarfari um geim og aftur heim ] [ snjáldurfríð og orðljót vegnir kostir, gallar eina óttu hennar njóttu og aldrei framar ] [ systur heita sorg og gleði búa þær í hverju geði til ama og til sóma stundum tristar með stökum ljóma ] [ Þegar droparnir úr eldhúskrananum verka róandi á sálina - þá er fríið að verða búið. ] [ Að morgni muntu rísa munaður er sú stund Að kveldi hættir ljós að lýsa leiðin liggur Guðs á fund Langur dagur liðinn legg hendur mér í skaut nú finna mun ég friðinn sem aldrei fyrr ég hlaut ] [ Gul traktorsgrafa ýtir upp stórum skafli. Kuflinn er nú þurr. ] [ bikaður morgunn grúfir sig mugga yggla ský á himni lýsir vonarsúla sem leitarljós eftir komandi sprengjuflugvélum ] [ Mér er óglatt af ást (Skyldi verða eitthvað úr þessu?) Mér er óglatt af ást, byrjuð að æla. Finnst þér um fátt farin er ég þó að skæla. Ég er með ógleði, uppsölu, iðrakveisu, - en þú ert með stæla!!! Ég er með hjartaáfall, hugsýki, harðlífi, - ertu ekkert að pæla??? ] [ Svangur, kaldur hrafn eltir hrædda smáfugla. Forsetinn kveður! ] [ Þótt þú takir lífinu létt og með bros á vör endar það alltaf grafalvarlega. ] [ Nú máttu slökkva í minni dimmu sál. Farið er að rökkva, í hjarta kveiki bál. Ég kveiki mér á kyndli, fyrir þá sem erfitt hafa átt. Hafa lennt í þessu svindli, þeim hjálpar jú, víst fátt. Þau hafa þurft að þola háðsleg illskuglott. Öll heimsins höf ná ey að skola, hörmungum þeirra á brott. Hvergi hjálp við fengum, til að eiga við okkar mál. Við alein þessa dimmu leið gengum, það skemmdi okkar sál. Komin nánast að niðurlotum. Einmanna sorgmædd og illa farin. Fannst tími okkar vera á þrotum, niðurnýdd, hrækt á og barin. Svo einn dag ég skildi "Við sjálf hjálpum okkur". Ég breyta rétt vildi, við vorum eining, flokkur. Nú máttu slökkva í mínum bjarta hug. Aldrei aftur mun rökkva, á myrkrinu vann ég bug. ] [ Fyrirgefðu, má ég segja þér svolítið eitt andartak? Það tekur ekki langan tíma. Mig langar að biðja þig um að leyfa mér að vera ég. Með mínum kostum og göllum stundum lokaður stundum opinn stundum hræddur stundum hugrakkur. Bara að vera ég. ] [ Tvær kínverskar kisur mörgæsir í hrönnum múmínálfur einn með tattú á hvorum handlegg hálfur maður á gólfi. Falleg nótt. ] [ Úr hillunni í bókabúðinni tók hann bók með fallegri kápu. Hann keypti hana gaf hana og hún olli vonbrigðum. Úr annarri hillu í sömu búð tók hún bók með óspennandi kápu. Hún keypti hana gaf hana og hún olli gleði. ] [ Ljósið kviknar innan frá og fegurð breyðir úr sér í hinu ytra byrði. Í rökkri staðarins lýsir af þér þeim sem eru villtir og þeir hópast að þér. ] [ Hann kom á nákvæmlega réttu augnabliki með varirnar sínar glimmer á gallajakka og snoðaðan haus. Hann ræddi við hana ekki á samtalsstað en út úr því kom eitthvað fallegt eitthvað einlægt eitthvað ljúft. Hvorugt dansaði það kvöld. Hann bara stóð hún bara sat þau bara töluðu. Þegar ég horfði á eftir honum niður tröppurnar óskaði ég þess að ég kynni betri dönsku. ] [ Einhvern daginn munum við öll verða fertug og þá, mun ég hitta þig í einhverju samkvæmi þar sem ég verð reykjandi fyrir utan. og þú munt spyrja mig hvernig ég hafi það og ég mun svara að ég hafi það svosem fínt. og ég mun spyrja þig að því sama en ég veit ekki hverju þú munt svara og svo verð ég kallaður inn í samkvæmið aftur en mun segjast ætla að vera úti aðeins lengur. ] [ Komið draumar - dagur grætur dansið við mig himinn og jörð. Berið kveðjur blíðar nætur berið kveðjur um dali og fjörð. Blikið eldar - loginn ljómi lýsi kyndlar fram um veg. Yfir brim og bárur hljómi er þú bíður eftir mér. Vættir heimsins - allt sem andar allt hið góða sem lifir hér. Haldi öll um hendur kaldar haldi skyldi yfir þér. Allar kveðjur – allt með rætur allar sorgir og vatnaskil. Barn í okkur - brjóst sem grætur býr í öllum sem finna til. ] [ Vitur maður stígur fæti. Ég er þvalur, Þú ert blæti. ] [ Ég þarf að brjóta tímann svo hann þjóti ekki hjá svo ég geti gætt mér á brotunum einu í einu notið þess að finna hann bráðna hægt í munninum svo ég geti fundið sætt bragðið af tungu þinni lengur. Þegar tíminn er bráðnaður upp í mér drekk ég hann í mig finn hann renna niður hálsinn eins og kossa þína. Þá finn ég tímann breiðast um líkama minn eins og fullnæging mín. Svo flæðir hann inní mér, taktfast og krampakennt eins og fullnæging þín. Og einmitt þá, stöðvast hann. ] [ Ég sá tindrandi ljós og freyðandi fossa fannst himininn með eldingum blossa. Og augu mín fylltust af sumardagsins sýn og ég spurði alla þína kossa. Af hverju komu þið ekki fyrr til mín. Er dreggjar minna daga festust í biki draumarnir vísuðu þeim öllum á bug. Vínhyllan vinsæla gránaði af ryki. Ég átti vængi en tókst ekki á flug. Ég átti eina ósk að þessu lyki. Og þegar haustlúðrar himinsins gullu hélt ég utan um fiðlubogann minn. En hann var fúinn er árin ullu eins og ormétinn fjörudrumburinn. Og nýr dagur rann upp í enn eitt sinn. ] [ Myrkrið er dimmt og drungalegt dagurinn er fjarri Í myrkrinu ég fel mig oft Þar sem enginn mig finnur Á veturnar er myrkur það er drungalegur tími á sumrin er aftur á móti bjart og ekkert myrkur mig felur Myrkrið er dásamlegt Myrkrið er frábært Myrkrið er tími haustins Myrkrið kemur til mín Í myrkrinu sefur fólk en ég oftast vaki því mér líður vel Því myrkrið er mitt ] [ þú ert minn dagur þú ert minn nótt þú átt mitt hjarta sem hamast ótt þú ert lifið í æðum mér mitt littla hjarta fel ég þér því mát þú ekki gleyma mér ] [ ég sit hér við gluggan og stari á sörnu og oska mer og oska mer um að þú hafir það got á nía staðnum sem þú ert á þú vars mer svo góður vinur enda vitum við að þer líður vel nuna en ég munn alltaf sagna því að þú ert alltaf í minu hjarta afi minn sem var ekki alltaf ens og afi heldur góður vinnur ég mun sagna þinn ] [ Spurning: Hver Skrímslið? Svar: Það er stórt og óhugnalegt. Það er vont skrímsli. Spurning: Hvernig lítur skrímslið út? Svar: Það er stórt, og það hefur mjög stór augu sem sjá þig hvar sem þú ert, þú getur aldrei falið þig frá því.Það hefur engin eyru, svo það getur ekki hlustað, það er ekkert sem þú getur sagt til þess að stöðva það. Spurning: Hvað gerir Skrímslið? Svar: Það meiðir mig. Spurning: Hvernig meiðir það þig? Svar: Ég veit ekki. Hver er Skrímslið? Hver er það? Hann getur séð mig. Spurning: Hann getur ekki séð þig hér, ég lofað þér því, þú ert á öruggum stað. Svar: Hann mun finna mig. Spurning: Ég mun vernda þig, ég get lofað þér því, hann mun aldrei meiða þig aftur. Svar: Þú getur ekki verndað mig. Hann lítur ekki út eins og skrímsli í þínum augum. ] [ Út um rimla ég horfi á heiminn sem heillandi í kring um mig snýst en ég veit hann er hverfull og gleymin hann gleymt hefur mér fyrir víst Því eitt sinn ég frjáls var og fagur og honum söng mitt fegursta lag en nú er ég raddlaus og magur á Hans miskunn kominn hvern einasta dag Hann stöðugt um fjaðrirnar strýkur og tekur það sem eitt sinn ég gaf burt þá mín lífsvitund fýkur á meðan Hann líkur sér af Eitt sinn ég reyndi að flýja og fljúga veröld Hans frá nú vængi tvo vantar mig nýja mína hæglega klippti Hann á Hann vill ekki heyra mig gráta Hann vill bara horfa mig á og aðrir fuglar láta sem þeir ekki heyri né sjá ] [ Að lokum vetrar í hvers manns hjarta þó ætlunin sé aldrei sú málaðu ástina ekki svo svarta því enginn elskar alveg eins og þú. ] [ Konan stendur og starir í himinn Og döpur segir hún við föðurlandsvininn Taktu tilbaka þína góðærissælu Og stökkvum aftur í íslenska fannar kælu Þegar gas úr beljum kemur í fjós þá myndast hin íslensku norðurljós. Tungumál okkar er alltaf að tapa Til hins enskumælandi slanguryrða apa Virðist að íslenska þjóðin sé alltaf að hrapa Og alþingismenn virðast alltaf gapa. ] [ Á Þorranum er þjóðlegt streð að þamba öl og narta í pung. En sumum reynist þrautin þung að þjóra pott af spíra með. ] [ Kominn er ég í sveitina frægu sem kætir mjög marga Sé ég að snjórinn sé farinn að minnka og þiðna Framtíðin er komin og ekki hugsa ég um það liðna Tíminn er kominn að við lömbum förum að bjarga Eftir þau komu úr ferðinni löngu gera þau ekkert nema að garga Þessum fagra litla rolluanga sem ekkert gerir nema að bíta og skíta Komið er sumar sem glatt getur allt og ber börnum skylda til hliðar að líta Skyggnið er gott og sér maður langt meira að segja hólminn fagra Nú er allt gott á bakka kónganna og setur smalinn stefnu á klettana Fagnar hann sigri við hið Íslenska sauðfé sem að heyið étur Yngstu sitja heima það eina sem þau sjá er tómt mjólkur glas móður gluggi Kominn heim og kalt er í lofti því set ég á mig hettuna Slasast maður og fer heim einskis nýtur og ekkert getur Komum við saman og skálum í botn með íslensku brennivíni og bruggi ] [ Ropandi milli pöbba rölti ríghaltur og einsamall Vongóður í vasa skrölti vænni fúlgu, hundraðkall Skvísur kátar skrækj´og gaula sjaldan af þeim rennur Fáklæddar á súlum staula þær eru svoddan glennur Passlega í þær pota smá peninga ég gef þeim Rosadjammi rjúkum frá rakleiðis og beint heim Púðraðar og plastkenndar príla á fjórum fótum Liggja allir lausir endar láréttir að hjartarótum Rekkjur mínar reglulega rósum prýði fínar Því vænt mér þykir verulega um vændiskonur mínar ] [ Við fjörðinn fagran breiðan stend og stari á fimbulkaldri nóttu djúpra þanka Við gust af napri golu við mér ranka í grárri fjöru krýp og ósk´að fjari Gullinn hólminn hverfur brátt í snari rýk með látum milli hús´og banka Fólkið fastasvefninn lætur danka Fyrirheit ég ekk´að þau sig spjari Að götum greiðum teygir sjávarmálið armar hafsins börnin heldur hræðir Enginn trúði mýtum - sögusagnir bull Bendir fólkið hverjum kasta eig’á bálið Þar til köldu flæðir upp um holt og hæðir Var það þess virði – ofurlítið gull? ] [ Er það nokkuð undarlegt að elska augun bláu er birtust minni sýn ? Ég hét þér því að unna á ævivegi elsku hjartans blómadýrðin mín. Ástarstjörnur tvær af elsku ljóma og ávallt vísa veg um myrkrið þétt. Og þegar illir draumar að mér sækja þú undurblítt minn vanga strýkur létt. Ég var í sorg er sendur varstu til mín svona obbolítil písl með augun dökk. Er það nokkuð undarlegt að elska - allra heitast- kött ? ] [ Brúna búrið heldur fuglinum föstum Hann kemst ekki út sama hvað hann reynir Hvort sem hann goggar,gargar eða sparkar Að lokum gefst hann upp og sofnar. Unga konan horfir á fuglinn berjast um Hún veltir fyrir sér hvernig fuglinum líði Hún veit það mæta vel – eins og henni Ráðviltur, lítill ráðalaus- með bælda innri reiður. Hún var bara lítil stúlka þegar búrið læstis utan um hana Þegar hún átti að vera áhyggjulaus saklaust barn Var hún beytt misnotkun,kúgun og ofbeldi Sársaukabúrið læsti klónum sínum utan um hana. Hún gekk út í lífið hrædd, reið og varnarlaus Eins og fugl í búri, reyndi að gera eins og hinir En vissi ekki hvers var ætlast til af henni Hvernig normal líf ætti að vera, en reyndi þó Á göngunni kynntist hún Guði sínum Sem gaf henni lykil til að opna búrið Og ganga út, læra nýja hluti, breytast Hún fékk að kynnast sannri gleði og frelsi Í gær gekk hún aftur inn í gamla góða búrið Hún veit þar er vörn fyrir umheiminum Í því getur fólk ekki séð líðan hennar En hún getur það og það er svo vont Þar sem hún situr í sársauka búrinu sínu Sér hún að þótt hún flýgi annað folk Flýr hún ekki sjálfa sig eða Guð Skömmin og sárin eru líka þarna í búrinu Grátandi fer hún að biðja til Drottins Biður hann að hjálpa sér, taka skömmina Lækna sárin, breyta erfiðleikunum í sigur Sýna henni hvernig hún á að forðast búrið sitt Þá sér hún að búrið hefur opnast á ný Hún hefur val í dag, hvort hún er í búrinu Eða leyfir Guði að halda á sér og búrinu sínu Hún velur að láta Guð sjá um þetta allt Hann getur þetta, ekki hún, það er alveg á hreinu. EMG 09 ] [ Ég stend og horfi á litlu tættu stelpuna Hún gengur um gólf talar við sjálfa sig Reynir að taka sig til andlitinum Setja upp grímuna, láta engan sjá Reynir að fela eitruðu skömmina Mig undrar að hún skuli ekki tala Ekki finna einhver fullorðin Sem hún treystir og getur sagt frá Ég lít í kringum hana, að einhverjum Sé mér til skelfingar – það er engin Engin sem hún getur treysti Hún virkar svo fullorðin í fasi og tali En inn í sér er hún lítið saklaust barn Barn sem fékk ekki að vera barn Barn sem ber eitaraða skömm, annara Stelpa sem ber stór ör ofbeldis á sálinni. Mig langar svo að teygja mig til hennar Umvefja hana allri þeirri ást sem ég á Segja henni að sama hvað hún sagði Eða sagði ekki við þennan ógeðslega mann Þá mátti hann ekki meiða hana – aldrei !! Að lokum geng ég hægum skrefum til hennar Spyr hana hvort ég megi setjast hjá henni Hún lítur á mig tortryggnum og vökulum augum Hvíslar svo já gjörðu svo vel, svo bíður hún hrædd Auðvitað veit hún ekki á hverju hún á von Ég veit ekki hvar ég á að byrja en opna svo munninn Byrja að tala rólega og varnfærnislega Vil ekki styggja hana að hún hlaupi í burtu Eftir svolitla stund finn ég að hún slakar á Byrjar að gráta, svo umkomulaus og brotin Að lokum tek ég hana orðlaust í fangið, litlu stóru stelpuna Stelpuna sem var neydd til að vera í kynlífi fullorðins manns Ég veit að þetta er stórt skref fyrir hana að treysta mér Hljóðlega fer ég að biðja, gefa Guði þessa tættu stelpu Umhverja hana og gefa henni lækningu, sátt og frið. Við vitum báðar að næstu skref verða ekki auðveld En hún hefur fengið hjálp, fullorðna sér við hlið sem trúin henni og hjálpar henni að losna við skömmina og svo Guð sem bregst sama hversu oft hún bregst honum Bataferðalag litlu sætu stelpunar er hafið… Guði sé lof. EMG - Ágúst 2011 ] [ Vindurinn gnauðar, hlutir fjúka um allt Ég stend varla í þessu svakalega roki Féll harkalega niður á hnén Skríð varlega áfram, á fjórum fótum Leita að einhverju til að grípa fast í. Þar sem ég skríð um herbergið Finn ég örvænginuna magnast Hún læsir klónum í sál mina Ég lamast , get ekki meir Ég verð að finna sterka Lausn. Að lokum finn ég stórt tré Það er pikk fast í storminum fest niður með sterkum rótum Ekkert fær ví haggað, sama hvað.. Drottinn þú ert mitt stóra tré Þótt stormurinn gnauði í lífinu Þá haggst þú aldrei, breytist ekki Ég verð að halda fast í þig Þú ert mín lausn faðir minn Þú ert mín viska, sá sem leiðir mig Þú ert sá sem róar storminn minn Þú ert sá er gefur mér þinn frið Hjálpa mér að horfa á þig Faðir Sjá þig í gegnum myrkrið Sjá þig þrátt fyrir lífsins storm Hjálpa mér að treysta sama hvað Þú ert minn besti vinur elsku Pabbi Ég treysti bara þér, sama hvað Þegar ég lýt upp úr storminum Sé ég sólina skína á líf mitt Stormurinn hefur lægt, lognið komið Takk pabbi minn að þú ert þú Þú ert sá sem þú segist vera Sá Hin sami í dag og gær, alltaf Þú ert sá sem gefur frið og gleði Ég er svo þakklát Drottinn minn Að ég get hvílt í þér og alltaf treyst á þig. Elfa Sept 2010 ] [ Ég sit í makindum í stofunni minni Þegar konan gengur inn til mín Órólega konan, vansæla konan Sú sem lífið hefur leikið grátt Í dag er stormur í huga hennar Ég skynja það vel Áður en hún byrjar að tala Áður en hún segir mér neitt Augun hennar tala svo skýrt Togstreitu og sorgar Augu Horfa yfir borðið til mín Líka beiðni um hjálp…….. Hjálpaðu mér , gefðu mér von Mér finnst ég vera að drukkna Segir hún með örvæntinar augum Mínar leiðir virka ekki stynur hún lágt Mig langar svo að taka hana í fang mér Eins og lítið barn, umvefja hana Gefa henni ró, hlýju og von En ég get það ekki ….. Þegar ég horfi á hana fillist ég sorg Ég vildi að það væri takki á huga hennar Þar sem ég gæti ýtt á pásu Slökkt á hringiðu huga hennar Ég get ekki lagað hana Get ekki fixað ástand hennar En ég get gefið henni mína von Vonina sem Guð gaf mér Ég opna munnin og segi henni frá mér Hvernig ég fékk von, lausn og líf Hvernig ég tók til í sálartetrinu Hvernig ég fann Guð og hugarró Smá saman lifnar yfir henni Vonin kviknar í augum hennar Hún vill það sem ég á, von og líf Hvað þarf ég að gera spyr hún ? Framkvæma og trúa segi ég Svo biðjum við saman Til Hans Ljósið og lausnin hefur tekið við henni hún gengur út breytt kona, kona með von Guð ég fel þér þessa yndislegu konu Gerðu við hana það sem þú villt Takk að þú gafst henni von og líf Það eru forréttindi að lifa og gefa í þér Faðir minn Elfa 2009 ] [ Kærleiksblóm til þín Ég stend með kærleiksblóm í hendi mér Reyni að rétta þér það, sýna þér hlýju mína En þú leyfir mér það ekki, loka hjarta þínu Hunsar mig og sýnir mér litla athygli Ég veit hversu erfitt þetta allt saman er Hvað þú ert lokaðurí miklum sársauka Ég þrái bara að hún fái að komast út Að ég fái að meðtaka hana, flæða í henni Í dag er kærleiksblómið hálf fölt Ég á svo erfitt með að gefa endalaust Og fá lítið sem ekkert til baka Ekkert nema afskiptaleysi og tómlæti Ég bið Guð að gefa mér meiri þrautseigju til að gefa þér þá ást sem þú þarfnast Kraft til að halda áfram, bíða eftir þér Eftir að kassinn opnist og þú komir betur í ljós Aðeins Drottinn getur gert þetta, ekki ég Ég elska þig og ætla að komast í gegn hjá þér Fyrir þig, fyrir mig og fyrir Guð Ég elska þig óendanlega, á hvaða stað sem þú ert Hvernig sem þú hagar þér, hafnar mér Ég ætla að elska þig og virða, sama hvað !!! Í dag er ég bara svo þreytt á þessu öllu saman Þreytt á leikjunum okkar, baráttu og strögli Ég þrái bara frið í samskipti okkar, hlýju Að allt verði eins og það var í byrjun Svo einfallt og fallegt Ég legg okkur núna í hendur Drottins Þar verð ég að hvílast, í hans örmum Leifa honum að vinna verkið fyrir mig Því í hans nafni er sigur og gleði Og þangað vill hann færa okkur Við erum í hans hendi nú og ætíð. EMG 2009 ] [ There are words and there are phrases, many of each kind but none that descripe. The love of me is as durable as steel, the harsh mistress of heat declares me scorn yet upholds her promise still, The awoken sight of man‘s appeal. She drags you in like her night time meal. In these times you are a man, a beast, a drunken steed. Take hold of my cock and show me no mercy for I am the beast of sodomy and repulsion. There she lies my beauty, my cunt, the dearest of them all I love for a while. I stare in to ther soul, her mind, her eyes longing to stick my dick in her smile, but yet I still have not concieved, these images of my pressured feel. Her bossom, her breasts, her tits I wonder can make me believe in the god beyond her. Just the slight touch can make the biggest man weap, for she is the glory, this goddess of dreams. I long for such feeling, but touch be depraved. Still I manage to dream and behave. She is of a beaut - this goddess of mine, with long dark hair that I dare to restrain. Her eyes, brown, of soothing sight, one look and you‘re locked in tight. Intertwined I lie in fear, heaving of a mind so bright and clear. She does not know me nor do I her, for she is but a myth in my mind and my heart. Such a creature does not exist, except in my pleasure abyss. She belongs in house filled with god-like creations, most of them dead as Medusas ovations. With this I close this story of mine, filled with beast and minor creations, Filled with loss, anger, and appeal, Filled with depravement of mind and cock. Goodbye my dear love, thy name be untold, and now for your audience to unfold, For I am Samuel, and will see you in hell. ] [ kóróna þjónar þyrstum ef þyrni rífa í sundur viðkvæmar æðar Príði skilar sorg með öðruvísi dans sestu hjá mér, sestu niður og komdu þér fyrir minnumst hróka hjartaslagana og biðjumst fyrir þess vegna fyrr en síðar deyjum við öll Skolum þurr augun störum stjörf fram eftir logandi veginum óskum burt draug fortíðar og skálum í kristal glös prídd gull slegnum drekum, láttu þér leiðast höldumst í hendur og líðum út af ] [ renningur af degi drafar við sjóndeildarhring eins og drukkin vera austan megin við bakhúsið sé birtuna breytast gegnum rifu á leiktjöldum hússins teygi mig í penna og krota ljóð við lagræmu morguns það er þorri og ég er þræll letinnar kúri áfram ] [ Því hefuru honum þetta gert þetta hjarta okkar snertir hann elskaði hana afar heitt það vita nú flestir Hann góðu maður mun vera þó margar syndir hafði framið þetta var bara saklaust barn nú er hjarta hans kramið hann unni henni mikið á kvöldinn hann grætur þetta var hið besta skinn í hjarta okkar á hún rætur Nú grímu þarf hann upp að setja og sterkur þarf hann að vera því hitt barnið mun lifa sömu mistök mun hann ekki gera ] [ Mamma á sér leyndarmál, um að á nóttunni hún fari á stjá. Þá flýgur hún yfir bæ og borg, og hjálpar þeim sem eru í sorg. Hún hjálpar fólki og bjargar því, Ef það vandræðum lendir í. Svo flýgur hún aftur heim, og er stundum örlítið sein. Svo legst hún upp í ból, inn í draumaland, og dreymir um gersemi og gulann sand. Þetta sagði hún mér, en ei veit ég hvort það satt er. Mér er sama, þetta er mamma mín. Sem ég elska mest. ] [ Úti á snúru hanga sokkar, gulir, rauðir, grænir og bláir. Þessa sokka á fjölskyldan okkar, og ekki eru þeir fáir. Snúran er að kafna af sokkum, og er byrjuð að síga niður. Út af öllum þessum sokka lokkum, ekki er það nú góður siður. Þegar það er mikið rok úti, og sokkarnir allir fjúka burt,út um allt. Verður snúran bein og strekkt, en henni verður kalt. ] [ Bresi er bangsi minn brosið hans er flott hann er mitt angaskinn og allt við hann er gott. ] [ Úti í snjó var karl sem bjó í garðinum mínum við hliðina á þínum. Hann byggði sér hús og átti sér mús. Svo bráðnaði hann en ég músina fann svo liðið mitt vann. ] [ Töfrandi máninn, hann tælir tárvotan fuglinn til sín Hræddur, við hugsanir gælir er hamingjan andvana dvín Máninn í mjöllinni sefur mæddur, því þögnin er löng Saknar, því sólskríkjan hefur sungið sinn síðasta söng ] [ Við erum ekkert nema ló á rykfallinni eilífðinni ] [ Á feiknalegum hraða æfin brunar burt frá mér, ég blessa það að hafa fengið ögn að kynnast þér. Er geng ég yfir fjöllin flögrar um minn huga mynd, hve fögur þú varst, yndisleg, í hjarta göfuglynd. Það gleður mig að hafa dvalið götu þína við, og geta fáein augnablikin verið þér við hlið. Að loknum mörgum degi þegar einn ég aftur sný, þá upprifjast það fyrir mér hve þú varst góð og hlý. Er sigli ég út á fjörðinn, finn ég hjá mér heita þrá, að fá þig kannski einhvern tímann brosandi að sjá. Og hvernig sem að gengur lífið, gæfa eða böl, þá gleðst ég yfir því að hafa fylgt þér stuttan spöl. Og þó á lífsins götum reynist víða veðragnýr, ég vona það að saga þín sé gleði og ævintýr. SkÁ ] [ Ef þér verður kalt heltu þá olíu yfir mig og kveiktu ] [ Dauðaþögn, mig umliggur. Ein, með verki og sàr. Draumahafið yfir liggur, stjòrna ei og vakna með tàr. Andlaus ligg með brotna ýmind, af mér og hef ei màtt. Tilbùin að lifa ì synd, en vel þò aðra àtt. Jarðarbarn með brotna vængi, hef ég hjartað veikt. Gefðu mér styrkin svo ég gangi, og ekkert fài mig beygt. Finn að tàrin heit þau renna, frá hjartanu niður kynn. Innst inni mér finnst ég brenna, allstaðar fyrir finn. ] [ Mér var gefið lítið ljós að gæta um alla ævi. Ég vernda það með kjaft'og klóm, því það er jú við hæfi. Mér var gefið blómabarn, sem í bumbu minni dvelur enn. Um það dreymir anginn minn, þú komir til mín senn. Um mig sælustraumur fer, er hugsa ég um þig. Ást til þín í brjósti ber. Vilt þú elska mig? ] [ Myrkrið kennir mér að sjá í gegnu skugga; Svörtustu hornin hylja fallegustu leyndarmálin. ] [ Undan fótum mér ultu steinvölur niður brekkuna. Þær minntu mig á orðin sem lágu mér á hjarta einn dag fyrir óralöngu er ég þagði eins og steinn. Fyrst valt ein og hreif aðra með sér, síðan fleiri og hnefastórir hnullungar slógust í hópinn. Svona vatt því fram, eins og stífla hafi brostið og þær ultu af síauknu offorsi, sem óstöðvandi flaumur, sundurlaust, án samhengis. Ég stóð kyrr og fylgdist með úr brekkunni, hvernig þær runnu niður á jafnsléttuna og námu þar staðar með fyrirfram ákveðna afstöðu hver til annarrar. Þar mynduðu þær órofa heild, þrungna merkingu og ég þagði eins og steinn. ] [ Saga hvers manns, er í steininn rituð hvort hana manst, það er ekki víst. Minningar sárar en ljúfar þó líka gleymast og geymast, hver getur því ráðið. En eitt er þó víst, að í minninu leynist hólfið sem verndar, þá sem hafa þjáðst. Hver og einn hefur, sinn djöful að draga hvers hann minnist, það er hans saga tíminn hann færir og tíminn hann tekur því miður þó enginn, veit það betur hvað upplifun eins, er frábrugðin annars ljúfar og sárar, hver veit fyrir sig. Æskan og ljóminn, þau senda þér tóninn hvers á að minnast og hverju skal gleymt. Olga Jenný (Júlí 2009) ] [ Frjáls flýgur fuglinn fjalllendi í vængina þenur um himnanna ský horfir yfir farinn veg við sjálfan sig semur kemst ekki hjá því að morgundagurinn kemur. Í augum angistar spegilmynd skoðar sjálfan sig skilur veruleikann boðar náttúran móðirin aldrei mun ljúga óskhyggju bróðirinn vill mergsjúga. Fagurgalinn syngur svo fallega fyrir mig fell ekki í freistingu gimsteina glingur hrafntinnu hrægammar hafa mig fundið ég læt þá ekki finna mig felur sig og syngur. Komin er frá því Sem áður var og hét Hyldýpinu horfin er stundum þó ég grét barist hef ég fyrir því að takmarkinu teygist aldrei mun ég undir honum hrægamminum beygjast. Olga Jenný (Júní 2009) ] [ Í frumskóginum hver af öðrum líður dagurinn í dag, var eins í gær það gleður mig jafn sárt og að það svíður að breytileikinn gleymdist - vinur kær. Stormandi og sótugur af ösku hann askvaðandi þokast alltaf nær handsamaður andinn kom úr flösku brjálaður, já viti sínu fjær. Hann krafðist dirfsku, dugnaðar og drauma dásemdin, hún bíður hrein og tær leyfðu ekki eymdinni að krauma framtíðin er falleg, björt og skær. Olga Jenný (Maí 2010) ] [ Í dögginni fann ég mig djúpt grafna við Dyrhóla-ey og drottins arinn heyrðist mér kýrin þá mjúklega dafna í mennskunni vel var að máli farin. Hún sagði mér sögur um álfa og drauga söngva um huldur og álögin forn töfrarnir flugu um hæðir og hauga húkir þar púki með hala og horn. Olga Jenný (janúar 2011) ] [ Sjónvarpið og litadýrðin streyma um mig - dreyma skyldi gjarnan finna þig í draumum mínum sveimar. Risavaxin raunarsagan rokselst fyrir jólin söngurinn og smákökurnar fóru strax á fóninn. Malar þú á malbikinu myndast karlakórinn sönglögin þó syrgir hann jóla-óratórinn. Olga Jenný (jól 2011) ] [ Á heimatilbúnum kjaftasögum sveitungarnir smjatta það er mér þó algerlega, fyrirmunað að fatta. Þar óblíðum orðunum er raðað eftir henti óforskammað orðagljáfur, á hinn og þennan benti. Einn í sæng hjá annarri þó harðgift væri konan skipti engu máli, þó þar ætti heima rolan. Hagsmunagæslan fyrir héraðinu þrætti tækist kannski'að kljúfa það, með öllum herrans mætti. Sumir bíða bætur, meðan aðrir hljóta sóma hrærðu það í orðaskaki og úti þeyttan rjóma. Tækist engum orðunum að breyt'í annars hljóða sannleikanum sannari, er uppruni þessa gróða. Olga Jenný (janúar 2012) ] [ Undarleg er veröld öll ísalögð og gróin tún. Eyðimörk og fossaföll fannir upp að klettabrún. Getum eins um okkur sagt og þann vöxt er moldin á. Að ferðalag sem í er lagt er að komast þessu frá. Eiginlega er jú allt eins og elvur renna til. Út í hafið komast kalt kölluð eru vatna skil. ] [ Ég elska þá sem ofar fljúga yfir auðn og eyði skor. Því aldrei mun sá élin rjúfa er ekki hefur kjark og þor. Ég elska þá sem unna vetri og elska gömul ævintýr. Og þá sem vilja verða betri og verða það sem í þeim býr. Ég elska vökur á vorin og velti mér í morgundögg. Þar sem blika lífs er borin þá ber ég lífsins þyngstu högg. ] [ Erfitt því er að lýsa, hvað þú ert mikil skvísa. Svo mjúklegur rass. Eigum við að detta í smá djass ? ] [ Hnútur í maga. Fiðrildi að naga. Hér hefst hin ástarsaga. Um sumar langa daga. Við fáum okkur í glas. Að hausti til förum við svo í FAS. Um það ég las. Hann heitir Tómas. ] [ Ástin liggur í loftinu. Aldrei mun ég þér gleyma. Bíð ég þín í fjósinu. Engu hef ég að leyna. María er þín ástargyðja. Þú verður bara hennar að byðja. Nú bið ég þig fyrirgefningar. Og óttast hefningar. ] [ Ég dansa eftir veginum og syng. Ég spring. Þessi skrýtna tilfinning. Þessi frábæra uppfinning. Ég er glöð. Ástinni erfitt er að lýsa. Um það fjallar þessi vísa. ] [ Vinargjöf skal virða, og vel hirða. Lífsins gjöf. Með okkur niðrí gröf. Um þig hann syngur. Þessi lærlingur. ] [ Þokast nokkuð á þriðja ár þessarar stjórnar ævi. Allmargir töldu að hún strax endurreisnina hæfi. Sigmundur jafnt og Bjarni Ben býsnast samt yfir þessu: Ykkur gengur hreint ekki neitt allt er í sömu klessu. Enn við heyjum við hrunsins arf harðar og langar glímur fjölmargt samt þokast fram á við fullyrðir Skallagrímur. Áfram því hagur okkar mun eflast af hraðri skundan. Fauskar gamlir og geðillir grenja því jafnan undan. ] [ Skógarþröstur fagurfleygur fer um Selfossbæ leitar fræja otureygur Órafjarri er haustsins geigur blíðum sumars blæ. Laufguð tré og blómabreiður brosa í sumarkyrrð. Yfir vakir himinn heiður. Haustsins fölva rökkurseiður býr í blárri firrð. ] [ Húmblæjur leggja haustsins sterku armar hægt yfir landið. Blómið fagurrauða leggur sig þreytt og fölt að flosi jarðar finnur sér beð í mildum stundardauða. Móðirin sefur sængum moldar í sumarið læðist inn í draumsins heima. Brosandi mun það brátt um loftið sveima. Barnið mitt fær þá rauðan koll á ný. ] [ Ég sit á stól við gluggann og sé hve gatan iðar því sífellt streyma bílarnir upp og niður hana en lengst úti við hafsbrúnina sígur sól til viðar og sama hringinn rólar hún af nokkuð gömlum vana. Á borðinu til hægri er býsna öflug tölva og bráðum þríf ég músina og leit á vefnum byrja því hann er líkrar náttúru og gömul, vitur völva og veitir svör við öllu sem þarf ég um að spyrja. Svo man ég allt í einu það sem eldra fólkið sagði frá undarlegri tilveru á sínum bernskudögum. Á sumt af því ég eiginlega engan trúnað lagði það er svo margt sem varla stenst í þessum gömlu sögum. Þá voru engir bílar, en allt var flutt á hestum og ekki þekktist rafmagn og fáir höfðu síma. Ef lífið væri þannig núna eflaust fyndist flestum að fátt til bjargar væri á svo hræðilegum tíma. Á flestum bæjum var þó oftast eitthvað til að sjóða og ótal margt var skapað af vinnufúsum höndum. Þá vissi enginn ennþá neitt um internetið góða en eigi að síður fréttist margt sem gerðist úti í löndum. Svo einhvern veginn tókst þetta allt hér forðum daga en erfitt stundum reynist mér að skilja sumt af þessu. Þótt enginn væri bíllinn var alveg segin saga að sunnudaga alla fór liðið allt til messu. En sólin gengur ennþá hinn sama hring og forðum og sama land við byggjum og þá er nokkurs virði að þó að siðir gleymist og gangi flest úr skorðum sé gætt að því að þjóðin um rætur sína hirði. ] [ Snjóhvít mjöll yfir landinu liggur lítill sólhvarfaálfur við dyr sérhvers húss lætur hóglátri röddu hljóma kveðju er síðar og fyr hefur mönnunum margsinnis boðað hversu margt gæti unnist með því ef þeir hávaðann hættu að dýrka svo að hugsað þeir gætu á ný. Þá mun boðskapur Betlehemsvalla kannski berast af alvöru fram svo að valdamenn veikir af græðgi með sinn volduga, kremjandi arm víki smám saman hægan til hliðar fyrir hugsun af annarri gerð þar sem auðvaldið engu fær ráðið þar sem allir fá réttlátan verð. ] [ Svona er nú þetta og það er ekki gaman að þurfa helst að yrkja, en vita ekki um hvað og finna hvernig hugsanirnar hristast stjórnlaust saman og hvergi geta stöðvast – en ekki meir um það. Ég reyni að stöðva greyin, en þó ég þrotlaust striti og þykist ráða við þær ég finn þeim engan stað, En einhverntíma seinna ég yrki kannski af viti. Ég ætla að byrja núna – Og ekki meir um það. ] [ Meðan vötn til víka líða og vindur strýkur kinn. Ég sé þig bjarta bíða við bláan himininn. Meðan hafið heilsar ströndum og haust að sumri ber. Svífur minning seglum þöndum og siglir í átt að mér. Meðan fegurð ríkjum ræður og rauður eldur er. Þá kvikna gamlar glæður og glitra innst í mér. Meðan birta ríkjum ræður og röðull blessar völl. Og strengur bindur bræður bíð ég á bak við fjöll. Meðan grátur sefar sárin og sól við himinn ber. Þá leiftra í mér árin og andi þinn í mér. ] [ Búrfell kynnir betra verð bráðum því ég sinna verð. Minn ég snæði mældan verð. Matarlyst er nokkurs verð. Frek og leið er fjárnámsgjörð fautaleg og illa gjörð. Börnum skemmtir skoppugjörð skrautleg oft er mittisgjörð. Stundum tek ég tommuborð og tálga úr þeim fallegt borð og ef ég drekk á annað borð ærið sést á glasi borð. ] [ í fjöruborði eru mörk jarðar það er ekki hægt að lýsa þeim í orði sjórinn svo fagur hann tælir að menn miskunnarlaus hann brýtur og bramlar allt sem verður í vegi hans en aldan svo blíð og björt og taumlaus brýst burt frá sjónum upp á þurran sand áður en sjórinn dregur hana á brott teygist hún áfram og smakkar þurrt land Barnið það starir eins langt og augað eygir á þessa sjón að baki þess er kallað ''vertu ekki lengi'' grá og gömul hjón fæturnir hlaupa og tipla á tám hafið er kaldara en vötn og ár í sandinn fingur grípa barnið skríkir sælt sólinn skín skærar það getur nú sig kælt himnahlið opnast vindsins hlátur hvín hjón orga og veina aldan hafði enn á ný teygt sig og lítið barn gufaði upp ] [ Út í skafla og inn í skóg úrþvældur sem sokkur fram af bjargi og út í sjó í gili inn í dalnum Fer ég nú upp skýjaþrep upp, upp ,upp í bláinn fram og aftur niður af hól flögra frjáls um tinda eilífðin bíður eftir mér sama hvert ég fer Flý á brott með hundrað skott og fingur á þeim öllum, þau ekki sleppa né mér ljá að fljúga burt í friði ] [ ég hef alltaf verið ég.. áfram ég... alveg sama hvað aðrir segja.. ég er geggjuð.. rugluð og allt það.. hihi.. smá gú..gú.. en.. það er ok.. prófaðu.. áfram nú.. er ekki málið að.. vera bara þú.. þú ert þú.. enginn getur breytt.. þótt sumir reyna og reyna.. verður þú alltaf þú.. það er 100%.. segðu það hátt.. svo allir heyri.. ég er frábær.. eins og ég er.. hvað.. gerir fólk þá.. þá verður.. fólk almennt brugðið.. að það.. bregður mér og þér.. fólk ætti.. að hugsa betur um aðra.. jafnvel syngja hátt.. og dansa.. með gleði í hjarta.. og brosi.. svo.. öllum líði vel.. vel líður okkur.. í þessum heimi.. þar sem allir eru sem eitt.. kærleikurinn.. blómstrar allt í kring.. ánægð með.. að vera við.. hugsum jákvætt.. öll sem eitt.. iss.. og ekkert hik.. ] [ Kyrrlát nóttin sækir hljótt að mér en húsin á eyrinni vaka. Einn í fjörunni í huga ber byggð sem aldrei kemur til baka. Og þeir sem fóru birtast hér ég geng um göturnar að hausti. Þó er ég einn með sjálfum mér í sólinni hjá gömlu nausti. En komandi dagar sækja að þeir kalla en vil ekki svara. Því hlið mitt opnast á öðrum stað og það er svo erfitt að fara. Vindurinn hvíslar hvað viltu mér; ber kveðju til þeirra er dreyma. Þú er andlit eitt sem enginn sér því kveddu og reyndu að gleyma. ] [ Einn morguninn vaknaði ég ógeðslega þunnur að það var eins og mér hafði verið troðið ofan í tunnu. Hver var þessi skínka sem leit út alveg eins út og Svínka sem ég vaknaði hjá.Þetta var eins og að lenda í draumi sem breyttist í martröð sem engan endi ætlaði að taka. Ég kemst ekki yfir háann múrin til að sleppa, því nú er ég merktur fangi hlekkjaður við þungan stein sem liggur í rúminu mínu. ] [ Ég vaknaði og horfði á þig hvíla í faðmi mínum. Þú skreiðst til mín í skjóli nætur, ómeðvitað, dreymandi. Á svona augnablikum hverfur efinn. Á svona augnablikum veit ég muninn á réttu og röngu. ] [ Minning þín gengur inn ákveðnum skrefum og býður mér í glas ég drekki henni í glasinu og þakka pent fyrir ] [ Lítum nú ljósið Kemur þú Vertu nú hér Farðu ei frá mér Þyngslin þau fara Mín sál hún er frjáls Ég og þú, þú og ég Saman við sigrum Allt sem að kemur Ó fallega vor ég fagna þér Vildi þú gætir verið að eilífu hér ] [ Mikið var melódrama Málsmeðferð öll til ama Hvort færi hann í friði Eða fram hann sig byði Á endanum öllum var sama. Þeim valdsmanni líkja má varla við viðlíka endemis karla Ei sýnist mér sæma Svona að dæma Þó ekki sé gaur laus við galla. Ef enginn í framboðið fer Forsetinn sjálfkjörinn er Sem sextán ár áleit Í sætinu fráleit Að frátöldum sjálfum sér. ] [ Meðan borgin sefur vaka englar og angist Meðan regnir kælir malbik morkna dauðir og lifendur Meðan blærinn svalar sárum öskra andar og syrgjendur ] [ Ég ýti hjarta mínu upp fjallið Til þess eins að það velti niður - aftur ] [ Ég er misheppnað ljóð wanna-be skáldsins Ég er viðbrennd kaka meistarakokksins Ég er rispaða plata útvarpsmannsins - sem drap konuna sína ] [ Þeysist niður á þjálum hesti. Þjáumst samt af brennivínspesti. Hvergi sést til sólar. Samt lyggur leiðin að óðal. Eftir öræva dansa við leitum að kvenna fansa. Stöndum vér þar sem rónar, við erum svosem dónar. Á heimleið við höldum. Á hólum vér stöndum. Með neftóbak í nösum og nýbakað brauð í vösum. Í heimadalinn við horfum, heimasætur þá dúka að borðum. Svangir við setjumst að borðum. sestir við gleypum niður orðum. ] [ Þegar ást um andann fer öðlast sálin gleði. Augun horfa á eftir þér enn á dánarbeði. ] [ Ó ég þrái, en þráin er tilgangslausari, en brauð, í sveltandi heimi. ] [ ég er upplýst vera einn af milljörðum manna á jörðu sem er örsmá ögn í alheimi og engan veginn miðja hans samt sit ég hér í kuðung stari á naflann minn og undrast að ekki skuli allt snúast um mig ] [ Vangar mínir sem illa verkuð þunnildi, varir mínar eins og plötufrystar fiskblokkir, hendurnar eitt hörmulegt vandamál, hjarta mitt,líftími loks liðinn. ] [ Ferhyrndar vöfflur og síróp með ljóni heitt súkkulaði prýddum með ensku rósinni hennar ömmu. Afi úti á palli það vantar meira lakk úr skúrnum hann talar við fuglana og þeir segja honum að fela flöskurnar í bílskúrnum. Tveir afar einn sem heilsar með báðum höndum og hinn sem er bara ljósmynd sem ekki má tala um annars verður pabbi reiður. Mamma segir að álfarnir búi í þúfum og þegar hún veikist grætur hún yfir hvítum matardiskum enska rósin er langt í burtu í Kópavogi. ] [ Mökkur í stofu, afi í hægindastól, ræðir við tómið. ] [ Siglir úfinn sæ, traustar hendur á stýri, vitjar netanna, ] [ Álfar á skeri, þaraskógur í iðukasti, þytur í brimi. ] [ Stendur við striga, hugmyndir streyma, þornaður pensill. ] [ Ég teygji mig til skýja, til framandi nætur, við lifum einungis núna, þetta er okkar ferð, kæri sessunautur, ég hef beðið þín. Ég sem hugði öllu gleymt, mánaljós vísaðu mér hærra, grösin grænka, sumur koma aldrei of seint, öll stál þurfa að liðna. Hitinn ylur upp minn kalda líkama. Ég bráðna í návist þinni. ] [ Vatnsbólið er mold. Skaut zebrahest í morgun. Ó, hver röndóttur! ] [ Það flugu svartir svanir að silfurtærri lind. Og vængjasláttur þeirra vakti mannsins synd. Er kirkjugestir kveldsins krupu við helga mynd. En flugið vakti fagnað um fold og öldu sjó. Og vindur barst af fjöllum með von um styrk og ró. Meðan andi ykkar hinna var hulinn ís og snjó. En sumir gátu skilið svana flug og mál. Dáðust af vængsins kröftum en kveiktu í þeim bál. Aðrir riðu röftum og ræddu engin mál. Fjaðrirnar sem fljúga þær finna afl og mátt. Og þorið eflir styrkinn yfir þrútið hafið blátt. Þar sem fár stjörnur lýsa þær stefna í rétta átt. ] [ Heimsins herðar höfuð bera Kaldur straumur hala kelur Mundar máttur manni ofar funa flytur foldar hjarna ] [ Við finnum hvort annað í hamingjuleit þó ekkert sé í raun ómaksins virði. Með fýlusvip, frekju og vanþakklæti gleðina smásaman myrði. Og voninni er haldið í tíð og tíma með trú á það sem er vænna. En ég efast um þær kenningar að grasið hinumegin sé eitthvað grænna. ] [ Enginn af kemst einn og sér, fátækt er sama og einsemd. Finndu þegar þau gleyma þér þú upprætir lífssektarkennd. Vansæll þú verður þegar þú bíður þá enginn rennur í hlaðið. Árin hverfa, og tíminn líður. Ertu vinalaus þegar uppi er staðið? ] [ Sofðu nú væna hér örugg þú ert í verndargleri þinnar móður. Þar fyrir utan er hjartað bert þar lifir maðurinn óður. En út ég hélt út fyrir mörkin varnarlaus, hættan við glóir. Út fyrir vernd út fyrir allt. Ég þarfnast þín, mín kæra móðir. Brothætt er sál með margslungið hjarta sem slær og þagnar í senn. Með lífsmark og ljóð og ljósið bjarta, svo fagurt, en skín það enn? Hjarta þitt verðu ef á þig bítur ástinnar bölóða skepna en sjáðu, mamma, ástin er hrein! Ég var bara ekki sú heppna. ] [ höldum áfram gangandi jafnvel brosandi þó splundrað sé hjartað og falin séu tárin snýst veröldin víst áfram á samt svo óskiljanlegan hátt hætt’essu væli stelpa og þrífðu upp sálarskítinn! ] [ Ljósið sem flýgur út í myrku nóttina skoppar yfir strætið yfir bekki garðarins. Framhjá reyniviðnum hann horfir hugfanginn á. Blátt ljósið. Bleikt í spegilmynd hafsins það ýlfrar þegar það kastast í loft upp á öldum hafsins. Ljós í djúpi hafsins. Ég er tóm að innan. Þetta var ljósið mitt. Það fauk út um gluggann í riflildum okkar. Það var ljós hjarta míns. Sálar minnar. Viltu skila því? ] [ Með tár í auga og brosið fangelsað einhversstaðar í fortíðinni skiljumst við að. En kveðjustundir eru enganvegin endalokin. Þó þau afmarki lok hlátraskallanna okkar þá eru þetta einfaldlega kaflaskipti. Upphaf nýrri tíma. Kannski betri tíma. En sama hvað. Njóttu hverrar stundar vel. Áður en of langt um líður hittumst við á ný. Og búum til nýjar minningar saman. ] [ Yfir höfuðborgina með ljósunum Yfir bláu fjöllin Frammhjá húsinu með græna þakinu Yfir hverina miklu Niður Kambanna bröttu Framhjá gerðinni löngu Og fallegu blómunum, er stúlkan sem ég elska. ] [ Þótt ég sé ekki lengur hér mundu þó bara eftir mér. Stundum ég gleymi hvernig það var að vera með þér og taka hin fyrstu ástarskref þá lifnar ljósið í huga mér með svarthvítum myndum af mér og þér. ] [ Kyrrðin og róin, við bílanið og spegilsléttan fjörð. Þar sem fjöllin gleypa hafið og allt sem að í því er. Þar sem skipting og deiling, tálsýnir drauma og riðguð akkeri skipta um hlutverk eftir hvimleitum hugmyndum ýsugrárra augna. Klappir falla og hníga þar sem sjórinn með elju og festu nartar í fjöllin og endurheimtir þó ekki sé nema agnar ögn af djúpum og öflugum mætti sínum sem leggst þó í dvala langtímum saman með hjálp tálsýna og fagur yrtra skýja. Hamrarnir hefja mótárás með lítið fögru grjóthruni, sem veikir meira en styrkir, meðan aldan dynur jafnt og þétt með stöðugum krafti, sem í lítt duldum æsingi sínum brýtur fagrar hlíðar með grænum engjum og jurtum framtíðar, vona og jafnvægis. ] [ Sinnt hef ég sjúkum signt yfir látnum. Mæddum mörgum mildum og körgum. Hátt yfir hafinn held í guðs myndir. Vonum hans vafinn vík frá mér syndir. Straumurinn sogar og sjónin gleymir. En loginn logar og líf fram streymir. Séð hef ég sunnu og sanda hvíta. Ástir er unnu er ei fengu hlíta. Á sigra saumað skínandi klæði. Í lífið laumað lit minnar ævi. ] [ Allt svo hljótt, svo hljótt yfir hvílir skuggi húmið vefur örmum sínum -um láð og lög. ] [ ein vera með öllu eins og pulsa frá bæjarins bestu björt mey og hrein þér unni ein - eða varstu bara úti að skíta? einmana í solli miðborgar um Reykjavíkurnætur pylsa uppétin og aftur uppkastað endurétin af mávum við Reykjavíkurhöfn komstu til að kveðast á? við kalda karla kyssa fagra konu eða kúldrast uppi á kvistherbergi og æla ] [ Ég strýk gráa eldfjallaöskuna af lokinu á gasgrillinu, kveiki upp og þegar það er orðið vel heitt legg ég varlega nokkrar lærisneiðar af nýslátruðu á grillið. Þetta lamb lifði af hörmungar eldgossins í sumar. ] [ Deildarstjórinn leit hugsandi yfir lesgleraugun á starfsstúlkuna: "Það þarf að láta prenta eyðublöð til að panta eyðublaðabeiðnir svo við getum pantað fleiri eyðublöð." ] [ Randaflugan hóstar, margfætlan hóstar, fiðrildalifran hóstar og hóstar og hóstar Það er aftur komið vor ] [ Drunur af brimi, fúnar fjalir undir sól, ilmur af þara. ] [ Margæsin er farfugl Á leið sinni til Grænlands á vorin gerir hún stutt stopp á Íslandi án þess að koma við í Fríhöfninni ] [ Hann hafði glatað mannorðinu en fann það aftur hjá konu sem ávarpaði hann á latínu eftir vel útfærðan ástarleik ] [ Ef ég skrifa eitt orð í viðbót ætti þetta að verða fe rhyrningur. Typpi ] [ Sautján manns vinna nú við að sjá um hann afa á elliheimilinu Þegar Bítlanir voru á hljómleikaferðalagi sá einn náungi um hljóðfærin og annar um Bítlana sjálfa og fötin þeirra ] [ Sólin skein inn um gluggann. Það var komið vor! Ég opnaði svaladyrnar upp á gátt. Þegar kulaði lét ég aftur hurðina. Þá sá ég kramda randaflugu á veggnum. ] [ fyrsti maí fyrsti maísstö fyrsti maísstöng fyrsti maísstöngull Gumma litla frá KFC ] [ Ég hef látist og læðst eins og lygasaga. Sumt má lengi laga. En að mér hafa hæðst hópar gamalla daga. Þótt ástir hafi átt og allt sem þar er inni. Þá er mér enn í sinni að eldar geta eytt æskuþránni minni. Þótt guðir synji sátt ég sigli eins og gengur. Ekki er ég ungur lengur. En hylli guða hefur átt sá sem er góður drengur. ] [ Myglur undir dúk, brestur í gömlum fjölum, glamrar brotið gler. ] [ Svartur sandur var hér og verður áfram, áfram svartur, breiður svo djúpur, djúpur en sandkornið það er farið, farið ] [ Að rétta af þjóðlífið sækist mjög seint af syndum hér fátt er talið. Harðvítugt glæpalið ljóslega og leynt hefur logið og stolið og falið. Almúginn segir, ei þingmönnum þakkið þeir hafa ekki unnið mér eða þér því þar hefur stöðugt allt helvítið pakkið verið að hlaða undir rassana á sér. Aumingjar hafa á ýmsum stöðum setu og ei gott að vita hver reynist skást. Þegar menn hafa ekki þroska eða getu þýðir víst lítið um það að fást. Ei leyfist öryrkja að seðja sinn svang af sóðum er jafnóðum rúinn og heimskan verður að hafa sinn gang hún er af mönnum til búin. Marga vantar mat að borða mega þola skort og pín. Lengi man til ,,Íhalds” orða: ,,Þeir ættu bara að skammast sín”! Það er ei gaman í þurrum hópi þjást og finna til ætti ég bara ögn af dópi algleymis nyti um stundarbil. ] [ Mitt í sandsins auðn Þar heitir geilsar brenna eyðimerkurrós Fögur stendur ein Harðgerð, sterkur stilkur, blóðrauð krónublöð En rósin hengir haus Í hljóði bíður myrkurs Eyðimerkurnótt Því innst í hennar sál er rigning týndra tára sem aldrei styttir upp En sólin þurrkar tár og keik hún fögur stendur mitt í sandsins auðn ] [ Vindarnir dansa við vanga þér Vorið þeir draga á eftir sér Ástir þeir vekja sem enginn sér Eilífa þrá í hjarta mér ] [ Snjókorn fellur hljótt í skjóli nætur Skuggar mánans flökta ótt og títt Vindar strjúka vanga undurblítt Veröld huggar sólskríkju sem grætur Geisli sólar, gleði festir rætur Í gráum himni kviknar ljósið þýtt Smáfugl finnur sönginn upp á nýtt og smærri perlum lífsins gefur gætur ] [ Hrossagaukurinn hneggjar og steypir sér yfir samlita frúna sem vinnur baki brotnu að hreiðurgerð í grösugum hlíðum Heklu. "Hér ræð ég ríkjum" syngja vorsperrtar stélfjaðrirnar í hverri dýfu. Óvenju mikill órói greinist undir eldfjallinu á jarðskjálftamælum Veðurstofunnar. ] [ Vindbarin laufin, slitin laus af limunum, leita upphafsins ] [ Drífan að ofan vefur foldu hvíta voð á vetrarkvöldi ] [ Álögum bundnar, hrímfjötraðar hríslurnar bíða maíkomu ] [ Þær fornminjar, sem rekja má langt aftur fyrir landnám þarf af varðveita til eilífðar, löngu eftir að byggð hefur lagst af í landinu. ] [ Ekki get ég varist því að í hvert sinn sem ég geri mér ferð í Kolaportið til þess að kaupa harðfisk og lyktin leggur á móti mér svo yndislega stæk að mér detti ekki gamall elskhugi minn í hug. Hann var sá síðasti í röðinni af langtíma bólfélögum mínum og þó nokkur ár liðin frá hans tímaskeiði í lífi mínu. En harðfisksins vegna er ekki svo auðvelt að afmá minninguna um eldheita ástarfundi í vistarverum þessa fyrrverandi kærasta míns en hann bjó á umræddum tíma í einu herbergi með aðgangi að baði, í kjallaranum hjá ömmu sinni í hrörlegu húsi í miðborg Reykjavíkur Það var smá aldursmunur á okkur, honum í vil, en ekki fann ég fyrir því, nema þá í rúminu, en þar undum við öllum stundum í þessum niðurgrafna, funheita kjallara. Kjallarinn þessi var því sannkallað ástarhreiður þar sem við pældum ekki í neinum óþarfa eins og að ganga þokkalega um eða vaska upp eftir okkur, enda óhægt um vik, því sökum plássleysis neyddist elskhugi minn til þess að nýta herbergi sitt einnig sem geymslu og forðabúr. Það var helst skortur á birtu sem hrjáði okkur því hlífina vantaði á einu ljósaperuna í herberginu og þar sem glóandi peran skar í augun, kveiktum við aldrei ljósið. Það var því stundum hin mesta kúnst að skakskjóta sér upp í rúm, sér til yndisauka, því allt um kring, var staflað hinum ýmsu nauðsynjavörum sem menn þurfa helst á að halda sér til lífsviðurværis. Má þar til dæmis nefna fiskibollur sem við borðuðum kaldar beint upp úr dósinni, kartöflustrimla í dósum og svona ýmislegt annað matarkyns sem ekki þurfti eldunnar við. Það var aðeins í hádeginu á sunnudögum sem svo mikið var við haft að prímusinn var dreginn fram undan rúminu og elduð ilmandi kjötsúpa sem okkur þótti hin mesti hátíðamatur. Staflar af hreinlætisvörum stóðu svo hér og þar um herbergið og entust þær birgðir öll þau ár sem við héngum saman, að undanskildum skeinipappírnum sem var endurnýjaður reglulega eins og lög gera ráð fyrir. Það eina sem ég setti fyrir mig í þessum húsakynnum voru silfurskotturnar á baðgólfinu. Samt lærðist mér fljótlega að óþarfi væri að óttast þær því þær hurfu undantekningarlaust eins og unglingar sem eiga að fara út með ruslið um leið og ljósið var kveikt. En hvar kemur þá harðfiskurinn inn í myndina? Jú, ástmögur minn elskaði harðfisk næstum því jafn heitt og sjálfa mig og þess vegna þótti mér hann einnig góður. Best þótti okkur að spæna hann í okkur í bælinu, þegar við lágum þar örmagna eftir unað og erfiði ástarleikjanna og nenntum ómögulega á lappir. Roðinu fleygðum við svo undir rúm, þar sem það harðnaði og gegnumþurrkaðist í hitanum frá rúmstæðinu þar til með tíð og tíma lagði frá því hina indælustu angan um allt herbergið. Langt er síðan sá ég hann..... En heyrt hef ég að þessi fyrrverandi ástarpungur minn, sem var sannkallaður listamaður á fleiri sviðum en í bólfiminn einni saman, búi ekki lengur í kjallaraholunni, - - hann hafi grætt offjár á einkaleyfi á forláta ljósahlífum úr fiskroði. ] [ Frostið bítur, napurt næðir, nýstir, spörfugl grætur Brostið, kulnað hjartað hræðir hríðin, dimmar nætur Nætur dimmar, hríðin hræðir, hjartað kulnað, brostið Grætur spörfugl, nýstir, næðir, napurt bítur frostið ] [ Það grípur mig gleði gangi ég æsku sporin. Þeir segja mér sumir þau sáist best á vorin. Það grípur mig máttur myrkurs á dimmum stigum. Meinsemdin í mönnum er mest í þeirra lygum. Það grípur mig gleði er gamlir dagar rísa. Er bláu djúpin blika og bjartar nætur lýsa. Það grípur mig grátur ég gæti hafa losað. Hnútana föstu forðum faðmað meir og brosað. ] [ Með tár í auga, einn á móti heiminum Kalla þig aula, litli minn, gleymdissu Klæðaburðurinn slæmur, lokaðu augunum opnaðu þau, þú ert dottinn úr draumunum Framtíðin er núna, vaknaðu Þeir koma með diss, Svaraðu Enginn er einn í þessum heimi, skiluru Finniru annan hóp, þá vinnuru Ekki breytast, vertu þú sjálfur Ekki brosa, bítt'eins'og snákur Líður þér illa, gráttu Því þetta lagast allt, bráðum Ég er þinn verndar engill Svo brátt verður kvölin engin Leitaðu lengra en augað sér Þá finniru leið sem að betur fer Enginn á skilið þessa sálakvöl Því í þetta skipti var ein báran stök Lagður í einelti í mörg ár fanst aðra leið en að fella tár Að velja auðveldu leiðina er oft sú versta En enginn vill á sálina skella nú mínus einn í þessum heimi og ég passa að engin þér gleymi ] [ Það virðast margir venja sig á að vakna fyrir allar aldir. Aðrir dá er dimmar nætur sá drauma sem öðrum eru faldir. Feður krupu á kné með bænir á vör í kaldanum við gamla naustið. Ég sá í dögun skipalestaför er sigldi á brott um haustið. En skipin báru öll nafnlaus nöfn sigldu nætur og daga alla. Seint um síðar koma þau í höfn en seglin aldrei látin falla. Um leiðir stjörnur vísuðu um veg vetur og sumar kvelds og morgna En árin líða en toga samt treg í tár sem aldrei munu þorna. ] [ Manni ólíðandi má, að gera Megi fara að flá, og sjéra Konu eða mann að gá og mera Ég bara vildi taka gjöf og gera ] [ - Hamingjusamar fjölskyldur eru allar eins óhamingjusamar fjölskyldur hver á sinn hátt af hverjum einstaklingnum oft segir fátt. - Það gera allir mistök eins þeir sem við elskum ástin er tolluð í hverri þraut það þarf líka vilja og styrk þegar allt gengur betur til að halda ballansinum á réttri braut. ] [ Æði margir vilja öllum ráðum beita að öðlast vin fyrir rekkjunaut en finna hamingjuna er hætta að leita og herða krafta á gleðibraut. ] [ spurul augun mæta mínum og sameinast í villtan dans svo markvissan og skýran. eitt andartak í huliðsheimi fjarri sjónum. ] [ Hér sit ég vakandi maður þó ég hafi haft langan draum Ljósin birtist yfir fjöllunum blá nú kemur dagur mig kallar hann á Þú sem þekkir veginn aldrei hefur verið feiminn áfram heldur friður hjartans í gegnum nóttina Við sitjum kyrr, þögul, föst í rifum hlið, byggjum traust syngjum hátt og skýrt Getur það verið að við eigum það skilið? ég segi nei, nei, nei syngjum hátt og skýrt verðum kát og frí ] [ Bárurnar tóku Knarranes Enginn vissi hvað hafði skeð Stór slys á hafi og sorg í landi Ég þekkti þig ekki afi og ekki þig Árni frændi ] [ þegar þú á mig lítur sérðu að veruleikinn bítur ég er fastur á milli hans tanna kjöt lífsins er manna ] [ Einn ég sit í auðn og tómi órafjarri þér. Að komast burt frá heimsins hjómi helsta þráin er. Ég bið þess heitt að aftur ómi ástin í hjarta mér. ] [ Köld var okkar kveðjustund Kalt er myrkrið svarta Þú skildir eftir sviðna grund Og sár í mínu hjarta Svo kvalinn, bæði ljóst og leynt Og um þig lygavefur Þú iðrast, það er alltof seint Þér enginn fyrirgefur Þig mæðir þetta mikla tjón En manst er tíminn líður Að augnabliksins yfirsjón Hún ævilangt þig svíður ] [ Kramið og kalt ku hjarta eitt þú ert mér allt og ekki neitt ] [ Af gömlum og grátlegum vana Gleymdist að leiðrétta hana Laufeyju hans Bjarna Hún laug því sú‘arna að ég lægi undir manni frá Gana ] [ Vadd´ekki í villu og svíma í válogum liðinna tíma, en horfðu upp í himinblámann og hugsaðu fram á við. Trúðu á mátt þinn og megin það mun þína giftu skapa, því Guð býr í brjósti þínu og býðst til að leiða þig. ] [ Svefninn nálgast, sængin bíður, sæluhrollur, ekkert stress. En það verður engu að síður aftur gott að vakna hress. ] [ ekki inní korið aldrei inní korið við viljum ekki slorið inní korið ] [ Bakvið borðið,stendur jón. Útsmogin er hann eins og ljón. ganga allir inn og henda í hann grjón. hann er bara gamalt skars flón. ] [ Ástin er eins og brún pannakaka ] [ Sólin er spæld bak við ský og spaðinn í loftinu liggur. Hjarta mitt þungt er sem blý því horfinn er gamli Tryggur. ] [ Sefið hina snauðu segið þeim frá mér. Að ég birtist aftur er skugga við krossinn ber. Sefið hina hræddu þeir hlusti eftir mér. Ljós mitt lýsir öllum er villu stíga fer. Biðjið fyrir börnum er bíða myrkurs ein. Faðmur minn er opinn sem eiga sár og mein. ] [ Það var þá, ég þekkti þig; þú varst með sumarblóm í hárinu, geislaði frá augum þínum, og gafst frá þér vináttu og blíðu. Það var þá, ég þekkti þig; þegar allt virtist glatað, þú komst með von og nýja trú á lífið. Það var þá, ég þekkti þig; þegar sólin þurfti að víkja fyrir ásjónu þinni á sólríkum sumardegi. Það var þá, ég þekkti þig; þú snertir mitt innra, snertir ofurlétt skrápinn, svo hann hvarf. Það var þá, ég þekkti þig, og aðeins þig; takk fyrir allt. ] [ Á meðan ég stóð frammi fyrir ... myrkri færðist ljós inn frá vinstri. ] [ Í öllum býr eitthvað gott. Sumir sjá það, aðrir ekki... Og það eru þeir sem dæma. Sá dómur er dauður, er alinn er af vanþekkingu; blekkingu hversdagslegra hvata; "að hata"... En sjá; það kennir sitt eigið! Hlustið, ef þið megið. Allt er sem ekkert meðan ekkert er allt. Sannlega segi þúsundfallt: "Ást er hinn eilífi ómur" ] [ Skrítin mér þykir sú skakka pæling, að skotvopnin leysi ' allan vanda. Biluð og steikt mér þykir sú stæling, að stríð verði unnið með þeim fjanda. ] [ Hvorki virði ég kóng né prest, hvorn um sig ég hata. Binda þá mér þætti best í þyrnibeð, án fata. ] [ Ég sjálfur upp stóð í svarta nóttina óð og uppskar lífsins ljóð... Þar sá ég fyrsta sinn sigur vors og blóma. En allt þó í laumi, í viltum draumi... Og svo fæddist ég aptur, til þess eins að deyja. Lífið dró fram fegurð í fyrsta sinn. ] [ Virða skal varúð váa, og gegna. Urða skal úlfúð ástar vegna. Hatri skal hætta; hamingju leita. Samfélag sætta til sjávar og sveita. ] [ Batterí eða batterí; hleðsla eða murkun.. allt sem eitt, í einu alls. ekkert nema lygafals, skrökv. Þannig fór, drígðum hór, og á endanum uppskárum víti. ] [ Ég gekk eftir veröndinni Og sá þá svan Svanurinn var stór og sætur Minnti smávegis á smákrakka Sem er hrikalega feitur albinói Með alltoflangan háls. Ætli hann sé ætur Væri það illa séð ef ég grillaði hann Myndi stinga spjóti í hann þveran Og síðan ét‘ann Grillaðan á teini, glóðsteiktan góðan Girnilega gullinbráð Gómsætt gúrme gull Nei, ég má það ekki Svaninn er víst friðaður Ég má ekki ét‘ann En mig langar það samt Djö… Er hann pottþétt fínn Með piparmyntusósu Kókídós, salati Og vískiflösku Æjj, fökkit ég ætla bara að éta hann Ég ræð. Hverju er ekki sama þótt ég skjóti eina ofvaxna rjúpu Hjarta mitt slær af girnd Þá er ég horfi út um glugga minn á Hálslangan gíraffa háloftanna Framtíðar forrétt, aðalrétt og eftirrétt minn Hér er minn rifill, hér er mitt hlaup Byssukúlur, og púður. Kúl Nú fer ég úr húsi, íklæddur Veiðimannsvesti Með grænann hatt, í felulitum. Sný lyklinum Í svissinum Í Landróernum. Brumm brumm. Bruna útá tún. Tek upp riffilinn, sný í hendi mér. Miða og skýt. Hundurinn stekkur af pallinum Hleypur á brott Og finnur minn svan. Svít. Svo tek ég hann heim Og affiðra hann. Plokka og reiti, og saxa og sker Hengi‘ hann á hvolfi, Streymi yfir víni Konjak og bláberjum Það var þó mestmegnis tómt Konjakið sko. Þar sem að ég hafði verið búinn að drekka meirihlutann sjálfur Ma‘r verður að veita sér smá í veiðiferð. Svo sting ég í hann spjótinu, Og kveiki undir hann eld. Vökvi flæðir um munninn minn Slefið mitt er orðið sætara Þrungið konjakskeim og sæluvímu En þetta er samt soldið lítill svanur Ekki nógur fyrir mig. Enginn þriggja rétta máltíð. Sé þá hundinn minn og skít‘hann líka Mig langar nú að brytja hundskjaft í kjaftinum mínum Forðum ég fór með hann á tamningarnámskeið En núna, vill ég heila hans brytja í mauk, bæta við vatni Og borða með skeið. En svo kom sorg í hjarta mitt Ég hugði ekki að mér Það sótti að mér heiftarlegur leiði. Æjji Sæti Snati minn Þú varst hvorki snar né snöggur En afhverju léstu mig skjóta þig Fyrirgefðu hjartagull En það ansans bull. Við áttum góðar stundir saman Ég skokkaði stundum og þú hljópst með Ég hleypti þér út á morgnanna að pissa Og þegar mér var kalt á kvöldin iljaði ég mér uppvið Loðnar fellingar þínar. En það var heitt og sólin skein í heiði Þú varst svo gúrme að ég hugði ekki að mér Með þinn íturvaxna kropp Svo ég alveg, óvart skaut þig smá. Og síðan ég át Með gratíneruðum örbylgjuofnshituðum kartöflum Gömlu aspasi og dós af ananas. Grátur í mínu hjarta Ég hugsa um liðnar stundir, En svo alltíeinu.. manégeftir Álftinni á einnotagrillinu. Fökk, það er bruni út um allt. Ég hlanda á hann til að slökkva hann. En álftin mín er ónýt. Kolsvört hún liggur á júrópríseinnotagrillinu Það hjálpar heldur ekki til að líta í kringum sig, Túnið mitt stendur í ljósum loga Eldurinn hafði sér dreift. Ég er í miðju túni, eldur um mig allan. Með buxurnar með mig niðri og kolbrennda álft í kjaftinum. Svo dett ég niður á hnén. Æli og græt. Ég sakna enn gamla hvutta. Svo dett ég á hvolf, og á mitt bak, en heyri enn í fjarska óma Búmm. Búmm. Búmm. Ég loka augunum Allt verður svart. ] [ Inn í nóttina ég líð, orðinn er ég þreyttur. Að vakna hress ég eptir bíð, allur betri’og breyttur. ] [ Gárungar sér gamna, gefa anda góðan. Vizku fyrir velta, svo vitleysur upp gelta og hefja’ upp heiminn yfir það sem hann er. „Allt á öllu veltur öðru, sem er ei. Andrá virðist engin; ekkert fyrir fengin.“ Um leið er vegurinn lengri en augað sér. --- En lokaorðin eru ljúf, láta ekkert undan: Alsæla andans; allt’annað til fjandans, og efnið í algleymið á endanum fer. Áfram þó allt heldur, ekkert skal úr skorðum. Líf munu lifna, ljós munu kvikna, því alltaf mun ferlið endurtaka sitt kver. ] [ Ævi mín mun ekki löng, margur er mér eldri. Þykir mér þó tíðin röng, þrungin haturs eldi. ] [ Dapur; á mig sækir drómi, dauða hann líkist í raun. Nú allur er minn eiginn sómi ekkert fæ ég að laun. ] [ Mér sýnist austur stundum vera vestur. Og ég stama kannski, en Nökkvi er góður hestur Þó maðurinn virðist vera' í máli blestur, þá er Nökkvi alltaf jafn hress og góður hestur. Það er kadiljákur á hvolfi' útí skurði við vegkannt - útklesstur en Nökkvi er enn frár og sprækur hestur. Á hótel jörð er sérhver maður gestur og Nökkvi, hann er æðislegur hestur. Þjálfun er nauðsin ef þú vilt verða bestur þess vegna er Nökkvi svona hraðvirkur hestur. Ef fyrir finnst einhver manna mestur mun hann Nökkvi án efa vera mikið betri hestur. Skordýraplágur og uppskerubrestur… En Nökkvi er alltaf jafn sprækur hestur. Bábylju upp bullar blindfullur prestur… en Nökkvi, hann er geðveikt flottur hestur. Þú vilt fá hrós en uppskerð aðeins lestur… Samt sem áður er Nökkvi frábær hestur. Og ef þér fæst ei lengri skila-frestur fáðu Nökkva í málið, því hann er góður hestur. ] [ Andardráttur minn er eldfimur, innbyrgt hef ég nú of mikið eitur. Og nú kominn er að, þessum aumingja stað, þar sem rónarnir setjast glatt að. Í sjálfsvorkun veltist ég um. Eitrið bragðgóða klára ég úr dósunum. Þó ég viti það vel það geri útaf mitt þel þá enn meira ég lep úr þess skel. En ég kann eigi á því nein skil hvers vegna í sopann svo leita ég vil. Hann bara gerir mér gott, galdrar allt ljótt í flott, og gerir ósýnilegt mikilsmanns stollt. --- Máninn á mig töfrandi lýsir, með glitrandi geislunum hann mig nú fýsir að fá mér einn meiri bjór er 'ekki orðinn nógu sljór svo ég keyri mig sjálfan í kór. Ég sýp og sýp, en ekkert ég' græði, sé nú' í gegnum þess alls kosta gæði… Það bara hefur viss tök; hugsunin verður slök, en um leið verður dómgreindin lök. Ég verð nú að gefa því gaum, þeim sjálfgefna mannlega draum. Að sjá svart á hvítt; eitthvað gamalt sem nýtt, og sjálfum mér geta þá hlítt --- En allt er aftur-á-bak, allt sem og tilbúið lak. Það bara er einsog er, og nú sjálfur stend ber aftan við hversdagsins her. Svo, áfengi á ei við mig lengur, og aldrei í raun það hefur, minn drengur. Heldur misskilið ég hef þess tilgang, ég tel, en burt henda 'því ég tvístígandi vel… ] [ Drattastu út úr dalnum mínum, þú dómgreindalausi dóni. Nóg hef ég fengið að lygum þínum, og innantómu hóli. ] [ Leggstu inn í dalinn minn, inn á milli trjánna. Einum þér ég hleypi þar'inn, Fegurstum allra manna. ] [ Hví syngur fuglinn ? Ég veit hví fuglinn syngur…. sönginn sinn stanslausa beint frá sínu hjarta. Hann syngur fyrir ungana sína sem munu fljúga til heitu landanna um leið og þeir geta. Hann syngur til sinnar ástar sem er horfin á braut. Hann syngur því hann syrgir. Ég veit að fuglinn grætur… Hann grætur ungana sína sem eru flognir úr hreiðrinu til heitu landanna – landanna sem hann þráir sjálfur. Hann grætur fuglinn sem hann fékk ekki, Ástina sem hefði fært honum eilífa gleði – en hún kom ekki. - - - - - - Við erum eins og fuglinn í trénu…. - Fiður í hinum stóra stormi heimsins - Enginn ræður okkar för - Og enginn veit hvar hann á heima á morgun. - Ég ber nafn fuglsins – um alla eilífð. ] [ Heyrirðu klukkurnar kalla....? kolsvartan morguninn inn. Hóaað er himneskt í alla því horfinn er markaðurinn. Bókin er brugðin til beggja og bölmóður leggst yfir dal. Þótt hátt sé og vítt nokk til veggja veslingar hafa enn val. Gráguggnir klerkarnir krossa kórinn er fölur og fár. Himneskum orðunum hossa hella’í þig frelsarans tár. Yfir er þrumað í þykkju og þunglega borið á borð. En láttu’ ekki skrautlega skykkju skammta þér guðanna orð. Markaðsbók mætir sér tíma maður er áni', en samt sál. Við guðsorðið ávallt er glíma og glapyrðin borin á bál. Sölumenn guðsorði greiða því götótt er dúkata-skál. Markaðsmenn leita nú leiða að laða fram lausnir og prjál. Karl nokkurn klufu þeir niður og kona hún kórhempu fær. Því markaður orðinn, því miður minni en var hann í gær. ] [ Ég er einn og bý við vatnið. Ég er á endastöð – eins og vatnið. Vatnið, sem kom úr mörgum áttum, fór sinn veg og markaði sína slóð. Vatnið syngur – eins og ég. okkar tónlist gengur saman. Ég hlusta á gjálfrið á sendinni ströndinni og heyri blak vængja fuglanna í fjarska, - í kyrrðinni. Fiskarnir í vatninu vita af mér og ég þekki þá – Þeir eru vinir mínir. Á kvöldin heyri ég raddir í gnauði vindsins sem bærist um í trjánum og veita mér vernd frá umheiminum. Sumarmorgnarnir seiða mina þrá og sunnanblærin hvíslar til mín ; “Komdu með mér þangað sem þú átt heima…” Röddin frá vatninu segir ; “Vertu kyrr, vertu kyrr….þú valdir þinn veg” Ég og vatnið þurfum að tala betur saman á morgun. ] [ Hann er sjómaður, Þar sem sjórinn er villtur og ær gerir að og verkar, vinnur við segl og sauma. Hann fangar gull hafsins daginn út og daginn inn. Hann er sjómaður – Maður sem hugsar heim þó að þú haldir annað. Hugur hans er nærri þegar hann er fjarri. Hann hugsar um tárin í augum þér þar sem þú bíður heima. Hann er sjómaður, Og kemur kannski heim þegar sólin er sest, og hugar að sínum ástvinum af meiri natni en aðrir. Hann veit, að einn daginn er ekki víst að hann komi. Hann er sjómaður. ] [ Þú ert hvikul og hvefsin eða ljúf og leikin er þú bylgjast í átt til mín. Er þú kemur ertu ærslafull, hvít og frissandi eða drungaleg, dökk og blá. Erum við vinir…?....viltu koma að leika,,,? Ég veit þú getur verið ægileg, stór og mikil belgir þig og æsir – skaðleg En á nóttunni sefurðu róleg Þú ert eins og maðurinn…. Þú ert árstíðarbundin, þú passar við mig ! Í fulli tungli ertu eins og mennirnir – skapið og öldugangurinn er eins. Erum við ennþá vinir…?....viltu koma að leika….? Þú ert aldrei ein. ] [ Nóttin kemur og læðist inn, og tekur ástvini þína frá þér. Þessvegna sit ég við gluggann og bíð eftir deginum. Dagurinn færir mér von um að ástvinir mínir komi aftur Augu mín daprast og sál mín kulnar - vonin hefur yfirgefið mig líka. Nóttin er í svörtum fötum – ég líka svo hún taki mig ekki líka frá ástvinum mínum. Því kemur sorgin að nóttu til ? ] [ Það veitir mér meiri huggun og sátt Að vita af hlýju þinni Þó svo minn hugur segir fátt Þá er bómin springa út að sinni Í flóknum og lokuðum heimi Gerist bara það sem inní mér kallar Líkt og vofur hér og þar á sveimi Er babílonsenglar vilja falla Og verkfæri dulúðar reynir að springa út En rökhyggja og heimskan loka Líkt og tíminn leiði á munn manns stút og stíflan ekki annað en þoka Og lítil rafræn skilaboð í gegnum síma Ég hélt ég myndi farast úr eigin ælu Eftir þér er ég búinn að bíða í langantíma Eftirá fann ég mikla sælu Því þegar orsök og afleiðing kalla Og mér líður hættir að skipta máli Þá hljóma loks orðin hans pabba Farðu eftir þér en ekki öllu táli ] [ Jafnvel þó dramatík og óvissa Leiði mig í leiðindi Þá alltaf eftirá kemur fullvissa Sem smyrja öll særindi Það sem flestir spyrja sig að Er hvort mitt sé þitt Er ég illur eða hvað? Eða bara sáttur við mitt? Ég á mér öruggan stað Í miðju vatninu er lækning Flestir líkja því við tað Og segja mig vera flæking ég á mér flotta sýn Um okkur að sameinast Mér finnst þú svo heví fín Og í núinu þú og ég það er fallegast Því hinna fjögurra hesta tákn Í spádómi um hugarfar Þar sem inngripið var aðalega sátt Við erum eitt hið heilaga far Það er óvirðing við mína greind Og eina leiðin að ná því á mitt level Er að faðma hið svarta í reind Þá sef ég sáttur,búinn að sigra the devil ] [ Árvatnið er litað blóði lítils nautkálfs, sem krókódíllinn náði að góma þegar hjörðin ruddist yfir ána í leit að nýju beitilandi. Móðir krókódílsins horfir stolt á son sinn og fær sér bita. ] [ Það ríkti mikil gleði þegar nýr Súmötrunashyrningur fæddist í dýragarðinum. Einungis fjórir slíkir eru til í heiminum. Hann mun því aldrei um frjálst höfuð strjúka. ] [ Ég á uppsprettu lindir og líð í anda. Er sagnir og myndir mér að ganga. Er ég lít í logann og leiftrið á kveldin og stjörnubirtu bogann er enginn við eldinn. Á milli glugga og glerja sé ég tárin. Og milli regns og élja öll bernskuárin. ] [ Þar sem sinnuleysið ræður ríkjum er rekkja bak við luktar dyr. Þar sérðu mig sofa um nætur sem daga og langa ekki til, að vera til. ] [ Flugleiðavélin er farin frá oss full af útlenskum dónum. Þeir pukrast um borð og pissa í kross prumpa, og fara ekki úr skónum. ] [ Listin lifir ljóðum í, leik ég mér að orðum. Allt i einu sólin hlý, skín sem skein hún forðum. ] [ Engil eigum við himni á sem gætir okkar úr fjarska Hvíldu í friði Baldur Þór ávalt í okkar hjarta ] [ Bráðum önnin úti er aftur leika fæ ég mér, þá kveður lífið allt við annan tón aftur lifna vorsins blóm. Á meðan lóan lögin sín ljóðar dátt og sólin skín, út við lækinn minn ég byggi bú þar á bænum verð ég frú. Fyrir bónda vel ég bjartan svein og við búum þarna tvö og ein, tínum blómin blá, börnin eignumst smá, ó, ég veit það verður gaman þá. Júní 1981 © allur réttur áskilinn höfundi ] [ Búmm. Búmm. Búmm Orðin þín Brosið skín Einhver hvíslar "Vertu mín" Búmm. Búmm. Búmm. Varir þínar Snerta mínar Eitthvað innra með mér hlýnar Búmm, búmm, búmm Komdu nær Hjartað slær Doði alveg nið'rí tær Búmm búmm búmm Næsta stig Taktu mig Leyfðu mér að elska þig Búmmbúmmbúmm Gekk of langt Þett'er rangt Efirsjáin ævilangt BÚMMBÚMMBÚMM Bölvuð þrá Farðu frá Hjarta, hvað ert'a spá? BÚMBÚMBÚM Hjartans brestir Lostans lestir Sekt í sálina klófestir BÚMBÚM Hjartans ómur Hausinn tómur Lostans dauða dómur BÚMM! ] [ Augu mín úðuð´í sig andliti þínu. Nutu æsandi upplifunnar unaðsvímunnar og freyðandi fullnægingar forherts lostans. Þú, vínguð hins viðsjála kampavíns - viltu elska mig? ] [ Þetta barn er barnið mitt. Þótt það skylt sé þér, það er ekki þitt. Þér finnst þú svo margt, í því eiga. Að þér finnst í lagi, finnst þú mega. Setja útá, háðsglott senda. Stundum bíð ég bara, þú munir benda. Þér finnst ég kannski, óhæf móðir. En mundu elsku frænka/amma, að engir eru algóðir. Þó ég stundum sýnist kjáni, Asnaleg og jafnvel bjáni. Ef barnið hjalar, brosir létt. Þá hlýt ég að gera eitthvað rétt! Stundum má líka sleppa að dæma og með því aðra frá sér flæma. Stundum má sitja á sínu bulli, sitja á því öllu eins og ormur á gulli. Ef hjálp vantar mig, þá veistu ég hjálp þigg. Ég treysti á þig. Þú svo göfug og dygg. ] [ Einföld hreyfing, einföld gjörð. Hálsinn brennur, svartur andráttur. Reykurinn rís, glóðin fellur. Í lokin er ekkert eftir nema köld aska. ] [ Í húsakynnum hugans eru fjölmörg og mismunandi rými. Einnig stigar, gangar, geymslur og ranghalar. Víða er bjart, þar finnast líka dimmir staðir. Sumstaðar er hreint, og annarstaðar skítugt. Sum rýmin eru alltaf opin, en öðrum verður vonandi aldrei lukið upp. ] [ Að þroskast er þróunarskeið og þolinmæðis vinna Að skipta um skoðun á lífsins leið er skilvirkur framgangur hugsana þinna ] [ Getur þú sofið um sumarnætur ? Getur þú heyrt hvernig hjartað slær ? Vissir þú að ég hef á þér mætur hér rennur lækur, silfurtær. Kannt þú að njóta þess hreina tæra ? Kannt þú að þakka það sem hún gaf ? Munt þú áfram lifa og læra ? virkja anda þinn sem áður svaf. Við hamarinn háa er sagan okkar í berginu bláa hluti af þér allt það stóra, allt það smáa sem hjartað finnur, augað sér. Sérð þú auðlegð sem við eigum ? Sérð þú svörðinn er hlúa þarf að ? Varlega skulum bergja af veigum finna framtíðinni stað. Getur þú vakað um vetrarnætur ? Kannt þú skynja tíðana hljóm ? Veist þú að hafa við verðum gætur og vernda landsins helgidóm. Við hamarinn háa er sagan okkar í berginu bláa hluti af þér allt það stóra, allt það smáa sem hjartað finnur, augað sér. ] [ Fjället är fader till molnet Trädet står stilla i natten nedanför fjället i väntan på regnet ] [ Þú lipurlega orta ljóð sem dvaldir skamma stund með mér. Þú liðaðist um farvegi hugans og lagðist við hjartarætur. Hélst við svo búið áfram ferð þinni, svo aðrir sem þér unna, gætu upplifað ósvikið ævintýr. ] [ En storm ett ord som blåser på mina känslor Ett hav en droppe i ditt öga, som lindrar ] [ Hallar tekur nætur hljóðri um hamrabelti og fjallagjörð Stafur þinn er grænn af gróðri þar gengur þú um votan svörð. ] [ Kärleken är här Solen värmer skuggorna som springer iväg ] [ Regnet smattrar på midsommarkransens blommor. Festen börjar snart! ] [ Koltrasten sjunger Vildgässens flyg mot söder väcker en längtan ] [ Las óvænta frétt Skellti aftur tölvunni Fluga sat á Ó ] [ Maður er nefndur Þorsteinn frá Hamri Orð munu standa ] [ Nú skil ég fjallasvaninn með sumar og vorsins þrá. Þeir vita mest um valdið sem vindurinn á. Að fylla stinnar fjaðrir og fljúga með þá hátt. Og heita þeim og hjálpa að halda í rétta átt. En í fönn voru fjaðrir við fjallaskörðin há. Og blóð drap úr bergi og brotinn vængur hjá. ] [ Maríuerlan tínir upp brauðmolana Önnur eins eltir ] [ Skuggarnir lengjast Fjallið eltir sólina Hundgá í fjarska ] [ Hegg tréð á morgun Í kvöld varpaði tunglið sínum lengsta skugga ] [ Slekk á símanum Sólin er hátt á lofti Býflugan suðar ] [ Signið hina snauðu segið þeim frá mér. Að ég birtist aftur er eld við krossinn ber. Sefið hina hræddu þeir hlusti eftir mér. Ljós mitt lýsir öllum lifir í hjarta þér. Biðjið fyrir brenndum er bíður myrkur eitt. Faðmur minn er opinn sem eiga ekki neitt. ] [ Með fangið fullt af fortíð er erfitt að taka framtíðinni opnum örmum ] [ Allar mínar væntingar sendi ég þér allir þessir bláu litir eru ætlaðir mér og allir mínir litir hverfa til himins og myndin sem ég gerði enginn mannlegur máttur sér. Og nafn þitt féll sem snjórinn á engið og litirnir mínir eru gjafir sem enginn hefur fengið og allir þessir litir hverfa til himins og ég skil ekki lengur orsakasamhengið Hvað er það sem bíður bakvið kvöldsins myrkur hvað bað ég um er dagurinn var ljós er það útlitið kalt eða hinn innri styrkur er það engjasóley eða ein stök rós hér er það sem aldrei skildi og líklega einnig það sem enginn vildi. Í myrkri, í ókunnri nótt á ókunnum stað ég staðar nam, tók mína bók og fyrir þér bað allt þitt myrkur hverfur til himins og allt verður að lokum endurskapað Hvað er það sem bíður bakvið kvöldsins myrkur hvað bað ég um er dagurinn var ljós er það útlitið kalt eða hinn innri styrkur er það engjasóley eða ein stök rós hér er það sem aldrei skildi og líklega einnig það sem enginn vildi. ] [ Manstu, endur fyrir löngu. Þú varst ennþá lítill drengur, ég var ennþá lítil stelpa. Manstu, þegar heimurinn var okkar. Þegar blár himininn sópaði burt skýjabreiðunum, sólin kinkaði kolli. Fjöllin lyftu tindrandi kollhúfum okkur til heiðurs. Grænir glitrandi fiskar máluðu náttúrunnar fegurstu ljóð. Manstu, löngu seinna. Þegar sólin kvaddi, og þú færðir mér tunglið. Þegar ég leiddi þig. Ekki til að leita að neinu, nema kannski þér. Augun þín í mínum mín í þínum. Löng svört bráhárin riddarar gimsteinanna. Bikasvartir í eilífð hugans. Þú varst ég og ég var þú. Spegilmynd okkar rann saman. Eining. Heild. Heitur andardráttur þinn hluti af mér og ég var að eilífu horfin. ] [ Klær þínar rista mig á hol. Munnur þinn nærist á innyflum mínum. Tunga þín sleikir upp blóð mitt af áfergju. Hjarta mitt er þitt. Ég er þín. Hamingjusamt fólk borðar fiskbúðing með tómatsósu og brosir. ] [ Draumur 1: Tveir hvítir svanir standa í flæðamálinu. Geislar kvöldsólarinnar leika um sveigða hálsa þeirra. Lauf trjánna gullin líkt og sólin. Draumur 2: Tveir hvítir svanir synda saman. Yfirborð vatnsins gárast er þeir líða hjá. Þytur í föllnu laufi. Draumur 3: Tveir hvítir svanir. Annar fallinn. Naktar trjágreinar endurkastast í bláum fletinum. Ilmur af frosti. Frost. Kaldar tær. Krepptar í þröngum gúmmískóm. Lopahúfa sem stingur. Fallinn svanur í poka. Sorg. Hjarta sem slær of fast. Fótleggir sem bera ekki þungan. Andlit sem skolast af. Tóm. Heilög gröf og sjórinn og seltubragð af vörum. ] [ Lífið er afskaplega langvarandi ljóð Eins og í öllum ljóðum sem eitthvað er varið í eru stormar og bylir en stundum styttir upp Þú færðir mér sólina ] [ Langt undir sólinni á frosinni jörðinni liggur nokkur fuglsskrokkur fjaðralokkur fýkur burt fallið fagurt roðalauf birtan dauf lindin fyndin sjálfsmyndin þakin klökum ísjökum fuglinn hljóður fölur gróður fjársjóður einhverra kólnandi vinda sem leika við tinda hæðast og hrinda viðkvæmum grösum og klösum af Ilmreyr segja þeir Allt deyr síðarmeir ] [ Rjúkandi kaffibolli hvílir á enda borðsins á meðan kisi baðar sig á gólfinu. Þennan dag virðist allt hægt og möguleikarnir bíða eftir tækifærissinna sem bæði getur og nennir. Á meðan er hvíldarstund á heimilinu og hvítir kollar hvíla á koddum en þó er ýmislegt að gerast í hljóðum orðum. Kisi malar og glottir í kampinn og kaffikvörnin vinnur að nýjum skammti. Morgunstund. ] [ Rigningin dynur á gangstéttinni og bleytir upp í þurrum, stífnuðum laufblöðum sem verða þá að einskonar fallegri, marglitaðri drullu. Húmið læðist yfir borgina og lyktin af brennandi timbri gægist upp úr strompunum og minnir á veturinn sem nálgast. Birkið ilmar svo vel í regninu, rósir nágrannans líka. Þær eru bleikar en fölna þó brátt. Eitt stígvélið er með gati og sokkurinn verður rakari með hverju skrefi. En það gerir ekkert til. ] [ Sonur minn með saklausu brúnu augun sín, svo fallegur með ljósa hárið. Hvert fórstu hvar ertu ég leita þín, fastur í klóm fíknar svo fellur móðurtárið. Dauðans barátta við dóp og vín, blæðir stöðugt hjartasárið. Djöflana hann berst við upp á líf og dauða, dreymir´um að komast á réttan kjöl. Helgreipum fíknin heldur í kauða, kvalinn í fjötrum vill losna við böl. Baráttan erfið við bölvun þess og drauga sem beiskju valda og eilífðar sálarkvöl. Fjölskyldan kvalin á sálu illa farin, fallinn er og baráttan fyrir bí. Djöfulsfíknin tælir á draumabarinn dópið glepur fíknin hann áfram knýr. Samviskulaus í hjartanu sýnist kalinn heimurinn hruninn enn á ný. ] [ Ég held að ég sé ósýnileg sál, Það tekur engin eftir mér, en ég sé alla. Og þótt ég standi upp og hefji mitt mál, Þá er mér hent niður, ég er látin falla. Halló veröld ég er hér, Ég er týnd í þvögunni. Hérna mig enginn sér, Viltu breyta fyrir mig sögunni? Er áhorfandi á annara líf, Halló halló ég er hér. Eftir ganga veggjunum ég svíf Er ein með öllu, mig enginn sér. En allt í einu mig starir á, Fagur lítill drengur Ég er fegin að hafa hann mér hjá Ég er ekki einmanna lengur. ] [ Vatnið klýfur steininn við frostveðrun, er hjarta þitt brestur. Mjúkt sigrar hart. ] [ Laufið í mér Á bernskustígum lékstu með mér og vindinum, Við lékum okkar saman á lífsins tindinum. Þótt váleg væri spáin um tilganginn þinn þá, Hverjum brá,í hverri þrá,er eftirsjá,augun blá,gleðin hrá. Í öllum litum varstu og hlátur minn var skýr Og vissa mín að líf þitt væri sannleikanum nýr svo var sem hendi veifað,og guð þinn tréið fölt svaf við allrar rætur ,og skynjaði ekki tölt. Nú raular aðeins garðálfur, og ég er orðin stór hann þekkir ekki söknuðinn,málaður og mjór. Og veigar vordaganna koma með húllum hæ En barnið er í mér dáið,svo laufið fór á glæ. ] [ Í gamla daga lærði ég að lyfta grön við öllum fjanda, garga hátt, berja smátt,og láta mér sama standa, á endanum þá stóð ég einn og tíkin mín branda, Þá tók ég mig upp og ferðaðist í leit til annara landa. þar reif ég kjaft og barði skart,til beggja handa. Ég elska víst seint og lifi beint í þeim góða anda, sem við áttum í lífinu ég og tíkin mín branda. ] [ Þú vissir seina,daginn eftir,hvað þú áttir að velja, ekki forboðna ávöxtinn sem þú gleymdir að telja. Á að hlaupa berfættur,í sandinum á milli glerja? Svo sagði hún móðir mín,muninn á kú og belja. ] [ Skriðdrekinn urgar og mylur klappir og mold, mannabústaði,hamborgarskilti ,og lifandi hold, í sömu kássuna,kvika og dauða í senn, eins og hann sé skaparinn sem fann upp menn. Hann kallar fram ómennskar verur sem gutla með blóð, Og út úr pústkerfi hans býr landið sem rjúkandi glóð. ] [ Slepjumorgunn mánudags, mókið tekur völd. Hvers vegna kemur þú strax, svo fljótt eftir föstudagskvöld? ] [ Þótt vekjaraklukkan væli og væli ligg ég á grúfu og gjói ekki augunum Hnipra mig saman, bý mér til bæli snooz-a og slaka á hálfsyfja taugunum. Ég er ekki lengur vanur að vakna hvað þá á niðdimmum mánudagsmorgni, helgarfjörsins og hátíða sakna þótt ég muni ekki eftir stundarkorni. En ekki allt virtist vera með réttu því klukkuna vantaði korter í tíu "Allamalla!, ég er illa settur, ég átti að byrja rétt fyrir níu!" ] [ Taumlaust tregatárin falla tætt er orðin sálin mín. Út í tómið finnst ég kalla er ég reyni að ná til þín. Hugarangri miklu veldur hjörtun kvelur endalaust. Fjölsyldan fyrir lífernið geldur fangar óttans, aldrei laus. Veistu að vonleysi fyllir mitt hjarta er ég horfi i augu þín. Eina ósk um framtíð bjarta foreldar eiga um börnin sín. ] [ Líkt og vordags lauf að morgni lifna til þín kvæðin mín. Yfir færist andinn forni, fyllir vit og byrgir sýn. Þá sumarvín úr bikar bergjum, bjarta dansinn stígum hér. Hljóðum orðum leikum ljóðin, rjóð, á meðan rauða glóðin ritar ástarorð til þín, frá mér. ] [ Mín eigin sál er tilfinningabál sem brennur í þessum heimi. Þessi sál - hvorki steinn né stál, óvíst er hvert hún mig leiði. Hvert skal nú halda eftir kvölina talda? Ég skil ekki fólk hverju kann það að valda? Skil ekki hvað fólk er að meina en mér finnst ég vera að reyna, að ná einhverri átt þó ég skilji svo fátt - þetta nær engri átt. Lífið svo hrátt, mig vantar himneskan mátt. Hjálp, hvað skal ég gera? Bíða, vona og sjá hvernig allt mun vera. Sálarlífið fer upp og niður. Fyrir því verður víst aldrei friður. ] [ Ég geng ein í fjörunni og hafið gefur mér auga. Ég skríð inn um ljósopið og hvísla út, í hafsauga: "...Gefðu mér REGNBOGANN..." ] [ það læddist að mér ljóð við morgunverðarborðið Laumaðist upp á diskinn minn. Ég skar það niður, orð fyrir orð, og át. Ljúf, mjúk, falleg orð. Vond, hörð, ljót orð Sum bragðlaus, önnur rótsterk, Sum súr, önnur sæt. Ósögð orð, útjöskuð orð, margtuggin og lúin. Þau léku á tungu, brunnu á vörum En ég kyngdi þeim ölllum. Át þau með morgunkaffinu. Og nú ég á ekki eitt einasta orð ] [ Ég vaknaði Snemma morguns Í blágráu tómarúmi. Vafrandi milli svefns og vöku, nóttin vék. Sólargeisli brotnaði Í gluggarúðunni og glitrandi brotin fylltu tómarúmið litfögrum loforðum dagsins og brothættum. ] [ Engan veit ég mönnum meiri, mætan eins og Salómon, en landshöfðingjann á lífsins eyri Lúðvík „snigil“ Vilhelmsson. Fjöru hefur sína sopið; í saltan oft á sjó hann meig. Ávallt er þó skammt í skopið er skýtur hann á grín frá teig. Hálfri öld hann hefur náð, á hálfa til ef fer að vonum. Í dag við fögnum glöð, mis-gáð. Glösum lyftum til heiðurs honum! ] [ Ég stend hér á bjargi, útundan mér sé ég þyrstan sel Hvar sú tilfinning hefur oxið er mér gamanmál En ákveð þó að synda honum til samlætis Tek með mér brúsann fullan af vatni Fullviss að um þorsta sé að ræða En það nær engri átt þegar ég hugsa dýpra og dýpra Verða selir þyrstir, verða selir þyrstir Óhugsaðar, hugsanir spretta upp, Nú er sú hugsun efst að ég veit ekki neitt nema það. Að ég veit ekki neitt. ] [ Dæmdur af ást þegar ég er úti að kljást Fordómar yfirlestur þó að engin ikkar sé hæfur prestur Hér er ég niður sestur með penna og blað það er upprunninn minn frestur Þið kennið mér um silfrið og allt hitt sem fíkillinn hirðir Ég ætlast ekki að þið skiljið þegar þið spurjið hvað ég vilji En yfir mig ég hyl og set skil því ég vil frið ] [ Þokan er svo þykk ég sé ekkert sem er mitt Heng á bláþræði tel allt þetta vera smáræði Hrek í burtu sem mér er skylt þunga dóma mér er birt En sálina rólega hef ég myrt Enginn kemst að hver og einn er með sama svar Byrjaðu nýjan dag þú hefur þitt egið val En í dvala ég legst og öllum öðrum ég bregst Ekkert mér heilagt vildi að ég gæti sett lífið á frest En hver veit hvað er mér best Þegar niður komið er sit ég einn með þessa pest ] [ Svo oft sem ég hef gleimt svo oft sem ég hef reynt kemst aldrey beint þó að yfirborð mitt sé hreint mér líður eins og það sé full seint að vilja vel og brjótast úr þessari skel skoða mig sjálfan og vita hvar ég mig hef áður en ég sef en það er orðið svo langt síðan að dauðin kom með kvíðan hreiðrar um sig og brýtur niður minn líðan tekur allan tíma engin blíða engin ástríða í hjartað mig byrjar að svíða hæðstu fjöll sem ég þarf að klífa sjálfan mig hef ég alltof lengi verið að flýja ] [ Ég er sár ég er leiður við vorum farinn að grafa lítið sætt hreiður Svo komstu með allar þessar tómlegu eyður Ég var orðinn ófeigur því með þér ilmaði allur góður keimur Sá að þetta var orðinn allt annar heimur Sýndir mér ljós sýndir traust kenndir mér að njóta studdir vel við mína fóta Mig langaði mig að skjóta en þitt bros og þín orð komu mér frá því ljóta Ég fann minn innri frið með þér mér við hlið Mér þykir mjög vænt um þig þó að við gerðum þetta stóra bil Þá fann ég frið og er kominn aftur á rétt skrið Þó að það sé ekkert lengur við Þá kann ég minn mannasið og gef þér þinn frið því þú kenndir mér að finna minn eginn mig þó að þú standir mér ekki enn við hlið ] [ Lífið er svo leitt þó að ég komist í spikfeitt Svo kallt svo heitt get ekki neitt svo þreyttur á að geta engu breytt  Þarf að gefa þessu tíma en fíkillinn nær ekki að bíða Fæ mér skot fæ að ríða minnisleysi og vanlíðan !!! Fer að síga niður , kvíðinn kemur , enginn friður  Sama hvað þú biður verð ég ávallt hér á leið niður  Farðu bara hlusta þarft ekki að falla  Það hafa allir sína galla meira að segja þeir  Sem hafa aldrei þurft að malla í skalla . Þú veist að þú getur alltaf gert allt svo mikið betur  Tíminn líður reyndu að vera í betra standi fyrir næsta vetur  Teldu upp á tólf eitt í einu allt á hreinu  Niður á hné , hvað á að ské er þetta líf mitt eftir beinum teinum  En það er stórsigur að bara jónur smóka  Læra það sem á að njóta vera til í allt því árin þjóta  Ekki skjóta , vertu til , hættu að hata , settu skil  Við allt sem þú vildir að lífið hefði upp á að bjóða. Fór frá öllu dópi vildi lífið hljóta standa í egin fóta  Gefa einhvað af mér sem að ég mun aldrey njóta  En hausinn vildi varla tóra við hvað var ég allan þennan tíma að slóra Hálfdauður að sötra bjóra miklaði mig og gerði mig stóran  En hversu lágt er hægt að fara miðað þá alla daga Sem að ég hef reynt , að vera hér og bæta upp allan skaðan  Edrú svona lengi byrjar geðveikin að tala  Getur reynt að svara meðan tímin líður þar til haninn galar Bangsi reif mig upp í morgun sagði skýrt það deyja allir !!! Lifðu eins og þú deyrð á morgun bíttar engu þó þú fallir  Að þú mallir rétt fyrir svefn einn tveir skallar  Og hausin á koddan ljúflega hann hallar En afhverju að reykja hausinn er orðinn nógu mikill steypa Vil mér frekar framfleyta muna hvaðan ég kom og láta gott heita Vil lifa svo ég þurfi ekki að þrauka halda mér frá því blauta En hausinn þig platar rangar hugmyndir hann matar Komdu til dyra með þinna réttu fata  Þá getur lífið orðið svo miklu betra en hreint og sagt glatað Vil svo mörgu breyta tólf skref í rétta átt og fíkniefni mun ég aldrey framar neita  Með einhvað æðra mér veit ég hvert ég leita samt erfiðleikar Þegar maður hættir að rúlla feitar ég öllu neita á mig sjálfan að leika  Allir í mig hreyta benda mér á að breyta slökva þessar brennur og ekki fleyrum í kveikja ] [ Hversdagslegir undirtónar alræðis með yfirgangi ryðja til rúms nýja tíma fyrir veruleika eigin tilvistarforsendum. Órafjarri hugarheimi vestursins með kröfuhörku reka á brott undirstöður fornrar valdaníðslu snobblýðsins. Óðfluga nálgast vesturhugur með óreiðufaðm vel útbreiddan umlykur öll afmörkuð landsvæði fornríkja. Eftir situr kaótísk samfélög misjafnlega harðtrúaðra hópa. ] [ Þú fékkst allt sem þarf enn vildir meira þú fórst og fékkst meira en nú átt þú minna og minna og minna og að lokum ekki neitt Þannig er lífið meira eða minna þú endar allslaus hvort sem er og allt þetta meira og meira og meira gagnast ekki neitt ] [ Galileo situr og skynjar nálægð hins unga Miltons gegnum líflaust myrkrið. Fyrir utan gluggann hringja kirkjuklukkurnar Í Flórens. Hlátur ungrar stúlku hljómar úr næstu götu og skellir frá hestshófum berast með blænum. Eitt andartak sortnar Milton fyrir augum og hann horfir blindur fram fyrir sig. Galileo snertir sjónaukann og segir: Tungl Júpíters snúast ekki í kringum jörðina og ekki í kringum sólina, heldur í kringum Júpíter sjálfan sem sýnir að heimsmynd okkar er röng... Jörðinni er varpað úr móðurlífi sköpunarinnar út í ískalt tómið... Milton andar djúpt er hann fær sjónina aftur. Hann sér eldglæringar og skuggamyndir bak við augnlokin og hugsar um eldinn sem brennur án birtu í heimi þeirra sem eru fallnir úr Paradís. ] [ Þríbrotinn teygir sig makindalega og grefur sig ofan í set hafsbotnsins grunlaus um þá staðreynd að hann er að deyja út... Honum er hálf kalt á halanum, kólnandi hitafar í djúpum sjávar, og ef til vill loftsteinn á leiðinni, eða eitthvað annað sem veldur útdauða nánast allra tegunda jarðar. Ekki eru þó mennirnir að hrella hann, eða steikja á pönnu með hvítlaukssmjöri né heldur að sópa burt heimkynnum hans með botnvörpuveiðum... Enda mannkynið ekki ennþá orðið til... ] [ Allir hundarnir hafa verið étnir. Engin auð síða er eftir í dagbókinni og orðaperlur hylja ljósmynd eiginkonunnar. Hann festir myndina með dagsetningu dagsins með því að stinga perlu í gegn og mynda fæðingarblett á kinninni. Næst kemur röðin að mynd systur hans. Hann hlífir henni ekki heldur: Málið snýst um hvaða breiddarbaug hann hefur náð! Kolbrandurinn svartur læðist upp fótlegginn, eins og nælonsokkabuxur ungrar stúlku úr kabarettinum. ] [ hefur þú trú að þú getir trúað að þú getir án trúar þú getur hvorki trúað né gert ] [ Ég geng stundum enn framhjá rauða húsinu hvar í bakgarðinum þú kraupst á kné, tókst utan um mitti mér, lagðir eyrað að kvið mínum og sagðir: ég elska þig. Ég geng stundum enn framhjá rauða húsinu sem stendur við Hjartatorg. Ég geng ein ] [ Til þín! Ást er eitthvað sem ekki nokkur maður ræður við Að vera ástfanginn er tilfinning sem fæst ekki lýst Finna gleði og hamingju í hjarta sínu, að finna frið Er eitthvað sem tilfinningateppa fær ekki upplýst. Ég vildi aldrei særa þig heldur vildi ég elska þig Á þann hátt sem augljóst er að sjá og finna Einhverntíman verður maður að hugsa um sig Ástin mín þessu tilfinningarugli verður að linna. Nú hef ég eytt með þér hálfum tíu árum Ég sé ekki eftir neinum mínútum af þeim Við höfum glaðst, hlegið og deilt tárum Jafnvel ferðast saman inn í draumaheim. En nú er kominn tími til að taka þetta alvarlega Ekkert bull, enga vitleysu við höfum ekki meiri tíma Við þurfum að taka hausinn í gegn fljótlega Ástin og hamingjan hefur einungis ákveðinn líftíma. Skaðinn hefur orðið og það frekar oft Það er ekki til neins að væla yfir hinu liðna Búa til leiðindi eða láta allt fara í háa loft Gerum eitthvað í þessu, ástarvegurinn er að sviðna. Gott eða slæmt svona líður mér vina mín Ég veit ekki hver hugur þinn er með þetta En þetta samdi ég með söknuð í hjarta til þín Mig langar að falla fyrir þér, já bókstaflega detta. ] [ Þégar ég er í prófi, verður allt að vera í hófi. Engar villur meiga sjást, því þá engar tíur fást. Spurningarnar hrynja yfir mig alla, svindlmiðarnir á mig kalla. Afhverju er himinninn blár? Afhverju erum við með hár? Einn plús einn eru tveir, hvernig býr maður til leir? Nú er ég búin að segja ykkur frá prófunum, ekki prófa það, því þá svitnar maður í lófunum. ] [ Það er vindur út um allt, hann syngur svo kalt. Hárið fýkur, jörðina strýkur. Allt upp í loft í ferðalag, hvað er að gerast þennann dag? Ljósastaurar hrynja, dýrin stynja. Öskur og tár, blóð og sár. Vindurinn tekur allt, fer mað allt, og eyðileggur allt. Ég heyri bergmál, er það mín sál? Það er svo kalt, útum allt, ég leggst niður og hjúra mér. Allt verður svart. ] [ Strákar með veiðistangir kasta önglum út á lygnan fjörðinn. Þeir eru að leik. Mávarnir bíta á agnið og gargandi eru þeir hægt dregnir að landi. Þeir eru úr leik. ] [ þótt pótstkassin sé ómerktur þýðir það ekki að ég sé ekki til ] [ Þótt póstkassinn sé ómerktur þýðir það ekki að ég sé ekki til ] [ Halló Engilbert Jónsson og öll þín fjölskylda Halló fasteignin og búslóðin Halló allir velunnarar Í dag viljum við heiðra þig Engilbert hérna niður í fjöru á bálkestinu ] [ Tóma fljóð, tefldir smátt, teygðir sundur trúna. Óma ljóð, efldir mátt, eygðir undur rúna. Sóma fljóð, sást þá menn sekki kalla þunga. Óma ljóð, ást á enn ekki alla unga. ] [ Bresta mun brámáni, brosa ei meir er undir hljóðum himni hvílist vitund mín. Nemur þú nálægð mína nábjarta hvíld? Ég mun fagna þér. ] [ Myrkur dagur tíður er, Þegar haustið á land sígur, Þegar tunglið af himninum sjaldan fer, og á því sést hver einasti gígur. Þegar myrkur dagur á okkur skellur, oft við verðum blá, en þegar ljósið á okkur fellur, sjást aðeins skýin grá. ] [ Hér um daginn drap ég mann og dró burt öll hans iður. Ylvolgt blóðið um mig rann allt að fótum niður. Mér þótti best að brúka hníf bitlausan framar vonum. Meta og vega mannsins líf og murka það úr honum. Á steikarpönnu steiki svo stuttlega ég kjetið. Það ætti að nægja oní tvo þótt ákaft verði étið. Ég mannakjötið bráðum ber í boðsgest minn, með kæti, sem glaður mun þá gæða sér á gesti úr eigin sæti. ] [ Á kvöldin er ég kona, á kvöldin er ég frú. Varir mínar vona að á vegi förnum mætumst ég og þú. Frú ég þarf ei feta fjölda manna hjá. Unun er að geta með augum sínum öllu fram að ná. Ég er strákaljóminn stærsti, mig stöðugt elta menn Hverfi einn kemur næsti. Kynbræðurna tæli alla í senn. Er dimmir er ég dama, djörf og lævís snót. Gef ég hiklaust hölum undir fót. Á kvöldin er ég kona, á kvöldin er ég frú. Verður kannski á vegi mínum þú? ] [ Í Gallery Fegurð hangir fólk til sýnis ásamt öðrum fallegum hlutum ] [ Vinur minn, hann Agnar Ögn var óttalegur trítill Alla tíð var Agnar Ögn afskaplega lítill Ætíð honum Agnar Smár allar götur fylgdi Agnar vissi upp á hár hvað Agnar litli vildi Hvergi fengu Agnar Ögn og Agnar Smár að vera Agnar vissi að eigin sögn Ei hvað skyldi gera Agnar spurði Agnar hvort ættu þeir að trega lífið og að líða skort Þeim liði ágætlega Alltaf stóð við Agnars hlið annar, sem hins gætti Agnar reisti Agnar við með undraverðum hætti Agnar Smár og Agnar Ögn voru agnarsmáir vinir Agnar Smár og Agnar Ögn voru alltaf minni en hinir ] [ Allt inn í mér dó en ytri skelin hélt áfram og áfram og áfram áfram veginn og vegleysur en skelin hélt áfram uns hún féll í gröf ] [ Því miður er engin örugg undankomuleið héðan vér getum ekki ábyrgst öryggi yðar þótt þér viljið komast burt Í öllum tilfellum er öruggast að vera um kyrrt höfum það alveg á hreinu héðan fer engin ] [ Eitt kertakríli jólanna beiða, af eftirvæntingu kveikurinn sveið. Í ljóstýru kertisins léku sér börn sem mösuðu hátt um jólanna törn. Þau töluðu um dýrð og hátíðarbrag sem aðeins bar upp á aðfangadag. Um kökur og kerti og kúlur og spil og hversu mikið þau hlökkuðu til. Og kertið það varð svo ljómandi kátt af tilhlökkun tómri það hrópaði hátt: „Ég skal lýsa af hamingju fyrir tátu og kút!“ svo brosti það breitt svo brann það út. ] [ Hvítir veggir allt í kringum mig og ljósið á þá skín Hvítir veggir líta um sig mynd þeirra hún dvín Hvítur veggur sem þú starir á er sá sami og miningin var Hvítur veggur sem þú horfir á er bara þar Áttir hans koma þér nær og þú skynjar þá áttir hans koma að þér og þú fjærlægist þá Höfundur: Anton Kristinn Guðmundsson ] [ sólin gyllti gervilegar skreytingar í Bourbon stræti í franska hverfinu í New Orleans þar sem ég gekk annarshugar á eftir hvítskeggjuðum jólasveininum - uppáklæddum innan um peysugráan almúgann þetta var enginn íslenskur afdalasveinn heldur Santa Claus í öllu sínu veldi við stöldruðum við á götuhorni hlustuðum stundarkorn saman tvö á unga pilta syngja frá hjartanu tilfinningaþrunginn blús eins og ég var hann langt að kominn fótgangandi og í svörtum skóm hvað veit ég um hvort hann vissi hvert hann var að fara? ] [ Elsku hjartans ástin mín englar Guðs þig verndi. Megi ætíð sólarsýn signa þína hendi. Í huga er ég heldur skýr er hugsa ég til þín. Endurnærð og yndishýr ástrík sála mín. ] [ Litli fjallakofinn Sefur blítt undir hvítri sæng Senn kemur vor ] [ Allt svo saklaust líkt og í draumi. Ég er barn í sveit og sælu, fylgi guðs taumi. Þetta er minn heimur, alltaf friður. Ekkert heyrist, nema náttúruniður. Úr sveitinni fór og Reykjavíkurnætur vildi. En þar lífið, mig ekki skildi. Ég lenti á vegg, sem var mér um megn. Fyrir sveitinni minni var ég gömul frekn. Inn í gráan klefa var sett og lokuð þar. Sálinn mín hafði hlotið, varanlegt far. Ég rúmföt skar og um háls minn bar. Kalli mínu flýti og um háls minn, kom far. Mamma og pabbi fengu fréttir, um dauða minn. Í sveitina þar sem sælan var kyrr, líkt og ég núna finn. Á mynd í stofu er ég tveggja ára. Saklaus, áttí lífið, án tára. Mamma og pabbi, fyrirgefið mér. Guð mig geymir í faðmi sér. Hefði ég skilið að sveitin nærði mig. Til ykkar komið, áður en snaran herti sig. ] [ Gróðurinn faldi sig í snjónum. Áin lét lítið á sér bera Meðan hún læddist undir klakanum Annað en stöku brest. Sum trén þóttust vera löngu dauð. Önnur stóðu vörð, Varin brynju úr barri. Allir fylgdust með vetrinum Feta hljóðlega yfir fjöll og tún Aleinn. Allir biðu bara eftir að hann færi. ] [ Ég vildi að ég ylli sorg og sjálfseyðingarhvöt svefnleysi og sársauka En eigi vegna vonsku né viðurstyggilegrar vanvirðingu og valdníðslu Heldur er það gæskan og glæsibragurinn góðsemdin og gyðjuleikinn sem myndi vekja djúpa ást svo djúpa að hún deyfði kreisti, kæfði, kvaldi ] [ Ný andlit í stormi tímans nýir menn á vakt um jörðu Horfin andlit í iðu tímans horfið fólk og menning Nýir menn á vakt um jörðu sem himingeim siglir ] [ Hestarnir hlupu óáreittir, í hláku og snjó. Margir móðir og þreyttir, mættu hættu út'á sjó. Svömluðu þeir og syntu, sást ekki í land. Hvorum öðrum hrintu, héldu áfram uns þeir sáu sand. Eyjuna eintóma þeir fóru á, ei sála á ferðum þar. Heilbrigða hestana ljótt að sjá, hamingjan horfin var. Flúið þeir höfðu frá harðræði, fólk barði þá og sló. Nú hafa þeir nóg af fæði, njóta friðar og ró. ] [ úrhellið kom fyrirvaralaust þau hröðuðu sér undan regninu undir skyggni við gamalt hótel neglt var fyrir alla glugga en útihurðin stóð opin eldri kona stóð við dyrnar hún bauð þeim að koma inn hún sagðist geta boðið skjól útihurðin small í lás og ljósin slökknuðu þegar byrjað var að rífa gamla hótelið komu verkamenn að mannaleifum af klæðum að dæma voru þetta karl og kona unga fólkið úr borgarferð Icelandair til Boston 12 árum fyrr ] [ ég hafði alltaf haldið að ég væri eitthvað annað og meira en maður þar til ég fann svarið í fræðsluefni fyrir börn ég heyrði þulinn segja að kindur væru rúnar ... og ég skildi ] [ Á skjánum stóð game over ég samþykkti þá kom exit ég samþykkti það einnig Þá tók raunveruleikinn við eða það sem eftir var hérna megin við spilavítin Allt var með felldu ég komst upp um eitt borð í tölvuleiknum ] [ Agndofa vofan læðist aftan að mér, kaldur andblær, fyrsti september. Einn svartur steinn í hafið fer, sem og koldimm tár í hendi mér. Rykfallin kista nú tilbúin er, sígur hún hægt -ofan í jörðina fer. Veröldin brotin, á eftir sér aðeins ég, þá ást er þú kenndir mér. Ég hef lífið lært, hvað hjartað veit, -skiptir ei neitt. Það er aðeins eitt, sem vökva þarf, trega gleymskunarhaf Kenndir eitt bros er myrkrað var, breyst gat í sólargeisla jarðar, kenndir þá elsku er ferðast um mar og breytist með tímanum, fortíðarfar. Ég hef lífið lært, hvað hjartað veit, -skiptir ei neitt. Það er aðeins eitt, sem vökva þarf, trega gleymskunarhaf ] [ Takturinn horfinn, gatan hljóð Taumlaust, úfið táraflóð Fingur kaldir, í kinnum rjóð Kunnug í minni þessi slóð Augun skortir sinn eldmóð Andardráttur eins og nýþung lóð. ] [ Gold rates you are gold to be forgotten gold is waived of gold ] [ Þú undarlega þráláta stund,sem eyðist og verður ei sótt, það er þessi spurning um skuggan er skilur að dag og nótt. Þessi sekúnda,þetta síðasta augnablik svo margra hornra árþúsunda. Eilífðin verður alltaf eins og aldrei barnsskónum slítur, því sekúndan er og allt sem er í henni öllu lítur. ] [ Grasið er kannski ekki grænna hinum megin við girðinguna en mikið djöful minnir mig að það hafi verið mýkra ] [ Strokleður blaka álftirnar kvaka ] [ Gammurinn geisar rúmur um fjörðinn gengur sem klukka er hann stampar í svörðinn. Frís í kuldanum fóta frár fimur, snarpur, sterkur klár fer um sem hugur manns með geðslag gott gengur framsækinn tölt og brokk. Senn er þá haldið heimleiðis hesturinn þýtur rakleiðis. ] [ Kalinn af kulda er - karlinn sá - sem skelfur inn í sér - af eftirsjá. Svindl og spreð hér áður - sukk og svínerí - af sjúkdóm hann er hrjáður - gerir lítið í því. Að lokum líkaminn svarar ,,nei” - ,,lof mér að hvílast.” Nú opnast mér frelsis hlið - guð minn veitir mér frið. ] [ Lífið er leikur þar til alvaran hefst tekur sér bólfestu djúpt í hjartarótum. Hún kallar köldum rómi en sefur þess á milli. Djúpum svefni. Kyndir undir fjörlega dofnar niður snögglega Hún kemur og fer! ] [ Hulið allt í húmi nætur, Horfin sjónum. Ekki skyn um stefnu, skyn um stund á veginum langa. Nú er hvergi neitt og ekkert lengur. Ekki snerting þín við sál mína, fingrafar þitt á hjarta mínu. Hvar ertu vegvísirinn eini, gatan heim á leið. ] [ ég gekk til fjalla ég sá ljósbogann og árurnar tunglsljósið vetrarbrautina og nýfallinn snjó ég gekk til fjalla og sá fótsporin í hvítri fölinni leiðin að tindinum undir stjörnuhimni ] [ Þögult er kvöldið en fuglarnir er að byrja vél næturinnar - lundar, kríur, ritur sem safnast í lifandi söfnum náttúrunnar ] [ En storm ett ord som blåser på mina känslor Ett hav en droppe i ditt öga, som lindrar ] [ Einar hann er ekki við, innan kemur tíðar. Tjáðu þig í talhólfið eða telefónaðu síðar. ] [ Systir mín litla, ég horfi á þig sofa, svefninum þunga, get ekkert gert. Með tár í augum, öllu nú lofa, ef aðeins þú vaknar einsog þú ert. Hönd þín svo köld, ég finn ekki neitt, græt við rúmið fullur af þrá. bið til þín guð, gerðu það eitt, að bros hennar fái ég aftur að sjá. Sit hérna hjá þér, vil ekki fara, finn svo til að sjá þig hér. Hljóðið í vélinni, heyri ég bara vona þó Sunna, þú vitir af mér Þú opnar augun þín, falleg og blá, hræðslu og sorg, sé í þeim. Þau þekkja mig strax, og veit ég þá, að ég fæ þig aftur heim. Þinn bróðir Stebbi ] [ Á hverjum degi ganga þau eftir stígnum milli blokkanna og fara sér hægt. Hundurinn tregur í taumi enda kominn til ára sinn. Konan stendur þolinmóð og bíður þegar hann tekur sér hvíld frá göngunni. Hún veit sem er að tími hans mun brátt taka enda og biðin verður ekki lengur nauðsynleg. ] [ þú stalst inn í hjarta mitt læddist um og steigst niður laust samt var það hjartað sem þú í mér braust ] [ Eigi hjara þeir sem berast á rösknu og reyndu komast síður í mark því jafnvel tíminn er afstæður eða svo var mér sagt dýrleiki kaffibollans öðru nær í verðinu leynist en svo það ekki gleymist gildir það sama um ást ástarsambönd eru eins og skólaslit þú útskrifast en svo tekur við annað sem jafnvel í ítrustu draumum hefir þú ekki haft von á svo hafðu ekki áhyggjur þótt eitthvað taki enda því ólíklegt er að það sem tekur við verði hinu lakara ] [ Manstu er þú sást mig fyrst í mars þá vetrarnótt? Manstu er þú fékkst mig kysst í mars þá allt varð hljótt? Manstu að við elskuðumst í mars svo blítt og rótt? Tíminn örstutt stöðvaðist þá töfrandi vornótt. Ljósið áfram leiddi mig að ljóma þínum skjótt. Ástin sem nú blómstrar enn óx það sumar fljótt. Tíminn líður áfram hratt í takt við hjartslátt þinn. Ljósið mun nú lýsa okkur lífsins veg um sinn. Augun munu á endanum lokast, köld mín kinn. Moldin tekur líkamann en hjá þér hugurinn. ] [ Hvar sem þú lendir, hvar sem ég er, þú mátt leita til mín. Hvað sem þig hendir, hvert sem ég fer, ég mun hugsa til þín. Lífið ýmsar senur sendir sem ei alltaf fara vel. Þó er allt sem til þess bendir að þú eigir vinaþel. Á öllu verður góður endir allt er gott sem endar vel. ] [ Seint í sumar ég mynd af manni sá.. varð strax spennt og vissi þá.. að manninn þennan mig langaði að sjá.. hitta hann og finna hvernig væri honum hjá.. Fljótt var því ákveðið að hittast og gá.. hvort tengingu okkar á milli myndum ná.. Ég fann strax það gerðist ójá.. Frábært mér fannst það, þig að fá.. úr því varð bara ennþá meiri þrá.. þú ert fallegur svona brúnn á brá.. Flotti minn.. hverju erum við búin að starta? ég ætla sko ekkert að kvarta.. þér tókst að stela mínu hjarta.. því mér kenndir að sjá veröldina bjarta… ...(Dreki, 2013) ] [ Við áttum tíma, sem að sigldum við saman..Draumur minn var, að við værum á sömu leið. Skjólið, þar sem góðar stundir við áttum..Mig grunaði aldrei að gjaldið yrði svo mikil kvöl. Þú skyldir mig eftir, með rýting í hjarta..Ég vissi ei heldur að þú varst með allt önnur plön. Ég trúði að við, værum ætluð hvort öðru..trúði því líka að mitt hjarta væri öruggt hjá þér. "draugurinn minn"! Þú vildir framhjá mér..þrátt fyrir allt sem sýndir þú mér.. ég hélt við yrðum samferða. „draugurinn minn"! Þvílíkur kjáni ég var, því ég trúði öllu sem sagðir þú mér.. Því hugsa ég nú..af hverju "draugurinn minn"? Þar kom sá tími..sem við héldum í sundur..viðkvæmu sálunum sem þá hent var á bál.. Það var á loganna skeiði,sem mér fannst tilveran hrynja..fannst stundum í draumi..að þú værir enn hér hjá mér. „Draugurinn minn" Þú vildir burt frá mér.. En svo skín aftur SÓLIN sem lýsir upp veginn..ég reis upp úr stónni og gekk áfram minn veg. Ástin í fyrstu var blind, en úr fjarlægðinni ég í gegnum hjarta mitt sá..hve mikill kjáni ég var..Það var ekkert að marka þig.. "draugurinn minn"! Þú vildir burt frá mér.. Nú veit ég betur..því dálítið þú kenndir mér.. „draugurinn minn"! Ég stend best með sjálfri mér... (Dreki, 2012) ] [ Þú stökkst til mín og vafðir bandi um úlnliðinn á mér. Ég vildi að þú hefðir bundið hnút og aldrei sleppt endanum. ] [ Hjarta mannsins er honum týnt lengi vel. Ég fann mitt í sumar en þá var það farið. ] [ Langaði að segja svo margt Ætlaði að færa þér heiminn með orðum. En ástinni lýsa engin orð. ] [ Þar skila ég óhreinum þvotti og sæki hann hreinan daginn eftir En í dag varð þvottahúsið ævintýraland Í dag mættumst við þar og þú gafst mér nokkur dýrmæt orð. ] [ Þetta ljóð átti að vera um vorið því ég horfði út um gluggann og sá bláan himin En allt sem ég gat hugsað um varst þú. ] [ Þú færð mig til að hlæja aftur og aftur og návist þín gleður mig. Líf okkar eru saman tvinnuð, fylgjast að Ég finn enn fyrir hönd þinni utan um mig, þéttu taki fingra þinna En veistu ekki vinur, að línur sem fylgjast að geta aldrei skarast? ] [ Alvöru karlmenn keyra ekki Volkswagen Passat Þeir leyfa heldur ekki konum að keyra bílinn sinn Ég vil ekki alvöru karlmann Ég vil þig ] [ Kvöldið er bjart Ærnar byrjaðar að bera Lóan er komin En veistu hver er vorboðinn minn? Auðvitað ekki, þú ert svo hógvær. ] [ Við sem fengum lífið í arf, Urðum arfberar sjálf. Föst með sjúkdóminn hvílumst við ekki, Fyrr en lækning finnst. ] [ Handan við gott og illt er uppspretta beggja þaðan lind flæðir sem í núinu elur öll mannsins verk ] [ Og enn á ný mun nóttin færast yfir og næturkyrrðin hjúpa jörð og haf. Hún færir hvíld og frið öllu sem lifir. Og fæðir undir morgun nýjan dag. ] [ Stundum stuðlar ekki neitt; strák það gerir dapran. Hart þá er að ganga greitt gegnum daginn napran. ] [ Rukkaður um hundraðkall í sund. Labbaði samt inn á Faktorý í gær, án þess að vera beðinn um skilríki. (Þrátt fyrir skeggvöxt sem minnir á kíví.) Ég hafna öllum viðmiðum og gildum og fer ekki úr skónum áður en við göngum inn í búningsklefann. Við berum okkur saman og berum okkur svo saman. Ég tapa... svo ég þarf að bera hann í sturtu og bera svo á hann sápu. Þó sturtan hafi verið gullin er veðrið úti grátt, sem þýðir bara eitt - engar guggur á svæðinu; einungis einstæðar mæður og skeggjaðir Þjóðverjar. Mér líður illa eftir gærkvöldið, því ég borðaði kvöldmat gærkvöldsins afturábak fyrir framan stelpuna sem ég er skotinn í. Ég fer því út í stóru laugina að synda í von um aflausn minna synda. Og þegar ég kem loksins upp úr er ég nýr maður. ] [ Húmið kyssti burt dagin minn kaldi og við, líðum saman inn í nóttina. Bara ég og þú napur í farteskinu. Skugginn minn hvarf með deginum, og ég, blindur á ljósið, sé hann samt í huga mínum. Hvar hann fylgir mér eins og syndir mínar ] [ Gítarspil við hafnarbakka borg við hafið kvöldþoka Haustrigning nótur í myrkri og ljósblá kona ] [ With many forms and many features we are all ´´You´´. You are the sole survivor in this ‘‘Lila‘‘. This is your life and your death my Lord. You always win and you always choose. Winning and loosing is the same to you. It is all for the thrill and all for the chill and all for the progress that you make through ´´You´´. -Pranava- ] [ ég er staddur í leikriti sem mig langar ekki að sjá leikritið heitir líf mitt ég stend upp en til beggja hliða situr fólk og klappar ljósameistararnir og hönnuðir sviðsmyndar eiga fullt í fangi leikararnir fumlausir fara með rullununa að vera eða ekki vera hvað er andskotans málið að vera og ekkert gera bið eftir hléi er tálsýn maulaðu bara molann sem þér var gefið baulaðu inn í þér á leikstjórann og á liðið sem situr til beggja handa sussar og horfir á þig klappar þér lof í lófa er leggjast rauð tjöldin fyrir augum og ljósin slokkna eitt andartak áttarðu þig að vera var ekki málið heldur fara.. ] [ Og nú skín sólin sem yljar kaldar kinnar og brosin færast yfir andlitin bjartir eru töfrageislar hennar sem mót þér breiðir faðminn sinn hún yl sinn sendir í fylgsni sálarinnar svo glaðst geta sálartetur um sinn. ] [ Sumarið kemur með fuglasöng og fiðrildin flögra glaðvær börnin leika og gamlingjar fara á stjá hversu yndislegt er lífið svo ljúft, á björtu sumarkvöldi. ] [ Nú er úti vætusamt verður allt að klessu landanun er ansi tamt að væla yfir þessu. ] [ Bylmingshögg í morgunsárið vekur vel til hugsunar konan rögg rífur hárið klæðir mig í buxurnar hellir lögg yfir bálið herðir tak um kverkarnar réttir að mér riðgað stálið segir höst til verkanna ] [ Hastur Frjáls? Reyrður fastur upp að haus Ráðalaus Veit ei hvað til bragðs skal taka hvert skal leita hvern skal saka vona bara að böndin trosni rifni og losni En hvert skal farið? hvað skal gera? mitt er valið taka af skarið eða láta vera? Verð að standa traustum fótum skjóta rótum sýna dug, anda vísa á bug hræddum hug hefjast handa finna leið sem er greið án heftandi banda veit ei hvaða leið skal valin held af stað sárakvalinn enginn asi engin ákefð ekki nein harmakvein þó ég hrasi brjóti bein ] [ Bungur og bugður bæla minn hug dug bera hann ofurliði en þær hæðir og lægðir hugann og væðir þó miði hann frekar að viði ] [ Húki útí horni inni á bar og sötra bjór Harma það sem áður fór Í mér logar samviskunnar miskabál Döpur minning þjáir þreytta sál Ég minnist föður sem sæði lífsins sáði laga hans og viðmiðs sem mér háði Hann gaf mér völ en ég fékk þó ekki samið Hlaut þá dóm þó glæp ei hefði framið Sár og bitur sór ég arfleið hans að eyða og hans börn í villigöngur leiða Í svartamyrkri skyldu fá að hírast þar sem varnarleysi þeirra væri skýrast Þau skyldu fá að kynnast ógn og hroða og aldrei lifa nema í vá og voða Öll þau skyldu mínum dómi sæta uns köldum dauða þjökuð myndu mæta Hundrað þúsund harmakvein mig kvelja nú hefnist mér mín staðfesta og elja Panta annan bjór og fæ mér sopa mér er bumbult - læt mér nægja að ropa Eldar brunnu mér í hjartarótum Er þeir stigu land þitt traustum fótum Fyrstir fengu að bragða á bræði minni betur hefðu fargað eigin skinni Þeir sem síðar máttu dagsljós líta Allir fengu sama dómi að hlíta Hefndarþorstinn brann þó ei jafn heitt er börn míns föður ótal hafði deytt Eftirsjá er allt sem ég á eftir Angist, eymd og sjálfshatur mig heftir get ei lengur við minn sora unað fæ ei af mér góða hluti munað Harmur minn og voðaverk mig buga Hokin lýt ég höfði, hvíli huga Líkt og seytli úr gömlu svöðusári svíður vanga undan föllnu tári ] [ Áræðni að ragnarökum vermum stálið tröllatökum finnum bruna inn að mergi kvikum hvergi lengi munum sárheitt bálið áreynsluna lengur munum umbun funans þæginguna Rimmuher vakinn er hnúar harðna því engum er sem vex sver vömb til varnar drögum fram í hvern þann mann dyggð og dug ekkert heftir framan að hans rimmuhug eftir stendur brjóstið hert sterkar hendur riflaður magi steingert bak stinnar lendur leiðum þá sem reiða á okkar ráð af rögg og natni svo þeirra geð og líðan batni Fylkjumst að hvors annars var þaðan af sameinaðir einarðir grjótharðir stoð og hvati ] [ Í skjóli nætur, húmi þeirrar líðandi stundar staulast ég áfram skref fyrir skref leita stuðnings - en finn hvað innra mér blundar ógeð á öllu sem fyrir mig ber Yfir vitgrönnum verum bölsýnn ég blygðast velti vöngum hver tilurðin er brandskuða leita til varhygðar friðar inn fyrir eigin þungbúna þel Í sorta bliks minna augna er von sem mig sefar þann sviða, þá vá sem í brjósti ég ber en sýn mín mig vekur og skekinn ég sé að borin er von mín og kraftur minn þverr ] [ Þó kíti það bíti það hrýti það víti það skal líta það lýti það sem hægt sé að nýta það vaxi það upp og mannist þroskist og dannist. ] [ Dulmögnuð þokan í morgunsárið. kynjaverur á sveimi. kyngimagnaður kraftur. hulin okkar heimi. . ] [ Holræsi telst vera frá vatnsborði klósetts að útrennsli í sjó annað er ekki holræsi Holræsi skal vera hallandi allt frá salerni til sjávar þá telst vera sjálfrennsli það er sjálfrennandi skólp Vanda skal til verks þegar vinna á við holræsi bæði hugmyndavinnu og skriftir ] [ Og sólin skein á mig er ég settist við sjóinn. Og hún yljaði þér, þá bjartur var flóinn. Og sólin skein á okkur er vaknaði kjóinn. Og lífið stóð í stað - hvert andartak var eilífð - er við sátum við sjóinn. ] [ Hún er svo undarleg, þessi tilvist. Maður með gítar og engil á öxl opnaði augu mín fyrir fegurð og hræðileika örlaganna seint á júníkvöldi. ] [ Ertu komið kæra sumar? Kuldinn var að drepa mig. Dátt ég fagna'er birkið brumar og blessuð sólin mundar sig. En þótt ég sæki sólarverju og set á eldinn angussteik, ég hryggur man að hvað úr hverju hverfur þú á nýjan leik. ] [ ég hef hugsað mér að semja tilgerðarleg ljóð þangað til ég dey ] [ Það var á Þorláksmessukvöld og húsbóndinn á heimilinu var að skreyta jólatréð.Þegar hann hafði lokið við verkið, virti hann tréð fyrir sér þar sem það stóð hlaðið hinu indælasta skrauti sem glitraði í öllum regnbogans litum. En hvað börnin verða glöð þegar þau vakna og sjá hvað jólatréð er fallegt hugsaði hann með sér um leið og hann hagræddi einni jólakúlunni. Í sama bili varð hann var við eitthvað kvikt á greininni þar sem kúlan hékk og sá þá að þar var komin dálítil könguló sem hafði vaknað af vetrarvala sínum við hlýjuna í stofunni. Hann ætlaði að fara að drepa litla dýrið af því það væri ómögulegt að hafa sprelllifandi könguló í sjálfu jólatrénu. En það var eins og eitthvað hélt aftur af honum. Jólin voru nú á leiðinni hugsaði hann með sér og allir áttu skilið að eiga gleðileg jól, líka litlar köngulær. Á aðfangadagsmorgun var hann fyrstur á fætur og auðvitað gat hann ekki setið á sér og fór því rakleitt inn stofu til þess að dást að jólatrénu. Sér til mikillar undrunar sá hann þá að tréð var alþakið yndisfögru englahári. Þetta hefur konan mín afrekað, þegar hún kom heim úr vinnunni í gærkvöldi , eftir að ég var sofnaður,hugsaði maðurinn með sér. En þegar hann gekk nær jólatrénu sá hann að englahárið fagra var listilega ofinn köngulóarvefur. ] [ Ég er á nýum stað, langt frá honum. Byrja nýtt upphaf, og hann er ekki hér. Þetta er frábær staður, ég þarf ekki að sjá hann. Það er allt svo fullkomið, en ég get ekki annað en grátið, þegar ég fæ allt sem ég þarf, en það er ekki það sem ég vil, það eru liðnir margir mánuðir og hann er ekki hér. ] [ það er rigning í hausnum á mér það er ljóð í hausnum á mér engar viðbætur verða gerðar á vegum en allar leiðslur og tengingar í hausnum á mér eru úreltar með öllu ég ætla að fá eina með öllu ég er ekki með öllum mjalla mjaltatímanum er lokið en kýrnar standa við mjaltavélarnar og geispa bíða þess að mjólk verði sett í tankinn hversu lengi eiga þær að bíða, Astarta? það væri ágætt ef Theo kæmi nú einu sinni heim og þá þyrfti ég ekki að horfa á öll þessi ljótu þök í eymd minni því hvað er Vesturbærinn annað en ljót þök og rigning og fölt fólk í sundi? líklega er víðar fölt fólk í sundi en Vesturbærinn er samt ömurlegastur allra nei djók hann er fínn en ég hef samt efasemdir um að þetta ljóð hafi nokkra stefnu ] [ ég opna aðra dós og helli í mig nýju ógeði ] [ það er laugardagur og ég er leynilegur asískur maður ] [ Hugsandi um mína druslu daga. Engar tilfinningar, ekkert væl né drama. Í tungsljósi heitur, heillandi var. Í sólinni vonlaus og ástin hvað. Þóttist vera með allt á hreinu. En gerði þó ekki neitt í neinu. Síðan það var, er gyðja kom þar. Tilfinningar, lífið allt fór af stað. Týndur í lífinu, sullinu, bullinu. Orðin svo geðveikur á öllu ruglinu. Haltu mer slepptu mér, Sísí mín. Gyðjunni tapað, ég yrki til þín. Hver er ég nú, hver vill ég vera. Hvað í andskotanum á ég nú að gera. ] [ Hugarflaug í skotstöðu í heilabúinu. Hirosima númer tvö - er ég! ] [ Dúnmjúkum sporum dansar dagurinn þér frá. Fyrr en varir verða vikurnar að árum. Lítir þú um öxl er ævin liðin hjá. Eyddu því deginum með dáð í dansi lífsins. ] [ Ef alheimur er kollekt símtal þráðlaust símtal um óravíddir ef engin er á hinum endanum þá er engin hérna heldur Ég beið eftir svari í smástund og hugleiddi þessar staðreyndir þá kom rödd hinu megin sem sagði viðtakandinn borgar ekki símtalið ] [ Snertu mig í nóttinni, snertu mig á ný. Leiktu þér við hjarta mitt tóminu í. Leggðu til mín leiðina löngu, komdu fljótt. Snertu mig í nóttinni, snertu mig , hljótt. ] [ Margt var sagt um manninn þann Og misjafnt kynni að heita En góða tónlist gerði hann Get því ekki neitað. ] [ Það vorar brátt á kaldri jörðu minni. Sólin færist dag hvern hærra og hærra og litar allt og bros þitt verður stærra, með von í hjarta tengist sálu þinni. Já, berið henni kveðju mína blíða ég sjálfur get ey gert það eins og stendur. Líkt og mér séu bundnar báðar hendur. Leikiði ljúft um andlit hennar fríða. Söngfuglinn góði, hjarta mitt það fer með endalausum efa dýpra en hel, á stefnumót í huganum með þér. Farðu og leiddu, helst sem allra fyrst stúlku nokkra með augu, blá sem demantar. Söngfuglinn ljúfi, hún er perlan mín. ] [ Vera mín á jörðu hér er liðin, ég kveð nú allt mitt fólk í hinsta sinn. Lengi dreymt, en búin er nú biðin, gráttu ekki, elsku vinur minn. Vítiskvalir hef ég þurft að líða, kvíðinn oft á sálu minni brann. Ég veit að þú munt eiga ævi blíða, þó sjálfur hamingjuna aldrei fann. Ég fangi er í mínum eigin huga, og sjaldan fæ ég frið frá eigin kvöl. Svo ef ég væri orðin lítil fluga, ég fljúga myndi burt frá lífsins böl. Þótt lífið oft á tíðum sýnist erfitt, er endalaust af gleði til í því. Bróðir sæll þú skjöldur ert og sverð mitt, ég veit við munum hittast senn á ný. ] [ Ró og næði, ég þigg bæði. Vandræðum gleymi, ég er einn í heimi. Dýrin leika við hvern sinn fingur, þröstur syngur. Ég sný við, eftir langa bið. Aftur í raunveruleikann. ] [ Löng barátta háð, markmiðum náð. Ég uppskar, þú ert allt sem ég hef þráð. ] [ Enn geng ég gamla slóð götuna mína. Í dimmunni dreymir mig dagana þína. Í kvöldroða rifjast upp rjóðrið væna. Lautin okkar og lítið tré með laufið græna. Enn stíg ég einn í sporin er enginn sér. Hér koma enn haust og vor og heilsa mér. ] [ Ég er belja á bláu svelli í ballettskautahlaupi lífsins. ] [ Ég festist í vef þínum, eins og bjargarlaus fluga. Þú eitraðir allt í huga mínum, að flýja frá þér var ei smuga. Með klóm þínum þú krafsaðir, og kramdir mína sál. Á örskotstundu hafðir þú, tekið burt mitt mál. Ég var orðin þræll þinn, og líkt og nakin um ég gekk. Enn í dag ég fyrir þér finn, hver einasta snerting á mig fékk. Haturinn blundar í huga mér, er minningin drepur á dyr. Þá sit ég stjörf og jökulköld.. ég man þig sem aldrei fyrr. ] [ ég hitti lampann suma daga þá brutu tumburmenn þess mynsturs húsin sín og þá lögðu þær alls staðar tómleikann þann sem mynntist við þær hefur það eitthvað upp á sig? timbrungurinn er sprunginn en gungan gengur Án þess að afstýra þessari sýru og þessum unaði óendanlegum ég virði það að vettugi á þessari jörðu opinberlega rambaðir þú á líkið af Davíð Oddssyni í skáp ríkisstjórnarinnar en því hefur verið fleygt á ösku daganna af uppreisnarmönnum innan ríkisstjórnarinnar á öskunni dansa aparnir í skítsófrenískum skjálfta af tillitsleysi við guð almáttugan fabúleraðan og flamberaðan ég verð svangur við tilhugsunina um samtakamátt margra svangra handa sem leika lausum hala í þessum loftkastala alheimsins en þetta hefur engin áhrif á guð né hans blessun hans blessuðu bölvun og reikistjörnurnar en þá varð sá staður smánaður af mikilli hræsni strax í upphafi og nefið með ] [ Sjálfsmynd mín er vasi,- brotinn vasi,ehemm! Límdur vendilega saman... en takið eftir, ekki alveg nógu vel. Fylltur vatni var vasinn til þess að vökva blóm sálnanna í eyðimörkinni. En bágt fær mér á baukinn þegar bunurnar standa í allar áttir ] [ Það var yndislegt haust á Austurlandsheiðum, alsæl hún lék sér á marglitum breiðum, og vorsins hún beið með blikið í augum, í barnslegri gleði, svo þanin á taugum. Þá gjallandi seiðurinn glumdi um bláinn og gleðinnar draumur um vorið, var dáinn. 2.september 2011 ] [ Ég vissi að þú vaktir með vonir á bak við dyr. Og raunir þínar raktir til ranglætis áður fyrr. Er dagur um djúpin líður mig dreymir liðna tíð. Bak við fjöllin bíður fegurð þín svo blíð. Ég aldrei get þó undið öll mín gömlu tár. Og bænir mínar bundið ég ber þær öll mín ár. ] [ Ég held það hljóti að vera meiri háttar upplifun að deyja. ] [ Enginn getur undið öll sín tár. Breytt og bundið öll sín ár. Því allir deyja eins og til er sáð. Ykkur að segja eru engin ráð. Blessið sól og sævi sá fræjum á völl. Enginn veit sína ævi fyrr en hún er öll. ] [ Í Lækjartúni undrafagurt sólsetur á haustjafndægrum. ] [ Svo þrungið litagleði hvert sem ég horfi sé ég litina. Þeir fanga huga minn fá mig til að stoppa og velta tilverunni fyrir mér. Og ég hugsa „ég er heppin“ að tilheyra þessari fögru veröld. ] [ Landsins vættir verndi þig. Drottins andi efli þig. Hugsi ég um haust og vor. Gneista ennþá gömul spor. Leggi firði fenni skörð. Finn ég til með fósturjörð. Þegar vetur kveður kinn. Finn ég vorið um vanga minn. Gráti himnar í gömul spor. Samt ég elska íslenskt vor. Er fegurð opnar faðminn sinn. Dreymir mig um dalinn minn. Land mitt eina ég uni þér. Hert af eldum í hjarta mér. Lengst við fjöllin langt frá sæ. Liggur dalur með lítinn bæ. Land mitt dreymi dag og nótt. Sólin hnígur hægt og hljótt. Þótt fenni lautir og fagran skóg. Finn ég heimsins helgidóm. Hendur þínar halda um mig. Ég er barnið sem elskar þig. ] [ Ljóð eru orð sem fylla hugann brjóta sér leið og þrýstast niður fingurgómana ljóð er tjáning á tilfinningum á lífinu, tilverunni, fólkinu. Ljóð eru orð sem verða að sögum ljóð eru orð sem þurfa að komast á blað. ] [ Hann gengur álútur mót vindinum blautur, kaldur regnið dynur á honum fallin laufblöð fjúka um göturnar. Hann finnur að vetur konungur er í nánd. Hann bindur hettuna fastar á úlpunni heldur áfram göngu sinni með veðurbarið andlitið mót vindinum. ] [ Ekki hverfa burt mér frá, Elsku besta vina. Viltu mér ávalt vera hjá? Ekki hlusta á alla hina. Þú lést hið illa lokka þig, burt frá hinu góða. Þú leyfðir þeim að loka á mig, loka á eina vininn, fróða. Ég vildi óska að gæti ég, togað þig til mín aftur. En þú ert mér víst horfin, elskan mín. Burtu farinn minn sálarkraftur. Fíknin sinn aðal hýsil hlaut, hún hrifsaði burt frá þér gleði. Nú ertu komin á ranga braut, lætur lífið þitt vera að veði. Komdu til mín aftur nú! Það er ekki of seint að snúa til baka. Það eina sem bjargað þér getur, ert þú, En ég skal svo við þér taka. Sem eldur lyfin leika sér, byrja sem saklaus leikur. Þau leyfa þeim að leika sem, Er ekki við þau smeykur. Ég get víst ekki ráðið því, hvað þú gerir vina. Mig langar bara að vita hví, þú hlustaðir á hina. Ég man eitt sinn, þá sagt mér var, „brennt barn forðast eldinn“ Hve mikil þvæla er nú það, Þau hræðast ei logana lengur. Ég mun halda áfram að berjast, Sama hvað, og reyna þér að bjarga. Reyndu að verjast ef þú nærð, ekki lífi þínu farga. ] [ Nú þroskinn fegrar fagra kinn því segi ég með gleði og stolti Til hamingju með daginn þinn kæra mágkona úr Holti ] [ Fallegur er drengurinn ekki er því að leyna Spurning spyr þó forvitinn "Hvað á barnið að heita"? Eftir skírn Góða ferð á lífsins vegi fylgi birta,hlýja og von Bestu óskir til þín ég segi Eðvald Pétur Birkisson ] [ Mín kona gefur gleði og hrós beint að mínu hjarta Kærleikurinn frá Bergrós auðgar lífið bjarta ] [ Hún Sigrún hefur blíða lund og er fær í sínu fagi Hún stundum stjórnar góða stund Það nefnist Sissu agi Alla daga þessa öld áfram skal gengið veginn Nú byrjar fagurt ævikvöld Til hamingju með daginn ] [ Þar sem lognið ávallt hló, við aldrei munum gleyma. Okkar æska í kyrrð og ró minningarnar streyma. Fjallahringur og fjarðasýn alda í fjöru ómar. Ávallt best þá sólin skín sjávarniður hljómar. Margt er breytt og annað nýtt tímans tönnin vinnur. Eins og vorið bjart og hlýtt okkar hjarta finnur. Norðfjörður í logni og sól við áttum samveruna. Þetta fyrrum höfuðból þannig viljum muna. ] [ Eins og eðalvín á góðum stað sem geymist mikið lengur Óðalsbóndinn á Skorrastað í anda ávallt drengur ] [ Fallegur er fjörðurinn í sól og líka í vindi Ekki fýkur húmorinn þó blási á fjallatindi ] [ Herbergið mitt er eins og þögn sem býður varla góðan daginn Ég held maður verði ögn að reyna að bæta braginn Því nú þegar kvölda tekur og skemmtanataugarnar skekur kvöldið blasir við æginn og ég dríf mig bara í bæinn Þegar í bæinn er komið þá er kíkt á stórgötu stóðið Stúlkur við götuna standa og fallegt augnaráð strákunum senda Þá er það næsta skref að drífa sig á diskótek Og ef að heppin ég er þá eina heim með mér hef ] [ Ægir konungur á marga vini hýsir marga landsins syni En hafið gefur gull í bú fyrir höfuðból og vinnuhjú Ægir konungur geymir auðinn fiska hafsins og orkustrauminn Og hafið gefur gull í bú fyrir höfuðból og vinnuhjú En hver á kónginn og allan strauminn og hverjir eignast sjávarauðinn Kannski gefur hafið bara gull í bú fyrir höfuðból og þeirra bú ? ] [ Sé lífið eins og að klífa fjöll sem ástin gerir kleif þá breytir fjölskyldan húsi í höll elsku Bergrós, Gísli og Eyleif ] [ Það flugu svartir svanir að silfurtærri lind. Og vængjasláttur þeirra vakti mannsins synd. Og kirkjugestir grétu við gamla helgimynd. En flugið vakti fagnað um fold og öldu sjó. Og vorið barst að fjöllum með von og styrk og ró. Meðan andi allra hinna var ennþá hulinn snjó. En sumir gátu skilið svana flug og mál. Dáðust af vængsins kröftum er kveiktu í þeim bál. En aðrir riðu röftum ræddu aldrei þessi mál. Fjaðrirnar sem fljúga þær finna afl og mátt. Og þorið eflir styrkinn yfir þrútið hafið blátt. Þar sem fár stjörnur lýsa en þeir stefndu í rétta átt. ] [ Tinkí Vinkí Dipsí Lala Pó. Smákrakkasólin Drullumallsbúðingur. Dansandi djöflagleði Ég horfi dáleiddur. Heilasellurnar deyja, Þær geta ekki umborið þessa vönun Þær öskra, og æpa. Þær hengja sig og skjóta. Röðin er endalaus í gálgaklefa hugsunarinnar. Þættinum líkur. Ég slefa á golfið. Geng á fjórum fótum. Thinkí Vhjinkí Dihpsí Lahlah Póh ] [ Eigi vaða í villu og svíma í válogum genginna tíma. Horfðu upp í himinblámann og hugsaðu fram á við. Trúðu á mátt þinn og megin það mun þína giftu skapa því Guð býr í brjósti þínu og býðst til að leiða þig. ] [ Steinrot og hrúturinn, í æsku voru baldnir Gengið hafa lífsveginn, núna betur haldnir ] [ Úr vegferð myrkurs er að mörgu að hyggja því margt þarf að laga, reisa og byggja bæla burt myrkur með ljósinu bjarta dýrmæta lífinu þú ávallt skalt skarta Við endurfundi skín ljósið svo skært þakklæti og gleðinnar ómur Í sálinni kemur friður svo vært hinn tæri lífsins hljómur Í birtunni er tónninn svo fagur margbreytilegur, svo hreinn og glaður Því eins og bjartur sumardagur er Bjarni Trygga okkar maður ] [ Fyrirgefnar syndir forðum, finnur kall að frelsa andann. Grúfir yfir gleymdum orðum, græðgi auga glápir handan. ] [ Ungu lífi kastað á glæ Hugurinn leitar í líkingar veðrabrigði á hausti Hugurinn leitar í spurningar Færra er um svör Hér eiga fá orð við Það er nærveran sem gildir. ] [ Úti er niðamyrkur vindurinn gnauðar greinarnar á trjánum sveiflast til og frá í vindinum, skuggar þeirra líkjast skrímslum í myrkrinu trjágreinarnar eins og kræklóttar klær sem reyna að krækja í þig er þú horfir út um gluggana. Vindurinn gnauðar það er dimmt það er kominn vetur það er kominn októbermánður. ] [ Miðaldra hjón sitja í sófanum hann með Ipad hún með fartölvu á hnjánum. Þau gjóa augunum af og til á myndina í sjónvarpinu litli hundurinn þeirra liggur við fætur frúarinnar uppgefinn eftir eril dagsins en hjónin halda áfram að góna á tölvuskjána hann á Ipadinum hún í tölvunni. ] [ Ég sit og sötra mitt kaffi glugga í blöðin og spái í lífið og tilveruna. Stríð, hungur og fólk á flótta. Mynd af grátandi móður og hungruðu barni. Sundurskotin heimilin. Hvers vegna er mannskepnan svo grimm, svo gráðug. ] [ Engan ég þekkti sem ávalt var glaður aldrei hef vitað um neinn eins en þig, hoppar, skoppar og talar sem maður takk fyrir að velja mig. Koss þinn á kynn mér fastur er og aldrei þér ég gleymi með skottið dillandi burtu fer minn besti vinur í heimi. ] [ ég er vaknaður það er leiðinlegt ég kyssi þig það er skemmtilegt ég kúri hjá þér það er skemmtilegt ég rís upp það er leiðinlegt ég fer á fætur og er myglaður fer í hrein föt og er minna myglaður bursta tennurnar og er minna myglaður ég kyssi þig bless og rýk út í kuldann strætó er seinn. bílstjórinn sýnir engin svipbrigði frekar en vanalega en það þýðir að ég fæ far útsýnið af Sæbrautinni er ágætt í haustsólinni og Harpan er jafn stór og fyrr á Lækjartorgi fara allir út nema ég og bílstjórinn sem heldur áfram að hlusta á Útvarp Sögu eins og bílstjóra er siður í útvarpinu glymur rödd sama leiðinlega útvarpsmannsins en á línunni er nýr tuðari með sömu leiðindi bílstjórinn brýtur umferðarreglurnar í hringtorginu sem fyrr og keyrir áleiðis að því stærsta ég fer út og geng fram hjá túristunum sem borða morgunmat af áfergju við hornið á Hótel Sögu er sama ógeðslega lyktin frá ruslagámnum sem heilsar bíógestum á kvöldin og nú eftir nokkur skref í viðbót er ég kominn í skólann ] [ skáldið gerir grín að sjálfu sér og sínum væskilslegu tilburðum til speki ] [ Mjög það sækja raunir á mig rammt Ryðjast sorgir ráðlaus dapur hýrir Eftirsjá er eflist dugar skammt Endemis sorgin öllu stýrir Þá skal muna það sem oftar gleymist Þakklátt hjarta alltaf reynist best Öll sú gæfa sem gefin okkur geymist Minning gæfu gleður hjarta mest ] [ Klettarnir í fjöllunum þeir kannast við mig. Og hvísla að mér vinur við þekkjum þig. Um dyr að okkar klettum enginn aftur fer. Við opnum fyrir draumum með dauðblik í sér. Ég heyrði hálfkæft inni óp í þetta sinn. Að kletti var ég kominn og þekkti drauminn minn. ] [ Það var sólskin og sex og stúdentar góla. Það var pæling og pex í Parísarskóla. Bárum sterklituð spjöld með speki og óra. Það var framvarðafjöld með fagnandi kóra. Þessir fánar og flökt báru helsið á brott. Vík bardagabrölt burt allt sem er flott. Svo var mamma mín mætt hún mælti og sagði. Nú er brambolti hætt ég blankur og þagði. Tók mig taki til svars tók frönsku og þýsku. Svo voru Sartre og Marx sagðir úr tísku. ] [ Fyrirgefðu augum mínum, þau litu fegurð þína við dagrenningu. Fyrirgefðu höndum mínum, þær snertu hörund þitt í morgunsárið. Fyrirgefðu ást minni, hún grét með morgundögginni. Fyrirgefðu draumum mínum, því þar man ég enn angan fegurðar og djúpbláma augna þinna. Í nótt varstu draumurinn minn eini. ] [ Malbikið fann til við að stöðva fallið mitt fann meira en ég. ] [ Og þegar staðan var hvað ömurlegust að mér þótti (þó hún hefði raunar áður verið verri) barst mér hjálp úr óvæntri átt ég fann ljósið í myrkrinu sumarið í vetrinum næði í látunum gleði í sorginni. en svo rankaði ég við mér Fífl get ég verið vongott og brosmilt vingjarnlegt en ástfangið fífl ] [ Ef skýin gráta rignir svo þau eru áreiðanlega alsæl, alla vega í augnablikinu. Svolítið eins og ég. Alla vega í augnablikinu en rétt eins og skýin þarfnast stormanna til þess að brosa þarfnast ég þín. Alla vega í augnablikinu. ] [ Hvað er rétt og hvað er rangt, hver hefur à réttu að standa? Sumir teygja hugann langt og gleyma hvað aðrir halda! ] [ Andskotans Mývargar drullist burt ! Þið sem ofsækið mig á björtum sumardegi Þið eruð ekki af guði gjörðir Þið eruð eins og í Píslarsögu Jóns Magnússonar Píslir og plágur sem osækja mig Kölski sjálfur í holdi ykkar brennir Vík Burt ! Ég krosslegg nú fingur En ekki lætur Kölski það á sig fá og fram hann gengur DDT DDT Haha sjá nú hvað er að ske DDT DDT Dominokubbar sem falla DDT DDT Láttu þér þetta að kenningu verða DDT DDT Mér tókst loksins þig niður að særa En nú sé ég að ég hef bitið á öngul þinn Veiðimenn eru hættir að fiska hér við vatnið Endurnar falla og síðst Ég ] [ Stundum sé ég á þér að þú ert að ljúga En ég segi ekki neitt Ég fæ bara hnút í magann Og segi eitthvað fyndið til að ýta honum í burtu Stundum finn ég hvað þú ert óheiðarlegur En ég segi ekki neitt Horfi bara í hina áttina Og læt sem ég taki ekki eftir því og vonast til að tilfinningin fari í burtu Stundum tek ég eftir því hvað þú ert hræddur Og þá finn ég til með þér Og skil hvað þér finnst þetta erfitt Því það er verst fyrir þig að þurfa að ljúga og vera óheiðarlegur En þetta fer ekki í burtu fyrr en þú hættir.. ] [ Ég kvaddi alla bresti og fór veg veraldar í gildru allra bresta Ég kvaddi alla kosti en fann sjálfan mig nývaknaðan úr draumi ] [ Löngum þreytt, engu breytt, ótrautt haldið áfram. Alltaf meira, sífellt fleira, skálin barma full. Stráið á hlíðinni var þumlung of stutt, jafnvæginu er raskað. Meiri spenna, vitin brenna, biðin senn á enda. Tíminn líður, áfram skríður, frelsar alla að lokum. Ég get falið tár mín í regninu, og brosað í blindandi sólinni. ] [ Við skiljum helming af því sem við heyrum við heyrum helming af því sem er sagt helmingurinn sem að hálfu er skilin hálfast með líðandi stund fræ að skilningi ] [ Það er rokrassagat í minni sál rjúkandi óveðursins bál. Öskrandi vindhviðurnar æðandi organdi í hjarta mér blæðandi. ] [ Englar vita allt um ástina og vorið og okkar innstu von og þrá. Barnið kom yfir voginn á vængjum borið vakið englar honum hjá. Og seinna þegar hafið úfið ygglir og ísinn rekur að þér inn. Ástarengill hljótt af himni siglir og huggar litla drenginn minn. ] [ Heiðskír himininn á köldu vetrarkvöldi, tindrandi stjörnurnar mánaskinið bjart, norðurljósin um himinhvolfið svífa, íðilfögur, eggjandi, ósnertanleg fegurðin. Dolfallin, dreymandi starir upp í himinhvolfið, teygir armana titrandi upp til stjarnanna heilluð af fegurð og mikilfengleika himinhvolfsins. ] [ Frjósemi hugans eins og fallandi foss, fagurker orðanna sem lindin tær dýrðleg, dularfull dreymandi. Uppspretta orðanna streyma fram úr fylgsnum hugans eins og ólgandi á. ] [ Jökullinn svo ægifagur, seiðandi, fullur dulúðar. Magnaður töframáttur hans er sem segull á mátt hugans, eins og fagrar verur í lokkandi dansi er laða til sín sálir okkar og festa í heilgreipum fagrar sýnar jökulsins. ] [ rykgrímurnar ræsktu sig og sveltu svo í hel ] [ Ég er á móti öllum sem eru á móti einhverju sem ég er ekki á móti. ] [ Hér eru nokkrir punktar varðandi það sem ég vildi sagt hafa ........................................................................................................................................................................................................................................................................... ] [ Skýin fara sér hægt hátt yfir götunni í borg sem aldrei sefur Þar er hún svört þar sem áður voru menn fögur sem alltaf og ein Og þegar lokkar hennar umlyggja strætin þá er ég maður / vél í tunglsljósi vélmennið X leðurklæddur á götuhorni ] [ það liggur í skugganum, í skugganum innra og býður eftir græna ljósinu og fer svo af stað stöðvar fyrst ferðina þá vængbrotin er í hlýju og birtu viðhefst í smástund ó hversu notalegt þar til það skuggar í sund leikur hefst aftur því ljósið er grænt við sjáumst aftur vonum við öll. ] [ Brotinn vorkennir hann sér. Vísvitandi án viðgerða ] [ Yfir veröld víða svífur draumafjöld gegnum götur þröngar inn í huga manna. En hvað skyldi gerast ef einn einmana draumur týnist? Hugsun að engu verður, leikur ei um vangann. Hvað kemur fyrir þá drauma sem afvegaleiddir eru? Einir og engum góðir, tilgang sinn aldrei finna? Eru þeir þá draumar ef þeir skapa engin undur og andköf engin eru, ef vitundin aldrei þá finnur? Hvað verður um þá drauma? Renna þeir út og deyja? Súrna þeir og sýkjast? Dofna þeir og hverfa? Sá draumur sem aldrei finnur í huga einhvers bólstað og sjónum lifandi virðist, var hann þá nokkuð draumur? ] [ svona rétt á meðan þið ristið ykkur þéttingsfast lóðrétt niður úlnliðinn! Hlustið á þetta lag! ] [ Ljósið bjarta, ljós sem skín ljós sem okkur endurnærir. Ljós sem nær til þín og mín, ljós sem okkur endurnærir. ] [ Að vingast við þig ég veigraði mér vann við krossfestingagerð. En ég vissi samt alltaf af þér en hátt var mitt verð. Til sagna ég leit til sorgar ég fann sporin horfa á eftir mér. Í sporin draup blóð í þeim gekk hann en allir litu undan þér. ] [ Það gripu í mig guðir er gekk ég stigaþrepin. Þeir sögðu mér það seinna ég yrði líka drepinn. Það gripu í mig meinin ég mætti þeim í stigum. Mætti þeim í mönnum og mætti þeim í lygum. Það grípur í mig gleði er gamlir dagar rísa. Er bláu djúpin blika og ljósar nætur lýsa. ] [ Það svifu til mín sagnir seint í desember. Og vængjasláttur þeirra vakti sorg hjá mér. Og draumar minna daga dreymdu þig svo ótt. Mér fannst þú vera kominn Kristur þessa nótt. Og jólaljósin lýstu og lengi bað. Að frostrósir í ísnum spryngju út í dag. ] [ Í bílageymslu grét maður og annar hló. Hann varð fyrir raunalegri reynslu. Páfagaukurinn í glugganum dó. Örkumla einsamall deyjandi dofinn. Gaf sólskríkjusjóði allt. Ósáttur við heiminn. Grét fjörgamall beiskum tárum. Og guði endurgalt. Skilinn og særður þóttist hafa sigur á gömlum sorgum. Fékk samband við Tryggingastofnun í síma hún sendir uppbót á morgun. ] [ Ég gekk um dimma skóga og dúnmjúka heiði dægrin löng. Og fuglarnir sungu allir fagra seiði fornan söng. Og himinninn logaði á löngum kvöldum með ljósin kveikt. Og minningunum var aftan úr öldum að mér feykt. Sænsku dalavötnin sveipuð þokuslæðum silfurgrá. Spegluðu upp í himinhvolfið kveðjum sem hjartað á. ] [ Það er dimmt og kalt úti, þú ert komin í ullarsokkana og mér finnst eins og ég hafi séð þig áður en ég man ekki hvar. Þú sem kemur mér kunnuglega fyrir sjónir veldur heilabrotum sem ég get ekki losnað við. Hvar og hvenær sá ég þig síðast og hvers vegna man ég ekki hver þú ert. ] [ Ég er svo utan við mig að ég get fylgst með mér úr fjarlægð að fara hvert sem er án þess að ég verði nokkurs vör sjálf. ] [ Inn til lands eru vegamót, þangað allir vegir liggja. Þar vaxa bæði halur og snót sem Austurlandið byggja. Þar vex líka skógur við Hallormstað, og er angan af trjánum engu lík. Þar er gott að tjalda á fínum stað í henni friðsælu Atlavík. Á gatnamótum er umferðamiðstöðin, ferðamanna- og verslunarstaður. Þar er hótel, flugvöllur og örtröðin enda Austurlandsins höfuðstaður. ] [ Ég hugsa á kvöldin heim og hugur minn hjá þeim. Er búðu og bjuggu mig treystu á sjálfan þig. Ég hugsa á kvöldin heim og hugur minn hjá þeim. Um löngu farna för og bárur í saltri í vör. Ég hugsa á kvöldin hlý um heiminn er ég bý. Og fjörð og fjallagarð og það sem aldrei varð. Ég hugsa um ykkur öll um ár og vatnaföll. Sorg er samdi við mig um allt er minnir á þig. ] [ Grýla gamla, var þreytt á að híma í gráðið hún réri, ótt og títt. Við hellismunnann sig lagði í líma að lappa upp‘á pilsið, breitt og sítt. Hvernig væri það, ef ég héldi hugsaði Grýla, í ferðanám. Lært ég gæti á langdregnu kveldi og lesið í bókum, með tölvu á hnjám. Í fjarnámið gæti ég farið á Hólum ferðamál stúderað, vel get ég það. Þó líðan sé góð þegar líður að jólum mér leiðist á sumrin, þá gera má hvað? Hjá mér ferðaþjónusta, vel myndi passa því marglit er fjölskyldan, fræg út um allt. Ég býð upp á ketsúpu fyrsta klassa og kveiki svo eld þegar okkur er kalt. Í eldhúsi Ketkrókur ætíð er inni hann eldar þá ketið og fær pínu smakk. Og með Bjúgnakræki til aðstoðar kynni það kvöldverði bjarga, ef ég fer á flakk. Þá Skyrjarmur skyrið í túristann hrærir hann snillingur er í að hræra ég tel. Um pottana patti sig alla kærir hann Pottasleikir sem þrífur þá vel. Já gilin í fjallinu Giljagaur þekkir hann gæti víst leiðsagnir tekið að sér. Og Stekkjastaur anginn, hann engan mann hrekkir en yfirsýn hefur, því langur er hann. Ef túristi týnist, þeir bræðurnir geta talað við Gáttaþef, stórt er hans nef. Þeir mat skulu fá, það þeir kunna að meta er mæta þeir aftur með peningabréf. Við náttúrutúlkun er natinn hann Stúfur og næmur á sjálfbæra umhverfismynd. En Hurðaskellir sést þjóta um þúfur hann þeysir á kollóttri hvítri kind. Vandræðagripur er Gluggagægir á gluggunum liggur hann dóninn sá. En ef hann gluggana fallega fægir fer þetta vandamál alveg frá. Þjóðlega gripi við þurfum að selja Þvörusleikir í það gæti nýst. Nóg er af kertum, þar kippur má velja því Kertasníkir á fullt það er víst. Í horninu liggur hann Leppalúði því lélegur er hann af ýldu og gigt. Og nú er til, náttúru-vottaður úði sem nota má til þess að losna við lykt. Ef jólakött ekki þeir túristar þola sem þenkja að ofnæmi fæli þá frá. Ég segi þeim satt, að sú sífrandi rola sé sköllótt af elli frá haus nið‘rí tá. Mér leiðist að hanga með Leppalúða og líst bara vel á að læra þá list að lokka inn ferðamenn pena og prúða sem peninga geta úr erminni hrist. Víst geta veslingar orðið smá smeykir ef vita hver býr hérna fjallinu í. Í desember þjóðin sig af okkur hreykir á árstímum öðrum hún gefur oss frí. Ég sit ekki lengur í þessari súpu skilti ég útbý og býð gestum inn. Svo næst þegar ferðamenn koma frá Kúbu kjamma ég sel þeim, evru á kinn. Nei íslensku börnin ég ekki vil éta því indæl þau eru og hreint ekki æt. Ég sýð kannski einn og einn kjaftforan Breta með kartöflustöppu, á borðið, þá læt. Það er ekki efi til í mínu hjarta að aðsókn í hellinn minn verði‘engu lík. Ég sé fram á framtíð svo góða og bjarta og ferðamenn geri‘okkur öll sömul rík. Höf. Elín Finnbogadóttir ] [ Hið brosmilda fas birtir upp allt. Ég vil ekki gleyma. Þá verður svo kalt um ekkert að dreyma. Samt er það oft að samviska mín. Gleymska og árin ganga að mér. Og höggva í sárin. Bið því um frest að bergja þá skál. Sem eldur og aska og eilífðarsál. Bíður í fjarska. Og blessa hvern dag og blessa þau ár. Sem lífið mér býður. Þótt lúti ég sár . Að moldu sem bíður. ] [ Ég geymi í hjarta mínu gesti gladdist með en fannst það vera slór. Því alltaf var hann allra besti sá er aldrei kom og aldrei fór. Þótt allar búðir verði eyddar er best að vera einn með sjálfum sér. Ekkert hljóð og engar axir reiddar aðeins þögnin sem býr í hjarta þér. ] [ Mér leiddist við lesturinn og langaði heim. Til ljóða við lampann minn og læddist að þeim. Ég læddist léttum sporum ljóðum mínum að. Hvísluðum að öðru hvorum nú hverfum af stað. Og á svanavængi stigum sumarnætur hljótt. Að leiðarljósum svifum um ljósbjarta nótt. En svo þurrt var þornað ljóðið sem þráði blekið mitt. Það blæddi úr því blóðið á banameinið sitt. ] [ Ekkert er það sem um ræðir, ekkert er eins og það, ekkert sem mannshugann hræðir, ekkert er ekkert er að. Ef ekkert er komið af engu, og af engu er ekki neitt, þá er ekkert leiðinlegt lengur, og engum sem þykir það leitt. ] [ Hver er það sem skynjar heiminn, hver er það sem heyrir, hver er það sem finnur til, og hver er svona feiminn. Hver er bak við augun þín, hver er það sem horfir, hverjum birtist þessi sýn, er það eins með augun mín. Þú ert ég og ég er þú, en hverjir eru hinir, á sama stað á sömu stund, á eina staðnum hér og nú. ] [ Dynjandi hrindur orðunum byrjandi, skynjandi, myndandi málið. Framandi orðin, temjandi hrynjandi, semjandi efnið í beljandi bálið. Fylgjandi vísunni glimrandi hljóðandi, hugsandi, talandi orðin í hljóði, skemmtandi mér, hlægjandi brosandi, landandi svona lifandi ljóði. Hælandi sjálfum mér fjandi óþolandi, líðandi sjálfum sem malandi maur, gamnandi mér en er bara nemandi, lesandi,er þetta þolandi gaur. ] [ Gamla árið var sprengt upp að vana, hundurinn Jaki, geltandi óður, vorum hér nokkur spilandi kana, horfðum á skaupið, einn og einn góður. Ég fékk mér einn, kaldann og svalandi, konan og gestir fengu sér hvítvín, fór út með hundinn, gangandi röltandi, allt er svo bjart verum þá bjartsýn. Gleðilegt ár karlar og kerlingar, vonandi verður það nýja mjög gott. Ég fékk í jólagjöf glænýja vettlinga, vonandi fenguð þið álíka flott. ] [ Hvað er að gerast á bak við tjöldin, á daginn og einnig á kvöldin. Hvernig var áður var önnur öldin, vorum við kannski aldrei við völdin. Við höldum að þessu öllu við völdum. Persónur við okkur oftast töldum. Hugurinn reikar á vetrarkvöldum, líkt og það gerði á liðnum öldum. Ef betur er gáð þá er engann að finna, engann sem hægt er lengur að ginna, Þegar þessi er fundinn munar um minna, Þessi er gimsteinn draumanna þinna. ] [ skuggalegt er í dimmum dal, föst sit ég í myrkri þess, ekki er það mitt val, að komast burt er þrá mín mest. Hvar er birtan sem ég þrái, vonandi sé ég þig á ný. Fangi er ég þér hjá, dimmi dalur enn á ný. Sjáðu hér er ég, brosmild og hlý, komdu til mín á ný, litla veran mín. ] [ Ég er silfur og síkó eðalsteinn fantaflottur Ég er sukkari og svallari sjálfum mér líkur. ] [ Í vesaldómi og villu hann vafrar um göturnar, illa til reika og kaldur finnur engan griðarstað. Á vit neyslunnar hann flúði, þoldi ei lengur við, upp sig aftur ei getur rifið, fastur á þessum stað. Víman er hans eini vinur einmana sál hann er, betlar fyrir stöku glasi, hann er róni götunnar. ] [ Hver er nú æðsta ósk draumanna þinna, hamingja,gleði,sátt,sæla,góð vinna, paradís,kærleikur,friður og ljós regnbogi,gullkista,flott spiladós. Er fullkomið lífið í himnaríki, friður og ró,kannski engill með kíki. Kannski er ekkert langt að leita, kannski þarf litlu að breyta. Ef fengir eina hreina sýn, tær birta lýsti upp augun þín, þú myndir byrja að lifa að nýju, upplifðir lífsins hlýju. Hvar færðu kaffibolla með rjóma, fallega músík,fegurstu hljóma, sólsetrið fallega,rauð og bleik skýin, eldfjöllin öll með vínrauðan gíginn. Líttu þér nær,svarið það er hér, vaknaðu nú,rankaðu við þér skoðaðu málið,svarið er inni, í sérhverjum manni,sérhverju sinni. ] [ Tren vaxa og vaxa en þau hæta altrei að vaxa. Grasið vaxar og vaxar en þau hæta altrei að vaxa. huntarnir hæta altrei að hlaupa. Laufin gefa okur surebni og þau hæta altrei að gefa okkur surebni. Altað kemur nit ar og nit ar. Og þa er altað spreiknt a gamlars dagaltrei er eikin spreingjað a gamlars dag.Og það er spreignt fult að spreingjum.Meira sem solin er a loftinu branar snjorin meira og meira. Menn og konur stæka og stæks. Lillir pukar stæka og stæka. Otrulega gamlir kallar og otrulega gamlar konur minka og minka. Altað þegar maður æfir sig meira og meira þa verður maður otrulega goður i þvi sem maður er i .altað þegar maður a afmæli eru tertur. i heiminum eru margar miljonir i solkerfinu.sumarið kemur altað eftirvetrinum ] [ Snjókallinn er lifandi en ekkert sér það, snjórinn er lifandi og enginn sér það, þótt maður sér skýin þá eru þau ósnertanleg, kuldinn er svo kaldur, þótt hann sé ekki kaldur. klakinn er bara kaldur snjór, grasið það vex og vex, við förum ótrúlega hratt, þótt við finnum það ekki. við köllum vetrarbrautina stjörnur, allar hinar vetrarbrautirnar, himininn er ekki neitt, trén eru lifandi þótt við sjáum það ekki. ] [ Við földum okkur feimin til framandleg varð okkar lund ég og þú áttum við heiminn það héldum við um stund Örsjaldan höfðum við betur og kúrðum hvort öðru hjá þá kom dimmur og ískaldur vetur sem aðeins jók okkar þrá Draumarnir sem við dáðum svo heitt drukknuðu í ísköldum hylnum óskirnar sem að öllu gátu breytt urðu að engu norðanbylnum Þegar deginum hallar , og til upphafs síns hverfur, suðræn vorgolan hlý Er vornóttum líkur, og myrkrið að sverfur hittumst við líklega á ný ] [ Lífið og listin að lifa, er ekki að hugsa sem mest, vertu vakandi,klukkan tifar, þú nærð þessu fyrir rest. ] [ Í faðmi þínum finn ég skjól, nærvera þín færi kyrrð, í augum þínum finn ég frið. ] [ Ástin er flókin, en snjöll. Snjallari en svo, að tvö strik á laufi þöktum stíg í fallegu hausti, séu henni hindrun. ] [ Þú snérir þér snöggt og óvænt að mér. Varir þínar snertu mínar. Hárbeittur, ástríðufullur óvæntur koss. Sem hitti mig beint í hjartastað. Það varð ekki aftur snúið. ] [ Sorg með þótta svörtklædd að vanda. Sá dauðans kraftur. Hvað býr að baki er kemur að krossi og kyssir móður. Sem biður mig að færa tímann aftur. Undir rjáfri vaknaði vonin eftir vökur og allt var að. Ég spurði hana um látinn soninn og allt varð kyrrt og tíminn stóð í stað. ] [ Í gegnum hraunið þar liggur leiðin um lágnættið þá glitrar á þangið. Ofan við fossinn himinn og heiðin hugfanginn tek ég landið í fangið. Og ilmur grasa að mér leita og úrský fann ég yfir mig drjúpa. Ég fann í hjarta mínu heita heiðarblámans andardráttinn djúpa. Á dögum sem dalirnir skarta dögginni á perlufestum sínum. Verm sól mitt hrjóstuga hjarta þá hvílist ég í faðmi þínum. ] [ Þú ert stjörnum skrýddur himininn. Vetrarbraut í alheimi, móðir heima og geima ljós í myrkri týndra. ] [ Alltaf nálægt, aldrei sögð, hrópuð með brosi, gliti í augum, ljúfri þögn. Svo voru þau flúin, loksins frjáls. Ég sagði þau upphátt, þú greipst þau speglaðir, sendir aftur til mín. Frá þér þau fylltu mig krafti gáfu mér yl. Það er hlýtt í návist þinni, stjarnan mín. ] [ Þú sagðir mér sögu frá æsku þinni og lífi sem eitt sinn var. Undir járnhæl lifðir, lokuð inni þöggunin þeirra svar Við spurningum ykkar og frelsisþrá sem vaknaði oft á vorin. Er geislar sólar á föla brá féllu, þá létt urðu sporin Þeir sóttu hann svo, þarna síðla nætur úr húsi drógu hann, tveir rifu upp ykkar grónu rætur Þið sáust víst aldrei meir Þú sagðir; „Haltu í hendina mína,“. á meðan nóttin líður og þú ert hér. Bráðum kemur dagurinn, þá verður þú farinn, tekinn burtu frá mér. Að vaxa úr grasi, og vita ekki hvert þessir menn með föður þinn fóru. Hver tilgangurinn væri, til hvers var þetta gert. Í þínum huga ein af spurningunum stóru. Löngu seinna, þá uppfræddist þú er til mennta braust, orðin kona Um alla þá menn sem í einlægri trú knúðu afl sinna veiku vona Um að losna úr viðjum vistarbands snúa heim til sín og sinna Frá frosnum mýrum, freralands frelsið aftur finna Þó ágæt hafi orðið ævin þín áður í angist margar nætur Sagðir; "Svona er vinurinn, sagan mín" sorfin í þessar rætur. "Pabbi haltu í hendina mína á meðan nóttin líður og þú ert hér. Bráðum kemur dagurinn, þá verður þú farinn, tekinn burtu frá mér " ] [ Mundu mig Mundu það mundu að án mín þú gætir ei lifað af og gráttu ei er ég fer því efst í huga ég ávallt þig ber svo mundu mig og ég man þig ] [ Oft drýp ég höfði í djúpri þögn og dreymi um liðna daga. Langt fyrir vestan er til sú sögn að steinarnir kunni að tala. Ég gekk um dali og svaf við stein í skútum við kletta bera. Fannst að enginn gæti gert mér mein gladdist að lifa og vera. Oft drýp ég höfði og brosi blítt og bernskudagana dreymi. Á höfði skalli til hliðar sítt og stundum í öðrum heimi ] [ Ég var 14 ára unglingsstúlka og ég leyfði mér eitt sinn í sakleysi mínu að dást að spegilmynd minni . Blá augu ljómuðu á móti mér, ljósa hárið flóði um axlir mínar og rósrauðar varirnar voru fylltar og lokkandi Ég lokaði augunum eitt augnablik í sæluvímu og lét mig dreyma um framtíðina með Honum sem myndi koma til mín einn daginn og verða mér samferða í gegnum lífið. Andartaki síðar opnði ég augun en ég sá ekki sjálfa mig nógu vel í speglinum. Það var eins og það væri móða á honum. Ég reyndi að þurrka hana af með hendinni en spegillinn breyttist ekki. Ég færði mig nær og rýndi fastar í spegilinn og horfðist í augu við rúnum rist andlit gamallar konu. ] [ Ég hlýt víst að una því andvökunótt þótt erfitt mér faðmlag þitt sé að leita til þín eftir örveikri glóð sem ef til vill lætur í té þann neista sem ljóðið mitt fátæka fær til að finnast það heilmikils vert og að þróttlítil orð séu hornsteinar húss sem af hrópandi snilli sé gert. En hvernig sem brýni ég hugar míns vopn og hvernig sem ólgar mitt blóð ég fæ ekki losað um faðmlag þitt nótt og finn ekki neins staðar glóð. Og ljóðið mitt smáa er litlaust og kalt og loks eins og fölnandi reyr það hikandi berst við að bera sig vel og brotnar svo hljóðlaust og deyr. ] [ Svona er nú þetta og það er ekki gaman að þurfa helst að yrkja, en vita ekki um hvað og finna hvernig hugsanirnar hristast stjórnlaust saman og hvergi geta stöðvast – en ekki meir um það. Ég reyni að stöðva greyin, en þó ég þrotlaust striti og þykist ráða við þær ég finn þeim engan stað, En einhverntíma seinna ég yrki kannski af viti. Ég ætla að byrja núna – Og ekki meir um það. ] [ Löngum heillar ferðalang fjarlægðin blá förum nú um Húnaþing grösugt og lokkandi. Vakna minni útlegðar öræfum frá ógnarsaga rifjast upp Þrístöpum hjá. Margur er hér snöggur að snúa ræðu í brag snilldarvísur Skáld-Rósu lifa enn í dag. Lækjarvísur Gísla má löngum vítt um byggðir heyra. Ljúflega fimmundarstemmurnar hljóma við. Kóparnir á skerjunum skemmta sér við skvamp í glaðri öldu við lábarða steinana. Féð er dreift um heiðanna sólvermdu svið söngfugl tekur undir við lækjarins nið. Laxinn móti straumunum stökkin iðkar létt stóðið glatt í haganum æfir langan sprett. Yst á Vatnsdalsfjallinu Öxlin gnæfir yfir Þingið. Ósköp er gaman að ferðast um Húnaþing. ] [ Er ég leit í augu þín dag einn um skamma hríð var sem tíminn hætti að tifa um stund með tár á hvarmi Ég man þá dul sem röðull rynni nýr og rödd mín varð eitt með þér og söng þínum. Þú horfðir yfir hópinn sem hafði safnast kringum þig Og augu mín í leist svo lengi að lifnaði - ást til þín Ég lifði eilífð þá eða aðeins augnablik? sem ennþá býr í sálu og hjartarótum mínum Og ég veit,þó við finnumst aldrei meir á vegi okkar lífs þá man ég þig. Þú augu mín í leist svo lengi að lifnaði - ást til þín. ] [ Þú varst búinn með allt þitt fé og engu hélst til haga. Engin heyrn og ekkert fé og ekkert til að naga. Örbirgð þín var öllum kunn allnær kominn að dauða. Áttir ekkert í þinn munn en úldið kjötið rauða. Þótt ég eigi holt og hús er í huga mínum fleira. Ég er eins og kramin lús en þú ert miklu meira. ] [ Ég sit hér ein Horfi út um gluggann Hugurinn reikar Sálin nærist á fegurð náttúrunnar Hvar var ég? Týnd í hringrás lífsins. ] [ Þráin er löngun gærdagsins. Hún kemur þegar ég hugsa um þig, Það sem þú sagðir við mig. Löngun er þrá morgundagsins. Hún kemur þegar ég sé þig, Hvernig þú horfir á mig. ] [ gleðin öll og glaumurinn glæsilegar minningar stífur rífur straumurinn stórkostlegar tilfinningar dapur minnist draumurinn dásamlegrar kynningar ] [ Hún vildi mig ekki lengur. Þótti ekki góður fengur. Hélt ég væri góður drengur. Sambönd eru tímasprengjur ] [ Mannstu eitt sinn vinurinn, hve ást okkar var heit. Við vorum ung og vitlaus þá, svo vel allt þetta út leit. Með árunum varð þetta sæta, súrt. Illa farið og hálfvegis klúrt. Við vorum ei lengur eins og vorum við forðum. Á augabragði svo margt hafði færst úr skorðum! Segðu mér, hvernig endaði allt svona? Einn partur af mér, vill bíða og vona. Að einn daginn liggja leiðir okkar saman, því þú mannst að eitt sinn, var hjá okkur gaman. Minningar birta upp dagana dökka, Þær koma í hug okkar þegar fer að rökkva, þær skríða fram þegar illa gengur. allt í einu er ekki dimmt hjá þér lengur. ] [ Vísindi og vitringar sem vilja vera klárir Vanda ekki kveðjurnar og sumir verða sárir Af speki hérna ræða má hvernig peningarnir virki Fræðingarnir deila þá um ölmusu og styrki ] [ Sofðu litla ljónið mitt lokaðu augunum blá. ;Dreymi þig um áa þína í Afríku, dreymi þig um áa þína í Afríku, - Ómjá!: Er fyir óralöngu um aftan fóru á stjá ;og ofursmáa mús í matinn, veiddu, og ofursmáa mús í matinn veiddu sér þá; Þeir veiddu mús í matinn og möluðu smá. ;Þeir veiddu smá í matinn og möluðu, þeir veiddu smá í matinn og möluðu; - Mjá! ] [ Í ríki sínu stjórnar hann lætur gera fórnar í gullnum fötum gengur en ekki mikið lengur ] [ Það er sagt að tíminn lækni öll sár En það virðist ekki ætla að gerast Ég sit hér heima og felli mörg tár Og minningar um hugan berast Þann örlagamorgun ég ætíð mun muna Er ég frétti um örlög þín Að vinur minn kæri farinn burt væri Ég fengi ei að sjá hann á ný Ég sit hér ein með mynd af þér Svo hressan og fullan af gleði Og á meðan ég horfi ég hugsa með mér Hvað bros þitt englana gleðji Elsku vinur þótt sért þú farinn frá mér Yfir í veröld nýja Ég ætíð mun óska þess að líði þér vel Og sendi þér kveðju hlýja Nú ég þig kveð mitt ljúfa ljós Og vona að þér líði vel Á leiðið þitt legg hvíta rós Með þökk fyrir vinarþel (Höf : Stefanía Hrund Guðmundsdóttir ] [ Konuna sem kjagar kvaddi aldrei neinn. Hennar döpru dagar dóu einn og einn. Gráleg var og gömul með gamla stafinn sinn. Alltaf var hún einsömul engum bauð hún inn. Utan yfir kirtillinn yfir höfði rýja. Bar á herðum sekkinn sinn skein úr augum hlýja. Ein bjó út við hafið allir muna það. Allt er eytt og grafið enn á þessum stað. ] [ Viðurinn gamall og grár, gegnum rakur og fúi. Innst inni býr búi sem býður og vonar fjár. Kjöltréið segir sögu um sanna veiðimennsku. Í dimmum ofsaveðrum og sólríkum veiðiferðum. Í myrkrinu, dauðans drungi dregur okkur niður. Kjóllinn, vofu klæddur þungi kaldur og einmanna. Rís þá sólin rjóð á kinn rík með geisla sína. Kyssir vel á vanga minn, með vonarneista fína. Hvenær kemur sá dýrðar dagur dauðan allan kveð. Morgun ljúfur og mjög svo fagur meðbyr fylgir með. ] [ ,,Karrrr ka ka ka karrrr ka ka ka.” Fleygir vakta varpstaðinn og varast heitan eldinn. ,,Karrrr ka ka ka karrrr ka ka ka.” Á sjálfið þeir trúa og treysta, tindinn klífa með vonarneista. Að lokum ævinnar sólarlag sest, situr prýðilega á toppnum. Gnæfir yfir þá dauðans pest að titra og skjálfa á kroppnum. ,,Karrrr ka ka ka karrrr ka ka ka.” ] [ Gakk þú út í bláinn, glittir í blámabyggð með berum augum bláum, í ullar klæðum hlýjum. Himinn og haf hlíðar fenna í kaf, blámabyggð með sitt ljósatraf hún leiðina mér vísar. Himinn blár er bláminn býður þig velkominn. Hjartað svo kalt, úti er svalt. Kári syngur um kalda fingur. Sumar bankar á dyr berst við að komast inn. Blámabyggð sefur vært köld og veðurbarinn Himinn og haf hlíðar fenna í kaf, blámabyggð með sitt ljósatraf hún leiðina mér vísar. Himinn blár er bláminn býður þig velkominn. ] [ Á hæstu gnípu klífur kauði, kalinn skríður illa bitinn. Á efstu syllu skelfur skaufi skjannahvítur, illa slitinn. Hann svipast um í svölum vetrarvindi svakalegt ástand á svo háum tindi. Aleinn í angurværð, áfjáður nálgast hann ört og tautar ,,fjárans færð”. Fimbulkuldi, vonin særð! Blástur og hor, blikan svört, barátta og þor, trúin björt. Æpandi, hlægjandi reigsar hann um, hor og volæði að baki. Skaufi kveður með skelfingar hljómum ,,skrambans þurrkur á tindaþaki”. ,,Eg hef fengið nóg á gnípu og kominn er í ofsa klípu”. ] [ Ég afber ekki sorgir og ekki dauðans þel. Og ekki brenndar borgir sem byggðust svo vel. En fyrirgef þó ykkur sem aldrei ljósin sjá. Því allt er dauðans drykkur sem drekkir mannsins þrá. Við efstu egg og vinda og ofar jarðarsýn. Sést töfraljós við tinda sem togar flest til sín. Þótt bræðrum hafir bakað böl og læðst um hljótt Þá verður alltaf vakað við sœngina í nótt. ] [ Enginn í öllum fjöldanum sér að ekki er hlátur vani minn. Og gamla gríman á andlitinu á mér grætur aldrei á mitt skinn. Og enginn inn í anda minn sér sem einhver veigur er í. Því ég er einn með sjálfum mér innst í miðjum borgargný. Og enginn á augum mínum sér unga barnið sem í mér er. Því gleðigríman hjálpar mér að geyma sorg sem aldrei fer. ] [ að vakna eftir alltof stuttan svefn í harkalega skærri birtu næfurþunnra gluggatjalda við ómeðvitaða snertingu og kvikna öll að innan tilbúin að leika skreppa í sturtu og leika meira og gleyma öllu öðru svona rétt á meðan kveðjast eftir letilegt kúr og einlægt kurteisisspjall fatta skyndilega að dagurinn er langt kominn og morguninn löngu liðinn ] [ Ég var rekin útaf vegna vítisenglanna englarnir æptu og öskruðu kór, út af með dómarann, út af með dómarann! Ég var rekin útaf vegna vítisenglanna. ] [ Látið ekki lengi dvelja látið gleðihörpur slá. Komið allir kæru vinir kveðjuskálar fyllum á. Yljum okkur allir saman ævin rennur bráðum frá. Fylgjum sporum fyrri leiða fyllum andann heitri þrá. Heyrið gömlu góðu vinir grátum ekki það sem er. Enginn kemur aftur hingað allar stundir nýtum vel. Þar er líf sem vonir lifa önnur leið er hættuleg. Þar er ást er auðna ræður aðrir fara annan veg. Oft mér fannst hinn farni vegur falinn inn í hríðarbyl. Vorið kemur alltaf aftur okkur færir birtu og yl. Þar sem leiðarstjörnur lýsa liggja sporin okkar heim. Horfi ég í himinblámann er hugur minn hjá þeim. ] [ Þegar heimurinn hrynur fyrir minni eigin hendi og metnaðurinn gerir mig geðveika bókstaflega fer minnið að svíkja hrollurinn að aukast andvirði mitt að tapast hamingjan sem ég ætlaði að finna stendur á sér þau voru öll í einni körfu helvítis eggin ] [ Bros þitt er eins og ljúfur og tær hljómur og hlátur þinn er eins og kyrrt og vaxandi crescendo. Mér finnst ég vera svo tómur, en fullur af tilhlökkun að fá að sjá þig, ég hleyp í takt við ritadando. Því ég get ei beðið eftir að fá að sjá brosið þitt, ég hugsa með orðin í munni, boccachusa. Í von um að þú verðir hjarta mitt en í heldýpi mun ég þurfa að eilífu dúsa. ] [ Jæja, er ekki rétt að hætta að dúsa í blekkingu og halda áfram að lifa Vináttu skal ég samt glaður fúsa Þó ég muni aldrei...... Nei ég get ekki lifað í lygi! Vertu mín rós og ég skal vökva þig Vertu mitt kertaljós ég skal sjá til þess að loginn slokni ei Vertu mín kona þar til ég dey ] [ Ég finn fyrir nálægð þinni hvert sem ég geng, brosi ég, því þú ert mér í minni En einnig finn ég fyrir ógleði og sorg því ég veit við munum aldrei deila húsi í hjartaborg Þú ert hér, ég er þar hugsandi um stundir liðnar En hvernig er það, ég verð að fá svar áður en hjarta mitt gliðnar. ] [ Lengi vel ég leitaði Í lágum sem og háum hæðum Skil ekki og veit ekki Afhverju ertu ekki hér? Kannski er ég óður Alveg handónýtur Raulandi um liðna daga Efst á brún ég lít í suður Nú loks anda ég léttar ] [ Barnaníðingar ganga lausir um göturnar, Morðingi situr á bekk og íhugar hvort hann eigi afturkvæmt, afgreiðslu stúlkan afhendir ræningjanum Uppgjörið Og gömul kona skúrar stéttina fyrir utan blokkina. ] [ Það er fullt tungl, í kvöld lokum við augunum, hækkum í græjunum, Stígum bensínið í botn Og keyrum öfugumeginn við blindhæðir. Daginn eftir sýnum við tillitssemi í umferðinni og gefum fólki sénsinn ] [ Dökkblá augu þín horfðu festulega á mig, virtu andlit mitt fyrir sér með rannsakandi augnaráði. Ég stóðst prófið og var samþykkt. Þú kannaðist við mig, þekktir meira að segja af mér lyktina Þú hafðir kynnst mér vel þessa níu mánuði sem við vorum ekki einsamlar. Nýfædda barn, elsku litla stúlkan mín. Þú undursamlegust af öllu undursamlegu. Sköpunarverk okkar föður þíns. Ég bar þig nakta upp að hlýjum barmi mínum. þú leitaðir með munninum og skyndilega og sneggra en auga á festi hjóstu munninum á þrútna geirvörtu. Nánast festir þig við hana og saugst áfergjulega. Þú varst vissulega svöng og þyrstog harð ákveðin í hvað þú vildir fá. Ég horfði á dökkan kollinn og fann nýja tilfinningu vakna, ég elskaði þig, elskaði þig svo undurheitt. En ég vissi með sjálfri mér að ég var ekki nógu góð, framlag mitt reyndist ekki vera neitt. Ég mjólkaði ekki og þú fékkst ekkert að drekka. Ég horfði á þig hamast við að sjúga brjóstið af áfergju en gefast á endanum upp. Vonbrigðin voru svo sár og ég sá hvenig andlit þitt tútnaði út og varð eldrautt af vanmáttugri reiði. Þú hikstaðir og stóðst á öndinni af gráti. Gráti smælingjans sem hefur verið dreginn illilega á tálar. Verið lofað öllu fögru en síðan svikinn, gjörsamlega. ] [ Kóngar tefla, með klóm og brögðum krefja svara yðar. Þeir hlæja hátt og dátt, við þá sögðum "hættið leikjum, stillum til friðar" Þeir sætta sig ekki við þetta, þeir vilja ei semja klukkan tifar, stundin mun brátt á dvína Falla þeir sem þann verk fremja fella hershöfðingja sína Þið viljið, við annað viljum Tveir komma átta hlutar við semjum Sautján til tuttugu hlutar, við hótun við skiljum en þið viljið það ei, þetta verk við fremjum Verkið mun falla, hermenn munu bíða velja þann kost einir að klífa En hvað mun þetta allt andskotans þýða? Verkfall mun skella á, stund milli stríða ] [ Gráttu vinur gráttu þegar myrkrið tekur yfir Gráttu vinur gráttu þegar sorgin fer fyrir og myrkrið felur friðinn Komdu til mín þegar veröld þín fer að skyggnast Ég skal kyssa úr augunum tár sem sífellt fara fyrir Sofðu vinur sofðu þegar almyrkraður er heimur þinn Ég skal þig elska og láta hugsun þína hverfa. Ég skal öxl þína bera og gæta þinna vængja Ekki óttast elsku vinur á morgun munu gömlu ljótu örin ekki lengur flækjast fyrir ] [ Vertu þess viss að engin vaxi illgresi í sporin þín en hamingjan alls hugljúfust hljóti þar blómgvun sín. ] [ Að segja satt hefur talist dyggð sem og standa við sagða hluti Lönd verða aldrei á lygum byggð slíkt ristir sem Kobba kuti Að standa við orð og standa með sér er stjórnmálamannsins mesta dyggð En skrökva að öllum og einnig sér veldur trúnaðarbresti og hryggð Hvað stjórnar á þingi við Austurvöll hvað þarf til að lækna hroka og köll. Staðreyndin er að umsókn við hófum sem nú skal kæfa úr Hádegismóum. ] [ Nú barnanna lífsins skúta brátt þeirra stjórn skal lúta. Þau sigla að sjónarrönd og ég fylgist með frá strönd. Nú almættið ég bið, að stjórn þeirra verði styrk í þeirra huga, við þeirra hlið, okkar tengsl verði ávallt virk. Hvað getur einn faðir frekar óskað sér en að líf sinna barna sé farsælt og gott. Þau sjálfstæðis njóti og standi með sér er þau byggja sitt hásæti og slott. ] [ Ljósfagur og lokkaprúður leiftra brúnaljósin blá. Brosið hans og barnahjalið besta gjöfin Guði frá. ] [ good morning my love, i know you're still in bed, but i just have to tell you, the thing that are in my head. the moon has long since set and the sun begins to rise and all i that i can imagine, are the colour of your eyes. i'm sorry about this night, the promise i did not keep, the dreams of you so enticing, i could not help myself but sleep. the things i would have asked, only the gods would know, bringing us closer together as the ground meets the snow. oh how, i long for your tender touch, and the feel of your supple skin, to wake up lying next to you, wearing the happyes of grins. a hundred days and one are left, till my desires can come ture, but there is something i will say till then, snaja, i love you. ] [ Nýtt líf, gefur gleði og von Um bjarta tíma líf og yndi Hvort við eignumst, dóttir eða son í draumalönd èg syndi Nýtt líf, það frískar andann kætir foreldra og þeirra stund En leggur ábyrgð á elli fjandann Nú er best að fá sér blund ] [ Þessi óbreytanlega stærð sem ég reif úr jöfnunni til að fá aðra útkomu Fastinn sem skilgreindi andvirði mitt Ég þori ekki að blikka þori ekki að vaka ef útkoman skildi verða sú að jafnan gangi ekki upp ] [ Ég er örninn, ég flýg yfir svarta hafið. Ég finn vængi mína svífa eins og stökkmús í rauðari lund. Ég er konungur fuglanna enginn getur ráðið yfir mer. Konurnar vilja mig og karlarnir vilja vera ég. Ég er sætur fugl, sætasti fuglinn. ] [ Við erum við núna, leitum ekki að því sem vantar njótum þess sem við höfum. Það sem við höldum að vanti skilar sér þegar við byrjum að vera til. Lifum núna ] [ þú ert eins og allir, þú ert eins og sumir, þú ert ekki eins og neinn, þú ert einstök, þú ert stjarna, þú ert ljós í myrkri. Þú leiðir mig, þú færir mig heim. ] [ Vermi sólin vota kinn vakna ég við dalinn minn. Liggur þar sem leiðin var litlu sporin allsstaðar. Áin líður björt og blá berst um melagrjóti á. Ósinn bíður endastöð allra vatnaleiðaröð. Örlög nálgast öllu nær en þú saklaus hélst í gær. Draumurinn um ljúflings dreng drukknaði í hörðum streng. Sest ég einn á steininn minn skín á litla bílinn þinn. Kirkjubjöllur kveðjan þín ó komdu aftur barn til mín. ] [ Á ferðalagi yfir blómlega velli auðnir, fjöll og dali. Þú leitar stöðugt, lítur á kort eða klukku. Er ég hugsanlega villt? Horfir á sjóndeildarhringinn leitar að áfangastað. Hraðinn svo mikill þú missir af því sem á vegi þínum verður. Hvað er eitt tré, fallegt sólsetur, blár himinn, og grænir akrar? Hvað eru börn okkar, ættingjar og vinir? Er áfangastaðurinn mikilvægari en sú fegurð eða félagsskapur sem feðalagið býður? Er það sem vantar á leið þinni mikilvægar en lífið, lífið sem þú gætir lifað ef þú aðeins fengir notið ferðarinnar? Staldraðu við, þú missir ekki af neinu. Allt sem þú þarft er í lífinu núna. Leyfðu þér að njóta þess sem þú heldur að sé ekki þar. Lifðu fyrir þig með hjálp þeirra sem elska þig. Vertu fyrst og síðast þú. ] [ Ég sá þig gráta í grasið við gamla húsið þitt. Og fann að sorgarfasið flæddi um hjartað mitt. Og ég fann að tárin toga og taka í menn. Því að lífið sá ég loga lifa og slökkna í senn. Og ennþá grösin gráta á gróin túnin hér. Á meðan litlu blómin láta lítið yfir sér. Þá fann ég tregann toga tárin fram á kinn. Því ennþá ljósin loga við litla gluggann þinn. ] [ Við gengum um Hljómskálaskóg saman ræddum að verða hjón. En ástin sagði æ og ó þið eruð bara lítil flón. En brimi slotar og ég bíð og blaðið mitt er orðið autt. En bráðum kemur betri tíð og blekið verður aftur rautt. Ég týndi þér en bað í bæn að birti aftur út við sæ. Að túnin yrðu aftur græn austan við hús í Vesturbæ. ] [ Ég vildi hefði vitað að varalitur þinn. Bar aðeins eitur litað inn í hugann minn. Þinn koss síðasta sinni sveið á vörum mér. Samt var í íbúð minni ilmurinn af þér. Vínrauðar varir þínar þær vekja mig svo ótt. Ég sá að sorgir mínar stálust í vín í nótt. Og nú var þungt að anda inni sem eldur inn í mér. ] [ gusturinn feykir mér gegnum nálarauga auðnarinnar og myrkrinu er úthellt einsog freyðandi kampavíni, móðir. gefðu mér gaum, stúlka, og horfðu stjörfum augum í óminnisdjúp angistarinnar þú raunum mædda sálarhræ. ] [ Ég man hvernig það var þegar ekkert skipti máli, nema ég og þú göngutúrar, kossar, faðmlög og kúr. Ég sakna þess, ég sakna þín, ég trúi því að þú saknir mín. ] [ Mér finnst það merki um mátt að meta það sem vel er gert. Um það verður aldrei sátt una því sem er einskinsvert. ] [ Veröldin er stundum myrk full af kvíða og þungum þönkum það sat kona með blóðugar hendur og skalf af sorg eða ótta. En á elleftu stundu kom vonin á ný í líkama kurrandi dúfu, á húsþaki sat hún grá eins og veturinn, vakti minningar og vakti von. Veröldin er stundum myrk og stundum full af glimmrandi ljósi, barnahlátri og óskum. Gleym-mér-ei vex í brekku og hvílir síðan á barmi smástelpu. Skógur vonar minnar er fyrir utan gluggann og ég á von og ósk og ljós. Skugginn hverfur hægt, en örugglega. ] [ Ég sit hér ein í auðninni umhverfis mig tóm Ég sit hér ein í murrandi myrkrinu og mála á tómið annan róm. ] [ Afhverju felum við okkur í skjóli fjöldans þegar sviðið er autt? Orðið er frjálst, leyfum því að dafna í hlýjum höndum tímans. Maðurinn sem stendur í miðju alheimsins strekkir trommurnar og slær lífsins takt. Á meðan tíminn rennur áfram líkt og vot tárin, sem koma til skiptis vegna hláturs og gráturs, finnum við sífellt upp á fleiri nýjungum sem gera okkur sjálf að sífellt meiri óþörf. ] [ Vorið er komið og grundirnar gróa, úti syngur hún lóa bara dirrindí, spói hann sást suður í flóa en ekki í móa en hann kann ekki dirrindí. ] [ Tignarlegir standa túnfíflarnir og teygja krónur sínar mót sólu. Þetta eru fífl skríkja fiðrildin, svo fáránlegir að sólin veigrar sér við að skína á þá. ] [ Á aðfangadag angaði eftirvæntingin í loftinu eins og höfugt Himnaríkisský. Og hún mamma klæddi okkur í allra fínustu nærbolina okkar og signdi okkur á enni og bringu - og þá komu jólin. ] [ Birta morgunskímunnar vekur mig af djúpum vetrardvala, veröldin lifnar við er ég opna augun og lít í kringum mig. Hvílík fegurð sem blasir við mér, svo full af lífi, vonum og væntingum. Ég rís á fætur, tek mót vorinu fagnandi. ] [ Í nýjum degi, fallegu vori vaknar allt til lífsins á ný. Fiðrildi svífa í sætum ilm sumarsins. Augun þín opnast inn í nýjan dag, inn í nýtt upphaf. Eins og fiðrildin í nýju vori og nýjum degi svífur þú um í dögunum. Stundum vilt, eins og þú vitir ekki hvert þú átt að fara. Allt á sér áningarstað, innri ró og frið. Sestu niður og lítu í andlit þeirra sem standa þér næst. Þeirra sem þú elska þeirra sem elska þig. Þar er þinn friður. Nýtt upphaf, ný tækifær. Ekkert endar, allt vaknar til lífs á ný. Tækifæri í birtingu nýrra daga. Bjartra daga í fallegu vori, sætu sumri. Elskaðu skylirðislaust, leifðu þér að vera elskuð skylirðislaust, Þá verður ekkert ómögulegt. ] [ Reynir að ná samhenginu, byggja brýr milli ólíkra þátta í þér, sem eru þó ein heild. Mótsagnirnar sem búa í einum og sama manninum. Að smíða sér ramma og segja þetta er ég, er maður þá ekki búinn að takmarka sig? Þegar hugurinn fer sínar eigin leiðir í stað þess að fylgja einni línu. ] [ Það er eitthvað svo himneskt við Hofsós á haustin sem heillar mig Hofsárniður og höfnin og Þórðarhöfði sem felur sig. Því hann vill ekki skyggja á Drangey sem í sólsetrinu nýtur sín tíminn stöðvast og hjartað ei slær er síðasti sólargeislinn kveður - og Drangey hún sefur vær. Ég vil anda að mér töfrunum sem liggja í loftinu hlusta á þögnina - mína hinstu stund því ekkert fær skákað fegurðinni á Hofsós haustkvöldi við Bjarkarlund. Leyfðu mér að blómstra, vor, og ég mun fagna þér eins og gamall maður skeggi sínu. Leyfðu mér að stafsetja líf mitt á minn ranga hátt á hráa og heita æskustrengi eins og smáfalskt hljóðfæri sem var aldrei almennilega stillt. Leyfðu mér, leyfðu mér, og ég mun vanda innslátt hjarta míns. ] [ Mín kæra Kata! Þú kysstir mig á kollinn Og kyrjaðir okkar kveðjusöng Við kvöddumst í dökkblárri lyftu Lífsleið þín varð dimm og þröng Ég hélt áfram mína leið Gleymdi að hafa á þér auga Ég sá þig síðar með félögum þínum Lyfin höfðu breytt ykkur í drauga Þetta var rigningardagur drungalegur Ég dró frá gluggum á Snorrabraut Þú varst í rifnum buxum og karlmannsskyrtu Föl, með bauga og gegnblaut Ég frétt að þú hefðir tekið þig á Ég vona að þú haldir strikinu Við töluðum aldrei mikið saman En áttum ljúfar stundir á Prikinu Ást og friður Daði G. ] [ Lára, Lára Leyfðu mér að leika við þig Löngum vörðum við stundum góðum Lára, Lára Lyngdu aftur augum ljúfa Því líf okkar nú styttist óðum Lára, Lára Ég lyktaði af þínum lokkum Ljúfan finn ég ennþá angan Lára, Lára Lýstu upp leið mína til þín Sé löngun enn í þennan vangann Því Lára, Lára Leitað hef ég svo óralengi Að ljúfum kossum og brosi þínu Og Lára, Lára Þó löngu liðinn sé tími sá Ég losna ei við þig úr hjarta mínu. ] [ Brotin safnast saman nú sé ég allt mun betur heildarmyndin - auðlesin þar sem áður var óséð letur Rifja upp fyrri tilvistir sem fanga hug minn og sína frá því ég varð steinn og svo alla þróunarsögu mína Allt upphaf liggur ljóst fyrir í mínum augum langt frá stóra hvelli og heilögum geislabaugum Heiminn skil til fulls skynja himin og hel fæðist ei framar og hvergi framar dvel Milli fjarlægra fjalla, frjáls og milli þrengstu þrengsla allslaus, aldrei, hvergi og án nokkurra tengsla Alls sat ég óáreittur ótal aldir, hugsun sára en að lokum - ein stök bára lék á sjálfskapaðan heimsins ára Náði raunveruleikanum varð að sannleikanum allsstaðar reikaði um fullkominn í fullkomnleikanum. ] [ Margt var þér til lista lagt og lengi var um þig sagt. Að þú hefðir andans magt en aðeins til að dreyma. Þú áttir hvergi heima. Margir kjósa frægðarferð feyskin er og einskisverð. Jafnan er þar manna mergð. Með kumpána og kappa. En líka marga hrappa. Af bliki þínu og brá birtist ævintýraþrá. Eitt var það sem enginn sá. Að allir þráðu sama. Hinn grýtta veg til frama. Eitthvað gott í öllum býr eftir því hvað að þér snýr. Hans var heimur ekki nýr. Hégóminn öllu ræður. Af lygum varð hann frægur. ] [ - leið -- löng leið >< hér þar -->>< -< hér þar -> rétt leið ] [ Hún Didda Dís er svaka skvís ég veit ei hvað skal segja. Kannski annað hótel rís Nei það er best að þegja. ] [ Ég vildi óska að ég yrði einhvern tímann svo veik að það þyrfti að skjóta mig! ] [ Torkennilegur tregi fylgir mér. Dreitlar úr gömlum dögum á mig hér. Og árin að mér bera yl í sér. Og ljósar nætur læðast enn í mér. Og hljómsveitir semja lög um það. Er Trigger og Roy Rogers riðu af stað. Og allir fóru í fimmbíó með program. Og í því söguþráður fyrir fram. En skólabjallan hringir er haustar að. Og kennarinn þuldi nöfnin á þessum stað. Siggi, Beggi og Dísa og Stefán Dan. Og skrifaði eitthvað á töfluna sem enginn man. Og svo kom blessað vorið og blíðan. Og mér gömlum finnst þetta stutt síðan. Og spyr í sófann þreyttur hvað er að. Því árin runnu frá mér þú þekkir það. ] [ Mörkin milli reginmistaka og stærsta tækifæris lífs míns eru hárfín skilgreind af mér einni á mínum forsendum forsendum sem ég á samt hvergi til Þessir þrír stafir fyrir aftan nafnið mitt voru allt sem gáfu mér gildi það eina sem ég hafði uppá að bjóða Hvers virði er ég núna? ] [ Meitlað í stein hvað ég þarf að gera til að vera einhvers virði til að skipta máli ef ég ákveð að gera það ekki hvað þarf ég þá að burðast um með þennan helvítis stein lengi? ] [ Ég vildi ég gæti sagt að ég hefði hamingjuna höndum tekið en ég greip hana ekki mig langar bara að flýja því ég fæ ekki úr því skorið hvort það hafi verið mín stærstu mistök eða mitt besta tækifæri að standa með sjálfri mér ] [ Koma til mín kvæðin þín kveðin í sótt. Ort eru öll til mín um Krists dimmu nótt. Andlitið er skorið skælt sárkvalt kaunum merkt. Ekki gat örkuml bælt andans aflið sterkt. Er milli manna valt og miskunn þinni háð. Að Þeir iðrist þúsundfalt og öðlist Drottins náð. Gifta og guðs mín sál gefi mér trúarsýn. Frá víki tign og tál og taktu mig til þín. Löngum var lagt að mér líf er gjöfin hans. Og sigruð sorgin er sátt Drottins til manns. ] [ Listin í svartnætti hugans í grárri yfirbót reikandi yfir flæðir inn á stanslaus gremja svartnættis hugans í þunglyndi tilverunnar. Reikandi inn á tilverustig manns sem missti fótfestu við staðfestu lífsins greið leið niður í dýflisu hugans niður í hugarþort og vol aðeins með niðurdrepandi þögnina í svartnætti tilverunnar í gegnum lífið stingur sverð erfðileikana og stingur þrotlaust þangað til steypandi gremjan er eftir án afláts með streitu í eftirdragi í tæmandi hversdaglsleikanum sem yfirgnæfandi óp í erfiðleikana sári sem smitar út frá sér þangað til óbærilegt verður án afláts. ] [ Tilgangsleysið sem steypist yfir yfirgnæfandi tómið lætur ey undan. Karfan tóm með ekkert til að setja í leiðandi milli dauða og lífs streymandi foss lífsins skellur á hörðum klettum tómsins sem gnæfir yfir sálinni í tómi veruleikans eyðileggjandi tilveran sem foss saltvatns á opið sár veruleikans gráa niðurdrepandi þögnin skellandi í tóminu sem gnæfir innan um lífið án festu við eitthvað. Spilin uppörin ekkert til að setja út inn á tilverulegri tilvistinni samansafn atvika sem leiddu í gildru staðnandi tilvistinni einskonar pása hugans innan um æpandi þögnina streymandi inn á hugann í tilvistarkenndri sálarkreppu reikandi milli ástanda í bið eftir dauðanum með brotið hjarta örvæntingar. Skilningsleysi á sanngirni í þessari veru lífið er lítil leið út úr grárri tilvistinni leið ljósins fjarandi út úr tilvistinni inn í myrkrið hugurinn leitar án fótfestu við marktækt gildi lífsins reikandi í þoku sálarinnar líður eins og eilífð hvert andartak stormurinn ey dvínandi. Fótfesta mannsins sem skipsbrot í tilverunni svartri með aðsigi um leið út úr skerandi erfiðleikunum. ] [ Svikul vera manns sem siglir áfram án festu við æpandi tómið sem reikar undir og í kringum. Reikandi tilveran tæmandi óp manns sem ekki finnur land. Út á sjó án sjónmáli landsins vonlaus í svartnætti hafsins missandi von og tilgang að tilvistinni í þokunni villtur án stefnu. Marktækur um það eina að vera stefnulaus í draumkenndu ástandi lífsins sem ópar á hann að finna festuna svo ekki glatist allt. Að strika út veru manns sem ekki finnur land í víðáttu hafsins Jarðneskt líf á enda. ] [ Ég tek mót sumrinu fagnandi, bjartar nætur framundan, fagur fuglasöngur, hvað er betra en íslenzka sumarið með angan af nýslegnu grasinu, lækjarsprænum skoppandi , fagurgulum sóleyjum í túnunum, fólki úti hjólandi, hlaupandi, gangandi, glaðværum börnum hoppandi, leikandi, syngjandi sem taka mót sumrinu hlæjandi. ] [ Hafðu mig hjá þér og hlífðu mér. Ef himinninn hrynur og hvað sem á dynur. Hafið ekki hátt því hér sefur jörð. Og skiljið eftir sátt og stöndum öll vörð. Hafðu mig hjá þér ef hrekk fyrir borð. Því sá lifir er sér og skilur þín orð. Hafið ekki hátt horfum í þá átt Sem eiga ekki neitt og engan hafa meitt. ] [ ég bið þig, Jakob leyfðu mér að rómantísera geðsjúkdóma þá getum við allavegana gengið rólega niður ævistíginn með hjartatrompetin yfir okkur ] [ Syngjandi glaðir smáfuglar í trjánum trítlandi eru smábörnin á tánum, í sólinni lífið er ljúfur leikur nú landinn af sólinni er orðinn bleikur. ] [ Kvæðin mín eru kurl ég kveð þau við smíðar. Ef furan er feysk finn ég aðra síðar. Kvæðin mín eru ár úr öræfatárum. En djúpin drekkja þeim í dögum og árum. Kvæðin mín eru öll eins og gamall viður. Því feigð er með í för. og fellir þau niður. Kvæðum mínum er kalt en kveðið í hlýju. Því ég hegg þau í eld orna mér að nýju. Kvæðum mínum ég ann er um varirnar líða. Og út vilja öll en ég vil helst bíða. Kvæðin mín kveðast á við Kaldraðarnesin. Í vindum velkjast í og verða aldrei lesin. ] [ Einkaritarinn hélt áfram að skrifa löngu eftir að tölvan þagnaði samtal tveggja páfagauka Þá var einnig kona með einstakan framburð allt sem hún sagði hljómaði eins og fuglabjarg Þetta var í þá daga en það var líka annað allt mun breytast á svipstundu Ekkert mun þó snerta stelpurnar sem fóru í dansinn nema diskó ] [ Sumarið greip mig eins og faðmlag móður minnar. ljúft og öruggt. Árstíðirnar eru ekki þrælar jarðarinnar heldur dýrðargripur sálarinnar. Sumarið óx innan í mér. Hlýjan barðist innan í mér. Þarna, í algjörri gleymsku, var ég krakki ] [ Ég hef komið þangað aldrei farið þaðan en er þar ekki Ég er ekki þar þar sem ég ekki er ég er annarstaðar ] [ Ég stend á sólinni, þú stendur á jörðinni. Ást mín til þín er of heit fyrir þig. Þyngdarafl mitt reynir að toga þig nær mér, en braut lífsins lætur þig fljót hringinn í kringum mig. Ég sé þig dag og nótt, en mun aldrei fá að kynnast þér eða snerta þig. Þú veist að mér, þú sérð mig stundum, en þú þekkir mig ekki. ] [ Ljósin meðfram götunni, lýstu ljósum logum. Stjörnurnar á himninum, hneigðu sig dularfullar til hægri. Ég leit á þig. Þú fagra þyrnirós. Ég vil ekki að nóttinni ljúki, því þá líkur þessu lífi okkar. Ævintýra ástin mín. ] [ Nóttin var köld, rúmið var kalt. Nóttin var tóm, rúmið var tómt, en samt lá ég í því. Mér líður eins og allt og ekkert, mér líður ekki neitt. Ég er eins og kalda tóma nóttin ] [ Á meðan fólk sveltur, fólk deyr. Á meðan auðlindir eyðast, ofbeldi tíðkast. Erum við að rífast um síðustu kókosbolluna ] [ Á Laugavegi ég sit, með kaffibolla í hönd. Og hugsa hve dásamlegt væri, að ferðast um ókunn lönd. ] [ Hún gaf mér góðar gætur í gömlu höllinni sinni. Hún átti í aðli rætur en ég í vogun minni. Og skuggar liðu um sali öll skúmaskot í ryki. Það var eins og tárin tali og tími og dagar viki. Hún mundi tímanna tvenna og talaði um valdastól. Sá ævi og örlög brenna og engin eigi öruggt skjól. Sagðist trúa lítt á ættir og ílla gjörð hverja nefnir. Og skyrpa á allar sættir sorgin mildist ef þú hefnir. Ætíð er gjöfin til gjalda og gull er betra en sómi. Ég komst með valdi til valda því vopn tala einum rómi. Ég átti ólgandi hatur í öskunni kulna glæður. Liðin verð ég mauramatur máttur veldur hver þar ræður. Kveð þú ungi óðasmiður yrk mér drápu Íslendingur. Þigg svo frelsi feyskni viður fyrr en konungsexin syngur. ] [ Er kveð ég þetta litla ljóð þá svíf ég skýjum ofar Því á leiðinni er lítið fljóð ef guð og gæfan lofar ] [ Konurnar voru að spjalla en ég er aðalréttamaður og þær voru á staðnum Ég grillaði allt saman en ég vil hafa salad með og fór vel á með kjötinu ] [ Ég fleytti mínum fleka út á haf það freyddi um lítinn stafn og árablað. Ég hugsa oft og líð um liðna tíð og lukkan verði með mér enn um hríð. Ég ætlaði að sigla út á mið og óskaði að verða eins og þið. Að leggja færin einn við ysta núp en lögnin mín var aldrei nógu djúp. Um gamla slóð ég flauta lítið lag er læðist um í huga út við haf. Og stafur minn er sverðið mitt í gær og stóra höllin gamall timburbær. Ég vildi verða frægur framagjarn en fann að tvisvar verður maður barn. Er stjörnur rísa hátt við himingeim þá hugsa ég til æsku minnar heim. ] [ Hann sagðist vera sjómaður og stundum vera góðglaður. Ef harmoníkan hikaði þá hrópaði og blótaði. Og alla dansa dansaði og dömur allar vangaði. Hann blikkaði og blístraði og brosti um allt og daðraði. Hann spriklaði og argaði og ýtti frá og sparkaði. Í ös og þvögu þjarkaði þegar ballið byrjaði. Er löggan kom með leiðindi og lamdi hann með harðlyndi. Þá reif hann kjaft um ófrelsi og ýtt var inn í fangelsi. En látinn laus um miðnætti lét af drykkju og steinhætti. Því konan hans kom rasandi hann kyssti hana brosandi. Samt hann vildi stórbæta því stundum væri ljósglæta. Svona er að vera sjómaður og stundum vera gómaður. ] [ Í paradís týndi ég gimsteina sem voru tár piltsins, eftir að stúlkan sagðist ekki elska hann lengur. ] [ Drjúpa tár eilífðar af augum, eyðast stjörnur í logabáli Almyrkri ríkir allt um kring og alvalda. ] [ Spilin mín eru sagnafá ég segi þó grand. Enginn má á þau sjá. Ísland ástkæra land. Spilin mín eru svört á lit ég slæ á borðið þungt. Áfram held og ekkert hik. Ísland óskabarnið ungt. Spilin mín kámug og klesst en kalla á slag. Ryk hefur á sagnirnar sest. Ísland Ísland í dag. Spilin mín völdu annað vað villtust með unna sögn. Dýpið reyndist á röngum stað. Ísland örmagna í þögn. ] [ Við ferðumst stundum saman í kyrrð vetrarmorguns. Ég einn og þú í huga mér. Það er þögn. Söknuður eftir hlátri. Söknuður eftir djúpi augna þinna. Og ég held áfram með fjarlægðina í farteskinu. ] [ Það voru hólar og hæðir og gafflar í veginum en við völdum sömu leið Mig hafði ekki grunað að það gæti verið svona gott að vera svolítið venjulegur og heldur ekki að hægt væri að stíga niður af vantrausts tánum án þess að detta Ég vissi ekki að til væri svona ró Þegar þú kemur heim langar mig bara að brosa og ég get varla klárað þetta ljóð því það eina sem mér dettur í hug eru gamlar klisjur um ást sem er svo gömul Gamla ást en samt svo ný Ég kem með þér upp og niður framhjá öllum göfflunum ] [ Nánd þín er stjörnubjartur himinn í kyrru hausti. Nánd sem orð fá illa lýst. Nánd sem nærir þann sem finnur. ] [ Í upphafinu þegar allt var eitt, og eitt varð allt. Í upphafinu urðum við til. Í upphafi bundin órjúfanlegum böndum. Kastað út í eilífðina af feiknarafli, um óravíddir á óendanlegum hraða. Stundum finnumst við rekumst hvort á annað. Í örsmá augnablik snertumst, náum saman. Sæt augnablik stutt og falleg. Á ný slitin sundur, þeytt út í eilífina. Í óravíddum finnum við fyrir nærveru hvers annars. Örlögin stýra því hvenær okkur rekur saman á ný. ] [ Jakob, við vorum farnir að rífast svo oft að ég sagði nágrannanum okkar að við værum að æfa leikrit æfa reiðir leikrit lífs míns ] [ fyrir ást ég syrgi hún hefur reynst vera ekkert nema taumlaus byrði sem ég hrifsi og hirði og að endalokum myrði ] [ Úti við klettana. Sló fossinn niður bergið sem trommusláttur, vindur sleikti grasið, grasið sem ómaði sem fiðlukór. Fuglarnir svifu um himininn eins og frjálsi maðurinn í fangelsinu, og sílin í læknum syntu í kringum sig líkt og tilfinningarnar í maga mínum. ] [ Um þurrar eyðimerkur hjóla ég um á einhjóli mínu. Ég fæ mér tesopa úr kaffimálinu mínu, enginn skilur stjórnmálamenn sem lofa öllu, svo á enginn neitt. Allir eiga rétt á frelsi, en auðvitað með sköttum. ] [ Það bergmálar í tómri tunnu, sem rennur niður götuna. Þar sem þú liggur afvelta, eftir ofát í matarboði forsetans. Ég geng að stað í tauskóm mínum, til betri tíma, til að fylla tómarúmið í hjarta mínu. ] [ Skríddu inní vænghaf mitt, ég passa þig. Deilum gersemum, á stað sem enginn veit um. Staður milli alls og einskis, Blómin vaxa úr verstu stöðum. Hvílum okkur undir stjörnuþoku, ekki gráta meira. ] [ Í tómarúminu skríða allir menn á átta fótum, drekka með rassgatinu, kúka með andlitinu. Blindir fyrirliðar. Önnurhver manneskja grætur. Í þúsund ár, ég lifi með þér. Vökvum blómin mín. ] [ Fyrir sólarupprás, sagði hún. Þá munum við vakna, sötra volgann te sopa, lesa ljóð, stara á hvort annað og labba niður á höfnina og horfa á sólarupprásina. ] [ Móðan í mínu andlega hugarástandi, var orðin þéttari en áður fyrr. Þú talaðir við mig tímunum saman, en ég heyrð ekki neitt. Ég þrífst á sólarljósi og volgu vatni. Inn í skóginn þramma ég þungum skrefum, skórnir eru moldugir. Ég græt afþví að ég skil mig ekki. ] [ Allt var fætt til að deyja, svo ekki hugsa of mikið, ekki bíða of lengi, ekki sofa of mikið. Kaffiþamb og sól sem sest til viðar. Ekki vera hrædd þú deyrð bráðum. ] [ Ligg í blautu mýri. Hálf ofaní, hálf upp úr. Fékk mér demanta í morgunmat, indæll dagur til að deyja, í hugsunum mínum sem draga mig niður eins og blautt mýri. ] [ lífið er pylsa kjaftaæði í múlínex milli tveggja óæðri enda ] [ Vertu þeim sem þú elskar manneskjan sem þú villt að sú/sá sem þú elskar verði þér. ] [ Á meðan ég næri vondu úlfana innra með mér, sötra ég volgan tesopa, með spaugslegan svip á vör. Ég sé eftir öllum kossum sem ég hef hafnað frá þér. Ég stend upp og vökva dauðu blómin mín, vonin er svo björt í rökkrinu. ] [ Kastar kólgu brim, sleikir stuðlaberg, veltur Ritu egg. ] [ Leikur við vanga, heitur sunnan andvari, fýkur fuglsfjöður ] [ Straumröst strýkur stein, úðar þurra klöppina, flýgur af eggi. ] [ Lækur hjalar lágt, rennur ofan bjargi foss, Lundinn síli ber. ] [ Gítarspil á hafnarbakka borgin við hafið kvöldþokan Haustrigning tónlist í myrkri ljósblá kona ] [ ég hef grátið óheyrilega mikið út af þér tárakirtlarnir tæmast en hjartað mitt finnur alltaf til hvernig væri að hætta að kvelja mig svona eins og þú gerir og segja mér sannleikann sannleikann um tilfinningarnar lífið og þig..... en kannski ertu ekki til kannski skáldaði ég þig bara í höfðinu á mér þegar ég lá andvaka á nóttunni og hugsaði um þig fallega brosið og bláu augun.. kannski ertu bara hugarburður....? ] [ Með eigingirni ég líf mitt lagði í rúst. Ljótra gjörða vegna, ást mína, fjölskyldu og vini hrakti burt. Ástvinalaus og hryggur, mín eigin sök. Aleinn ég stend í sjálfsköpuðu vonleysi, allt sem ég ann, horfið í eigin gáleysi. Að baki mér einungis sár hjörtu ástvina, einsemd og sjálfshatur, böl minna mistaka. Einn í myrkri og dauðaþögn. Þessi óbærilega þögn.... Hrekkur upp hugur, fórnarlamb martraða, heltekinn eftirsjá, sorg og söknuðar. Vitundin tvístruð, skynfæri enn í dvala, ranka við mér, sál mín hrapar í líkamann. Til hliðar ég horfi og ást mína sé, Gyðja í mannsformi, himnesk, guðdómleg. Svo fögur hún liggur, friðsæl og ber, draumar víst ljúfir, í værum svefni er. Þungri byrði af hug og sál léttir, vitundar ró, sorg minni lyftir. Skugga martraðar hugsanir kveðja, friður og kyrrð á myrkrið herja. Framúr ég fer og út í nóttina geng, kveiki í rettu og anda að mér reyk. Lít upp til himna er lungu mín fyllast, kemst ekki hjá því að náttúru hyllast. Tunglið svo dularfullt, það virðist á mig kalla, í skýjaborg himna dvelur næturljós okkar allra. Dansandi norðurljós í djúpum faðmi stjarna, aldrei þau varpað hafa ljósi sínu bjartar. Falleg nótt og friðsæl veröld, ég hugsa með mér; lífið er gott. Vindhviða umlykur mig ísköldu lofti, rísandi hárum fylgja hrollur og ótti, allt er ekki eins og vera ber. Tunglið sortnar, stjörnur slokkna, skýin hverfa og norðurljós frosna. Ónáttúruleg nærvera sækir að mér. Úr svefni aftur hrekk og allt er hljótt, ástin mín horfin og hjarta mitt tómt. Þetta er raunveruleikinn, sálin það veit, draumar innan drauma, ég er aleinn. Einn í myrkri og dauðaþögn. Þessi óbærilega þögn.... ] [ hver á tíma,hver á ár? hver á tíma laus við tár brostna stund..gleymsku brot sú minning setur allt þrot ef ættum við eina mínótu gætum lagað lífsins feilnótu brúað bilið milli kynslóða og lagað okkar vegslóða ...hvar er mín...DÍS? ] [ undir þrýstingi ég aftur á bak fer hjálpi mér guð að ég þóknist þér í vígahug ég vopna mig öllu sem ég veit að særir þig ekki að ég sé vondur maður bara veikur,hausin hraður allar bjöllur vittlaust klingja í vörn eiturpillur syngja Ég ríkur var að löstunum að ógleymdum frekju köstunum reyf og tætti,braut fólk niður í mínu húsi var aldrei friður Þar beinagrindur bíða í hrönnum 9unda svo ég verði maður með mönnum svo ég uppréttur geti gengið og æruna aftur fengið Því Leiði reiði og réttlæting er lífsinns mesta afskræming að burðast með þá lífsinns hring er næring umrædds geðsjúklings ] [ á bak við grimma grímu glott og ráða brugg ég gerði þitt að mínu samt sótti að mér ugg því skruggur er og skaðræðis skepna dökkur er af annari þjóð? vildi það mér til tekna að frá sálinni flæddu “ljóð”? stundum steinarnir breytast í glóð hulan rennur máttlaus og móð þá daga allt kyrrt stóð steinrunnin…þvílík þjóð en kostur er og kannski gæfa eiga orðin sem suma slæfa enda tala sumir tungum og henda orðum þungum falstónn víða virðist leynast kolsvört horn þar sem var víst “hreinast” þetta síðasta ár….átti að gleymast hvernig skildi 2014 okkur reynast??????? ] [ Hvað er fegurra en fjörðurinn minn með sól á himni og fjallasýn ? Fallegastur er þó staðurinn er þar er Rósa Skarp og móðir mín ! ] [ Ekki get ég varist því þegar ég geri mér ferð í Kolaportið til að kaupa mér harðfisk og lyktin leggur á móti mér svo yndislega stæk að mér detti ekki gamall elskhugi minn í hug. Reyndar var hann sá síðasti í röðinni af langtíma bólfélögum mínum og eru þó nokkur ár liðinn frá hans blómaskeiði í lífi mínu. En harðfisksins vegna er ekki svo auðvelt að afmá minninguna um eldheita ástarfundi í vistarverum þessa fyrrverandi ástmanns míns. En hann bjó á umræddu tímabili í einu herbergi með aðgangi að baði, í kjallaranum hjá ömmu sinni í hrörlegu húsi í miðborg Reykjavíkur. Það var smá aldursmunur á okkur honum í vil en ekki fann ég fyrir því, nema þá í bólinu, en þar eyddum við mestöllum tíma okkar í þessum niðurgrafna, en þó funheita kjallara. Kjallarinn þessi var sannkallað ástarhreiður þar sem við pældum ekki í neinum óþarfa eins og að ganga þokkalega um enda óhægt um vik, því sökum skorts á rými neyddist ástmögur minn til þess að nýta herbergið jafnframt sem forðabúr og geymslu. Það var einna helst myrkrið sem hrjáði okkur því kúpul vantaði á einu ljósaperuna í herberginu og þar sem glóandi peran skar í augun kusum við að kveikja aldrei ljósið. Það krafðist því einstakrar lipurðar af okkar hendi að skáskjóta sér upp í rúm sér til yndisauka, því allt um kring, var staflað hinum ýmsu nauðsynjavörum sem menn þurfa helst á að halda sér til lífsviðurværis. Má þar til dæmis nefna fiskibollur í dósum sem við borðuðum kaldar beint upp úr dósinni, kartöflustrimla einnig í dósum og svona ýmislegt annað matarkyns sem ekki þurfti að geyma í kæli né þurfti eldunnar við. Það var aðeins í hádeginu á sunnudögum sem svo mikið var við haft að prímusinn var dreginn fram undan rúminu og soðin ilmandi kjötsúpa sem okkur þótti hin mesti hátíðamatur. Staflar af hreinlætisvörum stóðu svo hér og þar um herbergið og entust þær birgðir öll þau ár sem við héngum saman, að undanskildum skeinipappírnum sem var endurnýjaður reglulega eins og lög gera ráð fyrir. Það eina sem ég gat sett út á í allri þessari óreiðu voru silfurskotturnar á baðgólfinu. Samt lærðist mér fljótlega að óþarfi væri að óttast þær því þær hurfu undantekningarlaust eins og unglingar sem eiga að fara út með ruslið um leið og ljósið var kveikt. En hvar kemur þá harðfiskurinn inn í myndina? Jú, elskhugi minn elskaði harðfisk næstum jafn heitt og mig sjálfa og þess vegna þótti mér hann auðvitað líka góður. Best þótti okkur að spæna hann í okkur í bælinu, þegar við lágum þar örmagna eftir unað og erfiði ástarleikjanna og nenntum ómögulega á lappir. Roðinu hentum við svo undir rúm, þar sem það harðnaði og gegnum þurrkaðist í hitanum frá rúmstæðinu þar til með tíð og tíma lagði frá því hina indælustu angan um allt herbergið. Langt er síðan sá ég hann... En heyrt hef ég að þessi fyrrverandi ástarpungur minn, sem var sannkallaður listamaður á fleiri sviðum en í bólfiminn einni saman, búi ekki lengur í kjallaraholunni. - Hann hafi grætt offjár á einkaleyfi á forláta ljósakúplum úr fiskroði. ] [ Það er komið að lokun vinsamlega farið héðan dýragarðurin er að loka Það er verslun á móti þið getið farið þangað þar er opið Það er komið að lokun allar dyr verða læstar innan tíðar Það verður kalt í nótt eftir síðustu lokun þegar myrkur kemur ] [ Hér mætast himintunglin tvö andlit leikhússins Kossaflaumur og gulrótarsnakk eru sem blý á vogarskálar stundarfriðar og alsælu Kramin tuskudýr liggja í valnum sum kreist af ást önnur myrt ] [ Spilin mín eru sagnafá en ég segi þó grand. Enginn má á þau sjá. Ástkæra ættarland. Spilin mín voru svört á lit ég sló í borðið þungt. Áfram og engan goluþyt. Ástkæra Ísland ungt. Spilin mín öll innilæst en þá sló ég út ás. En úr þeim hefur ekkert ræst. Ísland í aldanna rás. Spilin mín völdu annað vað villtust með unna sögn. Hyldýpi reyndist á röngum stað. Land mitt land mitt og þögn. ] [ oftast blár alltaf einnota ] [ Þú færð ekki að hafa af mér fleiri tækifæri meiri ánægju meiri gleði meiri tíma Hér dreg ég löngu tímabær mörk Þú færð ekki að valda fleiri tárum meiri skemmdum meira hugarangri Hér set ég löngu nauðsynlegan punkt ] [ Hey Guð Sestu nú niður með mér Guð, milda vináttu þína ég virði. Ekki vil ég vera með neitt suð, og alls ekki vera þér nein byrði. Ég hef gefið þér frekar lítinn tíma, og bænum mínum sjaldan til þín beint. Helst hefði ég viljað ná í þig í síma, en margoft hef ég það nú reynt. Nú vil ég við þig ræða, á andlegum nótum ef þú vilt. Ekki ætla ég þig að hræða, en viltu hlusta á þennan pilt. Eftir þínum ráðum vil ég fara, en aðeins ef þau eru góð. En ef þú átt betri til vara, þá vil ég gjarnan komast í þann sjóð. Mig finnst við teljast nú til vina, styrkur minn mun styrkja þig. Nú hættir þú að hugsa um hina, því þú mátt bara hugsa um mig Ég hef heyrt því fleygt að þú sért manna mestur, svo það gleður mig að kynnast þér. Svo segja margir að í fasi sértu bestur, og það vil ég nú að þú kennir mér. En þó er það eitt, kannski er það bara ég. Þér finnst það kannski ekki neitt, en ég vil trúa því sem ég sé. Ég skal sýna þér hvað ég get, og engu skal ég þér leyna. Ég skal færa þyngsli um eitt fet, gaman þætti mig sjá þig það reyna. Svolitlu láni hef ég átt að fagna, heiðarleg og einlæg er sál mín þekkt. Mér finnst þú þó alltaf þagna, þegar lífið hefur sál mína hrekkt. En það er ekki þér að kenna, þótt að stundum líði mér illa. Þegar ég á rassinn er að renna, þá kenni ég þér um þann kvilla. En í raun þá veit ég betur, ég trúi því að þú sért ekki svo slæmur. Því mér þú próf à hverjum degi setur, og kennir mér að elska mig í ræmur. En þú mátt þó vita eitt, að í raun þá ertu hluti af mér. Ég þykist bara ekki vita neitt, þegar ég finn lyktina af þér. Þú ert mér ávalt nærri, líkt og skugginn sem alla eltir. Þvî fer nú aldeilis fjærri, að þú líf mitt eilíft heltir. Við höfum gefið hvor öðrum svo margt, svo mikla ást sem er svo fögur, Þegar lífið verður huga mínum hart, þà eigum við alltaf börnin mín fjögur. ] [ Þegar þið hræðist myrkrið og ratið ekki heim, hindranir geta tálmað vegferð ykkar þótt leiðin virðist bein. Ef skórnir skildu slitna, jafnvel ef það losnar reim, skulu þið ávallt hugsa til mín, því þá verðið þið aldrei ein. Kv, pabbi ] [ Tætt sálin tignalega stígur niður fótum, tígurlegan líkamann hann elur. Hamingjuna hann rífur upp með rótum, og ræflinum sál sína selur. Í lausu lofti sál hans svífur, stolt hans er inn að beini sorfið. Vesæla tilveruna hann taumlaust rífur, tækifærin hafa fyrir löngu horfið. Harmur hans hugann nístir, hláturinn ómar fortíðinni í. Hamingjan sem þú forðum hýstir, hraktist burt og fór fyrir bí. Þar sem áður var skarpur hugur, syngur heimskan nú laglausan tón. Þar sem áður var stolt og dugur, situr nú sakbitið vesælt flón. Í hljóðum huga grætur sú sál, hógvær með skapið sitt stóra. Margt áður logaði þar mikið bál, sem magnþrota reynir nú að tóra. Vofur fortíðar fönguðu mig, fegurð andans fjaraði út. Sálin fór að hata sjálfa sig, og setti líf mitt í einn hnút. Þótt ég ástina hafi aldrei snert, þá mun ég aldrei hætta að leita. Það sem huga minn hefur hert, er hjarta sem ást mun lífinu veita. ] [ Fegurðin ljós með sitt fas og brosið bjarta, fengur sem ég mun ávallt veita skjól. Fegurð hugans hefur snortið mitt hjarta, hamingjan er hlýrri en nokkur sól. Húð hennar er mýkri en silki, hjartað fegurra en nokkurt blóm. Um líf hennar látlaust yrki, og lifna við hennar yndis róm. Hún lyktar líkt og nýútsprungin rós, líklega gæti hún læknað versta kvef. Hún er viti minn og verndarljós, og vakir yfir mér meðan ég sef. ] [ Ég spáði um daginn hvort möguleiki væri á því að ég hefði verið fullfljótfær að festa ráð mitt á ný því það þykir fólki víst í dag og það hefði mér líka þótt undir öllum eðlilegum kringumstæðum spáði hvort ég hefði virkilega í alvöru réttilega getað verið búin að leita eins og þurfti? finna þennan eina hafði ég leitað svona hratt eða hreinlega ekki nóg? en kringumstæðurnar voru bara ekkert eðlilegar því ég féll á fésið og naut þess ef heimurinn heldur að sá eini sé þarna úti enn þá afsanna ég heiminn auðveldlega því hann verður áfram einn, sá eini ég hef fundið minn og hann er ekki einn heldur alveg milljón ] [ Skilaboðin voru ekki áreiðanleg og þessvegna talin sennileg sem síðar var ritað sennilege (uppúr 2086) ] [ Heyrið duna hátt um velli heyr stormaþytinn og gljúfur titra. Heyrið brest og berserkstökin sjá blikið frá norðurljósum glitra. Sjá hver og hvíta jökulbungu þar hvílir fönnin en undir sýður. Jökulárnar sem silfurstrengi og sæbrimið er við ósinn bíður. ] [ Lotið var þitt breiða bak og brenndur eftir sárin. En þétt var þitt handartak en þögn um kreppuárin. Börinn biðu komu heim brostir með eitt í huga. Lagðist lúinn hjá þeim og lést þögnina duga. Sorgmætt á brá var þitt blik allt brást - engu að eyða. Og enn var erfitt um vik engri hjálp til að dreifa. Í mjöllinni marrið við skref í myrkri stjörnur tifa. Í huga eitt lítið ef hann átti ei að lifa. En hann unni sinni ást svo þung getur bið orðið. Að síðustu verður skást að sætta sig við morðið. ] [ Nú skil ég betur og betur baráttu sumars við vetur. Og allir kveðjunni kvíða að kallinu fer að líða. Ég syrgi för sumardaga sagt er að allt megi laga. Þau bíða sporlausu sporin ég sé þau aftur á vorin. Ég kveð fuglana sem fara fjöllin á eftir þeim stara. Og dalir og grösin gráta í gær fraus aldan við báta. ] [ Ég sakna þess að vera í móðurkviði og eiga allt lífið fram undan Ég sakna þess að vera 5 ára, þegar foreldrar mínir litu enn vel út Ég sakna þess að vera 15 ára og vera kallaður gaur og tékka á stelpum Ætli ég eigi eftir að sakna þess að vera 35 og yrkja stórkostleg ljóð? ] [ Allur heimspeki hljómur er hvelfing ein yfir eyðigarð. Þaðan berst ennþá ómur enginn veit hvernig tilurð hans varð. Þessar hugsanir hindra en hvetja og gefa öllum þrótt. Þær skína og þær sindra líkt og stjörnur á heiðskírri nótt. En erfitt er að skilja orðin sem fjalla um tilvist manns. Og ég virði þann vilja og von sem annast um drauma hans. ] [ Tvö laufblöð líða um stétt og fjúka um lítil og létt. Sölnuð og smá fallin af meið við sumalok á minni leið. Eins og orð í munni lögð en til þín aldrei sögð. ] [ Þetta í sambandi við nóttina var aldrei staðfest Settu lykilinn í efstu skúffuna hamarinn á hanastélið á meðan þú ritar bréf til þín og kveður þessa kringlu. ] [ Þessir mennsku menn sem mylja hin síðustu blóm. Og að eru enn að endingu hljóta sinn dóm. Og allt er það eins því enn sveltur hinn minnsti þjónn. Vor mönnum til meins í myrkri býr andvana tónn. Þessi mennska þrá þjóna öllum sem hafa völd. Með bænir á brá en bræður myrða í kvöld. ] [ Að heiman fór ég heim um hálflæstar dyr. Og sporin þakka þeim sem þekktu mig. Að heiman fór ég einn og allt var mér nýtt. Hinn sigurvissi sveinn en sagan hans grýtt. Að heiman fór ég för og fagnaði heitt. Um vorið ýtt úr vör en vissi ekki neitt. Að heiman fór ég fyrr og fótaporin sár. Hjá lykli að læstri dyr lágu gömul tár. ] [ þar sem humarinn hleypur villtur um túnin þar sem víkin heitir svo ranglega múlinn þar sem óðir menn eru eflaust á kreiki og andskotinn alltaf á næsta leiti já þar mun ég sitja þar til endann mun vitja því skítleg er skömmin og restin er mykja ] [ Mín kæra eiginkona, elskuleg Níu mánaða var gengin, glæsileg Fátt get ég sagt En það er þó satt að ég gef henni hrós minni elsku Bergrós Því nú er fædd og skírð Særún Rós ] [ Puntstráið dansar í austanvindinum, og stöku Sóley litar mosabreiðuna í hrauninu. Englarnir gráta tárum himins meðan ég leita að sólinni sem átti að fylgja sumrinu mínu. ] [ Mér er illt, fáðu þér meðal. Mig verkjar, fáðu þér meðal. Ég er með sting í maganum, fáðu þér meðal. Ég finn fyrir sársauka, fáðu þér meðal. Ég er brotin, fáðu þér meðal. Ég sé allt í svörtu, fáðu þér meðal. Ég svitna svo mikið,alltaf, fáðu þér meðal. ] [ Namm namm, peningar og völd, ég kaupi mér ázt ] [ Ég fæ mér demanta í matinn og hengi þá um hálsinn (nú er ég rík frú) Ég finn hamingjuna hún svífur yfir mér -- svo fallega gul og lillablá ] [ Ég heyri í þér dansa, guð blessi bros, guð blessi tár, guð blessi mig og þig, og lifðu hátt í perlubaði. Réttu mér nú vopn og hreinsum illt til að fá frið. ] [ Vistnuð er rósin í moldinni, líkt og, þráin mín, draumur minn, bæn mín, hörund mitt og viljastyrkur. Eitt skref í átt að eymdinni, eitt fall og engin von. bergmálar hatur inn í eyra mér, sem dreyfist um líkama minn. En rödd mín og andlits lygar, leiklist, segja frá kímnigáfu og fegurð. ] [ gríma mín datt af í gær þrettán meiddust og sjötíu dóu þar sem engin hefur séð svona mikla eymd í einu. ] [ Kertið mitt er bilað, og ég er Britney Spears, ég dansa til að gleyma. Ég vaknaði í gær með brund í sænginni minni eftir að þér var fullnægt, --alltaf gleymist ég. Ég brenni mig til sektarkenndar, horfi á x-factor og sötra túrblóðið mitt ] [ Ég er gift Elvis Preasley, Kurt Cobain, Bob Dylan og Jesús kristi, og við lifðum hamingjusöm til æviloka. ] [ María mey fyrirfór sér, afþví að barnaverndin sendi jesús til himnaríkis í fóstur. Spíttið og E-pillurnar voru komnar í öfgar. Brennivín og vindlar var hennar lífsbrauð. ] [ Ég hata það að hata hata það að elska elska það að elska elska það að hata ég hata það að elska þig hata það að hata mig elska það að hata mig. ] [ Brotin rifbein, og glimmer í munni. engar áhyggjur, þetta er allt spurning um útlitið. Ég tek skæri og klippi af mér fituna, kveiki í kerti, og brenni spegilmynd mína, útlitið skiptir öllu. Sólin sest til viðar og ég sötra kaffi dretil, hönd mín skelfur, hún titrar, mér líður ekki vel, en allt er í lagi, þetta er allt um útlitið. ] [ Húmið hangir yfir og mig verkjar í hálsinn. Ég bý mér til mixtúru sem inniheldur gleði heimsins, helli henni út í teið mitt með von um bata með efasemdun. ] [ í dögun allt er farið, allt sem nóttin átti er gleymt, ekkert heyrist, ekkert sést, nema leifar af orðspori mínu ] [ Þegar ég vakna, fer ég að sakna, sakna þegar nætur voru hvíld og dagar hamingja. en nú, eru nætur hugsanir, fantasíur og sjálfsefi og dögun er tími til að setja upp grímu og gráta í hljóði innra með mér. ] [ Gefðu mér vængi, svo ég geti flogið frá þér. Gefðu mér andardrátt og kaffisopa, frelsi ritað með zetu og hægindarstól meðan ég reykji pípu. Ég vökva andstyggðina innra með mér og geri grín af litla manninum, því mín sál sem ekki er til er svört og krumpuð og tilfinningarskert. Ég og minn hugur er fullur af ofhugsuðum dagdraumum og ofskynjunum. Ég er þráhyggju- og árátturinnar þræll sem lifir á nýjungagrini og subbulegu snakki á tilboði. Vaggaðu mér í svefn, róaðu mig niður, því þegar ég vakna verður þú farinn og ég verð týnd. Engin dyr til að banka á og engin kyrrð í huga mínum finnst. stoltið drýgur og efasemdin heimsækir mig á sunnudögum, sama tíma læsi ég tilfinningarnar úti og drekk kaffi, svart kaffi með engum sykri. ] [ Gegnblaut, rennblaut, hundblaut geng ég um i haustregninu, gul laufblauð fljóta um í lækjum götunnar eftir regnið sem virðist endalaust það styttir aldrei upp það rignir og rignir og rignir og rignir, það er eins og regnið sé komið til að vera að eilífu. ] [ hugur minn ber mig á dimma staði ég finn fyrir straumum kalda sjáarins áhrif sandsins taka í burt tylfinningar ég er að detta niður endalaust ekkert ég finn fyrir snertingu dauðans líf mitt er á enda, ég er að verða blindur ég sé bara eitt það er veggur hann er rauður ég veit innst inni er ég dauður ég týndist í minum eiginn huga raddirnar mínar taugar buga ég er að brjálast getur þetta aldrei klárast það er ekkert hljóð ekkert að sjá ekkert til að snerta og eingin lykt hér endar þetta ég er hættur að detta. ] [ Beljandi, umturnandi, Hel ber ég yfir þig andi... Viss er minn vandi for mín og fjandi með sjálfdauða belju í bandi... Fullvissandi grandi, svo engin þar eftir standi... ] [ Ég hugsa um þig. Þegar ófreskja höfuðs míns engist um. Lætur mig gera þetta aftur og aftur. Mun hún aldrei láta mig í friði? Ég hugsa um þig. Þegar ég stíg aftur á tæki djöfulsins. Það pípir blikkandi á móti mér, til þess eins að láta tárin flæða á ný og ófreskjuna vakna aftur til lífsins. Ég hugsa um þig. Þegar ég ligg upp á spítala þakin hvítum lökum með línuna tengda beint í handlegginn, lífslínuna. Ég hugsa um þig. Þegar ég ligg í kistunni með ekkert utan á mér nema skinn og bein vannærð vanlifuð. Ég hugsa um þig Þegar þú bentir mér góðfúslega á að ég væri of feit mannstu? Þarna fyrir 5 árum. Ég hugsa um þig. ] [ Haustlitirnir eru mér hjartfólgnir, ég horfi á þá heilluð af margbreytileika þeirra, þeir senda mig í ævintýraheim hugsanna minna þar sem allt er svo ltiskrúðugt og fallegt, þar eru allir fallegir, þar eru allir frískir, þar eru allir vinir, engin særindi eða dauði bara fegurð, endalaus fegurð, marglit fegurð sem kallar fram allt það besta og fallegasta í þessum heimi. Ég óska mér stundum að þessi heimur væri raunverulegur og þar gætum við öll átt heima, án særinda, ótta og leiðinda, án veikinda og dauða, ég myndi kalla það „Hamingjulandið“. ] [ Sjávarniðurinn leitar mig uppi í svefnhöfganum, ég stend upp og fer út að glugganum, bárurnar gárast yfir fjörusteinana sem veltast um eins og börn að leik, kollurnar vagga á öldunum, upp og niður, upp og niður, væri ekki gaman að vera þær og vagga upp og niður sitjandi á öldunum eins og lítll bátur án þess að hafa áhyggjur af því að sökkva. ] [ Í loftinu gárast vindurinn, litfögur laufblöð trjánna feykjast burt, þau svífa um í loftinu eins og farfuglar að kveðja, sólin brýst út úr skýjunum það styrnir á yfirgefinn kóngulóarvef eins og kristalla á greinum lauflausra trjánna, undufagurt listaverk náttúrunnar marglitur regnboginn lýsir upp fegurð náttúrunnar eins og geislabaugur sem umlykur náttúrna með lotningu. ] [ Og til mín kom nóttin í niðmyrkum draumi sem nábjartur engill minna framliðnu daga. Þú milda nótt undra ljósa í alheimsgeimi, breiddu verndarvæng yfir vinu þína. ] [ Hver getur læknað það sem aldrei varð? Rifin hjörtu, blæðandi sárum. Slógu í takt og gréru, annað betur en hitt. ] [ Einn kafli í lífinu lokast, minningar vináttu dafna, vara þær æfina á enda lifandi í hugskoti mínu. ] [ Ég reyni að syrgja ekki ástina sem ég taldi mig verða af. Hún lagðist aðeins í dvala, hennar tækifæri kemur á ný. Á meðan ég býð elti ég lífið, hver andadráttur færir nýtt upphaf. Nýr dagur færir lausnir á vandamálum sem þú sofnaðir útfrá í nótt. ] [ Hvað á maður að gera við hamingjuna? Njóta hennar eitt lítið augnablik? Svo maður geti vonast til að rekast á hana aftur. Eða brjóta á henni lappirnar? til að hafa hana alltaf. Með hamri skal hamingju halda ] [ Eldurinn er merkið mitt því málið hans er beitt. Bruni hans er sagnasjór og sverðið líka heitt. Eldurinn er enn í mér og allt í honum ferst. En í funa hans er allt sem ég elska mest. Eldurinn á gamla glóð öll gömlu árin mín. Á minningar merlar enn í myrkri á þær skín. Eldurinn á sorgarsögn það segja liðin ár. Komu hans var fagnaði fyrr en förin hans sár. ] [ Eldurinn er merkið mitt því mál hans er heitt. Bruni hans er sagnasjór og sverðið líka beitt. Eldurinn er enn í mér en allt í honum ferst. Og í funa hans er allt sem ég elskaði mest. Eldurinn á gamla glóð öll gömlu árin mín. Á minningar merlar enn í myrkri á þær skín. Eldurinn á sorgarsögn það segja liðin ár. Komu hans var fagnaði fyrr en för hans var sár. ] [ Þeir sögðu að hamingjan væri ekki til lífið væri lastafullt leiðingjarnt spil að sálin líkt og örflugan deyr og liðnir dagar koma ekki meir Þeir sögðu að hamingjan hógvær og hrein fóðraði ei þjóðir né læknaði mein við föðmuðum heiminn full af þrá heiminn sem að hljóp okkur frá starandi í spegil hlið við hlið í brotni gleri reyndum við Við horfðum frá stjörnum á allt sem að deyr mannana verk máttlaus og meir starandi í spegil hlið við hlið í brotnu gleri elskuðum við ] [ Ég hef augu pabba míns og munn móður minnar. Á andliti mínu eru þau ennþá saman. ] [ Ég á mér engil, hann svífur um himnaríki og vakir yfir mér. Þótt ég hafi aldrei fengið að kynnast honum, þá veit ég vel að hann veit hver ég er. Hann hvíslar að mér að vera sterk og heldur í hönd mína þegar lífið virðist ómögulegt. Sá engill er engum líkur og ég kalla hann afa. ] [ Sá maður sem kastar frá sér demanti, til þess að tína upp grjót. Sá maður sem leitar að mörgum eina krónum, þegar hann veit vel að hann á seðil heima. Sá maður sem lýgur ekki, heldur felur sannleikann milli ósagðra orða. Sá maður sem myndi aldrei í sínu litla lífi leyfa dóttur sinni að hitta strák eins og sig sjálfan. ] [ Þú ert mín hetja, vilt alltaf mig hvetja. Þú ert minn stuðningur og styrkur og þó það sé myrkur þá lýsir þú mér leið sem alltaf er greið. Þótt ég vaxi og grói skaltu ekki verða hissa þegar ég rétti út hendi mína og segist aldrei vilja þig missa. ] [ Ég sakna þín ekki, ég sakna minningana. Þú hafðir nokkra hlekki, eins og þegar þú talaðir um hana. Þú hafðir þína galla, hefði kanski átt að láta þig róa. En ég hunsaði þá alla, leyfði þér lífi mínu að sóa. Nú hef ég fundið mér betri dreng, hann er allt sem ég vill. Þó að lífið fari stundum í keng, veitir hann mér öryggi og yl. ] [ Með von í hjarta, von um að ég, stelpan sem þú lofaðir framtíðinni, verði aldrei mistök fortíðarinnar. ] [ Blop Splash Plaff ] [ Ryðgaðir naglar, hálfir uppúr húsinu hinu megin við götuna. Vínlyktandi róninn röltir um, hann er á leið í kaffiboð til kóngsins. Ég ligg í bakgarðinum mínum, klæðalaus og sötra te, með sítrónu. Það er kröfuganga niðri í bæ og sveltandi börn í Sýrlandi. Ég ætla á næsta ári til Afríku í hjálparstarf. Lengsti ormur í heimi fannst undir kertastjaka og er sjö komma fimm metra langur, hann heitir Kevin. Ég fór að gráta í gær, loksins, farið mitt er komið, uns ég heyri í flautunni á Ferrari bílnum, næsta stopp er frelzið. ] [ Hamingjan, þú, og ég. Það rignir óhamingju úr hamingjunni. ] [ Sorry mamma, ég gafst upp. Sorry pabbi, ég get ekki meira Sorry forseti, ég er að kafna. Ég vona að þið getið fyrirgefið mér þar sem þið eruð svo fullkomin og gerið aldrei mistök. ] [ Yfir hæðinni hangir þvottasnúra. Á snúrunni hanga tilfinningar mínar, ég er að þerra þær vegna táranna sem vætti þær. Ég er tilfinningarlaus uns vindurinn hefur blásið köldu golunni á votu tilfinningar mínar. ] [ Ég greiði hárunum undir handakrikunum mínum og flétti þau, lími svo á mig glimmer og les ævisögu Stalíns. Í kvöldmat fæ ég mér vatnsglas og klæði mig svo í þröngann samfesting, ég ætla útá lífið, ég er drusla. ] [ Afþví að ég var klædd druslulega að þínu mati, er þetta þá mín sök? Óje óje. Þegar þú rífur mig úr fötunum, þegar þú biður mig ekki um leyfi, þegar ég er ekki með meðvitund. Óje óje. Taktu mig, fláðu mig, píndu mig, elskaðu mig, potaðu í mig, öskraðu á mig, kæfðu mig, með þessari skrýtnu ást, óje óje. Djöfull er ég að fýla það. ] [ Hversu erfitt er að hata sjálfan sig þegar að það eina sem þú situr uppi með ert þú sjálf/ur? ] [ þar sem vindurinn nemur staðar undir björtu minni tunglsljóssins, þar rann stígur sem ég þekkti eitt sinn annar lá eftir fögrum morgni eins og hreyfing reyks í vorgusti, fylltur táknum upphafslausra mynda sá þriðji lifir enn - merktur hausti, merktur nótt, djúpt í dökku blóði þíns unga hjarta ] [ Ég leita til ljóða þau leita til mín. Berg þau af bikar og þau breytast í vín. Ég leita til ljóða ef land mitt rís og stirnir á stjörnur og sigur er vís. Ég leita til ljóða er ljós mitt dvín og finn að ég fer og feigðin er mín. Drekk þau úr dreggjum í dagana sótt og dreg þau úr draumum sem deyja í nótt. ] [ Er síðasta laufblað haustsins fellur og fyrsta snjókorn vetrar skellur, á gamla jörð það boðar nýja tíma. Ég lygni augum, minn líkami kólnar og hjarta mitt tekur að hríma. ] [ Nístingskaldur vetur frostrósir á gluggum á þakskegginu hanga grýlukertin tignarleg og hvöss. Það stirnir á brakandi hjarnið, vindurinn þýtur um úrillur. Í stofunni hlýir logarnir ylja á meðan eldurinn í arninum logar, frostbitnar kinnar barnanna rauðar eins og epli eftir útiveruna. Ilmandi heitt súkkulaði og skonsur á borðum meðan nístingskuldinn úti hvín. ] [ Lífins vegur er sjaldan beinn. Er húmaði að kveldi var allt svo hljótt þá einmanaleikinn yfir þér réði. Út af sporinu villtist af leið þinn vegur hlykkjaðist meira, þú spor þín flæktir í vonleysi og böli, þú vonina misstir að nýju. Hamingjuna þú aldrei fannst myrkrið eilífa þér náði, þú skæra ljósið aldrei sást að feigðarósnum svartnættið þig færði. Þú leitaðir en rataðir ei rétta leið. Þinn vegur var aldrei beinn. ] [ Á meðan litlir ungar elta andamömmur Svíf ég eins og flugvélamótor á fullu gasi sprengi mig gegn straumnum Ég rata á vegg, rita á stíflu Veggurinn er harður harður eins og eitthvað eitthvað sem fleiri en ég hafa fundið og örugglega upplifað býst ég við Stíflan vekur upp minningar svona minningar sem allir eiga Eða eitthvað svoleiðis Djöfull væri töff að koma með klikkað flott erindi Akkúrat hérna Um það að vera kominn yfir stífluna allt vaðandi í ljóð og höfuðstöfum Brjálað raunsæi og líka töfraraunsæi og líka rím ] [ Islenska kjalnesingaljoð -Atli helgi settist að íslandi já og bauð þar mönnum að vera hjá. arngrímur,þorgrímur ekki veit ég hver, en þar gisti andríður frekar en hjá þér Búi kom seinna til sögu,og oft var talað um hann, en þar var hann dæmdur í frekar langt bann aðeins 12 vetra gamall hann barðist að kappi, og réttdræpur var um tíma sá skarpi. esja var talin forn i brögðum að höfundi sögðum en hún gat ekki hjálpað Búa hjá noregsmönnum. það kom í hlut Fríðar....... Boðið frá fríði var afar gott og á þau brosti við smávegis glott fríður bauð Búa að liggja undir sæng og endaði það með litlum hæng ] [ Tóti C og Tóti P eru diskó bræður af ólíkum kynstofni hið mannlega Oreo kex Bræðurnir og ég Casanova Frankenstein vorum færðir á geðdeild fyrir íkveikju á Kleppi Pythagoras sá um mínar sakir var sem sagt sleppt af stærðfræðilegum ástæðum Samt liggur kexið á Sogni ] [ Það er allt of mikið af öllu alla daga allt of mikið af öllu alltaf Samt er ekkert sem eitthvað er ekkert nokkurn tímann Of mikið af engu þar sem eitthvað er ekki of mikið af öllu þar sem ekkert er ] [ Tyr i Asgardi ad ofan dvelur Valkyrjan a vigvelli hetjur velur Berserkur rugladur gripur til vopna hauskupur vid hoggin brotna Mjodur ur djupu horni drekkur ovinurinn djupt iblbodid sekkur Exir a lofti sverdin beitt skyldir sterkir godonum skreytt Brynjur tykkar Valholl bidur helsaerdur madur i sarin svidur Herklaeddir heidingjar lofudu Odinn hofdingi og hetja missti modinn. ] [ Heidingjar seglin toku ad hyfa mjodin og kjotid teir i sig rifa baturinn yfir oldurnar reid Odinn kallar Valholl beid Vikingar teir heldu a hamrinum hatt lofudu Odinn og badu um matt Valkyrjan vigar hetjur sotti ovinurinn skalf honum var engin flotti langt ad heiman nordur stjornu eltu fjandmenn med sverdinu i burtu hrelltu. ] [ Orrustan hefst er hornin hljoma Vikingur a vigvelli stod sig med soma hedingjar teir heldu a hamrinum hatt til Odins teir sottu sinn aedri matt miskunarlaust limlestu fjandmenn i sundur runir segja sogur um hetjur og undur ad lata lifid fyrir Odin er heidur bebrserkur hlaupandi brjaladur og reidur. ] [ Hún kom fljótandi að veitingastaðnum höfrungur sporðreysti við dyrnar þá flaut hún inn í anddyrið en þjónn kom henni að borði við glugga Þar gat að líta Eyjafjörðinn með hvítan dúk á borði og kerti þá tók hún upp 38 cal skammbyssu og skaut bláhval á næsta borði þrem skotum Hún gekk rólega út í nóttina mest á kafi en líka á gangstéttinni næst synti hún út fjörðin og fór burt með háhyrningum ] [ C158H251N39O46S beta endorfín C21H30O2 Tetrahydrocannabínol C20H25N3O LSD C19H28O2 testósterone C18H24O2 estrogen C18:2 Omega 3 C17H19NO3 morphine C16H22N6O4 thyrotropine C16H13ClN2O valium C13H16N2O2 melatonine C12H22O11 sykur C12H23 díesel C11H15NO2 MDMA C10H14N2 nikótín C9H13N amphetamine C8H11NO2 dopamine C8H18 octane C7H8N4O2 súkkulaði C4H10 Butane CH4 Methane C3H8 Propane C2H6O alkóhol ] [ Þú undrum prýdda ágústnótt, hve oft um það mig dreymir er inn í tjald þú komst um kvöld og kysstir mig í leyni. Þó liðin séu ár og öld, heil eilífð hérumbil þeim kossi og hvarmaljósum tveim gleymt kann ég ei né vil. Því leiðir skildu á lífsins braut. þín lá um hafsins strauma. En ég sat heima og bað og beið í bríma fornra drauma. ] [ Fíflar að rósum og borgin að dimmum ljósum stúlkan að konu konu sem enginn annar fær og kemur ekki nær aðrir halda sér fjær nema stúlkan úr borginni með fíflunum og rósunum og dimmu ljósunum. ] [ Hún Hún, en fyndið að það skuli alltaf byrja á henni. Hún var talandi rós og yfirnáttúrulega falleg en gekk alltaf í svörtu, í sama lit og hjarta hennar. Hún var listræn og kaldhæðin, hún var hvít eins og mjöll á sunnudögum og varirnar hennar voru bólgnar á mánudögum. Ég hafði aldrei eitrað sjálfa mig af brúnum augum, fyrr en ég sá hennar, þau gripu mig og drógu mig niður í tómarúm sálar hennar. Þá komum við alltaf aftur að þessum frægu eftirvæntingar og vonbrigðarfullum orðum, augun eru spegill sálarinnar. Hvað er sálin nema eldspýta sem er að falla í ösku. Tilfinningarnæmi er yndislegur leikvöllur, griðastaður, hugarró að lokum. Ég Ég, en sjálfselskt að það skuli alltaf byrja á mér. ] [ Rottur í Reykjavík reyna‘ að ná fótfestu það gengur og gerist eins og músík, hafa hertekið göturnar bestu. Tussan er temmilega rík tekur seðla upp úr langflestu reðirnir rísa alla leið á Súðavík og haldast þannig í sínu rismestu. ] [ Karlmenn með kvenlegar tilfinningar kunna ekki að tjá sig, þar eru þessar sprengingar þeir vita ekki hvernig, hvernig þessar hyllingar hafa áhrif á hvert stig, nokkrir nauðalíkir sem dýrlingar nefna við sig hættustig. ] [ Af gamla Leppalúða nú leggur jólailm. Íklæddur skondnum skrúða starfa vill, hjá Saga-film. Við Grýlu skildi grama nú geim skal prufukeyrt í leit að frægð og frama á forsíðu „Séð og heyrt“. Nær Leppalúði frama í framadrauma drama ef fær hann pláss í keppni Rásar tvö? Leppalúði sendir látlaust Selfy snapp. Hjá Loga gaurinn lendir með Leppalúðarapp. Hann hugsar sér gott til glóðar um sín glæstu þáttaskil Hann höfðar vel til þjóðar horfir Bessastaða til. Nær Leppalúði frama í framadrauma drama ef fær hann pláss í keppni Rásar tvö? það nægir kannski að þekkja Sigga Hlö. ] [ Kosningar og pulsa í boði pulsa í boði sjálfstæðrar samfylkingar með sinnepi rauðu og bláu steiktu og hráu meðlæti. Ekki vera með ólæti þótt sjálfstæð sé framsókn í lokin litrófsins flóra hokin og föl því verkalýðsdagurinn er í nánd við verkalýðssánd er pulsa í boði pulsa í boði verkafólks fólksins utan skjaldborgarinnar. ] [ Ég gægist út um gluggann minn þú gægist út um gluggann þinn augu okkar mætast hlýleika ég frá þér finn fullkominn. Ég brosi undur blítt til þín þú brosir undur blítt til mín augu okkar kætast ástarsólin okkar skín sallafín. Gluggavin ég góðan hef ég gluggavini mínum gef sælublikið sætast. Hreint ég hugsa ástarbréf hugarstef. Í glugganum ég vaka vil vænta þín og vera til óskir okkar rætast við gluggann þinn og gluggann minn grið ég finn. ] [ Er gruggug Hvítá, glæru Sogni mætir geysimikið vatnsmagn verður þá. Til sjávar rennur, svæði víðfemt vætir stórkostlegust áa, Ölfusá Þar lifa allar ferskvatnsfiska gerðir sem finna má á Íslandi í dag. Í Ölfusá vel enda veiðiferðir um 18 prósent alls fisks veiðist þar. Þolraunir við þurfum öll að standast og þekkja hætturnar síðkvöldum. Margur hefur í ánni særst og andast elsta heimild er frá miðöldum. Erfitt er að finna um ána kvæði ekkert fann ég, það var soldið töff. Efla má þau andans elstu fræði yrkjum meira svæðisbundið stöff. ] [ Þungt hugsi, létt geggjuð. Vel full, illa liðin. Dóttir allra, dóttir hans. ] [ Ó hve ég hlakka til þessa dags er ég vakna með bros á vör með ljós lífs míns við hlið mér. Ó hve ég hlakka til þessa dags er ég geng út að glugga og sé snjóinn falla eins og fjaðrir koddaslags gærkvöldsins. Ó hve ég hlakka til að vera svo hamingjusöm að hver einasta sekúnda sýnist vera óendanlega fullkomin. ] [ Aldrei skaltu efast umhyggju mína, ef mér þykir vænt um þig mun ég öskra á þig galla þína og leyfa þér að græta mig. Ég mun öskra og æpa ef þú vilt ekki mín gæta. Ég mun kúra og kyssa ef þú vilt mig ekki missa. Aldrei skaltu efast umhyggju mína, ef mér þykir ekki vænt um þig mun ég öskra á þig galla þína en aldrei mun ég leyfa þér að græta mig. Ég mun engu þér leyna og aldrei mun ég þér gleyma, ef þú hefur hjarta mitt að geyma mun ég alltaf eiga hjá þér heima. ] [ Nú göngum við fáfarinn slóða í fótspor hans Guðmundar góða Þið þekkið hann flest það á ykkur sést þökk sé háskólagenginu fróða. Í Hörgárdal föðurlaus fæddur af fjölmörgum heimilum klæddur dugnaðargrey sem guggnaði ei þótt geðveikt hann oft væri mæddur. Svo hélt hann til framandi landa á Hornströndum skip náði að stranda Fótinn hann braut en lækningu hlaut hjá Heilögum Reykhólskum anda. Hann vígður var prestur hann Gvendur og vinur hans fannst svo örendur. Í sorg sinni bað til Guðs, nema hvað og síðan við ,,gott“ hann var kenndur. Og sama var, hvar, hann var prestur hjá almúga þótti hann bestur. Hvar sem hann stóð var fólksfjöldaslóð sem fylgdi honum austur og vestur. Um Skagafjörð ferðaðist gæinn faglega vígði hann sæinn og brunna um allt ó boy, það var svalt svo bauð hann, ómögum í bæinn. Í Svarfaðadal sat á Völlum þar sinnti vel starfi og öllum oft þurfti hann þó að setja á sig skó og ganga á heiðum og fjöllum Einn dag yfir Heljardalsheiði hann fór ásamt fólki, frá Skeiði þá hríðin skall á og fjöldi fólks lá svo fjórtán við bættust þá leiði. Ég gæti sko sagt fleiri sögur og sönglað hér vísur og bögur Um góðasta Gvend og verk hans í grennd en göngu skal ljúka um fjögur. ] [ Nei þýðir nei Nei þýðir svei Nei þýðir aldrei ókei Nei þýðir nei aldrei. ] [ Fyrir mánuði varstu áhugaverður og ókunnugur drengur aðeins nokkrum mánuðum eftir að hafa verið krýndur inní fullorðinna manna tölu. Það tók mig eitt stefnumót og nokkur kvöld með þér til þess að falla alveg kylliflöt fyrir þér. Þú varst eithvað nýtt og spennandi svo klár og hlýr á sama tíma. Þú sagðir mér hluti um þig sem ekki margir vissu og sagðir þá við mig vitandi að stelpa eins og ég kynni að halda leyndamálum svosem þessa leyndarmáls sem við vorum. Þú varst alltaf ljúfur og góður, verndaðir mig og sýndir mér athygli. Svo einn daginn ákvaðstu að ég væri ekki þín týpa. Málið er að þú varðst hrifinn að mér þegar ég var einmana, svo þegar ég var það ekki lengur sástu að verki þínu var lokið. Núna ertu farin og ég er aftur orðin einmana, þá hringir síminn og viti menn það ert þú. ] [ Nýfætt lokað blóm bar visku og hæfileika innra með sér það hefði getað blómstrað deilt fegurð sinni með öllum heiminum, og mér En blómið skorti vatn og sól og lífsins hvössu vindar blésu af krafti á litla blómið og blómið sem var svo hrætt það lokaðist enn fastar Því enginn var gróðurinn umhverfis það engin önnur blóm sem gátu varið það eða tekið hluta af vindinum á sig nei, sum blóm standa ein Blómið óx það náði fullri lengd eins og hin blómin en það opnaðist ekki blómstraði aldrei Að lokum gerðist það blómið gat ekki lengur haldið eigin þunga stilkurinn var illa farinn hann brotnaði á versta stað og nú liggur blómið á kaldri jörðinni Það reynir að muna hvernig það var að vera eins og hin blómin en það tekst ekki það man ekki og vindurinn heldur áfram að blása Nú getur blómið ekkert gert nema horfa á lífið líða ó svo hægt það liggur í kvöl sinni og veit að þetta brot mun aldrei gróa Kannski er blómið innst inni sátt við það? kannski finnur það minna fyrir vindinum þegar það liggur En í fjarska eru lítil blóm sem sakna og gráta aldrei fengu þau að sjá og þekkja blómið eins og það hefði getað orðið þau þráðu að fá að sjá litina, finna ilminn njóta nærveru þess En þau fá aldrei að vita hvað hefði geta orðið enginn fær að vita ] [ Elsku hjartans ljósið mitt bjarta þín mjúka sál hefur verund mina bætt þú kveiktir upp eld og virkjaðir mitt hjarta nú blómstra ég loksins og get ekki hætt Ég hugsa til þín og hjarta mitt flæðir brosið þitt, hlátur og stríðnislegt glott ég veit ekki fyrr en ég svíf hátt um hæðir hamingjuútsýnið gerir mér gott ] [ Ólgandi órækur fossinn í mér óbeit hann hefur á stöðnun sálin mín eilífa síhungruð er sækir í viskunnar öðlun Hugurinn óþekkur hraðförum fer hoppandi hratt milli mynda þrjóskur og þrálátur er þorstinn í mér þrautseigur mun hann nú synda Árin sem líða árétta það ástin er endanlegt svarið belgtroðin þarf græðgin að fara í bað bítandi nýtir sér karið Blekking sem oft og títt bauð mér upp í dans barði mig svo sárum ég fékk safnað gröm lít nú á þann gerviglans og glöð hef ég dansinum hafnað Veröldin er fögur og vongóð ég er væmnin mun vafalaust venjast glöð mun ég gefa, það sem gefið var mér gjöfin mun áfram nú þenjast ] [ Það er svo margt sem þú hefur kennt mér þú gafst mér ný augu svo ég gæti séð töfra lífsins Skyndilega eru litir regnbogans margfalt fleiri fegurri en ég hefði nokkurn tímann getað ímyndað mér Hver hefði trúað því að svart gæti breyst í hvítt? Áður ómögulegir hlutir eru nú auðveldir og gráu litirnir virðast svo miklu fallegri með þér Ég þrái ekkert heitar en að vera þér eins góð og ég mögulega get Og þó ég þurfi að ganga nakin í gegnum eldinn til að brenna burt allt það, sem hindrar þá geri ég það brosandi Ég mun fylgja sannleikanum eftir bestu getu hlusta á visku hjartans Og ekki er það svona erfitt lengur því þú ert hér hjá mér þú veitir mér innblástur og kjark Þó að ég sé bíllinn þá dugar hann skammt án þess að fá sitt bensín og það ert þú Já, það er ekki aðeins þitt líf sem var að byrja nýja ég er jafn gömul þér og ég á líf mitt þér að þakka Takk elsku þú ljósið mitt hjartagull ] [ Stelpan sem fæddist var saklaus og góð sjón hennar sá allt það bjarta veröld þó fljótt varð þung eins og lóð vonlaus varð hugsunin svarta Reynslan kenndi reiðum sárum raunveruleikinn hann svíður best að byggja vegg og verjast bitrum tárum bíða uns vont lífið líður Lífsflóttadraumar ljáðu stúlkunni leiksvið lýstu upp litlausan heiminn skyndilega engin sorgarfull bið skaust burt í stjörnubjartan geimin Tómið hið innra titrandi þráði tælandi festi hana niður föst var í frosti en ljósfræjum sáði fagur var nýfenginn siður Fullorðin og frelsuð frá fortíðar draugum fegin ég flýg inn í núið verð þó ávallt innst inni viðkvæm á taugum vör um mig - er þetta búið? ] [ Hann er ofur lúmskur og leynist furðu víða best er fyrir okkur að hafa varann á en voðalega sætur, segist hann nú vera fær mann þess að auki, til að slaka á Hann gefur ekki neitt nema minnkandi bragðskyn og líkaminn hann þjáist - frá haus og niður í tá en hann er ofur fljótur á skynsemina að skera og fær mann til að trúa – Þetta er nauðsynlegt að fá! Þú færð þér kannski smá en vilt strax miklu meira já sykurinn er frekur og kallar alltaf á nú er aðeins eitt við þessari kvöl að gera segja bæ þú sæti – og heilsuæði fá! ] [ Þekking. Þekking hrellir hverja sál, þú mátt ekki skilja. Ef þú veist nú bara allt, Þá ekkert er að skilja. ] [ Sorgarfréttir. Sorgarfréttir segja má, sögu landsins okkar, þeir þig píndu þokka þjóð, þannig voru lánin. Öll sú vinna á þig lögð, áfram náðu lánin. Allt það sem þig dreymdi um, voru kannski bara lánin. ] [ Móðir. Móðir sæl ég minnist þín, móðir sem hér ól mig, Þakka þér, þú varst mér allt Þú eina kæra móðir. Minning þín hún lifir hér. Meðan um æðar blóðið mitt rennur. Þökk til þín. Þú yndislega móðir. ] [ Þessi heimur, er hann raunverulegur? ég finn æ oftar fyrir þeirri tilfinningu að mig sé að dreyma Flest fólk spyr ekki spurninga, og neitar að hugsa það lætur sig berast kraftmikill straumur blekkingarinnar rífur það með sér Og það er svo þægilegt að fljóta bara áfram vita ekki neitt vera með augu hjartans lokuð Ég neita að taka þátt eitthvað er að vakna innra með mér ég þrái svo heitt að þekkja ÞIG og skilja Mitt innsta ljós þráir að skína óhindrað að losna undan öllum grófu og heftandi klæðunum fá að standa nakið og sameinast ÞÉR Hversu lengi þarf ég að bíða? segðu mér bara hvað ég þarf að gera, og ég mun gera það ég er svo miklu meira en þessi litla jarðneska manneskja Því ég finn djúpt í hjarta mínu fyrir MÉR dýrmæt augnablik innsæisins ljóstra upp leyndardómi sálar minnar og skyndilega VEIT ég, og SKIL, ALLT En augnablikin sogast burt frá mér, innsæið hverfur og ég fyllist söknuði um leið komdu aftur! Jarðneskur veruleiki minn tekur við klæðir mig í kraftgallann, hylur mig alla heftir frelsi mitt Ó bara ef ég kynni að afklæðast þá gæti ég verið ÉG, alltaf ég bið þig, hjálpaðu mér; sýndu, kenndu, talaðu við mig! Ég er ekki hrædd, nema við óttann sjálfan lýstu mér leiðina og ég mun fylgja ÞÉR ] [ Ég ætla ekkert uppí til Guðs þegar að ég dey og ekki heldur í alla ljótu leyni leikina hans. ] [ Maðurinn sem skammaði mig fyrir að koma með krakkana mína á Háskólatorg um daginn er nú fyrir framan mig í röðinni í Bónus. Nei, innskráning fyrir börn er ekki hafin í Háskóla Íslands. Ég vona í hljóði (en samt með smá skömm) að þessi gúrka sem hann ætlar að kaupa sé eitruð. ] [ Sjálfsmynd mín er vasi,- brotinn vasi,ehemm! Límdur vendilega saman...en takið eftir, ekki alveg nógu vel- og ég er þá ekki að meina að þið eigið ekki að taka alveg nógu vel eftir, heldur taka eftir hinum orðunum fyrir framan, þessi orð þið vitið þarna, -ekki alveg nógu vel? Vasinn var fylltur vatni til þess að vökva blóm sálnanna í eyðimörkinni. En bágt fæ ég á baukinn þegar bunurnar standa í allar áttir ] [ Ég krýp og kíki út um kýraugað. Það undrar mig að margt utan þess er álíka skrýtið og innan. ] [ Það er engin botn til og alltaf hægt að komast neðar og neðar Þrátt fyrir öryggisnetin allt í kring sem hefta för Þá er engin botn til sama hvert þú ferð það er engin botn ] [ Eplalyktin sem angaði frá búðinni um alla götuna, stóra lýsandi bjallan langt uppi í loftinu hjá Geysi, mamma saumandi handa okkur settleg sængurföt í dúkkuvagnana okkar, angan af hangikjöti og ilmur af rauðkáli allsstaðar, mamma æðandi, kallandi og argandi um íbúðina, Siggi, Helga, Svava, nei Siggi, logandi vaxkertin á trénu og vatnsfatan til vara í horninu, útvarpsklukkan slær loksins sex högg sælubros -og gleðileg jól. ] [ Aldrei mun ég verða leið yfir því að horfa á sólsetrið ein. Hví ætti ég að verða reið yfir því að fá að sjá slíka fegurð? Aldrei mun ég verða leið yfir því að sitja á kaffihúsi ein. Hví ætti ég að verða reið yfir því að drekka dýrindis kaffi? Aldrei mun ég verða leið yfir því að sjá öll hamingjusömu pörin. Hví ætti ég að verða reið yfir hamingju annarra? Aldrei mun ég verða leið Þó ég þurfi að leita þín yfir höfin. Hví ætti ég að verða reið yfir þeirri von að finna þig einn daginn. ] [ Einn, tveir, þrír... mig langar ekki heim mamma heldur að ég sé hýr og pabbi kallar mig leim. Fjórir, fimm, sex... Mikið er ég orðinn svangur Afsakið áttu nokkuð kex? Dagurinn er búinn að vera svo langur. Sjö, átta, níu... ó hvað ég vildi að þú værir hér þá fengi ég að finna hlýju en þú myndir aldrei sitja hér hjá mér. Túkall, ellevu, tólf... lögreglan rak mig burt inn í fagurt fangahólf fagurt eða ekki ég læt það nú kjurt. Þrettán, fjórtán, fimmtán... brennivínið dýrt er í dag kanski gæti ég tekið lán eða væri það í minn hag? Sextán, Sautján, átján... mikið sakna ég þín þetta vín er algert rán vindurinn hvín og aldrei verður þú mín. ] [ Í gengnum sporum gamalla tíða glöddust smáenglarnir yfir hverjum degi sem leið hjá svo ljúft og letilega að blessuð litlu börnin nenntu engu brölti heldur léku sér léttfætt í ljósinu frá glaðlyndu kringlunni gulu sem Guð hafði límt lauslega uppá ljósbláan himininn. En gegnum stóru gráu skýin kom gamall maður röltandi með stærri bláa könnu sem rigndi úr blávatnsdropum á börnin svo þau spruttu upp og sprengdu utan af sér fötin spengileg og skyndilega fullvaxta. ] [ Ljósaflóð fagurt lýsir lyftir bæn um von og trú Undratónar heimsins hljóma hamingjan fylgir árinu´ nú. ] [ þær hvísla í hornunum hljóðu raddirnar. Halda því fram að heimurinn sé vondur, að öllum sé alveg sama um mig. Jafnvel að öllum sé ákaflega illa við mig. Fyrirlíti mig fyrir veikleika minn að vera hrædd við allt Best er að hjúfta sig í bólið sitt hlýja og mjúka og sofa, sofa og sofa út í eitt Gleyma illskunni í þessum ömurlega heimi og hverfa inn í hugarheim sem er hulinn inní mér sjáfri. Langt frá vonsku allra þessara ókunnugu illskulegu manna. ] [ Er andi góu óbilgjarn óð um lönd og tóttir, steig í heiminn stúlkubarn: Stína Gunnarsdóttir. Hún lærði ung að lífið er leikur til að njóta. Hún skyldi kunna að skemmta sér, skála, hlæja og blóta. Henni er margt til lista lagt, léttan fetar hugveg. Nokkra kosti kann ég sagt; klár, skapandi og dugleg. Hún lagði stund á list og mennt og líkna þeim er þjást. Margt hún lagði í þetta þrennt en þúsfalt meira í ást. Því hún ann sínum manni, hans ótal göllum, og ann sínum börnum, það er skrýtið. Foreldrum, bræðrum og ástvinum öllum. Hún ann okkur ekkert lítið! Ég er þakklátur ýmsum og marga mæri en mestur er hennar sjóður. Þakkir allar með fögnuði færi minni fimmtugu fallegu móður. ] [ Þú stendur í þínum eldhúsglugga ég vil í mínum ríða þegar þú sérð til það myndi mig hugga að feika fullnægingu fyrst og hamingjuna síðar ] [ Þetta er leikur. Ég er búin með sénsana á að call-a time out Veit ekki svarið í Útsvari og er búin að hringja í vin. ] [ Er að hafa áhuga á einhverjum og hann hafi ekki frekari áhuga á Nönnu ....og Hönnu Jafnvel líflausri könnu eða Önnu sem er móðir mín ] [ Rauðvínið sér til þess að þú finnur ekki fyrir harðsperrunum í hjartanu ] [ Hið dýrðar blóm vex í myrkri það dafnar á daginn og geislar þegar ég yrki í kringum sig það myndar hið fegursta beð og í tómu höllum sálar minnar veit ég að þessi rós er það fallegasta sem ég hef ] [ Ég sit og brosi eins og ég er vön, Þú talar um nýju stelpuna þína. Ég vona að hún sé hamingjusöm því hún hefur alla veröldina mína. Hún er falleg og klár hún er heppin að vera þér hjá staðallinn er orðinn mjög hár svo hár að aldrei mun ég aftur í hann ná. Ég læt sem þú sért ekki svona nálægt. Reyni að stilla mig við að snúa mér ekki við, eina hugsun mín er "þetta er ekki hægt". Annað augað kíkir út í hlið. ] [ Ég gekk upp á Fellingafjöll. Yfir ár um gil og gljúfur. Mér fannst ég þekkja leiðina. Hinn aldni leiðsögumaður rúnum ristum af sól og regni fagnaði ekki er ég stóð á tindinum og hrósaði sigri. Ég spurði hvernig á því stæði. Hann sagðist hafa verið hér oft áður. ] [ Tíminn er eins og hringur og himinsins ljósakrans. Ég ferðast um nútíð og framtíð í fótspor hins hugsandi manns. ] [ Á ferðalagi um önnur lönd. Hef ég fundið hve hlý er Íslands strönd. Í víntali gesta með háan hljóm. Finn ég heimsins mesta hjóm. Og árin líða gegnum hlið. Skilja þig eftir á bak við sig. Burt frá ykkur eins og spor. Sem stefna að kaldri skor. ] [ Minningin um þig Húmar að kvöldi, ég hugsa til þín helst þá er einveran segir til sín. Minningar birtast og buga minn hug, - draga úr mér allan dug. Stundirnar með þér, sem léttu mér lund leita því á mig nær sérhverja stund. Hvert sem um heiminn ég ferðast og fer, - þú ferðast með í huga mér. En því að kvelja sig síðkvöldum á ? Í stað þess hugsunum bægja frá ? Þó er það eitt sem ávallt ásækir mig... - það er minningin um þig. Tíminn hann sagður er lækna öll sár ég sefa mun hugann og þerra tár. Lífið mun ganga sinn vana veg, - veginn þennan valdi ég. ] [ Lífið og tíminn Ég geng eftir ströndinni og elti í sandinum meint fótspor og sé þau hverfa í fjarska – svo endalaust. Enn í raun eru þau að koma til mín því að fótspor þín eru frelsið sem þú áttir – í átt til drauma þinna – og þau enda þar... Fótsporin segja þér sögu af rútínugöngu lífs þíns sem á sér alltaf upphaf Þau segja þér frá vonum þínum og þrám og fyllingu lífs sem þú eignaðist aldrei. Og í raun hafði engan endi. Við enda strandarinnar sérðu fótsporin mást út hægt og hægt...... Þegar þú snýrð þér við eru þau engin. Þú ert á endastöð. ] [ Kertið stendur hnarreist, nýtt, fallegt, glansandi, hátt og myndarlegt. Ljós logar, bjart og teygir sig hátt í langan tíma. Vaxið lekur, greinir sig í allar áttir þegar það lekur niður. Kertið logar aldrei skærar en þegar börnin hópast í kringum það á hátíðis,-tyllidögum, og afmælum. Kertið lækkar, dagar þess brátt eru taldir, glæsileikinn dvínar. Og kertið brennur upp, einmana í óhrjálegum stjaka, umkomulaust. Logi þess lækkar, kertið verður lítið, bogið skar, sem að lokum slokknar á. Og reykur hins liðna liðast um loftið. Endalokin eru ljós. - - - - - - - - - Nýtt kerti kemur í stjakann..... ] [ Já manstu fyrstu kvöldin okkar forðum og fundi okkar saman daga’ og kvöld. Um okkar ást við fórum fögrum orðum og fannst við verða saman heila öld. Samt létum við tvö samband okkar gliðna og síðan héldum hvort í sína átt. Ég gat ei látið vera’ og gleymt því liðna og gef mig allan til að reyna sátt. Til hliðar set ég fortíð okkar feginn frekar spyr ég, hvað við getum bætt. Við skulum horfa saman fram á veginn þá samband okkar er að nýju fætt. Mundu hvernig vonir okkar voru (við) vissum hversu eilíf ástin var. Við aldrei myndum fara hvort frá hvoru með kossum okkar læstum minningar. ] [ Hún situr ein, í rökkrinu, á stökum steini og starir út, í svartnættið….á hafið dimma. Kólguský, safnast upp – í leyni gnauðið í, vindinum – sker að beini. Hún leitar að, þótt myrkvað sé, í fjarðarmynni að ljósinu, sem kveikir hann….sá sem hún syrgir. Regnið kalt, vætir sál, djúpt inni andlit hans, geymir hún, - í sálu sinni Á glugga hennar bylur regn. Hún heyrir rödd hans í gegn. Veðrið meinar henni um svefn, - henni er þetta um megn. Vonin sem, hún heldur í, að senn hann finnist sál hennar, og hugarþel, - að sinni sefar. Sorginni, og eymd í sál, hún kynnist sælutíma, með honum, hún (ávallt) minnist. ] [ Á langri leið, þá séð ég hef margt margt stendur upp úr, og margt hef ég sagt. Ýmsu hef ég hafnað, annað hef ég þekkt sumt hef ég nýtt mér, já, ýmislegt. Hér á ég heima....en þú ? Hér á ég heima....en þú ? Þar sem ég stend nú, ég ei fæ því hnekkt að margt ég séð hef, já, ýmislegt. Um landið þeyst hef, um firði ég flaug heimsótt kalda karla og marga heita laug. Heiðar haldið um, í báli og vetrartíð séð grösug landsvæði, og grængróna hlíð. Hér á ég heima....en þú ? Hér á ég heima....en þú ? Helgin búin, þá heim á leið ég skríð hlýjunni heima, ég eftir henni bíð. Þú aldrei veist hvað land þitt gefur og gætir misst það sem átt þú hefur. Já, fjöll og dali, grasið grænt og skóg af þínu landi færð, - þú aldrei færð þar nóg. ] [ Ég er einn og þögninn ærir mig allra best mér gengur þá ég hugsa’um þig. Tíminn líður, tapast árin fljótt dagur tifar þar til breytist hann í nótt. Þegar lít ég yfir farinn veg allar minningar í hugann fram ég dreg. Vetur líður, vorið fer á ról því við áttum bara sumartíð og sól. Þó er eitt, sem verð að segja þér veit það vel, hve heitt þú unnir mér. Þarf að segja, þér, varðandi mig gleymi oft að segja hvað ég elska þig. ] [ *Fýkur yfir hæðir og frostkaldan mel fannkoman breytist í kulda og él – Veturinn svífur í brjáluðum blús bráðum ei sést í eitt einasta hús. Á eyjunni frosinn og fastur ég er fargið af verunni ætíð ég ber. Ískaldar hendur og andlitið þurrt aldrei mér auðnast að koma mér burt. Aleinn ég reika í eymdinni hér allt sem ég átti það horfið er mér. Fjölskyldan, börnin, þau flúin á braut enn fer eitt árið í aldanna skaut. Djöflaeyjan víst allt hún drepur dálaglega samt augað hún glepur. Skuldafjöll hækka og skitin er króna skelfilega nú yfir allt tróna. Horfi út um glugga minn hríðina í hugur minn reikar um borgir og bý. Helmingur allra er horfinn á brott en hrægammar hafa það helvíti gott. Taskan mín stendur og troðin hún er tek ég til fóta - á flugvöllinn fer. Kætist minn hugur í kulda og trekk ef kemst gegnum tollinn, ég læsi og slekk. ] [ Sjá fönnina og finna kyrrðina og ilman loftsins fangar mína athygli og eykur við minn innri frið. Mér finnst, að einhver vaki yfir og vakti mína hreyfingar og allt mitt líf. Færir mér orðin og viskuna til að koma mínum hugsunum á blað. Sólin slær sínum bjarma á fölina í dalnum og boðar eilífan frið. Tár, mín yfir fegurðinni koma ekki, en nóturnar, þær segja söguna. Sjá trén, hreyfa sig í takt við vindinn ljúfa, sem að bærist um. Og fönnin bjarta undirstrikar fegurð og þann frið, sem fyllir mína sál. Í minningunni, æskuminning laðar, fegurð vetrar, dalinn fyllir nú. Vekur upp, þá tilfinningu slíka, mér finnst ég anda að mér lífinu. Uns því lýkur á jafn friðsælan hátt, og ég hafði vonað.... - en sólin slær sínum sínum bjarma á fölina og boðar áfram birtu eilífð um. ] [ Nú er komið nóg ég get ekki bognað meir ekki meira álag, takk Óska þess svo heitt að fá að vera ég sjálf spóla tilbaka jafnvel bara til að fá að njóta aðeins betur en ég áttaði mig á að gera þá ] [ Þegar ég las kynlífslýsinguna þína í nýjustu brók þinni sem kom út um daginn fannst mér eins og ég hefði séð eitthvað sem ég hefði ekki átt að sjá á góðan hátt ] [ Ég fékk vindinn beint í fangið fullan ástríðu og ofsa. Villtur hann vafði mig örmum og vanga lagði að rjóðri kinn. Hann kyssti mig kaldur heitt á munninn en hvíslaði spyrjandi í eyra Muntu elska mig enn á morgun? ] [ Ég labba í þoku. Ég dett, í þoku. Ég dey, í þoku. Lífið, er þoka. Fólk, í þoku. Með sálir, úr þoku. Lygar, í þoku. Á fólk, við lokum. Sem gert er, úr þoku. ] [ Soja mjólk, soja sósa, soja baunir, soja ís. Allt er soja og líka heili minn og hörund. Sojafólk í sojahraðakstri á sojahraðbraut í sojastressi í átt að sojaframtíð. ] [ Ég sit á kaffihúsi á borði fyrir þrjá. Ástfangið par situr á móti mér í sófa og mæla spænsku á milli kossaflensa. Maðurinn spilar á gítar og eru þau bæði með gleraugu. Hópur ferðamanna, fimm til tíu, sem tala einnig spænsku eru komin inn á kaffihúsið og leita sér að borði, allt er fullt. Mig langar að standa upp fyrir þeim og bjóða þeim mitt borð en ég þori því ekki, svo þau fara. Kaffibollinn minn er laggður á borðið mitt og á eftir því brauðrétturinn sem ég pantaði mér. Verði mér að góðu. ] [ þú! þú af öllum varst valinn, til að vera eins og þú. Tala eins og þú, hreyfa þig eins og þú, hugsa og tjá þig eins og þú, upplifa eins og þú. Og þú vanmetur það, vanmetur þig, rétt eins og allir aðrir! ] [ Þreytt alla daga, alltaf sama sagan. Prinsinn dáinn, prinsessur berjast. Um réttlæti, óáreitt kæti. Gengur það? fokking andskotans já það gengur. ] [ Tár komu upp úr þurru. ] [ Það sem fyllist þú finnur tæmt. Og allt sem lifir er dauðadæmt. Fylgdu hugsun og far af stað. Búðu þig undir að standa í stað. Ást sem hyllir undir í firð. Er stundum einskins virð. ] [ Allt verður slökkt með kuli á kveik kvikublik sem stund ein lifir. Veröldina ég eitt andartak leit eins og skuggi er líður yfir. ] [ Henni leið illa. Eftir mörg erfið ár og barnmissi. Börnin sögðu: Farðu til læknis og fáðu bót meina þinna. Læknirinn ungi hlustaði er hún bar upp erindi sitt. Þögn og hlustunarpípan köld eins og marmari. Hann sagðist ekkert finna að. Hún sagði frá sorginni sem vildi ekki yfirgefa hana. Og söknuði er bjó í nóttunni og drakk tár hennar. Hann leit á hana og sagði; En þú átt mörg önnur börn. Orð hans svifu í gegnum veggi og loft og hátt til himins. Og himininn grét og orðin drupu á lítinn kross ] [ Sjáið hjón, það náin eru þið orðin að þegar hann borðar, fitnar hún. ] [ Svo varð styrjöld eftir allt saman Þá er bara að byrja að byggja upp veggi virkisins enn á ný ] [ Föst með höfuðið milli verkefna. Föst með fæturnar límdar við gólfið. Föst í mínum eigin heimi. Föst, villt og týnd. ] [ Ég fyrirgef þér fyrir að hafa verið of ungur til að átta þig á því hvað þú áttir. Ég fyrirgef þér fyrir að hafa viljað einhverja ævintýragjarnari en ég var. Ég fyrirgef þér vegna þess að einn daginn muntu sjá eftir því að fara. ] [ steig í poll og varð votur til að vera ekki bæði blautur og þurr þá meig ég á mig Liverpool gyrti í brók mér varð svo um að ég meig á mig fór út að borða í gær það var næs meig á mig er eg kom heim ] [ Sagt er að eins dauði sé annars brauð. Hefurðu einhvern tímann farið í pakkaleik úr minningargreinum? ] [ Þetta ljóð er bæði rassamynd og selfí á sjálfri miðopnu internetsins. Hreinn og nakinn, færi ég kyn mitt til bókar. Og held svo áfram að stunda ást í leynum fyrir framan óteljandi vefmyndavélar. ] [ Himinn er blár hvar sem ég bý. Og skýin hvít og hafið blátt hvert sem ég sný. Og sorg er til tregi og tár og gleðin hlý hvar sem ég bý. ] [ Hrunið gerði í grónum dal heilsar og spyr. Í hverjum steini er saga mín hér og áður fyrr. En hver er þín. Áin liðast um dalinn minn. Með stríðan streng um tún og mela. Í lofti er vor hjá litlum dreng. Hér lágu mín spor. ] [ Árum saman átt hef ég ást til ótal kvenna. Ef á götu eina sé eldar í mér brenna. Ótal sinnum á hef sæst sofa einn um nætur. Syrgi ei sem ekki fæst ævintýradætur. ] [ Í nótt mun þig dreyma um lynggróna leið. Að skóginum heima sem eftir þér beið. Í nótt muntu gráta með grímuna á. Er annirnar láta öll börnin sín fá. Í nótt muntu feta í fótsporin þín. Því dagarnir geta dulið þér sýn. Í nótt ertu sekur í veröld sem er. Hún kemur og tekur en fer svo frá þér. Í nótt kemur syndin er sorgirnar ber. Brennimerkta myndin sem býr inn í þér. Í nótt kemur vorið með vonir og þrár. Með gleði og þorið og græðir öll sár. Í nótt mun þig dreyma daga þinna leið. Og ástina heima sem eftir þér beið. ] [ Fellir ekki einu sinni tár er þú svíkur loforðið velti fyrir mér hvort ég hefði átt að fylgja upphaflegu innsæi og heimskast ekki til að raunverulega treysta þér Þá hefði ég ekki til að byrja með gefið þér allt einungis til að standa svo uppi með ekkert ] [ Ég ætlaði með þér eins og ég hafði sagt upp og niður framhjá öllum göfflunum En þú snérir við og bannaðir mér að fylgja þér þó það væri ekkert í heiminum sem ég vildi frekar gera Hafðir af mér tíma, drauma og vonir og ógiltir ást mína ] [ Sólin þurrkar skýin úr augunum og skín í gegnum tárín. ] [ Í mér býr lítið barn sem grætur við og við. Í mér býr móðir sem huggar aðra er þeirra litla barn grætur. Í mér býr elskhugi sem elskar þig með öllu hjarta. Í mér býr skáld sem hellir hugsunum sínum í texta. Í mér býr heimsspekingur sem spáir í öllu. Í mér býr rokkari sem öskrar til þess að fá athygli. Í mér býr unglingur sem vill það eitt að verða einhver. ] [ Á miðju diskótekinu dansar hann. Umkringdur fallegum stelpum sem myndu ekki þrá neitt heitara en hann. Brosir, hlær, hoppar um og snýst í hringi. Svo stoppar hann og augu hans mæta hennar, allt í einu hurfu allir í herberginu. Hún hleypur að honum í hamingjuvímu sinni. Og þá vakna allar unglingsstelpur úr djúpum svefni og spyrja sig allar sömu spurninguna. Hvar er ævintýrið mitt? ] [ Þú labbar hamraborgina í djammgalla gærkvöldsins. Þú hugsar með þér "mikið ofsalega er þetta pínlegt". Eldri maður mætir þér og býður góðan daginn, þú svara pent "góðan dag" og labbar aðeins hraðar. klikk, klokk heyrist í óttalega háu hælunum þínum. Strætóinn þinn er nýfarinn en þarna kemur 35, enginn tekur 35 hugsar þú. Þú ert búin að bíða í góðan hálftíma eftir 28 þegar hann loksins kemur. Þú sest örmagna aftast í strætóinn og annar hællinn dettur af fæti þér. Þá loksins hugsar þú með þér "hvað hét hún aftur?" ] [ Heima var hvar sem ég var með þér en nú bý ég hvergi Týnd Orðin úti Grunlaus um að hugmyndin um okkur yrði ekki stöndug Það sem var svo gott varð skyndilega ekki neitt ] [ Af hverju ætti ég að vilja hnoðast með ókunnugum gimbrum? Hversu fjarlægt er mér meyjarblómið, samt bara hinum megin við afgreiðsluborðið. Ó, áratugir í eyðimörkinni! Ef öll auglit mín samanlögð væru viðskiptavinir á sama tíma fengi ég massífan hópafslátt og afkomendur mínir næðu stjörnunum að tölu. En fögru ungmeyjarnar sem ég sé í stórmörkuðunum eru aðeins fagurskapaðar tálsýnir sem stimpla inn frosna kjöthleifa mína jól eftir jól, boð eftir boð, fyrir vikukaup af glimmeri. Ó, villiljós frá vötnum ykkar í minni kynsveltu eyðimörk! ] [ Ég vil það. Þú vilt það. Þau vilja það ekki. ] [ Í birtu ertu með mér í myrkri er ég hjá þér. Úr dimmunni opnast sýn og ég sé þig ástin mín. Er við sátum sumar þar sól við rauðan himin bar. Ótal daga sit ég einn aldrei sé ég einn né neinn. Nema þig við Þrastarskóg þúsund sinnum aldrei nóg. Er við sátum saman þar stjarna björt við himin bar. Leiddumst saman hönd í hönd héldum út í sumarlönd. Nú er komin nóttin dimm næðir kul um svala kinn. Er við djúpin dimmu ber dagar kveðja skyggja fer. Hugsi ég um fortíð fer finn ég þig við hlið á mér. Siglt hef ég um úfið haf öldungur með gamlan staf. Er logar léku um grein leiddumst við í skógi ein. Út við sæ og út við sund sé ég þig og okkar lund. Þetta kvöld þú kvaddir mig og ég kyssti á varir þig. Nóttin svala sveipar frið á stjörnblikið horfðum við. ] [ Eitt sem var áður hér þú ert þar ég er hér hvar sem er þú átt í mér ] [ Hugsaðu um það að vera heima. Flestir sjá fyrir sér herbergi, hús, borg, bæ, jörð eða einhvað í þá áttina. Að vera heima fyrir mér er ekki staður eða stund. Þegar ég hugsa um að vera heima, sé ég bara þig. ] [ Loforð mitt til þín, er það að ég mun aldrei yfirgefa þig á meðan samviska mín er ennþá í heilu lagi. En ef ég á satt að segja, fer sú samviska fljótt að hverfa. Þess vegna mun ég lofa þér öðru, að ég mun aldrei yfirgefa þig án þess að kveðja. En ef ég á satt að segja þér, er ég mjög léleg í að kveðja. Þess í stað mun ég bara biðja þig um fyrirgefningu áður en ég yfirgef þig. En ef ég á satt að segja þér, verð ég farin áður en ég get gert það. ] [ Í ræsum og rennum er mafíublóð ég ræð ekki við þessa niðdimmu nótt. Á kveldin þeir kyssa öll börnin sín góð að krossinum lúta því heima er rótt. Þeir skríða til skrifta með lygi á vör og skyrpa til hans er þungann einn ber. Hjá þeim ræður sorinn og fláttskapur för og ferðin til helvítis er ókeypis hér. En neðst við Ground Zero er grafarþögn enn og grípur þar hugann ein mynd er ég finn. Ég greini þar móður og gullin hans tvenn er greiparnar spennir með tárin á kinn. Þegar sólgeislar kveðja ég skuggana bað og siglið burt vonir með gleði í var. En seiðmögn og hélog þið strax finnið stað ég skil ykkur vel og bið þá um far. ] [ Þegar ég vaknaði með andfælum í morgun sat Gyrðir Elíasson með svarthvít axlabönd á rúmstokknum hjá mér, hann var ekki í raunstærð, svona um það bil 1/6 af henni, þetta veit ég því ég mætti honum einu sinni í verslunarmiðstöðinni Austurveri (ég held það hafi verið hann). Þá rifjaðist upp fyrir mér að mig hafði dreymt að ég væri í endurteknum glímum við sama Gyrði Elíasson lengst úti í geimnum upp á síðasta súrefnistankinn. Og við ferðuðumst þannig í gegnum öll ljóðin sem hann hefur samið. Gerður Kristný og Hallgrímur Helgason fylgdust undrandi með átökunum og líktust helst tveimur tunglum undan móðum gluggum geimfarsins og héldu greinilega með Gyrði. Æ, hann beitir mig tvíbreiðu (svig)rúmi! sagði ég en dómararnir litu undan. Hann vann mig í hvert sinn auðvitað, svo ég flúði undan gangandi íkornum og skrautdansi blindfugla/svartfugla, og sökk ofan í upplitað myrkur og hitti þar hina nöktu forvera mína. Svo vaknaði ég í rúminu með andfælum. Þarna sat hann nú á enda rúmsins og sagði ekki neitt, hefur eflaust séð ljóðabókina eftir sig á náttborðinu, því þegar ég spurði hann hvaðan hann fengi hugmyndir sínar umbreyttist hann í laufabrauðsskurðarjárn sem glampaði úr nálægri sveit. Þegar ég dró rúllugardínuna hálfa upp af suðurglugganum sá ég mér til undrunar sítrónuvið vaxa þar og Gyrði Elíasson milli trjánna. Hann var í óða önn að bera húsgögnin sín inn í gult hús ofar í götunni. Ég súmmaði inn eins og ég gat með stírurnar enn þá í augunum og hleypti af flassinu innra með til að veiða þetta óeldaða hráfiski upp úr saltstaukum Kyrrahafanna. Svo tók ég nokkrar sjálfsmyndir. Ég skoðaði myndirnar á skjánum. Þær voru allar af Gyrði á bak við maríugler. Hann starði beint inn í linsuna. ] [ Dýrðarljós, dýrðarljós, er eitthvað annað til en dýrðarljós? Vertu ungi maðurinn í hugtengslum mínum þegar vindgusturinn hlær að réttmæti veruleika þíns. Það er vængjað sendibréf í kápuklæðnaði listamannalaunþegans. Ég hef ekki enn upplifað óþægileg jól eða páska, drauga úr minningum og minningar úr draugum. Heilögum draugum? ] [ Abbadísin vildi á lostann veðja í von sína og trú gat hún sótt. En varð þó löngun sína að seðja. Sef ekka minn guðsmóðir í nótt. Af himni bergði hún sínar bænir en brann af óstýrlátri þrá. Heilög ritning hertekur og rænir. Hún er jú Abbdísin – og má. Djúpt í klausturgörðum eru grafir sem grjót og moldin huldu í öld. Enginn færir gleymdum börnum gjafir. Gæska hennar var fölsk og köld. Líkt eins og skuggaflökt um fallna veggi var frelsarans orusta háð. Klausturgröfin með brotna barnaleggi var bjartri störnubirtunni stráð. ] [ Margur heldur mig sig nema sjálfur sé. ] [ Margur heldur mig sig nema síður sé. ] [ Lát þú líkn mig vefja og láttu mig orð þín geyma. Og huga minn hefja hátt til þín og engu leyna. Og láttu mig muna miskunn í dagsins önnum. Sárum sorgum una sjá von í breyskum mönnum. ] [ Þitt óveður lætur mig aldrei í friði það ýlfrar og blístrar og ekkert skjól. Þér er alveg sama um alla siði okkar vorbjörtu nætur daga með sól Um eggjar á fjöllum enn ertu að verki og örmagna stráin eru felld af þér. Frosti þú beitir eilífa ógnandi merki unaðsfagra sóley hún þraukar samt hér. Ég heyri á söndum enn sogandi kraftinn úr skríðandi brimi er votkrumlum nær. Að Fróni með öskrandi freyðfullan kjaftinn farðu vetur - sumar það kom hér í gær. ] [ Skeggjaður maður fyrir framan tölvu. Hallar sér fram og hallar sér aftur. Rýnir á skjáinn, styður sig við stafi. Tautar í sífellu: Því ekki það. ] [ Ástin mína eina ég skrifa mitt pár en ei taktu það sem ógróin sár. Horfinn er tíminn og hárið mitt grátt héðan ég fór í allt aðra átt. Ég gekk mín spor og barst inn á braut frá barnæskuvori með hverfulu skraut. Vegur að heiman var harður og sár himinn og sorg með fegurð og tár. Skuggana þekki er leika um þil nú þornar blek mitt um miðnæturbil. Ljóðið mitt grætur og geymir þá ást sem gekk með þér hljóðlaust en aldrei sást. ] [ Ekkert er hlýrra en barnabros og bláu augun skær. Hverfulli tíminn heilsar og fer eins og himinninn í gær. Varstu þú að vinna eins og aðrir valdirðu fánýtt hjal. Eða var tíminn er þú varðir með öðrum betra val. Brostu til barnsins sönnu gleði breytir myrkri í ljós. Og bægðu frá stríðandi streði stund þín bíður við ós. ] [ Ég finn lykt af vorinu, fuglasöngur fyllir loftið angan af votu grasinu von í hjörtum gleðihróp í börnunum, lífð er að fæðast í moldinni allt í kringum okkur, vorið er að koma, vorið er hér. ] [ Ég hef vaxið í nóttinni, svartir logar innan frá. Sökkvandi uppsjávarskip teiknuðu andlit þitt á hæstu öldurnar og tölfræði og fordómar urðu að einu í fálmandi höndum mínum. Þú hreyfðist fyrir framan nútímann. Á sama tíma: Skriðkvikindi og náttfiðrildi fundu ljós bak við sendiför mína út í eilífðina. ] [ Mycosis þýðir bókstaflega: sjúkdómur vegna svepps. Fungoides þýðir bókstaflega: eins og sveppur. Mycosis fungoides þýðir því í raun sjúkdómur vegna svepps eins og sveppur. En málið er að þetta er ekki sveppur heldur T-frumu eitilkrabbamein í húð. Já, þar hafið þið það, jafnvel sveppur sveppanna er ekki einu sinni sveppur. Mér líður eins þegar ég kalla þig Ragnhildi. ] [ Eins og vatnsins straumur stríði stanslaust fægir bakkans rönd, treysta máttu að tíminn líði og teymi okkur hönd við hönd. En þótt að árin komi og hverfi og klárist síðast dvölin hér, lífsins böl við engan erfi ef aftur gengur þú með mér. ] [ Ekki koma inn, tilraun í gangi! Hún snýst aðallega um það hvort fólk fylgi fyrirmælum úr lausu lofti. ] [ Á miðjum veggnum yfir sófanum í stofunni hékk fallegt gat í gylltum ramma. Í gatinu miðju stóð tóm dós undan grænum baunum frá Ora. Börnunum á heimilinu fannst þetta gat einstaklega áhugavert. En foreldrar þeirra harðbönnuðu þeim að koma nálægt því þar sem gatið væri þeirra dýrmætasta listaverk. En þegar móðir barnanna var önnum kafin eldhúsinu notuðu börnin oftast tækifærið. Hvert á fætur öðru tóku þau tilhlaup á stofugólfinu og stukku upp í gatið í einu hástökki.. Síðan klifruðu þau upp í Ora baunadósina og renndu þau sér þar beinustu leið niður á botn Þar niðri tóku við iðagrænir vellir svo langt sem augað eygði og í skógivöxnum hæðunum í fjarska bjuggu vinir þeirra indíánarnir, Þeir buðu börnin ævinlega velkomin að eldstæði sínu. Indíánarnir slógu alltaf upp veglegri veislu þegar börnin komu í heimsókn. Og þegar máltíðinni lauk var hverju og einu þeirra fengið spjót í hendur svo þau gætu tekið þátt í stríðsdansinum kringum logandi bálið. Þau dönsuðu alsnakin eins og indíánarnir. Sveifluðu spjótunum og sungu með þeim undarlega seiðandi söngva um löngu horfna tíma þegar allir menn áttu sér aðsetur við elda sem veittu þeim skjól fyrir nístandi kuldanum um nætur. Eldurinn bægði einnig rándýrunum frá og við hann voru sagðar sögur af hatrömmum bardögum og frækilegum veiðiferðum og þar var villibráðin sömuleiðis matreidd og borin fram. Þegar dansinum lauk og börnin sátu með indíánum þægilega þreytt við deyjandi bálið og hvíldu spjótin á nöktum lærum sér brást það aldrei að skræk rödd úr öðrum heimi rauf skyndilega þögnina Krakkar hvað á það eiginlega að þýða að sitja þarna allsber á gólfinu? Og enn og aftur eruð þið búin að stela kústsköftunum og stönginni af teppahreinsaranum! Skammist ykkar og klæðið ykkur eins og skot og komið svo strax að borða! Svava. ] [ Að hvíldinni að lokum ég leita og legg aftur augun mín. Ég bið um það Guð minn góður að greiðlega komist til þín. ] [ Því er hugur minn lama og hendur, því hrærist ei neitt í brjósti mér? Ég er sem lifandi dauð en líka draugur sem dregst í humátt á eftir sér. ] [ Því er hugur minn lama og hendur. Því hrærist ekki neitt í brjósti mér? Ég er sem lifandi dauð en líka draugur sem dregst í humátt á eftir sjálfum sér ] [ Ástin er andi á Almættisstól og geislandi gimsteinn í guðanna sól. Hún flytur sinn kærleik frá kyni til kyns gegum alvíddarnálægð frá öðrum til hins. ] [ Það kviknaði ljós fyrir löngu síðan á perunni. Tímana langa hún logar þó myrkrið hörfi ekki fet. en nú er ég farin að fálma mig áfram í skímunni. Og að skrúfa upp dimmerinn kann ég og, veit að ég get. ] [ Það er engin djöfulsans furða þó ég skjálfi eftir allt sem á undan er gengið ] [ Kæru leikhúsgestir samtímans og ofvirkir í athugasemdum. Því miður er sýningin í þann mund að hefjast. Haldið fyrir augu barnanna á meðan á þessu stendur (þetta ætti ekki að taka of langan tíma frekar en vanalega) Sýningartjöldin opnast! ---- Ó Jakob, hvern hefði grunað? Þú vildir mig ekki þegar ég hafði aðeins óþroskaðan brumknapp að bjóða. Grænt og ljótt, ekki handfylli, í ofkældri ávaxtadeild minni! Því sagðir þú upp starfi þínu í lágvöruverslunum mínum og byrjaðir að eltast við gengilbeinur skurðhnífa? Því ertu hættur að heilsa mér í líkamsræktarstöðinni? Var það vegna þess að ég sýndi þér hýru gleðipillurnar mínar þegar ég kom loksins út úr lyfjaskápnum? Þú heilsar aðeins þykkum og þrútnum upphandleggjum og breiðum bakvöðvum. Hefurðu málband meðferðis eða er um sjónrænt gildismat að ræða? Hve langt getur þú hlaupið frá mér á næsta hlaupabretti við hlið mér? Græddir þú skyndilega á tá og fingri og skiptir um kjósendur þína eins og notaðar morfínbleiur? Hvílík kosningabrella, Júdas! Þú limlestir siðferðispostula mína eins og smádýr í barnshöndum. Hefurðu gleymt kosningaloforði þínu í Genf? Ég leyfði þér að blómstra! Nú klæðist þú lopapels og ælir snobbi úr fágætum gallsteinum. Þú tekur, tekur og tekur en gefur ekkert nema auglýsingar og afsláttarmiða að siðleysisbúðinni. Áður kom það þér á óvart að fólk skyldi verja illa fenginn auð. Hugsaðu þér að fyrir 10 árum þegar þú kallaðir mig meistara hafi mig næstum langað til að telja upp mistök mín fyrir þér bara svo þú sæir glitta í mannleika minn! Æ! Hversu oft hafa ungir karlmenn básúnað sjálfstæði sitt og líkamlegt atgervi, í keppninni um að vera bestur og þiggja hjálp frá engum, engum háðir, uns konungsríkið hrynur í ellinni? Stóðst ég ekki þær freistingar, skaðabótakröfur og væntingar sem litlu lögfræðinemarnir settu upp sem þú elur á mjólkurlausum geirvörtum? Jakob, í nöktum höndum þínum eru annars stigs kyneinkenni gereyðingarvopn mannkynsins. Ó, þessi úrkynjaða helferð sem byrjaði svo vel. En nú er Übermensch dáinn. Lengi lifi frjáls verslun! Nei bíddu, Mammon hrundi líka, og ég sem hafði lánað honum æruna. Hvaða guð ætlarðu að drepa næst, Jakob? Þú segir að fylgdarsveinar þínir í farþegasætum séu ekkert endilega sammála ástæðum þínum fyrir að þrýsta á bílflautuna, en ég spyr á móti, þáðu þeir ekki far á sama áfangastað? Mótmæltu þeir og yfirgáfu farartækið? Nei. Bíddu, leitar þú á vafasamar náðir þreskjaðra glansmynda um helgar til þess eins að fjalla um yfir allt á hlaupabrettum og illa hönnuðum skíðatækjum? Voru kossar þínir, kelerí og kynlíf af sviknum skilavörum? --- Úr hálfleiknum hádegishléum streyma sýningargestir raunveruleikans eftir osmósuafli tísku og græðgi og fylla slímugar biðraðirnar á eftir skeifugarnarfylli af söltuðum poppklisjum, ráðlögðum nasaþef af kókaíni og ofsykruðu innihaldi plastumbúða sem minnka og hækka í verði við hverja útlitsbreytingu og stækkun á umbúðunum, rétt eins og það sem Jakob eltist við. Bíddu átti ekki að vera hlé? --- Ó, Jakobína, steinlausa nektarína! Þú sem beinir nætursjónauka þínum að þyrpingum ofvaxinna klámstjarna! Allsberar, hrútspungar, dónaljón, yngismeyjar og sogamenn á vogum með rekkjunautum og veinandi geitum. Sérðu ekki smitaða nál sporðdrekans og klær krabbans lyftast yfir þeim? Var belti buxna minna aðeins illa upplýst loftsteinabelti fyrir rannsóknarleiðangri þínum út í óra-víddir alheimsins? Kommentakerfin loga nú undir gnægtaborði líkama þíns. Hvílíkar gersemar og gráfíkjur! Þú þóttir ekkert sérlega gáfulegur þegar þú afneitaðir mér þrisvar og misstir svo nýjasta snjallsímann í klósettskálar slúðurblaðamennskunnar. Ah, Jakob, kommentakerfin: Sá magnaði tilfinningadómstóll götunnar, þar sem jákvæðni og neikvæðni mætast í eilífum rifrildum óánægju og hégóma. Æ, eru kroppur þinn og æra nú orðin að kræsingum og bitbeinum á hinum undankomulausa ritvelli þunglyndisgamma? Ó, þær vélrænu lausavísur leiðra lævirkja yfir rænulausum leiðum lævísra vélvirkja! Tekur þú þessu rausi trölla með alvöru? Urðu þau að steinum í Golgötu þinni og slöngvuðust í gínandi auga Golíats? Hví yfirgafst þú mig á glimmerkrossinum fyrir umbót samtímans á sköpunarverkinu? Hún verður orðin mygluð á morgun eins og fyrsta kynlífsreynsla okkar. Þú sem sagðir mig of gamlan til að hefja grunnnám í háskóla. En sjáðu nú hver er útskrifaður með 360 gráðu heitan björgunarhring. Þessir titrandi bingóvöðvar hafa séð batmanmerki sitt rísa upp eins og fönix af jarmandi feigð sitjandi bingóstjóra. Hvernig sem nú stendur á stend ég nú í fullum blóma með hangandi aldin á tilboði. Hangandi stóraldin! Ný sending oft á dag. Nei, þessi óflysjaði villigöltur gekkst sko ekki undir hnífinn. Þessar tréspírandi kartöflur hafa enn hýðið á sér! Ég laumaði sko engum sykurpúðum í þessar vöðvastæltu próteinstangir. Sjáðu bara næringarinnihaldið iða á miða á hliðinni á riðandi kviðnum: Fljúgið þið litlu kviðmágar, fljúgið! En þú Jakob, kemur og ferð í og úr rísandi útrýmingarsölubúðum mínum með grátandi augu og lokaðar hendur. --- Tjöldin falla á gólf sviðsins. Skömmustu síðar grafast mannorð okkar Jakobs undir spámannlega froðu og hreinsunareldinn upp úr freyðandi flóðgáttum spjallborðanna og stjaksetningu okkar á staksteinum eins og hvalreki á smörtu blandi meðan slúðurberarnir fóðra kjafta skrímslanna á bak við galopnar bréfalúgur kaffiboðanna. En okkur er sama. Við erum leikarar. Enginn þekkir grímulausa nekt okkar handan við búningsklefann. ] [ Hver er myrkur riddarinn? svo skerandi reiður ég sé hann sem bleyðu sem sér einn illa um sitt hreiður hann sem krass fyrir andlit og ég saman við leiðumst. Fornir erum og hornin farinn inngróin, falin nú í götubotni orðinn smábæjar Stalín, án valda, og þó ég rotni bið ég hverfulan drottinn um lausn úr ofni og fullnægjandi lognið. Ég er líf syndar líkt og með skerandi hníf helvíti er að kynda. Mig langar ekki eins og áður ég er fangi þjáður berst ekki lengur ennþá ávalt drengur strákur lætin éta mig hin lætin vekja mig. Ég sakna maníunnar minnar ] [ Ég vildi þig einu sinni en svo vildi ég þig ekki svo vildi ég þig aftur en þú vildir ekki koma þó ég hafi ekki hitt þig finnst mér eins og ég þig þekki ef þú kemur vil ég aldrei sjá þig fara ég vildi þig ekki en nú vil ég þig bara! ] [ Elsku besta mamma mín, ég elska þig svo heitt. Bros þitt eins og sólin skín, og getur' dimmu í dagsljós breytt. Þú þurrkað hefur tárin mín, og miklu meir' en það. Ég skal alltaf vera þín, alveg sama hvað. Mér finnst sem klett ég alltaf hafi, sama hvert ég fer, á því leikur enginn vafi ég virðingu fyrir þér ber. Þú kraftaverkakona ert, það allir hljóta að sjá, þú hefur í mér hjarta snert, svo miklu meir' en smá. Ó mamma þú sem ert mér allt, ég dýrka og dái þig, það geld þér seinna þúsundfalt, sem þú gerir fyrir mig. ] [ Á Skaganum líf hennar byrjaði, það var ekkert smá sem ung stúlka í faðmi, móður sinnar lá. Svo stækkaði hún og stækkaði, sem aldrei fyrr svo varð hún að ungri og gullfallegri konu. Þessi kona, sem ég er svo stoltur af hún sem fæddi mig í þennan heim, einn heitan sumardag. Já hún er sko móðir mín, það veit ég vel ég móður mína elska, meira en Guð og menn. Og afmælisdagurinn hennar, loksins gengin er í garð hún og faðir minn góði, einnig eiga,brúðkaupsafmæli í dag. Ég elska þig móðir mín kær, ég skila til þín kveðju eigðu góðann afmælisdag. ] [ Ef væri ég fugl, þá mynd ég, fljúa eins frjáls og ég gæti. En það er ei mál því fögru fuglarnir eru frjálsari en margur maður. Fuglarnir fögru þeir svífa um fljúgja um himinninn bjarta. Þeir frjálsir eru, já það eru þeir er þeir fljúga um loftin blá. Einn fegursti fugl sem ég hef séð er Spóinn, fagri, góði. Spóinn sá fagri, hann kemur á vorin, um sumarið bjarta hann dvelur. Lóan er annar fagur fugl, fugl sem syngur svo vel. Lóan fagra, hún kemur með vorið, Vorið, fagra bjarta. Sólskrýkja og snjótittlingur, eru sami fuglinn. Þessi fugl, svo fagur er einn fegursti fugl, sem ég hef séð. Álftin hún er fagur fugl, fjaðrir hvítar hefur. Álftin hefur hvítan háls, hvítan langan háls. Lundinn er einnig, fagur fugl feguri en sumir fuglar. Lundin lifir í Vestmannaeyjum líka á öðrum stöðum. Ef væri ég fugl, þá mynd ég, fljúa eins frjáls og ég gæti En það er ei mál því fögru fuglarnir eru frjálsari en margur maður. ] [ Ungur að árum, um Hvalfjörðin hljóp og virknin, hún olli víst vafa. En Guð okkar samt, úr honum skóp heimsins besta afa. Snemma í lífiniu sjómensku valdi, sem sitt- ævistarf það hefur barnabörnunum fært, mikinn- fróðleiksarf. Hann hefur silgt um ókunn höf, í leit af miklum- fiski sem oftar en ekki sem betur fer, endar á okkar- diski. Hann afi Sæmi er sextugur, og líkar held ég vel á honum er engin bilbugur, að því er ég tel. Svo er gamli að fara í frí, við vildum fara með en með ömmu hann fer til Kanarí, það gat nú- skeð. ] [ Veturinn, hann kominn er, margir krakkar- gleðjast Krakkarnir, nú leika sér í fagurhvítum snjó. Þeir hafa það svo gaman, það margur veit Þegar krakkarnir, fara á kreik. Krakarnir, þeir búa til, hús og karl úr snjó Krökunum finst svo gaman, að leika sér í snjó. Krakarnir þeir fara í, snjóstríðið, svo gamann Þeir skipta í lið og kasta svo og kasta. ] [ Klukkan er orðin sjö, sólin lýsir upp allt. Við sitjum saman tvö, í nótt var frekar kalt. Þú sagðir ég vil vera hér bara þú og ég, hér hjá þér, við ein hér. Nóttin var köld það var dimmur desember. Ástin tók öll völd engin eftirsjá, sem á ber. Að rífast og slást við gerðum það ekki. Er þetta hatur eða ást? Eða einhvað sem ég ekki þekki. Núna ertu gersemi og gull, allt sem í heiminum ég ann. Sérstaklega þegar ég er full, sálufélaga minn ég fann. ] [ Hápunktinum náði´ann þegar hann sá sakleysið slokkna í augum þeirra. ] [ Ég fór út í garð í dag til að flytja bóndarós og klippa nokkra runna. Negldi líka nokkra nagla í fúið grindverkið. Þaðan hefur hún komið helvítið á henni. Þegar ég kom inn ákveð ég að þvo mér hárið og fara í bað. En fyrst þurfti ég að greiða hárflókann. Það var einhver hnútur í hárinu sem ég náði loksins úr með því að rykkja í greiðuna. Í hárbrúskinum sem kom í greiðuna var einhver hárkúla frekar lítil með nokkrum fínum hárum út úr. Ég setti kúluna á gólfið til að skoða hana betur. Ýtti nokkrum sinnum við henni með greiðunni og svei mér þá ef hún kipptist ekki við. Könguló?? Hugsaði ég dýrbrjáluð af hræðslu en nei það gat ekki verið þetta var svo tíkarlegt kvikindi. Skyndilega tók kvikindið snöggt viðbragð og geystist á ógnarhraða í áttina að mér . Ég hoppaði hæð mína í loft upp með ógurlegi öskri og hristi mig alla og skók. Síðan hef ég ekki séð þetta kvikindi. En eitt er víst Aldrei framar skal ég stíga fæti mínum út í þennan garðfjanda. Ég átti erindi fram í eldhús nokkru síðar og kom ég þá ekki að köngulónni sem fyrr frá segir sitjandi í mestu makindum á miðju eldhúsgólfinu. Ég greip blauta borðtusku og banaði óargadýrinu í einu höggi. Ég er ekki frá því að sjálfstraust mitt hafi vaxið nokkuð, við, í fyrsta lagi að vera enn á lífi eftir að uppgötva að ég var búin að bera könguló í hárinu í óratíma og í ofanálag að geta svo eftir allt saman, ein og óstudd, drepið kvikindið með eigin hendi. ] [ Það er kalt vor svalt í veðri ferhyrningur ] [ Þá kom GUÐ niður úr skýjunum. Og HANN svaraði og sagði: Hvaða seremónía er þetta? Ég er bara venjulegur maður, og já sorrí þetta með að búa til djöful og allt illt, bara mannleg mistök. Hafið þið hagað ykkur betur? ] [ Elsku hjartans gullið mitt skýra, ljúfa hnáta. Ef allir hefðu hugfar þitt, þeir mættu af því státa. Elsku hjartans gullið mitt, hvað ertu nú að gera? Sérðu' ekki' að glaðlyndi þitt þú ert að niðurskera. Elsku hjartans gullið mitt, þú ert á myrkum stað og skýrleiki og hugfar þitt kunna bara' ekki á það Elsku hjartans gullið mitt, þetta er ekki þín sök. Þótt þú föst sért oní pytt þá eru' ekki ragnarök Elsku hjartans gullið mitt, þú ert að gefast upp. Þú segist við lífið vera kvitt og kastar matnum upp En elsku hjartans gullið mitt, þín bíða betri dagar Með sólina við hjarta þitt og ekkert sem þig klagar Svo elsku hjartans gullið mitt, þraukaðu einn dag. Borðaðu svo nestið þitt og komdu þér í lag ] [ Hið minnsta verður hið mesta þegar brýn þörf er fyrir hinu minnsta Hið mesta verður hið minnsta þegar engin þörf er fyrir hinu mesta ] [ Tvö örsmá fræ skutu rótum i mjúku myrkrinu Guðs milda náð gaf sitt fyrirheit. Er vorsól skín lítil blóm munu á brosa á móti birtunni. Svo björt og hrein eins og ástin sem sáði þeim. ] [ Ekki hafa of miklar áhyggjur. Þeir koma alltaf skríðandi aftur, þegar þú sýnir þeim að þú getir lifað án þeirra. Þá getur þú sært þá til baka. -KT ] [ Allt þetta hamingjusama fólk og svo ég þ.e.a.s. þar til betur er að gáð; því svo kemur í ljós að þeir sem ég öfundaði mest eru fastir í ömurlegum vinnum, nýgreindir með sjúkdóma, að huga að skilnaði, búnir að missa ástvin eða eitthvað annað sem enginn talar um og enginn tekur myndir af og setur á Facebook ] [ Hvort sem þú horfir á sólarlagið eða ekki, hættir það ekki að vera fallegt. ] [ Eftir að smalinn með hundafælnina útskrifaðist sem sálgreinir dreymdi hann stundum á langri starfsævi að á bekknum sæti maður með hundshöfuð og röflaði um fjármál og bælda brunahana en tuðaði inn á milli um köku hans og jólin og ráfaði um eins og hirðfífl svo hann varð að skipa honum að setjast aftur niður. En það eina sem sálgreinirinn teiknaði í skrifblokkina í þessum drottningarviðtölum var beinlínis lína úr beinum og kom honum á óvart hvernig sú lína gæti verið bein. Eflaust vegna kynferðislegrar bælingar um gand álfadrottningar og klámuga gleðistrengi sem einhver var að snerta. Ekki merkileg fullnæging það. En hvar var drottningin núna? Svona lét hann hugann líða. Eftir þetta fékk hann svipaða tilfinningu og ólétt lauslæti fær þegar vænsti verðlaunaklárinn ríður hjá með gullpeninga að smala fé á mánaðarlaun sín og hann fattaði að hann hafði hundsað manngreyið á bekknum, sem varð smám saman allur að hundi. Eftir viðtalið borgaði fjárhundurinn einungis í hermannlega bornum hringjum og látúnshálsgjörðum, en gelti síðan undarlega digurlegum róm á leiðinni út eins og rámur skotveiðihundur svo hann vaknaði yfirleitt með gæsahúð og illa fengið holdris. ] [ Í dag sat ég úti og sleikti sólina en unglingurnn tanaði, við nutum blíðviðrisins saman en þó í sitt hvoru lagi þar sem kynslóðabilið er frekar stórt þessa dagana amk í augum unglingsins hann að hlusta á tónlist unga fólksins á meðan móðirin nýtur þess að hlusta á fuglana og gleðihrópin í börnunum. Unglingurinn snýr sér að systur sinni og segir " Er ég með tanfar" ? ] [ Ég fékk vindinn beint í fangið svo fullan ástríðu og ofsa hann vafði mig örmum og lagði vanga að vanga mér og kyssti mig kaldur á munninn. ] [ Hvers vegna Hvers vegna vill ég spennu frekar en öryggi? Hvers vegna vill ég þig fullan frekar en edrú? Hvers vegna vill ég sígarettu frekar en ástarljóð? Hvers vegna vill ég næturstund frekar en stefnumót? Hvers vegna vill ég þig frekar en einhvern annann? Líklega er það vegna Líklega er það vegna allra sambanda sem ég hef séð fara úrskeiðis. Líklega er það vegna þess að fullur maður kann ekki að ljúga. Líklega er það vegna þessa einföldu útskýringu að ég sé háð. Líklega er það vegna þess að ég er skíthrædd við að vakna við hliðina á þér. Líklega er það vegna þess að ég myndi ekki vilja vakna við hliðina á neinum öðrum. ] [ Ég kom til að kveðja þín besta kveðja elsa. ] [ Ég get ekki samið hausinn minn er alveg tómur hvað á eg að gera ég vil ekki vera svona mig langar að skrifa eitthvað fallegt og gott um þig og fólkið í kringum mig veðrið, náttúrna og bara lífið eins og það er, hvað get ég gert til að finna þessi orð. ] [ Einu sinni var ég alveg búin að gefast upp á lífinu. Fyrst hætti ég að nenna að vaska upp svo að taka til svona almennt og að lokum fór ég helst ekki í bað. Vatnið var svo kalt og blautt. Nei þá var betra að kúra í rúminu langt fram á dag löðursveitt af kvíða. Svo kom að því að ég ákvað að láta að verða af þessu, hella í mig áfengi og pillunum með. Það hlyti að hrífa og ég yrði örugglega fljótlega steindauð. Ég myndi svo finnast i rúminu mínu liðið lík, örugglega fallegt lík,til þess ætlaði ég að sjá með því að mála mig og greiða og fara í sæt náttföt. Já og búa um rúmið sem var allt í óreiðu, það varð líka að líta vel út Ekki vildi ég láta þá sem finndu mig halda að ég væri einhver drusla sem hugsaði illa um heimilið og sjálfa sig. Ég byrjaði á að búa um rúmið, meira að segja þurrkaði af í svefnherberginu og ryksugaði. Þá var bölvuð stofan eftir öll út í djöfusins drasli svo ég tók tiltektarkast í henni. En eldhúsið hvað með það? Það sem var undirrótin að ákvörðun minni um sjálfsvíg? Ég beinlínis tók út ef ég þurfti að vaska upp svo mikið sem einn kaffibolla og smátt og smátt var vaskurinn alltaf orðinn ein hrúga af skítugu leirtaui og eldhúsbekkirnir líka Ég lét vaða í eldhúsið og áður en ég vissi af var ég farin að raula lagstúf með sjálfri mér og enn batnaði skapið þegar ég leit yfir íbúðina mína svona tandurhreina og glansandi. 'Fjandinn fjarri mér,' hugsaði ég upphátt. Ég held ég fari nú ekki að drepa mig þegar allt er svona flott og fínt.' ] [ Hún er meðhjálpari í sinni sveit pússar og málar svo á það skín Ég spyr þó eins og sá sem ekki veit er mamma mín þá orðin Hilli Sím ] [ Þú segist vilja mig en hleypur eins hratt og þú getur. Hann segist vilja djamma en situr einn heima yfir mynd. Hún segist vilja vera einhleyp en vonar að hann komi aftur. Þetta er ekki flókið fólk segir það sem þau halda að allir vilji heyra. ] [ Viltu mig, viltu okkur eða bara einhvern? ] [ Hættu að gráta Það þýðir ekki neitt Þetta er svo búið Þú getur engu breytt Ástin er farin Og kemur ekki aftur Farðu að vinna í þér Þar er innri kraftur Horfðu inná við Og elskaðu það sem þú sérð Þú getur allt sem þú vilt Því þú ert úr stáli gerð Losaðu þig við fólkið sem dregur þig niður Það er ekki þess virði Því miður... ] [ Langar stundum að hverfa Burt úr þessum heimi Vera í annari vídd Eitthver staðar útí geimi Eitthver staðar þar sem lífið er breytt Breytt frá því sem lífið er núna Langar stundum að vera betri en ég er Veit ekki hvernig ég geri það En það byrjar inní mér Inní mér byrjar stórkostleg breyting Stórkostleg breyting byrjar á mér ] [ Við ætlunin fljúga Fljúga uppí himinn Þaðan lengra Kannski útí geiminn Þar sem litlar grænar verur Dansa litla dansa Við ætlum að skoða Skoða allan heiminn Kannski meira Einmitt útí geiminn Þar sem litlar grænar verur Dansa litla dansa ] [ Mér líður svo illa Mig langar að deyja Og enginn vill hlusta Á það sem ég hef að segja Það vill enginn heyra Það sem ég hef að segja Því þá mun það fólk inní sér deyja Ógeðslegir hlutir Sem enginn vill segja Auðveldara er Að liggja og deyja ] [ Þú reynir að stjórna mér Veistu ekki hver ég er Láttu mig vera Hefuru ekkert betra að gera Þú brýtur mig Slítur mig Ég á svo miklu betra skilið Hvernig á ég að lifa Klukkan heldur áfram að tifa Langar ekki að fá þig heim Hugur minn flýgur lengst útí geim Þú brýtur mig Slítur mig Ég á svo miklu betra skilið Ég hata að elska þig En þú elskar að hata mig Þetta er orðið að eitthverjum leik Ég er orðin þokkalega smeik Því þú brýtur mig Slítur mig Ég á svo miklu betra skilið ? ] [ Ég hef upplifað margt Margt sem var ansi kalt Margt sem þú myndir ekki vilja heyra Á meðan aðrir öskra meira, meira! Hef verið á virkilega ljótum stað Varla meika að hugsa um það Þar sem dópið flæðir manna á milli Magann, nefið og hausinn fyllir Veruleikafyrrt og þunglynd Vinalaus og mislynd ] [ Það er erfitt Að sjá ljósið Þegar þú liggur yfir mér Það er erfitt Að byggja nýtt líf Þegar ég fæ ekki frið frá þér Láttu mig vera Komdu þér burt Hér er ekkert sem ég skulda þér ] [ Einu sinni voru dömunáttföt. Voða falleg og fín voru þau og úr ekta silki. Þau lágu þarna á búðarborðinu innan um alls kyns annað kvenlegt fínerí og voru heldur betur sæl með sig og þessa ljómandi góðu tilveru. Það var heill skari fagurbúinna kvenna búin að skoða náttfötin, þreifa á þeim og strjúka efnið og velta kaupum á þeim fyrir sér. Allar voru þær hrifnar af þeim þar til ein kvennanna hóf upp raust sína og sagði stundarhátt. 'Fuss þetta er nú bara fjöldaframleitt og í þokkabók úr gerfisilki, Húff!Púff! Nei hrópuðu náttfötin. Ég er úr því allra mest ekta og fínasta silki sem til er. Og blómin á boðungunum og framan á ermunum eru handsaumuð af svo mikilli alúð og natni að annað eins verk hefur aldrei verið unnið svo vel. Og þetta voru svo mjúkar og yndislegar ungmeyjarhendur sem sáu um að skapa mig með ást sinni og umhyggju. Konurnar hófu nú að leita að einhverju merki sem segði til um hver uppruni náttfatanna væri. Hver á eftir annari leituðu konurnar með höndunum yfir náttfötin að sönnun þess að þau væru nú eins ekta og þau virtust líta út fyrir að vera. Eftir langa leit rákust þær loks á lítinn ásaumaðan flipa. Ein konan las upphátt fyrir æstan kvennaskarann. Einstök gerð af náttfötum úr ekta Kínasilki framleidd af hátískuhúsinu Venus í París. Fleiri náttföt eru til í náttfata línunni í margskonar stærðum og gerðum. Hver þeirra eru saumuð með einstakri alúð og undursamlegri lagni og hafa þau hver um sig sitt eigið sérstaka útlit og stíl. það lá við að náttfötin roðnuðu. ] [ Þú gafst mér færið til að fiska þig en fingurinn í stað þess að bíta á krókinn. ] [ Dökkar trjágreinar dingluðu sér við dúndrandi tóna stormsins Það þaut í laufi og limum lægðin sveiflaði sér í svigum og svipti trén klæðum eftir stóðu þau ber öllum laufum rúin eitthvað svo eymdarleg og einkennilega lúin. ] [ Nú hef ég brugðist sjálfri mér og ÞÉR ég varð að því sem ég fyrirlít HATA get ekki afborið þessa kvöl hugsa til þess að ég hafi gróðursett ótta og sorg djúpt í saklausa og hreina sálu þína mér líður eins og ég sé eitur hamingjudrepandi eitur sem mengar étur upp og drepur allt sem það snertir mengar heimili mitt fólkið mitt sjálfa mig ÞIG ég á þig ekki skilið þú sem ert svo yndisleg svo saklaus og góð ég stend ekki undir sjálfri mér lengur get ekki meir samviskan herjar á mig lífið er of mikið ég er of lítið þú ert ljósið í lífi mínu það eina sem ég þráði var að vera þér góð bregðast þér ekki ég brást ] [ Þeir sega okkur að menntun sé máttur þessvegna er það okkar háttur. Að mennta börnin upp í því svo líf þeirra fari ekki fyrir bí Að öll eigum við að vera vinir og nákvæmlega eins og allir hinir. ] [ Þar sem firðir og jöklar mætast og birta og myrkur heilsast Þar er norðurljós á himingeimi yfir stærstu eyju í heimi ] [ Stundum gef ég allt í botn til að þess eins að komast fyrr á næstu rauðu ljós. ] [ Ég borða saltkex með ostasósu. Mér finnst það gott. Gott, gott, gooooooott! En þú, þú ljóti fjandmaður! Þú borðar bara sveitt bjúgu með rauðkáli. En nóg um það. Verum vinir! Nei djók. Ég hata þig. ] [ Kvæði ort í Lögbergi eða um Lögberg. Stundum þegar laganemar hafa kveðist á á facebook. Stundum án nokkurrar ástæðu. Stofan mín hlýja, strengdu þess heit, að styrkja minn metnað og elju. Ég skal þá á altari gefa þér geit, gamlingja, lambá og belju. --- Lögbergsandinn lokkar börn í löngum fræðahrófum. En #$%& er sólin ósanngjörn að sýna sig í prófum! --- Beiskur dreypi'á köldu kaffi, kvöldið verður ekki létt. Má ég fresta facebookstraffi og flýja þannig kröfurétt? --- Kaffið staðið, kalt og rammt; kvalasvaðið slíka. Volað skarið virkar skammt vitið farið líka En þá ofan eygir von, æ vil dofann drýgja. Lokkar'í kofann, Lúðvíksson, Lögbergsstofan hlýja --- Er nú Bergið aftur krökkt um prófatímabilið og allir hugsa: „Er ég fökked eða á ég Gullið skilið?“ --- Þótt ól sé hert og ausan tóm og útlit svert að vanda, haltu þvert í héraðsdóm, þar handsal hvert skal standa. --- Ef samningsfrelsið segir eitt en sýnist annað stjórnarskrá, er útilokað að breytu breytt að bæði verði ofan á. --- Þræði í gegnum þjóðarrétt er þreytan tekur völdin, snöggt mér sjálfum lofa létt að lúlla fyrr á kvöldin. --- Af einkunnunum ærinn held að enginn verði sómi, en auminginn ég áður geld eigin sleggjudómi. --- Eina vildi ég stöku, á kvöldi þessu kveða, kann þakkir Svövu og Vöku fyrir þeirra part. Ei má slá við slöku, nú er tími til að streða, og tilkynna valdatöku fyrir Dagbjart. --- Sést fyrir lokin þótt lesstofurykið hylji mig hokinn með próftökuspikið viljinn er fokinn og mannvitið svikið en burt er ég rokinn í ölæðið mikið og ölið skal fylla sárþyrst munnvikið ] [ Api, folald, eðla, kýr, otur, mús í haga. Það saman eiga þessi dýr að þegja öll í maga. ] [ Finnum hvort annað eins fljótt og hægt er Í lífi því næsta sem er. Saman þá tvö, byggjum upp líf, laus við allt sem er vont. Söngur og dans, verður það þá, uppá hvern einasta dag. Ástin er okkar, allt sem er gott, eldumst og deyjum sem eitt. ] [ Ungur drengursitur á kaffihúsi Hann horfir úm um glæran glugga. Lífið horfir glaðlegt til baka, En það stamar og bíður. Ég held samt áfram að horfa. Þrátt fyrir að sjá ekkert, Nema dauðar,langar götur, og dimma ljósastaura. Götur sem aldrei hafa gengið, ljósastaura sem aldrei hafa logað, og folk sem aldrei hafa nokkurntíman, lifað lífinu til fulls. Gráta eins og ljósastaurar og huxa eins og götur. Ég horfi út um glæran glugga og lífið blikkar mig til baka. ] [ Fisléttur en gloppóttur í senn, feiknastór og víðáttunnar engi. Brimið hremmir flek og menn, búinn að gera það oft og lengi. Eyðimerkur fullar af vætu, í hana sækjast vaskir menn. Vildu bara að þeir heima sætu, fjölskyldur sem græta senn. Oft hef ég hugsað hvaðan hafið kemur, kannske rennur það landinu út. Eða úr fjölkyldu-augum þegar á lemur, þrír litlir magar sem hrökklast í kút. ] [ Ó ruslaralega Reykjavíkurborg hve rumpulýðurinn atar út þín torg. Í hverjum garði drasl og drulla er. Dárar en ekki menn víst búa hér. ] [ Fiðrildi settist á höndina fagurt blaktandi vængjum flaug á vit ævintýra og ég með Fögur voru blómin í fiðrildaheim flugum saman kærulaus ] [ Ég man það svo vel þegar þú skaust mig fyrst með Kalashnikov og ég gat ekkert nema fallið fyrir þér Ég ligg hér enn Jafn sundurtættur og áður í blóðpolli ástarinar og horfi á þig liggjandi skotin við hlið mér og ég brosi Þú hittir mig Ég hitti þig ] [ Þegar farið er út í hinn stóra heim þarf öryggi og festu að sýna Maður brosir breytt við öllum þeim sem maður hittir hérna í Kína ] [ Hann er kaldur Hann ýtir þér í burtu Hann er alltaf með annan fótinn úti. Einn daginn munt þú gefast upp, gefast upp á að reyna láta hann elska þig. Eftir það verður hann alltaf sá sem þú gast ekki fengið til að elska þig. Því miður mun það hafa áhrif á hinar fallegu, góðu ástirnar eftir hann. Þær ástir sem eru góðar, ljúfar og heiðarlegar verða aldrei jafn góðar. Ungar ástir eru nefnilega álitnar sem leikur. Þú gast ekki fengið hann til þess að elska þig. Þú tapaðir. ] [ Saklaust barn horfir tárvotum augum á morð, nauðganir, byssur sem skjóta, sprengjur sem springa, þau flýja, þau búa á götunni og betla, blóðrauð tár lita götur sakleysisins sem hefur verið skaðað að eilífu. ] [ Ef að kona stuttu pilsi klæðist þá karlinn að henni læðist, heldur að það megi í læri hennar grípa og klípa, hún upp á það býður, konan! Ekki klæðast svona ef þú vilt ekki að karlinn fari að vona að upp á þig hann megi koma, því í svona drusluklæði upp á þig ertu að bjóða, góða! ] [ Sár er ég Klár samt er Sorgin gleymd allsber Þyngdin sækist í desember Því myrkrið tekur mig opinber Ung lærði ég sjálf Litla fékk ég athygli En full er af íhygli Vandámál leysast líkt við snigill Því bróðir minn var fíkill Aldrei var ég örugg Því brjóta myndi hann handlegg Er hann skell á glervegg Læsa mig inní herbergi Inná mínu heimili Kveikt hefur reynt í húsi Fullur er bensín brúsinn Er geðveikin blossar Eru engir kossar Erfitt er að treysta Sem komið er á lista Maður með aðsóknarmesta Þuklar á mér berbrjósta Þegar fer að hausta Hausinn þurfti að frysta Því eigi vildi ég vista Þung er mín sál Því kveikt hefur bál Sem slökkva ei má Orðin er ég agnarsmá En alltaf horfin framhjá Hjálpa vil ég Til að gleyma hver ég er Hvað býður mín heima Það sem liggur mér í hjarta Fer að vakta Sem vekur upp mig allsnakta Pirringur læðist Sem afklæðist Hugsa ég ,,nei nei nei'' Aldrei aftur Ég mun ekki fyrirgefa Því aldrei mun hún yfirgefa Tilfininngin sem gaf mér sár Sem alltaf mun mér fylgja ] [ Stjörnur og allur stjörnuhiminn þar er græna eyjan mín fjöll jöklar og eyðisandar lítil mýri lækur hver Hálendi sem hvergi endar norður suður nýfallinn snjór nóttin eignast nýja vini austur vestur ólgandi sjór ] [ Fagur kvöldroðinn rís skuggar falla á fjöllin ó, kvöldroða dís sem fegrar vetrar kvöldin Fjarska fögur er sjónin vetrar kvöldin fögru teigist tunglsins ljómi svo heillandi í augum Svo tindrandi og frábær stjörnu ljósin björtu blikandi og bláskær og heilla manna hjörtu Kaldur vindsins gustur er hvíslar í mín eyru ljóðabálka fagra en seigir ekki fleirum ] [ Ég sat fyrir sunnan eitt sumar við borð og til mín týndust tregafull orð. Mig dreymdi um daga og drungaleg fjöll. Er þögnin mín þráði en þekkti þau öll. Um aldir og árin í þeim bjuggu tröll. Er kölluðu komdu komdu í okkar höll. Gakk mela og mýrar og um moldarbörð. Farðu höf og heiðar og hamraskörð. Ég sár gekk á grjóti að gleymdum stað. Þar ástarljóð læddist lifandi á blað. ] [ Það er skotið á skipið úr öllum áttum Hleyp til að laga götin og ausa vatni en skotunum fjölgar þreytan heltekur mig og það sést hvergi í land En ég berst áfram því ég er viss um að það mun sjást í land áður en skipið endanlega sekkur ] [ Þú sem gafst mér grátinn gleði og sorg. Ég geng þínar gömlu götur og torg. Og himinn og hafið og hvíta mjöll. Brimstríðar strendur stjörnuljós öll. Liti rauða logans og ljósa nótt. Og drauma og daga sem deyja hljótt. Þú sem gafst mér grátinn gakktu til mín. í saknaðar sorgum og segðu til þín. ] [ Ég grét ekki svona mikið áður en ég kynntist þér. Nú hef ég einhvern til að gráta með. ] [ Ég ligg hérna ein langar að sofna tilfinningar mínar vilja ei dofna Sólin er sest og myrkrið mig tekur reyni að þrauka en hjartað mitt lekur Bið Guð um að hjálpa öskra svo hátt ég skil ekki lengur minn æðri mátt Fólk á mig horfir og skilur ei neitt ég er alveg lokuð mér þykir það leitt Mér líður of illa því nú er ég ein get ekki lagað mitt andlega mein Nú mun að því koma að ég get ekki meir hjarta mitt kólnar og visnar og deyr ] [ Það vantar fólk til þess að vera framan á blöðum Það vantar fólk til þess að búa til og selja blöð Það vantar fólk til þess að tala um fólk framan á blöðum Þekkir þú einhvern? ] [ Á svörtu loftum heyrist óp frá hárprúða Oddssyni. Hann sem áður velmegun skóp á nú fá vini. Landinn er í kreppuvæl þunglyndinu að þjóna. Leysum nú hnútinn með stolti og stæl þjóðinni til sóma. ] [ Hversu lengi á ma?ur a? bí?a, Lífi? sett á stopp, tíminn svo lengi a? lí?a. Draumurinn færist nær, Birtist mér svo tær, Er þetta tálsýn, er lífi? mér a? strí?a, Þarf ég mín gleraugu a? þrífa. Hva? sem klukkan slær, Enginn svör færast nær. Er klukkan a? tifa, Kom á tímann rifa, Er þetta a? lifa, Afhverju er ég a? skrifa á þennan mi?a, Breytti þa? eitthverju þó ég ekki bi?i, Held ég haldi bara áfram og skrifi. ] [ Með fastan stað í hjarta Þú vinur sem ég skyldi Þá slöknar stjarnan Bjarta Sem lífinu gaf gildi ] [ Kæra litla Særún mín á pabba svarið brennur Er litla sæta dúkkan þín núna að taka tennur ] [ Bjallan boðar nýjan dag, búinn í mér kraftur, svaf ég seint á sunnudag, seinn í strætó aftur. ] [ Í muggunni ég geng um og hugsa hversvegna er maðurinn svona gráðugur og grimmur því á jörðinni er ei jöfnuður né sátt, bara endalaust karp um guði sem við getum ekki snert og allt sitt traust á þessa guði sumir setja en ég held að okkar veraldlegi heimur væri svo miklu betri án þessarra guða sem enginn getur snert. ] [ Við skulum byrja sem vinir Ekki vera eins og hinir Sem að þekkjast ei neitt Og gera lífið sitt leitt Ég elska þig mun Àður en þú hefur einn grun Því líf mitt, þitt mun vera Og hjarta mitt þú munt bera ] [ Ég fattaði hvað henni brá Þegar sannleikan hún loksins sá "Agaðu barnið" sagði hann Þvi það sýnir þinn innri mann ] [ Gefðu mér konu sem elskar þig heitt Virðing og traust til hvors annars engin mun fá breytt Fyrirgefa við munum 70*7fallt Jafnvel þó það rökkvi og verði mjög kalt A þér vil eg byggja mitt samband við hana Svo að konan verði ei sál minni að bana Þu segir að þrefaldan þrað se ei auðvelt að slita Gerðu að við skulum aldrei af hvort öðru lýta ] [ Við i hópa okkur skiptum Til að vita hver við erum En við spurningunni öxlum okkar yptum Hver munurinn er a þvi sem við gerum Vinur, vita skalt þu senn Að þegar vel er að gáð Þa erum við erum öll menn Sem þurfum Guðs náð ] [ Beðið hefur þu lengi eftir mér Enda sálin farin að sjá á sér En til þín er eg komin aftur Nú kemur til mín kraftur Bæn án afláts og þjónusta án þess að kvarta En mætti eg vera eins og María ekki Marta Að vera þétt við þig minn Guð Og plís leyf mér að sleppa við allt óþarfa tuð ] [ Eg sit her einn Þvi eg mætti svolítið seinn Horfi a þig fyrir framan Og óska'ð við værum saman Þvi þinir dökku lokkar Munu fara börnunum okkar Ég se um þig og þú um mig Við göngum gegnum lífið Og berjumst gegnum stríðið En mundu eitt Ég mun elska þig heitt ] [ On my way home The wind filled the sail I realized I was so alone Until I saw you Abigail You stepped into my boat And at first I was confused I was afraid it wouldn't float But with Gods help it cruised It's like I was blind Not able to enjoy the view But now that's all behind Since we are two Traveling together Standing back to back We will never wither Even, if under attack Though the dark clouds above Sometimes bring us rain and hail The one I'll always love Is you, my dear Abigail ] [ Fönix rís í þriðja sinn vænghafið gnæfir yfir . Ég brenn,rís upp ég finn splúndrast, sameinast Ég er.. Augun galopin, vöknuð, ég rís, hníg niður brotna sterkari en steinn. Komin af jörðinni alin úr öðrum heim Endalaus sólkerfi skoppa á milli dansandi himintunglum.. Ég er frjáls.. M808 ] [ Spillingin grasserar á skerinu góða samt þykjast allir svo saklausir hér, bankastjóri seldi Borgun án útboða borubrattur spillinguna ekki sér. Á Kvíabryggju kotrosknir bankamenn sitja þeir kallar vilja hafa allt eins og heima hjá sér, snöktandi á Stöð 2 þeir létu okkur vita að saklausir væru af hruninu hér. Landið okkar litla í hættu er núna því lítið hefur lagast og spillingin er söm, en fólkið í landinu er löngu búið að missa trúna, sig láta ei ginnast og eru á þessu gröm. Nú saman við verðum að haldast í hendur því hrun hér við viljum ei fá á ný, ef þjóðin þétt nú saman stendur þá passað við getum, upp á þennan lýð. ] [ Nú liggur leiðin áfram eitthvað fram á við hvert hún skilar okkur kemur engum við. Með vindinum við fjúkum yfir eyðilönd saman í blíðu og stríðu við höldumst hönd í hönd. Þegar kvölda tekur og leiðarenda er náð verður okkur ljóst hvaða fræjum við höfum sáð. Þangað til höldum við áfram oft um brattan stig en ferðin er þess virði svo lengi sem ég hef þig. ] [ Sólin sest til að hvílast, en tunglið kemur til að leita af henni. Aldrei mun tunglið geta sagt sólinni hversu heitt það elskar hana. þangað til verða sólin og tunglið elskhugar sem aldrei geta elskast. ] [ Yrðu risaeðlur aftur til heilsuðu þær eflaust upp á samferðamenn sína í trúfélögum víða um heim. ] [ Tvö örlítil fræ skutu rótum i mjúku myrkrinu. Guðs mildu náðar fyrirheit. Er vorsól skín blómin brosa á móti birtunni. Svo tær og hrein eins og ástin sem sáði þeim. ] [ Um sanda við Sólrisufjöll svifu ernir í vindi. Þar við rætur var risin höll réði þar ásinn blindi. Og þaðan heyrðust hlátrasköll á horfnum vetrarkvöldum. Því æsir ljóðin ortu snjöll og undir ræðuhöldum. Þó aldrei hafi augun séð var ysta myrkur fjarri. Því fegurð hans er falið veð og friður honum nærri. Hann vill sátt og geð til góðs og grið um liljuengi. Því sorgir höggva sárt til blóðs og sigrar hræða lengi. En ærulaus með illan streng andi um nóttu líður. Háskagripur með fallinn feng er fast við ósinn bíður. Í hallarmold við virkis var vex blóm á þurrum greini. En hljóður skuggi hreyfist þar og heldur á mistilteini. ] [ Afi var áður pabbi, oftast með hund á labbi, flettir blöðum fram og til baka, finnst ekkert mark á þeim taka. Amma var áður mamma, en alltaf að skamma, ekki koma allt of seint, yfir götuna farðu beint. ] [ Ég á barn og bú, á býlinu er kú, við búum þar þrjú, þar er ég nú. ] [ Ég er eins og blóm, fast í kakóbolla stundarinnar, Hvorki heitt né kallt, Gervi kakó sem er ekki einu sinni frá Sviss. Bóndasonur er ei ræktar kál Lætur ljós sitt skína með höfrungunum. Safinn, eins og og grænt sjávar slí Og marhnútur er komin í heimsókn. Marhnútselskhugi yrkir baráttuljóð til öreiga um víðan völl rauður fánar blakta yfir sjavar föll Óh Sósíalismi, hve fögur þín sköll ] [ Ég var á djamminu, hitti þar stelpu, sagði við hana, viltu ríða? Ég var í fangabúðum í 9 mánuði… …þá kom í ljós ég átti það ekki! ] [ Saltfiskurinn er barinn hann er sólbakaður marflær í flæðarmálinu yrkja óð til hans Marflóinn er í nútímasamfélagi hún situr fyrir framan tölvu og rýnir í málefni líðandi stundar Eitt skipti fyrir öll Netið er dómstóll alþýðunnar! Hinn eini sanni vettfangur Kristilegs sósíalisma ] [ Eitt lítið sker í atlantshafi svo stolt komið ykkur upp ykkar eigin þotum, neftóbaks fíklar! Alvöru sósíalískt lýðveldi verður að standa á eigin fótum eins og pelíkani eins og bleikur samkynhneigður PELÍKANI!!! KANI!!! ] [ Klukkan tifar, klukkan tifar. Kalli skrifar: Í Afríku er hungursneið, á Íslandi er brauðsneið og… …Teskeið! ] [ Stanslaus ótti, endalaus lífsflótti. Slæmt mér það þótti að verða hinn hrukkótti. Heltekinn, aðgætinn, gagntekinn, lostinn Á slæmum stað en hvað með það Ég er kannski róni og ollið manntjóni. Meira að segja á góðum vini Guðjóni guðjónu rúlla og geng niður fellsmúla. Allgjör formúla sem myrkur drakúla Djöfullinn býr í okkur öllum sem föllum og köllum hástöðugt en berst ekkert svar. En hvar aftrar þessum bráðsnjalla huga sem blöskrar og neitar að bugast so far Þetta er áskorun hugans, ég mun aldrei bugast þótt erfitt mér finnist að lifa Hentugast, öflugast nýtist að skrifa Sem sé og upplifa það er mér kunnugast Snorri Karl ] [ Fékk minnið eftir mörg ár minnugur var ég þá einu sinni óskaplega klár ætli heilasellan sé grá. ] [ Þegar amma flaug í gegnum gólfið sundraðist tilfinning mín um fasta punkta tilverunnar sem mótast ævinlega af fjarlægð milli mismunandi manna. Þetta atvik steypti jafnframt í óafturkræfa glötun ótal minni skorðum á túlkun minni á fortíðinni. ] [ Að nóttu í stormi hún fer Með mikla ágbyrð á öxlum sér ber Samfélagið hana sjaldan vill hvetja Þó að hún sé algjör hetja Á meðan allir í borginni sofa er hún, þá veiku að skoða jafnvel þeim sem bölvunum henni ekki hlífa Hún gerir allt til að láta þá lifa Hetjudáðir hennar fara ósagðar Mörgum finnst afrek hennar sjálfsagðar og þó hún með tusku við æluna kraup Þá færum við henni ekki mikið kaup Maður á dánarbeði komin er Bara hetjan sem hann augum ber hann var jú mikill matgæðingur en hetjan hún er hjúkrunarfræðingur ] [ Tónleikarnir voru þegar orðnir frægir um víða veröld sem lélegustu tónleikar í heimi. Þetta voru þriðju tónleikarnir á einni viku. Margir komu langt að með egg og tómata enda svaf tónskáldið áfengisdauða á sviðinu eða álíka. Ég sat á efri svölum við hlið konu með bláan hatt. Hún var í bláu dressi og ljós yfirlitum. Ég var sjálfur með varafallhlíf. Við fórum saman um neyðarútgang og svifum að höfninni enda bæði með áhuga á sjávarnið og hvort öðru. ] [ Með hor í nös og hita undir teppi í hnipri ég sit og hugsa hver er mig búin að smita af þessari andskotans pest. ] [ Flottur varstu Hannes minn í sjónvarpinu glaður Styður fast við málstaðinn sannur herra maður ] [ Í nótt dreymdi mig að borgin kallaði á mig eins og opið gin svört leðja ryðgaðir gómar rauður varalitur geislandi græn augu og koss á nafla hennar ,,bless elskan mín'' hvert ertu að fara ástin? ég er farinn í vinnuna segi ég og stíg varlega út um dyrnar ] [ ég held að ég hafi týnt vitinu en hjartað berst um í brjóstkassanum og ekkert er eins niðamyrkur úti hún með nýjan gæja í okkar rúmi ég á barnum drekkandi sturtandi niður áfengi og öðru reiður út í heiminn reiður út í sjálfan mig reiður út í allt og alla ég hata gaura stelpur eru aðeins skárri en meyrar og hvikular og fallegar en gaurar; ég fokking hata gaura ég elska þig ] [ Sterkustu tilfinningarnar sem við getum upplifað sem tegund eru án efa ótti hatur sársauki og ást ástin gæti verið merkust af þeim öllum og hinar eru svo oft fylgifiskur hennar þegar að maður finnur fyrir ást starandi framan í hann eða hana augun full af löngun þá er eins og eldingu losti niður á milli okkar það er ákveðin bölvun því að maður veit að allt hitt mun fylgja mjög mjög bráðlega og óttinn sem þú finnur fyrir núna mun umturnast í hatur og hatrið í sársauka endalaust áfram út í blátt tómið ætli það sé allt þess virði? segðu mér hvað þú kreistir út úr þér þegar að þér blæðir ofan í mig og upp í mig já, já, já ] [ Hvaða máli skiptir allt og ekkert, að enginn stendur lengur þér við hlið? að fjölskyldan er sundruð og í sorgum og svefninn er þitt eina ráð því við? ] [ einn inni í herbergi sólin reynir að brjótast inn um gluggatjöldin alveg rétt hitastig á nærfötunum hálfur undir sæng starandi upp í loftið bara til að horfa á það snúast um mig, ég held ég hætti að skrifa ljóð núna... ] [ Nú þegar vandamál að okkur steðja atburðir urðu og það fór sem fór Með birtu í huga, við öll munum biðja að allt fari vel fyrir Rúnari Þór ] [ Á miðnætti í Huliðsheimum er álagastund. Allt verður kyrrt og hljótt og það er sem tíminn hverfi inn í eitt örstutt andartak sem virðist líða hjá, áður en það hefst. Fossinn í gjánni fellur þegjandi fram af bjargbrúninni og áin streymir eftir farvegi sínum hljóð eins og andardráttur sofandi ungabarns. Þyturinn í laufinu hægir á sér og skógurinn er þögull og þrunginn leyndardómum sem leynast bak við sérhvert tré fullir ólgandi ástarþrár. Og innan þessa eilífðaraugnabliks og án þess að nokkur verði þess var er þessi töfrum slungna stund liðin hjá. Og allt er sem fyrr - en samt öðruvísi. Líkt og náttúran sjálf sé að dansa í skóginum íklædd dimmbláum, draumfögrum kjól. ] [ Góður er hann Kleppur, því enginn þaðan sleppur. Fyrren nýr og betri maður, þrátt fyrir lýðsins blaður. - VP '95 ] [ Hin andlega meinsemd margan maninn mæðir. Hin fjandlega einsemd fjára vökvans fæðir. Salti stráir, brjálar, í höfuð, hjarta, sálar herjar að lokum, kálar! ] [ það var þá sem ég stóð upp frá stólnum og gekk tvo skref inn í eldhúskrókinn fleygði sálinni í vaskinn opnaði annan bjór og horfði út um litla niðurgrafna gluggann og út á götu loftið smeygðist inn hún horfði á mig bláum augum hvorugt okkar sagði neitt ] [ Þegar Kaupfélagið Fram var og hét það seldi sokkabuxur, spítur og két Þar var Guðröður, Haukur og Steingrímur og glaðværar norðfirskar stásspíur ]